Lýsingar Kristjáns Ólafssonar frá Barðaströnd, sem reri úr Kollsvíkurveri 1914 og aftur 1923-25.  Fjölmargir Barðstrendingar og Breiðfirðingar sóttu í Kollsvíkurver.

Kristján Ólafsson fæddist í Ytri-Miðhlíð á Barðaströnd 18.10.1899, sonur Kristínar Ólafsdóttur og Ólafs Sveinssonar sem þar bjuggu.  Kona hans var Guðrún Lilja Kristófersdóttir, af Kollsvíkurætt.  Þau bjuggu fyrst að Brekkuvelli á Barðaströnd en síðan á Patreksfirði, þar sem Kristján vann til sjós og lands.  Hann lést 02.01.1983.  Síðar fannst handrit með ýmsum frásögnum hans, sem Ingimundur Andrésson bjó til prentunar í Árbók Barðastrandasýslu 2016.  Hér er gripið niður í þá frásögn, að því er varðar róðra í Kollsvík.

Ég var fermdur í Hagakirkju vorið 1914, þá kominn á fimmtánda ár. Þá stóð það til að ég fengi að fara eftir hvítasunnu, vestur í Kollsvík með húsbónda mínum Þorgrími, sem réri þaðan bát sínum á hverju vori, eins og fyrr er getið. (Hér á Kristján við Þorgrím Ólafsson í Miðhlíð á Barðaströnd, sem giftur var Jónínu systur Kristjáns.  Þorgrímur reri á vertíðum í Kollsvíkurveri á þessum árum; á bát sem hann átti með Sæmundi bróður sínum og hét Dvalinn).  Þetta stóð nú allt heima, nú var ég ráðinn hálfdrættingur í Kollsvíkurveri, þetta vor var nú heldur spennandi. Nú var farið í fyrsta róður, og átti ég þá að eiga sjálfur það sem ég gæti dregið. Það var róið á steinbít norður á Blakksnesröst.  Mér þótti sá blái nokkuð líflegur þegar sá fyrsti kom í bátinn og horfði ég á, hvernig farið var að aflífa þá fyrstu og var hlegið mikið að mér. Ég þorði ekki að kasta út mínu færi fyrr en ég var búinn að sjá hvernig þetta var.

Loks kom að því að sá fyrsti kom inn fyrir, og varð ég að elta hann lengi áður en ég gat komið höggi á hann.  Loks tókst mér að rota hann og fór þá að færast líf í veiðina, og endaði fyrsti róðurinn með því að ég hafði dregið 28 steinbíta. Ekki fór ég nú á sjó á hverjum degi, heldur var ég oft í landi til að gæta fiskifangs og hafa til beitu; skelja úr, því alltaf var beitt kúfiski.  Var það aðgengilegra fyrir þann sem beitti ef búið var að skelja úr, og skera beitu þegar þeir komu af sjónum.  Alltaf var róið með lóðir, en stöku sinnum var farið með færi og þá helst á steinbít.

Eins og fram kemur hjá Kristjáni er róið með lóðir og er í því sambandi gaman að geta þess að Þórður Gunnlaugsson var fyrstur manna til að róa með lóðir frá Kollsvíkurveri.  Þetta er sá hinn sami Þórður sem var formaður á bátnum sem fórst við Gjögra 1. maí 1897 þegar Þorgrímur komst einn af við illan leik.

Eftir þennan „sjómannaskóla“ í Kollsvík var Kristján á vertíðum; fyrst á skútunum Maríu  og Kjartani frá Bíldudal, síðan mótorbátnum Svani og á mótorbátnum Mumma frá Patreksfirði, þar sem Árni Dagbjartsson var skiptstjóri.  Hann var um tíma í Sauðlauksdal og þá landpóstur út að Látrum.  Árið 1922 keypti hann sér vélbát; nýsmíði frá Gísla Jóhannssyni á Bíldudal.  Síðan segir Kristján:

Og nú var ég orðinn réttur eigandi að þessum bát; var nú ekki um annað að ræða en að gera hann út.  Fór ég nú að tala við menn sem ég þekkti og spyrja þá álits.  Allir voru þeir sammála um að best myndi að gera út frá Kollsvík.  Því nú voru þeir búnir að kaupa vélbát (Fönix yngri) sem hafður var til allra flutninga fyrir þá sem reru í Kollsvík.  Áður þurftu bátarnir að slá sér saman, þannig að annar fór eftir salti en hinn reri með lóðir beggja.  Sama aðferð var höfð þegar sækja þurfti beitu.  Hana þurfti að sækja innfyrir Sandodda í Patreksfirði og var það eingöngu kúfiskur.  Var skelin tekin með höndum og fylgdi maður þá sjónum allt útfallið og aðfallið líka, meðan eitthvað náðist í.  Þetta var vond vinna og kaldsöm.  Svo þurfti að taka róður alla leið út í Kollsvík og var það töluverð vegalengd. 

En nú breyttist þetta allt með vélbátnum; bæði með salt- og beituflutning.  Nú hitti ég af tilviljun Össur Guðbjartsson (eldri) frá Láganúpi í Kollsvík.  Ég sagði honum af áætlun minni, og á meðal hvort hann gæti nokkuð liðsinnt mér með uppsátur og allt sem því fylgdi.  Segir hann strax að hann eigi eina búð ólofaða og allt sem henni fylgi; bæði reitur, hjallur og ruðningur aðgerðapláss eru við hvern læk.  Það sé við syðsta lækinn, en lækirnir eru þrír í Verinu.  Össur segir mér líka að það muni verða um eða yfir tuttugu bátar sem rói frá Kollsvík næsta vor. 

Nú, þetta var nú mikið farið að lagast, en margt var eftir.  Nú fór ég að afla mér efnis í lóðir, belgi, niðristöður og dreka; og svona ýmislegt sem þurfti til útgerðar.  Alla taumana þurfti maður að búa til sjálfur.  Keypti ég garn í þá og svo smóðaði ég taumavindu úr klukkuhjólum.

Og nú fór líka lukkuhjólið að snúast hjá mér fyrir alvöru, því þetta sama haust flutti ég að Brekkuvelli, til tengdaforeldra minna tilvonandi.  Við Lilja dóttir þeirra höfðum verið leinilega trúlofuð undanfarin tvö ár, og hafði ég átt lögheimili á Brekkuvelli síðan ég fór frá Miðhlíð. …  Þessi fyrsti vetur á Brekkuvelli leið eins og ljúfur draumur.  Bjó ég nú til allar lóðir og ýmislegt sem til útgerðarinnar þurfti, og var það vel úr garði gert.

Nú lagði ég af stað einn góðan veðurdag til að ráða háseta upp á næsta vor.  Fékk ég þá bræður mína, Þorstein og Þórð, og Sæmund Ólafsson í Litluhlíð.  Þetta voru allt vanir sjómenn, og var Sæmundur líka þaulkunnugur öllum aðstæðum í Kollsvík, bæði á sjó og landi.  Þóttist ég nú vel hafa veitt, enda voru ekki margir sem höfðu betri áhöfn báta sinna.  Nú var bara beðið eftir vorinu.  (Botnseyri er ekki til sem örnefni, en spurning hvort Kristján á þar við Stekkjareyri eða Hrófáreyri í Botnslandi; eða Skeiðseyri í Skápadalslandi.  Á Skeiðseyri geymdu þeir Barðstrendingar gjarnan báta sína sem reru úr Kollsvík.  Sú eyri er nú horfin undir vegagerð). 

Það mun hafa verið um sumarmálin, eftir því sem tíð var, sem menn fóru almennt að flytja í Verið.  Nú þurftum við að fara vestur í Patreksfjörð til að ná í beitu áður en við fórum af stað í Verið fyrir alvöru.  Var nú farið vestur að Botni þar sem báturinn var geymdur; honum hvolft upp og svo farið yfir í Skersbug og tekin skelin á stórstraumsfjöru.  Síðan var varið til baka yfir að Botni; beitupokarnir geymdir í sjónum; báturinn settur upp, og því næst hlaupið innyfir Kleifaheiði og heim.  Í þessari ferð fréttum við að Kollsvíkingar hefðu róið og orðið varir við fisk.  Það var vani að róa með handfæri svona fyrst, áður en farið var með lóðir; til að prufa hvort fiskur væri kominn á grunninn.

Var nú ekki beðið boðann lengur, heldur ákveðið að fara næstu daga.  Brottfarardagurinn rann upp með sól og fínviðri.  Margt þurfti að útrétta á Patreksfirði áður en haldið var lengra.  Einnig var mikið af lausadóti, eins og eðlilegt var svona í byrjun vertíðar.  Var því báturinn orðinn mjög hlaðinn.  Seint um kvöldið lögðum við af stað frá Patró og fengum bláhvítalogn alla leið í Kollsvík.  Það var komið undir morgun þegar við vorum búnir að koma okkur fyrir, og kaldlegt var að koma þarna í búðirnar fyrst að vorum.

(Í Kollsvík eru rústir verbúða mjög greinilegar og auk þess mjög vel merktar þannig er auðvelt að sjá hvar þeir bræður Þorgrímur og Sæmundur áttu verbúð og hvernig sú aðstaða hefur verið. Gaman er því að fá lýsingu Kristjáns á hvernig þetta var meðan það var í notkun, að vísu nokkru eftir að þeir bræður voru þar):

Þetta voru nú engar hallir, héldu hvorki vindi né vatni, mér er til efs að nokkur nútímamaður trúi því hvernig aðbúnaður var hjá vermönnum í þá daga, þetta var vorið 1923.

Ég hafði nú ekki komið þarna síðan ég var hálfdrættingur hjá Þorgrími vorið 1914, vorið sem ég var fermdur, eins og fyrr segir. En allt var þetta nú svipað bæði á sjó og landi, nema hvað bátarnir voru fleiri, það voru nú tuttugu og þrír bátar þegar allir voru komnir til vers þetta vor.

Nú var nóg að gera næstu daga, við byrjuðum á því að klæða búðina innan með striga, svo það væri vistlegra hjá okkur. Þetta var allra þokkalegasta verbúð grafinn að mestu inn í hól, og var hún því að mestu trekklaus. Þessi búð stóð við syðsta lækinn, og hafði því tilkall til saltþróar og aðgerðarpláss við hann.  Sandurinn var öllum hvimleiðastur í Kollsvík, hann rauk yfir allt þegar vindar blésu, og þegar á vorin urðu menn að rífa upp alla ruðninga og reiti, því allt var á kafi eftir veturna, og var það allmikið verk.

Rífa þurfti upp hvern stein í aðgerðarplássi og þurrkreit, sem fylgdi hverri búð ásamt hjalli, það er að segja opinn hjallur og rár, sem allur steinbítur var þurrkaður á. Og þótti það mikið búsílag að eiga mikið af harðfiski, allir hausar bæði af steinbít og þorski voru hirtir, klofnir upp og þurrkaðir, bæði til manneldis og skepnufóðurs. Þorskur var saltaður í þró sem stóð við aðgerðarplássið, stundum var þorskur þveginn og þurrkaður og seldur þannig fullverkaður. Það komu fyrir landlegur vegna norðanstorma og brima, og var þá gripið tækifærið til að vaska fisk og hagræða ýmsu í landi.

Þannig var hagað róðrum í Kollsvík, að róið var snemma á morgnana eða seinni part nætur. Þá voru lagðar lóðirnar og legið yfir nokkurn tíma, og var þá legið í öðru bólfærinu, á meðan var skorinn beita, síðan var farið að draga og var þá beitt út, að því loknu var farið í land til að fá sér hressingu og gera að því sem hafði aflast. Svo var farið af stað aftur dregið og beitt út, legið yfir um tíma, svo var dregið inn og farið í land. Þá var skipt verkum; einn fór að kokka; annar að beita lóðina, og tveir að gera að aflanum og ganga frá honum að öllu leiti.

Bátana varð að setja upp á hverju kvöldi, og var þá venjulega hafður samsetningur af tveim til þremur bátum. Því erfitt var að setja í sandinum. Mjög góður félagskapur var milli skipshafna og hjálpuðu hvor öðrum ef með þurfti.

Brimasamt var í Kollsvík og þurfti iðulega að seila úr allan aflann, og lenda á streng sem kallað var.

Þannig hagar til í Kollsvík að tveir klettaklakkar eru nokkuð fyrir framan lendinguna, og er lítið bil milli þeirra en þó vel árafrítt, og var það kölluð Miðleið. Svo var farið fyrir ofan klakka bæði norður og suður, og var það kallað Norðurleið og Syðstaleið. Þannig myndaðist eins og höfn fyrir ofan þessa klakka, og gat maður athafnað sig fyrir ofan þessa klakka áður en bátnum var lent. Það var mesti munur að geta lent tómum bát þegar mikið var í sjóinn, þá setti maður bátinn og gekk frá honum, áður en fiskurinn var dreginn að landi.  Svona gekk þetta nú dag eftir dag.

Kollsvík var mjög vinsæl veiðistöð, og alltaf þykir mér fallegt þar. Úr verinu flutti maður tólf vikum af sumri, og á þeim árum hlakkaði maður mikið til að koma heim. …

Ég var nú sæmilega settur; átti bátinn og gerði hann út í þrjú vor.  En þá fór að verða minna um útgerð í Kollsvík af aðkomufólki og sýndist mér nú ráðlegast að hætta þeirri atvinnugrein.  Nú seldi ég bátinn Stefáni Ólafssyni á Hvalskeri, svo keypti ég hálfan bátshluta sem Sæmundur heitinn Ólafsson átti, á móti Þorgrími bróður sínum.

(Kristján hætti róðrum í Kollsvík eftir vertíðina 1925 og réðist eftir það á skútuna Ólívettu á Patreksfirði.  Síðar í frásögninni segir hann frá ýmsum atvikum, þar á meðal þessu í Kollsvíkurveri):

Brimlending í Kollsvík

Það var einn morgun á sjóróðrartíma að formönnum þótti ekki útlit sem best vegna brims, en þó varð það úr að allir réru, og lögðu lóðir sínar eins og vant var.  Drógu og beittu út aftur, farið í land til að borða um fjöruna, og var þá minna í sjóinn en um morguninn, eins og venja er til um lágsjóað. Nú fara menn að tínast á sjóinn aftur, og er þá sjáanlegt að brim er að aukast að miklum mun, og farið að falla að. Þegar menn koma fram til lóða sinna, draga allir inn en beita ekki út aftur, eins og venja er þegar allt er með felldu, menn vita að brimið er ekkert leikfang, og því best að hafa hraðann á og koma sér í land, áður en allt yrði ófært, því fljótlega brimaði í Kollsvík þegar því er að skipta, sem eðlilegt er; þetta er fyrir opnu hafi.

Nú komu bátarnir einn af öðrum í land, og var nú komið talsvert brim. Og urðu allir að seila út á laginu og lenda á streng. Brimið jókst meir og meir eftir því sem féll að.  Nú tóku menn eftir því að einn bát vantaði, og var þá farið að kíkja eftir hvort hann sæist. Jú hann var þá hinn rólegasti fram á miðum, og var að beita út.  Þá var kominn strekkingsvindur af norðri, eða norðaustan, og alltaf jókst brimið í landi.  Þessi formaður sem hét Valdimar Össurarson, virtist ekki taka eftir því.  Hann réri venjulega á lítilli skektu, sem hann átti sjálfur og voru þrír á.  En í þetta skipti eða þennan morgun fékk Valdimar lánaðan bát hjá föður sínum og einn háseta frá honum, því hann réri ekki sjálfur þennan dag. Háseti þessi var Gunnlaugur Kristófersson mágur minn, hann var duglegur sjómaður og lét ekki allt fyrir brjósti brenna. Hann var vanur sjómaður frá Snæbirni í Hergilsey, og hefur að líkindum einhvern tíma séð sitt af hvoru hjá honum, eftir því sem sagan segir af siglingum hans á Breiðafirði.

En það er af Valdimar að segja, að hann beitti út alla línuna og hagaði sér eins og venjulega, en virtist ekki taka eftir brimi í landi. Hann hefur að líkindum talið sig vera kominn á hafskip, miðað við litlu skektuna sína, því þessi bátur sem hann var á nú, var stórt fjögurra manna far. Nú var komið undir flæði, og þá voru þeir sem í landi voru búnir að aðgæta hvort nokkurn staðar væri lendandi í Kollsvík. Búið að fara suður á Rif og norður með öllu, en hvergi virtist lendandi fyrir nokkurn bát.

Nú var kominn uggur í mannskapinn, og töldu allir að koma þyrfti til kraftaverk, ef nokkur þessara manna sem á bátnum voru kæmu lifandi í land. Nú var búið að athuga allstaðar um lendingarstað og virtist allt ófært, en þó þótti kunnugum mönnum líklegast að reyna lendingu upp á sandinn fyrir norðan Verið.  Þar var aldrei lent, en þar sýndust nú ólög helst liggja niðri. Nú var báturinn að koma, og stefndi upp undir vanalegan lendingarstað, en þar var allur mannskapurinn úr verinu samankominn. Og var það ráð tekið að allir skyldu ganga í hóp norður eftir, þangað sem líklegast var að lenda. Og sáu þá bátverjar hvað menn í landi vildu, og fóru eftir því.

Nú var valið gott lag og þeim bent að taka brimróðurinn upp á líf og dauða.  Þetta lánaðist betur en nokkrum hafði dottið í hug. Þarna var nógur mannskapur í landi og tóku hraustlega á móti bátnum. Enda varð ekkert að nema lítils háttar skemmdir á bátnum; engan mannanna sakaði neitt og mátti það teljast kraftaverk.“

Leita