Hér segja höfundar frá ýmsu sem tengist sjósókn í Kollsvík og nágrenni.  Sögurnar gefa innsýn í þær hættur sem sjómenn þurftu að leggja sig í til að sækja björg í bú fyrr á öldum, og glæða lífi þær minjar sem enn sjást í verum.

Efni: (Flýtival með smelli á kaflaheiti)

Fiskiróður.  Össur Guðbjartsson lýsir róðri út á Kollsvík frá Gjögrum.  Líklega um 1946.
Þegar við snerum aftur með saltfarminn.  Helgi Einarsson lýsir Eyrarferð á sjó árið 1915. 
Árnar í hrakningum.  Árni Árnason og áhöfn hans áttu enskum togara líf að launa árið 1913.
Hildarróðurinn.  Jón Torfason segir frá ferð eftir lækni vegna barnsfæðingar í Kollsvík 1909.
Þokuróður.  Össur Guðbjartsson skráði frásögn Guðbjartar á Látrum af hrakningum 1909.
Brimlending.  Þórður Jónsson á Hvallátrum lýsir brimlendingu í Kollsvíkurveri 1928.
Bakkakindur í kröppum sjó.  Sagt af fjárflutningi Þórarins Bjarnasonar yfir fjörð 1930.
Þegar ég var á Sjólífinu.  Kristján Kristjánsson réðist á skútu á Geirseyri 1888.
Skreiðarferðir séra Guðmundar að Kollsvík.  Síðustu skreiðarferðir í Kollsvík 1909.
Skreiðarferð vestur á sveitir.  Guðjón Jónsson lýsir skreiðarferð að Saurbæ  1893.
Skreiðarferð kerlingar  vestur í Víkur, og steinbíturinn ótrúlegi.


Fiskiróður

ossur gudbjartsson 2Össur Guðbjartsson (19.02.1927 - 30.04.1999) ólst upp á Láganúpi.  Hann lauk búfræðinámi og framhaldsnámi á Hvanneyri og starfaði eftir það við barnakennslu í Rauðasandshreppi.  Hann tók við búi á Láganúpi af foreldrum sínum og bjó þar alla sína tíð.  Össur gegndi fjöldamörgum trúnaðarstöfum og félagsmálastörfum fyrir sína sveit; var m.a. hreppsnefndaoddviti í 16 ár.  Einnig var hann fulltrúi Vestfirskra bænda og stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða.  Hann var giftur Sigríði Guðbjartsdóttur frá Lambavatni, sem einnig var ættuð úr Kollsvík, og eignuðust þau 5 syni.  Hér lýsir hann róðri frá Gjögrum.  Einar bróðir hans tók við starfir kaupfélagsstjóra Sláturfélagsins Örlygs og flutti á Gjögra 1945.  Einar hefur þá haft Rutina föður síns á Gjögrum og því var róið þaðan, en endranær var Rut gerð út í Kollsvík. 

Það bar við, þegar við bræðurnir vorum við fiskiróðra frá Gjögrum á gömlu Rut, að við Ingvar bróðir fórum í róður í blíðskaparveðri.  Var ætlunin í byrjun að fara út á Kollsvík, á gamalkunnug fiskimið þar.  En þegar við höfðum reynt fyrir okkur nokkra klukkutíma og lítið fengið, kipptum við frá og suður á Barðsbrekku; en suðurfall var á og nokkur straumur.  Þegar þangað kom urðum við allvel varir við fisk.  Hélst sú viðkoma frameftir degi, og rak okkur drjúgum suður.  Þegar rekið hafði um tíma, sáum við að við vorum komnir suður á Látraröst; líklega á „Tálkna og jafna Tanga“.  Er þá farin að sjást eins og skinnaköst á sjóinn, og fullt útlit fyrir skarpa aðlögn af norðri.

Biðum við þá ekki boðanna, en settum á fulla ferð; með stefnu á Blakk.  Er þá farið allmjög að herða vind, og farnar að sjást fuglabringur í sjónum; þ.e. farið að falla af báru, og einsýnt að við myndum lenda í norðurfalli yfir Blakknesröst, en hún getur orðið mjög slæm við slík skilyrði.  Þegar við erum að fara yfir Röstina fer vélin að hökta, og virðist geta stöðvast þá og þegar.  Ekki mátti samt slá flötu, svo að ég hafði árar á keipum til þess að reyna að halda bátnum réttum fyrir báru ef vélin stoppaði.  Samt hélt vélin áfram að kjafta, þar til við vorum komnir á lygnari sjó.  Á eftir okkur komu Aðalsteinn í Breiðuvík á Tjaldi og Hafliði á Látrum á Búa.  Þegar þeir fóru yfir Blakknesröstina, kastaðist legustrengurinn á Búa útbyrðis, og fór í skrúfuna.  Vildi það þeim á Búa til, að Tjaldur var rétt hjá þeim og gat tekið Búa í tog; og komust þeir þannig klakklaust yfir Röstina.  Þegar við komum á miðjan Patreksfjörð stöðvaðist vélin alveg hjá okkur, og kom þá í ljós að brotnað hafði gormur, sem biluninni olli.  Rétt í þessu ber að Aðalstein á Tjaldi, og tók hann okkur í slef á Patreksfjörð.  Þar fengum við gert við vélina og fórum síðan yfir á Gjögra, þar sem við höfðum landað fiskinum.  Þess skal þó að lokum getið, að þegar Búi fór yfir röstina var einn skipverja í koju í skýli frammi í bátnum.  En svo vildi til að þegar báturinn hjó fram af báru í Röstinni, lét botninn í kojunni undan og maðurinn lenti niður í kjöl.  Hlaut hann nokkra áverka af þessari byltu.  Að öðru leyti gekk sjóferðin slysalaust.  En til marks um það hvað báran í Röstinni var kröpp, skal þess getið að þrjár bárur; hver eftir aðra, brutu á Ingvari við stýrið og hálffylltu bátinn.  Við gátum þó þurrausið þegar við komum á lygnan sjó, fyrir innan Þyrsklingahrygg.  Þarna má segja að skipt hafi sköpum, að þessir bátar lentu af tilviljun í samfloti yfir Blakknesröstina.

Eftir að bryggja kom á Gjögra, og Einar bróðir byggði þar, stunduðum við bræður róðra þaðan nokkur vor.  Eftir það mátti heita að útgerð úr Kollsvík legðist af.  Þó héldu aðrir bændur í Kollsvík áfram að gera út á vorvertíð héðan úr Kollsvík, þar til þeir fluttust burt.

 

Þegar við snerum aftur með saltfarminn

helgi einarsson geitagili


Helgi Sigurvin Einarsson (16.09.1895-27.05.1988) var bóndi á Gili 1925-1950; áður bóndi á Leiti og parti úr Efri-Tungu.  Fluttist síðar á Patreksfjörð.  F. í Hænuvík, sonur Einars bónda í Hænuvík Guðmundssonar og k.h. Ingveldar Jónsdóttur bónda í Hænuvík Sigurðssonar.  Kona hans var Guðmunda Helga Guðmundsdóttir og eignuðust þau 4 börn.  Í þessari frásögn frá árinu 1969 segir hann af Eyrarferð frá Kollsvíkurveri árið 1915.

Frásögnin birtist í Sunnudagsblaði Tímans 07.12.1969.

Mig langar til að bregða upp ofurlítilli mynd af erfiðleikum þeim, er menn áttu við að etja á árabátatímunum.  Þegar vindar og straumar voru hagstæðir og unnt var að nota seglin, gekk allt vel.  En þegar á móti blés og bæði vindur og sjór voru á öndverðum meiði, þá gat það tekið á taugarnar. Það mun hafa verið vorið 1915.  Þá reri ég í Kollsvikurveri sem oftar hjá Davíð Jónssyni.  Við áttum þá báðir heima í Örlygshöfn.  Þá var öðruvísi þar um að litast en nú.  Þá voru þar tólf býli og um sjötíu manns.  En nú (1969) eru býlin fimm og fólkið fátt.  Það er sama sagan og víða annars staðar.  Við fórum í verið litlu eftir sumarmál, eins og venja var.  Báturinn var stórt fjögurra manna far og voru á honum, auk mín sem ekki hafði þá enn náð fullum þroska; Davíð Jónsson formaður og eigandl bátsins; Ármann Guðfreðsson, þá vinnumaður hjá séra Þorvaldi Jakobssyni í Sauðlauksdal, nú húsgagnasmiður og Guðmundur Jónsson, þá vinnumaður hjá Davíð, roskinn maður; einn af þessum sérkennilegu körlum sem nú eru alveg að hverfa.  Einstæðingsskapur og hrakningar höfðu sett sitt mark á hann.  Ég reri margar vertíðir hjá Davíð.  Ármann og Davíð voru mikil hraustmenni; Davíð sennilega einhver sterkasti maður sýslunnar á þeim tíma.  Ekki er neitt sögulegt af þessari vertíð að segja.  

Við fiskuðum vel, enda var Davíð fiskinn, og rerum til messudags eins og þá var kallað.  Þá fóru þeir Ármann og Guðmundur heim til heyskapar en okkur Davíð kom saman um að halda áfram um sinn, og þá með handfæri á litlu tveggja manna fari sem Davið átti.  Við þurftum ekki að vera við heyskap, og þá ekki um mikið að velja á atvinnusviðinu um þær mundir.  Það var ekki vani að aðkomumenn reru nema vorvertíðina.  En heimamenn reru þar öll sumur.  Brimasamt var oft, er leið á sumrin.  Heimamenn höfðu nóg að gera að sinna heimilum sínum þegar ekki gaf á sjó.  En aðkomumenn og búlausir hófðu ekki neitt annað að gera en spila á spil og drekka kaffi hver hjá öðrum.  Við hófum nú að róa á þessu tveggjamanna fari.  Hittum á ágæta tíð og góðar gæftir, eftir því sem um er að gera, og varð aflinn betri en við væntum.  En þegar kom fram á sumarið sáum við að saltið var á þrotum og ekki salt að fá nema á Patreksfirði.  Við rerum svo siðasta róðurinn sem salt var til í;  fórum seinni hluta nætur og komum að um hádegi; settum bátinn upp og gerðum að aflanum. Þá sagði Davíð að nú væri ekki um annað gera en fara gangandi inn í Örlygshöfn; taka þar vorróðrabátinn; fara yfir á Patreksfjörð um kvöldið og taka bátinn hlaðinn af salti og koma út um nóttina.  Auðvitað samþykkti ég þetta.  

Svo lögðum við fótgangandi af stað.  Enn minnist ég þreytunnar þegar við vorum að fara upp hálsinn sem er milli Kollsvikur og Hænuvíkur, í blæjalogni og steikjandi hita.  Þetta er um tuttugu kílómetra leið sem við urðum að ganga að bátnum.  Þegar þangað kom hittist svo á að háfjara var, en þarna er mikið útgrynni.  Samt komum við bátnum á flot.  En þá vantaði seglið; það var frammi í Höfn (Örlygshöfn).  Í þá tíð þótti glannaskapur að fara segllaus á sjó. Við rerum á Patreksfjörð og fengum saltið. Það var ekki vegið, heldur mælt í málum sem tóku hundrað og sextíu pund, og var málið látið í poka.  Við urðum að taka það á bakið úr húsinu og bera niður í bátinn.

Fermdum víð hann og ætluðum svo af stað.  Þegar við ætluðum að ýta frá, kom Pétur Ólafsson kaupmaður og konsúll, niður á bryggjuna. Segir Davíð að við skulum hinkra við:  „Kannski Pétur ætli að tala við okkur" segir hann. Þegar hann kemur til okkar kastar hann á okkur kveðju og segir: „Nú eigið þið stranga ferð fyrir höndum á hlöðnum báti með eina ár á borð út allan Patreksfjörð og fyrir Nes.“  Svo vatt hann sér að Davíð:  „Viljið þið ekki gera svo vel og koma heim með mér og fá ykkur bita að borða áður en þið leggið af stað"?  Davíð tók því með þökkum, en ég sagði lítið; kveið því að setjast til borðs með slíku stórmenni.  Pétur þótti stirfinn í lund og framkomu við þá sem voru lægra settir.  En ábyggilegur þótti hann með það sem hann lofaði, og þurfti ekki loforð til.  Ef ekki var sagt nei, þá var í því fólgið fyrirheit.  Ég naut formannsins.  Davíð var vel séður hjá þessum stærri körlum.  Hann var greindur vel; tölugur og frjálslegur í framgöngu og afkastasmiður á allar stærri smíðar; sérstaklega skip og báta, er oft kom sér vel þegar verið var að búa skipin á veiðar seinni hluta vetrar.  Hann varð ekki gamall maður, og þótti að honum mikill mannskaði.  Við vorum vel á okkur komnir, þegar við lögðum af stað eftir góðan beina.  Þegar við komum nokkuð út á fjörðinn, segir Davíð við mig:  „Ég held ég sjái svart vindband uppi í Kóp.  En við skulum halda áfram og sjá, hvað við komumst."  Eftir stutta stund var kominn norðanvindur og beint í stefnið.  Við ömluðum á móti, þar til við hættum að hafa áfram.  Þá vorum við móts við Gjárdal.  Nú var ekki um neitt að gera nema snúa við.  Þetta munaði því, að hefðum við haft segi hefðum við róið norðar út flóann og náð okkur fyrir Blakk á seglum.  Nú biðum við lags að snúa við undan bárunni.  Þá var Hænuvík næsta lending, en þar skammt innar er Sellátranes.  Þar taldi Davíð betri lendingu í norðanátt með svona hlaðinn bát.  Þegar við komum að lendingunni var Ólafur, bóndi þar, Pétursson, að ganga með orfið sitt í slægjuna.  Hann var fljótur að kasta því og koma niður í fjöruna.  Okkur gekk vel að lenda, bera af og setja bátinn.  Að bví búnu þáðum við góðgerðir.  Þar lagði ég mig, en Davíð fór gangandi inn í Höfn, því að hestur var ekki til á þessum bæ.  Seinni part dagsins kom hann aftur með seglið og tvo menn með sér; þá Jónas Jónsson, húsmann í Örlygshöfn, og Guðmund vinnumann sinn, sem fyrr var getið.  Þá var vindinn farið að lægja.  Var strax farið að bera saltið niður og setja niður bátinn, og gekk nú allt betur, þegar við vorum fjórir.  Við létum horfa frá og norður í flóann til þess að koma seglinu sem fyrst upp og ná okkur fyrir Blakknesið.  Þegar seglið var komið upp gekk allt vel.  Við fengum dáiítinn hroða yfir röstina og rann lítið eitt niður af saltinu. Annað varð ekki að. Okkur gekk vel að lenda og bera af og setja bátinn og svo bárum við saltið upp í kró.  Vorum við þá búnir að vera í þessu amstri í tvo sólarhringa samfleytt og bera sama saltið fimm sinnum.  Þetta var engin ævintýraferð, og ekkert afrek var unnið.  Það var vanalegt á þeim árum að leggja á sig vökur og erfiði.

 

Árnar í hrakningum

Hér verður stuttlega rakin saga af tveimur vöskum formönnum sem báðir báru nafnið Árni, og var hinn eldri afi þess yngri.  Báðir lentu þeir í sjóhrakningum og björguðust með nokkuð undursamlegum hætti og varðveist hafa þakkir þeirra til bjargvætta sinna.  Af hinum eldri þeirra er kominn allnokkur ættbogi í Rauðasandshreppi og víðar, en hinn yngri drukknaði í sviplegu sjóslysi fáum árum eftir þessa björgun sína.  Auk þessara aðalpersóna er lítillega sagt frá tengdum viðburðum.

Þakkarávarp í Ísafold

Hinn 23. apríl árið 1913 birtist eftirfarandi grein í blaðinu Ísafold, undir heitinu „þakkarávarp“:

„Þann 10. þessa mánaðar árdegis reri ég til fiskjar ásamt þrem hásetum mínum, en um klukkan þrjú síðdegis small á blindbylur með aflandsstormi, svo að engin tök voru á því að sjá land eða ná því.  Þá er við þannig höfðum hrakist nær klukkustund vorum við svo hepnir að hitta botnvörpunginn Chieftain nr 847 frá Hull, sem bjargaði okkur félögum ásamt báti mínum.

Skipstjórinn, I. Mason, veitti okkur, sem vorum orðnir holdvotir og kaldir, hinn besta beina; þurran fatnað og nógan mat og flutti okkur strax og veður leyfði næsta morgun til Örlygshafnar með því að eigi var lendandi í Kollsvík og gaf okkur um leið svo mikið af fiski að við hefðum haft góðan afla ef veitt hefðum með veiðarfærum okkar.

Ég vil eigi láta hjá líða að senda téðum skipstjóra, svo og allri skipshöfn hans sem virtist honum samhent í því að láta okkur líða sem best, innilegustu þökk mína og háseta minna fyrir dugnað hans, alúð og rausnarskap, sem ég bið guð að launa.

Kollsvík við Patreksfjörð 23. Apríl 1913
Árni Árnason"

Sá sem þetta ritar er Árni Árnason, formaður á bátnum Ester, og er búsettur í Kollsvík á þessum tíma.  Hann varð síðar húsmaður áHvallátrum og drukknaði þar átta árum eftir þetta.  Verður nánar vikið hér síðar að uppruna hans og örlögum.

Á þessum árum stóð útgerð frá Kollsvíkurveri í blóma og einnig byggð í Kollsvík.  Árið 1910 voru íbúar í Kollsvík 89, eða jafn margir og í hinum nýstofnaða Patrekshreppi á sama tíma.  Eru þá ótaldir vermenn sem þar dvöldu frá sumarmálum til Maríumessu, svo að í Kollsvík hafa verið vel á annað hundrað manns um vertímann.  Um 25 bátar voru gerðir út frá Verinu, svo þétt hefur bátaröðin verið er allir stóðu á kambi.  Meðal þeirra var bátur Árna Árnasonar; Ester, og bátur Gríms hálfbróður hans; Hnísa.  Líklega báðir fjórrónir, líkt og flestir bátar í Verinu á þessum tíma; um og undir 6 metra langir og upp undir 1,5 tonn að burðargetu.

Hinn 10. apríl 1913 reri Árni sinn fyrsta róður á Ester frá Kollsvíkurveri. Þetta var fyrir sumarmál, en við þau miðaðist byrjun vertíðar. Fjórir voru á Ester þennan dag; Árni var formaður, 27 ára og með honum var Valdimar Össurarson frá Kollsvík, 17 ára.  Ekki vitum við nöfn hinna tveggja, en ætla má að þeir hafi einnig verið búsettir í Kollsvík.  Veður var gott er hrundið var úr vör.  Frammi á Læginu settust menn undir árar, en áður en þeim var difið í sjó tóku menn ofan höfuðfötin og báðu sjóferðabæn að ævafornum sið.  Hvergi á landinu hefur þeim sið verið lengur við haldið en í Kollsvíkurveri að sögn Lúðvíks Kristjánssonar sagnfræðings.  Róið var frá og síðan e.t.v. sett upp segl í vaxandi golu.  Líklega hefur verið siglt norður á Hyrnur, en það eru mið í Blakknesröstinni þar sem sést innmeð fjallshyrnum í sunnanverðum Patreksfirði.  Færum er rennt og fiskur er undir.  

En skjótt skipast veður í lofti.  Á vefnum ismus.is má heyra upptöku af viðtali sem Hallfreður Örn Eiríksson tók við Torfa Össurarson, bróður Valdimars, árið 1978.  Torfi segir:

„Ég man eftir þegar þeir hröktust og komust í borð um togara.  Þar með var bróðir minn, Valdimar. Þeir voru fjórir á þriggja manna fari og það var fyrsti róður; eitthvað um sumarmálin.  Fóru af stað í ágætis veðri; voru komnir á mið og búnir að fá lítilsháttar af fiski.  Þá setti á suðaustan moldbyl og hvassviðri og það var alveg hnífadrægt í land.  Þeir fóru af stað og reyndu að berja á móti veðrinu, en báran var svo mikil að báturinn varði sig ekkert.  Þeir tóku þá það ráð að sigla og reyna að hitta á Kópinn, en það var eina landvonin hjá þeim.  Þegar þeir höfðu litla stund siglt sjá þeir enskan togara og tóku það ráð að lensa undan vindinum  til hans.  Þeir tóku þá um borð og bátinn með.  Voru þeir þar um nóttina og leið vel.  Svo kom togarinn með þá inn á Gjögra og setti þá þar í land.  Fólk heima var orðið vonlítið um þá eftir þessa nótt og átti síst von á að þeir kæmu gangandi á landi en ekki róandi af sjó“.

Hér var heppnin sannarlega hliðholl Árna og áhöfn hans.  Miðað við lýsinguna er allsendis óvíst hvernig siglingin hefði gengið norðuryfir Patreksfjarðarflóann og enn óljósara með landtöku í Kópavík eða Verdölum.  Engan skyldi því undra að hann væri þakklátur Mason skipstjóra og áhöfn hans á Chieftain.  Óvíst er hinsvegar hvort þessi þakkargrein Kollsvíkingsins hefur nokkurntíma ratað fyrir augu Masons kafteins. 

chieftainTogarinn Chieftain hljóp af stokkunum 28.09.1905 í skipasmíðastöð Cook, Welton & Gemmell, smíðaður fyrir The Marine Steam Fishing Co LTD í Hull.  Hann var  278 tonn brúttólestir að stærð; lengd 133,4 fet; breidd 22,3 fet; dýpt 12,3 fet.  Vélin var 70 nettóhestafla 3ja þrepa gufuvél, sem gaf hámarkshraða 10,5 hnúta.  Chieftain var nýttur til herþjónustu 1915-19 sem tundurduflaslæðari með 7,5“ fallbyssu; síðan skráður í Hull og Fleetwood sem fiskiskip, en seldur í brotajárn 1936.  Lítið er vitað um feril Masons Kafteins sem bjargaði Kollsvíkurvermönnum.

Hinsvegar var þetta ekki í fyrsta skiptið sem togarinn Chieftain tók Íslendinga um borð, en hið fyrra kom ekki til af góðu.  Haustið 1910 var hannnn, líkt og fleiri enskir togarar á þeim tíma, að veiðum  á Breiðafirði, innan þeirrar 3ja mílna landhelgi sem Danir og Englendingar höfðu samið um 1901.  Þar varð hann á vegi flóabátsins Varenger, en meðal farþega voru Guðmundur Björnsson sýslumaður Barðstrendinga og Snæbjörn Kristjánsson hreppstjóri í Hergilsey.  Komust þeir við illan leik um borð í togarann, því skipstjóri kom æðandi að þeim með reidda öxi.  Hann lét þó í minni pokann er Snæbjörn reiddi að honum járnstöng.  Skipstjóri neitaði þó að sigla til hafnar hérlendis heldur sigldi til sinnar heimahafnar í Hull, með yfirvöldin innanborðs.  Þar var skipstjóra og srýrimanni sagt upp störfum; útgerðin samdi um háar sektar- og bótagreiðslur og yfirvöld komust heim aftur eftir þriggja daga viðdvöl.  Ekki var þetta í eina skiptið sem íslensku yfirvaldi var „rænt“ á þennan hátt.  Það fékk Eiríkur Kristófersson skipherra að reyna í öðru þorskastríði síðar. 

Ævintýralegur uppruni Árna í Rauðasandshreppi.
Hér er ekki úr vegi að rifja það upp hvernig föðurætt Árna barst til Rauðasandshrepps, en sú saga einkennist af ástum og sjóhrakningum.  Hér er stuðst við frétt í Þjóðólfi 25.07.1877, en ritstjóri blaðsins var þá Matthías Jochumsson skáld.

„Hinn 19.06.1877 sigldi af Hellisandi undir Snæfellsjökli tíróið skip til Flateyjar með fjórum mönnum á, er komu úr veri.  Formaður var Árni Gíslason úr Hergilsey, en meðal háseta var sonur hans Árni á 13.ári.  Sigldu þeir djúpleið, en er þeir höfðu siglt um stund brast á sunnan rokveður með svo miklum sjógangi að ekki mátti leggja skipinu við vindi, heldur sigla ljúft til að verja skipið stóráföllum.  Sáu þeir ekki land fyrr en djúpt af Siglunesi á Barðaströnd.  Var rokið þá upp á það mesta.  Tók formaðurinn þá það ráð að setja skipið beint undan vindi, er þá stóð á austan; vestur fyrir Skor.  Var þar þá allstaðar ófært að landi að leggja sökum brims, og lögðust þeir við dreka á 10 faðma dýpi.  En brátt færðist vindur til útsuðurs svo ófært var að liggja sökum grunnbrota.  Var þá seglbúið með skauti og siglt til hafs, í þeirri von að ná fyrir Skor í bakaslag, en það mistókst.  Var þá kastað dreka, um eina mílu frá landi.  Skipverjar voru allir skinnklæðalausir og drykkjarlausir.  Brauð og smjör höfðu lítilsháttar, en brauðin urðu ónýt af sjógangi.  Urðu þeir því mjög máttfarnir af þorsta hungri og vosbúð; þar sem alltaf mátti standa í stampaustri.  Um sólarlag á föstudagskvöldið slitnaði skipið upp.  Átti þá að tréreisa, en þá voru menn svo máttfarnir og þrekaðir að það tókst ekki.  Bárust þeir svo að landi af straum og vindi og hittu á Bæjarós.  Var í honum mikill aðfallsstraumur svo skipinu var stýrt gegnum hið ógurlega brim, og náðu þar loks landi“.

Formaðurinn reyndist hinn þrautseigasti og taldi kjark í háseta sína.   Eftir viku veru á Rauðasandi hjá Ara Finnssyni á Bæ og Jóni Ólafssyni á Sjöundá, héldu þeir heimleiðis, nema pilturinn Árni, sem lá veikur eptir sjóvolkið.  Sá Árni Árnason (18.05.1862-19.02.1899) sem þá varð eftir á Sjöundá sumarið 1877, er faðir Árna þess sem um getur hér í upphafi.  Hann fór ekki aftur á heimaslóðir heldur fann sér konuefni og bústað vestra.  Átta árum eftir sjóvolkið, eða árið 1885, giftist hann Dómhildi Ásbjörnsdóttur Ólafssonar, en hún var 4. ættliður frá Einari Jónssyni í Kollsvík.  Bjuggu þau á Láganúpi hjá Ásbirni Ólafssyni föður hennar og eignuðust 4 börn:  Jóhanna Guðbjörg giftist Bæring Bjarnasyni og urðu afkomendur þeirra m.a. fjölmennir á Patreksfirði; Árni sem frá var sagt hér í upphafi; Ásbjörg, dó sem ungbarn og Ásbjörn Helgi Árnason sem bjó í Tröð í Kollsvík1921-1952; síðan á Gjögrum en síðast í Reykjavík. Sonur Árna með Hallgerði Grímsdóttur var Grímur, síðar bóndi á Grundum.

Drukknun Árna Árnasonar (yngra).

Árni, sá sem hér var getið í upphafi, settist að á Hvallátrum árið 1917 með konu sinni Þorbjörgu Ágústu Guðjónsdóttur og bjuggu þau þar þurrabúi í 4 ár.  Börn þeirra voru Aðalheiður Lilja 1915-1924) og Jón Gísli (1917-1997).  Þau urðu örlög Árna að hann drukknaði við Bjarnanúp 27.05.1921.  Verður hér gluggað í frásögn af þeim atburði í sjóslysaskrá Trausta Ólafssonar frá Breiðavík, sem birtist í Árbók Barðastrandasýslu 2003:

„Þeir voru saman á báti; Árni og Guðbjartur Þorgrímsson bóndi á Látrum, sem kvæntur var Guðmundínu Ólafsdóttur (Sá er ÖG segir frá í „Þokuróðri“ annarsstaðar hér á síðunni).  Voru þeir á svonefndum Flosa, sem er aðallega steinbítsmið á Látravík og dregur nafn sitt af því að Flosagil í Breiðavík ber fyrir Bjarnanúp.  Aðrir bátar frá Látrum reru suður fyrir Bjargtanga.  Breiðvíkingar voru einnig á sjó suður á Látraröst; meðal þeirra var Grímur Árnason, hálfbróðir fyrrnefnds Árna.  Einnig þeir bræður Guðmundur og Ólafur Haraldssynir.  Þennan dag var gott sjóveður; fremur hægur suðaustanvindur, en í þeirri átt er nokkurt misvinda fram af Núpnum.  Þegar í land var haldið sigldu þeir Árni og Guðbjartur eins og tók norður undir Bjarnanúp og ætluðu svo að taka annan bóg suður eftir.  Þegar borið var um var ekki meira kul en það að þeir ákváðu að róa báðir undir og binda skautið.  Tveir sandpokar voru í skektunni og stakk Árni upp á því að hella útbyrðis úr þeim poka sem í framrúmi var, svo báturinn yrði léttari til róðurs; og var það gert.  Ekkert bar svo til tíðinda, fyrr en allt í einu að vinhviða skellti bátnum á hliðina og fór hann þegar á hvolf.  Guðbjartur losaði dragreipið er hann sá hvað verða vildi, en það var um seinan.  Guðbjartur náði þegar taki á bátnum og komst á kjöl en Árni, sem reri í afturrúmi, lenti svo langt frá bátnum að hann náði ekki til hans.  Sá Guðbjartur aðeins útrétta hönd Árna upp úr sjónum í átt til bátsins.  Þetta mun hafa skeð um það bil fram af miðjum Bjarnanúp.  Rak nú bátinn norður eftir, en síðan suður á við er straumaskipti urðu.  Meðan á þessu stóð sá Guðbjartur til báts Gríms Árnasonar er hann hélt vera á leið í Breiðavíkurver, og talsvert fjær landi.  Sá Grímur eitthvað er hann hélt vera lóðadufl þeirra Látramanna og sinnti því ekki frekar.  Ekki er kunnugt um að aðrir sem voru á sjó yrðu neins varir.  Þær Miðbæjarsystur, Sigríður og Jóna, dætur Erlends Kristjánssonar, áttu þenna dag leið fram í Látradal.  En á leið sinni upp frá bænum heyrðu þær hóað í sífellu og sáu við nánari athugun eitthvað á reki skammt undan Nesi svonefndu, sem er sunnan við Bjarnanúp.  Sneru þær þegar við og athuguðu í kíki sem til var á Miðbæ hvað þetta kynni að vera.  Sást þá þegar hvers kyns var.  Hljóp Jóna beina leið niður á Rifið til föður síns, sem þá var nýlentur.  Var verið að setja bátinn upp, en óðara brugðið við og haldið í áttina til Guðbjartar.  Hann var fluttur í land, en síðan var báturinn sóttur.  Hafði Guðbjartur verið um 2 klukkustundir á reki, en það sást á úri sem stöðvast hafði.  Guðbjartur hresstist vonum fyrr.  Var hann þrekmaður með afbrigðum“.

Eftir slysið flutti ekkjan, Þorbjörg Ágústa Guðjónsdóttir, til móður sinnar sem einnig var þá orðin ekkja á Hvallátrum.  Þorbjörg giftist síðar aftur; Finnboga Lárussyni bónda í Hvammi í Dýrafirði. 

 

Hildarróðurinn

jon torfasonJón Torfason (21.01.1882-12.11.1971) fæddist í Kollsvík og ólst þar upp.  Sonur Torfa Jónssonar útvegsbónda og Guðbjarar Ólínu Guðbjartsdóttur.  Torfi drukknaði í Snorralendingu í Kollsvíkurveri 05.04.1904, er Jón var 12 ára.  Guðbjartur Guðbjartsson, síðar bóndi í Tröð og á Láganúpi, kom systur sinni til aðstoðar, sem þá varð ekkja með 13 barna hóp.  Jón tók við búinu er hann óx úr grasi og var bóndi í Kollsvík til 1944; flutti þá að Vatnsdal og bjó þar til 1948 er hann flutti á Patreksfjörð og bjó þar síðan.  Hann giftist Bergþóru Egilsdóttur frá Sjöundá og eignuðust þau 7 börn.

Þessi frásögn Jóns birtist í Árbók Barðastrandasýslu 2020, skráð af Björgvin Óla, syni Jóns, nánast orðrétt.  Hér lýsir Jón viðburðarríkum degi, að öllum líkindum 30.-31. júlí 1909, er hann var 17 ára.  Innskot í svigum til skýringar eru eftir Valdimar Össurarson, ásamt eftirmála um fólk sem nefnt er. 
----------------------------

Það stóð svoleiðis á að hún Hildur (Magnúsdóttir), konan hans Guðbjartar Guðbjartssonar, var ófrísk og átti hún að fara að fæða.   (Fríða; sjá hér á eftir).  Hún var búin að vera veik nokkurn tíma og tvísýnt að hún gæti átt barnið.  Þá vildi Anna móðir hennar endilega að það yrði sent eftir lækni.  Þá var nú enginn læknir nema á Patreksfirði.  Þá var Klásína Eiríksdóttir í Tungu yfirsetukona. 

Við systkinin vorum búin að vera í heyskap allan daginn þegar Anna kemur til mín.  Það byrjaði þannig að þeir fóru fjórir róandi, á bátnum sem þeir Ólafur heitinn Halldórsson (á Grundum) og Guðbjartur áttu saman (Rut, sem GG gerði síðar út með sonum sínum), að sækja lækni.  Þetta var Sigurður Magnússon læknir.  Þegar þeir eru komnir rétt fyrir Nesið (Blakknes) þá fæðist barnið og allt er í besta lagi.  Þá kemur Anna til mín niður á tún og biður mig að fara inn í Hænuvík og stoppa þá þegar þeir koma út eftir aftur, svo ekki væri verið að ómaka lækninn út í Kollsvík.

Ég fer strax af stað og er nú ríðandi.  En þegar ég kem á Hálsinn, í skarðið við Hænuvík, þá eru þeir að sleppa á bátnum inn fyrir Háanesið (innan við Sellátranes).  Svo ég fer til Jóns heitins Jóhannssonar sem var mikill vinur Hildar.  Ég segi honum alla málavexti; að það þyrfti að sitja fyrir þeim þegar þeir kæmu til baka frá Vatneyri.  „Jú, jú, ég verð að gera þetta fyrir Hildi“ segir hann.  „Þá verð ég að gera þetta fyrir Guðbjart“, segi ég.  Svo það varð að samkomulagi.  „En eigum við ekki að biðja hann Jón Ívarsson að lána okkur julluna“?  Það var lítill bátur sem Jón Ívarsson átti.  Þetta var sumarbáturinn hans (ekki vertíðarbátur).  „Nei, nei, þess þarf ekki.  Ég skal ábyrgjast það að við megum taka skektuna“. 

Svo við setjum niður bátinn og förum að róa til að hafa tímann fyrir okkur.  Ég var nú svona hálfþreyttur eftir allan daginn og leggst fyrir í bátnum og steinsofna.  En Jón fer að renna, svona að gamni sínu, og draga smáfisk þar sem við vorum svona rétt framan við netalagnirnar.  Við vorum búnir að vera þarna lengi þegar Jón vekur mig og segir:  „Ég skil nú ekkert í þeim, að þeir skuli ekki fara að koma“.  Þá segi ég við hann:  „Það er nú ekkert víst að þeir fari hérna út með vesturlandinu.  Það væri nú rétt að athuga hvort þeir fari ekki bara út með norðurlandinu, í svona logni og góðu veðri“.  Þegar við vorum að enda við að tala um þetta sjáum við bát koma fram úr Tálknatánni.  Þá segi ég við hann:  „Þarna eru þeir að fara út; um miðjan Flóann“.  „Við náum þeim aldrei“, segir Jón.  „Það er bara að taka nógu skarpan róður“, segi ég. 

Og við förum af stað, en oft varð ég að vægja (draga úr átaki).  Við náðum þeim nú þarna, og þegar við komum nær bátnum skiljum við ekkert í því að þeir eru ekki nema þrír og enginn læknir með þeim.  Ég segi þeim undireins hvers kyns er; að barnið sé fætt og það þurfi engan lækni.  Það var nú Ólafur Halldórsson sem varð fyrir svörum, og hann var nokkuð byrstur og segir:  „Það er nú orðið of seint, því það er verið að senda bát eftir honum norður á Bíldudal.  Össur (Guðbjartsson, maður Önnu í Kollsvík og móðurbróðir Jóns Torfasonar) er farinn með mótorbát norður á Bíldudal og ætlar með lækninn vestur í Kollsvík; beina leið fyrir“.  „Hvað á nú að gera“? segir Ólafur.  Þá var nýkominn sími á Patreksfjörð og hægt að hringja norður á Bíldudal.  En þeim þótti nú leiðinlegt að þurfa að róa inn á Patreksfjörð aftur.  Í því kemur mótorbátur fyrir Blakksnesið og stefnir beint inn á fjörð.  Ólafur segir:  „Við skulum reyna að ná á þennan bát, og þá getur einn okkar farið inneftir, og þá getum við hinir haldið áfram úteftir“.  Guðbjartur veifar til bátsins og biður þá að taka mann inn á Patreksfjörð.  Það var velkomið, og Guðbjartur verður fyrir valinu að fara með bátnum.  Hann fer inn á Patreksfjörð og hringir norður.

Ég frétti það nú ekki fyrr en seinna, en þegar þeir á mótorbátnum voru komnir norður á Bíldudal þá kemur Sigurður Magnússon læknir fram á bryggjuna og segir að barnið sé fætt og þeir fari því til baka á Patreksfjörð.  En Ólafur og Palli heitinn Bjarnason ætla að róa á skektunni út í Kollsvík.  Ólafur spyr mig hvort ég vilji ekki koma með þeim.  Ég segi að það væri nú ágætt, en ég væri með hest í Hænuvík; og svo þyrfti ég að hjálpa Jóni að setja skektuna.  „Jæja, við dönglum þetta í logninu“, segir hann.  Og þeir fara af stað og ég fer í land, og ég var þarna í dálítinn tíma.  Ég held ég hafi sofnað í rúminu hans Jóns á meðan hann var að hita kaffi.  Svo fer ég af stað.  Fólkið var um það bil að fara á fætur þegar ég kom, en ég ákveð að leggja mig svona fram undir hádegi; þeir voru þá ekki komnir Palli eða Ólafur.  Svo ég sef til hádegis, en þeir eru ekki þá komnir.  Mér er farið að dauðleiðast eftir þeim; að þeir séu ekki komnir, svona í blankandi logninu. 

Svo loksins koma þeir, en ég skil ekkert í því hvað báturinn gengur illa; eins og það sé ekkert róið.  Þá sé ég að þeir eru með eitthvað aftan í bátnum.  Jæja; ég fer ofan í fjöru þegar þeir koma, og þá sé ég að þeir eru með stærðar útsel aftan í.  Palli voðalega kátur, eins og hann var vanur þegar einhver veiðiskapur var annars vegar.  Og ég segi við hann: „Þið hafið þó ekki drepið hann með hnefunum“?!  Palli segir:  „Það er nú saga að segja frá því.  Þegar við komum út undir Klaufatangana; það eru tangarnir utan til við Láturdalinn, þá sjáum við þar útsel stóran; steinsofandi“.  Og hann segir við Ólaf:  „Nú ætla ég að biðja þig að lenda með mig hérna í Láturdalnum.  Ég ætla að fara eftir rifflinum; þú getur beðið hérna og haft auga með selnum á meðan“.  Og hann á sprettinn, en það er um klukkutíma gangur yfir í Kollsvík.  Og hann hleypur alla leið yfir í Kollsvíkurver og til baka aftur; og alltaf bíður selurinn steinsofandi.   Og þarna fara þeir fram og skjóta selinn, en gátu ekki innbyrt hann, því hann var svo stór.  Það var um tuttugu fjórðunga (fjórðungur = 4,96 kg) spik á honum.

Svona fór um sjóferð þá.
--------------------------------

Fólk sem Jón nefnir í frásögninn ( viðauki VÖ)

anna gudrun jonsdottir
Anna Guðrún Jónsdóttir (22.02.1872-02.05.1967).  Dóttir Jóns Torfasonar bónda á Hnjóti, síðar Kollsvík, og Valgerðar Guðmundsdóttur.  Giftist Össuri A. Guðbjartssyni (sjá hér síðar).  Þau bjuggu í Kollsvík og á Láganúpi 1895-1927 og eignuðust 12 börn.  Fluttu síðar í Dýrafjörð og bjuggu þar til æviloka.  Síðast dvaldi hún í Neðri-Hjarðardal.

hildur magnusdottirHildur Magnúsdóttir (16.08.1889-31.01.1967).  Dóttir Önnu Guðrúnar með Magnúsi Árnasyni á Hnjóti, sem þá var giftur annarri konu.   Hildur ólst að mestu upp í Kollsvík.  Giftist Guðbjarti Guðbjartssyni og áttu þau 10 börn.  Þau bjuggu í Tröð 1910-1920; að Grund í Láganúpslandi 1921-1927, en síðan á Láganúpi.  Hildur veiktist 1956 og dvaldi síðustu árin hjá Ingvari syni sínum á Stekkjarmel og í Kollsvík.

gudbjartur laganupi yngriGuðbjartur Guðbjartsson (15.07.1879-01.10.1970) var sonur Guðbjartar Ólafssonar og Magðalenu Halldórsdóttur.  Hann ólst upp í Kollsvík.  Þegar Torfi, faðir Jóns, drukknaði 1904 varð hann stoð og stytta ekkjunnar, systur sinnar.  Hann giftist Hildi 1909, sama ár og hér um ræðir.  Glöggur bóndi og lengi formaður á bátnum Rut. 

Fríða Guðbjartsdóttir (30.07.1909-26.08.1927) er barnið sem fæddist og varð tilefni þeirra viðburða er hér segir frá.  Hún var fyrsta barn þeirra Hildar og Guðbjartar.  Hún veiktist af höfuðsjúkdómi 17 ára gömul og lést árið eftir; stuttu eftir komu fjölskyldunnar á Láganúp.

olafur halldorsson grundumÓlafur Halldórsson (21.12.1871-11.12.1951) var sonur Halldórs Ólafssonar útvegsbónda á Grundum og Halldóru Mikalínu Halldórsdóttur.  Bjó alla tíð á Grundum, utan síðustu ára í Vatnsdal.  Í félagi við Guðbjart gerði hann út bátinn Rut.  Formaður á Rut og á hákarlaskipinu Fönix.  Reyndi björgun er Torfa hlekktist á í Snorralendingu, en án árangurs.  Bókbindari, hreppsn.maður og meðhjálpari. Ógiftur og barnlaus

ossur anton gudbjartssonÖssur Anton Guðbjartsson (31.10.1866-10.04.1950); bróðir Guðbjartar, eiginmaður Önnu Guðrúnar; og þannig bæði stjúpi og mágur Hildar.  Ólst upp í Kollsvík; bóndi þar 1895-1914 og formaður í Verinu.  Síðan á Láganúpi til 1927, er hann fluttist að Mýrum í Dýrafirði.  Var á báti Torfa (föður Jóns) er honum hlekktist á 1904 og Torfi fórst. 

Páll Bjarnason (19.12.1855-16.09.1929).  Bóndi Hnjóti 1890-1894; Neðri-Tungu 1900-1904, síðast húsmaður Hvalskeri.  Á þessum tíma var hann á Hvalskeri, en reri í Kollsvíkurveri. 

Jón Jóhannsson (01.08.1867-24.09.1914) bóndi í Hænuvík 1897-1914.  K; Ingveldur Ívarsdóttir; 2 börn. 

Jón Ívarsson (08.03.1890-25.04.1965).  F. í Hænuvík og bóndi til 1932 síðan vkm Patr.  Ókv. barnlaus. 

rut a siglinguGuðbjartur Guðbjartsson á siglingu á Rut, en vafalítið var farið á henni í þennan leiðangur, undir formennsku Ólafs.  Rut var líklega smíðuð 1898, en vél kom ekki í hana fyrr en 1943, og er myndin tekin síðar.  Um 1,5 tn að stærð.  Guðbjartur og Ólafur höfðu félagsútgerð um Rut til 1925, en síðan gerði Guðbjartur hana út með sonum sínum.  Henni var ekki róið eftir 1960 og lenti á báli um 1970.

 

Þokuróður

ossur


Össur Guðbjartsson (19.02.1927 - 30.04.1999) ólst upp á Láganúpi.  Hann lauk búfræðinámi og framhaldsnámi á Hvanneyri og starfaði eftir það við barnakennslu í Rauðasandshreppi.  Hann tók við búi á Láganúpi af foreldrum sínum og bjó þar alla sína tíð.  Össur gegndi fjöldamörgum trúnaðarstöfum og félagsmálastörfum fyrir sína sveit; var m.a. hreppsnefndaoddviti í 16 ár.  Einnig var hann fulltrúi Vestfirskra bænda og stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða.  Hann var giftur Sigríði Guðbjartsdóttur frá Lambavatni, sem einnig var ættuð úr Kollsvík, og eignuðust þau 5 syni.   Þátt þennan skráði Össur eftir frásögn Guðbjarts Þorgrímssonar, bónda á Hvallátrum, og birtist hann í jólablaði Víkings 1953.  

Hvallátrar í Rauðasandshreppi heitir vestasta byggð á Íslandi.  Þaðan hefur frá ómunatíð verið sóttur sjór á smábátum, og síðar á tveggja til þriggja smálesta trillumbátum.  En þegar sá atburður gerðist, sem nú skal frá sagt, voru ekki komnir vélknúnir bátar, né áttavitinn kominn í hverja fleytu er á sjó var sett; enda hefði þá sennilega ekkert markvert skeð í þessari sjóferð.

Það var laugardaginn 25. september 1909, að fimm litlir árabátar lögðu af stað í fiskiróður frá Látrum, um klukkan níu að morgni.  Voru það m.a. Guðbjörg; norsk skekta, talin vera tveggja manna far.  Eigandi og formaður var Guðbjartur Þorgrímsson.  Með honum voru á bátnum Hálfdán Árnason mágur hans og mállaus maður, Kristján Jóhannesson, sem báðir áttu heima á Hvallátrum.

Annar báturinn var nefndur Rauðka; heldur stærri en bátur Guðbjarts.  Eigandi hennar og formaður var Erlendur Kristjánsson.  Með honum á bátnum Kristján Sigmundsson og Árni Jónsson, en báðir voru vinnumenn Erlendar.  Einnig Gestur Jósefsson frá Kollsvík; hann var gestkomandi að Hvallátrum og reri þennan eina róður með Erlendi.  Ekki hirði ég að geta annarra báta, með því að þeir koma hér lítið við sögu.  Ekki var venja að hafa mat með sér á sjóinn; aðeins venjulega sýrublöndu til drykkjar, því stutt var útivistin vanalega.

Veður var hið besta; sunnan gola, sem var þægilegur byr.  Var nú siglt fram á Látraröst; um tuttugu mínútna siglingu.  Til hafsins var svartur þokubakki sem virtist færast hægt nær.  Um slíkt var lítið skeytt, en tekið að renna er komið var til miða.

En þegar bátarnir höfðu skamma stund verið á fiski, gerði niðaþoku svo að hvergi sá til lands.  Einnig hafði sunnangoluna lægt og alveg var ládeyðu sjóleysa, svo að eftir engu var hægt að átta sig.  Fiskur var sæmilega ör, svo að ekki var hugsað til landferðar.  Nú vildi svo til að þokunni létti í bili, og sást þá til lands.  Fór þá Gestur Jónsson frá Látrum af stað í land, en hann réði fyrir einum þeirra fimm báta er róið höfðu.  Eftir skamma stund  var komin sama þokan aftur; svo svört að bátarnir hurfu nú hver af öðrum í þokuna.  Var nú klukkan orðin tólf á hádegi.

Vildin á fiskinum hélst og var því látið reka frá og suður, en suðurfall var á.  Ekki sáu menn á Guðbjörgu neinn af hinum bátunum vegna þokumyrkurs.  Þá var það, er menn voru undir færum, að þeir urðu varir við snöggan kipp á bátinn.  Varð formanni litið á bakborðssíðu bátsins, en þar flæddi sjór inn því komið höfðu tvær samhliða sprungur á annað umfar að neðan, og borðið gengið inn á milli þeirra.  Varð honum það þá fyrir, að hann þreif gogg er þar lá; sló borði út, og minnkaði lekinn nokkuð við það.  Hásetarnir tveir sem með voru tóku nú að ausa, og kom þá í ljós að lekinn var svo mikill að ekki mátti sleppa austurtrogi.

Lét þá formaður rétta sér bræðingskrús er með var, og makaði bræðingi á sprungurnar.  Minnkaði lekinn svo við það að þeir gátu farið að renna.  Ekkert vissu þeir félagar af hverju högg þetta mundi hafa stafað, og reyndu engum getum að því að leiða.  Veður var gott, nema hvað þokubikið var slíkt að ekki sást nema fáar bátslengdir frá bátnum.

Eftir tímanum átti að vera farið að reka norður, og því var farið að hugsa til landferðar.  Þeir félagar á Guðbjörgu vissu það eitt að þeir voru einhversstaðar norðvestur af Bjargtöngum.  Var nú aftur kominn svolítill vindkaldi, og reiknuðu þeir með sömu vindstöðu og verið hafði í byrjun; sem síðar reyndist ekki rétt.  Voru nú undin upp segl á Guðbjörgu, og var það ætlunin að sigla undir Bjargtanga og hafa þar landkenningu.

Ekkert bar nú til tíðinda fyrr en þeir félagar sjá bát er sigldi á eftir þeim, og nálgaðist óðum.  Reyndist það vera bátur Erlendar frá Látrum.  Náði hann þeim von bráðar, því hans bátur var miklu hraðsigldari en Guðbörg.  Er hann nær þeim segir hann við þá, að þeir skuli ekki missa sjónar hvor af öðrum fyrr en landkenning sé fengin, og var það fastmælum bundið.  Beið hann nú eftir Guðbjörgu í hvert sinn sem hann var kominn svo langt að hann var að því kominn að hverfa í þokuna.  Var nú siglt þannig nokkurn tíma; þar til þeir voru búnir að sigla ca. fimm tíma.  Kallar þá Guðbjartur til Erlendar að ekki þýði að sigla lengur, því að þeir hljóti að vera á rangri leið þar sem þeir séu ekki komnir að landi; best sé að leggjast.  Féllst hann á það en spyr um leið við hvað eigi að leggjast, þar sem engin legufæri séu meðferðis.  En í Guðbjörgu voru tveir sandpokar sem kjölfesta.  Var nú Guðbjörgu lagt við sandpokana, og handfærin notuð sem legufæri.  Bátur Erlendar var bundinn aftan í Guðbjörgu, þar sem enn hélst sæmilegt veður.  Er þessu var lokið mun klukkan hafa verið um tíu síðdegis.  Reyndist dýpið þarna vera um 40 faðmar, og var því auðséð að þeir höfðu harla lítið nálgast land frá því að siglingin hófst.  Var síðan andæft framá vegna straums, svo ekki drifi.  Leið svo fram til kl 4 um nóttina.

Heyrðu þeir þá eins og vindsuðu, og um leið fór að bera á smábáru sem var mjög óð; eins og undan vindi.  Ekkert þýddi samt að hreyfa sig vegna náttmyrkurs.  Leið svo fram til klukkan sex um morguninn, að birta tók, en stöðugt óx báran.  Sáu þeir félagar þá land, sem reyndist vera Skorin.  Vindurinn reyndist vera af suðvestri.  Var nú ekki til setu boðið og tekið að seglbúa; sem óðar var búið, og sigling hafin.  Var nú stefnt út í Bugtina; á Bjargtanga.

Er þeir félagar lögðu af stað, segir Erlendur að hvassar muni er utar dragi í Bugtina.  Reyndist það og svo, því að þeim mun lengra sem úteftir kom jókst vindur, og var nú kominn talsverður undirsjór.  Var Erlendur nokkuð á undan þeim á Guðbjörgu, þar sem bátur hans var mun hraðskreiðari, sem áður er sagt.  En þegar um það bil var hálfnuð leið frá því sem þeir lágu um nóttina að Bjargtöngum, beið hann eftir þeim á Guðbjörgu.  Lagði þá Guðbjartur til að þeir færu í Keflavík og lentu þar; með því að ófært mundi fyrir Bjargtanga, yfir Látraröst.  Kom þá til umræðu hvort lendandi mundi í Keflavík, sem var eini lendingarstaðurinn sunnan Tanga; og sýndist sitt hvorum.  Að lokum var það borið undir Hálfdán, sem var háseti á Guðbjörgu, en hann var kunnugur í Keflavík.  Taldi hann að það mundi fært.  Var nú lensað áleiðis til Keflavíkur.  En er þeir komu inn undir Látrabjargið var svo hvasst að sjór rauk.  Ferðin gekk samt vel, og var siglt hiklaust gegnum brimgarðinn og í lendingu í Keflavík.  Var þá liðinn sólarhringur frá því þeir fóru í róðurinn.

Sögðu kunnugir menn, að klukkutíma seinna myndi enginn bátur hafa getað lent í Keflavík.  Hinum sjóhröktu mönnum var tekið tveimur höndum af heimamönnum; þeim Sumarliða Bjarnasyni og konu hans, Guðrúnu Ingimundardóttur; bróður Sumarliða, Bæring Bjarnasyni og konu hans, Jóhönnu Árnadóttur, sem þá bjuggu í Keflavík.  Fengu þeir hina bestu aðhlynningu.  Eftir tiltölulega skamma viðdvöl héldu þeir heimleiðis að Látrum; yfir Látraheiði.  Er þeir höfðu farið um það bil hálfa leiðina mættu þeir manni.  Var þar kominn Jón Guðjónsson frá Breiðuvík, en hann hafði verið fenginn til þess að fara út á Látrabjarg og skyggnast eftir því hvort hann yrði nokkurs vísari um afdrif þeirra félaga, sem heima á Látrum voru nú taldir af.  Nærri má geta að hann hafi þóst þá úr helju heimt hafa er hann mætti þeim öllum þarna á fjallinu; heilum á húfi, sem hann bjóst ekki við að sjá framar í þessu lífi. Ekki urðu minni fagnaðarfundir er þeir félagar komu heim.  Vissan um að þessir menn væru farnir fyrir fullt og allt, hafði þegar sett svip sinn á fólkið á Látrum.  Það var að fjara út síðasta vonin um að þeir kæmu nokkurntíma heim aftur þegar þeir komu; en þeim mun innilegri varð gleðin yfir að heimta þá aftur heila á húfi.

Brimlending

thordurÞórður Jónsson (19.06.1910 – 12.07.1987) var fæddur og uppalinn á Hvallátrum.  Hann var alla sína ævi bóndi á Húsabæ á Hvallátrum.  Þórður vandist snemma bjargmennsku og var fær sigari.  Hann var mikill félagsmálamaður og tók að sér fjölmörg trúnaðarstörf fyrir sína sveitunga.  Var m.a. lengi hreppstjóri í Rauðasandshreppi.  Þjóðkunnur varð Þórður einkum fyrir störf sín á vettvangi slysavarna.  Hann var formaður björgunarsveitarinnar Bræðrabandsins þegar togarinn Dhoon strandaði undir Látrabjargi, og það var ekki síst góðri stjórn hans að þakka hve björgun skipverja tókst giftusamlega, þó þar hafi margir lagt hönd að.  Þórður stundaði sjómennsku, líkt og tíðkaðist með Útvíknamenn.  Hér lýsir hann róðrum með hinum farsæla formanni Árna Dagbjartssyni í Kvígindisdal.  Greinin birtist í Sjómannablaðinu Víkingi árið 1957.

„Jæja!  Komnar til að syngja fyrir mig;og eruð þrjár.  Glæsilegt tríó, það!  Og hvað ætlið þið svo að syngja blessaðar;   Ólafur reið með björgum fram?  Nei mínar kæru; það lag og ljóð á aldrei að syngja fyrir sjómenn, því þá er óðar komið rok“.  „Já þess vegna á að syngja það einmitt í dag“.  Hva.. hvaða bölvaður gauragangur er þetta þarna...?

„Ætlarðu ekki að vakna, drengræfill?  Stoppaðu klukkufjandann“!  Það var formaður minn, Árni Dagbjartsson (mynd), sem talaði og ýtti við mér.  Mig hafðiarni dagbjartsson verið að dreyma.  Ég þreif vekjaraklukkuna af pjáturdiskinum er ég staðsetti hana venjulega á til að fá hljóm hennar sem mestan, og skaut henni undir sæng mína; því tippi það er þagga skyldi niður í henni var brotið.  Einnig var af henni annar fóturinn og glerið.  Ræksnið sem var að gefa mér til kynna að klukkan væri sex að morgni hafði fengið þessi áföll af því að hún lenti ekki alltaf undir sæng minni er hún hóf söng sinn, heldur á ómýkri stað.

„Ætlarðu ekki að hafa þig í að kveikja á prímusnum drengur; það er naumast að þú hefur sofnað“!  kvað aftur við í formanninum.  „Já, hann hvessir í dag Árni minn“, sagði ég um leið og ég strauk stírurnar úr augunum.  Svo fór ég að átta mig á veruleikanum.  „Af hverju heldurðu það“? spyr Árni.  Af því að mig var að dreyma stelpur; þær voru þrjár.  Bölvuð klukkan að vekja mig; þetta leit vel út“.  „Ef hann gerði nú alltaf rok þegar þig dreymir um kvenfólk Doddi minn, þá væri nú ekki mikið um sjóferðir frá Kvígindisdal“, sagði Árni um leið og hann reis upp í rúminu; opnaði gluggann; stakk höfðinu út og spýtti í löngum boga út á mölina fyrir neðan.  Ég hafði nú kveikt á prímusnum, sem stóð á kassa við rúm mitt, og sett ketilinn yfir.  Kaffikannan stóð einnig á kassanum, svo og annað sem til kaffidrykkju þurfti.  Árni lokaði glugganum; leit á barómetið; sló á það með tveim fingrum hægri handar; ók sér svolítið en stakk sér svo undir sængina meðan hitnaði á katlinum.  Það gerði ég einnig.  „Hvernig líst þér á hann“? spurði ég syfjulega.  „Það er besta veður eins og er, og getur orðið það í dag.  Mælirinn hefur fallið og sjáanlega er norðanátt í aðsigi, en hann er sjólaus ennþá“.  Svo fórust formanninum orð, en hann var mjög veðurglöggur. 

Þetta gerðist á áliðnu sumri 1928.  Og við vorum staddir í sjóbúðinni í Kvígindisdal.  Tveir bátar voru gerðir út þaðan um vorið.  Snæbjörn Thoroddsen  átti annan og hét sá Otur.  Var Árni formaður hans.  Sigurður bróðir Snæbjarnar átti hinn bátinn sem hét Kári, og var Sigurður sjálfur formaður.  Bátarnir voru af sipaðri stærð, eða um þrjár lestir.  Sigurður var hættur að róa sínum bát, en ætlaði nú að róa með Árna, ásamt einum háseta sinna; Guðjóni Jóhannessyni.  Og ég, sem þessar línur skrifa, var einn eftir af hásetum Árna; aðrir hásetar voru farnir heim úr verinu.  Um vorið og fram til þessa var róið með línu og beitt kúfiski.  Nú skyldi róa með handfæri.  Þótti okkur Guðjóni, sem vorum strákar á svipuðum aldri og kom vel saman, gott að vera lausir við línuna og kúfiskinn. 

Við vorum því orðnir fjórir á sjóbúðarloftinu í Kvígindisdal, er vakna áttum til sjóferðar þennan morgun.  Nú kvað við skerandi blístur um alla búðina.  Það var flautan í stút ketilsins sem sagði til sín.  Þetta var nefnilega flautuketill; mesta þing.  Við þetta hljóðmerki fór að koma hreyfing á mannskapinn.  Ég hellti uppá könnuna og tilkynnti að kaffið væri tilbúið.  „Eiturbununa tek ég sjálfur, en gerið þið svo vel“.  Árni seildist eftir könnunni; svo vatt Guðjón sér framúr og sótti kaffi handa sér og sínum formanni.  Verkoffort okkar stóðu fyrir framan rúmstokkana.  Þurftum við ekki annað en lyfta lokunum til að ná í það er við þurftum með kaffinu.  „Var þig að dreyma stelpur Árni minn“? spyr Sigurður og kveikir sér í sígarettu.  „Mig; ekki aldeilis!  Það var drenginn sem var að dreyma eitthvað kvenkyns eins og vant er.  Eða var ykkur kannski að dreyma kvenfólk“?  „Ekki mig, sem betur fer“, segir Guðjón.  „Heldurðu að veðrið verði gott í dag, Árni“? spyr Sigurður.  „Það verður það framan af deginum að minnsta kosti“ sagði Árni og snaraði sér fram á stokkinn; fór með hendina niðurmeð rúmbríkinni og náði í rjólbita; stubba utan af honum og beit í, en stakk honum svo niður með bríkinni aftur.  Þá fór hann að tína á sig spjarirnar, og það gerðum við einnig.

Innan skamms vorum við klæddir og komnir í stígvélin.  Við tókum til fyrir okkur nestisbita; helltum kaffinu sem eftir var í könnunni á hitaflöskur og höfðum þær einnig með okkur á sjóinn.  Árni seildist aftur niðurmeð rúmbríkinni; tók upp rjólbitann; dró úr honum tvo toppa; rakti utanaf honum kvartilsbút sem hann skar af og stakk í vasann.  Svo setti hann bitann á sinn stað og breiddi yfir rúmið.  „Ekki líst þér vel á hann í dag; það sé ég af tóbaksögninni“, sagði ég og skaut mér niður af loftskákinni.

Þegar út úr búðinni kom litu allir til lofts, svo sem venja er til.  Loft var heiðskýrt, að öðru leyti en því að dimmt ský var yfir Patreksfjarðarbotninum norðanverðum, en hár og fjarlægur þokubakki til hafsins; logn og sjólaust að heita mátti.

Árni var fyrstur að bátnum; stakk í neglunni og leit yfir bátinn; hvort allt væri með.  Við Guðjón lögðum hvalbeinshlunna fyrir aftan bátinn, með um meters millibili.  Svo skvettum við á þá sjó, en við það urðu þeir sleipir.  Svo röðuðum við okkur á bátinn og felldum skorður undan.  Tveir bökuðu aftan; einn studdi miðskips og einn ýtti að framan.  Háflóð var, og því stutt að setja.  En báturinn rann heldur treglega til sjávar að þessu sinni, svo það kostaði okkur allmikið erfiði.  Siggi hafði orð á því að báturinn myndi hræðast draumdísir mínar.   Ég kvað trúlegt að bæði bátur og menn myndu fá nóg af þeim áður en við kæmum hér í vörina aftur, eftir ljóðinu er þær vildu syngja.  Loks flaut þó báturinn og við stukkum uppí og ýttum frá landi.  Árni renndi fyrir stýrinu; tók sveifina og stakk í stýrisaugað.  Svo settist hann á skutþóftuna og hafði sveifina undir hendinni, meðan hann náði í tóbakstölu úr vasa sínum.  Ég setti vélina í gang.  Þetta var OKK sólóvél, sem í þá daga þótti mikil og góð vél og gaf bátnum góða ferð. 

Er bátnum hafði verið snúið í stefnu út Patreksfjörð, signdi formaður sig; tók ofan höfuðfatið, og við gerðum slíkt hið sama.  Er við höfðum sett höfuðfötin á sinn stað, og ég lokið við að smyrja vélina, færði ég mig aftur á þóftuna til Árna.  Guðjón og Sigurður sátu í framskipinu og röbbuðu saman þar, en við Árni á skutþóftunni.  Ég hafði setið þarna hjá honum á þóftunni flest útstímin síðast liðin tvö vor og sumur; hlustað á sagnir frá hans löngu sjómannsævi á flestum gerðum skipa, víðsvegar um Atlantshafið; allt norður í Íshaf; við flestar tegundir fiskveiða, hvalveiði og selveiði, og einnig farmennsku.  Hér var því geysimikinn fróðleik á að hlýða; enda þreyttist ég aldrei á að hlusta og spyrja, því Árni var ágætur sjómaður á hvaða farkosti sem var; auk þess frábær stjórnari.  Því hafði ég oft verið sjónarvottur að, þann tíma er ég hafði verið með honum.  En óspart var þá leitað í rjólið, og sælöðrið dreifði þá legi þess allvíða um andlitið.  Þá var Árni í essinu sínu; en skipanir hans voru ekkert mömmuhjal.

„Þarna eru þeir að fara frá Patreksfirði“, segir Árni og spýtti í fallegum boga langt útfyrir borðstokkinn.  „Hverjir eru það“? spyr ég.  „Jóhann Magnússon fer fyrstur og Friðþjófur Þorsteinsson rétt á eftir honum.  Þeir ætla sjálfsagt á Kollsvíkina“.  Þessir formenn voru í þá daga aflakóngar á Patreksfirði.  Flestir bátar þar, sem voru margir, voru 2-3 lestir að stærð.  „Ætlar þú á Kollsvíkina“? spyr ég.  „Ætli ég reyni ekki í Flóanum fyrst; mig langar ekkert á Víkina í dag.  Það er stórstraumur, og rjúki hann hastarlega upp af norðan, sem ég satt að segja held, þá veistu hvernig hann er fyrir Blakknum.  Þarna kemur Viggó Bensason á Blikanum.  Þeir ætla ekki að láta fjara undan sér núna“.  „Og enn koma bátar fyrir Vatnseyraroddan; hverjir fara þar“? spyr ég.  „Það er Árni Gunnar fyrstur; Jón Þórðarson; svo eru það Kambararnir eða Gummi Þórðarson“.  „Varstu jafn glöggur á að þekkja stóru skipin og litlu bátana“?  „Já, því það er mikið auðveldara að þekkja þau.  Þeim þótti ég minnsta kosti glöggur að þekkja varðskipin, þegar ég var á Ráninni.  Réttu mér kaffiflöskuna mína Gauji!  Þetta var svo skammarlega lítið sem strákurinn gaf mér í morgun“, kallar nú Árni til framskipsmanna, og Guðjón kom með kaffið.

Eftir að við höfðum keyrt í einn tíma og 20 mínútur, var vélin stöðvuð og færum rennt í sjó.  Við vorum þá eftir Flöskuhlíðarhorninu.  Sigurður var fyrstur í botninn og dró strax einn hvítan og fallegan fisk; en hann var húkkaður sá skratti.  Svo komu hér færin í botnin hvert af öðru, en enginn varð var.  „Heldurðu að hann fáist núna á Kollsvíkinni“? spyr Siggi Árna.  „Það þætti mér trúlegt; minnsta kosti í niðursláttinn á suðurfallinu“, svarar Árni og fer að draga inn færið sitt.  Við fengum skipun um að hafa uppi færin; það átti að kippa.  En það var ekki síðasti kippurinn þennan dag.  Alltaf var verið að færa sig úr stað, en sá guli var allsstaðar nauðatregur.  Virtist það eins hjá hinum bátunum, sem allir voru ennþá í Flóanum á víð og dreif.

Nú var komið framum hádegi og suðurfall.  Aðeins fór að bera á norðansjó þegar suðurfallinu tók; þótti öllum það ills viti.  Enn var þó logn.  Bátana rak nú suður yfir Flóann, og voru sumir komnir allt suður á móts við Blakk.  Formennirnir virtust hafa Kollsvíkina í huga, og allir hafa þeir sennilega velt fyrir sér sömu spurningunni:  Rýkur hann hastarlega upp af norðan?  Enginn virtist þó fyllilega vera búinn að gera upp við sig svarið.  En hvað var það þá sem aftraði þeim svo mjög frá þessum fengsælu miðum?  Jú, það var þessi slæma torfæra á sjóleið smábáta frá Patreksfirði og út á Víkur; Blakknesröstin.  Flestir eða allir formennirnir höfðu þar komist í krappan dans við dætur Ægis, og stundum sloppið nauðuglega með því að fleygja aftur í Ægi nokkru af afla þeim er þeir með ærinni fyrirhöfn höfðu sótt í greipar hans.  nú var Röstin slétt og lygn eins og hafið í kring.  En á mjög skömmum tíma gat hún skipt um ham og orðið þessum litlu fleytum hættuleg; þótt stjórnendur þeirra beittu allri sinni leikni til að halda þeim á floti.  Tveir af formönnum er þarna voru, voru sérstaklega vel kunnugir á Kollsvík; landtöku sem öðru.  Þeir Árni Dagbjartsson, sem verið hafði formaður þar, og Guðbjartur Torfason, sem fæddur var og uppalinn í Kollsvík og hafði stundað þaðan sjó frá barnæsku, en var nú fluttur til Patreksfjarðar.  Hinir formennirnir voru allkunnir fiskimiðum á Kollsvík og þekktu þar helstu boða og grynni; svo sem Djúpboða, Arnarboða, Leiðarboða og Þembu, sem allt eru blindsker á fiskislóð og brjóta ef um stórsjó er að ræða.  En þeir voru alls ókunnir brimlendingunni í Kollsvík og öðrum Útvíkum.  Þeir vissu því vel hvað þeir voru að gera þegar þeir streittust við að láta þann gula ekki lokka sig í tvísýnu út á Kollsvík.  Formaður minn var farinn að verða nokkuð brúnaþungur; sá guli hafði verið honum erfiður í dag.  Hann dró letilega upp færið sitt; lét lóðið detta á plittinn; sló af sér vettlingum niður á þóftuna, þar sem þeir myndu liggja í umkomuleysi þar til formanni þóknaðist aftur að rétta þeim hendur sínar.  Hann skyrpti útúr sér þvældri tóbakstuggu; fór með hægri hendina niður í buxnavasann; dró upp rjólstubb og beit af.

„Heldurðu að það sé ekki rétt Sigurður, að við skryppum suður á Víkina um niðursláttinn?  Hann kannski rjúki ekki svo fljótt upp“.  „Ég held að það sé ekki um annað að gera; eða þá að koma sér í land“, sagði Sigurður og fór að draga inn færið.  „Hafið ykkur upp strákar, og settu í gang“, sagði Árni og stakk sveifinni í stýrið.  Vélin fór í gang og báturinn rann af stað.  Við fengum okkur nestisbita, meðan vélin og straumurinn drifu bátinn suður á Víkina.  Fleiri bátar voru nú komnir á suðurleið, svo sem Guðmundur Torfason, Jóhann Magnússon, Friðþjófur Þorsteinsson og Viggó Bensason.  Þung undiralda frá norðri fór að gera vart við sig öðru hvoru, svo báturinn jók skriðinn til muna er hún kom undir, en svo var eins og hann sigi afturí er aldan gekk framundan.  Enn var hvítalogn, en þokumistur að færast upp í Kópinn.  Flestir bátanna fóru nokkuð langt suður á Víkina, en við stoppuðum nyrst á henni; þar sem sandurinn byrjar.  Færum var rennt í sjó, og strax var fiskur á hverju bandi; allir kepptust við dráttinn.

Nú skulum við um stund yfirgefa bátana á Víkinni, sem allir eru í nógum fiski, og bregða okkur upp í Kollsvíkurlendingu, sem venjulega er kölluð Verið, og sjá hvað þar er að gerast.  Kollsvíkin afmarkast af Blakknum að norðan, en Breiðnum að sunnan.  Ströndin sveigist lítilsháttar inn á milli þessara fjalla, og heitir þar Kollsvík.  Þar fyrir framan eru hin fiskisælu Kollsvíkurmið, sem er sandræma fyrir allri Víkinni, með þeim boðum og grynnum sem áður eru talin; dýpi um 12 faðmar.  Skammt fyrir sunnan Blakkinn er aðallendingin; Verið.  Víðar má þó lenda.  Fjaran er sendin, en hleinar um fjöruborð.  Lendingin er fyrir opnu hafi, og því ótrygg; sérstaklega í norðanátt.  Aðallega er um tvær leiðir að ræða upp í Verið; Miðleið og Syðstuleið.  Syðstaleiðin takmarkast af boða á bakborða en landföstum steinum á stjórnborða, þegar upp er farið.  Þegar komið er uppfyrir boðann er smálægi, sem venjulega má bíða lags á, áður en farið er upp í sandinn þar sem bátunum er lent og þeir settir.  Voru þar oft fjöldi smábáta hér áður fyrr, eða um 30 bátar.  Hér var stutt á miðin, eða um 10 -15 mínútna keyrsla, og sjaldan brást fiskur.  Kollsvík var því um langan tíma mikil verstöð smábáta.  Bátum er farið að fækka mikið er þetta gerist; aðeins heimabátar, og allt smábátar.

En Kollsvíkingar hafa nú eignast til flutninga opinn vélbát; Fönix, 3-4 lestir að stærð.  Þeir eru einmitt núna að koma á honum í lendinguna; hlöðnum salti og öðrum varningi.  Norðansjórinn er farinn að segja til sín við ströndina, og eykst með hverri báru.  Þeir koma Syðstuleiðina.  Hér eru engir viðvaningar á ferðinni.  Þetta eru hraustir menn; þjálfaðir við brimlendingu frá barnæsku.  Þeim gengur vel í gegnum sundið.  Legan er ekki orðin örugg, svo þeir halda áfram í sandinn.  Margir menn eru í bátnum, og margir í fjörunni til að taka á móti; alls um 20 menn.  Báturinn er þungur og brimið fer vaxandi.  Þeir hugsa um það eitt að bjarga bát og farmi; hvorttveggja er þeim dýrmætt.  Um sjálfa sig hugsa þeir minna.  Flestir eru í skinnbrókum, aðrir í stígvélum.  En það skiptir ekki máli; flestir eru í sjó undir hendur.  Með saltpoka og annan þungavarning fara þeir léttilega.  Brimið slær nú bátnum flötum.  Ætlar það eða þeir að sigra?  Þetta er hörð og tvísýn barátta.  Þeir koma í veg fyrir að bátnum slái framá, því gerist það þá er öll von úti. 

Þeim hefur tekist að bjarga bát og farmi undan sjó.  Þeir anda léttar, en þó sveittir og blautir.  Tóbaksbaukar ganga á milli manna.  Sumir leggja hendina aftur á bakið og stynja við, en það er sigurglampi í augunum; orrustan er liðin hjá.  Þeir hafa sigrað að þessu sinni, eins og svo oft áður.  Svo horfa þeir út á Víkina.  Margir bátar; vinir þeirra og kunningjar.  Allt er þegar ófært.  Hvernig fer þetta?  Þá setur hljóða.

Nú hverfum við aftur út til bátanna á Víkinni, þar sem allir keppast við að innbyrða sem mest af þeim gula.  Formennirnir höfðu auga með veðurútliti, sem var nú allt í einu orðið skuggalegt.  Enn hélst þó lognið.  Suðurfallið var að deyja út, og í hönd fór besti tíminn til fiskjar; liggjandinn, enda lét sá guli það á sér finna.  Sjórinn var farinn að verða ískyggilega sver, og lifandi bára farin að leika á bökum hinna sveru sjóa.  Færið hans Árna var að renna í botninn þegar skörp vindhviða fór yfir bátinn; myndaði hring á sjónum og sverist um miðdepil sjálfrar sín, eins og hún vildi soga allt upp.  Árni stöðvaði færið og fór að gera það upp.  „Gerið upp strákar; og verið fljótir að koma ykkur í stakkana“.  Fyrirskipun Árna var fljótlega hlýtt.  Hann var kominn í stakkin; tók upp rjólstubbinn; brá honum undir jaxla og klippti af.  Hún var ekki skorin við nögl þessi.  Vélin var komin í gang.  „Þú keyrir með fullri ferð, en verður viðbúinn að slá af þegar ég segi þér, og sjáðu um að húsið sé vel lokað“.  Þetta var til mín talað.  Húsið var bara vel þéttur kassi, með smálokum yfir sjálfri vélinni, eins og algengt var í þá daga.  „Bindið vel farviðina“! gall við úr skutnum; „svo kemur þú hérna afturfyrir Siggi, og tekur pumpuna ef með þarf:  Gauji, þú lætur upp plittinn fyrir framan vélina; hefur svo stóra trogið hjá þér og eyst ef pumpan hefur ekki við.  En þú veist hvað þú færð ef þú missir trogið“!  Þessari skipun formannsins var einnig hlýtt, enda var nú kominn svipur á þann gamla.  Nokkrar skarpar vindþotur gengu enn yfir, og svo var lognið búið en á skammri stundu komið hvassviðrið.  Svipur formannsins var á þann veg, að nú skyldi hann og gnoðin sýna listir sínar til hins ýtrasta; enda sjáanlega ærið tilefni.  Sjórinn var orðinn óskaplegur og fór versnandi.  Löðrið gekk yfir bátinn öðru hvoru.  Þó tókst Árna að forða honum frá stærstu sjóunum.

„Stelpurnar mínar“, sagði ég við Guðjón og skyrpti útúr mér söltum sjó.  „Voru þær svona fjandi bakholdamiklar; eins og þessi sem er að koma þarna“?  Ég leit fram:  Æðandi brotsjór kom á móti okkur og reis hátt.  Bátnum var vikið leiftursnöggt.  „Sláðu af“! kvað við úr skutnum.  Báturinn reis snöggt að framan, og stakk sér svo í gegnum fald bárunnar.  Á sama augnabliki vék Árni bátnum í bak og bað um fulla ferð.  Fyrir þessar aðgerðir stjórnandans tók báturinn lítið högg er hann kom fram með sjónum ; orðinn réttur og búinn að taka ferð fyrir næstu báru.  Furðu lítill sjór kom inn.  „Sjáið þið hina bátana“? spyr Árni.  við kváðum nei við.  Við höfðum bara séð að Jóhann, sem var að fiska skammt frá okkur, fór jafnt af stað og við.  Nú var útilokað að sjá bát þótt nærri væri, nema svo hittist á að báðir æru uppi á öldufaldi samtímis.

Þannig gekk siglingin.  Árni var í essinu sínu og spýtti af mikilli leikni og ánægju út í grængolandi öldurnar, þegar hann hafði snúið þær af sér.  Við áttum nokkurn spöl eftir ófarinn að Blakknum, þegar stórt og víðáttumikið grunnbrot kom æðandi á móti okkur.  „Hver dj..., það er grunnbrot á Þembunni.  Þetta er alger ófæra; eða hvað sýnist þér Sigurður“?  Um leið og Árni sagði þetta vék hann bátnum, og með snarræði tókst honum að mestu að forðast brotið.  „Það sýnist með öllu ófært fyrir Blakk nú.  Enda erum við hér á versta tíma norðurfallsupptakanna, en fárra kosta er völ“, sagði Sigurður um leið og hann dældi sjó úr bátnum.  „Einn er þó sá kostur fyrir hendi er ég mun taka, en það er að lenda í Kollsvík“, segir Árni.  „Heldurðu að það sé ekki löngu ófært þar“? spyr Sigurður.  „Það kann að vera.  En þangað fer ég, ef mér tekst að snúa“.  „Það kann að vera að það sé á þínu færi að lenda þar“, sagði Sigurður, um leið og hann hætti að dæla.  Báturinn var þurrausinn í bili.  „Mér þykir ekkert verra að drepa okkur þar en annarsstaðar“.  Árni hló við um leið og hann sagði þetta síðasta.  Nú var andæft og beðið lags að snúa.  „Þú verður fljótur að gefa fulla ferð strákur, þegar ég segi þér; og hafðu lapparskrattann á stillinum“!  Ég gerði svo sem fyrir mig var lagt.  „Fulla ferð“!  Og til áréttingar var ýtt harkalega á öxl mér. 

Bátnum var snúið leiftursnöggt, en hann var samt ekki orðinn fyllilega réttur er stór sjór reið undir.  Báturinn reis að aftan og hallaðist mikið í bak, svo við lá að hann tæki sjó um bátsrúmið; svo tók hann geysilegt hlaup.  Grængolandi veggir hlóðust uppfyrir borðstokkinn; allt frá miðskipa og afturúr.  Í fyrstu var tvísýnt hvort Árna tækist að rétta bátinn, eða honum hvolfdi þarna.  Er sjórinn var kominn framum miðskipa, réttist báturinn og seig afturí; undir næstu báru, sem virtist ætla að hvolfast yfir.  Þá var dregið úr ferðinni, og lensað með hægri ferð.  „Hafið þið séð nokkurn bát strákar“? spyr Árni aftur.  Jú, við töldum okkur hafa séð bát Jóhanns uppi á öldufaldi, alllangt í burtu.  „Ég vildi að enginn þeirra færi að elta mig upp í Kollsvík“, sagði Árni eins og við sjálfan sig.  Og svo spýtt´ ann þessi sægarpur, og sagði við Sigurð:  „Ég held það sé öruggara að þú verðir við vélina Siggi, þegar til landtökunnar kemur.  Ég veit ekki nema það komi fát á strákinn og hann geri einhverja vitleysu“.  En nú var ég fljótur til svars:  „Ef ég fæ ekki að stjórna vélinni við landtökuna, þá skal ég aldrei snerta á henni framar“.  Þeir hlógu báðir; Árni og Sigurður, því ég sagði þetta með þjósti miklum.  En svo byrsti Árni sig og sagði:  „En ég drep þig ef þú lætur hana stoppa“!  „Heldurðu að þú þurfir þess Árni minn; mér skilst að þá sé það ég sem drep“, sagði ég og hló.  „Ekki vantar á þig munnholuna greyið mitt; þá það“.  Svo skyrpti hann útúr sér tóbakstuggunni, sem var víst orðin bragðlaus, og fékk sér aðra nýja í staðinn, svo ekki þyrfti hann tóbakslaus að taka land.

En nú fór að líða að landtökunni; við vorum að komast suður á leiðina.  Ljótt var að sjá upp í Verið; þar virtist grunnbrot yfir allt.  Ekkert hik var á formanninum.  Bátnum var snúið á Syðstuleiðina, en þá varð að taka sjóinn á bakborðshlið þar til komið var uppfyrir boðana.  Beðið var um þá orku sem vélin hefði yfir að ráða.  Allir voru víst með spenntar taugar.  Báturinn geystist áfram, og sælöðrið dreif yfir.  Árni virtist ætla mjög nærri boðanum, sem lá niðri augnablik.  Stórar brimskeflur brotnuðu á hleinum á stjórnborða, en í þær voru nokkrar bátslengdir.  Okkur vantaði örstutt í boðann, þegar á honum reis stórbrot sem æddi hrynjandi yfir sundið og upp leguna.  Árni snarsneri bátnum, svo við hrukkum við.  Nú var gott að vera svo nærri boðunum, og hafa svigrúm til að snúa.  En áður en brotið var komið yfir sundið hafði báturinn farið hringinn, og skaut nú uppmeð boðunum áður en næsta bára reis, sem ekki var langt að bíða.  Hún kom nú hrynjandi með miklum gný, á eftir okkur upp leguna.  „Er ekki meiri ferð til“? kallar Árni.  Ég greip með varúð í innsogið; annað var fullspennt, og vélin bætti við sig.  Brotið var að ná okkur.  Við sáum fjölda manna koma hlaupandi niður í fjöruna.  Áður höfðu þeir staðið uppvið búðir, því það er siður í verstöðvum vestra að fara ekki til sjávar þegar þeir telja ólendandi.

„Haldið ykkur í bátinn“! kallar Árni; „og þú slærð ekki af fyrr en stendur“!  Brotið náði okkur og braut á skutnum og baki formannsins; en það var eins og bátnum væri skotið áfram.  Þannig sat hann í brotinu, óhagganlegur, þar til stóð; þá kom mikill sjór inn.  Enn var það lágsjávað að báturinn tók sem sagt allur jafnt niðri, og dró það úr högginu.  Skipti það engum togum, að jafnt og báturinn tók niðri voru borðstokkar hans þaktir hraustum höndum, sem kipptu honum upp áður en við fengjum ráðrúm til að stöðva vélina og komast út.  Tókst að halda honum réttum er næsta ólag gekk yfir.  Okkur var borgið.  Eftir að bátnum hafði verið bjargað úr sjó, fóru menn að heilsast.  Þóttust allir okkur úr helju heimt hafa.

Þórarinn Bjarnason, gamall og þekktur sjósóknari úr Kollsvík sem ekki lét sér allt fyrir brjósti brenna, kom til Árna og sagði:  „Ég bað Guð að hjálpa mér þegar ég sá bátinn snúa hér að landi; nema Árni Dagbjartsson ráði þar skipi.  Og létti stórlega er ég kenndi bátinn“.  Nú varð öllum litið út á Víkina.  Litlum báti sást skjóta þar upp á öldufald nokkuð fyrir framan leiðina.  Allir kenndu bátinn.  Það var Guðbjartur Torfason á Blikanum, en hann var minnsti báturinn af þeim sem voru þarna á Víkinni.  Þarna í fjörunni var Jón Torfason, bróðir Guðbjartar, og Kristján Júlíus Kristjánsson, mágur hans; báðir formenn í Kollsvík.  Þeir tóku tal saman; hvað gera skyldi, og fleiri lögðu orð til.  Átti að gefa Guðbjarti merki um að von væri um að geta bjargað lífi sínu hér?  Líklegt var að hann vildi fá svar við því.  Hér var vandamál sem ábyrgðarhluti var að svara; gat kostað mannslíf, á hvaða veg sem var.  Þórarinn Bjarnason tók til máls; alla setti hljóða:  „Guðbjartur Torfason er jafnkunnur öllum staðháttum hér og við, og á engan hátt ófærari til sjómennskulegra aðgerða en við.  Við teljum hér ófært að lenda; sem og er, og einnig ófært fyrir Blakk.  Hvort tveggja getur þó með Guðs hjálp á einhvern veginn lánast; eins og við höfum nú dæmi um.  Við skulum því láta Guðbjart taka sínar ákvarðanir sjálfan, og göngum nú upp úr fjörunni“.  Öllum fannst þetta viturlega mælt, og gengu menn upp úr fjörunni.  En þeir mágar gengu norður í Blakk, ef ske kynni að þeir sæju til ferða bátanna.  Enginn sími var þá í Kollsvík, og því á allan hátt of seint að koma boðum til Patreksfjarðar um aðstoð við bátana.  Árni sendi Guðjón strax og við vorum landfastir, inn að Kvígindisdal til að láta vita að við værum í Kollsvík.  Hljóp Guðjón alla leið, og mætti húsbónda sínum, Snæbirni, er hann var rétt lagður af stað út í Kollsvík til að vita hvort við hefðum náð landi þar.  Varð hann því komu Guðjóns feginn.

Allir bátarnir komust til Patreksfjarðar.  Sumir fengu áföll; aðrir urðu lekir, en allir flutu og ekkert slys varð.  Mun þetta mesta áhlaupsveður af norðri er smábátar á þessum slóðum hafa hreppt, og mun mörgum skipverjanna það minnisstætt.  Þótt hér hafi lítillega verið sagt frá einum bát og stjórn hans, þá mun þó svipað hafa gengið til hjá hinum.  Því allir voru þessir formenn, og skipsmenn þeirra flestir, margþjálfaðir á þessum litlu fleytum.  Munu þær ekki sjómannsefnum lökustu skólaskipin.

 

Bakkakindur í kröppum sjó

einar thoroddsenEinar Thoroddsen (23.05.1913-13.05.1991) fæddist í Vatnsdal í Rauðasandshreppi; sonur Ólafs E. Thoroddsen skipstjóra og Ólínu Andrésdóttur Thoroddsen.  Einar tók skipstjórnarpróf 1955 og var skipstjóri á mörgum skipum.  Síðan lengi hafnsögumaður í Reykjavík.  Hann var borgarfulltrúi í Reykjavík;  formaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Ægis: formaður Sjómannadagsráðs og sat í stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins.  Sæmdur var hann heiðursmerki Sjómannadagsins og heiðursmerki Ólafs Noregskonungs.  Eiginkona hans var Ingveldur Bjarnadóttir frá Patreksfirði og áttu þau 3 börn.

Þessi frásögn Einars birtist í Sjómannadagsblaðinu í júní 1964 og nefndist þar „Lítil ferðasaga“.

Það var á áliðnum degi 21. desember 1930 sem gest bar að garði heima hjá foreldrum mínum í Vatnsdal við Patreksfjörð, en þar bjuggu þau þá.  Þar voru komnir Þórarinn Bjarnason (mynd) og Þorgeir sonur hans, sem þá mun hafa verið 14-15 ára gamall.  Þórarinn hafði flust með fjölskthorarinn bjarnasonyldu til Patreksfjarðar um sumarið.  Áður bjó hann á Bökkum (Grundabökkum) í Kollsvík í Rauðasandshreppi.  Þeir feðgar höfðu farið nokkrum dögum áður frá Patreksfirði út í Kollsvík til þess að sækja nokkrar kindur sem þórarinn átti þar og voru nú að reka þær til slátrunar, inn á Patreksfjörð.

Þennan dag var rysjótt veður.  Þegar þeir komu að Vatnsdal var komið myrkur.  Þeir feðgar ætluðu ekki að halda lengra um kvöldið, heldur fá gistingu í Vatnsdal í von um að veður yrði betra næsta dag og gæfi að flytja þá á báti yfir fjörðinn morguninn eftir. 

Vatnsdalur er beint á móti kauptúninu á Patreksfirði.  Kindurnar voru látnar í hús, því þær voru hálf hraktar og þvældar eftir langan rekstur.  Þeir höfðu farið snemma um morguninn frá Kollsvík og voru því búnir að vera á ferð mestan hluta dagsins.  Ráðgert var um kvöldið að búast snemma til ferðar morguninn eftir, ef fjarðfært yrði, og helst að komast af stað fyrir birtingu.  Vegna þess að komið var svo nærri jólum var það mikið kappsmál hjá Þórarni að komast á báti yfir yfir fjörðinn frá Vatnsdal.  Því annars hefði orðið að reka féð alla leið í kringum hann, en það ferðalag hefði tekið svo langan tíma að hann hefði ekki komist til Patreksfjarðar í tæka tíð til þess að geta lógað fénu fyrir hátíðina, en það var ætlun hans.

Þórarinn var kunnur spilamaður, og eftir að þeir feðgar höfðu farið í þurr föt og matast var tekið upp létt hjal og sest að spilum.  Allar áhyggjur af fyrirhuguðu ferðalagi næsta dag voru látnar bíða betri tíma.  Um miðnætti var gengið til náða í góðri von um batnandi veður. 

Um morguninn var risið úr rekkju og gáð til veðurs.  Ekki var útlitið gott.  Suðaustan þunga vindur; drungalegt loft og veðurhvinur í fjöllum.  Föður mínum leist illa á veðrið.  Taldi hann rétt að bíða birtu og sjá hvort veðurbreyting yrði þangað til, því sér sýndist öll merki þess að stórviðri væri í nánd.  Reyndist hann sannspár, eins og síðar verður sagt. 

Birgir bróðir minn sem þá var 19 ára, og ég, tæpum tveimur árum yngri, ætluðum að fara á bátnum sem flytja átti Þórarin á.  Við vildum fara strax af stað og töldum að þá myndum við verða komnir yfir fjörðinn áður en veðrið skylli á.  Þórarinn latti heldur ferðarinnar, enda var miklu erfiði af honum létt með því að hann kæmist sjóleiðina.  Faðir minn latti okkur mjög.  Allt að einu fór það svo að við Birgir réðum, og ákváðum að fara.  Við ferðbuggumst í snatri; rákum kindurnar til sjávar og inn í naust.

Báturinn sem fara átti á var nálega tveggja tonna trilla, með 4-5 hestafla Scandia glóðarhausvél.  Það kom sér vel síðar að vélin var ekki viðkvæm fyrir bleytu.  Báturinn var nú settur niður.  Stórstreymt var og stóð á fjöru.  Var því mikið útfiri og langur setningur, enda vorum við lengi að koma bátnum á blot.  Þegar því var lokið var eftir að draga hverja kind úr naustinu og niður að bátnum, því ekki var hægt að handsama þær í sléttri fjörunni.

Mig minnir að kindurnar hafi verið sextán.  Tveir okkar urðu að passa bátinn.  Til þess urðu þeir Birgir og Þórarinn, en faðir minn, Þórgeir og ég drógum kindurnar.  Allt gekk þetta seinna en áætlað var í upphafi.  Þegar síðasta kindin var komin út í bátinn var farið að skína.  Var þá auðséð að illviðri var að skella á.  Faðir minn vildi þá að við hættum við að fara.  Við Birgir vorum ófúsir að hætta við svo búið, eftir alla þessa fyrirhöfn.  Við vorum oft í flutningum á trillunni og ekki var alltaf vandlátt með veður, enda lent í ýmsu fyrr.  Ekki urðu frekari umræður um þetta.  Við ýttum úr vör og lögðum af stað.  Ef við hefðum getað farið með fullri ferð og beinustu leið þá var þetta ekki nema tuttugu mínútna ferð.

Vindur var nú orðinn hvass.  Fórum við inn með landinu til að byrja með, til að geta heldur „slegið undan“ þegar lengra kæmi út á fjörðinn, ef veður versnaði frá því sem var.  Ferðin gekk vel þangað til við vorum um það bil á miðjum firði.  Við höfðum þó þurft að draga mikið úr ferð.  Þegar hér var komið var orðið bjart, eða eins og birti þennan dag.  Inni á firðinum var kolmórauður hríðarsorti sem nálgaðist okkur óðfluga.

Skipti það engum togum að á svipstundu skall á ofsaveður; varð hvítur skafrenningur yfir allan fjöðinn.  Ágjöf á bátinn jókst nú svo að eftir stutta stund hætti austurdælan að hafa undan.  Kindurnar, sem allar voru lausar, forðuðu sér undan ágjöfinni og tróðust til hlés.  Þórarinn og Þorgeir áttu fullt í fangi með að passa að þær legðu ekki bátinn á hliðina.  Birgir stýrði en ég var við dæluna, sem var handdæla, og leit eftir vélinni.

Báturinn var nú farinn að verja sig illa.  Í ólögunum gekk mikill sjór í hann.  Ég óttaðist að vélin myndi stöðvast, því hún var farin að ausa upp á sig sjó.  Sleppti ég þá dælunni og greip vatnsfötu og jós með henni eins og ég gat, en Birgir tók við dælunni og dældi með henni.  Jafnframt varð hann að hafa stjórn á bátnum og passa uppá þegar ólög kæmu, því þá varð að „slá undan“; báturinn þoldi ekki að beitt væri uppí. 

Eftir eitt ólagið náði austurinn langt upp á svinghjólið á vélinni.  Ég herti mig sem ég gat við að ausa en samt leið, að mér fannst, langur tími þar til ég náði austrinum niður fyrir hjólið aftur.  Þetta var líka langversta ólagið sem kom á bátinn.  Ég hef oft hugsað um það síðan hvílíkt lán var yfir okkur; að vélin skyldi ekki stöðvast.  Því þá hefði verið óvíst um endalokin á ferð okkar.  Smátt og smátt þokaðist þó í áttina hjá okkur og þegar við nálguðumst höfnina á Patreksfirði fór heldur að draga úr bárunni.  En rokið var svo mikið að sjóinn skóf inn í bátinn.  Það mátti því aldrei lina á við að ausa. 

 

Þegar ég var á sjólífinu

kristjan kristjanssonKristján Kristjánsson (26.04.1873-04.05.1959) fæddist í Trostansfirði.  Föður sinn missti hann ungur og flutti móðir hans þá í Skápadal, þar sem Kristján ólst upp.  Innan við fermingu réðst hann sem vinnumaður að Sauðlauksdal.  Ungur fór hann á sjóinn, eins og hann lýsir hér, og 19 ára var hann orðinn stýrimaður.  Að loknu skipstjórnarnámi réðst hann sem skipstjóri á þilskipið Viggu, en var þó ekki í túrnum þegar Vigga fórst.  Kristján kvæntist Sigurlaugu Traustadóttur (Einarssonar Jónssonar ættföður í Kollsvík) yfirsetukonu og kennara.  Rak hann matvöruverslun um tíma, en réðist síðan sem togaraskipstjóri; einna fyrstur Íslendinga.  1916 hætti Kristján til sjós en stofnaði fornbókasölu og rak hana til 1940, en átti auk þess eitt mesta bókasafn landsins í einkaeigu.

Seint í marzmánuði 1888 vaknaði ég árla dags, tók saman föt mín, kvaddi fólk á prestsetrinu Sauðlauksdal, og lagði fótgangandi eins og leið liggur inn með Patreksfirði, fyrir botn hans, svo út með firði norðanmegin, allt til Hlaðseyrar.  Eg bar fötin mín og lítið koffort; ég var að fara í skiprúm.  Hafði verið ráðinn matsveinn, og þetta var fyrsta ferðin til „sjós'".  Eitthvað voru erfiðar hugsanir hjá mér á leiðinni inn með firðinum, ég vissi ekki hvað beið mín í hinni nýju stöðu, og kjarkurinn var ekki meiri en í meðallagi.  Hugsanir mínar urðu þó léttari, þegar ég kom í Skápadalsland, þar voru æskustöðvar mínar. Þó ég innst í huga vildi helzt eigi halda ferðinni lengra áfram, þá varð sú hugsun að víkja.

Skápadalur er fyrir botni Patreksfjarðar, þar er fallegt, sér út fjörðinn og allt til hafs; hvert skip sem fer út eða inn fjörðinn sér vel frá Skápadal.  Fjöll há, fossar, gil og ár, er þar að sjá.  Flestum mun finnast æskustöðvar fallegar, og svo var mér.  Þó vetur væri enn, svell og snjór undir fæti, þá var samt fallegt í Skápadal.  Þegar í Skápadal kom átti ég til móður að koma.  Eftir dálitla hvíld og góðar viðtökur, var haldið á stað.  Áður enn ég fór af hlaðinu, horfði ég fram í dalinn til gljúfranna, ég sá ekki fossinn fallega, og heyrði ekki í honum; hann hafði ekki enn tekið þessar dásamlegu svell-súlur niður, sem ég hafði svo oft séð hann hylja sig með á vetrum.  Þó ég ekki sæi hann, þá vissi ég hvar hann var, og ég kvaddi hann vinarkveðju, og hugurinn leið sem örskot til daganna, er ég rak kýrnar og smalaði fé um dalinn.  Skápadalur var nú kvaddur og áfram var haldið innfyrir Ósafjörð.

Ósar voru ísi lagðir og Ósá undir ísi; svo enginn farartálmi var nú að henni, en hún er oft vatnsmikil, og þá ófær gangandi mönnum, og fékk ég einu sinni að reyna það.  Sporlétt hélt ég á út með firðinum, allt út undir Hlaðeyri.  Þar var skipið, og nú var þessari ferð lokið; ég var kominn að skipshlið.  Skipið hafði verið grafið upp í eyri, sem er rétt fyrir innan Hlaðeyri. Mig minnir að eyrin heiti Skipeyri.  „Sjólífið" var skonnorta með toppsegl undir stag, allstórt skip, eftir því sem fiskiskip voru þá; tregur siglari var það, en gott sjóskip.  Annars var þetta talið gott skip þó gamalt væri. En eftir að kútterarnir komu hingað, hefði ekki þótt mikið til Sjólífsins koma.  

Skipshöfnin á þessu skipi, sem átti nú að verða hið nýja heimili mitt, voru 17 menn. Í káetu voru 3 en 14 í hásetaíbúð.  Skipið var brjóstamikið, og gerði það rúm fyrir 2 skápa þvert fyrir stafni skipsins.  Þar var rúmið mitt, og var efri skápurinn, sem ég fór í, en í þeim neðri var piltur, dálítið eldri en ég, það var Sigurður Þórólfsson.  Var þetta fyrsta ferð hans til „sjós", og ég held sú síðasta; hann var ekki nema einn„túr"; sjóveikin ætlaði hann að drepa.  Sigurður snéri sér að öðru síðar, eins og kunnugt er, og varð þjóð sinni þarfur maður.  Við héldum vináttu alla tíma, og minntumst stundum á rúmin okkar í stafni Sjólífsins.  Við urðum að liggja í hálfhring, og ekki hefði verið fyrir aldraða og stirða að fara út um skápdyrnar þær.  

Ekki get ég sagt að mér liði vel í þessu nýja starfi mínu. Það var víst siður, eða svo reyndist mér, að bæði undir og yfirmenn skoðuðu kokkinn sem einhvern þann hlut, sem fara mátti með eftir því sem hver hafði löngun til.  En menn eru misjafnir, og því varð staða kokksins ekki góð á skipinu; einkum þegar illa lá á mönnum þegar á fiskiveiðar kom. Sá sem var mér hjálplegur meðan ég var að kynnast þessu nýja embætti mínu, hét Benedikt og var sonar sonur séra Gísla Ólafssonar í Sauðlauksdal.  Reyndist hann mér drjúgur með hjálp, þegar erfitt gekk hjá mér.  „Sjólífið" var frá Geirseyri; skipstjóri hét Jón Bjarnason; stýrimaður Loftur Bjarnason; hann var úr Tálknafirði.  Háseta þekkti ég fæsta, er ég kom til skips. Eg stend nú einn uppi af þessari skipshöfn; það eru líka liðin 55 ár frá þessari fyrstu sjóferð minni.  Á þessu tímabili frá því ég byrjaði þilskipaveiðar og til nútímans hafa miklar breylingar orðið á sjómannakjörum og aðstöðu til aflafanga. Ekki datt mér í hug, að ég ætti eftir að vera á gufuskipi á fiskiveiðum, þegar ég var að stimpast við soðningapottinn á Sjólífinu.

Nú var skipið komið úr vetrarnausti, og lá á Geirseyrarhöfn, og bjóst til fiskiveiða.  Kaupmaður á Geirseyri var Markús Snæbjörnsson; alkunnur dugnaðarmaður, kona hans Guðrún Davíðsdóttir, ágæt kona, reyndist mér þá strax og ávallt síðar vel.  Eg mun hafa notið eitthvað þess hjá henni að Jónína dóttir hennar var í uppvexti sínum mörg ár í Skápadal hjá afa mínum og ömmu. Það var frú Guðrún sem spurði mig strax og ég kom til hennar hvort ég ætti ekki aðra skó en skinnskó til að vera í um borð í skipinu.  Eg sagði sem satt var, að ég hefði ekki annað, og ekkert um þetta heima talað hvað ég ætti að hafa.  Eg man það vel að frúin fór með mér út í sölubúðina, og inn á skrifstofu búðarinnar, og klossa fékk ég, og þótti mér búbót að.  Þá var búðarmaður Jón Pétursson, greindur karl og góður reikningsmaður.  Hann var faðir Péturs frá Stökkum fræðimanns.  

Nú fór sjómannslífið að sýna sig í ýmsum myndum; menn komu um borð með forða sinn til útivistarinnar, og ýmsan útbúnað tilheyrandi skípinu.  í lúkar var þétt skipað og gerðist glatt meðal háseta, og nokkuð voru sumir hátalaðir er á kvöldið leið.  Höfðu margir fengið sér á flösku og supu vel á; en kokkurinn varð að „standa vakt" og hita kaffi meðan nokkur þurfti.  Þá sögðu skipverjar mér að ég yrði aldrei kallaður annað en kokkur, hvaða nafni ég hefði verið skýrður kæmi þeim ekki við; og þeir fylgdu þessu vel.  Nokkrir dagar liðu unz skipið lagði úr höfn, „til sjós".  Þá kom nú þetta, sem sjómenn kannast við, veltingur og sjósótt. Við vorum óheppnir með veður þegar út á hafið kom. Suðaustan vindur allhvass, svo allmikill veltingur var; urðu margir sjóveikir. Eg spjó og leið illa, spýan var þó mest af því, að ég át of mikið af púðursykri á leiðinni út f jörðinn.  Eg hef aldrei sjóveikur veriö, að þessi lasleiki minn lagaðist fljótt.  Eftir því sem ég var lengur „til sjós," leið mér betur.  

En úr þessu embætti mínu vildi ég þó losna, varð þó tvö sumur kokkur, seinna sumarið á „Ingólfi" frá Tálknafirði, sem Johnsen á Suðureyri átti. Þorleifur frá Hokinsdal, frændi minn, var skipstjórinn, ágætur karl og var góður við mig. Stýrimaður var Jón á Suðureyri, sonur Johnsens.  Hann er nýlega dáinn; eru nú allir sem á Ingólfi voru, farnir yfir „landamærin", nema ég.  Illt var að eiga við kaffikönnurnar á Sjólífinu.  Þann sið höfðu skipverjar, að vera saman í kaffi, sem kallað var. Kaffikönnurnar voru því oft 5-6 hjá mér, sem ég varð að laga í og passa þar til réttir eigendur tóku, og komu vissulega ekki allir á réttum tíma.  Fremur friðsamlega fór þó fram þessi vinna mín.

Þegar ég fór að sjóða fiskinn, þá „hvessti" oft, rifrildi og áflog voru oft, og æfðist ég vel í áflogum þetta sumar.  Eg varð þó oftast að láta í „minni pokann."  Nú skal ég skýra frá af hverju þessi ólæti voru.  Hásetar voru sumir saman 2 með „soðningu", en aðrir vildu vera einir með sitt.  Fiskurinn var misjafn að gæðum, og af ýmsum tegundum.  Hver vildi fá sitt, en stundum kom fyrir aö allt færi ekki á réttan stað; þá byrjaði orrahríðin, og harðnaði svo stundum og úr urðu áflog.  Fiskisvæðið hjá okkur var út af Vestfjörðum; norður að Ísafjarðardjúpi og suður fyrir Látraröst.  Mikið var um lúðu, og kom mörg væn lúða.  Þá var líká mikið af steinbít, einnig skötu. Tvær voru lestir á Sjólífinu, og var fremri lestin höfð fyrir „tros", og var hún stærri lestin. Þó ég væri ekki nema kokkur, fékk ég þó ýmislegt að sjá og reyna þetta fyrsta sjómannsár mitt.  Þá lærði ég að reykja og bar mig vel þegar heim kom, með nýja pípu með gyltan hólk um legginn.  Þegar svo veiðitíminn var á enda, skildu allir glaðir og sáttir hver við annan.  Sjómenn erfa ekki, þó ýmislegt beri á milli:  Sjómenn eru drengir góðir. 

 

Skreiðarferðir séra Guðmundar að Kollsvík

Líklega hefur það tíðkast um aldir, eða allt frá því að útgerð upphófst í verulegum mæli í verum Útvíkna, að þangað komu hestalestir úr austursveitum Barðastrandasýslu til kaupa á skreið.  Þar var sjósókn örðugri og fæðið fábreytt ef fiskjar nyti ekki við.  Síðasta skreiðarlest af því tagi var farin árið 1909, að því er fram kemur m.a. í frásögn Kristjáns Júlíusar Kristjánssonar frá Grundum.  Var þar á ferð, eins og stundum áður; séra Guðmundur Guðmundsson í Gufudal með 14 lestarhesta.  Ferðin var venjunlega farin í nokkrum áföngum.  Fyrsta daginn var farið að Þingmannaheiði.  Næsta dag yfir hana og að Brjánslæk.  Þriðja daginn var farið út Barðaströnd og Kleifaheiði; út með Patreksfirði; yfir Tunguheiði og að Kollsvík.  Þar var keypt skreið og látið í staðinn smjör, tólg, viðarkol og í seinni tíð peningar.  Mest var það steinbítur sem seldur var austur á sveitir; þorskurinn var verslunarvara til kaupmanna. 
Þetta var síðasta en ekki fyrsta lestarferð séra Guðmundar.  Í blaðinu Þjóðólfi 17.07.1899 segir hann sjálfur frá annarri lestarferð að Kollsvík.  Reyndar fjallar frásögnin einkum um viðdvöl hans hjá kollega hans og skólabróður; séra Þorvaldi Jakobsyni í Sauðlauksdal.  Fer frásögn Guðmundar hér á eftir:

Úr lestarferð

gudmundur gudmundsson gufudal
Séra Guðmundur Guðmundsson (07.07.1859-02.01.1935) fæddist að Litlu-Giljá í Vatnsdal.  Þrátt fyrir fátækt heimilisins tókst að koma honum til náms og lauk hann guðfræðinámi 1889 með góðri einkunn.  Hann vígðist til Gufudals sama ár og sat þar til 1905, en eftir það var sóknin lögð til Reykhólaðrestakalls.  Guðmundur fluttist til Ísafjarðar og bjó þar í 30 ár; var m.a. ritstjóri alþýðublaðsins Skutuls og forstöðumaður utankirkjusafnaðar í Bolungarvík.  Kona Guðmundar var Rebekka Jónsdóttir (alþingismanns á Gautlöndum Sigurðssonar).  Meðal barna hans var Haraldur ráðherra og formaður Alþýðuflokksins. 

Það var einn góðan veðurdag, að brestur gerðist í húsi mínu; fór eg því á stað í steinbítsferð, að fornum sið, og hugðist ekki skemmra að halda en í Kollsvík vestur. Höfðu hinir fyrri bændur margan feitan steinbít þaðan fengið.

En af því mér jafnan þykir gott að geta látið gaman fylgja gagni, ásetti ég mér að hitta kunningja minn, Þorvald prest í Sauðlauksdal, og hressa mig á samtali við hann. Segir ekki af ferðum mínum fyrr en eg kom að botni Patreksfjarðar. Fór ég svo sem leið liggur út Skápadalshlíð áleiðis til Sauðlauksdals. Vegurinn var heldur ógreiður og veðrið ekki sem best; hvass norðanstormur, og gengu krapaskúrir af hafi.  Gekk hvergi betur en fót fyrir fót, þó ekki hörmungalaust: Einn klárinn hnaut, annar kippti í o.s.frv.  Þegar kom út fyrir Sker glaðnaði til sólar og tók veðrið að batna. Hestarnir gengu jafnar og gafst mér því tóm til innra hugsana. Minntist eg þá séra Björns Halldórssonar og Eggerts Ólafssonar, sem enn er flestum vestanlands í kæru minni.  Og frá þeim reikaði svo hugurinn til Þorvaldar prests, sem ég ekki hafði hitt síðan á Brjánslæk fyrir nokkrum árum.  Það hafði hryggt mig nokkuð svo er hann fór þaðan.  Á Barðaströnd hafði hann lifað mörg sín fjörmestu ár; henni hafði hann helgað krapta sína alla, sinn harðsnúna framfarahug og sínar duldu draumhýru vonir. Hún hafði, meðan hann var þar, tekið furðulegum framförum í flestum eða öllum efnum.  Og það liggur svo nærri að hvílast á orrustuvellinum.  Skyldi hann annars vera farinn að hugsa til hvíldar; að safna til elliáranna, eða vera hniginn til hversdagsdyggða meðal mannanna.  Hann hefur nú samt dugað drengilega til þessa, hvað sem…  ha, hestarnir kipptu allir í, og eg hrökk upp úr hugsunum mínum. Það var fyrsta sandrokan sem kom, Eg leit upp og guð hjálpi mér:

Sauðlauksdalur var að því kominn að opnast. Fram undan honum sandbreiðan hvítbleik, og fletti vindurinn henni upp sem lausamjóll og bar hana inn til dalsins.  Hlíðarnar við dalsmynnið eru eins og nagaðar hnútur. Sandurinn hefur fyrir löngu sorfið þar allan grasveg á burt og hrímgrátt grjótið er eitt eftir innan um helbleika sandgeirana. Og rokurnar berast lengra og lengra inn til dalsins, ofan í vatnið og upp um grænar hlíðarnar.  Eitruðum heltungum sleikir sandurinn iðgræna hlíðargeirana; helfölvi breiðist yfir blóm og jurtir, en í lengstu lög teygja þau blöðin mót sólarljósinu, ekki óllkt manni sem kominn er að köfnun.  Hvarvetna hamast dauði, eyðing og uppblástur. „Sic trausit gloria mundi“: Svona átti þá að fara um bústað Bjarnar og þarna ætlar Þorvaldur að deyja.  En hann getur ef til vill grætt þar fé áður, jörðin er enn sögð góð.  En dalurinn er dæmdur til eyðingar innan fremur skamms tima og illt er að vita Þorvald vinna þar sín síðustu verk.  Eða eru hér sén forlög Íslands og þeirra, er öruggir vinna að framförum þess, þó í kyrrþey sé?  Flutti djöfullinn Jón Bjarnason hingað í anda áður hann festi trú á uppblástri Islands?  Og mér var sem óvinur alls góðs hefði tekið mig heltökum og sældarvonir þessa lands dóu i brjósti mínu.  Hér er ekki til neins að spyrna móti broddunum. Landið verður með tímanum bara fiskiver fyrir; útlendinga.  Lémagna bæn, vonleysis andvarp steig frá brjósti mínu. Hver mun frelsa oss frá þessum dauða?  Mér var sem djöfullinn horfði glottandi til mín, honum var nýtt um varninginn. Hana, þar er komið að Sauðlauksdal.  Sami dauðinn. Af 50 dagslátta túni hefur sandurinn uppétið 30 með öllu, en hinar 20 eru allar hálfhvítar af sandi. Hann sverfur hurðir og veggi, smýgur inn um dyr og gættir, inn í hug og sál. Á hlaðinu er hann í hófskegg og kirkjugarðinn hefur hann hálffylt.

En á bleikgráa hlaðinu er svartklæddur maður á vakki; lágur vexti en hvatlegur; mér sýndist hann jafnvel lægri en vant var; var það sandinum að kenna?  
„Er sem mér sýnist?  Ert það þú Guðmundur? Hvert ertu nú að fara? Þér átti ég ekki von á í dag“.  
„Sæll og blessaður kunningi, þurftir þú endilega að fara hingað til að sandverpast. Voru ekki fegri grafreitir á landinu en þessi ímynd eyðileggingarinnar“?  
„Hver talar um að láta sandverpast ? Hvar er þín trú á framför landsins, hefur djöfull örvæntingarinnar líka náð tókum á þér“?
„Hvað sem framför landsins líður, þá er þessi blettur dæmdur, dalnum verður ekki bjargað“. „Dæmdur!  Guðlastaðu ekki maður; littu í kring um þig“.
„Ég hef svei mér litið í kring um mig og sé ekkert utan dauða og uppblástur“.
„Ekkert nema dauða, eg skal sýna þér líf“.
„Já, sýndu mér líf; sigursælt líf, líf, sem er meira en dauðateygjur“.
Og hann sýndi mér dagsláttu, alsána islenzku melfræi, og var nálega komið upp af hverju korni.
„Líttu á; svona á að fara að því.  Skoðaðu sandinn; þessi bleiki litur, sem minnir á dauðann er kominn af leir; sandurinn er vel fallinn til ræktunar.  Ef stíflaður væri vatnsósinn, yrði hann innan skamms að fegursta flæðiengi, því þá mætti veita á hann“.
En freistarinn vildi ekki yfirgefa mig: „Hvar fær þú fé til alls þessa? Að stífla vatnsósinn kostar stórfé og sá verður að minnsta kosti í 50 dagsláttur hérna meginn i hlíðinni, ef túninu á að verða borgið“. „Fé“, sagði hann.  „Til er einn sem er nógu rikur, og hann vill víst ekki að þessi dalur eyðist.  Við megum ekkert missa sem byggilegt er af landinu.  Þessvegna hönd á plóginn og spyr ekki, hvaðan vér fáum fé.  Ef guð aðeins lofar mér að lifa hér i 20 ár, þá skaltu sjá“.
Eg leit á Þorvald, mér sýndist hann verða hærri og hærri, en eg varð lægri og lægri, sár blygðan greip mig.  Þarna stóð maðurinn, er eg hafði grunað um hvilrækni og meðalmennsku og bað þess fyrst af öllu, að hann mætti lifa 20 ár til að herja á sandinn.  En allt varð brátt að einu fyrir innilegri gleði, því eg sá að þessum vilja og þessari trú verður náttúran fyr eða síðar að lúta.

Tveim dögum síðar fór ég heimleiðis frá Sauðlauksdal. Sól skein í heiði; sandurinn var hinn sami, en yfir hann var dregin rósfógur vonarblæja. Hún þandist lengra og lengra, út yfir hið hrjóstruga og vanrækta Vesturland, og svo loks út fyrir hvert annes á landinu. En þó hvíslaði sá vondi að mér: „Hvaðan kemur fé til alls þessa“?  En eg svaraði þegar: „Vík frá mér, guð vill víst ekki að þetta land eyðist, hann mun sjá því borgið. En sælir eru þeir, sem að því vinna með honum“.

 

Skreiðarferð vestur á sveitir

Guðjón Jónsson (08.02.1870-07.04.1949) ólst upp á Hjöllum í Gufudalssveit og varð síðar bóndi á Litlu-Brekku í Geiradal 1902-1937.  Hann var lengi hreppsnefndaroddviti og sýslunefndarmaður og sat í stjórn Kaupfélags Króksfjarðar.  Fluttist til Reykjavíkur 1937 og stundaði þar trésmíði og fræðastörf.  Ritaði m.a. ævisöguna „Á bernskustöðvum“.  Kona hans var Guðrún Magnúsdóttir og eignuðust þau 7 börn.  Langafi Guðjóns í föðurætt var Gísli Jónsson, bróðir Einars ættföður Kollsvíkurættar.  Eftirfarandi frásögn Guðjóns birtist í Vikunni 8.tbl. 25.02.1943.  Hér segir hann frá Skreiðarferð árið 1893, er hann 23 ára fór með Arnfinni frænda sínum í skreiðarferð vestur að Saurbæ á Rauðasandi.  Saurbæjarbændur áttu þá Láganúpsjörðina og má ætla að hinn herti steinbítur hafi verið frá útræði þeirra í Kollsvíkurveri.

Það var mánudaginn í tíundu viku sumars.  Sólin hellti glóandi geislum yfir láð og lög.  Döggin silfurglitrandi á hverju blaði og blómi, og enginn andvari bærði bikar blómsins fleytifullan af áfengi daggarinnar; þessum lífgjafa móður jarðar, sem hún nærir þessa smælingja með, er þeir vakna af værum næturblundi.  Það var yndislegur sumarmorgun.  Búsmalinn rann með hægð heim á stöðulinn og lagðist þar jótrandi og kýrnar bauluðu eftir mjaltakonunni, og smalinn tók sprettinn heim kófsveittur á skyrtunni, og fékk sér smalasleikjuna sína að vanda. Hrossin flatmöguðu í Sjónarhólsbrekkunum og létu sólina ylja gljáandi kroppinn þarna hjá blátærri kristalslind, sem hoppaði milli grænna bakka. En við hana segir Kristján:  „Þú við steina hjalar hljótt/ hindamáli unaðsblíðu.

En erindið var nú samt að sækja hrossin. Ég átti sem sé að leggja af stáð með þá í skreiðarferð „vestur á sveitir“, eins og það var kallað, á Rauðasand eða vestur á Látur eða lengra.  Í þetta sinn var það Rauðasandur, þar átti faðir minn bróður: „Ara í Bæ." Hrossin geispuðu og teygðu frá sér allar lappir; reistu makkann og rykktu sér á fætur, og létu mig beizla sig.  Það var svo mikið logn á þeim, eins og firðinum fyrír neðan, sem lá þarna í dúnalogni fyrir fótum okkar, og speglaði ströndina hins vegar með skýrum litbrigðum; og skýr mynd Vaðafjallanna námu nærri því við ströndina, vestanvert við fjörðinn.  Og það er eitthvað til í því, sem Þ. E. segir:  „Slíkt mála menn einatt og ágætavel,/ en Ægir er snjallastur þar“.

Heim komst ég að lokum, þó töfrar sumarsins tækju mig fanginn.  Var nú farið að járna hrossin, þar sem þess var þörf, og laga undir hinum.  Þá var lagður reiðingur á þrjú og hinu fjórða átti ég að ríða. Reipi með nýjum silum kom pabbi með og lét á hrossin.  Kvað hann vont í lestaferðum ef silar slitnuðu, því þá hefðu hestar það til að fælast, og allt vildi þá úr skorðum ganga.  Nestismal og verjur hafði ég og meðferðis, og smjörböggla, sem áttu að fara fyrir fiskæti, sem nú um skeið hafði borist í hendur mömmu minnar mátulega úr búsmalanum, er færði henni þannig hið bezta, sem völ var á úr kjarngróðri sumarsins.  Bætiefni sem nægðu þá, meðan landsins börn dvöldu flest við barm móður jarðar, og nærðust svo að segja á því sem hún lét í té af örlæti sínu; fábreytt að vísu, en hollt og nærandi fyrir æskuna.  Það var búið að athuga það sem við þurfti í sambandi við ferðalagið.  Laga undir hrossunum og útbúa mig.  

Ég átti að verða samferða frænda mínum frá Sveinungseyri í samskonar erindum og á svipuðum aldri.  Arnfinnur hét hann; maður hinn gerfilegasti og rammur að afli.  Hins vegar var ég smár vexti og engi kraftamaður, og þótti mér vel borgið í samfylgd með slíkum manni, sem hann var.  Að loknum morgunverði lagði ég af stað og kvaddi alla á heimilinu, sem báðu mig vel fara.  Gekk pabbi úr garði og gaf mér góð ráð upp á búnað og meðferð hrossanna í langferð.  Bað mig fyrir bréf til bróður síns, Ara í Bæ, kvaddi og óskaði mér góðrar ferðar og heimkomu.  Þegar menn lögðu í ferðalag frá heimili sínu í þá daga, þótti ekki hlýða annað en lesa ferðabæn í byrjun ferðar.  Voru þær lærðar í æsku, bæði land- og sjóferðabæn. Man ég eftir, að rík áherzla var lögð á þá hluti, það var í „Bjarnabænum", sem kallaðar voru, er valdar voru til þeirra hluta.  Landbænin byrjaði svona: „Góði guð, þú verndarinn allra þeirra, sem á þig treysta.  Í þínu nafni áforma ég mína reisu" o. s. frv.  Eitthvað á þessa lund mun ég hafa hugsað, er pabbi vék heimleiðis meðan ég lét hestana lötra upp hálsinn.  Þegar upp á hálsbrúnina kom, leit ég enn einu sinni heim á bæinn, æskuheimili mitt:  „Þar, sem býr minn bezti faðir;/ bræður góðir, vinafjöld."

Annars var það nú bara hressandi að vera kominn upp úr byggð í svona veðri, og finna tært fjallaloftið streyma um sig; lífgandi og endurnærandi.  Og sjóndeildarhringurinn varð æ víðari eftir því sem hærra kom, og fjöllin blánuðu í fjarska við sjóndeildarhring.  Gekk nú greiðlega ferðin yfir Hjallahálsinn, Djúpafjörð um Ódrjúgsháls, allt í Gufudal.  Tók þá við Gufudalsháls og er hann brattur mjög og allra hálsa erfiðastur á þessum slóðum. En þó svo sé er af honum fagurt útsýni um Breiðafjörð og Vestureyjar út til hafs. Þar sem mætast sólglitrandi haf og safírblár himinn „yztu vonir þar sem blána."  En nú blasir Kollafjörður við í sólskininu.  Gekk ég nú ofan hálsinn, því svo er bratt, að ekki getur heitið að reitt sé.  Þarna undir hálsinum bjó annar afi minn á Galtará áður fyrri, en.hinn á Eyri.  Nú bjó þar Ólafur H. Þorsteinsson, prests frá Gufudal.  Hann var maður fátækur, en léttlyndur og hafði jafnan á hraðbergi gamanyrði, og var hrókur alls fagnaðár á mannfundum.  

Hélt ég nú um fagra, skógivaxna hlíð inn að Eyri.  Stingur það mjög í stúf við fjarðarhlíðina vestan fjarðarins, sem er mjög ber og skriðurunnin.  Þegar inn að Eyri kom var mér tekið þar mæta vel af Arnfinni bónda Björnssyni og konu hans; Önnu föðursystur minni, en þar áði ég lengi meðan frændi minn týgjaði sig og hvíldi hross mín.  Þarna borðaði ég; meðal annars sætt skyr og rjóma útá.  En það þótti þá herramannsmatur er sykur var enn af skornum skammti; einkum í sveitum. Þegar frændi minn var ferðbúinn kvöddum við fólkið léttklætt á vellinum í sólskininu.  Kvíféð rann rólega heim á stöðulinn, og smalinn með rakkann sinn og nes ispokann á baki álengdar. Kvöldið var svo friðsælt og róandi þarna í kleifunum, að mér duttu í hug orð Steingríms skálds:  „Úr kleifunum grænum á kvíanna ból/ nú kvöldspakur búsmalinn rennur./  Í heiðríkjubláma hin sigandi sól/ við snjóhvítan jökulás brennur“. 

Bóndi fylgdi syni sínum úr garði. Hafði hann varpað af sér vestinu, og man ég eftir, að hann bar spjaldofin rósótt axlabönd í skrautlegum litum.  Hann ræddi við okkur um alla heima og geima og leyndi sér ekki að maðurinn var einkar skýr og minnugur, eins og þeir Eyrarmenn frændur hans, en nokkuð forn í háttum og fastheldinn á fornar venjur. Kvaddi hann okkur skammt frá Múla og hélt heim, en við inn með firði sem leið liggur fyrir fjarðarbotninn, og var ætlunin að halda áfram um nóttina vegna hitans á daginn.  Þegar kom að Fjarðarhorni vikum við með garði á Kletti upp á hálsinn. Klettsháls liggur fyrir innan Kvígindisfjörð í Skálmarfjörð. Er þarna vinalegt við fjarðarbotnana; víða skógi vaxið, en hlíðarnar hið ytra hrjóstrugri.  En gott mun vera þarna undir bú, eins og það var kallað á þeim árum, sem hér ræðir um, og var þá einkum átt við smjörkostinn.  Hjá Vattarnesi riðum við með garði og allt í Þingmannakleif.  En þar áðum við lengi kvölds í góðviðrinu, því mín hross voru orðin svöng. Sólin var að hníga til viðar, og roðnuðu nú aðeins efstu brúnir fjallanna fyrir hinum deyjandi degi og kvöldið kyrrlátt og milt að færast yfir. Ilmur bjarkarinnar barst að vitum manns, blómin drupu, snortin raka komandi nætur, og eins og Thoroddsen orðar það: „Fuglar sofa, fossar einir vaka,/ fyrir sandi heyrast bárugnauð“.

Þegar hrossin höfðu hresst sig vel á safaríkum gróðrinum lögðum við á Þingmannaheiði.  Fórum við hægt til að byrja með, því bratt er uppá heiðina.  Logn mátti heita en þó var nú nætursvalt um lágnættið, enda er heiðin sem næst gróðurlaus; berar klappir og grjótholt, enda þá vegurinn mjög ógreiðfær.  Minnist ég ekki að hafa farið um auðnarlegri heiði.  Um hana kvað Þorsteinn Erlingsson:  „Ef að þú drottinn átt einhverja sál/ sem þú ætlar að tyfta í reiði,/ þá láttu hana heldur í bik eða bál,/ en bara ekki á Þingmannaheiði“.  

Vorum við fegnir er við með morgunsárinu komum ofan í Smiðjukleif, og gróðurilmurinn barst aftur að vitum okkar.  Og nú þurftu hrossin að fá að hressa sig og grípa niður í Mörkinni.  Þarna er blómlegur skógur, og fagurt við fjarðarbotninn og vatnið spegilslétt á hina hönd í dalnum; með skógi vaxnar hlíðar fast ofan á vatnsbakkann.  Og þarna var það sem Hrafnaflóki undi sér vel á sumri sem þessu við veiðar í vatninu; en gáði eigi að afla sér nægilegs fóðurs handa búpeningi sínum, svo hann dó um veturinn.  Því miður hefir nú þetta endurtekið sig síðan í þúsund ár hjá okkur, meira eða minna.  

En hér var nú ekki til setu boðið, því mývargur frá vatninu gaf hrossunum ekkert næði þegar sólin kom upp.  Héldum við því út með firði og fyrir neðan á Hellu, sem nú var nýkomin í eyði.  En eitthvað hékk þar uppi að nafni til af bæjarhúsum þá.  Þverá var þá búið á, en mun nú í auðn.  Héldum við nú út á strönd og með garði á Brjánslæk og allt út að Hvammi.  Bóndi var þá nýrisinn úr rekkju og dengdi ljá sinn; Guðmundur að nafni.  Var þar gott að koma og greiði þegar til reiðu.  Sprettum við þarna af hrossunum, svo þau gætu velt sér og þurrkað kroppinn á móti sólinni.  Þarna lögðum við okkur góða stund meðan hrossin fylltu sig.  Eftir ágætar móttökum þarna héldum við áleiðis inn fyrir Hagavaðal, því hásjávað var; um Kross og Tungumúla og með garði í Haga.  Er Hagi eitt með meiri höfuðbólum á Vestfjörðum og er þarna glæsilegt útsýni og umhverfi allt, og gagnsamt til lands og sjávar.  Eins og kunnugt er bjó þar á söguöldinni Gestur hinn spaki Oddleifsson, og jafnan hafa setið þar héraðshöfðingjar og mektarmenn. Þar bjó um skeið eitt frægasta skáld átjándu aldar á bundið mál og sagnir, eins og „Piltur og stúlka" og „Maður og kona", einkar sönn þjóðlífslýsing þeirrar aldar.  Og enn eru ljóð hans í hávegum höfð, eins og „Ó, fögur er vor fósturjörð", og fleiri kvæði hans, sem eru gullfalleg.  Annars er Barðaströndin gullfalleg sveit; sólrík og víðsýni alls staðar, næstum á hverju býli.  Og búsældarlegt er þarna víða og gagnsamt til lands og sjávar.  Fórum við nú greitt út ströndina, því reiðvegur er þar góður; alla leið að Haukabergi og áðum þar undir Kleifaheiði.  Var þá orðið síðla kvölds er við lögðum á heiðina.  Þegar kom upp á hana, skiptast þar vegir og liggur annar ofan í Patreksf jörðinn en hinn vestur til Rauðasands.  Þann veg héldum við nú, og ofan í Skógardal.  

Að Bæ komum við um miðjan morgun og var Ólafur Thorlacíus, sem þá var fyrir löngu siðan tekinn við af Ara, að koma á fætur.  Var hann kvæntur dóttur Ara; Halldóru. Búsýslumaður var hann hinn mesti og bætti hann jörðina að ræktun og húsakosti svo af bar.  Hann tók okkur ágætavel og bauð okkur þar að vera.  Þar tókum við af hrossunum og kvaðst Ólafur láta gæta hrossanna meðan við legðum okkur. Voru þau geymd niður við Bæjarós og undu þau sér hið bezta þar, enda töðugæf beitin.  Bær var þarna gamall en reisulegur og umgengnin öll hreinleg.  Seinna byggði Ólafur þarna steinhús mikið og vandað, heyrði ég sagt.  Þarna sváfum við fram á daginn. Kom frændi minn þá fram í stofu og heilsaði okkur.  Höfðum við ekki sést áður.  Hann var meðalmaður á vöxt, snar í fasi, skýr i máli og einarður. Var hann vel farinn í andliti.  Skeggkraga bar hann um andlit, að þeirrar aldar hætti, sem hafði verið rauður, en var nú tekinn mjög að hærast.  Hann spurði okkur almæltra tíðinda, og síðan um ættfólk sitt þar syðra og æskustöðvar að fornu; á Eyri.  Eigi leyndi sér í viðræðum hans, að honum kippti í kynið þar sem var Finnur Arason faðir hans á Eyri, um greind og fróðleik.  Var hann og mikilsvirður þar vestra, og þá ekki sízt á heimili tengdasonar síns; Ólafs.  Þegar hann minntist á Ara var það ætíð á þessa lund: „Ari minn." Svona hlýlega virtist öllum liggja orð til hans, hins gamla manns, sem var hættur allri umsýslu.  

Nú var farið að snúa sér að steinbítskaupunum og gekk það allt greiðlega. Áttum við að fá sjötíu steinbíts fyrir tvo fjórðunga smjörs. Þætti Ara sumir smáir, kastaði hann nokkrum ofaní til uppbótar og báðir urðu vel ásáttir.  Bundum við nú uppá hrossin um kvöldið.  Að því loknu bauð Ólafur okkur með sér ofan á Fitina, sem kölluð var. Hún er með endilangri ströndinni, uppgróin sandalda fyrir neðan engjarnar, og er þarna töðubeit mikil og góð.  Var þar margt hrossa og kúa saman komið. Engjarnar eru fyrir ofan ölduna, en neðan við bæina, sem eru allir með hlíð fjallsins.  Sést vel til bæja á Rauðasandi af Fitinni.  Er byggðin einkar snotur og liggur vel við sól.  Er hlíðin umhverfis krýnd klettum hið efra vestur að Bjargi, en Skor og Sjöundaá til austurs.  Og er yfirbragðsmikið umhverfið og hlýlegt.  Ýms hlunnindi eru þarna, svo sem viðarreki og selveiði í Bæjarós, og svo fuglinn í Látrabjargi. Þegar Ólafur hafði sýnt okkur afstöðu alla, og greint frá bæjum þar á sandinum, og annað er markvert var að sjá, héldum við heim til bæjar síðla kvölds í indælu veðri. Gengum síðan til hvílu og sváfum vært til morguns.  

Þegar við komum á fætur lét bóndi reka heim hross okkar og greiddi brottför ókkar, unz öll voru hrossin klyfjuð.  Kvöddum við svo frænda gamla, húsbændur og heimilisfólk allt á hlaðinu í Bæ, og héldum af stað heimleiðis með einlægar árnaðaróskir fólksins í vegarnesti.  Ferðin austur gekk ágætlega, en væta var stundum og yfirleitt var veður óhagstæðara fyrir okkur og hrossin, sem þó voru óðfús heim þó baggarnir þyngdust við vætuna.  Fengum við ágætar viðtökur á Eyri hjá þeim hjónum og gisti ég þar.  Daginn eftir náði ég heim, og þótti gott heilum vagni heim að aka. Og bezt var þó heima að vera.    (Birt í Vikunni 8.tbl. 25.02.1943)

Skreiðarferð kerlingar

Barðstrendingar fóru gjarnan vestur í Víkur til harðfiskkaupa.  Það mun hafa verið snemma á 19.öld sem skrælt var orðið í búi kerlingar ónefndrar á Barðaströnd.  Hún lagði þá land undir fót og hélt af stað áleiðis í Víkur, þar sem hún vissi gnægð fiskifangs.  Út um Sandsheiði hélt Kerling, út Rauðasand og um Kerlingarháls.  Ekki er núna vitað um áfangastaðinn; hvort hún lagði sína leið út Látraheiði að Brunnaverstöð, sem þá var mjög virk; eða hvort hún beindi sinni för út Víknafjall til Kollsvíkur, þar sem einnig var allmikil útgerð.  Ferðin vestur gekk vel, og kerling fékk sinn bagga af steinbítsstrengslum; kúluðum og hertum.  Heldur syrti þó að í bakaleiðinni, og á Sandsheiði lenti hún í kolniðaþoku.  Verra var þó að hún tapaði vegi og áttum.  Í 10 dægur ráfaði hún í villu á þessum hrjóstrugu víðáttum.  Ávallt bar hún baggann á bakinu.  Sér til lífsviðurværis borðaði hún eitt steinbítsstrengsli í hvert mál og drakk vatn úr pollum og lækjum til að svala þorstanum.  Það þótti furðu sæta að kerling skyldi hafa lifað af þessa löngu útivist; efalítið orðin köld og sárfætt.  Hitt þótti þó með enn meiri ólíkindum að við heimkomuna voru allir steinbítarnir ósnertir í bagganum og stráheilir.  (Eftir sögnum, m.a. Bergsteinn Skúlason; Um annes og eyjar).

 

Leita