Á vefsíðunni Ísmús er haldið til haga ýmsum fróðleik.  Þar á meðal eru einstakar upptökur af viðtölum við fólk úr Kollsvík og annarsstaðar úr Rauðasandshreppi.  Flest er það núna látið en annað er í fullu fjöri.  Auk margskonar fróðleiks má þarna heyra kveðskap, söng og frásagnir; bæði af raunverulegum atburðum sem fylgjum, fjörulöllum, álagablettum og huldufólki.  Forráðamenn Ísmús veittu góðfúslegt leyfi til tenginga við sinn vef.

Frásagnir sem einkum tengjast Kollsvík og nágrenni:  (Flýtival með smelli á nafn sögumanns)

dagbjortDagbjört Torfadóttir frá Kollsvík  (27.09.1899-28.05.1985).  Húsfreyja í Efri Tungu; gift Kristjáni Júlíusi Kristjánssyni frá Grundum.  Hér flytur hún þuluna "Stúlkurnar ganga", og segir sögu af huldukonu í Kollsvík, sem fékk mjólk úr búri móður Dagbjartar.

einar gEinar Guðbjartsson (27.07.1911-23.08.1979) ólst upp á Láganúpi og vann þar við búskap og sjómennsku.  Kaupfélagsstjóri á Gjögrum og víða um land.  Bjó lengst af  í Borgarnesi, ásamt Guðrúnu Grímsdóttur konu sinni og Maríu dóttur þeirra.  Hér ræðir Einar nafngift Hnífanna; af Vigdísi fóstru sinni; Steinunni á Sjöundá og Simbadýrinu.

gudnyGuðný Ólafsdóttir  (25.12.1892-13.05.1989) ólst upp á Láganúpi. og í Vesturbotni  Húsfreyja á Sellátranesi; gift Sveini Jónssyni.  Segir frá huldufólki í Kollsvík og í Botni.  Fer einnig með gamlar gátur í bundnu máli og lausu.

gunnarGunnar Össurarson (01.07.1912-16.12.1988) frá Láganúpi.  Húsasmiður, lengi búsettur í Reykjavík en síðast í Rauðasandshreppi, þar sem hann byggði allmörg hús.  Hvatamaður að söfnun sagna hreppsbúa á Ísmús.  Gunnar segir hér frá ýmsu um sjálfan sig og aðra.  Einnig ræðir hann, ásamt Ásgeir Erlendssyni á Hvallátrum, um þjóðsögur, skrímsli og drauga.  

halldoraHalldóra Kristjánsdóttir (02.03.1904-03.05.1986) ólst upp á Grundum.  Giftist Guðbjarti Egilssyni og bjuggu þau lengi á Lambavatni.  Eftir fráfall hans dvaldi hún um tíma á Láganúpi en bjó síðar á Patreksfirði með sonum sínum.  Söngkona mikil og kunni ógrynni texta.  Hér fer hún með nokkur kvæði, ásamt Vilborgu Torfadóttur á Lambavatni.

ingvar g Ingvar Guðbjartsson (31.05.1925-14.05.1999) ólst upp á Láganúpi.  Giftist Jónu Snæbjörnsdóttur og bjuggu þau fyrst á Stekkjarmel en síðan í Kollsvík.  Flutti suður og vann við jarðboranir.  Hér ræðir hann við Magnús Gestsson um björgunarafrekið við Látrabjarg og aðkomu sína og annarra að því.  Einnig minningargrein um hann.

kjkKristján Júlíus Kristjánsson (12.07.1896-09.10.1970) ólst upp á Grundum og tók þar við búi, en var einnig formaður í Kollsvíkurveri.  Bjó um tíma á Grund en síðan lengst í Efri-Tungu ásamt Dagbjörtu Torfadóttur, konu sinni.  Kennari og sýslunefndarmaður.  Hann var söngmaður góður; fer hér með þulur, en segir einnig frá álagablettum, huldufólki og draugum.

diddaSigríður Guðbjartsdóttir (05.08.1930-06.06.2017) ólst upp á Lambavatni, dóttir Halldóru Kristjánsdóttur (sjá ofar).  Hún bjó á Láganúpi, gift Össuri Guðbjartssyni.  Listakona; skar út og málaði, m.a. á steinhellur.  Í þessari myndupptöku segir hún bæði frá Rauðasandi og úr Kollsvík.

torfi ossurarsonTorfi Össurarson (28.02.1904-11.09.1993) ólst upp í Kollsvík en flutti ungur með foreldrum sínum í Dýrafjörð.  Bjó lengst af að Felli með konu sinni Helgu S Jónsdóttur, en síðast í Reykjavík.  Skáldmæltur; ritaði ýmsan fróðleik um Kollsvík.  Hér segir Torfi  frá mönnum og draugum í Rauðasandshreppi.

vilborgVilborg Torfadóttir (05.06.1896-12.09.1987) ólst upp í Kollsvík.  Giftist Eyjólfi Sveinssyni og bjuggu þau á Lambavatni á Rauðasandi.  Hér segir hún m.a. frá drukknun föður síns í Snorralendingu og frá álagablettum, huldufólki og öðrum vættum.  Hún fer einnig með fjölmörg ljóð og þulur; segir frá bænum og leikjum.

adalsteinnAðalsteinn Sveinsson (02.11.1902-14.03.1979).  Lengst af bóndi í Breiðuvík, en síðar sjómaður á Patreksfirði.  Giftur Sigríði Steinunni Traustadóttur.  Hann segir hér frá þætti sínum í björgun áhafnarinnar af Dhoon við Látrabjarg, en Aðalsteinn var orðlagður bjargmaður.  Einnig minningargrein um hann.

Anna Eggertsdóttir (15.04.1894-16.05.1961) ólst upp á Hvallátrum og bjó þar, á bænum Gimli, ásamt Ólafi Halldórssyni manni sínum.  Hér kveða þau Númarímur og Gunnarsrímur.

arnfridurArnfríður Erlendsdóttir (15.04.1885-23.09.1978) ólst upp á Hvallátrum.  Giftist Trausta Traustasyni, en eftir fráfall hans giftist hún Árna Magnússyni og bjó með honum á Hnjóti en síðar á Patreksfirði.  Annáluð hannyrðakona.  Hér segir hún frá ýmsu á Látrum og fer með kvæði

.

asgeirÁsgeir Erlendsson (13.09.1909-23.07.1995) ólst upp á Hvallátrum; bróðir Arnfríðar (hér ofar).  Hann stofnaði þar nýbýlið Ásgarð og bjó þar ásamt Jónu Jónsdóttur konu sinni.  Einnig vitavörður og mikil refaskytta.  Ásgeir var góður sögu- og kvæðamaður og hér kveður hann nokkrar rímur.  Einnig spjallar hann um huldufólk, skrímsli og fleira, ásamt Gunnari Össurarsyni, og ræðir björgunarafrekið við Látrabjarg.

bjarnihBjarni Halldórsson (05.10.1906-05.02.1975) ólst upp á Melanesi og bjó þar alla tíð í vinnumennsku hjá Ívari bróður sínum og hans fjölskyldu.  Hér segja þeir bræður frá álagablettum og Bjarni fer með vísuna "Dansað var á Stapa í gær".

bjarnisBjarni Sigurbjörnsson(24.11.1916-10.09.1990) ólst upp í Hænuvík og tók þar við búi ásamt Dagbjörgu Ólafsdóttur konu sinni.  Hann vann þó lengst af útífrá sem ýtustjóri.  Síðast bjuggu þau á Patreksfirði.  Bjarni var einn fjórmenninganna sem sigu af Flaugarnefi til að bjarga skipverjum af Dhoon veturinn 1647, og segir hér frá því.  Einnig fylgir minningargrein um Bjarna.

bjarnveigastaBjarnveig Ásta Guðjónsdóttir er fædd 25.05.1994 og ólst upp í Hænuvík.  Hefur þar fengist við búskap og ferðaþjónustu.  Hér segir hún frá ýmsu úr Hænuvík.


bragithBragi Ó Thoroddsen (20.06.1917-08.10.2005) ólst upp í Vatnsdal.  Búfræðingur og sjómaður en lengst af vegaverkstjóri og rekstrarstjóri Vegagerðarinnar.  Bjó á Patreksfirði með konu sinni, Þórdísi Haraldsdóttur.  Bragi var sagnamaður ágætur.  Hér segir hann frá björgunarafrekinu við Látrabjarg.

dagbjorgDagbjörg Una Ólafsdóttir (03.09.1924-11.08.2017) ólst upp í Hænuvík og bjó þar lengst af með manni sínum, Bjarna Sigurbjörnssyni (sjá hér ofar).  Síðast bjuggu þau á Patreksfirði.  Dagbjörg hafði góða söngrödd og hér syngur hún Tólfsonakvæði.

danielDaníel Eggertsson (10.09.1890-07.02.1984) ólst upp á Hvallátrum og bjó þar allt sitt líf.  Hann var mikill félagsmálamaður og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum.  Daníel þótti afburða fær bjargmaður.  Hér segir hann frá vættum og álagastöðum og kveður Númarímur og "Lifað hef ég langa ævi".

daviddDavíð Davíðsson (21.08.1903-11.01.1981) ólst upp í Kollsvík og Vesturbotni.  Hann fékkst við sjómennsku og fleira, en varð síðar bóndi á Sellátrum í Tálknafirði.  Fyrri kona hans var Sigurlína Benediktsdóttir en síðari Guðrún Einardóttir.  Hann vann mikið að félagsmálum; t.d. í forystu verkalýðsbaráttu, oddviti Tálknafjarðarhrepps og famkvæmdastjóri Ræktunarsambands V-Barð.  Lengi ýtustjóri.  Hér segir hann frá álagablettum, huldufólki og fleiri vættum.

eoEgill Ólafsson (14.10.1925-25.10.1999) ólst upp á Hnjóti.  Hann tók þar við búskap ásamt Ragnheiði Magnúsdóttur konu sinni, en gegndi fleiri störfum s.s. flugvallarumsjón.  Egill var landskunnur minjasafnari og á Hnjóti er byggðasafn við hann kennt.  Einnig safnaði hann ýmsum fróðleik.  Hér segir Egill frá ýmsu, t.d. draugum og fleiri vættum; fyrirboðum og fólki.

gudjonbjGuðjón Bjarnason er fæddur 02.12.1947 og ólst upp í Hænuvík.  Sonur Bjarna Sigurbjörnssonar og Dagbjargar Ólafsdóttur (hér að ofan), faðir Bjarnveigar Ástu og Guðnýjar Ólafíu.  Tók þar við búi ásamt konu sinni, Maríu Ólafsdóttur frá Sellátranesi.  Auk fjárbús hafa þau komið upp ferðaþjónustu í Hænuvík með dætrum sínum.  Guðjón segir hér frá sjálfum sér, m.a. farskólagöngu.

gudmundinaGuðmundína Ólafsdóttir (18.06.1888-01.04.1980) ólst upp á Stökkum og í Breiðuvík.  Giftist Guðbjarti Þorgrímssyni og bjuggu þau á Hvallátrum þar til hann lést 1956.  Eftir það dvaldi hún hjá börnum sínum og fóstursyni.  Hér segir hún frá uppvexti sínum, skólagöngu, leikjum og skemmtunum.  Einnig frá mönnum og vættum á Látrum.  Kveður Númarímur.

gjhGuðmundur Jón Hákonarson (11.01.1910-18.10.2000)ólst upp á Hnjóti og bjó þar til gamalsaldurs, að hann flutti á Patreksfjörð.  Var með búskap í fyrstu, en lengst af kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs auk ýmissa félagsstarfa.  Jón hafði skemmtilega frásagnargáfu.  Hér segir hann Magnúsi Gestssyni m.a. frá draugum og kynjakvikindum.

gudnygGuðný Ólafía Guðjónsdóttir er fædd 04.04.1991 og ólst upp í Hænuvík.  Dóttir Guðjóns Bjarnasonar (hér ofar).  Hefur þar stundað búskap og ferðamennsku ásamt foreldrum sínum.  Segir hér frá sér og sínum heimaslóðum.

 

gudrunjohGuðrún Jóhannsdóttir (15.01.1891-21.08.1989) ólst að mestu upp í Hænuvík.  Hún starfaði lengst af sem kennari víða um land en giftist Kolbeini Högnasyni og bjó með honum um tíma í Kollafirði.  Þau skildu og vann hún ýmsa vinnu eftir það.  Guðrún þótti á undan sinni samtíð í réttindabaráttu kvenna.  Hér segir hún af fólki og vættum í Rauðasandshreppi; gömlum siðum og matarvenjum; spilum og kveðskap.

gudrunthorlGuðrún Thorlacius (08.10.1879-14.07.1964) ólst upp í Saurbæ.  Hún lærði heimilisiðnir og var fær orgelleikari.  Flutti suður 1917 og bjó þar síðan.  Hér kveður hún og syngur fjölmörg kvæði og segir frá sér og sínu heimili.haflidiHafliði Halldórsson (6.10.1899-05.07.1987) ólst upp í Keflavík.  Giftist Sigríði Filippíu Erlendsdóttur og bjuggu þau á Hvallátrum.  Auk bústarfa var Hafliði lengi vitavörður; þótti manna færastur í bjargi og einna fremstur í flokki í bjögunarafrekinu við Látrabjarg.  Síðar flutti hann á Patreksfjörð og vann við húsasmíðar.  Hér segir Hafliði frá uppvextinum, álagablettum, reimleikum, vættum, bjargferðum og minnisstæðu fólki.

helgieHelgi Elíasson (18.04.1917-04.10.1978) ólst upp á Vaðli á Barðaströnd.  Giftist Ingibjörgu Ingimundardóttur og bjuggu þau á Hvallátrum til 1960, en fluttu þá suður.  Hér kveður hann Andrarímur og fleira.

helgifjeldstedÞórarinn Helgi Fjeldsted (19.06.1886-08.10.1969) ólst upp á Mýrum í Hraunhreppi.  Bóndi, fyrst í Tungumúla en frá 1928 í Raknadal með konu sinni Kristínu Pálsdóttur.  Helgi segir hér frá uppruna sínum, fer með þulur, segir frá vættum og merku fólki.

ingibjjulIngibjörg Júlíusdóttir (16.07.1900-11.05.1975) ólst upp á Sjöundá, Hvallátrum og Melanesi.  Giftist Ívari Halldórssyni og bjuggu þau á Melanesi.  Hún segir hér sögur, fer með ljóð og syngur kvæði.

ingimundurhIngimundur Halldórsson (16.11.1910-15.03.1998) ólst upp í Gröf á Rauðasandi.  Sjómaður, matsveinn og fiskmatsmaður.  Bjó á Patreksfirði um tíma en síðan í Hafnarfirði.  Giftur Jóhönnu Breiðfjörð Þórarinsdóttur.  Hér segir hann frá æviatriðum og fer með kvæði.

ivarhalldÍvar Rósinkrans Halldórsson (30.07.1904-21.11.1978) ólst upp á Móbergi.  Skútusjómaður á yngri árum.  Giftist Ingibjörgu Júlíusdóttur og bjuggu þau alla tíð á Melanesi.  Hér rifjar hann upp nokkur kvæði og talar um álagabletti.

ivarivarssÍvar Ívarsson (25.09.1889-10.09.1974)  ólst upp í Kirkjuhvammi og bjó þar alla tíð, ásamt systkinum sínum.  Hann var mikill forystumaður í félagsmálum, m.a. kaupfélagsstjóri Kaupfélags Rauðsendinga, hreppsnefnarmaður, forðagæslumaður o.fl.  Hér rifjar Ívar upp mikinn fróðleik og sagnir; fer með, kveður og syngur fjölda af kvæðum og rímum.  M.a. Passíusálmana, Númarímur; rímur af Gunnari á Hlíðarenda og Úlfari sterka; Andrarímur; Líkafrónsrímur; þorrablótsvísur og ýmis sálmalög.  Jóna systir hans tekur víða undir sönginn (sjá neðar).

jonaivarsdJóna Ívarsdóttir (18.01.1895-25.05.1976) ólst upp í Kirkjuhvammi á Rauðasandi og bjó þar alla ævi með bræðrum sínum (sjá Ívar hér ofar).  Öll voru þau systkinin mjög fróð og félagslynd.  Jóna rekur hér ýmsar sagnir, m.a. af Sjöundármálum; fer með kvæði og syngur bæði ein og með Ívari.

konradjulKonráð Júlíusson (03.11.1902-09.02.1995) fæddist á Melanesi en ólst upp í Dufansdal.  Giftist Jónfríði Jónsdóttur og bjuggu þau á Hnjóti, Efri-Tungu, Koti og á Patreksfirði. þar sem hann vann m.a. við skósmíðar.  Síðar fluttu þau í Hafnarfjörð.  Konráð var virkur í réttindabaráttu verkamanna.  Hann var músikalskur og lék á harmónikku, en kunnastur er hann fyrir ljóðagerð sína.  Má segja að hann hafi verið talandi skáld, og hnyttinn með afbrigðum.  Hér kveður Konráð nokkrar rímur og segir frá kveðskap.

kristinnolKristinn Ólafsson (15.02.1913-19.01.2010) ólst upp á Sellátranesi og í Hænuvík.  Bóndi í Hænuvík fram á efri ár, að hann flutti á Patreksfjörð.  Kristinn var landpóstur um utanverðan Rauðasandshrepp.  Fór fyrst á hestum en síðar á ökutækjum.  Refaskytta og góður harmonikkuleikari.  Kristinn tók þátt í björgunarafrekinu við Látrabjarg og segir hér frá því.

magnusjonsMagnús Jónsson (1889-25.05.1970) ólst upp í Raknadal en bjó lengst af á Hlaðseyri.  Fyrri kona hans var Kristín Finnbogadóttir en hin síðari Guðný Einarsdóttir.  Flutti síðar á Patreksfjörð og gerði út bát.  Hér segir hann ýmsar sögur, m.a. af álagablettum og vættum; og fer með kveðskap.

olafiamagnÓlafía Magnúsdóttir (14.12.1890-28.09.1972) ólst upp á Hnjóti.  Hún giftist Sigurbirni Guðjónssyni og bjuggu þau fyrst á Geitagili en lengst af í Hænuvík, þar til þau fluttu suður 1956.  Hér fer hún með kvæði og þulur og segir m.a. frá húslestrum.

olafiaegilsÓlafía Egilsdóttir (27.11.1894-20.09.1993) ólst upp á Sjöundá.  Giftist Ólafi Magnússyni (hér neðar) og bjuggu þau á Hnjóti.  Ólafía var lengi ljósmóðir í hreppnum og farsæl í því starfi.  Einnig mikil hannyrðakona.  Hér rekur Ketill Þórisson, Baldursheimi í Mývatnssveit frásagnir Ólafíu, af lífsháttum fyrri tíma, heyskap í Skor og ljósmóðurstarfinu.

olafurhalldÓlafur Halldórsson (01.09.1893-29.11.1965) ólst upp í Keflavík en lengst af bóndi á Gimli, Hvallátrum.  Giftur Önnu Eggertsdóttur (sjá hér ofar); bróðir Hafliða (sjá ofar).  Hér kveður Ólafur m.a. Númarímur og Gönguhrólfsrímur.

olafurmagnÓlafur Magnússon (01.01.1900-18.03.1996) ólst upp á Hnjóti og var síðar bóndi þar alla sína tíð.  Giftur Ólafíu Egilsdóttur; faðir Egils bónda og safnamanns (sjá ofar).  Ólafur starfaði mikið að félagsmálum í hreppnum.  Hann þótti afburða laginn dýralæknir þó ólærður væri.  Hér kveður Ólafur Passíusálmana og ræðir þá ásamt sinni barnæsku.

siggapiaSigríður Filippía Erlendsdóttir (05.04.1901-23.08.1982) ólst upp á Hvallátrum og bjó þar síðan með manni sínum; Hafliða Halldórssyni (sjá hér ofar).  Hér ræðir Sigríður um vísur og þulur og fer með nokkrar.  

 

sigurvineSigurvin Einarsson (30.10.1899-23.03.1989) ólst upp í Stekkadal á Rauðasandi.  Eftir Samvinnuskólapróf og kennarapróf fékkst hann við kennslu, stofnaði Dósaverksmiðjuna og var Alþingismaður sinna fæðingarslóða 1956-1971.  Kona hans var Jörína Jónsdóttir.  Þau bjuggu í Ólafsvík en síðar í Reykjavík.  Sigurvin keypti Saurbæ og rak þar myndarbú.  Hann var mikill félagsmálamaður og góður hagyrðingur.  Hér segir hann frá álfum, draugum og fólki.

snaebjornthSnæbjörn J. Thoroddsen (15.11.1891-29.01.1987) ólst upp í Kvígindisdal og bjó þar alla sína ævi.  Hann lauk verslunarskólaprófi.  Gegndi fjölda trúnaðarstarfa og var farsæll forystumaður sinnar sveitar meðan hans naut við; oddviti, sparisjóðsstjóri o.fl.  Veðurathugunarmaður lengi.  Snæbjörn segir hér frá vættum og mönnum í Rauðasandshreppi og rifjar upp nokkrar vísur.

sveinnjSveinn Jónsson (19.09.1890-24.03.1974) ólst upp á Hóli í Tálknafirði.  Giftist Guðnýju Ólafsdóttur (sjá hér ofar) og bjuggu þau fyrst í Vesturbotni en lengst af á Sellátranesi.  Sveinn segir hér frá huldufólki.

valborgValborg Pétursdóttir (08.01.1893-19.07.1975) ólst upp á Stökkum, dóttir fræðimannsins Péturs Jónssonar.  Giftist Stefáni Ólafssyni en hann féll frá 1942.  Eftir það bjó hún með börnum sínum.  Tók virkan þátt í félagsmálum, var bókhneigð og fróð.  Hún segir hér frá fólki og fyrirbærum og fer með ljóð og rímur.

thorvaldurthÞorvaldur Thoroddsen (31.08.1909-07.06.1984) ólst upp í Vatnsdal, bróðir Braga (hér ofar).  Kvæntist Elínu Björnsdóttur og bjuggu þau á Patreksfirði, þar sem Þorvaldur gegndi ýmsum skrifstofu- og trúnaðarstörfum.  Var m.a. sýslufulltrúi og hreppstjóri Patrekshrepps.  Hann segir hér af Guðmundi Jónssyni vinnumanni á Hnjóti o.fl.

thordur gudbjartssonÞórður Guðbjartsson (15.12.1891-12.02.1981) fæddist á Firði í Múlahreppi, en ungur lenti hann á flækingi niðursetningsins milli bæja í A-Barðastrandasýslu.  Nítján ára kom hann til Patreksfjarðar og keypti lausamannsbréf fyrir aleigu sína.  Þar átti hann síðan heima og vann ýmsa verkamannavinnu.  Þórður var gáfumaður og haldinn ríkri réttlætiskennd.  Giftist Ólínu Jónsdóttur.  Hann beitti sér í verkalýðsbaráttu og var ósmeykur að senda þeim tóninn sem það áttu skilið.  Fóstursonur hans, Jón úr Vör, reisti honum minnisvarða í ljóðum sínum.  Þórður kunni ógrynni af rímum og var kvæðamaður góður.  Hér er hafsjór af kveðskap, en einnig rætt um menn og málefni og sagðar sögur.

thordurÞórður Jónsson (19.06.1910-12.07.1987) ólst upp á Hvallátrum og bjó þar allan sinn búskap.  Giftur var hann Sigríði Ólafsdóttur Thoroddsen.  Þórður var mikill félagsmálamaður og um margt forystumaður í sinni sveit.  Hann var lengi hreppstjóri; formaður slysavarnardeildarinnar Bræðrabandsins; stjórnarformaður Mjólkursamlags V-Barð; umboðsmaður skattstjóra o.fl.  Þórður var lipur bjargmaður og í forystu björgunarmanna við björgunina undir Látrabjargi 1947.  Hér segir hann ýmsar sögur, þessa heims og annars, og rifjar upp þjóðlegan fróðleik.