Hér er fjallað um byggingar, hleðslur, torfristu og annað sem við kemur mannvirkjagerð, ásamt smíðum og ýmsu handverki.  Kollsvíkingar segja frá verklagi fyrri tíma.

Efni:   (Flýtival með smelli á kaflaheiti)
Handverk og smíði  Sigríður á Láganúpi segir af þjóðhagasmiðum á Rauðasandi og fleiru.
Torfskurður og móverk  Torfi Össurarson þekkti fyrri tíma aðferðir við torfskurð og mótekju.
Húsagerð og vegghleðsla  Torfi lýsir hér aldagömlu verklagi við húsagerð.
Smiðir og smiðjur  Smiðjur voru nauðsynlegar.  Torfi lýsir hér smiðjunni á Grundum.
Horn og bein   Torfi lýsir stuttlega notkun horns og hvalbeins til smíða.

 

Handverk og smíði

sg sg

Höfundurinn:  Sigríður Guðbjartsdóttir er af Kollsvíkuætt; fædd á Lambavatni á Rauðasandi 5. ágúst 1930 og ólst þar upp.  Hún giftist Össuri Guðbjartssyni 1953 og þau hófu búskap á Láganúpi, þar sem þau bjuggu síðan, og eignuðust 5 syni.   Hún lést 6. júní 2017. Sigríður var þekkt listakona, en hin einstæðu hellumálverk hennar prýða heimili víða um land.  Sigríður var, líkt og Össur, margfróð og áhugasöm um þjóðlega háttu og friðun minja.  Eftirfarandi er unnið upp úr svörum hennar við könnunum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins. 

Ég hef stundum vel því fyrir mér hvað raunar var fjölbreytt sú „handavinna“ eða hvað menn kalla það sem einnig var á báðum bæjum á Lambavatni þegar ég var að alast upp þar. Það lá í landi á þeim bæjum að vinna heima ótrúlegustu hluti. Faðir minn var listasmiður sem og bræður hans, faðir, afi og ég veit ekki hvað langt aftur í ættir. Einn í þeim hóp var kallaður Árni „rokkadreyjari“, sem segir þó nokkuð. Pabbi smíðaði allt sem til þurfti til bús og þó vel það. T.d. renndi hann rokka marga og hef ég heyrt að handbragðið hafi þótt framúrskarandi. Einnig allt innbú á bænum, rúm, skápa, kommóður, stóla, borð o.fl. Allar líkkistur utan um látna Rauðsendinga og fleiri. Aktygi, beisli og hestakerrur og allt sem við kom þarfasta þjóninum og þ.á.m. skeifur undir flesta hesta í sýslunni. Allt var þetta selt á mjög vægu verði, ef það var þá sett verð á það, enda áttu menn ekki peninga nema fyrir því allra brýnasta.

Oft komu líka konurnar á sandinum töltandi með pott, pönnu, ketil eða kaffikönnuna sem hafði komið gat eða sprunga á og fengu soðið í þetta. Aldrei held ég að slíkt hafi verið reiknað til gjalds nema þess sem mölur og ryð granda ekki. Mest af því sem hann smíðað, eða næstum all, var úr rekavið sem talsvert var af á Rauðasandi.

Í Neðribæ á Lambavatni bjuggu tveir bræður sem kvæntir voru systrum. Ólafur Sveinsson smíðaði líka öll húsgögn á þann bæ með listahandbragði. Bókaskápa tvo átti hann sem hann smíðaði; annar með útskornum listum og gleri í hurðum en hinn var með hurðum með sex spjöldum í og málaðar myndir á spjöldum. Báðir þessir bræður í Neðribæ, svo og pabbi minn, skáru út af miklum hagleik kassa og skrín, ramma o.fl. Mynstrin af útskurðinum voru pöntuð; mest frá Danmörku. Pabbi smíðaði einnig olíulampa úr kopar, þ.e.a.s. hann keypti kransana. Ég á enn tvo 8 línu vegglampa. Kannske má segja að þetta sé ekki hlutlaust mat hjá mér á föður mínum en ég held að allir sem til þekktu myndu staðfesta að það er ekki ofmat, en margt er ótalið.

En svo er að geta um þann óvanalega „heimilisiðnað“ sem rifjaðist upp þegar ég fór að skrifa um ljósmetið. Á stríðsárunum rak á Rauðasandi ólíklegustu hluti sem auðvitað komu úr skipum sem kafbátar sökktu þarna á skipaleið stutt undan. T.d. rak einu sinni; mig minnir 1943 eða 44, á land marga kassa með smjöri. Mig minnir að hver kassi hafi verið 48 lbs. en er þó ekki alveg viss. Ekki veit ég hvað margir kassar komu þarna á land en mér er næst að halda að það hafi verið þó nokkur tonn. En þarna voru brotin lög á Rauðsendingum því sýslumaður Barðastrandasýslu úrskurðaði á eigin spýtur að ríkið ætti allt þetta smjör. Mátti sá annars að mörgu mæti maður Jóhann Skaftason sýslumaður lifa með það á herðum sér langa ævi að hafa beinlínis stolið þessu frá fátækum bændum á Sandinum. Samkvæmt lögum átti ríkið verðmæti sem rak á land ef það náði vissri upphæð og þá miðað við 1 hlut. En samkvæmt túlkun sýslumanns gat hann fengið verðið sem við var miðað með því að reikna kassana saman en eftir því átti ríkið allan reka á landinu því alltaf mátti safna saman nógu mörgum trjám! Bændur voru skikkaðir til að flytja þetta til bæja og svo bauð sýsli allt saman upp og geri aðrir betur í húsbændahollustu! En nú er ég farin að villast heldur langt frá efninu.

Eitt af því sem sjórinn skolaði á land þarna við sandinn var heilmikið af kertavaxi og steríni. Þetta var mesti happafengur fyrir okkur krakkana þó tilefni þess væri svo sannarlega dramatískt eins og heyra mátti á sprengingum frá hafinu.  Eftir þetta var nefnilega enginn skortur á ljósmeti hjá okkur krökkunum. Kertin voru mest steypt í bambusstöngum sem voru sagaðar niður þannig að liður myndaði botn á kertaforminum. Bambusbúturinn var klofinn eftir endilöngu og bómullarkveik fest í botninn miðjan og svo var búturinn reyrður saman með seglgarni. Kveikurinn var festur á spýtu að ofan og bræddu vaxi nú hellt í. Svo þegar þetta var orðið storknað var seglgarnið leyst af og kertið tekið úr, og svo var hægt að nota formið aftur.

Við krakkarnir á þessum bæjum á Lambavatni vorum ekki gömul þegar við fórum að saga út ýmsa muni. Laufsagir voru til 2 -3 á bænum enda vorum við systkinin 4 og í Neðribæ ólust upp 6 frændsystkin; stundum voru þau 7. Mynstur fengum við mörg úr Famelie Journalen og nokkur voru pöntuð beint frá Danmörku eins og útskurðarmynstrin. Svo söguðum við út dýr sem við fengum t.d. úr Dýrafræðinni. Svo tálguðum við fugla og lítil skip og fleira og einu sinni var framleiðslan orðin það mikil að við komum talsverðu af fuglum og skipum í verslun og þetta seldist; að vísu ekki fyrir neinn auð!  Líka voru tálgaðir fuglar og fleira úr stórum ýsubeinum.

Nokkuð hefur þessi handiðn hjá þessum barnahóp sett mark á hvað þau lögðu fyrir sig á fullorðinsárum. T.d. voru allir þrír bræður mínir vélsmiðir og tveir af hópnum úr Neðribænum líka. Einn þeirra frænda er Sveinn Ólafsson myndskeri og einnig hef ég verið nokkuð veik fyrir ýmsu fikti þó í hjáverkum.  

Torfskurður og móverk

torfi ossurarsonHöfundurinn:  Torfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð.  Torfi giftist Helgu Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur.  Samantekt þessa ritaði hann árið 1966.

Torfskurður fór fram haust og vor eftir ástæðum, þó einkum á haustin (húsatorf).  Þegar gera þurfti við torfþök eða nýbyggingar, var einkum unnið að torfskurði. Ekki þekkti ég að torfskurður væri seldur eða torf selt. Torfskurðarmenn þurftu að vera góðir í bakinu og vel að manni. Ekki veit ég hver afköst voru við torfskurð. En móðir mín sagði mér þá sögu, er lesinn var húslestur, að maður kom af bæ og sagði það í fréttum, er lestri var lokið og áður en hann heilsaði: "Við ristum 300 af torfi í gær". Annars var það siður, ef menn komu á bæ, er húslestur stóð yfir, þá var ekki heilsað fyrr en lestri lauk.

Torfutakan fór mikið eftir því hvað torfan var löng. En líklegt gæti ég trúað að 2-3 mínútur hefðu farið til þess að skera torfuna og venda henni úr farinu. Tæplega var þetta gert í striklotu eða án smáhvíldar, því þetta var erfitt verk. Hlífðarföt þekkti ég ekki við verkið.    Áhöld þekkti ég fyrst torfljá með með skammorfum, þ.e. sem 2 ristu með og ristu torfuna lausa. Flagmóðir var kölluð fyrsta torfan, ef byrjað var á algróinni jörð. Skörin var í flaginu en hnakki í gróinni jörð.  

 Tveggja skammorfa ljáir voru gerðir úr liðlegu járni líklega ljábakkatein en þynnt þar sem blaðið var hnoðað á. Það var gert úr sagarblaði, en  varð þó að skeyta við það með litlu hnoði. Síðan var blaðið dengt á venjulegum steðja. Vitanlega þurfti að beygja bakkann mjúkri vinkilbeygju og síðan vinkilbeygju þar sem skammorfin gengu upp á og gat eða rauf, sem splitti var tekið í og festi vel skammorfinu.  Þau þurftu að vera úr góðu efni, helst rótarhnyðju. Þessi gerð torfljáa var algeng í Kollsvík. Auðvitað var blaðið hnoðað á bakkann.    

 Einskera torfljái þekkti ég í Dýrafirði og smíðaði ég einn slíkan og risti ég marga torfuna með honum, en þá risti ég fyrir hnakkanum oft með sláttuljá vafinn að aftan með poka.  Húsatorf vissi ég ekki rist með sláttuljá, nema básatorf; og þá á harðvelli.   Skammorfið eða handfangið festi ég þannig, að ég gerði rauf í miðju skammorfsins og rak bakkaendann þar í gegn og vafði honum utan um svo það var vel fast. Í blaðið notaði ég venjulegt ljáblað og gerði götin á bakkanum eftir því.

 Í Öndundarfirði sá ég 2 menn rista húsatorf, annar risti fyrir hnakkanum með sláttuljá, síðan skar hin undir torfuna með undirristuspaða, en hinn krækti á enda torfunnar með kvísl og dró eða velti úr flaginu um leið og rist var undir. Frekar fannst mér þessi vinnubrögð seinleg. Ljábrýni voru samskonar og við slátt.    Lengd tveggja þjóa torfljáa giska ég á að hafi verið 70-80 cm. milli þjóa og torfan þá tæplega það á breidd og þakið á húsi rúmlega 2 fet, og lengd a.m.k. faðmur í góðu ristulandi.

Það heyrði ég föður minn tala um, að betra væri að rista torf í smástraum heldur en í stórstraumi, vegna þess að tunglið losaði grassvörðinn í stærstum straum, en í smástraumi væri svörðurinn þéttari.   Það skipti miklu máli að torfvöllur væri ekki mjög blautur en þó rótgóður. Þess var helst að vænta á mótum mýra og valllendis og ekki sendið. Verulega góð torfrista er á sléttu. Ekki þekkti ég að hægt væri að rista tvisvar úr sama flagi, þó var mest rist í blautri mýri. Aldrei lagðist ég á hné við torfristu eða sá aðra gera það.

Torfljá með hring í oddi sá ég aldrei eða heyrði nefndan.   Skörin gat veri misbreið, en verra var að hún væri mjó. Hnakkinn þurfti að falla í skörina, þá þakið var. Breidd skörinnar mun að jafnaði hafa verið um 2-3 tommur á góðri torfu. Venjulega velti sá torfunni úr flaginu sem var við skörina. Ef landið var mjög blautt var torfinu bunkað í flaginu, annars var það oft flutt heim jafnóðum og reitt á berbökuðum hestum. Torfan lögð yfir bakið, 3-4 á hest eða meira, ef það var þurrt. Þetta var svo í æsku minni í Kollsvík. Þá voru engar kerrur til, en fyrsta kerran þar kom um 1910 eða að mig minnir. Torf var aldrei flutt í hripum. Hrip voru notuð til að flytja heim mó, og að sjálfsögðu búfjáráburð á völl. Hestvagnar voru notaðir við flutning á torfi strax eftir að þeir komu.

Torfþurrkun var sjálfsögð á heytorfi, enda var vandað til þess og var að mikið lengra, 1 1/2 faðmur, því það var krosslagt á mæni heysins, og það þurfti að ná nokkuð niður fyrir fláa eða þak heysins. Heytorf var mislangt eftir gæðum og bleytu, líklega að jafnaði 1 1/2 faðmur eða meir. Heytorf var sjaldan notað nema einu sinni, því það vildi fúna og styttast í því við geymslu að sumri. Valllendistorf var ekki notað til þess að þekja hús, svo ég vissi til. Forntorf var oft notað við eld, einkum til að fela eld. Líka þekkti ég að torf væri notað við stórgripaflutning á bátum.  Sauðatað var mjög lítið notað til eldiviðar, þar sem ég þekkti til, enda mótak víða gott og svo voru flest fjárhús með grindum, áður sandhús.  

Bjálkatorf þekkti ég ekki, ekki einu sinni í verinu, þar voru heydýnur notaðar undir með laki, ofan á fiðursæng.    Torf til einangrunar var notað í steinhúsin í Dýrafirði um 1940 eða fyrr, amk. í eitt hús var torfið aðflutt norðan úr landi. Þegar ég byggði íbúðarhús litlu síðar risti ég torf í mýri og þurrkaði til einangrunar. Í eitt hús vissi ég að notuð var mómylsna til einangrunar, húsið hlaðið úr steyptum steinum, tvöföld hleðsla.    Reiðingsrista: Reiðingar sem ég þekkti voru gerðir með dýnu, sem stoppuð var með heyi og stönguð í gegn, síðan komu álögin og framstrengurinn þar ofan á úr góðu torfi. Við ristu í reiðing var notaður sláttuljár, því álagið þurfti að vera jafnþykkt undir klyfbera, en framstrengur að framan. Dýnan var gerð venjulega úr tunnupoka og oft voru álögin gerð úr góðu heytorfi en áður þurrkuð vel.   

Mór og móvinna;  Mór var almennt notaður til eldsneytis um landan aldur, þó fleira kæmi til svo sem rekaviður, þönglar og þang, þurrkaður fjalldrapi og lyng.  Gamlar mógrafir sáust víða. Þær voru ein og ein gröf oft með stuttu millibili og voru þær venjulega fullar af vatni, mosa og stör, og urðu því kindum oft að fjörtjóni.   Mór var algengasta heitið, þó var til að svörður væri kallaður pysjukennt mótak. Norðlenskur bóndi kom í Dýrafjörð á 4. áratugnum og notaði hann alltaf orðið svörður um móinn.  Jarðir voru til, sem engin mótekja var möguleg, því var gott mótak mjög mikils virði á hverri jörð. Í Kollsvík var gott mótak, en þó misjafnt. Besti mórinn var skammt frá sjó (í Harðatorfspytti) undir þykku sandlagi 1 m. eða meira og svo harður mórinn, að sprakk út frá fyrstu skóflustungu. Þessi mór var kolaígildi, en þunnt og erfitt að ná honum upp.    Yfirleitt var mótak í Kollsvík 2-3 stungur og ruðningur ofan á því um 2 stungur.

Þar sem ég þekkti til var alltaf haldið áfram með sama bakkann frá ári til árs og ruðningum mokað niður í fyrri gröf. Það sem frostið gerði að pysju og mold. Það var talað um að fara í mógrafir, taka upp mó og vann hvert heimili mótekju fyrir sig í sínu landi.   Á stríðsárunum fyrri kom maður frá Patreksfirði og keypti mótak hjá föður mínum á Láganúpi í Kollsvík. Um söluverð vissi ég ekki, en í Dýrafirði Nærfranesi og Lambadal var selt mótak. Það voru íbúar frá Þingeyri  sem keyptu mótak, þar var ferfaðmurinn seldur ákveðnu verði, sem ég man ekki með vissu, líklega 8-10 kr. ferfaðmurinn.  En þarna var besta mótak, sem ég hefi þekkt, 2-3 stungur ofan á og allt að 18 stungur undir af mó, og var þá keyrt fram úr gröfunum, ruðningurinn sléttaður og látinn gróa jafnóðum. Svipað mótak er á Hestdal í Önundarfirði.

Móskera heyrði ég talað um, en sá aldrei. Ég þekkti ekki annað en skóflustunguna við mótekju. Vanalega stakk annar og hinn kastaði hnausunum upp á bakkann, síðan var mórinn fluttur á þurrkvöll.   Þegar ég var 6-7 ára, sá ég menn bera móinn á þurrkvöll í handbörum, þar næst komu hjólbörur til þeirra nota, og að lokum hestakerran á árunum 1912-20. Að „stinga ofan af“ var það almennt nefnt, að fjarlægja grasrót og rofmold ofan af mó.    Leirlög voru stundum í mó og var það ókostur. Í Dýrafirði komu oft fyrir sverir lurkar og trjáviðir í mólaginu. Sumir fleygðu kalbakkanum, en þegar kom í mógröfina varð að hafa vatnsbakka skóflustungu á þykkt, og taka hann síðast.

Þykkt mólags og það sem ofan af var rutt var ævinlega mælt í skóflustungum. Alltaf var talað um móhnausa og venjulega mátaði rekublaðið breidd og hæð móhnauss. Þegar búið var að flytja móinn á þurrkvöll og dreifa úr hnausunum var byrjað að taka hann í sundur í hæfilega þykkar móflögur, 4-5 úr hnaus og áður var mónum grindað, sem kallað var, þe. raða flögunum í kross rönd við miðju en allt samhangandi. Ef kom fyrir óskorinn móhnaus, þegar mórinn var hlaðinn upp, var hann kallaður afturganga. Engin þjóðtrú við mótöku eða vinnu. Eitt sinn sá ég karlmann stinga en konu kasta upp, en það var erfiðasta verkið.

Annars var kvenfólk við að taka móinn í sundur og grinda honum. Síðast var alveg hætt að grinda mó og þornaði hann, ef þurrkur var sæmilegur, en mest var um vert, að mórinn fengi þurrk strax og hann var tekinn í sundur, annars varð hann lélegri eldiviður.  Þegar mórinn var vel skánaður mátti setja hann í smáhrauka, sem síðar var hlaðið upp í allstóra móhlaða, aðeins uppmjóa og kýfða. Ef mórinn var vel þurr í hlaða þoldi hann talsverða rigningu. Best var að koma honum í hús fyrir haustrigningar. Ef geyma þurfti mó úti var hann tyrfður  með mýrartorfi, þannig geymdist hann vetrarlangt. Móhlaði var algengasta orðið um upphlaðinn mó, þó kannast ég við móhrauk og svarðarhrauk. Heimflutningur mós var í hripum, sem botninn var á hjörum. Margur mópokinn var borinn heim á bakinu; síðar var mórinn fluttur á hestakerrum og jafnvel með dráttarvél með stærri vagni.

Stundum var gerð mótóft við þurrkvelli og mórinn geymdur þar og dreginn á sleða að vetri en þá var mórinn þakinn með torfi.   Mómylsnan var rökuð saman þegar búið var að hlaða mónum og sett í poka og flutt heim. Mónum var oft brennt einum, en líka voru spýtur notaðar með, einkum til uppkveikju.    Yfirleitt var móflagan látin heil í eldavél einkum í hlóðir, þó var flagan oft brotin sundur.  Við eldavélina var mókassi, sem mórinn var daglega geymdur í og borinn í eftir því sem brennt var. Kol voru eitthvað notuð með mó, þegar hann var að þrjóta síðla vetrar og á vorin, þönglar og þang og afrakstur af túni og allt sem brunnið gat og handbært var.    Móflögur voru notaðar til þess að gera mót og steypa tin í fiskikróka (síld).   

Þar sem rist var var kallað flag. Það þurfti að vera rótgott seig í torfinu.  Torfinu var oft bunkað, torfbunki, við eða í flaginu. Gamalt heytorf var stundum notað í nærþak eða undirþak á hús. Gamalt heytorf var farið að fúna yfir sumarið og því ónothæft á hey aftur. Það var oft lagt ofan á veggi í heytóft.  Ekki vissi ég til að torf væri sett í æðarhreiður t.d. á Mýrum, þar var hey sett í hreiður. Lítið þekkti ég til reiðingsskurðar, sérstaklega, og alls ekki að nein mæling væri viðhöfð. Hygg ég það hafi verið svipað og heytorfskurður eða rista.    Í Dýrafirði var þó nokkuð um mótöku og var einingin miðuð við vel fullt oliufat eða tunna, og fann ég í gömlum reikningum frá 1943, að ég hef selt tunnuna á kr. 6. Oft var mór látinn bíða á bakkanum þar til hann var fluttur á þurrkvöll, en oftast fluttur fljótlega eða jafnvel jafnóðum og kastað var upp.

Húsagerð og vegghleðsla

Höfundur:  Torfi Össurarson (sjá hér að ofan).  Ritað 1967.

Hús voru aðallega byggð úr grjóti, með torflagi milli laga í kampa og ytri hleðslu.  Flest skepnuhús voru grafin upp í brekku og þá grafið fyrst fyrir undirstöðum af innri hleðslu, og var sóst eftir því að undirstaðan væri úr stórum steinum og með einum eða tveimur sléttum fleti.  Undirstöður þurftu helst að ná aðeins niður fyrir gólf, allt var moldað við hverja hleðslu og moldin troðin vel.  Þegar innri hleðsla var komin upp fyrir jarðveg, þá var byrjað á ytri hleðslu og með torflagi á milli steinalaga, mátti torfið vera aðeins mjórra en þaktorf, en flagskörin var skorin burt.  Að öllum jafnaði þurfti stærsta grjótið að vera neðst en það smærra þegar ofan sló í vegg.  

Húslengd fjárhúsa var miðuð við það hve margt fjár átti að komast á jötu, en venjulega var talið fram yfir síðustu aldamót að 6 ær kæmust á faðminn.  Breiddin á tvístæðuhúsi:  Jötubreiddin var misjöfn, rúmlega 2 fet armur.  Króarbreidd þurfti að vera það mikil að tvær kindur gætu mæst fyrir aftan þær sem stóðu við að éta úr jötu.  Öll fjárhús við sjóinn voru með rimlagólfi, nema þá sandhús þ.e. sandur var borinn á gólfið meðan hann dugði vegna bleytu, þá var mokað honum út og borinn á nýr sandur.  Grindahúsin voru þeim mun hærri á því sem hærra var undir grindunum.

Faðir minn byggði tvisvar baðstofu þar sem gafl og langveggur var byggður úr grjóti og annar gafl aðeins upp undir stofuglugga, en timburveggur að framanverðu.  Þetta var allt hlaðið úr grjóti og mun vegghæðin hafa verið hátt á þriðja meter.  Yfirleitt voru öll hús, það ég sá og man eftir þegar ég var ungur, úr grjóti innri hleðsla, en torf milli laga utan og í kömpum.  Alltaf voru skemmur byggðar innan með grjóti og timburþil að framan.  Önnur baðstofan sem faðir minn byggði var í Kollsvík en hin á Láganúpi. 

Allar sperrur voru sterkar og langbönd því flest. Útihús voru með helluþaki og tvöföldu torfi með dálítilli mold milli þaka.  Ávallt voru stærstu og þykkustu hellurnar settar neðst, en þær smæstu og þynnstu efst, oft voru prik og kassafjalir í mænir.  Á þessum grjóthlöðnu húsum voru gaflhlöð úr grjóti, en ekki fullhá, heldur voru næstu sperrur, sem reft var á af gaflhlaðinu eða næstu ----.  Þessir grjóthlöðnu veggir sem ég er búinn að lýsa að nokkru voru yfirleitt hlaðnir nánast lóðréttir þó máttu háir veggir vera að fyrir sig ofan, en breidd undirstöðu fór eftir hæð veggsins, en ávallt var ytri hleðslan með talsverðum halla, og fláa.  

Vegghleðsla var vandaverk og voru góðir vegghleðslumenn eftirsóttir.  Fyrst og fremst var að leggja undirstöður í beina línu og síðan halda henni upp allan vegginn, allt var þetta mælt út með auganu, en grjótið var oft misjafnt, en hleðslumaður varð að finna hverjum stein sinns stað og fella undir hann fleyga eða undirfellur, þær þurftu helst að vera fleyglaga eða misþykkar o.fl.  Þurfti að velta hverjum steini á ýmsa vegu til þess að hann fengi gott sæti.  Við hvert lag af steinum var lagið fyllt af mold og troðið vel og vandlega, venjulega með fótum, þó munu hafa verið notaðir hnallar úr trébútum með þverspýtu ofan sem handföng.  Ekki þekkti ég að grjót væri höggvið til svo nokkru næmi.  Þetta grjót sem ég kalla, var og er allt basalt eða blágrýti.  Betra hleðslugrjót var í Rauðasandshr. a.m.k. í Kollsvík, heldur en í norðanverðum Dýrafirði.  Í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði var og er heyhlaða hlaðin með torflagi, bæði utan og innan, þessi hlaða var hlaðin ef ég man rétt 1913, af þeim bræðrum Jóhannesi og Kristjáni Davíðssonum. Einnig sá ég í norðanverðum Dýrafirði hlaðinn bæjarkamp úr grjóti með engu torflagi milli laga, og var hann að hruni kominn því öll mold var fokin burt, en þessi kampur mun hafa verið hlaðinn af norðlendingi. 

Víðast hvar var ekki langt að fara til þess að ná  í grjót í veggi og flutningur var ekki nema á sleða, dreginn af mönnum, eða þá á handbörum.  Kerra og aktygi komu í Kollsvík í byrjun annars áratugar þessarar (20.) aldar.  Þar notaðist hún vel, því frá sjónum eru og voru sléttar grundir og sandleirar að mestu heim til bæja.  Vitanlega var grjótið valið eftir því sem hægt var, er því var aflað til vegghleðslu; einkum þurftu hornsteinar að vera fallegir þ.e. með sléttum flötum og með 90 gráðu horn.  Hellusteinar voru hafðir til þess að jafna ofan veggi, ekki þykkri en 2-4 tommur.  Ávallt voru húsin höfð með réttum hornum að innan, en utan voru oft hornin rúnnuð.  Ekki sá ég hús sem hlaðin voru við björg eða kletta, það var algengt um kvíar í túnjaðri eða  stekk.  Til þess að fá hús hornrétt voru slegin saman borð í réttan vinkil.  Þykkt grjótveggja fór í grunnin fyrst og fremst eftir hæðinni, því efst þurfti veggurinn að vera 2-3 fet. 

Ekki þekkti ég að innri húshorn væru í boga.  Orðið tótt var ávallt notað um þaklausar byggingar og í fleirtölu tóttur.  Langvegg og gaflvegg var talað um í húsum.  Grjótveggir vildu oft ganga úr sér, síga út eða inn á parti, einkum ef þeir voru illa byggðir og jafnvel úr slæmu hleðslugrjóti, var þá stundum talað um að "gildra" upp í vegginn eða skörðin þegar þau voru jafnvel að hruni komin.   Einu sinni voru 2 feðgar að hlaða vegg sem var langt kominn í fulla hæð, þá segir sonurinn að þessi veggur muni ekki standa lengi.  "Jú" segir faðirinn,"hann mun standa mína tíð og þína tíð og þinna barnatíð" í því segir faðirinn "varaðu þig Valdi", þá hrundi veggurinn. Ufs var á innri veggbrún og var tréð sem sperrurnar stóðu á. Ég þekkti lítið til grjótnáms og víða var það við hendina eða svo að segja því víða var grjót rifið upp úr túnum, einkum efst við fjallsrætur og víða voru gamlar tóttur ónotaðar og þá sótt grjót í þær.  Það þekkti ég að jötustallur var hlaðin um leið og veggur að hesthúsi. 

Einnig man ég eftir útskoti við eða úr inngangi í fjós, þar sem kýrmeisarnir voru geymdir til næstu gjafar, með gjöfum á sér.  Venjuleg snidda var aldrei notuð í vegg, aðeins í vegkant eða flóðgarða. Það þótti góð hlunnindi jarðar þar sem gott hellutak var, og í Kollsvík var það gott því öll útihús voru með helluþaki, einnig verbúðirnar í Kollsvíkurveri. Hús byggð úr trjábolum þekkti ég ekki nema "pakkhús" sem stendur á Þingeyri og er sagt 250 ára gamalt, húsið er í eigu Kaupfélags Dýrfirðinga, trén útlend og sver.  Þjóðtrú í sambandi við húsbyggingar þekkti ég engar. Moldarverkin voru all tímafrek einkum á haustin, oft erfið og óþrifaleg einkum í regni en oftast var vani að fara í lélegar buxur við moldarverk.  

 Ég þekkti lítið til kláfa, en hrip þekkti ég.  Þau voru með botninn á hjörum og læst að framan með járnlykkju, sem rennt var fram af spaða á botni hripsins voru þau notuð aðallega til flutninga á húsdýraáburði á túm og mó til eldiviðar. Að lokum vil ég geta þess að torfbyggingar þekkti ég lítið eða ekki og sleppi því alveg að segja nokkuð um þær.

Smiðir og smiðjur

Höfundur:  Torfi Össurarson (sjá hér að ofan.  Ritað 1981.

Þegar ég var 7 eða 8 ára, fór ég með föður mínum í smiðju að Grundum í Kollsvík, því þar var smiðja af gamalli gerð.  hún var góðan spöl frá bænum.  Þetta var lágreistur kofi gerður af grjóti og torfi innan, nema í dyrakampa.  Var þá grjót í veggjum en utan hlaðið með torfstreng sem svo greri.  Strompur var á mæni, lítill gluggi yfir dyrum og hurð af timbri.  Sperrur af viði og árefti.  Með tvöföldu torfi sem var löngu orðið vallgróið.  Þessi smiðja mun hafa verið mjög gömul, því bóndinn þáverandi var enginn smiður, en á bænum var lausamaður sem var vel lagtækur á tré, smíðaði og gerði við báta og batt bækur að vetri.  Í þetta sinn var faðir minn að smíða öxul af járni í kornmylluna sína, því myllur voru þrjár í Kollsvík, og voru í gangi a.m.k. fram á fyrri stríðsár, ég átti að aðstoða föður minn við að blása í aflinn.

Smiðjubelgurinn var þarna af gamalli gerð, en hann skoðaði ég ekki vandlega. Hann var gerður með trégrind sem sauðskinn voru fest á með listum og síðan tjöruborinn, því ég man að hann var kolsvartur og ofan á honum steinn sem skerpti á útsoginu í aflinn.  Hann var gerður af grjóthleðslu innan við miðjan kofann og í gegn lá járnpípa í sjálfar glæðurnar, en belgurinn var dreginn sundur með vogarstöng sem var fest upp í þak og var all löng fram á við.  

Aflinn var lágur og steðjinn líka, því faðir minn sat við smíðina.  Allvænn slaghamar var notaður til þess að reka járnið, en kol voru notuð í aflinn.  Ekki man ég eftir neinni járnplötu, hefur líklega verið aðeins hella undir eldinum.  Smíðakol sá ég ekki fyrr en löngu seinna, þegar ég var nemandi á Hvanneyri 1925-27.  Undirstaða undir var lágur tréhnúður eða jafnvel hryggjaliður úr hval.  Reksteinn við dyr var enginn.  Hersluþró var ekki þarna svo ég sæi, en á Hvanneyri var notaður vatnspottur úr aflagðri eldavél og aðeins vatn til kælingar.

Smíðajárnið sem faðir minn notaði í kvarnarásinn var eitthvað sívalt járn úr skipi, líklega vantfesting en ýmis konar smíðajárni kynntist ég við smíðar á Hvanneyri og síðar þegar ég fór að smíða eftir að ég fór að búa á Mýrum í Dýrafirði og þó lengst á Felli í Dýrafirði.  Smiðjuáhöld voru fábrotin; þó mun slaghamarinn og töngin hafa fylgt hverri smiðju; stappa, saumhögg, meitill og margt fleira.  Þó mun margt hafa verið heimagert sem notað var við smíðina.  Heimagerð smíðakol þekkti ég ekki.  Gömul heimagerð smiðja var á prestssetrinu í Sauðlauksdal, því ég heyrði að faðir prestsins, sem þá var þar var eitthvað að smíða, líklega hestajárn, en prestur var séra Þorsteinn Kristjánsson sá sem fórst í Þormóðsslysinu ásamt fleirum. 

Á Lambavatni í Rauðasandshreppi var gömul smiðja, og góðan smið sem þar vann að smíðum þekkti ég vel í Kollsvíkurveri, en mér er sagt af kunnugum að smiður þessi sem hét Guðbjartur Egilsson, hafi smíðað sér síðar fótstigna smiðju og smíðað ýmislegt, s.s. hestajárn, járn í rokka sem hann smíðaði, eldhúsáhöld, ausur og spaða gataða og tinbrædda utan og innan.  Þessi maður er fyrir löngu látinn.  Þessar gömlu smiðjur sem ég hefi sagt frá, voru svo litlar að ekki voru þær notaðar til geymslu, en því hlutverki gegndu skemmur sem voru á hverjum bæ.  Orðtakið "að hafa mörg járn í eldinum" kannast ég vel við og "smiður eiga verstu spæni". 

Járnsmið á Ísafirði heyrði ég sagt frá, sem smíðaði skeifuna að öllu leyti í einni hitun og henti henni frá sér rauðheitri.  Smiðjur hygg ég að hafi verið yfirleitt þar sem góðir smiðir voru, sérstaklega þar sem bátar voru smíðaðir, því þeir þurftu að smíða í eldi þrælkur, keipa eða tollur, stýrisjárn og fleira.  Að lokum skal ég geta stuttlega járnsmíða sem ég vann lengi að, einkum að vetrum.  Það var á Hvanneyri sem ég lærði að laga járn í eldi og á steðja, þar lærðum við að smíða hestajárn slétt og með sköflum.  Einnig að sjóða saman járn og laga járn í aktygi og smíða nothæf aktygi nema bogann, en hann smíðaði ég síðar og það æði marga, því ég smíðaði aktygjajárn bæði fyrir mig og einkum fyrir annan söðla- og aktygjasmið.  Margt smíðaði ég fleira; heynálar, ljábakka lítið eitt.  

Ég keypti fótstigna smiðju þegar ég byrjaði að búa á Mýrum í Dýrafirði sumarið 1927.  Frændi minn og vinur var að læra járnsmíði í Hafnarfirði og pantaði hann fótstigna smiðju eða aflinn eins og Guðmundur J. Sigurðsson meistari og eigandi að vélaverkstæði á Þingeyri nefndi, en sonur hans Matthías, gæti gefið upplýsingar um smiðjur úr Þingeyrarhreppi. Þessi fótstigna smiðja var sú fyrsta sem kom í Mýrarhrepp, nágranni minn ungur maður, Jón Zophoníasson, kom og fékk mál af henni og smíðaði sér sjálfur líka smiðju.  Smiðja af gömlu gerðinni var á hinu forna höfuðbóli, Saurbæ á Rauðasandi.  Það var Gísli Ó. Thorlacíus sem notaði hana á öðrum áratugi þessarar aldar, en Gísli var síðasti bóndi í Saurbæ af þessari ætt.  Í Kollsvíkurbæ, samnefndum víkinni, mun smiðja verið hafa áður fyrr, en nú eða þegar ég var krakki, var aðeins nafnið eftir á kofanum, sem var eldiviðargeymsla.

Horn og bein

Höfundur:  Torfi Össurarson (sjá hér að ofan).  Ritað  1983.

Um horn og bein hef ég litið að segja; þekkti engan sem smíðaði úr slíku efni.  Þó sá ég í notkun hornhagldir á reipum, en þær endast von úr viti. Einnig sá ég sylgjur á reiðingsgjörðum úr hvalbeini, og algengar voru seilarnálar úr hvalbeini. Þær voru notaðar til þess að seila fiskinn.  Einnig sá ég heilt sauðahús, sem hafði hvalrif fyrir sperrur.  En síðar voru þessi hvalrif söguð sundur og notuð í hlunna, er bátar voru settir upp og ofan af eða á sjó, því í Kollsvíkurverki er gulur sjávarsandur. Undir hvalbeinum var stök fjöl og klampar, sem héldu hvalbeinunum föstum. Hvalir ráku stöku sinnum á land í Kollsvík, og eins hlupu á land undan svokölluðum hundfiskum hvalir.