Össur Guðbjartsson segir hér stuttlega frá Slysavarnadeildinni Bræðrabandið í Rauðasandshreppi, sem fræg varð m.a. fyrir frækilegt björgunarafrek við Látrabjarg.

Össur Guðbjartsson (19.02.1927-30.04.1999) fæddist á Grund og ólst upp á Láganúpi í Kollsvík.  Þar tók hann við búi árið 1953, ásamt konu sinni Sigríði Guðbjartsdóttur og bjó þar til æviloka.  Hann gegndi fjölmörgum félagsstörfum fyrir Rauðasandshrepps, var t.d. lengi oddviti hreppsnefndar, sýslunefndarmaður, búnaðarþingsfulltrúi, stéttasambandsfulltrúi, stjórnarmaður í kaupfélögum, Orkubúi og fleiri félögum.  Auk þess sinnti hann iðulega barnakennslu.  Össur veiktist árið 1987 og bjó við töluverða lömun síðari æviár sín.  Honum voru þó áfram hugleikin ýmis samfélagsmál, og ekki síst það sem snerti heimasveitina.  Grein þessa um Bræðrabandið tók hann saman eftir að hann veiktist.  Megnið af henni er ritað með hans hendi, en um sumt hefur hann notið aðstoðar Sigríðar konu sinnar, sem alla tíð var hans stoð og stytta.

Áhugi á slysavarnastarfi hefur löngum verið mikill og einlægur í Rauðasandshreppi, og enn starfar Bræðrabandið (árið 2015) þrátt fyrir að byggð í Rauðasandshreppi sé ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem gerðist á stofnárunum.  Í Kollsvík voru lengi geymd fluglínutæki, og höfðu Össur og bræður hans fengið tilsögn í notkun þeirra.  Hvorku þau né Bræðrabandið voru þó komin til þegar breski togarinn Croupier strandaði á Blakknesboða árið 1921; og allir 12 skipverjar fórust .                                                                  

Slysavarnadeildin Bræðrabandið var stofnuð 22. apríl 1933.  Stofnendur voru 62.  Fyrstu stjórn deildarinnar skipuðu séra Þorsteinn Kristjánsson, prestur í Sauðlauksdal; Ólafur E. Thoroddsen Vatnsdal og Snæbjörn Thoroddsen Kvígindisdal.  Fyrsti formaður var Ólafur E. Thoroddsen.  Fyrsti ævifélagi deildarinnar var Eyjólfur Sveinsson, Lambavatni. 

Eitt af því fyrsta sem stjórnin beitti sér fyrir var að halda skemmtun til fjáröflunar fyrir deildina.  Einnig voru samþykkt lög fyrir deildina á fyrsta aðalfundi.  Þá beitti stjórn deildarinnar sér fyrir því að sími væri lagður um sveitina.  Í fyrstu var hann lagður frá Kvígindisdal um Örlygshöfn að Breiðuvík og Hvallátrum.  Síðar var hann svo lagður frá Örlygshöfn að Hænuvík, og frá Breiðuvík að Kollsvík.  Naut deildin mjög aðstoðar Slysavarnafélags Íslands við þrýsting á stjórnvöld við að fá símalagningunni flýtt sem mest.  Þetta var mjög mikil framför til þess að fylgjast með skipaferðum, en hér fyrir Víkurnar var, og er enn, fjölfarin skipaleið.  Oft höfðu átt sér stað skipströnd þar á liðnum tíma.  Síðar var svo lagður sími á Rauðasand. 

Árið 1935 kemur fyrsti erindreki Slysavarnafélags Íslands og hittir stjórn deildarinnar í Kvígindisdal.  Stjórnin leggur fyrir hann helstu baráttumál sín, m.a. símamálin.  Einnig mun hann hafa rætt um það við stjórnina hvar helst þyrfti að vera staðsett fluglínutæki á félagssvæðinu, og tilnefndir menn á hverjum stað til umsjónar með þeim.  En slík tæki voru staðsett í Örlygshöfn, Kollsvík, Rauðasandi og Hvallátrum.  Kenndi erindrekinn ákveðnum mönnum á þessum stöðum meðferð þessara tækja.  Þau komu sér vel síðar þegar strönd og stórslys bar að höndum.

Framanaf var Ekkna- og munaðarleysingjasjóður í umsjá deildarinnar, og var sama stjórn hans og deildarinnar.  Á fyrri árum Bræðrabandsins var jafnan haldið leikmót einu sinni á sumri, til fjáröflunar fyrir deildina.  Voru þar ýms skemmtiatriði, t.d. hlaup, reiptog, pokahlaup o.fl; og síðan dans á danspalli sem deildin átti.

Árið 1942 er í fyrsta sinn kjörinn fulltrúi á landsþing SVFÍ.  Enginn mætti þó það ár né næstu ár.  Séra Þorsteinn Kristjánsson sem verið hafði í stjórn deildarinnar frá stofnun fórst með ms Þormóði.  Í stað hans var kjörinn í stjórnina Sigurbjörn Guðjónsson, Hænuvík.  Síðar komu í hana séra Trausti Pétursson og Jón Torfason, Vatnsdal.

Árið 1947 vann deildin það afrek að bjarga 12 skipbrotsmönnum af togaranum Dhoon sem strandaði undir Látrabjargi.  Er þetta þrekvirki jafnan síðan kallað Björgunarafrekið við Látrabjarg, og björgunarmenn voru heiðraðir á ýmsan hátt fyrir það.  Kvikmynd var gerð um þessa björgun af Óskari Gíslasyni, fyrir forgöngu þáverandi formanns deildarinnar; Þórðar Jónssonar á Látrum.  Þegar unnið var að gerð myndarinnar, í byrjun desember 1948, varð það slys að breski togarinn Sargon fórst undir Hafnarmúla.  Þá var mikill hluti félagsmanna Bræðrabandsins staddur í Kollsvík við myndatökuna.  Fóru þeir þá strax á staðinn og tókst að bjarga 6 mönnum af 17 manna áhöfn togarans.  Þar vann Óskar Gíslason einnig það afrek að festa á filmu björgunaraðgerðina, þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður.  Það er lang áhrifamesti hluti myndarinnar, og ber hana raunar uppi.

Þórður gegndi formennsku í deildinni frá árinu 1948 til dauðadags, og var þá á þeim tíma jafnan fulltrúi deildarinnar á landsþingum SVFÍ.  Þá var hann um árabil stjórnarmaður í stjórn SVFÍ.  Var hann þar forgöngumaður þess að tekin var upp tilkynningaskylda skipa, sem enn er í gildi.  Flutti hann á þessum tíma mörg merk mál um slysavarnir.  Þess væri vert að deildin hefði forystu um að þeim hjónum verði reistur minnisvarði á einn eða annan hátt.