Það hefur ekki gengið andskotalaust að opna augu stjórnvalda fyrir hinni gríðarlegu eyðileggingu sem herjar á verminjar á vestan- og norðanverðu landinu.  Segja má að þessi sjávarþorp fyrri tíma séu öll að hverfa.  Með þeim týnast stórir kaflar úr sögu þjóðarinnar, líkt og þegar handrit Árna Magnússonar fuðruðu upp á sínum tíma.  Litlar sem engar rannsóknir hafa farið fram á hinum fornu verstöðvum frá tímum skreiða2020 jan5rverkunar; þeim atvinnuvegi sem um aldir skapaði þjóðinni auðsæld þó misskipt væri.  Gríðarleg eyðing hófst á þessum láglendu svæðum fyrir nokkrum áratugum og fer ört vaxandi.  Ástæður hennar eru líklega einkum tvær:  Annarsvegar offjölgun ígulkersins skollakopps, en afrán hans veldur minnkun þaraskóga sem áður drógu úr krafti brimöldu á grunnslóð.  Hinsvegar hörfun ísjaðarsins, sem veldur því að vindur af norðri og vestri blæs lengur um opið haf og nær að rífa upp stærri báru.  Þar við bætist ofsafengnara veðurlag sem rekja má til hlýnunar jarðar. 

Eftir langa baráttu tókst loksins að herja út lítilsháttar fjárveitingu; 7,5 milljónir sem, samkvæmt fjárlögum, átti að duga til að gera 120 metra langan sjóvarnargarð við Grundabakka, þar sem stórskemmdir hafa orðið á hinni fornu Láganúpsverstöð.  Vegagerðin, sem er framkvæmdaaðili stjórnvalda, valdi að bjóða verkið út þó slíkt sé ekki skylda.  Tafir vegna þess ollu frekari skemmdum.  Verktakinn sem Vegagerðin valdi var Lás hf á Bíldudal, en Vegagerðin gekk framhjá heimamanni sem hafði reynslu af gerð sjóvarnargarðs við Brunnaverstöð.  Annað klúður Vegagerðarinnar var hönnun garðsins, en það var tröllaukið mannvirki sem gnæft hefði yfir láglendi Kollsvíkur grafa sjovorn 2020og ekki nema helmingur af lengdinni.  Tókst að ná fram skynsamlegri lækkun hans.  Verkið komst loks af stað síðla vetrar 2020 og gerði verktaki 65 metra langan varnargarð frá Garðsenda norðurundir tóft Bakkabæjarins.  Enginn eftirlitsaðili var að hálfu Vegagerðarinnar, en Kári Össurarson sá um eftirlit að hálfu landeigenda. Virtist verkið takast vel, svo langt sem það náði.

Þrátt fyrir að verkið væri einungis hálfnað, sendi Vegagerðin tvo verkfræðinga til að gera „lokaúttekt“ á því.  Þeir gerðu þó engar mælingar.  Aðspurðir sögðu þeir það ekki hafa neina þýðingu því „fjárveitingin væri búin“.  Með þessu braut Vegagerðin ekki eingöngu reglur um eftirlit með opinberum framkvæmdum heldur einnig það ákvæði fjárlaga sem sagði að þarna skyldi koma 120 metra langur brimvarnargarður.  Valdimar Össurarson hefur kært þessi atriði til Ríkisendurskoðunar, en einnig farið formlega fram á það við samgönguráðuneytið og menntamálaráðuneytið að tafarlaust verði útveguð fjárveiting til að ljúka verkinu.  Engir af þessum opinberu aðilum höfðu sýnt viðleitni til viðbragða nú áður en árið 2020 rann sitt skeið.  Verða þeir ekki látnir í friði með það.

Mikilvægi þessarar framkvæmdar má sjá á því sem segir í bréfi Minjastofnunar Íslands til samgöngu- og sveitarstj.ráðuneytisins 24.11.2020:  „… óskar Minjastofnun Íslands eftir því að Vegagerðin setji í forgang að ljúka sjóvörnum við Láganúpsver í Kollsvík í samræmi við upphaflega áætlun … um 1000 m³ og 120 m langan sjóvarnargarð“.  Ennfremur:  „… er ljóst að þar er enn að finna umfangsmiklar heimildir um lífsviðurværi og sjávarnytjar þjóðarinnar fyrr á ldum, auk þess sem ríkulegt safn fiskbeina getur gefið margvíslegar vísbendingar um stofnstærðir og lífríki í hafinu á þessum slóðum fyrr á öldum.  Minjastofnun telur því afar áríðandi að framkvæmdum við sjóvarnir í Láganúpsveri verði lokið sem fyrst til að koma megi í veg fyrir frekara tjón og tryggja varðveislu þessara menningarverðmæta“.  Undir það skrifa Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Minjastofnunar og Guðmundur Stefán Sigurðarson minjavörður Norðurlands vestra, sem haft hefur umsjón með verminjum fyrir hönd Minjastofnunar.   Landeigendur munu fylgja því eftir að stjórnvöld geri skyldu sína í þessum efnum. 

Sumarið 2020 hófst vinna við endurreisn Mókofans á Láganúpi.  Valdimar Össurarson vinnur verkið í samstarfi við Minjastofnun Íslands og stuðningi Húsafriðunarsjóðs. 

Mókofann hlóð hleðslumeistarinn Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi, líklega um eða eftir 1930, til geymslu á mó, sem þá var helsta eldsneytið.  Kofinn kann þó að vera nokkru eldri, enda hefur mór vafalaust verið þurrkaður á Flötinni rétt hjá.  Eftir að olíukynding kom í Láganúpshúsið var Mókofinn notaður sem hrútakofi innst, en smíðaverkstæði og geymsla framantil.  Við hann stóð hænsnakofi.  Lokastig nýtingar þessara húsa var til reykingar matvæla, en þau féllu bæði í tóft fyrir aldamótin 2000.

09 2020 0240AÍ þessum fyrsta áfanga verksins var byrjað á að fjarlægja mikinn haug neta sem sett höfðu verið í tóftina þegar grásleppuútgerð Kollsvíkinga á Gjögrum lauk.  Þau veiðarfæri færðust um set, upp í tóft af kartöflugryfju ofar á Gilbarminum.  Stungið var upp úr gólfi Mókofans, þar sem upp komu nokkrir forvitnilegir munir; m.a. hjólböruhjól úr hvalbeini.  Vegghleðsla Guðbjartar var mjög vönduð, en eftir að veggfylling rann úr henni gekk hún til.  Hún var því tekin að mestu niður en hleðslugrjót endurnýtt.  Viðbót af grjóti var sótt upp á Núp, þar sem finna má ágætar námur slíks efnis.  Til veggfyllingar var nýtt frostfrí möl sem var þarna við hendina, frá byggingu Láganúpshússins 1974.  Tór var notaður til holufyllingar í veggjum, eins og fyrrum tíðkaðist; stutlaður eftir þörfum.  Að þessu sinni var ekki byrjað á viðgerð hænsnakofans.

Í næsta áfanga er gert ráð fyrir að ljúka upphleðslu veggja og helst koma húsunum undir þak.  Í þriðja áfanga verður gengið endanlega frá.  Mókofinn ætti þannig að geta orðið góð fylling í þá mynd torfhúsa sem eru þarna í Gilinu og utan við það.  Beint á móti er torfþakin kartöflugryfja; í Ytragilinu er reykkofi og uppi á Hólum er öldungur íslenskra torfhúsa; Hesthúsið á Hólum, byggt um 1650.  Hér að neðan er riss sem sýnir fyrirhugað útlit húsanna eftir þessa viðgerð.

mokofinn utlit rissvo

sjovarnargardurLokið er fyrsta áfanga í gerð sjóvarnargarðs við Grundabakka í Láganúpsfjöru.  Undanfarna áratugi hefur það æ oftar gerst, einkum á stórstraumsflæði og stórbrimi, að brimskaflar hafa flanað langt upp fyrir venjuleg fjörumörk og valdið stórtjóni á bökkunum.  Þegar sjórinn skolaði sandinum undan hrundu bakkarnir í kjölfarið.  Með þessu hefur orðið allnokkuð tjón á hinni fornu verstöð Láganúpsveri, sem stóð þarna á bökkunum.  Í rofsárinu sáust mörg lög af hleðslum; þykk beinalög; gólfskánir og jafnvel eldstæði.  Láganúpsver stóð líklega frá byrjun skreiðarsölu um 1300 og framyfir 1700.  Það virðist hafa verið ein stærsta verstöðin á sunnanverðum Vestfjörðum, og segir Jarðabókin að þar hafi verið 18 verbúðir auk útgerðar heimamanna og þeirra sem lágu við í útihúsum.  Má því ætla að ekki færri en 30 bátar hafi þaðan gengið, með um 100 í áhöfnum.  

Heimamenn á Láganúpi hafa um nokkurn tíma leitað eftir aðstoð stjórnvalda til að hindra frekara tjón á þessum óbætanlegu minjum um íslenska atvinnusögu.  Stjórnvöld hafa ekki mótað neina stefnu í þessum efnum, og víða um land eru verstöðvarnar fornu að hverfa í sjóinn.  Eyðing verstöðvanna er svipað tjón fyrir íslenska menningarsögu og bruninn í handritasafni Árna Magnússonar forðum.  Eini munurinn er sá að nú kunna allir að meta þann menningarfjársjóð sem fólginn er í skinnhandritum og gráta brunnar skræður, en menningarpostular kæra sig kollótta um eyðingu verminjanna.  Barátta heimamanna leiddi þó til þess á endanum að fjárveiting fékkst til sjóvarnargarðs í Grundafjöru.  Ekki tókst að hefja verkið veturinn 2018-19, sem leiddi til þess að enn varð nokkuð tjón á bökkunum í janúar 2020. 

Núna í apríl 2020 hóf verktakinn, Lás hf á Bíldudal, vinnu við verkið.  Stórgrýti í garðinn var tekið í Hæðinni, framanvið Tröð, og fylliefni úr vegskeringunni.  Efninu var ekið niður yfir viðkvæma gróðurþekju á Fitinni og því þurfti að velja tíma þegar frost var í jörð.  Á páskum breytti um í tíðarfari og ekki lengur unnt að aka.  Þá var búið að ljúka rúmum helmingi þess garðs sem þarf til að verja Bakkana.  Búið er að verja svæðið frá Byrginu við garðsendann austur að tóft Bakkabæjarins; eða 74 metra kafla.  Eftir er að verja um 60 metra þar austanvið; þar á meðal rústir Grundafjárhúsanna.  Verður þegar sótt um fjárveitingu til þess verkhluta.

Spurning er hvort nafnið "Kórónugarður" væri ekki við hæfi á þessum garði, þar sem hann er gerður á þeim tíma sem hinn illræmdi kórónuveirufaraldur stóð sem hæst á landinu.  Gegnum aldirnar virðist svo sem hallæri og hungursneyð hafi fremur sneitt hjá þessu suðursvæði Vestfjarða en öðrum landsvæðum, sem helgast vafalaust af legu þess og lífsbjörgum.  Í yfirstandandi heimsfaraldri hefur þarna líklega verið mesta framkvæmdasvæðið; a.m.k. miðað við íbúatölu.

kollur hilmarSegja má að landnámsmaðurinn Kollur sé nú loksins upp risinn í Kollsvík.  Ekki var hann þó særður úr haug sínum, sem munnmæli segja að sé á Blakknesnibbu.  Hilmar Kollsvíkurbóndi Össurarson fékk hagleikssmiðinn Gunnar Tómasson til að skera hann í trjádrumb sem eitt sinn rak á Kollsvíkurfjörur.  Gunnar fæst nokkuð við útskurð og aðra smíði í tómstundum sínum, en hefur annars stundað garðyrkju ásamt konu sinni; Elsu Marísdóttur af Kollsvíkurætt.  Tilgáta hans um andlitsdrætti Kolls er ekki verri en hver önnur.  Hilmar hefur komið Kolli fyrir neðan Kollsvíkurhússins og lætur hann horfa til sjóar.  Líklega þarf hann þó að snúa höfði til að fylgjast með gulli sínu, sem fólgið er í Biskupsþúfu.  Á myndinni sjást þeir Kollsvíkurbændur báðir; Hilmar og Kollur, með Núpinn og Blakknesnibbu í baksýn.

Eins og sjá má hefur vefurinn kollsvik.is fengið nokkra andlitslyftingu.  Um nokkurn tíma hefur verið fyrirhugað að gera á honum ýmsar breytingar um leið og sett verður inn efni sem safnast hefur fyrir.  Að lokum varð niðurstaðan sú að leggja af fyrra kerfi og setja upp nýtt vefsvæði frá grunni, sem betur hentar átthaga- og upplýsingasíðu sem þessari. 

Leita