Ybba sig / Ybba gogg (orðtak)  Gera sig breiðan; sýna yfirlæti.  „Vertu bara ekkert að ybba þig“!  „Er hann nú líka farinn að ybba gogg!  Sá held ég að hafi efni á því eða hitt þó heldur!.  Sjá obbinn af.

Ybbast við (einhvern) (orðtak)  Setja sig á háan hest við einhvern; sýna einhverjum óvild/yfirgang.

Ybbinn (l)  Ýtinn; ódæll; stríðinn.  „Þú ættir nú ekkert að vera alltof ybbinn við hann“!

Ydda (s)  A.  Gera oddhvasst; setja odd á; skerpa odd.  „ég var að ydda blýantinn“.  B.  Sjást á efstu kolla/toppa/þúfur.  „Þarna yddir hvergi á dökkan díl“!

Yfir (l)  Í Kollsvík er orðið notað sem lýsingarorð og stigbreytist þannig: yfir-handar-handast.  Málvenja er, varðandi áttir í Kollsvík, að tala um að fara yfir að Láganúpi eða öðrum handanbæjum frá Kollsvík.  Þeir sem þegar eru á handanbæjum eru þá fyrir handan, frá sjónarhóli Kollsvíkinga.  Hinsvegar heitir að fara norður þegar menn fara að Stekkjarmel eða Kollsvík frá handanbæjunum.  Stekkjarmelur er handar en Kollsvíkurbærinn, en Láginúpur er handasta býlið.

-yfir (ending áttalýsinga)  Í Kollsvík tíðkast áttalýsingar sem sumum finnast framandi, og er þetta ein þeirra.  Sá sem gengur frá Láganúpi til Kollsvíkur getur t.d. komið handanyfir/handan Umvarp.  Sá sem stefnir í öfuga átt getur t.d. komið norðanyfir/yfir Melarandir.  Sá sem kemur innan úr Patreksfirði til Kollsvíkur kemur útyfir Hænuvíkurháls, en úr Breiðuvíkurrétt var féð rekið norðuryfir Breið til Láganúps.

Yfir borðum (orðtak)  Meðan á borðhaldi stendur.  „Yfir borðum voru margar ræður fluttar“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Yfir höfuð / Yfir höfuð að tala / Yfir höfuð talað (orðtak)  Yfirleitt; að öllu samanlögðu.  „Hann hefur unnið þetta mjög illa; ef hann hefur þá yfir höfuð snert á því“!  „Það er ein og ein rytja innanum eins og gengur; en yfir höfuð er féð vel framgengið“.  Einnig oft í einu orði; yfirhöfuð (sjá þar).

Yfir sig ánægður/glaður/hrifinn/sáttur/þakklátur o.fl (orðtök)  Mjög hrifinn/ánægður; fullur aðdáunar, þakklætis o.fl.  „Hann var yfir sig hrifinn af staðnum“.  „Ég er ekkert yfir mig hrifinn af þessari ákvörðun“.

Yfir sig syfjaður/þreyttur (orðtak)  Mjög syfjaður/þreyttur; úrvinda af svefnleysi/þreytu. 

Yfirboðari (n, kk)  Yfirmaður; sá sem er hærra settur.  „Hann þurfti að fá leyfi hjá sínum yfirboðurum“.

Yfirborð (n, hk)  Efsta lag t.d. vatns/sjávar/jarðar o.fl.

Yfirborðsgróður (n, kk)  Gróðurþekja sem flýtur ofaná dýjum og mýrum, s.s. mýramosi, hófsóley o.fl; oft er djúpt vatn þar undir.  „Þegar á leið sumarið settist yfir þetta fljót þó nokkur yfirborðsgróður, þó dýpið væri meira en 2 metrar“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Yfirborðskenndur (l)  Sem sýnist vera en er ekki í raun; til að sýnast.

Yfirborðsvatn (n, hk)  Vatn sem rennur á yfirborði; ekki jarðvatn/uppsprettuvatn.

Yfirbót (n, kvk)  Betrun; bót fyrir yfirsjónir/syndir.  „Hann lofaði að gera einhverja yfirbót í þessu efni“.

Yfirbragð (n, hk)  Svipur; svipmót; útlit.  „Það er allt annað yfirbragð á honum núna“.

Yfirbuga (s)  Sigrast á; ráða niðurlögum.

Yfirbugaður (l)  Uppgefinn; búinn að missa móðinn/kjarkinn/lífslöngunina.

Yfirburða-  Forskeyti sem vísar til þess að standa mun framar en aðrir. 

Yfirburðir (n, kk, fto)  Það að standa framar en aðrir.  „Hann sigraði með miklum yfirburðum“.

Yfirbygging (n, kvk)  A.  Káeta/brú á skipi.  B.  Efri hluti byggingar.

Yfirdekkja (s)  Setja áklæði/yfirdekk á húsgagn.

Yfirdrepslaus (l)  Heiðarlegur; kemur hreint fram.  „Mér fnnst hann hreinskilinn og yfirdrepslaus“.

Yfirdrepsskapur (n, kk)  Fláræði; fals; tylliá stæða.  „Þessi ástæða er yfirdrepsskapur; þarna býr meira undir“.

Yfirdrifið / Yfrið  (l)  Meira en nægilegt; of mikið.  „Það er komið alveg yfirdrifið af möl í steypuna“.

Yfireftir (ao)  Yfirum; að norðan.  „Ertu að fara yfireftir bráðlega“?  Enn eitt dæmið um þetta staðbundna orðalag Kollsvíkinga; að höfuðáttir í Kollsvík eru norður og yfir.  .

Yfirfall (n, hk)  A.  Árás.  B.  Það að vatn rennur yfir hindrun, t.d. stíflugarð.  „Ingvar byggði stíflu í Ána og steypti vandað yfirfall“.

Yfirfallinn (l)  Undirlagður; altekinn.  „Þetta lýsti sér fyrst með máttleysi og sleni, en herti svo á þar til þú varst yfirfallin af astma og auk þess liðagikt“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Yfirfara (s)  Endurskoða; yfirlíta; skoða.  „Ég þarf að yfirfara þessar nótur“.

Yfirferð (n, kvk)  A.  Það að ferðast yfir.  „Áin var ill yfirferðar“.  B.  Yfirlestur; skoðun.

Yfirfljótanlegur (l)  Kappnægur; yfirdrifinn; meira en nægur.  „Þar er ríkidæmið víst yfirfljótanlegt“.

Yfirfrá (ao)  Fyrir handan; handantil; handan megin/sunnanmegin í Kollsvíkinni.  „Ég kom með blásarann en rörin eru enn yfirfrá“.  „Hann er yfirfrá ennþá, en hann sagðist koma norður fljótlega“.  Líklega er hér um staðbundið orðalag að ræða, en þar er enn notað í mæltu máli Kollsvíkinga.  „Ég kom með blásarann en rörin eru enn yfirfrá“. 

Yfirfyrir (fs)  Yfir.  „Ég setti lambrolluna yfirfyrir í garðanum“.

Yfirganga (s)  Sýna yfirgang/ofstopa; ryðjast yfir; neyta aflsmunar.  „Þú mátt ekki alveg yfirganga hann yngri bróður þinn“!

Yfirgangur / Yfirgangsmunir (n, kk/ kk, fto)  Frekja; ásælni.  „Mér finnst þetta bara bölvaður yfirgangur“!

Yfirgangssamur (l)  Frekur; uppivöðslusamur.  „Þótti hann stundum allráðríkur og yfirgangssamur ef honum bauð svo við að horfa, og hirti þá stundum lítt um lög og rétt.  En höfðingslund hafði hann til að bera, við sér minni menn og þá er bágt áttu“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Yfirgangsseggur / Yfirgangsvargur (n, kk)  Sá sem sýnir yfirgang.

Yfirgangur (n, kk)  Ágengni; ofbeldi; frekja.  „Skelfing líkar mér illa yfirgangurinn í karlinum“!

Yfirgefa (s)  A.  Almennt; skilja eftir; fara frá.  „Það má aldrei yfirgefa kind sem gengur illa“.  B.  Um varpfugl; fara alfarinn af hreiðri.  „Ég er ansi hræddur um að öndin í garðinum sé búin að yfirgefa“.

Yfirgefinn (l)  Sem farið hefur verið frá/skilinn eftir.  „Hvalurinn var aldrei yfirgefinn, en matur og drykkur fluttur úr landi“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Yfirgengilega (ao)  Yfirdrifið; um of; ofboðslega; svakalega; rosalega.  „Það kemur yfirgengilega mikið af ígulkerjum í netin hérna“. „Þetta er nú svo yfirgengilega vitlaust að ég á ekki orð“!

Yfirgengilegur (l) Allt of mikill; yfirdrifinn; svakalegur; rosalegur.  „Fjöldinn var svo yfirgengilegur að ég var fegnastur að komast út“.  „Mér finnst þetta yfirgengileg heimska“!

Yfirgnæfa (s)  Vera háværari en annað; gnæfa yfir, skara framúr.  „Það yfirgnæfir enginn Kollsvíkurhávaðann“!

Yfirgripsmikill (l)  Sem spannar vítt svið; víðtækur.

Yfirhafnarlaus (l)  Úlpulaus; sem vantar yfirhöfn.

Yfirhalning (n, kvk)  Reiðilestur; endurnýjun; gegnumtekt; betrumbætur.  „Mjaltastóllinn þyrfti eiginlega að fara að fá einhverja yfirhalningu“.  „Þeir fengu víst einhverja yfirhalningu hjá þeim gamla fyrir tiltækið“.

Yfirheyra (s)  Hlýða yfir; spyrja útúr; rétta yfir. 

Yfirhylming (n, kvk)  Þöggun; það að vera meðsekur um að þagga niður/ að uppljóstra ekki um glæp.

Yfirhöfn (n, kvk)  Flík sem höfð er yst fata; úlpa; frakki.

Yfirhöfuð (ao)  Yfirleitt; almennt.  „Fyrst þetta gekk ekki með þessari aðferð þá sé ég ekki að þetta geti yfirhöfuð gengið“.  „Ég velti því stöðugt fyrir mér hvort mennirnir þarna niðri myndu yfirhöfuð komast undan sjónum“  (Björgvin Sigurbj.son; Útkall við Látrabjarg). 

Yfirhönd (n, kvk)  Yfirburðir. Sjá hafa yfirhöndina.

Yfirklór (n, hk)  Lélegar afsakanir; fyrirsláttur.  „Þetta er auma yfirklórið hjá þeim“.

Yfirlega (n, kvk)  A.  Bið báts/bátshafnar frá lagningu lóðar og þar til dráttur hennar hefst.  Misjafnlega langur tími, sem fór m.a. eftir straumskiptum.  Bátar frá Kollsvíkurveri nýttu gjanan suðurfallið suður á Bæturnar og lögðu línuna í niðurslætti þess.  „Þegar síðari drekinn náði til botns og bólfærið var rakið á enda var bátnum lagt við þann stjóra og beðið uns lægja tók strauminn.  Á meðan var skorið úr skel og beita brytjuð. ... Byrjað var að draga línuna á ný strax við straumaskipti...“  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Hverskonar tímafrekt nostur.  „Það kostaði töluverða yfirlegu að ná yrðlingunum út úr greninu“.  „Þetta hefst ekki nema með töluverðum yfirlegum“.

Yfirlið (n, hk)  Öngvit; ómegin. 

Yfirlit (n, hk)  A.  Samantekt; útdráttur; það sem sýnir.  B.  Yfirsýn; útsýni; sjón.  „Hann var nokkuð dökkur yfirlitum“. 

Yfirlíta (s)  Skoða; athuga.  „Ég ætla að yfirlíta þessi handrit aðeins, ef ég má“.

Yfirlýsing (n, kvk)  Tilkynning; það sem lýst er yfir.  „Þetta þótti mér nokkuð merkileg yfirlýsing“.

Yfirlýsingaglaður (l)  Gefur stórorð fyrirheit; lofar miklu; kokhraustur; kjaftfor.  „Þú skalt nú ekkert vera alltof yfirlýsingaglaður alveg strax; þetta er kannski ekki alveg unnið spil“.

Yfirlæti (n, hk)  Virðing; góður aðbúnaður.  „Við vorum þarna í góðu yfirlæti“.  B.  Dramb; mont.  „Hann er gersamlega laus við allt gort og yfirlæti“.

Yfirlætislaus (l)  Laus við mont/stærilæti/prjál.  „Þetta var hinn alþýðlegasti maður; mjög yfirlætislaus“.

Yfirmark (n, kvk)  Fjármark ofantil á eyra.  Benjar í fjármörkum eru af tvennum toga:  Yfirmark er það sem er á toppi eyrans, s.s. sneyðing, stýfing og blaðstýfing, en undirbenjar eru á hlið eyrans, s.s. biti og fjöður.

Yfirmáta (ao)  Fram úr hófi; óvanalega.  „Hvernig getur nokkur verið svona yfirmáta heimskur“?!

Yfirmeð (ao)  Meðfram og í áttina yfir.  „Ég gekk yfirmeð sjó, en fann ekki mikinn reka“.

Yfirmið (n, hk)  Mið/viðmiðun sem stendur hærra en undirmiðið, þegar tveir miðunarpunktar þurfa að bera saman.

Yfirráð (n, hk, fto)  Það að ráða yfir; völd; eignarréttur.  „Ég hef full yfirráð yfir þeirri eign“.

Yfirsetukona (n, kvk)  Ljósmóðir; kona sem situr yfir annarri sem er að fæða barn.

Yfirsjást (s)  Taka ekki eftir; skjöplast; skeika.  „Mér yfirsást alveg þessi laut, þegar ég gáði að fénu“.  „Öllum getur yfirsést“.

Yfirsjón (n, kvk)  Mistök; það sem gleymist/ er ekki athugað með að gera.  „Þetta var ljóta yfirsjónin“!

Yfirskegg (n, hk)  Efrivararskegg; skegg á efri vör karlmanna, en slíkt var einkum mjög í tísku framanaf 20.öld.  Guðbjartur Guðbjartsson var einatt með yfirskegg og þótti farast það vel.

Yfirskin (n, hk)  Átylla; yfirvarp; fyrirsláttur.  „Þetta gerðu þeir undir því yfirskini að það kæmi bændum til góða“!

Yfirskipsmaður (n, kk)  Vermaður sem ekki er hluti af fastri áhöfn báts, heldur hefur það hlutverk að sinna afla í landi og hlaupa í skarðið ef háseti forfallast.  Ekki er vitað til þess að yfirskipsmenn hafi verið í Kollsvíkurveri, a.m.k. í seinni tíð, en slíkt fyrirkomulag tíðkaðist í fjarlægari landshlutum. 

Yfirskoðun (n, kvk)  Eftirlit sem er æðra því sem að jafnaði fer fram.  T.d. í forðagæslu.  „Þann 17.apríl símaði ég hreppsnefndaroddvita og bað um yfirskoðun á fé Ólafs Ólafssonar Krókshúsum vegna persónulegrar árásar í minn garð, um að ég gerði mannamun við einkanagjöf“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943). 

Yfirskoðunarmaður (n, kk)  Sá sem stjórnar æðsta eftirliti.  „Hreppsnefndin varð vel við og tilnefndi yfirskoðunarmenn Ívar Halldórsson og Magnús Sveinsson“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943). 

Yfirskrift (n, kvk)  Fyrirsögn; titill.  „Yfirskrift þessarar frásagnar er dálítið villandi“.

Yfirstaðinn (l)  Afstaðinn; genginn yfir.  „Ég held að mesta élið sé yfirstaðið“.

Yfirstandandi (l)  Sem stendur yfir; sem er í gangi.  „Ég gríp í að hækla í yfirstandandi sláturtíð“.

Yfirsterkari (l)  Sterkari; öflugri.  „Forvitnin varð hræðslunni yfirsterkari“.  Einungis notað í miðstigi.

Yfirstétt (n, kvk)  Virðingarstétt/valdastétt manna í stéttskiptu samfélagi. 

Yfirstíga (s)  Um erfiðleika/mótlæti; komast í gegnum; sigrast á.

Yfirsýn (n, kvk)  Það að sjá yfir; álit.  „Þetta taldist nokkuð skynsamleg; að bestu manna yfirsýn“.

Yfirsæng (n, kvk)  Sæng sem höfð er yfir sér í rúmi.  „Í síðustu viku vetrar eða fyrstu viku sumars var flutt í Verið; helst alltaf á laugardegi.  Áhöldin voru ekki margbrotin; góð yfirsæng, en oft var notast við heydýnur í stað undirsængur“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Yfirsöngur (n, kk)  Söngur og messa við greftrun; söngur/ræða prests við jarðarför. 

Yfirtaks / Yfirtakanlega (n, hk, ef / ao)  Afar; mjög; rosalega.  „Þetta fannst mér alveg yfirtaks heimskuleg ráðstöfun“!  „Er þetta nú ekki alveg yfirtakanlega kjánalegt“?!

Yfirtrompa (s)  Í spilum; setja út hærra tromp en sá sem fyrr trompaði.

Yfirtök (n, hk, fto)  Undirtök; tök í viðureign sem leiða til sigurs.  „Nú hafði ég náð yfirtökunum“.

Yfirum (ao)  A.  Yfireftir; yfir Kollsvíkina, sé maður staddur norðanmegin, að Láganúpi eða öðrum handanbæjum.  „Ertu á leiðinni yfirum“?  (Norðurum eða handanum/handanyfir var í hina áttina).   „Taktu með þér brodd þegar þú ferð yfirum aftur“.   B.  Yfir á hina hliðina/ hinn kantinn.  „Ég velti votheysveiku rollunni yfirum, svo færi betur um hana“.

Yfirumsjón (n, kvk)  Umsjón með umsjónarmönnum; æðsta stjórn/umsjón.

Yfirvald (n, hk)  A.  Æðsta vald; æðsta umsjón.  B.  Sá sem er í æðstu stjórnunarstöðu; æðsti embættismaður.

Yfirvarp (n, hk)  A.  Kast.  Sú lengd netafæris sem er umfram dýpið, en töluvert yfirvarp er nauðsynlegt til að síður losni úr botni; einkum þar sem straumur er mikill.  B.  Tylliástæða.  „Hann hafði að yfirvarpi að þurfa að gá að fé, en fór um leið til eggja“.

Yfirvegaður (l)  Tekur rökréttar ákvarðanit; skynsamur; rólegur.  „Í svona stöðu þarf að vera vel yfirvegaður“.

Yfirvegun (n, kvk)  Rólegt og skynsamlegt mat t.d. á aðstæðum; íhugun; grandskoðun.

Yfirvinna (s)  Sigrast á; komast yfir.  „Mér tókst að yfirvinna mestu myrkhræðsluna“.

Yfirvofandi (l)  Sem ógnar; sem getur dunið yfir/ skollið á.  „Við drifum í að galta heyið; engum leist á þessa yfirvofandi dimmu í suðrinu“.

Yfirþyrmandi (l)  Sem altekur; sem þrúgar/ógnar.  Viðliðurinn er stofnskyldur „þjarma“.

Yfrið nóg (orðtak)  Yfirdrifið; meir en nóg.  „Ég held að þetta séu orðin yfrið næg hey uppá veturinn“.

Yggja (s)  Gruna; óra fyrir.  „Mig uggði ekki að aflinn yrði svona mikill, annars hefði ég fengið meira salt“. 

Yggla brún / Yggla sig (orðtak)  Hleypa brúnum; setja í brýrnar; hnykla brýrnar; gretta sig; gera sig reiðan/ljótan í framan.  „Vertu ekkert að yggla þig yfir þessu“.

Yggldur / Yggldur á brún/brá (l/ orðtak)  Svipljótur; brúnaþungur.  „Ansi var hann yggldur yfir þessu“.

Ygglibrá / Ygglibrún (n, kvk)  Ljótur svipur; gretta.  „Mér líst ekkert á þessa ygglibrá á honum“.

Ylgja (n, kvk)  Töluverður sjór; tæplega vært að veiðum.  „Veður var suðvestan kafaldskóf, hæglætisveður en ylgja; sjósmár“ (um strand togarans Croupiers undir Blakk, líkl. haft eftir GG).  „...þegar hljóp á útnyrðingur með ylgju mikili og ókyrrðist mjög sjór við það, svo illa lendandi var“  (TÓ, frás. Gísla Konráðssonar; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi). 

Ylgja (s)  Auka sjó; versna sjólag.  „..en þegar komið var þvert á Látrabæina fór hann að ylgja sig, og þá var um að gera að dýpka aftur á sér fyrir Bjarnanúpinn“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Ylgjufjandi (n, kk)  Skammaryrði um sjóvelting/ókyrrð.  „Það þýðir ekkert að vera að berja lengur í þessum ylgjufjanda; við skulum hafa uppi og koma okkur í áttina“.

Ylgjukast (n, hk)  Kvika/sjór sem lifnar um tíma.  „Hann gerði dálítið ylgjukast um miðjan daginn“.

Ylgjulaust (l)  Tiltölulega sléttur sjór; ekki mikill sjór.

Ylgjuvottur (n, kk)  Nokkur ylgja/ókyrrð/sjór.  „Við förum nú að hugsa til lands bráðum; það er kominn dálítill ylgjuvottur“.

Ylja (s)  Velgja; hlýja; hita.  „Ég ætla aðeins að ylja mjólkina fyrir heimalninginn“. 

Ylja sér (orðtak)  Orna sér; hlýja sér.  „Mikið er nú notalegt að ylja sér við eldavélina“!

Ylur (n, kk)  Velgja; hlýja; vægur hiti.  „Eftir stuttan tíma var kominn notalegur ylur í eldhúsið“.

Ylvolgt (l)  Hlýtt.  „Þeim stutta þykir notalegt að koma upp í ylvolgt rúmið hjá pabba og mömmu“.

Ymja (s)  Gefa frá sér bælt langdregið hljóð; umla; suða.  „Símalínurnar áttu það til að ymja hávært í hæfilegri golu, líkt og þær hefðu fundið sitt eigið tungumál“.

Ympra á (orðtak)  Nefna/orða lítillega; haf orð á.  Sjá impra á.  Uppruni orðsins er óljós, og þar með ritun þess.

Ymur (n, kk)  Bælt langdregið hljóð; uml; suða.  „Hávær ymurinn frá símalínunni tók undir við sinfóníugargið í útvarpinu, og fiskspyrðan undir þakskegginu sló taktinn“.

Yndi (n, hk)  Unaður; dásemd; sæla.  „Ég hafði yndi af þessu“.

Yndissnauður (l)  Laus við ánægju/unað; dapurlegur.  „Heldur fannst honum þetta yndissnauð vist“.

Yndisþokki (n, kk)  Góður þokki; vinarbragur; fegurð; það að vera aðlaðandi/heillandi. 

Yngismeyja / Yngismær / Yngispía / Yngispiltur / Yngissveinn (n, kvk/kk)  Ung stúlka/kona; ungur piltur/maður; unglingur.

Yppa öxlum (orðtak)  Lyfta snöggt báðum öxlum og láta þær falla aftur; merki um að maður viti ekki eða að honum standi á sama.  „Hann yppti bara öxlum þegar ég spurði að þessu“.

Ypparlegur (l)  Ágætur; fyrirtaksgóður.  „Þetta var hinn ypparlegasti útigalli“.

Yrða á (orðtak)  Ávarpa; tala við.  „Maður þorir varla að yrða á þig þegar þú ert svona djúpt hugsi“.

Yrðast á (orðtak)  Tala saman.  „Þeir sátu góða stund þegjandi eftir rifrildið, og yrtust ekki á“.

Yrja (s)  Þegar gerir mjög fíngerða súld, svo varla finnst.  „Mér finnst nú eitthvað byrjað að yrja úr lofti“.

Yrja (n, kvk)  Dökklitaður aflangur blettur í ljósari grunni; branda á feldi.  Þessar sækýr voru gráar; ljósar með dekkri yrjum, og það var talað um að sá litur væri arfur frá þannig ættuðum kúm“  (SG; Huldufólk; Þjhd.Þjms). 

Yrja (s)  Eyða; má; strúa.  Oftast notað í þátíð; urinn.  „Saltið er að verða upp urið“.

Yrjóttur (l)  Um lit; dílóttur; spræklóttur.  „Stelpan er í yrjóttum kjól“.

Yrkingar (n, kvk, fto)  Ljóðagerð; skáldskapur.  „Ég fæst lítið við yrkingar“.

Yrkisefni (n, hk)  Tilefni vísnagerðar; efni í ljóð/kveðskap.  „Þetta varð honum að yrkisefni“.

Yrkja (s)  Gera ljóð/vísu; semja; skálda.  „Didda ég get ekkert ort/ sem er þess virði að muna./  Mig hefur alltaf andann skort/ og einkum talentuna“  (Páll Guðbjartsson í gestabók Sigríðar á Láganúpi, en hún var nokkuð ýtin með að innheimta vísur frá gestum).

Yrmlingur (n, kk)  A.  Lítill ormur.  „Ekkert gras eða slý má í brunnvatninu líðast því yrmlingar tímgast þar þá og kunna að drekkast í vatni af mönnum“  (BH; Atli).  B.  Líkingamál um óknyttadreng/pottorm.

Ys (n, kk)  Kliður; hávaði.

Ys og þys (orðtak)  Æsingur; hávaði og læti; fyrirgangur.  „Óttalegur ys og þys er þetta útaf smámunum“!

Ysta (s)  Um mjólkurvöru; hleypa; gera ost/ostkennt.  „Mig grunar að mjólkin sé orðin súr, fyrst hún ystir þegar hellt er útá grautinn“.

Ystingur (n, kk)  Matvara sem er lík osti; yst mjólk.

Ytra (ao)  Fyrir utan; úti; erlendis.  „Hann dvaldi um tíma ytra, við nám“.

Yxna (l)  Um dýr; fúst til mökunar.  Einkum notað um kýr sem gangur er á/ sem þarf að halda undir naut.

Ýfa (s)  Gera úfinn; róta upp.  „Ég held að hann sé að ýfa upp einhvern vestansjó“.

Ýfingar (n, kvk, fto)  Erjur; misklíð; deilur.  „Einhverjar ýfingar hafa verið með þeim í seinni tíð“.

Ýja að (orðtak)  Gefa í skyn; tala utanað; nunna að.  „Ég ýjaði að því við hann að koma með í róður“.

Ýkinn (l)  Lyginn; gjarn á að færa í stílinn/auka við frásögn.  „Það má nú alltaf draga dálítið frá hjá honum; honum hættir til að ýkja stundum“.

Ýkja (ao)  Mjög.  „...hver maður tók eina byrði og dró hana til ruðnings upp eftir Búðalælknum.  Var þetta ekki ýkja erfitt því fiskurinn rann vel í læknum...“  (KJK; Kollsvíkurver).  Einnig sem forliður lýsingarorða.

Ýkja (s)  Skálda; færa í stílinn; ljúga hóflega.  „Sumir ókunnugir halda að Kollsvíkingar séu að ýkja þegar þeir lýsa landkostum heimaslóðanna eins samviskusamlega og þeim er framast unnt“.  „Ekki datt okkur krökkunum í hug að Arinbjörn gamli væri að ýkja þegar hann lýsti því, grafalvarlegur, hvernig tunglbúarnir þyrftu að fela hausana af sér í hrossastráum þegar þeir koma til Jarðar, svo þeim væri ekki stolið“.

Ýkjastór / Ýkjamikill / Ýkjahár o.s.frv.  (l)  Mjög stór/mikill/ hár o.s.frv.  „Hann var ekki ýkjahár í loftinu þegar hann fór að halda á byssu“.

Ýkjulaust (l)  Lygilaust; frómt frá sagt.  „Það má ýkjulaust fullyrða að lúðan hafi verið á stærð við bátinn“!

Ýkjur (n, kvk, fto)  Lygar; hálfsannleikur; ofsögum sagt.  „Hann hefur oft sagt meiri ýkjur en þetta; mér liggur við að halda að þetta sé bara dagsatt“!

Ýkjusaga (n, kvk)  Saga sem færð hefur verið í stílinn/ýkt; skáldsaga.  „Við fengum fljótt á tilfinninguna að sögurnar kynnu að vera ýkjusögur.  Hausar tunglbúanna fundust ekki og engir aðrir virtust hafa séð þá“:

Ýl / Ýlfur (n, hk)  Hátóna væl; skerandi gól.  „Hvaða ýlfur er þetta í hundinum“?

Ýla / Ýlfra (s)  Reka upp skerandi hátíðnihljóð.  „Hundurinn ýlaði ámátlega þegar kjóinn sló hann í hausinn“.

Ýlda (n, kvk)  A.  Úldinn matur; ýldufýla.  „Það þarf að þrífa vel ýlduna úr fiskikassanum“.  Einnig var sagnorðið að ýlda notað um það að láta mat skemmast:  „Sumum þótti gott að ýlda sviðin dálítið áður en þau voru sviðin“.  B.  Úldið hræ.  „Það verður þá fögnuður að greiða ýlduna úr netunum eftir þennan garð“!

Ýldubragð / Ýldukeimur (n, h/ kk)  Vont bragð af mat.  „Mér fannst ekki frítt við ýldubragð af saltketinu“.

Ýldudammur / Ýldufor (n, kk/kvk)  Forarvilpa þar sem eitthvað er að úldna.  „Það þarf að moka yfir ýldudamminn við sláturhúsið, svo lyktina leggi ekki upp að skólanum“.

Ýldudrulla / Ýlduhaugur / Ýlduklessa (n, kvk/kk)  Ýlda; úldið hræ eða hluti af hræi; úldinn ket- eða fiskbiti.

Ýldufnykur  / Ýldufýla / Ýldulykt / Ýldupest / Ýlduþefur  (n, kvk)  Lykt/fýla af hræi, mat eða öðru sem farið er að úldna.

Ýlduhræ (n, hk)  Úldið hræ af skepnu.  „Það þyrfti að ná þessu ýlduhræi úr fjörunni og grafa það“.

Ýlduslepja (n, kvk)  Illa lyktandi slím sem sest utaná mat sem er að byrja að skemmast/úldna.  „Ég ætla að skafa ýlduslepjuna utanaf þessu; það getur verið í lagi innaní“.

Ýlir (n, kk)  A.  Annar mánuður vetrar að fornu tímatali.  Hefst venjulega næsta mánudag eftir 18. nóvember.  Önnur heiti mánaðarins voru frermánuður og skammdegismánuður.  B.  Annað heiti á bárufleyg; lýsispoka sem notaður var sumsstaðar til að lægja brimöldu.  Ekki fer sögum af slíku í Kollsvíkurverum.

Ýlfur (n, hk)  Hátóna en lágt væl, t.d. í hundi.  „Eftir svona tuttugu mínútur heyrði ég ýlfur við hleinarnar“  (IG; Sagt til vegar I).  

Ýluraketta (n, kvk)  Raketta/flugeldur sem gefur frá sér hávært skerandi hlóð þegar skotið er á loft. 

Ýlustrá (n, hk)  Strá sem er heppilegt til að láta ýla.  Þá er tekið blað af grasi; því haldið strekktu í lófum milli handa og blásið þvert á það.  Með lagni má þannig mynda töluvert hátt blísturhljóð.  „Á Ýluflöt óxu grös, sem hægt var að blása í röndina á; ýlustrá“ (AS ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Ýmir (n, kk)  Úr norrænni goðafræði:  Jötunn sem Óðinn og bræður hans skópu jörðina úr.

Ýmis / Ýmiskonar / Ýms / Ýmskonar (l)  Af ýmsu tagi; allskyns.  „Auk trjáviðar berst ýmiskonar annar reki upp á fjörurnar“.  „Voru þar ýms skemmtiatriði, t.d. hlaup, reiptog, pokahlaup o.fl; og síðan dans á danspalli sem deildin átti“  (ÖG; Slysavarnadeildin Bræðrabandið).  Orðin voru ýmist sögð/skrifuð með i eða án.

Ýmislega (ao)  Á ýmsan hátt; margvíslega.  „Síðan hafa Hólar og heimajörðin (Láginúpur) skift á milli sín túninu ýmislega, so partarnir hafa á víxl verið; stundum meiri; stundum minni“  (ÁM/PV Jarðabók).

Ýmist (l)  Sitt á hvað; annaðhvort.  „Þeir (þurrkaðir hausar) voru ýmist seldir eða bleyttir upp og barðir fyrir skepnurnar næsta vetur“  (IG; Æskuminningar). 

Ýmist er of eða van (orðatiltæki)  Annaðhvort er of mikið eða of lítið; vandratað er meðalhófið.

Ýmist í ökkla eða eyra (orðtak)  Annaðhvort of lítið eða of mikið; ýmist of eða van.  „Gestakomur eru ýmist ´ökkla eða eyra; stundum sést ekki kjaftur langtímum saman en aðra stundina er hvert skot setið“.

Ýmist of eða van (orðtak)  Ýmist of mikið eða of lítið.  „Það er ýmist of eða van í veðráttunni þessa dagana:  Stundum mollulogn dag eftir dag, og enginn þurrkur; eða hávaðarok og heyskaðar“!

Ýmislags / Ýmslags (l)  Allskonar; af ýmsu tagi; með ýmsum hætti.  „Við lentum í ýmislags vandræðum á leiðinni“.  „Upp í kofann hafði hann borið ýmslags reka úr fjörunni“.  Jöfnum höndum notað i eða ekki.

Ýmsar eru/verða ævirnar (orðatiltæki)  Ævi manna er með ýmsu móti; menn eiga ólíka ævi.

Ýra (s)  Úðast; rigna; dropa.  „Það ýrir aðeins úr þokunni“. 

Ýra úr öldu (orðtak)  Úðast yfir bát úr öldufaldi.  „Farðu í stakk; það getur ýrt úr öldu í kulinu“.

Ýringur (n, kk)  Fíngerð súld; úði.  Fornt heiti; úr.  Það er kominn einhver ýringur úr lofti“.

Ýsa (n, kvk)  Melanogrammus æglefinus.  Fiskur af þorskfiskaætt, algengur í N-Atlantshafi.  Getur orðið allt að metri að lengd og 20 kíló, en oftast mun minni.  Blágrá að lit, með svarta rönd eftir síðunni og skeggþráð á höku.  Fæðan er fjölbreytt; botndýr s.s. skeljar, sniglar, marflær og smáfiskur.  Góður matfiskur og mikið veidd.  Ýsa hefur í seinni tíð veiðst í auknum mæli á grunnmiðum vestra, en hefur þó lengi verið algeng í fjörðunum.  Hún hefur þó löngum veiðst í einhverju magni á Kollsvík eins og sjá má af beinalögum.  Vinsælt hefur verið að tálga smáhluti úr klumbubeininu, t.d. fugla, seli eða karla.  Ýmsar þjóðsögur tengjast ýsunni.  Einhverju sinni ætlaði kölski að veiða fisk úr sjó.  Ýsan skaust undir stein og þreifaði hann fyrir henni þar.  Sér enn dökka bletti á þunnildum ýsunnar þar sem kölski þrýsti að, en ýsan rann samt úr greipum hans, og á hliðum hennar sjást enn förin eftir neglur kölska.   Sumir notuð það lag þegar skakað var fyrir ýsu að keipa fremur stutt.  Því er það nefnt að draga ýsur þegar menn dotta/sofna svo andardráttur heyrist.  Sjá sjaldan er ýsa í asafiski…“

Ýsukvikindi / Ýsutittur (n, hk/kk)  Gæluheiti á ýsu.  Ýsa var aldrei í eins miklum metum og þorskur meðal sjómanna, þó hún sé góður matfiskur.

Ýta (n, kvk)  Verkfæri/vinnuvél til að ýta saman efni.  Td. heyýta; jarðýta.

Ýta (s)  Þoka; hreyfa við; stjaka; þrýsta.  „Ýttu aðeins betur á hurðina“.

Ýta á flot / Ýta fram / Ýta frá / Ýta frá landi (orðtak)  Ýta úr vör; ýta báti á sjó.  „Loks flaut þó báturinn og við stukkum uppí og ýttum frá landi.  Árni renndi fyrir stýrinu; tók sveifina og stakk í stýrisaugað“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Ýta/þrýsta á um (eitthvað) (orðtak)  Vera ákafur um að eitthvað málefni nái fram að ganga.

Ýta undir (eitthvað) (orðtak)  Koma/hjálpa einhverju af stað; auka við.  „Heldur ýtti hann undir þessar sögusagnir en að hann væri að draga úr þeim“.

Ýta úr vör (orðtak)  A.  Um sjósetningu báts; fara fram; fara á sjó; leggja frá landi.  B.  Í líkingamáli; koma málefni/verkefni af stað.

Ýta/róta við (einhverjum) (orðtak)  Vekja einhvern.

Ýtinn (l)  Sá sem þrýstir á/gengur eftir.  „Hann var þó nokkuð ýtinn og það endaði með því að ég samþykkti“

Ýtni (n, kvk)  Þrýstingur; eftirgangssemi.  „Vertu ekki sífellt með þessa ýtni; ég er orðinn þreyttur á henni“.

Ýtumaður / Ýtustjóri (n, kk)  Sá sem stjórnar jarðýtu.   „Á þessari vél ól hann upp sem ýtumenn frændur sína; Ólaf Sveinsson á Sellátranesi og Marinó Kristjánsson í Efri-Tungu“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Ýturuðningur / Ýtuslóði (n, kk)  Vegur sem ruddur er af ýtu, en ekki ofaníborinn eða gerður vel fólksbílafær.

Ýtustjórn (n, kvk)  Stjórnun jarðýtu.  „Þetta (IH W4) hefur eflaust verið fyrsta vélknúna vinnutækið sem Magnús (í Vesturbotni) stjórnaði, utan trillu sem hann átti, en tveim eða þrem árum síðar byrjaði hann á ýtustjórn, sem átti eftir að gera hann kunnan víðs vegar“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Leita