sjovarnargardurLokið er fyrsta áfanga í gerð sjóvarnargarðs við Grundabakka í Láganúpsfjöru.  Undanfarna áratugi hefur það æ oftar gerst, einkum á stórstraumsflæði og stórbrimi, að brimskaflar hafa flanað langt upp fyrir venjuleg fjörumörk og valdið stórtjóni á bökkunum.  Þegar sjórinn skolaði sandinum undan hrundu bakkarnir í kjölfarið.  Með þessu hefur orðið allnokkuð tjón á hinni fornu verstöð Láganúpsveri, sem stóð þarna á bökkunum.  Í rofsárinu sáust mörg lög af hleðslum; þykk beinalög; gólfskánir og jafnvel eldstæði.  Láganúpsver stóð líklega frá byrjun skreiðarsölu um 1300 og framyfir 1700.  Það virðist hafa verið ein stærsta verstöðin á sunnanverðum Vestfjörðum, og segir Jarðabókin að þar hafi verið 18 verbúðir auk útgerðar heimamanna og þeirra sem lágu við í útihúsum.  Má því ætla að ekki færri en 30 bátar hafi þaðan gengið, með um 100 í áhöfnum.  

Heimamenn á Láganúpi hafa um nokkurn tíma leitað eftir aðstoð stjórnvalda til að hindra frekara tjón á þessum óbætanlegu minjum um íslenska atvinnusögu.  Stjórnvöld hafa ekki mótað neina stefnu í þessum efnum, og víða um land eru verstöðvarnar fornu að hverfa í sjóinn.  Eyðing verstöðvanna er svipað tjón fyrir íslenska menningarsögu og bruninn í handritasafni Árna Magnússonar forðum.  Eini munurinn er sá að nú kunna allir að meta þann menningarfjársjóð sem fólginn er í skinnhandritum og gráta brunnar skræður, en menningarpostular kæra sig kollótta um eyðingu verminjanna.  Barátta heimamanna leiddi þó til þess á endanum að fjárveiting fékkst til sjóvarnargarðs í Grundafjöru.  Ekki tókst að hefja verkið veturinn 2018-19, sem leiddi til þess að enn varð nokkuð tjón á bökkunum í janúar 2020. 

Núna í apríl 2020 hóf verktakinn, Lás hf á Bíldudal, vinnu við verkið.  Stórgrýti í garðinn var tekið í Hæðinni, framanvið Tröð, og fylliefni úr vegskeringunni.  Efninu var ekið niður yfir viðkvæma gróðurþekju á Fitinni og því þurfti að velja tíma þegar frost var í jörð.  Á páskum breytti um í tíðarfari og ekki lengur unnt að aka.  Þá var búið að ljúka rúmum helmingi þess garðs sem þarf til að verja Bakkana.  Búið er að verja svæðið frá Byrginu við garðsendann austur að tóft Bakkabæjarins; eða 74 metra kafla.  Eftir er að verja um 60 metra þar austanvið; þar á meðal rústir Grundafjárhúsanna.  Verður þegar sótt um fjárveitingu til þess verkhluta.

Spurning er hvort nafnið "Kórónugarður" væri ekki við hæfi á þessum garði, þar sem hann er gerður á þeim tíma sem hinn illræmdi kórónuveirufaraldur stóð sem hæst á landinu.  Gegnum aldirnar virðist svo sem hallæri og hungursneyð hafi fremur sneitt hjá þessu suðursvæði Vestfjarða en öðrum landsvæðum, sem helgast vafalaust af legu þess og lífsbjörgum.  Í yfirstandandi heimsfaraldri hefur þarna líklega verið mesta framkvæmdasvæðið; a.m.k. miðað við íbúatölu.

Leita