Ufs / Ups (n, kvk)  Á húsþaki; þakbrún; þakkantur.  „Bjarni sagði að það hefði opnast með upsinni, og komst hann þar út“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Ufsaafli / Ufsagengd / Ufsaveiði (n, kvk)  Mikið af ufsa á miðum/ í afla; ganga af ufsa.  „Það er gríðarleg ufsagengd núna“.

Ufsatittur (n, kk)  Smáufsi; niðrandi heiti á ufsa.  „Hér er ekkert að hafa nema snarvislausa ufsatitti!  Færið kemst varla fyrir borð; hvað þá að maður verði var við almennilegan fisk“!

Ufsi (n, kk)  Pollachius virens. Skyldur honum er lýr (Pollachius pollachius) sem einkum heldur sig austar.  Ufsinn er allt í kringum landið, en misjafnlega á hverjum stað og algengari í hlýsjónum sunnan- og suðvestanlands.  Uppsjávar- og botnfiskur.  Fæðan er ljósáta, smáfiskur o.fl.  Gengur iðulega í miklum torfum vestur á Víkur þegar hlýna tekur í sjó síðsumars.  Fiskurinn er mun fjörlegri í drætti en þorskur, og iðulega rætt um „snarvitlausan ufsa“ þegar hann var undir bát.  Þó ufsinn sé vel ætur var hann ekki eftirsóttur, enda bragð og geymsluþol hans annað en þorsks.  Til var skammarheitið „mannaskítsufsi“, sem segir sitt um álit einhverra á honum sem matfiski.  Til var orðtakið „sjaldan er ýsa í asafiski eða ufsi í ördeyðu“ sem vísar til þess að von er um annan fisk ef ufsi gengur.

Ugga (s)  Óttast; kvíða.  „Ég er farinn að ugga dálítið um þá; þeir ættu að vera komnir núna“.  „Mig uggir að þetta muni ekki enda vel“.

Ugga ekki að sér (orðtak)  Vera ekki á verði; hafa ekki vara á sér; vera niðursokkinn/úti á þekju.  „Ég var eitthvað annað að hugsa og uggði ekki að mér fyrr en féð var komið á rás í kolvitlausa átt“.  „Ugga“ er sagnorðsmyndin af „uggur“; ótti; árvekni.

Uggablandinn (l)  Um hugarástand; vottur af hræðslu/kvíða.  „Menn biðu eftir bátnum með uggablandinni eftirvæntingu“.

Uggandi (ao)  Smeykur; kvíðinn.  „Sigurbjörn (í Hænuvík) var mjög uggandi allan þennan tíma“  (Dagbjörg Ólafsdóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Uggandi um sinn hag (orðtak)  Þykir sín staða ekki trygg/góð; óttast um öryggi sitt. 

Uggi (n, kk)  Sundfæri fiska.  Uggar fiska eru misjafnir að stærð, lögun og fyrirkomulagi.  Oftast er þó bakuggi á baki; eyruggar aftanvið tálkn; kviðuggar fremst á kvið; raufaruggi/gotraufaruggi við gotrauf. 

Ugglaus (l)  Grunlaus; uggir ekki að sér.  „Ég var alveg ugglaus í þessu efni“.

Ugglaust (l)  Eflaust; vafalaust; án hræðslu.  „Þetta verður ugglaust í góðu lagi“.

Uggunarlaus (l)  Grandalaus; sem uggir ekki að sér; sem varar sig ekki.  „Ég var alveg uggunarlaus fyrir því að svonalagað gæti skeð“.

Uggur (n, kk)  Beygur; kvíði; hræðsla.  „Nú var kominn uggur í mannskapinn, og töldu allir að koma þyrfti til kraftaverk, ef nokkur þessara manna sem á bátnum voru kæmu lifandi í land“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   Stofnskylt heitinu egg, sbr egghvass, og ögur.

Uggvænlega (l)  Ískyggilega; illa.  „Mér líst uggvænlega á að þið farið á sjóinn á þessu hripi“.  „Honum finnst uggvænlega horfa um netin í þessum norðanrosa“.  „Sagði ræðumaður það uggvænlega háa tölu fjár er hrapaði úr klettum“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Uggvænlegt veðurútlit (orðtak)  Ískyggilegar veðurhorfur; hætta á miklu óveðri.

Ulla (s)  Reka útúr sér tunguna.  Oftast gert í óvirðingarskyni við einhvern.

Ullaður (l)  Um sauðkind; með mikla ull.  „Féð var orðið vel ullað á þessum tíma sumars“.

Ullarát (n, hk)  Hneigð sem kemur upp í sauðfé sem haft er á húsi; einkum ef innistöður eru langar.  Þá fer ein kind að sleikja og éta lagða á baki annarrar kindar.  Séu mikil brögð að þessu getur það valdið sári.  Einnig völast hárin upp í vömb þeirrar sem étur og valdið hættu ef það berst í garnir.  Síður ber á ullaráti ef fé hefur næga útivist og nægt og næringarríkt fóður.

Ullarballi (n, kk)  Poki úttroðinn af ull.  „Það er kúnst að troða vel í ullarballa.  Hann á helst að vera svo troðinn að hvergi lauti undan fingri þegar þrýst er á“.

Ullarband (n, hk)  Band úr ull.  Stundum notað um lopa.

Ullarbingur / Ullarhrúga (n, kk/kvk)  Hrúga af ull.  „Meðan  aftekt stóð yfir mynduðust stórir ullarbingir á réttarveggjum.  Mislit ull var haldið aðskilinni frá hvítri.  Eftir aftket var ullinni dreift til þerris, væri í henni raki; ýmist á réttarvegginn eða farið með hana í fjárhús og þurrkuð á jötuböndum.  Síðar var hún sett í ullarballa“.

Ullarbolur / Ullarbrók / Ullarbuxur / Ullardúkur / Ullarefni / Ullarfatnaður / Ullarflík / Ulltarfrakki / Ullarföt / Ullarhyrna / Ullarhúfa / Ullarkápa / Ullarkjóll / Ullarklútur / Ullarnærbuxur / Ullarnærföt / Ullarpeysa / Ullarpils / Ullarsjal / Ullarskyrta / Ullarsokkar / Ullarspjarir / Ullartau / Ullarteppi / Ullartreyja / Ullarvaðmál / Ullarvefnaður Ullarvoð Klæði og vefnaður úr ull.

Ullarhaft (n, hk)  Ullarflækja sem vafist getur um afturfætur kinda og sært fæturna og/eða hindrað gang og jafnvel orðið til þess að kind fer afvelta.  Einkum er hætt við þessu ef ekki er tekið af tímanlega. 

Ullarhnoðri / Ullarlagður / Ullarlyppa / Ullarlýja  / Ullarsnepill/ Ullartjása / Ullarvisk (n, kvk)  Tjása/lagður af ull. „Hvað er þarna hvítt frammi á sléttunni; eru þetta bara einhverjar ullarlýjur eða afvelta kind“?   „Það er rétt að hreinsa ullartjásurnar af ánni, þó það sé ekki mikið“.

Ullarklippur (n, vkk, fto)  Fjárklippur; sérstök skæri sem notuð eru við aftekt fjár.

Ullarlaus (l)  Um kind; með litla eða enga ull; snoðin. 

Ullarlitun (n, kvk)  Litun ullar hefur lengi verið kunnáttuverk, þó efnanotkun hafi mikið breyst.  Fyrrum nýttu menn keitu og ýmiskonar jurtir, en síðar komu til ýmsar efnablöndur.

Ullarmat (n, kvk)  Ull er metin þegar hún er seld frá bændum, enda geta gæði verið mjög mismunandi.

Ullarmikill (l)  Um sauðkind; með mikla ull.

Ullarreyfi (n, hk)  Samhangandi ull sem tekin hefur verið af kind.

Ullarvinna (n, kvk)  Vinna við að gera vöru/fatnað úr ull.  „Þegar lokið var við að borða og drekka kaffi var sest að ullarvinnu“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  

Ullarþvottur (n, kk)  Þvottur ullar fyrir tóvinnu og til sölu.  „Ingveldur Ívarsdóttir frá Hænuvík, sem bjó á Stekkum á Patreksfirði, kom alltaf úteftir og sá um ullarþvottinn fyrir mömmu.  Mörg sumur var hún einnig við heyskapinn; aðra utanaðkomandi hjálp man ég ekki eftir að hún fengi.  Ullarþvotturinn fór fram við Torfalækinn.  Vatn var hitað upp að suðu á hlóðum í stórum potti; í það var blandað keitu, en hún var notuð í stað sápu.  Þá var ullin sett í pottinn og þvæld í nokkurn tíma; síðan tekin upp í körfu og skoluð vel í læknum.  Að því loknu var hún borin upp á Torfamel og breidd þar til þerris.  Þegar ullin var orðin þurr var valið úr henni til heimilisnota og hin hreinsuð og látin í poka til sölu.  Ullarþvottinn þurfti að vinna af mikilli vandvirkni.  Oftast vorum við krakkarnir að reyna að aðstoða Ingveldi; aðallega við að bera ullina upp á þurrkvöll“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  Sjá tóvinna.

Ullarþvæla (n, kvk)  Staður þar sem ull er þvegin/þvæld.  „Ég lagðist í lækinn neðan við ullarþvæluna og veltist þarna í læknum“  (IG; Æskuminningar).

Ullinseyru (n, hk, fto)  Tveir separ ofaná hjarta búfjár, sem vanalega eru skornir frá og þeim hent þegar hjartað er matbúið.  Var það ekki talinn mannamatur.  Í  Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að „aldrei skal borða ullinseyru af kind, því hver sem það gerir verður skrafinn(lausmáll)“.  Uppruni orðsins er óljós, en sumir kenna það við hinn forna guð Ull í heiðinni trú.  Í sumum landshlutum nefnist þetta „ólánseyru“.

-um (ending áttalýsinga)  Í Kollsvík tíðkast ýmsar staðbundnar áttalýsingar.  Smalað er frá Kollsvík framum Vík, Mýrar, Nautholt og víðar.  Fé getur verið rekið úr Kolslvíkurrétt yfirum/yfir Umvarp eða Rif.  Einstaka kind getur þurft að elta útum Strympur eða norðurum Dagmálaholt.

Um að gera (orðtak)  Endilega; nauðsynlegt.  Mikið notað.  „En það var ekkert að gera fyrir okkur úti á Bjargi núna; um að gera að hvíla sig í nokkra klukkutíma...“  Frásögn ÁH  (ÓS; Útkall við Látrabjarg).  „Olía var sett í byttuna og svo var um að gera að hafa kveikinn mátulega mikið upp úr pípunni svo ekki ósaði“   (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Um að ræða (orðtak)  Tala um; fjalla um. „Ekki er víst að allir átti sig á því hvað hér er um að ræða“.   „Helvíti var að missa gemlingana út; en það er víst ekki um annað að ræða en reyna að ná þeim aftur inn“! 
„…væri því fremur ástæða til þess að leggja á þetta sérstaka áherslu þar sem von væri um aukna aðstoð hins opinbera að ræða“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).  „Þegar við komum upp að Blakknesi var um það að ræða hvort fara ætti í Sund eða fyrir framan Nesboðann“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Um að vera (orðtak)  Ske; gerast.  „Hvað er eiginlega um að vera“?

Um aldir (orðtak)  Öldum saman; svo öldum skiptir.  „Útræði var stundað um aldir frá Útvíkum í Rauðasandshreppi“  (GG; Kollsvíkurver).

Um aldur og ævi / Um ár og síð (orðtök)  Alltaf; sífellt.  „Ég get ekki lofað að þetta standi um aldur og ævi, en vonandi næstu árin“.  „Alltaf skulum við; um ár og síð, fá einhverja gagnslausa aula sem landbúnaðarráðherra“!

Um/fyrir aldur fram (orðtak)  Um dauðdaga; áður en háum aldri er náð.  „En svo lést Halldóra um aldur fram, frá sínum þrem smábörnum.... “  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Um allan helming (orðtak)  Mjög mikið til viðbótar.  „Eins og hann hafði spáð, jókst rigningin um allan helming í aðfallinu“.

Um allar trissur/koppagrundir/jarðir  Út um allt; hvert sem er.  „Féð er komið út um allar trissur“.  „Þetta slúður fór um allar jarðir á stuttum tíma“.

Um árabil (orðtak)  Um nokkurra/margra ára skeið.  „Hann afhenti Einari bróður, sem þá var formaður Vestra, og var það raunar um árabil; fimmtíu krónur“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Um borð (orðtak)  Í báti; innanborðs.  „Ýtið úr vör ef allt hafurtaskið er komið um borð“.  „Farðu bara um borð; ég skal ýta frá“.

Um daginn (orðtak)  A.  Yfir daginn; að degi til.  B.  Fyrir nokkrum/mörgum dögum síðan.  „Hann sagði mér um daginn að hann myndi koma í dag“.  Algengara í þessari merkingu.

Um fyrir (einhverjum) (orðtak)  Um fyrirgang/læti/tilstand:  „Hvað er núna um fyrir honum“? (Hvað skyldi hann vilja/vanta?)  „Nú er eitthvað mikið um fyrir honum“.

Um garð genginn (orðtak)  Um illviðri/stríð og þessháttar ótíðindi.  „Þrumuveðrið er líklega um garð gengið“.  Garður merkir þarna bæ:  Það sem gengur um garð fer yfir/framhjá bænum; með eða án viðkomu, s.s. gestur.

Um hábjartan dag (orðtak)  Meðan dagur er; að degi til.  „Þú ætlar þó ekki að fara að sofa um hábjartan dag; þegar nóg er að starfa“?!

Um hálffallið / Um hálffallinn sjó (orðtök)  Þegar fallið er út/að til hálfs.  „Ekki er hægt að komast fyrir Forvaða nema um hálffallinn sjó“  (HÖ; Fjaran). 

Um hríð (orðtak)  Í langan tíma.  „Er nú allt kyrrt um hríð“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Um hvippinn og hvappinn / Um allar trissur (orðtak)  Út um allt; víða.  „Féð sem slapp úr réttinni er búið að dreifa sér um hvippinn og hvappinn“.  „Þetta er komið út um allat trissur“.

Um hægjast (orðtak)  Róast; kemur meiri kyrrð/næði; hægjast um.  „Ég fer í aðgerðina þegar um hægist; ég má ekkert vera að því núna“.

Um kyrrt (orðtak)  Án þess að fara/ferðast.  „Ég ákvað að vera um kyrrt einn vetur í viðbót“.

Um langan aldur (orðtak)  Lengi; um langan tíma.  „Veðmálið varð um langan aldur vinsælt umræðuefni meðal þeirra sem viðstaddir voru…“  (PG; Veðmálið). 

Um leið (orðtak)  A.  Samtímis.  „Hann sagði fundi slitið og sló í borðið um leið“.  B.  Strax á eftir.  „Ég fer og rek útaf um leið og ég er búinn að borða“.

Um lífið að tefla (orðtak)  Lífið í húfi; líf liggur við.  „Gangið nú vel frá öllum hnútum áður en þið bindið á sigarann; það er um lífið að tefla“!

Um megn (orðtak)  Ofviða; meira en ráðið verður við.  „Mér er það alveg um megn að lyfta þessu einn“.

Um morguntíma / Um kvöldtíma (orðtök)  Að morgni; að kvöldlagi.  „Það er betra að byrja á þessu um morguntíma“.  „Við verðum ekki komnir fyrr en um kvöldtíma“.

Um nætursakir (orðtak)  Yfir nótt.  „Hann gisti þarna um nætursakir, en lagði af stað í bítið“.

Um of (orðtak)  Heldur mikið; of mikið.  „Ég vil nú ekki hæla sjálfum mér um of, en ég er vel sáttur við þetta“.

Um og ó (orðtak)  Hræddur; kvíðinn.  „Mér er um og ó að fara út á ísinn.  Mér sýnist hann ekki traustur“.

Um ókomna tíð (orðtak)  Í framtíðinni; yfir þann tíma sem enn er ókominn. 

Um seinann (orðtak)  Of seint.  „Ég reyndi að gogga fiskinn um leið og hann datt af, en það var um seinann“.

Um sinn (orðtak)  Að sinni; um nokkurn tíma; í dálítinn tíma héðan í frá.  „Þetta verður að nægja um sinn.

Um skör fram (orðtak)  Heldur mikið; of mikið; úr hófi.  Vísar til þess að ganga fram af brún (skör).

Um slóðir (orðtak)  Í grennd; á slóðum/svæði.  „En sögulegasta happið þar um slóðir mun vafalaust hafa verið er Kollsvíkingar fundu hval á reki og tókst eftir langa mæðu að bjarga honum á land í Kollsvík“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  „Það hefur verið ágæt tíð hér um slóðir upp á síðkastið“.

Um stund / Um stundarsakir (orðtak)  Í smástund; yfir stuttan tíma.  „Við skulum láta þetta bíða um stund, meðan við kárum hitt“.  „Gætirðu séð af saltlúku um stundarsakir“?  „Ætli ég verði ekki að hafa hægt um mig um stundarsakir; meðan þetta er að gróa“.  „Færum er rennt.  Fiskur tregur.  Keipað um stund; síðan kippt fram á Stekka“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Um sömu mundir / Í sama mund (orðtök)  Um sama leyti; á sama tíma.  „Þeir komu í land um sömu mundir“.

Um tíma (orðtak)  Yfir nokkuð tímabil.  „Um tíma leit þetta ískyggilega út“.

Um tvennt að tefla / Um tvennt að ræða / Um tvo kosti að tefla (orðtök)  Tveir valmöguleikar í boði.

Um það bil / Hér um bil (orðtök)  Nokkurnvegin; í námunda við.  „Við fluttum að Láganúpi vorið 1927, þá var ég um það bil tveggja ára“  (IG; Æskuminningar). 

Um það gefið (orðtak)  Sækist ekki eftir; smeykur.  „Mér er ekkert um það gefið að túristar séu að flækjast um allar trissur í leyfisleysi“.  Oft stytt í „um það“:   „Mér er ekki um það að fara í kletta á svona skóm“. 

Um það leyti / Um svipað leyti (orðtök)  Á þeim tíma; á því tímabili.  „Um það leyti sem við áttum að mæta á skólanum féll engin skipsferð frá Patreksfirði til Þingeyrar“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Um þessar/þær mundir (orðtak)  Um þetta leyti; á þessum tímum.  „Þó dauft sé yfir mannlífi í byggðinni um þessar mundir eru verulegar líkur á að það muni blómstra aftur; til þess eru öll skilyrði“.

Um þjóðbraut þvera (orðtak)  Þvert yfir þjóðveg/alfaraleið.  Notað um stað sem er í alfaraleið.  Uppruni orðtaksins er í Eyrbyggjasögu, en Geirríður, móðir Þórólfs bægifótar, bjó í Borgardal og byggði sér skála um þjóðbraut þvera.  Þar veitti hún frían beina öllum sem áttu leið um.

Um þvergafl (orðtak)  Meðfram gafli í húsi.  „Voru þau í rúmi um þveragafl yfir búrinu, en þar var skaflinn kominn upp á gaflhlað“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Um þær mundir (orðtak)  Um það leyti.  „Það fór að hellirigna um þær mundir sem ég kom á fætur“.

Umbeðið (l)  Sem beðið hefur verið um.

Umbera (s)  Þola; þreyja; líða.  „Það er efitt að umbera svona hálfvitagang“!

Umboð (n, hk)  Heimild; leyfi.  „Hún gaf mér umboð til að vinna í þessum málum fyrir sína hönd“.

Umboðsmaður (n, kk)  Sá sem hefur á hendi umboð.

Umboðssala (n, kvk)  Sala vöru fyrir aðra, þannig að greiðslur eru háðar því að varan seljist áfram.  „Þorskur var saltaður; stundum verkaður heima, og venjulega fluttur til Patreksfjarðar.  Sigurður Bachmann kaupmaður tók fisk í umboðssölu“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Umbótastarf (n, hk)  Starf sem miðar að umbótum/framförum.  „Ungmennafélögin unnu mikið umbótastarf“.

Umbreyta (s)  Breyta um; skipta um. 

Umbreytanlegt (l)  Möguleiki að breyta/laga.  „Þessi ákvörðun var jú tekin á sínum tíma, en það merkir nú ekki að hún sá alls ekki umbreytanleg um aldur og ævi“.

Umbreyting (n, kvk)  Breyting; umskipti.

Umbrot (n, hk, fto)  A.  Áköf hreyfing; átök.  B.  Uppröðun og frágangur ritmáls fyrir prentun og útgáfu. 

Um brotaskeið / Umbrotatími (n, kk)  Tími mikilla breytinga; byltingatími.

Umbult (l)  Illt í maga; bumbult.  Orðin bumbult og umbult voru notuð jöfnum höndum; það síðara jafnvel oftar.  „Er þér nokkuð að verða umbult í veltingnum“?

Umbun (n, kvk)  Laun; þóknun; greiðsla; arður.  „Einhverja umbun vill hann trúlega fyrir sitt viðvik“.

Umbuna (s)  Launa; endurgjalda; veita umbun.

Umburðarbréf / Umburðarseiðill / Umburðarskjal (n, hk/kk)  Bréf með boðsakap sem hver viðtakandi áframsendir frá sér á einhvern annan, þannig að boðin nái að berast milli hóps manna.  Ein tegund umburðarbréfa voru gangnaseðlarnir.

Umburðarlyndi (n, hk)  Þolinmæði gegn ágangi/pirringi/fjandskap sem sýndur er; rósemi; jafnaðargeð.  „Mér fannst hann sýna mikið umburðarlyndi gagnvart þessum uppivöðsluseggjum“.

Umburðarlyndur (l)  Sem sýnir umburðarlyndi; þolinmóður.

Umburðarpest (n, kvk)  Umferðarpest; smitsjúkdómur; flensa o.fl.  „Það hefur verið að stinga sé niður einhver umburðarpest“.  Heyrðist sjaldnar notað en umferðarpest.

Umbúðalaust (l)  Í hreinskilni; án málalenginga.  „Hann sagði þeim umbúðalaust til syndanna“.

Umbúðapappír (n, kk)  Fyrir daga plastvæðingar var vörum gjarnan pakkað í bréfpappírsumbúðir, einkum frá smásala/sölubúðum.  Í Gjögrabúð var t.d. sérstakur standur með pappírsrúllu til þeirra nota.

Umbúðatimbur (n, hk)  Timbur úr trékössum var til margra hluta nytsamlegt.  Dæmi um það er kassinn sem fyrsta Farmal-dráttarvél Kollsvíkinga kom ósamsett í; en hann var fluttur þversum á bát frá Patró eftir síðari heimsstyrjöld.  Kassinn var lengi í efri hlöðunni á Láganúpi; notaður þar undir fóðurbæti.  Síðar var honum komið fyrir við Kaldabrunnslækinn og reyktur í honum rauðmagi; en reykurinn var leiddur með röri úr nálægu eldstæði.  Íbúðarhúsið á Láganúpi steypti Gunnar Össurarson árið 1974, og notaði í uppsláttinn umbúðatimbur sem hann hafði fengið hjá tékkneska sendiráðinu, eftir mikla sýningu á þess vegum, en sendiherrann var góðvinur hans.

Umbúðir (n, kvk, fto)  Það sem notað er til að búa um vöru/sendingu o.fl, t.d. pappír, poki, kassi eða annað.

Umbúnaður (n, kk)  Frágangur; umbúðir.  „Það þarf að vanda umbúnaðinn á eggjunum fyrir flutninginn“.

Umbylta (s)  Gera róttækar breytingar.  „Með tækninni var umbylt mörgum heyöflunaraðferðum“.

Umbylting (n, kvk)  Mikil/róttæk breyting; umskipti.

Umbætur (n, kvk, fto)  Betrumbætur; framfarir.  „Ýmsar umbætur þyrfti að gera á byggðastefnunni“.

Umdeildur (l)  Sem ekki er einhugur um; sem deilt er um.

Umdeilanlegt (l)  Álitamál; má deila um; vafaatriði.  „Eignarhaldið á þessu svæði getur verið umdeilanlegt“.

Umdæmi (n, hk)  Yfirráðasvæði; hérað/svæði sem umboð/starf nær til.  Merkti upphaflega svæði þar sem höfðingi hafði öll forráð og dæmdi í málum manna.  „Undanskil ég þá bændurna þá bændurna á Lambavatni, er verka betur hey sín en líklega nokkrir aðrir í þessu umdæmi“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929). 

Umfaðma (s)  Faðma; taka utanum.

Umfang (n, hk)  Ummál; það sem eitthvað tekur til/ nær yfir.

Umfangsmikið (l)  Með mikið umfang; viðamikið.

Umfar (n, hk)  Borðaröð á báti.  Umför á báti eru jafn mörg og borðabreiddir í síðu hans.  Hvert borð/umfar hefur sitt nafn.  Neðst, við kjölinn, er kjalsíða.  Hún er nánast þríhyrnd í þversnið og fellur ein hliðin að kilinum; önnur veit upp í botn bátsins og þriðja myndar sæti fyrir næsta borð, sem nefnist farborð.  Utar því kemur fráskotsborð; næst undirúfur og þá yfirúfur.  Hrefna nefnist það næsta, en þá er botninn farinn að sveigja verulega uppávið; næst sjóborð sem er í sjólokunum á tómum báti; þá sólborð og efst rimaborð, en innan á það kemur borðstokkur/hástokkur.  (byggt á því sem Ó.E.Th. Vatnsdal skráði eftir Sigurði Sigurðssyni bátasmið í Breiðuvík; LK; Ísl. sjávarhættir II).  „...því komið höfðu tvær samhliða sprungur á annað umfar að neðan, og borðið gengið inn á milli þeirra“  (ÖG; Þokuróður).

Umfeðmingsgras / Umfeðmingur (n, hk/kk)  Vicia cracca.  Jurt af ertublómaætt.  Blá blóm, einsamhverf og mörg saman á stilklöngum klösum.  Blöð eru fjöðruð og hafa 8-10 pör af broddydum og hærðum smáblöðum.  Á endum blaðanna eru langir vafningsþræðir sem vindast um það sem nærindis er, og halda blóminu uppréttu þrátt fyrir veikan stilk.  Verður 20-50 cm hár og vex í graslendi, engjum og annarsstaðar á láglendi.  Umfeðmingsgras vex ekki í Útvíkum, en mun finnast á Rauðasandi.

Umferð (n, hk)  Ferð um svæði, t.d. umferð á vegum.  B.  Atrenna; lota.  „Hún prjónaði nokkrar umferðir í svörtu“.

Umferðarpest (n, kvk)  Smitandi veiki, sjaldnast alvarleg.  „Sumir tóku það ráð að setja sinn bæ í sóttkví ef umferðarpest var að ganga; einkum ef þar voru gamalmenni eða aðrir sem veikir voru fyrir“.    Orðið var algengt vestra en finnst ekki í orðabókum.

Umferðarsýki  (n, kvk)  Annað heiti á umferðarpest.  „Pest var kölluð allskonar umferðarsýki, t.d. kvef, flensa, uppköst eða önnur smitandi magaveiki“  (SG; Læknisráð; Þjhd.Þjms).  

Umferðartími (n, kk)  Tími sem umferð tekur.  „Umferðartími jarðar um sólu er eitt ár“.

Umferma (s)  Færa farm/farangur milli farartækja/farskjóta.  „Á fyrstu árum mjólkursölu fluttu Láganúps- og Kollsvíkurbændur sína mjólk í brúsum inn í Hænuvík, þar sem hún var umfermd í mjólkurbílinn“.

Umfjöllun (n, kvk)  Umtal.  „Mér fannst þetta ágæt umfjöllun um efnið í útvarpsþættinum“.

Umflotinn (l)  Með vatn/sjó allt í kring.  „… en Kríustapinn er umflotinn sjó um flóð“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).

Umflýjanlegt (l)  Sem unnt er að komast hjá.  „Ég held að þetta slys hafi vel verið umflýjanlegt“.

Umfram (ao/fs)  A.  Framyfir. T.d umfram allt.  B.  Afgangs.  „Settu þau egg í hinn kútinn sem umfram verða“. 

Umfram allt (orðtak)  Framyfir allt annað.  „Umfram allt þarf að hafa nægt og gott vetrarfóður“.

Umgangast (s)  Vera samvistum við.  „Ég sæki lítið í að umgangast slíka pótintáta“!

Umgangspest (n, kvk)  Smitsjúkdómur; flensa o.fl.  „Hér hafa herjað óvenju margar umgangspestir í haust“.

Umgangur (n, kk)  Umferð/erill um tiltekinn stað.  „Það kólnar fljótt við þennan eilífa umgang um útidyrnar“.

Umgenginn (l)  Með farinn; notaður; haldið í lagi.  „Báturinn var vel umgenginn þegar honum var skilað“.

Umgengni (n, kvk)  A.  Samvistir við einhvern.  „Þau reyndu að forðast umgengni við aðra meðan pestin grasseraði“.  B.  Hirða; bragur; það hvernig gengið er um.  „Ekki fannst mér umgengnin til fyrirmyndar“!

Umgerð / Umgjörð (n, kvk)  Umbúnaður; frágangur; rammi/stoðgrind um. 

Umgetinn (l)  Nefndur; téður.

Umgirtur (l)  Inni í; inniluktur af.  „Kollsvíkin er líkt og gróðursæl vin á þessu vesturhorni landsins; umgirt fjöllum til austurs og suðurs, en fyrir opnu hafi til norðurs og vesturs.

Umhendis (ao)  Erfitt; rangsnúið.  „Geturðu náð flísinni úr fætunum á mér; það er dálítið umhendis fyrir mig á þessum stað“.  „Það er dálítið umhendis fyrir mig að opna hliðið og passa ærnar samtímis“.

Umhirða (n, kvk)  Umsjón; umönnun; varsla; gæsla.

Umhirðulaus (l)  Án umhirðu/eftirlits/umönnunar.  „Umhirðulaus hús eru fljót að hrörna“.

Umhleypingar (n, kvk, fto)  Síbreytileg veðrátta; tíð veðrabrigði.  „Ári leiðast mér þessir eilífu umhleypingar“.

Umhleypingasamt (l)  Með umhleypingum.  „Veðráttan í vor hefur vægast sagt verið umhleypingasöm“.

Umhleypingatíð (n, kvk)  Tímabil mikilla umhleypinga.  „Það er dálítil hætta á kalskemmdum í þessari umhleypingatíð“.

Umhorfs (n, hk)  Á að líta; útlit.  „Það er ekki fallegt umhorfs í garðinum eftir að kálfarnir komust í hann“.

Umhugað (l)  Með umhyggju/áhyggjur/áhuga.  „Mér er dálítið umhugað um þetta málefni“.

Umhugsunarefni (n, hk)  Það sem er hugsað um/ætti að hugsa um.  „Það er umhugsunarefni hvers vegna byggðirnar hrundu um leið og samgöngur og önnur lífsskilyrði bötnuðu“.

Umhugsunarfrestur (n, kk)  Tími sem gefst til umhugsunar/vangaveltna.

Umhverfast (s)  Verða mjög reiður; sleppa sér; fyllast djöfulmóð.  „Karlinn umhverfðist alveg við þetta“

Umhverfi (n, hk)  Svæðið sem næst liggur; grennd; nágrenni.

Umhverfis (ao)  Kringum; í nágrenninu/grenndinni.

Umhyggja / Umhyggjusemi (n, kvk)  Umönnun; kæring; alúð.

Umkominn (l)  Fær; bær; hefur getu/vald til.  „Þykist hann vera þess umkominn að skipa mér fyrir verkum“?!

Umkomulaus / Umkomulítill (l)  Hjálparlaus; einstæðingslegur; vantar úrræði/umönnun.  „Þau tóku hann uppá sína arma, enda var hann hálf umkomulaus eftir að hann missti foreldra sína“.

Umkomuleysi (n, hk)  Reiðuleysi; án umsjónar.  „Hann dró letilega upp færið sitt; lét lóðið detta á plittinn; sló af sér vettlingum niður á þóftuna, þar sem þeir myndu liggja í umkomuleysi þar til formanni þóknaðist aftur að rétta þeim hendur sínar“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Umkringdur (l)  Innikróaður; umlukinn. 

Umkvörtun (n, kvk)  Kvörtun; nöldur; refjar; eftirtölur.  „Það virðist vera gagnslaust að senda þeim einhverjar umkvartanir; maður þarf líklega að kæra þetta til að eitthvað réttlæti komist á“.

Umkvörtunarefni (n, hk)  Það sem kvörtun snýr að.

Uml (n, hk)  Ógreinilegt hljóð með lokaðan munn.  „Hver heldurðu að skilji þetta uml“?!

Umla (s)  Segja lagt og ógreinilega; stynja upp; tauta.  „Hann svaraði engu, en umlaði eitthvað óskiljanlegt“.

Umleikis (ao)  Umsvif; með höndum.  „Hann er með glettilega mikið umleikis; gerir úr tvo báta“.

Umleitan / Umleitun (n, kvk)  Það að inna/leita eftir/ spyrja um; umsókn; ámálgun.

Umliðinn (l)  Liðinn.  „Tekjur jukust heldur á umlíðnu ári“.

Umlíða (s)  Þola; bíða/hinkra með.  „Ertu til í að umlíða mér víxilinn í nokkurn tíma enn“?

Umlíðan (n, kvk)  Þolinmæði; þol.  „Umlíðan kjósenda hlýtur að vera á þrotum“.

Ummerki (n, hk, fto)  Spor eða annað sem sýnir veru einhvers á tilteknum stað eða þátttöku í tilteknum verknaði.

Ummyndast (s)  Breytast úr einu í annað.  „Rauðu millilögin í basaltstaflanum eru að mestu aska og gjóska sem hefur ummyndast í basaltgler“.

Ummyndun (n, kvk)  Breyting.  „Ummyndun basaltsins hefur orðið á löngum tíma og undir miklum þrýstingi“.

Ummæli (n, hk)  Það sem sagt er um eitthvað tiltekið.  „Mér þykir þessi ummæli hans hálf skondin“.

Umráð (n, hk, fto)  Vald; það að ráða yfir/ geta ráðskast með.  „Hann hefur full umráð yfir eignunum núna“.

Umrenningur (n, kk)  Flakkari; förumaður.  Áður notað í fremur niðrandi merkingu um flökku- og förufólk. Einnig um þá sem eru illa til fara:  „Þú ættir nú að hafa fataskipti; þú ert eins og umrenningur í þessum lörfum“!  Heitið færðist yfir á ferðamenn þegar þeir fóru að flæða um dreifbýlið; mörgum til ama fyrst í stað.

Umrita / Umskrifa (s)  Skrifa að nýju.  „Hann e varla sendibréwfsfær blessaður karlinn; ég þurfti að umskrifa bréfið alveg uppá nýtt“.

Umrót (n, hk)  Rask; óreiða; ruglingur.  „Kýrnar eru fljótar að missa nyt í miklu umróti“.

Umræða (n, kvk)  Umtal; það að tala um eitthvað.  „Heitar umræður urðu um málið á fundinum“.

Umræðuefni (n, hk)  Málefni sem talað er um.  „Veðmálið varð um langan aldur vinsælt umræðuefni meðal þeirra sem viðstaddir voru…“  (PG; Veðmálið). 

Umsalta (s)  Taka matvæli úr salti og salta þau öðru sinni, til að jafnara verði.  „Hvað var þá hafst að í landlegum?  Fyrsta daginn var ýmsu að sinna; t.d. umsalta fisk og hlynna að öðru fiskifangi; bera á skinnklæði o.fl“  (KJK; Kollsvíkurver).

Umsaminn (l)  Sem samið hefur verið um.  „Ég er búinn að greiða umsamið verð fyrir bátinn“.

Umsemjanlegt (l)  Unnt að semja um; hægt að hliðra til.  „Verðið getur verið umsemjanlegt“.

Umsetinn (l)  Efirsóttur; vinsæll.  „Hvert starf er umsetið í svona atvinnuleysi“

Umsjá / Umsjón / Umsorgun / Umsýsla (n, kvk)  Það að sjá um/ annast.  „Þetta er ekki lengur í minni umsjá“.  „Hann hafði umsjón með búinu í fjarveru eigandans“.  Dönskuslettan umsorgun er  að mestu fallin úr málinu.

Umskipa (s)  Flytja/færa úr einu skipi í annað.  „Fiskur úr Kollsvíkurveri var oftast fluttur á Eyrar með vélbátnum Fönix, þar sem honum var umskipað í flutningaskip til útflutnings“.

Umskipti (n, hk, fto)  Mikil breyting.  „Það er aldeilis að það hafa orðið umskipti í veðrinu allt í einu“.

Umskiptingur (n, kk)  A.  Þjóðsagnavættur; barn trölla/álfa sem sett er í stað mennsks barns.  B.  Óþekkjanleg manneskja; sá sem er öðruvísi í útliti/hegðun en vant er.  „Hann er eins og umskiptingur“.

Umslag (n, hk)  Núverandi merking er umbúðir bréfs.  Fyrrum hafði það ýmsa merkingu, s.s. bókarkápa; sláttur á einhverju; plástur; fósturlát og binding um hlut.

Umsnúinn (l)  A.  Snúinn ; snúinnvið/uppíloft; flæktur.  „Netið veiðir lítið ef það fer umsnúið í sjóinn“.  B.  Um mann; önugur; viðskotaillur.  „Hann var ansi úldinn og umsnúinn þegar ég nefndi þetta fyrst“.  C.  Erfitt; illmögulegt; snúið.  „Það gæti orðið dálítið umsnúið fyrir mig að klára þetta í dag“.

Umsnúningur (n, kk)  Það að skipta um skoðun; viðsnúningur.  „Heldur þótti mér hafa orðið umsnúningur hjá honum í pólitík eftir að þingmaðurinn fór“.

Umstafla (s)  Stafla að nýju.  „Ég umstaflaði fóðurbætispokunum til að athuga hvort músin hefði komist í þá neðstu“.

Umstang (n, hk)  Fyrirhöfn; vesen.  „Enn hef ég ekki minnst á það hver bar hitann og þungann af öllu umstanginu og vinnunni sem þessum jólaundirbúningi fylgdi“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Umsvif (n, hk, fto)  Athafnasemi; starfsemi.  „Pétur hafði veruleg umsvif á Eyrum á þessum tíma“.

Umsögn (n, kvk)  Það sem sagt er um; ummæli; einkunn.

Umsöltun (n, kvk)  Það að umsalta.

Umtal (n, hk)  Það sem talað er um; slúður; kvittur.  „Þau vildu ekki að þeta vekti neitt umtal í veitinni“.

Umtalað (l)  Það sem talað er um; umræðuefni.  „Skekta Jóns Sauðeyings var mjög umtöluð, vegna þess hve vel hún þoldi siglingu“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  „Var umtalað að sækja aflann ákveðinn dag, ef veður leyfði“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  „…og nú stóð svo á að skömmu eftir hinn umtalaða réttardag þurfti Gummi að reka sláturlömb sín inn yfir Hafnarfjall og til slátrunar á Gjögrum“  (PG; Veðmálið). 

Umtalsefni (n, hk)  Umræðuefni.  „Þetta mál varð nokkuð umtalsefni á fundinum“.

Umtalsgóður (l)  Sem talar vel um aðra; ekki dómharður/rætinn í tali.

Umtalsillur (l)  Sem talar illa um aðra; dómharður/rætinn í tali.

Umtalsvert (l)  Verulegt; allmikið; dágóður slatti.  „Við fengum ekkert umtalsvert af eggjum í þessari ferð“.

Umturna (s)  Breyta verulega; setja úr skorðum; umbylta.  „Þið megið ekki umturna öllu í herberginu“!

Umturnaður (l)  A.  Fallinn um koll; hruninn.  „Árósinn er allur umturnaður eftir brimið“.  B.  Frávita af reiði; ofsareiður; sjóðbandvitlaus.  „Karlinn er alveg umturnaður útí stjórnina núna“.

Umvarp (n, hk)  Svæði þar sem skiptir frá einu landslagi/gróðurbelti í annað.  Umvarp er örnefni yfir það svæði ofan við Láganúpsmýrar þar sem þurr og malarborin holtarönd tekur við ofan votlendisins.

Umvending (n, kvk)  Umskipti; fráhvarf.  „Mér þykir heldur hafa orðið umvending í þínum skoðunum“!

Umvent (l)  Á hinn veginn; til baka; öfugt.  „Samhjálp var mikil í Víkunum.  Kollsvíkingar þáðu t.d. aðstoð Hænvíkinga í smalamennskum og umvent“.

Umvitjun (n, kvk)  Það að vitja um/ aðgæta/sinna.  Stundum var talað um umvitjun þegar róið var til að draga net, hirða afla og leggja aftur, en oftast var það stutt í vitjun.

Umvöndun (n, kvk)  Aðfinnsla; skammir; áminning.  „Eftir þessa umvöndun var hann nokkuð lengi ófullur“.

Umyrðalaust (l)  Án þess að orðlengja; möglunarlaust.  „Hann svipti lúðunni umyrðalaust inn í bátinn“.

Umþenkingartími / Umþóttunartími (n, kk)  Umhugsunarfrestur; tími sem manni gefst til að taka ákvörðun.  „Hann fékk viku umþóttunartíma, en eftir það þarf hann að ákveða hvort hann tekur tilboðinu“.

Umþófta sig (orðtak)  Um róðrarlag:  „Stundum sneru menn sér við á þóftunni, t.d. til þess að hamla (hafa afturá; bakka) eða þeir höfðu þóftuskipti, og var hvoru tveggja kallað að umþófta sig“  (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Menn umþóftuðu sig gjarnan til hvíldar í löngum róðrum, þannig að átakið væri ekki alltaf á sömu vöðvana.  E.t.v. má ætla að af þessu sé leitt orðið „umþóftunartími“ (tilgáta VÖ).

Umönnun (n, kvk)  Það að annast um/ amstra með/ ala önn fyrir/ sjá um. 

Una (s)  A.  Dveljast; vera.  B.  Sætta sig við.  „Ég ákvað að una þessum kostum“.

Una glaður/sáttur/sæll við sitt / Una orðnum/sínum hag (orðtak)  Vera sáttur við sinn hlut; vera ánægður með það sem maður hefur. 

Una sér (orðtak)  Vera ánægður með vist/staðsetningu.  „Féð undi sér illa í þessum nýju högum“.

Una sínum hlut  / Una við sinn hlut (orðtak)  Vera sáttur við sinn skerf; una sáttur við sitt.  Bókstafleg merking vísar til skipta á afla.

Una við / Una við orðinn hag (orðtak)  Sætta sig við orðinn hlut/ við stöðuna eins og hún er.  „Bragi taldi að ekki væri hægt að una við annað en það að fá mokaða mjólkurleiðina“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Unaður (n, kk)  Unun; yndi; sæla.

Und (n, kvk)  Gamalt heiti yfir sár.  Nú nær horfið úr íslensku máli en mikið notað í t.d. ensku; „wound“.

Undafífill (n, kk)  Hieracium sp. Flokkur fjölærra körfublóma með ýmist blaðlausum eða blöðuðum stöngli.  Af undafíflum eru tegundirnar fellafífill (H.alpinum); hlíðafífill (H.thaectolepium); arinfífill (H.aquiliforme); runnafífill (H.holopleurum); glæsifífill (H.elegantiforme) og íslandsfífill (Pilosella islandica).  Allar þessar tegundir hafa útbreiðslu sem náð getur til Kollsvíkur, en enn hefur hún ekki verið rannsökuð þar.

Undan (ao/fs)  Ofan; niðurímóti; undan halla/fæti; frá því að vera undir.  „Það hallar undan þegar komið er útá Strympur“.  Við erum komnir uppá háhæðina; héðanaf er allt undan“.  „Arnarboðinn er undan Grjótunum“.  „Féð kemur furðu vel undan vetri“.  „Okkur tókst að bjarga trénu undan sjó“.  „Farðu ekki langt á undan straáknum“.  Um lamb/kálf er jafnan sagt að það/hann sé undan þessari eða hinni ánni/kúnni.  „Ég setti á gimbrina undan Skrautu“.

Undan brekkunni (orðtak)  Niður/ofan brekkuna.  „Alltaf er maður fljótur undan brekkunni en upp hana“!

Undan fæti/brekku (orðtak)  Niður í móti; undan hallanum.  „Það er fljótgengið niður Geldingsskorardalinn, þegar allt er undan fæti og tóm öll ílát.  En það getur tekið af gamanið á uppleiðinni, lengst neðanaf stíg; þegar allt er á fótinn og  maður þarf að bera á annaðhundrað egg og vað að auki; sökkvandi í mosa upp á mjóalegg og jafnvel í logni og steikjandi sólskini“.

Undan og ofanaf (orðtak)  Sjá segja undan og ofanaf.

Undan veðri/vindi (orðtak)  Í sömu átt og vindáttin/veðrið er.  „Láttu bíldyrnar vísa undan veðrinu“.

Undan vetri (orðtak)  Sjá koma undan vetri.

Undanbrögð (n, hk, fto)  Vifilvengjur; undanfærslur.  „Hér duga engin undanbrögð; það þarf að hreinsa þetta“.

Undaneldi (n, hk)  Sagt er að skepna sé góð til undaneldis ef hún er t.d. vel ættuð og heilbrigð.  „Lukka þótti góð til undaneldis.  Hún skilaði alltaf mjög vænum lömbum og mikil frjósemi var í ættinni“.

Undanfarandi / Undanfarinn (l)  Á nýliðnum tíma; á undan.  „Mér finnst tíðin stirðari nú en undanfarandi ár“.

Undanfarið (l)  Að undanförnu; í seinni tíð; nýlega.  „Heyskapartíð hefur verið ágæt undanfarið“.

Undanfarinn (l)  Sem var á undan; næstliðinn.  „Heilbrigði í búfé er betra nú en undanfarin vor…“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1935). 

Undanflátta (n, kvk)  Það lag hvalkjöts sem næst er spikinu og því fituríkast. 

Undanfæri (n, hk)  Undankomuleið; hjáleið.  „Við verðum að slá böndum  á kúna og reyna að ná henni uppúr dýinu; það er ekkert undanfæri með það“.

Undanfærslur (n, kvk, fto)  Það að reyna að koma sér undan einhverju/ hliðra sér hjá einhverju.  „Hann var ákveðinn í að gera þetta þegar ég ræddi það í gær, en nú fékk ég ekkert nema undanfærslur hjá honum“!

Undanhald (n, hk)  A. Sigling undan vindi.  „Frá Keflavík að Bjargtöngum var undanhald, en úr því var aflandsvindur“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  B.  Ferð/ganga niður brekku.  „Það tekur á að komast uppúr Láturdalnum, en maður getur huggað sig við að það verður undanhald niður Sanddalinn“.  C.  Eftirgjöf deilumáls; ósigur í orrustu.  „Ríkisstjórnin er á hröðu undanhaldi í málinu“.  C.  Flótti í bardaga/viðureign.

Undankoma (n, kvk)  Undankomuleið; björgun.  „Hér er fjári þykkur skafl á veg sem við verðum að kasta úr; það er engin undankoma með það sýnist mér“.

Undankomuleið / Undankoma (n, kvk)  Leið sem unnt er að sleppa um; flóttaleið.  „Nú er engin undankoma frá þessu lengur; nú verður þú að taka upp bókina og fara að læra“!

Undanlát (n, hk)  Lát; hlé; linun.  „Það virðist enn ekkert undanlát á þessari eilífu rigningu“.

Undanlátsemi (n, kvk)  Löngun/líkindi til að gefa eftir/láta undan.  „Það þýðir ekkert að vera með einhverja undanlátsemi við þessa ráðamenn; þeir eru þá fljótir að ganga á lagið“.

Undanlátssamur (l)  Lætur undan beiðni/þrýstingi.  „Þú varst alltof undanlátssamur við hann í þessu efni“!

Undanrenna (n, kvk)  Léttari og fituminni hluti mjólkurinnar.  Á síðari tímum er hún skilinn frá rjómanum í skilvindu, en fyrrum var það gert með því að láta mjólkina standa um tíma í trogi.  Síðan var undanrennunni hellt út um eitt hornið á troginu en haldið við rjómann á meðan.  Af þessu undanrennsli er nafnið dregið.  „Skilja mjólkina, strokka rjómann og hleypa skyr úr undanrennunni“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  Sjá skyr.

Undansátur (n, hk)  „Á stöku stað mátti lenda báti þar sem þó var ógerlegt að koma honum undan sjó.  Var það kallað undansátur, sem var andstætt uppsátri“  (LK; Ísl.sjávarhættir III). 

Undanskilinn (l)  Sem ekki er talinn með; undanþeginn.  „Skepnuhöld hafa verið góð, að undanskildu því að í haust og fyrri hluta vetrar gjörði bráðapest vart við sig með mesta móti“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Undanskilja (s)  Hafa/taka ekki með; hafa ekki í upptalningu.  „Undanskil ég þá bændurna þá bændurna á Lambavatni, er verka betur hey sín en líklega nokkrir aðrir í þessu umdæmi“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929). 

Undanskot (n, hk)  Það að skjóta undan/ hafa ekki með.  Helst notað núna varðandi skattsvik.

Undansláttur (n, kk)  Eftirgjöf; undanhald.  „Ríkisstjórnin var sökuð um undanslátt í málinu“.

Undantekning (n, kvk)  Það sem er ekki reglulegt/almennt; afbrigði frá meginreglu.

Undantekningarlaust / Undantekningarlítið (l)  Það sem án (mikilla) undantekninga.  „…en því miður eru heybirgðir mjög litlar; hérumbil undantekningarlítið“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1924).  

Undanvillingur (n, kk)  Lamb sem villst hefur frá móðurinni, eða hún drepist frá því. 

Undanvillt (l)  Um lamb sem villst hefur frá móður sinni.  „Það hefur undanvillt lamb verið emjandi hér uppi á Hjöllunum í alla nótt“.

Undanþága (n, kvk)  Heimild til fráviks frá reglu. 

Undanþeginn (l)  Með heimild til undanþágu.

Undarlega (ao)  Furðulega; með sérstökum hætti.  „Mer finnst þessi kind hegða sér eitthvað undarlega“.

Undarlegheit (n, hk)  Furða; íhugunarefni; skrýtið.  „Einhver undarlegheit eru í ljósavélinni.  Ljósin eru að dofna“. 

Undarlegur (l)  Furðulegur; skrýtinn; kynlegur.  „Þetta þykir mér í meira lagi undarlegt“!

Undinn (l)  Sem búið er að vinda (sjá þar).

Undir (ao/fs)  A.  Almennt um staðsetningu; undir öðrum hlut, á leiðinni þangað eða nærri undir.  Sjá t.d. venja undir.  B.  Um veiðar; fiskur undir bát.  „Nú getur maður fengið sér í nefið; fyrst að kippti undan.  Ég vildi ekki vera að því meðan hann var undir“.  C.  Í húfi.  „Nú þurfum við að vanda okkur; hér er mikið undir“.

Undir áhfrifum (orðtak)  A.  Í hrifningu af einhverju.  Notað t.d. um listamann sem er hrifinn af list annars manns og vinnur sín verk með hliðsjón af henni.  B.  Kenndur; fullur; frá sér af áfengisdrykkju.

Undir árum (orðtak)  Um róður á árabáti.  „Af áliðnum degi var svo komin innlögn í fjörðinn.  Öll ferðin var því farin undir árum og róðurinn all erfiður á köflum (KJK; Kollsvíkurver, sjá kúskel).  „Allir tóku ofan sín höfuðföt og báðu sjóferðabænina þegar komið var á flot, og menn höfðu sest undir árar“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Undir beru lofti / Undir berum himni (orðtök)  Úti; utandyra.  „Ég held að þú ættir að kveikja í þessu úti undir beru lofti en ekki innandyra“.  „Þannig hagaði til að Júlli var með þeim fyrstu til að ljúka dagsverki sínu og var þá fljótur til að komast út úr húsi og undir bert loft“  (PG; Veðmálið). 

Undir borðum (orðtak)  Meðan/þegar setið er við borð; þegar matast er.  „Það er óþarfi að hafa uppi svona munnsöfnuð undir borðum; þið getið bara gert út um þetta eftir matinn“!

Undir brot og slit (orðtak)  Um meðferð hlutar; að þolmörkum; líking við skip í stórsjó og reiðabúnað þess.  „Það var siglt eins og báturinn framast þoldi í þessum sjógangi; allt undir brot og slit“.

Undir drep (orðtak)  Af fremsta megni; af lífs og sálar kröftum.  „Nú er bara að taka á og toga; alveg undir drep;  við hljótum að geta þokað spýtufjandanum uppfyrir flæðarmál“!

Undir fjögur augu (orðtak)  Í trúnaði; milli tveggja sagt.  „Ég ræddi þetta við hann undir fjögur augu“.

Undir færum (orðtak)  Um það þegar menn eru að veiðum á skakfiskiríi.  „Þá var það, er menn voru undir færum, að þeir urðu varir við snöggan kipp á bátnum“.  (ÖG; Þokuróður fyrir).

Undir grænni torfu (orðtak)  Búið að jarða/jarðsetja.  „Hann hefur hvílt undir grænni torfu í nokkurn tíma og er því ekki til frásagnar um þetta“.

Undir handarjaðri (orðtak)  Undir umsjón/stjórn/handleiðslu.  „Undir handarjaðri hans óx félagið og dafnaði“.

Undir hælinn lagt / Undir kasti komið (orðtak)  Tilviljunum háð; vafasamt.  „Ég bað hann að kaupa þetta, en það er alveg undir hælinn lagt hvort hann man eftir því“.  „Það er alveg undir kasti komið hvort okkur muni takast þetta“.

Undir (einhverju) komið (orðtak)  Háð einhverju.  „Það er alveg undir veðrinu komið hvort við getum gert þetta á morgun“.

Undir niðri (orðtak)  Innra með; í undirmeðvitundinni; í raun og veru.  „Ég hrósaði honum fyrir verkið, en undir niðri fannst mér að þetta hefði mátt vinna betur og fljótar“.

Undir seglum (orðtak)  Um skip; með segl uppi; á siglingu. 

Undir sól að sjá (orðtak)  Að sjá í sólarátt.  „Síðan sneri hann við og stefndi í áttina til okkar á mikilli ferð, tók hann þá að senda út mors-merki, en þau voru undir sól að sjá frá okkur og gátum við ekki greint annað af merkjunum, en fyrirskipun um stöðvun, og var henni tafarlaust hlýtt“  (SÖ; Stöðvaðir af kafbát; Þjv 1941). 

Undir sömu sök seldur (orðtak)  Háður því sama; í sömu aðstöðu; verða fyrir því sama.  „Hann taldi sig ekki verða aflögufæran með hey; hann væri undir sömu sök seldur og aðrir í þessari ótíð“.

Undir tönn (orðtak)  Að tyggja.  „Fiskurinn er fjári harður undir tönn, svona óbarinn“.  „Árans ketbitinn var svo seigur undir tönn að ég gafst upp á honum að lokum“.

Undir það síðasta (orðtak)  Í lokin; þegar líður að lokum.  „Honum dapraðist sjón á eldri árum, og undir það síðasta var hann orðinn alveg blindur“.

Undir því (einhverju) komið (orðtak)  Háð því; veltur á því; skilyrt.  „Þessi fyrirætlun er undir því komin að veðrið haldist“.

Undir því yfirskini (orðtak)  Með þeim fyrirslætti; með því yfirbragði.  „Yfirskin“ er ásýnd/yfirbragð; það sem virðist við fyrstu sýn. 

Undiralda (n, kvk)  Sver bára sem getur verið komin langt að.  Stundum er undiraldan í aðra átt en ríkjandi vindbára og skapar ruglanda og jafnvel hættu.  „Þung undiralda úr norðri fór að gera vart við sig.. “  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „Logn var, en nokkur undiralda“ . ...   „Jón Torfason telur að brotið muni hafa á Djúpboða sem er sunnarlega á Kollsvíkinni, fram af Hnífum, en það var jafnan talið merki um mikla undiröldu“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Undirben (n, kvk)  Fjármark neðantil á eyra.  Benjar í fjármörkum eru af tvennum toga:  Yfirmark er það sem er á toppi eyrans, s.s. sneyðing, stýfing og blaðstýfing, en undirbenjar eru á hlið eyrans, s.s. biti og fjöður.

Undirbjargsferð (n, kvk)  Ferð undir Látrabjarg eða Bæjarbjarg, vanalega til eggja í seinni tíð en áður í fugl.  „Þegar komið var heim og hvílst eftir förina var lagt af stað á nýjan leik; annaðhvort á bjarg eða í undirbjargsferð“  (ES; Látrabjarg; Barðstrendingabók).  Í seinni tíð hefur sést orðið „undirbjörg“, um neðri hluta bjargs.  Það var ekki notað vestra, heldur er líklega leitt af „undirbjargsferð“ sem er af annarri rót.

Undirbjóða (s)  Bjóða lægra söluverð á vöru/vinnuframlagi en einhver annar.

Undirboð (n, hk)  Það að undirbjóða.

Undirburður (n, kk)  Hey, sina, torf, lyng eða annað sem sett er í bás, rúmbálk eða annað legustæði dýrs eða manneskju.  „Það fer að vanta nýjan undirburð hjá þeim í gamla fjósinu“.

Undirbúa (s)  Gera ráðstafanir í aðdraganda einhvers; búa undir.

Undirbúningur (n, kk)  Viðbúningur; ráðstafanir til viðbragða við einhverju eða aðlögunar að því.  Leiddar hafa verið líkur að því að orðið hafi upphaflega verið notað um það að gera sér bæli/náttstað/rúm.

Undirdjúp (n, hk, fto)  Mikið hafdýpi; sjávardjúp.  Oft notað um það sjávardýpi sem erfitt er að rannsaka.

Undirdúnn (n, kk)  Fínasti dúnninn við líkama fugls. 

Undirdýna (n, kvk)  Rúmdýna sem höfð er undir yfirdýnu.

Undireins (ao)  Strax; þegar í stað.  „Ég hljóp undireins af stað þegar ég sá hvað var að ske“.  „Þetta er ljótt sár.  Það verður að búa um það undireins“.

Undirferli (n, hk, fto)  Slægð; prettir; lævísi; svik.  „Skelfing kann ég illa við öll svona undirferli“!

Undirflog / Undirflug (n, hk)  Heiti sem fyrrum var notað á júgurbólgu.  Komið af þeirri trú að júgurbólga væri tilkomin vegna þess að músarrindill hefði flogið undir gripinn, en hann var talinn skaðræðisfugl.

Undirfurðulegheit (n, hk, fto)  Furðulegheit; undarleg/grunsamleg hegðun.  „Einhver undirfurðulegheit eru í kúnum núna; þær eru ekki vanar að koma heim á miðjum degi“.

Undirfurðulegur (l)  Íbygginn/búralegur á svip.  „Hann varð dálítið undirfurðulegur þegar hann heyrði þetta“.

Undirförull (l)  Lævís; slóttugur; prettvís.  „Gættu þín dálítið á honum; hann getur verið undirförull“!

Undirföt (n, kvk, fto)  Fatnaður sem gengið er í undir daglegum fatnaði; nærföt.

Undirgangast (s)  Takast á hendur; skuldbinda sig til.  „Hann undirgekkst þessa skilmála“.

Undirgangur (n, kk)  A.  Göng sem liggja undir eitthvað; jarðgöng.  „Undirgangur er sagður vera frá Sandhelli upp í Stórhól, en ekki er hann sýnilegur mennsku fólki“.  B.  Fyrirgangur; dynur.  „Svífur beimur svefns í fang/ sæll í ranni gríðar./  Hrekkur upp við undirgang/ andartaki síðar“  (JR; Rósarímur).

Undirgefinn (l)  Hlýðinn; háður; auðmjúkur.  „Sú tíð er löngu liðin að konan skuli vera manninum undirgefin“.

Undirgefni (n, kvk)  Hlýðni; auðmýkt. 

Undirgift (n, kvk)  Uppsátursgjald; vertollar (sjá þar).

Undirgöng (n, hk, fto)  Jarðgöng.  „Undirgöng eru sögð vera milli Tröllkarlshellis og Tröllkonuhellis“.

Undihaka (n, kvk)  Áberandi húð- og fitufelling undir hökunni.

Undirhalda (s)  Sjá um; framfæra.  Dönskusletta sem nú er að mestu horfin úr málinu.

Undirheimar (n, hk)  A.  Staður hins illa í mörgum trúarbrögðum.  B.  Líkingamál um glæpastarfsemi eða annað sem farið er leynt með.

Undirhleðsla (n, kvk)  Hleðsla sem myndar undirstöðu/stuðning.  „Ungmennafélagið Vestri gerði hestfæran veg um Flosagilið, og enn má sjá firnamiklar undirstöður hans hjá verstu farartálmunum“.

Undirhlíð (n, kvk)  Hlíð/brekka í bjargi/klettum.  „Undirhlíðar eru margar í björgum kringum Útvíkur.  Má þar nefna Undirhlíð heimanvið Strengberg og Undirhlíð ofanvið Bæjarvöll í Bjarbjagi“.

Undirhyggja (n, kvk)  Fláttskapur; flærð; undirferli.  „Þarna hefur einhver undirhyggja ráðið gerðum“.

Undirkasta (einhvern) (orðtak)  Vara einhvern við; leggja einhverjum heilræði/ráð.  „Ég undirkastaði hann því að hann þyrfti ekki endilega að búast við greiðslu á tilsettum degi“.

Undirkasta sig (orðtak)  Skuldbinda sig; takast á hendur; lofa.  „Með þessum samningi undirkastaði hann sig því að fóðra ærnar næsta vetur“.  Enn notað af Kollsvíkingum þó minna heyrist annarsstaðar.

Undirkvika (n, kvk)  Undiralda, sjá þar.

Undirlag (n, hk)  A.  Undirburður; efni sem sett er undir.  T.d. burðarlag í vegi eða torf í bási.  B.  Áeggjan; tilstuðlan; ráðlegging.  „Að undirlagi hans lögðum við fram skriflega beiðni“.

Undirlagður (l)  Yfirfallinn; altekinn.  „Meðan á konfektgerðinni stóð fyrir jólin, var eldhúsið allt undirlagt“.  „Strákurinn var undirlagður af hlaupabólu“.

Undirleikur / Undirspil (n, kk/hk)  Tónlist sem leikin er undir söng.

Undirlendi (n, hk)  Hallalítil brekka/undirhlíð í klettum „Undirlendi heitir gróinn slakki sem skerst niður undan Grófarstekk.  Neðan þess eru lágir sjávarklettar.  „Þar er grasi vaxið og skjólagott, enda er skjólótt og mishæðótt á Hnífunum og safnast þar oft mikil fönn í austanbyljum“  “   (GG; Örnefnaskrá Láganúps).. 

Undirliggjandi (l)  Sem liggur undir/ liggur til.  „Saurbær á Rauðasandi, með öllum undirliggjandi jarðeignum og ítökum, var ein ríkasta jörð landsins fyrr á öldum“.

Undirlot (n, hk, fto)  Um bátalag; þegar stefnið neðanvert hallar mikið undir bátinn (sjá breiðfirskt bátalag).

Undirlægja (n, kvk)  Þræll; sá sem er kúgaður eða lætur kúga sig.  „Ég ætla bara ekkert að vera þeirra undirlægja í þessum efnum“!

Undirlægjuháttur (n, kk)  Þjónkun; þjónustulund; uppgjöf.  „Vestfirðingum er víst margt betur gefið en undirlægjuháttur.  Kannski hafa þeir leitað á útkjálkana gegnum tíðina sem síður þoldu yfirráð annarra.  Auk þess er augljóst að áræði og stjórnsemi er nauðsynleg þeim sem ætla að lifa af við vestfirskar aðstæður“.  Sjá menntasnobb og sérfræðingur.

Undirmark (n, hk)  Sjá undirben.

Undirmál (n, hk, fto)  A.  Leynimakk; baktal.  „Ég vil ekki hafa nein undirmál um þetta“.  B.  Í seinni tíð notað yfir fisk sem er undir vissri lengd og fellur í annan verð-/gæðaflokk en stærri fiskur; bútungur.

Undirmálsfiskur (n, kk)  Fiskur sem nær ekki því stærðarviðmiði sem sett er, t.d. af kaupanda.

Undirmálsmaður (n, kk)  Niðrandi heiti á manni sem ekki þykir standast einhverja viðmiðun annarra, t.d. varðandi stærð, afl, gáfur eða siðferði.  Sannara mun þó að allir hafa (einhverja) kosti til (brunns) að bera.

Undirmálstimbur (n, hk)  Timbur sem stendur ekki mál; nær ekki tilsettum málum að t.d. lengd og/eða breidd.

Undirmið (n, hk)  Hinn lægri af tveimur stöðum sem mynda mið/viðmiðunarstefnu þegar þeir bera saman.  „Undirmiðið er varðan á Norðariklettunum, en hún á að bera í Stekkjarhjallann, sem er yfirmið“.

Undirmiga (n, kvk)  Það að míga/pissa undir sig í rúmi.

Undirniðri (ao)  Í eðli sínu/ sannfæringu sinni, þó ekki sé látið í ljósi.  „Ég lét tilleiðast að fermast, til að valda ekki leiðindum, en undirniðri hef ég aldrei skilið þann fíflagang við óharðnaða unglinga“.

Undiroka (s)  Kúga; ráðskast með; sýna yfirgang.  „Öldum saman voru kotbændur í Rauðasandshreppi undirokaðir; ekki af fjarlægu kóngsvaldi, heldur af kúgurum Saurbæjarveldisins og ofstæki kirkjuvaldsins“.

Undirorpinn (l)  A.  Undirgefinn; háður.  B.  Haldinn einhverju; í hættu vegna einhvers.  Varpa merkir að kasta/snara og því er að stofni um sama orð að ræða og undirkastaður (sjá undirkasta sig).

Undirpils (n, hk)  Pils sem kvenfólk, einkum fyrr á tíð, bar undir ytri kjól eða pilsi.

Undirrétta (s)  Fyrri tíðar dönskusletta; fræða; kenna; upplýsa um.

Undirréttur (n, kk)  Lægra dómstig, en dómum þess má áfrýja til æðra dómstigs.

Undirristuspaði (n, kk)  Ristuspaði; amboð með skeftu blaði sem notað er til að rista upp torfþökur og slétta undir þær.

Undirritun / Undirskrift (n, kvk)  Nafn manneskju sem hún hefur ritað undir skjal, oftast til staðfestu.

Undirróður (n, kk)  A.  Það að róa bát ásamt því að hafa segl uppi, t.d. ef byr er lítill.  B.  Líkingamál um áróður sem ekki er sýnilegur.

Undirrót (n, kvk)  A.  Rót plöntu, trés.  B.  Líkingamál; orsök; tildrög máls.

Undirræðari (n, kk)  Ræðari á selveiðibát/vöðubát.  Vöðubátar voru um tíma gerðir út frá Patreksfirði, og urðu sumir þeirra róðrarbatar frá Kollsvíkurveri.  Þrír menn voru á hverjum vöðubáti; skutlari og tveir undirræðarar.  „Þann vetur var ég annar undirræðari Björns, en Pétur hinn“. (Guðm. Sigurðsson Breiðuvík).

Undirsáti (n, kk)  Þegn; sá sem er undir annan settur t.d. að valdi/tign/mannaforráðum.

Undirseldur (l)  Háður; ofurseldur.  „Ég er undirseldur hans ákvörðunum í þessu efni“.

Undirseta (n, kvk)  Um það að sitja á bjargbrún og halda við vað; gefa niður sigmann eða draga hann upp.  „Misjafnlega marga þarf til undirsetu eftir aðstæðum og eftir því hvað gert er í bjarginu.  Einn maður getur haldið við annan í léttum og stuttum lás.  Hinsvegar þarf fleiri ef lásinn er erfiður og enn fleiri til siga.  Í löngum loftsigum, t.d. í Látrabjargi, þarf að lágmarki 12 hrausta undirsetumenn“.

Undirsetumaður (n, kk)  Sá sem situr undir vað á bjargbrún; sá sem er í undirsetu.

Undirsinkuð (l)  Um skrúfu; með haus sem er flatur að ofan en kóniskur að neðan, og fellur því sléttur að yfirborðinu, t.d. ef snarað er úr borgati hennar með úrsnara.  „Sinka“ er þarna í merkingunni „sökkva“.

Undirsjór (n, kk)  Undiralda; þung bára, stundum undir vindbáru.  „Reyndist það og svo, því að þeim mun lengra sem úteftir kom jókst vindur, og var nú kominn talsverður undirsjór“  (ÖG; Þokuróður).  „Oft kom undirsjór og var þá brim við lendingu“  (FÓT; Smiður í fjórum löndum).  „Ekki er fært sundið milli Nesboðans og lands nema lítill sé undirsjór“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Undirskál (n, kvk)  Lítill diskur sem hafður er undir bolla til að taka við því sem kann að leka af börmum hans.

Undirsláttur (n, kvk)  Stoð sem slegin er undir eitthvað, því til stuðnings og uppihalds.  T.t. stoðir undir mót þegar loftplata er steypt í hús.

Undirstaða (n, kvk)  Grundvöllur; grunnur; það sem eitthvað hvílir/stendur á.

Undirstefni (n, kk)  Neðri hluti stefnis á bát þegar það er smíðað í tveimur hlutum.

Undirstinga (s)  Gera viðvart; leggja á ráðin; biðja um á laun.  „Ég ætti nú kannski að undirstinga hann með að færa mér fáeinar grásleppur ef þeir fara í vitjun á morgun“.

Undirstokkur / Undirsylla (n, kk/kvk)  Aurstokkur; láréttur neðsti biti í grind timburhúss.

Undirstraumur (n, kk)  Straumur á nokkru dýpi í sjó eða vatni.  Straumur getur verið í aðra átt á nokkru dýpi heldur en hann er í yfirborðinu, og geta verið fyrir því ýmsar ástæður; t.d. vindáhrif.

Undirsæng (n, kvk)  Sæng/dýna sem höfð er undir manni í rúmi.  „Í síðustu viku vetrar eða fyrstu viku sumars var flutt í Verið; helst alltaf á laugardegi.  Áhöldin voru ekki margbrotin; góð yfirsæng, en oft var notast við heydýnur í stað undirsængur“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Flestir höfðu einhverjar undirsængur og rúmföt (í búðum í Verinu)“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Undirtektir (n, kvk)  Viðbrögð við ummælum eða verknaði.  „Tillagan fékk jákvæðar undirtektir“.

Undirtún (n, hk)  Neðra tún; neðri hluti túns.

Undirtylla (n, kvk)  Undirmaður; lágt settur einstaklingur.  Oft viðhaft í niðrandi merkingu.

Undirtök (n, hk, fto)  A.  Tak sem gefur manni yfirburði í slagsmálum.  Líklega kennt við að maður nái utanum andstæðinginn undir höndum hans.  B.  Líkingamál um betri stöðu t.d. varðandi málefni; hafa undirtökin.

Undirúfur (n, kk)  Eitt umfara í byrðingi báts, en þau voru stundum nefnd þannig:  Kjölur; fráskotsborð/kjalsíða/farborði; undirúfur; yfirúfur; hrefna/hrefni; sjóborð; sólborð; rimaborð; borðstokkur.

Undirvaningur (n, kk)  Lamb sem vanið hefur verið undir nýja móður.  „Mér sýnist að kindin sé alveg búin að taka undirvaningnum“.  „Undirvaningurinn er töluvert vænni en bróðir hans, sem gekk undir móðurinni“.

Undirverð (n, hk)  Verð sem er undir gangverði/ eðlilegu verði. 

Undirvísa (s)  Fyrritíðar dönskusletta; kenna; segja til; leiðbeina.

Undra (s)  Furða; kynja; þykja undarlegt/einkennilegt.  „Það er ekki að undra þó sjór sé í bátnum; neglan hefur farið úr“.  „Það skyldi engan undra þó verkið sækist seint, með svona vinnulagi“!

Undra- Forskeyti ýmissa orða til áherslu; s.s. undrafagur; undragáfaður; undragóður; undrahlýr; undralangur; undraskjótt; undrasterkur; undratæki; undravald

Undra sig á (orðtak)  Furða sig á; finnast einkennilegt.  „Ég undra mig á því að þetta skuli ekki hafa verið fundið upp fyrr, eins einfalt og þarft og það nú er“.  „Ég vil þó geta þess að ærpeningur á Lambavatni er þunnholda undan sumrinu; en á vorin eru þær í ágætu standi.  Þeir fóðra því ær; og lömb sérstaklega, að mínu áliti best; einkum Egill.  Undrar mig oft á því eldi er gemlingarnir hjá honum hafa fengið…„“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Undrandi (l)  Forviða; hissa.  „Ég undrandi og hissa á viðtökunum varð/ og vildi í flýti þaðan burtu ganga./  En rétt í þeirri andrá ég gekk útfyrir garð/ og ganaði þá beina leið á Manga“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Undrasnöggur (l)  Mjög fljótur/snar/snöggur.  „Hann var undrasnöggur að grípa gogginn og keyra í lúðuna“.

Undrast um (orðtak)  Verða áhyggjufullur; velta fyrir sér afdrifum.  „Ég fer nú að undrast um þá; þeir ættu að vera komnir fyrir löngu“.

Undravel (ao)  Svo vel að furðu sætir.  „Konráðsvarða er undravel hlaðin“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Undraverður (l)  Merkilegur; eftirtektarverður; mikil býsn.  „Það er undravert hvað sárið hefur gróið vel“.

Undrun (n, kvk)  Furða.

Undrunarefni (n, hk)  Tilefni undrunar; það sem vekur furðu.  „Mér var það nokkuð undrunarefni hvernig þetta hefði getað gerst“.

Undrunarmerki (n, hk, fto)  Hann sýndi engin undrunarmerki þegar við sögðum honum frá þessu; heldur sagðist hafa haft nokkurn grun um það“.

Undur (n, hk)  A.  Furða; býsn; það sem vekur undrun.  „Þetta þótti undrum sæta“.  B.  Yfirnáttúrulegur viðburður, sbr Fróðárundrin.  C.  Það sem er yfirdrifið; ofgnótt.  „Þarna voru undrin öll af músum“.

Undur (ao)  Mjög; afar.  „Honum þótti undur vænt um afastrákinn“.

Undur og býsn / Undur og ódæmi (orðtak)  Mikið magn.  „Þarna fann ég undur og ódæmi af berjum“.

Undur og stórmerki (orðtak)  Mikil býsn; undravert.  „Það má kalla það undur og stórmerki að hann sé loksins búinn að koma þessu í verk“!  Fyrrum notað um það sem þótti yfirskilvitlegt eða kraftaverk/jarteikn.

Undur-  Forliður margra orða.  T.d. undurfallegur; undurgóður; undurvarlega o.fl.

Unga (s)  Um egg; farinn að þroskast ungi; orðið eygt.  „Það var dálítið farið að unga á þessum stað“.

Unga út (orðtak)  Fá unga úr eggi.  „Hænan er búin að unga út“.

Ungaaldur (n, kk)  Bernska; barnsaldur.  „Börnin búa lengi að því sem þau venjast á ungaaldri“.

Ungabarn / Ungbarn (n, hk)  Smábarn.

Ungað (l)  Um egg; byrjaður að þroskast ungi.  Þegar egg ungar byrjar það fyrst á að stropa.  Síðan myndast unginn; fyrst augun, en þá er eggið sagt vera eygt.  Síðan kemur vísir að goggi og þá hver líkamsparturinn af öðrum.  „Þetta egg er ekkert ungað; það er bara rétt orðið setið“!

Ungahæna (n, kvk)  Hæna með unga; hæna sem liggur á eggjum.  „Gefðu ungahænunni í sér ílát“.

Ungahljóð (n, hk)  Sérstakt gagg sem hænur gefa frá sér þegar þær eru með unga.  „Ungahljóð er nokkuð fjölbreytt eftir því hvað þær þurfa við þá að ræða“  (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Ungakvikindi / Ungakríli / Ungapísl (n, hk/kvk)  Gæluorð um fuglsunga.  „Það þyrfti að ganga um og tína ungakvikinin úr óslægjunni áður en slegið er“.  „Ég held að þessi ungapísl sé eitthvað að hjarna við í hlýjunni“.

Ungastía (n, kvk)  Stía/hólf sem útbúið er fyrir unga, svo unnt sé að gefa þeim fóður sér í lagi.  „Ungastía var útbúin undir hefilbekknum í verkfærahúsinu“.

Ungdómsbrek (n, hk, fto)  Barnabrek; barndómsbrek; óknyttir/skammir sem menn gera af sér sem börn, og litið er mildum augum vegna ungs aldurs.

Ungdómur (n, kk)  A.  Æska; unglingsár; tími barnæsku.  B.  Æskulýður; ungt fólk; börn.  „Hún sagðist bara ekki skilja tónlistarsmekk ungdómsins í dag“.

Ungdæmi / Ungdómsár / Unglingsár (n, hk)  Uppeldisár; barnsár.  „Þótt ekki tíðkuðust jólagjafir í mínu ungdæmi, var það svo margt sem gladdi á jólunum“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).   „Í mínu ungdæmi þekktist fæst af þeim lúxus sem menn telja ómissandi í dag“.  „Það eru mínar leiðustu minningar frá unglingsárunum“  (IG; Æskuminningar). 

Ungfugl (n, kk)  Fugl sem nýlega er kominn á flug og e.t.v. fyrstu árin eftir það.  „Meðan máfur var skotinn á fluginu var helst reynt að ná ungfuglinum, enda er hann bestur til átu“.

Ungi (n, kk)  A.  Ungur fugl.  B.  Gæluheiti um lítið barn. 

Unglamb (n, hk) A.  Lamb.  B.  Líkingamál um manneskju:  „Það tók mig tíma að klórast niður klettinn; maður er nú ekkert unglamb lengur“!

Unglegur (l)  Lítur út fyrir að vera yngri en hann/hún er.

Unglingur / Ungmenni (n, kk)  Ung manneskja; táningur.

Ungmennafélag (n, hk)  Fjölmennt var í Kollsvík á fyrstu áratugum 20. aldar.  Þar var árið 1916 stofnað Ungmennafélagið Vestri, og rak það öfluga starfsemi um langan tíma.  T.d. voru félagsmenn 35 árið 1918.  M.a. gaf það út blaðið Geisla; hélt tvo fundi í mánuði yfir vetrartímann; hélt uppi öflugu forvarnarstarfi; stóð fyrir söngkennslu og söng í Breiðavíkurkirkju; stóð fyrir ýmsum samfélagsverkefnum; byggði upp lendingarvörður; lagði hestfæran veg um Flosagil; hélt úti kartöflurækt í Breiðavík og gerði veg uppúr Kollsvíkinni.  Innan félagsins starfaði sérstök íþróttadeild, í greinum s.s. skíða- og skautaíþróttum, sundi og glímu.  Starfsemin hafði að mestu fjarað út 1927.  Enduróm af starfsemi félagsins mátti glöggt heyra út alla 20. öldina, t.d. í söngáhuga og félagsstarfi þeirra sem lifðu þessa tíma.  „Margur mun búa ævilangt að þeim áhrifum, sem hann hefur orðið fyrir í ungmennafélagi í æsku sinni" (ummæli Valdimars Össurarsonar (eldri) um Umf. Vestra í riti U.M.F.Í.). 
Fleiri ungmennafélög störfuðu í Rauðasandshreppi, sem gefur hugmynd um mannlíf og grósku fyrr á tíð:  Umf. Baldur var stofnað í Örlygshöfn 1909 og náði yfir allan hreppinn nema Rauðasand.  Það starfaði mikið á sviði íþrótta en einnig framkvæmda; lagði t.d. veg um Fjörurnar, milli Gjögra og Sellátraness.  Baldur hefur sennilega starfað framyfir 1920. 
Umf. Von var stofnað 1910 og starfaði á Rauðasandi.  Á því var alla tíð mikill menningarbragur.  Það gaf út blaðið Dverg; starfrækti mállýtanefnd; sá um bréfburð; stóð fyrir jólatrésskemmtunum; álfadansi og dansleikjum, söfnunum í þágu fátækra, kartöflurækt, eflingu handavinnu, trjárækt o.fl.  Von byggði sér steinsteypt samkomuhús, það sem enn stendur.
Umf. Smári var stofnað 1935 og starfaði í Sauðlauksdalssókn.  Líkt og fyrri félög stóð það fyrir ýmiskonar menningarstarfi og framkvæmdum.  Átti það sinn þátt í byggingu félagsheimilisins Fagrahvamms í Tungulandi.  Það mun hafa lokið starfsemi fyrir 1950.

Ungnautaket (n, hk)  Ket af stálpuðum kálfum.  Hefur orðið vinsæl söluvara á síðari tímum, t.d. í skyndimat.

Ungt og leikur sér (orðtak)  Hinum eldri verður oft að orði þegar gáski hinna yngri er áberandi:  „Þetta er ungt og leikur sér“. 

Ungur að árum (orðtak)  Ekki gamall.  „Ég var ungur að árum þegar þetta gerðist“.

Ungur má en gamall skal (orðatiltæki)  Speki sem lýtur að dauðanum; nokkuð sem hent getur hina ungu, en er að lokum óumflýjanlegt fyrir hina öldnu.

Ungur nemur það gamall temur (orðatiltæki)  Spakmæli um gagnsemi þess fyrir börn og ungmenni að læra af hinum eldri og reynslumeiri.

Ungviði (n, hk)  Það sem er ungt, t.d. börn, lömb, kálfar, ungar o.fl.  Merkir í raun trjáplanta eða sproti.

Ungæði / Ungæðisháttur (n, hk)  Barnaskapur; barnabrek; óvitaleg hegðun barns.  „Þetta var nú gert í einhverjum ungæðishætti; við skulum ekki vera að dæma krakkagreyin of hart“.

Unna (s)  Elska.

Unna (einhverjum einhvers) (s)  Líta það velvildaraugum/jákvætt að einhver njóti einhvers.  „Ég get vel unnt honum þess að hafa verið kosinn formaður í minn stað.  Hann er vel að því kominn“.  „Hverfa mun nú hvorn sinn veg/ heim til garða sinna.  Engri konu ann þó ég/ ástarhóta þinna“ (JR; Rósarímur). 

Unna (einhverjum) sannmælis (orðtak)  Leyfa einhverjum að njóta síns réttlætis; dæma ekki án þess að taka tillit til málsatvika/málsbóta.

Unna sér engrar hvíldar / Unna sér hvorki svefns né matar (orðtak)  Vera svo upptekinn að maður víki frá sér hvíld og fæði.  „Hann unni sér hvorki svefns né matar fyrr en hann var búinn að finna hrútana“.

Unnur (n, kvk)  Alda; bylgja.  Einkum notað í skáldskap.  T.d. unnar jór = bátur ; unnar vangur = fjara.  „Eigi sjaldan öðrum fjær hjá unnar vangi/ er hann séður einn á gangi“  (JR; Rósarímur). 

Uppalinn (l)  Uppvaxinn; um æsku-/upprunastað.  „Ég er uppalinn á Láganúpi í Kollsvík“.

Unna sér hvildar (orðtak)  Hvílast; stoppa við.  „Þrír menn urðu að vera við dæluna og máttu vart unna sér augnabliks hvíldar“  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).

Unnið fyrir gýg (orðtak)  Gert/unnið til einskis/ í tilgangsleysi.  „Þetta var kannski ekki alveg unnið fyrir gýg“.  Gýgur merkir þarna tröllskessa, og vísar orðtakið til þjóðsagna.

Unnið spil (orðtak)  Um viðureign sem er sigruð/ vandamál sem er fyrirsjáanlega yfirstigið.  „Ég hélt að þetta væri unnið spil þegar ég hafði króað kindina af í girðingarhorninu, en hún smokraði sér þá bara undir“!

Unnt (l)  Gerlegt; framkvæmanlegt.  „Ég vil helst ljúka þessu í dag, ef það er unnt“.

Unnusta (n, kvk)  Kærasta; heitkona. 

Unnusti (n, kk)  Kærasti; eiginmannsefni.

Unnvörp (n, kvk)  Upphafleg merking er líklega öldugangur/bárur á sjó.  Einhverntíma hefur orðið einnig fengið merkinguna hrannir í fjöru/ þarabrúk í fjöruborði.  Nú einungis notað í líkingamáli:  „Bæir í Rauðasandshreppi hafa unnvörpum farið í eyði á síðustu áratugum“.  Örnefnið Umvarp í Kollsvík er af öðrum toga, en þar eru skil milli þurrlendis og mýrlendis.

Uns (st)  Þar til; þangaðtil.  „Við hinkruðum uns skúrin var gengin yfir“.  Lítið notað í talmáli nú á dögum.

Unun (orðtak)  Mikil ánægja/vellíðan; yndi.  „Það var haft eftir Gumma að… sér hefði verið sérstök unun að því að sjá bróður sinn sporðrenna með góðri lyst bita af lambsskrokknum sem hann hefði áður áfellst sig fyrir að þiggja af Hafliða vini sínum“  (PG; Veðmálið). 

Unun á að horfa (orðtak)  Gaman að fylgjast með; sem maður nýtur þess að sjá.  „Hann beitti hnífnum svo fimlega að unun var á að horfa“.

Upp (ao)  Neðan; neðanfrá.

Upp að unna (orðtak)  Gjalda; vera skuldbundinn/skuldugur við.  „Hann hefur verið mér andsnúinn í þessu máli, og ég á honum því ekkert gott upp að unna“.

Upp á (orðtak)  A.  Vegna; í tilefni af.  „Ég pantaði hálfkassa af eplum og appelsínum upp á jólin“.  B.  Um nákvæmni:  „Hann sagðist vita það upp á mínútu hvenær tófan myndi birtast við niðurburðinn“.

Upp á (eitthvað) að gera (orðtak)  Viðvíkjandi; vegna.  „Það skiptir litlu máli, upp á aflann að gera, hvernig gúmmíið á krókunum er á litinn“.  Stundum sleppt „að gera“ til hægðarauka.  „Þetta gæti alveg staðist hjá honum; upp á tímann“.

Upp á aðra kominn (orðtak)  Háður öðrum; háður aðstoð/velvild annarra.  „Ég vil ekki vera upp á aðra kominn í þessum efnum“.

Upp á arminn (orðtak)  Í félagsskap við.  Oftast notað um fylgd konu með karlmanni á almannafæri.  „Mér sýndist að hann væri kominn með einhverja nýja upp á arminn“.

Upp á árið (orðtak)  Til alls ársins.  „Þegar ég var barn var róið á hverju sumri og fiskað upp á árið í salt; enda var lífið saltfiskur; við átum hann í flest mál“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Upp á eigin spýtur / Upp á sitt eindæmi (ortak)  Einsamall; fyrir eigin rammleik; án aðstoðar; hjálparlaust. „Hann lærði rússnesku alveg upp á eigin spýtur; með því að pæla í gegnum texta með orðabókum og hlusta á framburð af plötum“.  „Þetta tókst honum upp á sitt eindæmi“. „Ári varstu nú seigur; að ná fjárhópnum í réttina upp á eigin spýtur“!  Mun vísa í það þegar spilað var upp á litlar spýtur/eldspýtur.

Upp á eindæmi (orðtak)  Einsamall; án aðstoðar.  „Þessa skrá hef ég unnið upp á mitt eindæmi, og því er hún alfarið á mína ábyrgð“.  „Hann gerði þetta alveg upp á sitt eindæmi“.

Upp á einhvern kominn (orðtak)  Háður einhverjum.  „Það er vont að vera upp á aðra komin með ferðir“.

Upp á einhvers hrygg (orðtak)  Á ábyrgð einhvers.  „Þú ræður hvort þú ferð einn með reksturinn, en það er þá upp á þinn hrygg ef hann tvístrast á leiðinni“.  „Það er algerlega upp á hans hrygg að gleyma þessu“.

Upp á gamla mátann/móðinn (orðtak)  Eins og áður/fyrr var gert.  „Nú eru þeir farnir að stunda sæðingar á kúm.  Hvað skyldi mannfólkið lengi geta gert þetta upp á gamla mátann“?

Upp á gátt (orðtak)  Um dyr/glugga o.fl; alveg opið.  „Dyrnar stóðu upp á gátt“.

Upp á hár (orðtak)  Nákvæmlega; svo engu skeikar.  „Þetta veit ég uppá hár“!  Vísar líklega til þjóðsögunnar um viðureign Sæmundar fróða við Kölska; eða öllu heldur viðureign hjúa þeirra.  Vinnustúlka Sæmundar stalst til að blása í töfraflautu hans, en við það spratt upp púki sem heimtaði verkefni.  Hún skipaði honum að telja hárin á öllum gærum Sæmundar, sem lágu úti á Oddatúni að lokinni slátrun; næði hann því áður en hún væri búin að búa um rúmið mætti hann eiga sig.  Til mikils var að vinna og kepptist púkinn við að telja.  Hann átti þó einn skækil eftir þegar stúlkan var búin, og varð því af vinningnum.

Upp á hvað spyrðu? (orðtak)  Hversvegna ertu að spyrja að því?  Í hvaða tilgangi spyrðu að þessu? 

Upp á kant (orðtak)  Í illdeilum við; ósammála; á öndverðum meiði.  „Enn eru þeir upp á kant; skyldu þeir aldrei vera sammála um nokkurn skapaðan hlut“?

Upp á kost og lóss hjá (einhverjum) (orðtak)  Á kostnað (einhvers); í fæði og húsnæði hjá (einhverjum).  „Ég verð upp á kost og lóss hjá honum meðan á verkinu stendur“.  Merkir eiginlega að einhver sé í fæði annars og á hans ábyrgð.  Kostur = fæði; lóss = leiðsögn.

Upp á kraft (orðtak)  Af krafti; í djöfulmóð.  „Það var ekkert annað en fara að ausa upp á kraft og leggja upp árar og þverreisa sem kallað var“  (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004).

Upp/út á krít (orðtak)  Í skuld; í reikning.  „Ég fékk dálítið salt upp á krít hjá útgerðinni“.  Sjá krít.

Upp á kvenhöndina (orðtak)  Kvenhollur; kvensamur; veikur fyrir kvenfólki.  „Kerlu þótti nóg um hvað karlinn var mikið uppá kvenhöndina“.

Upp á líf og dauða (orðtak)  Eins og lífið ætti að leysa; til að bjarga lífinu.  „Nú var valið gott lag og þeim bent að taka brimróðurinn upp á líf og dauða“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   

Upp á mitt/sitt besta (orðtak)  Í besta formi; vel hress; vel virkur.  „Ég var ekki upp á mitt besta í þessu hlaupi“.  „Af mér er allt gott að frétta, annað en það að heilsan hefur ekki verið upp á sitt besta að undanförnu“.

Upp á nýtt (orðtak)  Að nýju; aftur; frá byrjun.  „Ég ruglaðist í talningunni og þurfti að byrja upp á nýtt“.

Upp á punkt og prik (orðtak)  Nákæmlega; til fulls/hlítar; algerlega.  „Hann greiddi þetta upp á punkt og prik“.  „Ég lærði þetta allt utanbókar; upp á punkt og prik“.

Upp á punt (orðtak)  Til skrauts/skreytinga.  „Reyndu nú að hjálpa aðeins til; heldurðu að þú sért þarna bara uppá punt“?!

Upp á seinni tímann (orðtak)  Með tilliti til framhaldsins; til síðari tíma.  „Ég held að það væri nú gott hjá þér að kunna skil á þessu, svona uppá seinni tímann; það er aldrei að vita hvenær það kemur að notum“.

Upp á sitt/mitt besta (orðtak)  Í besta formi; best upplagður.  „Þegar ég var uppá mitt besta gat ég hlaupið uppi hverja kind, og engan vissi ég betri í spretthlaupi“.

Upp á sitt eindæmi (orðtak)  Einn og sjálfur; aleinn; hjálparlaust.  „Ég get gengið frá aflanum upp á mitt eindæmi, en ég þyrfti aðstoð til að setja bátinn“.

Upp á síðkastið (orðtak)  Í seinni tíð; nýlega; að undanförnu.  „Ég hef verið frekar slappur upp á síðkastið“.

Upp á við / Upp í móti (orðtak)  Upp; neðan.  „Heldur sýnist mér kindin vera að þokast uppávið í flesinu“.  „Ansi er þetta orðið bratt uppímóti eftir að maður fór að eldast“!

Upp á von og óvon (orðtak)  Í óvissu; án vissu um niðurstöðu/árangur.  „Ég hafði ekki hugmynd um hvar hrútarnir gætu verið, en ákvað uppá von og óvon að kíkja fram í dalbotninn“.

Upp á það að gera (orðtak)  Til þess; í þeim tilgangi/ því augnmiði; þannig séð.  „Ég ætla að hringja og láta vita að hann sé kominn alla leið, uppá það að gera að þeir fari ekki að leita að honum“.  „Það þyrfti að laga hliðgrindina; uppá það að gera að hver sem er geti lokað hliðinu“.

Upp á von og óvon (orðtak)  Í tvísýnu; án þess að vita árangur fyrirfram.  „Ég var orðinn beitulaus, en skar úr þorski og beitti ljósabeitu; svona upp á von og óvon.  Á hana fékk ég nokkra fiska í viðbót“.  „Ég fór þarna frameftir í von og óvon; það gat hugsast að rolluskjáturnar hefðu rólað aftur á sinn stað“.

Upp á æru og trú / Upp á tíu fingur  (orðtök)  Loforð/heitingar.  „Ég lofaði upp á æru og trú að hrekkja hana aldrei aftur“.  „Hann lofaði upp á sína  tíu fingur að muna eftir þessu“. Sjá lofa upp á æru og trú.

Upp frá því (orðtak)  Þaðan í frá; frá þeim tíma.  „Hann sagðist bara vera hættur þessum fjandans reykingum og snerti ekki reykjarpípu upp frá því“.

Upp í klof/kluftir/klyftir (orðtök)  Upp í klof.  „Strákurinn varð forblautur upp í klof af að vaða í blautu grasinu“.  „Kýrin sökk upp í kluftir í seilinni; en yfir komst hún“.  Einatt notað „kluftir“ en ekki „klyftir“. 

Upp á konungsnef / Upp á bóga / Upp í júgur / Upp í kvið (orðtök)  Mælieiningar um hvað t.d. vatn, skítur eða mýri nær hátt á skrokk nautgrips.  „Því skyldi Búbót vera svona forug upp á konungsnef“?  „Halabandið hafði losnað og hún var búin að mála sig upp á bóga með forinni úr flórnum“!  „Kýrin sökk í kvið í seilinni, en náði að rífa sig upp upp og snúa við“.

Upp í loft (orðtak)  Viðsnúinn; það upp sem vanalega snýr niður.  „Láttu nú ekki hrífutindana snúa upp í loft; þá fáum við ofaní heyið“!

Upp í miðjar hlíðar (orðtak)  Um sjólag eða þoku.  „Hann gerði þvílíkt stólpabrim af vestri að gekk upp í miðjar hlíðar“.  „Hann liggur með sjólæðu í miðjum hlíðum hér norður um“.

Upp í opið geðið á (orðtak)  Um framkomu; sagt blákalt við.  „Hann fullyrti það uppí opið geðið á honum að hann hefði stolið þessu“.

Upp í skít (orðtak)  Um lyst búfjár á fóðri; upp til agna.  „Féð hefur étið fiskslógið alveg upp í skít“.

Upp í veðrið/vindinn (orðtak)  Móti vindáttinni.  „Gangan verður öll upp í veðrið hjá okkur á bakaleiðinni“.

Upp koma(st) svik um síðir (orðatiltæki)  Svik uppgötvast jafnan, þó unnt sé að leyna þeim í fyrstu. 

Upp með sér (orðtak)  Hreykinn; montinn; drjúgur.  „Strákurinn er heldur betur upp með sér af lambinu“.

Upp og niður/ofan (orðtak)  Svona og svona; með ýmsu móti; allavega; vel og illa.  „Honum gekk upp og niður með námið“.  „Mér hefur gengið upp og ofan að skilja hvað fyrir þeim vakir“.  „Fyrir hverja kú hefur verið lagt 100 til 120 álnir og hér á Sandinum 25-35 ánir fyrir hest, og 4 til 6 álnir fyrir kind; upp og ofan“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1923). 

Upp til agna (orðtak)  Alveg; gersamlega.  „Fóðurbætirinn klárast upp til agna á morgun“. 

Upp til hópa (orðtak)  Í heildina; flestallir.  „Upp til hópa eru þetta dugnaðarforkar, þó finna megi einn og einn drösul innanum“.

Upp úr eins manns hljóði (orðtak)  Um það þegar maður byrjar að tala en aðrir viðstaddir þegja.  „Allt í einu segir hann upp úr eins manns hljóði; Nú þarf ég að reka við“.

Upp úr og niðurígegn (orðtak)  Alveg ofanfrá og niðurúr.  „Vatnið er botnfrosið og krosssprungið; alveg uppúr og niðurígegn“.

Upp úr sér (orðtak)  Um tilbúning/lygi/skáldskap.  „Sögurnar voru sumar sannar; aðrar hálfsannar, en sumar bjó hann til upp úr sér um leið og hann sagði frá“.

Upp úr þurru (orðtak)  Þegar talað er skyndilega/óvænt.  „Allt í einu sagði hann, uppúr þurru, að hann þyrfti að fara að drífa sig af stað“.  Vísar til óvæntrar rigningar.

Upp úr öllu valdi (orðtak)  Skefjalaust.  Oftast notað um verðlag.  „Enn hækka þeir áburðinn upp úr öllu valdi“!

Uppalandi (n, kk)  Sá sem elur upp; sá sem sér um uppeldi.  „Síðar þótti því bregða fyrir, þegar báðir komust á fullorðinsár, að Júlli hefði ekki vaxið uppúr hlutverki uppalandans gagnvart Gumma“  (PG; Veðmálið). 

Uppalinn (l)  Alinn upp; siðaður.  „Hvernig er ungdómurinn eiginlega uppalinn nú til dags“?!

Uppalningur (n, kk)  A. Sá sem alinn/fóstraður er upp/ siðaður er til.  B.  Nðirandi heiti um þann sem þykir illa uppalinn.  „Þetta er nú meiri uppalningurinn“!

Upparta / Uppvarta (s)  Þjóna; gera vel við.  Dönskusletta; „opvarte“.  Oftast var notuð v-lausa útgáfan í máli Kollsvíkinga.  „Þú skalt ekki að vera að upparta okkur með kaffi; við stoppum ekkert núna“.

Uppaustur (n, kk)  Það að ausa upp; það sem ausið er upp; mok; austur.  „Við Gamla fjósið var hlandfor og á henni hlemmur.  Ausið var úr henni með fötu í bandi.  Fyrrum var uppaustrinum mjatlað á tún en á síðari notkunarárum hlandþróarinnar var honum sturtað nðurfyrir kantinn“.

Uppá (ao)  A.  Upp á.  B.  Vegna; til að.  „Þá var farið á flot, eftir því hvernig stóð á straum; það varð að fara eftir straum, uppá lagninguna“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  C.  Nærri landi.  „Svo missir Björgvin út aðra árina þegar við vorum komnir nokkuð grunnt uppá“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Uppá kost og lóss hjá (inhverjum) (orðtak)  Á framfæri einhvers.  „Hann bauð mér að vera hjá þeim uppá kost og lóss meðan ég kláraði verkefnið“.  Kostur er fæði; lóss er leiðsögn/umönnun.

Uppá vantar (orðtak)  Vanhagar um; á skortir.  „Ég kem á morgun með það sem uppá vantar“.

Uppá vatn og brauð (orðtak)  Vísar í refsingar fyrrum, að maður sé dæmdur til fangavistar og þurfi að láta sér nægja vatn og brauð til viðurværis.  „Ef þú étur ekki það sem að þér er rétt þá verðurðu bara uppá vatn og brauð það sem eftir er dagsins“!  Í Búalögum forðum var reyndar rætt um að dæma menn uppá vatn og fisk.

Uppábrot (n, hk)  Brot sem gert er fremst á t.d. húfu, skálm eða ermi til styttingar; þannig að ysti hluti tvöfaldast.  „Ég var með máfinni í sigti, en þá fauk uppábrotið á húfunni niður í augun á mér“.

Uppábúinn (l)  Spariklæddur; vel til hafður.  „Hann er uppábúinn og tilbúinn í ferðalagið“.

Uppáfallandi (s)  Tilviljun; ófyrirséð.  „Þessi ferð í dag var alveg uppáfallandi; ég ætlaði ekki að fara fyrr en á morgun“.  „Það er nauðsynlegt að eiga eitthvað í sjóði fyrir uppáfallandi útgjöldum“.  Ekki verður séð að orðið hafi þekkst annarsstaðar í þessari merkingu.

Uppáferð (n, kvk)  Samfarir.  „Alveg er ég hneyksluð á þessu sjónvarpsefni sem ungdómnum er boðið upp á; þetta er lítið annað en manndráp og uppáferðir“!

Uppáfinning (n, kvk)  Uppátæki; uppátekt.  „Hvaða uppáfinningar skyldu þeir koma með næst“?!

Uppáfinningasamur (l)  Tekur upp á óþörfum/óþekktum athöfnum/hrekkjum.   „Gengu margar sögur um það hvað karlinn gat verið hrekkjóttur og uppáfinningasamur“.

Uppáhald (n, hk)  Sérstök væntumþykja; kær manneskja/gripur/staður.  „Það er nú ekki mitt uppáhald að sitja í svona samkvæmum“.  „Þessi staður er í sérstöku uppáhaldi hjá mér“.

Uppáhalds-  Forliður margra heita og vísar til væntumþykju/hrifningar á þeim.  T.d. uppáhaldshrútur o.fl.

Uppáhaldsdýr / Uppáhaldsgimbur / Uppáhaldsgripur / Uppáhaldshestur / Uppáhaldshrútur / Uppáhaldskind / Uppáhaldskýr / Uppáhaldsmjólkurkýr / Uppáhaldsreiðhestur / Uppáhaldsær (n, hk/kvk/kk)  Dýr sem eru í uppáhaldi; dýr sem manni þykir vænst um.  „Karlinn var gráti næst þegar hann sagði frá því að þegar hann stökk ofan í skurðinn til að draga kindina uppúr, lenti hann beint ofaná uppáhaldsgimbrinni sinni og steindrap hana með það sama“!

Uppáhelling / Uppáhellingur (n, kvk/kk)  Lögun, t.d. á kaffi.  „Vertu ekki að sötra gamla kaffið; það er ný uppáhelling á könnunni“.  Oftar þó í kk:  „Ætlar þú að sjá um uppáhellinginn núna“?

Uppákoma (n, kvk)  Ófyrirséð atvik/slys/staða, og oftast óvelkomin.  „Þetta er ljóta uppákoman; hrúturinn hefur sloppið í ærnar“!

Uppáleggja (s)  Skipa fyrir; mælast til.  „Ég uppálagði honum að koma við í Kaupfélaginu og fá kaffi“.  „Ég geri bara akkúrat það sem mér var uppálagt, og ekkert þar framyfir“!

Uppáskrifað / Uppáteiknað (l)  Áritað; undirritað.  „Hann var með bréf uppá þetta; uppáskrifað af sýslumanni sjálfum“.  Fyrri orðmynd; „uppáteiknað“ brá stundum fyrir á seinni árum.

Uppáslást (s)  A.  Um net; þinur slæst uppá/yfir netastein/netakúlu/flot eða annað, þannig að netið verður ekki eins fiskið og endranær.  B.  Yfirfærð merking; koma uppá; slysast; ske; falla til.  „Vertu ekki að gera ferð á Eyrar bara til að sækja þetta; við skulum sjá hvort eitthvað uppáslæst; kannski fellur til einhver ferð“. 

Uppáslegið (l)  Um net; þinur kræktur utanum endastein/niðristöðustein, netakúlu eða annað.  „Hér er eitthvað uppáslegið síðan í lagningunni“. 

Uppásnúið (l)  Snúið uppá.  „Það er ekki von að veiðist í netið, svona uppásnúið“!

Uppásnúningur (n, kk)  Vindingur; snúður.  „Ég tók í sundur á netamætum og náði uppásnúningnum af“.

Uppástand (n, hk)  Skilningur; meining; fullyrðing.  „Mitt uppástand er það að með þessum lögum eigi að leggja sveitirnar í eyði“.

Uppástanda (s)  Skilja; meina; halda fram; fullyrða; standa uppá.  „Hann uppástendur að hann hafi fengið þetta að gjöf, og neitar að borga“.  „Ég vil uppástanda að þetta sé með öllu ólöglegt“.

Uppástunga (n, kvk)  Tillaga; hugmynd.  „Einn kom með þá uppástungu að „skreppa“ út á Stíg“.

Uppástöndugheit (n, hk, fto)  Hroki; andstaða; uppreisn.  „Það þýðir ekki fyrir neinn að vera með uppástöndugheit; hér er það ég sem ræð“!  „Hann þótti sýna uppástöndugheit á fundinum“.

Uppástöndugur (l)  Kjaftfor; hrokafullur.  „Mér þykir þú heldur uppástöndugur drengur; að svara verkstjóranum svona uppi“!

Uppátæki (n, hk)  Hugdetta; fikt; fráleitur verknaður.  „Þetta er svosem eins og önnur furðuleg uppátæki hans“!

Uppátækjasamur (l)  Dettur margt skrýtið í hug; hrekkvís.  „Alltaf er hann jafn uppátækjasamur sá skúnkur“!

Uppáþrengjandi (l)  Ágengur.  „Skelfing geta þessir sölumenn verið uppáþrengjandi þegar mest er að gera“!

Uppbelgdur (l)  Kviðfullur; saddur; uppbólginn.  „Mikið er maður uppbelgdur eftir allt þetta át“!

Uppbinding / Upphnýting (n, kvk)  Það að binda upp, t.d. net á flottein.  „Það þarf að nota almennilegt netagarn í upphnýtinguna; þessi tvinni bilar strax“!

Uppbirta (n, kvk)  Hlé í úrkomu; uppstytta; upprof.  „Er bara engin uppbirta enn“?

Uppblásinn (l)  Um jarðveg; rofinn af sandfoki/uppblæstri.  „Þessi melur er ansi illa uppblásinn“.

Uppblástur (n, kk)  Jarðvegseyðing vegna vindrofs.  „Töluverður uppblástur er í Láganúpslandi, niðri við sjóinn, en mismikill milli ára.  Ekki er ólíklegt að þar viðgangist hringrás sem er í jafnvægi á löngum tíma“.

Uppboð (n, hk)  Sala hlutar til þess sem best verð býður.  Oft opinber nauðungaraðgerð, t.d. við gjaldþrot.

Uppbógur (n, kk)  Annar leggurinn í krusi (beitivindi), þ.e. þegar siglt var nær landinu.   Hinn leggurinn, í átt frá landi, nefndis frábógur.  „Nú tek ég eftir að á þessum uppbóg munum við verða nokkuð nærri boðanum“ (KÓ um róðra úr Kollsvík).

Uppbólga (n, kvk)  Árennsli; þykkt staðbundið svell við vatnsuppsprettu.  „Uppbólgan á hlíðinni er hættuleg“.  Í miklum frostum geta uppbólgur orðið áberandi í mýrlendi, þar sem uppsprettuvatnið brýtur sér leið uppúr ísnum; frýs og getur myndað verulega háa íshóla.  Þannig uppbólgur voru t.d. áberandi í Láganúpsmýrum frosta- og ísaveturinn1968.

Uppbót (n, kvk)  Viðbót; ábót; viðauki; bónus; sárabætur; skaðabætur.  „Ég lét hann hafa ný net sem uppbót fyrir það sem eyðilagðist af hans netum í norðangarðinum“.

Uppbótarmaður / Uppbótarþingmaður (orðtak)  Þingmaður sem nær kjöri vegna reiknireglna um atkvæðavægi stjórnmálaflokka í kosningum.

Uppbrunnið (l)  Um kerti eða annað; brunnið að fullu. 

Uppburðarlaus (l)  Kjarklítill; óframfærinn.  „Þú ert alltof uppburðarlaus; þú verður að segja þína meiningu fullum fetum og standa fast á þínum rétti“!

Uppburðarleysi (n, hk)  Óframfærni;kjarkleysi.  „Það þýðir ekkert að vera með eitthvað uppburðaleysi þegar eiga þarf við þessi stjórnvöld.  Best er að einbeita sér að æðstu stjórnendum“.

Uppburðarlítill (l)  Kjarklaus; óframfærinn.  „Hann var uppburðarlítill þegar hann viðurkenndi mistökin“.

Uppburður (n, kk)  Framtak; döngun; kjarkur.  „Hann hafði þó enga uppburði til að koma þessu í verk“.

Uppbúið rúm (orðtak)  Rúm með sængum, tilbúið til að maður sofi í því.

Uppbyggður (l)  Byggður upp; gerður.  „Grundir eru uppbyggðar úr stekk fyrir 50 árum (ca 1650) eða þar um, og voru þá reiknaðar fyrir 3 hundruð“  (ÁM/PV Jarðabók).

Uppbygging (n, kvk)  Bygging; smíði; endurbygging; endurreisn.

Uppdaga / Uppgötva (orðtak)  Sjá; verða áskynja um; finna út.  Oftast var notað orðið „uppgötva“ en sumir tömdu sér að segja „uppdaga“, t.d. „faktor“ sá sem hér er sagður mæla:  „Um morguninn ég uppdagaði óttalega þraut;/ ég alsettur var heljarmiklum bólum./  Með þessar rosaskellur til Þóris læknis þaut,/ ég þreyttur var og linnti ekki gólum“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).    

Uppdikta (s)  Skálda; búa til; ljúga.  „Þessa vitleysu hefur hann uppdiktað til að láta aðra slúðra með“.

Uppdiktaður (l)  Uppspunninn; loginn.  „Ég held að þessi saga sé nú dálítið uppdiktuð hjá honum“.

Uppdráttur (n, kk)  A.  Teikning.  B.  Kröm; veikindi; svelti.  „Það er einhver uppdráttur í henni Gránu gömlu“.

Uppdreginn (l)  Dreginn upp.  „Farðu nú og skiptu um buxur drengur; þú ert eins og uppdreginn úr drullufor“!  „Hann var náfölur, eins og uppdreginn draugur af haug“.

Uppdrift (n, kvk)  Flotkraftur.  „Það er of mikil uppdrift í þessum stóru kubbum; netið verður alltof viðað“.

Uppdubbaður (l)  Fínn; snyrtilega til fara; uppstrílaður; uppgerður.

Uppeftir (ao)  Neðanfrá; að neðan; upp: í áttina upp.  „Ég gleymdi eldspýtunum uppi í reykkofa; ég ætla að hlaupa uppeftir og sækja þær“.

Uppeldi (n, hk)  Það að ala upp/ koma til manns.  „…og á þeim tíma tók Júlli að sjálfsögðu þátt í uppeldi litla bróður síns“  (PG; Veðmálið). 

Uppeldisatriði (n, hk)  Þáttur í uppeldi; aðferð við uppeldi.  „Mér finnst það nú bara uppeldisatriði þegar börn eru með svona heimtufrekju“.

Uppeldisdóttir / Uppeldissonur (n, kvk/kk)  Fósturbörn.

Uppeldisfaðir / Uppeldisforeldrar / Uppeldismóðir (n, kk, kvk)  Fósturforeldrar.

Uppferð (n, kvk)  Ferð/klifur upp kletta/bjarg; uppganga.  „Ég hafði fötu á hendi í uppferðinni og tíndi egginn sem voru næst vaðnum“.  „Gættu að þér í uppferðinni; það er lausamöl undir vaðnum þarna ofar“!

Uppétinn (l)  Étinn upp til agna; borðaður.  „Lágu þeir þar á hól einum, og var allur mosi og gras þar um kring uppétinn“.  „Taldi hann að ekki myndi verða fé til stórra framkvæmda í þessum málum á yfirstandandi ári, þar sem mikið af fjárveitingu þessa árs er áður uppétið“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Uppfinning (n, kvk)  A.  Patent; tækninýjung sem er einkaleyfishæf; hagnýt nýjung við tækilausn sem enginn hefur áður komið fram með.  „Sjávarfallahverfillinn sem fundinn var upp í Kollsvík er eina uppfinningin úr Rauðasandshreppi sem fengið hefur einkaleyfi, og eini hverfillinn sem fundinn hefur verið upp hérlendis“.  B.  Líkingamál; uppátæki.  „Hvaða uppfinning er þetta nú hjá fénu“?!

Uppfinningamaður (n, kk)  Hugvitsmaður; sá sem fyrstur kemur fram með hagnýta tæknilausn/uppfinningu.  Nokkrir uppfinningamenn hafa komið fram í Rauðasandshreppi á seinni árum.  Má þar nefna Ólaf Sveinsson á Sellátranesi sem þróaði fjölda tæknilausna sem hefðu margar hverjar átt möguleika á einkaleyfum; sama var efalaust um Guðbjart Egilsson á Lambavatni.  Ásgeir Erlendsson á Hvallátrum fann upp rúlluhlunninn; Ólafur Egilsson frá Hnóti fann upp melsláttuvélina og Valdimar Össurarson frá Láganúpi fann upp hægstraumshverfil“.

Uppfletting (n, kvk)  Það að leita að tilteknum fróðleik í riti.  „Þú verður á réttarveggnum og sérð um uppflettingar í markaskránni ef á þarf að halda“.

Uppflettirit (n, hk)  Bók með fróðleik, sem handhæg er til uppflettinga.

Uppflosnaður (l)  Sem hrakist hefur af búi/heimili sínu.  „Uppflosnað bændafólk leitaði oft í verin í harðindum fyrri alda, í von um einhverja matbjörg“.

Uppfóstra (s)  Ala upp; fóstra.

Uppfrá (ao)  U“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).ppi; þarna uppi.  „Ég ætla að skjótast upp í hornabúið; hinir strákarnir eru uppfrá“.+

Uppfræða (s)  Fræða; kenna; upplýsa.  „Fyrrum þótti það sjálfsögð skylda foreldra að uppfræða sín börn þannig að þau kæmu þokkalega læs í skólann og hefðu einhverja undirstöðu í flestum námsgreinum“.

Uppfræðsla (n, kvk)  Fyrri tíma heiti á kennslu.

Uppfylling (n, kvk)  Það sem fyllir uppí.  „Ég skrifaði skýringar neðanmáls til uppfyllingar á efninu“.

Uppfyrir (ao)  Upp og yfir; neðanfyrir.  „Drífðu þig og reyndu að komast uppfyrir kindurnar“!

Uppfæra (s)  A.  Taka upp/uppúr.  „Ætlar þú að uppfæra fiskinn úr pottinum“?  B.  Endurnýja, t.d. hugbúnað í tölvu.

Uppganga (n, kvk) A.  Staður þar sem farið er upp; vanalegast er þá átt við staði í bjargi. „Uppgangan á Bæjarvöllinn er einungis fær góðum bjargmönnum án vaðstuðnings.  „Yst er uppganga á hillurnar af Stórurð“  (DE; Örn.skrá Látrabjargs).  B.  Það að fara upp/klífa bjarg; uppferð.

Uppgangsár / Uppgangstími (n, hk/kk)  Tími velgengni/velmegunar.

Uppgangsbrim / Uppgangssjór / Uppgangsveltingur (n, hk/kk)  Sjólag sem er mjög að versna.  „Láttu féð ekki rása langt framá hleinar; það er uppgangsbrim og stutt í flæðina“.  „Mér fannst kominn uppgangsveltingur og ákvað að pilla mig í land“.

Uppgangshósti (n, kk)  Hósti með slímuppgangi.  „Ég held að pestin sé að lagast; þetta er bara uppgangshósti“.

Uppgangspest (n, kvk)  Gubbupest; ælupest; spýjupest.  „Það er víst að ganga einhver árans uppgangspest“.

Uppgangsveður (n, hk)  Þegar herðir vind og útlit er ískyggilegt.  Oftast notað um vaxandi norðanátt og hryssing.

Uppgangur (n, kk)  A.  Staður þar sem gengið er upp; stigi; gjá.  B.  Velgengni; aukning.  „Það er uppgangur í þessari atvinnugrein núna“.  C.  Aukning veðurhæðar/sjógangs/veltings.  „Heldur finnst mér uppgangur í veðrinu heldur en hitt“.  D.  Hráki; slím sem berst upp öndunarveg; æla.  E.  Uppkoma t.d. sólar/tungls.

Uppgefinn (l)  Mjög þreyttur; örmagna; alveg búinn; sprunginn.  „Ég var orðin uppgefin og afskaplega fegin að komast heim“  (Ólöf Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg).  „Það er nokkuð erfitt að ætla að ná í mann;/ ég var uppgefin á líkama og sálu./  Á ferð minni um sveitina ég engan vinning vann./  Þeir vilja heldur unga stelpugálu“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Uppgenginn (l)  Eyddur; uppurinn.  „Saltið er að verða uppgengið“.

Uppgerð (n, kvk)  A.  Látalæti; leikaraskapur.  „Eymslin í fætinum eru kannski engin uppgerð í honum“.  B.  Það að gera upp/ endurnýja.

Uppgerðar-  Um látalæti/leikaraskap; það sem menn gera sér upp/ leika.  T.d. uppgerðaralvara; uppgerðarbros; uppgerðarhlátur; uppgerðarkurteisi; uppgerðarundrun o.fl.

Uppgerður (l)  A.  Viðgerður; endurnýjaður.  B.  Um vað; hankaður/lykkjaður upp.

Uppgjafa- Forliður um það sem lokið hefur störfum/ er orðið aflóga.  T.d. uppgjafaprestur; uppgjafaflík o.fl.

Uppgjafarhljóð / Uppgjafarhugur / Uppgjafarmerki / Uppgjafarsvipur / Uppgjafartónn / Uppgjafarvæl (n, hk/kk)  Merki um uppgjöf/hugþrot/kjarkleysi.  „Mér fannst komið hálfgert uppgjafarhljóð í hann eftir aflaleysið að undanförnu“.  „Nú þýðir ekki neitt uppgjafarvæl; við þurfum bara að finna leið útúr þessu“!

Uppgjöf (n, kvk)  A.  Það að gefast upp; þreyta.  „Það var komin dálítil uppgjöf í þær seinfærustu þegar við komum með reksturinn að réttinni“.  B.  Eftirgjöf, t.d. skulda.  „Hann fékk uppgjöf á eftirstöðvunum“.

Uppgjör (n, hk)  Reikningsskil; það að fá fram niðurstöðu úr t.d. bókhaldi eða deilu.

Uppgreiddur (l)  Greiddur að fullu.

Uppgrip / Uppgripaafli / Uppgripaveiði  (n, hk, fto)  Þægileg og mikil veiði; allsnægtir.  „Við lentum í uppgripum af fiski yfir snúninginn“.  „Það er alkunnugt að styrjaldarárin 1914-1918 og næstu ár á eftir gekk meiri fiskur en áður inn í firði hér við land, svo víða var uppgripaafli þar sem venjulega hafði ekki fengist bein úr sjó“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).  „Þegar dragnótaveiðar voru leyfðar á ný var uppgripaafli fyrsta sumarið, en annað og þriðja sumarið hefur dregið úr aflanum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Uppgróinn (l)  Gróinn upp.  „Gilið er að mestu uppgróið, þar sem á mínum uppvaxtarárum var ægisandur“.

Uppgræðsla (n, kvk)  Það að græða upp land; ræktun.

Uppgöngustaður (n, kk)  Staður þar sem gengið er upp; uppganga.  „Við bárum ílátin að uppgöngustaðnum“.

Uppgötva (s)  Komast að raun um; fá vitneskju um; átta sig á.  „Ég uppgötvaði að ég hafði týnt hnífnum“.

Uppgötvun (n, kvk)  Það að uppgötva; ný vitneskja; uppfinning.

Upphaf (n, hk)  Byrjun; tildrög.  „Enginn man lengur upphaf þessara deilna“. „Í upphafi skyldi endirinn skoða“.

Upphafinn (l)  A.  Um Jesú; stiginn upp til himna.  B.  Hafinn til virðingar; gerður mikilfenglegur.  C.  Upphleyptur, t.d. um letur á bók eða útsaum.  D.  Lokinn; endaður (fyrri tíðar merking). 

Upphaflega (ao)  Í byrjun/upphafi.

Upphaflegur (l)  Upprunalegur.

Upphafning (n, kvk)  Það að upphefja einhvern/eitthvað/ gera mikilfenglegt.  „Heldur fer hún í taugarnar á mér, þessi upphafning á morðæði Sturlungaaldar“!

Upphafs-  Það sem er í byrjun.  Forliður margra heita.

Upphafserindi (n, hk)  Fyrsta erindi/vísa í ljóði/sálmi.  „Ég kann  bara upphafserindið af ljóðinu“.

Upphaldast (s)  Leyfast; vera umliðið.  „Honum hefur upphaldist það alltof lengi að skila ekki af sér ársreikningum í tíma“!  „Skyldi honum upphaldast það lengi að leggja uppi í nethelgi“?

Upphátt (ao)  Svo heyrist.  „Hann las þennan kafla úr bókinni upphátt fyrir okkur“.

Upphefð (n, kvk)  Forfrömun; virðing.  „Það var heldur upphefð hjá honum að fá hreppstjórahúfuna“!

Upphefðin kemur að utan (orðatiltæki)  Þessi gamla speki vísar til þess að enginn er spámaður í sínu föðurlandi.  Samfélaginu hættir til að meta hið aðkomna meira en það sem heima fæst.

Upphefja (s)  A.  Gera meira úr mannkostum/virðingu/gæðum einhvers en efni standa til.  „Mörgum hættir dálítið til að upphefja þá sem veifa um sig prófgráðum, sama hve vel þær gagnast eða hvað liggur að baki þeim“.  B.  Fella úr gildi; ógilda; afnema; leggja af.  „Með því að mjólkurflutningar voru aflagðir var sjálfgert að mjólkurframleiðsla yrði upphafin á ystu bæjum í sveitinni“.  C.  Byrja; fara af stað með; segja.  „Upphófst þá hávær umræða“.  „Sá var að hreinsa tófuskinn, en óðar undan leit/ og upphóf sína dóma þarna í hvelli./  „Þú ert alltof gömul; þú ert alltof feit;/ þú ert eins og belja á hálu svelli“!“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Upphefjast (s)  Hefjast; byrja; myndast; verða.  „Upphófst nú mikið skvaldur og voru uppi deildar meiningar um ágreiningsefnið“…  „Þessi úrslit komu Gumma gjörsamlega á óvart og upphófust nú háværar samræður“  (PG; Veðmálið). 

Upphenging (n, kvk)  A.  Reyking og geymsla hangikets, uppihangandi.  „Ætli ég slátri ekki þessari til upphengingar.  Hún hefur verið geld tvö ár í röð“.  „Ég saga þá þessa skrokka til upphengingar“.  B.  Hersla fisks, sjá m.a. grásleppuspyrða.

Uppherða (s)  Telja kjark í; herða sig upp.  „Ég er hræddur um að hann gæti verið að uppherða sig í að kjósa íhaldið“!  „Hann þurfti góðan tíma í að uppherða sig áður en hann lagði af stað í lásinn“.

Uppherðing (n, kvk)  Söfnun kjarks; undirbúningur reiðilesturs.  „Nú er hann hjá sínum sálufélaga í uppherðingu áður en hann fer á fund sýslumannsins“.

Uppherðingur (n, kk)  Ef norðanátt gekk skyndilega niður, en rauk aftur upp sama sólarhringinn; uppherðingur, boðaði það vaxandi norðanátt næstu dægur“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM). 

Upphirðing (n, kvk)  Það að koma síðasta heyi sumarsins í hlöðu eða hey.  „Ef þurrkurinn helst þá sé ég framá upphirðingu í næstu viku“.  Sjá hirða upp.

Upphita (n, kvk)  Hita mat fyrir neyslu.  „Það jafnast fátt á við góða ketsúpu sem búið er að upphita tvisvar“.

Upphlaðinn (l)  Hlaðinn upp; viðgerður (um vegghleðslu).  „Garðurinn var upphlaðinn á nokkrum dögum“.

Upphlaup (n, hk)  Skyndilegur æsingur.  „Ekki skil ég þetta upphlaup yfir svona ómerkilegu máli“.

Upphleyptur (l)  Gerður þannig að ber yfir næsta nágrenni.  T.d. um staf á bók eða útsaum.

Upphlutur (n, kk)  A.  Efri hluti kyrtils; líkist skyrtu.  B.  Sérstakur íslenskur kvenbúningur (reimuð ermalaus treyja; skyrta pils og svunta).  „Hún (huldumærin) var vel klædd; þó ekki í upphlut né með skotthúfu“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Upphringaður (l)   Um vað/slöngu; búið að gera upp; uppgerður.  „Slangan er upphringuð þarna á þilinu“.

Upphringing (n, kvk)  Hringing/símtal frá einhverjum.  „Ég fékk upphringingu frá happdrættinu“.

Upphrópanastíll (n, kk)  Yfirbragð upphrópana/ofboðs/æsings.  „Það tekur enginn mark á bréfi sem skrifað er í svona upphrópanastíl.  Þú verður að setja þetta fram af einhverri rökvísi“!

Upphrópun (n, kvk)  Æsingarorð; kall/óp; frammíkall.  „Ræðum nú málin í ró en ekki með upphrópunum“.

Upphugsa (s)  Hugsa; finna upp á; undirbúa í huganum.  „Nú er rollurassgatið að upphugsa nýja leið til að snúa á okkur“.  „Ekki lukkaðist þessi aðferð; þá er að upphugsa einhverja aðra“.

Upphyrnd (l)  Um hornalag sauðkindar; með horn sem vaxa áberandi uppávið; skrúfhyrnd; stanghyrnd.

Upphæð (n, kvk)  Magn/verðgildi peninga/verðmæta; fjárhæð.  „Hann greiddi verulega upphæð fyrir þetta“.

Upphækka /s)  Hækka upp; bæta við á hæðina.  „Ég þurfti að upphækka girðinguna þarna á barðinu“.

Upphækkun (n, kvk)  Það sem hækkar; viðbygging/viðbót uppávið.  „Það væri til bóta að smíða upphækkun á skjólborðin á heyvagninum“.

Uppi (ao)  A.  Um staðsetningu; efri; í áttina upp.  „Hann er uppi á lofti“.  „Þá var siglt með öll segl uppi“.  B.  Við lýði; á lífi.  „Kollur var uppi á landnámsöld“.  C.  Um boða; vera uppúr sjó.  „Klakkurinn var uppi, og braut greinilega á honum“.  Sjá standa uppi.

Uppi á (einhverjum) kjafturinn (orðtak)  Einhver hefur uppi stóryrði/munnsöfnuð; einhver rífst/svarar fullum hálsi.  „Það er heldur uppi á honum kjafturinn núna“!  Sjá hafa uppi kjaft.

Uppi á teningnum (orðtak)  Í reynd; niðurstaða.  „Það lítur ekki vel út með þurrkinn.  Við skulum sjá hvað verður uppi á teningnum í fyrramálið“.  „Það var sama uppi á teningnum hjá honum og nágrannanum“.

Uppi á (einhverjum) typpið (orðtak)  Einhver er hress, reifur; einhver fer mikinn; einhver er ágengur/áræðinn.  „Ja, nú þykir mér uppi honum typpið“!  „Heldur er uppi á honum typpið“!  Hefur stundum verið talið leitt af reistum getnaðarlim, en líklega er líkingin fremur sótt í sjómannamál eins og margar aðrar.  Sigluhúnn var fyrrum nefndur typpi, og þegar siglt var með toppsegl uppi var uppi á skipinu typpið.

Uppi í fjörusteinum / Uppi í harðalandi / Uppi í landsteinum (orðtök)  Mjög grunnt; uppi við land.  „Það er ekki von að alltaf  aflist ef menn hanga alltaf uppi í landsteinum; þó stundum fáist góður fiskur uppi í  harðalandi“.  Í niðrandi tón var talað um að togarar væru að veiða „uppi í kálgörðum“.

Uppi í sjó / Ofarlega í sjó / Við borðið / Við botninn (orðtök)  Um hegðun fisks þegar verið er að skakveiðum.  „Hafðu grunnmálið nokkuð rösklegt; hann er farinn að taka langt uppi í sjó“.  „Það var spriklandi fiskur alveg við borðið yfir háliggjandann“.

Uppidráp (n, hk)  Dráp sela/selkópa uppi í fjörum með því að rota þá.  Var ekki stundað í Kollsvík, svo vitað sé, en orðið var þekkt.

Uppihald (n, hk) A.  Flot/bauja/byða/belgur/kúla til að halda veiðarfæri eða öðru á floti.  „...á yfirvarpið var fest 5-6 uppihöldum með jöfnu millibili“   (GG; Skútuöldin; um lagvað til hákarlaveiða).   „Með hverju upphaldi hleyptum við niður þremur til fjórum pokum; fyrirbundnum, fullum af hausum, slori og hryggjum“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).  B.  Fæði og húsnæði.  „“...svo var um talað að ég ynni að bátasmíðinni fyrir uppihaldi“.  Frásögn Jóns Guðjónssonar  (ÓG; Úr verbúðum í víking).  C.  Uppihöld var annað og fornt heiti á landlegu/ógæftum.  Reyndar fyrrum notað um hverskonar hlé eða tafir.

Uppihaldskostnaður (n, kk)  Kostnaður við fæði og húsnæði; kostnaður við veru manns.

Uppihang (n, hk)  Uppstytta; hlé á skúrum eða éljum.  „Það er eitthvað uppihang núna; við náum kannski að komast norður í fjárhús fyrir næstu skúr“.

Uppisetur (n, kvk, fto)  Vökur; það að sitja mjög lengi, t.d. við verk.  „Það kostaði okkur uppisetur fram á nótt að bíða eftir burði hjá kýrinni“.

Uppisetumáttur (n, kk)  Geta/úthald til að sitja uppi.  „Það var svo af honum dregið að hann hafði varla uppisetumátt“.

Uppisitjandi / Uppistandandi  (l)  Sitjandi/standandi.  „Það er betra að drekka uppisitjandi en útafliggjandi í rúminu“.  „Maður er nú ennþá sæmilega uppistandandi þó maður hafi stundum rifið kjaft við kerfið“.

Uppiskroppa (l)  Búinn með allt; lens; tómhentur.  „Farðu nú, strákur, ofan í lest og sæktu fyrir mig síld; ég er orðinn uppiskroppa“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).  „Ég man vel eftir Siggu gömlu á Hnjóti þegar hún kom labbandi út í Hænuvík að heimsækja Lóu dóttur sína; prjónandi í blíðskaparveðri og hafði bandhespu um sig miðja til að verða ekki uppiskroppa með band á leiðinni“ (DÓ; Að vaka og vinna). 

Uppistaða (n, kvk)  A.  Lón/vatnssöfnun vegna stíflu í vatnsfarvegi.  „Það er feikna uppistaða í Ánni af krapastíflu“.  B.  Þræðir sem liggja langsum í vefnaði þegar ofið er.  „Það var mikið ofið á veturna.  Uppistaðan var tvistur; fyrirvaf var ull.  Ennfremur var þráður í uppistöðu og tvistur í fyrirvaf þegar ofið var í milliskyrtur og sængurver sem notuð voru í verbúðunum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Uppistand (n, kvk)  Uppnám; æsingur; deila; ósætti.  „Það varð heilmikið uppistand þegar þetta komst upp“.

Uppistandandi (l)  Standandi á fótunum; við líði; lifandi.  „Ég kalla hann seigan; að vera enn uppistandandi eftir svona áfall“!  „Það verður ekkert af þessu meðan ég er enn uppistandandi“.  Sjá standa uppi.

Uppistöðulón / Uppistöðuvatn (n, hk)  Stíflulón; vatn sem safnast ofanvið stíflu í á/læk.  „Uppistöðulónið í Ánni náði uppundir girðingu“.

Uppistöðumáttur (n, kk)  Geta /afl/heilsa til að standa á fótunum.  „Lambið er aðeins að hressast en það er samt ekki enn komið með uppistöðumátt“.  „Honum hrakaði yfir nóttina og nú hefur hann ekki uppistöðumátt“.

Uppitaka (n, kvk)  Það þegar fiskur tekur uppi/ grípur fæði í yfirborði, þannig að vart verður við með gárumyndun eða öðrum hætti.  „Einhver fiskur er í vatninu; ég sá örugglega uppitökur þarna áðan“.

Uppivöðslusamur (l)  Frekur; baldinn; með uppsteit.  „Karlinn var fjári uppivöðslusamur og var búinn að koma sér út úr húsi við hvern einasta mann í sínu nágrenni“.

Uppivöðsluseggur (n, kk)  Sá sem er fyrirferðarmikill og ágengur; frekja; ribbaldi. 

Uppí (ao/fs)  Fara uppi í / vera uppi í einhverju, t.d. rúmi, eða setja eitthvað uppí sig / hafa eitthvað í munni.  „Farðu nú að koma þér uppí krakki“!  „Hvað ertu með uppí þér“?

Uppíloft (ao)  Vísarupp; liggja á baki; sprunginn.  „Þú mátt aldrei skilja við hrífu með tindana uppíloft; það er örugg ávísun á rigningu“!  „Það er víst allt uppíloft milli þeirra hjónanna núna“.  „Það þýðir ekkert að liggja uppíloft og lesa í svona brakandi þurrki“.

Uppímóti (ao)  Um stefnu, upp á móti halla.  „Það er fljótgengið niður Geldingsskorardalinn, en það kemur oftast út svitadropunum að paufast hann uppímóti í sterkjusólskini með fullan eggjakút á baki; vað á öxlum og jafnvel kút og fötu, sitt í hvorri hendi“!

Uppítaka (n, kvk)  Það að taka hlut upp í hluta af greiðslu; t.d. taka gamlan bíl sem hluta af geiðslu nýs bíls.

Uppkoma (n, kvk)  Það að koma upp.  „Það er farið að hlýna töluvert með uppkomu sólar, þegar kemur svona framá vorið“.

Uppkominn (l)  Fullorðinn; kominn af barnsaldri.  „Þau eiga tvö uppkomin börn“.

Uppkrullað (l)  Flækt; í flóka.  „Netið var slitið af teinum á kafla og allt uppkrullað eftir selinn“.

Uppkræktur (l)  Kræktur upp/opinn.  „Gættu þess að glugginn sé uppkræktur; ekki veitir af að lofta út“.

Uppkveða (s)  Kveða upp; úrskurða.  „Hún var ekki lengi að uppkveða sinn dóm“.

Uppkveiking / Uppkveikja (n, kvk)  Sú athöfn að kveikja eld í reykkofa og hylja hann til að framkalla reyk; það að kveikja eld í elstæði t.d. í hlóðum eða öðru.

Uppkveikjufátt (l)  Lítið um uppkveikju.  „Plankinn var eftir það við skemmudyr framyfir 1890, en hvarf þá, án þess menn viti hver olli hvarfinu.  En böndin bárust að eldamennskukonum staðarins, en þeim var um það bil uppkveikjufátt, eins og gengur“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Uppköst (n, hk, fto)  Æla; uppsölur.  „Það var lítið gagn að hásetanum; hann lá með uppköstum á lunningunni“.

Upplag (n, hk)  A.  Um mann; eðlisfar; persónueinkenni.  „Hann er þannig að upplagi að hann lætur ekki spila með sig“.  B.  Eintakafjöldi, t.d. prentaðrar bókar.

Upplagður (l)  Í formi; fallinn til.  „Ég er ekki vel upplagður til að syngja núna; svona syfjaður“.

Upplagt (l)  Kjörið; tilvalið; vel til fundið.  „Þetta tré er upplagt í tvo hornstaura“.

Upplausn (n, kvk)  A.  Ringulreið; óreiða.  B.  Vökvi sem fast efni hefur verið leyst upp í.

Uppleið (n, kvk)  Ferð/leið upp.  „Hinkraðu aðeins á brúninni; hann er á uppleið með eggjafötu“. 

Uppleitur (l)  Sem horfir fram; sem ber höfuðið hátt.  „Hann var víst ekki sérlega uppleitur þegar hann játaði á sig lygina“.

Upplestur (n, kk)  Lestur upphátt; lestur fyrir aðra.  „Hann tók sér málhvíld eftir þennan upplestur“.

Uppleystur (l)  Leystur upp.  „Sápan hafði legið í vatninu og var orðin mjög uppleyst“.

Upplifa (s)  Reyna; ganga í gegnum.  „Maður hefur upplifað ýmislegt í þessu starfi“.

Upplifelsi / Upplifun (n, hk/kvk)  Reynsla; viðburður.  „Það var mikið upplifelsi að verða vitni að þessu“.

Upplit (n, hk)  A.  Útlit   „Það er allt annað upplit á húsinu núna“.  B.  Kjarkur; glaðlyndi.  „Ekki var nú beysið upplitið á drengjunum þegar þeir komu forblautir heim“.    Oft í ef: Hann var nokkuð aumlegur upplits“. 

Upplitaður (l)  Aflitaður í sól/birtu.  „„Svuntan var af rúðóttu taui, sem var kallað skoskt tau; óhrein eða upplituð, því að framaná svuntunni var bót af sama efni er sýndi hinn upprunalega lit tausins“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).

Upplitsdjarfur (l)  Áræðinn í fasi/svip; framfærinn.  „Þeir voru ekki upplitsdjarfir þegar þetta komst upp“.

Upplífgandi (l)  Sem kætir/ lífgar upp; hressandi.  „Slökktu nú á útvarpsfjandanum; það er ekki sérlega upplífgandi þetta eilífa sinfóníusarg“!

Uppljómast (s)  Verða geislandi/glitrandi.  „Augu hans uppljómuðust þegar hann minntist þessara tíma“.

Uppljóstra (s)  Upplýsa um það sem leynt hefur farið; kjafta/segja frá.  Var fyrrum „uppljósta“; án r, og leitt af því að „ljósta upp“; þ.e. „slá upp“/ skella óvænt fram því sem enginn átti von á.

Upploginn (l)  Skáldaður; uppdiktaður.  „Þetta reyndist allt upplogið“. 

Upplyftugur (l)  Hýr; kátur; æstur; áhugasamur.  „Hann var heldur betur upplyftugur yfir einkunnunum sínum“.  „Ég nefndi þessa hugmynd við hann, en hann var ekkert mjög uppyftugur yfir henni“.  Heyrðist einungis notað þannig, og það nokkuð algengt, þar vestra.  Annarsstaðar þekkt „upplyftur“.

Upplyfting (n, kvk)  Tilbreyting; nýbreytni.  „Hann gerði það sér til upplyftingar að fara í heimsóknir“.

Upplýsa (s)  Varpa ljósi á mál; skýra frá leyndarmáli; koma upp um t.d. glæp.  „Jón Hákonarson upplýsti að búið væri að gera ráðstafanir til að síminn komi aftur inn í húsið“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Upplýsingar (n, kvk, fto)  Vitneskja; fróðleikur; fræðsla.  „Tvær ær; önnur á Lambavatni en hin í Gröf, eru ekki góðar og ef til vill að þær lifi ekki; því líkur eru til, að fengnum upplýsingum, að þær séu veikar“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1945).  

Uppmarka (s)  Marka nýtt eyrnamark á sauðkind sem áður hefur verið mörkuð.

Uppmálaður (l)  Oftast notað til áherslu; myndskreyttur; skýr.  „Þetta var bara eymdin uppmáluð“.

Uppmjór (l)  Mjókkar eftir því sem ofar dregur; keilulaga.  „Ári er þetta leiðinlega uppmjór galti“.

Uppmokstur (n, kk)  Það sem mokað hefur verið upp.  „Ég hreinsaði uppmoksturinn af grafarbakkanum“.

Uppmæling (n, kvk)  A.  Mæling einhvers.  B.  Ákvæðisvinna; akkorð.  Það að vinna sé metin til greiðslu eftir afköstum sem mæld eru eftirá, en ekki eftir tíma.

Uppnám (n, hk)  Glundroði; ringulreið; æsingur; geðshræring.  „Hann er í uppnámi eftir þetta, sem vonlegt er“.

Uppnefna (s)  Nota gæluheiti/stuttheiti/niðrandi heiti í stað skírnarnafns.  „Það þótti ekki fallegt að uppnefna fólk að öllu jöfnu.  Oftast var látið óátalið að stytta nöfn eftir því sem tíðkast hafði, þó sumir vildu það ekki heldur.  Starfsheiti nýttust oft ein sem nöfn í daglegu tali, t.d. „pósturinn“, „hreppstjórinn“ , faktorinn“ o.þ.h. og þótti yfireitt í lagi.  Það voru einkum viðurnefnin sem gátu orðið rætin og máttu þá helst ekki heyrast almennt.  Í þeim efnum tíðkaðist þó ákveðin hefð einnig, einkum í sjávarplássum til aðgreiningar“.

Uppnefni (n, hk)  Nafn sem manneskju er gefið af öðrum; stundum til styttingar/hagræðingar; stundum vegna venju í uppeldi, en stundum til gamans/háðungar.

Uppnuminn (l)  Uppveðraður; hrifinn.  „Hann var heldur betur uppnuminn yfir ferðalaginu“.

Uppnæmur (l)  Viðkvæmur; uppstökkur.  „Ég er nú ekki uppnæmur fyrir því að blotna örlítið“.

Uppraðað (l)  Sem raðað hefur verið upp.  „Öllu var þessu uppraðað eftir kúnstarinnar reglum“.

Upprakað (l)  Sem búið er að raka saman/upp.  „Heyið af blettinum var allt upprakað og sumt galtað“.

Upprakin (l)  Sem rakin hefur verið upp.  „Peysan var orðin slitin, og upprakin að neðanverðu“.

Upprakningur (n, kk)  Garn sem rakið hefur verið upp úr flík.  „Ekki spyr ég að nýtninni hjá henni.  Þetta prjónaði hún úr afgöngum og upprakningum“.

Upprakstur (n, kk)  Það að raka saman heyi; raka upp hey; samantekt; múgun.

Uppreiða (s)  Um rúm; búa um; uppbúa.  „Hún hafði uppreitt sængur fyrir okkur í gestaherberginu“.

Uppreiddur (l)  A.  Hafinn á loft.  „Hann var orðinn svo reiður að hann hljóp á eftir strákunum með uppreidda skófluna“.  B.  Um rúm; uppbúið.  „Þegar við komum loks, sent um kvöldið, beið okkar uppreitt rúm“.  Einnig orðtakið; að sjá sína sæng uppreidda.

Uppreikna (l)  Reikna upp á nýtt; færa til verðlags samtímans. 

Uppreisn / Uppreist (n, kvk)  A.  Bylting.  B.  Endurreisn; leiðrétting.  Sbr uppreisn æru.

Uppreisnargjarn (l)  Hneigður til að fylgja sínum skoðunum eftir, þó ekki séu almennt viðurkenndar.

Upprekstrarland (n, hk)  Land sem sauðfé er rekið á til beitar.  Gjarnan notað um land í eigu landeiganda sem heimilar öðrum upprekstur.  „Oddviti ræddi um notkun utanhreppsmanna á upprekstrarlandi í Sauðlauksdal“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Upprekstrarleyfi (n, hk)  Upprekstur; leyfi til að reka fé sitt í haga annars manns og halda því þar til beitar.  „Frá ómunatíð hafa Láganúpsbændur haft upprekstrarleyfi í Breiðavík norðantil.  Þar gekk nær einvörðungu Láganúpsfé, enda sáu Kollsvíkingar að mestu um smalanir á því svæði“.  „Eftir að búskap lauk í Kollsvík fékk Guðjón í Hænuvík upprekstrarleyfi þar, fyrir nokkrum fjölda fjár“.

Upprekstur (n, kk)  Rekstur fjár á fjall/úthaga; heimild til að beita í annars manns land.  „Þó hvergi sé skráð að Láganúpur eigi upprekstur í Breiðavíkurland, þá hefur fyrir löngu skapast hefðarréttur fyrir þeirri nýtingu“.

Upprenna (s)  Renna upp; koma.  „Hvenær skyldi upprenna sá dagur að sjávarjarðir eins og Láganúpur og Kollsvík fái aftur nytjarétt á sínum fiskimiðum“?

Upprennandi (l)  Sem er að verða; tilvonandi.  „Og þetta á að heita efnilegur og upprennandi stjórnmálamaður“!

Uppréttingur (n, kk)  Nagli/saumur sem réttur var upp/tekin var af sveigja; lagfærður saumur/nagli.  „Það má spara sér dálítið með því að nýta uppréttinga úr mótauppslættinum“. 

Uppréttur (l)  Lóðréttur; á fótum; beinn í baki.  „Ætli maður hokri ekki við þennan búskap meðan maður getur staðið uppréttur“.

Upprifinn (l)  A.  Um hræ sem vargar hafa komist í og rifið gat á kviðarhol.  B.  Um flattan fiskhaus / pakka sem opnaður hefur verið.  C.  Kjaftagleiður; hrifinn „Hann er upprifinn af þessum hugmyndum“.  „Eftir hálft staup var karlinn orðinn hýr og upprifinn“.

Upprifjun (n, kvk)  Það að glöggva sig aftur á því sem áður var lært, t.d. með lestri námsbóka.

Upprisa (n, kvk)  A.  Það að rísa upp/ fara á fætur.  B.  Uppstigning frá dauðum.  „Í kristni fyrri tíma var því almennt trúað að líkami manna risi upp frá dauðum á dómsdegi.  Sú bókstafstrú hefur farið mjög halloka á síðari tímum, þó enn sé mjög trúað á framhaldslíf sálarinnar í einhverri mynd“.

Upprof (n, hk)  A.  Hlé.  „Er bara ekkert upprof hjá þér í fláningunni“?  B.  Uppstytta.  „Við þurfum að bæta á votheysgryfjuna ef það skyldi verða eitthvað upprof í þessari rigningu“.

Upprunalega (ao)  Upphaflega; í byrjun.  „Upprunalega var þessi bíll grænn að lit“.

Upprunalegur (l)  Upphaflegur; sá sem var í byrjun.  „Svuntan var af rúðóttu taui, sem var kallað skoskt tau; óhrein eða upplituð, því að framaná svuntunni var bót af sama efni er sýndi hinn upprunalega lit tausins“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).

Uppruni (n, kk)  Byrjun; orsök; tilurð. 

Upprunninn (l)  Byrjaður; orðinn til; orsakaður.  „Ég fer nærri um það hvaðan þessi saga er upprunnin“!

Upprúllaður / Uppvafinn (l)  Sem búiið er að rúlla/vefja upp.

Uppræta (s)  Eyða með öllu; taka/rífa með rótum; útrýma.  „Þennan ósið hefur reynst erfitt að uppræta“.

Uppsátur (n, hk)  A.  Staður/pláss þar sem bátur er settur upp /stendur.  „Þarna var uppsátur fyrir fáeina báta“.  B.  Réttur til að geyma bát.  „Barðstrendingar áttu uppsátur fyrir báta sína á Skeiðseyri í landi Vesturbotns“.  „Fönix var teinæringur og átti uppsátur í Kollsvíkurveri og Láganúpsveri“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Uppsátursgjald (n, hk)  Undirgift; vertollar (sjá þar).

Uppsetning / Uppsetningur (n, kvk/kk)  A.  Það að setja upp bát/ draga bát upp á land.  „Okkur vantar fleiri í uppsetningu“.  Oftar í karlkyni, einkum hjá eldri Kollsvíkingum.  B.  Uppröðun; fyrirkomulag; það að setja eitthvað upp/ stilla upp.  „Eitthvað hefur uppsetningin á þessum galta ekki verið nógu vönduð“. 

Uppsettur (l)  A.  Uppstilltur; frágenginn á sínum stað.  B.  Um galta/sátu; upphlaðinn.  „Skelfing er þessi galti illa uppsettur“.  C.  Í vandræðum; verkfæralaus.  „Ég er alveg uppsettur ef ég finn ekki hamarinn“.  Algengasta notkun orðsins í Kollsvík.

Uppsigað við (orðtak)  Illa við; í nöp við; tilbúinn að rífast við.  „Honum var frekar í nöp við opinberar persónur, en einkanlega var honum þó uppsigað við sýslumanninn.  Þann andskota bað hann aldrei að þrífast“.  Vísar til hunds sem hefur verið sigað/att á kindur.  Hundum sem ítrekað er att á sömu t.d. túnrolluna, verður oft svo uppsigað við hana að ekki þarf að hvetja þá ef hún nálgast.

Uppsigling (n, kvk)  Sigling til lands; landstím.  „Á uppsiglingunni hvarf bátur Dagbjartar í élinu og sást ekki framar“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).   „Þeir hófu uppsiglingu skömmu á eftir Guðmundi“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Uppsjávarfiskur (n, kk)  Fisktegund sem heldur sig jafnan ofarlega í sjó eða/og er veidd þar.  Td. loðna og síld.  Fiskur sem heldur sig nærri botni er botnfiskur.

Uppsjóða (s)  A.  Sjóða í potti.  B.  Líkingamál; skálda; ljúga upp; búa til sögu.  „Hver skyldi hafa uppsoðið þessa lygasögu“?

Uppskafinn (l)  A.  Sem búið er að skafa/skrapa.  „Þarna er eitthvað uppskafið orð undir hinu í handritinu“.  B.  Aulalegur; spjátrungslegur.  „Heldur fannst mér hann uppskafinn þessi frambjóðandadrengur“!  Vísar líklega til þess að blöð handrita urðu þunn og skænisleg þegar búið var að skafa upp fyrra letur.

Uppskafningsháttur (n, kk)  Mont; aulaháttur.  „Svonalagað kalla ég nú bara uppskafninghátt“!

Uppskafningur (n, kk)  Auli; verkasmár maður; monthani.  „Við höfum lítið að gera með svona uppskafninga“!

Uppskár (l)  Eingöngu í orðtakinu láta uppskátt (sjá þar).

Uppskera (n, kvk)  Afurð; afrakstur ræktunar.  Vísar til korns sem skorið er. 

Uppskera (s)  A.  Skera/hirða korn af akri.  B.  Líkingamál; njóta afraksturs/ávinning sem undirbúinn hefur verið eða unnið hefur verið að.  Svo uppsker hver sem hann sáir til.

Uppsker hver sem hann sáir (orðtak)  Hver maður verður að taka afleiðingum sinna gerða; Hver maður fær það sem hann á skilið/ sem hann hefur stofnað til.

Uppskerubrestur (n, kk)  Ræktun verður ekki gróskumikil; korn þroskast ekki, t.d. vegna tíðarfars.

Uppskipa (s)  Landa; setja í land afla/farm úr skipi.  „Fyrir kom að strandferðaskip komu við í Kollsvík á fyrrihluta 20.aldar til að taka afla úr Kollsvíkurveri.  Má þá gera ráð fyrir að uppskipað hafi verið annarri vöru, s.s. salti og fleiri nauðsynjum“.

Uppskipun (n, kvk)  Það að skipa upp t.d. vörum úr skipi.

Uppskipunarbátur / Uppskipunarskip (n, kk/hk)  Bátur til að ferja farm milli skips og lands.  „Pétur notaði Egil sem uppskipunarskip; breytti um nafn og kallaði Hringhorna“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Uppskrift (n, kvk)  A. Það að skrifa/lista upp.  B.   Forskrift; leiðbeiningar.  T.d. mataruppskrift.

Uppskrúfaður (l)  Ýktur; gerður meiri/mikilfenglegri en efni standa til.  „Ég er aldrei hrifinn af svona uppskrúfuðu orðalagi eins og þarna er viðhaft“.  „Hann selur þetta á uppskrúfuðu verði“.

Uppskurður (n, kvk)  Skurðaðgerð; það að skera upp í lækningaskyni.

Uppsláttarrit (n, hk)  Rit sem þægilegt er að leita í, eftir upplýsingum/fróðleik.

Uppsláttur (n, kk)  A.  Það að slá upp/ leita upplýsinga í riti.  B.  Það að slá upp steypumótum.  C.  Uppslegin steypumót.  T.d. mótauppsláttur. 

Uppsóp (n, hk)  Það sem sópað er upp; t.d. rusl/ryk á gólfi.

Uppspenntur (l)  A.  Um mann; spenntur; taugatrekktur.  B.  Um byssu; með spenntan bóg.

Uppsprengt verð (orðtak)  Of hátt verð; okurverð.  „Ég kaupi þetta ekki á svona uppsprengdu verði“!

Uppspretta / Uppsprettulind (n, kvk)  Lind; uppkoma vatns um greinilegt auga í jörðinni.  „Þegar við vorum komin yfir Ána þurftum við oftast að stansa til að fá okkur að drekka úr Mikkupytlunni, sem var lítil uppspretta norðan við Ána“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Uppsprettuvatn (n, hk)  Vatn sem kemur úr uppsprettu.  „Þetta er hreint og tært uppsprettuvatn“.

Uppsprottinn (l)  Sprottinn upp; kominn skyndilega.  „Hvaðan eru þessar kindur uppspottnar“?

Uppspuni / Uppdiktun (n, kk)  Hugarburður; ímyndun; tilbúningur.  „Þetta var bara uppspuni í drengnum“.

Uppspuni frá rótum (orðtak)  Rakalaus þvættingur; haugalygi; lygasaga.  „Þessi saga er uppspuni frá rótum“.

Uppspyrtur (l)  Spyrtur upp; hengdur upp í spyrðum.  „Smáfiskurinn var ýmist uppspyrtur eða saltaður í bútung, en sá stærri var flattur og saltaður“.

Uppspændur (l)  Spændur/tálgaður/eyddur upp.  „Ansi er slóðinn að verða uppspændur eftir traktorinn“.

Uppstaðinn (l)  Staðinn upp/ á fætur.  „Við vorum rétt uppstaðnir frá borðinu þegar hann fór að rigna“.

Uppstandari (n, kk)  Lóðrétt stoð í húsi; frá gólfi uppundir sperru.  „Rúmin voru þannig /í verbúðum í Kollsvíkurveri)að rúmstokkur, fjöl, var fyrir framan, en við báða enda hennar rúmstuðull er nefndur var uppstandari ef hann náði upp í sperru“  (LK;  Ísl. sjávarhættir II; frás. ÓETh og KJK).

Uppsteypa (n, kvk)  Það að steypa húsvegg eða annað mannvirki.  „Við kláruðum uppsteypuna í dag“.

Uppsteyt (n, hk, fto)  Mótþróu; uppreisn.  „Hann ætlaði að fara að vera með einhver uppsteyt, en frúin greip þá í taumana og bað hann að halda sig nú einusinni á mottunni“.

Uppstig (n, hk)  A.  Stallur sem stigið er á til að komast upp.  „Þetta klettanef notaði ég sem uppstig“.  B.  Það að stíga skref til að komast upp. 

Uppstigning (n, kvk)  Það að stíga upp; himnaför Jesú Krists.

Uppstigningardagur (n, kk)  Sjötti fimmtudagur eftir páska; fertugasti dagur frá og með páskadegi; helgidagur til minningar um himnaför Krists.  Hét áður „helgi þórsdagur“

Uppstigningardagsmessa / Uppstigningardagsruna (n, kvk)  Stíf sjósóknarlota kringum uppstigningardag.  „Stundum var þríróið; sérstaklega undir hvíldardag.  „Uppstigningardagsmessa“ byrjaði á uppstigningardag (fimmtudag) og var róið látlaust fram á laugardag“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).  „Uppstigningardagur var haldinn helgur og róið að kvöldi uppstigningardags; og síðan í lotu fram að helgi.  Þetta var kallað „uppstigningardagsruna“.  Það kom oft fyrir, einkum ef landlegur höfðu verið og helgi fór í hönd, að tekin var svona lota“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Uppstilling (n, kvk)  A.  Það að stilla einhverju upp, t.d. fyrir sýningu eða til skrauts.  B.  Það að raða frambjóðendum upp á lista fyrir kosningar.

Uppstillingarnefnd (n, kvk)  Nefnd sem raðar frambjóðendum á lista fyrir kosningar.

Uppstokkun (n, kvk)  A.  Það að stokka upp, t.d. setja króka fiskilínu á önglastokk.  B.  Endurröðun/ enduruppstilling af einhverju tagi.

Uppstoppaður (l)  A.  Um dýr; búið að stoppa upp.  B.  Um mann; með stíflur í nefi/nefholum vegna t.d. kvefs.  „Ég er enn uppstoppaður af þessu árans kvefi“.

Uppstraumur (n, kk)  Hafstraumur sem liggur í átt til lands. 

Uppstreymi (n, hk)  Loft sem streymir upp, t.d. vindur við klettabrún.  „Fýllinn kyllrar sig á flugi í uppstreyminu“.

Uppstrílaður (l)  Glerfínn; uppdubbaður; mjög fínn til fara. „Mikið svakalega ertu uppstrílaður maður“!

Uppstrokinn (l)  Í vel pressuðum fötum; í sparifötum; uppstrílaður.

Uppstúfur (n, kk)  Jafningur; hveitisósa sem oft er höfð með kartöflum og hangiketi.  Kollsvíkingar notuðu þó fremur heitið jafningur.  Bæði eru orðin komin úr dönsku, og líklega sósan sömuleiðis.

Uppstytta (n, kvk)  Stytt upp; hlé milli skúra; élið hætt.  „Við klárum gröftinn í næstu uppstyttu“.

Uppstyttulaust / Uppstyttulítið (l)  Án þess að stytta upp.  „Hann hefur rignt uppstyttulaust í allan dag“.

Uppstökkur (l)  Fyrtinn; fljótillur.  „Farðu rólega að honum; hann er dálítiið uppstökkur í þessum efnum“.

Uppsuða (n, kvk)  Samsetningur; bræðingur.  „Þessi bók er að mestu uppsuða úr annarra manna skrifum“.

Uppsveifla (n, kvk)  Sveifla/hreyfing uppávið.  „Ég náði festarauganu í einni uppsveiflunni“.

Uppsveigður (l)  Boginn/sveigður uppávið.

Uppsölupest (n, kvk)  Gubbupest; ælupest; veikindi með uppsölum.

Uppsölur (n, kvk, fto)  Æla; gubb.  „Ekki veit ég hver fjandinn var í þessu en ég fékk af því bölvaðar uppsölur“.

Upptak (n, hk)  Byrjun/upptaka á sjávarfalli.  Ýmist í hk eða kvk.

Upptaka (n, kvk)  A.  Um sjávarfall; fall hefst eftir fallaskipti.  Fiskur sem kemur undir á fallaskiptum getur haldist í upptökunni.  „Var þá meðstraumur út með hlíðunum, liggjandi á Sandflóa og út með Bjarginu og norðurfallsupptaka er kom út að Töngum“  (PJ; Barðstrendingabók).  „Við upptökuna (nýtt sjávarfall að byrja) var byrjað að draga“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  „Þar erum við um niðursláttinn á norðurfalli; liggjandann og upptöku á suðurfalli“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  B.  Upptaka á kartöflum eða öðrum garðávöxtum; kartöfluupptaka.  „Við þurfum að klára upptökuna, ef hann skyldi frysta í nótt“.  C.  Það að gera eign upptæka; eignaupptaka.

Upptalinn (l)  Nefndur; talinn upp.

Upptalning (n, kvk)  Það að telja upp/ nefna.

Upptáinn / Upptálgaður / Upptrosnaður / Upptættur / Uppurinn (l)  Eyddur/trosnaður/tættur upp að miklu leyti.

Upptekinn (l)  Önnum kafinn; bundinn við verk. 

Upptekt (n, kvk)  A.  Það að taka upp, t.d. mál eða málefni.  B.  Það að taka upp kartöflur.  C.  Það að taka net í land sem legið hafa um tíma.

Upptendraður / Upptrekktur ((l)  Uppveðraður; spenntur; ákafur; mjög áhugasamur. 

Upptendrast (s)  Verða upptendraður/spenntur/ákafur.  „Hann upptendraðist alveg af þessari hugmynd og vildi strax drífa í þessu“.

Upptíningur (n, kk)  Það sem tínt er upp; það sem safnað er saman.  „Þetta orðasafn er að mestu upptíningur, bæði úr tiltækum heimildum og úr mínu minni“.

Upptínt (l)  Búið að tína upp.  Oft notað í eggjatökuferðum:  „Það er allt upptínt í þessu flesi“.

Upptök (n, hk, fto)  A.  Byrjun; uppruni.  „Ég veit ekki hver átti upptökin að slagsmálunum“.  B.  Upphaf/uppspretta fallvatns.  Upptök Árinnar eru frammi í Vík, þó oft sjáist ekki vatn á yfirborði fyrr en neðanvið Fossa“.

Upptökuheimili (n, hk)  Heiti sem fundið var á staði þar sem svonefndum „vandræðabörnum“ var hrúgað saman undir eftirliti; foreldralausum og stundum við slæman kost og misþyrmingar.  Uppúr 1952 var í Breiðavík stofnað slíkt upptökuheimili á vegum ríkisins.  Margir íbúar Rauðasandshrepps glöddust yfir því að loksins væri kominn ríkisrekstur í sveitina, með tilheyrandi uppbyggingu og umsvifum.  Var því almennt trúað að þarna væri unnið að velferð barnanna, enda vissu nágrannar ekki betur.  Þegar heimilið var lagt niður eftir um 40 ára rekstur varð ljóst að svo hafði ekki alltaf verið, og hafa sumir starfsmenn stofnunarinnar hlotið hörð eftirmæli af þeim sökum, þó það eigi alls ekki við um þá alla.  Upptökuheimilið að Breiðavík gekk undir fleiri nöfnum, s.s. vistheimili barna.  Eftir að starfseminni lauk var húsakostur nýttur fyrir gistiheimili.

Upptökumaður (n, kk)  Sá sem tekur upp kartöflur.  „Mig vantar eiginlega upptökumann með mér“.

Uppum (fs)  Upp um; upp í gegnum.  „Við rákum lambféð uppum hliðið á Hjöllunum, og út í Breið“.

Uppum (ao)  Um stefnu; grynnra; að landi.  „Áttir og stefnur voru með lítið eitt öðrum hætti í Útvíkum og nágrenni en annarsstaðar tíðkaðist og nú er algengast.  Ekki síst átti það við á sjó, en einnig á landi:  Framum þýðir dýpra/fjær landi eða inn dalinn; uppum þýðir grynnra/nær landi eða ofar í landinu;  útum þýðir út fjörðinn eða í stað sem er utar á landsvæði; innum þýðir inn fjörðinn eða innyfitr heiði/ inn í fjörð“.  „Hann er að leggja upp einhvern ölduslátt; við siglum hér aðeins uppum og rennum þar“.

Uppundir / Upp undir (fs/ orðtak)  A.  Uppvið; undir.  „Hrífan er þarna uppundir veggnum“.  Kýrnar eru komnar uppundir Hjalla“. B.  Allt að; fast að; hátt í.  „Þarna var marg fé; ég gæti trúað uppundir hundrað“.  „Gufunef gæti verið upp undir 100 metra hátt“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).  C.  Uppi við land.  „Við vorum búnir að vitja uppundir og ætluðum að fara að vitja úti í Flóa þegar vélin bilaði“.  „Mjög dró úr veltingnum þegar við komum uppundir“.Ýmist í einu eða tveimur orðum.

Uppurinn (l)  Búið; lokið.  „Saltfiskur er allur að verða uppurinn.  Við þurfum að fara í róður bráðlega“.

Uppúr (fs)  A.  Upp af/frá/úr.  „Ég var nýstaðinn uppúr flensu og ekki vel hress“.  „Honum tókst að reka kindina uppúr flesinu og heim ganginn“.  B.  Um tíma; eftir.  „Þetta gerðist uppúr síðustu áramótum“.  „Uppúr klukkan tólf fór hann að rigna“.

Uppúr (ao)  Upp úr.  „Það var farið að sjóða uppúr, svo ég færði pottinn“.  „Ekki ætla ég að skera uppúr með þetta; það verða aðrir að gera“.

Uppúr suðunni (orðtak)  Um mat sem er sjóðheitur, fyrst eftir að hann er færður upp úr potti.  „Við hinkrum aðeins; við borðum þetta hvort sem er ekki alveg uppúr suðunni“.

Uppvakinn (l)  Vakinn upp.  „Ég var uppvakinn með þær fréttir að hliðið væri opið og féð lægi í túninu“.

Uppvaknaður (l)  Vaknaður.  „Ég er ekki almennilega uppvaknaður ennþá; ég var nærri búinn að gleyma nestisskjóðunni“!

Uppvakningur (n, kk)  Sá sem, samkvæmt þjóðtrúnni, hefur verið vakinn upp frá dauðum; draugur; afturganga.  Kunnastur uppvakninga í Kollsvík er líklega sá sem Benedikt Gabríel sendi á Einar í Kollsvík þegar sá síðarnefndi móaðist við að gera skil á skotmannshlut Benedikts í hval sem Einar lét skera.

Uppvask (n, hk)  Uppþvottur.

Uppvaxandi (l)  Sem er að vaxa úr grasi/ stækka/fullorðnast/aukast. 

Uppvaxtarár (n, hk, fto)  Æskuár; yngri ár.  „Margt er ósagt um vinnubrögð og búskaparhætti á uppvaxtarárum mínum, sem gaman væri að segja frá.  En það verður ekki gert að þessu sinni“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Uppveðraður (l)  Áhugasamur; spenntur.  „Hann er mjög uppveðraður yfir þessum bílakaupum“.

Uppveðrast (s)  Verða spenntur; lífgast upp.  „Hann uppveðraðist allur þegar ég sagði honum frá rekatrénu“.

Uppvið (ao)  Uppi við; hjá; við.  „Hrífurnar eru þarna uppvið húsvegginn“.  „Það er lítið að hafa uppvið land“.

Uppvíður (l)  Víðari að ofan en neðan; trektlaga.  „Vínið supu þeir úr uppvíðum glösum á fæti“.

Uppvís að (orðtak)  Afhjúpaður; þekktur fyrir.  Eingöngu notað um það þegar glæpur/ávirðing kemst upp.  „Hann varð uppvís að ýmiskonar hnupli frá nágrönnum sínum“.

Uppvísandi (l)  Sem veit/vísar upp.  „Á slánni voru tveir uppvísandi gildir naglar sem bandið rann á milli“.

Uppvægur (l)  Æstur; í uppnámi; spenntur.  „Hann vildi óður og uppvægur fá að fara með þeim“.

Uppvöxtur (n, kk)  Það að vaxa/fullorðnast.  „Í mínum uppvexti leifði enn ýmislegt eftir af gömlum búskaparháttum og margt það óþekkt sem nú teljast sjálfsögð nútímaþægindi“.

Uppyfir (ao)  Uppfyrir; upp og yfir.  „Hann klóraðist uppyfir brúnina með fulla eggjafötu á hvorum handlegg“.

Uppyngja (s)  Yngja upp; endurnýja.  „Kúna uppyngir landsdrottinn (Saurbæjareigandi).  Ærnar hefur leiguliði (á Grundum) uppyngt; þó er það ei á skilið“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Uppþemba (n, kvk)  Ólga/belgingur í maga; það að bólgna/tútna út.  „Einhver árans uppþemba er í mér núna; ég hefði átt að fara varlegar í þetta dýrindis rúgbrauð“!

Uppþembdur (l)  Um magafylli; með uppbólginn maga; of saddur; með loft í maga.  „Nú er maður svo uppþembdur eftir matinn að lítið verður úr verki fyrst um sinn“.

Uppþiðna (s)  Þiðna upp; slakna; bráðna.  „Snjór er að mestu uppþiðnaður í byggð“.

Uppþornaður (l)  Sem þornað hefur upp.  „Í þurrkatíð eru Smávötnin oftast uppþornuð“.

Uppþot (n, hk)  Æsingur; óðagot; uppreisn; óeirðir. 

Uppþurrkaður (l)  Um landsvæði sem búið er að ræsa fram/ þurrka upp.  „Svuntumýrin hefur nú verið uppþurrkuð og er komin undir sléttur“.

Uppþurrkun (n, kvk)  Framræsla lands til þurrkunar/ræktunar.

Uppþvottabursti / uppþvottakústur (n, kk)  Bursti til að vaska/þvo upp borðbúnað.

Uppþvottur (n, kk)  A.  Uppvask; það að þvo upp t.d. eldhúsáhöld/borðbúnað.  B.  Borðbúnaður/leirtau eða annað sem bíður eftir þvotti eða verið er að þvo.

Uppörvandi (l)  Sem veitir þor/bjartsýni/viljastyrk/hvatningu.  „Bjartsýni hans var mjög uppörvandi fyrir okkur hina“.

Urð (n, kvk)  Stórgrýti; stórgrýtt landsvæði.  Grófar urðir er helst að finna neðst í skriðurunnum hlíðum; þar sem hrun úr hlíð eða klettum hefur sorterast við að velta niður.  Gott dæmi um grófa urð má sjá í skriðufætinum meðfram Breiðnum norðantil.  Þar er víða ófæruurð, stórgrýtisurð eða helurð sem fátt kemst yfir.

Urða (s)  Greftra/farga með því að hylja grjóti.  „Ég urðaði hræið af kindinni sem þarna fór afvelta“.

Urðahjalli (n, kk)  Hjalli innanum urðir í hallandi landslagi.  Urðarhjalli er örnefni efst í Látradal; uppi undir Geldingsskorardalsskarði, en um hann liggur Keflavíkurvegur.

Urðarfell (n, hk)  Stórgrýtt fell, mikistil gróðurvana.  „…átti þá Stekkjarvörðu að bera milli Hauganna, sem eru tvö áberandi urðarfell á fjalllendinu milli Kollsvíkur og Vatnadals“  (HÖ; Fjaran). 

Urðarfótur (n, kk)  Neðri jaðar á stórgrýtisurð.  „Ennin náðu frá Bæjargilinu niður undir Hvarfið og voru ofan við túnið; upp að urðarfótunum“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Urðarklungur (n, hk)  Stórgrýtisurð; illfær urð.  „Farðu varlega í urðarklungrinu“.

Urðarköttur (n, kk)  Þjóðsagnakvikindi sem sagt var að gæti drepið með augnaráðinu einu saman.  Tilurð hans var sú að venjulegur köttur hafði lifað á mannslíkum í þrjá vetur samfleytt.  Má e.t.v. ætla að sögnin hafi verið mönnum áminning um að grafa hina látnu tryggilega.

Urðarmáni (n, kk)  Eldhnöttur; kúluelding; ljóshnöttur sem sagður er geta svifið í lausu lofti og skotist inn í hús og gjótur.  Flestum sjónarvottum ber saman um að hann hverfi með miklum hvelli eða sprengingu; stundum finnst sérstakur þefur á eftir.  Stærð urðarmána er oft um 20-30 cmTíðum sést hann í tengslum við þrumuveður.  Hann er sagður hafa sést innandyra án þess að sæi á veggjum, hurðum eða gleri; sést inni í flugvélum og í kafbátum.  Nýlega hefur tilvist fyrirbærisins verið vísindalega staðfest og tekist hefur að framkalla slíka ljóshnoðra með hárri spennu við sérstakar aðstæður, en óvíst er að allt þetta fyrirbæri sé af sama uppruna.

Urðarnúpur (n, kk)  Grýttur núpur; stórgrýtt og gróðurlaus hæð.  „Milli Kálfadals og Lambadals eru Hreppar.  Það er flatneskjuleg grjóthæð, grjóturðir eða graslítill urðarnúpur; breiður um sig“  (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).

Urðarskriða (n, kvk)  Skriðuurð; skriða af stórgerðu grjóti, oftast neðst í skriðuhliðinni þar sem bergmunlningurinn flokkast nokkuð þegar hann skríður fram og sá skriðþyngsti fer lengst.

Urðarsláttur (n, kk)  Sláttur á grasi í urðum.  Urðarsláttur var stundaður fyrrum í Kollsvík; bæði í Urðunum á Láganúpi og Kollsvíkurmegin.  Urðirnar á Láganúpi voru líklega síðast slegnar rétt fyrir 1970, af Guðbjarti Guðbjartssyni á Láganúpi.  Þó þá væri kominn á efri ár varð honum aldrei á að reka ljá í stein, og má það teljast allmikil snilld.  Þarna er kjarnmikið gras innanum stórgrýtið, en mikið er fyrir heyjunum haft.

Urðir (n, kvk, fto)  Stórgrýtt landslag.  „Urðir eru örnefni á tveimur stöðum í Kollsvík; ofan Láganúpstúns og ofan Kollsvíkurtúns“.

Urðun (n, kvk)  Það að hylja úrgang, hræ eða annað með grjóti; rústun. 

Urg (n, hk)  Sarg; marr.  „Stórgrýtinu var svo hnikað aftur úr kerrunni með járnkörlum og ferlegu urgi“.  Nafnorðið urga var stundum notað í afleiddri merkingu:  „Honum tókst að urga vélinni í gang“.

Urga (s)  A.  Sarga; núast við með óhljóðum.  „Þú mátt ekki láta urga svona í gírunum þegar þú skiptir“.  B.  Þoka; jaga; ýta af stað.  „Hann var tregur til; en mér tókst að urga honum í þetta verk“.  „Eftir margar tilraunir tókst honum að urga vélinni í gang“.

Urgur (n, kk)  Fýla; geðvonska; þungt hljóð.  „Það er einhver urgur í honum enn útaf þessum viðskiptum“.

Urinn upp / Upp urinn (orðtök)  Gjörsamlega eyddur/horfinn.  „En meðan firðirnir voru ekki urnir upp, var fiskur í Flóanum, einkum ýsa, fram undir jól; bæði í Arnarfjarðarflóa og Patreksfjarðarflóa; sérstaklega Molduxadýpi“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Urmull (n, kk)  Aragrúi; mikill fjöldi; dobía.  „Við sáum urmul af fé þarna á hlíðunum“.

Urr (n, hk)  Murrandi og djúpt reiðihljóð dýrs.

Urra (s) A.   Framleiða urr.  B.  Siga hundi.  „Ég urraði tíkinni á hópinn sem ætlaði að skilja sig frá rekstrinum“.  Þessi síðari merking virðist ekki þekkt af orðabókum, en var notuð í Kollsvík. Sjá urradan.

Urradan / Urrdan (uh)  Merkingarlaus upphrópun; hvatningarorð við hund til að siga honum á fé eða annað.  Í Kollsvík heyrðist hvatningin oftar með greinilegu „a“ í miðju.  „Urradan; sæktu hana“!

Urrandi rok / Urrandi hávaðarok (orðtök)  Bálhvass; öskrandi rok; mikill vindur.  „Þvílíkt urrandi hávaðarok; það er varla mannstætt“!

Urrandi vondur (orðtak)  Verulega reiður; saltvondur; foxillur; saltvondur; hoppandi reiður.  „Hann ku vera urrandi vondur vegna þessara skrifa“.

Urriði (n, kk)  Salmo trutta.  Ferskvatnsfiskur sem finnst í mörgum ám og vötnum hérlendis.  Silfurlitaður með áberandi brúnum doppum um skrokkinn.  Dökknar um hrygningartíma og þá mynda hængar krók á neðri skolt.  Oft hálft til heilt kíló að þyngd, en getur orðið stærri.  Getur verið staðbundinn en einnig gengið í sjó og nefnist þá sjóbirtingur.  Góður matfiskur.

Urt (n, kvk)  Jurt; planta.

Urta (n, kvk)  Kvenkyns selur; selamóðir.

Uslagjald (n, hk)  Umsýslugjald; skaðabætur; gjald til að mæta (óæskilegu) umstangi með eignir annarra; t.d. vegna ágangs búfjár.  „Gangi búpeningur í engi, tún, garðlönd eða önnur afgirt svæði og valdi tjóni, skal eigandi gjalda ábúanda bætur. .. Sé um endurtekinn ágang að ræða getur ábúandi sett hann inn og gert eiganda viðvart...  Vitji eigandi eigi hins innsetta búpenings... og greiði uslagjald samkvæmt mati... má hreppstjóri selja féð á opinberu uppboði eða leiða til slátrunar...“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).

Usli (n, kk)  Tjón skaði; óskundi; ágengni; átroðningur.  Gera usla = vera með átroðning.

Uss (uh)  Upphrópun sem notuð er sem ábending til annarra um að hafa hljótt eða minnka hávaða sinn.  Gjarnan horft á viðmælanda um leið og lagður vísifingur lóðréttur á varir sem sýnilegt merki.

Utan (fs)  A.  Fyrir utan; utan við. „Mér sýnist féð vera utan girðingar“.  B.  Vestan.

Utan (st)  Að frátöldu/undanteknu.  „Úlpu átti hann enga, utan þennan gauðslitna ræfil sem hann var í“.

Utan í (orðtak)  A.  Að utanverðu.  „Gangurinn utan í nefinu er tæpur“.  B.  Um nafngift; í höfuðið á.  „Kallamelur var skírður utan í Karl Kristjánsson sem þar bjó, en er í dag nefndur Stekkjarmelur“.

Utan við sig (orðtak)  Annarshugar; viðutan.  „Hann er svo utan vi ð sig að hann fylgist ekkert með tímanum“.

Utanaðkomandi (l)  Sem kemur að; sem stendur fyrir utan; ókunnugur.  „Ég komst frá verkinu án allrar utanaðkomandi aðstoðar“.

Utaná (ao)  Á utanverðu; að utanverðu.  „Kámið er bara utaná bókinni; lesmálið er í lagi“.

Utánáskrift (n, kvk)  Adressa; merking bréfs/bögguls til viðtakanda.  „Þessa utanáskrift þekki ég vel“!

Utanborðs (ao)  Utan við borðstokk á bát.  „Hann lá hálfur utanborðs meðan hann teygði sig í baujuna“.

Utanborðsmótor / Utanborðsvél (n, kk/kvk)  Vél með áfastri skrúfu sem fest er aftantil á bát; rassmótor.

Utanbókar (ao)  Án þess að lesa af/á bók.  „Hann kunni þetta alltsaman utanbókar“.

Utanbókarlærdómur (n, kk)  Kunnátta sem festist í minni, svo ekki þarf að lesa af bók.

Utanbæjamenn (n, kk, fto)  Fólk af bæjunum Sellátranesi og Hænuvík.  „Neðsta vaðið á Hafnarvaðlinum var undan Hnjótsfitaroddanum og nefnt Utanbæjavað.  Dró það nafn af því að þar fóru þeir sem komu utan úr Víkum.  En þeir sem komu úr Hænuvík eða Sellátranesi voru alltaf nefndir utanbæjamenn og sagt að fara út á bæi ef fara átti þangað“ (frá bæjum innar í firðinum eða Örlygshöfn) (KJK; Örnefnaskrá Tungu).

Utanbæjarfé (n, hk)  Aðkomufé; fé sem ekki er af viðkomandi bæ.  Oftar var talað um aðkomufé/aðkomukindur.

Utanbæjarfólk / Utanbæjarmaður (n, hk/kk)  Fólk/maður sem ekki er af viðkomandi bæ/svæði.

Utaneftir (ao)  Að utan og innmeð.  „Þá hljóp fjárhópurinn utaneftir Smáhryggjunum og upp Vallargjá“.

Utanferð / Utanför (n, kvk)  Ferð til útlanda.  Sjá fara utan.

Utanfélagsmaður (n, kk)  Sá sem er ekki í tilteknu félagi.  „Félagsgjald er hærra fyrir utanfélagsmenn“.

Utanfótar (ao)  Utaná fæti; það á fæti sem snýr frá klofi.

Utanfrá (ao)  Að utan; inn.  „Kemur þessi hávaði utanfrá, eða er þetta hér inni“?

Utangarðs (ao)  A.  Fyrir utan túngarð/garðhleðslu.  B.  Utan kirkjugarðs.  „Fyrrum var venja að þeir væru jarðaðir utangarðs sem framið höfðu alvarlega glæpi; töldust villutrúarfólk eða höfðu framið sjálfsvíg“.  C.  Utan samfélags; ekki þátttakandi í félagsskap.  „Hann um það, ef hann vill vera utangarðs í þessu samstarfi“!

Utangarna (l)  Annarshugar; utan hóps/samfélags; áhugalaus.  „Eftir konumissinn varð hann einrænn og utangarna“.  Ekki skal fullyrt um upprunann, en e.t.v. er vísunin sú sama og utangátta

Utangátta (l)  Annarshugar; utan við sig; hugsunarlaus.  „Þú verður að einbeita þér betur að náminu.  Það dugir ekki að vera svona utangátta við þetta“.  Vísar til þess að hugsunin sé ekki heimavið/ utan bæjar.

Utanhallt (ao)  Að utanverðu.  „...steinninn hafði ekki lent beint ofan í höfuðið heldur snert utanhallt“  (MG; Látrabjarg). „“utanhallt á miðju Hrauni eru Fremriblettir“  (ÍÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).

Utanhjá (ao)  Framhjá; útfyrir.  „Þarna hefur eitthvað farið utanhjá þegar ég hellti í könnuna“.

Utanhreppsmaður (n, kk)  Maður sem ekki býr í viðkomandi hreppi; aðkomumaður.  „…en samkvæmt fjallskilasamþykkt er óheimilt að leyfa utanhreppsmönnum upprekstur nema að innansveitarmönnum frágengnum“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Utanhúss (ao)  Úti; utandyra. 

Utaní (ao)  Utan í; ‚i.  „Rektu þig ekki utaní vegginn; hann er nýmálaður“.  „Ég rakaði mestu lýjurnar sem héngu utaní heyvagninum áður en hann ók af stað“.   „Hann var skírður utaní frænda sinn“.

Utanlands (ao)  Í útlöndum.  „Hann hefur dvalið utanlands frá unga aldri“.

Utanskerja (ao)  Á sjó; utanvið sker og boða. 

Utanskóla (ao)  Um nám; lært á eigin vegum, án þess að vera í skóla en með tengslum við skóla.  „Ég tók menntaskólanámið utanskóla, en lauk þó ekki síðasta vetri“.

Utansveitar (ao)  Sem ekki er búsettur í sveitinni.

Utansveitarfé / Utansveitarkind / Utansveitarskepna / Utansveitarær (n, hk/kvk)  Kind/fé frá unnansveitareigendum.  „Barðastrandarhreppur verður að sjá um flutning á þessum utansveitarkindum“.

Utansveitarmaður / Utansveitarfólk (n, hk)  Maður/fólk sem ekki er búsett í sveitinni.

Utantil (ao) A.  Utanvert; utarlega.  „Það eru nokkrar kindur utantil á Stígnum“.  „Fólk í Hænuvík vissi lítt um slysið fyrr en það sá til ferða Árna utantil við á, skammt frá bænum“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).  „Skömmu seinna rak hnýðinginn í Láturdal, sem er gömul verstöð og liggur skammt fyrir innan Blakknes í vestanverðum Patreksfirði.  Er í Hænuvíkurlandi, sem er ysti bær þeim megin fjarðarins, en utantil við Blakknesið, hinumegin, er Kollsvík næsti bær við Láturdal“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).  B.  Vestantil eða suðvestantil í átt frá Kollsvík.  „Þá tók sig upp brot utantil við boðann“.

Utantilvið (ao)  Handanvið; fyrir utan; utanvert við. „Reynið að passa að féð fari ekki niður utantilvið Litlavatnið, svo þær leiti ekki í Breiðinn“. 

Utanúr (ao)  Utan úr; utanfrá.  „Þarna koma þeir með reksturinn utanúr Breiðavík; ég ætla að hlaupa útá Brunnsbrekku og standa fyrir“.  „Ég rakaði utanúr heyvagninum áður en hann fór af stað“.

Utanundir (ao)  Undir fyrir utan.  „Mér lá við að gefa honum utanundir þegar hann upphófst með þetta kjaftæði“!  „Hrífan liggur hérna utanundir veggnum“.

Utanveltu (ao)  Fyrir utan; utanvið.  „Hann lenti utanveltu í bekknum og varð jafnvel fyrir aðkasti“.

Utanverður (l)  Sá sem er utantil/ í ytri/vestari hluta.  „Breiðavíkurrétt var skilarétt fyrir utanverðan Rauðasandshrepp…“  (PG; Veðmálið). 

Utanvert við (orðtak)  Utanvið; fyrir utan.  „Breiðsholtið er utanvert við Árdalinn“.

Utanvið (ao)  A.  Um staðsetningu; fyrir utan; handan við.  „Strympur eru utanvið Flatirnar“.  B.  Um hugarástand; annarshugar; tekur ekki eftir; í þungumþönkum.  „Ég var eitthvað utanvið og heyrði ekki“.

Utanvið sig (orðtak)  Annars hugar; ráðvilltur; ruglaður.  „Ég hef eitthvað verið utanvið mig þegar ég fór í sokkana; annar þeirra er úthverfur“.

Utanyfir (ao)  A.  Um klæðnað; utar en önnur flík; yfir annan klæðnað.  „Farðu í aðrar buxur utanyfir ef þú ert að fara í skítmoksturinn“.  B.  Um stefnu/átt; aðutan og yfir.  „Hann kom gangandi utanyfir Breið“.

Utanyfirbuxur (n, kvk)  Buxur sem hafðar eru utanyfir öðrum buxum og þeim til hlífðar.

Utanyfirblússa / Utanyfirjakki / Utanyfirmussa / Utanyfirstakkur (n, kvk)  Yfirhöfn sem notuð er til hlífðar í skítverkum; vinnujakki; vinnustakkur.  „Það má nota þetta fyrir utanyfirmussu í fjósverkin“. 

Utanyfirfatnaður / Utanyfirföt / Utanyfirgalli / Utanyfirpjönkur (n, kvk, fto)  Utanyfirföt; skjólföt.  „Áttu ekki einhverjar hlýrri utanyfirpjönkur; hann er orðinn illkaldur núna“.

Utanþings (ao)  Sem ekki situr á alþingi.

Utar (ao)  A.  Sem er lengra frá.  B.  Sem er vestar.

Utari / Ytri (l, mst)  Beyging staðarlýsingarorða er almennt sterk í dag, og því er almennt sagt; ytri – innri – nyrðri – eystri, en ekki eins og almennt var áður; utari- innari – norðari – austari.  Kollsvíkingar hafa þó haldið nokkuð í eldri beygingarmyndir.  Þar er undantekningarlaust sagt „norðari“ og oft heyrast einnig beygingarmyndirnar innari – utari – og austari.  „Besta veiðin var í utari strenginn á Láturdalnum“.

Utarlega (ao)  Að utanverðu; utanvert á.  „Utarlega á Breiðnum er Dula, þar sem komast má niður klettana“.

Utastur (l, est)  Utar en aðrir eða mest í vestur.  Málvenja var að beygja þannig í Kollsvík, í stað „ystur“.  „Grófarstekkur er utasti stekkurinn af fjórum á Hnífum“  Miðstig var utari (ekki „ytri“) ef orðið stóð sérstætt; „Tveir boðar eru sunnantil á Víkinni og heitir Djúpboði sá utari“.  „Utan við Arnarboða er Hreggnesi.  Hann er utastur á þeim klettum er liggja að sjó undir Hnífunum“  (Örnefnaskrá Láganúps).  Þó var ytri notað í samsetningum og hliðstæðri stöðu eins og algengast er, t.d. Ytra-Gil og ytri dyrnar.  Þessi sérstaða hefur máðst í seinni tíð.

Uxi (n, kk)  A.  Naut; tarfur.  B.  Gelt naut.  Eingöngu notað í síðari merkingunni á seinni tímum.

Úa (s)  A.  Mora; vera margt af.  „Þarna úar allt af mús undir grindunum“.  B.  Hljóð æðarfugls.  „Kolluhópur úaði skammt undan landi“.

Úa og grúa (orðtak)  Mora; vera kvikt; urmull.  „Nú úir hér allt og grúir af músum“.  „Hvernig á landstjórnin að geta gengið eðlilega meðan úir og grúir af svona vitleysingum í kerfinu“?!  Grúa (áður krúa) merkir að iða.

Úar í sílinu (orðtak)  (líkl.)  Fuglager í síli; mikið af síli.  Virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).  Sagnorðið „úa“ getur merkt að mora; vera í miklum fjölda.  Sbr. úa og grúa.

Úða (s)  A.  Um úrkomu; súlda; rigna mjög fíngerðri rigningu.  „Aðeins er hann byrjaður að úða“.  B.  Sprauta með þéttu droparegni, t.d. úr úðabrúsa.  B.  Háma; moka.  Sbr úða í sig.

Úða í sig (orðtak)  Gófla/ryðja í sig; borða af græðgi/matarlyst.  „Situr þú bara hér heima og úðar í þig bakkelsi meðan við stritum við að koma þessum styggðarkvikindum í hús“?!

Úðadæla (n, kvk)  Dæla sem gefur þéttan úða.  T.d. notuð við dreifingu efna í jurtaræktun.

Úðalegur (l)  Villimannslegur/ófrýnilegur í útliti/klæðnaði.  „Hann var asskoti úðalegur þegar hann sat þarna í skrifstofukompunni í tvennum peysum, kuldaúlpu, með húfu og vettlinga“.  Mikið notað vestra.

Úðaþoka / Úðaþykkni (n, kvk)  Þoka/þykkni sem nokkuð úðar úr og t.d. bleytir hey.

Úði (n, kk)  Fíngerð súld; samt örlítið þéttari en ýringur.  „Það er talsverður úði og orðið rennblautt á“.

Úðra (s)  Starfa; fást við.  „Hún (Gunna) dvaldi í skjóli tengdadóttur sinnar í Gröf mörg síðustu ár sín, og var alltaf úðrandi, við að safna eldiviði sem barst upp í Fitina með sjó eða bera heim mó, en ég man ekki eftir henni við tóvinnu, sem hún hefur samt trúlega unnið“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Úðrari (n, kk)  Sá sem er sístarfandi; vinnusamur maður.  „Hann er mesti úðrari; fellur aldrei verk úr hendi“.

Úir og grúir (orðtak)  Morar í; er í miklum fjölda.  „Það sprettur lítið á sléttunum meðan þar úir og grúir af túnbykkjum“!  Sjá einnig úa í sílinu.

Úfinn (l)  A.  Um sjólag.  Sagt var að röst væri úfin þegar í henni var mjög mikil ókyrrð.  Hún gat þá orðið hættuleg yfirferðar og jafnvel ófær.  „Fram af Blakknesi gengur úfin röst sem nefnist Blakknesröst“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Röstin var farin þétt við Tangaoddan þegar hún var úfin“  (PJ; Barðstrendingabók).  „...hröðuðum okkur sem mest við máttum til að hafa suðurfall fyrir Blakknesið; þar er oft harður straumur og úfinn sjór í norðanátt...“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  B.  Um veðráttu; rysjótt.  „Hann er búinn að vera skolli úfinn í tíðinni frá því tungl kviknaði“.  C.  Um háralag; í óreiðu; ógreitt.  D.  Um geðslag/skap; reiður; argur.  „Ég nennti ekki að rökræða við hann, eins úfinn og hann var“.

Úfinn og ótótlegur / Úfinn og rytjulegur / Úfinn og tættur (orðtök)  Ekki snyrtilegur í klæðaburði, háralagi og/eða hárgreiðslu.  „Greiddu þér nú um hausinn strákur; þú ert úfinn og ótótlegur eins og reytt hæna“!  „Óttalega er hún Ponta gamla orðin úfin og rytjuleg.  Ætli þetta verði nú ekki síðasta haustið hennar“.

Úfinn og umsnúinn (orðtak)  Bregst illa við; argur og þver.  „Hann var bara úfinn og umsnúinn þegar þetta barst í tal, svo ég var ekkert að orðlengja það neitt frekar“.

Úfinn til sjóarins/hafsins (orðtak)  Töluverður/allmikill sjór; hvítnar víða í báru.  „Það er hætt við að verði landlega hjá okkur meðan hann er svona úfinn til sjóarins“.

Úfna (s)  Ýfast; verða úfinn/óslettur; auka sjó/báru.  „Það verður lítið úr róðri í dag ef hann er eitthvað að úfna“.

Úfur (n, kk)  A.  Ósætti; misklíð.  Orðið mun upphaflega tákna odd/brodd, t.d. sverðs- eða spjótsodd.  Af því er leitt orðtakið þegar rísa úfar milli manna. Líklega stofnskylt „húfur“ og „húfa“.  B.  Umför í súð/byrðingi báts; undirúfur og yfirúfur.  C.  Húðsepi aftast í munnholi.

Úi (n, kk)  A.  Óslétt egg/yfirborð.  „Gættu þess að ofbrýna ekki; þá er hætt við að komi úi í eggina“!  B.  Mor; einkum notað um hröngl af þara á fjöru.  „Féð fór eitthvað að nasla í úanum í Langatangavikinu“.

Úldinn (l)  A.  Um mat; skemmdur; farinn að lykta illa.  „Kúfiskskelin var svo geymd í pokum þar sem sjór féll á hana, en þegar þetta fór að eldast drapst skelin og þetta varð úldið og blátt“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).   B.  Um mann; Þegjandalegur/skætingslegur í viðmóti.  C.  Um veðurlag; þokufýla; grámulla; súld.  „Skelfing er hann úldinn í veðráttunni þessa dagana“.

Úldna (s)  Verða úldinn.  „Fiskurinn frá því í gær er farinn að úldna í hitanum“.

Úlfabæli (n, hk)  Staður varga/ þeirra sem eru óvinveittir; ófriðarsvæði.

Úlfakreppa (n, kvk)  Sól er í úlfakreppu þegar blæs út sólir; gíll á undan og úlfur á eftir. Sjá gíll.

Úlfljótslög (n, hk, fto)  Elstu lög Íslendinga; sett 930 og kennd við Úlfljót, sem var fyrsti lögsögumaðurinn.  Ekkert er varðveitt af þeim og verður því ekki mikið fullyrt um efni þeirra, að því frátöldu sem hægt er að ráða í útfrá öðrum lögum, siðum og þjóðfélagsgerð á þeim tíma.  Lögin byggðu t.d. á Gulaþingslögum sem þá giltu í Noregi, sem þá voru eingöngu í munnlegri geymd.  Úlfljótur var sænskur að uppruna.  Talið er að hann hafi verið búsettur hérlendis en sendur utan til að kynna sér lög þegar menn vildu setja sér skýrar réttarreglur í hinu unga þjóðveldi.  Hann dvaldi þrjá vetur í noregi og nam m.a. lög af Þorleifi spaka Hörða-Kárasyni., að sögn Ara fróða í Íslendingabók.  Ásamt Grími skeitskó, fóstbróður sínum, kannaði Úslfljótur aðstæður hérlendis áður en Alþingi var valinn staður á Þingvöllum.  Upphaf Úlfljótslaga fjallaði um það, að sögn Ara, að menn skyldu ekki hafa höfuðskip í haf (þ.e. ekki leggja í siglingar með útskorið höfuð á stafni skips), en væri það gert skyldi taka höfuðið ofan áður en komið væri að landi, svo landvættir skelfdust ekki.  Líklega er þessi varúðarregla sett vegna þess að á landnámstímanum voru gríðarmikil eldgos á Íslandi, og hafa menn ætlað að þau stöfuðu af reiði landvætta.

Úlfsteinbítur (n, kk)  Mjög stór steinbítur.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimild GG)

Úlfur (n, kk)  Vargur.   Heyrðist í seinni tíð oftast nefndur í veðurspádómnum „sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni“.  Sjá blæs út sólir.

Úlfur í sauðagæru (orðtak)  Líkingamál um þann sem reynir að sýnast meinlausari en hann er.  „Það má passa sig á þessum sölumönnum; þetta er eins og úlfurinni í sauðagærunni“!

Úlfúð (n, kvk)  Viðsjár; tortryggni; ósætti.  „Það er alltaf einhver bölvuð úlfuúð milli þessarar bæja“.

Úlnliður (n, kk)  Liðamótin milli handleggs og handar.

Úlpulaus (l)  Ekki í úlpu eða annarri góðri yfirhöfn. 

Úr (n, hk)  A.  Lítil klukka sem höfð er fremst um handlegg eða í vasa.  B.  Ýringur; úði, t.d. úr bárufaldi; súld.

Úr alfaraleið (orðtak)  Um stað; ekki nærri þeirri leið sem almennt er farin; afskekkt.  „Staðurinn er nokkuð úr alfaraleið og því fannst hann ekki fyrr en þetta“.

Úr ábyrgð (orðtak)  Sjá kominn úr ábyrgð.

Úr einu verkinu í annað / Úr einum staðnum í annan (orðtak)  Lýsandi orðtök.

Úr einum vasanum í annan (orðtak)  Um millifærslu fjár sem virðist tilgangslaus eða innan sama efnahags. 

Úr garði gerður (orðtak)  Frágenginn; útbúinn; smíðaður.  „Það er alls ekki sama hvernig þessi smíðisgripur er úr garði gerður“.

Úr helju heimtur (orðtak)  Fenginn aftur úr háska.  Líking við að endurheimta einhvern frá helvíti.  „Héldum við svo áfram yfir Lambeyrarháls og komum á Eyrar um kvöldið og gistum þar hjá heimilisfólkinu, sem taldi okkur úr helju heimt“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Úr (öllu) hófi (orðtak)  Hömlulaust; án hófs; taumlaust.  „Svona græðgi er langt fram úr öllu hófi“!

Úr hverri spjör (orðtak)  Úr öllum fötunum.  „Ég var blautur inn að skinni og þurfti að hátta mig úr hverri spjör þegar heim kom“.

Úr lagi genginn (orðtak)  Illa farinn; orðinn aflagaður/lasinn/slasaður.  „Mér finnst ég vera allur úr lagi genginn eftir byltuna“.

Úr lausu lofti gripið (orðtak)  Um staðhæfingu/orðróm; ekki sannleikanum samkvæmt; staðlausir stafir; slúður.  „Fréttin er fjandi góð, en því miður er hún algerlega úr lausu lofti gripin“.

Úr leið (orðtak)  Frá fyrirhugaðri/almennri leið; úrleiðis; ekki í leiðinni.  „Hann sótti pakkann til þeirra, þó það væri nokkuð úr leið hjá honum“.  Sjá úr alfaraleið.

Úr leik (orðtak)  Ekki með lengur, t.d. í leik, vinnu, verki.  „Okkur vantar mann í staðinn, fyrst hann liggur úr flensu og er úr leik“.

Úr litlu að moða/spila (orðtak)  A.  Um fátækt; hafa lítið fé/fæði.  „Kotbændur höfðu oftastnær úr litlu að moða“.  B.  Afleidd merking t.d. um tiltækar heimildir.  „Ég hafði úr litlu að moða við þessi skrif“.

Úr mér stolið (orðtak)  Ég hef gleymt; ég man ekki.  „Því er alveg úr mér stolið hvenær þetta gerðist“.

Úr sér genginn (orðtak)  Aflóga; afdankaður; lélegur.  „Asskoti er þessi skyrta orðin úr sér gengin“.

Úr sér sprottið (orðtak)  Um gras/tún; þegar gras er farið að tréna í rót.  „Fremra túnið er allt farið að spretta úr sér“.  „Það er mikið minna gagn í að slá grasið svona úr sér sprottið“.

Úr sporunum (orðtak)  Sjá komast úr sporunum.

Úr sögunni (orðtak)  Búið að vera; liðið; farið frá.  „Við komumst í skjól í skúta í fjörunni, svo hættan af grjóthruninu virtist úr sögunni í bili“.

Úr tíma með (eitthvað) (orðtak)  Of seinn til einhvers.  „Við erum orðnir úr tíma með að komast uppað bryggjunni; það er of mikið fallið út til þess“.

Úr vöndu að ráða  (orðtak)  Erfitt/vandi að finna ráð/lausn.  „Það var úr vöndu að ráða þegar vélin bilaði“. Sjá vant er úr vöndu að ráða.

Úr þessu (orðtak)  Eftir þetta; héðan af.  „Úr þessu ætti nú að fara að vora fyrir alvöru“.

Úr því (orðtak)  A.  Vegna þess; fyrst.  „Ég þurfti ekki að kaupa þetta strax, en úr því að ég er í kaupstaðnum þá er best að klára það“.  B.  Eftir það; síðan.  „Tíðin var votviðrasöm út júlí, en úr því var sæmilegur þurrkur“.  „Frá Keflavík að Bjargtöngum var undanhald, en úr því var aflandsvindur“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi). 

Úr því sem komið er (orðtak)  Eins og málum er núna komið; eins og nú er komið.  „Ætli það sé ekki best að láta þetta bíða til morguns úr því sem komið er“.

Úr öskunni í eldinn (orðtak)  Um versnandi ástand/stöðu.  „Það væri að fara úr öskunni í eldinn að hreyfa við heyinu hálfblautu úr göltunum.  Við skulum láta þá vera og sjá hvort þornar af á morgun“.

Úrbeina (s)  Skera ket af beinum.

Úrbót (n, kvk)  Uppbót; ábót; lagfæring.  „Þeir þurfa að gera einhverjar úrbætur í vegamálum á svæðinu“.

Úrbrædd (l)  Um vél; búin að bræða legur í sér, t.d. vegna ónógs smurnings.

Úrbætur (n, kvk, fto)  Umbætur; lagfæring.  „Einhverjar úrbætur þarf að gera; svona getur þetta ekki gengið“!

Úrdráttur (n, kk)  Ávæningur; meginþættir lengra efnis, t.d. ritgerðar.

Úrfelli (n, hk)  Úrkoma; regn/slydda/snjór.  „Hann er að ljókka mjög í suðrinu.  Eitthvað úrfelli er þar á ferð“.  „... en með 17. júní brá til úrfella og meiri hlýinda... “  (SJTh; Árb.Barð 1955-56). 

Úreltur (l)  Sem ekki hefur haldið fullu gildi sínu þegar breytingar verða með tímanum.  „Þessar vinnuaðferðir þykja núna úreltar“.

Úrfelli (n, hk)  A.  Úrhelli; mjög mikil rigning.  B.  Nú einkum notað í tengslum við fall geislavirkra agna eftir kjarnorkusprengingu; sbr „geislavikt úrfelli“.

Úrfelling (n, kvk)  Það að fella eitthvað úr/niður.  T.d. fækka lykkjum þegar prjónað er eða stytta texta.

Úrgler (n, hk)  Gler fyrir skífu úrs.  „Nú hefur komist móða innaná úrglerið“.

Úrgangur (n, kk)  Afgangur; eftirhreytur; það sem eftir verður; matarleyfar; hrat; ónýti; sorp.

Úrgreiðsla (n, kvk)  Það að greiða fisk/hnút úr neti .  „Ekki sá ég neinn handfljótari við úrgreiðslu en Ingvar frænda minn.  Netahnútum brá hann stundum á milli tanna, sem oftast dugði“.

Úrgreiðslugoggur / Netagoggur (n, kk)  Áhald til að greiða fisk/hrognkelsi úr netum; lítill goggur, lítið meira en þverhandarlangt tréskaft með járngaddi þvert í annan endann.  Mikið hagræði er að góðum netagoggi við úrgreiðslu veiði úr netum og stundum til að leysa netahnúta.

Úrhelli / Úrhellisrigning / Úrhellisdemba / Úrhellisandskotansrigning / Úrhellisslagveður / Úrhellisslagviðri (n, kvk)  Mjög mikil rigning, eins og hellt sé úr fötu; ausandi rigning.  „Skyldi hann ekkert ætla að létta í þetta úrhelli“?  „Það er ennþá úrhellisrigning“.  „Við fengum á okkur úrhellisdembu“.  „Það er enn sama úrhellisandskotansrigningin“!

Úrhendis (ao)  Umhendis; örðugt.  „Yfirleitt er mjög úthendis að nota brotna heykvísl, en hún getur komið að góðum notum til að jafna í hlöðum sem eru fullar í rjáfur“.

Úrhendisskel (n, kvk)  Sá helmingur öðuskeljar/krákuskeljar sem sveigður er frá munni þegar skelin er notuð sem skeið/spónn með hægri höndinni.  Hinn helmingurinn nefnist íhendisskel.

Úrhrak (hk)  Sá sem er fyrirlitlegur; afstyrmi.  Fyrrum sömu merkingar og úrgangur/úrkast.

Úrhættis (ao)  Vonlaust; afskorið; ómögulegt.  „Mér sýnist alveg úrhættis með að við náum öllu heyinu inn áður en hann fer að rigna“.

Úrillur (l)  Geðvondur; viðskotaillur.  „Maður getur nú ekki verið úrillur þó ekki sé mokveiði hvern dag“.

Úrkast (n, hk)   Það sem kastað er frá vegna þess að það er lélegra/verra en annað. 

Úrkoma (n, kvk)  Hverslags rigning eða snjókoma.

Úrkomuátt (n, kvk)  Sú átt sem helst rignir/snjóar úr. 

Úrkomulaust (l)  Þurrt; uppihang.  „Hann er orðinn fjandi ljótur í suðrinu en það er úrkomulaust ennþá“.

Úrkomusamt (l)  Með mikilli úrkomu.  „Þó svæðið teljist allt mjög úrkomusamt virðist öll sú úrkoma hverfa jafnharðan niður í jökulurðina sem er nánast allsráðandi í landslagi ofan við ca 100 m“  (HÖ; Fjaran). 

Úrkomuvottur (n, kk)  Lítilsháttar úrkoma.  „Enn finnst mér eins og það sé einhver úrkomuvottur“.

Úrkula vonar (orðtak)  Vonlaus; vonlítill.  „Ég var alveg orðinn úrkula vonar með að þetta hefðist“.

Úrkynjaður (l)  Hrörnaður/lélegur miðað við aðra (t.t. fyrri kynslóðir) vegna t.d. skyldleikaræktunar eða annarra ræktunarskilyrða; úrættaður.

Úrlaus (l)  Ekki með úr/klukku; klukkulaus.  „Ég var útlaus og vissi ekki alveg hvað tímanum leið“.

Úrlausn (n, kvk)  Lausn; það að leysa úr málum/viðfangsefnum; svar.  „Ég fekk nokkra úrlausn minna mála“.

Úrlausnarefni (n, hk)  Viðfangsefni; vandamál; það sem leysa þarf úr.

Úrleiðis (ao)  Ekki í leiðinni; afskekkt.  „Bærinn var dálítið úrleiðis en ég tók samt á mig krókinn“.        

Úrmakari (n, kk)  Úrsmiður; sá sem lagfærir úr/klukkur.

Úrrek (n, hk)  Áhald/stautur til að reka eitthvað úr, t.d. öxul úr legu.

Úrrennsli (n, hk)  Staður þar sem vatn hefur rofið skarð í jarðveg, veg, tún o.fl.  „Varaðu þig á úrrennslinu í Hæðinni“.

Úrræðagóður (l)  Fundvís á leiðir til úrlausna; laginn við að bjarga málum. 

Úrræðalaus / Úrræðalítill (l)  Hefur engin/fá úrræði; hefur engar/fáar lausnir.

Úrræðaleysi (n, hk)  Skortur á ráðum/lausnum; ráðþrot.

Úrræði (n, n)  Ráð sem dugir til lausna; lausn á vandamáli/viðfangsefni.  „Þá datt mér snjallt úttæði í hug“.

Úrskeiðis (ao)  Aflaga; ekki eins og ætlað er.  „Eitthvað hefur netalagningin farið úrskeiðis hjá þeim“.

Úrskelja (s)  Ná fiski úr skel.  „Kúfiskurinn var tekinn úr sjó og úrskeljaður stuttu áður en beitt var“.

Úrskífa (n, kvk)  Skífa á úri, bakvið glerið og vísana.  „Betur sést á úrið ef úrskífan er hvít en sé hún dökk“.

Úrskurða (s)  Skera úr um t.d. ágreining/deilumál; dæma.

Úrskurður (n, kk)  Dómur/ákvörðun í ágreiningi/deilumáli.  „Hans úrskurður er endanlegur í þessu efni“.

Úrslit (n, hk, fto)  Niðurstaða.  „Þessi úrslit komu Gumma gjörsamlega á óvart og upphófust nú háværar samræður“  (PG; Veðmálið). 

Úrslutatilraun (n, kvk)  Lokaatrenna; atrenna/tilraun sem ræður niðurstöðu.

Úrsnari (n, kk)  Áhald sem notað er til að víkka gat í opið, til þess t.d. að geta notað undirsinkaða skrúfu.

Úrsögn (n, kvk)  Það að hætta í t.d. félagsskap.

Úrt járn (orðtak)  Sorajárn; járn sem ekki er búið að vinna allan sora úr, og er þvi deigt og illa nothæft.

Úrt járn kvað kerling og átti hníf deigan (orðatiltæki)  Hnífur minn er úr sorajárni og ónothæfur.  Fornt mál; notað t.d. þegar ekki þykir góð ástæða til verknaðar og því fallið frá honum.

Úrteina (s)  Skera ónýtt net af teinum/þinum.  „Þessi netgarmur er nú ekki til annars en að úrteina hann“.  „Hámerarfjandinn var búin að úrteina netið á löngum kafla“!

Úrtök (n, hk, fto)  A.  Um landslag, róðra, heyskap o.fl; hlé; bil.  „Við komumst ekki yfir á höfðann eftir þessum gangi; það eru úrtök í honum á minnst einum stað“.  „Nokkur úrtök urðu á róðrum yfir há heyannirnar“.  B.  Úrtak er einnig notað um hóp sem valinn er með hlutkesti til t.d. skoðanakannana eða annars.

Úrtökur (n, kvk, fto)  Um veður; hlé á góðu/slæmu tíðarfari; góðviðriskaflar/illviðriskaflar.  „Það er búið að vera samfelldur þurrkur þennan mánuðinn; aldrei neinar úrtökur“.

Úrtakalítið / Úrtakalaust (l)  Um tíðarfar; litlar/engar breytingar á tíðarfari.  „Í byrjun Góu breytti aftur til hagstæðrar veðráttu og hélst ´rtakalítið til vetrarloka“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58). 

Úrtölumaður (n. kk)  Sá sem dregur úr/er tregur til aðgerða.  „Við drífum bara í þessu; sama hvað þessir úrtölumenn eru að jarma“!

Úrtölur (n, kvk, fto)  Það að letja til einhvers; það að finna einhverju verkefni margt til foráttu; vonleysi; bölmóður.  „Ég sagðist ekki nenna að hlusta á neinar úrtölur; ég færi þá einn ef enginn annar treysti sér“.

Úrurð (n, kvk)  Framkvæmd; það sem verður úr; það sem gert er.  „Það er mikið um þetta bollalagt, en ég gæti best trúað að úrurðin verði minni“.

Úrval (n, hk)  A.  Margt sem unnt er að velja úr.  „Þarna var mikið úrval af stígvélum“.  B.  Það sem valið hefur verið úr stærra úrtaki.  Oft forliður:  „Þetta er úrvalsfóður“. 

Úrvalsfé /-fiskur /-fóður /-vara o.fl.  Fyrirtaks-; það besta.  „Mér sýnist að þetta sé úrvalsfiskur að öllu leiti“.

Úrættaður (l)  Úr ætt skotið; ólíkur sínum skyldmennum.  „Ég er nú ekki svo úrættaður að ég kjósi íhaldið“!

Úrverk (n, hk)  Gangverk í úri.

Úrvinda (l)  Örmagna; útkeyrður; örþreyttur.  „Maður er alveg úrvinda af þreytu eftir þessi átök“.

Úrþvætti (n, hk)  Mjög niðrandi heiti á manni; afstyrmi; úrhrak; óræsti.  Sjaldan notað.

Úrættaður (l)  Með einhverja verri eiginleika en fyrri skyldmenni; úrkynjaður.  „Hann er þá eitthvað úrættaður ef hann kann ekki að svara fyrir sig“!

Út (ao/fs)  A.  Um stefnu; utar í t.d. húsi, dal o.fl.  „Ég ætla að hleypa fénu út“.  B.  Um stefnu; vesturátt.  Þessi merking orðsins hefur líklega komið með Norðmönnum til landsins, enda er vestur átt í Noregi áttin út á haf.  C.  Frá Noregi til Íslands.  Þessi merking kom einnig með landnámsmönnum til Íslands.  Hún hefur að mörgu leyti haldið sér í málinu.  T.d. er sagt að „fara utan“ þegar við förum til útlanda, en landnámsmenn fóru iðulega utan frá Íslandi heim til Noregs.  D.  Til fullnustu; alveg.  T.d. drekka út; halda út.  E.  Með forsetningum, t.d. „af“, „á“ og „í“.  „Ég ætla að leggjast aðeins út af“.  „Mig vantar kanelsykur út á grautinn“.  „Hann er að snúast út á“.  „Heldur hefur hann gengið út í“.  „Gefðu mér ögn af mjólk út í kaffið“.  F.  Dýpra út á haf.  „Við færðum netin aðeins utar“.  Yfirleitt var þó fremur talað um „dýpra“ og „grynnra“ í Kollsvík, í merkingunni frá og að landi. 

Út af / Útaf (orðtak/fs)  A.  Vegna; af ástæðu.  „Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum og sá ástæðu til að veita honum tiltal út af því“  (PG; Veðmálið).   B.  Ættaður frá; á ættir að rekja til.  „Kollsvíkingar eru komnir útaf Einari gamla Jónssyni, bændahöfðingja og útvegsmanni í Kollsvík.

Út/fram á milli Fella (orðtak)  Orðtak sem bundð er við Kollsvík, og merkir að fara áleiðis í Vatnadal, þannig að gengið sé um skraðið utan Sandslágar, framhjá Litlafelli.  Merkilegt er að í raun er ekki gengið á milli fellanna Litlafells og Stórafells.  „Í Vatnadal er gatan greið/ í göngu ef vilt þér skella./  En ennþá styttri er þó leið/ út á milli Fella“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík). 

Út í aðra sálma (orðtak)  Yfir í önnur/óskyld efni.  „Það þýddi ekkert að inna hann eftir afla.  Þá fór hann undantekningarlaust yfir í allt aðra sálma“.

Út í bláinn (orðtak)  Um það sem er fráleitt/tilgangslaust.  „Það væri alveg út í bláinn að láta þetta sjóveður ónotað“!  „Hann sat þarna og tautaði eitthvað út í bláinn“.  Blár merkir þarna himin.

Út í buskann (orðtak)  Eitthvert í burtu; á óþekktan stað; í hvarf.  „Hæran af galtanum hafði fokið einhvað útí buskann“.  Buski merkir þarna runni, og hefur orðtakið í fyrndinni merkt að hverfa inn í skóginn.

Út (og) í gegn (orðtak)  Í gegnum allt.  „Þvílíkt andskotans úrhelli er þetta!  Ég er forblautur út og í gegn“!  „Ekkier furða þó Svört sé í sæmilegum holdum.  Hun hefur legið í túninu allt sumarið; út í gegn“!

Út í hörgul / Út í æsar (orðtak)  Í þaula; ofaní smáatriði.  „Þarna þekki ég öll örnefni út í hörgul“.  „“Ég var ekkert að fylgja þessu máli eftir út í æsar“.  Hörgull merkir skortur.  Æs er gat eða þuma til að draga eitthvað í gegnum.  Líklega er í orðtakinu vísað til sauma á flík eða jaðars á segli.

Út í loftið (orðtak)  Í tilgangsleysi/meiningarleysi.  „Geiri var þvengmjór og liðugur, og lenti því oft í því óþrifaverki að hreinsa kyndihólfin á gufutogurum.  Því var það ekki alveg út í loftið að hann hlaut viðurnefnið „Geiri mátulegi“ sem hann bar til dauðadags“.

Út í veður og vind / út í buskann (orðtök)  Í burtu; í hvarf.  „Hæran af galtanum fauk út í veður og vind“.  „Það þýðir ekki að fleygja þessu bara eitthvað út ´buskann“.

Út (og) í gegn (orðtak)  Alveg allur; að öllu leyti; algerlega.  „Þetta er öndvegisnáungi; út og í gegn“.

Út og suður (orðtak)  Út um allt; út í buskann.  „Hann missti féð allt út og suður“.  Ekki er ljóst hvers vegna þessar áttir eru nefndar umfram aðrar, en líklega er það vegna hljómfallsins.

Út undir bert loft (orðtak)  Út úr húsi.  „Kýrnar hefðu gott af að fara að komast út undir bert loft, þó ekki sé mikill gróður orðinn fyrir þær“.

Út undir sig (orðtak)  Klókur; kænn; slægvitur.  „Karlinn er nokkuð út undir sig í peningamálum“.

Út um allt (orðtak)  Allsstaðar; mjög víða.  „Það þarf að raka þessar slæður sem eru hérna útum allt“.

Út um allar koppagrundir (orðtak)  Út um allt/allar trissur.  „Galtinn splundraðist í veðrinu og fauk út um allar koppagrundir“.  „Hún sagði honum frá þessu í trúnaði, en nú er það komið út um allar koppagrundir“.  Orðtakið er ekki að finna í orðabókum.

Út um allar jarðir/trissur / Út um víðan völl (orðtak)  Út um allt; á tvist og bast.  „Fjárhópurinn hefur núna dreift sér um allat trissur“.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).  „Það er nægur fiskur útum allar trissur núna“. Sjá trissa.

Út um dittinn og dattinn (orðtak)  Hingað og þangað; út um allt.  „Það er ómögulegt að fylgjast með flandrinu á þessum strákum, þeir eru út um dittinn og dattinn“.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).  Orðtakið heyrist ekki mikið notað utan Rauðasandshrepps en var alganegt þar.

Út úr (orðtak)  Afskekktur; ekki í alfaraleið.  „Ferðafólki sem sækir Látrabjarg heim þykir Kollsvíkin vera helst til mikið útúr til að þeir leggi þangað sína leið“.

Út úr öllu (orðtak)  Eins og séð verður út á haf.  „Heldur hefur hann dottið niður!  Það er bara komin renniblíða útúr öllu“.  „Það er vaðandi fiskur útúr öllu.  Hann hleypur á ef krókurinn kemst í sjóinn“.

Út vil ek (orðatiltæki)  Orð sem höfð eru eftir Snorra Sturlusyni, þegar hann braut gegn farbanni Hákonar konungs.  Viðhöfð þegar einhver er staðráðinn í að framkvæma eitthvað gegn ráðum/vilja annarra.  Sjá eigi skal höggva.

Út yfir tekur (orðtak)  Fram úr hófi gengur; yfirgengilegt er.  „Honum liggur vanalega nokkuð hátt rómur, en útyfir tekur þó þegar hann fer að syngja“.

Útaf (ao)  Útfyrir tún.  „Við þurfum að fara aftur að reka útaf; þessar árans læpur eru komnar aftur inná“!

Útaf fyrir sig (orðtak)  A.  Aðskilinn frá öðrum; í friði frá öðrum.  „Hann vildi helst vera útaf fyrir sig meðan hann væri að læra“.  B.  Aðskilið mál; fyrir sig.  „Það er nú eitt útaf fyrir sig að þessir þingmenn sjáist ekki í kjördæminu fyrr en rétt fyrir kosningar; en hitt er alvarlegra, ef þeir nenna þá ekki að fara um það allt“.  „Það er nú útaf fyrir sig að fá hnífinn léðan augnablik án þess að spyrja; en það er hámark ósvífninnar að taka hann traustataki og rífa svo kjaft“!

Útafdauður (l)  Dauður.  „Rollan hafði legið lengi afvelta og var löngu útafdauð þegar ég fann hana“.

Útafbreytni (n, kvk)  Tilbreytni; nýbreytni.  „Mamma gerði það til útafbreytni að hafa hreindýrasteik í matinn þessi jól, en ketið höfðu Hornfirðingar útvegað“.

Útafliggjandi (l)  Liggjandi.  „Það er þreytandi að skrifa, svona útafliggjandi“.

Útafsofnaður (l)  Alveg sofnaður; sofnaður útaf.  „Hann var útafsofnaður, með bangsann undir kinn“.

Útafslökknað (l)  Slökknað alveg.  „Um hádegi á nýársdag var brennan loksins útafslökknuð“.

Útarfi (n, kk)  Erfingi sem ekki er í nánustu fjölskyldu hins látna, t.d. maki, barn eða foreldri, heldur t.d. frændi.

Útata (orðtak)  Ata út; setja kám/óhreinindi í; útata; útskíta; útsvína.  „Ertu búinn að útata fötin þín aftur strákur“?!

Útataður (l)  Ataður; klíndur; skítugur.  „Hversvegna ertu allur útataur í kindaskít, drengur“?

Útá (ao)  A.  Um meðlæti með mat; út á; með; ofaná.  „Aðalmáltíðin var hangikjöt, og ávaxtagrautur með rjóma útá á eftir“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku hans).  B.  Um vindstöðu; til vesturáttar.  „Nú er hann eitthvað að ganga útá; hann kannski þornar þá eitthvað til“.

Útákast (orðtak)  Mél sem notað er til grautargerðar.  „Ég notaði bara rúgmjöl sem útákast í stað hveitis“.

Útálát (n, hk)  Venjulega átt við feiti/sósu/saft/mjólk útá mat.  „Þetta er nú hálf þurrætt nema að hafa eitthvað útálát“.

Útávið / Útum (ao)  Um áttir; úteftir; í áttina út.  „Þegar komið er niður Sniðin niður á Stíg er haldið útávið í áttina að Setnagjá“.  „Hefillinn var að moka Fjörurnar og er á leið útum“ (í átt til Kollsvíkur).

Útbeitningarmaður (n, kk)  Sá sem beitir út þegar lína er lögð.  „Eftir að straumur harðnaði var erfitt að hafa áfram svo ekki yrði erfitt hjá dráttarmanninum.  Útbeitningarmaðurinn varð að vera fljótur til að forðast áherðing“  (Guðm. Jón Hákonarson; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrásetti; Árb.Barð 2004). 

Útbeit (n, kvk)  Vetrarbeit fyrir sauðfé, sem þó er tekið inn yfir nóttina.  „Góð útbeit er jafnan í Kollsvík; bæði haga- og fjörubeit, og hefur það létt mjög á fóðurþörf“.  „Janúar var stormasamur og kaldur, og því vart notandi útbeit“  (SJTh; Árb.Barð 1955-56). 

Útbeitarjörð (n, kvk)  Jörð þar sem hagabeit/fjörubeit nýtist vel til að létta á fóðrun sauðfjár.  „Í Útvíkum eru góðar útbeitarjarðir“.  „Kom þetta mjög hart niður á útbeitarjörðum“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1937). 

Útbeitarskepna (n, kvk)  Skepna sem beitt er úti að vetri.  „Þangað til eftir hátíðar mátti heita að mjög lítið væri búið að gefa öllum útbeitarskepnum“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1925).  

Útbeitning (n, kvk)  Það að beita línu um leið og hún er lögð úr bátnum.  „Síðara kastið var þó oft tekið með útbeitningu“  (KJK; Kollsvíkurver).

Útbeitningarmaður (n, kk)  Sá sem beitir út línu.  „Útbeitningarmaðurinn varð að vera fljótur til að forðast áherðing“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Útbelgdur (l)  Þaninn.  „Ekki meira fyrir mig takk; maður hreyfir sig lítið ef maður er útbelgdur af mat“.

Útberja (n, kvk)  Útslægja; slægjublettur utan heimatúna.  „Milli bólsins og Tjarnarmýrarinnar og upp að heimreiðargötunni framan úr dalnum var túnspilda er áður tilheyrði Dalshúsum, sem útberjur úr Dalshúsatúni“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Útbía (s)  Ata; sóða út; útata; útskita; útsvína.  „Vertu nú ekki að útbía þetta með skítugum fingrunum“!

Útbíaður (l)  Sóðalegur; ataður.  „Farðu úr drullugallanum úti; þú ert útbíaður í slori“.

Útblásinn (l)  Að springa af reiði/æsingi; hamstola.  „Hann var útblásinn af illsku eftir þessa niðurstöðu“.

Útbrot (n, hk)  A.  Byggingarlag kirkna fyrr á tíð, þar sem kirkjan var breikkuð með útbroti útfyrir helstu stoðgrindina.  B.  Áberandi bólur, upphlaup eða kýli á húð.

Útbrotakirkja (n, kvk)  Kirkja með útbrotum, sem var byggingarlag fyrr á öldum.

Útbrotakutti (n, kk)  Skeljahnífur; hnífur sem notaður er til að ná skefiski úr skel til beitu.  „Kræklingur og aða voru úrskeljuð á sama hátt; með sérstökum hníf, skeljahníf/útbrotakutta, sem var með þunnu, stuttu en beittu blaði.  Fyrrum voru þessir hnífar heimasmíðaðir og var þá efnt í þá úr ljáblaði, en síðar notuðu margir erlenda sjálfskeiðunga“  (LK; Ísl. sjávarhættirIV; heimild; GG).  Ekki er ólíklegt  að útbrotakuttar hafi lengi verið notaðir til að ná beitu úr kræklingi og öðuskel sem oft rekur í Kollsvík, en þó einkum á síðari tímum til úrskeljunar á kúfiski, sem þá varð algengasta beitan (aths VÖ; sjá kúfiskur).

Útburðarvæl (n, hk)  A.  Hljóð sem þjóðsagan segir að draugar útburða gefi frá sér.  B.  Óhugnarlegt/hvimleitt og skerandi væl.  „Slökktu nú á þessu andskotans útburðarvæli í útvarpinu“.

Útburður (n, kk)  A.  Upphaf sláttar að vori; þegar borið var út.  B.  Það þegar færi stendur frá borði báts sem rekur á skakveiðum.  C.  Það að bera út, t.d. póst.  D.  Það að reka mann úr húsi með dóms- og lögregluvaldi. E.  Barnamorð sem að sögn tíðkuðust í heiðnum sið.  F.  Afturganga barns sem borið hefur verið út.

Útbúa (s)  Gera úr garði; búa/hafa til; gera klárt; hanna.  „Ég útbjó stíu fyrir kálfinn í hlöðunni“.  „Hún útbjó okkur með nesti“. 

Útbúinn (l)  Tilhafður; klæddur; úr garði gerður.  „Mér finnst þú ekki nógu vel útbúinn í svona gönguferð“.

Útbyrðis (l)  Útfyrir borðstokk á báti.  „Ferðin til Kollsvíkur gekk vel og var rætt um hvort lifrin skyldi bundin á streng og látin útbyrðis, en ekki varð úr framkvæmdum“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi). 

Útbýta (s)  Útdeila; skipta á milli.  Dregið af „bút“; að hluta eitthvað niður og deila því út.

Útbær (l)  Útbærilegur (sem var algengara í Kollsvík).  „Mér eru þessi skæri ekki vel útbær“.

Útbærilegur (l)  Sem unnt er að lána; falur; útbær.  „Mér er þessi hnífur bara alls ekki útbærilegur; þetta er besta eldhúsbreddan“.  „Hann hafði lofað mönnum í smalamennsku en svo var honum enginn útbærilegur“. 

Úteftir (ao)  Um áttir:  A.  Talað er um að fara inneftir úteftir þegar farið er að Breiðuvík eða Hvallátrum. Hinsvegar er talað um að fara inneftir þegar farið er frá Kollsvík inn í Hænuvík; Örlygshafnarbæi; innfjarðarbæina; Rauðasand eða á Patró.    „Ingveldur Ívarsdóttir frá Hænuvík, sem bjó á Stekkum á Patreksfirði, kom alltaf úteftir og sá um ullarþvottinn fyrir mömmu“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  B.  Í vestur; vestureftir.  Líkt og víða annarsstaðar á landinu merkir út sama og vestur; sbr útsynningur um suðvestanátt og orðtakið að ganga útí, þegar vindur fór að blása meira frá vestri.

Úteftirleið (n, kvk)  Leiðin/ferðin úteftir.  „Við skoðum þetta betur á úteftirleiðinni“.

Útfall (n, hk)  A.  Sjávarfall; fellur út. „Lognaldan létt sér leikur/ laðast að sandi með glettur./  Á útfalli alltaf keikur/ upp kemur Þórðarklettur“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).  B.  Staður þar sem á/lækur fellur í sjó.  C.  Niðurstaða; málalok.  „Það varð útfallið að láta þetta niður falla“.

Útfarinn (l)  Slyngur; laginn; æfður.  „Furðu gegnir hvað þessi klunnalegi maður er útfarinn í hljóðfæraleik“. 

Útferð (n, kvk)  Rennsli blöðs/graftar/slíms úr sári eða öðru á líkamanum.

Útfiri / Útfjar (n, hk)  Fjara; svæði sem kemur uppúr á fjörunni.  .  „Var þá hæfileg hleðsla (af kúskel) skilin eftir í Bugnum, en farið með það sem umfram var út á Patreksfjörð (Eyrar); pokarnir látnir í sjó á útfiri og látnir geymast þar uns ferð var gerð eftir þeim“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Útfjarið, þar sem áin fellur í fjörðinn, er kallað Óaar“  (ÓlÓ; Örn.skrá Vesturbotns).

Útflugt (n, kvk)  Langferð; ferðalag.  „Ert þú að fara eitthvað í útflugt“?

Útflúr (n, hk)  Skreyting; útskurður; upphleyptir stafir eða annað skraut á fleti.

Útflúra (s)  Gera útflúr.

Útfyrir (ao)  Að innan og út.  „Hleyptu fénu útfyrir í snjóinn smástund, þó það viðri ekki til beitar“.

Útfæra (s)  Útsetja; setja í endanlegan búning.  T.d. verkáætlun.

Útför (n, kvk)  Jarðarför; greftrun.

Útfærsla (n, kvk)  A.  Það að útfæra.  B.  Það að færa út.  T.d. útfærsla landhelgismarka.

Útgangur (n, kk)  Útlit, búnaður; klæðnaður.  „Útgangurinn á þér er nú alveg kostulegur“.

Útgáfa (n, kvk)  Það að gefa út, t.d. blað, bók o.fl.  „Ungmennafélagið Vestri stóð fyrir útgáfu félagsblaðsins Geisla“.

Útgauða (s)  Úthúða; baktala; hallmæla.  „Hann segir mig ljúga þessu og útgauðar Íslendingnum...“  (ÓTG; Ágrip af æviferli). 

Útgerð (n, kvk)  Það að róa til fiskjar, og allt sem því tilheyrir.  „Eftir það mátti heita að útgerð úr Kollsvík legðist af“  (ÖG; Þokuróður).  „Eftir að Einar bróðir byggði á Gjögrum kom þar fljótlega bryggja, þannig að aðstaða til útgerðar trillubáta þaðan batnaði til muna.  Þá fluttum við bræður útgerð okkar á gömlu Rut þangað…“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Útgjaldaauki (n, kk)  Kostnaðarauki; aukin útgjöld. 

Útgjöld (n, kvk, fto)  Greiðslur; borganir; kostnaður.  „Þetta kostaði allnokkur útgjöld“.

Útgrátinn (l)  Hefur grátið mikið; grátbólginn.  „Hversvegna ertu svona útgrátinn stubburinn minn“?

Útgrafinn (l)  Sem mikið hefur verið grafið í. 

Útgröftur (n, kk)  Efni sem grafið er út/upp.  „Eftir útgreftrinum er þetta ansi djúp músarhola“.

Úthaf / Útsær (n, hk/kk)  Hafið utan við veiðislóðir/landgrunn; rúmsjór; ballarhaf

Úthafsalda / Úthafsbára / Úthafsylgja (n, kvk)  Sver alda/sjór, með uppruna langt úti á hafi.

Úthagabeit (n, kvk)  Fremur var talað um hagabeit, en þessu brá þó fyrir.

Úthagi (n, kk)  Bithagi sauðfjár utan túns.  „Úthagi er enn of rýr til að sleppa lambfé“.

Úthald (n, hk)  A. Þrautseigja; seigla; þol.  „Á þeim árum skorti mann ekki úthaldið þegar hlaupa þurfti fyrir fé“.  B.  Útbúnaður skips til fiskveiða; það sem þarf til að halda skipi til veiða.  C.  Veiðiferð skips.

Úthaldslaus / Úthaldslítill (l)  Þreklaus / þreklítill; hefur ekkert/lítið þol.  „Hann er fjandi sprettharður, en afskaplega úthaldslítill“.

Úthaldsgóður / Úthaldsmikill (l)  Þrekmaður; þrautseigur; þolinn.  „Misjafnt er hve menn eru úthaldsmiklir á göngum og hlaupum.  Sumir þurfa að æja með stuttu millibili meðan aðrir fara langa fjallvegi og vegleysur á göngu og hlaupum án þess að stoppa.  Með þjálfun má aðlaga líkamann því að hvílast á hraðri göngu.  Meðan úthaldið var sem best gat ég hlaupið uppi hvaða kind sem var“ (VÖ). 

Úthallandi (ao/l)  A.  Sem hallar útávið.  B.   Á síðari hluta; seinnipart.  „Vegna ófærðar var ég ekki kominn fyrr en á úthallandi degi“.

Útheimta (s)  Krefjast; þarfnast.  „Þetta útheimti allmikla vinnu, en hann setti það ekki fyrir sig“.

Úthey (n, hk)  Hey sem aflað er utan áborinna túna.  Í Kollsvík var ekki mikið um engjaslátt eða áveitur, en þó var það til, t.d. í Grundamýri.  Toppar og blettir voru slegnir þar sem vel grænkaði, t.d. í urðum og við læki og mýrar.  Nokkuð var einnig um það að nýtt væri kjarngott hey sem fékkst annarsvegar í broki vöxnum tjörnum, s.s. í Startjörnum, Kjóavötnum og Langasjó, og hinsvegar í iðagrænum grasflesjum í klettum.  Í Blakknum var t.d. slegið í Pokavöllum og í Breiðnum í Flánum.  Mikið hefur verið haft fyrir þeim heytuggum sem slegnar voru í snarbratta; heypokanum slakað niður með bandspotta; hann borinn langar leiðir á bakinu og heyið að líkindum þurrkað heima við bæ.  Menn sáu ekki eftir sér í erfiðisvinnu við öflun heyja fyrir skepnurnar í þá daga.  Erfitt er að sjá samlíkinguna við bændur nútímans sem sitja í makindum í þægilegri dráttarvél og þurfa vart að fara úr inniskóm yfir allar heyannir.

Úthlið (n, kvk)  Sú hlið sem snýr út.

Úthluta (s)  Útbýta; skipta á milli; deila; afhenda. 

Úthreinslun (n, kvk)  A.  Útmokstur; hreinsun út úr t.d. húsum.  B.  Líkingamál; það að segja sína skoðun/ létta á huga sínum.  „Mér leið mikið betur eftir þessa úthreinsun, þó sama yrði ekki sagt um viðmælandann“.

Úthreppur / Útsveit (n, kk/kvk)  Ytri hluti hrepps. 

Úthrópa (s)  Rægja; bera út slúður um einhvern.  „Hann sagðist ekki vera sáttur við það að vera úthrópaður um alla sveit sem þjófur og ræningi“.

Úthrært (l)  Um skyr; hrært samanvið mjólk til þynningar.  „Skyrið var hæfilega úthrært og sykrað“.

Úthugsað (l)  Vandlega íhugað.  „Aðferðin var úthugsuð hjá honum, enda lánaðist hún vel“.

Úthúða (s)  Skamma óbótaskömmum; álasa mjög; bera út illgjarnan róg.  „Svona kveðskapur er ekki hafandi eftir; þar sem mönnum er úthúðað fyrir sáralitlar sakir“.  Vísan í hýðingar fyrrum, þar sem mönnum var refsað með húðláti.

Úthverfur (l)  Um fatnað; á röngunni; umsnúinn.  „Ætlarðu að fara í peysuna úthverfa“?  Samkvæmt þjóðtrúnni átti sá maður ekki að villast þann daginn sem af ógáti fór í úthverfa peysu sína að morgni.

Úthvíldur (l)  Búinn að hvílast; vel sofinn.  „Við mætum í þetta úthvíldir í fyrramálið“.

Úthýsa (s)  Synja um húsaskjól; reka á dyr.  „Hér er ekki vani að úthýsa gestum; sama hvað þeir eru margir eða á hvaða tíma þeir koma“.

Úti á ballarhafi (orðtak)  Lengst úti á hafi; langt úti á sjó.  „Ég held að það sé ekki eftir neitt meiru að slægjast úti á ballarhafi; það er eins gott að slíta þetta upp hér á grunninu“.

Úti á galeiðunni (orðtak)  Í sollinum; að skemmta sér.  „Mér skilst að hann sé úti á galeiðunni um hverja helgi“.

Úti á þekju (orðtak)  Annarshugar; hugsandi; í leiðslu.  „Það þýðir ekkert að vera bara úti á þekju þegar þú átt að standa fyrir fénu.  Þú þarft að hafa augun hjá þér“.

Útiborið hey (orðtak)  Útihey; hey sem sett er upp úti til vetrarins, en ekki hirt í hlöðu.  „Í Kirkjuhvammi er nokkuð af heyjunum fyrir neðan meðaltestu og einnig hefir nokkuð af útibornum heyjum skemmst af regni“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1957). 

Útideyfa (n, kvk)  Það sem verður útundan; það sem trassast.  Sjá lenda í útideyfu.

Útigangur (n, kk)  A.  Það að fé gangi úti um vetur; ekki hýst.  Algengt var áður fyrr að halda fullorðnu fé til haga að vetri þar sem bithagi er góður og/eða fjörubeit; en ætla því ekki mikið fóður.  „Fullorðið fé (á Láganúpi) er sett á útigang“  (ÁM/PV Jarðabók).  B.  Kind sem gengið hefur úti.  „Mér sýnist að þarna sé einhver útigangur kominn í hópinn“.

Útihlóðir (n, kvk, fto)  Hlóðir utan íbúðar/verbúðar; eldunarkró.  „Nálægt búðunum voru krær sem voru eingöngu ætlaðar til að matreiða í.  Ég man ekki eftir nema einum útihlóðum.  Svo komu olíuvélar og síðar prímusar, og þá var eldað inni í búðunum sjálfum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Úthrópaður (l)  Niðurlægður opinberlega; rægður.  „Það er endir á hans ferli að vera úthrópaður á þennan hátt“.

Úthugsað (l)  Hugsað til enda; þaulhugsað.  „Hafðu ekki þessar áyggjur; þetta er alveg úthugsað hjá mér“.

Úthúða (s)  Skamma mikið; bölsótast yfir.  „Það er nú ekki réttlátt að úthúða honum fyrir svona óhapp“.

Úthverfur (l)  Á röngunni; með innhliðina út.  „Nú hefurðu farið í peysuna úthverfa“.

Úthvíldur (l)  Vel hvíldur; óþreyttur.  „Við hættum núna; það er betra að byrja aftur úthvíldir á morgun“.

Úthyrnd (l)  Um hornalag sauðkindar; með hornvöxt áberandi þvert út frá höfði.

Úti að aka (orðtak) A.  Bókstafleg merking.  B.  Líkingamál; viðutan; utan við sig; gerir tóma vitleysu.  „Mér finnst hann vera alveg úti að aka í þessu máli“!

Úti á galeyðunni (orðtak)  Á köldum klaka; með fátt til bjargar/ fá bjargráð.  „Hann sagði að ef veiðin færi ekki að glæðast myndi hann fljótlega verða alveg úti á galeyðunni með sína útgerð“.

Úti á þekju (orðtak)  Annarshugar; utangarna; viðutan.  „Það þýðir ekkert að ver úti á þekju þegar þú átt að vera að taka eftir í tímum“!

Úti er þraut þá unnin er (orðatiltæki)  Það er frá sem sigrast hefur verið á; af er verk þá unnið er.

Úti friðurinn (orðtak)  Friðsemdartíma lokið; ófriður hafinn.  „Þá er nú úti friðurinn, fyrst þessir ólátaseggir eru komnir“.  „Rituðu margir riðuspá/ og reistu siðaboðin há./  /Engum griðum ærnar ná;/ úti er friður bændum hjá“  (ÖG; glefsur og minningabrot; ort þegar riðufé í Tálkna var skotið). 

Úti um (einhvern) (orðtak)  Einhver er dauðans matur; einhverjum eru allar bjargir bannaðar.

Útiborið (l)  Um hey; sett upp utan hlöðu.  „Hann átti allar hlöður fullar að hausti, og auk þess stórt útiborið hey við fjóshlöðuna“.

Útibyrgja (s)  Um stig húsbyggingar; búið að loka húsinu með veggjum, þaki, gluggum og hurðum.  Var áður notað um það að útiloka; hindra inngöngu einhvers.

Útideyfa (n, kvk)  Verkleysi; vanræksla.  „Það lenti alveg í útideyfu hjá mér að skila þessu tímanlega“.

Útidyr (n, kvk, fto)  Þær dyr í húsi sem á útveggjum eru.

Útigangur (n, kk)  A.  Það þegar fé gengur að mestu úti og lifir einkum af haga- eða fjörubeit.  Útigangur hefur alltaf verið stór þáttur fjárbúskapar í Kollsvík, þó alltaf hafi þar þurft fjárhús og þar hafi komið langir kaflar með innistöðu.  „Útigangur í fjöru er þar góður; bannast oft af hafís til að koma“  (ÁM/PV; Jarðabók).  Í seinni tíð er orðið stundum haft í kvenkyni; „útiganga“.  B.  Útigangsfé; fé sem ekki næst að hausti og gengur því sjálfala yfir veturinn eða fram á vetur.  Áður var mikil áhersla lögð á að hindra slíkt og lögðu menn í miklar eftirleitir til að leita að og handsama fé.  Nú á dögum er slóðaskapurinn meiri í þessum efnum og algengt er að stórir hópar fjár gangi úti ár eftir ár þar sem menn nenna ekki að hafa fyrir smölun.  Fávís borgarlýðurinn hvetur stundum til útigangs og kallar það „villifé“. 

Útigangsfé / Útigöngufé (n, hk)  Fé sem er eða hefur verið á útigangi.

Útigangskind / Útigangsskepna / Útigangsær (n, kvk)  Ær sem ekki næst eða finnst að hausti og gengur úti fram á vetur eða allan veturinn.  Þær harðgerðustu geta lifað af í meinlitlum vetrum við góðar aðstæður, en oft líður þetta fé mikið svelti og harðræði; fennir í snjó og er í hættu fyrir dýrbítum.

Útihey (n, hk)  Hey sem borið er upp/ hlaðið er upp til geymslu úti, gjarnan nærri skepnuhúsum.

Útihlaða (n, kvk)  Heyhlaða sem stendur fjarri öðrum húsum.  Fyrr á tíð töldu menn það ekki eftir sér að bera heyið um nokkurn veg til gjafa.  „Jón kom ekki aftur og fór þá vinur hans einn að leita hans og kom ekki aftur fyrr en um kvöldið með þær fréttir að hann hefði fundið Jón Thorberg hrapaðan undir Björgunum og hefði hann borið hann í útihlöðu“  (JVJ; Nokkrir æviþættir). 

Útihús (n, hk)  Hús sem ekki er íbúðarhús. 

Útijata (n, kvk)  Jata sem sett er upp úti til fóðrunar á lambfé, kálfum o.fl, einkum á vorin.  „Útijötu var slegið upp norðantil við Melshlöðuna“.   „Pabbi smíðaði nýstárlega v-laga útijötu ofanvið Láganúpshlöðuna“.

Útilag / Útíli  (n, hk)  Steinn/akkeri með festi sem lagt var aftur af bát í lendingu og notað til að halda honum réttum í landtökunni ef eitthvað var í sjó.  Útíli var sumsstaðar einnig haft um niðristöðuna djúpmegin á netum.  Heitið útilag finnst hvergi annarsstaðar. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Útilátinn (l)  Afhentur; látinn af hendi.  „Að launum fékk hann vel útilátinn skammt af broddi“.

Útilega (n, kvk)  A.  Það að gista úti yfir eina eða fleiri nætur/ liggja við.  B.  Um skip; vera að veiðum dögum eða vikum saman án þess að koma í land.  C.  Það að leggjast á fjöll til að forðast refsingu/ gerast útilegumaður.

Útilegufé (n, hk)  Hópur fjár sem ekki hefur náðst/smalast á gangnatíma.  „Um tíma gekk hópur útilegufjár í Tálknanum; flest leifar af Lambeyrarfénu, en þar var þá hætt búskap.  Kostaði miklar og dýrar smalamennskur að ná þessu, en sumt var skotið niður og varð fréttaefni.  Töluðu sumir um „villifé““.

Útilegumaður (n, kk)  Sá sem leggst út til að forða sér frá refsingu.  Fyrr á tíð, meðan refsingar voru harðar fyrir smávægilegustu brot og aðbúnaður sakamanna ömurlegur, mun ekki hafa verið óalgengt að menn hlypu til fjalla og gerðust útilegumenn, gæfist þeim færi á því.  Þar reyndu menn að draga fram lífið á því sem landið gaf, auk sauðaþjófnaðar og jafnvel ránsferða til byggða.  Almenningi stóð ógn af þessum mönnum, enda ekki vitað hvað þeir væru margir eða hvers mætti vænta af þeim; auk þess sem sauðaþjófnaður var alvarlegur glæpur.  Þjóðsögur mynduðust um miklar byggðir útilegumanna í óbyggðum og samskipti manna við þá.  Fullyrða má að t.d. margir jólasveinanna eigi uppruna í þessum sögnum.  Sannar sagnir eru einungis til um síðustu útilegumennina, en þeirra frægastur varð Eyvindur Jónsson; Fjalla-Eyvindur (1714-1783) sem lá löngum úti ásamt konu sinni Höllu Jónsdóttur; m.a. á Hveravöllum og í Ódáðahrauni.
Sagnir eru um útilegumenn í Rauðasandshreppi, og fylgsni hafa fundist sem benda til veru þeirra.  Ásgeir Erlendsson á Hvallátrum segir frá Guðmundi nokkrum, sakamanni sem dæmdur var fyrir barneign með systur sinni en slapp frá sýslumanni suður í sveitum.  Hann hljóp vestur um sveitir og baðst ásjár hjá Látrabónda, sem leyndi honum þar til um vorið að hann komst í hollenskt skip.  Sá launaði greiðann síðar með góðum gjöfum til bjargvættanna.  Byrgi fannst í Miðmundahæð á síðari tímum, sem hugsanlega hefur verið afdrep þessa sakamanns.  (ÁE; Ljós við Látraröst).
Byrgi fannst fyrir nokkrum árum í stórgrýttri urð framarlega í Keflavík, sem menn hyggja að hafi hugsanlega verið skjól útilegumanns.  Staðsetningin er heppileg, og hafa hugsanlega orðið vanhöld á fé af völdum þess sem þar bjó; bæði úr Keflavík og Sauðlauksdal.

Útilegukind / Útileguskjáta (n, kvk)  Kind sem ekki hefur náðst á gangnatíma.

Útilegumannaleikur (n, kk)  Leikur þar sem einn úr hópnum leikur útilegumann og hinir reyna að ná honum.  Þegar það tekst reynir hann að ná einhverjum úr hópnum sem þá verður útilegumaður í hans stað.  „Þá var líka tíðkað að fara í heimsóknir á aðra bæi; einnig að koma saman og fara í boltaleik og útilegumannaleik þegar fór að dimma“  (IG; Æskuminningar). 

Útiloka (s)  A.  Loka eitthvað/einhvern úti/utandyra.  B.  Aftaka; synja; neita.  „Ég útiloka það ekki að koma með ykkur á morgun; það fer allt eftir veðri“.

Útilokað (l)  Ekki mögulegt; afskorið; frá.  „Nú var útilokað að sjá bát þótt nærri væri, nema svo hittist á að báðir æru uppi á öldufaldi samtímis“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Útistandandi (l)  Það sem stendur úti.  Einkum notað um skuldir manns hjá öðrum.

Útistöður (n, kvk, fto)  A.  Það að standa úti.  Útistöður tengdust einkum hjástöðu; því að halda fé til beitar.  B.  Útistöður voru fyrrum eitt af refsiúrræðum kirkjunnar.  Þeim sem brotið höfðu af sér var bannað að koma inn í kirkju, heldur urðu þeir að standa utandyra meðan messað var.  Það átti einnig við um konur, sem taldar voru óhreinar í nokkurn tíma eftir barnsburð.  Sjá eiga í útistöðum við.

Útitekinn (l)  Um útlit manns;veðurbarinn; sólbrenndur; saltbrenndur.  „Eftir vertíðina var maður all útitekinn“.

Útivera (n, kvk)  Útivist; dvöl utandyra.  „Fátt er börnum nauðsynlegra en mikil útivera“.

Útiverk / Útivinna (n, hk/kvk)  Þau bústörf sem unnin eru úti og í skepnuhúsum.  „Reynt var að gera útiverkin snemma dags, þannig að allt væri tilbúið fyrir klukkan sex og allir komnir í sparifötin“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Útivið (orðtak)  Úti, en nærindis/nærri/viðlátinn.  „Hann er bara hér útivið; viltu að ég kalli á hann í símann“?

Útivist (n, kvk)  Útivera; róður.  „Ekki var venja að hafa mat með sér á sjóinn; aðeins venjulega sýrublöndu til drykkjar, því stutt var útivistin vanalega“  (ÖG; Þokuróður).

Útí (ao)  Út í; út að; út til.  A. Um vindátt; til vesturs:  „Ég held að hann sé eitthvað að ganga útí“.  B.  Um bremsur, egg o.fl:  „Mér heyrist að að sé farið að liggja útí“ (bremsuklossarnir í bremsuskálina).  „Það er komið aðeins útí“ (rauðan í skurnina = setið egg).  „Farðu ekki of langt útí“ (td. sjó).

Útífrá (ao)  Fyrir utan; sem utan standa/eru.  „Hann var mikilsmetinn í heimabyggð en nánast óþekktur útífrá“.

Útjaðar (n, kk)  Ystu mörk.

Útjaskaður (s)  Útbrunninn; útkeyrður; af sér genginn; ónýtur.  „Traktorsgarmurinn er að verða all útjaskaður“.

Útkeyrður (l)  Örþreyttur; farinn að kröftum.  „Pilturinn féll saman.  Hann var svo slæptur og þreyttur; útkeyrður“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg). 

Útkjálkabóndi (n, kk)  Bóndi í afskekktri sjávarbyggð.  „Þessum mönnum er nokk sama um útkjálkabændur“!

Útkjálkahyski (n, hk)  Niðrandi heiti þéttbýlisfólks á því dugnaðar fólki sem byggir ystu og dreifðustu sjávarbyggðir landsins.  „Þeir segja víst að þetta útkjálkahyski sé afætur á hagvextinum.  Ég held að þessir uppskafningar ættu að hugsa örlítið útí það hverjir hafa haldið líftórunni í þeim og þeirra forfeðrum“!

Útkjálki (n, kk)  Landsvæði sem einhverjum virðist vera afskekkt, en er miðsvæðis þeim sem þar búa.

Útkljá (s)  A.  Ljúka vefnaði að kljásteinum.  B.  Líkingamál; skera úr um; leysa úr; binda endi á.  „Þá ætti þessi deila að vera útkljáð“.

Útkoma (n, kvk) A.   Niðurstaða; úrslit; málalok.  B.  Það að blað/bók/rit komi út.

Útkrafsa (s)  Krafsa út; skrifa/strika óskipulega á; spæna upp.  „Ertu búinn að útkrafsa allt blaðið drengur“?!

Útkrafsaður (l)  Sem búið er að útkrafsa.  „Ég var búinn að leggja ágæt för þarna í hlíðina, en nú er þetta allt útkrafsað eftir einhverja klaufa sem ekki kunna að aka í snjó“!

Útkrota (s)  Krota/krafsa út; útkrafsa.

Útkýldur (l)  Þaninn; kýldur; sprengsaddur.  „Nú fæ ég mér ekki meir af eggjum; ég alveg útkýldur“!

Útlagður kostnaður (orðtak)  Kostnaður sem búið er að greiða/ leggja út fyrir.

Útlagi (n, kk)  Sá sem gerður er útlægur/ rekinn er í útlegð.  Sá er munur á útlaga og útilegumanni að yfirleitt er útlaginn þvingaður í útlegð en hinn kýs hana umfram verri kost.  Þó eru mörkin stundum óljós.

Útlán (n, hk)  Lán/leiga á einhverju.  „Stjórnin skal annast bókakaup og útlán bóka, og allan hag fjelagsins“  (Reglur Lestrarfjelagsins Bernskan í Rauðasandshreppi). 

Útlát (n, hk, fto)  Útgjöld; kostnaður; greiðsla sem innt er af hendi.  „Þetta kostaði hann allmikil útlát“.

Útlátalaust (l)  Án eftirsjár/skaða; að meinalausu.  „Mér er það alveg útlátalaust þó ég aðstoði dálítið við þetta verk“.

Útlátalítið (l) Ekki mikið tjón/mein.  „Það hefði nú verið útlátalítið fyrir hann að láta mig vita tímanlega“!

Útlátamikið (l)  Dýrt; kostnaðarsamt.  „Honum fannst þetta heldur útlátamikið fyrir sig“.

Útlegð (n, kvk)  Það að leggjast út/ verða útlagi/útilegumaður.  Vist fjarri mannabyggð.  Samkvæmt Grágásarlögum fól útlegð í sér þriggja marka sekt eða 48 álnir, sem hinn seki greiddi mótaðila.  Oft nefnt févíti.  Lögbot sem vörðuðu útlegð nefndust útlegðarverk.  Með Jónsbæokarlögum varð útlegð að sviptingu frelsis til dvalar  á tilteknu svæði.  Hinn útlægi gat orðið land-, fjórðungs, eða héraðsrækur tímabundið eða ævilangt eftir þyngd dómsins.  Var útlegðardómur því sambland skóggangs og fjörbaugsgarðs.  Útlagar voru réttdræpir og enginn mátti veita þeim neinar bjargir.  Ákvæði Jónsbókar í þessu efni munu hafa haldist til 1734, þegar teknar voru upp líkamlegar refsingar eða hegningarvinna í stað útlegðar.

Útlegging (n, kvk)  Túlkun; þýðing.  „Ég er ekki alveg sammála hans útleggingu á þessari lagagrein“.

Útleggja (s)  Túlka; þýða.  „Hann útlagði seðilinn svo að hann þyrfti engan mann að leggja til í göngur“.

Útleggjari (n, kk)  A.  Sá sem þýðir/útskýrir.  B.  Bugspjót/spruð á skipi.

Útleið (n, kvk)  A.  Leiðin út úr húsi.  „Taktu með þér ruslið ef þú ert á útleið“.  B.  Leið báts út lendingu til hafs.  Gagnstæð leið er landleið.  C.  Leiðin til útlanda.  D.  Undankomuleið.  „Ég sá enga aðra útleið úr þessari klípu“.

Útleikinn (l)  Meðfarinn; meðhöndlaður; útlítandi.  „Bíllinn var fremur illa útleikinn eftir veltuna“.

Útlendur / Útlenskur (l)  Sem kemur frá öðru landi.  Nútildags eru fáir slíkir, en þeim mun fleiri „erlendir“.

Útlimagildur / Útlimagrannur / Útlimalangur / Útlimastuttur Útlimasver (l)  Lýsing á útlimum manns.

Útlista (s)  Útskýra; leggja niður fyrir.  „Ég reyndi að útlista fyrir þeim að Blakkurinn væri ekki Látrabjarg“.

Útlistanir (n, kvk, fto)  Skýringar; langlokur.  „Ég þurfti svo að hlusta á langar útlistanir hans á guðdómnum“

Útlit (n, hk)  A.  Yfirbragð; það hvernig eitthvað/einhver lítur út.  B.  Horfur með veður.  „Það er nú ekki útlit fyrir gæftir á næstunni“.

Útlítandi (l)  Lítandi út; með yfirbragð.  „Mér fannst hann heldur illa útlítandi; horaður og ræfilslegur“.

Útlægur (l)  Í útlegð.

Útlönd (n, hk, fto)  Lönd utan Íslands.

Útmála (s)  Lýsa á áhrifaríkan hátt; draga upp sterka mynd.  „Hann útmálaði fyrir okkur hætturnar“.

Útmánuðir (n, kk, fto)  Síðustu mánuðir vetrar.  „Eins var það algengt á útmánuðum að farið var að ganga á þá mjölvöru sem keypt hafði verið til vetrarins“  (PG; Niðjatal HM/GG).  „Eins var þá algengt á útmánuðum, að farið var að ganga á þá mjölvöru sem keypt hafði verið til vetrarins“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  „Farið var í hákarlalegur á útmánuðum“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Útmeð (ao)  Út með; úteftir og meðfram.  „Hefillinn er víst á leið útmeð firði, á leið hingað úteftir“.

Útmetinn (l)  Kjörinn; tilvalinn.  Harðir og nettir plastbrúsar þóttu útmetin eggjaílát.  Bestir voru 20 lítra dunkar undan maurasýru.  Skorið var á þá gat þannig að koma mætti niður hendi með 2 eggjum.

Útmokstur (n, kk)  Mokstur úr fjárhúsum/fjósi.  „Við setjum útmoksturinn í haug til vorsins“.

Útmældur (l) Mældur út.  „Hann fékk sér útmældan skika kringum bústaðinn“.

Útnári (n, kk)  Útskækill; fjarlæg byggð.  „Ekki skil ég í því fólki sækir á þessa útnára þarna fyrir sunnan“.

Útnefna (s)  Tilnefna; setja.  „Sá sem tapaði glímunni var útnefndur sýslumaður í Kollsvíkurveri“.

Útnegldur (l)  Um við/efni; mikið neglt í; með mörgum nöglum; saumrekinn.  „Plankinn var úr öðru og útnegldur en ég notaði hann samt“.

Útnes (n, hk, fto)  Samheiti yfir þau nes sem mest skaga út í sjó, en segja má að þau séu einkenni Vestfjarða.

Útnorðan (ao)  Norðvestanátt.  Útnorðan var þó minna notað, a.m.k. í seinni tíð.  „Ívar gamli fór heim til sín í Hænuvík í talsverðum útnorðan vindi og sjó…“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Útnorðanhroði / Útnorðanrosi (n, kk)  Mikið og langvarandi brim af norðvestri.  „Enn heldur hann þessum útnorðanrosa.  Það verður þokkalegur fjandi sem við fáum í netin núna“!

Útnyrðingur (n, kk)  Norðvestan vindátt.  „... Þó reri hann hið þriðja sinn, því lygndi, en þegar hljóp á útnyrðingur með ylgju mikili og ókyrrðist mjög sjór við það, svo illa lendandi var“  (TÓ, frás. Gísla Konráðssonar; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  „Útnyrðingur sefast oft um sólarlag þegar hún kemur í þá átt.  En hægi ekki, merkir hörku og líka þráviðri“  “ (BH; Grasnytjar).

Útpíndur / Útpískaður (l)  Gengið nærri í vinnu; undir miklu vinnuálagi.  „Börn voru ekki útpískuð í vinnu“.

Útrás (n, kvk)  A.  Rás/farvegur lækjar/ár/vatns t.d. til sjávar.  B.  Losun huglægrar spennu/löngunar.  „Með skáldskapnum fékk hann útrás fyrir sköpunargleðina“.

Útreið (n, kvk)  Meðferð.  „Tillagan fékk fremur slæma útreið í atkvæðagreiðslunni“.

Útreiknað (l)  Reiknað út.  „Hann var með þetta allt útreiknað á blaðinu“.

Útrétta (s)  Kaupa; gera.  „Ég þarf að útrétta aðeins í kaupfélaginu“.  Hvað ert þú að útrétta þessa stundina“?

Útréttur (l)  Réttur/teygður út.  „Ég beið með útrétta hendina eftir að hann næði mola úr pokanum“.

Útréttingar (n, kvk, fto)  Innkaup; verslun; frágangur mála/erinda..  „Ég þyrfti að komast á Patró í vikunni til að klára ýmiskonar útréttingar“.

Útróðrar (n, kk, fto)  Fiskiróðrar frá verstöð.  Strax við landnám hófst útræði á góðum sjávarjörðum:  „Skallagrímur var skipasmiður mikill, en rekavið skorti eigi vestur fyrir Mýrar.  hann lét gera bæ á Álftanesi og átti þar bú annað; lét þaðan sækja útróðra, og selveiðar og eggver, er þá voru gnóg föng þau öll...“ (Egils saga Skallagrímssonar).  Útróðrar hafa að öllum líkindum verið stundaðir í Kollsvík frá landnámi, enda fáar sjávarjarðir kostameiri til árabátaútgerðar.  Landnám Kolls var hið smæsta sem skráð er, og bendir það til þess að þá þegar hafi hann ekki síður teyst á sjávarfang og verstöðu en hina áreiðanlegu úthaga.

Útróður (n, kk)  Róður frá landi í fiskiróður.  „Hitt kom fyrir að báta fyllti og flatti við landtöku; jafnvel fyllti við útróður“  (KJK; Kollsvíkurver).

Útrunninn (l)  Búinn; lokið; runninn út; farinn.  „Fresturinn er enn ekki útrunninn“.

Útrýma (s)  Uppræta; eyða; drepa út.  „Líklega tekst seint að útrýma minknum aftur úr íslenskri náttúru“.

Útræði (n, hk)  Útróður; verstaða.  Mikið útræði hefur verið í Kollsvík, allt frá landnámi fram á vélbátaöld.  Um tíma var Kollsvík mikilvægasta og fjölmennasta verstöðin á sunnanverðum Vestfjörðum.  Sjá ver.

Útræðisjörð (n, kvk)  Jörð þar sem útræði er stundað.  „Jarðir í Útvíkunum voru allar fyrst og fremst sauðfjár- og útræðisjarðir, og sama má segja um Hænuvík“.

Útrækur (l)  Sem rekinn er burt/út.  „Réttast væri að karlinn væri gerður útrækur af þessum miðum, ef hann kann ekki að leggja net eftir miðum heldur leggur einatt yfir aðra“!

Útræna (n, kvk)  Hafgola; léttur vindur af hafi.  Sjaldan notað í Kollsvík í seinni tíð; fremur talað um hafgolu.

Útsagaður (l)  Sem sagaður hefur verið út með laufsög; útsögunarboga.  „Á stofuhillunni trónuðu jólasveinarnir í halarófu, listilega teiknaðir af mömmu og útsagaðir af okkur bræðrum og henni“.

Útsandur (n, kk)  Ytri hluti Rauðasands.  Oft er þá átt við bæina utanvið Saurbæ, en stundum þó að meðtöldum Saurbæ og Kirkjuhvammi, og þá miðað við Bjarngötudal.

Útsaumaður (l)  Sem saumaður hefur verið út.  „Dúkurinn var listilega útsaumaður af henni“.

Útsaumur  „Stelpur voru látnar æfa sig í að sauma út, strax og þær gátu haldið á nál (ca 7-9 ára), og þá byrja að sauma kontorsting og gjarnan í svæfilver. Stafaklúta heyrði ég um en kannast ekki við sjálf eða hjá mínum vinkonum á sama reki. Hinsvegar er til smáklútur sem amma mín saumaði í stafi og kynjadýr með krosssaum en hún var orðin fullorðin þegar hún var að æfa sig í þessu. Þegar hún var barn átti hún þess ekki kost að læra svona dútl.  Kannske var móðir mín og hennar kynslóð mesta áhugafólkið sem ég vissi um í svona hannyrðum. Hún sagði mér að þær systur (4) hafi fengið sunnudögum úthlutað til slíkrar iðju og á sumrin sátu þær gjarnan úti við handavinnuna þegar gott var veður.   Mikið var saumað í sængur- og koddaver, dúka bæði kaffidúka og ljósadúka þ.e. minni dúka til að hafa á borðum, löbera, púða, kommóðudúka sem voru með sérstöku lagi...  Hliðin sem sneri að vegg var ekki með mynstri eða blúndu en blúnda var með hliðum og framan. Svo var mikið saumað í punthandklæði oftast með kontorsting en ég á enn slitur af þannig handklæði sem mamma saumaði með feneyjarsaum og poka undir óhrein barnaföt í sama lit. Svo var líka saumað í vasaklúta. Um garn og annað efni sem notað var eftir að ég man til, er nú svipað að segja og nú er; auroragarn, perlugarn, silkigarn og eitthvað sem kallaðist flokkasilki. Svo allskonar ullargarn og þá saumað í stramma, java eða ullarefni. Með fínna garninu var saumað í hör, léreft, silki og fleira. Mynstur gengu gjarnan á milli kvenna. Einnig fengust mynstur úr kvennablöðum og svo úr dönsku blöðunum, t.d. Familie Journalen sem var keypt á bæjunum heima frá því stuttu eftir síðustu aldamót. Allar konur og stúlkur áttu nálapúða, broderskæri, fingurbjörg og margar saumakassa. Þeir voru heimasmíðaðir á báðum Lambavatnsbæjum enda voru þar listasmiðir. Svo var áhald sem margar konur áttu sem hét perm. Það var rennt úr beini; a.m.k. það sem ég á, og notað til að gera göt þegar saumaður var svokallaður enskur saumur.  Mér finnst bera meira á krosssaumsmyndum en áður var, og ég held að þar spili nokkuð inn í að húsmæðraskólar hafa verið lagðir niður. Þar var kennd fjölbreytt handavinna t.d. harðangurssaumur ofl.

Útselur (n, kk)  Halichoerus grypus.  Stórvaxin selategund sem útbreidd er báðumegin Atlantshafs.  Sést oft í Kollsvík, þó ekki sé hann þar heimaskepna eins og landselurinn.  Þessar tvær selategundir eru hinar einu sem kæpa við Ísland, og er útselurinn nær tvöfalt stærri en hinn.    Fullorðinn brimill getur orðið yfir 3ja m. langur og 300 kg að þyngd.  Útselir hafa stórt og langt höfuð, með beinni snoppu ofanaf enni framá trýni, og þekkjast vel frá landsel á svipnum.  Selurinn lifir á fiski og getur kafað niður á 70 m dýpi.  Hann kæpir helst á illa aðgengilegum stöðum, s.s. í eyjum eða útskerjum.  Óværa fylgir selnum, svonefndur selormur eða hringormur, sem verður kynþroska í sel en kemst í fisk í gegnum fæðukeðjuna og veldur töluverðum kostnaði í fiskvinnslu.

Útsendari (l)  Sá sem sendur er af tilteknum aðila; erindreki; umboðsmaður.  „Hann sagði þessum útsendara að sýslumaður gæti bara komið í eigin persónu ef hann ætti eitthvað vantalað við sig“.

Útsetinn með (orðtak)  Gjarn á; leggur í vana; hefur þann ósið.  „Hann er útsetinn með að láta sig hverfa þegar mest er að gera, bévítans beinið“.

Útsetja (s)  A.  Færa lag í búning til flutnings.  B.  Færa sögu í stílinn.  „Líklega er flugufótur fyrir flestum sögunum hjá honum en hann bætir við og útsetur eftir sínu höfði“.

Útséð (l)  Komið í ljós; fyrirséð.  „Það er ekki alveg útséð með það hvort ég fæ skólavist“.  „Hann kemur ekki þennan daginn; það er nokkuð útséð“.

Útsigling (n, kvk)  Sigling frá landi.

Útsirkla (s)  Hnitmiða; finna/reikna út; sirkla út.  „Hann var búinn að útsirkla það hvenær kindin birtist uppyfir holtið og var þá kominn þangað til að standa fyrir henni“.

Útsjá (s)  Sjá út; greina; finna út.  „Þarna var orðið þéttraðað af netum, en mér tókst að útsjá sæmilegan stað“.

Útsjón (n, kvk)  Útsjónarsemi; glöggskyggni.  „...útsjón urðu þeir að hafa á veður, sjó og strauma, en umfram allt urðu þeir að vera lagnir við stjórn“  (ÖG; minningargrein um AK).

Útsjónarsamur (l)  Úrræðagóður; naskur á að leysa viðfangsefni.  „Nú varstu heldur en ekki útsjónarsamur“!

Útsjónarsemi (n, kvk)  Glöggskyggni; næmi; hæfileiki til að sjá tækifæri.  „Hin fáu slys í Kollsvíkurveri má eflaust þakka gætni og útsjónarsemi þeirra formanna sem þaðan reru“  (HÖ; Fjaran). 

Útskeifur (l)  Með þannig fótastöðu að tær vísa fremur útávið en fram eða innávið.  Sjá innskeifur.

Útsker (n, hk)  Sker/ lítil eyja sem er nokkuð frá landi.

Útskiki (n, kk)  Svæði sem liggur fjarri.  „Það tekur því nú varla að slá þennan litla útskika“.

Útskipun (n, kvk)  Flutningur varnings af landi út í skip.  „Eftir að fyrsta pöntunarfélagið í Rauðasandshreppi tók til starfa var saltfiskurinn verkaður heima; pakkaður þar og látinn í útlend flutningaskip sem tóku hann hér á Víkunum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Útskitinn (l)  Kámaður/saurgaður af úrgangi/rusli.  „Borðið er allt útskitið eftir langvíuna“.

Útskíta (s)  A.  Gera skítugt/óhreint.  „Ertu búinn að útskíta sparibuxurnar drengur“!  B.  Afleidd merking; tala illa um/til manneskju/málefni.  „Hann meinti þetta nú allt vel; það er óþarfi að útskíta það þó illa hafi farið“.

Útskorinn (l)  Sem búið er að skera út.

Útskrifa (s)  A.  Skrifa blað/bók að fullu.  „Þessi fjárbók er útskrifuð“.  B.  Afgreiða vörur í verslun út í reikning.  „Aðkomumenn fengu útskrifaðar vörur ættu þeir inneign eða nytu sérstaks trausts“.  C.  Brautskrá nemanda frá skóla.  „Ég útskrifaðist úr landsprófi í Borgarnesi“.

Útskrift (n, kvk)  A.  Endurrit.  „Ég fékk útskrift af mánaðarviðskiptunum“.  B.  Brottskráning frá skóla.

Útskurðarhnífur / Útskurðarjárn (n, hk)  Áhald með oddhvössu járni, ætlað til útskurðar.

Útskurðarmeistari (n, kk)  Sá sem sker út/ tálgar myndir/listaverk í við; myndskeri.  „Sigríður á Láganúpi tók við merki föður síns; Guðbjartar á Láganúpi, sem færasti útskurðarmeistari hreppsins á sinni tíð“.

Útskurður (n, kk)  Listin að skera myndir/skúlptúra í tré.  „Sumir föndruðu með vasahnífnum við útskurð( á kvöldvökum), sem mikið var gert af á báðum bæjunum (á Lambavatni) “  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Útskúfa (s)  Gera brottrækan; reka úr samfélagi.

Útskýra (s)  Lýsa; gera grein fyrir; túlka; skýra út.

Útskýringar (n, kvk, fto)  Útlistanir; túlkun; lýsing.  „Þetta fundust mér furðulegar útskýringar“.

Útskækill (n, kk)  A.  Sepi á skinni/húð sem flegin hefur verið af dýri; skækill.  B.  Líkingamál; ystu hlutar einhvers, t.d. túns eða landsvæðis.

Útslag (n, hk)  Rothögg; högg sem dugir; endanlegt högg.  Sjá gera útslagið á.

Útslefaður (l)  Með mikla slefu á sér; ataður slefu.  „Hann sagðist ekki hafa lyst á að drekka úr bollanum útslefuðum eftir karlinn“.

Útslitinn (l)  Slitinn að fullu.  „Ekki gerir maður þetta eftir að maður er orðinn afgamall og útslitinn“.

Útslíta (s)  Slíta/eyða til fulls.  „Ég er að verða búinn að útslíta þessum skóm“.

Útslægjur (n, kvk, fto)  Heyskapur utan túna/  á útengjum o.fl.  Grasgefin svæði fjarri bæjum sem slegin voru til nytja fyrir daga framræslu og véla.  Í kringum Kollsvík voru þessar útslægjur m.a. nytjaðar um lengri eða skemmri tíma: Kollsvíkurtó, Hænuvíkurtó, Startjarnir, Kjóavötn og Gormtjörn í Láganúpslandi.  Auk þess eru sögur um að slegið hafi verið í flesjum í Breiðnum og í Hnífunum, t.d. í Lambhaga og Undirhlíðarflesi.  Í Kollsvíkurlandi hafa útslægjur eflaust verið nýttar í flesjum í efri klettum og sjávarklettum Blakksins.  Þá er vitað að Sighvatsstóðin um miðja efri kletta, framarlega í Blakknum, voru nytjuð til fitubeitar áður.  Sighvatur hét bóndi sá sem lét sauði síga þar niður að vori og dró upp aftur að hausti.  Er það allnokkur fyrirhöfn, en góð beit. „Ef heyskapur heima gekk vel var farið í útslægjur, sem kallað var.  Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó; einnig töðuteigar í Kollsvíkurtó í Vatnadal.  Seinast var farið í útslægju um 1940.  Fyrir kom að slegið var úti í Breið eða inni á Hlíðum.  Það hey þurfti að bera á bakinu um snarbratta hryggi með hengiflug fyrir ofan og neðan.  Þetta var harðsótt og hættuleg heyöflun, en menn lögðu ýmislegt á sig til að eiga nóg fóður fyrir skepnur sínar“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Útsmoginn (l)  Kænn; innundir sig; slóttugur; bragðvís.  „Maður getur illa varað sig á svona útsmognum sölumönnum“.

Útsniðinn (l)  Um fatnað; víðari að neðanverðu.  „Um 1970 voru útsniðin föt mjög í tísku“.

Útsofinn (l)  Búinn að sofa nægilega mikið; vel hvíldur í svefni. 

Útsog (n, hk)  Þegar alda fellur aftur frá landinu áður en ný skellur upp.

Útspekúlerað (l)  Þaulhugsað; skipulagt.  „Þessi kaup eru útspekúleruð og verða fljót að borga sig“.

Útsperrtur (l)  Glenntur.  „Skatturinn bíður með útsperrtar klærnar eftir að fá sinn skerf af þessu“.

Útspil (n, hk)  Það að láta út spil í spilamennsku; aðgerð.

Útspilunarsemi (n, kvk)  Eyðslusemi; óhóf.  „Mér finnst þetta nú vera óþarfa útspilunarsemi“.

Útsporað (l)  Þakið/atað sporum/förum.  „Farðu úr skítastígvélunum frammi drengur!  Gólfið er allt útsporað eftir þig“!  „Þarna á fjallinu var allt útsporað af hjólförum“.

Útspýtt hundskinn (orðtak)  Niðrandi líking um þann sem leggur mikið á sig, oft án þess að uppskera umbun/þakklæti.  „Ekki veit ég til hvers maður er eins og útspýtt hundskinn að leggja sig fram um þessi samfélagsverk.  Það er ekki eins og þakklætið skíni úr hverju andliti“!

Útstáelsi (n, hk)  Skemmtanalíf; ólifnaður.  „Hann er hverja helgi á einhverju útstáelsi“.

Útsteyptur (l)  Alsettur; þakinn.  „Hlaupabólan var bölvaður óþverri.  Maður var útsteyptur af vessafylltum kláðabólum um allan skrokkinn og gat helst hvorki setið né legið“.

Útstím (n, hk)  Útleið í róður á vélbáti.  „Við gerum strenginn kláran á útstíminu“.  „Ég hafði setið þarna hjá honum á þóftunni flest útstímin síðast liðin tvö vor og sumur... “  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Útstraumur / Útstreymi (n, kk)  Straumur sem liggur út með landinu.  „Er komið var að Látrabjargi segir formaður að nú sé kominn útstraumur og best að leggja upp árar og láta reka útmeð Bjarginu “  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Útströnd (n, kvk)  A.  Strönd sem liggur utarlega.  B.  Ytri hluti Barðastrandar og bæir sem þar eru.

Útstunginn (l)  A.  Úum hlut; útskorinn; grafinn með myndum eða letri.  B.  Um fjárhús, búið að stinga/moka skán/skít/taði út.  „Miðhúsið er útstungið, en ég á norðasta karminn eftir“.

Útstæður (l)  Sem stendur út.  „Hann var með áberandi útstæð eyru“.

Útsuður (n, hk)  Suðvestur.  „Alltaf er hann með sama skítinn þegar hann liggur svona í útsuðri“.

Útsunnan (ao)  Vindur af suðvestri; útsynningur.  „...útsunnan er suðvestan og norðangarður er vitanlega hvöss norðanátt“  (SG; Áttamálfar; Þjhd.Þjms). 

Útsvar (n, hk)  Gjald hvers íbúa til sveitarsjóðs, ætlað til að standa undir sameiginlegum útgjöldum hreppsins.  Útsvari var áður jafnað niður á niðurjöfnunarfundum, en er nú hluti af staðgreiðslu skatta.

Útsvara (s)  Greiða út; standa undir greiðslum.  „Það verður erfitt fyrir hann að útsvara lokagreiðslunni“.

Útsveit (n, kvk)  Sveit/hreppur utantil; ytri hluti sveitar.  „Til þess að gera tillögur um vegamál í útsveitinni voru þessir menn kjörnir; Þórður Jónsson og Össur Guðbjartsson“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 30.03.1963; ritari ÖG). 

Útsvína (s)  Útskíta; útbía; útata.  „Halinn á kýrinni hafði losnað og hún var búin að útsvína allt kiringum sig“.

Útsynningshraglandi / Útsynningsskítur (n, kk)  Suðvestanátt er vanalega úrkomusöm og frekar leiðinleg vestanlands og sunnan.

Útsynningur (n, kk)  Suðvestan vindátt.  „ Landnyrðingur (sunnanátt); útsynningur (suðvestanátt); hafnyrðingur (norðanátt); austnorðan (þegar áttin gengur frá austri til norðurs); og norðaustan (þegar áttin gengur frá norði til austurs)“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM). 

Útsynningssperringur (n, kk)  Hvass vindur af suðvestri; stífur en jafn útsynningur.  „Hann heldur enn þessum útsynningssperringi, en er þó úrkomulaus“.

Útsýni (n, hk)  Það sem fyrir augu ber, einkum þar sem víðsýnt er; víðsýni.  „Útsýni er víða óviðjafnanlegt yfir Kollsvík; t.d. af Blakknesnibbu; Núp; Helluhnjúk; Haugum; Stórafelli; Litlafelli  og Hjallabrún“.

Útsæði / Útsæðiskartafla (n, hk)  Kartafla sem sett er niður til að fá af henni fleiri kartöflur.  „Merktu svo pokann með útsæðiskartöflunum, svo hann ruglist ekki við matarkartöflurnar“.

Útsögunarbogi (n, kk)  Útsögunarsög; laufsög; bogasög með djúpum boga og mjóu fíntenntu blaði; til að saga út krossvið og annað þunnt efni.  „Gakktu frá útsögunarboganum og klemmunni þegar þú hættir“.

Útsögunarklemma (n, kvk)   Plata, lík kríustéli í laginu, sem klemmd er með þvingu á borð til að auðvelda útsögun með útsögunarboga; laufsög; útsögunarsög.

Útsögunartæki (n, hk)  Áhöld til útsögunar; útsögunarbogi, klemma o.fl.  „Fjelagið sá um að drengir innan 14 ára, sem í því voru, hafa komið sér upp garðholuog ræktað þar jarðepli og selt þau, en fengið sér útsögunartæki og efni fyrir andvirðið“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Útsöluverð (n, hk)  A.  Söluverð vöru eða annars.  B.  Lækkað söluverð; tilboðsverð.

Úttala sig um (orðtak)  Tjá sig um; segja sinn hug um; ákveða.  „Ég úttala mig ekki frekar um þetta að sinni“.

Úttaugaður (l)  Örþreyttur; alveg af manni genginn.  „En mennirnir voru úttaugaðir orðnir ..“  (MG; Látrabjarg)

Úttekt (n, kvk)  A. Það að taka eitthvað út, t.d. hluti úr húsi.  B.  Það að taka vörur frá verslun út í reikning, þ.e. gegn lántöku eða skuldajöfnun. Sbr innlegg.  „Það verður að stöðva úttektir hjá þeim ef hann semur ekki um skuldina“!  C.  Vörur sem teknar hafa verið út í reikning.  „Viltu koma við á Gjögrum og taka úttektina fyrir mig“?   D.  Mat á t.d. jörð og húseignum. 

Úttektargjörð (n, kvk)  Úttekt/mat á eignum.

Úttektarnóta (n, kvk)  Blað með upplýsingum um það sem tekið hefur verið út, t.d. þegar vörur eru teknar út í reikning.

Úttroðinn (l)  Þaninn; alveg fullur; pakksaddur.  „Þorskurinn var úttroðinn af síli“.

Úttútnaður (l)  Útþaninn; troðinn; úttorðinn.  „Hann var úttútnaður af reiði og óárennilegur á svipinn“.

Útum (ao)  Um stefnu; út fjörð/vík.  „Áttir og stefnur voru með lítið eitt öðrum hætti í Útvíkum og nágrenni en annarsstaðar tíðkaðist og nú er algengast.  Ekki síst átti það við á sjó, en einnig á landi:  Framum þýðir dýpra/fjær landi eða inn dalinn; uppum þýðir grynnra/nær landi eða ofar í landinu;  útum þýðir út fjörðinn eða í stað sem er utar á landsvæði; innum þýðir inn fjörðinn eða innyfitr heiði/ inn í fjörð“.   „Það er þéttraðað strengjum hér útum“.

Útum allt / Útum allar jarðir / útum allar trissur / útum allar koppagrundir / útum dittinn og dattinn (ortðök)  Um allar jarðir; víðsvegar; allsstaðar.  „Féð var komið útum allar trissur“.  Útum allt voru högl á stærð við fingunögl“.  „Þarna var strjálingur af fé útum dittinn og dattinn“.  „Þessi saga er komin útum allar jarðir“.

Útundan (ao/fs)  A.  Út undan.  „Ég grillti í skottið á músinni útundan kassanum“.  B.  Undanskilinn; afskiptur.  „Honum fannst, strákgreyinu, að hann væri hafður útundan í hópnum“.  D.  Í útideyfu/gleymsku.  „Það varð útundan hjá mér að kveikja upp í reykkofanum í dag“.

Útundir (fs)  Út/úti undir; úti við.  „Það er allmikið tré rekið útundir Hreggnesa“  „Við komumst á bíl útundir Grenjalág“. „Hrífurnar eru þarna útundir veggnum“.

Útundir sig (otðtak)  Um mann; íbygginn; séður í viðskiptum; lætur ekki allt uppi; slægur; brögðóttur.  „Þú skalt hafa allt á hreinu í viðskiptum við karlinn; hann er dálítið útundir sig“.

Útungun (n, kvk)  Það að klekja/unga úr eggjum. 

Útungunartími (n, kk)  Tíminn sem það tekur að klekja/unga út unga úr eggi.

Útúr (ao/fs)  A.  Út úr/frá/af.  Ég er langt kominn með að moka útúr norðasta karminum“.  „Hann narraði útúr mér bókina“.  „Ég get ekkert lesið útúr þessari skrift“!  B.  Um mann sem er utanvið sig; ruglaður; ofurölvi.  „Hann er orðinn dálítuð útúr upp á síðkastið“.

Útúr öllu (orðtak)  Eins langt út á sjó og augað eygir; út að sjóndeildarhring.  „Ekki vantar sjóveðrið; það er bara rjómablíða útúr öllu“!

Útúrbora (n, kvk)  Ófélagslynd/mannfælin manneskja.  „Ætlarðu að vera sú útúrbora að mæta ekki í veisluna“?

Útúrboruháttur (n, kk)  Mannfælni; hlédrægni; sérviska.  „Óttalegur útúrboruháttur er nú í þér“!

Útúrborulegur (l)  Hlédrægur; mannafæla; sérlundaður.  „Ætlarðu að vera svo útúrborulegur að sitja heima á jólatrésskemmtuninni“?

Útúrdrukkinn (l)  Pöddufullur; augafullur; á eyrunum/skallanum; dauður áfengisdauða eða því sem næst.

Útúrdúr (n, kk)  Aukaferð; krókur; viðbót ferðalags eða annars, sem ekki var upphaflega áætluð.  „Við ættum að gá þarna framí lautirnar, þó það sé dálítill útúrdúr“.  Kann upphaflega að hafa merkt blund eða viðbótarsvefn.

Útúrkrókur (n, kk)  Lykkja/krókur/útúrdúr sem lögð er á ferðalag/ meginstefnu.  „Við tefjum okkur ekki við neina útúrkróka“.

Útúrskagandi / Útúrstandandi (l)  Sem skagar/trónir/stendur útúr.  „Undirhlíðarnefið, með sínum útúrskagandi klettanefjum, minnir dálítið á mannsandlit“.  „Varaðu þig á þessum útúrstandandi naglagöddum“.

Útúrsnúningur (n, kk)  Afbökun; hálfsannleikur; rangtúlkun.  „Þetta er bara útúrsnúningur á mínum orðum“.

Útvalinn (l)  Valinn úr fjölda.  Oftast í orðtakinu margir eru kallaðir en fáir útvaldir

Útvarp (n, hk)  A.  Tækni til að koma hljóði til skila um langar leiðir með nokun rafsegulbylgna.  B.  Tæki/viðtæki sem breytir rafsegulbylgjum í hljóðbylgjur.  „Svolítil breyting varð á þessu við tilkomu útvarpsins, fyrir jólin 1930.  Til að byrja með var aðeins eitt útvarp í Víkinni, og var það haft miðsvæðis í henni; eða á Stekkjarmel“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Útvarpa (s)  A.  Segja eitthvað í gegnum útvarp.  B.  Tilkynna mörgum; breiða út sögur/fréttir/slúður.  „Það var nú kannski óþarfi að útvarpa því um allar jarðir sem okkur fór á milli“!  C.  Kasta út/útbyrðis; kasta á dyr.

Útvarpsbatterí (n, hk)  Batterí fyrir útvarp.  Fyrstu útvarpsviðtækin voru þurftafrek á rafmagn sem þá var óvíða fyrir hendi.  „Tvenns konar rafhlöður voru notaðar við útvörp, kallaðar þurrbattery og votabattery. Þurrbatteryin entust nokkuð lengi og síðan voru keypt ný. Þau líktust ofvöxnum vasaljósabatteryum. Votabatteryin eða rafgeymarnir tæmdust og þá þurfti að hlaða þá aftur. Var þá lagt af stað oft yfir langa fjallvegi á næsta bæ sem rafveita var á til að fá hleðslu. Tveir geymar þurftu að vera til svo sá sem fór með tóma geyminn gæti tekið hlaðna geyminn með sér heim. Sumir fengu að hlaða batteryin í rennibekknum hans pabba. Við hann var dýnamór og var svo hægt að stíga rennibekkinn (lengi!) og hlaða geyminn“  (SG; Rafvæðing; Þjhd.Þjms). 

Útvarpstæki (n, hk)  Viðtæki; útvarp.  Einkum notað um stór lampatæki sem algeng voru í byrjun útvarpsaldar.  „Jól í bernsku minni voru hátíðleg haldin þannig að á aðfangadag kl sex var allt heimilisfólkið samankomið við útvarpstækið að hlýða á aftansöng“  (ÖG; Glefsur og minningabrot). 

Útvatna (s)  A.  Um saltmeti; leggja í (bleyti). „“Skammt frá var brunnhús; þar var útvatnað fiskur, fugl og kjöt frá öllum bæjum.  Hét það Gvendarbrunnur... “ (ÞJ; Örn.lysing Hvallátra).   B.  Um tunnu eða annað tréílát, láta standa með vatni til að þéttast.  „Við þurfum að slá upp nokkrar tunnur og útvatna þær“.

Útvatnaður (l)  Um saltaðan mat; afvatnaður þannig að salthlutfall sé minna. 

Útvega (s)  Afla; ná í; sjá fyrir.  „Hann útvegaði mér þennan fína hákarl“.

Útveggur (n, kk)  Veggur í húsi sem snýr a.m.k. annarri hlið út.

Útvegsbóndi (n, kk)  Útgerðarmaður sem stundar jafnframt búskap.  „Með honum var stórt skarð höggvið í hóp framsækinna útvegsbænda“  (KJK; Kollsvíkurver).

Útvegsjörð (n, kvk)  Jarðeign þar sem sjávarútvegur er stundaður að verulegu marki.  „Líklega hafa Láganúpur og Kollsvík báðar verið miklar útvegsjarðir gegnum tíðina, þó ýmist sé talað um Láganúpsver eða Kollsvíkurver“.

Útvegun n, kvk)  Það að útvega/skaffa/ koma með.  „Hann sá um útvegun á veisluföngunum“.

Útvegur (n, kk)  A.  Ráð; úrræði; útleið.  „Ég sá engan útveg annan í þessu máli en fara algerlega að þeirra vilja“.  B.  Útgerð. Sbr sjávarútvegur.  C.  Vegur sem er fáfarnari/afskekktari en annar.  „Þeir moka ekki útvegina í þessari viku“.

Útvelja (s)  Velja úr.  „Þú útvelur þér þá fiska sem þér líst á“.

Útver (n, hk)  Ver/verstöð þar sem aðkomumenn koma á vertíð til útróðra og búa í verbúðum.  Útver er það nefnt til aðgreiningar frá heimveri/heimræði sem er útræði heimamanna og viðleguveri, sem er haft um að að aðkomumenn búi á heimabæjum yfir vertíðina. 

Útvið (ao) Úti við/hjá.  „Kindurnar hanga enn þarna útvið Hólahliðið“.

Útvigta (s)  Skammta með vigtun.  „Á lagernum í Gjögrabúð var aðstaða til að útvigta sekkjavöru, s.s. sykur, hveiti og rúgmél“.

Útvigtað (l)  Skammtað með vigtun; vigtað til sölu.  „Milljónarfélagið lét reisa salthús í Kollvíkurveri, þar sem sjómenn fengu útvigtað salt gegn viðskiptum við félagið“  (HÖ; Fjaran). 

Útvigtun (n, kvk)  Skömmtun með vigtun.

Útvíður (l)  Um fatnað; víðari að neðan en ofan. 

Útvík (n, kvk)  A.  Vík sem liggur í vestri.  „Útvíkur er sérnafn á víkunum milli Látrabjargs og Blakks; Kollsvík, Breiðavík og Látravík“.  B.  Vestari hluti víkur.  „Það er búið að smala Breiðavíkina, en helst gæti þó verið eftir fé í útvíkinni“.

Útvíkka (s)  Víkka/rýmka út.  „Við þurfum að útvíkka leitarsvæðið“.

Útvíknabúi / Útvíknamaður (n, kk)  Sá sem býr í/ kemur frá/ er ættaður frá Útvíkum í Rauðasandshreppi.  Sjá Rauðsendingur.  „Útvíknamenn þóttu stundum sérlundaðir og stífir á sínu, en einnig allra manna hjálpsamastir, dugmestir og útsjónasamastir“.

Útvísa (s)  Vísa á; gefa fyrirmæli um.  „Ég bjó um mig í í því bæli sem mér var útvísað“.

Útvortis (ao/l)  Að utanverðu; á ytra borði líkamans.  „Ég held að þetta séu bara útvortis meiðsli“.  „Þennan áburð má bara nota útvortis“.

Útvörður (n, kk)  Sá sem stendur vörð gegn utanaðkomandi hættu; ystu fyrirbæri.  „Látrabjarg er útvörður landsins í vestri“.

Útyfir (ao)  Út og yfir.  „Tveir smöluðu útyfir Breið en ég fór hlíðina fyrir Breið og smalaði Fjarðarhornið“.

Útyfir allan þjófabálk (orðtak)  Umfram allt velsæmi; alltof mikið.   „Svona yfirgangur tekur auðvitað langt útyfir allan þjófabálk“!   Vísar til viðurlaga fornra laga við þjófnaði; að glæpur sé meiri en svo að þjófabálkur lögbókar taki til hans.

Útþaninn / Útþembdur (l)  Belgdur/kýldur/þaninn út; útkýldur.  „Nú er maður svo útþembdur af kræsingum að maður er varla fær um að draga fé í rétt“!

Útöndun (n, kvk)  Það að anda frá sér; loftun úr rými.

Leita