Öðlast (s)  Fá; eignast; áskotnast.  „Ég hef aldrei öðlast neina þolinmæði fyrir því að láta traðka á mér“.

Öðlingsdrengur / Öðlingsmaður / Öðlingspiltur / Öðlingur (n, kk)  Mjög vandaður/góður maður/drengur.  „Ég hef sjaldan kynnst öðurm eins öðlingsdreng“.

Öðru hverju/hvoru / Öðruhverju / Öðruhvoru (orðtak/ao)  Af og til; endrum og sinnum; annað slagið.  „Löðrið gekk yfir bátinn öðru hvoru.  Þó tókst Árna að forða honum frá stærstu sjóunum“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Öðru megin / Öðrumegin (orðtak/ao)  Annarsvegar; á annarri hliðinni.  „Þakið er sandblásið öðrumegin“.

Öðru nær / Öðrunær (orðtak/ao)  Alls ekki; þvert á móti.  „Hann hélt að þetta hefði gengið andskotalaust, en það var nú öðru nær.  Það munaði öngvu að við misstum allan fjárhópinn niður í ganga“.

Öðru sinni / Öðrusinni (orðtak/ao)  Í annað sinn/skipti.  „Ég tek ekki eins létt á þessu ef það skeður öðru sinni“! „Hann reynir þetta ekki öðrusinni á næstunni“.

Öðruhvorumegin (fs)  Á annan hvorn vegin; hvoru megin sem er.  „Ég lýk þessu öðruhvorumegin við helgina“

Öðrum fremur (ortak)  Fremur/heldur en aðrir; framar öðrum.  „Hann hefur öðrum fremur fórnað sér fyrir þetta málefni“.

Öðrum þræði (orðtak)  Í aðra röndina; meðal annars.  „Um leið og kerlingin hneykslaðist yfir þessum

Öðruvísi (ao)  Frábrugðið; á annan hátt/veg; með öðrum hætti.  „Þetta mætti líka gera öðruvísi“.

Öðruvísi mér áður brá (orðatiltæki)  Viðhaft þegar eitthvað hefur farið á þveröfugan veg en áður.  „Kirkja þeirra í Saurbæ fauk fyrir nokkrum árum.  Hafa þeir enga síðan, en fé skortir til kirkjubyggingar.  Öðruvísi mér áður brá; þegar Markús Gíslason í Sauræ sótti við í tvær kirkjur til Noregs, í kringum árið 1180“  (ÞJ; Árb.Barð 1971).

Öðuskel (n, kvk)  Aða; stór ílöng skel/samloka sem festir sig með þráðum á steina o.fl.  Rekur oft á fjörur áföst þarahausum og þykir herramannsmatur til átu.  Skeljarnar voru stundum notaðar í kubbabú barna og munu áðurfyrr stundum hafa verið notaðar sem skeiðar/spænir þegar annað var ekki við hendina.  Sjá aða.

Öfgafullur (l)  Róttækur; gengur langt í skoðunum; stækur; aðhyllist róttækar hugmyndir.  „Hann er helst til öfgafullur í sínum skoðunum á þessu“.

Öfgakennt (l)  Sem einkennist af öfgum; róttækt; ýkt.

Öfgalaus (l)  Laus við öfgar/róttækni/ýkjur.

Öfgamaður (n, kk)  Maður sem er róttækur/ sem tekur djúpt í árinni.  „Ég er enginn öfgamaður í þessum efnum“.

Öfgar (n, kvk, fto)  Ýkjur; róttækni í skoðunum/ummælum.  „Þetta kalla ég öfgar af versta tagi“!  „Við skulum nú ekki fara út í neinar öfgar“.

Öflugur (l)  Kröftugur; aflmikill; sterkur; máttugur.  „Þarna fékkstu asskoti oflugan vinnumann“!  „Hann er öflugur talsmaður landsbyggðarfólks“.  „Eru máttarviðirnir nógu öflugir til að bera þetta“?  „Það var komið öflugt norðurfall“.

Öfugmælavísa (n, kvk)  A.  Vísa þar sem staðreyndir eru afbakaðar.  B.  Líking um ranga fullyrðingu; „Þetta hljómar bara eins og öfugmælavísa í mínum eyrum“!

Öfugmæli (n, hk)  Fullyrðing sem er þvert gegn því sem rétt er.  „Þetta eru alger öfugmæli“.

Öfugsnúinn (l)  A.  Um það sem er/snýr öfugt eða andstætt viðureignar.  Merkir í raun band sem spunnið er með rangri snúningsátt/ annarri snúningsátt en venja er til.  „Mér finnst alltaf öfugsnúið að sitja hérna megin í bílnum eftir að ég hætti að aka sjálfur“.  B.  Andvígur „Hann var öfugsnúinn þessari hugmynd“.

Öfugstraumur / Öfugstreymi (n, kk/hk)  A.  Straumur sem gengur í öfuga átt við það sem eðlilegt getur talist.  T.d. þegar norðurstraumur er á yfirborði sjávar vegna stífrar sunnanáttar, þegar í raun ætti að vera suðurfall.  B.  Straumur sem ekki er hentugur því sem á sjó er unnið, t.d. þegar net eða færi stendur undir bát vegna þess að fallaskipti hafa orðið eða staðið er rangt að veiðum.  „Það er ómögulegt að draga í þessu öfugstreymi; við skulum hleypa þessu niður og fara í hitt bólið“.  C.  Líkingamál um málefni sem gengur manni í óhag; andstreymi. 

Öfuguggaháttur (n, kk)  Rangsnúinn hugsunarháttur; furðulegheit.  „Mér finnst það óttalegur öfuguggaháttur af stjórnvöldum að taka þann fiskveiðirétt af sjávarjörðum sem þær hafa haft frá landnámi og gefa hann einhverju uppstríluðu hvítflibbaliði sem aldrei hefur migið í saltan sjó“!

Öfuguggi (n, kk)  A.  Loðsilungur; þjóðsagnafiskur sem kvað hafa alla ugga öfugsnúna; vera loðinn; synda afturábak og vera baneitraður.  Hefur ekki veðst í stöðuvötnum vestra, svo vitað sé til.  B.  Maður er þykir einstaklega kynlegur í háttum; þverhaus; níðingur.

Öfugumegin (ao)  Ekki réttu megin við.  „Þegar við vorum búin að færa bátinn ofar ... sáum við skip á siglingu inn fjörðinn.  Það stefndi hinsvegar öfugumegin inn, miðað við Patreksförð“  (Guðrún Grímsdóttir; Útkall við Látrabjarg).

Öfugur (l)  A.  Rangur; skakkur; hinsegin.  „Það er öfugur skrúfgangur á þessum bolta“.  B.  Æfur; bálillur.  „Hann varð alveg öfugur af vonsku við þessa hrekki“.

Öfug fæðing (orðtak)  Ungviði fæðist með afturhluta á undan höfði. 

Öfugur austnyrðingur (orðtak) ....óviss merking....  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Öfugur og snúinn (orðtak)  Mjög afundinn/fúll/andsnúinn.  „Ég reyndi að tala um fyrir honum, en hann var alveg öfugur og snúinn í þessu máli“.

Öfugur straumur (orðtak)  Mótstraumur.  „En hann komst ekki norður víkina þegar uppi var öfugur straumur“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli).

Öfugþróun (n, kvk)  Þróun sem gengur gagnstætt því sem eðlilegt þykir; afturför.

Öfund / Öfundsýki (n, kvk)  Það að öfunda/ sjá ofsjónum yfir gæfu/velgengni annarra.  „Þetta er nú bara öfund“!

Öfunda (s)  Sjá ofsjónum yfir gæfu/velgengni annarra.  „Mikið öfunda ég hann stundum af þolinmæðinni“.

Öfundarauga (n, hk)  Sjá líta öfundarauga.

Öfundast út í (orðtak)  Sýna öfund yfir.  „Það þýðir ekkert að öfundast útí aðra; það verður hver að bjarga sér“!

Öfundsjúkur (l)  Sem öfundast út í eitthvað; sem sýnir öfund.  „Hann er bara öfundsjúkur yfir þessu“!

Öfundsverður (l)  Sem vert er að öfunda.  „Hann er ekki öfundsverður af því að standa í þessu“.

Öfundsýki (n, kvk)  Öfund.  „Það vottar fyrir öfundsýki hjá nágrannanum yfir nýja traktornum“.

Öggulítill (l)  Agnarsmár; obbolítill; pínulítill.  „Lyftu hallamálinu öggulítið í hægri endann“.

Ögn (n, kvk)  Arða; smávegis.  Oftast notað í merkingunni „dálítið“; til áhersluauka:  „Ég er nú ögn þreyttur eftir smalamennskurnar“.  „Fjandans sú ögnin að þarna væri nokkur kind“!  „Skammi sú ögnin að ég veit þetta“.  „Fari bölvuð sú ögnin; hér er ekkert nema ördeyðan“!  „Við bíðum ögn lengur“.  „Ég renndi færi á Blettunum en fékk öngva ögn“.  „Féð hefur étið þetta fóður upp til agna“.  „Láttu mig hafa ögn meira af sykri“.  „Við þurfum, held ég, að staldra ögn við hjá henni ömmu þinni, Halldóru Mikkalínu Halldórsdóttur“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

-ögn (n, kvk, ending)  -lús; viðskeyti nafnorða til að lýsa litlu magni.  „Gefðu mér nú tóbaksögn í nefið“.  Áttu nokkra sykurögn útí kaffið fyrir mig“?

Ögra (s)  Espa; mana; stríða.  „Þið ættuð nú ekki að vera ögra honum of mikið strákar; hann getur rokið upp“!

Ögrun (n, kvk)  Það að ögra; stríðni; erting; áskorun.  „Hann stóðst ekki þessa ögrun“.

Ögun (n, kvk)  Það að aga/stjórna/temja; tamning; sjálfsstjórn. 

Ögurstund (n, kvk)  A.  Raunveruleg merking; tíminn sem eitt sjávarfall stendur yfir.  Orðstofninn er sami og „ægir“.  B.  Jafnan notað um mikilvæga tímasetningu.  „Nú er komin ögurstund; nú verðum við að ákveða hvað við ætlum að gera“.  Vísar e.t.v. til þess að stór skip eru jafnan sett til sjávar um háflæði til að þurfa ekki að basla þeim um útfiri.  Því er mikilvægt að á flæðinni liggi fyrir hvort sjósetja skal.  En e.t.v. vísar þetta til fallaskipta frammi á sjó; þegar veiðivonin er mest.

Ökkladjúpur (l)  Nær upp í ökkla.  „Það er ökkladjúpt vatn ofaná ísnum“.

Ökkladýpt (n, kvk)  Dýpt á vatni/snjó sem svarar því að nái upp á ökklakúlu.

Ökklakúla (n, kvk)  Kúlan beggjamegin á ökklaliðnum, sem sýnileg er á öllu fólki.  „Ég fékk fjári leiðinlegt sár á innri ökklakúluna á hægra fæti, sem hefur ekki viljað gróa almennilega“.

Ökklasíður (l)  Um fatnað; sem nær niður á ökkla.

Ökklasnjór  (n, kk/ orðtak)  Um snjódýpt; snjór sem nær mönnum í ökkla.

Ökkli (n, kk)  Liðurinn á fæti, milli fótar og mjóaleggjar.  Sjá ýmist í ökkla eða eyra.

Ökufær (l)  A.  Um ökutæki; sem unnt er að aka; í ökufæru standi.  B. Um bílstjóra; er fær um að aka.  „Ég held að hann sé varla ökufær eftir partíið“.

Ökulag (n, hk)  Aksturslag; háttur á akstri.  „Hverskonar ökulag er það eiginlega að halda sig vitlausu megin á veginum“?!

Öl er innri maður / Öl sýnir innri mann (orðatiltæki)  Ölvun breytir mönnum á ýmsan hátt.  Upprunalega mun orðatiltækið vera; „öl er annar maður. 

Öld (n, kvk)  A.  Hundrað ár.  B.  Tímabil.  T.d. bílaöld; enska öldin; óöld.

Öldin önnur (orðtak)  Annar siður; aðrir tímar.  „Þá var öldin önnur, þegar Kollsvíkin iðaði svo af lífi að þar var starfandi sérstakt ungmennafélag og sérstakur barnaskóli“.  „Nú er öldin önnur; annar siður./  Hvað er upp og hvað er niður? “ (JR; Rósarímur). 

Öldóttur (l)  Ósléttur; með öldum; gáróttur; hryggjóttur. 

Öldubarningur (n, kk)  Róður í mikilli öldu.  „Það var öldubarningur framá lægið“.

Öldubrjótur (n, kk)  Það sem brýtur öldu/báru/sjó.  „Í brimi sést glöggt hve boðarnir eru góðir öldubrjótar“.

Öldudalur (n, kk)  Lægð milli ölduhryggja.

Öldufaldur (n, kk)  Ölduhryggur; efsti hluti öldu.  „Nú var útilokað að sjá bát þótt nærri væri, nema svo hittist á að báðir æru uppi á öldufaldi samtímis“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Öldugangur (n, kk)  Gutlandi; órói á sjó.  „Bölvaður öldugangur er frá þessum stóru skipum; það er nú óþarfi hjá þeim að þvælast hér upp undir netalögnum“!

Öldugjálfur (n, hk)  Smábára; gutlandi ölduhljóð.  „Það er notalegt að sofna við öldugjálfrið frammi á legunni“.

Öldugutlandi / Öldukast (n, kk/hk)  Nokkur sjór/veltingur; allnokkur bára.  „Hann er að auka þennan öldugutlanda“.  „Hann lagði inn eitthvað öldukast um miðjan daginn“.

Ölduhrókur (n, kk)  Nýyrði í íslensku máli; búið til af Valdimar Össurarsyni frá Láganúpi og er heiti á uppfinningu hans; tæki til að virkja ölduorku til raforkuframleiðslu með færslu hreyfingar af fljótandi baujum niður á ás sem snýst neðan yfirborðs.  Heitið nær einnig yfir önnur tæki til sömu nota.

Ölduhryggur / Öldukambur (n, kk)  Hátoppur öldu; báruhryggur; hæðin milli öldudala.

Ölduhæð (n, kvk)  Mæld hæð öldu milli öldudals og öldutopps.

Öldukvika (n, kvk)  Nokkur sjór.  Oftast stytt í kvika.

Öldulítill (l)  Sjólítill; tiltölulega sléttur sjór.

Öldungis (ao)  Mjög; afar.  Oft notað til áhersluauka.  „Ég er nú svo öldungis hissa“.  „Ég var bara öldungis grallaralaus í þessum efnum“.  „Þarna var bara öldungis ekki neitt að hafa“.  „Þetta er ekki öldungis rétt“.

Öldungur (n, kk)  Gamalmenni; sá sem er aldraður/gamall. 

Ölduorka (n, kvk)  Orka í sjávaröldum.  Ölduorka er gríðarlega umfangsmikil við Ísland, og líklega mesta orka landsins að umfangi, þó enn sé nýting hennar ekki hafin.  Við suðurströndina er áætlað að um 68 kW orku séu í hverjum lengdarmetra meðalöldu, eða 68 MW á km.

Öldurót (n, hk)  Allmikill sjór; brim.  „Það er hætt við að hann seti einhvern skít í net í svona ölduróti“.

Öldusig (n, hk)  Sver undiralda.  „Eitthvað finnst mér hann vera að auka þetta öldusig“.

Öldusláttur (n, kk)  Ókyrrð í sjó; nokkur sjógangur.  „Það er erfitt að hanga á þessu í svona ölduslætti“.  „Gengur brátt í illa átt;/ upphefst tími rysju./  Ölduslátt með eðli grátt/ elur máttug vindagátt“  (JR; Rósarímur). 

Öldustokkur (n, kk)  Á bát; borðstokkur.  Borðstokkur var þó einatt notað í seinni tíð.

Öldusúgur (n, kk)  Öldugangur/sog við ströndina; lárétt færsla sjávar við land í miklum sjógangi.  Oftast stytt í Súgur“ í máli Kollsvíkinga.

Öldutoppur (n, kk)  Ölduhryggur; hæsti staður öldu/ölduhryggjar.  „Mér sýndist ég sjá baujuna þarna á öldutoppi“.

Ölduvaðall (n, kk)  Tíðar öldur en e.t.v. ekki mikill sjór.  „Hvaðan kemur þessi ölduvaðall allt í einu“?

Ölduvirkjun (n, kvk)  Virkjun sem nýtir orku haföldu til raforkuframleiðslu.  Tæknin er í þróun og nokkur þróunarverkefni eru í tilraunakeyrslu víðsvegar um heiminn þó ekkert þeirra sé enn (2014) komið í rekstur.  Ein slík virkjun er í þróun á Íslandi, af skrásetjara þessarar orðaskrár, upprunnin í Kollsvík.

Ölduvottur (n, kk)  Lítilsháttar bára; sjólítið.  „Það er dálítill ölduvottur, en ekkert sem heitir“.

Ölföng (n, hk, fto)  Áfengi til drykkju.  „Hann sagði að þeir ættu næg ölföng til að vera mígandi fullir það sem eftir væri vikunnar“.

Ölhneigður / Ölkær (l)  Vínhneigður; fyrir sopann.  „Nokkuð er hann orðinn ölkær í seinni tíð“.

Ölkelduvatn (n, hk)  Kolsýruríkt vatn, sem inniheldur loftbólur af kolsýru og var talið heilsusamlegt til drykkjar.  „Í Ölkelduskriðum austan í Stakkafellinu er vatnsuppspretta og er vatnið mjög kolsýruríkt.... Laus kolsýra kemur líka fram ofarlega í Dagmálaskriðunni, beint á móti túninu í Sauðlauksdal.  Virðist hún koma þar upp um sprungu milli steina; þétt við lind eða lækjarfarveg, rétt þar sem graslendið tekur við í urðarfótunum“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Öll él birtir upp um síðir (orðatiltæki)  Ástand lagast einatt, jafnvel þó illa líti út um tíma.  Líkingin er oft notuð um andstreymi í lífi manna.  Einnig; oft kemur skin eftir skúr.

Öll járn standa á (einhverjum) (orðtak)  Einhver stendur í stríði/deilum/andsvörum við marga í einu; athygli allra beinist að einhverjum.  „Nú standa öll járn á sýslumanninum; hann verður að svara fyrir þetta“.  Vísar til orrustu; að margir ráðist að einum; að einhver eigi við ofurefli að etja.

Öll sund lokuð (orðtak) Engir kostir sjáanlegir; allt ómögulegt; fokið í flest skjól.  „Honum fannst öll sund vera lokuð þegar bíllinn bilaði, en ég ákvað að skutla honum svo hann næði fluginu“.  Líking úr sjómannamáli; allar leiðir orðnar ófærar, t.d. vegna brims eða ísa.  Sjá finnast/sýnast/virðast öll sund (vera) lokuð.

Öll von úti (orðtak)  Algert vonleysi; allar bjargir bannaðar; öll sund lokuð.  „Þegar öll von virtist úti datt mér ráð í hug sem dugði“.

Öll vötn falla til Dýrafjarðar (orðatiltæki)  Allt bendir/vísar í sömu átt; allar líkur eru á.  „Mér sýnist öll vötn falla til Dýrafjarðar varðandi málalokin; þessi tillaga verður felld“.  Vísat til atviks í Gísla sögu Súrssonar, þegar Vésteinn er á leið yfir Gemlufallsheiði til veislu í Haukadal, en hittir menn Gísla sem vara hann við því að halda áfram.  Segir hann þá; „Satt eitt segið þið; og myndi ég aftur hafa horfið ef þið hefðuð hitt mig fyrr.  En nú falla vötn öll til Dýrafjarðar og mun ég þangað ríða; enda er ég þess fús““.

Öllsömul (fn)  Öll.  „Komiði nú öllsömul blessuð og sæl“.

Öllu- (forskeyti)  Heldur /ívið meira/stærra/fleira o.fr.  Mild stigbreyting  lýsingaroðs.  Oft þannig framborið að áherslulaust forskeytið rennur saman við lýsingarorðið og er því í raun eitt orð bæði.  „Það er öllu meira í þessari fötu en hinni“.  „Það er öllu bjartara yfir en í gær“.

Öllu gamni fylgir nokkur alvara (orðatiltæki)  Auðskilin og mikið notuð speki.

Öllu má (nú) nafn gefa (orðtak)  Þetta stendur varla undir nafni; þetta er lítið meira en nafnið.  „Glæsileg varða segir þú.  Ja öllu má nú nafn gefa; ég myndi frekar kalla þetta grjótrúst“!.

Öllu má (nú) ofbjóða/ofgera (orðatiltæki)  Svo mikið má leggja/reyna á alla hluti að þeir láti undan/bili.

Öllu meira (orðtak)  Heldur meira; sjónarmun meira.  „Þetta er öllu meiri sjór en var í gær“.

Öllu tjaldað til (orðtak)  Allt notað sem tiltækt er.  „Öllu var tjaldað til af fötum sem voru á heimilinu“  (Ólöf Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Öllum geta orðið á mismæli / Öllum getur mismælst (orðtatiltæki)  Allir eiga leiðréttingu orða sinna; öllum getur orðið það á að segja meiningu sína á rangan hátt.

Öllum getur skjöplast (orðtak)  Öllum getur orðið á; allir geta haft rangt fyrir sér; allir geta gert mistök.

Öllum getur yfirsést / Öllum kann yfir að sjást (orðatiltæki)  Allir geta gert mistök/yfirsjónir. 

Öllum kemur ellin á kné ( orðatiltæki)  Allir þurfa að lúta fyrir elli og dauða, þó hrörnun sé misjöfn.

Öllum lokið (orðtak)  Yfirgengilega hissa/hræddur/hneykslaður.  „Kötturinn horfðist í augu við hundinn um stund, en þegar hundurinn nálgaðist var honum öllum lokið, og flúði“.  Oft notað sem upphrópun:  „Nú er mér öllum lokið“, þegar menn eru mjög hissa/hneykslaðir.

Öllum orðum fylgir ábyrgð (orðtatiltæki)  Menn þurfa alltaf að geta staðið við orð sín og skýrt þau.

Öllum stundum (orðtak)  Alltaf; allar stundir.  „Ég var öllum stundum að lesa þegar færi gafst til þess“.

Ölmusa (n, kvk)  Gjöf til þess sem er í neyð; fátækrastyrkur.  „Ég sagði henni að þetta væri engin ölmusa, heldur uppgjör á smáræði sem bóndi hennar heitinn hefði átt hjá mér“.

Ölmusufólk / Ölmusulýður (n, hk/kk)  Fólk sem þarf að þiggja styrki/gjafir sér til framfærslu.  „Einhverja sleikju þarf nú til að fóðra allan þennan ölmusulýð í stjórnkerfinu“!

Ölmusugjöf (n, kvk)  Ölmusa; gjöf til styrktar fátækum.  „Þetta voru í raun ölmusugjafir“.

Ölmusumaður (n, kk)  Sá sem þarf að lifa á gjöfum annarra.  „Ég hef ekki hingað til verið ölmusumaður og vil helst ekki byrja á því núna“.

Ölmususkepna (n, kvk)  Ölmusumaður; manneskja sem þarf að lifa á framfæri annarra; þurfalingur.  „Ætli það sé nú ekki betra að hokra áfram og reyna að bjarga sér, heldur en að flytja á mölina og lifa eins og hálfdauð ölmususkepna úti í horni hjá einhverjum gróssera“!

Öln (n, kvk)  Alin; lengd framhandleggs frá oldboga framá lengstu fingurgóma.  Sjá alin.

Ölnbogi (n, kk)  Fyrra heiti á því sem nú heitir olnbogi.

Ölóður (l)  Utan við sig af of mikilli vínneyslu; ær af drykkjuskap.

Ölæðisbull / Ölæðisrugl / Ölæðisþvaður (n, hk)  Órökrétt tal manns í vímu eftir drykkju. 

Ölslugimbur / Ölsluhrútur / Ölslulamb (n, kvk/kk/hk)  Lamb sem talið er vænlegt til lífs.  „Þetta eru asskoti státnir tvílembingar og vel ættaðir; þetta gætu líklega orðið ölslulömb“.

Ölvaður (l)  Drukkinn; hífaður; kenndur; brenglaður af vínneyslu.  „Þeir voru báðir all ölvaðir“.

Ölvun (n, kvk)  Það að vera ölvaður; ástand ölvunar; drykkjuskapur.

Ölæði (n, hk)  Víma; brjálsemi sem orsakast af víndrykkju.  „Það afsakar ekkert þó þetta hafi verið gert í ölæði“!

Ömmubarn (n, hk)  Barnabarn konu.  „Hún hélt mikið uppá ömmubörnin“.

Ömun (n, kvk)  Ami; leiði; skapraun.  „Hann hafði alla tíð nokkra ömun að þessu viðurnefni“.

Ömunarlega / Ömurlega (ao)  Skelfilega; hryllilega; mjög leiðinlega.  „Þetta er ömunarlega leiðinlegt sarg“!  „Eftir þetta ömurlega slys lögðust fyglingar af“.

Ömurlegur (l)  Hryggilegur; sorglegur; átakanlegur; leiðinlegur.  „Það var ömurleg sjón að sjá, þegar bjargræði margra heimila var mokað og dregið uppúr sandskafli“  ... „Það er ömurlegt að hugsa til þess að ekkert skuli varðveitt, er geymi minjar gamla tímans“ (KJK; Kollsvíkurver).

Ömurleiki (n, kk)  Það að vera átakanlegur; hryggilegur; leiðinlegur; ömurlegur.

Önd (n, kvk)  A.  Fugl af andaætt, t.d. stokkönd.  B.  Andi; lífsandi; andardráttur.  „Ég stóð á öndinni þegar ég kom upp á brekkubrúnina“.  C.  Anddyri; forstofa; inngangur í hús.  Sjá anddyri.

Öndun (n, kvk)  A.  Andardráttur; neysla lífveru á súrefni.  B.  Loftrás t.d. að vél/brunahreyfli.

Öndunarvegur (n, kk)  Loftrásin frá munni um barka niður í lungu. 

Öndvegi (n, hk)  A.  Sæti húsráðanda, sem í skálum að fornu var staðsett gegnt dyrum/anddyri hússins.  „Önd-„ merkir það sem er á móti; „vegur“ merkir leiðin inn í húsið.  Öndvegið var mesti virðingarstaður hússins og því var sæti húsbónda gert eins veglegt og kostur var.  Súlur við hlið þess voru gjarnan útskornar og nefndust öndvegissúlur.  Líklega hafa þar í verið myndir og tákn þeirra guða sem húsbóndi tignaði.  Mörg dæmi eru þess að landnámsmenn tækju þessar súlur með sér og létu þær jafnvel vísa sér til búsetu, sbr Ingólf Arnarson.  Má vera að Kollur hafi verið að ávarpa súlur sínar þegar hann, að sögn Landnámu, blótaði Þór í sjávarháska.  B.  Almennt um virðingarstað.  Sbr orðtakið að setja (eitthvað) í öndvegi.

Öndvegis.. (forskeyti)  Einstaklega góður; áhersluforskeyti með ýmsum nafnorðum.  „Þetta er öndvegismatur“.  „Hann var öndvegismaður í allri viðkynningu“. 

Öndvegisáhald / Öndvegisverkfæri (n, hk)  Mjög gott/þénanlegt áhald/verkfæri; vildarverkfæri.

Öndvegisbátur / Öndvegisfleyta / Öndvegissjóskip (n, kk/kvk/hk)  Mjög góður bátur/ gott skip.

Öndvegisfæða / Öndvegismatur (n, kvk/kk)  Mjög góður og hollur matur.  „Bévítans gikkur geturðu verið; þessi hákarl er alveg öndvegisfæða“!

Öndvegisgripur (n, kk)  Mjög þarfur/dýrmætur/mikilvægur gripur/hlutur.  „Þessi haglabyssa er mikill öndvegisgripur, þó hún sé lítið notuð núorðið“.

Öndvegismetall (n, kk)  Mjög góður drykkur.  „Þetta er öndvegismetall þykir mér“.

Öndvegisrit (n, hk)  Mjög gott ritverk.

Öndvegisnáungi (n, kk)  Sómamaður; mikill ágætis karl.  „Hann var mikill öndvegisnáungi blessaður“.

Öndvegisskepna (n, kvk)  Kostagripur; efnisskepna.  „Ég hef ekki átt meiri öndvegisskepnu en þennan hrút“.

Öndvegissúla (n, kvk)  Öndvegissúlur voru tvær útskornar súlur sem stóðu sínhvorumegin við sæti húsráðanda í skálum fyrri tíðar, s.s. á landnámstíð.  Sjá öndvegi.

Öndvegisveðrátta (n, kvk)  Mjög gott veður/góð tíð.  „Þetta er nú meiri öndvegisveðrattan, viku eftir viku“!

Öndvegisþing (n, hk)  Þarfaþing; mjög hentugur/góður hlutur.  „Mikið öndvegisþing er þessi nýja vél“!

Öndverður (l)  A.  Sem er gagnstæður; mótsettur.  „Hann var alveg á öndverðum meiði við kerlinguna“.  B.  Upphaflegt; í byrjun.  „Gróður virtist að koma mundi mjög snemma, en kuldakast á öndverðu vori dró þó mjög úr honum“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58).  Sjá í öndverðu.  C.  Gagnstæður; á móti; andvígur.  „Hann brást mjög öndverður við þessari tillögu, og sagði að þetta myndi aldrei geta gengið þannig til“.

Öng (n, kvk)  Þrengsli.  Sjaldan notað nútildags nema í orðtakinu í öngum sínum.

Öngla saman (orðtak)  Nurla; safna.  „Mér tókst að öngla saman slæðum fyrir kálfana í þetta málið“.

Öngla sér (orðtak)  Ná sér í; krækja í; fá.  „Einhversstaðar hefur maður önglað sér þessa pest“.

Öngla (önglast) upp (orðtak)  Um aflabrögð; slíta upp einn og einn; vera að; sarga upp; fá fisk annað veifið; særa upp. „Ekki var hann viljugur yfir fallið, en samt önglaðist allta upp einn og einn“.

Önglalag (n, hk)  Önglamót; öngulbeygja; áhald til að rétta/laga öngla sem bognað hafa.  Í einfaldasta formi er það lykkja sem krókurinn er beygður í, stundum fest á sprökukepp eða steinbítshnall.

Önglastokkur (n, kk)  Lóðastokkur; stokkur sem önglum á fiskilínu er raðað í; Tveir sívalir stautar og mjór spaði liggja samsíða en með millibili, og er kókunum raðað á stautana.  Lóðastokkur var oftar notað.

Öngull (n, kk)  Krókur til fiskveiða, oftast úr járni, boginn og með agnhaldi stuttu frá hvössum oddi.  Öngulleggurinn er hinumegin við buginn og á efri enda hans auga eða spaði, þar sem öngultaumnum er fest.  Taumnum er fest í línu í hinn endann, sé hann ætlaður til línuveiða.  Slíkir önglar eru vanalega beittir með girnilegri beitu, sem í dag er t.d. smokkfiskur eða síld. Sjá orðatiltækið allt er betra en berir önglar.  Önglar til skakveiða eru í dag oft klæddir í litríka gúmmíbeitu og í öngulauga þeirra er sigurnagli til að taka af snúning. 

Öngulsár (l)  Óheppinn í veiðum; án veiði; með öngulinn í rassinum.  „Dráttarmennirnir héldu áfram að þuma að fiskinum, en hinir skóku færi sín aumir og öngulsárir“  (GG; Skútuöldin).  

Öngultaumur (n, kk)  Taumur/þráður úr öngli í línu eða annan hluta veiðarfæris. „Öngultaumar voru heimagerðir; snúnir úr hampgarni með heimatilbúnum taumavindum“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Lóðastrengur var gerður úr tveimur þáttum franskrar línu, en franskar línur voru af þremur aðalþáttum.  Þriðji þátturinn úr fransklínunni var rakinn niður í grennri þætti, og voru tveir slíkir snúnir saman í öngultauma“  (GG; Kollsvíkurver).

Öngva ögn (orðtak)  Ekki neitt; alls ekki.  „Ég held þú vitir öngva ögn um hvað þú ert að tala“!  „Ég veit öngva ögn um þetta mál“.

Öngvar (ao)  Engar.  Þannig beyging tíðkaðist í Kollsvík fram á síðari hluta 20. aldar (t.d. alfarið hjá GG).  „Ég hef öngvan grun um þetta“  „Heimamenn gjalda öngvan toll af því veri...“   (ÁM/PV; Jarðabók).

Öngvanvegin / Á öngvan hátt (ao/orðtak)  Alls ekki; ekki á neinn hátt.  „Það er öngvanvegin hægt að fullyrða neitt í þessu efni“.  „Þú getur á öngvan hátt fullyrt neitt í þessum efnum“.

Öngvit (n, hk)  Ómegin; meðvitundarleysi. 

Öngvitagjarnt (l)  Gjarnt að falla í yfirlið/verða dolfallinn; verða skelfingu lostinn/æpa.  „Honum er örugglega ekki öngvitagjarnt fyrst hann kveinkaði sér ekki við þessa byltu“.

Öngvu að síður (orðtak)  Engu að síður; samt; þrátt fyrir.  „Sumarið var fremur óþurrkasamt, en öngu að síður náðum við þokkalegum heyskap“.

Öngvu bættari (orðtak)  Ekki í betri stöðu.  „Ég er öngvu bættari með svona bitlausan hníf en væri ég hníflaus“!

Öngvu lagi líkt (orðtak)  Alls ekki rétt aðferð; furðulegt háttalag; gegnir furðu.  „Nú er maður búinn að éta svo mikið að það er bara öngvu lagi líkt“.

Öngvu líkt (orðtak)  Ekki líkt neinu; öðruvísi en allt annað.  „Svona veðrátta er bara öngvu lík“.

Öngvum að trúa ekki er gott; öllum hálfu verra (orðatiltæki)  Af tvennu illu er betra að vera tortrygginn en auðtrúa.

Öngvum er illt áskapað (orðatiltæki)  Speki sem vísar til forlagatrúar/ þess að líf manna sé fyrirfram mótað við fæðingu; og þess að illska/mannvonska sé ekki neinum eðlislæg heldur sé hún áunnin/tileinkuð.

Öngþveiti (n, hk)  Óreiða; ruglingur.  „Það er útilokað að telja í réttinni í þessu öngþveiti“.  „Taldí Ívar að…með sífelldri sókn í veiðar hrognkelsi, gæti það ástand skapast að öngþveiti yrði á þessum miðum“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Önn (n, kvk)  A.  Umhyggja; umönnun.  Sjá ala önn fyrir.  Örðstofninn er að „unna“; „annast“; „láta sér annt um“.  B.  Annríki; umsvif; starfi.  T.d. vera önnum kafinn; önn í skóla; heyannir.  Orðstofninn er sá sami og að „erja“; þ.e. vinna að uppskeru.

Önnum kafinn (orðtak)  Hefur mikið að gera/ mikið fyrir stafni; hefur næg verkefni.  „Hann var önnum kafinn við sláttinn“.

Önugheit / Önuglyndi (n, hk, fto)  Ólund; fýla; slæmt skaplyndi; fúllyndi; ergelsi.  „Mér er slétt sama um hans önugheit“!

Önuglega (ao)  Öfugt; illa; slælega.  „Mér fannst hálf önuglega að þessu staðið hjá þeim“.

Önuglegur (l)  Umhendis; lélegur; illa viðeigandi.  „Þetta er nú hálf önuglegur útbúnaður í svona verk“.

Önuglyndur (l)  Sem oft þykir önugur.

Önugur (l)  A.  Um mann; fúll; með ólund; í slæmu skapi; argur.  „Það er óþarfi að vera önugur við hann yfir þessu; hann gerði sitt besta“.  B.  Um verkefni; öfugsnúið; umhendis.  „Mér finnst dálítið önugt að þurfa að draga strenginn undan straumi“.

Önugt (l)  Öndvert; umsnúið.  „Mér finnst það dálítið önugt að standa í þessu óþarfa vesensi“.

Ör (n, kvk)  Píla; smáspjót sem skotið er af boga.  Sjá skera upp herör.

Ör (n, hk)  Þykkildi í húð þar sem sár hefur gróið.

Ör (l)  A.  Skjótur; fjörlegur; duglegur; bráður í skapi; skiptir fljótt skapi.  B.  Um fiskveiði; viljugur.  „Fiskur var sæmilega ör, svo ekki var hugsað til landferðar.  (ÖG; Þokuróður).  „Þar kom brátt að fiskur gerðist mjög ör...“  (GG; Skútuöldin).  

Ör á annars fé (orðtak)  Gjafmildur á fjármuni annarra; lofar greiðslu frá öðrum. 

Ör í lund/skapi (orðtak)  Skapbráður; uppstökkur; fljótillur; fyrtinn.

Örbirgð (n, kvk)  Mikil fátækt; það að eiga ekkert.

Örbirgðarbasl / Örbirgðarhokur (n, hk)  Líf/búskapur/tilvera í fátækt. 

Ördeyða (n, kvk)  Enginn afli þar sem hans er allajafna von.  „Það má heita algjör ördeyða þessa dagana“. 

Örðuglega (ao)  Með erfiðismonum; erfiðlega.  „Það gekk örðuglega að finna baujuna“.

Örðugleikar (n, kk, fto)  Erfiðleikar; tregða.  „Einhverjir örðugleika hafa verið á þessu“.

Örðugur (l)  Erfiður; tregur; torveldur.  „Þetta gæti reynst okkur örðugur hjalli“.

Örðugt (l)  Erfitt.  „Það gæti orðið nokkuð örðugt að finna góða festu hér á brúninni“.

Öreigi (n, kk)  Sá sem ekkert á; fátæklingur.  Orðið er gamalt í málinu um eignalaust fólk, en fékk nýja merkingu í pólitík kommúnista, þar sem öreigar voru fórnarlömb kapítalista.

Örendi (n, hk)  Úthald; geta.  „Mér tókst að bisa sekknum hálfa leiðina áður en mig þraut örendið“.

Örendur (l)  Andvana; dáinn; látinn; sem hættu er að anda.

Örfáir (l)  Sárafáir; mjög fáir.  „Við reyttum upp örfáa fiska yfir harðasta fallið“.

Örfljótur (l)  Skotfljótur; mjög fljótur.  „Ég ætla aðeins að skjótast; ég verð örfljótur“!

Örfoka (l)  Um landsvæði; uppblásið; allur laus jarðvegur fokinn burt.

Örgeðja (l)  Ör í skapi; uppstökkur; bráður.  „Þeir fundu fljótt að hann var örgeðja og gengu á lagið“.

Örgrannur (l)  Þráðmjór; mjög grannur.  „Rennslið er ekki mikið í svona örgrönnu röri“.

Örgrannt um (orðtak)  Grunlaust.  „Mér er ekki örgrannt um að hér hafi orðið mistök“. 

Örgrunnur (l)  Mjög grunnur.  „Sundið er örgrunnt um fjöru, og þá ekki fært“.  „Mér er illa við að sigla svona örgrunnt með landinu“.

Örk (n, kvk)  A.  Stór kista.  B.  Skip Nóa, samkvæmt biblíufrásögn.  C.  Blað.  Sbr pappírsörk.

Örkuml (n, hk)  Limlestingar; skert hreyfigeta; örorka; mikið líkamslýti.  „Það er skelfilegt að þurfa að búa við slíkt örkuml það sem eftir er“.

Örkumla (l)  Haldinn örkumli/örorku. 

Örla (s)  Gutla; votta fyrir hreyfingu á yfirborði sjávar.  „Sunnan við sundið var launboði; þ.e. boði sem ekki örlaði á um fjöru“  (KJK; Kollsvíkurver).

Örla á (orðtak)  Bóla á; sjást í; móa fyrir.  „Eftir hlýindin sást örla á hæstu holtum“.

Örlagamyrkur (n, hk)  Niðdimmt/glórulaust myrkur.  „Þarna inni var þvílíkt örlagamyrkur að maður sá ekki handa sinna skil“.

Örlagavaldur (n, kk)  Sá sem breytir/ræður örlögum/framtíð einhvers. 

Örlagatrú (n, kvk)  Forlagatrú; trú á að mönnum séu sköpuð örlög um líf og dauða strax við fæðingu.

Örlar ekki/varla á steini (orðtak)  Er ládautt/sjólaust/logn.  „Það er ekki hægt að sitja í landi í svona svartalogni, þegar örlar ekki á steini“!

Örlágt (l)  Um hljóð; mjög lágt; varla heyranlegt.  „Útvarpið er svo örlágt stillt að ég heyri ekki fréttirnar“.

Örlátur (l)  Gjafmildur; ósínkur.  „Hann er vanalega ekki örlátur á hrósyrðin“.

Örlúinn (l)  Örþreyttur; kúguppgefinn; alveg af manni genginn.  „Ég var örlúinn eftir plampið“.

Örlítill (l)  Mjög lítill; agnarlítill.  „Mér finnst vera örlítill stærðarmunur á þeim“.  „Örlítið er minni sjór núna“.

Örlygshafnarbúi (n, kk)  Sá sem býr í Örlygshöfn.  Hefð er fyrir endingu heita íbúa hinna ýmsu staða í Rauðasandshreppi.  Þeir sem búa í Útvíkum eru víknamenn; á Rauðasandi búa Rauðsendingar; í innfirðinum fjarðamenn og í Örlygshöfn Örlygshafnarbúar.  Barðstrendingar á Barðaströnd og Patreksfirðingar á Eyrum.  Nánar tiltekið var talað um Kollsvíkinga; Breiðvíkinga; Látramenn; Hænvíkinga; Nesfólk; Tungumenn; Gilsfólk; Hnjótsfólk; Kvígindisdalsfólk; Skersfólk og Botnsmenn.
„…meðan slátrun stóð yfir haust hvert gistu flestir í torfhúsi sem byggt hafði verið í því skyni og stóð rétt hjá sláturhúsinu; aðrir en Örlygshafnarbúar sem fóru hver heim til sín“  (PG; Veðmálið). 

Örlyndi (n, hk)  A.  Gjafmildi; andstæða nísku.  „Með þessu framlagi þótti hann sýna mikið örlyndi“  B.  Brátt skap; fljótillska.  Heyrðist minna notað í þeirri merkingu vestra.

Örlyndur (l)  Skapbráður; kvikur í skapferli; bráður.  „Svona örlyndir menn þurfa að gæta sín á fundum“.

Örlæti (n, hk)  Gjafmildi; það að vera örlátur.  „Ég skildi ekkert í þessu örlæti í karlinum“.

Örlög (n, hk, fto)  Forlög; það í lífi manns sem er fyrirfram ákveðið, t.d. af guðlegum/yfirnáttúrulegum öflum.  Trúin er mjög gömul og virðist fléttast inn í öll trúarbrögð.  Þannig voru t.d. örlög Krists óumflýjanleg samkvæmt Biblíunni.  Í Grikklandi höfðu örlagagyðjurnar, Moirurnar, örlög manna í höndum sér; hjá Rómverjum nefndust þær Parcae.  Í norrænni trú eru það skapanornirnar Urður, Verðandi og Skuld sem sitja við Urðarbrunn í Ásgarði, og spinna mönnum og ásum örlagaþræði.   Sumir þóttust glöggir á að sjá örlög manna fyrir, t.d. spámenn, stjörnuspekingar og þeir sem berdreymnir/draumspakir eru.  Sjá feigur; forlagatrú: örlagatrú; skapadægur; enginn fær flúið sitt skapadægur; enginn má sköpum renna; skipta sköpum.

Örmagna (l)  Þrotinn að kröftum; orðinn máttlaus; sprunginn; alveg búinn; lémagna.  „Ég var gjörsamlega örmagna eftir öll þessi hlaup“.

Örmagnast (s)  Verða þrotinn að kröftum; að niðurlotum kominn; springa.

Örmjór (l)  Þráðmjór; þvengmjór.  „Músin hefur varla komist inn í gegnum rörið; það er svo örmjótt“.

Örn (n, kk)  A.  Tegund fugla; t.d. haförn.  B.  Mannsnafn.  Munnmæli segja að Arnarboði heiti í höfuð stýrimanns Kolls landnámsmanns; þess sem bar ábyrgð á strandinu.  Hafa þarf þó í huga að á skipum þeirra tíma var stýrimaður æðsti skipstjórnandi um borð, enda heitið „skipstjóri“ þá ekki til.  Því má velta því fyrir sér hvort landnámsmaður Kollsvíkur hafi í raun heitið Örn.  Hann hafi nefnt landnám sitt Kollsvík vegna fjallstins Núps sem er einkennandi fyrir hana.  Sjálfur hafi hann fengið nafnið Örn Kollur, en títt var í þá daga að kenna menn við staði sína.  Þegar Landnáma var skrifuð 300 árum síðar, af ókunnugum manni í órafjarlægð, var einungis viðurnefnið fest á blað. 

Örnefnafróður (l)  Staðkunnugur; þekkir vel til örnefna.  „Engan veit ég örnefnafróðari í Rauðasandshreppi á seinni tímum en Marinó Kristjánsson í Efri-Tungu.  Hann gat þulið örnefni á flestum jörðum í Rauðasandshreppi, niður í smáatriði,og kunni uppruna fjölmargra þeirra.  Ekki nóg með það, heldur þekkti hann urmul örnefna í allri Barðastrandasýslu; sumpart vegna langrar reynslu af vegagerð víða“ (VÖ.

Örnefnaþekking (n, kvk)  Þekking á örnefnum og sögnum sem þeim tengjast.  „Örnefnaþekking hefur lengi verið á hröðu undanhaldi á Íslandi.  Hrun í þeim menningargeira hófst fyrir alvöru með hruni byggða eftir miðja 19. öld og eyðingin stendur enn yfir.  Þegar jörð fer úr ábúð eða skiptist algerlega um ábúendur er hætta á að tapist örnefni sem staður hefur haft, jafnvel frá upphafi byggðar.  Ekki nóg með það; heldur tapast einnig sagnir sem staðnum tengjast, en þær eru mikilvægur hluti af menningararfleifð þjóðarinnar.  Margar jarðir í Rauðasandshreppi hafa mætt þessum örlögum, og fjölgar sífellt.  Mikilvæg brjóstvörn í þessu stríði er sú örnefnasöfnun sem þegar hefur farið fram á vegum Örnefnastofnunar og viðleitni heimamanna sem hafa taugar til sinna ættjarða.  En jafnvel þó örnefni séu skráð er mikil hætta á ruglingi í staðsetningum.  Ný tækni í kortagerð, loftmyndum og rafrænum staðsetningum býður upp á stóraukið öryggi í þessum efnum.  Nú skortir einkum skilning stjórnvalda á þeirri hættu sem er á ferð; að hafin verði markvisst björgunarstarf við söfnun; korsetningu og vernd örnefna og miðlun örnefnaþekkingar.  Það starf er í gangi í Kollsvík“ (VÖ)

Örnefni (n, hk)  Nafn á stað í landslagi.  Í þrengstu skilgreiningu er örnefni einungis það nafn sem staðurinn hefur haft „svo lengi sem elstu menn muna“, en í vaxandi mæli er fariðað flokka þar með þau heiti sem staðir fá, sem sannanlega hafa ekki borið nafn áður.  „Ég skal segja þér til örnefna og atvika sem rifjast upp á þessum leiðum“  (IG; Sagt til vegar I)

Örnefnaauðugt (l)  Ríkt af örnefnum; mikið um örnefni.  „Land þetta, sem er allvíðlent, er ekki mjög örnefnaauðugt“  (Magnfríður Ívarsd.  Örnefni undir Skörðum)

Örnæli (n, hk)  Lítill fiskur; kóð.  „Ég held við förum nú að kippa; hér fæst ekkert nema einstaka örnæli“.

Örnæliskóð / Örnælistittur / Örnælisseyði (n, kk/hk)  Örsmár fiskur; smákóð.  „Nú kippum við!  Ég nenni ekki lengur að hanga á þessu og tína svona örnæliskóð af hverjum krók“!

Örorka (n, kvk)  Nýlegt orð yfir það sem fyrr var nefnt fötlun eða örkuml.

Öróf (n, hk)  Sjá frá örófi alda.

Örreytiskot (n, hk)  Reytingskot; mjög rýr og lítil bújörð.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  Merkir í raun mjög landlitla jörð þar sem lítið er hægt að reyta í vetrarfóður.

Örsjaldan (l)  Mjög sjaldan; afar fátítt.  „Það kom örsjaldan fyrir í seinni tíð, að ekki greri uppúr sandsköflum á Láganúpstúni yfir sumarið“.

Örskammur / Örstuttur (l)  Mjög stuttur.  „Við hlóðum bátinn á örskömmum tíma“.  „Þetta er bara örskammur spölur“.  „Þarna í ganginum er slöður á östuttum kafla þar sem fara þarf mjög varlega“.

Örskot / Örskotsfjarlægð / Örskotshelgi (n, hk/kvk)  Örskot og örskotsfjarlægð er notað um stutta vegalengd en merkir í raun þá vegalengd sem góð bogskytta getur skotið ör af boga.  Örskotshelgi merkir það sama en á sér lagalegar stoðir.  Maður sem samkvæmt lögum fyrri tíma hafði gerst sekur og verið dæmdur í útlegð mátti dvelja á landareign sinni, en var réttdræpur í örskotshelgi innan landamerkjanna.  Þannig var um sakamanninn Örn sem bjó að Vælugerði (nú Þingdal) í Flóa.  Hann var veginn af Þormóði Þjóstarssyni þegar hann rak naut sín til beitar.  Stóð Þormóður þá á Skotmannshól, þar sem eru landamerki.  Höfundur þessa orðasafns fékk Bergstein Gissurarson fræðimann til að skjóta af hornboga af hólnum.  Náði hann góðu skoti, en þó ekki því sem sagt er að örskotshelgi væri; eða 240 faðmar; um 400 metrar.  Í Grágásarlögum segir að þá sem ekki megi grafa í kirkjugarði megi ekki heldur grafa nær kirkju eða bæ en sem nemur örskotshelgi frá kirkjugarði/túngarði.  Þá er sá friðhelgur innan örkotshelgi sem er á leið til skips eftir að hann hefur verið dæmdur í fjörbaugsgarð.

Örskotssprettur (n, kk)  Mjög fljótlegur sprettur; mjög hratt hlaup.  „Hann hljóp fyrir ána á örskotsspretti“.

Örskotsspölur (n, kk)  Stutt/fljótfarin vegalengd.  „Ég verð fljótur; þetta er bara örskotsspöl hér frá“.

Örskotsstund (n, kvk)  Mjög stuttur tími.  „Ég þarf að skreppa frá í örskotsstund“. 

Örsmátt (l)  Örlítið; agnarsmátt.  „Gættu þess að týna ekki þessum örsmáu skrúfum“.

Örsnauður (l)  Bláfátækur; eignalaus. 

Örsnöggt (l)  Mjög snöggt; leiftursnöggt.  „Afi tók vængbrotna fuglinn og kippti honum úr hálsliðnum með örsnöggu átaki; sagði um leið að þetta hafi verið eina leiðin til að stytta kvalastríð hans“.

Örstund / Örstutt stund (n, kvk/ orðtak)  Mjög stuttur tími; augnablik; smástund.

Örstuttur (l)  Mjög stuttur; stubbur.  „Örstutt var milli múkkahreiðursins og máfshreiðursins, en þar á milli virtist gilda strangt vopnahlé“.

Örtröð (n, kvk)  Troðningur; mikil þrengsli.  „Ég var feginn að sleppa úr þeirri örtröð sem þarna var“.

Örtugur (n, kk)  Þyngdareing fyrr á tíð.  Á tímabilinu frá 1300 til 1618 jafngilti örtugur tæpum 9 grömmum, en 10grömmum eftir það.  Þrír örtugir voru í eyri; 25 í mörk og 50 í pundi.

Örugglega (ao)  Tryggilega; með vissu.  „Þetta er örugglega orðin næg festa“.

Öruggur (l)  Tryggur; heldur; áreiðanlegur.  „Heldurðu að þetta sé örugg festa“?

Örva (s)  Hvetja; glæða; espa; hressa.  „Kaffið örvar hugsunina“.

Örvarboð (n, hk)  Herör; boð sem sent er milli bæja, ásamt ör.  Örvarboð er eitt elsta form boðsendinga milli manna sem vitað er um.  Frá grárri forneskju tíðkaðist það meðal evrópskra þjóðflokka að höfðingi sendi boð „rétta boðleið“ milli bæja til að kalla saman fund eða dóm eða boða menn til stríðs.  Boðið var skorið á örvarlegg eða ritað á blað/bókfell sem vafið var um örvarlegginn.  Svipaður siður tíðkaðist með þingboðsaxir, sem m.a. voru notaðar á Íslandi framá 19.öld.  Í gömlum lögbókum eru miklir og strangir bálkar um meðferð slíkra boða.  Sjá þingboð, þingboðsöxi; skera upp herör og rétt boðleið.

Örvasa (l)  Útslitinn; þrotinn að kröftum.  „Vasa“ er líklega af sama stofni og „vasast“ og „vera“.

Örvasa gamalmenni (orðtak)  Gamall einstaklingur sem orðinn er ófær til vinnu eða hreyfinga. 

Örvera (n, kvk)  Lífvera sem er svo smá að hún sést ekki án stækkunartækja.

Örverpi (n, hk)  Upprunaleg merking er vanskapað fuglsegg sem er mikið minna en önnur.  Einnig notað um óvanalega lítil dýr og sem gæluorð um lítil börn eða yngsta barn í systkinahópi.  „Þetta er örverpið mitt“.

Örvhentur (l)  Sem notar allajafna vinstri höndina fremur en þá hægri við vinnu/nákvæmnisverk; andstætt við rétthentur.  Ásgeir Blöndal telur orðið runnið af gotneska orðinu „uzwandjan“ sem merkir að „snúa undan“.  Líklega er þó  nærtækara að það vísi í að sá örvhenti notar vinstri höndina til að leggja ör á streng og spenna boga.  Á fyrri tímum þekktust örvhentir á því að þeir báru örvahylkið sér við vinstri hlið.

Örvinglaður (l)  Ráðþrota; ráðvilltur; búinn að missa móðinn.  „Skelfing hljóta menn að vera orðnir örvinglaðir þegar þeir grípa til svona úrræða“.

Örvinglun (n, kvk)  Sturlun; ráðvilla.  „Það greip kindana einhver örviglun og hún setti sig bara beint framaf“.  Sumstaðar er stafsetningin örvilnun, og kann það að vera upprunalegra; þ.e. að „hafa engan vilja“.

Örvænt (l)  Útséð; útilokað.  „Það er nú ekki alveg örvænt ennþá um að þessar kindur muni heimtast“.

Örvænta (s)  Verða örvæntingarfullur; fyllast vonleysi.

Örvænting (n, kvk)  Vonleysi; örvinglun; það að gefa upp alla von.  „Í örvæntingu sinni íhugaði hann að grípa til örþrifaráða“.

Örvæntingarfullur (l)  Fullur örvæntingar; svartsýnn; vonlaus.

Öryggi (n, hk)  Trygging; það að vera hólpinn/öruggur.  „Mér fannst heilmikið öryggi að því að hafa spottann, þó ég þyrfti ekki að nota hann“.

Öryggisatriði (n, hk)  Það sem lýtur að öryggi.

Öryggislaus (l)  Sem ekki býr við öryggi; hræddur um sig.

Öryggisleysi (n, hk)  Það að búa ekki við öryggi.  „Sumum kann að finnast það öryggisleysi í dag, að búa svo langt frá þeirri þjónustu sem nú telst nauðsynleg“.

Öryrki (n, kk)  Fötluð manneskja; örkumlamaður.

Örþreyttur (l)  Útkeyrður; alveg búinn; farinn að kröftum.  „Þegar karlarnir komu heim að Hvallátrum um kvöldið voru þeir allir hundblautir og örþreyttir“  (Hrafnkell Þórðarson; Útkall við Látrabjarg). 

Örþrifaráð (n, hk)  Síðasta úrræði; óyndisúrræði; úrræði sem stundum hefur slæmar afleiðingar.  Merkir bókstaflega það úrræði sem menn grípa/þrífa þegar ekkert annað er í boði.  „Þetta var örþrifaráð, en það dugði“.

Örþrot (n, hk)  Örbirgð; algjör fátækt. 

Örþrota (l)  Sem hefur engin úrræði.  „Ekki var óalgengt í hallærum fyrr á tíð að örþrota fólk úr öðrum byggðum leggði leið sína í verin til að leita lífsbjargar“.

Örþröngur (l)  Mjög þröngur.  „Sumir strákarnir gátu skriðið gegnum örþröngt opið í jötuendanum“.

Örþunnur (l)  Mjög þunnur.

Örþyrstur  (l)  Mjög þyrstur; að drepast úr þorsta.  „Réttu mér nú kútinn; ég er orðinn örþyrstur“.

Öræfi (n, hk, fto)  Gróðursnautt/líflaust landsvæði.  „Fjandann eru þessar kindur að þvælast hér uppi á öræfum“?!  Bókstafleg merking er „ör-hæfi“, þ.e. land sem ekkert hefur.

Ös (n, kvk)  Þyrping; þéttur hópur; læti í hópi.  Stofnskylt „asi“.

Öskra (s)  Æpa; orga; grenja hátt.  „Ég heyrði ekkert hvað hann var að öskra þarna hinumegin í dalnum“.

Öskrandi brim (orðtak)  Hávaðabrim; Mikill stórsjór.  „Hann er búinn að rífa upp öskrandi norðanbrim“.

Öskrandi grunn  (orðtak)  Grunnsævi; boði.  „Við þurfum að kippa aðeins frá; okkur hefur rekið hér uppá öskrandi grunn“.

Öskrandi rok / Öskrandi hávaðarok / Öskrandi stormur (orðtak)  Aftakarok, einkum þegar því fylgir mikill hávaði af vindgnauði og brimgný.

Öskubakki (n, kk)  Ílát sem til skamms tíma þótti ómissandi á hverju heimili, meðan reykingar voru almennari en nú er.  „Pabbi var búinn að brjóta nokkra öskubakka við það að slá úr pípu sinni, þegar honum hugkvæmdist að sækja sér öflugan holustein utanaf Hnífaflögu.  Hann dugði áratugum saman“.

Öskubylur (n, kk)  Mikill og dimmur skafmoldarbylur.  „Það skall yfir þreifandi sótöskubylur“.

Öskudagur (n, kk)  Miðvikudagur i 7. viku fyrir páska; fyrsti dagur lönguföstu/sjöviknaföstu.  Venja var í Kollsvík sem annarsstaðar að börn saumuðu litla öskupoka með krók úr títuprjóni; létu í þá örlítið af ösku eða smásteinum og nældu á aðra þannig að þeir yrðu þess ekki varir.  Áðurfyrr var þetta siður ungstúlkna sem höfðu hug á mannsefni.  Markmiðið var að sá sem öskupoka fékk bæri hann yfir þröskuld, en þá taldist hann nokkuð bundinn þeirri sem pokann átti.  Þetta á rætur í ævafornum siðum.  Askan var tákn iðrunar.  Á miðöldum var pálmaviðargreinum frá árinu áður brennt og askan notuð við athafnir í upphafi föstunnar.

Öskudagsbræður (n, kk, fto)  Öskudagur var einn þeirra merkisdaga sem mörkuðu veðrabreytingar samkvæmt gamalli trú.  „Sjálfsagt þótti að festa sér vel í minni veðurlag og veðrabreytingu á öskudaginn, þar sem talið var að hann ætti 18 bræður; þ.e. 18 eins daga yfir föstuna.“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).

Öskubylur / Öskuél (n, hk)  Kóf; él með fíngerðri snjókomu, líkt og öskufall.  „Það gerði á okkur öskuél“.  Sjá blindöskubylur.

Öskufall (n, hk)  Fall ösku frá eldgosi.  „Öskufall er mjög sjaldgæft á Vestfjörðum“.

Öskugrár (l)  Grár að lit, eins og aska.

Öskuhaugur / Öskuhóll (n, kk)  Sorphaugur bæjar, þar sem ösku hefur m.a. verið kastað.  „Öskuhaugar gamalla bæja geyma e.t.v. heillegustu og réttustu sögu viðkomandi byggðar“.

Öskuhólf / Öskustó (n, hk/kvk)  Hólf eldavélar, sem aska fellur í við bruna.  Staður þar sem ösku er safnað„Það þyrfti að fara að tæma öskuhólfið“.  Sagt er að sá sé settur í öskustóna sem er afskiptur.

Öskupoki (n, kk)  Poki sem að gömlum sið er hengdur á manneskju á öskudegi.  Sjá öskudagur.

Öskur (n, hk)  Org; hávært hljóð sem manneskja eða dýr gefur frá sér; baul.

Öskurapi (n, kk)  A.  Ættkvísl apa í Brasilíu.  B.  Líkingamál um manneskju sem öskrar.

Öskureiður / Öskuvondur (l)  Mjög reiður.  „Karlinn var öskuvondur yfir þessu uppátæki“.

Öskuryk / Öskusalli (n, hk/kk)  Fíngerð aska.

Öskuþreifandi bylur (orðtak)  Blindbylur; blint kóf.   „Við þurftum að stoppa þegar hann gerði öskuþreifandi byl, svo ekkert sá útúr augum“.

Ösla (s)  Vaða.  „Ég öslaði út í bátinn og vatt mér um borð“.

Ötull (l)  Duglegur.  „Hann er ötull talsmaður þess að drifið verði í þessu“.

Ötlunarverk (n, hk)  Viljaverk; það sem gert er vísvitandi.  „Ég held að þetta hafi nú ekki verið ötlunarverk hjá honum; hann sagði að þú hefðir gengið fyrir hornið þegar hann skvetti úr koppnum“.

Ötullega (ao)  Af dugnaði/einurð.  „Hann vann ötullega að þessu verkefni í áraraðir“.

Öxi (n, kvk)  Áhald sem notað hefur verið af mannkyni um milljónir ára.  Að grunngerð er öxi haus með skerptu blaði, eða axarhaus, sem fest er á skaft til að auka slagkraft.  Á steinöld var axarhausinn úr steini; á bronsöld úr bronsi, en í dag er hann úr hörðum málmi. Gat er í hann fyrir skaftið; hvöss egg er öðrumegin og axarskalli hinumegin.  Til eru margar gerðir og stærðir af öxum; bolöxi, viðaröxi, tálguöxi, bjúgöxi, saxbíla, blegða, ísöxi, klifuröxi og skaröxi.  Fer gerðin eftir notagildinu; t.d. hvort öxina skal nýta til að fella tré; hola trjábol; forma og slétta tré; búa til spor eða sæti; höggva menn í orrustu; hálshöggva mann eða skepnu; höggva vök í ís eða klifra í síluðum klettum.  Beygingin á orðinu öxi hefur vafist fyrir mörgum; ekki síst langskólagengnu fólki nú á dögum.  Í eintölu fallbeygist orðið þannig: öxi – exi – exi – axar.

Leita