Hér lýsa Kollsvíkingar ýmsum lifnaðarháttum fyrri tíma sem varðar mataröflun; verkun og geymslu matar.

Efni:    (Flýtival með smelli á kaflaheiti)
Matarhefðir  Sigríður á Láganúpi þekkti flestum öðrum betur til matargerðar fyrri tíma.
Reyking matar  Sigríður segir frá reykingu, sem var mikilvægur geymslumáti matar.
Þorrablót og þorramatur  Lýsing Sigríðar Guðbjartsdóttur á rótgrónum siðum á þorra.
Sjávar- og strandnytjar  Sigríður fjallar um það sem féll utan hefðbundinna fiskveiða.
Garðrækt og grænmeti  Hér er Sigríður margfróð; garðrækt var mikið stunduð í hreppnum.
Matarhættir   Torfi Össurarson frá Kollsvík var fróður um matarhætti fyrri tíma.
Brauðgerð og kornmölun Torfi greinir frá brauðgerð að fyrri tíðar hætti, og mölun korns.
Drykkjarföng   Torfi lýsir notkun á sýru og kaffi.  Áfengi þekktist vart í Kollsvík.
Vatnsmyllur   Fróðleg frásögn Einars Guðbjartssonar frá Láganúpi af vatnsmyllum í Kollsvík.
Íslenskur matur  Össur Guðbjartsson á Láganúpi lýsir nýtingu og verkun matar fyrr á tíð.
Lífvænleg Kollsvík   Hallæri fyrri alda sneiddu fremur hjá Útvíkum en öðrum svæðum.

 

Matarhefðir

sg sg

Höfundurinn:  Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp.  Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni.   Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land.  Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja.  Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1994.  

Víða er það siður Vestfirðinga að koma saman á Þorláksmessu og borða vel kæsta skötu; kannske til að sjóða hana ekki endilega í hverju húsi þar sem ilmurinn er misvinsæll, jafnvel hjá þeim sem þykir skata góður matur! Einn er þó sá siður sem ég ólst upp við og það er að elda hausastöppu þegar farið var í fiskiróður. Á Rauðasandi hefur aldrei verið mikið útræði því oftast er brim við Rifið enda fyrir opnu úthafi. Þó áttu bændurnir á Lambavatni litla skektu sem þeir komust í róður á; kannske tvisvar, þrisvar á sumri. Aflinn var svo saltaður og látinn síga; smáfiskur. En þá kemur loks að þessum rétti sem þótti ómissandi þegar komið var í land með aflann en það var hausastappan. Í hana voru notaðir helst stórir hausar, ef slíkir komu á land. Oftast voru teknar kinnar. Þetta var skafið vandlega og soðið með talsverðri lifur og skilyrði að það væri glænýtt. Svo var allt fært upp og tínd úr þau bein sem náðust; allt hitt hrært saman og borðað með kartöflum og gjarnan seyddu rúgbrauði. Fólk taldi ekki eftir sér að tína út úr sér nokkuð af beinum!

Ég var ekki alin upp við mikil not af fugli; lítið var um fugl á Rauðasandi en svartfugl þá aðallega. Tengdamóðir mín sagði að hér í Kollsvík hefði verið geysilega mikið notað af fugli úr bjarginu. Hann var plokkaður og saltaður niður í tunnur. Hamurinn heitir bumbur þegar búið er að plokka fuglinn. Smolt er fuglafeiti. Flotið af fuglunum var fleytt og notað í bræðing. Svo var það líka notað til að bera í ull þegar var verið að kemba til að mýkja hana. Yfirleitt var það samt fótafeiti. Þetta var svolítið svipað, storknaði ekki. Svartbaksungi var notaður hér töluvert. Það var íþrótt að skjóta þá á flugi hér í víkinni. Í norðanstormi þá flýgur fuglinn alltaf í verðrið og flýgur lágt. Og á haustin þá sátu þeir hérna niður á gömlu grjótgörðunum þegar þannig viðraði og skutu ungann á fluginu. Þetta þótti alveg herramannsmatur; ungarnir. Engar varúðir á því. Fullorðnir svartbakar þóttu ekki mannamatur.

Hér var gjarnan notað saltað selspik með bæði signum fiski og saltfiski. Annars var mörflot notað út á allan fisk. Það átti að geyma mörinn og láta hann fiðra dálítið áður en farið var að hnoða. Það var karlmannsins verk að hnoða. Hnoðmörinn er geymdur í saltpækli. Það átti að gera skákross í mörtöflurnar. Þetta var bara venja. Pabbi gerði þetta alltaf. Setti puttafar í hornin og miðja vegu. Það voru sem sagt 5 fingraför, eitt í hverju horni og eitt í miðjunni og rákir á milli. Ég geri þetta alltaf þegar ég hnoða. Mér finnst að það eigi að halda gömlum siðum þó að maður viti ekki af hverju þeir stafa.

Þegar ég var að alast upp var alltaf gert skyr; síað í litla tunnu; skyrsía með rimlum í botninum; í hana var sett grisja og síað og svo var mjólkurafgöngum og undanrennu hellt út í mysuna, þá hljóp mjólkin og varð til þykkur súr í mysunni sem féll á botninn. Súrinn flaut svo upp þegar var stórstreymt. Það var gjarnan þarna ausa, hékk á barminum og ef menn voru þyrstir fengu þeir sér svaladrykk úr tunnunni.

Súrinn sjálfur var mest notaður út á hafragraut. Mysan var notuð til að súrsa í. Kannske var mjólkin sem hellt var í farin að súrna eitthvað örlítið. Úr undanrennunni var yfirleitt gert skyr. Ef þéttinn dugði ekki á milli þess sem hleypt var fengu menn þétta hjá nágrönnunum.

Fráfærur lögðust af löngu áður en ég man. Sláturverkin voru ekki ósvipuð í Lambavatni og Kollsvík.

Ekki var mikið um heilhveiti þegar ég var að alast upp. Myr; kartöflusmælki, var gjarnan notað í rúgbrauð og fjallagrös. Kartöfluafgangar voru gjarnan stappaðir og notaðir í rúgbrauð; það varð mjög gott með kartöflum. Rúgbrauðin voru bökuð í kringlóttum boxum sem pabbi smíðaði.

Konurnar af öllum Sandinum komu töltandi til pabba ef kom gat á pott hjá þeim, eða bilaði halda og hann sauð í þetta. Smíðaði kannske ný kopareyru á þá. Enda elskuðu þær hann allar gömlu konurnar á Rauðasandi.

Alls staðar var gert við leirtau, það var saumað saman; boruð göt og þrætt saman. Þetta var alveg pottþétt. Ef diskur brotnaði í tvennt datt engum til hugar annað en að gera við hann.

Fyrst þegar ég man eftir voru hringir á eldavélunum. Þá voru þessir íhvolfu gömlu pottar. Svo komu plötur ofan á eldavélarnar og þá komu álpottarnir. Kaffibrennslupotturinn var netakúla sem var tekin í sundur í miðju og notuð til að brenna á hringavélinni. Það þurfti sérstakan pott til þess því það var svo mikil sterkjan í kaffinu. Svo man ég eftir vöfflujárnum sem léku á hringjum. Gott var talið að setja pínulítið kúmen út í kaffi. Það spratt svo mikið þarna í gömlum görðum. Það var aðallega notað í kaffi en líka eitthvað í brauð, kleinur t.d.  Össur heldur að kúmenið sé hérna frá dögum Björns Halldórssonar, það er víða á Rauðasandi en Guðrún ríka í bæ giftist syni Gísla á Hlíðarenda sem flutti kúmenið inn.  Gæti hafa komið með henni.

Hvönn óx þarna í gömlum görðum og það var óskaplega gaman að leika sér í hvannstóðinu. Og svo átum við þær í þokkabót. Að öðru leyti voru þær ekki notaðar. Garðrækt var mjög mikil á Rauðasandi frá því löngu áður en ég man eftir mér; rófur, kartöflur, gulrætur, rabbabari og kál, þó var lítið um kál fyrst þegar ég man eftir. Garðrækt var hér meiri og fyrr en annars staðar. Kál var notað í kjötsúpur og soðið. Karlar gamlir töldu þetta ekki vera mannamat, vildu ekki éta gras. Það var erfitt að kenna þeim það. Össur maður Sigríðar, vandist ekki við að éta svona kálmeti því það var lítið gert að því í Víkunum.

Systkinin Kristín Pétursdóttir og Jón Pétursson voru brautryðjendur í garðrækt á Rauðasandi. Jón var langt á undan sinni samtíð sem bóndi og bjó á Stökkum. Þetta voru börn Péturs Jónssonar fræðimanns og rithöfundar. Hún var ógift en hann giftist nú og dó ungur. Hann var t.d. búinn að slétta túnið á Stökkum og var langt á undan öðrum með slíkt. Kristín var feikimikil áhugakona um alla ræktun; var með kálrækt; ræktaði rófur til sölu; var með trjágarð; hafði rifs; jafnvel íslensk jarðaber ræktaði hún í kirkjugarðinum undir góðum grjótvegg sem hitnaði vel í sól. Svo var hún með ýmislegt grænt; alls konar kál og næpur.

Rófur voru mikið soðnar í hafragraut. Heima hjá Sigríði var hafragrautur dagleg fæða og rófur voru soðnar í honum þegar þær voru til. Rófurnar voru soðnar; svo kastað út á soðið og svo var þetta borðað með súr eða mjólk. Og svo slátur með. „Ég veit ekki hvað það ætti að vera hollara“.

Rófurnar voru skornar sundur og tekinn þriðjungur innan úr miðjunni látinn kandísmoli í holuna og látinn renna. Svo var safinn gefinn úr skeið, þeim sem voru með kvef.

Mikill reki var á Rauðasandi og rekavið mikið brennt í eldavélinni.

Blómkálssúpa var stundum. Annars var ekki mikið um súpur. Aðallega kjötsúpa og í hana var grænmetið notað. Hrátt grænmeti í salat var ekki farið að nota fyrr en eftir 1950 og ekki almennt þá. Þegar ég var svona á táningsárunum þá var farið að rækta höfuðsalat og blaðsalat og þá var það oft borðað eintómt með rjóma og sykri.

Magálar eru búnir til úr kviði heimaslátraðs fjár; helst vænna sauða. Kviður skorinn úr upp undir bringubein; að rifjum og niður að huppum; snöggsoðið og saltað eftir suðu. Ef kviðirnir þóttu heldur þunnir voru þeir lagðir saman tveir og tveir og lagt létt farg á. Síðan saumað utanum þunnt léreft eða blað og hengt upp í reyk.

Lundabaggar eru enn búnir til hér. Í þá eru notaðir ristlar, gollurshús, hjörtu og kjötbitar og þind utan um. Mjög er vandað til að hreinsa ristlana; þeir skafnir af sérstakri natni og síðan hankaðir. Ekki þótti ráðlegt að leggja þá í bleyti; talið hætt við að þá rynni fitan frekar úr í suðunni. Lundabaggarnir síðan soðnir; pressaðir létt á meðan þeir kólnuðu og settir í súr.

Það var aðeins talað um lappir á hundum og köttum. Fé var mun virðulegri skepna og hafði fætur, einnig kýr og hestar.

Þegar faðir minn fór í ver hafði hann með sér nesti í kistli.  Hann hafði með sér kæfu; mjög feita og var henni drepið í smá kassa. Inn á milli laga var drepið soðnum kjötbitum, feitum, og þótti það mjög gott. Kæfa var sett í skinnbelgi og hengd upp í reyk. Ég þekkti einnig að setja kæfu í langa til geymslu.

Selkjöt hefur verið notað hér um slóðir allt fram á þennan dag. Það var þvegið, spikið skorið af og kjötið soðið, borðað með kartöflum og rófum. Spikið var saltað og notað með söltum og signum fiski.  

Reyking matar

Hallgerður Gísladóttir. Viðtal við Sigríði Guðbjartsdóttur á Láganúpi 4. júní 2002.

reykhus ytragili framhesth eftir framhlÞar standa uppi tvö reykhús.  Gamla hesthúsið á Hólum, nær 400 ára (hægri mynd), og kofi sem Valdimar Össurarson byggði upp úr gamalli hrútakofatóft kringum 1995 (vinstri mynd).

HG:  Ég ætlaði að biðja þig um að segja mér frá reykhúsunum þínum, Sigríður.

SG:  Já það er nú nokkuð gamalt þetta elsta sem er búið að vera að notað frá því snemma á síðustu öld. Og það er vitað til þess að þessi kofi er að stofni til frá því fyrir 1700. Þá var þetta útihús hjá bónda sem bjó á býlinu Hólum, sem nú er komið í eyði fyrir lifandi löngu. Og það er búið að nota þetta hús til að reykja í þangað til fyrir svona átta eða tíu árum þá byggði sonur minn sem var með grásleppuútgerð, hann setti þak á tóft og byggði upp til þess að reykja í rauðmagann. Því að rauðmaginn var alltaf saltaður og reyktur.

HG:  Viltu segja mér betur frá því hvernig það var gert?

SG:  Hann var „pekil“ saltaður og svo var hann látinn þorna lengi og eiginlega þykja mönnum svolítið vafasamar aðferðir sem manni virðist vera sumsstaðar notaðar, að passa að láta hann ekki þorna of mikið, því þá verður hann náttúrulega léttari. En hérna vildu menn hafa hann vel þurran og hanginn.  Svo var þetta bara reykt; hengt upp og reykt í dálítinn tíma; ekki mjög lengi, en þó svona aðeins. Og þetta var gjarnan reykt við tað, ef hægt var að fá þurrt sauðatað; og alltaf var einhver viður líka, svona í uppkveikjuna: Gjarnan ef að menn, það var nú kannski hálfgert feimnismál; ef þeir náðu í klær af krækiberjalyngi, þá þótti það mjög gott til að gera gott bragð. Og svo var þetta byrgt með torfi til þess að ekki logaði uppúr, því að ekki mátti rauðmaginn hitna.

HG:  Og hvernig var eldstæðið?

SG:  Þetta var nú bara svona eins og litlar hlóðir sem voru gerðar, og svo safnaðist nú í þetta aska, og hækkaði upp í hlóðunum.

HG:  Hvað heldurðu að rauðmaginn hafi verið þurrkaður lengi?

SG:  Þetta fór nú svolítið eftir því hvernig viðraði sko. Ef það var raki í loftinu þá þurfti að þurrka lengur og svona; en hann var þurrkaður þó nokkuð lengi. Það var eiginlega miðað við að hann væri orðinn vel harður; ef maður kleip í hann þá væri hann ekki linur, hann varð að vera vel þurr.

HG:  Heldurður að það hafi tekið meira en viku í meðal veðri?

SG:  Jafnvel, ekki minna en viku held ég. Þetta fór líka eftir því hvenær á vori þetta var, því það varð að vara sig á því ef það var orðinn mikill hiti í tíðinni. Þá vildi hann moltna svona og jafnvel koma fluga í hann, og það varð að passa sig á því.

HG:  En söltunin....var saltið eitthvað sérstaklega blandað?

SG:  Nei ég man nú ekki til þess. Þetta var bara saltað dálítið vel. Það var svolítill vandi, að hann yrði ekki of saltaður.

HG:  Manstu hvað það var lengi sem hann var saltaður?

SG:  Nei ég man það nú ekki svo nákvæmlega. Ég þori ekki að segja það. Það voru karlarnir sem gerðu þetta þegar þeir komu með hann af sjónum og gengu frá honum.

HG:  Hann var hveljuskorinn var það ekki að einhverju leyti?

SG:  Nei nei, það var tekinn kamburinn og passað að láta ekki skerast inn í fiskinn, því þá var meiri hætta á að það gæti komið fluga í þetta.

HG:  Það var tekinn kamburinn og kviðurinn og þá hausinn líka?

SG:  Já. Það var byrjað aftantil og skorið aftan við kambinn, skorið fram með, niður með hausnum og svo kviðhveljan aftur að uggunum, ekki aftur að sporði heldur aftur að gotraufinni. Þetta var tekið bara í einum skurði.

HG:  Og svo hefur þetta verið grafið í salti?

SG:  Já, eða þá sett í „pekil“.

HG:  Styrkleikinn á pæklinum?

SG:  Það þori ég nú ekki að segja um.

HG:  Og svo voruð þið að borða þetta allt árið er það ekki?

SG:  Jú, svona. En á seinni árum þá var nú selt svolítið af þessu, ef við vorum með mikið af þessu. En svo var þetta nú sett í frysti þá, þegar það var kominn frystir fyrir mörgum árum. Þetta geymdist nú kannski ekki endalaust öðruvísi en það væri þá fryst.

HG:  Og fyrst og fremst haft út á brauð?

SG:  Já, með brauði.

HG:  Kannastu við að einhver annar fiskur hafi verið reyktur?

SG:  Nei, ekki sem ég veit um, ekki nema það sem maður fiktaði við ef maður var með reyk í kofanum og var með fiskflök, að þá var þeim stundum brugðið í reyk, saltað í það og brugðið í reyk í smá tíma, en það var ekkert gert neitt verulega af því.

HG:  Ólafur á Sellátranesi er með kaldreykingarbúnað, reykurinn er leiddur frá einum kofa í annan í gegnum stokk til að fá hann kaldan. Kannastu eitthvað við að menn geri svona lagað hér um slóðir, eða er þetta sérstakt?

SG: Nei þetta var nú aðeins gert ef kofarnir voru litlir og þröngir til að verjast því að það hitnaði í þeim, en það var ekki mikið um það. En hitt var reynt að passa að það kæmi ekki hiti í kofann. Það skemmdi bæði rauðmaga og kjöt. Það var reynt að byrgja það þá með torfi. Setja yfir svo að það logaði alls ekki uppúr, það var gert hér.

HG:  Hvað kveiktuð þið oft upp?

SG:  Það var ýmist einu sinni á sólahring eða tvisvar. Ég hef verið að reykja allt að þessu, og ég hef kveikt upp oftast kvölds og morgun.

HG:  Hvernig gekk að ná í tað?

SG:  Það gekk illa. Því hér er fé á grindum, en það hefur alltaf verið reynt að ná einhverjum taðflögum sem voru komnar ofan á grindur. Þá var það gjarnan tekið og þurrkað og haft til að reykja við, en það er svolítið erfitt, það er vandamál að ná því.

HG:  Þakka þér fyrir Sigríður.

(Svör nr.14597  hjá Þjms; mótt: 23.4.2003).

Þorrablót og þorramatur

Höfundur: Sigríður Guðbjartsdóttir (sjá hér að ofan).

Þorrablót hófust um 1950 á Rauðasandi, og þá sem smásamkomur sem ekki var gert mikið út úr. Raunar mættu þar allflestir Rauðsendingar, nema smábörn og þeir sem treystu sér ekki gangandi, því það var alllangt fyrir þá sem lengst áttu að fara.

Mat var komið með af heimilunum og svo lagt í púkk; helst í trogum sem voru þá víðast til. Það var hangikjöt, svið, hákarl ef til var, harðfiskur, hveitikökur og rúgkökur. Laufabrauð þekktist lítið hér, þar til norðlensk kona flutti á Sandinn. Hún kom þá með laufabrauð. Svo var kaffi, pönnukökur og kleinur.

Eftir matinn var svo dansað; oftast við grammofónsspil, en einnig söngleikir t d. „Meyjanna mesta yndi“, „Í bónorðsvífum hann fer að stað“ o.fl. Að ógleymdu því að „vefa vaðmál“(það var aldrei kallað Vefaradans á Rauðasandi). Það kunni hvert mannsbarn að heita má á Sandinum.

Árið 1955 var farið að halda þorrablót í félagsheimilinu Fagrahvammi sem þá var nýbyggt. Þá var farið að skipta hreppnum í deildir til að sjá um blótin. Rauðisandurinn var ein deild; Patreksfjörðurinn sunnan til ein; Útvíkur ein og svo Örlygshöfnin. Svo vísaði hver nefnd á þá næstu í lok þorrablótsins. Hlutverk þessara nefnda var að sjá alveg um þorrablótin, matinn, skemmtiatriði og dansmúsik. Nokkur metnaður var hjá nefndunum að hafa allt sem best úr garði gert, helst betra en fyrra ár!

Matur var allur framleiddur á svæðinu nema hákarl og stundum harðfiskur sem þurfti að kaupa að. Það var hangikjöt, svið, rófustappa, kartöflustappa, súrir lundabaggar og súrir hrútspungar og bringukollar, hákarl, harðfiskur, hveitikökur, rúgkökur, rúgbrauð. Stundum var súrt rengi og reyktir magálar ef tókst að útvega þá. Allur matur var borinn fram í trogum.

Ég held að lundabaggar úr ristlum hafi verið horfnir úr sláturgerðinni hér, áður en þorrablótin voru endurvakin; en ég man eftir þeim frá því ég var yngri. Við krakkarnir vorum látin halda í ristlana á meðan konurnar ristu og skófu. Síðan voru gerðir, og eru enn; lundabaggar með hálsæðum og sumstaðar gollurhúsum; saumaðar utan um það þindar. Stundum voru höfð hjörtu í lundabagga en þótti ekki heppilegt þar sem þau þurftu meiri suðu. Lundabaggar voru oft reyktir hér um slóðir.

Með þorramatnum var, þá sem nú, boðið upp á goskrykki, en menn höfðu oft með sér vasapela til blöndunar. Ég held að áfengisneysla hafi aukist á þorrablótum í seinni tíð; a. m. k. orðin almennari og ekki pukrast með þetta eins og oft var fyrr.

Hér á bæ borðum við þorramat ekki svo mikið meira á þorranum, því enn er þessi matur nokkuð algengur á borðum allt árið.  Það er þá helst hákarlinn sem er meira borðaður á þorranum. Aftur er talsvert orðið um að stórfjölskyldur, t.d. systkinahópar með sínar fjölskyldur, komi saman og haldi sín smáþorrablót á þorranum. Þorramatur var ekki algengt orð hér fyrr en fyrir fáum árum, og jafnvel ekki mikið notað hér; meira hvað það heyrist og sést í fjölmiðlum.  Sjálfsagt er það vegna þess að þessi íslenski matur er það algengur hér.

Svo er það með skemmtiatriðin. Þau hafa alltaf verið samin og flutt af undirbúningsnefndinni með fáum undantekningum. Var þetta oft ótrúlega fjölbreytt efni og mátti kanski fremur kalla revíur. Oftast var saminn leikþáttur og fluttur með þó nokkrum tilþrifum og í gervum sem voru iðulega snilldarlega gerð. Í þessum leikþáttum var oft komið fyrir annál ársins og má næstum segja að undirbúningsnefndir hafi verið á höttunum eftir efni allt árið. Gamanvísur voru samdar og fluttar; stundum tvær, þrjár drápur og þá einnig skens um sveitungana. Reynt var að hafa það á léttum nótum svo ekki sviði undan en þó kom fyrir að menn gátu ekki á sér setið að nota spaugileg atvik sem viðkomandi mislíkaði. Auglýsingar eru einnig ómissandi á blótunum. Stöku sinnum var rímnakveðskapur en ekki voru allar nefndir svo heppnar að hafa rímnamönnum á að skipa. Það var með ólíkindum hvað tókst að framleiða af efni, bæði andlega og líkamlega, af fáu fólki; því oftast voru þetta 6 til 8 fjölskyldur í hverri nefnd.

Svo fór að fækka svo fólki að þetta gekk ekki upp. Fór þetta þá að losna nokkuð í reipunum en oftast hefur þó tekist að koma upp þorrablóti í sveitinni og þá undirbúið af þeim sem næst búa við félagsheimilið okkar, en þar er fjölmennast. Eftir borðhald var og er dansað; oft var það við harmonikkumúsik en seinni ár hafa verið fengnar hljómsveitir. Á fyrri blótum var oft dansað til kl. 5 - 6 að morgni en nú er dansað til kl. 3 - 4. Áður voru mest dansaðir gömlu dansarnir en eftir að hljómsveitir komu til sögunnar er þetta mest þeirra venjulega tón- „list“. Mikil ásókn hefur löngum verið á blótin hér í Fagrahvammi úr nágrannabyggðum og hafa menn skrifað sig á lista með miðapantanir og oft fengið færri en vildu. Húsið tekur ekki nema rúmlega 100 manns í sæti.   (Svör nr.12343 hjá Þjmsj.Mótt : 1.10.1995).

Sjávar- og strandnytjar

Höfundur: Sigrðiður Guðbjartsdóttir (sjá hér að ofan).

Ég hef nú fremur lítið að segja um þetta efni. Hér vissi ég ekki til að söl væru notuð til manneldis en hér er sumsstaðar góð fjörubeit fyrir sauðfé. Skarfakál var nokkuð notað til matar.  Ég heyrði ekki mikið um skelfisksneyslu áður fyrr, en þegar ég var að alast upp voru nokkur kræklingsnot á einum bæ í sveitinni; Hvalskeri.  Þar er mikið útfiri í Skersbug, og var geisimikið sótt þangað í kúfisk frá verstöðvum; sem notaður var í beitu. Ekkert hef ég heyrt um loðnunot, en ég man eftir að einu sinni, ca. um 1940, þá kom á land á Rauðasandi geisimikið af hlýra; alveg nýjum, sem var notaður nokkuð. Ég veit ekki hvernig á þessu stóð, og kannske hefur þetta gerst áður og oftar. Um selinn treysti ég mér ekki að skrifa; Ari Ívarsson mun hafa gert því skil, enda selveiði á hans heimili sem og annarra bæja við Bæjarvaðal á Rauðasandi. Mest var hún í Saubæ.  Það var gömul hefð að senda einn kóp á hvern bæ á Sandinum frá Saurbæ á selveiðitímanum. Spikið var saltað og soðið með saltfiski. Kjötið sem ekki nýttist nýtt var held ég mest saltað. Sviðin voru súrsuð og þóttu lostæti.

Um lúðuna veit ég ekki margt sjálf en hef spurt þá sem aldir voru upp í verstöðinni í Kollsvík. Heiti á lúðu sem hér tíðkuðust voru: Lok eða lúðulok var smálúða; lóa var einnig heldur smá; spraka, heilagfiski og flakandi lúða var það stór að hægt var að taka af henni rikling. Ekki treysti ég mér til að lýsa aðgerð á lúðu en nöfn hef ég heyrt á ýmsum hlutum hennar. Höfuðflak, hnakka(flak)stykki, vaðhorn (fremst á kviðflaki), spildingur (beinin sem fylgdu hrygg), rafabelti og riklingur. Lúðuriklingur var skorinn í strengsli og hert. Settir voru pinnar milli strengslanna svo að þau vefðust ekki upp. Sporðstykki var kallað strabbi. Beinin í sporði voru kölluð ljáir. Rafabelti voru oftast hert. Þau urðu reyndar aldrei hörð vegna þess hvað feit þau voru. Rafabeltin voru pækilsöltuð fyrst og síðan hert og borðuð þegar þau töldust orðin verkuð og kölluð einæt. Sú trú var að ef menn drógu lúðu þá væru líkur til að sá hinn sami ætti von á erfingja. Ein vísa hefur gengið hér um sveit sem húsgangur og var ort fyrir munn Sigurbjarnar Guðjónssonar sem bjó í Hænuvík fram til ca. 1950. Kona hans hét Ólafía Magnúsdóttir og var hún kölluð Lóa. Vísan er svona: “Ég á lóu á landi og sjó/ líka nóg í soðið/ útí flóa og inn við stó/ á henni glóir roðið“.

Ein er sú tegund sjávarnytja sem hér tíðkaðist, en það er hrognkelsaveiði. Hún var stunduð frá allmörgum bæjum hér í sveit á vorin og var drjúgt búsílag. Raunar þekkti ég ekki slíkt í uppvexti á Rauðasandi því þaðan var hrognkelsaveiði ekki stunduð.  En dæmi voru til að menn þaðan kæmu sér upp netstubb og vinir og vandamenn, t.d. hér í Kollsvík, hefðu hann með sínum netum og eigandi fengi aflann úr því. Á næsta bæ bjó kennarinn okkar og ég man eftir að þegar ég var smástelpa þá var hann að kenna strákunum á þeim bæ að riða rauðmaganet úr togþræði; ég held í og með til að kenna þeim handbragðið því hann lagði mikið upp úr því að þeir kynnu gamalt handbragð af sem flestu tagi. Rauðmaginn var etinn nýr; saltaður og reyktur. Einnig stundum bara hertur og borðaður einætur; helst ef lítið var af honum, svo ekki þótti taka því að gera upp reyk fyrir hann. Hann var þá saltaður eins og sá sem átti að reykja; látinn liggja í salti í sólarhring. Grásleppan var látin síga, en hér var hún látin síga heil en ekki flökuð og kúluð eins og tíðkast víða.

Tengdamóðir mín sagði mér að grásleppuhrognin hafi verið notuð í einskonar hrognaost en hvernig það var gert veit eða man ég ekkert. Nú hef ég aflað mér upplýsinga um gerð hrognaostarins. Ég talaði við Torfa Össurarson sem er mikill sjór af fróðleik um gömul vinnubrögð. Hann er fæddur hér í Kollsvík 1904 en bjó í Dýrafirði mestan sinn starfsaldur. Osturinn var gerður þannig að hrognin voru stöppuð í íláti með hnalli (strokkbullunni sagði Torfi). Síðan voru himnur síaðar frá og hrognin soðin stutt í potti. salt. Síðan var þeim hellt í ílát og mig minnir að tengdamóðir mín segði að létt farg hafi verið sett ofan á. Kælt og síðan sneitt upp og notað með brauði eða kartöflum.   (Svör nr.10504 hjá Þjmsj.Mótt : 1.3.1991).

Garðrækt og grænmeti

Höfundur: Sigríður Guðbjartsdóttir (sjá hér að ofan).

Aðallega voru ræktaðar kartöflur og gulrófur í mínum uppvexti en þó nokkuð af grænkáli, salati, hvítkáli og spínati. Einnig radísur og næpur. Þetta var þó ekki allstaðar, þ.e. kálið, en allstaðar voru ræktaðar rófur og kartöflur þar sem ég þekkti til. Að ógleymdum rabarbaranum. Ekki veit ég til að fólk færi um hér og kenndi garðyrkju en ég held að búnaðarskólar hafi haft nokkur áhrif til að auka ræktun á grænmeti.  Þeir sem þangað fóru smituðu frá sér þegar heim kom, í þessu sem mörgu fleiru. Eftir að sú ágæta bók; Hvannir eftir Einar Helgason, kom út held ég að garðrækt hafi aukist talsvert og fólk hafi farið að prófa fleiri tegundir. Þessi bók er líka mjög merkileg og sígild:  Ennþá fletti ég upp í henni þó að til séu margar nýrri bækur um garðrækt á bænum. Og ennþá er það svo að mér gefast betur þær káltegundir sem þar er mælt með en þær kynbættu tegundir sem bestar þykja samkvæmt umsögn nýrri garðyrkjurita.

sg gardiMyndin er af Sigríði í garði sínum á Láganúpi, líklega kringum 2015.  Hún varð fyrir því óláni árið 2011 að veikjast alvarlega af sýkingu við mænu.  Lamaðist hún við það  og var bundin við hjólastól.  Hún dvaldi eftir það á sjúkrahúsi á Patreksfirði, en nýtti hvert tækifæri til að koma að Láganúpi og vitjaði þá gjarnan garðsins sem hún af þrautseigju og meðfæddum ræktunaráhuga hafði komið upp við bæinn.  Össur maður hennar var látinn á þessum árum, en hann hafði einnig lent í því að lamast.  Annaðist Sigríður hann af einstakri alúð og þolinmæði, og gerði honum þanng kleift að dveljast á Láganúpi síðustu ár sín.

Kartöfluútsæði var valið úr heimaræktuðu kartöflunum eða kannski prófaðar nýjar tegundir frá nágrönnum í skiptum. Mest var ræktað af gulum íslenskum kartöflum sem eru víst að hverfa úr ræktun nema hjá nokkrum sérvitringum (eins og mér). Það er samt eftirsjón að þeim því það eru bestu matarkartöflur sem fást en ekki mjög stórar nema í hlýjum sumrum. Rófurfræ var ræktað heima á Lambavatni, og hafði verið það lengi ræktað að ég held að það hafi mátt heita sérstakt stofnafbrigði. Fengu margir fræ úr þessari ræktun. Kálmaðkur þekktist ekki þegar ég var að alast upp og ég held bara að hann hafi ekki sést á Rauðasandi fyrr en um 1960. 

Allar plöntur voru aldar upp heima. Mig langar til að segja frá vermireit sem pabbi útbjó heima. Fjósið var með skúrþaki og ekki mikill halli á því. Svo var það tyrft. En pabbi gerði þarna ferhyrndan reit sem hann gróf niður gegn um torfið sem var talsvert þykkt. Svo var sett moldarlag ofan á þakjárnið. Trérammi var settur með hliðum reitsins og glerrúður á lömum ofan yfir. Svo lagði ylinn úr fjósinu í moldina svo hægt var að planta þarna þótt nokkuð frost væri; amk. næturfrost. Ungmennafélagið í Útvíkum; Vestri, hafði kartöflugarð í þó nokkur ár sem félagar unnu við og seldu uppskeruna til fjáröflunar en ungmfélagið Von á Rauðasandi átti blómagarð við samkomuhús sitt sem konurnar plöntuðu í sumarblómum.

Til eru heimildir um að kartöflur hafi verið ræktaðar í Rauðasandshreppi fyrr og í meira magni en annarsstaðar á Vestfjörðum. Er þá ekki talað um séra Björn í Sauðlauksdal en það mætti láta sér detta í hug að hann hafi haft áhrif á ræktunina og menn tekið þetta eftir honum. Þegar ég man fyrst eftir var reynt að raða í útsæðiskassana þannig að sem mest af augunum sneri upp en svo var því hætt, ekki talið að það breytti neinu teljandi.

Sett var niður í beð og ef garðar voru blautir (ef rigningartíð var) þá voru mokaðar götur. Holur voru gerðar með heimasmíðuðu áhaldi; járnspaði var festur á skaft með hringjum, líkt og ljár í orf. Arfasköfur voru notaðar nokkuð, en mest var arfi tekinn með höndum. Áburður var aðallega búfjáráburður en eftir að tilbúinn áburður fór að fást var notað lítilsháttar af honum. (Mér finnst raunar nokkuð kátlegt að skrifa um þetta í þátíð því mest af þessu gildir enn). Þegar sett var niður voru fyrst gerðar holur og síðan settu gjarnan krakkarnir kartöflur í holurnar og þurftu að passa að brjóta ekki spírur. Síðan var rakað yfir með hrífu ef garðurinn var vel myldinn en annars var helst rutt í holurnar með höndunum fyrst svo ekki færu kögglar og hnúskar næst kartöflunni. Og einu gleymdi ég næstum. Það var mikið upp úr því lagt að láta í holurnar eina lúku í holu af möluðu sauðataði eða hrossataði. Sauðataðið var þá malað í taðkvörn sem til var á hverjum bæ. (Þetta á ekki við um nútíma kartöfluræktun, því miður). Áhersla var lögð á að götur milli beða væru þráðbeinar og strekkt snæri til að máta við.

Aðaltegundir af kartöflum í mínum uppvexti voru, auk gulu íslensku kartöflunnar sem fyrr er getið; rauðar íslenskar, gullauga, eyvindur og blálandskeisari. Reyndar rækta ég þessar tegundir enn nema eyvind, sem var ekki góður. Þegar tekið var upp var gamla útsæðiskartaflan kölluð móðir en það smæsta heitir myr. Ekki var fengið aðkomufólk til að taka upp kartöflur nema í undantekningatilfellum, enda heimilin oftast nokkuð fjölmenn. Heima var gjarnan fyrsta uppskeran á afmælisdaginn minn, 5.ágúst, en misvel sprottið enda bara í matinn þennan dag. 

Kartöflurnar voru mest borðaðar með kjöti og fiski en ég man ekki til annars en að kartöflurnar næðu saman; þ.e. þær gömlu entust þar til þær nýju voru komnar í gagnið. Sumstaðar voru rófur notaðar ásamt kartöflum með saltfiski en annars voru rófur mest notaðar með kjöti, t.d. saltkjöti, og í súpu. Rófur voru einnig notaðar í hafragraut og sá hafragrautur er mjög góður. Svo voru kartöflur notaðar í jafning og stöppu, t.d. með hangikjöti og sviðum. Smávegis var um að kartöflurnar voru brúnaðar við hátíðleg tækifæri.

Kartöflur voru notaðar til að mæla styrkleika saltpækils. Var þá rekinn 2 1/2"- 3" nagli gegnum stóra útsæðiskartöflu og var pækillinn hæfilega sterkur þegar kartaflan maraði í yfirborðinu. Kartöflur voru gjarnan notaðar í rúgbrauð þegar ég var að alast upp; raunar hef ég notað þær þannig í mínum búskap. Þá eru þær stappaðar og rúgmjölið hnoðað upp í þá ásamt sjóðheitu vatni. Þetta var gert að kvöldi og látið í box. Að morgni var það sett í ofninn og bakað allan daginn við vægan hita. Brauðið var ekki eins þétt í sér ef kartöflur voru notaðar, kom eins og dálítil gerjun í það og lyfti sér. Stundum voru kúm gefnar kartöflur, helst myr en ekki var talið gott að gefa þeim mikið af þeim.

Ef uppskeran var mikil var gjarnan selt það sem ekki var talið að þyrfti til heimilisins. En ég er ekki nógu hundgömul að ég muni eftir viðskiptum við skútusjómenn en mér finnst trúlegt að menn hafi ekki síður selt þeim kartöflur en annað. Ég veit amk. að afi minn fékk eitt sinn hvolp hjá fransmönnum í vöruskiptum en ég veit ekki fyrir hvað. Tíkin hét Kaprís og nafnið hafði fylgt henni og síðan gekk þetta nafn heima á Lambavatni á tíkum. En þetta er nú að villast frá efninu.

Ég er nú víst búin að segja frá káltegundum sem ræktaðar voru en blóðberg var sumstaðar notað í te og einnig vallhumall og þótti gott við t.d. kvefi og hálsbólgu.

Mest var um að karlmenn stungu upp garðana en þó var það eftir ástæðum. Fremur var talið að gamall og fúinn búfjáráburður hentaði kartöflum en rófur þyldu fremur sterkari áburð. Þó sannfærðist ég enn betur um sterka áburðinn og rófurnar eftir að ég losnaði við kálmaðkinn með því að bera á nýja kúamykju. Kálmaðkurinn virðist ekki þola hana. Oftast var sami garðurinn notaður og sumir garðar voru orðnir býsna gamlir. T.d. voru næstum undantekningarlaust garðar fyrir framan bæjarstéttina á bæjum. Í honum lenti svo gjarnan skolp og ýmiskonar úrgangur sem sjálfsagt hefur orðið áburður. En svo var nokkuð um nýja garða. Meira var ræktað af kartöflum en rófum og heima var mikið borðað hráum rófum, sérstaklega börn en aðallega soðnar og einnig stappaðar.

Ef fólk fékk kvef var talið gott við því að hola smávegis úr rófu og kandísmoli látinn í holuna. Rann kandísinn í rakanum frá rófunni og var talinn góður við kvefi. Ekki þekki ég notkun á rófukáli nema fyrir kýrnar. Nokkuð var um að menn fúlsuðu við káli, einkum eldri karlar; sögðust ekki vera neinir grasbítir.

Rabarbari var held ég ræktaður á flestum bæjum en aldrei vissi ég rætur seldar en menn gáfu gjarnan þeim sem vantaði slíkt. Rabarbari var mest notaður í sultu og grauta en einnig sem bitar í sykurlegi sem voru (og eru) notaðir sem niðursoðnir ávextir með þeyttum rjóma. Einnig var gerð rabarbarasaft.

Heima á Lambavatni var ósköpin öll af hvönn í veggnum kring um gömlu garðana á hlaðinu. Trúlega hefur hún verið flutt þangað til nota en ekki man ég eftir notum af henni í mat nema hvað okkur fannst nýir leggir ágætir til að nasla, flysjuðum ysta lagið af og borðuðum það ljósa og meyra innan úr leggjunum. Svo var þetta dýrðar frumskógur til að gera sér fylgsni og hella í enda hátt í mannhæðarhátt stóðið. Einnig var mikið hvannastóð í gamla bæjarstæðinu í Saurbæ. Líka var þarna talsvert af kúmeni. Fræin voru notuð í brauð og kleinur og einnig þótti mjög gott að setja smávegis af kúmeni í kaffipokann þegar hellt var upp á könnuna. Njóli var sumstaðar notaður í uppstúf.

Kartöflur voru þurrkaðar vel (helst ekki í sterku sólskini) og varast að þær blotnuðu áður en þær voru settar í geymslu. Rófur voru ekki þurrkaðar og gætt að þegar kál og rætur voru skornar af að særa ekki rófuna. Þegar rófur voru teknar upp voru valdar nokkrar stórar og fallegar rófur með gott kálstæði og beina og jafna rót. Af þeim voru ekki skornar rætur og kálið skorið nokkuð frá rófunni. Þessar rófur voru geymdar í frærófur og þær voru settar í mold snemma vors á skjólgóðan stað. Einnig var gjarnan sett grind utan um þær því þær verða nokkuð háar og þarf að binda þær upp.

Kartöflur og rófur voru stundum geymdar í kjöllurum og t.d. gryfjum sem grafnar voru ofan í skemhólf og þurrt torf breitt yfir. Aðallega var grænmeti geymt í kofum gröfnum talsvert niður og tyrft mjög vel þakið og allt í kring. Hvítkál var hengt upp með hausinn niður og geymdist þannig nokkurn tíma en annars var kálið notað sem mest nýtt vegna erfiðleika á geymslu þar til frysting komst á, lítilsháttar var soðið niður.

Smávegis var um trjárækt og runna en fremur lítið. Helst var það birki og reynir og svo ribs. Amma mín átti blómabeð við bæinn á Lambavatni þegar ég man fyrst eftir mér, þar var helst stjúpur og morgunfrúr að mig minnir og svo ranfang. En illa gekk að fá nægt skjól fyrir jurtirnar þar sem þetta er einn mesti rokrass landsins í vissum áttum þó oft sé logn og hiti meiri en víða annarsstaðar. Víðast var á Rauðasandi einhver blómabeð nálægt bæjum, bæði fjölær blóm og sumarblóm; einnig rifs. Ungmennafél. á Rauðasandi átti svo smágarð eins og ég hef sagt frá.

Ekki er hægt að segja frá garðrækt á Rauðasandi án þess að nefna hana Kristínu Pétursdóttur á Stökkum, reyndar þeirra systkina hennar líka Valborgar á Hvalskeri og Jóns á Stökkum. Þau voru börn Péturs Jónssonar fræðimanns, rithöfundar og kennara frá Stökkum. Hann var reyndar ekki talinn neinn búmaður, enda hans áhugamál á öðrum sviðum en þau börn hans voru brennandi í andanum um alla ræktun. Jón var langt á undan sinni samtíð í jarðrækt og vann ótrúleg afrek með hestum sínum, plóg og herfi, einyrki á fremur lítilli jörð sem hann gerði eina bestu jörð sveitarinnar á stuttri ævi; hann dó um eða rúmlega fertugur. En þær systurnar höfðu mikinn áhuga á allri garðyrkju og þær höfðu einstakt lag á að hrífa fólk með sér í þennan áhuga. Valborg var að því leyti betur sett að hún átti mann og börn sem hún smitaði með þessum áhuga sínum og þau voru henni til aðstoðar við blóma og trjáræktina en Kristín giftist aldrei. Hún kom sér upp garði með rifsi, fjölærum blómum, jarðarberjum ofl. Svo kom hún sér upp trjágarði sem því miður fór illa eftir hennar dag vegna sinubruna. Einnig var hún með heilan rófnaakur sem hún ræktaði til sölu. Hún var alltaf tilbúin að gefa okkur krökkunum í nágrenninu fræ og afleggjara af rifsi eða blómarætur svo ég tali nú ekki um áhugann sem bókstqaflega geislaði af henni.

Varðandi vörslu garðanna þá var mest um grjótgarða um gömlu kartöflu og rófugarðana sem var auðvitað besta varslan þar sem þeir gáfu líka skjól og einnig héldu þessir garðar yl sólarinnar sem þeir miðluðu til jurtanna. Svo kom auðvitað vírnet eða gaddavír seinna.

Ég held ég hafi þetta rugl nú ekki lengra enda hef ég villst stundum frá efninu.

Ég gleymdi þó alveg fjallagrösunum. Þau eru trúlega, og hafa verið, það merkilegasta af þeim jarðargróða sem Íslendingar hafa notað. Við kvefi voru þau soðin lengi með kandís og tekin inn sem lyf við kvefi í matskeið. Svo var soðin grasamjólk; þau voru notuð í slátur og fleira.  (Svör  nr.10556  hjá Þjms; mótt: 1.10.1992).

Matarhættir

torfi ossurarsonHöfundurinn:  Torfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð.  Torfi giftist Helgu Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur.  Samantekt þessa gerði hann fyrir Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins árið 1987.

Ég lýsi hér borðhaldi á fyrsta og öðrum áratug þessarar aldar.  Venjulega var borðað við eldhúsborðið og setið á trébekkjum við það.  Einn fastur stóll í horni við borðsendann, kallaður pallur. Þetta var eins á hátíðum, þó kom það fyrir að matur var borinn upp á loft, svo var þegar ég pissaði í kvöldskatt föður míns. Tildrögin voru þau að ég hafði verið í lengra lagi úti að leikjum og lagst til svefns í rúmi næst föður míns og vaknaði við að mér var dauðsmál að pissa.  Ég rýk fram úr rúminu er ég svaf í, leggst á hnén við rúmið og sé þá skál föður míns standa á kistli við rúm hans og þess er ég svaf í, þríf skálina sem var með graut og mjólk út á og spræni ofan í grautinn. Elsti bróðir minn var nærstaddur og sér hvað ég er að gera og kallar í mig heldur heiftarlega og brá mér þá illa er ég sá réttu vakandi auga hvað ég var að gera, líklega hefi ég verið kominn langt á fjórða árið en ég man þó vel eftir þessu. 

Borðbúnaður var þessi: Undir graut og súpur voru leirskálar eða emileraðar skálar, misjafnlega stórar; einnig bakkar. Ávallt var skammtað upp úr pottinum í þessi ílát. Skeiðar og hnífar og gafflar aðallega úr járni, þó einnig steypt, því oft brotnuðu skeiðar og gafflar.  Diskar úr leir og emeleruðu voru einkum undir fisk og kartöflur; ekkert til spari. Leirtaui með bláu röndinni man ég eftir. Ekki var sérstök borðbæn en oft vorum við minnt á að biðja Guð að blessa okkur matinn. Ekki var okkur boðið að matast þegjandi en oftast var skrafað og skeggrætt og gert að gamni sínu. 

Á flestöllum bæjum sem ég kom í á þessum árum var lítil stofa í öðrum enda undir lofti eins og eldhúsið. Gangur á milli sem stiginn upp á loftið var í. Í þessa stofu var gestum boðið í, einkum prestunum. Þar var oftast rúm fyrir gest; þar var borð allstórt; ein eða tvær kistur; enginn stóll víðast hvar, þó var til bekkur og tveir stólar í timburhúsi í Kollsvík.  Hún mamma var nú ekki sitjandi ávallt þegar við borðuðum.  Ég man helst eftir henni sitjandi á hækjum sínum nálægt eldavélinni eða þá á ferð á milli okkar. Sérstaka skömmtun á hátíðum man ég ekki, nema það var reynt að hafa eitthvað betra eða meira í það borið.  Borðhaldið breyttist smátt og smátt á þriðja áratugnum og eftir 1930 er almennt borðað við borð í stofu og alls ekki skammtað eins og áður var. Matur eitthvað fjölbreyttari. Djúpir og grunnir diskar og hnífapör; eitthvað betri föt eða bakkar. 
Skipan máltíða hélst víða í sveitum þar sem ég þekkti til í gamla laginu þannig:  Kaffi eða grasamjólk að morgni um kl. 8 eða fyrr. Kl. 3 eftir hádegi; miðaftanskaffi eða annað kl. 6; og kvöldmatur kl. 8 - 9. Morgunmatur var um kl. 9. Hádegiskaffi eða annað kl. 12.  

Breyting á matmálstímum kom eitthvað um 1950; eitthvað fyrr í kaupstöðum að ég held. Matur á þessum árum var æði misjafn og fór eftir efnum og ástæðum en þar sem ég þekkti til var morgunmatur hafragrautur og mjólkursopi út á en undanrenna var ætíð notuð í hafragraut með vatninu ef hún var til. Miðdagsmatur var soðinn saltfiskur, steinbítur, þorskur og skata.  Kartöflur voru oftast með soðnum fiski, einnig var oft borðað í miðdag rúgbrauð og harðfiskur, steinbítur.  Viðbit var smér ef það var til annars bræðingur þ.e. kindamör blandaður lýsi, þorsklýsi, skötulýsi.  Harðir þorskhausar voru stundum hafðir til matar. Kaffibrauð var aðeins til hátíðabrigða nema þá helst lummur.  Pönnukökur voru ætíð fyrir prestinn með rjómakaffinu. Slátur var borðað með hafragraut að morgni meðan það dugði. Kindakjöt var borðað helst á sunnudögum og hangikjöt á hátíðum. Þegar lummur eða pönnukökur voru gerðar var það oft kallað „að sletta út“. 

Hvalkjöt og súrt rengi var talsvert notað til matar á þessum árum, hvalkjötið var saltað og soðið í ragú líkt og svartfuglakjöt. Hvalinn sótti faðir minn o.fl. til Suðureyrar í Tálknafirði; hann var oftast mjög ódýr og þetta var góð og mikil matbjörg. Svartfuglinn var sóttur í Látrabjarg og má segja að bjargið væri löngum matarkista fyrir allan Rauðasandshrepp.  En bjargið tók sinn toll, því ég man eftir að þrír menn hafi farist í Látrabjargi; tveir við eggjatöku og einn við fuglaveiðar. Út á fuglasúpu var notað hrísmjöl eða þá bankabyggsmjöl.  Nú til dags er allt annað mataræðið; þegar fólk deyr af ofáti eða offitu.  En hafragrautinn hefi ég étið alla ævi og er nú að verða 84 ára og að líkindum verður hann það síðasta sem ég legg mér til munns; og harðfiskur.  Fjallagrös voru mikið notuð í brauð og slátur og í drykki, og grösin nota ég enn í dag til drykkjar í mjólkurblandi með brauði; heimabakað. Rófnakál notaði móðir mín í hafragraut, tók einn og einn legg af vaxandi gulrófum. Krækling og öðuskelfisk man ég eftir að móðir mín bauð okkur til matar og þótti gott. 

Ég hefi alveg gleymt kandísnum sem borðaður var með kaffi og grasavatni eða mjólkurblandi, hvítasykurtoppum og molum síðan þeir stóru voru klofnir. Því sagði konan við nágrannakonu sína, „hefur þú klofið“?; „Já ég hefi klofið“. Bæði kandís og hvítur sykur var klipinn í smátt með til þess gerðri sykurtöng. Þessi matur sem ég hefi áður á minnst, á sérstaklega við að vetri.  En með vori kom nýmetið úr sjónum, einkum við sjávarsíðuna, og meðan fært var frá kom blessaða sauðasmérið og skyrið; oft gerður hræringur úr því og skyrinu. Þetta á einkum við um sjávarsíðuna en æskubyggð mín var að hálfu leyti sjósókn; sjávarafli. 
Stórbættur efnahagur er vafalaust það sem veldur breyttum matarháttum, en margt fleira kemur þar til.  T.d. er um svo margt að velja, þó valið mætti vera skynsamlegra heilsunnar vegna oft og tíðum. 

Nokkur orð um nöfn á bitum kjötskrokksins eins og hann var höggvinn í spað. Banakringlan, fremsti hálsliður, þótti lélegasti biti af kindaskrokk.  Kringlan skorin í heilu lagi svona þumlung niður á rifin síðan var hún höggvin í marga bita langs og þvers og var bringukollurinn talin besti bitinn. Bógar skornir af skrokknum og þeir höggnir í spað, leggjastoðin þótti lélegri en annað þó bestir af lærlegg en lærbitar þóttu í betra lagi; einkum beinlausi bitinn sem skorinn var aftan úr lærinu. Mjaðmarbitinn þótti góður, spjaldhryggsbitar þóttu góðir enda þótt lundir höfðu verið teknar en hryggjarliðir voru svona í meðallagi.  Síður voru höggnar skammt frá hrygg og þóttu ávallt góðar, einkum ef skepnan var vel feit. Aftasti biti hryggsins var hárófusterturinn; þótti ávallt eftirsóttur biti.  En skammrifsbrókin þótti albesti biti skrokksins, þetta voru 4 - 5 fremstu rif síðunnar.

Brauðgerð og kornmölun

Höfundur:  Torfi Össurarson (sjá hér að ofan).

Það var ýmist að húsmóðir bakaði eða dætur þeirra, því fáar vinnukonur þekkti ég á yngri árum, né síðar.  Lítið mun hafa verið um að karlmenn bökuðu.  Þó man ég eftir að við bræður bökuðum þykkar eggjakökur 
þegar við höfðum til þess fýlsegg.   Orðið bökun eða bakstur var yfirleitt haft um verkið frá því það byrjaði 
að mala mjölið, og þar til því var lokið.  Mál á mjölinu var ekki ávallt nákvæmt, því stundum var talað um, þegar bleytt var í mjölinu og það hnoðað, "að þetta yrði í mjölsníkju". 

Bökunarofna þekkti ég ekki, nema í eldavélum.  Einnig var bakað svokallað pottbrauð í hlóðum.  Potturinn var ekki stór.  Hann var settur á hvolf með brauðdeigi í hlóðirnar á glóðinni; eldi hlaðið yfir pottinn, og miklu af moði og ösku utanyfir, vel og vandlega.  Glóðin undir pottinum mátti ekki vera mjög mikil.   Einnig voru rúgkökur bakaðar í hlóðum með allstóra slétta járnplötu yfir; einnig hveitikökur.  Pottbrauðið var í bökun a.m.k. næturlangt eða svo, en líta þurfti eftir þessu; að glóðin dæi ekki alveg.   Eftirlit þurfti að hafa með því að glóð og moð brynni ekki upp.  Reynslan mun hafa skorið úr því hvað lengi bökun í hlóðum í potti stóð yfir, en löngum var prjónn notaður til þess að sjá og prófa hvað kökun leið, og er enn notaður t.d. við bökun í jólakökur.  Ef deigið loðir á prjóninum er brauðið ekki fullbakað.   

Í Kollsvík, þar sem ég er borinn og dvaldi til 21 árs aldurs, voru eldavélar komnar fyrir síðustu aldamót og voru þær fast múraðar við reykrörið.  Ég held að eldavélar hafi verið á hverju heimili þá fyrst ég man eftir mér.  Járnskúffa fylgdi eldavélunum, en síðar var farið að baka í mótum; boxum smáum og stórum.  Þá komu þunnar járnplötur, sem bakað var á í eldavélunum; smákökur, hálfmánar ofl.   

Eldiviður var víðast mór, rekaviður, þönglar, þang ofl.  Svolítið var gert af klíningi á vorin til eldsneytis.  Rúg- og hveitikökur voru oft bakaðar á hringjum eldavélanna.  Ávallt var borin einhver feiti undir deigið í skúffum eða öðru sem bakað var í; ekki smjör.  Hlóðir voru talsvert notaðar eftir að eldavélar komu; bæði til 
bökunar, og einnig soðið slátur og hvalur í stórum pottum.  Í hlóðunum var hægt að koma við mikið stærri pottum.  Allskonar eldivið, jafnvel staurum sem ýtt var í eldinn jafnóðum og brann.   

Kleinur og ástarpungar voru ávallt steiktar eða soðnar í potti með feiti, kindafeiti og hrossafeiti, ef hún var til.  Þetta var lagað úr hnoðuðu hveiti, mjólk eða vatni.  Lummur og pönnukökur voru gerðar úr hveiti hrærðu út í mjólk eða vatni og bakað á pönnu eða járnhellu (lummur).  Hátíðamatur var sérstaklega jólakakan; síðar kom lagkaka og vínarbrauð með sultu.  Þetta var eingöngu bakað í ofni eldavéla.  Kleinur og pönnukökur voru einnig hátíðamatur, en oft voru þær ef eitthvað var breytt út af.   Soðkökur þekkti ég aðeins á einum bæ, í bernsku minni, og voru þær gerðar úr rúgmjöli.  Soðkakan var lófastór, þykk eins og flatkökur voru venjulega áður en þær voru flattar út með kefli, og gat í miðju og auðvitað kringlóttar, soðnar í vatni.   

Deig var yfirleitt hnoðað í trogi.  Mæling sennilega í skál.  Mjölið var geymt í kistum úti í skemmu.  Hún var hlaðin úr grjóti og mold með sterkum sperrum og langböndum, sem á voru lagðar hellur og tvöfalt torf þar ofaná, og dálítil mold á milli torfsins.  Mjölkistur voru allstórar.  Hliðarnar hölluðust út, þ.e. víðari að ofan og með mikið kúptu loki, oft rósamáluðu. Súrdeig var notað í rúgbrauð af sýru af slátri.  Ekkert súrdeig var 
notað í soðkökur.

Ég tel að bakstur hafi aukist og orðið fjölbreyttari með tilkomu eldavélanna, svo sem jólakakan, smákökur ýmiskonar.  Áður voru kleinur og ástarpungar, sem þó sjást jafnvel enn, og löngum voru áður lummur og pönnukökur algengar.  Og var þá talað um að "sletta út", þ.e. baka lummur eða pönnukökur.  Grjónalummur voru bakaðar áður, en pönnukökur úr hveiti.   Steikt brauð voru kökur bæði úr rúgmjöli og hveiti.  Þó rúgmjölið væri þar í miklum meirihluta, en þær voru margfalt þykkari en þær rúgkökur sem eru í tísku nú til dags, sem ekki eru nema nafnið.  Lítil eða engin feiti var notuð við kökubakstur á eldavélahringjum eða hlóðarhellum.   

Hrossakjöt var ekki dagleg fæða, því að fátt var um hesta í Rauðasandshreppi, og enga fordóma þekkti ég á hrossakjöti eða feiti, en þótti mjög gott til matar og einnig til bökunar, en 2 konur þekkti ég sem ekki vildu borða hrossakjöt.  Móðir mín sagði mér að í bernsku hennar var ekki borðað hrossakjöt, en gefið kindum og voru þá systkinin látin brytja hrossakjötið soðið handa kindunum, og þá fengu þau sér bita af því í laumi, og þótti gott.   Pönnukökur voru stundum bakaðar á prímus.  Hversdagsmatur var fyrst og fremst rúgbrauð og rúgkökur, hveitikökur stundum og þóttu sælgæti nýjar með smá smjöri.   

Natron og gerpulver var notað í hveitibakstur, það fyrsta ég man, en venjulegt ger kom all snemma á þessarri öld.  Súrdeig var geymt í horni trogsins, einnig var skyrmysa notuð í rúgbrauð, ef hún var til.  Algengast 
var að nota vatn til að bleyta í rúgmjöli, en mjólk í hveiti, ef hún var til.  Egg voru notuð í bakstur þegar þau voru til, og þá einkum svartfuglsegg eða fýlsegg.  Hænsni voru frekar fátíð fyrstu áratugi þessarar aldar.  Kartöflur voru nokkuð notaðar í rúgbrauð, soðnar og marðar, en fjallagrös voru mikið notuð í brauð.  Blóðpönnukökur þekkti ég, en þó var blóð notað meira í blóðgraut, einkum kálfsblóð, sem hveiti og jafnvel rúsínur voru settar í.  Flatkökur og annað brauð, sem hnoðað var, var flatt út með kökukefli.   Brauðhleif heyrði ég talað um; þeir voru 3-4 í skúffunni.   Bragðefni voru oftast rúsínur, kúmen.  Kúmenið óx villt í Sauðlauksdal, þegar ég var fermdur þar.  Blóðberg var notað í vatnsbland og mjólk til drykkjar.  Það var gott við uppsölu og magaverkjum.  Rúsínur voru mest notaðar í jólakökur og smákökur.  

Áhöld voru fá önnur en trogið og kökukeflið.  Það var sívalt, líklega ca. 30 cm. langt og um 4 cm. í þvermál. 
Kleinujárn sá ég ekki fyrren ég var fullorðinn.  Trogin voru notuð við allan bakstur og einnig til þess að hnoða mörinn.  Vitanlega voru kökukeflin heimagerð, sem og trog og fötur undir mjalti ofl.   Sleifar sá ég aldrei á yngri árum, nema þvöruna til að hræra í grautum, og var hún heimagerð eins og grautarausan.  Trogin voru til margs notuð.  Þó mun deigtrogið ekki hafa verð notað til annarra hluta.  Vöfflujárnum kynntist ég ekki á yngri árum.  Brauðmót (form) þekkti ég ekki heldur fyrr en jólakökumót komu til sögunnar.  

Ekki vissi ég til að kartöflur væru notaðar í rúgkökur.  Þær voru pikkaðar með matkvísl, lagðar í stafla og breitt yfir meðan þær voru að kólna.  Brauð til hátíðabrigða hefi ég áður minnst á, og þá aðallega á stórhátíðum.  Fermingarveislur voru engar um það leyti er ég fermdist.  Brúðkaupsveislum man ég eftir frá því ég fyrst man eftir mér, og heyrði ég talað um brauðkaupsveislu sem stóð í 3 daga, og það var fyrir aldamót.   Það held ég að hafi verið fátítt að húsfreyjur ættu fyrirliggjandi brauð eða kökur fyrir gesti.  Það mun þá helst hafa verið ef von var á prestinum í heimsókn eða húsvitjun, og svo kannast ég við orðið „vandræðabrauð“ haft um pönnukökur, sem oft var gripið til.   Ég sá oft nýbökuð brauð hulin með votri léreftsrýju, til þess að þau þornuðu ekki of fljótt.  Boxabrauð voru geymd í boxunum.  Rúgbrauð voru oft geymd í nokkrar vikur t.d. þurftu vermenn á því að halda.  Klessubrauð komu fyrir.   

Fyrsta innflutta brauðið mun hafa verið franska brauðið.  Stórar ferkantaðar kökur og 2-3 cm. á þykkt, þá skonrok eða skipabrauð og hagldabrauð eða kringlur.  Einnig man ég eftir kökum aðfluttum, allavega löguðum litlum kökum með sykurklessum ofaná og ég heyrði kallað nik nak. Þetta fékkst í verslunum.  Allt þetta innflutta brauð var mjög sjaldgæft til matar.  Að baka brauð til sölu þekkti ég ekki, og því síður brauð eða 
smjör borið í nýjar íbúðir.   

Breytingar hafa gerst smátt og smátt, og er mjög misjafnt.  Ég held að þetta hafi gerst upp úr stríðinu, þegar peningar urðu handbærir frekar en áður, og enn í dag fer aðalbakstur fram á heimilum að mestu leyti.  Rúgbrauðsneyslan hefur mjög horfið fyrir hveiti, þó er nú á seinni árum farið að nota meira af heilhveiti og jafnvel hveitiklíð. Kaffibrauð var í raun og veru ekkert daglega lengi vel, en hefur aukist smátt og smátt.  En hvenær þessar venjur urðu er ekki auðið að segja nákvæmlega. Kaffitímar breyttust um leið og máltíðir breyttust, á 5. áratug þessarar aldar.  Áður var morgunskattur kl. 9-10; hádegiskaffi kl. 12;  miðdagsmatur kl. 3; miðaftanskaffi kl. 7, og kvöldverður kl. 9-10. Tertuöldin mun hafa byrjað á 3ja áratug aldarinnar.  Ég held að skreyting á tertum sé jafngömul og terturnar sjálfar.   

Myllur voru 3 eða 4 í Kollsvík á öðrum tug þessar aldar.  Tvær voru í ánni, sem rann til sjávar um miðja víkina og skifti löndum milli Kollsvíkur og Láganúps.  Þriðja lögbýlið, Grundir, mun hafa byggst úr Láganúpslandi, því Grundir áttu miðstykkið úr túninu á Láganúpi og hefur gerst með feðgum.  Leifar af þessum myllum eru nú litlar, þó var mylla föður míns byggð úr grjóti uppundir fjalagólfið, þar sem kvarnarsteinar stóðu í mjölskúffu og kornstrympan þar yfir, sem hékk í þakinu, sem var úr timbri klætt með tjörupappa og torf þar yfir.  Áin var stífluð við dálítinn tanga, sem árin rann fram með, síðan var mylluhúsið byggt neðan til í tanga þessum og vatnsstokkur með talsverðum halla lagður að myllunni eða mylluhjólinu.   Myllusteina veit ég ekki um í Kollsvík.  Mylluhúsið mun hafa verið ca. 3 m. á kant, og vel manngengt kringum mjölskúffuna, en undir henni var trékassi sem mjölinu var sópað niður um gat sem snéri fram að dyrum.   Ekki var mjöl geymt til lengdar í mylluhúsinu, en flutt heim í skemmu og geymt í mjölkassa.  Vel man ég að faðir minn malaði korn fyrir aðra bændur, jafnvel utan Kollsvíkur.   Ásinn í myllunni var lóðréttur, undir enda hans var eikarbútur grafinn í jörð og í honum var járnspor fyrir ásendann.  Á mylluhjólinu var sver tréklumpur, sem spaðarnir voru festir í.  Þeir munu hafa verið 6-8 og voru með dálitla járnplötu á endanum, sem gaf vatninu betra viðnám, til þess að snúa efri myllusteininum, en í steininn var ásinn festur með járnbút, flötum.  Lengd spaðanna giska ég á að hafi verið rúmlega 2 fet, og breidd allt að því 20 cm.  Mylluskúffan var úr tré, en ekki var neitt til að sópa mjölinu niður í kassann sem var undir.  Á efri enda ássins var festur vírteinn (úr símavír), og náði hann upp í kornstrympuna og þar vinkilbeygður og sópaði korninu að gati á járnplötunni, sem var í botni strympunnar; hún var mikið víðari að ofan.   Ég er alls ekki viss um hvort kvarnarsteinar voru innlendir eða útlendir; held frekar að þeir hafi verið innfluttir.  

Vindmyllur þekkti ég ekki fyrr en aðfluttar.  Faðir minn byggði sína vatnsmyllu sjálfur og sá um viðhald hennar, sem gat verið talsvert.   Notkun vatnsmylla hætti þegar fór að flytjast malað korn í 100 kg. pokum.  En innflutt korn var ekki eins bragðgott og það heimamalaða.   Handsnúnar kornmyllur þekkti ég lítið, þó man ég eftir að ein slík stóð í framhýsi afa míns, en bænum man ég ekki eftir nema þegar fellt var framþil hans.  Aðflutt rúgmjöl kom um eða uppúr fyrra stríði.  

Myllan mataði sig sjálf, ef vatnsmagnið var jafnt, en oft bar út af því og varð jafnvel að setja mjölið eða hratið aftur í mylluna.  Myllan gat engin merki gefið, enda langt frá bæ.  Skömmtun á korninu var gerð með fyrrnefndum vír sem snérist með ásnum, og svo var þannig skífa neðan á botni strympunnar, sem hægt var að færa að og frá gatinu, sem kornið hrapaði niður í mylluaugað.   Afköst voru aldrei mæld, en þau voru best ef vantsmagnið var jafnt. 

Myllan var aðallega í notkun vor og sumar.  Þóknun fyrir mölun veit ég lítið um; líklega greiði móti greiða eins og oft tíðkaðist í sveitum fyrr og síðar.  Aðallega var það rúgur, sem malað var og bygg.  Fiskbein komu ekki til greina. Þau voru ávallt barin og höggvin með öxi í smátt fyrir allar skepnurnar.  Umferðamalara þekkti ég ekki.  Mjölinu var sópað úr myllukassanum niður um gat, sem var á honum.  Þetta var gert með svartfuglsvæng.  Handfangið á handsnúnu myllunum var venjulega úr tré.   Orðtakið "að snúa útundan" getur átt við handsnúnar myllur, einnig var talað um að "skerpa" kvörnina í lokin til að hreinsa vel út undan 
steinunum, og þurfti þá að snúa kvörninni mjög hratt.   Músagangur í vatnsmyllunum var ekki umtalsverður.  Ekki kann ég sögur eða vísur af myllum eða í sambandi við þær.  (Ritað 1985).

Drykkjarföng

Höfundur:  Torfi Össurarson (sjá hér að ofan).

Svaladrykkir voru einkum skyrmysa, og jafnvel  slátursýra.  Mysan var oftast blönduð með vatni ef hún var gömul og sterk.   Kalt kaffi var oft  drukkið við þorsta, einnig var vatn látið í gromsið  eftir ketilkaffi og var það gott og svalandi því gromsið varnaði vatninu að fúlna.  Þetta var einkum  notað á árabátunum í Kollsvíkurveri.  Lítið var um rabbabarasaft svo ég vissi um í Kollsvík.  Ávaxtadrykki þekkti ég ekki.   Á sjónum  höfðu menn sýrublöndu með sér á sjóinn, á trékútum með gati  á botni til áfyllingar og á miðjum bumb  til þess að drekka úr.  Tvíhentu menn þá kútinn og settu gatið við munn sér.  Það  þekkti ég að ketsoð  var drukkið og einnig var steinbítsroð hleypt í sjóðandi kjötsoði og borðað með heitu floti af kjötinu. 

Kakó var mikið notað  í Kollsvíkurveri og oftast mjólkurlaust.  Þá var kakóið látið út í vatnið og látið aðeins sjóða.  Súkkulaði var aðeins notað á stórhátíðum og venjulega  þá með  mjólk.  Þeyttur  rjómi þekktist  ekki á  mínum yngri árum. Kakó vissi ég ekki bragðbætt með öðru en mjólk og sykri.  Tedrykkju þekkti ég ekki.  Tevatn var almenn kallað fjallagrasaseyði, blandað með undanrennu eða nýmjólk og sykurmoli með, ef til var.  Fjallagrös voru mikið notuð til lækninga, þá soðin með kandís þar til  grösin og sykurinn var orðinn  jafnvel þykkt, þá látið á  flösku og einkum notað við slæmu kvefi.   Blóðbergsseyði var einnig notað við magakvillum, einkum uppsölu.         

Kaffisopinn indæll er,                           
eykur fjörið, sinnið kætir,                           
langbest jafnan líkar mér                           
Lúðvíks Davíðs kaffibætir. 

Langmest var keypt af kaffi undir veturinn eins og af öðrum nauðsynjum sem  keypt var úr kaupstað og þá kaffibaunir brenndar.  Hve mikið var keypt gæti giskað á 15-20 kg. miðað við 10-12 manna fjölskyldu.  Kaffið þurfti  að  geyma á þurrum stað óbrennt, líklega í torfskemmum byggðum  úr torfi og  grjóti með hellum  undir torfi.  Kaffið var þá geymt í kistum.   Kaffibrennsla var talið vandaverk, því ekki mátti brenna of eða van, oft var smjörmoli  látinn í pottinn.  Potturinn var lítill steyptur járnpottur og spaðinn sem hrært  var með, úr eik  með stuttu handfangi með gati í. Magn í einni brennslu varla verið meira en  1/2 -1kg. Líklega var á áratugnum 1940-1950  lagt niður að brenna kaffi. 

Brenndar baunir voru geymdar í vel lokuðu íláti, líklega blikkboxi með loki, kaffiskeið var stundum matskeið með brotið handfang.  Kaffikvarnir voru allar útlendar sem ég þekkti.  Móðir mín notaði kaffikvörn  með  hálflokuðu skrúfi  með  sveif  til þess að mala  kaffið í sjálfu skrúfinu, en undir því var sívalt box sem skrúfið sat á og  var skrúfið tekið ofan af er  kaffið var malað orðið, í skrúfið þurfti að bæta í smátt og smátt ef mikið  var malað, en oftast  var látið í skrúfið sem nægði í hellinguna.  Líka þekkti ég kaffikvörn með ferköntuðu undirsæti og skúffa í sem dregin var út með kaffinu í eftir mölun.  Einu sinni  heyrði ég  vermenn mylja  kaffi með  steini í hvolfdu hellublaði.  Kaffipokar voru gerðir úr notuðu lérefti en mátti þó ekki vera of gisið eða úr fínu prjóni. 

Kaffi var aðallega hitað á eldavél þegar ég man  fyrst eftir mér.  Vitanlega var það áður hitað  á hlóðum. Í  Kollsvíkurveri var kaffið hitað fyrst er ég man eftir á flatbrennara, olíu, en 1914 eða 15 kom fyrst prímus í Kollsvíkurver og þótti mikill  flýtisauki að þeim.  Breiddust þeir fljótlega út og urðu algengir.  Ketilkaffi var  oft notað í verinu, einnig á engjum og var þá hitað í hlóðum, en í rigningu gat  verið erfitt að kveikja upp í hlóðunum.  Ætla ég að segja sögu  frá slíku ástandi, en þetta var áður en  ég fæddist.  Móðir  mín sagði mér  þannig frá:  Það var í sláttarlok að bændur í Kollsvík norðanverðri fóru fram í svokallaðar Tór (Kollsvíkurtó og Hænuvíkurtó) til þess að slá þar smásnöp í grasblettum þar.  En er þeir  voru komnir á staðinn gerði svo  mikla hellirigningu að þeim féllust hendur við sláttinn.  Kaffi og ketil  höfðu þeir með sér en þótti súrt í broti að geta ekki kveikt undir katlinum.  Þeir dóu þó ekki ráðalausir en brutu fjalirnar úr orfum sínum og gátu með þeim kveikt undir katlinum og síðan drukkið kaffið.  En úr slættinum varð ekki að sinni.  

Á flestum eða öllum heimilum í Rauðasandshreppi voru eldavélar í eldhúsi, þó hlóðir væri til í útihúsi eða afhýsi.  Í hákarlalegum var stór pottur með eldi í og í skaplegu veðri var þá hægt að hita á  katli.  Í mógröfum var stundum hitað kaffi í hlóðum.  Hve mikið var notað af kaffi og kaffibæti get ég ekki giskað á en flestum kom betur að það væri ekki mjög vatnsborið:  Eins og maður einn sagði er hann var spurður hvernig honum líkaði kaffið og  sagði að það væri gott, nema heldur vatnsborið.  Ég heyrði bæði talað um kaffibæti, rót og export.  Ketilkaffi var búið þannig til að vatnið var látið fyrst í ketilinn og síðan kaffið og kaffibætirinn.  Þetta var látið koma  í suðu, en síðan þurfti að líða stund meðan gromsið settist á botninn. Í hlóðum þurfti að skorða ketilinn  vel yfir eldi, en í húsum var hægt að hengja hann í bandi yfir hlóðirnar.   Um kaffið var sagt að það væri „grútsterkt svo það litaði bollann“, „dauft“, „skolvatn“ eða „steinbítshland“, en það heyrði  ég oft bæði í Kollsvík og  á Hvanneyri.  Þar heyrði  ég mann úr Skaftafellssýslu taka sér þetta orð í munn þegar honum þótti kaffið úr hófi ónýtt.   Hitastig var sagt „brennheitt“, „sopheitt“ eða „hlandvolgt“.  „Upphitað kaffi“ þótti miður boðlegt en „svellkalt“ stundum sem svaladrykkur.  Heimafólk át og drakk kaffi oftast í eldhúsi.  Gestum  var ávallt  borið á  bakka til borðs.  Sjaldgæft mun það hafa verið að gestum væri fært kaffi í rúmið.  Helst var eitthvað gefið með kaffinu við heyhirðingar, eða þegar mikið var að gera.  Annars var algengt að  kaffi og grasamjólk eða tevatn væri borið aðeins með sykurmola af kandís, eða molasykri síðar. Toppasykur var skafinn niður út á pönnukökur en bræddur í annað bakkelsi.  Molakaffi var oft gefið gestum, nema  prestinum; þá voru bakaðar pönnukökur.  Gestaborð á bolla þótti sjálfsagt, yfirleitt var  talið sjálfsagt að bera gestum rjóma  með kaffi og sykri og kökum.  Það mun oft  hafa komið fyrir að kaffi væri drukkið sykurlaust.  Toppasykur og  strausykur var  brætt og  hitað og  síðan steypt í hellu og síðan  klipið í mola með sykurtöng, stundum var látið kaffi í það til þess að fá það brúnt á lit.  Kúmenkaffi heyrði ég talað um og kanelkaffi, en lítið  notað svo ég vissi.  Mörgum, fyrr og síðar, þykir gott að  "fá út í bollann" (brennivínstár). 

Kaffibollar voru yfirleitt stórir og í Verinu  voru almennt notaðar könnur með haldi sem tóku allt að því tvo bolla.  Sumir notuðu leirkrukkur sem  "fantar" voru kallaðir.  Ég man eftir stóru sykurkari með stút, rjómakönnur voru litlar með vör og haldi.  Oft þurfti að spara bæði kaffi og sykur.  Ég heyrði sagt eftir bóndahjónum sem sögðu að þau hefðu drukkið kaffið sitt sykurlaust til þess að það dygði lengur handa hjúunum.  Kaffikorg eða groms hefi  ég áður minnst á sem góða vörn til þess að halda drykkjarvatni ófúlu.  Mörgum þótti kaffi vera hressandi, sérstaklega ef menn voru þreyttir eða kaldir. Eina konu þekkti ég sem var á móti  kaffi og hefur aldrei bragðað það og er nú við furðu góða heilsu; bráðum að verða 90 ára gömul.  Almennt var kaffi fært fólki á engjar eða annað frá bæ í flöskum, en sokkur var settur utan um; jafnvel tvöfaldur.  Vafalaust voru  kaffibaunir kærkomin vinargjöf  þegar það vantaði, þó ég muni ekki sérstaklega eftir því.  Kaffiboð voru algeng í stórhátíðum.  Gamall maður var eitt sinn  að drekka kaffi  með mér og fleirum, sagðist hann vel  geta drukkið kaffið ef hann héldi á molanum í hendinni.  Þá  sögn  heyrði ég  að gömul kona kom í heimsókn til vinkonu sinnar og drakk hjá henni kaffi og sagði um kaffið að það hefði verið meira en gott, það voru lífgrös.  

Sykurkaup voru  æði misjöfn, en í stærstum stíl á haustin eða undir  veturinn. Sykur  var geymdur  þar sem  raki komst  ekki að honum.  Ævinlega  var sykur borinn fram með  kaffi ef hann var til og  ætíð skammtaður  heimafólki.  Toppasykur  var höggvinn sundur með góðum hníf; slegið á hann með hamri og síðan klipinn í hæfilega mola með þar til gerðri sykurtöng sem til var á  flestum heimilum.  Töngin var með þunnum snaghyrndum kjafti.  Þær tengur sem ég þekkti voru útlend smíði.  „Sykurögn“, „sykurlús“,“ sykurkorn“ voru algeng orð. 

Um áfengið get ég verið fáorður, því ég sá ekki  fullan mann fyrr en ég var nálægt tvítugu.  Vín var því lítið eða ekki haft um hönd í Rauðasandshreppi í mínu ungdæmi.  Helst var það oddvitinn og presturinn sem þótti sopinn góður en aldrei sá ég þá víndrukkna.  Þó  heyrði ég sögu þá af presti að hann var ásamt fleirum að koma úr kaupstað á laugardagskvöldi.  Og af því að hann ætlaði að messa að morgni næsta dags var hann spurður hvort hann yrði nú ekki seinn fyrir að  semja ræðuna.  Því svaraði  hann: "Ég verð þá að vita hvort ég á ekki eitthvað í súr".  Heilar brennivínstunnur vissi ég ekki um, en minni á frásögn Gils Guðmundssonar rithöfundar í  "Ystu   nesjum"  þar segir  hann frá búðarmanni á Ísafirði sem hafði lág laun, en bætti sér það upp með því að hafa heim með sér úr versluninni.  T.d. mætir kaupmaður honum eitt kvöld er hann veltir heilli brennivínstunnu heim til sín.  Segir þá kaupmaður:  "Jú annars, er þetta ekki fullmikið; svona í einu".  En orðtak kaupmanns var, "jú annars".  Þá segi ég aðra sögu af  oddvitanum í  Rauðasandshreppi:  Þá var hann vel kenndur í kaupstað og gisti hjá kunningja sínum.  Um nóttina þurfti hann að kasta af sér vatni, en þá voru ekki salerni almenn orðin.  Hann fór því út til þess, því þetta var um hásumar og hlýtt í veðri, en logn og talsverð rigning; og rann þakvatnið úr rennu við húshornið, þar  sem oddvitinn stóð við að losa sig við vatnið.  Eftir  langan tíma fer herbergisfélagi hans að undrast um hann og lítur út  og sér þá oddvitann standa í sömu sporum  og stjórna sinni eigin bunu.  Segist hann vera að pissa, en bunan sem hann heyrði var regn úr þakrennunni.  Löngu seinna heyrði ég sagt eftir oddvita að hann héldi að gárungarnir hefðu nú logið því að hann hafði staðið og hlustað á niðurfallið  úr rennunni í tvo tíma, en hann hefði staðið ansi lengi. (Ritað 1983).

Vatnsmyllur

einar g

 Einar Guðbjartsson (27.07.1911-25.08.1979) var fæddur Láganúpi í Kollsvík og ólst þar upp.  Stundaði búskap  og sjómennsku með foreldrum sínum og systkinum, og var öflugur drifkraftur í því mikla félagslífi sem þá var á svæðinu.  Hann var um skeið kaupfélagsstjóri á Gjögrum og vann eftir það við kaupfélög víða um land; síðast lengi við Kaupfélag Borgnesinga og bjó í Borgarnesi ásamt konu sinni, Guðrúnu Grímsdóttur frá Kollsvík, og dóttur, Maríu Jónu Einarsdóttur. 

 

Ég er fæddur í Kollsvík, Rauðasandshreppi árið 1911. Sem barn man ég eftir þremur vatnsmyllum á Kollsvík í eigu þriggja heimila. Einu sinni minnist ég þess að hafa séð föðurbróðir minn mala í sinni myllu. Tel ég að líklegast að það hafi verið á stríðsárunum 1914-18 og hafi hann verið að mala rúg. Allar þessar myllur stóðu uppi fram yfir 1920, en þá aldrei notaðar. Man ég eftir maríuerluhreiðri í kornstympunni á einni þeirra; sumar eftir sumar. Annars voru þetta kallaðar kvarnir en ekki myllur. Mér skilst að lýsingin sem þér (ÁB) lásuð í útvarpið nýlega, ætti alveg við þessar kvarnir, eins og ég minnist þeirra. Þó man ég ekki hvort þar var lýst mjölkassanum sem tók við mjölinu, þegar það kom út á milli steinanna. Á þessum kvörnum var hann ferhyrndur og gat í einu horninu en undir því var hafður poki, sem tók við mjölinu. Þurfti að sópa því að gatinu og var notaður til þess fuglsvængur, sem geymdur var á staðnum. Ekki get ég örugglega greint frá fleiri slíkum kvörnum í hreppnum, nema í Vatnsdal af því að hún var tengd frásögn af vænum silungi, sem kvarnarspaðarnir drápu. Ég tel þó víst að þær hafi verið miklu fleiri og varla færri en 10 í hreppnum. 

Samstarfsmaður minn hér á skrifstofu Kaupfélags Borgfirðinga er Hermann Búason, fæddur á Litlu-Hvalsá í Bæjarhreppi í Strandasýslu árið 1909.  Hann man örugglega eftir þremur vantsmyllum í sinni sveit. Hann minnist þess að hafa sem barn komið í eina þessa myllu þar sem stúlka var að mala. Hafi hann spurt, sem börnum er títt, hvort hún væri að mala fyrir pabba sinn. Hafi sér orðið svarið minnisstætt, því hún hafi sagt að hún "malaði fyrir marga pabba". Líklegt má telja að þetta hafi verið á stríðsárunum. Svo er að lokum ein spurning í sambandi við matsiði. Myndi það hafa verið algeng hefð, þegar bátum var hvolft að hausti, að bátseigandinn skæri niður hert rafabelti, handa þeim sem aðstoðuðu við það verk? Þetta tíðkaðist nokkuð í Kollsvík þegar ég var barn og skildist mér að það hafi verið talið sjálfsagt, meðan lúðugengd var mikil áður fyrr. Ég hef orð gamals manns fyrir því, að komið hefðu á land 76 lúður á einum degi í Kollsvíkurveri, langflökur og þaðan af stærri. Síðan munu vera um 100 ár.

Íslenskur matur

ossurHöfundurinn:  Össur Guðbjartsson (19.02.1927 - 30.04.1999) ólst upp á Láganúpi.    Að loknu búfræðinámi tók hann við búi á Láganúpi af foreldrum sínum og bjó þar alla sína tíð.  Össur gegndi fjöldamörgum trúnaðarstöfum og félagsmálastörfum fyrir sína sveit; var m.a. hreppsnefndaoddviti í 16 ár; barnakennari, búnaðarráðunautur, fulltrúi í stéttarsamtökum bænda o.fl.  Hann var giftur Sigríði Guðbjartsdóttur frá Lambavatni, sem einnig var ættuð úr Kollsvík, og eignuðust þau 5 syni.   Samantekt þessa gerði Össur fyrir Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins árið 1990.

Ég ólst upp á fremur fátæku heimili, móðir mín átti tíu börn sem raunar dóu sum ung, heimilið var mannmargt og ekki mikið til.  En það var reynt að breyta útaf venjunni með hátíðamat og þá var alltaf hangikjöt. Það var eitt sem aldrei var látið bregðast og það var að á Þorláksmessu var vel kæst skata.  Ég man aldrei eftir að hafa lifað jól öðruvísi.  Mér finnst ekki vera nein jól fyrr en ég er búin að borða skötu og hún á helst að vera svo kæst að maður þurfi að taka fyrir nefið.  Afgangarnir fóru í stöppu, hún var eins og kæfa; sneidd niður og borðuð með brauði.  Ef til var, voru alltaf soðnar reyktar bringur á Þorláksmessu og þá helst ein á mann sem voru þá látnar endast yfir jóladagana.  Á jólum voru oft hveitikökur sem móðir mín steikti á hringunum á eldavélinni sinni.  Ef til var smjör var því drepið ofan á þær og þetta var borðað með hangikjötinu. Sveskjugrautur var oft hafður í eftirmat.  Það var alltaf reynt að hafa jólatré.  Það var mikið af börnum hérna í víkinni í þá tíð; 4 barnmörg heimili.  Það var starfandi ungmennafélag og það stóð fyrir því að það var haft jólatré á þeim bæ sem mest pláss hafði og þar komu allir krakkarnir í víkinni saman.  Tréð var heimasmíðað og svo voru smíðaðar greinar sem voru settar í holur í stofninum.  Á Þorláksmessu, eða einhvern tíma rétt fyrir jólin, var sóttur einir inn í dal hérna framfrá og notaður til að vefja greinarnar.  Svo var tréð skreytt eftir föngum; félagið átti kúlur og svo glingur.  Svona var líka á Rauðasandi en bara enn meira við haft.  Faðir Diddu (Sigríðar Guðbjartsdóttur, konu Össurar) Guðbjartur á Lambavatni á Rauðasandi var smiður og bjó til fínt jólatré sem var skrúfað saman og var miklu stabílla en okkar tré.  Svo voru búin til kramarhús og körfur sem voru hengdar á greinarnar á jólatrénu og látið eitthvað gott í.  Fékk hver krakki eina slíka körfu. 

Hér var reykt í kofa, hann er uppihangandi hérna fyrir ofan og líklega elsta hús í sveitinni.  Fyrst var hann, líklega útihús frá hjáleigu héðan sem hét Hólar, þar sjást enn tóttir.  Um þessa hjáleigu er getið í Jarðabók Árna og Páls en hún var löngu farin í eyði á tíð föður míns.  Svo var kofinn hesthús, síðan reykhús, nú heldur það ekki vatni lengur (ritað fyrir viðgerð hesthússins). 

Rauðmagi var líka reyktur í Kollsvík.  Það var alltaf veitt töluvert af hrognkelsi.  Rauðmaginn var reyktur en grásleppan var látin síga.  Það var valið úr henni það feitasta; hinu var kastað.  Rauðmagakviðir voru stundum hertir og gefnir fé að vetrinum.  Þetta var eins konar fóðurbætir.  Hausar og hryggur úr þorski var hert, barið og brytjað ofan í sauðfé að vetrinum.  Féð var gráðugt í þetta.  Þegar ég man eftir voru menn hættir að vera hér til róðra en bara bændurnir gerðu út.  Allur steinbítur var hertur en þorskur allur saltaður til útflutnings.  Slátur var sett í súr að haustinu.  Undanrennunni var alltaf hellt saman og búinn til súr.  Drukkur sem kallaður var, eða mysa, settist undir en sýran sem kölluð var flaut frekar ofan á.  Svo var þetta þannig að í stórstraumana flaut súrinn upp.  Svo eru til menn sem efast um það að straumar hafi áhrif.  Það er bara vitleysa; maður hefur séð það með eigin augum.  Drukkurinn var blandaður vatni og notaður til drykkjar og líka til að sýra slátur.  Sýran eða súrinn var notaður út á hafragraut.  Ærsvið voru yfirleitt lögð í sýru til að mýkja þau, þau voru dálítið seig annars.  Mig minnir að þau væru sett bara með beinunum.  Og sviðasulta úr löppum var sett í súrinn.  Lundabaggar voru yfirleitt gerðir og settir í súr.  Flestir ristlar voru ristir, sérstaklega úr feitu fullorðnu fé og notaðir með hálsæðum; stundum hjörtum og afgangskjöti, í lundabagga sem þindarnar voru saumaðar utan um.  Það var alltaf saltað eitthvað af kjöti og það var höggvið niður.  Það var til svona sax sem maður notar til að höggva kjöt.  Það þurftu að vera lagnir menn sem gerðu það. 

Þegar skrokkur var hlutaður var flegið utan af herðablaðinu og bógurinn tekinn út úr.  Það var saltað inn í sárin eftir bógana og spýtt fyrir með mjórri spýtu sem kallaður var þollur.  Þannig voru báðir bógarnir teknir, bundnir saman hengdir upp og reyktir.  Síðan var bringan tekin sér.  Hún var líka reykt.  Síðan var klofið framstykkið þegar búið var að taka bringuna og bógana úr, sitt hvoru megin við hrygginn og það var kölluð skammrifsbrók, með rifjunum.  Svo voru lærin og mjóhryggurinn fram undir rif, mig minnir að það væru þrjú öftustu rifin sem fylgdu það var kallað krof.  Svo var sett í hæklana svokallað kroftré, það var prik sem gekk í gegnum hæklana og krofið var hengt upp á því í reykkofann.

Undir reyk var stráð salti í kjötið.  Eftir að ég fór að búa lagði ég það í pækil, þá saltast það miklu jafnara.  Ég lét það liggja svona upp undir viku stundum, eftir því hvað kjötið var af vænu fé, það eru svo misþykkir vöðvarnir.  Þegar búið var að flá skrokkinn þá var tekið innanúr.  Ef var mjög vænt fé þá var tekin kringla, magáll, hann var saltaður eða reyktur.   XXXX

Lungnastykki var tekið í einu lagi og skorið niður úr hjartanu þannig að blæddi niðurúr því og látið hanga þannig að blóðið læki úr.  Lungu þóttu ekki mannamatur, hleypt var upp á þeim fyrir hunda.  Barki var stundum étinn nýr; vélindu voru troðin út með mör, soðin og étin.  Gerð lifrarpylsa úr lifrinni og svo náttúrulega lundabaggar.  Alltaf slátrað lambi þegar lokið var heyskap, kölluð töðugjöld.  Kjötið var aldrei soðið fyrr en skrokkurinn var búinn að hanga nokkra daga.  Þá var það soðið í súpu.  Ekki grænmeti í kjötsúpu nema rófur eða kartöflur.  Annað grænmeti var ekki ræktað hér fyrr en hún Didda kom hingað. 

Man eftir notkun á helgrímum, það var á stríðsárunum þá fengust engin skot og þá voru notaðar helgrímur hér í sláturhúsinu.  Það var hálfgert leiðindaapparat.  Stundum vildi þetta miskukkast.  Menn urðu ákaflega fegnir þegar skot fóru að flytjast aftur. XXXX

Aðallega þorskalýsi og skötulýsi var haft í bræðing en einstöku sinnum smolt (fuglafeiti),  Stundum var smoltið notað út á saltfisk.  Faðir Össurar færði frá sumarið 1934, nokkrum kindum aðallega til að sýna hvernig þetta var gert, en það sumar var reyndar líka mjólkurlítið, þannig að sauðamjólkin kom sér vel. 

 

Lífvænleg Kollsvík

Valdimar Össurarson veltir því hér fyrir sér hvort Útvíkurnar hafi reynst þjóðinni lífvænlegri staður en önnur landshorn.  Annálar benda til þess að hér hafi ekki orðið sami mannfellir á hallæristímum; þvert á móti hafi aðkomufólk leitað á þessar slóðir sér til lífsbjargar.

Lífsbarátta manna snýst jafnan um það fyrst og fremst að afla matar, húsaskjóls og öryggis fyrir sig og sína.  Fyrir daga nútíma tækni og geymsluaðferða; á dögum sjálfsþurftabúskapar, voru menn í meiri nánd við alla mataröflun en nú er.  Skipti þá miklu máli að hafa margar stoðir undir henni; einkum ef hallæri steðjuðu að.  Kollsvík og aðrar Útvíkur bjóða upp á fjölbreyttar leiðir til matbjarga:  Þar eru góðar fjárjarðir, þar sem oftast er unnt að treysta á bithaga og fjörubeit þó fóðuröflun bregðist; þar eru oftast slægjur nægar fyrir lítilsháttar kúa- og hrossastofn; þar eru fiskimið nærri landi sem oftast má treysta á, og lendingar sæmilegar fyrir árabáta; þar eru björg með fugla- og eggjatöku; þar er iðulega rekasæld og þar er mór til kyndingar og öll þau byggingarefni sem fyrrum var þörf á.  Byggðirnar njóta einnig öryggis fjarlægðar og fjalla.  Þar eru íbúar í góðri fjarlægð frá helstu ófriðarsvæðum landsins á tímum vígaferla; frá eldgosum og jarðskjálftum og frá smitleiðum drepsótta.  Þessar lífsbjargir eru líklega helsta skýring þess að hvergi í annálum landsins er að finna frásagnir af verulegum mannfelli á þessu svæði; líkt og á svæðum sem síður njóta þessara lífsgæða.  Hallæri hafa þar fremur sneitt hjá garði, t.d. á þeim tíma sem nefndur hefur verið "litla ísöld" (1450-1900).  Hinsvegar leiddu hallæri og hörmungar oft til þess að uppflosnaðir íbúar annarra landshluta lögðust í flakk og leituðu þá gjarnan í þessar matarkistur í Útvíkum.  Af því fara óljósar sögur.  Slíkir flækingar voru t.d. á ferð á söguöld, um 1219, en þá fór Guðmundur biskup góði um hreppinn með liði sínu og átti líklega lengsta viðdvöl í Útvíkum.  Sú gestakoma er rækilega skráð í örnefni og munnmælasögur.