Hér eru dregnar saman frásagnir Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi af mannlífi fyrr á tímum; einkum af útræði í Kollsvíkurveri.  Einnig eru merkar lýsingar Hildar Magnúsdóttur konu hans af þeim þáttum sem einkum sneru að verkum kvenna á þeim tíma. 

Efni:   (Flýtival með músarsmelli á efnisflokk)

Guðbjartur Guðbjartsson og Hildur Magnúsdóttir.  Stutt æviágrip.
Kollsvíkurver
.  Viðtal JB við Guðbjart á Láganúpi; birt í Sunnudagsblaði Þjóðviljans 1964.
Þáttur konunnar.  Viðtal JB við Hildi Magnúsdóttur um kvennastörf fyrr á tíð.
Lóðir í Kollsvíkurveri.  Guðbjartur segir frá upphafi lóðanotkunar í viðtali við EÓ.
Bátar í Kollsvíkurveri um 1900.  Bátar og formenn í Verinu í upphafi saltfiskverkunar.

 

Guðbjartur Guðbjartsson og Hildur Magnúsdóttir

gudbjartur og hildurGuðbjartur Guðbjartsson (15.07.1879 – 01.10.1970) fæddist i Kollsvík; yngstur 19 alsystkina.  Þar ólst hann upp, en föður sinn missti hann ungur.  Guðbjörg systir hans og Torfi Jónsson maður hennar sáu um heimilið, en þau áttu 13 börn.  Barnmargt var því á heimilinu.  Í fyrstu var Guðbjartur vinnumaður í Kollsvík.  En 1904 fórst Torfi af slysförum í Snorralendingu, og tók Guðbjartur þá við ráðsmennsku.  1909 giftist Guðbjartur konu sinni, Hildi Magnúsdóttur sem ólst að mestu upp á Kollsvíkurheimilinu.  Þau hófu búskap í Tröð, en fluttu þaðan að Hnjóti 1920, þar sem Málfríður systir Guðbjartar var nýorðin ekkja eftir móðurbróður Hildar.  Þaðan fluttu þau árið eftir á hjáleiguna Grund í Kollsvík, en 1927 fengu þau jörðina Láganúp til ábúðar,og bjuggu þar síðan.  Guðbjartur var fyrst og fremst bóndi; annálaður fyrir natni sína við skepnur; fjárglöggur með afbrigðum og atorkumaður í hvívetna.  Hann var afkastamesti grjóthleðslumaður sem um getur á svæðinu; eftirsóttur til þeirra verka víða um sveitir, og standa enn stæðilegar hleðslur víða, sem minnisvarði um þá list. 

gudbjartur laganupi yngriUngur að aldri byrjaði Guðbjartur að sækja sjó, og lengi hafði hann félagsútgerð með frænda sínum Ólafi Halldórssyni frá Grundum.  Saman gerðu þeir út bátinn Rut til 1925 að Guðbjartur hóf að gera Rutina út með sonum sínum; framundir 1940.  Sjósóknin vóg oft þyngra en búskapurinn í öflun lífsbjargar.  Guðbjartur var hafsjór af fróðleik sem varðaði fyrri tíma atvinnuhætti og margt fleira.  Hann flíkaði ekki sinni þekkingu, en var þó jafnan tilbúinn að svara þeim sem spurðu.  


hildur magnusdottirHildur Magnúsdóttir fæddist í Breiðuvík 16.08.1889; dóttir Önnu Guðrúnar Jónsdóttur sem síðar varð kona Össurar bróður Guðbjartar.  Faðir Hildar var Magnús Árnason á Hnjóti, sem var þá giftur annarri konu.  Hildur ólst að mestu upp hjá móður sinni í Kollsvík.  Þau Guðbjartur giftust 1909 og hófu búskap í Tröð, kotbýli í Kollsvíkurlandi, en bjuggu síðar á Grund og Láganúpi, eins og áður segir.  Hildur var fremur lágvaxin og fíngerð kona; myndarleg og afskaplega dugleg, handlagin og vandvirk.  Oft mæddi mikið á henni, t.d. er hún stóð ein fyrir heimili með börnum sínum þegar Guðbjartur var við róðra.  Ekki síður vegna veikinda Guðbjartar, en hann fékk slæm þunglyndisköst; stundum svo að hann var langtímum frá verki.  Þau eignuðust 10 börn og af þeim komust 9 til fullorðinsára.  

 

Kollsvíkurver

Verstöðvum og búskap í Kollsvík er ágætlega lýst í þessu viðtali Jóns Bjarnasonar sem birtist í Sunnudagsblaði Þjóðviljans 1964.  Rætt er m.a. við Guðbjart Guðbjartsson og Hildi Magnúsdóttur á Láganúpi.  Einnig Kristján Júlíus Kristjánsson frá Grundum.

jon bjarnasonJón Bjarnason (1909-1967), þáverandi ritstjóri Sunnudagsblaðs Þjóðviljans, ritaði eftirfarandi grein í blað sitt, eftir ferðalag um Rauðasandshrepp árið 1964.  Jón var fæddur og uppalinn á Laugum í Dalasýslu.  Fylgdarmaður hans í þessari ferð var Gunnar Össurarson frá Kollsvík; þá búsettur syðra.  Greinarnar birtust í 6., 7., 8. og 9.  tölublöðum 4.árg. Sunnudagsbl.Þjóðviljans árið 1964. 

 


„Vermannabúðir hafa þar til forna verið“.
Af háfjallinu lítum við niður á Blakkinn og hafið fyrir utan; sólglitað og kyrrt til ysta sólarhrings.  Af brúninni nokkru neðar liggur víkin framundan.  Haf og land í svo friðsælum faðmlögum þessa stundina að hvergi kögrar við stein.  Upp af víkinni hóflaga láglendi; tún og þrír bæir.  Innan stundar nemum við staðar á hlaði bæjarins sem fyrr er komið til; Kollsvíkur. 

Kollsvík er landnámsjörð þess er var fóstbróðir Örlygs, sem Örlygshöfn er kennd við; um það ber öllum heimildum saman.  Svo virðist sem þá fóstbræður hafi greint töluvert á, þvi Örlygur hafði með sér „plenaríum, járnklokku og gullpening og mold vígða“ og hafði heitið heilögum Patrek fóstra sínum í Suðureyjum að helga Kólumkilla byggingu þá er hann reisti í nýju landi.  Þessu var á annan veg farið um Koll.  Er þeir fengu storma við Ísland „hét Örlygur á Patreks biskup fóstra sinn til landtöku þeim, og að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni þar sem hann tæki land“.  Og enn í dag heitir fjörðurinn sem hann lenti í Patreksfjörður, eftir heilögum Patreki biskupi á Suðureyjum.  En Kollur hét á Þór, segir sagan.  „Þá skildi að í storminum, og kom hann þar sem Kollsvík heitir; og braut hann þar skip sitt“. 

Hér verður ekki fylgt þeirri tísku að láta í ljós efasemdir um að þeir Kollur og Örlygur hafi nokkru sinni verið til, en bent á að frásögnin af landtöku þeirra gæti hafa litast í höndum höfundar eða afritara.
Það þarf engan sjómann til að skilja hversvegna sá þeirra fóstbræðra sem tekur land langt inni á Patreksfirði kemst slysalaust á land með hafurtask sitt, en hinn sem lendir í stormi í skeifulaga vík fyrir opnu hafi brýtur skip sitt.  Af frásögn söguritarans skilst að orsökin til þess hve misvel þeim ferst landtakan er sú að Örlygur hét á kaþólskan biskup, en Kollur á hinn heiðna Þór.  Verður tæpast varist þeirri hugsun að hér stjórnist höfundar af guðstrúareinfeldni eða klerklegum áróðri, samkvæmt þeirri kaþólsku siðfræði að tilgangurinn helgi meðalið.  Ekki meira um það.

Kominn heim 
Skammt niðri á túninu er fólk að breiða töðu.  Þangað stefnir nú Gunnar, og áður en ég átta mig hefur hann fleygt af sér jakkanum og þeytir töðunni umhverfis sig.  Kveðjur verða auðsjáanlega að bíða þar til á eftir.  Augsýnilega er honum kunnugt hve dýrmæt bóndanum er hver stundin á svona blessuðum sólskinsmorgni.  Svo eru töðusætin öll að velli lögð og Gunnari er heilsað sem hinum glataða syni.  Hann er kominn heim.  Hér í Kollsvík leit Gunnar fyrst dagsins ljós; hér sleit hann barnsskónum; hér dró hann fyrst fisk sinn úr hafinu.  Og hér hefur hann áreiðanlega gert fyrsta smíðisgrip sinn.

Ættarsetur um aldir
Í Kollsvík býr Ingvar Guðbjartsson og kona hans Jóna Snæbjörnsdóttir Thoroddsen, en á Láganúpi býr Össur bróðir hans og kona hans Sigríður Guðbjartsdóttir.  Vart þarf að taka fram að báðir eru þeir komnir af þeirri Kollsvíkurætt sem dr. Trausti Ólafsson frá Breiðavík gerði landskunna með riti sínu.  En ætt þessi mun nú ekki aðeins dreifð um allt Ísland, heldur og þrjár heimsálfur!  Hér bjó Einar, forfaðirinn, sem raunar var innst úr Breiðafirði; frá Hallsteinsnesi við Þorskafjörð.  Síðan hafa afkomendurnir búið hér hátt í tvær aldir.

Gegnt opnu Grænlandshafi
Að lokinni nokkurri dvöl í Kollsvík höldum við dvölinni áfram yfir að Láganúpi.  Það er drjúgur spölur  milli bæjanna.  Á miðri leið er Stekkjarmelur, en þar var búið til ársins 1962.

Á hverju hefur fólkið lifað í þessari vík frá upphafi Íslandsbyggðar?  Fjöllin hér fyrir ofan eru, sem víðast hvar á Vestfjörðum, gróðurlaus grjóturð; réttnefnd öræfi.  Láglendið í víkinni hefur frá upphafi verið mýri, fljótandi í vatni, þar til núverandi bændur hafa með miklum dugnaði breytt stórum spildum í rennislétta töðuvelli.  Hér hefur því ekki verið land fyrir fjárhjarðir sem búskapurinn gat byggst á.  Að vísu mun notadrjúgt land suður með sjónum, sunnan Hnífa og í Breiðnum, en samt myndu bændur vanir heiðalöndum tæpast setjast hér að.
Við fáum svar við þessari spurningu.  Erindi okkar Gunnars er einmitt að rifja upp vitneskju um lífið hér fyrrum.  Og sjórinn hefur löngum verið hið „hálfa líf“ þeirra er hér bjuggu.  Á Láganúpi er Guðbjartur, faðir fyrrnefndra bræðra.  Hann er nú 85 ára og hefur allan sinn aldur verið í Kollsvík og er hverjum manni kunnugri sögu byggðarinnar á þessari öld.  Og við höfum ekki lengi verið á Láganúpi þegar Gunnar hefur fengið þennan frænda sinn til að varpa af sér kyrrsetufeldinum.  Það kemur glampi í augu Guðbjarts þegar hann fer að rifja upp lífið í Verinu; Kollsvíkurveri, þegar hann var ungur.  Kollsvíkurver er gömul verstöð; líklega frá landnámstíð, og Guðbjartur réttir okkur Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns til sönnunar því að Verið hafi ekki fyrst orðið til á öldinni sem leið.  Við skulum líta á hvað Jarðabókin segir:

„Stærri skip væru heppilegri“
Í Jarðabókinni segir að árið 1703 hafi á Láganúpi verið 8 manns í heimili og á hjáleigunum, Hólum og Grundum 9 manns, eða samtals 17 manns.  „Heimræði er þar ár um kring, en á vorið er þar vertíð frá sumarmálum til þingmaríumessu“.  Þá segir að þar gangi nú árið um kring 3 þriggja manna för, og eigi Guðrun Eggertsdóttir á Bæ á Rauðasandi tvö þeirra.  Innan sviga segir Árni á erlendu máli: „Stærri skip væru heppilegri segja bændurnir“.  Í svigaathugasemd annarsstaðar í bókinni telur Árni að jarða- og skipaeigendur hafi bátana svo litla í því augnamiði að ná undir sig sem flestum „skipshlutum“!  Ennfremur segir að á vorvertíð gangi auk þess frá Láganúpi 2 þriggjamannaför; 1 fjögurramannafar og 1 fimmmannafar.

Vermannabúðir hafa verið þar til forna verið
Þá segir ennfremur:  „Vermannabúðir hafa þar til forna verið 18.  Nú eru þar uppi 4, sem þessar inntökuskipshafnir liggja við.  Við til þeirra leggur landeigandi.  Sumum af þessum búðum hefur til forna ketill fylgt, nú öngum.  Lyng til eldiviðar rífa vermennirnir í Láganúpslandi frí.  Þar er engin skipaleiga.  1 skipshlutur.  Allur fiskur skiptist að jöfnu, þá skipt verður.  Seglfiskar, maðkafiskar engir.  Lóðir kunna ei brúkast sökum strauma.  Segl brúkast þar (á heimaskipinu öðru landsdrottins leggur formaðurinn það til).  Lending í Láganúpslandi er nærri ótæk sökum brims og grynninga.  Seila menn allan fenginn út og flytja svo skipin í eina lending sem er í Kollsvíkurlandi og setja þau þar upp...   Beita er maðkur og brandkóð (smálækjasilungur).  Item heilagfiski á vor.  Manntalsfiskar engir.  Hospitalshlutur skiptist þar.  Seilarólar og seilastrengi leggja skipaeigendur til með skipunum“.

Kollsvíkurver
Af þessu er ljóst að þótt vermannabúðir hafi til forna verið í Láganúpslandi, þá hefur uppsátrið raunverulega verið í Kollsvík, og þangað færast verbúðirnar einnig síðar.  Um Kollsvík segir Jarðabókin m.a.:

„Verstaða er þar ekki né hefur verið, nema því aðeins að stundum hafa þar gengið 2 skip og nú eitt skip sýslumannsins; Ara Þorkelssonar, þriggjamannafar.   Heimamenn gjalda engan toll af því veri, en aðkomandi fimm álna toll; nema fyrir góðvild sé eftir gefið.  Heimabúenda skip ganga nú tvö af hvors hendi, allt smábátar og þriðji bátur sem bróðir Jóns (annars bóndans; bróðirinn stundaði aðeins sjó) á og er formaður fyrir.  Þegar veður er ógæft gengur ei nema eitt skip af hvors bónda hendi, og fleyta þá hvörju því allir hásetar af bátunum“.  á Kollsvíkurbæjunum tveimur voru þá 20 manns; eða samtals á bæjunum í víkinni 37 manns.

Raunsönn lýsing
Í Jarðabókinni eru svör bændanna við spurningum þeirra Árna og Páls.  Hún er þannig unnin að hún er talin besta heimild sem nokkur Evrópuþjóð hefur á þessum tíma um hag þjóðar og ástand landsins.  Þeir félagar hafa auðsjáanlega spurt ýtarlega; ekki aðeins um kosti heldur og kvaðir þær og álögur sem landsmenn bjuggu við.  Að vísu virðist ókostum mjög á loft haldið.  „Af illum er jafnan ills von“ og þá sem nú bjuggu landsmenn við illa stjórn.  Munurinn þó sá að þá laut þjóðin erlendu einræði; nú er stjórn landsins á ábyrgð Íslendinga.  Er ekki ósennilegt að landsmenn hafi átt von á að álögur og kvaðir yrðu þyngdar á þeim ef þeir héldu kostunum óþarflega fram.  Samt er Jarðabókin raunsönn lýsing á högum þjóðarinnar og landinu á þessum tíma.

Voru ungir í Verinu
Næst höldum við svo niður í Kollsvíkurver.  Það gengur hvít skeljasandstunga alllangt upp í gróðurlendið.  Kollsvíkurmegin við hana er verstöðin.  Við erum svo heppnir að hafa ekki aðeins Guðbjart að leiðsögumanni, heldur eru og Júlíus Kristjánsson í Efri-Tungu og Ólafur Halldórsson báðir staddir hér, og eru nú allir á leið „í verið“, en allir þessir þremenningar voru vermenn hér frá æsku langt fram á fullorðinsár.  Eftir þeim, en einkum Guðbjarti, er það einkum haft sem hér verður frá sagt. 

Í Kollsvíkurveri

sg veridFrá veginum og niður í Verið er farið eftir grasbala sem er nokkru hærri en umhverfið.  Víða er þar hvítt í rót, er segir okkur að grund þessi sé uppgróin alda úr skeljasandi.  Við göngum úr bílnum neðarlega á grasbalanum.  Framundan, niðri á bakkanum, er veggur við vegg; sumir hálfsokknir, aðrir hálfhrundir eða rifnir.  Sumsstaðar marka aðeins nokkrir hálfsokknir undirstöðusteinar fyrir þar sem verbúðir hafa staðið, en nokkrir veggir eru enn uppistandandi í nær fullri eða fullri hæð. 

Sólin skín og lognaldan sleikir fjörusandinn.  Vermennirnir gömlu verða á svipstundu ungir í annað sinn.  Þeir lifa hér liðna sögu; sjá horfin andlit og liðna atburði; allt verður þeim saga hér.  Og þeir taka að ræðast við; þylja nöfn sem okkur hinum eru framandi, og minnast atburða með meiri hraða en eftir þeim verður haft.  Vafalaust höfðu þeir margs frásagnarverðs að minnast ef tóm hefði gefist til.  (Myndin er af málverki eftir Sigríði Guðbjartsdóttur á Láganúpi og sýnir báta koma í lendinu í Verinu).

Milljónafélög hverfa – grasið heldur velli
Það rennur lítill lækur til sjávar gegnum mitt Verið.  Á báðum bökkum hans hafa verbúðirnar staðið. Hluti annars bakkans er þakinn hvítum sandskafli, en það hindrar vermannina gömlu ekki í að segja frá.  Þeir vita nákvæmlega í hvaða röð búðirnar voru.  Þar sem aðrir sjá aðeins sandskafl sjá þeir nú í huganum búðir og menn að störfum.  „Þessi veggur var steinbítshrýgja, .... þessi bunga (úr sæbörðu grágrýti) var fiskreitur“ o.s.frv.  Hér á bakkanum byggði Milljónafélagið salthús fyrir aldamót, og það líður ekki á löngu þar til þeir hafa fundið undirstöðu þess niðri í grassverðinum.  Nú eru þarna aðeins einstöku steinar sjáanlegir upp úr mjúkum grassverði bakkans.  Milljónafélög stofnast og splundrast; salt leysist sundur; hús grotna; milljónarar og öreigar ljúka æviferli og eru lagðir til hvíldar, en grasið heldur velli og þekur amstur og spor kynslóðanna mjúkum angandi feldi; svo lengi sem sólin skín.  Og nú skulum við kynnast einhverju broti af því sem þremenningarnir rifjuðu upp.

Gömul verstöð – Ný verstöð
„Fyrst þegar ég man eftir“, segir Guðbjartur sem er aðalheimildarmaður þess sem hér verður sagt, „... reru hér ekki nema heimamenn.  Þegar farið er að fiska þorsk á lóðir hefst aftur fyrir alvöru verstöð fyrir aðkomumenn.  Þeir byrjuðu á Látrum á vorin og færðu sig svo í Kollsvík þegar fiskur var genginn norðar“.

„Hvenær var byrjað með lóðir, og hver gerði það“?
„Byrjað var með lóðir í Kollsvík vorið 1894.  Hákon Jónsson (móðurbróðir Gunnars Össurarsonar) byrjaði með þær.  Taumarnir voru fyrst unnir úr frönskum línum; raktir úr þeim.  Hákon mun hafa verið einn með lóðir fyrsta vorið sem þær voru notaðar hér.  Þórður Guðlaugsson kom með þessa nýjung frá Djúpi“.

„Þá hafa ekki verið frystihús með beitusíld; hverju beittuð þið“?
Það var beitt hrognkelsi og steinbítsgormi.  Seinna var svo farið að beita kúfiski.  Ég held að Einar heitinn í Hringsdal hafi fyrstur manna notað kúfiskplóg, en aðrir segja að Sumarliði gullsmiður, ömmubróðir minn (Guðbjartar) hafi fyrstur verið með hann“.

Milljónafélag - Útflutnings“höfn“
„Þegar farið er að fiska þorsk á lóðir hefst verstöð fyrir aðkomumenn aftur fyrir alvöru, og munu hafa verið 25 eða 26 sem voru hér með lóðir um skeið.  Þá hefur verið hundrað manns í Verinu, en heimamenn í Kollsvík bjuggu í Verinu á vertíðinni.  Þangað til farið var að nota lóðir var mest fiskaður steinbítur og hann var hertur.  Þorskurinn var saltaður og þurrkaður“

„Var þá fiskverkunarstöð“?
Já, menn verkuðu fiskinn sjálfir.  Milljónafélagið byggði hér salthús; þarna á balanum (og nú benda þeir enn þangað sem gráir sæbarðir steinar gægjast upp úr grasinu) árið 1898, og það mun hafa staðið fram um 1910.  Maður að nafni Gísli Sigurðsson smíðaði það.

Fiskurinn var þveginn í körum, læknum og jafnvel bátum.  Þegar þvegið var í bátum var bátnum hallað aftur og þvegið í skutnum beggja megin frá“.

Fiskbein til manneldis
„En hér var engin höfn; hvernig fluttuð þið saltið hingað og fiskinn burt“?
„Saltið var mest flutt hingað frá Patreksfirði í bátnum Kára.  Saltfisknum var oft skipað út í flutningaskip er lögðust hér fyrir utan og tóku hann.  Stundum komu líka skip er sóttu þurrkuð fiskbein og fluttu þau á staði þar sem beinakvarnir voru, og þau voru möluð.  Fiskbein voru líka geymd og þurrkuð; barin og notuð bæði fyrir menn og skepnur.  Eitt hundrað af steinbítshausum var metið til jafns við eina alin af heyi og 100 af hryggjum var líka metið til jafns við 1 alin.  Við gömlu búðirnar voru reitir til að þurrka beinin“.

Tollur – Hrísrif
„Nú segir í Jarðabókinni um toll sem hver skipshöfn var látin greiða í verstöðvunum; var sú venja ekki enn við líði“?
„Jú, greiddur var 12 kr. tollur af hverju fjögurra manna fari.  60 steinbítar gerðu þá 12 kr.  Auk uppsáturs, búða og reita höfðu vermenn einnig ókeypis hrísrif til eldiviðar og eyddist hrís og lyng mjög á þessum árum“.  (Hér kemur skýring á berangrinu, strax og kemur upp fyrir láglendismýrarnar).

„Var þá engin mótekja hér“?
„Jú, það var stunduð mótekja allt þar til fyrir 10 árum, og það er hér mikill mór; en erfitt er að taka hann vegna vatns.  Þegar kom að botni, sprakk hann upp vegna vatnsþrýstings“.

Róðrar
„Hvenær hófst svo vertíð á vorin“?
„Það var alltaf byrjað á einmánuði að þvo fisk frá haustinu áður, og um sumarmál að hvolfa upp bátunum og sjóbúa þá.  Róðrar hófust svo strax og gaf“.

Hvernig var róðrum hagað“?
„Róið var eftir föllum; oftar á flóði en fjöru.  Komið var að landi um fjöru og alltaf tvíróið.  Byrjað var að leggja norður eftir og byrjað að draga þegar fór að lina straum.  Beitt var kúfiski, og hafði báturinn 10 lóðir eða 1000 króka.  Við höfðum skeljar í poka og skárum úr meðan legið var yfir.  Þegar var stórstraumur var þetta erfitt verk því alltaf var „beitt út“; þ.e. línan var dregin með borði; ekki innbyrt, og beitt jafnóðum og fiskurinn var tekinn af henni.  Byrjað var að gera að á fjörunni.  Væri mikill afli, var einn maður skilinn eftir í landi við aðgerð, en þrír fóru fram aftur.  Tvíbeitt var í hverjum róðri, og voru þannig beittar 40 lóðir á dag.  Stundum var þríróið; sérstaklega undir hvíldardag.  „Uppstigningardagsmessa“ byrjaði á uppstigningardag (fimmtudag) og var róið látlaust fram á laugardag.  Fyrir kom að það var fimmróið“.

„Er góð lending“?
„Það eru sker fyrir utan, dálítið varasöm ef ekki er rétt farið, en lendingarleiðir voru farnar eftir því hvernig stóð á áttum.  Það voru Miðleið, Syðstaleið og Grynnstasund.  Enn sunnar var snorralending milli Selkolls og norðan Breiðaskers að sunnan“.

Harðfiskur – Bjargfugl
„Hver var aðalmaturinn áður fyrr“?
„Harðfiskur –steinbítur- og fugl voru aðalmaturinn.  Nauðsynjar úr búð voru keyptar fyrir veturinn, en sumir höfðu ekki efni á því og urðu að kría út lán þegar komið var fram á vetur“.

„Sóttuð þið fuglinn í Látrabjarg“?
Já, áður fyrr voru farnar bjargferðir héðan frá Kollsvík.  Guðbjartur Ólafsson var þá aðalbjargmaðurinn.  Fólk lifði þá mjög mikið á fugli.  Þannig átti Erlendur Kristjánsson á Látrum stundum 16 olíuföt með söltuðum fugli“.

Hákarlaveiðar

„Stunduðuð þið ekki líka hákarlaveiðar héðan“?
„Jú, það var hákarlaskip í hverri vík.  Hér var það teinæringur sem hét Fönix.  Hann var notaður fram um aldamót.  Hákarlaskipið á Látrum hét Egill; Dvalinn í Breiðavík, og Svanur í Hænuvík.  Farnar voru nokkrar ferðir til að veiða hákarl þegar kom fram á vetur.  Lifrin var brædd og seld í verslanir.  Hákarlalýsi var og notað heima í bræðing“.

Adam og Eva
„Og búðanöfn“?
„Búðirnar voru oftast kenndar við mennina sem í þeim voru.  Hér voru einkum margir Barðstrendingar; Sigmundur og Rögnvaldur í Hergilsey voru hér eitt vor.  Búð Kollsvíkurmanna hét Heimamannabúð.  Napi eða Napandi hét búðin yst á klettinum við sjóinn, en nyrsta búðin Norðurpóll.  Ein búin hét Rifskinna; önnur Jerúsalem; þá Gómorra, og efsta búðin var kölluð Eva.  Og hjallur sem stóð við neðri gafl hennar hét Adam“.

Strákamelur.  Föst byggð
„Strákamelur heita sléttar þurrar flatir ofan syðstu búðanna, og ber þær nokkuð yfir umhverfið.  Þar þreyttu ungir vermenn leiki áður fyrr.  Þar byggðu svo Sumarliði Bjarnason og Guðrún Ingimundardóttir sér bæ; þurrabúð, uppúr aldamótunum (1900).  Síðar bjuggu þar Gestur Jósefsson og Ingibjörg Runólfsdóttir af Rauðasandi.  Um tíma var líka þurrabúð sem byggð var upp úr verbúðinni Evu“.

Horfnir bæir hvarvetna
„Hve margir bæir hafa verið hér, sem síðan hafa lagst niður“?
„Kollsvík, Láginúpur og Grundir voru lögbýli í Kollsvík, en auk þeirra voru Bakkar þurrabúð; Grund líka þurrabúð, þar bjó Samúel Eggertsson.  Og Stekkjarmelur, þar var grasbýli og þar standa hús, því þar var búið til 1962.  Tröð var hluti af Kollsvíkurlandi og Grænamýri einnig; hún stóð niðri í túninu.  Einu sinni var líka búið á Bergjum; bæ sem stóð ofarlega í Kollsvíkurtúni“.

Nú taka þeir Gunnar Össurarson og Össur á Láganúpi, sonur Guðbjartar, að skrá búðirnar og röð þeirra eftir þremenningunum sem hér voru ungir í Verinu.  Það er meginerindi Gunnars nú hingað að skrá þessa vitneskju um mannlíf og athafnir áður en hún gleymist, og það má ég ekki tefja með aulalegum spurningum.  Og því sest ég á gamlan verbúðarvegg og reyni að hugsa mér mannlífið hér um síðustu aldamót.  Það hafa fráleitt verið stroknar samkvæmishetjur sem höfðust við í þessum húsum; hlöðnum úr torfi og grjóti (grjóti eingöngu að innan), en þeir höfðu hugsun og reisn til að vilja vera menn.  Það var þeirra kynslóð sem eindurheimti fullveldi landsins úr 6 alda erlendri áþján.  Þessir menn hugsuðu ekki um að lifa flott á því að leigja land; selja land.

kollsvikurver uppdrattur

„Er höldar sigldu í sólareldi...“
Víkin var böðuð mildri kvöldsól.  Það voru að byrja að koma skuggar undir veggjunum sem enn standa þar sem áður var bærinn Grundir.  Víkurbyggðin böðuð mjúku sólskini; jafnvel grjóturðin fyrir ofan varð mild og hlý á svip.  Allt varð kyrrt og hljótt nema skvaldrið í sjófuglunum og lágværar raddir manna við hljóðlátan seitlandi lækinn.  Sjórinn kyrr og glóandi, þar til hann rann saman við bjartan himininn.

Þeir Gunnar og Össur eru teknir að skrásetja nöfn og aðrar upplýsingar um Verið í bók eina.  Hér syðra rekumst við á eftirfarandi milli búða- og mannanafna, hripað með hendi Össurar:

Get ég eigi gengin spor
í gömlum rústum fundið.
Eigi heldur elju og þor
í eftirlíking bundið.

Svo tek ég mér bessaleyfi til að enda þessar línur með erindum úr kvæði sem ég heyrði þarna eftir Helgu Ólafsdóttur sem fæddist á Láganúpi og ólst þar upp til tvítugsaldurs; nú roskin kona í annarri byggð.  Vart verður dregin mýkri mynd af Kollsvík og lífinu þar fyrrum en hún hefur gert:

Lækja og sjávar heyrði ég
hátt í lofti fuglaklið hljóma
á mjúkum grundum melablóma
mildum undi vorsins frið

Þá var yndi; þá var leikur
það að skoða og dvelja við.
Hjörð á beit; á bæjum reykur;
bátar leita á fiskimið.

Dýrð var há í vorsins veldi
vafin aftanroðanum,
er höldar sigldu í sólareldi
suður hjá Arnarboðanum

 

Þáttur konunnar

hildur 1964Myndin er af Hildi Magnúsdóttur, sem hér segir frá.

Þeir voru konulausir í Kollsvíkurveri; og þó!  Hver var þáttur konunnar í lífinu í Kollsvík og verstöðinni þar?

Líklega væri að fara í geitarhús að leita ullar að spyrja þremenningana sem fræddu okkur síðast um verstöðina.  Kannski geri ég þeim rangt til.  Samt er alltaf best að fræðast af þeim er sjálfur hefur reynt það sem spurt er um.

Það er kvöld; orðið lágskýjað, og hráslagalegur vindur slítur úr þeim skvettur og slengir framan í þann er í heimsku sinni ætlar að gá til veðurs úti á hlaði.  „Það var alltaf logn þar sem gamli bærinn stóð uppi undir fjallinu“, segja þeir,... „en þangað var ekki hægt að láta vatn renna, og því var nýtt hús byggt neðar“. 

Þótt úti nauði hráslaginn er hlýtt í Kollsvíkureldhúsinu í kvöld.  Við skulum setjast hjá Hildi Magnúsdóttur, konu Guðbjartar Guðbjartssonar, og fræðast af henni um þátt konunnar í lífinu í Kollsvík og verstöðinni þar.

„Hvað ætti ég að geta frætt þig um góði minn?  Ég er ósköp hrædd um að það verði lítið“, segir Hildur.
„Það er áreiðanlega margt sem einmitt þú getur frætt mig um; sem þú veist en ég ekki, en langar þó að vita“
„Og hvað ætti það svosem að vera?  Það hefur ekkert óvanalegt komið fyrir mig.  Ég hef engu að segja frá, nema ósköp venjulegu lífi og hversdagslegum hlutum“.
„Já, það er einmitt það sem ég vil vita; hvernig hið daglega líf var hér áður fyrr, en um það veit ég ekki neitt“.
„Já, ég ætti nú kannski að geta sagt þér það“.

Spunnið og fléttað
„Höfðuð þið kvöldvökur hér í Kollsvík“?
„Já, það voru alltaf kvöldvökur hérna“
„Hvenær byrjuðu þær?  Strax á haustin“?
„Fyrst á haustin var setið í rökkrinu og prjónað.  Þegar kom fram á skammdegið lagði eldra fólkið sig í rökkrinu.  Kvöldvökur byrjuðu að lokinni sláturtíð, eða um veturnætur“.
„Hvernig voru þessar kvöldvökur; hvað var gert“?
„Það var kveikt kl 6-7; þá var miðdagsmatur.  Ekkert hafði verið borðað frá því kl 10 árdegis, en kl 12 á hádegi var kaffi fyrir fullorðna en grasate fyrir börn og unglinga.  Þegar lokið var við að borða og drekka kaffi var sest að ullarvinnu.  Konur spunnu; karlmenn táðu, greiddu hrosshár og spunnu það á vinglu, eða fléttuðu reipi og brugðu gjarðir.  Mamma brá líka gjarðir, svo það voru ekki karlmenn einir um“.

Þjóðsögur  Íslendingasögur
„Alltaf var einn að lesa eða kveða rímur...“
„Og hvað var lesið eða kveðið“?
„Það voru lesnar þjóðsögur Jóns Árnasonar; Íslendingasögur; Fornaldarsögur Norðurlanda og skáldsögur o.fl.  Kveðnar voru rímur af Þorsteini uxafæti; Hálfdáni Brönufóstra; Sörlarímur eftir Össur Össurarson á Látrum; rímur af Reimari og Fal; Líkafrónsrímur og Bertramsrímur o.fl.  Það var einkum Össur (faðir Gunnars) sem las og kvað rímur.  Hann átti skrifaða bók af Maroni sterka“.

Fjallagrös – Péturskver
„Hve lengi stóð kvöldvakan“?
„Vakan var til kvöldmatar kl 9.  Það var oftast flautir og bygggrautur með fjallagrösum.  Síðan var alltaf lesinn húslestur; sunginn sálmur og lesin bæn úr bænakveri Péturs biskups.  Lesið var um kl 10, og eftir það var farið að sofa.  Þá máttu hjúin vinna eftirvinnu; þá máttu þau prjóna fyrir sjálf sig, en þau urðu að gera það í myrkrinu því ljósmeti var ekkert eftir kl 10 á kvöldin.  Hjú fengu einnig að vinna fyrir sig vikuna fyrir jólin“.

„Já, hvernig voru ljósin“?
"Ljós voru þá lýsislampar, eða þar til ég var 10 ára.  Fyrsti oliulampinn mun hafa komið hér í Kollsvíkina um aldamótin“.
„Og hvenær var svo farið á fætur“?
"Farið var á fætur kl 6, og aldrei seinna en kl 7.  Oftast var kveikt á morgnana og setið við vinnu.  Gegningamenn fóru út ekki seinna en kl 7, og fengu ekkert fyrr en þeir voru búnir að gefa búpeningnum“.

Glettilega fallegir
„Hvernig voru jólin haldin“?
„Jólahald var fábreytt framan af.  Torfi móðurbróðir minn hafði fyrstur manna jólatré hér; það hefur líklega verið um 1903.  Hann smíðaði stórt tré og klæddi greinarnar með eini.  Ég fékk ekki að sjá fyrsta jólatréð; var þá að sitja yfir litlum krakka.  Fyrir jólin voru bakaðar lummur, laufabrauð, kleinur og stór kaka.
Spariskór, jólaskór, voru úr svörtu skinni, bryddir með hvítu eltiskinni og rósaleppar í þeim.  Annars var gengið á skóm úr steinbítsroði heima fyrir.  Þeir voru glettilega fallegir skinnskórnir; svartir með hvítum bryddingum og rósaleppum.  Þeir voru hafðir fram á sumar og farið á þeim til kirkju.
Hangikjöt var alltaf soðið fyrir hátíðirnar.  Á Þorláksmessukvöld var skata og reyktar bringur og kaffi; og svo var spilað á Þorláksmessukvöld“.

Jólaljós og sálmasöngur
„En hvað um jólaljós og trúarsiði“?
„Fyrir jólin voru steypt tólgarkerti; jólakertin, og lifði alltaf ljós á jólanóttina.  Á eftir aðfangadagshugvekju var alltaf sungið:
"Á jóladag; á undan jólaguðspjallinu, var sungið:  „Í dag eitt blessað barnið er; borið og fætt í heiminn...“, o.s.frv.  Á jóladagsmorguninn var lesið snemma.  Við krakkarnir vorum þá oftast í rúminu“.

„Húslestrar“?
„Já, húslestrar hófust strax með vetrinum, og var haldið áfram þar til föstuhugvekjur tóku við.  Síðan var lesin önnur bók; „vorhugvekjur“.  Það var lesið á sunnudögum allt árið“.

Áramótafagnaður
„Nokkur áramótafagnaður“?
„Stundum á áramótum bjuggu menn sig í grímubúninga, og gengu um með kyndla.  Það var aðeins fullorðið fólk; unglingar máttu ekki taka þátt í því.  Svo var spilað.  Aldrei var spilað á aðfangadag jóla, en á jóladag sátu allir við spil og var mest spilað púkk.  Mamma og Torfi bróðir hennar gátu teflt allan jóladaginn.  Mamma kenndi okkur krökkunum tafl“.

Mestmegnis ofið í öll föt
„Hvernig var fatnaðurinn; heimaunninn“?
„Það var mikið ofið á veturna.  Uppistaðan var tvistur; fyrirvaf var ull.  Ennfremur var þráður í uppistöðu og tvistur í fyrirvaf þegar ofið var í milliskyrtur og sængurver sem notuð voru í verbúðunum.  Oft var búið að vefa einn vef og fella niður fyrir jól.  Við krakkarnir réttum í haföldin og skeiðina.  Það var mestmegnis ofið í öll föt; lítið sem ekkert keypt af útlendu fataefni.  nærföt buxur og skyrta voru úr hvítum vaðmálsdúk.  ... Já, og svo varð ég svo fræg að spinna“, segir Hildur og hlær að spurningu minni.

Skinnklæði og útskornir askar
„Eftir hátíðar var varið að elta skinn í brækur og spinna skinnklæðaþráð, en í hann var haft gott tog.  Kálfsskinn var notað í setskauta á brokum og leður í sóla.  Notuð voru elt eða eirlituð skinn.  Ljúka þurfti að sauma öll skinnklæði fyrir vertíð“.
„Nokkrar smíðar“?
„Það voru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar.  Jón Torfason, afi minn, smíðaði flest ílát í sveitinni.  Það voru glettilega fallegir askarnir útskornir.  Hornspænir voru hér ekki algengir“.

Húsakynni
„Hvernig voru húsakynni og eldfæri“?
„Hér í Kollsvík voru tvennar hlóðir.  Eldavél kom þó hingað fyrir aldamót (1900).  Á haustin var farið til lyngrifs og rifið mikið af lyngi.  Fyrir jólin var tekið allt gamalt lyng sem haft var undir í rúmbotnum, og brennt en nýtt látið í staðinn.  Baðstofan sem ég man fyrst eftir var með moldargólfi.  Loft var yfir og þiljað upp fyrir rúmin; síðan var sett reisifjöl“.
„Hvað var reisifjöl“?
„Reisifjöl var slétthefluð borð, óplægð, sett innan á sperrur í gömlum baðstofum helluþöktum; stundum aðeins yfir rúmunum“.

Nóg að gera þegar vermennirnir...
„Unnu konurnar nokkuð í sambandi við verstöðina“?
„Það var nóg að gera þegar vermennirnir voru komnir í Verið.  Þeir fengu þjónustu hjá heimilisfólkinu.  Einu sinni í hörkubyl man ég eftir að vermennirnir flýðu allir heim á bæina.  Þegar bátarnir voru komnir í land var farið með brauð og kökur til þeirra.  Heimamönnum voru færður grautur, mjólk og soðning, en eftir að þeir fengu prímusa suðu þeir sjálfir soðninguna í Verinu á prímus“.

Þær tóku við útiverkunum
„Karlmenn komu ekki að skepnuhirðingu eftir að þeir fóru í Verið.  Konur urðu að bæta þeim á sig, og vinna á túnum.  Vermenn unnu af sér það sem gert var fyrir þá með því að taka upp mó í landlegum.  Kvenfólkið sá umþurrkun hans.  Sauðfé smöluðu menn til rúnings í landlegum.  Vertíð var fram í 10. – 11. viku sumars.  Nokkrir heimamanna réru allt sumarið.
Allir voru í heyskap á sumrin, sem eitthvað gátu.  Kollsvíkursystur; Halldóra og María Torfadætur, slógu.  Annars var ekki algengt að konur væru við slátt, en þær systur misstu föður sinn ungar en voru þó elstar af systkinum, en enginn karlmaður til a slá“.

Vildi heldur róa en eldhússtörf
„En vinnan í sambandi við fuglatekju“?
"Í 16.– 17. viku sumars var farið í fýlunga og veiddist oft mikið. Fýllinn var plokkaður, en fiðrið þurfti að geymast lengi til að losna við lyktina áður en það var notað. Mikið af því var selt.  Svo var fýllinn fleginn og saltaður; það sem ekki var borðað nýtt.  Laukurinn (fitan undir bumbnum) var bræddur til ljósmetis á kolur“.

„Matjurtagarðar“?
„Já, það voru alltaf ræktaðar kartöflur og þær spruttu; og þær spruttu vel.  Það var alltaf sett mánuð af sumri.  Rófur voru einnig ræktaðar.  Þetta tilheyrði vorverkum kvennanna“.
„Notuð fjallagrös“?
„Farið var til grasa á hverju vori eða sumri.  Fjallagrös voru notuð bæði í brauð og grauta.  Það eru reglulega góð rúgbrauð, blönduð með fjallagrösum.  Grasatevatn var búið til úr fjallagrösum og mjólk“.

„En konur hafa þó ekki róið“?
„Magðalena Össurardóttir var 3 vor í Verinu og kvaðst heldur vilja gera það en vinna bæjarverkin.  Hún var um fermingu þegar hún byrjaði í Verinu.  Guðný Ólafsdóttir, Ásbörnssonar bónda á Láganúpi, reri ung með föður sínum.  Tvær konur og unglingar önnuðust heyskapinn.  Konurnar bundu heyið. ... Já, ég batt oft“!

Við þökkum Hildi fyrir skemmtilega frásögn.  Hún hefur lýst ýmsu sem mörg okkar vissu ekki áður.

  

Lóðir í Kollsvíkurveri

Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi segir frá upphafi lóðanotkunar í Kollsvíkurveri.  Skráð af Agli Ólafssyni á Hnjóti.

gudbjartur guðbjartssonGuðbjartur Guðbjartsson var lengst af bóndi á Láganúpi og formaður í Kollsvíkurveri.

Lóðir voru fyrst notaðar í Kollsvík vorið 1894.  Sá sem fyrstur notaði þær var Hákon Jónsson, bóndi á Hnjóti.  Einn af hásetum Hákonar þetta vor var Þórður Gunnlaugsson.  Hann var þá nýfluttur norðan frá Ísafjarðardjúpi að Bröttuhlíð á Rauðasandi, og mun hafa flutt þessa nýjung með sér.  Aðrir hásetar hjá Hákoni þetta vor voru þeir Halldór Benjamínsson bóndi í Keflavík; faðir Hafliða á Látrum o.fl., og Ólafur Jónsson bóndi á Hvalskeri; faðir Sigurjóns alþingismanns, Stefáns bónda á Skeri o.fl.

Til beitu á lóðirnar voru fyrst notuð hrognkelsi, ásamt ljósabeitu.  Fljótlega var þó farið að nota kúfisk, og var hann tekinn inni í Bug, hjá Hvalskeri.  Sá fyrsti sem notaði kúfisk til beitu mun hafa verið Þórarinn Thorlasíus, á Sveinseyri í Tálknafirði.  Og þar sem þessi beita var miklu betri.  Ekki er glöggt vitað hvenær byrjað var að nota kúfiskplóg, en pabbi (Ólafur Magnússon) minnist þess að Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík hafi smíðað kúfiskplóg úr skeifnajárni.  Með honum var m.a. reynt að plægja undir Breiðavíkurrifi, en sú skel sem þar fékkst var mjög smá; aðallega rauðbarði. 

Ívar Ívarsson kemur að upphafi kúfisknotkunar til beitu í pistli sínum um Samvinnufélög í Rauðasandshreppi í Árbók Barðastrandasýslu 1949:  „Markús Snæbjörnsson .... var fyrstur manna hér að láta taka kúfisk og nota hann til beitu á lóðir með góðum árangri“  Útgerð Markúsar blómstraði á milli 1865 og 1898, en óvíst er hvenær hann tók kúfisk fyrst.

 

Bátar í Kollsvíkurveri um aldamótin 1900

Guðbjartur á Láganúpi var hafsjór af fróðleik sem varðaði fyrri tíma atvinnuhætti og margt fleira.  Hann flíkaði ekki sinni þekkingu, en var þó jafnan tilbúinn að svara þeim sem spurðu.  Egill Ólafsson bóndi og safnari á Hnjóti skrásetti þessar upplýsingar eftir honum árið 1962, og Jóhann Ásmundsson safnvörður á Hnjóti kom þeim síðar á heimasíðu Minjasafns Egils.  

 

Í þeirri vík í Rauðasandshreppi er Kollsvík heitir, hafa um aldir verið tvö aðalbýli; Kollsvík og Láganúpur.
Útræði var stundað um aldir frá Útvíkum í Rauðasandshreppi.  En verstöðvar aðkomumanna voru fyrst og fremst í Látravík og Kollsvík; á hverjum tíma á einum stað í hvorri vík.  Framundir 1870 var verstöð fyrir Láganúpsland í (vestanverðri) Kollsvík, og kallaðist Láganúpsver. 

Á áratugnum 1870-1880 færist verstöðin frá Láganúpi og að Kollsvíkurlendingu, og er svo komið 1880 að enginn bátur er gerður út frá Láganúpi, en allmargir bátar róa úr Kollsvíkurveri.  Var Kollsvíkurver síðan aðalverstöð Rauðasandshrepps um hálfa öld, eða fram um 1930.  En síðan fer mjög að draga úr útgerð þar, svo sem á öðrum slíkum stöðum víða um land, og leggst niður að mestu um 1940.

Meðan Kollsvíkurver var í blóma voru þar að jafnaði nokkrir aðkomubátar á vorvertíð.  Árið 1890 eru gerðir út frá Kollsvíkurveri þessir bátar:

Sultur, eigandi Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík, og var hann formaður.  Sultur mun fyrst hafa verið í eigu föður Torfa; Jóns Torfasonar bónda á Hnjóti.

Reitingur, eigendur Magðalena Halldórsdóttir, ekkja Guðbjartar Ólafssonar bónda í Kollsvík, og sonur hennar Ólafur Guðbjartsson er þá var vinnumaður í Keflavík hjá Jóni Gíslasyni.  Formaður á Reitingi var Ólafur Guðbjartsson.

Heppinn, eigandi og formaður Halldór Ólafsson bóndi á Grundum.

Bóndi á Láganúpi var Ásbjörn Ólafsson; átti hann engan bát.

Með fyrstu aðkomubátum í Kollsvíkurver var vöðubátur, en svo voru þeir bátar kallaðir sem notaðir voru til vöðuselsveiða.  Selurinn gekk oft í stórum torfum inn á firðina.  Var hann mikið veiddur, og veiðarfærið var skutull.  Vöðubátar voru frekar litlir; minni en fjögramannaför, en það var hin venjulega stærð róðrarbáta.  Þessir bátar voru öðruvísi lagaðir en róðrarbátar; byggðir með það fyrir augum að vera sem hraðskreiðastir.

Eigendur að fyrsta vöðubátnum í Kollsvíkurveri voru Magnús Árnason bóndi á Hnjóti og Gísli Ólafsson bóndi á Sellátranesi.  Mun báturinn hafa verið aðkeyptur.  Formaður á bátnum var Magnús Árnason.  Hásetar voru Gísli Ólafsson meðeigandi, og Magnús Pétursson vinnumaður í Breiðavík.

Árið 1894 er byrjað að róa með lóðir úr Kollsvíkurveri.  Áður hafði eingöngu verið stunduð handfæraveiði.  Færi voru úr fimmpundalínum, frönskum; sökkur úr frönskum lóðum (sökkum) er skipt var í tvennt.  Hæfileg þyngd á sökku var talin fjögur og hálft pund.  Það var enginn ás hafður í sökkum.  Taumur var venjulega tveir þættir úr færinu; lengd tveir þriðju úr faðmi.  Taumnum var fest við sökkuna á sama stað og færinu.  Lengd á færi var 30 faðmar, eða hálf frönsk lína.  Ás í sökkur er ekki farið að nota fyrr en upp úr aldamótum, eða sigurnagla.  Þetta sama mun hafa tíðkast í öðrum verstöðvum í Rauðasandshreppi. 

Upphafsmaður lóðafiskirís í Kollsvíkurveri var Þórður Gunnlaugsson, þá nýfluttur frá Ísafjarðardjúpi og sestur að í Vatnsdal með fjölskyldu sína; 1887.  Hann var fyrst háseti Hákonar Jónssonar, síðar bónda á Hnjóti.  Hákon var þá vinnumaður hjá Torfa bróður sínum í Kollsvík.  Bátur Hákonar var frá Færeyjum; keyptur af Færeyingum er reru frá Láturdal sumarið 1893.  Bátur þessi var kallaður Færeyingur.  Formaður á Færeying var Hákon Jónsson, síðar oddviti í Rauðasandshreppi, og Halldór Benjamínsson, síðar bóndi í Keflavík.

Lóðastrengur var gerður úr tveimur þáttum franskrar línu, en franskar línur voru af þremur aðalþáttum.  Þriðji þátturinn úr fransklínunni var rakinn niður í grennri þætti, og voru tveir slíkir snúnir saman í öngultauma.  Önglar voru lóðajárn nr 7; 200 önglar á lóð.  Taumar voru 17 tommur á lengd, og bil milli taum á streng var tvær og hálf alin.  Steinar voru notaðir í stað dreka við enda lóðanna.

Beita á lóðirnar þetta fyrsta vor var svokölluð hrognkelsabeita; þ.e. innyfli og hýði utanaf hrognum, ásamt því sem í því loddi af hrognunum.  Þegar líða tók á vorið og steinbítur tók að veiðast, var notaður steinbítsgormur til beitu, en það er görnin úr steinbít.

Fyrsti róðurinn sem Hákon fór með lóðir var vorið 1894, eins og áður er getið.  Þeir bátar er voru á sjó þennan dag á handfærum reru norður á Blakknesröst.  Þeir voru Sultur, Heppinn og Reitingur.  Fjórir menn voru á bát, og var ég háseti á Reiting.  Veður var suðaustan kaldi, en hvessti er leið á daginn svo að við urðum að fara í land fyrr en ætlað var.  Gátum við notað segl suður að Boða (líkl. Blakknesboða), en þaðan var barningur í land og miklar ágjafir.  Ein árin hafði brotnað í Sult í þessum róðri, og varð Torfi að lenda undir svokölluðum Völlum í Blakknesi.  Hákon bróðir Torfa var þá nýkominn í land úr sínum fyrsta róðri með lóðir.  hann grunaði hvað komið hefði fyrir bróður sinn og bað Halldór Benjamínsson háseta sinn að fara með árar til Torfa.

Það er af Hákoni að segja að hann lagði lóðirnar suður af Yngrajónsmiði, en það er út og suður af Djúpboða í Kollsvík.  Afli var lítill þennan dag, en Hákon aflaði ekki minna en hinir.  Þótti það spá góðu um framhaldið á þessari nýju veiðiaðferð í Kollsvíkurveri.  Hákon stundaði línuveiði út vertíðina.  Vertíðin byrjaði sumardaginn fyrsta og var til messudaga.  Við vertíðarlok reyndist aflinn hjá Hákoni bæði meiri og betri en hjá hinum bátunum úr Kollsvíkurveri.  Þetta varð til þess að lóðir voru almennt teknar upp árið eftir, og lóðafiskirí stundað einvörðungu í Kollsvíkurveri eftir þetta, meðan þaðan var gert út.  Árið 1895 var farið að nota kúfisk í beitu, og var hann eingöngu notaður uppfrá því.  Hákon var með 7 lóðir fyrstu vertíðina, en síðar varð almennt að vera með 10 lóðir á bát, eða þúsund öngla.

Árið 1900 eru þessir bátar gerðir út frá Kollsvíkurveri, auk þeirra sem áður er getið:

Borga, eigandi og formaður Torfi Jónsson Kollsvík.

Gráni, eigendur Bjarni Gunnlaugsson í Tröð í Kollsvík og Ólafur Ásbjörnsson bóndi á Láganúpi.  Ólafur var formaður.

Þessir bátar er nú voru nefndir voru á leið yfir Patreksfjörð 1. maí 1897, er bátur fórst í Örlygshöfn með sex mönnum, en sjöundi maðurinn bjargaðist; Þorgrímur Ólafsson í Miðhlíð á Barðaströnd.  Var hann farþegi og var á leið til sjóróðra í fyrsta sinn; ráðinn hjá Hákoni Jónssyni er þá var húsmaður á Stekkjarmel í Kollsvík.  Á þessum bát fórst Þórður Gunnlaugsson, sem upphafsmaður var að því að nota lóðir í Kollsvíkurveri.

Nú verða nefndir nokkrir bátar til viðbótar, sem gerðir voru út frá Kollsvíkurveri:

Snarfari, eigendur Össur og Gísli Guðbjartssynir í Kollsvík; formaður Gísli Guðbjartsson.

Rut, eigendur Ólafur Halldórsson og Guðbjartur Guðbjartsson Kollsvík; formaður Ólafur Halldórsson.

Lára, eigandi og formaður Þórður Marteinsson bóndi í Fit á Barðaströnd.

Guðrún, eigandi og formaður Össur Guðbjartsson bóndi á Láganúpi.

Jóhanna, eigandi og formaður Þórarinn Bjarnason á Bökkum í Kollsvík.

Rauðka, eigendur Steinn Bjarnason og Karl Kristjánsson í Kollsvík.  Karl var formaður.

 

Leita