Vað (n, hk)  Staður þar sem helst er fært/gengt yfir vatnsfall; staður þar sem farið er yfir á/læk.

Vaða (n, kvk)  Torfa af fiski, sel eða hval á sundi.  Í seinni tíð er orðið einungis notað um hóp sela eða hvala, en „torfa“ eða „flekkur“ er notað um þéttan fiskahóp á sundi.

Vaða (s)  A.  Ösla í vatni eða sjó.  „Maður í landi býr sig út með ár er hann festir við alllöngu snæri.  Hann veður fram í sjóinn eins langt og honum fært þykir...“  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Verða blautur í fæturna.  „Þú kemst ekki á svona lágum stígvélum yfir ána nema vaða í fæturna“.  „Þú ert blautur í annan fótinn; óðstu“?  Þessi merking orðsins var algeng í Kollsvík frameftir 20.öld, en heyrist vart nú.  C.  Um fisk; synda í torfu í yfirborðinu, þannig að þar sýnist krauma.  D.  Ana/æða áfram.  „Ég veð ekki inní hús hjá öðrum án þess að vera boðinn inn“.  E.  Um skip/flúð o.fl; freyða; skvettast.  „Nú veður á súðum“.  „Það veður á boðanum í ólögum“.

Vaða á (einhverjum) (orðtak)  Vera óðamála; samkjafta ekki.  „Það óð svo á kerlingunni að hún kjaftaði mig alveg í kaf“.

Vaða á súðum (orðtak)  Sjá láta vaða á súðum.

Vaða á söxum  (orðtak)  Um siglingu báts, þegar bógaldan hleðst upp við söxin og er nærri því aðgutla innyfir.  Notað í líkingamáli um gustmikla manneskju.

Vaða elginn (orðatiltæki) Tala án afláts; vera óðamála.  „Það kemur fyrir lítið þó hann vaði elginn um þetta á þingi“.  „Hún hélt áfram að vaða elginn, löngu eftir að karlinn var farinn út“.  Elgur er krapasull eða vatn, sem menn vilja helst komast yfir sem fyrst; einkanlega í skóbúnaði fyrri tíðar.  Líkt er farið þeim sem talar mikið og hratt, án þess að stoppa.

Vaða í fæturna (orðtak)  Verða blautur í fæturna.  Var í mæltu máli í Kollsvík til skamms tíma en heyrðist ekki annarsstaðar.  „Óðstu enn í fæturna drengur! Farðu úr böslunum og finndu þér þurra sokka“.

Vaða í skýjum (orðtak)  Um tunglið; vera hulið skýjum öðru hvoru; sýnast flækjast milli skýja.

Vaða í villu og svíma / Vaða í reyk og svíma (orðatiltæki)  Upprunalega merkingin er líklega að vera áttavilltur þegar vaðið er í á; á grunnsævi eða í reyk.  Algeng afleidd merking er að skjátlast algerlega eða hafa ranghugmyndir.  „Þarna veður höfundurinn algerlega í villu og svíma, að mínu áliti“.  Oft stytt í „vaða í villu“.  „Svími“ er eldri mynd af orðinu „svimi“, þ.e. rugl eða skortur á áttun.

Vaða í þoku og reyk (orðtak)  Sjá vaða reyk.

Vaða ofaní/yfir (einhvern) (á skítugum skónum) (orðtak)  Sýna einhverjum yfirgang. 

Vaða reyk (orðtak)  Skjátlast mjög; standa í rangri meiningu; vaða í þoku og reyk;  tala án þekkingar; fara villur vega.  „Nú held ég að þú sért að vaða reyk; þetta gerðist alls ekki með þessum hætti“! 

Vaða uppi (orðtak)  Um löst sem orðinn er um of almennur/algengur.  „Nú vaða uppi allskonar rassbögur í íslensku máli sem enginn hefði látið útúr sér kinnroðalaust fyrir fáum áratugum“.  Líking við fisk sem kemur uppundir yfirborð í torfum í fæðuleit.  Sjá gjör.

Vaða úr einu í annað (orðtak)  Fara úr einu í annað; skipta skyndilega um umræðuefni.

Vaða yfir (einhvern) / Vaða yfir (einhvern) á skítugum skónum (orðtak)  Viðhafa mikinn ágang; sýna ágengni/yfirgang.  „Ég læt ekki svona skítseiði vaða neitt yfir mig á skítugum skónum“!

Vaðall (n, kk)  A.  Vatn, lækur eða krapaelgur sem unnt er að vaða yfir.  B.  Mikil dögg í grasi; mikið áfall á jörð.  „Farðu í stígvel ef þú ætlar fram á sléttur; það er töluverður vaðall“.  C.  Kjaftavaðall; málæði.  „Skelfilegur vaðall er þetta í honum“! „Það stoppar ekki kjaftavaðallinn í honum“. 

Vaðalsblautt (l)  Forblautt; rennandi blautt; mjög rakt.  „Það þýðir ekkert að setja heyið svona vaðalsblautt í gryfjuna; við skulum láta renna úr því smástund á vagninum“.

Vaðandi (n, kk)  A.  Mikil bleyta á jörðu; mikið náttfall.  Sjá einnig fossvaðandi.  „Ég byrja ekkert að slá fyrr en hann hefur tekið upp mesta vaðandann“.  B.  Svo mikill sjór að brotnar úr báru.  „Það var orðinn hálfgerður vaðandi þarna frammi, svo við fórum bara í strengina uppundir“.  C.  Kjaftavaðall; málæði.  „Það var slíkur vaðandi á frambjóðandanum að ég náði varla að stinga inn aukateknu orði“!  „Mikið leiðist mér þessi vaðandi í fjölmiðlum um hollívúddmyndir og kóngapakk“.

Vaðandi (l)  Blautt um; öslandi í yfirborðinu.  „Það er vaðandi síld um allan sjó“.  „Við verðum að bíða með að breiða; það er ennþá vaðandi náttfall“.

Vaðandi (n, kk)  Mikil bleyta í grasi/ á jörð; vaðall.  „Farðu nú í stígvél; þú verður annars drullublautur í fæturna í vaðandanum“!

Vaðandi blautur (orðtak)  Vaðalsblautur; forblautur; rennandi blautur.  „Hafðu nú tíkina frammi; hún er vaðandi blaut“!

Vaðandi brim (orðtak)  Mikið brim; mikill sjógangur við strönd.  „Það þarf að gæta vel að fé í fjörunni í þessu vaðandi brimi“.

Vaðandi fiskur (orðtak)    Mikið um fisk í sjó; mikil veiði.  „Hér er bara vaðandi grásleppa“! 

Vaðarauga  (n, hk)  Festarauga; siglykkja; lykkja á enda sigfestar.  „Vaðarauga kallast á enda kaðalsins.  Hann er lagður tvöfaldur á svona þriggja metra æengd og endinn splæstur niður.  Þarna er komin löng lykkja; vaðarauga.  Sigarinn bregður knappfellu á vaðaraugað og rennir að mitti sér; og síðan bregður hann hálfu hnútsbragði (hestahnútsbragði) á vaðinn fyrir framan sig, og bregður síðan þessari lykkju yfir um sig, þannig að hún fer undir rassinn að aftan, en bragðið herðist að við knappfellulykkjuna að framan, sem áður var komin og þannig að framhald vaðarins veit niður úr hnútnum.  Seinna bragðið kemur í veg fyrir að herðist til óþæginda að fyrra bragðinu.  Nú situr maðurinn í tvöföldum kaðlinum þegar hann hallar sér aftur.  Hann verður stöðugt að halda annarri höndinni um vaðinn fyrir framan og ofan sig til að halda jafnvægi í siginu, og hann hefur ekki nema aðra höndina lausa meðan hann er á lofti.  Bindingin tekur ekki nema eina eða tvær mínútur“  (MG; Látrabjarg).

Vaðarendi (n, kk)  Endi á vað/festi; festarendi.  „Undirsetumaður við enda vaðs hafði góðan spotta af vaðarendanum ofan við sig.  Hann sparkaði sér góðar holur með hælum; settist svo hann sneri að brún; brá lykkju af vaðnum utanum sig og hélt báðum þáttum tryggilega saman framan við sig“.

Vaðarhald (n, hk)  Veiðarfæri/handvaður fyrir hákarlaveiðar.

Vaðarhjól (n, hk)  Hjól sem sett er á bjargbrún til að vaður renni lipurt um hana.  „Það sem kallast í einu lagi vaðarhjól er ekki ósvipað mjórri hjólbörugrind með sinni þverslánni undir hvorum enda.  Ánegldaar kinnar úr fjalarbútum hækka upp þann enda grindarinnar sem að brúninni snýr.  Á járnás sem gengur í gegnum kinnarnar leikur skoruhjól úr harðviði.  Þetta hjól er 7-8cm þykkt og 15-20cm í þvermál.  Vaðurinn er svo látinn leika á skoruhjólinu þegar sigið er.  Grindinni er svo valinn sléttur staður fram við brún, og þarf hjólið helst að vera það framarlega að vaðurinn nuggist ekki að ráði við klettinn.  Í grindarendann sem frá brúninni veit, er bundin nokkurra metra taug, og er hún strengd í hæl sem rekin er niður í svörðinn spöl frá brúninni.  Er þá tryggt að grindin getur ekki hrokkið framaf þó að hún raskist til“  (MH; Látrabjarg)

Vaðarhlutur / Vaðhlutur (n, kk)  Aukahlutur (dauður hlutut) sem skipt var út af eggja-/fuglatekju eftir bjargferð fyrir afnot af bjargvað.  „Á Látrabjargi fékk hver brúnamaður einn hlut, en sigamaður tvo; annar var áhættuhlutur.  Bjarghlutur (bergtollur/landshlutur) var einn og sömuleiðis vaðarhlutur“  (LK; Ísl sjávarhættir V).  „Í seinni tíð hafa vaðir ekki verið eins vandfengnir og því ekki verið tekinn fyrir þá hlutur.  Hinsvegar hefur stundum verið skipt út dauðum hlutum fyrir bíl eða bát, leggi einn það til öðrum fremur“  (VÖ).

Vaðarhæll / Vaðarþollur (n, kk)  Hæll/þollur sem notaður er við bjargferðir.  Í björgum vestra tíðkaðist það stundum að einn maður fór í kletta til eggja með ílát, vaðarspotta og einn hæl/þoll.  Þollurinn var rekinn niður í jörð ofanvið niðurgönguna; spottanum fest tryggilega þar á, og síðan var farið í lás niður í egglandið, með fötu á handlegg.  Til skamms tíma mátti sjá vaðarþoll ofan Gorgánshillu í Keflavíkurbjargi, sem þar var upphaflega settur af KJK á Grundum.

Vaðarlengd (n, kvk)  Lengd á bjargvað.  Hæð af brún og niður í stað í bjargi var oft mæld í tugum faðma af vað sem þurfti til siga þangað niður.  „Áður en lauk vorum við komnir það langt niður í Bjargið að þraut sextugan vað sem við höfðum fest um stein eða bjargnibbu á grasganginum, þar sem við byrjuðum fuglatekjuna“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Vaðarspotti / Vaðspotti (n, kk)  Stuttur vaður; gildur bandspotti.  „Ég skal bera vaðarspottann“.

Vaðast upp (orðtak)  Um jarðveg/stíg/veg/undirlag/moldargólf; verða sundurdrafað vegna ágangs.

Vaðbein (n, hk)  Vaðbeygja úr beini sem áður tíðkaðist að setja á borðstokka báta.

Vaðberg (n, hk)  A.  Bjarg sem farið er um í vað, til fyglinga eða eggja.  Þessi merking orðsins er þó löngu aflögð.  B.  Staður á bjargbrún, þar sem vel sést til sigmanns í vað niðri í bjarginu.  Oft nefnt varðberg, sjá vera á vaðbergi/varðbergi.

Vaðbergsmaður (n, kk)  Gægjumaður; varðbergsmaður; maður sem hefur gætur á sigara í bjargsigi og er tengiliður hans við þá sem eru á brún.  „Vaðbergsmaður/gægjumaður er kominn á sinn stað; til hliðar frammi á snös þar sem best sést til mannsins í siginu“  (MG; Látrabjarg). 

Vaðbeygja (n, kvk)  Stykki, oftast úr viði eða beini áðurfyrr, en nú úr málmi/plastefnum, sem sett er á borðstokk báts til að færið renni liðugt um hann og valdi ekki skemmdum.  „Almenn venja var það ... að láta færið leika í tiltelgdum trjábút er nefndist vaðbeygja.  Var hún oftast úr hörðum viði, sívöl að neðan og rekin í gat sem var á borðstokknum“  (Tímaritið Ægir 1942).  „Vaðbeygjurnar voru einatt úr góðum viði, eski eða eik“  (GG; Skútuöldin).  „Á öllum handfærabátum var brák/vaðbeygja, oft með krossmarki.  Hún var af mörgum gerðumog í henni var vaðskora“ (LK; Ísl sjávarhættir IV).   Elsta vaðbeygja landsins er líklega sú sem fannst á báti í Vatnsdalskumlinu, en hún er talin vera frá landnámstíð og var líklega fyrir stjórafæri.

Vaðbundinn (l)  Bundinn á vað; festur í taug.  Einkum notað um mann sem veður út í sjó eða á t.d. til að aðstoða bát eða menn.  Menn í landi halda þá í hinn enda taugarinnar og draga í land ef með þarf.

Vaðburður (n, kk)  Um seglabúnað báts; band sem fest er á seglrána; liggur niður seglið að utanverðu (hlémegin) og haldið við það kulmegin.  Með því að toga í það mátti hleypa vindi úr seglum ef skipið þoldi illa mikla siglingu.  „Seglið var alrifað og aukið við kulbandi; kallaður vaðburður“  (JE; Trýnaveður; Því gleymi ég aldrei). 

Vaðbyrgi (n, hk)  Sérstakt byrgi eða skýli sem hlaðið var á bjargbrún og einkum ætlað til geymslu á sigvað, en var einnig nýtt til geymslu á eggjum og öðrum bjargfeng; ílátum o.fl. meðan bjargtíð stóð yfir.  Enn má t.d. sjá leifar vaðbyrgis ofan við Stíg á Geldingsskorardal.  „Oft varð að gera hlé á fuglatekjunni vegna votviðra...  Vaðirnir voru skildir eftir úti á bjargbrún til að þurfa ekki að flytja þá fram og til baka.  Vaðbyrgi voru áður fyrr byggð á bjargbrún nær aðalsigstöðum.  Þetta voru litlir kofar með helluþaki.  Inni var ás uppi undir rjáfri að endilöngu, og voru vaðirnir gerðir uppá hann þegar þeir geymdust úti á Bjargi í hléum.  Vaðir máttu ekki geymast rakir og allra síst á jörðinni.  Fuglabyrgi voru af sömu gerð og vaðbyrgin, og voru höfð til að geyma í fugl þegar ekki hafðist undan að flytja heim.  En fuglinn þurfti að verja fyrir vörgum.  (MG; Látrabjarg; frás. Daníels Eggertssonar; Hafliða Halldórssonar o.fl.)

Vaðdráttur (n, kk)  Hlutir, t.d. fiskseil eða eggjakútur, eru dregnir á vaðdrætti til lands eða upp kletta , þannig að haldið er við með leynivað aftur af því sem dregið er, svo unnt sé að draga tildráttartbandið til baka.

Vaðfugl (n, kk)  Flokkur fugla sem einkennist af háum fótum, yfirleitt án sundfitja.  Vaðfuglar leita sér oftast fæðu í votlendi eða á fjörum.

Vaðglöggur (l)  A.  Um skakveiði; næmur að finna hvenær fiskur nartar við beitu og hvenær veiði er á krókum.  Menn eru mjög misjafnlega vaðglöggir.  Sumir virðast greina ef fiskur nartar við krók; jafnvel hvaða fisktegund það er, meðan aðrir geta skakað löngum með þverhúkkaðan titt á færinu.  B.  Um brúnamann/hjólmann í bjargsigi; næmur að finna merki frá sigara og hvernig honum gengur sigið.  Mikilvægi þess er undirstrikað í þessari vísu sem kveðin var á brún Látrabjargs forðum: „Festarhari hugrakkur;/ hraustur snar og fljótur; / vertu bara vaðglöggur, / viðris skora njótur“ (LK; Ísl.sjávarhættir V).  Sjá festarhari og skorarviðri.

Vaðhlutur (n, kk)  Vaðarhlutur.

Vaðhorn (n, hk)  A.  Fremsti hluti fiskkviðar, frammi við lífoddann.  B.  Þunnildi og þunnildisbein af lúðu.  Upprunalega líklega notað um festu sem fá mátti fyrir band á þunnildisbeininu til að innbyrða lúðuna eða seila hana.  Í síðari tíð notað um bita, en mikilvægt var að skipta rétt því lostæti sem lúðan er.  „Sá sem dró lúðu fékk alltaf af henni óskipt vaðhornið og sporðinn.  Þegar búið var að rista fyrir uggum, rafabeltunum, var rist fyrir flökum, þannig að einn skurður var ristur eftir endilöngum hrygg; frá haus og aftur í þverskurð á sporði.  Síðan var flakið rist um þvert aftan við kviðarhol.  Þessi biti, beggja megin með þunnildisbeini, var nefndur vaðhorn“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Kviðarstykkið var kallað vaðhorn en sporðstykkið blaka“  (PJ;  Barðstrendingabók).

Vaðhornsbein (n, hk)  Angiljubein; bein í fiski, sem marka framjaðar vaðhornsins, aftanvið tálknopið.

Vaðkeipa (n, kvk)  Skurður sem skorinn er þvert yfir neðra borð þorskhauss, framanvið tungubeinið, til að unnt sé að stinga þar fingri í þegar hausað er.

Vaðkeipa (s)  Varkjafta; skera neðan í haus á fiski til að ná betra haldi við hausun.  „Að lokinni slægingu var vaðkeipað/vaðkeft/varkjaftað; haldið með vinstri hendinni utanum kjálkann og skorið með þeirri hægri yfir gelluna fyrir framan tungubeinið.  Var það gert til að hægt væri að stinga þumalfingri í vaðkeipuna þegar hausað var, eða allri hendinni þegar hausinn var losaður frá bolnum“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Vaðkeppa (n, kvk)  Bragð/skurður sem skorið er í steinbítshaus til að betra tak náist á honum við slægingu.  „Dráttarmaður tók síðan með vinstri hendi upp í kjaft steinbítsins; slengdi honum út á borðið, greip hnífinn í þá hægri; skar þverskurð/vaðkeppu fyrir framan tálknin; kom fingrunum þar í gegnum svo að fengist gott hald; stakk síðan hnífnum fram við háls og risti kviðinn í einu hnífsbragði aftur að gotrauf.  Að því búnu setti hann hnífinn á milli tanna sér meðan slógið var slitið úr, sem allt fór fyrir borð nema gormurinn/steinbítsgormurinn“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  Líklega sama orð og annarsstaðar var sögnin að vaðkeipa/varkjafta, án þess að um það verði hér fullyrt.

Vaðlaus (l)  Án vaðs/sigtaugar; bandlaus; spottalaus.  „Stundum stálumst við eftir eggjum norður í Núp... Við fórum vaðlausir niður... “  (Halldór Ólafsson; Útkall við Látrabjarg). 

Vaðmál (n, hk)  Voð/efni sem ofið hefur verið í vefstól.  Vaðmál er þykkofið í kljásteinavefstól, með skávend og var notað í ýmiskonar klæði, ábreiður, tjöld og segl.  Á tímum vöruskipta frá landnámstíð framum 1300 var vaðmál oft sá gjaldmiðill sem við var miðað, og var verðeining þess alin.  Á þjóðveldisöld jafngiltu 120 álnir einu kýrverði.  Vaðmál var líklega helsta útflutningsvara Íslendinga frá 12.öld framá þá 14., er skreið tók þann sess.  „Vaðmál til fatnaðar á heimilisfólk voru framleidd í íslenskum sveitum frá landnámi og fram um 1940“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).  Sjá tóvinna

Vaðsteinn (n, kk)  Steinn sem notaður er sem sakka á færi eða hákarlasókn.  Vaðsteinar í Kollsvík voru brimsorfnir fjörusteinar, oftast nokkuð aflangir og sumir flatir og sporöskjulagaðir.  Ýmist var gert á þá göt eða höggvin kringum þá rauf til að tryggja örugga festu á færið.  „Skkurnan voru oftast úr blágrýti og nefndust vaðsteinar.  Þóttu henta til slíks sæbarðir fjörusteinar, 4-5 pund að þyngd, og var höggvin í þá rauf þar sem færinu var fest“  (GG; Skútuöldin). 

Vaðstígvél (n, hk, fto)  Stígvél sem halda vatni, og því unnt að vaða í án þess að blotna í fæturna.  Gúmmístígvél urðu fyrst almenningseign á 20.öld og er það líklega ein mesta bylting sem orðið hefur í klæðnaði og heilsubót landsmanna á síðari tímum.  Nútímafólk á líklega erfitt með að ímynda sér þá vosbúð sem fylgir því að vera sífellt blautur í fætur þegar farið er útfyrir hússins dyr.

Vaðstuðningur (n, kk)  Stuðningur af vað í bjargferð.  „Er ekki betra að vera með vaðstuðning þarna niður“?

Vaður (n, kk)  A.  Tóg sem notuð er til bjargsiga; bjargtóg; bjargvaður; mannavaður; sigvaður; sigtóg.  Orðið var ekki notað í annarri merkingu á svæðinu í seinni tíð.  „Vaðurinn hefur nú verið rakinn frá brúninni og hjólmaður kallar dráttarfólkið á vaðinn.  Fólkið sest nú flötum beinum við vaðinn með nokkru millibili; allir sömu megin, en hjólmaður sest ofanvið hjólið og hefur viðspyrnu á hjólgrindinni.  Hann situr undir, sem kallað er; lætur vaðinn renna yfir læri sér… Vaðbergsmaður/gægjumaður er kominn á sinn stað…“  (MG; Látrabjarg).  B.  Hákarlavaður; lagvaður; veiðarfæri til hákarlaveiða.  Sjá hákarl.

Vaf (n, hk)  A.  Það sem vafið er.  B.  Reifar/fetlar sem hlutir voru gjarna bornir í fyrr á tíð.  Af því er komið orðtakið að eitthvað sé þungt í vöfum.  C.  Vafningar einangraðs vírs til myndunar rafsegulspólu. 

Vafa undirorpið / Vafabundið / Vafaefni (orðtak)  Vafasamt; vafamál; orkar tvímælis.  „Það er vafa undirorpið hvort hann á nokkuð í jörðinni“.  „Ég tel það vafabundið að hann nái kjöri“.  „Þetta er varla neitt vafaefni“.

Vafaatriði / Vafaefni / Vafamál (n, hk)  Mál sem vafi leikur á um; málefni sem véfengt er. 

Vafagemlingur / Vafagemsi / Vafagepill (n, kk)  Viðsjárverður maður; ólíkindatól.  „Hann hefur löngum verið talinn vafagemlingur í pólitíkinni blessaður; sífellt hlaupandi á milli flokka“.

Vafakind / Vafalamb / Vafamark (n, kvk/hk)  Kind/lamb með vafamarki/óljóst mark sem krefst sérstaks úrskurðar.  „Vafakindur og vafalömb koma stundum á réttir og þarf þá markaglöggan mann til að skera úr um vafamörkin“.  „Allmiklar umræður urðu vegna skila á vafalambi sem sent var af Breiðavíkurrétt á Rauðasandsrétt; slátrað og lagt inn á sérstakan reikning“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Vafalaust (l)  Eflaust; án vafa; örugglega.  „Hann hefur vafalaust farið að gefa fénu ef hann er farinn út“.

Vafalítið (l)  Án mikils vafa; nær örugglega; efalítið.  „Ég tel það vafalítið að svona liggi í málinu“.

Vafamál (n, hk)  Vafaatriði; vafaefni; efamál mál sem ástæða er til að efast um.  „Það er ekki nokkuð vafamál að tréð hefði tekið út aftur ef ég hefði ekki velt því upp“.

Vafasamt (l)  Óvíst; hæpið; ekki miklar líkur á.  „Hann taldi það vafasamt að unnt yrði að ná kindinnu úr sveltinu“.  „Svona aðferðir þykja mér nokkuð vafasamar“.

Vaffla (n, kvk)  Flatt kaffibrauð sem bakað er í sérstöku vöfflujárni, þar sem það klemmist milli tveggja járnplatna, svo í því myndast sérkennileg tíglamynstur.  Gjarnan borðað heitt með sultu og rjóma.  Nafnið helgast af því að hringlaga kakan skiptist í nokkra v-laga geira með sporum.  Innfluttur siður frá 19.öld.

Vafi (n, kk)  Efi; óvissa; það sem ekki er öruggt.

Vafinn (l) Sem búið er að vefja.

Vaflast fyrir (orðtak)  Flækjast/þvælast fyrir.

Vafningalaust (l)  Án málalegninga/erfiðis/aukaverka.  „Þetta ætti að geta gengið vafningalaust á þennan hátt“.

Vafningaminnst (l, est)  Fyrirhafnarminnst; vafstursminnst.  „Það er vafningaminnst að gera eina ferð að því“.

Vafningar (n, kk, fto)  Vesen; vafstur.  „Hann hafði enga vafninga á því heldur tók í miðsnesið á nautinu og sneri það niður á augabragði“.

Vafningasamt (l)  Viðamikið; fyrirhafnarmikið; flókið.  „Mér fannst æði vafningasamt að fara eftir þessum serimoníum, svo ég notaði bara mínar eigin aðferðir, sem flýtti mjög fyrir“.

Vafningur (n, kk)  A.  Vefja; bragð; vaf; flétta; umferð.  „Ég tók nokkra vafninga af umbúðunum til að létta á sárinu“.  B.  Undanbrögð; málalengingar.  „Hann skilaði mér hnífnum án nokkurra vafninga“.

Vafra (s)  Eigra; ganga í rólegheitum; rölta.  „Einhver túristi er að vafra niðri við sjó“.

Vafs / Vafstur (n, hk) Vesen; fyrirhöfn.  Það er óttalegt vafstur að bera aflann af áður en báturinn er tekinn upp“.

Vafsa / Vafsast / Vasast (s)  Vesenast; amstra með.  „Hann hefur lengi verið af vafsast í þessum málum, en ekki náð árangri fyrr en núna“.  „Einhver þarf að vasast í þessu; það gerir sig ekki sjálft“!

Vafstra / vafstrast (s)  Vinna; basla; úðra.  Hann er eitthvað að vafstra með bílinn inni á verkstæði“.

Vafstur (n, hk)  Fyrirhöfn; vesen; umstang.  „Ég fer nú að hætta þessu vafstri í stjórn félagsins“.

Vafstursamt (l)  Mikil fyrirhöfn; mikið umstang; erfitt.  „Það hefur verið ári vafstursamt að koma þessu í gegn“.

Vafsturslítið (l, est)  Fyrirhafnarlítið.  „Vafstursminnst er að setja bátinn með aflanum í“.

Vafurlogi (n, kk)  Fyrirbæri úr þjóðsögum; logi sem á að leika uppaf þeim stað sem gull er fólgið undir.  „Gömul munnmæli sögðu að í Álakeldu væri fólgið fé; líklega vegna þess að þar sáust vafurlogar“  (Jón Guðmundsson; Örn.skrá Stakka).

Vag (n, hk)  Vaggandi göngulag; það að vaga; kjag.  „Maður þreytist á þessu vagi í stórgrýtinu“.

Vaga (s)  Kjaga; ganga rólega með vaggandi hreyfingum.  „Hún sagðist ætla að reyna að vaga hérna upp á bæjarhólinn, þó hún væri orðin frekar seinfær til gangs“.

Vaga (róa) í spikinu (orðtak)  Vera mjög feitur/spikaður.  „Á vissan hátt má líta á það sem forréttindi að puða við sveitastörf og sjósókn í stað þess að sitja á skrifstofu, vagandi í spikinu“.

Vagg (n, hk)  Rugg; vag.  „Það er dálítið vagg í þýfinu; það þarf að aka varlega með hlaðinn heyvagninn“.

Vagga (n, kvk)  Rúm ungbarns.  Sjá frá vöggu til grafar.

Vagga (s)  Róa einhverju til og frá; hreyfa fram og til baka.  „Mér tókst að vagga steininum til hliðar“.

Vagl (n, kk)  Dvergur; stutt lóðrétt stoð milli loftbita og mæniáss.  Annarsstaðar á landinu var heitið notað um raft sem lagður var ofaná eða milli mæniása. 

Vagl (n, hk)  A.  Ský á auga.  B.  Eyrnamark sauðfjár; stig; vaglskorið.  Særing í jaðar eyrans sem líkist bita, en lárétt í neðri hluta bensins.  Ekki mikið notað vegna hættu á að sé mistekið fyrir bita.

Vagn (n, kk)  A.  Barnavagn.  B. Heykerra; heyvagn; mælieining á heyi.  „Það komast í mesta lagi tveir vagnar enn í hlöðuna“.  C.  Gæluheiti á bíl.  „Skrambi ertu kominn á glæsilegan vagn“!

Vagnfarmur / Vagnhlass (n, kk/kvk)  Farmur á vagni, t.d. heyvagni

Vaka (n, kvk)  A.  Það að vera vakandi.  „Það hafa verið allmiklar vökur yfir sauðburðinn“.  B.  Sá tími sólarhringsins að vetrarlagi frá því að ljós voru kveikt og fram að háttatíma; kvöldvaka.  C.  Sá siður fyrrum að vaka/halda heilagt fyrir ákveðnar kirkjuhátíðir, s.s. Jónsvöku, Bótólfsvöku, Ólafsvöku og Lafransvöku.  Vakan hófst að nóni dagin fyrir messudaginn og stóð fram að messunni.

Vaka (s)  A.  Vera ekki sofandi.  B.  Bera fyrir; bera yfir.  „Þegar farið er fyrir Grímssonatangana um lágsjávað þarf Háanesið að vaka ljóst fyrir, þar til komið er á móts við Gjögrabryggju“.

Vaka fyrir (einhverjum) (orðtak)  Vera ætlun/fyrirætlun einhvers.  „Ég veit ekkert hvað fyrir honum vakir“.

Vaka niður fyrir fiski/hákarli (orðtak)  Veiða fisk/hákarl niður um vök á ísi.  Var ekki gert í Kollsvík svo vitað sé, en orðtakið var þekkt.

Vakandi auga (orðtak)  Góð gát, vökult auga; árvekni.  „Hafðu vakandi auga með barninu meðan ég bregð mér frá“. „Þið verðið að hafa vakandi auga með þessum árans túnrollum strákar; þær eru lúmskari en andskotinn“.

Vakinn og sofinn yfir (orðtak)  Um samviskusemi; gætir/sinnir mjög vel; er samviskusamur með; ástundar vel.  „Hann er vakinn og sofinn yfir þessu verkefni“.

Vakk (n, hk)  Rölt; reik; stefnulaust ráp.  „Hann er þarna á vakki niðri á Bökkum, sýnist mér“.

Vakka (s)  Reika; eigra; vokka; ráfa.  „Ég ætla að vakka hérna niður í melaskörðin og gá að lambé“.

Vakka (vokka) yfir (orðtak)  Gefa gætur; vera nálægur.  „Mér sýnist að hrafninn sé að vakka yfir hræi í Mýrunum“.  Einnig orðtakið að vera á vakki/vokki.  „Undir vakkar ógnin flá;/ aldan makka hringar./  Yfir hlakka heljarspá/ hríðarklakkar lofti á“  (JR; Rósarímur). 

Vakna (s)  Hætta að sofa; losa svefn.  „Honum verður lítið úr verki ef hann vaknar ekki fyrr en um miðjan dag“!

Vakna af værum blundi (orðtak)  Vakna eftir góðan svefn.  „Þegar ég vaknaði af værum blundi voru þeir farnir“.

Vakna fyrir allar aldir (orðtak)  Vakna mjög snemma.  „Hann vaknaði fyrir allar aldir; gekk út að míga og fór svo að huga að nestinu“.

Vakna með andfælum / Hrökkva upp með andfælum (orðtak)  Vakna harkalega/snögglega/óþægilega; rjúka upp úr djúpum svefni.  „Ég vaknaði með andfælum þegar mér fannst allt stefna í óefni í draumnum“.  Orðið andfælur tíðkast ekki í dag nema í þessu samhengi.  Líklega er merking þess sú sama og að grípa andann á lofti; þ.e. hið ósjálfráða viðgragð að draga andann snöggt og halda honum í sér þegar manni verður bilt við.

Vakna til lífsins (orðtak)  Vakna; lifna við; færast líf/fjör í; rakna úr rotnu.  „Mér sýnist að lambkægillinn sé eitthvað að vakna til lífsins; hann kannski hefur þetta af“.

Vakna til vitundar um (orðtak)  Gera sér ljóst; verða meðvitaður um.  „Menn vöknuðu ekki til vitundar um skaðsemi þess að brenna kol og olíu fyrr en í algert óefni var komið“.

Vakna tímanlega / Vakna fyrir allar aldir (orðtök)  Vakna snemma.  „Að loknum málsverði er lagst til svefns en vaknað tímanlega að morgni og tekið til starfa“  (PG; Veðmálið). 

Vakna (upp) við vondan draum (orðtak)  Átta sig skyndilega á að í óefni er komið; sjá sitt óvænna.  „Ég vaknaði upp við vondan draum þegar til átti að taka; saltið var á þrotum“!

Vakt (n, kvk)  A.  Það að vaka; vaka.  B.  Varsla; gæsla; varðstaða.  C.  Vinnulota.  Einkum notað þar sem menn skiptast reglulega á um að vinna og hvílast, t.d. í vaktavinnu.  T.d. næturvakt; hundavakt.

Vakta (s)  Gefa gætur; hafa vakandi auga með; fylgjast með. 

Vakúmsalt (n, hk)  Mjög fíngert salt, unnið úr hreinsaðri saltupplausn og laust við óhreinindi.  Notað t.d. við söltun grásleppuhrogna í kavíar og í saltketsverkun eftir að völ varð á því.

Vala / Völubein (n, kvk/hk)  Bein/kjúka úr fæti sauðkindar.  Hún var notuð fyrrum til að vinda garn uppá, og sem leikfang barna.  „Völubeinið var spákona.  Spákonan var tekin í lófa sér; henni velt nokkrum sinnum undir hendinni, uppi á höfðinu og hafður yfir eftirfarandi formáli:  Vala, Vala spákona, segðu mér það sem ég spyr þig að. / Ef þú segir satt skal ég gullinu gleðja þig og silfrinu seðja þig./  Ef þú lýgur skal ég henda þér í koppinn eða brenna þig“.  Síðan kom spurningin.  Síðan var spákonan látin skoppa af kollinum, ofaná gólf og skoðan hvernig hún sneri.  Ef grófin sneri upp var svarið já; ef bungan sneri upp var svarið nei.  En ef spákonan lá á hlið þá var annaðhvort að hún vissi ekki svarið eða vildi ekki segja það“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).

Valborgarmessa (n, kvk)  Messudagurinn 1.maí, sem í kaþólskri tíð var haldinn hátíðlegur til minningar um ensku nunnuna Valborgu.  Hún var abbadís í Þýskalandi á 8.öld, en heitið var á hana til verndar gegn göldrum.

Valbrá (n, kvk)  Meðfæddur rauður/rauðblár flekkur í andliti manneskju.  Nafnið mun komið af þeirri þjóðtrú að kona eignaðist barn með valbrá ef hún borðaði fugl sem valur hafði grandað.

Vald (n, hk)  Máttur; geta; yfirráð; veldi. 

Valda (s)  A.  Vera orsök; orsaka.  „Ég knúði þar nú dyra og komst þar óðar inn,/ erindi mitt faktornum ég sagði./  „Því er nú verr og miður, ég verð ei bóndi þinn“./  „Hvað veldur því“? ég segi nú að bragði“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).   B.  Ráða við; vera fær um.  C.  Í skák; vernda taflmann.

Valda hrífu (orðtak)  Mælikvarði á það að barn, sjúklingur eða gamalmenni væri vinnufært var það að hann/hún gæti valdið hrífu; þ.e. rakað heyi með hrífu.  Sjálfsagt þótti áðurfyrr að börn tækju fullan þátt í búverkum og öðru sem gera þurfti, um leið og þau voru fær um það; en þó gættu góðir foreldrar og húsbændur þess að ofgera þeim ekki og gefa góðan tíma til leikja.  „Við heyskap var stundum unnið langt fram á haust; allt eftir því hvernig veðurfarið var.  Til þess þurfti mikinn mannskap og börnin voru líka látin vinna allt frá því þau gátu valdið hrífu“  (DÓ; Að vaka og vinna).

Valdboð (n, hk)  Fyrirskipun þess sem valdið hefur.

Valdsmannslegur (l)  Sýnir vald/yfirráð.  „Heldur þykir hann vera orðinn valdsmannslegur eftir að hann varð forstjóri.  Þeir segja að það rigni niður í nasirnar á honum núorðið“!

Valdsmannsval (n, hk)  Val á valdamiklum manni.  „Embættið náði til þessara sýslna, en ekki var embættisfærslan erfið né vandasöm.  Þá var valdsmannsvalið engum annmörkum háð.  Aðeins þeir sem í fyrsta skipti í Verinu komu til greina“  (KJK; Kollsvíkurver).

Valdstjórn (n, kvk)  Stjórnvald; opinbert framkvæmdavald.  Orðið er oft nú á dögum einskorðað við lögregluvald, sem þó er þröngsýni og styðst ekki alfarið við fyrri tíðar notkun.

Valdsvið (n, hk)  Það svið/svæði sem tiltekið vald nær til. 

Valdur að (orðtak)  Eiga sök á; orsaka.  „Steinunn og Bjarni dæmdust vera völd að dauða Jóns og Guðrúnar“.

Valfrelsi (n, hk)  Frelsi til að velja.

Valinn maður í hverju rúmi (orðtak)  Um vel skipað lið; um hóp úrvals manna.  „Björgunina við Látrabjarg má einkum þakka því að þar var valinn maður í hverju rúmi“.  Hér er átt við rúm báts.

Vallgangur (n, kk)  Kúkur; saur; hægðir.  „Nú er orðið vallgangur lítið notað, svo og sú landbúnaðarhagfræði sem það vísar til.  Sumsé að menn gengu út á völl og nýttu þennan ágætis áburð til að auka sprettu“.  „Orðið vallgangur sýnir þér hvar til fornmenn hafi nýtt þau saurindi“  (BH; Atli).

Valgerðast í (einhverju) (orðtak)  Róta í einhverju, þannig að óreiða myndist.  Líkt og ýmis önnur seinni tíma orðtök í Rauðasandshreppi má rekja uppruna þessa til GJH á Hnjóti.  Hann var lengi kaupfélagsstjóri Sláturfélagsins Örlygs og sá um afgreiðslu í sölubúð þess á Gjögrum.  Viðskiptavinir vildu iðulega fá að skoða þann varning sem þar var fáanlegur, jafnvel áður en þar var sett upp kjörbúð kringum 1970.  GJH þótti viðskilnaður eftir slíkar rannsóknir ekki alltaf góður og mun hafa valið verknaðinum þetta heiti í höfuð eins viðskiptavinar, sem hér skal ekki greindur frekar.  Var hún þó ekki lakari en aðrir í slíkri umgengni.  Hreppsbúar voru fljótir að grípa orðaleppinn og hefur hann síðan verið notaður yfir hverskonar grúsk manna sem veldur óreiðu að mati annarra.  „Hættu nú að valgerðast í pappírunum fyrir mér“!

Valhoppa (s)  Hlaupa/hoppa með sérstökum fótaburði, þannig að fætur snerti jörð hvor eftir annan, með lengra hoppi á milli.  Einnig notað um gangtegund hests.  Uppruna orðsins vilja sumir rekja til fornensku (walop) sem merki að stökkva vel.  Líklegra er þarna átt við orrustuvöll eða val; að hoppið líkist því að stökkva yfir þá sem fallið hafa í valinn.

Valhöll (n, kvk)  Bústaður Óðins samkvæmt norrænni goðafræði.  Æsir og vanir skemmtu sér við orrustur og hólmgöngur, en þeir sem þar féllu risu aftur upp og héldu til veislu í Valhöll, þar sem var skemmtan mikil og veisla.  Í Valhöll fóru líka allir jarðneskir menn sem féllu í bardaga.  Þar var snæddur grísinn Sæhrímnir sem endurnýjast fyrir hverja máltið.  Á þaki Valhallar er geitin Heiðrún, en úr spenum hennar streymir mjöður.  Stærð Valhallar má marka af því að á henni eru 640 dyr, sem gætt er af 960 einherjum.

Valinkunnur (l)  Af góðu þekktur; réttsýnn; úrvalsmaður.  Merkir bókstaflega sá sem þekktur er fyrir að vera oft valinn úr hópi.  „Valinkunnir menn voru fengnir til að skera úr í þessum málum“.

Valinn (l)  A.  Sem valinn hefur verið úr hópi/safni.  B.  Tilvalinn; sérvalinn; útmetinn; bestur.  „Hann er alveg valinn í svona verkefni“.

Valkostur (n, kk)  Kostur/möguleiki sem unnt er að velja.

Valkyrja (n, kvk)  A.  Dís sem, samkvæmt norrænni goðafræði, hefur það hlutverk að sækja þá sem falla á vígvelli og fylgja þeim til Valhallar.  B.  Líkingamál; kona sem þykir sköruleg í framgöngu.

Valköstur (n, kk)  Hrúga af líkum á vígvelli.

Vallarfoxgras (n, hk)  Phleum pratense.  Fjölært gras sem mikið er notað til ræktunar á sáðsléttum, enda gefur það mikla og orkuríka uppskeru og vex vel við íslenskar aðstæður.  Til að ná góðri sprettu þarf jarðvegurinn þó allnokkurn áburð, auk þess sem plantan er viðkvæm fyrir ágangi.  Oft notuð í bland við aðrar grastegundir, s.s. vallarsveifgras.  Plantan verður 50-150m að hæð, þar af geta blöðin orðið um 40 á hæð og 1 cm á breidd.  Þau eru lensulaga og blómskipanin er puntur sem nefnist kólfur.

Vallarsveifgras (n, hk)  Poa pratensis.  Ein margra tegunda sveifgrasa, en hérlendis er hún mikið notuð til túnaræktunar.  Fremur lágvaxin; verður oft 30-50 cm á hæð; punturinn er keilulaga og eru neðstu greinar hans lengstar.  Blöðin eru 3-5 cm á breidd og enda í totu, líkt og bátsstefni.  Fjölgar sér gjarnan með rótarskoti.  Vallarsveifgrasi er gjarnan sáð í sléttur með vallarfoxgrasi, en er harðgerðara en það.

Vallgangur (n, kk)  Hægðir; mannasaur.  „Orðið vallgangur sýnir hvar til fornmenn hafi nýtt þaug saurindi“ (BH; Atli).  Fyrr á tíð nýttu menn öll tilfallandi jarðargæði, þar með úrgang manna.  Menn gengu því út á sinn túnblett til að gera þarfir sínar.  Það var áburður þess tíma ásamt úrgangi dýra og fiskræksnum.  Meðferð á þessum landgæðum í dag er eitt sorglegasta dæmið um öfugþróun nútímasamfélagsins.

Vallgróinn (l)  Grasi gróinn; uppgróinn.  „Hústóftarbakkar draga nafn af tóft sem á þeim er; mjög vallgróin og ógreinileg“  (HÖ; Fjaran). 

Vallhumall (n, kk)  Achillea millefolium.  Fjölær jurt af körfublómaætt.  Blómin eru smá og hvít; mörg saman í þyrpingu.  Blöðin eru margfjöðruð; minna á hárgreiðu.  Hæðin verður 10-50 cm.  Jurtin er algeng á láglendi hérlendis, einkum í grennd við mannabústaði og á valllendi.  Í Kollsvík eru breiður af vallhumli norðantil á Torfamel (Júllamel).  Vallhumall var talin góður til ýmiskonar lækninga.  Með honum mátti stöðva blóðrás og græða þrálát sár, og er latínuheitið kennt við Akkilles sem sagður er hafa notað jurtina í þeim tilgangi í Trójustríðinu.  Te af vallhumli er notað við kvefi, sárindum í hálsi, hita, gikt, tannpínu, svefnleysi, háum blóðþrýstingi og meltingartruflunum.  Síðari tíma vísindarannsóknir hafa staðfest ýmsa jákvæða verkun efna í vallhumli. 

Vallhumalste (n, hk)  Te sem lagað er af vallhumli.

Valllendi (n, hk)  Völlur; harðbali; þurrt og gróið landsvæði.  Stundum heyjað áðurfyrr, þó ekki væri áborið.

Valllendishey (n, hk)  Hey af valllendi/velli.

Valllendur (l)  Um landsvæði; þurrt og gróið.

Vallóni (n, kk)  Belgi með frönsku að móðurmáli, en aðrir íbúar Belgíu eru flæmingjar sem tala flæmsku.

Vallþurrka hey (orðtak)  Færa hey af blautu slægjulandi á þurran völl til þurrkunar.

Valmaþak (n, hk)  Húsþak sem er hallandi á alla vegu inn að miðjum mæni.  Oft eru þá allir veggir hússins jafn háir, þó ekki sé það algilt.  Misjafnt er þó hvort styttri eða lengri mænir er á húsinu; hvort allir þakfletir séu samhverfir þó hallandi séu. 

Valmenni (n, hk)  Valinkunnur maður; úrvalsmaður; sá sem velst úr hópi vegna mannkosta. 

Valnastakkur (n, kk)  Brynja sem gerð er úr beinvölum.

Vals (n, kk)  Tegund af dansi sem mjög tíðkaðist á harmonikkudansleikjum 20.aldar.

Vals (n, hk)  Ráp; endurteknar inn- og útgöngur úr húsi.  „Hættið nú þessu valsi strákar; annaðhvort verðið þið inni eða úti“!

Valsa (s)  A.  Fara um; rápa; ana.  „Nautkálfurinn er það fullorðinn að varla er forsvaranlegt að láta það valsa laust lengur“.  B.  Beygja plötu/ mýkja harðfisk milli valsa.  „Það er ljótlegt að valsa steinbítinn í vél“.  C.  Dansa vals.

Valslöngva (n, kvk)  Stríðsvél fyrri tíma, gerð til að kasta þungum steini inn í raðir óvina eða til að brjóta niður virkismúra.  Ígildi fallbyssu síðari tíma.

Valt á því völubeinið (orðtak)  Hæpið; vafasamt; óvíst um endingu/árangur/að lánist.  „Ég tjaslaði girðingunni upp til bráðabirgða, en það er nú valt á því völubeinið ef rollufjandarnir reyna á þetta“.  Dregið af því að völur úr kindarlegg voru notaðar til spádóma.  Gæfa gat því verið komin undir veltu völubeinsins.  Eitt form spádóma er að láta völubein standa upp á endann; spyrja spurningar og meta svarið eftir því í hvora áttina valan veltur.  Þá er valt á því (spursmáli) völubeinið.

Valt er að geyma sér sjóveður/þurrkinn ( orðatiltæki)  Auðskilin speki sem alloft var vitnað til.  Sjá geyma sér sjóveður; sitja af sér sjóveður.

Valt er því að treysta (orðtak)  Viðhaft um það sem ekki þykir tryggt.  „Hann sagðist ætla að muna eftir þessu, en valt er því að treysta ef ég þekki hann rétt“.

Valt er veraldar gengið / Valt er veraldar lukkuhjól (orðatiltæki)  Hamingjan er fallvölt; gæfan er hverful.  Spekin var í þessu formi vestra; annarsstaðar þekktist útgáfan „valt er veraldar hjólið“.

Valta (s)  Draga valtara yfir flag/tún til að slétta það.

Valtari (n, kk)  Tunna sem þyngd er með vatni, steypu eða öðru og rúllað yfir flag/tún til að slétta það.

Valtur (l)  Óstöðugur; í hættu með að velta um koll.  „Ansi er þetta valtur kertastjaki“.

Valtur á fótunum (orðtak)  Óstöðugur í göngulagi.  „Ég var með sjóriðu og valtur á fótunum“.

Valtur í sessi (oprðtak)  A.  Bókstafleg merking; situr á völtum stól; situr þannig að hætt er við að detta.  B.  Líkingamál; situr ekki að tryggum völdum.  „Formaðurinn gæti verið valtur í sessi á aðalfundinum“.

Valur (n, kk)  A.  Annað heiti á fálka.  B.  Orrustuvöllur; blóðvöllur.  Sbr falla í valinn.

Vambarfylli (n, kvk)  Kviðfylli; saðning hungurs.  „Féð gæti fengið einhverja vambarfylli af þessum heyrudda, en það er ekki nokkur næring í þessu“.

Vambarverkur (n, kk)  Magaverkur; kveisa.  „Þessu fylgja bölvaðir vambarverkir“.

Vambfullur (l)  Mettur; kominn með fullan maga.  „Maður verður fljótt vambfullur af þessum rjómatertum, en samt er maður hálf svangur“.

Vambmikill / Vambsíður (l)  Með stóra vömb/ístru; kviðmikill.  „Mikið sýnist mér þessi kind vera vambmikil öðrumegin.  Skyldi hún vera kviðslitin“?  „Fjandi ertu nú að verða vambsíður af þessum kyrrsetum“.

Vambstór (l)  Með áberandi stóran maga; framsettur.  „Skratti ertu orðinn vambstór í seinni tíð“!

Vamm (n, hk)  Ljóður; skömm; háðung.  Einungis notað nú í ortakinu; má ekki vamm sitt vita.  Gamalt í germönskum málum; t.d. í fornensku; wamm, sem merkir slæmur eða skammarlegur. Skylt skömm.

Vammir og skammir (ortak)  Vanþakklæti.  „Maður stritar alla daga og fær svo bara vammir og skammir“!  sjá vömm.

Vammlaus (l)  Án ávirðinga/synda/glæpa; heiðvirður.  „Þau voru ákaflega vammlaus og góðgjörn hjón“.

Van (ao)  Of lítið; skortur; vöntun.  Nú einungis í orðtökunum ýmist of eða van og hvorki of né van.

Van-  Algengt forskeyti orða til merkingar á skorti; t.d. vanburða; vanáætlað; vanhugsað o.fl.

Vanaður (l)  Geltur; sem búið er að gelda/vana.

Vanafastur (l)  Heldur mikilli reglu á sinni hegðun; fastheldinn á siði.  „Maður orðinn vanafastur með þetta“.

Vanagangur (n, kk)  Sá gangur/háttur sem venjulega er; venjulegt ferli.  „Lífið gengur víst sinn vanagang, þrátt fyrir þessa uppákomu“.

Vanalega (ao)  Venjulega; að venju.  „Vanalega koma kýrnar sjálfar heim á stöðulinn“.

Vanalegur (l)  Venjulegur; háttbundinn.  „Ég fann ágæta leið niður í flesið, nokkru frá hinni vanalegu niðurgöngu“.

Vanar í (orðtak)  Vantar í; vankantur; slöður.  Notað um það þegar efni skortir sýnilega.  „Þetta er heilleg spýta, en þó vanar í hana á einum stað“.  „Þarna sýnist mér að hafi vanað í þegar gólfplatan var steypt“.

Vanaverk (n, hk)  Verk sem venjulega er unnið.  „Ég vann mín vanaverk í húsunum; leysti heyið meðan pabbi lét inn féð og vatnaði hrútunum; skrifaði niður meðan hann hleypti til og sópaði jöturnar áður en hann gaf á garðann“.

Vanburða (l)  Veikburða; ósjálfbjarga.  „...fyrst varð að færa það sem veikt var og vanburða í fjósið...“  (Eftir snjóflóðið í Kollsvík 1857)  (ÓTG; Ágrip af æviferli).

Vanbúinn (l)  Ekki undirbúinn; ekki vel klæddur/útbúinn.  „Hann var afskaplega vanbúinn í svona leiðangur“.

Vanda (s)  Gera vel; gaumgæfa; nostra.  „Drengir vanda mest sem má/ marargandinn fríða./  Síðan landi ljúfur frá/ leiðisandi rennur á“  (JR; Rósarímur).  

Vanda (einhverjum) ekki kveðjurnar (orðtak)  Skammast; heitast; veitast að.  „Farið var að óttast um drengina og þeim voru ekki vandaðar kveðjurnar þegar þeir loksins skiluðu sér heim“.

Vanda sig / Vanda sitt verk (orðtak)  Leggja sig fram um að gera vel; sýna natni/nákvæmni/vandvirkni.  „Nú er um að gera að vanda sig; þessi samsetning má alls ekki bila“!

Vanda um við (einhvern) (orðtak)  Ávíta; finna að; skamma.  „Börnin læra lítið ef þeim er ekki leiðbeint og ef ekki má vanda um við þau þegar þau óhlýðnast“.

Vandabundinn (l)  Náskyldur; tengdur fjölskylduböndum; hefur skyldur við.  „Þeir (drykkjumenn) vanrækja skyldur sínar gagnvart þeim sem þeim eru vandabundnir með því að eyða öllu sem þeim áskotnast í vín“  (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938). 

Vandalaus (l)  A.  Óskyldur; ekki ættbundinn.  „Hann stóð mér næstur, í það minnsta af vandalausum“.  „Þakka þér kærlega fyrir hjálpina; þetta var vel gert af vandalausum“!  B.  Án vandamála; auðveldur.  „Það er alveg vandalaust að fletja fisk ef maður þekkir handtökin“.

Vandali (n, kk)  A.  Germannskur þjóðflokkur.  Helst kunnur af lýsingum óvinanna; rómverja, sem ekki voru fagrar.  Fóru víða í herleiðöngrum sínum; alla leið til Afríku.  Við þá er kennt héraðið Andalúsía á Spáni.   B.  Ribbaldi; skemmdarvargur.  „Þessir helvískir vandalar brutu glugga í skúrnum“!

Vandalaháttur (n, kk)  Eyðileggingarnáttúra; skemmdarstarfsemi; ribbaldaháttur.  „Fyrr má nú vera andskotans vandalahátturinn í þessum gemsum; að þurfa að brjóta allt sem fyrir þeim verður; bara að gamni sínu“!

Vandalítið (l)  Litlum vandkvæðum bundið; fremur auðvelt.  „Ég held að þetta muni verða vandalítið verk“.

Vandamaður (n, kk)  Skyldmenni; tengdur maðu.  „Ég bið að heilsa öllum vinum og vandamönnum“.

Vandamál (n, hk)  Það sem vandasamt er; vandræði; ófyrirséðir erfiðleikar; erfitt úrlausnarefni.  „Þetta ætti ekki að verða neitt vandamál“.  „Til þess eru vandamálin að leysa þau“!

Vandarhögg (n, hk)  Högg með vendi.  Refsingar fyrr á tíð voru oft í formi vandarhögga.  Sjá vöndur.

Vandasamt (l)  Vanda bundið; ekki auðvelt.  „Það gæti orðið vandasamt að finna féð í þessu dimmviðri“.

Vandast málið (orðtak)  Verður málefnið/viðfangsefnið vandasamara/erfiðara.  „Nú vandast málið; heldurðu ekki að vð höfum gleymt að taka með okkur netastein til vara“!

Vandaverk (n, hk)  Vandasamt verk; ekki auðveld vinna.  „Pabbi saumaði mikið af skinnklæðum fyrir sig og aðra, en það var mikið vandaverk því brækurnar máttu ekki leka“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Vandfarin leið (orðtak)  Leið sem erfitt er a fara/rata/komast.  „Sveltisgangurinn er nokkuð vandfarinn“.

Vandfarinn er meðalvegurinn / Vandratað er meðalhófið (orðatiltæki)  Erfitt er að gæta hófs/ vera hófsamur.

Vandfundinn (l)  Erfitt að finna/ hafa uppá.  „Meiri öndvegismaður er vandfundinn“.

Vandfýsinn (l)  Vandlátur; fyrirtektarsamur.  „Hann er svo vandfýsinn á kvenfólk að hann á eftir að pipra“!

Vandgæfur (l)  Erfiður viðureignar; bilaður.  Í nútímamáli oftast breytt í vangæfur, sjá þar.

Vandhittinn / Vandhittur (l)  Sem erfitt er að hitta/ rekast á.  Oft í veiðiskap:  „Ansi er hann eitthvað vandhittinn í dag“!

Vandi (n, kk)  A.  Vandamál; erfiðleikar.  B.  Vani.  „Mér fannst ég vera öðruvísi en ég átti vanda til“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli).    

Vandi á höndum (orðtak)  Vandamál sem blasir við.  „Ef b rim hafði aukið þegar að landi var komið, var mestur vandi á höndum þeim sem fyrstur lenti; að bjarga bát og afla úr sjó“  (KJK; Kollsvíkurver).

Vandi er að eiga vini tvo (og vera báðum trúr) (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að illt er að þjóna tveimur herrum.  Ólíklegt er að allir þrír séu svo samstíga í öllu að ekki komi upp ágreiningur eða öfund.

Vandi er að sigla milli skers og báru (orðatiltæki)  Erftitt er að rata meðalveginn.  Sjá sigla milli skers og báru.

Vandi er tveimur herrum að þjóna (orðatiltæki)  Speki sem oft er notuð þegar sinna þarf tveimur aðkallandi verkefnum eða stjórnendum.

Vandi/vant er vel boðnu að neita (orðatiltæki)  Þetta orðatiltæki nota menn vestra iðulega í kurteisisskyni þegar þeim er boðið eitthvað; matur eða annað, án þess að um sé beðið.  „Nú er vandi vel boðnu að neita.  Ég var búinn að borða heima, en ég held ég þiggi samt eina hangiketsflís hjá þér“.

Vandi fylgir vegsemd hverri (orðatiltæki)  Vísar til þeirrar ábyrgðar og skyldu sem oftast fylgir virðingar- og stjórnunarstöðum.

Vandkvæðalaust (l)  Án vanda/vandamála.  „Eftir viðgerðina gekk heimsiglingin vandkvæðalaust“.

Vandkvæði (n, hk, fto)  Erfiðleikar; hængur.  „Það gætu orðið einhver vandkvæði á að útvega þetta“.

Vandlátur (l)  Vandfýsinn; sérvitur; sem erfitt er að gera til hæfis

Vandlega (ao)  Rækilega; nákvæmlega; ítarlega.  „Hann skolaði bátinn mjög vandlega“.

Vandlifað (l)  Erfitt að búa við.  „Það er nú orðið vandlifað ef hvorki má borða fitu né kornmat“.

Vandlifað í veröldinni (orðtak)  Erfið tilveran.  „Ef aldrei má leysa vind í húsum er vandlifað í veröldinni“!

Vandlæti / Vandlæting (n, hk/kvk)  Fyrirtekt; þótti; hofmóður; umvöndun.  „Það þýðir nú lítið hjá kerlingunni að vera með eitthvað vandlæti yfir tengdadótturinni; hún má þakka fyrir að strákurinn sýni þó það framtak að ná sér í kvenmann“!  Sjá heilög vandlæting.

Vandlætingarsamur (l)  Sá sem finnur oft að við aðra vegna hegðunar eða lífernis.  „Hún taldi sig vera höfuð ættarinnar og var mjög vandlætingarsöm um hegðun ættingjanna; jafnt um makaval, nafngiftir sem líferni“.

Vandlætisgoggur (n, kk)  Sérviskupúki; servitringur.  „Ég var hinsvegar alltaf sami vandlætisgoggurinn og vildi ekki sjá að éta rauðuna úr eggjunum“  (DÓ; Að vaka og vinna).

Vandlætissvipur (n, kk)  Svipur þykkju/vanþóknunar.  „Hún sagði ekki neitt við þessum athugasemdum en vandlætingarsvipurinn varð ekki misskilinn“.

Vandmeðfarið (l)  Vandasamt í meðförum; viðkvæmt; brothætt.  „Svona mál eru afskaplega vandmeðfarin“.

Vandratað (l)  Erfitt að finna rétta leið; villugjarnt.  „Ég gæti líklega komist leiðar minnar um alla Kollsvíkina, og klettana með, þó bundið væri fyrir augu, en alltaf finnst mér jafn vandratað í Reykjavík“.

Vandratað er meðalhófið (orðatiltæki)  Erfitt að finna milliveg.  „Í svona málum er vandratað meðalhófið“.

Vandræða-  Forskeyti sem notað er um margskonar heiti, og vísar til þess að viðkomandi sé til vandræða eða vandi sé með það að fara.

Vandræðagangur (n, kk)  Vandræði.  „Það var einhver vandræðagangur á honum þarna í snjóskaflinum“.

Vandræðagemlingur / Vandræðagepill / Vandræðamaður / Vandræðagripur / Vandræðaseggur (n, kk)  Maður sem þykir erfiður í samskiptum.  „Það fylgdu honum einhverjar sögur að sunnan; þetta hefur víst allstaðar verið mesti vandræðagripur“.

Vandræðalaust / Vandræðalítið (l)  Án nokkurra/teljandi vandræða.  „Þetta gekk vandræðalítið fyrir sig“.

Vandræðaskepna (n, kvk)  Skepna sem erfið er í umgengni/ erfitt er að nýta.  „Nú slátra ég þessari túnrollu í haust!  Þetta er vandræðaskepna sem stekkur yfir allar girðingar“.

Vandræði (n, hk, fto)  Erfiðleikar; vandkvæði; raunir.  „Ég skal þiggja þennan hákarlsbita ef þú ert í einhverjum vandræðum með hann“.  „Ég held að bensínið dugi land án þess að við lendum í vandræðum“. 

Vandséð (l)  Vandasamt að greina/sjá.  „Það er vandséð hvernig unnt er að komast hjá þessu“.

Vandur (l)  Erfiður; vandasamur.  „Hér er úr vöndu að ráða“.  B.  Umhyggjusamur; vandlátur.  „Svona talar enginn sem er vandur að virðingu sinni“!

Vandur að virðingu sinni (orðtak)  Vandar sína framkomu/athöfn til að lækka ekki í áliti/virðingu.  „Hann var nokkuð alþýðlegur en samt vandur að virðingu sinni“.

Vandvirkni (n, kvk)  Nostur; kostgæfni.  „Ullarþvottinn þurfti að vinna af mikilli vandvirkni“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).

Vandvirkur (l)  Sem vandar sitt verk; nostursamur.  „Hann var einstaklega vndvirkur við þetta“.

Vanefndir (n, kvk, fto)  Svik; brigð; það að efna ekki það sem lofað var.

Vanefni (n, hk, fto)  Fátækt; lítil efni/fjárráð.  „Þau hokruðu þar við vanefni, oftastnær“.  Sjá af vanefnum.

Vanfóðra (s)  Fóðra fénað/búfé ekki nægilega; svelta.  „Kýr eru einnig vanfóðraðar í Kirkjuhvammi, sem orsakast af átleysi, sem áður fyr eftir óþurrkasumur“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932).   

Vanfóðrun / Vaneldi (n, kvk/hk)  Ónóg fóðrun búfjár/gripa; svelti.  „Svona óþrif eru ekki af öðru en vanfóðrun“!

Vanfær (l)  A.  Um konu; þunguð; ólétt.  B.  Ófær um; getur ekki.  „Hann var vanfær um þetta verkefni“.

Vangamynd (n, kvk)  Mynd tekin af mannsandliti til hliðar; portrett.

Vangaull (n, kvk)  Ull í vöngum kindar.  Er mismikil eftir einstaklingum og aldrei eins loðin og á skrokknum.  Haldið er í vangaull á kollóttum kindum þegar tekið er af o.fl; sjá halda í.

Vangaveltur (n, kvk)  Hugleiðingar; diskúsjónir; spekúleringar.  „Það þarf ekki lengur að vera með vangaveltur útaf hrútnum.  Hann lá afvelta frammi við Fornmann“.

Vangá / Vangáningur (n, kvk/kk)  Hugsunarleysi; yfirsjón.  „Óttaleg vangá var það hjá mér að gleyma veskinu heima“!  Sjaldnar í kk:  „Af einhverjum vangáningi gleymdi ég að setja splittið í kenginn“.

Vangi (n, kk)  A.  Kinn á manni eða skepnu.  B.  Hálfur þurrkaður þorskhaus.  C.  Fjallshlíð; brekka.

Vangefinn (l)  Ekki með öllum mjalla; heimskur; illa gefinn/gáfaður.  „Óttalega voruð þið nú vangefnir að gleyma þessu“!

Vangi (n, kk)  A.  Kinn.„Ætli maður þurfi ekki eitthvað að skafa á sér vangana áður en við förum í veisluna“.  B.  Kjammi; hálfur haus af t.d. sviðum eða fiski. 

Vangur (n, kk)  Völlur; grund.  Nú einkum í endingum, s.s. vettvangur; víðavangur.

Vangæfur (l)  Bilaður; ótryggur; erfiður viðureignar.  „Stóllinn er orðinn dálítið vangæfur; varaðu þig þegar þú sest“.  „Ég hef verið dálítið vangæfur með svefn uppá síðkastið“.  „Hún er orðin vangæf í bakinu og þolir illa ferðalög“.  Upprunalega er orðið vandgæfur, en d er algerlega fallið út í nútímamáli; a.m.k. í Kollsvík.

Vangæfur til heilsu (orðtak)  Heilsuveill; slæmur til heilsu.  „Hann hefur lengi verið vangæfur til heilsunnar“.

Vanhaga um (orðtak)  Vanta; skorta; vanta uppá.  „Láttu mig vita ef þig vanhagar um eitthvað“.

Vanhaldalítið (l)  Með litlum afföllum/vanhöldum.  „Þetta haust var óvenju vanhaldalítið“.

Vanhaldasamur (l)  Um svæði; hættulegt fyrir sauðfé, þar sem mikið verður þar um vanhöld vegna sjálfheldu og hraps.  „Vegna brattans var þetta svæði (Breiðurinn) óskaplega vanhaldasamt fyrir sauðfé“  (HÖ; Fjaran).  „Þaðan (úr Bjarginu) skiluðu sér því á haustdögum vænir dilkar, en vanhaldasamt var á fénu sem þar gekk“  (PG; Veðmálið). 

Vanhaldinn (l)  Illa haldinn; fær ekki nóg; illa alinn/launaður.  „Ekki verður sagt eð þessir kumpánar séu neitt vanhaldnir í launum“.

Vanheilindi (n, hk, fto)  Slæm heilsa; veikindi.  „Hún hefur átt við vanheilindi að stríða“.

Vanheill (l)  Fatlaður; veikur.  „Hann hefur verið vanheill frá fæðingu, en staðið sig eins og hetja“.

Vanheimta (s)  Heimta/fá ekki allt sitt fé að hausti.  „Ég hef verið að vanheimta af Bjarginu árum saman“.

Vanheimtur (n, kvk, fto)  Slæmar heimtur; ónóg skil fjár að hausti.  „Það veoru töluverðar vanheimtur hjá honum af Hlíðunum“.

Vanhelga (s)  Saurga; virða ekki það sem einhverjum er heilagt.  „Allt frá ritun Landnámu hefur nafn Kolls verið vanhelgað, að mínum dómi.  Hann var talinn heiðinn fyrir það eitt að hafa heitið á Þór í sjávarháska.  Nú er það á allra vitorði að jafnvel sannkristnustu menn virða gamlar venjur þó þær séu aftan úr grárri heiðni; samanber helgihald á jólum.  Kollur var auðvitað kristinn, eins og Örlygur fóstbróðir hans, og sendur í kristniboðserindum með honum til Íslands“.

Vanhirða (n, kvk)  Hiruðleysi; draslaragangur; óreiða.  „Þetta var allt komið í vanhirðu hjá honum“.

Vanhugsað (l)  Ekki vel ígrundað; órökrétt.  „Þetta finnst mér nú fremur vanhugsað af þeim“.

Vanhæfi (n, hk)  Skortur á hæfi/hæfni/trúverðugleika til að gera/vera eitthvað. 

Vanhæfur (l)  Ekki hæfur; ekki fær um, t.d. vegna skorts á þekkingu/trúverðugleika. 

Vanhöld / Vanhöld á skepnum (n, hk, fto/ orðtak)  Afföll; ónóg.  „Því fé er hættara en öðru við vanhöldum, sem gegnur í brattlendi“.  „Það hafa orðið töluverð vanhöld á skepnum þetta árið“.  „Það vilja verða vanhöld á skriffærum þegar krakkarnir þurfa að teikna“.  „Sauðfé sækir mikið í Breiðinn, en mikil vanhöld voru þar“  (IG; Sagt til vegar I).  „Ívar Ívarsson sagði frá ferðalagi sínu um sveitina á sl ári í þeim tilgangi að safna skýrslum um vanhöld á sauðfé og orsakir þeirra“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Vani (n, kk)  Venja; siður; háttur; tilhneyging.  „Þetta er gamall vani hjá mér“.  „Ég legg það ekki í vana minn að hlusta á íþróttir“.

Vaninhyrndur (l)  Hornalag sauðkinda þar sem horn hafa verið bundin saman til að þvinga vöxtinn í vissa átt.

Vaninn (l)  Látinn venjast; gert að venju.  „Hundur gerir bara það sem hann er vaninn á eða kemst upp með“.

Vankantur (n, kk)  Vandamál; galli.  „Hann vill byggja undir hlíðinni, en það gætu nú orðið vankantar á því vegna snjóflóðahættu“.  „Mér sýnist nú vera ýmsir vankantar á þessari bíldruslu“.

Vankaður (l)  Utanvið sig; hjárænulegur; ruglaður; illa áttaður.  „Hann var hálf vankaður eftir höggið“.

Vankasauður (n, kk)  A.  Sauður með höfuðsótt/riðu/votheysveiki eða annað sem veldur því að hann er utanvið sig.  B.  Líkingamál; ruglaður/vankaður maður; bjálfi; kjáni.

Vankast (s)  Hálf-rotast; verða utan við sig eftir högg eða annað.  „Steinninn kom hátt ofan úr bjargi og skall á hjálminum.  Hann vankaðist dálítið um stund en hélt svo áfram eggjatínslunni eftir dálitla hvíld“.

Vanki (n, kk)  Það að vera utanvið sig; rugl; hjárænuháttur; riða/höfðusótt í fé.

Vankostur (n, kk)  Ókostur; galli.  „Á þessu eru allmiklir vankostir“.

Vankunnugur (l)  Þekkir ekki; ókunnugur; fákunnandi.  „Ég er algerlega vankunnugur þessu“.

Vanlíðan (n, kvk)  Verkir; kvalir; slæm líðan.  „Finnurðu fyrir einhverri vanlíðan“?

Vanmat (n, hk)  Það að virða ekki til fulls/ sjá ekki alla kosti eða umfang einhvers.

Vanmáttur / Vanmætti (n, kk/hk)  Ónógur styrkur; veikleiki; skortur á afli.  „Kollsvíkingar fundu vel fyrir vanmætti sínum gagnvart náttúruöflum og veðri, þegar þeir vissu af togaranum Croupier í vandræðum við Blakknes en komust ekki til bjargar vegna veðurs og ófærðar“.

Vanmáttugur  / Vanmegnugur (l)  Máttlaus; hefur ekki getu/afl.  „Maður verður ósköp vanmáttugur þegar náttúruöflin sýna sig af fullu afli“.

Vanmetagripur / Vanmetakind / Vanmetaskepna (n, kvk)  A.  Ær/kýr sem þrífst illa og er léleg, jafnt til eldis sem frálags.  B.  Manneskja sem er lítil fyrir sér.  „Ætli hún fari ekki bara á sláturhús núna; þetta hefur nú löngum verið hálfgerð vanmetaskepna“. 

Vanmetasteinbítur (n, kk)  Steinbítur sem ekki er hæfur til skipta (sjá skipti).

Vanrækja (s)  Sinna ekki; afrækja.  „Þeir (drykkjumenn) vanrækja skyldur sínar gagnvart þeim sem þeim eru vandabundnir með því að eyða öllu sem þeim áskotnast í vín“  (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938). 

Vansalaust (l)  Skammlaust; án skammar/óvirðingar.  „Það er ekki með öllu vansalaust að lögin séu svo gölluð“.

Vansi (n, kk)  Skömm; hneysa.  „Þetta mál varð honum til nokkurs vansa“.

Vanskapaður (l)  Ekki rétt skapaður við fæðingu; með fæðingargalla.  „Lambið var þannig vanskapað að á það vantaði annan afturfótinn“.

Vanskapningur (n, kk)  Vansköpuð skepna.  „Seinna lambið var dauður vanskapningur, þrífættur“.

Vanskil (n, hk, fto)  Dráttur á greiðslu/skilum skuldar. 

Vanskilamaður (n, kk)  Sá sem stendur illa í skilum með sínar skuldir.  „Ekki vil ég vera vanskilamaður“.

Vanskillegheit (n, hk, fto)  Erfiðleikar; hindranir.  „Það geta ýmis vanskillegheit fylgt þessu fyrirkomulagi“.

Vanskillegt (l)  Erfitt; vandasamt.  „Það gæti orðið dálítið vanskillegt að gera þetta einsamall“.

Vansköpun (n, kvk)  Ekki fullkomið sköpulag við fæðingu; fæðingargalli. 

Vansmíði (kvk)  Galli á smíði; ekki rétt smíðað.  „Þetta finnst mér nokkur vansmíði á annars ágætum bát“.

Vanstilling (n, kvk)  A.  Um skapferli; fljótillska; skyndileg skapbrigði.  B.  Um vél; ekki rétt stilling/stýring.

Vanstilltur (l)  Hættir til geðbrigða; fljótillur; fljótur upp

Vansvefta (l)  Skortir svefn; illa sofinn.  „Nú förum við að hvíla okkur.  Við gerum ekki meira svona vansvefta“.

Vansæll (l)  Óhamingjusamur; áánægður; dapur.  „Fyrstu dagana var ég fremur vansæll í vistinni“.

Vansæmd (n, kvk)  Skömm; ósómi; niðrun.  „Ég geri honum það ekki til vansæmdar að

Vant að vita (orðtak)  Erfitt að vita/ geta til um.  „Það er vant að vita hvar þessar skjátur gætu haldið sig“.  „Vant er að vita hverju trúa skal“.

Vant er úr vöndu að ráða (orðatiltæki)  Erfitt er oft að ráða fram úr vandamáli; lausn er ekki alltaf auðfundin.  Oftar er notaður síðari hlutinn; úr vöndu að ráða.

Vant um (orðtak)  Vandlátur með.  „Mér er ekkert vant um það þó eggið sé svolítið farið að unga“! Sjá ekki vant um.

Vant við látinn (orðtak)  Upptekinn; hefur öðrum hnöppum að hneppa.  „ég er dálítið vant við látinn núna; má ég tala við þig rétt á eftir“?

Vant við því að gera (orðtak)  Erfitt að gera neitt í því; erfitt að bregðast við því.  „Það er vant við því að gera að féð leiti í annarra lönd“.

Vanta uppá (orðtak)  Vanta á; vera ekki nægjanlegt.  „Enn vantar nokkuð uppá að alheimt sé“.

Vantar það sem við á að éta (orðatiltæki)  Vantar það sem tilheyrir.  Eiginleg merking er að útálát/feitmeti vanti með matnum, menn átu t.d. bræðing eða annað feitmeti við brauðinu og fiskinum..  „Það var ágætt að fá hamarinn, en nú vantar mig það sem við á að éta; hvar eru lykkjurnar“?

Vantalið (l)  Ekki allt talið; of lág niðurstaða talningar.  „Ég held að það sé vantalið í einum karminum“.  

Vantelja (s)  Telja og lítið; mistelja.  „Mér hættir alltaf frekar til að oftelja en vantelja í svona hópi“.

Vantreysta (s)  Bera ekki fullt traust til; treysta ekki á.  „Það er óþarfi að vantreysta vaðnum; hann er þrælöruggur“.  „Vertu ekki að fara þarna niður ef þú vantreystir þér til þess“.

Vantrú (n, kvk)  Ótrú; skortur á trú/trausti.  „Ég tók þessum tíðindum með vantrú í fyrstu“.  „Hann hefur vantrú á að þetta takist“.

Vantrúaður á (orðtak)  Hefur ekki trú á; trúir/treystir ekki.  „Ég er afskaplega vantrúaður á að þetta dugi“.

Vantrúarhundur (n, kk)  Niðrandi heiti á þeim sem ekki trúir.  „Ég er kannski óttalegur vantrúarhundur, en ég á bágt með að skilja það að ekki hafi þurft meira efni í einn kvenmann en rifstubbann úr Adam“!

Vantur (n, kk)  Höfuðbenda á skipi; reipi eða kaðalstigi sem liggur af borðstokk í festingu ofarlega á siglunni.  „... þá var hægt að skjóta á vantinn„  (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Skaut nú Ásgeir á framskipið, og kom línan á vantinn“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Vanur (l)  A.  Hefur fyrir venju; vanalegur.  „Hann var vanur að ganga útfyrir hornið á morgnana til að létta á sér og spá í veðrið“.  „Eins og vant er“.  B.  Þjálfaður; reyndur.  „Þetta eru allt vanir menn“.

Vanvirða / Vanvirðing (n, kvk)  Virðingarleysi; svívirða; lítilsvirðing.  „Það er óþarfi að gera honum þessa vanvirðu“.  „Ekki vil ég sýna réttarstjóranum vanvirðingu, en þessu er ég ekki sammála“!

Vanvirða (s)  Sýna ekki tilhlýðilega virðingu; lítilsvirða; vanþakka.  „Ég vil ekki vanvirða þitt góða boð, en ég held að ég klári þetta hjálparlaust núna“.

Vanþakka (s)  Sýna vanþakklæti; virða ekki að verðleikum.  „Ég veit ekki hvort mikið munar um þá, en ekki ætla ég að vanþakka þeirra boð um aðstoð“.

Vanþakklátur (l)  Sem sýnir ekki nægt þakklæti; sem ekki þakkar fyrir velgerðir. 

Vanþakklæti / Vanþökk (n, kvk)  Skortur á þakklæti/lítillæti; það að vera vanþakklátur.

Vanþekking (n, kvk)  Skortur á þekkingu; það að þekkja ekki til þess sem um ræðir.  „Ég verð að játa mína vanþekkingu í þessum efnum“.

Vanþóknun (n, kvk)  Fyrirlitning; það að líka ekki/ hafa skömm á.  „Hann reyndi lítið að dylja sína vanþóknun á þessu háttalagi“.

Vanþóknunarsvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir vanþóknun; óánægjusvipur.  „Hún sagði ekki orð, en hennar álit var auðséð af vanþóknunarsvipnum“.

Vanþrif (n, hk, fto)  Óþrif; það að þrífast ekki eðlilega.  „Mikilvægt er að gefa fénu ormalyf til að koma í veg fyrir vanþrif“.

Vanþörf (n, kvk)  Ekki þörf; þarfleysa.  „Mér sýnist að hér sé ekki vanþörf á að taka til hendinni“.

Vapp (n, hk)  Vag; rölt; hægur gangur.  Einnig um það að vera á ferli:  „Hann var hér á vappi rétt áðan“.

Vappa (s)  Rölta; tölta; ganga.  „Ég nenni ekki að keyra þennan spotta, ég vappa þetta bara“.

Var (n, hk)  A.  Skjól á sjó; gott lægi í slæmum veðrum.  „Innan þessara boða myndaðist allgott var eða lægi, einkum um lágsjávað“  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Járnbrún fremst á blaði reku/varreku úr tré.  C.  Öryggi; varnarbúnaður í raflögn, gegn yfirálagi/skammhlaupi.

Var um sig (orðtak)  Á verði; viðbúinn árás/óhappi.  „Vertu var um þig þarna undir klettunum; það er alltaf hætta á grjóthruni svona snemma vors“.

Vara (n, kvk)  Varningur; verslunarvara.  „Þann tíma sem ég var innanbúðar á Gjögrum sótti ég vörurnar sjálfur á Patró, á mínum bíl“.

Vara (s)  Endast; vera.  „Fátt er það sem varir að eilífu“.  „Ellin kemur fyrr en mann varir“.

Vara við (orðtak)  Gera aðvart/viðvart; segja frá fyrirfram.  „Ég varaði hann margsinnis við þessu“!

Varaár (n, kvk)  Ár sem höfð er í bát til vara, ef önnur bilar eða týnist.  Aldrei var farið á sjó án hennar meðan enn var treyst á árar og í byrjun vélaaldar.  „Varaár var gripin og reynt að rétta bátinn fyrir ólaginu sem var að koma, og réttist hann svo mikið að ekki braut á honum…“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Varadekkslaus (l)  Ekki með varadekk í ökutæki.  „Þú ferð ekki af stað varadekkslaus í svona langferð“.

Varamaður (n,kk)  Sá sem leysir aðalmann af í forföllum.

Varaminna (l)  Varlegar farið; meiri varfærni.  „Það er varaminna að hafa austurtrogið með, þó við þurfum kannski ekki að nota það“.  „Það gæti rignt úr þessu; mér finnst varaminna að raka upp fyrir nóttina“.  Enn töluvert notað meðal Kollsvíkinga en heyrist líklega sjaldan þar fyrir utan.

Varanegla (n, kvk)  Negla sem höfð er um borð í bát þegar farið er í róður.  Alltaf er möguleiki á að negla losni og berist útbyrðis með austrinum.  Sjá negla.

Varanlegheit (n, hk, fto)  Það sem er varanlegt/viðvarandi/endanlegt.  „Skyldi hann bara ætla að rigna svona til varanlegheita“?!

Varanlegur (l)  Sem varir/ verður til frambúðar; endanlegur; viðvarandi.  „Þetta er ekki varanleg viðgerð, en það má bjargast við hana“.

Vararruðningur (n, kk)  Það að ryðja vör/ lendungu fyrir bát.  „Grjótgálginn var notaður við vararruðninginn“.

Varasakka (n, kvk)  Aukasakka; sakka til vara, ef önnur slitnar af færi.

Varasamur / Varaverður (l)  Sem rétt er að vara sig á; hættulegur.  „Það eru sker fyrir utan, dálítið varasöm ef ekki er rétt farið, en lendingarleiðir voru farnar eftir því hvernig stóð á áttum“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).   „Það er varavert að hreyfa mikið við þessu“.

Varasegl (n, hk)  Segl sem haft er í bát til vara, ef aðalsegl bilar.

Varasjóður (n, kk)  Fjárupphæð sem lögð er til hliðar til að nota þegar útgjöld verða óvenju mikil.

Varaskeifa (orðtak)  A.  Skeifa sem höfð er til vara.  B.  Líkingamál; Varamaður; maður sem er til taks.  „Hann viðurkenndi ekki að vera nein varaskeifa fyrir hinn“.

Varasláttur (n, kk)  Stundum notað um blaður í manneskju, sem þykir keyra úr hófi.  „Mikill skelfingar varasláttur getur nú verið á einni manneskju; hún samkjaftaði ekki alla leiðina“!

Varast (s)  Vara sig; gæta sín á/gagnvart.  „Gunna bað mig að sýna sér stykkið og ég varaðist ekkert en gerði það“  (IG; Æskuminningar).

Varaþunnur / Varaþykkur (l)  Með þunnar/þykkar varir. 

Varð ekki langra lífdaga auðið (orðtak)  Lifði ekki lengi; varð skammlífur.

Varða (n, kvk)  Hlaðið mannvirki, standur sem hefur gjarnan það hlutverk að vísa mönnum til vegar, annaðhvort eftir leið á landi eða miðun af sjó.  Vörður eru gríðarmargar í Kollsvík og nágrenni.  Flestar standa þær við hestavegina; þjóðleiðir milli byggða, s.s. Hænuvíkurháls, Tunguheiði, Víknafjall og Breiðavíkurveg.  Sumar eru innsiglingavörður, s.s. Snorravörður, Grynnstasundsvarða og varðan á Norðari klettunum.  Sumar eru miðavörður, s.s. Stekkavarða á Hnífunum.  Enn aðrar eru eyktamörk, s.s. Hádegisvarða og Nónvarða.  Þá eru ónefndar vörður sem menn hlóðu að gamni sínu og til að halda á sér hita t.d. í hjástöðum.  Þannig eru t.d. Strympuvörðurnar og líklega einnig Ólafsvörður í Sandslágarkjaftinum.  Tignarlegust er líklega hin mikla klofavarða á Stórafelli, sem Guðbjartur Guðbjartsson hlóð.  Hún er hlaðin úr hellum; tveir ferhyrndir stöplar hlið við hlið með sameiginlegri yfirbyggingu.  Fyrrum þótti það sjálfsögð skylda sérhvers manns sem um vegi fór að staldra við og lagfæra vörðu ef úr henni var hrunið.  Af þeirri töf er dregið orðtakið að reka í vörðurnar.

Varða (s)  A.  Hlaða vörður, t.d. við veg.  Varða leið/veg.  „Leiðin til Vítis er vörðuð góðum áformum (sem ekki var staðið við)“.  B.  Skipta máli; vera viðkomandi.  „Þetta mál varðar mig litlu“.  „Þetta er í góðu lagi, hvað mig sjálfan varðar“.  „Svona háttalag ætti að varða við lög“!

Varða um (orðtak)  Koma við; snerta; þurfa að vita.  „Mig varðar ekkert um álit annarra í þessum efnum“.

Varðandi (l)  Sem varðar; sem viðkemur.

Varðberg (n, hk)  Staður á bjargbrún þar sem vel sést til bjargmanns niðri í bjarginu; vaðberg. Sjá vera á vaðbergi/varðbergi.

Varðeldur (n, kk)  Eldur sem kveiktur er í varnaðarskyni; ýmist til að halda rándýrum frá eða til að láta vita af hættu.  Nú á dögum er heitið notað yfir hverskonar bál sem menn kveikja utandyra til skemmtunar eða samveru.  Skýrasta dæmið um raunverulega varðelda er líklega að finna í vopnadómi Magnúsar Prúða sem kveðinn var upp í Tungu í Örlygshöfn 12.okt 1581.  Tilefni hans var annarsvegar rán sjóræningja á Eggerti Hannessyni í Saurbæ; tengdaföður Magnúsar, árið 1579, en hinsvegar það að valdsmenn höfðu nokkrum árum áður látið menn farga vopnum sínum og aflagt almennan vopnaburð.  Með vopnadómi Magnúsar var vopnaeign aftur innleidd; hver maður var skyldugur til að eiga lágmarks varnarbúnað; þ.m.t. luntabyssu og arngeir, svo unnt væri að kveðja út lið gegn aðsteðjandi hættu.  Einn liður dómsins kveður á um varðelda:  „Hér með dæmum vér hreppstjóra í hvörri sveit menn til að kalla og eldkveikingar á hæðstu hæðum setja fyrir krossmessu, þar og alla vega má reyk sjá í byggðir; svo og skylduga til vita að kynda og vörð halda, sem hreppstjórum þykir trúlyndastir og léttvígastir vera, og sýslumann sem fyrst við varan gjöra“.  Fremst á Blakknesnibbu má greina leifar af fornri garðhleðslu.  Umhugsunarvert er hvor þar gætu verið leifar skjólgarðs fyrir bálköst í samræmi við vopnadóminn; enda sér vel frá Nibbunni suðureftir Útvíkum til Bjargtanga; inneftir Patreksfirði og norður alla núpa.

Varðhald (n, hk)  Gæsla brotamanns; fangelsi.  „Bjarni á Söundá var dæmdur fyrir morð og hafður í varðhaldi að sýslumannssetrinu í Haga.  Þaðan slapp hann en náðist aftur og var fluttur í Steininn í Reykjavík.  Þaðan slapp hann einnig árið 1804, og náðist uppi í Borgarfirði.

Varðhundur (n, kk)  Hundur sem ver eigandendur sína og eignir þeirra.  Hundar á sveitabæjum taka hlutverk sitt oftast alvarlega, sem varðhundar.  Það skýrir gelt þeirra og tortryggni gagnvart aðkomumönnum.

Varði (n, kk)  Upprunalega sömu merkingar og varða, en hefur í seinni tíð fengið merkingu minningartákns, sbr minnisvarði.

Varðveisla (n, kvk)  Það að geyma/gæta einhvers vel; vistun; gæsla.  „Mér var falið þetta til varðveislu“.

Varðveita (s)  Geyma; gæta; hafa auga með.  „Sælir eru þeir sem heyra guðs orð og varðveita það“.

Vareygð (n, kvk)  Varúð, eldri orðmynd.  Merkir að líta eitthvað athugulum/varfærnum augum.

Varfær / Varfærinn (l)  Gætinn; fer varlega.  „Hann er mjög varfær og athugull í brattlendi“.

Varfærni (n, kvk)  Aðgæsla; gætni.  „Það þarf að sýna mikla varfærni við að ná fé af þessum stað“.

Varfærnislega (l)  Með aðgæslu/varúð; varlega.  „Hann teygði sig varfærnislega eftir byssunni, án þess að hafa auga af rebba“.

Vargagangur / Vargaháttur / Vargalæti / Vargaskapur (n, kk)  Frekja; yfirgangur.  „Honum varð lítið ágengt með þessum vargagangi“.  „Hverskonar vargaháttur er þetta eiginlega í mannskrattanum“!

Vargaklær (n, kvk, fto)  A.  Klær villidýrs.  B.  Oftast í líkingamáli um óvinahendur; það sem er óvinveitt.  „Það þarf að endurheimta veiðiréttindi sjávarjarða úr vargaklóm sægreifa og annars sjálftökuliðs“!

Vargalega (ao)  Eins og vargur/villidýr.  „Láttu nú ekki svona vargalega drengur“!

Vargalegur (l)  Frekur; ágengur; yfirgangssamur; sem sýnir vargalæti/vargahátt. 

Vargast (s)  Vinna að einhverju með vargalátum/yfirgangi; atast; jagast; heimta.  „Ég nenni þá ekkert að vargast lengur í málinu fyrir þá, ef þeir sýna því sjálfir engan áhuga“.

Vargbitin (l)  Um sauðkind; bitin eftir tófu/dýrbít; tófubitin; dýrbitin.  „Þarna sýnist mér vera vargbitin kind“.

Vargeyðing (n, kvk)  Skipulegt dráp á dýrum sem þykja meindýr gagnvart búskap, s.s. mink, ref og vargfugli.  Nú oftar nefnt „eyðing refa og minka“, þar sem örn, máfur og hrafn er ekki talið til meindýra lengur.

Vargétið (l)  Kroppað af tófu eða ránfugli.  Oft um hræ.  „Kindin var löngu dauð og hræið töluvert vargétið“.

Vargfugl (n, kk)  Fuglategundir sem fyrrum voru taldar ógnvaldur við veikburða skepnur og lögðust á t.d. kindur sem lágu afvelta eða höfðu farið ofaní (dý).  T.d. hrafn, máfur, svartbakur og örn.

Vargur (n, kk)  A.  Almennt um villidýr.  B.  Villidýr sem ágeng eru við veikburða búfé og villtri náttúru, s.s. refur, minkur og vargfugl.  C.  Líkingamál um mjög ágengan/frekan mann eða konu, sbr pilsvargur.

Vargur í véum (orðtak)  A.  Upprunalega var hugtakið notað um þann sem varð uppvís að miklum helgispjöllum í véum; þ.e. helgum stað í heiðni.  Blóðsúthelling í véum var einhver argasti glæpur sem unnt var að drýgja, og vargi í véum var grimmilega refsað.  B.  Sá sem veldur ófriði. 

Vargöld (n, kvk)  Stríðsástand; óöld.

Varhluta (l)  Sjá fara varhluta af einhverju.

Varhugavert (l)  Óvarlegt; hættulegt; tortryggilegt.  „Það er varhugavert að treysta þessari brú lengur“.

Vari (n, kk)  Varúð; gætni; aðvörun.  Sbr taka vara fyrir; hafa vara á sér.

Varið (s)  Lh þt af verja.  „Því er nú þannig varið með mig að mér finnst ekkert varið í utanlandsreisur“.

Varið í (orðtak)  Eftirsóknarvert; eftir að slægjast; gott; eigulegt.  „Mér finnst ekkert varið í svona pitsubleðlil“.  „Það er heilmikið varið í þennan hund; hann nýttist vel í smalamennskunni“.  Stofninn er verja.

Varkár (l)  Gætinn; athugull.  „Hann var mjög varkár í orðalagi um þetta“.

Varkárni (n, kvk)  Aðgætni; varúð.  „Hann fikraði sig með varkárni eftir tæpu einstiginu“.

Varkjafta (s)  Þræða seil í gegnum fiskhaus; gera þumu framan tungubeins til að þræða seil í fiskhaus.

Varla (ao)  Naumlega; tæplega; ekki alveg.  „Við erum svo seinir á flot að við náum varla snúningum“.  Oftast framborið eins og um tvöflat l sé að ræða; án þess að r hljóðið heyrist.  Fyrrum var orðið notað með neitun; t.d. „varla enginn“ eða „varla hvergi“.

Varla nafn gefandi (orðtak)  Varla til að minnast á; varla til að hafa orð á.  „Þessari veiði er varla nafn gefandi; örfáir tittir, og allir kolmórauðir“!

Varla nema svipur hjá sjón (orðtak)  Ekki mikið miðað við fyrri glæsileik/mikilfengleik.  „Vorleysingar nú á dögum eru varla nema svipur hjá sjón, miðað við það sem var fyrir fáum áratugum“.

Varlega (ao)  Með varkárni/aðgæslu/tillitssemi; hóflega.  „Aktu nú varlega með eggin á þessum óvegi“.  „Varlega áætlað sýnist mér að um hundrað kindur gætu verið í rekstrinum“.

Varmenni (n, hk)  Fantur; illmenni; þrjótur.  „Hitler hefur verið talinn einn versti skálkur sem sögur fara af í seinni tíð, en spurning er hvort Stalín var ekki viðlíka varmenni“.

Varmennska (n, kvk)  Fantaskapur; illvilji.  „Ég hef sjaldan vitað álíka varmennsku og þetta“!

Varmi (n, kk)  Hlýja; hiti.  „Lambið hresstist fljótt við varmann frá eldavélinni“.

Varna (s)  Verja; hindra; afstýra.  „Þeir girtu kringum dýið til að varna því að fé færi þar ofaní“.  „Engum er alls varnað“.  „Honum er ekki alls varnað; hann náði fénu heim einsamall þó enginn hefði trú á því“.

Varnaðarorð (n, hk, fto)  Aðvaranir; viðvaranir.  „Það var því miður ekki hlustað á þessi varnaðarorð“.

Varnaður (n, kk)  Fordæmi til varúðar.  Sjá láta sér til varnaðar verða.

Varnagli (n, kk)  A.  Heiti á nagla til að festa var (egg) á reku.  Hugsanlegt er þó að það hafi einnig verið haft yfir saum sem settur var aukalega, t.d. í bát til frekara öryggis.  B.  Einkum notað núna í líkingamáli um fyrirvara; varúðargerð.  „Ég sagðist myndu koma með þeim, þó með þeim varnagla að ég þyrfti ekki að sinna öðru brýnna“.  „Hann taldi sig vera búinn að laga þetta, en sló þó þann varnagla við að ekki mætti reyna mikið á það“. 

Varnarlaus (l)  Án varna; án möguleika til að verja sig.  „Maður er alveg varnarlaus gegn svonalöguðu“.

Varnarleysi (n, hk)  Það að vera varnarlaus.

Varnarlið (n, hk)  Herlið til varnar.  Orðið var notað af stjórnvöldum og sumum öðrum um erlent herlið sem fékk aðsetur á Íslandi um áratugaskeið eftir síðari heimstyrjöld, undir því yfirskini að verja Ísland gegn ímyndaðri hættu.  Í raun var þó um pólitíska klæki að ræða, ásamt braski þeirra sem á þessu högnuðust.  Ísland var þannig notað sem peð í valdatafli stórveldanna, en hefði betur verið hlutlaust.

Varnarræða (n, kvk)  Málflutningur þess sem þarf að verja sitt mál/ sína afstöðu.

Varnarþing (n, hk)  A.  Staður/svæði þar sem maður ver rétt sinn að lögum.  Varnarþing er gjarnan það svæði sem maður er heimilisfastur á, en ekki endilega þar sem hann hefur aðsetur.  B.  Lögsaga héraðsdómstóls.

Varningur (n, kk)  Vara.  „...en jafnan var farið í kaupstað fyrir jólin og þá keyptur ýmis varningur til hátíðarhaldsins.  ..... Heim var svo fluttur ýmiss konar varningur til vetrarins.  Matvara, svosem hveiti, sykur, haframjöl og rúgmjöl; allt í 50 kg pokum.  Fóðurbætir, aðallega fiskimjöl og síldarmjöl, var venjulega í 100 kg pokum.  Venjulega var tekið mað lítið eitt af kolum, sem þótti gott að geta gripið til ef sérlega þurfti að skerpa lítillega á eldi“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Varorður (l)  Varfærinn í orðum/orðavali.  „Hann var afskaplega varorður um þessi viðkvæmu mál“.

Varp (n, hk)  A.  Kast; það að kasta einhverju, sbr. yfirvarp.  B.  Eggjaframleiðsla fugla.  „Það hefur verið lítið varp á hænsnunum núna“.  C.  Eggland.  „Í Blakknum er töluvert varp af fýl“.  D.  Saumur á roðskó/skinnskó.  „Síður rifnaði út úr varpinu á skóm skó úr hnakkaroði en dylluroði“.

Varpa (n, kvk)  Veiðarfæri skipa; pokalaga net sem dregið er eftir öflugu vélskipi eða togara.  Nafnið er dregið af því að veiðarfærinu er varpað/kastað fyrir borð í byrjun veiða, og líkist í því efni kastneti.  Vörpur togara, eða ræfrildi úr þeim, rekur stundum á fjörur og hafa stundum verið til nytja.

Varpa (s)  Kasta; fleygja; slengja.  „Hann varpaði af sér byrðinni og settist niður“.

Varpa ellibelgnum (orðtak)  Kasta ellibelgnum, sjá þar.

Varpa fram spurningu (orðtak)  Spyrja; bera upp spurningu.  „Oddviti varpaði fram þeirri spurningu hvort menn vildu fækka kjördeildum niður í eina“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Varpa fyrir borð (orðtak)  Kasta í sjóinn frá bát.

Varpa hlutkesti (orðtak)  Kasta teningi, peningi eða öðru til að ákvarða t.d. hver/hvor ber hærri hlut í skiptum, spilum eða deilumáli.  „Við skulum bara varpa hlutkesti um það hver verður á brún og hverjir fara niður“.

Varpa öndinni (orðtak)  Kasta mæðinni; taka sér hvíld frá erfiði til að losna við mestu mæðina.  „Í miðri Vörðubrekkunni settumst við niður til að varpa öndinni“.

Varpa öndinni léttar (orðtak)  Losna við áhyggjur; geta andað eðlilega en vera ekki andstuttur af spenningi.  „Ég varpaði öndinni léttar þegar ég sá að hann náði að klórast upp í ganginn“.

Varpaður (l)  Um fatnað, s.s. skó eða skinnklæði; verptur.  Voru báðar beygingarmyndir þekktar.  „Þessir skór voru þjálli og fóru betur á fæti.  Þeir voru varpaðir með snæri, og með því sama snæri bundnir yfir mjóalegginn“  (KJK; Kollsvíkurver).

Varpfóður (n, hk)  Fóður sem hænsnum er gefið til að auka varp.  „Gefðu þeim hálfa kollu af varpfóðri“.

Varpbúningur (n, kk)  Hamur sem fugl skrýðist á farptíma og í tilhugalífi.  Oft er fjaðrahamur, einkum karlfugls, litskrúðugri um varptíma en endranær.  Á það t.d. við um æðarblika.

Varpfugl (n, kk)  Fugl sem verpur eða hefur orpið.  „En þegar búið er að drepa varpfuglinn kemur bjargfuglinn, sem svo er kallaður; heimilislaus fugl utan af sjónum.. . og helgar sér munaðarleysingjann“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Varphæna (n, kvk)  Hæna í varpi.  Varphænsni er haft um flokk af varphænum, gjarnan ásamt hana.

Varpi (n, kk)  Tún, þar sem það liggur næst bæjarhlaði.  Dregið af því að verpa; þ.e. skeyta saman.  Hlaðvarpi.

Varpjörð (n, kvk)  Jörð sem nýtur hlunninda af æðarvarpi.  T.d. Hnjóts- og Tungujarðir í Rauðasandshreppi.

Varpkassi (n, kk)  Kassi sem fugl/hæna verpir í.  Í honum er hafður undirburður af heyi eða öðru til mýktar.

Varpland (n, hk)  Svæði með miklu fuglavarpi.  Gjarnan notað um æðarvarp eða kríuvarp.

Varptími (n, kk)  Tíminn sem varp fuglategundar stendur yfir.

Varreka (n, kvk)  Reka af eldri gerð, með tréblaði sem á er fest egg/var úr járni. Sjá varnagli.

Varsla (n, kvk)  Geymsla; varðveisla.  „Hann ber ábyrgð á fé sem er í hans vörslu“.

Vart (ao)  Varla.  „Hann var vart orðinn tvítugur þegar þetta skeði“. 

Varta (n, kvk)  Vörtur eru litlir hnúðar sem myndast geta á húð af völdum veirusýkingar.  Algengt er að þær myndist hjá börnum og hverfi oft af sjálfsdáðum, en stundum þarf að fjarlægja vörtur og lækna sýkingu; einkum ef þær eru á slæmum stöðum, s.s. fótum eða kynfærum.  Vörtusýkingar geta verið smitandi, einkum þegar úr þeim blæðir.  Þjóðtrúin segir vörtur vera gæfumerki; þær dragi að auðlegð.  Ennfremur að vörtur megi lækna með því að nudda þær með vígðri mold.

Vartappi (n, hk)  Bræðivar.  Notað í raflögnum fyrir daga útsláttarvara, og jafnan nefnt „öryggi“.

Varúð / Varygð  (n, kvk)  Gætni; fyrirhyggja; aðgát.  „Þarna er gangurinn tæpur og þarf að fara um með varúð“.  Í Kollsvík tíðkaðist, sem ekki heyrist annarsstaðar, að hafa orðið í fleirtölu:  „Þetta þótti alveg herramannsmatur; ungarnir.  Engar varúðir á því.  Fullorðnir svartbakar þóttu ekki mannamatur“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).  Sjaldan var notuð orðmyndin „varygð“, en heyrðist þó. „Þið gætið varyggðar þegar þið farið um þræðinginn í Takaklettinum“.

Varúðarráðstöfun (n, kvk)  aðgerð til öryggis/vara.  „Oftast var gerð varðúðarráðstöfun ef það brygðist“  (IG; Sagt til vegar II). 

Varúðlega (ao)  Varlega; gætilega.  „Hann tók glerið varúðlega úr falsinum“.

Vas (n, hk)  Bras; bauk; bjástur; vafstur.  „Ég nenni ekki að standa í þessu vasi lengur“!

Vasabók (n, kvk)  Lítil bók; bók sem kemst í vasa.

Vasagreiða (n, kvk)  Lítil hárgreiða sem kemst í vasa. 

Vasahnífsblað / Vasahnífsoddur / Vasahnífsskaft (n, hk/kk)  Hlutar vasahnífs.  „Ég náði skrúfunni úr með vasahnífsblaðinu“.  „Út i þetta setti hann salt á vasahnífsoddi“.  „Tappinn small í þegar ég bankaði létt á hann með vasahnífsskaftinu“.

Vasahnífsbrók / Vasahnífsræfill (n, kvk/kk)  Lélegur vasahnífur; gæluheiti á vasahníf.  „Skyldi ég hafa týnt vasahnífsbrókinni“?  „Það má lengi dengja úr vasahnífsræflinum“.

Vasahnífur (n, kk)  Sjálfskeiðungur; hnífur sem unnt er að leggja saman, þannig að fari vel í vasa.  „Vasahnífur er hverjum manni ómissandi,líkt og snýtuklúturinn; allavegana var það svo áðurfyrr; til að marka lömb; taka af; flá; hækla; skera snæri; blóðga fisk; spyrða og ótal annarra nota.  Hann er líka mjög hentugt tæki til að skrúfa; skafa; raspa; tálga neglur; afeinangra vír; kroppa klaka; skafa skít og ekki síst til að tálga.  Tálga þurfti sköft á hrífur og annað svo þau féllu í sitt gróp; enda á handfangi sem stungið var í strjúpa þegar sviðið var; neglu í bát o.fl.  Laghentir menn tálguðu gjarnan ýmsa muni, af misjafnlega mikilli list.  Guðbjartur afi á Láganúpi tálgaði oft leikföng fyrir okkur bræðurna; ýmist spýtukarla, háa og leggjalanga, eða trébáta.  Stundum gerði hann fugl eða sel úr klumbubeini af ýsu.  Ég hef sjálfur haldið þeim sið að skilja aldrei við mig vasahnífinn og hann kemur iðulega í góðar þarfir,þó lítið sé tálgað“ (VÖ).  „Hníf komu vermenn með sér hreinan úr aðgerðinni og geymdu að loknum snæðingi í verskrínunni, ef þeir höfðu ekki eignast sjálfskeiðung, sem var orðið algengt á ofanverðri 19. öld“  (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh).  „Í þetta skipti týndi ég fyrsta vasahnífnum sem ég eignaðist, og þó ég leitaði í mörg ár fann ég hann aldrei“  (IG; Æskuminningar).  „Við það að sjá þessa fallegu kjötbita sem í skrínunni voru féll hann marflatur fyrir freistingunni; greip einn bitann og skar sér með vasahnífnum vænan munnbita“  (PG; Veðmálið). 

Vasaklútur (n, kk)  Léreftsbútur sem menn hafa gjarnan í vasa, til að snýta sér í og þurrka.  Vasaklútar eru af ýmsum gerðum, allt eftir notum og manngerð.  Neftóbakskarlar nota gjarna stóra klúta en pjattrófur minni.

Vasaljós (n, hk)  Lítið ljós til að halda í hendi.  Tilkoma vasaljósa og lítilla battería var allmikið framfaraskref í sveitum; ekki síst fyrir þá sem þurfa að fara um vegleysur til gegninga í myrkri. 

Vasapeli (n, kk)  Lítil flaska sem unnt er að hafa í vasa, gjarnan flöt.  Yfirleitt er orðið notað um litlar flatar vínflöskur.  Fyrir kom að góðbændur í Rauðasandshreppi höfðu með sér vasapela á réttir, og dreyptu menn hóflega á til að fagna heimtum og smölun.  Hinsvegar fór því víðsfjarri að vínneysla og söngur væri áberandi hluti réttanna, líkt og nú virðist vera á Suður- og Norðurlandi.  Réttir gengu einkum út á að smala og rétta fé, auk þess að skiptast á orðum við góða granna.

Vasast í (einhverju) (orðtak)  Bjástra við; vesenast með; fást við.  „Ég skil ekki hvernig hann nennir að vasast í þessum málum; ekki hefur hann svo mikið uppúr því“.

Vasaúr (n, hk)  Úr sem haft er í vasa og fest við föt með keðju.  Vasaúr eru gjarnan skrautleg og höfðu heldri menn þau í vestisvasa, með áberandi keðju þvert yfir ístruna.

Vasi (n, kk)  A.  Hólf eða poki sem saumaður er á fatnað til að geyma ýmislegt smálegt, eða stinga höndum í.  Sbr buxnavasi, jakkavasi, brjóstvasi, rassvasi.  B.  Krukka sem t.d. blóm eru sett í.

Vaska (s)  Þvo.  „Þar er hann saltaður í stæður sem eru umstaflaðar eftir 3-4 daga.  Í þeim stóð fiskurinn þar til hann var vaskaður og þurrkaður“  (IG; Niðjatal HM/GG). 

Vaska upp (orðtak)  Þvo upp; þvo leirtau og annan borðbúnað eftir notkun.  „Ég skal vaska upp ef þú þurrkar“.

Vaskafat (n, hk)  Þvottafat.  Fat eða lítill bali sem þvegið er í.

Vasklega (ao)  Rösklega; hraustlega; ákveðið.  „Hann þótti sýna vasklega framgöngu í málinu“.

Vasklegur (l)  Hraustlegur; rösklegur.  „Mér sýndist þetta vera hinn vasklegasti náungi“.

Vaskur (n, kk)  Handlaug; þvottalaug.

Vaskur (l)  Röskur; duglegur; hraustur.  „Tveir vaskir menn verða fljótir að klára þetta verk“.

Vasla (s)  Vaða; ösla; sulla.  „Á stórum fjörum mátti taka skel á þurru, en á smærri fjöru varð að vasla í sjó“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Vatn (n, hk)  A.  Hefðbundin merking um efnasambandið vatn.  B.  Stór tjörn; t.d. Litlavatn.  C.  Um sjávardýpi.  Sagt er að skip/veiði sé á svo og svo djúpu vatni.  „... nú og ef maður er á djúpu vatni fer maður sér bara hægar til að byrja með“ (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Vatn á myllu (einhvers) (orðtak)  Einhverjum til stuðnings/hagsbóta.  „Áróðurinn gegn hinum reyndist aðeins hafa verið vatn á hans myllu“. 

Vatna (s)   Bera vatn í það búfé sem er á innistöðu að vetrarlagi.  Töluverð vinna var í því að vetrarlagi að bera vatn daglega í kýr, kálfa, gemlinga og hrúta.  Annað fé var látið út, væri þess nokkur tilsjón; þó ekki væri til annars en að láta það vatna sér.  Ekki einungis var puð að bera vatnið, heldur gat einnig þurft að brjóta ís til að komast að vatnsbólum.  Á 20. öld komu vatnslagnir, fyrst í íbúðarhús og síðan í útihús, sem auðveldaði þetta mikið.  Síðar komu sjálfvirk brynningarker í fjós, sem tóku af mesta erfiðið við þennan þátt búskaparins.

Vatna músum (orðtak)  Tárast; gráta.  „Hversvegna ertu að vatna músum núna, ræfillinn minn“?

Vatna sér (orðtak)  Fá sér að drekka.  Einkum notað um fé sem látið er út til brynningar.  „Mundu eftir að víkja fénu norður að Ánni svo það geti vatnað sér“.

Vatna undir (orðtak)  Um það þegar hlut er lyft nægilega til að greinanlegt sé að hann losni frá jörð eða gólfi.  „Það er enginn maður með mönnum nema að hann lyfti Brynjólfstaki svo vatni undir“.

Vatna út (orðtak)  A.  Um skepnur; hleypa í vatn.  „Hann fór norður á Mel að vatna út fénu“.  B.  Um saltaðan mat; útvatna.  „Það hefði mátt vatna saltketið aðeins út fyrir suðuna“.

Vatna yfir (orðtak)  Um það þegar hlutur fer á kaf.  „Það þarf að vatna yfir hjólin á bátavagninum til að báturinn fljóti upp í hann“.  „Pækill þarf að vera nægur til að örugglega vatni yfir saltketið“.

Vatnagangur / Vatnsgangur (n, kk)  Vatnavextir; ágangur áa og lækja.  „á þessu svæði var enginn gróður samfelldur; aðeins nokkrar melþúfur og ár og ár vísir að smágrasfitjum sem Vaðallinn og vatnagangur ofanfrá dalnum eyddi svo þegar verr áraði“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Vatnaskil (n, hk; fto)  Efsti hluti landsvæðis, þar sem vötnum hallar sitt í hvora/hverja áttina.  Einkum er heitið notað í landamerkjalýsingum.  T.d. liggja landamerki Kollsvíkur- og Láganúpsjarða víðast á vatnaskilum á móti aðliggjandi jörðum, s.s. Hænuvík og Breiðavík, eða eins og vötnum hallar.

Vatnasvið (n, hk)  Svæði vatnsfall, sem vatn fellur af til vatnsfallsins, bæði ofanjarðar og neðan.

Vatnavextir (n, kk, fto)  Vöxtur í ám og lækjum, einkum í leysingum og stórrigningum.  Algengara orð í Kollsvík en hláka eða leysingar.

Vatni ausinn (orðtak)  Skírður.  Sjá ausa vatni.  „Eftir tíðkan aldar þá,/ öls við þamb og teiti;/ kastað vígðu vatni á;/ valið mannlegt heiti“  (JR; Rósarímur).

Vatnsafl (n, hk)  Stöðuorka vatns sem getur runnið; hreyfiorka rennandi vatns. 

Vatnsagi (n, kk)  Stöðugt vatnsstreymi.  Gjarnan notað um óæskilegt streymi vatns, t.d. um vegi í leysingum.  „Best er að fara (um sunnanverða Vatnadalsbót) snemma vors, áður en slý og þörungagróður þekur fjöruna, en slíkt gerist snemmsumars vegna mikils og nær samfellds vatnsaga úr sjávarklettunum“  (HÖ; Fjaran). 

Vatnsaustur (n, kk)  Gusugangur; vatnsagi; aftakarigning.  „Ég hef sjaldan lent í viðlíka vatnsaustri“!

Vatnsbakki (n,  kk)  Skilrúm/haft sem skilið er eftir þegar grafið er í blautan/mýrlendan jarðveg, til að vatn liggi síður í holunni.  „Verst var hve mikið vatn var í mógröfunum.  Þó var alltaf hafður vatnsbakki, en hann vildi springa“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Vatnsberi (n, kk)  A.  Manneskja sem ber vatn úr vatnsbóli í hús; sá sem sækir vatn til drykkjar/brynninga.  B.  Áhald til að létta vatnsburð.  Oki er lagður yfir axlir og niður úr hvorum enda hans ganga tré sem föturnar eru festar í.  Litlir skáokar styrkja hornin.  Stundum hanga föturnar þó í taumum úr endum okans.  C.  Eitt stjörnumerkjanna á norðurhveli himins; aquarius.  Merkinu var lýst af grikkjanum Ptolemæosi á 2.öld f.Kr.  Sést að hluta frá Íslandi.  D.  Manneskja sem fædd er í stjörnumerkinu vatnsberanum.

Vatnsborð (n, hk)  Yfirborð vatns. 

Vatnsból (n, hk)  Uppspretta vatns úr jörðu.  Oftast er átt við brunn/stað þar sem neysluvatn er tekið.

Vatnsbólstur (n, kk)  Bunga á yfirborði jarðvegs, þar sem vatn hefur þrengt sér undir grassvörð og lyft honum.  Gerist þetta stundum í vorleysingum, þegar gróðurþekjan hefur þiðnað en vatn nær samt ekki að síga niður í jörð sökum frosts í jörðu.  Í halla sígur vatnið undir þekjunni og lyftir henni þar sem fyrirstöður verða, í vatnsfyllta bólstra.  Þegar á er stungið vellur vatnið út.

Vatnsbretti (n, hk)  Frágangur á smíði húss; lárétt fráhallandi fjöl sem sett er ofan og/eða neðan glugga, til að veita vatni framaf og frá. 

Vatnsbuna (n, kvk)  Rennsli vatns t.d. úr krana.

Vatnsburður (n, kk)  Burður á vatni til drykkjar/brynninga. 

Vatnsdallur (n, kk)  Vatnsílát.  Oftast notað um vatnsílát hjá hænsnum.  „Mundu eftir að gá hvort nóg er í vatnsdallinum“.  „Netakúlur úr áli sem tekin var sneið úr, voru oft notaðar til að hafa í vatn“  (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Vatnsdalskumlið / Vatnsdalsbáturinn (n, hk/kk)  Kuml sem fannst í Vatnsdal í Patreksfirði og bátur sem í því lá grafinn.  Kumlið fann Magnús Ólafsson frá Vesturbotni, þegar hann var á jarðýtu að útbúa kartöflugarð árið 1964, þar sem heitir Reiðholt; neðst innanvið Vatnsdalsá.  Það var rannsakað af Þór Magnússyni fornleifafræðingi, og fann hann leifar af um 6m löngum og um 95 cm breiðum rósaumuðum bát, en í honum höfðu verið heygðir fjórir karlar og tvær konur.  Þór taldi að báturinn hafi verið smíðaður úr barrviði, liklega lerki; borðin hafi verið 6 á hvora síðu, fremur mjó.  Af haugfé fannst þarna þórshamar; perlur úr steinasörvi; hringur, armbaugar og bjalla úr bronsi; kambar; blýmet; bronskinga; hnífur og brýni.   Þá fundust tvö stykki úr hvalbeini, sem líklegt er að hafi verið vaðbeygjur á borðstokk, og þá fremur fyrir stjórafæri en veiðarfæri.  Sé það rétt, gæti það bent til að með bátnum hafi verið fiskað fyrir föstu.  Báturinn var borðlágur, og því líklegra að honum hafi verið haldið til veiða innanfjarðar í Patreksfirði en út á Kollsvík, þó um það verði ekki fullyrt.  Það að sjö manneskjur voru heygðar í bátnum gæti bent til þess að á honum hafi orðið sjóslys; e.t.v. í lendingunni í Vatnsdal.  En þó kann annað að hafa gerst, s.s. drepsótt á landi.  Þór telur bátinn vera frá fyrstu árum byggðar, og veltir því upp að sé Landnámabók marktæk megi ætla að þarna gæti verið eitthvað af fóki Örlygs Hrappssonar eða afkomendur þess.  Þar gæti því einnig verið fólk Kolls fóstbróður hans; landnámsmanns í Kollsvík, og e.t.v. hefur báturinn verið meðal fyrstu báta sem gerðir voru út í Kollsvíkurveri.  Um þetta verður fátt sagt nú; a.m.k. ekki nema með frekari rannsóknum.  Minjar í kumlinu benda bæði til heiðins og kristins siðar.  Kumlið þykir meðal merkustu fornleifafunda hérlendis.

Vatnsefni (n, hk)  Vetni; H; léttasta frumefnið; það algengasta í alheimi og það sem einkum viðheldur bruna sólar.  Nafnið vatnsefni var almennt notað framyfir 1960; dregið af því að það er uppistaðan í efnasamsetningu vatns.  Í því eru tvær frumeindir vetnis á móti einni af súrefni.

Vatnselgur / Vatnsflaumur / Vatnsflóð (n, kk/hk)  Óvanalega ákaft rennsli vatns, t.d. í leysingum.  „Þarna rennur gríðarlegur vatnselgur yfir veginn“.  „Vatnsflaumurinn rann niðuryfir Flötina“.

Vatnsfall (n, hk)  Rennandi vatn, t.d. á, lækur, fljót.  „Áin erstærsta vatnsfallið í Kollsvík“.

Vatnsfat (n, hk)  A.  Fat með vatni.  B.  Vaskafat; grunn, víð skál til t.d. þvotta.  Vatnsfat var áður ríkjandi heiti en á síðari tímum hefur vaskafat rutt sér til rúms.

Vatnsfata (n, kvk)  Fata undir vatn; fata með vatni.  „Þær eru margar vatnsföturnar sem bornar hafa verið úr brunni til bæjar gegnum tíðina“.

Vatnsflaska (n, kvk)  Flaska undir vatn; flaska með vatni.  „Áður en ýtt var frá hljóp ég upp í Búðarlæk og fyllti vatnsflöskuna“.

Vatnsgjúga (n, kvk)  A. Kýli; bólguhnúður; vökvafyllt blaðra  „Ósköp er lítið varið í þessar pulsur.  Þetta er eins og vatnsgjúgur“!  B.  Líkingamál.  „Skelfing eru þetta leiðinlegar appelsínur; þær eru eins og vatnsgjúgur“.

Vatnsgjúgulegur (l)  Eins og vatnsgjúga.  „Kartöflurnar eru orðnar hálf linar og vatnsgjúgulegar“.

Vatnsglundur (n, hk)  Lap; það sem er mjög vatnsblandað.  „Ekki kann ég vel að meta þetta vatnsglundur sem þeir kalla agúrku, og tröllríður öllu nútímafæði“!

Vatnsgrautur (n, kk)  Þunnur grautur með miklu vatni og dálitlu af mjöli eða öðru; vatnslap. 

Vatnsgutl (n, hk)  Hvaðeina sem mjög er þynnt með vatni.  „Svona vatnsgutl kalla ég ekki kaffi“!

Vatnshalli (n, kk)  Nægur halli til að vatn renni.  „Gættu þess að hafa vatnshalla á rörinu“.

Vatnshani (n, kk)  Svo voru nefndir vatnskranar, fyrst þegar vatn var lagt í hús.

Vatnsheldur (l)  Um efni; sem heldur vatni.  „Vel lagt helluþak er ágætlega vatnshelt“.

Vatnshjól (n, hk)  Spaðahjól; hjól sem snýst þegar straumvatn ýtir á spaða sem standa þversum í brún þess.  Vatnshjól hafa lengi verið notuð til virkjunar straumvatns, eða frá því fyrir krists burð.  T.d. til kornmölunar; dælingar vatns og sögunar á trjáviði.  Höfundur þessarar samantektar fann aðferð til að láta vatnshjól snúast þó það væri á kafi í straumnum, sem ekki hafði áður verið gert.  Uppfinningin nefnist straumhjól, og var fyrsti íslenski hverfillinn til að hljóta einkaleyfi.

Vatnshrútur (n, kk)  Tæki til dælingar á vatni sem sett er í straumvatn, en straumurinn knýr þá dælu sem dælt getur vatni upp í allt að 20-falda fallhæð straumvatnsins.  Virknin er í megindráttum sú að með sérstökum búnaði stúts, þyngdarklossa og loka er komið reglulegum þrýstingsbreytingum í vatnsstreymið, sem nýtast til að þrýsta vatni upp í neyslulögnina.  Fyrst notaður í Frakklandi 1796, en hérlendis frá 1935.

Vatnshræddur (l)  Hræddur við vatn; forðast vatn; vatnsfælinn.

Vatnshverfill (n, kk)  Hverfill sem knúinn er af vatni; hvorki gufuhverfill né sjávarfallahverfill; vatnstúrbína.

Vatnshöfuð (n, hk)  Hydrocelaphus; alvarlegur sjúkdómur sem stafar af uppsöfnun mænuvökva í höfði.  Þegar slíkt gerist hjá ungbörnum stækkar höfðuðið gjarnan, en hjá fullorðnum eru höfuðbeinin samgróin.  Vatnshöfuð veldur miklum þjáningum; ógleði, höfuðverkjum og sjónsviðstruflunum, og leiddi oft til dauða áðurfyrr.  Nú er létt á þessum vökvaþrýstingi með hjáveitu; borað er í höfuðkúpuna; þar settur ventill og yfirfall leitt í slöngu undir húðinni niður í kviðarhol.

Vatnsjata (n, kvk)  Langt og mjótt ílát sem notað er til að vatna fé sem er á innistöðu, og er þá fest láréttu á vegg.  „Vatnsjötur voru ýmist gerðar úr þremur viðar borðum með göflum í enda eða úr járni“.

Vatnsklósett / Vatnssalerni (n, hk)  Innikamar; salerni inni í íbúðarhúsi, með vatnskassa tengdan neysluvatnslögn.  „Vatnsklósett kom í Láganúpsbæinn líklega kringum 1962“.

Vatnsköttur (n, kk)  A.  Lirfa brunnklukkunnar; svartur mjór ormur sem iðar mjög og sést oft á sundi í stöðnuðu vatni.  Þótti hættulegur og jafnvel banvænn, væri hann étinn.  B.  Uppnefni þess sem drekkur mikið vatn.

Vatnslaus / Vatnslítill (l)  Með lítið/ekkert vatn.  „Kýrnar voru að verða vatnslausar svo ég lét renna í stampinn“.

Vatnsleysi (n, hk)  Skortur á vatni/drykkjarvatni/neysluvatni.

Vatnsmylla (n, kvk)  Mylla sem knúin er vatnshjóli.  Vatnsmyllur voru um tíma í Kollsvík; í Ánni og Myllulæk.

Vatnsósa / Vatnssósa (l)  Um jarðveg o.fl. sem hefur blotnað upp.  „Fóðurbætirinn er vatnssósa eftir lekann“.

Vatnspóstur / Vatnspumpa (n, kk)  Handdæla til að dæla/pumpa vatni.  „Bæði á Stekkjarmel og í Kollsvík var búið að setja upp vatnspumpur í íbúðarhúsum fyrir 1960; tvívirkar stimpildælur sem dælt var með því að hreyfa stöng til hliðanna“.  Heitið „póstur“ merkir stólpi, einnig notað t.d. í „gluggapóstur“.

Vatnsrás (n, kvk)  A.  Hverskyns farvegur vatns.  B.  Lægð meðfram vegi, sem vatn situr gjarnan í eða rennur um.  „Vatnsrásin er að verða full af grjóthruni úr skriðunum“.

Vatnsstampur (n, kk)  Stampur með vatni.  „Milli tveggja bása í gamla fjósinu var vatnssstampur; afsöguð trétunna.  Hjá stampinum var krani, og slanga niður í hann“.

Vatnssýki (n, kvk)  Sjúkdómsheiti fyrr á öldum, sem nú er oftast greint í fjölbreytilega sjúkdóma með öðrum nöfnum.  Var notað t.d. yfir sullaveiki, skyrbjúg, liðabólgu, vatnshöfuð o.fl.

Vatnsveður (n, hk)  Miklar rigningar og vatnsagi um alla jörð.  „Það tók Látrabændur aðeins eitt lítið stundarkorn að ákveða að leggja til atlögu við sjálft Látrabjarg í svartasta skammdeginu í hláku og vatnsveðri, þegar búast mátti við frosti og flughálku þá og þegar“  (MG; Látrabjarg).

Vatnsþamb (n, hk)  Mikil drykkja vatns.  „Saltketið kallar á ansi mikið vatnsþamb“.

Vatnsþunnur (l)  Lapþunnur; mjög þynntur með vatni.  „Mér fannst lítið varið í svona vatnsþunnan graut“.

Vatnsönd (n, kvk)  Annað heiti á stokkönd/grænhöfðaönd/gráönd, sem stundum var notað í Kollsvík og víðar.

Vattbotn (n, kk)  Sigtisbotn; kringlótt þunn skífa úr vatti/bómullarkenndu efni, sem settur er í botn mjólkursigtis og síar óhreinindi úr mjólk sem hellt er í gegnum það.  Vattbotnar voru ómissandi þarfaþing á hverju sveitaheimili, og að sjálfsögðu föst söluvara hjá kaupfélögum til sveita.

Vaturstagur (n, kk)  Eitt af mörgum stögum í reiða seglbáts.  „Íslendingurinn rennir sér þá niður vaturstaginn, en hann liggur frá bugspjótsendanum og niður í stefnið um sjólínu“  (MG; Látrabjarg).  „Flaut skipið á vog í fjörunni innan Sölmundargjár og var fast á vaturstagnum á svonefndum Kisukletti. sem er þar í fjörunni“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Vax (n, hk)  Mjúkt þykkt lífrænt efni.  Það er myndað af ýmsum lífverum í náttúrunni, t.d. nota jurtir það til að verja yfirborð sitt gegn uppgufun og býflugur framleiða það og gera úr því hólfuð bú sín.  Til iðnaðar er það framleitt úr olíu og t.d. notað sem kertavax til framleiðslu vaxkerta.  Það er tregbrennanlegt og því er hafður kveikur í kertum úr brennanlegra efni.  Fyrrum var tólg notuð til kertagerðar.  Vax var einnig notað undir skíði, til að þau rynnu betur.

Vaxa ásmegin (orðtak)  Aukast kjarkur/þor; verða hugaður.  „Stráknum óx ásmegin þegar ég kom, og áræddi að nálgast lambána aftur“.  Ásmegin er fornt heiti á afli (megin) guða (ása).

Vaxa fiskur um hrygg (orðtak)  Styrkjast; aukast; vaxa.  „Mér sýnist að þessum flokki sé núna að vaxa heldurbetur fiskur um hrygg“.  Vísar til þess að fiskar og aðrar lífverur auka hold sín með aldrinum.

Vaxa í augum (orðtak)  Mikla fyrir sér; sýnast ill-/óviðráðanlegt; kvíða fyrir.  „Mér óx verkið nokkuð í augum í fyrstu, en sá fljótt að þetta yrði létt verk og löðurmannlegt“.

Vaxa/spretta í stöng / Vaxa/spretta úr sér (orðtak)  Um tún/sléttu; spretta svo úr sér að óætir stönglar verði áberandi en blöð.

Vaxa uppúr (orðtak)  Verða of stór fyrir.  Oftast notað um það þegar föt verða of lítil fyrir barn/ungling í vexti, en stundum í öðru samhengi:  „Síðar þótti því bregða fyrir, þegar báðir komust á fullorðinsár, að Júlli hefði ekki vaxið uppúr hlutverki uppalandans gagnvart Gumma“  (PG; Veðmálið). 

Vaxa/spretta úr grasi (orðtök)  Verða fullorðinn.  „Krakkarnir eru allir vaxnir úr grasi“.

Vaxa yfir höfuð (orðtak)  Verða stærri en; verða óviðráðanlegur.  „Ég byrjaði á þessu sem tómstundagamni, en það hefur nú algerlega vaxið mér yfir höfuð“.

Vaxborinn (l)  Húðaður/mettaður með vaxi.

Vaxdúkur (n, kk)  Ofinn dúkur sem mettaður er með vaxkenndu efni, og dregur því ekki í sig bleytu.  Vaxdúkar voru fyrrum vinsælir t.d. sem borðdúkar.

Vaxinn (l)  A.  Um lífveru; sprottinn; fullorðinn; gróinn.  B.  Um málefni; háttað.  „Hann sagði mér hvernig málin eru vaxin“.

Vaxtarlag (n, hk)  Það hvernig maður eða skepna er vaxin/sköpuð.  „Hann sagðist lítið fara í kletta eftir að hann eltist og vaxtarlagið breyttist“.

Vaxtaverkir (n, kk, fto)  Verkir/tilfinning sem börn fá við að bein stækka en skinn og annað stundum hægar.

(n, kvk)  Hætta; voði.  „Við vissum að hér gat verið mikil vá á ferð ef bátnum slægi flötum“.

Vá fyrir dyrum (orðtak)  Hætta yfirvofandi; ógnir steðja að; harðindi/hungur framundan.  „Þykja hausti einu á/ illar heimtur vera./  Fyrir dyrum virðist vá,/ varla nóg að skera“  (JR; Rósarímur).

Váboði (n, kk)  Hættumerki; það sem boðar vá.  „Fyrstu váboðarnir birtust um hádegisbil, þegar illúðlegir klakkar gægðust yfir Hjallabrúnina.  Síðar um daginn fór hann að hellirigna“.

Váfrétt (n, kvk)  Mjög slæm frétt; frétt af voðalegum atburðum.  „Maður er hálf dasaður við svona váfréttir“.

Válegur (l)  Geigvænlegur; hræðilegur.  „Þú geigvænna atburða vitni hefur verið;/ válegra slysa við brimgnúið skerið“  (EG; Blakkurinn; Niðjatal HM/GG). 

Válynd veður (orðtak)  Ískyggilegt veðurútlit; skaðræðisveður.  „Það geta verið válynd veður uppi á heiðum á þessum árstíma“.

Veð (n, hk)  Það sem sett er sem trygging fyrir fullnustu skuldar.  „Bankinn hefur veð í jörðinni“.  „Ekki þori ég að leggja lífið að veði fyrir því að þessi saga sé sönn“.

Veðband (n, kvk)  Hindrun eignarhalds vegna þess að eignin er að veði.  „Engin veðbönd hvíla á jörðinni“.

Veðbókarvottorð (n, hk)  Vottorð úr veðmálabók sýslumanns um veðsetningu eignar.

Veðja (s)  Leggja veð undir í keppni eða deilumáli, sem sá fær sem sigrar eða hefur rétt fyrir sér.  Veðið getur verið fjárhæð eða hlutur; stundum einungis heiðurinn af sigrinum.  „Ég skal veðja við þig um þetta atriði“.

Veðja á (orðtak)  Spá; treysta á; leggja undir.  „Ég myndi nú ekki veðja miklu á að þetta sjóveður haldist lengi“.

Veðja fyrir (orðtak)  Treysta á/leggja undir að ekki verði; Ég myndi nú ekki alveg veðja fyrir að hann gæti átt það til að rigna með kvöldinu; hann lítur einhvernvegin ekki nógu vel út í austrinu finnst mér“.

Veðleyfi (n, hk)  Leyfi sem eigandi eignar gefur öðrum til að veðsetja eignina fyrir sínum skuldum.

Veðmál (n, hk)  Samkomulag tveggja aðila um að sá sem tapar deilumáli gjaldi hinum eitthvað umsamið.  „Hann (Liði) var annar aðilinn að veðmálinu, en hinn var réttarbóndinn (Gummi)“  (PG; Veðmálið). 

Veðmálabók (n, kvk)  Bók sýslumanns, sem þinglýst veð eru færð í; veðbók.

Veðmálslamb (n, hk)  Lamb sem veðjað hefur verið um; lamb sem lagt er undir í veðmáli.  „Gummi var vel að heiman búinn og meðal annars hafði hann í nestisskrínu sinni væna spaðbita af veðmálslambinu“  (PG; Veðmálið). 

Veðrabreyting / Veðrabrigði (n, hk, fto)  Breyting á veðri eða tíðarfari.  „Þá skal þessari frásögn lokið, en mér finnst að af henni megi glöggt marka hversu oft urðu snögg veðrabrigði; jafnvel svo að litlu mátti muna að vel réðist eða á hinn veginn“  (KJK; Kollsvíkurver).

Veðraður (l)  Sem vindur, ásamt e.t.v. sandi, se.tu og frosti, hefur breytt útliti á.  „Þarna niðri á Flögunni er sérkennilega veðrað grjót.  Sumt er örþunnt og götótt eins og víravirki, og allstkonar kynjamyndanir koma í ljós ef vel er skoðað“  (IG; Sagt til vegar I).  

Veðrahamur (n, kk)  Svipbrigði veðurs, oftast illileg; illviðri.  „Það fer enginn innyfir fjall í þessum veðraham“.

Veðrahjálmur (n, kk)  Tvöfaldur rosabaugur um sólu. „Veðrahjálmur kallast þegar tveir hringar eru um sólina; hvor utanyfir öðrum, og víða úlfar í þeim hringum, hvítir; vita á kalt þráviðri um hríð og stundum til langframa“  (BH; Atli).

Veðrahvolf (n, hk)  Troposphere; neðsta lagið í lofthjúp jarðar, þar sem veðrabrigða verður vart.  Að jafnaði nær það upp í um 11 km hæð.  Ofanvið það tekur við heiðhvolf, en milli þeirra eru veðrahvörf.

Verðrahvörf (n, hk, fto)  Tropopause; skilin milli veðrahvolfs og heiðhvolfs í lofthjúp jarðar.

Veðramerki (n, hk, fto)  Merki um veðurbreytingu.  Oftast notað þó í myndlíkingu:  „Nú sýnist mér öll veðramerki benda til þess að ríkisstjórnin muni falla í næstu kosningum“.

Veðramót / Veðramæti / Veðraskil (n, hk, fto)  Þar sem skiptir um veðurlag.  „Við Sandlæk eru veðramæti, svo að sandurinn fellur niður og berst burt með læknum“  (Ól.Sveinss; Örn.skrá Naustabrekku).

Veðrasamt (l)  Þar sem getur gert slæm veður.  „Heldur er veðrasamt á Rauðasandi í norðan- og austanátt, en byggðin liggur vel við sól...“  (FÓT; Smiður í fjórum löndum)

Veðrast (s)  Mást; slitna vegna veðra.  „Rústirnar hafa veðrast mjög í gegnum tíðina“.

Veðravíti (n, hk)  Veðrasamur staður.  „Þarna uppi á fjallinu getur orðið algjört veðravíti“.

Veðrátta (n, kvk)  Tíðarfar.  „Seinni hluta vetrar fer fuglinn að koma að bjarginu og fer það eftir veðráttunni“   (ES; Barðstrendingabók).  „Ekki var það alltaf á sama tíma sem flutt var í Verið; réði því oft veðrátta og fiskgengd á grunnmið“  (KJK; Kollsvíkurver).

Veðréttur (n, kk)  Réttur til veðs sem sett hefur verið til tryggingar skuld; röð rétthafa/skuldaeigenda til fullnustu sinna inneigna þegar eign er seld til greiðslu skulda.

Veðrun (n, kvk)  Það að veðrast; slit/eyðing vegna veðurálags og hitabreytinga.

Veðsetja (s)  Um eign; setja að veði til tryggingar skuld.

Veðskuldabréf (n, hk)  Bréf/vottorð sem skuldareigandi fær sem sönnun fyrir veði sínu í eign.

Veður / Veðurlag (n, hk, fto)  Veður var oftast notað sem eintöluorð eins og nú er algengast, en algengt var einnig að nota það sem fleirtöluorð: „Veður geisa af hafi“  (KJK).  „Válynd eru veður“.
Veður var afgerandi þáttur í lífsskilyrðum Kollsvíkinga og annarra Útvíknamanna, hvort heldur sem litið var til sjósóknar þar sem lítið mátti útaf bera til að tæki fyrir gæftir eða mannskaðar yrðu í lendingu; til landbúnaðar þar sem búskapur byggðist að mestu leyti á útbeit á vetrum og heyöflun byggðist á tíðarfari; eða til ferðalaga þar sem á alla vegu var um langa fjallvegi að fara.  Veðrið var efst í tali manna þegar þeir hittust; öll samtöl hófust á umræðu um veðrið og fyrsta morgunverk bænda var að gá til veðurs.  Það skyldi því engan undra að á þessum slóðum hafi verið notað fjölbreytt málfar um veður og tíðarfar.

Veðurathugunarstöð (n, kvk)  Staður með mælitækjum, þar sem veður er reglulega athugað og niðurstöðurnar sendar Veðurstofu Íslands.  Þrjár veðurathugunarstöðvar hafa verið í Rauðasandshreppi á seinni tímum.  Á Lambavatni hefur Tryggvi Eyjólfsson séð um veðurathuganir.  Í Kvígindisdal sá Snæbjörn J. Thoroddsen um athuganir, og síðan Valur sonur hans og Fríða Guðbjartsdóttir, en stöðin lagðist af eftir að þau brugðu búi.  Hvallátrar hafa verið mikilvægasta stöðin, og sú sem ávallt var nefnd í veðurfréttum útvarps.  Þar sá Daníel Eggertsson lengi um athuganir; síðan Þórður Jónsson og eftir hann Ásgeir Erlendsson. Um tíma sá Jónas Jónsson í Breiðuvík um þessar athuganir, en síðast hefur verið sjálvirk athugunarstöð á Bjargtöngum.

Veðurbarinn / Veðurbitinn (l)  Það/sá sem sjáanlega hefur orðið fyrir hörðum veðrum.  „Ef einhver kynni að sjá hann/ þá er hann hæruskotinn;/ með andlit veðurbarið/ og skortir hugarþor./  Skórnir eru götóttir;/ skakkur herðalotinn./  Skuggann sinn hann hræðist/ og flýr sín eigin spor“  (EG; Vorhret). 

Veðurblíða (n, kvk)  Mjög gott veður; logn.  „Þetta er nú meiri veðurblíðan, dag eftir dag“.

Veðurboðar / Veðurspár  Áður en veðurspár fóru að berast með fjölmiðlum notuðu menn ýmis teikn til að spá fyrir um veður, enda var þörfin á því jafnvel brýnni en nú er.  Mjög var þó misjafnt hve menn voru veðurglöggir; hve vel rættist það sem þeir lásu úr fyrirboðunum.  Sumir voru berdreymnir og fengu sínar vísbendingar með draumum, jafnt um veður sem mannslát og önnur stórtíðindi.  Ekki var þó víst að hinn berdreymni gæti sjálfur ráðið drauminn og því voru draumafrásagnir töluvert fyrirferðarmiklar í daglegu tali margra þó aðrir teldu þessi vísindi vera kerlingabækur.  Sem dæmi um fyrirboða í draumum, þá táknaði gull sólskin og þurrk; silfur, kulda og ísa; brim og skítur, mikinn afla; sauðfé og hey, snjókomu og fannfergi; eldur, illviðri; fjöll, stórsjó; og sól og stjórnur boða mannslát eða alvarleg veikindi.  Frá fornu hafa menn reynt að ráða í veður út frá hegðun dýra:  „Væru óðinshanar langt úti á sjó og syntu mikið í kringum bát boðaði það hvalavað og norðan storm (Frás. ÞJ, Látrum).  Spriklaði þorskur mikið eftir að hann var dreginn spáði það vindi (Frás. SJTh, Kvígindisdal)  Mikil marglytta í sjó þykir boða harðan vetur.  Þegar mikið var af krossfisk á lóð... var það talið vita á ógæftir og ördeyðu þegar næst var róið.  Væru krabbar á kreiki í þangi og á skerjum sem sjaldan fóru í kaf nema um stórstraumsflæði vissi það á sjóveður.   Bannað var að kasta mús í sjóinn; þá gat hvesst.   „Skörp veðraskil eru við Látrabjarg.  Væri veðurdynur í þvi; jafnvel í logni, var von á sunnanátt þó að hún væri ekki komin fyrir Bjargtanga.  Vestanalda boðaði alltaf hafátt og fór hennar að gæta við land löngu áður en veður var skollið á.  Norðansjór var krappari og óðari, og þegar ofan á honum var lifandi kvika þá var norðanveður skammt undan.  Í Breiðavík varð lítið vart við Látraröst, en þeim mun meira á Brunnum og Hvallátrum.  Til þess að lenda ekki í henni var ætíð reynt að fara sem næst landi.  Ef búist var við að veður spilltist var þess jafnan gætt að róa í þá áttina að menn hefðu strauminn með sér í land.  Þá var einnig kannað hvort braut á vissum boðum.  Reyndist svo, þótti ekki rækur sjór.  Ef í norðanátt braut á Giljaboða og Djúpboða (eða Þembu) í Kollsvík var ekki róið, enda voru þá tæpast færar leiðir.  Sólroði á kvöldi vissi á sunnanátt, og eins ef ekki sá ský til hafs í norðanátt.  Ef þokuslitur voru í miðjum hlíðum Blakkness, Tálkna og Kóps var vestan- eða norðvestanátt í vændum.  Ef skýjað var, og reif skyndilega úr suðurlofti svo að heiðbirti í hásuðri í stutta stund, var norðan hvassviðri í aðsigi.  Væri ekki lát á fyrirstöðu boðaði hún drýgindi; sama veðurlag í nokkra daga.  Íganga var vaxandi skýjafar af ríkjandi átt, og merki um að hún héldist.  Íblástur táknaði nánst það sama; átti þó öllu heldur við um sjálft veðrið.  Ef norðanátt gekk skyndilega niður, en rauk aftur upp sama sólarhringinn; uppherðingur, boðaði það vaxandi norðanátt næstu dægur.  Sól var afbjarga þegar hún hvarf af hæstu fjallatindum og var bjart í norðurátt.  Sól setur ofan, sögðu menn þegar sólargeislinn stafaði gegnum regnský, og vissi það á vætu.  Mikill árniður í kvöldkyrrð boðaði sunnanátt.  Áttanöfnin voru þessi:  Landnyrðingur (sunnanátt); útsynningur (suðvestanátt); hafnyrðingur (norðanátt); austnorðan (þegar áttin gengur frá austri til norðurs); og norðaustan (þegar áttin gengur frá norði til austurs)“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).  Mikið mark var tekið á hegðun dýra, sumra þó fremur en annarra.  Til dæmis var hrafninn mikill spáfugl, einnig lómur, æðarfugl og fleiri.  „Þá er úti vetrar þraut, þegar spóinn vellir graut“ var máltæki.  Lóusöngurinn var einnig öruggt merki um vorkomu og batnandi tíð.  Vert var að taka eftir því hvaðan heyrðist hnegg hrossagauksins, því í því fólust fyrirboðar: „Í austri auðsgaukur; suðri sælugaukur; vestri vesælsgaukur og norðri nágaukur“.  Vetrarkvíði köngulóa og holugröftur músa voru óyggjandi spár um tíðarfar og húsdýr, s.s. kettir, voru gangandi veðurspár í augum sumra.  Einnig var eftir því tekið hvernig veður var árvissum dögum, því útfrá því mátti spá fyrir um veður og tíðarfar.  Sól og heiðríkja á Pálsmessu (25.jan) boðar gott árferði en þungbúnara veður harðviðri.  Hinsvegar boðaði það mikinn snjóþunga ef sól sást á Kyndilmessu (2.feb)  Öskudagur er talinn eiga sér átján bræður í veðurfarslegu tilliti, en ekki voru allir á einu máli um vort það væru næstu samliggjandi dagará eftir honum.  Góubyrjun gat orðið illviðrasöm, samanber máltækið; „grimmur skyldi góudagur hinn fyrsti, annar og hinn þriðji.  Væri næturfrost nóttina fyrir sumardaginn fyrsta var sagt að „frysi saman sumar og vetur“ og það talið góðs viti.  Átti rjómaskán í mjólkurtrogum að verða jafnþykkt ísskáninni þá nótt.   Veðurfar var talið breytast í byrjun hundadaga (13. júlí-23. ágúst) frá góðu í slæmt eða öfugt, og voru líkur á að sú breyting héldist jafnvel fram á höfuðdag.  Veður á sjösofendadag (27.júní) gat þó valdið öðrum veðrabrigðum.  Höfuðdagur (29.ágúst) markaði þáttaskil í veðráttu, en talið var öruggt að þá yrðu umskipti í tíðarfari.  Ef tungl var vaxandi á jólum boðaði það gott árferði, en harðindi ef það var á síðari kvartelum.  Ein fræði fyrri tíðar var að spá í vetrarbrautina.  Hana skyldi lesa frá austri til vesturs og svo skyldu verða snjóalög næsta vetur sem þéttukaflar voru í vetrarbrautinni, og hefur hún af þessum spádómum sitt nafn.  Sumir kunnu þá list að lesa í garnir, en einungis var mark takandi á görnum fyrstu kindar sem slátrað var að hausti.  Byrjað var að skoða garnirnar frá vinstrinni og svo skyldu margir harðindakaflar að vetrinum sem tómir kaflar voru í görnum.  Enn var sú list að spá í milta úr stórgrip.  Í það voru skornir þrír skurðir, blindandi, og síðan hengt til þerris.  Áttu þeir hlutar sem fyrst hvítnuðu að segja til um snóakafla að vetrinum.  Ekki er ólíklegt að einhverjir hafi tekið eftir bliki stjarna og norðurljósa, vindgnauði og brimgný og reynt að ráða í veður útfrá því, líkt og gert var í öðrum landshlutum (sjá t.d. Austantórur Jóns Pálssonar).   Framansagt flokka vísindamenn nútímans sem hindurvitni og neita að sjá í því mikið gildi.  Öðru máli gegnir um þá aðferðafræði að spá í skýjafar og önnur merki lofts og sjávar.  Það var list sem Kollsvíkingar og aðrir útnesjamenn tileinkuðu sér mjög og fullkomnuðu útfrá staðbundnum aðstæðum.  Vafalaust má þakka það færni þessara veðurspámanna að ekki urðu fleiri slys við sjósókn en raun ber vitni, þegar sóttur var sjór á smákænum við þær erfiðu aðstæður sem þarna eru.  Nokkurra þessara veðurmerkja er getið í þessu registri.  Það var tekið mark á skýjafari eftir áttum, hæð, útliti og öðrum aðstæðum, hugað að áttun og styrk vinds; spáð í ölduhegðun í smáatriðum; styrk og hegðun strauma og jafnvel lit vinds og sjávar.  Loftþrýstingsbreytingar var unnt að sjá, t.d. með athugun á súr í tunnum eða gigtarköstum.  Þau orsakasamhengi eru vísindin loks farin að viðurkenna, ásamt veðurnæmi dýra.  Því miður hefur mestallt tapast af staðbundinni kunnáttu og aðferðum þessara miklu veðurspámanna fyrri tíma.  (unnið að hluta með hliðsjón af „Austantórum“ Jóns Pálssonar og „Saga daganna“ eftir Árna Björnsson, en einnig minni af frásögum heimamanna).

Veðurbreyting (n, kvk)  Breyting/umskipti í veðráttu, t.d. hita- eða vindafari.  „Ennfremur að viðra úti, helst daglega, ær lömb og hross, og halda nefndum pening til haga séu nokkur tök til þess…  Varast þó slagviðri mikil; frost og snögga veðurbreytingu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).   

Veðurbylur (n, kk)  Snörp og hörð vindhviða.  „Báturinn fórst af því að veðurbylur þaut í seglið, svo hvolfdi, því ei varð lækkað“  (TÓ, eftir frás. Gísla Konráðssonar; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Veðurdynur (n, kk)  Hávaði vegna veðurs/storms/brims.  „Skörp veðraskil eru við Látrabjarg.  Væri veðurdynur í þvi; jafnvel í logni, var von á sunnanátt þó að hún væri ekki komin fyrir Bjargtanga...“ (ÓETh o.fl. LK Ísl sjávarhættir 3).

Veðurfar (n, hk)  Tíðarfar; veðurlag um tiltekinn tíma.  „Veðurfar var gott um þetta leyti“.

Veðurfastur (l)  Þurfa að fresta ferðalögum vegna veðurs.  „Þar lágu þeir veðurfastir í nokkura daga“  (BS; Barðstrendingabók).

Veðurfregn / Veðurfrétt (n, kvk)  Fréttir af veðri; upplýsingar um veðurlag.  „Nokkur bylting varð í búskap bænda þegar veðurfréttir og veðurspár fóru að berast um útvarpið, þó enn um hríð væri treyst á veðurglögga menn til að meta staðbundnar aðstæður“.

Veðurfróður (l)  Fróður um veður og tíðarfar á fyrri tímum.  „En um lok sláturtíðar gekk hér í frost og snjókomu.  Töldu margir veðurfróðir að nú væri að ganga í einn hörkuveturinn. slíkur sem 1918, en hann byrjaði svipað; enda sundurskurður á miltum úr kúm og fleiri tákn staðfestu það“  (ÞJ; Árb.Barð 1968).

Veðurglöggur (l)  Sem er glöggur á að sjá veðrabrigði fyrirfram; sannspár um veður.  Sjá veðurboðar.  Mjög er misjafnt hve menn eru veðurglöggir, en mikið reyndi á slíka glöggskyggni fyrr á tímum, þegar á því valt ekki einungis heyöflun og önnur farsæld á landi heldur líf manna sem reru til fiskjar.  Einkum voru það þeir söm höfðu langa reynslu og þekktu staðbundin veðurmerki sem voru hvað gleggstir á veður.  Nú á dögum hefur mikið týnst af þeim fræðum sem þeim voru innbyggð, enda hægur vandi að afla veðurspár á tækniöld.

Veðurgnýr (n, kk)  Hávaði í stórviðrum.

Veðurguð (n, kk)  Guð/vættur sem ræður fyrir veðri. Fullyrða má að trú á slíka vætti nær langt afturfyrir sögulega tíma.  Veðrið hefur löngum reynst mönnum duttlungafullt og ófyrirsjáanlegt en um leið örlagavaldur.  Því hlaut því að vera stýrt af ósýnilegri veru.  Menn hafa því reynt að finna aðferðir til að hafa áhrif á hennar gerðir með ýmsu máti, s.s. fórnum og tilbeiðslum.  Þegar norræn goðafræði fer að mótast birtast þessir veðurguðir.  Dvergarnir Norðri, Suðri, Austri og Vestri halda uppi himinhvelfingunni og hafa líklega fyrrum ráðið vindáttum.  Dvergar smíðuðu einnig hamar þrumuguðsins Þórs, sem vísar til máttar þeirra gagnvart veðri.  Einkum er það þó sjávarguðinn Njörður sem er örlagavaldur sjómanna.  Hann er af ætt vana; giftur jötungyðjunni Skaða og býr í sjóbúðinni Nóatúni meginhluta ársins.  Þau eiga soninn Frey, sem ræður gróðursprettu og farsæld landbúnaðar.  Þór er þrumuguð og ræður því sem gerist í himinhvolfinu.  Margt bendir til þess að hann hafi víða fyrrum verið æðstur goða, þó Snorra-Edda segi Óðinn hafa þann sess.  Sést það m.a. á því hve mjög Þór var dýrkaður á landnámstíð og gætir víða í örnefnum, en ekkert sér eftir af dýrkun Óðins.  Samkvæmt Landnámabók var Þór örlagavaldur við landnám Kollsvíkur.  Segir að Kollur hafi tilbeðið Þór í hafnauð sinni og síðan bjargast úr skipbroti í Kollsvík.  Allar líkur benda til að Kollur hafi verið vel kristinn, líkt og Örlygur fóstbróðir hans, þó sumir hafi eignað honum heiðni vegna blótsins.  Menn grípa oft til gamalla siða á örlagastundu, auk þess sem þessi frásögn um blótið kann að vera hrein eftiráskýring á strandinu.  Kirkjunnar menn hafa löngum haft horn í síðu þeirrar málvenju að tala um veðurguði; segja að Guð sé einn og stýri öllu.  Hinsvegar hefur þessi ævaforna málvenja verið lífseig og enn i dag er mönnum tamt að vísa til valds veðurguðanna þegar mikið er í húfi.  Leifar af löngu horfnum trúarbrögðum.

Veðurharka (n, kvk)  Ofsi veðurs; hvass stormur; hörkufrost.  „Ansans veðurhörkur eru þetta; dag eftir dag“!

Veðurhorfur ( n, kvk, fto)  Veðurútlit.

Veðurhræddur (l)  Óeðlilega smeykur við slæmt veður; ragur að treysta á veður.

Veðurhæð (n, kvk)  Vindstyrkur.  „Veður var heldur batnandi; kófbylur en veðurhæð mikil“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).  „Veðurhæð fór ört vaxandi er komið var út í Patreksfjarðarflóann, og var nú lensað suður fyrir Víkur...“  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna magnússonar).

Veðurlag (n, hk)  Tíðarfar; veðurfar.  „Hér hefur verið ári hryssingslegt veðurlag undanfarna daga“.

Veðurnæmt (l)  Um stað; hætt við slæmum/hörðum veðrum.  „Skjólsælt er oftast í Kollsvík, en nokkru veðurnæmara á Láganúpi, einkum fyrir norðlægum áttum“.

Veðurofsi (n, kk)  Aftakaveður; mjög slæmt veður; hávaðarok.  „Gerði áhlaupsveður með snjókomu og veðurofsa“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Veðursæld (n, kvk)  Skjólsælt; hægari vindur en umhverfis.  „Mikil veðursæld er oft uppi í Urðunum“.

Veðurofsi (n, kk)  Mjög slæmt veður.  „Það var heldur farið að lægja mesta veðurofsann...“ (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Gerði áhlaupsveður af norðri með snjókomu og veðurofsa, svo fólk í landi bjóst við stórslysi er svo margir bátar voru á sjó“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Veðurskeyti (n, hk)  Upplýsingar um veður sem sendar eru frá athugunarstað.  Eftir að sími var lagður um sveitir voru veðurathugunarmenn á völdum stöðum fengnir til að senda reglulega veðurskeyti til Veðaurstofunnar.  Þrjár athugunarstöðvar voru löngum í Rauðasandshreppi; á Hvallátrum, í Kvígindisdal og á Lambavatni.  Veðurskeytin þurftu að komast til skila á réttum tíma, og var nokkur skilningur á því á tímum sveitasímans, þegar margir bæir voru á sömu línu.

Veðurspá (n, kvk)  Fyrirsögn/spádómur um veður.  Sjá veðurglöggur og veðurboðar.

Veðurstofa (n, kvk)  Miðlæg rannsóknarstofa sem fæst við veðurspár.

Veðursæld (n, kvk)  Skjól fyrir slæmum veðrum.  „Veðursæld er að jafnaði meiri í Kollsvík en á Láganúpi“.

Veðurtepptur (l)  Hindraður í ferðalagi vegna veðurs/ófærðar.  „Fyrir kom að skólabörn voru veðurteppt yfir helgi, þó fremur væri það fátítt“.

Veðurútlit (n, hk)  Horfur með veður á næstunni.  Stöðugt var hugað að veðurútliti, en aldrei var það þó eins mikilvægt og þegar það var tvísýnt en fyrir lá að komast í róður; þurrka hey eða vinna önnur nauðsynjaverk.  „Línan var svo látin liggja meðan farið var í land ef veðurútlit var gott..“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Þá var veðurútlit orðið mjög ískyggilegt“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Veðuræsingur (n, kk)  Veðurhamur; stórviðri; ofsaveður.  „Sést hafði til Árna fyrir Straumnesið þegar veðuræsingurinn mestur þaut á, segir Gísli Konráðsson“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð.).

Vefa vaðmál  A.  Eiginleg merking; flétta klæði með sérstökum aðferðum í sérstökum vefstól.  „Það var mikið ofið á veturna.  Uppistaðan var tvistur; fyrirvaf var ull.  Ennfremur var þráður í uppistöðu og tvistur í fyrirvaf þegar ofið var í milliskyrtur og sængurver sem notuð voru í verbúðunum.  Oft var búið að vefa einn vef og fella niður fyrir jól.  Við krakkarnir réttum í haföldin og skeiðina.  Það var mestmegnis ofið í öll föt; lítið sem ekkert keypt af útlendu fataefni.  nærföt buxur og skyrta voru úr hvítum vaðmálsdúk.  ... Já, og svo varð ég svo fræg að spinna“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 
B.   Sérstakur hópdans sem stundaður var í fyrri tíð, en mun lengst hafa verið við líði á samkomum á Rauðasandi.  „Eftir matinn var svo dansað; oftast við grammofónsspil, en einnig söngleikir t d. „Meyjanna mesta yndi“, „Í bónorðsvífum hann fer að stað“ o.fl. Að ógleymdu því að „vefa vaðmál“(það var aldrei kallað Vefaradans á Rauðasandi). Það kunni hvert mannsbarn að heita má á Sandinum“  (SG;  Þorrablót; Þjhd.Þjms).  Hugsanlega afbrigði af vikivaka (sjá þar).

Vefaradans (n, kk)  Vefa vaðmál; sjá þar.

Vefengja (s)  Efast um; draga í efa.  „Þetta sagði hann og mér  finnst ástæðurlaust að vefengja það“.  „Það verður varla vefengt að hann náði þessum áfanga, fyrstur manna“.

Vefengjanlegt (l)  Hægt að efast um.  „Mér finnst svona slúðurfréttir alltaf mjög svo vefengjanlegar“.

Vefja (n, kvk)  A.  Vafningur; reifar; það sem vafið hefur verið upp.  B.  Skór úr sköturoði.

Vefja (s)  Sveipa; setja vafninga á/kringum.  „Ég vafði bandinu um hendina“.

Vefja (einhverjum) um fingur sér (orðtak)  Láta einhvern fara/gera að vilja sínum; hafa einhvern í vasanum.

Vefjast fyrir (orðtak)  Um vandamá/viðfangsefnil; vera fyrirstaða/torleyst.  „Það vafðist ekkert fyrir honum að leysa úr þessu“.

Vefjast tunga um tönn (orðtak)  Verða erfitt um svör;  koma illa fyrir sig orði.  „Honum vafðist víst ekkert tunga um tönn þegar hann sagði þeim frá viðureigninni við drauginn“.

Vefnaður (n, kk)  Vinna við að vefa klæði í fatnað o.fl. og afurðin sem úr varð.  „Það var mikið ofið á veturna.  Uppistaðan var tvistur, fyrirvaf var ull.  Ennfremur var þráður í uppistöðu og tvistur í fyrirvaf þegar ofið var í milliskyrtur og sængurver, sem einnig voru notuð í verbúðunum.  Oft var búið að vefa einn vef og fella niður fyrir jól.  Við krakkarnir réttum í haföldin og skeiðina.  Það var mestmegnis ofið í öll föt; lítið sem ekkert keypt af útlendu fataefni.  Nærföt, buxur og skyrta voru úr hvítum vaðmálsdúk.  Já ég varð svo fræg að spinna þráð í vef“  (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964).  Sjá tóvinna.

Vefstaður / Vefstóll (n, kk)  Áhald til að vefa voð úr ull.  Frá landnámstíð var hérlendis notaður kljásteinavefstaður þar sem böndin voru hengd upp í þverslá og haldið strekktum með því að binda steina neðan í þau.  Sjá tóvinna.

Vefur (n, kk)  Það sem verið er að vefa; það sem ofið hefur verið; s.s. klæði; voð: vaðmál; segl.

Vega (s)  A.  Lyfta; hefja upp.  „Eftir að ég náði handfestu var leikur einn að vega sig upp á brúnina“.  B.  Vigta; mæla með vog; vera að þyngd.  „Skrokkarnir voru vegnir á reislu“.  „Steinninn vóg níutíu kíló“.  C.  Drepa.  Einkum notað í fornum sögnum.

Vega að (orðtak)  Sneiða að; höggva nærri; beina spjótum að.  „Bændum fannst að sér vegið með þessum fréttum“.  Líking úr stríðsmáli; gera atlögu/árás.

Vega í sama knérunn (orðtak)  Gera atlögu að sama málefninu/ sömu fjölskyldunni.  Sjá knérunnur.

Vega og meta (orðtak)  Leggja mat á; athuga vel.

Vega salt (orðtak)  Vigta salt.  Oftast notað í líkingum:  A.  Um leik barna sem sitja sitt á horum enda planka, sem rórillar/rær um ás/upphækkun í miðju, þannig að börnin fara upp og niður á víxl.  B.  Vera í viðkvæmu jafnvægi.  „Steinninn vóg salt á brúninni, og ég ýtti honum framaf svo ekki væri hætta af honum síðar“.

Vega saman (orðtak)  Bera saman.  Leggja á sitthvora vogaskálina.

Vega sig upp (orðtak)  Lyfta sér upp á höndum á stalli/handfestu sem er hærra en í mittishæð.

Vega upp / Vega á móti (orðtak)  Bæta upp; gera jafnt að metum.  „Hann er ekki mikill fyrir mann að sjá, en vegur það upp með hyggindum og dugnaði“.

Vega út (orðtak)  Vigta út; vigta skammt af matvöru eða öðru.  „Hverjum vermanni var veginn út viss skammtur af smjöri, kæfu og öðru sem til mötunnar þurfti“.

Vega þungt á metaskálunum/metunum (orðtak)  Hafa mikið gildi/vægi.  „Hans orð vega þungt á metaskálunum“.  „Ég held að þessi starfsreynsla hafi vegið þungt á metunum við ráðninguna“.  Met eru lóð af skilgreindri þyngd sem fyrrum voru notuð sem mótvægi þegar vara var vegin, t.d. í verslun.  Metaskálar voru skálarnar á voginni.  Í síðara orðtakinu hefur orðið „móti“ fallið brott.

Vegabréf (n, hk)  Reisupassi; skilríki gefið út af yfirvaldi til þess sem ferðast, svo hann geti fært sönnur á sig og sínar aðstæður.  Nú til dags þurfa menn iðulega vegabréf til ferðalaga milli landa.  Fyrrum, á tímum vistarbanda, voru vegabréf gefin út af sýslumönnum til þeirra sem höfðu leyfi til að fara á milli héraða.  Var þetta gert til að stemma stigu við flakki.

Vegabætur / Vegagerð / Vegavinna (n, kvk, fto)  Lagfæringar á vegum; lagning vega. Frá upphafi byggðar hefur mönnum verið þörf á að komast milli bæja og byggðarlaga.  Til þess þurfti að sigrast á ýmsiskonar hindrunum.  Ferjur komu fljótlega á helstu vatnsföll, en á Vestfjörðum voru fjöll, hlíðar, klettar og grjót helstu farartálmarnir.  Þó litlum sögum fari af vegagerð framá síðustu aldir er augljóst að eitthvað hafa menn lagfært helstu tálmanir svo fært yrði.  Í réttarbót sem Eiríkur kóngur Magnusson gerði við Jónsbók 1294 segir:  skylst er bóndum að gera vegi færa um þver héruð og endilöng, þar sem mestur er almannavegur, eftir ráði lögmanna og sýslumanna.  Sekur er hver á eyri sem ekki vill gera, og leggst til vegabóta“.
„Kollsvíkingar stunduðu mest af sínum flutningum með bátum.  Þeir hafa þó þegar á þjóðveldisöld þurft að lagfæra verstu urðir og hindranir á vegum yfir Hænuvíkurháls, Tunguheiði og Breiðavíkurháls, þó greiðfær hestavegur hafi ekki strax komið til í þeirri mynd sem síðar varð.   Sama er að segja um vörður með vegum.  Í fyrstu hafa þær líklega verið hlaðnar þar sem greiðfærast var yfir torfærur, en síðar komu þær meðfram öllum vegum. Árið 1861 var sett reglugerð um að hver vinnufær maður yrði að vinna eitt dagsverk á ári við vegagerð.  Síðar komu til fjárveitingar úr opinberum sjóðum.
Upphaf að bílvegagerð um Rauðasandshrepp var það að vegur var lagður 1932-34 frá Hvalskeri yfir Skersfjall á Rauðasand, undir verkstjórn Lýðs Jónssonar.  Rauðsendingar voru að því leyti verr settir en aðrir hreppsbúar að þeir gátu illa nýtt siglingar til aðdrátta eða mjólkursendinga.  Vegur var lagður um Raknadalshlíð stuttu síðar, undir verkstjórn Kristleifs Jónssonar.  Áfram var unnið inn með Patreksfirði og árið 1944 var vegurinn kominn að Ósum.  Á tímabilinu 1947-1954 var vegur lagður útmeð sunnanverðum Patreksfirði og að Breiðavík, undir stjórn Hildimundar Björnssonar.  Í lok þess tíma komst sýsluvegur útyfir Hænuvíkurháls að Kollsvík.  Vegur yfir víkina að Láganúpi kom um 1960.
 „Í þessar vegabætur á hálsunum beggja megin Kollsvíkur var gjarnan varið tveim til fjórum dagsverkum á ári í hvorn háls, og verkfærin sem notuð voru til verksins voru oftast aðeins skófla og haki“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Vegalaus (l)  Um þann sem vantar far eða farkost til að komast á áfangastað.  „Þegar bíllinn bræddi úr sér í brekkunni stóðu þeir uppi vegalausir þarna í óbyggðum“.

Vegalengd (n, kvk)  Fjarlægð; lengd milli staða; lengd leiðar.  „Vegalengdir eru víða miklar milli bæja á Vestfjörðum, og iðulega yfir torsótta fjallvegi að fara“.

Vegamót (n, hk, fto)  Staður þar sem þrjár eða fleiri leiðir mætast.  „Efst í Hafnarlautunum eru vegamót af Tunguheiði, þar sem á annan veg er farið niður Keldeyradal að Kollsvík og hinn niður Hvolf að Láganúpi.  Þar eru vörður sem nefnast Bræður“.

Veganesti (n, hk)  Nesti til ferðalags.  „Ég fékk hjá honum góð ráð í veganesti, áður en ég fór á fundnn“.

Vegarendi (n, kk)  Endi leiðar/vegar.  „Láganúpur er á vegarenda þegar ekið er útyfir Hænuvíkurháls“.

Vegarolla (n, kvk)  Kind sem heldur sig mikið á beit við vegi, þar sem gras er oft grænna vegna áburðar af rykinu.  „Vegarollur geta verið sér og bílunum hættulegar, einkum þær sem eru óvanar umferð“.

Vegfarandi (n, kk)  Sá sem fer um veg; ferðamaður; göngumaður.

Vegferð (n, kvk)  Ferðalag.  Stundum notað um tiltekið skeið, t.d. málarekstur.

Vegghamrar (n, kk, fto)  Standberg; klettar sem líkjast húsvegg.  „Vegghamrar heitir klettabeltið syðst í Núpnum; það framhald meginklettanna sem gengur inn í Húsadalinn að norðanverðu“.

Vegghleðsla (n, kvk)  A.  Vinna við að hlaða vegg.  „Hann er að vinna í vegghleðslunni“.  B.  Hlaðinn veggur eða hluti af honum.  „Þarna grófum við niður á einhverja ævagamla vegghleðslu“.

Veggjarhola (n, kvk)  Hola í vegg.  Mikið er af veggjarholum í grjóthlöðnum veggjum.  „Þarna átti maríuerlan hreiður í veggjarholu í mörg sumur“.

Veggjarstoð (n, kvk)   Lóðrétt stoð í vegg; vanalega átt við meginstoð af aurholti upp undir vegglægju.  (Orðasafn IG)

Veggjaskóf (n, kvk)  Xanthoria parietina; veggjaglæða.  Gulleit skóf sem gjarnan vex á klettum og steinveggjum.  Sumsstaðar er svo mikið af henni að klettaveggur litast gulur.  Oft 6-10 cm í þvermál með blaðkenndum jöðrum sem losna auðveldlega frá undirlaginu, en askhirslum í miðju.  Algeng í Útvíkum.

Veggjatorf (n, hk)  Torf sem notað er í vegghleðslu.  Veggir í Kollsvík voru yfirleitt grjóthlaðnir en stundum með streng/torfi á milli til þéttingar.

Vegglampi (n, kk)  Lampi sem hengdur er á vegg.  „Á Láganúpi eru vegglampar smíðaðir af heimafólki.  Guðbjartur á Lambavatni smíðaði tvo olíulampa en Sigríður dóttir hans skar út festingu annars þeirra.  Hún skar einnig út tvo vegglampa fyrir rafmagnsljós í svefnherbergi sitt“.

Vegglægja (n, kvk)  Sylla; lausholt; brúnás; láréttur burðarbiti sem sperrufætur standa á.  Í grjóthlöðnu húsi er vegglægja á innbrún langveggjar en efsti hluti langveggjargrindar í timburhúsi. 

Veggruni (n, kk)  Vatn sem lekur niður veggi; slagvatn eða leki.  (Orðasafn IG).

Veggspýtingur (n, kk)  Mikill og bráður niðurgangur; steinsmuga; renniskítur.  Hugsanleg skýring gæti tengst krafti niðurgangsins þegar menn gengu örna sinna nærri húsvegg.  „Ekki fór þetta vel í maga; ég var með bölvaðan veggspýting fram eftir nóttinni“.  Orðið finnst ekki í orðabókum en var almælt í Kollsvík.

Vegkantur / Vegarkantur (n, kk)  Brún vegar.  „Sést gerla fyrir hleðslu vegkantsins upp brekkuna í Kollsvík… Þessi kantur er að mestu hlaðinn af föður mínum með hjálp fleiri manna héðan úr Víkinni.  Vann ég sem unglingur að þessari vegagerð“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Veglagning (n, kvk)  Lagning vegar; vegalagning.  „Aðalþrekvirki fjelagsins (Baldurs) var að byrja á og vinna að veglagningu uppi í skriðunum milli Örlygshafnar og Sellátraness“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Veglegur (l)  Rausnarlegur; vel útilátinn; glæsilegur; vandaður.  „Þarna fengum við veglega máltíð“.

Vegleysa (n, kvk)  Óvegur; lélegur/enginn vegur. 

Veglúinn / Vegmóður (l)  Þreyttur eftir ferðalag.  „Mikið er gott að tylla sér þegar maður er svona veglúinn orðinn“.  „Þegar þangað kom vorum við vegmóðir og sárfættir“.

Veglyndi (n, hk)  Höfðingsskapur; örlæti; góðmennska.

Veglyndur (l)  Göfuglyndur; höfðinglegur; góðhjartaður. 

Vegna (fs)  A.  Sökum.   „Vegna leysinganna var vaðið ófært“.  „Mín vegna má hefnda þessu drasli“.  B.  Megin.  „Við lágum í nokkuð sléttum sjó á Sæluhöfninni, en beggja vegna brotnaði brim á hleinum“.

Vegna (s)  Ganga; farnast; reiða af.  „Megi þér vegna vel í þinni baráttu“.

Vegnefna (n, kvk)  Gæluheiti á mjög lélegum vegi; vegslóði; slóði.

Vegruðningur (n, kk)  Snjór/möl/grjót sem rutt er af vegi útí/uppá kantinn.  „Sumstaðar við gömlu hestavegina eru mittisdjúpir vegruðningar sem safnast hafa á umliðnum öldum“.

Vegsama (s)  Tigna; lofa; hrósa; dá.  „Ég ætla ekkert að vegsama þessa ríkisstjórn fyrr en til er reynt“!

Vegsauki / Vegsemd / Vegtylla (n, kvk)  Heiður; virðing; sæmd.  „Honum þykir einhver vegsauki að þessu“.

Vegslóði (n, kk)  Ógreiðfær vegur; ruðningur.

Vegsummerki (n, hk, fto)  Ummerki; vottur um verknað.  „... en þegar ég kom í bæjardyrnar sá ég vegsummerkin“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Vegur (n, kk)  A.  Leið; gata.  B.  Möguleiki.  „Er nokkur vegur til að þú getir aðstoðað mig“?

Vegur til (orðtak)  Möguleiki á.  „Heldurðu að það sé nokkur vegur til að þú getir aðstoðað mig á morgun“?  „Það var enginn vegur til að ná lambinu úr þessu svelti“.

Vegvilla (n, kvk)  Það að villast á leiðum.  „Fyrir kemur að túristar lendi í vegvillum og spyrji eftir Látrabjargi þegar þeir koma í Kollsvík.  Þá er hægur vandinn að benda þeim á Blakkinn, sem ekki er síðri“.

Vegvilltur (l)  Hefur farið rangan veg.  „Auðvelt er að verða vegvilltur í því bæjarhverfi“.

Vegýta (n, kvk)  Svo voru jarðýtur nefndar þegar þær komu fyrst á svæðið, enda fyrst og fremst nýttar til vegavinnu.

Vegýtusjóður (n, kk)  Sjóður til að standa undir kaupum/rekstri á vegýtu.  „Samþykkt var að vegýtusjóðurinn verði lagður inn í skólabyggingarsjóð…“ (Gerðabók Rauðas.hr; hreppsn.fundur 14.01.1962)

Veiða (s)  A.  Fanga dýr og farga til matar eða annars gagns.  B. Fiska; afla fiskjar.  „Enn er engum bannað að veiða sér í soðið“.  C.  Líkingamál; t.d. veiða uppúr; veiða atkvæði.

Veiða í soðið / Veiða sér til matar (orðtak)  Veiða nægilega mikið til að dugi í máltíð; veiða til eigin neyslu en ekki til sölu.

Veiða niðurum ís (orðtak)  Gera gat á íshellu á veiðivatni og veiða niðurum það með dorgi.

Veiða uppúr (orðtak)  Fiska/höggva eftir; fá upplýsingar um frá manni.  „Mér tókst að veiða það uppúr honum hvað hann kaus síðast“.

Veiðarfæralaus (l)  Án veiðarfæta.  „Mundu eftir að taka króka og sökkur til vara; það er tilgangslítið að fara veiðarfæralaus á sjóinn“!

Veiðarfæri (n, hk, fto)  Áhöld og tæki sem þarf til veiða/fiskveiða.  „Taktu veiðarfærin og farviðina úr bátnum áður en þú ferð að þrífa hann“.

Veiði (n, kvk)  A.  Það að veiða.  (Oft í fleirtölu).  „Veiðarnar gengu þokkalega framanaf vertíðinni“.  B.  Það sem veitt er; veiðibráð.  „Þá er að gera að veiðinni“!

Veiðibjalla (n, kvk)  Annað heiti á svartbak.  E.t.v. komið af því að oft dregur hann veiði/fisk á land.  Einnig gæti heitið vísað til þess að máfurinn vísi á fisk með gargi sínu úti á hafi.

Veiðibráður (l)  Fljótfærinn við veiðar svo veiði tapast.  „Það má ekki vera svo veiðibráður, þegar fiskur er undir, að maður dragi við fyrstu oddsnertu“.  „Ég var með lúðukvikindið nartandi í krókinn en var alltof veiðibráður“.

Veiðieðli (n, hk)  Eðlisávísun dýra/manna til að veiða sér til matar.  „Veiðieðlið í kettinum sagði til sín þegar hann sá snjótittlingana spígspora utanvið gluggann“.

Veiðiferð (n, kvk)  Ferð til veiða; róður.  „Við komum með öngulinn í rassinum úr þeirri veiðiferð“.

Veiðigleði (n, kvk)  Ákafi/nautn við veiðar;unun af veiðum.  „Við megum ekki alveg láta veiðigleðina taka af okkur ráðin; nú verðum við að fara að koma okkur í land í gegningar“.

Veiðihugur (n, kk)  Ákafi við veiðar; áhugi á að ná í veiði.  „Veiðihugurinn var svo mikill að við tókum ekkert eftir rekinu á bátnum fyrr en í röstina var komið“.

Veiðikló / Aflakló (n, kvk)  Lánsamur veiðimaður; sá sem er aflasæll.  „Í tregfiski kom fyrst í ljós munurinn á aflaklóm og fiskifælum.  Þá voru góðir dráttarmenn alltaf að draga öðru hvoru þó aðrir fengju ekki nokkurn ugga“  (GG; Skútuöldin).  

Veiðikúla (n, kvk)  Sogskál á kviði hrognkelsa, sem er umbreytt úr kviðuggum.  Hrognkelsin geta með veiðikúlunni fest sig við slétta steina, enda eru hrygningarstöðvar þeirra í ólgandi strandsjó.

Veiðilegt (l)  Fiskilegt; líklegt til veiða.  „Ekki er það nú veiðilegt þegar færin standa á glæ í rekinu“.

Veiðimaður (n, kk)  A.  Sá maður sem veiðir fisk.  B.  Húsakönguló; fiskikarl; dordingull.  C.  Spil, þar sem dregið er úr sameiginlegum bunka.

Veiðimannslega (ao)  Eins og veiðimanni ber/sæmir.  „Mér fannst strákurinn bera sig veiðimannslega “.

Veiðimennska (n, kvk)  Háttur veiðimanna.  „Mér hefur nú aldrei þótt það nein veiðimennska að skjóta hrafn“!

Veiðináttúra (n, kvk)  Hæfni/löngun til að veiða.  „Veiðináttúran er honum í blóð borin“.

Veiðinn (l)  A.  Um mann; mikil aflakló; heppinn í veiðiskskap.  B.  Um veiðarfæri; fiskið; vel gert.

Veiðiréttur (n, kk)  Réttur til að stunda veiði.  „Ég tel hæpið að það standist eignarrréttarákvæði stjórnarskrár að ríkið svipti sjávarjarðir ævafornum veiðirétti sínum og færi hann í hendur fjárglæframanna og prangara“!

Veiðisaga (n, kvk)  Saga af veiðum/veiðiaðferðum.  „Karlarnir gleymdu sér algerlega í hinum ótrúlegustu veiðisögum, enda var enginn annar til frásagnar um sannleiksgildi þeirra“.

Veiðiskapur (n, kk)  Aðferð við veiði; veiðar.  „Ólíkt finnst mér skakið skemmtilegri veiðiskapur en netin“.

Veiðislóð (n, kvk)  Fiskislóð; svæði þar sem er veiðivon.  „Hér hefur alltaf verið talin veiðislóð ef eitthvað er“.

Veiðistöð (n, kvk)  Verstöð; ver; útgerðarstaður.  „Það kom fyrir að fiskurinn var seldur upp úr salti; óverkaður og ópakkaður.  Eitt skip tók allan voraflann úr veiðistöðinni“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Kollsvík var mjög vinsæl veiðistöð, og alltaf þykir mér fallegt þar“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   

Veiðiveður (n, hk)  Veður til veiða.  „Hann var fjandi hvass þarna frammi, og fjárann ekkert veiðiveður“.

Veiðivon (n, kvk)  Von á veiði; fiskilegt.  „En hvar sem fari var ýtt á flot var lengi vel veiðivon skammt undan landi“  (KJK; Kollsvíkurver).

Veif (n, hk)  Veifa; sveifla.  Þessi orðmynd er aflögð nema í orðtakinu annað veifið.

Veifa (n, kvk)  A.  Lítill fáni; flagg.  „Þarna er veifan farin af stangarbaujunni“.  B.  Sveifla; atrenna.  „Hann gerði þetta allt í einni veifu“.

Veifa (s)  A.  Vinka með hendi; kveðja með handarhreyfingu.  B.  Blaka vængjum á dauðum máfi til að lokka fljúgandi máfa nær skotbyrgi.  „Ég leyfi strákunum að koma með niður að Görðum, til að veifa“.

Veifa að / Veifa frá (orðtak)  Gefa einhverjum merki um að koma eða fara.  T.d. notað um leiðsögn manns á ströndu til þess sem er að lenda báti, um það hvort lag sé til að lenda eða ólag.

Veifiskati (n, kk)  Væfla; vingull; armingi; maður sem unnt er að nota sem veifu/druslu.  „Hann hefur nú ekki verið talinn neinn veifiskati, hingað til“.

Veig / Veigur (n, kvk/kk)  Kraftur; styrkur; dugur.  Oftar var notuð karlkynsmyndin í Kollsvík, en hin heyrðist þó.  „Heldurðu að það sé nokkur veig í þessu“?  „Ég skal taka strákinn með á sjóinn; það sést þá hvaða veigur er í honum“!  Orðstofninn er sá sami og „vog“; „vægi“; „vegur“; „veggur“ og „víg“.

Veigalítill (l)  Lítilfjörlegur; veikur.  Brúin er að verða fjári veigalítil og verður bráðum hættuleg“.

Veigamikill (l)  Mikilvægur; sterkur.  „Ekki finnst mér þetta nú veigamikill stafur“.  „Þetta er veigamikið atriði“.

Veigra sér við (orðtak)  Koma sér hjá; vilja helst ekki byrja á.  „Ég veigra mér við að hreyfa jarðvegi þarna, til að ekki fari að blása upp“.  „Hann veigraði sér ekki við að fleygja múkkanum af hreiðrinu“.  „Í Bjargleitina þurfti að velja menn sem ekki veigruðu sér við að fara niður fyrir bjargbrún á þeim stöðum sem voru vel gengir bandlausum manni; svo sem á Stíginn, í Saxagjá og fleiri staði“  (PG; Veðmálið).  Upphaflega mun sögnin vera „vigra“, sem merkir að svigna, og verður orðtakið þá auðskilið.

Veigur í (orðtak)  Töggur/úthald/slægur í.  „Það er nú óttalega lítill veigur orðinn í honum í seinni tíð“.  Sjá sem veigur er í.

Veikburða (l)  Veiklulegur; veikbyggður; væskilslegur.  „Skelfing eru þessir tvílembingar veikburða“.

Veikbyggður (l)  Ekki sterkur; skjágrindalegur.   „Ekki var skipið beinlínis veikbyggt svo orð væri á gerandi, en sterkt var það heldur ekki“  (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi). 

Veikgeðja / Veiklundaður (l)  Sem skortir viljastyrk/sannfæringu/þrótt.  „Það má ekki vera of harður við óharðnaða og veiklundaða unglinga“.

Veiki (n, kvk)  Sjúkdómur; veikindi.  „Veikin lagðist misþungt á fólk“.

Veikindabarátta / Veikindabarningur / Veikindabasl (n, kvk/kk/hk)  Það að eiga í veikindum/ vera lengi veikur.  „Það er hverjum manni nóg að standa í þessum veikindabarningi þó hann þurfi ekki líka að hafa fjármálaáhyggjur“.

Veikindafrí (n, hk)  Frí frá vinnu/námi vegna veikinda.  „Ég fékk veikindafrí úr skólanum“.

Veikindalegur / Veiklulegur (l)  Heilsutæpur; veikindalegur; óhress; veikbyggður.  „Skelfing ertu nú veiklulegur ennþá“.

Veikindi (n, hk, fto)  Lasleiki; veiki; sjúkdómur.  „Hann hefur undanfarið glímt við erfið veikindi“.

Veikja / Veikla (s)  Gera veikari.  „Taktu ekki meira inn í bitann; þú mátt ekki veikja hann of mikið“.

Veikjast (s)  Verða veikari.  „Ég hef engan tíma til að veikjast af einhverri pest núna“!

Veiklast í voninni (orðtak)  Verða vonlítill; missa von um.  „Ég fer nú að veiklast í voninni um að nokkurntíma verði af þessu hjá honum“.

Veiklegur / Veiklulegur (l)  Sýnist veikur; ber merki um veikindi; þróttlaus; lufsulegur; lasinn; laslegur.

Veikleikamerki / Veiklumerki (n, hk, fto)  Merki um lasleika/uppgjöf/ ónógan styrk.  „Hann gætti þess að sýna engin veikleikamerki, en eftirá játaði hann að hafa í raun verið hundveikur“.

Veikleiki (n, kk)  Vanmætti; þróttleysi; skortur á styrk.  „Hér er dálítill veikleiki í trénu“. 

Veiklulega (l)  Með veikum hætti; af veikum mætti.  „Ósköp er þetta veiklulega smíðað“!

Veiklun (n, kvk)  Veikindi; máttleysi; þróttleysi.  „Einhver veiklun hefur verið að hrjá hana“.

Veikróma (l)  Með lága/mjóróma/veika rödd; með lítinn raddstyrk. 

Veikur á svellinu (orðtak)  Viðkvæmur; brotgjarn.  „Ég vil ekki halda víni þeim sem eru veikir á svellinu“.

Veikur fyrir (orðtak)  A.  Veikur á svellinu; viðkvæmur fyrir.  „Hann hefur alltaf verið dálítið veikur fyrir kvenfólki, blessaður“.  B.  Viðkvæmur/lasinn áður.  „Pestin leggst þungt á þá sem eru veikir fyrir“.

Veikur/veill fyrir brjósti (orðtak)  Með verki/sýkingu í brjóstholi; með hjarta- eða lungnasjúkdóm.  Mikið notað orðtak fyrr á tíð, meðan enn skorti greiningu og lækningu á orsökum brjóstverkja.

Veila (n, kvk)  Veikindi; bilun; haldleysi.  „Hér er einhver veila í vaðnum“.

Veilaður  / Veill (l)  Veikur; bilaður; sjúkur.  „Hann hafi lengi verið veill fyrir hjarta“.  „Þessi vaður er orðinn gamall og gætu verið veilaðir þættir í honum“.

Veilast (s)  Verða veikari; skaðast; skerast.  „Leggðu spottann betur svo hann veilist ekki á brúninni“.

Veill (l)  Veikur; heilsulítill; krankur.  „Þú skalt ekki reyna á þig ef þú ert eitthvað veill“. 

Veill á geði/geðsmunum (orðtak)  Geðveikur; haldinn geðveilu/ranghugmyndum.

Veill fyrir hjarta (orðtak)  Hjartveikur; með hjartasjúkdóm.  „Hún er orðin fremur veil fyrir hjarta, eins og margir á hennar aldri af þessari ætt“.

Veilulaus (l)  Án veilu/veikleika; óskemmdur.  „Ég grandskoðaði vaðinn og sýndist hann alveg veilulaus“.

Veimiltíta (n, kvk)  A. Vaðfuglategund, Calidris minuta; sést stundum sem flækingur á Íslandi.  B.  Líkingamál; aumingi; rýringur.  „Hann ræður ekkert við byrðina; þetta er svoddan veimiltíta“.

Veimiltítulegur (l)  Vesæll; rýr; naumur.  „Skelfing er þetta veimiltítulegur hamar“.

Vein (n, hk)  Mjóróma óp; skrækur.  „Hættu nú þessu veini krakki; þetta er ekkert annað en frekja“!

Veina (s)  Reka upp vein; góla; skrækja; væla; æpa.  „Það þýðir ekkert að veina; nú er bara að bjarga sér“!

Veira (n, kvk)  Vírus; sýkill.  Frumuhluti sem ekki lifir sjálfstæðu lífi og er því á mörkum þess að kallast lífvera.  Veira er erfðaefni í próteinhylki sem getur valdið veikindum/sjúkdómi þegar hún kemst inn í frumu hýsils.  Þar tekur hún stjórn á starfsemi frumunnar og lætur m.a. fjölga sér, en veldur síðan oft dauða hýsilfrumunnar.  Til eru fjölmargar veitutegundir sem hver veldur sínum sjúkdómi.  Algeng stærð veiru er einn míkrómetri.  Veirur geta „lifað“ víða og lengi, en þær þurfa að komast í frumu til að geta starfað.

Veisla (n, kvk)  Hátíðabrigði/tilstand í mat; samkoma þar sem á borðum eru kræsingar.  „Í tilefni afmælisins hafði mamma útbúið veglega veislu“.

Veislubúinn (l)  Vel klæddur fyrir veislu/samkvæmi.  „Ég er nú ekki beint veislubúinn“.

Veislumatur (n, kk)  Kræsingar; ljúfmeti; góður matur.  „Þessi saltfiskur er sannkallaður veislumatur“!

Veisluspjöll (n, hk, fto)  Það að spilla veisluhöldum/matfriði.  „Mér finnst það eiginlega veisluspjöll að bjóða uppá djúpsteiktan kjúkling á þorrablóti“!

Veistu (nú/bara) hvað (orðtak)  Ávarpssetning, til að vekja athygli á því sem sagt er á eftir.  „Veistu bara hvað!  Hún Grána gamla er borin, með tveimur gimbrum“!

Veit enginn fyrr en til er reynt (orðatiltæki)  Enginn veit árangur/niðurstöðu fyrr en reynt hefur verið.  Oft notað í máli Kollsvíkinga.  Einnig; enginn veit fyrr en til er reynt.

Veit ég (það) vel (orðtak)  Mér er það vel ljóst; ég er meðvitaður um það.  Mikið notað andsvar.

(Hann/hún) veit hvað (hann/hún) syngur (orðtak)  Hefur mikla innsýn; er fjölfróður.  „Hann veit hvað hann syngur í þessum efnum, það má treysta því“.  „Ég er kannski ekki vel heima í öllu; en ég veit hvað ég syng í þessu efni“!

Veit hvar skórinn kreppir (að) (orðtak)  Veit í hverju vandamálin liggja; þekkir vandann.  „Ég vil heyra hvað hann hefur til málanna að leggja.  Hann veit best hvar skórinn kreppir í þessum efnum“.  Líking við skóbúnað sem fellur ekki vel að fæti og þarfnast lagfæringar.

Veit lengra en nef nær (orðtak)  Er mjög fróður; veit fleira en menn grunar.  „Hann lítur kannski ekki gáfulega út, en hann veit lengra í þessum efnum en nef hans nær“.

Veit sá er reynt hefur (orðatiltæki)  Sá em hefur reynslu hefur allajafna mesta þekkingu á því sem um ræðir.

Veita (s)  A.  Gefa; afhenda; láta í té.  „Hann veitti okkur góða aðstoð“.  „Hún lumaði á þessum dýrindis hákarl, og veitti vel“.  B.  Greiða fyrir vatnsrennsli, þannig að það valdi ekki skaða.  „Hann þurfti að veita vatninu útí skurð þegar það hljóp út úr Gilinu“.Ve

Veita aðstöð/liðsinni (orðtak)  Leggja lið; liggja ekki á liði sínu; hjálpa til.  „Ég reyndi að veita þá aðstoð sem ég gat“.  „Ekki stóð á honum að veita okkur liðsinni eftir bestu getu“.

Veita athygli (orðtak)  Taka eftir; huga að; sinna. „Ég veitti því athygli að nokkur sjór var kominn í bátinn“.

Veita á (orðtak)  Láta vatn renna yfir graslendi til að auka sprettu.  Fyrum gerðu menn gjarnan áveitur í þessum tilgangi; var kallað engi og slegið til heyja.  Áveitur voru m.a. á samnefndu svæði í Miðmýrunum og í Grundamýri.

Veita betur/verr (orðtök)  Ganga betur/verr.  „Okkur veitti ýmist betur eða verr í þessari viðureign“.

Veita brautargengi (orðtak)  Veita aðstoð/fyrirgreiðslu við framgang einhvers; beita sér fyrir.  „Málefnið fékk góðan framgang eftir að hann ákvað að veita því brautargengi“.

Veita eftirför (orðtak)  Fara á eftir.  „Var þeim veitt eftirför, en menn komust ekki fyrir þá“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Veita ekki af (orðtak)  Vera ekki vanþörf á; vera þarft.  „Ég ætla að hjálpa þeim að setja upp; ekki veitir af ef það á að hafast áður en fer að rigna“.  „Ég fékk poka af salti; ekki veitir af eins og veiðin er“.  „Honum veitir ekki af að halda sig við námið“.

Veita formennsku/forstöðu (orðtök)  Vera formaður/forstöðumaður fyrir.  „Hann veitti nefndinni formennsku“.

Veita lið (orðtak)  Aðstoða; hjálpa.  „Hann veitti okkur lið við smalamennskurnar“.

Veita nábjargir (orðtak)  Hagræða líki, t.d. loka augum og hagræða líkama og klæðum.  Sjálfsögð skylda þess sem nærri er/kemur eftir andlát mannsekju.

Veita ráðningu (orðtak)  Lumbra/lúskra á; hefna sín; berja; taka til; tukta til.  „Það þyrfti að veita þessum drýslum ráðningu“.

Veita tiltal (orðtak)  Skamma; ávíta; finna að.  „Svo fór líka í þetta skiptið, að Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum og sá ástæðu til að veita honum tiltal út af því“  (PG; Veðmálið). 

Veita vatni (orðtak)  Greiða fyrir afrennsli vatns, t.d. af engi, mýrum eða framhjá vegum.

Veita viðnám (orðtak)  Berjast gegn; andæfa.

Veita viðtöku (orðtak) Taka á móti; meðtaka. 

Veitast auðvelt/létt/erfitt/torvelt (orðtak)  Vera auðvelt/erfitt.  „Það gæti reynst torvelt að ná fénu eftir að snjóa leggur“.

Veitingar (n, kvk, fto)  Matur og drykkur sem borið er fram til neyslu.  „Við þáðum þarna góðar veitingar“.

Veitir ekki af (orðtak)  Er full þörf á; er ekki ofaukið.  „Okkur veitir ekki af allri aðstoð sem við getum fengið ef þessi steypuvinna á að hafast á einum degi“.  Vísar til þess að veita vatni af mýrlendi eða flæða uppúr.

Veitull (l)  Veitir vel/rausnarlega; gjafmildur; gestrisinn.  „Þau eru veitul á allt nema vín“.

Vekja (s)  A.  Ræsa af svefni; láta vakna.  „Hann hafði vakað yfir fénu um nóttina, svo ég fór í gegningarnar án þess að vekja hann“.  B.  Magna.  „Ég vildi ekki vekja of miklar vonir um þetta“. 

Vekja athygli/eftirtekt (orðtök)  Láta taka eftir.  „Þessi orðaskipti höfðu nú vakið athygli þeirra sem næst stóðu…“  (PG; Veðmálið).  „Ég vildi bara vekja athygli þína á þessu“.

Vekja lukku (orðtak)  Vekja/veita ánægju; vera vel heppnað.  „Tertan vakti mikla lukku á samkomunni“.

Vekja/hefja máls á (orðtak)  Hefja umræðu um; nefna.  „Hann vakti máls á þessu á fundinum“.

Vekja straum (orðtak)  Byrja stórstreymi.  „Hann er að byrja að vekja straum, ég gæti trúað að það yrði nóg að gera í sauðburðinum um helgina“.

Vekja upp (orðtak)  A.  Vekja úr svefni.  Einkum notað þegar vakið er á óvanalegum tíma eða við óvanleg tækifæri.  „Ég var svo seint á ferð og kunni ekki við að vekja ykkur upp“.  B.  Úr draugatrú; vekja mann sem dauður er, þannig að úr verði draugur/sending.  Að sögn oftast gert til að senda drauginn þeim sem maður vill gera skráveifu.  Þannig sendingu fékk Einar Jónsson í Kollsvík, en hannkunni nóg fyrir sér til að verjast.  C.  Varðandi tilfinningar; búa til.  „Þetta atvik vakti upp gamlar minningar í mínum huga“.

Vekja til lífsins (orðtak)  Vekja upp; virkja.  „Honum tókst að vekja félagið aftur til lífsins“.

Vekja (einhverjum) þorsta (orðtak)  Auka þorsta einhvers; valda einhverjum þorsta.  „Saltketið er afbragðsgott, en það vekur manni dálítinn þorsta“.

Vel (l)  A.  Áhersluorð; ágætlega; fyrirtaks. „Hann gerði þetta fyrirtaks vel“.   B.  Rösklega; rúmlega; dálítið meira en.  „Það var orðið vel hálffallið“  (TÓ; upptaka á Íslmús 1978).  „Settu vel af taði í rófubeðið“.  „En nú verð ég að hætta þessu bæjaflakki og labba heim að Lambavatni.  Þetta er nú vel klukkustundar gangur frá Saurbæ þó enginn setti slíkan smáspotta fyrir sig“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  C.  Mikið.  „Gefðu þeim vel af fóðurbæti með þessu heyi; það er ekki mjög kraftgott“.  „Ég fékk mér vel af skyrinu“.

Vel að kominn (orðtak)  Á skilið; hefur til unnið.  „Mér finnst þetta mjög góður botn hjá henni, og hún er vel að verðlaununum komin“ (MH um Sunnu Hlín dótturdóttur sína sem hlaut verðlaun í ljóðasamkeppni 10 ára; Mbl 04.01.2017)

Vel að manni (orðtak)  Sterkur; hraustur.  „Egill Skallagrímsson var vel að manni og svo hefur títt verið um suma afkomendur hans; s.s. Kollsvíkinga“.  „Það sem hefur bjargað því að mennirnir sem voru að draga hrukku ekki framaf við slinkinn... hefur verið fyrst og fremst það að þeir voru báðir vel að manni; sérstaklega Davíð, sem var talinn sterkasti maður í hreppnum á þeim tíma... “  (SbG; Að vaka og vinna). 

Vel að merkja (orðtak)  Samt; reyndar; þó þarf að athuga; nú einusinni.  „Hann kemur í kvöld; vel að merkja, ef hann fær far“.  Merkja er þarna í merkingunni að taka eftir.

Vel að sér (orðtak)  Fróður; vel kunnandi; hefur vit á; vel heima.  „Hann er vel að sér í þessum fræðum“.  Sjá illa að sér.

Vel að (verki) verið / Vel af sér vikið (orðtak)  Vel gert; vel unnið.  „Það var talið vel af sér vikið að skila brókinni fullsaumaðri á dag“  (KJK; Kollsvíkurver).

Vel af guði gerður (orðtak)  Oftast notað um mann; vandaður; sómamaður; fyrirmyndarmaður.  Sjá illa/þannig af guði gerður.

Vel af sér vikið (orðtak)  Vel gert; nokkuð afrek.  „Óskar kvikmyndagerðarmaður var kominn á vettvang.  Mér fannst það vel af sér vikið hjá honum við þessar hrikalegu aðstæður“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg).

Vel á minnst (orðtak)  Got/vertt að muna; gott að ég var minntur á/ mundi eftir. 

Vel/ágætlega/aumlega/illa á sig kominn (orðtök)  „Féð er nokkuð vel á sig komið eftir útiganginn“.

Vel efnum búinn (orðtak)  Efnaður; ríkur.  „Hefur Einar því verið allvel efnum búinn“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Vel flestir (orðtak)  Langflestir; nær allir.  „Ég held að vel flestir séu hættir að borða“.

Vel/illa fyrir kallaður (orðtök)  Í góðu/slæmu ástandi/skapi; vel/illa ástatt um.  „Hann var nývaknaður og illa fyrirkallaður“.

Vel gert af vandalausum (orðtak)  Um greiða sem sá gerir sem ekki hefur til þess skyldur.  „Þakka þér mikillega fyrir þetta viðvik; það var vel gert af vandalausum“.

Vel haldinn (orðtak)  Í góðu atlæti/yfirlæti; fær gott fóður/góðan mat; í góðum holdum.  „Mér sýnist nú að þetta fé sé sæmilega vel haldið; en það er alveg í sjálfheldu“.

Vel heima (orðtak)  Fróður; vel lesinn/kunnandi.  „Hann er vel heima á flestum sviðum náttúrufræðinnar“.

Vel í látið/lagt (orðtak)  Rausnarlegt; yfirdrifið.  „Það var helst til vel í látið af brenni í þessari uppkveikju“.

Vel í skinn komið (orðtak)  Feitur; feitlaginn; holdsæll.  „Prestinum var svo vel í skinn komið að honum varð að sérsníða hempu, eins og öll föt önnur“.

Vel í sveit settur (orðtak)  Um þann sem er í góðri aðstöðu varðandi eitthvað sem tiltekið er í setningunni.  „Þið eruð vel í sveit sett með nýmetið hér við sjávarsíðuna“.

Vel /illa látinn (orðtök)  Um það álit sem einstaklingur nýtur í sínu samfélagi.  „Hann hefur alltaf verið vel látinn í sinni sveit“.  „Mér þótti hann þolanlegur prestur, en hann var fremur illa látinn af ýmsum öðrum“.

Vel liðinn (orðtak)  Nýtur vinsælda í hópi/samfélagi; í góðu áliti.  „Hann var vel liðinn af þeim sem þekktu“.

Vel má vera (orðtak)  Hugsanlegt/mögulegt er; vel getur verið.  „Við skulum hinkra ögn; vel má vera að úr þessu rætist“.  Iðulega stytt í „má vera“.

Vel máli farinn (orðtak)  Talar gott og rétt mál; kann að tala gagnort, rétt og skýrt.  „Ég er ákaflega stoltur af því að börnin mín og barnabörnin eru vel máli farin…“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Vel megandi (orðtak)  Í góðum efnum; ríkur; stöndugur.  „Það er munandi að vera vel megandi stórbóndi“!

Vel meint (orðtak)  Sagt í góðu/góðum tilgangi.  „Þetta átti að vera vel meint, þó það hljómaði dálítið öðruvísi“.  „Líklega hefur það upphaflega verið vel meint að láta hinn meingetna son ekki alast upp á heimilinu“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  

Vel og vendilega/vandlega  (orðtak)  Mjög vandlega; rækilega.  „Burstaðu nú vel og vendilega af þér rykið“.

Vel séð (orðtak)  Vel liðið; litið jákvæðum augum; vel þegið.  „Ekki var það vel séð ef menn stálust í bjarg án leyfis landeigenda“.

Vel skal vanda það sem lengi skal standa (orðatiltæki)  Lýsandi og mikið notuð speki.  T.d. viðhöfð þegar hús voru byggð eða hleðslur reistar, eins og sjá má í Kollsvík.

Vel stæður (orðtak)  Bjargálna; sæmilega/vel efnaður.  „Í Barðastrandasýslu lentu jafnvel börn á húsgangsflakki, en þeir sem best voru stæðir björguðu öðrum eftir föngum, og flosnuðu svo sumir þeirra einnig upp að lokum“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Vel sæmilega (orðtak)  Allþokkalega; ágætlega.  „Okkur miðaði vel sæmilega út með Bjarginu, en hægar gekk fyrir núpana, enda suðurfall og norðangola“.

Vel/illa/misjafnlega til fara (orðtak)  Snyrtilega/vel/illa klæddur; hreinlegur; snyrtur; ótótlegur; skítugur.  „Þeir voru nýkomnir af fjalli og misjafnlega til fara“.

Vel til fanga (orðtak)  Veiðilegt; líkur á miklum afla/feng.  „Ég gæti trúað að niðri á þessum höfða sé vel til fanga af eggjum“.

Vel til fara / Vel tilhafður (orðtak)  Vel útlítandi; í góðum búningi; snyrtilegur.  „Sem skýrslan sýnir er búpeningur vel til fara og fóðurvöntun hvergi tilfinnanleg…„“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1935). 

Vel til fiskjar (komið) (orðtak)  Mikið fiskirí; mikill afli; mikil veiði.  „Heimræði (í Kollsvík) ár um kring, og vel til fiskjar komið“  (ÁM/PV Jarðabók).  „Hann sagði að nú væri vel til fiskjar um allar víkur“.

Vel til fundið (orðtak)  Kjörið; tilvalið; gráupplagt.  „Það var vel til fundið að taka nesti meðferðis“.

Vel til þess fallið (orðtak)  Hentar vel.  „Ég er kannski ekki best til þess fallinn að rita fundargerð“.

Vel/illa úr garði gerður (orðtök)  Vel/illa búinn til/ útbúinn.  „Kassafjandinn var svo illa úr garði gerður að botninn varð eftir þegar ég tók hann upp“!  Líkingin vísar til útbúnaðar manns sem fer að heiman. 

Vel/illa útilátinn (orðtök)  Ríflega/naumt skammtað/gefið/greitt.  „... nema svo hafi verið að Benedikt þætti hluturinn illa útilátinn“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Vel við efni (orðtak)  Efnaður; ríkur; með rúm fjárráð. 

Vel við vöxt (orðtak)  Um fatnað o.fl.; heldur stór.

Vel það (orðtak)  Umfram það; meira en það.  „Ég er búinn að fiska nóg í soðið, og vel það“.

Vel þegið (orðtak)  Þegið með þökkum; kærkomið.  „Nú væri ósköp vel þegið að fá kaffisopa“!

Velbærilegt (l)  Þokkalegt; ágætt.  „Héðan er allt velbærilegt að frétta“.  „Það er nú ekki velbærilegt ef allir á bænum eru að leggjast í þessa ekkisens pest“.

Veldi (n, hk)  A.  Það sem vald manns/ríkis nær til; t.d. landsvæði og fólk/þegnar; ríki.  B.  Umsvif; halasláttur.  „Það er aldeilis veldi á bóndanum núna; bara kominn með nýja dráttarvél“!  C.  Í stærðfræði; margfeldi tölu af sjálfri sér.  

Veldur hver/ sá er á heldur (orðatiltæki)  Sá stjórnar sem heldur um stjórnvölinn; sá ræður niðurstöðunni sem stjórnar. 

Veldur sá er varir (orðatiltæki)  Orðtakið heyrist stundum í þessari mynd, og er þá skýrt þannig að sá nái völdum sem hefur mest úthaldið.  Hinsvegar er það upprunalega þannig; „veldurat sá er varar“ (Brennu-Njáls saga),  sem nú á dögum er útlagt þannig; eigi veldur sá er varar.  Vísar það til þess að sá er ekki sekur sem varar aðra við. 

Velfarnaður (n, kk)  Gæfa; lukka.  „Svona hegðun leiðir sjaldan til velfarnaðar“.

Velferð (n, kvk)  Hamingja; gott líf; velfarnaður.  „Henni var alltaf meira hugað um velferð annarra en sína eigin“.

Velflestir (l)  Langflestir; meirihlutinn.  „Kindurnar eru velflestar komnar heim að húsum, en einhverjar eru þó enn í fjörunni“.  „Undir þetta tóku velflestir fundarmenn“. 

Velforstandugur (l)  Heiðvirtur; háttvirtur.  Dönskusletta sem sjaldan heyrðist í lok 20.aldar, en brá þó fyrir, ekki síst í háðungartóni.  „Þetta er víst einhver velforstandugur pótintáti þarna fyrir sunnan“.

Velforþéntur (l)  Verðskuldaður.  „Mikið var nú gott að fá þennan velforþénta dúr“!

Velfóðrað (l)  Um búfe; vel fóðrað/alið.  „Velfóðrað fé er einnig á Melanesi, enda hefur þar verið gefið síldarmjöl og nokkuð af því sem aukafóður, borið saman við vanalega gjöf undanfarna vetur…“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932). 

Velgengni (n, kvk)  Gott gengi; velmegun.  „Velgengni í spilum þarf ekki að þýða það sama í öðru“.

Velgja (n, kvk)  A.  Ylur.  „Lambið hresstist þegar það kom inn í velgjuna“.  B.  Ógleði; flökurleiki; ælutilfinning.  „Mér er eitthvað bumbult; held ég leggist fyrir þangað til velgjan líður hjá“.

Velgja (s)  Hita lítillega; verma.  „Það þarf að velgja pelann dálítið fyrir barnið“.

Velgja (einhverjum) undir uggum (orðtak)  Gera erfitt fyrir; valda erfiðleikum; lúskra á.  „Ég skal sko velgja þeim undir uggum ef þeir fara að leika það daglega að leggja vísvitandi ofaní“!  Upprunaskýring er óljós, en hugsanlegt er að merkingin hafi verið að ganga í skrokk /lumbrá á einhverjum, og uggar sé þá líking við hendur.

Velgja við (einhverju) (orðtak)  Hafa óbeit á einhverju; klígja við einhverju.  „Mig velgir við tilhugsuninni einni saman“.

Velgjugjarnt (l)  Hættir til að klígja/velgja við; verður gjarnan flökurt.  „Mér er nú vanalega ekki velgjugjarnt, en það lá við að ég kastaði upp í þessari fýlu“.

Velgjutilfinning (n, kvk)  Klígja; flökurleiki; sjóveiki.  „Ertu kominn með velgjutilfinningu strax“?

Velgjörðir (n, kvk, fto)  A.  Það sem vel er gert; góð breytni.  B.  Veitingar; beini; góðgerðir.  „Gerðu svo vel að koma inn og þiggja einhverjar velgjörðir“.  „Ég kom við og þáði velgjörðir á bænum“.

Velgott (l)  Verulega gott; allgott.  „Það er ekki velgott ef mikið af fé hefur sloppið inn á Hlíðar“.  „Færið á Hálsinum er ekki velgott, en það má þvælast þetta“.  Allmjög notað í Kollsvík en finnst ekki í orðabókum.

Velja (s)  Kjósa; hallast fremur að.  „Nú er vandi að velja“!

Velja til lífs / Velja líflömb (orðtak)  Velja líflömb til ásetnings að hausti; taka til lífs.  „Komdu nú og hjálpaðu mér að velja til lífs.  Við krítum líflömbin í enni með rauðu“.

Velkingur (n, kk)  Þvælingur; vos; sjóferð í slæmum sjó.  „Þessi velkingur skilaði ekki miklum afla“.  „Þú hlýtur að vera ansi þreyttur eftir allan þennan velking“.

Velkjast (s)  Þvælast; vera í volki; vera við slæman aðbúnað.  „Báturinn sem er nr 1 eða 4 gæti hafa verið út Kollsvík.  Hann var flutningaskip þeirra og stærri en gerðist, og bar nafnið Fönix.  Hann var með Ford bílvél, sem síðast var að velkjast í fjörunni á Hvalskeri“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Velkjast ekki í vafa um (orðtak)  Vera ekki í vafa um; efast ekki um.  Velkjast er sama orð og veltast.

Velkominn (l)  A.  Sem fagnað er við komu.  B.  Ávarpsorð t.d. þegar gesti er fagnað.

Vella (n, kvk)  A.  Kjaftæði; þvæla.  „Hver heldurðu að trúi svona vellu“?  B.  Hár líkamshiti; hitavella.  „Ég held ég gæti verið með einhverja vellu.  Ég er óttalega sloj í dag“.

Vella (s)  A.  Um graut; sjóða; krauma.  B.  Gusast; mora.  „Gröfturinn vall út þegar stungið var á kýlinu“.  „Fiskurinn var ekkert annað en vellandi maðkaveita“.  C.  Um hljóð spóans.  „Þá er úti vetrar þraut, þegar spóinn vellir graut“.

Velliðinn (l)  Vinsæll; sem fólki líkar vel við; kemur sér vel.  „Þau eru mjög velliðin í sveitinni“.

Vellingur (n, kk)  Grautur.  Oftast notað um hrísgrjónagraut.  „Hún bar fram hnausþykkan velling með rúsínum og kanilsykri“.

Vellíðan (n, kvk)  Góð líðan; ánægja; yndi.

Vellríkur (l)  Mjög ríkur/efnaður; forríkur.

Vellubókmenntir (n, kvk)  Skáldsaga sem þykir mjög leiðinleg aflestrar; leiðinleg bók.  „Ég held ég hafi bara engan áhuga á að lesa svona vellubókmenntir“!

Vellulegur (l)  A.  Veikur; veiklulegur; með hita/vellu.  „Ég er eitthvað ári vellulegur í dag“.  B.   Væminn; smeðjulegur; tilgerðarlegur.  „Skelfing finnst mér þetta vellulegar bókmenntir“!

Velluspói (n, kk)  A.  Spói.  Lýsandi forskeytum er iðulega skeytt framanvið nöfn fugla, s.s. vælukjói.  Þjóðtrúin segir að þá séu vetrarharðindi örugglega að baki þegar heyrist til spóans:  „Þá er úti vetrarþraut þegar spóinn vellir graut“.  Það er talinn fyrirboði um vætutíð ef spói langvellir; þ.e. vellir óvanalega lengi óslitið.  B.  Í likingamáli um þann sem talar mikið en af litlu viti.

Vellyktandi (n, kk)  Ilmvatn; stinkvatn.  „Ég setti glas af vellyktanda á klósettið til að fá öðruvísi ilm“.

Vellystingar (n, kvk, fto)  Hóglífi; munaður; óhóf.  „Hann lifir víst bara í vellystingum eftir að kvótasöluna“.

Velmegandi (l)  Aflögufær; sæmilega efnaður.  „Honum hefur lánast svo vel búskapurinn að nú þykir hann vera í hópi velmegandi bænda“.

Velmegun (n, kvk)  Hagsæld; góð kjör fólks.  Síðari tíma orð um síðari tíma hagkerfi.  Fyrrum þótti það gott ef menn voru bjargálna; ef framleiðsla búsins stóð vel undir neyslu.

Velsinnaður (l)  Hugulsamur; velviljaður; góðhjartaður. 

Velskikkanlega (ao)  Um hegðun/framkomu; sæmilega; prýðisvel.  „Reyndu nú að haga þér velskikkanlega drengur; rétt á meðan messan fer fram“!

Velskikkanlegur (l)  Sæmilegur; skaplegur; viðunandi.  „Aflinn var svona rétt velskikkanlegur“.

Velstand (n, hk)  Góð staða; gott ástand; velsæld.  „Er ekki allt í velstandi hjá ykkur“?

Velsvo (ao)  Rösklega; ríflega; rúmlega; framyfir.  „Hún mjólkaði 20 merku og velsvo það“. 

Velsæld (n, kvk)  Gott líf; sælulíf; velmegun; velstand.  „Þó Kollsvíkurbændur hafi sjaldnast talist til helstu auðmanna landsins, þá fer ekki sögum af öðru en að þar að jafnaði ríkt farsæld og velsæld“.

Velta (n, kvk)  Það að velta; rugga/sveiflast til hliðanna.  „Snúðu bátnum betur uppí til að taka af honum veltuna“.  B.  Það að rúlla.  „Bíllinn valt heila veltu og kom aftur niður á hjólin niðri í lautinni“.  C.  Hæfni/seigja lands til torfskurðar.  „Þarna í mýrinni reyndist ágæt velta“.  D.  Umsetning í rekstri fyrirtækis/aðila.  „Veltan jókst nokkuð frá fyrra ári. 

Velta (s)  A.  Hreyfing bát sem; ruggar til beggja hliða í báru.  „Bátarnir, með háfermi, taka að velta um of, einkum Fönix“  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Einnig haft um það þegar bát hvolfir og fer heila veltu:  „Aftur veltur báturinn og er nú borðstokkafullur...“  (KJK; Kollsvíkurver).

Velta á (orðtak)  Undir komið;háð.  „Það veltur á niðurstöðum prófanna hvort ég verð í skóla næsta vetur“.

Velta fyrir sér (orðtak)  Íhuga; hugsa mál.  „Ég velti því fyrir mér hvert ekki væri rétt að breyta þessu“.

Velta um (orðtak)  Velta um koll.  „Í Kollsvík og nágrenni tíðkaðist orðalagið „að velta um“ yfir það þegar eitthvað valt um koll eða var velt um kol, og var það nánast alltaf orðað þannig.  Ég hef ekki veitt þessu eftirtekt af öðrum svæðum, en það kann þó vel að vera yfirsjón“ (VÖ).  „Glasið valt um hjá drengnum“.

Velta um hrygg (orðtak)  Velta af einni hliðinni á aðra með því að liggja á bakinu á milli.  „Hann velti sér um hrygg í fletinu þegar ég kallaði á hann“.

Velta úr sessi (orðtak)  Koma frá völdum.  „Hann náði að velta stjórnarformanninum úr sessi“.

Velta vöngum (orðtak)  Hugleiða; spekúlera í; geta sér til um; bræð´ann.  „Það þýðir ekkert að velta lengur vöngum yfir þessu; það rær enginn í þessu veðurútliti“.

Veltast um (orðtak)  Vagga til hliðanna; rótast mikið; fara um koll.  „Gamla konan varð svo hissa að hún sagði ekkert, en settist síðan á bakkann og veltist um af hlátri“  (IG; Æskuminningar).

Veltiár (n, hk)  Góðæri; velsæld; góð ár.  „Þegar grásleppuveiðar gáfu sem best af sér voru veltiár hjá þeim bændum sem þær gátu stundað“.

Veltibrim (n, hk)  Brim svo mikið að hætta er á að bát hvolfi í því.  „Veltibrims gætti aldrei þarna uppi í Lóninu innan við Sandoddann, þó ólendandi væri með öllu vestan megin Patreksfjarðar, inn með öllum firði“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Veltikolla  /  Veltikefli (n, kvk)  Mjög valtur bátur.  „Þetta horn þótti hin mesta veltikolla“. „Andskotans veltikefli er nú þessi bátkolla ef einhver hreyfing er“!

Veltikjölur / Veltitankur / Veltiuggar  Búnaður á stærri skipum til að draga úr veltingi þeirra.

Veltilhafður (l)  Vel til fara; snyrtilegur; frambærilegur.  „Á jólunum þótti við hæfi að fara í sparifötin og vera sæmilega veltilhafður, enda öllu tjaldað til svo kvöldið yrði sem hátðiðlegast“.

Veltingur (n, kk)  A.  Hreyfing báts í öldugangi.  „Þú þarft að kunna að stíga ölduna til standa af þér veltingin“.  B.  Um sjólag; öldugangur; sjógangur.  „Hann er að rífa upp einhvern fjárans vestan velting“.

Veltiþing (n, hk)  Afbragðs hlutur; þarfaþing.  „Honum fannst rafklippurnar hið mesta veltiþing“.

Veltiþurrt (l)  Um jarðveg/grund; svo þurr að unnt er að velta sér án þess að blotna.  „Nú er hér allt veltiþurrt og flugvöllur innst á Rifinu“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Veltufé (n, hk)  Rekstrarfé; peningar sem notaðir eru til rekstrar hjá fyrirtæki/félagi/aðila.

Veltur á (einhverju) (orðtak)  Undir einhverju komið; háð einhverju.  „Þetta veltur auðvitað á veðri“.

Veltur á ýmsu (orðtak)  Er háð mörgum þáttum; veltist/fer á ýmsa vegu.  „Eftir að hann missti vinnuna valt á ýmsu fyrir honum með efnahaginn“.

Velunnari (n, kk)  Vinur; sá sem vill öðrum vel; velgjörðarmaður.

Velvild / Velvilji (n, kvk/kk)  Góður hugur; góðar meiningar.  „Fram kom eindæma velvild allra til málsins“.

Velviljaður (l)  Vel stemmdur fyrir; með góðan hug til.  „Hann reyndist okkur mjög velviljaður í þessu efni“.

Velvirðugur / Velvirtur / Velæruverðugur (l)  Háttvirtur.  Oftast sem kurteisishjal í ávörpum.

Velþéntur (l)  Verðskuldaður.  „Þegar heim kom fékk hann velþéntan málsverð“.

Velþóknanlegur (l)  Fellur /líkar vel.  „Það er ekki víst að þeim sé þetta velþóknanlegt“.

Velþóknun (n, kvk)  Vellíðan yfir einhverju; ánægja.  „Einmitt þegar Júlli hafði stungið upp í sig fyrsta bitanum og tuggði með velþóknun“  (PG; Veðmálið). 

Velættaður (l)  Af góðum ættum.  „Ekki vantaði að hrúturinn væri velættaður“.

Vembdur (l)  Með stóra vömb; feitlaginn.  „Asskoti ertu að verða vel vembdur í seinni tíð“!

Vemmilegheit (n, hk, fto)  Viðbjóður; það sem er fráhrindandi.  „Hún sagðist ekki koma nálægt slíkum vemmilegheitum“.

Vemmilegur (l)  Væminn; fráhrindandi; viðbjóðslegur.  „Hvaða vemmilega hræ var tíkin nú að draga heim“?

Vend (n, kvk)  Snúningur; vefnaður.  Í seinni tíð eingöngu notað í orðtökunum; ekki sér fyrir vend og þar kom vendin á það.

Venda (s)  A.  Hagræða seglum þegar sigldur er beitivindur.  „Tvær voru aðferðir við að venda skipi.  Mátti bæði stagvenda og hálsa, þ.e. kúvenda.  Stagvending var miklu hentugri í alla staði og einatt viðhöfð þegar hægt var.  En gangtreg skip neituðu stundum vendingu; fengust ekki til að falla yfir til annarrar hliðar þótt þeim væri beitt upp í vindinn.  Þá neyddust menn til að beita hinni aðferðinni, að slá skipinu undan vindinum og sigla nær því í hring.  Tafði það siglinguna og þótti verra í alla staði“  ( GilsG; Skútuöldin) .  Af vendingu skipa eru dregin orðtök sem mikið eru notuð í máli Kollsvíkinga og annarra, t.d. að komast fyrir vindinn og að láta slag standa.  B.  Snúa; fara.  Sjá eiga ekki í önnur hús að venda.  C.  Skipta snúningi á snarventri vél.  „Sumar bátavélar áðurfyrr voru mjög hæggengar og var skipt úr áfram í bakk með því að breyta snúningi sveifaráss“.

Venda við (orðtak)  Snúa við.  „Þú ættir nú að venda við peysunni; mér sýnist hún vera á röngunni“.  „Það má oft finna ánamaðk í beitu með því að venda við steinum eða kúaskítshlössum“.

Vendilega (l)  Vandlega; nákvæmlega.  „Hann sagði vendilega fyrir um hvað gefa skyldi hverri kú“.

Vending (n, kvk)  A.  Snúningur.  „Miklar vendingar hafa orðið í þessum málum í seinni tíð“.  B.  Það aað venda seglum á skipi.

Vendir (n, kk)  A.  Vending; það að seglum skips sé vent/snúið þegar sigldur er beitivindur, til að taka nýjan legg/ nýja stefnu.  Þessi karlkynsmynd orðsins var löngu aflögð, en lifir enn í máli Kollsvíkinga í afleiddri merkingu:  B.  Afleidd merking; endir; viðsnúningur; lok.  „Það ætlar enginn vendir að verða á þessari bévítans rigningartíð“!  „Þar kom vendirinn á það“!  „Ég sé ekki að þarna sé nokkur vendir á; þetta virðist vera endalaust“! 

Venja (n, kvk)  Vani; siður; háttur.  „Við gerum þetta eins og venja er til“.

Venja (s)  A.  Gera vanan.  „Þú átt ekki að venja þig á svona ósiði“!  B.  Temja; aga.  S.s. venja undir.

Venja komur sínar (orðtak)  Hefja reglulega viðkomu; byrja að koma oft í heimsókn.  „Sveitarómur segir að hann sé farinn að venja komur sínar alloft þangað, þegar bóndinn er í gegningunum“.

Venja sig af (orðtak)  Hætta því sem venja er til; breyta háttum/venju.  „Vendu þig nú af þessum ósið“!

Venja sig á (orðtak)  Gera sér að vana; hafa fyrir sið.  „Ég vandi mig á að setja alltaf fyrst inn í syðsta garðann“.

Venja undan (orðtak)  Um kind; reka/taka lamb endanlega frá kind.  Stundum reynist nauðsynlegt að taka lamb frá kind; t.d. þeagr um gamla eða veiklaða kind er að ræða sem eignast hefur tvílembinga en getur ekki mjólkað þeim báðum.  Þá er a.m.k. annað lambið tekið og annaðhvort haft sem heimaalningur eða vanið undir aðra kind.  Þá þarf iðulega að hafa móðurina í aðhaldi meðan hún er að sætta sig við missinn; meðan verið er að venja undan.  Þá er það til í dæminu að kindur berji frá sér lömbin; vilji ekkert með þau hafa, og venji þannig sjálfar undan sér.  Þau lömb getur sömuleiðis þurft að venja undir eða hafa heima, ef ekki tekst að sætta móðurina við sitt hlutverk.

Venja undir (orðtak)  Koma lambi undir fósturmóður og fá hana til að taka því.  Margar ástæður geta verið fyrir því að venja þarf undir, s.s. þegar móðir drepst frá nýbornu lambi; móðir mjólkar ekki lambinu; hún hafnar því algerlega; eða annar ekki tveimur eða þremur lömbum sem hún á.  Þá var betra að venja lamb undir en hafa það sem heimalning, enda braggast þeir misjafnlega og eru oft til ama.  Nýja lambmóðirin er gjarnan kind sem misst hefur lamb, eða einlemba sem talin er geta mjólkað tveimur.  Mjög er misjafnt hve ný lambmóðir er fljót að taka lambinu.  Sumar virðast geta sætt sig við öll lömb sem sín eigin.  Aðrar eru viðskotaillar og berja það frá um leið og þær finna lyktina. Til eru ýmis húsráð til að flýta fyrir þegar vanið er undir.  Ef lambmóðirin hafði misst lamb var það stundum flegið og bjálfinn saumaður utanum undirvaninginn með sporum undir kverk og kvið og við fæturM einungis hausinn stóð framúr bjálfanum.  Stundum dugði að nudda undirvaningnum vel uppvið afturenda fóstrunnar til að fá lyktina.  Í langflestum tilvikum voru nýju mæðginin sett í stíu í fjárhúsi um tíma, þar til móðirin hafði örugglega tekið.  Þá þurfti oft að standa yfir, meðan lambið fékk að sjúga óáreitt, eða jafnvel halda í kindina meðan það var sett á spena.  Mijafnt er hve vel undirvaningar braggast, en oft voru þeir ekki síðri lömb en önnur að hausti.

Venjast af (orðtak)  Um veiki/mein/bögun; líða frá/ lagast.  „Maður kvaldist af sjóveikinni fyrstu dagana, en svo vandist það nú af“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Venjast við (orðtak)  Verða vanur.  „Ég svaf ekkert vel í nýja rúminu meðan ég var að venjast við“.

Venju fremur (orðtak)  Meira/oftar/fyrr en vant er.  „Ég vaknaði venju fremur fyrr í morgun“.

Venju samkvæmt (orðtak)  Eins og vant er; eins og vanalega.

Venjubundinn (l)  Vanalegur.  „Hann er farinn í sína venjubundnu gönguferð niður að sjó“.

Venjulega (ao)  Að vana/vanda; vanalega; samkvæmt venju.  „Þá komu líka karlmenn í verið til róðra; venjulega í fyrstu viku sumars“  (IG; Æskuminningar). 

Venjulegur (l)  Vanalegur; reglulegur; hversdagslegur. 

Vensl (n, hk, fto)  Tengsl; mægðir; það að vera vandabundinn/háður/skyldur.

Ventill (n, kk)  Loki; krani; einstreymisloki í bílhjóli.

Venus (n, kvk)  Reikistjarna í okkar sólkerfi; önnur frá sólu og sú næsta innanvið Jörðu.  Þriðja minnsta reikistjarna sólkerfisins; 0,89 jarðmassar en litlu minni að þvermáli en Jörðin.  Venus hefur þykkan lofthjúp, að mestu úr koldíoxíði og gríðarlegan lofthita, eða um 480° að meðaltali.  Loftþrýstingur við yfirborð er um hundrað sinnum meiri en á Jörðinni.  Yfirborð er hulið skýjum, séð frá Jörðu og rannsóknir hafa því verið erfiðar á því.  Lofthjúpurinn endurkastar sólarljósi vel og því er Venus bjartasta reikistjarnan á himninum.  Umferðartími um sól er 225 jarðardagar; möndulsnúningstími er 243 jarðardagar.  Snúningsátt er réttælis; öfugt við Jörðina.  Segulsvið ern nánast ekkert.  Venus er stundum nefnd ástarstjarnan, enda nefnd í höfuð rómversku ástargyðjunnar.
Venus er björtust allra reikistjarna frá jörðu séð, og oft sýnileg að degi til.  Hún hefur því löngum verið hluti af trúarbrögðum heims; gjarnan ímynd ástar og fegurðar.  Persónugervngur hennar í Grískum trúarbrögðum var Afródíta; Venus hjá Rómverjum; Chasca hjá Inkum; Quetzalcoatl hjá Mayum; Ishtar hjá Babýloníumönnum og Frigg í norrænni goðafræði.

Venusvagn (n, kk)  Aconitum napellus.  Garðplanta sem mikið var ræktuð í görðum áðurfyrr sem skrautblóm, enda blómstrar hún bláum þéttum blómaklösum og verður oft yfir 1m há.  Plantan er mjög eitruð.

Vepja (n, kvk)  Vanellus vanellus.  Vaðfugl sem oft flækist til Íslands.  Hefur m.a. sést í Kollsvík.  Þekkist m.a. á áberandi fjaðratoppi á höfði.

Ver (n, kk)  Karlmaður; karlmannskenning, einkum notuð í skáldskap.  „Víf er vers yndi“.

Ver (n, hk)  A.  Verstöð; útgerðarstaður; staður sem býður uppá góða lendingu og uppsátur og stutta róðrarleið á góð fiskimið.  Í Kollsvík hafa verið tvö nafngreind og fjölsótt ver: 
Annarsvegar er það Láganúpsver, sem er mjög forn útgerðarstaður.  Láganúpur var löngum í eigu Saurbæjarkirkju og hafa landsdrottnar greinilega reynt að efla útræði og hafa af því tekjur eftir fremsta megni.  „Heimræði er þar ár um kring, en á vorið er þar vertíð frá sumarmálum til þingmaríumessu“  (ÁM/PV; Jarðabók; um Láganúp).  Jarðabókin segir ennfremur að þar gangi þá 3 þriggjamannaför árið um kring og eigi Guðrún Eggertsdóttir í Bæ 2 þeirra, en á vorvertíð gangi auk þess 2 þriggjamannaför; 1 fjögurramannafar og 1 fimmmannafar.  A.m.k. 18 verbúðir munu hafa staðið í Láganúpsveri; í og norðan við Búðarlág, en þeirra sér lítt stað nú.  Lögmannslág þar sunnanvið ber nafn af því að þangað gengu vermenn örna sinna.  Í því landbroti sem sjór hefur valdið á síðustu árum hafa komið í ljós gríðarmiklar fiskbeinaleifar, nánast í öllum Grundabökkunum, sem bera vitni um gríðarmikla og langvarandi verstöðu.  Við prufuholu sem tekin var sumarið 2012 af RE/fornleifafræðingi kom m.a. upp krítarpípuhaus sem tímasetja má frá því um siðaskipti, 1550, u.þ.b. í miðjum fiskbeinastaflanum.  Lending í Grundargrjótum er vissulega ekki góð en samt ekki verri en víða var notuð áður fyrr, og kann að hafa verið betri fyrrum.
Hitt verið er Kollsvíkurver (sjá þar).  Þar virðist útgerð, samkvæmt heimildum, ekki eiga jafn langa sögu þó þar virðist augljóslega mun betri lending.  Hugsanleg skýring á þessu er sú að Kollsvík var alltaf í einkaeigu; e.t.v. hafa eigendur ekki séð sér hag í að leyfa verstöðu eða ekki viljað keppa við kirkjuna í þeim efnum.  Hinsvegar er ljóst af jarðabókinni að þá leyfa þeir uppsátur á bátum sem landa afla í Láganúpsveri.  Það er svo þegar farið er að fiska á lóðir sem verstaða er tekin upp í Kollsvíkurveri; en árið 1894 lagði Hákon Jónsson fyrstur lóð á Kollsvíkinni.  Eftir það fjölgaði bátum og verbúðum ört.  „Kollsvíkurverstöð er að færast í aukana á síðari hluta 17. aldar, jafnt og Láganúpur er að líða undir lok.  Milli þessara verstöðvar er þó vart meira en 800 metra vegalengd.  Af ástæðum fyrir því að útræði færist úr stað um ekki lengri veg er líklegust sú að lendingarskilyrði hefi þótt öllu skárri í Kollsvíkurveri, einkum í norðanátt“  (KJK; Kollsvíkurver). „Kollsvíkurver varð ekki til fyrr en um 1880 en eftir það var það aðalverstöðin í Rauðasandshreppi í röska hálf öld.  Þá varð Kollsvík allstór verstöð, eftir að Kollsvíkurmenn höfðu reist allar búðirnar í verinu, áttu þær og leigðu.  Þar voru margar verbúðir og mátti því Kollsvíkurver fyrst og fremst teljast útver, þótt þar væri jafnframt heimver.  Vorið 1901 gengu 16 bátar þaðan og mun fleiri síðar.  Í Kollsvík og Breiðuvík héldust hvað lengst útver, því þau lögðust ekki alveg niður fyrr en á fimmta áratug 20. aldar“ (LK; Ísl.Sjávarhættir II).
„Fernt réði einkum, þegar verstöð var valinn staður.  Í fyrsta lagi þurfti lending að vera bærileg, og í öðru lagi, sem ekki skipti minna máli, var jafnan reynt að velja staði þaðan sem skammt var að róa á mið.  Í þriðja lagi reyndu menn að velja verstöðvum stað, þar sem landrými var nægilegt, svo reisa mætti verbúðir og verka fisk, og í fjórða lagi var jafnan reynt að sjá svo til að skammt væri að sækja rennandi vatn, eða vatn í brunna“  (JÞÞ; Sjósókn og sjávarfang).   Uppruni orðsins ver er að öllum líkindum vísun í „er“, þ.e. staður þar sem menn eru; þar sem menn dvelja.
B.  Hlíf utanum sængurfatnað; sængurver; koddaver.  C.  Varpstaður fugla; eggver.

Vera (n, kvk)  A.  Dvöl; viðstaða; viðkoma; vist.  „Veru minni á þessum stað lauk um haustið“.  B.  Það sem er lifandi, sbr. mannvera; hulduvera; vitsmunavera.  „Hún var sannfærð um að einhverjar verur byggju í steininum“.  C.  Raunveruleiki.  „Ég sagði eitthvað í þá veru, að líklega væri þetta til einskis“.  „Í verunni hafði þetta takmarkaða þýðingu“.

Vera að (orðtak)  A.  Almennt:  Halda áfram verki/ við veiðar ; vera við verk.  „Þetta er allmikið verk.  Þú þarft að vera að í allan dag“.  B.  Um skakveiði; slíta upp; fá afla öðru hvoru án þess að veruleg vild sé á fiski.  „Við vorum að þarna yfir fallaskiptin, en fiskur var bara sáratregur“.

Vera aftarlega á merinni með eitthvað (orðtak)  Vera seinn fyrir með eitthvað.  „Þú afsakar hvað ég er aftarlega á merinni með þetta.

Vera á (orðtak)  Um ríkjandi veðurfar.  „Hann lægir ekki sjóinn meðan norðanáttin er á“.  „Þoka var á og slagveðursrigning“  (SbG; Að vaka og vinna). 

Vera á einn veg (orðtak)  Vera ekki í góðu lagi; vera allt með sama móti.  „Allt er það á einn veg hjá honum; það er eins og hann geti ómögulega farið rétt að þessu“!

Vera á ferðinni (orðtak)  Eiga leið; vera að ferðast.  „Komdu nú einhverntíman við ef þú ert á ferðinni“.  „Hann er oft á ferðinni og tekur pakkann örugglega fyrir þig“.

Vera á flæmingi (orðtak)  Flækjast/hrekjast um; vera á flækingi; slæpast.  „Það er munur að fá þennan boltafisk hér alveg upp við landið, heldur en að þurfa að vera á flæmingi lengst niður á djúpmiðum“!  Sjá flæmi; flæmingur; fara undan í flæmingi.

Vera á færi (einhvers) (orðtak)  Einhver er fær um; einhver getur.  „Það er ekki á mínu færi að laga þetta“.

Vera á kreiki / Vera á stjái (orðtak)  A.  Vera eitthvað að gera; vera gangandi.  „Meir sýnist einhver vera á kreiki þarna norðurfrá“.  B.  Vera enn vakandi; vera uppi.  „Hann er á stjái langt frameftir kvöldi“.

Vera á vaðbergi/varðbergi (orðtak)  Sjá á vaðbergi/varðbergi.

Vera á verði (orðtak)  Standa vörð; halda vörð; verja; gæta; vera vel vakandi gagnvart einhverju.

Vera ekki eins leitt og lætur (orðtak)  Sjá þykja ekki eins leitt og lætur.

Vera ekki um (orðtak)  Líka illa; lítast illa á.  „Mér er ekki um að þið séuð að flækjast nærri klettunum, strákar“.

Vera ekki örgrannt um (orðtak)  Gruna; hafa grun/hugboð um.  „Mér er ekki örgrannt um að þetta sé rétt“.

Vera fastur fyrir (orðtak)  Standa fast á sínu; verja sitt viðhorf; þráast/þrjóskast við.  „Hann er fastur fyrir í þessu máli“.  „Það er munur á þverhausahætti og því að vera fastur fyrir“.

Vera frá (orðtak)  A.  Vera viðþolslaus/ illa haldinn.  „Ég er alveg frá af bakverkjum“.  B.  Vera vant við látinn/ upptekinn.  „Ég verð sennilega frá í allan dag“.

Vera frá sér (orðtak)  Vera sturlaður/ruglaður.  „Ertu alveg frá þér drengur; svona máttu alls ekki gera“!

Vera fyrir (eitthvað) / Vera gefinn fyrir (eitthvað) (orðtök)  Sækja/langa í eitthvað; vera sólginn/áfjáður í eitthvað; þykja eitthvað gott/eftiróknarvert.  „Ég er lítið gefinn fyrir svona bókmenntir“.  „Hrúturinn er dálítið mikið fyrir tóbak“.  „Afi var ekki fyrir lakkrís; sagði okkur að það væri skírurinn úr skrattanum“.

Vera illa/vel við (orðtök)  Kunna illa/vel við; hafa andúð/velþóknun á.  „Ósköp kann ég illa við svona talsmáta“!

Vera (einhverjum) innan handar (orðtak)  Vera tiltækur; aðstoða einhvern ef þarf.  „Ég skal vera þér innan handar ef á þarf að halda“.

Vera í nöp við (orðtak)  Vera illa við einhvern; leggja fæð á einhvern; bera kala til einhvers.

Vera lítið/mikið fyrir (orðtök)  Þykja lítið/mikið varið í; sækjast lítið/mikið eftir.  „Ég er frekar lítið fyrir gúrkurnar, en hinsvegar er ég mikið fyrir hangiket“.

Vera marki brenndur (orðtak)  Hafa annmarka/galla/einkenni/takmörkun.  „Ég er því marki brenndur að ég þarf helst að vita hvernig hlutirnir virka“.

Vera með á takteinum (orðtak)  Hafa tilbúið.  Takteinar eru líklega teinar til að taka t.d. járn úr afli, og líklega er líkingin dregin af því að vera búinn að ná smíðajárninu úr aflinum; tilbúinn að slá það til á steðja.

Vera með í bígerð (orðtak)  Hafa í undirbúningi; áætla.  „Hann er með það í bígerð að skreppa á Patró“.

Vera með barni / Vera með kálfi / Vera með lambi (orðtök)  Vera ófrísk/klefd/lembd.

Vera nær (orðtak)  Standa nær; eiga fremur að gera/segja.  „Honum væri nær að líta betur eftir sínu fé“.

Vera (einhverju/engu/litlu/öngvu) nær (orðtök)  Vita ekki meira en áður; botna ekki í.  „Hann reyndi að útskýra þetta fyrir mér, en ég var öngvu nær“.  „Nú erum við einhverju nær um tildrög slyssins“.

Vera sjálfrátt (orðtak)  Geta ráðið gerðum sínum; hafa stjórn á sér.  „Ég held að ykkur sé bara ekki sjálfrátt; ef þið ætlið á sjó í þessu útliti“!

Vera skotspónn (einhvers) / Vera hafður að skotspæni (orðtak)  Liggja undir atlögu/árásum; sæta ámæli/illmælgi/skömmum einhvers, umfram aðra.  Skotspónn er fornt orð yfir mark sem skotið er á.

Vera til friðs (orðatk)  Vera stilltur; láta stillt; vera ekki með ófrið.  „Reyniði nú að vera til friðs strákar, svona rétt yfir messuna“!

Vera til óþurftar (orðtak)  Vinna skaða; þvælast fyrir; hrekkja.  „Þessi letihaugur er óbrúklegur til allra verka og eiginlega til bölvaðrar óþurftar hvar sem hann er“.

Vera til reiðu/taks (orðtak)  Vera tiltækur/reiðubúinn.  „Goggurinn er til taks ef á þarf að halda“.  „Hafðu ífæruna til reiðu“!

Vera um (orðtak)  Vera sáttur við/hrifinn af; líka við.  „Mér er ekki um það að strákarnir séu að fikta í brúninni“.

Vera (þess) umkominn (orðtak)  Vera fær um.  „Við slíka sameiningu myndu hugir fóksins betur leiðast saman um sameiginleg áhugamál byggðarlagsins og félagsstarfsemin verða sterkari og betur þess umkomin að leiða velferðarmál sveitarinnar fram“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Vera undir (orðtak)  A.  Um hegðun fisks þegar veitt er með færi; vera í torfu undir bátnum og taka fljótlega eftir að rennt er.  „Hann var enn undir þó komið væri hörkunorðurfall“.  B.  Vera að tapa viðureign, annaðhvort í bardaga/slagsmálum eða í spilum/íþróttum.

Vera unun að (orðtak)  Hafa yndi af; vera mjög ánægður/hamingjusamur með.  „Það var haft eftir Gumma að aldrei hefði hann séð eftir bita eða sopa ofan í nokkurn mann, en sér hefði verið sérstök unun að því að sjá bróður sinn sporðrenna með góðri lyst bita af lambsskrokknum sem hann hefði áður áfellst sig fyrir að þiggja af Hafliða vini sínum“  (PG; Veðmálið). 

Vera upp á (einhvern) kominn (orðtak)  Vera háður einhverjum.  „Ég vil helst vera sjálfbjarga í þessum efnum, en ekki upp á aðra kominn“.

Vera uppi (orðtak)  Vera til staðar; liggja í loftinu; vera.  „Upphófst nú mikið skvaldur og voru uppi deildar meiningar um ágreiningsefnið“  (PG; Veðmálið). 

Vera úti á galeiðunni (orðtak)  Vera á villigötum.  „Sá er nú aldeilis úti á galeiðunni“!

Vera vakandi fyrir (orðtak)  Gefa gætur; hafa auga með; fylgjast með.  „Bændur, sérstaklega á Rauðasandi, höfðu þó verið vakandi fyrir skurðgreftri, því án hans var ekki neitt land sem hét til ræktunar“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Vera vantrúaður á (orðtak)  Hafa ekki trú á; trúa/treysta illa.  „Ég er fremur vantrúaður á að þessar kindur skili sér heim sjálfar“.

Vera við (orðtak)  A.  Um manneskju; vera heima/heimavið.  „Það var enginn við þegar ég kom síðast í heimsókn“.  B.  Um fisk; veiðast þegar skakað er.  „Hann var vel við yfir háliggjandann“.

Vera við lýði (orðtak)  Sjá við lýði.

Vera viðbundinn (orðtak)  Vera upptekinn; hafa verk að vinna; vera bundinn af verki eða öðrum skyldum.  „Ég er ekkert viðbundinn eftir hádegi á morgun; þá ætti ég að geta aðstoðað þig við þetta“.

Vera þrándur í götu (orðtak)  Vera hindrun/tálmi.  „Hann gæti orði þráondur í götu í þessu máli“.  Á rætur í Færeyingasögu, en þar segir frá Þrándi í Götu, sem þráaðist við tilraunum Ólafs konungs helga til að skattgilda Færeyjar.  (HH; Ísl. orðtakasafn).

Vera öllum lokið (orðtak)  Gefast upp; vera búinn; leggja árar í bát.  „Nei, nú er mér öllum lokið:  Kemur hún ekki með rísingrjónagraut með rjóma á eftir þessari stórsteik“!

Veraldarauður / Veraldargæði (n, kk/ hk, fto)  Auðæfi/gæði heimsins.  „Nú væri ég til í að fórna öllum veraldarauði fyrir smábita af þessum dýrindis hákarli“!  „Þetta kunni ég best að meta af öllum veraldargæðum“.

Veraldarauli / Veraldarbjáni / Veraldarfífl / Veraldarflón / Veraldarhálfviti / Veraldarviðundur / Veraldarvitleysingur (n, kk) Alger bjáni/vitleysingur; erkihálfviti.  „Hverskonar veraldarhálfviti er maðurinn;hefur hann aldrei heyrt talað um aurbleytu.  Hann getur bara mokað bílinn upp sjálfur“!

Veraldarinnar...  (forskeyti)  Forskeyti/upphrópun, notuð til að lýsa yfirgengilegri vanþóknun.  Á eftir fylgir vanalega kjarngott orð um gáfnafar, s.s. bjáni, hálfviti, vitleysingur eða annað í þeim stíl.

Veraldlegur (l)  Af þessum heimi.  Gagnstætt „andlegur“. 

Verandi (l)  Unandi; búandi við.  „Það er ekki verandi úti í þessum kulda nema vel dúðaður“.

Verandi að veiðum (orðtak)  Unnt að stunda veiðar.  „Það er ekki verandi að veiðum í svona typpingi“.

Verbúð / Vermannabúð (n, kvk)  Íveruhús vermanna yfir vertíðina.  Vermannabúð er eldra í málinu og fyrir nokkru komið úr notkun.  Aðkomumenn bjuggu allir í verbúðum, en í Kollsvík áttu heimamenn einnig sínar  búðir og bjuggu þeir í þeim sem reru á vertíðinni.  Þeim var færður matur heimanað en aðkomumenn komu með skrínukost
Eftirfarandi lýsing byggist á frásögn KJK (Kollsvíkurver); mælingum ot teikningu GnÖ og ÖG (Lesbók Þjóðviljans 1968) og teikningu og heimildaöflun Torfa Jónssonar (skilti við Kollsvíkurver):
Uppsátrið í Kollsvíkurveri er í allbreiðum bás, milli tveggja kletta; Syðrikletta og Norðarikletta.. Upp af þessum sandbás stóð meginfjöldi verbúðanna; uppi á og vestan og norðan í allstórum sandhól er þar hafði myndast.  Ekki voru þær skipulega settar.  Uppi á hólnum stóðu þrjár búðir í beinni röð og sneru dyr móti suðvestri. Sú stærsta var í miðju og hét Heimamannabúð; var búð annars bóndans í Kollsvík og þar voru tvær skipshafnir.  Norðan hennar var búð Helga Árnasonar (1920-1934) og sunnan Heimamannabúðar var Hildarbúð, en í henni var síðastur Helgi Árnason (1935-1939).  Sunnan við Hildarbúð var Kúlureitur (hinn syðri) og lengra til suðurs stóð ein verbúð og var hún kölluð Eva.  Hún var búð Ólafs Guðbjartssonar frá Hænuvík (1903-23) og síðar heilsárshús Magnúsar Jónssonar til 1931.  Við norðurhlið Evu var fiskhjallur eða geymsluhús sem Adam var nefndur.  Þar suðvestur hjá er reitur en þar stóð áður búðin Sódóma (nú horfin).  Fjórar búðir stóðu vestan í hólnum.  Var að nokkru leyti grafið fyrir þeim inn í hólinn.  Vissu dyr á þeim einnig gegnt vestri og að Syðrilæk.  Syðst og minnst þeirra var búð Gestar Jósefssonar og síðar Guðmundar og Helga sona hans.  Í miðju var búð Karls Kristjánssonar og síðar Andrésar sonar hans en Andrés gerði síðastur út frá Kollsvíkurveru árið 1949.  Nyrst þessara þriggja búða var búð Jóns Ívarssonar (1918-24) (horfin að hluta).  Vestan Syrilækjar voru þrjár saltfiskkrær hlið við hlið, sem áttu Grímur Árnason, Andrés Karlsson og Guðbjartur Guðbjartsson.  Framanvið þær voru ruðningar þar sem gert var að aflanum.  Aftan (vestan) þeirra var búð Gríms Árnasonar (u.þ.b. 1929-40) og lítil búð við suðurgafl hennar (nú horfin).   Norðanvert í hólnum stóðu fjórar verbúðir; tvær og tvær saman(nú horfnar utan ein), en milli þeirra var allstórt bátanaust.  Þar hafði vetrarskjól Fönix, teinæringur allstór, sem var hákarlaskip Kollvíkinga; einnig notaður að sumrinu til skreiðar- og vöruflutninga.  Naustið féll þegar eldri Fönix leið undir lok, en var byggt upp að nýju þegar vélbáturinn Fönix síðari var keyptur.  Var það um 3ja lesta bátur; einkum ætlaður til flutninga.  Norðasta búðin var búð Þórarins Bjarnasonar, og við hlið hennar búð Gríms Árnasonar.  Hinumegin við Fönixarnaustið, og nær því, var búð Gísla Guðbjartssonar og við hlið hennar búð Árna Magnússonar.  Vissu dyr þessara fimm húsa til norðvesturs; að sjó.  Sunnanvið þær var Láganúpsbúð Guðbjarts Guðbjartssonar og Ólafs Halldórssonar (1905-45),.  Hún var nokkuð stór og sneri dyrum að Syðrilæk eða í suðvestur. 
Við Búðalækinn var raðað saltfiskkróm beggja vegna og voru aðgerðarruðningar framan við þær.  Sex voru á syðri bakkanum og má enn sjá krær Árna Magnússonar og Össurar Guðbjartssonar þar ofarlega.  Sjö voru á norðurbakkanum og sjást þar enn krær Kristjáns Ásbjörnssonar, Jóns Torfasonar og Helga Árnasonar, en hinar neðri eru horfnar undir sand.  Syðst á Norðariklettunum stóðu fjórar verbúðir og eitt fjárhús í einni hvirfingu.  Á klettshorninu stóð fjárhúsið, en til hliðar við það á aðra hönd tvær verbúðir.  Sneru dyr gegn suðvestri, en skammt frá dyrum var brattur sand- og moldarbakki er hallaði niður að Búðarlæknum.  Búðin nær fjárhúsunum var Grundarbúð, en þar var Kristján Ásbjörnsson og síðar Kristján Júlíus Kristjánsson (1900-39).  Við hlið hennar var búð Jóns Torfasonar í Kollsvík (1930-44).  Bakvið bjárhúsið stóð verbúð; sneri hlið að gafli fjárhússins og dyrum gegnt norðvestri. Hún hét Klettabúð og þar höfðu aðsetur Barðstrendingar; Gísli Gíslason og fleiri.  Fjórða verbúðin stóð bakvið hinar tvær fyrrnefndu búðir og sneri hlið að göflum þeirra og dyr gegnt suðaustri; stóð hún einnig nokkuð hærra en þær.  Hún hét Lambabúð, og þar lá við Guðbjartur Torfason (1920-30).    Austanvið Klettabúð er hár þurrkreitur sem nefnist Kúlureitur (hinn norðari).  Á norðurhorni Norðarikletta var enn ein verbúðahvirfing; fjórar búðir.  Hin syðsta þeirra var allstór og nefndist Napandi (Napi).  Hún sneri stöfnum í norðvestur og suðaustur, en dyr á miðri hlið; gegnt suðvestri.  Var það búð Árna Dagbjartssonar og Magnúsar Kristjánssonar á Hvalskeri.  Tvær búðir stóðu hlið við hlið meðfram norðausturenda hinnar fyrstnefndu, og voru dyr á stöfnum þeirra er sneru í suðaustur.  Sú syðri var búð Þorgríms og Sæmundar Ólafssona og fleiri Barðstrendinga en hin var búð Magnúsar Árnasonar, Hnjóti. Sú fjórða , sem nefndist Norðurpóllinn, er nú horfin.  Hún var staðsett þannig að annar hliðarlveggur vissi að göflum hinna tveggja síðastnefndu, en gafl að norðvesturenda hinnar fyrstnefndu.  Dyr þessarar búðar sneru í austnorður.  Norðurpóllinn var búð Ólafs Péturssonar, Sellátranesi.  Skipshafnir frá þessum verbúðum, sem voru 5 (tvær í Napanda), höfðu athafnasvæði; ruðninga og söltunarkrær, meðfram læk er var skamman spöl norðanvið Norðarikletta og hét Breiðilækur. Á milli Napanda og Klettabúðar var langur þurrkreitur á brún Norðarikletta.  Á honum miðjum var leiðarmerki fyrir Miðleiðina inn á Lægið; milli Bjarnarklakks og Miðklakks.  Það átti að bera í Leiðarhjalla í Hæðinni.  Sunnan Búðalæks, nokkru frá bakkanum og spölkorn ofanvið saltfiskkrærnar, var Salthúsið.  Beint suður af því og austur af Kúlureit (hinum syðri) var Brunnhúsið.  Víða voru þurrkreitir fyrir saltfisk og bein, sem enn má sjá.  Tveir eru á Syðriklettunum; fjórir austan Syðrilækjar og þrír á Norðariklettum.  Sjá má fjölda þurrkgarða  og nokkru færri hrýgjugarða, en auk þess eru á nokkrum stöðum undirstöður steinbítshjallstólpa.
Fleiri búðir fengu sérheiti um stundarsakir, eða sem tolldu ekki við þær nema skamma hríð.  Má þar nefna Jerúsalem, Jeríkó, Gómorra, Rifskinna, Stórabúð, Meinþröng, Þórarinsbúð , Lambabúð (annað heiti Grundarbúðar) og Kaldakinn (annað heiti Napanda). 

„Þegar komið var í verið var fyrsta verkið að búða sig:  Hreinsa búðirnar; tjalda veggi uppaf rúmstæðum (þótt sumir létu það ógert), búa um rúmin; koma fyrir matarskrínum og eldunartækjum og bera hreinan og þurran skeljasand á gólfin.  Trégólf var í engri búð í Kollsvíkurveri“ (KJK; Kollsvíkurver).
„Verbúðir í Víkum, Breiðuvík og Kollsvík, voru mjög svipaðar (og Hagamannabúð á Látrum, sem er 5,7x2,5 m að innanmáli; með mæniás; tréárefti; helluþaki og torfi; dyrum í sjávarátt og litlum gluggum sinnhvorumegin við gaflhlað) að öðru leyti en því að dyr voru ýmist á hliðarvegg eða gafli, og eftir því fór skipan rúmstæða í búðinni.  Þunnt torf sem haft var til þéttingar á veggjum var þarna kallað tór.  Innra vegglagið, sem alfarið var úr grjóti, átti að dragast saman að ofan og neðan en bunga út um miðjuna.  Í þaki voru sperrur og langbönd; þar ofan á lagðar skaraðar hellur og þess gætt að hafa þær skástu þeim megin sem meiri rigningar var von.  Alveg uppi undir mæni voru minni hellur, sem látnar voru ná lítið eitt uppfyrir hann regnhliðarmegin, en á hina hliðina gengu þær upp undir mæninn.  Tyrft var yfir hellurnar.  Sumar yngstu búðirnar voru með járnþaki og torfi, en helluþökin þóttu hlýrri.  Fyrrum var tveggja rúðna gluggi á öðrum gafli, en síðar á báðum.  Það bar við að vermenn höfðu með sér einnar rúðu glugga og settu hann fyrir ofan rúm sín, aðallega þó formenn svo þeir gætu gáð til veðurs án þess að fara út.  Um 1880 var aðeins ein búð í Kollsvík með skjáglugga.  Dyr voru oftast á þeirri hlið er vissi til sjávar.  Þær voru lágar; karmar og hurðir úr óplægðum viði, eða hvalbein sem haft var yfir dyrum.  Búð sem hýsti 4-5 manna áhöfn var 2-2,5 m á breidd, en lengdin var sem því svaraði að vinstra megin dyra kæmist fyrir eitt rúm, en hins vegar rúmlengd og rúmbreidd fyrir gafli.  Rúmin voru þannig að rúmstokkur, fjöl, var fyrir framan, en við báða enda hennar rúmstuðull er nefndur var uppstandari ef hann náði upp í sperru.  Við báða enda rúmstokksins lá fjöl eða kefli lárétt í vegginn; rúmmarinn.  Búðareigandi lagði til rúmstokk, rúmstuðul og rúmmara.  Rúmbotnar voru víðast hvar riðnir úr snæri, reyndar þekktust einnig trébotnar.  Moldargólf var í öllum búðunum, en ætíð þakið sandi; oftast ljósum.  Eftir 1900 var farið að þilja veggina eða látið nægja að tjalda þá innan með striga.  Ein skipshöfn, 6-8 menn, var í hverri búð, en ef áhöfnin var 4-5 menn voru tvær í stærstu búðunum.  Þessum búðum fylgdi kró eða kofi til að elda í.  En síðar komu til sögunnar olíuvélar og prímusar; á þeim var eldað inni í búðunum“  (LK;  Ísl. sjávarhættir II; frás. ÓETh og KJK).
„Þetta voru nú engar hallir, héldu hvorki vindi né vatni, mér er til efs að nokkur nútímamaður trúi því hvernig aðbúnaður var hjá vermönnum í þá daga, þetta var vorið 1923“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 
Ýmist var hvort mæniás var í húsum Víknamanna, eða skammbitar  Skammbitar komu á um miðjan sperrulegg; sperrurnar voru blaðaðar saman í toppinn og laski þar.  Sperrurnar hölluðu þá ívið meira, og stóðu sperrufæturnir oft niður á vegglægju; bita semvar láréttur ofaná innanverðri veggbrún.
Oft voru fjárhús við fjöruna til að nýta sem best fjörubeit að vetrum.  Þannig var í Útvíkum; t.d. voru fjárhús bæði í Láganúpsfjöru og í Kollsvíkurveri.  Þessi fjárhús voru notuð fyrir verbúðir.   (Sjá Kollsvíkurver).

Verbúðarbygging (n, kvk)  Bygging verbúðar.  „Súgfirðingar fengu Kollsvíkinginn Valdimar Össurarson til að leiðbeina sér við verbúðarbyggingu í Keravík árið 2016“.

Verbúðatótt (n, kvk)  Tótt/veggjaleifar af verbúð.  Verbúðatóttir eru víða greinilegar í gömlum verum, t.d. í Kollsvík.  Til skamms tíma mátti sjá tóttir ofan Rifsins, svonefndar Oddatóttir, en þær sjást ekki lengur.  Ekkert sér núna af verbúðatóttum í hinu mikla Láganúpsveri, en þar stóðu uppi 18 búðir árið 1703.

Verð (n, hk)  Andvirði/verðgildi vöru; það sem vara eða annað kostar. 

Verða (s)  A.  Gerast.  „Ég ætlaði mér að verða flugmaður þegar ég var á barnsaldri“.  B.  Hljóta; vera tilneyddur.  „Þú verður bara að harka þetta af þér“!

Verða að (orðtak)  Verða að ósk sinni; fá sína ósk uppfyllta; njóta.  „Mér verður líklega ekki að því að koma þessu máli í höfn“.  „Verði þér að því“! (Andsvar við þakkarávarpi).

Verða að aldurtila / Verða að fjörtjóni (orðtak)  Valda dauða; vera orsök dauðaslyss.  „Aldrei varð fullljóst hvað orðið hefði honum að aldurtila“.  „Talið var að þeir hafi siglt of nálægt Blakknum í hríðarkófinu og það hafi orðið þeim að fjörtjóni“.  Sjá aldurtili.

Verða að athlægi (orðtak)  Þykja hlægilegur/fáránlegur.  „Hann vildi ekki verða að athlægi hjá félögunum“.

Verða (einhverjum) að aldurtila/bana (orðtak)  Orsaka andlát/dauða einhvers:; myrða einhvern; ráða einhverjum bana.  „Bjarni og Steinunn á Sjöundá voru dæmd fyrir að verða mökum sínum að bana“.  „Enn veit enginn hvað varð honum að bana“.

Verða að bíta í það súra epli (orðtak)  Verða að sætta sig við, þó slæmt þyki.  „Ætli maður verði ekki bara að bíta í það súra epli að hrúturinn hafi hrapað“.  Sjá bíta í það súra epli.

Verða (einhverjum) að fótakefli (orðtak)  Verða fjötur um fót; verða til hindrunar/trafala.  „Þessi fötlun varð honum dálítið að fótakefli“.  Fótakefli er hnallur/slá sem bundinn var um háls nautgripa til að torvelda þeim hlaup/strok.

Verða að gjalti (orðtak)  Verða mjög hræddur/feiminn/auðmjúkur.  Líking um járnfroðu sem myndast við járnsmíðar/járnsuðu, en styrkur hennar er lítill samanborið við járnið.

Verða að liði (orðtak)  Hjálpa til; veita aðstoð; vera hjálplegur.  „Mér þótti vænt um að geta orðið þeim að einhverju liði í þessum erfiðleikum“.

Verða að manni (orðtak)  Mannast; fullorðnast; verða nýtilegur maður/þegn.  „Ætlar þessi æringi og hrekkjalómur aldrei að verða að manni“?!

Verða að meini / Verða til meins (orðtak)  Verða mikill bagi/ mikið vandamál; verða til tjóns; valda skaða.  „Ég held að þessi bylta hafi ekki orðið mér að miklu meini“.  Mein merkir þarna svöðusár/líkamstjón.

Verða að fjörtjóni (orðtak)  Valda dauða.  „Talið er að veður hafi ekki orðið honum að fjörtjóni, heldur muni hann hafa veikst“ (AÍ; Árb.Barð 1980-90).

Verða að gjalti (orðtak)  Skammast sín mikið; verða mjög feiminn. 

Verða að orði (orðtak)  Hrjóta af munni; segja óvart.  „Mér varð það að orði að nú væru þeir endanlega búnir að glata glórunni“.

Verða að ósk sinni (orðtak)  Fá sínu framgengt; fá það sem maður óskar eftir. 

Verða að ráði/samkomulagi (orðtak)  Verða niðurstaða/lausn.  „Eftir að hafa rætt þetta nokkra stund varð það að ráði að ég gisti hjá þeim yfir nóttina, og hann kom með mér morguninn eftir“.  „Liði kærði sig að minnsta kosti ekki um að taka lambskrokkinn með sér heim að Látrum og varð að samkomulagi að Gummi nýtti hann“  (PG; Veðmálið). 

Verða að sitja og standa eins og (eihver) vill (orðtak)  Vera tilneyddur að fara að vilja einhvers; vera kúgaður.

Verða aðnjótandi (orðtak)  Fá að njóta; hlotnast. „Árið 1908 var umsetning félagsins ekki nema 5 þúsund krónur, því að aðrir gátu ekki orðið aðnjótandi viðskiptanna en þeir er vörur högfðu að leggja inn fyrirfram “  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).  „Þetta er okkur, sem urðum þess aðnjótandi, svo ógleymanlegt að enn þann dag í dag, þegar maður lítur yfir allar þær gjafir sem börnin fá; dettur manni þetta atvik í hug, og hvort þau séu nokkuð ánægðari en við vorum þá“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Verða af (einhverju) (orðtak)  A.  Missa af einhverju; ná ekki einhverju.  „Krummi var fyrri til að ná beininu, svo Skotta varð af því í þetta sinn“.  B.  Gerast ekki.  „Það verður ekkert af róðrum á morgun ef spáin gengur eftir“.  C.  Um tilvist.  „Ég veit ekkert hvað varð af þessari bók; hún virðist alveg vera horfin“.

Verða á í messunni  / Verða á (orðtök)  Gera mistök; gera feil.  „Mér varð líklega eitthvað á í messunni þegar ég setti bréfin í umslög:  Þú hefur kannski fengið skammarbréfið sem skattstjórinn átti að fá“.  „Verða á“ merkir í raun að „verða fyrir“; „lenda í“; að eitthvað komi óvænt á mann, t.d. árás eða steinn úr fjalli.

Verða á leið/vegi (einhvers) (orðtak)  Hitta einhvern fyrir; ganga framá einhvern.  „Ég tók það fé með sem varð á vegi mínum“.

Verða á milli (orðtak)  Klemmast.  „Gættu þess að verða ekki á milli þegar ég bakka vagninum að hlöðunni“!

Verða ágengt (orðtak)  Miða áfram; ná árangri.  „Honum varð víst lítið ágengt í atkvæðaveiðum á þeim bæ“!

Verða áskynja um (orðtak)  Komast að; fá veður/pata af; frétta.  „Ég varð áskynja um þessar fyrirætlanir og fór að blanda mér í málið“.

Verða ber að / Verða uppvís að (orðtök)  Vera afhjúpaður, t.d. sem lygari eða þjófur.  „Hann varð ber að ósannindum í bókinni“.  „Þeir sögðu hann uppvísan að þjófnaði, en það átti sér þó eðlilegar skýringar“.

Verða bilt við (orðtak)  Hrökkva við; bregða.  „Mér varð svo bilt við að ég rak upp óp“.

Verða brátt (í brók) (orðtak)  Þurfa skyndilega að kúka/skíta; hlaupa á.  „Honum varð brátt í brók og hljóp hér á bak við steininn“.  „Það er klósett á staðnum ef einhverjum verður brátt“.

Verða eftir (orðtak)  Fara ekki með; gleymast.  „Húfan mín varð eftir í bílnum“.

Verða einskis vísari (orðtak)  Komast ekki að neinu; sjá ekkert athyglisvert.  „Fór þá Sigurður að svipast eitthvað eftir honum en varð einskis vísari“  (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Verða ekkert/lítið úr verki (orðtak)  Koma engu/litlu í verk, t.d. vegna truflunar.  „Manni verður ekkert úr verki með svona frátöfum“!

Verða ekki af kjöl komið (orðtak)  Um bát; mjög stöðugur.  „Við það hefur vafalaust styrkst sú trú að skektunni yrði ekki af kjöl komið á siglingu“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Verða ekki kápan úr því klæðinu (orðtak)  Takast ekki ætlunarverk; koma ekki sínu málefni/verki fram.  „Hann ætlaði að selja mér þetta á okurverði, en honum varð ekki kápan úr því klæðinu“!

Verða ekki skotaskuld úr (orðtak)  Hafa ekki mikið fyrir að koma í framkvæmd.  „Láttu mig bara hafa góða byssu, þá verður mér ekki skotaskuld úr því að hemja þennan túnrollufjanda“!  Skotaskuld er ógreidd skuld; þ.e. skuld sem skotist (yfirsést/trassast) hefur. 

Verða ekki/lítið svefnsamt (orðtak)  Geta ekki sofið vegna einhvers.  „Þessar hugsanir sóttu svo fast á mig að mér varð lítið svefnsamt þessa nótt“.

Verða ekki um sel (orðtak)  Verða hræddur/uggandi.  „Mér varð ekki um sel þegar bíllinn snerist á svellinu“.

Verða ekki var (orðtak)  Fá ekki fisk á skakveiðum; verða ekki var við fisk á miðum.  „Við köstum færi á Stekkunum en verðum ekki varir; þá er að dýpka sig meira“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Verða felmt/hverft við (orðtök)  Verða skelfdur; bregða; hrökkva við.  „Mér varð hverft við þegar hann birtist allt í einu í dyrunum“.

Verða fljótt/snöggt/brátt um (orðtak)  Deyja skyndilega.  „Það varð nokkuð snöggt um hann, karlangann; hann varð víst bráðkvaddur við sláttinn“. 

Verða flökurt/bumbult/umbult (orðtök)  Klígja; vera með velgju; fá ælutilfinningu. 

Verða fyrir aðkasti (orðtak)  Sæta ákúrum/ofsóknum/hrakyrðum/skömmum; verða fyrir árásum af einhverju tagi.  „Karlinn varð fyrir nokkru aðkasti sveitungnna fyrir þetta glappaskot“.

Verða fyrir barðinu á (orðtak)  Bíða skaða af; finna fyrir.  „Það er hætt við að varpfuglar verði illa fyrir barðinu á þessu hreti“.  Barð er hér skipsstefni, og líkingin vísar til ásiglingar; e.t.v. í orrustu.

Verða fyrir styggð (orðtak)  Styggjast; hrökkva við / taka á rás vegna truflunar.  „Féð hlýtur að hafa orðið fyrir einhverri styggð fyrst það kemur heim á spretti“.

Verða fyrir svörum (orðtak)  Svara; veljast til svars.  „Ég varð fyrir svörum og þverneitaði því að þarna hefði nokkur kind verið“.

Verða fyrri til (bragðs) (orðtak)  Verða á undan.  „Ég teygði mig í hákarlsbitann, en hann varð fyrri til“.

Verða fyrst fyrir (orðtak)  Gera fyrst; grípa fyrst til.  „Mér verður fyrst fyrir að líta um öxl, til að sjá hvað hinum liði“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  „Mér varð fyrst fyrir að hrópa á hjálp, en sá fljótt framá að engin minnstu líkindi væru til björgunar…“ (Júl. Reynir Ívarsson; Maður og kindur í ísvök; Lesb.Tímans). 

Verða gott af (orðtak)  Um mataræði; fá ekki slæmsku í maga.  „Ekki veit ég hvort manni verður gott af að borða meiri hákarl, en það þarf stundum að gera fleira en gott þykir“!  Sjá einnig; „honum/þeim gott af“.

Verða hart úti/leikinn (orðtak)  Bíða tjón af; lenda illa í.  „Sveitirnar urðu hart úti við kvótasetningar til sjós og lands“.

Verða hált á (orðtak)  Fara flatt á; verða að fótakefli; fara illa á.  „Honum varð hált á því að treysta þessum óljósu loforðum um endurgreiðslu“.

Verða heil (orðtak)  A.  Batna eftir veikindi; slys.  B.  Losna við hildir eftir burð.  „Þarna var ær nýborin í melaskarðinu og ekki orðin heil“.

Verða hugsað til (orðtak)  Koma í huga; leiða hugann að.  „Ég ætalaði að fara að fleygja þessu en varð þá hugsað til að kannski væri gott að grípa til þess ef það nýja bilaði“.

Verða bilt/hverft við (orðtök)  Bregða; fá sokk.  „Mér varð svo hverft við þegar hann snýtti sér að ég missti framaf prjóninum“!

Verða hughvarf (orðtak)  Skipta um skoðun; hætta við það sem fyrr var ætlað/ákveðið.  „Okkur varð fljótt hughvarf þegar við komum nær landi; þarna var töluverður súgur og ólendandi með öllu“.

Verða höndum seinni (orðtak)  Vera ekki alveg nógu fljótur/snar; átta sig ekki tímanlega  „Ég varð höndum seinni að grípa eggjafötuna áður en hún valt framaf“.  „Ég varð höndum seinni að koma ífærunni í lúðuna“.

Verða illa úti (orðtak)  Fara illa útúr; verða hart leikinn; lenda illa í.

Verða jafngóður (orðtak)  Batna eftir veikindi eða slys; ná sér; jafna sig; skríða saman.  „Tókst honum að komast upp á brún og varð jafngóður sára sinna“  (MG;  Látrabjarg).

Verða léttari (orðtak)  Fæða barn. 

Verða litið (orðtak)  Líta; sjá.  „Nú varð öllum litið út á Víkina.  Litlum báti sást skjóta þar upp á öldufald nokkuð fyrir framan leiðina“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   „Þá varð mér litið upp í fjöruna“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Verða lítið úr (einhverju) (orðtak)  Nýtast eitthvað illa; hafa ekki fullt gagn af einhverju.  „Mér verður lítið úr þessum eggjum nema þið þiggið eitthvað af þeim“.

Verða lítið/ekkert úr verki (orðtak)  Vinnast illa/ódrjúgt; sækjast seint.  „Það er hætt við að okkur verði lítið úr verki ef við kjöftum frá okkur allt vit“.  „Manni verður minna úr útiverkunum yfir svartasta skammdegið“.

Verða matur úr öllu (orðtak)  Geta gert mat úr litlu/ nánast hverju sem er.  „Aldrei varð matarþurrð á Láganúpsheimilinu í mínu minni, þó ekki væru efnin alltaf mikil, enda varð mömmu matur úr öllu.  Og hafði einstakt lag á að gera mat girnilegan og saðsaman“ (VÖ).

Verða meint af (orðtak)  Fá slæmsku af; verða veikur af.  „Menn hafa étið mör, smér og aðra fitu svo lengi sem þjóðin hefur lifað í landinu, og engum orðið meint af því“.

Verða mikið um (orðtak)  Verða hverft við; komast í uppnám; æsast.  „Mér varð svo mikið um þetta að ég mátti varla mæla“.

Verða ofaná (orðtak)  Verða fyrir valinu; verða það sem er ákveðið.  „Við diskúteruðum þetta fram og til baka, og það varð ofaná að láta sjá hvernig sjóveðrið yrði með morgninum“.

Verða orðfall (orðtak)  Koma ekki upp orði; eiga ekki orð; verða mjög brugðið/hissa.  „Mér varð orðfall af undrun þegar hann sagði mér frá þessu“. 

Verða óglatt (orðtak)  Fá ælutilfinningu/velgju; þurfa að æla.  „Ég er ekki vanur að verða sjóveikur, en nú er mér að verða dálítið óglatt“.

Verða ókvæða við (orðtak)  Bregðast við með blóti/skömmum.  „Hann varð ókvæða við þegar hann sá að ekið hafði verið á lambið án þess að gera viðvart eða aflífa það“.

Verða ráðafátt/úrræðalaus (orðtak)  Verða án úrræða; vita ekki hvað skal gera.  „Aldrei mun þér orkufátt,/ eigi heldur ráða;/ stóra og marga eftir átt/ orrasennu háða“ (JR; Rósarímur). 

Verða reisa (l) Um kind; geta ekki staðið upp vegna máttleysis/vannæringar.  „Fé í Kollsvík gat yfirleitt gengið úti í haga- eða fjörubeit þó fóður væru mismikil, og engum sögum fór af því að kindur yrðu þar reisa úr hor“.

Verða sér til minnkunar/skammar (orðtak)  Gera sér skömm til; segja/gera eitthvað sem er skammarlegt.  „Ég ætla ekki að verða mér til skammar með því að fara í þessum lörfum á mannamót“!  „Svo fór líka í þetta skiptið, að Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum og sá ástæðu til að veita honum tiltal út af því“  (PG; Veðmálið). 

Verða sér úti um (orðtak)  Fá sér; koma sér upp; ná sér í.  „Ég þarf að verða mér úti um þessa bók“.

Verða skrafdrjúgt (orðtak)  Þurfa mikið að ræða; hafa þörf fyrir að tala/slúðra.  „Mörgum í sveitinn varð skrafdrjúgt um þessa atburði, og sitt sýndist hverjum“.

Verða snöggt um (orðtak)  Deyja án aðdraganda; látast skyndilega.  „Það varð nokkuð snöggt um hann.  Ég held hann hafi fengið hjartaáfall“.

Verða starsýnt á (eitthvað) (orðtak)  Stara lengi og ákveðið á eitthvað.  „Mörgum varð starsýnt á þennan nýja höfuðbúnað hennar“

Verða sundurorða (orðtak)  Lenda í deilum; verða upp á kant.  „Þeim varð eitthvað sundurorða og töluðust ekki við á landstíminu“.

Verða til (orðtak)  A.  Láta lífið; bera beinin; daga uppi.  „Fyrir kom að fé hraktist niður í Sandhelli undan ofsaveðri og varð þar til er skafl lokaði ganginum“.  „Almennt var álitið að sauðamaðurinn hefði haldið of lengi til með sauðina í fjöru, og orðið þar til við að reyna að bjarga þeim upp á ísmóð“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Þetta síðasta sumar var votviðrasamt svo varla er munað annað eins jafnlengi.  Hey urðu að mestu öll hrakin og urðu sumstaðar til á túnum“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1955).  B.  Gera.  „Ég ætla ekki að verða fyrstur til þess að brjóta þessa hefð“.  C.  Skapast; myndast.  „Hellirinn kann að hafa orðið til við það að hraun rann yfir jarðveg eða gjósku, sem síðan skolaðist út þegar jarðlagastaflinn rofnaði“.

Verða til þess (orðtak)  Leiða til þess; hafa þær afleiðingar; orsaka.  „Þetta varð til þess að ég hætti við“.

Verða tíðrætt um (orðtak)  Færa oft í tal; tala endurtekið um.  „Mönnum varð nokkuð tíðrætt um þessa atburði“.

Verða tvísaga (orðtak)  Segja frá/ útskýra á tvennan hátt; vera ekki samkvæmur sjálfum sér.  „Mér finnst hann hafi orðið tvísaga í þessum efnum; maður veit ekki hverju maður á að trúa“.

Verða um (orðtak)  A.  Verða af; hverfa til.  „Ég veit ekkert hvað hefur orðið um rollufjandann; hún hjóp eins og fála uppaf brúninni“!  B.  Skelfast; bregða; fyllast ógn.  „Mér varð svo mikið um þegar ég heyrði þetta að ég varð að setjast niður og jafna mig“. 

Verða undir (orðtak)  Bíða lægri hlut; vera hafður undir í viðureign.  „Ég varð undir í formannskosningunni“.

Verða uppi á teningnum (orðtak)  Vera ákveðið; verða það sem valið er að gera.  „Við ræddum alla möguleikana í stöðunni, og það varð uppi á teningnum að ég gengi út að Nesi til að athuga hvort þar væri til bensínlögg til að lána okkur“.  Vísar til þess að teningur sé látinn ráða ákvörðun.

Verða uppi fótur og fit (orðtak)  Verða uppnám; upphefjast læti.  „Það varð uppi fótur og fit í hænsnakofanum þegar kötturinn laumaði sér inn“.

Verða uppvís að (orðtak)  Sýna sig að; hafa í frammi; komast upp um.  „Fljótlega eftir þetta varð Einar uppvís að fjárdrætti frá sjóðum sýslunnar og var allt af honum tekið“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Verða úr (orðtak)  Rætast; raungerast; komast í verk.  „Ég veit ekki hvað verður úr þessum fyrirætlunum þeirra“.

Verða úti (orðtak)  Deyja vegna kulda/örmögnunar í slæmu veðri.  „Nokkrar sögur hef ég heyrt um menn sem höfðu orðið úti. Oftast var talið að fólk hafi ekki verið nógu vel búið, en þó var það ekki alltaf..  En illa hefur hún Vilborg verið klædd þegar hún varð úti í djúpri og krappri laut á Skersfjallinu. Til er saga um að hún hafi átt barn í óþökk samfélagsins. Var það tekið af henni og ráðstafað vestur á Sandi. Hún átti að hafa verið að heimsækja barn sitt um jólaleytið yfir Skersfjall en varð úti í Borgulág“  (SG; Náttúruhamfarir; Þjhd.Þjms).

Verða útundan (orðtak)  Um verkefni/málefni; gleymast; fara í útideyfu; fara niðurá milli.  „Þetta hefur alveg orðið útundan hjá mér; ég fer í það við fyrsta tækifæri“.

Verða (einhvers) valdandi (orðtak)  Valda einhverju; verða valdur að einhverju.  „Ekki vil ég verða þess valdandi að þú missir af ferðinni“.

Verða var (orðtak)  Um skakveiðar; byrja að fá fisk.  „...þegar þangað kom urðum við all vel varir við fisk og hélst sú viðkoma fram eftir degi...“  (ÖG; Fiskiróður).  „Við flengdum um allan sjó og urðum hvergi varir“.  „Ég verð var og fæ minn Maríufisk.  Hann á að gefa í Guðskistuna samkvæmt þjóðtrúnni“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Verða var við (orðtak)  Taka eftir.  „Það var föst venja hjá þeim, ef þau urðu vör við okkur fara hjá, að koma niður að girðingu til okkar og gefa okkur kandís... “  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Verða við (einhverju) (orðtak)  Samþykkja eitthvað.  „Hann taldi sig ekki geta orðið við þessari beiðni“.  „Hreppsnefndin varð vel við og tilnefndi yfirskoðunarmenn Ívar Halldórsson og Magnús Sveinsson“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943). 

Verða viðskila við (orðtak)  Skiljast/villast frá.  „Aftur snerist skipið, og urðu þeir þá viðskila við það, Þorbjörn og Guðmundur formaður“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Verða (einhvers) áskynja/var (orðtak)  Verða var við eitthvað; skynja; komast að.  „Fyrsta atvik ævi minnar sem ég man glöggt eftir gerðist þann 4. ágúst 1930.  Að morgni þess dags varð ég þess var að móðir mín var ekki í því rúmi sem hún var vön að vera.  Ennfremur varð ég þess var að komin var ljósmóðir sveitarinnar, Ólafía Egilsdóttir á Hnjóti“  (ÖG; Úr fórum ÖG).

Verða (einhvers) vísari (orðtak)  Fá vitneskju um eitthvað; verða fróðari; komast á snoðir um eitthvað.  „Ég spurði hann, en varð engu vísari um þetta“.

Verða það fyrst fyrir (orðtak)  Byrja fyrst á; grípa fyrst til þess.  „Varð honum það þá fyrir, að hann þreif gogg er þar lá; sló borði út, og minnkaði lekinn nokkuð við það“  (ÖG; Þokuróður).

Verða (einhverjum) þungur í skauti (orðtak)  Verða (einhverjum) þungbær/erfiður.  „Þessi snjóavetur varð mörgum bændum þungur í skauti; einkum þeim sem létt högðu heyjað“.  Orðtakið vísar til þess að bera þunga byrði í fanginu; þ.e. í skauti sér.

Verðandi (l)  Sem verður; sem er að verða.  „Hún er víst verðandi húsmóðir þar á bæ“.

Verðbólga (n, kvk)  Þensla og keðjuverkun í hagkerfi af hennar völdum, með þeim áhrifum m.a. að gjaldmiðill lækkar í verði.

Verðbólgudraugur (n, kk)  Hræðsla við verðbólgu; birtingarmyndir verðbólgu.

Verðbréf (n, hk)  Skjal sem sannar fjármunarétt/kröfu handhafa/eiganda.  T.d. skuldabréf, víxill eða hlutabréf.

Verði gott af (orðtak)  Ýmist notað sem upphrópun eða kurteisisandsvar; verði að góðu.  „Eru þeir að stelast á Langurðirnar? Já, verði þeim bara gott af; við fórum þarna um í gær og hreinsuðum þær þokkalega vel“!  „Ekkert að þakka; veði þér bara gott af“.

Verði mér aldrei verra við (orðatiltæki)  Vonandi bregður mér aldrei meira en nú; vonandi fæ ég aldrei svona slæmar fréttir.

Verði þér að góðu! / Verði þér að því! (orðtök)  Andsvar gestgjafa þegar einhver þakkar fyrir sig/ mat sinn.

Verðlag (n, hk)  Verðlagning; verðskrá; virðismat.

Verðlaun (n, hk, fto)  A.  Skotlaun fyrir að vinna á ref, mink eða vargfugl.  Þetta var algengasta notkun orðsins vestra á síðari hluta 20. aldar.  Verðlaun voru greidd af oddvita úr hreppssjóði, en að hluta endurgreidd af ríkissjóði.  Til sönnunar þurftu menn að leggja fram skott af mink og ref, en væng af máfi.  B.  Medalía eða önnur viðurkenning fyrir góða frammistöðu.  „Árið 2011 varð Kollsvíkingur fyrsti Íslendingurinn til að fá gullverðlaun IFIA, Alþjóðasamtaka hugvitsmannafélaga“ fyrir bestu uppfinningu heims það árið.  Það var fyrsti íslenski hverfillinn“.

Verðmætur (l)  A.  Dýr; sem kostar mikið; sem hefur hátt verðgildi.  B.  Sem er manni kær.  „Minningarnar verða manni verðmætari eftir því sem árin líða“.

Verðskulda (s)  Eiga skilið; vera virði.  „Ég held að við verðskuldum bara vel útilátið kaffi eftir þetta puð“!

Verðugur (l)  Verðskuldaður; sem verðskuldar.  „Ekki veit ég hvort hann er verðugur þessa hróss; þegar allt er lagt svona upp í hendurnar á honum“.

Verðugur er sá gott að þiggja sem vel þakkar (orðatiltæki)  Sá á skilið gjafir sem kann að þakka fyrir sig.

Verður (n, kk)  Máltíð; matur.  S.s. Morgunverður; kvöldverður.

Verður (l)  Maklegur; sem verðskuldar.  „Ég held að ég sé ekki þessa heiðurs verður“.

Verður aldrei/ekki/varla barn úr brók (orðtak)  Verður varla neitt úr; verður varla fullklárað/fullgert.  „Hann er að basla við bátasmíðins, en ég helda að þetta verði varla barn í brók“.

Verður ekki af honum skafið / Verður ekki frá honum tekið (orðtök)  Verður ekki á móti mælt; hann má eiga það.  „Þetta er óttalegur jarðvöðull, en það verður ekki af honum skafið að duglegra kvikindi er erfitt að finna“.  „Alltaf er hann jafn séður í fjármálunum; það verður ekki frá honum tekið“.

Verður ekki aftur tekið (orðtak)  Er óafturkallanlegt; er endanlegt; dauðadómur.  „Fyrir alla muni farið nú varlega; það verður ekki aftur tekið ef einhverjum skrikar fótur í klettaslefrunum“.  „Þú heldur áfram en ferð varlega, því ógætilegt fótmál verður ekki aftur tekið“  (IG; Sagt til vegar I).  

Verður ekki á logið (orðtak)  Ekki unnt að ýkja um.  „Er hann aftur búinn að bjóta hrífuna?!  Ja, það verður ekki á hann logið með helvítis klaufaskapinn“!

Verður ekki umflúið (orðtak)  Verður ekki hjá komist; óhjákvæmilegt.  „Ég held að það verði ekki umflúið lengur að smíða nýjar grindur í karminn“.

Verður er verkamaðurinn launa sinna (orðatiltæki)  Sá á rétt á launum sem vinnur verkin. 

Verður seint oflaunað/ofmetið (orðtatiltæki)  Gjarnan notað í þakkarskyni.  „Það verður seint oflaunað“.

Verelsi (n, hk)  Herbergi.  Notað af ýmsum vestra frameftir 20. öld.  „Ég er farinn að sofa í nýja verelsinu sem þú sást...“  Frásögn Sveins Magnússonar, Lambavatni  (ÓG; Úr verbúðum í víking).

Verferðir (n, kvk, fto)  Ferðalög aðkomumanna til vers og frá veri áðurfyrr.  Til róðra í Útvíkum sóttu menn víða að.  Einkum voru það menn úr innanverðum Patreksfirði, Rauðasandi, Barðaströnd,Gufudalssveit og úr Vestureyjum Breiðafjarðar.  Báta sína fluttu menn gjarnan í ver nokkru fyrir byrjun vertíðar, og komu svo aftur í vertíðarbyrjun.  Þegar ferðast var landleiðina var farið um þá fjallvegi sem greiðfærastir voru og stystir í hverju tilfelli.  Til Kollsvíkur var mikið farið um Víknafjall af þeim sem komu austanað, en það er nokkru meira en þingmannaleið og talið sjö roðskóa heiði.  Um þær ferðir vitnar örnefnið Sunnmannalág, sem er laut þar sem Víknafjallsvegur kemur niður úr Skarðinu.  Þeir sem komu innanúr Firði fóru gjarnan út með Bæjum og yfir Hænuvíkurháls, eða yfir Tunguheiði.  „Í verstöðvum við Bjarg var algengt að vermenn flyttu færur sínar á hesti, sneru síðan við með hann heim, og kæmu aftur þegar róðrar áttu að byrja.  Hey sem vermenn þurftu að fá fyrir hesta sína á leið í verið var kallað áfóður“  (LK; Ísl sjávarhættir; ÓETh).  Að lokinni vertíð fóru vermenn hver til síns heima eftir sömu leiðum.  Þeir sem reru úr Breiðafirði reru bátum sínum heim, en aflinn var oftast sóttur á stærri bátum.  Barðstrendingar reru með afla sinn inn Patreksfjörð; settu báta sína upp til vetrargeymslu á Skeiðseyri og aflann þar á hrýgjugarða.  Þangað var hann síðan sóttur með hestum. 

Vergangsfólk (n, hk)  Fólk sem er á vergangi/ hefur flosnað upp vegna fátæktar og flakkar milli bæja í leit að lifsviðurværi.  „Hafís tálmaði ekki veiðum á syðri fjörðum, og raunar sjaldan til lengdar sunnan Straumness.  Afleiðingar eldgosa komu svo til ekkert niður á fólki vestur á fjörðum.  Jafnvel gætti þar ekki sjálfra Móðuharðindanna svo mjög að mein yrði að, nema hvað þá kom fleira vergangsfólk vestur en áður....“  (G.Hagalín; sonur bjargs og báru). 

Vergangur (n, kk)  Flakk fólks milli bæja í leit að lífsbjörg í hallærum og mannfellisárum.  „Vergangur nefnist svo vegna þess að fólk sem flosnað hafði upp af býlum þegar skepnur féllu fyrir beitar- og fóðurskort leitaði gjarnan í fiskiverin þar sem von var um lífsviðurværi úr hafinu.  Má nærri geta að í Kollsvíkurver og aðrar verstöðvar í Útvíkum hafi legið straumur fólks þegar óáran gekk yfir landið.  Líklega hafa verin verið einhverjar mestu flóttamannabúðir og hjálparmiðstöðvar landsins á fyrri tímum.  Sagan er þögul um það, enda var slíkt flakk á skjön við lög og rétt“.  Upprunalega var heitið „verðgangur“ og vísar til þess að ganga milli bæja og betla sér málsverð.

Vergirni (n, kvk)  Fíkn í samræði við karlmenn.  Ver er annað heiti á karlmanni.

Vergögn (n, hk, fto)  Hvaðeina sem þarf til löndunar og verkunar á fiski og veru vermanna í veri.  „Hverri búð fylgdu viss vergögn, en það voru grjótgarðar til þess að þurka steinbít, svo og grjótnámsréttindi, takmörkuð þó, að minnsta kosti ofan við flæðarmál“  (PJ; Barðstrendingabók).
„Fyrir vergögn urðu útvegsmenn að greiða landeigendum ákveðið gjald, sem nefnt var vertollur eða uppsátursgjald.  Það gat verið misjafnt eftir landshlutum og verstöðvum, og lék á ýmsu í hverskonar gjaldmiðli menn greiddu.  Algengast mun þó hafa verið lengi vel, að greitt væri í fiski“  (JÞÞ; Sjósókn og sjávarfang). 

Verhlutur (n, kk)  Skiptahlutur eftir vertíð.  „Svo voru verhlutirnir; aflahlutur hvers og eins úr þorskaflanum sem seldur var.  Skipt var í fimm hluti.  Hver háseti fékk einn hlut, en útgerðarmaður, sem oftast var jafnframt fomaður, tók tvo hluti fyrir sig og dauðan hlut fyrir bát og veiðarfæri.  Þessir hlutir voru ekki háir í krónutölu, enda verðlag í engu sambærilegt við það sem síðar hefur gerst“  (KJK; Kollsvíkurver).

Verja (n, kvk)  A.  Vörn; hlíf.  T.d. verja hermanns; „vopn og verjur“.  Verjur sjómanns eru sjóklæði hans.  B.  Smokkur; hlíf yfir getnaðarlim karlmanns til að varna getnaði og smiti við samfarir.

Verja (s)  A.  Halda uppi vörnum; varna einhverjum einhvers.  „Ég sigldi rólega í gegnum röstina og reyndi að verja bátinn áföllum“.  B.  Nota.  „Þú ákveður sjálfur hvernig þú vilt verja þínu fé“. 

Verja (bát) fyrir áföllum (orðtak)  Beita þeim úrræðum sem þarf til að bátur fái ekki á sig brotsjó eða fylli í slæmu sjólagi.  „… lét Guðmundur Þorsteinsson ksta út nokkru af aflanum til að létta bátinn og verja hann áföllum“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Verja hendur sínar (orðtak)  Verja sig; verjast atlögu.  „Mér fannst ég ekkert ókurteis á fundinum; maður hlýtur jú að mega verja hendur sínar“!

Verja með oddi og egg (orðtak)  Verja ötullega/ af krafti.  „Hann varði sitt mál með oddi og egg, svo andstæðingarnir fengu fáum rökum við komið“.

Verja sig (orðtak)  Um bát á sjó; verjast ágjöf.  „Þá var báran strax svo mikil að báturinn varði sig ekkert.  Þá tóku þeir það ráð að sigla og ætluðu að reyna að hitta á Kópinn...  (TÓ; upptaka á Íslmús 1978).

Verjandi (n, kk)  Sá sem heldur uppi vörnum í dómsmáli, jafnan löglærður maður.

Verjandi (l)  Sem unnt er að verja/ halda uppi vörnum fyrir.  „Mér finnst ekki verjandi að taka svona áhættu“.

Verjast (allra) frétta / Verjast tíðinda  (orðtak)  Forðast að segja fréttir; vilja ekkert segja.  „Viuð reyndum að spyrja hann út í málalokin en hann varðist allra frétta; sagði að við myndum fá að vita þetta nógu snemma“.

Verjast svefni (orðtak)  Halda aftur af svefni.  „Mig syfjaði á landstíminu og ég átti erfitt með að verjast svefni“.

Verjur (n, kvk, fto)  Hlífðarföt, einkum notað um sjógalla og regnfatnað.  „Farðu í einhverjar verjur áður en við byrjum að draga netin“.

Verjulaus (l)  Án hlífðarfatnaðar/sjóklæða.  „Það gengur ekki hjá þér að fara verjulaus á sjóinn; þú verður undireins eins og hundur af sundi dreginn“.

Verk (n, hk)  A.  Vinna; vinnulota.  „Það verður töluvert verk að moka úr húsunum“.  B.  Stytting á listaverk.  „Það er ansi gott verk á þessum útskurði“.  D.  Stytting á gangverk/klukkuverk; vélbúnaður.

Verka (s) A.  Vinna úr afla/búsafurðum/grasnytjum; fullvinna afurðir.  „Afli sem barst á land í Kollsvíkurveri var verkaður með ýmsu móti, en mestmegnis þurrkaður/hertur og saltaður“.  „Slægjur voru bæði verkaðar í vothey og þurrhey á síðari árum búskapar í Kollsvík“.  „Hey manna eru almennt verkuð með langbesta móti, en munu nú sem í fyrra vera með lausasta móti“  (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1924).  „Undanskil ég þá bændurna þá bændurna á Lambavatni, er verka betur hey sín en líklega nokkrir aðrir í þessu umdæmi“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929).  B.  Þrífa; hreinsa.  „Farðu nú og reyndu að verka mesta skítinn af böslunum þínum“.  C.  Vinna á; hrífa.  „Lyfið er ekki farið að verka enn“.

Verka af sér (orðtak)  Þrífa af sér óhreinindi.  „Ansi ertu loðinn af heyi; farðu nú og verkaðu af þér úti áður en þú sest inn í hús“!

Verka upp (orðtak)  Þrífa; hreinsa.  „Ég verkaði upp spyrðuna sem dottið hafði niður af ránni, og hengdi hana aftur upp“.

Verkabýtti / Verkaskipti (n, hk, fto) Vinnubýtti; víxlun verka, þannig að annar vinnur það sem hinn ætlaði og öfugt.  „Við ættum kannski að hafa verkabýtti; þú ert mikið lagnari við þetta en ég“.

Verkaður (l)  Unninn; sem búið er að vinna/undirbúa.  T.d. fiskur, skinn o.fl.  „Þetta er vel verkaður hákarl“.

Verkaka (n, kvk)  Sérstök gerð köku sem ætluð var í nesti vermanns.  „Úr mjölinu voru gerðar næfurþunnar flatkökur og kolhertar, svo þær mygluðu ekki þótt lengi væru geymdar.  Skyldu þá sextíu fást úr fjórðungnum.  Voru það kallaðar verkökur“  (PJ; Barðstrendingabók).

Verkafólk / Verkamaður / Verkakona (hk, kk, kvk)  Vinnufólk.

Verkalýðsbarátta (n, kvk)  Barátta verkalýðs fyrir bættum kjörum.  Ein fyrsta og ötulasta konan í verkalýðsbaráttunni hérlendis var Kollsvíkingurinn Aðalheiður (Pálína Sigurgarðsdóttir) Hólm, síðar Spans (20.09.1915-27.08.2005); dóttir Sigurgarðs Sturlusonar Einarssonar Einars ættföður Kollsvíkurættar.  Aðalheiður fæddist í Tálknafirði  en réðst átta ára sem gangnastúlka á Landspítalann og hóf snemma að berjast fyrir bættum kjörum láglaunakvenna.  Árið 1934 hafði hún forgöngu um stofnun Starfsstúlknafélagssins Sóknar; fyrsta hagsmunafélags vinnandi kvenna á Íslandi.  Á vegum félagsins náði hún ýmsum baráttumálum í höfn til bættra kjara.  Hún hafði tengsl við Kommúnistaflokk Íslands og varð síðar stofnfélagi í Sósíalistaflokknum árið 1938.  Aðalheiður giftist Wubold Spans og settist að í Hollandi 1946.  Meðal barna þeirra var Viktoría Spans, söngkona.

Verkalýður (n, kk)  Síðari tíma heiti á vinnandi fólki í bæjarsamfélögum.  Heitið hefur hvorki fest rætur í sveitum né verið notað um vinnandi fólk til sveita.

Verkaskipting (n, kvk)  Röðun manna í einstaka verkþætti stærra verks.  „Við ákveðum verkaskiptingu á síðari stigum undirbúningsins“.

Verkasmár / Verklítill (l)  Kemur litlu í framkvæmd; dútlari.  „Alltaf er hann að úðra, en heldur þykir hann verkasmár“.  „Maður verður fremur verklítill þegar áhöldin vantar“.

Verkast til (orðtak)  Vinnst; vindur fram.  „Við skulum sjá hvernig hlutirnir verkast til í dag, kannski hef ég tíma til að hjálpa þér við þetta í kvöld“.  Sjá sjá hvernig til verkast og eftir því sem verkast vill.

Verkastór (l)  Kemur miklu í framkvæmd; duglegur.  „Ekki þykir mér hann verkastór þessi nýi vinnumaður“.

Verkefni (n, hk)  Viðfangsefni; verkþáttur.  „Þú færir mér aldeilis verkefni í hendur“!

Verkfall (n, hk)  Orðið er nú á dögum haft um það að leggja niður vinnu í mótmæla- eða kröfuskyni, en merkti áður að maður fór úr verki af einhverjum sökum, t.d. vegna veikinda eða frátafa; manni varð verkfall.

Verkfælinn (l)  Tregur til að hefja verk/vinnu; latur; verkasmár; haldinn kvíða gagnvart vinnu.  „Hann er óskaplega verkfælinn, en getur verið hörkuduglegur ef hann hefur öflugan mann með sér“.

Verkfær (l)  Um mann; getur unnið/starfað; vinnufær.  „Flestir verkfærir sveitungar mættu í steypuvinnuna“.

Verkfæraböðull (n, kk)  Sá sem fer illa með verkfæri; sá sem beitir verkfærum harkalega eða umgengst þau illa.  „Hann er ferlegur verkfærab0ðull; mér er illa við að láta þetta í hendurnar á honum“!

Verkfærahús (n, hk)  Áhaldahús; verkstæði; verkfærageymsla.  „Verkfærahús hefur heitið það útihús sem næst stendur íbúðarhúsi á Láganúpi, frá byggingu þess um 1960 en þá leysti það Mókofann af hólmi.  Þetta heiti virðist ekki víða notað, og t.d. er það ekki að finna í Orðabók Menningarsjóðs“.

Verkfærakassi / Verkfærakista / Verkfærakoffort (n, hk)  Kassi/koffort sem verkfæri og smíðatól eru geymd í; smíðakoffort.  „Nú þurfti að koma verkfærakofforti Ólafs frá Brjánslæk að Siglunesi“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Verkfæralaus (l)  Sem skortir verkfæri/tól.  „Ég geri lítið í þessu verkfæralaus“.

Verkfæri (n, hk)  Áhald til að vinna með; oft sérhæft til ákveðins verks.

Verkið lofar meistarann (orðtak)  Verklagið sést á árangri verksins; góður smíðisgripur/ gott listaverk vitnar um færni/snilli listamannsins/smiðsins.  „Verkið lofar meistarann; það á hvergi betur við en í hellum máluðum af Sigríði á Láganúpi, sem víða prýða veggi landsmanna“.

Verkin sýna merkin (orðatiltæki)  Verkin/ummerkin eru til vitnis um það sem gert hefur verið.

Verkja (s)  Finna til; hafa verki.  „Mig verkjar dálítið í hnéð eftir fallið“.

Verkjakast (n, hk)  Tímabundin aðkenning mikilla verkja.  „Sárasta verkjakastið er liðið frá núna“.

Verkjalaus / Verkjalítill (l)  Laus við verki; ekki með mikla verki.  „Ég hef verið verkjaminni í dag en í gær; þetta er kannski að lagast“.

Verkjastillandi (l)  Sem linar/læknar verki.  „Ég fékk verkjastillandi töflur hjá lækninum“.

Verkkunnátta (n, kvk)  Það að kunna til verka; verkþekking.  „Hætt er við að ýmis verkkunnátta hafi tapast frá fyrri tímum“.

Verkkvíðinn (l)  Kvíðir fyrir að hefja vinnu við verkefni; vex verk í augum.  „Mér finnst hann einum of verkkvíðinn, og það veldur því oft að honum verður lítið úr verki“.

Verklag (n, hk)  Vinnulag; aðferð/tilhögun við verk/vinnu.  „Ekkert botna ég í svona verklagi“!

Verklaginn (l)  Hagur/laginn við vinnu/verk.  „...og Bjarni sjálfur verklaginn og áræðinn að hverju sem hann gekk“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Verklagni (n, kvk)  Öruggt vald á framkvæmd verks; gott vinnulag/verklag.

Verklaus / Verklítill (l)  Hefur ekkert/lítið fyrir stafni; getur lítið/ekki unnið.  „Nú er best að hætta þessu kjaftæði; ekki ætla ég að hafa þig verklausan allan daginn“.

Verklegur (l)  Stór; traustur; veglegur.  „Þetta er asskoti verklegur traktor“.

Verknaður (n, kk)  Það sem gert er; framkvæmd.  Í seinni tíð fremur notað um neikvæðar gerðir.  „Þeir sögðust vera alsaklausir af þessum verknaði“.

Verkoffort (n, hk)  Ílát af sérstakri gerð sem notað var til flutnings og geymslu matar í veri/ vermöru.  „Verkoffortið með rúgkökum eða hveitikökum; rúgbrauði, smjöri, og svo kæfu til nokkurra daga“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Verkoffort okkar stóðu fyrir framan rúmstokkana“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Verkona (n, kvk)  Kona sem rær til fiskjar úr veri.  Að minnsta kosti tvær konur er vitað um sem reru úr Kollsvíkurveri.  Önnur er Guðný Ólafsdóttir (Ásbjörnssonar, Kristjánssonar) frá Grundum(1862- ); síðar húsmóðir á Sellátranesi.  Hin er Magdalena Össurardóttir (Guðbjartssonar, Ólafssonar) frá Láganúpi(1893 - ); síðar húsmóðir í Hjarðardal í Dýrafirði.

Verkstjóri (n, kk)  Sá sem stjórnar mönnum við vinnu/ ræður fyrir vinnuhópi. 

Verkstæði (n, hk)  Vinnustaður; staður þar sem unnið er að verkum.  Í seinni tíð hefur orðið einkum táknað stað þar sem unnið er að viðgerðum, s.s. bílaverkstæði, vélaverkstæði.

Verksummerki (n, hk, fto)  Merki um að verknaður hafi verið framinn; merki um aðgerðir/veru.  „Ég sá engin verksummerki um að þarna hefði verið tófa“.

Verktaki (n, kk)  Síðari tíma heiti á þeim sem tekur að sér verk gegn greiðslu, gjarnan að undangengnu tilboði.  Frábrugðinn launamanni að því leyti að í verktakagreiðslu er oftast innifalin öll launatengd gjöld.

Verktilhögun / Vinnutilhögun  (n, kvk)  Vinnulag; aðferð við vinnu verkefnis.

Verkun (n, kvk)  A.  Aðferð við vinnslu matvöru.  „Verkun fisks gat verið með ýmsu móti“.  B.  Áhrif.  „Þetta lyf hefur nokkuð aðra verkun en hið fyrra“.  C.  Í líkingamáli sem upphrópun, um það sem er yfirgengilegt: „Haldiði að það sé nú verkun; kálfafjandarnir voru komnir í garðinn og búnir að spæna hann allan upp“!

Verkunaraðferð (n, kvk)  Aðferð við verkun/vinnslu.  „Nokkrar verkunaraðferðir eru mögulegar varðandi söltun fisks“.

Verkunarskúr (n, kk)  Lítið hús þar sem verkaðar eru afurðir.  „Össur og Ingvar í Kollsvík hófu grásleppuútgerð frá Hænuvík, líklega vorið 1969, en þá hafði Bjarni í Hænuvík lagað lendinguna þar með jarðýtu.  Skúr sem stóð á Stekkjarmel var fluttur innyfir Háls og honum komið fyrir á bökkum Árinnar, stutt ofan við lendinguna, þar sem hann var notaður sem verkunarskúr fyrir hrognin.  Í fyrstu var gert út á gömlu Voninni, en síðar á hinni nýsmíðuðu Rut.  Þarna gerðu Hænvíkingar einnig út skektu.  Lent var við árósinn og bátar teknir upp á kerrum með traktorum.  Hrogn voru flutt í land í lokuðum stömpum og verkuðu báðir aðilar í verkunarskúrnum.  Hann stóð þarna löngu eftir að útgerð fluttist annað, en eyðilagðist að lokum“.

Verkur (n, kk)  Sársauki; tilfinning; tak.  „Eitthvað er verkurinn að linast“.

Verkvit (n, hk)  Útsjónarsemi í vinnu; skipulagshæfileikar; verklagni.  „Það er ekki nóg að hafa krafta og dugnað ef verkvitið vantar“.  Annarsstaðar algengara með s í miðju.

Verkvit (n, hk)  Útsjónarsemi um vinnulag; vinnuhagræðing.  „Það kann ekki góðri lukku að stýra að ráða einhverja aula í þetta sem hafa ekki hið minnsta verkvit“!

Verkþekking (n, kvk)  Verkvit; þekking á vinnulagi/ tilteknu verki.

Verleið (n, kvk)  Vegur vermanns til vers og flutningsleiðir með skreið og aðrar afurðir úr veri.  „Barðstrendingar og Rauðsendingar sem reru í Víkum norðan Bjargs, urðu að fara fjallvegi.  Af Rauðasandi lá leiðin út Kerlingarháls; síðan út Víknafjall og af því niður Brúðgumaskarð í Breiðuvík“ (væri ferð heitið í Breiðavíkurver). (LK; Ísl. sjávarhættir II).   Úr Brúðgumaskarði var einnig vegur norður yfir Hafnarfjall; yfir Vatnadal framanverðan; um Kollsvíkurskarð og Sunnmannalág í Kollsvíkurver.  Einnig var unnt að fara leið sem lá sunnar:  Var þá farið úr Keflavík upp Fuglagötur; yfir Látraheiði; um Urðarhjalla; Látraháls; yfir Breiðuvík; upp Hjallagötur; yfir Breið; niður Vörðubrekku í Vatnadal; heim Strympur og komið niður Hjalla að Láganúpi og Láganúpsveri.  Margir vermenn fóru þó sjóleiðina vestur fyrir Bjarg; þeir sem ekki áttu báta sína geymda á Skeiðseyri í Patreksfjarðarbotni svo sem venja var.  „En væri farið út með Patreksfirði í þessar verstöðvar voru fjallvegirnir Hafnarfjall (að Breiðavíkurveri) og Látraháls (að Brunnum eða Látrum) eða Tunguheiði eða Hænuvíkurháls (í Láganúps- eða Kollsvíkurver).  (LK; Ísl. sjávarhættir II).  

Verma (s)  Halda hlýju; hita upp.  „Ég hef enga trú að á hann vermi formannsstólinn mjög lengi“.

Vermaður (n, kk)  Sá sem rær í veri; oftast átt við aðkomumenn en ekki heimamenn.  „Á bæjum í Kollsvík var margt gert fyrir vermenn, m.a. bakaðar kökur og brauð.  Þessi störf greiddu þeir með því að taka upp mó í landlegum fyrir heimabændur“  (LK; Ísl.sjávarkhættir II; heim; GG).  „Það var nóg að gera þegar vermennirnir voru komnir í Verið.  Þeir fengu þjónustu hjá heimilisfólkinu.  Einu sinni í hörkubyl man ég eftir að vermennirnir flýðu allir heim á bæina“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Vermannaleikir Í landlegum í Kollsvíkurveri gerðu vermenn sér ýmislegt til dægrastyttingar, fyrir utan það að sinna afla, bátum og öðrum nauðsynjum.  „Margir lásu blöð og bækur sér til dægrastyttingar.  Eins var setið og hlustað ef einhver var gæddur þeim hæfileika að segja frá.... Þá voru nokkrir sem fengust við að hnoða saman stökum.... Hjá mörgum æskumanninum bjó orka í armi og ólga í barmi, sem leita varð viðfangsefna....  Helstu viðfangsefnin voru; glíma, stundum bændaglíma, aflraunir ýmiskonar, boltaleikur (slagbolti) einnig var fótbolta sparkað, en næga kunnáttu vantaði í þeirri íþrótt.  Þá voru og reynd stökk (hástökk og langstökk).  Sund var einnig iðkað, bæði í sjó og vötnum.  Einn var sá leikur sem hinir yngstu léku iðulega; það var að fleygja kúskeljum.  Nóg var af skeljum og nærtækar hér og þar.  Þar var um keppni að ræða. Hver lengst gæti látið þær kljúfa loftið.... Þá var það annar leikur drengja að klifra í Norðari-klettunum.  Þeir voru það lágir að engin hætta var því samfara, enda sandur undir þó einhver missti tök og táfestu.  Helsta afrekið var að komast eftir klettunum enda milli, án þess að detta í sandinn eða fara á brún“ (KJK; Kollsvíkurver).
Ýmsir þrautaleikir voru iðkaðir í Kollsvík, jafnt hjá vermönnum sem öðrum, sem voru almennt iðkaðir víða um land þó nú þekkist þeir lítið.  Eftirfarandi er samantekt Péturs Jónssonar fyrir Byggðasafnið á Reykjum.

Rífa ræfil úr svelli.  Leikmaður leggst endilangur á jörðina og leggur einhvern hlut þar sem hann hefur höfuðið. Rís síðan upp í sömu sporum og áður. Síðan setur hann vinstri hendi aftur fyrir bak en mjakar sér áfram á hægri hendi þar til hann nær hlutnum með munninum og stendur síðan upp með hann aftur. Ekki má koma við jörðu nema með fótum og hægri hendi og ekki stíga úr sporunum. Ef það mistekst er ræfillinn enn fastur í svellinu.

Reisa horgemling.  Þegar reistur er horgemlingur þá setjast leikmenn flötum beinum, setja hægri hendi undir vinstra hné og grípa í eyrnasnepil á hægra eyra.  Með vinstri hendi er haldið í buxnastrenginn að aftan.  Síðan reyna menn að standa upp án þess að missa tökin.  Þetta er alls ekki auðvelt, en sagt er að þeir sem ekki geta reist horgemling hafi fallið úr hor.

Höfrungahlaup eða höfrungastökk var einn algengasti vermannaleikurinn. Skipt er í tvö lið. Fremstu menn beygja sig fram með hendur á hnjám og næstu menn stökkva yfir þá og svo koll af kolli. Það lið sigrar sem kemur fyrr öllum sínum leikmönnum ákveðna vegalengd.

Sækja smjör í strokkinn.  Þessi leikur felst í því að tveir menn mynda nokkurs konar strokk.  Þeir standa hvor á móti öðrum og leggja hendur á axlir hins.  Klútur er síðan settur á jörðina á milli þeirra. Síðan skríður leikmaðurinn ofan í strokkinn, yfir hendur mannanna og niður og tekur smjörið (klútinn) upp með munninum.  Aðalkúnstin er fólgin í að koma sér sömu leið upp úr strokknum aftur.  Ef það tekst ekki var sagt að hann hefði kafnað í strokknum. 

Hryggspenna er ein leið til að skera úr um afl manna. Tveir standa á móti hvor öðrum og grípa höndum utan um andstæðinginn og takast þannig á. Sá sigrar er nær að knýja hinn undir sig. Að hafa undirtökin er orðtak sem er dregið af þessum leik. Ef annar hélt báðum höndum undir hendur andstæðingsins hafði hann vænlegri stöðu.

Hanaslagur er þekktur leikur þar sem allir keppa við alla.  Menn eiga að hoppa um á öðrum fæti með hendur krosslagðar á bringunni.  Kúnstin er fólgin í því að fella andstæðinginn án þess að falla sjálfur eða stíga með báðum fótum til jarðar.  Sá sigrar sem síðastur stendur uppi. 

Reiptog fór yfirleitt fram á milli tveggja skipshafna. Skipt var í lið og togast á. Markmiðið var að draga hitt liðið yfir línu sem dregin var á jörðina mitt á milli liðanna.

Ríða til páfans.  Tveir hraustir menn bera á öxlum milli sín sívalan ás, t.d. sterka ár eða siglutré.  Á ásnum situr maður klofvega, en hann leikur ferðamann.  Annar maður kemur aðvífandi með pokaskjatta og e.t.v. einnig bréf í hendi.  Hann vill koma sendingu til páfans með ferðamanni, sem neitar því.  Þá leitast hinn eftir því að slá hann af ránni.  Nái ferðamaður að sitja þessar árásir af sér á slánni hefur hann náð fundi páfa.  En stundum hékk hann eftir neðan í ránni, sem þótti lúpulegur fundur við páfa.  Ekki mátti slá á hendur hans.

Pokadráttur er ekki ósvipaður hráskinnaleik þar sem tekist er á um blautt skinn. Þá sitja menn flötum beinum á jörðinni, hvor á móti öðrum með strigapoka sín á milli og takast á um hann. Sigur fékkst með því að ná til sín pokanum eða með því að rífa hinn úr sætinu.

Steinatök voru í mörgum verstöðvum (og hafa eflaust verið einnig í Kollsvíkurverstöðvum þó ekki séu heimildir um þau). Þau voru sérvaldir misstórir steinar sem lyfta þurfti upp á stall eða færa til ákveðna vegalengd. Þegar sömu steinarnir voru notaðir við slíkt árum saman fengu þeir nöfn eftir stærð, t.d. amlóði, hálfsterkur, fullsterkur og alsterkur.

Ganga á tunnu.  Leikurinn var fólginn í því að standa uppi á tunnu sem lá á hliðinni og láta hana velta sem lengst undir sér.  Helst aftur á bak, án þess að falla.  Best þótti gefast að botn væri í báðum endum tunnunnar.

Stökkva yfir sauðarlegg.  Að stökkva yfir sauðarlegg er einfaldur leikur en alls ekki eins auðveldur og menn gætu ímyndað sér.  Sauðaleggur er lagður á jörðina fyrir framan tærnar á keppanda.  Hann á síðan að halda um tærnar á meðan hann stekkur jafnfætis yfir sauðarleggin, bæði áfram og afturábak“  (PJ; Vermannaleikir).

Spil voru einnig verulegur hluti dægrastyttingar vermanna, a.m.k. á síðari tímum, sbr LK; Ísl.sjávarhættir IV:

„Köttur (lú; lúfa; lúfur) var líklega algengasta spilið.  Væru sex sem spiluðu voru sex spil gefin hverjum.  Sá sem gaf sló upp aukaspili.  Það varð tromplitur og hlaut hann það sem eitt af sínum spilum.  Þá var forhandarmanni heimilt að taka köttinn sem kallað var, en það voru sex næstu spilin í stokknum og varðhann neyddur til að spila á þau.  Næði hann ekki slaf, þá var sagt“ hann á ekki bit á köttinn“.  Væri spilað upp á peninga átti sá sem bit varð á köttinn að borga 3, 5 eða 6 aura.  Spilið var þess vegna kallað þriggja, fimm eða sex aura köttur.

Alkort er líklega einna elst vermannaspila.  Vitað er að það var spilað í öllum fjórðungum landsins, en smáþokaði síðar fyrir öðrum spilum og mátti heita að mestu úr sögunni nokkru áður en vermennsku á gamla vísu lauk.

Gosi var spilaður víða í verstöðvum.  Jafnan uppá peninga....

Treikort var töluvert spilað, einkum í sunnlenskum verstöðvum....

Vist var algengt landleguspil.  Væri hún spiluð upp á peninga, sem var fremur fátítt, var ekki um annað að ræða en einseyringsvist.

Lander var mest spilað í verstöðvum sunnanlands.

Lomber gekk oft undir nafninu „heldrimannaspil“, sökum þess að það spiluðu upphaflega einungis embættis- og verslunarmenn.  Fyrst varð það landleguspil við Djúp, en síðar í Víkum fyrir norðan Látrabjarg; á Hjallasandi og í Höskuldsey.  Lomber tíðkaðist einnig í verstöðvum á Austfjörðum.  Meðal vermanna var bit í lomber víðast og lengi mjög lítil eða 10-15 aurar. en komst á stöku stað í 25 aura, t.d. í Bolungarvík.

Skák var nokkuð stunduð þegar vermenn styttu sér stundir.  Svokölluð valdskák var t.d. mikið tefld á Gjögri.  Ennfremur var tefld refskák, kotra, goði og mylla.

Vermenn reyndu með sér í krók og krumlu.   Þeir fóru í ýmiskonar gestaþrautir sem sumar voru búnar til úr hertu roði og beinum.  Ein þrautin fólst í að leggja eldspýtu ofaná skrínulok og hana átti síðan að taka upp með munninum.  Sá sem það reyndi varð á meðan að halda saman höndum fyrir aftan bak.. 

„Í Kollsvíkurveri er sléttlendi nefnt Strákamelur.  Þar fóru allir vermannaleikir fram, en þó einkum glímur.“ (GG).    Jafnframt hinum hefðbundnu glímum glímdu menn um sýsluna (sjá þar). 

Að kveða rímur var algeng verbúðaskemmtun.  Ekki lét öllum að kveða en í fjölmennum verstöðvum voru jafnan góðir kvæðamenn og margir í sumum.  Sjálfsagt þótti að launa kvæðamanni.  Var honum þá oft fært kaffi og væn kaka með smjöri og kæfu.  Á Brunnum og í Víkum þótti það ekki verið hafa kvæðavertíð ef eigi voru kveðnar rímur eftir Sigurð Breiðfjörð og Úlfarsrímur. Svo alræmdur var rímnakveðskapurinn í verum að í Húsagatilskipuninni frá 1746 er m.a. bannað  „að fara með svonefndar sögur og rímur er ekki sómi kristni og heilagur andi hryggist við“.  Yrði einhver að slíku uppvís átti að setja hann í gapastokk ef hann hefði ekki bætt ráð sitt eftir að hafa verið í eitt skipti aðvaraður.  Ekki verður séð að þetta bann hafi breytt sögu- eða rímnavali í verstöðvunum; enda mun fremur hafa veri talið óljóst hvað ekki sómdi kristnum og þá eigi síður hvað gat hryggt heilagan anda!  (heimild; LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Vermata (n, kvk)  Nesti vermanna.; skrínukosturinn.   „Vermatan var þá farin að ganga til þurrðar hjá sumum, enda ótækt að geyma brauðamat svo lengi“  (KJK; Kollsvíkurver).   (Sjá skrínukostur og verskrína)

Vermenn; þjónusta.  „Það var nóg að gera þegar vermennirnir voru komnir í verið.  Þeir fengu þjónustu hjá heimafólkinu.  Einu sinni í hörkubyl man ég að vermennirnir flýðu allir heim á bæina.  Þegar bátarnir voru komnir í land var farið með brauð og kökur til þeirra.  Heimamönnum færður grautur, mjólk og soðning, en eftir að þeir fengu prímusa, suðu þeir  sjálfir soðninguna í Verinu á prímus.  Karlmenn komu ekki að skepnuhirðingu eftir að þeir fóru í Verið.  Konur urðu að bæta þeim verkum á sig og vinna á túnum.  Vermenn unnu af sér það sem gert var fyrir þá með því að taka upp mó í landlegum.  Kvenfólkið sá um þurrkun hans.  Sauðfé smöluðu menn til rúnings í landlegum.  Vertíð var fram í 10.-11. viku sumars.  Nokkrir heimamenn reru allt sumarið“  (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964). 
„Í Verinu vorum við að mátti heita daglega, meðan róðrar stóðu yfir á vorin, því það þurfti að færa þeim mat sem voru á sjónum þegar þeir komu í land, og var það hlutverk okkar barnanna. ...  Áður en sjómennirnir fóru að gera að fengu þeir sér að borða.  Oftast var soðinn nýr fiskur og lifur á prímus, sem þeir höfðu líka til að hita sér kaffi...  Mamma þurfti að hafa til mat og föt á hverjum degi til að senda sjómönnunum í verið, þegar þeir komu í land“  (HFG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).

Verminjar (n, kvk, fto)  Mannvirki sem vitna um útgerð frá verstöð, s.s. rústir verbúða, þurrkgarðar, reitir, ruðningar, hjallundirstöður, úrbeittar skeljar, varir og munir sem verstöðunni tengjast; einnig örnefi og heiti.  „Miklar verminjar eru sýnilegar í Kollsvíkurveri, enda var þaðan síðast róið í Kollsvík.  Minjar í Láganúpsveri hafa ekki verið eins sýnilegar í seinni tíð.  Engu að síður eru þær nokkrar, auk þess sem landbrot í Grundabökkum er nú að sýna miklu meira umfang þeirrar verstöðvar en áður var talið“.

Vermir (n, kk)  Sá sem hitar/vermir; vermisteinn.  Heyrist eingöngu nú í orðatiltækinu; það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn.

Vermisteinn (n, kk)  Í seinni tíð oftast notað um  þjóðsagnakenndan stein sem sagður var koma í jörðina um miðgóu, og þá færi að þiðna úr henni jarðklakinn.  Líklega á orðið þó rætur í steini sem hitaður var við eld og brugðið undir rúm til að hlýja manneskju, t.d. eftir ofkælingu.  Sbr. orðtakið skammgóður vermir.

Vermsl (n, hk)  Annarsvegar stöðugur hiti í uppsprettum (um 4°C); kaldavermsl, en þannig uppsprettur eru nokkrar í Kollsvík.  Hinsvegar hiti í jörðinni, sem varnar því að jarðfrost nái niður, og étur undan því á vorin.

Vernd (n, kvk)  Skjól; hlíf; vörn.  „Það er ansi lítil vernd í þessum blússugopa í svona brunakulda“.

Vernda (s)  Hlífa; skýla; veita vernd; verja fyrir einhverju slæmu. 

Verndarengill (n, kk)  Ósýnilegur vættur/vera sem stundum er talið að fylgi hverjum lifandi manni.  Gæti verið leifar af ævafornri vættatrú sem hefur lifað í undirvitund þjóðarinnar.  Oft var gripið til upphrópana sem því tengdust, einkanlega af eldra fólki: „Ég held nú bara að þarna hafi verndarenglarnir tekið í taumana“.

Verndargoð (n, hk)  Goð sem verndar eitthvað tiltekið.  Oftast er talað um verndargoð staða, t.d. borga. Aldrei hefur það verið í umræðu, a.m.k. ekki í seinni tíð, að Kollsvík ætti verndargoð.  Ef grannt er skoðað mætti þó segja sem svo.  Landnáma, sem er elsta heimild um byggð í Kollsvík, segir að Kollur hafi blótað Þór í háska sínum; stundu áður en hann braut skip sitt í Kollsvík og komst lífs af ásamt hásetum sínum.  Hafi Kollur í raun verið heiðinn má ætla að hann hefði launað lífgjöfina með því að nefna víkina í höfuð sínu verndargoði og bjargvætti.  Líklegra er þó, eins og annarsstaðar er rakið í þessu riti, að Kollur hafi verið jafn sannkristinn og Örlygur fóstbróðir hans, og hrotið nafn Þórs af munni af gömlum vana.  Kollur hefur vafalítið stundað nám við Kólumbusarklaustrið á Iona, ásamt Örlygi, og farið hingað í kristniboðsleiðangur með fóstbróður sínum; að ráði Patreks biskups eins og greinir í Landnámu.  Því kunna að vera áhöld um það hvor sé verndari Kollsvíkur; Ása-Þór eða Patrekur Suðureyjabiskup.

Verpa (s)  A.  Um fugla; eiga egg.  Í Rauðasandshreppi tíðkuðust ýmsar beygingarmyndir af þessu sagnorði, og þó allir hefðu það eins í nafnhætti var framsöguháttur á tvo vegu, jafnvel hjá sama manni; ýmist „verpir“ eða „verpur“.  „Hrafn verpir í klettum og hömrum rétt fyrir sumarmál“  (EG; Fuglalíf í Kollsvík).  „Steindepill verpur á svipuðum stöðum og maríuerlan... “  (EG; Fuglalíf í Kollsvík).  Sama var að segja um lýsingarorð sagnarinnar; það var ýmist „verptur“ eða „orpinn“; oftar þó hið síðarnefnda; a.m.k. í seinni tíð.  B.  Snúa við; varpa um; kasta.  Sbr að verpa haug yfir einhvern; verpa skó.

Verpast (s)  Vinda upp á sig; aflagast; sveigjast.  „Báturinn er heldur lítið viðaður.  Honum hættir til að verpast í verulegum sjó“.

Verpingur (n, kk)  Sveigja/herpingur af þurrki/hita/elli.  „Óttalegur verpingur er í sumum fjölunum“.

Verptur (l)  Orpinn.  Sjá verpa.

Verpur (s)  Verpir.  Sögnin að verpa var stundum beygð á þennan hátt (sjá einnig verptur).  „Hér verpur töluvert af nefskera“.  Á sama hátt var ýmist sagt varp eða verpti sem þátið af verpa.

Verptur (s)  A.  Sögnin að verpa var ekki alltaf beygð á hefðbundinn hátt hjá eldri íbúum Rauðasandshrepps.  Þar virðist hafa tíðkast fyrrum að segja t.d. „fuglinn er verptur“, ekki „orpinn“.  („Man ég eftir þessu bæði hjá GG afa mínum og Óla Ingvarssyni á Geitagili, en báðir voru fremur fornir í máli“; VÖ).  B.  Boginn; sveigður.  „Fjölin er orðin dálítið verpt eftir þennan tíma“.  C.  Um skinnskó:  „Sauðskinnsskórnir voru stundum verptir, en þá var skinnþvengur dreginn kringum allt opið á skónum og dregið saman með þvengnum, sem lá yfir jaðar skóvarpsins milli hverra tveggja gata.  Verptir skór voru með hælþvengjum og ristarböndum“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).

Verr (af stað) farið en heima setið (orðtak)  Um misheppnaða ferð; hefði verið betra að halda sig heima.  „Ef við missum kindina lengra niður í klettana þá er verr farið en heima setið“.

Verra gat það (nú) verið (orðtak)  Ástandið hefði getað verið verra; þetta hefði getað farið á enn verri veg.  „Það var auðvitað bölvað að missa eggjafötuna, en verra gat það verið; ég var nærri floginn framaf sjálfur“!

Verri sagan (orðtak)  Fór miður.  „Ég komst yfir ána, en hitt var verri sagan að ég blotnaði í fæturna“.

Verri staðurinn (orðtak)  Helvíti; í neðra; vístiseldar.  „Þetta var nú bara smáyfirsjón; þú ferð varla í verri staðinn fyrir það“!  Sjá í verri staðnum.

Vers (n, hk)  Erindi í vísu/sálmi.  B.  Málsgrein/tilvitnun í biblíunni.

Versgú / Veskú (uh)  Gjörðu svo vel.  Hálfgert slanguryrði, myndað af danska kurteisisávarpinu; „vær så god“, sem merkir „gjörðu svo vel“.  „Veskú; fáðu þér ögn í slóna“!

Verskáli (n, kk)  Skáli sem hýsti vermenn fyrr á öldum.  Verskálar voru fyrri gerð verbúða.  Um þá eru til ýmsar sagnir en enginn veit núna nákvæma gerð hinna elstu.

Verskrína (n, kvk)  Hirsla vermanna fyrir vermötu sína; skrínukostinn.  „Verskrínan var oftast úr furu eða greni; geirnegld, um 20“ á lengd, 9“ á breidd og 14-15“ djúp að innanmáli.. (LK; Ísl sjávarhættir).  
Framhlið skrínunnar líktist lágu skattholi.  Lokið var á framhliðinni; lamirnar á efri brúninni, en læsingin að neðanverðu.  Opið lá því vel við sitjanda manni.  Kæfan var gerð upp í vinstra horn skrínunnar, er setið var rétt fyrir henni.  Rennt var bráðnu floti um allan endann þann sem kæfan var höfð í, og floti síðan brætt utan um kæfuna til að verja hana skemmdum.  Stundum var kæfan gerð úr nýju kjöti að haustinu; annars úr hangikjöti eða saltkjöti.  Sumir kusu hangikjötskæfuna fremur.  Smjörinu var drepið í hinn enda skrínunnar og flot brætt í auða rúmið sem á milli varð.  Úr öllu eða mestu mjölinu (sem skammtað vr í vermötuna) voru gerðar næfurþunnar flatkökur og kolhertar svo þær mygluðu ekki þótt lengi væru geymdar.  voru það kallaðar verkökur.  Pottbrauð var stundum gert úr dálitlu af mjölinu, svo sem til sælgæts og til nestis í verið.  Aldrei voru kkur né brauð geymt í skrínunum nema til nokkurra daga í senn.  Hitt var látið hanga í súg í þunnum poka.  Undir yfirfjöl skrínanna var grunn skúffa sem náði gafla í milli.  Í henni geymdu menn ýmislegt smávegis; svo sem þráð, band, nálar og fleira þessháttar, ef dytta þyrfti að plöggum eða skinnkæðum; einnig ritföng, og sumir áttu eitthvað af skildingurm“ ( PJ;  Barðstrendingabók). 
„Þegar faðir minn fór í Verið hafði hann með sér nesti í kistli.  Hann hafði með sér kæfu; mjög feita, og var henni drepið í kassa.  Inn á milli laga var drepið soðnum kjötbitum; feitum, og þótti það mjög gott“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).  Sjá einnig skrína/skrínukostur.

Versla (s)  Eiga viðskipti; kaupa/selja. 

Verslun (n, kvk)  A.  Það að versla; viðskipti.  B.  Hús sem verslað er í; sölubúð; markaður.

Verslunarbúð (n, kvk)  Verslun; sölubúð.  „… hét félagið sem þjónaði vestanverðum hreppnum Sláturfélagið Örlygur, og hafði verslunarbúð sína og einnig sláturhús að Gjögrum í Örlygshöfn“  (PG; Veðmálið). 

Verslunarferð (n, kvk)  Ferð til að versla nauðsynjar.  „Kollsvíkingar fóru í einkum verslunarferðir sínar í eigið kaupfélag á Gjögrum, meðan þar var rekin verslun.  Áður var um tíma birgðastöð á vegum þess í Hænuvík.  Í þessum kaupfélögum var yfirleitt allt til sem menn þurftu, umfram það sem verkað var og unnið heimavið.  Einnig var farið stöku sinnum á Patreksfjörð, einkum fyrir jólin, og í seinni tíð fóru menn lengra til innkaupa, s.s. á Ísafjörð eða suður.  Verslunarferðir fyrr á tíð voru auðvitað mun erfiðari og sjaldfarnari.  Þá var ýmist farið á bátum eða hestum, en einnig var töluvert um að menn bæru á baki sér lygilega þungar byrðar“.

Verslunarfrelsi (n, hk)  Frelsi til að eiga viðskipti við þann sem maður kýs; hvernig sem aðilar kjósa og þegar þörf er á.

Verslunarstaður (n, kk)  Kaupstaður.  Eyrar hafa verið verslunarstaður Kollsvíkinga og nærsveitungar þeirra, líklega frá ómunatíð.  En efalítið hafa þeir einnig átt veruleg milliliðalaus viðskipti við „þjóðir“ fyrr á öldum, t.d. á ensku öldinni, þegar enskar duggur komu upp á víkurnar.

Versna (s)  Verða verri/lakari; hraka. 

Versta veður (orðtak)  Mjög slæmt veður.  „Við lentum í versta veðri þarna á heiðinni“.

Verstaða (n, kvk) Eldra orð yfir ver/útgerð.  „Verstaða er þar ekki né hefur verið nema því aðeins að stundum hafa gengið þar 2 skip og nú eitt skip sýslumannsins....“  (ÁM/PV; Jarðabók; um Kollsvík).
Fullyrða má að í Kollsvík hafi verið verstaða í einhverri mynd, allt frá landnámi og framá daga vélbátaútgerðar.  Ekki er að efa að Kollsvíkurbændur hafa nýtt sér nálægðina við fiskimiðin og góðar lendingar, a.m.k. þegar bátar voru fyrir hendi og fiskur á grunnslóð.  Sömuleiðis er líklegt að bændur í Rauðasandshreppi og e.t.v. innan af Barðaströnd hafi haft uppsátur í Útvíkum  Hinsvegar hefur aflinn fyrstu aldirnar líklega miðast við heimilisnot:  „Fræðimenn eru á einu máli um það að sjávarafurðir hafi lítt eða ekki verið útflutningsvara á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.  Fiskveiðar voru ekki stundaðar meira en svo að aflinn fór allur til neyslu innanlands. ...  Á 14.öld verða nokkur þáttaskipti í atvinnusögu Íslendinga.  Landbúnaður tekur að ganga saman, en aftur á móti fara menn að sinna sjónum nokkuð frekar en áður var.  Spratt það einkum af því að nú gerðist harðfiskur vænleg vara til útflutnings; kaupmenn sóttust eftir honum af kappi miklu og borguðu hann stórum betur en áður hafði tíðkast.  Veiðistöðvar risu þar sem gott var til hafna og vænlegt um fiskifang.  Skreið varð einhver helsta útflutningsvara landsins...“  (GG; Skútuöldin).   Líklegt er að á þessum uppgangstíma hafi Kollsvíkin fyrst byggst upp fyrir alvöru sem einn mesti útgerðarstaðurinn á stóru landsvæði.  Heimildir frá þeim tíma eru engar, fyrir utan það sem fornleifar kunna að leiða í ljós.  Nú þegar er sjávarrof í Grundarbökkum byrjað að hefja sína frásögn um þessa gleymdu tíma.  Þar gefur að líta fiskbeinalög í öllum bökkunum; af enda og á.  Ekki er ólíklegt að uppsátur og ruðningar hafi verið með mest allri Kollsvíkurfjöru þegar mest var sótt.
Fullyrðing Jarðabókarhöfunda um að verstaða hafi ekki verið í Kollsvíkurverinu sjálfu hljóma harla ótrúlega, í ljósi þess að þar er betri lending, og hefur svo einnig verið á þeim tíma, samkvæmt umsögn sömu heimildar um Láganúpsver.  Eina skýringin á þessu er sú að Láganúpur var löngum í eigu Saurbæjarhöfðingjanna, sem höfðu alla skipan mála á svæðinu í hendi sér, og kúguðu hreppsbúa eftir sínum hentugleikum.  Þeir hafa því viljað láta báta leggja upp í Láganúpsverstöð til að geta innheimt þar vertoll.  Þurfti því að seila þar út aflann og fara svo með bátana til lendingar í Kollsvíkurveri.  Þetta hefur verið mjög hættulegt ef eitthvað var í sjó, og greinilegt að Bjæjarhyskið hefur talið vertollana dýrmætari en mannslífið.  Af þessu má ráða að Bæjarbeldið var öflugara á þessum slóðum en hinn virti Selárdalshöfðingi Páll Björnsson, sem þá átti Kollsvíkurjörðina.  Hann hafði öll ráð Arnfirðinga í hendi sér, og brenndi þá sem honum lysti, en Bæjarhöfðingi gat haft af honum vertolla í Kollsvíkurveri.

Verstöð (n,kvk)  Ver; útver; útgerðarstaður.  Í Kollsvík hefur líklega verið verstöð allt frá fyrstu byggð; ýmist Láganúpsmegin eða norðanmegin, en e.t.v. einhverntíma með allri ströndinni.  „Bestu verstöðvarnar (í nágrenni Patreksfjarðar) voru taldar Kollsvík, Látrar og Breiðavík.  Reru bátar þaðan í tugatali á vori hverju og langt fram á sumar“  (GG; Skútuöldin)   „Nú er öllum verstöðvum lokið þarna og ekki lengur sagðar sögur“.  ( (EG; Viðtal á Ísmús 1968; um örnefnið Hnífa).   „Kollsvík var því um langan tíma mikil verstöð smábáta“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Vert (l)  Verðugt.  Lýsingarorðið verður var oftast notað í hvorugkyni; vert.  „Það er nú ekki þess vert að arta uppá garminn lengur“.  „Er það ekki vel þess vert að samtök verði hafin um að byggja upp eina verbúð er látin sé geyma það sem til næst af gömlum munum og minjum úr Verinu“ ? (KJK; Kollavíkurver).  „Það er vert að athuga að flestir, ef ekki allir, þeir sem fremstir hafa staðið í íþróttum, bæði fyrr og síðar, hafa verið bindindismenn“  (Guðbjartur Hákonarson; Lilja (blað Umf. Smára) jan 1938). 

Vertíð (n, kk)  Tími ársins sem almennt er sótt til fiskjar; vertími.  „Heimræði er þar ár um kring, en á vorið er þar vertíð frá sumarmálum til þingmaríumessu“  (ÁM/PV; Jarðabók; um Láganúp).  „Haustvertíð fyrri hluta vetrar, fram til jóla; vetrarvertíð febrúar til apríl og vorvertíð maí, júní og allt fram í miðjan júlí, eða þar til heyannir byrjuðu“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Björn Halldórsson í Sauðlauksdal segir að aðalvertíðin í verstöðvum í Rauðasandshreppi standi frá 20. apríl til 10. júlí eða lengur.  Svipað var þetta öld síðar eða lengur og er þá átt við verstöðvarnar að Brunnum, á Látrum, í Víkum og Patreksfirði, en vertíð átti að byrja þar á sumardaginn fyrsta og enda laugardag í tólftu viku sumars.  Aðrir miðuðu vertíðarlokin við Seljumannamessu, sem er um svipað leyti.  Laust fyrir miðja 19. öld stóð þó vertíðin á Brunnum, Látrum og í Breiðuvík yfir í nokkuð lengri tíma, eða frá páskum til sláttar...  Laugardagur í 12. viku sumars var því löngum talinn lokadagur vertíðar á Vestfjörðum“  (LK; Ísl. sjávarhættir II).  „Vertíð var fram í 10. – 11. viku sumars.  Nokkrir heimamanna réru allt sumarið“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Vertollur (n, kk)  Uppsátursgjald; undirgift; leiga sú sem greiða þurfti til vers fyrir aðstöðu báta og vermanna til róðra.  „Í Útvíkum norðan Bjargs var sami vertollur og í Skor og Keflavík, en þar guldu vertollsmenn 2 ½-3 fjórðunga... nema hvað helmingurinn var greiddur með steinbít í Láganúpsverstöð.  Um miðja 18. öld fengu landeigendur engan vertoll fyrir sjálf inntökuskipin...  Hefur þá verið farið að tíðkast ...að skipverjar borguðu einir allt uppsátursgjaldið.  Um aldamótin 1700 þurftu heimamenn í Kollsvík ekki að greiða uppsátursgjald.  sú venja hefur sjálfsagt verið gömul, enda í samræmi við það sem víða tíðkaðist vestanlands.  Aftur á móti varð þá hver viðlegumaður í veri að gjalda 2 fjórðunga í vertoll sem þó var, fyrir góðvild landsdrottins, stundum gefinn eftir.  Seint á 19. öld varð Kollsvík allstór verstöð, eftir að Kollsvíkurmenn höfðu reist allar búðirnar í verinu, áttu þær og leigðu.  Búðartollurinn varð þá 6 krónur og vertollurinn 6 krónur og samsvaraði því tollurinn af hverju skipi 60 hertum steinbítum (Frásögn GG o.fl; LK; Ísl. sjávarhættir II). Kollsvíkurver var reyndar orðin stór verstöð miklu fyrr:   „Að sögn Gísla Konráðssonar átti Einar Kollsvík með tollverum öllum; hafi þar að jafnaði gengið 11-12 skip, en 15 steinbítar goldnir fyrir hvern mann.   Hefur Einar því líklega verið vel efnum búinn.  Samkvæmt gamalli venju, að reikna 3 steinbíta í alin, hefur vertollur verið 5 álnir, eða ¼ vættar.  til samanburðar má geta þess að um 1700 komst vertollur á þessum slóðum upp í ½ vætt, en lækkaði svo verulega vegna aflaleysis, og hefur sennilega haldist lægri tollur úr því.  Vertollur Einars í Kollsvík hefur því getað verið 6-7 hundruð af steinbít, eða 200-240 álnir“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 
 „Formenn þessir (í Láganúpsveri) og hásetar gefa í vertoll ½ vætt, og afhendist þar hálft í fiski; hálft í steinbít, og hefur þetta verið so í langan tíma“  (ÁM/PV Jarðabók). 
Ekki hafa þetta þó verið einu kvaðirnar í verinu á fyrri tímum.  Sú sögn fylgir hinum mikla Garði neðan Grundatúns að vermenn hafi hlaðið hann í landlegum.  Einnig er vitað að vermenn tóku upp mó og veittu heimafólki aðra aðstoð.  Má ætla að það hafi annaðhvort verið í kvaðarnafni eða komið í skiptum fyrir mjólk, lyngrif og aðra greiðasemi heimamanna.  „Kollsvíkurmenn byggðu allar búðir; áttu þær og leigðu vermönnum.  Gjaldið sem vermenn greiddu var „búðartollur“ og uppsátursgjald.  Mig minnir að hvorttveggja væri 12 kr; 6 kr búðartollur og 6 kr uppsátursgjald.  Við þurftum ekki að borga eftir; amma mín var af Kollsvíkurætt; átti part í jörðinni og þurfti því ekki að borga eftir búðina.  Hrís og lyng máttu menn fá ókeypis“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Vertollsmaður (n, kk)  Sá vermaður sem greiðir vertoll, en yfirleitt voru það allir aðkomumenn í veri.

Verulega (ao)  Mjög; mikið; all; afar.  „Veður hefur ekki versnað verulega“.  „Honum var verulega brugðið“.

Verulegur (l)  Talsverður; mikill.  „Við lentum ekki í verulegri ófærð“. 

Verustaður (n, kk)  Staður sem maður dvelur á; íverustaður; dvalarstaður.  „Enginn ræður sínum verustað“.

Veröld (n, kvk)  Heimur; alheimur.  „Ég held bara að mér hafi horfið veröldin eitt augnablik“.

Vesaldarástand (n, hk)  Aumt ástand; hörmung.  „Er ekki til kaffi?  Skelfingar vesaldarástand er þetta“!

Vesaldarkvikindi (n, hk)  Aumlegt dýr; vorkunnarheiti á dýri.  „Ég hálfvorkenndi þessu vesaldarkvikindi.  Tófa leitar ekki svona nærri mannabústað nema hún sé glorsoltin“.

Vesaldarlega (ao)  Aumlega; aumingjalega.

Vesaldarlegur (l)  Aumlegur; lotlegur; snautlegur.  „Ansi er þetta vesaldalegur afli“!

Vesaldarlegur (l)  Aumingjalegur.  „Skelfing er þetta lamb vesaldarlegt; skyldi móðirinn mjólka því nóg“?

Vesaldarskapur / Vesaldómur / Vesalmennska (n, kk)  Aumingjadómur; linka.  „Mér finnst það nú bölvaður vesaldómur að gefast upp núna; þegar takmarkinu er hérumbil náð“!

Vesalingur / Vesalmenni / Veslingur (n, kk)  Aumingi; rýringur; afturúrkreistingur.  „Skelfingar vesalingur er nú þessi kálfur“!  „Ekki grunaði mig að þetta væru slík vesalmenni að ráðast að kjörum þeirra sem ekkert hafa“!  „Ég fer ekki að setja þennan hrút á; þetta er svoddan veslingur“!

Vesall / Vesæll (l)  Aumur; eymdarlegur; snauður.  „Svo vesæll er ég ekki að ég geti ekki borgað svona smáskuld“!  „Vesæll“ er líklega réttari myndin; neitandi forskeytið „ve“ og „sæll“ eða „vansæll“.

Vesen / Vesin (n, hk)  Óþarfa fyrirhöfn; basl; vandræði.  „Við lendum í veseni ef við byrjum að draga netin frá röngu bóli“.  Einnig framborið og ritað vesin.  „Þetta var ekkert nema vesin“!  Líklega komið af danska heitinu „væsen“, sem merkir ástand; hegðun.

Vesenast / Vesinast (s)  Gera fyrirhöfn; bramboltast; brauðhófast; rassast með.  „Vertu ekki að vesenast neitt með bakkelsi fyrir mig; þess þarf ekkert“.  „Hvað ertu nú að vesenast með þetta hér uppi á hlaði“?

Veski (n, hk)  Lítið ílát, oft sem flöt pyngja úr mjúku efni.  T.d. kvenveski; seðlaveski.

Veslast upp (orðtak)  Verða vesalli/aumingjalegri; komast að mörkum hungur- eða pestardauða.  „Mér sýnist hrútlambið vera að veslast upp af skitu.  Það þarf endilega að gefa honum súlfa“. 

Veslast upp í eymd og volæði (orðtak)  Viðhaft um þann/það sem er að hraka mjög mikið.  „Hann sagðist frekar vilja hætta þessu búskaparhokri strax, en veslast upp í eymd og volæði“.

Veslingsarmingi / Veslingsgarmur / Veslingsgrey / Veslingshró / Veslingsræfill / Veslingsskinn (n, kk)  Vorkenningarheiti á þeim sem þykir eiga bágt.  „Skelfing er hún orðin stirð í liðunum, veslingsarminginn“.  „Þetta var nú alveg óvart hjá honum, veslingsskinninu“.

Vessa (s)  Koma vessi úr sári/skurfu/bólu/blöðru.  „Hafðu plástur á þessu; það gæti vessað eitthvað úr því“.

Vessabóla / Vessablaðra (n, kvk)  Vessafyllt ból/blaðra á húð.  „Hlaupabólunni fylgdu vessablöðrur um allan líkamann, með viðþolslausum kláða.  Ekki mátti þó sprengja blöðrurnar því þá myndaðist ör á eftir“.

Vessafylltur (l)   Um bólu/blöðru; full af vessa.

Vessaæð (n, kvk)  Vessaæðar eru nú almennt nefndar sogæðar.  Þær liggja um líkamann og tengja eitlastöðvar líkamans saman.  Grannar rásir sem gegna margþættu hlutverki, s.s. að viðhalda vökvajafnvægi frumanna, flytja prótein og vera hluti varnarkerfis líkamans.

Vessi (n, kk)  Glær vökvi í vessaæðum líkamans.

Vestan (ao)  Af/frá vestri.  „Hann er á vestan þessa stundina“. 

Vestanalda (n, kvk)  Dálítill sjór af vestri.  „Vestanalda boðaði alltaf hafátt, og fór hennar að gæta við land löngu áður en veðurvar skollið á“  (ÓETh o.fl.  LK; Íslsjávarhættir 3).

Vestanátt (n, kvk)  Vestanstæð vindátt; vindur af vestri.  „Hann getur rifið upp stólpabrim í vestanáttinni“.

Vestanbál / Vestanofsi (n, hk/kk)  Mikið hvassviðri af vestri.  „Enn heldur hann sama vestanbálinu“!

Vestanbrim / Vestanhroði (n, hk/kk)  Mikill vestansjór.  „Það var alveg hvítþvegin fjaran eftir vestanhroðann“.  „Tilkomumikið er að sitja uppi í hlíðinni ofan Helluvogar í miklu vestanbrimi og hlusta á gnýinn og finna titringinn er brimaldan skellur inn í hellinn og myndar þar lofttappa sem sprengir báruna til baka á móti þeirri næstu“  (HÖ; Fjaran). 

Vestanflæsa (n, kvk)  Gola/kaldi af vestri.  Oftast nefnt þannig í tengslum við þurrkun á heyi.  „Þetta þornar fljott í vestanflæsunni“. 

Vestangarður / Vestanrosi / Vestanveður (n, kk)  Stormur/rok/stórviðri af vestlægum áttum, með tilheyrandi vestanbrimi/vestanhroða.  „Hann heldur enn þessum vestanrosa“.

Vestangarri / Vestangjóla / Vestangustur / Vestankul / Vestankæla / Vestansláttur / Vestannepja / Vestanvindur / Vestanþræsingur (n, kk/kvk/hk)  Vindur af vestri, yfirleitt ekki þó hvass. 

Vestanhríð / Vestankafald (n, kvk/hk)  Snjókoma í vestanátt.

Vestangutlandi (n, kk)  Allnokkur vestansjór, þó ekki rosi/garður.  „Það þýðir lítið að hugsa til róðra meðan hann heldur þessum vestangutlanda“.

Vestanmegin / Vestanverður (ao)  Að vestanverðu; sem er vestantil; vestanmegin.  „… hét félagið sem þjónaði vestanverðum hreppnum Sláturfélagið Örlygur“  (PG; Veðmálið). 

Vestanrok / Vestanstormur / Vestanstrekkingur (n, hk/kk)  Hvassviðri af vestri.

Vestanrosi (n, kk)  Óveður/ótíð með hvössum vestanáttum.  „Um það leyti sem hann kom aftur gekk í vestanrosa og brotnaði þá skipið“  (TÓ; Skipströnd í Rauðasandshreppi).

Vestansjór  / Vestanhroði / Vestanylgja (n, kk)  Sjógangur af vestri; greinilegur þegar hvítnar á Straumskeri og annarsstaðar undir Hryggjunum.  Hann gat verið orðinn töluvert sver löngu áður en vestanvinds varð vart.  Ef jók vestansjó voru líkur á að vestanátt fylgdi á eftir og síðan e.t.v. norðanátt með þurrki og landlegum.

Vestansperra / Vestansperringur / Vestanstrambi (n, kvk/kk)  Stíf vestanátt, einkum viðhaft á sjó.  „Hann leggur einhvern bölvaðan vestansperring fyrir Blakkinn“.

Vestanstæður (l)  Vindur af vestri.  „Hann er orðinn eitthvað vestanstæðari núna“.

Vestanvið (ao)  Vestanvert við; að vestanverðu.  „Fitin er vestanvið Torfalækinn“.

Vestfirskur framburður (orðtak)  Harður og skýr framburður sem einkenndi málfar Vestfirðinga og eimir nokkuð af enn, þó að mestu hafi lagst af.  Þrennt einkennir þennan framburð helst.  Í fyrsta lagi áherslumikill og opinn framburður sérhljóða, ekki síst „a“.  Í öðru lagi skýr og bókstaflegur framburður ólíkra samstæðra samhljóða, s.s. „ng“ og „rk“.  Þannig var t.d. orðið „gangur“ framborið eftir stafanna hljóðan og frammælt en ekki „gángur“ með koksamhljóðum eins og almennast er núna.  Þriðja sérkennið var það sem var greinilegast í Kollsvík meðal eldra fólks, fram á síðustu áratugi 20.aldar.  Það er hinn harði framburður samhljóða; ekki síst „ð“.  Oft er tilfærð vísan „Nordan hardan gerdi gard“ til að sýna þetta.  En einnig má rifja upp stöku séra Þorvaldar Jakobssonar (1860-1954) Sauðlauksdalsprests, sem honum varð að orði eftir að hann fékk fálkaorðuna:  „Fálka tyrdill fenginn er./  Feikna virding telst mér það.  /Svarið yrdi ördugt mér/ ef þú spyrdir fyrir hvað“.  Hér kemur fram að framburður fór eftir stöðu samhljóðans; „ð“ var mjúkt ef það var sérstætt en hart ef það var með samhljóða.

Vesti (n, hk)  Ermalaus yfirhöfn, vanalega hneppt að framanverðu.

Vestlægur (l)  Um vindátt; vestanstæður; af/frá vestri.

Vestmaður (n, kk)  Maður að vestan/ af vestursvæði.  Á landnámsöld var heitið notað um þá sem komu frá Írlandi eða Bretlandi, sem þá voru vestast í hinum þekkta heimi.  Vestmannaeyjar draga nafn af írskum þrælum Hjörleifs, sem urðu honum að bana en voru drepnir þar af Ingólfi Arnarsyni fóstbróður hans.  Vestmannsvatn í Þingeyjasýslu dregur nafn af írskum landnámsmanni á þeim slóðum.

Vestnorðan (ao)  Norðvestan átt.  „Mér sýnist hann vera að ganga upp á vestorðan“.

Vestra (ao)  Fyrir vestan; vestara. 

Vestri (n, kk)  Nafn á ungmennafélagi í Kollsvík.  Fjölmennt var í Kollsvík á fyrstu áratugum 20. aldar.  Þar var árið 1916 stofnað Ungmennafélagið Vestri, og rak það öfluga starfsemi um langan tíma.  T.d. voru félagsmenn 35 árið 1918.  M.a. gaf það út blaðið Geisla; hélt tvo fundi í mánuði yfir vetrartímann; hélt uppi öflugu forvarnarstarfi; stóð fyrir söngkennslu og söng í Breiðavíkurkirkju; stóð fyrir ýmsum samfélagsverkefnum; byggði upp lendingarvörður; lagði hestfæran veg um Flosagil; hélt úti kartöflurækt í Breiðavík og gerði veg uppúr Kollsvíkinni.  Innan félagsins starfaði sérstök íþróttadeild, í greinum s.s. skíða- og skautaíþróttum, sundi og glímu.  Starfsemin hafði að mestu fjarað út 1927.  Enduróm af starfsemi félagsins mátti glöggt heyra út alla 20. öldina, t.d. í söngáhuga og félagsstarfi þeirra sem lifðu þessa tíma.  „Margur mun búa ævilangt að þeim áhrifum, sem hann hefur orðið fyrir í ungmennafélagi í æsku sinni" (ummæli Valdimars Össurarsonar (eldri) um Umf. Vestra í riti U.M.F.Í.). 

Vesturálfa (n, kvk)  Ameríka.

Vesturfari (n, kk)  Sá sem fer vestur.  Einkanlega er heitið notað um fólk sem flutti frá Íslandi til Ameríku á tímabilinu um 1870-1914, sem voru yfir fjórtán þúsund manns.  Ástæður þessara miklu fólksflutninga voru margar; auðveldari ferðamáti en áður; fátækt; þröngbýli; vistaskylda og sögusagnir um betra líf.  Eitthvað var um að Kollsvíkingar færu vesturum, og eru þar nokkrir ættbogar af Kollsvíkurætt.

Vesturferð (n, kvk)  A.  Ferð vestur, t.d. frá Reykjavík eða Borgarnesi í Kollsvík.  „Ég er ekki varinn að huga til vesturferðar ennþá“.  B.  Flutningur Íslendings til Vesturheims (Kanada, Bandaríkjanna eða Brasilíu), en margir fluttu þangað búferlum á 19. öld.

Vesturheimur (n, kk)  Ameríka.  Einkum er heitið notað í tengslum við vesturfara.

Vesturhiminn / Vesturloft (n, hk)  Himininn í vesturátt.  „Mér líst ekki á sortann í vesturloftinu“.

Vesturíslendingur (n, kk)  Maður af íslenskum ættum sem býr í Ameríku; afkomandi vesturfaranna.

Vesæll (l)  Vesall, sjá þar.

Vesöld (n, kvk) A   Eymd; aumingjadómur.  „Ekki fer sögum aðf því að mannfellir hafi orðið af hugri og vesöld í Útvíkunum, þó óáran gengi yfir landið annarsstaðar.  Þarna var matbjörgin nær en viðast annarsstaðar“.  B.  Veikindi; lympa.  „Það er búin að vera einhver bövuð vesöld í mér þessa dagana“.

Vetfang (n, hk)  Andrá; andartak; augnablik.  Sjá í einu vetfangi.

Vetni (n, hk)  Vatnsefni; léttasta frumefnið og hið algengasta í alheimi.  Vetni er m.a. annað frumefna vatns; eldfim lofttegund sem auðveldlega hvarfast orkugæft við ýmis önnur efni.  Við mikinn hita og þrýsting geta vetniskjarnar runnið saman og myndað þyngri efni, oftast helíum.  Við það myndast gríðarlegur hiti og geislun, og það er sú orka sem sólstjörnur gefa frá sér, líkt og okkar Sól.

Vetra (n, kk, ft, ef)  Aldur manna og dýra var fyrrum fremur mældur í vetrum en árum, líkt og nú er títt.  „Tíu vetra orðinn er/ öðrum sveinum fegri;/ fulla hreysti fjögra ber,/ flestum vígalegri“  (JR; Rósarímur).

Vetra (s)  Verða/koma vetur.  „Ég þarf að klára þetta áður en vetrar“.

Vetrarbeit (n, kvk)  Beit/bithagi fyrir sauðfé að vetrarlagi.  „Vetrarbeit er víða góð í Kollsvík,og einnig hjálpar fjörubeit.  Því var nokkuð fóðurlétt fyrir sauðfé“.

Vetrarblóm (n, hk)  Saxifraga oppositifolia.  Jurt af steinbrjótsætt, sem er áberandi á melum, klettum og holtum snemma vors.  Jurtin vex í litlum þúfum með jarðlægum stönglum.  Hún ber mörg smá, rauð eða rauðfjólublá blóm, oft um 1 cm í þvermál;  lauf eru 3-4 mm.  Í Kollsvík er hún algeng ofan mesta láglendisins og setur líflegan svip á holtin snemma vors.

Vetrarbrautin (n, kvk)  Stjörnukerfi það sem okkar sólkerfi tilheyrir, og sést sem slæða yfir stjörnubjartan himininn.  Nafn hennar má líklega rekja til þess að hún var áður talin geta spáð fyrir um veður á komandi vetri.  Ef hún var mjög skýr og sást vel vissi það á snjóavetur, en er hún var dauf og óglögg boðaði það snjóléttan vetur.  Væri hún sumsstaðar skýr en annarsstaðar dauf boðaði það snjóþyngsli með köflum yfir veturinn.  Mátti þannig lesa vetrarbrautina frá austri til vesturs, eins og veðuralmanak vetrarins. 

Vetrardagurinn fyrsti / Vetrarbyrjun (orðtak/ n, kvk)  Samkvæmt gamla tímatalinu er vetrardagurinn fyrsti laugardagurinn að lokinni 26. viku.  Fyrsta vetrardag ber uppá 21.-27. oktober, nema í svonefndum rímspillisárum; þá 28.okt.  Fyrsti vetrardagur var fyrrum messudagur.  Þann dag hefst gormánuður, en sláturtíð mun fyrrum hafa staðið um þetta leyti. 

Vetrardvali (n, kk)  Ástand sumra lífvera að vetri, þegar hægir á líkamsstarfsemi og þær liggja sem dauðar og bíða sumarhlýju.  Ástand gróðurs að vetri, þegar starfsemi liggur niðri og jurtir bíða sumars og lífs.

Vetrardvöl (n, kvk)  Vist yfir vetur.  „Vetrardvöl á vondum stað/ vil ég fremur kjósa“./  Sjálfsagt færu ýmsir að / eins í sporum Rósa“ (JR; Rósarímur). 

Vetrarfjós (n, hk)  Fjós sem kýr eru hafðar í að vetrarlagi.  Algengt var fyrrum að kýr væru að vetrarlagi hafðar í fjósum við eða undir baðstofum, til að fá hitann af kúnum og spara vinnu við vatnsburð; en að sumarlagi voru þær færðar í sumarfjós nær bithögum sínum.  Þannig var t.d. á Láganúpi; vetrarfjós var á bæjarhólnum en gamla Hesthúsið gegndi hlutverki sumarfjóss.  Það breyttist svo á 4.áratugnum þegar fjós varð hluti af nýjum steyptum skepnuhúsum og nýtt íbúðarhús var tekið í notkun.

Vetrarforði (n, kk)  Matur/fóður til vetrarins.  „Skatan var gerð til; börðin voru grafin í sand svona vikur til 10 daga, þá tekin og þvegin; söltuð dálítið og geymd sem vetrarforði“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). 

Vetrarfóðruð ær / Vetrarfóðrun (n, kvk)  Kind sem fóðra þarf yfir veturinn / fóðrun búfjár og gripa yfir vetur.  „Ég fékk eitt og hálft lamb til jafnaðar eftir hverja vetrarfóðraða á“.

Vetrarfóður (n, hk)  Fóður til að fóðra fénað yfir vetur.

Vetrarfærð (n, kvk)  Færð á vegum að vetrarlagi.  „Mér finnst nokkuð snemmt að þurfa að kljást við  vetrarfærð núna í haustbyrjun“.

Vetrargöngumannavegur (n, kk)  Göngustígur/göngumannavegur sem er snjóléttari en venjuleg leið, en stundum lengri.  „Upp af Látravatni að norðan er vetrargöngumannavegur, þegar hálsinn er ófær, og heitir Reiðleit.  Hún er við vestari endann á Bjarnarhlið“  (Guðm. Sigurðss; Örn.skrá Rauðasandshrepps).

Vetrarhamur (n, kk)  Slæmt veður að vetri.  „Menn fara ekki í langferðir í þessum vetrarham“.

Vetrarhörkur (n, kvk, fto)  Harðindi í tíðarfari að vetrarlagi. 

Vetrarnaust (n, hk)  Naust sem bátur er geymdur í yfir vetur.  „Fjarri leiðum fengsældar; frá því snemma á hausti;/ rambar nú mitt frostafar/ fram úr vetrarnausti“  (JR; Rósarímur).

Vetrarríki (n, hk)  Vetrarhörkur; mikil snjóalög.  „Það er bara komið allmikið vetrarríki“.

Vetrarkuldi (n, kk)  Kuldi eins og um vetur.  „Maður á ekki von á svona vetrarkulda um hásumar“!

Vetrarkvíði (n, kk)  Köngulóarvefur sem liggur í áberandi breiðu á jörðinni.  Þetta er spuni voðköngulóar sem er ein 84 ætta köngulóa á Íslandi; lítil og yfirleitt lítt áberandi.  Á haustin skríða þær upp í stráin og spinna langan þráð sem vindurinn grípur svo með köngulónni í og feykir á næsta strá og síðan þarnæsta.  Í góðu köngulóaári og hagstæðum skilyrðum getur þannig myndast silkiteppi sem þekur stór svæði og er áberandi úr fjarlægð.  Það þótti boða harðan vetur ef mikið bar á vetrarkvíða.  Sumir sögðu að fanndýpi yrði jafn mikið að vetrinum og vetrarkvíðinn var langur sumarið áður. 

Vetrarkvöld (n, hk)  Kvöld að vetrarlagi.  Vetrarkvöldin voru mönnum eflaust verið fólki löng áður fyrr, þegar ljósmeti var af skornum skammti en mikið unnið á heimilunum.

Vetrarsamgöngur (n, kvk, fto)  Ferðir milli staða að vetrarlagi, og möguleikar á þeim.  „…nýbyggingu vegarins frá Kollsvík að Vistheimilinu að Breiðavík, sem mun tryggja því og Hvallátrum öruggar vetrarsamgöngur og auk þess tengja sveitina saman í félagslega heild“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Vetrarveiðar (n, kvk, fto)  Veiðar að vetrarlagi.  „Á brún Strengbergs er rúst af skothúsi frá því að vetrarveiðarar voru stundaðar á ref“  (HÖ; Fjaran).  

Vetrarþraut (n, kvk)  Þolraunir vetrarins.  „Þá er úti vetrarþraut þegar spóinn vellir graut“.

Vetrarþyngsli (n, hk, fto)  Snjóþyngsli, ófærð, hagleysi og aðrir erfiðleikar á bújörð að vetrarlagi. 

Vetrungur (n, kk)  Veturgamall kálfur.  „Ég gæti trúað að þetta skrýmsli hafi verið á stærð við vetrung“.

Vettlingalaus (l)  Án vettlinga.  „Þú ferð ekki vettlingalaus út í þennan brunakulda“!

Vettlingar (n, kk, fto)  Fatnaður til hlífðar höndum.  Góðir vettlingar hafa alla tíð verið ómissandi þarfaþing í Kollsvík, bæði til sjós og lands, og vettlingaprjón var mikilvægur hluti bústarfa.  Fingravettlingar þekktust ekki áður fyrr, heldur voru notaðir belgvettlingar, þar sem allir fingur eru saman nema þumalfingur sem hefur sérstaka totu; þumalinn.  Efsti hluti vettlings er laski en neðan við hann er belgurinn fyrir fingurna.  Þumlar hvers vettlings voru að jafnaði tveir.  Ástæða þess var sú að vettlingurinn slitnar mest í lófanum, en með því að hafa þumlana tvo mátti snúa vettlingnum á hendinni og auka endingu hans.  Vettlingar sjómanna nefndust sjóvettlingar.  Væru þeir ætlaðir til róðra nefndust þeir róðrarvettlingar, en við skak voru notaðir færisvettlingarUllarvettlingar voru þæfðir áður en þeir voru teknir í notkun til að fá þá þéttari.  Við stöðugt álag, s.s. í róðri, vildu þeir þófna enn meir í lófanum og kreppast.  Þá var sagt að þeir væru rónir.  „Við bar í hlýju og góðu sjóveðri, laskasjóveðri, að menn tóku af sér vettlingana og brugðu laskanum upp á árarhlumminn, svo hann þófnaði eins og belgurinn.  Þegar ekki var lengur hægt að nota vettlingana við róður urðu þeir aðgerðarvettlingar, slorvettlingar, og stundum hrífu- eða kláruvettlingar.  Að dorga fyrir flyðru með færi nálgaðist meira leik en önnur fiskveiði í sjó, og þótti því stundum við eiga að vera með skrautlegri dráttarvettlinga en endranær, og voru þeir yfirleitt kallaðir sprökuvettlingar. ..  fitin var venjulega þrílit og komu þeir litir ekki fram annarsstaðar í vettlingnum. .. Í verstöðvum í Útvíkum voru vermönnum ætlaðir þrennir færisvettlingar og tvennir róðrarvettlingar.  (Frásögn ÓETh, HM o.fl; LK; Ísl. sjávarhættir II). „Vettlingar voru ýmist handvettlingar sem voru notaðir ef fólk fór t.d. milli bæja. Þeir voru gjarnan úr smáu bandi og oft tvíbanda. Svo voru grófari vettlingar notaðir við vinnu og þeir þykkustu voru sjóvettlingar. Þeir þófnuðu gjarnan á árinni og voru þá kallaðir rónir. Vettlingar voru oftast með tveim þumlum (nema barna og kvenvettlingar). Voru þá þumlarnir sem ekki voru notaðir snúnir inn í vettlinginn. Svo var skipt um þumla og þá þófnuðu þeir og slitnuðu jafnar“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Vettlingatök (n, hk, fto)  Tök þess sem hefur vettlinga á höndum, en þau þykja ekki jafn traust og hins sem er berhentur.  Því er orðtakið; lin eru vettlingatökin og taka (eitthvað) vettlingatökum.

Vetrardagur fyrsti (n, kk)  Sjá fyrsti vetrardagur.

Vetrargeymsla (n, kvk)  Geymsla yfir vetur.  „Þegar voraði voru horn, leggir, kuðungar og kúskeljar tekin úr vetrargeymslu og farið að stunda búskap af fullum krafti“  (IG; Sagt til vegar II). 

Vetrarlangt (l) Yfir vetur.  „Ég dvaldi vetrarlangt hjá frændfólkinu í Borgarnesi“.

Vetrarveður (n, hk)  Veðurlag/veðurfar að vetrarlagi.  „Það er nú varla hægt að hugsa sér betra vetrarveður en verið hefur síðustu vikurnar“.

Vettlingatök (n, hk, fto)  Óhönduglegt verklag; klaufaskapur.  „Það dugir ekki að taka þetta einhverjum vettlingatökum“. 

Vettlingaveður (n, hk)  Svo kalt að vettlinga sé þörf.  „Búðu þig almennilega.  Þetta er vettlingaveður“.

Vettugi   Þágufall af vetki = ekki.  Einungis notað núna í orðtökum; hafa/virða að vettugi = hafa að engu.

Vettvangur (n, kk)  Staður þar sem eitthvað gerist.  Vétt er fornt orð yfir víg, og því merkir vettvangur upphaflega vígvöllur.

Vetur (n, kk)  Árstíð kaldari veðráttu.

Veturgamall (l)  Um sauðfé; sem lifað hefur einn vetur.  Oftast notað um hrút/sauð; gimbrar voru þá gemlingar.

Veturnætur (n, kvk, fto)  Tíminn fyrir fyrsta vetrardag; tveir síðustu sólarhringarnir á sumri að fornu tímatali; þ.e. fimmtudagur og föstudagur að lokinni 26. viku sumars (27. í sumaraukaári). 

Veturseta (n, kvk)  Dvöl yfir vetur.  „Örlygur hafði vetursetu í Örlygshöfn en sigldi um vorið suður á Kjalarnes“.  „Sveini get ég vöskum veitt/ vetursetu fína;/ það um velja áttu eitt/ annars lífi týna“ (JR; Rósarímur). 

Veturkaldur (l)  Kaldsamt að vetrarlagi.  „Það virðist ekki tilviljun ein að kirkjunni skyldi veljast heimkynni í hinum sumarfagra en veturkalda Sauðlauksdal“  (RÍ; Ágrip af sögu kirkju og presta í Sauðlauksdal)

Veturlönd (n, hk,, fto)  Vetrarbeitiland sauðfjár.  Veturlönd eru á nokkrum stöðum sem örnefni í Rauðasandshreppi, s.s á Geitagili og í Sauðlauksdal, og orðið er því gamalt. „Veturlönd eru vallgrónar lautir sunnantil í hálsinum; beint uppaf Framdalnum og Stóraleitinu, og ná allt fram undir Hrísmúlann....  Þarna sunnan í hálsinum þótti mesta kjarnabeit þegr sólar fór að gæta í þorralokin og þar var yfirleitt aldrei jarðbann.  Þar af er dregið nafnið; Veturlönd“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Vex hugur þá vel gengur (orðatiltæki)  Ákafi og áhugi manna eykst við velgengni, en minnkar að sama skapi þegar illa gengur.

(n, hk)  A.  Helgidómur í heiðnum sið.  Gjarnan er talað um „hin helgu vé“ þegar hæðst er að því söm öðrum þykir um of heilagt.  Sjá einnig vargur í véum.  B.  Gunnfáni.

Vébönd (n, kvk, fto)  Heiti frá heiðnum sið; bönd sem notuð voru til að afmarka helgan stað.  Nú á dögum notað í orðtakinu að hafa innan sinna vébanda.

Véfengja (s)  Efast um; draga í efa.  Málhreinsunarmenn telja að orðið skuli ritast með e en ekki é, en í framburði Kollsvíkinga var einatt í því é-hljóð, a.m.k. á seinni tímum.  „Ég véfengi því annan rithátt“.  Vé/ve er neitandi forskeyti.

Véfrétt (n, kvk) A.  Upphaflega merkingin er svar guðlegrar veru við spurningu dauðlegs manns.  Elsta heimildin um véfrétt er hin fræga Véfrétt í hofi Appollós í Delfí í Grikklandi.  Þar sat spákona í hofi og veitti svör guðsins við spurningum, en svörin munu einatt hafa verið torræð og óljós.  B.  Óljós/tvíræð ummæli/fullyrðing.  „Hann talaði eins og véfrétt um þessi málefni“.  Sjá í véfréttarstíl.

Vél (n, kvk)  A.  Svikráð; svik; brögð.  B.  Mótor; gangverk; hreyfill.

Véla (s)  Lokka; plata; svíkja.  „Reyndu nú að véla hann til að hjálpa þér“. 

Véla (einhvern) til (einhvers) (orðtak)  Ginna einhvern til einhvers.  „Ég ætla að reyna að véla hann til að gera þetta fyrir mig“.

Véla útúr (orðtak)  Hafa eitthvað af einhverjum með brögðum.  „Hann vélaði útúr mér hnífinn“.

Vélabrögð / Vélráð (n, hk, fto)  Sniðurgheit; plat; svik; baktjaldamakk.  „Hann taldi sig vélabrögðum beittur“.  „Þarna voru einhver vélráð í gangi milli hluta stjórnarmanna“.

Vélar í tafli (orðtak)  Brögð í tafli; undirferli; fláræði.  „Mig grunaði að hér væru vélar í tafli“.

Vélarafl (n, hk)  Kraftur/afl vélar.  „Var nú ekki sparað vélaraflið“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Vélarfjandi (n, kk)  Skammaryrði um vél.  „Hún ætlar þá að vera með sömu kenjarnar og í gær; vélarfjandinn“! „Gekk svo lengi að vélarfjandinn tók ekki eitt einasta púst“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Vélarkassi (n, kk)  Kassi utanum vél; mótorkassi.  Vélarkassar voru utanum vélar í fyrstu bátunum í Kollsvíkurveri.  Vanalega voru þeir léttbyggðir; botnlausir og hægt að lyfta þeim úr í heilu lagi; opnanlegir að ofan og með götum fyrir púst, sveif o.fl.  „Vélin var komin í gang.  „Þú keyrir með fullri ferð, en verður viðbúinn að slá af þegar ég segi þér, og sjáðu um að húsið sé vel lokað“.  Þetta var til mín talað.  Húsið var bara vel þéttur kassi, með smálokum yfir sjálfri vélinni, eins og algengt var í þá daga“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Vélarkvikindi / Vélarrokkur / Vélartík (n, hk/kk/kvk)  Uppnefni á vél/mótor.  „Það var ekki von að vélarkvikindið héldist í gangi; það var ekki deigur dropi á tanknum“!  „Árans vélarrokkurinn var með einhverja dynti“.  „Vélartíkin drap á sér við Breiðaskerið, svo við rerum síðasta spölinn“.

Vélarvana (l)  Um bát; með bilaða vél á hafi úti. 

Vélbátur (n, kk)  Vélknúinn bátur.  Vélar fóru koma í báta í Kollsvíkurveri á öðrum og þriðja áratug 20.aldar.  Meðal vélbáta var Yngri-Fönix sem notaður var til flutninga.  Vélbátar höfðu ýmsa kosti framyfir róðrarbáta, bæði losnuðu menn við puðið af róðrinum og gátu sótt lengra.  Hinsvegar voru vélbátar mun þyngri í setningu, en það átti sinn þátt í að hin fornu útver lögðust flest af.  „Bátur föður míns hét Rut og var vélbátur.  Árabát átti hann líka sem hét Svala.  Bátur Jóns Torfasonar í Kollsvík hét Gefjun og var vélbátur.  Bátur Helga Árnasonar í Tröð hét Von og var einnig vélbátur“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Vélgæsla (n, kvk)  Eftirlit með vél; vélavarsla.  „Sá er þetta rifjar upp hafði þarna á hendi formennsku og vélgæslu“  (KJK; Kollsvíkurver).

Vélinda (n, hk)  Líffæri í hálsi, sem fæða fer um frá munni til maga.  Einatt frb vælinda í Kollsvík fyrrum.

Vélritun (n, kvk)  Ritun með ritvél.  Tími ritvélanna leið undir lok með tölvuvæðingunni, en ýmsar aðferðir vélritunar gilda einnig um lyklaborð tölvu.

Vélrænt (l)  A.  Sem framkvæmt er með vél.  B.  Sem maður gerir reglubundið, líkt og vél.

Vélsími (n, kk)  Tæki í stóru skipi, til að skipstjórnandi geti gefið fyrirskipanir úr brú niður í vélarrúm um snúning skrúfu og hraða vélar. 

Vélsleði (n, kk)  Vélknúinn sleði.  Fyrsti vélsleðinn í Útvíkum kom í Breiðavík fyrir 1970, af gerðinni SnowTrick.  Hann komst síðar í eigu Ólafs Sveinssonar á Sellátranesi.

Véltækt túnn (orðtak)  Tún/slétta sem unnt er að slá með sláttuvél.

Vér (fn)  Fleirtala af „ég“, samkvæmt fyrri tíma beygingu; þó stundum einnig notað í eintölu.  „Vér mótmælum allir“.

Við (fs)  Hjá; nærri.  „Fjárhúsin stóðu áður við sjóinn“.

Við aldur (orðtak)  Aldraður; gamall.  „Hann hlýtur að vera orðinn nokkuð við aldur núna“.

Við alþýðuskap (orðtak)  Svo öllum líki.  Oftast með neikvæðu fororði:  „Hann þótti einrænn, tortrygginn og lítt við alþýðuskap“. 

Við annan mann (orðtak)  Ásamt öðrum manni.  „Ég var þarna á ferð við annan mann fyrir stuttu“.  Einnig er sagt að maður fari við þriðja mann þegar þrír eru alls í hópnum; sama orðalag er um annan fjölda.

Við álnir/efni (orðtak)  Efnaður; ríkur.  „Einar í Kollsvík var sagður vel við efni“.

Við áttina (orðtak)  Um vindstöðu; vindur úr tiltekinni átt, einkum ef sama vindátt hefur staðið lengi.  „Hann lægir ekki sjóinn meðan hann er enn við áttina“.  „Hann er þá við áttina eins og fyrri daginn“.

Við bjargandi (orðtak)  Unnt að bjarga.   „Honum er þá ekki við bjargandi ef hann þiggur þetta ekki“.

Við borð liggur (orðtak)  Stappar nærri; er nærri því; næstum.  „Hann missti jafnvægið þegar hann stökk milli þófta í bátnum, og við borð lá að hann færi í sjóinn“.

Við brugðið (orðtak) Um það sem merkilegt þykir; til tekið; um talað.  „Sérstaklega hafi Jóni (í Gröf, föður Einars í Kollsvík) verið við brugðið fyrir gáfur og mannkosti“  (TÓ; Kollsvíkurætt). 

Við bælið/rúmið (orðtök)  Rúmliggjandi/innandyra vegna veikinda.  „Ég hef bara verið við bælið í dag“.

Við dauðans dyr (orðtak)  Að dauða kominn; dauðans matur.  „Ég frétti að hann væri bara við dauðans dyr“.

Við góða heilsu / Við hestaheilsu (orðtak)  Heilbrigður; hraustur; heill heilsu.  „Ég er við hestaheilsu“.

Við hendina/höndina (orðtak)  Nálægt; innan seilingar.  „Fyrri tíðar fólki varð það aldrei á að nota hina röngu beygingu sem nú er viðtekin venja; „við hendina“.  Það virti beygingarreglur og talaði um „hönd“.

Við hestaheilsu (orðtak)  Mjög heilsuhraustur.  „Síðast þegar ég vissi var hann í fullu fjöri og við hestaheilsu“.

Við illan leik (orðtak)  Með erfiðismunum; naumlega.  „Ég komst við illan leik upp á brúnina, en þurfti að skilja eggjafötuna eftir niðri í ganginum“.

Við illt/lítið má bjargast en ei við ekkert (orðatiltæki)  Unnt er e.t.v. að nýta það sem lítilfjörlegt/fátæklegt er, en allsleysi þýðir bjargarskort. 

Við kvenmann kenndur (orðtak)  Á föstu með konu; í sambúð með konu; samrekkt konu.  „Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur, eftir því sem best er vitað“.

Við lenda (orðtak)  Enda; verða niðurstaða.  „Enn eykur hann frostið; ekki veit ég við hvað þetta lendir“.  „Hann segist alveg geta sofið í hlöðunni ef við það lendir, fyrst svona mikið er fyrir af gestum“.

Við lítið má bjargast en ei við ekkert (orðatiltæki)  Hægt er að láta sér nægja lítið en illt að fá ekkert.  Viðhaft við ýmis tilefni, t.d. fiskiróðra.

Við lýði (orðtak)  Viðgengst/endist með mönnum.  „Þegar ég man fyrst eftir voru enn við lýði ýmsir hinna gömlu búskaparhátta“.  „Var það notaður bíll og var þar við lýði um tíma“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).  Sjá lýður.

Við nánari athugun/skoðun (orðtök)  Þegar mál/viðfangsefni er skoðað ofan í kjölinn/ rannsakað vel. 

Við ofurefli að etja (orðtak)  Meiri liðsöfnuður/ sterkari andstæðingur en ráðið verður við.  „Tófan sá strax að við ofurefli var að etja, og flúði undan hundinum“.

Við og við (orðtak) Öðru hvoru; aðra stundina; stundum.  „Hún kepptist við saumaskapinn en leit upp við og við, til að fylgjast með barninu“.

Við ramman reip að draga (orðtak)  Erfitt viðureignar.  „Það er við ramman reip að draga að fá nokkra krónu til viðhalds á þessum útkjálkavegum“.  „Þar var þó við ramman reip að draga, því vegir voru með þeim hætti að ekki var mögulegt að flytja skurðgröfur um svæðið“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).  Reipi virðist samkvæmt þessu á einhverjum tíma hafa verið karlkynsorð; „reipur“.

Við róðra (orðtak)  Á vertíð; í veri.  „Annað atvik var að vori.  Allir við róðra og við öll komin í rúmin, en mamma þurfti oft að vera á fótum fram á nótt“  (IG; Æskuminningar).  „Næsta vetur var ég í Vatnsdal hjá Ólafi Thoroddsen, en næsta vor var ég við róðra og síðan sumarið í kaupavinnu á Hnjóti hjá Ólafi Magnússyni móðurbróður mínum“  (IG; Æskuminningar). 

Við rúmið/rúmstokkinn (orðtök)  Veikur; lasinn; rúmliggjandi.  „Þetta er óþverrapest;ég var við rúmið í þrjá daga áður en fór að brá af mér“.

Við sama heygarðshornið (orðtak)  Um skoðanir; deilu; þrjósku.  „Þú ert enn við sama heygarðshornið; að verja þessa ríkisstjórnarnefnu fram í rauðan dauðann“!  „Enn er hann við sama heygarðshornið með þennan norðanþræsing“.  Hey voru áðurfyrr hlaðin útivið; oftast bakvið skepnuhúsin.  Yfir þau var tyrft og um þau var gerður garður til varnar ágangi fjár.  Allt var það nefnt heygarður.  Sá sem fór spart með hey var lengi við sama heygarðshornið; þar sem hann hafði rofið þekjuna  til að ná heyinu.

Við (sjálft) liggur (orðtak)  Stappar nærri; nærri; liggur við.  „Við lá að illa færi þegar aldan reið undir bátinn“.

Við skál/vín/öl (orðtök)  Kenndur; ölvaður; fullur.  „Sumir voru orðnir allnokkuð við skál og lá hátt rómur“.

Við stóran að deila / Við ramman reip að draga (orðtak)  Erfitt við að eiga; vont að fást við.  „Ég reyni að fá þessu breytt, en þar er við stóran að deila.  Þetta gæti þurft að fara fyrir stjórnina“.  Reipur er eldri mynd af reipi, og það orðtak vísar líklega til reiptogs.

Við svo búið (orðtak)  Í þeirri stöðu; þegar þannig var ástatt.  „Ekki gáfust þau upp við svo búið, en brugðu sér alla leið norður á Hrafnseyri, þar sem séra Böðvar gaf þau saman“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  Sjá að svo búnu/stöddu.

Við (betra) tækifæri (orðtak)  Þegar (betur) hentar; þegar betur/vel stendur á.

Við vægu verði (orðtak)  Ódýrt.  „Hann seldi mér þetta við vægu verði“.

Við það sama (orðtak)  Svipað og var; lítið skeð síðan síðast.  „Héðan er allt við það sama; engar stórfréttir“.

Viða (n, kvk)  Hespa af bandi/garni/lopa.  Heitið er dregið af viði, því lopi var oftast vafður upp á viðutré til að gera slíka hespu/viðu.

Viða (s)  A.  Smíða úr viði, einkum máttarviði t.d. í hús.  „Ég er búinn að viða þakið og farinn að helluleggja það“.  B.  Festa flot/kubba/korka á flottein/kubbatein/korkatein nets (sjá viðað). 

Viða að (orðtak)  Safna; birgja upp.  „Ég viðaði að mér töluverðum upplýsingum um málið“.  Dregið af því að ná sér í timbur/tré til smíða eða kolagerðar.

Viða tvo og þrjá (orðtak)  Viða net þannig að ýmist séu tveir eða þrír kubbar/korkar á hverjum faðmi; sjá viðað.

Viðað (l)  A.  Um hús eða annað mannvirki úr tré; úr miklum/góðum viði; sterklega byggt.  B.  Um net; sagt er að net sé mikið eða lítið viðað eftir því hvort í flotþininum sé mikið eða lítið flotmagn; hvort á honum séu fleiri eða færri korkar/flot.  Mikilvægt er að net sé hæfilega viðað til að það standi rétt í sjónum, án þess að vera of mikið strekkt.  Fiskur ánetjast illa í of viðuðu neti.  Væru kubbarnir hæfilega stórir þótti hæfilega viðað að hafa tvo til þrjá á faðminum; kallað að viða tvo og þrjá.

Viðamikill (l)  Ruðamikill; umfangsmikill; stór.  „Þetta var nokkuð viðamikil dagskrá“.  Merkti upphaflega; „úr miklum viðum“.

Viðarbolur (n, kk)  Trjábolur; tré.

Viðarferð (n, kvk)  Ferð sem gerð er til að afla viðar; einkanlega þá átt við ferð á Strandir eftir rekaviði.  „Í Kollvík bjó Bjarni Jónsson, kunnur skipasmiður sem smíðaði teinæring 19 ára gamall, og fór síðan fjölda viðarferða norður á Strandir... “  (TÓ; Kollsvíkurætt).  Líklega kringum árið 1700.  Bjarni þessi var einn hinna frægu Sellátrabræðra;  bróðir Halldórs, forföður Guðrúnar konu Einars í Kollsvík, sem  var forfaðir Kollsvíkurættar.

Viðarfloti (n, kk)  Safn stórviðar sem skógarhöggsmenn fleyta niður ár, að sögunarmyllum.  „Talið hefur verið að mikið af rekaviði á Íslandsfjörum sé til komið af því sem tapast úr viðarflotum skógarhögsmanna og sögunarmylla í Rússlandi og Ameríku“.

Viðarhraukur (n, kk)  Hrúga/haugur af viði/spýtum.

Viðarilmur (n, kk)  Ilmur/ góð lykt af viði/tré.  „Í verkfærahúsinu var angandi viðarilmur eftir heflunina“.  „Hún setti stundum nýjar sjóreknar næfrur á eldavélina, svo viðarilminn lagðium húsið“. 

Viðarkol (n, hk)  Kolaður viður.  Viðarkol voru gerð hérlendis frá upphafi landnáms og framá 20. öld.  Þau eru langt frá því að vera jafn hitagæf og steinkol sem fluttust inn á síðari öldum.  Með brennslu viðarins í viðarkol var losað úr honum vatn, þannig að þau brunnu við hærri hita en viður.  Því voru þau nauðsynleg við járnsmíði; t.d. dengingar ljáa og rauðablásturs.  Viðarkolagerð var oftast stunduð þar sem nægan við var að hafa, t.d. nærri skógum og kjarri, en einnig stundum úr rekaviði.  Grafin er gröf; kolagryfja.  Viðurinn er höggvinn og kurlaður hæfilega smátt; síðan borinn að gröfinni.  Lítið kom stundum úr hverjum stað, en safnaðist í myndarlega hrúgu á grafarbakkanum.  Af því er dregið orðtakið „þegar öll kurl eru komin til grafar“.  Eldur var kveiktur á botni kolagrafarinnar og síðan var kurlinu hrúgað ofaná hann.  Þegar komin var glóð í kurlið, og áður en það fór að brenna að ráði, var gryfjunni lokað.  Bruninn varð loftfyrrtur og viðurinn kolaðist við nokkurn hita; án þess að brenna; oft í þrjá til fjóra daga.

Viðarreki (n, kk)  Reki trjáviðar á fjörur.  „Viðarreki hefur verið fremur lítill undanfarin ár“.

Viðauki (n, kk)  Viðbót; það sem auki/bætt er við.  „Stígvélin þótti honum lág, og því límdi hann ofaná þau dálítinn viðauka“.

Viðbára (n, kvk)  Afsökun; fyrirsláttur; það sem borið er við.  „Strákarnir báru ýmsu við til að sleppa við að að sækja kýrnar.  Hjá einum var viðbáran sú að hann væri með drifblöðrur í lófanum“.

Viðbein (n, hk)  Bein lárétt í öxl; sem tengir saman axlarlið og bringubein“.

Viðbit (n, hk)  Merkir í raun það sem borðað er með, en er jafnan haft um smjör/margarín/bræðing sem haft er ofan á brauð.  „Eitt sinn ofhitnaði rauðmagi í reykingu, og varð svo meyr að kreista mátti hann úr kveljunni.  Í fyrstu var haldið að þetta væri allt ónýtt, eða allt þar til uppgötvaðist að nota mátti þennan feita og bragðgóða rauðmaga sem viðbit í stað smjörs“.  Sjá bíta við.

Viðbjóðslegur (l)  Fráhrindandi; vekur klígju/óhug.  „Hvalhræið í fjörunni er að verða ansi viðbjóðslegt“.  Sjá bjóða við.

Viðbjóður (n, kk)  Það sem er viðbjóðslegt/fráhrindandi.  „Hvaða viðbjóður er í þessari flösku“? Sjá bjóða við.

Viðbót / Viðbætir (n, kvk/kk)  Það sem bætt er við; viðauki.  „Ég lét hann hafa nokkur egg í viðbót“.

Viðbragð (n, hk)  Andsvar; snögg hreyfing.  „Ég var ekki sáttur við hans viðbrögð við þessu“.  Sjá bragð.

Viðbrenndur / Viðbrunninn (l)  Matur sem ofsoðið/brunnið hefur í botni potts/pönnu.  „Fátt er verra en viðbrunninn grautur“.

Viðbrigðamaður (n, kk)  Sá sem er viðbrugðið; sá sem er framúrskarandi á umræddu sviði.  „Hann var viðbrigðamaður að kröftum“.

Viðbrigði (n, hk, fto)  Umskipti.  „Kýrnar voru stuttan tíma úti þennan fyrsta dag, til að venja þær við viðbrigðin“.  „Þessi hlýi vetur er nokkur viðbrigði frá frosthörkunum í fyrra“.

Viðbrugðið (l)  Umtalað; sérstakt; einstakt.  „Því var viðbrugðið hve hann var góður söngmaður“.  „Því var viðbrugðið í sveitinni, hér áður, að þegar flökkuhundarnir höfðu gert einhverja skömm af sér þá stungu þeir skottinu á milli lappanna og étu sig hverfa á hljóðlátan hátt“ (AÍ; Árb.Barð 1980-90).

Viðbundinn (l)  Upptekinn; bundinn yfir einhverju.  „Ég er ekkert sérlega viðbundinn núna; ég er alveg til í að koma með ykkur“.  Sjá vera viðbundinn.

Viðburðalaust (l)  Án tíðinda.  „Ferðin til baka var að mestu viðburðalaus“  Einnig stórviðburðalaus.

Viðburðaríkur (l)  Um tíma; annasamur; með mörgum atvikum/uppákomum.

Viðburður (n, kk)  Atburður; atvik; hátíð.  Einnig notað til að leggja áherslu á það sem sjaldan ber við:  „Það er viðburður að maður setji í almennilega spröku núorðið“.

Viðbúið (l)  Má búast við/reikna með.  „Það er viðbúið að við verðum lengi í land með þennan hlaðning“.

Viðbúinn (l)  Reiðubúinn; tilbúinn.  „Ég var ekki viðbúinn þessu“.

Viðbúnaður (n, kk)  Undirbúningur; tilstand; varnarbúnaður.

Viðbygging (n, kvk)  Bygging sem bætt er við aðra, gjarnan minni en sú fyrri.

Viðdvöl (n, kvk)  Viðstaða; tíminn sem maður dvelur á tilteknum stað.

Viðeigandi (l)  Sem á við/ hæfir.  „Þetta finnst mér viðeigandi umsögn“.

Viðfangsefni (n, hk)  Verkefni; það sem við er að fást.

Viðfelldinn (l)  Viðkunnanlegur; geðugur.  „Mér finnst hann afskaplega viðfelldinn við fyrstu sýn“.

Viðgangast (s)  Líðast; vera umborið.  „Hvað skyldi hann ætla að láta þetta viðgangast lengi“?

Viðgangur (n, kk)  Tilvist; umlíðun.  „Það má ekki ýta undir viðgang fordóma og eineltis“.

Viðgerð (n, kvk)  Lagfæring; endurbætur.  „Bíllinn var betri en nýr eftir þessa viðgerð“.

Viðhafður (l)  Notaður; hafður við.  „Stundum var lásvaðnum brugðið á stein, en stundum hélt einhver við, en sama var hvor aðferðin var viðhöfð; sá sem fór niður byrjaði alltaf á að reyna festuna“.  „Þegar kom að því að gera upp veðmálið var ekki viðhöfð nein smámunasemi“  (PG; Veðmálið).  Það tekur því ekki að þakka fyrir þetta; það var ekki mikið viðhaft“.

Viðhald (n, hk)  A.  Það að halda einhverju við, s.s. húsi; stöðug lagfæring.  B.  Það að halda við vað meðan bjargmaður fer í lás eða sig.  „Það væri öruggara að hafa tvo í viðhaldi á þessum stað“.  C.  Sá/sú sem haldið er við í framhjáhaldi; frilla.  „Það fer víst allnokkur tími í það hjá honum að sinna viðhaldinu“.

Viðhaldsfrekur (l)  Þarf mikið viðhald; stenst illa aldur/notkun.  „Girðingar eru viðhaldsfrekar á þessum stað“.

Viðhaldslaus (l)  Án viðhalds/aðhlynningar/viðgerða.  „Á Bökkunum meðfram öllum Grundagrjótum er túngarður, grjóthlaðinn; furðu heill þó staðið hafi viðhaldslaus í mannsaldur“  (HÖ; Fjaran).              

Viðhaldsmaður (n, hk)  Sá sem heldur við vað í bjargsigi.  „Þegar svona var farið brá viðhaldsmaðurinn vaðarendanum um mitti sér“  (MG;  Látrabjarg).

Viðhlítandi (l)  Viðunandi; nægilegt.  „Viðhlítandi skýringar hafa aldrei fundist á því (árás Simbadýrsins)“  (EG;  viðtal á Ísmús 1968).

Viðhlæjandi (n, kk)  Sá sem brosir við manni/ virðist vinur.  „Ósvinnur maður hyggur alla viðhlæjendur vini“. Sjá ekki eru allir viðhlæjendur vinir.

Viðhnýttur (l)  Hnýttur/bundinn við.  „Þetta náði, með viðhnýtta spottanum“.

Viðhnýtingur (n, kk)  Band sem hnýtt er við annað, til að framlengja því.  „Þarna á hillunni fann ég þennan dýrindis spotta sem ég notaði sem viðnýting, til að komast á sylluna fyrir neðan.  Þetta var víðfrægur vaður, sem einatt gekk undir nafninu „svarti spottinn“.  Ekki báru allir sama traust til þessa skítuga sólbrunna öldungs, og einn tók sig til og fleygði honum framaf nokkrum árum síðar“.

Viðhorf (n, hk)  A.  Afstaða; skoðun; álit.  B.  Horf; stefna (t.d. báts).  „Þú mátt láta horfa betur við norðri“.

Viðja (n, kvk)  A.  Grein; tág.  B.  Helsi; fjötrar.  Sbr leysa úr viðjum.  C.  Runnategund; Salix myrsinifolia/borealis.  Líkist nokkuð gulvíði.  Flutt inn frá Noregi um 1936 og kölluð þá vidje (víðir).

Viðkannast (s)  Kannast við; viðurkenna; meðganga.  „Þetta vil ég nú ekki viðkannast að óathuguðu máli“!

Viðkoma (n, kvk)  A.  Um það að koma við á stað á ferðalagi.  B.  Fjölgun manna/dýra.  C.  Snerting:  Eitthvað er t.d. mjúkt viðkomu.  D.  Um það að lenda í góðri veiði:  „...urðum við allvel varir við fisk og hélst sú viðkoma fram eftir degi...“  (ÖG; Fiskiróður).  „Eftir nokkurn tíma kipptum við fram á Stekka.  Var þar nokkur viðkoma, eða sem kallað var „slítingur“ “  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður).  Þessi síðastnefnda notkun orðsins er líklega svæðisbundin í Útvíkum.

Viðkoma (s)  Varða; snerta; fjalla um.  „Hvað sem því viðkemur þá er sagan öll fremur vafasöm“. 

Viðkomandi (n, kk)  Sá sem málið snertir.  „Viðkomandi er beðinn að nálgast þetta sem fyrst“.

Viðkomandi (l)  Varðandi; sem snertir.  „Við ræddum ýmislegt viðkomandi þessari samþykkt“.

Viðkomubrestur (n, kk)  Rof í fjölgun/viðhaldi dýrategundar; lélegur árgangur afkomenda. 

Viðkomustaður (n, kk)  Staður þar sem maður hefur viðkomu.  „Gjögrabúð var fastur viðkomustaður þeirra sem voru á heimleið.  Þar gat þurft að taka vöruúttekt“.

Viðkunnanlegur (l)  Viðfelldinn; þægilegur.  „Hann var ákaflega vikunnanlegur og kom vel fyrir“.

Viðkvæði (n, hk)  A.  Viðlag/stef í sönglagi.  B.  Svar; undirtektir; viðbrögð.  „Alltaf kom sama viðkvæðið, væri hann spurður um þetta“.

Viðkvæmni (n, kvk)  Það að vera viðkvæmur/næmur/aumur.

Viðkvæmur (l)  Næmur/aumur/sár.  „Þarna komstu við viðkvæman blett“.

Viðkynning (n, kvk)  Kynning; kunningsskapur.  „Hann var hinn þægilegasti í viðkynningu“.

Viðlag (n, hk)  Stef í sönglagi, sem endirtekið er milli annarra vísuparta.

Viðlátinn (l)  Við; heimavið; á staðnum.  „Ég skal athuga hvort hann er viðlátinn“.

Viðlegumaður (n, kk)  Vermaður; sá sem liggur við (rær) í veri og greiðir þar vertolla (sjá þar).  Þetta heiti var líkleg algengara við Faxaflóa; vestra var yfirleitt talað um vermenn.

Viðlegubátur (n, kk)  Aðkomubátur í veri; inntökubátur. 

Viðleguáhöfn (n, kvk)  Bátshöfn sem liggur við í veri.  „Viðleguáhafnir sem reru á heimversbátum voru oftast heinungis í viðlegu meðan á ráðrum stóð en dvöldust heima í landlegum; einkum ef uppihöld urðu langvinn“  (LK; Ísl.sjávarhættir II).  Þannig lag var viðhaft af bændum í Kollsvík sem reru frá Kollsvíkurveri.

Viðleguver (n, hk)  Ver/verstöð þar sem aðkomnir vermenn búa á heimabæjum ,en ekki í verbúðum eins og er í útverum.

Viðleitni (n, kvk)  Tilraun til aðgerða/framkvæmda; tilburðir.  „Maður reynir að sýna einhverja viðleitni“.

Viðlit (n, hk)  Það sem unnt/vert er að líta við/reyna.  „Veðrið var svo slæmt að það var ekki viðlit að leggja af stað gangandi“.

Viðlíka (l)  Álíka; slíkt; jafn; mótlíka; ámóta.  „Ég hef bara ekki séð viðlíka stóra grásleppu“!

Viðlíking (n, kvk)  Samlíking; samanburður; líking í kvæði.  „Það eru verkir í þessu ennþá, en ekkert í viðlíkingu við það sem var fyrst eftir höggið“.

Viðlíkur (l)  Svipaður; álíka.  „Enginn er honum viðlíkur í þessum efnum“.

Viðloðandi (l)  Í kringum; nærri; starfa við.  „Hann er búinn að vera viðloðandi svona störf alla ævina“.  „Um og eftir 1910 er þar einna fjölmennast, eða yfir 70 manns heimilisfastir.  40 árum síðar eru þar yfir veturinn 7 manns viðloðandi, en eitthvað af heimilisföstu fjarverandi í bili“  (KJK; Kollsvíkurver).

Viðmið / Viðmiðun (n, hk/kvk)  Það sem miðað er við.  Líking við það að miða út t.d. fiskimið.

Viðmót (n, hk)  Framkoma; viðkynning.  „Hún var afar þægileg í viðmóti“.

Viðmóta (ao)  Álíka; hér um bil eins.  „Mér sýnist þessi hrútur álíka vænn og hinn“.

Viðmótsbljúgur (l)  Óeðlilega blíður í viðmóti; fleðulegur; viðmótsþýður.  „Eftir að ég hafði skammað hann eins og hund varð hann í fyrstunni lúpulegur, en hefur síðan afskaplega viðmótsbljúgur“.

Viðmótshrjúfur (l)  Hryssingslegur/óaðlaðandi í viðmóti.

Viðmótsþýður (l)  Um mann; vingjarnlegur; skapgóður.  „Í tali var hann jafnan hógvær og viðmótsþýður; þó gat út af því borið ef hann mætti óvæntri andstöðu.  Þá gat hann verið bæði hvassyrtur og meinyrtur “  (ÖG; Snæbj.J.Th; Árb.Barð 1980-90). 

Viðmælandi (n, kk)  Sá sem talað er við.

Viðmælandi / Viðmælanlegur (l)  Sem unnt er að tala við.  „Hann var ekki viðmælandi í fyrstunni fyrir mæli“.

Viðnám (n, hk)  Andstaða; fyrirstaða; festa; skjól.  „Kofaskriflið veitti lítið viðnám, egn veðrinu“.

Viðnám fyrir sjó (orðtak)  Hlé fyrir sjógangi.  „Var þarna viðnám fyrir sjó undir Bjarginu...“ (MG; Látrabjarg).

Viðra (s)  A.  Setja eitthvað út til að fríska það; t.d. sængurfatnað.  Þjóðtrúin segir að ekki megi viðra sængurfatnað meðan menn eru á sjó; þeir eru þá í bráðri hættu.  B.  Hleypa fénaði úr húsi til að viðra það, eða setja húsmuni og fatnað út fyrir um stund.  „Ennfremur að viðra úti, helst daglega, ær lömb og hross, og halda nefndum pening til haga séu nokkur tök til þess; þeim til heilsubótar en okkur til gagns og gamans.  Varast þó slagviðri mikil; frost og snögga veðurbreytingu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).   C.  Haga veðri:  „Alltaf var nóg að starfa hvernig sem viðraði...“ (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Að því loknu fórum við krakkarnir út á sleða, ef þannig viðraði“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).   „Það viðrar ýmsu þessa dagana“. 

Viðra sig (orðtak)  Njóta útivistar.

Viðra sig upp við (orðtak)  Vingast við; leita ásjár hjá; bera víurnar í.   „Ætli ég fari ekki að viðra sig upp við réttarstjórann og vita hvort ég má ekki fara að reka heim“.

Viðra skoðanir (orðtak)  Segja álit/meiningu.  „Nú ætla ég að viðra mínar skoðanir á þessu máli“.

Viðra (eitthvað) við (einhvern) (orðtak)  Segja einhverjum til að kanna undirtektir/viðbrögð; nefna við.  Ég viðraði þessa hugmynd við hann og hann tók þessu alls ekki fjarri“.

Viðráðanlegur (l)  Sem unnt er að ráða/tjónka við; meðfærilegur.

Viðreisn (n, kvk)  Endurreisn; endurnýjun; endurgerð.

Viðrekstur (n, kk)  Prump; fretur.  „Bölvaðir viðrekstrar eru þetta í karlinum“!

Viðrekstrarfnykur / Viðrekstrarfýla / Viðrekstrarlykt / Viðrekstrarpest / Viðrekstrarstækja / Viðrekstrarsvæla (n, kk/kvk)  Prumplykt; lykt af freti; búkloft.  „Mikill andskotans viðrekstarfnykur er þetta; hvern fjandann varstu eiginlega að láta ofan í þig“?!

Viðrekstrarstand / Viðrekstrarvesen (n, hk)  Vindgangur.  „Óttalegt viðrekstrarstand er þetta á þér“!

Viðrekstur (n, kk)  Prump; fretur; vindgangur.  „Ferleg fýla er af þessum viðrekstrum í þér núna“!

Viðrini (n, hk)  A.  Vanskapningur; tvíkynja skepna.  „Mér sýnist að þetta sé viðrini“.  B.  Niðrandi uppnefni.

Viðrinisháttur (n, kk)  Fáránleiki; níska; meinsemi.  „Mér finnst þetta óttalegur viðrinisháttur af honum“.

Viðrinislegt (l)  Illa gert; passar ekki; í röngum hlutföllum.  „Skelfing er þessi skyrta viðrinisleg um herðarnar“.

Viðræðugóður / Viðræðuhæfur / Viðtalsgóður (l)  Sem gott er að tala/semja/lynda við.  „Þetta var nokkuð viðræðugóður náungi“.  „Það þarf að renna dálítið af honum svo hann verði viðræðuhæfur“.

Viðsjáll (l)  Varasamur; sem maður þarf að gæta sín á.  „Hann átti það til að vera viðsjáll í viðskiptum“.

Viðsjálni (n, kvk)  Klækir; klóksskapur í viðskiptum.

Viðsjárgepill / Viðsjárgripur / Viðsjálsgripur (n, kk)  Varasamur hlutur/gripur/maður; tveggja handa járn..  „Hann er óttalegur viðsjárgepill; þú veist aldrei hvar þú hefur hann“.  „Taktu ekki mark á öllu sem hann segir; þetta getur verið viðsjárgripur stundum“. 

Viðsjárverður (l)  Varasamur; hættulegur.  „Varaðu þig á Djúpboðanum.  Hann er viðsjárverður á fjörunni“.

Viðskeyti (n, hk)  Viðbót; framlenging.  „Hér þarf eitthvað viðskeyti á jötubandið“.

Viðskiftalíf (n, hk)  Atvinnulíf; hagfræði.  „Að brýnt sje fyrir börnum, með dæmum úr viðskiftalífinu, hve tóbaksnautn sje mikil heimska frá fjárhagslegu sjónarmiði...“ (VÖe; Lög Tóbaksbindindisfjelags Rauðasandshrepps).

Viðskila (l)  Skiljast frá; verða útundan.  „Passaðu að lömbin verði ekki viðskila við mæðurnar“.

Viðskilnaður (n, kk)  Það að skilja við; aðskilnaður; brotthvarf.

Viðskipti (n, hk, fto)  A.  Almennt; samskipti.  B.  Fjármálaleg samskipti; höndlun.

Viðskotaillur (l)  Snefsinn; geðvondur.  „Hann er skelfing viðskotaillur þessa dagana“.

Viðsnúningur (n, kk)  Það að eitthvað taki aðra stefnu en verið hefur.  „Mér þykir heldur hafa orðið viðsnúningur á rekstrinum“!  „Það varð einhver viðsnúningur í pólitíkinni hjá honum“.

Viðspyrna (n, kvk)  Það í umhverfinu sem unnt er að nota til að spyrna við fótum þegar togað er í eða lyft.  „Þegar setið er undir vað er mikilvægt að velja sér góða aðsetu og örugga viðspyrnu“.

Viðstaddur / Viðlátinn (l)  Á staðnum; nærri.  „Veðmálið varð um langan aldur vinsælt umræðuefni meðal þeirra sem viðstaddir voru…“  (PG; Veðmálið). 

Viðstaða (n, kvk)  Viðdvöl; tími sem stoppað er.  „Þarna var engin veiði og við höfðum þar stutta viðstöðu“.

Viðstöðulaust / Viðstöðulítið (l)  Án viðstöðu; hindrunarlaust/-lítið.  „Hann masaði viðstaðulaust um þetta“.

Viðtakamikill / Viðtakalítill (l)  Um bátslag/viðtökur; hvernig honum lagt út (sjá þar)  „Víða var skutur látinn ganga á undan í setningunni, nema ef brimaði; þá var borið við; þ.e. skipinu snúið sólarsinnis á landi.  Var það gert þar sem skip voru yfirleitt viðtakameiri að framan“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.

Viðtal (n, hk)  Samtal; samræður.

Viðtalsbil (n, hk)  Tímaeining varðandi lengd símtals.  Meðan símtöl fóru fram gegnum handvirkar símstöðvar þurfti að greiða fyrir langlínusímtöl.  Eitt viðtalsbil var venjulega 3 mínútur og kom rodd sjálverkt inn í símtalið sem tilkynnti það.

Viðtekinn (l)  Hefðbundinn; vanalegur. 

Viðtekinn siður / Viðtekin venja (orðtak)  Siður/venja sem menn hafa löngum haft í heiðri.

Viðtökur (n, kvk, fto)  Flotkraftur báts, einkum þá átt við hvernig hann lyftir sér á báruna.  Ef hann er útlagamikill; viðtakamikill, þá lyftir hann sér betur á báru, en sé það um of þá dregur úr ganghraðanum.

Viðunandi (l)  Sem unað verður við; ekki vel fullnægjandi en getur gengið.

Viðundur (n, hk)  Furðuvera; furðufyrirbæri; bjáni.  „Hjálpaðu til en stattu ekki þarna eins og viðundur“.

Viður (n, kk)  Tré; timbur; trjáviður.

Viðurgerningur (n, kk)  Góðgerðir; veitingar; aðbúnaður.  „Við fengum þarna góðan viðurgerning eftir þetta erfiða ferðalag“.

Viðurhlutamikill (l)  Mikilvægur; ábyrgðarmikill.  „Þetta þykir töluvert viðurhlutamikið starf“.         

Viðurkenna (s)  Meðganga; samþykkjaþ  „Ég varð að viðurkenna að lambið var feikna vænt“.

Viðurkenning (n, kvk)  A.  Samþykki; meðganga; staðfesting.  B.  Verðlaun.

Viðurkvæmilegt (l)  Viðeigandi; í lagi.  „Mér finnst ekki vel viðurkvæmilegt að þakka ekki betur fyrir mig“.

Viðurlög (n, hk, fto)  Refsing fyrir afbrot. 

Viðurnefni (n, hk)  Heiti sem samfélag býr til á manneskju, til viðbótar, eða í stað, skírnarheitis.  „Og að sjálfsögðu lá það beinast við að hún fengi viðurnefnið Lilla“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Viðurstyggð (n, kvk)  Viðbjóður; hneykslunarefni.  „Svona matur innst mér algjör viðurstyggð“.

Viðurstyggilegur (l)  Andstyggilegur; hneykslanlegur; fráhrindandi.  „Þetta eru viðurstyggilegar aðfarir“.

Viðurvist (n, kvk)  Viðvera; samvera; návist.  „Hann fullyrti þetta í votta viðurvist“.

Viðurværi (n, hk)  Nauðsynjar; matur og annað sem þarf til að komast af.  „Margt má nota sér til viðurværis“.

Viðutan (l)  Annarshugar; utan við sig.  „Skelfing ertu viðutan; að setja vatn á bensíntankinn“!

Viðutré (n, hk)  Hesputré; áhald til að setja garn-/ lopahespur uppá til að unnt sé að vinda af þeim í hnykil áður en prjónað er.  Einskonar hjól sem þó er ekki nema spelir með stuttum okum á ytri enda.

Viðvaningsbragur / Viðvaningsháttur (n, kk)  Vinnulag þess sem ekki kann til verka.  „Skelfingar viðvaningsbragur er á þessu“.

Viðvaningur (n, kk)  Sá sem ekki er vanur/kann ekki til verka.  „Hér eru engir viðvaningar á ferðinni.  Þetta eru hraustir menn; þjálfaðir við brimlendingu frá barnæsku“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „Það var oft erfitt fyrir viðvaninga; sjóveika í byrjun, og kvalræði að fara með kúfiskinn“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Viðvarandi (l)  Stöðugur; sífelldur.  „Það er enn viðvarandi þessi gutlandi af vestri“.

Viðvera (n, kvk)  A.  Um fiskveiðar; þegar fiskur er undir; þegar fiskur veiðist í nokkurri samfellu.  „Það var ágæt viðvera yfir fallaskiptin, en kippti úr í upptökuna á suðurfallinu“.  B.  Um mann; vera viðstaddur/nálægur.  „Þetta var lesið upp í viðveru vitna“.

Viðvik (n, hk)  Aðstoð; snúningur.  „..lét hann í ljós þakkir til mín fyrir viðvikið“ (ÓG; Úr verbúðum í víking).

Viðvikagóður / Viðvikalipur (l)  Greiðvikinn; hjálpfús. 

Viðvíkjandi (l)  Varðandi; um.  „Við ræddum ýmislegt þessu viðvíkjandi“.

Viðvært (l) Vært við; þolandi; sem hægt er að umbera.  „Að lokum varð draugur þessi svo nærgöngull Einari að honum þótti ekki lengur viðvært“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Viðvörun (n, kvk)  Aðvörun; varnaðarorð.

Viðþol (n, hk)  Það sem unnt er að afbera; úthald.  „Ég hafði ekki viðþol lengur, heldur hljóp á klósettið“.

Viðþolslaus (l)  Þolir ekki við/afber ekki vegna verkja/kvíða/ótta eða annars.  „Ég er búinn að vera viðþolslaus af þessum árans nábít í allan dag“.

Vigt (n, kvk)  A.  Vog.  B.  Þyngd.  „Ertu búinn að reikna út meðalvigtina hjá þér“?

Vigta (s)  Vega; meta þyngd með vog/vigt/reislu eða öðru mælitæki.  „… en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi; semsé að slátra lambinu og vigta skrokkinn“  (PG; Veðmálið). 

Vik (n, hk)  A.  Bil; vogur; vík.  „Utan við Lambahlíðina er, á flæði og í sjólausu; unnt er að sigla á litlum báti innum vik milli hleina; inní helli á bakvið Breiðuvíkurkleifina og koma út handan hennar“.  „Niðurundan Þúfustekk er sérkennilegt vik eða skarð í hjallanum, nánast ferhyrnt að lögun, og heitir Klettakví“  (HÖ; Fjaran).  „Stærstu búðirnar voru utaní og á brystinu sem rís upp frá vikinu milli Syðrikletta og Norðarikletta“  (HÖ; Fjaran).  B.  Viðvik; lítið verk.  „Fyrir vikið misstum við nokkrar kindur“.

Vika (n, kvk)  A.  Sjö daga tímabil.  B.  Vika sjávar.

Vika sumars / Vika vetrar (orðtök)  Samkvæmt fornu tímatali sem notað var af mörgum allt til loka 20.aldar, miðuðu menn fremur við viku sumars eða vetrar en mánaðardag.  „Þá komu líka karlmenn í verið til róðra; venjulega í fyrstu viku sumars“  (IG; Æskuminningar).  „Ennþá fór gangnaseðillinn rétta boðleið um hreppinn í tuttugustu viku sumars, og gangna- og réttardagur til fyrstu réttar var mánudagurinn í tuttugustu og annarri viku viku“  (PG; Veðmálið). 

Vika sjávar (orðtak)  Lengdareining vegalengdar á sjó, að fornu.  Var notuð frameftir 20. öld í Kollsvíkurveri.  „Meðan bátar skriðu áfram aðeins með árum og segli var þarna um alllangan veg að sækja, eða um þrjár vikur sjávar“  (Frá Kollsvíkurveri í Bug)  (KJK; Kollsvíkurver).  „Patriksfiord er omkring, fra klippen Sporhamar udi Talknebiærget og til Titlingahrigg udi Strömnes, 6 uger; og í breeden fra Talknen tvert over fuldkommen 1 uge söes“  (ÓÁ; Sýslulýsingar 1744-1749).

Vikadrengur / Vikapiltur (n, kk)  Léttadrengur; snúningastrákur.  Drengur sem vinnur ýmis létt verk og snúninga. 

Vikalipur (l)  Greiðvikinn.  „Alltaf ertu jafn vikalipur, vinur“.

Vikivaki (n, kk)  Gamall þjóðdans.  Hringdans sem stundaður var sem skemmtun um öll Norðurlönd fram á þennan dag.  Orðið er bæði notað um dansinn og hinn taktfasta söng sem sunginn er undir dansinum.  Reyndar var orðið vikivaki ekki oft notað fyrrum heldur einungis „dans“.  Þátttakendur í vikivaka haldast í hendur eða hver um axlir næsta manns og stíga dansspor; tvö til vinstri og eitt til hægri og stappa í gólfið í áttunda spori.  Forsöngvari sér um kvæðalestur en allir syngja viðlagið.  Dæmi um vikivakakvæði eru t.d. Ásukvæði; Hani, krummi, hundur, svin; Ormurinn langi; Ólafur liljurós o.fl.  Ekki voru minni í seinni tíð um vikivakadans í Kollsvík, en á Rauðasandi mun hefðin lengi verið höfð í heiðri á skemmtunum.  Þar var dansaður vefaradans, eða „vefa vaðmál“, sem líklega hefur verið afbrigði af vikivaka.

Vikna (s)  Klökkna; verða gráti næst.  „Hún viknaði um stund þegar hún minntist þessa atviks“.

Vikulega (l)  Í hverri viku. 

Vikur (n, kk)  Frauðkennt gosberg sem myndast gjarnan þar sem goskvika þennst snöggt út við kólnun, t.d. við gos í vatni.  Vikur er því léttur í sér og getur flotið á vatni, eins og Útvíknafólk sá glöggt í Surtseyjargosinu.

Vikurhrönn (n, kvk)  Reki vikurs.  „Meðan á Surtseyjargosinu 1963 stóð rak allmiklar vikurhrannir á fjörur í Kollsvík.  Í fyrstu var meira um ljósleitan vikur, en síðar svartan“.

Vikutími (n, kk)  Vika.  „Það vildi til að kjör stóðu í hálfan mánuð um þetta leyti, en vikutíma tók það að koma hvalnum í land; sumir nefna enn lengri tíma“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Vil (n, hk)  A.  Vilji; vild; hagur.  Sbr eitthvað er einhverjum í vil; einhverjum gengur allt í vil.  B.  Garnir.

Vild (n, kvk)  A.  Vilji.  Þú mátt fara með þetta að þinni vild“.  B.  Um fiskveiðar; vilji fisks til að bíta á.  „Vildin á fiskinum hélst og því var látið reka frá og suður...“  (ÖG; Þokuróður).  Virðist ekki þekkt í þessari merkingu utan Kollsvíkur. 

Vildarveiði (n, kvk)  Mokveiði; veiði þar sem fiskur hleypur á um leið og rennt er.  „Þarna var ágæt vildarveiði yfir snúninginn“.

Vildarverkfæri (n, hk)  Mjög gott/nýtilegt verkfæri; þénanlegt áhald.  „Þetta er meira vildarverkfærið“!

Vildisnáungi (n, kk)  Mjog viðfelldinn maður.  „Mér hefur hann reynst sem vildisnáungi og ekkert annað“.

Vildisskepna (n, kvk)  Gæðaskepna; sem reynist vel.  „Ég veit fáar slíkar vildisskepnur“.

Vildissjóveður (n, hk)  Mjög gott sjóveður; kjör.  „Það er ekki hægt að sleppa svona vildissjóveðri“.

Vildisveiði (n, kvk)  Mjög góð veiði; góð vild; mokveiði.  „Þarna á boðanum var þvílík vildisveiði að ég man ekki annað eins“!

Vilja (s)  A.  Hafa hug á; ætla sér.  B.  Ætlast fyrir; hafa í huga.  „Hinn stóð inni í stofu og starði á sjónvarpið;/ stæðilegan kroppinn hafði að bera./  Hann sagði heldur snúðugt: „Hvað var það fyrir þig?/  Hvað viltu hingað?  Hvað ert þú að gera“? “  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Vilhallur (l)  Hallast að; fylgjandi.  „Ég er nú frekar vilhallur því að við prófum þetta“.

Vilja ekki hafa saman við að sælda (orðtak)  Vilja ekki vera í kynnum við; vilja ekki vera/vinna með; vilja ekki skipta við.  „Ég vil sem allra minnst hafa saman við hann að sælda“!

Vilja ekki sjá (orðtak)  Vilja ekkert með hafa; vilja ekki líta við.  „Kýrnar vilja ekki sjá þetta nýja hey“.

Vilja ekkert með það hafa (orðtak)  Vera áhugalaus um/ neikvæður gagnvart.  „Ég minnti hann á að taka veiðina með sér heim, en hann vildi ekkert með hana hafa; sagðist ekki nenna að gera að þessu“.

Vilja fá/hafa mat sinn og engar refjar (orðtak)  Vilja fá mat en ekki undanfærslur/afsakanir/svik.  „Strákurinn var orðinn glorsoltinn og heimtaði mat sinn og engar refjar“.

Vilja fá/hafa nokkuð fyrir snúð sinn (orðtak)  Vilja fá eitthvað til endurgjalds/ í staðinn.  „Maður vill nú helst fá eitthvað fyrir sinn snúð ef maður leggur á sig verulega vinnu í þessu verkefni“.  Orðtakið er vísun í þjóðsöguna um viðskipti fátækra hjóna við huldumanninn Kiðhús.  Sá maurapúki stal snúð kerlingar er hún sat úti að spinna.  Karlinn heimtaði af honum margfalda greiðslu snúðsins með þeim orðum að „kerling vildi hafa nokkuð fyrir snúð sinn“.  Þau urðu endalok karls og kerlingar að þau lögðu af stað með grautarsleikju til himna til að gefa Maríu mey, upp ógnarlangan stiga sem Kiðhús hafði látið fyrir snúðinn.  En úr stiganum féllu þau bæði.  Úr heilaslettum þeirra urðu til hvítar skófir sem enn má sjá á steinum, en úr grautarslettunum uxu gulu skófirnar.

Vilja hvorki heyra né sjá (orðtak)  Vilja ekkert hafa með að gera; afneita algerlega.  „Ég bauð honum að koma með mér í kaffi, en hann vildi hvorki heyra það né sjá; sagði langbest að ljúka verkinu sem fyrst“.

Vilja mikið til vinna / Vilja miklu til kosta (orðtök)  Leggja á sig mikla vinnu/ mikinn kostnað til að ná einhverju fram.  „Mikið vildi ég vinna til þess að losna við þetta eilífa eyrnasuð“!

Vilja til (orðtak)  Slá fyrir heppni; vilja svo heppilega til.  „.... vindur stóð á land undir Múlanum; þó vildi til að frost var lítið“ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).  „Það vildi til að kjör stóðu í hálfan mánuð um þetta leyti...“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  „Svo vel vildi til að hún hafði sótt vatn út í brunnhús um kvöldið“  (IG; Æskuminningar).  „Vetur þessi var, eins og menn muna, einn sá allra harðasti hvað jarðleysur áhrærir.  Á flestum bæjum var hrein innistaða í 4-5 mánuði.  Vildu mönnum til miklar og góðar heybirgðir“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Vilja til happs/lífs (orðtak)  Verða til happs/lífs; slá fyrir heppni.  „Það varð mér til lífs að ég náði góðu taki á sinutoppi um leið og hnúskurinn frast undir fótunum á mér og þeyttist niður bjargið“.

Vilja vinna til (orðtak)  Vilja fórna fyrir/til.  „Mikið vildi ég til þess vinna að vera aftur orðinn svona lipur“!

Viljakraftur / Viljaþrek (n, kk)  Vilji; ákveðni; áræði; þor.  „Flestir komust að þeirri sömu niðurstöðu, að of mikil áfengisneysla hefði veikt þrekið og mótstöðuaflið og lamað viljakraft þeirra til að halda sér uppi“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Viljalaus (l)  Sem skortir vilja/löngun/einurð.

Viljaleysi / Viljaskortur (n, hk/kk)  Skortur á vilja; áhugaleysi.  „Mér sýnist hér viljaskorti um að kenna“. 

Viljalítill (l)  Áhugaleysi; framtaksleysi.  „Mér finnst hann frekar viljalítill að gera neitt í þessu“. 

Viljandi (ao)  Með vilja; af ásetningi; meðvitað.  „Þetta var algjör slysni.  Enginn gerir svonalagað viljandi“.

Viljastyrkur (n, kk)  Einbeitni; þrjóska; kraftur viljans.  „Þetta hafðist fyrir viljastyrk meira en annað“.

Viljaverk (n, hk)  Það sem unnið er viljandi; meðvitandi gert.  „Heldurðu að þessi bruni hafi verið viljaverk“?

Vilji (n, kk)  Einurð; ætlun; löngun.

Viljugur (l)  A.  Um mann; með vilja til; af áhuga.  „Atugaðu hvort hann sé  hugsanlega viljugur að lána okkur þetta“.  B.  Um fisk í veiðiskap; gefur sig til; viljugur að bíta á krók.  „Það hleypur ufsakóð á hvert járn, en stórþorskurinn er ekki jafn viljugur“.  „Rak okkur nú um nokkurn tíma suður, og fengum sæmilega viljugan fisk“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Vill brenna við (orðtak)  Um það sem miður fer öðru hvoru; kemur fyrir.  „Yfirleitt hefur hann góða reglu á þessu, en það vill þó brenna við að hann gleymir sér“.  Sjá brenna við.

Vill ekki máls á ljá (orðtak)  Má ekki heyra nefnt; tekur ekki í mál.  „Hann vill ekki máls á ljá að fara til læknis; hann segir að þetta sé að lagast“.

Vill fá/hafa mat sinn en engar/öngvar refjar (orðtak)  Vill fá mat í stað úrtölu/eftirgangsmuna. 

Vill honum/hennimér/þér til (orðtak)  Sem betur fer fyrir hann/hana/mig/þig; til happs.  „Hann missti jafnvægið á brúninni og datt, en það vildi honum til að hann náði að grípa í sinutopp um leið“.

Vill til happs / Vill til (orðtak)  Slær fyrir heppni; vilja heppilega til.  „Þegar ég var búinn að kolfesta bílinn þarna á Hálsinum, vildi það mér til happs að mjólkurbíllinn átti leið um“.

Villa (n, kvk)  A.  Það að vera villtur.  „Við lentum í villu í þokunni“.  B.  Vitleysa; skekkja.  „Sjaldan hef ég séð eins margar villur í einu sendibréfi“!  C.  (Með linum frb:) stórhýsi; glæsihýsi.

Villa á sér heimildir (orðtak)  Látast vera annar en maður er.

Villa (einhverjum) sýn (orðtak)  „Það má vel vera að þokan hafi eitthvað villt mér sýn, en ég gat ekki annað séð en þarna stæði naut uppi á hólnum“.

Villa um fyrir (einhverjum) (orðtak)  Glepja/plata einhvern; kasta ryki í augun á einhverjum; sýna ranglega.  „Meira hvað þokan getur villt um fyrir manni, þó maður eigi að þekkja sig upp á tíu fingur“!

Villandi (l)  Sem blekkir/ villir manni sýn.  „Þetta orðalag getur verið dálítið villandi“.

Villast frá / Villast undan (orðtak)  Um lamb; villast frá móður sinni.  „Óttalega er þetta lítið kvikindi; það hefur sennilega villst undan snemma í sumar“.

Villidýr (n, hk)  A.  Dýr sem lifir villt í náttúrunni.  B.  Líking; manneskja/dýr sem hagar sér óhemjulega.

Villimaður (n, kk)  Ósiðaður maður; maður sem lítt hefur verið innan um annað fólk; sá sem þykir ekki hegða sér siðlega.

Villimannamál (n, hk)  Mál villimanna/ósiðaðs fólks.  „Ég fann bréf frá henni fyrir nokkru til tengdapabba, bróður síns, þar sem hún er sú reiðasta við dóttur sína fyrir að hún ætlaði að láta ferma syni sína á ensku og meira að segja læra faðirvorið á ensku! sem hún taldi villimannamál og drengirnir kæmust ekki í kristinna manna tölu með slíku“  (SG;  Vesturfarar; Þjhd.Þjms).

Villingur (n, kk)  Villimaður; ósiðuð manneskja.  „Þurfiði að haga ykkur alveg eins og villingar strákar“?!

Villimannslegur (l)   Ekki eins og siðaður maður.  „Hann var dálítið villimannslegur í útliti eftir þetta“.

Villingalýður (n, kk)  Óþjóðalýður; óeirðaseggir.  „En svo fóru hlutirnir að fara úrskeiðis og alls konar villingalýður eyðilagði þessi friðsömu mótmæli“  (SG; Bankahrunið-Búsáhaldabyltingin; Þjhd.Þjms). 

Villtur (l)  Áttavilltur; veit ekki rétta leið á áfangastað.  „Ég var farinn að halda að við værum villtir þegar við komum á hestveginn“.

Villt og galið (orðtak)  Með miklum atgangi/látum; í miklum flýti; í óðakappi; brjálæðislega.  „Við stungum upp garðinn villt og galið, þangað til fór að hellirigna“.

Villugjarnt (l)  Hætt við að villast.  „Á þessum slóðum er mjög villugjarnt, vegurinn liggur þarna sem næst ívinkil og verður að taka beygjuna á réttum punkti...“ (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Eftir það hvarf allur reimleiki af völdum draugsins í Kollsvík, en reimt þótti eftir þetta í námunda við steininn, og villugjarnt“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Villukenning (n, kvk)  Fullyrðing/kenning sem ekki þykir rétt.  „Þetta tel ég vera algera villukenningu“!

Villulaust (l)  Án villu.  „Ég tel það bara gott hjá honum að skrifa bréfið svona nokkurnvegin villulaust“.

Villuljós (n, hk)  Ljós sem truflar.  „Það var hálfgert villuljós af lugtinni“  (Ólöf Hafld.; Útkall við Látrabjarg).

Villur (n, kvk, fto)  Röng leið.  „Við lentum í villum á leiðinni“.

Villur vega (orðtak)  Ekki á réttri leið.  Sjá fara villur vega.

Villuráfandi (l)  Fara um villtur; ganga í villu.  „Þú ert nú alveg eins og villuráfandi sauður um þessi atriði“.

Villuráfandi sál (orðtak)  Gjarnan notað af trúuðum um þann sem þykir vantrúaður.  Einnig í líkingamáli, t.d. um pólitík.  „Hann telur sig hafa komið a.m.k. einni villuráfandi sál inn á réttar brautir“.

Villurit (n, hk)  Bók sem álitin er ógn við ríkjandi strangtrú.  „En Gísli segir ennfremur að kunnugir hafi talið að lítill myndi hann trúmaður, og læsi jafnan „villurit“ það er kallast „Jesús og skynsemin“ og héldi mjög af því“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Villutrú (n, kvk)  Trú sem af einhverjum er talin röng.  Meira notað fyrr á tímum, þegar landsmenn bjuggu almennt við eina trú, en heyrist síður í umburðarlyndi samtímans.

Vilpa (n, kvk)  For; dý; seil; vatnssósa jörð.  „Það þyrfti að ræsa fram þessa vilpu neðanvið haughúsið“.

Vilsa (n, kvk)  Gröftur; útferð; hlaup.  „Það er einhver vilsa í sárinu sem þarf að hreinsa vel úr“.

Vilyrði (n, hk)  Ádráttur; nokkurskonar loforð.  „Þá gat hann þess að vilyrði væri fyrir veginn út á Bjarg“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Vina (n, kvk)  Vinkona.

Vinafár / Vinalaus / Vinasnauður (l)  Óvinsæll.  „Ég held að hann verði fremur vinafár í sínum flokki eftir þetta“.

Vinalega (ao)  Vingjarnlega; góðlátlega.

Vinalegur (l)  Vingjarnlegur; góðlátlegur.  „Ansi er þetta vinalegt kvikindi“.

Vinalæti (n, hk, fto)  Atlot; fagnaðarlæti; ánægja yfir endurfundum.  „Honum fannst helst til mikil vinalæti í hundinum“!

Vinarbragð / Vinargjöf / Vinargreiði / Vináttuvottur / Vináttubragð / Vináttugjöf (n, hk/kk)  Það sem vinur gerir fyrir vin vegna vináttu, t.d. sjálfboðaverk.  „Ég þakka kærlaga fyrir þetta vinarbragð“.

Vinarhugur / Vinarþel / Vináttuhugur / Vináttuþel (n, hk)  Væntumþykja; góðvild. 

Vinátta (n, kvk)  Gagnkvæmur hlýhugur hugur milli manneskja, án þess að vera ástarsamband pars.

Vinda (n, kvk)  A.  Tæki til að vinda þráð, slöngu eða annað upp á kefli; spil.  B.  Tæki til að búa til snúning á eitthvað, t.d. taumavinda.  C.  Tæki til að vinda bleytu úr þvotti, t.d. tauvinda/þvottavinda.

Vinda (s)  A.  Blása; hvessa; auka vind.  „Hann er farinn að vinda allhressilega“.  B.  Snúa; hanka.  „Við skulum vinda bandið uppá keflið“.  C.  Snúa uppá efni til að ná úr því vatni.  „Ég ætla að vinda úr sokkunum“.  D.  Hreyfa skrokkinn með snúningi.  „Hann ýtti bátnum frá og vatt sér uppí hann um leið“.

Vinda af sér (fötin/húfuna/sokkana) (orðtak)  Vinda vatn/sjó úr fötum sínum eftir t.d. rigningu eða ágjöf.

Vinda/vinna/gera (bráðan) bug að (einhverju)  (orðtak)  Drífa í einhverju; framkvæma strax.  Bugur merkir sveigja.  „Bráður bugur“ merkir „skyndileg sveigja“ í átt að viðfangsefninu.  Sjá vinna bug á.

Vinda fram (orðtak)  Um atburðarás; þróast; gerast; verða.  „Við skulum sjá til hvernig þessu vindur fram, áður en við förum að grípa inní“.

Vinda sér að (einhverjum) (orðtak)  Snúa sér að einhverjum, t.d. til að tala við hann.  „Ég vatt mér að honum eftir ræðuna og spurði hvað hann hefði verið að meina“.

Vinda sér í (eitthvað) (orðtak)  Snúa sér einarðlega að tilteknu verkefni.  „Ef þú ert búinn með kaffið skulum við bara vinda okkur í þetta“.

Vinda upp (orðtak)  A.  Um veður; vinda; auka vind/blástur.  „Mér sýnist á loftinu að hann gæti vindað töluvert upp seinnipartinn“.  B.  Um klukku/gangverk; trekkja; draga upp.  „Nú er klukkan farin að standa; það hefur alveg gleymst að vinda hana upp“.

Vinda upp segl (orðtak)  Draga upp segl á bát.  „Voru nú undin upp segl á Guðbjörgu, og var það ætlunin að sigla undir Bjargtanga og hafa þar landkenningu“  (ÖG; Þokuróður).

Vinda úr (orðtak)  Vinda fatnað til að minnka bleytu í honum.  „Ég settist á bakkann til að vinda úr sokkunum“.

Vindafar (n, hk)  Vindáttir og vindstyrkur yfir einhvern tíma.  „Það hefur verið sérkennilegt vindafarið í dag“.

Vindafl / Vindorka (n, hk/kvk)  Afl/orka í vindi.  Snemma tóku menn að virkja vindorku á ýmsan hátt.  Augljósasta dæmi slíks eru segl skipa.  Vindrafstöðvar komu snemma á ýmsa bæði í Rauðasandshrppi og voru í fyrstu einkum notaðar til að hlaða batterí útvarpsviðtækja. 

Vindasamur (n, kk)  Lýsing á tíðarfari eða aðstæðum.  „Vorið var nokkuð vindasamt“.  Það er dálítið vindasamt hér uppi á hólnum“.

Vindaský (n, hk)  Ský sem greinilega er teygt í vindi.  Eitt af mörgum spámerkjum veðurs.

Vindauga (n, hk)  Gat á gafli húss til loftræstingar.  Ekki mikið notað vestra á síðari tímum en er sama orðið og Skandinavar nota yfir glugga; „vindue“ og einnig engelskir: „window“.

Vindaukandi (l)  Um mat sem veldur miklum vindgangi/viðrekstrum/prumpi.  „Ég held ég hafi ekki gott af meira rúgbrauði núna; það er dálítið vindaukandi“.

Vindáttir í Útvíkum voru þessar, að sögn Ólafs E. Thoroddsen Vatnsdal; Daníels Eggertssonar Hvallátrum og Ólafs Magnússonar Hnjóti:  „Landnyrðingur = sunnanátt; útsynningur = suðvestanátt; hafnyrðingur = norðanátt; austnorðan = þegar áttin gengur frá austri til norðurs; norðaustan = þegar áttin gengur frá norðri til austurs“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Í seinni tíð hafa þessar skilgreiningar ekki haldist varðandi landnyrðing, austnorðan og norðaustan.

Vindband (n, hk)  Um seglabúnað; band sem fest er í seglflötinn, og notað til að ná vindi úr seglinu; þ.e. draga úr því pokann sem vindurinn myndar.

Vindbarinn (l)  Veðurbarinn; hefur þurft að þola hvassan vind.  „Þú hlýtur að vera kaffiþurfi; svona vindbarinn eins og þú ert“.

Vindbára (n, kvk)  Bára sem vakin er af vindi en hefur ekki langan aðdraganda, t.d. bára inni á fjörðum.  Einnig vindbáruvaðall og vindbáruskvaldur.  (ÞJ Hvallátrum; LK;  Ísl. sjávarhættir III).

Vindbelgingur (n, kk)  Allmikill vindur; ; strekkingur hvassviðri; þræsingur.  „Enn heldur hann sama vindbelgingnum“.  „Maður nennir ekkert að hanga á netum í þessum vindbelgingi“.

Vindblásinn / Vindþurrkaður (l)  Veðurbarinn; kaldur; þurrkaður.  „Maður verður nokkuð vindblásinn á brún í þessum belgingi“.

Vindblástur (n, kk)  Vindur; gustur; kaldi.  „Á brúninni var tölverður vindblástur, þó logn væri niðri“.

Vindblær (n, kk)  Hægur vindur; andvari.  „Þetta er fyrirtaks þurrkur; glannasólskin og smá vindblær“.

Vindgangur (n, kk)  Iðraloft; garnagaul; ólgra í vömb; viðrekstur; fretur; prump.  „Skelfingar vindgangur er í manni eftir rúsínuátið“.  „Ég þarf að fara varlega í rúgbrauðið; ég fæ alltaf dálítnn vindagang af því“.

Vindgapi (n, kk) Veðurgapi; upprifinn lönguhaus; galdraumbúnaður sem sagður var ætlaður til að magna upp storm.  Kollsvíkingar kunnu að segja af þessu sögur, en enginn vissi til að það hefði verið notað þar.  Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir: „Vindgapi er hafður til að gjöra ofviðri að mönnum sem eru á sjó og drekkja þeim.  Þessi aðferð er sagt að hafi verið þar viðhöfð að galdramaður tók upprifið lönguhöfuð og festi það niður, annaðhvort á sjávarbakka ef hann var hár, t.d. bergsnös eða á öðrum stað sem hátt bar á, og lét það sem út snýr á lönguhausnum óupprifnum snúa í þá átt sem hann ætlaðist til að veðrið kæmi úr.  Síðan tók hann kefli og risti á það bandrún þessa, veðurgapann/ginfaxa, þandi svo með keflinu út kjaftinn á lönguhausnum og festi það þar.  Æstist þá veður í lofti úr þeirri átt sem galdramaður vildi og umhverfði sjónum svo engum skipum var fært á sjó að vera nema þeim einum sem jafn vel voru að mennt eða betur en sá sem veðrinu olli“.  „Kom fyrir að búinn var út svokallaður veðurgapi, en það var uprifinn lönguhaus.  Var sendur með hann góður reiðamaður upp í siglu.  Þar var hann bundinn og látinn gapa í þá átt sem æskilegast þótti að styrmdi úr.  Raunar gerðu menn þetta helst að gamni sínu eða af einhverskonar rælni, en ekki vegna átrúnaður“  (GG; Skútuöldin).   Sjá einnig níðstöng.

Vindgára (n, kvk)  Gráð; lítilsháttar bára.  „Það var pollsslétt, en lítilsháttar vindgára þó uppvið landið“.

Vindgeljandi (n, kk)  Vindsveljandi; vindbelgingur; töluverður kaldi/næðingur.  „Ég heyrði ekki vel hvað hann var að kalla fyrir vindgeljandanum“.

Vindgjóla / Vindgustur (n, kvk)  Kaldi.  „Hann er að auka þessa vindgjólu.  Ætli við förum ekki að fara í land“.

Vindhani (n, kk)  A.  Veðurviti; áhald sem snúist getur á pinna og haft á t.d. húsþaki til að sýna vindátt.  B.  Líkingamál um montinn/yfirborðskenndan mann; montrass.  „Ég tek nú lítið mark á þeim vindhana“!

Vindhviða (n, kvk)  Gustur af vindi.  „Færið hans Árna var að renna í botninn þegar skörp vindhviða fór yfir bátinn“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „…og er farið að leggja snarpar vindhviður á sjóinn“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Vindhögg (n, hk)  Högg sem missir marks; sláttur út í loftið.  „Slagsmálahundarnir voru báðir svo drukknir að flest hnefahögg urðu vindhögg“.

Vindill (n, kk)  A.  Vöndull; það sem er rúllað/undið upp í stranga.  B.  Oftast notað um vindla sem reyktir eru, þ.e.  uppvafin tóbaksblöð.

Vindingur (n, kk)  A.  Snúningur; vafningur; verpingur.  „Það er töluverður vindingur í þessari fjöl“.  B.  Hönk; vafningur.  „Vertu ekki að taka allan vaðinn í sundur; ág þarf bara fáina vindinga til að komast á stallinn“.

Vindkaldi / Vindkul / Vindkæla (n, hk)  Gjóla; kaldi.  „Hann er að leggja einhverja vindkælu upp á víkina núna“.  „Það eru árarnar, knúnar hertum höndum, sem fleyta báti í vör.  Hæfilegur vindkaldi er legði í segl, væri þó vel þeginn“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Var nú aftur kominn svolítill vindkaldi...“  (ÖG; Þokuróður). 

Vindlahulstur / Vindlakassi / Vindlapakki / Vindlastokkur (n, hk/kk)  Ílát til geymslu á vindlum.

Vindlalykt (n, kvk)  Lykt af vindlareyk.  „Pabbi reykti vindla einungis á stórhátíðum, og enn í dag kemst ég í hátíðarskap þegar vindlalykt leggur að vitum“.

Vindlaust (l)  A.  Hægviðri; enginn vindur.  B.  Um dekk; loftlaust.  „Það er alveg orðið vindlaust afturdekkið á traktornum.  Hann liggur á felgunni núna“.

Vindmegin (ao)  Til móts við vindinn; móti vindi.  „Hann raðaði eggjabrúsunum vindmegin við sig meðan hann hélt við spottann“.  „Ég gætti þess að hafa tófuna vindmegin við mig“.

Vindmylla (n, kvk)  A.  Hverfill sem snýst í vindi og notaður er til mölunar á korni.  B.  Vindhverfill sem notaður er til annarra verka s.s. sögunar eða rafmagnsframleiðslu.

Vindorka (n, kvk)  Orka vinds.  Hefur verið nýtt á einn eða annan hátt frá upphafi vega, t.d. með seglum báta.  Nú á tímum hafa stórar vindmyllur víða risið, til raforkuframleiðslu.  Sú nýting er þó vandkvæðum bundin vegna m.a. ófyrirséðra sveiflna í orkuframleiðslu; sjónmengunar o.fl.

Vindrafstöð  (n, kvk)  Vindrafstöðvar voru víða á bæjum í Rauðasandshreppi um miðja 20. öld, áður en samveita kom.  T.d. var um tíma vindrafstöð á Stekkjarmel.

Vindrella (n, kvk)  Lítil túrbína sem snýst í vindi.

Vindskafinn (l)  Um skýjafar; háský sem greinilega voru teygð í vindi.  „Hann er vindskafinn til loftsins“.

Vindsperringur (n, kk)  Strekkingsvindur; vindstrambi.  „Ári ætlar hann að halda þessum vindsperringi“.  Sjá sperringur; norðansperringur.

Vindstaða/Vindátt (n, kvk)  Átt sem vindur blæs úr.  „Eins var það til baga ef vindur stóð á land“  (KJK; Kollsvíkurver).

Vindstaða (n, kvk)  Vindátt.  „Var nú aftur kominn svolítill vindkaldi, og reiknuðu þeir með sömu vindstöðu og verið hafði í byrjun... “  (ÖG; Þokuróður). 

Vindstig (n, hk)  Mælieining fyrir vindstyrk.  Til skamms tíma var notaður svonefndur Beaufort-kvarði til mælinga á vindstyrk.  Kenndur við Francis Beaufort, breskan sjóliðsforingja sem hannaði hann árið 1806, og miðaðist upphaflega við áhrif á siglingu seglskips.  Var síðar aðlagaður aðstæðum á landi.  Nú á dögum er vindhraði mældur í metrum á sekúndu.  Þannig er 1 eldra vindstig 1,1 m/sek; 4 vindstig 6,7 m/sek og 11 Beaufort-vindstig jafngilda 30,8 m/sek.

Vindstrambi (n, kk)  Strekkingsvindur; golusteitingur.  „Það var bölvaður vindstrambi fyrir Blakkinn“.

Vindstrengur (n, kk)  Hvass, en mjög staðbundinn vindur.  „Hann leggur vindstreng niðurúr dalnum“.

Vindstroka (n, kvk)  Hvöss vindkviða; vindstrengur.  Hann lagði einhverja vindstroku hér um smátíma“.

Vindsuða (n, kvk)  Lágt vindhljóð.  „Heyrðu þeir þá eins og vindsuðu, og um leið fór að bera á smábáru sem var mjög óð; eins og undan vindi“ (ÖG; Þokuróður).  

Vindsvali (n, kk)  Vindkul; svalandi gola í hlýju veðri.  „Bjargið liggur frá austri ti vesturs og blasir því vel við sólu allan daginn.  Er því afarheitt í bjarginu þegar sólskin er, þótt vindsvali sé á brúninni“  (ES; Látrabjarg; Barðstrendingabók).

Vindsveipur (n, kk)  Vindhviða sem sveigir fyrir hindrun; hvirfilvindur. 

Vindsveljandi (n, kk)  Strekkingsvindur; vindstrambi.  „Við erum ekkert að hanga lengur í þessum vindsveljanda“.

Vindsæng (n, kvk)  Uppblásin dýna sem notuð er sem svefngagn.

Vindur (n, kk)  A.  Loft á hreyfingu.  Vindur var hinn mesti örlagavaldur í búskap og útgerð í Kollsvík.  Því kemur ekki á óvart að honum hafa verið fundin ýmis nöfn eftir áttum, styrk og áhrifum.  Ýmsir spádómar voru tengdir vindi:  „Vindur sem kemur á degi varir lengur en sá sem að nóttu kemur.  Eftir langan sunnanvind kemur jafnaðarlega regn og flestir stormar endast með regni.  Hefjist hvass vindur í logndögg þá er viss von að bráðum þorni.  Útnyrðingur sefast oft um sólarlag þegar hún kemur í þá átt.  En hægi ekki, merkir hörku og líka þráviðri.  Austanvindar endast oft með hreggi og þar af er komið máltækið; oft kemur óveður í endaðan þey“  “ (BH; Grasnytjar).  B.  Þarmagas; viðrekstur; prump.  „Einhver ansans vindur er í manni núna“!

Vindur í fangið (orðtak)  Vindur á móti göngumanni.  „Þegar við lögðum af stað þurftum við að fara yfir fjallveg í þessu óveðri; það þók okkur á þriðja klukkutíma, með vindinn beint í fangið“  (ÁH, um leiðangur úr Kollsvík að Sargon-strandinu; Útkall við Látrabjarg).

Vindutré (n, hk)  Stöng sem stungið er í gegnum auga á spilkarli á gangspili.  Sinn maður gengur svo á hvorn enda og spilar bátinn upp með því að vinda spilvírinn um á spilkarlinn.  Oft er unnt að hafa tvö vindutré á hverju spili; hornrétt hvort á annað, þannig að fjórir geti tekið á.  Gangspil sem síðast voru í Kollsvík höfðu þó einungis eitt auga.

Vindverkir (n, kk, fto)  Kviðverkir sem orsakast af vindgangi/þarmalofti.

Vindþota (n, kvk)  Vindhviða.  „Nokkrar skarpar vindþotur gengu enn yfir, og svo var lognið búið en á skammri stundu komið hvassviðrið“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Vindþurrkaður (l)  Þurr eftir vindblástur.  „Mikið er nú gott að fá kaffi þegar maður er orðinn svona vindþurrkaður“!

Vinfengi (n, hk)  Vinátta.  „Ég var í miklu vinfengi við þessa fjölskyldu“.

Vingast (s)  Verða vinur; falla vel; koma sér vel við.  „Hann er að reyna að vingast við heimasætuna á bænum“.

Vingjarnlega (ao)  Í vinsemd; góðlátlega.  „Þau tóku mjög vingjarnlega á móti okkur“.

Vingjarnlegur (l)  Vinalegur. „Mér fannst hann ákaflega vingjarnlegur í okkar garð“.

Vingl (n, hk)  Rugl; stefnulaust ráp; tilgangslaust dund.  „Féð hefur ekki mikið í sig með þessu vingli“.

Vingla (n, kvk)  Vitlausa snælda; sérstök snælda sem notuð var til að spinna hrosshár í reipi.  Samanstendur af tréskafti sem spunaþráðurinn vinst uppá; á honum fremst og þvert leikur armur.  Spunnið er með því að halda aftast í skaftið og sveifla arminum hring eftir hring; þannig að um hann renni þráðurinn og spinnist upp á skaftið.  „Þegar lokið var við að borða og drekka var sest að ullarvinnu.  Konur spunnu; karlmenn táðu, greiddu hrosshár og spunnu það á vinglu eða fléttuðu reipi og brugðu gjarðir“ “ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).   „Mig langar til að bæta við þetta nokkrum orðum um spuna á vinglu sem afi minn notaði til að spinna á; aðallega hrosshár en smávegis líka togi. Úr hrosshársbandinu fléttaði hann svo reipi, alltaf með 5 þáttum. Líka var halasnælda notuð talsvert mikið til að tvinna og þrinna á; einkum gróft band“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Vingla við / Vingla kringum  (orðtök)  Dunda við án mikils árangurs.  „Ég held það skipti ekki miklu máli hvort hann er að vingla við þetta eða ekki“.

Vinglast (s)  Snövla; ráfa; dunda.  „Það er spurning hvort það borgar sig að vinglast lengur í þessum búskap“.

Vings (n, hk)  A.  Sveifla; það að veifa/sveifla.  „Hættu þessu vingsi með hrífuna drengur; þú getur meitt einhvurn“!  B.  Gauf; dund.  Þetta vings hefur ekkert uppá sig; við verðum bara að drífa í þessu“!

Vingsa (s)  Sveifla; veifa; róla.  „Hann stóðst ekki mátið að vingsa fiskinum framan í félagana; og auðvitað slitnaði kvikindið af króknum og hvarf í sjóinn“!

Vingsast (s)  Dóla; gaufa; dunda.  „Hann var að vingsast þarna í kringum okkur; mest til að tefja fyrir“!

Vingull (n, kk)  A.  Ein tegund grasættar (festuca). T.d. túnvingull.  B.  Auli; aumingi; veifiskati.  „Skelfingar vingull er þetta ef hann lætur valta svona yfir sig“.

Vingulsháttur (n, kk) Óstöðugleiki í fyrirætlunum/vilja; ístöðuleysi; flökt.  „Farðu nú að ákveða þig í þessu; svona vingulsháttur gengur ekki“!

Vingulslegur (l)  Ráfulegur; aulalegur; viðutan; reikull í skoðunum.  „Skelfing finnst mér hann vingulslegur í þessu; hann mætti sýna meiri röggsemi“.

Vinka (s)  Veifa; blaka hönd í kveðjuskyni eða til að vekja athygli.  „Hún vinkaði þegar bíllinn rann úr hlaði“.

Vinkilbeygja (n, kvk)  Beygja í 90°.

Vinkiljárn (n, hk)  Járnstöng sem beygð er í rétt horn báða enda, þannig að rétt horn sé milli átta á endunum.  Endarnir eru yddaðir og reknir inn í viði í byggingum til að halda þeim saman á mótum. 

Vinkona (n, kvk)  Kvenkyns vinur; kunningjakona.

Vinkra yfir / Vinkra í kringum (orðtök)  Stjákla kringum; eftirlíta; vakta; vokka yfir.  „Hann er að enn að vinkra yfir tvævetlunni sem var að bera“.

Vinmargur (l)  Á marga vini; vinsæll.  „Ég á nú ekki svo marga vini að ég megi við að tapa þeim bestu“.

Vinna (n, kvk)  Verk; verknaður; verkefni; iðja; starf.  „Hann er í fullri vinnu við þetta“.

Vinna (s)  A.  Framkvæma verk; starfa; iðja.  „Hann er að vinna við þetta núna“.  B.  Sigra; hafa betur í keppni/veðmáli.  „Helgi í Tröð og fleiri lásu á hana og staðfestu þar með að Liði hefði unnið veðmálið“  (PG; Veðmálið). 

Vinna að... (orðtak)  A.  Um mat; nýta matinn vel með því að kroppa/borða allt sem mögulega næst  „Þú getur nú unnið betur að þessum beinum drengur; skömm að henda öllum þessum mat“.   Sjá éta/kroppa til þrifa.  B.  Um hluti; eyðileggja; skemma.  „Hann er búinn að vinna gjörsamlega að skóflunni í þessu stórgrýti“.  D.  Starfa við.  „Þeir vinna að vegagerð á fjallinu“.  E.  Stefna að.  „Að þessu hefur verið unnið í mörg ár“.

Vinna að markinu (orðtak)  Kroppa úr hryggjarliðum herts steinbíts (upp á gamla mátann).  „Þegar hertum steinbít var sundrað í tvennt var tekið í hvorn helming og rifið um hnéð.  Markið fylgdi þá dálkhelmingnum ásamt sporði og bekugga.  Kroppað var úr hryggjarliðunum og þar í kring; kallað að vinna að markinu.  “  (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh).

Vinna að því öllum árum (orðtak)  Vinna því framgang með öllum tiltækum úrræðum.  Líklega gömul líking við að menn noti ára/djöfla sér til hjálpar, líkt og Sæmundur fróði.  Ár kann þó þarna að vara í merkingunni morgunn, og því merki þetta í raun að rífa sig upp alla morgna.  Ólíklegra er að þarna sé átt við árar á báti.  „Hann hefur unnið öllum árum að því að þetta gæti orðið að veruleika“.

Vinna af kappi / Vinna baki brotnu / Vinna eins og berserkur (orðtök)  Vinna mjög ötullega / af ofurkappi; ganga nærri sér í vinnu; vinna með ofurmannlegum afköstum.  „Við höfum unnið að við þetta baki brotnu í allan dag“.

Vinna af sér (orðtak)  Klára vinnuskyldu fyrr en ætlast er til; leggja fram vinnu í stað annarrar greiðslu.  „Vermenn unnu af sér það sem gert var fyrir þá með því að taka upp mó í landlegum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Vinna á (orðtak)  Verða betri/sigurstranglegri; ná betri vinningslíkum.  „Menn töldu hann ekki líklegan til sigurs í byrjun, en hann hefur mikið unnið á upp á síðkastið“.

Vinna á (einhverju) (orðtak)  A.  Sigrast á einhverju; ráða niðurlögum einhvers; drepa einhvern.  „Þeir króuðu rebba af í holunni og unnu á honum þar“.  B.  Geta tuggið.  „Hann sagði að það þýddi ekkert að bjóða sér svona harðan fisk; hann gæti ekkert unnið á honum, svona tannlaus“.

Vinna á túni (orðtak)  Mylja húsdýraáburð niður í grasrót á túnum.  „Að vorinu var þessi áburður svo unninn sem best niður í grasrótina.  Var það kallað „að vinna á túni“.  Til þess var notaður slóði sem muldi skítinn, og var hann dreginn af hesti“  (ÖG; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).  „Þá þurfti að vinna kartöflugarðana og setja niður; vinna á túnum og hreinsa þau“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  „Karlmenn komu ekki að skepnuhirðingu eftir að þeir fóru í Verið.  Konur urðu að bæta þeim á sig, og vinna á túnum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).   Sjá áburður.

Vinna baki brotnu (orðtak)  Vinna af hörku; vinna af slíkum krafti að maður fái illt í bakið, líkt og bakið væri brotið.  „Ekki veit ég til hvers maður er að þræla baki brotnu við þennan búskap“!

Vinna bug á (orðtak)  Sigrast á; yfirvinna; buga.  „Smám saman tókst mér að vinna bug á mestu myrkhræðslunni“.  Bugur er sveigja.  Orðtakið vísar líklega til þess að beygja andstæðing sinn.

Vinna eið að (einhverju) (orðtak)  Sverja eitthvað.  „Ég gæti unnið eið að því að þetta var hvorki kind eða nein mannleg skepna.  Fjörulalli var það og ekkert annað“!

Vinna fyrir sér (orðtak)  Vinna fyrir launum sem duga. 

Vinna garða (orðtak)  Stinga upp garða.  „Þá þurfti að vinna kartöflugarðana og setja niður“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Vinna greni (orðtak)  Ná tófufjölskyldu úr greni.

Vinna handarvik (orðtak)  Vinna eitthvað.  „Ég kalla það nú ekki starf að sitja við tölvu en vinna aldrei neitt handarvik“.

Vinna hörðum höndum að (orðtak)  Vinna markvisst að; keppa mjög að.  „Við unnum að því hörðum höndum að hreinsa netin og koma þeim aftur í sjóinn“.

Vinna í félagi (orðtak)  Vinna saman; nýta hagkvæmni samvinnu.  „Í svona bjargferðum var allt unnið í félagi“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Vinna myrkranna á milli (orðtak)  Vinna frá fyrstu dagskímu til náttmyrkurs; vinna samfellt/ mjög mikið.

Vinna sér í haginn (orðtak)  Vinna skipulega og af fyrirhyggju.  „Við getum undirbúið þetta núna og þannig unnið okkur í haginn fyrir morgundaginn“.

Vinna sér til matar (orðtak)  Gera sér mat úr; kroppa utanaf og snæða  „Það ætti að vera hægt að vinna þetta sér til matar“.  „Að sjá hvernig þú skilur við ketbeinið drengur!  Kanntu ekki að vinna þér til matar“?  Alltaf notað þannig í Kollsvík, en annarsstaðar mun það hafa merkt að vinna fyrir mat sínum.

Vinna sér til ófrægðar/óhelgi (orðtak)  Gera eitthvað af sér; skamma sig upp.  „Nú hefur bévítans hrafninn unnið sér það til óhelgi að éta undan kollunni.  Nú má farga ófétinu fyrir mér“.

Vinna sig í álit / Vinna sig upp (orðtök)  Vinna að því að hækka í áliti hjá einhverjum, t.d. valdsmanni; stuðla að því með dugnaði að auka tekjur sínar eða völd; komast í betra starf með vinnu sinni.

Vinna til (einhvers) (orðtak)  Stuðla að einhverju; fórna fyrir eitthvað takmark.  „Mikið vildi ég til þess vinna að þetta gæti orðið að veruleika“.  Sjá vilja vinna til.

Vinna (eitthvað) til (orðtak)  Gera eitthvað að launum.  „Hann sagði að ég mætti eiga hnífinn, en ég þyrfti að vinna það til að klára hans hluta af arfareytingunni“.

Vinna (eitthvað) upp (orðtak)  Ljúka við eitthvað; klára vinnslu einhvers.  „Ef við klárum að hreinsa þessa strengi fyrir hádegið, þá verðum við kannski búnir að vinna þetta upp fyrir kvöldið“.

Vinnan göfgar manninn (orðtakiltæki)  Það bætir gáfur, geð, styrk, verklag og rökhugsun að vinna.  Þessi sannindi voru þó meira í heiðri höfð áðurfyrr, þegar fólki féll ekki verk úr hendi svo lengi sem það hafði uppistöðumátt.  Jafnvel var talið að bæta mætti afbrotamenn með því að láta þá vinna.  Sjá betrunarhús.

Vinnandi vegur (orðtak)  Gerlegt; framkvæmanlegt.  „Það er ekki vinnandi vegur að ná þessu inn í bátinn“.

Vinnast (s)  A.  Um verk; ganga fram; þokast.  „Þetta vinnst sæmilega eftir að ég náði réttu lagi á því“.  B.  Um mann; afkasta; geta.  „Honum vinnst þetta fremur seint, sýnist mér“.  C.  Sigrast; nást.  „Ég er sannfærður um að sigur vinnst í þessu máli; fyrr eða síðar“.

Vinnast tími til (orðtak)  Ná að koma í verk áður en aldur/tími rennur út.  „Mér vannst ekki tími til að ganga almennilega frá þessu strax“.  Sjá endast aldur.

Vinningur (n, kk)  Það sem vinnst í happdrætti.

Vinnuaðferð (n, kvk)  Aðferð/lag við vinnu.  „Svona vinnuaðferðir hef ég ekki séð áður“.

Vinnuafl (n, hk)  Mannafli/mannnfjöldi sem vinnur verk. 

Vinnubomsur (n, kvk, fto)  Vinnuskór; uppháir skór sem notaðir eru við vinnu.  „Ég ætla nú að fara úr vinnubomsunum úti á hlaði; þær eru ekki í húsum hæfar“.

Vinnubrögð (n, hk, fto)  Aðferðir við vinnu/verk; verklag.  „Hverskonar vinnubrögð eru þetta nú eiginlega“?

Vinnubýtti (n, hk, fto)  Verkabýtti; verkaskipti; verkaskipti; vinna sem unnin er gegn öðru vinnuframlagi.  „Bændur í Kollsvík unnu mikið í vinnubýttum af ýmsu tagi, eins og oft vill verða í fjölmennu nábýli.  Þannig var ýmsum framkvæmdum komið í verk með samhjálp, sem hefðu verið erfið eða ómöguleg fyrir einn“.

Vinnudagur (n, kk)  Tíminn sem unnið maður er í vinnu að deginum.  „Það gat tekið 4 – 6 tíma að ljúka aðgerð og ýmsu fleira sem sinna þurfti áður en gengið var til náða.  Og gat þá vinnudagurinn orðið allt að 18 stundir“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Já, það var oft langur vinnudagurinn hjá elsku mömmu minni, en ekki man ég eftir að hafa heyrt hana kvarta um erfiðan né langan vinnudag“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Vinnudrif (n, hk)  Aflúttak á dráttarvél, til að tengja tækjum sem þurfa að snúast.

Vinnufélagi (n, kk)  Sá sem maður vinnur með.  „Nú voru vinnufélagarnir hins vegar hver af öðrum að losna frá verkum sínum“  (PG; Veðmálið). 

Vinnuflýtir (n, kk)  Það sem flýtir fyrir vinnu; vinnusparnaður.

Vinnufriður (n, kk)  Friður/næði til að vinna.  „Aldrei er vinnufriður fyrir þessum túristum“!

Vinnufær (l)  Getur unnið erfiðisvinnu.  „Þann tíma fluttu allir vinnufærir karlmenn í Verið...“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Vinnuharður (l)  Harður/duglegur til vinnu.  „Þótti sigríi hann ekki nógu vinnuharður, né sækja sjó af slíku kappi sem hún vildi  (GiG; Frá ystu nesjum).

Vinnuharka / Vinnukergja (n, kvk)  Dugnaður við vinnu; mikil ósérhlífni.  „Láttu nú ekki vinnukergjuna drepa þig alveg“.

Vinnuhjú (n, kvk, fto)  Fyrri tíma heiti á vinnufólki/verkefólki á sveitabæjum. 

Vinnuhjúaskildagi (n, kk)  Dagur sem ráðning vinnufólks hefur miðast við frá fornu fari; nú 14. maí, en var áður 3. maí eða krossmessa á vori.

Vinnuhjúaverðlaun (n, hk, fto)  Verðlaun til þess af vinnufólki sem staðið hefur sig best.  Vinnuhjúaverðlaun má sjá sem fundarefni á fundi Umf Vestra árið 1919. 

Vinnukergja (n, kvk)  Ódrepandi einurð/úthald við vinnu; stanslaus vinna.  „Vinnukergjan má nú ekki verða svo mikil að maður neiti sér um mat“!

Vinnukonuvatn (n, hk)  Þunnt kaffi.  Einnig voru notuð um það heitin englahland og nærbuxnavatn.

Vinnulag (n, hk)  Aðferðir við vinnu; verklag; verkvit.  „Svona vinnulag hef ég aldrei áður séð“.

Vinnulaun (n, hk, fto)  Laun fyrir vinnu.

Vinnulúinn (l)  Þreyttur eftir vinnu; slitinn af vinnuálagi.  „Vinnulúnar hendurnar voru sigggrónar og krepptar“.

Vinnumaður / Vinnukona (n, kk/kvk)  Vinnufólk var nauðsynlegt í sveitum, meðan allt var unnið með handafli.  „Árið 1801 voru heimilismenn 14 og svipað 1808 og 1817.  Vinnumenn voru 4 og 4 vinnukonur árið 1801“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Vinnusemi (n, kvk)  Samviskusemi við vinnu; vilji til að vinna.

Vinnusparandi (l)  Sem auðveldar/sparar vinnu; sem léttir vinnu af manni.

Vinnusparnaður (n, kk)  Það sem er vinnusparandi; ávinningur af því að létta sér vinnu.

Vinnustika (n, kvk)  Stika/hæll sem markar vinnusvæði, t.d. í vegalagningu.  „Vinnustikur voru honum (Magnúsi í Botni) sem rauða dulan víganautunum í Spáníá“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Vinnutap (n, hk)  Töpuð vinna vegna t.d. frátafa.

Vinnutilhögun (n, kvk)  Lag/aðverð við verk; vinnulag.

Vinnuveður (n, hk)  Veður sem unnt er að nýta til vinnu.  „Nú hættum við; þetta er ekkert vinnuveður lengur“!

Vinnuvél (n, kvk)  Vél sem notuð er til vinnu.  Oftast er átt við stórvirka vél, s.s. gröfu, ámokstursvél o.fl.

Vinnuþjarkur (n, kk)  Mjög duglegur/afkastamikill maður.  „Hann er óþreytandi vinnuþjarkur“.

Vinsa (s)  Hreinsa úr; aðskilja.  „Gemlingarnir voru vinsaðir úr fjárhópnum“.  „Ruslið er vinsað úr berjunum“.

Vinsamlega (ao)  Með vinsemd; góðlátlega.  „Ég bað hann vinsamlega að hætta þessu“.

Vinsamlegur (l)  Vinalegur; góður; hjálplegur.  „Hann var mjög vinsamlegur og vildi allt fyrir okkur gera“.

Vinskapur (n, kk)  Vinátta.  „Milli okkar myndaðist ágætur vinskapur“.

Vinslit (n, hk, fto)  Slit á vináttu; ósamlyndi.  „Það eru nú engn vinslit þó þessi meiningarmunur komi upp“.

Vinstramegin (l)  Til vinstri handar.  „Kindin var með mórauðan flekk vinstramegin á hálsi“.

Vinstrifótarskór / Vinstrifótarstígvél (n, kk/hk)  Skór/stígvél á vinstri fót.  „Ég finn bara vinstrifótarskóinn; skyldi hundurinn hafa borið hinn eitthvað frá“.

Vinstrihandarvettlingur (n, kk)  Vettlingur á vinstri hönd.  „Það er gott að vera í vinstrihandarvettling til að ná betra gripi á fiskinum meðan flatt er“.

Vinstrimaður (n, kk)  Sá sem þykir hallast að vinstrisinnaðri stefnu í pólitík; kommúnisti; sósíalisti.  „Hann þótti alltf vinstrimaður í pólitík“.

Vinstur (n, hk)  Eitt fjögurra magahólfa jórturdýra, en þau eru þessi í þeirri röð sem fæðan fer í gegn:  Vömb, keppur, laki vinstur.

Vinsæll (l)  Sem nýtur velvildar/aðdáunar/velþóknunar annarra.  „Veðmálið varð um langan aldur vinsælt umræðuefni meðal þeirra sem viðstaddir voru…“  (PG; Veðmálið). 

Vinur er sá er í vanda reynist (orðatiltæki)  Sönn vinátta kemur í ljós þegar vanda ber að höndum.

Vinur er sá er til vamms segir (orðatiltæki)  Merkingin er sú að sá sé góður vinur sem þekkir galla (vamm) hins, og er óhræddur að ræða þá.  Gjarnan notað þegar menn hafa gloprað útúr sér einhverju því um áheyranda sem honum þykir óþarft/óþægilegt.

Vinur er sá er í vanda reynist (orðatiltæki)  Sannur vinur bregst ekki þegar mest á reynist eða móti blæs.

Vinur í raun (orðtak)  Raunverulegur vinur; vinur sem reynist vel þegar á bjátar/ í móti blæs.

Vinur vina sinna (orðtak)  Tilvitnun í Hávamál:  „Vin sínum/ skal maður vinur vera/ og gjalda gjöf við gjöf./  Hlátur við hlátri/ skyli höldar taka/ lausung við lygi“  (Úr Hávamálum).  Maður skyldi vera góður og gjafmildur vinum sínum og eiga með þeim góðar stundir.  Lygi kallar á ótryggð.

Vinveittur (l)  Sýna vináttu; vera vinur.  „Þau hafa verið okkur afskaplega vinveitt í þessu efni“.

Vippa (s)  Snara; sveifla.  „Vippaðu kartöflupokanum upp á borðið fyrir mig“.

Vippa sér (orðtak)  Snarast; vinda sér.  „Vippaðu þér úr buxunum svo ég geti fest tölu á þær“.  „... mér er líka alveg óhætt að vippa mér út á gaffalinn á stórseglinu í svona ládeyðu“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Vippa sér afsíðis / Vippa sér á bakvið (orðtök)  Fara frá til að gera þarfir sínar; kúka; pissa.

Vippa sér innfyrir (orðtak)  Ganga í bæinn; koma inn í hús.  „Vippaðu þér innfyrir og fáðu kaffi“.

Vipra (n, kvk)  Gretta í andliti; andlitsfelling.  „Hann sagði ekki neitt, en viprurnar sögðu þeim mun meira“.

Virða (s)  A.  Bera virðingu fyrir.  „Þeirra vilja ber að virða“.  B.  Meta; leggja mat á. 

Virða/hafa að vettugi (orðtak)  Virða einskis/að engu; líta framhjá.  „Þeir virtu að vettugi allar viðvaranir“.  Sjá vettugi.

Virða ber/skal það sem vel er gert (orðtak)  Taka viljann fyrir verkið; Verk og góðan vilja á að meta að verðleikum, jafnvel þó framkvæmdin sé ekki fullkomin.  „Þetta er nú kannski ekki neitt snilldarverk hjá honum, en virða skal það se vel er gert; hann reyndi þó eins og honum var best unnt“.

Virða fyrir sér (orðtak)  Horfa á; skoða.  „Hann virti þetta fyrir sér um stund en hélt svo áfram að vinna“.

Virða (einhverjum) til betri/verri vegar (orðtak)  Útleggja á besta/versta veg; sjá kostina/lestina; virða til tekna/lasts.  „Ég var ekki hrifinn af umgegninni hjá vinnumanninum en virti honum það til betri vegar að hann hugsaði vel um skepnurnar“.  „Það er ástæðulaust að virða honum þetta til verri vegar“.

Virða til vorkunnar (orðtak)  Sýna skilning/ virða til betri vegar í ljósi aðstæðna.  „Það verður að virða henni til vorkunnar að karlinn var ári klúr í orðum og átti kannski skilið þetta kjaftshögg“.

Virðast (orðtak)  Sýnast; líta út fyrir að vera.  „Þetta virðist auðvelt“.  „Mér virtist hljóðið koma úr þessari átt“.

Virðast í fljótu bragði / Virðast við fyrstu sýn (orðtök)  Sýnast vera, án nánari skoðunar; líta út fyrir að vera.  „Þetta virtist í fljótu bragði vera óskemmt“.  „Við fyrstu sýn sýndist mér þetta vera kind“.

Virði (n, hk)  Verðgildi.  „Þetta hró er ekki mikils virði“.

Virðing (n, kvk)  A.  Lotning; respekt; aðdáun.  „Júlli naut mikillar virðingar meðal sveitunga sinna…“  (PG; Veðmálið).  B.  Mat; matsgjörð; virðingargjörð.

Virðingargjörð (n, kvk)  Mat; matsgerð.  „Fyrir uppboðið fór fram virðingargjörð á eigninni“.

Virðingarleysi (n, hk)  Skortur á virðingu/respekt/auðmýkt/tillitssemi.

Virðingarvert (l)  Sem unnt er að bera virðingu fyrir/ meta mikils.  „Ekki tókst honum að hefla veginn alla leið, en það er þó virðingarvert hvað hann náði að lagfæra hann á verstu köflunum“.

Virðingarvottur (n, kk)  Viðleitni til að heiðra/virða; heiðursmerki/-skjal.  „Þeir afhentu honum skrautritað skjal sem virðingarvott fyrir vel unnin störf“.

Virðulega (ao)  Með virðingu; settlega; mynduglega.

Virðulegur (n, kk)  Mynduglegur; settlegur.

Virka (s)  A.  Verka/vinna eins og til er ætlast; hafa áhrif.  „Bremsurnar virkuðu ekki vel í bleytunni“.  B.  Sýnast vera.  „Hann virkar ekki s tór í þessum samanburði“.

Virki (n, hk)  A.  Vígi; skans; kastali.  B.  Grind í hnakk.  Víravirki.

Virkilega (ao)  Verulega; mjög; raunverulega.  „Nú þurfum við virkilega að herða okkur ef verkið á að klárast í dag“.  Einnig sem sjálfstæð upphrópun eða andsvar.  „Nei, meinarðu það virkilega“?

Virkilegur (l)  Raunverulegur; sannkallaður; verklegur.  „Þetta reyndist virkileg þrekraun“.

Virkisvetur (n, kk)  Heiti sem festist við veturinn 1482-83, vegna virkisbyggingar og umsáturs sem tengdust uppgjöri út af eignum Guðmundar ríka Arasonar og skyldmenna hans.  Guðmundur hafði sölsað undir sig gríðarlega miklar eignir; þar á meðal Láganúp og fleiri jarðir í Rauðasandshreppi, með ofstopa og vélabrögðum.  Bræðurnir Björn og Einar Þorleifssynir Vatnsfirðingar fengu Guðmund dæmdan frá eignum sínum árið 1446, en í kjölfarið upphófust eftirmál um yfirráð yfir þeim milli Vatnsfjarðarbræðra annarsvegar og barna Guðmundar; hálfsystinanna Andrésar á Felli í Kollafirði og Solveigar í Saurbæ á Rauðasandi, sem gift var Bjarna Þórarinssyni.  Báðar voru ættir þessar meðal forfeðra Kollsvíkurættar.  Bjarni fékk kóngsúrskurð sér í vil, en eftir dauða kóngs féllu eignirnar til Vatnsfirðinga.  Björn var veginn í Rifi af Englendingum, en Einar sonur hans, bóndi í Skarði, fór leiðangur að Saurbæ og ætlaði að flæma Bjarna og Solvegu brott árið 1481.  Bjarna barst njósn af leiðangrinum; fór gegn þeim í Skor og stökkti á flótta.  Segir í samtímaheimild að þar hafi verið höggvið, slegið og skotið með byssum og bogum.  Bjarni fylgdi sigrinum eftir og náði undir sig Brjánslæk, en þar náði Einar honum og drap árið 1482.  Andrés Guðmundsson fór með her manns til Reykhóla að Vatnsfirðingum fjarstöddum; tók staðinn og bjó um sig í virki.  Vatnsfirðingar settust um staðinn og endaði umsátrið með sigri þeirra.  Á sáttafundi var Andrés neyddur til undirgefni og þurfti að greiða skaðabætur.

Virkja (s)  Hagnýta; nytja; nota til verka.  Oftast notað um framleiðslu raforku úr t.d. vatnsfalli eða sjávarorku.

Virkjanatækni (n, kvk)  Fræðigrein sem Kollsvíkingar hafa verið framarlega í, en eina íslenska virkjantæknin á sviði sjávarorku er upprunnin í Kollsvík.

Virkjun (n, kvk)  Tæki og mannvirki til að virkja.

Virkni (n, kvk)  Verkun.  T.d. sjálfvirkni, fljótvirkni, geislavirkni.

Virktavel (l)  Mjög vel; með virktum.  „Þau þökkuðu mér virktavel fyrir, og sögðu þetta stórkostlegan greiða“.

Virktir (n, kvk)  Alúð; innileiki; kærleiki.  Eingöngu í orðtökum; kveðja með virktum.

Virktarvinur (n, kk)  Góðvinur; alúðarvinur; trúnaðarvinur.  „Við höfum lengi verið virktarvinir“.

Virtur (l)  Sem nýtur virðingar; metinn.  „Hann var ekki virtur viðlits“.  „Traustir skulu hornsteinar/ hárra sala./  Í kili skal kjörviður./  Bóndi er bústólpi;/ bú er landstólpi;/ því skal hann virður vel“ (Jónas Hallgrímsson; Alþing hið nýja).  Sjá virða.

Visa / Visast (s)  A.  Um hey, föt o.fl; þorna.  „Heyið nær dálítið að visast þó þurrkurinn sé daufur.  B.  Um fisk; síga; þorna (sjá siginn fiskur).  „Fyrrum var algengast að herða kringluhausa á möl, klöppum eða fiskgörðum.  Þeir voru þá fyrst roðbreiddir, en eftir að hafa spýtt sjónum og visast eilítið var þeim snúið (sjá þorskhaus)  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Visinn / Visnaður (l)  Þurr; rýr; dauður; siginn; máttlaus.  „Þessi pottaplanta er að verða ári visin“.  „Er harðfiskurinn nokkuð visinn ennþá“?  „Ansi er hann að verða gamall og visinn, blessaður gamli maðurinn“.

Visk (n, kvk)  Hnefafylli af heyi.  „Fáðu visk af góðu heyi og reyndu að lokka kindina inn í hús“.

Viska (n, kvk)  Vitneskja; speki; yfirgripsmikill fróðleikur.  „Hann miðlaði okkur af visku sinni í þessu efni“.

Visna af (orðtak)  Þorna.  Einkum notað um það þegar þornaði á jörðu eða heyi.  „Ég held að það sé nú eitthvað farið að visna af; rétt að fara að rifja flekkinn“.

Viskubrunnur (n, kk)  Sá sem veit mikið / mikil fróðleiksnáma.  „Hann er algjör viskubrunnur á þessu sviði“.

Viskusteinn (n, kk)  Steinn sem talinn er geta veitt handhafanum mikla visku. 

Viskustykki (n, hk)  Síðari tíma heiti á diskaþurrku/eldhúsþurrku. 

Visna (n, kvk)  Annað heiti á riðuveiki í sauðfé.

Visna (s)  Þorna; verða visinn.  „Grasið visnar eiginlega beint af ljónum í svona góðum þurrki“.

Viss (l)  A.  Öruggur; sem veit að hann hefur rétt fyrir sér. „Ertu alveg viss um þetta“?   B.  Tiltekinn.  „Ég er með vissan mann í huga“.

Viss í sinni sök (orðtak)  Öruggur um að það sé rétt sem maður telur/ heldur fram. 

Viss passi (orðtak)  Ákveðin rútína; vani; ávani; venjubundinn háttur.  „Það var alltaf viss passi hjá honum að ganga útfyrir húshorn; míga og gá til veðurs“.

Vissa (n, kvk)  Örugg vitneskja; trygging.  „Ég bjóst ekki við að þarna væri nokkur kind, en vildi samt vita vissu mína í því efni“.  „Það er engin vissa fyrir því að veðrið verði neitt skárra á morgun“.

Vissast (l)  Öruggast; tryggast.  „Það er víst vissast að segja ekki of mikið“!

Vissulega (ao)  Vitanlega; eins og öruggt/vitað er.  „Þetta er vissulega rétt hjá þér, en fleira þarf að athuga“.

Vist (n, kvk)  A.  Dvöl/vera á tilteknum stað.  B.  Fjögurra manna spil.  „Var spiluð vist nær eingöngu; stundum lomber“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku hans). 

Vista (s)  A.  Geyma; hafa hjá sér í húsi.  B.  Nú oftast notað um það að geyma tölvugögn.

Vistalaus (l)  Matarlaus; nestislaus.  „Tjaldbúarnir urðu fljótt vistalausir“.

Vistarbönd (n, kvk, fto)  Skylda til að vera í fastri vist; hafa samastað á vissu heimili í ákveðnu sveitarfélagi, og að lúta ströngum reglum um húsaga og einlífi.  Fyrr á öldum giltu strangar reglur um það hvar maður var sveitfastur.  Vistarband var forn skylda hvers manns, sem ekki var sjálfseignarbóndi, að binda sig í vist hjá sjálfseignarbónda frá ári til árs.  Sú binding losnaði einungis einu sinni á ári; á fardögum.  Þetta fyrirkomulag var ein af hornstoðum hreppanna, og þjónaði m.a. þeim tilgangi að tryggja býlunum það vinnuafl sem nauðsynlegt var fyrir daga vélvæðingar.  Þeir sem ekki áttu jarðnæði máttu ekki ferðast án leyfis og þeir máttu heldur ekki stofna eigin fjölskyldu.  Þessi ánauð var bundin í lög og hún gekk svo langt að búðseta var bönnuð; þ.e. vermönnum sem stunduðu sjó var óheimilt að búa árlangt í verunum.  Fyrirkomulagið hamlaði því uppbyggingu útgerðastaða þar til slakað var á þessu ákvæði í Jónsbók 1281.  Aftur var þó hert á banninu með Píningsdómi árið 1490, sem skyldaði búðsetumenn til að eiga lágmarks bústofn og eignir.  Á Alþingi 1531 var hert á fornum ákvæðum um vistarband og farandsala, og aftur 1685 þegar flökkurum var hótað gapastokknum.  Húsagatilskipun Kristjáns 6. árið 1746 kvað á um auðmýkt og undirgefni vinnuhjúa gagnvart húsbændum sínum og herti enn vistarböndin, og enn var frelsið skert 1783.  Er ætlað að á 19.öld hafi um fjórðungur þjóðarinnar lifað „ófrjálsu einlífi“, þ.e. verið bannað að stofna fjölskyldu vegna laga um vistarbönd.  Þau sjónarmið hafa vafalítið byggst á ótta við ómegð sem lenti á skattbændum og sveitarsjóði.  Má slá því föstu að fjöldi nýfæddra barna hafi af þessum sökum verið borinn út meðan ófrelsið varði, og margir sættu hörðum refsingum.  Árið 1861 voru ákvæði um vistarbönd numin úr lögum í Danmörku, og hófst þá umræða um slíkt hérlendis.  Þó slakað væri á lögum um húsaga voru vistarbönd ekki að fullu afnumin fyrr en 1928.  Fyrir þann tíma var þó orðið unnt að kaupa sig frá vistum með leyfisbréfi.  Sum ákvæði um vistarbönd hafa enn ekki verið numin formlega úr gildi, þó þau séu úrelt og enginn hafi vilja til að framfylgja þeim.
Í Rauðasandshreppi ríkti löngum kúgun og einræði Saurbæjarhöfðingja.  Má slá því föstu að þeir hafi nýtt sér til fulls allar lagaheimildir um vistarbönd til að auka sinn auð.  Hreppurinn hefur því ekki farið varhluta af því þrælahaldi og kúgun sem vistarböndin í raun voru.

Vistlegur (l)  Þægilegur/góður til íveru.  „Búðirnar voru því miklu vistlegri með hvítu sandgólfi en illa hirtu timburgólfi“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Vistráðinn (l)  Ráðinn til vistar/dvalar; ráðinn í vinnumennsku og dvöl.

Vit (n, hk)  A.  Gáfur; hugarflug.  „Maður vandar sig eins og maður hefur vit til“.  „Það er ekkert vit í þessu“.  B.  (fto) Öndunarvegir; nef og munnur.  „Haltu fyrir vitin þegar þú hóstar“!  „Er hann hættur við kaupin?  Þar var vit hans meira!  Þessi bíldrusla var varla gangfær“.

Vit hans meira (orðtak)  Hann gáfaðri.  „Ætlar hann að æða af stað í þessu veðri?  Ég held það væri vit hans meira að bíða til morguns og sjá hvernig útliðið er þá“.

Vita (ao)  Alveg; algerlega.  „Það er vita vonlaust að reyna þetta“.  „Þessi hnífur er vita gagnslaus“.  Oftast í setningu sem inniheldur lýsingarorð með „-laus“ í enda, og er þá til áherslu.

Vita (s)  A.  Hafa vitneskju um; vera fróður um.  B.  Snúa.  „Dyrnar vita í hásuður“.

Vita að/frá/til (orðtak)  Snúa að.  „Var fjórða búin staðsett þannig að annar hliðarveggur vissi að göflum hinna tveggja síðastnefndu...“.  „Þegar plógurinn kom undir borð var honum snúið svo að tennurnar vissu frá súð bátsins“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Dyr voru oftast á þeirri hlið er vissi til sjávar“.

Vita af sér (orðtak)  A.  Vera með meðvitund; vita hvað fram fer  „Mér rann aðeins í brjóst, en þó ekki meira en svo að ég vissi alltaf af mér“.  B.  Vera drjúgur með sig/montinn.  „Hann veit vel af sér strákurinn“.

Vita á (eitthvað) (orðtak)  Vera fyrirboði einhvers.  „Láttu hrífutindana aldrei vísa upp; það veit alveg örugglega á rigningu“!

Vita (ekki) á gott/illt (orðtak)  Vera fyrirboði góðs/ills.  „Það veit ekki á gott að hrafninn skuli láta svona“.

Vita á sig (t.d. óveður/rigningu/stórhríð o.fl.) / Vita á sig veður (orðtak)  Vita að á skellur óveður, rigning eða annað.  „Kýrnar eru allar á leið heim að húsum, eins og þær viti á sig rigningu.  Ég held að við ættum að fara að raka upp“.  Margsannað er að dýr eru mjög næm fyrir veðurbreytingum, og eru oft forspárri en menn í þeim efnum.

Vita (ekki) deili á (orðtak)  Þekkja til; kannast við; þekkja uppruna.  „Hann mun vera frá Húsavík, en annars veit ég ekki meiri deili á honum“.

Vita fyrir (orðtak)  Vita fyrirfram; sjá fyrir.  „Þetta vissi ég fyrir; mér kemur það ekki á óvart“.

Vita ekki/varla aura sinna tal (orðtak)  Vera svo fjáður/ríkur að maður viti ekki sitt ríkidæmi.

Vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið (orðatiltæki)  Misvindi; vita ekki hvaðan vindurinn blæs.  Upphaflega notað um misvindi, en nú mest notað í yfirfærðri merkingu um hvaðeina sem kemur á óvart.

Vita ekki/varla í hvorn fótinn maður á að stíga (orðtak)  Vita ekki/varla sitt rjúkandi ráð; vera óviss um það hverju maður á að fylgja/trúa.  „Hann var afskaplega hvimandi í sinni afstöðu og vissi varla í hvorn fótinn hann átti að stíga“.

Vita ekki/varla sitt rjúkandi ráð (orðtak)  Vera ráðvilltur/ráðalaus; vita ekki hvað sé vænlegast að gera.  „Svo fengum við aðra báru og þá kom talsvert mikið í, og flutu upp plittarnir og svona hálfa leið í þóftur, sjórinn.  Þá vissum við ekki okkar rjúkandi ráð og héldum að þetta yrði okkar síðasta“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Vita ekkert í sinn haus (orðtak)  Hafa ekki hugmynd; þekkja ekki til; hafa ekki grænan grun; vita ekki af sér.  „Ég man að ég hrasaði efst í skriðunni, en svo vissi ég ekkert í minn haus fyrr en ég lá þarna niðri“.

Vita fyrir víst / Vita með vissu (orðtak)  Vita örugglega; vera viss.  „Ég held að féð sé komið heim að húsunum, en ég veit það þó ekki fyrir víst“.

Vita gagnslaus/vonlaus/ónýtur (orðtök)  Algerlega gagnslaus; ekki við bjargandi.  „Það er alveg vita gagnslaust að hnoða heyinu saman eftir að það blotnar“.  „Þetta eru vita vonlaus vinnubrögð“!

Vita heimskulegt/vitlaust (orðtök)  „Þetta er svo vita heimskulegt að ég er gáttaður á að hann skuli nefna það“!

Vita hvað klukkan slær (orðtak)  Átta sig á því sem sagt er óljóst/undir rós; átta sig á aðstæðum; vita hvar fiskur liggur undir steini.

Vita hvað hangir á spýtunni (orðtak)  Átta sig á raunverulegum skilmálum/tilgangi; vita hvað klukkan slær.  „Þeir halda að þetta sé tóm góðsemi í karlinum, en ég veit alveg hvað hangir á spýtunni“!  Sjá hangir á spýtunni.

Vita hvaðan vindurinn blæs (orðtak)  Vita hvernig í málunum liggur; átta sig á afstöðu manns/fólks.  „Ég veit nokk hvaðan vindurinn blæs í þeim efnum“.

Vita hvar fiskur liggur undir steini (orðtak)  Átta sig á aðstæðum/beiðni/umtali þó ekki sé sagt beinum orðum.  „Ég þóttist vita hvar fiskur lægi undir steini þegar hann fór að hrósa mér fyrir dugnað í smalamennskum“.

Vita hvorki í þennan heim né annan (orðtak)  Vera vankaður/úti á þekju/meðvitundarlaus/útúrdrukkinn.  „Mér sýndist að þeir væru báðir komnir á það stig aðþeir vissu hvorki í þennan heim né annan“.

Vita lengra en nef nær / vita jafnlangt nefi sínu (orðtak)  Vera gáfaðri en sýnist; vita fleira en augljóst er.  „Þið skuluð nú ekki skopast mikið að honum; í þessum efnum veit hann lengra en nef hans nær“.

Vita sig öruggan (orðtak)  Vera öruggur með sig; finna til öryggis/verndar.  „Það er betra að vita sig öruggan“.

Vita sínu viti (orðtak)  Vera skynsamari en talið er.  „Alveg var furðulegt að tíkin skyldi geta vísað okkur á fjárhópinn.  Það sýnit best að hundar vita sínu viti og sjá kannski lengra en nef þeirra nær“.

Vita uppá hár (orðtak)  Vita nákvæmlega/alveg; þekkja mjög vel.  „Ég vissi uppá hár hvar ég ætti að leita“.

Vita uppá sig skömmina (orðtak)  Meðvitaður að hafa gert eitthvað af sér.  „Hundurinn er frekar niðurlútur; hann veit uppá sig skömmina eftir að hafa stolið blóðmörskeppnum“.

Vita/kunna uppá sína tíu fingur / Vita uppá hár (orðtak)  Vita/þekkja/kunna mjög vel.  „Ég veit það uppá mína tíu fingur að þetta hefur enginn komist fyrr, í það minnsta ekki síðustu aldirnar“.  „Ég vissi það uppá hár hvað hann tæki sér næst fyrir hendur“.

Vita til (orðtak)  A.  Vita um; þekkja til.  „Ég veit ekki til þess áður að svonalagað hafi áður gerst“.  B.  Sjá til; bíða þess sem gerist.  „Þetta hefnir sín í seinna verkinu; vittu bara til“!

Vita/kunna uppá sína tíu fingur (orðtök)  Vita fyrir víst; kunna til fulls.  „Þetta veit ég uppá mína tíu fingur að er dagsatt“!

Vita uppá sig skömmina (orðtak)  Vita um sekt sína; vita að maður hefur gert rangt; vita sína sök.  „Vertu nú ekki að skamma tíkarkvikindið meira; hún veit alveg uppá sig skömmina“.

Vita vissu sína (orðtak)  Veta öruggur um vitneskju; ganga úr skugga um.  „Mig grunar að þannig liggi í málinu, en il samt vita vissu mína í því efni“.

Vita/horfa við (orðtak)  Hafa afstöðu; snúa að.  „Báturinn þarf að vita rétt við kerrunni svo hann renni upp í hana“.  „Núna horfir málið allt öðruvísi við“.

Vitagagnslaust / Vitavonlaust (l)  Alveg gagnslaust.  „Það er alveg vitagagnslaust að gera þetta svona“.

Vitameinlaust (l)  Alveg meinlaus.  „Það er í lagi með tuddann; hann er vitameinlaus þó stór sé“.

Vitandi vits (orðtak)  Meðvitaður; með þá vitneskju  „Ég er hissa á honum að leggja af stað á hálsinn; vitandi vits um þessa ófærð“.  „Ég var fyllilega vitandi vits um að möguleikarnir væru líklega ekki miklir“.

Vitanlega (ao)  Auðvitað; að sjálfsögðu.  „Vitanlega var þetta allt í gamni gert“.

Vitavarsla (n, kvk)  Gæsla/umsjón vita.  „Vitavarslan gat orðið strembin í illviðraköflum“.

Vitavonlaust (l)  Algerlega vonlaust; engin von um árangur.  „Það er vitavonlaust að reyna að ætla að moka úr sniðinu með handskóflum!  Þeir verða að koma með hefilinn á þetta“.

Vitavörður (n, kk)  Sá sem sér um vitavörslu.  „Ásgeir Erlendsson á Látrum var lengi vitavörður á Bjargtöngum, og tók við því starfi af föður sínum“.

Vitfirring (n, kvk)  Brjálæði; glópska.  „Það væri vitfirring að reyna lendingu þarna í svona sjólagi“.

Vitfirringahæli (n, hk)  Vitlausraspítali; geðsjúkrahús.  „Hættið nú þessum látum strákar; þetta er að verða eins og vitfirringahæli“!

Vitfirringur (n, kk)  Brjálæðingur; æstur geðsjúklingur.  „Það þýðir ekkert að láta eins og vitfirringur yfir þessu; svonalagað getur alltaf skeð“!

Vitglóra (n, kvk)  Dálítil rökhugsun; skynsemisvottur.  „Það er ekki minnsta vitglóra í að leggja á fjallið í þessu“.  „Hefði nú einhver vitglóra verið í hausnum á ykkur þá hefðuð þið ekki ekið beint útí aurbleytuna“!

Vitgrannur (l)  Heimskur; ógáfaður.  „Ósköp geta menn verið vitgrannir; að sjá ekki fyrir svona augljósa hluti“!

Viti (n, kk)  A.  Lýsandi mannvirki á ströndu, sem sjófarendur geta miðað stöðu og stefnu við.  B.  Vottur; vitnisburður.  Sbr ills viti; góðs viti.

Viti menn! (upphrópun)  Nei sko.  „Viti menn!  Þarna kemur sá sem talinn var sofa“.

Viti sínu fjær (orðtak)  Ekki með fullu viti; frá sér; sturlaður.  „Hann er svo myrkfælinn að hann varð viti sínu fjær þegar þeir slökktu ljósin í húsunum“.

Vitiborinn (l)  Skynsamur; með fullu viti.  „Þetta ætti hverjum vitibornum manni að vera kunnugt“.

Vitja (s)  A.  Draga net úr sjó; hirða veiði; gera þau klár og leggja þau aftur.  „Skyldi gefa til að vitja á morgun“?  B.  Heimsækja; athuga.  „Um sauðburðinn þurfti að smala á hverjum degi, og jafnframt vitja fjárins að nóttu“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Vitja nafns (orðtak)  Um það þegar látin manneskja eða huldumanneskja birtist lifandi manneskju í draumi og fer framá að barn sé skírt í höfuð sér.  Um þetta voru mörg dæmi áðurfyrr þó framliðnir hafi gert minni kröfur á síðari tímum; eða, sem líklegra er, að nútímafólk taki minna mark á draumum sínum.

Vitja um (orðtak)  A.  Almennt; líta eftir; gæta að; hafa undir eftirliti.  B.  Draga fiskinet/grásleppunet, taka úr þeim aflann og leggja þau aftur.  „Vitjað var um grásleppunet“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Vitjun (n, kvk)  A.  Almennt; það að vitja.  B.  Yfirferð neta til að hreinsa og hirða veiði; umvitjun.  „Við förum í vitjun tvisvar í viku á þessum tíma“.

Vitjunartími (n, kk)  A.  Dauðastund.  Vísar til þeirrar trúar að engill dauðans komi og vitji manns/sæki mann.  „Það þekkja fáir sinn vitjunartíma, sem betur fer“.  B.  Í afleiddri merkingu um það að vita hvenær hæfir að grípa til aðgerða/framkvæma/rísa upp.  „Bændastéttin þarf að vita sinn vitjunartíma“.

Vitja um (orðtak)  Draga net; taka úr þeim veiði; hreinsa þau og leggja aftur.  Orðtakið að „vitja um net“ var oftast stytt svona, en einnig oft í það að „vitja“.  Vitjað er um grásleppunet nær daglega ef veiði er afbragsgóð; tveggja nátta í góðri veiði, en þau látin liggja allt að 5-6 daga sé hún mjög dræm“.

Vitjunardagur Maríu (orðtak)  Þingmaríumessa; 2. júlí.  Ein fjölmarga Maríumessa í kaþólskum sið.  Haldin heilög í minningu þess að María kvað hafa heimsótt móður Jóhannesar skírara þennan dag.  Þing var forðum haldið um þetta leyti og þennan dag voru vertíðarlok í Kollsvíkurveri.

Vitjunartími (n, kk)  Tími sem vitjað er.  Oftast í merkingunni dánardagur, þ.e. þegar drottinn kemur til að vitja um sína sál.  Til þess vísar orðtakið að þekkja sinn vitjunartíma.

Vitkast (s)  Verða skynsamari; láta af fávisku.  „Skyldu þessir þingmenn ekkert vitkast með árunum“?

Vitlaus (l)  A.  Vitfirrtur; sturlaður; brjálaður.  „Ertu alveg að verða vitlaus“?!  B.  Heimskur; treggáfaður.  „Hann er alls ekki vitlaus strákurinn“!  C.  Heimskulegur; fráleitur.  „Þessi tillaga er það vitlausasta sem ég hef nokkurntíma heyrt“!

Vitlausabein (n, kk)  Viðkvæmt svæði aftan í olnbogaliðnum.  Þar liggur ölnartaugin grunnt undir húðinni og því getur verið verulega sárt um tíma að fá á það högg.

Vitlausraspítali (n, kk)  Geðveikrahæli; í líkingum um stað þar sem ringulreið virðist ríkja.  „Á tímabili var engu líkara en fundarsalurinn væri algjör vitlausraspítali, þar sem hver æpti í kapp við annan“.

Vitlegt (l)  Gáfulegt; ráðlegt.  „Það væri nú vitlegra að fara öðruvísi að þessu“.

Vitleysast (s)  Fíflast; óskapast; vera með leikaraskap.  „Hættið nú að vitleysast strákar og komið að borða“.

Vitleysingur (n, kk)  Hálfviti; bjáni.  „Þetta eru meiri vitleysingarnir“.

Vitleysisgangur (n, kk)  Bjánagangur; hálfvitagangur.  „Ætlar þessi vitleysisgangur engan endi að taka“?

Vitleysiskjaftæði / Vitleysisþvæla (n, hk)  Bull, þæla; heimskulegt tal.  „Vertu nú ekki með þetta bölvað vitleysiskjaftæði“.  „Ég nennti ekki að hlusta á þessa vitleysisþvælu í frambjóðandanum“.

Vitleysislega (ao)  Bjánalega; kjánalega.  „Þetta er svo vitleysislega unnið að ég get ekki horft uppá það!

Vitleysugangur / Vitleysulæti (n, hk, fto)  Bjánagangur; heimskulegt/tilgangslaust framferði; fyrirgangur.  „Verið ekki með þessi vitleysulæti nálægt lambfénustrákar“! 

Vitna í/til (orðtak)  Vísa í ræðu og/eða riti til einhvers sem áður hefur verið sagt/ritað.  „Næst fór ég á Rauðasand, þar rýringur er einn,/ raunalegt að hann skuli ekki fitna./  Í kvenna og ástamálum er hann mjög svifaseinn/ í sína ævi byrjaði að vitna“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).  „Rakti oddviti síðan sögu máls… og vitnaði í því sambandi til fundar þess sem nýlokið er á Patreksfirði“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Vitna um (orðtak)  Bera merki um; sýna; sanna.  „Þarahrönnin vitnar um það hve sjórinn hefur gengið hátt“.

Vitnaleiðslur (n, kvk, fto)  Réttarhöld þar sem vitni eru leidd fram; vottun.  „Þannig var þetta; það þarf engar vitnaleiðslur um það“!

Vitneskja (n, kvk)  Vitund; þekking; kunnugleiki.  „Þetta var ákveðið án minnar vitneskju“.  „Ég fékk enga vitneskju um slysið fyrr en löngu síðar“.

Vitni (n, hk)  A.  Sá sem vottar/ vitnar um.  B.  Sönnunargagn.  „Búðarrústirnar standa til vitnis um hin miklu umsvif sem voru í Kollsvíkurveri fyrr á tíð“.

Vitnisburður (n, kk)  Vottun; staðfesting.

Vitnun (n, kvk)  Tilvitnun; vísun.  „Hann rökstuddi þetta alltsaman með vitnunum í biblíuna“.

Vitorð (n, hk)  Vitneskja; það sem almennt er talað/vitað.  „Þetta er á allra vitorði“.

Vitrast (s)  Koma í hug; fá hugljómun.  „Mér hefur enn ekki vitrast það hvar ég lagði hnífinn frá mér“.

Vitrun (n, kvk)  Opinberun; sýn; vitneskja eftir ósýnilegum leiðum.  „Það var bara eins og ég hefði fengið einhverja vitrun; allt í einu mundi ég hvar ég hafði lagt frá mér vasahnífinn“!

Vits er vant þeim er margt hjalar (orðatiltæki)  Sá er heimskur sem bullar um fleira er hann hefur vit á.

Vits er þörf þeim er víða ratar (orðatiltæki)  Speki úr Hávamálum:  „Vits er þörf/ þeim er víða ratar./  Dælt er heima hvað./  Að augabragði verður/ sá er ekki kann/ og með snotrum situr“.  Sá sem kemur á ókunnugar slóðir þarf að hafa sæmilega greind, þó auðvelt (dælt) sé að sitja heima.  Sá er hafður að háði (augabragði) sem heimskur situr meðal spakra manna.

Vitsmunaskortur (n, kk)  Heimska; skortur á skynsemi.  „Skelfingar vitsmunaskortur er þetta nú“!

Vitsmunir (n, kk, fto)  Gáfur; skynsemi; hyggindi.  „Ekki skortir hana vitsmuni, blessaða skepnuna“!

Vitstola (l)  Vitskertur; brjálaður; utan við sig.  „Stundum gæti maður haldið að þeir væru gersamlega vitstola þessir menn“!

Vituglegt (l)  Gáfulegur; skynsamlegur; hyggilegur.  „Heldurðu að það væri nú ekki vituglegra að vera í stígvélum en skóm; þú verður strax forblautur í fæturna“.

Vitugur (l)  Gáfaður; hygginn; skynsamur.  „Ansi er hún nú vitug tófan!  Hún trítlaði bara yfir lækinn; lagðist bakvið stein á bakkanum og horfði róleg á hundinn sem djöflaðist fram og til baka eftir slóðinni hinumegin“!

Vittu hvað hann segir um þetta (orðtak)  Fáðu hans álit á þessu; heyrðu hans viðbrögð. 

Vittu (bara) til (orðtak)  Láttu sjá; það máttu reyna.  Áherslusetning, notuð til að fylgja eftir áliti/spádómum.  „Þeir eiga eftir að missa allt féð fyrst þeir ráku það þessa leið; vittu bara til“! 

Vitugur (l)  Vitur; skynsamur.  „Heldur þykir mér hundurinn viturur; að fara hinumegin við hæðina til að goma á móti fénu og reka það til baka“.

Vitund / Vitundarvottur / Vitundarögn (n, kvk)  Það sem er svo örsmátt að varla er vitað af því.  „Mér þótti þetta ekki vitund sárt“.  „Ég sé ekki vitund i þessu myrkri“.  „Það heitir ekki að nokkur vitundarögn sé til af sykri á þessum bæ“.  „Áttu svolitla vitundarögn af salti að lána mér“?

Vitur (l)  Gáfaður; spakur.

Viturlega (l)  Gáfulega; spaklega.  „Það var viturlega gert hjá honum að undirbúa þetta svona vel“.  „Mér finnst þetta viturlega sagt“.

Viturlegt (l)  Gáfulegt; ráðlegt.  „Mér fyndist nú viturlegra að fara fyrst á sjó og setja svo inn heyið; það hefur aldrei þótt ráðlegt að geyma sér sjóveður“.

Vía (n, kvk)  Egg maðkaflugunnar, sjá einnig sögnina að vía.  Flugan sækir mjög í að vía rotnandi fisk og kjöt, einkum þegar heitt, stillt og rakt er í veðri.  Þarf því að vanda mjög til upphengingar og þrifa, og velja hjöllum staði þar sem vel blæs.  „Að bera víurnar í eitthvað“ er dregið af ásókn flugunnar.

Vía (s)  A.  Maðka; um það þegar maðkafluga verpir eggjum sínum (víum) í fisk.  Fiskur víar síður ef hann er vel þveginn af slori og blóði; nær fljótt að þorna og ekki eru í honum afdrep fyrir flugu.  B.  Vía frá; stía lömbum eða öðrum afkvæmum frá mæðrum sínum.  „Hún Gibba hefur stolið lambi eina ferðina enn; það þarf að vía það frá henni og koma því til móðurinnar“.  „Verið ekki með þennan gassagang innan um féð krakkar; þið víið lömbin frá mæðrunum“.

Vía frá (orðtak)  Aðskilja frá.  Einkum notað um það að aðskilja lamb frá móður sinni.  „Þú mátt ekki eltast svona við lambið drengur, og vía það frá kindinni.  Það er harðbannað“!

Víða er/verður góðs getið (orðatiltæki)  Þess verður lengi minnst sem þekktur er að góðu.

Víða er pottur brotinn (orðtak)  Víða er eitthvað að; ekki er allt fullkomið.  „Með auknu búfjáreftirliti hefur komið í ljós að víða er pottur brotinn varðandi aðbúnað búfjár“.  Pottar hafa verið manninum nauðsynlegir eftir að hann hagnýtti sér eldun matar.  Fyrstu pottar hérlendis voru úr erlendu klébergi, sem er mun auðveldara að móta en íslenskt berg.  Skipastóli landsmanna hrakaði fljótt eftir landnámsöld og þegar siglingar fóru að strjálast tók fyrir innflutning klébergspotta.  Þeir brotnuðu hver af öðrum og urðu gagnslausir.  Líklega er orðtakið til komið á þeim tíma.  Eftir að farið var að smíða potta úr eir og pjátri; og síðar flytja inn potta úr steypujárni, var yfirleitt þjóðhagasmiður í hverri sveit sem gat slegið eða brasað í feilinn.  Dæmi um slíkan þjóðhagasmið síðari tíma var Guðbjartur Egilsson á Lambavatni.

Víða flækist frómur (orðatiltæki)  Hinn alþýðlegi/góði fer víða.  Oft notað sem ávarpsorð við gest.

Víða liggja vegamót (orðatiltæki)  Vegamót eru oft mörg á vegum, og gildir það jafnt um bílvegi sem hestavegi fyrri tíma.  Notað sem líkingamálum það að lífsleið manna getur víða legið, og óvæntar breytingar orðið.

Víðasthvar / Víðast hvar (ao/orðtak)  Á flestum stöðum; nánast allsstaðar.  „Víðasthvar hafa orðið miklar breytingar“.  „… en framræslu skorti víðast hvar til að geta aukið ræktunina“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).  „Fóðurbirgðir eru víðast hvar sæmilegar…“  (ÍÍ;  Forðagæslubók Rauðasands 1944).  

Víðavangur (n, kk)  Hvar sem er; í víðáttu; á dreif.  „Það má ekki skilja hrífurnar eftir svona á víðavangi“.

Víðátta /bm jvj)  Mikið svæði; stórt opið svæði.

Víðáttuhálfviti / Víðáttubjáni / Víðattuvitleysingur (n, kk)  Erkihálfviti; algjör auli/vitleysingur.  „Hverskonar víðáttuhálfviti getur maðurinn verið?!  Hefur hann aldrei komið nálægt skepnum“?!

Víðáttufullur (l)  Augafullur; ofurölvi.  „Hann var svo víðáttufullur að hann mundi ekkert daginn eftir“.

Víðáttuheimskur / Víðáttuvitlaus  (l)  Mjög heimskur; tröllheimskur.  „Mikið eru víðáttuvitlaus ef þú skilur ekki svona einfaldan hlut“!

Víðfeðmt (l)  Víðáttumikið; vítt.  „Þeir þurfa að smala ári víðfeðmt svæði“.

Víðfróður / Víðkunnugur / Víðlesinn / Víðskyggn (l)  Fjölfróður; vel heima á mörgum sviðum; þekkir vel til.  „Hann er líklega hvað víðfróðastur í þeirra hópi“.  „Ég er þessu svæði nokkuð víðkunnugur“.

Víðilækur (n, kk)  Lækur sem rennur um víði vaxið svæði.  Víðilækir er örnefni í utanverðum Vatnadal; framanvið Stórahnjót.  Þar renna víða lækir undan urðarfætinum í Breiðshlíðinni og þar er bæði skjólsælt og gróðursælt.  Þar grær mikið af fjalldrapa og er hann líklega víðir sá sem nafnið er dregið af.

Víðlent (l)  Víðáttumikið; víðfeðmt. 

Víðsfjarri (ao)  Mjög langt frá; órafjarri.  „Þetta er víðsfjarri öllum sannleika“!  „Því fer víðsfjarri“!

Víðsvegar (ao)  Víða; um allt.  „Það er slæðingur af fé víðsvegar um Bjargið“.

Víðsvegar (ao)  Víða; á mörgum stöðum.  „Verbúðir voru með þessu lagi víðsvegar á Vestfjörðum“.

Víðsýni (n, kvk)  A.  Mikið útsýni; staður þar sem sést vítt yfir.  B. Líking; mikill skilningur; frjálslyndi.

Víðsýnn (l)  Með mikla þekkingu/víðsýni; umburðarlyndur í hugsun.  „Hann þykir víðsýnni en ýmsir aðrir“.

Víf (n, hk)  Kona; kvenmannskennin, einkum notuð í skáldskap.

Víf er vers yndi (orðatiltæki)  Konur eru karla yndi; konur eru unaður í lífi karla.

Vífilengjur (n, kvk)  Undanfærslur; fyrirsláttur; málalengingar.  „Í þessu máli duga öngvar vífilengjur“!  Málfræðingar eru ekki sammála um orðsifjar.  Höfundi þessarar samantektar finnst líklegast að forskeytið sé myndbreytt neitunarforskeytið „vé“, hið sama og í „véfengja“, en síðari hlutinn sé „viljungur“ eða „vilungur“; þ.e. vilji; einnig nokkuð myndbreytt í aldanna rás.  Merkingin er þá „enginn vilji“; „tregða“; semsé „vífilengjur“.  Þessi orðskýring er e.t.v. merkilegust fyrir þær sakir að eintölu-karlkynsorð hefur með tímanum breyst í fleirtölu-kvenkynsorð.  Slík breyting getur því aðeins hafa skeð að orðið hafi um tíma lítt verið notað.  Þegar það er endurreist er uppruninn gleymdur en hljómur orðsins er grípandi; þénar merkingunni og orðið finnur sér sjálft nýja flokkun.

Víg (n, hk)  Dráp; bardagi.

Vígaferli (n, hk, fto)  Óöld; styrjöld; endurtekin hefndardráp.

Vígahnöttur (n, kk)  A.  Loftsteinn; bjart stjörnuhrap.  Nafnið var stundum einnig“ vígabrandur“ fyrr á tíð, og hefur hvortveggja líklega verið talið fyrirboði víga og styrjalda.  B.  Líkingamál um þann sem flýtir sér.  „Hann kom hlaupandi hér inn eins og vígahnöttur; greip nestið og þaut af stað aftur til að missa ekki af sjóferðinni“.

Vígahugur (n, kk)  Móður; löngun/æsingur í átök/víg.  „Það var mikill vígahugur í honum; hann sagðist alveg vera  tilbúinn að hitta þessa andskota og kenna þeim sitt af hvoru“!

Vígalegur (l)  Mikilúðlegur; óárennilegur; grimmdarlegur.  „Mikið asskoti ertu vígalegur með þessa húfu“!  „Tíu vetra orðinn er/ öðrum sveinum fegri;/ fulla hreysti fjögra ber,/ flestum vígalegri“  (JR; Rósarímur).

Vígamóður (l)  A.  Vígahugur.  B.  Þreyttur eftir bardaga/viðureign.

Vígindi (n, hk)  Áferð; vefnaður.  „Mér finnst dálítið sérkennileg vígindi í þessum frakka“.

Vígreifur (l)  Kappmikill og til í átök; átakasækinn.

Vígsluferð (n, kvk)  Ferð til að vígja/blessa.  „Guðmundur biskup Arason hinn góði flæktist víða um land með söfnuð sinn er hann átti í erjum við höfðingjavaldið.  Í ferðum sínum vígði hann fjöldann allan af stöðum; oftast lindir og vatnsból en einnig hættustaði s.s. björg.  Með víxlunum hefur hann öðrum þræði viljað launa góðgerðir og velvilja en eflaust einnig efla trú almúgamannsins með því að færa helgitákn á heimaslóðir.  Ein vígsluferð Guðmundar góða lá til Kollsvíkur.  Kann e.t.v. góðvinur hans, Snorri Sturluson í Reykholti, að hafa bent honum á þessa verstöð í vestri, þar sem hugsanlegt væri að halda uppi söfnuðinum í nokkra daga gegn messum og vatnsvígslum.  Nánari tildrög eru gleymd en um Kollsvíkurferð biskups ber vitni Gvendarbrunnur undir Núpnum, þar sem vatnið er enn talið hafa lækningamátt; Biskupsþúfa, þar sem hinn bæklaði biskup á að hafa hvílt sig á leið að brunninum og e.t.v. sungið messur þar í brekkunni og Gvendarsteinn í Dalbrekkum, þar sem biskup hefur líklega áð með lið sitt á leiðinni yfir Víknafjall“.

Vígvöllur (n, kk)  Staður þar sem bardagi/víg fer fram.  „Takiði nú til í herberginu straákar; það er bókstaflega eins og vígvöllur“!

Vík (n, kvk)  Stór vogur inn í strandlengju, gengur styttra inn en fjörður.  Heitið er ævafornt í germönskum málum.  Má þar benda á Víkina í Noregi, þar sem nú er Osló.  Við þá vík eru víkingar kenndir, sem síðan skírðu nýlendur sínar þar sem þannig hagaði til; t.d. Jórvík, Leirvík, Reykjavík og Kollsvík.  Af sama stofni er sögnin að „víkja“ og heitið „veikindi“, sem í raun merkir vík í heilsufarið.

Vík milli vina (orðtak)  Langt milli vina/kunningja/frændfólks; misklíð uppi milli þeirra sem ættu að halda vinskap.  „Mér heyrist að þarna sé orðin vík milli vina; hann er ekki vel hrifinn af nágrannanum núna“.  Hluti af lengra orðatiltæki;  „fjörður skyldi milli frænda og vík milli vina“, sem vísar til þess að of nánar samvistir geta stundum reynt á vinaböndin.

Víkingaskip (n, hk)  Skip af þeirri gerð sem víkingar notuðu á víkinga- og landafundaöld sinni.  Víkingaskip voru af nokkrum gerðum, eftir þeim tilgangi sem þau áttu að þjóna.  Öll höfðu þau þó sömu grunngerð; voru súðbyrt; höfðu eitt þversegl á rá miðskips; sveigt kjöltré; háa stafna og var stýrt með stýrisár stjórnborðsmegin á afturbógi.  Yfirleitt var einnig unnt að róa þeim.  Megingerðir stærri skipanna voru tvær; langskip og knörr.  Langskip, eða dreki, var stórt borðlágt skip ætlað til hernaðar, oft yfir 50 metra langt og með 60 árum eða fleiri; hraðskreiðara en önnur vígskip þess tíma en þénaði hvorki vel til langsiglinga á úthafi nér mikilla flutninga.  Gunnar Marel Eggertsson smíðaði skipið Íslending sem hleypt var af stokkunum 1996 og er eftirlíking af langskipinu sem fannst í Gaukstad í Noregi.  Skipinu var siglt til Ameríku og var ganghraði þess iðulega um 7 sjómílur á klst; og allt upp í 18.  Nú varðveitt í Víkingaheimum í Njarðvík.
Knörrinn var mun breiðari, borðhærri og burðarmeiri, og hentaði vel til hafsiglinga.  Hann var m.a. notaður af landnámsmönnum á Íslandi.  Allar líkur eru á að knörr hafi það verið sem steytti á Arnarboða undir stjórn Kolls landnámsmanns.  (Munnmælin segja að stýrimaður Kolls hafi heitið Örn, en þar sem engir stýrimenn voru á skipum þessa tíma má e.t.v. ætla að Kollur hafi í raun heitið Örn en tekið viðurnefni af Núpnum sem hann byggði bæ sinn undir).  Knerrir voru dýr skip og því ljóst að í Kollsvík hefur orðið mikið tjón við þetta slys.  Minni víkingaskip voru til, þó minna sé um þau vitað.  Eitt þeirra var ferja, sem líklega hefur verið breiður, grunnur og burðarmikill bátur, einkum ætlaður til flutninga nærri landi.  Skúta var e.t.v. af svipaðri stærð en líklega minni en knörr.  Kann að vera sama skip og karfi, sem var allt að 20 m langur og með allt að 26 árum.

Víkingaöld (n, kvk)  Svo hafa menn í seinni tíð nefnt það tímabil mannkynssögunnar sem einkennist af umsvifum og útrás norrænna víkinga á tímabilinu 800-1050.  Undirstaða hennar er sú að Norðmenn þróuðu vel heppnaða gerð súðbyrtra skipa, líklega milli 500 og 700 e.Kr.  Góð skip voru þeim nauðsynleg til að ferðast í skerjagarðinum og um hina löngu firði.  Hinsvegar kom fljótt í ljós að þau voru afbragðs hafskip og höfðu einnig yfirburði sem herskip.  Þetta leiddi til sívaxandi sjórána í fjarlægum ríkjum, og miðast upphaf víkingaaldar við fyrstu skjalfestu árasina á Englandsstrendur árið 793.  Þegar veldi norskra, sænskra og danskra víkinga var sem mest, bæði hernaðarlegt og viðskiptalegt, má segja að það hafi náð frá Norður-Noregi að norðan suður til Frakklands og jafnvel Miðjarðarhafs; frá Nýfundnalandi að vestan til Rússlands og Sýrlands í austri.  Venja er að miða lok víkingaaldar við ósigur Haraldar Harðráða Noregskonungs á Englandi árið 1066.

Víkingur (n, kk)  A.  Maður á víkingaöld.  Oft er heitið tengt stríðskappa, en víkingar voru samsetningur margra þjóðflokka og fjölbreyttra stétta.  B.  Líkingaheiti manns sem þykir skörungur við vinnu.

Víkingur að dugnaði (orðtak)  Mjög duglegur/röskur/öflugur. 

Víkja (s)  A.  Fara frá/til hliðar.  „Annar verður að víkja til að hinn komist áfram“.  B.  Gefa; afhenda; færa.  „Ég ætla að víkja henni einni broddflösku“.  Einnig „víkja að“.  C.  Reka fé á ákveðinn stað.  „Féð heldur sig illa fjörubeitinni.  Ég ætla að víkja því fram á Foldirnar“.  „Viljiði fara og víkja fénu út af túnunum strákar“?

Víkja að (orðtak)  A.  Afhenda; gefa; láta fá.  „Hann vék stundum að okkur súkkulaðibita úr kistuhandraðanum“.  B.  Um frásögn/ræðu; byrja að fjalla um; koma að.  „Mig langar í lokin að víkja að allt öðru málefni…“.

Víkja í lið fyrir (orðtak)  Hjálpa; aðstoða.  „Hann vantaði mann í smalamennskur svo ég ákvað að víkja í lið fyrir hann, enda átti hann kannski þá hönk upp í bakið á mér“.

Víkja í veg fyrir (orðtak)  Fara í veg fyrir; fara til.  „Víkið nú í veg fyrir árans kýrnar strákar; þær stefna beint í kálgarðinn“!  „Hann var að ganga í burtu, svo ég vék í veg fyrir hann og bauð honum í kaffi“.

Víkja sér að (orðtak)  Koma uppað.  „Ég vék mér að honum í hléinu og þakkaði honum fyrir ræðuna“.

Víkja tali að (orðtak)  Fara að tala um; færa í tal.  „Hann vildi ekki ræða þetta og veik talinu að öðru“.

Víkja við (orðtak)  Atvikast; haga til.  „Nú víkur því svo við að ég á engan molasykur með kaffinu“.

Víkjast undan (orðtak)  Færast undan; biðjast undan; vilja helst ekki gera.  „Ég mun ekki víkjast undan því sem mér er trúað fyrir“.

Víknabúi / Víknamaður (n, kk)  Útvíknamaður; sá sem býr í/ kemur frá/ er ættaður frá Útvíkum í Rauðasandshreppi.  Rauðasandshreppur skiptist eftir staðháttum í nokkur byggðasvæði, og er sú skipting mjög gömul (sjá Rauðsendingur). Eitt þessara svæða eru Útvíkurnar Látravík, Breiðavík og Kollsvík.  „Víknamenn smala sínu fé á skilarétt í Breiðavík“.  „Víknamenn; þ.e. bændur úr Útvíkum að meðtöldum Breiðvíkingum, voru flestir með viðskipti sín hjá Sláturfélaginu“  (PG; Veðmálið). 

Víkuráll (n, kk, sérn.)  Djúpur áll sem gengur inn í landgrunnið VNV af Kollsvík; aflasæl fiskislóð.  Fullyrða má að állinn dragi nafn af Kollsvík, enda var hún mesti útgerðarstaður á sunnanverðum Vestfjörðum um aldir.  Hafa þá stærri bátar líklega sótt alla leið þangað niður, enda trygg og mikil veiði af góðum fiski.

Víkurbotn (n, kk)  Mót undirlendis og fjallshlíða í vík.  „Víkurbotn heitir í Kollsvík, þar sem land hækkar við Grænubrekku og Stórfell.  Víkurbotn í Breiðuvík er þar sem land hækkar upp á Aurholt og Stæður“.

Víl (n, hk)  Kvartanir; kveinstafir; væl.  „Það þýðir víst lítið að hafa uppi eitthvað víl yfir þessu“!  Líklega af sama orðstofni og „væl/vol“.

Víla ekki fyrir sér (orðtak)  Mikla ekki fyrir sér; vaxa ekki í augum; gera umyrðalaust.  „Víla“ er sagnmynd „víl“, en kann þó í þessu tilliti að vera breytt mynd af „tvíla“.  „Þetta var ein sú ánægjulegasta sjórferð, en um leið sú gapalegasta, sem ég hef verið með, og hef ég þó verið með mönnum sem ekki hafa vílað fyrir sér að hlaða skip í sjó, sem kallað var“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Víla og vola (orðtak)  Hafa uppi barlóm; berja sér; nöldra.  „Eru þeir enn að víla og vola um þetta“?

Vílsamur (l)  Gjarn á að kvarta; aumingjalegur.  „Sigfreður í Stekkadal var hraustmenni mikið og ekki vílsamur“  (MG; Látrabjarg).

Víndropi / Vínsopi (n, kk)  Dropi/sopi af víni. Vín var aldrei viðhaft í Kollsvík, og almennt var það illa séð í þar í húsum, þó engir væru menn predikararar í þessum efnum.  Flestir Kollsvíkingar gátu því með góðri samvisku sagt að aldrei hefði víndropi farið innfyrir þeirra varir, enda var það nánast orðtak þar í víkinni.

Vínhneigður (l)  Ölhneigður; fyrir sopann; háður víni; sækir í víndrykkju. 

Vínnautn (n, kvk)  Sókn í áfengi; vínneysla.  „Vínsteinn var kenndur við vínnautn Jóns Þorvarðarsonar sem einhvern tíma á að hafa haft forsvar Sauðlauksdal, og lét færa sér vínföng á afvikna staði þegar hann var á ferðum um sveitina.  Neytti þó ekki víns fyrr en að lokinni reisu og sýnt væri  að hann kæmist sjálfbjarga heim“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Víraverk / Víravirki (n, hk)  Skrautmunur, búinn til úr flóknum vafningum víra sem brugðið er saman og mynda oft reglulegt mynstur.  Notað m.a. á skart þjóðbúninga, s.s. myllur og stokkabelti.

Vírbursti (n, kk)  Áhald með stinnum vírstubbum, notað m.a. til að bursta ryð af járnfleti.

Vírgirt (l)  Um tún/svæði; girt með vír.  „Uppi á Hjöllunum er túngarður, hlaðinn á einum vetri af Guðbjarti Guðbjartssyni, en annarsstaðar eru Láganúpstún vírgirt“.

Vírnet (n, hk)  Girðinganet; net úr sléttum járnvír, notað til að halda sauðfé m.a. frá túnum.

Vírstag (n, hk)  Stag úr vír, t.d. á horni girðingar til að vega á móti strekkingu hennar.

Vírus (n, kk)  Veira, sjá þar.

Vís (l)  A.  Áreiðanlegur; öruggur; þekktur.  „Það er best að geyma þetta á vísum stað“.  „Er alveg víst að þú þekkir leiðina“?  „Það er víst betra að fara að drífa sig“!  B.  Vitur; gáfaður.  „Ég varð einskis vísari“.

Vís er borgun hjá brandi (orðatiltæki)  Hótun um að hefna sín.  Brandur merkir sverð í þessu samhengi.

Vís er sá er víða fer/ratar (orðatiltæki)  Menn læra margt nýtt í ferðalögum.

Vís til (orðtak)  Gæti átt til; gæti gert.  „Það þarf að hafa gætur á þeirri gráu; hún er vís til að strika beina leið út á Bjarg aftur þegar hún sér tækifæri til þess“.  „Ekki veit ég hvað honum dettur í hug a kjósa núna; hann gæti jafnvel verið vís til að kjósa sjálfstæðisflokkinn“!  „Varaðu þig á tuddanum; hann er til alls vís“.

Vísa (n, kvk)  A.  Staka; kvæði.  „Aldrei er góð vísa of oft kveðin“.  B.  Hátterni; aðferð.  „Það var hans von og vísa“.

Vísa á bug / Vísa frá sér (orðtak)  Hafna; neita; synja.  „Hann vísaði því alfarið á bug að vera valdur að þessu“.

Vísa (einhverjum) á leið / Vís/sýna (einhverjum) í áttina / Vísa (einhverjum) til vegar (orðtök)  A.  Vísa manni til vegar; leiðbeina hvert halda skuli.  B.  Fylgja manni úr hlaði; fylgja áleiðis.  C.  Reka fjárhóp áleiðis í þá stefnu sem hann á að fara.  Fé var einatt haldið til vetrarbeitar í Kollsvík.  Oft nægði, þegar búið var að hleypa því út, að „vísa/sýna því í áttina“; reka það áleiðis að haganum, og þá fór það sjálft til beitar.

Vísa (einhverjumn) til sængur (orðtak)  Sýna gesti hvar hann á að sofa.

Vísast til (orðtak)  Líklega; örugglega; sennilega.  „Það er vísast til rétt að fara að huga að þessu“.  „Þetta er vísast til rétt munað hjá honum; allavega veit ég ekki betur“.

Vísbending (n, kvk)  Tákn; merki; það sem vottar um.  „Ég fann engar vísbendingar um að þarna hefði tófa farið  um“.

Vísdómsmerki / Vísdómsvottur (n, kk)  Vottur um visku/gáfur; gáfumerki.  „Það hefur nú aldrei þótt mikill vísdómsvottur að æða á sjó án þess að fyrst til veðurs“!

Vísdómstönn (n, kvk)  Endajaxl í altenntri manneskju.  „Vísdómstennur vaxa seinast og líklega er nafnið dregið af því að þá fyrst séu menn komnir til vits og ára þegar þær eru vaxnar“.

Vísdómur (n, kk) Speki; fræði; vitneskja; vit.  „Þennan vísdóm hef ég aldrei skilið til fulls fyrr en nú“.

Vísifingur (n, kk)  Fingur á mannshönd, sá næsti við þumalfingur; sleikifingur.

Vísindabók (n, kvk)  Bók um raunvísindi/náttúruvísindi.  „Á vetrum til skemmtunar eru lesnar fornaldarsögur og vísindabækur“  (Séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal; sóknarlýsing 1840). 

Vísindalega (ao)  Með vísindalegri aðferð; á rökréttan hátt.

Vísindamaður (n, kk)  Sá sem rannsakar hluti og eðli hluta á gagnrýninn, skipulegan og rökréttan hátt og setur niðurstöður sínar fram sem þekkingarauka.  Vísindamaður þarf að kynna sér vel það sem þekkt er varðandi viðfangsefnið og helstu lögmál og ferla sem að því lúta.  Vísindamaður er hver sá sem beitir rökréttum/vísindalegum aðferðum.  Hann þarf ekki að vera skólagenginn, heldur getur hann aflað vitneskju sinnar með öðru móti.  Því er það ekki annað en þjóðsaga og menntahroki þegar skólar og „fræðasamfélög“ reyna að eigna sér hvaðeina sem kennt er við vísindi.  Almúgamaðurinn er oft besti vísindamaðurinn.

Vísindi (n, hk, fto)  Þekking; vitneskja; sannindi.  Oftast er átt við þekkingu sem byggð er á rökleiðslu, athugunum og prófunum og hefur almennt gildi.  Vísindi hafa ekkert að gera með skóla eða menntagráður; hver einasti hugsandi maður getur stundað vísindi og verið vísindamaður.  Hingað til hefur því ekki mikill gaumur verið gefinn, en í raun stunda aðrar dýrategundir einnig vísindi, þó ekki séu þau skráð á blað.

Vísitala (n, kvk)  Hlutfall, oftast mælt í prósentum/stigum.  Oftast er orðið notað í hagfræði og fjármálum og notað til að lýsa sveiflum tiltekins verðlags miðað við tiltekinn grunn/fasta.

Vísitasía (n, kvk)  Eftirlitsferð biskups um umdæmi sitt.

Vísitera (s)  Heimsækja.  Var fyrrum einkum notað um ferðir prófasta og biskupa til eftirlits með kirkjum og safnaðarstarfi í sínu umdæmi.  Var sú ferð nefnd „vistasía“ eða „visitasíuferð“.

Vísnagerð (n, kvk)  Skáldskapur; það að setja saman vísur.  „Vísnagerð var miklu meira haldið á lofti þegar ég var strákur…“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Vísnakver / Vísnasafn (n, hk)  Ljóðabók.

Víst (ao)  Vissulega; öruggt; rétt.  Töluvert notað sem hikorð...:  „Það er víst rétt að fara að drífa sig af stað“.  ...eða andsvar:  „Það er víst“.

Vísukorn (n, hk)  Lítil/stutt vísa.  „Ég held ég kunni þetta vísukorn“.

Vísundur (n, kk)  Ættkvísl stórvaxinna villtra nautgripa (bison).

Vísuorð (n. hk)  Lína í vísu/kvæði; braglína.

Vísupartur (n, kk)  Hluti af vísu.  „Ég kann einhvern vísupart en man ekki allt kvæðið“.

Vísvitandi (l)  Fyllilega meðvitaður; vitandi.  „Hann myndi aldrei gera þetta vísvitandi; þetta hefur áreiðanlega verið óviljaverk“.

Vísvitanlega (ao)  Vitandi vits; meðvitaður.  „Þetta hefði hann aldrei gert vísvitanlega“!

Víta (s)  Fordæma; gagnrýna harðlega.  „Össur Guðbjartsson taldi að víta bæri harðlega þá fjármálaóstjórn (sjúkrahúss) sem hér væri um að ræða“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Vítahringur (n, kk)  Orðið er notað um ástand sem skapast við orsakasamhengi þar sem orsök skapar slæma afleiðingu  sem síðan hefur keðjuverkun á þann hátt að fyrstnefnda orsökin er afleiðing annarrar í keðjunni.  T.d. er talað um að menn geti lokast inni í vítahring ósanninda eða vítahring fátæktar.  Líklega á orðið mun eldri uppruna, sem þá gæti vísað til helgiathafna.  

Vítavert (l)  Vert fordæmingar; ófyrirgefanlegt.  „Mér finnst þetta alveg vítavert kæruleysi“.

Víti (n, hk)  A.  Stytting á Helvíti, bústað Satans og djöfla hans.  B.  Hluti af hjátrú sem líklega er mun eldri en kristin trú, og snýr að því sem forðast þarf að gera í daglegu lífi til að spilla ekki framtíð sinni og sálarheill.  Talið var að ævi manna væri fyrirfram ásköpuð í stórum dráttum; mönnum væru búin forlög/sköp.  Þó gætu menn stofnað sér í voða með ýmsum hætti ef vissar venjur væru ekki virtar.  „Til þess eru vítin að varast þau“, voru og eru enn varnaðarorð í því efni.  Lengst hefur eimt eftir af þessari hjátrú meðal sjómanna, en um það fjallar m.a. KJK í ritgerð sinni um Kollsvíkurver.  Dæmi um víti eru t.d. þau að ekki megi slíta niður dordingul eða rífa köngulóarvef; það sé ólánsmerki.  Ekki má éta mark af kindarhöfði; þá er maður sauðaþjófur.  Ekki má fleygja málbeini í hunda eða sorp á bæ þar sem er ómálga barn; þá fær það aldrei mál.  Ef ólétt kona borðar rjúpuegg verður barnið freknótt og ef hún hleypur mikið verður það lofthrætt.  Aldrei má kona á blæðingum stíga yfir kjöl sem lagður hefur verið að bát; þá verður hann ólánsfleyta.  Ef menn skera matinn frá sér í stað þess að skera hann að sér er hann að skera handa skollanum.  Ef maður gengur með hendur læstar saman aftanvið bak er maður að teyma andskotann.  Ef ræðari lætur verulegan enda árahlumms standa útundan hendi sinni þá rær djöfullinn með honum.  Ef barn blótar kemur svartur blettur á tungu þess.  Ef tveir kveða í einu, sína vísuna hver, þá skemmta þeir skrattanum.  Ekki má kyssa lamb, þá verður það tófubitið.  Ekki er þó allt neikvætt:  Hnerraði maður ofaní skip eða afla boðaði það góða veiði, og hnerri ofaní mat boðaði björg í bú.  Ef hrífur kræktust saman á teigi táknaði það vináttusamband eða sambúð, væri um karl og konu að ræða. 

Víti til varnaðar (orðtak) Áminning um að fara varlega.  „Þessar hrakfarir þeirra ættu nú að verða öðrum víti til varnaðar; að vera betur útbúnir áður en lagt er á fjall í svona tíðarfari“.

Vítiskvalir (n, kvk, fto)  Miklar þjáningar; óbærilegir verkir.  „Sjaldan hef ég liðið álíka vítiskvalir og þá“.

Vítissódi (n, kk)  Grimmsterkur hvarfagjarn lútur; natríumhydroxíð.  Stundum notað sem öflugt hreinsiefni eða stíflueyðir, en varasamt vegna ætingar og eituráhrifa.

Vítissteinn (n, kk)  Blásteinn; silfurnítrat; notað til iðnaðar; þótti áður gott til lækninga, m.a. á vörtum og bólgu.

Vítl (n, hk)  Dund; fikt; rjál.  „Ég nenni ekki þessu vítli með handkvíslum; ég sæki traktorinn“.

Vítla við (orðtak)  Dunda/fikta/fást við.  „Hann er eitthvað að vítla við útskurð“.  „Ég vítla við þetta í frítímum“.

Víxill (n, kk)  Skuldarviðurkenning af sérstöku formi.  Í dag einkum notað sem skuldabréf skammtímaláns með ábyrgðarmanni/-mönnum og fyrirframgreiddum vöxtum.

Víxl / Víxlun (n, hk/kvk)  Umskipti; það að víxla.

Víxla (s)  A.  Leggja á misvíxl; leggja í kross.  B.  Hafa skipti á.  „Hér hafa þinirnir víxlast á netaskilunum“.

Voð (n, kvk)  A.  Klæðisefni sem ofið er úr ull.  Sjá tóvinna.  B.  Annað heiti á segli báts.  „Ægisdætur áleitnar/ ýrum væta bjórinn./  Vindar tæta voðirnar;/ verða nætur langdregnar“  (JR; Rósarímur). 

Voðalega (ao)  Afar; mjög; hræðilega; ógnvænlega.

Voðalegur (l)  Skelfilegur; ógnvænlegur.  „Efti skamma stund heyrði ég voðalegan hávaða“  (Guðrún Grímsdóttir; Útkall við Látrabjarg).  Stundum stytt í „voða“.

Voðamenni (n, hk)  Ógnvænlegur maður; illmenni.  „Þið ættuð ekki að vera að lita á ykkur skeggómyndina hans Hitlers, strákar; þetta var voðamenni sem enginn ætti að líkjast“.

Voðaskot (n, hk)  Slysaskot; byssuskot sem veldur slysi/dauða manns.  „Hann lést af völdum þessa voðaskots“.

Voðaverk (n, hk)  Hræðilegur verknaður; morð. 

Voðfelldur (n, kk)  Um klæði/flík; mjúkur; þjáll; þægilegur.

Voði (n, kk)  A.  Hætta; vá; lífshætta.  „Farðu þér nú ekki að voða með hnífinn“!  B.  Hættulegt eggjárn.  „Farðu ekki svona gáleysislega með voðann drengur“!

Vofa (n, kvk)  Draugur; andi; svipur.  „Hafi einhver vofa verið þarna á ferð þá hefur hún örugglega orðið hræddari við mig en ég við hana“!

Vofuhvítur / Vofulegur  (l)  Fölur; laslegur; slappur.  „Skelfing ertu nú vofulegur; ertu með hita“?

Vog (n, kvk)  A.  Vigt; tæki til mælingar á þyngd.  B.  Þyngd; vægi.

Voga (s)  Þora; hætta á.  „Ég vogaði ekki að leggja að hleininni í þessum súgi“.

Voga sér (orðtak)  Hætta sér; þora.  „Hann vogaði sér ekki að mótmæla kerlingunni“.

Voga til (orðtak)  Hætta til.  „Ég þori ekki að voga því til að hafa netin á víkinni í svona norðanspá“.

Vogaður (l)  Hugaður; kjarkmikill.  „Mér þykir þú fjári vogaður að ætla að reyna að klífa þarna upp, bandlaus“.

Vogandi (l)  Hættandi; þorandi.  „Ég held að ekki sé vogandi að leggja grynnra; ef hann skyldi auka sjóinn“.

Vogarstöng (n, kvk)  Stöng sem beitt er til að auka kraft með því að auka vinnu.  Með vogarstöng getur maður því t.d. hreyft hluti sem án hennar væru of þungir í meðförum.  Járnkarl er t.d. oft notaður sem vogarstöng til að hreyfa þungan stein; felgujárn til að vega dekk af felgu o.s.frv.

Voggrís (n, kk)  Bakteríusýking í hársekk í augnloki, með lítilli graftrarbólu og roða.  Nokkuð algengur kvilli en hættulaus, og gengur yfir á nokkrum dögum.

Vogmeri / Vogmær (n, kvk)  Trachipterus arcticus.  Fiskur af vogmeyjarætt sem stundum finnst nærri Íslandsströndum og hefur m.a. rekið á fjörur í Kollsvík (1969).  Þunnvaxinn fiskur sem verður oft yfir 3 m að lengd.  Stirtla og sporður skærrauð, sem og langur bakugginn, en fiskurinn annars silfraður að lit.  Heldur sig oftast langt frá landi og á nokkurhundruð metra dýpi.

Vogrek (n, hk)  Reki sem á einhvern hátt er unnið af mönnum, t.d. strandgóss úr skipi.  „Um vogrek gilda þær reglur að það er eign þess sem sannað getur tilkall sitt til eignanna, en ekki rekaeiganda.  Þó er sú undantekning á þeirri reglu að merktar baujur hafa almennt ekki talist vogrek“.

Vogun (n, kvk)  Áhætta; hætta.  „Sumum þótti það nokkur vogun að leggja í röstina svo úfna“.

Vogun vinnur; vogun tapar (orðatiltæki)  Einhver áhætta gæti unnist en gæti einnig tapast.  Grundvallarlögmál happdrættis, og oft viðhaft þegar menn leggja í verulega áhættu.

Vogunarmikið (l)  Áhættusamt.  „Mér finnst það heldur vogunarmikið að fara þetta bandlaus“.

Vogur (n, kk)  Lítil vík; vik inn í strandlengju.  Sbr Helluvogur, Sandhellisvogur og Landamerkjavogur.

Voka / Vokka / Vokra yfir (orðtak)  Vakta; fylgjast með.  „Það þarf eitthvað að vokra yfir kúnni meðan hún er að bera“.  „Hrafninn er að vokka yfir einhverju í skurðinum; hugsanlega er kind þar föst“

Vokk (n, hk)  Stjákl; viðvera; vöktun; aðgát.  „Það er stutt hvíldin hverju sinni um sauðburðinn.  Maður þarf alltaf að ver á vokki innanum féð ef þetta á að gang sæmilega“.

Vokka yfir (orðtak)  Fylgjast með; vakta; vera á ferli við.  „Það þarf stöðugt að vera að vokka yfir lambfénu á þessum tíma“.

Vokkandi (l)  Á vakt/verði; að fylgjast með.  „Ég var vokkandi þarna í Vörinni og beið eftir bátnum“.

Vol (n, hk)  Væl; skælur; grátur.  „Vertu nú ekki að þessu voli lambið mitt; þetta voru nú ekki stórmeiðsli“!

Vola (s)  Gráta; orga.  „Af hverju ertu nú að vola greyið mitt“?

Vola eitthvað í sig (orðtak)  (líkl.) Eta eitthvað með ólund/af ólyst.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Volað (l)  Velsælt; aumt.  „Skyldu þessir voluðu vesalingar aldrei geta setið á sátts höfði“?  „Enn svara þeir ekki hjá Símanum.  Ég held bara að væri rétt að leggja niður þá voluðu stofnun“!

Voldugur (l)  Máttugur; valdamikill; sterkur.  „Þetta er ansi voldugt rekatré“!

Volgna (s)  Hitna lítillega; verða volgt.

Volgra (n, kvk)  A.  Uppspretta af volgu vatni; laug.  B.  Hálfur hugur; lítilsháttar löngun.  „Það er einhver volgra í honum með þetta, finnst mér“.

Volgrulegur (l)  (líkl.)  Hálfvolgur; hikandi; óviss.  (Merking kann þó að vera önnur; ekki notað í mínu minni; VÖ)  Orðið virðist ekki hafa verið notað utan Kollsvíkur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Volgur (l)  Dálítið heitur; hlýr.  Best er að þvó þetta úr volgu vatni“.

Volk (n, hk)  Hrakningar; vosbúð.  „Einn komst af eftir talsvert volk“  (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Volkinn (l)  Velktur; jaskaður; hrakinn.  „Þeir voru víst orðnir ári volknir eftir þessa sjóferð“.

Voll (n, hk, linur frb)  Vandræðaástand; óreiða; ólag.  „Ljósavélin var kolúrbrædd og allt í volli; enda hvorki hægt að mjólka né elda“.  „Þetta er nú meira vollið á hlutunum“!  Voll mun vera dönskusletta; vold = harðræði; yfirgangur, og vísar því til hernaðarástands.  Var í hvorugkyni í munni Kollsvíkinga, en orðabók HÍ hefur það í karlkyni.   

Volla (s)  Vandræðast; væflast; vera aðgerðalítill; bíða eftir.  „Maður reynir að volla eitthvað innivið meðan veðrið er svona“.  „Við erum ekkert að volla lengur yfir þessari ördeyðu hér; við skulum reyna að kippa“.

Vols (n, hk)  Dót; samansafn; gums.  „Þarna í kassanum ægði saman allskonar volsi“.  Sjá innvols.

Volt (n, hk)  Eining á styrk rafspennu.  „Tólf volta lögnin var að mestu úr blýköplum“.

Volæði (n, hk)  Uppgjöf; vesaldómur; barlómur.  „Það bætir lítið að leggjast bara í eymd og volæði“.

Volæðisvæl (n, hk)  Svartagallsraus; úrtölur; bölsýnistal.  „Ég hlusta bara ekki á svona andskotans volæðisvæl“!

Voma (s)  Vofa yfir; liggja í loftinu; hika.  „Það vomir ennþá yfir þessi hækkun á áburðarverðinu“.

Vomur á (einhverjum) (orðtak)  Einhver hikar/efast.  „Einhverjar vomur eru á honum með að ganga frá þessu“.  Voma merkir óstyrkur; hik; hálfvelgja.

Von (n, kvk)  Vænting; löngun; ósk.  „Það er gott að geta átt von í þessu“.  „Enn er von um að þetta lagist“.

Von bráðar (orðtak)  Fljótlega; bráðlega.  „Náði hann þeim von bráðar því hans bátur var miklu hraðsigldari en Guðbjörg“  (ÖG; Þokuróður).   „Bátarnir sem í róðri voru, koma von bráðar siglandi til lands í frískum byr“  (KJK; Kollsvíkurver).

Von og vísa (orðtak)  Viðbúið.  „Hann kom alveg á réttum tíma, eins og hans var von og vísa“.

Von úr viti (orðtak)  Mjög lengi/mikið; brjálæðislega.  „Við þurftum að bíða von úr viti eftir nýja hásetanum“.  „Hann er að auka sjóinn von úr viti; við förum að hætta þessu og fara í land“.

Vona (s)  Vænta; vonast eftir; óska; vilja. 

Vona það besta (orðtak)  Vona að allt fari á besta veg.  „Nú er bara að bíða og vona það besta“.

Vonandi (ao)  Væntanlega; æskjandi.  „Vonandi átta þeir sig fljótlega á þessum mistökum“.

Vonarglæta (n, kvk)  Örlítil von; vonarneisti.  „Kannski er enn vonarglæta um að sveitirnar byggist á ný“.

Vonarpeningur (n. kk)  A.  Upphaflega notað um búpening sem er lélegur, en þó vonast til að lifi til vorsins.  B.  Oftast notað nú um hró; þann sem er á heljarþröm.  „Mér sýnist hún Surtla gamla vera orðinn mesti vonarpeningur“.

Vonarvölur (n, kk)  Betlistafur.  Einungis þekkt í orðtakinu komast/kominn á vonarvöl, sjá þar.

Vonast eftir / Vonast til (orðtak)  Vænta; búast við.  „Við héldum að þetta væru silungaseyði og vonuðumst til að koma upp silungi sem við gætum veitt seinna“  (IG; Sagt til vegar II). 

Vonbiðill (n, kk)  Karlmaður sem bíður lengi svars frá kvenmanni eftir ástarjátningu, sá sem bíður og vonast eftir jákvæðu svari.

Vonbrigðasvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir vonbrigðum; svipur óánægju.

Vonbrigði (n, hk, fto)  Brostnar vonir; óánægja með að ekki fór eins og vænst var eftir.  „Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þessa niðurstöðu“.

Vondaufur (l)  Vonlítill; með litlar væntingar.  „Heldur er ég vondaufur um að af þessu verði“.

Vondi karlinn (orðtak)  Satan; fjandinn; sá vondi.  „Það má vondi karlinn vita“!  Stundum notað sem milt blótsyrði.

Vondslega hefur oss veröldin blekkt (orðatiltæki)  Viðkvæði þess sem finnst tilveran hafa snúist gegn sér þá stundina.  Spekin er upphaf kvæðis: „Vondslega hefir oss veröldin blekkt;/ vélað og tælt oss nógu frekt;/ ef ég skal dæmdur af danskri slekt,/ og deyja svo fyrir kóngsins mekt“ (Jón biskup Arason).  Vondsleg örlög Jóns urðu þau að missa sitt höfuð af völdum kóngsins slekts 7. nóvember árið 1550, en aftakan markaði endalok kaþólsks siðs hérlendis.  Jón Arason var, auk þess að vera kaþólskur erkibiskup, gott ljóðskáld, prentfrömuður og einn af forfeðrum Kollsvíkurættar.

Vondur (l)  A.  Slæmur í eðli; illur; harðbrjósta.  „Ekki held ég að hann hafi ætlað að vera vondur við krakkagreyið“.  B.  Æstur í skapi; reiður.  „Hann varð bara vondur þegar ég mótmælti þessu“.  C.  Bragðvondur; ógeðslegur.  „Mér finnst þessi matur fremur vondur“.

Vongóður (l)  Með góða von; bjartsýnn.  „Ég er enn vongóður um að þetta takist“.

Vonlega (ao)  Að vonum; eins og vonast gæti verið til.  „Honum þótti sinn hlutur vonlega lítill“.

Vonlegur (l)  Væntanlegut; sem við er að búast.  „Féð er komið strax að húsunum aftur; sem vonlegt er; það er tilgangslítið að vísa því til beitar í svona veðri“.

Vonleysi (n, hk)  Lítil von; litlar væntingar; uppgjöf.  „Það fer nú að sækja á mann dálítið vonleysi ef ekkert sést til hrútsins þegar búið er að smala“.

Vonleysishjal (n, hk)  Bölmóðsvol; svartagallsraus.  „Ég gat ekki heyrt neitt vonleysishjal hjá honum þrátt fyrir það sem yfir hafði dunið“.

Vonlítill (l)  Með litla von; svartsýnn.  „Maður fer að verða vonlítill um að hann finnist úr þessu“.

Vonska (n, kvk)  Illska; reiði.  „Hann hreytti úr sér einhverjum skít í vonsku sinni“.

Vonskast (s)  Illskast; vera reiður; láta fúkyrði fjúka.  „Vertu nú ekki að vonskast yfir þessu; það lagast ekkert við það“!

Vonskutíð (n, kvk)  Slæmt tíðarfar; hörð veður.  „Það er búin að vera þessi vonskutíð alveg frá áramótum“.

Vonskubylur / Vonskuél / Vonskukóf (n, kk/hk)  Slæmt/dimmt/hvasst él; óveðursbylur; blindbylur.  „Við lentum í þvílíku vonskukófi þarna uppi á háfjallinu að við urðum að skríða í skjól og bíða það af okkur“.

Vonskutíð (n, kvk)  Slæmt tíðarfar; tíðarfar illviðra.

Vonskuveður (n, hk)  Slæmt veður; óveður.  „Við vorum heppnir að vera komnir heim fyrir þetta vonskuveður“.

Vonsvikinn (l)  Sem orðið hefur fyrir vonbrigðum; hnugginn.

Vont í sjó (orðtak)  Mikill sjór.  „Fram af Blakknesi gengur úfin röst sem heitir Blakknesröst.  Er þar oft vont í sjó“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Vont sækir vondan heim (orðtak)  Illur á sér ills von; sá sem er öðrum slæmur getur ekki vænst betra sjálfur.  Einnig notað stytt; sækir heim vondan, þegar eitthvað henti mann, og þá jafnan getið til um orsakir.

Vonum framar (orðtak)  Betur/meira en vænta mátti.  „Þetta tókst vonum framar“.  „Hann stóð sig vonum framar“.  „Aflinn var vonum framar“.

Vonum seinnaSíðar en vonast var eftir.  „Hann mætti vonum seinna, og fékk náttúrulega tiltal“.

Vopnabrak / Vopnaskak (n, hk)  Ófriðarlæti; það að láta vígalega/dólgslega.  „Eitthvað vopnaskak hefur verið þar á milli bæja undanfarið“.

Vopnadómur (n, kk)  Sögufrægur dómur sem Magnús prúði sýslumaður í Saurbæ kvað upp í Tungu í Örlygshöfn 12.oktober 1581, og kalla má eina herútboðið meðal Íslendinga.  Þá fyrir nokkrum árum höfðu sjóræningjar rænt Eggert Hannessyni tengdaföður hans frá Saurbæ.  Í dómnum er farið hörðum orðum um þá fásinnu kóngsins manna að hafa látið eyða vopnum í landinu fimm árum áður.  Hver maður er skyldaður til að eiga lágmarks vopnabúnað, m.a. eina luntabyssu, og hreppsstjórar skyldu sjá til þess að á sýnilegum stöðum væru hlaðnir bálkestir til að fljótlega væri unnt að koma boðum á milli.  Hugsanlega má enn sjá hleðslubrot á Blakknesnibbu sem hafi átt að vera skjólveggur fyrir slíkan köst. 

Vora (s)  Koma vor; létta vetri; batna tíð.  „Þegar voraði var nóg að gera“  (IG; Æskuminningar). 

Vorannir (n, kvk, fto)  Verk sem vinna þarf að vori.  Vorin eru jafnan einn annasamasti tími ársins hjá bændum; sér í lagi þar sem einnig er stundaður útvegur. 

Vorafli (n, kk)  Fiskur sem aflast á vorvertíð.  „Það kom fyrir að fiskurinn var seldur upp úr salti; óverkaður og ópakkaður.  Eitt skip tók allan voraflann úr veiðistöðinni“  (KJK; Kollsvíkurver).

Vordagar / Vorkvöld  (n, kk/hk)  „Eins og sagt hefur verið lá Kollsvíkin gegnt opnu hafi.  Svipmót hennar var bæði blítt og strítt.  Lognkyrrir vordagar voru þar fagrir og unaðslegir, og þó einkum vorkvöldin fögru: Þegar sól var að síga í æginn og átti þar aðeins skamma dvöl, uns hún reis á ný úr djúpi, en hvarf svo um stund aftur undir Blakkinn“  (KJK; Kollsvíkurver).

Vorhlutur (n, kk)  Aflahlutur skipverja eftir vorvertíð.  „Svo voru vorhlutirnir; aflahlutur hvers og eins úr þorskaflanum sem seldur var.  Skipt var í fimm hluti.  Hver háseti fékk einn hlut en útgerðarmaður, sem oftast var jafnframt formaður, tók tvo hluti fyrir sig og dauðan hlut fyrir bát og veiðarfæri“  (KJK; Kollsvíkurver).  Sjá aflahlutur og skipti.  „Vorið 1927 varð hæst i vorhlutur 870 krónur, og næsti þar fyrir neðan um 800 krónur.  Þetta þóttu mjög háir hlutir á þeim tíma“  (KJK; Kollsvíkurver).

Vorhlýindi (n, hk, fto)  Hlýrri tíð með vori.  „Snjór hverfur fljótt úr fjöllum í þessum vorhlýindum“.

Vorhret (n, hk)  Illviðrakafli að vori.

Vorjafndægur (n, hk)  Jafndægur að vori (dagur og nótt jafnlöng); 20-21.mars.

Vorkenna (s)  Aumka; finna til samúðar gagnvart; finna til með.  „Ég vorkenndi honum í þessum vandræðum“.

Vorkennast (s)  Gjalda fyrir; líða.  „Við skulum bara leyfa honum að vorkennast í snjómokstrinum í dálítinn tíma; hann æddi af stað á fólksbíl í þessari ófærð þó hann væri varaðaður við“!

Vorkoma (n, kvk)  Koma vorsins.

Vorkunn (n, kvk)  Samúð; meðlíðun; það að kenna í brjósti um.  „Honum er nokkur vorkunn; hann er enn dálítið bagaður í fætinum“. 

Vorkunnarlaust (l)  Ekki vorkunn.  „Honum er nú vorkunnarlaust að hjálpa til; fullhraustum manninum“. 

Vorkunnarorð (n, hk)  Samúðarorð; hughreysting.  „Hann hjálpaði strákunum að setja upp bátkænuna, en það voru víst engin vorkunnarorð sem hann las yfir þeim eftirá“.

Vorkunnarverður (l)  Aumkunnarverður; sá sem á skilið samúð/vorkunn.

Vorkunnsamur (l)  Sem sýnir vorkunn.  „Karlinn var ekki eins vorkunnsamur og kona hans.  Hann sagði að svona fílhraustir strákar ættu að vera færir um að smala fáeinum rolluskjátum“.

Vorkunnsemi (n, kvk)  Meðaumkun; samúð.  „Honum var ekki sýnd nein vorkunnsemi með þetta“.

Vorkyrrð (n, kvk)  Kyrrlátt veður að vori.  Oft gerir miklar stillur þegar átökum sumars og vetrar linnir að vorinu; ekki síst að næturlagi.  Það hafa þeir upplifað sem t.d. hafa þurft að vaka yfir lambfé að vori eða leggja upp í vitjun neta að næturlagi.

Vorlag / Vortími (n, hk/kk)  Tími vorsins.  „Þetta skeði að vorlagi“.

Vorleysingar (n, kvk, fto)  Snjóbráðnun vegna vorhlýinda.  „Þessi hiti veldur nokkuð áköfum vorleysingum“.

Vorróðrar (n, kk, fto)  Vorvertíð; sjósókn að vorlagi.  „...lögðu af stað frá Hænuvík og ætluðu út í Kollsvík til vorróðra“   (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Vorseiði (n, hk)  Fiskseiði sem klekst að vori.  „Á sumrin var lítill frítími, en hann var notaður í brönduveiðar eða veiðar á vorseiðum í fjörupollunum“  (IG; Æskuminningar). 

Vorsmali (n, kk)  Smali sem smalar í vorsmölun.  „Þetta var í vorsmölun og allir vorsmalar þurftu að eiga ágæta hnífa“   (EG; Viðtal á Ísmús 1968). 

Vorsmölun (n, kvk)  Smölun fjár að vori.  „Þetta var í vorsmölun og allir vorsmalar þurftu að eiga ágæta hnífa“ (EG; Viðtal á Ísmús 1968). 

Vorveður (n, hk)  Veður að vori.  „Þetta er hið besta vorveður; milt og sólríkt, með gróðrarskúrum“.

Vorverk (n, hk, fto)  Verk sem vinna þarf að vori.  „Meðal vorverka var sauðburður og allt sem honum fylgdi; einnig girðingarvinna, sáning; áburður á tún; viðhald véla og svo allt sem tengdist veiðiskap t.d. meðan grásleppuveiðar vru stundaðar meðfram búskapnum“.  „Eitt af vorverkunum, sem að mestu kom í hlut unglinga eftir að róðrar hófust, var eftirlit með sauðfé“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 
„Já, það voru alltaf ræktaðar kartöflur og þær spruttu; og þær spruttu vel.  Það var alltaf sett mánuð af sumri.  Rófur voru einnig ræktaðar.  Þetta tilheyrði vorverkum kvennanna“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Vorvertíð (n, kvk)  Vertíð á fyrri hluta sumars.  „Á vorvertíð urðu engin slys á mönnum í Kollsvíkurveri, svo langt sem ég man eða hef sagnir af“  (KJK; Kollsvíkurver).

Vorþing (n, hk)  Héraðsþing sem árlega voru haldin frá landnámi til loka þjóðveldisaldar.  Þessi fyrstu þing Íslandssögunnar voru háð í fimmtu til sjöttu viku sumars.  Hið elsta er talið vera Kjalarnesþing í landnámi Ingólfs Arnarsonar og Þórsnesþing í landnámi Þórólfs Mostraskeggs.  Síðar var Alþingi stofnað 930 og leiðarþing, en samheiti þeirra var skapþing.  Við skiptingu landsins í fjórðunga árið 935 urðu vorþingin 13, en fækkaði fljótlega eftir það.  Bændur og landeigendur skyldu mæta til vorþings.  Í dómi sátu 36 menn.  Tilkynningar fóru fram í þingbrekku.

Vos (n, hk)  Slæmur aðbúnaður; kuldi og bleyta.  „Hann vandist snemma við þær hættur og það vos sem sjósókninni fylgdi..“ (minningarorð ÖG um AK).  „Það var stöðug stórrigning þessa daga svo bæði var vossamt og erfitt fyrir menn og skepnur...“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Þar slapp einna best sá sem var í bátnum og lyfti á, enda var oftast valinn til þess eldri maður, eða einhver sem ástæða þótti til að hlífa við vosinu“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Vosbúð (n, kvk)  Slæmur aðbúnaður; volk.  „...ekki hafði þessi vosbúð haft bætandi áhrif á hálsmeinið...“   (ÁE; Ljós við Látraröst).   „... enda voru sjóróðrar stundaðir af miklu kappi með vökum, þreytu, vosbúð og áhættu“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).  

Vosklæði (n, kk)  Blaut föt.  „Húsfreyja hjálpaði mér úr vosklæðum og háttaði mig inn í rúm...“ (ÁE; Ljós við Látraröst).

Vossamt (l)  Unnið í rigningu og bleytu; blautt.  „Það var stöðug stórrigning þessa daga, svo bæði var vossamt og erfitt fyrir menn og skepnur... “  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Votaband (n, hk)  Blautt hey sem bundið er í bagga.  Meðan útslægjur voru slegnar var grasið stundum flutt blautt af vellinum og þurrkað á góðum þurrkvelli, helst nærri byggð.  Það hey var votaband.

Votabatterí (n, hk)  Rafgeymir; upprunalegt heiti á rafhlöðum sem notaðar voru fyrir fyrstu lampaútvörpin.  „Tvenns konar rafhlöður voru notaðar við útvörp, kallaðar þurrbattery og votabattery. Þurrbatteryin entust nokkuð lengi og síðan voru keypt ný. Þau líktust ofvöxnum vasaljósabatteryum. Votabatteryin eða rafgeymarnir tæmdust og þá þurfti að hlaða þá aftur. Var þá lagt af stað oft yfir langa fjallvegi á næsta bæ sem rafveita var á til að fá hleðslu. Tveir geymar þurftu að vera til svo sá sem fór með tóma geyminn gæti tekið hlaðna geyminn með sér heim. Sumir fengu að hlaða batteryin í rennibekknum hans pabba. Við hann var dýnamór og var svo hægt að stíga rennibekkinn (lengi!) og hlaða geyminn“  (SG; Rafvæðing; Þjhd.Þjms). 
„Þessi rennibekkur er enn til og notaður nokkuð, en er nú kominn með rafmagnsmótor.  Hann var þá að sjálfsögðu stiginn, með tveim fótstigum.  Það skondna er að áður framleiddi rennibekkurinn rafmagn.  Pabbi tengdi við hann dýnamó og svo voru hlaðnar rafhlöður fyrir útvörpin, sem kallaðar voru votabatterí“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Votaþóf (n, hk)  Aðferð til að þæfa ullarvöru.  Þá er volgu vatni hellt yfir hana í ullarbala og hún þæfð í því.  Ekki er vitað hvort votaþóf tíðkaðist í Kollsvík, en heiti og aðferð var þekkt.

Voteygur (l)  Með tárvot augu.  „Það þýðir lítið að vera lengi voteygur yfir þessari lúðu; hún kemur víst ekki aftur í bráð“!

Vothey / Votheysgerð / Votheysverkun (n, hk/kvk)  Súrhey; gras sem látið er grasþurrt í gryfju, þannig að í það kemur hiti og það verkast á sérstakan hátt og geymist sem skepnufóður.  „Nær eingöngu var heyjað í þurrhey á þeim tíma; þó þekktist votheysgerð í smáum stíl“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  Fyrstur til að stunda votheysverkun í Rauðasandshreppi mun hafa verið Ólafur Ólafsson Thorlacius í Saurbæ, kringum aldamótin 1900.  Í Kollsvík var líklega farið að verka vothey kringum 1920-30, en einnig var þar sem víðar verkaður þari með líkum hætti. 

Votheysgryfja (n, kvk)  Gryfja til verkunar á votheyi.  Talið var æskilegt að verka vothey í djúpum gryfjum, til að heyið næði að síga vel saman og hitna og yfirborð væri lítið, því þar vildi heyið skemmast.  Því voru víða byggðar votheysgryfjur inní steyptar hlöður, s.s. í Kollsvík, á Stekkjarmel og Láganúpi; eða háar sérsteyptar gryfjur t.d. í Kollsvík og á Láganúpi.  Síðar komu önnur sjónarmið og farið var að verka vothey í flatgryfjum og síðar rúllum.

Votheysilmur / Votheysfýla / Votheyslykt / Votheysstækja (n, kk/kvk)  Ilmur/lykt af votheyi.  Votheyslykt getur þótt góð eða slæm, og fer það bæði eftir þeim sem dæmir og verkun sem heyið hefur fengið.   Sé heyið í upphafi kjarnmikið gras sem slegið er í góðri sprettu; hirt sæmilega þurrt; jafnað vel í hæfilega þykkt í góðri gryfju; sígur jafnt og án þess að hiti hlaupi uppúr, og leyst hæfilega ört eftir að gryfja er opnuð, þá er lyktin að öllum líkindum mjög góð, og tekur fram öllum dýrustu ilmefnum veraldar.  Hinsvegar, ef veruleg frávik eru í einhverjum þessara þátta, getur lyktin af illa verkuðu eða slæmu votheyi verið afar fráhrindandi og þræsin.  Slik lykt hefur meiri viðloðun en flest önnur.  Af þessu stafa hin mismunandi heiti votheyslyktar.  „Þær kvörtuðu kerlingarnar í saumaklúbbnum undan votheysfýlu, en fjandan sú ögn að ég gat fundið hana“.

Votheyskarfa (n, kvk)  Karfa til að bera vothey úr votheysgryfju fram á jötu til gjafar.  Notaðar voru sömu körfur og áður voru algengar við meðferð afla.  „Meðal þess sem rak á fjörur voru ágætar votheyskörfur“. 

Votheyspoki (n, kk)  Poki sem vothey er sett í þegar það hefur verið leyst í votheysgryfju og fært til gjafa í fjárhúsi eða fjósi.  „  Vothey í stöku gryfjunni á Láganúpi var sett í votheyspoka, borið upp stiga og forflutt inní hlöðu, þar sem það beið þess að vera gefið.  Pokar undan áburði voru úr þykku plasti og af heppilegri stærð sem votheyspokar“.

Votheystugga (n, kvk)  Lítið eitt af votheyi.  „Ég kastaði dálítilli votheystuggu í féð.  Það var svo stutt úti að það hefur varla fengið magafylli“.

Votheysvagn (n, kk)  Heyvagn með votheyi.

Votheysveiki (n, kvk)  Hvanneyrarveiki; listeríusýking.  Kindum er hætt við að fá votheysveiki ef verkun á heyi er ábótavant, t.d. ef í því er mygla.  Þetta fer þó eftir stofnum og einstaklingum fjárins.  Veikin lýsir sér fyrst í lystarleysi, síðan máttleysi og að lokum lömun og dauða ef ekki læknast.  Kindur geta læknast með góðri umönnun, t.d. með því að þær fái úrvalsfóður í smáum stíl og með því að hella í þær hafraseyði.  Lömun getur þó orðið varanleg; t.d. helti eða sjónleysi.  Veikin var á síðari tímum rakin til listeríugerilsins, en hann lifir m.a. í rotnandi jurtaleifum, vatni, alifuglaketi o.fl.  Sýkingin getur einnig herjað á fólk.

Votheysveikiskind (n, kvk)  Kind sem veikst hefur af votheysveiki.  „Það getur verið ráð að hella hafraseyði niður í votheysveikiskind, á meðan hún getur ekki tuggið“.

Votheysverkun (n, kvk)  Verkun á votheyi.

Votlent (l)  Um landsvæði; með miklum bleytum; blautt yfirferðar. 

Votta / Vottfesta (s)  Vitna um; bera vitni um; staðfesta.

Votta fyrir (orðtak)  Sjást ummerki um.  „Hér vottar fyrir myglu í heyinu“.

Votta samúð (orðtak)  Láta einhvern finna hluttekningu vegna sorgar.  „Ég votta þér innilega samúð“.

Vottfest (l)  Sem vitni staðfesta; sem vitni/vottar eru að.

Vottorð / Vottun (n, hk/kvk)  Vitnisburður; skrifleg staðfesting.

Votur (l)  Blautur.  „Votir voru þeir og talsverður kuldahrollur í þeim...“ (ÁE; Ljós við Látraröst).

Votur inn að skinni (orðtak)  Gegnblautur; innúr.  „Ég var hlífalaus í ágjöfinni, og auðvitað varð ég holdvotur inn að skinni“.

Votur í fæturna (orðtak) Blautur í fætur; fótblautur.

Votur yfir haus (orðtak)  Allur blautur/votur.  „Nú var ég orðinn votur yfir haus af að bera hreinu ullina upp á mel þar sem hún var þurrkuð“  (IG; Æskuminningar).

Votviðrasamur (l)  Mikið um rigningar; bleytutíð; rigningatíð.  „Ári er hann enn votviðrasamur“.  „Stafar þetta af því að að frá lokum júlímánaðar 1936 var sumar afar votviðrasamt svo hefyfengur, þrátt fyrir góðan grasvöxt, varð með minna móti, og sumsstaðar ekki góð hey“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1935).  „Þetta síðasta sumar var votviðrasamt svo varla er munað annað eins jafnlengi.  Hey urðu að mestu öll hrakin og urðu sumstaðar til á túnum.  Fóðurbætiskaup urðu því feikna mikil“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1955). 

Votviðri (n, hk)  Vætusamt veður; rigning.  „Skelfing er ég orðinn leiður á þessu eilífa votviðri“. 

Votviðristíð (n, kvk)  Rigningatíð; tímabil mikilla rigninga.  „Þessi mánuður hefur verið samfellt votviðristíð“.

Voveiflega (ao)  Um andlát/dauða; með ógnvekjandi/uggvænlegum hætti.  Forskeytið vo- er sama og vá-.  Síðari liðurinn er veifa.  Merkir í raun að flaggað sé til merkis um válegan atburð. 

Voveiflegur (l)  Um andlát/dauða; sviplegur; ógnvekjandi.  „Þetta slys þótti allt hið voveiflegasta“.

Vóru (s, ft, fortíð)  Komu.  Eitt mikilvægt framburðareinkenni Kollsvíkinga var það að kringja o-hljóð í þátíðarmyndum sumra sagna.  Segja t.d. „þeir kómu seint að“, eða „þeir vóru ekki lengi að finna féð“.

Væður (l)  Um vatnsfall; sem unnt er að vaða yfir.  „Annars var Vaðallinn allsstaðar væður...“(TÓ;, Örn.skrá Breiðavíkur).  „Heldurðu að sé vætt út í bátinn á lágstígvélum“?  „Annað klifið, og það meira, heitir Forvaði og er illvætt fyrir“ (MG; Látrabjarg).  „Sumir telja að vætt sé út í Arnarboða um stærstu fjörur, en ekki er vitað til að það hafi verið farið“.

Væfla (n, kvk)  Skræfa; aumingi; afturúrkreistingur.  „Þú ert nú varla sú árans væfla að hræðast kríuna“!  „Ég verð nú seint sú væfla að ég biðji þessa fósa um aðstoð“.

Væflast (s)  Flækjast; drattast; hangsa; skakklappast.  „Það er ósköp lítið gagn að honum þó hann sé að væflast þarna“.

Vægð (n, kvk)  Hlífð; miskunnsemi; náð; linkind.  „Mér finnst ástæðulaust að sýna þeim nokkra vægð í þessum efnum; ekki hafa þeir verið svo mildir sjálfir þeir andskotar“!

Vægðarlaust (l)  Án vægðar; miskunnarlaust.  „Hann hvatti mig vægðarlaust áfram; sagði að ég yrði að herða mig ef ég ætlaði að verða á undan hinum“.

Vægi (n, hk)  A.  Í aflfræði; margfeldi armslengdar og krafts sem á hana verkar.  B.  Geta; aflsmunir; þungi.  „Orð hafa mikið vægi“.

Vægilega (ao)  Mildilega; ekki af hörku.  „Það er óþarfi að taka neitt vægilega á svona þrjótum“.

Vægir sá sem vitið hefur meira (orðatiltæki)  Vísar til þess að hinn gáfaðri sér fremur tilgangsleysið í átökum eða deilum, og lætur því undan.  Sjá sá vægir sem vitið hefur meira.

Vægja (s)  Hlífa; sýna vægð/miskunn/mildi.  „Það er alveg ástæðulaust að vægja honum í þessum efnum“.

Vægt til orða tekið / Vægt orðað (orðtök)  Ekki eins mikið fullyrt og tilefni væri til.  „Þetta finnst mér afskplega slök frammistaða, og er þá vægt til orða tekið“!

Væl (n, hk)  Grátur; kjökur; skælur; vol.  „Hættu nú þessu væli, lambið mitt; þetta var ekki stórslys“.

Væla (s)  Skæla; vola; gráta.  „Það tekur því ekki að væla yfir þessu“!

Vælaskor (n, kvk)  Nafn á gjá mikilli, innan Djúpadals; nær af brún í Kynngilöndum niður í mitt Bjargið.  Hún er allvíð og grasivaxin, en niðurúr henni var fyrrum farið til fyglinga.  Menn hafa löngum velt fyrir sér nafnskýringu.  Hún gæti verið með ýmsu móti.  T.d. þarf ekki lengi að staldra við gjána til að heyra þaðan margtóna hávært væl bjargfuglsins; það gæti virst nærtækasta skýringin.  Þá er hugsanlegt að skorin sé kennd við vélar, þ.e. það sem er viðsjárvert (sbr vélabrögð).  Annaðhvort vegna þess að í henni getur lengi leynst fé þegar gáð er af brún, eða hinsvegar vegna hættu við bjargnytjar.  Þar hafa farist menn á sögulegum tíma.  Váll eða væli er fornt heiti á haug eða hrúgu, og gæti það átt við mikið klettanef í gjánni.

Vælinda (n, hk)  Vélinda.  Heitið var einatt með æ-framburði í munni eldri Kollsvíkinga seint á 20.öld, og er líklega upprunalegra þannig.  „Passaðu að hnýta vel fyrir vælindað þegar þú ristir framúr“.

Vælinda (n, hk)  Vélinda.  Vælinda var eldra fólki á svæðinu tamara fram eftir 20. öld en vélinda.

Vælukjói (n, kk)  A.  Kjói.  B.  Niðrandi heiti á kvartsárum manni; suðuskjóða; sá sem eilíft suðar/vælir/nöldrar; sá/sú sem er sífellt skælandi/súldrandi, þó ekki sé mikið tilefni.  „Skelfing leiðast mér svona vælukjóar“!

Væluskjóða (n, kvk)  Sá/sú sem einatt er vælandi/kvartandi; nöldurseggur; vælukjói.

Væminn (l)  A.  Sem veldur klígju/ælutilfinningu; mjög sætur; bráðfeitur.  „Skelfing finnst mér væmið bragð af þessu“.  B.  Tilgerðarlegur; smeðjulegur; vellulegur.  „Leikritið er alltof væmið fyrir minn smekk“.

Væmnishjal / Væmniskjaftæði (n, hk)  Það sem þykir of væmið að hlusta á.  „Skelfingar væmnishjal er nú þetta“!  „Maður verður þreyttur á að hlusta á svona væmniskjaftæði til lengdar“.

Væna um  (orðtak)  Ásaka; drótta að.  „Ekki ætla ég að væna hann um leti, en afskaplega gengur þetta hægt“!

Vængbrotinn (l)  A.  Um fugl; með brotið bein í væng.  Yfirleitt er fuglum bráður bani búinn í slíkum aðstæðum, en einstaka sinnum nær beinið að gróa í friði.  Sigríður á Láganúpi hjúkraði mörgum fuglum, og sumir náðu að jafna sig af vængbroti undir hennar vernd.

Vængjaburður / Vængjasláttur (n, kk)  Fluglag fugla, sem mjög er mismunandi milli tegunda. 

Vængjahurð (n, kvk)  Tvískipt hurð, þannig að hvor fellur á móti annarri við lokun.

Vængspegill (n, kk)  Skærgljáandi blettur á væng sumra andfugla. 

Væni (n, kk)  Gæluorð í ávarpi; góði.  „Komdu hérna væni minn“.

Vænkast (s)  Verða vænni/betri/hagstæðari.  „Mér finnst allmjög hafa vænkast horfurnar með þetta“.

Vænkast (nú) hagur strympu (orðatiltæki)  Nú eru horfurnar mikið betri/nænlegri; nú fara hlutirnir að ganga í haginn.  „Vænkast nú hagur strympu; þarna kemur hann með þennan dýrindis hákarl“!

Vænlega (ao)  Vel; ágætlega.  „Heldur horfir nú vænlegar með að við fáum einhvern afla í dag“.

Vænlegur (l)  Góður; ákjósanlegur.  „Mér fannst þetta nokkuð vænlegur kostur“.

Vænleiki (n, kk)  Góð hold; það að vera vænlegur.  „Ekki fannst honum mikið til vænleika hrútsins koma“.

Vænn (l)  A.  Góður; góðviljaður; góðhjartaður; góður í sér.  „Ósköp ertu vænn að gera mér þennan greiða“.  B.  Um búfé; í góðum holdum; góður til eldis/frálags.  „Þaðan skiluðu sér því á haustdögum vænir dilkar, en vanhaldasamt var á fénu sem þar gekk“  (PG; Veðmálið).  B.  Í likingamáli; mikill; stór.  „Við fengum væna báru og það skvettist drjúgt í“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  C.  Drjúgur; mikill.  „Við fengum væna báru og það skvetti drjúgt í“  (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004).  „Gummi var vel að heiman búinn og meðal annars hafði hann í nestisskrínu sinni væna spaðbita af veðmálslambinu“  (PG; Veðmálið). 

Vænta (s)  Vonast eftir; búast við.  „Ég vænti þess að þetta veður gangi yfir í nótt“.

Vænta (sér) góðs af (orðtak)  Búast við góðum afleiðingum/gerðum af; bera von í brjósti til.

Vænta sín (orðtak)  Eiga von á barni; vera ólétt.

Væntanlega (ao)  Sem búast má við; sem vænta má.  „Hann verður væntanlega búinn að snúa sér með kvöldinu“.

Væntanlegur (l)  Sem von er á; sem búast má við.  „Hann er væntanlegur á morgun“.

Vær (l)  Rólegur; stilltur; kyrr.  „Barnið svaf vært í sinni vöggu“.

Værð (n, kvk)  Rólyndi; kyrrð; afslöppun.  „Ekki dugir þessi værð; ætli maður verði ekki að drífa sig í gegningarnar“!

Værðarlaus / Værðarlítill (l)  Órólegur; órór; ókyrr. 

Værðarlegur (l)  Bærukær; rólegur; afslappaður.  „Mér finnst hann full værðarlegur yfir þessu“.

Værðarsvefn (n, kk)  Vær svefn; djúpur/rólegur svefn.  „Ég svaf mínum værðarsvefni alla nóttina“.

Værðarvoð (n, kvk)  Ullarteppi.

Væri athugandi (orðtak)  Væri þess virði að skoða/huga að; væri möguleiki.  „Það væri vel athugandi að koma á fót verksmiðju í Kollsvík til að vinna byggingareiningar úr skeljasandinum.  Nóg er af honum“.

Væri landhreinsun/þrif að (orðtak)  Væri til bóta að  hyrfi; væri gott að vera laus við.  „Ég held það væri bara landhreinsun að því ef allur veraldarinnar hvítlaukur hyrfi út í hafsauga“!

Væri nær / Væri andskotans/fjandans nær / Væri skammarnær (orðtak) „Ég held honum væri skammarnær að reyna að ná sínu útigangsfé en leggjast í skemmtireisur“! „Ég held honum væri fjandansnær að halda sér saman heldur en að gagnrýna það sem aðrir eru að gera í hans þágu“!  Sjá vera nær.

Væri ráð (orðtak)  Væri ráðlegt/heppilegt/skynsamlegt.  „Nú væri ráð að við fengjum okkur nestisbita, fyrst hann hefur kippt undan í fallinu“.  „Ég held það væri ráð að fara að koma sér af stað“.

Væri synd að segja (orðtak)  Væri öfugmæli.  „Nú stend ég alveg á blístri; það væri synd að segja að við höfum ekki matarlystina í lagi“!

Væri til að æra óstöðugan (orðtak)  Væri útilokað/vitlaust; gæti gert mann brjálaðan.  „Það væri alveg til að æra óstöðugan að reyna að telja féð í hólfinu; við verðum bara að giska á þetta“.

Væri vit hans meira (orðtak)  Gáfulegra væri fyrir hann; honum væri nær.  „Það væri nú vit hans meira að hugsa um heyskapinn en fara í þetta ferðalag“.

Væringar (n, kvk, fto)  Ófriður; misklíð; orðaskak; slagsmál.  „Það hafa lengi verið væringar milli þeirra bæja“.

Væringi (n, kk)  Heiti sem notað var um norræna menn í lífverði Miklagarðskeisara.

Vært (l)  Í vari.  „Einkum var þarna engu vært þegar hausta tók eða að vetrinum“   (KJK; Kollsvíkurver).

Vært við (orðtak)  Viðvært; hægt að þola/umbera.  „Hann var farinn að auka svo sjó að okkur var ekki lengur vært við, svo við pilluðum okkur bara í land“.

Værukær (l)  Hyskinn; rólegur; latur.  „Mér þykir hann dálítið værukær yfir þessu“.

Værukærð (n, kvk)  Sofandaháttur; hyskni; leti.  „Með svona værukærð þokast málin aldrei neitt áfram“!  Orðið var notað í Kollsvík en finnst ekki í orðabókum.

Væsa um (orðtak)  Fara illa um;( upphafl:næða um).  „Það væsti ekki um okkur í hlöðunni í nótt“.

Væskill (n, kk)  A.  Um mann; aumingi; vesalingur; aukvisi.  B.  Um lamb/hrút; smávaxinn; horaður.  „Skelfingar væskill er þessi hrútkægill“!

Væskilslegur (l)  Ræfilslegur; aumingjalegur; smár.  „Fjandi fannst mér hrúturinn nú væskilslegur við tilhleypingarnar í dag.  Ég ætla rétt að vona að hann verði hressari á morgun“.

Væta /n, kvk)  A.  Raki; bleyta.  „Hvaða væta er þetta á gólfinu“?  B.  Rigning; úrkoma.  „Þessi væta ætti að koma sprettunni eitthvað af stað“.

Væta (s)  Bleyta; gera raka/bleytu; rigna.  „Hann gæti vætt eitthvað með kvöldinu“.

Væta í rót (orðtak)  Raki neðst í grasi; ekki fyllilaga þurrt af.  Eitt fyrsta verk bónda að morgni, meðan heyskapur stendur, er að þreifa á; þ.e. strjúka handarbaki yfir jörð til að kanna hve þurrt er á; þ.e hvort unnt sé að hefja vinnu við þurrkun á heyi, t.d. breiða galta/garða; rifja eða hirða.  „Það er enn væta í rót; okkur er alveg óhætt að klára kaffið“.

Væta kverkarnar (orðtak)  Fá sér að drekka.  „Eitthvað hafði hann með í pytlu, til að væta kverkarnar“.

Væta rúm/sæng (orðtak)  Míga undir; missa þvag í rúm. 

Væta sér (orðtak)  Slökkva þorsta; drekka; borða spónamat.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Væta sig (orðtak)  Verða blautur/votur í fæturna.  „Farðu ekki að væta þig þarna í mýrinni“.

Væta völlinn (orðtak)  Míga; kasta af sér vatni.  „Ég ætla að skreppa aðeins útfyrir að væta völlinn“.

Vætl / Vætla (n, hk/kvk)  Seytl; lítilsháttar vatnsrennsli.  „Þar vætlar dálítið vatn útúr klettinum“.

Vætla (s)  Seytla; renna lítilsháttar.  „Þarna vætlar vatn niður vegginn“.

Vætt / Vættarkind (n, kvk)  Vætt var þyngdareining að fyrri tíma mælingum; 40 fiskar.  Vætt er átta fjórðungar, en þaðsamsvaraði í seinni tíð (eftir 1618) 39,68 kg (fyrr 34,35 kg).  Vætt var mikilvæg eining í vöruskiptum fyrri tíma, ekki síst í skreiðarsölu, og jafngilti 40 fiskum.  Á því verðlagi sem viðgengst á síðari tímum verútgerðar var lamb metið á ¼ til ½ vætt; framgengin ær var metin á eina vætt og sama verð fyrir ána loðna og lemda að vori; mylka á með hagfæring; væna veturgamla kind og tvævetra sauð.  Var því talað um vættarkind, sem reyndar var annarsstaðar nefnd hálfvættarkind (sjá þar).  „Í verstöðvum norðan Bjargs var skammturinn (sem vermaður fékk til mötu) hálfvættarkind yfir vertíðina; geld ær eða sauður.  Nokkuð af kjötinu var reykt en hitt saltað, og síðan stundum búin til kæfa úr hvoru tveggja“ (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh).  „Þegar fiskvætt (40 fiskar) jafngilti hálfvættarkind átti fallið af henni að vega 4 fjórðunga og mörinn 6 pund.  Geld vættarkind átti að hafa sama fallþunga og jafnmikinn mör“  (LK; Ísl.sjávarhættir IV).

Vættur (n, kk)  Yfirnáttúruleg/ómennsk vera, s.s. huldumaður, tröll, draugur, álfur eða annað.  Orðið var í karlkyni í Kollsvík á seinni hluta 20.aldar, en víða um land er það haft í kvenkyni.

Vætubein (n, hk)  Bein aftan í hnakka fisks; efra- og neðra vætubein.  Gæta þarf þess við hausun að vætubeinin fylgi fiskinum.  Í því skyni er skorið fram með honum úr tálknstæðinu áður en hausinn er rifinn af.

Vætuhljóð (n, hk)  Sérkennilegt hljóð sem hrafn gefur stundum frá sér; ámátlegt „klunk“ í stað „krunk“.  Sagt var að hann væri þá að spá vætutíð.

Vætukjói (n, kk)  Annað nafn á kjóa; vísar til þeirrar þjóðtrúar að hann boðaði vætu þegar hátt léti í honum.  Sumir vilja nota þetta nafn á því litarafbrigði kjóans sem er ljósara um kvið.

Vætulegur (l)  Rigningarlegur; dimmt í lofti.  „Mér finnst hann dálítið vætulegur orðinn“.

Vætulækir (n, kk, fto)  Votlent svæði með lækjarsytrum.  „Geldingsskorardalslækir liggja niðurundan Háhöldum og út undir Flaugarnef; vætulækir, en gras á milli og sjóbratt mjög“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).

Vætusamt (l)  Rigningartíð; oft úrkoma.  „Sumarið var hlýtt en vætusamt“.  „Sunnanlands er vætusamara“.

Vætuseil (n, kvk)  Votlent svæði; dýjaáll.  „Forarteigur heitir í suðvestur frá gamla bæjarstæðinu.  Þar í eru vætuseilar“  (GT/VT; Örn.skrá Kollsvíkur)

Vætuspá (n, kvk)  Veðurspá þar sem spáð er rigningu/úrkomu.  „Hann er með vætuspá fyrir morgundaginn“.

Vætutíð (n, kvk)  Rigningatími.  „Það var erfitt að þurrka heyið í vætutíð...“  (FÓT; Smiður í fjórum löndum).

Vöðla saman (orðtak)  Vefja/hnoða saman skipulagslaust.

Vöðsluverk (n, hk, fto)  Verk þar sem vaða þarf; sukksöm vinna.  „Klæðst var brók og skinnstakki nær daglega við að bera fisk úr fjöru til ruðnings.  Þegar meiri vöðsluverk voru unnin; t.d. borinn farmur af skipi, þ.e. stærri flutningabátum, í nokkru brimi, bjuggust menn svo sem best mátti vera eða bakbeltuðust“  (KJK; Kollsvíkurver).

Vöðubátur / Vöðuselsveiði (n, kk/kvk)  Með fyrstu aðkomubátum í Kollsvíkurver var vöðubátur, en svo voru þeir bátar kallaðir sem notaðir voru til vöðuselsveiða.  Selurinn gekk oft í stórum torfum inn á firðina.  Var hann mikið veiddur, og veiðarfærið var skutull.  Vöðubátar voru frekar litlir; minni en fjögramannaför, en það var hin venjulega stærð róðrarbáta.  Þessir bátar voru öðruvísi lagaðir en róðrarbátar; byggðir með það fyrir augum að vera sem hraðskreiðastir“  (GG; Kollsvíkurver).

Vöðvaafl (n, hk)  Handafl; það sem gert/unnið er líkamlega en ekki með aðstoð tækja.

Vöðvaður / Vöðvamikill / Vöðvaþykkur (l)  Með mikla vöðva.  Í skrokk sláturfjár merkir það hið sama og mikið kjötmagn.

Vöðvarýr (l)  Með rýra vöðva; kjötlítill; horaður.

Vöðvastæltur (l)  Sterkur; vöðvaður.

Vöfflujárn (n, hk)  Sérstakt flatt bakstursjárn í tveimur hlutum, til að baka vöfflur í.  Fyrir daga rafmagns var vöfflujárnið hitað í ofni eða eldi.

Vöflur (n, kvk, fto)  Hik; óákveðni.  „Það komu einhverjar vöflur á hann“. Orðstofninn er vafningur; vefja.

Vöggukvæði / Vögguljóð / Vögguvísa (n, hk)  Lag/vísa sem rauluð er við ungbarn til að róa það og svæfa. 

Vöggur (n, kk)  Gæluheiti um kornabarn sem sefur í vöggu.  Oftast í orðatiltækinu litlu verður vöggur feginn.

Vögur (n, kvk, fto)  Verkfæri til að flytja á, t.d. hey og annað; e.k. sleði sem dreginn er.  Gerður af tveimur meiðum með þverslám eða öðru á milli.  Aðeins er lyft öðrum enda en hinn látinn dragast á jörðinni. 

Vögusíður (l)  Rasssíður; drumbsíður; seinfær; þungur á sér; latur.  „Skelfing er maðurorðinn vögusíður eftir allar þessar smalamennskur í dag“.

Vök (n, kvk)  Op í ís, þar sem sér í opið vatn.  „Ég sótti vatn fyrir hrútana í vök í Ánni“.  Sjá eiga í vök að verjast.

Vökna (s)  Blotna.  Alltaf þannig.  „..Guðmundur vöknaði í annan fótinn...“  (ÓG; Úr verbúðum í víking).  „Þó að vökni vettir manns/ vart ég sýta nenni;/ ef ég bara einhvers lands/ einhverntíma kenni“  (JR; Rósarímur).  Sjá enginn er verri þó hann vökni.

Vökna um augu (orðtak)  Tárast; fara nærri því að gráta. 

Vöktun (n, kvk)  Eftirlit; gæsla.  „Það kostaði stöðuga vöktun ef fé var á Mýrunum“.

Vökult auga (orðtak)  Vakandi auga; stöðugt/gott eftirlit.  „Hún fylgdist vökulu auga með barninu“.  „Það þarf að hafa vakandi auga með því hvort hún slær undirvaninginn frá sér“.

Vökumaður (n, kk)  A.  Sá sem vakir yfir einhverju, t.d. búfé um burð.  B.  Sá sem fyrstur er jarðaður í nýjum kirkjugarði/grafreit.  Sagt var að hann vekti yfir garðinum; væri verndari hans.

Vökunótt (n, kvk)  Nótt án svefns.  „Yfir sauðburðinn eiga bændur margar vökunætur“.

Vökur (n, kvk, fto)  Um það þegar manneskja vakir lengi samfellt:  „Það voru oft miklar vökur þegar mest var að gera, t.d. um sauðburð og heyskap“.

Vökustaur (n, kk)  A.  Aðferð sem sögð var hafa verið notuð til að halda fólki vakandi.  Litlum trépinnum hefði þá verið stungið lóðréttum milli augnlokanna.  B.  Sumsstaðar fyrrum mun hafa verið siður að skammta ríflega af mat eitt kvöldið á jólaföstu, og var það nefnt vökustaur.  Ekki skal sagt hvort eða hvenær sá siður var við lýði í Kollvík.

Vökva (s)  Bleyta; gefa vatn, t.d. gróðri. 

Vökvalyfta (n, kvk)  A.  Það að lyfta einhverju með vökvaþrýstingi (hydraulic).  B.  Beisli aftaná traktor sem lyft er með vökvaafli frá vélinni.

Völ (n, kvk)  Val.  Sá á kvölina sem á völina.

Völlur (n, kk)  A.  Slétt, flatt, þurrt landsvæði.  B.  Tún.  Sbr vinna á velli.

Völlur (n, kvk, fto)  Sléttar, grónar fjallshlíðar/grundir.  A.m.k. tvö örnefni með þessu heiti eru í Rauðasandshreppi; heimasti hluti Hryggja í Blakknum og grundirnar neðan Ölduskarðs vestan í Stálfjalli.  Virðist nokkuð sérstætt fyrir svæðið, þar sem annarsstaðar er slíkt gjarnan nefnt „vellir“ í kk, ft.

Völlur á (einhverjum) / Völlur á karli (orðtak)  Einhver er áberandi/ lætur mikið fara fyrir sér; einhver er hávaðasamur/montinn.  „Nú þykir mér heldur betur völlur á karli; bara kominn í sparifötin“!

Völsungi (n, kk)  ......óljós merking..... (e.t.v. fálkategund, t.d. annað heiti á Smyrli; VÖ)  Orðið virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Völubein (n, hk)  Vala.  Sjá valt á því völubeinið.

Völuhænsn (n, kvk)  Leikföng í hornabúi barna; völur af leggjum notaðar fyrir hænsn.  „Ég átti hornabú sem svo kallaðist.  Þar var hornafé, kjálkakýr, leggjahross og völuhænsn.“  (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).  

Völundarhús (n, hk)  Flókin bygging; mikið gangakerfi sem auðvelt er að villast í.

Völundarsmíð (n, kvk)  Sérlega vel smíðaður gripur.  „Þessi bátur er algjör völundarsmíð“.

Völundur (n, kk)  Hagleiksmaður; mjög laginn maður/smiður.  „Hann er völundur við smíðar“.

Völur (n, kk)  A.  Sívalningur; stafur, sbr stýrisvölur.  B.  Ró á egg.  Ef eggjárn er brýnt of mikið eða á rangan hátt getur þynnsti hlutinn sveigst til hliðar og /eða trosnað.  Það er völur, og þykir ekki gott brýnslulag.  Í Kollsvík var þó oftar talað um „ró“ og talið slæmt að „róa eggina“.

Völuspá (n, kvk)  Fornkvæði sem líklega er samið á 10. eða 11.öld.  Ásamt Hávámálum er það talið annað merkasta Eddukvæðið.  Í kvæðinu rekur völva fyrir Óðni m.a. sköpun heimsins; tilkomu guða, dverga og manna, og heimsendi.  Völuspá ber þess nokkuð vitni að vera rituð eftir kristnitökuna árið 1000.

Völva (n, kvk)  Spákona; kona sem fæst við spádóma og/eða kukl.

Vömb (n, kvk)  Magi; kviður.  „Þú færð bara í vömbina ef þú étur of mikið af þessu“!

Vömm (n, kvk)  Skömm; hneisa; smán; vamm.  Sbr. handvömm; vammir og skammir.

Vöndull (n, kk)  Það sem er samanvafið/upprúllað; göndull; vindingur. 

Vöndur (n, kk)  A.  Sópur; knippi, t.d. trjágreina.  B.  Trjágreinar sem notaðar eru til refsinga/barsmíða.  Ekki fer sögum af notkun slíkra tóla í seinni tíð.

Vör (n, kvk)  A.  Lending fyrir árabáta.  Á síðari tímum á heitið eingöngu við staði þar sem grjóti hefur verið rutt til í fjörunni, til að skaðaminna og friðsælla sé að lenda bátum og setja þá.  Vörin í Láganúpsveri er greinileg á útfiri; beint niðurundan langa melaskarðinu og núverandi Láganúpsbæ.  Hún var mikið lagfærð fyrir miðja 20. öld af GG og sonum hans.  Greina má aðra, eldri vör litlu sunnar.  Furðu gegnir að brimrótið skuli ekki hafa afmáð þessi mannvirki, en þar veldur líklega að ytri grynningar taka kraftinn úr því á fjörunni.  „Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu.  Á sumum stöðum greip formaður þá stjaka jafnskjótt og hann komst upp í skipið, en með honum hélt hann því réttu og stýrði því jafnframt út úr vörinni“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.  B.  Holdfylla/vöðvi við munn.

Vörðubrot (n, hk)  Leifar af vörðu; lítil/ófullgerð varða.

Vörðudrýli (n, hk)  Lítil varða.  „Á Brunnahæð er skógur af vörðudrýlum, enda hefur það lengi talist heilladrjúgt að hlaða þar vörðu í sinni fyrstu ferð.  Sjá hjástöðudrýli.

Vörðukraðki (n, kk)  Fjöldi/kraðak af vörðum.  „Þegar komið er niður úr Lambahlíðarskarði flasir við mikill vörðukraðki; þar sem heitir Brunnahæð“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Vörður (n, kk)  Gæslumaður; sá sem er á verði. 

Vörn (n, kvk)  Verja; varnartæki; það að verjast.

Vörpulegur (l)  Karlmannlegur; sterklegur; myndarlegur. 

Vörslugarður (n, kk)  Garður kringum tún; garður til að auðvelda gæslu á sauðfé.  „Innar er Múlagarður, sem er gamall vörslugarður“  (ÓETh; Örn.skrá Vatnsdals).

Vörslumaður (n, kk)  Sá sem gætir einhvers; vörður; gæslumaður.

Vöruaðdrættir (n, kk, fto)  Heimflutingur á nauðsynjavöru.  „Það var til dæmis erfitt að búa þannig upp á reiðingshest að vel færi í brekkunum beggja megin í Hænuvíkurhálsi, en um þann háls lá fyrst og fremst leiðin til vöruaðdrátta“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Vöruskipti (n, hk, fto)  Verslun sem ekki byggir á peningum, heldur skiptum manna á eignum/varningi eftir því verðmati sem báðir eru ásáttir um.  Verslun Íslendinga byggðist á slíkum aðferðum gegnum aldirnar og allt framá síðasta aldarhelming eða svo; sumsstaðar lengur. 

Vörutalning (n, kvk)  Talning vörulagers í verslun, t.d. um áramót.

Vötnun (n, kvk)  Það verk að vatna skepnum á innistöðu/ bera vatn í búfé.  „Ég er búinn með gjafir og vötnun“.

Vöttur (n, kk)  Vettlingur, eldra heiti.  „Þó að vökni vettir manns/ vart ég sýta nenni;/ ef ég bara einhvers lands/ einhverntíma kenni“  (JR; Rósarímur).

Vöxtulegur (l)  Stór; stórvaxinn. 

Vöxtur (í ám) (n, kk)  Vatnavextir í stórrigningum eða leysingum.  „...að auki voru ár og lækir í vexti og mikið óbrúað..“ (ÁE; Ljós við Látraröst).

Leita