Guðmundur Jón Hákonarson frá Kollsvík, sem síðar bjó á Hnjóti og var lengi kaupfélagsstjóri, lýsir hér reynslu sinni sem hálfdrættingur í Kollsvíkurveri.  Jón þótti hafa mikla kímnigáfu og skemmtilegan frásagnarmáta.

gjhGuðmundur Jón Hákonarson  ( 11.01.1910 - 18.10.2000) var sonur Hákonar Jónssonar bónda á Hnjóti og Málfríðar Guðbjartsdóttur  frá Kollsvík.  Jón stundaði búskap á Hnjóti, en varð síðar kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs, og gengdi því starfi lengi.  Á yngri árum reri hann frá Kollsvíkurveri, eins og hér er frá sagt, en einnig frá Breiðavík, Gjögrum og víðar.  Hér segir hann frá fyrstu sjómennskureynslu sinni, sem 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri.  Sögurnar gerast á vertíðum árin 1923 og 1924.  Frásögnin var tekin upp á segulband af Agli Ólafssyni á Hnjóti 1996, og birt í Árbók Barðastrandasýslu árið 2004. 

Það var oft erfitt.  Það var nú vegna þess að þá byrjaði maður ungur og óvanur öllu.  Ég byrjaði 13 ára að róa sem hálfdrættingur úr Kollsvík.  Þar var formaður Eyjólfur Sveinsson, kennari á Lambavatni.  Það voru þrír á hans bát venjulega, en í þetta skipti var það hann og félagi hans sem átti bátinn með honum; Guðbjartur Egilsson frá Tungu, sem réði okkur tvo stráka sem einn mann.  Ég var annar, en hinn Trausti Jónsson frá Skógi á Rauðasandi.  Hann var á sama aldri og ég. 

Það var oft erfitt fyrir viðvaninga; sjóveika í byrjun, og kvalræði að fara með kúfiskinn.  Fyrst var farið í beitufjöru í Bugnum á Hvalskeri, og krafsað þar upp með höndunum kúfiskskeljarnar uppúr sandinum.  Bugsferðir voru ávallt farnar um stórstrauminn.  Skelin var svo geymd í pokum þar sem sjór féll á hana, en þegar þetta fór að eldast drapst skelin og þetta varð úldið og blátt.  Varð þetta ekta sjóveikiefni, þegar lyktin af þessu blandaðist saman við þefinn af brókunum, sem voru verkaðar með lýsi eða grút.  Maður kvaldist af sjóveikinni fyrstu dagana, en svo vandist það nú af. 

Róið var með lóðir; átta lóðir, og yfirleitt tvíróið.  Það var beitt í bjóð í landi um kvöldið og vaknað tímanlega klukkan fjögur eða fimm.  Þá var farið á flot, eftir því hvernig stóð á straum; það varð að fara eftir straum, uppá lagninguna.  Allir tóku ofan sín höfuðföt og báðu sjóferðabænina þegar komið var á flot, og menn höfðu sest undir árar.  Síðan var róið til miða, sem var mjög stutt.  Þá var kastað bóli, eftir því miði sem formaðurinn valdi sér, og lóðirnar lagðar.  Hálsmennirnir; í þessu tilfelli við strákarnir, andæfðu.  Þeir reru af krafti; reru út lóðina.  Formaðurinn kastaði út krókunum, og aðstoðarmaðurinn hnýtti saman lóðirnar og hafði allt greiðfært.  Svo var legið yfir eftir að búið var að hleypa niður seinni drekanum, en drekar voru á báðum endum lóðanna. 

Legið var yfir fram á liggjandann, en það var skammur tími yfir fallaskiptin.  Við upptökuna; þ.e. byrjun á nýju sjávarfalli, var byrjað að draga.  Um stórstrauminn var liggjandinn stuttur og straumur fljótt á.  Það var púl að draga.  Formaðurinn dró; aðstoðarmaður, eða einhver sem til þess var valinn, beitti út sem kallað var.  Á meðan legið var yfir, var búið að brjóta úr skelinni sem höfð var með og skera beituna í bita.  Var þessu beitt út; kastað út jafnóðum og dregið var.  Og hálsmennirnir; þ.e. andófsmennirnir, urðu að róa til að hafa áfram.  Ef það var slælega gert, kom áherðingur á línuna; þ.e. strekktist á línunni við dráttinn.  Eftir að straumur harðnaði var erfitt að róa til að hafa áfram; róa á móti straumnum til að ekki stæði á; að ekki yrði erfitt hjá dráttarmanninum.  Útbeitningarmaðurinn varð að vera fljótur til að forðast áherðing.  Svo þegar það var búið, var lagst við stjóra.  Síðan var dregið aftur og beitt út á sama hátt og áður.  Þegar það var búið var farið í land; hitað sér kaffi og soðinn fiskur og nært sig.  Eftir það var farið í síðari róður dagsins.  Og sagan endurtók sig; dregið og beitt út; lagst við stjórann, svona um straumaskiptin, og enn dregið.  En nú var dregið upp; lóðin hringuð niður í bjóðin.  Þegar því var lokið voru niðurstöðurnar gerðar upp; belgirnir innbyrtir og róið í land.

Skiprúmið mitt hjá Eyjólfi var uppá hálfan hlut, og það gerði 65 krónur sem ég hafði yfir vorið.  Nú, það var svoleiðis að ég og Trausti vorum byrjendur.  Það var alltaf regla í Kollsvík að þeir sem reru í fyrsta skipti í þeirri verstöð áttu að „glíma um sýsluna“.  Sá sem féll var útnefndur sýslumaður.  „Sýslan“ var þá fjaran frá flæðarmáli og uppí Syðrikletta, sem kallaðir voru.  Það var eins og gerðist í þá daga; þá voru hvergi til klósett.  Þetta svæði urðu menn að nota sem klósett; undir Syðriklettunum.  Svona viðvaningar; nýliðar; þeir áttu að glíma um hver væri „sýslumaðurinn“; yfirmaðurinn yfir þessu svæði, sem annast skyldi um þrif á því.  Innheimta síðan gjald fyrir hvern mann sem notaði svæðið; þ.e. gengi þar til örna sinna.  Nú, við neituðum að glíma; við strákarnir.  Við vorum óvanir öllu, og þótti skömm að þessu hálfgerð; vorum feimnir við þetta og afsögðum að glíma.  Þá kom formaðurinn okkar, Eyjólfur, með þá tillögu að við skyldum báðir heita sýslumenn.  Það voru ekki aðrir byrjendur, og við áttum ekki að þurfa að rukka hvern sem notaði þetta svæði.  Hann kom með þá tillögu að hver útgerðarmaður borgaði okkur einn steinbít; fullhertan, góðan, vel verkaðan harðsteinbít; kúlaðan.  Það varð að samkomulagi, og samþykktu allir bændurnir; eða útgerðarmennirnir réttara sagt.

Svo þegar á leið, þá höfðum við ekki einurð í okkur að rukka inn sýslugjöldin, sem kölluð voru.  Þá var kunningi okkar; hann hét Gunnlaugur Egilsson frá Lambavatni; hann bauð okkur að innheimta.  Hann gekk búð úr búð, og sagðist vera að innheimta sýslugjöld fyrir sýslumennina nýju.  Þeir tóku þessu vel, og allir formennirnir létu okkur hafa sinn steinbítinn hvorn.  Sumir voru svo rausnarlegir að þeir létu okkur hafa steinbítinn af hverjum háseta, svo við vorum allbirgir þarna.  Vorum við hreyknir af þessum málalokum og þessari tekjuöflun okkar.  Við vorum nú báðir af fátækum heimilum, og þótti gott að fá björg í bú.  Svo þetta var nú dágóður fengur fyrir okkur, og við vorum ánægðir með þetta.  Svo leið að heimferð, og eins og ég sagði áðan var hluturinn minn 65 krónur.

Segir nú ekki frá því fyrr en árið eftir; það var fermingarárið mitt.  Ég gat því ekki farið til sjóar fyrr en eftir hvítasunnu; 14 ára gamall.  Þá voru allir búnir að fullráða.  Þá bauðst mér skipsrúm hjá móðurbróður mínum.  Sá hét Gísli Guðbjartsson.  Hann átti litla skektu sem kölluð var Korkanes.  (Það nafn mun hafa verið viðurnefni, sem skektunni var gefið af vermönnum; hún hét réttu nafni Golan).  Hann bauð mér að róa með sér með færi.  Ég þáði það náttúrulega; enda vel boðið.  Annar frændi minn sem þá var á fermingaraldri; Einar Guðbjartsson, reri einnig hjá Gísla.  Gísli skipti úr fjöru Einars hlut, en við lögðum inn í félagi; ég og formaðurinn.  Þetta gekk nú svona sæmilega; við rerum þarna með færi og var oft lítið sótt.

Svo tíðkaðist það á þessu vori að ýmsir unglingar fóru í laugardagsróður.  Máttu þeir hirða það sem þeir drógu sjálfir, og leggja það inn á eigin reikning.  Þrír unglingar fóru á sjó eitt laugardagskvöld.  Karl Sveinsson hét formaðurinn; Einar Guðbjartsson sem ég nefndi áðan var háseti hjá honum; og Sigurvin Össurarson var sá þriðji.  Þá var það að sonur Gísla Guðbjartssonar; Dagbjartur Björgvin að nafni, bauð mér í laugardagsróður með sér á Korkanesinu.  Það var auðvitað þegið.  Við rerum norður á Bætur, svokallaðar.  Það var norðurundir Blakknesinu; grunnt nokkuð, og þar var tekið til að skaka.

Það var mjög tregt, og illt í sjóinn.  Það lagði á norðanspænu með hálfgerðum brimhroða.  Þeir voru búnir að fá 30 fiska, frétti ég seinna, á bátnum sem Karl réði fyrir; en við fengum bara átta þorska og einn ufsa.  En þá var ekkert um annað að ræða en fara í land.  Það hafði verið farið að drífa og reka undan norðanstorminum.  Botnuðu ekki færin, en þá átti ég að andæfa á tvær árar á hálsþóftunni.  Dagbjartur Björgvin skakaði þá í krafti og gekk illa.  Svo missti ég nú aðra árina uppaf kengnum; eitthvað afslepp tollan.  Þá sló flötu; ég lenti í broti, og það skvettist duglega í Korkanesið.  Það var ekkert annað en fara að ausa uppá karft; leggja upp árar og tréreisa sem kallað var, en það var að reisa mastrið og draga upp þversegl sem var í þá daga í flestum bátum í Kollsvík.

Svo var siglt undan.  Þeir voru komnir á undan okkur og lentir þegar við komum upp á Lægið; þá var kominn brimhrotti töluverður.  Þá skeður það að Dagbjartur Björgvin ætlar að sigla upp, en hættir við það.  Skipar hann mér að fella seglið og ætlar að róa upp sjálfur.  Hann treysti mér ekki til að róa á móti sér; hélt að ég hefði ekki við sér, sem gat nú náttúrulega verið satt.  Svo hann reri á tvær árar framí en sagði mér að vera í barkanum, sem er fremsta rúmið í bátnum, og kasta í land tauginni þegar að því væri komið.  Því nægur mannskapur var í fjörunni að taka á móti okkur.  Svo missir Björgvin út aðra árina þegar við vorum komnir nokkuð grunnt uppá.  Þá náttúrulega, þegar átakið kom á annað borðið, sló flötu.  Kallað er að slái flötu þegar báturinn skekkist og hann verður flatur fyrir bárunni.  Við fengum væna báru og það skvettist drjúgt í.  Svo fengum við aðra báru, og þá kom talsvert mikið í.  Flutu þá upp plittarnir, og sjórinn var svona í hálfa leið í þóftur.  Þá vissum við ekki okkar rjúkandi ráð, og héldum að þetta yrði okkar síðasta.  Þá varð mér litið upp í fjöruna.  Þar voru þeir búnir að binda einn mann í taug frá landi; sá maður hét Guðbjartur Torfason.  Ekki var talið óhætt að hann væði svo djúpt; kannske undir hendur eða axlir, án þess að hafa á honum taug.  Gáfu þeir hann út og hann óð eins langt og hann orkaði; þá var hann kominn í axlir.  Hann hrópar í mig að henda tauginni til sín, og gerði ég það nú eins og ég gat.  Hann náði í taugina, landfestina, og þá var dregið í land.  Þeir sem voru í landi drógu Guðbjart, og hann dró Korkanesið; við húktum bara þarna í hálffullum bátnum.  Svo var tekið á móti okkur af öllum mannskapnum.  Það var ekki verið að hleypa okkur frá borði:  Það var tekið á loft þetta mikla skip; Korkanesið sjálft, og við bornir upp á kamb með öllum aflanum í og sjónum; og það var mikill hlátur að öllu saman.

En þeir gömlu sögðu nú ýmislegt, og sérstaklega Gísli gamli.  Hann kom æpandi á móti syni sínum og sagði:  „Ja, þetta áttir þú ekki að gera:  Þú áttir að sigla; halda á að sigla.  Þá hefðir þú haft lagið upp“.  Og hinir sögðu:  „Já mikið átt þú eftir Björgvin; mikið átt þú eftir að læra til að komast með tærnar þar sem faðir þinn hefur hælana í sjómennskunni“.  Svo var nú ekki meira með það; Björgvin gaf mér allan aflann, sem voru átta fiskar og einn ufsi!

Leita