Finnur Ó. Thorlacius

___________________________________________________________________________

finnur thorlFinnur Thorlacius (16.11.1883-26.12.1974) húsasmíðameistari fæddist og ólst upp í Saurbæ á Rauðasandi, sonur Ólafs Ó Thorlacius og Halldóru Aradóttur Finnssonar.  Eftir nám í húsasmíði á Patreksfirði, í Reykjavík og Kaupmannahöfn gerðist hann farandsveinn; gekk um Evrópulönd með smíðaverkfæri sín á bakinu.  Varð síðan mikils metinn kennari, húsasmiður og húsateiknari í Reykjavík.  Endurminningar Finns; „Smiður í fjórum löndum“ komu út 1661.  Þar er m.a. að finna þennan kafla um reynslu hans sem unglings af róðrum í Útvíkum.

­­­­­­­­­­­­­­­­­­­__________________________________________________________________________________________

Þegar ég var fimmtán ára gamall (um árið 1898) afréð faðir minn að senda mig í ver á vorvertíð.  Þegar fyrst var farið að tala um þetta gerðist ég forvitinn og eftirvæntingin fór vaxandi eftir því sem nær dró brottfarardegi að heiman.  Ég hafði ekki komið í verstöðvarnar, sem þá voru helstar Kollsvík og Breiðavík.  Hins vegar hafði ég heyrt margt um þær talað, og lífið þar.  Að sjálfsögðu voru þessar sögur ekki eins svakafengnar og menn hafa heyrt undan Jökli eða frá öðrum verstöðvum þar sem fjölmennast var á vetrum þegar veður voru verst, en samt sem áður þótti mér það mikið ævintýri að eiga að hefja sjómennsku eins og fullgildur maður.

Það var afráðið að ég færi með Guðmundi Ólafssyni smið, en hann átti að stýra skipi úr Breiðuvík þetta vor.  Guðmundur var hjá foreldrum mínum með konu sína og tvær dætur; stundaði smíðar heima og önnur störf þegar á þurfti að halda, og hafði sérstaka smíðaskemmu.  Guðmundur var dugnaðarmaður mikill og skapgóður, en fylginn sér og kappsamur þegar því var að skipta.  Hann hafði ýms hlunnindi hjá föður mínum fram yfir það sem tíðkaðist um vinnumenn, og mun smíðakunnátta hans hafa valdið mestu um það.

Faðir minn hafði ráðið Guðmund sem formann á skip Sigríðar Traustadóttur; móður Trausta Ólafssonar prófessors í Reykjavík, en hún var þá orðin ekkja.  Átti faðir minn að fá skiptahlut Guðmundar en sjálfur átti hann að fá sérstök formannslaun hjá ekkjunni.  Mun hlutur Guðmundar, sem gekk til föður míns, hafa verið venjulegur hásetahlutur.  Nú var ég búinn út eins og hver annar sjómaður.  Ég fékk skinnklæði; brók og stakk, og fannst ég heldur þunglamalegur og fyrirferðamikill þegar ég óð út í sjóinn í fyrsta sinn, en ekki var frítt um að ég finndi dálítið til mín.  Við höfðum samastað í fjárhúsi og bjuggum um okkur eins og við best gátum, en heldur var vistin að þessu leyti léleg.  Hins vegar var ég vel búinn með mat.  Það skorti aldrei neitt á skömmtunina í Saurbæ, enda mun móðir mín heldur hafa vorkennt mér að fara í verið og viljað að ég hefði að minnsta kosti nóg að borða.

Róið var suður fyrir Látrabjarg; yfir Látraröst.  Leiðin er ekki áhættulaus og urðum við að sæta færis, því að á fleytunni þýddi ekki að leggja í röstina nema í besta veðri.  Vorvertíðin hófst skömmu eftir sumarmálin.  Ég var dálítið smeykur um að ég yrði sjóveikur, að minnsta kosti til að byrja með, enda hafði ég ekki haft nein kynni af sjónum, en þetta fór betur en ég hafði þorað að vona.  Að vísu fékk ég dálitla velgju fyrst í stað, en hún fór brátt af mér og eftir það kenndi ég mér ekki nokkurs meins.

Undir Látrabjargi voru ágæt steinbítsmið.  En steinbíturinn er viðsjárverður fiskur.  Það er erfitt að draga hann og tókst mér heldur óhönduglega við fyrstu drættina; og ekki tók vetra við þegar búið var að innbyrða hann.  Það varð að rota hann tafarlaust, annars gat hann skaðað okkur.  Hann átti það til að opna kjaftinn upp á gátt og skella saman hvasstenntum skoltunum eldsnöggt og á hvað sem var; spýtur og kubba og jafnvel fætur manna.  Við þurftum að hafa snör handtök við þetta og lærðust mér þau fljótlega.  Fyrsta högg mitt á steinbítshausinn varð þó vindhögg, en þau urðu ekki fleiri.

Ég hafði ekki farið í marga róðra þegar ég lenti í sprökuveiði.  Ég fann að það var ekki steinbítur á hjá mér, og töldu félagar mínir þá að ég hefði lent á lúðu.  Það var talin stór heppni og varð eftirvænting mín mikil.  Það þurfti sérstakt lag með að draga lúðu og reyndist ég ekki maður til þess, þrátt fyrir nákvæmar fyrirsagnir félaga minna.  Varð ég að fá aðstoð við dráttinn.  Hún reif sig ekki af önglinum en strikaði mikinn.  Meðan á drættinum stóð, og eftir að flyðran var komin vel upp á borðstokkinn, létu félagar mínir óspart dynja á mér stríðni.  Það var almælt að sá piltungur sem drægi lúðu væri farinn að hugsa um kvenfólk; væri búinn að fá hvolpavit.  Ég vissi best sjálfur að þetta voru hindurvitni; að minnsta kosti var ég þá ekki búinn að fá hug til kvenna.  En ég lét stríðni félaga minna sem vind um eyrun þjóta; þótti nokkuð gaman að, og fannst jafnvel ég vaxa við þau.  Það var enn ein sönnunin fyrir því að ég væri að verða maður, jafnvel þó að ég væri að byrja sjómennsku og væri aðeins hálfdrættingur.  Þegar lúðan var komin í bátin, stór og fönguleg, var mér sagt að rota hana tafarlaust og skera af henni sporðinn, því annars gæti hún skemmt bátkrílið.  Ég fékk sjálfur alla þessa fyrstu spröku mína.  Var hún verkuð fyrir rikling ásamt rafabeltum, en lúðuriklingur og hert rafabelti hafa löngum þótt mikið lostæti; að minnsta kosti á Vestfjörðum.  Ég gelymi aldrei bragðinu af þessum mat með nýstrokkuðu smjöri.

 Þessari fyrstu vorvertíð minni lauk svo og var afli sæmilegur, og faðir minn fékk í búið fyrsta vertíðarhlut minn.  Hann var myndarlegt búsílag þó það væri aðeins hálfur hlutur.  Ég man að þegar vertíð var lokið þá var ég svo ánægður með sjálfan mig og útkomuna að ég taldi líklegt að ég mundi aldrei framar þurfa að ráða mig upp á hálfdrætti.

---------------------

Á næstu vorvertíð var ég í Kollsvík; reri þá á bát með Össuri Guðbjartssyni (eldra) bónda þar, og var skipið einnig fjögurra manna far.  Aldrei hafði mig dreymt um annan eins frama á sjónum á svo skömmum tíma.  Ég var settur undir stýrið; bókstaflega ákveðið að ég yrði stýrimaður.  Nú höfðum við lóðir og var beitt kúfiski sem sóttur var inn að Hvalskeri í Patreksfirði.  Lóðirnar voru beittar í landi; fimm til sex snæri; þrjátíu faðma hvert.  Svo var þeim lagt; síðan dregnar og hreinsaðar og beittar aftur, í skipinu.  Aflinn var yfirleitt mjög góður, en fiskurinn smár og fengum við stundum fjögur til fimm hundruð í róðri.  Alltaf var tvíróið á sólarhring, enda oftast gott veður.  Gera varð að aflanum strax og lent var, og var ég flatningsmaður ásamt formanni.  Það var líka forfrömun, því fiskflatning er vandasöm; það er að segja ef vel á að fara með fiskinn.  Við söltuðum þorskinn en hertum steinbítinn.  Steinbíturinn var til heimilisnotkunar en þorskurinn var seldur á Patreksfjörð.  Til þess hluta aflans varð að vanda vel, og lögðum við okkur í framkróka með það, því að þess betri sem fiskurinn var; því meira fékkst fyrir hann.

Oft kom undirsjór og var þá brim við lendingu.  Formaðurinn og eldri félagar fundu það einhvernvegin á sér áður en undirsjórinn kom, og þá fóru þeir að ókyrrast.  Handtökin urðu hraðari við línudráttinn og þeim varð tíðlitið til landsins; hvort ekki væri farið að hvítna við landið.  Og svo var lagt af stað og róinn lífróður.  Þegar svona var ástatt urðum við að seila upp allan fiskinn og draga seilarnar á eftir okkur.  Þegar aðrir höfðu lent á undan, en fleiri skip gengu úr Kollsvík, voru margar hendur á lofti til þess að taka á móti skipinu og hjálpa okkur; bæði með það og seilarnar.  Slys höfðu átt sér stað í Kollsvík við brimlendingu, en ekkert slys varð á mönnum eða skipum þær tvær vorvertíðir sem ég reri þaðan með Össuri.  Slýs varð þó nokkru síðar (1904), þegar Torfi (Jónsson; mágur Össurar) bóndi í Kollsvík drukknaði í lendingu.

Fæðið hef ég rétt minnst á áður.  Það var skrínukostur; kæfa soðin niður í koffort; smjör og rúgkökur.  Soðinn var feitur steinbítur og smálúða.  Graut fengum við stundum að heiman frá formanni, en kaffi hituðumm við sjálfir.  Erfitt var að bera fiskinn upp; sérstaklega um fjöru.  Þó var það leikur einn í samanburði við saltpokana, en þeir voru hundrað og fjörutíu pund að þyngd.  Ég man það að þegar ég átti í fyrst sinn að bera einn slíkan drelli horfði ég á hann og þótti hann heldur ófrýnilegur; vissi sem var að ég var að minnsta kosti hvorki sterklegur né beinastór og ég hafði séð fíleflda karla kikna nokkuð í hnjáliðum undan slíkri byrði.  En ég hafði aldrei gefist upp við neitt að óreyndu sem ætlast hafði verið til að ég leysti af hendi, og ég vildi heldur ekki láta það ásannast í þetta sinn.  Ég kom pokanum upp á bakið og skjögraði svo af stað.  Þá datt mér í hug hvernig baksvipurinn á mér mundi vera, og reyndi að rétta úr mér.  Ég komst að raun um að ég var dálítið seigur og þetta var ekki eins erfitt og ég hafði haldið.  Svo komst þetta upp í vana.  Ég stæltist mjög að afli og áræði og þroskaðist andlega meðan ég stundaði sjóinn úr Breiðuvík með Guðmundi Ólafssyni og úr Kollsvík með Össuri Guðbjartssyni.  Það er gott fyrir unglinga á þessum árum að kynnast árinni.  Róðurinn styrkir allan líkamann, fæturna, hanleggina og bakið.  Hann styrkir lungun og hjartað.  Ætli nokkur íþrótt sé eins göfug fyrir líkama og sál og róðurinn?

Fátt var til tíðinda á þessum þremur vorvertíðum mínum  Félagslíf var gott og samheldni ágæt.  Einu sinni varð allmikið fyllirí í Kollsvík.  Svo bar við að eitt skipið fann stærðar tunnu á floti og var henni róið í land.  Þegar þangað kom veltu varfærnar höndur henni upp flæðarmálið; þar var hún opnuð og skyggnst í hana.  Síðan var rætt um innihaldið og menn skeggræddu um hvað það væri.  Það var rautt á litinn og menn vissu að rauðvín bar þann lit.  Svo var bragðað á þessu; mjög varlega í fyrstu, og reyndist þetta fyrsta flokks rauðvín.  Þá biðu menn ekki boðanna en svolgruðu stórum.  Almennt fyllirí varð í verstöðinni hjá þeim sem gátu drukkið nógu mikið.

Einu sinni gekk slæm inflúensa í Kollsvík og veiktust margir.  Aðbúnaður manna var mjög slæmur þegar veikindi bar að höndum.  Aðeins einn háseti fór heim til sín; eingöngu til að liggja þar ef hann veiktist, en svo fór að hann veiktist ekki og tapaði við brottförina tíu ágætis afladögum.  Þá voru menn ekki að liggja í fleti sínu þó að þeir hefðu hitaslæðing eða þá verkjaði svolítið í útlimi.  Mér er nær að halda að árin og sjávarseltan; hafgolan og fiskilyktin, hafi verið bestu lyfin gagnvart svona kvillum.

Leita