Sérstæð orð í máli Kollsvíkinga

Orð í orðasafninu sem ekki finnast í rafrænni Orðabók Háskóla Íslands

  

Adamsklæði (n, hk, fto)  Fataleysi; nekt.  „Henni brá dálítið þegar hann kom fram af baðinu á adamsklæðunum, grunlaus um að nokkur annar væri í húsinu“. 

Aðalannatími (n, kk)  Tíminn sem mest er að gera/starfa.  „Vorið er aðalannatíminn í sveitum, og svo  var einnig þegar ég var að alast upp“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Aðalbjargmaður (n, kk)  Helsti bjargmaður/sigari/fyglingur.  „... áður fyrr voru farnar bjargferðir héðan frá Kollsvík.  Guðbjartur Ólafsson var þá aðalbjargmaðurinn.  Fólk lifði þá mjög mikið á fugli“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Aðalbýli (n, hk)  Helsta/stærsta býli/bújörð.  „Í þeirri vík í Rauðasandshreppi er Kollsvík heitir, hafa um aldir verið tvö aðalbýli; Kollsvík og Láganúpur“  (GG; Kollsvíkurver).

Aðalfyglingapláss (n, kk)  Sá staður í bjargflæmi þar sem mest var tekið af bjargfugli, meðan hann var nytjaður.  „Melarnir voru aðalfyglingaplássið í Breiðavíkurbjargi...“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Aðalklettar (n, kk)  Megin-klettabelti í fjalli.  „Ofanvið skriðuna, neðan aðalklettanna (í Hafnarmúla) er gangur sem hægt er að ganga eftir...“  (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).

Aðalkúabeit (n, kvk)  Helsti kúa hagi.  „Í Holtum og í Víkinni var aðalkúabeitin“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Aðalslátrun (n, kvk)  Fyrri sauðfjárslátrun að hausti (á undan seinnislátrun/samtíningi).  „Ég sendi ekki meira í aðalslátrun.  Restin kemur þá bara í samtíninginn“.

Aðalverðlaun (n. hk, fto)  Verðlaun sem veitt eru þeim sem slagahæstur er, þegar spiluð er félagsvist.  „Oft var spiluð félagsvist á spilakvöldum í Fagrahvammi.  Í lok kvöldsins voru veitt vegleg aðalverðlaun og mun óverulegri skammarverðlaun, en þó ekki þannig að óvirðing væri að“.

Aðalþaragarður (n, kk)  Helsti/stærsti þaragarður/þarafláki á tilteknu landgrunni.  „Þaragarðurinn lá í nokkuð beinni línu fyrir Víkinni og áfram suðureftir, en var jafnframt skemmra undan landi undan Hnífum og Hnífaflögu; að sama skapi sem þau teygðust lengra fram.  Þó var ekki allsstaðar hrein sandgljá framan víð aðalþaragarðinn“  (KJK Kollsvíkurver).

Aðalþrekvirki (n, hk)  Mesta afrek/átak.  „Aðalþrekvirki fjelagsins (Baldurs) var að byrja á og vinna að veglagningu uppi í skriðunum milli Örlygshafnar og Sellátraness“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Aðfangadagshugvekja (n, kvk).  Hugvekja (guðsorð) sem lesin er á aðfangadagskvöld.  „Fyrir jólin voru steypt tólgarkerti; jólakertin, og lifði alltaf ljós á jólanóttina.  Á eftir aðfangadagshugvekju var alltaf sungið; „Aðfangadagur dauða míns/ drottinn þá kemur að...“ “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Aðgæslufæri (n, hk)  Þegar ekki er unnt að fara um nema með mikilli varúð.  „Það er fljúgandi hálka í Hænuvíkurbrekkunum og víða aðgæslufæri“. 

Aðkomubikkja (n. kvk)  Skammaryrði um aðkomna kind/ær.  „Þær urðu snarvitlausar þessar aðkomubikkjur þegar reynt var að koma þeim rétta leið heim“!

Aðlagnargjóla / Aðlaganarvottur (n, kk)  Lítilsháttar aðlögn.  „Aðeins eykur hann veltinginn í þessari aðlagnargjólu“.  „Það var blankalogn allan daginn, nema smá aðlagnarvottur seinnipartinn“.

Aðlega (n, kvk)  Atlega; taður við hlein sem hægt er að leggja báti að, þannig að menn og flutningur komist í og úr landi.  Oftast undir bjargi og nefnt í tengslum við bjargferðir.  „Niður úr Saxagjá liggja lásgöngur á Ytri-Lundavelli; þar má síga í fjöru.  Þarna er talin best aðlega undir Bjarginu“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur- og Saurbæjarbjargs).

Aðlögn (n, kvk)  Álandsvindur eftir sólríkan dag; sólfarsvindur.  Yfirleitt gætir sólfarsvinda lítið í Kollsvík, en þó getur aðlögn orðið all áberandi eftir sólríkan, heitan og stilltan dag.  „Ekki brimaði að ráði þó aðlögn gerði því helst var það þegar að öðru leyti var stillt og gott veður“  (KJK; Kollsvíkurver).  Sólfarsvindur í Patreksfirði var nefndur innlögn og hún getur orðið steitingshvöss. 

Aðstöðugjaldsfótur / Aðstöðgjaldsprósenta (n, kk/kvk)  Hlutfall/viðmiðun aðstöðugjalds.  „Taldi oddviti ógerning á þessu ári að breyta aðstöðugjaldsfæti, þar sem það yrði að ákveða slíkt í febrúarmánuði“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Aðtak (n, hk)  Aðfall.  „Þessi orð voru notuð jöfnum höndum í mínu uppeldi, aðtak þó minna.  Oft heyrðist sagt að hann myndi rigna með aðtakinu“  (VÖ). 

Aðvera (n, kvk)  Möguleiki; gerlegt.  „Það engin aðvera að vinna við þessar aðstæður þó maður láti sig hafa það“. 

Afbeitingur / Afbeitningur (n, kk)  Beita sem búið er að nota til veiði, en kemur aftur upp á önglinum og þarf þá að losa af áður en aftur er beitt.  „Ef þær (lóðirnar) voru þá jafnframt stokkaðar upp, var talað um að afbeita eða afslíta; einnig að afskeina lóðirnar, eða einungis að skeina þær.  En beitan var þá kölluð afbeitingur eða afslit“  (LK; Ísl.sjávarhættir IV).

Afdalakerling (n, kvk)  Kvenmaður sem býr í sveit (niðrandi merking).  „Svo þegar útrásarvíkingarnir fóru að kaupa upp stóeignir í nálægum löndum þá virtist þjóðin sitja með stjörnur í augunum af aðdáaun á snilli þessara manna; svo að þó að einhver afdalakerling skildi þetta ekki þá vottaði það bara hennar heimsku!“  (SG; Bankahrunið; Þjhd.Þjms). 

Afkolla/ Afhausa (s)  Kolla; hausa; taka haus af steinbít í aðgerð (sjá steinbítur). 

Aflaföng (n, hk, fto)  Afli; veiði.  „Á sjósókn þarf vart að minnast, því vart er báti hrundið úr vör til aflafanga núorðið“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58). 

Aflandsgjóla / Aflandsstormur / Aflandskul / Aflandssperringur  / Aflandsstrambi / Aflandstætingur / Aflandsvindur (n, kvk/hk/kk)  Vindur sem stendur af landi.  Gat orðið til trafala við t.d. netadrátt og heimróður. „..síðdegis skall á aflandsstormur svo að engin tök voru á að sjá land eða ná því“ (Þakkir Árna Árnasonar í Kollsvík til skipstj. á Chieftain í Ísafold apríl 1913).  „Frá Keflavík að Bjargtöngum var undanhald, en úr því var aflandsvindur“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  „Það var þreytandi að hanga í netum á víkinni í þessum aflandssperringi“.

Aflandsstraumur (n, kk)  Straumur sem liggur frá landi.  Framanvið Kollsvík og aðrar Útvíkur myndast réttsælis hringiður frá Látraröstinni, eins og glöggt má sjá á því hvernig sand leggur upp á fjörur.  Þessar iður valda því að t.d. er alltaf suðurfall á Seljavíkinni, þar sem þessi áhrif eru mest.  Þær valda því einnig að sumsstaðar verður aflandsstraumur, þó hans verði ekki verulega vart á yfirborði.  Gera má ráð fyrir að hann sé að finna undan Hnífum; Bjarnarnúp og Bjargtöngum, sé sú kenning rétt að iða sé á hverri vík. 

Afsinnugur (l)  Sinnulaus; áhugalaus; frábitinn.  „Mér hefur þótt hann óttalega afsinnugur um þetta“.

Afsláttarkind / Afsláttarær  (n, kvk)  Kind sem slátrað verður að hausti; gamalær; rippa; rytja.  „Ég held að hún sé bara orðin afsláttarkind, enda búin að skila sínu blessunin“

Afspyrnuleiðinlegur / Afspyrnuhvimleiður (l)  Með eindæmum leiðinlegur/hvimleiður.  „Þessi eilífa rigningatíð er orðin afspyrnuhvimleið“!

Afspyrnulélegur (l)  Mjög lélegur/slæmur.  „Aflabrögðin hafa verið afspyrnuléleg það sem af er vertíðinni“. 

Afspyrnukalt (l)  Mjög kalt.  „Það hefur bara verið afspyrnukalt í veðri síðustu dagana“.

Afspyrnumikill (l)  Mjög/afar mikill; yfirgengilega mikill.  „Ekki var nú aflinn neitt afspyrnumikill, en þetta er ágætis byrjun á vertíðinni“.

Aftakahvass (l)  Um veðurhæð; svo hvass að veruleg fokhætta er.  „Hann er orðinn svo aftakahvass að maður ræður sér varla óstuddur“.

Aftakaillviðri (n, hk)  Skaðræðisveður; manndrápsveður.  „Hann er að spá einhverju aftakaillviðri á morgun“.

Aftakanorðanbál (n, hk)  Versta norðan hvassviðri; skaðræðisveður af norðri.  „Þetta er bara aftakanorðanbál“!

Aftanfrá (ao)  Að aftan; frá afturenda.  „Það hefur aldrei gefist vel að mjólka kýrnar aftanfrá“!  Orðið er almennt notað í einu lagi, líkt og t.d. aftantil og aftanundir, en er ekki skráð þannig í orðabækur.

Aftanmaður / Aftanskipsmaður (n, kk)  Maður sem rær aftantil á báti; sá sem er skipað aftantil í bát í róðri; vanalega formaður og austurrúmsmenn.  „Þegar sexæringur var settur niður vestra hlunnaði hálfdrættingur eða annar austurrúmsmaður, en hinn bakaði að aftan ásamt formanni; miðskipsmenn ýttu og studdu um róðurinn, en andófsmenn bökuðu að framan.  Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu.  Á sumum stöðum greip formaður þá stjaka jafnskjótt og hann komst upp í skipið, en með honum hélt hann því réttu og stýrði því jafnframt út úr vörinni“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  „Venjulega renndi annar andófsmaðurinn í barkanum og oft annar aftanskipsmaður í skutnum.“  (PJ; Barðstrendingabók).  Sjá sjósetja.

Aftanvið (ao)  Fyrir aftan; aftanvert við.  „Sæktu hlunninn þarna aftanvið bátinn“. 

Aftanúrkreistingur / Afturúrkreistingur (n, kk)  Lítið/vesælt lamb; væskill; aumingi; væfla.  „Þessi aftanúrkreistingur er farinn að bjarga sér á spena“.  „Annan eins afturúrkreisting hef ég nú sjaldan séð“.

Aftanvið (ao)  Fyrir aftan; aftanvert við.  „Gáðu að því þegar þú bakkar að enginn sé aftanvið bílinn“. 

Aftekinn (l)  A.  Tekinn af lífi.  B.  Eyðilagður; aflagður.  „Á þeim tíma var brú niðri við sjóinn í Örlygshöfn, sem illu heilli er nú aftekin... “  (ÁE; Ljós við Látraröst).   C.  Um sauðkind; rúin; búið að taka af.  „Ég sá þarna tvær kindur afteknar og eina óaftekna“.  Orðið er líklega ekki kunnugt annarsstaðar í þessari merkingu.

Aftekning / Aftekt (n, kvk)  Rúningur sauðfjár.  „Keppst var við að vera búinn að smala til aftektar og ganga frá ullinni fyrir slátt.  Oftast var reynt að nota landlegudaga til smalamennsku og aftektar“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  Orðin eru ekki finnanleg í orðabókum í þessari merkingu, heldur er þar aftekning í merkingunni niðurlagning eða dráp, og aftekt er þar einungis sem afgjald eða eftirtekja í tengslum við kirkjueignir og annað góss.  Í Kollsvík var mun oftar talað um að „taka af“ en „rýja“, þó ekki væri hið síðarnefnda óþekkt.  Aftekt var jafnan notað, en aftekning heyrðist þó einnig.  Sjá smala til aftektar.

Aftektadagur (n, kk)  Dagur sem tekið er af/ rúið.  „Ef við förum á sjó í dag þurfum við að fresta aftektardeginum fram í næstu viku“.

Aftektarmaður (n, kk)  Rúningsmaður; maður sem tekur ull af kind.  „Við erum fljótir að taka af með svona mörgum vönum aftektarmönnum“. 

Aftektarveður (n, hk)  Veður til aftektar.  „Ekki sýnist mér verða útlit fyrir aftektarveður á morgun“.

Afturúr (orðtak)  Afturfyrir; fyrir aftan.  „Þú þarft að herða þig til að dragast ekki afturúr“.  „Timbrið stendur dálítið afturúr kerrunni, en ekki þó til skaða“.

Afturúrstandur (n, kk)  Væskill; vesalingur; aumingi.  Oftast notað í niðrandi merkingu um mann, en einnig um óduglega hrúta.  „Sá afturúrstandur er búinn að drekka frá sér bæði vit og vini“. 

Agnarangi  / Agnarljúfur / Agnarpjakkur / Agnarskita  / Agnarskott  / Agnarskömm  / Agnarspott / Agnarstubbur (n, kk/kvk)  Gæluorð um lítinn krakka.  „Varstu að detta agnaranginn minn“?  „Komdu hérna agnarspottið“.  Orðin voru töluvert notuð með þessu forskeyti, en einnig sem gæluorð án þess.

Akstursfær (l)  Ökufær; fær um að aka.  „Ég held að hvorki bíll né bílstjóri hafi verið akstursfær eftir þetta“.

Aksturslag (n, hk)  Ökulag.  „Mér sýndist nú á aksturslaginu að karlinn hefði eitthvað þegið í staupinu“!

Akútera (s)  Samþykkja; vera meðmæltur; skrifa uppá.  „Hann vildi ekki alveg akútera að hann bæri einn ábyrgð á þessari uppákomu“.  „Ætli ég verði ekki að akútera mín mistök“.

Aladdinlampi (n, kk)  Olíulampi af sérstakri gerð, sem fluttur var inn í kirngum 1960 og gekk almennt undir þessu heiti; a.m.k. í Rauðasandshreppi.  Olíubyðan var úr glæru gleri, á glerfæti; lampaglasið svert og kringum það hólklaga skermur, um 25 cm í þvermál.  Þessir stofulampar veittu mikla birtu og hita.

Alláberandi (l)  Verulega áberandi/sýnilegur.  „Upptök Hrófár er gil sem heitir Urðargil; alláberandi gil uppi í brúninni“  (ÓlÓ; Örn.skrá Vesturbotns).

Allbirgur (l)  Með góðar birgðir; vel vistaður.  „Sumir voru svo rausnarlegir að þeir létu okkur hafa steinbítinn af hverjum háseta, svo við vorum allbirgir þarna“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Allborubrattur (l)  Ber sig nokkuð vel; nokkuð montinn/áræðinn.  „Mér finnst hann nú allborubrattur ef hann heldur að hann hafi roð við mér í sjómanni“!

Allbreiður (l)  Fremur/mjög breiður.  „Lending í Kollsvíkurveri er í allbreiðum bás á milli Norðarikletta og Syðrikletta; þar sem Búðalækur rennur til sjávar.  Framundan lendingunni er Lægið.

Alldýrt (l)  Nokkuð dýrt; verulega/talsvert dýrt.  „Ég hefði nú kannski keypt þetta, en fannst það alldýrt þarna“.

Allefins (l)  Nokkuð efins/vantrúaður; hefur ekki mikla trú á.  „Ég er nú allefins um að þetta gangi hjá honum“.

Allferlegur (l)  Mjög/fremur hræðilegur/stórskorinn/ískyggilegur.  „Þvoðu þér nú í framan strákur; þú ert allferlegur, svona krímóttur til augnanna“!

Allfurðulegur (l) Mjög/fremur furðulegur/einkennilegur.  „Mér þótti þetta allfurðulegt, og fór að skoða það betur.  Þá kom í ljós hvernig í öllu “.

Allhásjávað (l)  Tölvert mikið fallið að;  allmikil flæði.  „...sunnan við aðallendinguna er svokölluð Snorralending.  til þess að hún njóti sín þarf þó að vera allhásjávað, þvert á móti því sem nú var“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Allhrikalegt (l)  Mjög stórskorið; fremur ógnvekjandi.  „Skápadalurinn er hömrum girtur og í botni hans er að sjá allhrikalegar klettamyndir“  (ÁÓ o.fl; Örn.skrá Skápadals).

Allhættulegt (l)  Mjög fremur hættulegt/varasamt/ískyggilegt.  „Það er stórvarasamt að fara þarna um hjallann í hálku, og reyndar er leiðin öll allhættuleg við þannig aðstæður“.

Allkjöftugur / Alllyginn (l)  Fremur/heldur ósannsögull/lausmáll.  „Mér finnst hann allkjöftugur um það sem mætti liggja í láginni“.  „Sumum þykir hann alllyginn, en það má alveg hafa gaman af honum“.

Allkunnugur / Allkunnur (l)  Mjög kunnugur; þekkir mjög vel til.  „Hinir formennirnir voru allkunnir fiskimiðum á Kollsvík og þekktu þar helstu boða og grynni; svo sem Djúpboða, Arnarboða, Leiðarboða og Þembu, sem allt eru blindsker á fiskislóð og brjóta ef um stórsjó er að ræða“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Allmjór (l)  Fremur/mjög mjór.  „Hægt erð komast á Höfðann eftir Sveltisganginum, en hann er allmjór á köflum, og ekki fyrir lofthrædda“.

Allrahanda / Allrahandanna (l)  Allskonar; af ýmsu tagi.  „Í geymslunni var allrahandanna dót sem þangað hafði safnast“.

Allrahlutavegna (ao)  Með tilliti til alls; af ýmsum/öllum ástæðum; í öllu falli; allavegana.  „Það þarf allrahlutavegna að ná bölvuðu hvalhræinu úr fjörunni; þetta má ekki grotna þarna niður“.

Allráðríkur (l)  Mjög/verulega ráðríkur/frekur/yfirgangssamur.  „Þótti hann stundum allráðríkur og yfirgangssamur ef honum bauð svo við að horfa, og hirti þá stundum lítt um lög og rétt.  En höfðingslund hafði hann til að bera, við sér minni menn og þá er bágt áttu“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Allrækilega (ao)  Mjög vandlega/rösklega.  „Ég leitaði allrækilega í þessum lautum; þar eru öngvar kindur“.

Allseigur (l)  Mjög seigur; verulega seigur/ duglegur.  A.  Um kjöt: „Mér þykir þetta vera allseigt; það hlýtur að vera af gamalmáv en ekki unga“.  B.  Um manneskju:  „Ári var strákurinn seigur að komast fyrir ærnar“.

Allsennilega / Alltrúlega (ao)  Mjög sennilega/líklega.  „Ég mun allsennilega þurfa meiri mannskap í þetta“.  „Hann hefur alltrúlega farið að gá að kindunum sem eftir urðu“.

Allsennilegt / Alltrúlegt (l)  Mjög líklegt.  „Mér þætti allsennilegt að þetta yrði niðurstaðan“.

Allt að fara/leggjast í karlaskap hjá (einhverjum) / Allt komið í karlaskap hjá (einhverjum) (orðtök)  Orðið erfitt/stirt hjá einhverjum; einhver orðinn of gamall/sinnulaus til aðgerða/verka.  „Þessi búskapur hefur nú alltaf verið hokur hjá mér, en þetta er allt að fara í karlaskap hjá manni núorðið“.  Heitið karlaskapur var líklega ekki notað utan Rauðasandshrepps, en þar var það allmikið í munni sumra framundir lok 20.aldar.  T.d. notuðu Kollsvíkingar það nokkuð og Hafnarmenn s.s. Marinó í Tungu, Jónsi á Hnjóti og Óli á Gili.

Allt er það eins; pumpuliðið hans Sveins (orðatiltæki)  Ekki eru þessir betri en hinir; allt er það á eina/sömu bókina lært!  Upphrópun sem viðhöfð er þegar einhverjum lánast ekki betur en þeim sem fyrri voru, eða til að lýsa vanþóknun á hegðun/frammistöðu manna.  Ekki skal hér fullyrt um uppruna málsháttarins.  Í Kollsvík var hann töluvert notaður, og þá á þann sérstaka hátt að í stað orðsins „liðið“, eins og víðast hvar var haft, var einatt notað „pumpuliðið“.  Um rök fyrir því er engu fremur kunnugt.

Allvandaður (l)  Verulega vandaður; vel gerður.  „Kartöflugryfjur voru á flestum bæjum; margar allvandaðar“.

Allvarasamt (l)  Mjög/fremur varasamt/hættulegt.  „Ég tel allvarasamt að fara þarna um í þessari bleytu“.

Allverulega (ao)  Mjög/fremur mikið.  „Veðrið var sæmilegt áðan, en það hefur versnað allverulega síðan“. 

Allvotlent (l)  Mjög mýrlent; blautt yfirferðar.  „Stekkjarmýrar... voru allvotlendar“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Allþokkalega (ao)  Vel sæmilega; ágætlega.  „Honum gengur allþokkalega í náminu, held ég“.

Allþreyttur (l)  Verulega þreyttur/lúinn.  „Við vorum orðnir allþreyttir eftir þetta og lögðum af stað heim“.

Almestur / Alminnstur / Alstærstur (l, est) „Skriðan var sú almesta sem ég hef séð“.  „Veiðin í dag var með alminnsta móti“.  „Þetta flóð er með þeim alstærstu sem verða“.

Altént / Alltént  (ao)  Alltaf; jafnan.  „Við náðum þó altént megninu af fénu þó eitthvað yrði eftir“.  Framburðarbreyting frá „allt jafnt“.

Amböguhnoð / Amböguþvæla (n, hk/kvk)  Bull; mikið orðabrengl í málfari eða kveðskap.  „Mér finnst þetta hálfgert amböguhnoð, og lítið skáldlegt“.  „Ég hef sjáldan heyrt þvílíka amböguþvælu“!

Ambögusmiður (n, kk)  Bögubósi; sá sem talar oft rangt mál eða kemur illa orðum að sinni meiningu.  Þá vilja orð koma aftur ábak útur mönnum.  „Alltaf skaltu vera sami ambögusmiðurinn góði minn“!

Andans / Andansári / Andansvesen (ao)  Mild blótsyrði; stytting úr „andskotans“.  „Andans vesen er þetta, ég er að verða sykurlaus“.  „Andansvesen er nú þetta“!

Andrekt (l)  Barningur; straumur/vindur á móti þegar róið er.  Ekki notað í seinni tíð, en vísar til hjóðdæmis (sjá hnífandrekt).

Andskotansekkisen (l)  Áhersluorð/blótsyrði.  „Andskotansekkisen gleymska var þetta hjá mér“!  „Þetta var ljóta andskotansekkisen óheppnin“!

Andskotansgreyið (n, hk, m.gr.)  Áhersluorð/blótsyrði. „Ætlar hún nú ekkert í gang andskotansgreyið“!

Andskotansnær (fs) Miklu nær; mun betra.  „Honum hefði verið andskotansnær að koma hrútunum inná meðan þeir voru heimavið, frekar en þurfa að sækja þá lengst upp í lautir núna“!

Angagrey / Angaljúfur / Angalúra / Angalýja / Angakvikindi / Angakvöl / Anganóra / Angaskarn / Angaskinn / Angaskott / Angatetur / Angatötur (n, kk/kvk/hk)  Gæluorð um barn/gæludýr.  „Komdu hérna angaljúfur“.  „Hversvegna ertu að skæla, angalúran mín“? „Þú mátt nú ekki sneypa tíkina fyrir þetta; hún var nú að reyna að hjálpa til, angakvölin“.  „Meiddirðu puttann angaskottið mitt“?  Sum orðin nær eingöngu notuð með greini; önnur nær aldrei.

Angann ekkert (orðtak)  Milt áhersluorð á ekkert.  „Þetta var angann ekkert; bara smáskeina“.

Angans / Angansári / Angansvesen (u)  Milt blótsyrði; stytting úr „andskotans“.  „Þetta er ljóta angans ótíðin, dag eftir dag“.  „Angansári er hann nú smár núna; stórfiskurinn ætlar bara ekkert að gefa sig til“!

Angansnær (fs)  Andskotansnær; fjandansnær; mun betra; staðið nær.  „Hvað eru þeir nú að sullast út í þessum árans veltingi?!  Þeim hefði verið angansnær að hlusta á mig í gær; þá var þetta fína sjóveður“!

Angakornið (u)  Milt blótsyrði; stytting úr „andskotakornið“.  „Angakornið að við fengjum eina einustu oddsnertu, þó við flengdum um allan sjó“!

Angi (l)  Milt blótsyrði/áhersluorð.  „Angi finnst mér leiðinlegt að heyra þessar fréttir af honum“!  „Það var angi lírið að hafa á þeim miðum“.

Anginn (n, kk)  Skrattinn; fjárinn; milt blótsyrði.  „Hvur anginn; nú eru kýrnar komnar í garðinn“!

Ankolli / Ankoti / Ankúri (n, kk)  Upphrópun; áhersluorð; mildun á andskoti.  „Ankolli er ég hræddur um að hann sé að fara að rigna“.  „Ankúrans gleymska var þetta í mér“!

Annarslagið (ao)  Öðru hvoru; við og við.  „Maður fer út annarslagið og hugar að lambfé“. 

Annesjaröst / Annesjastraumur (n, kvk/kk)  Sjávarröst/sjávarstraumur við annes.  Sjávarfallastraumur kringum Ísland er ekki hraður að jafnaði; líklega um 0,1-0,3 m/sek að jafnaði þegar harðast er.  Þar sem nes gengur langt fram í strauminn verður hann mun hraðari, þar sem sami massi þarf að komast framhjá.  Þannig hagar víða til við Vestfirði.  Öflugasta annesjaröst landsins er Látraröst, þar sem straumur fer líklega í 4-7 m/sek þar sem hraðast verður; og sé þá mótvindur er röstin ófær nær öllum skipum.  Við Blakknes er Blakknesröst, sem einnig getur orðið hröð og skeinuhætt.  Fyrir Vestfjörðum og Austfjörðum er öflugt straumasvæði sem nær iðulega langt til hafs.  Þessi orka mun verða nýtt þegar viðeigandi tækni hefur verið þróuð.  Kollsvíkingurinn Valdimar Össurarson hefur fyrstur manna þróað sjávarfallahverfil sem nýtist til þess.

Annesjavirkjun (n, kvk)  Tæki eða tækjasamstæða sem nýtir orku annesjarasta til raforkuframleiðslu.  Margir aðilarvíða um heim þróa tækni til nýtingar hröðustu sjávarfallastrauma í sundum.  Unnt er að beita til þess hefðbundnum skrúfuhverflum.  Annesjarastir eru yfirleitt mun hægari og þar þarf aðra tækni.  Hverflar Kollsvíkurfyrirtækisins Valorku eru (2018) komnir lengst í þeirri þróun á heimsvísu.  Þeir eru þverstöðuhverflar á tveimur eða fleiri ásum.  Þeir verða líklega langstærstu hverflar heims, enda þurfa þeir að smala saman dreifðri orku á hagkvæman hátt og með litlum snúningshraða.  Virkjunin verður öll neðansjávar og er eina þekkta virkjanatæknin án nokkurra fyrirsjáanlegra neikvæðra umhverfisáhrifa.

Ansansekkisen (l)  Milt blótsyrði/áhersluorð; töluvert mikið notað.  „Ansansekkisen þoka er þetta; ég hélt að við ættum að vera komnir að bólinu“!

Ansansvandræði / Ansansvesen (n, hk)  Slæm uppákoma; vandræði; óæskileg fyrirhöfn.  Oftast notað sem mild upphrópun.  „Ansansvesen er þetta!  Það tefur okkur töluvert að þurfa að skipta um dekk undir bílnum“.

Anskúrinn (n, kk, m.gr)  Miltblótsyrði/áhersluorð; anskollinn; fjárinn.  „Anskúrinn hefur nú orðið af pípunni minni og tóbakinu“?  Einnig hver anskúrinn.

Antípat (n, hk)  Andúð; tortryggni; ímugustur.  „Ég hef alltaf hálfgert antipat á þessum gúrkum og viðlíka grænfóðri sem menn leyfa sér að nota í mannamat nú til dags“.

Appelsínulaski (n, kk)  Það sem nú er oft kallað „bátur“; geiri úr appelsínu.  „Gefðu mér laska af appelsínunni“.

Appelsínudjús (n, kk)  Appelsínuþykkni til þynningar með vatni.  „Kauptu einn brúsa af appelsínudjús“.

Arbæða (s)  Vinna; starfa.  „Hvað ert þú að arbæða þessa stundina“?  Algeng sletta í máli Kollsvíkinga.

Arbæðislaun (n, hk, fto)  Vinnulaun.  „Mér fannst sanngjarn að strákurinn fengi eitthvað í arbæðislaun“.

Arfadyngja / Arfabeðja / Arfabingur / Arfabreiða / Arfaflækja / Arfasæng  (n, kvk)  Þykk breiða af arfa; arfaflækja.  „Skelfilegt er að sjá þessa arfabeðju í rófubeðinu“.  „Ég hef enga trú að hann fái kartöflur uppúr þessari arfasæng“.

Armæðuhjal (n, hk)  Vonleysislegt tal; úrtölur; nöldur.  „Ég hlusta ekki á neitt armæðuhjal; við hristum svona smámuni fram úr erminni“!

Arnarsjón (n, kvk)  Mjög/einstaklega góð sjón.  „Hann hefur slíka arnarsjón að engu er líkt“.

Arngerðarveður (n, hk)  Þétt snjódrífa í logni og skammdegi.  Orðið var lengi notað í Rauðasandshreppi, þó nú heyrist það varla.  Það á þann uppruna að Arngerður nokkur var vinnukona á Geitagili á 19. öld.  Hún eignaðist barn með húsbónda sínum, sem tók af henni barnið en sendi hana í vinnumennsku í Vatnsdal.  Söknuðurinn varð til þess að hún strauk eitt kvöldið, meðan húslestur stóð, og hvarf.  Mun hún hafa drukknað þegar hún reyndi að komast fyrir Hafnarmúlann, sem þá var mikill farartálmi.  (Heimild: MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu).

Artargrey / Artarskinn / Artarskarn (n, hk)  Gæluorð um tryggan hund og stundum um vinalega manneskju.  „Hún er nú að reyna að gera sitt gagn og halda fé frá túnunum, artarskinnið“.  „Hvolpurinn biður alltaf um að fara út til að gera stykkin sín; hann er þó hreinlátur, artarskarnið“.

Artarlegheit (n, hk, fto)  Góðmennska; alúð; hlýja; ræktarsemi.  „Hún gerði þetta af miklum artarlegheitum“.  „Þau hafa alla tíð sýnt okkur mikil artarlegheit“.

Artarsamur (l)  Hugulsamur; umhyggjusamur; trygglyndur.  „Alltaf ertu jaft artarsamur, kúturinn minn“.

Asafiski (n, hk)  Mikil vild á fiski; mjög góð veiði.  „Við þarna á Blettunum og lentum í asafiski“.

Asnagangur / Asnaháttur (n, kk)  „Bölvaður asnaháttur var þetta í mér að gleyma markatönginni“!

Asskolli (n, kk)  Upphrópun, afbökun úr andskoti.  „Mikið asskolli var strákurinn fljótur að hlaupa“.

Asskotakornið (n, hk, m.gr)  Milt blótsyrði/áhersluorð.  „Nei asskotakornið að ég trúi því“!

Ataður (l)  Útataður; klístraður; skítugur.  „Stakkurinn var allur ataður tjöru svo ég henti honum“.

Atlega (n, kvk)  Staður við hlein sem hægt er að leggja að, s.s. í undirbjargsferðum. 

Atvinnusveitarútsvar (n, hk)  Útsvar sem maður greiðir til þess sveitarfélags sem hann hefur atvinnu í, en er síðar endurgreitt til lögheimilissveitarfélags.  „Atvinnusveitarútsvör frá Patreksfirði, kr 9.915“ (Sjóðbók Rauðasandshrepps 1948).

Auðmannaslekti (n, hk)  Ríkisbubbar; peningamenn; fjáraflamenn.  „Sumar illar tungur segja að Kollsvíkingum megi skipta í tvö horn.  Annarsvegar sé það auðmannaslekti sem efnast hefur á nirfilshætti og nurli; er yfirleitt aðhaldssamt úr hófi og gnýjarar hinir mestu.  Hinir séu þó langtum fjölmennari í Kollsvíkurætt, sem ekki er sýnt um meðferð fjár; helst illa á því og eiga sjaldnast bót fyrir boruna.  Þeir eru manna hjálpsamastir og hufflegastir; enda safnast þeim lítill auður.  Þessi skilgreining er þó kjaftasögn og oftúlkun; sannast sagna eru flestir miðja vegu í þessu litrófi; hafa nóg fyrir sig og sína og lifa í góðri sátt við sitt samfélag.

Augakúla (n, kvk)  Auga; kúla augans með augasteini, glæru, sjónhimnu o.fl.  „Öndvegishrúturinn Höttur fékk svo mikla ígerð í augað að á endanum gróf augakúluna algerlega úr.  Hann lifði þó einn vetur með tóma augntóftina, en útbúinn var sérstakur leppur fyrir augað“.

Augnablikshugleiðing (n, kvk)  Hugsun/hugleiðing sem varir mjög stutt.  „Fyrir mér er vísnagerðin sem hver önnur dægradvöl; þetta eru augnablikshugleiðingar.  Það er gaman að leika sér og þetta er mín hugarleikfimi…“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Aukabrúsi / Aukaílát / Aukakútur (n, hk)  Ílát til viðbótar þeim sem fyrirsjáanlega þarf að nota.  „Slakaðu niður einhverju aukaílát; mér sýnist að hér sé vel af eggjum“.  „Það er rétt að hafa meðferðis aukabrúsa af bensíni, ef okkur dettu í hug að fara eitthvað dýpra“.

Aukaendi / Aukaspotti (n, kk)  Band/vaður sem haft er með í bjargferð, umfram það sem fyrirsjáanlega þarf að nota.  „Við ættum að hafa með okkur einhvern aukaspotta ef við reynum að fara lengra niður“.

Aukafang / Aukakneppi (n, hk)  Fang af heyi sem gefið er aukalega á garðann.  „Þú mátt alveg gefa því aukafang á hvora jötu; þú tekur mun minni föng en ég“.  „Ég gaf þeim dálítið aukakneppi“.

Aukagaffall / Aukakvísl (n, kvk)  Heykvísl/gaffall sem er umfram.  „Þú mátt alveg hjálpa okkur að setja á vagninn; ég tek þá meðferðis eina aukakvísl“.

Aukakind (n, kvk)  Kind/ær umfram eðlilegan/væntanlegan fjölda; aðkomukind.  „Ég er búinn að tvítelja, og ég fæ það út að það hljóti að vera aukakind í fénu“.

Aukaklæðnaður / Aukafatnaður (n, kk)  Föt til skiptanna.  „Það þurfti að þurrka föt eftir að við komum heim að Hvallátrum, enda orðið lítið um aukaklæðnað“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg). 

Aukasakka (n, kvk)  Varasakka; sakka sem höfð er með í skakróður ef önnur slitnar af færi.

Aukasokkar (n, kk, fto)  Sokkar sem hafðir eru aukalega, t.d. í ferð.  „Ég setti aukasokka í bakpokann“.

Aukasteinn (n, kk)  Netasteinn sem tekinn er með aukalega í róður; til vara ef steinn hefur losnað úr neti.  „Erum við ekki örugglega með einhverja aukasteina“?

Aukatugga (n, kvk)  Hey sem búfé er gefið umfram venjulega gjöf; aukafang; aukakneppi.  „Gefðu nýbærunni aukatuggu af betra heyinu“.

Aulagangur / Aulaháttur / Aulaskapur (n, kk)  Bjánagangur; afglöp.  „Þvílíkan aulahátt hef ég aldrei vitað hjá fullorðnum mönnum“!  „Fjandans aulagangur er þetta; ætlar hann ekki að standa fyrir fénu“!?

Aulaglott (n, hk)  Kjánalegt/óviðeigandi bros.  „Hættu þessu aulaglotti; hefur þú aldrei orðið rassblautur“?!

Aumingjagóður (l)  Brjóstgóður; hjartahlýr; réttir hjálparhönd hinum þurfandi.  „Hún þykir aumingjagóð“.

Aurafár / Auralítill / Auratæpur (l)  Fátækur; blankur.  „Hann sagðist vera fremur auralítill þessa stundina“.  „Ég greiði þetta í næstu viku; ég er dálítið auratæpur eins og er“.

Aurberg (n, hk)  Þjappaður ísaldarleir; móhella.  „Niður yfir mið túnin liggur mikill og djúpur árfarvegur, sorfinn um aldir niður í gegnum aurberg“ (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).

Aurdrulla (n, kvk)  Fremur niðrandi orð um aur/aurbleytu.  „Vegurinn er allur að vaðast upp í aurdrullu“.

Aurfles (n, hk)  Stór sylla í bjargi, með áberandi aurflagi í yfirborði.  „Það er dálítið af fugli þarna í aurflesinu“.

Austangjóla / Austangjóstur / Austangola / Austankaldi / Austankæla / Austannepja / Austannæðingur / Austanrok / Austansperra / Austansperringur / Austanstrekkingur / Austanveður / Austanvindur / Austanþræsingur (n, kvk/kk/hk)  Austlægur vindur af ýmsum styrk.  „Hann lagði árans austansperring útmeð Bjarginu“.

Austanvert við / Austanvið (orðtak/ao)  Að austanverðu; fyrir austan.  „Þeir voru að veiðum austanvið okkur“.

Axarboð (n, hk)  Boð með þingboðsöxi.  Sjá boðleið.

Axarkegg (n, hk)  Lítil öxi.  Þannig orðað í Kollsvík, en annarsstaðar „axarkjagg“.  „Sæktu nú axarkeggið“.

Axlarfylla (s)  Fylla upp í axlir á íláti; fylla ílát að u.þ.b. ¾ hlutum.  „Þarna var krökkt af berjum.  Það tók mig stuttan tíma að axlarfylla fötuna, en þá bilaði berjatínan“.

Axlarfylli (n, kvk)  Magn í íláti sem búið er að axlarfylla.  „Mjög var misjafnt hvernig mönnum berjaðist.  Sumir tíndu allmikið upp í sig meðan aðrir stóðust þá freistingu.  Voru þeir kannski búnir að fá axlarfylli meðan enn sá í botn hjá hinum fyrrnefndu“.

Axlasítt (l)  Um höfuðhár; nær niður á axlir.  „Ekki finnst mér nú prýði að þessari nýju bítlatísku; að strákar séu að druslast með axlasítt hár.  Svo maður tali nú ekki um óhljóðin sem fylgja þessu“!

Á jappi (orðtak)  Á stjákli; á vokki.  „Því er hrafninn á jappi þarna við dýið““?

Á nippunni / Á nöfinni (orðtak)  Á tæpasta vaði; með naumindum.  „Það var alveg á nippunni að þetta tækist“.  Líklega er nippa þarna sama og nibba; klettanef, en einatt sagt á þennan hátt og með hörðum framburði.

Á útopnu (orðtak)  Á fullri ferð; á skurki; hamast.  „Hann var alveg á útopnu við að flaka steinbítinn áður en hann færi að skemmast“. 

Á vakki / vappi/vokki (orðtak)  Eigrandi; á varðbergi; gangandi um.  „Það er vissara að vera á vakki nálægt kindinni; henni gekk illa með burðinn síðast“.  „Hrafninn er á einhverju vokki þarna frammi á Mýrum“.

Ábatavegur (n, kk)  Gróðavegur; hagnaðarleið.  „Búskapur með sauðfé er enginn ábatavegur; sér í lagi ekki í seinni tíð“.  

Áðurfyrri / Áðurfyrr (ao)  Áður; fyrrum.  „Áðurfyrri munu hafa verið nokkuð aðrar áherslur í orðavali en nú er“.  „Áðurfyrr var fólk vandvirkara í orðavali en nú til dags“.  Hvorugt orðið finnst í orðabókum en voru einatt notuð sem heildstæð orð í Kollsvík.  Að auki var notað áður og fyrr meir og fyrrum.

Áfærni (n, kvk)  Löstun; álygar; rangar sakargiftir.  „Það er bara áfærni að ég hafi gleymt að loka hliðinu; það hlýtur annar að hafa gert“.  Almennt notað í Kollsvík en sést ekki í orðabókum.  Orðabók Menningarsjóðs tilfærir  að sögnin „að áfæra“ merki „að lasta“, sem kemur heim og saman við orðnotkun Kollsvíkinga.

Ágætisgrey / Ágætisnáungi (n, kk)  Hrósyrði um mann, en þó í nokkrum yfirlætistón.  „Þetta er ágætisgrey og hörkuduglegur, en ósköp fákunnandi til allra búverka“.

Ágætisstand (n, hk)  Gott/ágætt ástand.  „Það skal hér tekið fram að á öllum bæjunum mega skepnur heita í ágætisstandi, eins og skýrslan ber með sér…“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1924).  

Áhenging (n, kvk)  Það að hengja á; upphenging.  „Ketið var hengt í reykkofann á rár, en einnig voru reknir naglar í sperrur og skammbita til áhengingar“.

Álandsátt / Álandsgjóla / Álandsgola / Álandsstormur / Álandsvindur (n, hk/kk)  Vindur sem stendur af hafi.  Getur hraðað heimsiglingu en einnig aukið sjó og valdið hættu í landtöku.  Álandsvindur getur vakið upp áhlaðanda.  „Það liggur við þú þurfir að andæfa; hann er kominn með ansi stífa álandsgjólu“.

Áleguhæna (n, kvk)  Ungahæna; hæna sem liggur á eggjum til útungunar.  „Mundu eftir að gefa áleguhænunni“.

Álfakálfur (n, kk)  Auli; bjálfi; aulakálfur; heimskingi.  „Ég hef ekkert að gera með slíka álfakálfa í vinnu“!

Álnarkefli / Álnarlurkur / Álnarsprek (n, hk/kk)  Rekaviður sem er um alin að lengd.  

Álkuvarp (n, hk)  Varp álku.  „Ekkert álkuvarp er í Álkuskútanum nú á dögum, en töluvert lundavarp…“  (HÖ; Fjaran).  

Ályktunarbær (l)  Um fund; fær um að gera ályktanir; ályktunarfær.  „Ég sé ekki annað en að þessi fundur sé fyllilega ályktunarbær í þessu efni; hér er samankominn meirihluti félagsmanna“.

Ámálgun (n, kvk)  Tilmæli; það sem fært er í tal; beiðni; ósk.  „Leyfinu fylgdi ámálgun um það að koma landshlutnum alla leið til eigandans“.

Áransári (l)  Milt blótsyrði eða til áherslu/áréttingar.  „Áransári!  Þarna datt golþorskur af slóðanum; rétt við borðið“!  „Þetta er áransári mikill bátur“!

Áransekkisen (l)  Bönnvaður; fjárans; béaður.  „Eru nú ekki áransekkisen hrútarnir komnir norður í Hryggi“!

Áransgrey (n, hk, m.gr.)  Áhersluorð.  „Lúðan var komin alveg uppundir borðstokk þegar hún sleit sig af, áransgreyið“.  „Hann steingleymdi að loka hliðinu áransgreyið“.

Áransnær (fs)  Andskotansnær; fjandansnær; staðið nær; verið betra.  „Mér hefði verið áransnær að halda betur til dagsins í gær; það er ekkert hægt að hreyfa heyi í dag“.

Árdegisflæði (n, kvk)  Flóð/flæði/aðfall sem verður að morgni eða fyrripart dags.  „Við settum á flot á árdegisflæðinni og vorum komnir á miðin um tíuleytið“.

Árdegisróður (n, kk)  Róður sem farinn er snemma morguns eða fyrrihluta dags.

Áróðurskjaftæði / Áróðursþvæla (n, hk)  Niðrandi heiti á skoðanamyndandi efni/riti/dagblaði/texta/ræðu.  „Ég nenni ekki að lesa þetta áróðurskjaftæði í leiðaranum“.  „Andskotans áróðursþvæla er þetta nú“!

Árstíðabrigði (n, hk, fto)  Mismunur/breyting milli árstíða, t.d. í veðurfari.  „Nú sýnist mér loks ætla að verða einhver árstíðabrigði þetta vorið.  Eitthvað er að draga úr þessum kuldaþræsingi“.

Ásetningsgimbur / Ásetningshrútur / Ásetningslamb (n, kvk/kk/hk)  Lömb sem tekin eru til lífs að hausti; ölslugimbur/ölsluhrútur/ölslulamb; lífgimbur/lífhrútur/líflamb.  „Þarna áttu trúlega ásetningshrút“.

Áttamálfar  (n, hk)  Málfar, oft staðbundið, yfir áttir og stefnur.  „Eitt er nokkuð merkilegt í þessu áttamálfari, og það er að þó við förum suður til Reykjavíkur, þá förum við alltaf vestur þegar við komum til baka“  (SG; Áttamálfar; Þjhd.Þjms).  Í Kollsvík er mest talað um eina af höfuðáttunum fjórum, en það er norður.  Allar hinar eiga sér staðgengil sem oft var meira notaður en þær sjálfar.  Norðan (nordan) er helsti örlagavaldur um lífsskilyrði í Kollsvík; manna, dýra og ekki síst gróðurs.  Í þeirri átt verður að jafnaði kaldast, hvassast, sjóþyngst og mest sandrok og uppblástur.  Eftir langvarandi norðanáhlaup að vetrarlagi má búast við að sandskaflar séu komnir upp á tún víða handantil í víkinni, og jafnvel út á Strympur; seltumósta sé á steinum, húsum og öðru; illfært sé milli húsa og fyrir þau fennt; vegir frá víkinni séu kolófærir; fé hafi verið lengi á innistöðu ; frosið sé í vatnsbólum og þústnað hafi hjá mannfólki.  Norðanátt að sumarlagi þýðir ógæftir til sjóarins og jafnvel heyskaða ef hvasst er.  Talað var um norðangarra; norðanbelging; norðanrosa; norðansteyting o.s.frv.  Hinsvegar getur norðanáttin einnig boðað bötun; bjartviðri og þurrka eftir rigningatíð og óþurrka.  Reki verður stundum mikill eftir norðanáttir.  Þegar farið er frá Láganúpi til Kollsvíkurbæjar eða Stekkjarmels er farið norður og það er þar er er fyrir norðan.  Vestur er einnig nefnt „út“  í Kollsvík eins og víðar.  „Hann er að ganga útí“, var sagt ef vindur snerist til vestanáttar frá sunnanátt, því þá var von um óþurrki linnti.  Ekki síst á sjó var talað um út; útsuður og útnorður.  Vestanvindáttin getur orðið all hörð, þó sjaldan sé hún jafn skæð eða þaulsætin og norðanáttin.  Vestansjór verður oft síst minni en norðansjór, og geta þá verið grunnbrot um alla víkina og brim upp um miðjar hlíðar í Blakknum.  Sunnanátt er nefnd með sínu nafni þegar rætt er um veður, en öðru máli gegnir þegar hún á við stefnu í víkinni.  Að fara til suðurs norðan úr víkinni er að fara yfir, eða yfirum; þeir sem eru sunnantil í víkinni eru fyrir handan; handanmegin; bæirnir sunnantil í víkinni (Láganúpur, Grundir og Grund) eru handanbæir og íbúarnir handanbæjafólk.  Sunnanáttir eru oftast óþurrkasamar að sumri og auka snjóþyngsli að vetri, en þeim fylgja oft hlýindi, leysingar, gróðrarskúrir og gæftir til sjóar.  Austanátt er eflaust sú átt sem minnst er rædd í Kollsvík, enda eru áhrif hennar minnst.  Austnorðan vindátt er að öllum jafnaði öruggasti þurrkur sem völ er á; oftast með sólskini og bjartviðri og iðulega einnig góðum gæftum.  Stundum var áttleysan best, einkum til sjós, en betra var þó að hafa einhverja flæsu ef hey var flatt. (VÖ)
„Fremur lítið er um það hér í sveit að höfuðáttirnar séu nefndar í daglegu tali, heldur eru notuð heimatilbúin tákn sem munu hafa verið notuð í aldaraðir. Á Rauðasandi þar sem ég er uppalin er aldrei talað um norður, suður, austur og vestur nema um meiri fjarlægðir sé að ræða; t.d. suður í Reykjavík eins og er víst sagt um allt land.  Svo segjum við þá austur á land, norður á firði (t.d. Ísafj.) en alls ekki vestur á Látrabjarg, heldur út á Bjarg, yfir á Patreksfj. en aftur norður í Tálknafjörð. Aldrei austur á Barðaströnd heldur inn á Barðaströnd.  Það er einnig sagt á Patreksfirði inn á Barðaströnd, en það fer kannske að breytast því Vegagerðin segir gjarnan að Kleifarheiði sé fær suður á Barðaströnd.
Svo eru það áttirnar hér í Kollsvíkinni:  Hér er þó til norður, en ekki aðrar höfuðáttir. Við segjum norður í Kollsvík frá Láganúpi; það er í NA, en frá Kollsvík er farið yfir að Láganúpi. Bæir sunnan til í víkinni hétu handanbæir en hinir norðan til voru norðanbæir. Svo förum við fram í Vík sem er dalurinn hér fram af Kollsvíkinni og út á Víkina var róið til fiskjar. Við förum inn á Rauðasand og inn á Patreksfjörð; inn í Hænuvík (sem er næstum í austur) og út í Breiðuvík (suðvestur) og svo áfram út að Látrum. Svo eru aftur nefndar áttir í verðufari t.d. útsunnan er suðvestan og norðangarður er vitanlega hvöss norðanátt. Svo er hér talað um aðlögn (sem annarsstaðar er nefnd innlögn) í fjörðum í sterku sólskini þegar landið hitnar um miðjan daginn.  Eitt er nokkuð merkilegt í þessu áttamálfari og það er að þó við förum suður til Reykjavíkur þá förum við alltaf vestur þegar við komum til baka. Líka segjum við norður á Firði. t.d Ísafjörð, en vestur þegar við komum til baka. Kannske er eitthvað fleira sem ég ekki man í bili“  (SG; Áttamálfar; Þjhd.Þjms). 

Ávið (fs)  Til jafns við; í samjöfnuði við.  „Hann rignir enn, en það er þó lítið ávið úrhellið í gær“.

Baðstjórn (n, kvk)  Stjórnun sauðfjárböðunar.  Til þess var starfandi baðstjóri á vegum hreppsnefndar.

Bakholdamikill (l)  Sterkur; með mikla vöðva á baki og herðum.  „„Stelpurnar mínar“, sagði ég við Guðjón og skyrpti útúr mér söltum sjó.  „Voru þær svona fjandi bakholdamiklar; eins og þessi sem er að koma þarna“?  Ég leit fram:  Æðandi brotsjór kom á móti okkur og reis hátt“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Bakpokakútur (n, kk)  Plastkútur sem getur fallið ofaní bakpoka.  Fremur litlir kantaðir kútar undanmaurasýru hentuðu vel í slíkt.  Voru bakpokakútar notaðir til að bera múkka- eða svartfuglsegg og fóru mjög þægilega á baki.  Þeir tóku um 100 egg, eftir því hverrar tegundar þau voru.

Bakstur (n, hk)  Basl; erfiðismunir; bjástur.  „Ég var löðursveittur eftir allt þetta bakstur og basl“.  „Það kostaði okkur allnokkuð bakstur að bjarga trénu frá sjó“.

Ballfær / Ballklár (l)  Hæfur/tilbúinn til að fara á ball/dansleik; vel þrifinn/þveginn.  „Þú ert varla ballfær fyrr en þú ert búinn að skrúbba af þér mestu skítaskánirnar“.  „Þá held ég að maður sé að verða ballklár“.

Bambuskarfa (n, kvk)  Karfa fléttuð úr bambustágum.  Bambuskörfur voru mikið notaðar undir fisk áður en plastílát leystu þær af hólmi.  Mikið rak af þeim í Kollsvík og víðar, og voru þær mjög hentugar til gjafa á votheyi.  Heyið var þá borið í þeim frá votheysgryfju að jötu.  Mælieiningin var þá svo og svo margar körfur á jötuna, en átt var við nokkuð kúfaðar körfur.

Bandfesta (s)  Festa með bandi/taum; tjóðra.  „Ekki tókst honum að bandfesta heimasætuna“.

Bandstuðningur (n, kk)  Um bjargferðir; stuðningur/hjálp af bandi/vað.  „Það er kannski möguleiki að komast yfir ófæruslefruna með bandstuðningi“.

Bannvítans / Bannvítis (l/uh)  Vægt blótsyrði/áhersluorð, oftast notað með nafnorði.  „Ég hef sjaldan heyrt álíka bannvítans endaleysu“!  Sjá benvítans/benvítis.

Bardónur (n, kvk, fto) A.   Band til að festa hluti niður, t,d, til varnar foki; sig.  „Þú ert búinn að setja feikna bardónur á bátinn; hann ætti varla að fjúka úr þessu“.  B.  Rammgerð smíði; t.d. slagbrandar fyrir hurð eða hrútabardónur í hrútastíu.

Barningsfærð (n, kvk)  Þæfingur; erfitt færi.  „Það var barningsfærð yfir háhálsinn“.

Barningssteinn (n, kk)  Stór steinn nærri húsum sem nýttur er til að berja á harðfisk.  Þetta heiti var almennt notað í Kollsvík, en virðist ekki þekkt annarsstaðar, sbr;  „...hverju býli fylgdi fiskasteinn/barsmíðasteinn/börðusteinn/börslusteinn“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Barningstíð / Barningstíðarfar (n, kvk/hk)  Erfitt/slæmt tíðarfar; harðindi.  „Þetta fer að verða bölvuð barningstíð ef svona gengur áfram“.

Baunarækt (n, kvk)  Ræktun bauna til manneldis.  Var stunduð að einhverju marki á Rauðasandi um tíma.  „Utan við Helgulind eru grasbakkar, nefndir Hvanngarðar.  Líklega hefur verið þarna baunarækt“  (ÍÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).

Bágt (n, hk)  Gæluorð um minniháttar meiðsli/sárindi.  „Á ég að kyssa á bágtið hjá þér stubbur minn“? 

Bárugutlandi (n, kk)  Nokkur sjógangur; ófriður við veiðar.  „Hann reif upp dálítinn bárugutlanda með norðangolunni“.

Bárusláttur / Báruveltingur (n, kk)  Veltingur; nokkur sjór; ófriður.   „Bölvaður bárusláttur er þetta í koppalogni; þetta hlýtur að vera langt að komið“.  „Það gerði dálítinn báruvelting þega leið á daginn“.

Bárusláttur / Bárusperringur / Vindbárusperringur (n, kk)  Allmikil vindbára, sem oft lifnar þegar gerir golukast þó sjólaust sé að öðru leyti.  „Eitthvað er hann að auka bárusláttinn af vestri“.  „Hann er að rífa upp einhvern bölvaðan vindbárusperring; það fara að verða leiðindi að hanga á netum ef hann eykur þetta meir“.

Bárutyppinugur (n, kk)  Typpingur; brött bára, en þó ekki stórsjór.  „Hann er eitthvað að ganga niður með þennan bárutypping sýnist mér“.

Báruvottur (n, kk)  Dálítil bára, en þó ekki til ama.  „Ekki þýddi að sjóstja tunnubát ef einhver báruvottur var“.

Báthróf (n, hk)  Naust; hlaðið geymsluhús eða tóft fyrir bát.  „Sagt er að veiðistöð hafi verið við Bjarnanes og mikið er af báthrófum utan við nesið“  (ÍÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).  Dæmi orðabókar HÍ annarsstaðar af landinu sýna aðra merkingu, eða bátskrifli/lélegur bátur.  Slík var ekki merking þess í Rauðasandshreppi.

Behollning (n, kvk)  Útgangur; útlit; afkáralegur klæðnaður.  „Hvers konar behollning er eiginlega á þér drengur?  Þú ferð ekki út í náttfötunum þó þú sért með húfu“!  „Það var orðin frekar larfaleg behollning á karlinum þegar hann fór af þorrablótinu“.

Beinahjasl / Beinahjastur / Beinamusl / Beinarusl (n, hk)   Úrgangur sem að uppistöðu er bein; beinflísar.  „Hér er eitthvað beinahjarsl fyrir hundinn“. „Það situr eitthvað beinahjastur fast milli tanna á mér“.  Óttalegt beinamusl er í þessum harðfiski“.  Líklega hafa orðin áður verið notuð um fiskbein sem barin höfðu verið til skepnufóðurs.

Beinakjanni / Beinakjammi (n, kk)  Kjannaður/kollaður/klofinn og hertur steinbítshaus; tveit kjannar sem hanga saman á granabeinum/kjaftabeinum (sjá steinbítur).

Beinfrost / Beingaddur (n, hk)  Hörkufrost; heljarfrost.  „Féð gerir lítið í fjöru í þessu beinfrosti“.

Beinfrysta / Beingadda (s)  A.  Um veðráttu; hlaupa í mjög mikið frost.  „Hann er að beinfrysta um leið og hægir vindinn“.  B.  Verða mikið frosinn.  „Það er hætt við að beingaddi í drykkjarílátunum núna“.

Beitarhefð (n, kvk)  Hefð fyrir því að bóndi beiti fé sínu á jörð í eigu annars.  „Þannig var hefð fyrir því að fé úr Kollsvík nýtti bithaga í Breiðuvík; einkum fé frá Láganúpi og Grundum“. 

Beitarskortur (n, kk)  Ekki næg beit fyrir sauðfé.  „Kom allur fénaður á innistöður með desembermánuði, sem hélst sökum beitarskorts fram á fyrstu viku góu“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1937). 

Beitningaraðstaða / Beitningarpláss / Beitningarskúr (n, kk)  Staður þar sem lína er beitt. 

Beitningartrilla (n, kvk)  Búkki með snúningsborði, sem línubali er hafður á meðan lína er beitt í hann.  Unnt er að snúa balanum og með því ná auknum hraða við beitninguna. 

Beitningarvettlingar (n, kk, fto)  Vettlingar sem henta til að hlífa höndum og ná betra taki á beitunni.  Vanalega þunnir bandvettlingar.

Beitningarvinna (n, kvk)  Vinna við beitningu fiskilínu. 

Beitukutti (n, kk)  A.  Beituhnífur; kúfiskhnífur; hnífursem hentar  til að ná innanúr kúskel og skera í hæfilega beitu.  Hentugur beitukutti er með stuttu blaði og voru oft notaðir oddbrotnir hnífar.  B.  Líkingamál um oddbrotinn hníf.  „Þessi vasahnífur er nú orðinn hálfgerður beitukutti“.

Beitupoki (n, kk)  Þegar róið var með línu úr Kollsvíkurveri var beitt kúfiski, sem að mestu var sóttur inn í Skersbug.  Hann var tíndur í strigapoka og geymdur lifandi í nokkra daga í sjó.  „Nú vorum við með beitupokana í bátnum, svo tókum við salt eins mikið og hægt var“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Bekkfella (s)  Fella/setja inn net í fellingabekk (sjá þar og hrognkelsi).  Önnur aðferð var að nálfella netin.

Bekkfelling (n, kvk)  Felling nets í bekk.  Sjá setja inn.

Belgingsgola / Belgingskaldi / Belgingsvindur (n, kk)  Allhvass/stífur vindur.  „Hann var farinn að leggja upp belgingsgolu“.  „Uppi á brúninni mætti okkur norðan belgingsvindur“.

Belgingsháttur (n, kk)  Mont; spjátrungsháttur; stærilæti.  „Þessi belgingsháttur er leiðinlegur til lengdar“.

Belgingshvass (l)  Allhvass; nokkuð mikill vindur.  „Búðu þig nú almennilega; hann er belgingshvass“!

Belgnef (n, hk)  Sá hluti á lóðabelg sem hann er festur með í bandið/niðristöðuna.  Í belgnefinu er oftast auga sem bundið er í.

Beljugrey / Beljukvikindi (n, kvk)  Gæluorð um kú.  „Það er ekki hægt að ætla beljukvikindinu að stökkva yfir lækinn; eins síðjúgra og stirð og hún nú er“!

Beltishali (n, kk)  Endi rafabeltis af lúðu  (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: ÞJ Hvallátrum).

Bennaður / Bennvaður (l)  Mild blótsyrði; bölvaður; fjárans; skrattans; béans.  „Bennuð vandræði eru þetta; að hafa ekkert eggjaílát við hendina“.  „Bennvaður hrafninn hefur stolið frá mér skærunum“!

Bensínbrúsi / Bensíndunkur / Bensínkútur (n, kk)  Ílát til að geyma og flytja bensín í.  Mikilvægt er að unnt sé að loka tappanum þétt og tryggilega.

Benvaður (l)  Bölvaður; árans; bönnvaður.  Vægt blótsyrði; notað enn af Kollsvíkingum til áhersluauka.  „Benvaður hrúturinn hefur brotið jötufjöluna“.  „Benvaður hávaði er nú í ykkur strákar“!

Benvítans (n, kk, ef.m.gr.)  Áhersluorð/ milt blótsyrði á undan nafnorði.  „Benítans vandræði eru þetta“!  „Ég missti af benvítans tófunni ofaní urð“!.  Annarsstaðar þekktist „benvítis“ en það heyrðist ekki vestra.

Berbeinóttur (l)  Svo grannholda að beinabygging er áberandi.  „Óttalega er hún orðin berbeinótt og ræfilsleg hún Rauðka“.  Orðið var notað í þessari mynd vestra, en annarsstaðar þekktist „berbeinaður“.

Bergröðull (n, kk)  Klettaþil; vegghamrar.  „En brátt hefur sig upp að nýju stakur bergröðull, uppmjór sem klakkur, og liggur niður hlíðarjaðarinn sem þunnur kambur, frambrýndur, allt niður í fjöru, og endar í strengbergi.  Má í raun heita ógengur um þvert, en hefur þó verið klifinn en þykir glæfraför“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Bergskil (n, hk, fto)  Skil á milli láréttra berglaga í standbergi/bjargi/klettum.  „Bergskilin sem Miðlandahilla er í, liggja um allt bjargið“  (DE; Örn.skrá Látrabjargs). 

Berjabox / Berjadolla / Berjadós (n, hk/kvk)  Lítið ílát sem ber eru tínd í.  „Berjabox okkar strákanna voru oft tómar blikkdósir undan tóbaki eða mat.  Minnstu berjadollurnar oru annaðhvort neftóbaksdósir eða flatar dósir undan reyktóbaki; með loki í endann.  Þar fyrir ofan voru niðursuðudósir; stærri reyktóbaksdósir eða lítil gerbox.  Næsta stig voru teningslaga, stór gerbox og þar fyrir ofan fötur með haldi.  En þá voru menn komnir í „fullorðinsflokk“ í berjatínslunni“.  „Berjadósin var orðin axlafull“.

Berjakoppar (n, kk, fto)  Gæluorð um ber, oftast þá í litlu magni.  „Ég tíndi fáeina berjakoppa í nestisboxið ef þíð vilduð smakka“.  Sjá einnig eggjakoppar.

Berjasía / Hratsía (n, kvk)  Sía/poki úr ofnu efni sem berjahrat er sett í eftir að ber hafa verið hökkuð.  Hún er síðan hengd upp yfir ca eina nótt, til að láta saftina renna úr hratinu í ílát.  Oft var notað sama grisjuefni í síuna eins og var í ketpokum eða taubleium, og tók það gjarnan varanlegan lit af saftinni.

Berjast (s)  A.  Eigast við í orrustu/stríði.  B.  Afla berja.  „Okkur berjaðist mun betur í þessari ferð en hinni fyrri“.  Orðið finnst ekki í orðabókum í síðari merkingunni, þó hin fyrri sé algeng.

Berjaveður (n, hk)  Veður sem unnt er að nýta til berjatínslu.  „Þetta er nú ekki heppilegt berjaveður, meðan hann gengur á með þyngslaskúrum“.

Berrassað kaffi  (orðtak)   Kaffi sem borið er fram án mjólkur og meðlætis.  Orðtakið er upprunnið hjá Kristni Ólafssyni í Hænuvík.  Hann var lengi landpóstur í Útvíkum og notaði þetta í fyrirlitningartón ef svo slysalega vildi til að honum voru bornar slíkar trakteringar.  Venja var að bera fram vel útilátið póstkaffi“.

Beygaldi / Beygur (n, kk)  Ótti; óhugur.  „Það er alltaf einhver beygur í mér þegar ég fer þarna um í myrkri“.  „Einhver ónota beygaldi læðist að manni við þessa tilhugsun“.  Ekki er ljóst um uppruna orðsins, en e.t.v. vísar það til þess sem veldur beyg/hræðslu; „beygvaldi“, sem hefur breyst lítillega í framburði og notkun.

Bésefans / Bésvítans / Bévítans / Bévítis  /Bévíti / Bévítis (upphrópun)  Áhersluorð; nokkurskonar mildir blendingar af bölvaður; andskotans.  „Bésefans hávaði er nú í ykkur strákar; það heyrist ekki mannsins mál“!  „Ég held þetta hljóti að vera bésvítans lygasaga“.   „Bévítans vandræði eru þetta“.  „Bévítis kvikindið; hann hækkaði sig fljótt þegar hann sá byssuna“!

Bévítansári (uh)  Upphrópun til áhersluauka; vægt blótsyrði.  „Það var bévítansári sárt að fá þetta ofaná fótinn“.

Bikamyrkur (n, hk)  Niðamyrkur; svartamyrkur.  „Það varð bikamyrkur í hlöðunni þegar slökknaði á ljósinu“. 

Biksvartaþoka / Bikaþoka /  Bikþoka (n, kvk)  Mjög dimm þoka.  „Það skall á okkur þreifandi biksvartaþoka svo við tókum snarvitlausa stefnu“.  „Við fengum bik af þoku inneftir...“  (ÓG; Úr verbúðum í víking). 

Bindindisstarf (n, hk)  Starf að bindindismálum; varnir gegn misnotkun áfengis og tóbaks.  „Drukkið!  Ég minnist þess ekki að ég sæi vín á manni í Verinu.  Hér starfaði þá ungmennafélag sem Valdimar Össurarson var driffjöðrin í.  Hann gekkst fyrir bindindisstarfi; bæði á vín og tóbak, og mun enginn maður í sveitinni hafa notað vín eða tóbak“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Bindingalaus (l)  Án bindinga.  „Skíði pantaði Einar frá Noregi; furuskíði, bindingalaus“  (IG; Æskuminningar). 

Biskupsþúfa (n, kvk)  Þúfa sem biskup hefur setið á.  „Biskupsþúfa nefnist steinn í Kollsvíkurtúni; milli núverandi bæjarhúss og Gvendarbrunns.  Henni fylgja tvær sagnir fornar.  Önnur er sú að undir henni eigi Kollur landnámsmaður að hafa fólgið vopn sín og sjóði.  Þúfan er í sjónlínu við Kollsleiði á Blakknibbunni, þar sem Kollur á að vera heygður.  Ógæfa liggur við ef þúfunnier raskað eða í hana grafið.  Hin sögnin segir að á þúfinni hafi Guðmundur biskup góði áð, á leið sinni til að vígja Gvendarbrunn og af honum dragi þúfan nafn.  Ekki er ólíklegt að biskup hafi haldið ræðu frá þúfunni yfir fylgdarliði sínu og heimamönnum, enda aðstaða til þess góð þarna í túnbrekkunni.  Má vera að þar hafi hann minnst Kolls og hinna forgengilegu auðæfa hans“ (VÖ).

Bitjörð (n, kvk)  Nægilegur gróður til beitar.  „Það er að verða sæmileg bitjörð úti í Vatnadal; við rekum nokkrar lambær þangað á morgun“.  „Ég get nú ekki séð mikla bitjörð á þessum berangri“.

Bíður sér ekki til batnaðar/bóta (orðtak)  Nokkuð notað orðtak í Kollsvík.  „Ég ætla að fara að fara að létta aðeins á haughúsinu; það bíður sér ekkert til batnaðar“.  „Þú ættir nú að skreppa út með ruslið; það bíður sér ekki til bóta“.  Orðið bötnuður er ekki þekkt í annarri notkun.

Bísa (s)  Stela; gripla.  „Nú hefur huldufólkið bísað gleraugunum mínum eina ferðina enn“.  „Hann hefur bísað vasahnífnum mínum, árans melurinn“. 

Bjargfé / Bjargfénaður / Bjargrolla (n, hk/kk/kvk)  Sauðfé sem gengur í eða á Látrabjargi.  „Bjargféð er undantekningarlaust vænt, en afföll geta þar orðið nokkur“.  „Á seinni árum búakapar í Kollsvík var bjargrollum markvisst fækkað, enda fylgdi þeim gjarnan nokkuð umstang að hausti“.

Bjargfiðringur (n, kk)  Eggjafiðringur; löngun til að fara í bjargferð/eggjaferð.  „Á hverju vori greip mann þessi óviðráðandi bjargfiðringur.  Við honum var ekki nema eitt læknisráð“.

Bjarggengið (l)  Um sauðfé; það sem hefur/gengið til beitar í bjargi/Látrabjargi.  „Alltaf skila þær góðum lömbum þær bjarggengnu; ef þær misfarast ekki“.

Bjarghlunnindi (n, hk, fto)  Hlunnindi af bjargnytjum.  „Sem dæmi um hvað mikið var lagt upp úr þessum bjarghlunnindum skal ég segja þér sögu... “  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Bjarghugleiðingar (n, kvk, fto)  Áætlanir um bjargferð, eggjahugleiðingar.  „Mér skildist að þeir væru í einhverjum bjarghugleiðingum í dag“.

Bjarglega (n, kvk)  Nægilega lygnt til að leggja að undir Látrabjargi til eggjatöku.  „Mér sýnist að nú gæti verið komin bjarglega; það lóar ekki við hleinina“.  Ef ekki hvítnaði við Straumsker í Kollsvík um fjöru voru taldar líkur á bjarglegu.  Sama viðmið var í Breiðuvík; ef ekki hvítnaði í Fjarðarhorni var nokkuð örugg bjarglega. 

Bjargleiðangur (n, kk)  Ferðalag til eggja/fyglinga út á eða undir Látrabjarg; bjargferð; undirbjargsferð.  „Ég fór ekki með þeim í þennan bjargleiðangur“.

Bjargnibba (n, kvk)  Nibba sem stendur upp/út úr bjargi/kletti.  Traustar nibbur má oft nota til að bregða á eða festa vað/lásbandi.  „Áður en lauk vorum við komnir það langt niður í Bjargið að þraut sextugan vað sem við höfðum fest um stein eða bjargnibbu á grasganginum, þar sem við byrjuðum fuglatekjuna“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Bjargreisa (n, kvk)  Gæluheiti á bjargferð/bjargleiðangri.  „Bjargreisan tók lengri tíma en áætlað var“.

Bjargskrúði (n, kk)  Yfirhöfn bjargmanns í eggjatöku; eggjaskyrta.  „Sigarinn steypir yfir sig bjargskrúðanum, sem er stór strigakufl.  Á honum eru op fyrir höfuð og handleggi; svo stór að inn um þau geti hann látið inná sig eggin.  Hypjar hann svo kuflinum sem best uppá bakið og bindur hann svo með snæri að sér um mittið, svo að eggin hrynji ekki niður.  Í þenna bakpoka komast um 150 egg.  Ennfremur hefur hann poka undir egg á öðrum handleggnum“  (ES; Látrabjarg; Barðstrendingabók).

Bjargsmölun (n, kvk)  Smölun Látrabjargs, Bæjarbjargs, Breiðavíkurbjargs og Keflavíkurbjargs.  „Þeir ætla í Bjargsmölun á þriðjudaginn“.

Bjargtóg / Bjargvaður (n, kk)  Bjargfesti; festi sem sigara er slakað í niður í bjarg til eggja eða fyglinga.

Bjargvegur (n, kk)  Vegur sem farinn er til að komast á bjarg til að nytja það.  „Út yfir framanverðan Múlann lá bjargvegurinn frá Breiðavík, fyrst út í Engidal en síðan út Flatir“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Bjarmalandsferð / Bjarmalandsleiðangur (n, kvk)  Ferð í mikilli tvísýnu; óvissuferð.  Uppruna orðisins má rekja til víkingatímans, en Bjarmaland nefndu víkingar héruðin í kringum Hvítahaf.  Ferðir þangað voru hættulegar og tvísýnar og af því er líkingin dregin.  Almennt notað í Kollsvík um slíkar ferðir, allt fram á þennan dag:  „Þetta verður líklega einhver bjarmalandsferð hjá okkur“.

Bjarnarbæli (n, hk)  Hættulegur staður; ljónagryfja.  „Hann sagðist hafa fengið óbótaskammir þegar hann kom þar síðast; hann færi nú ekki að hætta sér í það bjarnarbæli á næstunni“.

Bjartimorgunn (n, kk)  Bjart af degi.  „Það var komið fram á bjartamorgunn þegar ég vaknaði“.

Bjartsýnishljóð / Bjartsýnistónn (n, hk/kk)  Um það þegar aukinnar vonar/bjartsýni gætir í því sem sagt er.  „Það er ekki mikið bjartsýnishljóð í bændum eftir þessar breytingar“.  „Einhver bjartsýnistónn var kominn í hann um árangurinn“.

Bjálfagangur / Bjálfaháttur / Bjánaskapur (n, kk)  Heimska; kjánaháttur.  „Skelfingar bjálfagangur er nú í honum“!  „Það er bjánaskapur að halda að þetta sé hægt“.

Bjánagangur / Bjánaskapur (n, kk)  Aulaháttur; fíflagangur; kjánaskapur.  „Hverskonar bjánagangur var í þeim að æða á sjó í svona veðurútliti“?!

Bjánaglott (n, hk)  Óviðeigandi/aulalegt bros.  „Það ætti að hverfa eitthvað af honum bjánaglottið þegar ég sýni honum þetta svart á hvítu“!

Bjórgafl / Bjórþil (n, hk)  Hálfþil; hálfgafl; þríhyrnt þil í húsi, t.d. ofan hlaðinna veggja og dyra í gafli húss.  „Ég hlóð reykkofa uppúr gamalli sauðatóft í Ytragili, með bjórgafli beggja vegna“.  Bjór merkti að fornu þríhyrningslaga stykki; t.d. gafl í kænu.  Bjór merkti í upphafi e.t.v. fleygur sem barið er á, og orðstofninn því sá sami og að „berja“ og e.t.v. einnig „bor“.

Bjúgusneið (n, kk)  Sneið af bjúga.  „Settu nú tvær bjúgusneiðar á diskinn fyrir mig“.

Blaðlöm (n, kvk)  Löm með blöðum/flipum báðumegin við liðinn, og eru blöðin skrúfuð/negld á undirlagið.  Blaðlamir geta verið af margvíslegum stærðum og gerðum, og notaðar á t.d. hurðir, kassa, kistur, hlið o.fl.

Blaðpinni (n, kk)  Nýyrði Valdimars Össurarsonar; eitt af nokkrum sem nauðsyn hefur reynst á, vegna fyrstu þróunar sjávarfallahverfla á Íslandi.  Blaðpinni merkir tein/pinna/ás sem gengur því sem næst hornrétt út frá meginási hverfilsins, en á blaðpinnanum leikur blaðið þegar það opnast og lokast í straumnum til að fanga orku straumþungans.  Margir blaðpinnar geta verið á sama meginás; tærð þeirra, lögun og halli getur verið með ýmsu móti; sem og festing blaðsins við þá“ (VÖ).

Blaðstoppari (n, kk)  Sá hluti sjávarfallahverfils sem gegnir því hlutverki að stöðva snúning blaðsins um blaðpinnann, þegar blaðið er komið í opna stöðu.  Orðið er nýyrði, tekið upp af Valdimar Össurarsyni vegna þróunar fyrstu íslensku hverflanna sem ætlaðir eru til nýtingar sjávarfallaorku.  Í einkaleyfalýsingum og öðru máli er orðið stundum stytt í „stoppari“.

Blakkferð / Breiðsferð (n, kvk)  Eggjaferð/eggjaleiðangur í Blakk/Breið.  „Við stefnum að Blakkferð á laugardaginn“.  „Háfurinn er úti á brún, frá síðustu Breiðsferð“.

Blammeringar (n, kvk, fto)  Svívirðingar; niðrandi ummæli; ákúrur.  „Maður getur nú ekki vel setið þegjandi undir svona blammeringum; alveg sárasaklaus“!

Blautlegur  (l)  Um veðurlag; rigning; vætusamt; vott.  „Hann er búinn að vera fjári blautlegur í tíðinni“.  Virðist ekki hafa verið notað í þessari merkingu annarsstaðar.

Blákantur (n, kk)  Mjög tæpt á kanti (t.d. vegkanti).  „Honum var illa við að fara bílförin þar sem þau lágu á blákantinum“.  Sjá blábrún.

Blásarareim (n, kvk)  Kílreim sem færir afl yfir á blásara frá vél eða rafmótor. 

Blásarastokkur (n, kk)  Steyptur stokkur sem lofti er blásið um; hluti af súgþurrkunarkerfi í hlöðu.

Blásnúningur (n, kk)  Háliggjandi; fallaskipti; stuttur tíma straumleysu meðan skiptir falli.

Blásteinn / Blásteinslútur (n, kk)  Koparsúlfíð sem notað var til litunar á skinni.  Sjá gæra.  „Skinnin sem notuð voru til skinnklæðagerðar voru misjafnlega undirbúin.  Sum voru blásteinslituð, og þótti það verja fúa“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Gærur sem nota átti í sjóklæði voru rakaðar með flugbeittum hníf; síðan lagðar í blásteinslút.  Blásteinn var fluttur inn í föstu formi, en síðan leystur upp með vatni og notaður sem rotvarnarefni“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Blátungubroddur (n, kk)  Fremsti oddur tungunnar þegar hún er rekinn út úr munni.  „Ég þorði ekki að smakka á þessu, en rak í það blátungubroddinn“.

Blesmæltur (l)  Blestur í máli; smámæltur; getur ekki sagt „s“.  „Hann var stórgáfaður, en áberandi blesmæltur“.

Blettfætt (l)  Um lit á sauðfé; hvít með svarta(n) blett(i) á fótum.  „Blettfóta er að bera uppi undir Hjöllum“.

Bleytudrulla / Bleytuslydda / Bleytuskítur (n, kvk)  Mjög blaut slydda; slydda sem bleytir mjög föt og annað; nærri rigning.  „Þetta er ljóta bleytudrullan; maður er innúr með það sama“!  „Er ekkert að draga úr þessum bleytuskít“?

Bleytuseil (n, kvk)  Mýrlent svæði; fen.  „Björnsáll er mýrarfláki framan og ofanvið Prestavaðið...  Þessar mýrar voru með miklum bleytuseilum og alófærar stórgripum“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Bleytukóf / Bleytusviðringur (n, hk)  Skafmoldarbylur í frostlausu veðri, þannig að kófið bráðnar um leið og það sest á föt og hörund.  „Maður verður blautari í þessu bölvuðu bleytukófi en í hellirigningu“.  „Féð varð forblautt í bleytursviðringnum“.

Blikkklippur / Blikkskæri (n, kvk/hk, fto)  Verkfæri til að klippa blikkplötu, t.d. þakjárn.  „Hvar lagði ég nú frá mér blikkklippurnar“.

Blindaél / Blindél / Blinduél (n, hk)  Blindhríð; blindbylur; svartaél; svo dimmt él að ekki/illa sést hvert gengið er.  „Það gerði á okkur blindaél uppi á Aurtjörninni, svo við urðum hreinlega að stoppa“.  „Við skulum hinkra aðeins með að fara af stað; hann er að koma með blindél“.  „Hann er að skella á með blinduéli sýnist mér“.

Blindhríð / Blindhríðarbylur / Blindkóf / Blindukóf (n. hk)   Blindöskubylur; fíngert snjókóf, svo þétt að varla sést út úr augum.  „Það var þvílíkt blindkóf að við urðum hreinlega að stoppa trekk í trekk til að lenda ekki útaf veginum“.  „Við lentum í blindukófi þegar kom niður í brekkuna“.

Blindsvartaþoka (n, kvk)  Mjög dimm þoka; niðaþoka.  „Það er komin blindsvartaþoka og náttmyrkur, svo við komum okkur saman um að fara eftir veginum að Breiðavík“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Blíðskaparhaust / Blíðskaparsumar / Blíðskaparvetur / Blíðskaparvor  (n, hk/kk)  Árstíðir sem þykja mildari/betri/hlýrri/lygnari en í meðallagi.  „Þetta hefur bara verið blíðskaparhaust, það sem af er“. 

Blíðskapartíð / Blíðutíð (n, kvk)  Langur blíðviðriskafli.  „Það má ýmislegt gera í svona blíðskapartíð“.

Blotaél / Blotaskítur (n, hk/kk)  Slydduél.  „Ég lenti í blotaéli á leiðinni og er alveg eins og hundur af sundi dreginn“.  Það þýðir ekkert að láta féð út í þennan blotaskít; við skulum láta sjá örlítið“.

Blóðbakki (n, kk)  Grunnt ílát sem blóð úr kind er látið renna í þegar henni hefur verið slátrað, meðan hrært er rösklega í því.  Í seinni tíð eru notuð plastföt, en áður hafa líklega verið notuð trog.

Blóðbrúsi (n, kk)  Ílát sem blóð er kælt í.  Meðan mjólkursala var í Kollsvík var mjólk geymt í mjólkurbrúsum sem kældir voru í uppprettuvatni eins og mjólkin, t.d. í Kaldabrunninum.

Blóðforeldrar (n, hk, fto)  Foreldrar barns, sem getið hafa það sjálf; ekki kjörforeldrar kjörbarns.

Blótsyrðabálkur / Blótsyrðaflaumur / Blótsyrðaruna (n, kk)  Ljótur munnsöfnuður; samantvinnuð blótsyrði.  „Hann las yfir strákunum vel valinn blótsyrðabálk og skipaði þeim að fara til baka og sækja kindahópinn“.  „Hann var víst ekki fagur blótsyrðaflaumurinn, þegar karlinn datt kylliflatur í forina“.

Blússugopi / Blússuræfill (n, kk)  Léleg blússa; rifinn/slitinn/þunnur vinnustakkur.  „Hefurðu ekkert utanyfir þig annað en þennan blússuræfil“?  „Þessi blússugopi er nú ansi skjóllítill í svona brunagaddi“.

Blýateinn/ Blýaþinur (n, kk)  Neðri teinn/þinur á neti nefndist oft svo, meðan hann var þyngdur niður af litlum, blýhólkum; netablýi.  Hólkarnir voru steyptir heima; geymablý brætt í deiglu og blýbráðin látin renna í mót á sérstakri blýatöng

Blýatöng (n, kvk)  Mót til að steypa netablý, fest framan á töng til hagræðis.  Bráðnu blýi er rennt í lokað mótið; því dýft í vatn til kælingar og losað með því að opna töngina.  Sumir áttu slíkar tengur á blómatíma grásleppuútgerðar í Rauðasandshreppi, og lánuðu gjarnan öðrum.  Þá felldu flestir net sín sjálfir.

Blýbráð (n, kvk)  Bráðið blý sem notað var m.a. til að steypa netablý á blýaþin (sjá þar).

Blýfesta (n, kvk)  Festa sem erfitt er að losa/losna úr.  „Leggðu ekki of nálægt hleininni.  Þar lenti ég einusinni í þvílíkri blýfestu að ég flengreif netið og þurfti að skera á blýateininn“.

Blýaflækja (n, kvk)  Flækja sem verður í neti við það að eitt eða fleiri blý á blýaþini/blýateini slæst inn í netið í lagningunni.  Sjá innísláttur og kubbaflækja/korkaflækja.

Blöðruspark (n, hk)  Knattspyrna; það að sparka bolta.  „Ég hef aldrei skilið hversvegna fullorðið fólk leggur sig niður við þetta tilgangslausa blöðruspark“!

Boldangsflík (n, kvk)  Ruðamikil/ fyrirferðarmikil flík.  „Þessi úlpa er boldangsflík; og mikið helvíti er hún nú hlý og skjólgóð“.

Boldangstré (n, hk)  Stórt rekatré.  „Þarna var mikið sprek á fjörum og fáein boldangstré“.

Boldangsfiskur / Boldangsþorskur (n, kk)  Stór/vænn fiskur; auli; golþorskur.  „Þú dregur hvern boldangsfiskinn eftir annan en ég fæ tóma aumingja“!  „Þarna dró ég hvern boldangsþorskinn eftir annan“.

Boltafjandi (n, kk)  Niðrandi heiti á boltaíþróttum; töluvert notað af þeim stóra hópi Kollsvíkinga sem hefur lítinn áhuga eða skilning á þeirri íþrótt.  Þar eru þó nokkrar undntekningar á í seinni tíð.  „Ekki skil ég hvernig nokkur lifandi sála getur fengið sig til að eyða tíma yfir þessum boltafjanda síknt og heilagt“!

Boltatuðra (n, kvk)  Gæluheiti á fót- eða handbolta.  „Ég hef aldrei nennt að eltast langtímum saman við einhverja boltatuðru, og skil illa þá sem hafa gaman af svo tilgangslausu hoppi“.

Borðafullur (l)  Bátur sem fengið hefur áfall og fyllst af sjó;borðstokkafullur.  „Aftur veltur báturinn og er nú kjölréttur, en borðafullur“  (KJK; Kollsvíkurver).  Orðið finnst ekki í orðabókum.

Borðfletta (s)  Fletta/saga tré í borðvið.  „Þessi bolur er beinn og kvistalaus; það má vel borðfletta honum“.

Borðstokkafylla(s)  Fylla bát upp á borðstokka, svo hann marar í kafi.  „Brotsjórinn óð með hleininni og framyfir skut bátsins, svo hann borðsokkafyllti á augabragði; áhöfn og farviðir köstuðust ýmist uppá hlein eða í sjóinn, en ekkert tapaðist þó“.

Borgarnef (n, hk)  Lyktnæmi aðkomumanns á þá lykt sem fylgir sveitum og búskap, s.s. fjósalykt og votheyslykt.  „Þú verður bara að setja nefklemmu á þitt borgarnef meðan þú gefur votheyið, en annars venst þetta fljótt“.

Botnfullur (l)  Um ílát; með innihald sem hylur botninn.  „Berjadósin var rétt botnfull“.

Botnfylli / Botnhylur  (n, kvk/kk)  Það þegar komið er svo í ílát að botninn er hulinn/þakinn.  „Í fyrstu berjaferðunum þótti manni það skítt að fá ekki nema botnfylli meðan eldri strákarnir voru komnir með hálf sín berjabox.  En þeir tíndu heldur ekki eins mikið uppí sig.

Botngefa (s)  Um bíl; stíga bensíngjöfina í botn.  „Það kom bölvuð bensínstífla í bílinn hér norður á vegi.  Ég varð að botngefa honum í lágum gír til að koma honum heim“.

Botnkyrrð (n, kvk)  Straumleysi við botn sjávar vegna viðnáms, þegar straumur er í efri lögum vegna t.d. sjávarfalla.  Fallastraumur er allajafna mestur í yfirborði sjávar, en fer minnkandi til botns; minnkar örast næst botninum og þar er oft straumleysi/botnkyrrð.  Í röstum er óreglan þó mun meiri, enda myndast þar tíðum iðuköst og straumgöndlar.

Botnlýjur / Botnrök (n, kvk/hk, fto)  Hey sem er neðsti í galta og hefur dregið í sig raka úr jörðinni eða bleytu af yfirborðinu.  Botnlýjurnar þurfa því jafnan meiri þurrk en annað hey í galtanum.  Þær eru tíðum bornar útfyrir flekkinn eftir að galtinn hefur verið breiddur og þurrkaðar sér í lagi.

Botnrof (n, hk)  „Skerðing botns frostgígs við það að ísferja hrífur með sér flökkuefni.  Botnrof birtist t.d. sem gloppur í annars sléttum botni, þar sem vöntun er á efni; barmar óreglulegir og dýpt rofsins nokkuð jöfn í því öllu“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Nýyrði vegna jarðfræðikenningar sem upprunnin er í Kollsvík.

Bókarræfill / Bókarslitur (n, hk)  Ræfrildi/hluti/lami af bók; léleg bók.

Bókarskrudda / Bókarskræða (n, kvk)  Gælunafn á bók; gamalt rit.  „Réttu mér bókarskrudduna þarna“.

Bólguvottur (n, kk)  Lítilsháttar bólga/þroti.  „Lambið bar sig merkilega vel eftir hrapið.  Mér fannst vera einhver bólguvottur í lærinu á því, en það stakk þó ekki mikið við“.

Bómosía (n, kvk)  Bómullartau; þykkt voðfellt bómullarefni sem notað var t.d. í nærfatnað.  Orðið var annarsstaðar skrifað bómesi eða bommesi (sjá t.d. ÁBM; Ísl.orðsifjabók).  Ekki notað í seinni tíð.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Bónþægðargrey / Bónþægðarmaður (n, hk/kk)  Sá sem er bóngóður/bónþægur.  Hið fyrra var oftar notað sem jákvætt gæluorð um greiðvikinn ungling.  „Hann kannski stígur ekki alltaf í vitið; en þetta er mesta bónþægðargrey og aldrei hallar hann orði við nokkurn mann“.

Bótasteinbítur (n, kk)  Steinbítur sem veiddur er á miðinu Bótum; fram af Útvíkum.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimild KJK). 

Brandhlaða (s)  Hlaða steinvegg upp í topp; hlaða brandhleðslu.  „Líklega hafa menn haldið þeirri venju að brandhlaða veggi löngu eftir að ásaþök viku fyrir sperruþökum, enda var lögum hörgull á timbri í gafla en gnægð af grjóti“.

Brandhlaðinn (l)  Um steinhlaðinn vegg; hlaðinn í topp uppundir mæni.  „Aftari veggur kofans var brandhlaðinn en framveggurinn með hálfgafli“.  Sjá hlaða í brand.

Brandhleðsla (n, kvk)  Hleðsla steinveggjar á þann hátt að hleðslan nái upp í mæni/ uppundir mæniás.  „Brandhleðsla er í báðum göflum Hesthússins, sem gæti bent til þess að í upphafi hafi verið ásaþak á því“.

Brandveggur (n, kk)  A.  Upphafleg merking; veggur sem hlaðinn er í brand.  Sjá brandur; brandhleðsla.  „Hesthúsið er með brandveggjum í báða gafla“.  Vísar til þess að heitið „brandur“ var fyrrum haft um mæniás.  B.  Síðari tíma dönskusletta; eldhindrandi veggur í byggingu.  Vísar til elds; „brand“.

Brauðbox (n, hk)  A.  Blikkbox sem brauð er bakað í.  Fyrrum tíðkaðist að nýta blikkbox umdan ýmiskonar vöru, t.d. kakóbox eða „makkintosdósir“ sem brauðform, væru þau ekki við hendina.  B.  Lítil askja sem brauð eða brauðsneiðar eru gymdar í; t.d. nestisbox

Brauðmusk (n, hk)  Brauðmylsna.  „Sópaðu brauðmuskinu ofaní hundadallinn“.

Brauðhófast (s)  Ryðjast; ganga ógætilega um. „Vertu nú ekki að brauðhófast svona uppi á þakinu drengur“!  Breddugangur (n, kk)  Yfirgangur og skammir; einkum af hendi kvenmanns.  „Skárri er það nú breddugangurinn í stelpunni“!

Bráða (s)  Tjarga; tjörubera; mála bát upp úr tjöru eða biki (LK; Ísl. sjávarhættir II; heimild ÓM) (Sjá tjarga)

Bráðahætta (n, kvk)  Aðsteðjandi hætta/vandi sem bregðast þarf strax við.  „Mér sýnist að það sé engin bráðahætta á ferðinni, en það þarf að fylgjast vel með framvindunni“.

Bráðhast (n, hk)  Mjög mikill flýtir; snarhast.  „Ég sneri bátnum uppí brotið í bráðhasti“.

Bráðhasta (s)  Kalla mjög að; mjög brýnt.  „Þetta bráðhastar ekki, en gott væri að gera það sem fyrst“.

Bráðhastandi (l)  Mjög brýnt/aðkallandi.  „Ég kem strax ef þetta er bráðhastandi; annars á morgun“.

Bráðhentugur (l)  Mjög hentugur/þarfur/þénanlegur.  „Þessir skór eru bráðhentugir í bjargferðir“.

Bráðhugguleg / Bráðlagleg (l)  Mjög lagleg/myndarleg/falleg.  „Hún er bráðlagleg og vel að sér“.

Bráðnauðsyn (n, kvk)  Það sem er mjög brýnt/nauðsynlegt.  „Það er nú engin bráðnauðsyn að setja féð inn strax.  Það hefur gott af að vera dálítið úti þó það beiti sér lítið“.  „Mér finnst engin bráðnauðsyn á þessu“.

Bráðsniðugur (l)  Mjög snjall/fyndinn.  „Þetta er bráðsniðug uppfinning“.  „Þeim fannst þetta bráðsniðugt“.

Breða (n, kvk)  Svarkur; frekur/ráðríkur kvenmaður.  „Vonandi losnum við við þessa breðu úr stjórn fljótlega“.

Breiðavíkurmegin (ao)  Nær/tilheyrandi Breiðavík.  „Minna er um múkkavarp í Breiðnum Breiðavíkurmegin“.

Brekkulaus / Brekkulítill (l)  Um veg/gönguleið; án mikils halla.  „Vegurinn um Dalverpi er mest af nokkuð beinn og brekkulítill“.

Bremsusteinn (n, kk)  Steinn sem settur er við hjól á bíl til að hann renni ekki í brekku.  „Karlinum gekk illa að taka af stað í brekku; þegar færa þurfti fótinn af bremsunni á inngjöfina.  Fangaráð hans var að setja steina við hjólin áður en haldið var af stað, og víða mátti sjá slíka bremsusteina á póstleiðinni“.

Brennisteinsfnykur / Brennisteinsfýla / Brenisteinslykt / Brennisteinsstækja / Brennisteinssvæla (n, kk/kvk)  Sterk lykt af brennisteini.  „Ferleg brennisteinsstækja er nú af þessum freti; þetta er verra en stankurinn af fjandanum sjálfum“!

Brennivínsraus (n, hk)  Drykkjuslaður; rugl/bull sem viðhaft er af drukkinni manneskju.  „Ég held að þetta slúður sé nú bara eitthvað brennivínsraus sem varð til á þorrablótinu“.

Brestur (n, kk)  Aftasti hluti lúðustirtlu eftir að sporðurinn hefur verið skorinn af.  „Þess voru dæmi að sá hluti fitleikans sem fylgdi bolnum þegar sporðurinn var skorinn frá, væri einungis nefndur brestur, en strabbi parturinn sem var áfastur blökunni“ (LK; Ísl.sjávarhættir; heimld: Guðbj.Guðbjartsson).

Breyskja af (orðtak)  Um dögg á jörð; þorna fljótt af í sterku sólskini.  „Ég fer að setja heytætluna við traktorinn; hann breyskir fljótt af í þessu sólskini“.

Breyskjuhiti /Breyskjusólskin / Breyskjuþurrkur (n, kk)  Hitasvækja; mjög hlýtt í veðri.  „Grasið þornar af ljánum í þessum breyskjuhita“.  „Gættu þess að brenna ekki í þessu breyskjusólskini“. „Líklega varður sami breyskjuþurrkurinn á morgun“.

Brimaátt (n, kvk)  Vindátt sem helst er hætt við að brimi úr.  „Öruggasta sundið inn á lægið var Syðstaleiðin talin; hvort heldur brimaði af norðri eða vestri, en það voru brimaáttirnar“  (KJK; Kollsvíkurver).

Brimhrotti (n, kk)   Allmikill sjór; brim.  „Þeir voru komnir á undan okkur og lentir þegar við komum upp á Lægið og þá var kominn brimhrotti talsverður“  (Guðm. Jón Hákonarson; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrásetti; Árb.Barð 2004).

Brimlag (n, hk)  Hegðun brims; sjólag í sverum sjó.  „Nokkur stans verður á meðan brimlag er athugað“  (KJK; Kollsvíkurver).

Brimsvarrandi (n, kk)  Svarrabrim; mikið brim; hávaðabrim.  „Það er alltaf sami brimsvarrandinn; dag eftir dag.  Hann hlýtur nú að fara að linast á þessari norðanátt“.  Annarsstaðar sagt „brimsvarri“

Bringuhækill (n, kk)  Tota sem myndast á gæru sauðkindarskrokks við það að hæklari ristir frá framfótarliðum uppá bringuna úr báðum áttum; og í stefnu aftureftir miðjum kvið.  Þegar rétt hafði verið rist fyrir varð til tota uppi á bringunni sem hæklari reif upp áður en skrokkurinn var fluttur af hæklunarbekknum á fláningsgálga; til að fláningsmaður ætti auðveldara með sitt verk.  „Hér hefur gleymst að rífa upp bringuhækilinn“!

Bríararí (n, hk)  Sama merking og bríarí.  (Báðar orðmyndir voru notaðar vestra í mínu minni; VÖ)  Orðmyndin virðist þó ekki hafa verið notuð utan svæðisins.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  „Ykkur er það velkomið geyin mín; ég mun passa að þið séuð ekki að neinu fikti eða bríararíi“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru). 

Brogað við (orðtak)  Bogið við; undarlegt.  „Mér finnst eitthvað brogað við þessa ferðamenn sem æða hér um allar jarðir án þess að ræða við heimafólk“.

Brotinhyrnd (l)  Um hornalag sauðkindar; með brotið horn; brotinhyrnd (ef hornstúfur er eftir); einhyrnd (ef brotið við rót).

Bróðernisbragur (n, kk)  Yfirbragð vináttu/kærleika/bróðernis; auðsýnd vinátta.  „Mér fannst nú lítill bróðernisbragur á þessu skítkasti; hann hefði alveg mátt láta þetta ósagt“!

Bróðurkærleikur (n, kk)  Sátt/hlýhugur á milli bræðra.  „Menn gátu tekist á í orðum þarna í bragganum; þar var ekki alltf bróðurkærleikurinn allsráðandi“.  Alltaf með þessari endingu vestra, en orðabækur sýna i-endingu.

Brugðningarstykki (n, hk)  Stykki í hringprjónavél, til að prjóna brugðið.  „Ég var búin að nefna hringprjónavél sem var til heima og þótti mikil framför. Í henni voru prjónaðir allir sokkar (nema grófar hosur og snjósokkar) og stundum vettlingar. Þessari prjónavel fylgdi svokallað brugðningarstykki sem féll ofan í hringinn og var þá hægt að prjóna brugðið í vélinni þó ekki nema í hring. Var það notað til að prjóna nærboli á börn og konur“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). 

Brunaáburður / Brunasmyrsl (n, kk/hk)  Krem/smyrsl sem borið er á brunasár til kælingar, mýkingar og sótthreinsunar.  „Réttu mér brunaáburðinn þarna í skápnum“.

Brunadæla (n, kvk)  Slökkvidæla; tæki sem dælir vatni til slökkvistarfa.  „Bensíndrifin brunadæla var fengin í Rauðasandshrepp kringum 1980 og staðsett í hundahreinsunarhúsinu í Hnjótshólum“.

Brúkhæfilegt / Brúkanlegt / Brúkhæft / Brúklegt (l)  Nothæft; nýtanlegt; sæmilegt.  „Mér finnst nú bara að þessi ríkisstjórn sé varla brúkhæfileg eftir þessar gloríur“.  „Þetta er vel brúkanleg peysa“.  „Heyskapur er mun minni en í fyrra, en samt vel brúkanlegur“.  „Þessi hnífur er varla brúkhæfur“.  „Ég ætti kannski að finna mér einh verjar brúklegar buxur áður en ég fer á fundinn“.

Brúsaburður (n, kk)  Burður mjólkurbrúsa frá stöðli í mjólkurkæli.  „Kýr voru mjólkaðar á stöðli frammi í Túnshala á Láganúpi, um nokkurn tíma eftir að hafin var mjólkursala.  Fyrst var seld mjólk úr tveimur kúm, Nótt og Búbót, en fljótlega var þeim fjölgað.  Handmjólkað var, og mjólkin var síuð í 20 lítra mjólkurbrúsa við stöðulinn.  Að mjöltum loknum var brúsinn borinn milli tveggja manna í kæli í gamla brunnhússtæðinu neðanvið Pallagarð.  Þar hafði verið grafinn niður trékassi, og hvolft öðrum yfir til varnar gegn sól.  Ef lítið var í kúm, spöruðu menn sér þennen brúsaburð og báru mjókina að kælinum í fötum.

Brúsabörur (n, kvk, fto)  Hjólbörur, sérstaklega búnar til að aka mjólkurbrúsum.  „Ég smíðaði tvíhjóla brúsaböður úr tré, til að létta brúsaburðinn frá fjósinu niður í mjólkurkælinn í Kaldabrunni.  Þær voru ekki vel hentugar og voru ekki mikið notaðar“ (VÖ).

Bryðjugangur / Bryðjuháttur (n, kk)  Fyrirgangur; brussugangur.  „Skelfilegur bryðjugangur er þetta“! 

Bræðingskrús (n, kvk)  Dolla með bræðingi.  „Lét þá formaður rétta sér bræðingskrús er með var, og makaði bræðingi á sprungurnar.  Minnkaði lekinn svo við það að þeir gátu farið að renna“  (ÖG; Þokuróður).  (óvist hvort heldur er bik eða hinn sami og hafður er með mat).

Brækjufýla / Brækjustybba (n, kvk)  Þræsin og sterk lykt.  „Opnaðu út meðan mörinn er að bráðna, til að losna við þessa brækjufýlu“.  „Ekki setja dekkið á brennuna; það verður svo ferleg brækjustybba af því“.

Bræluskítur (n, kk)  Bræla; slæmt sjóveður.  „Það var bolvaður bræluskítur og ekkert veiðiveður“.

Bröndufæri (n, hk)  Færi sem börn notuðu til að veiða bröndur á krók; dorg.  Misjafnlega útbúið, en oft þannig að lítill krókur var festur, ásamt sökku og stundum floti, með stuttum grönnum þræði (oft netagarni) fremst á stutta stöng.  Krókurinn var egndur, oft með ánamaðki, og síðan var dorgað með þessu í hyljum í lækjum, en fyrrum var allmikið af bröndu í öllum lækjum í Kollsvíkinni.  Oft var sæmileg veiði, sem börn matreiddu stundum sjálf yfir fljótgerðum hlóðaeldi.

Bröndukvikindi (n, hk)  Niðrandi/vorkennandi heiti á bröndu/lækjasilungi.  „Minkfjandinn er búinn að drepa hvert einasta bröndukvikindi í Víkinni“.

Bröndunet (n, hk)  Smáriðið net til veiða á bröndum í hyljum lækja.  Oftast voru þau skorin úr loðnunót sem rekið hafði á fjöru; um 1 fet á dýpt og tvö á breidd; haldið á floti með korkum og við botn með steinum.  Lögð frá bakka, en stundum með tunnubáti.  Oft komu í þetta nokkur kvikindi eftir fárra klukkutíma legu. 

Brönduveiðar (n, kvk)  Veiðar sem börn stunduðu á bröndu í lækjum.  Mikið var um bröndu í flestum lækjum í Kollsvík áður en minkur útrýmdi henni eftir 1980.  Börn notuðu ýmsar aðferðir við veiðiskapinn.  Bröndur voru gripnar undir steinum og bökkum; þær voru veiddar á stöng í hyljunum og í bröndunet.  Oft var þeim sleppt aftur, en stærstu bröndurnar voru borðaðar og þóttu ágætur matur.  Einnig var gripinn áll og étinn.  Drengjum sem sendir voru eftir kúnum vildi oft dveljast við brönduveiðar á leiðinni, sem var illa séð.

Brösulega (ao)  Illa; böslulega; óhönduglega.  „Honum gengur eitthvað brösulega að vinna verkið“.

Burðuglega (ao)  Björgulega; beysið; vel.  „Hann ætti ekkert að reyna að smala þessu fé einn.  Það tókst ekki svo burðuglega hjá honum síðast“!

Burgeisaháttur (n, kk)  Mont; að láta sem stórbokki; pótintáti.  „Skárri er það nú burgeisahátturinn; þykist ekki sjá mann þegar svona „meiri háttar menn“ eru nálægt“.

Burtferðarbiti (n, kk)   „Burtferðar var biti minn / banakringla úr lambi“  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  Orðið finnst ekki í orðabókum í þessari mynd, en annarsstaðar þekktist „burtfararbiti“.

Butra (s)  Bauka; baksa; dunda.  „Hann er að butra við að bólstra stólgarminn“.

Búandkona (n, kvk)  Bóndakona; kona sem stendur fyrir búi.  „Búandkonur hafa alltaf sett svip á mannlífið. Með því orði er oftast vísað til ekkna, enda hefur karlrembusamfélagið íslenska alltaf talið karlinn sem bústjóra, jafnvel þó konan sé öflugri bóndi. Jafnvel þó karlinn væri eiliflega fjarrstaddur í verum eða vinnumennsku var hann alltaf talinn fyrir búinu.  Af búandkonum fyrri tíðar má nefna  Guðrúnu Eggertsdóttur í Bæ, sem reynar hefur fengið harða dóma sögunnar fyrir fégræðgi sína“.

Búkloft (n, hk)  Viðrekstur; fretur.  „Skelfingar óþefur fylgir þessu búklofti; hvern fjandann settirðu ofan í þig“?

Búmannsbragur (n, kk)  Bóndaháttur; siður/aðferð góðs bónda.  „Mér finnst afskaplega lítill búmannsbragur að því að nenna ekki að smala sínum eftirlegukindum þegar til þeirra sést“!

Búskussaháttur (n, kk)  Slæmt búskaparlag; sleifarlag/vanræksla við búskap.  „Þetta finnst mér bölsvaður búskussaháttur hjá honum; að láta kálfakvikindin ganga úti fram í snjóa“!

Bútungsfiskur (n, kk)  Smáfiskur; kóð; undirmálsfiskur.  „Hann var sæmilega viljugur þarna.  En mestmegnis var það bútungsfiskur“.  Verkaður nefndist hann einatt bútungur.

Byljahætt Byljasamt (l)  Um stað; hætt við sviptivindum/byljum.  „Þarna er yfirleitt skjólsælt, en getur orðið byljahætt í vissum vindáttum“.

Býsna / Býsnar / Býsnarlega (ao)  Allmjög; fremur.  „Hann er að verða býsna kaldur í tíðinni“.  „Þú stóðst þig býsnar vel í þessu fannst mér“.  „Mér finnst þetta ekki býsnarlega mikið“.

Býsnafallegt / Býsnalaglegt (l)  Mjög fallegt; all fallegt.  „Þetta er býsnafallegt málverk“!

Býsnafast (l)  Mjög/all fast; þéttingsfast.  „Varaðu þig á krabbanum; hann getur bitið býsnafast“!

Býsnaánægður / Býsnafeginn / Býsnaglaður / Býsnakátur (l)  Mjög/all ánægður/feginn/kátur.

Býsnafrost / Býsnakuldi (n, hk/kk)  Mikið frost; mjög kalt í veðri.

Býsnafróður (l)  Mjög/all fróður; veit mjög margt.  „Hann er býsnafróður um þessa hluti“.

Býsnagerðarlegur / Býsnalaglegur / Býsnamyndarlegur (l)  Mjög/all laglegur/myndarlegur.

Býsnaglöggur (l)  Mjög glöggur.  „Hann er býsnaglöggur á mörkin“.

Býsnagott (l)  Mjög gott.  „Þetta er óttaleg óvera, en það er býsnagott á bragðið“.

Býsnahált / Býsnasleipt (l)  Mjög/all hált/sleipt.  „Það er býsnahált í hjólförum í hlákunni“.

Býsnahátt (l)  Mjög/all hátt.  „Hann var kominn býsnahátt upp standinn þegar hann sneri við“.

Býsnakalt (l)  Mjög/all kalt.  „Klæddu þig almennilega; það er býsnakalt úti“!

Býsnakröftugur / Býsnaöflugur (l)  Mjög/all kröftugur/öflugur. „Þetta var býsnakröftug blanda“.  „Hann er býsnaöflugur við smalamennskur þó hann sé ekki hár í loftinu“.

Býsnalangt (l)  Mjög/all langt.  „Þetta var býsnalangt ferðalag“.

Býsnalítið (l)  Mjög lítið.  „Honum þótti býsnalítið koma í sinn hlut“.

Býsnamikill (l)  Mjög/all mikill.  „Þetta er býsnamikill afli á svona stuttum tíma“.

Býsnaminnugur (l)  Mjög/all/furðu minnugur; man all vel.  „Hún var býsnaminnug á svona hluti“.

Býsnasterkt (l)  Mjög sterkt; all sterkt.  „Hvað ertu með á pytlunni?  Þetta er býsnasterkt“!

Býsnastór (l)  Mjög/all stór.  „Þarna kemur býsnastór máfahópur, útundir Hreggnesa“.

Býsnastraumur (n, kk)  Harður/mikill straumur.  „Það er kominn býsnastraumur og flugrek“.

Býsnatæpur (l)  Mjög tæpt; all tæpt.  „Mér þótti þræðingurinn býsnatæpur á köflum“.

Býsnavel (l)  Mjög vel; all vel.  „Mér þótti þetta býsnavel gert, af svona litlum gutta“.

Býsnaþungur (l)  Mjög/all/glettilega þungur.  „Við skulum taka tveir á steininum; hann er býsnaþungur“.

Býsnaöflugur (l)  Mjög/all öflugur.  „Hann var býsnaöflugur við dráttinn“.

Bæjarbóndi / Bæjarhyski / Bæjarhöfðingi / Bæjarslekti / Bæjarveldi (n, kk/hk)  Heiti sem höfð hafa verið um höfðingja þá sem setið hafa í Saurbæ á Rauðasandi og þeirra fjölskyldur.  Í Saurbæ hafa löngum setið höfðingjar og stóreignafólk sem átti flestöll býli í Rauðasandshreppi og víðar.  Þó erfitt sé fyrir nútímafólk að dæma liðna tíma, má ætla að oft hafi verið um hreina kúgun að ræða.  Um það vitna t.d. sögur og heiti sem enn lifa. 

Bælningur (n, kk)  Mjög litlar öldur.  (JT Kollsvík; LK; Ísl.sjávarhættir III).  .

Bögglingslega (ao)  Klaufalega; óhönduglega.  „Skelfing ferðu bögglingslega að þessu“!

Böksulega (ao)  Böslulega; klaufalega; illa.  „Óttalega gengur þér böksulega að reima skóna þína drengur“.

Bölbænasöngur (n, kk)  Miklar bölbænir.  „Mér leiðist þessi eilífi bölbænasöngur!  Viltu ekki heldur fara bara og lumbra ærlega á honum“?!

Bölmóðshjal / Bölmóðsvol (n, hk)  Svartagallsraus; vonleysishjal.  „Það gagnast ekkert bölmóðsvol núna; við verðum bara að hreinsa þessar netadulur og koma þeim aftur í sjóinn“!

Bölmóðshjal / Bölmóðsvol (n, hk)  Svartagallsraus; vonleysishjal.  „Það gagnast ekkert bölmóðsvol núna; við

Dagbundið (l)  Um verk sem verður að vinna ákveðinn dag.  „Þetta er nú ekki svo dagbundið að við getum ekki frestað því til morguns“.  Orðið var almennt vestra en eina dæmið í Orðabók háskólans merkir „daglega“.

Dagsmerki (n, hk)  Eyktamark.  „Nónskegg er klettabrík, slétt upp en standar á, eins og Síðaskegg.  Það var dagsmerki, og var borðað er sól var þar kl 3.00.  Þetta merki var notað víðar af Sandinum“ (ÓS; Örnefnaskrá Lambavatns).

Damma (s)  Sigla sinn sjó; fara sína leið; ónýtast.  „Þessir skór eru búnir að lifa sitt fegursta; ég held ég láti þá bara damma“.  „Ég nennti ekki að eltast við þessa snarvitlauu skepnu; ég lét hana bara damma“.

Dauðasjólaust (l)  Alveg sjólaust; engin undiralda.  „Það er dálítið gráð í golunni, en alveg dauðasjólaust“.

Dauðatregur (l)  Um fiskirí; mjög dræmt; nauðatregur.  „Hann var dauðatregur nema rétt yfir blásnúninginn“.

Dauðlerkaður (l)  Örþreyttur.  „...þegar þeir komu að landi dauðlerkaðir með punghlaðinn bát...“  (LK;  Ísl. sjávarhættir II). 

Dauðsmannsgröf (n, kvk)  Legstaður manns.  Notað í líkingum:  „Hér er hljótt eins og í dauðsmannsgröf“.

Dádera við (orðtak)  Dekra; þjóna; gæla; láta með.  „Konfekt með kaffinu!  Það er aldeilis dáderað við mann í dag“.  „Það ætlar að dádera við okkur veðrið“!

Dáderingar (n, kvk, fto)  Dekur; þjónusta; snúningalipurð.  „Heldur eru það nú dáderingarnar!  Farðu nú að hætta að bera fleiri tertur á borðið“!

Dálkhelmingur / Meyjarhelmingur (n, kk)  Helmingar flatts og herts steinbíts (með gamla laginu).  Dálkhelmingi fylgir hluti dálks/hryggs, en meyjarhelmingi gotraufarugginn.  „Steinbítur var borðaður nýr og saltaður, en þó oftast harður...  Þegar honum var sundrað í tvennt var tekið í hvorn helming og rifið um hnéð.  Markið fylgdi þá dálkhelmingnum ásamt sporði og bekugga.  Kroppað var úr hryggjarliðunum og þar í kring; kallað að vinna að markinu.  Konum var ætlaður meyjarhelmingurinn“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh). 

Dámikill (l)  Nokkuð mikill; all verulegur.  „Við fengum bara dámikinn afla þarna yfir snúninginn“. 

Dásemdartíð (n, kvk)  Einstaklega gott tíðarfar.  „Þetta er nú meiri dásemdartíðin“.

Dembúll (n, kk)  Höfuðfat; eingöngu notað um kuldahúfu með eyrnaskjólum sem ýmist var bundin undir kverk eða yfir hvirfil.  Var m.a. haft yfir loðfóðraðar skinnhúfur með þessu lagi.

Dengilegur (l)  Dægilegur; efnilegur; til einhvers nýtur.  „Mér sýnist hann ekki dengilegur þessi lambkægill.  Það er óvíst að hann hjari“.  „Hann er vel dengilegur drengurinn; varð hæstur í sínum bekk“! 

Défilsári (uh)  Upphrópun/áhersluorð.  „Mikið défilsári er gott að setjast niður og pústa eftir þessi hlaup“.

Déskotakornið (n, hk, m.gr)  Milt blótsyrði/áhersluorð.  „Þú ferð déskotakornið ekki að leggja af stað í þessum fjárans blindbyl“!

Déskotans (uh)  Upphrópun; blótsyrði.  „Déskotans hávaði er þetta; það heyrist ekki mannsins mál“!

Déskotansekkisen (l)  Vægt blótsyrði/áhersluorð í lýsingum.  „Lækkiði nú niðurí þessu déskotansekkisen bítlagargi strákar; þetta er að gera mann vitlausan“! 

Déskotansnær (fs)  Andskotansnær; fjandansnær; staðið nærri; farið betur.  „Þér var déskotansnær að búa betur um eggin í byrginu eins og ég sagð þér; þá hefði hrafnskrattinn ekki komist í þetta“!

Dimmanótt (n, kvk)  Nótt; náttmyrkur.  „Við verðum að drífa í að klára þetta svo við verðum ekki alveg fram á dimmanótt“. 

Diskaskápur (n, kk)  Skápur sem matardiskar eru geymdir í.  „Settu þetta upp í diskaskápinn“.

Diskbarmur (n, kk)  Diskrönd; kantur á matardiski.  „Viltu ekki losa þig við beinin af diskbarminum“?

Diskúsjón (n, kvk)  Umræður; vangaveltur.  „Hann var með einhverjar diskúsjónir á fundinum  um tilteknar lausnir, en enginn tók verulega undir þær“. 

Distilleringar (n, kvk, fto)  Meðhöndlun; meðferð; útreið.  „Ekki lái ég frambjóðandanum þó hann sé uppburðalítill eftir þær distilleringar sem hann fékk á fundinum“.  „Það þarf sterk bein til að þola svona distilleringar“.

Dífekt (l)  Bilað; gallað; ófullkomið.  Úr ensku; „defect“.  „Það var eitthvað dífekt við karbaratorinn“.

Díselmótor / Díselvél (n, kvk)  Vél/sprengihreyfill sem gengur fyrir díselolíu.  Orðin eru ´tlend að uppruna en voru borin fram með greinilegu e-hljóði í seinna atkvæði í máli Kollsvíkinga.  Orðabók HÍ hefur þar i-hljóð.

Djöfulsbeinið (n, hk, m.gr)  Blótsyrði.  „Tófufjandinn er búinn að éta undan kollunni.  Sú skal nú ekki kemba hærurnar, djöfulsbeinið“.

Doktora (s)  Gæluorð um það að lækna; laga; gera við.  „Mér tókst að doktora klukkuna“.

Dómadagsandskotanskjaftæði (n, hk)  Yfirgengilegt bull; rakalaus þvæla; staðlausir stafir.  „Ég hef nú sjaldan á minni ævi heyrt annað eins dómadagsandskotanskjaftæði og þettað; hvað á nú svona tal að fyrirstilla“?!

Dómadagsblíða / Dómadagsveðurblíða (n, kvk)  Mjög/óvanalega stillt/kyrrt veður; rjómablíða.  E t.v. líking við þá kyrrð sem menn ímynduðu sér að yrði eftir dómsdag.  „Hún er nú bara með eindæmum, þessi dómadagsblíða dag eftir dag“.

Dómadagshávaði / Dómadagslæti  (n, kk/hk)  Óskapa/ógnarmikill/skelfilegur hávaði/fyrirgangur.  „Verið nú ekki með þennan dómadagshávaða krakkar; hafiði ögn lægra meðan ég hlusta á fréttirnar“!

Dómadagsmyrkur (n, hk)  Svartamyrkur; niðamyrkur.  „Dómadagsmyrkur getur þetta verið; maður sér bara ekki handa sina skil“.

Dómadagsrigning (n, kvk)  Mjög mikil rigning; skýfall; úrhelli.  „Varstu úti í þessri dómadagsrigningu“?

Dómadagsrugl/ Dómadagsþvæla/ Dómadagsvitleysa/ Dómadagskjaftæði/ / Dómadagsbull  Yfirgengilega vitlaust hjal; kolvitlausar staðhæfingar.  „Dómadagsrugl getur þetta verið í þér“!

Dómadagsvesen / Dómadagsvandræðagangur (n, hk)  „Það er nú óþarfi að gera eitthvað dómadagsvesen út af þessu“.  „Reynum nú að finna leiðir í þessuog hættum þessum dómadagsvandræðagangi og svartagallsrausi“.

Draga seyminn (orðtak)  Um framburð í töluðu máli; hafa sérhljóða langan; teygja úr orði/orðum.  „Sumir drógu mjög seyminn þegar þeir hóuðu á fé í fjarlægð“.  Líkingin vísar til saumaskaps; til þess að draga langan tvinna (seym) í saumfari. Orðtakið er vanalega ritað með einföldu i í stað y eins og vera skyldi.  Stafar það líklega af því að orðið „seymur“ hefur vikið fyrir „saumur“ áður en ritun varð almenn og samhæfð.  Á síðari tímum hafa fræðimenn lagt sig í framkróka við að skýra orðtakið eftir öðrum leiðum en þessari; sem þó liggur í augum uppi. Sjá seymur

Draga sig til kojs / Ganga til kojs (orðtök)  Fara að hátta/sofa; koma sér í rúmið.  „Nú er ég orðinn syfjaður.  Ég held bara að maður fari að draga sig til kojs“.  „Nú fer senn að verða tími á að ganga til kojs“.

Draslaragangur / Draslaraháttur / Draslararí  (n, kk)  Skortur á snyrtimennsku; slóðaskapur.  „Óttalegur draslaragangur er þetta í karlinum; að geta ekki gengið frá áhöldunum eftir sig“!  „Skelfing leiðist mér þetta draslararí, síknt og heilagt“!

Draslarí (n, hk)  Sóðaskapur; rú og stú.  „Skelfilegt draslarí er þetta hjá ykkur strákar; farið nú að taka til“! 

Dratthalagangur (n, kk)  Sleðaháttur; slóðaskapur; leti.  „Þú kemur engu í verk með svona dratthalagangi“!

Draugsíður (l)  Þungur á sér; drumbsíður; rasssíður; vögusíður.  „Ég er hræddur um að hrútarnir verði draugsíðir í rekstri norðuryfir Breið“.

Draugslegur (l)  Seinfær; hægur; seinlátur.  „Mér finnst hann alltof draugslegur við að koma þessu í verk“.  Orðið virðist ekki hafa verið notað í þessari merkingu annarsstaðar, þó vel sé þekkt í annarri meiningu.

Drápsauga / Drápsdý / Drápsfen / Drápspyttur / Drápsseil (n, hk)  Dý/kviksyndi sem hættulegt er skepnum. „Hér var stórhættulegt drápsfen áður en ræst var fram“. „Eftirlitið fólst í því að reka frá Mýrunum kvölds og morgna því mikið er af drápsdýjum í Láganúpsmýrum“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Dráttarfólk (n, hk)  Undirsetumenn; fólk sem situr undir vað við bjargsig; fólk sem sér um að slaka sigara niður og draga hann upp.  Í hópnum voru oft bæði karlar og konur; t.d. var það hluti starfs kvenna í seli á Seljadal að sitja undir vað á Látrabjargi.  „Vaðurinn hefur nú verið rakinn frá brúninni og hjólmaður kallar dráttarfólkið á vaðinn.  Fólkið sest nú flötum beinum við vaðinn með nokkru millibili; allir sömu megin, en hjólmaður sest ofanvið hjólið og hefur viðspyrnu á hjólgrindinni.  Hann situr undir, sem kallað er; lætur vaðinn renna yfir læri sér… Vaðbergsmaður/gægjumaður er kominn á sinn stað…“  (MG; Látrabjarg). 

Dreifhuga (l)  Utanvið sig; annarshugar; með athyglisbrest.  „Hann getur verið skýrasti náungi og snillingur með afbrigðum, en hann er svo dreifhuga að stundum fylgist hann ekkert með því sem honum er sagt.

Dreifhugi (n, kk)  Sá sem er mjög/oft dreifhuga.  „Skelfilegur sauður geturðu nú verið.  Það er til lítils að ræða yfirhöguð nokkuð við svona dreifhuga sem ekki geta fylgst með“!

Drekkhleðsla (n, kvk)  Mjög mikil hleðsla báts af afla/farmi.  „Með þessa drekkhleðslu lögðu þeir í Röstina“.

Drepfrost (n, hk)  Hörkufrost; hættulega mikið frost.  „Farðu í tvenna vettlinga og hafðu góða húfu; það er drepfrost og heldur að bæta í vindinn“.

Dreypniorka (n, kvk)  Osmósuorka; sjávarorka sem unnt er að virkja með því að aðskilja sjó og ferskvatn með dræpri himnu og nýta þrýstingsmun sem verður til við að ferskvatn leitar gegnum himnuna í saltvatnið.  Tæknin er öll á tilraunastigi erlendis og virðist eiga mjög langt í land með að verða hagkvæm.

Dreyrrjóður (l)  Blóðrauður; dreyrrauður.  „Hann sat steinþegjandi undir þessum reiðilestri, en var orðinn dreyrrauður í framan.  Loks kom að því að blaðran sprakk, og hann rak bylmingshögg í borðið“.

Drifblaðra (n, kvk)  Vessafyllt blaðra sem myndast oft í skinni í lófa við sífellt nudd og álag, t.d. þegar unnið er lengi með hrífu, skóflu eða öðrum verkfærum.  Óvanir fengu oft drifblöðrur eftir að byrjað var að vinna, enda skinnið þá mjúkt og illa varið.  Drifblöðrur tæmast og springa ef þær eru látnar óhreyfðar og eftir nokkra vinnu myndar húðin sigglag sem ver hana.  Það þótti því hálgerður pempíuháttur að hafa vettlinga til að verjast drifblöðrum meðan Íslendingar gátu enn valdið handverkfærum. 

Drjúgduglegur (l)  Nokkuð/fremur duglegur; duglegri en sýnist.  „Hann er drjúgduglegur drengurinn“.

Drulludammur /  Drulludý / Drullufor / Drulluforað / Drullusvað  (n, kk)  Dammur; forarpyttur; kviksyndi; drullupollur.  „Nú er allt að vaðast upp í drullufor fyrir utan fjárhúsið“.  „Það var ljóti drulludammurinn sem hundurinn lenti í“.  „Ferlegur drulludammur er að verða hér utanvið fjárhúsdyrnar“. 

Drullugalli /Drullularfar / Drulluleppar (n, kk)  Mjög skítugur/óhreinn fatnaður; skítagalli; skítaleppar.  „Blessaður farðu úr drullulörfunum úti á stétt; helst þyrfti að pusa á þig einni vatnsfötu áður en þú verður í húsum hæfur“!  „Ég held það megi nú bara setja þessa drulluleppa í eldinn eftir eggtíðina“.

Drullugur (l)  Skítugur; ataður; forugur.  „Fjári er maður orðinn drullugur á höndunum eftir þetta“!

Drullugur uppfyrir haus (orðtak)  Mjög ataður óhreinindum; allur óhreinn.  „Hvað í veröldinni voruð þið nú að gera; allir drullugir uppfyrir haus“?!

Drulluhali (n, kk)  Drullusokkur; drulluháleistur; eitt lægsta stig mannvirðinga sem hinn skrautlegi mælikvarði mannlýsinga náði yfir í máli Útvíknamanna.  „Ég sé ekki að þessi drulluhali geti nýst til nokkurs hlutar“.

Drulluhaugur / Drullustampur (n, kk)  Niðrandi mannlýsingar.  Drullustampur hefur líklega fyrrum verið heiti á íláti til að bera mykju úr fjósi, og á útá skíthaug/drulluhaug.

Drullulofthræddur (l)  Mjög lofthræddur.  „Hann viðurkenndi fúslega að hann væri drullulofthræddur, en lét sig hafa það að skríða yfir á nefið“.

Drulluóánægður (l)  Mjög óánægður/vonsvikinn; þykir slæmt/hundfúlt; skítóánægður.  „Ég er drulluóánægður með þessa niðurstöðu; og finnst það bara ræfildómur í þeim að láta þetta yfir sig ganga!“

Drullupest (n, kvk)  Niðurgangur; ræpa; skita.  „Ég held ég sé ögn að lagast af þessari drullupest“.

Drulluslappur (l)  Mjög slappur/vesæll; veikur; með hita/slen.  „Ætli ég sé ekki kominn með þessa fjandans pest; ég er eitthvað svo drulluslappur orðinn“.

Drullusokksháttur (n, kk)  Leti; ómennska; landeyðuháttur.  „Öðrum eins drullusokkshætti hef ég sjaldan kynnst!  Eru þessir menn á launum hjá almenningi eða hvað“?

Drullusyfjaður (l)  Mjög syfjaður/svefnþurfi; grútsyfjaður.   „Nú fyrst finn ég hvað ég er orðinn drullusyfjaður“.

Drulluþreyttur (l)  Útkeyrður; máttlítill af þreytu.  „Þó hann væri drulluþreyttur eftir vitjunina, settist hann upp á traktorinn um kvöldið og sló alla sléttuna“.

Drumbsíður (l)  Seinn/hægur til; þungur á sér; rasssíður; vögusíður; draugsíður;.  „Ég er hræddur um að maður verði eitthvað drumbsíður í fyrramálið, þegar maður vinnur svona fram á nótt“.   

Drunti (n, kk)  Fýlupoki; ólundarlegur maður.  .  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Druntur (n, kk)  Fýla; ólund; ergelsi.  „Það er einhver bannsettur druntur í honum þessa stundina“.

Druntaralegur / Druntslegur (l)  Þegjandalegur; með ólund; fúll.  „Vertu nú ekki svona andskoti druntaralegur og drífðu þig með okkur“.  „Það bætir lítið að vera eitthvað druntslegur“.

Drykkjarstampur (n, kk)  Stampur, bali eða annað ílát með drykkjarvatni sem haft er hjá skepnum.  „Milli básanna í gamla fjósinu á Láganúpi var drykkjarstampur; treikvarttunna sem söguð hafði verið ofanvið miðju.  Þar hjá var krani, en í miklum hörkum vildi frjósa í lögninni“.

Drýgindahljóð (n, hk)  Íbyggni, mont; drýldni  „Það er alltaf sama drýgindahljóðið, sé hann spurður um afla“.

Drögur (n, kvk, fto)  A.  Miklir sjóar/ stór grunnbrot með löngu bili á milli og sjór allur hvítfyssandi.  „Það eru fjandi miklar dögur hér fram alla víkina“.  B.  Tré sem dregið er með hesti, þannig að fremri endi er á lofti.  Orðið var einkum notað í fyrri merkingunni í Kollsvík, en hefur ekki heyrst notað þannig annarsstaðar.

Drösullegur / Dröslulegur (l)  Druslulegur; illa útlítandi.  „Ósköp ertu drösullegur til fara; hlauptu nú upp og skiptu um buxur“.  „Þú getur ekki farið inneftir svona dröslulegur“.

Duggunarögn (n, kvk)  Örlítið; smávegis; agnarögn.  „Nei, bíddu nú duggunarögn hægur“!  „Hér ekki nokkur duggunarögn“.

Dugnaðarstrákur (n kk)  Duglegur/knár/hraustur drengur.  „Mér sýnist að þetta sé dugnaðarstrákur“.

Dur (n, kvk, fto)  Dyr.  „Hallaðu nú durunum drengur; það er dragsúgur hér inni“  „Stóð hann þá í durunum“. 

Duttlungafyrirbæri / Duttlungaskepna (n, kvk)  Mikill sérvitringur; fyrirtektarsöm persóna.  „Hann er ekki óskynsamur maður, en meiri duttlungafyrirbæri hef ég ekki fyrirhitt“.

Dúandi (n, kk)  Um sjólag; veltingur; hífingur; nokkur sjór.  „Hann er að leggja upp einhvern dúanda núna; ætli við þurfum ekki að færa okkur grynnra ef þetta eykst að ráði“.

Dúdduskór (n, kk, fto)  Túttuskór, sjá þar.  Í Rauðasandshreppi var heitið dúdduskór algengara.

Dúkkuskot (n, hk)   Afvikinn staður í húsi fyrir dúkkuleiki.  „Nauðsynlegt þótti að krakkarnir, einkum strákarnir, eignuðust dótakassa sem svo voru nefndir, en stelpur áttu gjarnan dúkkuskot.  Það var smáhorn sem rýmt var í baðstofum og stelpurnar fengu sem heimili fyrir dúkkurnar sínar og þeirra húsgögn og stofupunt.  Þar var sumstaðar býsna fínt“  (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).  

Dyggð (n, kvk)  Trúverðugleiki; gott siðferði; mannkostur.  Var fyrrum alltaf borið fram hart í Kollsvík og er réttilegar skrifað með tveimur g-um en einu.  Orðabók HÍ velur einfalt g en orðabók Menningarsjóðs tvöfalt.

Dyggðablóð / Dyggðaskepna (n, hk/kvk)  Sá sem er dyggðugur/grandvar/trúr.  „Alltaf er hún sama dyggðablóðið, þessi blessuð tík“.

Dyggðaríkur / Dyggðugur (l)  Grandvar; heiðarlegur; trúr og fórnfús.  „Ekki veit ég hvursu dyggðaríkir þeir menn eru sem þannig haga sér“.

Dylgjuraus (n, hk)  Dylgjur; ósannindi eða vafasamar og meiðandi fullyrðingar um manneskju, oft sagðar óljóst.  „Hvar skyldi þetta dylgjuraus vera upprunnið“?

Dyndla / Dylla (n, kvk)  Mark; aftasti hluti stirtlu á steinbít, framanvið sporðinn, sem var skilinn eftir óskorinn við aðgerð með gamla laginu (sjá steinbítur).

Dylluroð (n, hk)  Roð af aftari hluta steinbíts, sem notað var til að reka í skó.  „Síður rifnaði út úr varpinu á skóm skó úr hnakkaroði en dylluroði“ (sjá roðskór).

Dylluskór (n, kk, fto)  Roðskór úr aftari hluta steinbítsroðsins (sjá roðskór).

Dýjaáll (n, kk)  Samfelld röð dýja; dýjafláki.  „Fremst á Engjum er dýjaáll sem heitir Hádegisáll...“  (SJTh; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Dýjafláki (n, kk)  Mýrarstykki; seilar.  „Drápsáll er mikill dýjafláki framanvið slétturnar á Láganúpi; nú nefndur Álar og hefur verið framræstur að verulegu leiti“.

Dýjahilla (n, kvk)  Hilla/gangur/stallur í klettum, þakin votlendum jarðvegi.  „Út úr Bæjargjá er ein hilla nefnd Lækjarhilla.  Þetta er dýjahilla; efsta hillan neðan brúnar“  (ÍÍ; Örn.skrá Brattahlíðar).

Dýjasvæði (n, hk)  Svæði með mörgum dýjum.  „Nafnið Bugar er nú notað yfir allt dýjasvæðið sem áður nefndist Heimadý, en Bugar voru þá handasta dýið“.

Dægilegheit (n, hk, fto)  Ágæti; kræsingar; mjög gott atlæti.  Oft notað í öfugri merkingu í seinni tíð:  „Það er heldur dægilegheitin frá þessari ríkisstjórn; nú ætla þeir enn að hækka skattana“!

Döðlur / Döddlur (n, kvk, fto)  Þurrkaðir ávextir döðlupálma, sem vex á suðrænum slóðum.  „Afi minn, GG á Láganúpi notaði ávallt framburðin „döddlur“, en oft átti hann einhverjar döddlur í sinni ágætu kistu.“  (VÖ).

Eðalfæða (n, kvk)  Einstaklega góður og hollur matur.  „Þessi hákarl er hreint út sagt eðalfæða“!

Eðalmetall (n, kk)  Eðalvín; mjög gott/fínt vín.  „Þennan eðalmetal er ég búinn að eiga í skápnum í ein 20 ár“.

Eðalnáungi (n, kk)  Einstaklega góður maður/vinur; öndvegisnáungi.  „Hann er eðalnáungi; út og í gegn“.

Eðlisbráður (l)  Bráður/fljótillur/skapstór að eðlisfari.    „Hann er mesta gæðasál, en nokkuð eðlisbráður“.

Eðlishægur (l)  Rólegur/hægfara að eðlisfari.  „Hann er jafnan eðlishægur, en mesta furða hvað honum vinnst“.

Edúment (n, hk)  Nytsamt áhald/tæki; góð uppfinning; rarítet.  „Þetta er alveg frábærlega snjallt edúment“.  Orðið finnst ekki í orðabókum, hvorki íslensku né granntungna, nema sem sambræðingur úr „education“ og „mentor“ eða „development“, o.þ.h.  Sumir notuðu þetta mikið vestra.

Ef að / Efað (orðtak)  Viðtengingin „ef“ var iðulega svo tengd orðinu „að“ í framburði, að í raun var um einn orð að ræða, og mikið notað í máli Kollsvíkinga; a.m.k. eftir miðja 20. öld, þar sem „ef“ hefði dugað.  „Það verður lítið róið á morgun efað þessi vindspá helst“.  „Bésefans gamli mávurinn ætlar að leiða hópinn langt frá Byrginu; veifaðu betur, efað þeim skyldi snúast hugur“.

Efasemdasál (n, kvk)  Sá sem efast; vantrúarhundur; efahyggjumaður.  „Jafnvel mestu efasemdarsálir létu sannfærast eftir að hafa séð þetta með eigin augum“.

Efjuslagur (n, kk)  Erfiðisvinna í efju/for.  „Þá upphófs mikill efjuslagur við að koma böndum á kúna og draga hana uppúr forinni“.

Efnisskepna (n, kvk)  Kostagripur.  „Leyfðu mér að þukla þennan hrútkægil; mér sýnist þetta vera efnisskepna“.

Eftiráskýringar (n, kvk, fto)  Afsakanir; fyrirsláttur eftirá.  „Það þýðir nú lítið að koma með svona eftiráskýringar“.

Eftirstraumsflæði (n, kvk)  Háflæði í eftirstraumi.  „Varið ykkur á flæðinni við forvaðann og athugið að eftirstraumsflæðin er býsna mikil“.

Eftirtelja (s)  Telja eftir; sjá eftir og gera mikið úr því sem gert hefur verið, t.d. greiða.  „Ég er ekkert að eftirtelja það, þó ég hafi sótt fyrir hann þessar kindur; hann átti það fyllilega skilið blessaður“.

Eggfles / Eggpláss (n, hk)  Staður í klettum þar sem egg eru tínd til nytja.  „Hér er ágætis eggfles“.  „Víða framan í Breiðnum eru ágætis eggpláss“.

Eggjaburður (n, kk)  Burður eggja frá eggjatökustað áleiðis upp bjarg/ til byggða.  „Víða má taka egg með léttu móti í Stígsbrúninni, en eggjaburður er nokkuð erfiður, bæði á brún og upp Geldingsskorardalinn“.

Eggjabyrgi (n, hk)  Geymslustaður á bjargbrún, sem útbúinn er til að geyma egg þar til þau verða sótt.  Eggjabyrgi hafa verið nýtt til skamms tíma í Útvíkum, og má sjá þau m.a. á Breiðsbrún; uppaf Mávakömbum í Blakk og á brún Geldingsskorardals, ofan Stígs.  Umbúnaðurinn var nokkuð misjafn.  Væru eingöngu geymd egg voru byrgin óveruleg; einungis útbúin grunn hola á þurrum stað; hlaðið í kring með hnullungum; eggjunum raðað í, þannig að kúfur yrði á; þurr mosi settur yfir og plast eftir að völ varð á því; síðan búið varlega að með grjóti og þunnum hellum, þannig að vargur nái ekki til.  Til þess voru vaðir einnig nýttir ef þeir voru geymdir um tíma á brún.  Byrgið á Geldingsskorardal er mun stærra og hefur verið vandaðra, en er líklega niður fallið fyrir löngu síðan.  tóftin ber með sér að þar hafa, auk eggja, verið geymdir vaðir og annar búnaður, þannig að það hefur einnig verið vaðbyrgi.  Nokkru innar á dalnum, ofanvið Læki, mótar fyrir annarri tóft en hlutverk hennar er óljóst.

Eggjaferð / Eggjaleiðangur / Eggjatökuferð / Eggjatökuleiðangur (n, kvk)  Ferð sem farin er til eggja/ til að sækja egg til matar.  Eggjaferðir eru misjafnlega langar og misjafnlega fyrirhafnarsamar.  Allt frá því að skjótast einn í hálftíma snag, t.d. frá Láganúpi útá Undirhlíðanef eða í Smérhelli; til sólarhringslangra fjölmennra eggjaleiðangra undir eða í Bjarg. „Kemurðu með í eggjaleiðangur“?  „Ég týndi húfunni í síðasta eggjatökuleiðangri“.

Eggjasnudd (n, hk)  Gæluorð um eggjaferð.  „Þeir eru einhversstaðar í eggjasnuddi“.

Eggjafiðringur (n, kk)  Löngun til að fara í eggjaferð.  „Er nú kominn einhver eggjafiðringur í þig“?

Eggjaháfur (n, kk)  Verkfæri til að auðvelda eggjatöku við erfiðar aðstæður.  „Eggjaháfur er léttbyggður.  Skaftið er vanalega úr hrífuskafti eða bambus.  Fremst á því er benslaður vírhringur og á honum poki fyrir ca 2 egg.  Háfinn má nota til að ná á öruggan hátt eggjum sem annars væru utan seilingar, auk stuðnings.  Eggjaháfur var einkum notaður við eggjatöku í Breið og hentaði þar vel, en var síður notaður í Blakk, og aldrei við töku svartfuglseggja.  Orðið og verkfærið virðist hafa verið bundið við Kollsvík, og má líklega rekja hvorttveggja til Gylfa Guðbjartssonar, sem lengi stundaði eggjatöku í Breiðnum.

Eggjahugleiðingar (n, kvk, fto)  Áætlanir um eggjaferð.  „Eruð þið eitthvað í eggjahugleiðingum í dag“?

Eggjakappát (n, hk)  Keppni um það hver getur borðað flest egg, stundum með einhverjum tímamörkum. 

Eggjakeyrsla (n, kvk)  Aksturshraði sem hlífir eggjum í flutningi.  „Við þurfum að fara eggjakeyrslu í þessu ruggi; þar til kemur á betri veg“.

Eggjakútur (n, kk)  Ílát af sérstakri gerð sem notuð eru við eggjatökur í björgum vestra.  Oft eru þetta plastkútar með ígreiptu haldi, sem af hefur verið skorinn stúturinn með nægilega stóru gati til að þar megi koma niður hendi með tveimur eggjum.  Oft voru notaðir í þetta kútar undan maurasýru.  Þeir eru hæfilega stórir fyrir ca 90 fýlsegg með stoppi, sem er hæfilegur burður fyrir einn og þægilegt að draga í klettunum.  Borinn var sinn kútur í hvorri hönd og gjarnan hafður fatli/létti yfir herðarnar þegar langt var borið. 

Eggjaferð / Eggjaleiðangur (n, kvk)  Ferð sem farin er til eggja/ til að sækja egg til matar.  Eggjaferðir eru misjafnlega langar og misjafnlega fyrirhafnarsamar.  Allt frá því að skjótast einn í hálftíma snag, t.d. frá Láganúpi útá Undirhlíðanef eða Smérhelli; til sólarhringslangra fjölmennra eggjaleiðangra undir eða í BjargEggjaskaði (n, kk)  Afföll af eggjum; brotinn hluti af eggjum.  „Settu kútana í miðjan bílinn svo við verðum síður fyrir eggjaskaða í þessu ruggi“.

Eggjasnag / Eggjasnudd (n, hk)  Bjargferðir í eggjatöku; stuttar eggjaferðir.  „Ég hef líklega ekki tíma í eggjasnag í dag“.  „Þeir eru einhversstaðar í eggjasnuddi“.

Eggjaskita / Eggjadrulla (n, kvk)  Neikvætt orð um löngun til eggjaferða; óþarfur áhugi á eggjaferðum.  „Er nú komin í ykkur eggjaskitan, eina ferðina enn“!  „Það gengur ekki að trassa búverkin fyrir einhverja eggjadrullu“!

Eggjaskurmur (n, kk)  Eggjaskurn.  Eldra heiti sem nú heyrist sjaldan.  „Það er alltaf betra að byrja að brjóta á eggjaskurminum í sverari endann á egginu; þar byrjar það oft fyrst að verða setið“.

Eggjaskyrta (n, kvk)  Sérstakur stakkur sem sigari er íklæddur, og hentar til að safna inná sig eggjum.  „Þegar sigið var til eggja fór sigmaður í strigastakk sem kallaðist eggjaskyrta á Látrabjargi, hvippa á Hornströndum en í Skagafirði ýmist sigmannsskyrta eða hempa og í Vestmannaeyjum eggjabura“  (LK; Ísl.sjávarhættir V).  „Nú fer sigmaðurinn í eggjaskyrtuna, sem er stór strigapoki.  Á miðjum botni er gat fyrir höfuðið, og við botnhornin sitt hvorumegin eru göt fyrir handleggina.  Úr miðju hálsmálinu að framan er rist rauf niur á brjóst, og lætur sigarinn eggin þar inná sig í pokann.  Pokinn er dreginn saman með bandi efst á bakinu; bæði til að hann fari ekki útaf öxlunum og til að hann gúlpi á bakinu en ekki að framan.  Eggin eiga að vera sem mest á bakinu á manninum.  Snæri er bundið um pokann í mittið og pokanum hissað upp um leið og dreginn til baksins; þannig er eggjarýmið í pokanum allt á baki mannsins“  (MG; Látrabjarg).

Eggjaspanda (n, kvk)  Eggjafata.  „Réttu mér eggjaspöndu til að hafa á handleggnum þegar ég fer niður“.

Eggjatínsla (n, kvk)  Það að tína egg/ safna eggjum saman.  „Hann hélt áfram eggjatínslunni meðan ég raðaði í kútana“.

Eggjatökustaður (n, kk)  Staður í klettum/bjargi þar sem tekin eru egg til nytja.  „Eggjatökustaðir voru fjölmargir þegar ég tók sem mest þátt í eggjaferðum.  Ég hef verið með í bjargferðum á a.m.k. 3 staði í Keflavíkurbjargi; 3 í Breiðavíkurbjargi; 7 í Bæjarbjargi; 20-30 i Látrabjargi; 3 í Bjarnarnúpi; 9 í Breið; 10-20 í Hnífum; 15-25 í Blakk; 3 í Gjögrahyrnu og nokkrum á öðrum stöðum á landinu. Í marga staðanna var farið árlega; stundum tvisvar á ári.  Lang oftast var farið laus eða í lásum, en sumsstaðar sigið.  (VÖ).

Eggjaveður (n, hk)  Veður sem nýtist til eggjaferðar.  „Ekki líst mér alltof vel á egjaveðrið á morgun“.

Eggjavegur / Eggjaslóði (n, kk)  Vegur/vegslóði sem farinn er til að komast til eggjatöku.  „Fjandi er þetta slæmur eggjavegur; farðu aðeins hægar hérna“.  „Af Núpnum er eggjaslóði fram á Blakk“.

Eggland (n, hk)  Svæði þar sem vænlegt er að fara til eggjatöku.  „Mesta egglandið í Breiðnum er uppaf Landamerkjahlrygg og þar útaf“.

Eilífðarnöldur (n, hk)  Sífellt suð/nöldur/tuð.  „Mikið er maður þreyttur á þessu eilífðarnöldri“!

Eilífðarótíð (n, kvk)  Langvarandi ótíð sem manni finnst engan endi ætla að taka.  „Það ætlar bara ekki að verða lát á þessari eilífðarótíð“!

Eilífðarrigning (n, kvk)  Langvarandi rigning sem manni finnst endalaus.  „Enn er þessi eilífðarrigning“!

Einfeldingur / Einfeldningur (n, kk)  Fremur skilningsvana/fávís maður.  „Óttalegur einfeldingur geturðu verið ef þú skilur þetta ekki“!

Einfeldingsháttur / Einfeldningsháttur  (n, kk)  Fáviska; heimska.  „Það er bara einfeldingsháttur að halda að einhver geti smalað allt þetta svæði einsamall“! 

Einhvað (fn)  Eitthvað.  „Einhvað skrýtið hefur hér gerst“.  „Sérðu einhvað til þeirra“?

Einhvur / Einhvurntíma / Einhvurnveginn / Einhvursstaðar / Einhvursvegna /  Einhvurra hluta vegna ( fn)  Afbrigði af stofnmyndinni „einhver...“.  Þessi framburður var nokkuð algengur vestra áðurfyrr, en heyrist sjaldnar nú.  Orðmyndin „einhvursvegna“ virðist sérstæð fyrir Kollsvíkinga:  „Ég veit ekki hvursvegna þetta var gert svona, en einhvursvegna hlýtur það að hafa verið“.

Einjúgra (l)  Um kind; með annað júgrið virkt/mjólkandi.  „Hún mjólkar lömbunum vel þó hún sé einjúgra“.

Einkanagjöf / Einkunnargjöf (n, kvk)  Mat á frammistöðu, oftast gefið upp í tölum eða umsögn.  „Þann 17.apríl símaði ég hreppsnefndaroddvita og bað um yfirskoðun á fé Ólafs Ólafssonar Krókshúsum vegna persónulegrar árásar í minn garð, um að ég gerði mannamun við einkanagjöf“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943). 

Einmunasumar / Einmunasumarblíða (n, hk/kvk)  Óvanalegt/einstakt góðviðrissumar.  „Þetta er buið að vera einmunasumar; alveg hreint“!  „Ég man bara ekki eftir annarri svona einmunasumarblíðu“!

Eins og andskotinn annar (orðtak)  Áherslusetning um það sem einhver vinnur/gerir mjög rösklega.  „Ég hljóp eins og andskotinn annar niður alla Brunnsbrekku, og náði að komast fyrir fjárhópinn“.

Einstrokks / Einsýlinders (l)  Um vél/sprengihreyfil; með einum strokki/sýlinder.  „Fyrsta ljósavélin á Láganúpi var einstrokks Onan; 12 volta bensínvél.  Hún var í kompunni í Hjallinum og sett í gang með spotta“.

Einþáttungur (n, kk)  Einfaldur þráður, þ.e. hvorki ofinn, spunninn, né tvinnaður.  Einnig haft um einn þátt úr snúnu bandi eða snúnum vað.  „Einþáttungur var þættur úr línunni og notaður til að hnýta á netasteinana“. Orðið finnst ekki í orðabókum í þessari merkingu, en er annarsstaðar notað um leikrit í einum þætti.

Eitilfreðin / Eitilfrosinn (l)  Beinfreðinn; gaddfrosinn.  „Það þarf að láta fiskinn þiðna aðeins meira; hann er enn eitilfrosinn og útilokað að skera hann“.

Eitilfrost (n, hk)  Mikið frost, einkum átt við frosna jörð.„Það er ekki nema hálf skóflustunga niður á eitilfrost“.

Eitthvaðsvo (ao)  Eitthvað svo; svo mjög/mikið.  „Alltaf finnst manni eitthvaðsvo notalegt að koma aftur í heimahagana eftir langa fjarveru“.  Orðhlutarnir eru svo samrunnir í framburði að í raun er um eitt orð að ræða, líkt og t.d. orðið „ennþá“.

Eitthvurt (ao)  Eitthvert; einhvert.  „Eitthvurt fóru þeir; en hvurt, veit ég ekki“.  Töluvert notað, t.d. af eldra fólki uppúr miðri 20.öld.  Heyrist sjaldan nú, og hefur vikið fyrir „einhvert/einhvert“.

Eiturbuna (n, kvk)  Fyrsta bunan úr kaffikönnu eftir uppáhellingu með gamla laginu, en hún vildi verðaöðruvísi vegna lagsins á stútnum og var því gjarnan hellt í könnuna aftur.  „Ég hellti uppá könnuna og tilkynnti að kaffið væri tilbúið.  „Eiturbununa tek ég sjálfur, en gerið þið svo vel“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Eitursúr (l)  Mjög/alltof súr.  „Bestur er hvalurinn ef hann er svo eitursúr að hann hangir varla saman“.

Eitursterkur (l)  Mjög bragðsterkur.  „Þessi skrattans „síllipipar“ er eitursterkur andskoti“.

Ekkert mehe með það (orðtak)  Ekkert múður/rövl um það; þýðir ekki að mótmæla því/ ræða það frekar.  „Við þurfum að sækja okkur spotta og reyna að mjaka kúnni uppúr dýinu; það er ekkert mehe með það“!

Ekki (nokkur) tilsjón / Engin tilsjón (orðtök)  Ekki nokkur kostur; ekkert vit í; ekki viðlit.  „Við fórum uppundir Bæjarvöllinn, en það var ekki nokkur tilsjón að leggja uppað fyrir brimi“.  „Það er engin tilsjón að smala af nokkru viti í svona niðaþoku“.

Ekki velgott (orðtak)  Ekki til fyrirmyndar; ekki það sem æskilegast væri.  „Ekki er það velgott, en engan drepur það!  Ætli það verði ekki að sulla þessu ropvatni í sig frekar en að drepast  úr þorsta“.

Eldiskvíga (n, kvk)  Kvígukálfur sem ákveðið er að ala upp í mjólkurkú.  „Ég fékk hjá honum góða eldiskvígu“.

Eldiviðarhaugur (n, kk)  Haugur/hrúga af viðarbútum eða öðru brenni sem ætlað er sem eldiviður.  „Eldiviðarhaugur var alltaf hjá þvottapottinum í Verkfærahúsinu, og stundum líka kolapoki“.

Eldunarkró (n, kvk)  Útihlóðir; kró í veri sem eingöngu er notuð til að elda mat á hlóðum.  „Nálægt búðunum voru krær sem voru eingöngu ætlaðar til að matreiða í.  Ég man ekki eftir nema einum útihlóðum.  Svo komu olíuvélar og síðar prímusar, og þá var eldað inni í búðunum sjálfum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Elftingarte (n, hk) Te/seyði sem lagað er af klóelftingu/elftingu (Equisetum arvense).  Elfting er gróplanta sem vex víða, og kann best við sig í rakri mold þar sem ekki er mikil samkeppni annarra jurta. Stongullinn verður um og yfir 10 cm hár; grænn með mjóum greinum.  Gróstönglar vaxa stakir; eru ljósleitir og með sérkennilegan kólf efst.  Þeir nefnast skollafingur og segir þjóðtrúin að þar teigi fingur satans sig uppúr jörðinni.  Plantan fjölgar sér einnig með rótarskotum og hefur mikið rótarkerfi.  Ræturnar eru svartar með hvítum kjarna.  Á þeim vaxa ber í sama lit; nefnd gvendarber.  Einhver not voru af elftingu fyrrum, en Björn í Sauðlauksdal segir: „Þessi jurt er barkandi og græðandi; lögur hennar læknar lífsýki og jurtin sjálf, ef vel er marin milli steina og stungin í nef mannei eða lögð við enni, stillir nasablóð.  Hún er eins svo tilbúin góð að leggja yfir sár, kviðslit og annað kostað á líkama...  Elftingalögur, víni blandinn og heitur drukkinn, læknar innankostað; líka hósta og mæði. Til hins sama má og svo seyða jurtina í vatni og drekka það sem seyði.  Klútur, í sama seyði vættur, er góður til að leggja yfir alla heita bólgu, þá batnar hún“  (BH; Grasnytjar).  Börn í Kollsvík löguðu te úr ýmsum jurtum, og þar á meðal elftingu, án þess þó að nota í það vín eins og séra Björn leggur til.  Elftingarte var fremur bragðdauft og því gott að sjóða annað með, s.s. blóðberg eða vallhumal.  Skollafingur og gvendarber eru fyrirtaksmatur og þurfa enga matreiðslu. 

Eltur (n, kvk, fto)  Eltingaleikur; eftirför; það að eltast við, t.d. kindur.  „Ég lenti í þónokkrum eltum við þessar bykkjur“.  „Eftir nokkrar eltur náði ég að króa lambið af við klettinn“.

Emilering (n, kvk)  Húð eða litur sem brennd er á hlut.  „Víða var emileringin sprungin“.

Endasplæs (n, hk)  Frágangur á enda vaðs/kaðals/færis, þannig að endinn er þáttaður upp og þættirnir splæstir aftur fyrir sig, en með því er komið í veg fyrir trosnun í endanum.

Endemiskjaftæði / Endemisrugl/ Endemisþvæla  Algert bull; vitleysa.  „Ég hef nú sjaldan heyrt álíka endemisrugl á minni ævi“.

Endemisvitlaust (l)  Arfavitlaust; frámunalega heimskulegt; geggjað.  „Þetta var náttúrulega svo endemisvitlaust hjá þér að leggja hnífinn frá þér uppá hvalbakinn; sérstaklega í vona typpingsfjanda“!

Endurþenkja (s)  Hugsa að nýju; endurskoða.  „Þetta breytir miklu; nú þurfum við að endurþenkja málin frá grunni“.

Enganveginn (ao)  Alls ekki; af og frá.  „Ég get enganveginn skilið hvernig þetta gerðist“. 

Englahjal (n, hk)  Tal engla.  „Það var víst ekkert einglahjal, sem þeir fengu að heyra þegar heim kom“!

Englahland (n, hk)  Þunnt kaffi.  „Bölvað englahland er þetta núna“! Einnig vinnukonuvatn og nærbuxnavatn.  Heyrðist ekki utan Kollsvíkur, en annarsstaðar heyrðist notað orðið „englapiss“. 

Epjingur (n, kk)  Bjögun; aflögun; sveigja.  „Það er einhver bölvaður epjingur kominn í borðið; það er ekki lengur beint“. 

Epladjús (n, kk)  Eplaþykkni; þykkur eplasafi til blöndunar.  „Áttu nokkuð til lögg af epladjús“?

Ergelsisraus (n, hk)  Nöldur/kvartanir/skammir í ergelsistóni.  „Það þýðir ekkert að vera með svona ergelsisraus; þú verður að koma með rök fyrir þínu máli“!

Ergelsistónn (n, kk)  Yfirbragð þess sem sagt er, þegar það byggir á þrasi og nöldri fremur en rökræðu.  „Það var kominn einhver ergelsistónn í minnihlutann á fundinum“.

Erkihálfviti/ Erkifífl / Erkibjáni (n, kk/hk)  Mjög heimskur; víðáttuhálfviti.  „Erkifífl getur maðurinn verið“!

Erkiheimska / Erkivitleysa (n, kvk)  Víðáttuheimska; alger vitleysa.  „Það var auðvitað frámunaleg erkiheimska að ætla sér að reka kindurnar upp á þessum stað; það hefði aldrei gengið“!

Errlaus (l)  Sem ekki er err í.  „Allajafna var aldrei gripið í spil í errlausum mánuðum í Kollsvík“.  „Oft kom það fyrir (í landlegum í Verinu), þótt ekki væri err í mánuðinum, að menn tóku upp spil sér til dægrastyttingar“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Ertingur (n, kk)  Erting; pirringur; ónot.  „Það er einhver bölvaður ertingur hálsinum á mér ennþá“.  Jafnan í karlkyni þar vestra en ekki kvenkyni, eins og annarsstaðar tíðkaðist.

Eyddur í hafið / Eyddur til hafsins (orðtak)  Skýjabakkinn í norðri er horfinn: „Hann er orðinn algjörlega eyddur til hafsins“.  Þau umskipti voru oftast ávísun á það að norðanátt væri gengin niður og því jafnvel von á sunnanáttum með vætutíð og óþurrki.  Sjá einnig bakki í hafið.

Eyðileggingarárátta / Eyðileggingarnáttúra (n, kvk)  Sá ósiður að eyðileggja hluti að ástæðulausu og án tilgangs.  „Það er furðuleg eyðileggingarárátta að brjóta rúður allsstaðar þar sem enginn sér til“.  „Sumir eru illa haldnir af eyðileggingarnáttúrunni“. 

Eygt (l)  Um egg; farin að myndast augu.  „Sum eggin voru stropuð, og tvö sá ég sem voru orðin eygð“.  Orðið sést ekki í þessari merkingu í orðabókardæmum, en er þekkt sem lýsing á augnsvip og um göt/holu í efni.

Eymdargól (n, hk)  A.  Aumingjalegt væl/spangól t.d. hunds.  B.  Lýsing á slæmri tónlist.

Eymdarhokur (n, hk)  Búskapur við mikla fátækt.  „Margir flosnuðu upp frá sínu eymdarhokri inn til landsins í mestu harðindunum og leituðu þangað sem helst var bjargar von; í verin“.

Eymunatíð / Eymunatíðarfar (n, kvk/hk)  Einmunatíð; einmunatíðarfar; tímabil einstaklega góðrar veðráttu.  Oftar voru notuð orðin „einmunatíð“ og „einmunatíðarfar“ en þetta heyrðist einnig, enda merking sú sama.

Eyrarferð (n, kvk)  Ferð víknamanna í kaupstaðinn á Vatneyri (Patreksfirði).  Einnig talað um kaupstaðarferð, og í seinni tíð að fara á Patró.

Eyrnaníð (n, hk)  Óþolandi hljóð/hávaði/tónlist; það sem illbærilegt er að hlusta á.  „Slökktu nú á þessu andkotans eyrnaníði; það er merkilegt að einhverjir skuli kalla þetta tónlist“!

Eyrnaskítur (n, kk)  A.  Eyrnamergur.  B.  Slæmska/verkur/bólga í eyrum.  „Ég þarf að hafa góða húfu; það hefur einhver eyrnaskítur verið að hrjá mig í dag“.

Eysustraumur (n, kk)  Harður straumur; hart sjávarfall.  (Stofninn líklega „að ausa“; ausandi straumur; VÖ).  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Éljahraglandi (n, kk)  Strjál snjókoma í hvössu veðri.  „Við fengum bölvaðan éljahraglanda alla leiðina“.

Éljahrotti (n, kk)  Hörð él; éljaskítur.  „Það gengur á með éljahrotta öðru hvoru en birtir inná milli“. 

Éljaskítur (n, kk)  Hörð él; éljahrotti.  „Hann ætlar að halda þessum éljaskít allan daginn“. 

Éljóttur / Élóttur (l)  Éljagangur.  „Hann er eitthvað að minnka ofankomuna og orðinn éljóttari, sýnist mér“.  „Eitthvað er hann élóttur hér frammi á víkinni“.  Notað jöfnum höndum; líklega upprunalegra án j.

Éta þáttalega (orðtak) Borða óskipulega/með gleypugangi; háma í sig (skýr. SG). 

Fanndrífa (n, kvk)  Snjódrífa; áköf snjókoma.  „Það sást varla útúr augum í fanndrífunni“.

Fara í Bug /Fara í beitufjöru (orðtök)  Fara úr Kollsvíkurveri inní Sersbug til að afla kúfisks í beitu.  „Það var kallað að fara í Bug eða fara í beitufjöru, þegar grafið var eftir skelinni með berum höndum.  “ (KJK; Kollsvíkurver) (Sjá kúfiskur).

Fara til fyglinga (orðtak)  Fara í leiðangur/sig til að snara bjargfugl.  „Upp af Stóðum eru Gunnarshillur.  Þangað var farið til fyglinga“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Farandverslun (n, kvk)  Verslun sem er færanleg; verslun þar sem verslunarmaðurinn flytur sinn vörulager og sölu á vænlegt markaðssvæði, eftir þörfum.  Líklega hefur eina umfangsmikla farandverslun landsins verið sú sem Magnús Ólafsson í Vesturbotni (Mangi í Botni) stundaði á síðari hluta 20. aldar.  Eftir að hann hætti sem brautryðjandi, ýtustjóri og verkstjóri í vegagerð fékk Mangi sér stóra rútu; lét innrétta hana á hentugan hátt sem verslun og bústað og flakkaði svo á þessum ljósbláa bíl um allt Ísland með sinn vorulager og seldi; jafnt í kaupstöðum sem á afskekktum sveitabæjum.  Enn í dag er „Magnús vítamín“ þekktur í flestum byggðarlögum, en bætiefni af öllum gerðum var hluti af hans fjölbreytta vöruúrvali, og hann þreyttist seint á að útskýra gagnsemi þeirra.  Kaupmönnum um landið var fremur í nöp við þessa vinsælu farandverslun; töldu að hún hefði af þeim viðskipti.  Urðu af því nokkur upphlaup, njósnastarfsemi og lögreglumál sem Magnús hafði mikið gaman af, enda vissi hann fátt skemmtilegra en þras og rökræður.  Í verslun Magnúsar var mjög fjölbreytt vöruval; líklega mun fjölbreyttara en í stærstu stórmörkuðum landsins í dag; t.d. fatnaður, verkfæri, búsáhöld, bætiefni, matvara, sælgæti o.fl. o.fl.  Þar á meðal mangakrem og mangabrjóstsykur.  Magnús kom stundum út í Kollsvík, þó Beygjan í Hæðinni væri þessum stóra bíl nokkuð þröng.  Magnús var af Kollsvíkurætt; fæddur 1913 og lést 1998.  Hann var stórhuga brautryðjandi á ýmsan hátt; framsýnni um margt en aðrir og fór sínar eigin leiðir.  Auk farandverslunarinnar birtist framsýni hans t.d. í snjallri vegalagningu víða í Barðastrandasýslum; frumkvöðlastarfsemi í fiskeldi; stórhuga virkjanaframkvæmdum; hugmyndum um jarðgangagerð undir heiðar; stórfellt fiskeldi og jafnvel sjávarfallavirkjanir.

Farlúinn (l)  Ferðamóður; þreyttur eftir langferð/erfiða ferð.  „Ertu ekki farlúinn eftir þessa langferð“? 

Fastmilk (l)  Um kýr sem erfitt er að mjólka; gagnstætt við lausmilk.  „Gott ráð við fastmilkar kýr er að þvo júgrin úr volgu vatni og mjólka með hægum og ákveðnum strokum“. 

Fastsofandi (l)  Steinsofandi; sefur vært.  „Hann er enn fastsofandi, en ég get ýtt við honum ef þú vilt“.

Fataníð (n, hk)  Slæm meðferð á fatnaði; mikið álag á föt.  „Múkkaeggjatekja er hálfgert fataníð, því þó maður sleppi vð að fá æluna á sig þá er maður skríðandi í lýsisbornu grasi og rífandi föt á nibbum“.

Fatahjallur (n, kk)  Hjallur sem föt eru hengd í til þerris, uppi á snúrum.  „á Hjallhól var fatahjallur“  (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).

Fatalt (l)  Dauðadæmt; glatað; vonlaust; hættulegt; dæmt til að mistakast.  „Það er alveg fatalt að reyna þetta í svona veðri“.  Svipuð merking og notkun og stofnskylda orðið í ensku; „fatal“.  Heyrðist nokkuð notað í máli sumra Kollsvíkinga uppúr miðri 20. öld og e.t.v. mun fyrr.

Fatapjönkur / Fatalarfar / Fataleppar / Fatagarmar / Fataplögg / Fatarýjur / Fataræflar / Fatatau/ Fatatuskur (n, hk, fto)  Gæluorð yfir föt; druslulegur/skítugur fatnaður.  „Farðu nú úr þessum fatagörmum svo ég geti þvegið af þér“. „Gakktu nú frá fatapjönkunum þínum“!   „Hvar eru nú fatalarfarnir mínir“?

Fatatilur (n, kvk, fto)  Föt; fatnaður; rýjur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Fatatirjur (n, kvk, fto)  Fatnaður, einkum léleg föt; fatadruslur; fatatilur.  „Ósköp eru nú þessar fatatirjur að verða snjáðar og druslulegar“!

Fábjánafans (n, kk)  Hópur heimskra manna.  „Það hefur þurft heilan fábjánafans til að semja svona arfavitlausa reglugerð“!

Fábjánagangur / Fábjánaháttur (n, kk)  Frámunalega heimskulegur verknaður/hugsanagangur.  „Hverskonar fábjánaháttur er þetta hjá þeim“?!

Fátækrafæða (n, kvk)  Mjög lélegur/slæmur matur; óæti.  „Það er ljóta fátækrafæðan þetta pastarusl“.

Fátækrajöfnunarfé (n, hk)  Fjárveiting sem hreppar fengu frá ríkissjóði fyrrum, til að standa undir brýnustu velferðarmálum.  Var einskonar fyrirrennari Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.  „Fátækrajöfnunarfé árið 1942, kr 1.255“ (Sjóðbók Rauðasandshrepps 1942).

Fáviskukjaftæði (n, hk)  Heimskulegt tal; vitleysa; þvæla.  „Ég tek nú ekki mark á svona fáviskukjaftæði“!

Fávitalega (ao)  Heimskulega; bjánalega; fáránlega.  „Mér fannst þarna fávitalega svarað“.

Feikidýr / Feiknadýr (l)  Mjög dýr; rándýr.  „Þið eigið ekki að vera að gefa mér svonalagað; var þetta ekki feikidýrt“?  „Það getur orðið félaginu feiknadýrt að hafa menn á kaupi ef ekkert er að gera“.

Feiknahraði (n, kk)  Mjög mikill hraði; ofsahraði.  „Maður gat náð feiknahraða á þessu farartæki“.

Feilgrípa (s)  Taka í misgripum; flaska á.  „Ég feilgreip mig á brúsum og setti vatn á vélina í stað bensíns“.

Feitisdæla / Feitissprauta (n, kvk)  Koppafeitissprauta; handdæla til að koma smurfeiti í smurkoppa.

Feldmjúkur (l)  Mjúkur á feld; fláráður; ekki allur þar sem hann er séður.  „Það er eins með hann og köttinn:  Þó hann sýnist feldmjúkur þá eru klærnar ekki langt undan“.  .

Fellimöskvi (n, kk)  Möskvi í jaðri nets sem gengur upp á þininn/teininn.  Venjulega úr þolnari þræði en netmöskvarnir sjálfir, enda mæðir töluvert á, í miklum sjógangi.

Fellingagarn (n, hk)  Grannt en sterkt garn, notað m.a. til að fella net/ setja inn net.

Fengin (l)  Um ær; með fangi; búið að hleypa til.  „Ég hef þær í sérstakri stíu sem fengnar eru og hleypi hrútnum til hinna“.  Ekki verður séð að orðið hafi verið notað í þessari merkingu utan svæðisins.

Ferðahugleiðingar (n, kvk, fto)  Áætlanir um ferð/ferðalag.  „Eruð þið nokkuð í ferðahugleiðingum í dag; liggur ykkur nokkuð á heim strax“?

Festarhari (n, kk)  Hjólmaður; maður sem situr undir vað næst brúnahjóli á bjargbrún, og vaktar merki frá sigaranum.  Orðið er ekki notað í seinni tíð, en til fyrritíðar notkunar bendir þessi gamla vísa sem ónefndur bjargmaður kvað á brún Látrabjargs forðum; „Festarhari hugrakkur;/ hraustur snar og fljótur; / vertu bara vaðglöggur, / viðris skora njótur“ (LK; Ísl.sjávarhættir V).  Sjá einnig skorarviðri, sem er vindur sem stendur upp á bjargbrún. 

Festusteinn (n, kk)  Steinn nærri bjargbrún sem unnt er að nota fyrir festu.  „Þarna er þessi fíni festusteinn“!

Fégírugur / Fégráðugur (l)  Ágjarn; vill græða peninga.  „Mér fannst hann fjandi fégírugur þegar hann hækkaði verðið á druslunni, og sagði honum að hann gæti þá bara átt hana sjálfur“.

Fiðra (s)  Verða loðinn af myglu; feyra.  „Annars var mörflot notað út á allan fisk.  Það átti að geyma mörinn og láta hann fiðra dálítið áður en farið var að hnoða“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms). 

Fiktrass (n, kk)  Sá sem fiktar mikið/leggur sig í hættu.  „Strákurinn er eldhress og hinn mesti fiktrass“.

Fimmpundalína (n, kvk)  Lína af ákveðnum styrkleika.  „Færi voru úr fimmpundalínum, frönskum“  (GG; Kollsvíkurver).

Fimmróið (l)  Róið til fiskjar fimm sinnum sama daginn.  „Fyrir kom að það var fimmróið“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Firnadýpi (n, hk)  Regindýpi; mjög mikið dýpi.  „Hérna réttu utan við kantinn er firnadýpi“.

Fisfúinn (l)  Grautfúinn; gegnfúinn.  „Það þýðir ekkert að nota þennan fisfúna drumb í hornstaur“.

Fiskflís (n, kvk)  Ögn af fiski; lítilsháttar af harðfiski.  „Réttu mér dálitla fiskflís ef þú tímir að sjá af henni“.

Fiskikönguló (n, kvk)  Dordingull; húsakönguló; veiðimaður.  „Þarna hangir fiskikönguló í sínu færi; stundum nefnd veiðimaður.  Hún er svo nefnd vegna þess að hegðunin minnir á veiðar með færi“.

Fiskipoki (n, kk)  Poki með fiski.  „Við tókum saman ílát og annað sem við áttum að taka með okkur heim, og ekki máttum við gleyma fiskipokanum“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Fiskmetiskös (n, kvk)  Hrúga af matfiski.  „Yfirbreiðslur höfðu lítið hlíft.  Sandur hafði allsstaðar smogið undir og inn í fiskmetiskösina “  (KJK; Kollsvíkurver).

Fiskstakkur / Fiskstæða / Saltfiskstæða (n, kk/kvk)  Stafli af saltfiski, sem raðað er reglubundið upp.  „Mikil framför þótti þegar unnt var að geyma allar fiskstæður innandyra“.

Fisktittur (n, kk)  Lítill fiskur; smáfiskur.  „Það var ekki nokkurn fisktitt að hafa uppi á grunnmiðum um margra áratuga skeið, en nú stendur á hverju járni ef slóði kemur í sjó“.

Fisktutla (n, kvk)  Tægja/ögn af fiski.  „Mig var farið að langa í fisk.  Ég hafði ekki smakkað fisktutlu í háa herrans tíð í þessari sveit“.

Fiskþykkt (n, kvk)  Þykkt á fiskholdi.  „Flökin (af lúðunni) hengd upp og látin skelþorna; síðan voru þau rist þannig að skurður var skorinn inn í miðja fiskþykktina.  “  (KJK; Kollsvíkurver).

Fitubeit (n, kvk)  Beit sem saufé er sett á til að fita það fyrir slátrun.  „Sighvatur lét sauð síga niður í Stóðin sem við hann eru kennd.  Hann hafði hann þar yfir sumarið í fitubeit og seig eftir honum um haustið“. 

Fitudróg (n, kvk)  Fituögn; tægja/ögn af fitu/mör.  „Eittsinn þótti ket ekki matur nema það væri sæmilega feitt.  Nú eru menn hrifnastir af horketinu.  Hvergi má sjást fitudróg í nokkrum mat“!

Fíflagangur  (n, kk)  Bjánagangur; heimska; kjánalegir tilburðir.  „Auðvitað var það ekkert nema fíflagangur að reyna þetta“!  „Hvað skyldi þessi fíflagangur eiga að ganga langt þarna í þinginu“?

Fígúruháttur (n, kk)  Sýndarmennska; fíflagangur; ýkt/yfiborðskennd hegðun.  „Alltaf er hann með þennan fígúruhátt ef kvenfólk er nálægt“.

Fínheita (ao)  Ágætis; dýrindis; herlegheita.  „Það þýðir nú lítið að mæta í smölun á einhverjum fínheita blankskóm!  Áttu ekkert almennilegt á lappirnar“?

Fínviðri (n, hk)  (n, hk)  Gott veður; prýðisveður.  „Það gerði mugguskratta hér í morgun, en eftir það hefur verið fínviðri og bjart“.

Fírhólf (n, hk)  Eldhólf á kola-/olíueldavél.  „Nú þurfum við að bíða eftir að fírhólfið kólni“.

Fítonsfart (n, kvk)  Ógnarhraði; asi; hraðferð.  „Hann skurkaði hér framhjá á þessari býsna fítonsfart; ég held að það hljóti að hafa orðið slys einhversstaðar“!

Fjalarstubbur / Fjalarstúfur (n, kk)  Stutt fjöl/spýta.  „Mjaltakollurinn var út fjalastubbum“.

Fjallarok (n, hk)  Mjög snarpur vindur hlémegin við fjöll.  „... ég er að enda við að renna stýrinu fyrir þegar slær niður fjallaroki með þeim stærsta sjó sem ég hef fyrirhitt“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli).

Fjallavegleysa (n, kvk)  Ferðalag um fjöll utan vega.  „Við hugsuðum okkur að fara fjallavegleysu útá Bjarg, en hverfum brátt frá því...“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Fjallslægjur (n, kvk, fto)  Útslægjur; hey sem fengið er af slægjum í úthaga, t.d. brok af tjörnum eða gras úr bjargflesjum.  „Þetta er sorgarsagan um fjallslægjur á Vestfjörðum.  Ef mýrarnar þorna er berglagið undir þeim svo opið að jarðvegurinn hverfur að mestu og eftir verður aðeins mosinn, þegar best lætur; annarsstaðar bara berar urðirnar“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Fjalltryggur (l)  Mjög tryggur; óaðskiljanlegur.  „Ég hef engan vitað fjalltryggari en þennan hund“.

Fjallvegasamgöngur (n, kvk, fto)  „Fjallvegasamgöngur við Kollsvíkinga héldust óbreyttar til ársins 1955, að lokið var við bílveg alla leið yfir Hænuvíkurháls“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Fjandansári (ao)  Áhersluorð með lýsingarorðum; mjög; gríðarlega.  „Það var fjandansári sárt að horfa uppá lambið soppa framaf; eins og þetta var nú vænn hrútur“!  „Þetta er fjandansári blautt enn“.

Fjandansekkisen (l)  Áherslulýsingarorð með nafnorðum.  „Það er fjandansekkisen vesen orðið að fá leyfi til að fiska í eigin landhelgi“!  „Fjandansekkisen óheppni var að þetta þetta skyldi bila núna“.

Fjandansgreyið (n, hk, m.gr.)  Áhersluorð; milt blótsyrði.  „Ég hélt ég væri búinn að króa lambið af, en þá setti það sig niður í næsta gang, fjandansgreyið“.  „Hann datt af króknum alveg uppi við borðið, fjandansgreyið“!

Fjandansnær (orðtak)  Áhersluorð; heldur; frekar.  „Óttalegt slugs er á honum; honum væri fjandansnær að halda sig að heyskapnum svo hann klárist fyrir snjóa“!  „Mér hefði verið fjandansnær að taka skóna inn; þá væru þeir ekki forblautir núna“.

Fjandanssama (l)  Kæri kollóttan; gef skít í; er alveg sama.  „Mér er svosem fjandanssama þó þeir kúðri þessu; það kemur þeim sjálfum í koll“!

Fjandansögn / Fjandans sú ögnin (n, kvk/ orðtak)  Áhersluorð um ekki neitt.  „Hann sagði að hér hefði hann séð tvær kindur, en fjandansögn sem hér er nokkuð fé“!  „Við börðum hér um allan sjó, en fjandans sú ögnin að við yrðum nokkursstaðar varir; allsstaðar sama ördeyðan“!

Fjárbúð (n, kvk)  Fjárhús sem notað er sem verbúð að vori og sumri, en slík notkun var algeng í Útvíknaverum.  „Skipbrotsmenn (skútunnar Telephone) fengu til umráða tvær allstórar fjárbúðir og höfðust þar við í nærfellt þrjár vikur“  (TÓ; Skipströnd í Rauðasandshreppi).

Fjárhúsgrindur (n, kvk, fto)  Grindur undir sauðfé í fjárhúsi, til að skítur troðist niður í fjárhúskjallara.  „Þetta timbur væri líkast til upplagt í fjárhúsgrindur“.

Fjárkrít / Fjárlitur (n, kvk)  Lituð krít sem seld er og notuð til að merkja kindur til aðgreiningar.  Sjá litamerkt.  Fjárkrít var t.d. ein vörutegunda sem voru á boðstólum í Gjögrabúð.

Fjárskúfur (n, kk)  Lítill hárbrúskur eða –burst, fremst á snoppu sauðfjár. 

Fjósabuxur (n, kvk, fto)  Utanyfirbuxur/buxur sem notaðar eru í fjósverk.

Fjósaferð (n, kvk)  Sinning í fjósum/fjósi; mjaltir.  Á Láganúpi voru um tíma tvö fjós, en orðið kann þó að vera mun eldra í þessari mynd.  „Ætli ég gleypi ekki eitthvað í mig áður en kemur að fjósaferð“.

Fjósaföt / Fjósagalli / Fjósastakkur / Fjósaskupla (n, hk, fto/ kk/kvk)  Hlífðarfatnaður sem notaður var af fjósafólki.  Fjósastakkur var vinnublússa, en fjósaskupla var slæða/klútur sem fjósakonur notuðu á höfuðið við fjósgegningar til að verja hárið.  Sjá mjaltaföt/mjaltagalli.

Fjósastígvél (n, hk, fto)  Stívél sem eru notuð í fjósverk.  „Nú er komið gat á fjósastígvélin mín“.

Fjóshjólbörur (n, kvk, fto)  Skítabörur; hjólbörur sem jafnan eru notaðar til að koma skít úr fjósi á haug.

Fjósúlpa (n, kvk)  Yfirhöfn sem notuð er til gegninga í fjósi.  „Nú þyrfti að fara að þvo fjósúlpuna mína“.

Fjærmið (n, hk)  Það mið í landi sem fjær er, þegar miðað er við tvö mið af sjó.  „Haugarnir eru fjærmið á samnefndum miðum, en Stekkavarðan er þá nærmið“.

Fjögranátta (l)  Um legu línu/nets í sjó; hefur legið í fjóra sólarhringa.  „Nú færum við trossuna einhvert annað!  Það gengur ekki að draga þetta galtómt fjögranátta“!

Fjölmúlavél (n, kvk)  Flókið/fjölhæft tæki.  „Hann smíðaði þessa fjölmúlavél sem fáir skilja til fulls“.  Orðið var notað þannig vestra, en er ekki að finna í orðabókum.  Það er „fjölmúlavíl“ sem ekki þekktist vestra. 

Fjörugata (n, kvk)  Gata/troðningur sem myndast við endurteknar ferðir fjárhópa í og úr fjörubeit.  „Fjörugötur fjár á Láganúpi lágu vanalega annarsvegar úr fjárhúsum að hliði girðingar við sjó og hinsvegar með öllum Grundarbökkum, fyrir Garðsendann og upp Brunnsbrekku; upp á Hjalla“.  Troðningur manna til verstöðva, t.d. af gamla bæjarhólnum í Kollsvík niður í Ver, var oftast nefndur sjávargata, en sjaldnar fjörugata.

Fjöruilmur / Fjörulykt (n, kvk)  Lykt sem berst úr fjöru í álandsvindi.  Oftast blanda af sjávarseltulykt og þaralykt.  Getur stundum stungið í nef ef þarabunkar ná að úldna í sólskini.

Fláningsbekkur (n, kk)  Sérstakt borð sem útbúið er þannig að þægilegt er að flá á því.  „Misjafnt er hvaða aðstöðu menn hafa við fláningu.  Oft var slátrað á velli áður fyrr, og þá valinn hreinlegur grasbali til fláningar.  Sumir komu sér upp fláningsbekkjum til að geta unnið standandi´“.

Fláningsgálgi (n, kk)  Gálgi með krókum sem skrokkur var hengdur á hæklunum til fláningar, þar sem hægara er að flá þegar fláningsmaður er standandi en á hnjánum.  „Í sláturhúsinu á Gjögrum var fláningsgálgi“.

Fleðuglott (n, hk)  Tilgerðarlegt bros þess sem vill koma sér í mjúkinn hjá öðrum.  „Hann er þá búinn að setja upp sitt fleðuglott, blessaður frambjóðandinn“. 

Fleinbra (s)  Særast; meiðast; fá sár.  „Formaðurinn datt á stein í götunni og fleinbraði sig á enninu“. 

Flengrifinn (l)  Alveg rifinn; illa rifinn.  „Eftir storminn voru strengirnir á Bótinni ýmist samansúrraðir eða svo smekkfullir af þaraskít að netið flengrifnaði í drætti“.

Flengrifna (s)  Rifna/skemmast mjög mikið/illa; rofna sundur.  „Við náðum hámerinni úr, en netið flengrifnaði á löngum kafla“.  „Buxurnar voru þröngar og flengrifnuðu þegar hann beygði sig niður“.

Flengrífa (s)  Rífa mjög mikið/illa; skaða mikið.  „Við náum ekki að draga netið svona kjaftfullt af skít án þess að flengrífa það; við skulum fara í hinn endann“.

Flennibirta (n, kvk)  Skær/mikil birta.  „Maður blindast um stund þegar komið er út í svona flennibirtu“. 

Flennifærð / Flennifæri (n, hk)  Um vegi; mjög góð færð; skruggufæri.  „Það er flennifæri suður alla hálsana“.

Fleyta kúskel (orðtak)  Um mikið logn og algera ládeyðu.  „Kjörin hafa verið slík alla vikuna að það hefur mátt fleyta kúskel við fjöruna alla daga“.  Nokkuð algeng samlíking í Kollsvíkurveri, enda nærtæk.

Fleytisteinn (n, kk)  Flöt steinvala sem heppileg er til að láta fleyta kerlingar.

Flinkheit (n, hk, fto)  Handlagni; lagni; sniðugheit.  „Ekki vantar í hann flinkheitin, drenginn“!

Flísfellur (s)  Passar nákvæmlega; fellur eins og flís við rass.

Fljótfærnismistök (n, hk, fto)  Mistök sem gerð eru í fljótfærni/asa.  „Bölvuð fljótfærnismistök voru þetta“!

Fljótillur (l)   Bráðgeðja; ör í skapi.  „Nemendur skemmtu sér stundum við að hrekkja karlinn en hann var fljótillur ef honum þótti eitthvað“. 

Fljótillska (n, kvk)  Mikil reiði sem varir stutta stund; stundarbræði; stundarreiði.  „Hann sá stundum eftir því sem hann hafði látið fjúka í einhverri fljótillsku“.

Fljótmjólkað (l)  Fljótt verið að mjólka.  „Það er fljótmjólkað þegar flestar kýrnar eru í geldstöðu“.

Fljóttekið / Fljóttínt (l)  Fljótt verið að taka/hreinsa egg af svæði.  „Stallurinn er sléttur og breiður og þar er fljóttekið af eggjum“.  „Það er fljóttínt efti að maður er kominn á höfðann“.

Flokkahlaupari (n, kk)  Sá sem styður einn stjórnmálaflokkinn eftir annan; pólitískt viðrini; gjarnan notað um þingmann sem skiptir um flokk.  „Er hann enn að ferðbúast þessi flokkahlaupari“?  Einnig heyrðist „flokkaflakkari“, en sjaldnar.

Flokkaritnefnd (n, kvk)  Ritstjórn/ritnefnd blaðs, þannig að hver meðlimur sér um sinn efnisflokk.  „Dvergur, hið skrifaða blað fjelagsins, hefur komið út á hverjum fundi.  Fyrstu árin var ein ritnefnd yfir veturinn, en svo var komið á flokkaritnefnd og gafst það vel að sumu leiti“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Flotdolla / Flotkolla / Flotpottur / Flotspanda (n, kvk/kk)  Ílát sem flot er brætt í og einnig oftast borið fram í; oftast lítil kastarhola/ lítill skaftpottur.  „Réttu mér flotpottinn“.  „Taktu flotdolluna af vélinni ef flotið er bráðið“.  „Handlangaðu hingað flotspönduna“.

Flóðamörk (n, hk, fto)  Sú hæðarlína í fjöru sem sjór fellur að á háflæði.  „Við þurfum að koma trénu örugglega uppfyrir hæstu flóðamörk“.

Flóandi fullur (orðtak)  Fleytifullur; yfirfullur; fullur svo útúr flóir.  „Ekki hella svona flóandi fullt glasið“!

Flóðhey (n, hk)  Hey af flæðiengjum.  Einkum er slíkar engjar að finna á Rauðasandi, þar sem sjór gengur upp á gróið land á stærstu flæðum og skilur eftir allmikil næringarefni.  Má segja að nýting þess sem fóðurs hafi t.d. átt verulegan þátt í auði og velgengni Saurbæjar.  Fyrir kom, í grasleysisárum seint á 20.öld, að hey var flutt úr Bæjarodda á Kollsvíkurbæi.  Það þótti þó mun síðra fóður en túnataðan.  „Að lokum ræð ég flestum þeim til er gefa flóðhey; jafnvel þó vel verkist, að gefa með þeim steinefni; salt.  Efnarannsókn hefir leitt í ljós einmitt steinefnavöntun í þessum heyjum“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Flóðmjólk (n, kvk)  Mjög há nyt í mjólkurkú.  „Það má ekkert minnka við hana fóðrið meðan hún er enn í þessari flóðmjólk“.  „Það er orðið knappt um brúsa þegar svo margar eru í flóðmjólk“.

Flóðrigning (n, kvk)  Hellirigning; rignir eins og hellt sé úr fötu.  „Það er sama flóðrigningin ennþá, við skulum hinkra dálítið lengur með þetta“. 

Flugrek (n, hk)  Mikið rek á sjó; mikil drift.  „Það þýðir ekkert að dýfa færi í sjó í þessu flugreki; við skulum bíða þangað til ferð að kippa úr“.

Flugumynd (n, kvk)   Um það sem varla verður vart við:  „Ég get ekki sagt að ég hafi séð hann undanfarið.  Hann kemur hér í flugumynd; fær sér einn kaffibolla og er rokinn aftur“! 

Flumbrari (n, kk)  Sá sem flumbrar/flaustrar við verk.  „Hann var talinn nokkur flumbrari, en vel gekk undan honum og hann var hrókur alls fagnaðar á vinnustað“. 

Flumbur / Flumbrugangur (n, kk/hk)  Óvandvirkni; fljótfærni.  „Skelfingar flumbur er þetta; hér er það vandvirknin sem gildir“!  „Þessi flumbrugangur við smíðina er óviðunandi“. 

Flútt (n, hk)  Jöfn hæð/lengd.  „Grunnbólið er í flútt við tangann“.  Sjá flútta og í flútt við.

Flútta / Flútta við (s/orðtak)  Vera jafnt; bera saman.  „Heyvagninn flúttaði við neðri brún töðugatsins, svo við gátum rennt heyinu inn án þess að lyfta því“.  Dönskusletta; „flugte“; nokkuð notuð í Kollsvík.

Flys / Flus (n, kvk, fto)  Sköturoðsvefjur; fótabúnaður úr sköturoði.  „Í vefjur var einungis notað roð af stórri skötu; flenju/gammskötu, og voru oftast tekin af henni nýrri.  Roðið var lagt þannig á fótinn að totan, efsti hluti þess, kom fyrir tærnar og undir þær.  Það huldi síðan fótinn að ofan og náði upp á legginn.  Margbundið var um þessa vestfirsku sköturoðsvefju/flys/flus, sem einkum var höfð til hlífðar í slabbi við útiverk“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimild m.a. ÁE). 

Flæðarróður (n, kk)  Fiskiróður sem hafinn er í flæði, sjá róa í flæðina.  „Eins og áður er getið var ávallt róið í flóð og fjöru.  Flæðarróðrarnir voru betur þokkaðir, af ástæðum sem fyrr greinir“ (KJK; Kollsvíkurver).

Flæðivaðall (n, kk)  Vaðall/áll sem sjávarfalla gætir í.  „Nyrst er landið brattar hlíðar, en er sunnar dregur myndast láglendi nokkuð meðfram vatni því sem er á láglendingu og fellur bæði úr og í og nefnist flæðivaðall“  (KJK; Örn.skrá Tungu).

Flækingskind / Flækingsfé / Flækingsskjáta (n, kvk/hk)  Kind/fé sem heimtist annarsstaðar en hennar/þess er von.  „Stundum heimtist ein og ein flækingskind innan af Barðaströnd í Breiðavíkurrétt“.  „Hér er komin einhver flækingsskjáta frá kaffibrúsakörlum á Patró“.

Flækjufótur (n, kk)  Sá sem er mjög dettinn/hrösull.  „Varstu nú að detta í grjótinu og meiða þig;kelfilegur flækjufótur geturðu nú verið“!

Flækjugjarn (l)  Um lina línu/tóg/færi/band sem gjarnara er að slást inní og flækjast en öðru sem stífara er.  „Mikið sé ég eftir að hafa notað þessa hamplínu í netatein; hún er svo andskoti flækjugjörn“.

Flæmi (n, hk)  A.  Víðátta.  „Það er handtak að smala allt þetta flæmi“.  B.  Stórt svæði í bjargi/klettum, sem oft má fara um og jafnvel nýta þar varp.  Orðið er ekki notað annarsstaðar í þessari merkingu en í Bjarginu og grannbyggðum þess.  „Utan við ritugjá er Eiríksflæmi.  Það er rétt fyrir ofan vitann.  Flæmi er hverlfing inn í bjargið.  Þar er ekki gras“  (DE; Örn.skrá Látrabjargs).

FlökkuefniFlökkuaur / Flökkusteinn / Flökkutorfa (n, kk)  „Efni sem ís fleytir/ hefur fleytt úr botni frostgígs upp á frálagssvæði.  Efnið getur verið af ýmsu tagi; frá aur og leir upp í allnokkra hnullugssteina og frá moldarhnúskum uppí allstórar torfur.  Orðið „flökkusteinn“ hefur lengi verið notað um grjót á fjörum sem borgarís hefur borið frá Grænlandi, m.a. upp á Kollsvíkurfjörur, og einnig gengur undir heitinu grænlendingur.  Segja má að hér sé um það sama að ræða; enda er flutningsmátinn um margt líkur þó uppruni sé annar“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Notað í Kollsvík vegna jarðfræðikenningar um frostgíga sem þar er upprunnin.. 

Foj (l)  Móðgaður; fúll.  „Hún varð bara eitthvað foj þegar talið barst að kvenseminni í karlinum“.  

Foj for satan (orðtak)  Blótsyrði/upphrópun til að lýsa fyrirlitningu/vanþóknun.  „Nú þykist þessi flokkur ætla að gera nákvæmlega það sem þeir bölsótuðust yfir þegar þeir voru í stjórnarandstöðu!  Foj því for satan“!

Foraðsblautur (l)  Forblautur; rennandi blautur.  „Féð er foraðsblautt eftir slagveðrið“. 

Foraðsblautt á / Forblautt á / Drullublautt á (orðtak)  Mikil dögg í grasi; kafblautt á.  „Það er ennþá forblautt á.  Við breiðum sennilega ekki á næstunni“.

Foraðsbleyta (n, kvk)  Mjög mikil bleyta; einkum notað um bleytu í grasi; mikið náttfall.  „Það er enn sama foraðsbleytan; ég var að þreifa á rétt áðan“.

Foraðsrigning / Foraðsdemba / Forðaðsúrhelli (n, kvk)  Úrhellisrigning; skýfall.  „Ég ætla að láta sjá aðeins með að setja féð út; láta sjá hvort dregur ekki úr þessari foraðsrigningu“.

Foraðsdý / Foraðskelda / Foraðskviksyndi (n, kvk/hk)  Drápsdý; botnlaust fen.  „Garðurinn liggur fram hjallana og svo niður brekkuna í svonefnt Garðsendadý sem var foraðskelda undir brekkunni“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).  „Þarna á milli holtanna eru sumsstaðar stórhættuleg foraðskviksyndi“.

Foraðsslydda / Foraðsslydduél / Foraðshríð (n, kvk)  Mikil og blaut slydda í hvassviðri.  „Það er varla fært milli húsa í þessari foraðsslyddu“. 

Forarsvakki (n, kk)  Mýrarsvakki; Forarveita.  „Fram af Löngumýri er Hreinlætisaugu; forarsvakki“  (SbG; Örn.skrá Hænuvíkur).

Forarvað (n, hk)  Vað/leið yfir forarseil.  „Á Réttarkrók var Svartavað á gmlu götunni úr Oddanum; forarvað ofarlega, rétt hjá Stórakrók“  (ÍÍ; Örn.skrá Saurbæjar).

Foráttustórhríð / Foráttubylur (n, kvk/kk)  Glórulaus hríðarbylur, oftast bleytuhríð/slydda.  „Það er glórulaus foráttubylur enn“.  „Það setti á okkur þvílíka andskotans foráttustórhríð að við urðum gegnblautir“.

Forðagæsla / Forðagæslueftirlit (n, kvk)  Opinbert eftirlit með heyforða og búfjárhaldi.  Forðagæslumenn voru til skamms tíma tveir í Rauðasandshreppi.  Þeir fóru milli bæja að hausti; mældu fóðurforða bænda og gáfu álit um ásetning búfjár fyrir veturinn.  Aftur komu þeir um síðvetrar til að meta hvernig fóðrast hefði og hvort forði nægði.  Fyrrum var hreppnum skipt í forðagæslusvæði; þannig var Rauðisandur sérstakt umdæmi:  „Því lengur sem ég skoða og set á, eða hef þetta forðagæslueftirlit, því betur sannfærist ég um að fóðrun á öllum ofangreindum búpeningi fer batnandi frá ári til árs“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Forflytja (s)  Flytja á milli staða.  „Það tekur því ekki að forflytja blásarann yfir víkina fyrir þetta; við mokum þessu bara inní hlöðuna með höndum“.

Forhalaður (l)  Bilaður; flæktur; áhlekkjaður.  „Hér er netið eitthvað forhalað; kubburinn hefur slegist inní“.

Forholning (n, kvk)  Útgangur; fyrirkomulag; klæðnaður.  „Hverskonar forholning ér á þér drengur; ertu í úthverfri peysunni, eða hvað“?  „Það er ljóta forholningin á fjósin núna; Búbót hefur slitið niður halabandið og málað allt í kringum sig uppúr flórnum“!.

Forkelast (s)  Kvefast eða kólna um of.  „Búðu þig betur ef þú vilt ekki forkelast“. 

Forkunnarlaglegur / Forkunnarfallegur (l)  Afburða fallegur.  „Þetta er forkunnarlaglegur bátur“. 

Formelta (s)  Hafa bakflæði fæðu.  Bakflæði nefna meltingarfræðingar það þegar neðstu vöðvar vélinda/vælinda eru svo slappir að fæða í maga nær að leita aftur upp í munn.  Í Rauðasandshreppi var þetta nefnt að „formelta“ matinn; þ.e. ná e.t.v. að tyggja hann betur áður en honum væri aftur rennt ofaní maga.  Orðið kann að vera upprunnið hjá nýyrðasmiðnum GJH, og því ekki gamalt; en það lýsir jákvæðum og vísindalegum skilningi á fyrirbærinu.  „Það er nauðsynlegt að formelta dálítið svona tormeltan mat“.

Formlegheit (n, hk, fto)  Siðir; venjur; ritúal; prótókollur.  „Það er alveg óþarfi að vera með einhver formlegheit við þetta; notaðu bara guðsgafflana ef þér finnst það betra“.

Fornaldarhugsunarháttur (n, kk)  Hugarfar/viðhorf sem tíðkaðist fyrr á tímum.  „Menn eru helst til fastir í þeim fornaldarhugsunarhætti að landsins gæði séu einungis búskapur eða fiskirí“.

Fornuma (s)  Móðga; fyrta; stuða.  „Ég vildi ekki fornuma hann með því að vanþakka kaffið“.

Fornumaður (l)  Móðgaður; fúll; óánægður.  „Hann er eitthvað fornumaður vegna þess að ég bauð honum ekki með“.  „Ég er dálítið fornumaður útaf þessum úrslitum“.

Fornumast (s)  Móðgast; fara í fýlu.  „Það er ástæðulaust að fornumast útaf svona smáræði“.

Forréttindapakk (n, hk)  Forréttindahyski; skammaryrði um þá sem njóta betra atlætis en aðrir þjóðfélagsþegnar vegna stöðu sinnar, ættar eða annars; án þess að hafa heiðarlega til þess unnið.  „Nú er hver einasti fisktittur í sjónum orðinn einkaeign einhvers forréttindapakks; jafnvel þeir sem synda um landhelgi annarra manna.  Svona hafa þessir andskotar stýrt lagasetningu í landinu í gegnum árin“!

Fortekið (l)  Útilokað; kemur ekki til greina.  „Þeir sögðu þetta mjög ólíklegt; en ekki er það þó alveg fortekið“.

Forút (ao)  Áfram; allt til enda; eins langt og séð verður.  Bæði notað um stað og tíma.  „Ég er nú farinn að halda að hann ætli að liggja í rigningum alveg forút“!  Þau fáu dæmi sem finnast í orðabókum sýna eilítið aðra merkingu; þ.e. eingöngu „út“.

Forystukind (n, kvk)  Kind sem hefur sérstakt viljaþrek og er gjörn á að hafa forystu fyrir fjárhópi.  Bæði kindur og kýr koma sér upp virðingarstiga (líkt og fuglar goggunarröð).  Forystukindur eru frekari, úrræðabetri og drottnunargjarnari en aðrar í hópnum.  Oft leiða þær hópinn, t.d. í beitarrekstrum og fjöruferðum; í heimferðum; í því að sækja í tún og öðru.  Þessi eiginleiki gengur gjarnan í erfðir eins og fleira.  Einatt var talað um forystukindur í Kollsvík en orðabækur nefna „forystuær“.

Fossandi úrhelli (orðtak)  Fossrigning; úrhellisrigning.  „Það gerði allt í einu slíkt fossandi úrhelli að vatnspollar mynduðust í hverri laut og holu“.

Fossblautt á (orðtak)  Mjög blaut jörð; mjög mikil dögg í grasi; forblautt á.  „Það er enn fossblautt á; við hreyfum ekki mikið hey í dag sýnist mér“.

Fossrigna (s)  Rigna mjög mikið; hellirigna; rigna eins og hellt væri úr fötu.  „Við vorum rétt komnir heim á Ormana þegar hann fór að fossrigna“.

Fossrigning / Fossdemba (n, kvk)  Mjög mikil rigning; hellirigning; eins og hellt sé úr fötu.  „Þvílík andskotans fossrigning er þetta!  Maður er innúr um leið“!  „Ég hef nú sjaldan upplifað svona fossdembu“!

Fossvaðandi (n, kk)  Mjög mikil bleyta á jörð/ í grasi.  „Árans fossvaðandi hefur orðið úr þessu náttfalli; hann verður tíma að þorna af í þessu logni“!  Sjá vaðandi.

Foxandi illur/vondur / Foxillur / Foxvondur (l)  Blóðillur; fjúkandi reiður; fokillur; fokvondur; saltvondur.  „Hann er foxillur yfir þessari meðferð“.  „Ég er bara foxvondur yfir þessari fjandans vitleysu“! Líklega sama orðið og fokillur/fokvondur, en „s“ komið inní vegna framburðarhagræðis og til áhersluauka.  „Andi“- endingin er líklega tilkomin til að auka hrynjandi og áherslu.  „Hún varð foxandi vond við að heyra þetta“.

Fóðurbætisgeymsla (n, kvk)  Geymsla fyrir fóðurbæti, þannig að hann sé öruggur bæði fyrir að skepnur komist ekki í hann og fyrir rakaskemmdum.  „Kassinn undan Farmalnum var lengi notaður sem fóðurbætisgeymsla í hlöðunni á Láganúpi, en endaði ævina sem reykingakofi niðri í Kaldabrunni“.

Fóðurbætisjata (n, kvk)  Aflangur stokkur sem settur er upp úti í girðingarhólfi til að gefa nýbornum kindum fóðurbæti; einkum tvílembum sem þurfa kjarnfóður til að mjólka lömbum sínum vel.  Gerð úr borðviði.

Fóðurbætislán (n, hk)  Lán sem veitt er bónda til kaupa á kraftfóðri/fóðurbæti, t.d. í erfiðum heyskaparárum.  „Greiðsla af fóðurbætislánum bænda frá 1955“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; hreppsnefndarfundur 16.01.1959; ritari S.J.Th. oddviti). 

Fóðurbætisskál (n, kvk)  Skál til að gefa einni skepnu fóðurbæti.  „Oft þarf að gefa einni skepnu meiri næringu en annarri; svo sem tvílembdum, snemmbornum ám og nýbornum kúm, og var það tíðum gert með fóðurbæti.  Til þess var hentugt að nota netakúlur úr áli, sem oft rak á fjörur fyrrum; þær voru teknar í sundur og tekinn af þeim hankinn. 

Fóðurmél (n, hk)  Fóðurbætir; fóðurmjöl.  „Gættu þess að sáldra ekki fóðurmélinu á hausana á fénu“!

Fóðurvöntun (n, kvk)  Skortur á fóðri/heyi fyrir búfé.  „Tilkynning um fóðurvöntun bónda“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Framanað (ao)  Að framanverðu; framantil.  „Mér finnst nú alltaf betra að koma framanað málunum“.

Framanaf (ao)  Í byrjun/upphafi; á fyrri helmingi.  „Framanaf ævinni fór maður í egg á hverju vori“.

Framanfrá (ao) Að framanverðu; réttu megin  „Gættu a þér þegar þú kemur að ljósavélinni framanfrá í þessu myrkri; að reka þig ekki í ásinn“.

Framaní (ao)  Inni/uppi í að framanverðu.  „Mér sýnist vera kind á hillunni framaní efri klettunum“.

Framantil (ao)  Að framanverðu; framan við miðju.  „Vertu frekar framantil í bátnum svo hann sitji réttari í sjónum á siglingu“. 

Framanúr ao)  Úr/af að framanverðu.  „Ég ætla að strjúka framanúr mér mesta skítinn“.  „Það varð töluvert hrun framanúr klettunum“.  „Þeir eru enn ókomnir framanúr Vatnadal“.

Framanvið (ao)  Fyrir framan.  „Tveir höfrungar fylgdu okkur og stukku framanvið bátinn“.

Framaf (ao)  Framfyrir/niðurfyrir brúnina.  „Farðu varlega að gemlingnum þarna á brúninni, svo hann stökkvi ekki framaf“.  Alltaf notað samstætt í þessari merkingu, sem um eitt orð sé að ræða.

Framá (ao)  Tvenn merking þegar orðið stendur sjálfstætt:  Annarsvegar um bát: „Farðu framá með kollubandið“.  Hinsvegar um áliðnar ástíðir:  „Það er gott að eiga fyrningar þegar kemur framá“. 

Frambrýndur (l)  Um mann/klett/bjarg; með framstæðar/hvassar brúnir.  „En brátt hefur sig upp að nýju stakur bergröðull, uppmjór sem klakkur, og liggur niður hlíðarjaðarinn sem þunnur kambur, frambrýndur, allt niður í fjöru, og endar í strengbergi.  Má í raun heita ógengur um þvert, en hefur þó verið klifinn en þykir glæfraför“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Framfrá (ao)   Í áttina frameftir; fremst.  „Sumar kýrnar eru komnar niður að fjósi en aðrar eru ennþá framfrá“.

Framfyrir (ao)  Framúr; fram fyrir.  Orðið er almælt vestra eins og annarsstaðar, og notað sem eitt orð, líkt og t.d. framundir; framundan o.fl.  „Duflið er komið framfyrir bátinn“. 

Frammeð (ao)  Meðfram; með.  „Við náðum landi á vogskorinni strönd, undir klettabelti.  Við gengum frammeð því, að leita uppgöngu... “  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Framtil (ao)   Fram að; þangað til.  „Við unnum sleitulaust við þetta framtil miðnættis“.

Framtíðarkennslustaður (n, kk)  Staður þar sem kennsla fer fram til frambúðar.  „Össur Guðbjartsson gat þess að reynsla sín sem kennara af félagsheimilinu fyrir kennslustað væri góð, en ekki mætti reikna með því sem framtíðarkennslustað“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Framum (ao)  A.  Um stefnu; fram; frameftir; frá landi.  „Áttir og stefnur voru með lítið eitt öðrum hætti í Útvíkum og nágrenni en annarsstaðar tíðkaðist og nú er algengast.  Ekki síst átti það við á sjó, en einnig á landi:  Framum þýðir dýpra/fjær landi eða inn dalinn; uppum þýðir grynnra/nær landi eða ofar í landinu;  útum þýðir út fjörðinn eða í stað sem er utar á landsvæði; innum þýðir inn fjörðinn eða innyfitr heiði/ inn í fjörð“.  „Við skulum sigla hér aðeins framum og reyna þar“.  B.  Framyfir.  „Nú var komið framum hádegi og suðurfall“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Framvið / Frammivið (ao)  Frammi hjá; fremst við.  „Þarna eru kindur framvið Startjarnir“.  „Járnkarlinn er líkast til frammivið Túnshalahliðið“.

Framvík (n, kvk)  Fremri hluti víkur; sá hluti víkur sem nær er hálendinu og fjær sjónum.  „Þegar Breiðavík var smöluð þá smöluðum við Kollvíkingar úr Fjarðarhorninu; niður Flosagil og Hjallagötur, en Hafnarmenn og Breiðvíkingar smöluðu niður framvíkina.  Látramenn og Breiðvíkingar smöluðu Breiðavíkurver og útvíkina“.

Fransklína / Frönsk lína (orðtak)  Fiskilína af þeirri gerð sem fransmenn notuðu þegar þeir veiddu hér ið land á skútum, en slíkar linur voru notaðar í veiðarfæri í verum Útvíkna.  „Lóðastrengur var gerður úr tveimur þáttum franskrar línu, en franskar línur voru af þremur aðalþáttum.  Þriðji þátturinn úr fransklínunni var rakinn niður í grennri þætti, og voru tveir slíkir snúnir saman í öngultauma“  (GG; Kollsvíkurver).

Fratgepill (n, kk)  Niðrandi uppnefni á manni.  „Ég gef nú lítið fyrir það sem sá fratgepill er að gaspra“!

Frábógur (n, kk)  Annar leggurinn þegar krusað var með landi í beitivindi, þ.e. þegar siglt var fjær landinu.   Hinn leggurinn, í átt nær landi, nefndist uppbógur.  „Var þá skipið á frábóg í á annan sólarhring“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli). 

Frálagssvæði (n, hk)  „Svæði í gígdæld, uppi á bökkum frostgígs, þar sem flökkuefni sest eftir að hafa flotið með ís úr gígnum.  Frálagssvæðið er það svæði sem ís getur flotið um í mestu vatnshæð, samfrosinn flökkuefni“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Notað í Kollsvík vegna jarðfræðikenningar um frostgíga sem þar er upprunnin.

Fráskorið (l)  A.  Afskorið; skorið af/frá.  Sjaldan notað í eiginlegri merkingu.  B.  Afleidd merking; útilokað; af og frá; kemur ekki til greina.  „Það er alveg fráskorið með róðra í dag, sýnist mér“.  „Það er nú kannski ekki alveg fráskorið að ég geti þetta“.

Frekjugangur (n, kk)  Ásælni; heimtufrekja; gleypugangur.  „Hættu þessum frekjugangi krakki“!

Frenjugangur / Frenjuháttur (n, kk)  Frekja; óhemjugangur; yfirgangur.  „Óttalegur frenjuháttur er þetta“! 

Fréttalétt / Fréttalítið (l)  Tíðindalítið; fátt fréttnæmt að segja.  „Af okkar slóðum er allt fremur fréttalétt“.

Fríþenkjarasálmur (n, kk)  Ljóðabálkur, ortur til fríþenkjara.  „Er sagt að Einar (Jónsson ættfaðir í Kollsvík)hafi verið kallaður vitur maður og lesinn, og búhöldur mikill.  Við manntal 1820 er hann líka sagður vel lesinn og gáfaður maður, og svipað er jafnan um hann sagt.  En Gísi Konráðsson segir ennfremur að lítill mundi hann trúmaður, og læsi jafnan villurit það er kallast „Jesús og skynsemin“, og héldi mjög af því.  Bjarni Þórðarson, skáld á Siglunesi, sem var trúmaður mikill, orti sálm til Einars, sen nefndist fríþenkjarasálmur.  Tekur Gísli í þátt sinn 3 síðustu erindin, en ekki telur hann að Einar hafi svarað þessu“  (TÓ; Kollsvíkurætt). 

Froðubakki / Froðuhrönn (n, kvk)  Bakki/bunki af froðu meðframflæðarmáli eftir mikið brim.  „Féð þurfti að vaða í gegnum froðubakka upp á miðjar síður, til að komast fram í fjöruna“.  „Eftir langvarandi sveran norðangarð situr stundum eftir þykk froðuhrönn efst í fjöruborðinu þegar fellur út“.

Froðulaust (l)  Um efni/jarðveg/hey; mjög laust í sér.  „Heyið er enn froðulaust í hlöðunni; það á alveg eftir að síga“.  „Gættu að þér þegar þú ferð yfir urðina; hún er alveg froðulaus“.

Froðukenndur / Froðulegur (l)  Laus í sér; losaralegur; frauðkenndur.  „Þessi viður er ónothæfur í þetta; hann er alltof linur og froðukenndur“.  „Mér fannst þessi röksemdafærsla fremur froðukennd“.

Frostherða (s)  Herða fisk þannig að hann fái á sig frost í upphafi herðingar.  „Við þurfum endilega að ná okkur í steinbít meðan enn er kuldatíð.  Það er upplagt að frostherða hann núna“.

Frostherðing (n, kvk)  Herðing fisks að haust- eða vetrarlagi, þannig að hann fái á sig frost í verkuninni.

Frosthertur (l) Um fisk sem nær að frjósa  fljótlega eftir að hann er hengdur upp til herðingar.  „Frosthertur fiskur verður oft bragðmeiri og mýkri en sá sem hertur er að sumarlagi“.

Frostlæða / Frostmóða (n, kvk)  Þunn og staðbundin þokuslæða sem liggur stundum yfir landi í miklum frosthörkum og kyrru veðri.  Þannig frostlæðu mátti t.d. sjá á Handanbæjarmýrunum frosta- og hafísveturinn 1967; t.d. yfir Hestkeldu og Álunum.

Fróðleiksbrunnur / Fróðleiksnáma / Fróðleiksuppspretta (n, kk/kvk)  Uppspretta fróðleiks; fróðlegt rit; fróður maður.  „Hann var botnlaus fróðleiksbrunnur“.  „Þessi bók var mér hin mesta fróðleiksuppspretta“.

Frugguhey (n, hk)  Hey með mikilli fruggu.  „Við skulum ekki vera að gefa þennan stabba; þetta er hálfónýtt frugguhey“. 

Frugguloft / Fruggumökkur (n, hk)  Mikil frugga í andrúmslofti, t.d. í hlöðu.  „Það er nú engin hollusta að vera lengi inni í þessu fruggulofti án þess að hafa rýju fyrir vitunum“.   „Skelfingar fruggumökkur er nú úr þessu“!

Fruntaháttur (n, kk)  Ruddaskapur; fantabrögð.  „Svona aðfarir eru bara algjör fruntaháttur“!

Fræðingadót / Fræðingalið / Fræðingapakk (n, hk)  Skammaryrði um það virðulega og sprenglærða fólk sem stundum vill hafa vit fyrir „fáfróðum“ sveitamönnum í ystu Íslandsbyggðum.  „Þarna er þessu fræðingapakki rétt lýst“!  „Það er nú ekki mark takandi á þessu fræðingadóti, frekar en fyrri daginn“!  Ef mönnum var mikið niðri fyrir og þótti að sér vegið voru viðhöfð sterkari orð sem illa henta á prent.

Frærófa (n, kvk)  Rófa á öðru ári.  Sé rófa skilin eftir í jörð yfir vetur, eða sett niður að vori, þó sprettur upp af henni njóli sem síðan ber fræ. 

Fuglabyrgi (n, hk)  Byrgi á brún fuglabjargs til að geyma í fugl sem veiddur hefur verið.  „Fuglabyrgi voru af sömu gerð og vaðbyrgin (sjá þar) og voru höfð til að geyma í fugl þegar ekki hafðist undan að flytja heim.  En fuglinn þurfti að verja fyrir vörgum“.  (MG; Látrabjarg; frás. Daníels Eggertssonar; Hafliða Halldórssonar o.fl.).  Tóft af fuglabyrgi/vaðbyrgi má t.d. sjá ofan Stígs, undir Geldingsskorardal.

Fuglahilla (n, kvk)  Sylla í bjargi þar sem mikið verpur af bjargfugli.  „Þórðarbrandshöfðahilla er fuglahilla undan Stígnum og stutt e farið eftir henni“ (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs)

Fuglaket (n, hk)  Kjöt af fugli.  Fuglaket var mikilvægur hluti hinnar fjölbreyttu fæðu í Kollsvik og öðrum Útvíkum.  Kollsvíkingar fóru nokkuð í Bjargið með landeigendum eða í leyfi þeirra og öfluðu sér svartfugls, meðan fugl var þar snaraður.  Kollsvíkingar stunduðu það líka að skjóta á fluginu; þ.e. skjóta máf sem flýgur með Grundarbökkunum.  Þá var til siðs um tíma að taka fýlsunga áður en hann fór á flug.  Önnur fuglaveiði var t.d. sú að skjóta lunda með riffli í Álkuskútanum, og ekki skal svarið fyrir að pokaendur hafi ekki stundum sálast þegar byssumenn voru á ferli.  Ef mikið aflaðist af fuglaketi var það saltað í tunnur, og var slíkur vetrarforði af máf síðast til á Láganúpi  á 7. áratug 20. aldar.  Fuglaket er hinn ágætsti matur, og var oftast soðin af því fuglasúpa.

Fuglamerkingaferð / Fuglamerkingaleiðangur (n, kvk/kk)  Gönguferð sem farin er að vor- eða sumarlagi til að merkja unga ýmissa fuglategunda áður en þeir kæmust á flug.  Börnum þóttu þessar ferðir mjög spennandi, og nutu samveru og fræðslu af fullorðnum auk skemmtunar í náttúrunni.  Farið var víða um og handsamaðir og merktir þeir ungar sem náðust og voru nægilega bragglegir til merkingar.  Búnaðurinn samanstóð af númeruðum álmerkjum af ýmsum stærðum; þræddum uppá plastslöngur; töng til að klemma þá hæfilega um fuglsfætur; flatkjöftu ef hagræða þurfti merkinu blýanti til skrifta og stílabók eða pappaspjaldi til skrásetningar.  Eftir heimkomu var allt skráð og sent til Náttúrufræðistofnunar.  Oft bárust síðar tilkynningar um merkta fugla sem fundist höfðu; ýmist hérlendis eða í fjarlægum löndum.  Sá sem lengst hefur stundað fuglamerkingar í Rauðasandshreppi er efalaust fræðimaðurinn  og bóndinn Tryggvi Eyjólfsson á Lambavatni.

Fuglastallur / Fuglasylla (n, kvk)  Fuglahilla; hilla/sylla í bjargi þar sem mikið verpur af bjargfugli.  „Neðarlega í Lambhöfða eru tveir fuglastallar sem heita Gufur“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur). „Undirhlíðarhillur eru fuglasyllur milli Bæjarvallar og Undirhlíðar“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).

Fuglatekjupláss (n, hk)  Staður í bjargi þar sem fugl var nytjaður áðurfyrr.  „Í Þorsteinshvammi var fugltekjupláss, en heldur óþægilegt vegna vatsrennslis úr berginu“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Fuglavaður (n, kk)  Bjargvaður sem notaður er til að hífa kippur af fugli uppúr bjargi við bjargnytjar.  „Til siga voru ekki notaðir nema nýlegir og óskemmdir vaðir, en þeir sem voru farnir að slitna voru notaðir til að draga upp fugl þegar hann var tekinn (mannavaðir og fuglavaðir)“  (MG; Látrabjarg). 

Fuglgammur (n, kk)  Stór hvolflaga skápur í bjargi þar sem fá mátti mikið af fugli meðan hann var nytjaður. „Melagammur er fuglgammur niður úr Melalykkjunni, og eru 30 faðmar úr henni í gamminn“ (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs)

Fuglmikið sig (orðtak)  Bjargsig þar sem fá má mikið af fugli á sama sigstað.  „Niðri í bjarginu er Sléttanefshilla niður af Sléttanefi.  Er 60 faðma sig á hana af nefinu; eitt fuglmesta sig í Bjarginu“  (DE; Örn.skrá Látrabjargs). 

Fuglríkur (l)  Um fuglabjarg/varpstað.  „Jötunsaugu eru allstórir strokklaga hellar, sem mjókka inn, með þunnum vegg á milli.  Þeir eru mjög fuglríkir, en þröngir innst, svo þar verður að skríða“ (DE; Örn.skrá Látrabjargs).

Fuglssvæði (n, kk)  Svæði i bjargi með miklu af bjargfugli.  „Melalykkja er fuglssvæði eða höld, sem kallað var“  (Ólafur Þórarinsson; Örn.skrá Breiðavikur). 

Fullburðugur (l)  Fullfær um.  „Ég ætla ekkert að stjana við hann; hann er fullburðugur að gera þetta sjálfur“!

Fullfrekur (l)  Helst til frekur/yfirgangssamur.  „Nú þykir mér hann vera orðinn fullfrekur á saltið“.

Fullharka (n, kvk)  Um sjávarfall; með fullum þunga.  „Lagt var þvert á straum, og hyllst var til að leggja lóðina í fullhörku á straum“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Fullheimta (s)  Alheimta; fá allt fé að hausti sem búist var við.  „Nú tel ég mig vera búinn að fullheimta, eða því sem næst“.  „Nú er að verða fullheimt af Bjarginu“.  Algengara vestra en „alheimta“.

Fullheyja (s)  Alhirða; koma öllu heyi af túnum í hlöðu.  „Hann er víst að verða búinn að fullheyja“.

Fullhirt (l)  Búið að hirða öll hey af túni/jörð.  „Það er fullhirt af Melstúnunum, en eitthvað eftir heima“.

Fullhreinsað (l)  A.  Búið að tína öll egg sem nást.  „Það er fullhreinsað af Jónshöfðanum en eftir að fara í Árnastaðina“.  B.  Búið að hreinsa öll net í sjó; hey af túnum eða annað.

Fullreykt (l)  Um matvöru; búið að reykja nóg/ að fullu.  „Það er hæpið að þetta sé fullreykt ennþá; það væri til bóta að kveikja nokkrum sinnum undir því í viðbót“.

Fullsmalað (l)  Búið að smala öllu fé.  „Með þessu ætti Bjargið að vera fullsmalað“.

Fullspenntur (l)  Með mestu spennu; á hæstu stillingu.  „Ég greip með varúð í innsogið; annað var fullspennt, og vélin bætti við sig“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Fullteins (ao)  Jafnvel meira.  „Mér sýnist að það rigni fullteins mikið í dag og í gær“.  „Mér finnst heimaræktuðu kartöflurnar fullteins góðar og þær aðkeyptu; ef ekki bara miklu betri“. „Hann stóð sig fullteins vel“.  

Fullteinsgott (l)  Ráðlegt; jafn gott.  „Ég held að þér sé fullteinsgott að vera ekkert að rífa kjaft, eftir þína frammistöðu“!  „Er ekki fullteinsgott að fara þessa leið niður á hilluna“?

Fullteinsmikið (l)  Jafnmikið eða meira.  „Ég held að þetta sé fullteinsmikið af hrognum og í gær“

Fulltilreynt / Fullreynt (l)  Gerðar allar tilraunir; gert það sem unnt er. „Það er nú ekki fulltilreynt með þetta fyrr en eftir nokkra daga“.   „Mér finnst enn ekki fullreynt hvort þetta sé hægt“.

Fulltínt (l)  Um eggjatöku; fullhreinsað; búið að tína þau egg sem nást. „Ég held að það megi heita fulltínt úr Stóðunum, þó lengi megi snaga eftir einu og einu eggi“.

Fullorpinn / Fullverptur (l)  Um fuglategund; kominn í fullt varp; alorpinn.  Báðar orðmyndir heyrðust.  „Langvían er fullorpin núna og það fyrsta byrjað að skemmast, en álkuegg gætu verið óskemmd“.  „Það þýðir lítið að gá að eggjum þegar fuglinn er fullverptur og ekkert búið að hreinsa áður“!

Fullvíst (l)  Öruggt; alveg víst.  „Ég tel fullvíst að þetta verði svona“.  „Það er ekki fullvíst enn hvort ég kemst“.

Furðubrattur (l)  Hressari/heilbrigðari en búast hefði mátt við.  „Mér finnst hann furðubrattur eftir allt þetta“.

Furðurfljótur / Furðusnöggur (l)  Mjög fljótur/snar.  „Hann var furðufljótur að jafna sig eftir þetta“.  „Drengurinn var furðusnöggur að skjótast fyrir kindina“.

Furðugepill / Furðugripur / Furðufugl (n, kk)  Skrýtinn/sérkennilegur náungi.  „Hann var furðugepill, en ágætisgrey inni við skinnið“.  „Þetta er meiri furðugripurinn“!

Furðugripur / Furðufugl (n, kk)  Skrýtinn/sérkennilegur náungi.  „Þetta er meiri furðugripurinn“!

Furðulengi (ao)  Undarlega lengi.  „Hann er búinn að vera furðulengi á leiðinni; mér stendur nú ekki á sama“.

Furðukvikindi / Furðudýr / Furðuskepna (n, hk)  A.  Furðulegt dýr.  „Ekki vissi ég að svona furðukvikindi væri til“.  B.  Líking um einkennilegan mann.  „Maður veit aldrei hvar maður hefur þessa furðuskepnu“.

Furtaháttur (n, kk)  Bolabrögð; yfirgangur; kúgun.  „Mér finnst þetta nú bara vera hreinn furtaháttur“.

Furti (n, kk)  Hrotti; rusti; harðstjóri.  „Hættu að haga þér eins og furti við yngri krakkana, drengur“! 

Fus (n, hk)  Kusk; rusl.  „Það þyrfti að ryksuga þetta fus úr bílsætunum“. 

Fúabiti / Fúaraftur (n, kk)  Fúinn máttarviður/raftur í húsum; fúinn grindarbiti í fjárhúsi.

Fúaspýta / Fúaspækja (n, kvk)  Fjöl/spýta sem orðin er áberandi fúin; fúasprek.  „Það þýðir ekkert að nota þessa fúaspækju í viðgerðina; hún brotnar eins og skot“.

Fúinnfótur (n, kk)  Maður sem er orðinn stirður til gangs.  „Ég fer ekki hratt yfir; eins mikill fúinnfótur og ég er núna orðinn.  En einhverntíma fyrr á tíð hefði ég þó manað ykkur strákana í kapphlaup“.

Fúkka (s)  Mygla; fúlna.  „Á Fúkkateig hraktist yfirleitt og vildi hey fúkka“  (Sigurbjörn Guðjónsson; Örn.skrá Geitagils).

Fúlbefarinn (l)  Þaulkunnugur; mjög æfður/vanur; útlærður.  „Láttu hann um að gera við þetta; hann er fúlbefarinni í því“.  „Þú ert fúlbefarinn í ensku; viltu ekki þýða þetta fyrir mig“?

Fyllingur (n, kk)  Þel; mjúk og gisin ull innan við tog og þel á ærinni.  „Gæta þarf þess við aftekt að klippa í fyllingnum en hvorki skemma ullina með því að klippa í hana né særa kindina“.  Þetta var ætið orðað þannig í Kollsvík, en annarsstaðar heyrðist talað um „fylding“.

Fyllt (l)  Með góðan fylling.  „Mjög er mismunandi hve vel kindum er fyllt.  Fyllingur batnar þegar kemur fram á miðsumar, en einnig er þetta einstaklingsbundið.  Sumum kindum verður aldrei vel fyllt“. 

Fyrirgrennslan (n, kvk)  Fyrirspurnir; leit; rannsóknir.  „Mín fyrirgrennslan um þetta hefur enn engu skilað“.

Fyrirmálsborið / Fyrirmálsfætt (l)  Um lamb:  A.  Fætt/borið fyrir tal/ áður en fullri meðgöngu er lokið.  B.  Fætt/borið nokkru áður en sauðburður byrjar yfirleitt.  „Þessi hrútur er fyrirmálsfæddur“.

Fyrirmálsfengin (l)  Um kind; höfnuð af hrút snemma á fengitíma, þannig að lamb fæðist fyrir venjulegan sauðburðartíma.  „Þessar útigangskindur voru allar fyrirmálsfengnar, enda hefur hrútinn ekki drepist frá þeim fyrr en kom fram á harðasta veturinn“.

Fyrirmálsgimbur / Fyrirmálshrútur / Fyrirmálslamb (n, hk)  A.  Lamb sem fætt er fyrir tal; þ.e. eftir styttri meðgöngu en ætlað var.  B.  Lamb sem fætt er nokkru áður en sauðburður byrjar yfirleitt.  „Það er ekki marka stærðina á þessari; þetta er fyrirmálslamb“.  Síðari merkingin var almennari í Kollsvík; a.m.k. í seinni tíð.

Fyrirmun (n, kvk)  Bann; meinloka.  „Ég skil ekkert í þessari fyrirmun í þér að gleyma að hespa karminum“.

Fyrirmyndaraðferð / Fyrirmyndarbragur (n, kvk/kk)  Mjög góð aðferð/ gott yfirbragð.  „Við urðum að gera þetta svona við þessar aðstæður, en þetta er engin fyrirmyndaraðferð“.  „Mér fannst fyrirmyndarbragur á öllu því sem hann gerði í þessu efni“.

Fyrirmyndarbarn / Fyrirmyndardrengur / Fyrirmyndarstúlka (n, hk/kk/kvk)  Mjög mannvænleg börn.

Fyrirmyndarbátur / Fyrirmyndarfleyta (n, kk)  Mjög góður bátur; vel heppnuð bátasmíð.

Fyrirmyndarhandbragð (n, hk)  Mjög gott handbragð; snilldarverk.  „Hann velti kistlinum fyrir sér í nokkra stund og grannskoðaði hann, en sagði svo að sjaldan hefði hann séð slíkt fyrirmyndarhandbragð“.

Fyrirmyndarhleðsla (n, kvk)  Mjög/listilega vel hlaðinn veggur.

Fyrirmyndarhleðslugrjót (n, hk)  Mjög gott hleðslugrjót; grjót sem gott er að hlaða úr, þannig að vel fari og vel standi.

Fyrirmyndarhrútur (n, kk)  Mjög laglegur/góðurhrútur; hrútur sem getur góð lömb/ er frjósamur/farsæll.  „Hann var tvímælalaust mesti fyrirmyndarhrútur sem ég hef nokkurntíma átt“.

Fyrirmyndarnáungi / Fyrirmyndarfólk / Fyrirmyndarkona / Fyrirmyndarkvenmaður / Fyrirmyndarmaður

Fyrirmyndarrithönd / Fyrirmyndarskrift (n, kvk)  Skrift/rithönd sem er til fyrirmyndar; mjög góð skrift.

Fyrirstraumur (n, kk)  Stórstreymi sem verður næst á undan mesta stórstreymi á misserinu.  Stærstu straumar ársins eru í kringum jafndægri á vori og hausti.  Vorstórstreymið hafði meiri þýðingu vegna róðra, og nefnist góuginur.  Á undan þeim var stór fyrirstraumur, en á eftir fylgdi stór eftirstraumur.

Fýlavarp (n, hk)  Staður þar sem mikið af fýl verpur.  „Það er skemmst af að segja að þarna var svo þétt af fýlavarpi að varla varð stigið niður fæti milli eggja“. (ÖG; Sighvatsstóð). 

Fýlseggjatekja (n, kvk)  Tekja/taka fýlseggja/múkkaeggja.  „Fýlseggjatekja í Blakknum virðist hafa aukist ár frá ári, eftir að fýl fór að fjölga þar verulega“.

Fýlufjandi / Fýluskítur  (n, kk)  Niðrandi heiti á fínni rigningu/sudda. „Hann ætlar að halda þessum fýlufjanda dag eftir dag“.  „Enn er sami fýluskíturinn og í gær.  Hann verður fljótur að rofa til með norðanáttinni“.

Fýlungahilla (n, kvk)  Sylla/stallur/gangur þar sem mikið verpur af múkka/fýlunga.  „Miðhald er aðeins austar en Kóngshaldarhryggur; aðeins þó heimar, ekki alveg beint niðuraf.  Það er aðallega fýlungahlla“  (AS; Örn.lýsing Breiðavíkur).

Fýlungaket (n, hk)  Kjöt af fýlsunga, en það var áður nýtt í Kollsvík.  „Afi sagði að fýlungaketið hefði verið þolanlegur matur en með dálítið sterkum keimi.  Hann hefði ekki verið hrifinn af því“.

Fýlusuddi (n, kk)  Suddi; fýluveður; fúlviðri.  „Farðu nú í stakkinn svo þú blotnir ekki í þessum fýlusudda“.

Fæðingarsylla (n, kvk)  Sylla/hilla í bjargi þar sem fugl hefur komið úr eggi.  „Bjargfuglinn bíður færis að komast fyrir á sinni fæðingarsyllu... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Fægiskófla (n, kvk)  Fægiskúffa; stuttur spaði til að sópa uppá ryki af gólfum.  „Sæktu kúst og fægiskóflu“. 

Færafriður (n, kk)  Nægilegt bil milli færa til að ekki flækist.  „Þú verður að gæta þess að hafa færafrið á milli okkar áður en þú rennir“. 

Fötugarmur (n, kk)  Léleg fata; fötuskrifli.  „Það má kannski nota þennan götótta fötugarm undir egg“

Fötumjaltakerfi (n, hk)  Mjólkurvél sem byggir á því að kerfi loftlagna með undirþrýstingi liggur um fjósið.  Hver kú er mjólkuð með sérstakri mjaltafötu með sogskipti sem tengdur er lögninni.  Spenahylkjum er brugðið á spena kúarinnar og sogpúlsar í hylkjunum mjólka kúna.  Mjólkin rennur síðan í fötuna, sem borin er á milli kúa þegar mjólkað er, og tæmd í mjólkurtank.  Fötumjaltakerfi var á Láganúpi og í Kollsvík, meðan þar var mjólkurframleiðsla til sölu, en ekki rörmjaltakerfi.

Fötuskaði (n, kk)  Tjón sem verður við það að eggjfata hrapar/fýkur í eggjaferð.  „Ég varð fyrir fötuskaða þarna á Höfðanum“.

Gaddhörkufrost (n, hk)  Mjög mikill kuldi.  „Féð er eirðarlaust í þessu gaddhörkufrosti, og beitir sér lítið“.

Galtabotn (n, kk)  Sátubotn; neðsta lag af heyi í galta/sátu.  Ef galtinn stóð á mólendi eða í langan tíma var hætt við að jarðraki drægist uppí þetta lag og það fruggaði.  Því var stundum hægt að hirða galtann beint í hlöðu, en galtabotninn þurfti oft að rífa vel í sundur og þurrka betur.

Galtað (l)  Um þurrhey; búið að bera upp í galta.  „Ég náði að galta þetta á Grundatúninu áður en fór að rigna“.

Galtafar (n, hk)  Gulnað far á túni eftir galta sem staðið hefur um tíma.  „Það grær upp úr galtaförunum“.  Notað töluvert í Kollsvík en sést ekki í orðabók.

Galtafjöldi / Galtaröð / Galtaskógur (n, kk/kvk)  Heiti yfir fjölda galta á sama svæði.  „Það er ekki lítill galtafjöldi á þeim bænum“!  „Á sléttunni voru fjórar galtaraðir“.  „Alltaf er búmannlegt að líta yfir vel slegin tún með svona þéttum og vel upp bornum galtaskógi“.

Galtahæra (n, kvk)  Hæra sem sett er yfir galta til að verja hann rigningu (sjá þar).

Galtakríli (n, hk)  Lítill galti.  „Ég rakaði dreifarnar og setti þær upp í galtakríli.  Við hirðum það bara síðar“.

Galtakúra (n, kvk)  Gæluorð á galta; lítill galti; drýli.  „Við skulum reyna að koma þessu í einhverjar galtakúrur fyrir rigninguna; það skemmist þá síður“.

Galtanefna / Galtaómynd (n, kvk)  Illa upp settur/borinn galti. „Ég setti þetta upp í einhverjar galtanefnur; ég er ekki sérlega laginn við að bera upp í galta“.   „Hver setti nú upp þessa galtaómynd“?!

Gamalmávur (n, kk)  Gamall mávur (hvítmávur eða svartbakur).  „Það er vonlaust að ná færi á unganum ef gamalmávur er með í hópnum; hann lokkar ungann frá byrginu“. 

Gamansamt (l)  Erfitt; mikil áskorun.  „Kindin er úti í enda á sveltinu; það getur orðið gamansamt að ná henni til baka“.  „Það gæti orðið gamansamt að vitja um netin eftir þennan norðangarð“.  Engin dæmi finnast annarsstaðar um orðið í þessari merkingu.

Gambanfyllerí (n, hk) Hrikalegur drykkjuskapur; sjóðandi túr.  „Þetta varð þvílíkt gambanfyllerí að annað eins hefur ekki sést í háa herrans tíð“.

Gangnahugur (n, kk)  Löngun til að komast í göngur.  „Kominn var gangnahugur í alla, nokkru fyrir réttardag“.

Gangnaskylda (n, kvk)  Skylda til smölunar; fjallskilaskylda.  „Ekki leysir það fjallskilaskyldan aðila frá gangnaskyldu þótt gangnaboð berist honum ekki í tíma áður en fjallgöngur hefjast“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).

Gangslefra (n, kvk)  Mjög hallandi/afsleppur gangur í bjargi/klettum.  „Haltu í spottann yfir gangslefruna“.

Gangtími (n, kk)  Sá tími sem eðlilegt er að kyr beiði á eða beiði upp á.  „Það þarf að passa vel uppá gangtímann á henni Sokku; hún er svo dulgeng að hún hefur stundum gengið hjá“.

Gaphyrnd (l)  Um hornalag kúa; stórhyrnd og með áberandi gleitt á milli horna.

Garðadyr (n, kvk)  Dyr á garða í fjárhúsi, en Kollsvíkingar nefna garða það sem sumsstaðar annarsstaðar er nefnt „kró“.  „Vertu við garðadyrnar svo þær ryðjist ekki allar inn í einu“.

Garðafjöldi (n, kk)  Fjöldi garða í fjárhúsi.  „Garðafjöldi var misjafn í fjárhúsum.  Melsfjárhúsin voru með fjóra stóra garða, en Láganúpsfjárhúsin sex smærri, áður en tveimur þeirra var breytt í fjós“.

Garðahurð (n, kvk)  Hurð fyrir garðadyrum á fjárhúsi.  „Garðahurðin er snöruð að innanverðu“.

Garðast (s)   Um hey eða annað efni; rúllast saman/upp.  „Það hvessti svo mikið þennan dag að heyið garðaðist upp í göndla; það sem ekki fauk í skurðina“.  „Þessi peysa er ómöguleg.  Hún garðast öll upp á bak þegar ég er að vinna“. 

Garmahró / Garmaskinn / Garmaskarn / Garmaskítti (n, hk)  Gæluorð í vorkunnartóni um manneskju eða skepnu.  „Hann er orðinn fjári lélegur til heilsu, garmahróið“.  „Varstu nú að meiða þig, garmaskinnið“?

Garrafjandi (n, kk)  Vindasöm tíð; hvassviðri.  „Hann ætlar seint að linna þessum garrafjanda“!

Garralæti (n, hk, fto)  Skammir; offors.  „Það er tilgangslaust að vera með garralæti og ofstopa“!

Gaspursháttur (n, kk)  Glæfralegt tal; glorraskapur; kjaftháttur.  „Mér finnst þessi gaspursháttur vera árans löstur á honum“.

Gaspurshjal (n, hk)  Gaspur; kjaftæði; bull.  „Hættum nú þessu árans gaspurshjali“.

Gatatöng (n, kvk)  Töng til að gera göt á leður o.fl.; notuð til að gera göt í eyru búfjár svo unnt væri að setja í þau eyrnamerki.  „Mundu eftir gatatönginni þegar þú ferð að merkja og bólusetja lömbin“.

Gaufast (s)  Dunda; rolast; læpast; hangsa.  „Afskaplega voruð þið lengi að gaufast heim með kýrnar drengir“.

Gáfumannsbragur (n, kk)  Gáfuleg framkvæmd/hugsun/tillaga.  „Mér fannst verulegur gáfumannsbragur á öllum hans hugmyndum í þessu efni“.  „Ekki get ég sagt að sé gáfumannsbragur á þessari ríkisstjórn“!

Gáfumannsenni (n, hk)  Hátt enni á manni, en það hefur þótt bera vott um miklar gáfur og/eða höfðingslund. 

Gáfumerki (n, hk, fto)  Vísdómsvottur; merki um mikið vit.  „Mér finnst það ekki mikil gáfumerki að leggja á fjallið á sléttum dekkjum og keðjulaus, í þessari færð“.

Gáleysislegt (l)  Gáleysi; óvarfærið.  „Það var gáleysislegt að gleyma að slökkva á kertinu í glugganum“.

Gegnfreðinn  / Gegnfrosinn (l)  Frosinn í gegn.  „Settu nú á þig vettlinga áður en þú verður gegnfreðinn“.

Gegningatími (n, kk) Tími fyrir daglegar gegningar búfjár að vetraralagi; gjafir, mokstur, mjaltir, fara með hrút o.fl.  Á Láganúpi hófust morgunmjaltir oft milli kl sjö og átta að morgni og þá var kúm gefið; mokaður flór;brynnt (áður en brynningarker komu) og mjólkað.  Fé var látið út eftir mjaltirnar.  Seinnipart dags var fé sett inn og því gefið og brynnt því fé sem var á innistöðu; hrútum og gemlingum.  Kvöldmjaltir hófust um sjö til áttaleytið á kvöldin; brynning, mokstur, gjafir og mjaltir.  Ýmis önnur störf þurfti að vinna samhliða reglulegum gegningum, s.s. fara með hrút; kemba kýr og klippa, dytta að grindum, halaböndum o.fl; bera út moð; leysa hey; klippa klaufir; bera undir kýr; stinga skánir af grindum; lagfæra jötubönd o.fl. 

Gegnumtekt (n, kvk)  Betrumbætur; gagngerar endurbætur; alger hreinsun;/ yfirhalning.  „Skúrinn sem staðið hafði á Stekkjarmel var fluttur inn í Hænuvík.  Hann fékk góða gegnumtekt áður en hann hlaut nýtt hlutverk sem verkunarhús fyrir grásleppuútgerðir Kollsvíkinga og Hænvíkinga“. 

Geirhynd (l)  Um horn sauðkindar; Tvennskonar skilningur hefur verið lagður í orðið: A.  Horn áberandi stutt og þrýhyrningslaga.  B.  Ljós horn með áberandi svörtum rákum/geirum.

Gelddýr / Geldtófa (n, hk/kvk)  Hlaupadýr; ekki grentófa.  „Ég náði þar tveimur grentófum og einu gelddýri“.

Geldkálfur / Geldneyti (n, hk)  Stálpaður kálfur sem þó er ekki orðinn til nytja sem þarfanaut eða mjólkurkýr.

Geldstöðukýr (n, kvk)  Kýr sem er geld fyrir burð eða er að geldast. 

Gemlingafjöldi / Gemlingahópur / Gemlingastóð (n, kk/hk)  „Þetta er svipaður gemlingafjöldi og í fyrra“.  „Hvar skyldi þetta gemlingastóð halda sig núna“?

Gemlingastía / Gemlingagarði / Gemlingakarmur (n, kvk/kk)  Stía/garði/karmur gemlinga í fjárhúsum.  Einnig nefndur lambagarður/lambakarmur, einkum fyrst haust, áður en lömbin stálpuðust.  Talað var um lambastíu eða gemlingastíu, ef þeim nægði hluti af garða/karmi. „Ég setti fótbrotnu kindina í gemlingagarðann meðan hún er að jafna sig betur“.

Gemlingslamb (n, hk)  Lamb undan gemlingi.  „Þetta er furðu stór gimbur; af gemlingslambi að vera“.

Gemlingsræfill (n, kk)  Gæluorð um gemling; lélegur/horaður gemlingur.

Gemlingsvitleysingur (n, kk)  Niðrandi heiti um gemling, en þeir geta verið býsna erfiðir í smalamennskum ef fullorðnar kindur eru ekki nærri.  „Þetta var stakur gemlingsvitleysingur; alveg gjörsamlega spinnvitlaus“!

Gepillinn (n, kk, m.gr)  Áhersluorð/milt blótsyrði; fjandinn.  „Gepillinn skyldi nú hafa orðið af gleraugunum mínum“?  Einnig oft hver gepillinn, og gat þá staðið sjálfstætt.

Gerandi (l)  Gerlegt; framkvæmanlegt.  „Það er varla gerandi nokkrum manni að bjóða upp á svona vegi“.  „Heldurðu að það sé gerandi að komast niður á þessa hillu“? 

Gerningahávaði (n, kk)  Ærandi hávaði.  „Þá komu yfir okkur tvær orrustuþotur; skríðandi með jörðinni; með þessum ærandi djöfulsins gerningahávaða og látum að það söng og hvein í nálægum fjöllum.  Það er eins gott að hafa hlaðinn byssuhólkinn með í för, næst þegar maður fer í friðsamlegan spássérstúr“!

Gerringslegur (l)  ...óljós merking....  (ekki útilokað að einhver misritun sé í orðinu)  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Gervilegheit (n, hk, fto)  Prúðmennska; mannkostir.  „Þetta er bara gervilegheita kona sem hann hefur náð í“.

Gervitennur / Gervitönnur (n, kvk, fto)  Falskar tennur; tanngarðar úr gerviefnum.  „Hvar laggdi ég nú gervitönnurnar mínar“

Geipimargt (l)  Mjög/gríðarlega margt; fjölmargt.  „Það var að sjá geipimargt fé frammi í víkinni“.

Geymisskór (n, kk)  Pólskór; klemma, oft úr blýi eða kopar, til að festa rafleiðslu á pól rafgeymis.  „Geymaskór“ í fleirtölu.

Geymissýra (n, kvk)  Rafgeymasýra; blönduð brennisteinssýra sem notuð er á blýrafgeyma.  „Það hafði hellst geymissýra niður á mig þegar ég var að bera geymirinn.  Mig sakaði ekkert, en þegar ég háttaði sá ég að bómullarnærbuxurnar höfðu gufað upp að framanverðu.  Í raun höfðu þær breyst í sprengibómull, eins og notuð er í skotfæri“.

Geymslukytra (n, kvk)  Lítil geymsla.  „Ekki voru húsakynnin stór; aðeins eldhús; lítið herbergi innaf því; auk geymslukytru“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Gildrulagning (n, kvk)  Það að leggja gildrur fyrir veiðidýr/bráð.  „Músagangur var eilíft vandamál í Gjögraverslun.  Jónsi velti því stundum upp að kvikindin yrðu til úr engu; í þeim eina tilgangi að gera bölvun.  Það var eins og hvorkidygðu til eilífar viðgerðir og þéttingar á húsunum né sífelld gildrulagning“.

Gillemoj (n, hk)  Safnorð með óvissan uppruna og aldur; notað um óskilgreindan hóp eða safn hluta.  „Túristaskrattarnir höfðu skilið hliðið eftir opið, og bæði kálfahyski og túnrollur voru ekki sein á sér að nýta það.  Ég hljóp til og rak allt heila helvítis gillemojið útaf með það sama; og túristahyskið með“!

Gimbrakofi (n, kk)  Hús/kofi fyrir gimbrarlömb/gemlinga.  „Fjárhúsin voru tvö, auk gimbrakofa, og stóðu þau niður við sjó“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Ginheilagt (l)  Alveg/mjög heilagt/ósnertanlegt.  „Tóbakspontan var honum ginheilög; hana lét hann aldrei frá sér nema hann hefði tóbaksdós í staðinn.  Vasahnífurinn var einnig fast fylgifé“.  Í Kollsvík var fremur notuð orðmyndin „ginheilagur“ en „ginnheilagur“ sem annarsstaðar tíðkaðist.  Hið einfalda „n“ er nokkuð örugglega upprunaleg mynd.  Orðið á líklega rætur aftur í ásatrú eða trú á náttúruvætti.  „Gin“ merkir það sem er mikið/mikilfenglegt, sbr nafnorðið „gin“ og sagnirnar að „gína yfir“; „gína við“, og „ginur“ sem eru miklar fjörur.  Ginhelgi er því mikil helgi.  Heilagir staðir voru ginheilagir, og goð ginheilög.  Staðir sem ekki voru viðurkenndir sem heilagir, þrátt fyrir vilja einhvers, voru skinheilagir/skinhelgir (sjá þar).

Ginhelgi (n, kvk)  Mikil helgi.  Sjá ginheilagt.  „Ég skil nú ekki að það sé svo mikil ginhelgi á þessu að engu megi breyta“!

Girðingarræfill (n, kk)  Léleg/ónýt girðing; slitu af girðingu.  „Kringum Sandahlíðina var lengi girðingarræfill“.

Girðingavinna (n, kvk)  Vinna við girðingar.  „Ætli við þurfum ekki að fara í einhvrja girðingavinnu þarna“?

Gíra (s)  Aka bíl; aka á mikilli ferð.  Eitt af nýyrðum GJH, sem hafa síðan orðið hluti af mæltu máli í Rauðasandshreppi.  „Hvur skyldi nú vera að gíra á þessum tíma“?  Hús Jónsa á Hnjóti stóð þétt við þjóðveginn þar um.

Gjafagrind (n, kvk)  Grind sem lögð er yfir hey í jötu til að kindur geti étið, en samt ekki slætt; þ.e. dregið heyið útúr jötunni og niður á grindur.  „Hilmar notaði gjafagrindur nokkuð, og taldi þær gagnast vel“.

Gjafalóa (n, kvk)  Hásetaspraka; lítil smálúða.  „Gjafalóur voru stofnaðar, sem kallað var; tekinn af þeim haus og sitt flakið hvoru megin af hrygg; þannig að hvorri kápu fylgdi sitt rafabeltið.  Kápurnar voru síðan ristar og hertar.  Var þeim skipt á milli hásetanna er öðrum afla hafði verið “  (PJ; Barðstrendingabók).

Gjafalúga / Fóðurlúga (n, kvk)  Lúga ofanvið jötu hjá kúm eða sauðfé, en í gegnum hana er hey/fóður sett í jötuna.  „Gjafalúgur voru við tvær jötur af þremur í gamla fjósinu á Láganúpi, og mátti því gefa um þær beint úr hlöðunni.  Ingvar í Kollsvík smíðaði einnig fóðurlúgur í fjós sem hann gerði við Kollsvíkurbæinn“.

Gjárhluti (n, kk)  Hluti af gjá.  „Hægt er að komast út í nefið á milli gjárhlutanna, sem nefnast þar Hreggshöfði“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Gjármót (n, hk)  Grunn/ógreinileg gjá í kletta.  „Dulan er ógreinilegt gjáarmót heiman Fjarðarhorns“.

Gjúðra (n, kvk)  Lítill poki.  „Gott er að hafa gjúðru í vasanum þegar eggjum er safnað saman í bjarginu, einkanlega í strjálum eggjum og miklum teygingum.  Þægilegra er að koma gjúðrunni með sér í þröngri aðstöðu en eggjafötu.  Í henni má líka koma stoppi á brún til frágangs á eggjum“. (VÖ) 

Glaðbrosandi (l)  Gleiðbrosandi; glaður á svip.  „Pollinn sagði glaðbrosandi að nú væri komin fullorðinstönn“

Glannakúnstugur (l)  Mjög skondinn/furðulegur.  „Það kom glannakúnstugur svipur á hann þegar hann áttaði sig á hrekknum“. 

Glannasólskin (n, hk)  Mjög bjart sólskin. 

Glannatunglskin (n, hk)  Glampandi tunglskin; fullt tungl í heiðskýru veðri að nóttu.  „Það var glannatunglskin, og því enginn vandi að rekja slóðina“.

Glansderhúfa (n, kvk)  Derhúfa með glansandi deri; kaskeiti.  „Þarna var það sem Össur bróðir kastaði nýrri glansderhúfu fram af í misgripum fyrir stein, þegar hann var að grýta fé úr Breiðnum“  (IG; Sagt til vegar I).  

Gleiðglottulegur / Gleiðgosalegur (l)  Montinn; kjaftagleiður.  „Hversvegna ert þú svona gleiðglottulegur á svip“?  „Það er ekki víst að þú verðir svona geiðgosalegur á landleiðinni“!

Glíma um sýsluna (orðtak)  Athöfn sem virðist hafa verið bundin við Kollsvík, en sennilega mjög gömul hefð þar.  „Það var alltaf regla í Kollsvík að þeir sem reru þar í fyrsta skipti í þeirri verstöð áttu að glíma um sýsluna og sá sem féll var útnefndur sýslumaður.  Sýslan var fjaran frá flæðarmáli og upp í Syðrikletta sem kallaðir voru.  Það var eins og gerðist í þá daga; þá voru hvergi klósett.  Þetta svæði urðu menn að nota sem klósett.  Svona viðvaningar; nýliðar, þeir áttu að glíma um hver væri sýslumaðurinn; yfirmaðurinn á þessu svæði og annast þrif á því.  Innheimta síðan gjald fyrir hvern mann sem notaði svæðið; gengi þar örna sinna“  (Guðm. Jón Hákonarson; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrásetti; Árb.Barð 2004). 

Gljáskúraður (l)  Þveginn/skúraður svo glansar.  „Þú veður ekki á skítugum skónum inn á gljáskúruð gólfin“!

Gloría (n, kvk)  Mistök; afglöp.  „Hún fór kannski sæmilega af stað, þessi ríkisstjórn; en núna gerir hún hverja gloríuna á fætur annarri“!  Orðið var einatt notað í þessari merkingu vestra, en virðist þekkt annarsstaðar í merkingunni „dýrðarljómi“ eða „upphefð“.

Glorralegur (l)  Gassafenginn; með hávaða/læti.  „Skelfing getiði verið glorralegir strákar“!

Glutra niður /glotra niður (orðtak)  Týna; týna niður.  „Fljótt hallaði á verri veg eftir að skólinn glutraðist úr höndum hreppsbúa“.  „Vestfirðingum hefur tekist að glotra niður sínum kraftmikla og sérstæða framburði“.

Glóðarlampaútvarp (n, hk)  Útvarp sem nýtir glóðarlampa í stað transistora, en þau voru algeng á fyrstu dögum útvarps.  Glóðarlampaútvörp voru í notkun í Kollsvík framyfir 1960.

Glóhitna (s)  Hitna mikið.  „Það skíðlogaði uppúr torfinu og var farið að glóhitna í kofanum þegar ég opnaði“. 

Glópaháttur (n, kk) Glópska; bjánagangur; aulaskapur.  „Það var auðvitað hreinn glópaháttur í mér að gleyma bensínbrúsanum í landi“! 

Glóruvottur (n, kk)  Vottur af skímu/ljósi.  „Það sést ekki glóruvottur út um glugga í þessu dimmviðri“ 

Gluða á (orðtak)  Maka á; dreifa ótæpilega á (t.d. málningu, olíu o.fl.).  „Ætli maður verði ekki að gluða einhverri málningu á þökin“.  E.t.v. nýlegt í málinu.

Glyss / Sólarglyss (n, hk)  Glampi; óþægileg birta; bjartur geisli í fjarska.  „Skelfing er erfitt að aka á móti þessu sólarglyssi“.  „Er einhver að kom innanað?  Mér sýndist ég sjá eitthvað gyss uppi á Jökladalshæð“.

Glæfraskapur (n, kk)  Óvarkárni; hættuspil.  „Það er bara glæfraskapur að fara í kletta í svona votviðri“!

Glænapi (n, kvk)  Illa klæddur maður; kuldastrá.  „Farðu í úlpu drengur; þú ert alveg eins og glænapi“!  Líklega hefur þetta heiti upprunalega átt við klökugan fjallstind/klettanef.

Glærahálka (n, kvk)  Mjög sleipt; slétt, sleipt svell.  „Gáðu að þér!  Það er glærahálka á leiðinni“. 

Glærasandur (n, kk)  Sandlæna/sandblettur í grunnum sjó.  „Það þýðir ekki að leggja netin hér fram á glærasand; þau verða þá fljót að fyllast af drullu.  Við þurfum að stytta strenginn“.

Glætuvottur (n, kk)  Örlítill bjarmi; smá skíma.  „Einhver glætuvottur sýnist mér nú kominn til hafsins“.

Gneip (n, kvk)  Hönd; hnefi.  „Það er ekki hægt að borða fuglinn með hníf og gaffli; taktu bara stykkið og stýfðu það úr gneipinni“.  „Hann sat bara niðurlútur og horfði í gneipar sér“.  „Ekki dugir að sitja bara og horfa í gneipar sér; við þurfum að drífa okkur í verkið“. 

Gnýjari (n, kk)  Nirfill; maurapúki; okrari; sá sem þjarmar að.  „Ekki hefði ég ímyndað mér að hann væri þvílíkur gnýjari; að heimta full laun fyrir að bjarga manneskju í neyð“! 

Go / Gobara (uh)  Afbrigði af hikorðinu „sko“ og upphrópuninni„sko bara“.  Iðulega notað, þó áhöld kunni að vera um hvort þetta séu eiginleg og gild orð. „Go; ég skal segja þér…“.  „Gobara karlinn!  Þetta gat hann“!

Gofr / Gofur (n, hk)  Hangs; gauf; dund.  „Ég nenni nú ekki þessu gofri lengur“.  „Óttalegt gofr er þetta; ætlið þið ekki að klára þetta fyrir kvöldið“?!  Báðar orðmyndir heyrðust notaðar, þó gofr væri algengara.

Gofra (n, kvk)  Rola; væfla.  „Hann stóð þarna eins og gofra og hafði ekki rænu á að stugga við fénu“!

Gofra / Gofrast (s)  Gaufa; hangsa.  „Þið eigið ekki að vera að gofra í lækjunum þegar þið sækið kýrnar, strákar“!  „Ætlarðu að vera að gofrast í allan dag við að fletja þennan eina fisktitt“?!

Gogg (n, hk)  Um slátt; snöp; sláttur þar sem lítið er að hafa/ erfitt er að slá.  „Afi hélt áfram sínu goggi þar sem hann sá vænlega grastoppa, þó synirnir væru farir að stunda stórtækari heyskap með vélum“.

Golusteytingur (n, kk)  Kaldi; þéttingshvass vindur.  „Það verður árans golusteytingur norður yfir víkina“. 

Goluvottur (n, kk)  Lítilsháttar gola; andvari.  „Það var ekkert að veðri; smá goluvottur, en dauðasjólaust“.

Gopast (s)  Flaka frá; gapa; pokast.  „Við þurfum að bera nægt grjót á jaðrana á yfirbreiðslunni svo hún gopist ekki upp“.  „Ullin er farin að gopast á bakinu á þessari; við þyrftum að losa hana við reyfið“.

Gorgeirsseggur (n, kk)  Monthani; vindbelgur.  „Ég var feginn að þurfa ekki að deila herbergi með þeim gorgeirssegg“.

Gornefur (n, kk)  Afæta; hrægammur; sá sem gerir sér mat úr óförum/bágindum annarra.  „Ekki stóð á því að sýslumaður mætti á staðinn með hamarinn.  Sá gornefur er ekki mikið í að leita sátta“!  Vísar líklega til hrafns sem leggst á kind sem er afvelta eða föst í dýi, en hann kroppar gjarnan fyrst gat á kvið og vömb, þannig að gor kemur á nef hans.

Gotuhimna (n, kvk)  Himna sem er utan um gotu/hrogn.  „Sumir plokka gotuhimnuna af“.

Gólfskrúbbur (n, kk)  Bursti með stífum hárum og með skaftfestingu; ætlaður til að skúra/skrúbba gólf.

Gólpa (s)  Gleypa; háma.  „Vertu nú ekki að þefa af matnum; gólpaðu þetta bara í þig“!

Graðhestamúsik (n, kvk)    Hávær og pirrandi tónlist, með hröðum takti, sem ekki fellur að smekk.  „Lækkiði nú þessa andskotans graðhestamúsikk í útvarpinu; þetta gerir hvern mann vitlausan“!

Graðnaut (n, hk)  Þarfanaut; naut sem ekki er geltur uxi.  „Stundum þurfti að teyma kýr langar leiðir til að halda þeim undir naut, því ekki var graðnaut á hverjum bæ“.

Grafinn sjór (orðtak)  Úfinn sjór; allnokkur sjór.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Grallaraháttur (n, kk)  Ærsl; glens; hrekkvísi.  „Það ætlar seint að eldast af honum grallarahátturinn“! 

Grasafjallaferð / Grasatínsla (n, kvk)  Ferð til að tína fjallagrös, en þau voru töluvert nytjuð fyrrum.  Einnig var talað um að „fara á grasafjall“ eða „fara til grasa“.  „Þetta var í grasafjallaferð, seint á sumri...“  (Davíð Davíðsson frá Kóngsengjum; upptaka á Ísmús; 1970; um huldufólk í Vestubotni).

Grasflóki (n, kk)  Grastoppur; sinuflóki.  „... þegar hann ætlaði að horfa fram af bjarginu hafi hann stigið í holu sem var hulin í grasflókanum á bjargbrúninni... “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Grasfoldir (n, kvk, fto)  Þurrlent svæði  þar sem gróið er uppúr mosa.  „Það hagar þannig til á vjargbrúninni víðast hvar, að fyrst frá brúninni er töðugras og grafoldir sem við köllum; svo taka við mosaþembur“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Grasgangur (n, kk)  Gróinn gangur/sylla í klettum, oftast fær.  Virðist ekki þekkt annarsstaðar í þessari merkingu. „Melahvappshillur eru grasgangar og hægt að ganga á milli þeirra“  (DE; Örn.skrá Látrabjargs). 

Grashnjúskur / Grashnúskur (n, kk)  Grashnaus; gróin jarðvegsfylla.  „Líklega hef ég aldrei verið hættara kominn í mínum mörgu bjargferðum en eitt sinn í Blakknesnibbu.  Þá hafði ég þokað mér eftir tæpum grasgangi; sótt egg og var að skríða yfir stóran grashnúsk.  Þá finn ég að hann losnar, og skiptir engum togum að hann þeytist niður hamravegginn um leið og ég næ að bjarga mér á fastan bakkann.  Gangurinn varð ófær á eftir“ (VÖ).  Báðar framburðarmyndir heyrast í Kollsvík og nágrenni, og báðar líklega jafnréttar; orðstofninn er annarsvegar hnúkur en hinsvegar hnjúkur.  Hnjúskur/hnúskur er minni þúst eða þúfa.

Grashöfði (n, kk)  Grasi vaxinn klettahöfði við sjó eða í klettum.  „Utan við Gat og Forvaða tekur við samskonar stórgrýtisfjara út að grashöfða sem heitir Lambhöfði“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Graslent (l)  Uppgróið; gróið.  „Stóra- og Litlató voru graslend drög niður af Holtum“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Grautarlap (n, hk)  Gæluorð um graut/ þunnan graut.  „Mikið þykir mér nú betra að fá rótsterkt kaffi á morgnana en eitthvað grautarlap“.

Grágofótt (l) Um lit á sauðfé;  Grá ær með hvítan hvið, bringu og undir snoppu.

Grágrýti (n, hk)  A.  Blágrýti sem er grátt að lit vegna skófa og mosa.  „Upp af Bugahjalla eru svo grágrýtisskriður, sem ná inn að svonefndum Smérteigum“ (Örn.skrá Geitagils; heim. Helgi Einarsson).  Ekki vitað um þessa merkingu annarsstaðar.  B.  Bergtegund; alm. merking.

Grákjálki (n, kk)  ....óviss merking....(líkl. gamall maður).  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Grámullulegur (l)  A.  Um útlit manns; gugginn; fölur; veiklulegur.  „Þú ert eitthvað grámullulegur í framan“.  B.  Um veður; þokuloft; mistur; dimmviðri.  „Það er rigningarlaust, en óttalega er hann grámullulegur“.

Grámulluþoka (n, kvk)  Þokuloft; mistur; þokusúld.  „Það er sama grámulluþokan og í gær“.

Grámyglaður / Grúmyglaður (l)  Grár af myglu; þakinn myglusvepp.  „Ég henti þessu harðfiskstrengsli; það var orðið grúmyglað“  Grú- er fjöldi, sbr grúi/aragrúi.

Grásleppudrífa (n, kvk)  Mjög stórgerð snjókoma í logni.  Líkingin á að leggja áherslu á kornastærð. 

Grásleppuganga (n, kvk)  Ganga/fylking grásleppu upp á veiðislóð.  „Það er vonandi að einhver grásleppuganga birtist í næsta straum; þetta er að verða ári skrælt“.

Grásleppulagnir  / Grásleppumið (n, hk,m fto)  Hrygningasvæði grásleppunnar.  Bestu grásleppumiðin eru í gróskumiklum þaragörðum.  Grásleppulagnir eru innmeð öllum Hænuvíkurhlíðum; utanfrá Þyrsklingahrygg og inná Hænuvík; frá Nesi inná Gjögra; í kantinum framundan Hænuvíkurhlíðum; í Bótinni í Kollsvík; undan Landamerkjahrygg og Fjarðarhorni og frá miðri Breiðavík suður á Kóra.

Grásleppukvikindi (n, hk)  Gæluorð um grásleppu.  „Ekki var mikið úr þessum streng að hafa; upprúllaður af smáþorski og örfá grásleppukvikindi“!

Grásleppurask / Grásleppuræksni / Grásleppuslang (n, hk, fto)  Slóg, hold og hvelja af grásleppu, stundum notað niðurskorið sem skepnufóður.  „Til fóðurdrýginda var fénu stundum gefin saltsíld eða grásleppuslang.  Meðan verstaða var í Kollsvík var því gefið fiskdálkar“.

Gráupplagt (l)  Mjög vel til fundið; kjörið; tilvalið.  „Það væri gráupplagt ef þú gætir leyft mér að fljóta með“.

Greiðubreidd / Greiðufar (n, hk)  Slegin rák í túni eftir greiðusláttuvél.  „Ég var búinn að slá nokkrar greiðubreiddir af sléttunni þegar hlaupastelpan brotnaði“.

Greiðutindur (n, kk)  Tindur úr járni í sláttuvélargreiðu, sem greiðir leið grassins að ljónum og heldur við meðan hann sker það.  Tveir tindar eru samfastir í einingu, en mynda allir heild í greiðunni.

Greindarskepna (n, kvk)  Skynsöm skepna; dýr sem sýnir meiri hugsun/greind en önnur.  „Hún er greindarskepna blessunin.  Alltaf virðist hún vita hvað til stendur“.

Grendýr / Grentófa  Tófa sem lagt hefur í greni; grensmogin tófa; ekki hlaupadýr/geldtófa/gelddýr.  „Hann er búinn að skjóta þrjár grentófur og nokkur hlaupadýr“. 

Grenjur (n, kvk, fto)  Ákafur grátur; mikil org; hávær köll/öskur.  „Hættu nú þessum grenjum stubburinn minn; þessi rispa er nú ekki lífshættuleg“!  „Gafstu kúnum eitthvað annað fóður núna?  Þær standa á grenjum og hreyfa ekki við heyinu“.

Grentófa (n, hk/kvk) 

Grimmdarnorðanbál (n, hk)  Hvass og frostkaldur norðansveljandi.  „Enn er sama grimmdarnorðanbálið“!

Grindaskítur (n, kk)  Skítur úr fé sem haft er á grindum í fjárhúsi, til aðgreiningar frá taði/skán.  „Gindaskítur er hinn besti áburður, en hann er ónothæfur til að reykja við“.

Grisjusía (n, kvk)  Sía úr grisju/ fínofnu efni til að sía t.d. hrogn fyrir söltun eða berjahrat fyrir söftun.  „Í upphafi grásleppuveiða notuðu menn grisjusíur til að sía vökva úr hrognunum, eftir að himnur höfðu verið skildar frá í grófsigti. Síurnar voru gerðar úr sama efni og barnableyjur sem þá tíðkuðust“.

Gríðarharður (l)  Afar/mjög harður.  „Veturinn var gríðarharður um þetta leyti“.

Gríðarhávaði (l)  Mjög mikill hávaði.  „Bjargið splundraðist á hleininni með gríðarhávaða“.

Grínaktugheit (n, hk, fto)  Gamansemi; grallaraháttur.  „Hann gerði þetta stundum af sínum grínaktugheitum“.

Grjóthreinsa (s)  A.  Hreinsa grjót úr túnum og túnstæðum.  „Á sumum bæjum hafa bændur lagt verulega vinnu í grjóthreinsun túna.  Má þar nefna vinnu Ingvars á Stekkjarmel við hreinsun sléttunnar á Svaðrarholti og Ólafs á Nesi við ruðning og gjóthreinsun sléttu undir Hænuvíkurnúp“.  B.  Hreinsun hrungrjóts af vegum. 

Grjótnógur / Grjótnægur (l)  Yfirdrifinn; meira en nægilegur.  „Mér sýnist að við höfum grjótnóg efni í þetta“.  „Það er grjótnóg af fiski uppi í harðalandi, en auðvitað þarf að bera sig eftir björginni“.  „Og með þessari vinnu hef ég grjótnægan tíma fyrir tamninga og hestamennsku“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Grjótsofa (s)  Steinsofa; sofa djúpt.  „Ég varð ekkert var við þetta í nótt; ég bara grjótsvaf eins og ég er vanur“.

Grjótsofandi (l)  Steinsofandi; sefur djúpum svefni; rotaður.  „Er hann ennþá grjótsofandi“?!

Grjótsofna (s)  Sofna mjög fast/fljótt.  „Ég held ég hafi bara grjótsofnað“.

Grjótsofnaður (l)  Sofnaður mjög fast/ djúpum svefni.  „Hann er grjótsofnaður þarna í lautinni“.

Grjótsvefn (n, kk)  Djúpur svefn; rotsvefn.  „Það er nú alveg orðið tímabært að vekja manninn.  Þvílíkan grjótsvefn hef ég sjaldað vitað“!

Grjóttangi (n, kk)  Grýttur tangi/skagi.  „Merkin eru um grjóttanga miðja vegu á brún upp af Gorgán“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs)

Groddafjandi / Groddaskratti (n, kk)  A.  Efni, verkfæri, efni og annað sem þykir mjög gróft.  „Vegslóðinn er varla ökufær; þetta er groddaskratti“.  B.  Drykkur, súpa sem þykir ólystugt.  „Ekki veit ég hvað var í þessu, en þetta var alger groddafjandi og algerlega ódrekkandi“!

Groddaverkfæri (n, kk)  Heldur grófgert verkfæri fyrir verkefnið.  „Þetta getur illa lánast með svona groddaverkfæri; áttu enga almennilega skrúfsíu“?

Gróðurrýr (l)  Með gisnum/óburðugum gróðri.  „Melarnir voru yfirleitt þurrir, harðir og gróðurrýrir“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Grunnbauja / Grunnbelgur / Grunnból / Djúpból (ao)  Mismunandi heiti á bóli (floti) á neti eftir því hvort var nær eða fjær landi.  Á sama hátt var rætt um grunnmegin og djúpmegin.  „Það er komið norðurfall og því var ekki rétt af okkur að fara djúpmegin í strenginn.  Við tókum grunnbólið í næsta streng“.  Einnig notað grunnendi og djúpendi.

Grunnrek (n, hk) .....(óviss skýring en þrennt virðist einkum koma til greina;  rek af þara sem veltist eftir botninum og sest í net; fínt rek sem ekki verður vart nema færi liggi í botni eða rek uppi á grunni meðan þess gætir ekki dýpra frá landi)  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Grófsigti (n, hk)  Sigti til verkunar á grásleppuhrognum.  Í því voru himnur skildar frá með því að hrognunum var nuddað með hrognaspaða/hræl niður í gegnum sigtið, en himnurnar sátu eftir.

Grófsmalað (l)  Um svæði; smalað að mestu leyti; grófhreinsað.  „Það má segja að búið sé að grófsmala Bjargið.  Enn er eftir að smala Stíginn og gá hvað getur leynst víðar niðri“.

Grúeygt (l)  Um þroska eggs; komin greinileg augu í stropann og e.t.v. einnig goggur.  „Ég hafði ekki lyst á þessu; ég ét það ekki grúeygt eins og þú“.  Sjá eygt og koleygt.

Grúmaðkaður (l)  Mjög maðkaður; iðandi í maðki; maðkaveita.  „Fiskurinn var grúmaðkaður innan, þó ekki sæist á honum að utanverðu“.  Forskeytið líklega komið af grúa.

Grúskítugur / Grútskítugur (l)  Mjög skítugur.  „Farðu nú úr útigallanum áður en þú kemur inn; þú ert grútskítugur“!  „Þetta er enginn þvottur; þú ert ennþá grúskítugur í framan“!  Grú- er skylt grúi/aragrúi.  Báðar orðmyndir voru notaðar í Kollsvík.

Grúnsa (s)  Pussa; slægja steinbít (sjá steinbítur).

Grútlinur / Grútmáttlaus / Grútslappur (l)  Mjög kraftlaus/linur/aflvana.  „Hann ræður ekkert við þetta; hann er svo grútlinur“!  „Maður verður svo grútmáttlaus í þessari árans pest“.

Gryfjuplast (n. hk)  Þolplast; gluggaplast; þykkt plast sem á tímabili var notað ofaná votheysgryfjur til að koma í veg fyrir að hiti hlypi uppúr og skemmdi þannig heyið.  Sandpokum var raðað með veggjum á jaðrana.

Grynningafláki (n, kk)  Svæði í sjó þar sem eru miklar grynningar og hættulegt að sigla um.  „Nær samfelldur grynningafláki er frá heimanverðri Vatnadalsbót norðurfyrir Grundagrjót.  Þarf að sigla framanvið hann þegar farið er milli Breiðavíkur og Kollsvíkur; einkum ef lágsjávað er og ylgja í sjó“.

Grýlupoki (n, kk)  Poki Grýlu; sem hún safnaði óþægum börnum í.  „Í gegnum tíðina hefur grýlupokinn líklega notast á sama hátt gagnvart börum og helvíti gagnvart fullorðnum.  Þetta voru „verri staðirnir“ sem stuggur stóð af og enginn vildi lenda í.  Annað byggt á þjóðtrú úr grárri forneskju og hitt á kristnidómnum“.

Græðiduft (n, hk)  Duft sem stráð er í sár til að þerra það og sótthreinsa.  „Ingvar í Kollsvík var laginn við dýralækningar og átti í sínum meðalaskáp m.a. lítinn bauk með græðidufti.  Þetta var nefnt pensilínduft og var úðað yfir sár gegnum lítinn stút á plastglasinu, og síðan var bundið um.  Virtist það virka mjög vel“.

Grænlendingur (n, kk)  A.  Þarlendir íbúar; eskimóar og aðrir.  B.  Flökkusteinn sem víða finnst á fjörum, t.d. í Kollsvík, af allt öðru bergi en þar er.  Þetta er grjót sem grænlenskir skriðjöklar hafa skafið úr berggrunni þar og síðan borist neðan í borgarís sem bráðnað hefur á fjörum í Kollsvík“.  Orðið virðist óþekkt annarsstaðar í þessari merkingu, en var notað þannig í Kollsvík.

Guðsbarnablíða / Guðsbarnaveður  / Guðskaparveður (n, hk)  Algjört logn; stafalogn; rjómalogn.  „Það er sama guðsbarnablíðan, dag eftir dag“!  „Nú er hann bara dottinn niður og komið guðskaparveður; ætli maður hleypi þá ekki skjátunum aðeins út“. 

Guðsbarnalega (ao)  Eins og guðs börn; skikkanlega; vel.  „Hættið nú þessum fjárans látum strákar og reynið að haga ykkur guðsbarnalega“!

Guðsgafflar (n, kk, fto)  Fingurnir.  Orðið virðist hafa verið bundið við Vestfirði, og eingöngu notað um það hvernig matast var.  „Vertu nú ekki að potast þetta með hníf og gaffli; það er langbest að taka þetta með guðsgöfflunum og stýfa úr hnefa“!

Guðskapartíð (n, kvk)  Blíðutíð; einmunatíð.  „Maður getur ekki treyst á að þessi guðskapartíð haldis endalaust“.   Orðið gæti hafa orðið til sem afleiðing af „guðskaparveður“.

Guðsorðastagl (n, hk)  Sífellt klif biblíutilvitnana og guðsákalla; skinhelgi.  „Þó ekkert verði dregið í efa um einlægan kristindóm Kollsvíkinga og hollustu þeirra við sinnar tíðar lög og siði, þá má leiða að því líkum að í hinni krefjandi lífsbaráttu á þessum útkjálka hafi minna verið lagt uppúr skinhelgi, yfirborðsmennsku og prjáli sem einkenndi kristindóminn nærri höfðingjum og þvílíku slekti.  Um leið og Kollsvíkingar héldu lengst allra Íslendinga í heiðri hina aldagömlu hefð einlægrar sjóferðabænar þá varðveittu þeir með sér orðið „guðsorðastagl“, sem hvergi finnst í öðrum orðasöfnum“.

Gufubrim (n, hk)  Svo mikið brim að mikill sjóreykur myndast.  „Hann er kominn með svern vestansjó; það er gufubrim norðurundir“.

Gufuruglaður (l)  Utan við sig; mjög órökvís.  „Mér finnst karlinn vera orðinn gufurruglaður í seinni tíð“.

Gulhnökkuð (l)  Um lit á sauðfé; með áberandi gulan hnakka.  „Hvaða mark er á þessari gulhnökkuðu þarna“?

Gulsnoppótt (l)  Um lit á sauðfé; með áberandi gula snoppu.  „Sérðu nokkursstaðar þá gulsnoppóttu“?

Gúmmítuðra (n, kvk)  Gúmmíbátur; gúmbátur.  „Við fórum á gúmmítuðru frá Keflavík út á Langurðir“.

Gúndapottur (n, kk)  Eldunartæki sem var nokkuð vinsælt og til á mörgum bæjum í Rauðasandshreppi í kringum 1965-75.  Kringlóttur, tiltölulega flatur pottur eða panna úr blikki, með rafhitaelementi í botni og djúpu, kúptu loki með litlum glerglugga.  Í þessum potti mátti sjóða; baka og hita.  Á fyrstu árum rafvæðingar var þetta því notadrjúgt tæki, en þótti fljótt úrelt þegar ofneldavélar, mínútugrill og annað kom til.

Gvendarbrunnsvatn (n, hk)  Vatn úr Gvendarbrunni í Kollsvík.  Gvendarbrunnur er uppspretta heimanundir Sandahlíð í Núpnum; efst á Sandflötum.  „Hafði Guðmundur góði vígt hann á yfirreiðum sínum, enda er í honum afbragðsgott vatn er gjarnan var sótt handa sjúklingum og sængurkonum.  (GT;VT; Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Sagt er að þegar Guðbjartur Ólafsson í Kollsvík lá banaleguna (d. 1879) hafi hann látið sækja sér vatn úr Gvendarbrunni í norðanverðu Kolsvíkurtúni.  Er það til marks um þann átrúnað er menn höfðu á verkum Guðmundar“  (IG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi, 1989)  „Þegar skírnir fóru fram í Kollsvík var einatt sótt Gvendarbrunnsvatn“.

Gýgjarpus (n, hk)  Tegund af sæsvepp, oft bleikur að lit eða hvítleitur.  Kemur stundum upp á krókum neti eða rekur á fjörur.  Ekki þekkt annarsstaðar með þessum framburði/rithætti.

Gæflyndisgrey / Gæflyndismaður (n, kk)  Hæglátur/vingjarnlegur maður.  „Þetta er nú gæflyndisgrey, þó hann stígi kannski ekki í vitið“.  „Mér fannst hann vera gæflyndismaður í viðmóti“.

Gæflyndiskvikindi  / Gæflyndisskepna (n, hk/kvk)  Stillt/róleg/gæf skepna.  „Hrafninn var orðinn mesta gæflyndiskvikindi og hræddist menn lítið“.  „Alltaf er Gibba sama gæflyndisskepnan“.

Gægingur (n, kk)  Hótfyndni; kaldhæðni.  „Hann er með einhvern gæging eins og vant er“. 

Gæruhvítur sjór (orðtak)  Sjór í svo miklu roki að yfirborðið rýkur og verður eins og hvít, kemd sauðagæra.  „Fram af Blakknum var stólparok og gæruhvítur sjór“.

Gærurok (n, hk)  Svo mikið rok að sjór rýkur/ verður hvítur.  „Hann er að spæna upp norðan gærurok“.

Hafa antípat á (orðtak)  Vera illa við; hafa illan bifur á; finnast fráhrindandi.  „Hún sagðist hafa hálfgert antípat á þessari nýju tækni“.

Hafa ekki/litla trú á / Hafa ótrú á (orðtök)  „Eldri bændur höfðu megnustu ótrú á traktorssláttuvélum í byrjun, og þótti þær slá illa.  Var enda von, þar sem fáir vellir voru sléttir“.  „Ég hef enga trú á að það verði neitt úr þessari rigningarspá hjá þeim; hann er að koma upp bakka í hafið“.

Hafa fallið með sér (orðtak)  Stilla róðra þannig af að fallið hjálpar til við róðurinn.

Hafa utaná sér / Hafa utanum sig / Hafa utanyfir sig (orðtök)  Vera í utanyfirfatnaði/úlpu.  „Hafðu eitthvað utaná þér; það er þónokkuð kalt núna“.  „Ertu ekki í neinu utanum þig?  Það er ekkert vit í að vera að glænapast svona“!  „Habbdu nú eitthvað utanyfir þig ef þú ætlar að standa yfir fénu“!  Mikið notað í Kollsvík til skamms tíma, en heyrist ekki í daglegu máli annarsstaðar.

Hafnarbúi / Hafnarmaður (n, kk)  Manneskja sem býr í Örlygshöfn.  Rauðasandshreppur skiptist í nokkur byggðasvæði eftir staðháttum (sjá Rauðsendingur) og er Örlygshöfn, eða Höfnin, eitt þeirra.  „Hafnarmenn sðyrja ekki um prísa“.

Hafnarfé (n, hk)  Sauðfé Hafnarbúa.  „Það varr óvanalega mikið um Hafnarfé í Breiðavíkurrétt núna“.

Hafnarmaður (n, kk)  Maður úr Örlygshöfn.  „Er við omum á strandstaðinn voru þar nýkomnir þeir hafnarmenn er fyrr getur... “  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Hafnarmenn spyrja ekki um prísa (orðatiltæki)  Ekki er vitað að fullu um uppruna orðatiltækisins, en það mun vísa til þess að í Örlygshöfn eru bújarðir sumar góðar og þar hafa löngum setið efnaðir menn á sinnar tíðar vísu.  Sagt er að þetta sé andsvar hafnarmanns við uppsettu verði kaupmanns á Eyrum.  Hvað sem uppruna líður, hefur þetta tilsvar orðið að orðatiltæki í Rauðasandshreppi.  Er það gjarnan viðhaft þegar menn vilja sýna að verð sé ekki fyrirstaða í kaupum, eða þegar einhverjum blöskrar eyðslusemi annars.

Hafrableytti (n, hk)  Réttur sem samanstendur af ósoðnum hafragrjónum, mjólk, rúsínum og lítilsháttar kanilsykri.  „Barnaskóli Rauðasandshrepps var rekinn í Kollsvík einn vetur, líklega 1968-1969, og nemendur voru sumir í vist á Láganúpi og aðrir í Kollsvík.  Hafrableytti var í uppáhaldi sem morgunmatur sumra þeirra“. 

Hafravellingur (n, kk)  Annað heiti á hafragraut.  „Mikið væri nú gott að fá hafravelling með slátri“.

Haft / Haftband / Haftspotti  A.  Haft er notað almennt um hindrun/fyrirstöðu.  B.  Snærisspotti sem notaður er til að hefta kýr meðan þær eru mjólkaðar.  „Hafðu með þér nýjan haftspotta fram í Túnshala þegar þú ferða að mjólka.  Hinn er alveg ónýtur“.  Fyrrum voru höft unnin úr togi.

Hafþoka / Hafþokubakki (n, kvk/kk)  Þoka sem liggur á sjónum en ekki á landi, eða er ekki komin inná land.  „Það er rétt að hafa kompásinn við hendina ef hann skyldi slá þessum hafþokubakka eitthvað nær“.

Haga sér skikkanlega/ eins og maður/ guðsbarnalega (orðtak)  Sýna stillingu /mannasiði í framkomu.   „Mundu nú að haga þér skikkanlega í messunni“.  Æi krakkar; getiði aldrei hagað ykkur guðsbarnalega“?

Hald (n, hk)  A. Sigstaður; eggja-/fuglsvæði.  Orðið mun ekki hafa verið notað annarsstaðar á landinu í þessari merkingu.  „Fyrsta haldið vestanfrá er Ritugjá...“ Frásögn DE (MG;  Látrabjarg). „Höld voru kallaðir staðirnir sem sigið var á“  “  (DE; Örn.skrá Látrabjargs).  B. Trú; álit.  „Það var hald manna að ástandið hefði ekki verið eðlilegt“  Frásögn GGr um Sargon-strandið (ÓS; Útkall við Látrabjarg).  C.  Hald á bolla eða öðru áhaldi.  D.  Það sem heldur örugglega.  „Mér sýnist orðið vafasamt hald í þessum gamla vað“?  „Sláðu spottanum um nibbuna; hún er öruggt hald“.

Haldbær (l)   Traustur; haldgóður; sem hald er í.  „Hann gat ekki gefið neina haldbæra skýringu á þessu“.  „Fyrir svona ákvörðun þurfa menn að færa haldbær rök“.

Halldóruhæll (n, kk)  Frágangur á hæl á prjónuðum sokk; kennd við Halldóru Bjarnadóttur.  „Ýmist voru hælar prjónaðir sem „húfuhæll“ eða „Halldóruhæll“ sem var með stalli og heitinn eftir Halldóru Bjarnadóttur.  „Húfuhæll“ var prjónaður eins og táúrtökur nema úrtökurnar styttri (mynd) þá var prjónað í auka band þvert á „húfuna“ það var svo rakið úr eins og þegar var rakið úr fyrir þumli og teknar up lykkjurnar og prjónaður framleisturinn. Svo var og er mælt band einu sinni eða tvisvar á ilinni; auka umferð undir ilinni“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). 

Halljúgra / Hallinjúgra (l)  Um ær og kýr; misjúgra; sem hefur júgur stærra öðrumegin en hinumegin.

Hallærisbúskapur (n, kk)  Slæmt ástand; skortur.  „Óttalegur hallærisbúskapur er þetta hjá mér; að eiga ekki te fyrir þig“.

Haltukjaftibrjóstsykur (n, kk)  Stór brjóstsykur sem seldur var um tíma og fluttist gjarnan vestur með sumardvalarbörnum á 7. áratug 20.aldar.  Oft skipt í sundur með sykurtöng.

Haltukjaftikaramellur (n, kvk, fto)  Stórar karamellur; mangakaramellur.

Hamrakleggi (n, kk)  Sérstæður klettur.  „Á einum stað í fjörunni, um miðjan hvamminn, er þó hamrakleggi, uppmjór, 2-3 mannhæðir; fer ekki í kaf á venjulegum flæðum...“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Handabakavinnubrögð (n, hk, fto)   Röng/árangurslítil vinnubrögð; kjánalegt verklag.  „Önnur eins handabakavinnubrögð hef ég ekki séð á minni lífsfæddri ævi“! 

Handahlýr / Handkaldur (l)  Kaldur/hlýr á höndum.  „Handahlýr maður er hlýr viðkomu á höndum þó öðrum sé kalt; sumir nota jafnvel sjaldan vettlinga“.  „Handkaldur maður hefur kaldar hendur, en þarf þó ekki að finna til kulda sjálfur“. 

Handanbæir (n, kk, fto)  Bæir handantil í víkinni (sjá handan).  „Áin, sem svo heitir þó víða myndi hún kölluð lækur, skipti löndum milli Kollvíkurjarðarinnar og býla í sunnanverðri Víkinni.  Það eru Grundir og Láganúpur, og voru þeir einatt kallaðir „Handanbæirnir“ “  (EG; Ábúendur Kollsvík; Niðjatal HM/GG).

Handanbæjafólk / Handanbæjarbóndi / Handanbæjarmaður  Íbúar bæja í sunnanverðri Kollsvík; Láganúpi; Grundum eða Grund.

Handaneftir (ao)  Sérstæð áttalýsing fyrir Kollsvík; að handan og á leið norðureftir.  „Hann hljóp eftir fjárklippum yfir á Láganúp, en mér sýnist hann vera að koma þarna handaneftir Umvarpinu“.

Handanfrá (ao)  Að handan; frá Láganúpi/Grundum í átt norður.  „Það þarf að standa í Verinu, fyrir fénu sem kemur handanfrá“.

Handantil (ao)  Handan megin; fyrir handan; yfirfrá.  „Handantil í víkinni er mun sendnari jarðvegur“.

Handantilvið (ao)  Hinumegin; handanvið; fyrir handan.  „Árósarnir eru handantilvið Nautholtið“.

Handantún (n, hk, fto)  Tún/slægjur handantil í víkinni (sjá handan).  „Handantúnin eru misjafnlega sprottin“.

Handanvið (ao)  Hinumegin; fyrir handan.  „Hafiði ekki hátt; grenið er bara hérna rétt handanvið hrygginn“.

Handanum / Handanyfir (ao)  Sérstæð áttalýsing í Kollsvík; að handan (sunnan) og yfir það sem er í miðri víkinni áleiðis norðureftir.  „Hver kemur þarna handanum veg“?  „Komstu handanyfir Umvarp eða fórstu Rifið“?

Handfærakrókur (n, kk)  Öngull til skakveiða/handfæraveiða.  „Við erum með gömul færi; hamplínu, 4ra punda blýlóð með hálfás sigurnagla; taumur einn faðmur og handfærakrókur“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Handskrúbbur (n, kk)  Skrúbbur/bursti með stífum hárum; ætlaður til að skrúbba/þvo rækilega með höndum.  „Við þyrftum að fá nýjan handskrúbb í bátinn; þessi er að verða ári sköllóttur“.

Hangiketsbiti /  Hangiketsflís / Hangiketssneið / Hangiketstutla / Hangiketsögn (n, kvk)  Dálítið/biti af hangiketi.  „Gefðu mér smá hangiketsflís í viðbót“.  „Var ekki eftir einhver hangiketstutla frá þí í gær“?

Hangiketsilmur / Hangiketslykt (n, kk/kvk)  Lykt af hangiketi.  „Hann sagðist hafa fundið hangiketsilminn leggja á móti sér uppi á miðri Tunguheiði“.

Hann sagði mér það hann Sveinn (orðatiltæki)  Viðhaft þegar einhver vill ekki gefa upp réttan heimildarmann fyrir sínum staðhæfingum/ sínu sveitaslúðri.  Ekki skal fullyrt um aldur eða tilurð orðatiltækisins, enda getur sveinn verið hvaða karlmaður sem er.  Þetta var hinsvegar gjarnan viðhaft af GJH, eins og fleiri snjallyrði, og var þá talið vísa til manns í útsveitinni sem talaði fátt og aldrei lastaði aðra.  „Er burtu gekk ég þaðan þá sagði mér hann Sveinn;/ það sögðu líka menn á næstu bæjum:/  Í Hærri-Tungu væru þeir, heldur tveir en einn./  Að hugsa sér, og annar lá á gægjum! “  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Happanafn (n, hk)  Gæfuheiti; heiti sem ber vitni um happ eða væntir happs. „Fram í Grasaskerspoll gengur frá rfinu hlein sem heitir Lúða.  Af hverju hún ber slíkt happanafn veit ég ekki, en þegar áðurnefnd vör var gerð þar í gegn fannst rostungstönn; má vel vera að áður hafi hún gefið eitthvað meira og stærra“ (ÞJ; Örn.skrá Hvallátra).

Harðakan / Harðaspan (n, hk)  Mikil ferð; harðasprettur; hraðakstur.  „Þarna kemur hann hlaupandi á harðakani“.  „Hann ók á harðaspani og reyndi að elta refnn uppi“.

Harðarennsli (n, hk)  Harðasprettur; mjög hröð hlaup.  „Féð er á harðarennsli fram allan dal“!

Harðbakki (n, kk)  Harður bali; sandbali.  „Hólar voru harðbakkar og þurfti því að slá þá í rekju“.  (ÖG;  Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).  Orðið var þarna notað í upprunalegri merkingu, en nú er það einungis notað í likingamálinu „þegar í harðbakkann slær“, og orðabókadæmi eru öll þannig.skipt

Harðbalahóll (n, kk)  Gróinn hóll með þéttum  og þurrum jarðvegi. „Harðbalahóll er fremst á Túninu, og heitir Skalli“  (ÓETh; Örn.skrá Vatnsdals).

Harðfiskhjallur (n, kk)  Hjallur til að herða steinbít, láta grásleppu síga o.fl.  „Við Svavar fengum gamla sláturhúsið á Gjögrum; hann dró það útá bakkana með ýtunni og þar var því breytt í harðfiskhjall“.  Orðið var aldrei notað með „s“ (harðfiskshjallur) í Kollsvík, líkt og orðabókardæmi eru um.

Harðfiskhnallur (n, kk)  Létt sleggja til að berja harðfisk; mýkja hann til átu.  „Hvar er nú harðfiskhnallurinn“. 

Harðfiskflís  / Harðfisklús / Harðfiskögn (n, kvk)  Lítið eitt af harðfiski; smábiti af harðfiski.  „Gefðu mér nú smá harðfisklús, fyrst þú ert að naga þetta“.  „Ég hafði með mér harðfiskflís í nesti“.

Harðfiskhjastur / Harðfiskmosk  / Harðfiskmulningur (n, hk/kk)  Mulningur/uppsóp af harðfiski sem fellur til t.d. þegar hann er barinn.  „Það þarf að sópa harðfiskmoskinu niður, svo hundurinn sé ekki að sleikja barningssteininn“.

Harðfiskól (n, kvk)  Strengsli af harðfiski, oftast þá mjóslegið og rýrt.  „Þessar harðfiskólar sem enn eru eftir eru varla mannamatur; þvengmjóar og sumar grámyglaðar í þokkabót“.

Harðfiskpoki (n, kk)  Poki með/ætlaður harðfiski.  „Þessir áburðarpokar eru þvegnir og þurrir; ég ætla að nota þá fyrir harðfiskpoka“.

Harðfiskroð (n, hk)  Roð af harðfiski.  „Hér er ég búinn að snúa harðfiskroðið; réttu hundinum þetta“.

Harðfisksleggja (n, kvk)  Handhæg sleggja til að berja harðfisk.  „Nennirðu að skjótast og berja tvö harðfiskstrengsli?  Harðfisksleggjan er á barningssteininum úti í Gili“.

Harðfiskstrengsli (n, hk)  Flak/lengja af harðfiski; fullverkað en (oftast) óbarið.  „Þiggðu með þér fáein harðfiskstrengsli í nesti“.  „Viltu berja þrjú harðfiskstrengsli fyrir matinn?  Litla sleggjan er á steininum úti í Gili“.  Orðið er mjög almennt notað vestra, og hefur alltaf verið. 

Harðfisktutla  / Harðfisktægja (n, kvk)  Tægja/flís af harðfiski.  „Gefðu mér duggunarlitla harðfisktutlu, fyrst þú ert þarna með strengsli“.  „Það situr einhver harðfisktægja á milli tannanna á mér“.

Harðhnakka (s)  Þrúga; þjarma að; hnoða.  „Nautið náði að harðhnakka honum þarna í girðingarhorninu og hefði getað farið illa ef hjálp hefði ekki borist strax“.  Orðið var þannig framborið í Kollsvík.  Orðabók HÍ nefnir dæmi um að „harðhnjaka“, sem virðist vera sömu merkingar.

Harðindabúskapur (n, kk)  Um það þegar eitthvað skortir í heimilishaldi/búskap.  „Manni finnst það hálfgerður harðindabúskapur að eiga ekki saltfisk uppá veturinn“.

Harðindatíðarfar (n, hk)  Slæmt tíðarfar; vond tíð.  „Hér hefur verið harðindatíðarfar eftir áramótin; frosthörkur nokkrar og norðanbeljandi, svo oftast er innistaða á fé“.

Haugaleti (n, kvk)  Mikill ónytjungsháttur; algert aðgerðaleysi.  „Ég hef sjaldan kynnst annarri eins haugaleti í nokkrum manni“!

Haugarigning / Haugrigning (n, kvk)  Mjög mikil/gróf rigning; hellirigning.  „Maður heldur sig helst innivið í svona haugarigningu“.  „Þvílík haugrigning er þetta; það eru bara lækir á hlaðinu“!

Haugarigna / Haugrigna (s)  Rigna ákaft og í mjög miklu magni; sérstaklega gróf/áköf rigning.  „Hann er farinn að haugarigna aftur“!  „Enn haugrignir hann; og bara engin skúraskil á milli“! 

Haugdrullugur / Haugskítugur (l)  Grútskítugur; útataður; mjög forugur.  „Hvern skrattann varstu nú að bardúsa strákur?  Þú ert haugdrullugur frá toppi til táar“!

Hauglatur (l)  Mjög latur; nennir alls ekki að vinna.  „Hann er svo hauglatur að hann dregur varla andann“!

Haugryðgaður (l)  Mjög mikið ryðgaður; kolryðgaður.  „Það þýðir ekkert að mála járnið svona haugryðgað“.

Haugsalta (s)  Rígsalta; kakksalta; salta mjög mikið; salta svo mikið að hrúgur/kekkir af salti sitji ofaná. 

Haugsaltaður (l)  Kakksaltaður; rígsaltaður; svo mikið saltaður að haugar/kekkir sitji ofaná.  „Fiskurinn var haugsaltaður, svo ekki skemmdist hann þessvegna“.

Hausagrind / Hausarekki / Hausaklefi (n, kvk/kk)  Þegar skotmaður í sláturhúsinu á Gjögrum hafði skorið haus frá búk, gekk hann frá honum í hausagrind, þar sem blóð rann úr strjúpanum.  Síðan var tekið úr grindinni og hausunum raðað á hausarekka í hausaklefanum.  Í grindinni og rekkunum hvíldi strjúpinn á galvaniseruðum vatnsrörum.

Hausaskaft  (n, hk)  Um 30-40 cm skaft/prik sem notað var til að halda sviðahaus yfir eldi, meðan enn var sviðið yfir olúeldi eða prímus.  Sjá svið.

Hausasveðja / Hausunarhnífur / Hausunarsveðja (n, kvk/kk)  Stór blaðlangur og flugbeittur hnífur sem notaður er til að skera háls á skepnum eftir slátrun, og taka hausinn af eftir að blætt hefur.  Einnig þekktist heitið blóðhnífur.  „Skotmaður gekk ávallt tryggilega frá byssum, skotum og hausasveðju inni í læstri kompu í lok hvers sláturdags“.

Haushæð (n, kvk)  Jafn hátt höfði manns.  „Skútinn er í haushæð yfir ganginum innanverðum, og má nokkuð auðveldlega klórast upp í hann.  Þar eru oft í kringum tuttugu langvíuegg“.

Hausþvottur (n, kk)  Þvottur á höfði.  „Ætli ég sé ekki orðinn þurfandi fyrir hausþvott, eftir að múkkafjandinn ældi yfir mig“.

Háarheyskapur (n, kk)  Vinna við að slá og verka , og koma henni í hlöðu.  „Hér er búinn allur heyskapur nema háarheyskapur“.

Háaustansteytingur (n, kk)  Hvassviðri af háaustri.  „Árni var á leið til lands í háaustansteytingi... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Hábakkaflæði (n, kvk)  Mjög stór flæði; oftast í stórstraumi og álandsvindi.  „Nú er hábakkaflæði og stutt að setja niður“.  Orðabækur kannast ekki við þessa framsetningu sem algeng er í Kollsvík, en tilgreina aftur á móti „hábakkaflóð“.

Hádegismatur (n, kk)  Matur sem snæddur er í hádeginu.  „Hádegismatur var venjulega aðalmáltíð dagsins.  Heldur meira var í hann lagt en kvöldmat.  Oftast var heitur kjöt- eða fiskréttur í aðalrétt og súpa, grautur eða skyr í eftirrétt, en þó var það ekki einhlítt“.  Merkilegt er að orðið sést hvorki í Orðabók HÍ né Menningarsjóðs.  Þar er tilgreindur „hádegisverður“ og „hádegismáltíð“ en hvorugt var notað í Kollsvík.

Háeggjatími (n, kk)  Tíminn þegar eggjataka í björgum stendur sem hæst.  „Stundum varð lítið um svefn hjá manni yfir háeggjatímann“.

Háfjallaskafmold / Háfjallaskafmoldarbylur (n, kvk/kk)  Skafrenningur/skafbylur sem nær svo hátt í loft upp að tekur af fjallasýn.  „Ég fer ekkert af stað i svona öskrandi roki og háfjallaskafmoldarbyl“.

Háheyskapartími / Háheyskapur (n, kk)  Tíminn þegar heyskapur stendur sem hæst.  „Ég á óhægt með að gera þetta núna, svona rétt um háheyskapinn“.

Hákjölur (n, kk)  Þar sem hæst ber á vatnaskilum milli dala/víkna.  „Dalverpi endar við Arnarvörður, en þar er hákjölurinn milli Keflavíkur og Sauðlauksdals“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Hálfaftekin (l)  Um kind; tekið af (rúið) til hálfs.  „Þessi er ekki nema hálfaftekin hjá mér vegna þess að henni var illa fyllt“.

Hálfankannalegur / Hálfasnalegur (l)  Um líðan/útlit; dálítið einkennilegur/aulalegur/ringlaður.  „Ég er mikið að jafna mig af pestinni, en ég er enn hálfasnalegur í hausnum“.

Hálfasnalega (ao)  Dálítið undarlega/illa/óvenjulega.  „Mér hefur liðið hálfasnalega í höfðinu í dag.  Ætli ég leggi mig ekki smástund“.

Hálfáttavilltur (l)  Ekki alveg viss á áttum/stefnu.  „Maður er fljótur að verða hálfáttaviltur í svona þoku“.

Hálfdomm (l)  Dálítið vankaður/ annars hugar.  „Maður er bara hálfdomm eftir svona tíðindi“.

Hálfdrættingssteinbítur (n, kk)  Steinbítur sem hálfdrættingur dró.  Honum var haldið til hliðar á skiptum og merktur með bita, þverskoru eða sniðskoru, sem var bara eitt hnífsbragð. (Sjá einnig skipti)  (LK; Ísl. sjávarhættir; eftir DE og ÁE). 

Hálfendasleppt (l)  Dálítið snubbótt; hættir nokkuð snögglega/óvænt.  „Mér fannst þetta leikatriði ágætt í sjálfu sér, en það var einhvernvegin hálfendasleppt“.

Hálfeyrðarlaus (l)  Órólegur; festir illa hugann við viðfangsefni; óþreyjufullur.  „Maður verður hálf eyrðarlaus að heyra ekkert frá þeim svona lengi“.

Hálfhættulegur (l)  Nokkuð hættulegur; viðsjárverður.  „Þessi steinn gæti orðið hálfhættulegur, þarna hjá niðurgöngunni.  Er ekki hægt að ryðja honum niður“?

Hálfkæringsháttur ( n, kk)  Bríararí; hálfgert tilgangsleysi/sinnuleysi.  „Ég ákvað þetta í hálfkæringshætti; án þess að íhuga það nokkuð niður í kjölinn“.

Hálflasinn / Hálfslappur (l)  Veiklulegur; dálítið veikur; lumpulegur.  „Ég er eitthvað fjári skrýtinn í höfðinu og hálfslappur; ætli maður sé ekki að fá þessa skollans pest“.

Hálflerkaður (l)  Nokkuð dasaður; með dálitla verki/strengi; dálítið meiddur.  „Maður er enn hálflerkaður eftir þessi átök í gær“.

Hálfólystugt (l)  Dálítið fráhrindandi matur; ekki mjög lystugt/girnilegt.  „Mér hefur alltaf fundist eggin hálfólystug eftir að þau eru orðin mjög eygð“.

Hálfóviðkunnanlegt (l)  Ekki mjög viðeigandi/kurteislegt.  „Það er hálfóviðkunnanlegt að berja upp á svona óguðlegum tíma dags“.

Hálfraddlaus (l)  Dálítið rasslaus; ekki með fullan raddstyrk.  „Maður er orðinn hálfraddlaus af að öskrá á þessa bölvaða húðarletingja sem lágu í berjum þegar þeir áttu að vera að smala“!

Hálfráfulegur / Hálfutangarna (l)  Dálítið viðutan/annarshugar.  „Manni finnst að maður sé hálfráfulegur í svona samkvæmum“.  „Í fyrstu var ég á eftir í náminu, og hálfutangarna, en ég náði mér fljótt á strik“.

Hálfslasaður (l)  Töluvert meiddur.  „Þeir voru mjög þrekaðir mennirnir þegar við loksins drógum þá upp, og sumir hálfslasaðir“  (Björgvin Sigurbjörnsson; Útkall við Látrabjarg). 

Hálfslæptur (l)  Dálítið eftir sig/ þreyttur.  „Hann var hálfslæptur eftir þetta, en jafnaði sig fljótt“.

Hálfsmalað (l)  Smalað/leitað eftir fé til hálfs; illa smalað.  „Mér sýnist augljóst að þetta svæði hefur ekki verið nema hálfsmalað“.

Hálfstafa hús (orðtak)  Hús með hálfgöflum.  „Við komum inn í lítið hálfstafa hús sem pabbi hafði afhent okkur til afnota meðan við kærðum okkur um... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Hálftommufjöl (n, kvk)  Borðviður/fjöl sem er hálf tomma að þykkt.  „Þegar Gunnar Össurarson byggði Láganúpshúsið 1974 útvegaði hann fjölmarga stóra trékassa frá tékkneska sendiráðinu, sem notaðir höfðu verið utanum sýningargripi o.fl.  Úr þeim fékkst mikið af hálftommufjölum til uppsláttar og klæðninga“.

Hálftætingslegur (l)  Nokkuð reyttur; tættur; ruglingslegur.  „Hann er að verða hálftætingslegur þessi bakki í hafið; ætli hann fari ekki að búast í rigningar“.

Hálfundirfurðulegur (l)  Dálítið íbygginn/búralegur á svip; dálítið undarlegur í útliti/háttum.  „Nér finnst hrafninn vera hálfundirfurðulegur; hoppandi þarna frammi við garðsendann.  Hann skyldi þó ekki vera að vokka yfir kind sem farið hefur ofaní“?

Hálföfugsnúið / Hálfönugt (l)  Dálítið neyðarlegt/örðugt/erfitt.  „Mér finnst það fjandi öfugsnúið að þurfa að fara af ágætis fiski til að mæta á þennan árans fund“!  „Þetta var hálfönugt viðureignar í þessu veðri“.

Háliggjandi (n, kk)  Blásnúningur; fallaskipti; stuttur tími meðan skiptir sjávarfalli.  „Hann gaf sig vel til um háliggjandann en svo tregðaðist fljótt aftur.

Hálkublettur / Hálkukafli (n, kk)  Svæði með mikilli mjög hálu svelli.  „Það eru hálkublettir á þessum vanalegu stöðum á leiðinni“.  „Varaðu þig á hálkukaflanum á Tunguhlíðinni“.

Hálsræma (n, kvk)  Ræma/kverkaskítur í hálsi; eymsli og slímmyndun í hálsi, oftast vegna kvefs.  „Það er einhver bölvuð hálsræma í mér; ég þori ekki öðru en hafa um hálsinn“.

Hárafiskur (n, kk)  Fiskur sem í er mikið af hringormi, þannig að hann er horaður og vart matfiskur.  Bæði var talað um háraþorsk og hárasteinbít.  „... ef þú fengir ekki svo mikið sem grindhoraðan hárasteinbít“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Háraveita (n, kvk)  Dýr með mikið hárlos; uppspretta hára.  „Skelfingar háraveita er þessi köttur núna; það þyrfti að fara með hann út og kemba hann ærlega“.

Hárrami (n, kk) Hárahliðin á skinni. Orðið virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur í þessari mynd, en Orðab.Mennsj gefur upp „hárhamur“ í sömu merkingu.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Hásetaspraka (n, kvk)  Gjafalóa; lítil smálúða.  „Gjafalóur voru stofnaðar, sem kallað var; tekinn af þeim haus og sitt flakið hvoru megin af hrygg; þannig að hvorri kápu fylgdi sitt rafabeltið.  Kápurnar voru síðan ristar og hertar.  Var þeim skipt á milli hásetanna er öðrum afla hafði verið skipt“  (PJ; Barðstrendingabók).

Háskaleiðangur (n, kk)  Mjög hættuleg ferð; háskaför.  „Á Þorlákssmessu var farið að bjarga nokkrum kindum úr svelti í sjávarklettunum norður í Höfðum; níu talsins minnir mig; flestar frá Kitta í Hænuvík.  Hafliði Halldórsson og pabbi snöruðu og gripu kindurnar og handlönguðu þær upp á brúnina til okkar hinna, en auk mín voru þarna Ingvar, Kitti og, að mig minnir, Guðbjartur bróðir eða Hilmar.  Frost var í jörðu og víða skreipt í spori.  Því má segja að þetta hafi verið háskaleiðangur“ (VÖ). 

Hávaðaskammir (n, kvk, fto)  Rostaskapur; rifrildi.  „Ég er þá ekkert að hjálpa þér við smalamennsku ef ég fæ ekkert annað en hávaðaskammir fyrir“!

Heiðbirta (s)  Skellibirta; glannabirta; alveg heiðskírt.  „Ef skýjað var, og reif skyndilega úr suðurlofti svo heiðbirti í hásuðri í stutta stund, var norðan hvassviðri í aðsigi“  (ÓETh o.fl.  LK; Íslsjávarhættir III).

Heiðingi (n, kk)  A.  Þurrkaður/hertur þorskhaus í heilu lagi, að því undanteknu að tálknin hafa verið ririn úr.  „Stöku sinnum voru þorskhausar hertir án þess að rífa þá upp, að öðru leyti en því að taka úr þeim tálknið.  Þesskonar hausar nefndust heiðingjar.  Ennfremur voru hausar hertir óupprifnir með tálkninu óhreyfðu; bumlungar  Þessi heiti munu ekki hafa þekkst nema á Vestfjörðum.  Aðallega voru þetta litlir hausar og jafnan hertir á möl.  Þeir voru helst ætlaðir skepnum, en þó kom fyrir að heiðingjar væru rifnir til átu eins og kringluhausar, en sú gerð var algengust um Vestfjörðu“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).   B.  Heiðinn maður; notað áðurfyrrum menn sem ekki trúðu á guð kristinna manna, samkvæmt ríkjandi sið. 

Heiðvirðilegur (l)  Heiðarlegur; æruverðugur; ekta.  „Ekki veit ég hvað þeim gengur til; að ráðast svona að heiðvirðilegum bændum og gera þeim ókleyft að búa áfram“! 

Heilamálið (n, hk, m,gr)  Allt málið; málavextir í stuttu máli; kjarni málsins.  „Nú þarf bara að finna í hverju þessi skekkja liggur; það er heilamálið“.

Heilatímann (n, kk, m.gr, þf)  Mjög mikinn tíma; allan tímann.  „Hann hafði ruglað þessu öllu saman, svo ég var heilatímann að sortera það“.  Einatt í þolfalli og með greini.

Heilaveginn (n, kk, þf, m.gr)  Mjög langt; alla leiðina.  „Um leið og ég sleppti yrðlingnum var hann kominn heilaveginn í burtu; langleiðina uppá Hjalla“.  „Nokkuð gengur nú báturinn hjá þeim; þeir eru strax komnir heilavegin útí hafsauga“!

Heillast til (orðtak)  Hallast að; freistast til; vera hlynntur.  „Ekki veit ég hvað af þessum kindum hefur orðið, en ég heillast til að halda að þær séu komnar aftur inn á Hlíðar“.  „Ætli maður heillist nú ekki helst til að styðja Framsókn áfram, þó þeir eigi það líklega ekkert skilið“.  Sjá einnig hyllast til.

Heilsiginn (l)  Um fisk; látinn síga án flökunar/flatningar.  „Heilsigin grásleppa er einn mesti sælkeramatur sem nokkur maður getur látið innfyrir sínar varir, og öðruvísi var hún ekki látin síga í Útvíkum.  Hér syðra eru menn svo langt gengnir í úrkynjaðri matargerð að þeir flaka grásleppuna áður en hún er hengd upp.  Eftir signingu er ekkert eftir nema næfurþunn hveljan og innanum hana eldrauð slikja af þráadrullu“!

Heilsubótarfæða (n, kvk)  Matartegund sem hefur góð áhrif á heilsuna.  „Egg eru alltaf heilsubótarfæða; hvort sem þau eru stropuð eða dálítið eygð“.

Heilsubótarganga / Heilsubótarrölt (n, kvk/hk)  Gönguferð sem hefur heilsusamleg áhrif.  „Vissulega er þetta nokkuð langt, en í svona góðu veðri er þetta bara heilsubótarrölt“.

Heimagert (l)  Það sem gert er heima.  „Mér finnst heimagerð sulta alltaf mun betri en sú sem seld er í búðum“. 

Heimalningspeli (n, kk)  Peli sem notaður var til að gefa heimalningi mjólk að sjúga, en þeir gátu orðið all aðgangsharðir og frekir eftir því.  „Tókstu nokkuð pelann barnsins í staðinn fyrir heimalningspelann“?

Heimamannabúð (n, kvk) Verbúð heimamanna í verstöð. 

Heimangöngunemi (n, kk)  Nemandi sem gengur til skóla síns, heiman frá sér.  „Sagði hann að nú væru 3/5 menntaskólanema heimangöngunemar“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Heimantil  / Heimantilvið / Heimanvert (ao)  Heimar en; að heimanverðu; heimarlega.  „Fjárreksturinn er kominn heimantil á Strympurnar“.  „Lendingin er heimantilvið skerið“.   „Heimanvert í Núpnum er Gíslahilla neðst í klettunum“.

Heimanyfir (ao)  Að heiman og yfir.  „Við vorum komnir á bíl útundir Grenjalág, en hann kom gangandi til okkar heimanyfir Strympur“.

Heimáleið (ao)  Í áttina heim; heimleiðis.  Orðin „heim á leið“ voru jafnan notuð sem um eitt orð væri að ræða, með áherslu á fyrsta atkvæðið, líkt og t.d. „landleið“, „sjóleið“ eða „heimleið“.  „Það fer óðum að dimma; ég held við förum bara að koma okkur heimáleið“.  Meira notað en heimleiðis.

Heimmeð (ao)  Heim meðfram.  „Fjárhópurinn hélt sig uppundir klettum og fór á hlaupum heimmeð klettum í Núpnum; ofanvið Bekkinn“.

Heimskautafrost / Heimskautakuldi (n, hk/kk)  Fimbulfrost; mjög kalt í veðri.  „Ekki linar hann neitt þetta heimskautafrost“.  „Fénu verður lítið úr beit í þessum heimskautakulda“.

Heimskufjas / Heimskuhjal / Heimskukjaftæði / Heimskuraus / Heimskuþvæla (n, hk/kvk)  Það sem sagt er af hugsunarleysi/fáfræði; bull.  „Vertu ekki með svona heimskukjaftæði; þú veist betur en þetta“!

Heimum / Heimyfir  (ao)  Heim til/yfir; í áttina heim.  „Meðan við vorum að amstra með kindina dreifði reksturinn úr sér heimum alla Orma“.  „Ég rak kýrnar heimyfir Umvarp“.

Heisigaffall (n, kk)  Bóma á mastri skips, sem notuð er til hífingar.  „Heisigaffallinn sóst líka til og frá meðan skipið veltist í brimrótinu„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Heldren (st)  Stytting úr „heldur en“.  Er svo oft borið fram þannig að telja má sjálfstætt orð.

Heldrimannasiður (n, kk)  Háttur/siður/venja þeirra manna sem telja sig öðrum æðri, eða betri í mannasiðum; siður höfðingja.  „Hann lyfti hatti í kveðjuskyni, að heldrimannasið“.  Sjá einnig „heilsa að heldrimannasið“.

Heldur betur / Heldurbetur (orðtak)  Áhersluauki; enn frekar; mjög mikið.  Rann oftast saman í eitt orð.  „Nú fékk hann heldurbetur fyrir ferðina“! „Það er heldur betur búið að rigna í dag“.  Oft einungis notað „heldur“.  „Heldur var hann uppnuminn yfir ferðalaginu“!

Heldurtil (orðak)  Nokkuð um of; heldur of.  „Ég setti heldurtil mikið í fötuna, svo það skvettist útúr á leiðinni“.  Sjá helst til; helsti.

Helgrýskur (l)  Bölvaður; fjárans; árans.  „Þarna lék hún á mig helgrýsk túnrollan; hún faldi sig í melaskarðinu meðan ég rak hinar útaf“!

Helguþúfa (Sérn, kvk)  Fornt örnefni á mörgum jörðum í Rauðasandshreppi.  Ekki er vitað nú um ástæður nafngiftarinnar, en líklegt er að hún standi annaðhvort í sambandi við verndarvætti bæjarins; að þar hafi verið helgihald eða að þar hafi verið beðin ferðabæn. Til hins síðastnefnda bendir staðsetning sumra þessara þúfna, en þær eru við vegi t.d. í Keflavík; á Hvallátrum og innan Hlaðseyrar.  Þó ekki sú sem er á Hnjóti.  „Þar, neðst í túni; niður við lækinn, er Helguþúfa“ (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).

Heljarbasl / Heljarinnar basl (n, hk/ orðtak)  Mikil vandræði; miklir erfiðleikar; roknabasl.  „Það var heljarbasl að ná netinu inn, með skít og öllu saman“.  „Við lentum í heljarinnar basli með að koma Bæjarbónda niður af Bæjarvellinum aftur.  Það endaði með því að hann var látinn síga niður í hnipri; með harðlokuð augun“.

Hella úr eyrunum (orðtak)  Halla undir flatt. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Hellirigna (s)  Rigna mjög mikið; mígrigna.  „Fjári er hann að ljókka hratt; ég gæti trúað að hann yrði farinn að hellirigna strax um hádegið“.

Hellublað / Hellubleðill (n, kvk)  Lítil grjóthella.  „Við röðuðum hellublöðum varlega ofaná eggjabyrgið“  „Tófugildran á Gildruásnum ofan við Hjallana, heima við túnið í Sauðlauksdal, var miklu eldri og vandlega hlaðin úr völdu grjóti.  Þar lá agnið á tveim hellubleðlum uppi í turninum.  Ef vigt agnsins var létt af bleðlunum, féllu báðar lokurnar niður, svo dýrin lokuðust inni“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Helluhlaðinn (l)  Hlaðinn úr hellusteinum.  „Uppi á Stórafellinu er listilega gerð varða; helluhlaðin eftir Guðbjart Guðbjartsson hleðslumeistara á Láganúpi.  Varðan er lík sigurboganum franska, en tekur honum fram um margt.  Neðantil eru tvær ferkantaðar súlur hlið við hlið; ofaná þær báðar er lögð stór hella og síðan hlaðinn þykkur bálkur ofaná hana.  Öll hleðslan er svo regluleg og snyrtileg að undrum sætir.  Sé horft í gegnum gatið á vörðunni, vísar það í átt til Grunda og Láganúpsvers.  Hleðsluefnið er nærtækt, því stutt frá er hið forna hellutak Láganúpsmanna í Stórafelli“.

Hellumálun (n, kvk)  Listmálun á grjóthellur.  „Listakonan Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi (f.1930) er sú eina sem stundað hefur hellumálun  á Íslandi, svo vitað sé“.

Hellumálverk (n, hk)  Málverk á grjóthellur.  Eftir Sigríði á Láganúpi liggja fjöldamörg hellumálverk“.

Helmótt / Gráhelmótt / Móhelmótt (l)  Litur á sauðfé; Hvítt á skrokkinn en með svartan/gráan/mórauðan haus, afturfyrir eyru.  Næði dökki liturinn niður á hálsinn var ærin höttótt.

Helsishnútur (n, kk)  Hnútur til að hnýta helsi þannig að ekki herði að, en fljótlegt sé að losa.  Hann er þannig að á enda bandsins er hnýttur einfaldur hnútur, en í hæfilegri fjarlægð (eftir svírastærð) er annar einfaldur hnútur sem hinum er smeygt í gegnum.  Þannig voru t.d. kýr bundnar á bása. 

Herjansári (l)  Áhersluorð; milt blótsyrði:  „Þetta er bara herjansári góður hákarl“.  „Herjansári var að gleyma vasahnífnum heima“! 

Herjansárimikill (l)  Mjög /hrikalega/æði stór/mikill.  „Það var herjansárimikill skaði að missa hrútinn“.

Herjansauli / Herjansþrjótur (n, kk)  Blótsyrði af mildari gerðinni um mann.  „Mér sýnist að þessir herjansaular hafi skilið eftir opið hliðið og allt pumpuliðið sé komið inná “!  „Sá herjansþrjótur skal fá að heyra sitt skírnarnaf þegar ég hitti hann næst“!

Herjansekkisen (u)  Blótsyrði/upphrópun í vægari kantinum.  „Eru nú ekki herjansekkisen kálfarnir komnir allir inn í rabbabaragarðinn“!

Herlegheita (ao)  Dýrindis; öndvegis.  „Þau gáfu mér þessa herlegheita ljósakrónu í afmælisgjöf“.

Hestabrúk (n, hk)  Notkun hesta.  Hestabrúk var nokkuð í Útvíkum fyrr á tíð, þó ekki nýttist þessi þarfasti þjónn eins vel þar og víða annarsstaðar.  Ástæða þess voru einkum hið grýtta og klettótta landslag, sem torsótt er yfirferðar á hestum, auk þess sem samgöngur fóru að verulegu leyti fram á sjó.  Þá voru tún fæst tæk með hestaverkfærum eftir að þau urðu almenn.  Hinsvegar nýttust hestar vel til flutninga á heyi, mó og fleiru heimavið, og skreiðarflutninga sumra vermanna.  Menn fóru oftast gangandi milli bæja, þar sem það var oftast fljótlegra, og fé smöluðu menn á göngu og hlaupum.  Reiðhestar voru til á mörgum bæjum í Rauðasandshreppi, einkum á Rauðasandi, en mest var um áburðarhesta.

Hesthúsið á Hólum (n, hk, sérn.)  Þó hér séu almnnt ekki tilgreind sérnöfn, þykir rétt að tilgreina hér hesthúsið á Hólum í Láganúpslandi; þar sem fremur er um merkan fornmun að ræða en hvert annað hús.  Hesthúsið á Hólum er lítill gluggalaus, steinhlaðinn torfkofi með skammbitasperrum og helluþaki; um 7 m² að flatarmáli, og stendur efst í Hólatúni; vestast í Kollsvíkinni.  Hesthúsið er merkilegt af þeim orsökum að það er langsamlega elsta bygging á Íslandi til atvinnunota, sem verið hefur undir þaki og í samfelldri notkun frá upphafi.  Það tilheyrði kotbýlinu Hólum sem byggðust úr Láganúpsjörðinni um 1650 og var eflaust byggt þá.  Hóla og fleiri kotbýli lét jarðareigandinn, sem þá var Saurbæjarveldið, byggja til að tryggja formenn á skip sín í Láganúpsveri.  Hólar fóru líklega í eyði um 1707 þegar Stórabóla geisaði.  Hesthúsið hfur líklega alltaf verið notað ýmist sem hesthús eða fjós, framundir miðja 20. öld.  Eftir það var það notað sem reykkofi.  Unnið hefur verið að viðgerðum á því á síðustu árum.

Hevítamikill / Hevítansárimikill (l)  Mjög stór/mikill.  „Við fengum hevítamikinn lax í grunnendann á rauðmaganetinu“.  „Hér hefur hevítansárimikill steinn rúllað niður á veginn“.

Heykarfa (n, kvk)  Karfa sem notuð er til að bera hey.  Oftast voru þetta tágakörfur sem rekið höfðu á fjörur, en í seinni tíð plastkörfur.  „Þarna fann ég prýðisgóða heykörfu rekna“.

Heykort (l)  Tæpur með heyfeng.  „Eitt sinn þegar ég var vinnumaður hjá Ólafi heitnum Ásbjörnssyni í Botni, þá hafði verið sprettuleysissumar, svo hann var heykort um haustið“  (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn Guðmundar Jónssonar).

Heymosk / Heysalli (n, hk/kk)  Mjög fíngert hey; fræ og rusl úr heyi.  „Gættu þess að ekki hrynji heymosk niður á lugtina þegar þú berð föngin á jötuna“.  „Það er útilokað að bera þennan heysalla í föngum, ég þarf körfu“.

Heyrnarleysi / Heyrnarskortur / Heyrnartregða (n, hk/kk)  Slæm heyrn.  „Það er helst að heyrnarleysið sé að baga mig í seinni tíð“.  „Skelfingar heyrnarskortur er þetta í strákunum þarna uppi í hornabúi“!  „Ég þarf víst að fara að huga að heyrnartæki ef þessi heyrnartregða ágerist“.

Héðanaf / Héðanífrá ( ao)  Héðan í frá; frá þessum tíma; úr þessu.  „Héðanaf mun ég vara mig á þessum ansvítans hvítlauksréttum“.  „Þessu verður ekki breytt héðanaf“.  „Héðanífrá verður þessu breytt“.  Héðan af er venjulega ritað í tveimur orðum, en notkun þess og áherslur vestra voru með þeim hætti að réttara er að telja þetta eitt samrunaorð, líkt og t.d. „alltaf“ og „héðanífrá“.

Héðanfrá (ao)  Héðan.  Oftast í setningum þar sem getið er um áfangastað.  „Héðanfrá og inn á Patró er um sextíu kílómetra akstur“.

Héðanfráséð (l)  Séð frá þessu sjónarhorni; séð héðan.  „Héðanfráséð virðist þetta vera í lóði“.

Héraháttur (n, kk)  Gunguháttur; ninnuhræðsla; heigulsháttur.  „Mér finnst það mikill héraháttur að þora ekki að standa upp á fundum og segja sína meiningu“. 

Hilluþræðingur (n, kk)  Gata sem liggur eftir hillu/syllu í bjargi og er fær mönnum og fénaði.  „Um Takaklett liggur hilluþræðingur úr Hryggjunum norður á Trumbur; ágætlega fær flestum“.

Himinánægja (n, kvk)  Mikil ánægja/gleði.  „Ég heyrði að það hafi ekki ríkt nein hininánægja með þetta“.

Himnaríkisblíða (n, kvk)  Alger kyrrð í veðurfari og mjög bjart í veðri.  „Þvílík himnaríkisblíða; dag eftir dag“!

Hindranalítið (l)  Með fáum hindrunum; án teljandi erfiðleika.  „Tófan fer um allt bjargið, hindranalítið“.

Hingaðkominn (ao)  Kominn hingað.  „Hingaðkomið kostar þetta mun meira en í borginni“.  „Hingaðkominn hóf hann fljótlega að beita sér fyrir ýmsum framfaramálum“.

Hippsumhapps (n, hk) ( Áhersluorð) Tilviljanakennt; með höppum og glöppum; undir hælinn lagt; hér og þar; við og við.  „Það verður að vera regla á mjöltumNytin minnkar ef þær eru bara hippsumhapps“.   „Hentu ekki af þér fötunum hippsumhapps um allt hús, drengur“!  „Það er erfiðara að smala í svona góði tíð.  Féð er hippsumhapps upp um öll fjöll“. 

Hirðingaveður (n, hk)  Veður sem nýtist til hirðingar á heyi.  „Nú þyrfti að bæta á votheysgryfjuna í dag, en það er á mörkunum að þetta geti talist hirðingaveður.  Við skulum sjá hvort hann þornar til seinnipartinn“.

Hirðuleysislega (ao)  Án umhirðu; í reiðuleysi; kæruleysislega.  „Óttalega er hann hirðuleysislega til fara“.

Hissa sig (orðtak)  Furða sig; undrast.  „Menn skyldu ekkert hissa sig á því þó þessi ríkisstjórn yrði fallin áður en veturinn er úti“.  „Ég var að hissa mig á því að féð væri ekki komið heim, en þá lá það á bakvið húsin“.

Hitastigulsorka (n, hk)  Eitt form sjávarorku; notkun hennar felst í því að virkja mun á hita hlýrra yfirborðslaga sjávar í hitbelti jarðar og kaldari djúpsjávar, með sömu tækni og notuðer í varmadælum.   Nokkrar tilraunavirkjanir hafa verið prófaðar en ekki er í augsýn að tæknin verði hagkvæm eða almenn í nánustu framtíð.  Slíkar virkjanir koma líklega aldrei til álita við Ísland.

Hitastigulsvirkjun (n, kvk)  Virkjun/tæki sem umbreytir hitamismun lagskipts sjávar í raforku.  Nýyrði tekið í notkun af VÖ frá Láganúpi, en síðar notað m.a. af Alþingi í grg með þtl um sjávarorku (samþ. vor 2014).

Hjallabrysti (n, hk)  Lág gróin klettabrík í aflíðandi brekku.  Brekkurnar uppúr Keflavík beggja vegna eru brattar.  Hjallabrysti og klettar eru í þeim víða, en ekki torfærur“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Hjallakast (n, hk)  Slitróttir klettahjallar.  „Upp úr Hvamminum er Hvammsgil og neðan við gilið eru hjallaköst með grasblettum sem heita Maríublettir“  (KJK; Örn.skrá Tungu).

Hjallaklasi (n, kk)  Margir klettahjallar á sama svæði.  „Hjallaklasi heim af Vandardal heitir Nónhögg“  (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).

Hjallamót (n, hk, fto)  Ógreinileg hjallaköst.  „Í hlíðinni eru hjallar og hjallamót“  (KJK; Örn.skrá Tungu).

Hjallslá (n, kvk)  Hjalltré; burðarviður sem liggur láréttur milli hjallstólpa, en á slánum hvíla rárnar/hjallrárnar.  Hjalltré var almennt notað um þetta meðan slár hvíldu á steinstólpum,enda þá oft úr grönnum ósöguðum trjábolum, en oftar var talað um hjallslá eftir að hersla hófst í lokuðum hjöllum.  (Sbr. grindaslá).

Hjallspíra (n, kvk)  Rá sem hengt er uppá í hjalli; hjallrá.  „Það þyrfti að fjölga hjallspírunum“  Orðið var notað til jafns við hjallrá vestra.

Hjaltadraugurinn (n, kk)  Einhenti draugurinn; draugur í Rauðasandshreppi.  Hjaltadraugurinn var þannig tilkominn að Hjalti Þorgeirsson (d. á Sjöundá 1917) reri undir Jökli um 1860.  Þar átti hann glímu við hrotta nokkurn sem beið lægri hlut og hafði í heitingum við Hjalta.  Mörgum árum síðar var Hjalti fjármaður í Saurbæ og varð þá eitt sinn fyrir árás draugs  er hann var að reka fé til beitar.  Eftir mikinn bardaga tókst honum að vinna á draugnum, enda vantaði á hann annan handlegginn.  Vorið eftir fór Hjalti á vertíð út í Kollsvík.  Á þeim tíma rak lík af stórvöxnum manni á Melanesi, og vantaði á það annan handlegginn.  Þótti Hjalta þá ljóst hver draugurinn hefði verið.  Er líkið var jarðað í Saurbæ fór Hjalti við jarðarförina.  Áður en mokað var yfir náði hann í steinhellu mikla og lagði hana þversum ofaná kistuna, með þeim orðum að nú myndi þessi liggja þar sem hann væri kominn.  Ekki varð hann draugsins var eftir þetta.  (Endurs. úr bók MG; Úr vesturbyggðum Barðastrandasýslu).

Hjararbrotinn (l)  Um hurð, glugga, kistulok o.fl; með brotna löm; hangir á einni löm; lamaður.  „Gætta að þegar þú opnar hurðina á syðsta karminum; hún er hjararbrotin að ofanverðu“.

Hjartagrafa (s)  Um viðarhögg til kolagerðar; grafa upp rætur trés.  „Ef gert var til kola þótti lélegt að nota stöngla og lim; úr því varð ekki mikil kol.  Því þótti nauðsynlegt að frafa eftir miðhnúti runnarins, sem nefndist að „hjartagrafa runnana“.  Fengust þá meira en 2/3 kolanna úr því er var undir sverðinum“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Hjasl (n, hk)  Úrgangur; léleg beit fyrir fé.  „Það er nú lítið eftir á fatinu annað en hjaslið“.  „Það er rétt að vísa fénu niður í fjöru; það gæti haft eitthvað hjasl í sig“.

Hjassa (s)  Um dýr; gera þarfir sínar.  Einkum var þetta notað um það þegar fresskettir þurftu að merkja með því að míga utan í hluti eða húsveggi.  „Er nú kattarfjandinn búinn að hjassa í póstpokann“?

Hjastra (s)  Tæta/spæna niður; kroppa óreglulega í.  „Sagaðu nú sviðahausana úti; það er óþarfi að hjastra þetta niður í anddyrinu“.  „Árans músin hefur komist að bjúgunum og var búin að hjastra í endann“.

Hjástöðudrýli (n, hk)  Lítil hjástöðuvarða.  „Á hjallanum hemanvið lautina má sjá hjástöðudrýli“.  Sjá vörðudrýli.

Hjástöðuvarða (n, kvk)  Varða sem hlaðin er meðan menn standa yfir fé/ halda fé til beitar.  „Vörðum í grennd við Kollsvík má skipta í fjóra flokka:  Vegavörður standa við hestavegi og hafa það hlutverk að víla mönnum leiðina, jafnvel þó vegurinn sé undir snjó.  Þau mannvirki eru oft vönduð og urmull er af þeim við vegina.  Miðavörður eru hlaðnar þar sem þörf er á, til að miða fiskimið, sjóleið eða innsiglingu.  Dæmi um slíkar vörður eru t.d. Stekkavarðan á Strengberginu (fiskimið); Grynnstasundsvarða á Blakknesi (sjóleið) og Snorravörður á Leirunum (innsigling).  Eyktamarkavörður eru hlaðnar til að marka framvindu dagsins; eyktirnar.  Dæmi um slíka vörðu er Nónvarðan, ofan Brunnsbrekku.  Hjástöðuvörður voru hlaðnar þar sem staðið var yfir fé, meðan því var haldið til beitar.  Gerðu menn þetta oftast meira sér til dundurs og til að halda á sér hita, en til gagns.   Þannig vörður má víða sjá, t.d. Strympuvörðurnar ; vörðu við Pálslautina og vörðu í Sandslágarkjafti“ (VÖ). 

Hjátrúarkjaftæði / Hjátrúarrugl / Hjátrúarþvæla (n, hk/kvk)  Álit þeirra á hjátrú sem ekki telja sig haldna henni.  „Vertu nú ekki að halda þessu hjátrúarkjaftæði að stráknum“!

Hjólatrilla (n, kvk)  Lítil kerra sem ýtt er með handafli, oft með fjórum litlum hjólum.  „Vörurnar eru fluttar á hjólatrillu af lager fram í búðina“.

Hjólbörugrýtur (n, kvk, fto)  Niðrandi heiti á litlum hjólbörum.  „Hjalti kvað mikinn mun á þessu verkfæri og hjólbörugrýtunum“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Hjólbörukassi / Hjólbörukjálki / Hjólböruhjól (n, kk)  Meginhlutar á hjólbörum; kassinn sem í er látið og slárnar sem bera hann uppi, frá og með handföngum fram á hjól.  „Hjólbörukassinn er orðinn fjári lélegur“.

Hjónabandserfiðleikar (n, kk, fto)  Óhamingja í hjónabandi.  „Einhverjir hjónabandserfiðleikar ku vera komnir upp á því heimili“.

Hlammast (s)  A.  Detta; falla.  „Hann hlammaðist á rassinn á svellinnu“.  B.  Ganga þunglamalega; hlunkast.  „Ætli það sé ekki rétt að hlammast og sækja þessar letibykkjur sem skiluðu sér ekki heim“.

Hlaða í brand (orðtak)  Um hleðslu steinhlaðins húss; hlaða gafl húss í strýtu; uppundir mæni/mæniás.  „Hesthúsið gamla er hlaðið í brand í báða gafla þó ekki hafi verið á því ásaþak, a.m.k. ekki í seinni tíð“.

Hlandauli (n, kk)  Bjáni; vitleysingur.  „Það er nú svosem ekki hægt að búast við neinu gáfulegra frá þessum hlandaula“! 

Hlandbragð / Hlandkeimur (n, hk/kk)  Slæmt bragð/keimur, t.d. af ofþroskuðum eða frosnum krækiberjum.  „Mér finnst kominn dálítill hlandkeimur af berjunum“.

Hlandbuna /  Hlandspræna (n, kvk)  Buna hlands þegar migið/pissað er.  „Það má gá að sér þegar maður fer fyrir hornið, að lenda ekki í hlandbununni frá karlinum“!  „Það kemur ekki svo mikið sem hlandspræna úr þessari slöngu“!

Hlandklossar (n, kk, fto)  Of stórir skór; illa útlítandi skór.  (E.t.v. má rekja upprunann til þess þegar kaupstaðarskór fóru fyrst að verða almenningseign og sumir völdu þá að hafa þá vel rúma svo fleiri gætu notað þá.  Gamansamir hefðu síðan bent á að skórnir væru svo rúmir til að míga mætti í þá til að halda á sér hita.  Heitið hafði færst yfir á alla illa útlítandi skó þegar ég heyrði það notað. VÖ.)  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Hlandkollublettur (n, kk)  Lítið svæði.  „Hvaða skynsemi skyldi nú felast í því að hrúga allri þjóðinni á einn hlandkollublett við Reykjavíkurtjörn“?!  Orðið hefur lengi verið notað í Kollsvík.  Gæti vísað til þess að vel grænkar á þeim bletti þar sem vanalega er skvett úr næturgagninu.

Hlandsprengur (n, kk)  Asi; mikill flýtir.  „Ég sá rolluskrattann stökkva inn í garðinn og hljóp í einum hlandspreng“.  „Við vorum í hlandspreng að heyja fyrir rigninguna. 

Hlandsprettur (n, kk)  Mjög hraður hlaupasprettur; áríðandi sprettur.  „Ég hljóp í hlandspretti og náði að loka hliðinu áður en rollufjandinn kom að því“.  „Þarna kemur hann hlaupandi á einhverjum hlandspretti“.

Hlandvitlaus (l)  Skelfilegur auli; algjör hálfviti.  „Mikið andskoti getur manngrýlan verið hlandvitlaus; heldurðu að hann leggi ekki meðfram landinu; þvert yfir öll net hjá öðrum“!

Hlandþró  / Hlandfor (n, kvk)  Forarþró; kjallari undir eða framanvið fjós til að safna hlandi, sem síðan er oft nýtt sem áburður á tún.

Hlaupalega vaxinn (orðtak)  Líkamlega vel fallinn til að hlaupa; grannur og háfættur.

Hlákuspá (n, kvk)  Spá um hlýindi/þýðu þegar allnokkur snjór er á jörð.  „Ætli það sé ekki rétt að moka aðeins frá húsunum, ef þessi hlákuspá skyldi fara eftir“.

Hlátraskellir / Hlátrasköll (n, hk, fto)  Háværar hlátursrokur. „Ég er dálítið þreyttur á að hlusta á þessa bjánalegu hlátraskelli þegar maður er að segja frá háalvarlegum málefnum“!   „Kollsvíkingar hafa löngum verið víðfrægir fyrir sinn Kollsvíkurhávaða, en hluti af honum eru dynjandi hlátrasköll í góðra vina hópi“.

Hláturskrimt (n, hk)  Bældur/lágvær/innilokaður hlátur.  „Heyra mátti hláturskrimt frá Marinó ofanúr kojunni þegar Ívar sagði skippersöguna“.

Hleðsluhella (n, kvk)  Steinhella sem heppileg er til vegghleðslu; þykk steinhella með góðum kanti.  „Þarna í Jökladalshæðinni er allmikið hellutak, en þó aðallega hleðsluhellut“.

Hleinabreiða / Hleinafláki (n, kvk)  Samfelldar hleinar sem ganga út frá strandlengju.  „Á þessari leið er samfelld heinabreiða fyrir framan Rifið, en misjafnlega breið...“ (ÞJ; Örnefnaskrá Hvallátra).  „Sunnanvert við Vogana er Straumsker; talsverður hleinafláki“.

Hleinarbrún (n, kvk)  Brún/kantur á hlein.  „Talsvert dýpi er í um 80 – 100 metra fjarlægð frá landi um flóð, en þar snargrynnir á hleinarbrún sem kemur upp um hverja fjöru“  (KJK; Kollsvíkurver).

Hlekkjaslit (n, hk)  Slit/bilun á hlekkjum í snjókeðju bíls.  „Ekki vera að spóla í þessu; ef bíllinn dregur til hjól, þá þýðir það bara hlekkjaslit og vesen“.

Hlekkjaslitinn (l)  Um bilaðar snjókeðjur á bíl, þannig að þverhlekkir eru slitnir og berjast upp í hjólskálina.  „Hér fór einhver hjá rétt áðan á fullri ferð; hlekkjaslitinn og með ferlegum hávaða“.

Hlemmifæri (n, hk)  Mjög góð færð/greið leið.  „Það er hlemmifæri yfir háhálsinn en kolófært í Brekkunum“. 

Hlerahringur (n, kk)  Hringur i hlera, sem tekið er í til að opna hlerann.  „Veriði nú ekki að skrölta í hlerahringnum strákar“!

Hlerunartakki (n, kk)  Takki sem var á sumum símtækjum, til að rjúfa samband við taltrektina en halda um leið sambandi við heyrnartólið.  Með því mátti hlera samtal á línunni án þess að heyrðist frá þeim sem hleraði.

Hlessa sig (orðtak)  Undrast; furða sig.  „Það þýðir víst lítið að hlessa sig á þessu; svona er það víst“.

Hleypibotn (n, kk)  Botn á hripum, sem unnt er að opna og hleypa þannig noður innihaldinu í hripunum án þess að taka þau af klyfberanum, en í hripum var t.d. borið tað eða rask á tún; fiskur eða annað.

Hliðarbremsa (n, kvk)  Bremsa á farartæki/vinnuvél sem hemlar á annarri hliðinni.  „Gamli Farmall A var með tveimur bremsupedölum; hliðarbremsum.  Þannig að hemla mátti á öðru afturhjóli óháð hinu og þannig hafa betri stjórn á vélinni við vissar aðstæður.  Pedölunum mátti læsa saman með spaða, þannig að báðir ynnu saman ef stigið var á annan“.

Hliðardilkur (n, kk)  Dilkur/stía í fjárrétt, til hliðar við stærri dilk eða almenning.  „Við drögum líflömbin hér inní hliðardilkinn“.

Hlíðafé (n, hk)  Sauðfé sem gengur á Hænuvíkurhlíðum; hlíðagengið fé.  „Alveg sker það sig úr, hlíðaféð“.

Hlíðagengið (l)  Um kind/lamb; hefur verið/gengið yfir sumar í gróðursælum hlíðum; hlíðafé.  „Það er ekki að undra þó þær hlíðagengnu skili góðum fallþunga ár eftir ár; í sílgrænu kafgrasi allt sumarið“!

Hlíðarjaðar (n, kk)  Hlíðarrætur; hlíðarfótur; neðsti hluti hlíðar.  „Mér tókst að laumast með hlíðarjaðrinum; framfyrir kindurnar, og hóa þeim niður dalinn“.

Hlutgengur / Hlutgildur (l)  Verður þess að fá heilan hlut í aflaskiptum.  „Ég var að vísu ekki hlutgildur, en átti það sem ég náði.“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Hlýrarek (n, hk)  Þegar hýra rekur á land í stórum stíl.  Um það finnast þó ekki aðrar heimildir en þessi;  „Ennfremur ber að geta þess að á útmánuðum, þegar ís fór með landi, hafði alltaf þó nokkuð hlaupið á land, oft lúða, þó nokkur björg, og var þessa reks miklu betur gætt en áður fyrr, til dæmis hlýrareks í Útvíkum í góustraumunum (góuginum), en af þeirri fisktegund einni voru stundum stærðarkasir á Hvallátrum og Breiðavík...  Með komu togaranna, svona um og eftir 1890, hurfu þessi hlunnindi (hlýrarekið) með öllu.  Hlýrinn virtist koma upp að ströndinni samtímis eða með silungstegund er gekk í árnar á mótum febr, og marsmánaðar.  Gengu torfurnar þétt með landi.  Ef stórbrim var á, varð hlýrinn fyrir því að sandur fór í tálknin svo að hann barst með brimöldunni á land.  (Sögn Sigmundar Hjálmarssonar, en hann var í Breiðavík árin 1860-1868.  Hann fór sjálfur síðast í hlýrafjöru í Skápadal og Vesturbotni 1882...með þrjá hesta klyfjaða.. en af Brúðgumaskarði mátti sjá til 10 hestalesta, ýmist á leið í Útvíkur eða á heimleið).  Þetta er ein af mörgum matarholunum í Rauðasandshreppi til forna, sem gerðu almennan sult þar nær óþekktan...“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Hlöðubora / Hlöðugrýta (n, kvk)  Lítil/þröng hlaða.  „Hlöðuboran tók ekki mikið, svo á miðjum vetri varð hann að bera heyið í pokum úr stærri hlöðunni“.  „Hann er nú fljótur að fylla þessa hlöðugrýtu“.

Hnaka (s)  Um bát; taka niðri.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Hnakkaroð (n, hk)  Roð af fremri hluta steinbíts, sem notað var til að reka í skó.  „Síður rifnaði út úr varpinu á skóm skó úr hnakkaroði en dylluroði“ (sjá roðskór).

Hnakkmiði /  Hnappmiði / Drekahnakki (n, kk)  Dufl/ból sem fest er með færi í hnakka akkeris/dreka, til að unnt sé að ná því upp ef það festist eða ef legufæri/stjórafæri slitnar.  Hnappmiði er sennilega hljóðbreyting á orðinu hnakkmiði sem er gamalt í málinu.  Líklega hefur það fyrrnefnda verið meira notað í Útvíkum.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimildir ÞJ og RÍ). 

Hnalla niður (orðtak)  A.  Um bát; taka niðri; hnaka.  B.  Slá niður staur með sleggju/hnalli.

Hnausagaffall / Hnausakvísl (n, kk)  Áhald/amboð sem ætlað er til að taka upp hnausa af jarðvegi/taði/mó og lyfta þeim um set; stutt sterk kvísl með mörgum álmum; rúnnuðum eða flötum, og oft höldu á skaftendanumHneykslunargjarn (l)  Vanur/gjarn á að hneykslast/ofbjóða.  „Kjósendur hérlendis eru ekki eins viðkvæmir og hneykslunargjarnir gagnvart sínum þingmönnum og erlendis tíðkast“.

Hnédýpt (n, kvk)  Dýpt vatns/sjávar/snjóa; nær uppá hné á vöxnum manni.  „Það er allmikill snjór kominn víða á leiðina, og nær sumsstaðar hnédýpt“.  Annarsstaðar virðist þekkt hnédýpi.

Hnikað (l)  Fært örlítið; mjakað.  „Hann var harðákveðinn í þessu; hans ákvörðun varð ekki hnikað“.

Hnikra (s)  Hnika; færa/mjaka örlítið til.  „Getum við ekki hnikrað stóra steininum örlítið, svo hann verði betri undirstaða í veggnum“?

Hnjóska (n, kvk)  Hnútur; hnýði; ójafna.  „Fóturinn greri eftir brotið en eftir sat þó greinileg hnjóska“. 

Hnífadrægt (l)  Um siglingu; miðar ekki áfram vegna veðurs/straums; tommar ekki á móti veðrinu.  Sögnin „ódrægt“ og „mótdrægt“ var þekkt annarsstaðar um barning móti straum-/vindreki en í Kollsvík virðist sambærileg lýsing vega „hnífadrægt“ þegar ekki gekk meira en hnífsblaðsþykkt í hverju áratogi.  Hvorugt orðið heyrðist í seinni tíð að frátöldu þessu hljóðdæmi:  „ Þeir fóru af stað í ágætis veðri; voru komnir á mið og búnir að fá einhvern lítilsháttar fisk.  Þá setti á suðaustan moldbyl og hvassviðri, og það var alveg hnífadrægt í land. Þeir fóru nú af stað og reyndu að berja á móti veðrinu.  Þá var báran strax svo mikil að báturinn varði sig ekkert.  Þá tóku þeir það ráð að sigla og ætluðu að reyna að hitta á Kópinn.  Það var eina landvonin hjá þeim.  En þegar þeir höfðu litla stund siglt þá sjá þeir enskan togara...“  (TÖ; upptaka á Íslmús 1978; um sjóhrakninga Valdimars bróður hans og þriggja annarra).

Hnífbrók (n, kvk)  Bredda; stór hnífur.  „Ég þyrfti að fara að brýna þessa hnífbrók, hún er alveg hætt að bíta“.

Hnífkutti (n, kk)  Gæluorð yfir hníf; stuttur hnífur.  „Réttu mér hnífkuttann“.

Hnoðskáld (n, hk)  Fremur lélegt skáld; skáld sem þvingar vísu í formið, þannig að úr verður leirburður/hnoð.

Hnoðsnjór (n, kk)  Troðslusnjór.  Snjór sem klessist saman undan þrýstingi.  Hnoðsnjór er vinsæll hjá börnum í snjókarlagerð, snjókast o.fl.  Með leikni má aka bíl í nokkuð þykkum hnoðsnjó; hæfilega þéttum, og um hálsa og hlíðar í Rauðasandshreppi óku menn oft mánuðum saman á þannig brautum, sem oft voru utan vega.

Hnusast í (orðtak)  Frýnast í; snuðra í; garfa í; inna eftir.  „Ég hef verið að hnusast í þessu máli að undanförnu, og komist að ýmsu merkilegu“.

Hnutla (s)  Mjólka kú; einkum þegar lítið er í henni eða í lok mjalta; tutla; hreyta; totta.  „Ætli það verði nú ekki að hnutla eitthvað úr henni núna þó hún sé alveg að geldast“.

Hnútasnæri (n, hk)  Snæri/lína/band alsett hnútum; snærisflækja.  „Skelfilega leiðist mér þetta hnútasnæri sem hann notar til að loka hliðinu“.

Holalda (n, kvk)  Stórt brot; holskefla.  „Skipið rak upp að svokölluðum Bjarnaboða sem er þarna frammi á Læginu.  Þar tók sig upp mikil holalda og hvolfdi skipinu.  Fórst það með allri áhöfn“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi). 

Holklakaskán / Holklaki (n, kk)  Klakaskán á lofti yfir ófrosnum jarðvegi; stafar af því að vatn þenst út þegar það frýs í jarðvegsyfirborði, svo það lyftist.  Veldur vanalega einhverri bjögun í yfirborðinu, því þegar frostið fer úr nær jarðvegurinn sjaldnast að setjast í sömu skorður.  Holklaki getur myndast í túnum á vorin og valdið slæmum kalskemmdum.  „Hún er leiðinleg þessi holklakaskán á aurholtunum, þegar hún brotnar undan fæti“.

Hollning (n, kvk)  Útgangur; verkun; ástand.  „Hverskonar hollning er eiginlega á þér krakki?!  Dastu ofan í drullupoll, eða hvað“?  „Þetta var ljóta hollningin; kýrnar komnar í garðinn og búnar að eyðileggja rófubeðið“!  Nokkuð notað framá síðustu ár.  Stytting á behollning (d. beholdning), sem einnig var notað.

Holtagirðing (n, kvk)  Svæði með miklu af holtum, sem umlykur sléttara svæði.  „Upp af Nautholti er graslendi, nefnt Balar, en upp frá því er holtagirðing; kölluð einu nafni Holt (ft)“  (GT/VT; Örn.skrá Kollsvíkur). 

Holtarönd (n, kvk)  Jaðar á holtasvæði.  „Holtabörð hét holtaröndin, þar sem mýrarnar tóku við“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Holukargi / Holukraðak  (n, kk/hk)  Mjög holótt svæði; bílvegur með þéttum holum.  „Skyldu þeir ekkert ætla að hefla þennan andskotans holukarga allt sumarið“?!

Holugrjót / Holusteinn (n, hk)  Holótt grjót/berg; steinn úr slíku bergi.  Á Hnífaflögu og Grófum er mikið um sérkennilega holótt berg.  Í því er mjúkt berg á milli harðari æða.  Selta, frost og stormur ná með tímanum að mylja og blása út lina berginu, svo úr verður hið furðulegasta holuberg með misstórum holum og skilrúmum á milli þeirra; oft næfurþunnum.  Birta og skuggar fullkomna svo enn frekar þessi listaverk; og köngulóin með sína vefi.  Víða má finna samskonar berg, t.d. undir Hryggjum, en hvergi eins tilkomumikið og á Hnífunum.  „Ansi fannstu þarna laglegan holustein“!

Horbykkja (n, kvk)  Horrytja; horrolla; horlæpa; horgrind; mjög horuð kind; kind sem er að falli komin úr hor.  „Ég get varla verið að setja þessa horbykkju á einn vetur enn, þó hún hafi skilað þokkalegum lömbum núna“.

Horket (n, hk)  Ket af mjög horaðri kind.  „Þetta horket er ekki mannamatur; ekkert nema ólseigar sinar“. 

Horlæpa (n, kvk)  A.  Horbykkja; horgrind; mjög mögur kind.  B.  Mjög horuð grásleppa  „Það er nú eitthvað annað að taka innan úr þessum nýgengnu grásleppum en horlæpunum sem fyrir voru“.

Hornafé (n, hk)  Leikfang í hornabúi; horn af hrútlambi notuð sem kindur.  „Þar var hornafé, kjálkakýr, leggjahross og völuhænsn“  (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms). 

Hornaflækja (n, kvk)  Um það þegar hrútar festast saman á hornum við það að kljást.  „Það hafði orðið hornaflækja hjá hrútunum, sem honum tókst að leysa úr“. 

Hornaklippur / Hornasax (n, kvk, fto/ hk)  Öflugar járnklippur með löngu átaksskafti, sem notaðar eru til að skella horn af hausum lamba og fjár eftir slátrun. „Öflugt hornasax var til í sláturhúsinu á Gjögrum“.

Hornakylfa (n, kvk)  Mjög stór horn á hrútlömbum.  „Kindinni gekk illa með burðinn, enda ekki furða; lambið var með hrikastórar hornakylfur“. 

Hornaskella (s)  Saga/klippa horn af sviðahaus.  „Ég hornaskelli ekki hausana strax, heldur læt fyrs standa salt í strjúpanum yfir nóttina“. 

Hornbinda (s)  Binda ær á hornum, t.d. meðan tekið er af henni (hún rúin) eða ef þarf að mjólka hana.  Þegar tekið var af, var hver rúningsmaður með sitt hornband á stólpa; helst á vegg en ekki í horni; bundið á miðju, þannig að endarnir voru lausir og jafnlangir.  Hyrndar kindur voru hornbundnar þannig að brugðið var sínum spotta útfyrir hvort horn um hornrótina; víxlað í kross á hnakka og útfyrir gagnstætt horn og síðan bundið saman á hnakkanum með lykkju.  Kindur á Láganúpi voru flestar hyrndar framundir það síðasta, en kollóttar ær þurfti að múlbinda.  Væri nægur mannskapur hélt einn í, meðan kindin var rúin.  Hrútar voru oftast bundnir í stíu sinni yfir veturinn, en það var þá með löghelsi en ekki hornbandi eða múl.

Hornflæktir (l)  Um hrúta; kræktir saman á hornum.  „Við fundum tvo hornflækta hrúta sem voru orðnir nokkuð aðþrengdir úr hungri“. 

Horngrýtisári (n, kk)  Milt blótsyrði/áhersluorð.  „Horngrýtsári langar mig að skreppa hérna fram á víkina núna; það er varla hægt að horfa uppá þetta blankalogn liggjandi í landi, þó nóg sé að gera í heyskapnum“.

Hornsílaveiðar (n, kvk, fto)  Veiðar á hornsíli til skemmtunar.  „Hornsílaveiðar hafa mikið veriðstundaðar af börnum í Kollsvík, einkum í Sandslágarvatni og Litlavatni“.

Hornstaur (n, kk)  Hornstólpi; staur í horni girðingar.  Hornstaur þarf að vera sterkari en aðrir staurar girðingarinnar og vel stagaður; enda strekkist girðingin á hann.

Hornstæði (n, hk)  Festing/staður horns á höfði hyrndra dýra.  „Sagaðu hornin ögn nær hornstæðinu svo minna fari fyrir sviðunum“.  „Ósköp er sérkennilegt hornstæði á þessari kú“.

Horól / Horólarsteinbítur (n, kk)  Mjög horaður steinbítur (LK; Ísl. sjávarhættir; eftir DE, ÁE og ÓTh). 

Horslubb (n, hk)  Hor/slím sem runnið hefur úr nefi.  „Þurrkaðu nú af þér mesta horslubbið drengur, og greiddu hárlubbann áður en þú ferð í sparifötin“.

Hólkast / Smáhólkast (n, hk)  Hóll sem gengur framúr öðru hálendi/hæðum.  „... og þar neðar er Mjóna, á smáhólkasti; kví úr grjóti“  (ÍÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).

Hóstapest (n, kvk)  Veikindi með hósta; hósti; kverkaskítur.  „Ég ætla ekki að smita þig af þessari hóstapest“.

Hóstafjandi (n, kk)  Skammaryrði um hósta.  „Ég er bara alls ekki orðinn góður enn af þessum hóstafjanda“.

Hraðdýpka / Hraðgrynna (s)  Um sjávardýpi; dýpka/grynnast hratt eftir því sem siglt/róið er.  „Við megum ekki leggja utar; hér fyrir framan snardýpkar við marbakkann“.  Oftar notað snardýpka/snargrynnast.  „Farðu nú að slá af; það hraðgrynnir hérna framundan rifinu“.

Hraðétinn (l)  Sem fljótlegt er að borða/éta.  „Bíddu bara rólegur meðan ég gleypi eitthvað í mig að borða; hann er nú ekki svo hraðétinn þessi harðfiskur“.

Hraðlestrarblað (n, hk)  Blað til prófunar í hraðlestri.

Hraðlestrareinkunn (n, kvk)  Einkunn sem gefinn er eftir próf í hraðlestri.

Hraðlestrarpróf (n, hk)  Próf í hraðlestri.  Til þessa verkefnis voru notuð sérstök hraðlestrarblöð frá Námsgagnastofnun ríkisns“.

Hraðversna (s)  Versna mjög hratt.  Einkum notað um veður, sjólag eða færð.  „Færðin er að hraðversna á þessum stað; ég átti í hálfgerðu basli á bakaleiðinni“. 

Hrafnagarg / Hrafnakrunk / Hrafnskrunk (n, hk)  Krunk í hrafni/hröfnum.  „Skrepptu nú  og athugaðu með þetta eilífa hrafnakrunk hérna uppi á Hjöllunum; þeir gætu verið að frýnast í afvelta kind“.

Hrafnager / Hrafnasveimur (n, hk/kk)  Hópur af hröfnum á flugi yfir ákveðnu svæði.  „Eitthvað finnst mér grunsamlegur þessi hrafnasveimur þarna frammi við Grænukeldu.  Ég ætla að rölta og athuga hvort þarna hafi farið ofaní“.

Hrafnsblóð  (n, hk)  Blóð úr hrafni. „Sagan segir að Steinunn á Sjöundá hafi verið svo kjarklítið barn að til vandræða horfði.  Henni hafi þá verið gefið hrafnsblóð og að það hafi átt að vera þrír dropar.  Sagan segir að henni hafi verið gefið einum eða tveimur dropum of mikið og á þann veg var fengin skýring á því sem seinna kom fram; þessum morðum á Sjöundá. Ég heyrði Vigdísi fóstru mína tala um þessi mál við aðra gamla konu úr ættinni.  Þær voru þó nokkuð trúaðar á svona“.  (EG; viðtal á Ísmús 1968)

Hraglandaskítur (n, kk)  Hryssingslegt/kuldalegt veður; hvasst með dálítilli úrkomu; oft í formi slyddu eða snjókomu.  „Það er hálfgerður hraglandaskítur“. 

Hrakningaferð / Hrakningaferðalag (n, kvk/hk)  Ferðalag með miklum hrakningum.  „Ekki var þurr þráður á okkur eftir þessa hrakningaferð“.

Hrakningsrekstur (n, kk)  Hrakningasamur sauðfjárrekstur.  „Ekkert lamb meiddist í þessum hrakningsrekstri, og heim komum við allir ellefu næsta dag“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Hratsía (n, kvk)  Grisja sem notuð er til að sía saft í gegnum þegar gerð er saft úr berjum.  Berin eru þá marin/hökkuð í graut og hratið síað úr.  Hratsían var síðan hengd yfir íláti um tíma meðan öll saft draup úr henni.  Á síðari tímum var notuð sérstök saftpressa á rafmagnshrærivél.

Hraustleikanáungi (n, kk)  Hraustur/öflugur maður; hreystimenni.  „Ekki veit ég hvað þessi nýi háseti heitir, en þetta virðist hinn mesti hraustleikanáungi“.

Hraustleikaskepna (n, kvk)  Öflug/hraust skepna.  „Ég kalla þessa tvævetlu nokkra hraustleikaskepnu ef hún hefur hjarað yfir veturinn á þessum stað“.

Hráaétinn / Hráétinn (l)  Fisk- eða fuglshræ sem marfló hefur étið allt hold úr.  „Við látum ekki net liggja lengi á þessum miðum; hér er allt hráaétið á skömmum tíma“. 

Hráagryfja (n, kvk)  Staður á miðum þar sem mikið er um hráa/marfló.  „Það þýðir ekkert að leggja hér grynnra á Bótinni; það er bölvuð hráagryfja“.

Hráalæpa / Hrákvikindi / Hráarusl / Hráaýlda (n, kvk/hk)  Heiti á grásleppu í neti sem hrái/marfló hefur lagst á og eyðilagt.  „Hér er hver hráalæpan við aðra; hér leggjum við ekki aftur“!  „Netin voru illa farin eftir norðanáhlaupið; upprúlluð og stoppuð af hráaýldu“. 

Hráaveita (n, kvk)  Mikið/haugur af hráa.  „Blessaður hentu þessum fiski strax útfyrir; hann er ekkert nema hráaveita“!

Hrákablautur (l)  Mjög blautur/votur.  „Það er vonlaust að setja heyið svona hrákablautt í gryfjuna.  Við látum síga af því á vagninum framá seinnipart dagsins“. 

Hrákaslumma (n, kvk)  Hrákaskammtur.  „Ekki vildi betur til en tóbakslituð hrákaslumman lenti á karlinum og klesstist öðrumegin á gleraugun.  Reyndar sögðu sumir að vel hefði verið miðað“. 

Hrákaslydda (n, kvk)  Blaut slydda; slydduél sem bleytir fatnað og fénað.  „Það þýðir ekkert að hafa féð úti í þessari hrákaslyddu“!

Hrákavinnubrögð (n, hk, fto)  Slæm vinnubrögð; illa unnið verk.  „Þarna hafði hefilstjórinn bara rutt í gegn án þess að ganga frá mokstrinum útfyrir kant.  Ég hef sjaldan séð slík hrakavinnuvrögð við mokstur“!

Hráslagagjóstur  / Hráslaganæðingur (n, kk)  Kaldur og rakur vindur, jafnvel með dálitlum rigningarslítingi eða slyddu; kaldur gegnumtrekkur í húsi.  „Búðu þig almennilega; það er kominn árans hráslagagjóstur“.

Hreðugangur (n, kk)  Hrakfarir; áföll.  „Var hann aftur að slasa sig?  Skelfilegur hreðugangur er þetta á manninum“!

Hreggkaldur (l)  Um nepju/ kaldan vind.  „Ári er hann hreggkaldur; ég held ég setji nú upp dembúlinn“.

Hreggnesi (n, kk)  Klettanef sem gnæfir þar sem vindasamt er.  Hreggnesi er örnefni á slíku nefi í norðari enda Hnífa.  Margir Hreggnasar eru á Íslandi, en enginn þeirra hefur tvö e í nafni sínu eins og sá í Kollsvík.  Án þess að fullyrt sé um hvor hátturinn sé upprunalegri, virðist hér vera um einstaka málvenju að ræða.

Hreinalygi / Hreinakjaftæði / Hreinaþvæla / Hreinaþvættingur (n, kvk/hk/kk)  Algerlega ósatt; ekki minnsti fótur fyrir; algert bull.  „Þessi flugufregn reyndist hreinalygi, við nánari athugun“.  „Það er bara hreinaþvæla að hann eigi einhvern þátt í þessu“!

Hreinasannleikur (n, kk)  Fullkominn sannleikur; staðreynd að öllu leyti.  „Ekki ætla ég að dæma hvort þetta er allt hreinasannleikur sem þarna stendur“.  Líklega dregið af hreinasatt.

Hreinasatt (l)  Dagsatt; alveg satt; staðreynd.  „Ekki veit ég hvort þetta var allt hreinasatt hjá honum, en einhver fótur var nú fyrir því“.  „Þetta er alveg hreinasatt sem ég er að segja þér“!

Hreinleita (s)  Leita af sér allan grun; leita allsstaðar.  „Kindurnar geta ekki verið í Vatnadalnum; ég er alveg búinn að hreinleita þar“.

Hreinmjólka (s)  Hreyta/totta alla mjók úr júgri kýr; mjólka kú að fullu, þannig að ekkert sé eftir í júgrum.  „Það er mikilvægt að hreinmjólka, svo júgurbólgufjandinn gjósi ekki upp aftur“.

Hreinmokað (l)  Búið að hreinmoka.  „Það er ekki alveg hreinmokað í Dalum, en þetta er orðið bílfært“.

Hreinskrúbba (s)  Skrúbba/þrífa þar til hreint er.  „Ég er búinn að hreinskrúbba hrognasigtið“.

Hreinskrúbbaður (l)  Búið að heinskrúbba.  „Þá held ég að þú sért orðinn ballfær; svona hreinskrúbbaður“!

Hreinsunarróður (n, kk)  Róður í þeim tilgangi að hreinsa þara og annan skít úr netum eftir brælu.  „Ég held að þetta verði nú aðallega hreinsunarróður hjá okkur núna“.

Hreintínt (l)  Um svæði; búið að hreintína.  „Það verður aldrei hreintínt af álku á Urðunum“.

Hrella af (orðtak)  Taka af; rýra.  „Ég ætlaði að biðja þig um að lána mér örlítið af salti en ég sé að þú ert svo tæpur sjálfur að ég vil nú ekki vera að hrella neitt af því“.

Hreppssamfélag (n, hk)  Samnefni yfir íbúa í tilteknum hreppi.  „Rauðasandshreppur hefur orðið fyrir miklum búsifjum af heimskulegum stjórnunarháttum í nútímaþjóðfélginu.  Þetta hreppssamfélag sem fyrrum bjó að bestu landkostum sem hugsanlegir voru á Ísaskeri, hefur mátt sæta því að stjórnvöld stálu réttinum til sjálfsbjargar þegar kvótagreifum og góðvinum í fjarlægum landshlutum voru færðar veiðiheim,ildir sjávarjarða að gjöf; bændur fengu ekki að nýta landgæði sín og slátra sínu fé nema með afarkostum; sameiginleg verslun var drifin í þrot; skólinn var flæmdur úr byggðinni; samgönguleiðir voru látnar drabbast niður; póstþjónusta varð hornreka og að síðustu var hreppssamfélagið neytt til að afsala sér sjálfstæði sínu“.

Hreppstjórakúlur (n, kvk, fto)  Knallettur; litlar sprengikúlur sem seldar voru á sama hátt og flugeldar, á tímabili kringum 1970.  Þær voru tæpur sentimetri í þvermál; pappi yst en púður innaní.  Væri þeim kastað af krafti á fastan flöt, t.d. gólf, þá sprungu þær með nokkrum hvelli.  Voru nokkuð vinælar vestra og notaðar af börnum jafnt sem fullorðnum.  Líkast til hafa þær verið bannaðar til sölu, enda hætta á að kuskið gæti valdið augnskaða við sprenginguna.

Hreppstjóraskrift (n, kvk)  Nýyrði, líklega fundið upp af GJH eins og fleiri; nafn á hinu sérkennilega skriftarlagi Þórðar Jónssonar á Hvallátrum.  Skrift Þórðar einkenndist af oddmynduðum einhalla stöfum, sem ókunnugum sýndist e.t.v. fljótt á lirið allir eins.  Þó var hún nokkuð vel skiljanleg og hafði sína áferðarfegurð.  Þórður skrifaði mikið, enda gegndi hann fjölmörgum trúnaðarstörfum um ævina.

Hreystimenni (n, hk)  Hraustmenni; þrekmikill/öflugur/þolgóður maður.  „Hann var annálað hreysimenni“.

Hrifsi (n, hk)  Ræfrildi; slitrur.  „Það fannst ekkert af bókinni nema örlítið hrifsi“.  „Ég reyndi að skrapa saman eitthvað hrifsi af taði til að reykja við“. 

Hrifsislegt (l)  Lélegt; tætingslegt.  „Hún fer nú að verða fjári hrifsisleg, þessi úlpudrusla“.

Hrika (ao)  Áhersluorð á undan lýsingarorði eða nafnorði.  „Þarna hefur hrika bjarg fallið úr stálinu“.  „Ég man ekki eftir að kind hafi áður farið svona hrika langt niður í klettana áður“.

Hrikamikill (l)  Firna/býsna mikill; gríðarlegur.  „Það hefur oltið hrikamikið bjarg niður á Fjörurnar“. 

Hringavél (n, kvk)  Eldavél af gamalli gerð; kola- eða olíuhituð.  „Fyrst þegar ég man eftir voru hringir á eldavélum.  Þá voru þessir íhvolfu gömlu pottar.... „Kaffibrennslupotturinn var netakúla sem tekin var í sundur í miðju og notuð til að brenna á hringavélinni“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Hringormafiskur / Hringormaveita (n, kk/kvk)  Fiskur með áberandi miklum hringormi; ormaveita; hárafiskur.  „Hentu þessum hringormafiski í sjóinn“.

Hríðfenna / Hríðsnjóa (s) Snjóa ákaft og mikið í fremur hægum vindi. „Það er farið að hríðfenna“.  „Við vorum ekki komnir langt þegar fór að hríðsnjóa“.

Hríðfækkun (n, kvk)  Mikil fækkun á stuttum tíma.  „Hér hefur orðið hríðfækkun býla í byggð á örfáum árum“.

Hrísgrjónagrautur / Hrísgrjónavellingur / Hrísingrjónagrautur / Hrísingrjónavellingur / Rísingrjónagrautur (n, kk)  Mjólkurgrautur úr hrísgrjónum, stundum með rúsínum.  Algengur spónamatur; borðaður með kanilsykri og gjarnan slátri.  Ekki skal hér sagt hvenær menn í Rauðasandshreppi fóru að bæta „in“ inn í heitið, eða hvað það var útbreitt, en sú orðmynd heyrðist alloft á síðari hluta 20. aldar; einkum þó sem uppskrúfað orðalag.  Sama um það þegar h var sleppt í byrjun.  „Hann svíkur engan hrísingrjónagrauturinn; allra síst svona hnausþykkur og með rúsínum“.  „Gebbðu mér smáspón af rísingrjónagraut“.

Hrísmél / Hrísmélsgrautur / Hrísmélssúpa (n, hk/kk)  Mjöl úr hafragrjónum og grautur eða súpa sem gerð eru úr því.  Selt í Gjögrabúð undir vörumerkinu „pama“ og kann enn að fást undir því.  Siður var að grautur væri borðaður á eftir aðalrétti, sem jafnan var á hádegi áðurfyrr.  Oftast var það hafragrautur eða grjónagrautur, en einstaka sinnum hrísmélsgrautur eða hrísmélssúpa; stundum með rúsínum.  Oft var þá krækiberjasaft höfð sem útálát.  Orðmyndin „mél“ var jafnan notuð í munni þeirra Kollsvíkinga sem fæddir voru fyrir miðja 20. öld, en síðar hefur orðmyndin „mjöl“ orðið ofaná.

Hrísteinungur (n, kk)  Sproti af hrís/fjalldrapa.  „Sú saga gekk að á árunum 1859-1861 hafi margir bændur bjargað nautpeningi sínum á þessum slóðum (í Hrísmúlabrekku) með því að rífa upp yngstu hrísteinungana; kurla þá og berja með sleggju þar til þeir voru orðnir mjúkir og rakir af safanum í viðnum.  Þetta var ekki einungis í Sauðlauksdal heldur um allan Patreksfjörð.  Hve hart var sótt eftir þessu fóðri skal þess getið að í frosthörku og skafrenningi varð leit að ungri stúlku er ekki kom fram úr hrísrifsferð.  Fannst hún á hálsinum fyrir ofan Stóraleitið.  Þar hafði hún liðið útaf eða örmagnast undir stórri hrísbyrði.  Þegar stúlkan kom til sjálfs sín vildi hún ekki leysa af sér fatlana, heldur skjögraði með baggann heim í Dal.  Þessa vetur var gjöreyddur skógur í Veturlöndum og í Hrísmúlanum, en það voru þær einu skógarleifar er þá voru í Sauðlauksdal“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Hrognahræra (n, kvk)  Hrogn sem búið er að hræra salti og e.t.v. einnig rotvarnarefnum útí, áður en þeim er hellt í hrognatunnuna.  „Hér hefur karlinn hlaupið frá hrognahrærunni í balanum; skyldi honum hafa orðið svona brátt í brók“?

Hrognaklessa / Hrognasleikja (n, kvk)  Lítið magn af hrognum, jafnan þá átt við grásleppuhrogn.  „Ætli ég þurfi ekki að fara að Hænuvík og salta þessa hrognasleikju síðan í gær“.

Hrognaostur / Hrognstappa (n, kvk)  Sérstakur réttur úr grásleppuhrognum.  Þannig gerður að hleypt var upp á stöppuðum hrognum örsnöggt; þau sett í grisju og látin kólna á bakka undir fargi.  Við þetta verður til þéttur og næringarríkur matur sem etinn var með bræðingi eða öðru viðbiti.  Munnleg frásögn SÖ við VÖ, en hann sagði að móðir sín hafi útbúið þannig rétt þegar hann var ungur.  Sagði þetta vera fremur þurrætt, en ekki bragðvont.  „Grásleppan var látin síga, en hér var hún látin síga heil en ekki flökuð og kúluð eins og tíðkast víða.   Tengdamóðir mín sagði mér að grásleppuhrognin hafi verið notuð í einskonar hrognaost en hvernig það var gert veit eða man ég ekkert. Nú hef ég aflað mér upplýsinga um gerð hrognaostarins. Ég talaði við Torfa Össurarson sem er mikill sjór af fróðleik um gömul vinnubrögð. Hann er fæddur hér í Kollsvík 1904 en bjó í Dýrafirði mestan sinn starfsaldur. Osturinn var gerður þannig að hrognin voru stöppuð í íláti með hnalli (strokkbullunni sagði Torfi). Síðan voru himnur síaðar frá og hrognin soðin stutt í potti. Salt. Síðan var þeim hellt í ílát og mig minnir að tengdamóðir mín segði að létt farg hafi verið sett ofan á. Kælt og síðan sneitt upp og notað með brauði eða kartöflum“  (SG; Sjávar- og strandnytjar; Þjhd.Þjms). 

Hrognakútur / Hrognakægill (n, kk)  Ílát sem grásleppuhrognin eru slægð í úti á sjó, til flutnings í land.  Í upphafi grásleppuveiðanna fyrir 1970 notuðu menn plast- eða grisjupoka undir hrognin, en fljótlega kúta.  Í seinni tíð hafa þetta verið plastkútar, misstórir en meðfærilegir, með loki sem unnt er að spenna/skrúfa fast á.  Lítill kútur var kallaður kægill.

Hrognasigti (n, hk)  Sigti til verkunar á grásleppuhrognum.  „Þegar í land var komið var hellt úr hrognastampinum/hrognakútnum á hrognasigtið.  Það var ílangur ferhyrndur kassi úr lökkuðum fjölum; með ryðfríu vírneti í botni, hæfilega grófu til að hrogn kæmust í gegnum möskvana.  Langhliðar sigtisins náðu útfyrir rammann og hvíldu endar þeirra ofaná hrognasíunni.  Þá var tekið til að sigta hrognin; hræra þeim varlega en ákveðið fram og til baka með hrognaspaðanum/hrælnum, þannig að hrognin gengju niðurúr sigtinu en himnurnar/hrognapokarnir yrðu eftir í því. Hrært var þangað til ekkert var eftir nema himnur og drafli.  Þá var sigtinu hallað lítillega og skafið undan því með hrælnum; síðan var þvegið vandlega úr. Nokkrar áhafnir gátu verið saman um hrognasigti, þar sem þær sigtuðu sjaldan samtímis.

Hrognasía (n, kvk)  Sía til verkunar á grásleppuhrognum.  „Hrognasía er ferhyrndur kassi úr lökkuðum fjölum; oft um 80x180x15cm, sem stendur á fótum í þægilegri vinnuhæð.  Í botni kassans er fíngerð sía sem hrognin komast ekki í gegnum.  Framanaf var hænsnanet í sigtisbotninum og yfir hana breidd grisja sem brugðið var uppá naglatitti í brúninni.  Grisjuna þurfti að þvo vandlega efti hverja sigtun og var það töluverð vinna.  Síðar fóru menn að nota nælonnet, sem var þá fest varanlega í sigtisbotninn og var auðveldara í þrifum.  Hrognin eru fyrst sigtuð með hrognasigti til að ná úr þeim himnum.  Síðan standa þau í sigtinu a.m.k. eitt dægur, meðan vökvinn sígur af.  Þá er hrognunum, sem nú eru nokkuð þéttur massi,  mokað yfir í bala þar sem blandað er samanvið þau hrognasalti og rotvarnarefni í hæfilegum skömmtum og hrært vandlega saman með hrognaspaða/hræl.  Síðan er hrærunni hellt í hrognatunnur og e.t.v. lítilsháttar af saltpækli með.  Þær eru látnar standa yfir nokkurn tíma og þess gætt að pækla hæfilega þar til þau eru fullsöltuð.  Þá er tunnunni lokað vandlega og hún flutt til söluaðila.

Hrognaslyndra (n, kvk)  Hrognabelgur/himna utanaf grásleppuhrognum.  Vanalega stytt í slyndra.  „Vatnslásinn var við það að stíflast af hrognaslyndrum“.

Hrognaspaði (n, kk)  Hræll; spaði úr tré til að sigta grásleppuhrogn.  Um eða yfir 50 cm langur; um 15 cm breiður í eggina og frá henni, en ofar tálgaður í þægilegt tvíhenduskaft. Eggin tálguð í spíss.  Sjá hrognasigti.

Hrognastampur / Hrognabali (n, kk)  Bali/stampur til að hræra grásleppuhrogn saman við hrognasalt. Sjá hrognasía.

Hrognasöltun / Hrognaverkun (n, kvk)  Verkun/vinnsla hrogna frá veiðum til fullverkaðra hrogna í tunnum.  Grásleppuveiðar og hrognaverkun var allmikil aukabúgrein bænda og annarra í utanverðum Rauðasandshreppi frá því fyrir 1970 og framyfir 1980.

Hrognkelsbeita (n, kvk)  Innyfli úr hrognkelsi, notuð sem beita.  „Beita á lóðirnar þetta fysta vor var svokölluð hrognkelsbeita; þ.e. innyfli og hýði utan af hrognum, ásamt því sem í því loddi af hrognunum“  (Guðbjartur Guðbjartsson; veiðar í Kollsvíkurveri; viðtal EÓ 1962).

Hrokagikkur / Hrokakjaftur (n, kk)  Sá sem er mjög hrokafullur; monthani.  „Ég hlusta lítið á þann hrokagikk“!  „Það var kominn tími til að sá hrokakjaftur fengi tiltal“!

Hrokfallabrim (n, hk) Um sjólag: „Í hrokfallabrimi er stutt á milli ólaga“ (JT Kollsvík; LK;  Ísl. sjávarhættir III). 

Hrossastrá (n, hk)  Hrossanál; Juncus Arcticus.  „Þessi jurt er algeng í Kollsvík og oftast nefnd hrossastrá meðal Kollsvíkinga, en þó hefur einnig heyrst heitið hrossanál“. 

Hrotudrunur (n, kvk, fto)  Háar hrotur sofandi manneskju.  „Ferlegar hrotudrunur eru þetta!  Ég held ég rúlli nú karlinum á hliðina áður en þakið kemur niður“.

Hrófatildurslegur (l)  Um hús, kofa eða annan smíðisgrip; illa smíðaður; klasturslegur; veikbyggður.  „Heldur fannst mér þessi húskofi hrófatildurslegur“.

Hrunskriða (n, kvk)  Skriða eftir hrun úr fjalli/klettum.  „Þarna við Helluna á Stígnum er hrunskriða, sem getur verið mjög varasöm yfirferðar ef hrun er nýlega afstaðið, og ekki komin í hana kindagata“.

Hrúgukraðak (n, hk)  Mikill fjöldi af hrúgum á einum stað.  „Þetta hrúgukraðak frammi á útfjari er skíturinn úr sandmaðkinum.  Undir hverri hrúgu má finna maðk“.

Hrútabardónur (n, kvk, fto)  Rammgerðir battingar/bitar sem settir eru innanum hrútastíu eða á jötufjölina til að taka við höggum og barsmíðum, en sér í lagi um fengitímann verða hrútar órólegir og renna gjarnan af afli í það sem fyrir þeim er.  Hér er rekinn ágætur lurkur í hrútabardónur“.

Hrútabragð (n, hk)  Óbragð af keti af ógeltum hrút, hafi honum verið slátrað of seint að hausti. 

Hrútagarði / Hrútakarmur (n, kk)  Garði/karmur í fjárhúsi með hrútastíu innst.

Hrútakaup / Hrútlán (n, hk)  Lán hrúts til nota/kynbóta yfir fengitímann.  Nokkuð var um hrútakaup og hrútlán milli bæja í Rauðasandshreppi,og stundum lengra að; enda voru bændur áhugasamir um kynbætur á sínum fjárstofni.

Hrútaspotti / Hrútataumur (n, kk)  Bandspotti/taumur sem notaður er til að festa í horn/múl hrúts til að teyma hann um í fjárhúsi á fengitíma, eða á milli húsa.  Um tíma eftir 1970 var féð á Láganúpi haft í fjárhúsunum á Melnum, en hrútarnir í fjárhúsunum á Láganúpi.  Voru þeir þá teymdir á milli í hrútataumum.

Hrútgepill / Hrútkægill / Hrútskuddi (n, kk)  Fremur smávaxinn hrútur; gæluheiti á hrút.  „Ekki finnst mér þessi hrútgepill hafa staðið undir væntingum“.  „Ætli maður setji ekki hrútkægilinn á; allavega þennan vetur“.  „Hrútskuddinn stóð sig bara ágætlega í vetur; Ég held að hann eigi flesta tvílembingana“.

Hrútkvikindi (n, hk)  Vorkenningarorð um hrút.  „Það er ekki hægt að láta hrútkvikindin út fyrr en eitthvað er að hafa fyrir þau á jörð“.

Hryggilegur (l)  Ömurlegur; sorglegur; slæmur.  „Það er hryggilegur fjandi að hún skuli alltaf drepa undan sér þegar hún gengur í Breiðnum“.  „Þetta var ömurlega hryggilegt slys; svona uppi í harðalandi“.

Hryggjahlutur (n, kk)  Hlutur háseta á fyrri tíð, í formi steinbítshryggja.  „Enn var það eitt sem hásetar, þeir er vinnumenn voru, fengu af afla sínum.  Þeir áttu hryggina úr hlutarsteinbít sínum.  Venjulega seldu þeir heimamönnum þar vestra hryggjahluti sína.  Þar voru þeir notaðir til gripafóðurs og þóttu hverri töðu betri; einkanlega fyrir lömb.  Töldu þeir þar mörkina (1/2 pundið) af steinbítshryggjum jafngilda töðupundi.  Lengi var verðið á hryggja-hundraðinu, tólfræðu, á túmark; þ.e. 67 aura.  Allt þetta til samans nam aldrei miklu, en það gladdi menn á þeim árum.  Þá þekktist ekki háu tekjurnar eða mikla kaupið“  (PJ;  Barðstrendingabók). 

Hrygningaslóð (n, kvk)  Hrygningasvæði; svæði þar sem fiskur hrygnir.  „Þarna djúpt frammi í Patreksfjarðarflóa virðast vera nokkuð miklar hrygningaslóðir sem Ólarnir fundu“.

Hryssingsfjandi / Hryssingur (n, kk)  Kalt í veðri og hvasst.  „Það er norðanhryssingur“.  „Enn er sami hryssingsfjandinn og í gær; ekki veit ég við hvað þetta lendir“!

Hræriprik / Hrærispaði (n, hk/kk)  Prik/spaði sem notaður er til að hræra upp í eða hræra saman, t.d. málningu.  „Var ekki hér einhversstaðar hræriprik“?  Hrærispaði var einnig stundum notað yfir hrognaspaða (sjá þar).

Hufflegheit (n, hk, fto)  Kurteisi; vinalegt viðmót.  „Þar voru okkur sýnd hin mestu hufflegheit“.

Hugleiðingavert (l)  Íhugunarvert; athugandi.  „Það væri nú alveg hugleiðingavert að smíða vatnshjól og setja það niður í röstina; nóg er orkan sem þar er, og ekki þyrfti miklar stíflur“.

Hugleysisrola (n, kvk)  Aumingi; raggeit.  „Það var ekki fyrir neinar hugleysisrolur að sækja þær ferðir“.  (hákarlalegur).  (ÓTG; Ágrip af æviferli).  

Hugsanagangur / Hugsanamáti (n, kk)  Hugsanir; skoðanir; innræti; rökleiðsla.  „Þetta er furðulegur hugsanagangur“  „Þetta var bara hrein og klár illkvittni; ég skil ekki svona hugsanamáta hjá mönnum sem eiga að heita komnir til vits og ára“!  Orðið hugsanamáti var þekkt annarsstaðar með eintölu í fyrra lið, en þessi notkun Kollsvíkinga og nágranna virðist rökréttari fyrir þá sem hugsa margt.

Hugsanaskortur / Hugsanasljóleiki (n, kk)  Hugsunarleysi; athugaleysi; yfirsjón.  „Ekki veit ég hvaða hugsanaskortur þetta var í mér“!  „Skelfingar hugsanasljóleiki er þetta í þeim“!

Hugtakaruglingur / Hugtakavilla (n, kk)  Röng/villandi notkun hugtaka/heita/orða.  „Skelfingar hugtakavilla er það að nefna farsímana gemsa, eða tala um það að fólk éti og hafi lappir eins og skepnur.  Getur þetta nútímafólk ekki gert minnstu tilraun til að tala eðlilegt mál“?!

Hugulsamlega (ao)  Með umhyggju/natni/alúð.  „Hann pakkaði þessu hugulsamlega í mjúkar umbúðir og síðan í sterkan kassa“.

Hugvitsmannafélag (n, hk)  Félagsskapur hugvitsmanna.  „Kollsvíkingurinn Valdimar Össurarson var einn stofnenda Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna á Íslandi árið 2008, og hefur verið formaður þessa stærsta hugvitsmannafélags landsins um árabil“.

Hukla / Kerlingarhukla (n, kvk)  Mjög niðrandi heiti á kvenmanni.  „Mér gengur bara ekki að koma nokkru tauti við þessa kerlingarhuklu á skattstofunni!.  Hún er bara kolvitlaus; í einu orði sagt“!

Hulka (s)  Efast; hika.  „Við skulum ekkert vera að hulka lengi yfir þessu; annaðhvort drífum við í því eða látum það alveg eiga sig“!  Heyrðist í þessari mynd í Kollsvík.  Líklega hljóðvilla af „hukla“, en þó óvíst meðan upprunaskýring er óljós á báðum orðmyndunum.

Hundafargan (n, hk)  Fjöldi/ofgnótt af hundum.  „Það þýðir ekkert að hafa allt þetta hundafargan með sér í smalamennskuna; þeir gera ekkert gagn og betra að láta Dalla einan um þetta“.

Hundagata / Hundagötuleið / Hundagötuþræðingur (n, kvk)  Óvanaleg/erfið/illfær leið; fráleit/fáránleg leið.  „Ég nennti ekki að þræða ganginn aftur að spottanum, heldur fann ég þarna einhverja hundaleið alveg upp á brún“.  „Ekki veit ég hvaða hundagötuleið þú ferð til að fá þessa niðurstöðu í málin“!  „Þarna liggja einhverjir hundagötuþræðingar framaní brúninni inní hvappið, en fjandans sú ögnin að ég færi það“!

Hundaglamur (n, hk)  Hundagelt; glamur/hávaði í hundum.  „Viðskiljum hundana eftir heima; ég kæri mig ekki um neitt hundaglamur við svona smalamennskur“.

Hundahreinsunarhús / Hundalækningahús (n, kvk) Hús fyrir böðun og ormalyfsgjöf hunda.  „Hundahreinsun var framkvæmd sameiginlega og reglulega á einum bæ fyrir hunda í Útvíkum, Bæjum og Örlygshöfn, og skiptust bæirnir á um það.  Hreinsunin var framkvæmd af dýralækni eða fulltrúa hans, og á síðustu áratugum þessa viðburðar var það Ólafur Magnússon á Hnjóti.  Baðað var í stóru keri eða bala og var líf og fjör meðan á því stóð.  Brást ekki að einhver hundur týndist til fjalls og annar hlyti minniháttar skrámur.  Um 1980 fékk Rauðasandshreppur Gunnar Össurarson til að byggja sésmíðað hundahreinsunarhús í landi Hnjóts.  Það hlaut gæluheitið „Hótel hundur“ (líkl. upprunnið hjá GJH) og var síðar notað sem slökkvistöð hreppsins“.  „Eftir nokkrar samræður var hreppsnefndin sammála um að leggja til að eitt hundalækningahús sé byggt í sameiningu til afnota fyrir alla hreppa læknishéraðsins“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; hreppsnefndarfundur 12.10.1958; ritari S.J.Th. oddviti)

Hundaklyfberaháttur (n, kk)  Óþverraháttur; drullusokksháttur; níðingsháttur.  „Svona lúalega framkomu get ég ekki kallað annað en helvískan hundaklyfberahátt“!

Hundaskítsveður / Hundaveður (n, hk)  Skítaveður; mjög slæmt veður.  „Þetta var ljóta helvítis hundaskítsveðrið!  Hífandi rok og slyddudrulla, svo sá ekki út úr augum“!  „Það var komið hálfgert hundaveður þegar við komum heim á Hjallana“.

Hundatrunta (n, kvk)  Neikvæð mannlýsing um þann sem er óþverralegur; hryssingslegur.  Oftar notað um kvenmann en karl, en þó ekki einhlítt.  „Hún gat átt það til að vera bölvuð hundatrunta við allt og alla, ef þannig lá á henni, þó þetta væri mesta gæðablóð dagsdaglega“.

Hundatruntulega (ao)  Með hryssingi/illindum; fúlmannlega.  „Þetta fannst mér hundatruntulega sagt“.

Hundatruntulegur (l)  Hryssingslegur; meinyrtur; önugur.  „Vertu nú ekki svona hundatruntulegur við hann bróður þinn“!

Hundlatur (l)  Mjög latur/drumbsíður; húðlatur.  „Ég er hundlatur að fara aftur af stað í dag; við sækjum þessar skjátur bara á morgun“.

Hundóbermi / Hundspott (n, hk)  A.  Skammaryrði um hund.  „Er nú hundóbermið að elta lömbin“?!  B.  Niðrandi heiti á mönnum, lítið notað nú á dögum.  „Spurning er hvernig heimurinn hefði orðið ef hundspottið hann Hitler hefði aldrei komist til valda“.

Hundsherðablað (n, hk)  Lítil/óhöndugleg skeið.  „Ég get ekki étið með þessu bévítans hundsherðablaði; fyrir hverskonar snúinkjaft skyldi þetta eiginlega vera smíðað“?!

Hundveikur (l)  Mjög veikur/veiklulegur/slappur.  „Ég hefði ekki verið í landi nema af því ég var hundveikur“.

Hungurfæða (n, kvk)  Matur sem ekki er étinn nema hungurdauði blasi við; ómeti.  „Þessar déskotans gúrkur eru hálfgerð hungurfæða; enda lítið annað en fúlt og grænt vatn“!

Hungurgjöf (n, kvk)  Of lítil fóðurgjöf fyrir skepnur.  „Það þýðir ekki að gefa þeim minna en fimm föng á jötuna á innistöðu; annað væri hungurgjöf“.

Hurðarhespa (n, kvk)  Hespa/speldi til að halda hurð lokaðri.  Vanalega spjald með ílöngu gati sem gengur upp á keng í stafnum, og svo er splittað að.  „Hann kom með nýjar lamir og hurðarhespu“.

Húðarleti / Húðleti (n, kvk)  Mjög mikil leti; alger landeyðuháttur.  „Skelfileg húðleti er þetta í honum að ganga ekki frá verkfærunum“!  „Ég kalla svona háttalag ekki annað en húðarleti“!

Húðarskammir / Húðskammir (n, kvk, fto)  Miklar skammir; óbótaskammir.  „Auðvitað fengum við húðskammir fyrir að stelast í klettana hinumegin við mörkin“.

Húðveltubrim (n, hk)  Stórsjór.  „Ég skil nú ekki í að nokkuð skip sé á sjó í svona húðveltubrimi“.  Orðið finnst ekki í orðabókum en var mikið notað vestra, t.d. af GG og ÖG Láganúpi.

Húfulag (n, hk)  Handarbakavinnubrögð; sleðaháttur; sleifarlag.  „Það verður nú lítið úr verki með þessu húfulagi“.  „Nú er ljóta húfulagið á þessu; kálfafjandarnir hafa verið að djöflast í heyinu“!

Húfugarmur / Húfujolla / Húfukæpa / Húfulæpa / Húfuræfill / Húfutetur / Húfuskuð (n,kk/ kvk/hk)  Húfuræfill; gæluorð yfir fremur lítilfjörlegar húfur; pottlok. „Sérðu nokkuð húfugarminn minn“?  „Hvar er nú húfukæpan mín“?  „Ætli sé ekki rétt að hafa húfulæpuna í vasanum ef hann fer að rigna“.  „Réttu mér húfuskuðið mitt“.  Sjá einnig skuðrildi.

Húfuskaði / Húfuskaðaveður (n, kk/hk)  Um það að tapa húfu í hvassviðri; þegar veðurhæð verður svo mikil að hætta sé á að missa húfu í veðrið.  „Ég varð fyrir húfuskaða þarna á brúninni“.  Hann er að gera húfuskaðaveður“

Húfuveður (n, hk)  Svo kalt í veðri að húfu sé þörf.  „Skratti er hann nú orðinn kaldur; þetta er bara húfuveður“!

Húrrandi laust (orðtak)  Um mjög ótryggt berg í klettum/bjargi; hættulega laust; ekki trygg hand- eða fótfesta.  „Blessaður vertu ekki að fara útá þessa urð; hún er öll húrrandi laus í sér“.

Húrrandi loft (orðtak)  Um bjargsig; loftsig á löngum kafla; gínandi loft.  „Þetta er vissulega girnilegur stallur þarna niðri, en ég gæti trúað að þangað niður sé húrrandi loft“.

Hvannarbrúskur (n, kk)  Hvönn.  „Ég kom mér vel fyrir í aðsetunni; sat við hvannarbrúsk og spyrnti í tvo aðra; hafði vaðinn um mittið og hélt fyrir framan“.

Hvannarfræ (n, hk)  Fræ hvannar.  „Mamma bað mig að koma með nokkur hvannarfræ til að sá í garðinum“.

Hvannarleggur (n, kk)  Leggur hvannar; hvannaleggur.  „Við dunduðum okkur við að skera út hólka og báta úr hvannarleggjum“.  Fyrri liður einatt í eintölu þar vestra.

Hvasseygur / Hvassleitur (l)  Um svipmót manns; harður; brúnaþungur; alvarlegur.  „Heldur var hann hvassleitur á svip þegar hann fór að hitta þessa túrista, sem vaðið höfðu yfir óslægjuna“.

Hvassmæltur / Hvassyrtur (l)  Í höstugum tóni; í ávítunartóni.  „Hann var víst töluvert hvassmæltur og kjarnyrtur þegar hann náði í skottið á strákunum“. 

Hvalbeinsklembrur / Hvalbeinsklömbrur (n, kvk)  Tangir úr hvalbeini, til að draga nál í gegn þegar skinnklæði voru saumuð.  Sjá hvalbein.

Hvap (n, hk)  Fita; fitukennt hlaup.  „Þú ert ekkert feitur!  Þetta er bara bölvað hvap sem verður fljótt að hverfa þegar þú ferð að eltast við rolluskjáturnar“.

Hveitikista (n, kvk)  Kista í búri, sem í er geymt hveiti.  Hveitikista var á Láganúpi framyfir 1960.

Hveitilús / Hveitiögn (n, kvk)  Örlítið af hveiti/hveitiméli.  „Einhverja hveitilús á ég eftir, en það er lítið“.

Hveitimél (n, hk)  Hveiti.  „Geturðu flutt fyrir mig einn sekk af hveitiméli úteftir“?

Hveitimélspoki / Hveitimélssekkur (n, kk)  Poki undan hveiti; sekkur/poki af hveiti.  „Tómir hveitimélspokar voru þvegnir með grænsápu til að ná stöfunum af, og svo saumaðir saman í lök og önnur rúmföt“. 

Hvellsprunginn (l)  Sprunginn með hvelli.  „Þessi ríkisstjórn verður hvellsprungin áður en árið er liðið“!

Hver/hvur anskúrinn (orðtök)  Upphrópun/áherslusetning.  „Hvur anskúrinn skyldi nú hafa orðið af þessum rolluskjátum“?  „Hver anskúrinn!  Eg vissi ekki að klukkan væri orðin svona margt“.

Hverfilgerð / Hverflategund (n, kvk)  Afbrigði hverflategundar; tegund hverfla.  „Valorka hannaði fjölda mismunandi hverfilgerða af þeirri hverflategund sem nýtt getur sjávarfallaorku“.

Hverfilgrind (n, kvk)  Prófunargrind; grind/statíf sem hverfill er festur í; þannig að hann getur snúist, t.d. í prófunum.  Nýyriði, tilkomið vegna þróana Valorku á fyrsta íslenska sjávarfallahverflinum.

Hverfillíkan (n, hk)  Líkan af hverfli.  „Valorka ehf hóf fyrstu prófanir sjávarorkuhverfla með 2m hverfillíkani í Hornafirði haustið 2013“.

Hverflahönnun / Hverflasmíði (n, kvk)  Hönnun/smíði hverfla.  „Valorka er fyrsta og eina fyrirtækið á Íslandi sem fæst eingöngu við hverflahönnun og hverflasmíði; að því best er vitað“.

Hverskonar / Hverskyns / Hverslags (l)  Hvaða; hvaða kyns/tegundar/háttar.  „Ungahænan er laus á eggjunum og hverskonar hávaði getur fælt hana af“.  „Hverskonar bjánagangur er þetta“?!  „Ekki veit ég hverskyns fiskur þetta getur verið“.  „Hverslags aulaháttur er þetta nú“?!

Hversdagsbuxur / Hversdagsföt / Hversdagsgarmar / Hversdagshúfa / Hversdagsjakki / Hversdagkjóll / Hversdagsklæðnaður / Hversdagslarfar / Hversdagspeysa / Hversdagsskór / Hversdagsskyrta / Hversdagssokkar (n, hk, fto)  Föt sem notuð eru dags daglega; ekki spariföt.  Einnig hvunndags-.

Hversdagsprúður (l)  Dagfarsprúður; vanalega rólegur/hæglátur/vinalegur.  „Hann er hinn hversdagsprúðasti maður og hvers manns hugljúfi allsgáður, en verður oft hinn mesti berserkur með víni“.

Hviðóttur (l)  Um veðurlag þar sem sterkar vindhviður koma úr annars kyrrara veðri.  „Mjög hviðótt getur orðið sumsstaðar á Rauðasandinum“. 

Hviðukast (n, hk)  Mjög snörp vindhviða eða nokkrar hviður í senn; úr kyrrara veðri.  „Hann gerði feikna hviðukast fyrir Blakkinn, svo sjór hvítnaði allt í kringum bátinn“. 

Hviðustroka (n, kvk)  Hvítur blettur á sjó, þar sem hvöss vindhviða þeytir löðri af yfirborðinu.  „Það var rólegt við Magnúsarhelminn, en stuttu utar mátti sjá hverja hviðustrokuna eftir aðra leggja út frá Láturdalnum“.

Hvítemaleraður (l)  Með hvítri emaleringu/glerjun.  „Það var búið að kveikja upp í ... lítilli hvítemaleraðri eldavél... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Hvítkrímóttur (l)  Með snjógrímu í andliti, utan augu.  „Hann var hvítkrímóttur og fannbarinn þegar hann kom heim úr gegningunum, enda glórulaust moldarkóf“.

Hvunndagsbrúk (n, hk)  Dagleg notkun; hversdagsnotkun.  „Þessi blússa er ekki ætluð til hvunndagsbrúks“.

Hvunndagsbuxur / Hvunndagsföt / Hvunndagsgarmar / Hvunndagshúfa / Hvunndagsjakki / Hvunndagkjóll / Hvunndagsklæðnaður / Hvunndagslarfar / Hvunndagspeysa / Hvunndagsskór / Hvunndagsskyrta / Hvunndagssokkar Föt sem gegnið er í á virkum dögum; ekki spariföt.  Sjá einnig hversdags-.

Hvunndagsgóður (l)  Góður að jafnaði; líður oftast vel.  „Ég fæ stundum þessi árans gigtarköst, þó að öðru leyti sé ég hvunndagsgóður“.

Hvunndagsskap (n, hk)  Daglegt skapferli; gott skap.  „Reynum nú að stilla okkur aðeins og finna hvunndagsskapið“!

Hvurgi (ao)  Hvergi.  GG Láganúpi notaði þennan framburðarmáta og líkast til hefur hann verið mikið notaður í Kollsvík áðurfyrri.  „Ég sé kindurnar hvurgi niðri á Bökkunum“.

Hvurnig / Hvurnin (sp.fn)  Hvernig.  „Hvurnin má það ver að féð hafi sloppið út“?

Hvurskonar / Hvurslags (l)  Hvers konar; hverslags; stundum notað sem upphrópun.  „Hvurslags andskotans læti eru þetta“!  „Hvurslags; hvurslags; nú gleymdi ég mér alveg með að laga kaffið“!  

Hvursu (sp.fn)  Hve; hvað.  „Hvursu langt fórstu“?  „Veistu hvursu mikið þetta var“?

Hvælótt (l)  Um landslag með lautum; holótt.  Ekki notað í seinni tíð.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar). 

Hyldýpisdý / Hyldýpisfen / Hyldýpisforað / Hyldýpismýri / Hyldýpispyttur (n, hk/kvk/kk)  Heiti á dýjum og mýrarsvæðum, þar sem mjög djúpt er á fast; oft nefnd „botnlaus“.  „Þarna er botnlaus hyldýpismýri“.

Hyldýpisgjá / Hyldýpisgjóta / Hyldýpishola / Hyldýpissprunga (n, kvk)  Heiti á mjög djúpum gjám og gjótum.  „Saxagjá nefnist hyldýpisgjá sem nær af brún í fjöru, og skiptir löndum milli Látra og Saurbæjar“.  „Þarna í brúninni hafði opnast hyldýpishola, sem mér sýndist gjörsamlega botnlaus“.

Hylka í sig (orðtak)  Borða; eta; gófla; gleypa.  „Svona; hylkaðu þetta í þig drengur og vertu ekki svona genverðugur“.  „Ég ætla rétt að hylka í mig einhvern bita og svo kem ég“.  Líklega dregið af „hólkur“

Hylkast (s)  Vera of víður.  „Skelfing leiðist mér föt sem hylkast svona utan á manni“!  „Það þarf að klippa bjálfann aðeins til áður en hann er saumaður á undirvaninginn; annars hylkast hann bara af honum“.

Hýðissvefn (n, kk)  Langur og djúpur/vær svefn.  „Veraldarinnar hýðissvefn er þetta nú á manni!  Er klukkan virkilega að verða níu“?!

Hæðarendi (n, kk)  Endi á hæð í landslagi.  „Kindurnar settu sig neðan þarna við hæðarendann“.

Hæðarkast (n, hk)  Hæðarbunga í annars hallandi landslagi.  „Stundum leynist kind á bakvið hæðarkastið“.

Hægferðugur / Hægfær (l)  Sem fer hægt; hæggengur.  „Maður er orðinn nokkuð hægfær með aldrinum“.  „Hægfærustu kindurnar drógust afturúr rekstrinum“.

Hæglætismaður / Hæglætisnáungi / Hæglætispiltur (n, kk)  Stillingarmaður; rólyndisnáungi; meinhægðarmaður.  „Mér fannst hann fremur viðkunnanlegur hæglætisnáungi“.

Hæglætistíð (n, kvk)  Tímabil hægra vinda; logndagar.  „Það er enn sama hæglætistíðin; hvað sem verður“.

Hægrifótarskór / Hærifótarstígvél (n, kk/hk)  Skór/stígvél á hægri fót.  „Ertu með tvö hægrifótarstígvél?  Nú hafa strákaskrattarnir verið að atast í þér“.

Hægrihandarvettlingur (n, kk)  Vettlingur á hægri hönd.  „Settu upp hægrihandarvettling meðan þú tekur járnið úr eldinum; það er glóheitt“.

Hægstraumshverfill (n, kk)  Eitt af nokkrum nýyrðum sem orðið hafa til vegna fyrstu íslensku uppfinninganna á sviðis sjávarorkutækni. Eini hverfillinn sem fengið hefur einkaleyfi á Íslandi er fundinn upp af Valdimar Össurarsyni frá Láganúpi.  Hverfillinn er ætlaður til virkjunar hægstreymandi vatnsfalla eða sjávarstrauma af þeim straumhraða sem t.d. er í Blakknesröst“ (VÖ).  Sjá sjávarfallavirkjun, ölduhrókur, straumop o.fl..

Hægstraumur (n, kk)  Hægfara straumur.  „Hverflar Valorku eru allir hannaðir til nýtingar á orku hægstraums; t.d. sjávarfallastrauma við annes eða straums fallvatna í hallalitlu landi, þar sem ekki er unnt að stífla“.

Hægtvaxandi (l)  Að aukast hægt.  „Hann spáir hægtvaxandi sunnanátt“.

Hækiljárn (n, hk)  Járn með sérstöku lagi, til að hengja ketskrokk upp að lokinni slátrun.  Tvennskonar hækiljárn voru notuð í Gjögrasláturhúsi.  Annarsvegar flatt járn með göddum á báðum endum sem stungust í hæklana, og krókur uppúr því í miðju sem krækt var á braut; hinsvegar og fyrr sívalt járn með göddum á hvorum enda, en sveigju á miðju sem krækt var á krók í fláningsgálga.

Hækilkúla / Hækilbein (n, kvk/kk)  Konungsnef; Efsti hluti hælbeins á sauðfé, nautgripum og fleiri dýrum; áberandi kúla að aftanverðu; neðan lærleggs. 

Hænuvíkurmegin (ao)  Nær/tilheyrandi Hænuvík.  „Mastrið á Fimmhundraðahæð telst vera Hænuvíkurmegin“.

Hæruband / Hæruspotti (n, hk/kk)  Band í horni hæru, til að festa hana við galtann.  „Það má alveg rekja þetta upp og nota í hæruspotta“.

Höfðingjaslekti (n, hk)  Niðrandi heiti um áberandi/ráðandi fólk í samfélaginu.  „Mér er nokk sama hvað þetta höfðingjaslekti vill.  Kollvíkingar hafa hingað til látið skynsemina ráða en ekki vitleysuna í öðrum“!

Höfuðandstæðingur (n, kk)  Helsti andstæðingur/andskoti/keppinautur.  „Hann var höfuðandstæðingur minn í þessu máli, og lagðist af þunga gegn mínum tillögum“.

Höfuðhlutur (n, kk)  Formannshlutur í Útvíkum.  Þar var sú regla við líði um 1700 að formenn á bátum Guðrúnar Eggertsdóttur í Saurbæ fengu hausa af aflanum í formannshlut, en ekkert annað umfram venjulegan hásetahlut.  „Í Norðurvíkum fángast mest steinbítur; lítill fiskur.  So verður þá höfuðhluturinn (sem þar er formannskaup) æði lítill“  (ÁM/PV Jarðabók).  Orðið er ekki að finna í þessari merkingu í OH.

Höfuðkaldur (l)  Kalt á höfðinu.  „Hafðu almennilegt á höfðinu; það er vont að verða höfuðkaldur í róðri“.

Höfuðveila (n, kvk)  Lasleiki/veiki í höfði; höfuðverkur.  „Henni finnst þessi höfuðveila heldur vera að ágerast“.

Höldubrotinn / Höldulaus  Um pott; með brotna aðra hölduna; án höldu.  „Gættu þín þegar þú hreyfir pottinn hann er höldubrotinn öðrumeginn“.

Hörkuágjöf (n, kvk)  Um siglingu; mikil ágjöf; mikið pus.  „Við lentum í skítaveltingi og hörkuágjöf fyrir Blakkinn“.

Hörkubarningur / Hörkubaks (n, kk)  A.  Mjög erfiður róður gegn vindi/straumi  „Það var stíf norðankæla með bullandi suðurfalli á landleiðinni, þannig að við lentum í hörkubarningi“.  B.  Líkingamál; erfiðleikar; átök.  „Ég lenti í hörkubaksi með þessa hrútaandskota; þeir þverneituðu að rótast í áttina heim“!

Hörkubasl (n, hk)  Mikið basl; miklir erfiðleikar; mikil áreynsla.  „Það var hörkubasl að koma þessum útigangsskepnum inn í hús“.

Hörkubylur / Hörkuél (n, h)  Mikið/hart/dimmt él.  „Hann gengur á með hörkuéljum“.

Hörkufall / Hörkustraumur (n, hk)  Mjög hart/stíft sjávarfall; bullandi/mígandi straumur.  „Það er lítil von á veiði í þessu hörkufalli“.  „Hér er kominn hörkustraumur; færin eru öll á glæ“.

Hörkunorðurfall (n, hk)  Um sjávarföll; norðurfall af fullum þunga.  Norðurfall verður jafnan harðara en suðurfall.  „Heldur hægði þegar við komum yfir á Kollsvíkina; nú stýrði ég suðurmeð og þótti hægt ganga með seglinu einu; enda komið hörkunorðurfall“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Hörkuskammir (n, kvk, fto)  Mjög miklar/harðar/háværar skammir/ávítur.  „Ég gef fjandann í að ég aðstoði þig aftur við smalamennskur, ef ég fæ bara hörkuskammir fyrir það að þú látir fé hlaupa á milli lappanna á þér“! 

Hörkusmali (n, kk)  Mjög/afburða góður smalamaður; fljótur að hlaupa og útsjónarsamur við fé.  „Mér sýnist að þessi strákur sé hörkusmali“.

Hörkusteytingur (n, kk)  Mjög hvass vindur; mikill mótvindur og bára.  „Það var hörkusteytingur hér suður Kollsvíkina, en undir Bjarnarnúpnum var hann lognhægur, eða því sem næst“.

Hörkustælur (n, kvk, fto)  Harðar deilur; hörkurifrildi.  „Ég lenti bara í hörkustælum við hann útaf þessu“.

Hörmungarandskoti (n, kk)  Blótsyrði, ýmist notað sérstætt eða sem áhersla með heitum.   „Hörmungarandskoti er nú að sjá hvernig skepnurnar eru útlítandi hjá honum“!  „Hörmungarandskotans vesen er með þetta skrifstofulið fyrir sunnan; það vinnur ekki nema hálfan daginn“! 

Hörmingaraumingi / Hörmungarvesalingur (n, kk)  Mjög aumur/vesæll maður.  Oftast notað í niðrandi merkingu.  „Mikill hörmungaraumingi getur þetta verið; að hafa ekki rænu á að koma heyinu í hlöðu“!

Hörmungarbúnaður / Hörmungarútbúnaður (n, kk)  Slæmur búnaður; skortur á góðum/réttum fatnaði/verkfærum/veiðarfærum/búnaði.  „Hörmungarútbúnaður er þetta hjá ykkur; þið ætlið þó ekki í kletta með þennan liðónýta fúaspotta“?!

Iðagrænn / Iðjagrænn / Iðgrænn (l)  Um tún; vel græn/sprottin.  „Enn eru tún iðagræn í Kollsvík, þó búskap sé lokið fyrir nokkru“.  Allar orðmyndir heyrðust notaðar vestra, en j-laust var einna helst hjá Kollsvíkingum.

Iðjuleysisdund / Iðjuleysisgauf (n, hk)  Fánýt tómstundaiðja; það sem gert er til að drepa tímann.  „Maður er að reyna að hafa ofanaf fyrir sér meðan ekki gefur á sjóinn, en þetta er bara hálfgert iðjuleysisgauf“.

Iðraloft (n, hk)  Vindgangur; loft í meltingarvegi; viðrekstur; fretur.  „Skelfingar iðraloft er nú að ryðjast úr þér maður; það fer að verða ólíft hérna inni“!

Iðrapest (n kvk)  Magapest; slæmska/veikindi í maga.  „Það ku vera að ganga einhver iðrapest“.

Illgerningur (n, kk)  Mjög miklir erfiðleikar; það sem er illgerlegt.  „Mér sýnist að það geti orðið illgerningur að ná kindinni úr þessu svelti“.

Illhertur (l)  Um hnút; mjög súrraður/hertur.  Um skrúfnagla/ró; mjög hert.  „Fjandi er hann illhertur, þessi hnútur eftir þorskinn“.

Illhugur (n, kk)  Meinsemi; meinbægni; fjandsemi; slæmt viðmót.  „Þetta var ekki af neinum illhug gert“.

Illslægur (l)  Erfitt að slá.   „Fyrst var slegið umhverfis bæinn, síðan fram eftir túninu; fram að Túnshala.  Hann var mjög illslægur; þýfður og grýttur og því oft látinn bíða, ásamt Brekkunni og Urðunum“  (Össur Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).  „Árnapostilla er einn illslægasti blettu af Sauðlauksdalstúni í þurrkatíð.  Ánamaðkurinn, sem yfirleitt þykir bæta ræktað land með því að blanda og losa jarðveginn, gerir í Sauðlauksdalstúni þau spjöll að drífa upp á yfirborðið hrúgum sem geta verið allt að 8 cm að hæð og þar eftir gildar.  Þessar hrúgur eru nokkuð sundurlausar, en glerharðar í þurrkatíð, og stendur engin egg í ljá er borin er á þennan völl þá þurrt er.  Þegar vöknar í rót virðast þessi leirhnoð minnka og mýkjast, samt verður ekkert hey af svona slægju sandlaust þó það sé margrakað upp og skarpþurrkað“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Illþolanlegur (l)  Mjög erfitt að umbera; þrautleiðinlegur; óbærilegur.  „Hitinn í hlöðunni er illþolanlegur“.

Indælisfólk / Indæliskona / Indælismaður / Indælismanneskja / Indælispiltur / Indælisstúlka (n, hk, kvk, kk)  Hrósyrði um sérlega gott fólk.  „Hún var mesta indæliskona“.

Indælisveður (n, hk)  Veðurblíða; mjög gott veður.  „Það má nú einhvernvegin fást við heyskap í svona indælisveðri“! 

Innaf (ao)  Innfyrir; fyrir innan.  „Ég hóaði í kindurnar á Aurtjörninni, og ég held að þær hafi hrokkið innaf“.  Við lögðum strenginn innaf Magnúsarhelminum“.

Innaná (ao)  Á innra byrði; að innanverðu.  „Ári er mikil móða komin innaná úrglerið“.

Innaneftir (ao)  Að innan og úteftir. „Við rekum féð innaneftir Lambaganginum og út í Lambahlíðardal“.

Innanfjarðarbátur (n, kk)  Bátur sem stundar innanfjarðarveiðar/innanfjarðarfiskirí.  „Stundum; einkum þegar skyndilega brældi á djúpmiðum, komu innanfjarðarbátarnir með meiri afla en þeir sem lengra reru“.

Innanfjarðarfiskirí (n, kvk)  Veiðar inni í firði.  „Fyrir kom að vel aflaðist á þessu innanfjarðafiskiríi“.

Innanundirfatnaður / Innanundirföt / Innanundirbuxur / Innanundirhúfa / Innanundirpeysa / Innanundirsokkar / Innanundirskyrta / Innanundirvettlingar   Fatnaður sem borinn var innanundir öðrum af sama tagi; hinn innri þó oft þynnri og óverulegri.  „Ertu ekki í neinum innanundirsokkum“?

Innansveitar (ao)  Í sveitinni/hreppnum.  „Töluverð útgerð var orðin frá Eyrum meðan jarðirnar voru enn innansveitar í Rauðasandshreppi“.

Innanúrtaka (n, kvk)  Taka/brottnám innyfla úr skrokk.  „Ég vann um skeið við innarúrtöku í sláturhúsinu“.

Innari / Innri (l, mst)  Sá sem er innar en annar.  Í seinni tíð hefur sterkari beygingarmyndin „innri“ verið almennt notuð, en líklega er veikari beygingarmyndin „innari“ upprunalegri.  Meðal Kollsvíkinga var algengt að tala um t.d. innari stíuna í fjárhúsi, eða innari strenginn á netamiðum.  Sama var með utari -ytri, sjá þar

Inná (ao)  Inn á tún; inni á túni.  „Hún Grána er enn einusinni komin inná“.  „Ætliði að hafa kindurnar inná í allan dag“?  Orðið sést ekki í orðabókum en svo virðist sem boltafréttamenn hafi tileinkað sér þetta málfar Kollsvíkinga í seinni tíð. 

Innávið / Innum (ao)  Inneftir; innum; í áttina inn.  „Við förum hlíðina innávið; inn í Láturdal“.  „Ég mætti honum á Hænuvíkurhálsinum á leið innávið.  Hann hefur líklega snúið við á Núpnum“.  Ertu á leið innum“?

Inndú / Inndúls (n, hk)  Innvols; innmatur; innihald.  „Það er mikill matur í inndúlsinu“.  (Inndúls er úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar). 

Innfjarðarbúi / Innfjarðarmaður (n, kk)  Íbúi á innfjarðarbæ, þ.e. bæ við innanverðan Patreksfjörð.  „Innfjarðarbúar þurftu ekki að fara fjallvegi í kaupstað, en Raknadalshlíðin var öllum jafn leiðinleg“.

Innfjarðarbær (n, kk)  Bær sem tilheyrir Innfirðinum í Rauðasandshreppi.  „Innfjarðarbæirnir sáu um blótið í fyrra, ásamt Rauðsendingum“.

Innfjarðarfé (n, hk)  Sauðfé innfjarðarmanna.  „Það er stefnt að því að slátra innfjarðarfé á mánudaginn“.

Innfjarðarmið (n, hk, fto)  Fiskimið inni í firði.  „Sum innfjarðarmið þekki ég; einkum grásleppumiðin“.

Innfrá (ao)  Innanvið; fyrir innan Hálsinn.  „Þau skruppu inná Gjögra.  Við klárum þetta meðan þau eru innfrá“.

Innfyrir (ao)  Í hvarf inneftir.  „Ég horfði á eftir honum innfyrir Trumbuna“.  „Komdu innfyrir“.

Inngjafarbyssa (n, kvk)  Síðari tíma orð; ormalyfsbyssa; áhald sem notað er til að koma ormalyfi ofaní sauðfé; ýmist pípa til að færa töflu afturfyrir tungurætur eða dæla til að koma fljótandi lyfi á sama stað.

Innhallandi (l)  Um það sem hallar inn/innávíð.  „Tóftarveggurinn er orðinn mjög innhallandi, og gæti verið hættulegur bæði skepnum og fólki“.

Innidráp (n, hk)  Aflögð veiðiaðferð, en þá var svartfugl rekinn í aðhald eða kvíar í bjarginu og drepinn þar.

Innidroll / Innihangs /Inniseta (n, hk/kvk)  Hangs/droll inni í húsi þegar veður er gott og/eða nóg er að gera útivið.  „Ég held ykkur væri nær að kíkja upp í hornabú í svona veðri strákar, en vera að þessu innihangsi“!

Innilegheit (n, hk, fto)  Innileiki; ástúð; blíða.  „Það voru víst engin innilegheit þegar þeir fóru að ræða eignarhaldið á hrútnum“!  „Þau hjón hafa ekki sýnt okkur annað en innileguheit og velvild“.

Innikakkað / Inniparrukað / Innisperrt (l)  Lokað inni.  „Hann er örlítið að laga veðrið, sýnist mér; ég ætla að láta féð aðeins út.  Það er ómögulegt að hafa það svona innikakkað allan daginn“.  „Ég held að þetta ullarát komi ekki síst til ef féð er lengi inniparrukað“.

Innikökkun (n, kvk)  Innilokun við þröngar/slæmar aðstæður.  „Ég er ekkert fyrir svona innikökkun á fé þegar eitthvað viðlit er að beita því út“.

Innistöðutíð (n, kvk)  Svo slæmt tíðarfar að fé er iðulega á innistöðu, þar sem ekki er unnt að halda því til beitar.

Innivið (ao)  Inni; inni í húsi.  „Hann er ekki innivið eins og stendur, en ég skila þessu til hans“.

Innísláttur (n, kk)  Um lykkju af netatein sem slegist hefur inní netið og flækt það.  Oftast gerist það þegar notaðir eru kubbar eða blý uppá linum teinum.  „Hér hefur orðið fjárans innísláttur“.

Innlagnarfjandi / Innlagnargjóla / Innlagnarskítur (n, kk/kvk)  Önnur/niðrandi heiti á innlögn  „Við skulum klára að vitja hér frammi; það verður ekki betra þegar kominn er innlaganarfjandinn“.

Innlagnargutlandi / Innlagnartyppingur / Innlagnarveltingur (n, kk)  Slæmt sjólag vegna innlagnar.  „Hann getur orðið fjandi krappur þessi innlagnartyppingur“.

Innlagnarvottur (n, kk)  Vottur að innlögn; upphaf innlagnar.  „Er kominn einhver innlagnarvottur svona snemma dags“?

Innsandur (n, kk)  Innri hluti Rauðasands og bæir sem þar eru.  Oft var þá átt við bæi innanvið Saurbæ, en stundum þó aðeins miðað við bæi innan Bjarngötudals.

Innsetningabekkur (n, kk)  Fellingabekkur; sérstakt áhald til að setja inn/fella net á tein með rörfellingu.  Bekkurinn er statív/standur sem á er fest röri (um ø 40-50mm).  Þegar sett er inn er byrjað á að bregða öllum fellimöskvum á öðrum jaðri netsins netsins upp á rörið; hluta þeirra er brugðið uppá það með skutilbragði.  síðan er netateinnin/þinurinn þræddur gegnum rörið, móti þeim sem setur inn, um leið og hann fellir hvern möskva eftir annan fram af rörinu og um teininn og hefur hnútana með vissu millibili.  Sama aðferð er viðhöfð við hinn jaðar netsins og að lokum er gert fyrir endana með augasplæsi eða endasplæsi.  Vestra var lengi til sérstakur lágur tréstóll með þessum búnaði áföstum, og gekk hann milli bæja eftir þörfum.

Innsetningagarn (n, hk)  Fellingagarn; netagarn; garn sem notað er til að fella net, þ.e. festa net á tein/þin, oftast með nálarfellingu.  Garnið er þá undið upp á netanál með sérstökum hætti; nálinni er síðan stungið í gegnum nokkra samliggjandi jaðarmöskva netsins í einu, sitt á hvað, og gerður hnútur á teininn/þininn með vissu millibili, þannig að slaki verður í netinu miðað við þininn.

Inntakslítið (l)  Innihaldslítið; merkingarlaust; dauft.  „Mér fannst þetta vera inntakslítið raus um allt og ekkert“.

Inntökuskiphöfn (n, kvk)  Áhöfn á aðkomubáti í veri.  „Vermannabúðir hafa þar (í Lágnúpsveri) tilforna 18 verið.  Nú eru þar uppi 4ar sem þessar inntökuskiphafnir liggja við“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Innum (ao)  Um stefnu; inn fjörð/vík.  „Áttir og stefnur voru með lítið eitt öðrum hætti í Útvíkum og nágrenni en annarsstaðar tíðkaðist og nú er algengast.  Ekki síst átti það við á sjó, en einnig á landi:  Framum þýðir dýpra/fjær landi eða inn dalinn; uppum þýðir grynnra/nær landi eða ofar í landinu;  útum þýðir út fjörðinn eða í stað sem er utar á landsvæði; innum þýðir inn fjörðinn eða innyfitr heiði/ inn í fjörð“.   „Það var kaldaskítu og veltingur úti á Flóanum, en lægði mikið hér innum“.

Innundir (ao)  Inn undir.  „Hægt er að sigla innundir Breiðavíkurkleifina, og út hinumegin“.

Innúr (ao)  Áttavísun; inn í fjörð, t.d. úr Kollsvík inn í Hænuvík/Örlygshöfn/Patreksfjörð.  „Það er nokkur tími síðan hann fór innúr; hann ætti að vera kominn á Gjögra“.

Innúr / Innúrblautur / Innúrvotur (l)  Blautur inn að skinni; gegnvotur.  „Ég varð gjörsamlega innúr í þessari fossrigningu“.  „Skiptu nú um föt áður en þú ferð; þú getur ekki farið aftur af stað svona innúrblautur“.

Innvið (ao)  Inni hjá/við; innst við.  „Náðu fyrir mig í þessa upphyrndu, þarna innvið gaflinn“.

Innviklun (n, kvk)  Aðkoma/aðild (að máli/hópi).  „Ég skýrði mína innviklun í þetta“.

Innvirðulegheit (n, hk, fto)  Innileiki; virðing; yfirborðskennd kurteisi.  „Mér finnst nú alveg óþarfi að sýna þessum slordónum einhver innvirðulegheit með titlatogum, eins og þeir hafa komið fram“!

Innvísandi (l)  Með vísun innávið.  „Hér er komið aðfall; mér sýnist færið vera heldur innvísandi“.

Innvortisóþægindi / Innvortisseiðingur / Innvortisverkur (n, hk/kk)  Óþægindatilfinning/verkur innvortis.  „Einhver fjárans innvortisseiðingur er búinn að vera að hrella mig í dag“.

Innyfir / Inn yfir (ao/orðtak)  Inneftir og yfir.  „… og nú stóð svo á að skömmu eftir hinn umtalaða réttardag þurfti Gummi að reka sláturlömb sín inn yfir Hafnarfjall og til slátrunar á Gjögrum“  (PG; Veðmálið). 

Irriterandi (s)  Truflandi; ergilegt.  „Andskoti er það irriterandi þegar þessir frambjóðendur gleyma loforðunum um leið og þeir eru sestir á þingstólana“!

Irrur (n, kvk, fto)  Pirringur; erjur; misklíð.  „Þannig gekk á ýmsum irrum og stríðni milli manna í Kollsvíkurveri, eins og víðar í verstöðvum“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Í blálokin (orðtak)  Í lokin; að síðustu; þegar er að enda.  „Það kom svolítil hrota í blálokin á vertíðinni“.

Í flútt við (orðtak)  Jafnt við; sem ber við/saman.  „Hornstaurinn er ekki vel í flútt við girðinguna“.  Sjá flútta.

Í kluftir (orðtak)  Um snjó- vatnsdýpt; ekki dýpra en svo að varla hylur klaufir kinda á göngu.  Kluftir eru efst í bilinu milli klaufa sama fótar.  „Ekki er þetta djúpur snjór, varla nema í kluftir“.

Ídíal (l)  Tilvalið; upplagt.   „Það er alveg ídíal að nota kruður útí rauðgrautinn“.

Íblástur (n, kk)  Íganga var vaxandi skýjafar af ríkjandi átt, og merki um að hún héldist.  Íblástur táknaði nánst það sama; átti þó öllu heldur við um sjálft veðrið“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).  Halldór Kiljan Laxness nam þetta orð í heimsókn sinni vestra og notaði það í Paradísarheimt.

Ífærulaus (l)  Án ífæru.  „Ífærulaus fer ég ekki aftur í róður; það er alveg nóg að tapa einni lúðu fyrir það“!

Íganga / Ígangsveður /  Ígangsstórviðri (n, hk)  Uppgangsveður; óveður að bresta á; veður að versna mjög.  „Íganga var vaxandi skýjafar af ríkjandi átt, og merki um að hún héldist“   (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).  „Þú ferð ekkert af stað núna; það er ígangsveður og ég vil ekki vita af þér uppi á fjöllum í glórulausri stórhríð“!

Ígulkerjaflækja (n, kvk)  Flækja sem verður í neti við það að eitt eða fleiri ígulker festast í því.

Ígulkerjaplága (n, kvk)  Vandræði vegna mikillar fjölgunar ígulkerja á veiðislóð.  Ígulkerjum getur fjölgað mjög hratt við vissar aðstæður og eru þau þá fljót að éta upp þaraskóg, þannig að það sem áður var gjöfull veiðistaður verður alger auðn, auk þess sem netaveiðar tefjast mjög vegna síendurtekinnar ígulkerjaflækju.

Ígulkerjastagur / Ígulkerjavaðall (n, kk)  Mikið af ígulkerjum í netum þegar þau eru dregin.  „Hér er ekkert nema andskotans ígulkerjastagur; ekki ein einasta grásleppa“!

Íhaldsdindill / Íhaldsfroskur / Íhaldsgepill / Íhaldshækja / Íhaldskurfur / Íhaldspési / Íhaldsseggur / Íhaldsskarfur (n, kk/kvk)  Niðrandi heiti á íhaldsmanni/ manneskju sem styður sjálfstæðisflokkinn eða aðra hægriflokka.  „Hann er kannski ágætisgrey fyrir marga parta; en þetta er árans ekkisen íhaldsfroskur“.  „Ætli allir viti ekki hvað sá íhaldsdindill kýs“!

Íhaldskanna (n, kvk)  Gæluorð um kaffikönnu sem tekur langan tíma að hella úr.  „Þú skrúfar tappann aðeins til hliðar og hellir.  En þetta er árans íhaldskanna, svo hún gefur ekki mikið í einu“.

Íhlaup / Íhlaupaverk / Íhlaupaverkefni / Íhlaupavinna (n, hk, fto/ hk/kvk)  Verk sem sinnt er í stuttan tíma inn á milli annarra verka.  „Þetta vinnst fremur hægt þegar það er einungis gert í íhlaupum“.  „Ég sinnti þessu um tíma sem íhlaupaverkefni, en svo mátti ég ekki vera að því lengur“.   „Ég hef þessa flækju  fyrir íhlaupaverk“. 

Ílagagóður/ílagamikill (l)  Heldur mikill; vel úti látinn.  „Þessi skammtur er nú helst til ílagamikill fyrir mig“. 

Ílátafátækur / Ílátatæpur (l)  Vantar fleiri ílát.  „Mér sýnist að við séum að verða nokkuð ílátafátækir“.  „Hafðu pokana með; það er slæmt að verða ílátatæpur ef eitthvað er að hafa“.

Ímyndunarkjaftæði / Ímyndunarþvæla (n, hk/kvk).  Tilbúningur; bull; staðlausir stafir.  „Þetta var tómt ímyndunarkjaftæði í honum“!  „Ég nenni nú ekki að hlusta á svona ímyndunarþvælu“!

Ísaldarholt / Ísaldarkambur (n, hk)  Malarholt/malarkambur neðst í víkum og dölum sem ísaldarjökullinn hefur skilið eftir sig og víða má sjá í Rauðasandshreppi sem annarsstaðar.  Holt þessi og kambar eru gjarnan rík af möl, sem jafnvel er þvegin af vatni og því er þar að finna gott efni í steinsteypu og önnur mannvirki.  Nöfn tengd ísöld eru vitaskuld ekki eldra en vitneskja manna um hana, en á svæðinu hafa menn fylgst með vísindakenningum og yfirfært þær á sitt umhverfi þó hugtökin væru svæðisbundin.  „Breiðsholt og Gjögraholt eru ágæt dæmi um ísaldarholt“.

Ísaldarmenjar / Ísaldarmyndun / Ísaldarframburður / Ísaldarhryggur / Ísaldarjökull / Ísaldarleir / Ísaldarruðningur / Ísaldarset  Hugtök sem notuð hafa verið á seinni tíð til að lýsa ummerkjum/jarðlögum frá ísöld, en allt landslag í Kollsvík og nágrenni er einkum mótað af ísaldarjökli fyrir meira en 10 þúsund árum.  Talið er þó að þetta svæði hafi fyrr orðið íslaust en mörg önnur.  „Neðst í gryfjunni var komið niður á glerhart ísaldarset“.  Sjá einnig ísaldarholt, ísaldarkambur og frostgígur.

Ísóleringaband (n, hk)  Einangrunarband.  Var nokkuð almennt notað eftir að raflagnir fóru að koma fyrst í hús í Rauðasandshreppi.  Ísóleringaband var i fyrstu eingöngu svartur lím- og tjöruborinn strigaborði.

Ísferja (n, kvk)  „Ísklumpur sem samfrosinn er flökkuefni og laus frá botni.  Getur bæði átt við þá myndunarsögu frostgíga sem hér er lýst, sem og borgarís sem flytur flökkusteina t.d. úr berggrunni Grænlands upp á landgrunn og fjörur Íslands“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Notað í Kollsvík vegna jarðfræðikenningar um frostgíga sem þar er upprunnin.

Ítroðsluaðferð (n, kvk)  Vinnulag þar sem troðið er í með afli.  „Svona ítroðsluaðferðir gagnast ekki á eggjakútana; þetta endar allt með ósköpum“.

Jaðarmöskvi (n, kk)  Möskvi á jaðri nets.  Jaðarmöskvar nets eru oft úr sterkara efni en netið sjálft, enda eru þeir notaðir til að fella/festa netið á teininn/þininn.  Sjá innsetningarnál.

Jafnákveðinn (l)  Eins ákveðinn.  „Ég er enn jafnákveðinn í að fara þetta“.

Jafneinstakur (l)  Eins merkilegur/einstakur/sérstakur.  „hans skarð verður erfitt að fylla; jafneinstakur og hann var í þessum efnum“.

Jafnjúgra (l)  Um spendýr; með jafnsíð/jafnstór júgur; ekki misjúgra.  „Þetta er fallegasta fyrstakálfskvíga; vel byggð og jafnjúgra“.

Jafnkunnur (l)  Eins kunnugur; þekkir eins vel til.  „Guðbjartur Torfason er jafnkunnur öllum staðháttum hér og við, og á engan hátt ófærari til sjómennskulegra aðgerða en við“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Jafnóhrjálegur / Jafnótótlegur (l)  Eins lélegur /illa útlítandi.  „Kofagarmurinn getur varla staðið mikið lengur uppi; jafnóhrjálegur og hann er orðinn“.  „Ég held ég hafi aldrei séð neinn jafnótótlegan og þennan prestræfil við skírnina.  Niðurundan krimpaðri hempunni gægðust grútskítug búmmístígvél; hendurnar voru grómteknar af skít og um einn fingurinn flaksaðist kolsvart sárabindi.  Skírnin tókst samt slysalaust, og ekki veit ég annað en barnið hafi orðið til fyrirmyndar í alla staði“.

Jafnséður (l)  Eins glúrinn/klókur/fyrirhyggjusamur.  „Enginn er jafnséður í fjármálum og hann“.

Jahér / Jahérna / Jahérnahér / Jahverárinn / Jahverskollinn / Jahverþremillinn / Jahvurandskotinn Upphrópanir, oftast í byrjun setningar, sem lýsa mikilli undrun yfir því sem kemur á óvart.  „Jahérna; þetta hafði ég ekki hugmynd um“!  „Jahvurandskotinn; þessu bjóst ég síst við af honum“!

Jakkagarmur / Jakkalarfur (n, kk)  Gæluheiti á jakka.  „Ætli þurfi ekki kannski að bursta þennan jakkagarm“.  „Hvar skyldi nú vera jakkalarfurinn minn“?

Jammogjæja / Jammogjæjaþá (uh)  Afbrigði af hikorðinu jæja.  Án merkingar, en gjarnan notað annaðhvort sem aðdragandi að setning sem er fyrirboði athafna, eða sérstætt sem andsvar eða dæs.  „Jammogjæjaþá; ætli við þurfum ekki að fara að hafa okkur í þetta“.

Japp (n, hk)  Það að tvístíga; stapp.  „Það er eitthvað bannsett japp í henni Búkollu; eins og henni líði illa“.

Jappa (s)  Tvístíga.  „Vertu nú ekki að jappa lengur þarna í dyrunum; komdu innfyrir og sestu niður“.  Virðist ekki þekkt utan svæðisins í þeirri merkingu.  Einnig notað í afleiddri merkingu um að þrástagast á einhverju.  „Enn er hann að jappa á þessu sama“. 

Jarðarberjareitur (n, kk)  Gróðurreitur/vermireitur þar sem jarðarber eru ræktuð undir gleri/plasti.  „Sigríður á Láganúpi var mikil ræktunarmanneskja.  Jarðarberjareitur var í horni garðsins við gamla Láganúpshússins, og við hlið hans voru beð með rófum, næpum, gulrótum, hvítkáli, blómkáli, grænkáli, salati og fleiri nytjajurtum; ásamt fjólu, morgunfrú og fleiri skrautjurtum.  Kartöflugarður var frammi á skurðbakkanum“.

Jarðræktarverkefni (n, hk)  Verkefni um að rækta jörð/ gera tún il nytja.  Kollsvíkingar keytu traktor í samlagi árið 1945, og gerðu samning um notkun hans sem nefndist „Jarðræktarverkefni Kollsvíkinga“.

Jarðvöðulsháttur (n, kk)  Yfirgangur; ruddaskapur; sóðaskapur.  „Menn sáust lítt fyrir í jarðvöðulshættinum þegar framræsla og túnaræktun komst í algleyming með tilkomu stórvirkra véla.  Í atganginum týndust fjölmörg örnefni, álagablettir voru óvirtir og jafnvel tortímdust merkar fornminjar“.

Jarvöðull (n, kk)  Jarðvöðull (sjá þar); klunni; ruddi í verklagi.  Menn nota orðið ýmist með eða án „ð“, og rökstyðja má báðar orðmyndir.  Líklega er sú ð-lausa jafnvel rökréttari, þar sem vísað sé til þess sem hart gengur fram í orrustu (jöru) án tillits til afleiðinga; samnefni við berserkur eða stríðskappi.  „Skelfilegur jarvöðull geturðu nú verið“!

Járnahaugur / Járnahrúga (n, kk/kvk)  Haugur/hrúga af járni; ónýtt/lélegt tæki úr járni.  „Þarna hafði verið grafið yfir einhvern járnahaug“.  „Mér sýndist þetta fremur vera járnahrúga en bíll; þetta kemst ekki langt“!

Jeminn / Jeminneini / Jeminneinisanni (u)  Upphrópanir/jesúsanir sem algengar voru í munni viðkvæmra og hneykslunargjarnra, einkum kvenna.  „Jeminneini; varstu að slasa þig“?

Jólaávextir (n, kk, fto)  Ávextir sem neytt er um jólaleytið.  „Mikið var lagt uppúr því að fá jólaávexti fyrir jólin.  Verslun Sláturfélagsins Örlygs á Gjögrum fékk vanalega epli og appelsínur fyrir jól, þó ekki væri slíkt fáanlegt endranær á fyrri tíð.  Magnið var vanalega áætlað fyrirfram, og gert ráð fyrir hálfum og heilum kassa af hvoru á heimili til jafnaðar.  Um aðra ávexti var ekki að ræða“.

Jólahreingerning (n, kvk)  Gagnger þrif húsa fyrir jól.  „Nokkrum dögum fyrir jól fór fram hin árlega jólahreingerning.  Þá var húsið allt þrifið í hólf og gólf.  Mest hvíldi sú vinna á mömmu“.

Jólakaupstaðarferð (n, kvk)  Ferð sveitafólks til jólainnkaupa í kaupstað.  „Algengt var, ekki síst að vetrarlagi, að menn báru þungar klyfjar á eigin herðumyfir Hænuvíkurháls.  T.d. þegar komið var úr jólakaupstaðarferð, en jafnan var farið í kaupstað fyrir jólin og þá keyptur ýmis varningur til hátíðarhaldsins“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Jólamessa (n, kvk)  Messa á aðfangadagskvöldi.  „Allir sátu hljóði og hlýddu á jálamessuna“.

Jólapoki (n, kk)  Kramarhús sem sælgæti er sett í.  Oft hengt upp á jólatréð og börnum síðan gefið í jólatrésskemmtuninni.  „Ákveða varð hvað ætti að kaupa til að láta í jólapokana, og hverjir ættu að búa þá til.  Stundum var ekki til efni í pokana.  Þá voru teknar kápurnar utanaf stílabókunum okkar, sem voru allavega litar, og notaðar sem efni í jólapokana....  Nú var runnin upp sú stund sem allir höfðu beðið eftir; bæði ungir og gamlir.  Fyrst var gengið í kringum jólatréð og jólasálmar sungnir, og allir fengu jólapoka“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Jugga (einhverju) / Jugga til (s/orðtak)  Rórilla; róa/ýta einhverju fram og til baka.  „Bíllinn var þó ekki fastari en svo að með því að jugga honum fram og aftur tókst mér að losa hann úr festunni“.  Samstofna enska orðinu „joggle“.

Jull / Julla (n,hk/ kvk)  Mjög lítill bátur; bátshorn; skekta.  Ýmist haft í hvorugkyni eða kvenkyni.  „Hilmar smíðaði sér jullu úr krossviði, og var hún höfð á Stóravatninu um tíma“.

Jullár (n, kvk)  Stutt ár sem höfð er á jullu.  Orðið var oftast notað á þennan hátt, en ekki með u; „julluár“.

Júgurbólguslyndra (n, kvk)  Þykkildi í mjólk sem kemur úr júgurbólgusmituðu júgri. 

Júgurbólgustand / Júgurbólguvesen (n, hk)  Þrálát júgurbólga í kúm.  Júgurbólga í kúm varð nokkuð vandamál á síðari árum kúabúskapar á Láganúpi, eins og víðar. 

Jæja / Jæjaþá / Jæjaþið (u)  Litla hikorðið jæja var töluvert notað í máli Kollsvíkinga, og þó það í sjálfu sér sé merkingarlaust þá fær það töluvert vægi eftir því hvernig það er sagt og hvar í orðaröðinni það stendur.  Jæja getur verið sjálfstæð og innihaldsrík setning, eftir framburði, áherslum og tóntegund.  Nefna má nokkra algenga notkun orðsins:  a.  Í byrjun samtals; til að rjúfa þögn og „gefa tóninn“.  Oftast sagt rólega og langdregið með áherslu á æ. Jafnvel var notað lengra orð í staðinn; jæjaþá, með áherslu í byrjun. Sumir notuðu bræðinginn jæjaþið, þegar tveir eða fleiri voru viðstaddir.  b.  Sem andsvar í spurn, hrifningu eða eftirvæntingu, eftir óvæntar upplýsingar.  Áherslan á æ, en nú í hækkuðum tóni. Þá var orðið stundum lengt í nújæja; með áherslu á æ, og það teygt.  c.  Andsvar sem lýsir vanþóknun eða vonbrigum við því sem sagt var.  Áherslan á langt æ en nú í lækkaðri tóntegund.  d.  Andsvar í mikilli hneykslun eða forundran.  Áherslan er á ja í endanum, og það jafnvel í tveimur eða fleiri tóntegundum í sama andsvari.  Stundum var orðið slitið í sundur þegar viðbragðið var mikil og varð þá jahja, með áherslu á fyrra atkvæðið og það í hærri tóni. Var þá stutt yfir í annað andsvar; jahér/jahérna/jahérnahér, með áherslu á fyrsta atkvæði.  e.  Í formála að upphafi verks.  Jæja er þá gjarnan sagt stundarhátt, með áherslu á fremra atkvæði en hitt einnig vel skýrt.  f.  Í samfelldri frásögn er orðið bæði notað í upphafi, til að hefja söguna, og einnig inni í sögunni til að brjóta hana upp og skipta um sviðsmyndir.  Góðir sögumenn voru margir í Rauðasandshreppi og voru þeir gjarnan snillingar í notkun orðsins.  Í upphafi sögu var tóntegund oft svipuð og lýst var í a-lið.  Inni í sögunni voru tónar og áherslur orðsins fjölbreyttari; allt eftir því sem frásögnin gaf tilefni til.  Oftast var áhersla á fremra atkvæðið og það ofar í tóntegund en það síðara. Stundum varsíðara atkvæðið verulega hækkað í tóni, þó það væri áhersluminna.   g.  Upphrópun þegar eitthvað gerist sem beðið hefur verið eftir og mælandi orðinn langeygur.  Var þá áherslan á seinna atkvæðið; það í lægri tóntegund; hækkaðri í endann og gjarnan langdregið.  Fylgdi stundum setning, t.d.: „Jæja; það var kominn tími til“.  h.  Andsvar við beiðni; þegar látið er undan með semingi.  Áherslan er þá á seinna atkvæðið og það í örlítið lægri tóni.  Stundum notað jæjaþá, og hin breytta tóntegund færð á síðasta atkvæðið.  Þessi upptalning er alls ekki algild og þaðan af síður tæmandi fyrir þetta litla orð.

Kaðalbútur / Kaðalspotti / Kaðalstubbur (n, kk)  Stuttur kaðall/vaður; kaðalendi; vaðstubbur.  „Við skulum hafa með okkur þennan kaðalstubb frekar en ekki neitt, ef einhversstaðar þarf að halda við“.

Kaðlakista (n, kvk) Kista sem kaðlar eru geymdir í.  „Fluglínutækin voru geymd í skúrnum á Melnum, en fyrirferðarmestar voru tvör stórar, hvítmálaðar kaðlakistur úr tré, með öflugum höldum til burðar“.

Kafaldsmolla / Kafaldsmugga (n, kvk)  Mjög dimmt/þétt kafald í fremurhægu veðri eða logni.  „Þegar fréttist um þennan fund rifjaðist upp fyrir fólki á Hnjóti og Geitagili, að snemma í janúar veturinn áður; í vestan hægviðri og kafaldsmollu. heyrðist mikið skipsflaut og stóð nokkurn tíma, seinni hluta dags“  (MG; Látrabjarg).  „Um morguninn hafði verið kafaldsmugga“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Kafaþoka (n, kvk)  Niðaþoka; kafþoka; mjög þétt/dimm þoka.  „Það verður erfitt að finna djúpbólið í þessari kafaþoku; við skulum bara taka grunnbólið þó hitt væri betra“. 

Kafél (n, hk)  Mjög dimmt él.  Við sáum ekki spönn frá okkur í þessu kaféli, og gengum í kolvitlausa átt“.

Kafbeit (n, kvk)  Mikil beit; vel gróið beitarland fyrir skepnur.  „Féð sótti mjög í þessa kafbeit í klettunum“.

Kafblautt á (orðtak)  Mikil bleyta á jörðu/grasi.  „Það er kafblautt á ennþá.  Maður hugsar ekkert til að breiða garðana fyrr en eftir hádegið“.

Kafbleyta (n, kvk)  Mikil bleyta.  Einkum notað um mikla bleytu á jörðu.  „Það hreyfir enginn hey í þessari kafbleytu“.

Kaffibox / Kaffidallur (n, kk)  Box/ílát sem kaffiduft er geymt í, áður en lagað er úr því kaffi.  „Gleymdu ekki að loka kaffidallinum“.

Kaffidúkur (n, kk)  Lítill dúkur til að hafa á borðum, t.d. við kaffidrykkju.  „Mikið var saumað í sængur- og koddaver, dúka;bæði kaffidúka og ljósadúka þ.e. minni dúka til að hafa á borðum; löbera, púða, kommóðudúka sem voru með sérstöku lagi...“  (SG;  Útsaumur; Þjhd.Þjms). 

Kaffihland / Kaffilap (n, hk)  Mjög þunnt kaffi.  „Skelfingar kaffihland varð nú úr þessu hjá mér“!  „Það er nú eitthvað annað að drekka þetta en kaffilapið sem maður fær á sumum bæjum, sem ég ætla ekki að nefna; og berrassað í þokkabót“!

Kaffikönnupoki (n, kk)  Poki í kaffikönnu sem notaður er við uppáhellingu.  „Kaffikönnupokar voru áður saumaðir úr lérefti eða, sem jafnvel þótti betra; úr skálm af bómullarnærbuxum.  Þannig poka mátti þvo og nota mjög lengi“.  Orðið finnst ekki í orðabókum.  Annarsstaðar virðast menn hafa kallað þennan hlut kaffipoka, en í Kollsvík var kaffipoki eða kaffisekkur sá poki sem óbrenndar baunir voru keyptar í.

Kaffilaus / Kaffilítill (l)  Skortur eða yfirvofandi skortur á kaffi.  „Nú fer að líða að Gjögraferð; við förum að verða kaffilítil eftir þennan gestagang“.

Kaffiþorsti (n, kk)  Löngun í kaffi.  „Það var nú útaf fyrir sig að hanga á brúninni; en kaffiþorstinn var alveg að gera útaf við mig“!

Kaffiþurfi / Kaffiþyrstur (l)  Þurfandi fyrir kaffi; þyrstur í kaffi.  „Mikið skelfing er ég nú orðinn kaffiþyrstur“!

Kafsigla (s)  Sigla bát/skipi svo að hætta sé á að sökkvi.  „Að þeir skuli ekki vera búnir að kafsigla dallinum fyrir löngu; eins og þeir hlaða hann djarft“!

Kafsina (n, kvk)  Mikil sina á jörð; sinudyngjur.  „Þarna á Stígnum er kafsina, enda ekki mikil beit“.

Kakkaður / Kakkfullur (l)  Kjaftfullur; alveg fullur.  „Netin frammi á víkinni vöru svo kökkuð af drullu að við ætluðum ekki að ná þeim inn í bátinn“.  „Dilkurinn er orðinn kakkfullur; þar kemst ekki lamb í viðbót“.

Kakksalta (s)  Rígsalta; salta mjög mikið; salta svo mikið að hrúgur/kekkir af salti sitji ofaná.  „Það má kakksalta fiskinn; verra er að vanti“.

Kakksaltaður (l)  Svo mikið saltaður að haugar/kekkir sitji ofaná.  „Efsta lagið kakksaltaði ég svo að hvergi sá í fiskinn“.

Kakóbox (n, hk)  Box/dós sem kakó er keypt í.  Kakóbox voru til margra hluta nytsamleg ílát eftir að innihaldið var búið úr þeim.  T.d. sem berjabox, kökubox eða brauðbox.

Kaldaskítur / Kaldaskratti / Kaldasperringur / Kaldaspæna / Kaldaþræsingur  Ýmis heiti á stífum vindi/ kalda.  „Hann er að leggja upp einhvern kaldaskratta“.  „Árans kaldasperringur er þetta að verða“!

Kaldibrunnur (Sérn. kk)  Kaldavermsl; uppspretta með köldu vatni.  Kaldibrunnur er algengt örnefni á mörgum jörðum í Rauðasandshreppi og e.t.v. víðar.  „Brunnsbrekka dregur nafn af læk , en nær bæ rétt við girðinguna er Kaldibrunnur“  (GG;  Örn.skrá Láganúps).  „Undan Kryppufæti er uppspretta sem heitir Kaldibrunnur“  (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).

Kalítt (n, hk)  Masónít; þunnar, brúnar, pressaðar trefjaplötur sem notaðar voru víða til inniklæðninga íbúðahúsa eftir daga torfbæja.  Kalítt var algengasta heiti þeirra vestra; masónít minna. 

Kalkhrjónungur / Kalkhrúður / Kalkskán / Kalkútfelling (n, kk/hk/kvk)  Heiti á útfellingum sem verða úr kalkríku vatni, eins og t.d. er á Láganúpi.  „Með tíð og tíma sest kalkhrjónunungur innanum vatnslagnirnar og stíflar þær meira og minna“.

Kalsagjóstur / Kalsagustur (n, kk)  Köld gola; kaldur vindur; nepja.  „Láttu þér nú ekki varða kalt í þessum kalsagjóstri“!  „Það er dálítill kalsagustur, en annars bjart og ekkert að veðri“.

Kalsahraglandi / Kalsahreytingur (n, kk)  Vægt slydduél með kuldagjósti.   „Búðu þig vel fyrir smölunina; það er kominn leiðinda kalsahraglandi“.  Fleiri orðasamsetningar voru viðhafðar með sama forskeyti.

Kalsanæðingur / Kalsaskítur (n, kk)  Kaldur vindur; næðingur; kuldagjóstur.  „Það er úkomulaust eins og er, en bölvaður kalsaskítur og nauðsynlegt að klæða sig vel“.  „Árans kalsanæðingur er þetta“!

Kalslétta / Kaltún (n, kvk/hk)  Slétta/tún sem orðið hefur fyrir kalskemmdum.  „Það tekur því varla að slá þessa kalsléttu“.

Kalúnera (s)  Hreinsa hár af skinni með því að leggja það í heitt vatn og/eða með kalki.  „Svínaslátrun var stunduð a.m.k. eitt haust í sláturhúsinu á Gjögrum.  Í því skyni var smíðað stórt ker úr áli til að kalúnera skrokkana“.

Kamarferð (n, kvk)  Ferð á kamarinn til páfatafls.  „Ég er hræddur um að þessi brauðsúpa geti kostað einhverjar kamarferðir hjá þér, ef þú ætlar að fá þér þriðja diskinn“!

Kandísrófa (n, kvk)  Rófa sem notuð er til að bræða í kandís.  „Þetta húsráð til lækninga á kvefi var notað þegar við bræður vorum að alast upp á Láganúpi og rófurnar voru nefndar því nafni“ (VÖ).  „Rófurnar voru skornar sundur (hráar) og tekinn þriðjungur innan úr miðjunni; látinn kandísmoli í holuna og látinn renna.  Svo var safinn gefinn inn með skeið, þeim sem voru með kvef“   (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms). 

Kanilsykur (n, kk)  Sykur sem blandaður er með kanilkryddi og notaður útá grjónagraut/velling.  „Það þarf að blanda ögn meira af kanilsykri“.  Jöfnum höndum var talað um kanil og kanilsykur þegar átt var við blandaðan kanil.

Kanthefla / Kantsaga (s)  Hefla/saga af kanti á borðvið, plötu eða öðru.  „Ég slípaði borðplötuna og kantheflaði hana alla“.

Kantskera (s)  Skera/snyrta kanta/brúnir.  „Við skulum láta torfið ganga aðeins útaf veggnum og kantskera það svo á eftir“.

Kantskorinn (l)  Búið að kantskera/snyrta.  „Alltaf er nú settlegra að sjá þetta svona vel kantskorið“.

Kappalinn / Kappfóðraður (l)  Fóðraður/alinn mjög vel; hefur fengið nóg fóður.  „Hrúturinn var víst svo kappalinn hjá honum að hann gagnaðist lítið framan af“.  „Féð hefur verið kappfóðrað í vetur“

Kappbúinn / Kappklæddur (l)  Mjög vel búinn/ mikið klæddur.  „Manni getur varla kólnað, svona kappklæddum“.  „Mér varð fljótt alltof heitt, enda kappbúinn“.

Kappnógur / Kappnægur (l)  Alveg nóg; yfirdrifið; ærið.  „Þetta er nú kappnógur skammtur fyrir mig, ég torga þessu varla“.  „Kindurnar höfðu haft kappnæga beit í sjálfheldunni, og voru vel á sig komnar“.

Kapptínsla (n, kvk)  Keppni í tínslu berja/eggja.  „Enginn lagði í kapptínslu við Bugga; hann var alltaf langfyrstur að fylla“.  „Við byrjuðum sinn á hvorum enda urðarinnar og svo var kapptínsla þar til við mættumst á henni miðri“.

Karakálfur (n, kk)  A.  Nýborinn kálfur sem ekki hefur verið karaður.  B.  Meira notað í líkingum um mann sem er illa að sér; nýgræðing; heimskingja.  „Hann er alger karakálfur í þessum efnum“. 

Karakterslaus (l)  Skortir persónuleika/ sérkenni í hegðun.  „Ég kann aldrei við þessi einsleitu og karakterslausu hvítu hænsni.  Það má mikið vera ef eggin úr þeim eru ekki bragðlausari líka“!

Karbarator (n, kk)  Blöndungur á bensínvél.  „Einhver andskotans stífla er í karbaratornum eina ferðina enn“!

Karlafmánin / Karlanginn / Karlaulinn / Karlauminginn / Karlálftin / Karlbjálfinn / Karlfjandinn / Karlgarmurinn / Karlgepillinn / Karlfauskurinn / Karlfýlan / Karlhelvítið / Karlhólkurinn / Karlhlunkurinn / Karlhrotan / Karlhróið / Karluglan / Karlgreyið / Karlkurfurinn / Karlkvikindið / Karlrassgatið / Karlrassinn / Karlrokkurinn / Karlrýjan / Karlræfillinn / Karlpungurinn / Karlsauðurinn / Karlskarið / Karlskepnan / Karlskrattinn / Karlskrjóðurinn / Karlskröggurinn / Karlskuddinn / Karlskunkurinn / Karlskúmurinn / Karlskömmin / Karltötrið / Karluglan / Karlvesalingurinn Gæluorð um karlmenn í umtali; oft í góðlátlegri meiningu, en stundum neikvæðri.  Einatt með greini.  Blæmunur er á notkun eftir samhenginu.  Karlanginn, karlauminginn, karlhróið og karlgarmurinn eru t.d. notuð í vorkenningarskyni (oft án forskeytisins); karlálftin og karlhólkurinn ef um yfirsjón eða góðverk hefur verið að ræða en karlaulinn, karlfauskurinn, karlfjandinn, karlfýlan, karlhelvítið, karluglan og karlskúmurinn hafa neikvæðasta merkingu.  Sambærileg gæluorð eru stundum notuð um kvenfólk í umtali, en þá með forskeytinu kerlingar- í stað karl-.  Eðlilegt er þó að í svo fjölmennri verstöð sem Kollsvík var um aldaraðir hafi fleiri slík gæluorð verið notuð um karlmenn.  Áðurfyrri þótti slík orðanotkun ekki hafa þá meiðandi merkingu sem viðkvæmni borgarsamfélagsins vill vera láta í dag.  „Hvað skyldi hann meina með þessu, karlskúmurinn“?  „Hvað var hann eiginlega að hugsa, karlgepillinn“?!  „Ég held að karlrassinn geti átt sig fyrir mér“!  „Ekki held ég að ég stjani meira við karlrassgatið en orðið er“!  „Hann á það nú skilið karlkurfurinn, að fá þessa viðurkenningu eftir sitt ævistreð í þágu annarra“.  „Það verður nú að virða það við karlkvikindið að hann er allur af vilja gerður, þó þetta fari svona í handaskolum hjá honum“.  „Ég hálfvorkenni honum, karlrýjunni; að þurfa að búa við þetta bölvað skass“.  „Hvert ætlar karlafmánin eiginlega að fara með féð“?!

Karlaskapur (n, kk)  Mannlýsing; þegar menn eru orðnir stirðir og ódrjúgir til einhverra verka.  „Þetta er nú allt komið í karlaskap hjá mér núorðið; ár og dagur síðan ég fór ofan í kletta til eggja“. 

Karmavillt (l)  Um það þegar maður/ær fer í/opnar rangan karm á fjárhúsi.  „Ég fór eitthvað karmavillt þegar ég hleypti fénu út; áttaði mig ekkert fyrr en gemlingaskrattarnir komu valhoppandi út“.

Karmdyr (n, kvk, fto)  Dyr á karmi.  „Stattu innanvið karmdyrnar svo gemlingarnir ryðjist ekki allir út í einu“.

Karmi (n, kk)  Fuglakippa sjá þar.  Notkun orðsins virðist hafa takmarkast við Útvíkurnar.

Kartöflubingur / Kartöfluhrúga (n, kk/kvk)  Bingur/hrúga af kartöflum.

Kartöfludiskur / Kartöflupottur / Kartöfluskál (n, kk/kvk)  Ílát sem kartöflur eru bornar fram í, eftir að soðnar hafa verið í kartöflupotti.  „Réttu mér kartöfludiskinn“.

Kartöflufata / Kartöfluílát / Kartöflukyrna / Kartöfluskál / Kartöfluspanda (n, kvk/hk)  Ílát sem notuð voru til að setja kartöflur í þegar þær voru teknar upp.  Vanalega hafði hver upptökumaður hjá sér tvö ílát; annað stórt fyrir stærri kartöflurnar/ matarkartöflur, og hitt minna fyrir myrið.  Stundum var það þriðja haft undir útsæðiskartöflur, en oftar voru þær flokkaðar frá þegar búið var að breiða til þurrrks.

Kartöflugaffall / Kartöfluklóra / Kartöflukvísl (n, kvk)  Kvísl til að taka upp kartöflur.  Kartöfluklóra er sérstaklega til þess ætluð; með vinkilbeygða tinda sem höggvið er niður við kartöflugrasið.  Kartöflugaffall er sama verkfærið og hnausakvísl/hnausagaffall; ýmist með sívölum eða flötum tindum; ætlaður fyrir ástig.

Kartöflupoki / Kartöfluposi / Kartöflusekkur / Kartöfluskjatti (n, kk)  Poki undir kartöflur/poki með kartöflum.  Sekkur er stór poki en skjatti eða posi er lítill. 

Kasta kisum (orðtak)  Um veður; setja yfir vindkviður, þó ekki meiri en þegar kattarfeldur strýkst við vanga.  Virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur, en þó þekktist kisuvindur (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Kasúldna (s)  Verða mjög úldinn/ dragúldinn.  „Nú er fiskslógið farið að kasúldna þarna í fötunni“.

Kattarafmán /  Kattaróbermi / Kattaróvæni / Kattarskarn (n, hk)  Gæluorð um kött.  Orðið óvæni, eða óvæmi, er gamalt í málinu en sennilega ekki notað utan Kollsvíkur og þá í þessari samsetningu.

Kattarfjandi (n, kk)  Skammaryrði um kött.  „Er nú kattarfjandinn búinn að drepa máríuerluna sem varp í mókofatóttinni“?!

Kattarhland (n, hk)  Þvag úr ketti.  „Komdu árans kettinum úr hlöðunni; ég kæri mig ekkert um að fá kattahland í heyið“!

Kattarhola (n, kvk)  Hola sem köttur fer um.  Kattarholur eru til á a.m.k. þremur stöðum sem örnefni í Rauðasandshreppi.  „Kattarhola nefnist hola í hlein rétt utanvið Þyrsklingahrygg, norðantil í Blakknesi.  Á köttur að hafa farið þar inn og komið út á Kattarholuvegi í Keflavík“ (GT/VT; Örn.skrá Kollsvíkur).  „Neðst, undir miðju klettabelti Lambabrekku, er hola er Kattarhola nefnist.  Á hún að liggja þvert í gegnum hálsinn og koma út í Gissurstúnum í Kvígindisdalsbotninum“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Kattarplatur  (n, hk)  Matarskál kattar.  „Settu fiskruslið í kattarplatrið. Ekki veitir henni af; óvæninu atarna“.

Kauðalega / Kauðslega (ao)  A.  Klaufalega; illa.  „Mér fannst kauðalega farið að hlutunum“.  B.  Af óbilgirni/illgirni/meinsemi.  „Hann kom kauðslega fram við blessaða konuna“.

Kauðalegur / Kauðslegur (l)  A.  Búralega/hallærislega klæddur.  „Ósköp er karlinn alltaf kauðalegur til fara“.  B.  Illgjarn; kvikindislegur.  „Mér finnst þetta bara kauðsleg framkoma“!

Kauðsháttur (n, kk)  Illgirni; undirferli; mannvonska.  „Mörgum fannst þetta kauðsháttur af honum“.

Kaunast (s)  Meiðast; slasast.  „Það sleppur enginn frá svona falli án þess að kaunast verulega, ef hann þá sleppur við örkuml eða bana“.

Kaupstaðarferð / Kaupstaðarleiðangur (n, kvk/kk)  Eyrarferð; ferð í kaupstað.  „Fönix var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og flutningaskip í kaupstaðarferðum“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).  „Á sumrin voru kaupstaðarferðir eingöngu farnar á sjó“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  „Ætli maður verði ekki að fara í kaupstaðarleiðangur til að nálgast þetta, þó ég hafi engan tíma til þess“.

Kaupstaðarnef (n, hk)  Áberandi rautt nef.  Nafngiftin vísar til þess að vínhvneigðir menn héldu sig gjarnan nærri víntunnum kaupmanna, en ein afleiðing drykkjuskapar er rauðleitt nef.  Nokkuð notað í líkingum:  „Skolli ertu kominn með myndarlegt kaupstaðarnef strákur; er þér kalt“?

Kálbrúskur / Kálhnúskur (n, kk)  Hnúskur/brúskur/planta af skarfakáli.  „Það er lítið hald í kálbrúskinum“.  „Gættu þín að detta ekki um staksteina eða kálhnúska í hillunni“.

Kálfabeit (n, kvk)  Bithagi fyrir kálfa.  „Það er ágæt kálfabeit þarna í kringum seilarnar“.

Kálfabland / Kálfamjólk (n, hk/kvk)  Mjólk blönduð undanrennu, vatni, fóðurmjöli eða öðru, og gefið kálfum.

Kálfabytta / Kálfadallur / Kálfafata / Kálfaspanda (n, kk/kvk)  Ílát sem kálfum er gefin mjólk í, eða annað kálfafóður.  „Jafnaðu þessum sopa í kálfadallana“.  „Hvar er nú blessuð kálfaspandan“?

Kálfagarði / Kálfakarmur (n, kk)  Karmur/garði í fjárhúsi/fjósi þar sem kálfar eru hafðir.  „Það þyrfti að laga grindurnar í kálfagarðanum“.  Hluta fjárhússins á Láganúpi var breytt í fjós og kálfagarða.

Kálfagerði (n, hk)  Hólf/girðing sem kálfar eru geymdir í, án þess að þar sé mikil beit.  „Hilmar kom upp kálfagerði framan við fjósið á Láganúpi þegar hann tók við búskap“.

Kálfagirðing / Kálfahólf (n, kvk/hk)  Girðing/girðingarhólf sem kálfar eru hafðir í.  „Ég ætla að fara með hey í kálfagirðinguna“.

Kálfahersing / Kálfahópur / Kálfaskari / Kálfastóð / Kálfastrolla (n, kvk/kk)  Hópur af kálfum  Ungnaut og kvígur voru gjarnan höfð í girðingu eða vel sprottnum úthaga, og héldu sig oft saman í hóp.  Var illa séð ef hópurinn komst inn á ræktuð og óslegin tún.  „Nú hefur hliðið á Júllamelnum verið skilið eftir opið, og kálfastrollan er vaðandi um alla Grásteinssléttuna!  Bregðiðundir ykkur betri fætinum strákar“! „Eftir að mjólkursala hófst, fjölgaði mjög í kálfastóðinu“.

Kálfaket (n, hk)  Kálfakjöt; ket af kálfum. „Kálfaket er herramannsmatur, ef rétt er eldað“.

Kálfaskol / Kálfaskólp (n, hk)  A.  Eiginleg merking; vatnsblönduð mjólk sem kálfum er gefin þegar þeir er farnir að nærast eitthvað af grasi/heyi.  B.  Niðrandi heiti sumra á mjólkurblönduðu kaffi (því sem einhverjir nefna „latte“).  „Þú þarft ekki að koma með mjólk fyrir mig.  Eg drekk bara kaffi en ekki neitt kálfaskólp“!

Kálfkvikindi / Kálfóbermi / Kálfpeyi / Kálfpusi / Kálfskuddi / Kálftötur (í fleirtölukálfakvikindi)  (n, hk)  Gælurorð um kálf/kálfa.  „Gleymdu nú ekki að gefa kálfkvikindinu dálítinn sopa“.  „Kálfakvikindin þurfa að hafa eitthvað afdrep, ef gerir slæm veður“.  „Vertu nú ekki með kálfpusann hérna uppi á stéttinni“.

Kálfaslátrun (n, kvk)  Slátrun kálfa.  Á seinni tímum hefur tíðkast að ala kálfa upp í nær tveggja ára aldur til frálags í ungnautaket, og á orðið við tímann sem sláturtíð þeirra stendur.  Fyrrum var kálfum of slátrað yngri.

Kálhilla (n, kvk)  Hilla/gangur í klettum, þar sem mikið vex af skarfakáli.  „Til að komast yfir á höfðann þurftum við að fara um nokkuð langa kálhillu“.

Kássufúinn (l)  Grautfúinn; mjög feyskinn.  „Grindasláin er orðin kássufúin og handónýt“. 

Kátlegheit (n, hk, fto)  Furðuleg/brosleg uppákoma; kjánalæti; undarlegheit.  „Ég kann enga skýringu á þessum kátlegheitum í karlinum, en hann verður að fá að hafa sína sérvisku fyrir sig“.

Keðjureykingamaður (n, kk)  Maður sem keðjureykir/ reykir hverja sígarettuna á fætur annarri.  „Það þýðir nú lítið að hafa einhverja síhóstandi og úthaldslausa keðjureykingamenn í svona smalamennskur“!

Keflahlunnur (n, kk)  Hlunnur til að setja báta, með járnkefli á tréramma.  Uppfinning Ásgeirs Erlendssonar á Hvallátrum (sjá hlunnur).  „Upp úr þessum vangaveltum smíðaði ég keflahlunna úr járni og eik“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Kekkjaskyr (n, hk)  Kekkjótt skyr; illa hrært skyr, með grófari kekkjum en graðhestaskyr.  „Ekki líkaði mér kekkjaskyrið hjá henni, en hveitikökurnar voru lygilega góðar“.

Kenderí (n, hk)  Fyllerí; altarisganga.  „Þeir eru að flækjast á milli bæja á kenderíi, skilst mér“.

Kenjadýr / Kenjagripur / Kenjakrakki / Kenjakvikindi / Kenjaskepna (n, hk/kk)  Kenjótt/fyrirtektarsöm manneskja/skepna; sérvitringur.  „Þetta er óttalegur kenjagripur, þó hann sé að ýmsu leyti vel gefinn“.  „Þessi langvía er stundum mesta kenjakvikindi“.  Einnig stundum notað um vélar:  „Vélin í bátnum var mesti kenjagripur“.

Kennsli (n, hk)  Um skakveiðar; að verða var; fá sæmilega veiði.  „Nafnið á miðinu (Bjarni Gíslason) er þannig til komið að menn létu reka þarna á skaki og fengu sæmilegt kennsli á þessum bletti...“.  (IG; Sagt til vegar). 

Kepphúfa (n, kvk)  Hluti meltingarfæra jórturdýra; sá hluti keppsins sem nær er vélindanu.  Orðið var einungis notað þegar vömbum var skipt og saumað fyrir þær við sláturgerð.  „Saumaðu fyrir þessar kepphúfur“.

Kerlingahland (n, hk)  Ónýtt/óætt krækiber, annaðhvort vegna ofþroska/elli eða vegna næturfrosts.  „Ber hafa sumsstaðar frosið í nótt; í lautunum er ekkert nema kerlingahland“.

Kerlingarapparat / Kerlingarálka / Kerlingarbrýni / Kerlingarherfa / Kerlingarhrota / Kerlingarhukla / Kerlingarskass (n, kvk)  Niðrandi heiti á kvenmanni.  „Hún var að skamma mig fyrir þetta, kerlingarapparatið; ég held hún ætti frekar að skamma karlinn sinn“!  „Skratti ætlar hún að reynast erfið; þetta kerlingarbrýni á skattstofunni“!  „Hún ætlar hreint ekki að geta skilið þetta; kerlingarhuklan“!

Kerrufóður / Kerrumatur (n, kk)  Úrgangur/ ónýtt ket í sláturhúsi sem fer í kerru, til urðunar.  Allmikið notað í sláturhúsinu á Gjögrum, en virðist ekki hafa verið mjög útbreitt.  „Þessi horskrokkur er bara kerrumatur“.

Kersknisskáldskapur / Kersknisvísa (n,kk/ kvk)  Skammarvísa; níðvísa; háðvísa.  „Margir höfðu gaman af því að hnoða saman vísum í Verinu; þó getan til þess væri misjöfn.  Mikið af þessu voru tækifærisvísur af ýmsu tagi og kersknisskáldskapur, en einnig prýðisgóðar formannavísur og annar skáldskapur“.

Kertaklemma (n, kvk)  Lítil járnklemma með höldu fyrir lítið kerti á öðrum kjammanum; notuð sem festing fyrir kerti á jólatré.  „Kertaklemmur lögðust af eftir að jólaseríur fyrir rafmagn komu til sögunnar, en voru notaðar, t.d. á Láganúpi framyfir 1960“  (VÖ). 

Ketafgangur (n, kk)  Afgangur/leifar af ketmáltíð.  „Það má hita þessa ketafganga í sósunni í kvöld“.

Ketarða / Ketdróg / Ketbiti / Ketnurta / Ketögn / Kettutla / Kettægja (n, kvk)  Ögn/flís/smábiti af keti/kjöti.  „Eftir að hann hafði kroppað af beinunum var ekki eina einustu ketörðu á þeim að finna“.

Ketát (n, hk)  Neysla kets.  „Mikið verður gott að fá saltfisk eftir allt þetta ketát um hátíðarnar“.

Ketbirgðir / Ketfjall (n, kvk, fto)  Birgðir af keti/kjöti; offramleiðsla á keti.

Ketdiskur / Ketfat / Kettrog (n, kk/hk)  Diskur/fat/trog með keti/ fyrir ket.  „Þú ert nær ketdiskinum; skerðu smáflís fyrir mig“.

Ketfars / Kethakk / Ketkássa (n, hk)  Kjötfars/kjöthakk/kjötkássa.

Ketfasta (n, kvk)  Fasta þar sem kets er ekki neytt.  „Í kaþólskum sið var ketfasta síðustu tvo daga fyrir upphaf páskaföstu“.

Ketfasta (s)  Bindindi á ketneyslu.

Ketfat (n, hk)  Fat með keti/ undir ket.  „Réttu mér ketfatið“.

Ketflís (n, kvk)  Sneið af keti/kjöti.  „Gefðu mér tvær ketflísar.  Það má alveg vera eitthvað ljóst með“.

Ketflutningar (n, hk, fto)  Flutningar á keti/kjöti, t.d. frá sláturhúsi. 

Ketfylling (n, kvk)  Fylling af keti í annarskonar mat.  „Hún bar fram minn uppáhaldsrétt; samanbrotnar eggjakökur með ketfyllingu“.

Ketgaffall (n, kk)  Stór gaffall sem notaður er til að ná keti úr potti og til að hafa á ketfati.

Kethjastur / Ketmusl (n, hk)  Tægjur/uppsóp/sag af keti, þar sem ket hefur verið stykkjað/sagað niður.  „Sópaðu þessu ketmusli saman og fleygðu því í hundinn“.

Kethnífur (n, kk)  Kjöthnífur; hnífur sem hentar vel í ketskurð.

Ketílát (n, hk)  Ílát undir ket; ílát með keti.  „Ég nota þetta varla fyrir ketílát“.

Ketjafningur / Ketkássa (n, kvk)  Marið/hakkað ket, sem soðið er sem þykkur grautur.  Oft borðað með kartöflumús.  Ketjafningur var af sumum talið fínna orð.

Ketkvartel / Kettunna (n, kvk)  Kvartel/tunna með keti/ fyrir ket.  „Láttu standa vatn í ketkvartelinu til að þétta það“.

Ketlæri (n, hk)  Kjötlæri.

Ketmáltíð / Ketsoðning / Ketveisla (n, kvk)  Máltíð kets; málsverður þar sem ket/kjöt er á borðum.

Ketmatur / Ketmeti (n, hk)  Matur sem samanstendur einkum af kjöti/keti.  „Maður hefur borðað svo mikið ketmeti yfir jólin að nú væri góð tilbreyting að fá fisk“.

Ketpoki (n, kk)  Kjötpoki; grisjupoki sem ketskrokkum var pakkað í eftir slátrun.  Snemma hvers morguns, áður en slátrun hófst, mætti hópur manna í Gjögrasláturhús til að pakka keti frá deginum áður.

Ketpottur (n, kk)  Pottur sem ket/kjöt er soðið i.             

Ketréttur (n, kk)  Kjötréttur.

Ketsax (n, hk)  Sax sem notað er til að höggva ket í spað, til söltunar í saltket.

Ketskammtur (n, kk)  Skammtur af keti/kjöti. 

Ketskrokkur (n, kk)  Kjötskrokkur; skrokkur af skepnu sem slátrað hefur verið.

Ketskrúbbur (n, kk)  Skrúbbur sem notaður er til að þvo ketskrokk.  Meðan slátrað var í nýrra sláturhúsinu á Gjögrum var slíkur skrúbbur útbúinn þannig að sagaður var í tvennt langur handskrúbbur; borað gat í helminginn og þar í skrúfuð vatnsbyssa sem tengd var slöngu með rennandi vatni.  Til venjulegra þvotta á ketskrokk var bundin grisja yfir hárin, en þau óvarin ef ná þurfti óhreinindum af.

Ketsög (n, kvk)  Sög til að hluta ketskrokk í sundur.  „Ári er nú ketsögin að verða tannlaus“.

Ketsöltun (n, kvk)  Söltun kets/kjöts.  „Ketsöltun er nákvæmnisverk, og misjafnt hvernig mönnum ferst það úr hendi.  Illa saltað ket er fljótt að skemmast“.

Kettlingskvikindi (n, hk)  Gæluorð um kettling.  „Vertu nú ekki að djöflast lengur í kettlingskvikindinu“!

Ketþvottur (n, kk)  Þvottur ketskrokks eftir slátrun.  Ef hreinlega tekst til við fláningu og innanúrtöku þarfnast skrokkur yfirleitt ekki þvotta, en í nýrra sláturhúsinu á Gjögrum voru skrokkar einatt þvegnir með ketskrúbb; einkum að innan og á hálsi eftir að hálsæðar höfðu verið skornar af.

Keyrslutími (n, kk)  Tími sem vinnuvél er keyrð; vinnutími vélar.  „Gjal fyrir vélina skal vera kr 15.00 á klst; reiknað fyrir keyrslutíma frá því að vélin kemur á vinnustað“  (Starfsreglur fyrir jarðræktarverkefni Kollsvíkinga 1945). 

Keytufýla (n, kvk)  Stæk lykt af hlandi/keytu.  „Mér varð hálf ómótt af keytufýlunni þarna inni“.

Kiðagrey / Kiðakútur / Kiðalýja / Kiðaskinn / Kiðastubbur (n, hk/kk/kvk)  Gæluorð í ávarpi við ungbörn.  „Komdu hérna kiðakúturinn minn“.  „Langar þig að ná í þetta, kiðastubbur“?

Kikkófær (l)  Algerlega ófær; mjög mikil ófærð.  „Fjörurnar eru gjörsamlega kikkófærar núna“.

Kindaket / Kindakjöt (n, hk)  Ærket; ket af fullorðnu.  „Ég nota þetta kindaket í kæfugerð“.

Kisulóra / Kisukvikindi (n, kvk)  Gæluorð um kisu/kött.  „Hvað er kisukvikindið nú að sniglast frammi á túni“?

Kíkishulstur / Kíkistaska (n, hk)  Hulstur/taska utanum kíki.  „Hér er kíkistaskan tóm; einhver hefur gleymt að setja kíkinn á sinn stað“.

Kíkisól (n, kvk)  Ól á kíki til að bregða um hálsinn til öryggis.

Kikisræfill (n, kk)  Gæluorð um kíki.  „Það er víst eins gott að muna eftir að hafa kíkisræfilinn með“.

Kíttisbyssa (n, kvk)  Kíttissprauta; áhald til að sprauta kítti/þéttiefni í rifur og samskeyti.

Kjaftablaður (n, hk)  Kjaftæði; munnræpa; bull.  „Ég hlusta ekki á svona rugl; þetta er ekkert annað en kjaftablaður“!

Kjaftaglúmur  / Kjaftaskúmur (n, kk)  Kjaftakvörn; málgefinn/lausmáll maður.  „Það er ekki hægt að trúa þessum kjaftaglúmi fyrir nokkrum hlut“! 

Kjaftaþáttur (n, kk)  Þáttur í útvarpi/sjónvarpi þar sem mikið er talað/blaðrað.  Einkum notað í niðrandi tón um þá sjálfhverfu blaðurþætti sem tröllríða fjölmiðlum, þar sem fáeinir fjölmiðlamenn á launum hjá almenningi blaðra hver við annan um eigin áhugamál með aulalegum hlátrasköllum og flissi. 

Kjaftaþvaður / Kjaftaþras / Kjaftaþvæla / Kjaftæði (n, kvk/hk)  Algert rugl/bull; alger vitleysa; haugalygi.  „Ég heyrði þessu fleygt, en ég býst við að það sé bara einhver kjaftaþvæla“.  „Ég nenni nú ekki að hlusta á svona kjaftæði öllu lengur“!

Kjaftfylla (s)  Yfirfylla; fylla alveg; troðfylla; pínsfylla.  „Það þýðir ekki að kjaftfylla pokann; þú verður að ná að binda fyrir hann“!  „Það gerði þvílít sandrok að Torfalækurinn kjaftfylltist af sandi“.

Kjaftíska (n, kvk)  Kjaftæði; bull; þvæla; orðatiltæki sem ekki fær staðist og/eða hefur ekki tíðkast.  „Hverskonar kjaftíska er þetta nú eiginlega“?!

Kjaftstopp (l)  Klumsa; eiga ekki til orð.  „Ég hélt að þeir væru að ljúga til um aflann, en þegar ég gáði í bátinn varð ég alveg kjaftstopp“.  „Kerlingin hellti sér yfir karlinn með óbótaskömmum þegar hann kom heim, svo hann varð alveg kjaftstopp“. 

Kjalfatta (s)  Þétta skip með því að slá hamp (oft tólgar- eða tjöruborinn) inn á milli borða/planka í byrðingnum.  Annarsstaðar neft að „kalfatta“.  „Kom þá í ljós að kjalfatta þurfti allt skipið fyrir ofan sjólínu“  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).

Kjanna / Kolla (s)  Kljúfa upp steinbítshaus í tvo helminga til herslu.  „Steinbítshausinn var klofinn/kjannaður/kollaður upp; ýmist með hníf eða exi og undir honum hafður hvalhryggjarliður ef til var.  Haldið var með vinstri hendi undir neðri góm og hnakkabeinið klofið niður um miðju.  Urðu þá til tveir jafnstórir kjannar.  Einnig var hausinn klofinn að innanverðu við vinstra augað; hnakkabeinið skorið úr.  Urðu þá kinnarnar eftir og héngu saman á granabeininu, en kjaftabeinið var áfast þeirri vinstri; allt kallað beinakjanni/beinakjammi.“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh). 

Kjarnorka / Kjarnorkukítti (n, kvk/hk)  Sérstök gerð af fljótharðnandi kítti sem seld var og nokkuð notuð, a.m.k. í Rauðasandshreppi, kringum 1960-80.  Gráleitur einþættur massi sem smyrja mátti í rifur og göt á þunnm málmhlutum, s.s. pottum; harðnaði fljótlega og dugði um nokkurn tíma.  Ekki ljóst nú hversvegna það var kennt við kjarnorku en vitanlega þekktu menn hana, og  á Láganúpi voru til bækur um innri gerð mismunandi kjarnorkuofna til orkuframleiðslu.

Kjarnorkukona (n, kk)  Afburða framtakssöm kona; dugnaðarforkur.  „Í þessu reyndist hún kjarnorkukona“. 

Kjálkakýr (n, kvk)  Leikföng í hornabúi barna; stórgripakjálkar notaðir fyrir kýr.  „Ég átti hornabú sem svo kallaðist.  Þar var hornafé, kjálkakýr, leggjahross og völuhænsn.“  (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).  

Kjánagangur / Kjánaháttur / Kjánaskapur (n, kk)  Heimska; kjánaleg hegðun.  „Hverskonar kjánagangur er þetta nú“?!   „Þessi flumbrugangur skilar engu.  Mér líkar ekki svona kjánaháttur“. 

Kjurr / Kjur (l)  Kyrr; hreyfingarlaus.  „Vertu kjurr meðan ég næ flísinni“.  „Tófan liggur alveg kjur á bakvið barðið“.  „Láttu þetta alveg kjurrt sem ég er að vinna við“.  „Draumur er til í sambandi við Selið.  K.B. dreymdi eitt sinn er hann hafði tekið hellu eina við Selið, að huldukona kom til hans og sagði:  „Láttu vera kjura helluna mína, eða þú skalt hafa verra af““  (Magnús Jónsson; Örn.skrá Raknadals).

Kjöta (s)  Vinna ket til matar; t.d. hluta skrokka eða brytja í spað.  „Hann var að vinna fram á kvöld við að kjöta fyrir nágrannan“.  Var notað meðal sláturhússmanna á Gjögrum, en ekki vitað um aldur. 

Klaka uppá (orðtak)  Hlú að; veita umhyggju.  „Það væri nú gustuk að klaka dálítið meira uppá tíkarræfilinn meðan fótbrotið er að gróa“.  Upphaflega er orðið „klaka“ notað um unga- eða fuglahljóð en heyrðist ekki í þeirri merkingu í Kollsvík.  Hinsvegar var það notað í þessu samhengi, sem ekki heyrðist annarsstaðar.

Klakahrjónungur (n, kk)  Grófur/upphleyptur klaki/ís.  „Fitin var einn samfelldur klakahrjónungur“.

Klakarunnið (l)  Runnið/hlaupið í klaka. „En fyrir neðan var allt klakarunnið“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg). 

Klapparhnúta (n, kvk)  Klöpp; klapparhorn; klakkur.  „Fremst á Breiðaskeri er nokkru hærri klapparhnúta sem heitir Breiðaskersklakkur“  (HÖ; Fjaran). 

Klaufaklipping / Klaufasnyrting (n, kvk)  Það verk að klippa framanaf klaufum kúa.  Klaufirnar vaxa, einkum að vetrarlagi þegar kýrin stendur á bás, og sér í lagi ef undirlag er mjúkt.  Þá er nauðsynlegt að klippa framan af þeim, og var það oftast gert með beittum naglbít.  „Búbót hlýtur að líða betur eftir klaufasnyrtinguna“.

Kláðaskoðunarmaður (n, kk)  Sá sem framkvæmir kláðaskoðun á sauðfé.  Til þess starfa fékk hreppsnefnd sérstaka menn.  Síðar breyttist starfsheitið í böðunarstjóri, þegar böðun sauðfjár varð almenn.

Kláðasækinn (l)  Gjarn á að klæja; hættir til að hafa mikinn kláða.  „Fjandi er maður kláðasækinn þessa dagana; skyldi það vera eitthvað í fatnaðinum eða veðrinu“!

Kláðatilfinning / Kláði (n, kvk/kk)  Pirringur sem vekur þörf á að nudda og klóra viðkomandi svæði.  „Eftir að sárið greri hef ég verið með hálfgerðan erting og kláðatilfinningu í því“.

Kleinukaffi (n, hk)  Kaffiveitingar þar sem kleinur eru bornar fram, oft nýbakaðar.  „Það er heldur munur að fá kleinukaffið hjá þér en berrassað kaffi á ónefndum bæjum“!

Klessusnjór / Klessingur / Klessuskítur (n, kk)  Blautur snjór/ slydda sem hleðst á það sem á fellur.  „Það verður snyrtilegt ef hann frystir í þennan klessusnjó“!  „Skelfing verður féð óþrifalegt í þessum klessingi“.  „Búðu þig almennilega; þessi klessuskítur bleytir þig annars alveg inn að beini“!

Klettaklakkur (n, kk)  Sker; boði; grynning.  „Þannig hagar til í Kollsvík að tveir klettaklakkar eru nokkuð fyrir framan lendinguna, og er lítið bil milli þeirra en þó vel árafrítt, og var það kölluð miðleið“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   

Klettaslefrur (n, kvk, fto)  Sundurslitnir klettar; gjarnan aflíðandi með skriðum inn á milli.  „“Áframhald af Kjölnum til vinstri taka við klettaslefrur fram með Vatnadalnum; það heitir Ívarsegg“  (I.G.  Sagt til vegar II).

Klettaslæfur (n, hk)  Klettaslefrur; sundurslitnir klettar.  „Bæjarkletturinn er klettaslæfur, mjög sprungið, því þarna var aðalgrjótrif í hinar mörgu byggingarframkvæmdir í Sauðlauksdal á fyrsta áratugnum eftir aldamótin (1900)“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Klettshorn (n, hk)  Klettsendi.  „Þegar ekki þótti einsýnt sjóveður á venjulegum róðrartíma, var það oft að formenn og fleiri söfnuðust saman til þess að „bræða veðrið“, sem svo var kallað.  Oft var þessi ráðstefna sett og haldin á klettshorninu syðra á Norðariklettunum“  (KJK; Kollsvíkurver).

Klikkhaus (n, kk)  Rugludallur; vitleysingur.  „Skelfingar klikkhaus getur maðurinn verið; þvílík yfirsjón“!

Klittnaspor (n, hk)  Saumur í klofi á skinnbrókum; sjá skinnklæði.  „Var þá haldið áfram með leggsaum upp að klittnaspori“  (KJK; Kollsvíkurver).

Klofavarða (n, kvk)  Steinhlaðin varða sem að neðanverðu er klofin; þ.e. hvílir á tveimur undirstöðum.  „Myndarlegasta klofavarða sem fyrirfinnst gæti verið varðan á Stórafellinu, sem hlaðin er af Guðbjarti Guðbjartssyni hleðslumeistara frá Láganúpi.  Hún er mjög reglulega hlaðin; breið með ferstrendum súlum; þykkum bálki að ofan og manngengu gati sem vísar til Láganúpsvers og Grunda“.  Orði finnst ekki í orðabókum en var almennt notað vestra.  Klofavörður við þjóðvegi fengu oft það hlutverk að geyma kveðskap af misjöfnu tagi; sem gjarnan var stungið í sauðalegg.

Klofblautur / Klofvotur (l)  Blautur í fætur og upp í klof.  „Stór alda reið undir bátinn; mér tókst að halda honum réttum við sandinn, en það kostaði það að ég varð klofblautur“.

Klofrifna (s)  Um buxur; rifna um saum í kofinu.  „Buxurnar klofrifnuðu þegar ég glennti mig yfir lækinn“.

Klóakul (n, hk)  Ofkæling/kuldadofi hunda á fótum, hliðstæð naglakuli á mannfólki.  „Ósköp þarf tíkin að sleikja á sér lappirnar.  Ætli hún sé ekki með klóakul, skarnið“.

Klókaldur (l)  Kaldur á nöglunum; kaldur á klónum; með naglakul.  „Ertu orðinn dálítið klókaldur stubburinn minn?  Þér hefði verið nær að þiggja vettlingana“!

Klórast (s)  Krafla sig; klöngrast; skriflast.  „Ég náði að klórast upp í næsta gang og komst þaðan upp á brún“.

Kluftir (n, kvk, fto)  Bilið milli klaufa sama fótar á klaufdýri, s.s. sauðkind og nautgrip.  „Það er afskaplega snjólétt; varla upp í kluftir á fénu“.

Klukkaður (l)  Um leiki:  Eltingaleikur gengur út á það að einn á að elta hina og þegar hann nær einhverjum að snerta hann og segja „klukk“.  Þá er sá „klukkaður“ og tekur við hlutverkinu að elta. 

Klukkulykill (n, kk)  Lykill til að trekkja/vinda upp klukku.  „Hvar hefur klukkulykillinn verið settur“?

Klukkustundargangur / Klukkutímaganga (n, kk)  Vegur/vegalengd sem tekur klukkutíma að ganga.  „Þetta er nú vel klukkustundargangur frá Saurbæ, þó enginn setti slíkan smáspotta fyrir sig“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  „Ég held það sé rösk klukkutímaganga frá Láganúpi framá Hauga“.

Klumbubein (n, hk)  Stórt bein fremst í þunnildi fisks, aftan við tálknin.  Klumbubein ýsu eru mjög efnismikil og sumir dunduðu sér við að skera úr þeim litlar dýra- eða fuglastyttur.  Orðið klumba var þekkt annarsstaðar en ekki klumbubein svo vitað sé.

Klungurskafli (n, kk)  Ógreiðfær hluti af leið.  „Þegar lömb voru hæfilega stálpuð var valinn fjárhópur rekinn útyfir Hnífa; útí Breið, til hagagöngu.  Fara þurfti varlega í stórgrýttum klungurskafla við Blettahjallann, en síðan var féð rekið útfyrir girðinguna í Urðarhryggnum, og hliðinu þar lokað“.

Klungursleið (n, kvk)  Erfið/stórgrýtt/hættuleg leið, einkanlega notað um leiðir í klettum.  „Prílaðirðu virkilega bandlaus upp þessa déskotans klungursleið“?!

Klunnafótur / Klunnalöpp (n, kk/kvk)  Notað um það þegar maður hrasar fyrir klaufaskap.  „Óttaleg klunnalöpp er nú á þér drengur; þú verður að gá niður fyrir tærnar á þér“!

Klúðursbragur (n, kk)  Klaufalegt yfirbragð.  „Óttalegur klúðursbragur er á þessari viðgerð“.

Klúðurslega (ao)  Klaufalega; illa.  „Þessi viðgerð finnst mér vera klúðurslega unnin“.

Klæki (n, kvk)  Kænska; klókindi; útsjónarsemi.   „Hann þóttist vera sárasaklaus, en ég sá það strax af klæki minni að eitthvað var brogað við hans frásögn“.

Klömbruhleðsla (n, kvk)  Sérstakt lag við hleðslu torfveggs; með því að nota klömbruhnaus.  Klömbruhleðslur voru ekki viðhafðar vestra, a.m.k. ekki í seinni tíð; enda grjót nærtækt og grjótveggir standa betur en torfveggir.

Knalletta (n, kvk)  Hvellhetta; lítil sprengja.  A.  Hvelletta í haglaskoti, sem bógurinn skellur á og kveikir í púðri skotsins.  „Uppi á lofti í gamla Traðarhúsinu fundum við poka af knallettum og öðru til skotahleðslu“.  B.  Hreppstjórakúla (sjá þar).  C.  Hvelletta hvellhettubyssu/knallettubyssu.  Oftast raðað á borða eða plasthring.

Knallettubyssa (n, kvk)  Hvellhettubyssa; leikfang sem er eftirlíking skammbyssu; er með knallettum/hvellhettum með litlum púðurskammti sem gefa hvell þegar hamar skellur á þeim.  Vinsælt leikfang sem barst í Kollsvíkina með Halldórssonum á 7. áratug 20. aldar.

Knallettutöng (n, kvk)  Hvellhettutöng; töng til að þrykkja hvellhettu/knallettu í skothylki þegar það er hlaðið.

Kneif /Kneifaröngull (n, kvk)  Öngull með ásteyptri síld.  Slíkir önglar tíðkuðust á tímabili uppúr 1900, og voru þá gjarnan með spaða í stað auga, og öngultaumur (hvippa) var benslaður á legginn.  Fyrr mun kneif hafa verið notað um öngla yfirleitt.

Knúður (n, kk)  Hnúður; hnyðja.  Vestfirskur framburður, t.d. GG.  „Þarna er rekinn trollknúður“.

Koj (n, hk)  Stytting á koja, og þá gjarnan notað um hvaða rúm sem er.  „Ætli maður fari ekki bara að draga sig til kojs, hvað úr hverju“.  „Þú ert að verða syfjaður; viltu ekki bara fara að ganga til kojs

Kolalok (n, hk)  Gæluorð um lítinn skarkola.  „Ég hirti nokkur kolalok sem komu í netin í dag“. 

Kolbilað (l)  Um veður; snarvitlaust; kolvitlaust.  „Hann er að renna á með kolbilað veður,sýnist mér“.

Koleygt (l)  Um þroska eggs; komin greinileg augu í stropann og e.t.v. einnig goggur.  „Langvíueggin voru sum orðin koleygð, en álkueggin voru öll ný“.  Sjá eygt og grúeygt.

Kolhertur (l)  Um fisk eða brauðmeti; fullhertur.  „Úr mjölinu voru gerðar næfurþunnar flatkökur og kolhertar, svo þær mygluðu ekki þótt lengi væru geymdar“  (PJ; Barðstrendingabók).

Kolla (s)  Afkolla; afhausa; taka haus af steinbít (sjá steinbítur).

Kollblautur (l)  Blautur á höfði; kollvotur.  „Settu nú upp sjóhattinn; þú verður annars fljótt kollblautur í þessu pusi“.  „Það ýrir drjúgt úr þokunni; ég er orðinn hálf kollblautur“.

Kollsvíkingamót (n, hk)  Samkoma Kollsvíkinga.  Nokkuð hefur verið um það í seinni tíð að Kollsvíkingar komi saman, sér til skemmtunar og til að halda kynnum.  Þær samkomur eru ýmist haldnar í Kollsvík eða annarsstaðar.  Með því eru um leið ræktuð tengsl fólks við Kollsvíkina og heiðruð minning forfeðra.

Kollsvíkingur (n, kk)  Sá/sú sem á ættir og/eða búsetu að rekja til Kollsvíkur í Rauðaandshreppi.  Misjafnt er hve hópurinn er skilgreindur þröngt.  Þegar t.d. var rætt um Kollsvíkinga í daglegu tali hreppsbúa var einungis átt við þá sem bjuggu í Kollsvík.  En þegar rætt er um almenn tengsl manna við staðinn, þá nær Kollsvíkingshugtakið yfir allt fólk af Kollsvíkurætt, auk þeirra sem þar hafa átt búsetu lengur eða skemur.

Kollsvíkurbóndi (n, kk)  Búskapur hefur verið í Kollsvík frá landnámi, þó hann liggi nú niðri vegna markaðsaðstæðna.  Kollsvíkurbændur fyrri alda stunduðu ekki einungis landbúnað heldur ekki síður sjávarútveg.  Sauðland er mjög gott; vetrarbeit bæði í úthaga og fjöru og slægjulönd ágæt.  Fiskimið eru oftast stutt undan landi og lending oftast góð fyrir þá báta sem áður tíðkuðust.  Kollsvíkurbændur þurftu því að vera jafn hæfir sjóarar og bændur;  eiga bústofn og bát.  Auk eignarjarðanna sjálfra; Láganúps og Kollsvíkur byggust smærri býli um lengri eða skemmri tíma; bændur sem höfðu viðurværi af sjósókn en höfðu lítinn bústofn með, ásamt slægjulandi fyrir hann.  Af þeim urðu Grundir og Stekkjarmelur einna mestar bújarðir, en einnig voru í byggð um tíma Tröð, Grænamýri, Gestarmelur, Grund, Grundarbakkar og Hólar.

Kollsvíkurhávaði (n, kk)  Hugtak sem orðið hefur til í munni þeirra sem umgangast fólk af Kollsvíkurætt; einkum þá grein sem alist hefur upp á ættjörðinni í seinni tíð. 

Kollsvíkurland (n, hk)  Sú landareign sem tilheyrir Kollsvík.  „Kollsvíkurland nær inn að Þyrsklingahrygg“.

Kollsvíkurmaður (n, kk)  Kollsvíkingur er það heiti sem allajafna er notað um þetta sérstaka fólk, en þessu brá fyrir:  „Annars skiptir það ekki mestu máli; heldur hitt að ég reyni að skrásetja merkilegan atburð úr sjálfsbjargarlífi Kollvíkurmanna, sem flest er úr minni liðið nú til dags“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík).  „Eins lentu Kollsvíkurmenn oft bátum sínum í Hænuvíkinni eftir siglingu frá Patreksfirði, ef vont var í sjóinn útifyrir; og gengu heim út yfir Hænuvíkurháls“  (DÓ; Að vaka og vinna).  „Kollsvíkurmenn byggðu allar búðir; áttu þær og leigðu vermönnum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Kollsvíkurmegin (ao)  Þeim megin landamerkja/Breiðs/Blakks sem Kollsvík er/ á land.  „Alltaf finnst mér betra að fara Kollsvíkurmegin við Nibbuna en Hænuvíkurmegin; þar er bergið tæpara, blautara og lausara í sér“.

Kollsvíkurætt (n, kvk)  Mikil ættbálkur sem rakinn er frá Einari Jónssyni.  Hann fæddist á Hallsteinsnesi við Þorskafjörð 1759; flutti að Vatneyri um 1790 og var bóndi í Kollsvík frá 1798 til dauðadags 1836.  Afkomendur Einars hafa búið í Kollsvík frá þeim tíma, þó langflestir af ættinni búi vitaskuld annarsstaðar á landinu, og reyndar víðsvegar um heimininn.  Reyndar á ættin eldri rætur í Kollsvíkinni, því forfeður Guðrúnar Jónsdóttur, konu Einars, bjuggu í Kollsvík uppúr 1700, t.d. bræðurnir Bjarni Jónsson í Kollsvík og Halldór Jónsson á Láganúpi; tveir hinna kunnu Sellátrabræðra frá Tálknafirði.  Einar Jónsson var stórbóndi og virðingarmaður á sinni tíð; átti hlut í einni fyrstu skútu sem til landsins kom; stundaði síðastur Íslendinga járnvinnslu úr mýrarrauða; var sækjandi í Sjöundármálum; átti bókina Fornótt, sem sumir töldu galdraskræðu; átti í útistöðum við galdramann í Arnarfirði vegna hvalhlutar og kvað niður sendingar frá honum.  Hann þótti fylginn sér í viðskiptum og lét ógjarnan hlut sinn fyrir öðrum, en um leið sanngjarn höfðingsmaður.  Stundum er það sagt einkenna fólk af kollsvíkurætt að það sé stíft á meiningunni og sjálfstætt í hugsun, en um leið sanngjarnt og hjálpfúst.  Sumir hafa verið nefndir þvergirðingar og sérvitringar en sumir þykja manna mestir sáttamenn og félagsmálafrömuðir.  Nokkuð þykir skiptast í tvö horn hvað peningavit snertir; nokkrir helstu auðmanna landsins eru af Kollsvíkurætt meðan öðrum helst ekki á nokkurri krónu.  Óvíst er hvorum hamingjan fylgir að málum; en flestir fara þarna meðalveginn.  Bókvit og fróðleiksfýsn þykir fylgja ættinni, og þá er þar mikið um hagleiksfólk, listafólk og skáld.  Kollsvíkingar þykja yfirleitt fremur skýrmæltir og háværir í tali og ófeimnir að segja sína skoðun.  Er af því komið sérstakt hugtak; svonefndur kollsvíkurhávaði.  Upp og ofan er hvað menn eru fjárglöggir og fisknir, eins og gengur, en til þess var tekið að Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi þekkti ekki einungis allar sínar kindur á langleið með nafni; heldur þekkti hann einnig allar kindur á nærliggjandi bæjum; þær sem á Breiðavíkurrétt komu.  Lýkur hér palladómum um ættingjana, en um ættina má ýmislegt sjá í bók Trausta Ólafssonar; Kollsvíkurætt, sem út kom 1960, og í niðjatali Guðbjartar og Hildar frá Láganúpi sem út kom 1989.

Kolófærð (n, kvk)  Mikil ófærð vegna sjóa. „Við vorum innilokuð í nokkra dga í kolófærð og illviðri“.

Kolrugla (s)  Rugla alveg; snarrugla; gera alveg ringlaðan.  „Þetta kolruglar mann bara í ríminu“.

Kolstífla (s)  Stífla/þétta gjörsamlega.  „Settu ekki of mikinn pappír í klósettið; þá kolstíflast lagnirnar“.

Kolstíflaður (l)  Alveg stíflaður.  „Skurðurinn er samanfallinn á kafla, og kolstíflaður“.

Kolsvartabylur / Kolsvartaél (n, kk/hk)  Mjög dimmur bylur; svartnættisbylur; svartaél.  „Ekki léttir hann enn í þennan kolsvartabyl“.  „Hann skall á með kolsvartaéli eins og hendi væri veifað“.

Kolunga (s)  Um egg; verða mjög ungað.  „Það þýðir ekkert að fara í egg eftir að þau eru farin að kolunga“.

Kommahyski / Kommalýður (n, hk/kk)  Niðrandi heiti á fólki sem aðhyllist hugsjónir kommúnista og /eða vill efla réttindi þeirra sem minnst mega sín með félagslegri samstöðu.  Oftast er heitið notað af þeim sem aðhyllast einstaklingsframtak og láta sig jöfn kjör litilu skipta.  „Þegar Láganúpshúsið var í byggingu mun vel hafa verið fylgst með því af íhaldsklíkum syðra og leyniþjónustu Bandaríkjanna; enda hafði Gunnar Össurarason fengið til liðs við sig marga helstu vini sína, sem í þeirra augum töldust kjarni íslenska kommúnistahyskisins.  Voru orrustuþotur af Keflavíkurvelli tíðir gestir yfir Kollsvík um þann tíma“.

Kompásstokkur (n, kk)  Kassi sem kompás báts er hafður í.  Kompásinn er í ramböldum, þannig að hann getur verið nokkuð láréttur í veltingi, og er ysta hringnum fest í stokkinn innanverðan.  Stokkurinn er hafður í barka bátsins, þar sem minnst hætta er á hnjaski í veiðiferð.

Kopareyra (n, hk)  Eyra/hanki úr kopar á potti.  „Konurnar ... komu töltandi til pabba ef gat kom á pott hjá þeim eða bilaði halda, og hann sauð í þetta.  Smíðaði kannske ný kopareyru á þá“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Koppagrundir (n, kvk, fto)  Víðáttur; eingöngu notað í orðtakinu „út um allar koppagrundir“ sem var mikið notað vestra um það sem fór víða. 

Korkaflá / Korkateinn / Korkaþinur (n, kvk)  Flotþinur; flotteinn efri þinurinn á neti; sem korkarnir (flotin) voru festir við; nú flotlína.  „Hér hefur farið út flækja á korkaflánni“.

Korkaflækja / Kubbaflækja (n, kvk)  Flækja í neti sem orðið hefur við það að komið hefur lykkja á kubbatein í lagningu og einn eða fleiri kubbar slegist inn í netið við inníslátt.

Kort (l)  Lítið; þrotinn; á þrotum.  „Ég er að verða ansi kort með kaffi og sykur“.  Notað af sumum í Rauðasandshreppi framyfir 1970, t.d. GJH.  Sjá einnig heykort.

Kotbragur / Kotbændabragur / Kotbændaháttur / Kotungsbragur (n, kk)  Yfirbragð fátæktar/smábónda; fátækt; sparsemi.  „Hann sýndi með þessu að enginn kotbændabragur var á þeim bæ“.  „Það er enginn kotungsbragur á því býlinu“.

Kófsalli / Kófsnjór (n, kk)  Mjög fínkornaður snjór, sem rýkur auðveldlega í minnsta vindi.  „Stöðugt skóf kófsalla framaf brúninni“.  „Þessi kófsnjór fer allur af stað ef eitthvað hreyfir vind“.

Kófþoka (n, kvk)  Þykk þoka; svartaþoka.  „Hann er að velta inn einhverri bölvaðri kófþoku; það er víst útséð með þurrk það sem eftir er dagsins“.

Kólguloft (n, hk)  Þungbúið veðurútlit; óveðursský á lofti.  „Ekki veit ég hvað hann gerir í þetta kólguloft í vestrinu“.

Kómu (s, ft, fortíð)  Komu.  Eitt mikilvægt framburðareinkenni Kollsvíkinga var það að kringja o-hljóð í þátíðarmyndum sumra sagna.  Segja t.d. „þeir kómu seint að“, eða „þeir vóru ekki lengi að finna féð“.

Kóngakaffi (n, hk)  Kaffi með vínsopa útí.  Sumir áttu það til að bjóða góðum gestum uppá kóngakaffi.  Þá var hellt í kaffið dálitlum sjúss af víni; líkleg oftast rommi, brennivíni eða koníaki.  Ekki var þetta þó í boði á öllum bæjum.

Kóngshæð (n, kvk)  Hæsta hæðin af þeim sem saman sjást.  Kóngshæð nefnist hábunga fjallsins milli Kollsvíkur og Örlygshafnar; sunnan Tunguheiðarvegar.  Nafnið hefur valdið mönnum heilabrotum, en beinast liggur við að álykta að nafnið sé dregið af hæð bungunnar.  Frá Láganúpi séð ber hún hátt yfir aðrar nálægar. 

Krabbafjandi / Krabbaóþverri / Krabbaskratti (n, kk)  Krabbamein.  „Hann er vís orðinn alveg heltekinn af þessum krabbafjanda, og ógæfulegt með útlitið“.  „Þessi krabbaóþverri spyr víst ekki að aldri“.

Krafsblað (n, hk)  Blað sem nýtist til að rissa á/ teikna á/ krafsa á.  „Er ekki eitthvað krafsblað við hendina, svo ég geti teiknað þetta upp fyrir þig“?

Kraftverk (n, hk)  Heiti íbúa Rauðasandshrepps yfir virkjun/rafstöð; virðist ekki hafa verið notað annarsstaðar á landinu.  „Á nokkrum bæjum í Rauðasandshreppi var komið upp litlum heimilisrafstöðvum löngu fyrir samveiturafmagnið, þær fyrstu fyrir 1930. Rafmagn frá þeim nægði fyrir ljós og eldavélar og sums staðar til upphitunar. .... „Ekki þjakaði minnimáttarkennd þá sem komu sér upp þessum örstöðvum því þeir kölluðu þetta „kraftverk“.Þó var til enn minna „kraftverk“ á Rauðasandi, það var pabbi minn sem kom sér því upp, það dugði fyrir útvarpsrafhlöður en ekki var það fyrirhafnarlaust. Pabbi tengdi dínamó við rennibekkinn sinn og svo var hægt að stíga bekkinn og hlaða batteríin en það tók langan tíma. Þarna voru hlaðnar útvarpsrafhlöður á Lambavatnsbæjunum og stundum fleiri. Annars fóru menn með rafhlöður í„kraftverkin“ bæði að Brekku og í stærri vatnsvirkjanir en þá var yfir fjöll að fara“  (SG; Rafvæðing; Þjhd.Þjms). 

Krakkaangi / Krakkagrey / Krakkakind / Krakkakvikindi / Krakkalóra / Krakkaormur / Krakkarófa / Krakkaræfill (n, hk)  Gæluheiti um krakka.  „Það er ekki hægt að ætlast til þess að krakkakvikindin hangi svona lengi í skólabílnum“.  „Krakkalórurnar eru loksins komnar í háttinn“.  „Hvað skyldu krakkarófurnar hafa gert af stungurekunni“?

Krakkaskari / Krakkastóð (n, kk/hk)  Barnahópur.  „Ég ætla að klára að steikja kleinurnar áður en krakkaskarinn kemur inn“.  „Þessir leikir voru leiknir í frímínútum í skólanum, en einnig kom krakkastóðið oft saman á sunnudögum til leikja“  (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).  

Kranakrans (n, kk)  Handfang ofaná krana, til að skrúfa frá og fyrir vatn eða annað sem úr honum rennur. 

Kranavatn (n, hk)  Vatn sem kemur úr krana.  „Það var ekki furða þó vélin þyldi ekki frostið; þeir höfðu sett á hana blátært kranavatn án þess að setja í það frostlög“! 

Krankheit / Krankleiki (n, kk)  Veila; veiki; bilun.  „Einhver krankheit hafa hrjáð hann að undanförnu“.  „Ekki veit ég hvaða krankleiki er nú kominn upp í jeppanum“.

Kransæðakítti (n, hk)  Nýyrði/slanguryrði um mat sem mikið er í af óhollum efnasamböndum sem valdið geta kransæðastíflu.  „Það má víst ekki éta eggin lengur; nú eru þau sögð versta kransæðakítti sem fyrirfinnst“!

Krapphyrnd (l)  Um hornalag á kind; með krappri sveigju.  „Kreppa var áberandi krapphyrnd“.

Kratabjálfi / Kratakvikindi (n, kk/hk)  Niðrandi heiti á stuðningsmanni Alþýðuflokksins.  Á síðari hluta 20. aldar, og e.t.v. lengur, voru bændur í Rauðasandshreppi upp til hópa framsóknarmenn; enda beitti sá flokkur sér mjög í þeirra hagsmunamálum.  Undantekningar voru þó á þessu, og á sumum bæjum naut t.d. sjálfstæðisflokkurinn stuðnings.  Fáir, ef nokkrir, studdu alþýðuflokkinn í Rauðasandshreppi, en vitað var af einstaka manni í næstu byggðarlögum sem það gerði.  Það töldu framsóknarmenn hina örgustu villutrú og fundu þeim flokki allt til foráttu; töldu jafnvel íhaldsdindlana betri af tvennu illu.

Kratasnepill (n, kk)  Niðrandi heiti á Alþýðublaðinu, en það var oft efnislítið.  Sjá kratabjálfi um viðhorfin.

Kratíska (n, kvk)  Viðhorf sem framsóknarmenn, og e.t.v. fleiri, töldu túlka stefnu Alþýðuflokksins.  Sú stefna var af framsóknarmönnum talin mjög fjandsamleg bændum, og lýsa litlum skilningi á búskap.  „Vertu nú ekki að koma með einhverja bölvaða kratísku“!

Krepjuél / Krepjuhríð / Krepjukafald (n, hk/kvk)  „Það var farið að hlýna í lofti, en þá skall yfir okkur ákaft krepjukafald, svo við urðum hundblautir inn að skinni á stuttum tíma“.

Krepjusnjór (n, kk)  Krepja; fremur þýður snjór sem klessist.  „Það er ágætt að aka í krepjusnjó; svo lengi sem hann verður ekki of þýður og hættir að halda bílnum á floti“.

Kringlumjólk / Kringlusúpa (n, kvk)  Súpa sem gerð er með því að sjóða krinlur uppúr mjólk.  Nokkuð algengur matur í Barnaskólanum í Örlygshöfn á fyrstu árum hans í Fagrahvammi.

Kristinn kjammi / Heiðinn kjammi Nöfn sem Útvíknamenn notuðu á hlutum flyðruhauss eftir að hann hafði verið klofinn upp.  „Eftir að flyðruhausinn hafði verið klofinn upp voru höfuðkinnar nefndir kjammar eða vangar.  Í Vestmannaeyjum var svarta kinnin nefnd dráttarkinn en sú hvíta ífærukinn.  Í verstöðvum í nánd við Látrabjarg kallaðist hvíta kinnin heiðinn kjammi en sú svarta kristinn kjammi.  Mikill matur var í höfuðkinnum af stórum flyðrum og þær voru því taldar afbragðs beinfeiti.  Oftast voru þær soðnar nýjar; einnig visaðar eða saltaðar“  (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: Guðbj.Guðbjartsson Lágnúpi).

Kroppbeit / Kroppjörð (n, kvk)  Kropp; lítilsháttar bithagi.  „Víða er kroppbeit uppi á heiðunum, þó þar sé bert yfir að líta“.  „Vísaðu fénu hér fram á Foldin; þar gæti helst verið einhver kroppjörð í þessum klamma“.

Krossbit  (l)  Steinhissa; brugðið.  Ég er nú alveg krossbit yfir þessari uppákomu“!

Krossflaugadreki  (n, kk)  Krípur; dreki/stjóri með fjórum flaugum.  Notaður á bátum í Kollsvík og víðar.  Orðabækur gefa upp „krossflaugastjóra“ o.fl. en þetta heiti var algengast í Kollsvík.

Krókhyrnd (l)  Um hornalag á sauðfé; með horn sem hafa áberandi krappa beygju í endann.

Kruðerí (n, hk)  Sætar kökur; fínt meðlæti með kaffi.  „Óþarfi að bera svona fínt kruðerí á borð fyrir mig“. 

Krullóttur (l, með linum framb)  Hrokkinhærður; með áberandi hringaða liði/lokka í hári.  „Fáir trúa því núna að ég hafi verið ljóshærður og afskaplega krullóttur sem barn; enda fá líkindi með því og sléttum skalla og gráum hárkraga sem prýðir minn haus í dag“.

Krummakvikindið / Krummaskepnan / Krummatetrið Gæluorð um hrafninn.  Heimilishrafnar voru álitnir heimilisvinir, og yfirleitt litið til þeirra með velþóknun þó útaf því gæti brugðið ef þeir lögðust á fé.  Talið var gæfumerki að víkja einhverju æti að hrafninum:  „Guð launar fyrir hrafninn“. 

Krumtöng (n, kvk)  Töng með kjaftinn í aðra stefnu en handföngin; vatnspumputöng.

Krungtappi / Krumtappi (n, kk)  Sveifarás í sprengivél.  Orðið er komið úr dönsku og vísar til þess að ásinn er með miklum hlykkjum.  Í máli manna vestra þótti „krungtappi“ rökréttara og varð alfarið notað; enda merkir orðið „krungur“ það sem er bogið.

Krytjur (n, kvk, fto)  Litlir afgangar; molar; lítið magn.  „Gáðu hvort einhverjar krytjur eru eftir af salti“.

Kræklingsnot (n, hk, fto)  Nytjar kræklings til matar.  „Ég heyrði ekki mikið um skelfisksneyslu áður fyrr, en þegar ég var að alast upp voru nokkur kræklingsnot á einum bæ í sveitinni; Hvalskeri“  (SG; Sjávar- og fjörunytjar; Þjhd.Þjms).  Kræklingur var nokkuð nýttur í Kollsvík, þegar hann rak á fjörur í hausum hrossaþara.

Kubbabú (n, hk)  Leikur barna í Kollsvík að kuðungum og skeljum úr fjöru.  Sett voru upp bú á völdum stað nærri bæ, t.d. í Ytragili á Láganúpi.  Í þeim voru kuðungar hafðir fyrir kindur og beitukóngar fyrir hrúta; kúfskeljar fyrir kýr og öðuskeljar fyrir hesta.  Meyjapöppur voru lömbin; gimburskeljar kálfar; smyrslingsskeljar folöld og olnbogaskeljar hænsni.  Hús voru af ýmsu tagi; hola í barð; beygðar járnplötur eða vandaðri smíði.  Slíkur búskapur var nokkuð annarrar gerðar en hornabú, en gat verið rekinn samtímis.

Kubbateinn / Kubbaþinur (n, kk)  Flotteinn/flotþinur/ efri þinur á neti.  Fyrir daga gerviefna voru bútar úr viði eða korki festir á teininn til að halda honum frá botni og netinu opnu, og er nafnið af því dregið.  „Hér hefur árans kubbaþinurinn slegist langt inní netið“!

Kukla (s)  Stunda galdra/spádóma/særingar/fjölkyngi; hafa í frammi loddarabrögð; stunda sérhæfð verk án nægrar þekkingar.  „Eitthvað hafði hann verið að kukla við lækningar, en með misjöfnum árangri“.

Kuldaherkjur (n, kvk, fto)  Kipringur/herkjur í andliti; einkum í kringum munn, vegna kulda.  „Hann var skjálfandi og blár af kulda og gat varla talað fyrir kuldaherkjum“. 

Kuldanæðingur / Kuldaskítur / Kuldaskítsnæðingur (n, kk)  Nepja; skítakuldi; bitur kuldi.  „Það er enn sami kuldaskíturinn og í gær“.  „Ég hefði haft hina húfuna hefði ég áttað mig á þessum kuldaskítsnæðingi“.

Kuldatíð / Kuldatíðarfar (n, kvk/hk)  Tímabil kaldrar veðráttu.  „Það er vonandi að nú sé að verða breyting á þessu kuldatíðarfari sem verið hefur“.

Kuldasúgur / Kuldatrekkur (n, kk)  Kaldur súgur/gegnumtrekkur t.d. í húsi.  „Hvaðan kemur þessi kuldatrekkur; er opin útihurðin“?

Kunningjaspjall (n, hk)  Tal/samræður þeirra sem vel þekkjast.  „Við áttum ágætt kunningjaspjall um þessi mál, en ekki var þetta formlegur fundur“.

Kutti (n, kk)  Lítill hnífur, stundum búinn til úr skeftum stúf af ljáblaði.  Orðið virðist annarsstaðar hafa verið borið fram og ritað linara; „kuti“, en var alltaf framborið hart í Kollsvík.  (Sjá einnig útbrotakutti).

Kúalella / Kúaskítshlass / Kúaskán / Kúadella (n, kvk)  Skítur úr nautgrip.  Kúalella var oft notað fremur um linan kúaskít.   „Það má oft finna maðk í beitu undir kúaskítshlassi“.  „Kúaskán var notuð sem eldiviður“.  „Steigstu í kúadellu“?

Kúastampur (n, kk)  Drykkjarstampur hjá kúm; ílát sem haft er undir vatni hjá kúm.  „Passaðu uppá að yfirfylla ekki kúastampinn“.

Kúðalegur (l)  A.  Lítill; ræfilslegur; aumingjalegur.  „Skelfing er kálfurinn kúðalegur; það er eins og hann nærist illa“.  B.  Niðrandi lýsing á manni; kauðslegur; lúalegur; ómerkilegur; sviksamur. Heyrist þó sjaldan.

Kúfiskfjara (n, kvk)  Fjara þar sem tíndur er kúfiskur, t.d. til beitu.  „Í kúfiskfjörunni var sullast fram á miðjan daginn eftir“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Kúfisklega (n, kvk)  Mið þar sem kúfiskur er plægður upp.  „Kúfisklegan undan Breiðavíkurrifi norðarlega.  Þar var plægður upp kúfiskur þegar ég man fyrst eftir, en þótti erfið og ófengsæl beitutekja og lagðist þá niður“  (KJK; Kollsvíkurver).

Kúgi (n, kk)  Sopi; teigur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Kúlda / Steinbítskúlda (n, kvk)  Kinnfiskur.  „Kinnfiskurinn/ kúldan/steinbítskúldan var víða rifin til átu úr hörðum hausnum.  Dálítið var á reiki með kúlduheitið.  Það gat átt við kinnbeinið ásamt fiskinum og einnig allan hausinn.  “  (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh). 

Kúmente (n, hk)  Te sem lagað er úr kúmenfræjum eða bragðbætt með þeim.  Kúmen (Carum carvi) vex ekki villt í Kollsvík, en þar eru hinsvegar breiður af vallhumal (Achillea millefolium) , sem tilsýndar er áþekk planta.  Hann var stundum notaður í te, sem ýmist var nefnt vallhumalste eða kúmente.

Kúskeljabingur / Kúskeljahaugur (n, kk)  Haugur/hrúga/hóll af kúskeljum.  „Lengi eftir að útgerð lauk úr Kollsvíkurveri mátti enn sjá kúskeljahauga, þar sem skorið hafði verið út til beitu.  Einkum ofan Norðarikletta.  Mikið af þessu hefur horfið við umferð ferðafólks“.

Kútaburður (n, kk)  Burður eggjakúta frá eggjatökustað áleiðis heim.  „Gott er að hafa létta yfir axlir til að auðvelda kútaburðinn þegar um langa leið er að fara, eins og af Breiðsbrún eða upp Geldingsskorardal“.

Kútaréttingar (n, kvk, fto)  Handlöngun eggjakúta, t.d. á milli ganga í klettum eða af hlein í bát.  „Það var munur að hafa svona öflugan mann í kútaréttingar, þó ekki væri hann mjög fær í klettum“.

Kútfylli (n, kvk)  Fullur kútur.  „Ég hafði kútfylli af höfðanum, og slatta í fötu í viðbót“.

Kúthald (n, hk)  Hald/handfang á kút/eggjakút.  „Árans kúthaldið gaf sig á leiðinni, svo þar fóru mörg egg“.

Kvalræðalaust / Kvalræðalítið (l)  Án kvalræða; þjáningalítið.  „Það er svosem kvalræðalaust að minni hálfu þó þessi háttur verði hafður á“.  „Ætli það væri ekki kvalræðalítið fyrir ríkissjóð að láta hefla þennan vegspotta einusinni eða tvisvar á ári“?!

Kvalræðisgrey / Kvalræðiskvikindi (n, hk)  Vorkunnarorð um dýr eða vesælan mann.  „Vertu nú ekki að skamma tíkina; hún gat ekki betur gert;kvalræðiskvikindið“!

Kvarnarlækur (n, kk)  Lækur sem í er mylla/kvörn.  „Kvarnarlækur er í Kollsvík, sem öðru nafni nefndist Myllulækur og einnig Brúarlækur, þar sem yfir hann lá þykk steinhella; og síðast Bæjarnlækur eftir að byggt var núverandi íbúðarhús“.

Kvartel / Kvartil (n, hk)  A.  Lítil tunna; 2 áttungar.  B.  Fylling tungls.  Tungl er á 1. kvarteli þegar það er ljóst að ¼; á öðru þegar það er ½, og á síðasta kvarteli þegar það er ljóst að ¾.

Kvartilsbútur (n, kk)  Bútur af einhverju, t.d. rjóli, sem er fjórðungur úr hring.  „Árni seildist aftur niðurmeð rúmbríkinni; tók upp rjólbitann; dró úr honum tvo toppa; rakti utanaf honum kvartilsbút sem hann skar af og stakk í vasann“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Kvarttunna (n, kvk)  Tunna sem full er að einum fjórða.  „Það var lítið í netunum eftir bræluna, enda voru þau kökkuð af skít; ætli þetta hafi ekki verið kvarttunna af hrognum“.

Kvefdrulla / Kveffjandi / Kvefskítur (n, kvk/kk)  Óvirðulegt heiti á kvefi.  „Ég held að ég gæti verið að fá einhvern bölvaðan kvefskít“.  „Hún er þræsin í manni þessi kvefdrulla“.

Kverkmæli (n, hk)  Mál þeirra sem eru kverkmæltir.  „Þess eru mörg dæmi að kverkmæli barna eldist af“.

Kviðblautur / Kviðvotur (l)  Um sauðfé og aðrar skepnur; blautt undir kvið en þurrara efra.  „Það er tvíeggjað að beita fénu í fjöru í þessu beinfrosti.  Lausaþarinn er gaddfreðinn og hætt við að það verði kviðblautt ef það fer framá hleinar“.   „Tíkin var kviðvot af áfallinu, þegar hún kom inn í morgun“.

Kvikindisafmán / Kvikindisforsmán / Kvikindisgrey / Kvikindisræfill / Kvikindisskarn (n, hk)  Greykivikindi; gæluorð um dýr.  „Alltaf ertu jafn dugleg, kvikindisafmánin mín“.  „Ekki vantar tryggðina í kvikindisgreyið“.  „Hér kemur biti fyrir þig, kvikindisræfillinn“.  „Það má ekki skamma hana, kvikindisskarnið; hún vildi nú bara hjálpa til“.

Kviksyndisdý (n, hk)  Djúp dý; hættuleg fen.  „Framan við Heimrimýrar eru kviksyndisdý sem heita Fljót, nánast í suður frá bæ“  (ÓETh; Örn.skrá Vatnsdals).

Kvikuvottur (n, kk)  Um sjólag; nokkur kvika/undiralda.  „Hann var lognhægur, en dálítill kvikuvottur sem jókst heldur þegar leið á daginn“.

Kvistafjöl / Kvistaspýta / Kvistaviður (n, kvk/kk)  Fjöl/viður/smíðaefni með mörgum kvistum.  „Óttaleg kvistaspýta er þetta“!  „Það er ekki hægt að kaupa svona kvistavið fullu verði“.

Kvíarhilla (n, kvk)  Hilla í bjargi, þar sem fugl var áður kvíaður/ rekinn í kvíar til innidráps.  „Neðarlega í Bjarginu (upp og útaf Stórurð) eru Kvíarhillur… Þær draga nafn af því að þar var fuglinn kvíaður, sem kallað var.  Hlaðið var fyrir hillurnar og fuglinn tekinn fyrir innan“  (DE;  Örefnaskrá Hvallátra).

Kvíarveggur (n, kk)  Veggur kvíar/réttar.  „Karlarnir stungu saman nefjum á kvíarveggnum; spáðu í veður og heimtur og þráttuðu um þyngd hrútlamba“.

Kvíðavænlegur / Kvíðvænlegur  (l)  Fyrirkvíðanlegur; ískyggilegur.  „Þetta er heldur kvíðavænlegt útlit“. 

Kvígukvikindi (n, hk)  Gæluorð um kvígu.  „Hann kemur að máli við mig eitt kvöld; hvort ég sé nú ekki fáanlegur til þess að fara út í sveit og grennslast eftir því hvort einhver væri nú ekki fáanlegur til að kaupa kvígukvikindið“  (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn Guðmundar Jónssonar).

Kvíslarálma (n, kvk)  Tindur/gaddur á heykvísl.  „Kvíslarálman gekk á kaf í ökklann, og má enn sjá lítið ör eftir þá skeinu“.

Kvíslarfótur / Kvíslarhnakkur (n, kk)  Hlutar brókarkvíslar, sjá skinnklæði.  „Flestir munu þó hafa átt og notað brókarkvíslar.  Þær voru í fjórum pörtum; kvíslarfótur rekinn ofan í jörðina; kvíslarhnakkur með hringlaga gati í miðjunni en tappi á fætinum gekk upp um.  Önnur tvö göt voru á kvíslarhnakknum; sinn í hvorn enda frá hliðarfleti.  Í þessi göt var skálmsprekum stungið og brókin færð á kvíslarnar.  Ávallt snerust skálmarnar undan vindi og blés þá inn í brókina svo hún þornaði næsta fljótt, en mátti ekki ofharðna“  (KJK; Kollsvíkurver).

Kvæðavertíð (n, kvk)  Vertíð þar sem mikið er kveðið af rímum í landlegum, einkum eftir Sigurð Breiðfjörð og Úlfarsrímur (sjá vermannaleikir).

Kvölddroll / Kvöldgauf / Kvöldgöltur (n, hk)  Gauf/droll/hangs þeirra sem nú eru nefndir „b-fólk“, langt framyfir venjulegan háttatíma annarra; seinlæti við að ganga til náða.

Kvöldmiga (n, kvk)  Sú athöfn að kasta af sér vatni/ míga að kvöldlagi/ fyrir svefn.  „Ég athuga hvrnig kýrin hefur það um leið og ég fer út í kvöldmiguna“.

Kyllra (s)  Um fluglag fugla; þegar þeir hægja á sér í miklum vindi eða uppstreymi; reygja haus aftur og setja niður fætur og annaðhvort standa kyrrir í loftinu eða láta sig síga niður á við meðan þeir skoða eitthvað af forvitni, s.s. skotmenn í byrgi.  „Máfurinn kyllraði sig rétt ofan við hausamótin á okkur og lá því vel við skoti“. 

Kynjakvikindi / Kynjaskepna (n, hk/kvk)  Furðudýr; einkennileg skepna.  „Ég skal hengja mig uppá það að einhvert kynjakvikindi var að flækjast þarna á Rifinu í þokunni, þó þú hafir ekki séð það“! 

Kyssa á bágtið/meiddið (orðtök)  Hughreystingarorð við barn; kyssa á stað sem það hefur meitt sig.  „Hættu nú að vola yfir þessu smáræði ljúfur; mamma skal kyssa á meiddið“.  „Hann rétti mér hendina svo ég gæti kysst á bágtið“.

Kýmnikvæði / Kýmnikveðskapur / Kýmnivísa (n, kvk)  Gamanvísa.  „Mikið var um kýmnikveðskap í verinu, þar sem menn ljóðuðu hver á annan“.

Kæfingur (n. kk)  Mikill og þéttur skafrenningur.  „Það er stöðugur kæfingur í Hyrnunni og verður líklega fljótt ófært“. 

Kæfubrauð (n, hk)  Brauðsneið með kæfu sem álegg.  „Ég setti fýlsegg og kæfubrauð í nestisboxið“.

Kæfukind / Kæfurolla (n, kvk)  Kind sem ákveðið hefur verið að nýta til kæfugerðar eftir slátrun.  Helst voru það gamlar kindur sem ekki þóttu nýtilegar á annan hátt.  Þyrfti að slátra ungu og vænu fé var það nýtt fremur í hangiket.  

Kælugutlandi (n, kk)  Vindbára; fremur lág, stutt og ör bára sem ýfð er upp af vindi.  Getur komið úr annarri átt en kvikan sem undir liggur.  „Er hann eitthvað að auka þennan kælugutlanda“?

Kæluskratti (n, kk)  Stíf kæla sem orðin er til leiðinda við veiðar/róður eða annað verk; kaldi.  „Mér sýnist að þessi kæluskratti sé að rífa upp bölvaðan gutlanda.  Maður fer ekki að nenna að hanga á þessu lengur“.

Kæluvottur (n, kk)  Dálítil gola/kæla.  „Einhver kæluvottur virðist vera hér suðurá“.

Kögglader (n, hk)  Derhúfuder sem orðið er lúð og aflaga, þar sem styrking inni í því er sundurbrotin.  Orðið gæti hafa orðið til í seinni tíð og gæti upprunans verið að leita hjá Jóni Hákonarsyni á Hnjóti sem var næmur og fundvís á hnitmiðaða orðasamsetningu.  Orðið var þó almennt notað í utanverðum Rauðasndshreppi á síðustu áratugum 20. aldar.  „Ekki lagaðist köggladerið hans Kitta við þessa samalamennsku“.

Kögglast við (orðtak)  Bauka/myndast við að gera/vinna með höndum.  „Ég er enginn snillingur í þessu, en ætli maður verði ekki að kögglast eitthvað við það, fyrst enginn annar er tiltækur“.

Körfustrá (n, hk)  Tág úr tágakörfu, eins og notuð var almennt til burðar á fiski og heyi áður fyrr.  Börn gerðu það af fikti að skera bút af körfustrái og reykja eins og sígarettu, en reykurinn var býsna beiskur.

Körun (n, kvk)  Athöfnin að kara/ sleikja slor af afkvæmi.  „Alltaf er körunin dálítið flaustursleg hjá henni Surtlu; hún má ekkert vera að því að sinna svoleiðis smáatriðum“.

Köttát (n, hk)  Straumstillir fyrir rafal (dýnamó eða alternator) í bíl/traktor/báti.  Úr ensku; „cut-out“.  „Það getur stundum dugað að banka í köttátið til að koma hleðslunni aftur í gang“.

Köttfær / Köttliðugur (l)  Mjög lipur í bjargi; vel bjargfær.  „Ég hef sjaldan séð jafn köttliðugan mann í klettum“.  Yfirleitt orðað þannig í Kollsvík þó sumir þættust leiðrétta það með kattliðugur.  „Heyrt hefi ég þó að einn maður hafi klifið Skarfastapa... Hann var það sem kallað var köttfær (þ.e. fær sem köttur).  Þykir það glæstast frægðarorð um klifurfærni vjargmanna“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Lagðmerkja (s)  Merkja/auðkenna kind með ullarlagði af öðrum lit en hún sjálf ber.  Gripið var til þess að lagðmerkja tímabundið, t.d. ómörkuð lömb í réttum sem mörkuð ær helgaði sér með réttu. Sé t.d. um hvítt lamb að ræða er skorinn lítill ullarlagður af mislitri kind og hann hnýttur í ull lambsins efst á herðakambi.

Lagðmerkt (l)  Sauðfé sem þurft hefur að lagmerkja.

Laggarskurður (n, kk)  V-laga skurður/skora sem rist er í tré.  „Frá hendi Jóns Íslendings var um aldir yfir bæjardyrum í Sauðlauksdal planki; ca 3 álnir á lengd, 5,5, tommur á breidd, 1,5 tomma á þykkt; útskorinn með rósaverki á endum og milli orða. En á milli skrautsins stóð skorið með sléttum laggarskurði og með latínuletri: „Allir góðir menn velkomnir“.  Þessi fjöl var tekin ofan er séra Magnús Gíslason endurbyggði bæinn ca 1860 og var eftir það við skemmudyr framyfir 1890, en hvarf þá, án þess menn viti hver olli hvarfinu.  En böndin bárust að eldamennskukonum staðarins, en þeim var um það bil uppkveikjufátt, eins og gengur“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Lagningarflækja (n, kvk)  Flækja nets í lagningu; hnútur/innísláttur sem kemur þegar net forhalast í lagningu.  Meiri hætta var á lagningarflækjum meðan enn voru notaðir netasteinar eða netablý, og meðan net voru róin út.  Sjá netalagning.

Lambagarði / Lambakarmur (n, kk)  Garði/karmur í fjárhúsi sem líflömb voru sett í að hausti, þegar hýst var.  Einnig nefndur gemlingagarður/gemlingakarmur, einkum þegar líða tók frá hausti og lömbin stálpuðust.  Talað var um lambastíu eða gemlingastíu, ef þeim nægði hluti af garða/karmi.

Lambasprauta (n, kvk)  Sprauta sem notuð er til bólusetningar nýfæddra lamba gegn lambablóðsótt, eftir að slík bólusetning var hafin.  Í fyrstu voru sprautur úr málmi og gleri, en síðar varð sprautuhús og bulla úr plasti.  „Settu lambasprautuna í merkjatöskuna þegar þú ert búin að hreinsa hana“.

Lambkvikindi / Lambkægill (n, kk)  Lambkettlingur; lítið/ræfilslegt lamb.  „Ætli maður setji ekki þetta lambkvikindi á í vetur, fyrst það heimtist eftir slátrun“.  „Hann er ekki dengilegur þessi lambkægill“.

Lambsmóðir (n, kvk)  Móðir lambs.  „Réttarstjóri skal annast um að ómörkuð lömb séu hirt á réttinni og dregin sér í dilk, svo eigendum gefist kostur á að láta lambsmæður helga sér þau....“   (Fjallskilareglugerð V-Barð).

Lampatæki / Lampaútvarp (n, hk)  Glóðarlampaútvarp; útvarpsviðtæki frá fyrstu dögum útvarpsútsendinga, en þau notuðu glóðarlampa í stað transistora sem síðar urðu algengir.  „Elsta lampaútvarpið í Kollsvík er gamalt Blaupunkt-tæki sem enn er til á Láganúpi.  Við það þurfti bæði votabatterí og þurrabatterí“.

Landeyðulegt (l)  Líkt landeyðu; letilegt.  „Fjórir bæir bættust við á árinu með sjónvarpsgláp nú rétt fyrir jólin, með ærnum tilkostnaði umfram tækjakaupin.  Fólk telur fénu ekki illa varið.  En skelfing er það þó landeyðulegt að sjá sveitafólk sitja auðum höndum öll kvöld.  En þetta kannske venst“  (ÞJ; Árb.Barð 1971).

Landlegustund (n, kvk)  Stund meðan landlega er.  „Hver landlegustund var notuð við heimilisstörf.  Stundum var karlmaður allt sumarið við heyvinnu og stundum var slegið niður róðri ef þurfti að þurrka mikið hey“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Landnot (n, hk, fto)  Nytjar af landi í annarra eigu.  „Um aldaraðir tíðkaðist það að Kollsvíkingar, einkum Láganúpsbændur, hefðu landnot af Breiðavíkinni norðanverðri til beitar.  Snemma á 20. öld hafði Guðbjartur Guðbjartsson fé þar á vorin, og var gengið daglega yfir Breiðinn til að fylgjast með burði.  Svo kann að hafa verið um langa tíð“.

Landpósttaska (n, kvk)  Taska landpóstsins.  Landpóstur hafði vanalega tvo hluti í sínum farangri.  Annað var vandaður stór strigapoki, þar sem í voru dagblöð, pinklar og annar fyrirferðarmikill flutningur.  Hitt var sjálf landpósttaskan, en í henni voru sendibréf, kröfubréf, frímerki, peningar og annað fémæti.  Þeirrar tösku gætti hann eins og sjáaldurs auga síns.

Landshornaflandur (n, hk)  Flækingur/flakk/ferðalög víða um land.  „Ég skil nú ekkert í bændum sem liggja í einhverju bévítans landshornaflandri um hábjargræðistímann“!

Landverk (n, hk)  Vinna við afla í landi. „Það verða drjúg hjá okkur landverkin, eftir svona góða veiði“.  Samkvæmt dæmi orðabókar virðist orðið hafa annarsstaðar merkt venjuleg sveitastörf.

Langeltur (n, kvk, fto)  Langar eltur; löng eftirför; langur eltingarleikur.  „Ég lenti í fjandans langeltum við mórauðu tvævetluna; hún setti sig fram allan Dalinn þegar kom niðurúr Vörðubrekkunni“.

Langferðugur / Langförull (l)  Sem fer/ferðast langt.  „Það er naumast að hrútakvikindin hafa verið langferðugir; ef þeir eru komnir út í Breiðavíkurver“!  „Hann varð nokkuð langförull á efri árum“.  Langferðugur var jafnvel meira notað meðal Útvíknamanna.

Langfreta (s)  Leysa vind mjög langdregið; freta/prumpa lengi samfellt.  „Það er ósiður að langfreta svona við matarborðið“!

Langfretur (n, kk)  Óvenju langur fretur/viðrekstur; prump sem varir lengi.  „Ekki var það nú langfreturinn!.  Hvern fjárann varstu að éta“?

Langhryggja (s)  Um siglingu báts; sigla þvert á stefnu öldunnar.  „Það var árans veltingur; einkum þegar við þurftum að langhryggja þennan typping fyrir Blakkinn“.

Langkvalinn / Langþjáður (l)  Búinn að kveljast/þjást lengi.  „Ég hef verið langkvalinn af þessum árans tannverk“.

Langlokukjaftæði / Langlokuþvæla (n, hk/kvk)  Niðrandi heiti á langloku.  „Skelfingar langlokukjaftæði er alltaf í þessum akademíupostulum“!  „Þetta var bara innantóm langlokuþvæla, sem ekkert var á að græða!

Langstykkjaður (l)  Um fiskimið; þvermið í fjallgarði, eftir því sem hann birtist fyrir annað fjall; t.d. lóðamið í Kollsvík; Kópur fyrir Blakk:  „Djúpmið; Krossinn.  Þvermið; Þórðarklettur í gamla bæinn í Kollsvík.  Þar byrjaði sandurinn og hægt að leggja 45 lóðir suður á Grjótholt í Fjarðarhorni; þá langstykkjaður Kópurinn“.  (Blöð IG, Kollsvík). 

Langttil (ao)  Mikiðstil; nærri alveg.  „Fóðurbætirinn er langttil búinn“.  „Klukkan er langttil gengin í miðnættið“.  „Við vorum langttil komnir alla leið þegar þetta skeði“.

Langvíugarg (n, hk)  Hljóð langvíu, en það er gargandi/ropandi aaaa. 

Langvíuhópur (n, kk)  Hópur af langvíu.  „Mér finnst óvanalega mikið af langvíuhópum á sjónum; það virðist vera mikið af síli á ferðinni núna“.

Langvíukvikindi (n, hk)  Gæluorð um langvíu.  Þó engin langvía verpi í Kollsvíkurlöndum, þá berast þær iðulega þar upp á fjörur, t.d. eftir að hafa lent í fitu-/olíubrák eða örmagna eftir brim.  Stundum var þá reynt að hlú að þeim og koma þeim aftur á sjó.  Langvía var heimilisdýr á Láganúpi um nokkuð langan tíma um 1970.  Hún var alin á fiski sem skorinn var í lengjur, og undi sér vel meðal hunds og kattar og heimilisfólks, ýmist úti eða inni.

Langvíuflesja / Langvíupallur / Langvíustallur / Langvíuhilla (n, kvk)  Stallur í bjargi með miklu af langvíu og langvíueggjum.  „...sagt er að 70 egg séu á fermetra í langvíuflesjum“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). 

Lapparskarn / Lapparskratti (n, hk/kk)  Gæluheiti á fæti.  „Tíkinni er eitthvað illt í lapparskarninu, sýnist mér“.  „Þú verður fljótur að gefa fulla ferð strákur, þegar ég segi þér; og hafðu lapparskrattann á stillinum“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Lappastór (l)  Með stóra fætur/ stórar lappir.  „Ég passa ekki í þín stígvél; ég er svo lappastór“.  Vanalega er talað um fætur á fólki en lappir á skepnum.  Þó er stundum útaf því brugðið í umræðu um sjálfan sig.

Laufa (n, kvk)  Lauf í spilum.  „Nú spilum við laufu“.  Oftast í hk en stundum svona; einnig stundum í kk; laufi.

Laufsög (n, kvk)  Útsögunarsög; bogasög með mjóu blaði, ætluð til sögunar óreglulegra forma úr þunnum viði.  „Við krakkarnir ... vorum ekki gömul þegar við fórum að saga út ýms muni.  Laufsgir voru til 2-3 á bænum...  Mynstur fengum við úr Familie Journalen og nokkur voru pöntuð beint frá Danmörku eins og útskurðarmynstrin.  Svo söguðum við út dýr sem við fegnum t.d. úr Dýrafræðinni“  (SG; Handverk og smíði; Þjhd.Þjms). 

Laumupúkast (s)  Læðupokast; stelast; laumast; fara huldu höfði.  „Eitthvað voru strákarnir að laumupúkast þegar þeir komu heim úr Hryggjunum“.

Laundrýldinn (l)  Drjúgur með sig; montinn án þess að sýna það mikið.  „Karlinn var laundrýldinn yfir sínum sniðugheitum“.

Laupur (n, kk)  A.  Fótur.  „Ætli maður reyni ekki að staulast þetta, meðan lauparnir eru í lagi“.  „Reyndu nú að hreyfa á þér árans laupana og hlauptu fyrir kindurnar“!  Þessi notkun orðsins heyrðist notuð í Kollsvík og nágrenni, en hennar sér ekki stað annarsstaðar hérlendis og orðabækur kannast ekki við þetta.  Hinsvegar er nokkur sönnun þessa t.d. í orðtakinu að leggja upp laupana.  Líklegt er að orðið í þessari merkingu sé af sömu rót og sagnirnar að „hlaupa“ og „labba“; einnig orðið „labbakútur“, sem erfitt er að skýra á annan betri hátt.  B.  Ílát; kláfur.  C.  Hrafnshreiður.  „Hrafninn er glúrinn að velja stað fyrir laupinn sem erfitt er að komast að“.  D.  Óáreiðanlegur maður; lygalaupur.  E.  Hrúga.  „Væri von á rigningu voru kringluhausarnir settir upp í smáa laupa...“  (LK; Ísl sjávarhættir).

Lausaþang / Lausaþari (n, hk/kk)  Rekþari; þari sem slitnað hefur upp og rekið upp í fjöru.  Getur verið góð fjörubeit fyrir fé ef hann er nýr, en annars þótti best ef það komst í bitfjöru.

Lausmilk (l)  Um kýr sem gott er að mjólka; lausmjólka; gagnstætt við fastmjólka/fastmilk

Lausgrýtisskriða (n, kvk)  Skriða með/úr lausu grjóti. „Gættu þín í lausgrýtisskriðunni þarna; hún er fjandi brött og getur öll farið af stað ef ekki er varlega farið“.

Lágdrifskeyrsla / Lággírakeyrsla / Litlustangarakstur (n, kvk)  Akstur ökutækis í lægra drifhlutfalli.  Þegar jeppar urðu fyrst algengir á Íslandi voru þeir með milligír, þar sem velja mátti tvær hraðastillingar með sérstakri gírstöng, sem var mun minni en gírstöng aðalgírsins.  Var keyrt í lága drifinu þegar þungt var fyrir; t.d. í ófærð, en venjulega í háa drifinu annars.  „Það var bara lágadrifskeyrsla upp alla Skarðsbrekkuna“.  „Nú sýnist mér að sé litlustangarakstur framundan“.  „Þetta var lággírakeyrsla nánast alla leið“.

Láganúpsland (n, hk)  Sú landareign sem tilheryrir Láganúpsjörðinni.  „Láganúpsland nær frameftir Vatnadal, þar til kemur að veginum sem liggur frá Kollsvík inn Víknafjall“.

Láganúpsmegin (ao)  Þeim megin landamerkja/Ár/Breiðs sem Láginúpur er/ á land.  „Þar sem Landamerkjahlein er nokkru norðanvið þann stað sem Kjölurinn gengur framá Breiðsbrún, þá er var alltaf dálítið óljóst hvar landamerki lægju í klettum; þar sem er mesta eggjasvæðið í Breiðnum.  Líkast til liggja þau þó stystu skálínu á milli; þannig að eggjasvæðið er að megninu til Láganúpsmegin“.

Lágþokubakki (n, kk)  Bakki/veggur af lágþoku. „Hann leggur þennan lágþokubakka upp með kvöldinu“.

Lágþokublettur (n, kk)  Staðbundin lágþoka.  „Það er að sjá lágþokubletti hér norðurum Flóann“.

Lánleysisbragur (n, kk)  Yfirbragð óheppni/ógæfu.  „Það hefur verið óttalegur lánleysisbragur á þeirra útgerð alveg frá byrjun, en þessi óheppni kórónar allt saman“.

Lása sig (orðtak) Fara í lásum.  „Með því að fara fyrst niður Nafargjána í lás; fara síðan gang heimúr henni og setja þar fastan annan spotta, tókst mér að lása mig niður í Sighvatsstóðin; líklega fyrstum manna sem heimildir fara af“ (VÖ).

Lásasnag / Lásasnatt / Lásferð (n, hk)  Bjargferð með notkun lása.  „Þarna má ná allmiklu af eggjum með lásasnagi“.  Þarna er ekki mikið samfellt eggland, en hægt að ná dálitlu með lásasnatti“.  „Við töldum okkur ekki hafa mannskap í sig, og ákváðum að fara heldur lásferð í Brimnesgjótuna“.

Lásband / Lásspotti / Lásvaður (n, hk/kk)  Band/vaður sem notað er til að fara í lás í klettum.  „Mikið helvíti er þetta flott lásband“.  „Ég skal bera lásspottann ef þú heldur á háfunum“.  „Hreinsaðu vel undan lásvaðnum“.

Lásfesta (n, kvk)  Festa fyrir lásband.  Misjafnt er hvað notað er fyrir festu, og fór eftir því hvað tiltækt var þar sem leggja þurfti lásbandið.  Stundum var brugðið um stórt grettistak á brúninni, eins og á Steinanefninu á Breiðnum.  Stundum utanum stórt grasigróið klettanef, eins og ofanvið Gylfaganginn á Stígnum.  Stundum á lítið nef niðri í klettum, eins og við neðri lásinn í Stóðunum.  Stundum var brugðið utanum langan stein eða hellublað, og það svo rústað vel uppi á brúninni.  Þannig var t.d. á öðrum Árnastaðnum.  Stundum var rekinn niður hæll á brúninni og brugðið á, eins og við Gorgánsstallinn.  Og stundum voru aðstæður þannig að ekki var völ á lásfestu, en þá þurfti undirsetumaðurhalda við uppi á brúninni.

Lásganga (n, kvk)  Leið í klettum/bjargi sem unnt er að komast með lás.  „Niður úr Saxagjá liggja lásgöngur á Ytri Lundavelli; þar má síga í fjöru.  Þarna er talin best aðlega undir Bjarginu“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur- og Saurbæjarbjargs).

Láta damma (orðtak)  Láta ráðast; láta eiga sig; hafa óbreytt.  „Ekki gengur að láta þetta damma svona; einhverja stjórn verður að hafa á því“.

Láta kjurrt/kyrrt / Láta liggja (orðtök)  Láta vera; taka/snerta ekki; hreyfa ekki við.  „Láttu þetta nú kjurrt drengur; skelfing ertu handóður“!  „Við látum bara heyið liggja yfir nóttina; ég held hann ætli að hanga þurr framá morgundaginn“.  „Láttu þetta kjurrt; ég á það“!  Sjá einnig láta kyrrt liggja.  

Láta kjurrt (orðtak)  Ekki snerta/taka; ekki skipta sér af. 

Láta kjurrt liggja (orðtak)  Ekki vekja máls á; ekki ræða frekar.  „Ég lét þetta kjurrt liggja til að halda friðinn“.

Láta sér vel líka / Láta sér vel tillíka (orðtak)  Láta yfir sig ganga; láta sér standa á sama; láta sér í létu rúmi liggja.  „Menn brugðust misjafnlega við þessari ræðu; sumir ruku á dyr en aðrir létu sér hún vel líka“.  Oftar var notað orðtakið „láta sér vel tillíka“ í Kollsvík, en ekki sjást dæmi þess annarsstaðar.

Látramannabúnaður (n, kk)  Notað (e.t.v. mjög tímabundið) um þann hátt að girða buxnaskálmar niður í ullarleista áður en haldið er í gönguferð, s.s. smalamennskur.  Ekki notað í niðrandi merkingu, enda skynsamleg aðferð sem vafalítið hefur tíðkast víðar áðurfyrr.  En orðið var notað af Kollsvíkingum á síðari hluta 20.aldar, þar sem þeim fannst smalabúningur Látramanna sérstakur að þessu leyti.

Leggjahross (n, kvk)  Leikföng í hornabúi barna; stórgripaleggir notaðir fyrir hesta.  „Ég átti hornabú sem svo kallaðist.  Þar var hornafé, kjálkakýr, leggjahross og völuhænsn.“  (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).  

Leggjastoðir (n, kvk, fto)  Gæluorð um fætur.  „Hann sagðist ætla að staulast úteftir og standa fyrir, ef leggjastoðirnar svíkja hann ekki“.

Leiðindaaðstæður (n, kvk, fto)  Leiðinlegar kringumstæður; slæm aðstaða.  „Þetta voru leiðindaaðstæður; bleyta og dimmt, en frostlaust“  (Anna Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Leiðindabarningur (n, kk)  Leiðinleg sigling á móti veðri/ í veltingi.  „Hann hafði aukið norðanáttina töluvert meðan við drógum á Breiðavíkinni, svo við fengum leiðindabarning norður Kollsvíkina“.

Leiðindaderringur (n, kk)  Hvimleið uppsteit/áreitni; leiður yfirgangur/hroki.  „Hann var með leiðindaderring og sýndarmennsku; aðallega til að ganga í augun á stelpunum, held ég“.

Leiðindafæri (n, hk)  Slæmt göngufæri; slæm færð.  „Það er að verða leiðindafæri þar sem mest er skafmoldin“.

Leiðindagangur (n, kk)  A.  Það sem gengur leiðinlega/ fremur illa.  „Það er hálfgerður leiðindagangur í þessum málum“.  B.  Höktandi/ójafn gangur vélar.  „Mér finnst enn vera leiðindagangur í vélinni; það verður að vona að hún kjafti alla leiðina í land“.

Leiðindagaur / Leiðindapési (n, kk)  Leiðinlegur maður; skítseiði.  „Mér hefur alltaf fundist hann hálfgerður leiðindagaur“.  „Það er nú meiri leiðindapésinn sem þarna hefur komist á þing“!

Leiðindaveltingur (n, kk)  Töluverður sjóveltingur, þannig að leiðinlegt er að vera að veiðum.  „Við förum nú að fara í land ef hann ætlar að halda þessum leiðindaveltingi“.

Leiðindatíð / Leiðindatíðarfar (n, kvk/hk)  Tíðarfar/veðrátta sem veldur leiðindum/ergelsi, t.d. óþurrkur um heyskapartíð; ógæftir/veltingur um vertíð eða rigningar þegar smalað er.  „Það er sama árans leiðindatíðin“!

Leiðindatuð / Leiðindarell / Leiðindarugl / Leiðindakjaftæði / Leiðindakjaftháttur / Leiðindakjaftavaðall / Leiðindaþras / Leiðindaþvaður (n, hk/kk)  Niðrandi heiti á tali/ræðu sem þykir leiðinleg/ fer í taugarnar/ veldur ergelsi.  „Skelfing leiðist mér þetta leiðindarell alltaf hreint“!  „Ég nenni nú ekki að hlusta á svona leiðindakjaftæði“!  „Skelfing er það þreytandi svona leiðindaþvaður í fólki sem hefur ekki hundsvit á þessum málum“!  Fleiri samsetningar heyrðust af þessu tagi.

Leirstorka (n, kvk)  Klístur/skorpa sem situr eftir þegar leir þornar, t.d. eftir mikið sandfok.  „Leirstorkan sat lengi áveðurs á girðingarstaurum næst Leirunum eftir áhlaupið“.

Lella (n, kvk)  Leðja; for; efja.  „Grindin brotnaði undan kálfunum svo þeir sátu í lellunni í kjallaranum“.  Borið fram með hörðu elli. 

Lellulegur (l)  Líkur leðju/for/efju; seigfljótandi.  „Hafragrauturinn verður svo leiðinlega lellulegur ef þú hrærir mjólkina útí“.

Lelluþunnur (l)  Seigfljótandi; þunnur eins og lella/efja.  „Settu ekki of mikið af vatni í steypuhræruna; þá verður hún svo lelluþunn og ónýt“.

Lengivel / Lengi vel (ao/orðtak)  Löngum; um langan tíma.  „Lengivel sást ekkert útúr augum, en svo fór aðeins að rofa til“.  „Afi var lengi vel hress og vann mikið“  (S.G: Bréf til mömmu).

Leppalítill (l)  Fáklæddur; í fáum flíkum; klæðlítill.  „Maður kófsvitnaði í sólarbeyskjunni, jafnvel þó maður væri orðinn leppalítill“.

Lera sig (til) (orðtak)  Lagast; aðlagast.  „Sumir voru ósáttir við þessa ákvörðun, en það lerar sig með tímanum“.  „Netið var örlítið snúið þarna á kafla í lagningunni, en ég held að það leri sig til í sjónum“.

Lestarfjöl / Lestarplanki (n, kvk/kk)  Þykkar fjalir sem um áratuga skeið rak iðulega á fjörur í Kollsvík og víðar.  Notaðar sem skilrúm í lestum og á dekki togara áður en plastkassar og plastkör urðu algeng

Letibykkja (n, kvk)  Mjög löt/seinfær/hæglát skepna/manneskja.  „Skelfingar letibykkja er nú þessi kind“!

Lestrartilsögn (n, kvk)  Tilsögn/leiðbeining fullorðinna við börn varðandi lestur; einkum í byrjun, meðan þau eru að ná tökum á að þekkja stafina; kveða að; stauta; lesa í samfellu og öðlast skilning á því sem lesið er.  Einnig orðað að „láta stafa/stauta/eða lesa“.  Sjá prófblað.

Léttaverk / Léttavinna (n, hk/kvk)  Létt verk; auðveld vinna.  „Það verður ekkert léttaverk að ná þessum gemlingum heim saftur“.  „Ég skal glaður hafa verkabýtti við þig ef þú heldur að þetta sé einhver léttavinna“!

Limpulegur (l)  Slappur; vesæll, lumpinn.  „Óttalega ertu limpulegur geyið mitt; heldurðu að þú sért með hita“? 

Lifandislangt (l)  Um tíma; mjög langt.  „Það er svo lifandislangt síðan að ég er búinn að gleyma þessu“

Liggja í þagnargildi / Liggja í þagnarrúmi (orðtak)  Láta órætt/óumtalað.  „Of lengi hafa þessi mál legið í þagnargildi“.  „Ég held að þetta leiðindamál megi í þagnarrúmi liggja; allavegana frá minni hendi“.  Þagnargildi er ígildi þagnar.  Þagnarrúm er líklega ímyndað rúm í báti þar sem ekkert er talað.

Lilla / Lilli (n, kvk/kk)  Gæluheiti á börnum eða mjög smávöxnum manneskjum.  „Ætlar þú að líta eftir lilla í smástund“?  Gæluorð barna festast stundum við persónur framá fullorðinsár í munni hinna nánustu, og þannig var ein gæðakona frá Láganúpi nefnd Lilla af sumum sínum skyldmennum, alla sína ævi.

Lindalóð (n, kvk)  Lóð þar sem lóðaþinurinn er spunninn úr togi.  „... og þegar kaupmenn létu til lengdar vanta fiskilínur í verslanir sínar eða siglingar tepptust vegna styrjalda... létu vestfirskir bændur spinna lóðaþini úr togi, og voru slíkar lóðir nefndar lindalóðir“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Lingreiddur (l)  Með hárið illa greitt/ í flóka.  „Ansi sýnist mér þú vera lingreiddur stubburinn minn; svo mættirðu lika þvo mestu móskuna úr andlitinu áður en þú ferð í kirkju“.

Linhreinn (l)  Ekki vel hreinn; fremur óhreinn.  „Nú þykir mér þú frekar linhreinn í framan stubburinn litli“.

Linjall (n, kk)  Reglustrika; réttskeið.  „Við skulum bera linjalinn á þetta og fá rétta línu“. 

Linmennska (n, kvk)  Linkuháttur; dugleysi.  „Skelfileg linmennska er það að liggja í landi í svona veðri“.

Linnumót / Linunarmót (n, hk)  Um veðurlag; merki um að fari að draga úr (hvassviðri, frosti, úrkomu, byl, sjógangi o.fl.); vísbending um að sé að lagast/linast.  „Það er lítið linunarmót á þessu bálviðri ennþá“.  Ég sé ekkert linunarmót á þessari úrhellisrigningu“.  „Ég sé bara ekkert linnumót á þessum rosa í bráðina“!  „Það er bara ekki að sjá neitt linunarmót á þessum eilífa strambafjanda“! „Það er lítið linunarmót á þessu bálviðri ennþá“. „Það er ekkert linunarmót að sjá á þessari eilífu rigningartíð“! 

Listafallegur (l)  Mjög fallegur; aðdáunarverður.  „Þetta er listafalleg smíði“.

Litlakasína (n, kvk)  Spaðatvistur í spilinu kasínu.

Litlustangir (n, kvk)  Litlar gírstangir á flestum gerðum jeppa áðurfyrr.  Önnur var til að skipta milli háa og lága drifsins og hin til að tengja eða aftengja framdrifið.  „Nú þarftu að setja í litlustangirnar sýnist mér; þetta er að verða árans þæfingur“.

Litlustangaakstur / Litlustangaferð (n, kk/kvk)  Akstur í þæfingsófærð, í lágdrifi og framdrifi.  „Skyldi þetta verða litlustangaakstur alla leiðina“?!  „Þetta var bara litlustangaferð inn allar Fjörurnar“.

Litlustangafærð (n, kvk)  Erfið færð til aksturs; þörf á að aka í lága drifi og framdrifi.  „Það var litlustangafærð yfir alla Aurtjörnina“.

Litmót (n, hk)  Svipmót; vottur.  „Mér sýnist lítið litmót á því að hann ætli að fara að drífa í þessu“. 

Lífshættuför (n, kvk)  Stórhættulegt ferðalag; háskaför.  „... en hvorttveggja var að það hefði verið lífshættuför, og auk þess fullyrti bátsmaðurinn að enginn væri eftir á lífi„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Lífskjör (n, hk, fto)  Langvarandi gott sjóveður.  „Þá var það í þetta sinn að við rerum allir eins og vant var í lífskjörum“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli).   Ekki finnast dæmi um þessa merkingu orðsins í orðabókum.  Síðari tíma merking orðsins (aðstæður til afkomu) var ekki viðhöfð í Kollsvík fyrr en í seinni tíð.

Límsvikinn (l)  Um hlut sem bilar vegna þess að líming gefur sig.  „Þessir skór eru nú meira andskotans ónýtið; límsviknir og með ónýtar reimar“!

Línusöngur (n, kk)  Sónn sem símalínur á staurum framkalla, þegar vindur þýtur um þær.  Línusöng má stundum heyra í grennd við línuna, en háværastur varð hann í húsum sem símalínan liggur í.  Símalínan kom inn í Láganúpshúsið eldra á miðri efri hlið.  Þar sem línan kom utanúr Breiðavík yfir Breið og Strympur, var oft mikið vindgnauð á henni.  Það leiddi línan inn í bæinn, þar sem timburþilið magnaði það.  Gat söngurinn stundum orðið jafn hávær og skipsflauta, en heimafólk kunni því yfirleitt ekki verr en öðrum vinalegum umhverfishljóðum.

Líri (n, kk)  A.  Gæluheiti á stórum þorski/ golþorski.  „Þarna fékkstu heldur myndarlegan líra“!  B.  Stór/ruðamikill hlutur/trjábolur/staur/steinn/tuddi o.fl.  „Þarna var rekinn heljarmikill líri“.  Orðið var nokkuð notað í Kollsvík í þessari merkingu framundir 2000, en orðabækur telja að það hafi verið haft yfir skrofuunga.  Svo var ekki í Kollsvík.

Lítilsvirðingartónn (n, kk)  Tónn/hreimur lítilsvirðingar/virðingarleysis/fyrirlitningar.  „Nokkuð fannst mér votta fyrir lítilsvirðingartóni í garð þingmanna þegar hann var að lýsa byggðaþróuninni“.

Ljáhnoð (n, hk)  Hnoð úr deigu járni.  Í seinni tíð var átt við hnoð sem festu ljáblöð á bakka í greiðusláttuvél.  Blöðin slitnuðu við notkun, en einnig brotnuðu þau þegar slegið var í malarbornu eða grýttu landi.  Var þá greiðan oftast tekin undan og ljárinn úr henni; hnoðin boruð úr blaðbrotinu, og nýtt blað hnoðað á, með tveimur nýjum hnoðum.

Ljósglampi / Ljósglyss (n, hk)  Snögg ljómun/lýsing.  „Mér sýndist ég sjá ljósglampa þarna norður á Umvarpi“.  „Öðruhvoru sást ljósglyss efst á Jökladalshæðinni, þar sem skrugguveðrið geisaði hvað harðast“.

Ljóta húfulagið (orðtak)  Slæmt ástand; farið úrskeiðis.  „Það er ljóta húfalagið á þessu sjónvarpi núna; ekkert nema kolruglaður nossari“!  „Ljóta asskotans húfulagið á þessu; rollurnar hafa rutt úr hliðinu á Melnum“!

Ljúflingsgrey / Ljúflingskvikindi (n, hk)  Ljúflingur; meinleysingi.  „Strákurinn er mesta ljúflingsgrey“.  „Mér fannst þessi tuddi bara mesta ljúflingskvikindi; ég veit ekki hvað menn voru að hræðast hann“.

Ljúflingsnáungi / Ljúflingspiltur (n, kk)  Viðkunnanlegur maður/strákur.  „Mér fannst hann bara ljúflingsnáungi“.  „Hann var ljúflingspiltur og kom sér vel við alla“.

Ljúfur (n, kk)  Gæluorð um krakka/mann.  „Komdu hérna ljúfurinn minn og leyfðu mér að girða þig“.

Ljótt er að heyra lúsina hósta! (orðatiltæki)  Upphrópun sem viðhöfð var í kaldhæðni eða hneykslun yfir gorti eða hástemmdum lýsingum viðmælanda.  „Ljótt er nú að heyra lúsina hósta!  Sagðist hann hafa staðið einn yfir öllu fénu fjögurra ára gamall“? 

Loðbandspeysa (n, kvk)  Lopapeysa.  Stundum notað sem gæluorð. „Ég var kappklæddur; í loðbandspeysu, föðurlandi og tvennum sokkum; með svellþykka vettlinga á höndum og dembúl á höfði“.

Loðpurpa (n, kvk)  Mygla.  „Hér hefur keppur staðið uppúr sýrunni og komin einhver loðpurpa á hann“. 

Loforðaflaumur (n, kk)  Mikið af loforðum, sem ólíklegt er að staðið verði við.  „Ekki vantar loforðaflauminn frá þessum frambjóðendum; það fer minna fyrir efndunum“!

Loforðagjálfur (n, kk)  Mikið af loforðum; innantómt bjartsýnisraus.  „Alltaf er það sama sagan með þessa þingmenn og samgöngumálin; ekkert nema innantómt loforðagjálfur“! 

Lofrulla / Lofræða (n, kvk)  Mikið hrós; væmið/óverðskuldað hól.  „Heldur fannst mér þetta leiðinleg framboðsræða; mestmegnis lofrulla og málskrúð um eigið ágæti og ímynduð afrek flokksins“.

Lofsamlega (l)  Blessunarlega; til allrar hamingju.  „við erum svo lofsamlega laus við þessa pöbbamenningu“. 

Loftskák / Loftskör / Loftslá / Slá (n, kvk)  Bríkin við loftsgat/niðurgöngu af tvílyftu húsi, við efstu tröppu stiga.  „„Ekki líst þér vel á hann í dag; það sé ég af tóbaksögninni“, sagði ég og skaut mér niður af loftskákinni“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Loftugur (l)  Upplyftugur; hreykinn; upp með sér.  „Hann var heldur loftugur yfir þessum árngri, sem von er“.

Lognhægur (l)  Um veður; fremur/mjög hægur vindur; nánast logn; hægviðri; dúnalogn.  „Hann er bara orðinn lognhægur allt í einu, eftir þessa spænu“.  „Það var aldrei að það urðu umskipti í veðrinu!  Hann er bara orðinn lognhægur allt í einu.  En þetta gæti svosem allt eins verið svikalogn“.

Lognmolludagur (n, kk)  Dagur hægviðris og e.t.v. raka, þegar hey þornar seint.  „Heyið þornar seint í svona tíð; hver lognmolludagurinn eftir annan og sólarlaust“.

Loníettur (n, kvk, fto)  Gleraugu; brillur.  „Réttu mér loníetturnar mínar; þær eru á borðhorninu“.

Lonta (n, kvk)  A.  Branda; lækjasilungur; kóð.  „Voruð þið að veiða lontur í Ánni drengir“?  B.  Nef.  „Viltu ekki fá þér aðeins í lontuna“?  „Snýttu nú á þér lontuna drengur; þú ert með horinn niður á höku“!  Sést ekki annarsstaðar í síðarnefndu merkingunni.

Lontulegur (l)  Slappur; linur; veikur.  „Maður er enn fjandi lontulegur eftir pestina“.

Lorta (s)  Gera þarfir sínar; kúka.  „Ég held ég verði að bregða mér á kamarinn og lorta“.

Lorta (n, kvk)  Magaverkur; lasleiki í maga.  „Það er einhver bölvuð lorta í mér núna“.

Lóðajárn (n, hk)  Járn í teinum sem m.a. var höggvið niður og smíðaðir úr því önglar til fiskveiða.  (Nánari skýringu skortir)  „Önglar voru lóðajárn nr 7; 200 önglar á lóð“  (GG; Kollsvíkurver).

Ludda / Luddast (s)  Sniglast; lötra; ganga hægt.  „Ætli ég reyni ekki að ludda á eftir fénu norðuyfir“.  „Karlinn kom kjagandi eftir götunni, og hundurinn luddaði á eftir“.  „Reyndu nú að luddast úr sporunum“!

Lullakstur / Lullkeyrsla (n, kk/kvk)  Hægur akstur ökutækis.  „Það var áans þæfingur yfir allan Hálsinn, og víða bara lullkeyrsla í lága drifinu“.

Lumbrufjandi / Lumbruskítur / Lumbruskratti / Lumbruskömm (n, kk)  Pestarskítur; pestarfjandi; lumbra; veikindi.  „Ég er enn með einhvern lumbrufjanda“.  „Skyldi ég nú vera að fá þennan lumbruskít“?

Lumbruvottur (n, kk)  Væg einkenni umburðarpestar/veikninda.  „Mér finnst eins og í mér sé lumbruvottur“.

Lummustafli (n, kk)  Stafli/hrúga af lummum.  „Hún var búin að baka fjallháa lummustafla“.

Lumpast (s)  Lyppast; slyttast.  „Ég var svo uppgefinn að ég lumpaðist niður á réttarvegginn“.

Lumpulegur  (l)  Veikur; slappur; lympulegur.  „Mér fannst hann ennþá afskaplega lumpulegur“. 

Lunkni / Lunkulegheit (n, kvk)  Lempni; lagni; fortölur.  „Þú gætir nú kannski fengið hann með þér í verkið, ef þú beitir dálitilli lunkni“.  „Hér þurfum við að beita lunkulegheitum og þolinmæði“.

Lunkulega (l)  Gætilega; með lagni/lemni.  „Þú þarft að fara lunkulega að honum til að styggja hann ekki“ 

Luntaháttur / Luntaskapur (n, kk)  Durtsháttur; fúllyndi; ókurteisi; leiðindi; fýla.  „Hún á það síst skilið að þú sýnir henni þennan luntahátt“!  „Hann sat heima af einskærum luntaskap“.

Lurðast (s)  Slæpast; hengslast; mjakast.  „Reyndu nú að lurðast til að hreyfa þig drengur!  Ætlarðu að láta kindurnar sleppa“? 

Lurkabrennari (n, kk)  Lurkabrennsluofn; ofn til kyndingar, þar sem unnt er að brenna stórum lurkum/ grófkurluðum trjám.  Lurkabrennarar eru í raun arftakar hlóða og kamína fyrri tíma, en urðu á ný algengir í lok 20. aldar, með hækkandi raforkuverði og tíðum línubilunum.

Lúðra (n, kvk)  Aumingi; ónytjungur; heigull.  „Ég ætla nú ekki að vera sú andskotans lúðra að ég taki svona svívirðingum þegjandi“!

Lúðrast (s)  Vera niðurlútur/lúpulegur; lúta í lægra haldi.  „Ríkisstjórnin lúðrast í hverju málinu á fætur öðru“.  „Hundkvikindið lúðraðist heim og skammaðist sín fyrir að hafa hlaupið í féð“.  Var notað eingöngu þannig í Kollsvík.  Orðabækur nefna dæmu um að „lúðra“ en þar er orðið notað á annan hátt.

Lúrt (s)  Neyðarlegt; kvikindislegt; súrt í brotið.  „Mér þætti skratti lúrt að koma aftur í land með öngulinn í rassinum“.  „Honum fannst það lúrt af karlinum að heimta heilan hlut fyrir bátlánið“.  Orðið heyrðist einungis notað í þessari beygingarmynd.  Líklega komið af d/e; „lure“.  Orðabækur gefa upp stofnmyndina „lúra“, og að það væri í nefndum dæmum „lúrað“.  Hér er því um sérstöðu að ræða hjá Kollsvíkingum.

Lúsabyr (n, kk)  Um siglingu bát; byr sem framkallaður er með notkun lúsa.  „Til að auka meðbyr þótti áhrifaríkt að leita sér lúsa og fleygja þeirri veiði aftur af skipinu.  Aðrir létu lúsina á þóftu og veittu athygli skriði hennar; átti byrinn að koma úr sömu átt.  Loks létu sumir lúsina í seglið.  Með þessum aðferðum vonuðust menn eftir lúsabyr...“  (LK; Ísl. sjávarhættir III; heim; ÓETh). 

Lúsaheppni / Lúsheppni (n, kvk)  Heppni var gjarnan talin tengjast lúsum, sjá lúsheppinn.  „Þvílík lúsaheppni var það að finna þennan eldspýtustokk“!

Lúsarlaun (n, hk, fto)  Mjög lág vinnulaun. „ Ekki veit ég til hvers maður er að strita fyrir þessi lúsarlaun“!

Lúsarleita / Lúsleita (s)  Þaulleita; leita mjög ítarlega.  „Ekki veit ég hvar þessar kindur hafa getað verið; við vorum búnir að lúsarleita alla hlíðina“.   „Ég lúsleitaði bréfið en fann enga villu í því“.

Lúsheppinn (l)  Mjög heppinn/lánsamur stálheppinn.  „Ég var lúsheppinn; að finna hnífinn aftur“.  „Alltaf ertu jafn lúsheppinn; ertu aftur kominn með lúðu“?  Þó lús væri hin mesta óværa á mönnum, þá var hún samt talin ómissandi og til gagns.  M.a. boðaði hún heppni.

Lygabrigsl (n, hk, fto)  Ásakanir um lygar/ósannindi.  „Ég ætla ekki að sitja undir neinum lygabrigslum; hér eru fleiri sem geta staðfest þetta“!  Sjá brigsl.

Lygahaugur / Lygalaupur / Lygamörður (n, kk)  Mjög lyginn/hraðlyginn maður.  „Endemis lygahaugur getur maðurinn verið; ég hef aldrei sagt neitt í þessa átt“!  „Ég myndi nú ekki leggja of mikið uppúr því sem þessi bölvaður lygamörður lætur frá sér“!

Lympulegheit / Lymputilfinning (n, hk, kvk)  Slappleiki; aðkenning að veikindum.  „Einhver árans lympulegheit eru í mér“.  „Ég fékk yfir mig eins og lymputilfinningu, en það er liðið hjá núna“.

Lyngsteinbítur (n, kk)  „Lyng var víða rifið til eldunar...  Greiðsla fyrir lyngtöku fólst alls staðar í uppsátursgjaldinu nema í Kollsvíkurveri, en þar var hún einn harður steinbítur frá hverjum manni; lyngsteinbítur.  Auk eldiviðarlyngs máttu menn slíta þar svo mikið lyng að nægði í bálk eða rúm“  (LK;  Ísl. sjávarhættir II).

Lystarmikill / Lystargóður (l)  Svangur; gráðugur; með góða matarlyst.  „Nú myndi ég þiggja að fara að huga að nestinu.  Ég er alltaf fremur lystarmikill eftir svona puð“.

Lýðhjálp (n, kvk)  Samfélagsaðstoð.  Orðið var notað í Rauðasandshreppi og kemur m.a. nokkrum sinnum fyrir í gerðabókum hreppsins.

Lýsisbrák (n, kvk)  Brák af lýsi; lýsi sem flýtur á vatni.  „Svo feitur varð silungurinn úr Stóravatni að þykk lýsisbrák sat eftir í pottinum þegar búið var að sjóða hann“. 

Læðutjásur / Læðuþoka (n, kvk, fto/ kvk)  Þokulæða; sjólæða.  „Einhverjar læðutjásur eru að smeygja sér inn þarna norðurundir“.

Lægðakraðak / Lægðaveita (n, hk/kvk)  Um veðurfar; mikill lægðagangur; hver lægðin rekur aðra.  „Það er ekki von á þurrki meðan þetta lægðakraðak gengur látlaust yfir“!  „Það er bara engin linun á þessari eilífu lægðaveitu“!

Læpuþunnur (l)  Mjög þunnur; aumingjalegur.  „Mikið er grauturinn læpuþunnur“. 

Löber (n, kk)  Fremur mjór en langur dúkur til að hafa á borðum; oft mikið skreyttur/ísaumaður.  „Mikið var saumað í sængur- og koddaver, dúka bæði kaffidúka og ljósadúka þ.e. minni dúka til að hafa á borðum, löbera, púða, kommóðudúka sem voru með sérstöku lagi...“  (SG;  Útsaumur; Þjhd.Þjms).  

Magapest (n, kvk)  Magaveiki; veiki sem magaverkir fylgja; uppgangspest; niðurgangur.  „Ég er hræddur um að ég fari lítið á sjóinn fyrr en þessi magapest lagast“.

Magapláss / Magarúm (n, hk)  Pláss í maganum fyrir mat.  „Nei takk; ómögulega meira fyrir mig; ég held ég eigi bara ekki meira magapláss þó ég feginn vildi“!

Magnetta / Magnettukveikja (n, kvk)  Smellikveikja; segulkveikja sem var algeng t.d. í fyrstu báta- og traktorsvélunum.  „Alltaf eru sömu vandræðin með bölvaða magnettuna; það er bara aldrei hægt að treysta þessu“!  Kveikjur þessar voru fremur vangæfar og gat oft þurft að skrifa þeim til.

Malargryfja (n, kvk)  Uppgröftur/lægð þar sem tekin hefur verið möl, t.d. til vegagerðar.  „Víða voru opnaðar malargryfjur til að fá ofaníburð í vegina.  T.d. var ein slík í Húsadal; önnur á Núpnum og ein til á Aurtjörn“.

Malli / Mallakútur (n, kk)  Gæluheiti á maga.  „Er þér eitthvað illt í malanum, stúfurinn minn“?  „Girtu nú uppum þig stubbur; þú ert með beran mallakútinn“.

Malt (n, hk)  A.  Bygg sem verkað hefur verið til ölgerðar.  B.  Bragð sem stundum kemur af mat sem geymdur er illa eða lengi án þess að úldna eða mygla, t.d. þegar fiskur nær að hitna í verkun.  Þessi merking orðsins virðist ekki hafa verið þekkt víða.  „Mér finnst eins og það sé komið eitthvað malt í brauðið“.

Maltast (s)  Um fisk , brauð og aðra matvöru; breyta bragði; komast á stig úldnunar/skemmda.  „Við þurfum að flýta okkur að hengja fiskinn í hjallinn; hann er fljótur að maltast ef hann liggur svona í sólinni“.

Maltbragð / Maltkeimur (n, hk)  Bragð af mat sem farinn er að maltast (sjá þar).  „Það er komið leiðinda maltbragð af þessu“.  „Er það ímyndun í mér, eða er kominn einhver maltkeimur af brauðinu“?

Mangabrjóstsykur (n, kk)  Brjóstsykur sem seldur var (og er e.t.v. enn) undir nafninu „brenndur bismark“.  Gekk undir nafninu mangabrjóstsykur í Rauðasndshreppi og e.t.v. víðar, þar sem hann var ein þeirra fjölmörgu vörutegunda sem fengust í farandverslun Magnúsar í Vesturbotni.  Minnir mig að Mangi hafi selt þennan brjóstsykur í stórum pokum, ef ekki í lausri vigt, og að jafnvel hafi molarnir verið stærri en þeir sem fengust í pokum í öðrum verslunum.

Mangakaramellur (n, kvk, fto) Stórar karamellur sem Magnús í Vesturbotni seldi í farandverslun sinni.  Líklega sömu gerðar og þær sem sumir nefndu haltukjaftikaramellur.

Mangakrem (n, hk)  Sárakremið „helosan“.  Svo nefnt vegna þess að Magnús Ólafsson í Vesturbotni (Mangi í botni) seldi það í verslun sinni og farandverslun, en annars var það ófáanlegt um tíma, a.m.k. þarna vestra.  Mangakrem var selt í stórum túpum, og þótti einstaklega græðandi á sár manna og skepna, og þó milt.

Mannahallæri / Mannahrak (n, hk)  Vantar mannskap/fólk til vinnu.  „Það lítur út fyrir mannahallæri í slátruninni á morgun.  gætir þú komið og bjargað málunum“?

Mannaskuld (n, kvk)  Mannleg mistök; klaufaskapur; af mannavöldum.  „Auðvitað er það bara mannaskuld að leggja veginn um þessar snjóalautir“. 

Mannavaður (n, kk)  Bjargvaður/sigvaður sem notaður er af sigara við bjargsig.  „Til siga voru ekki notaðir nema nýlegir og óskemmdir vaðir, en þeir sem voru farnir að slitna voru notaðir til að draga upp fugl þegar hann var tekinn (mannavaðir og fuglavaðir)“  (MG; Látrabjarg). 

Mannorðsmeiðandi (l)  Slæmt fyrir mannorðið; setur blett á heiðurinn.  „Það er mannorðsmeiðandi að taka þátt í svona ráðabruggi“.

Mannorðsmeiðingar (n, kvk, fto)  Árásir á mannorð; illt/skaðlegt umtal.  „Hann sagðist leggja það alveg að jöfnu við mannorðsmeiðingar að vera orðaður við þennan ótætisflokk“.

Mannskapsfrekur (l)   Krefst mikils mannskaps/mannafla.  „Bjargsig var nokkuð mannskapsfrekt; einkum ef langt var farið niður.  Lásasnag var það hinsvegar ekki.  Jafnvel gat einn maður komist langt niður í kletta og náð miklu af eggjum.  Betra var þó að tveir væru, til að koma fengnum upp“.

Mannskapslega (ao)  Karlmannlega; hraustlega.  „Hann bar sig ári mannskapslega og sagðist bara brattur“.

Mannspillast (s)  Blóta; formæla.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Manúrera (s)  Hreyfa/færa til; hagræða; koma fyrir.  „Setjið verkfærin þarna á bekkinn.  Ég manúrera þeim svo á sinn stað“.  „Með nokkrum erfiðismunum tókst loks að manúrera frystigámnum inn í salinn“. 

Manúreringar (n, kvk, fto)  Tilfærslur/hagræðingar hluta; uppröðun; bras.  „Það kostaði allmiklar manúreringar að koma þessu öllu fyrir“. 

Maraþonkjaftæði (n, hk)  Mikið málæði; endalaust bull.  „Nú held ég að við ættum að fara að gera eitthvað, í staðinn fyrir að hanga endalaust yfir einhverju maraðþonkjaftæði sem engu skilar“!

Maraþonsímtal (n, hk)  Mjög/óþolandi langt símtal.  Á tímum sveitasímanna gat notandi á einum bæ þurft að bíða all langan tíma eftir að notandi á öðrum bæ lyki símtali sínu, og þannig hefur orðið skapast.  „Hverskonar skelfingar marþonsímtal ætlar þetta eiginlega að verða hjá hreppstjóranum“?!

Marblaðra / Marbóla (n, kvk)  Dökk blóðfyllt bóla/blaðra þar sem mar hefur komið í húð.  „Vertu ekki að sprengja marbóluna, þá getur hlaupið illt í þetta“!

Margausa (s)  Ausa mörgum sinnum.  „Báturinn var árans ekkisen lekahrip, og þeir þurftu að margausa hann í þessum stutta róðri“.

Margbanna (s)  Banna oft; margítraka bann.  „Ég er búinn að margbanna ykkur að fikta í klettunum“!

Marggæta (s)  Gá/gæta/skoða oft/ mörgum sinnum.  „Ég skil ekki í því að þessar kindur hafi leynst þarna í lautinni; ég var búinn að marggæta þar“!

Margítreka (s)  Ítreka/endurtaka oft.  „Ég margítrekaði það við hann að gæta sín á skerinu“.

Margliði (n, kk)  Fiskur með þá vansköpun að hlykkir eru á hryggsúlunni aftanverðri.  „Margliði nefnist fiskur sem er með hlykki milli sporðs og gotraufarugga.  Sá sem dregur slíkan fisk fær eins mörg hundruð á vertíðinni og hlykkirnir eru margir (ÓETh; LK; Ísl.sjávarhættir V). 

Marglyttusúpa / Marglyttuvaðall (n, kvk/kk)  Mikið magn marglyttu í sjó; þétt ský af marglyttu.  „Skelfileg marglyttusúpa er þetta að verða hér inni í firðinum“.  „Það hefur ekkert uppá sig að leggja ofaní þennan marglyttuvaðal; netin fyllast strax af þessum óþverra“.

Margsamanhnýttur / Margsamansettur (l)  Hnýttur/settur oft saman.  „Spottinn er grautfúinn og margsamanhnýttur“.  „Þú ferð ekki í langsig í margsamansettum vað“.

Margspyrja (s)  Spyrja ítrekað; þráspyrja.  „Ég margspurði hann eftir þessu en hann þvertók fyrir að hafa nokkurntíma heyrt á það minnst“.

Margurhver (l)  Margir; margur maðurinn.  „Margurhver hefði nú gefist upp fyrir löngu í hans sporum“. 

Maríukjarni (n, kk)  Marinkjarni; Alaria esculenta; brúnþörungur allstór sem algengur er framarlega á útfiri og var mikilvægur, bæði til fjörubeitar og stundm til manneldis.  Þöngulhaus heldur jurtinni við klappir og stórgrýti en blaðkan er stór og með flatri og mikilli miðtaug.  „Alltaf var beitt ef veður leyfði og þá staðið hjá yfir daginn.  Beitt var í fjöru ef þari var og bitfjöru um stórstraum.  Mest sótti féð í söl og maríukjarna“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Mark (n, hk)  Dylla; dyndla; sá hluti í spyrðustæði steinbíts sem ekki er skorinn upp við flatningu að gömlu lagi; aftasti hluti stirtlu steinbíts, framan við sporð. (sjá steinbítur).  Orðið er til í ýmsum merkingum, en ekki er vitað til að þessi hafi þekkst utan Útvíkna, þar sem mest var verkað af steinbít.

Markatöng (n, kvk)  Klippitöng/bítur til að marka lömb.  „Afi notaði aldrei markatöng; honum fannst betra að nota vel brýndan vasahníf“.

Markhelmingur / Graðhelmingur / Dálkahelmingur (n, kk)  Annar helmingur flakaðs steinbíts (sjá steinbítur).  „Síðan var fiskurinn rifinn meðfram bakugganum og var þar með kominn í tvo helminga sem héngu saman á markinu/dyllunni/dyndlunni.  Annar kallaðist meyjarhelmingur; og honum fylgdi gotraufarugginn/meyjarugginn, en hinum fylgdi bakugginn og markið; nefndist markhelmingur/graðhelmingur/dálkahelmingur.  Ennfremur var talað um steinbítshelming eða aðeins helming... Yngsta aðferðin var að flaka hann og voru flökin þá kúluð eða skorin í tvö strengsli með bandshaldi. (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh). 

Maskínujárn / Maskínukrókur (n, hk/kk)  Skari; áhald sem notað var til þess annarsvegar að krækja í lok og hringi á heitri kola-/olíueldavél án þess að brenna sig þegar hagræða þurfti þeim vegna mismunandi eldunaríláta eða annars.  En einnig var áhaldið notað til að skara í kolum eða liðka fyrir olíurennsli við kyndingu maskínunnar.  Vanalega var skarinn úr sívölum járntein sem beygður var í krók í annan endann en með auga á hinum.  Hékk oftast á krók yfir eldavélinni til geymslu.  Skari var algengara nafn.

Matarsnarl (n, hk)  Lítilsháttar matur; skyndiréttur.  „Vertu ekkert að elda fyrir mig.  Mér dugir eitthvað létt matarsnarl núna“.  Oftast stytt í snarl.

Maurasýrufata / Maurasýrubrúsi (n, kvk/kk)  Maurasýrufata var gjarnan um 20 l blikkfata undan smurolíu, sem götuð var á um þriðjungi loksins.  Hún var fyllt að mestu af vatni, og síðan var um 1 lítra af maurasýru hellt varlega útí og hrist saman.  Svo var blöndunni úðað yfir votheyið.  Föturnar voru fljótar að ´tast í sundur í sýrunni, og þurfti iðulega að endurnýja þær.  Óþynnt maurasýran var keypt í ca 30 lítra maurasýrubrúsum úr plasti.

Mái (n, kk)  Kúfur; meirihluti; það mesta; það sem máð hefur verið af.  „Heyið náðist ekki allt í hlöðu fyrir rigninguna, en ég held við höfum náð máanum af því“.

Mállýtanefnd (n, kvk)  Nefnd sem fjallar um/ bætir slæmt málfar.  „Dvergur hefur veitt mikla leikni og æfingu í að rita.  Mállýtanefnd hefur starfað flesta veturnar“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi).   

Mávabyrgi (n, hk)  Skotbyrgi þar sem mávur var skotinn á fluginu.  „Mávabyrgi er á Grundabökkunum, þar sem Garðarnir enda.  Þar var legið fyrir mávi í hæfilegum vindi.  Einkum var skotinn ungfugl til matar“.

Mávaket / Mávsket (n, hk)  Ket af máv.  Mávur var mikið skotinn á fluginu í Kollsvík á 20.öld, einkum ungfugl, og hafður til matar.  Mikið af honum var snætt nýtt, en annað saltað í tunnur.  Voru þá bringur og læri skilin að, og kranginn saltaður einnig.  Fyrrum var mávurinn plokkaður og bumburinn látinn fylgja ketinu, en í seinni tíð var fuglinn fleginn.  Mávaket er herramannsmatur, og alls ekki síðra en gæsaket eða kjúklingur.  Það fékk óorð á sig þegar salmonella tók að finnast í borgarmávi, sem lifði í klóaki og opnum ruslahaugum, en vestra lifði fuglinn á heilnæmara fæði og varð engum meint af neyslu hans.  Mávurinn var jafnan soðinn, og oftast búin til af honum mávasúpa, sem er sælkeraréttur. 

Mávaskita (n, kvk)  Neikvætt orð yfir löngun til að skjóta máv á fluginu, en sumir töldu það mestu tímaeyðslu meðan aðrir réðu sér vart í góðum mávastormi.  „Ansans ekkisen mávaskitan á ykkur alla tíð!  Búiði ykkur nú almennilega; það er skítkalt að norpa þarna í Byrginu í þessum norðangarra“!

Mávaskot (n, hk)  Haglaskot sem hentar til að skjóta máv.  Menn deildu um það hvaða tegundir væru bestar og áreiðanlegastar, og komu þar tegundirnar Seller & Bellot og Ely Alphamax m.a. til álita.  Hentugasta haglastærðin var álitin 4, af enskri mælieiningu.  Á síðari tímum fóru menn að nota magnumskot, en með þeim náðist fuglinn á lengra færi.  Hlaupvídd á byssum var yfirleitt 12, en Össur á Láganúpi átti byssu með hlaupvídd 16, sem gafst vel við mávaskytterí.  Eftir langan dag á mávaskytteríi lágu oft hrannir af tómum skotum eftir í Byrginu á Grundabökkum.  Haglaskot og riffilskot voru meðal fjölmörgra vörutegunda sem oftast voru á boðstólum í kaupfélagi Sláturfélagsins Örlygs á Gjögrum.

Mávaskytta (n, kvk)  Sá sem skýtur máv.  „Þarna koma klyfjaðar mávaskyttur“.

Mávaskytterí (n, hk)  Sú iðja að skjóta máv á fluginu.  „Einar og Páll í Borgarnesi komu vestur í Kollsvík flest haust, og þótti þá fátt eftirsóknarerðara en sitja niðrivið Garða á mávaskytteríi í góðum mávastormi“.

Mávastormur (n, kk)  Notað yfir vind af þeirri átt og vindstyrk þegar heppilegt er að „skjóta á fluginu“, þ.e. liggja í Byrginu við Garðana og skjóta máf sem flýgur þá lágt í norðanvindinum. 

Mávasúpa / Fuglasúpa (n, kvk)  Súpa sem soðin er af máv/mávsunga.  Í hana var yfirleitt sett það sama og í ketsúpu.  Ef fuglinn var bráðfeitur vildi oft safnast smolt á yfirborðið.  Hjörtu fuglsins voru soðin með, ekki síður en læri, bringa og krangi.

Mávsvængur (n, kk)  Vængur af máv.  Mávsvængir voru mikilvægir í tvennu tilliti.  Annarsvegar voru á tímabili greidd verðlaun úr hreppsjóði fyrir fækkun vargfugls og var þá vængurinn sönnun fyrir því.  Hinsvegar voru mávsvængir notaðir til að veifa, en svo var það nefnt þegar útspenntu vængjapari var blakað af manni í skotbyrgi, líkt og þar væri mávur á lágflugi.  Með þessu voru ungmávar lokkaðir í skotfæri.  Það tókst iðulega ef ekki voru gamalmávar með í för, en þeir sáu í gegnum brelluna og reyndu að lokka þá yngri frá byrginu.  Krakkar og unglingar voru stundum hafðir með til að veifa þegar skotið var á fluginu.  Eftir að fyrsti fugl hafði verið skotinn var hann fremur hafður til að veifa með.  Þeir sem síðar voru skotnir voru settir framanvið byrgið og á Garðana, líkt og þar væri mávahópur í lágflugi.

Með undrahætti / Með undrum (orðtak)  Undarlegt.  „Svo var smíðað utan um hann og svo var hann fluttur yfir fjörð að Sauðlauksdal og jarðaður þar en allt þótti þetta með eitthvað undrahætti“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   „Lesendum sem mig þekkja telja það með undrum að ég segi frá bjargferð úr Kollsvík...“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). 

Meðalfesta (n, kvk)  „Í Kirkjuhvammi er nokkuð af heyjunum fyrir neðan meðaltestu og einnig hefir nokkuð af útibornum heyjum skemmst af regni“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1957). 

Meginaðdráttarferð (n, kvk)  Kaupstaðarferð þar sem aflað er helstu nauðsynja til langs tíma.  „Venjulega voru farnar tvær meginaðdráttarferðir á ári.  Var önnur ferðin farin snemma vors og þá var aðflutningurinn tilbúinn túnáburður, auk ýmissar matvöru til heimilisþarfa.  Síðari ferðin var svo farin á haustin“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Megineldsneyti (n, hk)  Það sem helst er nýtt sem eldsneyti.  „Venjulega var tekið mað lítið eitt af kolum, sem þótti gott að geta gripið til ef sérlega þurfti að skerpa lítillega á eldi.  Annars var megineldsneytið mór, allt fram yfir 1950“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Mehe (n, hk)  Múður; rövl; úrtölur.  Var einvörðungu notað í orðtakinu „ekkert mehe með það“, sjá þar.  Ekki verður fullyrt um það nú hvernig eða hvenær orðið er tilkomið eða hvað það var víða notað.

Meidd / Meiddi (n, hk)  Gæluorð um meiðsli/ sáran stað; bágt.  „Hættu nú að vola stúfur; mamma er búin að kyssa á meiddið“.  „Ertu með meiddi á puttanum“?

Meinbagi (n, kk)  Óhagræði; skaði; ami.  „Ég læt þetta ógert ef honum er einhver meinbagi að því“.  „Tíðarfarið hefur verið erfitt þennan mánuð, en ekki þó svo að til meinbaga hafi verið“.

Meinhægðararmingi / Meinhægðargrey / Meinhægðarmaður / Meinhægðarnáungi / Meinhægðarskinn (n, kk/hk)  Meinlaus maður, og vísa sum orðin til lítilmagna.  „Það er nú ekki vandamálið með hann; þetta er mesti meinhægðararmingi“.  „Alltaf er þetta sama meinhægðarskinnið“.

Meinhægðartíð / Meinhægðarveðrátta / Meinhægðarveður (n, kvk/hk)  Gott/meinlaust tíðarfar/veður.  „Ég held að megi kalla þetta meinhægðartíð sem af er“.  „Það var komið meinhægðarveður daginn eftir“

Meinskældinn (l)  Illskældinn; semur meiðandi vísur/kvæði.  „Hann getur gert prýðisgóðar vísur af öllu tagi.  En á það líka til að vera beittur og meinskældinn“.

Meinþröng (l)  Of þröng.  „Búð í Kollsvíkurveri nefndis Meinþröng, og var það talið réttnefni“. 

Melauga (n, hk)  „Sérkennilegar holur í malarholt, sem fundust í barmi frostgíganna Smávatna í Vatnadal í júlí 2015“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Holurnar voru á a.m.k. tveimur aðskildum blettum í Smávötnunum.  Efst á aurblöndnu malarholti, á bletti sem var ca 4-5m í þvermál, voru um 15 holur í jarðveginn; hver um 30cm á breidd og um 10cm á dýpt; keilulaga.  Á milli voru ávalir rimar.  Engin augljós skýring var á þessu.  Ekki var grafið í holurnar.

Melabarð (n, hk)  Barð/harðbali/upphækkun/sandbarð í sandbornu landi, oftast með snöggum gróðri.  „Mér sýnist að alltaf sé að blása meira úr melabarðinu“.

Melaflöt / Melafit (n, kvk)  Slétt svæði með snöggum gróðri í samdbornu landi.  „Neðan núverandi fjárhúsa á Láganúpi eru sandbörð, en neðan þeirra slétt melafit, nefnd Fitin“.

Melaskarð (n, hk)  Rofdæld í melafit/melabarð.  Mikið er um melaskörð í Kollsvík, einkum ofan rifs nærri fjörunni.  Þau má sjá norðan og neðan Kollsvíkurbæjar; milli Syðrikletta og Stekkjarmels og neðantil í Litlufit og Fit á Láganúpi.  Melaskörð eru víða annarsstaðar í fyrrverandi og núverandi uppblásturssvæðum í Rauðasandshreppi, s.s. á Rauðasandi, Hvallátrum, Breiðavík, Örlygshöfn, Kvígindisdal og Hvalskeri.

Melskurðarvél / Melsláttuvél (n, kvk)  Uppfinning úr Rauðasandshreppi.  Landgræðsla ríkisins hefur, allt frá stofnun, staðið fyrir söfnun melfræs af mestu melasvæðunum, til sáningar í uppblásturssvæði.  Melurinn var skorinn með höndum og var mannaflafrekur.  Ólafur Egilsson fann upp sérstaka sláttuvél í kringum árið 1980, en með henni er unnt að slá melinn með traktor, mun hraðar en með höndum.  Í stórum dráttum er vélin þannig að sláttuvélagreiða er fest á ámoksturstæki traktorsins, þannig að unnt er að stilla legu hennar stöðugt úr traktorssætinu.  Ljárinn er knúinn af vökvarótorum.  Ekki var tekið einkaleyfi fyrir uppfinningunni, og ekki er vitað hvort sammærilegur búnaður hefur verið fundinn upp erlendis.

Melslétta (n, kvk)  Slétta sem nýtt er til heyskapar, og uppistaða gróðurs er melgresi.  Melslétta í Skersbug var lengi slegin og nýtt.

Menntadýrkun (n, kvk)  Öfgafull aðdáun á skólagöngu.  Borið hefur á slíkri hneigð í síauknum mæli í nútímasamfélagi.  Með hugtakinu er ekki átt við eðlilega og nauðsynlega ásókn manna í að afla sér þekkingar og hæfa sig til starfa, heldur þá tilhneygingu að telja menntað og langskólagengið fólk að öllu leyti æðri þeim sem hafa færri prófgráður; jafnvel þó hinir síðarnefndu hafi aflað sér meiri þekkingar og færni með eigin námi.  Nærtæk birtingarmynd menntadýrkunar birtist í kröfusetningu atvinnuauglýsinga, þar sem krafist er langskólagöngu og háskólaprófa að nauðsynjalausu.  Nærtækasta dæmið um innihaldsleysi og skaðsemi menntadýrkunar er hinsvegar það að alltof margir sem nú skrifast útúr æðri skólum eru illa talandi og skrifandi á rétt íslenskt mál, sem stuðlar að hnignun tungumálsins.

Menntadýrkandi (n, kk)  Sá sem stundar öfgafulla menntadýrkun.  „Ekki er hér ætlunin að kasta rýrð á gildi menntunar; hún er nauðsynleg að vissu marki í nútímasamfélagi.  Hinsvegar er sú menntadýrkun komin út í öfgar sem ávallt upphefur hinn langskólagengna umfram hinn sjálfmenntaða; burtséð frá raunverulegri hæfni.  Menntadýrkandanum hættir einnig til að gleyma því að með sérhæfingunni afsala menn sér þeirri víðtæku þekkingarleit sem sá getur stundað sem eyðir minni tíma í skólagöngu“.

Merkilegheitafyrirbæri (n, hk)  Furðufyrirbæri; eftirtektarverður hlutur.  „Alveg er þessi karl merkilegheitafyrirbæri; frekar vill hann dunda sér við að sækja eina og eina kind heldur en þiggja aðstoð til að ná þeim öllum í einu“!

Merkilegheitaskepna (n, kvk)  Mjög furðuleg/skynsöm skepna.  „Hundurinn var merkilegheitaskepna.  Hann virtist alltaf vita í hvaða átt hann átti að sækja kindurnar, þó hann sæi þær alls ekki“.

Merkisfyrirbæri (n, hk)  Furðulegur/merkilegur maður/hlutur; furðukvikindi.  „Alveg er hann merkisfyrirbæri; suma daga ekkert nema landeyðuhátturinn, en afkastar öllum mönnum meira þegar hann fer af stað“!

Merkjataska (n, kvk)  Spraututaska; aska sem í var geymt það hafurtask sem þarf til að bólusetja, marka og merkja nýfædd lömb að vori.  Taskan var gjarnan með axlaról, og í henni var m.a. bóluefni, sprauta, súlfatöflur, markatöng, merkjatöng, lambamerki, blýantur og minnisblað/minnisbók/númerabók til að skrá númer merkts lambs.

Messudagasteinbítur (n, kk)  Steinbítur veiddur í lok vertíðar.  „Áður en vertíð lauk var fiskur oft orðinn tregur á línu.  Var þá farið með færi í steinbítsróðra.  Það var kallaður messudagasteinbítur sem þá veiddist.  Var hann þá orðinn miklu feitari og betri til átu en sá sem veiðst hafði á línu fyrr að vorinu“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Metersbil (n, hk)  Bil sem er einn meter/metri á breidd.  „Það er alltof langt að hafa metersbil á milli korka“!

Metersbreiður (l)  Einn meter/metri á breidd.  „Hann útbjó metersbreiða dragskóflu úr alúmíni“.

Metersbútur / Metersstubbur (n, kk)  Bútur sem er einn meter/metri að lengd.  „Þetta eru allt metersstubbar eða smærra“.

Metersdjúpur (l)  Einn meter/metri að dýpt.  „Hann ók þar inn í metersdjúpan skafl“.

Metershár (l)  Einn meter/metri á hæð.  „Hann lék sér að því að stökkva uppá metersháan stein, jafnfætis“.

Meterskefli / Metersspýta (n, hk/kvk)  Kefli/spýta/rekaviður sem er meter/metri að lengd.

Meterslangur (l)  Einn meter/metri að lengd.  „Skerðu þetta niður í meterslanga spotta“.

Metingar (n, kvk, fto)  Deilur um hvor/hver sé betri/stærri/öflugri o.s.frv.; samanburður af metnaði.  „Hættiði nú þessum eilífu metingum útaf hrútunum; þær eru hálf kjánalegar og skila öngri niðurstöðu“!  Einatt í kvenkyni í fleirtölu en karlkyni í eintölu; sjá metingur.

Meyjarhelmingur (n, kk)  Annar helmingur flatts steinbíts.  „Síðan var fiskurinn rifinn meðfram bakugganum og var þar með kominn í tvo helminga sem héngu saman á markinu/dyllunni/dyndlunni.  Annar kallaðist meyjarhelmingur; og honum fylgdi gotraufarugginn/meyjarugginn, en hinum fylgdi bakugginn og markið; nefndist markhelmingur/graðhelmingur/dálkahelmingur.  Ennfremur var talað um steinbítshelming eða aðeins helming... Yngsta aðferðin var að flaka hann og voru flökin þá kúluð eða skorin í tvö strengsli með bandshaldi. (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh). 

Meyjarpappa (n, kvk)  Lítill kuðungur af poppuætt (naticidae); samnefni nokkurra tegunda þeirrar ættar sem algengir eru á útfiri í Útvíkum og sitja þá gjarnan á stórum steinum eftir að fallið er út.  Litir eru fjölbreytilegir; brúnn, grár, hvítur, hvít/brúnröndóttur og hálfgegnsæir.  Vinsælt var af börnum að tína þær meyjarpöppur sem lágu tómar í hrönnum í skeljasandinum og nota þær til leikja og skreytinga.  T.d. má líma þær á öskjur svo úr verður listaverk, eða nota sem lömb í kubbabúi

Meyjaruggi (n, kk) Gotraufaruggi á steinbít (sjá meyjarhelmingur og steinbítur).

Mélbolli (n, kk)  Bolli af méli, t.d. þegar mælt er til baksturs.

Mélhnefi / Méllúka (n, kk/kvk)  Hnefafylli/lúkufylli af méli/mjöli.  „Búkollu þykir ósköp gott að fá méllúku, enda á hún það sannarlega skilið“.

Mélkista (n, kvk)  Kista sem mél var geymt í. 

Mélkolla (n, kvk)  Kolla/skál af méli.  „Þrílemban þyrfti að fá dálitla mélkollu til að mjólka lömbunum“.

Mélkvörn (n, kvk)  Kvörn sem korn er malað í til mélgerðar. 

Miðdilkur (n, kk)  Dilkur um miðjan vegg almennings í réttum.  „Hafnarmenn notuðu vanalega midilkinn í Breiðavíkurrétt“.

Miðdýpi (n, hk)  Hálfa leið frá yfirborði til botns.  „Í grunnendann var korkaþinurinn nærri miðdýpi“.

Miðmætingur / Miðmætingssteinn (n, kk)  Miðmætingur er sterkur hanki sem hafður er á netaskilum.  Hann tengir saman tvö net og í hann er festur miðmætingssteinn, sem er 1 ½-2 kg að þyngd (sjá hrognkelsi).

Miðstil (ao)  Um/til miðju; til helminga.  „Ég setti upp milligerð, nokkurnvegin miðstil í karminum“.

Miðgangur / Miðhilla / Miðpallur / Miðstallur / Miðþræðingur (n, kk)  Heiti til aðgreiningar á stöllum/göngum/þræðingum í bjargi/klettum.  „Það má fara miðþræðinginn með aðgát“.

Miðhvapp (n, hk)  Það svæði í bjargi sem er í miðju.  „Það fæst oft vel af eggjum í miðhvappinu“.

Miðjaleið / Miðjavega / Miðjavegu (ao)  Á miðri leið; mitt á milli.  Ýmist í einu eða tveimur orðum eftir smekk.  „Miðjaleið út að Breiðavík áttaði ég mig á að ég hafði gleymt kíkinum“.  „Áin er miðjavega milli Kollsvíkur og Láganúps“. „Merkin eru um grjóttanga miðja vegu á brún upp af Gorgán“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).

Miðlungsasni / Miðlungsauli / Miðlungsvitleysingur (n, kk)  Meðalgreindur maður.  „Þetta veit hver miðlungsauli“!  „Hvaða miðlungsvitleysingur sem er hefði getað betur en þetta“!

Miðlungserfiður (l)  Erfiður í meðallagi; ekki mjög erfiður.  „Niður á höfðann er tvítugur lás; miðlungserfiður“.

Miðlungsgáfaður / Miðlungsgreindur (l)  Gáfaður/greindur í meðallagi.  „Þetta ætti nú að vera augljóst hverjum miðlungsgáfuðum manni“!

Miðlungsgrannur / Miðlungserfiður / Miðlungsharður / Miðlungshár / Miðlungssterkur / Miðlungsstór / Miðlungsstrembinn / Miðlungssver / Miðlungsþungur / Miðlungsþykkur (l)  Í meðallagi varðandi viðeigandi lýsingar.

Miðlungshnullungur / Miðlungssteinn (n, kk)  Meðalstór steinn; viðráðanlegur steinn. 

Miðlungslega (n, kvk)  Lega lóðar/nets yfir hóflega langan tíma/ venjulegan tíma.  „Ég hef sjaldan vitað annan eins afla eftir miðlungslegu“.

Mikið skal til mikils þýða (orðatiltæki)  Greiða þarf mikið fyrir dýran hlut. „Hún er treg til þess.  Svo segir sagan að þar kom að ágirndin varð yfirsterkari og hún segir þetta: „Mikið skal til mikils þýða; leggðu mig á milli hnífa““  Síðan heitir þetta Hnífar (EG; Viðtal á Ísmús 1968; frásögn um örnefnið Hnífa). 

Mikilstil / Mikistil / Mikiðstil (ao)  Mikið til; að mestu leyti; megnið af; langttil.  „Þó fiskafjöldinn yrði mikill þá var þetta mikilstil smælki“.  „Saltið er mikistil búið úr kassanum“.  „Hann er mikiðstil hættur að fenna“.  Orðið er algengt í máli Kollsvíkinga, og oftast notað án greinilegs „ð“ eða „l“.

Minkaeyðir / Minkabani (n, kk)  Maður sem veiðir mink.  „Veiðistjóri réði Ólaf Sveisson Sellátranesi sem minkaeyði fyrir sveitina…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Minkfjandi (n, kk)  Villiminkur og það álit sem hann naut hjá Kollsvíkingum.  „En svo átti minkfjandinn leið um og drap allar hænurnar mínar og sennilega andarungana...“ (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Misalvarlega / Mishátíðlega (ao)  Misjafnlega hátíðlega/alvarlega.  „Menn tóku þessi tilmæli mishátíðlega“.

Misathugað (l)  Illa ígrundað; rangt/skakkt ályktað.  „Þetta var nú eitthvað misathugað hjá honum; gimbrin reyndist vera hrútur þegar betur var að gáð“!

Misáfjáður / Misáhugasamur (l)  Misjafnlega áhugasamur/ákafur.  „Bændur voru misáfjáðir í þessa nýju tækni“.  „Maður er misáhugasamur um námið, eftir námsgeinum“.

Misánægður (l)  Misjafnlega ánægður.  „Menn voru misánægðir með kosningaúrslitin; eins og gengur“.

Misdraga (s)  Draga kind/lamb í rangan dilk í rétt/sláturhúsi; misgrípa sig á mörkum; flokka kind ranglega/ til rangs eiganda.  „Ég er hræddur um að þetta lamb hafi verið misdregið á réttinni; þetta er ekki frá mér“.

Misdragast (s)  Vera misdregið.  „Ég ætla að fara aðeins innanum féð í dilknum áður en rekið er norður; ef eitthvað skyldi hafa misdregist“.

Misdrægur (l)  Um þann sem er misjafnlega fiskinn.  „Hann er misdrægur, en kappsamur og stundum errinn þegar honum gengur miður en honum líkar“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru). 

Misfagurt / Misfallegt (l)  Misjafnleg fagurt/fallegt.  „Hann tautaði margt og misfallegt yfir vinnubrögðunum“.

Misjúgra (l)  Um ær og kýr; hallinjúgra; með misjafnleg stór/síð júgur.  „Hún Svört er orðin fjári misjúgra af því að lambið sýgur bara öðrumegin.  Það þyrfti að draga niður úr henni til að hún fái ekki júgurbólgu“. 

Misorpinn (l)  Um fugl;  byrjar varp á misjöfnum tíma.  „Langvían getur verið mjög misorpin þarna“.

Missaltur (l)  Misjafnlega saltur.  „Bútungurinn er missaltur; eftir því hvort er sporðstykki eða hnakkastykki“.

Missetin (l)  Um egg; misjafnlega setin/unguð/stropuð.  „Eggin eru mjög missetin; varpið hefur verið óvanalega dreift núna“.

Missvefnta (l)  Nær misjafnlega góðum svefni; sefur óeglulega.  „Maður verður óttalega ruglaður; svona missvefta og þreyttur“.  N í síðari hluta orðs heyrist aldrei, en rökrétt er að það sé skrifað.

Mistalið (l)  Rangt talið.  „Það reyndist vera mistalið í einum karminum; það vantar enga kind“.

Mittismikill (l)  Mikill um sig; rassbreiður; feitlaginn.  „Maður er sennilega orðinn of mittismikill núna til að fara um Gat á Forvaðanum undir Brekkuhlíðum“.

Mígrigna (s)  Hellirigna; rigna mjög mikið.  „Við þurfum að drífa okkur að bæta á gryfjuna áður en hann fer að mígrigna“.  Sjá einnig mígandi rigning.

Mínvegna (ao)  Fyrir mína parta; hvað mig áhrærir.  „Vertu ekkert að setja hvítlauk í þetta mínvegna“.  „Mínvegna mætti skera þetta stofnanafargan niður um helming eða meira“.

Mjaðmasídd (n, kvk)  Sídd fatnaðar niður á/fyrir mitti.  „Í skinnstakkinn fóru þrjú lambsskinn.  Hann var hafður í mjaðmasídd og tekinn saman í mitti með bróklinda“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Mjaltaföt / Mjaltagalli (n, hk, fto/ kk)  Hlífðarfatnaður sem mjaltafólk notar við mjaltir.  „Nú þyrfti að fara að þvo mjaltagallann minn“.  Sjá fjósaföt/fjósagalli.

Mjaltaílát (n, hk)  Mjaltafata; ílát sem mjólkað er í.  „Járnfatan er að byrja að ryðga og varla nothæf sem mjaltaílát lengur“.

Mjaltakollur (n, kk)  Mjaltastóll; lágur stóll/hnallur sem setið var á þegar handmjólkað var.  „Það þarf að laga mjaltakollinn“.

Mjaltavegur (n, kk)  Vegalengd sem fara þarf til að mjólka.  „Um tíma voru kýrnar hafðar á uppi Hólum.  Var þangað nokkru styttri mjaltavegur en í Túnshalann“.

Mjatl (n, hk)  Smáskammtar; píringur.  „Ég veit ekki til hvers er verið að þessu vikulega mjatli; hversvegna þetta er ekki greitt í einu lagi fyrir árið“.

Mjólkurleið (n, kvk)  Leið sem farin er með mjólkurflutninga.  „Bragi taldi að ekki væri hægt að una við annað en það að fá mokaða mjólkurleiðina“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Mjólkurskegg (n, hk)  Rönd af mjólk á efri vör eftir að drukkin hefur verið mjólk úr glasi/bolla.  „Þurrkaðu nú af þér mjólkurskeggið góði minn, áður en þú ferð og þakkar fyrir þig“.

Mjólkurspanda (n, kvk)  Mjaltafata; mjólkurskjóla; fata sem mjólkað er í.  „Og ég vissi ekki fyrr en ég lá í flórnum og kollurinn og mjólkurspandan aftur á stétt“!

Mjög / Mjögsvo (ao)  Afar; heldur; mikið.  „Það rigndi mjög mikið“.  Mjögsvo er mildara, og oft notað stakt sem játandi andsvar eða í stuttum setningum.  „Þetta var mjögsvo góður matur“.

Mjölsalli (n, kk)  Lítið eitt af mjöli.  Oftst notað um dreif af mjöli sem kuskast hefur yfir borð, gólf eða annað.

Mokél / Mokhríð (n, hk/kvk)  Él/hríð með gríðarmikilli ofankomu.  „Við lentum í þvílíku mokéli á leiðinni yfir, að ekki sá handaskil, og lá við að hrúturinn kæmist ekki úr sporunum fyrir ófærð“.

Mok / Mokafli / Mokveiði (n, hk/kk/kvk)  Rótarfiskirí; mjög mikil veiði.  „Það hefur verið mok á línuna“.  „Ekki segi ég að þetta hafi verið mokveiði, en við getum ekkert kvartað“.

Molakassi / Molasykurskassi (n, kk)  Kassi undan molasykri.  Molasykur var seldur úr kaupfélögum í kössum úr hnausþykkum massívum pappa, ca 60x40x30cm að stærð.  Þetta voru tvær skúffur, þar sem annari var hvolft yfir hina.  Molakassarnir nýtust mjög vel eftir að sykurinn hafði verið tekinn úr þeim, sem geymsluílát undir hitt og þetta; enda níðsterkir meðan þeir ekki blotnuðu.

Molasykurskar / Molakar (n, hk)  Ílát sem molasykur er borinn í á borð.  „Geturðu sett í molasykurskarið fyrir mig“?  „Það þýðir ekkert að hafa molakarið á borðinu þegar strákarnir koma í kaffi“!

Molasykurslaus / Molalaus (l)  Á enga mola; uppiskroppa með molasykur.  „Nú fór í verra; éga er bara alveg molasykurslaus; geturðu notað strásykur“?

Moldarbað (n, hk)  Hænsni eiga það til, ef þau komast í opið moldarflag, að setjast niður og ausa jarðvegi yfir sig; inn í fiðrið og um hausinn.  Á eftir hrista þau sig rækilega.  Líklega losna þau þannig við óværu.

Moldarhnúskur (n, kk)  Moldarhnaus; kökkur af mold.  „Það þarf að berja vel í sundur moldarhnúskana“.

Moldarkóf (n, hk)  Skafmoldarkóf; skafbylur.  „Það setti yfir okkur svo þétt moldarkóf að ekki sá útúr augum“.

Moldarlaust / Moldarlítið (l)  Engin/lítil skafmold; rennir ekki/lítið snjó með jörðu.  „Á föstudagsmorguninn var veðrið vægara og moldarminna“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Mollusvækja (n, kvk)  Hitakóf; mjög hlýtt og rakt í veðri.  „Heyið þornar ekki í þessari mollusvækju“. 

Morgunhundur / Morgunhani (n, kk)  Sá sem fer snemma á fætur á morgnana; sá sem tekur daginn snemma.  „Ég er svoddan morgunhundur, en ég er líka fjári kvöldsvæfur“.

Morgunmiga (n, kvk)  Sú athöfn að kasta af sér vatni/ míga að morgni.  „Mér fannst, þegar ég fór út í morgunmiguna, að hann væri farinn að ljókka ári mikið“.

Mosalýja / Mosalufsa / Mosatutla (n, kvk, fto)  Slitru/tjásur af mosa.  „Ef þú ferð að sækja nokkrar  lyngklær fram í Víðilæki, þá mega fljóta með einhverjar þurrar mosalýjur.  Þær eru ágætar til uppkveikju“.

Mosastopp (n, hk)  Mosi sem notaður er sem stopp í eggjaílát.  Þar sem sina var ekki tiltæk gátu menn þurft að nota mosa í stopp, en það þótti mun verra en sinustopp þar sem mosinn var plássfrekari og vildi molna.  „Við sóttum eggin í byrgið á Breiðsbrún daginn eftir, en þurftum að nota mosastopp að hluta, þar sem ekki hafði verið tekið nóg af sinu með upp“.

Móaslægjur (n, kvk, fto)  Þurrlendur slægjublettur í úthaga.  „Hlíðin inn eftir, frá Hagagilsbrekkum, heitir Krákur.  Þetta eru móaslægjur“  (SJTh; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Móeyglótt (l)  Um lit á sauðfé; hvítt á búk og haus en með mórauðan lit í kringum augu; misáberandi.

Mógrafarbakki (n, kk)  Bakki á mógröf.  Sjá mór.

Mógul (l)  Litur á sauðfé; Mjög dökkur gulbrúnn litur á haus og fótum, og gul á lagðinn.

Móhöfðótt (l)  Um sauðalit; ljós á skrokkinn en með mórauðan haus.  Ef móliturinn náði niðureftir hálsi var talað um móhöttótt.

Mólokast (s)  Gaufa; dunda; hangsa.  Orðið virðist ekki hafa verið notað utan Kollsvíkur í þessari mynd, en annarsstaðar þekktist „molloka“ í sömu merkingu.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Mórillulegur (l)  Skólplitaður; gruggugur; ógreinilegur; óhreinn.  „Ósköp eruð þið mórillulegir í framan eftir þetta moldarstúss í ykkur strákar; fariði nú og strjúkið framanúr ykkur fyrir matinn“!  „Vatnið í Ánni er enn mórillulegt eftir leysingarnar“.

Mórilla / Mórillulitur (n, kvk)  Skolp; skolplitur; grugg.  „Það kemur ekkert úr herjans krananum annað en mórilla“.  „Það er enn dálítill mórillulitur á kranavatninu“.

Móskóttur / Móleitur (l)  Brúnleitur; skítugur.  „Ári er féð móskótt sem kemur af Stígnum núna“.

Móspræklótt (l)  Litur á sauðfé.  Hvítt en með staka fíngerða mórauða lokka um allan skrokkinn.

Móstumökkur / Móstustrengur / Móstustrókur / Móstuský (n, kk/hk)  Nöfn á slæmu skyggni sem verður á takmörkuðu svæði þegar norðanstormur þeytir seltu uppyfir sanda, bala, tún og hjalla.  Yfir að líta er sem mjólkurlitir taumar renni af Rifinu og Leirunum meðfram Melaröndum, upp Fitina og yfir Láganúpstúnið. 

Móstustorka / Móstubrynja / Móstuklessa / Móstuský (n, kvk/hk)  Heiti á því sem eftir situr á yfirborði gróðurs, sanda, húsa, véla og annarra hluta eftir að móstumökkur/móstustrengur hefur gengið yfir það í nokkurn tíma.  Eftir situr skán af seltu og fínkornuðum leir; misþykk eftir veðurhörkunni.  Þetta þvæst þó að mestu af í næstu rigningum, en iðulega þarf að þvo glugga og annað í kjölfarið. 

Mótorkassi (n, kk)  Vélarkassi; kassi utanum vél í bát.  „Vélin í Voninni var hálfgerður kenjagripur; einkum magnettukveikjan.  Voru þeir bræður orðnir vel þjálfaðir að svipta ofanaf henni mótorkassanum og annaðhvort „skrifa henni til“ eða þurrka þræði og annan rafbúnað“.

Móur (n, kk)  Mólendi; þýfð holt.  „Norðan Hestkeldu er móur sem heitir Hestkeldumóur...“  (GG; Örnefnaskrá Láganúps).  „Stórimóur er niðuraf og sunnantil í Heiðardal.  Upp af Stóramó er Rauðimóur, þar sem þúfurnar eru rauðar af finnungi“  (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).

Móvilla (n, kvk)  Misskilningur; staðlausir stafir; svarthulavilla.  „Hér held ég að höfundurinn sé kominn í einhverja árans móvillu; þessir atburðir urðu með allt öðrum hætti en hann lýsir“.  Líklega líking við að villast úti í móa.

Mubla upp (orðtak)  Endurnýja húsgögn; setja upp húsgögn.  „Það er heldur veldi á þessum stórbændum.  Bara búið að mubla upp stofuna fyrir hátíðarnar“!

Mugguél / Muggufjúk / Muggukafald (n, hk)  Blint él í hæglætisveðri.  „Hann setti yfir fjandi dimmt mugguél á leiðinni“.

Mugguloft (n, hk)  Dimmt í lofti vegna snjómuggu.  „Það er mugguloft, svo ég greini ekki hvort féð er komið að húsunum“.

Murða (n, kvk)  Ögn; eitthvað mjög smátt.  Oftast notað í neikvæðum setningum:   „Það er ekki murða eftir á diskinum“.  „Það hefur skafið svo rækilega úr brekkunni að þar er núna ekki murða af snjó“.  „Á tímbili þurfti að róa ansi langt niður á haf til að fá í soðið.  Það var ekki murða af fiski á grunnslóð“.

Múkkabjarg (n, hk)  Bjarg/klettar þar sem mikið verpur af múkka/fýl.  „Ekki eru fuglabjörg í kringum Kollsvík, en hinsvegar eru þar múkkabjörg í Blakknum, Hnífum og Breið“.

Múgafjöl (n, kvk)  Fjöl á endanum á greiðusláttuvélum; hefur það hlutverk að greina slegið gras frá óslægju“. 

Múkkaegg (n, hk)  Egg úr múkka; fýlsegg.  „Jöfnum höndum var talað um fýlsegg og múkkaegg í Kollsvík“.

Múkkaeggjabragð (n, hk)  Bragð eins og af múkkaeggjunum.  „Það finnst vel múkkaeggjabragðið af kökunni“.

Múkkaeggjasnag / Múkkaeggjasnatt (n, hk)  Ferðir/tilraunir til að ná í múkkaegg.  „Hann skrapp út í Hnífabrún í eitthvað múkkaeggjasnag“.  „Þarna var lítið um svartfugl, svo við enduðum í múkkaeggjasnatti“.

Múkkaeggjatekja (n, kvk)  A.  Söfnun múkkaeggja í klettum.  B.  Möguleiki á að fá múkkaegg.  „Í gjánni getur verið þónokkur múkkaeggjatekja“.

Múkkafýla (n, kvk)  Sterk lykt af fýl/múkka.  „Það þyrfti kannski að þvo mestu múkkafýluna úr buxunum“.

Múkkahreiður / Múkkabæli (n, hk)  Hreiður/bæli múkka.  „Vertu ekki að teygja þig í eitt múkkahreiður“!

Múkkalýsi / Múkkaspýja / Múkkaæla (n, kvk)  Æla múkka/fýls þegar hann telur sér ógnað.  „Húfan ilmar dálítið af múkkalýsi“.  „Ég fékk múkkaæluna beint framan í mig“.

Múkkapláss (n, hk)  Staður þar sem mikið verpur af múkka.  „Þarna er múkkapláss sem þarf að komast í“.

Múkkastofn (n, kk)  Heildarfjöldi múkka/fýls.  „Eftir 1990 virðist hafa orðið mikið hrun í múkkastofninum, a.m.k. í múkkabjörgum kringum Kollsvík.  Þar kann mikil fjölgun tófu að eiga þátt að máli“.

Múkkatími (n, kk)  Varptími múkka/fýls.  „Það passar að fara að gá að langvíunni strax eftir múkkatímann“.

Múkkavarp (n, hk)  Varp múkka/fýls.  „Múkkavarp er varla byrjað að ráði ennþá“.

Múkkavertíð / Múkkaeggjavertíð (n, kvk)  Sá tími sem unnt er að taka múkkaegg til neyslu; þ.e. frá byrjun varps, um 20. Maí, fram til þess að egg verða flest stropuð, eða nokkuð fyrir miðjan júní.

Músafaraldur / Músagangur / Músaplága (n, kk)  Óvenju mikið um mýs í eða nálægt mannabústöðum.  „Ég hef sjaldan vitað álíka músafaraldur“!  „Það ætlar seint að linna þessari músaplágu í fóðurbætisgeymslunni“.

Músahjastur (n, kk)  Kusk og skítur sem mús skilur eftir sig þar sem hún hefur verið að naga/éta.  „Nú er illt í efni; heldurðu að ég hafi ekki fundið nýlegt músahjastur aftanvið hveitisekkina“!

Músamuðlingur (n, kk)  Muðlingur; ber sortulyngsins; hárautt þegar það er fullþroskað.  Berin eru talin mikilvæg fæða músa.  Þau eru ekki góð til átu hrá, en munu þó eitthvað hafa verið nýtt áður (sjá sortulyng).

Myglast (s)  Pírast; önglast; safnast smám saman; þokast.  „Það hefur myglast niður þónokkur snjór“.  „Það er að myglast í sæmilega upphæð í þessari söfnun“.  „Færðin var þannig að við rétt mygluðumst áfram“.

Myglufrugga (n, kvk)  Frugga sem kemur úr mjög mygluðu heyi; oftast nefnd einungis frugga en þetta heyrðist þó, t.d. til aðgreiningar frá sandmóstu og moldarryki sem einnig getur setið í heyi.

Myglukleggi/ Myglukökkur (n, kk)  Myglaður kökkur í heyi, oft vegna þess að þar hefur verið rök ljámús þegar heyið var hirt

Mykjureka / Mykjuskófla (n, kvk)  Fjósreka; fjósaskófla; flórreka.  „Það þarf að þvo mykjuskófluna vel áður en hún er notuð í sementið“.

Mylgringur (n, kk)  Píringur; myglingur; gisin snjókoma; smáskammtur af mat; lítið eitt af heyi eða annað sem kemur í mjög litlum skömmtum.  „Það er varla hægt að kalla þetta snjókomu, þennan mylgring“. 

Myndakotra (n, kvk)  Púsluspil; þraut sem felst í að fella rétt saman mynd á spjaldi sem klippt hefur verið niður í búta; kotra.  „Þessi myndakotra gæti verið ansi tímafrek og snúin“.

Myndarbátur / Myndarskip (n, kk/hk)  Laglegur/ vel smíðaður bátur; fallegt skip.  „Mér sýndist þetta  vera myndarbátur sem hann var að fá“.

Myrfata (n, kvk)  Fata sem höfð er undir myr þegar kartöflur eru teknar upp úr garði.

Mýrarstallur (n, kk)  Mýrasvæði milli hjalla í hallandi landi.  „Álakeldur eru á mýrarstalli, slæmar yfirferðar og hættur fyrir fé“  (SJTh; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Mýrastykki (n, hk)  Mýrlent svæði; dýjafláki.  „Mýrastykkið neðanvið Tröðina nefndist áður Heimadý, en í seinni tíð hefur nafnið Bugar verið notað yfir það, þó áður væru þeir aðeins syðstu dýin“.

Mýrarsytra (n, kvk)  Lítilsháttar vatnsrennsli úr mýri/mýrarbletti.  „Þarna á Breiðavíkurhjöllunum eru sumsstaðar mýrarsytrur, og má vel drekka það vatn þó ekki sé það vel gott“.

Mýrarvilpa (n, kvk)  Lítið mýrastykki/dýjasvæði.  „Þurftirðu endilega að vaða útí mýrarvilpuna“?!

Mæliprik (n, hk)  Prik sem notað er til mælinga eða til að flytja mælingu á milli staða.  „Ég merkti á mæliprikið heppilega breidd á kartöflubeðinu og bil milli hola“.

Mælitún (n, hk)  Tún sem mælt er, og slægjum skipt niður milli notenda.“Úr mælitúni ber jarðarparti þessum svokallaður Gíslapartur“ (Kaupsamningur Karls Kristjánssonar Stekkjarmel af Helga Gestarsyni Kollsvík).

Mömmuhjal (n, hk)  Móðurgælur; það sem hjalað er við börn.  „Þá var Árni í essinu sínu; en skipanir hans voru ekkert mömmuhjal“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Mörghundruð (n, hk, fto)  Um það sem talið er í mörgum hundruðum.  „Fyglingarnir fikra sig eftir örmjóum syllum með mörghundruð metra hengiflug fyrir neðan sig“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Mörklessa (n, kvk)  Klessa/klíningur af mör.  „Ég skóf mestu mörklessurnar af borðinu eftir að ég hnoðaði mörinn, en það þarf að þrífa það betur“.

Mörkunarleiðangur (n, kk)  Ferð sem farin er til að marka lömb.  „Á Láganúpi, líkt og á fleiri bæjum, bar fé á túnum.  Með nokkurra daga millibili var farið í mörkunar- og bólusetningarleiðangur.  Þá voru nýborin lömb handsömuð og þau mörkuð, merkt, bólusett og þeim gefið súlfalyf ef með þurfti.  Einnig var hugað að heilbrigði þeirra, t.d. hvort þau nærðust eðlilega eða væru teppt vegna skitu.  Hugað var að móðurinni, hvort hún mjólkaði lambinu; væri hraust og jafnjúgra“.

Mörtafla / Mörvi (n, kvk/kk)  Flatur klumpur innmörs sem látinn er storkna þar til hann verður hnoðaður í mörva eða nýttur til sláturgerðar.  Sjá mör og mörflot.

Mörkvartel / Mörtunna (n, hk/kvk)  Kvartel/tunna sem mör er geymdur/saltaður í.  „Hnoðmör var jafnan saltaður í kvartel eða áttung á Láganúpi framá 8.áratug 20.aldar.  Gæta þurfti þess að hafa saltpækilinn vel sterkan og að mörtöflurnar væru örugglega á kafi í honum.  Stundum var notað hellublað til að halda þeim á kafi.  Væru þær uppúr vildu þær feyra, og einnig orðið mús að bráð“.

Möskvaslitið (l)  Um net; slitnir leggir á milli möskva.  „Þetta net er víða orðið möskvaslitið og druslulegt“.

Nafaroddur (n, kk)  Oddur nafars/als.  „Gættu þín á heynálinni; hún er hvöss eins og nafaroddur“.

Nagladallur / Nagladolla / Nagladós / Naglakassi / Naglakolla / Naglaskál / Naglaskúffa / Naglastokkur (n, kvk/kk)  Ílát sem saumur er geymdur í.  Til sveita þarf iðulega að nota saum/nagla við ýmiskonar skilyrði; oft úti í rigningu og snjó.  Því var reynt að hafa naglana í íláti sem hvorki drafnaði í sundur, líkt og pappi, né ryðgaði, líkt og blikk.  Stundum voru smíðaðir sérstakir naglastokkar úr tré, en oft voru líka notaðar skálar úr hálfum alúminíumkúlum/netakúlum.  Fjölbreytileiki íláta endurspeglast í mörgum heitum þeirra.

Nagladofinn (l) Tilfinningalaus í fingurgómum vegna kulda.  „Ertu nagladofinn?  Þér var nær; að vilja ekki vettlingana sem ég bauð þér“!  Notað þannig sem lýsingarorð, en orðabækur gefa það upp sem nafnorð.

Naglagaddur (n, kk)  Útúrstandandi nagli.  „Varaðu þig á þessum útúrstandandi naglagöddum í spýtunni“.

Naglapakki (n, kk)  Pakki með saum.  „Keyptu fyrir mig tvo naglapakka; annan treitommu en hinn fírtommu“.

Naglaspík (n, kvk)  Langur oddhvass nagli/saumur.  „Réttu mér einhverja naglaspík svo ég geti fest þetta aftur“.

Nasaskítur / Nefskítur (n, kk)  Nasakvef; nefrennsli; hornös.    „Einhver nasaskítur er enn í mér“.

Nauðungargerningur / Nauðungarsala (n, kk)  Samkomulag/sala sem samþykkt er af nauðsyn/ undir þvingun/ vegna fjárhagsörðugleika.  „Afsalið var nauðungargerningur, í þeim tilgangi að forðast gjaldþrot“.

Nauðviljugur  (l)  Óviljugur; nauðbeygður; mjög tregur.  „Ég gerði þetta nauðviljugur, fyrir þeirra þrábeiðni“.

Naugið (l)  Nauðsynlegt; nákvæmt.  „Það er nú ekki svo naugið með miðið þegar skotið er úr haglabyssu“.  „Ég reiknaði þetta ekki naugið“.  Einatt borið fram með nokkuð lokuðu hljóði í miðju; j-hljóði eða linu g-hljóði; enda er orðstofninn „nægja“/“nægjanlegur“.  Því verður sá ritháttur orðabóka að teljast rangur að rita orðið „nauið“; þ.e. án g.  Vísar orðsifjabók í dönsku; „nöje“, sem er langsóttara en íslenski orðstofninn.

Náfrost (n, hk)  Mikið frost; bítandi frost.  „Þú ættir að búa þig vel, það er náfrost þó hann sé hægur“. 

Nágrannaerjur / Nágrannakrytur (n, kvk, fto)  Krytur/misklíð milli nágrannabæja.  „Nágrannaerjur eru líklega hluti af hverju samfélagi, og í Rauðasandshreppi þekktust þær í mismiklum mæli.  Aldrei ristu þær þó dýpra en svo að menn voru alltaf reiðubúnir að hjálpast að þegar mikið var í húfi“.

Nálarfella (s)  Fella/setja inn net með netanál (sjá fellingabekkur og hrognkelsi).  Önnur aðferð var að bekkfella.

Nálarfelling (n, kvk)  Felling nets með netanál.  „Sumir telja að síður dragist til á nálarfelldum netum en þeim sem sett eru inn í bekk“.

Nálarfellt (l)  Um net; fell/sett inn með netanál.

Nálarkritja (n, kvk)  (Líkl:)  Mjög lágvaxinn gróður; lélegar slægjur; sauðnálarkritja.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar). 

Neðanað (ao)  Að neðan; neðanfrá.  „Mér sýnist féð vera að koma neðanað; það hefur ráfað í fjöruna“.

Neðanáfestingur (n, kk)  A.  Eiginleg merking:  Sokkur sem gamall frambolur hefur verið skorinn af og nýr prjónaður í staðinn.  B.  Líking:  Drullusokkur; ónytjungur; óvandaður maður.  „Mér hefur nú alltaf fundist hann vera hálfgerður neðanáfestingur“.  Eingöngu notað þannig í seinni tíð.  Orðabækur gefa upp orðið neðanfestingur; án á, en vestra var þetta notað svona.

Neðanfrá (ao)  Að neðan; uppeftir.  „Jarðklakinn eyðist ekki síður neðanfrá en ofanfrá“.

Neðanímóti (ao)  Upp/neðan á móti brekku.  „Fjári er tafsamt að vaða snjóinn svona neðanímóti“.

Neðansjávarvirkjun (n, kvk)  Orkuver/virkjun sem er neðan yfirborðs sjávar.  Slík virkjun gæti nýtt orku sjávarstrauma/sjávarfalla; ölduorku eða vindorku, eða blöndu þessara orkugjafa.  Enn er engin neðansjávarvikrkjun starfrækt við Ísland en eitt fyrirtæki á landinu fæst við þróun á því sviði.  Það er Valorka ehf, sem byggir á hugmyndum Kollsvíkingsins Valdimars Össurarsonar.

Neðantil (ao)  Að neðanverðu.  „Ég ætla að fara neðantil við hópinn og reka hann upp í ganginn“.

Neðanvert við / Neðanvið (orðtak)  Að neðanverðu; fyrir neðan.  „Fornmaðurinn er neðanvert við Axlarhjallann“.  „Neðanvið Umvarpið handanmegin eru Handanbæjarmýrar“

Neðanyfir (ao)  Að neðan og yfir.  „Sandur fýkur oft úr Rifinu; neðanyfir Leira og Fit; yfir tún og bæi á Láganúpi og jafnvel útyfir Hnífa og Breið“.

Nefndastúss (n, hk)  Vinna við störf í nefndum og stjórnum.  Nokkuð notað orð á Láganúpsheimilinu um áratugaskeið, enda var Össura Guðbjartsson mikilvirkur í ýmsum stjórnum og nefndum á sviði félagsmála og framfara.  Hann var lengi hreppsnefndarmaður og oddviti í Rauðasandshreppi; sýslunefndarmaður í V-Barðastrandasýslu; fulltrúi í Stéttarsambandi bænda; fulltrúi á Búnaðarþingi; í forsvari framsóknarmanna á Vestfjörðum; hvatningarmaður að stofnun Orkubús Vestfjarða og í stjórn þar; í stjórn Sláturfélagsins Örlygs og um tíma kaupfélagsstjóri; kennari við barnaskóka Rauðasandshrepps; hvatamaður að stofnun héraðsskjalasafns; í stjórn sjúkrahúss o.fl.o.fl.  Auk þess mkilhæfur bóndi og fjárræktarmaður.

Nefskeraegg (n, hk)  Egg úr nefskera.  „Nefskeraegg er helst að finna í klettaslefrum, en einnig á stöllum“.

Nefskeri (n, kk)  Stuttnefja var í Látrabjargi og nágrenni aldrei kölluð annað en nefnskeri, og er svo enn. Það heiti var ekki notað annarsstaðar.

Neftorta (n, kvk)  Gæluheiti á nefi.  „Nú hef ég gleymt klútnum mínum; áttu ekki eitthvað sem ég get snýtt úr neftortunni með“?  Torta er víða þekkt sem gæluheiti á sitjanda/aftuenda/rassi, en þessi notkun er ekki þekkt utan Kollsvíkur og e.t.v. næstu bæja.

Neftóbaksdolla / Neftóbakskrukka (n, kvk)  Gler-, og síðar plastkrukka sem neftóbak var selt í um tíma.  „Við röltum framundir Litlagil og týndum ber í tvær fullar neftóbaksdollur.  Næst þurfum við eitthvað stærra ílát en neftóbakskrukkur“.

Neftóbaksponta (n, kvk)  Tóbaksponta; ílát sem er sérsmíðað til geymslu á nefntóbaki, af stærð sem fer vel í vasa.  Vönduð ponta er úr málmi; perulaga og flöt; með stungnum tappa í mjórri endanum sem þægilegt er að skammta sér úr, og skrúfuðum tappa á breiðari enda þar sem fyllt er á.  Guðbjartur á Láganúpi átti forláta neftóbakspontu, sem hann notaði nokkuð mikið.

Neglingsfast (l)  Um hlut sem erfitt er að losa; fast eins í góðri neglingu..  „Netið er neglingsfast í botni“.

Nepjugjóla (n, kvk)  Kaldur vindur; kuldagjóstur.  „Klæddu þig almennilega; það er komin nepjugjóla“.

Nestisbox / Nestisdallur / Nestiskassi / Nestisstokkur / Nestisskrína (kk/kvk)  Kassi/stokkur undir nesti.  Sjómenn fyrr á tíð höfðu ekkert nesti með sér á sjó; hvorki vott né þurrt.  Á tímum Kollsvíkurvers tíðkaðist að hafa sýrublöndu með sér, en engan mat.  Síðar, t.d. þegar farið var að gera út á grásleppu seint á 20.öld, fóru menn að hafa með sér vel útilátið nesti á sjóinn; kaffi á hitabrúsa og mjólk á flösku; smurbrauð með því; múkka- eða svartfuglsegg og e.t.v. harðfiskstrengsli.  Enda var útivera þá nokkuð löng.  Brauðið var í stokk/kassa, en svo var öllu komi fyrir í nestisgjúðru/nestistuðru.

Nestisgjúðra / Nestistuðra / Nestispoki / Nestisskjóða / Nestistaska (n, kvk/kk)  Poki/skjóða undir nesti.  „Teygðu þig nú í nestisgjúðruna þarna framí“.  „Munið svo eftir nestistuðrunni þegar þið farið“.

Netabúnt (n, hk)  Nokkur fjöldi neta saman í pakkningu; oftast þá átt við netaslöngur sem ekki hafa verið felldar á þin/tein.

Netadráttur (n, kk)  Dráttur neta; vitjun um net.  „Maður hálflerkaður eftir að hafa puðað í netadrætti allan liðlangan daginn“.

Netadrusla (n, kvk)  Lélegt net.  „Það þarf að skera þessar netadruslur af teinunum“.

Netafriður (n, kk)  Friður vegna veðurs til að vitja um net.  „Hann er nú að hvessa svo að það er ekki meira en svo að það sé netafriður lengur“.

Netahreinsun (n, kvk)  Hreinsun skíts/þara/skeggs úr netum.  Netahreinsun fór oft fram úti á sjó; ýmist um leið og net voru dregin eða með því að draga þau milli rúma í bátnum.  Ef mjög mikið var af skít í netum voru þau tekin í land; strengurinn lagður á þurran bala og tveir hreinsuðu á milli sín.  Þá voru þau oft látin bíða þar til þarinn var skrælnaður, svo hann molnaði úr.

Netafargan (n, hk)  Gríðarlegt/ofboðslegt magn af netum.  „Það er ekki furða þó stytti eitthvað upp í veiðinni þegar þetta ógnar netafargan er komið á þennan hlandkollublett!  Það liggur við að megi hlaupa þurrum fótum eftir netabaujunum“!

Netafelling / Netainnsetning (n, kvk)  Felling nets á þin/tein.  Tvær meginaðferðir voru við fellingu/innsetningu neta; nálarfelling og bekkfelling.  Sú fyrri er vandaðri og meira notuð nú til dags, en sú síðari er fljótlegri.  Sjá setja inn net; fella net.

Netaflá / Netaflot / Netakorkur (n, kvk/hk/kk)  Flá; flot; korkur sem notað er til að halda flotteini/flotþin á neti uppi í sjónum, og netinu opnu.  Fyrstu flár voru tálgaðir tré- eða korkkubbar sem voru benslaðir við þininn.  Síðar komu verksmiðjuframleiddir frauðkubbar með gati, sem þinurinn var þræddur í gegnum; síðan litlir  hringir af harðplasti, en að lokum leysti flotþinurinn/flotteinninn flárnar/flotin/korkana af hólmi.  Hann er ofinn af gerviefni sem hefur minni eðlisþyngd en sjórinn, og þar af leiðandi flotmagn.

Netagirðing (n, kvk)  Mikill fjöldi af netum á sama svæði; netagarður; netastagur.  „Ekki skil ég hvernig nokkuð grásleppukvikindi sleppur innfyrir þennan netagarð frammi í Flóanum“!

Netakubbur (n, kk)  Netakorkur; korkur/flot sem festur var á flotþin neta til að halda því réttu í sjónum, fyrir tilkomu flottógs.  „Það var töluverð framför þegar netakubbar urðu rúnnaðir; þeir köntuðu voru gjarnir á að flækjast og ánetjast í netinu“.

Netamæti / Netamætingur / Netaskil (n, hk, fto/ kk)  Samsetning tveggja neta í streng/trossu.  Frágangur neta var oftast þannig að á enda hvors þins var lykkja og milli efri og neðri lykkju öflugt stag.  Lykkjur steinaþina beggja neta voru bundnar saman á netaskilum með tvöföldum flagghnút, og sömuleiðis lykkjur kubbateinanna/korkateinanna.  Hefði annar lagt ofaní af slysni þótti sjálfsagðir mannasiðir að draga það net að næstu netaskilum; leysa í sundur og binda saman undir.  Væri um vítavert gáleysi að ræða var aðkomunet þverskorið og hnýtt með þverhnút undir hinu.  Argasti glæpur þótti að skera í sjó; þ.e. að hnýta endana ekki saman.  „Það hefur orðið einhver snúningur á strengnum í lagningunni.  Við drögum að næstu netamætum og lögum þetta“.  Orðið „netamætingur“ í et.kk er líklega eldra í málinu, en var notað af sumum til skamms tíma.  „Hér er netamætingur; þá getum við lagfært snúðinn á þessu“.

Netastagur / Netaþvarg (n, kk)  Mikið af netum í sjó sem eru þétt saman.  „Það er þvílíkur netastagur framundan Helminum að þar er ekki drepandi niður fæti“.  Netaþvarg er fremur notað í niðrandi merkingu.  „Ekki undrar mig þó menn leggi hver yfir annan í þessu netaþvargi; það er varla glenna á milli strengja“!

Netateinn / Netaþinur (n, kk)  Taug/lína sem notuð er sem flottteinn/korkateinn eða steinaþinur/blýteinn á net.  Oftast stytt í teinn eða þinur, sjá þar.

Nethelgi (n, kvk)  Svæði innan línu sem dregin er 60 faðma útfrá stórstraumsfjöruborði, en í nethelgi ríkir eignarréttur landeiganda, t.d. gagnvart veiðum.  Orðið var almennt notað í Kollsvík og nágrenni en annarsstaðar virðast hafa verið notuð orðin „netlög“ og „landhelgi“ um sama hugtak.

Neyma (s)  Ná taki á; fingra.  „Þetta er svo smátt að ég neymi það varla með berum fingurgómunum“.

Neyma af  (orðtak)  Taka örlítið af; klípa af.  „Það er svo lítið eftir af tertunni að það tekur því ekkert að neyma af henni.  Hana!  Skelltu þessu bara í þig“! 

Neyma við (orðtak)  Snerta örlítið; nema við.  „Galdurinn við að egna músafellu er að láta pinnan neyma nógu laust við agnhaldið“.  „Sigla þarf þétt framhjá klakknum, en þó gæta þess að neyma ekki við hann“. 

Niðaandskotansþoka / Niðadéfilsþoka (n, kvk)  Köpuryrði um þoku sem glepur sýn.  „Hann er að hella yfir einhverri niðaandskotans þoku; það verður óglæsilegt að koma strengnum rétt í sjóinn aftur“!  „Það var slík niðadéfilsþoka þarna á fjallinu að maður varð bara að þræða kindagötur til að villast ekki“.  Alltaf er spurning hvað sé orð og hvað sé ekki orð, en í ljósi þess að þessi og annar eins samsetningur hraut oft af vörum Kollsíkinga; og í ljósi þess að orðabækur tilgreina samsett orð engu merkilegri, fær þetta að fljóta í registrið.

Niðdimma (s)  Verða mjög dimmt.  „Það þýðir lítið að fara af stað þegar farið er að niðdimma“.

Niðrifrá (ao)  Fyrir neðan; þarna niðri.  „Ég var niðrifrá; það er rekið feiknamikið tré í Bótinni“.

Niðrifyrir (ao)  Í sjálfum sér.  Eingöngu notað nú í orðtakinu að vera mikið niðrifyrir; vera æstur/óðamála.  „Honum var svo mikið niðrifyrir að hann kom varla upp eiu einasta orði“.

Niðristöðusteinn (n, kk)  Stjórasteinn; steinn í botnenda niðristöðu, sem enda steinaþinsins/blýþins nets eða enda fiskilínu er fest við (sjá hrognkelsi og niðristaða).

Niðrilega (n, kvk)  A.  Sjóskrýmsli sem liggur á hafsbotni, en kemur upp á sj´ö ára fresti.  „Þetta var gríðarstórt sjóskrýmsli sem svam þarna í Patreksfirðinum; á að giska um tuttugu faðmar á lengd; með tvo fjallháa hnúka uppúr hryggnum; líkt og fjallið sem hann benti mér á og heitir Kryppa; rétt fremst í Örlygshöfninni.  Hann sagði mér að hann hefði heyrt frá gamalli tíð, að þessi niðrilega kæmi upp á sjö ára fresti og hún hefði lítið um sig.  En hættulegt mundi bátum að vera nálægt henni, því það væru dæmi til að hún hefði grandað bátum.  Að öðru leyti gerði hún ekki neitt mein“  (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn GJH).  B.  Niðrilega þekktist einhversstaðar á landinu sem heiti á niðurstöðu veiðarfæra (sbr LK; Ísl.sjávarhættir)

Niðrí (ao)  Týnt; finnst ekki.  Óvíst er hvað þetta var útbreitt en Jón Hákonarson, kaupfélagsstjóri á Hnjóti og af Kollsvíkurætt notaði þetta oft, t.d. ef hlutir eða pappírar fundust ekki:  „Það er niðrí“.  Ekki er vitað til að þetta hafi verið í notkun annarsstaðar í þessari merkingu.  Jón hélt vel á lofti sérkennilegu máli.

Niðurámilli (ao)  Niður í millum.  „Ég tapaði vasahnífnum niðurámilli í fjárhúsinu og þurfti að rífa spel úr grindinni til að ná í hann“.

Niðurávið (ao)  Í áttina niður.  „Til að komast í Nafargjá úr ganginum þarf fyrst að fara niðurávið; niður brík sunnan við gjána“.

Niðurbrunnið (l)  Brunnið niður.  „Það hefur gleymst að slökkva á kertinu, svo það er alveg niðurbrunnið“.

Niðurburðarrúst (n, kvk)  Lág grjótrúst þar sem niðurburður hefur verið festur niður með því að leggja steina ofan á hann, svo tófa geti síður dregið hann til“.

Niðurfreðinn / Niðurfrosinn (l)  Frosinn fastur í klaka/ís á jörðinni.  „Hurðin frá kofanum er alveg niðurfreðin“.  „Ég sá hrífu liggjandi frammi á sléttu; hún er náttúrulega niðurfrosin núna“

Niðurfyrir (ao)  Að ofan og neðar en viðmiðið; ofanfyrir.  „Komum okkur í skjól niðurfyrir brúnina“.

Niðurgangspest (n, kvk)  Umgangspest sem veldur niðurgangi/skitu.  „Ég hef ekki enn fengið þessa niðurgangspest, en þeir eru víst margir sem til á kamrinum þessa dagana“.

Niðurgjöf (n, kvk)  Slökun sigmanns eða annars niður í bjarg, sem stjórnað er af undirsetumönnum á brún.  „Sigið gekk ágætlega, en niðurgjöfin hefði mátt vera töluvert liðugri“.

Niðurgróinn (l)  Um hlut; gróið yfir; sokkinn í jörð.  „Skítadreifarinn var síðast notaður sem útijata fyrir kálfa, og er orðinn nánast niðurgróinn við Grundahliðið“.

Niðurímóti (ao)  Niður; ofan; undan (halla).  „Eftir að komið er uppá Kjölinn fer strax að halla niðurímóti“. 

Niðurrifskjaftæði / Niðurrrifstal (n, hk)  Neikvæð/skaðleg umræða; úrtölur.  „Það er kannski ekki að furða þó landsbyggðin láti undan síga, eins og þetta niðurrifskjaftæði hefur fengið að vaða uppi í fjölmiðlum“!

Niðurskrifað (l)  Ritað/skrifað niður; skrifað á blað eða annað.  „Ég á þessa vísu einhversstaðar niðurskrifaða“.

Niðurtraðkaður (n, kk)  Niðurtroðinn; marinn undir fótum.  „Kálfarnir hafa komist inn í rófugarðinn og það sem ekki er étið er alt niurtraðkað og ónýtt“.

Niðurundir / Niðurvið / Niðrivið (ao)  Niðri hjá.  „Það hefur hvítnað niðurundir sjó í nótt“.  Ég skildi við féð niðurvið girðinguna“.  „Kvíslarnar eru niðrivið hlöðu“.

Niðurúr (ao)  Alveg niður; niður í gegn.  „Féð kom niður Flötina og hélt áfram niðurúr; það er ágætt að það snapi eitthvað í fjörunni“.  „Mér sýnist að það sé fært þarna niðurúr ganginum“.

Ninnuhræðsla (n, kvk)  Heigulsháttur gagnvart öðru fólki; minnimáttarkennd.  „Það var einhver ninnuhræðsla í honum, svo hann þorði ekki að segja hvð honum bjó í brjósti“.  Heimatilbúið orð í Kollsvík; til orðið á fyrrihluta 20. aldar.  Staðbundin notkun um allan Rauðasandshrepp. 

Níðþrengsli (n, hk, fto)  Mjög mikil þrengsli; örtröð.  „Það voru slík níðþrengsli þarna í salnum að maður varð dauðfeginn að komast út“!  „Það er erfitt að athafna sig í þessum níðþrengslum“.

Nístingsgaddur / Nístingsfrost / Nístingskuldi / Nístingsnepja / Nístingssveljandi (n, hk)  Mjög mikið frost; firnakuldi.  „Hann hefur hlaupið í nístingsgadd í nótt“.  „Mikið er notalegt að komast inn úr þessum nístingssveljanda“.

Nokkrusinni / Nokkurntíma (ao)  Ekki í neinn tíma; í engan tíma.  „Ég hafði aldrei nokkrusinni heyrt á þetta minnst“.  „Hefurðu nokkurntíma prófað þetta“?

Nokkur (skapaður) hlutur / Nokkurhlutur (orðak)  Áhersluliður í neitunarsetningum.  „Ég vissi ekki nokkurn hlut hver það var...“  (TÖ; viðtal á Ísmús 1978).  Til aukinnar áherslu var oft bætt við „skapaður“.  „Ég var ekki nokkurn skapaðan hlut að stríða honum“.  „Ég veit ekki nokkurn skapaðan hlut um þetta“.  Orðin „nokkur hlutur“ voru iðulega borin fram sem eitt orð væri; jafnvel oft svo að stöfum væri sleppt: „Þadna var ekki nokkunlut að sjá“.

Nokkurhundruð (n, hk, fto)  Nokkur hundruð.  Iðulega framborið í einu orði og á því að ritast sem slíkt.  „Í þessum rekstri var allmargt; líklega nokkurhundruð fjár“.

Nokkurnveginn / Nokkurnvegininn (ao)  Um það bil; hér um bil.  „Við vorum nokkurnveginn á miðinu“.  Oftar framborið án þess að v heyrðist; „nokkurneginn“.  Einnig áttu sumir til að skjóta inn hikatkvæði; „nokkurnvegininn“.  „Ég held að mér sé nokkurnvegininn að takast þetta“.

Nordan (ao)  Norðan; norðanátt.  Vestfirskur framburður (sjá áttir).  Þennan þátt íslensks máls vantar í orðabækur, og er það til vansa.

Norðanaftök /  Norðanstórbrim / Norðanstórsjór (n, hk, kk)  Aftaka norðanbrim; mjög grófur norðansjór.  „Skyldi hann ekkert ætla að fara að lina þessi norðanaftök“?  „Enn er hann ekkert að gefa eftir með þennan norðanstórsjó.  Það er ekki mikið fyrir féð að hafa í fjöru þessa dagana“.

Norðanbæir (n, kk, fto)  Bæirnir norðantil í Kollsvík; Kollsvíkurbærinn; Stekkjarmelur; Tröð og aðrir sem í byggð eru á hverjum tíma.  „Bæir sunnantil í víkinni hétu handanbæir en hinir norðantil voru norðanbæir“  (SG; Áttamálfar; Þjhd.Þjms). 

Norðaneftir (ao)  Að norðan og yfireftir/suðureftir.  „Mér sýnist hann vera að koma norðaneftir Rifinu“.

Norðanfrá (ao)  Að norðan; frá norðri.  „Komstu gangandi norðanfrá“?

Norðangarri / Norðangassi (n, kk)  Norðangarður; norðanáhlaup; hvöss norðanátt.  „Hann er kominn með bölvaðan norðangassa“.

Norðangeljandi / Norðansveljandi / Norðannæðingur (n, kk)  Allhvass norðanvindur; norðankaldi. „Það er enn sami norðangeljandinn“.  „Ansi er hann kaldur í þessum norðansveljanda“!

Norðangutlandi (n, kk)  Nokkur norðansjór, ekki þó rosi/garður.  „Það var kominn leiðinda norðangutlandi þegar við drógum strengina við Kofuhleinarnar“.

Norðanhallt (ao)  Þar sem hallar norðuraf.  „Gáðu vel þarna norðanhallt á Blakknum; í Kjammanum“.

Norðanhroði (n, kk)  Gróft brim af norðri.  „Hann ætlar enn að halda þessum norðanhroða“.

Norðanlegur (l)  Um veðurútlit; lítur út fyrir norðanátt; merki um norðanátt.  „Veður var gott; austankaldi, dálítið frost og sjólaust, en norðanlegur til hafsins„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Norðanátt / Norðanbál / Norðanbelgingur / Norðanblástur / Nordangardur / Norðangarri / Noraðangjóla / Norðangjóstur / Norðanhvassviðri / Norðankaldi / Norðankalsi / Norðankæla / Norðannæðingur / Norðanofsi / Norðanrok / Norðansperra / Norðansperringur / Norðansteytingur / Norðanstormur / Norðanstórviðri / Norðanstrekkingur / Norðansvarri / Norðansveljandi / Norðanvindur / Norðanþræsingur.  Norðanáttin er e.t.v. mesti áhrifavaldurinn í Kollsvík, a.m.k. varðandi búskap og útgerð á fyrri tíð.  Henni fylgdu mestu kuldarnir; mesta brimið og mesta sandfokið, en einnig gat hún verið besti hugsanlegi þurrkurinn.  Mikilvægt var að átta sig á fyrirboðum norðanáttar.  Þar var öruggasta merkið bakkinn til hafsins.  „Þegar mökkur var á Blakknesi og Kóp var von á norðanátt..“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).  „Tíðast var það norðanáttin sem hamlaði sjósókn.  Norðanstormur gat oft blásið linnulaust dögum saman; jafnvel heila viku.  Ýmsir töldu að norðanáttin varaði lengur ef hún byrjaði á vissum dögum; t.d. á þriðjudag eða föstudag“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Hann er að leggja upp árans norðansperru“.  „Enn heldur hann sama norðansperringnum og í gær“.

Norðanrembingur / Norðanspæna / Norðanstrambi / Norðansvarri / Norðansveljandi / Norðansvæla / Norðanveður (n, kk)  Norðanstormur; stífur norðanvindur. Norðanátt verður hvað köldust og hvössust í Kollsvík, og líklegust til að spilla gæftum á sjó.  „Ekki slær hann neitt enn á þennan norðansvarra“.  „Það var mjög tregt, og illt í sjóinn.  Það lagði á norðanspænu með hálfgerðum brimhroða“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Norðanspá (n, kvk)  Veðurspá um eindregna norðanátt.  „Ekki veit ég hvort þessi norðanspá gengur eftir“.

Norðantil (ao)  Norðarlega í; að norðanverðu.  „Er þetta ekki kind þarna norðantil í Höfðunum“?

Norðantilvið (fs)  Fyrir norðan; norðanvið.  „Það var rekið boldangsmikið tré norðantilvið Gatklettinn“.

Norðanundir (ao)  Undir og norðanvið.  „Það liggur eitthvað af timbri norðanundir fjárhúsveggnum“.

Norðanvið (ao)  Fyrir norðan.  „Á vorin var sett upp jata norðanvið Melsfjárhúsin til að hára lambfénu úti“.

Norðanyfir (ao)  Að norðan og yfir.  „Mér sýnist þau séu að koma gangandi norðanyfir Melarandir“.

Norðuraf (ao)  Norður og yfir; handanvið til norðurs.  „Fjárhópurinn er horfinn norðuraf Blakknum núna“.

Norðurá / Norðurávið (ao)  Norður á við; til norðurs; í norðurátt.  „Þeir tóku því bóg norðurá; eins nærri vindi og unnt var„Þeir tóku því bóg norðurá, eins nærri vindi og unnt var“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Norðureftir (ao)  Í áttina norður; að sunnan/handan.  „Hann er norður í Kollsvík; ég skrepp norðureftir að sækja hann“.

Norðurfallsupptaka (n, kvk)  Byrjun á norðurfalli.  „Það sýnist með öllu ófært fyrir Blakk nú.  Enda erum við hér á versta tíma norðurfallsupptakanna, en fárra kosta er völ“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Norðurfyrir (ao)  „Það fórr gríðarstórt skemmtiferðaskip fyrir víkina áðan.  Nú er það komið norðurfyrir“.

Norðurmeð (ao)  Norður og meðfram.  „Við rákum féð norðurmeð sjó“.

Norðurrek (n, kvk)  Rek báts eða annars með norðurfalli.  „Ég fer dálítið suðurfyrir miðið; það er komið eitthvað norðurrek“.  Sjá suðurrek.

Norðurum (ao)  Norðuryfir.  „  Ætlar þú að hjálpa mér með reksturinn af Breiðavíkurrétt norðurum“?

Norðurundir (ao)  Undir því sem er í norðurátt.  „Það er ári mikið tré rekið norðurundir Hryggjum“.

Norðuryfir (ao)  Yfir til norðurs.  „Féð hljóp upp í Gjárdalsskarð og er á hraðferð norðuryfir“.

Nosturþrifinn (l)  Mjög þrifinn; kattþrifinn.  „Það er ekki óværan í hennar húsum; eins nosturþrifin og hún er“.

Nónbiti (n, kk)  Málsverður sem snæddur var um nónið.  „Þegar skugginn af Nónskegginu er kominn á grasteig er farið að borða nónbitann“  (ÓS; Örnefnaskrá Lambavatns).

Nónvarða (n, kvk)  Varða sem er eyktamark.  Nónvarða er á Hjallabrúninni ofan Brunnsbrekku, og er hún eyktamark frá Grundum.

Nuð (n, hk)  Tuð; nöldur; nudd.  „Hann var alltaf að þessu endalausa nuði, þangað til ég lét þetta eftir“.

Nugg (n, hk)  Núningur; nudd.  „Það þarf að gæta þess að vaðurinn skemmist ekki af nuggi þar sem hann liggur yfir hvassa brún“.

Nurða / Nurta (n, kvk)  Arða; ögn.  „Músin hafði étið sígaretturnar svo í pakkanum sást ekki nurða af tóbaki“.  „Það er varla nokkur nurða í fjöru núna fyrir féð“.  Bæði orðin heyrðust notuð í Kollsvík.  Orðið „nurða“ sést ekki í orðabókum, en gæti hafa orðið til þar eða annarsstaðar við samruna orðanna „nurta“ og „arða“.

Nújæja / Nújæjaþá (u)  Upphrópanir sem venjulegast eru notuð sem andsvör.  Nújæja er annaðhvort andsvar í undrun yfir því sem sagt er eða sem eftirgjöf við beiðni; nújæjaþá er eingöngu notað í síðara tilfellinu. 

Núllari (n, kk)  Dundari; gaufari; sá sem fer sér hægt við vinnu; er afkastalítill.  „Hann er óttalegur núllari karlgreyið, en alltaf er hann samt að“.

Númerabók (n, kvk)  Bók sem í er skráð númer lambs eftir að það hefur verið markað og merkt að vori.  Bókin var meðal innihalds í merkjatösku, og úr henni voru upplýsingarnar oft færðar í ærbók.

Núpsbrún (n, kvk)  Klettabrún á núp.  „Tvævetluskrattinn sperrti sig inn Eyjaskorarnúp; þræddi núpsbrúnina og setti sig á rassaköstum niður gjána; ofaní Lambahlíð“!

Nytsemdarskepna (n, kvk)  Gagnlegt húsdýr.  „Dalli var frábær smalahundur og hin mesta nytsemdarskepna“.

Nýaftekin (l)  Um kind; nýbúið að taka af/ rýja.  „Ég sá þarna fjórar nýafteknar og tvær í reyfinu“.

Nýfennt (l)  Nýsnjóað; nýfallinn snjór.  „Það var nýfennt í slóðina, en hún var samt víða greinileg“.

Nýgræðingsháttur (n, kk)  Byrjendabragur; reynsluleysi.  „Skelfingar nýgræðingsháttur er nú þetta!  Sagðistu ekki hafa gert þetta áður“?

Nýkaraður (l)  A. Um lamb/kálf; nýbúið að kara/ sleikja slorið af.  „Þarna var kind með tveimur nýköruðum lömbum; ómörkuðum“.  B.  Líkingamál um viðvaning.  „Ég held að menn ættu að láta það vera að þenja sig í ræðustól þingsins, svona nýkaraðir og hlandvitlausir“!

Nýstaðinn/nýstiginn upp / Nýuppstaðinn (orðtak)  Nýlega kominn á fætur/ról.  „Ég var þá nýuppstaðinn úr flensu“.

Næðingsfjandi (n, kk)  Áhersluorð um næðing.  „Manni er bara hálfkalt í þessum næðingsfjanda“.

Nægilega / Nægjanlega (ao)  Nóg; sem dugir.  „Ég held að það ætti nú að vera nægilega fallið út til að fara að vísa fénu í fjöruna“.  „Það fer alveg að koma nægjanlega mikið á þennan vagn“.

Næpustýri (n, hk)  Gæluorð um næpu.  „Viljið þið ekki fá ykkur næpustýri strákar“?

Nærpjönkur (n, kvk, fto)  Nærföt.  „Eitthvað er nú orðið fátæklegt af nærpjönkum á þig núna“.

Næstefstur / Næsthæstur / Næstneðstur / Næstlægstur (l)  Annar í röðinni ofanfrá/ neðanfrá.  „Ég er búinn að tína í efsta og næstefsta gangi, en ætla að fara niður í þriðja gang“.

Næturflóð (n, hk)  Flæði að næturlagi.  „Við skulum setja bátinn aðeins hærra; ég hef grun um að næturflóðið gæti orðið aðeins hærra en flæðin í dag“.

Obbosí (u)  Upphrópun sem gjarnan var notuð þegar börn voru tekin upp eða þeim lyft.

Oddafiskur (n, kk)  Lúða sem veiðist á flenniskuð.  „Á vorin var oft mikið af flenniskuði (hraunpussu, sæfífli) í Látraröst og komu þá stundum tvö og þrjú á sama öngulinn í senn.  Flyðra sem veiddist á flenniskuð var nefnd oddafiskur og var hlutarbót þess sem fyrir því happi varð“ (LK; Ísl.sjávarhættir III; eftir Ó.E.TH Vatnsdal). 

Oddsnerta (n, kvk)  Það þegar fiskur snertir við beitu á krók þannig að veiðimaður telur sig finna það; verða varan.  „Einhver oddsnerta held ég að hafi verið hjá mér núna.  Hann gæti verið að gefa sig til“.  Einnig í neitunarsetningum um algert aflaleysi.  „Skammi sú ögnin að hér sé nokkur oddsnerta“!  „Við reyndum á nokkrum stöðum, en það var hvergi oddsnerta“. 

Ofanafsleikjur (n, kvk, fto)  A.  Sláttur túns, þar sem einungis er slegið ofanaf grasinu en ekki við rót.  B.  Líkingamál; hroðvirknislega/illa unnið verk; taka efnis án þess að klára/hreinsa.  „Ég kalla það ekkert annað en ofanafsleikjur; að sækja bara fjárhópa þar sem til þeirra sést en leita ekkert í lautunum“! 

Ofaná (ao)  Uppá; efst á.  „Saxaðu fyrir mig gott fang til að setja ofaná galtann“.  „Ég datt ofaná prýðishugmynd  til lausnar á þessu vandamáli“.

Ofanáliggjandi (ao)  Sem liggur ofaná.  „Vélin er með ofanáliggjandi knastás“.

Ofanásetur (n, hk)  Hluti af skinnbrókum; sjá skinnklæði.  „Í hverja brók þurfti fjögur skinn; eitt í setskauta, helst kálfskinn; eitt í hvora brókarskálm og eitt í ofanásetur“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Ofanbylur / Ofandrífa / Ofanfjúk / Ofankafald / Ofanhríð / Ofanmyglingur / Ofansáldur  (n)  Snjókoma að ofan, til aðgreiningar frá skafrenningi; ofankoma.  Endingin vísar til þéttleika og snjógerðar.

Ofanfrá (fs)  Að ofan; niðurímóti.  „Það er farið í Sighvatsstóðin ofanfrá, þó þau nái niðurfyrirmiðja kletta“.

Ofanfyrir (ao)  Niðurfyrir.  „Það snarhægði um leið og við komum ofanfyrir brekkubrúnina“.

Ofaní (fs)  A.  Niður í.  „Settu skærin ofaní skúffu“.  „Ætlarðu alveg ofaní mig drengur“?!  B.  Um sauðfé sem festir sig í feni/dýi.  „Nú er ég hræddur um að einhver sé ofaní; hrafnarnir láta mikið þarna við Hestkelduna“.  Sjá fara ofaní og föst ofaní

Ofanídauður (l)  Um sauðfé; hefur farið ofaní (dý/fen) og drepist.  „Það eru nokkrar ofanídauðar á þessu sumri“.

Ofanídýfing (n, kvk)  Það að dýfa einhverju ofaní.  „Þeir skýra víst með ofanídýfingu, eins og í sauðfjárböðun“.

Ofanímilli (fs)  Niður á milli.  „Ég missti peninginn ofanímilli sætanna í bílnum“.

Ofanímóti (fs)  Niðurímóti; niður.  „Það er ósköp notalegt og fljótlegt að rölta hérna ofanímóti, en mosaþemburnar eru fjári leiðar þegar menn ganga fullklyfjaðir af eggjum hér neðan dalinn“.

Ofankletta (ao)  Fyrir ofan kletta.  „Ég smalaði hlíðina ofankletta, en hann gekk fjöruna“.

Ofanleystur (l)  Með buxurnar niðrum sig; ógirtur.  „Þú ert dálítið ofanleystur ennþá anginn minn; biddu hann afa þinn að girða þig betur“.

Ofanmýra (ao)  Fyrir ofan mýrar.  „Þið skuluð fara með kýrnar upp á Umvarp; það er hægara að reka þær ofanmýra en í bleytuseylunum fyrir neðan“.

Ofanreiddur (l)  Um útslægjur uppi á fjalli; reitt niður á hestum.  „Mér var sagt af kunnugum að hjallinn hefði gefið af sér í bestu árum 100 hesta af heyi ofanreidda, ef hann var allur sleginn út í skækla“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Ofanum (ao)  Niður um.  „Hann mun hafa drukknað þegar hann fór ofanum ís á vatninu“.  „Það hefur fennt dálítið ofanum gatið á þakinu“.

Ofanúr (fs)  Niður úr.  „Ef þið hættið ekki þessum óskapagangi strákar, þá er hætt við að hún Grýla fari að finna til sekkinn sinn og komi askvaðandi ofanúr fjöllum“!

Ofanvið (fs)  Fyrir ofan. „Ofanvið Hjalla eru fyrst Flatir, en síðan Strympur og Ormar“.

Ofanyfir (fs)  Yfir.  „Settu svo balann ofanyfir fiskinn svo kvikindin fari ekki í hann“.  „Nú dettur ofanyfir mig; hver haldiði að sé nú að koma í heimsókn“?!

Ofbakað (l)  Of mikið bakað brauð/bakkelsi.  „Kakan varð dálítið ofbökuð hjá mér“.

Ofbarinn (l)  Um harðfisk; of mikið barinn.  „Það er verra að hafa harðfiskinn í nesti ef hann er ofbarinn“.

Offermdur (l)  Um bát/skip; með of mikinn farm/flutning; hættulega hlaðinn/fermdur.  „Sagt var að báturinn hefði verið offermdur, og ekki þolað ágjöfina“.

Ofjandinn / Ofjárinn (u)  Mild áhersluorð, oftast í andsvari og sögð rólegri röddu þegar ekki liggur mikið við.  „Nei ofjandinn; það held ég ekki“.  „Ofjárinn; heldurðu að það geti verið“?

Ofsafeginn (l)  Mjög/afar feginn/kátur.  „Mikið yrði ég ofsafeginn ef þú hættir að klifa á þessu í smástund“!

Ofstuðlað (l)  Um ljóð/kvæði; með of mörgum stuðlum eða höfðuðstöfum.  „Þetta er ágæt vísa hjá þér þó hún sé ofstuðluð í síðustu hendu“.  Rétt stuðluð ferskeytla er með tveimur stuðlum í tveimur hákveðum í fyrstu ljóðlínu/hendu og samhljóða höfuðstaf í fyrstu hákveðu annarrar ljóðlínu.  Þriðja og fjórða ljóðlína eru einnig með innbyrðis sama ljóðstaf/stuðul.  Algengast er að ofstuðlað sé með endurtekningu á höfuðstaf í sömu ljóðlínu.

Oft tefur offlýtirinn (orðatiltæki)   Speki í sömu merkingu og ekki er flas til fagnaðar.  (Umræðuefni á fundi Umf Vestra 1919). 

Oggulítill (l)  Agnarlítill; pínulítill; agnarsmár; örlítill.  „Þú getur alveg étið oggulítinn hringorm“!  Nokkuð notað í Kollsvík.  Líklega myndað með hljóðbreytingu á aggalítill; sjá þar.

Orétt (l)  Andsvar þess sem tekur undir/samþykkir það sem sagt var; með áherslu á o.  Líklega samruni orðanna „og það er rétt“.  Nokkuð algengt viðkvæði í Rauðasandshreppi á síðari hluta 20. aldar; ýmist stakt eða í upphafi frekara andsvars.

Orffjöl (n, kvk)  Sá hluti orfs sem haldið er um efri hönd (vinstri hönd hjá rétthendum) þegar slegið er.  Orffjölin er vanalega breiðari þar sem hún er felld í orfið, en mjókkar í annan jaðarinn frá því.  Á einstaka orfi var grópað handfang þversum yst á orffjölina, en annars var haldið um fjalarendann þegar slegið var. „Stakk hann efri enda orfsins upp að orffjöl upp í rassgatið á nautinu og þannig stýrði hann því að drullupytti sem var í nágrenninu“ (TÓ; upptaka á Íslmús 1978)

Organistahella (n, kvk)  Grjóthella sem Helgi Árnason, þá organisti Breiðavíkurkirkju, notaði til að hækka sig í sæti.  „Það var áletraður kassi utan um grágrýtishellu sem organisti kirkjunnar til fjölda ára hafði í kirkjunni til að hækka sig í sessi, en hann var lágvaxinn“  (SG; Kirkjur; Þjhd.Þjms).

Orkanáhlaup / Orkanhvellur / Orkanstórviðri (n, hk, kk)  Fárviðri; mikið óveður.  „Það gerði orkanhvell um jólaleytið“.  „Það var ekki að furða þó einhverjar þakplötur fykju í þessu orkanstórviðri“.

Orkansmikill (l)  Mjög stór/umfangsmikill.  „Þetta er orkansmikill jeppi“. 

Orkubolti (n, kk)  Kraftmikill/duglegur/öflugur maður.  „hann er alveg magnaður orkubolti“!

Orlof (n, hk)  A.  Frí frá störfum.  B.  Leyfi til að gera; orð/beiðni um.  „Ég gaf honum ekkert orlof til að hreyfa við þessu“!  „Hann sagðist gera þetta í orlofi sinna húsbænda“.  Orðið er ekki sýnilegt í orðabókum í þessari merkingu, en var notað þannig af sumum í Rauðasandshreppi frameftir 20.öld.  Orðstofninn er „orðlof“ (loforð); stofnskylt þýsku; „urlaub“.

Ormagryfja (n, kvk)  Óþverramál; samansafn vandræðamála/haturs; pandóruaskja.  „Ég held að mörgum brygði við sem sæi ofan í þá ormagryfju“.

Ormapoki (n, kk)  Húðpoki sem myndast neðan á kjálkum kindar sem er illa haldin af ormaveiki.

Óaftekin (l)  Enn í reyfi/ullu; ekki verið tekið af.  „Þarna er ein óaftekin, frammi í réttinni“.  „Við sáum nokkrar óafteknar kindur niðri í hlíðinni“.  Líklega ekki þekkt annarsstaðar í þessari merkingu; annarsstaðar „órúin“.

Óbehaganlegt (l)  Óþægilegt; umhendis.  „Það er dálítið óbehaganlegt fyrir mig að gera þetta alveg strax“.

Óbermilega (ao)  Ótótlega; rustalega.  „Skelfing ertu óbermilega til fara drengur!  Girtu þig að minnsta kosti“!

Óðakjafta (l)  Óðamála; bera ótt á; flaumósa.  „Hann var svo óðakjafta yfir þessu að kaffið kólnaði í bollanum“.

Óeirðabelgur / Óeirðarmaður / Óeirðaseggur (n, kk)  Slagsmálahundur; óróaseggur; vandræðamaður.  „Hann er alltaf sami óeirðabelgurinn með víni; eins og þetta er mikill ljúflingur dagsdaglega“.

Óforskömmugheit / Óforskömmun (n, hk, fto)  Frekja; dónaskapur.  „Fyrr má nú vera óskömmunin“!

Óforstöndugur (l)  Óaðgætinn; heimskur.  „Mér finnst hann afskaplega óforstöndugur í þessum efnum“.

Óforsvaranlegt / Óforsvarandi (l)  Óafsakanlegt; ekki verjandi.  „Það er óforsvaranlegt að láta barn aka dráttarvél yfir hálsa“!  „Mér finnst gjörsamlega óforsvarandi af ráðherra að segja svona nokkuð“.

Ófrelsi (n, hk)  A.  Helsi; ánauð; höft. B.   Kollsvíkingar og sumir aðrir í Rauðasandshreppi notuðu orðið í nokkuð óhlutbundnari merkingu en almennt gerðist; eða um einskonar álög/ofnautn.  „Ertu enn að éta?  Þetta er nú bara ófrelsi og ekkert annað“!  Mikið notað þar enn en ekki annarsstaðar í þeirri merkingu.

Ófyrirsjáll (l)  Ekki fyrirhyggjusamur; fljótfær.  „Það voru samt ekki ófyrirsjálnir ævintýramenn sem þessa ákvörðun tóku“  (MG; Látrabjarg). 

Ófærðarlítið (l)  Lítil ófærð; sæmilega greiðfært.  „Er sagt að presturinn í Sauðlauksdal hafi farið Prestahjalla ef hann fór til Breiðavíkur að vetrarlagi, því ófærðarlítið hafi verið á þessum hjalla; ekki fest snjó“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Ófæruseil (n, kvk)  Seil/forardý sem erfitt/hættulegt er að fara yfir.  „Norðan við Uxadýsál er ófæruseil sem nefnd er Svartaseil“  (Örnefnaskrá Láganúps).  Orðið seil þekkist ekki í þessari merkingu nema í Kollsvík og nágrenni.

Ófæruslefra / Ófæruslöður (n, kvk/hk)  Sundurslitinn gangur í klettum, sem er sæmilega fær báðumegin við.  „Það er kannski möguleiki að komast yfir ófæruslefruna með bandstuðningi“.

Ófæruurð (n, kvk)  Urð/helurð sem ófær er gangandi fólki og skepnum.  „Þú þarft að fara niðurfyrir ófæruurðina“.

Ógegndarafli / Ógegndarveiði (n, kk/kvk)  Mokveiði; frábær aflabrögð.  „Ekki get ég nú nefnt þetta ógengdarafla; en hann var vel við“.  „Ég hef sjaldan vitað aðra eins ógengdarveiði; en hún var bara í blá grunnendann á netinu; alveg uppi í hleininni“!

Ógerðarlegt veður / Ógerðarveður (orðtak/ n, hk)  Leiðinlegt veður.  „Úti var slydda og kuldaþræsingur:  Fremur ógerðarlegt veður“.  Oft stytt:  „Þetta er bévítans ógerð“.  „Bölvað ógerðarveður er nú þetta“!

Ógerðarskítur / Ógerðarslydda / Ógerðarslydduskítur (n, kk/kvk)  Él/snjókoma af blautri slyddu, sem klínist í fatnað, bleytir og kælir það sem hún fellur á.  „Það er enn sami ógerðarskíturinn“!  „Við lentum í ógerðarslydduskít þegar við komum niður Hafnarlautirnar“.

Ógerlegt (l)  Óframkvæmanlegt; ómögulegt.  „Það reyndist ógerlegt að ná ánni úr þessari sjálfheldu og því varð að skjóta hana niður“. 

Ógervilegur / Ógjörvilegur (l)  Ómyndarlegur; ekki álitlegur/aðlaðandi/vænlegur.  „Þetta var alls ekki ógervileg stúlka“.  Oftar með „e“ framburði í Kollsvík.

Ógjarnan (ao)  Helst ekki.  „Ég er kannski ekki allskostar ánægður með hann, en vil þó ógjarnan missa hann“.  Orðið var alltaf með n í enda í máli Kollsvíkinga, en þannig rithátt er ekki að finna í orðabókum.

Ógnarafl / Ógnarkraftur (n, hk/kk)  Gríðarlegt afl; firna kraftur.  „Maður á erfitt með að ímynda sér þá ógnarkrafta brimsins sem kastað hafa þessu bjargi hér upp“.

Ógnarfjöldi (n, kk)  Firn; akur; býsn; mýgrútur.  „Slíkan ógnarfjölda af fólki sagðist hann aldrei hafa séð“. 

Ógnarmargt (l)  Mýmargt; fjölmargt; aragrúi.  „Við verðum að fara að setja eitthvað útaf af fénu; það er ekki hægt að hafa svona ógnarmargt á túninu um langan tíma“.

Ógæftatíð (n, kvk)  Tímabil sem ekki gefur á sjó; landlega.  „Það hefur verið samfelld ógæftatíð í þrjár vikur“

Óhappagemlingur / Óhappagemsi (n, kk)  Sá sem er mjög óheppinn; hrakfallabálkur.  „Varstu að flumbra þig aftur?  Skelfingar óhappagemsi geturðu verið, greyið mitt“!

Óheillaákvörðun / Óheillaráð / Óheillaskref / Óheillaspor / Óheillaverk (n, hk)  Óráð; ekki góð ráðstöfun/aðgerð.  Þetta reyndist óheillaákvörðun, og afdrifarík“.  „Það var óheillaráð að loka Þræðingnum“.  „Ég held að það hafi verið óheillaskref fyrir byggð í Rauðasandshreppi að sameina hann öðrum hreppum“.

Óhemjugangur / Óhemjuskapur (n, kk)  Fyrirgangur; læti.  „Skárri er það nú óhemjugangurinn!  Ætlið þið að æra mig“?  „Maður var nú bara hálf hræddur við óhemjuskapinn í kerlingunni“!

Óhræsisanginn / Óhræsisgreyið / Óhræsistetrið / Óhræsistötrið / Óhræsisgarmurinn (n, m.gr.)  Gæluorð í vorkunnartón um þann (mann/skepnu) á bágt og e.t.v. hefur orðið eitthvað á.  „Hann gat nú ekki vitað það óræsistetrið að þú ættir þennan kökubita; hann var nú bara að hreinsa af borðinu“!

Óinnfærð (l)  Um kind; ekki búið að skrá í ærbók.  „Surtla er enn óinnfærð; hún fékk með Óðni í gær“.

Óknyttaormur (n, kk)  Hrekkjalómur; strákur sem skammað hefur sig upp; óþekktarangi.  „Hvar eru þessir bévítans óknyttaormar“?!

Ólánsbuxur / Ólánspeysa / Ólánsskyrta / Ólánsskór / Ólánsstígvél (n, kvk)  Fatnaður sem fer illa/ er óþægilegur/ passar ekki.  „Mikið sé ég eftir að hafa keypt þessar ólánsbuxur;  handa hvaða manntegund skyldi þetta vera framleitt“?!  „Það er útilokað að vinna í þessari ólánsskyrtu; maður er eins og í spennitreyju“!  „Skelfingar ólánsstígvél eru þetta!  Þau eru níþröng um kálfann“.

Ólánsskinnið  / Ólánsgarmurinn / Ólánsgreyið (n, m.gr)  Gæluheiti um menn dýr í vorkunnartón.  „Hann getur lítið að því gert ólánsskinnið, þó hann kunni ekki að halda á hrífu; þeir læra það liklega ekki í háskólanum“!

Ólánsveiðarfæri (n, hk)  Lélegt/afkastalítið veiðarfæri; veiðarfæri sem illa fiskast á/ spillir veiði.  „Þó Kollsvíkingar á síðustu öld hafi staðið í þeirri meiningu að línuveiðar hafi hafist rétt fyrir þáliðin aldamót, benda ýmsar líkur til að á fyrri öldum hafi verið veitt með línu; þar sem annarsstaðar.  hinsvegar hafi hún verið talin ólánsveiðarfæri þegar fiskgengd minnkaði, og menn helst viljað gleyma hennar tilveru“.

Ólgra (n, kvk)  Ólga; það sem ólgrar.  „Einhver  árans ólgra er enn í vömbinni á mér“.

Ólíkindabragur (n, k)  Yfirbragð lyga/ósennileika/ótrúlegheita.  „Einhver ólíkindabragur fannst mér á þessari frásögn; mér er næst að halda að hann hafi logið þessu frá rótum“!

Ólíkindafrásögn / Ólíkindasaga (n, kvk)  Ótrúleg frásögn/saga.  „Mér fannst þetta hin mesta ólíkindafrásögn; svonalagað hefði aldrei getað gerst“.

Ólíkindaskepna (n, kvk)  Dýr sem erfitt er að reiða sig á; skepna með óútreiknanlega hegðun.  „Grásleppan hefur alltaf verið mesta ólíkindaskepna; maður veit aldrei hvenær hún gefur sig til“.  „Það þaf mannskap til að handsama þá gráu í Lambahlíðinni; þetta er mesta ólíkindaskepna“.

Ómunablíða / Ómunaveðurblíða (n, kvk)  Meiri veðurblíða en menn muna eftir áður.  „Hér hefur verið ómunablíða síðasta mánuðinn“.

Ónáð (l)  Ekki náð; ekki tekist að ná.  „Fjárheimtur voru slæmar.  Vetur kom snemma og harkalega; fé því víða um fjöll og ónáð úr Bjarginu“  (ÞJ; Árb.Barð 1969).

Ónefndur (n, kk)  Sá sem ekki er nefndur; nafnlaus.  „Ónefndur sagði mér þetta í trúnaði“.

Ónotakrampi / Ónotapirringur / Ónotastingur / Ónotatak / Ónotaverkur (n, kk/hk)  Líkamleg óþægindi af ýmsu tagi og misslæm.  „Ég fékk ónotakrampa í kálfann eftir hlaupin“.  „Einhver árans ónotapirringur hefur verið í auganu á mér í dag“.  „Helvíti er að fá svona ónotatak í bakið“.

Ónytjungsbjálfi / Ónytjungsgrey / Ónytjungsræfill / Ónytjungstuska / Ónytjungur (n, kk/kvk)  Maður sem er til lítils gagns; auli; væskill.  „Þetta er ónytjungsbjálfi sem aldrei hefur nennt að vinna“.

Óofaníborinn (l)  Um veg; ekki með ofaníburði/fínni möl; ófrágenginn á yfirborði.  „Annars er mikið af vegum í Rauðasandshreppi enn óofaníbornir; eru eins og ýtustjórar gengu frá þeim“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58). 

Óorpinn (l)  Um fugl; ekki orpinn/verptur.  „Það þýðir ekkert að fara núna á Þórðarbrandshöfðann; þar er bara álka, og hún er óorpin ennþá“.

Óperugaul (n, hk)  Niðrandi heiti á óperusöng og jafnvel annarri klassískri sönglist.  „Slökktu nú á þessu bévítans óperugauli í útvarpinu“!  Lélegar útvarpsútsendingar og ofspilun þessháttar tónlistar hefur ekki aflað þessu listformi vinsælda, þó vissulega kunni margir að meta það.

Óradýpi (n, hk)  Firnadýpi; mjög mikið dýpi.  „Það þarf alllöng færi á þessu óradýpi sem þarna er“.

Óráðsbull / Óráðsblaður / Óráðshjal / Óráðskjaftæði / Óráðsraus / Óráðstal / Óráðsþvaður / Óráðsþvæla (n, hk, kvk)  Algert bull; mjög heimskulegt/óábyrgt tal.  „Skelfingar óráðsbull er þetta“!  „Ég hlusta nú ekki á neitt óráðsþvaður um þessa hluti“!

Óreglugemsi / Óreglumaður / Óreglupési / Óreglupeyi (n, kk)  Sá sem drekkur í óhófi; drykkjumaður.  „Ég nennti ekki að hlusta á rausið í þessum óreglupésum lengur og sagðist ætla að fara að sofa“.

Óræktarblettur / Óræktarkargi / Óræktarmelur / Óræktarmói / Óræktarmýri / Óræktarstykki (n, kk/kvk)  Svæði/skiki sem ekki er ræktaður/ erfitt er að rækta.

Óræktarhýjungur (n, kk)  Lítilfjörlegt skegg, t.d. á unglingi.  „Skafðu nú af þér þennan óræktarhýjung drengur; ég efast um að hann gagnist nokkuð á stelpurnar“!

Ósar (n, kk, fto)  Upptök vatnsfalls.  „Árósar heitir svæðið norðan Hestkeldu, sem Áin sækir mest vatn sitt til í upphafi“.  Þessi upprunalega merking orðsins hefur varðveist í þessu örnefni, og er ekki vitað til að svo sé annarsstaðar.  Gamalt orðtak segir „á skal að ósi stemma“, og þar er sama forna merkingin.  Í almennu máli í dag hefur orðið allt aðra merkingu; þ.e. útfall ár til sjávar.

Óséttlað (l)  Um deilumál; ekki komnar á sættir; ekki leitt til lykta.  „Báðir ruku burt í fússi, svo þetta mál er enn óséttlað“.

Rétt ósestur (orðtak)  Um það bil að setjast.  „Hún var rétt ósest þegar hún sá að kaffið var ókomið á borðið“.

Ósínkur / Ósíngjarn (l)  Óspar; ekki nískur/síngjarn.  „Hann var ósínkur á nestið sitt“.  „Þeir eru oft ósínkir á annarra manna fé fyrir kosningar; blessaðir þingmennirnir“.  Sínkur er af orðstofninum „sinn“.

Óslétta / Ósléttublettur (n, kvk/kk)  Svæði/blettur sem ekki er vel slétt.  „Gættu þín á ósléttublettinum framarlega á stykkinu; þar þarf að fara hægt um á vélinni“.

Óslægjujaðar / Óslægjukantur (n, kk)  Jaðar/kantur svæðis óslegið er.  „Ég leitaði að ungunum í óslægjujaðrinum“.   „Við skulum girða spottakorn frá óslægjukantinum“.

Ósnyrtilega til fara (orðtak)  Ekki snyrtilega klæddur.  „Skelfing fannst mér hann ósnyrtilega til fara“!

Rétt ósofnaður (orðtak)  Alveg að sofna.  „Ég var rétt ósofnaður þegar mér flaug þetta í hug“.

Óspennandi (l)  Sem lítið er varið í; leiðinlegur; ekki aðlaðandi.  „Það er heldur óspennandi að hanga hér öllu lengur, þegar ekki er oddsnerta hvað þá annað.  Við skulum kippa aðeins suðurávið“.

Ósætt á sjó (orðtak)  Ekki hægt að vera á sjó.  „Aftur á móti var ósætt á sjó þegar grunnbrot féll á Giljaboða og Þembu, að minnsta kosti með landtöku í Kollsvíkurveri í huga“  (KJK; Kollsvíkurver).

Ótræða (n, kvk)  Ófæra; ekki fær gönguleið/tröð.  „Þá var aldrei farið með stórgripi um sandinn undir Múlanum, heldur eftir hestagötu uppi í miðri hlíðinni.  Hitt var oftast ótræða, nema það er sjór féll yfir“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Ótætisflokkur / Ótætislýður (n, kk)  Slæmur hópur/stjórnmálaflokkur.  „Það skal nú úr því teygjan áður en ég kýs þann ótætisflokk; þeir mega éta sína hatta uppá það“!  „Nú er þessi ótætislýður kominn aftur inná túnin“!

Óvarkærnislega (l)  Óvarlega; léttúðlega.  „Mér finnst þið fara óvarkærnislega á traktornum þarna í hallanum“. 

Óvendilega (ao)  Óvandlega; ekki vel; illa.  „Þetta þykir mér frekar óvendilega gert“!

Óvenjugóður (l)  Óvanalega góður.  „Þetta eru óvenjugóðar appelsínur; annað en vatnsgjúgurnar síðast“.

Óvenjuharður (l)  Óvanalega harður; gríðarharður.  „Veturinn var ansi rysjóttur, en ekki held ég að hann hafi verið neitt óvenjuharður“.

Óvenjuhár (l)  Óvanaulega hár.  „Sjór hefur flanað óvenjuhátt í þessum stórstraumi“.

Óvenjukaldur (l)  Óvanalega kaldur.  „Vorið var óvenjukalt framanaf“.

Óvenjulítill (l)  Óvanalega lítið; furðulítið.  „Það er óvenjulítil spretta á þessari sléttu núna“.

Óvenjumikill (l)  Óvanalega mikill.  „Það hefur sest óvenjumikill snjór í Kinnina“.

Óvenjustór (l)  Óvanalega stór.  „Þarna veiddum við óvenjustóra grásleppu í sumar“.

Óviðunandi (l)  Ekki viðunandi/hægt að búa við.  „Mér finnst alveg óviðunandi að þetta finnist ekki í orðabók“!

Óvottaður / Óvottfestur (l)  Ekki staðfestur af vitnum/vottum.  „Þessi samningur er lítils virði ef hann er óvottfestur“.

Óþarfabruðl / Óþarfaeyðsla / Óþarfainnkaup / Óþarfakostnaður / Óþarfaútgjöld / Óþarfaspreð (n, hk/kvk/kk)  „Mér finnst það óþarfabruðl að kaupa þetta jólaskraut“!  „Ég er ekki mikið fyrir svona óþarfainnkaup“.  „Þetta eru auðvitað þínir peningar, en mér finnst þetta óþarfaspreð“!

Óþarfarask / Óþarfarót (n, hk)  Umrót/jarðrask sem talið er nauðsynjalaust. 

Óþarfatímaeyðsla / Óþarfatöf / Óþarfaverk (, kvk/hk)  Famkvæmd sem talin er tefja/nauðsynjalaus.

Óþarfavesen (n, hk)  Óþörf vinna/fyrirhöfn.  „Vertu ekki með neitt óþarfa vesen útaf minni heimsókn“.

Óþekkjanlegur (l)  Ekki þekkjanlegur; mjög breyttur.  „Þú ert næstum óþekkjanlegur svona nýklipptur“!

Óþrifaél (n, hk)  Snjóél með blautri slyddu sem klessist á og bleytir.  „Ég lendi í þvílíku óþrifaéli að ég er eiginlega blautur innúr“.

Óþrifalegt orðbragð (orðtak)  Klúrt tal; skætingur; óviðeigandi ummæli.  „Það er alveg óþarfi að viðhafa svona óþrifalegt orðbragð þó maður sé ósáttur“.

Óþrifatíð (n, kvk)  Hrakviðristíð, oft með blota og frostum á víxl.  „Það er enn ekki lát á þessari óþverratíð“.

Óþrifaveður (n, hk)  Mikil og þétt slydda.  „Við þurfum að drífa féð inn úr þessu óþrifaveðri“.

Óþverraél / Óþverraslydduél (n, hk)  Niðrandi heiti á slydduéli/bleytukafaldi.  „Við skulum bíða af okkur þetta óþverraél“.  „Ég lendi í óþverraslydduéli þegar ég var hálfnaður heim“.

Óþverragepill / Óþverragerpi (n, hk)  Niðrandi orð um mann; óþverri.  „Það þyrfti að kjöldraga þennan óþverragepil; hverjum dettur svona ótugtarskapur í hug“?!

Óþægðarbykkja / Óþægðargerpi / Óþægðarkvikindi (n, kvk/hk)  Niðrandi heiti á kind sem reynst hefur mjög erfið í smölun og/eða er strokgjörn; vanvirðir girðingar, jötubönd eða þ.h.  „Hún er gjörsamlega óþolandi þessi óþægðarbykkja“! „Ég gafst upp við þetta óþægðargerpi og skildi hana eftir“.

Pabbabarn / Pabbadrengur / Pabbastelpa / Pabbastrákur (n, hk/kk/kvk)  Um börn sem þykja verulega hænd að föður sínum.  „Hún sagðist alltaf hafa verið mikil pabbastelpa og meira fyrir útiverkin en inniveru“

Páfagaukalærdómur (n, kk)  Utanað-/utanbókarlærdómur án skilnings á efninu. 

Páfaskák / Páfatafl (n, kvk/hk)  Sá almenni verknaður að kúka/ hafa hægðir á klósetti, kamri eða í guðsgrænni náttúrunni.  Dregið af því að tefla við páfa.  Það orðasamband var þó mun meira notað en þessi nafnorð.

Pálegg (n, hk)  Álegg; ostur, kæfa eða annað sem sett er á smurbrauð.   Dönskusletta sem var sumum töm, en er líklega hvorki gamalt né almennt í máli Kollsvíkinga.

Pekilsaltaður (l)  Saltaður í pekil/saltupplausn.  „Rauðmaginn var stundum pekilsaltaður fyrir reykingu“.

Pekilsöltun (n, kvk)  Söltun matvæla í pekil; ekki þurrsöltun.  „Sumir velja pekilsöltun framyfir þurrsöltun“.

Pekilmælir (n, kk)  Mælir til að mæla styrkleika pekils/saltlausnar, annaðhvort kvarðaður flotmælir eða kartafla af hæfilegri stærð sem í er stungið nagla.

Pelk / Hóstapelk (n, hk)  Hósti; þrálátur hósti; bopp.  „Mér líst ekkert á pelkið í þér; hefurðu prófað að taka mixtúruna“?  „Það heyrðist ekki mannsins mál fyrir hóstapelkinu í karlinum“.

Pelkja (s)  A.  Hósta.  „Ég er búinn að vera pelkjandi í allan dag.  gæti trúað að ég sé að kvefast“.  B.  Ganga; einkum við erfiðar aðstæður; í mótvindi eða ófærð.  Hugsanlega stofnskylt við verkfærið pál, þannig að menn stingi fótum í fönn líkt og pál í jarðveg eða hósti með svipuðu hljóði og ef páll væri notaður.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar o.fl.).Notað í mæltu máli til þessa dags í Kollsvík en virðist ekki þekkt annarsstaðar.  Merking orðsins er önnur í Orðab.Menn.sj. en þar þýðir það „að háma í sig“; sú var ekki merkingin vestra.

Pelsa (s)  Síðari tíma orð um það að flá loðdýr sem alin hafa verið í búri, og gera söluvöru úr skinninu/pelsinum.  Notað á þeim tímum þegar refarækt var í Kollsvík á 9.áratug 20.aldar.

Pempíuháttur / Pempíuskapur (n, kk)  Ofurviðkvæmni; tilgerð; aumingjabragur.  „Óttalegur pempíuháttur er þetta; að geta ekki snert á hrífu eða kvísl vettlingalaus“! 

Perm (n, hk?)  Áhald til útsaums:  „Svo var áhald sem margar konur áttu sem hét perm. Það var rennt úr beini; a.m.k. það sem ég á (mynd), og notað til að gera göt þegar saumaður var svokallaður enskur saumur“  (SG;  Útsaumur; Þjhd.Þjms). 

Pestardrulla / Pestarfjandi  / Pestarfýla / Pestarmolla / Pestarskítur / Pestarstand (n, kvk/kk)  Lýsandi orð yfir veikindi af smitpestum.  „Það er að hellast í mig einhver pestardrulla“.  „Ég er ekki orðinn góður af pestarskítnum enn“.   „Það er eitthvað árans pestarstand þar á bæ“.

Pestargemlingur / Pestargemsi / Pestarungi (n, kk)  Pestsækin manneskja.  „Óttalegur pestargemlingur geturðu nú verið, greyið mitt“.  „Hann er svoddan pestarungi grípur allan ófögnuð sem er á ferðinni“.

Pestarlossi (n, kk)  ....óviss merking.... (e.t.v. sama og pestargemlingur; VÖ) (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Pestaróvera / Pestarvottur (n, kk)  Væg einkenni pestar.  „Einhver fjárans pestaróvera er þetta líklega“.  „Ég er ekki frá því að þetta sé einhver pestarvotur“.

Pestsækinn (l)  Hætt við að sýkjast af pestum/farsóttum.  „Maður er orðinn svo skolli pestsækinn í seinni tíð“.

Peysufatasvunta (n, kvk)  Svunta sem tilheyrði peysufötum kvenna.  „Fyrir ein jól man ég eftir að hún saumaði mér kjól úr peysufatasvuntunni sinni“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Peysugarmur / Peysugopi / Peysulufsa / Peysuræfill (n, kk/kvk)  Gæluorð um peysu.  „Sérðu nokkuð hvar ég lagði af mér peysulufsuna mína“?

Pétursmold (n, kvk)  Barnamold; kísilgúr.  „Fremst í Hvanngörðum var á bletti hvít mold sem kölluð var pétursmold“  (BÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).

Pétursblettur / Pétursrák Svartur blettur aftan við auga ýsu og svört rák aftur eftir búknum.  Sagt draga nafn af því að Pétur postuli vildi grípa ýsu og náði góðu taki þar sem bletturinn er, en ýsan rann samt úr greip hans og er rákin ummerki um það.  Orðin finnast ekki í orðabókum en hafa, ásamt sögunni, lifað góðu lífi í munnlegri geymd Kollsvíkinga.

Pikkfastur (l)  Alveg fastur; þrælfastur.  Algengt í seinni tíð að nota um bíla sem gjarnan sátu fastir í ófærð yfir Hænuvíkunháls eða aðra fjallvegi.  Einnig um annað:  „Kýrin álpaðist ofan í skurðinn og sat þar pikkföst“. 

Pilla / Pillast (s)  Tína; velja úr. „Ætlarðu að pilla þetta uppí þig með puttunum“? „Ætli við förum nú ekki bara að pillast heimáleið; þetta er orðið gott í dag“.  St-endingin er þarna notuð eins og í „komast“, „drattast“ og víðar.  Hún er stytting af „sig“ og var fyrrum „sik“; „komask“, „drattask“.

Pilludót / Pilludrasl / Pilluhaugur (n, hk/ kk, ft)  Niðrandi heiti á töflum/ ofgnótt taflna.  „Það er ekki nokkur lífsins leið að lifa á þessu pilludrasli alla sína hundstíð“!  „Læknirinn lét mig hafa einhvern pilluhaug til að koma þessu í lag“.

Pinnfastur (l)  Alveg fastur/festur; niðurnegldur,  „Réttu mér kúbeinið; þetta er alveg pinnfast“.

Pisserí (n, hk)  Klósett á almenningssalerni fyrir karlmenn að pissa í; mígildi; hlandskál.  „Svo voru sett upp tvö dýrindis pisserí á strákaklósettinu í nýja skólanum; nú held ég að menn geti slysalaust migið standandi“!  Líklega má eigna GJH heiðurinn af þessu nýyrði eins og fleirum, en orðið var almennt notað eftir byggingu nýs skóla í Fagrahvammi, ásamt orðinu mígildi sem e.t.v. er upprunnið hjá Þórði Jónssyni á Látrum.

Pitsa / Pitsufjandi (n, kvk/kk)  Flatbaka; pítsa.  Kollsvíkingar báru fæstir mikla virðingu fyrir þessum ítalska þjóðarrétti þegar pítsuæðið brast á hérlendis síðla á 20. öld.  „Það verður enginn vinnandi maður saddur af þessum pitsufjanda; næfurþunnum hveitibleðli með tómatsósulepju“!

Pínsaddur (l)  Búinn að borða ærið nóg; pakksaddur.  „Ekki meira fyrir mig, þakka þér fyrir; ég er alveg pínsaddur“.

Pínsfullur (l)  Sneisafullur; troðfullur; smekkfullur.  „Við setjum ekki meira í þennan dilk; hann er pínsfullur“.

Pínsfylla (s)  Kjaftfylla; troðfylla; yfirfylla; fleytifylla.  „Vertu ekki að pínsfylla fötuna; þá er bara erfiðara að koma henni upp á brún á handlegg“.

Pínshlaðinn (l)  Um hleðslu á báti; hlaðinn eins og framast er unnt.  „Mér finnst ekkert vit í því þegar menn eru að koma með bátana svo pínshlaðna í land að ekki megi slá af vél án þess að fljóti inn“.

Pípubarningur / Pípusláttur (n, kk)  Það að berja reykjarpípu í sterkan öskubakka til að ná úr henni ösku síðustu reykingar.  Slíkur barningur gat verið langvarandi og hávaðasamur; einkanlega ef pípukóngurinn var orðinn þröngur og kolaður að innan.  Veikari öskubakkar þoldu slíkt illa og því voru öskubakkar reykingamanna sterkbyggðir.  Össur á Láganúpi notaði lengi vel holustein af Hnífunum fyrir öskubakka. 

Pípubræla / Pípusvæla / Pípureykur (n, kk)  Reykur/reykjarkóf úr reykjarpípu.  „Bölvuð pípubræla er nú hérna inni; datt engum ykkar í hug að opna glugga“?!

Pípuhreinsari (n, kk)  Mjór vír eða annað sem unnt er að nota til að hreinsa reykjargöng pípu af pípusósu og öðrum óhreinindum.  Sérstakir pípuhreinsarar voru til skamms tíma seldir í búðum; vír sem í var snúið mjúku filti.  Voru þeir einnig nokkuð notaðir í föndur af ýmsu tagi.

Pípusósa (n, kvk)  Sterkur svartbrúnn lögur sem gjarnan safnaðist í reykjargöng reykjarpípu.  Samanstóð líklega af munnvatni, tjöru og öðru sem féll út úr reyknum.  Pípusósu var vanalega hellt út um munnstykki pípunnar, en stundum þurfti að hreinsa með pípuhreinsara.

Pípusteinn (n, kk)  Kol sem safnast innanum pípuhausinn/pípukónginn við margendurteknar reykingar.  Var stundum hreinsaður út með pípusköfu, vasahníf eða öðru áhaldi.  En það þurfti að gera varlega því oft var kóngurinn sjálfur orðinn veikari en pípusteinninn og sprakk þá út. 

Píputott (n, kvk)  Niðrandi orð yfir reykingar; það að reykja/totta pípu.  „Maður er hálf feginn að vera laus við þetta píputott og vesenið sem því fylgir“.Planlagt (l)  Skipulagt; áætlað.  „Ég er ekki með neitt sérstakt planlagt um helgina“.

Plankabútur / Plankastubbur / Plankastúfur (n, kk)  Bútur/endi af planka.  „Þarna fann ég rekinn plankastubb úr rauðviði sem mætti nýta í ýmislegt“.

Platrass / Platrófa (n, kk/kvk)  Gæluheiti um þau sem plata/blekkja án þess að skaða mikið.  „Nú léstu mig hlaupa í erindisleysu; platrassinn þinn“!  „Hún á það til að vera skelfileg platrófa, með allt sitt ímyndunarafl“.

Platur (n, hk)  Lítill diskur eða skál, einkum ætlað gæludýrum.  „Komdu hérna með platrið kattarins fyrir afgangana“.  Stundum þó um aðra diska:  „Réttu mér eitthvað platur undir lifrina“.  Líklega sami stofn og í mörgum germönskum málum, s.s. „plate“ (e); gæti því verið mjög gamalt á svæðinu. 

Plokkunarhnífur / Plokkunarkutti (n, kk)  Hnífur sem notaður er til að plokka fugl.  Hentugast er að nota blaðstuttan hníf sem fer vel í hendi, með hæfilega sljórri egg. „Notaðir voru sérstakir hnífar, kallaðir plokkunarkuttar.  Þeir voru með sérstöku lagi og liprir í hendi; heimasmíðaðir, venjulega úr ljáblöðum“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Plomp (n, hk)  Gusugangur/skellur þegar hlutur fellur á yfirborð.  „Bjargið féll í sjóinn fyrir framan okkur með miklu plompi og öldugangi“.

Plógbátsmaður (n, kk)  Maður í áhöfn plógbáts (sjá spilbátur/plógbátur).  „Það gat skeð að plógurinn fengi festu aftur um stund.  Annars fóru plógbátsmenn strax að hnakkabandinu og drógu plóginn upp“  (KJK; Kollsvíkurver).

Plussering (n, kvk)  Yfirbreiðsla, einkum segl yfir bát, ekrru eða þessháttar.  Virðist ekki þekkt utan svæðisins.

Plöntureitur (n, kk)  Lítið verndað og skjólsælt svæði þar sem plantað er litlum trjáplöntum sem síðar verða grisjaðar.  „Um 1970 fengu Össur og Ingvar nokkrar trjáplöntur til að gera tilraun til ræktunar í Kollsvík.  Þær voru settar niður í plöntureiti; annan í Urðunm framan Bæjarhólsins á Láganúpi og hinn hjá Kryppukarli í Kollsvík.  Lenti í útideyfu að sinna þeim plöntum sem lifðu, og því rann þessi tilraun út í sandinn, en líklegt er að einhverjar plöntur hefðu spjarað sig ágætlega þarna í Urðunum með nægri vernd fyrir beit.

Plötubútur / Plöturæfill / Plötuskækill (n, kk)  Bútur/afklippa/ræfrildi af plötu, t.d. bárujárnsplötu eða krossviðarplötu.  „Það má vel nota þennan plötuskækil til að svíða hausa á honum“.

Pokadula / Pokagarmur / Pokakægill / Pokalús / Pokarytja / Pokaræfill / Pokapjási / Pokaskjatti / Pokaskaufi / Pokasnigill / Pokastertur / Pokataddi / Pokatuðra / Pokatuska  (n, kk)  Gæluorð um poka; lítill poki.  „Farangurinn kemst allur í þennan pokakægil“.  „Hann sagði að þorri hefði ekki verið byrjaður þegar karlinn kom röltandi með pokatuðruna sína og bað um fáein strá; hann væri að verða heylaus“.

Pollhægur (l)  Mjög/alveg lygn.  „Það var komin bölvuð fjarðarbára frammi, en uppundir var hann pollhægur“.

Pollrólegur (l) Alveg rólegur; slakur.  „Hann var pollrólegur og deplaði ekki auga þegar hann var dreginn aftur upp í bátinn“.  .

Pollslétt (l)  Sjólaust; renniblíða.  „Það er ekki hægt að hanga í landi í svona pollsléttu:  Nú förum við fram“.

Pompúlerast (s)  Basla með.  „Hann kemur þarna kjagandi og pompúlerast með einhverja dúnka“.  Orðið virðist bundið við Rauðasandshrepp.  Óviss uppruni, en e.t.v. tengt frönskum sjómönnum frá Pompól.

Pommsa (s)  Detta; hlunkast.  „Ég játa að ég átti erfitt með mig þegar karlinn pommsaði á rassinn í forinni“.

Posagrýta / Posakægill / Posalús / Posapísl / Posapjási / Posasnigill / Posaskaufi  / Posaskjatti / Posatuðra (n, kk)  Lítill poki; smásekkur.  „Þhu! Þeir létu mig hafa þennan ómyndar posaskjatta undir póstinn.  Þetta tekur varla öll bréfin; hvað þá heldur þessi ódæmi af Tímanum sem fara á hvern bæ“!

Posjón (n, kvk)  Slatti; slumpur; skammtur.  „Við þurfum að klára síðustu posjón af eggjunum fyrst“.  Enskusletta, „portion“, sem töluvert var notuð í máli sumra Kollsvíkinga í lok búsetu þar.

Postulínsdúkka (n, kvk)  Ofurviðkvæm manneskja.  „Nú ég keyri bara eins og venjulega.  Þessar postulínsdúkkur að sunnan geta þá bara haldið sig heima ef þær þola ekki landsbyggðavegina“!

Pottaleppur (n, kk)  Efnisbútur sem notaður er til að verja fingur við bruna þegar tekið er á heitum potti.

Póststeinn / Póstvarða (n, kk/kvk)  Síðari tíma heiti sem gárungar í Rauðasandshreppi gáfu lausum staksteinum sem sumsstaðar mátti sjá á vegum í upphafi bílaaldar; einkum í brekkum.  Tilkoma þeirra var sú að menn sem á fullorðinsaldri höfðu tekið bílpróf, en voru vanari hestum og traktorum, voru fremur óöruggir að taka af stað í brekkum þegar þar hafði verið þörf á að stoppa, s.s. til að binda upp keðjuhlekk eða kasta vatni.  Var þá steinn, einn eða fleiri, settur aftan við hjól bílsins svo ekki rynni afturábak meðan kúplað var að,; bremsu létt af og gefið inn.  „Ég er ekki með þrjá fætur til að stjórna þessu öllu í einu“ sagði þáverandi landpóstur, en þáverandi kaupfélagsstjóra fannst við hæfi að nefna steina þessa í höfuðið á honum.  Pósturinn notaði þetta úrræði nokkuð, en það gerðu einnig fleiri.  Ef brösulega hafði gengið upp brekku mátti stundum sjá fjölda slíkra steina í henni á eftir“.

Prakkarast (s)  Bekkjast; gera óleik/glennu; hrekkja; láta illa.  „Nú hafa strákarnir enn verið að prakkarast“!

Prinsipmaður (n, kk)  Þverhaus; þvergirðingur; á sem stendur fast á sínum skoðunum/framfylgir reglum í æsar.  „Víst má kalla hann prinsipmann; þetta stendur víst svona í Biblíunni.  En mér finnst þetta þverhausaháttur“!

Prufukanna (n, kvk)  Kanna með svörtu millispjaldi sem var notuð til prófunar á júgurbólgu í mjólkurkúm.  Dregin var buna af mjólk á spjaldið, og sátu kekkir á því ef mikil júgurbólga var.  Áður var prófað með því að mjólka bunu í flórinn, en síðar voru teknar upp efnafræðilegar aðferðir.

Prufusigling (n, kvk)  Sigling báts til prófunar, oft í byrjun sumars/vertíðar, eða eftir viðgerð.  „Okkur strákunum var leyft að koma með í prufusiglinguna“.

Prumplykt (n, kvk)  Lykt af freti/viðrekstri; búkloft; viðrekstrarfýla.  Getur verið svæsin og ertandi í nefjum þeirra sem ekki eiga.  „Út með þig og þína skollans ekkisen prumlykt; Hvað varstu eiginlega að éta“?!

Prúskinn (l)  Kotroskinn; mannalegur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Prýðisdrengur  / Prýðisnáungi / Prýðiskona / Prýðisstúlka (n, kk/kvk)  Lofsyrði um gott fólk/ fyrirmyndarfólk.  „Hann reyndist hinn mesti prýðisnáungi“. 

Prýðisgripur (n, kk)  Fyrirtaks gripur/-áhald /-nautpeningur.  „Þessi hrútur er alveg prýðisgripur“.

Prýðisveður (n, hk)  Fínviðri; gott veður; blíðviðri.  „Hér hefur verið prýðisveður í allan dag“.

Puðvinna (n, kvk)  Strit; erfiðisvinna.  „Ég hef það alveg ágætt, en skrokkskömmin er orðin lítlfjörleg til puðvinnu eða langhlaupa“.

Pumpustokkur / Pumpustöng / Pumpubulla  (n, kk/kvk)  Hlutar dælu; svonefndrar stokkpumpu sem algeng var í bátum.  Sjá þar.

Punghlaðinn (l)  Drekkhlaðinn; mikið hlaðinn.  „...þegar þeir komu að landi með punghlaðinn bát...“  (LK;  Ísl. sjávarhættir II). 

Pungsvitna (s)  Svitna mjög mikið; verða rennsveittur.  „Mér pungsvitnaði við að hamast svona í sólinni“.

Punthandklæði (n, hk)  Dúkur; oftast útsaumaður, sem húsmæður hengdu gjarnan á vegg í eldhúsi; oft undir hillu með skrautmunum.  „Svo var mikið saumað í punthandklæði oftast með kontorsting...“  (SG;  Útsaumur; Þjhd.Þjms).  Sumsstaðar tíðkaðist orðmyndin „puntuhandklæði“.

Purpa (n, kvk)  Tægja; tuska; tjása.  „Hér eru einhverjar purpur af fugli; skyldi kattarfjandinn nú hafa náð í maríuerluna í garðinum“?

Pussa (s)  A.  Slægja steinbít.   „Næst kom til kasta pussarans, sem oft var hálfdrættingur, en verk hans var fólgið í að hreinsa allar innyflaleifar, munnamaga, lifraaragnir að framan en garnarendann að aftan og kera burt gotraufina, en í henni var oft skel og sandur sem tók bitið úr flatningshnífnum og óhreinkaði fiskinn.  Var þetta kallað að pussa eða grúnsa“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV)  (sjá pussari og steinbítur).  B.  Vinna óhönduglega/slælega.  „Það dugir ekki að pussa þessu bara einhvernvegin saman; þú verður að vanda þig“!

Pussari (n, kk)  Sá sem slægir steinbit (sjá pussa og steinbítur).

Pussverk (n, hk)  Illa unnið verk; ómyndar frágangur.  „Þetta er ljóta pussverkið“.

Putalingur (n, kk)  Gæluorð um smástrák.  „Komdu hérna putalingur; það þarf að þurrka á þér nebbann“.

Puttaferðalangur / Puttalingur (n, kk)  Sá sem ferðast „á puttanum“; þ.e. gangandi en með því að sníkja sér far með bílum.  Gefur hann þá merki með því að veifa fingri á sína stefnu.  „Það getur verið stórvarasamt að taka þessa puttalinga upp í bílinn“.

Púðurfýla / Púðurlykt / Púðurreykur / Púðursvæla (n, kvk/kk)  Rykur/lykt af púðri/byssuskoti.  „Púðurfýlan sat eins og ský í Byrginu og jók á veiðigleðina“.

Púðursnjór (n, kk)  Mjög fíngerður og léttur snjór; laus á jörðu og rokgjarn.  „Það verður augalaus bylur þegar hann hreyfir þessum púðursnjó“.  Oft stytt í púður

Púl / Púlsvinna / Púlverk (n, hk/kvk)  Erfiðisvinna; puð.  „Það var púl að draga (línuna)“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  „Maður svitnar mikið við svona púlverk í sólarbreyskjunni“.

Púrra (s)  Leggja varir að húð og blása, svo myndast prr-hljóð; stundum notað til að ærslast í börnum.  „Viltu að ég púrri þig aftur í hálsakotið stubbur“?  Annarsstaðar var notað um þetta orðið „purra“, skv orðabókum, en „púrra upp“ merkir þar að hressa við.  Um það notuðu Kollvíkingar orðtakið „porra upp“.

Pútugrey / Pútuskarn (n, hk)  Gæluorð um hænu.  „Óskaplega er hún orðin rytjuleg, pútugreyið“.

Pútuhópur / Pútuskari (n, kk)  Hópur af hænsnum/púddum.  „Er nú ekki allur herjans pútuskarinn kominn í moldarbað í rófubeðinu“?!

Rabarbaragarður (n, kk)  Garður/reitur þar sem ræktaður er rabarbari.  „Kýrnar eru uppi við rabarbaragarð“.

Rabarbari / Rabarbarablaðka / Rabarbarahnaus / Rabarbaraleggur Rabarbari (tröllasúra; Rheum rhabarbarum) og hlutar hans.  Rabarbaragarður var við hvern bæ.  Rabarbarinn var einkum nýttur í sultugerð, en einnig í grauta, kökur o.fl; og etinn nýr.  Mikið er af oxalsýru í rabarbara sem gerir hann súran, og því sækja skepnur ekki í hann.  Vestra tíðkaðist að tala um rabarbarahnaus en ekki rabarbararót eins og heyrist annarsstaðar.  „Gott er að stinga rabarbararótina í sundur þegar hún eldist, og bera vel á af skít til að halda góðum vexti“.

Raddmikill  / Raddsterkur (l)  Með hljómmikla rödd.  „Hann var raddmikill og mátti vel greina tautið í honum í land í logninu, þegar fiskur tapaðist við borðið“.

Radísubeð (n, kvk)  Beð í matjurtagarði, þar sem radísur/hreðkur eru ræktaðar. 

Rafhitun / Rafkynding / Rafmagnskynding / Rafmagnshitun (n, kvk)  Rafkynding húsa varð fyrst möguleg í Kollsvík með tilkomu dísilrafstöðva laust fyrir 1970.  Fram að þeim tíma höfðu íbúðarhús um nokkurra áratuga skeið verið kynt með olíueldavélum; en þar áður með viðar- og kolaofnum.  Með rafmagnskyndingu komu önnur þægindi, s.s. rennandi heitt vatn úr krana og baðker. 

Rafmagnskapall / Rafleiðsla / Rafmafnsleiðsla / Rafmagnssnúra / Rafmagnsvír (n, kk/kvk)  Vír/leiðari sem oftast er einangraður, til flutnings á rafmagni.  „Ég setti ísóleringaband á skemmdina í rafmagnssnúrunni“.

Raggeitarháttur (n, kk)  Heigulsháttur; aumingjadómur; bleyðuskapur.  „Ég kalla það bölvaðan raggeitarhátt ef hann þorir ekki að mæta mér og standa fyrir máli sínu“!

Rakettubúnt / Rakettupakki (n, kk)  Búnt/pakki af rakettum.  Gjarnan var keypt búnt af litlum rakettum fyrir hvert barnmargt heimili, og fáeinar stórar.  Um tíma voru rakettur seldar á vegum Sláturfélagsins Örlygs.

Rakstrarfólk / Rakstrarmaður / Rakstrarkona (n, hk/kk/kvk)  Fólk sem vinnur við rakstur túna.  „Nú þyrfti ég að fá með mér öfluga rakstarmenn til að raka slæður á eftir vélinni“.

Rakstrarlag (n, hk)  Aðferð við að að raka heyi með hrífu.  „Þetta er ómögulegt rakstrarlag; að skilja eftir mikinn hluta af heyinu; það mætti halda að þið hefðuð aldrei snert á hrífu fyrr“!

Rakstursáhöld / Raktau (n, hk, fto/ hk)  Rakvél, rakbursti, rakbolli, rakspegill og önnur áhöld sem maður notar þegar hann rakar sig. 

Ramba á / Ramma á (orðtak)  Finna; rekast á.  „Einhvernvegin rambaði ég á rétta leið í þokunni“. 

Rammbúkki (n, kk)  A.  Sterkur planki/battingur sem hafður er innaná jötum og milligerðum í hrútastíu, til að hlífa viðkvæmari fjölum við eilífu stangi og hnibbi hrútanna; að þeir „smíði ekki allt í sundur“.  B.  Algengari merking:  Þungt tré sem til forna var notað í bardögum til að brjótast inn í virki óvina.  C.  Tré framúr stefni stríðsskips, neðan sjólínu, til að laska óvinaskip sem siglt er á.

Rammkatólska (n, kvk)  Mikil pápíska/kaþólsk trú.  „Á hólnum hafa staðið hús a.m.k. frá rammkatólsku“.

Rammsúr (l)  Mjög súr; gallsúr.  „Ég helli þessari mjólk niður; hún er orðin rammsúr“.

Rangsinna (l)  Á villigötum; með rangar skoðanir; ruglaður.  „Að flestu leyti kann ég ágætlega við þennan náunga, en mér finnst hann dálítið rangsinna í byggðamálunum“

Rangstæður (l)  Er á röngum stað þegar verið er að smala fé eða standa fyrir því.  „Þetta gat ekki farið öðruvísi fyrst karlbjáninn var rangstæður“!  Notað í annarri merkingu í einhverjum boltaleikjum.

Rapporta / Rapportera (s)  Gefa skýrslu; segja frá; gera grein fyrir.  „É þarf sko ekkert að rapporta það fyrir neinum hvernig þetta vildi til; þetta bara fór svona, og ekkert meira með það“!

Rassast í  / Rassakastast í (orðtök)  Vesenast í; vinna með látum; hefja verk að óþörfu/ þannig að skaði hljótist af.  „Við förum ekkert að rassast í þessu án þess að ráðgast við hann áður“.  „Farðu nú og kallaðu á hundinn; hann er að rassakastast í fénu“.

Rassast með (orðtak)  Bramboltast/brauðhófast/vesenast með; fara með í óleyfi.  „Voruð þið eitthvað að rassast með eldspýturnar strákar“?

Rassblautur (l)  Blautur á rassinum eftir að setjast í bleytu, t.d. á blautan mosa.  „Maður varð rassblautur eftir aðsetuna þarna í ganginum“. 

Rassborulegur / Rassgatslegur (l)  Þröngur fyrir það sem um er rætt.  „Skelfing finnst mér þessi bíll vera rassborulegur þegar eitthvað þarf að flytja“.  „Rúmið fer nú að verða dálítið rassborulegt þegar strákurinn stækkar meira“.  „Óskapslega eru þessir nýju uppþvottaburstar rassgatslegir; þetta er bölvað rusl“!

Rassbögusmiður/ Rassbögumeistari (n, kk)  Sá sem kemst iðulega illa að orði eða klæmist á orðum.  „Skelfingar rassbögusmiður geturðu nú verið; hér á bæ segir þú ekki „mér langar“ heldur „mig langar““.

Rassbögustagl (n, hk)  Talað/ritað mál með miklum málvillum; bull.  „Ég hef sjaldan lesið annað eins rassbögustagl!  Svona málleysur skrifa engir aðrir en hálærðir menn eða algerir tossar“!

Rassgatslegt (l)  Umhendis/erfitt að nota/ koma fyrir sig; þröngt; lítið.  „Mér finnst þessir háu bollar eitthvað svo valtir og rassgatslegir“.

Rassskellandi (l)  Blaðskellandi; í miklum flaustri.  „Þarna kemur einhver rassskellandi yfir víkina“. 

Rasstorta (n, kvk)  Afturendi; gumpur; rass; rumpur; torta.  „Settistu á rasstortuna ofan í skítahlassið krakkakjáni?!  Vintu þér strax úr buxunum svo ég geti þrifið þær“.

Rastarstrengur (n, kk)  Mjótt svæði í annnesjaröst; bogamyndað fyrir annnesið og útfrá því; þar sem straumgöndull veldur meiri straumhraða.  Oft sýnilegt á yfirborði vegna meiri brotsjóa; einkum þegar fellur undir vind.  Rastarstrengur sést stundum í Blakknesröst; í norðurfalli undir norðanátt og nokkrum sjó.

Rataháttur (n, kk)  Aulagangur; glópska.  „Ferlegur rataháttur er þetta í þér; að gleyma að loka fjárhúsunum“! 

Rataskaft (n, hk)  Kjánaleg mistök; aulaháttur; axarskaft.  „Þetta var ljóta rataskaftið hjá mér“!

Rauðabergslag (n, hk)  Rauðleitt millilag í stafla gosbergs; sjá rauðaberg.  Hreinasta rauðabergslagið í grennd við Kollsvík er líklega í Pallanámum, norðantil á Bekk undir Hryggjunum.

Rauðagrjót (n, hk)  Rautt millilag í blágrýtisklettum; glerjuð gosaska.  „Rauðagil er allbrött skriða, og nokkuð í henni af rauðagrjóti... “  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Rauðamýrarforæði (n, hk)  Rauðamýrarseil; mýrardrag með hættulegum rauðamýrardýjum.  „Mýrin frá Engi inn að Byttulæk heitir Fagramýri; rauðamýrarforæði, en mikið gras“  (ÍÍ; Örn.skrá Saurbæjar).

Rauðamýrarlitur (n, kk)  Rauðleitur litur.  Oftast notað um lit á ljósleitu fé sem hafði greinilega sokkið að meira eða minna leyti í rauðamýri.  „Þessi hefur greinilega farið ofaní; með rauðamýrarlit upp á bak“.

Rauðamýrarseil (n, kvk)  Mýrardrag með rauðamýri.  „... á milli hólmanna eru rotnar rauðamýrarseylar...“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Rauðmagaflís (n, kvk)  Sneið af reyktum rauðmaga.  Reyktur rauðmagi er yfirleitt notaður sem álegg á brauð á síðari tímum, eða eintómur sem sælgæti.  Fyrrum var hann þverskorinn, og skar hver maður hrygg úr á sínum diski, en í seinni tíð er hann gjarnan skorinn af hrygg í sneiðar/flísar áður en borið er á borð.  „Gefðu mér nú rauðmagaflís“.

Rauðmagahnútur (n, kk)  Hnútur/flækja í neti, tilkominn vegna þess að rauðmagi hefur ánetjast, stungið sér oft í gegnum netið og flækt það.  Rauðmagahnútar verða því oftar í grásleppunetum en rauðmaganetum, og getur orðið tafsamt að greiða þá ef um lítinn og fjörugan rauðmaga hefur verið að ræða. 

Rauðmagakippa / Rauðmagaspyrða (n, kvk)  Spyrða/kippa af rauðmaga, oftast 4 spyrtir saman, en stundum 5 eða 6.  Var reynt að velja þá saman eftir stærð, þannig að ekki hallaðist á þegar spyrðan var hengd á rá.

Rauðmagakvikindi / Rauðmagastýri (n, hk)  Gæluorð um rauðmaga.  „Nennirðu að skera til þessi rauðmagastýri og koma þeim í salt“?

Rauðmagalagnir / Rauðmagamið (n, kvk/hk, fto)  Netalagnir/mið í þaragarði, oftast á grunnsævi nærri landi.  Ekki er alltaf jafn góð veiði af rauðmaga og grásleppu þó kjörsvæði séu þau sömu.  Góðar rauðmagalagnir eru á Bótinni í Kollsvík.  Einnig innmeð Hænuvíkurhlíðum; við Bænagjótu, Láturdal og Helma.

Rauðmagastrengur (n, kk)  Nokkur rauðmaganet bundin saman enda í enda í streng/tengsli.  Í hverjum streng eru oft 3-5 rauðmaganet.  Einnig er stakt rauðmaganet oft haft í enda grásleppustrengs.

Rauðsendingur (n, kk)  A.  Íbúi í Rauðasandshreppi.  Í raun réttri nefnist það fólk „Rauðasandshreppsbúar“, en til hægðarauka (og sumum til pirrings) er oft notað þetta heiti um íbúa þessa vestasta samfélags Evrópu.  B.  Heiti íbúa á Rauðasandi, sem er byggðahluti í Rauðasandshreppi.  Samfélaginu í Rauðasandshreppi er skipt upp í svæði, og hefur svo verið eins langt aftur og menn vita gerst.  Þessi svæði lúta öðrum lögmálum en hinir stjórnskipulegu hreppar og hinar trúarlegu sóknir.  Hér ræður einkum landfræðileg skipting; lega hálsa og núpa og hagkvæmni fjársmölunar og annars samstarfs.  Svæðin eru þessi (stuttheiti innan sviga, en þau voru gjarnan notuð):  1.  Rauðisandur (Sandur), frá Stálfjalli að Bjargi.  Til Sandsins töldust jaðarbæirnir Skor, Naustabrekka og Keflavík, þó stundum væru áhöld um þann síðastnefnda.  Greiðari gangur er milli Melaness, Móbergs, Kirkjuhvamms, Saurbæjar, Stekkadals, Grafar, Stakka, Króks og Lambavatns.  2.  Útvíkur (Víkur), frá Látrabjargi að Blakki.  Víkurnar eru skýrt landfræðilega afmarkaðar og í byggð eru þrjár; Látravík, Breiðavík og Kollsvík.  Fjölbýlt var löngum í hverri vík.  T.d. voru á Látrum Heimabær, Húsabær, Miðbær og fleiri; tvíbýlt longum í Breiðavík.  Í Kollsvík eru Láginúpur og Kolslvík, auk smærri býla um lengri og skemmti tíma.  Í öllum Útvíkum voru mikil útver, og fylgdi þeim mikil byggð á fyrri tíð.  Hin fjórða af Útvíkum er Seljavík sem er óbyggð.  3.  Bæir er fábýlasta svæðið; frá Blakk að Gjögrahyrnu.  Til þeirra teljst byggð í Hænuvík og Sellátranes.  4.  Örlygshöfn  (Höfn) er svæðið frá Gjögrahyrnu að Hafnarmúla.  Þar er blómleg samliggjandi byggð, líkt og á Sandinum; helstu bæir Tunga, Geitagil og Hnjótur.  5.  Innfjörður (Fjörður) nær yfir svæðið frá Hafnarmúla að Altarisbergi.  Jarðir eru þar nokkrar en aðskildar; Kvígindisdalur, Sauðlauksdalur, Hvalsker, Skápadalur, Vesturbotn, Hlaðseyri og Raknadalur.  6.  Eyrar er samfélagshutinn frá Altarisbergi að hreppaskilum í Tálknatá.  Eina byggðin þar er á hinum samliggjandi jörðm Geirseyri og Vatneyri, en þar er reyndar þéttbýlið mest í hinum forna Rauðasandshreppi.  Þar hefur risið upp kauptún sem nafn dregur af firðinum í daglegu tali, með nokkurhundruð íbúa byggð og all fjöbreyttri atvinnustarfsemi.  Eyrar urðu stjórnskipulega sjálfstætt sveitarfélag frá Rauðasandshreppi árið 1907; Patrekshrepp, en 1994 voru hrepparnir aftur sameinaðir í sveitarfélagið Vesturbyggð, ásamt Barðaströnd og Bíldudal (sem þá var sameinaður Ketildalahreppi).
Orðið Rauðsendingur merkir í máli heimamanna það að búa á Rauðasandi eftir þessari skiptingu, en í máli margra annarra það að búa í hinum forna Rauðasandshreppi.

Rauðskjömbótt (l)  Með rauða flekki/ rauðar skellur.  „Hún Píla er öll rauðskjömbótt að neðanverðu; hún hýtur að hafa farið ofaní dý“.  „Ári er þakið orði rauðskjömbótt; maður þyrfti að fara að mála það aftur“.

Rausnarbragur (n, kk)  Höfðingsskapur; gjafmildi; sýnilegur vilji til að veita vel.  „Þarna skorti ekki veisluföngin; þar var rausnarbragur á öllu“.

Ráðleysisfát / Ráðleysisflaustur (n, hk)  Fát/flaustur sem kemur á menn sem ekki eru búnir að átta sig á aðstæðum og grípa til skipulegra úrræða, þegar atvik verða.  „Þetta var í einhverju ráðleysisflaustri gert“.

Ráðleysisgauf / Ráðleysishik (n, hk)  Hik/aðgerðarleysi manna sem skortir ákveðni/áræði.

Ráðleysisrugl (n, hk)  Algert ráðleysi; mikið fyrirhyggjuleysi.  „Svona háttalag er auðvitað ráðleysisrugl og ekkert annað“!

Ráfugangur / Ráfuháttur (n, kk)  Aulaskapur; gleymska; afglöp.  „Ég skil ekki svona ráfugang“!  „Endemis ráfuháttur er þetta; að gleyma sökkunum í landi“.

Rándýr / Ránfiskur / Ránfugl / Ránhveli (n, hk/kk)  Dýr ofarlega í fæðukeðjunni sem drepa lifandi bráð sér til matar; einnig tamin dýr sem upprunalega voru þess eðlis.  „Minkfjandinn er vafalítið skæðasta rándýr sem nú lifir hér á landi, en háhyrningurinn er stórvirkasta ránhvelið hér við land“.

Refaskotbyrgi (n, hk)  Tófuhús; hús þar sem legið var fyrir tófu með niðurburði.  Orðið tófuhús var oftar notað um þessi litlu hús, en áður mun einnig hafa tíðkast refaskotbyrgi, sem er líklega bundið við svæðið.  „Þá er eftir að geta um refaskotbyrgi sem vitað er um a. m. k. sjö í Kollsvíkinni. Þar sem ég veit ekki til að þau séu annarsstaðar skráð þá held ég að ég megi til að bæta því hér við. Eitt byrgið er hér úti á Strengbergsbrúninni, alveg fram á blábrún svo tófan komst ekki framhjá nema fyrir ofan byrgið. Byrgin voru ekki meira en tæpur metri á lengd að innan máli, smá bálkur í endanum til að sitja á og rétt rými fyrir einn mann. Hlaðnir smá veggir og tyrft yfir. Dyr voru rétt hæfilegar til að skotmaður gæti skriðið um. Gjarnan var reynt að gera holu niður í brúnina, svo þetta yrði sem lægst og bæri minna á því. Svo var niðurburðurinn; dauð kind eða slíkt, hafður í hæfilegu skotfæri og grjót sett yfir svo rebbi rifi þetta ekki allt í sig þegar enginn var í byrginu. Þetta byrgi átti Ólafur Ásbjörnsson afabróðir minn, sem bjó á Láganúpi um síðustu aldamót og sagt var að hann hefði verið vanur að leggja sig í rökkrinu og sofna og ef hann dreymdi tófu fór hann út í byrgið og náði þá venjulega tófunni.  Annað byrgi var niðri við sjó, á svokölluðum Hreggnesa. Það munu Grundamenn hafa notað. Útbúnaður var sá sami á þessum byrgjum var eins og byggt fram á blábrún.
Svo var eitt byrgi á Kollsvíkurnúpnum og eitt á Sanddalsbrúnum rétt við Vallagjánna. Eitt ævafornt er á brúninni við Katrínarstekk og annað frammi á brún við Þúfustekk. Enn eitt er á Melsendaklettunum fyrir norðan Kollsvíkurverið“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).  Þessi byrgi eru nokkru fleiri en að framan greinir.  Eitt er t.d. undir Grenjalág og annað í Sandslágarkjaftinum (VÖ).

Refaverðlaun (n, hk, fto)  Þóknun frá hreppssjóði fyrir veiði á tófu/ref.  Til að fá verðlaunin þurfti að framvísa skotti til oddvita hreppsins.  „Refaverðlaun, Ásgeir Erlendsson, kr 60“  (Sjóðbók Rauðasandshrepps 1949).

Regindjúp / Regindýpi (n, hk)  Mjög djúpt; mikið dýpi; firnadýpi.  „Grásleppan skríður af regindýpi til að hrygna uppi í hleinum“.

Reginauli / Reginfífl (n, hk)  Erkihálfviti; alger bjálfi.  „Mikill andskotans reginauli getur manngrýlan verið“!

Reginfjarlægð (n, kvk)  Órafjarlægð; langt í burtu.  „Féð var í reginfjarlægð frá sem að þú sást það“.

Reginkjaftæði / Reginvitleysa (n, kvk)  Firra; alger vitleysa/heimska.  „Þvílikt reginkjaftæði er þetta nú“!  „Vertu nú ekki að segja svona reginvitleysu“.

Regnfatnaður (n, kk)  Hlífar; sjógalli; regngalli.  „Ég var í sæmilegum regnfatnaði og blotnaði ekki“.

Regúlator (n, kk)  Gangstillir.  „Það þyrfti að stilla regúlatorinn á ljósavélinni“.

Reiðingast (orðtak)  Riðlast á; traðjóla; brauðhófast.  „Verið nú ekki að reiðingast uppi á heyvagninum strákar; þið getið dottið niður“!  „Við náðum að reiðingast yfir skaflinn, með því að setja í lágadrifið“.

Reikna naugið (orðtak)  Reikna nákvæmlega.  „Ég hef ekki reiknað þetta svo naugið; mér liggur ekkert á að fá þetta greitt alveg strax“.  Sjá naugið.

Reikningshaus / Reikningsheili (n, kk)  Maður sem er sérlega fær í reikningi/hugarreikningi.  „Ívar í Kirkjuhvammi var annálaður reikningsheili, og gat lagt tölur hraðar saman á blaði en annar gæti með reiknivél“.

Reisa Góu (orðtak)  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  Óviss merking; orðtakið finnst ekki annarsstaðar  Kann að merkja velgjörðir eða ávarp í upphafi Góu:  „Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi nærri á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu. Nokkuð var ort um Góu á 17. - 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að góu var færður rauður ullarlagður  (Árni Björnsson; Saga daganna; 2000).

Reisa kuttasköft (orðtak)  Um róðrarlag:  „Ef menn duttu aftur fyrir sig með fætur upp í loftið var það að reisa kuttasköft“  (Frásögn GG; Láganúpi; LK; Ísl. sjávarhættir III).

Reitlagður (l)  Um fiskireit; þakinn steinum sem þurrkað er á.  „Ekki var róið næsta dag, þótt veður leyfði.  Þá þurfti ýmislegt að lagfæra útivið:  rífa upp ruðninga, því þeir voru lengst af reitlagðir úr fremur smáu grjóti og með allskonar steinum umhverfis“  (KJK; Kollsvíkurver).

Reka nefið í nóttina Fara út áður en háttaðer, líklega oftast til að gá til veðurs en e.t.v. einnig til að míga/ganga örna sinna.  Orðtakið virðist ekki hafa verið notað utan Kollsvíkur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Rekasveit (n, kvk)   Hreppur þar sem reki á fjörur er mikill.  „Rauðisandur yfir allt er rekasveit“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Rekjuspá (n, kvk)  Veðurspá fyrir rigningu; vætuspá; rigningarspá.  „Hann er með eindregna rekjuspá fyrir næstu daga“.

Rekjutíð (n, kvk)  Regntími; tímabil rigninga/vætu; úrkomusamt.  „Það gengur hægt með heyskapinn í þessari rekjutíð“.

Rekleysa (n, kvk)  Fallaskipti á sjó; snúningur; stans; bát eða annað rekur ekki.  „Það fiskast þá aldrei hérna ef ekki er í svona stillu og rekleysu“.

Rekuspík (n, kvk)  Gæluheiti á reku/skóflu.  „Hvar skyldi ég hafa lagt frá mér rekuspíkina“?

Rekustunguþykkur (l)  Þykkt sem svarar lengd rekublaðs/skóflublaðs; stunguþykkt; rekustunga.  „Í Svarðarholtinu er nærri rekustunguþykkt lurkalag; líklega myndað fyrir um 8 þúsund árum“.

Rennbleyta (s)  Bleyta mjög mikið/alveg.  „Passaðu að rennbleyta ekki bókina í þessari rigningu“.

Renniskítur (n, kk)  Bráð skita; veggspýtingur; steinsmuga.  „Ég hef verið með einhverja helvítis lumbru í vömbinni í allan dag, og óstöðvandi rennsiskít“.  Finnst ekki í orðabókum, fremur en ýmis önnur lýsandi heitiVíknamanna í meltingarfræðum.

Remmufýla / Remmupest (n, kvk)  Mjög sterk/þræsin/römm lykt.  „Mér finnst einhver remmufýla af þessu“  „Fereg remmupest er af þessu eplaediki þínu“!

Reykfullur / Reykfylltur (l)  Fullur af reyk/reykjarkófi.  „Ég þreifaði mig um reykfylltan kofann og fann krofið á nagla á innstu sperrunni“.

Reykjavíkurvald (n, hk)  Heiti sem fólk í þessum hluta dreifbýlis (og e.t.v. víðar) hafði yfir stjórnarstofnanir staðsettar á Reykjavíkursvæðinu, sem oft á tíðum hafa mun minni skilning á þörfum og aðstæðum úti á landi en hag þéttbýsisins í næsta nágrenni.  „Það koma þá bommerturnar frá Reykjavíkurvaldinu enn“!

Reyrilmur (n, kk)  Ilmur af reyr/ryrgresi.  „Neðanúr Breiðshlíðinni barst reyrilmurinn upp á brúnina“.

Réttarhleðsla / RéttarsmíðiRéttarviðgerð (n, kvk)  Upphleðsla/smíði/viðgerð á fjárrétt.  „Guðbjartur á Láganúpi réðist í réttarhleðslu á Brunnsbrekku, með aðstoð sona sinna.  Staðsetningin var ekki tilviljun, en þar um rennur fé sem rekið er af Breiðavíkurrétt, auk þess sem þarna var gnægð hleðslugrjóts við hendina“.  „Ætli við þurfum ekki að fara út í Breiðavík í réttarviðgerðir fyrir gangnadag“.

Réttartimbur (n, kvk)  Timbur sem nota skal við smíði/viðgerð fjárréttar.  „Eitthvað sýndist þeim hafa rýrnað réttartimbrið sem var geymt í Bjarngötudalnum“.

Réttlætisvottur (n, kk)  Ögn/vottur af réttlæti.  „Það er ekki nokkur réttlætisvottur í því að fornum réttindum sjávarjarða sé stolið með einfaldri lagasetningu Reykjavíkurveldistins, og það fært í hendur kvótakónganna“!

Réttókominn / Rétt ókominn (l/orðtak)  Um það bil að koma; nærri kominn. „Við vorum réttókomnir að baujunni þegar drapst á vélinni“.   „Hann er ekki inni, en hann hlýtur að vera rétt ókominn í kaffið“.

Réttskikkanlega (ao)  Með sæmilegu móti; til fyrirmyndar.  „Vertu ekki með þennan óskapagang krakki!  Hagaðu þér nú einusinni réttskikkanlega!

Réttsvo (ao)  Með naumindum; tæplega.  „Ég náði réttsvo með fingrunum uppá brúnina“.  „Hellirinn er réttsvo manngengur“.  „Það var réttsvo að hann komst fyrir fjárhópinn“.

Réttsæmilegt / Réttskikkanlegt Réttskaplegt  (l)  Í góðu lagi/horfi.  „Þetta er nú alveg réttsæmilegur afli yfir þennan tíma“.   „Veðrið hefur verið svona réttskikkanlegt síðustu dagana“. 

Ribbaldalið /Ribbaldalýður (n, kk)  Rumpulýður; ruslaralýður;  hópur óvandaðra manna.  „Það þyrfti að taka þetta ribbaldalið og koma því fyrir á einhverri góðri urð eða syllu í Bjarginu.  Þá væri þetta ekki að vinna neitt ógagn á meðan“!

Ribbaldast (s)  Hafa í frammi ribbaldahátt/yfirgang/ofstopa.  „Enn ætlar þessi ríkisstjórn að ribbaldast gegn viðkvæmustu byggðarlögunum á landsbyggðinni“!

Rigningardemba / Rigningargusa / Rigningarskvetta (n, kvk)  Mikil rigning í stuttan tíma.  „hann gerði á okkur bölvaða rigningardembu á leiðinni, svo maður er hérumbil innúr“!

Rigningardropar (n, kk, fto)  Vottur af rigningu.  „Það eru komnir einhverjir rigningardropar“.

Rigningaraustur / Rigningarflóð (n, hk)  Steypiregn; úrhellisrigning; ofansóp.  „Þvílíkur rigningaraustur er þetta“!  „Er hann ekkert að stytta upp rigningarflóðið“?

Rigningarflóð (n, hk)  Steypiregn; úrhellisrigning.  „Er hann ekkert að stytta upp rigningarflóðið“?

Rigningarfýla (n, kvk)  Fíngerð rigning eða grófur suddi; oft með vindi.  „Það var strekkingsvindur á suðaustan og rigningarfýla“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Rigningarlegur (l)  Lítur út fyrir rigningu.  „Hann er orðinn töluvert rigningarlegur; best að drífa saman heyið“.

Rigningarskulfa (n, kvk)  Demba; hellirigning; rigningarslagur; ekki þó endilega í miklu hvassviðri.  „Hann setti yfir okkur slíka rigningarskulfu að við urðum blautir inn að beini“.

Rigningarslag / Rigningarslagur (n, hk/kk  Mjög mikil rigning.  „Skömmu síðar gerði rigningarslag“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  Ekki vorum við komin langt þegar á okkur skall suðaustanbylur sem smám saman breyttist í rigningarslag“  (ÖG; Harðsótt heimferð í jólafrí).   Fyrir kom að notað var orðið „rigningarslagur“ í nefnifalli, og þá í karlkyni, en oftast var það í hvorugkyni.  „Skyldi þessi rigningarslaur engan endi taka“?

Rigningarslítingur (n, kk) Lítil rigning; dropar; slítur úr sér.  „Hann er enn með þennan rigningarslíting“.

Rigningarspá (n, kvk)  Veðurspá um rigningu/óþurrk.  „Er hann enn með þessa rigningarspá fyrir morgundaginn“?

Rigningarúði (n, kk)  Súld; úði; suddi.  „Mér finnst þetta vera dálítill rigningarúði, en ekki bara náttfall“.

Rigs (n, hk)  Sláttur; halasláttur; stærilæti.  „Ég þoli illa svona kauða sem viðhafa mont og rigs og eru of fínir til að heilsa almúganum“.

Riklingslúða (n, kvk)  Lúða sem vegur milli 7 og 10 kg.  (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: Guðbj.Guðbjartsson).

Riktuglega (ao)  Réttilega; með rétti.  „Hann hélt því riktuglega fram að þetta væri ekkert að marka“.

Rimafullur (l)  Um ílát; fullt upp að brún; fleytifullt.  „Það þýðir ekki að hella glasið svona rimafullt“!

Rimbaldast (s)  Róa/velta á; vega salt..  „Það þyrfti að binda bátinn betur framar í kerruna svo hann sé ekki að rimbaldast svona mikið“.

Rimpa (n, kvk)  Rytjuleg kind; rytja; gæksni.  „Furðulegt hvað þessi gamla rimpa getur gert væn lömb“.

Rindilshreiður (n, hk)  Hreiður músarrindils.  „Aðeins einusinni höfum við fundið rindilshreiður“  (EG; Fuglalíf í Kollsvík).

Rippa (n, kvk)  Rytjuleg/léleg kind.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Rissungi (n, kk)  Rituungi; ungfugl ritu .  „Við skutum nokkra máva og einn rissunga“.  Líklega hefur í orðinu verið tvöfalt u, en það heyrðist ekki í framburði.  Notað frameftir 20.öldinni.

Ritupláss (n, hk)  Varpsvæði ritu.  „Í Hreggshöfða mátti fyrrum fá eitthvað af fugli, en síðar vað þar aðallega ritupláss og fýlunga“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Rígsalta (s)  Salta mjög mikið; kakksalta.  „Það má ekki rígsalta bútunginn svona; hann verður bra glerharður“!

Rígsaltaður (l)  Mjög mikið saltaður.  „Grauturinn má hvorki vera saltlaus né rígsaltaður“.

Rígsöltun (n, kvk)  Mikil söltun.  „Ketið þolir ekki neina rígsöltun“.

Rímnabálkur (n, kk)  Samstæða af rímum sama efnis.  „Hann þuldi heilu rímnabálkana án nokkurs hiks“.

Rjómadolla (n, kvk)  Ílát undir rjóma.  Ekki verður fullyrt hvernig það hefur verið að gerð.  Rjómi var fyrrum skilinn þannig úr mjólk að hún var látin standa í trogi og síðan var undanrennunni hellt undan meðan haldið var við rjómann í troginu.  Rjómadollan hefur eflaust verið ílát sem rjóminn var geymdur í þar til hann var strokkaður, og þá líklega skilið sig enn betur.  „Það voru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar.  Jón Torfason afi minn smíðaði flest ílát í sveitinni.  það voru glettilega fallegir askarnir útskornir.  Hornspænir voru hér ekki algengir“  (H.M; Í Kollsv.veri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964). 

Roðavika (n, kvk)  Síðasta vika vertíðar í Kollsvíkurveri var nefnd því nafni, en þá var vermatan (nestið) farið að ganga mjög til þurrðar.  „Eflaust er það gamalt í málinu að síðasta vika vertíðarinnar var nefnd roðavika, og bendir það til þess að þá hafi að mestu verið lifað á fiskmeti, bæði soðnu og þurrkuðu“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Roðavika var gamalt nafn á síðustu vertíðarvikunni“.  (Frásögn ÓETh.)  (LK;  Ísl. sjávarhættir II).

Roðbeita / Roðkrækja (s)  Aðferð við beitningu, með fiskmeti sem agn; krækja önglinum í gegnum fisk og roð.  Þannig helst beitan mjög vel á önglinum, en hinsvegar er erfiðara að afbeita heldur en ef einungis er stungið í gegnum fiskholdið.  Því vildu t.d. bandarískir lúðuveiðimenn hér við land ekki roðkrækja fiskbeitu á lúðulóðir sínar.   „Handfæraönglar voru oftast roðbeittir; en þá var oddinum stungið í gegnum fisk og roð; beitan hékk á bugnum.  Þá var sagt að öngullinn væri oddbeittur.  Þegar oddinum var stungið milli himnu og roðs svo beitan gekk niður í bug hét það að bugbeita“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Roðskera (s)  Skera of djúpt í aðgerð á fiski, þannig að gangi í gegnum roðið.  Þótti argur klaufaskapur.

Roðskóa leið (orðtak)  Mælieining um lengd fjallvega:  Í Útvíkum var talað um að fjallvegur væri svo og svo margra roðskóa leið; eftir því hve ætla þyrfti mörg pör af roðskóm til göngunnar.  Roðskór entust stutt í því grýtta landslagi sem þarna er.  „Víknafjall, frá Kollvík að Naustabrekku, var talið 7 roðskóa leið“.

Roðskóasaumur (n, kk)  Gerð roðskóa (sjá þar).

Rokgræða (s)  Græða/þéna/hagnast mjög mikið.  „Hann rokgræddi á þessum viðskiptum“.

Rokkadrejari (n, kk)  Rennismiður sem smíðar m.a. rokka; stundar rokkasmíði (n, kvk)  „“Í föðurætt minni hafa verið góðir smiðir, mann fram af manni.  T.d. var það Árni Jónsson, bróðir Gunnlaug langafa míns; í skráðum heimildum nefndur Árni rokkadrejari.  Þessi rokkasmíði hélst nokkuð í ættinni, þú manst eftir öllum rokkunum sem hann pabbi smíðaði, ég held ég megi segja af snilld“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Roknabasl (n, hk)  Mikil vandræði; miklir erfiðleikar; heljarbasl.  „Ég lenti í roknabasli með að halda fjárhópnum á götunni; margar vildu taka sig útúr og leita á brekkuna“.

Roknabrim (n, hk)  Mjög mikið brim; rótarbrim.  „Það er hætt við að netin verði féleg eftir svona roknbrim“!

Roknadrellir (n, kk)  Mjög stór hlutur/skepna.  „Nokkrir steinar hafa hrunið á veginn; einn þeirra roknadrellir sem verður ekki hreyfður svo glatt“.

Roknakjaftur (n, kk)  Stólpakjaftur; mikð/hávært rifrildi. „Hann reif bara þennan roknakjaft og sagðist aldrei hafa fengið vasahnífinn lánaðan“!

Rokrassgat (n, hk)  Vinda-/næðingssamur staður; rokrass.  „Alltaf er þarna sama rokrassgatið“.

Rokseljast (s)  Seljast mjög vel; vera seldur í miklu magni.  „Eitthvað ætti það að hækka hrognaverðið ef hrognin eru farin að rokseljast útum allan heim“.

Rollufans (n, kk)  Fjárhópur; oftast notað um hóp af túnrollum.  „Það er þá kominn inná þessi árans rollufans, eina ferðina enn; það verður nú að fara að finna leiðina þeirra“!

Rollubykkja / Rollufjandi / Rollufrenja / Rollustirra (n, kk)  Niðrandi heiti á kind; stundum hreytt um áleitna og pirrandi túnrollu.  „É´ld þessi rollubykkja tóri nú ekki lengur en framá haustið“!  „Skyldi rollufjandinn enn láta sig vaða undir girðinguna?  Þá er að ná henni áður en hún hefur færi á að líta niður“.

Rolluhópur (n, kk)  Fjárhópur; kindahópur.  „Þarna stefnir einhver rolluhópur upp í hlíðina“.

Rollukvikindi (n, hk)  Niðrandi, en þó stundum vorkennandi heiti á kind.  „Ég nennti ekki að eltast við þessi fáu rollukvikindi lengst frammí í Dalbrekkum; mérsýndist þær ekki vera í mikilli ull“.  „Það er engin aðferð að hundbeita rollukvikindin“!

Rollulaust (l)  Fjárlaust; án kinda.  „Ég held að þetta svæði megi núna teljast rollulaust, en hinsvegar gætu einhverjar leynst enn í lautum hér utar“.

Rolluskjáta / Rolluskita (n, kvk)  Gæluheiti á kind.  „Það eru einhverjar rolluskjátur ókomnar heim úr fjörunni“.  „Ætli maður leyfi henni ekki að hafa lambið þett árið, rolluskitunni“.

Rolluslátur (n, hk)  Slátur af fullorðnu (fé).  „Ég held ég sé ekkert að taka heim þetta rolluslátur núna“.

Rollustagur (n, kk)  Fjöldi af kindum/rollum; fjárhópur.  „Það er þá rollustagurinn í túninu; rétt einn ganginn“!

Rontulegur (l)  Laslegur; slappur; illa fyrirkallaður.  „Maður er enn fjái rontulegur eftir pestina“.

Rot (n, hk)  A.  Fúi; skemmd; það að rotna/ hafa rotnað.  „Hér er komið dálítið rot í skinnið“.  B.  Meðvitundarleysi eftir högg eða annað.  „Ég lá þarna um tíma í roti“.  C.  Mjög djúpur svefn; grjótsvefn.

Rotpyttur (n, kk)  Fúafen; drulludý.  „Sortaugu voru rotpyttir, en horfnir nú þar sem búið er að grafa.  Þar var sorta tekin til litunar og þótti góð“  (ÍÍ; Örn.skrá Grafar).

Rotsvefn (n, kk)  Grjótsvefn; mjög djúpur svefn.  „Maður er hálf ruglaður eftir svona rotsvefn“.

Róa í samlagi (orðtak)  Þegar menn fara í róður á einum báti, sem allajafna tilheyra öðrum áhöfnum.  „Ekki var það alltaf á sama tíma sem flutt var í verið.  Réði því oft veðrátta og fiskigengd á grunnmið.  Oftast voru heimamenn búnir að róa nokkra róðra í samlögum, þvi hásetar þeirra voru oft lengra að“  (KJK; Kollsvíkurver).

Róa rimbu (orðtak)  (líkl.)  Barni skemmt með því að það situr og rær á hnjám fullorðins; gjarnan kveðin vísa í takt við þetta.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Rófusneið (n, kvk)  Sneið af rófu.  „Við sátum um það, þegar rófurnar voru skornar í pottinn, að fá sína rófusneiðina hvor“.

Rólegheitaakstur / Rólegheitakeyrsla / Rólegheitadól / Rólegheitadund / Rólegheitaganga / Rólegheitarekstur / Rólegheitarölt / Rólegheitastarf / Rólegheitavinna / Rólegheitvítl (n, kk/kvk/hk)  Það sem gert er með hæglæti/ í rólegheitum; hægar athafnir.  „Þetta er klukkutíma rólegheitaakstur“.  „Það er hætt við að þetta verði rólegheitarekstur; með þessa gömlu svona haltrandi“.  „Það er ágætt að fást við svona rólegheitavítl í sólskininu, þegar ekki er annað aðkallandi fyrir stafni“.

Rólegheitamanneskja / Rólyndismanneskja / Rólegheitaskepna / Rólegheitamaður / Rólegheitafólk  (n, kvk/kk/hk)  Um þann/þá/þau/það sem taka lífinu með ró; æsa sig ekki yfir smámunum.  „Það vill þér til happs að ég er rólegheitamanneskja, annars fengirðu á baukinn“!  „Það þarf ekkert að binda þessa rólegheitaskepnu“.

Róluband / Rólufjöl (n, kvk)  Hlutir rólu.  Rólubnd er fest í láréttan bita í báða enda, með miklum slaka milli enda.  Rólufjölin er með götum eða kríum í endum sem bandið liggur um, og er setið á henni, neðst í lykkju rólunnar.

Rólyndisskepna (n, kvk)  Dýr sem er geðgott/rólegt/stillt að eðlisfari.  „Nótt var mesta rólyndisskepna, en nokkuð fastheldin á daglegar venjur, s.s. básinn sinn og réttan mjaltatíma“.

Rómanakjaftæði / Rómanarusl (n, hk)  Ástarsögur; ástarsöguvella; álit þeirra sem ekki kunna að meta, á ástarsögum; og stundum „fagurbókmenntum“ yfirleitt. „Ég nenni ekki að lesa þetta rómanakjaftæði“!

Rósemdarskepna (n, kvk)  Spök/róleg kind/kýr/hundur.  „Þetta er rósemdarskepna, enda orðin ýmsu vön“.

Rósemdarsvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir hugarró/stillingu/hæglæti.  „Hann leit á skemmdirnar með rósemdarsvip og bað okkur að fara varlegar næst“.

Rótarbrim / Rótarsjór (n, hk)  Mjög mikið brim.  „Hann hefur rifið upp rótarbrim yfir nóttina.  Það held ég að strengirnir okkar verði félegir í næstu vitjun“. 

Rótarfiskirí (n, kk/hk)    Mikill afli; mokveiði.  „Þarna lentum við í rótarfiskiríi um tíma“.

Rótarháttur (n, kk)  Lúalegir hrekkir; kvikindisskapur; meinsemi.  „Mér finnst það bölvaður rótarháttur þegar þingmenn svíkja á fyrsta þingdegi þau mál sem þeir lofuðu kjósendum sínum“. 

Rótarhrekkur (n, kk)  slæmur/illyrmislegur hrekkur; óþverrabragð.  „Mér finnst fulllangt gengið með svona rótarhrekkjum; þið hefðuð getað drepið manngreyið“!

Rótarhugsunarháttur (n, kk)  Hugsun/fyrirætlun sem miðar að grófum hrekkjum; slæmar fyrirætlanir.  „Svona rótarhugsunarháttur getur nú ekki talist vel kristilegur, en kannski er þetta honum jafngott eins og hann hefur komið fram“.

Rótarkjaftháttur / Rótarkjaftæði (n, kk/hk)  Ruddalegt tal; haugalygi; mikil áfærni/ósannindi.  „Ég hef nú sjaldan heyrt slíkan rótarkjafthátt“!  „Þetta er ekkert annað en rótarkjaftæði“!

Rótarkjaftur / Stólpakjaftur (n, kk)  Digurbarkalegt málfæri; rifrildi; gróf/hörð andsvör.  „Það getur verið rótarkjaftur á honum, þó þetta sé dagfarsprúður náungi“. 

Rótartjása (n, kvk)  Rótarlýja; grasrót.  Einkum notað um rætur í rofabörðum, sem orðnar eru berar og visnaðar. 

Rótbitið/Rótnagað (s)  Um beitarland; mjög mikið bitið; bitið niður í rót.  „Þegar mest var af fé í Kollsvík var orðið töluvert álag á úthögum og sumir blettir voru rótbitnir“. 

Rubbi (n, kk)  Brimót; mikill sjór.  „Það nýtist illa bitfjaran meðan hann heldur þessum rubba“.

Ruddabrim / Ruddasjór (n, kk)  Mikið brim; stólpabrim.  „Fjaran er alveg þvegin eftir þetta ruddabrim“.  „Hann hefur rifið upp ruddasjó af vestan í nótt“.

Ruddatíð (n, kvk)  Ótíð; rysjótt/slæmt tíðarfar.  „Það hefur verið hálfgerð ruddatíð yfir allan stauminn“.

Ruðamikill (l)  Stór; þungur; digur; erfiður í manureringum.  „Skápurinn er alltof ruðamikill.  Hann kemst ekki í þetta skot“.  „Þessar árar eru heldur ruðamiklar fyrir svona lítinn bát“.  Orðið finnst ekki í orðabókum en var og er mjög tamt Kollsvíkingum.  „Ruði“ merkti það sem var mikið um sig, t.d. svert rekatré (Orðab. Menn.sj.).  Það orð er alveg horfið úr notkun en þetta afleidda orð lifir í máli Kollsvíkinga.

Ruðja (s)  Ryðja (sjá þar).  Sögnin að ryðja var iðulega framborin með u-hljóði af Kollsvíkingum og öðrum á svæðinu.  Þetta var áberandi meðal eldra fólks á síðari hluta 20. aldar, en heyrist ekki lengur; enda ekki við það stutt af hinu einsleita skólakerfi.  „Þeir þurftu að ruðja bátinn áður en lent var“.  „Vegagerðin ætlar víst ekki að ruðja þessa útkjálkavegi oftar þennan veturinn“.

Ruðja/ryðja úr sér (orðtak)  A.  Halda (skammar-)ræðu; segja sína meiningu; skamma; segja frá í ákafa.  „Þegar hann var búinn að ruðja úr sér með miklu offorsi sagði ég með hægð að hann gæti sjálfum sér um kennt“.  B.  Rigna; kasta éli.  „Mér sýnist að hann sé byrjaður að ruðja úr sér þarna norðurundir“.

Ruðningsholt (n, hk)  Holt úr jökulruðningi/jökulseti/jökulurð frá ísöld; holt sem augljóslega hefur verið rutt upp.  „Brunnsbrekkan er ruðningsholt eða jaðarurð frá lokum ístímans“.

Ruslaralega (ao)  Óskipulega; í óreiðu/ belg og biðu; ruglingslega.  „Afsakaðu hvað þetta er ruslaralega borið á borð hjá mér, en ég átti ekki von á gestum á þessum tíma“.

Russa / Russuungi (n, kvk)  Annað heiti á fuglinum ritu, en einnig heyrðist notað ryssa.  Skegla var hinsvegar lítt sem ekki notað um fuglinn vestra.  „Kringum Kórana var mest rita, sem reyndar var í daglegu tali jafnan nefnd russa (russuungi). (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Rúgmél / Rúgmjöl (n, hk)  Mél úr rúgi/rúgkorni.  Rúgur (Secale cereale) er korntegund af grasaætt.  Úr korni hennar er malað rúgmél.  Rúgur vex villtur í Litlu Asíu, en hefur verið ræktaður frá nýsteinöld.  Hérlendis er rúgur sumsstaðar ræktaður í dag, einkum til beitar.

Rúlluhlunnur (n, kk)  Keflahlunnur; hlunnur með járnrúllum; líklega uppfinning Ásgeirs Erlendssonar á Hvallátrum:  „Fljótlega eftir að við Þórður fengum Kóp (1932) fór ég að velta því fyrir mér á hvern hátt mætti gera setninginn úr sjá og á auðveldari.  Upp úr þessum vangaveltum smíðaði ég keflahlunna úr járni og eik.  Þeir reyndust vel, en entust ekki eins og skyldi, svo ég fór þá með teikningu af þeim í vélsmiðjuna Héðin, og brugðust þeir vel við og smíðuðu sterka og vandaða hlunna sem leystu hvalbeinshlunnana alveg af hólmi.  Ekki varð ég þó ríkur af þessari uppfinningu, enda ekki til þess gert“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Rúsínubúð (n, kvk)  Krambúð; búð sem selur jafnt matvöru sem annan þurftavarning, líkt og var t.d. með kaupfélagsverslanir til sveita.  Heitið er líklega fundið upp af Guðm. Jóni Hákonarsyni á Hnjóti, sem lengi var kaupfélagsstjóri á Gjögrum, og mun vera glensheiti á þeirri búð.  Hefur síðan verið notað af mörgum öðrum um aðrar slíkar verslanir.  „Þetta fékk ég í rúsínubúðinni“.

Rússarúgbrauð (n, hk)  Frambyggður rússajeppi af gerðinni UAZ.

Ryðblettur / Ryðgat / Ryðhaugur / Ryðhrúga (n, kk/hk/kvk)  Skemmdir vegna ryðs/oxunar í járni. 

Rykarða / Rykögn (n, kvk)  Lítil arða/ögn af ryki.  „Það má ekki vera rykarða á myndavélarlinsunni“.

Rykdust (n, hk)  Smávegis af fíngerðu ryki.  „Hvaða rykdust er þetta á borðinu“?

Rykkóf / Rykmökkur / Rykský (n, hk/kk)  Mikið ryk í lofti.  „Rykkófið í hlíðinni var lengi að setjast, þar sem steinninn hafði komið niður“.

Rýrðarafli / RýrðareftirtekjaRýrðarfengur  (n, kk/kvk)  Lítill afli; lítil/léleg eftirtekja.  „Það var hálfgerður rýrðarafli í þessum róðri“.  „Þetta kalla ég rýrðareftirtekju úr Stígsferð“!

Rýrðarkvikindi / Rýrðarskepna / Rýrðarskjáta (n, kvk)  Horuð/léleg kind/stelpa; grásleppulæpa.  „Þetta er óttaleg rýrðarskepna; varla setjandi á annan vetur“.  „Grásleppurnar núna  eru óttaleg rýrðarkvikindi; orðnar svona legnar“.

Rýrðarpláss (n, hk)  Eggfles þar sem lítið er að hafa.  „Efstu gangarnir eru orðnir rýrðarpláss síðustu árin“

Rýrðarspretta (n, kvk)  Léleg grasspretta; lítil gróska.  „Það er rýrðarspretta á sandtúnum í þessum þurrkum“.

Rýringslegur (l)  Horaður; pervisinn; smávaxinn.  „Skelfing er þetta rýsingslegt hrútkvikindi“.  „Aflinn var óttalega rýringslegur þennan daginn, enda hvergi flóarfriður í þessum vindstramba“.

Rýringur Rýringsgrey / Rýringskvikindi (n, kk)  Væskill; oftast horaður og pasturslítill maður, en gat einnig átt við lítið lamb að hausti.  „Ég held að þessi rýringur eigi ekkert eftir nema að horfalla“.

Ræfilsskarn/ Ræfilseymingi / Ræfilsgrey/ Ræfilskvikindi/ Ræfilsskinn /Ræfilstuska / Ræfilstötur.  Gæluorð sem notuð voru í vorkunnartóni um/við skepnur, t.d. oft um hunda, og sumt af því stundum í gælutón við barn.  „Komdu hérna ræfilsskarnið og sæktu þetta bein í kjaftinn á þér“.  „Ertu eitthvað stúrinn, ræfilstötrið mitt“.

Ræfla (n, kvk)  Annað nafn á rafabelti af lúðu (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: STh Kvígindisdal).

Ræfrildi (n, hk)  Drusla; leifar af nytjahlut/fatnaði/bók; ræfill.  „Það var lengi til ræfrildi af þessari bók, en ég hef ekki séð það neitt nýslega“.  „Þessi vinnustakkur er lítið annað en ræfrildi sem þyrfti að henda“.

Rækallansári (n, kk)  Áhersluorð/milt blótsyrði; skrambansári; býsna.  „Hann er farinn að rigna rækallans ári drjúgt“.  „Rækallansárinn hefur nú orðið af gleraugunum mínum“.

Ræksnastampur (n, kk)  Ílát sem ræksnum/slógi er kastað í þegar slægt er í landi eða þegar slægt er á sjó og ræksni tekin í land til nýtingar. 

Röggsemdarpiltur / Röggsemdarstúlka / Röggsemdarmaður / Röggsemdarkona / Röggsemdarhjón / Röggsemdarfólk (n, k/kvk/hk)  Um fólk sem sýnir röggsemi/drift/dugnað/framtak. 

Rökkurhugsanir (n, kvk, fto)  Það sem hugsað er í myrkri/rökkri.  Umræðuefni á fundi Umf Vestra 1918. 

Rölthraði (n, kk)  Hægur hraði.  „Þetta er klukkustundar gangur á rölthraða; minna ef rösklega er gengið“.

Röskleikamaður / Rösklegheitamaður / Rösklegheitamanneskja / Rösklegheitanáungi / Rösklegheitapiltur (n, kk/kvk)  Um duglegt/röst/framkvæmdasamt/drífandi fólk.  „Svona rösklegheitamanneskja er ekki á hverju strái“!  „Þetta virðist vera rösklegheitanáungi, þó lítið sé tilreynt ennþá“.

Sagarfar / Sagarsár (n, hk)  „Ekki er nú sagarfarið vel beint hjá honum“.  „Rektu fleyginn betur í sagarsárið“.

Sagargeifla / Sagarkegg / Sagarspík (n, hk/kvk)  Gæluheiti á sög.  „Þessi sagargeifla er orðin nánast tannlaus“.  „Ári er það orðið tannlaust þetta sagarkegg; þetta verður strax ónýtt af að saga upp sviðahausa“.  „Hvar lét ég nú frá mér sagarspíkina“?

Salatbeð (n, hk)  Beð í garði þar sem ræktað er salat til matar.  „Eru nú hænsnin komin í salatbeðið“!

Saltfiskkassi (n, kk)  Kassi sem fiskur er saltaður í.  „Farið var í matfiskróðra á hverju sumri þegar tími og sjóveður leyfði.  Fiskurinn var flattur og saltaður í sterkan saltfiskkassa í mókofanum og síðar  í verkfærahúsinu.  Hann var síðan tekinn upp í smáskömmtum og útvatnaður í brunnhúsinu fyrir neyslu“. 

Saltketsát (n, hk)  Neysla á saltketi.  „Nú væri tilbreyting að fá fisk eftir þetta hangikets- og saltketsát“.

Saltketsfat (n, hk)  Fat/diskur sem saltket er fært uppá til að bera það á borð.

Saltketspottur (n, kk)  Pottur sem saltket er soðið í.  „Er farið að sjóða í saltfiskpottinum“?

Saltketskvartel / Saltketsstampur / Saltketstunna (n, hk/kk/kvk)  Ílát sem saltket var gjarnan verkað og geymt í.  „Mundu eftir að setja hlemminn á saltketskvartelið svo músin komist ekki í það“.

Saltketsverkun (n, kvk)  Verkun saltkets; brytjun og söltun saltkets.  „Ívar í Kirkjuhvammi var annálaður snillingur í saltketsverkun“.

Saltreka / Saltskófla (n, kvk)  Reka/skófla til að moka salti.  „Kastaðu einni saltreku aukalega yfir stæðuna“.

Salttæpur (l)  Tæpur með salt; á lítið af salti.  „Við vorum búnir að róa alla vikuna, og því orðnir mjög salttæpir„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Samankýldur / Samanþjappaður (l)  Pressaður/þvingaður saman. „Ég sat samankýldur uppi í hlöðurjáfrinu og tróð heyinu útundir þakið eins og framast var unnt“.  „Þarna komum við niður á samanþjappaðan jökulleir“.

Samanspyrtir / Samanvaldir / Samvaldir (l)  Í skammarsetningum; samskonar.  „Þeir eru samanspyrtir hálfvitar; báðir tveir“!  „Þarna er þessum stjórnvöldum rétt lýst; þetta eru samvaldir aular; allir hreint með tölu, og hananú“!  Vísar til þess að velja þarf jafnþunga fiska saman í spyrðu.

Samhyrndur (l)  Hornalag hrúts, þar sem hornin virðast samgróin við hornrótina. 

Samkomulagsatriði (n, hk)  Samningsþáttur; það sem semja má um.  „Tilhögun greiðslunnar er bara samkomulagsatriði, eftir að verðið er ákveðið“.

Samplokkað (l)  Um það þegar fiður af mismunandi grófleika er plokkað saman af fugli, án sorteringar.  „Samplokkað fiður var einnig notað í yfirsængur, en þær voru þungar... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Samráðslaust / Samráðslítið (l)  Án samráðs/ráðfæringa.  „Þetta gerði hann samráðslaust og án minnar vitundar“!

Samráðsleysi (n, hk)  Skortur á samráði/samtali/ráðfæringum.  „Svona samráðsleysi kann ég ekki við“!

Samræðuhæfur (l)  Hæfur til viðtals; unnt að tala við; hægt að mæla máli.  „Hann var svo niðursokkinn í bókina að hann var ekki samræðuhæfur“.  „Hann var svo sótvondur yfir þessum klaufaskap að hann var ekki samræðuhæfur fyrst í stað“.

Samsetningur (n, kk)  A.   Þegar skipsáhafnir setja saman upp (eða niður) bát í lendingu. Þessi notkun orðsins virðist ekki hafa verið þekkt utan svæðisins.   „Oft var það að skipshafnir höfðu samsetning á bátum...“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Bátana varð að setja upp á hverju kvöldi, og var þá venjulega hafður samsetningur af tveim til þremur bátum“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   B.  Algengari merking; það sem sett/skeytt er saman; skáldskapur.  „Þetta er ljóti samsetningurinn.  Ég hef sjaldan séð annan eins leirburð“!

Sandbugur / Sandbót (n, kk)  Bót/vík/vik með skeljasandsfjöru og skeljasandi í botni.  „Innan við Sandoddann er sandbugur sem heitir Skersbugur“  (VP;  Örn.skrá Hvalskers).

Sandmósta (n, kvk)  Seltumósta; útfellingar úr foksandi á föstum hlutum.  „Eftir sandstorm í Kollsvík var oftast töluverð sandmósta vindmegin á öllum hlutum.  Hún samanstendur af salti og leir og er mjög tærandi“.

Sandmúli (n, kk)  Múli/núpur sem gengur fram milli víkna eða dala og er áberandi orpinn skeljasandi.  „Kvígindisdalur á land eftir gömlum máldögum inn að grjótgarði þeim sem er inn á sandmúlanum milli Kvígindisdals og Sauðlauksdals“  (Landamerkjabók Barðastrandasýslu).

Sandoddi (n, kk)  Endi á sandrifi við sjó.  „Vaðalseyrar nefndust sandoddarnir beggja megin Vaðalsins, enaðn við Rifið“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).  Sandoddi er einnig örnefi utan við Skersbug.

Sandsbúi / Sandsmaður (n, kk) Íbúi á Rauðasandi í Rauðasandshreppi.  Sja Rauðsendingur.  Oftast er notað heitið Rauðsendingur yfir þessa íbúa, en hinum tveimur heitunum brá þó stundum fyrir í máli heimamanna.  „Sandsmenn hafa ekki komið frá sér mjólk í nokkra daga vegna ófærðar“.

Sandsfé (n, hk)  Sauðfé á/af Rauðasandi.  „Sjaldgæft er að Sandsfé heimtist á Breiðavíkurrétt“.

Sannleikskorn / Sannleiksvottur (n, kk)  Örlítill sannleikur; flugufótur.  „Einhvað sannleikskorn kann að vera í sögunni um Simbadýrið“.  „Ekki þótti þeim vera mikill sannleiksvottur í þessu fyllerísrugli“.

Satansári / Satansekkisen  (u)  Upphrópun/áhersluorð af meðalstyrkleika.  „Satansári var að tapa sökkunni“!  „Satansekkisen rigning er þetta!  Og ég sem ætlaði til berja í dag“!

Sauðnálarkritja (n, kvk)   Mjög lágvaxinn gróður; vottur að grænni jörð að vori en vart orðin sauðbeit.  „Það fer að grænka úr þessu; strax komin einhver sauðnálarkritja“.  „Þessi fíni matur í veislunni var nú varla annað en einhver sauðnálarkritja“. 

Sauðslegur / Sauðskur (l)  Hjárænulegur; gleyminn; annarshugar.  „Skelfing geturðu verið sauðslegur að gleyma þessu“!  „Hann man kannski eftir þessu, þó sauðskur sé“.

Saumaklúbbskvöld (n, hk)  Samkoma saumaklúbblsins Stauts; haldin á heimili einhverrar félagskonu.  Annarsstaðar munu slík kvöld hafa heitið saumakvöld, en í Rauðasandshreppi föndruðu félagskonur við sitthvað annað en sauma; s.s. prjónaskap, hekl, bastvinnu og annað.  En einnig var mikið talað.

Sá blái (orðtak)  Gæluheiti á steinbít.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heim; ÞJ).

Sámleitur / Sámlitaður / Sámslegur (l)  Dökkleitur; skáldaður í framan af skít; sámur.  „Óttalega ertu sámslegur í framan eftir þessa moldarvinnu.  Farðu nú og þvoðu framanúr þér drengur“.

Sápuhristari / Sápugrind / Sápusigti (n, kk)  Eldhúsáhald; hylki úr vírgrind og með skafti úr sverum vír.  Notað til að sápa vatn til uppþvotta á t.d. borðbúnaði.  Hylkið var með smelltu loki úr samskonar vírgrind.  Inn í það voru settir afgangar af handsápu/stangarsápu; síðan var hylkinu difið ofaní uppþvottavatnið og það hrist duglega þangaðtil nægilega sterk blanda var fengin.  Notað á Láganúpi framundir það að uppþvottalögur fór að fást í verslunum; fyrir 1970.

Sáraáburður / Sárakrem / Sárasalvi / Sárasmyrsl (n, kk/hk)  Sótthreinsandi áburður sem borinn er í sár.

Sárafátækt (n, kvk)  Mjög kröpp kjör; á horriminni; mikil neyð.  „Hallærin komu verst niður á þeim sem kröppust höfðu kjörin og bjuggu við sárafátækt fyrir.  Sjávarbyggðirnar höfðu meiri bjargarvon“.

Sáranauðsyn (n, kvk)  Brýn nauðsyn/neyð.  „Það er nú engin sáranauðsyn að komast á þennan fund í dag, en þið verðið að moka til að ég komi mjólkinni innyfir á morgun“.

Sárindalítið (l)  Án mikilla sárinda/ mikillar eftirsjár/sútar.  „Það væri mér sárindalítið þó sá bjálfi næði ekki kjöri“!

Sef / Sefgresi (n, hk)  Gróft, loðið gras; oftast að uppistöðu þráðsef.  „Þarna á nefinu var loðið sefgresi... “  (ÁH; Útkall við Látrabjarg).  Sjá þráðsef.

Seglgarnshnota / Seglgarnsrjúpa / Seglgarnsrúlla (n, kvk)  Rúlla af seglgarni.  Oft undin þannig upp að holrúm var innaní, og þráðurinn dreginn útum gat úr því.  „Veistu eitthvað um seglgarnssrúlluna“?

Seiglingsátak / Seiglingsbarátta / Seiglingserfiði / Seiglingspuð / Seiglingsvinna (n, hk/kvk)  Töluvert átak/erfiði/puð; allmikil barátta/vinna.  „Það var seiglingsátak hjá okkur þremur að hífa hann síðasta spölinn“.  „Það er seiglingspuð að ná bjórnum af þessum Hlíðalömbum“.

Seiglingsdrjúgur (l)  Alldrjúgur; allmikill; nokkuð mikill.  „Við ættum nú að fara að hafa uppi; það er seiglingsdrjúg sigling í land“.  „Alltaf er hann jafn seiglingsdrjúgur á fótinn, blessaður dalurinn“.

Seiglingskippur (n, kk)  Nokkuð löng sigling.  „Heldurðu að við höfum nóg bensín?  Það er seiglingskippur niður á dýpri Skeggja“.

Seiglingsslatti (n, kk)  Allnokkuð magn; dágóður slatti.  „Þeir fengu seiglingsslatta í róðrinum“.

Seiglingsspotti / Seiglingsspölur (n, kk)  Nokkuð drjúg vegalengd; alllangt.  „Þetta er seiglingsspotti þarna inná brúnina“.  „Fáðu þér nú vel að éta áðuren þú ferð; það er seiglingsspölur innyfir heiðina“.

Seigmilk (l)  Um kýr; selur illa; erfitt/seinlegt að mjólka.  „Nótt er sérvitur og seigmilk fyrir ókunnuga“.

Seinlæs (l)  Sem les hægt; sem er ekki vel læs; treglæs.  „Strákurinn er farinn að stauta sæmilega, miðað við aldur, þó hann sé dálítið seinlæs ennþá“.

Seinnismölun (n, kvk)  Smölun/göngur/eftirleitir eftir fyrri smölun og réttir.  „Ætli við þurfum ekki að fara í seinnismölun á Bjargið.  Mig vantar enn þær sem ég vonaðist eftir af Geldingsskorardalnum“.

Seisingarhnútur (n, kk)  Sérstakur hnútur sem notaður var til að tengja tvo bjargvaði saman, enda í enda.  „Sérstakur hnútur var hafður í þessu skyni; svokallaður seisingarhnútur.  Voru þá endarnir báuðmegin við hnútinn benslaðir með mjóu snæri eða seglgarni við vaðinn“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Sektarsvipur (n, kk)  Svipur sem bendir til sakar/sektar; skömmustulegur svipur.  „Tíkin tók við bitanum úr hendi hans með semingi, en leit síðan á mig með sektarsvip“.

Selskapsskepna (n, kvk)  Dýr sem vill félagsskap/er mannelskt.  „Æðarkollan sem afi hjó hálfdauða úr klaka niðri við sjó og móðir mín bjargaði frá vísum dauða taldi sig eftir það eina af heimilisfólkinu.  Hún var mikil selskapsskepna og vildi helst vera þar sem annað fólk hélt sig, en kunni því illa að vera skilin ein eftir heima.  Þá dýrkaði hún mjög klassíska tónlist, og kom sér vel fyrir framan við útvarpið ef slíkt var í boði“ (VÖ).

Seltumósta (n, kvk)  Sandmósta; útfellingar úr foksandi á föstum hlutum.  „Eftir sandstorm í Kollsvík var oftast töluverð seltumósta vindmegin á öllum hlutum.  Hún samanstendur af salti og leir og er mjög tærandi“. 

Seltustorka (n, kvk)  Salt eða saltblanda sem situr eftir þegar saltvatn eða sjór þornar.  „Mikið verður gott að komast í vatn og þvo af sér seltustorkuna eftir þessa ágjöf“!

Sementskústa / Sementskústur (s/ n, kk)  Bera sementslög á húsvegg með hentugum bursta/kústi.  Sementskústun getur verið góð vörn á steinsteypu, einkum ef hún er sjálf sementsrýr.  Var því mikið notuð fyrr á árum meðan sement var sparað í steypu, og voru t.d. gömlu útihúsin á Láganúpi sementskústuð.

Semsagt / Sem sagt /Semsé / Sumsé (orðtak, uh)  Hér um bil; nærri því; samasem.  „Enn var það lágsjávað að báturinn tók sem sagt allur jafnt niðri, og dró það úr högginu“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   „Saltið er semsagt búið“.  „Það er semsé ekkert eftir“.  „Þú heldur sumsé að þetta geti gengið“.

Setbað / Setbaðker (n, hk)  Stutt baðker, með stalli í öðrum enda; ætlað til að menn sitji á meðan þeir baðast.  „Setbaðker var á seinni árum á klósettinu í gamla bænum á Láganúpi (rifinn eftir 1974).  Ekki hefði verið unnt að hafa þar stærra bað vegna plássleysis í skúrbyggingunni.  Fyrir þann tíma baðaði Láganúpsfólk sig um tíma í steyptu baðkeri í verkfærahúsinu, en þar áður var notast við vaskafat og þvottapoka“.

Setningsspil (n, hk)  Gangspil; spil sem notað er til setningar á bát.  „Tvö setningsspil voru í Kollsvík frameftir 20.öld; eitt í Kollsvíkurveri og annað ofanvið vörina í Láganúpslendingu“.

Seymur (n, kk)  Saumur.  Orðið er eingöngu notað núorðið í orðtakinu að draga seyminn, þ.e. segja eitthvað með áberandi langri áherslu á sérhljóða.  Ekki fer á milli mála að það orðtak vísar til sauma; til þess að draga langan þráð í gegnum klæði.  Með þeim rökum er þessa orðs getið sérstaklega hér.

Sérgæðingsháttur (n, kk)  Sú tilhneyging að halda sig og sína betri/æðri/fullkomnari en aðra.  „Þessi fjölskkylda hefur komið sér fyrir í ráðandi stöðum samfélagsins af óverðskulduðum sérgæðingshætti“.

Sérhvur (fn)  Sérhver; sérhvor.  Nokkuð algeng framburðarmynd var áðurfyrr.  „Þetta getur sérhvur maður séð“.

Sérmunalega (ao)  Sérdeilis; sérstaklega; einstaklega; afar; mjög.   „Mér fannst þetta sérmunalega súrt í brotið, og lét óánægju mína skýrt í ljósi“.  „Þetta finnst mér sérmunalega fráleit aðgerð“!

Sérmunalegur (l)  Sérstakur; einstakur; mjög mikill.  „Þetta var alveg sérmunalegur klaufaskapur“!  Oriðn „sérmunalega“ og „sérmunalegur“ voru nokkuð almennt notuð í máli Kollsvíkinga framundir þennan dag, en virðast ekki hafa þekkst annarsstaðar.

Sérviskufugl / Sérviskugaur / Sérviskuhundur / Sérviskupúki (n, kk)  Sérvitringur; sá sem þykir helst til fylginn sér í skoðunum; mjög sjálfstæður í hugsun.  „Þú færð þann sérviskufugl seint inn á þetta“.  „Hann er óttalegur sérviskuhundur; það verður ekki af honum skafið“.

Sérviskukjaftæði / Sérviskurugl (n, hk)  Fullyrðing sem talin er byggð á sérvisku.  „Þetta er nú bara eitthvað sérviskukjaftæði, sem ekkert mark er á takandi“!

Séttla (s)  Jafna; róa; friða.  „Það verður að fara í að séttla þetta deilumál; það bíður sér ekki til bóta“.

Séttla málin (orðtak)  Jafna ágreining; lægja öldurnar; friða.  „Hann reynir til að séttla málin milli bæjanna“.

Séttlaður (l)  Um mál/ágreining; búið að sætta; komin niðurstaða í.  „Við getum ekki slitið fundi fyrr en þessi álitamál hafa verið séttluð“.

Séttla sig / Séttlast (orðtak/s)  Róast; færast friður/ró yfir.  „Við látum féð vera í hólfinu meðan það er að séttla sig“.  „Úr þessu spunnust töluverðar deilur sem voru lengi að séttlast“.

Siglykkja (n, kvk)  Lykkja á enda sigvaðs, sem bundin er um sigmann þegar sigið er; vaðarauga (sjá þar).

Sigmannshlutur (n, kk)  Þó sigari sé vanur og gætinn þá er hann í meiri áhættu en aðrir.  Því fær hann aukahlut við skipti; sigmannshlut.  Oftast er það heill hlutur, en þó misjafnt.

Signingarhjallur (n, kk)  Hjallur sem einkum er notaður til að láta fisk síga.  „Össur á Láganúpi reisti signingarhjall á brystinu utanvert við Kaldabrunn í kringum 1980“.

Signingartíð (n, hk/kvk)  Veðurfar/tíðarfar sem hentar til að siginn fiskur verkist vel.  „Það held ég að grásleppan fái góða signingartíð; hún verður klár eftir nokkra daga í viðbót í sveljandanum“.

Sigt (n, hk)  Örlítið vatnsrennsli; sytra; vætl.  „Í Harðatorfspytti er nún lítilsháttar sigt, en hefur líklega verið meiri lækur áður en Mýrarnar voru ræstar fram“.  Orðið virðist ekki þekkjast annarsstaðar í þessari merkingu.

Sigtóg / Sigvaður / Sigfesti (n, kvk/kk)  Bjargtóg; bjargvaður; sigaband; sigafesti; festi; tóg; sigvaður; vaður; mannavaður.  Ýmis heiti á festi þeirri sem notuð er til bjargsigs.  Oftast var venja að tala um bjargtóg; bjargvað; sigtóg eða vað/sigvað.  „Þar kom að bændur ákváðu, seinni hluta dags, að leggja upp að morgni, og varð þá uppi fótur og fit.  Kvenfólkið tók til að útbúa nesti og taka til nauðsynjar.  En karlmennirnir náðu í vaðina, sem geymdir voru á slám uppi undir rjáfri úti í hjalli.  Hver bóndi áti nokkra vaði úr hæfilega gildum kaðli; mismunandi langa.  Til siga voru ekki notaðir nema nýlegir og óskemmdir vaðir, en þeir sem voru farnir að slitna voru notaðir til að draga upp fugl þegar hann var tekinn (mannavaðir og fuglavaðir“  (MG; Látrabjarg). 

Sikringsnæla (n, kvk)  Öryggisnæla; lásnæla.  Læst næla; notuð til að festa saman fataefni eða flíkur.  Orðið er ekki í orðabókum en var almennasta heitið á þessum hlut í Kollsvík.  „Réttu mér stóru sikringsnæluna“.

Simbadýrið (n, hk, sérnafn)  Nafn á óvætti sem sagður er búa á Látraheiði og amaðist við ferðafólki áður fyrr.  Kennt við Sigmund Hjálmarsson bónda á Hvalskeri sem lenti í átökum við það (ÁE; Ljós við Látraröst).

Sinfóníusarg (l)  Niðrandi heiti á klassískri tónlist.  Tónlistarsmekkur fólks er mismunandi, og sígild tónlist hljómaði oft skelfilega í ófullkomnum útvörpum fyrri tiðar; jafnvel í þeirra eyrum sinna aðdáenda.

Simfónn (n, kk)  Viðrekstur; fretur: búkloft.  „Hver spilar svona listilega á simfón hér í stofunni“?

Sinnhvorsvegar / Sinnhvorumegin (ao)  Hvor sínu megin; sinn á hvora/hvorri hlið; báðumegin.  Orðhlutana má skrifa hvern í sínu lagi, en hinsvegar er notkun og framburður oftast með því móti að um eitt orð sé að ræða.  „Við fórum sinnhvorsvegar við Stórafellið“.  „Við tókum sinnhvorumegin á bátnum og mjökuðum honum upp“.  Einnig haft í kvenkyni og hvorugkyni.

Sinubeðja / Sinudyngja / Sinuflóki / Sinuruddi / Sinusæng (n, kk)  Samfelldur flóki af visnuðu grasi; mikið af sinu.  „Túnin eru öll lögst í sinubeðju“.  „Þetta er fljótt að verða ein sinusæng þegar ekki er slegið“.

Sinuruddi (n, kk)  Fornslægja; hey sem inniheldur mikið af dauðri og næringarsnauðri sinu.  „Við setjum þetta hey neðst í hlöðuna.  Það er eitthvað í því af sinurudda“.

Sinustopp (n, hk)  Sina sem notuð er sem stopp í eggjaílát.  Þurr ófúin sina er besta stopp sem hugsast getur, en stundum var ekki völ á henni, og þurfti jafnvel að nota mosastopp.

Sinutotti / Sinubrúskur / Sinutoppur (n, kk)  Toppur/brúskur/visk af sinu.  „Sinubrúskar geta verið góðir og tryggir sem hald í klettum ef maður þekkir þá og grípur rétt í þá“.  „Ef maður grípur vel niður í sinutottana og sparkar sér góð fótaför, þá má komast yfir þessa slefru með sæmilegu öryggi“.

Sirkla út (orðtak)  Finna/reikna út; hnitmiða; áætla.  „Ég held að ég sé búinn að sirkla út bestu leiðina til að komast í þetta fles“.

Sisona/ Sisvona / Rétt sisona (ao/orðtak)  Svona; á þennan hátt; þannig.  „Heilsan er sisona sæmileg, en ekki meira en það“.  „Ég ætlaði, rétt sisvona, að hjálpa lambinu á fætur, en þá renndi móðirin í hnésbæturnar á mér“.  Sjá einnig tisona; tilsvona og til svona.

Sitthvorumegin (ao)  Hvor á sinni hlið; báðumegin.  „Þá var tekið í það og plógurinn veginn inn yfir borðstokkinn.  Síðan var tekið í tvö bönd er lágu sitthvorumegin úr plógnum niður í horn pokans“  (KJK; Kollsvíkurver).

Miðdagskaffi / Miðdegiskaffi / Síðdegiskaffi (n, hk)  Kaffi sem drukkið er um miðjan dag, kl 15.30-16.00, oftast nefnt síðdegiskaffi.  Venjulega kaffi, mjólk og  fjölbreytt meðlæti af kökum og kaffibrauði.

Síargandi / Sígargandi / Sígrenjandi / Síhljóðandi / Síæpandi / Síöskrandi (l)  Einatt arngandi/gargandi/æpandi.  „Krakkarnir hætta fljótlega að taka mark á foreldrum sem eru síargandi á þau“.

Síberjandi lóminn / Síkvartandi / Síkveinandi (orðtak/l)  Sífellt að bera sig illa/ kvarta.  „Í raun hafa þau það bara ágætt, þó þau séu síberjandi lóminn“.

Síbetlandi / Síbiðjandi / Sínuddandi / Sínöldrandi / Sísníkjandi (l)  Sífellt að biðja/sníkja.  „Ég kann ekki við að vera síbetlandi um að fá þetta lánað svo ég keypti mér það bara sjálfur“.

Síblaðrandi / Sígapandi / Sígasprandi / Síjaplandi / Síkjaftandi / Síklifandi / Símalandi / Sísuðandi / Sítalandi / Síþvaðrandi (l)  Eilift að blaðra/gaspra; klifa á; samkjaftar ekki.  „Skelfing þoli ég illa þetta sígasprandi pakk“! „Hún er símalandi um þessa blessaða englabossa sína“.  „Þú ert síblaðrandi um að þetta sé ekkert mál að komast upp á stallinn; sýndu nú hvað þú getur“!

Síblótandi / Síbölvandi / Síragnandi (l)  Alltaf að blóta/bölva

Síboppandi / Síhóstandi / Síkjöltrandi (l)  Sífellt hóstandi.  „Ansi er þreytandi að vera svona síboppandi; það er eins og þessi kveffjandi ætli aldrei úr manni“!

Síborðandi / Síétandi / Sídrekkandi (l)  Borðar mjög oft; alltaf að éta/drekka.  „Ég fæa mér bara eitthvað seinna; maður getur ekki verið síétandi“.

Sídútlandi / Sídundandi / Sígaufandi (l)  Sífellt að dunda við.  „Hann er sídundandi við þessa bíldruslu“.

Síemjandi / Síkvartandi (l)  Hafa sífellt uppi kvartanir/bölmóð.  „Maður er síkvartandi yfir vegunum, en þeir lagast lítið“.

Sífátandi / Sífiktandi (l)  Sífellt að fikta/fáta í einhverju til óþurftar.  „Vertu nú ekki sífátandi í stillingunum á útvarpinu; ég þarf að heyra veðrið á eftir“!

Sífretandi / Síprumpandi / Sírekandi við (l/orðtak)  Einatt að leysa vind/prumpa/ reka við.  „Þetta er ókosturinn við rúgbrauðið; maður er sífretandi ef maður étur það í óhófi“!

Sígeispandi (l)  Syfjaður; alltaf að geispa.  „Það gengur ekki að rorra hér sígeispandi; best að hafa sig í bælið“.

Sígrátandi / Sígrenjandi / Sískælandi / Sívolandi / Sívælandi

Síhungraður / Sísoltinn / Sísvangur (l)  Alltaf hungraður/svangur.  „Heldur var naumt skammtað á bænum; við vorum síhungraðir meðan við vorum þarna í vinnu“.

Síkveðandi / Síraulandi / Sísyngjandi / Sítrallandi / Sísönglandi (l)  Sífellt að kveða/raula/syngja/tralla.  „Ég man ekki eftir ömmu minni, Halldóru Kristjánsdóttur, öðruvísi en sísyngjandi.  Hún kunni firn af vísum með lögum, og hafði góða söngrödd.  Sama var um dóttur hennar; Sigríði móður mína, þó hún gerði heldur minna af því“.

Síljúgandi / Síslúðrandi (l)  Einatt að ljúga/ bera út kjaftasögur.  „Ég hlusta ekki á þetta síslúðrandi pakk“!

Sílogandi (l) Um ljósfæri/rafljós; alltaf kveikt.  „Það er óþarfi að hafa sílogandi á útiljósinu“.

Símadama (n, kvk)  Símastúlka; kona sem vinnur á skiptiborði á símstöðeða hjá fyrirtæki.  „Símadaman bað mig að bíða aðeins á línunni“.

Símafundur (n, kk)  Fundur sem haldinn er í síma.  Sveitasíminn gamli bauð uppá ýmsa möguleika; m.a. þann að hlera samtöl annarra.  En einnig gátu notendur á sömu línu haldið fund; tveir, þrír eða fleiri.

Símalandi /Síblaðrandi (l)  Sífellt talandi; samkjaftar ekki.  „Hún er símalandi um þessa blessaða englabossa sína“.  „Þú ert síblaðrandi um að það sé ekkert mál að komast upp klettinn; sýndu nú hvað þú getur“!

Símalaust (l)  Dauður sími; ekkert símasamband.  „Það er þá símalaust eins og vant er, eftir skrugguveðrið“.

Sípirraður / Síæstur (l)  Mjög oft pirraður/æstur.  „Maður er sípirraður yfir þessum bjálfum sem kunna ekki að leggja í rétta stefnu“!  „Það hefur ekkert uppá sig að vera síæstur yfir þessu; það bætir lítið blóðþrýstinginn“.

Síplagaður / Síþjakaður / Síþjáður (l)  Sífellt hrjáður/kvalinn; eilíft með verki/þjáningar.  „Það er óskemmtilegt að vera síplagaður af tannverkjum“.  „Það étur hvern mann að vera síþjakaður af áhyggjum“.

Sjálfbrynnari (n, kk)  Brynningarskálar sem nú eru algengar; þar sem búfé skammtar sér sjálft vatnið, nefndust þessu nafni upphaflega í Rauðasandshreppi.

Sjálfstæðisár (n, hk)  1918; árið sem Ísland hlaut sjálfstæði.  „Baldur var „heimtur úr helju“ aftur sjálfstæðisárið 8. des. 1918“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Sjávarfallaverfill (n, kk)  Vélbúnaður/hverfill til nýtingar á sjávarfallaorku.  Fyrsti íslenski sjávarfallahverfillinn er fundinn upp af Kollsvíkingi; höfundi þessarar samantektar.  Sá hverfill var fyrsti íslenski hverfillinn til að hljóta einkaleyfi, og hlaut gullverðlaun International Inventors Awards árið 2011.

Sjávarfallavirkjun (n, kvk)  Virkjun sem nýtir sjávarfallaorku.  „Sú staðreynd að þetta er í fyrsta sinn sem þetta orð kemst í orðasafn, lýsir því e.t.v. best hve þróun orkutækni á Íslandi hefur hingað til verið illa sinnt.  Gnægð sjávarfallaorku er að finna allt í kringum Ísland, en Íslendingum hefur ekki verið sýnt um að nýta hana fremur en síldina fyrrum.  Kollsvíkingar hafa nú komið fram með fyrstu tæknina til nýtingar á þessari gríðarmiklu orku sem í sjávarföllum býr.  Með aðferðum Valorku á að vera unnt að virkja þessa orku án allra umhverfisáhrifa.  Sjávarfallaorku er að finna víða við strendur heims.  Sú staðreynd, ásamt vaxandi áherslum allra ríkja á endurnýjanlega orkuöflun, og að tækni Kollsvíkinga er fremst á heimsvísu, þýðir að markaðsmöguleikarnir eru gríðarlegir.  Hverflar Valorku hafa verið þróaðir í 5 mismunandi gerðum, auk þess sem unnið er að fyrstu blendingstækni öldu- og sjávarfallavirkjunar í heimi.  Með sjóprófunum í Hornafirði í júlí 2013 hóf Valorka fyrstu prófanir sjávarorkutækni á Íslandi; tækni sem á eftir að verða uppistaða orkuframleiðslu komandi kynslóða, þar sem hefðbundnir orkukostir vatnsfalla- og jarðhitaorku verða fullnýttir á næstu áratugum með sömu þróun, sé nýleg rammaáætlun lögð til grundvallar“  (VÖ).

Sjávargos (n, hk)  Nýyrði VÖ.  E.t.v. væri réttara að nefna fyrirbærið „sjóargos“, samkvæmt þeim beygingarhætti sem alltaf var notaður í Kollsvík, en þessi fellur betur að því sem nú er almennast notað.  „Sjávargos vera með þessum hætti:  Lóðréttir strókar af sjó sem verða til við það að sjór þrýstist inn í lokaðan helli og uppúr gati á þaki hans.  Sjávargos geta orðið á tveimur stöðum í Kollsvík vegna aðstæðna.  Annar staðurinn er í Bekknum, norður undir Straumskeri undir Blakknum.  Í miklum vestansjó og á flæði ganga öldur inn í sjávarhelli í Bekknum og spýtast upp um gat á þaki hans.  Þau gos geta orðið tugir metra upp í loftið og sjást greinilega úr allri Víkinni.  Hinn staðurinn er á hleinunum framundan Sandhelli í Hnífum utanverðum.  Í henni er hellir með gati uppúr.  Hleinin kemur uppúr á fjöru og í norðansjó geta orðið tilkomumikil gos uppúr gatinu.  Orðið sjávarhellisgos er hér notað þar sem ekki hefur fundist annað hugtak yfir þetta náttúrufyrirbæri.  Orðið var reyndar ekki notað í Kollsvík, heldur sagt sem svo; „Það er töluverður vestanrosi; sjór gegnur uppí miðjar hlíðar“, enda vissu heimamenn hvað við var átt.  Kominn er tími til að þetta náttúrufyrirbæri fái viðeigandi og lýsandi heiti“  (VÖ).
„Sumsstaðar breytast öldurnar í stórfengleg gos; marga tugi metra í loft upp, er falla inn í voga og skúta“  (KJK; Kollsvíkurver).

Sjávarorka (n, kvk)  Orka sjávar, en helstu birtingarmyndir hennar eru sjávarfallaorka; ölduorka, dreypniorka og hitastigulsorka.  Orðið er ekki að finna í orðabókum, enda hefur lítið verið hugað að nýtingu þessarar orku hérlendis þar til safnari þessa orðasjóðs stofnaði verkefni á því sviði árið 2009; Valorku ehf.  Þau verkefni snúa að þróun sjávarfallahverfla, ölduvirkjun og rannsóknir á sjávarorku við Ísland.  VÖ hefur leitt að því rök að sjávarorka sé í heild langstærsta orkulind landsins og hvatt stjórnvöld til að hefja rannsóknir og undirbúning nýtingar á henni.  Sjá sjávarorkurannsóknir.

Sjávarorkunýting (n, kvk)  Vinnsla og hagnýting sjávarorku í formi haföldu og strauma.  VÖ hefur manna fyrstur unnið að þróun íslenskrar tækni til nýtingar á sjávarorku.  Hugmyndavinna byrjaði á unga aldri en verkleg þróun sjávarfallahverfla hófst 2008 og VÖ stofnaði Valorku 2009 til að standa fyrir henni.  Fjöldi nýrra hverfilgerða hefur komið fram og skilað góðum árangri í prófunum.  Í byrjun er stefnt að nýtingu sjávarfallastrauma með hverflum staðsettum undir ölduhreyfingu og ofan botnkyrrðar.  Enn hefur ekki fundist lausn á að beisla ölduorku, einkum vegna eyðingarmáttar brimsins þegar verst gegnir.

Sjávarorkurannsóknir (n, kvk, fto)  Rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku.  Engar slíkar rannsóknir hafa farið fram við Ísland, þó sjávarorka sé langmesta orkulind landsins; hrein og endurnýjanleg orka sem unnt er að nýta án allra umhverfisáhrifa.  Að beiðni VÖ var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþinigi um undirbúning slíkra rannsókna árið 2011.  Allir flokkar voru málinu sammála og eftir að hafa velkst um í þinginu var tillagan samþykkt samhljóða vorið 2014.  Hinsvegar eyðilagði þáverandi iðnaðarráðherra málið með því að skipa afturhaldssama hagsmunagæslumenn í nefnd sem um það fjallaði, en sniðgekk forgöngumenn þess.  Slík er hagsmunagæsla orkurisa sem einokað hafa orkumarkaðinn til þessa.  Síðari kynslóðir munu fella sinn dóm um þennan framgang; þær eiga hér mest í húfi.

Sjávarorkuver / Sjávarvirkjun (n, hk/kvk)  Tæki sem umbreytir orku sjávar, t.d. ölduorku eða sjávarfallaorku, í raforku eða annað nýtanlegt orkuform.  Ýmis þróun á sér stað í þessháttar tækni víðsvegar um heim, þó engin slík virkjun sé enn tengd helstu neyslunetum.  Líklegt er að sjávarorka verði nýtt í stórum stíl innan fárra áratuga; enda er hún umfangsmikil og endurnýjanleg orkulind sem unnt er að nýta án nokkurra þekktra umhverfisáhrifa.  Valorka ehf er eina íslenska fyrirtækið sem stundar þróun á sjávarorkutækni.

Sjóarapeysa (n, kvk)  Duggarapeysa; notað í seinni tíð yfir bláar peysur úr ullarbandi, háar í hálsmálið, sem algengar voru í Rauðasandshreppi á síðari hluta 20. aldar.

Sjóarklettar (n, kk, fto)  Sjávarklettar.  „Skammt utanvið Garðsendann byrja lágir sjóarklettar; fyrst uppað Hreggnesanum, en svo hækka þeir við Undirhlíðarnefið, við norðurenda Hnífanna“.

Sjóarlöður (n, hk)  Sjávarlöður; ágjöf.  „Svo er Hreggnesi; klettanef á bersvæði, sem næðir mikið um og sjóarlöðrið eða gufan gengur upp að“  (Ól.Sveinss; Örn.skrá Naustabrekku).

Sjóbleyða (n, kvk)  Sá sem er sjóhræddur/ þorir ekki að sækja sjó.  „Atyrti hún Guðmund ráðsmann sinn harðlega; kvað hann hina mestu sjóbleyðu sem hræddist hverja golu, og ætti varla skilið að stíga út í bát framar“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Sjóbratt (l)  Mikill bratti í átt til sjávar.  „Geldingsskorardalslækir liggja niðurundan Háhöldum og út undir Flaugarnef; vætulækir, en gras á milli og sjóbratt mjög“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).

Sjódrífa / Sjódrif (n, kvk)  Sælöður; úði sem rýkur úr öldufaldi í roki.  „Sjódrífan var svo mikil þarna í fjörunni að við urðum kollvotir við að bjarga trénu“.  „En þegar þangað kom var veðurofsinn svo, að óstætt var og sjódrifið svo mikið að lítið sást frá sér“  (MG; Látrabjarg).

Sjóðbandvitlaus (l)  Lýsing á mikilli reiði; brjálaður; kolvitlaus; trompaður; umturnaður.  „Hann varð alveg sjóðbandvitlaus af vonsku þegar hann frétti af þessum tiltektum“.

Sjóferðahugleiðingar (n, kvk, fto)  Áætlanir/bollaleggingar um sjóferð.  „Eruð þið í einhverjum sjóferðahugleiðingum?  Ég held ég fari þá að berja eitthvað í nesti“.

Sjóndepurð (n, kvk)  Slæm/döpur sjón.  „Skírnarvatnið þótti hafa lækningamátt við sjóndepurð og annarri augnveiki“  (SG; Kirkjur; Þjhd.Þjms).

Sjónvarpsgreiða / Sjónvarpskapall / Kóaxkapall / Sjónvarpsmagnari (n, kvk)  Tæki og tækjahlutar sem til þurfti svo unnt væri að ná sjónvarpsútsendingum í Útvíkum og víðar.  Sjónvarpsgreiða var loftnetið sem merkið nam; það var svo sent til bæjar um sjónvarpskapal; skermaðan „kóaxkapal“ með kjarna, en til að merkið dofnaði ekki á hinum langa flutningi var það magnað með sjónvarpsmagnara.  Sjá sjónvarp.

Sjósmár (l) Sjólítið.  „Veður var suðvestan kafaldskóf, hæglætisveður en ylgja; sjósmár“ : Um strand togarans Croupiers undir Blakk, líkl. haft eftir GG;    (EÓ; skipsströnd í Rauðasandshreppi). 

Sjóveðurslegur (l)  Líkt sjóveðri; nærri því sjóveður.  „Ekki sýndist mér hann mikið sjóveðurslegur þegar ég gekk hér útfyrir húshornið áðan“.  „Spáin er ekki sjóveðursleg næstu dagana; bölvaður norðansveljandi“!

Sjóveðurspá (n, kvk)  Spá um sjóveður.  „Ekki líkaði mér alveg þessi sjóveðurspá hjá honum“.

Sjóveikiefni (n, hk)  Það sem eykur mönnum sjóveiki.  „Skelin var svo geymd í pokum þar sem sjór féll á hana, en þegar þetta fór að eldast drapst skelin og þetta varð úldið og blátt.  Varð þetta ekta sjóveikiefni þegar lyktin af þessu blandaðist saman við þefinn af brókunum sem verkaðar voru með lýsi eða grút“  (Guðm. Jón Hákonarson; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrásetti; Árb.Barð 2004).

Skaðbrunninn (l)  Brunninn til skaða af eldi eða sól.  „Hann varaði sig ekki á sólarsterkjunni og er skaðbrunninn á bakinu“.  Orðabækur gefa upp myndina „skaðbrenndur“, sem ekki var notuð vestra.

Skaðræðisbrim (n, hk)  Stólpabrim; öskrandi brim; mikill sjógangur.  „Gætið nú að ykkur þarna undir klettunum; það er skaðræðisbrim og flanið getur kastast ansi hátt“.

Skaðræðishávaði (n, kk)  Mjög mikill hávaði.  „Steinninn skall niður á hleinina stutt frá okkur, með skaðræðishávaða.  Við vorum í öruggu skjóli uppundir, en fundum fyrir flísum úr honum“.

Skaðræðishiti (n, kk)  Brennandi hiti.  „Skaðræðishiti er nú á kaffinu“!

Skafaheiðríkja (n, kvk)  Algjörlega heiður himinn.  „Hann rignir ekki úr svona skafaheiðríkju“

Skafaheiðríkt (l)  Algerlega heiðríkt; ekki ský á himni.

Skaflaskil (n, kvk, fto)  Bil/skil á milli snjóskafla.  „Miðbrekkan er ein þykk snjódyngja; þar er ekki hægt að segja að séu nein skaflaskil“.

Skafmoldarkóf (n, hk)  Þétt skafmold.  „Mikið er gott að komast inn úr þessu skafmoldarkófi“.  Sjá moldarkóf.

Skafmoldarmökkur (n, kk)  Dimm og háreist skafmold.  „Skafmoldarmökkurinn byrgði alla sýn“.

Skaflbrún / Skafljaðar / Skaflrönd / Skaflþil (n, kvk/kk)  Hlutar skafls/snjóskafls. „Fannir hafa engar verið síðustu áratugina miðað við það sem algengt var á vetrum áður.  T.d. lagði iðulega svo háa skafla sunnanvið Láganúpsbæinn að krakkar gerðu þar veglega snjóhella.  Dyrnar í skaflþilinu voru svo háar að vel var gengt fullorðnum“.

Skafmoldarbylur (n, kk)  Skafbylur; skafhríð; hvass vindur með ofankomu og miklum skafrenningi.  „Við lentum í bölvuðum skafmoldarbyl á Hálsinum; svo dimmum að það sá ekki útúr augum um tíma“.

Skakklappalegur (l)  Ólaginn/ófimur í fótaburði; hrösull.  „Ári var maður eitthvað skakklappalegur í lásnum; Ég held maður sé bara farinn að eldast“!

Skakkyrðast (s)  Deila; rífast; verða sundurorða; fúkyrðast.  „Hann fór eitthvað að skakkyrðast yfir því að hrognasigtið væri ekki á sínum stað, svo ég minnti hann á hver ætti það“.

Skammargrey / Skammarkvikindi / Skammarræfill / Skammarskarn / Skammartuska / Skammarskinn (n, hk/kk/kvk)  Gæluheiti sem einkum eru höfð um kött, en stundum um aðrar skepnur einnig, og jafnvel í vorkunnartóni um börn.  „Ég gat ekki verið að skamma kattaróvænið; henni er það ekki láandi skammarskarninu þó hún fari í fiskinn ef hann er skilinn eftir óvarinn“!

Skammarkornið (n, hk, m.gr)  Áhersluorð í neikvæðum setningum:  „Nei skammarkornið; heldurðu að þetta geti verið rétt“?  „Ég held skammarkornið ekki“. 

Skammarkornið það ég veit / Skammi mig að ég veit / Skammi það ég veit (orðtak)  Ég get bara alls ekki munað (vitað) það.  „Það slapp eitthvað af fé norður í Hryggi, en skammi mig að ég veit hvað það var margt“. 

Skammarskot (n, hk)  Feilskot; skot sem ekki hæfa.  „Þetta eru nú orðin fjári mörg skammarskot í röð“. 

Skammarverðlaun (n. hk, fto)  Óvirðing sem þeim er sýnd sem tapar oftast, þegar spiluð er félagsvist.  „Oft var spiluð félagsvist á spilakvöldum í Fagrahvammi.  Í lok kvöldsins voru veitt vegleg aðalverðlaun og mun óverulegri skammarverðlaun, en þó ekki þannig að óvirðing væri að“.

Skammbitasperra (n, kvk)  Sperra í húsþaki, sem hefur skammbita sér til styrkingar, en liggur ekki á mæniási.  „Í húsþökum í Kollsvík á síðari tímum voru skammbitasperrur algengari en ásaþök, þó þeu þekktust einnig“.

Skammdegisvonleysi (n, hk)  Vonleysi/svartsýni sem grípur suma í mesta skammdeginu/ að vetrarlagi.  „Þetta var ekkert skammdegisvonleysi, heldur gert þegar sól var hæst á lofti og bjartsýni á best með að njóta sín“  (ÞJ; Árb.Barð 1968).

Skammfeila sig (orðtak)  A.  Gera mistök; rugla; víxla.  „Nú skammfeilaði ég mig alveg á þessu; ég setti lifrina ofaná mörinn í kassanum“.  B.  Skjóta skammarskot; skjóta framhjá.  „Ég skammfeilaði mig illilega þarna“!

Skammfeilaður (l)  Um taug/vað/rafstreng; trosnaður/skorinn/bilaður/veiklaður/leiðir út.  „Þið yfirfarið vaðina vel áður en þið setjið mann í þá; hvort þeir eru einhversstaðar skammfeilaðir“.  „Einhversstaðar er rafstrengurinn skammfeilaður; öryggið fyrir hænsnakofann brann yfir“. 

Skammi sú ögn (-in) (orðtak)  Ég bara veit alls ekkert um það.  „Einhvern afla fengu þeir, en skammi sú ögn að ég veit hvað það var mikið“.  „Skammi sú ögn að hér sé nokkur rigning; það er lítið að marka spána“! 

Skankaband (n, hk)  Lykkja/hringur úr grönnu garni/seglgarni sem brugðið er afturfyrir banakringluna á kjötskrokki strax eftir slátrun og verkun, og framfyrir völuna á hvorum skanka/framfæti, til að skrokkurinn stirðni í þeim stellingum.

Skaphundur / Skapofsamaður / Skapvargur (n, kk)  Sá sem er fljótur að reiðast heiftarlega/ verður bráðillur.  „Hann er óttalegur skaphundur; fljótillur með afbrigðum“.  „Það er vissara að fara gætilega í sakirnar við slíka skapofsamenn“.

Skaplegheita veður (orðtak)  Ágætt/þokkalegt/meinlaust veður.  „Það er komið skaplegheita veður, svo við ættum að leggja af stað bráðlega“.

Skarfaket (n, hk)  Ket af skarfi.  Skarfur var nokkuð skotinn til matar, líkt og mávur, fyrr á tíð; enda ágætur matfugl og matarmikill.  Hann getur þó stundum verið undirlagður af hringormi.

Skarpheitur (l)  Mjög heitur.  „Til að bræða úr lögninni gat dugað að hella yfir hana skarpheitu vatni“.  Varaðu þig á kaffinu; það er skarpheitt“. 

Skarphygli (n, kvk)  Glöggskyggni; athygli; skynsemi.  „Enginn stóð honum á sporði um greind og skarphygli“.

Skarpnefjaður (l)  Hvassnefjaður; með hvasst/þunnt nef.  „Þetta er hin gjörvulegasta kona, en nokkuð grannholda og skarpnefjuð“.

Skarpþorna (s)  Þorna hratt; breyskja af.  „Við skulum hinkra ögn með sláttinn; jörðin skarpþornar fljótt í þessu breyskjusólskini.

Skarpþurrkaður (l)  Þurrkaður hratt/við skarpan hita.  „Þegar vöknar í rót virðast þessi leirhnoð minnka og mýkjast, samt verður ekkert hey af svona slægju sandlaust þó það sé margrakað upp og skarpþurrkað“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Skáldaður af óhreinindum/skít (orðtak)  Mjög óhreinn/skítugur; með skánir af óhreinindum.  „Mikið ankolli ertu nú skáldaður af skít drengur; þér veitti víst ekki af góðu þrifabaði“!  Svo virðist sem orðið „skáldaður“ hafi ekki þekkst víðar í þessari merkingu.  Það var oftast notað í þessu orðasambandi.  Annars merkti orðið „sköllóttur/hárlaus“.  Mjög skítugt búfé virðist vera hárlaus, og kann merkingin þannig að hafa yfirfærst.

Skálmsprek (n, hk, fto)  Álmur á brókarkvísl, sjá skinnklæði.  „Flestir munu þó hafa átt og notað brókarkvíslar.  Þær voru í fjórum pörtum; kvíslarfótur rekinn ofan í jörðina; kvíslarhnakkur með hringlaga gati í miðjunni en tappi á fætinum gekk upp um.  Önnur tvö göt voru á kvíslarhnakknum; sinn í hvorn enda frá hliðarfleti.  Í þessi göt var skálmsprekum stungið og brókin færð á kvíslarnar.  Ávallt snerust skálmarnar undan vindi og blés þá inn í brókina svo hún þornaði næsta fljótt, en mátti ekki ofharðna“  (KJK; Kollsvíkurver).

Skeggjajúði  (n, kk)  Sá sem er með áberandi eða tætingslegt skegg.  „Kemur þá þessi skeggjajúði“.  Sagt þannig í máli Kollsvíkinga og nágranna; annarsstaðar þekkist „skeggjúði“.

Skeggvari (n, kk)  Lítill nestispoki.  „Gleymdu svo ekki skeggvaranum“.  Sköggvari mun annarsstaðar á landinu hafa verið notað um mal sem hékk aftan og framaná; með gati fyrir höfuð; einnig nefndur helsingjapoki.

Skeinisblaðsvirði (l)  Verðgildi eins skeinisblaðs.  „Mér finnst nú lítið til um þessa nýju stjórnarstefnu; held nú bara að hún sé ekki skeinisblaðsvirði“!

Skeinisblað / Skeinisbréf / Skeinispappír (n, hk)  Bréf til að þurrka endaþarm eftir hægðir.  „Þess var gætt að á kamrinum væri alltaf nóg af skeinispappír.  Flokksmálgagn Framsóknarmanna gegndi þar veigamiklu hlutverki, en einnig mátti nota umbúðir hans, þunnan pappírshólk, með sæmilegu móti.  Á hinn bóginn var vonlaust að nota „Fakta om Sovietunionen“ sem stundum slæddist með í bunkanum.  Það rit reyndist þó mjög gagnlegt þeim kamarnotendum sem voru að byrja að stauta sig framúr dönsku og alþjóðastjórnmálum“.

Skektuhorn (n, hk)  Gæluheiti á lítilli skektu.  „Hann lagði rauðmaganet og vitjaði um það á skektuhorninu“.

Skelfingarósköp (n, hk)  Upphrópun/áhersluorð.  „Mikil skelfingarósköp er þessi eilífa rigning nú leiðinleg“.

Skelfisksát (n, hk)  Neysla á skelfiski.  Hún hefur eflaust alltaf verið töluverð þar sem skelfiskur var á fjörum, og lífsbjörg í harðindum.  „Vitað er að Sauðlauksdalskirkja verður mjög snemma eigandi að Hvalskeri og Skersbugnum og að þarna var mikið um að menn kæmu seinni hluta vetrar og að haustinu að afla sér þessarar bjargar.  Skelfisksát var þá almennt um þessar slóðir.  Til daæmis var sett bænhús í kaþólskum sið vergna þess fólks er þarna safnaðist saman vor og haust“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Skeljasandslag (n, hk)  Jarðvegslag af skeljasandi.  „Allur neðri hluti Breiðavíkur.. er þakinn þykkur skeljasandslagi“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Skelkjast (s)  Verða mjög hræddur/skelfdur.  „Það er óþarfi að skelkjast þó gefi dálítið á hérna í röstinni“.

Skellibylur (n, kk)  Kastvindur; kasthviða. Mjög snörp og hvöss vindhviða niður dalverpi eða vík í aflandsvindi.  „Það liggur við að karlgarminum finnist það spennandi, eftir allt hans amstur og bardús, að eiga nú að upplifa einn af þessum frægu skellibyljum“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru). 

Skeltekja (n, kvk)  Afli af skel þegar hennar var aflað til beitu.  „Svona gekk þetta æ ogfan í æ; að draga plóginn og tæma pokana, uns sæmileg skeltekja var fengin og þreyta og svefnleysi fór að sækja á mannskapinn“  (KJK; Kollsvíkurver; sjá kúskel). 

Skelþorna / Skelþurr (s/l)  Þornuð skán utaná en rakara inní.  „Riklingurinn...var venjulega þurrkaður.  Flökin hengd upp og látin skelþorna...“  (KJK; Kollsvíkurver).

Skemmri skírn / Skemmriskírn (orðtak/n, kvk)  A.  Skírn barns af óvígðum manni.  Í kaþólskri kristni fyrr á öldum var álitið mjög mikilvægt að allir yrðu skírðir fyrir andlátið til að einhver von væri til að þeir yrðu sáluhólpnir; einnig börn sem séð varð að myndu deyja fjótlega eftir fæðingu.  Því varð hver fullorðinn maður að kunna faðirvor og trúarjátningu til að vera reiðubúinn að skíra skemmri skírn.  Er kveðið á um það í kristinrétti hinum forna frá því kringum 1130.  Konur máttu þó helst ekki skíra skemmri skírn, ef völ var á karlmanni til verksins.  B.  Líkingamál um verk sem vinna þarf í hasti, þó ekki verði það jafn vandað og vera skal; verk sem virðist flausturslega unnið.  „Þeir voru búnir að mála húsið, en mér fannst vera óttaleg skemmriskírn á því“.

Skepnuhald / Skepnubúskapur (n, kk)  Búskapur með sauðfé og/eða stórgripi, til aðgreiningar frá t.d. garðyrkjubúskap og ferðaþjónustu.  „Í Rauðasandshreppi hefur frá örófi alda verið stundaður skepnubúskapur á hverri jörð, og sumsstaðar útræði að auki; allt framá 20. öld.  Þá fóru að koma upp ýmsir aðrir atvinnuhættir“.

Skepnuheldur (l)  Garður, girðing eða annað hólf sem skepnur komast ekki gegnum.  „Á kambinum er hlaðinn túngarður sem stendur sumstaðar mjög vel. ...Fyrir ofan þennan garð voru hlaðnir veggir um kartöflugarða sem seinna standa það vel að þeir væru enn skepnuheldir með litlum lagfæringum“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).

Skerjabálkur / Skerjafláki / Skerjaflös (n, kk)  Mörg samliggjandi sker; samliggjandi hleinar.  „Að norðanverðu er skerjabálkur sem kallast Bjarnarklakkar“  (HÖ; Fjaran).  „Undan Hænuvíkurnúpnum innanhallt er mikil skerjaflös sem getur verið varasöm þegar siglt er grunnt með landi um hálf