Margar fuglategundir má sjá í Kollsvík.  Þar hafa merkingar farið fram og athuganir verið stundaðar.  Hér er gluggað í eina slíka.

Einar T. Guðbjartsson (27.07.1911-25.08.1979) var fæddur Láganúpi í Kollsvík og ólst þar upp.  Stundaði hann búskap  og sjómennsku með foreldrum sínum og systkinum, og var öflugur drifkraftur í því mikla félagslífi sem þá var á svæðinu.  Hann var um skeið kaupfélagsstjóri á Gjögrum og vann eftir það við kaupfélög víða um land.  Síðast starfaði hann lengi við Kaupfélag Borgnesinga og bjó í Borgarnesi ásamt konu sinni, Guðrúnu Grímsdóttur frá Kollsvík, og dóttur, Maríu Jónu Einarsdóttur. 

Samantekt þessi um fugla í Kollsvík er skrifuð af Einari 1938.  Fannst hún í stílabók í gömlum skjölum á háalofti Stekkjarmels.  Í stílabókinni er einnig að finna hugvekju Einars; „Vakandi æska“.  Einar og bræður hans voru miklir áhugamenn um náttúru svæðisins.  Fuglamerkingar voru stundaðar í Kollsvík  í samstarfi við Náttúrufræðistofnunina framyfir 1970.  Skrá Einars lýsir næmni og eftirtekt náttúruunnanda og vísindamanns sem bjó í þessum atorkusama sveitamanni .                                       

Tegundirnar eru teknar eftir sömu röð og í skrá yfir slenska fugla eftir Magnús Björnsson (Nfr. 9-10.tbl 3.árg. 1933); sömuleiðis latnesk nöfn.

 • Hrafn (Corvus corax tibetanus).   Verpir í klettum og hömrum rétt fyrir sumarmál.  Fer fjölgandi hér og gerir talsverðan skaða á fýlavarpi; virðist lifa nær eingöngu á eggjum meðan þau eru að fá.
 • Bláhrafn (Corvus fugilegus frugilegus). Haustið 1932 sáust hér nokkrir litlir hrafnar.  Einn var skotinn; var hann á stærð við ritu og bláleitur á litinn.  Þessir hrafnar hurfu stuttu síðar og vitum við ekki til þess að hann hafi sést hér fyrr eða síðar.  Líklegt þótti okkur að þetta væri bláhrafn, eða e.t.v. færeyjahrafn (Corvus cornix cornix). 
 • Snjótittlingur (Plectrophenax nivalis insulae). Algengur staðfugl; verpir hér víða í þúfum og skorningum.
 • Maríuerla (Motacilla alba alba). Algengur farfugl.  Kemur hingað seinni hluta apríl.  Verpir oftast í garðveggjum eða húsveggjum, og stundum inni í útihúsum.  Virðist mjög trygglynd við varpstöðvar og verpir í sama hreiður ár eftir ár.  d. urpu maríuerlur hér í útihúsi um fimmtán ár stöðugt, og síðustu árin tvenn hjón.  En loks eyðilagði kötturinn hreiðrið og hafa þau ekki orpið þar síðan.  Ekki verður með vissu sagt hvort þetta hafa verið sömu fuglar, en munu annars hafa verið afkomendur þeirra fyrstu.
 • Þúfutittlingur (Anthus pratensis). Algengur farfugl.  Kemur hingað um miðjan apríl eða fyrr.  Verpir víða um hagana; oftast í þúfum eða í holum undir steinum.
 • Skógarþröstur (Turdus musicus coburni).   Algengur á vori og hausti, en verpir hér ekki, svo vitað sé.  Kemur oft snemma í apríl eða síðari hluta mars.  Sést hér oft langt fram á vetur.
 • Gráþröstur (Turdus pilaris). Á síðastliðnum vetri (1937) sáust hér nokkrir óþekktir fuglar.  Einn þessara fugla var skotinn og sendur Dr. Finni Guðmundssyni; reyndist það vera gráþröstur.  Vera má að þessi fugl hafi komið hér áður, þó að við vitum ekki til þess, því algengt er að fuglar sjáist sem ekki þekkjast.
 • Svartþröstur (Turdus merula merula). Er all algengur farandfugl hér að vetrarlagi, einkum á síðustu árum.  Seinni hluta vetrar hverfur hann alltaf.  Einn hefur náðst hér inni í húsi og var sett á hann merki náttúrugripasafnsins í Reykjavík.
 • Steindepill (Oenanthe oenanthe schoeleri). Algengur farfugl.  Kemur seint í apríl.  Verpur á svipuðum stöðum og maríuerlan, en er þó styggari og ekki eins nærgöngull manninum og hún.  Heldur ár eftir ár tryggð við sama varpstað.
 • Músarrindill (Troglodytes trolodytes islandicus). Algengur staðfugl.  Heldur sig að vetrinum meðfram sjónum.  Aðeins einusinni höfum við fundið rindilshreiður.  Það mun hafa verið um miðjan júlí; við vorum á ferð undir sjávarklettum og sáum við þá músarrindil koma, eins og út úr klettinum.  Svo kom annar, og hver af öðrum; töldum við 7 sem út komu.  Við nánari athugun sáum við þarna mjög haglega gert hreiður í svolítilli holu í berginu.  Var það gert úr stráum undir og yfir, og aðeins dyr hæfilegar fyrir fuglinn til að fljúga inn um .  Hvort þetta hefur verið öll fjölskyldan, eða aðeins ungarnir, getum við ekki sagt.  Hið fyrra er þó líklegra, því enga fugla sáum við þarna nærri, og allir fuglarnir voru á stærð sem fullorðnir.
 • Ugla. fyrir nokkrum árum náðist hér fugl að vetri til, sem allir er sáu töldu vera uglu.  Hefur þetta eflaust verið einhver af þeim uglutegundum sem flækst hafa hingað til lands, þó enginn þekkti skil á hvaða tegund það væri.
 • Haförn (Haliaetus albicilla). Mjög sjaldgæf; hefur ekki sést hér fyrr en á síðustu árum, einstöku sinnum; einn fugl á flakki hér um.  Verpir hvergi hér í hreppnum svo vitað sé.  Á síðasta ári sást hér enginn fugl.
 • Fálki (Falco rusticolus islandus). Algengur staðfugl.  Fer ört fjölgandi á síðustu árum.  Verpir hér víða í hömrum.
 • Smyrill (Falco columbarius subaesalon). Allalgengur að sumri; sjaldgæfari að vetrum.  Verpir hér eflaust, þó hreiður hans hafi ekki fundist, því dæmi eru til að köttur hafi drepið smyrilsunga.
 • Dílaskarfur (Phalacrocorax carbo carbo). Algengur staðfugl hér; verpur víða í holum í sjávarhömrum, og er bústaður hans auðþekktur á dritinu sem gengur eins og hvítur foss niður frá bæli hans.
 • Toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis aristotelis). Hefur verið skotinn hér einu sinni svo við vitum, en verpir hér varla.
 • Súla (Sula bassana bassana). Algeng fyrir ströndinni að sumarlagi, en sjaldgæf að vetri til.  Verpur hér ekki.
 • Stóra grágæs (Anser anser). Sést hér oft að vor- og haustlagi sem farandfugl.  Verpir hér ekki.
 • Helsingi (Branta leucopsis). Allalgengur sem farandfugl að vor- og haustlagi, eins og grágæsin.
 • Álft (Cygnus cygnus islandicus)

Hér endar skrá Einars, en ætla má að hann hafi fyrirhugað að bæta meiru við.  Álftin er t.d. algeng í Kollsvík, og eftir er að ræða aðra fugla s.s. endur og múkka, en ekki síst máfana.  Máfar voru iðulega skotnir á flugi í Kollsvík í sérstöku byrgi við sjóinn, og var Einar áhugasamastur í því,þó bræður hans gæfu honum lítið eftir.  Máfurinn var hafður til matar í Kollsvík, enda er unginn herramannsmatur.  Varp múkka (fýls) var vaxandi í klettum kringum Kollsvík á þessum árum, og voru egg hans mikið nýtt til matar.  Áhugavert hefði verið að heyra frásögn Einars af þessum fuglum, ekki síður en þeim sem skráðir eru.  Eftirfarandi færslur er þó að finna aftar í bók hans; líklega vísi að dagbók um fugla:

Úr fuglalífinu 1942

 1. febr. Sáum við örn einn á flugi yfir Hænuvíkurhálsi; hafði sést þá um nokkra undanfarna daga í Hænuvík.

11.-14. mars  Sást vepja hér í Kollsvík.

 1. s.m. Sá Ingvar svartþröst á Hvallátrum.