Vísir að yfirliti þeirra sjóslysa við strendur Rauðasandshrepps og í Patreksfirði sem heimildir eru um; ásamt óhöppum, drukknunum og sjóránum.  Fjölmörg sjóslys hafa orðið við strendur Rauðasandshrepps.  Þar hafa menn um aldir sótt á gjöful fiskimið og boðið byrginn úfnu úthafi og hættulegustu röstum landsins.  

 Skrá þessa hefur Valdimar Össurarson frá Láganúpi unnið uppúr ýmsum heimildum sem hér eru tilgreindar.  Mestmegnis úr skrám Egils Ólafssonar safnara og fræðimanns á Hnjóti og Eyjólfs Sveissonar bónda og kennara á Lambavatni, ásamt fleiri heimildum.  Elstu slysin byggja þó að mestu á munnmælum og eigin hugleiðingum.  Skráin er í vinnslu.

Snemma á landnámsöld:  Kollur landnámsmaður strandar í Kollsvík

Landnámabók greinir frá fyrsta sjóslysi við Íslandsstrendur þar sem mannbjörg varð.  Þar segir af fóstbræðrunum Kolli og Örlygi Hrappssyni sem verið hafði í fóstri hjá Patreki biskupi í Suðureyjum.  Þeir ákveða að fara til landnáms á Íslandi og þáði Örlygur góð ráð og gripi hjá Patreki.  Með þeim í för voru Þórólfur spörr; Þorbjörn tálkni og bróðir hans Þorbjörn skúma.  Óljóst er af orðalagi hvort hver þeirra hafi verið með sitt skip, en þar sem þeir fengu síðar landnám fjarri Örlygi má ætla að svo hafi verið.

Þeir fóstbæður „fengu útivist harða og vissu eigi hvar þeir fóru“.  Örlygur hét á Patrek biskup; að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni þar sem hann næði landi.  Ber Patreksfjörður nafn af því.  Örlygur var um veturinn í Örlygshöfn en sigldi suður að vori, settist að á Esjubergi og byggði þar fyrstu kirkju landsins.  Landnáma segir að Kollur hafi heitið á Þór og að hann hafi orðið viðskila við hina:  „Kom hann þar sem Kollsvík heitir ok braut hann þar skip sitt“.  Hann bjargaðist þó og  nam land í Kollsvík.  Kollsvík er minnsta landnám Íslands og hin eina af Útvíkum sem Þórólfur spörr nam ekki. 

Þó heimildir Landnámu um þetta strand séu knappar má ýmislegt lesa úr þeim, ásamt örnefnum og munnmælum sem þessu tengjast.  Fyrst varðandi tímasetninguna.  Líklegt er að Kollur og félagar hafi verið mjög snemma á ferð í þeirri bylgju landnámsmanna sem fylgdi í kjölfar Ingólfs Arnarsonar.  Má marka það af því að þeir koma að ónumdu  mjög stóru landsvæði  á suðurhluta Vestfjarða sem þó var eitt hið kostaríkasta á þeirra tíma mælikvarða; góðar fóðurléttar sauðjarðir; auðug fiskimið uppi við landsteina og allgóð lendingarskilyrði.  Þá er það strand Kolls.  Arnarboði nefnist sker undan Grundafjöru, sunnanvið miðja Kollsvíkina; um 100 m frá ystu fjöru, og kemur uppúr sjó um fjörur.  Ævaforn munnmæli segja að á því hafi skip Kolls strandað og heiti boðinn í höfuð Erni, sem hafi verið stýrimaður Kolls.  Ekki er órökrétt að hinum ólánssama stýrimanni hafi þannig verið reistur minnisvarði um slysið.  En hvernig stendur á ferðum Kolls þarna uppi í harðalandi; og er sennilegt að menn hafi getað bjargast úr strandi á Arnarboða? 

Geta má þess til að þeir Örlygur hafi ætlað að ná landi sunnar; til þess bendir nákvæm leiðarlýsing Patreks biskups og ferð Örlygs síðar.  Þeir voru líklega að ferð að hausti; til þess bendir veturseta Örlygs í Örlygshöfn.  Má því ætla að þeir hafi lent í aðvífandi krappri haustlægð með suðaustan ofsa; neyðst til að hleypa undan; yfir Faxaflóa; fyrir Öndverðarnes og Bjargtanga.  Þegar kom norður á Vikurnar hafi þeir verið komnir í var, þar sem lægðin var komin austar, sunnanvið landið, með A og NA átt, en uppgangsveður hafi fljótlega orðið af norðri þegar lægðin gekk austar.  Örlygur, sem var kominn lengra, ákveður að sigla inn á Patreksfjörð.  Kolli hefur ekki litist á Blakknesröstina, sem á norðurfalli getur verið úfin á móti norðanáttinni og ófær flestum skipum.  Hann snýr frá röstinni; heldur undan til suðurs og leitar lendingar í Kollsvík eða hrekst þar upp.  E.t.v. hefur þetta verið um hálfflæði, en þá flýtur yfir Arnarboðann.  Örn stýrimaður siglir eins nærri landi og hann þorir, meðan Kollur formaður skimar til lands eftir lendingarstað. 

Allt í einu tekur sig upp brot á Arnarboðanum, þegar eykur norðansjó; ekkert ráðrúm er til að forða strandi; skipið lendir í brotinu; fær í sig mikinn sjó og brotnar e.t.v. eitthvað á boðanum um leið.  Erfiðara er að leiða líkum að því sem næst gerist.  Hafi skipið haft einhverja sjóhæfni er líklegt að áhöfnin hafi keppst við austur, um leið og Kollur gefur skipun um að renna því sem skjótast upp í fjörugrjótið.  Brotið hefur líklega kastað því hálfa leið þangað.  Það verður þeim til lífs að boðinn tekur úr verstu brotunum.  Þegar laskað skipið kemst í fjöru er hluti áhafnar líklega áfram í austri til að létta það; einhverjir halda því réttu í fjörunni og enn aðrir taka að bjarga farangri og farviðum í land.  Arnarboðinn veitir enn nokkuð var fyrir norðanbriminu sem nú eykst hratt.  Þegar borið hefur verið af skipinu og mesta sjónum e.t.v. verið ausið úr, er reynt að setja það undan sjó.  Óvíst er hvort það hefur tekist eða hvort norðanbrimið náði að eyðileggja það þarna undir Grundabökkunum. 

Ekki er ólíklegt að hafskip Kolls hafi þarna eyðilagst en tekist hafi að bjarga fólki, fénaði og farangri að mestu, ásamt eftirbátnum.  Til þess bendir sú staðreynd að í þessari vík ákvað Kollur að setjast að og una orðnum hlut.  Hann hefur verið fljótur að átta sig á þeim miklu landkostum sem þarna eru:  Grasgefnir hagar, mikið slægjuland; næg fjörubeit; skjólsælt til byggðar; fengsæl fiskimið við landsteina; ágæt lending; fuglavarp; selveiði; gnægð rekaviðar; hrístekja; mótekja; mýrarrauði og byggingargrjót, til viðbótar við svipmikla og óviðjafnanlega náttúrufegurð.  Ánægju Kolls með sitt nýja landnám má marka af því að hann lætur sér nægja þessa einu vík fyrir sig og sitt fólk, meðan aðrir landnámsmenn kepptust við sem mesta landvinninga til að tryggja sína afkomu; t.d. þurfti Þórólfur spörr allar nærliggjandi Útvíkur og gott betur.  Líklegt er að Kollur hafi sett sér bú uppi undir Núpnum, þar sem Kollsvíkurbærinn hefur staðið æ síðan.  Þar fyrir neðan er Biskupsþúfa, þar sem sagt er að hann hafi fólgið sínar gersemar.  Uppi á Blakknesnibbu heitir Kollsleiði, þar sem munnmælin segja að hann sé heygður, en úr haugnum hefur hann sjónlínu að Biskupsþúfu.  Eftirbát sinn hefur Kollur líklega nýtt til fiskveiða, og líkur eru á að honum hafi tekist að bjarga fénaði úr strandinu til að hefja búskap.  Brak úr hafskipinu hefur hann e.t.v. nýtt til áreftis húsa, ásamt rekaviði; e.t.v. einnig til kirkjusmíða.  Ekki fer sögum af örlögum annarra í áhöfn Kolls.  Láganúpur varð snemma sjálfstætt býli í Kollsvík.  Kann sú jörð að hafa fallið í hlut Arnar stýrimanns, þó um það verði ekki fullyrt nú. 

Hér hafa verið hafðar uppi getgátur um þetta fyrsta strand við Ísland, og atriði því tengd.  Þær byggja á þeim fátæklegu heimildum sem fáanlegar eru, en getið er í eyður eftir helstu líkum og útfrá þekkingu á staðháttum.   Áfram má spinna þann þráð:

Sannleiksgildi Landnámu er erfitt að meta, og um það er einatt deilt.  Líkast til er hún rétt í verulegum atriðum, en vafasöm í öðrum.  Ekki verður t.d. dregin í efa hin mikla þekking sem þar kemur fram á staðháttum og tíðaranda. Persónur sem þar eru tilgreindar eru hinsvegar meira vafamál.  Má heita öruggt að landnámuhöfundi er helst til mikið kappsmál að kenna örnefni við fólk, þrátt fyrir að þau séu augljóslega dregin af náttúru og aðstæðum.  Má þar t.d. nefna að Rauðisandur dregur án efa nafn af hinum sérkennilega og áberandi rauða skeljasandi en ekki nafni Ármóðs „hins rauða“ Þorbjarnarsonar; Tálkni og Tálknafjörður draga nafn af hinum „tálknóttu“ klettum fjallsins en ekki Þorbirni „tálkna“.  Á sama hátt má spyrja hvort Kollsvíkin dragi ekki fremur nafn af hinni sérkennilegu lögun Kollsvíkurnúps en nafni landnámsmannsins.  Sumir fræðimenn hafa velt því upp að Landnáma kunni að hafa verið rituð öðrum þræði til að skjóta stoðum undir tilkall helstu höfðingja til landareigna og ættgöfgi, og til að sýna landnámið í ljósi þess kristna trúnaðar sem á var kominn.  Hún sé því að hluta pólitískt áróðursrit, þó hún veiti um leið ómetanlegar upplýsingar um staðreyndir.  Frásögn Landnámu af Patreki og forspám hans, ásamt því hvernig kirkjubjalla Patreks bjargaðist með undraverðum hætti á Kjalarnesi, er þannig með sama blæ og jarteiknasögur dýrlinga.  Engar aðrar heimildir eru fyrir tilveru þessa Patreks, og má vera að landnámuhöfundur noti þarna nafn heilags Patreks sem var uppi mörghundruð árum fyrr til að leggja áherslu á kraft kriststrúar.  Svipaður er líklega tilgangur hans með því að segja að Örlygur hafi verið sannkristinn en „Kollur hafi heitið á Þór“ í hrakningum þeirra, og því lent í  hrakningum og þrengra landnámi.  Um þau efni er tilgáta Árna Óla blaðamanns ekki ólíklegri, en hann telur að Kollur gæti hafa verið munkur og dregið nafn af krúnurökun sinni, líkt og munkar á þeim tíma (ÁÓ; Landnámið fyrir landnám). Sé sú kenning rétt má eins vel ætla að Kollur hafi orðið fyrri til en Örlygur að reisa litla kirkju í Kollsvík, sem þá hefur verið fyrsta kirkja á Íslandi.  Nægjusemi munksins gæti verið enn ein skýring á hinu umfangslitla landnámi.  Má í því efni benda á hið forna heiti Kirkjuból, á jörðinni Kollsvík.

Margt annað mætti hugleiða út frá hinni knöppu frásögn Landnámu, en ekki verður hér farið lengra út í þá sálma.  (VÖ).

Á landnámsöld:  Bátur ferst við Vatnsdal

Í byrjun júnímánaðar 1964 fann Magnús Ólafsson frá Vesturbotni bátskuml er hann var á jarðýtu að útbúa kartöflugarð fyrir Pál Guðfinnsson eiganda Vatnsdals.  Kumlið var á innri bakka Vatnsdalsár, niðri við sjóinn þar sem heitir Reiðholt.  Þór Magnússon þjóðminjavörður rannsakaði kumlið 8. júní og er eftirfarandi byggt á niðurstöðum hans.

Þarna á bökkunum hafði verið heygður bátur, og í honum sjö manneskjur; þjár konur og fjórir karlmenn.  Allt hafði fólkið látist á unga aldri, og má því ætla að það hafi látist í sjóslysi.  Auk þess var í kumlinu heygður hundur og eitthvað af gripum.  Af bátnum voru ekki eftir nema raðir rónagla, og mátti af þeim sjá að stafninn sneri í vestur en skutur í austur.  Að bátnum hafði verið hlaðið með grjóti og líklega þakið með hellum, en fyrr á öldum hafði kumlinu eitthvað verið raskað.  Hlaðin þró fannst 12 m SA kumlsins og má ætla að það hafi verið leifar annars kumls, sem einnig var raskað á fyrri tíð.

Báturinn í Vatnsdalskumlinu hefur verið um 6 metra langur og rúmur metri á breidd.  Hann hefur líklega verið smíðaður úr lerki og borð verið mjó; sex hvoru megin.  Ekki sáust ummerki um bönd, og má því ætla að þau hafi verið negld trénöglum eða reyrð með ólum.  Kjölur virðist hafa verið grunnur.  Nálægt stafni fundust tvö hvalbeinsstykki sem vafalítið hafa verið vaðbeygjur, og þá líklega fremur fyrir stjórafesti en færi.  Í kumlinu fundust margar perlur; svokallaðar sörvistölur.  Einn merkasti fundurinn var þórshamar úr silfri; 3,55 x 1,15 cm að stærð, og virðist hafa hangið í festi.  Slíkir þórshamrar hafa iðulega fundist í heiðnum gröfum erlendis frá víkingatíma, en enginn sambærilegur hér.  Þá fannst lítil sexstrend bjalla sem líklega hefur einnig verið borin um hálsinn.  Kúfiskur peningur fannst; svokallaður „arabískur dírhem“, sem talinn er frá árunum 870-930.  Aðrir munir voru t.d. kinga sem líklega hafði verið gyllt; bronskeðja, bronsprjónn, blýmoli eða met með krossmarki; armbaugar og fingurhringur úr bronsi; kambar og kambsslíður; allmörg blýmet; tréprjónn, hvítur steinn, beinkringla lík snældusnúð; hnífur, brýni og svínstönn.

Vera kann að fyrst hafi aðeins ein manneskja; kona ásamt hundi sínum, verið jörðuð í bátnum, en hinum komið þar fyrir aðeins síðar.  Grafin hefur verið rás fyrir bátinn; hann settur þar í; lík með skartgripum og hundi þar í; orpinn haugur að; hlaðið sæbörðu fjörugrjóti að og hellur lagðar yfir.  Þór telur að Reiðholtið hafi sennilega verið kumlateigur í heiðnum sið.  Til þess bendir m.a. fjarlægðin frá bænum; um 4-500 m, og að staðurinn er við þjóðleið.  Það að fólkið hefur allt látist innanvið miðjan aldur bendir til þess að það hafi farist í sjóslysi eða drepsótt.  Kumlíð hefur verið opnað á fyrri öldum, og þá líklega rænt úr því gripum; e.t.v. vopnum og skrautmunum.

Um uppruna haugbúanna verður lítið staðhæft.  Kumlið líkist í mörgu öðrum bátskumlum sem fundist hafa.  Bjallan og krossinn gætu bent til kristinna áhrifa og jafnvel Bretlandseyja.  Hinsvegar er Þórshamarinn heiðinn gripur. 

Velta má því fyrir sér hvort kumlið hafi einhver tengsl við fyrstu landnámsmenn á þessum slóðum; Örlyg Hrappsson sem var um vetur í Örlygshöfn; Þórólf spörr sem nam mestallan Rauðasandshrepp eða Koll, sem lét sér nægja Kollsvíkina.  Sé Landnáma rétt í þeim efnum má a.m.k. ætla að þetta fólk hafi þekkt þessa fyrstu landnema; hafi það ekki tilheyrt föruneyti þeirra.  Má vera að Vatnsdalskumlið geymi þau sem fyrst fórust í sjóslysum á svæðinu.  Líklegt verður að telja að báturinn og fólkið hafi tilheyrt Vatnsdal, þar sem það er heygt nálægt Vatnsdalsbænum.  Samkvæmt því hefur Vatnsdalur orðið býli snemma á landnámsöld; eða a.m.k. þurrabúð.  Með sömu líkindum má ætla að bátnum hafi verið haldið til veiða í Patreksfirði, enda væri svo litlu horni vart leggjandi í Blakknesröst til veiða suður á Víkum.  Hafi verið um sjóslys að ræða er líklegt að það hafi orðið í lendingunni í Vatnsdal.  Til þess bendir það að báturinn náðist heill ásamt líkum þeirra sem fórust.  Sjóslys hafa orðið í Vatnsdal á síðari tímum; síðast þegar Erlendur Guðmundsson fórst í lendingunni 13.06.1960.

(VÖ; heimildir m.a. Þór Magnússon í Árbók fornleifafélagsins 1966).

1579: Sjóræningjar koma upp á Hænuvík til rána í Saurbæ

Árið 1579 var framið sögufrægt rán í Saurbæ, þegar vopnaðir sjóræningjar brutust þar inn í hús; rændu öllu fémætu og höfðu á brott með sér Eggert Hannesson hirðstjóra; einn valdamesta mann landsins á þeim tíma. 
Tildrögin voru þau að Eggert hafði lent upp á kant við fálkafangarann Jón fálka (John Falck) nokkru áður.  Að undirlagi Jóns gerði sjóræningi nokkur, William Smidt, aðför að Eggert ásamt mönnum sínum.  Skip þeirra, með 70 manna áhöfn, lagðist við akkeri á Hænuvík og neyddu þeir bóndann þar til að vísa sér leið yfir fjallið til Saurbæjar; sextíu mönnum.  Þar brutu þeir upp bæ og kirkju; nauðguðu konum og rændu öllu fémætu sem þeir fundu.  Eggert sjálfur var flettur klæðum; settur nakinn upp á hest og fluttur um hálsa og heiðar til skips í Hænuvík.  Sigldu ræningjarnir síðan til Vatneyrar.  Þar var Eggert haldið í fjórtán daga og hann neyddur til að skrifa undir beiðni um lausnargjald.  Sigldu þeir norður með Vestfjörðum, rænandi og ruplandi.  Ragnheiður dóttir Eggerts og Magnús prúði maður hennar bjuggu þá í Ögri.  Þeim tókst að skrapa saman allmiklu lausnargjaldi, og að lokum fór svo að Eggert var sleppt eftir mánaðar fangavist.  Sigldu ræningjarnir á brott með óheyrileg verðmæti og rændu í leiðinni tvö skip.  Þrátt fyrir hótanir og bönn ræningjanna fór Eggert með mál sitt fyrir kóng; fór eftir þeim til Hollands og linnti ekki látum fyrr en þeir höfðu allir verið hengdir.  Um það ber þó heimildum ekki saman; sjá hér á eftir.  Eggert undi þó ekki í Saurbæ eftir þetta.  Hann átti miklar eignir í Hamborg og þangað fór hann alfarinn árið 1580. 

Helgi Þorláksson leiðir líkum að því að þarna hafi verið á ferð sjóræninginn Thomas Clerk, sem var umsvifamikill og illræmdur á þessum tíma.  Sá hafði rænt í Færeyjum um sumarið 1579; m.a. sköttum sem Danakóngi voru ætlaðir.  Varð sá lítt hrifinn og leitaði hans án árangurs ásamt Skotakóngi.  Líklegt er að Clerk hafi haft aðsetur á Hjaltlandi.  Hann féll líklega við Dunkirk í Flandern fyrir árið 1583. (HÞ; Sjórán og siglingar).

Magnús prúði Jónsson, tengdasonur Eggerts, tók við umsýslu í Saurbæ og sýsluvöldum.  Í kjölfar þessa ráns kvað hann upp vopnadóminn í Tungu árið 1581; eina merkustu herkvaðningu í Íslandssögunni.  (Öldin sextánda).  Þar eru bændur skyldaðir til að eiga lágmarks vopnabúnað til varna.  Einnig skyldu hlaðnir bálkestir á fjöllum sem hæst bar, til að unnt væri að kveða út herlið þegar ógn bæri að höndum.  Fremst á Blakknesnibbu eru leifar af fornum hleðslum sem gætu hafa verið skjólgarður.  Vel er hugsanlegt að þar hafi verið skýlt að bálkesti sem var hluti þessa landvarnabúnaðar Magnúsar prúða; enda sæist það bál víða að við góðar aðstæður.

1615:  Uppreisn á sjóræningjaskipi við Vatneyri

Síðari hluti 16.aldar og 17.öld var blómatími sjóræningja.  Þeir komu stundum við sögu á Íslandi; einkum í Vestmannaeyjum en sjaldnar á Vestfjörðum.  Þó má í vissum skilningi segja að Vestfjarðamið hafi verið „sjóræningjaskóli“.  Þar stundaði enski flotinn veiðar í stórum stíl og þar þjálfuðust menn í úthafssiglingum.  Leiða má líkum að því að upphaf sjórána hafi verið það að fiskimenn bættu sér upp vertíðina með því að ræna kaupskip á heimleið frá Íslandsmiðum.  Hinsvegar virðast viðskipti Englendinga við Íslendinga ávallt hafa verið vinsamleg og á viðskiptagrundvelli á ensku öldinni; þó þau væru þyrnir í augum Dana.

Í maí eða byrjun júní árið 1615 kom enski reyfarinn Tómas Tucker á tveimur skipum inn undir Vatneyri.  Hann stóð reynar fyrst í þeirri meiningu að hann væri á „Lousy bay“, eins og aðkomumenn nefndu Tálknafjörð (vegna þess að þar fóru þeir til aflúsunar í Laugardalslaug).  Tucker og félagar voru á höttunum eftir Böskum.  Mörg ríki sem áður höfðu stutt sjórán og haft af þeim tekjur höfðu nú gert bandalög við fyrrum óvini og sjóræningjar kepptust um að fá sér friðsamara starf í landi.  Til að afla sér góðvildar og fyrirgefningar þurftu þeir að leggja með sér nokkur verðmæti.  Þeirra var erfitt að afla vegna friðarsamninganna.  Tucker taldi vænlegast að ræna Baskaskipum upp í sitt meðlag, þar sem Baskar voru illa séðir af Englendingum.  Nú var hann kominn til Íslands þeirra erinda, að undirlagi Richards nokkurs Hall, sem þar var á skipi með honum.  Skipin voru tvö; bæði voru herfang Tuckers.  Á öðru nefndist skipstjórinn Simtropp en hinu Harper. 
Við Vatneyri sáu þeir skip sem þeir hugðu fyrst vera baskneskt, en sá er nær kom reyndist vera danskt verslunarskip.  Ekki var vænlegt að ræna Dani ef ætlunin var að fá sakaruppgjöf í Englandi, þar sem nú ríkti friður með þjóðunum.  Á þessum tíma var verslun á Vatneyri í höndum tíu kaupmanna í Málmey, sem þá var í Danaveldi.  Þeir voru ekki vel liðnir og rétt fyrir þessa atburði hafði Björn sýslumaður Magnússon (prúða) í Saurbæ látið úrskurða að verðhækkanir vöru brytu gegn konungsboði. 
Ekki er fyllilega ljóst hvaða atburðarás fór af stað þarna við Vatneyri, en ljóst er að uppreisn var gerð, og Tucker hnepptur í hald.  Jón Indíafari, sem þarna var á ferð skömmu síðar, segir að „þá hafi verið unninn stallbróðir Mendoza; sá sem hefði heitstrengt að eyða Ísland“.  Mendoza þessi var annar kunnur sjóreyfari, sem löngum var í slagtogi með Tucker.  Sjávarborgarannáll segir svo frá:  „Komu reyfarar illir á Patreksfirði vestur, og vildu ræna alla Vestfirði.  En þeir urðu yfirunnir af Engelskum, hverja þeir höfðu þó áður tekið sér til liðsmuna í því efni; svo þeir drápu marga af þeim og sigldu svo burt“.

Til eru svokallaðar „Spönsku vísur“ eftir séra Ólaf á Söndum í Dýrafirði (d. 1627) sem lýsa þessum atburðum allrækilega.  Hann segir frá ræningjum sem hafi ætlað sér að ræna landið.  Í för með þeim hafi verið Englendingar sem þeir hafi tekið með valdi; þeir hafi verið í heiftarhug og viljað hefna sín.  Þegar ræningjarnir ætluðu að ráðast á danska skipið á legunni innan Vatneyrar hafi Englendingarnir gert uppreisn.  Þakkar Ólafur það guðlegri forsjón.  Í réttarhöldum sagði Tucker svo frá að eftir að hætt var við ránið á dönsku duggunni hafi skipum verið lagt við stjóra og menn tekið á sig náðir.  Simtropp og Harper sem voru á öðru skipinu hafi þá sammælst við Hall sem var á skipi Tuckers um að fara að mönnum Tuckers sem voru í fastasvefni.  Þeir réðust á þá; drápu skipstjóra Tuckers og byssuskyttu og yfirbuguðu síðan Tucker sjálfan og 15 menn hans. 

Uppreisnarmenn sigldu síðan til Englands með Tucker  og aðra fanga og tóku höfn í Yarmouth þar sem Tucker var leiddur fyrir rétt.  Þaðan var hann fluttur til Lundúna þar sem aftur var réttað.  Svo fór þó á endum að hann var náðaður.  Honum gekk þó illa að fóta sig í landi og flæktist með skipi til Danmerkur.  Þar var hann handtekinn eftir að maður bar kennsl á hann sem fyrrum hafði verið á skipi sem rænt var.  Á endanum var Tucker hengdur á Helsingjaeyri í lok ágúst 1616.  Þar hékk þá enn uppi fyrrum félagi hans; sjóræninginn Mendoza. (Heimild:  Helgi Þorláksson; Sjórán og siglingar).

1615-16:  Baskavígin og sjórán um Rauðasandshrepp

Baskar frá Spáni stunduðu hvalveiðar hér við land í auknum mæli í byrjun 17.aldar.  Einkum höfðu þeir bækistöðvar á Ströndum og skutluðu hvali á Húnaflóa.  Virðast þeir hafa átt ýmis góð samskipti við Íslendinga, en svo fór að alvarlega kastaðist í kekki haustið 1615.  Undanfari þeirra mannvíga virðist hafa verið vaxandi spenna vegna viðskipta útlendinga við landsmenn sem voru Danakóngi og íslenskum valdsmönnum þyrnir í augum.  Gaf kóngur út bréf sem bannaði viðskipti við Spánverja en heimilaði að þeir væru drepnir og rændir.  Ari sýslumaður í Ögri; Magnússon hins prúða frá Saurbæ, fylgdi banninu eftir.  Neistinn sem kveikti í púðrinu var grunur um sauðaþjófnað Baskanna.  Þegar þeir svo hröktust á land undan hafís sló í brýnu.  Þrjú hvalveiðiskip leituðu lægis á Reykjafirði, en eyðilögðust í óveðri.  Stálu Baskarnir þá bátum og rændu fénaði.  Síðan sigldu þeir á fjórum bátum vesturfyrir Horn.  Tveir bátar fóru inn Djúp og í Æðey en tveir aðrir fyrir Gölt og inn á Súgandafjörð.  Þeir rændu að Stað í Súgandafirði og úr kaupmannshúsum á Þingeyri; ætluðu síðan aftur norður, en gistu í verbúð á Fjallaskaga.  Þar fóru Dýrfirðingar að þeim og drápu þá alla nema pilt sem gat leynst.  Hinir komu nú norðan; fóru með ránum um Ingjaldssand og Súgandafjörð, en fundu síðan þann sem af hafði komist á Skaga.  Eftir það sigldu þeir suðurmeð og til Vatneyrar.  Þar brutu þeir upp kaupmannshúsin og bjuggu um sig til vetursetu; fimmtíu manns.  Einn foringi þeirra; Marteinn að nafni, hafði þó orðið eftir í Æðey með nokkrum manna sinna.  Ari sýslumaður kallaði saman þing í Súðavík og lét dæma Baskana óbótamenn.  Ari fór síðan að Marteini og mönnum hans í Æðey og að Sandeyri og drap þá alla. 

Baskar þeir sem fóru til Vatneyrar höfðu þar vetursetu í kaupmannshúsunum.  Þeir komu þar kurteislega fram í byrjun; kysstu hendur manna og báðu sér fæðis og klæða.  Þegar þústna tók í búi fóru þeir á bæi og heimtuðu vistir.  Meðal annars fóru þeir að Sauðlauksdal, þar sem bjó Ragnheiður dóttir Eggerts lögmanns frá Saurbæ og ekkja Magnúsar prúða.  Þorði hún ekki öðru en láta föng af hendi við þá.  Einnig rændu þeir í Tálknafirði. Ari í Ögri frétti af framferði þeirra og eftir að hafa fengið þá dæmda á Mýrum í Dýrafirði hélt hann með hundrað manna lið til Tálknafjarðar í janúar 1616.  Þar voru nokkrir Baskar vegnir.  Ari og menn hans urðu þó að hætta við herferð að Vatneyri vegna veðurs.  Baskarnir reru til fiskjar frá Vatneyri er voraði árið 1616.  Einn dag kom þar inn ensk skúta.  Baskarnir reru út í hana og hertóku.  Er þeir sigldu út fjörðinn var þar önnur ensk fiskiskúta sem þeir hertóku einnig eftir stutta viðureign.  Bátar voru þar í róðri frá verstöðvum í Rauðasandshreppi, og voru þeir þvingaðir til að láta afla sinn af hendi.  Með það létu Baskarnir í haf.    (Öldin sautjánda).

1627:  Enskt herskip tekur franskt hvalveiðiskip við Látrabjarg

Enskar duggur voru margar á Íslandsmiðum um þessar mundir; líklega um 150 talsins.  Hafði Englandkóngur hér við land 2 herskip til verndar fiskveiðiflotanum.  Viðsjár voru milli Englendinga og Frakka.  Sigldu ensku herskipin fram á franskt hvalveiðiskip undir Látrabjargi, þar sem verið var að bræða hval um borð.  Skipstjóri Frakkanna heitir Dómingó (líklega Baski), og veifaði hann þegar leyfisbréfi Kristjáns Danakóngs IV.  Englendingar sýndu á móti leyfisbréf sín frá Karli I. Englandskóngi um að þeir ættu í stríði við Frakka, og hófu skothríð að Frökkunum.  Skotin höfnuðu í hval við borðstokkinn, en að lokum flúði franska áhöfnin; 18 manns, frá borði.  Tveir urðu þó fyrir skoti og létust.  Frakkarnir komu til Ara í Ögri og stuttu síðar ensku stríðsskipin.  Þar var einnig staddur Jón Indíafari.  Var honum falið að fara til Bessastaða og leita úrskurðar höfuðsmanns.  Áður en til hans kæmi varð vart við Tyrki þá sem um þær mundir stóðu fyrir ránum í Vestmannaeyjum og víðar.  Var Jóni því falið að snarast sem skjótast vestur og fá ensku herskipin suður til að berja á Tyrkjum; sem þeir og gerðu.  Málin komu fyrir Danakóng sem varð hinn reiðasti og mótmælti meðferðinni á Frökkum við Karl Englakóng.  Lyktir urðu þær að Dómingó fékk sitt skip aftur ásamt góssi öllu.  (Sauðlauksdalsannáll og Helgi Þorláksson; Sjórán og siglingar (frásögn Jóns Indíafara)). 

1645:  Danskt kaupfar lendir í Vesturbotni eftir hrakninga

Öll dönsku kaupskipin sem koma áttu í Vestfirðingafjórðung árið 1645 lentu í hrakningum og tjóni.  Skutulsfjarðarskipið komst að landinu en hraktist aftur til Noregs.  Þrjú skip komu til hafna á Snæfellsnesi undir septemberlok.  Skall þá á þau ofsaveður af suðri.  Eitt skipið lá fyrir framan Stykkishólm og slitnaði það upp að kvöldlagi með marga menn; íslenska og danska; steytti á boða og drukknuðu nokkrir.  Arnarstapaskipið slitnaði einnig upp og rak það inn á Hraunlandsrif, þar sem það brotnaði.  En Rifsskipið rak á haf út og vestur fyrir land.  Lenti það í hafís og töldu skipverjar sig hafa séð Grænland.  Eftir langt volk komst þetta skip til Patreksfjarðar, þar sem því var siglt í lægi á leirunum hjá Botni.  Þar lamdist það við stein sem gekk inn úr því.  (Öldin sautjánda).  Segir svo í Eyrarannál:  "Kom seint sigling til Íslands og ekki neitt skip í Ísafjarðarsýslu. Brotnuðu skip danskra í Kumbaravogi hér við hafnir. Rifsskipið komst á Patreksfjörð og lá þar um veturinn, sigldi fram um vorið, en lestist þá undir veturinn á eyrinni fyrir neðan Botn í Patreksfirði, en fiskur mestallur skemmdist af sjó, sem inn í skipið kom; hvar af íslenskt fátækt fólk hafði gagn, sem hann þangað sótti sér til atvinnu. Í skipinu féll út og að um veturinn, gátu það þó bætt og sigldu um páskaleyti" (Eyrarannáll).

1664:  Hollenskt skip hætt komið við Rauðasand

Laust fyrir miðjan desember 1664 kom Hollensk skúta upp að landinu eftir ellefu vikna hrakninga í hafi.  Ferð hennar hafði verið heitið til Færeyja en skipverjar hreppt óveður og hafvillur.  Loks komst skipið upp að Bjargtöngum og gátu skipverjar áttað sig er þir komu uppundir Rauðasand.  Þá var skipið orðið svo fullt af sjó að vatn tók í hné í káetunni.  Varð það til ráðs að hleypa suður yfir Breiðafjörð.  Þá hafði eldur ekki verið upp tekinn í þrjá daga og skipverjar verið matarlausir.  Skipinu var hleypt á land innan Öndverðarness og björguðust sumir skipverjar í land en aðrir fórust.  (Öldin sautjánda).

1694:  Frakkar ræna enskar fiskiduggur

Svo segir í Eyrarannál:  „Um sumarið kom franskt stríðsskip á Vatneyri í Patreksfirði, þess kapteinn var Jóhannes Disipar, er lengi hafði verið hvalveiðamaður hér við land. Hann hafði tekið 2 engelsk skip, er komu frá Vestindien, hlaðin með sykur, tóbak og aðra dýrmæta vöru, og sigldi með þau inn á fyrrnefnda höfn, Vatneyri. Nokkrar engelskar fiskiduggur lágu um þennan tíma á Tálknafirði, hverjar þeir fyrst rændu og tóku alla fragt af þeim og í sín skip innlögðu, og settu síðan eld upp á þessar duggur, létu þær svo logandi sigla út af Tálknafirði, hverjar svo uppbrunnu til sjómáls og botnarnir síðan aftur á land ráku, og var gert vogrek. En fólkinu slepptu þeir nær nöktu á iand, hver síðan sér í skip kom hingað og þangað til í næstu höfnum.".  (Eyrarannáll; skráður af Magnúsi Magnússyni sýslumanni á Eyri í Seyðisfirði í Djúpi).  

Munnmælasögur voru um það að ensku duggurnar hafi rekið upp í Örlygshöfn.  Árið 1923 fundu bændur á Hnjóti skipsflak við ósa Örlygshafnarvaðals. Ólafur Magnússon á Hnjóti og bróðir hans náðu úr því þrem plönkum.  Eftir það breytti ósinn sér og flakið týndist um tíma.  Árið 1997 fann Egill Ólafsson, bóndi og safnari á Hnjóti, hluta úr fornri skipssíðu þarna við ósinn sem gæti verið sama flakið.  Bjargaði hann því, ásamt Kristni Þór syni sínum.  Tilheyri leifarnar þessum duggum, munu þær vera hinar elstu sem til eru af skipi á Íslandi. Engir járnnaglar eru í byrðingnum, heldur er hann saumaður saman með trénöglum sem  festir eru með sérstökum fleygum. Taldi Egill að skipið hafi verið gamalt þegar það rak upp, því á byrðingnum sjást viðgerðir. Ekki er því fráleitt að álykta að skipið hafi verið smíðað um eða upp úr 1650. Enginn fúi var í viðnum þó skipið hafi legið í sandinum í rúm 300 ár. Greinileg ummerki eru hins vegar eftir bruna, líkt og sagt er frá í Eyrarannáli. Í byrðingsbrotunum er einhver rauðviðartegund; eitilhörð.  (DV 26.10.1998).  

1698:  Franskt skip ferst í Keflavík

Í Annálum 1400-1800 segir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal svo frá:
„Brotnaði franskt skip í Keflavík í Rauðasandshreppi.  Drukknuðu sex menn“.

Í Grímsstaðaannál segir Jón Ólafsson á sama ári:
„Um haustið strandaði franskt hvalveiðiskip á Rauðasandi.  Kom að því leki, og sigldu á þurrt og brotnaði í spón; tíndust þar sex menn.  Þar voru á þrjú hundruð tunnur lýsis.  Fólk allt fór til Bæjar á Rauðasandi.  Þar bjó sú göfuga ekkja Guðrún Eggertsdóttir.  Þeir dvöldu þar á meðan þeir sendu til annarra franskra, sem vestur í fjörðum lágu.  En að skilnaði gáfu þeir Guðrúnu Eggertsdóttur öll skipbrotin með öllu sem þeir ei með sér komu, fyrir utan kaðla og akker sem þeir tóku ári síðar“.

Jón Ólafsson á Grímsstöðum segir mikið fyllra frá þessum atburðum.  hann mátti vel um þetta vita, enda frændi hinnar „göfugu“ ekkju í Saurbæ.  Vatnsfjarðarannáll getur þessa atburðar einnig, og segir að skipið hafi verið á veiðum vestur við Grænland þegar lekinn kom að því.

Í neðanverðri Keflavík er áberandi og stórt malarholt sem nær í sjó fram, og heitir Hlunkurholt.  Innantil í sjávarbökkum þess er slöður eða graslaut mikil.  Þar í voru til skamms tíma sýnilegar nokkrar þúfur sem nefnast Frönskur (sumir segja Franskir, í kk).  Ekki er ólíklegt að þar séu leiði þeirra sex Frakka sem fórust í þessu slysi.

(Byggt á frásögn  Ara Ívarssonar í Árbók Barð. 2004; „Stóri grafreiturinn“).

1714:  Svanur strandar á Lögmannsvogi undir Lambahlíð

Sumarið 1714 sigldi Oddur lögmaður Sigurðsson skipi sínu er Svanur hét, áleiðis frá Rifi á Snæfellsnesi að Narfeyri innan Stykkishólms.  Ekki höfðu þeir lengi siglt er vindur snerist til suðausturs og rak fljótlega á hið versta veður, svo þeir urðu að slá undan út á flóann.  Oddur sat sjálfur við stjórn á skipi sínu og hélt því upp í vind sem þoldi.  En er á nótt leið gekk vindur meira til austurs og ekki var annað að gera en hleypa undan.  Er morgnaði var brimgarður framundan, en vik upp í klettahlíðina sem lögmaður réð að hleypa í.  Skipið brotnaði mjög við landtökuna, en menn komust heilir í land.  Ófært sýndist mönnum upp á brún en einn skipverja, Jón úr Brandsbúð, hélt af stað inn fjöruna að leita mannabyggða, og komst í Keflavík; hlýtur það að hafa verið um stóra fjöru.  Fóru þá menn úr Keflavík út á Lambahlíðardal, en þar neðanundir Lambahlíð er vogur sá sem Oddur hleypti í.  Vel er fært kunnugum mönnum upp úr Lambahlíð, bæði um Húsagjá og Lambagang.  Skipbrotsmönnum var komið upp á brún og til bæja og hresstust þeir við.  Skipið Svanur brotnaði í spón þarna á vognum, sem síðan nefndist Lögmannsvogur.  Nokkru af vörunni varð bjargað undan sjó, og lét Oddur selja hana þarna á staðnum haustið eftir.  Lögmaður og menn hans komu á flutningum að vestan, hálfum mánuði eftir strandið.  Oddur lögmaður átti í linnulausum deilum um sína valdatíð og var af mörgum talinn hrotti og ójafnaðarmaður.  Sagt var að á leið hans yfir flóann hafi hann mætt skipi sem á var Þormóður skáld og galdramaður úr Gvendareyjum, og muni hann hafa magnað upp veðrið.  Á þessum tímum eimdi enn eftir af galdratrú í landinu.  (Heimild: MG: Látrabjarg).

1756:  Drukknun undir Hafnarmúla

Hinn 15. júlí 1756 drukknuðu tveir menn frá Hnjóti; Guðmundur Torfason og Snjólfur Brandsson. Þeir voru að koma úr kaupstað, að því er Gísli Konráðsson segir í Látramanna- og Barðstrendingaþáttum sínum. Taldir ölvaðir; hafi orðið missáttir og flogist á svo bátnum hvolfdi.  Báðir karlmenni mikil.  Slysið varð fyrir utan Hafnarmúla, og hafði smalinn frá Hnjóti séð og heyrt til þeirra.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1757:  Jarðaðir 3 drukknaðir í Sauðlauksdal

Í maí þetta ár voru þrír menn sem drukknað höfðu jarðaðir að Sauðlauksdal:  Guðmundur Jónsson, Ólafur Hróbjartsson og Bjarni Bjarnason.  Gísli Konráðsson nefnir þennan atburð, en ekki með hvaða hætti slysið varð.  Ekki er meira vitað um það nú. (TÓ; Sjóslys í Rauðashr).

1758:  Drukknaður Bjarni Þórðarson

Bjarni drukknaði 17. mars 1758, en var jarðsettur 19. mars.  Kona hans var Hólmfríður Jónsdóttir vinnukona að Geitagili 1780, þá talin 68 ára. (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1758: Guðmundur deyr af sjóvolki

Hinn 3. júní 1758 var jarðsettur Guðmundur Ásbjörnsson; sagður hafa dáið úr sjóvolki.  Ekki eru kunn nánari atvik í sambandi við þennan viðburð.  Guðmundur var sonur Ásbjörns bónda í Tungu; Guðmundssonar bónda á Hvallátrum og k.h. Steinunnar Þórðardóttur bónda í Laugardal Jónssonar (Sellátraætt).  Guðmundur var giftur Þuríði Jónsdóttur, en fjögur börn þeirra fædd eftir 1750 munu öll hafa dáið ung. (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1768:  Eggert Ólafsson drukknar á Breiðafirði

Hinn 30. maí 1768 lagði Eggert Ólafsson fræðimaður, skáld og varalögmaður upp frá Skor, ásamt föruneyti; eftir brúðkaup sitt í Sauðlauksdal. Veðurútlit var ótryggt og fór svo að bátur hans fórst (og annar bátur sem var með í för).

Eggert var þá 42 ára.  Eftir brúðkaup þeirra Ingibjargar hafði hann setið um vetur í Sauðlauksdal hjá systur sinni Rannveigu og manni hennar séra Birni Halldórssyni fræðimanni og jarðræktarfrömuði.  Bú hafði hann reist sér á Hofstöðum í Miklaholtshreppi og var á leið þangað er slysið varð.  Fékk hann stærsta áttæring undan Jökli til flutninganna, en þar á var formaður Gissur Pálsson úr Keflavík.  Eggert fór með föruneyti sínu að Saurbæ á þrenningarhátíð og hlýddi þar messu hjá séra Birni.  Þaðan var haldið út í Keflavík um kvöldið.  Góss þeirra hafði þar verið borið á skipið, en það var metið á um sex hundruð ríkisdali.  Meðal þess voru mörg handrit; gamlar og sjaldfengnar bækur; ýmsir forngripir, svo sem skálar fornar og atgeir sem talinn er hafa verið eign Gunnars á Hlíðarenda.  Eggert var sunginn úr vör að fornum sið.  Átttæringurinn var mjög hlaðinn, og m.a. var ullarsekkjum hlaðið á borð sem lágu um þvert skip að aftan. Á annan áttæring, minni, í eigu Eggerts var hlaðið átta lambám og fleiru.  Fyrir því skipi var Jón Arason hinn stóri.  Honum þótti þurfa að huga að stýri og keipum og lentu því bátarnir í Skor.  Þá var uppgangsveður, og vildu sumir fresta för.  Eggert leiðangursstjóri ákvað að halda áfram, og settist sjálfur að stjórn stærra bátsins.  Þegar bátarnir voru komnir um viku út á flóann þykknaði mjög í lofti og hvessti.  Jón var kominn lengra, en felldi nú segl og sneri við til Skorar.  Sagt er að Eggert hafi haldið áfram sinni för, en af afdrifum þess skips eru engar áreiðanlegar heimildir; aðrar er þær að það fórst þar á firðinum.   Með Eggert á báti drukknuðu Ingibjörg Guðmundsdóttir kona hans, 34 ára; Ófeigur Vernharðsson studiosus 24 ára, Valgerður Jónsdóttir 18 ára og 4 hásetar.  Kirkjubók Sauðlauksdalssóknar segir að þrír menn hafi farið á stærra skipi og farist með því.  Þeir voru Guðmundur Gunnlaugsson, Guðmundur Jónsson og Jón Þorsteinsson.  Þarna kann þó að vera eitthvað málum blandið; og jafn líklegt að þessir menn hafi verið skipverjar á skipi Jóns stóra Arasonar.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi; Öldin átjánda).

1772:  Skip ferst í Breiðavík

Skip fórst í Breiðavík 13. maí, með 6 mönnum.  Þeir voru:  Þorvarður Egilsson, bónda í Breiðavík Brandssonar og konu hans Guðrúnar Þorvarðardóttur prests í Sauðlauksdal, 25 ára ókvæntur; Einar Jónsson 28 ára, úr Rauðasandshreppi; Jón Einarsson; Jón Torfason; Ólafur Jónsson og Björn Gíslason.  Þeir voru aðkomumenn.  Einn komst af eftir talsvert volk; Jón Jónsson, síðar bóndi í Múla í Gufudalssveit. (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1774:  Þrír menn drukkna við Rauðasand

Hinn 5. oktober drukknuðu þrír menn við Rauðasand, en ekki er vitað með hvaða hætti það varð. Líklega hefur það verið við land. Mennirnir voru:  Ásbjörn Jónsson 37 ára; Guðmundur Eyjólfsson 22 ára og Einar Ketilsson 37 ára, kvæntur og átti tvö börn.  Ásbjörn var formaður; ókvæntur og barnlaus að því er virðist.  Guðmundur var sonur Ejólfs Jónssonar bónda í Tungu og Elínar Einarsdóttur. (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1778:  Drukknun á Hvallátrum

Hinn 16. febrúar drukknaði Loftur Sigmundsson 60 ára; átti eftir mörg börn. Loftur mun hafa verið á Hvallátrum, en ekki eru kunnar sagnir um slysið. Faðir Lofts var Sigmundur Þórðarson, sem drukknaði við Bjargtanga, sennilega 1737. (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1781:  Hnjótsbræður farast i Blakknesröst

Þann 19. maí lögðu bátar í róður frá Láturdal.  Tveir bátar urðu samferða á mið.  Á þeim voru fjórir bræður frá Hnjóti, auk fjögurra annarra.  Á þá gerði ofsaveður með kafaldi og stórsjó.  Menn á síðasta bát sem náði landi í Láturdal sögðu Blakknesröst orðna ófæra, en báta Hnjótsbræðra var saknað.  Stærri bátinn rak síðar í Breiðavík, en þann minni fyrir innan Blakknes.  Talið var að allir hefðu mennirnir farið í stærri bátinn og haft hinn í togi.  Hann hafi svo verið skorinn frá í Blakknesröst en þeir reynt að hleypa suður um á hinum stærri. 

Þeir sem fórust voru:  Einar Magnússon ekkjumaður, átti eftir 1 barn, 34 ára; Þorvarður Magnússon Hnjóti, 27 ára; Þórður Magnússon Hnjóti, 20 ára; Ólafur Magnússon Hnjóti, 19 ára; Einar Eyjólfsson vinnumaður á Hnjóti, 56 ára, ókvæntur; Eiríkur Hallsson bóndi í Kirkjuhvammi, 53 ára, kvæntur; Páll Pálsson bóndi á Litla Króki, Rauðasandi, 23 ára og Sigmundur Árnason unglingur af Barðaströnd.  foreldrar þeirra Hnjótsbræðra voru Magnús bóndi á Hnjóti Þorðvarðarson; prests í Sauðlauksdal Magnússonar og konu hans, Vigdísar Þórðardóttur; lögréttumanns á Haukabergi. (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1786:  Fjórir farast í kaupstaðarferð frá Breiðavík

Bátur frá Breiðavík fórst á þessu ári er hann var að koma úr kaupstaðarferð, að því er kemur fram í frásögn Gísla Konráðssonar, en sagnir eru annars fáar um slysið.  Formaður á bátnum var Jóhann bóndi í Breiðavík.  Annar var vinnumaður Egils Brandssonar í Breiðavík, og loks voru tvær stúlkur.   Önnur þeirra var líklega Ingibjörg Jónsdóttir, 18 ára, sem ólst upp sem fósturbarn í Breiðavík, og hin Guðrún Loftsdóttir; bónda á Látrum Sigmundssonar.  Lík hennar munu Hollendingar hafa fundið á floti, en hún var þunguð.  Þeir fluttu líkið í Tálknafjörð og kostuðu útför hennar frá Laugardalskirkju.

Heimildir Gísla segja að báturinn hafi farist „því að veðurbylur þaut í seglið svo hvolfdi; því ei varð lækkað“. (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1810:  Drukknun Bjarna  og Sigríðar frá Botni

Hinn 26. oktober 1810 drukknaði Bjarni Magnússon, fannst ekki; og Sigríður Jónsdóttir, sem grafin var 30. sama mánaðar. Bjarni þessi var að öllum líkindum sá sem var bóndi á hluta Botns á móti tengdaföður sínum. Bjarni var kvæntur Guðnýju Jónsdóttur og átti með henni tvær dætur.  Sigríður var hálfsystir Guðnýjar, og líklega 19 ára þegar hún fórst.

1812:  Bátur ferst í Látraröst

Hinn 4. maí þetta ár fórst í Látraröst bátur með 6 mönnum; einn komst af.  Bátinn átti Sigríður Magnúsdóttir ekkja; búandi á Hvallátrum; systir þeirra Hnjótsbræðra sem drukknuðu 1781 í Blakknesröst.  Hún hafði verið gift Ólafi Erlingssyni bónda í Breiðavík; Bjarnasonar bónda í Kollsvík Jónssonar, en sá Bjarni var einn hinna kunnu Sellátrabræðra.

Þessir drukknuðu:  Guðmundur Þorsteinsson 48 ára frá Sjöundá, ókvæntur og barnlaus; Jónas Bjarnason 24 ára frá Melanesi, ókvæntur og barnlaus, talinn mikill vexti og sterkur; Þorbjörn Jónsson 42 ára frá Krókshúsum, ókvæntur og barnlaus; Einar Bjarnason 12 ára, fóstursonur Sigríðar Magnúsdóttur á Látrum; Jón Jónsson frá Skálanesi 29 ára, ókvæntur og barnlaus; Jón Höskuldsson 37 ára, kvæntur en barnlaus.   Björn Arnfinnsson 26 ára var sjöundi maðurinn á bátnum, en hann bjargaðist naumlega á kjöl.  Honum bjargaði síðan Ólafur Bjarnason.  Björn varð síðar hreppstjóri í Gufudalsveit og bjó að Kletti.  Faðir Björns var Arnfinnur Jónsson á Hallsteinsnesi; bróðir Einars Jónssonar bónda í Kollsvík og ættföður Kollsvíkurættarinnar.  Systir björns var Guðrún Arnfinnsdóttir, kona Jóns Þóroddssonar á Látrum.  Varð því mikill fjöldi manna af þessari ætt í Rauðasandshreppi.  Sigríður bátseigandi dó þá um haustið1812, en Björn dó 1846.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1821:  Bátur ferst í hákarlalegu undan Bjargtöngum

Hinn 22. maí drukknaði Gunnlaugur Jónsson frá Mábergi og með honum 7 menn í Hákarlalegu. Sysið varð skammt suður af Bjargtöngum. Gunnlaugur var þá formaður á Brunnum á Hvallátrum.  hafði hann fengið ýmsa menn úr verstöðinni til að fara með sér í þessa legu.  Eitt eða fleiri skip hafa auk þess verið í legu á sömu slóðum, því að svo segir aðþeir höfðu fengið 12 hákarla og alla stóra er skip kippti hjá þeim.  Enginn komst af, og drukknuðu þessir:  Gunnlaugur Jónsson 34 ára, bóndi á Mábergi, áður á Melanesi, giftur og faðir eins drengs; Jón Þórðarson 29 ára, bóndi í Stekkadal, giftur og faðir einnar stúlku; Ásbjörn Þórðarson 37 ára, bóndi á Lambavatni og bróðir Jóns, kvæntur og þriggja barna faðir; Halldór Magnússon 21 árs, ókvæntur og barnlaus; Ólafur Einarsson, vinnumaður í Gufudal; Ámundi Arnfinnsson 33 ára frá Gróunesi, kvæntur, bróðir Björns þess sem einn bjargaðist frá bátstapanum 1812; Hjálmar Jónsson frá Kirkjubóli á Bæjarnesi, um tvítugt, ókvæntur og barnlaus; Magnús Gíslason frá Brekku, röskur maður um tvítugt.  Halldór og Ólafur fundust og voru jarðaðir í Selárdal.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1822:  Bátur frá Brunnum ferst

Eggert Jónsson í Saurbæ reri um morguninn 13. maí 1822 frá Brunnum, og með honum 8 hásetar hans.  Fengu þeir mikinn steinbítsafla yfir daginn, svo báturinn var nokkuð hlaðinn.  Reru þeir upp á boða, og hefur það auðsjáanlega verið af aðgæsluleysi.  Bátnum hvolfdi, en 5 mannanna komust á kjöl og var þeim bjargað úr landi. 

Þessir fórust:  Eggert Jónsson 35 ára, bóndi í Saurbæ og sonur séra Jóns Ormssonar í Sauðlauksdal, kvæntur og átti eitt barn, Eggert Eggertsson síðar bónda á Hvallátrum; Bjarni Magnússon 31 árs, bóndi á Gröf en áður Melanesi, tveggja barna faðir; Árni Bjarnason 50 ára, vinnumaður á Sjöundá, ókvæntur og barnlaus; Bjarni Jónsson, talinn 16 ára, vinnumaður í Gröf.  Þeir sem af komust voru: Jón Ísleifsson, síðar bóndi í Saurbæ og síðari maður Jóhönnu, ekkju Eggerts í Saurbæ; Jón Jónsson, kallaður smiður, bóndi á Sjöundá, hann sló negluna úr bátnum er á kjöl var komið svo báturinn ylti síður aftur; Magnús Bjarnason, síðar bóndi í Stekkadal; Sæmundur Guðmundsson; Halldór, líklega Bjarnason, og einn ónefndur enn.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1824:  Skip Árna Þoroddssonar ferst við Blakknes

Árni Þóroddsson bóndi í Kvígindisdal fórst á landleið úr hákarlalegu 22. maí 1824, og með honum 8 hásetar.  Skipið hét Hreggviður.  Nokkru síðar en Árni, fór einnig í legu Pétur Pétursson frá Vatneyri; síðar bóndi á Hlaðseyri.  Kom hann þar að þegar Árni var að leysa upp og lagðist í sama pláss.  Lá hann þar til hann hafði fengið 10 hákarla, en síðar tók að hvessa.  Hann náði landi eftir að skornir höfðu verið af sex hákarlar; líklega á Sellátranesi.  Sést hafði til Árna fyrir Straumnesið; þegar veðuræsingurinn mestur þaut á, en síðan spurðist ekki til bátsins.  Sagt var að skip Árna hafi rekið um haustið í Tékyllisvík á Ströndum og að í því hefðu verið nokkrir hákarlsbútar.  Hafi því hákarlinn verið skorinn frá að lokum, en ekki fyrr en um seinan.

Þessir menn drukknuðu:  Árni Þóroddsson 53 ára, bóndi í Kvígindisdal, kvæntur og átti einn son; Davíð Thorberg 23 ára; systursonur Árna; Sveinbjörn Bjarnason 40 ára vinnumaður Árna, ókvæntur og barnlaus; Guðmundur Gíslason 31 árs, vinnumaður í Kvígindisdal, ókvæntur; Hans Venvig Oddsson 45 ára vinnumaður í Kvígindisdal, ókvæntur og barnlaus; Jón Ásgrímsson 46 ára vinnumaður Árna, kvæntur með 1 barn; Guðmundur Guðmundsson 23 ára, vinnumaður í Vatnsdal; Bjarni Bjarnason 24 ára vinnumaður í Vatnsdal, sonur Bjarna Bjarnasonar á Sjöundá, sem varð Guðrúnu móður hans að bana og Jóni Þorgrímssyni granna sínum; Jón Jónsson 31 árs ókvæntur, vinnumaður Asbjarnar Ólafssonar í Vatnsdal, nefndur Jón Dýrfirðingur.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1829:  Bátur Magnúsar sútara ferst í Breiðavíkurlendingu

Magnús Árnason drukknaði 12 maí 1829, ásamt 5 hásetum sínum, en einn bjargaðist.  Um slysið segir Gísli Konráðsson sagnaritari:  „Magnús sútari reri þetta vor í Breiðavík.  Var það einn morgun að stormur var landsunnan og vildi Magnús þá róa.  Kom svo að hann reri tvívegis en sneri aftur hvert sinn.  Þó reri hann í þriðja sinn þegar lygndi, en þegar hljóp á útnyrðingur með ylgju mikilli.  Ókyrrðist mjög sjór við það, svo illlendandi var.  En er Magnús hugði í land að halda bar skipið á boða norðan lendingarinnar.  Fyllti það þegar og hvolfdi og fórust þar allir er á voru nema einn.  Honum skaut upp, svo að sá í koll honum og hárið.  Fengu Breiðvíkingar sem á eftir komu borgið honum“.  Hér er við að athuga að bátur hefur verið settur fram í björgunarskyni, með því að enginn mun hafa verið á sjó nema Magnús; ennfremur að flúðir sem báturinn fórst á eru sunnantil við lendinguna.  Heitir þar Taska, en gegnt henni norðantil er Klakkurinn.

Sá sem bjargaðist hét Jón Guðnason, og var hann móðurfaðir Ara sýslumanns Arnalds.  Nú verða taldir þeir sem drukknuðu:  Magnús Árnason 47 ára, bóndi á Skógi og fyrrum hreppstjóri en sútari að mennt, tvíkvæntur og 7 barna faðir; Bjarni Stefánsson 54 ára bóndi í Breiðavík, kvæntur með eitt barn; Jón Rögnvaldsson um sextugt frá Gufudal; Konráð Jónsson 41 árs, vinnumaður á Sjöundá, ókvæntur og barnlaus; Gísli Eyjólfsson 29 ára vinnumaður á Sjöundá; Helgi Guðmundsson 20 ára vinnumaður á Skógi, kvæntur.  Lík allra hinna drukknuðu náðust og voru þeir jarðsettir í Breiðavík.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1834:  Skútan Magdaleine ferst undan Skor

Þetta ár fórst skútan Magdeleine, eign Árna Thorlacius í Stykkishólmi.  Skipstjóri var danskur maður er Vessel hét, en hásetar flestir íslenskir.  Skipið sást seinast framundan Skor, og var þá komið hvassviðri mikið.  (Skútuöldin II).  

1837:  Skip Gísla Ísleifssonar ferst í Látraröst; 10 drukkna

Slysið varð 26. maí, og með Gísla drukknuðu 9 menn.  Mun skipið hafa verið áttæringur.  Ekki er þess getið hvort þeir voru einskipa á sjó.  Um slysið segir Gísli Konráðsson sagnaþulur:  „Ekki var veður hvasst er Gísli reri, en hvessti þegar leið á daginn.  Er mælt að þilskip eitt sæi það að Gísli færist í Látraröst með öllum hásetum sínum.  Veturinn eftir rak nokkurn fatnað þeirra og bein sumra, að sagt er“. 

Þessir drukknuðu:  Gísli Ísleifsson 31 árs bóndi í Tungu í Örlygshöfn, áður í Kirkjuhvammi, giftur og tveggja barna faðir; Helgi Brandsson 25 ára frá Hlíð í Þorskafirði; Gunnar Höskuldsson 67 ára ekkjumaður frá Gröf á Rauðasandi, þriggja barna faðir; Ólafur Gunnarsson 36 ára bóndi í Gröf, sonur fyrrnefnds Gunnars, kvæntur og fjögurra barna faðir; Magnús Gunnarsson 23 ára ókvæntur og barnlaus, sonur fyrrnefns Gunnars; Einar Guðmundsson 35 ára bóndi í Brattahlíð á Rauðasandi, kvæntur og þriggja barna faðir; Gísli Ólafsson 50 ára sveitarómagi í Tungu; Bjarni Sigurðsson 43 ára bóndi á Skógi, kvæntur og þriggja barna faðir; Guðmundur Jónsson frá Skálmardal, hálfdrættingur; Þorgrímur Jónsson 38 ára, heimamaður Gísla.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1845:  Skúta ferst við Straumnes með allri áhöfn

Fiskiskúta nýfarin út af Ísafirði fórst á heimleið til Hafnar í oktobermánuði við Straumnes hjá Patreksfirði, og týndust þar menn allir.  (Gestur Vestfirðingur I.árg).

1852: Tvö skip rekur á land á Vatneyri

"Hinn 3. maí 1852 ráku að landi tvö útlend skip; galeas og jagt, er lágu á Vatneyrarhöfn. Skip þessi löskuðust svo, að þau voru bæði seld við uppbob (Frá skiprekum þessum er greinilega sagt í Nýjum tíðindum, bls 71)".  (Gestur Vestfirðingur 1.tbl 1855).  

1862:  Slitnar upp skip við Vatneyri og eyðileggst

"Nálægt 10. september sleit upp kaupskip er lá fyrir akkerum á Vatneyri við Patriksfjörð vestra, með talsverðri vöru.  Þorsteinn lausakaupmaður Thorsteinsson átti þá vöru eða hafði yflr henni að segja.  En nú varð það allt strandrek; skip og vara, og var selt uppboðssölu".  (Þjóðólfur 29.09.1862).  

1864:  Nýsmíðaður bátur ferst á Látravík með fjórum mönnum

Hinn 8. júlí var Ólafur Magnússon bóndi í Breiðavík að sækja nýsmíðaðan bát út að Látrum.  Hann hafði smíðað Sigurður Finnbogason sem þá bjó að Miðbæ, en bjó áður að Siglunesi á Barðaströnd.  Sagt er að veður hafi verið hið besta, og ætlaði Ólafur að fara í leiðinni eitthvað fram á Látravík eða á Röstina, og reyna fyrir fisk.  Bátnum mun ekki hafa verið veitt nein athygli fyrst, en fólk á Látrum bjóst við að sjá til hans þegar hann færi norður fyrir Núpinn.  En svo leið tíminn að ekkert sást til bátsins, og fór þá Sigurður Finnbogason að svipast eitthvað um eftir honum en varð einskis vísari.  Var þá talið víst að báturinn væri kominn norður fyrir og lentur, þó að ekki hefði sést til ferða hans.  En báturinn kom aldrei fram, og ekki neitt sem honum tilheyrði.

Sögn gekk um að notuð hefði verið í bátinn einhver spýta eða smáhnyðja sem gömul kona á Látrum var búin að vara við.  Einnig hefði Össur hreppstjóri á Látrum átt að sjá eitthvað þegar verið var að setja bátinn frá Miðbæ og til sjávar.

Þessir menn voru á bátnum:  Ólafur Magnússon 38 ára bóndi í Breiðavík, giftur og 10 barna faðir; Jón Ólafsson 12 ára, elsti sonur Ólafs; Ólafur Þorgrímsson 44 ára vinnumaður í Breiðavík, áður bóndi á Grundum og eitt sinn að Stekk í Breiðavík, giftur og 10 barna faðir; Engilbert Ásbjörn Ásbjörnsson 18 ára frá Vatnsdal.

1865:  Gunnlaugur Björnsson drukknar við Blakknes

Sunnudaginn 23. apríl lögðu þrír menn af stað á bát frá Hænuvík áleiðs til vorróðra í Kollsvíkurveri.  Þetta voru Árni Pálsson bóndi í Hænuvík; Árni Jónsson vinnumaður í Botni og Gunnlaugur Björnsson 28 ára vinnumaður í Botni, áður bóndi á Grundum.  Ekki munu vera nákvæmar sagnir um veðurfar, en líklega var ekki mikið að því.  Vita menn nú lítið hvað gerðist, fyrr en þá félagaga ber af einhverjum ástæðum að landi nokkru fyrir innan Blakknes.  Gunnlaugur hefur drukknað við landtökuna, eða að öðrum kosti látist á einhvern hátt úr volki sem þeir félagar hafa lent í.  Á þessum slóðum er allstaðar grjót og klappir í fjöru.

Árni Pálsson kom heim að Hænuvík seint um kvöldið; e.t.v. ekki fyrr en fólk var gengið til náða.  Að minnsta kosti er svo að sjá sem fólk í Hænuvík hafi lítt vitað um slysið fyrr en næsta morgun; er það sá til ferða Árna Jónssonar utantil við á sem rennur skammt frá bæjum.  Var hann þrekaður mjög, og naut hjálpar til þess að komast yfir ána og heim til sín.  Verður þetta ekki frekar rakið hér, en þess aðeins getið að Árni Pálsson hafði neytt víns óhóflega ef svo bar undir, ef vera mætti að þar væri einhverja skýringu að finna á sumu því sem hér hefur verið drepið lauslega á.  Gunnlaugur lét eftir sig konu og eitt barn.

1866:  Líkfundur á Hænuvík

Nú í sumar fannst lík á reki frammi á Hænuvík.  Reyndist það vera af Bjarna Símonarsyni sem gerði út skip í Kópavík þetta vor.  "Hann varð of seint fyrir að komast á burt úr víkinni. Drukknaði hann nálægt Kópaflögunni á heimleið, ásamt tveimur sonum sínum, Símoni og Þorbergi Sveini, og 4 mönnum öðrum. Merkilegt þótti, að verskrína Bjarna fannst standandi uppi á grasi og var bollum skipað í kring um hana. Þótti þetta benda til þess, að Bjarni mundi sennilega hafa komizt lifandi á land með skrínuna, en farið síðan að reyna að biarga mönnum sínum og sogast við það út í briminu. Hafði vindur eða loft hlaupið í sjóbrók hans, og því hafði líkið ekki getað sokkið, en flotið alla þessa leið vestur yfir Tálknafjörð og Patreksfjarðarflóa"  (Lesb.Mbl; 20.03.1960).  

1870:  Drukknun þriggja í Hænuvíkurlendingu

Hinn 20. júní 1870 drukknuðu þrír menn við lendingu í Hænuvík; komu úr veiðistöðu.  Brim var talin orsök slyssins.  Þeir voru: Bárður Bjarnason 40 ára bóndi í Hænuvík, kvæntur 4 barna faðir; Bjarni Einarsson 28 ára vinnumaður Bárðar, ókvæntur en átti einn son; Guðmundur Árnason 18 ára vinnumaður í Hænuvík.  (Sjóslysaannáll Torfa Ólafssonar og frétt í Þjóðólfi 06.10.1879).

1874:  Frönsk skúta strandar við Vatneyri

Franska skútan Camille Henri SB 27 frá Binic, 107 rúmlestir, strandaði 28. júlí 1874 innan við Vatneyri í Patreksfirði. Skútan lá þar á legunni þegar skyndilega hvessti  af sunnan og hún dró akkerin þar til hún stóð.  22ja manna áhöfn bjargaðist í land, og komst til síns heima.

Á uppboði 10. ágúst keypti Sveinn Magnússon hómópati á Lambavatni lyfjaskrín skipsins á 6 krónur.  Skrínið er varðveitt á Minjasafninu á Hnjóti.

(Heimild: María Óskarsdóttir; Árbók Barðastrandasýslu 2005).

1875: Frigg ferst í Látraröst

Danska skipið Frigg hafði um nokkur ár komið vor hvert með vörur til Markúsar Snæbjörnssonar, kaupmanns á Geirseyri, og farið að haustinu með innlenda framleiðslu til útlanda.  Auk þess var því haldið eitthvað til fiskveiða að vorinu.  Í maí 1875 var það komið enn yfir Atlantsála í þessu skyni.  Skipið var mannað fjórum Íslendingum; þremur búsettum í Rauðasandshreppi og einum ættuðum þaðan.  Skipið var líklega losað á Geirseyri en síðan fór það í róður.  Í þeirri ferð fórst það; að öllum líkindum í Látraröst.  Í kirkjubók Sauðlauksdalsprestakalls segir að skipið hafi líklega farist seint í maí.  Það er talið að sennilega hafi ekki verið nógu tryggilega búið um grjót sem látið hafi verið í skipið er það hafði verið affermt; það hafi kastast til og skipið ekki getað rétt sig. 

Með Frigg fórust: Jón Jónsson 57 ára bóndi í Skápadal, kvæntur og tveggja barna faðir; Sigurður Gíslason 39 ára bóndi í Botni, kvæntur og 10 barna faðir; Jón Hinriksson 27 ára húsmaður á Geirseyri, ókvæntur og barnlaus; Kristján Friðriksson, frá Rifgirðingum á Snæfellsnesi, en ættaður úr Sauðlauksdal.

1876: Vatnsdalsskipið Dvalinn ferst í lendingu á Hvallátrum

Hinn 15. febrúar 1876 voru hákarlaskip Víknamanna að koma úr legum, líklega einhversstaðar út af Víkunum. Meðal þeirra var Dvalinn frá Vatnsdal; oftar nefndur Vatnsdalsskipið. Formaður á skipinu var Bjarni Ólafsson, þá bóndi í Tungu, en áhöfnin öll úr Firðinum, eða úr Örlygshöfn, Vatnsdal, Kvígindisdal og Sauðlauksdal.  Norðanveður brast á, og náðist ekki fyrir Blakknes, svo hleypt var suður eftir.  Fleiri skip höfðu verið í legu á svipuðum slóðum; eitt skip úr Kollsvík (Fönix); annað frá Látrum (Sigríður blíðfara) og hið þriðja úr Tálknafirði.  Á Kollsvíkurskipinu mun hafa verið formaður Guðbjartur Ólafsson í Kollsvík.  Þar var ólendandi og hleypti Guðbjartur suður fyrir Breið og náði landi í Fjarðarhorni.  Fjarðarhorn er nyrst í Breiðavík, og þar er þrautalending í norðansjó.  Hið sama er að segja um skipið úr Tálknafirði.  Nokkru síðar fór Látraskipið þar framhjá og svo Vatnsdalsskipið.  Hvorugt þeirra gerði tilraun til að lenda í Fjarðarhorni, en héldu beint að Látrum.  Látramönnum tókst lendingin vel, en Vatnsdalsskipið bar upp á svonefnda Sölvatanga.  Bátnum hvolfdi þegar og barst til lands, en engum tókst að halda sér við hann vegna brimrótsins.

Þessir fórust:  Bjarni Ólafsson 43 ára bóndi í Tungu og formaður, bróðir Guðbjartar Ólafssonar í Kollsvík, kvæntur og 5 barna faðir; Helgi Bjarnason 18 ára sonur Bjarna og vinnumaður hjá honum; Árni Pálsson 53 ára vinnumaður í Tungu og fyrrum bóndi í Hænuvík, kvæntur og 11 barna faðir; Guðmundur Jónsson 25 ára vinnumaður á Hnjóti, ókvæntur og barnlaus; Ólafur Guðmundsson 26 ára vinnumaður í Vatnsdal, ókvæntur og barnlaus; Sigurður Eiríksson 51 árs vinnumaður í Vatnsdal, ekkjumaður með eitt barn; Guðmundur Loftsson 27 ára vinnumaður í Kvígindisdal, ókvæntur en hafði átt einn son; Davíð Hinriksson 25 ára vinnumaður séra Gísla í Sauðlauksdal, ókvæntur og barnlaus; Kristján Hjálmarsson 26 ára vinnumaður í Sauðlauksdal.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Örlitið er á annan veg sagt frá atvikum í lýsingum sem Egill Ólafsson á Hnjóti ritaði eftir ýmsum heimildarmönnum.  Þar segir m.a:  „Skipin sem lentu í Fjarðarhorni voru Farvel frá Breiðavík og Sigríður blíðfara frá Hvallátrum.  Af þeim á Dvalanum er það að segja að þegar þeir koma upp að Hvallátrum virðast þeir hafa í huga að lenda þar.  Láta þeir reka frammi á Læginu, en svo er kölluð smávík er myndast af Sölvatanga og Látranesi.  Heimamenn á Hvallátrum fylgdust með ferð skipsins og höfðu viðbúnað til að taka á móti því er um landtöku yrði að ræða.  Meðan þessu fer fram segir einn af heimamönnum; Árni J. Thoroddsen bóndi; skarpskyggn maður „Þarna eru feigir menn um borð“.  Það reyndist orð að sönnu.  Skipið rak upp að svokölluðum Bjarnaboða sem er þarna frammi á Læginu; þar tók sig upp mikil holalda og hvolfdi skipinu.  Fórst það með allri áhöfn.

Lík skipverja rak á Hvallátrum, að einu undanteknu.  Lík Guðmundar Jónssonar frá Hnjóti rak ekki.  Líkin voru borin upp í Hagamannabúð, og búðin var lengi eftir þetta kölluð Dauðsmannsbúð.  Lík skipverjanna af Dvalanum voru jörðuð í einni gröf í Breiðavíkurkirkjugarði 21. mars 1876.  (Egill Ólafsson; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

1878:  Prins Alfred frá Englandi strandar við innanvert Blakknes

Enska skonnortan Prins Alfred strandaði aðfaranótt 7. júní 1878 innanvert við Sölmundargjá á Hænuvíkurhlíðum, í blindþoku og sjóleysu.  Flaut skipið á vog í fjörunni og var fast á vaturstagnum á svonefndum Kisukletti sem er þar í fjörunni.

Skipverjar fóru í bátinn og reru inn á Láturdal, og þaðan inn á Patreksfjörð.  Laskaðist lítið eitt og var ekki talið vel sjófært.  Skipið náðist út á flóðinu um kvöldið, stranddaginn.  Farið var með skipið inn á Vatneyri og var það boðið þar upp fyrir 1000 kr með öllu tilheyrandi.  Kaupendur voru m.a. Markús Snæbjörnsson, Sigurður Backmann, Bjarni Jóhannesson fiskikóngur frá Stykkishólmi og Guðbjartur Ólafsson bóndi í Kollsvík.  Buðu þeir skipið síðan til kaups að viðgerð lokinni á 15.000 kr.  Prins Alfred var ensk skonnorta; þrímöstruð, með sjö manna áhöfn.  (EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi; frétt í Norðanfara 14.09.1878).

1878:  Hrakningar frá Grænlandi upp undir Látrabjarg

Um miðjan ágúst 1878 komu 3 norskir menn á litlum báti vestan frá Grænlandsströndum til Stykkishólms.  Höfðu þeir farið á bátnum, sem var skipsbátur, frá norsku selaveiðaskipi er var fyrir austurströndum Grænlands í selaleit út frá skipinu, en hrepptu poku, villtust og náðu loks undir Ísland eftir 7 sólarhringa.  Komu þeir fyrst upp undir Látrabjarg en sakir norðanvinds náðu þeir ekki lendingu, heldur bárust eða sigldu undan vindinum þvert yfir Breiðafjörð og til Stykkishólms. Þeir höfðu aðeins haft með sér tveggja daga matforða, en lifðu meðfram á selspiki.  Einn þeirra kat þó ekki komið því niður; en hann var aðframkominn.  Selskinn höfðu þeir í segl. (Norðanfari 14.09.1878).  

1878 : Ossian frá Mandal strandar undir Djúpadal í Látrabjargi

Norska flutningaskipið Ossían frá Mandal strandaði um fardaga 1878 undir Djúpadal í Látrabjargi í suðaustan rosa, en sjóleysu.  Skipsmenn fóru allir, 5 að tölu, í bátinn; reru fyrir Bjargtanga og lentu á Brunnum í Látravík.  Fóru þeir þetta á sama sjávarfallinu og skipið strandaði, og mun ferðin hafa gengið vel.  Skipið var hlaðið timbri og voru bátar fengnir allsstaðar að úr Útvíkum til að flytja timbrið inn í Keflavík, en þar var það boðið upp.  Kollsvíkur-Fönix var stærstur þeirra skipa er fluttu timbrið.  Skipshöfnin var þessi; skipstjóri, stýrimaður, matsveinn og þrír hásetar.  Skipstjóri og stýrimaður voru á Hvallátrum í þrjár vikur, eða þar til búið var að bjóða upp timbrið úr skipinu.  Skipið liðaðist í sundur í fjörunni þar sem það strandaði, og mun ekkert (annað) hafa náðst úr því. 

Skipstjóri á þessu skipi hét Görresen og er sagt að hann hafi farið 60 ferðir til Íslands með timburfarm og andaðist í sextugustu ferðinni.   (EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi).

1882: Kútterinn Lövenörn strandar við Breiðavíkurrif

Færeyski kútterinn Lövenörn, 25-30 tonn að stærð, strandaði 25. maí 1882 á Breiðavíkurrifi, undan miðri Breiðavík í blindbyl og sjógarði; aftaka norðanveðri með frosti.  Skipshöfnin var 13 manns, allir frá Færeyjum og fórust þeir allir.  Skipið liðaðist sundur á sama sólarhring og það strandaði.  Það mun hafa verið að fara inn á Patreksfjörð í byrjun vertíðar.  (EÓ: skipsströnd í Rauðas.hreppi). 

Fiskiskipið Lövenörn strandaði á skerjagarði framan við Breiðavíkurrif sem einu nafni nefnist Sker, og fer á kaf um hálffallið.  Allir skipverjar fórust.  Ellefu þeirra eru taldir jarðaðir í Breiðavíkurkirkjugarði; sex þegar eftir slysið, en fimm síðar; sinn í hvert skipti. (Trausti Ólafsson; Örnefnaskrá Breiðavíkur).

Snæbjörn í Hergilsey lýsir því að þessa nótt hafi maður einn í Breiðavíkurveri farið erinda sinna útundir búðargaflinn í óveðrinu.  Hafi honum þá heyrst eins og veikt vein í nánd við sig, en telur að það gæti hafa verið lambsjarmur.  En þá um morguninn sást að allstórt skip var strandað öðrumegin í lendingunni; brotið nálega í tvennt en fjörur þaktar vogreki.  Maður lá látinn í þarabrúkinu, sem líklega hafði komist lifandi að landi en látist þar án þess að greina búðirnar fyrir kafaldsbylnum.  Fleiri fundust þar, sem greinilega voru færeyskir sjómenn.  Höfðu þeir ætlað að hleypa vestur fyrir Látrabjarg, því engan fjörð var að taka fyrir roki og kafaldsbyl.  (Saga Snæbjarnar í Hergilsey).  

Lövenörn var skonnortubrigg frá Klakksvík, að því er segir í grein Birgis Þórissonar í Árb. Barð. 2014.  Segir þar að 11 hafi verið í áhöfn.

1882:  Bella strandar innan Sölmundargjár í Blakknesi

Bella strandar við Blakknes:  Skonnortan Bella frá Trangisvaag í Færeyjum strandaði laugardaginn fyrir hvítasunnu; 29.05.1882, undir Hænuvíkurhlíðum utanverðum; innantil við Sölmundargjá.  Veður var norðan stórhríð og stórsjór.  Skipið lá norður á Aðalvík, slitnaði upp og fékk á sig sjó og rak svo stjórnlaust á hliðinni; fyrir Vestfirði og strandaði á fyrrgreindum stað.  Eitt lík var bundið í reiða skipsins og var farið með það til Breiðavíkur og jarðsett þar.  Skipið var annars mannlaust og er haldið að skipverjar hafi farið í bátana eftir að skipið fékk sjó á sig, einhversstaðar úti fyrir Vestfjörðum, og þeir hafi svo allir farist.  Ekki var þá vitað hve margir menn voru á skipinu þar sem enginn var til frásagnar.  Bella var um 40 smálestir að stærð.  Var skipið selt Sigurði Backmann kaupmanni á Vatneyri, sem lét rífa það.  (EÓ: Skipsströnd o.fl.).

Samkvæmt færeysku vefsíðunni "Gomul föroysk skip" var 20 manna áhöfn á Bellu, þar af 10 Færeyingar.  Þar er sagt að þeir hafi farist 25.05.1882.

Snæbjörn í Hergilsey nefnir strandið í ævisögu sinni.  Þar greinir hann frá sögu sjómanns er hann var eitt sinn samskipa.  Sá sagðist hafa verið á seglskútu sem kom að Bellu strandaðri fremst undir Blakknesi.  Skipstjóri skútunnar lagði upp að Bellu, sem þar lá á hleinum; brotin, og eitt lík bundið í reiðann.  Skipstjóri hefði farið ofan í káetu Bellu og komið aftur með "smjörverpil" vænan og poka af öðru góssi.  Sögumaður sagðist minnast þessa með hryllingi, enda hefði þarna verið um rán að ræða.  Sögumaður sagði að næst þegar komið var að flakinu hefði það verið horfið.  (Saga Snæbjarnar í Hergilsey).  Niðurlag sögunnar fær þó ekki staðist, samanber ofangreint.  Er því vafamál hver fótur er fyrir sögunni um ránið.

Bella fórst í sama óveðri og Lövenörn.  (Eyjólfur Sveinsson; Skipströnd í Rauðasandshreppi).  Strandstaður Bellu nefnist Bellubás.  

Birgir Þórisson segir í grein sinni í Árb. Barð. 2014 að Bella hafi verið frá Trangisvaag, og með henni hafist farist 20 manna áhöfn; Danir og Færeyingar.  Hún hafi hafi verið 61 tonns amerísk skonnorta, svipuð og lúðuveiðiskipin sem þá voru að hefja veiðar hér við land.  Þrír menn hafi stolið Bellu vestanhafs árið 1880 og siglt henni til Noregs.  Þar keypti dansk-færeysk útgerð skipið á uppboði og gerði út á handfæri við Ísland.

1882:  Franska skonnortan Emilie strandar í Örlygshöfn:

Frönsk skonnorta; Emilie frá Dunkerque, tæp 61 tonn að stærð, strandaði hinn 17. júlí í Örlygshöfn, eða var þar siglt upp vegna leka.  (Landshagaskýrslur fyrir Ísland 1905).

1883:  Franska skonnortan Camille strandar á Tungurifi

Tvímöstruð frönsk skonnorta, Camille frá Dunkerque, 94 tonn að stærð; smíðuð 1861, strandaði 13. júní 1883 á Tungurifi í Örlygshöfn.  Veður var norðan kaldi og sjólítið.  Skipsmenn voru 24 og björguðust allir.  Skipið var á leið inn á Vatneyrarhöfn og mun strandið hafa stafað af athugunarleysi.  Farmur skipsins var brauð, salt o.fl.  Skipið náðist út og var fært að Vatneyri.  Reyndist það óskemmt og var selt á uppboði 11.09.1883.  Hlaut það Magnús Snæbjörnsson Geirseyri.  Hann gerði við skipið; kallaði það Guðrúnu og hafði það til millilandasiglinga, einkum til Spánar og Ítalíu með þurran saltfisk út og verslunarvarning heim.  Var hann fyrst í stað skipstjóri á því sljálfur og fór garnan í svonefnda "spekúlantstúra" (farandverslun) um Vestfirði og Breiðafjörð.  (EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi; Vestfirskir slysadagar og Þórhallur Sófusson vefsíða). (Landshagaskýrslur segja hana hafa strandað við Vatneyri og stærðin verið nær 114 tonn.  Þar segir að verið hafi stormur og brim; bóman hafi brotnað.  "Vestfirskir slysadagar" segja að Guðrún hafi verð seld til Svíþjóðar árið 1900).

1885:  Enn strandar frönsk skonnorta á Tungurifi

Frönsk skonnorta, 17 lestir, strandaði vorið 1885 á Tungurifi í Örlygshöfn.  Veður var norðan gola og björguðust allir skipverjar; 18 að tölu.  Skipið náðist út skömmu síðar, óskemmt, og var boðið upp.  Hlaut það Sigurður Backmann kaupmaður á Vatneyri.  Kallaði hann skipið Maríu og gerði það út á handfæraveiðar í nokkur ár.  Síðar var skipið selt til Reykjavíkur.   (EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi).

1886:  Skekta Jóns Sauðeyings ferst undan Brunnanúpi

Hinn 29. júní 1886 fórst bátur er var á siglingu fram af Brunnanúpi. Á honum var formaður Hafliði Jónsson úr Keflavík, Andrés hálfbróðir hans og 3 aðrir hásetar. Bátur þessi var skekta sem Jón Sauðeyingur átti, og höfðu þeir Keflvíkingar fengið hana lánaða til flutninga af því að Jón Sauðeyingur fékk lánað leguskip Látramanna er Sigga hét (Sigríður blíðfara) til flutninga suður í Eyjar; en skektan átti að vera á meðan vestur á Brunnum.

Skekta Jóns Sauðeyings var mjög umtöluð, vegna þess hve vel hún þoldi siglingu.  Munu margir hafa talið að bjóða mætti henni hvað sem væri; þar á meðal þeir Keflavíkurbræður.  Voru þeir taldir alldjarfir í sjóferðum.  Hafliði hefur þó vafalaust ráðið meiru, með því að hann var formaður.  Eitt sinn höfðu nokkrir hinna djörfu vermanna á Látrum farið á skektu Jóns seglfestulausri inn á Eyrar í suðaustanroki.  Þótti mörgum það hin mesta glæfraför, en hún lánaðist.  Við það hefur vafalaust styrkst sú trú að skektunni yrði ekki af kjöl komið á siglingu. 

Nú er að segja frá því að þeir félagar eru í Keflavík með skektuna og ætla út að Brunnum í suðaustan hvassviðri.  Ekki töldu þeir þörf á að bera í hana grjót til stöðvunar.  Frá Keflavík að Bjargtöngum var undanhald, en úr því var aflandsvindur.  Var þá siglt eins og af tók, en síðan hefur átt að taka annan bóg til þess að komast á Brunna.  Á þessari leið er Brunnanúpur, en fram af honum er hætt við misvindi og rokhnútum.  Frá Brunnum sást til bátsins þó að skyggni væri slæmt, en þegar minnst varði hvarf seglið.  Töldu þá sumir að fellt hefði verið, og ætlunin væri að róa til lands.  Þó munu menn ekki hafa verið á eitt sáttir um hvað gerst hafði er seglið hvarf. Varð ekki úr neinum aðgerðum í þessu sambandi.  Skektan fannst seinna um sumarið norður í Patreksfjarðarflóa, og kom þá í ljós að seglið hafði verið í fullu tré og bundið bæði dragreipi og skaut. 

Annar bátur hafði farið frá Keflavík nokkru síðar en Hafliði.  Þeir báru í seglfestu; reru í landvari frá Bjargtöngum að Brunnum og lentu þar heilu og höldnu.

Þeir sem fórust voru:  Hafliði Jónsson úr Keflavík, tæplega 22 ára gamall, ókvæntur og barnlaus; Andrés Guðmundsson 35 ára hálfbróðir Hafliða, ókvæntur og barnlaus; Indriði Indriðason 36 ára bóndi á Naustabrekku, kvæntur og þriggja barna faðir; Guðmundur Ólafsson 27 ára vinnumaður á Stökkum, ókvæntur og barnlaus; Gísli Sigurðsson 21 árs vinnumaður í Vatnsdal.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1888: Helgi Ásbjörnsson drukknar við Hnífaflögu

Hinn 19. apríl 1888 drukknaði Helgi Ásbjörnsson er hann var einn við fugla- eða selveiðar undir Hnífaflögu í Láganúpslandi. Skór hans og byssan fundust uppi á Flögunni, en líkið fannst aldrei. Helgi var 22ja ára; fæddur á Geitagili 22 ágúst 1865; sonur Ásbjörns Ólafssonar bónda á Geitagili og Láganúpi, og konu hans Jóhönnu Einarsdóttur.  (T.Ó. Kollsv.ætt og munnlegar sagnir í Kollsvík).

1888:  Bátur Dagbjartar Gíslasonar ferst í Látraröst

Hinn 2. maí fórst bátur með 5 mönnum í Látraröst; formaður á honum var Dagbjartur Gíslason. Þetta vor er talið að um 15 bátar hafi róið frá Látrum og munu þeir allir hafa verið á sjó þennan dag. Gerði áhlaupsveður af norðri með snjókomu og veðurofsa, svo að fólk í landi bjóst við stórslysi er svo margir bátar voru á sjó.  Bátur Dagbjartar mun hafa verið einn hinna minnstu.  Þetta var svo snemma vors að steinbítur var ekki genginn á grunnmið.  Var þá jafnan yfir Látraröst að fara.  Nokkrir bátar hugðust forðast röstina með því að sigla suður með henni djúpmegin.  Komust þeir svo á venjulegri bátaleið fyrir Bjargtanga og tóku barning að Brunnum.  Á uppsiglingunni hvarf bátur Dagbjartar í einu élinu og sást ekki framar.  Er þetta sögn Gests Össurarsonar á Látrum, sem var einn þeirra er fór sömu leið og Dagbjartur.  Jarðarför var í Breiðavík þennan dag, og skall veðrið á meðan verið var í kirkju.  Er því líklegt að það hafi verið að afloknu hádegi.

Þessir menn drukknuðu:  Dagbjartur Gíslason 39 ára gamall, kvæntur Guðrúnu Árnadóttur Thoroddsen, þeirra sonur var Árni Dagbjartsson sem lengi var í Kvígindisdal og formaður á bátum; Jóhannes Árnason 20 ára, bróðir Guðrúnar, ókvæntur; Sigurður Árnason á 18. ári, bróðir Jóhannesar; Jón einarsson yngri, 63 ára vinnumaður í Vatnsdal, hálfbróðir Gísla föður Dagbjarts; Bergsveinn Ólafsson 33 ára vinnumaður í Vatnsdal, ókvæntur og barnlaus.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1891: Sjólífið strandar á Vatneyri

Sjólífið; 31 tonns skúta í eigu Markúsar Snæbjörnssonar á Geirseyri, strandaði við Vatneyri hinn 13. apríl í stórviðri af suðaustan, eftir að akkerisfestar slitnuðu.  (Landshagsskýrslur Íslands 1905.  Sjá síðara strand Sjólífsins árið 1900).

1893:  Kjartan frá Vesturbotni drukknar af skonnortu

Hinn 19.05.1893 kom til Þingeyrar amerísk skonnorta sem verið hefur hér við land við lúðuveiðar, undir skipsstjórn Diegos.  Af skipinu hafði drukknað maður, er doría hans sökk vegna ofhleðslu.  Hann hét Kjartan Ólafsson; 32 ára vinnumaður á Baulhúsum í Arnarfirði, en fæddur í Botni í Patreksfirði 09.05.1861.  Hann var kvæntur Ingibjörgu Pálsdóttur frá Rauðsstöðum, og áttu þau eina stúlku; Katrínu að nafni. (Vestfirskir slysadagar).  

Kjartan hefur líklega verið sonur Ólafs Árnasonar (Þóroddssonar frá Látrum) bónda og bókbindara, sem bjó í Vesturbotni 1832-1862, og konu hans Guðrúnar Árnadóttur.  Kjartans er þó ekki getið í Ábúendatali TÓ.  Diego skipstjóri hét John Babtiste Diego (eða Duogo), og skonnortan er líklega Concord frá Gloucester í Massachusetts, samkvæmt því sem rakið er í bók Jóhanns Diego Arnórssonar; "Undir miðnætursól", en Jóhann er langafabarn Diegos skipstjóra.  

1894: Banaslys Halldórs í Kirkjuhvammi

Það slys varð á skipi Sigurðar Bachmanns, er það lá í höfn á Þingeyri hinn 23.05.1894, að 19 ára háseti féll úr reiða skipsins og beið bana.  Hann hét Halldór Ívarsson, ókvæntur elsti sonur hjónanna í Kirkjuhvammi á Rauðasandi; Ívars Magnússonar og Rósu Benjamínsdóttur.  (Vestfirskir slysadagar).

Heimildin segir að Ívar og Rósa hafi þá verið vinnuhjú í Króki.  Í Ábúendatali TÓ eru þau hinsvegar talin ábúendur í Kirkjuhvammi 1889-1930.  Systkini Halldórs voru mörg nafnþekkt Þeirra á meðal voru Ívar og Jóna sem tóku við búskapnum, en Ívar var kaupfélagsstjóri o.fl.  Einnig Rósinkrans, sem var sjómaður, verkalýðsforkólfur og fræðimaður.

1896: Ísafjarðarskúta nær landi á Rauðasandi eftir hrakninga: 

Skútan Margrét frá Ísafirði náði landi á Rauðasandi 10.05.1896 eftir nær fjögurra sólarhringa hrakninga.  Margrét, sem er gamall 14 tonna seglbátur undir stjórn Magnúsar Hannibalssonar (Djúpuvík) hafði verið fimm daga að veiðum 44 mílur NA af Horni í tregum fiski og leiðindaveðri.  Aðfaranótt fimmtudagsins 07.05.1896 brast á með norðan stórhríð með grimmdarfrosti og feikna veðurhæð.  Ekki var annað að gera en leggja skipið til drifs.  Hélst óveðrið í 80 tíma; fram á sunnudag 10.05; þá fór það að ganga niður og rofa til.  Voru þeir þá komnir suður fyrir Látrabjarg og náðu landi á Rauðasandi um kvöldið.  Mannskapurinn var blautur og hrakinn; nestið fyrir löngu ónýtt í ágjöfinni og kabyssan ónothæf.  Þeir fengu góðar viðtökur á Rauðasandi, en þar urðu þeir að bíða tvo daga án þess að geta látið vita af sér (síminn ókominn).  Þeir héldu síðan út á Barðagrunn; fylltu skipið í góðu fiskiríi og sigldu heim.  Þar var þeim tekið sem úr helju, enda nær búið að telja bátinn af.  (Frás. Magnúsar Hannibalss.; Sjómbl Víkingur 01.10.1948).

1897: Bátur Þórðar Gunnlaugssonar ferst á Gjögrabót

Bátur fórst 1. maí skammt frá lendingu í Gjögrabót og drukknuðu 6 menn en einn komst af.  Formaður var Þórður Gunnlaugsson.  Að morgni þessa dags höfðu þrír bátar farið í kaupstað á Eyrar.  Einn þeirra var sexæringur, og var það bátur Þórðar, en hitt voru fjögra manna för.  Voru formenn á þeim Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík og Ólafur Ásbjörnsson bóndi á Láganúpi.  Torfi og Ólafur reru í Kollsvík en Þórður í Hænuvík.  Meðal háseta Torfa var Páll Bjarnason, síðar bóndi í Neðri-Tungu; mikill maður og hraustur.  Með Ólafi voru Þórarinn Bjarnason úr Kollsvík og Ingimundur Halldórsson úr Keflavík; báðir ungir menn og dugandi.

Um morguninn hafði verið kafaldsmugga; snjóaði í logni svo snjór mun hafa verið í skóvarp.  En þó að hætt væri að snjóa var loft þungbúið og drungalegt.  Á Geirseyri var þá gestkomandi Þorgrímur Ólafsson úr Litluhlíð á Barðaströnd, og sat hann um ferð út í Kollsvík.  Var hann ráðinn háseti Hákonar Jónssonar, síðar bónda á Hnjóti.  Frétti hann nú að bátur Þórðar Gunnlaugssonar væri kominn til Geirseyrar; hitti skipverja að máli og fór með þeim niður að Vatneyri.  Þar var báturinn fermdur, en flutningurinn var aðallega salt og eitthvað af mjölvöru og sykri.  Ekkert var talað um veðrið, því að enn var engin breyting sýnileg og var síðan lagt af stað í logni.  Þegar komið var að Gjögrum reyndist þar vera komið nokkurt brim, og leist formanni ekki á landtöku með hlaðinn bát.  Hafði þá Jóhann á Gili sagt: „Slæmt er það að þurfa að snúa frá lendingu“.  Á leiðinni yfir fjörðinn var tekin upp brennivínsflaska og fengu menn sér hressingu úr henni.  Var nú ákveðið að halda aftur yfir á Eyrar og enn var logn.  En þegar komið var yfir undir miðjan fjörð sáust smá skinnaköst á sjónum og í sama bili brast á veður af norðaustri svo að ekkert varð við ráðið.  Rutt var mestu af saltinu og haldið undan, því ekki voru tiltök að halda áfram á móti veðri.  Um það leiti sem þetta gerðist sigldu þeir Torfi og Ólafur framhjá.  Hafði þá Þórður reynt að kalla í bátinn sem nær var og sagði:  „Þið lendið ekki á Gjögrum í dag“.  Nú var þó ekki um annað að ræða en að halda undan veðri.  Ekki var rætt um siglingu, en haldið undan á árum.  Virðist svo sem báturinn hafi ekki skriðið nóg, því að brátt lá hann undir stórágjöfum.  Ólafur Arnfjörð jós með tveggja handa trogi.  Þá hafði Kjartan sagt: „Það sannast að báturinn hefur þetta aldrei af.  En Ólafur svaraði:  „Við skulum ekki missa móðinn meðan við drögum andann“.  Var báturinn nú alllangt framaf Gjögrabót.  Nokkrum áratogum síðar rann sjór inn á bæði borð, svo báturinn fylltist og hvolfdi þegar.  Þrír menn komust á kjöl; Þórður, Þorgrímur og einar.  En í sömu svifum snerist báturinn við og komust þeir þá upp í hann.  Eftir skamma stund missti Einar tök á bátnum og bar hann nú að landi borðstokkafullan.  Rétt þegar komið var að landi tók Þórð út, en hann náðist þegar og var hlúð að honum eftir föngum, en ekki komst hann til meðvitundar.  Þorgrímur var sá eini sem bjargaðist.  hann stóð uppréttur eftir því sem við varð komið, og reyndi að halda á sér hita með því að berja sér.

Þeir Ólafur Ásbjörnsson og Torfi Jónsson voru komnir skammt útfyrir Vatneyrarodda þegar veðrið skall á.  Þeir sigldu alla leið og beint í sandinn í Gjögrabót.  Þegar þeir höfðu bjargað bát sínum undan sjó sáu þeir hvar bát Þórðar rak að landi frammi á bótinni.  Að sjálfsögðu þurftu smærri bátarnir að ryðja nokkru af sínum flutningi.  Drjúgt hafa þeir skriðið, og það hefur bjargað. 

Þeir sem fórust voru:  Þórðu Gunnlaugsson 55 ára vinnumaður á Geitagili hjá Magnúsi Einarssyni sem var á Viggu og drukknaði þennan sama dag, kvæntur og sjö barna faðir; Guðfreður Guðmundsson 24 ára bóndi í Neðri-Tungu, kvæntur og þriggja barna faðir; Jóhann Jónsson 67 ára fyrrum bóndi í Breiðavík og Geitagili, ekkjumaður og sjö barna faðir; Kjartan Jónsson 43 ára vinnumaður á Sjöundá, ókvæntur; Einar Jónsson 33 ára vinnumaður í Hænuvík, ókvæntur og barnlaus; Ólafur Arnfjörð Jónsson 50 ára húsmaður í Hænuvík, kvæntur og faðir Kristjáns Þórarins sem fórst þennan sama dag með Viggu, bróðir Bjarna sem einnig fórst með Viggu.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1897:  Skútan Vigga frá Geirseyri ferst

Fyrsta dag maímánaðar 1897, sama dag og fyrrnefnt slys var á Gjögrum, fórst fiskiskipið Vigga, eign Markúsar Snæbjörnssonar kaupmanns á Geirseyri.  hún var einmöstrungur; 20-30 lestir að stærð; löng og mjó; fremur grunn; sigldi vel en var ekki gott sjóskip; allra síst á undanhaldi.  Stórseglið hafði verið mjög stórt og þótti bera skipið ofurliði.  Ekki var skipið beinlínis veikbyggt svo orð væri á gerandi, en sterkt var það heldur ekki.  Þetta er eftir Kristjáni Kristjánssyni fyrrum skipherra og síðar fornbókasala í Rekjavík.  Hann var á Viggu árin 1894-1896 og hafði einnig ráðið sig á hana næsta sumar, en var í Reykjavík veturinn og það atvikaðist svo að einhvernvegin kom hann sér hjá því að fara vestur.

Með Viggu fórust sjö menn sem þá voru búsettir í Rauðasandshreppi, en auk þess voru á henni fjórir menn ættaðir úr hreppnum eða höfðu dvalið þar áður:

Bjarni Jónsson 51 árs skipstjóri á Viggu og bóndi á Koti, kvæntur en barnlaus, bróðir Ólafs Arnfjörð sem drukknaði sama dag í Gjögrabót; Magnús Einarsson 28 ára bóndi á Geitagili, kvæntur og sex barna faðir; Elías Sturluson 47 ára húsmaður á Koti, kvæntur og 4 barna faðir; Sigurður Einarsson 32 ára ókvæntur lausamaður á Koti, í sambúð og 2 barna faðir; Kristján Ívarsson 19 ára vinnumaður í Hænuvík; Kristján Þórarinn Ólafsson 18 ára vinnumaður í Hænuvík, sonur Ólafs Arnfjörðs sem fórst þennan dag á Gjögrabót; Þórður Gestsson 25 ára ókvæntur vinnumaður á Sjöundá en átti einn son; Jón bjarni Jónsson 30 ára frá Lambeyri í Tálknafirði, kvæntur; Sturla Kristófersson 17 ára frá Brekkuvelli; Gestur Gestsson 34 ára bóndi á Skriðnafelli á Barðaströnd, kvæntur og faðir Gíslínu á Látrum; Jón Tálknfjörð Jónsson 50 ára, kvæntur og 5 barna faðir, sonur Jóns smiðs sem um getur í sambandi við drukknun Eggerts í Saurbæ 1882.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1897:  Capella fer veltu í Látraröst

Hinn 1.maí, í sama veðri og Vigga fórst og bátstapi varð við Gjögra, lá við enn einum skiptapanum er kútterskonnortan Capella, sem er í eigu Gramsverslunar á Þingeyri, fékk áfall í Látraröst og fór heila veltu.  Skipið hafði verið út af Sléttanesi í ágætu veðri, en mikilli snjókomu.  Aðfaranótt 01.05.1897 tók að hvessa og um birtingu gerði afspyrnurok með þreifandi byl og hörkufrosti.  Um hádegi fékk skipið á sig brotsjó, með þeim afleiðingum að skipstjóri og háseti slösuðust.  Skipinu var lagt til drifs og reynt að verja það áföllum.  Um kvöldið hafði það rekið suður í Látraröst og fékk þá á sig mikinn brotsjó, svo það lagðist á hliðina og hvolfdi síðan.  Tveir voru á dekki og tókst öðrum að halda sér en hinn týndist.  Skipið fór heila veltu, en við það brotnaði ofan af siglutrjám og reiðabúnaður hvarf í hafið ásamt skipsbátnum, auk þess sem miklar aðrar skemmdir urðu.  Farmur og áhöfn kastaðist til í skipinu og skipstjórinn varð fyrir auknum meiðslum.  Skipverjar reyndu eftir bestu getu að þétta skipið og dæla úr því sjó, þrátt fyrir erfiða aðstöðu og nístingsfrost.  Vindstaða var þannig að skipið dreif frá landi, en heldur dró úr sjó.  Að morgni sunnudags 02.05.1897 tókst þeim að koma upp mastursspírum og einhverjum seglpjötlum á þær, og með því móti var amlað í átt til lands.  Loks á þriðjudagskvöldið komst Capella inn á Ólafsvík, þar sem áhöfnin fékk aðhlynningu.  Skipið var síðar dregið til Þingeyrar til viðgerðar. (Vestfirskir slysadagar).  

1897:  Danska skonnortan Ásta strandar í Hænuvík

Dönsk skonnorta, Ásta, 102 tonn að stærð, strandaði í Hænuvíkurlendingu.  Veður var norðan stormur og blindhríð.  Skipverjar, 7 að tölu, björguðust allir.  Skipið strandaði um hásjávað og fór því mjög hátt í fjöruna.  Það var að fara frá Vatneyri til Englands; fermt saltfiski.  Mestu af fiskinum var bjargað og hann seldur á uppboði.  Menn komu víðsvegar að á uppboðið, t.d. Lárus Benediktsson prestur í Selárdal, Jón Ormsson úr Vestureyjum o.fl.  Skipið var rifið og selt á uppboði.  Vitað er um einn hlut varðveittan úr skipi þessu.  Er það reglustika skipstjórans, og er hún í eigu Ólafs Magnússonar Hnjóti.  (EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi).    Ásta var á útleið með fiskifarm til Miðjarðarhafslandanna.  (Eyjólfur Sveinsson; Skipströnd í Rauðasandshreppi).

Ísafirði 20.12.1897:  Seglskipið Ásta lagði af stað 30. f.m. með fiskfarm frá verslun Leonh. Tangs.  En er skipið var skammt á leið komið kom svo mikill leki að því að Petersen skipstjóri hleypti því á land í Hænuvík í Patreksfirði.  Er ekki ótrúlegt að skip þetta hafi laskast að mun, þegar það í vestanrokunum í fyrra mánuði fór hér hvað eftir annað á grunn, og var að berjast um fjöruna; hálffermt af kolum.  Furðaði marga að skipið skyldi ekki skoðað af dómkvöddum mönnum, eftir þá útreið sem það fékk hér á Pollinum.  (Þjóðviljinn ungi 20.12.1897).

"Stranduppboð: Þriðjudaginn þ. 4. jan. 1898 verður opinbert uppboð haldið að Hænuvík, vestanvert við Patreksfjörð, og þar selt skipið „Ásta" frá Kauprnannahöfn, eign H. P. Duusverzlunar, er strandað hefur þ. 3. þ. m.   Eínnig verður selt með skipinu allt því tilheyrandi; rár og reiði, segl, keðjur, atkeri, o. s. frv.  Enn fremur verður væntanlega selt á uppboðinu það af farmi skipsins, sem bjargað varð, um eða yfir 500 skippund af saltfiski.  Uppboðið byrjar kl. 9 f. h., og verður aðeins haldið í bærilegu veðri. Hindri veður að halda uppboðið hinn tiltekna dag, verður það haldið næsta virkan og veðurfæran dag þar á eptir. Söluskilmálar verða til sýnis á skrifstofu sýslunnar næstu dagana fyrir uppboðið, og verða birtir á uppboðsstaðnum, áður en uppboðið byrjar. Skrifstofu Barðastrandarsýslu 11. des. 1897. Páll Einarsson".  (Þjóðviljinn ungi 20.12.1897).

1899:  Strand undir Lambahlíð

Í bók sinni; „Ljós við Látraröst“ vitnar Ásgeir Erlendsson til eftirfarandi frásagnar Össurar A. Guðbjartssonar frá Láganúpi:  „Skömmu fyrir síðustu aldamót, seint á góu, fóru Breiðvíkingar með lambarekstur út á Lambahlíð í Látrabjargi.  Ekkert sögulegt gerðist á leiðinni út á brúnina, senda veður gott og gangfæri með besta móti; því froststirðningur var, svo uppi héldu snjóskaflar sem á leið þeirra urðu.  En þegar þeir komu á brúnina blasti við þeim strandað skip.  Þeir urðu þess brátt áskynja að hreyfing var um borð í skipinu.  Fóru þeir þá niður í hlíðina til sjóar og um borð í skipið, enda stóð það hátt uppi í fjöru og veður gott.  Ekki var getið um hvers þjóðernis skipið var, en skipshöfnin var aðframkomin af hungri.  Þá varð það að ráði að menn skipu liði og sóttu vistir og drykk heim að Breiðavík og Látrum“. 

Ásgeir bætir við:  „Ég sé eftir að hafa ekki innt Össur nánar útí þennan atburð, því hann var langminnugur og óhætt að hafa eftir honum.  Það fylgdi sögu Össurar að mjólkurlítið hefði verið á bæjum á þessum tíma árs, og í mjólkur stað hefðu menn fengið sýru.  Þeir af skipbrotsmönnunum sem sýruna fengu höfðu allir lifað af, en þeir sem mjólkina drukku flestir dáið.  Vera kann að þeir sem lengra voru leiddir af hungri og vosbúð hafi gengið fyrir með þann mjólkursopa sem til var; frá því segir sagan ekki, og ég bæti hér engu við frásögn Össurar“.  (Ásgeir Erlendsson; Ljós við Látraröst).

1899:  Franski kútterinn Telephone strandar í Breiðavík

Franski kútterinn Telephone strandaði seinni hluta maímánaðar árið 1899 í svonefndri Vilhjálmsvör, sem er rétt fyrir utan Breiðavíkurver.  Veður var norðvestan gola og sjólítið.  Skipverjar; hátt í tuttugu, björguðust allir og fóru þeir daginn eftir strandið inn á Vatneyri.  Skipinu mun hafa verið siglt upp vegna leka.  Farmurinn, sem var saltfiskur í tunnum, náðist úr skipinu og var seldur á uppboði.  Skipið liðaðist í sundur skömmu eftir strandið og var brakið selt á uppboði.   (EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi).

Vorið 1899 sigldi frönsk skonnorta, Telephone að nafni, kvöld eitt í blíðskaparveðri upp í Vilhjálmsvör, eða barst þangað að miklu leyti með suðurfallinu.  Átti að hafa komist leki að skipinu, en eitthvað þótti það grunsamlegt.  Afli þótti víst lítill og ætluðu menn að skipshöfnin hefði viljað losna frá veiðunum.  Mestöllu úr skipinu var bjargað og haldið mikið uppboð. (Trausti Ólafsson; Örnefnaskrá Breiðavíkur).

„Að kvöldi dags miðvikudag 7. júní 1899 var ég, ásamt öðru heimilisfólki í Breiðavík, sjónarvottur að því að fiskiskip nokkurt barst að landi skammt fyrir norðan, eða heiman sjávarklettana í Bjarnarnúp.  Skipið var með seglum uppi, en það var blæjalogn, svo að ekki var um neina siglingu að ræða.  En skipsmenn höfðu farið í skipsbátana og reru fyrir skipinu eins og frekast gátu.  Ætlun þeirra mun hafa verið að komast að landi í Breiðavíkurveri, en þegar tekið var suðurfall réðu menn ekki að öllu lendingarstað og mátti þykja gott að skipið skyldi ekki lenda suður undir Bjarnarnúp...  Það heyrðist fljótlega að skipið hefði átt að vera lekt, og skipverjar þurft að standa við dælur til að halda því á floti.  Afli skipsins var lítill og yfirleitt þótti eitthvað grunsamlegt við strandið.  Skipið var kútter; byggður úr eik, og þeim sem voru við að taka níður segl og reiða hafði þótt sárt að vinn aþað verk í stað þess að mega bjarga skipinu. .. Nokkru eftir strandið mun skipstjóri hafa farið á fund sýslumanns.  Um það leyti sem hann kom aftur gekk í vestanrosa og brotnaði þá skipið.  Þótti fransmönnum það ekki neitt hryggðarefni.  Skipbrotsmenn fengu til umráða tvær allstórar fjárbúðir og höfðust þar við í nærfellt þrjár vikur.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1899: Skipskaðar á Geirseyri

Hinn 16.nóvember 1899 gerði áhlaupsveður á Eyrum, og mesta rok í manna minnum.  Slitnuðu þá upp tvær fiskiskútur á höfninni.  Annað þeirra var hákarlaskipið Geir, í eigu Markúsar Snæbjörnssonar kaupmanns, sem brotnaði mikið og sökk á talsverðu dýpi.  Hitt var kútterinn Saucy Lass og var í eigu IHF.  Allstórt skip sem keypt hafði verið frá Englandi um vorið.  Það rak á land og náðist ekki út aftur, en ónýttist á strandstað.  Manntjón varð ekki  (Landshagaskýrslur Íslands 1905; Vestfirskir slysadagar).  

1900:  Gufuskipið Nora strandar á Patreksfirði

"Hinn 20. september þetta ár sleit skip upp á Patreksfirði gufuskipið Nora, er var að sækja fisk þangað til P.J. Thorsteinssons-verzlunar, og brotnaði frá því stýrið og spaðar af skrúfunni; var óskorið úr, hvort rneta skyldi strand eða eigi".  (Ísafold 06.10.1900).  Um strand reyndist að ræða, og var ýmsu bjargað úr skipinu.  Fiskurinn var seldur á uppboði; 1.452 skippund.  Sýslumaður auglýsti með þriggja daga fyrirvara að uppboð færi fram 16.11.1900.  Fiskkaupmenn norður á fjörðum töldu sig hafa misst af því og gerðu mál úr.  Hinsvegar gerðu kaupmenn á Eyrum með sér samkomulag um uppboðið, þannig að þeir fengu fiskinn á góðu verði og högnuðust vel af.  Gufuketillinn bjargaðist, en hann var metinn  á 10.000 kr.
Sigurður Magnússon var þá læknir á Patreksfirði.  Hann segir að Nora hafi legið við hafskipabryggjuna á Geirseyri og verið langt komið að ferma það er óveðrið skall á.  Skipið laskaðist við bryggjuna og var fært út á höfnina og svo eftir tvo daga innfyrir Þúfneyri.  Þar rak það í strand.  Fiskinum var skipað upp og í fiskhús á Vatneyri, þar sem hann var flokkaður og boðinn upp.  Kaupmenn og íbúar á staðnum sammæltust um að bjóða ekki hver á móti öðrum, og fékkst fiskurinn því á mjög hagstæðu verði.  Er verið var að rífa skipið á staðnum varð það slys að piltur slasaðist þannig á höfði að höfuðleðrið flettist nánast af, en Sigurði tókst að græða það að fullu (SM; Æviminningar læknis).  
Í þessu ofsaveðri af norðvestri urðu ýmsir fleiri skaðar á Vestfjörðum.  T.d. rak þrjú skip upp á Ísafirði.  (Vestfirskir slysadagar o.fl.).

1900:  Sjólífið frá Patreksfirði strandar í Breiðavík

Sjólífið frá Patreksfirði strandaði um aldamótin 1900 í Breiðavík.  Skipverjar, 11 að tölu, björguðust; enda var veður gott og sjólítið.  Skipstjóri á skipi þessu var Jón Bjarnason, sem var eigandi skipsins ásamt Markúsi Snæbjörnssyni kaupmanni á Vatneyri.  Skipið ónýttist með öllu.   (EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi).  (Sjá um strand Sjólífsins við Vatneyri 1891).

1900:  Ólafur frá Ísafirði strandar í Keflavík

Einmöstrungnum Ólafi frá Ísafirði, í eigu Ásgeirs Ásgeirssonar, var siglt upp í Keflavík 4. maí árið 1900 vegna leka.  Aftakaveður var; norðaustan stormur.  Skipverjar, 10 að tölu, björguðust allir.  Skipið ónýttist með öllu og var brakið af því selt á uppboði. 

Skipið var á fiskveiðum fyrir Vestfjörðum er veðrið skall á.  Sigldi það ásamt fleiri skipum undir Rauðasand, en þar slitnuðu legufæri skipsins.  Var þá siglt út undir Keflavík og lagst þar mjög grunnt.  Hafði skipstjórinn látið taka grjót úr ballest skipsins og láta það í poka og voru þeir hafðir fyrir akkeri.  Þessi legufæri biluðu einnig, og var þá tekið það ráð að sigla skipinu upp í Stöðina í Keflavík.  Skipstjóri var Olgeir Olgeirsson; matsveinn Bjarni Bjarnason söðlasmiður, Björgum Patreksfirði.   (EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi).

1900:  Gauntlett frá Patreksfirði strandar við Vatnsleysuströnd

Kútterinn Gauntlett, sem var 50 tonn að stærð og í eigu IHF, strandaði í aftakaveðri á Vatnsleysuströnd milli Lónakots og Hvassahrauns, hinn 15.03.1900.  Skipið var að flytja vörur frá Eyrum til Ólafsvíkur er það hreppti aftakaveður af norðri.  Segl voru rifuð en ekki varð þó við neitt ráðið.  Skipstjórinn; Edilon Grímsson hugðist freista þess að ná til Reykjavíkur, en skipið hrakti til strands.  Skipverjar björguðust á kaðli í land; þrekaðir of kulda og vosbúð, en skipið brotnaði fljótt í spón. (Vestfirskir slysadagar).  

1902:  Menn tekur út af hlein undir Látrabjargi

Í júlí tók þrjá menn út af hlein undir Látrabjargi og mátti engu muna að þeir færust þar.  Mennirnir voru þessir:  Kristján Ásbjörnsson bóndi á Grundum; Sumarliði Bjarnason þá húsmaður í Kollsvík en síðar bóndi í Keflavík, og Helgi Guðbrandsson síðar smiður á Patreksfirði.  Aðrir viðstaddir voru:  Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík og Sighvatur Árnason vinnumaður Torfa, síðar verkamaður á Patreksfirði; sunnlenskur.  Nánari atvik voru þessi:

Þeir félagar fóru úr Kollvík suður fyrir Bjarg og hugðust ganga þar á land til fuglaveiða, undir þeim hluta Bjargsins sem tilheyrir Bæjarkirkju á Rauðasandi.  Það er úr Saxagjá og inn undir Mel, innst á Geldingsskorardal.  En út af þessu var brugðið er komið var skammt innfyrir Bjargtanga, og gengið í land við svonefnda Stefniskleif sem tilheyrir Hvallátrum.  Logn var, en nokkur undiralda.  Fara þeir nú upp í bjargið; Kristján, Sumarliði og Helgi, en Torfi og Sighvatur eru á bátnum, og var hinn fyrrnefndi formaður.  Sleppt verður hér nokkrum orðaskiptum Torfa og Sighvats um veðurútlitið, en loks er þeir félagar komu úr Bjarginu með fuglinn hafði sjór aukist nokkuð.  Fuglakippurnar voru bundnar á færi, og var nú allt tilbúið til þess að draga þær út í bátinn. 

En þá reið skyndilega yfir ólag sem sópaði burtu öllu lauslegu af hleininni; mönnunum með.  Þegar þetta gerðist sat Torfi á afturþóftu, en Sighvatur var í barka.  Sá hann brátt hvar þeim skaut upp, Helga og Kristjáni.  Sighvatur náði á þeim taki og gat, með því að neyta allrar orku, hjálpað þeim upp í bátinn.  En við bakfallið sem hann tók lenti hann á seglránni, og brotnaði hún.  Ekki sást neitt til Sumarliða, en augnabliki síðar skaut honum upp, góðan spöl frá bátnum.  Þreif Sighvatur þá ár og náði með henni til Sumarliða, en hann virtist ekki veita henni neina athygli fyrr en árinni var ýtt þéttingsfast í brjóst hans.  Greip hann þá hana dauðahaldi og bjargaðist þannig á síðustu stundu.  Er óhætt að segja að handtök Sighvats reyndust hér happadrjúg, þegar engu mátti skeika.

Fuglinn náðist inn í bátinn.  Kristján hafði vafið færinu um hönd sér og sleppti ekki.  „Ég vissi að þið munduð einhverntíma draga mig inn“ varð honum að orði, þegar allt var afstaðið.  Hann var kjark- og fjörmaður.  Nú mætti halda að flestum hefði þótt nóg komið.  en í stað þess að halda þegar heim, var róðurinn tekinn lengra inn með Bjargi; inn á svonefnda Sæluhöfn undir Djúpadal.  Var ætlunin að ganga upp á Lundavöll, en þar var heldur ekki hægt að athafna sig vegna brims.  Úr því var ekki annað til ráða en halda heimleiðis. 

Eftir heimkomuna veiktist Sumarliði, en jafnaði sig fljótlega, að því er virtist.  Líklega hefur hann þó aldrei náð sér fullkomlega eftir þetta áfall.  Nokkur leynd var fyrst í stað um atburð þennan, því að sannleikurinn var sá að Kollsvíkingar höfðu ekki fengið leyfi til þess að fara undir bjarg Látramanna.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1904:  Ægir strandar á Hvallátrum

Fiskiskipið Ægir frá Stykkishólmi strandaði á Hvallátrum.  Menn björguðust allir.  (Eyjólfur Sveinsson; Skipströnd í Rauðasandshreppi).  "Fiskiskútu frá Stykkishólmi, er Ægir hét, var hleypt til skipbrots nýlega upp í vörina á Látrum við Látrabjarg; nærri sokkið af leka. Skipshöfn komst á land þurrum fótum, og kom heim til Stykkishólms frá Patreksfirði með Vestu.  Skipstjóri, Þorsteinn Jóhannsson, átti skipið móti Sæmundi kaupmanni Halldórssyni. Það var keypt þangað í fyrra frá Bíldudal.  (Vestri 14.05.1904).  Skipsskaði þessi varð hinn 28.04.1904, að því er segir í skipskaðaskýrslu úr Barðastrandasýslu, en skipið liðaðist að fullu í sundur tveimur dögum síðar.  (Vestfirskir slysadagar).  

1904:  Torfi Jónsson drukknar í Snorralendingu í Kollsvík

Þriðjudaginn 5. apríl 1904 varð það slys að Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík drukknaði við brimlendingu.  Torfi og sex menn aðrir úr Kollsvík höfðu farið í kaupstaðaferð inn á Eyrar, og voru þessir í förinni auk Torfa; Kristján Ásbjörnsson bóndi á Grundum; Össur A. Guðbjartsson bóndi í Kollsvík; Sumarliði Bjarnason húsmaður í Kollsvík; Jens Jónsson húsmaður í Kollsvík; Gestur Jósefsson húsmaður í Kollsvík og Árni Árnason sem síðar drukknaði á Látrum 1921.  Allir voru mennirnir kvæntir nema Árni, sem þá var 17 ára.

Lagt var af stað úr Kollsvík um morguninn og komið þangað aftur síðari hluta dags; eftir kl 5.  Vindur var ekki teljandi; lágsjávað og nokkurt brim, bæði af vestan og norðansjó.  Tveir menn voru staddir í Verinu:  Þórarinn Bjarnason frá Grundabökkum og Guðbjartur Guðbjartsson bróðir Guðbjargar, konu Torfa.  Þeir gengu niður í fjöruna þar sem þeir töldu hentugast að lenda.  En svo hagar til að sunnanvið aðallendinguna í Kollsvíkurveri er svokölluð Snorralending.  Til þess að hún njóti sín þarf þó að vera allhásjávað, þvert á móti því sem nú var.  Þeim sem í landi voru brá því í brún er báturinn sneri að Snorralendingu, en tóku þó á rás þangað.  Torfi stýrði, og sat hann á borðvið sem stóð aftur af slíðrinu bakborðsmegin. 

Báturinn var nú kominn nálægt landi, en þá lagði Torfi stýrið skyndilega til stjórnborða og virtist svo sem honum hafi þá ekki litist á lendingu á þessum stað.  En í sömu andrá reið bára undir borðið og bátnum hvolfdi.  Mun Torfi þá hafa slöngvast svo langt frá að hann náði ekki til bátsins.  Töldu menn að hann mundi þegar hafa misst meðvitund.  Gat hann hafa hlotið höfuðhögg af viðarborðunum.  Fimm menn sáust þegar koma útundan bátnum og héldu þeir sér við hann, en einn var ekki sjáanlegur.  Það var Árni, sem hafði orðið eftir undir bátnum, og leið þar mjög illa þar til mastrið braut gat á súðina.  Að stundu liðinni valt báturinn aftur á réttan kjöl, er hann barst með hleinunum sem voru þangi vaxnar og því vont að stöðva sig á.

Nú voru komnir á slysstað fleiri Kollsvíkingar, þar á meðal Ólafur Halldórson á Grundum og Gísli Guðbjartsson á Grænumýri.  Vildi Ólafur Halldórsson reyna að komast fram og leita að líki Torfa, því vitanlega var úti um alla lífsvon.  Var það gert, en leitin bar ekki árangur.  Ekki þótti þeim Ólafi fært að leggja til landtöku nema stýrt væri, en þá kom í ljós að ekkert stýri hafði verið í bátnum.  Var þá tekið til þess ráðs að halda inn fyrir Blakknes, og tókst þeim félögum að lenda í Láturdal.  Það mátti þó ekki tæpara standa vegna brims.  Sló bátnum flötum er hann kenndi grunns, en það tókst að draga hann upp brattan malarkambinn og koma honum síðan á öruggan stað.  að því búnu var haldið yfir fjallið út í Kollsvík.  Þar höfðu menn jafnvel búist við að báturinn gæti ekki lent fyrr en inni á Gjögrum í Örlygshöfn.  Lík Torfa rak nokkuð skaddað, og var jarðsett í Breiðavík 6. maí um vorið.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Torfi Jónsson var 56 ára gamall; fæddur á Hnjóti í Örlygshöfn.  Hann var kvæntur Guðbjörgu Guðbjartsdóttur bónda í Kollsvík Ólafsonar, og eignuðust þau 13 börn.  Eftir drukknun Torfa var ekkjan illa stödd; með hið barnmarga heimili.  Guðbjartur Guðbjartsson bróðir hennar hafði verið vinnumaður á heimili þeirra, en tók nú að mestu við bústörfunum sem ráðsmaður.  Guðbjartur og Hildur Magnúsdóttir, sem síðar varð kona hans; systurdóttir Torfa, áttu mikinn þátt í að koma hinum stóra barnahópi til fullorðinsára.  Þau hófu síðan búskap að Tröð; kotbýli í Kollsvíkurlandi; síðar að Hnjóti en bjuggu lengst af á Láganúpi.  (Niðjatal Guðbjartar Guðbjartssonar og Hildar Magnúsdóttur).

1904: Þrettán drukkna á Vatneyrarhöfn  

„Þriðjudaginn 6.september vildi það hörmulega slys til á Patreksfirði að bát frá fiskiskipinu Bergþóru úr Reykjavík hvolfdi með 13 manns á, er allir drukknuðu.  Höfðu þeir verið að sækja ís og vatn í land er sjór gekk á bátinn og færði hann í kaf.  Skip sem lá þar nærri hjó bát þegar úr festum og skaut fyrir borð, en er hann fimm mínútum síðar bar þar að var bátshöfnin öll sokkin og öll björg því ómöguleg.  Mælt er að enginn þeirra hafi verið syndur, og sannast hér sem optar að margur drukknar nærri landi vegna þess að hann ekki getur haldið sér á floti í nokkrar mínútur.  Meðal þeirra sem fórust var skipstjórinn, Sigurður Guðmundsson“.  (Vestri; 17.09.1904). 

1905:  Skipsskaði við Vatneyri

Sklp braut víð Vatneyri 27.01.1905. Það var fiskiskúta, í eigu IHF.   Skipið brotnaði svo mikið að ekki verður gert við það.  (Ingólfur 12.02.1905; Vestfirskir slysadagar).

1905:  Sýslumaður tekur togara einsamall 

Hinn nýi sýslumaður Barðstrendinga, Guðmundur Björnsson, hefur í haust haldlagt botnvörpung af eigin rammleik og sektað, og þótti það vasklega gert.  Sýslumaður var á ferð á hvalabát frá Vatneyri til Suðureyrar í Tálknafirði, og hittir fyrir enskan botnvörpung í landhelgi út af Tálknanum, með aðra vörpuna í sjó.  Sýslumaður lét flytja sig yfir að honum og skorar á skipstjóra að gefast upp.  Þá ætlar skipstjóri togarans að höggva frá sér vörpuna og flýja, en öxin gekk af skaftinu áður en það tókst.   Í þeim svifum varpaði sýslumaður sér upp á þilfarið.  Hann fór síðan einn síns liðs með skipið inn á Patreksfjörð og sektaði þar skipstjóra um 1000 kr.  Einnig var sú varpan gerð upptæk sem innanborðs var, og afli sömuleiðis en hann var lítill.  Hin varpan sökk og náðist ekki.  (Ísafold 11.11.1905)

1906: Þilskipið Kristján ferst í Látraröst

„Manntjón hefur enn orðið í ofsaveðrinu 27. apríl 1906.  Er talið víst, að þá hafi farizt í Látraröst þilskipið „Kristján“, eign Sæmundar kaupmanns Halldórssonar í Stykkishólmi. Á því voru 11 manns, flestir (9) úr Stykkishólmi og eru þar 20 börn munaðarlaus eptir. Hafði sést til skipsins í veðrinu nálægt Látrabjargi, en síðan hefur ekki til þess spurzt, og eru menn því fulltrúa um, að það hafi farizt. Skortir þá lítið á 100 manns, er orðið hafa Ægi að herfangi hér við land á einum mánuði (apríl), mannskaðamánuðinum minnisstæða“. (Þjóðólfur).

1908: Trýnaveður; Tálknafjarðarbátur ferst í hvirfilbyl

Jochum Eggertsson segir frá sérkennilegum tildrögum sjóslyss sem varð á Patreksfjarðarflóa 12. júní árið 1908.  Jochum var þá 11 ára; bjó hjá Samúel Eggertssyni kennara og teiknara á nýbýlinu Grund í Kollsvík, en reri sem hálfdrættingur frá Láturdal.  Var það e.t.v. síðasta vertíð frá því útveri.  Jochum varð landskunnur rithöfundur og fræðagrúskari, og skrifaði undir nafninu „Skuggi“.  Frásögn hans af Trýnaveðrinu birtist fyrst 1942 í sagnasafninu „Því gleymi eg aldrei“ en síðar í Eimreiðinni árið 1949, þar sem umgjörðin er skáldlegri.  Þó margt í umgerð frásagnarinnar sé skáldlegt er staðreynd að þetta sjóslys varð á þessum degi, og þá líklegt að lýsingin af því sjálfu sé í meginatriðum rétt.  Hér er stiklað á stóru í frásögn Skugga:

Jochum var hálfdrættingur í fimm manna áhöfn á seglbúnum árabáti sem róið var frá Láturdal að morgni 12. júní 1908.  Róið var í Molduxadjúp, sem er í Flóanun; framundan Tálkna.  Veður var lygnt framanaf; „dauðalogn í lofti, líkt og blýhattur, en kynleg undiralda með einhverskonar öfugstreymi og uggvænlegum óróa“ eins og Jochum lýsir því.  Í Molduxadýpi var fyrir bátur úr Tálknafirði með fjórum á, en ekki var talað við þá.  Skyndilega hvessti; „það var eins og þoturnar kæmu beint að ofan; úr háalofti, og skullu á sjóinn eins og byssuskot“.  Formaður á bát Jochums lét seglbúa í snarhasti; afla, kúfiskpokum og vaðsteinum var hagrætt og „hleypt í Fjörðinn“; þ.e. inn á Patreksfjörð.  Tálknafjarðarbáturinn hafði verið nokkru innar, og vatt einnig upp segl en fór hægar.  Hann hafði þó ekki dregist langt afturúr þegar slysið varð:  „Við vorum ekki lengra frá honum en snærislengd (60 faðmar) til hliðar við hann hlémegin; grilltum í hann öðru hvoru gegnum særokið.  Þá kom ofsaleg hviða; engu líkar en tröllaukinn vélplógur kæmi æðandi, er risti og spændi upp sjóinn, dragandi á eftir sér digran hala, er lyftist og sogaðist hátt í loft upp og gerði úr geysilega súlu, er spann sig saman og vatt upp á sig eins og halasnælda; stefndi á Tálknafjarðarbátinn og tók hann. Við horfðum á bátinn sogast upp í loftið; hverfast um og endastingast svo bar við himin; síðan springa og tætast allan í sundur, en flygsur og spækjur þeytast um og berast víðsvegar í loftinu“.  Jochum lýsir því hvernig þeir máttu hafa sig alla við að hljóta ekki sömu örlög; segir síðan.  „Það var liðin nokkur stund frá slysinu og við á hraða siglingu, er eitthvað lítið féll úr lofti og skall á sjóinn rétt framan við kinnunginn á bátnum. Ég sá að þetta var tóbaksbaukur; neftóbakshorn! Rétt á eftir lygndi. Við vorum komnir út úr storminum“.  Þeir lentu síðan á Vatneyri en formaður harðbannaði þeim að segja frá atburðinum af ótta við að verða sakaður um að hafa ekki reynt björgun.  Jochum segist hafa átt leið undir Hafnarmúla tveimur dögum síðar, en þar hafi þá legið sprek úr Tálknafjarðarbátnum; „öll svo smá, eins og kurluð hefðu verið í eld. Þar var engin spækja annarri meiri. Ekkert líkanna rak eða fannst nokkru sinni“…. „Já: þetta var ósvikið Trýnaveður!" Svo lýkur Jochum frásögn sinni.

Trýnaveður er þekkt heiti í Útvíkum; það er notað um það þegar norðlæg átt stendur fyrir núpana (Trýnin), sem virðast þá magna veðurhæðina.  Ekki þótti vænlegt sjóveður ef hann „fór á Trýnin“.  Hinsvegar virðist lýsing þessa slyss minna miklu fremur á hvirfilbyl eða skýstrokk en vindhviðu úr einni átt.  Líkist einna helst fréttamyndum, t.d. af fellibyljasvæðum Bandaríkjanna; þar sem hús og bílar sogast hátt í loft upp og tætast í sundur. 

Hvað sem líður þessari lýsingu er víst að Tálknafjarðarbátur fórst þennan dag.  Í tímaritinu Templar segir svo hinn 23.07.1908:  „Bátur fórst á Tálknafirði vestra 12. f. m. og druknuðu 4 menn: Bjarni Gíslason frá Lambeyri formaður, Gísli sonur hans, Níels Þórðarson og maður að nafni Þorleifur. Þrír þessara manna láta eftir sig konur og börn“.  Bjarni lét eftir sig konu og 8 börn; flest uppkomin.  Gísli Bjarnason var 26 ára húsmaður á Stekkum; kvæntur og þriggja barna faðir.  Níels Þórðarson var 64 ára lausamaður í Tungu.  Þorleifur Helgason var húsmaður á Gileyri; kvæntur og átti tvö börn.  Fimmti maðurinn hafði ætlað í þennan róður en datt í fjöru og meiddist svo hann fór ekki.  (Vestfirskir annálar).  

1912: Erlendur togari ferst við Látrabjarg

1912 strandaði erlendur togari utantil við Látravöll undir Bjarginu.  Heyrðist neyðarflaut til Keflavíkur.  Menn fóru úr Breiðavík að svipast að skipinu.  Ekki fannst annað en brak.  Stýrishúsið hafði tekið af í heilu lagi, og var uppi undir Bjargi.  Enginn maður fannst; hvorki lifandi né dauður.  Seinna sá á vél togarans í botninum þarna nálægt á lágsjávuðu, og þá ekki annað af skipinu.  (MG; Látrabjarg). 

Birgir Þórisson sagnfræðingur leitaði gagna um þetta strand og ritar um það í Árbók Barðastrandasýslu 2014.  Segir hann m.a. af eftirgrennslan breskra stjórnvalda á afdrifum togarans Stork H 496 frá Hull.  Ólafur Jóhannesson faktor á Vatneyri sendi þeim skýrslu, þar sem hann greinir frá því að fundist hafi brú og brak úr togara 2 mílum  innan Bjargtanga (við Látravöll).  Virðist lítill vafi á að áðurnefnt brak hafi verið af þessum togara.

1912:  Enskur togari siglir niður Patreksfjarðarbát á Breiðafirði

Enskur togari frá Hull sigldi niður þilskipið Ragnar frá Patreksfirði hinn 18.08.1912, en skipin höfðu verið að veiðum á vestanverðum Breiðafirði í nokkra daga.  Togarinn sigldi á Ragnar framantil, og skarst inn í skipið frammi við akkerisvindu.  Skipverjum tókst að koma út skipsbátnum og sigldu á honum yfir í togarann, þar sem þeim var bjargað.  Litlu varð bjargað af Ragnari öðru en skipsskjölum og fatnaði áður en hann sökk.  Togarinn sigldi til Patreksfjarðar með áhöfnina, þar sem réttarhöld fóru fram.  Ragnar var 24 smálestir að stærð; í eigu Péturs A. Ólafssonar.  Það var sagt óvátryggt, en nokkrar bætur fengust úr tryggingafélagi togarans. (Vestfirskir slysadagar).  

1913  Enski togarinn British Empire strandar við Hnífa

Enskur togari, British Empire H908 frá Hull, var á heimleið úr veiðiferð er hann strandaði 30. desember 1913, norðan við Hnífaflögu í Kollsvík.  Veður var sunnan- suðvestan blindbylur, en sjólítið.  Skipið strandaði um hásjóað og fór hátt í fjöruna.  Skipverjar björguðust allir.  Einn skipverja komst þegar í land og kleif upp hamrabelti sem þarna er með ströndinni.  Kom hann heim að Láganúpi í Kollsvík.  Menn í víkinni brugðu skjótt við og fóru á strandstað.  Voru þá flestir skipverjar komnir í land.  Gekk vel að koma mönnum til bæja, þar sem þeir voru lítt þjakaðir.  Skipið strandaði seinni hluta nætur, og var búið að bjarga skipverjum um hádegi.  En um kvöldið gekk á með vestan stórgarð og gerði stórsjó.  Skipið brotnaði í spón um nóttina og sást ekkert eftir af því morguninn eftir.  Mikið timbur rak úr því í Kollsvík.

Skipverjar dvöldu nokkra daga á bæjum í Kollsvík, en er veður lægði var farið með þá inn á Vatneyri.  Var farið á fjögurra manna fari; árabát.  Ekki þótti ráðlegt að hlaða bátinn svo fyrir Blakknesið á þessum tíma árs að taka alla skipbrotsmennina með, og voru nokkrir þeirra látnir ganga yfir Hænuvíkurháls.  Þeir voru síðan teknir um borð í Hænuvík.   (EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi).

British Empire H908 var stálskip, smíðað 1906 af Cook, Welton og Gemmel skipasmíðastöðinni í Hull; 278 brúttótonn að stærð; 41 m að lengd og 6,8 að breidd.  Vélin var þriggjaþrepa gufuvél; 70 hestöfl nettó, og hámarkshraði skipsins var 11 hnútar.  12 voru í áhöfn.  Útgerð togarans var Cargill Steam Trawling Co.Ltd í Hull; eigandi Edward B. Cargill.  Við strandið fylltist vélarrúm togarans fljótt af sjó.  Neyðarblysum var skotið á loft.  (wrecksite.eu)

Togarinn strandaði undir Strengbergi, sem er hæsta standbergið í Hnífunum.  Hann fór inn á þröngan vog milli hleina; lagðist þar líkt og að bryggju, og gátu skipverjar stokkið þurrum fótum upp á hleinina þegar hann valt að henni.  Frá strandstað má ganga um fjöru, um 600 m leið í stórgrýti, heimfyrir Strengbergið; þar til klettarnir fara að lækka.  Heimundir Hreggnesa er hægt að komast upp gjótu.  Kristján Júlíus Kristjánsson, sem þá var á Grundum, taldi sig heyra skipsflaut þegar hann var að ganga á reka.  Þegar heimamenn fóru að grennslast fyrir mættu þeir skipbrotsmönnum á Brunnsbrekkunni.

Eins og segir í frásögn Egils eftir Össuri hér að ofan, rak mikið úr togaranum í Kollsvík.  Ennþá (2015) má sjá á Láganúpsfjörum allmikil járnstykki úr gufuvél skipsins; stóra járnkassa alsetta götum sem taka mikið á sig og færast með ströndinni í brimi.  Hurðarhringur úr kopar er á hlöðuhurð á Láganúpi, en hann er úr togaranum.  (VÖ)

1913:  Breskur togari bjargar Kollsvíkurbáti

Hinn 23.04.1913 birtist í blaðinu Ísafold svohljóðandi þakkarávarp:  "Þann 10. þessa mánaðar árdegis reri eg til fiskjar ásamt þrem hásetum mínum, en um kl. 3 siðdegis small á blindbylur með aflandsstormi, svo að engin tök voru á því að sjá land eða ná því. Þá er við þannig höfðum hrakist nær klukkustund, vorum við svo heppnir að hitta botnvörpunginn "Chieftain" nr. 847 frá Hull, sem bjargaði okkur félögum ásamt báti mínum. Skipstjórinn, I. Mason, veitti okkur, sem vorum orðnir holdvotir og kaldir, hinn bezta beina, þurran fatnað og nógan mat og flutti okkur strax og veður leyfði, næsta morgun, til Örlygshafnar, með því að eigi var lendandi i Kollsvik, og gaf okkur um leið svo mikið af fiski, að við hefðum kallað góðan afla ef veitt hefðum með veiðarfærum okkar. Eg vil eigi láta hjá líða, að senda téðum skipstjóra, svo og allri skips höfn hans, sem virtist honum samhent í því að láta okkur líða sem bezt, innilegustu þökk mína og háseta minna fyrir dugnað hans, alúð og rausnarskap, sem eg bið guð að launa"  Undir klausuna ritar Árni Árnason sem þá var formaður í Kollsvíkurveri og bjó á Grundum. 

Árni bjó um tíma á Grundum en síðan á Hvallátrum og fórst undan Hvallátrum 1921 (sjá þar).  Í framangreindum róðri voru þeir fjórir á, líklega á bát Árna sem hét Ester, og var þetta fyrsti róður; 10. apríl árið 1913.  Meðal þeirra voru bræðurnir Valdimar og Torfi Össurarsynir í Kollsvík.  Torfi segir svo frá að á þá hafi sett suðaustan moldbyl og hvassviðri.  Vonlaust var að ná landi í Kollsvík, og tekið það ráð að hleypa undan, í þeirri von að komast norður í Kóp.  Þeir sáu þá enskan togara og sigldu að honum.  Togarinn tók menn og bát um borð og sigldi með þá inn á Gjögra, en þaðan gengu þeir heimyfir Tunguheiði.   Togarinn Chieftain hafði áður komið við sögu á svæðinu, er hann var að ólöglegum veiðum í Breiðafirði.  Guðmundur Björnsson sýslumaður Barðstrendinga og Snæbjörn Kristjánsson hreppstjóri í Hergilsey fóru um borð og hugðust færa togarann til hafnar, en þeim var þá rænt og siglt með þá til Englands.

1914: Breskur togari skotinn niður út af Kollsvík  

Hinn 07.08.1914 var reski togarinn „Tubal Cain“ skotinn niður 50 mílur (93) km) WNW af Látrabjargi (sem Bretar nefna „Stalberg“); af þýska gufuskipinu „Kaiser Wilhelm der grosse“ (Vilhjálmi mikla); skipstjóri Max Reymand.  Áhöfn togarans mun hafa verið færð yfir í þýska skipið áður en honum var sökkt. (Shipwreck.eu; fleetwood trawlers).

„Tubal Cain“ var 227 brúttótonn að stærð; með þriggjaþrepa gufuvél, 58 ha; ganghraði 10,5 mílur; smíðaður 1905.  „Kaiser Wilhelm der Grosse“ var upphaflega stórt skemmtiferðaskip; 14.349 brúttótonn að stærð; byggt í Stettin í Póllandi og hóf siglingar 1897.  Það var þá, ásamt þremur systurskipum, talið fyrsta risaskemmtiferðaskip heims og hið fyrsta með fjórum reykháfum.  Skipið náði m.a. „bláa borðanum“ á siglingaleiðinni yfir Atlantshaf.  Í heimsstyrjöldinni var skipinu breytt í vopnað árásarskip, m.a. með sex 4“ fallbyssur, og vegna stærðar var því haldið til fjarlægra staða, t.d. við Íslandsstrendur.  Breskt orrustuskip réðist á skipið við Rio de Oro (í spönsku Sahara) fáeinum dögum síðar; hinn 26.08.1914 og var því sökkt af áhöfn sinni er ósigur blasti við.

1914: Ísafold fær á sig brot við Látrabjarg

Seglskipið Ísafold frá Patreksfirði var á veiðum út af Látrabjargi í aftakastormi þegar skipið fékk á sig brotsjó, 06.06.1914.  Brotnaði skipið mikið ofan þilfars og flest lauslegt fór í sjóinn, en 14 manna áhöfn sakaði ekki.  Skipið komst af sjálfsdáðum til Patreksfjarðar og fór aftur til veiða að viðgerðum loknum.  Ísafold er í eigu Ólafs Jóhannessonar en var áður eign IHF.  (Vestfirskir slysadagar).  

1916:  Ingimundur drukknar er Hermóður ferst

Vélbáturinn Hermann frá Vatnsleysuströnd fórst hinn 24.03.1916´með allri áhöfn.  Meðal háseta sem þar fórust var Ingimundur Þorgeir Sumarliðason frá Keflavík.  Hann var fæddur 17.11.1897 í Breiðuvík, sonur Sumarliða Bjarnasonar bónda og kennara og Guðrúnar Ingimundardóttur, en þau bjuggu 1900-1906 á Strákamel/Gestarmel ofan Kollsvíkurvers.  (Vestfirskir slysadagar).

1918:  Strand togara undir Djúpadal

Veturinn 1918 mun erlendur togari hafa standað við Bjargið, undir Djúpadal.  Ekki var vitað um strandið fyrr en um vorið, þegar Hvallátrabændur fóru undir Bjargið til eggja.  Þá fundu þeir rifrildi af yfirbyggingu togara hátt uppi i urð.  Annað sást ekki af skipinu. 

Þegar fréttist um þennan fund rifjaðist upp fyrir fólki á Hnjóti og Geitagili, að snemma í janúar veturinn áður; í vestan hægviðri og kafaldsmollu. heyrðist mikið skipsflaut og stóð nokkurn tíma, seinni hluta dags.  En í vestanátt heyrist brimgnýr og önnur hljóð greinilegast yfir fjallið til Örlygshafnar.  (MG; Látrabjarg). 

1919:  Guðmundur Össurarson drukknar í Kollsvíkurlendingu

Þriðjudaginn 1. apríl drukknaði Guðmundur Össurarson frá Láganúpi í Kollsvíkurlendingu.  Tildrög slyssins voru þau að nokkrir menn úr Kollsvík höfðu farið í hákarlalegu með Breiðvíkingum í mars, og áttu hlut sinn í Breiðavíkurveri; lifur og hákarl.  Var umtalað að sækja aflann fyrsta dag aprílmánaðar, ef veður leyfði.  Að morgni þess dags mættu þeir í ferðina sem ætluðu í Kollsvíkurveri.  formaður var Jón Torfason, og leist honum ekki sem best á veðrið er hann fór heiman frá sér.  En vildi þó fara niður í Ver og hafa tal af félögum sínum.  Var síðan ákveðið að ferðin skyldi farin.  Á bátnum voru þessir menn:  Jón Torfason, fyrrnefndur formaður og eigandi bátsins 27 ára gamall, sonur Torfa Jónssonar sem drukknaði í Kollsvík 1904; Guðmundur Össurarson frá Láganúpi 17 ára, sonur Össurar A. Guðbjartssonar og Önnu Jónsdóttur, en hún var systir Torfa; Theodór Kristjánsson frá Grundum 24 ára, sonur Kristjáns Ásbjörnssonar bónda þar; Albert Kristjánsson 20 ára, bróðir Theodórs; Helgi Árnason 30 ára, kvæntur Sigrúnu Össurardóttur, systur Guðmundar.  Allir voru þeir þá ókvæntir.

Ferðin til Breiðavíkur gekk vel, en þegar lagt var af stað þaðan var þungur sjór en heita mátti logn.  Jón Torfason telur að brotið muni hafa á Djúpboða sem er sunnarlega á Kollsvíkinni, en það var jafnan talið merki um mikla undiröldu.  Guðmundur Ólafsson í Breiðavík áminnti um að setja lifrarpokana á streng, ef brim yrði í landtöku.  Sagðist Jón Torfason einmitt hafa gripið með sér niðurstöðu er hann fór úr Kollsvík, til að vera við slíku búinn.

Tvísjóa var; aðallega vestanalda, en ofan á hana var kominn norðansjór.  Ferðin til Kollsvíkur gekk vel, og var nú rætt um hvort lifrin skyldi bundin á streng og látin útbyrðis, en ekki varð úr þeim framkvæmdum.  Var þá róið upp svonefnda Syðstuleið og stýrði formaður.  En þegar upp á Lagið kom reið undir ólag af norðansjó og bátnum hvolfdi.  Allir komust á kjöl nema Guðmundur, sem varð þegar frálaus og náði aldrei til bátsins.  Bátnum hvolfdi a.m.k. tvisvar sinnum, en síðan var hann á réttum kili og stöðugur.  Mastrið hafði verið uppi og braut það gat á bátinn.  Veltist nú báturinn alllengi og barst norður með landi, áður en til hans næðist.  Reynt hafði verið að setja bát á flot, en það mistókst.  Lík Guðmundar fannst, og var jarðsett í Breiðavík 16. apríl.  Guðmundur var efnilegur og röskur piltur, svo sem hann átti kyn til.

Össur faðir Guðmundar hafði um morguninn farið með Grundamönnum áleiðis í Verið, en á leiðinni mættu þeir Guðmundi, sem kom úr Verinu með byrði á baki.  Hana tók svo Össur og sneri til baka.  Það mun upphaflega ekki hafa verið ætlunin að Guðmundur færi í ferðina, en ekki svo að skilja að hann hafi þarna farið í stað föður síns.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi; heimild Jón Torfason o.fl).

Atburður þessi mun, ásamt öðrum sjóslysum, hafa orðið Valdimar Össurarsyni bróður Guðmundar mikill hvati til að hefja almenna sundkennslu.  Fram að þessum tíma hafði sundkunnátta lítil sem engin verið, þrátt fyrir langvarandi og mikla sjósókn á þessu svæði.  Má ætla að öðruvísi hefði farið í einhverjum tilvikum ef menn hefðu getað gripið til sundtaka.  Valdimar varð frumkvöðull í sundkennslu víða, jafnt á sínum heimaslóðum sem annarsstaðar.  Um þær mundir voru ungmennafélög öflug, og kom Ungmennafélagið Vestri upp aðstöðu til sundkennslu í Miðlæknum í Kollsvík.  (VÖ yngri)

1919: Stefán Gíslason drukknar í Kvígindisdal

Það er alkunnugt að styrjaldarárin 1914-1918 og næstu ár á eftir gekk meiri fiskur en áður inn í firði hér við land, svo víða var uppgripaafli þar sem venjulega hafði ekki fengist bein úr sjó.  Vorið 1919 var mikill fiskur í Patreksfirði; líklega allt inn í fjarðarbotn.  Þá var bóndi í Kvígindisdal Jón Á. Thoroddsen; alkunnur dugnaðarmaður; sonur Árna J. Thoroddsen sem bjó lengi í Kvígindisdal en síðan á Hvallátrum.  Jón var þá tæplega 59 ára að aldri og átti tvo uppkomna syni; Snæbjörn sem síðar varð bóndi í Kvígindisdal; 27 ára gamlan, og Sigurð sem varð bílstjóri í Reykjavík og var þarna 20 ára.  Fyrir hvítasunnu um vorið höfðu þeir félagar stundað róðra úr Kvígindisdal.  Var skammt að fara og ágætur afli.  Svo hafði talast til að Stefán Gíslason, sem í fóstri var hjá séra Þorvaldi Jakobssyni í Sauðlauksdal og átti að fermast þar á hvítasunnu, kæmi til róra með þeim feðgum í Kvígindisdal að fermingu lokinni.  Varð svo þetta eins og ráðgert hafði verið. 

Dag þann í júnímánuði sem slysið varð, var veður gott en nokkur alda.  Svo hagar til í Kvígindisdal að fram af lendingunni er rif nokkurt, eða grynning sem varast þarf ef brim er; einkanlega ef jafnframt er lágsjávað.  Þegar haldið hafði verið til lands með góðan afla var sýnilegt að nokkur hætta gat verið á ferðum á þessum stað, svo að fiskurinn var seilaður út og talið að það myndi nægja.  Þó fór svo að báturinn kenndi grunns á rifinu og fylltist.  Allir náðu í fyrstu til bátsins, en Stefán missti af honum aftur, og var þess enginn kostur að koma honum til hjálpar.  Barst hann inn með ströndinni og náðist ekki fyrr en alllangt frá slysstaðnum.  Jón, Snæbjörn og Sigurður gátu haldið sér við bátinn, og barst hann loks upp í fjöru.Stefán var efnispiltur; sonur Gísla Sigurðssonar trésmiðs á Patreksfirði og konu hans, Sigríðar Pálsdóttur.  (Trausti Ólafsson; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

1920:  Togarinn Evripídes í Hænuvík

Hinn 03.03.1921 strandaði botnvörpungurinn Euripides frá Húll í Hænuvík.  Skipverjar voru 15 talsins og drukknuðu 3 þeirra, en hinir komust af við illan leik; var bjargað á streng í land Björgunarskipið Geir fór vestur og reyndi að bjarga skipinu, en án árangurs. (Mbl. 08.03.1921). 
Togarinn var 307 brúttótonn; 42,7m langur; byggður 1907; með þriggjaþrepa gufuvél.  Hafði verið tekinn til hernaðarnota í stríðinu en nýlega aftur kominn til fiskveiða.  Þeir sem fórust voru: John Blackman, 31 árs 3.stýrimaður; William Fale, 50 ára bátsmaður og George Holroyd 22 ára háseti. (wrecksite.eu). 

Togarinn sökk beint fram af lendingunni og var til skamms tíma talið varasamt að sigla yfir það, þar sem grunnt er á því.  Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur rannsakaði flakið á botninum 2011 með „side-scan-sonar“, án köfunar.  Flakið er um 800 metrum frá landi, NA af Hænuvík á 5-15 m dýpi, en þarna er allmikill þaraskógur með sandblettum á milli.  Stór stykki eru dreifð um botninn; eitt þeirra líklega ketillinn.

1920: Jón Arason strandar í Örlygshöfn

Að kvöldi 04.02.1920 hélt flutningaskipið Jón Arason frá Bíldudal, lestað 38 tonnum af saltfiski í eigu Kveldúlfsfélagsins; en Jón Arason var eign Edvalds Sæmundsens á Blönduósi og leigt af G.K. Guðmundsson í Reykjavík.  Morguninn eftir, er skipið komu suðurfyrir Kóp, var kominn NA-stormur og stórhríð.  Andrés Sveinbjarnarson skipstjóri ákvað þá að bíða af sér veðrið áður en haldið væri í röstina.  Lagði hann skipinu við stjóra þá um morguninn í Gjögrabót; að því er hann síðar sagði á þriggja faðma dýpi; 2-300 faðma frá landi; hérumbil fyrir miðju Tungurifinu; og vísaði stefni þá í NV.  30 faðmar af akkeriskeðju voru úti, og þegar vindur gekk til austurs er leið á morguninn sá skipstjóri að skipið var á of grunnu vatni.  Ekki var þó fyrr búið að hita upp vélina en skipið stóð á grunni.  Engin festa reyndist á sandbotninum fyrir varpakkeri sem lögð voru fram af skipinu, og stýrishællinn brotnaði.  Um fjöruna stóð skipið nær á þurru.  Þá var vindur orðinn af NA og braut á flötu skipinu.  Innan af Patreksfirði varð vart við vandræði skipsins og fékk Ólafur konsúll Jóhannesson breska togarann Mary A. Johnson, sem þar lá, til að fara til aðstoðar.  Togarinn lagðist við akkeri og tókst með spilvindu og skrúfuátaki að draga Jón Arason af strandstað og síðan til Patreksfjarðar. 

Eftirmál urðu af strandinu, og krafðist togarinn hárra björgunarlauna.  Undirréttur, sem og hæstiréttur, dæmdi útgerð Jóns Arasonar til greiðslu á 10.000 kr í björgunarlaun auk málskostnaðar, en skip og afli var virt á meira en tífalda þá upphæð.  (Mbl. 19.02.1924).  Togarinn Mary A. Johnson hafði skömmu áður bjargað áhöfn barkskipsins Esos, er þá var í hættu út af Eyrarbakka.  Esos strandaði þar síðan og brotnaði í spón. (Lögrétta 12.02.1920).  

1921:  Breski togarinn Croupier strandar við Blakknes

Enskur togari standaði undir Blakknesi, norðan Kollsvíkur, 2. febrúar 1921.  Veður var suðvestan kafaldskóf; hæglætisveður en ylgja í sjó (sjósmár).

Skipið strandaði að nóttu til, og urðu menn ekki varir við strandið fyrr en um morguninn.  En þá sáu menn í Kollsvík strandað skip á Blakknesboða, sem er 200 m framanvið Blakknes.  Heimamenn brugðu strax við um morguninn að reyndu að komast á strandstað.  Ófært reyndist á sjó sökum brims og einnig á landi vegna bleytu og klaka.  Reyndu menn að fara norður Hryggi, en það er brött fjallshlíð í Blakknesinu.  Þessi leið reyndist ófær með öllu fyrir klaka.  Fjöruna var ekki hægt að fara á strandstað þar sem svokallaður Helluvogur er á þeirri leið, en þar fellur sjór í berg.  Er menn höfðu kannað hugsanlegar leiðir var orðið áliðið dags og var nú ákveðið að fresta frekari tilraunum til næsta dags. 

Snemma morguns næsta dag bjuggu menn sig til ferðar og höfðu með sér sigvaði og annan búnað til að fara í kletta.  Var nú með í för Guðmundur Sigfreðsson hreppsstjóri í Króki á Rauðasandi.  Farið var sömu leið og daginn áður; norður fjöruna sem komist var; norður að Helluvogi og þaðan klöngrast upp í Hryggi og norður fyrir voginn.  Þaðan var sigið niður í fjöruna, sem er um 25 metra sig, og fjaran gengin þaðan að strandstað.  Var þarna ömurleg aðkoma; lík skipverja dreifð um fjöruna, innan um stórgrýtið.  Urðu menn að hafa hraðann á að bjarga líkunum undan sjó, því aðfall var en sjór fellur í berg þarna.  Líkin voru borin upp að berginu þar sem hærra bar, og búið um þau með seglum sem fundust í fjörunni.  Sneru menn síðan heim á leið og var torfarið lausum mönnum.  Ákveðið var að ná líkunum strax og veður leyfði, en sá flutningur var ekki gerlegur nema á sjó.  Ekki gaf að sækja líkin fyrr en á útmánuðum vegna veðra og sjógangs.  Aðstaða til að koma líkunum út í bátana reyndist mjög erfið, og varð að taka þau á vaðdrætti um borð.  Var búið um hvert lík í hessíanstriga og bundið ofan á fjöl; og síðan dregið fram í bátana.  Þannig umbúin voru líkin flutt inn á Vatneyri.  (EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi; frásögn Össurar A. Guðbjartssonar).

Togarinn Croupier GY 271 var 302 brúttótonn að stærð; 41 m að lengd; 7 m að breidd, smíðaður 1914 af Cochrane and Sons Shipbuilders Ltd Shelby, og gerður út frá Grimsby af Anchor Steam Fishing Co Ltd.  Togarinn hélt til veiða frá Grimsby 10. janúar 2021, í þriggja vikna túr.  Veiðiferðinni var lokið, og var togarinn að búast til heimferðar þegar slysið varð.  Togarinn brotnaði fljótt í tvennt á strandstað.  13 menn voru skráðir í veiðiferðina, en einn var handtekinn af  lögreglu áður en látið var úr höfn.  Þeir 12 sem fórust voru:  Harold Holgar Rasmussen skipstjóri, 32 ára giftur; C. Anderson stýrimaður, 33 ára giftur; James Hogg vélstjóri, 46 ára giftur; G. Sellers 2. vélstjóri, 28 ára giftur; G. Asmond háseti, 46 ára; E. Osmon, háseti, 47 ára; G. Eccleston háseti, 35 ára; T. Kelly háseti, 45 ára, giftur; T. Clark, háseti, 43 ára, giftur; A. Cope matsveinn, 32 ára; H. Skipworth háseti, 30 ára og  M. Coyle háseti, 41 árs.   (Upplýsingar úr wrecksite.eu; úr Grimsby News og frá Stephen Hogg, barnabarni James Hogg vélstjóra.  Heimildum ber ekki allssstaðar saman um rithátt nafna hinna látnu).

1921:  Togarinn Euripides strandar í Hænuvík

Hinn 05.03.1921 strandaði botnvörpungurinn Euripides frá Hull í Hænuvík.  Skipverjar voru 15 talsins og drukknuðu 3 þeirra, en hinir komust af við illan leik; var bjargað á streng í land (ES). 
Hvassviðri og kafaldskóf var er strandið varð.  Heimamenn í Hænuvík urðu strandsins varir og fóru strax á strandstað.  Skipið var skammt undan landi, en sífellt braut yfir það í haugabrimi sem þarna var.  Skipverjar voru komnir fram á hvalbak og tókst að koma belg í land, með áfastri línu sem heimamenn festu þar í fjörunni.  Vegna veltu skipsins var ýmist slaki eða strekkur á línunni, en skipverjar fikruðu sig eftir henni í land.  Sex misstu handfestu á leiðinni og tókst að bjarga þremur þeirra, en þrír drukknuðu.  Þeir voru jarðsettir á Patreksfirði 16.03.1921. (Vestfirskir slysadagar).  Björgunarskipið Geir fór vestur til að reyna að bjarga skipinu, en það reyndist ekki unnt. (Mbl. 08.03.1921).  Geir mun þó hafa losað skipið, en það sökk skammt undan vörinni.
Togarinn var 307 brúttótonn; 42,7m langur; byggður 1907; með þriggjaþrepa gufuvél.  Hafði verið tekinn til hernaðarnota í stríðinu en nýlega aftur kominn til fiskveiða.  Þeir sem fórust voru: John Blackman, 31 árs 3.stýrimaður; William Fale, 50 ára bátsmaður og George Holroyd 22 ára háseti. (wrecksite.eu). 

Breska stjórnin veitti síðar þremur heimamönnum sérstaka viðurkenningu fyrir ötula framgöngu við björgunina.  Þeir voru; Ástráður Ólafsson, Ólafur Guðbjartsson og Engilbert Jóhannesson.  (Vestf. slysadagar).  Togarinn sökk beint fram af lendingunni og var til skamms tíma talið varasamt að sigla yfir það, þar sem grunnt er á því.  Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur rannsakaði flakið á botninum 2011 með „side-scan-sonar“, án köfunar.  Flakið er um 800 metrum frá landi, NA af Hænuvík á 5-15 m dýpi, en þarna er allmikill þaraskógur með sandblettum á milli.  Stór stykki eru dreifð um botninn; eitt þeirra líklega ketillinn.

1921:  Dýri hverfur undan Kollsvík

Hinn 7. maí 1921 týndist fiskiskipið Dýri, sem haldið hafði frá Þingeyri nokkrum dögum áður til handfæraveiða.  Sást síðast til skipsins þennan dag út af Kollsvík, og var það þá á upp- eða vestursiglingu.  Eftir það voru stöðugar norðan- og norðaustanáttir og því búist við að skipið hafi hrakið til hafs, væri það þá enn ofansjávar.  10 manns fórust með skipinu; allir úr Dýrafirði.  Skipið var í eigu Útgerðarfélgsins á Þingeyri.  Morgunblaðið sagði frá; 24. maí 1921.

1921:  Árni Árnason drukknar við Bjarnarnúp

Hinn 27. maí 2021 voru þeir saman í róðri, Árni Árnason húsmaður á Hvallátrum og Guðbjartur Þorgrímsson bóndi á Hvallátrum.  Voru þeir á svonefndum Flosa, sem er aðallega steinbítsmið á Látravík, og dregur nafn af því að Flosagil í Breiðavík ber fyrir Bjarnarnúp.  Aðrir bátar frá Látrum reru suður fyrir Bjragtanga.  Breiðvíkingar voru einnig á sjó suður á Látraröst; meðal þeirra var Grímur Árnason hálfbróðir Árna.  Einnig þeir bræður Guðmundur og Haraldur Ólafssynir. 

Þennan dag var gott sjóveður; fremur hægur suðaustanvindur, en í þeirri átt er oft nokkuð misvinda fram af Núpnum.  Þegar í land var haldið sigldu þeir Árni og Guðbjartur eins og tók norður undir Bjarnarnúp og ætluðu síðan að taka annan bóg suður eftir.  Þegar borið var umvar ekki meira kul en það að þeir ákváðu að róa báðir undir og binda skautið.  Tveir sandpokar voru í skektunni, og stakk Árni upp á því að hella útbyrðis úr þeim poka sem í framrúmi var, svo að báturinn yrði léttari til róðurs; var það gert.  Ekkert bar svo til tíðinda, fyrr en allt í einu að vindhviða skellti bátnum á hliðina og fór hann þegar á hvolf.  Guðbjartur losaði dragreipið er hann sá hvað verða vildi, en það var um seinan.  Guðbjartur náði þegar taki á bátnum og komst á kjöl en Árni, sem reri í afturrúmi, lenti svo langt frá bátnum að hann náði ekki til hans.  Sá Guðbjartur aðeins upprétta hönd Árna upp úr sjónum í átt til bátsins.  Þetta mun hafa skeð um það bil fram af miðjum Bjarnarnúp.  Rak nú bátinn norðureftir, en síðan suður á við er straumaskipti urðu.  Meðan á þessu sá Guðbjartur til báts Gríms Árnasonar sem var á leið í Breiðavíkurver, og talsvert fjær landi.  Sá Grímur eitthvað er hann hélt vera lóðadufl þeirra Látramanna og sinnti því ekki frekar.  Ekki er kunnugt um að aðrir er á sjó voru yrðu neins varir.

Nú er þess að geta að þær Miðbæjarsystur; Sigríður og Jóna Erlendsdætur, áttu þennan dag leið fram í Látradal.  En á leið sinni upp frá bænum heyrðu þær hóað í sífellu og sáu við nánari athugun eitthvað á reki skammt undan Nesi svonefndu, sem er sunnanundir Bjarnarnúp.  Sneru þær við og athugðu í kíki, sem til var á Miðbæ, hvað þetta kynni að vera.  Sást þá hvers kyns var.  Hljop Jóna beina leið niður á Rif til föður síns, sem þá var nýlentur.  Var verið að setja bátinn upp, en óðara brugðið við og haldið í átt til Guðbjartar.  Hann var fluttur í land, en síðan var báturinn sóttur.  Hafði Guðbjartur verið um 2 klukkustundir á reki; sást það á úri sem stöðvast hafði.  Guðbjartur hresstist onum fyrr.  Var hann þrekmaður með afbrigðum.  Árni var kvæntur Þorbjörgu Ágústu Guðjónsdóttur og áttu þau tvö börn.

1922: Vb Tryggvi í hrakningum við Látrabjarg

Pétur Hoffmann skipstjóri og fisksali sagði frá hrakningum sem hann lenti í, á bátnum Tryggva frá Ísafirði í maí 1922.  Tryggvi var 34 brúttólesta vél- og seglbátur í eigu Magnúsar Thorberg; skipstjóri var Kristján Stefánsson.   Voru þeir við handfæraveiðar norður og austur af Kögri og Hornbjargi er veður versnaði skyndilega.  Hraktist skipið suður eftir öllum Vestfjörðum og lá við stóráföllum.  Í einu brotinu týndist maður útbyrðis, ásamt öllu lauslegu á dekki og aðrir slösuðust.  Segl voru í henglum, áttavitinn brotinn og mannskapurinn aðfram kominn.  Sjálfur stóð Pétur við stýrið í 18 tíma eftir að skipstjóri slasaðist.  Þegar um síðir lægði sást að þeir voru um 10 mílur undan Látrabjargi og var siglt upp undir Meyjarsæti.  Tókst loks að koma vélinni í gang og var þá siglt upp á Keflavík meðan gert var að mestu skemmdum.  (Lesbók Mbl. 12.07.1936)

1925: Halaveðrið; Fieldmarshal Robertson ferst

Óvenjuhart illviðri brast á út af Vestfjörðum laugardaginn 7. febrúar 1925; nefnt Halaveðrið.  Margir togarar voru að veiðum á Halamiðum út af Vestfjörðum og fórust tveir þeirra með allri áhöfn; Leifur heppni með 33 skipverja og Fieldmarshal Robertson, en á því síðarnefnda voru nokkrir menn úr Rauðasandshreppi og Patreksfirði meðal 35 skipverja.  Þeira á meðal voru bræður.  Annar þeirra var skipstjórinn; Einar Magnússon (Magnússonar Einarssonar Einarssonar Jónssonar í Kollsvík).  Fæddur 04.02.1989, kvæntur Ingibjörgu Gísladóttur og 4 barna faðir.  Hinn var Gunnlaugur Magnússon  f. 06.10.1881, ókvæntur og barnlaus.  Faðir þeirra fórst með skútunni Viggu 1897.

1931:  Vélskipið Erik sekkur út af Víkum

„Þann 16. þ.m. sökk vjelskipið “Erik E.A.16” á Breiðavík milli Patreksfj. og Látrabjargs. Leki kom að skipinu og mun það hafa sokkið á 2 klst. frá því er lekans varð fyrst vart. Veður var ágætt og sljettur sjór. Skipverjar, þrír að tölu, björguðust á skipsbátnum til lands í Breiðavík. Skipið 30 ára gamalt? mun hafa verið með fiskfarm frá Arnarstapa til Dýrafjarðar. Skipstjóri hjet Halldór Magnússon“.  (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen).

1933:  Fönix rekur upp í Örlygshöfn

„Að kvöldi 14. oktober 1933 rak vjelbátinn “Fönix” (stærð um 4 tonn) af Patreksfjarðarhöfn og yfir í Örlygshöfn, vestanvert við Patreksfj. Báturinn var mannlaus. Bæði bátur og vjel gjöreyðilagðist. Hann var óvátrygður. Síðastliðinn vetur var báturinn stokkaður og yfirbygður. Tjónið taldist 5-6 þúsund kr“.  (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen).
Þetta var sami Fönix og Gísli Jóhannsson bátasmiður á Bíldudal smíðaði fyrir heimamenn í Kollsvík kringum 1920, og notaður var til flutninga á fiski, salti o.fl, með uppsátur í Kollsvíkurveri.  Kringum 3,5 tonn að stærð.  Þegar bátum fækkaði í Verinu var hann seldur tveimur Kollsvíkingum, Andrési Karlssyni og Guðmundi Gestarsyni.  Þeir hafa þó varla verið farnir að halda honum verulega til fiskjar þegar þetta óhapp varð.  Andrés var öflugur bátasmiður og smíðaði sér bátinn Farsæl sem hann gerði út frá Patreksfirði til æviloka.  Guðmundur starfaði sem húsasmiður á Patreksfirði.  Í bók MG;"Úr vesturbyggðum Barðastrandasýslu" segir Gunnlaugur Kristófersson að nýlega hafi verið búið að byggja yfir Fönix þegar óhappið varð.  Honum hafði síðan verið lagt fram á höfnina, þar sem hann slitnaði upp.

1935:  Togarinn Jeria frá Grimsby strandar undir Geldingsskorardal

Hinn 22. janúar 1935 fékk breski togarinn Jería GY 224 frá Grimsby á sig brotsjó út af Breiðafirði, á leið norður um.  Brotnaði stjórnpallur og reykháfur togarans og hann laskast svo að hann hrakti stjórnlaust upp í Látrabjarg. Vestan ofsaveður var.  Enskir togarar sem leitað höfðu vars á Patreksfirði brutust út og reyndu að komast áleiðis að slysstað en urðu að snúa við. Loftskeytasamband var við skipið allt þar til það barst í brotskaflana undir Bjarginu.  Var klukkan þá á sjöunda tímanum um kvöldið. 

Á fjórða tímanum þetta kvöld var hringt til Látramanna og þeim sagt að togari væri á reki að Bjarginu.  Voru þeir beðnir að fara út á Bjarg og athuga með möguleika til björgunar úr landi.  En þegar þangað kom var veðurofsinn svo, að óstætt var og sjódrifið svo mikið að lítið sást frá sér.  Var með öllu ófært mönnum á þessum slóðum, og sneru leitarmenn heim.

Morguninn eftir hafði veðrið lægt og fóru menn þá frá Hvallátrum og Breiðavík í leiðangur til að huga að strandinu.  Gengu þeir um bjargbrúnir en urðu einskis varir, enda móska í lofti og skyggni ekki gott.  Fóru sumir í Keflavík og gengu þar útmeð Bjarginu svo langt sem komist varð.  Þarna voru, til og frá um fjöruna, innviðir úr skipi sem auðsjánlega hafði liðast í sundur.  Einnig var þarna matvara og þar á meðal mjölpokar hálfþurrir, svo auðsjáanlega var þetta úr nýbrotnu skipi.  Því var enginn vafi á að hér var brak úr Jería.  En svo leist mönnum að ekki hefði skipið strandað á þessum fjörum.  Varð ekki komið við meiri leit þennan daginn, og fóru menn heim við svo búið. 

Nokkrum dögum síðar fóru Ásgeir Erlendsson og Ingimundur Halldórsson á Látrum til leitar undir Bjarginu, og réði þar bæði að Garðar Jóhannesson konsúll á Patreksfirði hafði óskað eftir frekari leit, en ekki síður draumur sem Ásgeir hafði dreymt.  Á Bjarginu slóst Guðmundur Kristjánsson í för með þeim.  Að áliðnum degi hafði ekkert fundist, en þá heimtaði Ásgeir að fá að fara niður í Lambahlíð og ganga fjöruna útundir Lambahlíðarnes.  Þar fundu þeir eina lík skipverja af Jeria sem nokkurntíma fanns.  Það var sótt stuttu síðar og jarðað í Breiðavíkurkirkjugarði.  (MG; Látrabjarg).

„Ég held ég muni það rétt að það væri 1935 eftir áramótin að einn af stærstu togurum Breta; Jería, nýlegt skip, var að koma frá Englandi til veiða á Vestfjarðamiðum.  Haustið áður (13. september 1932) hafði hann bjargað báti frá Patreksfirði.  Það var brjálað veður; suðvestanrok og stórsjór.  Talið var að hann ætlaði til Patreksfjarðar, en þegar hann átti eftir 4 mílur í Bjargtanga ríður brotsjór yfir skipið; brýtur stýrið og tekur af skorsteininn, svo skipið er alveg ósjálfbjarga.  Ekki sást til hans frá Látrum.  hann gat sent frá sér í talstöð en ekki tekið á móti; um það frétti ég síðar“.  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Togarinn Jeria GY 224 var smíðaður 1930 af Cook, Welton and Gemmell Ltd. og þegar slysið var var hann í eigu Great Grimsby and East Coast Steam Fishing Co Ltd.  Jeria var 349 brúttótonn að stærð; 43 m langur; 7,5 m breiður.  Í honum var þriggja þrepa gufuvél; 98 nhp, sem gaf honum 10,5 hnúta hámarkshraða.  Annar breskur togari; Stoke City GY 114 heyrði neyðarkall Jeria, en laskaðist mjög sjálfur í óveðrinu og varð frá að hverfa.  Þeir 13 sem fórust með Jeria voru:  Bill Emsley skipstjóri; T.H. Bullimore stýrimaður; J. Dowie vélstjóri; E. Meech 2. vélstjóri; S. Innerd háseti; E. Frith háseti; F.J. Smith háseti; R.G. Codd háseti; W.J. Parker skipsdrengur; R.F. Smith háseti og H.T. Everitt háseti.  (wrecksite.eu).

1935:  Stúlka drukknar á Rauðasandi

„Að kvöldi hins 3. Ágúst 1935 var 18 ára gömul stúlka, Jóninna Bjarnfeld Benediktsdóttir á Skógi á Rauðasandi, send til þess að sækja kýr en kom ekki aftur að kvöldi. Margt fólk leitaði hennar á hverjum degi og fanst hún loks að kvöldi hins 7., sjórekin nálægt Keflavík sem er eyðibýli nálægt Látrabjargi. Stúlkan mun hafa átt við geðveilu að stríða“.  (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen).

1939:  Parana sökkt undan Patreksfirði

Þýska flutningaskipinu Parana frá Hamborg, 5900 smálestir að stærð, var að öllum líkindum sökkt af bresku herskipi skammt undan Patreksfirði sunnudagskvöldið 12. nóvember 1939; skömmu eftir að síðari heimsstyrjöldin braust út.  Í Kollsvík sást sterkt ljós af ljóskastara og virtist koma frá skipi á suðurleið.  Einnig heyrðist eitt skot þar um 10-leytið.  Á Látrum og Breiðuvík sáu menn þetta ljós, og einnig sterkt rautt ljós.  Á Sveinseyri hafði nokkrum klukkustundum áður orðið vart við ljósagang, og þar heyrðu menn 5 skothvelli.  Bar mönnum saman um að ljósin hafi verið nokkuð djúpt undan landi, en ljósið svo sterkt að það lýsti upp fjöllin sem um hábjartan dag væri.  Morgunblaðið sagði frá þessum viðburðum 14. nóvember, og vitnaði einnig í lausafregnir um að enskur tundurspillir hafi þarna sökkt þýsku skipi; Panama frá Hamborg.  Síðar fékkst staðfest frá breska flotamálaráðuneytinu að tveimur þýskum skipum hafi verið sökkt þessa helgi; Meeklenburg sem var 9000 smálestir og Parana.  Ekki var þar greint frá staðsetningum.  Daginn eftir þessa atburði út af Patreksfirði sást til tundurspillis út af Dýrafirði, sem fór mjög grunnt.

Annar atburður hafði orðið undan Patreksfirði nokkrum dögum áður.  Hinn 27. oktober sama árs, kl 8.00 að morgni, heyrðu vegavinnumenn sem voru að vinna í Kollsvík skotdynki og sáu eldbjarma af hafi; í norðvesturátt frá Blakknesi.  Dimmt var til hafs og sást ekki til skipaferða.  Talið er að alls hafi verið skotið 8-10 skotum, og hafi liðið 2-4 mínutur milli þeirra.  Glamparnir virtust færast suður á bóginn.  Bendir margt til þess að sjóorrusta hafi þarna átt sér stað og töldu menn hugsanlegt að kafbátur hafi verið þarna, og skotin hafi verið viðvörunarskot frá honum er hann var að stöðva skip.  Engar skýringar fengu menn þó á þessum atburði, eða hvort hann tengdist þeim síðari sem áður var getið.

1940: Bahia Blanca sekkur út af Víkum

"Þýskt flutningaskip, Bahia Blanca, rakst á hafísjaka aðfaranótt 10.01.1940, 60 sjómílur norðvestur af Látrabjargi.  Togarinn Hafsteinn kom á vettvang áður en skipið sökk og bjargaði skipshöfninni, 62 mönnum.  Var björgun mjög erfið vegna sjógangs og myrkurs.  Hafsteinn kom með hina þýsku skipbrotsmenn til Hafnarfjarðar í nótt. Þegar hið þýska skip rakst á jakann voru send út neyðarmerki er loftskeytastöðin hjer í Reykjavík varð vör við. Kallaði stöðin síðan til togara er kynnu að vera þarna á næstu slóðum og náði m. a. sambandi við tvo þeirra, Hafstein og Egil Skallagrímsson. Það reyndist svo, að Hafsteinn væri nær slysstaðnum, og brá hann við og sigldi þangað, en hinn þýski skipstjóri hirti ekki um að fleiri skip kæmu til hjálpar.  Áliðið var nætur er Hafsteinn kom til hins þýska skips. Var þá kominn allmikill sjór í skipið og það farið að síga niður að framanverðu. Það reyndist mjög erfitt að koma björgunarbátum á flot, en tókst með því að helt var olíu og lýsi á sjóinn. Og þegar ítil togarans kom var notað lýsi. [ Skipbrotsmenn munu hafa farið milli skipanna í fjórum bátum, og skipstjórinn af Bahia Blanca var í síðasta bátnum. Skömmu síðar slokknuðu á því öll ljós.  Farþegar voru engir með hinu þýska skipi. Það var stórt, eins og fjöldi skipverja bendir til, samkvæmt skipaskrám 9000 tonn að stærð.  Mun það hafa verið á leið frá Suður-Ameríku með hveiti og kaffi". (Mbl. 11.01.1940).  Skipbrotsmenn dvöldu í húsnæði Hjálpræðishersins í Reykjavík þegar Breskt herlið hernam Ísland 10. maí.  Voru þeir þá, líkt og margir aðrir Þjóðverjar, handteknir og fluttir um borð í breskt herskip. (Mbl. 08.03.1998). 

1940: Tjón á bátum í ofsaveðri

"Norðaustanroki laust á á Patreksfirði aðfaranótt miðvikudags, svo trillubát rak af höfninni yfir fjörðinn.  Nam hann staðar skammt frá landi og náðist óskemmdur þegar birti.   Annar trillubátur fauk úr skorðum og á sjó út, en rak á vesturströndinni sennilega mikið brotinn.  Úti fyrir Patreksfirði sáu farþegar á Esju opinn bát á reki mjög nærri Blakknesi, og mun hann hafa rekið þar í land og eyðilagst.  Ekki er kunnugt um tjón af veðri þessu á öðrum stöðum".  (Þjóðviljinn 05.11.1940).

1941: Breskum skipbrotsmönnum bjargað 

„Fimmtudaginn 16.10.1941 bjargaði togarinn Surprise frá Hafnarfirði 29 mönnum á bát áætlað 20 sjómílur út af Víkum, NV af Látrabjargi. Menn þessir voru af brezku skipi er var kafskotið. (Tíðarfarsannáll SJTh).  Bresk flugvél hafði fundið björgunarbátinn og vísað Surprise á hann.  Hafði skip þeirra verið í skipalest sem þýskur kafbátur réðist á og sökkti með tundurskeyti; vestur af landinu.  Á skipinu var 60 manna áhöfn og komst hún í tvo björgunarbáta.  Var hinn báturinn betur útbúinn og með vél, en ekki vissu þessir hvað um hann varð.  Engir skipbrotsmanna voru særðir.  Þeir sem mest voru hraktir fóru á skjúkrahúsið en hinir í barnaskólann.  (Alþýðublaðið 17.10.1941). 

1941:  Hólmsteinn skotinn niður af kafbáti við Blakknes 

Vélbáturinn Hólmsteinn ÍS 155 var að öllum líkindum skotinn niður af þýskum kafbáti út af Blakknesi 30.05.1941.  Með bátnum fórust allir 4 skipverjarnir.  Ekkert fannst af bátnum annað en sundurskotnir lóðastampar, en líklegt er talið að 54 fallbyssuskot sem heyrðust á Hvallátrum þessa nótt hafi tengst þessu.  Vélbáturinn Hólmsteinn var 14 tonna eikarbátur, gerður út frá Þingeyri; einungis ársgamall.  Eftir stríðið kom í ljós að kafbáturinn sem þarna var á ferð var þýskur; U-204, skipstjóri Walter Kell, og var þetta fyrsta víg hans og kafbáts hans.  Kafbáturinn var á leið til birgðaskips við Grænland og mun skipstjóri hafa óttast um að Hólmsteinn myndi tilkynna um staðsetningu hans.  Þau urðu örlög U-204 að hann var skotinn niður 19.10.1941 af korvettunni HMS Mallow.  (Kristján Jónsson loftskeytamaður; stríðssiglingar o.fl.heimildir).  

1941: Brak úr "Sviða" rekur á Rauðasandi

Þann 23. nóvember 1941 fór togarinn Sviði úr Hafnarfirði til veiðar á djúpmiðin úti fyrir Vestfjörðum. Mánudaginn 1. des. lagði hann af stað heimleiðis með fullfermi. Snemma næsta morgun hafði togarinn Venus samband við Sviða, og var hann þá kominn suður undir Kolluál; um 10 sjómílur út af Öndverðanesi. Ekkert virtist að um borð. Ekkert samband höfðu menn við hann eftir þetta, en það er talið full víst, að bann hafi farizt á þeim slóðum, er hann gaf síðast upp stöðu sína, að morgni 2. desember. Að sögn skipstjórans á togaranum Venus var veður allhvasst af suðri, en þó engin aftök. Sjór var hins vegar þungur mjög og marglyndur. Svo skjótt sem verða mátti voru gerðar ráðstafanir til að leita að skipinu. Gerðir voru út leitarmenn beggja megin Breiðafjarðar. Þeir sem fóru á ströndina að norðanverðu, fundu ýmislegt rekald í nánd við Saurbæ á Rauðasandi. Var þar meðal annars flak af björgunarbáti, lýsisföt og björgunarhringur merktur Sviða. Nokkru siðar fannst lík rekið i nánd við Sjöundá. Reyndist það að vera lik kyndarans á Sviða.  Fleiri lik fundust ekki, þrátt fyrir itrekaða leit. Með „Sviða" fórust 25 menn, og létu eftir sig 14 ekkjur og 46 börn.  (Ægir des. 1941)

1942: Mannskæð árás Þjóðverja á Vörð

Togarinn Vörður var á veiðum á Halamiðum hinn 24. ágúst þegar þýsk herflugvél af gerðinni Focke Wulf 200 gerði árás á hann.  Morsað var út neyðarkall eftir fyrstu árásina, en stuttu síðar gerði vélin aðra árás og varpaði um leið sprengju sem féll við skut Varðar.  Nokkrar skemmdir urðu um borð í togananum en hann hélst á floti og siglingafær.  Einn skipverji varð fyrir byssukúlu og lést í kjölfarið.  Hann hét Sigurjón Ingvarsson, fæddur 9. janúar 1918, sonur Ingvars Ásgeirssonar og Bjarneyjar Valgerðar Ólafsdóttur á Geitagili í Örlygshöfn (áður Keflavík).  Vörður tók þegar stefnu til Flateyrar, en þegar ljóst var að Sigurjón var látinn var haldið til heimahafnar á Patreksfirði.  Togarinn hafði verið að afla í söluferð til Englands og hélt þangað nokkru síðar.  Eftir stríðið kom í ljós að þýska flugvélin hafði komið frá Þrándheimi í hinum hersetna Noregi.  (Byggt á frás. Kristjáns Jónssonar loftskeytamanns í Árbók Barð. 2014).

1943:  Innrásarpramma rekur á Rauðasandi

"Þetta ár rak upp á Rifið innrásarpramma sem reyndist hafa slitnað aftan úr lest af slíkum á leið til Normandy. Sumarið eftir kom ca 10 manna flokkur hermanna til að ná út þessari eign sinni en þetta var spáný fleyta. Þetta gekk nú brösuglega og tók langan tíma.  Voru menn ráðnir til aðstoðar af flestum bæjum á Sandinum með hesta því stórvirk tæki þekktust ekki, enda Sandrifið laust og sandur hafði borist að prammanum með sjó og vindi. Vestur-Íslendingur stjórnaði flokknum, því hann talaði nokkra íslensku. Þessir menn buðu sínum verkamönnum gjarnan sígarettur með sér, enda var þetta ekki talið sérlega óhollt í þá daga. Góð kynni tókust með heimamönnum og hermannsliðinu einkum við Garðar, Íslendinginn í hópnum. Næstu jól á eftir komu myndarlegir pakkar á hvern bæ á Sandinum með sælgæti og sígarettukarton í hverjum pakka.  Tókst að lokum að draga prammann á flot af skipi og ég býst við að hann hafi notast í innrásina á Normandy eins og til var ætlast".  (Sigríður Guðbjartsdóttir frá Lambavatni; hættir og siðir). 

1943:  Bátur hlaðinn uppfinningum ferst í Látraröst

 (Ártali gæti skeikað).  Bátur frá Ísafirði fórst í Látraröst á suðurleið; mannbjörg varð.  Með bátnum fórst merk íslensk uppfinning; beitningavél og annar veiðibúnaður sem Hrafn G. Hagalín hefur unnið að í nokkur ár ásamt föður sínum; Guðmundi G. Hagalín rithöfundi.  Nefnir hann búnað sinn "fiskveiðikerfi Hagalíns".  Uppistaða búnaðarins er rafknúin sjálfvirk beitningarvél með gervibeitu, en aðrir hlutar hans eru línuspil; stokkakerfi fyrir króka; blóðgunarvél og stýrisbúnaður.  Kerfið var þó ekki fullsmíðað og ekki komin á það einkaleyfi.  Mikill áhugi var fyrir kerfinu meðal útvegsmanna, enda átti það að spara mikinn mannskap við veiðarnar.  M.a. hafði Ólafur Thors forsætisráðherra útvegað honum styrk í verkefnið.  Báturinn var á reynslusiglingu með búnaðinn, á leið til Reykjavíkur, er hann fórst í Látraröst.  Hrafn hefur unnið að fleiri uppfinningum, t.d. flugskeytum og þyrlubúnaði.  

1945: Leifur Eiríksson hætt kominn á Breiðuvík

Hinn 12. janúar 1945 var vélbáturinn Leifur Eiríksson EA 627 frá Dalvík á siglingu áleiðis til Sandgerðis.  Vindur var 6-7 stig af SV og talsverður sjór.  Mikill leki kom að bátnum er hann kom að Látraröst, svo ekki þótti þorandi að halda áfram heldur siglt upp á Breiðuvík.  Þar var bv Helgafell, sem einnig hafði leitað upp á Breiðuvík til að bíða átekta áður en haldið yrði í röstina.  Vél Leifs Eiríkssonar stöðvaðist í sama mund og óskað var aðstoðar Helgafells.  Tók skipið bátinn í tog inn á Patreksfjörð meðan stöðugt var ausið, og náðist með naumindum að halda honum á floti.  Stóð á endum að Leifur Eiríksson sökk þar í fjörunni, en bátsverjarnir fimm komust frá borði.  Leifur Eiríksson er 26 br.lestir að stærð, smíðaður 1939. (Sjmbl. Víkingur 1.-2. tbl. 1945).  (Útgerð Helgafells gaf björgunarlaun sín til SVFÍ). 

1945: Ellu rekur upp í Örlygshöfn

„Hinn 9. desember 1945 rak rak trillubátinn “Ellu” um þrjár smálestir yfir Patreksfjörð og brotnaði í spón í brimgarðinn í Örlygshöfn. Eigandi Sigurður Jónsson, Patreksfirði.  Í sama veðri rak vélbátinn Sæfara á legufæri á s/s Súðinni sem lá á höfninni á Patreksfirði. Báturinn brotnaði á stefni Súðarinnar, svo að hann sökk þar. Báturinn var dekkaður um 10 smálestir að stærð. Eigandi Oddgeir Magnússon, Patreksfirði. “.  (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen).

1946: Sjóflugvél hlekkist á í Patreksfirði

"Hinn 15.04.1946 vildi það slys til í Patreksfirði, að flotholt brotnaði undir flugvjel er hún var að lenda á firðinum. Ekkert slys varð á mönnum og flugvjelinni var bjargað. Flugvjelin er af Norseman gerð og var hún í farþegaflugi.  Farþegar voru Guðmundur Benediktsson frá Patreksfirði og Jón Ólafsson starfsmaður í i Álafossverksmiðjunni, en flugmenn voru Alfred Elíasson og Páll Magnússon hjá Loftleiðum. Orsökin til slyssins er talin vera sú, að styrktarband, sem heldur flotholtinu losnaði".  (Mbl. 17.04.1946)

1947: Flutningaskip strandar við Hvallátra

Aðfararnótt mánudagsins 21. júlí strandaði á Hvallátrum eimskipið Skogholt.  Þetta var norskt flutningaskip frá Haugasundi, 1500 smálestir að stærð.  Blindþoka var, en sjólaust og kyrrt veður.  Á kvöldflóði næsta dag náú skipverjar því út, án aðstoðar annarra.  Skipið var á leið frá Siglufirði til Reykjavíkur og sigldu skipverjar því þangað, er það losnaði af fjörunni. (Árbók Barðastrandasýslu, annáll 1947).

1947:  Dhoon strandar:  Björgunarafrekið við Látrabjarg.

„Hinn 12. Desember 1947 strandaði enskur togari “Dhoon” undir Geldingsskorardal. Áhöfn 15 menn. Þrír af skipshöfninni drukknuðu skömmu eftir strandið, en björgunarsveitunum á Hvallátrum (og víðar að) tókst að bjarga hinum 12. Var sigið í fjöru um Flaugarnef og fluglínu skotið yfir skipið. Skipbrotsmennirnir voru dregnir þarna neðan bjargið og er það almennt talið mesta bjögunarafrek. Tveir af björgunarliðinu meiddust á höfði af klakahruni. Annars tókst björgunin ágætlega“.  (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen).

Hér verður strandi þessi ekki lýst nánar að svo stöddu, enda hefur mikið verið um það fjallað.  Má t.d. benda á bók Magnúsar Gestssonar; „Látrabjarg“ og bókina „Útkall við Látrabjarg“ eftir Óttar Sveinsson, auk fleiri lýsinga, t.d. í Árbók Barðastrandasýslu. 

Enn er björgunarafrek heimamanna í Útvíkum talið eitt hið frækilegasta í björgunarsögu Íslands.  Svo einkennilega vill til að annað sjóslys hefur orðið til þess að halda minningu þessa björgunarafreks enn frekar á lofti, en það er strand Sargons árið eftir.  Þar var í fyrsta skipti hérlendis kvikmynduð björgun skipshafnar úr strandi, eins og nánar verður greint hér á eftir.

1948: Sargon strandar undir Hafnarmúla

„Að kvöldi 1. des. 1948 strandaði togarinn Sargon frá Húll undir Hafnarmúla vestanvert við Patreksfjörð. Hríðarbilur var og NNA 10 og 11 vindstig. 17  manna áhöfn var á togaranum. Þar af björguðust 6, en 11 voru dánir í skipinu“.  (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen).

Strand Sargons varð við Hafnarmúla, undir svonefndum Þorsteinshvammi; innan við Múlahlein.  Strandið bar að rétt tæpu ári eftir strand Dhoon undir Látrabjargi, sem nefnt var hér að framan.  Líkt og þá báru íbúar Rauðasandshrepps; félagar úr slysavarnadeildinni Bræðrabandinu hitann og þungann af björgunaraðgerðum; að því marki sem þær voru gerlegar við þessar slæmu aðstæður. 

Það gildir um þetta strand sem strand Dhoon, að mikið hefur verið um það skrifað, og er vísað í það um frekari upplýsingar; s.s. bókina „Útkall við Látrabjarg“ eftir Óttar Sveinsson.  Hér verður lítillega minnst á aðra hlið á þessu hörmulega slysi; fyrstu kvikmyndun sjóbjörgunar.

Þannig vildi til, áður en strandið varð, að ákveðið hafði verið að gera kvikmynd um hið frækilega og vel heppnaða björgunarafrek við Látrabjarg árið áður.  Óskar Gíslason kvikmyndagerðarmaður var staddur við upptökur í Kollsvík, en ákveðið hafði verið að á Hnífum sunnan Láganúps yrðu tekin upp mikilvæg atriði í myndinni; s.s. bjargsig o.fl.  Í Kollsvík voru einnig staddir flestir þeir sem staðið höfðu í eldlínunni árið áður.  Þegar nú kom boð þangað um strand Sargons brugðu menn skjótt við og lögðu af stað á strandstað; einnig Óskar Gíslason með sína kvikmyndavél.  Á strandstað komu einnig menn úr Örlygshöfn og innan úr firði.  Tókst að koma línu í togarann, en þrátt fyrir að þarna þyrfti ekki að síga björg voru aðstæður á ýmsan annan hátt erfiðari en við Látrabjarg árið áður.  Skipti þar e.t.v. sköpum að áhafnarmeðlimir voru sjálfir ekki jafn skipulagðir; jafnvel leikur grunur á að einhver ölvun hafi verið um borð. 

Þarna setti Óskar Gíslason upp sína kvikmyndavél og tók upp fyrstu heimildarmyndina um sjóbjörgun hérlendis; þó krókloppinn væri af kulda.  Þær upptökur eru veigamikill hluti af kvikmynd hans; „Björgunarafrekið við Látrabjarg“, sem er líklega sú kvikmynd íslensk sem lengst hefur haldið sínum vinsældum.  Sé glöggt skoðað má sjá að nafn togarans í myndinni er ekki Dhoon, heldur Sargon.  Staðkunnugir þekkja einnig baksvið annarra sena; t.d. í brún Undirhlíðarnefs sunnan Láganúps, í stað Flaugarnefs í Bæjarbjargi.

1950:  Björgunarbát rekur á Rauðasandi

Hinn 26. janúar rak á Rauðasandi björgunarbát og sitthvað fleira úr tréskipi.  Reyndist það vera úr mótorskipinu Helga frá Vestmannaeyjum, sem fórst við Faxasker hinn 7. sama mánaðar, og með honum þrír farþegar og sjö manna áhöfn.  (Árbók Barðastr.sýslu).

1952:  Landhelgisstríð við Blakknes

Fyrsta viðureign íslensks varðskips við breskan togara eftir útfærslu landhelginnar í 4 mílur varð skammt undan Blakknesi 16. júlí 1952.  Þá kom varðskipið Ægir að breska togaranum York City að hífa trollið 0,2 sjómílur utan við landhelgislínuna í góðu veðri.  Veiðin var athuguð og reyndist lítil; 2-3 körfur.  Togaraskipstjórinn Jones óskaði eftir að koma um borð í varðskipið, en var nokkuð þungur á sér og reikull í spori.  Eftir að heimsókn hans hélt Ægir inn á Patreksfjörð.  Þá sást togarinn breyta stefnu og sigla fyrst hægt í sömu átt en breyta um stefnu þannig að hann hverf fyrir Blakknestána.  Áður sást þó að hann var með trollið úti.  Varðskipinu var snúið við og siglt á fullri ferð að togaranum, sem þá var langt fyrir innan landhelgislínu.  Skotið var viðvörunarskoti að togaranum.  Hróp og köll heyrðust og svartan reyk lagði upp úr reykháf togarans.  Varðskipið varpaði bauju þar sem hann hafði togað og kallaði til skipstjórans að stöðva.  Sá hljóp út á brúarvænginn og hellti ófögru orðbragði yfir varðskipsmenn.  Áfram togaði hann og var öðru skoti hleypt af, og síðan því þriðja sem lenti framanvið brúna og hinu fjórða rétt við stefnið.  Skipstjóri sinnti því engu, en hásetar hans hlupu framá og létu akkeri falla.  Skipstjóri heimtaði að fá breska eftirlitsskipið Mariner til að mæla staðsetningu sína.  Það var komið eftir 2 klst og reyndist togarinn 0,2 sjm innan markanna en trollið allnokkru nær landi.  Togarinn var færður til Reykjavíkur þar sem réttarhöld fóru fram.  Skipstjóri York City hélt því fram að sér hefði verið ógnað með skammbyssu, en féll frá þeirri fullyrðingu, enda var byssan aldrei dregin úr slíðrum.  Þórarinn Björnsson, skipherra á Ægi, staðfesti þær mælingar sem sýndu að togarinn hefði verið að ólöglegum veiðum.  Hann sagði að skipstjóri togarans hafi greinilega verið drukkinn.  Breska tímaritið World fishing fjallaði um þetta mál og rangfærði verulega.  (Fréttir í Mbl og Vísi).

1953:  Björgunarbát rekur á Melanesi

Mánudaginn 26. janúar rak á Melanesi á Rauðasandi björgunarbát frá þýska togaranum N. Eberling sem fórst út af Látrabjargi á Þorláksmessu 1952.  Ekkert var í bátnum en hann var ekki mikið skemmdur.  Á Lambavatni rak árar bátsins.  (Árbók Barðastr.sýslu 1953).
Þýzkur togari, N. Eberling, sökk út af Látrabjargi á Þorláksmessu og fórust allir mennirnir um 20 að tölu. Mörg skip leituðu þegar á þessum slóðum, en urðu einkis vör. Eitt lík fannst á reki nokkrum dögum síðar.  (Les.Mbl. 18.01.1953).  

1955:  Ársæll sekkur við Blakknes

Vélbáturinn Ársæll sökk hinn 29.06.1955 grunnt undan Blakknesi.  Mikill leki kom að bátnum er hann var að veiðum út af Sandbugt á Breiðafirði, og höfðu dælur ekki undan.  Strandferðaskipið Skjaldbreið var skammt undan og kom bátnum til aðstoðar.  Þrír menn voru í bátnum og fóru tveir yfir í Skjaldbreið en skipstjórinn, Friðþjófur Þorsteinsson, varð kyrr um borð.  Taug var komið milli bátsins og Skjaldbreiðar og var ætlunin að draga hann til Patreksfjarðar.  En klukkan 3 sökk báturinn er skipin voru komin upp undir Blakknes.  Formanninum tókst að komast um borð í Skjaldbreið áður en báturinn sökk.  (Vísir 01.07.1955).  

1960: Sæborg strandar við Bjargtanga

„25. Mars 1960 strandaði vélskipið Sæborg frá Patreksfirði undir Bjargtangavitanum. Skipstjóri Finnbogi Magnússon frá Hlaðseyri. Skipverjar náðu sjálfir skipunu út. Mikill leki kom að því en vatnshelt hólf milli hásetaklefa og lestar varnaði því að það ekki sökk. Varðbátur Gautur (?) fylgdi Sæborgu til Patreksfjarðar. Fleiri skip komu á vettvang“.  (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen). 

1960: Tveir drukkna við Vatnsdal

„Hinn 13. júní 1960 vildi það slys í Vatnsdal að á legunni þar örskammt frá landi drukknaði Erlendur sonur hjónanna þar Unnar Erlendsdóttur og Guðmundar Kristjánssonar. Erlendur var fyrirvinna heimilisins. Hann var að fara fram í opinn trillubát sem hann stundaði róðra á. Með Erlendi drukknaði 9 ára piltur úr Reykjavík Hilmar Benónýsson, sem var í sumardvöl í Vatnsdal. Erlendur var fæddur 23. febrúar 1939“.  (Tíðarfarsannáll Snæbjarnar J. Thoroddsen).

1962:  Þrír drukkna í Látraröst

 Snemma á þriðjudagsmorgun (30. Janúar 1962) reið hnútur á brú v.s. Særúnar frá Bolungarvík, sem þá var stödd í Látraröst á leið til Reykjavikur. Í ólaginu brotnaði brú skipsins og skolaði henni fyrir borð ásamt þremur mönnum, sem í henni voru staddir, skipstjóra, stýrimanni og háseta. Tókst þeim skipverjum, sem eftir voru, að ná sambandi við varðskipið Þór, sem ásamt v.b. Dofra frá Patreksfirði komu á vettvang. Dró varðskipið Særúnu síðan inn á Patreksfjörð…  Særún hefur annazt vöruflutninga frá Reykjavík til Vestfjarðahafna undanfarin ár.  (Blaðið Vesturland).  Þeir sem fórust voru:  Sigþór Guðnason skipstjóri, Seltjarnarnesi; Konráð Konráðsson skipstjóri, Reykjavík og Björgvin Guðmundsson háseti, Reykjavík. (Þjóðviljinn).

1962:  Flutningaskip týnist um tíma

Um tíma var óttast um flutningaskipið "Meduza" sem fór frá Akranesi 6. ágúst og var væntanlegt til Ísafjarðar daginn eftir.  Þegar skipið kom ekki fram hélt Slysavarnafélagið uppi fyrirspurnum um það; fyrst í talstöð en síðar í útvarpi.  Hinn 8. ágúst komu svo boð frá Kollsvík um að sést hefði flutningaskip á reki til hafs á Patreksfjarðarflóa.  Stuttu síðar hafði svo Meduza samband við loftskeytastöð og tilkynnti að skipið lægi út af Dýrafirði með bilaða vél, en töldu seig einfæra um viðgerðir.  Meduza er 700 lestir og flytur 200 tonn af sementi.  (Mbl. 09.08.1962).

1964: Sæfari strandar við Sellátranes

Aðfaranótt 25.mars 1964 strandaði vélskipið Sæfari BA 143 frá Tálknafirði í vestanverðum Patreksfirði rétt utan við Ólafsvita og Sellátranes. Báturinn var á heimleið úr fiskiróðri þegar slysið varð. Sjólítið var og hægur aflandsvindur. Fjara er þarna slæm, steinar og flúðir. Skipverjar á Sæfara skutu strax upp svifblysum.  Fyrstur á strandstað varð vélbáturinn Tálknfirðingur, sem var á leið frá Patreksfirði í fiskiróður. Var þá klukkan um fjögur. Skömmu síðar komu á vettvang vélskipin Dofri og Sæborg frá Patreksfirði. Komið var vír um borð i Sæfara og tókst að draga skipið á flot um klukkan 5 um morguninn. Enginn leki kom að skipinu, og sigldi það hjálparlaust til Tálknafjarðar. Aðfall var þegar Sæfari strandaði og um háflóð þegar hann náðist á flot.  (Tíminn).

1969:  Einar Ásgeir Þórðarson dukknar

Það slys vildi til hinn 30. janúar að Einar Ásgeir Þórðarson tók út af vélskipinu Sæfara frá Tálknafirði og drukknaði.  Einar Ásgeir er sonur Þórðar Guðbjartssonar á Patreksfirði.  Hann bjó í Skápadal í Rauðasandshreppi 1953-1958, ásamt konu sinni, Margréti Ryggsein Marteinsdóttur.  Þau eignuðust 6 börn.

1970: Sæfari ferst í Látraröst

Stálbáturinn Sæfari BA 143, 101 tonna stálbátur er talinn hafa farist í Látraröst 13.janúar 1964, í afleitu veðri.  Leit var hafin þegar ekki hafði spurst til bátsins um tíma.  Leituðu 6 bátar og tvær flugvélar.  Sex voru á Sæfara:  Hreiðar Árnason skipstjóri frá Bíldudal; Björn Maron Jónsson stýrimaður frá Reykjavík; Gunnar Jónsson vélstjóri, Bíldudal; Erlendur Magnússon 2.vélstjóri, Bíldudal; Guðmundur H. Hjálmtýsson háseti, Bíldudal og Gunnar Gunnarsson matsveinn, Mýrdal. Skipstjórinn á Tálknflirðingi hafði síðastur manna samband við þá bátsverja á Sæfara kl. 2.30 á laugardagsnótt. Þá voru þeir að draga línuraa um 28 sjómílur norðvestur af Kópsnesi í vonzkuveðri. Þungur sjór var á þessum slóðum og 8 vindstig aí norðaustri, en ekki var talin ísingarhætta þar úti. Að öllu eðlilegu hefði Sæfari átt að koma að landi á hádeigi á laugardag í Tálknafirði. Veður fór versnandi og náði veðurhæðin allt að 12 vindstigum.
Björgunarsveitir úr Slysavarnafélaginu leituðu allt frá Barða suður að Bjargtöngum. Það voru björgunarsveitir af Rauðasandi, Patreksfirði. Bíldudai, Tálknafirði og Þingeyri. Þá leituðu bændur á Lokinhömrum á fjörum hjá sér. Ekkert fannst úr bátnum annað en það e.t.v. að Helgi Jónsson flugmaður taldi sig hafa séð belgi og annað á fjörum í Breiðuvík, Kollsvík Kópanesi (Mbl 14.01.1970). Sæfari BA-143 var 10l rúmlest að stærð; stálbátur smíðaður árið 1960 í Brandenburg í Austur-Þýzkalandi. Hraðfrystihús Tálknafjarðar gerði bátinn út.

1971:  Togari í togi sekkur undan Látrabjargi

Í maí sökk breski togarinn Cæsar, eða var látinn sökkva, 40 mílur útaf Látrabjargi eða í Víkurál, með 160 lestir af olíu innanborðs.  Enginn maður var um borð í togaranum en dráttarskip var með hann í togi.  Íslenskt varðskip var viðstatt án afskipta.  Hafa íbúar Rauðasandshrepps áhyggjur af olíulega úr flakinu.  (Árbók Barðastrandasýslu).

1973: Framnes strandar við Rauðasand

Hinn 03.02.1973 strandaði vélbáturinn Framnes ÍS-608, 130 tn, á sandrifi framundan Lambavatni í vondu veðri.  Ellefu voru um borð; mannbjörg varð, og náðist skipið út lítið skemmt.  (Veðráttan 01.03.1973.  Þjóðviljinn 04.03.1973).  Lítið gat kom á skipið og stýrið fór af.  Ólafur Sveinsson á Sellátranesi sauð í gatið, en hann var með rafsuðu aftan á traktor og gat ekið henni nærri skipinu á strandstað.  (Mbl. 07.03.1973).  

1973:  Hætt kominn á Kollsvík

Hinn 10.05.1973 björguðu skipverjar á Maríu Júliu, Patreksfirði og á Tungufellinu frá Tálknafirði þrem mönnum og báti i norðan stormi suður af Blakk. Tildrögín voru þau, að læknirinn á Patreksfirði var á leið við þriðja mann suður til Reykjavikur á lystibát sinum, þegar stormurinn skall á. Var Maria Júlia stödd skammt frá og leizt skipverjum ekkert á er þeir sáu bátinn bjargarlausan i ólgusjó. Lét skipstjórinn lóssa bátinn fyrir Blakkkinn og kallaði á Tungufell á Tálknafirði, sem hifði bátinn upp á dekk og flutti ásamt áhöfninni, þrem mönnum og einum hundi, til Patreksfjarðar. Er talið, að báturinn hefði farizt i ofviðrinu ef skipin hefðu ekki komið til hjálpar.  (Þjóðviljinn 13.05.1973).  

1974: Brann úti á Kollsvík

Hinn 04.07.1974 kom upp eldur í Odda ÍA304; 5 lesta dekkbáti, er hann var að handfæraveiðum suður af Blakk. Eigandinn, Þorsteinn Friðþjófsson, fékk ekki slökkt eldinn, en nærstaddur bátur, sem Siggi heitir, kom honum til aðstoðar. Þeir réðu ekkert við eldinn, en tóku bátinn í tog. Strandferðaskipið Hekla kom þarna að og var þá unnt að slökkva, en einhvers staðar hefur leynzt neisti því að nokkru eftir að Heklan var farin sína leið gaus eldurinn aftur upp svo magnaður, að báturinn sökk skömmu síðar. Eigandinn fór með Sigga til hafnar á Patreksfirði.  (Mbl; 05.07.1974).  

1975: Trilla sigld niður út af Bjargtöngum

Júlíus Ólafsson á Patreksfirði vaknaði upp við vondan draum kl. 5 að morgni miðvikudags 20.05.1975.  Hann var sofandi um borð í trillu sinni; Ugga BA 58, norður af Bjargtöngum þegar Vestri frá Patreksfirði sigldi hann niður.  „Ég var um 3 til 4 mílur vestur af Bjargtöngum I gærmorgun, einn i bátnum, hafði verið á skaki daginn áður“, sagði Július“.  „Ég var á þessum slóðum daginn áður og búinn að fiska um tonn. Ég lagði mig í björtu og góðu veðri um miðnættið, og vaknaði ekki fyrr en við höggiö. Ég þaut upp og áttaði mig strax á hvað skeð hafði, en þá var komin svartaþoka. Báturinn sem ég var á var 9 tonna dekkbátur. Ég svaf frammi i lúkar, og þegar ég kom upp sá ég í skutinn á Vestra í þokunni en stórt gat var inn í vélarrúmið aftan á bátnum. Báturinn liðaðist ekki sundur, en þegar ég kom aftur í var kominn mikill sjór þar. Gúmmibjörgunarbátur var frammi á bátnum, og henti ég honum strax út; klæddi mig og fór í hann. Það liðu um fimm mlnútur frá því ég vaknaði, þar til báturinn sökk. Þá var Vestri horfinn í þokuna. En hann sneri strax við og þeir fóru að leita og fundu mig í gúmmíbátnum eftir nokkrar minútur og tóku mig um borð. Ég átti bátinn í félagi við annan mann“, sagði Júllus, „en hef verið einn á honum undanfarið. Ég átti von á manni með mér eftir einn eða tvo daga, en hann verður að leita sér að öðru skipsrúmi.  Báturinn var ekki nærri þvi tryggður fyrir þeirri upphæð, sem hann kostar, svo að þetta veröur talsvert fjárhagstjón. Báturinn var byggður 1962“.  (Tíminn).

1981: Grænlenskur rækjutogari sekkur á Patreksfjarðarflóa

„Að morgni 23. mars 1981 sökk rækjutogarinn Sermelik frá Sykurtoppnum í Grænlandi á Patreksfjarðarflóa og var 9 skipverjum bjargað um borð i togarann Ásgeir frá Rcykjavík, en einn mannanna, skipstjórinn, Jens Josefsson að nafni 32 ára, fórst. Lenti hann í sjónum og fann togarinn Júni lík hans um kl. 8.  Togarinn var á leið til Patreksfjarðar til að ná í mannskap í annað skip.  Þegar varðskip kom að skipinu var það sokkið að aftan og maraði i kafi. Var gúmmibátur bundinn við skipið og annar bátur skammt undan með 9 mönnum. Tók Asgeir frá Reykjavik mennina um borð, en áhöfnin var 3 Norðmenn og 7 Grænlendingar. Var farið með þá til Patreksfjarðar. Að sögn Páls Pálssonar, varðstjóra lögreglu á Patreksfirði, mun Sermelik hafa verið orðið mjög ísað og er talið að er skipið fékk á sig ólag við Blakksnes i gær, hafi brostið loki neðan sjávarmáls, sem sjór fossaði inn um“. (Tíminn 24.03.1981).  Sermilik var 54 metra langt stálskip. byggt árið 1950, ætlað til hvalveiða í Norðurhöfum. Það var endurnýjað árið 1960 og síðan var því breytt í rækjutogara árið 1980.  Fjórir einstaklingar á Patreksfirði keyptu skipið á hafsbotni, með það í huga að bjarga því af hafsbotni, en ekki varð af þeim áformum.  Kafað var nokkrum sinnum niður að skipinu, á 35-40 m dýpi.

1981: Leki kom að Maríu Júlíu

Leki kom að Maríu Júlíu BA 36 um 7 mílur út af Blakknesi hinn 31.01.1981. Togarinn Kaldbakur frá Akureyri kom að bátnum og tók hann í tog áleiðis lil lands, en slökkviliðsmenn frá Patreksfirði fóru með Vestra BA 63 til móts við skipin með öfluga dælu, því þær dælur sem lyrir voru höfðu ekki undan. Gekk vel að dæla úr skipinu og kom togarinn með Maríu Júliu til Patreksfjarðar um kvöldið. (DV 07.02.1981). 

1981:  Fákinn sekkur undan Bjargtöngum

Hinn 19.09.1981 fékk Fálkinn BA-309 á sig brotsjó, 1,2 mílur undan Látravík.  Báturinn lagðist á hliðina og kviknaði í rafalnum.  Togararnir Apríl og Ingólfur komu til aðstoðar og bjargaðist fimm manna áhöfn Fálkans yfir í Ingólf á gúmmíbáti, um það bil sem báturinn sökk.  Fálkinn var gerður út frá Tálknafirði og skipstjóri var Níels Ársælsson.

1982: Flugvélin TF-MAO talin hafa farist út af Bjargtöngum

Talið er að flugvélin TF-MAO, sem var af gerðinni Piper Apache, tveggja hreyfla, hafi farist undan Bjargtöngum að morgni 26. okt. 1982, og með henni flugmaðurinn; Hafþór Helgason kaupfélagsstjóri á Ísafirði.  Hafþór hafði flogið til Súgandafjarðar kvöldið áður en lagði af stað um morguninn til Ísafjarðar.  Um leið versnaði veður skyndilega og er talið að hann hafi ætlað að fljúga suðurfyrir mesta óveðrið.  Stefnuviti á Þverfjalli hafði bilað um nóttina.  (Ísl.þættir Tímans 16.11.1982).  Um kl 7.38 tilkynnti vélbáturinn Þrymur að sést hafi til flugvélarinnar um 22 sjómílur út af Látrabjargi.  Sýndist mönnum að hún stefndi niður og sendi frá sér neyðarblys.  Leit bar ekki árangur og flugmaðurinn fannst ekki.  (Vf.fréttabl. 28.10.1982).

1982:  Jón Júlí strandar við Hænuvík

"Vélbáturinn Jón júlí frá Tálknafirði strandaði snemma að morgni 28.08.1982 skammt frá bænum Hænuvíkí Patreksfirði, og er báturinn nú þar í fjörunni.  Mannbjörg varð, en ekki er Ijóst hve mikið skemmdur báturinn er né hvenær tekst að ná honum út.  Að sögn lögreglunnar á Patreksfirði fóru björgunarsveitarmenn á staðinn með dælur og útbúnað til að styðja við skipið, og einnig kom vélskipið Núpur á staðinn ef aðstoðar yrði þörf".  (Mbl. 29.08.1982).  

1985:  Togarinn Sjóli brennur undan Blakknesi

Eldur kom upp í vélarrúmi skuttogarans Sjóla frá Hafnarfirði laust fyrir hádegi 12. júní, er skipið var statt um 5 sjómílur vestan við Blakknes.  Í fyrstu var talið að eldurinn væri vel viðráðanlegur, en hann magnaðist fljótt og lagði mikinn reyk frá skipinu.  Báturinn Axel Eyjólfs var kominn að Sjóla rétt fyrir klukkan eitt.  Einnig hélt strandferðaskipið Esja á vettvang, en hún var á leið frá Patreksfirði.  Varðskipið Ægir var komið á slysstað kl 14.00.  Einn skipverja var þá kominn með reykeitrun af viðureigninni við eldinn.  Þyrla gat ekki híft manninn frá Sjóla og fór Ægir því með hann á Patreksfjörð þar sem þyrlan beið, en Ægir fór aftur á vettvang.  Esja dró Sjóla afturábak inn Patreksfjörð meðan reynt var að slökkva eldinn.  Komið var með togarann þangað um miðnætti.  Áður en tókst að slökkva eldinn varð sprenging í honum, og lá við stórslysi.  Togarinn var mjög illa farinn eftir brunann.  (NT 13.06.1985).

1989: Brimnesið sekkur eftir árekstur við strandferðaskip

Brimnes BA-800, sem er 34 tonna eikarbátur, sökk í byrjun apríl 1989 eftir árekstur við strandferðaskipið Heklu, enn bæði skipin voru á siglingu inn Patreksfjörð.

Í sjóprófum kom fram, að hvorki áhöfnin á Heklu né Brimnesinu áttuðu sig á því að hætta væri á ferðum fyrr en Brimnesið skall á stefni Heklu. Báturinn sökk fáum mínútum síðar, en skipverjarnir þrír komust í björgunarbát og síðan um borð í Heklu. Logn og blíða var þegar óhappið varð.  Stýrimaður Heklu var einn í brúnni, þegar óhappið varð. Hann sá aldrei Brimnesið, þar sem sólin var lágt á lofti í sömu stefnu og báturinn. Hins vegar sá hann á ratsjá að ein míla var á milli Heklu og Brimness og taldi öllu óhætt. Hann kvaðst sannfærður um að einhver stefnubreyting hefði verið á Brimnesinu síðustu þrjár mínútur fyrir áreksturinn, þ.e. frá því að hann leit síðast á ratsjá og þar til óhappið varð.  Skipstjóri Heklu kvaðst aðspurður ekki telja eðlilegt að aðeins einn maður væri í brúnni þegar skip í innan við mílu fjarlægð sæist ekki berum augum.
Vélstjóranum á Brimnesinu sagðist svo frá að hann hefði komið auga á Heklu og talið víst að hún væri á leið inn til Patreksfjarðar. Hann hefði verið upptekinn í síma og talstöð næstu mínúturnar, en sjálfstýringin hefði verið á. Þegar hann sneri sér næst við sá hann að Brimnesið átti aðeins eftir fáar bátslengdir í Heklu. Hann kvaðst hafa reynt að bakka, en báturinn ekki tekið við sér fyrr en of seint. Hann sagði að hann hefði ráðið við að forða árekstri, ef hann hefði fylgst með Heklu.  Aðeins liðu um átta mínútur frá því að áreksturinn varð og þar til Brimnesið var sokkið.
Óverulegar skemmdir urðu á Heklu við áreksturinn. Lítið gat kom á stefni skipsins stjórnborðsmegin og í gær var gert við það til bráðabirgða á Patreksfirði. Að loknum sjóprófum síðdegis í gær hélt skipið áleiðis til Reykjavíkur.

1990:  Banaslys í ásiglingu á Patreksfjarðarflóa

Sjómaður frá Patreksfirði, Haraldur Ólafsson 66 ára, fórst hinn 5.júní 1990 þegar siglt var á trillu hans, Sæfugl BA 52 á Patreksfjarðarflóa; tveimur sjómílum norðan Blakkness.  Báturinn sem olli ásiglingunni var Eleseus BA 328; gerður út frá Patreksfirði; 40 tonn að stærð og því allmiklu stærri en trillan, sem var 6 tonn.  Sæfugl var kyrrstæður þegar atvikið varð, en Eleseus að dragnótaveiðum.  Haraldur fór í sjóinn en var orðinn þrekaður þegar hann náðist um borð í Eleseus og lést fljótlega eftir það.  Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á slysstað nokkru síðar.  Skipstjórinn á Eleseusi var sviptur réttindum og síðar dæmdur fyrir manndráp af gáleysi; fyrir að hafa ekki stýrimann um borð; fyrir vanrækslu lögskráningar og vanrækslu við að halda dagbók. (DV og Tíminn 06.06.1990).

1990: Harður árekstur út af Látrabjargi

Hinn 11.08.1990 varð harður árekstur Sindra VE 60, sem er 297 tonna skuttogari, og Víðis KE 101, sem er 9 tonna stálbátur, er skipin voru stödd undan Látrabjargi.  Varð slysið með þeim hætti að bæði skip voru á suðurleið en togarinn dró Víði uppi og átti því að hægja ferð.  Hvorugur stjórnandi virðist hinsvegar hafa orðið var við hættuna.  Skall togarinn á bakborðskinnung Víðis og síðan framan á stefni hans, svo dældir og gat hlaust af.  Víðir hélst þó á floti og sigldi af eigin rammleik til Sandgerðis.  (Víkurfréttir 16.08.1990).  

1991:  Bátur sekkur við Gjögra

Sómabáturinn Krummi sökk við legufæri ót af Gjögrum við Örlygshöfh hinn 15.september 1991. Mikið tjón varð á bátnum; siglingatæki, véhn og fleira skemmdist. Lögreglunni var tilkynnt málið þegar eigandinn hafði komið að bátnum marandi í hálfu kafi þar sem hann var bundinn skammt frá landí. Aðeins stefnið stóð upp úr sjónum. Enngar skýringar hafa fengist á orsökum þess að báturinn sökk en eftir því sem næst verður komist var enginn sýnilegur leki á honum. Báturinn var dreginn á land á Patreksfirði. (DV).  Krummi var í eigu Guðna H. Jónassonar í Breiðuvík, sem notaði hann til grásleppuveiða.

1992: Ingþór Helgi sekkur út af Bjargtöngum

Tveimur var bjargað af sómabátnum Ingþóri Helga frá Tálknafirði, er hann sökk skammt út af Bjargtöngum 28.04.1992.  Báturinn Garri frá Tálknafirði var staddur í um 15 mílna fjarlægð er neyðarkall barst frá Ingþóri Helga, og hélt á vettvang.  Þegar að var komið maraði báturinn í hálfu kafi en skipverjar voru komnir í gúmbát; var þeim bjargað.  Veður var 2-3 vindstig og lítil alda.  (Mbl. 29.04.1992). 

1992:  Trilla hætt komin við Blakk

"Sjómaður á trillunni Ninna RE 204 komst í hann krappan þegar bátur hans fór á hliðina þegar ólag fyllti hann snemma í gærkvöldi. Atburðurinn varð út afBlakkií Patreksfirði. Maðurinn náði að senda út neyðarkall. Hann var ekki í flotgalla en náði að losa gúmmíbjörgunarbát og blása hann út. Þyrla Landhelgisgæslunnar var ræst út og nærstaddir bátar voru kallaðir til. Eftir 10-15 mínútur gerðist það óvænta; kröftug alda rétti Ninna við aftur. Sjómaðurinn fór þá aftur um borð og jós sjóinn úr bátnum. Við svo búið var vélin ræst og siglt hjálparlaust til Patreksfjarðar og hjálparbeiðni afturkölluð. Sjómaðurinn er úr Reykjavík. Þó að hann yrði blautur og kaldur við volkið varð honum ekki meint af"  (DV 14.05.1992).   

1993:  Sjómaður drukknar við Gjögra

Þórir Þorsteinsson lést 30. maí 1993, eftir að hafa örmagnast á sundi í sjónum við Örlygshöfn við Patreksfjörð á sunnudagsmorgun. Þórir var 48 ára gamall, smiður og sjómaður, til heimilis að Stekkjum 7, Patreksfirði. Hann lét eftir sig fimm börn, þrjú þeira uppkomin.
Slysið bar til með þeim hætti að um klukkan hálfsjö að morgni kom Þórir á báti sínum; Svölu, að Örlygshöfn og batt hann við annan sem þar lá á legufærum. Síðan lagðist hann til sunds í átt að landi en þangað eru um það bil 100 metrar.
Fylgst var með ferðum Þóris úr landi og báti skotið á flot til móts við hann. Hann örmagnaðist hins vegar á sundinu í ísköldum sjónum áður en að var komið. Þegar honum barst hjálp voru lífgunartilraunir þegar í stað hafnar en þær báru ekki árangur og þegar sjúkraflutningsmenn og læknir komu á staðinn skömmu síðar var hann úrskurðaður látinn.  Þórir var mönnum í Rauðasandshreppi að góðu kunnur og hafði dvalið þar um tíma.

1993:  Hanna Kristín sekkur undan Blakknesi

"Mannbjörg varð þegar Hanna Krístín HF-44, Sómaplastbátur, sökk næstum um 22 sjómílur vestur af Blakknesi, sem er við mynni Patreksfjarðar, í gær. Gyllir ÍS-261 dró hana til hafnar á Patreksfirði en þegar hann kom að Hönnu Kristínu maraði hún í hálfu kafi" (DV 15.07.1993)

1994: Ísborg brennur

Ísborg BA 477, fimmtíu tonna eikarbátur, lagði af stað í sína síðustu veiðiferð á vertíðinni 16. apríl 1994. Veður var gott og var línan lögð um 13 sjómílur út af Blakk. Finnbogi Pálsson skipstjóri segir svo frá:  "Við vorum búnir að leggja um tvöleytið og vorum að fá okkur að borða frammí lúkar þegar við verðum varir við að aðalvélin drap allt í einu á sér. Við hlaupum tveir afturí, ég og vélstjórinn, til að athuga málið og þegar við opnum lúguna niður í vél gýs eldur á móti okkur. Vélstjórinn komst út um brúardyrnar en ég varð að forða mér út um brúarglugga, því að leiðin út um dyrnar lokaðist, ég náði þó að senda út neyðarkall áður. Við sprautuðum úr tveimur slökkvitækjum á eldinn en það dugði alls ekki, þá klæddum við okkur allir í flotgalla, blésum út björgunarbát og höfðum hann tilbúinn við síðuna. Því næst fórum við fram á stefni og biðum eftir Reyni AK sem var á leiðinni til okkar. Þegar hann kom ætluðum við að ferja slökkvitæki á milli en þá magnaðist eldurinn rosalega, rúðurnar sprungu í brúnni og eldtungurnar stóðu upp eftir henni allri. Við ákváðum þá að stökkva í sjóinn en þaðan var okkur bjargað um borð í Reyni," segir Finnbogi.  Aðalsteinn Júlíusson, vélstjóri á Reyni AK segir svo frá:   "Við vorum ekki í nema tíu til fimmtán mínútna siglingu frá bátnum. Þegar við komum nær sáum við að Ísborgarmenn voru búnir að kasta út gúmmíbát og að það var kominn ansi mikill reykur. Við ætluðum fyrst að rétta þeim slökkvitæki en eldurinn magnaðist þá svo mikið að þeir stukku í sjóinn og við tókum þá upp. Við keyrðum aftur með bátnum og reyndum að smúla á eldinn en það gekk ekki neitt svo að við forðuðum okkur frá, því vélstjórinn á Ísborgu sagði okkur strax og hann kom um borð að það væru þrjú til fjögur tonn af olíu um borð í henni,"   Reynir er þrjátíu tonna eikarbátur frá Patreksfirði.  Áhöfnin á Ísborgu BA fór síðan um borð í Bensa BA sem flutti hana ásamt björgunarbátnum til Patreksfjarðar.  Um klukkan hálf sex komu Andey BA og Kristín Finnbogadóttir BA með slökkvidælur og mannskap og var hafist handa við að slökkva eldinn. Andey tók síðan Ísborgu í tog áleiðis til Patreksfjarðar. Á leiðinni magnaðist eldurinn upp aftur og var tekið til við slökkvistarfið í miðjum Patreksfirði.  Um miðnætti var Ísborgu lagt við bryggju og töldu menn víst að eldurinn væri slökknaður, en sett var vakt við bátinn yfir nóttina. Klukkan hálf fimm blossaði enn upp eldur. Það var svo um hálf tíu á sunnudagsmorgun sem slökkvistarfi var að fullu lokið og hafði það þá tekið sextán tíma.  Ísborg BA 477 er talin gjörónýt eftir brunann. (Morgunblaðið).

1994: Mannbjörg út af Bjargtöngum

Hinn 13. maí 1994. Einn maður bjargaðist um borð í Björgvin Má ÍS þegar trilla hans, Dögg ÍS-39, sökk fimm mílur suð-suðvestur af Bjargtöngum á uppstigningardag, þar sem hún var að línuveiðum. Veður var þokkalegt og tókst áhöfninni á Björgvin að koma taug í Dögg. Reynt var að draga hana í land, en þegar það gekk ekki var leitað aðstoðar Brimness BA, sjötíu tonna stálbáts, sem var þarna rétt hjá. Brimnes hélt þegar á staðinn og tók við tauginni en þá var Dögg mikið til sokkin. Skipverjinn á Dögg flutti sig yfir í Brimnes, sem kom svo til Patreksfjarðar með Dögg í togi rétt fyrir klukkan þrjú á föstudaginn. Með aðstoð kafara tókst að taka Dögg á síðuna og komast inn í höfnina. Þar var trillunni lyft með kranabíl og síðan dælt úr henni sjónum. Dögg ÍS-39, sem er fjögurra til fimm tonna ódekkuð plasttrilla, er tiltölulega lítið skemmd eftir volkið og má það kallast mikið afrek hve vel tókst til um björgun manns og báts (Mbl. 14.05.1994).

1995: Hilmir sekkur undan Blakknesi

Mannbjörg varð þegar Hilmir BA-48, sem er tveggja ára 4 tonna trefjaplastbátur frá Patreksfirði, sökk um 15 mílur norðvestur af Blakksnesi laust eftir hádegið 25.07.1995. Einn maður var um borð og komst hann í gúmmíbjörgunarbát eftir að hafa kafað niður að bátnuni til að losa hann frá trillunni. Skipverjar á Elsu EA-60 björguðu manninum og komu með hann til Patreksfjarðar, en báturinn var staddur um mílu frá Hilmi þegar óhappið varð.  Hilmir var búinn að vera sólarhring að veiðum þegar hann sökk. (Mbl. 26.07.1995).  

1995: Reki ferst út af Blakk

Reki RE-666 sökk l9. mars út af Blakk. Tveir menn á; björguðust.  (Mbl. 16.08.1995).  

1995: Valborg sekkur út af Blakk

Valborg BA-130 sðkk 27. júlí út af Blakki. Einn maður var á og bjargaðist hann.  (Mbl. 16.08.1995).  

1996: Björninn sekkur vestur af Blakknesi

Björninn BA 85, fimm tonna trilla frá Patreksfirði, sökk um 20 sjómílur vestur af Blakksnesi 8.nóvember 1996. Neyðarkall barst frá bátnum eftir að hann var nýlega kominn á landstím. Tveir menn um borð sögðust þurfa að yfirgefa bátinn skyndilega því hann hefði fyllst af sjó. Þeim tókst að komast í gúmbjörgunarbát og skutu þeir síðan upp neyðarblysum. Skipverjar á Klakki SH, sem var við veiðar skammt frá, sáu blysin og sigldu að gúmbátnum og björguðu mönnunum. Brimnes BA 800 kom síðan á vettvang; tók það Bjöminn í tog þar sem trillan maraði í hálfu kafi og dró hana til Patreksfjarðar.

1997:  Elli póstur strandar innan Háaness

Tveir menn björguðust þegar trillan Elli póstur RE-433 strandaði austan við Ólafsvita í Patreksfirði 5.september 1997. Tveir bændur í Rauðasandshreppi björguðu þeim í land eftir að hafa gengið út að bátnum í þoku og myrkri, en báturinn var þá kominn á þurrt. Hann var dreginn af strandstað og er ekki mikið skemmdur.
Landhelgisgæslan fékk tilkynningu um strandið frá Reykjavíkurradíói 34 mínútur yfir miðnætti. Fyrstu upplýsingar voru um að báturinn væri innarlega í Patreksfirði. Tveir menn væru um borð og kæmust ekki í land og það bryti á bátnum. Lögreglan á Patreksfirði kallaði út björgunarsveitina Blakk og björgunarsveitina Bræðrabandið, sem er slysavarnardeildin í Rauðasandshreppi. Þær héldu á strandstað bæði af sjó og úr landi.
Haft var samband við bóndann á Hnjóti, sem sagði að hann sæi í ljós frá bátnum. Þungan sjó legði inn fjörðinn og útlitið væri ekki gott þegar færi að falla að. MB-Garðar var skammt undan og var kominn á standstað 1:40. Hann átti hins vegar erfitt með að athafna sig því þá var háfjara.  Tveir bændur gengu að bátnum; Ólafur Sveinsson, bóndi í Sellátranesi, og Hilmar Össurarson, bóndi í Kollsvík, en þeir þekkja mjög vel aðstæður. Ólafur sagði að báturinn hefði strandað á góðum stað í fjörunni. Utar í fjörunni væru klettar og innar væri stórgrýti.  "Við komumst á bíl niður í fjöru og gengum 300 metra að bátnum. Okkur gekk ágætlega að komast að honum, en að vísu var þoka og myrkur og við vorum með lélegt vasaljós. Báturinn var á þurru þegar við komum að. Mennirnir voru ekki í hættu og gengu með okkur í land," sagði Ólafur.
Strax um nóttina voru hafnar tilraunir til að bjarga bátnum. Aðstæður til þess voru nokkuð erfiðar því að grunnt er á þessum slóðum og nokkuð mikill straumur með landinu. Í fyrstu tilraun slitnaði tógið og á meðan verið var að koma annarri línu á milli bátanna barst Elli póstur ofar í fjöruna. Í annarri tilraun gekk hins vegar vel að ná bátnum út og var hann dreginn til Patreksfjarðar.  Elli póstur er 5 tonna plastbátur. Hann hefur verið gerður út frá Patreksfirði í sumar, en var á leið til Reykjavíkur þegar óhappið varð. (Morgunblaðið).

1998:  Haukur sekkur

Hinn 18. janúar 1998 fór m.b. Haukur BA-136 frá Patreksfirði í róður með línu. Veður: suðaustan 3-4 vindstig Var línan lögð og dregin aftur án þess að neitt markvert gerðist. Eftir að línudrætti lauk var gengið frá og siglt áleiðis til hafnar. Vindur hafði snúist og var komin suðvestan átt 2-3 vindstig. Þegar siglt hafði verið í um eina klukkustund dró skyndilega niður í vélinni og stöðvaðist hún. Skipstjórinn hugaði að vélbúnaðinum, skipti um olíusíur o.fl. og gangsetti síðan vélina aftur. Eftir að vél var komin í gang var hún tengd við skrúfu en ekkert gerðist. Ekki gat skipstjóri fundið út hvað væri að búnaðinum. Hafði skipstjórinn samband við nærstaddan bát m.b. Brimnes BA-800 og óskaði eftir aðstoð við að komast til hafnar. Eftir u. þ.b. eina og hálfa klukkustund, eða skömmu áður en m.b. Brimnesið BA-800 kom að m.b. Hauk BA-136, varð skipstjóri var við að báturinn var orðinn siginn að aftan. Tóku skipverjar til að færa línubala er voru aftast framar á bátinn til að breyta stafnhallanum. Seig báturinn jafnt og þétt að aftan og var gúmmíbjörgunarbáturinn þá sjósettur og fóru skipverjarnir í hann. Annar skipverjinn hafnaði í sjónum við að komast í gúmmíbátinn. Skipbrotsmönnum var síðan bjargað yfir í m.b. Brimnesið BA-800 sem komið var á vettvang. Báturinn sökk skömmu síðar. Veður skömmu eftir að skipbrotsmönnum var bjargað var suðvestan 5 vindstig, él.  Rannsóknarnefnd sjóslysa komst að þeirri niðurstöðu að ofhleðsla hefði verið orsök slyssins.  (Skýrslur rannsóknarnefndar sjóslysa).

1998: Gefjun sekkur

Hinn 29. ágúst 1998 fór m.b. Gefjun BA-100 frá Patreksfirði í róður með færi. Veður: hægviðri. Þegar út fyrir Tálkna var komið var talsverður sjór en vindur hægur af norðaustan. Um hádegi fór að bæta í vind.. Var verið við veiðar með handfærum út af Kópahlíðum norður undir Krossdal og hafði þar verið leiðinlegt sjólag. Skipstjórinn sagðist hafa reynt fyrir sér á þessu svæði og hefði verið kippt nokkrum sinnum. Þegar veiðum lauk var talið að um borð hafi verið um 600 kg af fiski í tveimur körum. Eftir að gengið hafði verið frá var siglt áleiðis til hafnar og var sigldur hraði 5-6 sml með vind þvert á stjórnborða. Eftir að siglt hafði verið í um 15 mínútur tók skipstjórinn eftir því að sjór var að koma upp fyrir plitta í stýrishúsi. Brást hann við með því að stöðva siglingu og vél bátsins. Hugaði hann að í vélarrúmi og var þá sjór kominn upp á miðja vél. Þá kallaði hann í Patrekshöfn og hafnarvörður svaraði. Óskaði hann eftir að fylgst væri með sér þar sem leki væri kominn að bátnum. Rak bátinn með bakborðssíðu í vindinn og skipstjórinn var bakborðsmegin í bátnum við að ausa. Hafnarvörðurinn sagðist ætla að fá bát til að fara út til aðstoðar. Skipstjóri sjósetti gúmmíbjörgunarbátinn en datt illa við það. Hafði hann gúmmíbátinn bundinn á stjórnborðssíðunni og reyndi að ausa frekar úr bátnum. Þegar hann sá að hann hafði ekki undan og sjór kom af og til yfir borðstokk kallaði hann í hafnarvörðinn á Patreksfirði og sagðist vera að yfirgefa bátinn. Fór hann síðan í gúmmíbjörgunarbátinn og skar hann lausan. Sökk báturinn um fimm mínútum síðar. Nokkrum mínútum síðar kom bátur að sem bjargaði honum og sendur hafði verið frá Patreksfirði.  (Úr skýrslum rannsóknarn. sjóslysa). 

1999:  Garðar strandar við Hreggnesa

Tveir menn björguðust eftir að sex tonna bátur, Garðar BA frá Patreksfirði, strandaði 16.oktober 1999 við Hreggnesa sem er í sunnanverðri Kollsvík við Patreksfjörð. Mennirnir komust í land af sjálfsdáðum og sluppu ómeiddir, en voru blautír og kaldir.  Flutti lögreglan þá til Patreksfjarðar. Fjaran er þarna stórgrýtt, og þar sem báturinn hafi fest á milli tveggja steina var ekki hægt að losa hann þarna um kvöldið. Vatn komst í lestina og báturinn byrjaði að brotna. Um morguninn kom í ljós að báturinn var stórskemmdur þar sem sjórinn hafði lamið hann niður í grjótið og um hádegi kom svo brot á bátinn svo hann gjöreyðilagðist.   Í sjóprófum kom fram að um 3 tonn af fiski voru í bátnum þegar haldið var til lands.  Hraði bátsins var um 9 mílur og tók háseti landstím en skipstjóri lagði sig.  Varð niðurstaðan sú að hásetinn, sem var réttindalaus, hafi sofnað útfrá sjálfstýringunni og vöknuðu skipverjar fyrst þegar báturinn strandaði; líklega þar sem heita Lambabalaboðar syðst í Kollsvík.

2001:  Núpur strandar við Sjömannabana

Línuskipið Núpur strandaði hinn 10.nóvember 2001 utan við Patreksfjarðarhöfn, þar sem heitir hleinin Sjömannabani.   Vél bátsins bilaði og rak hann á aðeins 10 mínútum upp í fjöru um einn km utan við bæinn.  Núpur er 255 tonn og var á línuveiðum. Hann var á leið til hafnar en beið þess að sigla inn skammt utan hafnarinnar þar til veður myndi lægja. Klukkan 6.15 í um morguninn hafði Núpur samband við Tilkynningaskylduna og greindi frá vélarbilun og var þá haft samband við lögreglu. Tíu mínútum síðar tilkynnti áhöfnin að skipið væri strandað og voru björgunarsveitirnar Blakkur frá Patreksfirði og Tálkni frá Tálknafirði kallaðar út.  Vel gekk að bjarga áhöfninni, en töf varð á að skipið næðist út.  Það gekk ekki fyrr en þremur dögum síðar, og var það þá nokkuð skemmt.  Rannsóknarnefnd sjóslysa komst að þeirri niðurstöðu að síur við vél hefðu verið ónógar og óhreinar og gerði athugasemdir við sinningu vélbúnaðar.

2003:  Lést við Blakknes á leið í róður

Hinn 14. ágúst lést Ólafur Kristinn Sveinsson á Sellátranesi við innanvert Blakknes.  Ólafur mun líklega hafa ætlað í fiskiróður á litlum báti sem hann átti, en hann var vanur og farsæll sjómaður auk annarra starfa.  Farið var að svipast um eftir honum, eftir að mannlaus báturinn fannst undan Ytri-Hlíðum.  Ólafur fannst síðan þar uppi í fjörunni, og virðist hafa farið þar í land; e.t.v. vegna lasleika.  Hann var 75 ára og lét eftir sig 4 uppkomin börn.  Ólafur var m.a. bóndi á Sellátranesi; bílstjóri, ýtumaður og umfram allt fjölhæfur þjóðhagasmiður. 

2004: Bjarni G strandar utan við Patreksfjarðarhöfn

Þann 2. júlí 2004 var Bjarni G BA 8 að koma úr veiðiferð til Patreksfjarðar.  Veður: Hægviðri, sjólítið og bjart.  Skipverjar höfðu farið til handfæraveiða frá Patreksfirði um kl. 04:30 um morguninn og haldið suður fyrir Bjargtanga.  Þeir hættu veiðum um kl. 18:30 og héldu til baka til sömu hafnar.  Skipverjar skiptu með sér vöktum á siglingunni og tók annar fyrstu vakt norður fyrir Bjargtanga.  Skipverjinn sem tók þá við átti að ræsa hinn þegar um 10-15 mín væru eftir til Patreksfjarðar.  Skipverjar hrukku upp við mikinn hávaða þegar báturinn strandaði í svokölluðum “Vatnskrók” rétt við höfnina á Patreksfirði.  Skipverjar náðu bátnum strax af strandstað, komust inn í höfnina og lönduðu.  Báturinn var síðan tekinn á land til skoðunar og þá kom í ljós að skemmdir voru á honum.  Orsök strandsins var sú að maður við stýrið sofnaði vegna þreytu, en hann hafði að auk ekki tilskilin réttindi.

2005: Hrund brennur á Patreksfjarðarflóa

Þann 16. maí 2005 var Hrund BA 87 á línuveiðum á Patreksfjarðarflóa.  Veður:  NV 3-5 m/s, sjólítið og bjart.  Hrund BA var siglt úr höfn á Patreksfirði um miðnætti og kom á miðin um 25 sjómílur NV af Blakknesi um kl. 03:00, með 12 línubala.  Skipverjinn hafði sett sjálfstýringuna á og sigldi með um fjögurra hnúta hraða við línulögnina.  Þegar hann var að byrja að leggja úr sjötta línubalanum tók hann eftir að dökkleytan reyk lagði út úr stýrishúsinu.  Hann reyndi þá að stöðva bátinn með því að nota stjórntæki rétt fyrir aftan húsið en þau virkuðu ekki.  Vegna elds og reyks lagði skipverjinn ekki í að reyna að ná í slökkvitæki sem var niðri í vistarveru framarlega í stýrishúsinu.  Hann opnaði þá vélarlúguna, en við það féll hann aftur fyrir sig, rak höfuðið í þvottakarið og vankaðist.  Honum tókst að drepa á aðalvélinni, losa gúmmíbjörgunarbátinn ofan á stýrishúsinu og koma honum í sjóinn og blása hann upp.  Skipverjinn yfirgaf Hrund BA og stökk í gúmmíbjörgunarbátinn.  Í stökkinu lenti hann í opi bátsins með bringuna á flothring hans og hálfur útbyrðis.  Við höggið missti hann andann um stund.  Hann hafði ekki náð að láta vita af sér en setti neyðarsendi í gang um borð í gúmmíbjörgunarbátnum auk þess að skjóta upp neyðarblysi. Ljúfur BA var nærstaddur og tókst að bjarga skipbrotsmanninum, sem var nokkuð þrekaður, og kom honum til Patreksfjarðar.   Nokkru síðar tilkynntu bátar á Patreksfjarðarflóa að sprenging hefði orðið á þeim slóðum þar sem Hrund BA hefði verið.  Siglt var á staðinn og var Hrund BA þá sokkin.  (Rannsóknanefnd sjóslysa).

2006:  Bessi sekkur í drætti, grunnt undan Blakknesi

Þann 28.06.2006 var Bessi, 12m tvíbotna stálbátur smíðaður 2001, í drætti hjá togaranum Stefni ÍS 28.  Bessi hafði verið nýfluttur inn til landsins, og átti að nota sem vinnuskip við fiskeldi.  Þegar skipin voru 3 sjómílur NV af Blakknesi tóku skipverjar á Stefni eftir að Bessi var kominn á hvolf, og sökk hann skömmu síðar.  Rannsóknarnefnd sjóslysa kannaði slysið og lét m.a. kafa niður að flakinu.  Niðurstaða nefndarinnar var sú að líklega hefði báturinn verið dregið á of mikilli ferð, þannig að sjór hafi safnast á framskipi.  Þá hafi ekki verið rétt gengið frá festingu taugar í bátinn.  (Skýrsla Ranns.nefndar sjóslysa 2006).  

2009:  Herdís brennur norðan Blakkness

Tveir sjómenn sluppur heilir á húfi og var síðan bjargað yfir í annan bát, eftir að eldur gaus skyndilega upp frammi í lúkar á handfærabátnum Herdísi SH þegar báturinn var staddur um 12 sjómílur út af Blakksnesi, sunnan við Patreksfjörð, 20.maí 2009. Skipverjar voru þá aftur á bátnum að skaka og rétt náðu þeir að senda út neyðarkall áður en þeir blésu út björgunarbát og forðuðu sér frá borði brennandi bátsins.  Línubáturinn Núpur var þar skammt frá og hélt þegar á vettvang og tók mennina um borð en þá var Herdís alelda og brunnin niður að sjólínu. Hún sökk skömmu síðar. Skipverjarnir voru svo fluttir yfir í fiskibátinn Birtu, sem flutti þá í land á Patreksfirði. Eldsupptök eru ókunn.  (Vísir).

2012: Mannbjörg er Krummi sökk

Landhelgisgæslunni barst. 1. maí 2012, neyðarkall frá fiskibátnum Lóu sem stödd var hálfa sjómílu NV af Látrabjargi.  Sagt var að nærstaddur bátur; Krummi, væri kominn á hliðina og skipverji kominn í sjóinn.  Björgunarskipið Vörður hélt til aðstoðar, en kl 21 tilkynnti skipverji Lóu að hann hefði náð manninum úr sjónum; þrekuðum en ómeiddum.  Farið var með hann til Patreksfjarðar.  Krummi var frambyggður plastbátur; um 6 m langur, frá Reykjavík.

2013:  Hafbáran tekur niðri við Blakk

Trillan Hafbáran BA-53 tók niðri við Blakknes innanvert 11. janúar 2013; um 1,5 sjómílur innan við Blakknestá.  Skipstjóri sagðist hafa siglt grunnt á hægri ferð í þeim tilgangi að kanna botnlag vegna fyrirhugaðra grásleppuveiða.  Hann hafi verið á 9 faðma dýpi þegar skyndilega grynnkaði, líklega vegna berggangs sem lægi frá fjallinu í sjó.  Samkvæmt AIS-kerfi var þó siglingin nær landi og á grynnri sjó.  Skemmdir urðu á skrúfu og kili bátsins.  Taldi rn sjóslysa að aðgæsluleysi skipstjóra hefði verið um að kanna (úr skýrslum rannsóknanefndar sjóslysa).

2014: Trilla sekkur vestur af Látrabjargi

„Mannbjörg varð þegar Eldey BA, sjö tonna smábátur sem gerður var út frá Patreksfirði, sökk á Vestfjarðamiðum 7. maí 2014. Það var kl. 13.01 sem Landhelgisgæslunni barst hjálparbeiðni frá bátnum, en einn maður var um borð.  Báturinn, sem var staddur 20 sjómílur NV af Látrabjargi, var þá orðinn nokkuð siginn vegna leka. Óskað var eftir aðstoð nærstaddra skipa og báta, björgunarskip á Patreksfirði var kallað út auk þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flaug vestur á bóginn“ (Morgunblaðið 08.02.2014).

2015: Bátur alelda og sekkur út af Patreksfirði

„Mánudaginn 10. ágúst kom upp eldur á handfærabátnum Öngli BA-21, þar sem báturinn var að veiðum djúpt út af Patreksfirði. Skipstjóra bátsins tóks ekki að senda út neyðarkall, en skipverji á bát sem var ekki langt frá Öngli sá að reykur lagði frá Öngli og hélt strax að bátnum, þá hafði skipstjóri gert tilraun til að slökkva í bátnum, en eldurinn orðinn það mikill að hann réð ekki við neitt. Skipstjóri Önguls fór því yfir í bátinn sem kom að og fljótlega varð Öngull alelda og sökk skömmu síðar“. (Lögreglan á Vestfjörðum).

2018: Núpur strandar utan við Patrekshöfn

Línuveiðiskipið Núpur frá Patreksfirði strandaði rétt utan við Patreksfjarðarhöfn 25.11.2018.  Varðskipið Þór náði að koma bátnum á flot eftir að það kom á staðinn, en það var sent vestur eftir að tilkynning barst um strandið. Fjórtán manns voru um borð í bátnum þegar hann strandaði en engin slys urðu á fólki. 

  

Eftirmáli

Þessi annáll er unninn upp úr allmörgum heimildum, eins og fram kemur.  Drýgst hafa reynst þrjú söfn. Í fyrsta lagi það sem Egill Ólafsson safnamaður á Hnjóti skráði, að mestu eftir Össuri A. Guðbjartssyni á Láganúpi; í öðru lagi safn Eyjólfs Sveinssonar á Lambavatni og í þriðja lagi safn Trausta Ólafssonar prófessors.  Annað er tekið eftir allmörgum heimildum, og eru nokkrar þeirra listaðar hér á eftir.  Þó leitast sé við að láta heimildir segja þessa sögu er sumsstaðar brugðið upp skýringum og hugleiðingum mínum.  Tilgangur þess er öðrum þræði að skapa heildarmynd þar sem þess er þörf, með því að velta upp tilgátum, en hinsvegar einnig til að hvetja til umhugsunar; einkum varðandi elstu tíma.

Ef frá eru talin örfá tilvik frá fyrri öldum, tekur skráin í raun ekki nema til einnar aldar af 1200 ára sögu siglinga á þessu svæði; og vantar þó verulega á að hún sé fullkomin um þau heldur.  Fjöldi sjóslysa sem orðið hefur fyrr á öldum er gríðarlegur, sé hugsað til þess hve slys á síðari tímum eru algeng.  Í dag róa menn til fiskjar á tiltölulega öruggum bátum búnum öflugum vélum, gúmbátum, talstöðvum og öðrum öryggisbúnaði.  Menn hafa góða vitneskju um það hvernig veður og sjólag verður í róðrinum og eiga örugga landtöku.  Ekkert af þessu var fyrir hendi fyrr á öldum.  Bátar voru eflaust af misjöfnum efnum og gæðum; þörfin til sjóferða var oft knúin áfram af hungri eða ágirni höfðingjavaldsins; bátar voru opnir og án nokkurs öryggisbúnaðar; sundkunnátta var engin og landtaka varð fljótt tvísýn ef veðurlag breyttist.  Látraröst og Blakknesröst heimtuðu sinn toll af mannslífum, og það gerði líka brimið við ströndina, sem gat ýfst upp án mikils fyrirvara.  Erfitt er fyrir nútímafólk að setja sig til fulls inn í aðstæður til sjósóknar fyrr á tímum.

Við munum aldrei þekkja til fullnustu sjóslysasögu þessa svæðis eða annarra.  En vonandi verður þetta yfirlit til þess að vekja lesendur til umhugsunar um þær fórnir sem færðar hafa verið til að skapa núverandi samfélag og halda lífinu í þessari eyðjóð.

Rauðasandshreppur, og ekki síst Útvíkurnar, var löngum ein helsta matarkistan á þessu landshorni.  Þangað sóttu menn víða að til útróðra vegna hinna gjöfulu fiskimiða stutt undan landi og sæmilegrar lendingaaðstöðu fyrir fyrri tíðar árabáta.  Með vélvæðingu bátanna fluttust hinar fornu verstöðvar lengra inn í firði; þar sem hafnaraðstaða var fyrir hendi.

   VÖ

Heimildir:

 1. Samantekt Egils Ólafssonar um skipströnd í Rauðasandshreppi á síðari hluta 19. aldar. Heimildarmaður Egils fyrir þessari samantekt var Össur A. Guðbjartsson frá Kollsvík (31. okt 1866- 10 apríl 1950).  Jóhann Ásmundsson, þá safnvörður á Hnjóti, skrásetti eftir handritum Egils.
 2. Látrabjarg; Magnús Gestsson; útg 1971. Í bókinni er kafli um skipsströnd undir bjarginu, og eru þálifandi Látramenn meðal heimildarmanna Magnúsar.
 3. Ljós við Látraröst; endurminningar Ásgeirs Erlendssonar bónda á Hvallátrum; skráðar af Einari Guðmundssyni á Seftjörn.
 4. Landnámabók Ara fróða Þorgilssonar og ýmis rit um hana.
 5. Örnefnaskrár jarða í Rauðasandshreppi
 6. Yfirlit yfir sjóslys í Rauðasandshreppi eftir 1750; Trausti Ólafsson skráði; birt í Árbók Barð 2003
 7. Aldabækurnar, s.s. Öldin sextánda, sautjánda, átjánda; nítjánda o.fl.
 8. Hákarlaskip í Rauðasandshreppi. Samamtekt Egils Ólafssonar eftir ýmsum heimildamönnum.
 9. Niðjatal Guðbjartar og Hildar á Láganúpi.
 10. Skipsströnd í Rauðasandshreppi; samantekt Eyjólfs Sveinssonar Lambavatni, birt í Ægi 5.tbl 1936.
 11. Þjóðviljinn, Tíminn, Morgunblaðið og fleiri fréttamiðlar.
 12. Trýnaveður; frásögn Jochums Eggertssonar.
 13. Sjórán og siglingar; rit Helga Þorlákssonar sagnfræðings.

o.fl.

 

Leita