Tabú (n, hk) Það sem ekki má tala um; bannorð. Tekið í íslenskt mál á síðari tímum.
Taddi (n, kk) Lítill poki. „Hann kom með smá tadda fullan af tófuskottum“.
Tað (n, hk) A. Skítur úr sauðkindum/hrossum; sauðatað/hrossatað. B. Þjappaður og fremur þurr kindaskítur úr fjárhúsum/stíum þar sem ekki eru grindur. Var notað til eldunar og reykingar. „Féð safnaði úrgangi undir sig í krærnar þegar það var inni. Skíturinn og hlandið tróðst þétt saman í skán sem hét tað. Þegar hirt var um húsin; þau voru loftgóð og láku ekki, og veður þurrviðrasöm, hélst taðið vel þurrt og fé gat verið vel hvítt á lagðinn.... Á Vestfjörðum var fé oft beitt í fjöru á veturna, en fé sem er á fjörubeit bleytir húsin mjög mikið. Vestfirðingar fundu tvö ráð við þeim vanda. Annarsvegar báru þeir sand í garðana í húsunum á haustin og létu hann draga í sig bleytuna úr taðinu. Þegar taðskánin var orðin mettuð var efsta laginu mokað út. Hin aðferðin sem Vestfirðingar fundu upp var að gera rimlagrindur úr tré sem lagðar voru í garðana og féð gekk á þeim. Spörð og hland fór þá niður á milli rimlanna meðan rúm var fyrir. Þegar fór að fyllast á milli rimlanna var grindinni lyft og hún færð svolítið til þannig að hún féll ekki í sama farið aftur heldur lagðist ofaná taðið. Þá leið enn nokkur tími þar til fylltist milli rimlanna aftur. Síðan þróaðist sú aðferð að grafa þrær í botninn á görðunum. (Enn síðar voru haugkjallarar steyptir, þannig að grindaslár hvíldu í börmum þeirra). Eftir að skógarnytjar minnkuðu eða hurfu í lsndinu varð að ráða bót á eldiviðarskorti með einhverju móti. Sumsstaðar var tekinn upp mór úr mýrum og hann þurrkaður til eldsneytis; sumsstaðar við sjóinn var hægt að fá nóg af rekavið í eldinn, en þar sem hvorki var mótekja eða reki varð að treysta á taðið sem eldivið. Þegar fé var á húsi varð að hafa hæfilegan raka í taðinu til þess að það þjappaðist vel saman.... Taðið var stungið út á vorin í hnausum og því ekið á þurrkvöll. Þar voru hnausarnir klofnir í flögur. Taðið lá í lögum í h´suinu ef það hafði haldist hæfilega þurrt um veturinn, og klofnaði auðveldlega. Flögurnar, eða taðskánirnar, voru fyrst lagðar flatar á þurrkvöllinn og látnar léttast og harðna. Um leið og taðskánirnar voru orðnar svo stinnar að þær báru þunga sinn voru tvær skánir reistar upp á rönd; þær látnar hallast hvor á móti annarri og þorna þannig. Næstu tvær skánir studdust við hinar tvær fyrri og þannig voru reistar upp langar reinar. Þegar taðið var orðið nægilega þurrt var það tekið saman og borið upp í taðhlaða, sem var vandlega hlaðinn svo að hann stæði sem best og verði sig fyrir rigningu, en hleypti sem mestu lofti í gegnum sig til að taðið héldi áfram að þorna. Á haustin var eins miklu af taðinu komið í hús og hægt var, en þeir taðhlaðar sem áttu að standa úti fram á veturinn voru þaktir með torfi til að verja þá rigningum. Gott tað; vel þurrt, var góður eldiviður; auðvelt að kveikja upp í því og gaf góðan hita. Verr gekk þegar taðið var blandað bæði mold og heyrudda og rakt í þokkabótt. Þá lifnaði seint og illa í því og það gaf meiri reyk en hita. Enn er sauðatað víða notað til að reykja við það kjöt“ (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).
„Það gekk illa (að fá tað til reykingar). Því hér er fé á grindum, en það hefur alltaf verið reynt að ná einhverjum taðflögum sem voru komnar ofan á grindur. Þá var það gjarnan tekið og þurrkað og haft til að reykja við, en það er svolítið erfitt, það er vandamál að ná því“ (SG; Reyking matar; Þjhd.Þjms).
„Lömbin voru höfð á taði; það var stungið út um sumarmál og notað sem eldiviður þar til mór fór að þorna. Taðið úr öðrum bústofni var notað til áburðar á tún. Var það flutt á tún að hausti eða vetri, og dreift úr því. Að vorinu var þessi áburður svo unninn sem best niður í grasrótina; var það kallað „að vinna á túni“. Til þess var notaður slóði sem muldi skítinn, og var hann dreginn af hesti. Síðan var rakað yfir með kláru eða hrífu. Var þessi vinna oftast unnin snemma vors eða um hálfan mánuð af sumri. Einnig voru notaðar taðkvarnir og taðið malað, og síðan dreift úr því. Fyrir slátt var túnið hreinsað; þá var skíturinn sem ekki vannst niður rakaður í hrúgur. Það var svo starf okkar krakkanna að tína þær upp í trog og hella þeim í poka. Afrakið var síðan borið heim í mókofa og notað sem eldiviður. Heldur þótti okkur leiðinlegt verk að taka hrúgur“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal GG/HM).
Taða (n, kvk) Gras/hey af ræktuðu landi. Töðuhey er kjarnbetra en hey það sem aflað var af engjum og útslægjum fyrr á tíð. Taðan var því notuð fyrir mjólkurkýr, en lakara hey fyrir sauðfé og geldneyti. Fyrrum var heitið taða notað um land það sem ræktað var með taði, en færðist síðar yfir á heyið af því. Ræktarland var þá einkum kringum bæina, þar sem hægara var að verja það fyrir beit.
Taðaska (n, kvk) Aska sem verður eftir þegar taði er brennt, t.d. til kyndingar eða reykinga. Taðaska þótti fyrrum góð til að nudda henni í ull sauðfjár til að verja það fyrir lús. Einnig notuð til undirburðar í gólf.
Taðflaga / Taðskán (n, kvk) Flaga/flís af taði sem stundið er í hlóðaeld eða höfð til reykinga. Þegar tað var stungið úr húsum voru hnausarnir klofnir í taðflögur og þær þurrkaðar.
Taðhnaus / Taðkökkur (n, kk) Hnaus af taði sem stunginn er út úr fjárhúsi.
Taðkvörn (n, kvk) Áhald til að mylja þurrt tað, áður en það er notað sem áburður á tún. Troglaga ílát með tenntum vals í botni og grind. Taðkvörnin er talin uppfinning Físla P. Sigmundssonar trésmiðs á Ljótunnarstöðum í Skagafirði árið 1880. Var víða í notkun fram á miðja 20.öld. „Einnig voru notaðar taðkvarnir og taðið malað, og síðan dreift úr því“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Taðmokstur (n, kk) Mokstur skíts út úr fjárhúsum. Sjá stinga útúr húsum.
Taðmold (n, kvk) Mold sem mynduð er af sauðataði. „Hellisgólfið hefur hækkað nokkuð af taðmoldinni“.
Taðskegglingur (n, kk) Unglingur með skegghýjung. „Nú ert þú að verða taðskegglingur, góði minn“.
Tafalítið (l) Með litlum töfum/lítilli seinkun. „Ég held að verði tafaminnst að hafa þetta lag á“.
Tafarlaust (l) Án tafar; strax. „Ekki var það látið hafa áhrif, heldur haldið tafarlaust á Hrafnseyrarheiði“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).
Tafarlítið (l) Án mikilla tafa; fljótlega.
Tafasamt (l) Það sem kostar ítrekaðar tafir. „Það er alltof tafasamt að merkja hvern fisk“.
Tafi (n, kk) Töf; seinkun. „Það ætti ekki að verða ekki mikill tafi af því að stinga þar við stafni“.
Tafl / Taflmaður (n, kk) Spil með taflborði og taflmönnum/ fígúra í manntafli. Kollsvíkingar hafa löngum stundað skáklistina. Það staðfestist þegar árið 1904 fannst taflmaður í kálgarði gamla bæjarins í Kollsvík. Hann er nú í Þjóðminjasafni Íslands og fylgir þessi texti: „Skáktaflsmaður úr búrhvalstönn, skorinn í fulla manns líking, með töluvert skegg og hárið stýft um eyrun, kolllágan, barðastóran hatt á höfði, í aðskorinni, einhneptri treyju með breiðum kraga og ákaflega síðum stuttbrókum og skjöld á vinstri hlið og nær sporðurinn niður jafnlangt fótum mannsins. Þetta mun vera konungur úr tafli og eptir því sem ráða má af búninginum, mun hann vera frá síðari hluta 16. aldar. Taflmaður þessi fannst í kálgarði á bænum Kollsvík við Patreksfjörð“(Sarpur.is). Hákon Jónsson kom gripnum til Þjóðminjasafnsins, en Torfi bróðir hans var bóndi í Kollsvík og drukknaði í Snorralendingu þetta sama ár. Gripurinn verður að teljast með merkari fornleifum sem enn hafa fundist í Kollsvík. „Mamma og Torfi bróðir hennar gátu teflt allan jóladaginn. Mamma kenndi okkur krökkunum tafl“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Tafla (n, kvk) A. Kringlótt spjald/tala með rás í jaðri, notað til að bæta gat á skinnklæðnaði. B. Pilla; lyf/bætiefni í töfluformi. C. Spjald til að skrifa á. D. Form reglulegra reita; skrá. E. Flatskór; sandali.
Taflborð (n, hk) Reitótt borð/spjald til að tefla á. Stundum einungis reitóttur dúkur sem lagður er á borð.
Taflmaður (n, kk) Lítil fígúra sem leikið er í tafli, oftast útskorin í líkingu hermanna/hergagna. Sjá tafl.
Tafs (n, hk) Töf; hangs. „Ég má ekkert vera að þessu tafsi; ekki veitir af að halda til dagsins“! Var annarsstaðar notað um ógreinilegt tal eða stagl/stam.
Tafsa (s) Tefja; hangsa. „Ég má ekki vera að því að tafsa neitt núna; ég ætla að eiga hjá þér kaffið þangaðtil næst“. Annarsstaðar var orðið notað um að tala seinlega/ógreinilega; reka í vörðurnar.
Tafsamt (l) Seinlegt; gengur með töfum. „Þetta verk er alltof tafsamt með svona vinnubrögðum“.
Tagl (n, hk) A. Stertur á hesti. B. Endi á holti/fjalli. C. Króna á tré. Sbr tré skal frá tagli rífa en rót telgja/saga.
Taglhnýtingur (n, kk) Drösull; tryggur fylgismaður. „Ætli ég láti ekki flokkinn sigla sinn sjó hér eftir ef hann ætlar að vera taglhnýtingur íhaldins í þessu máli“!
Tagltækur (l) Tiltækur. A. Um hest sem má handsama með því að taka í taglið. B. Um mann sem unnt er að fá til verks. „Ég skal athuga hvort hann sé tagltækur í símann núna“.
Tak (n, hk) A. Grip; hafa tak á einhverju; ná taki. B. Stór steinn. „Þetta er mikið tak; heldurðu að þú loftir honum“? Til eru nafnfrægir steinar, t.d. Brynjólfstak í Brunnaverstöð. C. Verkur. „Ég fékk tak í bakið“.
Taka (s) A. Grípa; nema; fara með; fjarlægja. „Ég tók vírflækjuna svo féð væriekki að flækja sig í henni“. B. Grípa ná. „Hann var oft fenginn til að taka fé úr svelti“. C. Samþykkja; fallast á (taka einhverju). „Ég tek þessum skilmálum“ sagði Liði“ (PG; Veðmálið). D. Ná; nema; teygjast. „Kórar taka svo hátt að ekki sér út í Kóngshaldahrygg“ (AS ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Taka að (orðtak) Um sjávarfall; falla að; flæða. „Hann er farinn að taka að. Við lendum um hálffallið.
Taka að láni / Taka til láns (orðtak) Fá lánað.
Taka að sér (orðtak) Ætla að sjá um. „Ég tók þetta verk að mér, og því ætla ég að ljúka sómasamlega“.
Taka af (orðtak) A. Rýja fé, en sögnin að rýja var ekki notuð í Kollsvík. „Við rákum saman til aftektar í gær og náðum að taka af öllu fyrir kvöldið“. B. Um stórsjó: „Við lentum í aftakasjó svo tók af fjöll upp í miðjar hlíðar“. C. Fara úr yfirhöfn: „Taktu af þér þarna frammi og hengdu upp á snagann“. D. Drepa; myrða. „Þeir hafa ekki átt almennilegan forseta síðan Kennedí var tekinn af, þarna um árið“.
Taka af fall (orðtak) Minnka skellinn af slæmri byltu. „Honum varð það til lífs að lenda í hvannarstóði sem tók af honum mesta fallið, svo hann náði að stöðva sig“.
Taka af gamanið (orðtak) Versna í því; útlit versnar; verða erfiðara/mótdrægara. „Það er fljótgengið niður Geldingsskorardalinn, þegar allt er undan fæti og öll ílát tóm. En það getur tekið af gamanið á uppleiðinni, lengst neðanaf Stíg; þegarallt er á fótinn og maður þarf að bera á annaðhundrað egg og vað að auki; sökkvandi í mosa upp á mjóalegg og jafnvel í logni og steikjandi sólskini“.
Taka af ómakið (orðtak) Gera verk fyrir annann; létta fyrirhöfn/vinnu af öðrum. „Ég tók af honum ómakið og skar beitu fyrir okkur báða“.
Taka af (einhverjum) ráðin (orðtak) Taka framfyrir hendurnar á einhverjum; gera á móti vilja/ætlun einhvers.
Taka af sér (orðtak) Fara úr ytri fötum/yfirhöfn. „Viltu ekki taka af þér og koma innfyrir“?
Taka af sér gust (orðtak) Hvíla sig; kasta mæðinni; leita skjóls í mótvindi. „Á leiðinni frá Látrum komum við örðstutt við í Breiðuvík; bara til að taka af okkur gust“.
Taka af skarið (orðtak) Taka ákvörðun um það sem verið hefur í óvissu; kveða uppúr. „Við vorum ekki vissir um réttar áttir í þokunni, en ég ákvað að taka af skarið og fara undan brekkunni“. Vísar til þess að þegar kerti logar mynast oft kolaður endi efst á kveiknum, sem veldur því að loginn fer að ósa og ljósið dofnar. Þá þarf einhver að taka af skarið.
Taka af (öll) tvímæli (orðtak) Eyða öllum efasemdum; ákveða endanlega. „Allir voru tillögunni sammála, en til að taka af öll tvímæli lét hann bóka samþykktina í fundargerð“. Sjá allt orkar tvímælis þá gert er.
Taka af veltu (orðtak) Gera stöðugan í veltingi. „Ég setti nokkra steina í bátinn til að taka af honum veltuna“.
Taka afstöðu/ákvörðun (orðtök) Ákveða; gera upp hug sinn; mynda sér skoðun.
Taka aftur (orðtak) A. Um ummæli/ávarp; afsaka; lýsa vilja til að ógilda. „Ég tek þessi orð aftur; þau voru í æsingi sögð“. B. Um gerðir; ógilda. „Það verður ekki aftur tekið ef bátnum slær flötum í lendingunni“!
Taka akkeri/stjóra (orðtak) Um bát; leggjast í akkerisfesti/stjórafæri undan reki; akkeri/stjóri nær botnfestu. „Báturinn hafði ekki tekið akkerinu þarna á sandblettinum og dró útmeð bjarginu“.
Taka alvarlega / Taka hátíðlega (orðtök) Leggja ríkan skilning í eitthvað, t.d. það sem gert/sagt er; telja að það hafi mikla þýðingu. „Svona þus tek ég nú ekki alvarlega“.
Taka andköf (orðtak) Anda djúpt og ákaft, t.d. eftir að hafa lengi haldið niðri í sér andanum; áköf innöndun. Gerist stundum í hugaræsingi. „Hún tók andköf þegar hún sá hvað hafði gerst“.
Taka á (orðtak) A. Nota kraftana; gera það sem erfitt er; gera átak. „Við megum heldur betur taka á ef við ætlum að koma trénu uppá hleinina“. B. Þreifa á; þukla. Einkum um það að handfara fé, t.d. ásetningslömb. „„Jæja“ sagði Liði. „Viltu samt ekki prófa að taka á kettlingnum og taka hann upp áður en þú veðjar“? (PG; Veðmálið). … „Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu; bæði á baki og bringu; taka það upp til að meta skrokkþungann, og síðast en ekki síst að koma sínu áliti á framfæri“ (PG; Veðmálið).
Taka (fé) á gjöf (orðtak) Hýsa fé; taka á hús. „Það skal tekið fram skoðun lét ég dragast; mest vegna þess að tíðin hefur verið svo góð; sífelldar eyður og hvergi farið að taka lömb á gjöf ennþá“ (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1924).
Taka á honum stóra sínum (orðtak) Beita miklum kröftum; reyna af öllu afli.
Taka (fé/skepnur) á hús / Taka (fé/skepnur) á gjöf (orðtök) Hleypa fé inn í fjárhús og byrja að gefa því fóður.
Taka á móti (orðtak) A. Veita viðtöku; veita fæðingarhjálp „Á móti mér tók Magdalena Össurardóttir móðursystir mín“ (IG; Æskuminningar). B. Veita andspyrnu gegn árás/atlögu. „Maður reynir nú að taka á móti ef á mann er ráðist“.
Taka (einhvern/einhverja/eitthvað) á löpp (orðtak) A. Grípa lamb með því að ná í fót þess, t.d. þegar það er elt til mörkunar. B. Líkingamál; ná sér í maka eða bólfélaga.
Taka (einhvern) á orðinu (orðtak) Taka einhvern bókstaflega; herma það uppá mann sem hann hefur sagt/lofað. „Ég tók hann á orðinu þegar hann sagðist geta lánað mér þetta“.
Taka á rás (orðtak) Byrja að hlaupa; taka til fótanna. „Þeim sem í landi voru brá í brún er báturinn sneri að Snorralendingu, en tóku þó þegar á rás þangað“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Taka á sig (orðtak) A. Taka á sig ábyrgð/sök (sjá þar). B. Um hlut, t.d byggingu; verða fyrir miklu álagi t.d. í vindi. „Hann þorði ekki að leggja á fjallið; sagði að kerran tæki svo mikið á sig í rokinu“.
Taka á sig ábyrgð/sök/tjón/skaða (orðtök) Viðurkenna sína ábyrgð/sök; lýsa ábyrgð/sök á sig; bera kostnað vegna skaða/tjóns. „Ég tek fulla á mig ábyrgð á þessum mistökum“. „Ég tek á mig allan skaða sem kann að hljótast af þessu“.
Taka á sig náðir (orðtak) Fara að sofa; ganga til hvílu; draga sig í lúsina. „Asskoti er orðið framorðið; ætli maður fari bara ekki að taka á sig náðir“.
Taka á sig rögg (orðtak) Hafa sig í verk; sýna röggsemi. „Eftir margra mánaða hangs tók hann á sig rögg og kláraði verkið“.
Taka á sig mynd (orðtak) Verða til; skapast. „Nú fer báturinn að taka á sig sína réttu mynd“.
Taka á sig náðir (orðtak) Hátta; fara að sofa; ganga til hvílu/náða. „Ári er maður orðinn syfjaður; ætli ég fari ekki bara að taka á mig náðir, hvað úr hverju.
Taka á sig rögg (orðtak) Herða sig í að gera/framkvæma; hleypa í sig kjarki. „Hér var að verða ári ruslaralegt í kring, svo ég tók á mig rögg og hreinsaði til“. Sjá rögg.
Taka á öllu sínu (orðtak) Beita ítrustu kröftum; taka á af alefli. „Ég tók á öllu mínu, og þá gekk þetta“.
Taka áróður (orðtak) Um veiðiskap; kippa á mið; bregða til miða. „Ef tók undan meðan straumur var, og þess vegna kippt á, var að taka straumkippi; einnig að róða snertu. Það kölluðu sumir Skagirðingar að oka á, en Vestfirðingar að bregða til miða; einnig að taka áróður“ (LK; Ísl.sjávarhættir IV). Í seinni tíð var algengast að tala um að kippa.
Taka ástfóstri/tryggðum við (orðtak) Verða hrifinn/ástfanginn af; verða hændur að; þykja vænt um. „Ekki er að undra þó margir hafi tekið ástfóstri við Kollsvíkina“.
Taka barning (orðtak) Um siglingu báts; lenda í mótvindi/miklum mótstraumi, sem illa gengur að róa gegn. „Komust þeir svo á venjulegri bátaleið fyrir Bjargtanga og tóku barning að Brunnum“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Taka baujuna/bólið/duflið (orðtak) Ná baujunni innfyrir borðstokk um leið og báturinn rennir að henni. „Vertu klár að taka baujuna“!
Taka bóg (orðtak) Um siglingu báts/skips; sigla langan legg skáhallt í vindi. „Þeir tóku því bóg norðurá, eins nærri vindi og unnt var“ (ÁE; Ljós við Látraröst). „Þegar í land var haldið sigldu þeir Árni og Guðbjartur eins og tók norður undir Bjarnarnúp og ætluðu síðan að taka annan bóg suður eftir“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Taka bókstaflega (orðtak) Leggja ríkan skilning í það sem sagt er; túlka það mjög þröngt sem sagt er. „Ég segi nú bara sisona; þú mátt ekki taka það of bókstaflega“.
Taka daginn snemma (orðtak) Fara snemma á fætur; fara snemma upp. „En að því loknu fóru þeir að þvo sér og svo að sofa, því þeir tóku daginn oftast snemma ef sjóveður var“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Taka djúpt í árinni (orðtak) A. Dýfa áinni vel niður í sjóinn þegar báti er róið. Það róðrarlag er stundum nauðsynlegt; t.d. þegar róið er í miklum veltingi; svo árin skelli ekki uppúr í öldudölunum. B. Taka sterkar til orða en ástæða er til; segja meira en tilefni er til. „Það er nú kannski of djúpt í árinni tekið að þetta sé allt ónýtt; en eitthhvað er það“. Líking við róðrarlag á báti.
Taka eftir (orðtak) A. Veita athygli; sjá; uppgötva. „Ég tók eftir því að kýrin stakk við á öðrum afturfætinum“. B. Apa/herma eftir. „Þetta er ósiður sem ekki er vert að aðrir taki eftir“.
Taka (einhverju) eins og hverju öðru hundsbiti (orðtak) Um ólán/áfall; taka því sem að höndum ber. „Þetta var bölvað áfall; að missa kúna. En ætli maður verði ekki að taka því eins og hverju öðru hundsbiti“.
Taka ekki fjarri / Taka líklega (orðtök) Taka vel í; vera jákvæður gagnvart; taka sæmilega undir. „Ég nefndi þetta við hann, og hann tók því ekki fjarri að hjálpa mér“. „Mér fannst hann taka þessu nokkuð líklega“.
Taka (ekki) í mál (orðtak) Finnast (ekki) fjarstæða; telja (ekki) koma til greina. „Ég tek það ekki í mál að þú farir þarna niður; bergið er laust í sér og stórhættulegt“.
Taka ekki tali (orðtak) Koma ekki til mála; ekki til umræðu. „Það tekur ekki tali að þú farir einn í þessa ferð“.
Taka falli (orðtak) Fall hafið. „Ekki flýtir það ferðinni að tekið er suðurfalli nærri landi“ (KJK; Kollsvíkurver). „Aðeins fór að bera á norðansjó þegar suðurfallinu tók; þótti öllum það ills viti“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Taka feginshugar/feginshendi (orðtak) Taka fagnandi; vera þakklátur. „Víst tæki ég því fegninshugar ef þú gætir komið og aðstoðað við þetta verk, en gerðu þér ekki ómak mín vegna“.
Taka ferð (orðtak) Ná hraða. „Fyrir þessar aðgerðir stjórnandans tók báturinn lítið högg er hann kom fram með sjónum ; orðinn réttur og búinn að taka ferð fyrir næstu báru“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Taka fé á hús (orðtak) Hýsa fé í vetrarbyrjun. „Oft var farið að taka fé á hús í byrjun nóvember, en fór þó eftir veðri“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Taka (einhverju) fjarri/víðsfjarri (orðtak) Finnast fráleitt; vísa á bug. „Hann tók því ekki fjarri þegar ég bað um þetta“. „Þeir orðuðu þetta eitthvað við hann, en hann tók því víðsfjarri, og taldi þetta hið mesta óráð“.
Taka (einhverjum) fram um (orðtak) Vera fremri en einhver í. „Strákurinn tekur mér fram um snerpu“.
Taka (eitthvað) fram (orðtak) Leggja áherslu á eitthvað; tala sérstaklega um; benda á. „Það skal tekið fram að skoðun lét ég dragast; mest vegna þess að tíðin hefur verið svo góð…“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1924).
Taka framfyrir hendur (einhvers) (orðtak) Taka ráðin af einhverjum; taka ráðin af einhverjum; vinna verk annars manns. „Hann er óttalega seinn við verkið en ég get varla farið að taka framfyrir hendurnar á honum; þetta er hans verk“.
Taka framförum (orðtak) Fara fram; batna; vaxa; þroskast; dafna. „Tvílembingarnir hafa tekið famförum“.
Taka framhjá (orðtak) Halda framhjá; fara á bakvið sína konu með annarri.
Taka framúr (orðtak) Fara framúr/framfyrir. „…í Eyjafirði voru þessar vélar þekktar fyrir það að taka framúr Dalvíkurrútunni“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Taka framyfir (orðtak) Velja/kjósa fremur. „Ég tek þessa gimbur tvímælalaust framyfir hina“.
Taka frá (orðtak) Taka eitthvað til hliðar fyrir einhvern; ætla einhverjum sérstökum eitthvað.
Taka fyrir (orðtak) A. Um beit; Verða jarðlaust til beitar vegna snjóa eða klaka. „Nú hefur alveg tekið fyrir beit uppi undir Hjöllunum“. Einnig um fjörubeit: „Það hefur tekið fyrir fjörubeit vegna móðsins í fjörunni“. B. Um veiðar, vatnsrennsli o.fl; „Það hefur alveg tekið fyrir veiði í allri þessari sílferð“. „Það hefur tekið fyrir vatnsrennsli í þurrkunum C. Hafna. „Hann tekur alfarið fyrir það að gefa áfram kost á sé í stjórninni“.
Taka fyrir beit/haga/úthaga (orðtak) Um það þegar fé nær ekki að bíta/ krafsa sér til beitar vegna áfreða eða snjódýptar. „Það hefur tekið að mestu fyrir alla beit í þessu áhlaupi“. „Það var mál manna fyrr á tíð, að að aldrei yrði jarðlaust; þ.e. tæki fyrir beit, fyrir útigöngufé á Þyrsklingahrygg“ (HÖ; Fjaran).
Taka fyrir fjöru/fjörubeit (orðtak) Um það þegar fé kemst ekki í fjöru vegna ófærðar/móðs í henni eða þegar frost er svo mikið að þari frýs um leið og fellur út. „það tekur alveg fyrir fjörubeit í þessu fimbulfrosti“.
Taka (eitthvað) fyrir gefið (orðtak) Telja sjálfsagt/öruggt; ganga að einhverju vísu. „Við skulum nú ekki taka það fyrir gefið að fjárhópurinn haldi götu alla leiðina heim“. Sambærilegt í ensku; „take for granted“.
Taka fyrir satt (orðtak) Leggja trúnað á; trúa. „Ég var ekkert að efast um hans orð; ég tók þetta allt fyrir satt“.
Taka (eitthvað) föstum tökum (orðtak) Stjórna einhverju markvisst; taka rösklega á málum.
Taka gleði sína (á ný) (orðtak) Verða (aftur) ánægður/lífsglaður/kátur. „Nú geturðu tekið gleði þína á ný“.
Taka gott og gilt (orðtak) Taka trúanlegt; trúa; hafa fyrir satt. „Ég tók svar hans gott og gilt“.
Taka grunn (orðtak) Um skakveiði; ná til botns; botna. „Fallið var svo stíft að færið tók ekki grunn, heldur stóð allt á glæ“.
Taka grunnmál (orðtak) Draga færi dálítið upp aftur eftir að því hefur verið rennt í botn. Þetta er nauðsynleg til að ekki festist í botni þegar bátinn rekur undan vindi og straumi. Grunnmál er misjafnt eftir aðstæðum, en oftast er það fáeinir metrar. Nokkuð grunnmál þarf ef botn er mjög grófur og ef fiskur er kominn upp í sjó þegar hann er viljugur, t.d. á fallaskiptum. Hinsvegar er tekið lítið grunnmál á sléttum botni og miklum straumi. Endurtaka þarf grunnmál öðru hvoru, einkanlega í tregfiski.
Taka grunnvör (orðtak) Um róður; dýfa árinni svo djúpt í sjó í grunnum sjó (í vör) að hún rekist í flúðir og hætta sé á að hún brotni. Þá er hætt við að báturinn svífi. (LK; Ísl. sjávarhættirIV; eftir ÓETh)
Taka (einhverjum) gröf (orðtak) Taka/grafa gröf til að jarða einhvern í.
Taka gönur (orðtak) Taka sprett án fyrirvara, úr hægum gangi. „Vélin hökti í land á öðrum strokknum, en stundum tók hún þó hinn og þá tók báturinn gönur miklar“.
Taka hart á (einhverju) (orðtak) Líta alvarlegum augum; refsa harðlega fyrir. „Sýslumaður setti upp merkissvip og sagðist taka hart á brotum af þessu tagi“.
Taka hlut sinn á þurru (landi) (orðtak) Hirða ágóða/laun án verulegrar vinnu eða áhættu. Líking við útgerðarmann báts sem hefur tekjur af erfiði/sjósókn annarra án þess að fara sjálfur á sjó.
Taka hrúgur (orðtak) Taka afrak (þurran umframskít) sem rakað hefur verið saman á túnum. „Afrakið var síðan borið heim í mókofa og notað sem eldiviður. Heldur þótti okkur leiðinlegt verk að taka hrúgur“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). Sjá áburður.
Taka hús á (einhverjum) (orðtak) Ráðast inn á heimili.
Taka höndum (orðtak) Handtaka; taka með lögregluvaldi.
Taka illa/vel í (orðtök) Um erindi; sýna slæmar/góðar undirtektir. „Hann tók ekki illa í að gera þetta“.
Taka illa upp / Taka óstinnt upp (orðtök) Taka því illa sem sagt/gert er. „Ég tek það ekki illa upp þó hann gagnrýni þetta; það er allt vel meint“. „Hún tók þetta óstinnt upp, og lét hann alveg heyra sína meiningu“.
Taka innan (orðtak) Vera mjög svangur; hafa mikla hungurtilfinningu. „Mig tók innan af sulti eftir ferðina“.
Taka innanúr (orðtak) A. Fara innaní; slægja; taka innmat úr slátruðum grip/fiski. „Við verðum að fara að taka innanúr nautinu áður en vömbin blæst meira út“. B. Í líkingamáli; inna eftir fréttum eða slúðri; fá fréttir/fróðleik hjá manni. „Það gekk andskotann ekkert að taka innan úr honum; hann er svo fjári orðvar“.
Taka inná sig (orðtak) A. Um bát; taka sjó; súpa á; fá í sig sjó; taka sjó. „Vertu klár að ausa ef hann tekur inná sig í röstinni“. B. Um manneskju; taka atburð/fregn/ástand nærri sér. „Þú mátt ekki taka þetta of mikið inná þig“.
Taka í (orðtak) A. Taka undir; svara jákvætt. „Hann tók fremur linlega í þetta“. B. Síga í; vera þungt; toga í spotta/vað/færi. „Lúðan tók hressilega í“. „Það tekur í að bera tvo eggjakúta upp allan Geldingsskorardal“. C. Um vind; heyrast/finnast á. „Hann tók hressilega í þegar á brún var komið“. D. Um meiðsli/ör; togna á með sársauka. „Mig tekur dálítið í sárið á handleggnum þegar ég lyfti einhverju“.
Taka í akt (orðtak) Gera betur; vinna meira/skipulegar. „Þú þarft að taka þig í akt ef þú ætlar að ná prófinu“.
Taka í arf (orðtak) Erfa; fá sem ættarfylgju.
Taka í ár (orðtak) Grípa í að róa.
Taka (einhvern) í bóndabeygju (orðtak) Halda á einhverjum fyrir framan sig þannig að haldið er undir háls og hnésbætur, en viðkomandi er í hnút. „Ég gæti tekið þennan væskil í bóndabeygju ef ég nennti því“!
Taka í hey (orðtak) Um grip/kind; byrja að éta hey. „Sú votheysveika er aðeins byrjuð að taka í hey“.
Taka í hnakkadrambið (orðtak) Sama og taka í karphúsið.
Taka í höfuðið (orðtak) Átta sig á; gera sér grein fyrir. „Ég tók það ekki nógu snemma í höfuðið að loka hliðinu, svo einhverjar kindur geta kannski hafa sloppið norðurfyrir“.
Taka (einhvern) í karphúsið (orðtak) Lúskra; tugta til. „Ég tek ykkur í karphúsið ef þessi ólæti halda áfram“. Karphús mun vera dregið af erlendu heiti á hettu/húfu, en tengingin við þetta orðtak er annars óljós.
Taka loforð/orð af (einhverjum) (orðtak) Fá einhvern til að heita/lofa sér. „Ég tók af honum orð uppá þetta“.
Taka í lurginn á (einhverjum) (orðtak) Tukta (einhvern) til; veita ráðningu. „Það væri réttast að taka í luginn á þessum vitleysingum“! Lurgur merkir hár/hárlubbi.
Taka í mál (orðtak) Álíta mögulegt; telja koma til greina. „Ég tek það ekki í mál að fara í svona veðri“.
Taka í nefið (orðtak) Fá sér neftóbak í nasirnar; vera notandi neftóbaks. „Karlarnir tóku í nefið hvor hjá öðrum“.
Taka í reyk / Taka í kæfu / Taka í ket (orðtak) Ákveða meðan sauðkind er á lífi, eða eftir að slátrað hefur verið, hvort matan sé heppileg í hangiket; til kæfugerðar eða í saltket/súpuket. Getur átt við að velja féð á fæti eða velja skrokka eftir slátrun. „Hún Röst er að verða ári gömul og rytjuleg. Ætli hún verði ekki tekin í kæfu í haust“. „Tekið var í reyk helst geldfé; gjarnan valið vænt fé“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Taka í sama streng (orðtak) Um málefni; taka undir; styðja. „Hann var eindregið á þessari skoðun, og fleiri tóku í sama streng“. Vísar til þess að margir taki á vað/tóg við t.d. drátt sigara í bjargi eða í reiptogi. „Össur Guðbjartsson tók mjög í sama streng og fyrri ræðumenn“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Taka í sig (orðtak) Bíta í sig; telja sjálfum sér trú um; ákveða. „Hann er búinn að bíta þetta í sig og fer ekki ofan af því, hvað sem tautar og raular“.
Taka á/í sig sjó (orðtök) Um bát; fá inní sig sjó. „Ekki braut að staðaldri á Miðklakk, en allt í einu tekur sig upp allstórt brot skammt frá bátnum; þó ekki það mikið að hann tæki í sig sjó“ (KJK; Kollsvíkurver).
Taka í slef/tog (orðtak) Draga. „....og tók hann okkur í slef á Patreksfjörð“ (ÖG; Þokuróður).
Taka í spil / Taka í kort (orðtök) Spila á spil. Oft var tekið í spil í landlegum í verinu. Einnig um jól, bæði meðal heimilismanna og þegar fjölskyldur hittust í jólaboðum. „Ættum við nú ekki að taka aðeins í spil“?
Taka/kippa í taumana (orðtak) Ná stjórn á; spyrna við fótum; halda aftur af. „Þegar strákarnir voru farnir að fljúgast á í illu og annar kominn með blóðnasir þótti mér tími kominn til að taka í taumana“.
Taka í tvennt/þrnnt/fernt (orðtök) Hluta/skipta í tvo/þrjá/fjóra hluta.
Taka kinnar (orðtak) Aðferð við vinnslu matar úr stórum þorskhausum . Eftir að hausað hefur verið eru tálknbogar skornir og rifnir frá. Með sérstöku bragði er skorið báðumegin við hausbeinið og það fjarlægt, þannig að eftir verði kinnarnar; samhangandi á neðrikjálkum og gellu. „Oftast voru teknar kinnar“ (SG um gerð hausastöppu; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Taka krók/öngul/beitu (orðtök) Um fisk; veiðast; vera viljugur. „Mér finnst vera nóg af fiski hérna, en hann tekur ekki krók“.
Taka kósinn/kúrsinn (orðtak) Taka á rás/sprett; fara í ákveðna stefnu; taka strikið. „Hundurinn tók kósinn upp á fjall“. „Ég var ekki fyrr búinn að hleypa henni útaf, en hún tók kúrsinn beint út á Bjarg“.
Taka lagið (orðtak) Hefja upp söng; syngja. „Eigum við nú ekki að taka lagið; öll saman“?
Taka lambi (orðtak) Um það hversu vel tekst að venja undir (sjá þar).
Taka land (orðtak) Um sjóferð; koma að landi; lenda. Mikið notað í fornu máli en minna nú á tíð.
Taka lit (orðtak) Litast; grænka; brúnkast. „Aðeins eru túnin að byrja að taka lit“. „Sveimérþá; ég held að maður sé bara farinn að taka dálítinn lit í sólinni“!
Taka loforð af (orðtak) Fá einhvern til að lofa. „Ég tók af honum loforð um að fara ekki nærri klettunum“.
Taka mark á (orðtak) Telja marktækt; fara að/eftir; hlusta á. „Ég tek nú ekki mark á hvaða vitleysu sem er“!
Taka máli/málstað (einhvers) (orðtök) Taka til varna fyrir einhvern; verja einhvern eða gjörðir hans.
Taka með í reikninginn (orðtak) Taka tillit til; hafa í huga. „Nú þurfum við að taka suðurfallið með í reikninginn; þú skalt láta horfa vel ljóst norðanvið þá stefnu sem þú ætlar að sigla“.
Taka með kostum og kynjum (orðtak) Taka vel á móti; vera gestrisinn. „Mér var tekið með kostum og kynjum þegar ég heimsótti þau nú á dögunum“.
Taka með trompi (orðtak) Taka eitthvað hratt og með yfirburðum. Sjá hafa tromp á hendi.
Taka mið (orðtak) Setja á sig kennileiti/mið til að geta fundið aftur ákveðinn stað. „Við getum tekið mið af Hreggnesanum og Hádegisskarðinu annarsvegar og Enginúpnum fyrir Breiðinn hinsvegar.
Taka mið af (orðtak) Miða við; ganga útfrá. „Ég tók mið af því sem áður hefur verið gert“.
Taka niðri (orðtak) Um bát; reka kjöl/stafn í botn. „Allt í einu tekur skipið niðri á skeri því er Selkollur heitir, og stitur þar fast“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).
Taka niðurfyrir sig (orðtak) Um giftingu; velja sér maka af lægri stétt en maður er sjálfur. „Gömlu konunni þótti að með þessu væri strákurinn að taka niðurfyrir sig, en honum varð ekki hnikað“.
Taka niður um sig (orðtak) Leysa niður um sig; taka buxur niður t.d. áður en sest er á klósettið.
Taka nærri sér (orðtak) Verða mikið um; hafa áhyggjur af; harma. „Hún tók þennan missi mjög nærri sér“.
Taka ofan (orðtak) Taka niður höfuðfatið/húfuna/hattinn. „Þá taka allir ofan höfuðfötin og lesa bæn; hver fyrir sig“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Í þann mund er þeir Jón og hans menn höfðu tekið ofan húfurnar og voru að byrja að biðja fyrir sér, sem venja var þá; á Þórarinn leið í fjörunni þar sem þeir róa skammt frá landi“ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Taka ofan af (orðtak) Um ullarvinnu; aðskilja tog og þel. „Ef nota átti bandið í vinnupeysur karla eða grófari sokkaplögg var kembt saman tog og þel, eða notað eingöngu tog; en tekið var ofan af sem kallað var þegar tog og þel var aðskilið“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). Sjá tóvinna.
Taka ofaní hrygginn á (orðtak) A. Þukla bak á lambi/hrút til að meta holdafar/byggingu. „Náðu þessu hrútlambi; mig langar að taka aðeins ofaní hrygginn á honum“. B. Líkingamál; veita ráðningu; tukta til. „Ef þú gerir þetta einu sinni enn, skal ég taka hressilega ofan í hrygginn á þér“!
Taka (einhverju/einhverjum) opnum örmum (orðtak) Fagna einhverju/einhverjum; bjóða velkominn. „Hún tók okkur opnum örmum, eins og vanalega“.
Taka ófrjálsri hendi (orðtak) Stela; hnupla; taka án leyfis. „Ég er ekkert hrifinn af því ef þeir hafa tekið hnífinn ófrjálsri hendi“!
Taka óstinnt upp (orðtak) Bregðast harkalega við; mótmæla harðlega. „Ég tók það óstinnt upp að þeir skyldu ekki spyrja mig um leyfi“.
Taka pokann sinn (orðtak) Hætta í vinnu; segja upp. „Ég held að þessi ráðherra þurfi nú að taka pokann sinn eftir svona herfileg mistök“.
Taka pól í hæðina (orðtak) Hafa sjónarmið; taka afstöðu. „Ég nennti ekkert að rexa í henni fyrst hún tók þennan pól í hæðina“.
Taka púst (orðtak) A. Hvíla sig; pústa. „Nú skulum við taka smá púst“. B. Um vél/sprengihreyfil; kveikja; fara í gang.
Taka reyk (orðtak) A. Um matvæli; fá í sig reykingabragð. „Fiskinn má taka út á morgun; hann er svo fljótur að taka reyk“. B. Fá sér að reykja; anda að sér reyk. „Ég er ekki mikið fyrir það að taka reyk“.
Taka rif (orðtak) Rifa segl á bát/skipi. Sjá rifa segl. „Vindinn jók er komið var fyrir Blakkinn, svo tekið var rif í seglið“.
Taka rið (orðtak) Sveifla sér í vað frá bjargi við bjargsig, annaðhvort til hliðar eða frá berginu. Stundum getur þurft að taka rið til að ná inn á ákveðinn stall eða til að stýra sér í loftsigi. Í seinni tíð fór að heyrast orðið spranga um þetta, en það mun runnið frá Sunnlendingum, einkum Vestmannaeyjum.
Taka saman (orðtak) A. Um heyskap: Raka upp. „Hann er orðinn rigningarlegur; við megum til að taka saman“. B. Taka tað af túnum; bera af. Það var rakað í hrúgur með hrífum og síðan borið í stæður eða hús og notað til eldiviðar. C. Um ritverk, hluti og annað; safna saman.
Taka saman ráð sín (orðtak) Ráða ráðum sínum; bera saman bækur sínar; ræða hvaða úrræði séu í boði; skipuleggja úrræði/málefni. „Nú held ég að hreppsnefndin þurfi að taka saman ráð sín í þessu máli“.
Taka saman við (einhverja/einhvern) (orðtak) Hefja sambúð með einhverri/einhverjum.
Taka sárt til (orðtak) Finna til með; vorkenna. „Mig tekur sárt til þess að svona skuli komið fyrir honum“.
Taka seglum (orðtak) Um seglbát; hafa þá stefnu að vindur leggist réttu megin í seglin. Getur t.d. verið vandasamt þegar sigldur er beitivindur.
Taka sér bessaleyfi (orðtak) Leyfa sér; gera í óleyfi; gera án þess að biðja um leyfi. Sjá bessaleyfi.
Taka sér bók í hönd (orðtak) Fara að lesa; hefja lestur bókar. „Það er fávís maður sem aldrei tekur sér bók í hönd“.
Taka sér far (orðtak) Fá far með einhverjum; verða samferða einhverjum. „Man ég að Ívari á Melanesi hrutu ljót orð af munni þegar hann tók sér eitt sinn far með tómum bílnum að Skeri“ (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).
Taka sér fyrir hendur (orðtak) Hefja vinnu við; byrja verk; starfa við. „Of langt yrði að telja upp allt sem hann tók sér fyrir hendur. Enn eru til munir sem hann skar út...“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Taka sér í munn (orðtak) Segja; nefna; taka upp í sig; bera sér í munn. „Ekki ætla ég að taka mér í munn að aldrei hafi veiðst hér svo stór lúða, en stór var hún; víst var um það“!
Taka sér stöðu (orðtak) Koma sér fyrir; standa rétt að verki. „Takið ykkur stöðu og haldið við endann; ég ætla að skjótast hér niðurfyrir brúnina og sækja þessi egg“.
Taka sér (honum/henni) tak (orðtak) Gera átak; grípa til aðgerða; refsa. „Ég þarf að fara að taka mér tak með reykingarnar“. „Það þarf að fara að taka honum tak varðandi þetta bölvað skytteri útum allar trissur“!
Taka sér til meins/tjóns / Taka sér í mein (orðtak) Taka svo af eignum sínum í þágu annarra að maður skaðist sjálfur. „Ég er ekkert að taka mér til meins þó ég láti þig hafa þennan fóðurbætispoka“.
Taka sig (orðtak) Þorna; jafna sig. „Það er rétt að kasta úr göltunum og láta heyið taka sig aðeins áður en það er hirt“. „Láttu olíuna liggja dálítið á viðnum áður en hún er þurrkuð af; það er gott að láta þetta taka sig“.
Taka sig í agt / Taka sig í vakt / Taka sig saman í andlitinu (orðtök) Hafa sjálfsaga; skipuleggja tímanlega; drífa sig; drífa í. „Nú þarftu að taka þig í agt í náminu, ef þú ætlar að klára þetta í vor“. „Ég held nú að stjórnvöld megi fara að taka sig saman í andlitinu ef búskapur á ekki að lognast alveg útaf í landinu“. „Taka sig í vakt“ mun vera upprunalega útgáfa máltaksins, og merkir að vakna til meðvitundar. „Agt“ er líklega síðari alþýðuskýring, sem vísar til aga. Báðar myndir heyrðust í Kollsvík til skamms tíma. Að „taka sig saman í andlitinu“ vísar til þess að hrista af sér doðasvip og sýna einbeitni.
Taka sig til (orðtak) Hefja; byrja; hafa sig í. „Þá sögu sagði faðir minn mér að þegar sigið hafði verið með sauð þarna niður í fitubeit hefði hann tekið sig til að stökkva stall af stalli allt niður í Hryggi..“ (ÖG; Sighvatsstóð). „Svo tók hann sig til og smíðaði heyvagn sem þótti mikið rarítet. Sá var á fjórum járnhjólum, fremur litlum en breiðum. Stýringar voru á framhjólunum og tveimur hestum beitt fyrir“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Taka sig saman (orðtak) Sameinast með/um; gera sameiginlega. „Við tókum okkur saman og gáfum honum myndarlga afmælisgjöf“.
Taka sig saman í andlitinu (orðtak) Bæta sín vinnubrögð; herða sig upp; gera sig kláran/tilbúinn. „Ætli maður þurfi ekki eitthvað að fara að taka sig saman í andlitinu fyrir fundinn“. „Nú held ég að þessi ríkisstjón þurfi að fara að taka sig saman í andlitinu ef hún ætlar að tóra framað næstu kosningum“.
Taka sig upp (orðtak) A. Um veiki/sár/óáran. „Er þessi flensufjandi að taka sig upp aftur“? B. Taka sitt hafurtask og fara; flytja búferlum. „Hér veiðist ekki kvikindi. Nú tökum við okkur upp og förum annað“. C. Um brotsjó; rísa. „Haldiði bátnum réttum uppí; mér sýnist að þarna sé að taka sig upp brot aftanvið okkur“!
Taka sig útúr (orðtak) Yfirleitt notað um kindur; fara útúr fjárhóp í rekstri. „Gætiði vel að þeirri gráu þegar þið rekið norður; hún er skæð með að taka sig útúr þegar lítið ber á“.
Taka sinnaskiptum (orðtak) Skipta um skoðun. „Heldur fannst mér hann hafa tekið sinnaskiptum í málinu“.
Taka sjó (orðtak) Um bát/skip: A. Fá verulegt af sjó innyfir borðstokk. „Stundum reis skip svo hátt í sjónum að það var hálft á lofti að aftan og við það missti stýrið sjó. Var þá sagt að skæri undan. En þá stýrðist ekki og skipið rann við og átti á hættu að taka sjó“ (LK; Ísl. sjávarh. III; eftir ÓETh). B. Taka á móti sjóum. „Bátnum var snúið á Syðstuleiðina, en þá varð að taka sjóinn á bakborðshlið þar til komið var uppfyrir boðana“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Taka skakkan pól í hæðina (orðtak) Álykta rangt; miða við rangar forsendur; fara villur vega í ályktunum eða ákvörðunum; hafa rangt fyrir sér; fara villur vega; vera á villigötum; komast að rangri niðurstöðu; taka ranga afstöðu. „Mér þótti hann taka algerlega skakkan pól í hæðina þegar hann ákvað þetta“. „Mér fannst hann taka dálítið skakkan pól í hæðina, þó ekki væri þetta alrangt hjá honum“. Líkingin vísar til þess að maður noti ekki rétt viðmið við staðsetningu, t.d. fiskimiðs, eða við að rata. Má vera að það hafi upphaflega haft þrengri merkingu: Að settur hafi verið upp staur (póll) við lendingu, sem látinn var bera í vissa hæð í landslagi þegar siglt var inn til lendingar. Slys gat orðið ef staurinn var skakkur og röng stefna haldin. Sjá taka pól í hæðina.
Taka til sín (orðtak) Skilja að skammir/lastmæli eiga við mann. „Hann var að skammast yfir þeim sem ekki nenntu að smala. Ég tek það ekki til mín; ég hef staðið við allt mitt í þeim efnum“.
Taka sig saman í andlitinu (orðtak) Bókstafleg merking er að setja upp alvörusvip/gáfusvip í stað eymdarsvips eða kátínu. Oftar þó notað um það að koma skipulagi á hlutina/ sýna einbeitni. „Nú megið þið heldur betur taka ykkur saman í andlitinu strákar; allur túnrolluskarinn er kominn inná Melstúnið“!
Taka skarið af um (eitthvað) Taka af skarið um (eitthvað), sjá þar.
Taka (á sig) skellinn (orðtak) Taka á móti áfalli/höggi; taka á sig skaða/tjón. „Hann sagðist taka verulega áhættu, en hann myndi einn taka skellinn ef illa færi“.
Taka slaginn (orðtak) Vinda sér í verkið; ákveða að byrja/ taka þátt. Vísar til þess að byrja að slaga þegar sigldur er beitivindur á seglskipi.
Taka snerru (orðtak) Rífast; deila; munnhöggvast. „Þar fundu þeir tilefni að taka eina snerruna enn“.
Taka sótt (orðtak) Veikjast af smitsjúkdómi/pest. „Það eru ekki allir sem taka þessa sótt; sumir sleppa“.
Taka sporið (orðtak) Dansa; stíga dans. „Eftir skemmtunina tóku margir sporið við harmonikkuundirleik“.
Taka sprettinn / Taka á sprett (orðtök) Hlaupa; taka á rás. „Svo var spretturinn tekinn niður í fjöru, þar sem þeir voru að setja bátinn“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Taka stakkaskiptum (orðtak) Breytast mjög mikið; verða allt öðruvísi. „Húsið hefur tekið miklum stakkaskiptum eftir þessar viðgerðir“. Vísar til þess að skipta um föt.
Taka stjóra / akkeri (orðtak) Um bát; leggjast í akkerisfesti/stjórafæri undan reki; akkeri/stjóri nær botnfestu. „Báturinn hafði ekki tekið stjóra á sandblettinum og dró útmeð bjarginu“.
Taka stórt upp í sig (orðtak) Vera yfirlýsingaglaður; tala digurbarkalega; fullyrða mikið. „Mér fannst hann taka dálítið stórt upp í sig á framboðsfundinum“. Sjá taka upp í sig.
Taka strikið /strauið (orðtak) Taka til fótanna; hlaupa. „Ég hélt ég væri búinn að vía kindina af í ganginum, en þá tekur hún strauið neðan slefrurnar og upp í flesið“. Strau er ekki þekkt annarsstaðar.
Taka svari (einhvers) (orðtak) Halda uppi vörnum fyrir einhvern; verja einhvern; svara fyrir einhvern.
Taka sönsum (orðtak) Láta sér segjast; róast; taka tilsögn. „Hann tók engum sönsum, heldur æddi af stað“.
Taka (einhverju/einhverjum) tak (orðtak) Eiga við; vinna við/í; lúskra á. „Fjári er bíllinn orðinn sölugur að innan; ég þyrfti að taka honum tak á næstunni“. „Það þyrfti nú að taka þeim tak þessum skrattakollum sem nenna ekki að loka hliðunum á eftir sér“!
Taka (einhvern) tali (orðtak) Ræða við einhvern; ná tali af einhverjum. Sjá hinsvegar tekur ekki nokkru tali.
Taka tennur/tönnur (orðtak) Um ungbarn; byrja að fá tennur í munn.
Taka til (orðtak) A. Vitna til; minnast. „En það var lengi tekið til ferðarinnar hjá Gísla bróður mínum“. (ÓTG; Ágrip af æviferli). B. Hefja; byrja. „Tekur hann til“ var máltæki eða upphrópun sem notað var ef einhver upphóf t.d. raupsögur sem þóttu yfirgengilegar; þegar hundur tók að spangóla eða þ.h. „En ef þurfti til að taka táps og hreysti/ öld þá betur engum treysti“ (JR; Rósarímur). C. Ráðast á; gera atlögu að; veita ráðningu; þrífa til. „Ég skal bara taka til þín ef þú hættir ekki að hrekkja litlu krakkana“. Þessi merking er mjög forn, og m.a. notuð í Grágás, sem var lögbók á þjóðveldistímanum. Er þar m.a. fjallað um hunda sem taka til manna. D. Skipunin; „Takið til“ á seglbáti þýðir að reisa siglutré; gera reiða klára og hafa til seglin.
Taka til ára (orðtak) Fara að róa; fallast á árar. „Taktu nú til ára og amlaðu ögn á móti fallinu“.
Taka til bragðs (orðtak) Velja kost/úrræði í stöðu; gera til bjargar. „Ég tók það til bragðs að vefja vasaklútnum um sárið“.
Taka (einhvern) til bæna (orðtak) A. Lumbra á einhverjum. „Ég skal sjálfur taka hann til bæna ef hann gegnir ekki“! B. Framkvæma viðgerðir; sinna viðhaldi; endurgera. „Fjári er kofinn farinn að lasna. Nú þyrfti bráðlega að fara að taka hann til bæna, áður en hann hrynur“. Vísar e.t.v. til þess í kaþólskum sið að prestar ávíttu menn ef í ljós kom að syndir þeirra voru verulegar, og viðurlögin voru þá gjarnan miklar bænagjörðir og sálmalestur með altarisgöngum. Einnig var og er algengt að beðið sé sérstaklega fyrir þeim sem taldir eru þurfa guðs aðhlynningu, s.s. sjúklingum og brotamönnum. Sigurður Þorsteinsson (1887-1970) frá Brunnhól í A-Skaftafellssýslu segir svo í minningum sínum „Stundum var dauðastríð manna óvenju langvinnt og hart. Var þá helst talið til líknar að taka manninn til bænar af predikunarstóli“. (ÞT; Þjóðhættir og Þjóðtrú). Má e.t.v. ætla að kirkjuferðin ein og sér hafi riðið veiklaðri manneskju að fullu.
Taka til (einhvers) (orðtak) A. Veita einhverjum ráðningu; tukta til. „Ég tek til þín ef þú hættir ekki að stríða yngra bróður þínum“! B. Ná til; fjalla um eitthvað; vera viðvíkjandi einhverju. „Mér finnst hæpið að lögin taki til þeirra sem stunda svona sjálfsþurftabúskap“.
Taka til fótanna / Taka á rás (orðtak) Fara að hlaupa; æða/þjóta af stað.
Taka til handargagns (orðtak) Hirða; hirða upp; halda/tína saman. „Ég tók fötin þín til handargagns; þau voru eins og hráviði um allt herbergið“. „Sýnist svo að vinur Péturs, Ólafur Sveinsson á Lambavatni, hafi tekið þessi ljóð hans til handargagns“ (AÍ; Árb.Barð 1980-90).
Taka til hendinni (orðtak) Drífa áfram verk; vinna af kappi. „Sá kunni aldeilis að taka til hendinni“!
Taka til lífs (orðtak) Velja líflömb úr hópi sláturlamba að hausti; velja til lífs; velja líflömb; taka til ölslu; setja á. „Mér liggur nú við að taka þessa tvílembinga báða til lífs; þeir eru ótrúlega vænir og af góðum ættum“.
Taka (hraustlega/rösklega) til matar síns (orðtak) Byrja að borða; matast.
Taka til máls (orðtak) Hefja ræðu; byrja að tala. „Nokkrir óskuðu eftir að fá að taka til máls á fundinum“.
Taka til nesti (orðtak) Útbúa nesti fyrir ferðalag/róður. „Þá er farið að hita kaffi og tekið til nesti; og ekki má gleyma blöndukútnum“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Við tókum til fyrir okkur nestisbita; helltum kaffinu sem eftir var í könnunni á hitaflöskur og höfðum þær einnig með okkur á sjóinn“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Taka til orða (orðtak) Haga orðum sínum. „Misjafnt var hvernig menn tóku til orða í þessari umræðu“.
Taka til óspilltra málanna (orðtak) Byrja af krafti; hefja verk. „Við tókum nú til óspilltra málanna við að draga féð í sundur“.
Taka/velja til reyks (orðtak) Velja ketskrokk í sláturhúsi, til að reykja ; velja kind/sauð í réttum, til slátrunar og reykingar.
Taka til matar síns (orðtak) Byrja að borða/matast. „Hann var svangur, og tók rösklega til matar síns“.
Taka til máls (orðtak) Hefja ræðu; byrja að tala. „Margir tóku til máls um þetta fundarefni“.
Taka til segla (orðtak) Setja upp segl; byrja að sigla. „Var nú tekið til segla og siglt af stað í land“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).
Taka til sinna ráða (orðtak) Grípa til þeirra úrræða sem maður telur rétt/nauðsynleg.
Taka til sín (orðtak) Telja sér ætlað það sem sagt er. „Ég tek ekki til mín þessar skammir hjá honum“.
Taka til starfa (orðtak) Hefja störf/vinnu. „Að loknum málsverði er lagst til svefns en vaknað tímanlega að morgni og tekið til starfa“ (PG; Veðmálið).
Taka til upphengingar (orðtak) Taka væna grásleppu til að láta síga í grásleppuspyrðu (sjá þar).
Taka til við (orðtak) Byrja; hefja; byrja á. „Þar taka strákar til við að þvo fiskinn og koma inn í kró sem stóð hinumegin við lækinn“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Taka til ölslu (orðtak) Taka (t.d. lamb) til lífs; ala; setja á. „Ég held ég taki báða tvílembingana til ölslu“.
Taka tillit til (orðtak) Virða; hafa til hliðsjónar; hafa í huga. „Þegar tekið er tillit til þess að vetur hefur verið fremur góður…“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1924).
Taka tilsögn (orðtak) Fara eftir leiðbeiningum; læra; nema. „Strákurinn var fljótur að taka tilsögn kennarans“.
Taka tímana tvo (orðtak) Taka heldur/of langan tíma; dragast á langinn. „Reksturinn gekk að mestu vel, að því frátöldu að það tók tímana tvo að koma fénu yfir Ána“.
Taka traustataki (orðtak) Eigna sér; taka í sína vörslu. „Hann tók þetta traustataki, þó hann ætti það ekki“.
Taka trúanlegt (orðtak) Taka mark á; trúa; taka gott og gilt. „Ég tek þetta mátulega trúanlegt, fyrst það kemur úr hans munni“! „Ætli við tökum hann ekki trúanlegan“.
Taka tryggðum/ástfóstri við (orðtak) Þykja vænt um; verða hrifinn/ástfanginna af; vilja helst vera hjá. „Menn taka gjarnan tryggðum við sína heimahaga“.
Taka tveim höndum (orðtak) Taka fagnandi; taka vel. „Hinum sjóhröktu mönnum var tekið tveim höndum af heimamönnum....“ (ÖG; Þokuróður fyrir 44 árum).
Taka tönnur (orðtak) Um barn; taka tennur; fá nýjar tennur. Ö-hljóð var í fleiri orðum Kollsvíkinga í stað e-hljóðs; t.d. höndur í stað hendur.
Taka undan (orðtak) A. Fiskur hættir að taka. „Nú hefur alveg tekið undan í suðurfallinu. Við skulum kippa ögn norðurávið og sjá hvort hann gefur sig til aftur“. B. Bára fellur undan báti í fjöru. „Við þurfum að láta ölduna fleyta bátnum sem hæst, áður en tekur undan“.
Taka undir (orðtak) A. Syngja með. „Daníel leiddi kórsönginn en flestir kirkjugestir tóku undir“. B. Styðja það sem sagt hefur verið. „Ég tek undir þetta með honum“. C. Þreifa undir kind/kú til að finna hvort mjólk er í júgrum, eða undir hrút til að finna hvort er í lagi með eistu hans, t.d. vegna ásetningar.
Taka undir sig stökk (orðtak) Stökkva; búast til að stökkva. „Ég tók undir mig firnamikið stökk og náði með herkjum yfir á hinn bakkann“.
Taka upp (orðtak) A. Taka hluti upp sem liggja eða eru í vasa/hirslu. „Hann tók upp vasahníf og skar væna flís af hangiketinu“. Sjá draga upp. B. Taka kartöflur úr jörð eftir sumarið. C. Taka net úr sjó. Var ekki notað yfir það að vitja neta þegar þau voru lögð aftur, heldur þegar þau voru fjarlægð af sínum stað. D. Létta upp snjó; bræða af sér snjó. „Það var ekki meiri snjór á Hálsinum en svo, að það tók allt upp daginn eftir“. E. Hefja máls á; minnast á; færa í tal; brydda/brúa á. „Hann tók málið upp á fundinum“. F. Hefja; byrja. „Sagði hann að hreppsnefndin hefði áhuga á því að þessi hátíðahöld væru tekin upp aftur“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). G. Teikna endurmynd meðþví að leggja hálfgegnsæjan pappír yfir fyrirmynd. H. Gera upptöku á segulband/myndband/minniskubb.
Taka upp á sína arma (orðtak) Taka að sér; bera umhyggju fyrir; ala upp; sjá um. „Amman tók hann upp á sína arma og ól hann að mestu upp“. „Hann tók málið upp á sína arma og kom því í höfn“.
Taka upp borð (orðtak) Úr fornu máli; setja laus borð á palla í skála þegar skal matast. Notað t.d. í gamla Láganúpsbænum um það að „stækka borð“; þ.e. setja upp viðauka á felliborð sem var í eldhúsi, en við það var jafnan matast.
Taka upp eld (orðtak) Kveikja eld. Fyrrum var eldur hulinn í glóð þar til á þurfti að halda, t.d. vegna eldunar matar. Þá var hann tekinn upp með því að blása í glæður og bæta við eldsmat.
Taka upp hanskann fyrir (orðtak) Grípa til varna fyrir; verja. „Þetta var algert óviljaverk, svo ég taki nú upp hanskann fyrir hann“. Vísar til hólmgöngu/einvígis. Sá sem skorar annan á hólm kastar hanska sínum í hann. Sé áskoruninni tekið er hanskinn tekinn upp, og sá sem það gerir gengur á hólm við áskorandann.
Taka upp hjá sjálfum sér (orðtak) Eiga sjálfur frumkvæði að; gera af eigin hvötum. „Hann tók það alveg upp hjá sjálfum sér að gera þetta; ekki bað ég hann um það“.
Taka upp í sig (orðtak) Segja; fullyrða; taka sér í munn. „Ekki ætla ég að taka upp í mig að hann sé tághreinn núna, en mikið lagaðist hann við andlitsþvottinn“. Sjá taka stórt upp í sig.
Taka upp mó (orðtak) Stinga upp mó úr jörðu og þurrka til eldsneytis. „Seinast var tekinn upp mór á Láganúpi vorið 1953“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). Sjá mótekja. „Vermenn unnu af sér það sem gert var fyrir þá með því að taka upp mó í landlegum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Taka upp net (orðtak) Taka net sín úr sjó. „Við tókum upp öll net á Víkunum fyrir norðangarðinn“.
Taka upp þykkjuna fyrir (einhvern) (orðtak) Taka málstað einhvers; reiðast fyrir hönd einhvers.
Taka uppá (orðtak) Gera óvænt. „Hverju skyldu þeir næst taka uppá, þessir háu herrar“?
Taka uppi (orðtak) Um fisk; gera gárur þegar hann grípur skordýr á yfirborðinu; vaða í yfirborðinu.
Taka uppi í sjó (orðtak) Um veiðiskap; þegar fiskur tekur krók nokkru fyrir ofan botn. „Um fallaskiptin var hann vel viljugur og tók uppi í sjó“.
Taka uppundir (orðtak) A. Finna rétta himnu í hertum steinbít áður en hann er roðflettur, svo unnt sé að nýta roðið í roðskó (sjá þar). B. Þreifa á júgri sauðkindar til að finna hvort næg mjólk sé í júgrum til að mjólka lambi, eða hvort hún sé með júgurmein. C. Um konu; orðin barnshafandi. „Hún er farin að taka uppundir“.
Taka utanað (orðtak) Um fjárrag; þjappa fjárhóp saman, t.d. til innrekstrar í rétt/hús. „Takið betur utanað því þarna við vegginn“.
Taka utanaf (orðtak) Taka umbúyðir utanaf pakka/ börk utanaf ávexti o.fl.
Taka úr (orðtak) A. Um veður-/sjólag; mynda hlé/lægi. „Sölvatangi myndar eiginlega víkin; hann tekur úr. Norðan Sölvatanga var Sölvatangabót“ (DE; Örn.skrá Hvallátra). B. Hægja vind; minnka úrkomu. „Ég held að hann sé nú eitthvað að taka úr; það er farið að sjást niður að húsum“. C. Um prjónaskap; fækka lykkjum.
Taka úr hliðinu (orðtak) Opna hliðið. „Ég ætla að hlaupa framfyrir reksturinn og taka úr hliðinu“. Sjá láta í hliðið.
Taka úr kitlurnar (orðtak) Notað í dag um þolprófun á búnaði/tæki/bíl/bát, en vísar til þeirrar þjóðtrúar að pilt eða stúlku hætti að kitla þegar þau hefðu misst svein- eða meydóminn. „Við erum búnir að taka kitlurnar úr bílskrjóðnum og hann reynist bara prýðilega“.
Taka úr lás (orðtak) Stilla læsingu þannig að ólæst sé og hlaupi ekki í lás.
Taka úr reyk (orðtak) Taka matvæli úr reykingu; hætta að reykja. Sjá setja í reyk, kveikja undir.
Taka úr sér hrollinn (orðtak) Hlýja sér; fá í sig yl; ylja sér til að hætta að skjálfa. „Komdu nú innfyrir og fáðu þér kaffi til að taka úr þér hrollinn“.
Taka út (orðtak) A. Líða önn/líða mjög illa. „Ég bara tek út fyrir að horfa uppá dýrið þjást svona“! B. Fara fyrir borð af báti. „Rétt þegar komið var að landi tók Þórð út...“ ... „Þrjá menn tók út af hlein undir Látrabjargi og mátti engu muna að þeir færust þar“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi). C. Um reka; hverfa/skola burt úr fjöru vegna sjógangs/strauma. „Hann hefur tekið þessa trjárót út aftur“. D. Taka út í reikning.
Taka út í reikning (orðtak) Taka vörur út úr verslun gegn inneign eða innleggi t.d. afurða eða fisks.
Taka útyfir (allan þjófabálk) (orðtak) Ganga framaf; ganga úr hófi. „Nei, nú tekur útyfir; Þessir skrattakollar ætla að taka rafmagnið af yfir mjaltatímann“! „Mér fannst taka útyfir allan þjófabálk að þeir skyldu ekki nenna að setja bátinn uppfyrir flæðarmál“!
Taka vara fyrir (orðtak) Vara við; hafa uppi varnaðaorð gegn. „Þú mátt fá bílinn lánaðan, en ég tek þér vara fyrir að leggja hann í ófærð, vegna þess að framdrifið er bilað“.
Taka veðrið (orðtak) Gera veðurathuganir; gá til veðurs. „Ég skrapp aðeins út til að taka veðrið“.
Taka (einhverju/einhverjum) vel (orðtak) Taka vel á móti/ fagna einhverju/einhverjum; firtast ekki við eitthvað. „Hann tók þessu gríni vel, enda ýmsu vanur frá minni hendi“.
Taka (eitthvað/einhvern) vettlingatökum (orðtak) Nota handabakarvinnubrögð; vera linur til verka. „Það þýðir ekki að taka þetta neinum vettlingatökum ef það á að klárast“. Vísar til þess að vinna með vettlingum í stað berra handa. Sjá vettlingatök.
Taka við (orðtak) Veita viðtöku; taka á móti. „Sérstaklega þótti honum Gummi smækka sig með því að taka við skrokknum af lambinu eftir að hann hafði tapað veðmálinu“ (PG; Veðmálið).
Taka við því sem að er rétt (orðtak) Taka á móti því sem býðst. „Ég var ekkert að sækjast eftir þessu, en auðvitað tekur maður við því sem að er rétt“.
Taka við sér (orðtak) Byrja að hreyfast/spretta; fara/komast í gang; lifna við. „Tún eru sem óðast að taka við sér eftir veturinn“.
Taka viljann fyrir verkið (orðtak) Virða framtakið en gera ekki mikið úr göllunum. „Auðvitað má hnýta í margt í þessu, en taka verður viljann fyrir verkið“.
Taka vindi (orðtak) Um segl; fá vindinn réttu megin í sig; virka. „Þeir þurftu að nauðbeita, og um tíma var tvísýnt með að seglin tækju vindi“.
Taka yfir (orðtak) Ganga/keyra framúr hófi. „Henni fannst nóg til um útganginn á karlinum, en yfir tók þegar hann spýtti tóbakinu í eldhúshornið. Þá var mælirinn fullur“.
Taka/þiggja það sem að manni er rétt (orðtak) Þiggja gjöf/mat sem manni er boðinn; vera lítillátur. „Hann sagðist vera í þeirri stöðu að hann yrði bara að taka það sem að honum væri rétt; án allrar vandfýsi“.
Taka þannig eftir (orðtak) Leggja þann skilning í. „Ég tók þannig eftir að hann myndi vilja hafa matinn áður en farið yrði að taka af“.
Taka þátt í (orðtak) Gera ásamt; vera þátttakandi í. Blanda sér í; vera með í; hafa hlutverk í. „…og á þeim tíma tók Júlli að sjálfsögðu þátt í uppeldi litla bróður síns“ (PG; Veðmálið).
Taka (einhverju) þvert (orðtak) Neita einhverju; synja um eitthvað. „Hann tók þessu mjög þvert“.
Taka þvert fyrir (orðtak) Synja/neita algerlega. „Hann tók þvert fyrir að ég fengi að fara í sitt bjarg“.
Taka því sem að höndum ber (orðtak) Vera viðbúinn því sem gerast kann; láta ráðast; fást við afleiðingar þegar þar að kemur; ráða ekki atburðarás. „Eftir að ég missti árina varð ég að taka því sem að höndum bar, en til allrar hamingju var. „Við getum ekkert undirbúið þetta betur; nú verðum við bara að taka því sem að höndum ber“.
Taka því sem að er rétt (orðtak) Taka við því sem maður fær. „Ég geri engar kröfur í þessu efni; ég tek bara því sem að er rétt“.
Takast á um (eitthvað) (orðtak) Eigast við/ glíma/deila/jagast um eitthvað. „Nokkuð var tekist á um þessa tillögu á fundinum“.
Takast á hendur (orðtak) Taka sér fyrir hendur; hefja; byrja. „Honum leist ekkert á að takast á hendur svo langt og erfitt ferðalag“.
Takast á loft (orðtak) Lyftast. „Okkur fannst spennandi að horfa á þyrluna takast á loft“.
Takast (allur) á loft (orðtak) Verða mjög spenntur; fyllast tilhlökkun. „Hann tókst allur á loft þegar ég sagði honum frá þessum fyrirætlunum“.
Takast á við (orðtak) Glíma við; vera í átökum við. „Ég hlakkaði til að takast á við þetta verkefni“.
Takast svo til /eftir (orðtak) Geta ekki skilið það öðruvísi; heyrast ekki annað; veita athygli. „Mér tókst svo til í símtalinu að hann væri að leggja af stað“. „Mér tókst svo eftir að hann væri með þessari ræðu að atyrða hreppsnefndina“.
Takast (illa/vel) til/upp (orðtak) Heppnast/lánast (illa/vel). „Mér þótti vel takast til með kastið“.
Taki þeir til sín sem eiga (orðatiltæki) Þeir taki skammir/lastmæli til sín sem bera sök.
Takk (uh) Þakka þér fyrir. Upphrópun til að lýsa þakklæti. Þessi stytting/sletta er til komin á síðustu áratugum, og þótti ekki kurteisleg í fyrstu; einkanlega af hálfu eldra fólks. Er núna nær almennt viðurkennd.
Takmark (n, kvk) A. Keppikefli; markmið; það sem stefnt er að. B. Útmörk svæðis; landamæri. Þetta mun vera hin upprunalega merking orðsins; jaðar/mark þess landnáms sem maður hefur tekið sér.
Takmarkalaus (l) Skefjalaus; hömlulaus; án takmarka. „Þetta kalla ég bara takmarkalausa græðgi“!
Takstingur / Takverkur (n, kk) Sár verkur á tilteknum stað; staðbundið tak.
Taktfastur (l) Sem hefur reglulegan takt. „Þið eruð ekki nógu taktfastir í róðrinum“!
Taktur (n, kk) A. Hrynjandi/regla á t.d. hreyfingu, hljóði o.fl. B. Tiltæki; ávani. „Hann sýndi furðulega takta“.
Tal (n, hk) A. Mál; samræða; orð sem töluð eru. „Mér er ekkert gefið um svona tal“! B. Um sauðfé og kýr; burðartími. Sagt var að þá væri komið tal þegar reiknaður tími var liðinn frá því kú var haldið undir naut eða hleypt til ærinnar hrúti. „Það er rétt að fara að gá að henni Búkollu. Hún á tal eftir tvo daga“. „Hún Fönn er farin að hafa dálítið yfir; hún átti tal fyrir fjórum dögum“.
Tala (n, kvk) A. Ræða; það sem talað er. „Hann hélt stutta tölu“. B. Númer; talnagildi; eining í reikningi/talningu. C. Hnappur; lítil skífa t.d. til að hneppa fötum.
Tala af sér (orðtak) Segja það upphátt sem leynt á að fara; segja meira en maður ætlar; skolta; kjafta frá. „Ég held að þú hafir kannski talað dálítið af þér, þegar þú sagðir frá okkar fyrirætlunum“.
Tala (einhverjum) á bak (orðtak) Baktala einhvern; segja það um einhvern sem er honum til skaða/minnkunar, án þess að hann komi vörnum við.
Tala digurbarkalega (orðtak) Tala af drambi/monti; vera yfirlýsingaglaður. „Þeir eru vanir að tala digurbarkalega rétt fyrir kosningar blessaðir, en þurfa svo að sofa það úr sér inni á þingi“.
Tala eftir (einhvern) (orðtak) Halda líkræðu yfir einhverjum; halda ræðu í minningu einhvers.
Tala hinna seku (orðtak) Listi yfir þá sem sekir eru. „Brjóti nokkur þrisvar á ári getur hann sýknað sig sjálfur með því að skrifa fjelaginu afsökunarbrjef; en geri hann það ekki, eða brjóti oftar, skal hann skráður í „tölu hinna seku“ sem auglýsa skal árlega á kirkjustað í sókn þeirra“ (VÖe; Lög Tóbaksbindindisfjelags Rauðasandshrepps).
Tala/rugla/þvæla/babbla hver uppí annan (orðtak) Um margra manna tal; tala óskipulega og allir í einu, þannig að illa greinist hvað hver segir. „Ég legg til að við fáum einhvern sem fundarstjóra; það heyrist ekki mannsins mál þegar hver babblar svona ofaní annan“.
Tala í belg og byðu (orðtak) Tala mikið og samhengislaust. Belgur og byða eru hvorttveggja ílát. Það sem talað er inn/niður í þau skilst illa vegna bergmálsins. Sjá einnig; allt í belg og byðu og leggja orð í belg.
Tala/telja kjark í (einhvern) (orðtak) Auka einhverjum hugrekki/sjálfstraust með samtali.
Tala ljótt / Segja ljótt (orðtök) Bölva; hafa ófögur orð um. „Hann talaði ljótt um þessar aðfarir, og sagðist aldrei hafa séð önnur eins handarbakavinnubrögð“.
Tala máli (einhvers) (orðtak) Taka málstað einhvers; verja einhvern með orðum; tala fyrir hönd einhvers.
Tala (einhvern) til (orðtak) Fá (einhvern) inná; rökræða við; koma vitinu fyrir. „Hann er harðákveðinn í þessu; mér gengur ekkert að tala hann til“.
Tala tungum tveim (orðtak) Segja sitt við hvorn; vera ekki samkvæmur sjálfum sér; ljúga í öðru orðinu. „Mér finnst hann nokkuð tala tungum tveim í þessu máli“.
Tala/spjalla/ræða um daginn og veginn (orðtak) Ræða það sem er að gerast; tala um dægurmálin. „Þeir töluðu um daginn og veginn, án þess að nefna þetta deilumál einu orði“.
Tala um fyrir (orðtak) Sansa; fá ofanaf; rökræða; fá til að breyta skoðun. „Ég reyndi að tala um fyrir honum með þetta, en það var ekki úr að aka; hann var harðákveðinn“.
Tala undir rós (orðtak) Segja óbeinum orðum; tala í gátum; tala rósamál. „Segðu þetta bara hreint úr; mér leiðist þegar menn segja hlutina undir rós“!
Tala utan að (orðtak) Nefna lausalega; hafa orð á; fara eins og köttur í kringum heitan graut. „Hann tók þessu ekki allfjarri þegar ég talaði utan að því í gær“.
Tala utaní (orðtak) A. Ávíta; finna að. „Það þarf að fara að tala utaní þá í Mjólkurstöðinni; að þeir skoli brúsana betur aður en þeir senda þá til baka. B. Láta berast í tal; nefna málefni óbeint í umræðu/viðtali. „Ég talaði utaní það í leiðinni að gott væri að komast í skipsrúm með vorinu“.
Tala við með tveimur hrútshornum / Tala/lesa yfir hausamótunm á (orðtak) Ávíta; skamma; lesa yfir. „Hefur hann nú lagt ofaní hjá okkur aftur?! Nú þarf ég aldeilis að fara að tala við hann með tveimur hrútshornum“! „Ég þarf aldeilis að lesa yfir hausamótunum á þessari kerlingu á skattstofunni“! „Hann las hressilega yfir hausamótunum á strákunum fyrir þetta fikt“.
Tala þvert um hug sér (orðtak) Segja annað en maður meinar/heldur. „Ég myndi tala þvert um hug mér ef ég segðist vera þessu samþykkur“.
Talandi / Talfæri (n, kk) A. Munnur; talfæri. „Mikið eru þeir nú liprir í talandanum, blessaðir þingmennirnir“. B. Talsmáti; aðferð við tal. „Hann hafði fremur ógreinilegan talanda“.
Talandi skáld (orðtak) Gott skáld. Haft um þann sem á létt með að yrkja/ kasta fram vísu.
Talar hver sem honum er tamast (orðatiltæki) Menn nota það orðfæri sem þeir eru vanastir úr sínu lífi og sínu umhverfi.
Talast til (orðtak) Ræða um; fá niðurstöðu í mál eftir viðræður. „Okkur talaðist svo til að hóparnir myndu mætast við Hjallagötur klukkan eitt; Hafnarmenn með féð úr Víkinni; Kollsvíkingar með fé af Sanddal og Hjöllum, og Össur með rekstur úr Fjarðarhorninu“.
Talast við (orðtak) Tala/ræða saman. „Þeir töluðust ekki við í langan tíma eftir þetta rifrildi“.
Talfæri (n, hk) A. Líkamshluti sem notaður er til tals, s.s. munnur, raddbönd o.fl. B. Aðstaða til að tala saman, t.d. vegna fjarlægðar. „Ég sagði honum þetta þegar við komum í talfæri“.
Talinn af (orðtak) Álitinn látinn/drukknaður. „...hvort hann yrði nokkurs vísari um afdrif þeirra félaga, sem heima á Látrum voru nú taldir af“ (ÖG; Þokuróður).
Talía (n, kvk) Hífingarbúnaður; oft fyrrum gerður úr tveimur eða fleiri blökkum og reipi, en í seinni tíð gjarnan úr tanngír og keðju og þá annaðhvort hand- eða rafdrifinn.
Talk / Talkúm (n, hk) Sápusteinn; kléberg; tálgusteinn; mjög lin steintegund, hvít eða grænleit, vatnað magnesíumsilikat. Á duftformi nefnist talk talkúm. Fyrrum holuðu menn það og notuðu t.d. fyrir ílát, en síðar var það notað í snyrtivörur, krít o.fl. Finnst um allan heim; þó ekki í vinnanlegu magni hérlendis.
Talnaglöggur (l) Með gott skyn á tölur/verðmæti/upphæðir. „Hann er ótrúlega talnaglöggur“.
Talning (n, kvk) Það að telja. „Ég ruglaðist alveg í talningunni“!
Talningarrisna (n, kvk) Eitt af mörgum nýyrðum GJH; veitingar fyrir þá sem vinna að vörutalningu. „Skráðu eina ananasdós á talningarrisnuna; eitthvað þurfum við að hafa með hangiketinu“. Vörutalning hjá Sláturfélaginu Örlygur á Gjögrum var allnokkur viðhöfn, og kringum hana giltu vissar venjur. Fór í þetta góður dagur; jafnvel tveir. Allt var að sjálfsögðu talið; matvara, jafnt í pokum sem lausu og sekkjum, búsáhöld; verkfæri; ritföng; amboð; búvörur; fóðurbætir, timbur og annað. Stundum fór það fram með þeim hætti að talningarmenn töldu og kölluðu upp tölu og heiti, en verslunarstjóri skrifaði niður; en stundum skráði hver fyrir sig. Í talninguna mættu jafnan vissir menn; gjarnan Óli á Nesi og Marinó í Tungu, auk GJH og síðan VÖ. Þess þurfti að gæta að talningamenn liðu engan skort í veitingum. Talningarstjóri kom oftast með hangiket, en svo var tekin út sú vara til viðbótar sem talið var þurfa; gjarnan niðursuðuvara og sælgæti. Oft var mallað súkkulaði. Menn höfðu uppi gamanmál og glens, og stemmingin var oft eins á góðri skemmtun. Við þessa búðartalningu var svo bætt því sem Sláturfélagið átti frá síðustu sláturtíð í frystivörum; svonefndum „innlendum vörum“.
Talsmáti (n, kk) Orðaval; það hvernig talað er. „Ekki fannst henni þetta kurteislegur talsmáti“.
Talstöð (n, kvk) A. Tæki til þráðlausra fjarskipta mælts máls. B. Sá hluti heilans sem virkjast þegar talað er.
Talsvert (l) Verulegt;allmikið. „Heimtur núna virðast talsvert betri en í fyrra“. „Svo fengum við aðra báru, og þá kom talsvert mikið í“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Tambak (n, hk) Sjá tannbak.
Taminn (l) Um dýr; sem búið er að temja; mannvanur; hlýðinn.
Tamma til (orðtak) Venja; laga til; siða til. „Það þarf aðeins að tamma þetta til svo að það falli í sitt sæti“. Samstofna orðinu að temja.
Tampur (n, kk) Sérstök festi sem notuð var í skurðarróðrum hákarlaskipa, til að þræða hákarlsskrokka uppá. Tampurinn lá undir skipið, og lágu skrokkarnir því undir botninum, festir á tampinn, þegar haldið var í land. Af þessu er dregið orðatkið að eitthvað sé komið á tamp; þ.e. komið á sín takmörk.
Tamt á tungu (orðtak) Vanalegt orðalag/málfar. „Mörg orð sem voru Kollsvíkingum töm á tungu finnast öðrum vera framandi, og furðu margt er ekki finnanlegt í orðabókum“.
Tandurhreint (l) Skínandi/alveg hreint. „Hvað kom fyrir tandurhreinar buxurnar drengur“? Heitið tandur merkti til forna eld; lítinn eld; eldör; neista. Spurning er hvor „tandurhreinn“ hafi verið staður þar sem búið var að hreinsa trjágróður af með eldi, og þannig ryðja hann til ræktunar.
Tangarhald (n, hk) Gott tak; öruggt grip. „Ég náði góðu tangarhaldi á jarðföstum sinutoppi og náði að vega mig aftur upp á brúnina“.
Tangi (n, kk) A. Almennt um það sem er langt og tiltölulega mjótt. B. Skagi í landslagi sem gengur fram í sjó eða vatn, sbr Langitangi á mörkum Kollsvíkur- og Láganúpsjarða. C. Broddur á enda verkfæris/hnífblaðs/sverðblaðs eða annars, sem gengur upp í handfang/skaft/hjöltu til festingar. „Hann notaði tanga af þjöl sem brodd á broddstafinn“.
Tanna til (orðtak) Tyggja saum á skinnfatnaði til að skinnið mýkist og unnt sé að herða sauma betur saman. Einnig um það þegar skinnþvengur er tugginn til að mýkja hann. Stundum var brugðið á það ráð að tanna netahnúta til að mýkja þá upp, og urðu þeir auðleysanlegri á eftir. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Tannaför (n, hk, fto) För eftir bit. „Ekki veit ég hvernig hann komst þarna upp klettinn, en ég gæti best trúað að ef einhver kemst það aftur þá muni hann finna blóðugar neglur og tannaför á leiðinni“!
Tannagnístran (n, kvk) Brakhljóð sem heyrist þegar tönnum er gníst saman og þær hreyfðar á misvíxl, sem menn og skepnur gera stundum ósjálfrátt við miklar þjáningar. „Meðan fólk trúði almennt enn á tilvist Helvítis var sagt að þaðan leggði ódaun brennandi sálna; óbærileg vein og tannagnístran“.
Tannakul (n, hk) Kuldatilfinning/ofkæling í tönnum. „Fékkstu svona slæmt tannakul drengur? Þú áttir ekki að þamba svona skarpt úr Kaldabrunninum“!
Tannast í sundur (orðtak) Trosna/merjast í sundur. „Lagaðu spottann svo hann tannist ekki í sundur á brúninni“.
Tannáta (n, kvk) Algengasta tegund tannskemmda. Hjá mönnum er hún oft tengd sykuráti og vanhirðu tanna. Byrjar með eyðingu glerungsins, en síðan rotnun tanna af völdum baktería og sýru.
Tannbak (n, hk) Málmblanda; 85% kopar; 8% sink og 7% tin. Stundum þó 90% kopar og 10% sink. Einkum notuð í skartgripasmíði og verðlaunapeninga; var einnig notað í vasaúr.
Tannbaukur (n, kk) Tóbaksbaukur/ponta úr hvaltönn. Oft silfurbúin.
Tannberg (n, hk) Lítill stallur á innanverðum gómi manns, innanvið framtennur.
Tannbyrðingur (n, kk) Beita á öngul/krók/hauk, þannig að upp á hann er raðað beitu af margskonar tagi; t.d. smáfiski; fuglaketi; gormi; hjörtum og lifur. „þótti fiskilegast að hafa fleiri en eina beitutegund, t.d. sjóbeitu og fuglakjöt, sína töluna af hvoru á víxl, allt frá oddi að ávafi - kallað að beita tannbyrðing, öðru nafni tálbeiting“ (LK; Ísl.sjávarhættir III). Var iðulega gert í Kollsvík; sjá beita tannbyrðing.
Tannfé (n, hk) Gjöf til barns er það tekur fyrstu tönn/tennur.
Tanngarður (n, kk) Röð af tönnum í munni. „Hundurinn lét skína í tanngarðana“.
Tanngeifla / Geifla (n, kvk) Gæluheiti á tönn.
Tannhvalur (n, kk) Ránhvalur; hvalur með tennur en ekki skíði.
Tannhvass (l) Byrstur; höstugur. „Yfirvaldinu sveið greinilega hversu karlinn var tannhvass og rökfastur“.
Tannín (n, hk) Efni sem notað er í sútun skinna, sýra unnin úr trjáberki. Tannín myndast í mörgum jurtum og veldur t.d. hinu stingandi/þurra bragði sem er af illa þroskuðum berjum og ávöxtum. Sömuleiðis af þurrum vínum. Tanna er gamalt heiti á barrtré. Sjá sútun.
Tannkýli (n, hk) Ígerð/bólga í tannrót, sem orðið getur illvíg og áberandi í andliti sé ekki að gert.
Tannpína (n, kvk) Verkur í tönnum, oft af völdum tannkýlis.
Tanntaka (n, kvk) Það þegar tennur koma fyrst í góma barna. Veldur jafnan sársauka og viðþolsleysi um tíma.
Tap (n, hk) A. Það að verða undir í viðureign. B. Það að tapa/týna einhverju, t.d. peningum.
Tapa (s) A. Týna; missa. „Ekki veit ég hvar ég hef tapað pípunni minni“! B. Verða undir í viðureign; bíða lægri hlut. „Sérstaklega þótti honum Gummi smækka sig með því að taka við skrokknum af lambinu eftir að hann hafði tapað veðmálinu“ (PG; Veðmálið).
Tapa/týna áttum (orðtak) Villast. „...en hefðum við farið að snúast við að leita að skarðinu gat vel hugsast að við töpuðum áttum...“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Tapa heyrn/sjón/minni (orðtök) Missa/heyrn/sjon/minni. „Ansi er maður mikið að tapa sjón á síðari árum“.
Tapa holdum (orðtak) Grennast; horast; leggja af. „Kýrnar fara að tapa holdum ef þær verða mikið lengur á þessum bletti“. Sjá halda holdum.
Tapa sér (orðtak) A. Missa stjórn/taumhald á skapsmunum sínum eða löngunum. B. Missa minni/vit/skerpu; gera það sem er óskiljanlegt/yfirgengilegt. „Nú held ég að þú sért alveg búinn að tapa þér“!
Tapað fé (orðtak) Peningar sem hafa tapast. „Okkar framlag var tapað fé eftir þennan hallarekstur félagsins“.
Tapað spil (orðtak) Viðureign sem tapast; atburðarrás sem endar illa; búið spil. „Nú er bara að vona að vélarrokkurinn kjafti meðan við erum að komast gegnum röstina. Ef hún stoppar gæti þetta verið tapað spil“!
Tapar (n, kk) Gamalt orð yfir skalla á öxi.
Taparöxi (n, kvk) Lítil öxi. „Lítil taparöxi var notuð til að kljúfa spýturnar í hæfilega staura í hornabúið“.
Tapast/týnast í veðrið (orðtak) Fjúka; hverfa út í veður og vind. „Ég átti fullt í fangi með að gæta þess að húfan og hundurinn töpuðust ekki í veðrið“!
Tappa af / Tappa á (orðtök) Hleypa vökva úr íláti / setja vökva í ílát. „Það er rétt að tappa vatninu af traktornum áður en frystir“. „Flöskurnar voru þvegnar vandlega áður en berjasaftinni var tappað á þær“.
Tappa brók (orðtak) Gera við skinnbrók með trétappa. „Ef óhappagat kom á brók var gert við á þann hátt að smíðaður var tappi með rauf í röndunum. Honum smeygt í gatið; svo vafið utanum raufina með fínu bandi. Það var kallað að tappa brókina“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Tappagat (n, hk) Gat/op sem tappi er settur í, t.d. á tunnu.
Tappi (n, kk) A. Spons/negla sem sett er í lítið gat til að loka því. B. Gæluheiti yfir lítinn strák/mann.
Tapsár (l) Tekur því illa að tapa; reiðist/móðgast mikið við tap. „Kerlingin var tapsár og kenndi mér um“.
Tarfur (n, kk) Annað heiti yfir naut. Komið af latneska heitinu taurus.
Tarína (n, kvk) Skál; grunn fata. „Réttu mér einhverja tarínu til að hafa undir eggin“.
Tarna (ao) Umbreytt orðið „þarna“, og eingöngu notað í upphrópunum; „hvað er að tarna / hvað er a´tarna“! þegar gengur framaf manni vegna einhvers, t.d. atviks. Einnig; „það er dálaglegt a´tarna“! Og með nafnorðum: Réttu mér skálina a´tarna; eitthvað þarf kvikindið að fá í kjaftinn á sér“!
Taska (n, kvk) Flatt ílát sem hentugt er að bera með sér, t.d. á ferðalögum. Tók við hlutverki koffortsins, og í byrjun voru töskur smíðaðar úr viði, líkt og þau.
Tau (n, hk) A. Fataefni; klæði. „Svuntan var af rúðóttu taui, sem var kallað skoskt tau; óhrein eða upplituð, því að framaná svuntunni var bót af sama efni er sýndi hinn upprunalega lit tausins“ (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). B. Föt; fatnaður. „Mikið ert þú fínn í tauinu; ertu að fara á samkomu“? Sjá einnig fá (einhvern) í tauið.
Taug (n, kvk) A. Band; vaður; festi. „Þá varð mér litið upp í fjöruna. Þar voru þeir búnir að binda einn mann í taug frá landi...“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Kom hann taug í hvalinn og tókst að róa með hann í eftirdragi út í Kollsvík, en þar var hann dreginn á land“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). B. Líffæri sem leiðir taugaboð í líkama lífveru, gert úr sérhæfðum frumum.
Taugaveiki (n, kvk) Typhus. Hættulegur smitsjúkdómur sem smitast með bakteríunni Salmonella enterica serotypa typhi. Lá í landi hérlendis fyrrum, einkum þar sem smit komst í vatn, en gengur enn ljósum logum í þriðja heims löndum og smitast tugmilljónir fólks árlega.
Taugaveiklun (n, kvk) A. Geðveila sem lýsir sér með óróa og hræðslu; hystería. B. Notað um óþarfa hræðslu.
Taugatrekkjandi (l) Spennandi; sem tekur á taugarnar.
Taumabil (n, hk) Bil milli tauma/króka á fiskilínu. „Algengt var að taumabilið væri sem svaraði lengdinni frá fingurgómum hægri handar, á ystu brún axlar vinstra megin. Þannig mældu menn þetta á sjálfum sér samtímis og þeir taumuðu“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Taumagarn (n, hk) Garn/þráður sem notað er í tauma á fiskilínu.
Taumastýri (n, hk) Stýri á bát sem í stað stýrisstangar er hreyft með aktaumum sem festir eru á slá á stýrisstammanum. Voru víða notuð, þó ekki sé vitað af vinsældum þeirra í Kollsvík; þar var sveifarstýri algengast.
Taumavinda (n, kvk) Áhald til að snúa tauma á fiskilínu; taumasnælda; taumarokkur. „Öngultaumar voru heimagerðir; snúnir úr hampgarni með heimatilbúnum taumavindum“ (KJK; Kollsvíkurver). „Taumar voru útbúnir heima; snúnir saman úr gömlu garni í taumavindum og bundnir á öngla “ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). Vindunni er lýst í bók LK; Ísl sjávarháttum.
Taumhald (n, hk) A. Tak/stjórn á taumi hests. B. Líkingamál um hverskonar stjórnun. „Erfiðlega gengur þeim að hafa taumhald á þessum málum“. „Hann missti alveg taumhaldið á tungu sinni“.
Taumlaus (l) A. Um hest; ekki með taum; lausbeislaður. B. Líkingamál; stjórnlaus; hömlulaus. „Mér finnst þetta bara taumlaus græðgi“!
Taumur (n, kk) A. Band af hverskonar tagi til festingar. B. Band til að teyma skepnu; beisli á hest. C. Band sem festir krók á færi við slóða/sökku/línu. „Taumur var venjulega tveir þættir úr færinu; lengd tveir þriðju úr faðmi. Taumnum var fest við sökkuna á sama stað og færinu“ (GG; Kollsvíkurver). D. Litur eftir dropa sem runnið hefur niður. „Karlinn tók hressilega í vörina, svo tóbakstaumar lágu niður úr báðum munnvikjum“.
Taut (n, hk) A. Muldur; tal við sjálfan sig. „Talstöðin var opin og mátti heyra taut sigmannsins þegar hann bað fuglinn hæversklega að víkja frá“. B. Skynsamlegar viðræður. „Það varð engu tauti við hann komið“.
Tauta (s) Tala í lágum hljóðum; muldra.
Tauta/tuldra/mæla/raula/syngja fyrir munni sér (orðtak) Tala svo lágt að aðrir heyri ekki/illa. „Hann tautaði eitthvað fyrir munni sér um þetta nýmóðins ófrelsi um leið og hann staulaðist fram ganginn“.
Tauta ljótt (orðtak) Bölva á lágum nótum.
Tauta ofaní bringu (orðtak) Tala í lágum hljóðum. „Hann tautaði eitthvað ofaní bringu sem enginn heyrði, en ekki voru það guðsorð“.
Tauta utaní / Tauta (ljótt) yfir / Tauta yfir hausamótunum á (orðtök) Skamma; hella sér yfir; ausa óbótaskömmum. „Hann tautaði eitthvað ljótt yfir þeim þegar upp komst um þetta“. „Það væri full þörf á að tauta vel yfir hausamótunum á þessum þingmönnum fyrir frammistöðuna í vegamálum“.
Tauvinda / Þvottavinda (n, kvk) Vél sem vindur bleytu úr þvotti. Fyrir daga tauþurrkara var handsnúin tauvinda utandyra á nánast hverjum bæ. Sjá vinda.
Taxti (n, kk) Verðskrá. Fyrrum náði heitið yfir ýmislegt af því tagi, s.s. verð á varningi og leigu jarða og bústofns. Nú er það eingöngu notað um launaskrár.
Tá (n, kvk) A. Útlimur á fæti manneskju eða dýrs. B. Fremsti hluti einhvers, t.d. á skaga eða nesi.
Tá (n, hk) Ull sem hefur verið táuð/tætt; ullarvisk.
Táakul (n, hk) Kuldatilfinning/kuldadofi í tám. „Þú færð bara táakul ef þú verður í einföldum sokkum“.
Táargat (n, hk) Gat á sokkum/skóm/stígvélum, framaná tá. „Það verður erfitt að líma þetta táargat á stígvélinu“.
Táband (n, hk) Band/smeygur á skíðum, sem tánum er smeygt í.
Táberg (n, hk) bunga neðaná fæti, aftanvið tána; liðurinn sem tengir tá við fót.
Tábragð (n, hk) A. Aðferð til lásklifurs í vað; Þegar maður fer upp vað í lás þar sem er loft, er unnt að beita fótum á þann hátt að í krepptri stöðu er annar fótur lagður við vaðinn, en með hinum er farið neðanvið hann og vaðnum vafið eitt bragð um tána. Með því að rétta úr fyrra fæti og halda við bragðið með hinum, má þokast spottakorn upp, og endurtaka bragðið. B. Músarbragð; óþokkabragð í glímu, þannig að stigið er á tá andstæðingsins til að fella hann. C. Aðferð við skinnklæðasaum; frágangur kringum tá skinnklæða (sjá þar). D. Aðferð við gerð roðskóa (sjá þar).
Táfesta / Handfesta (n, kvk) Staður í bjargklifri þar sem unnt er að ná öruggri festu. „Mikilvægt er að athuga vel festur áður en reynt er á þær. Fastur klettur er betri en laus steinn. Sina er ágæt handfesta ef nú er ófúin; gripið þétt niður í rótina og ef aðrar festur eru tryggar“.
Tág (n, kvk) Taug úr viði eða viðarrót. Tágar eru t.d. notaðar til að flétta úr þeim körfur.
Tágakarfa (n, kvk) Karfa úr tágum, oftast fléttuð til að bera fisk eða annan varning. Rak iðulega á fjörur og var þá notuð til að bera vothey í skepnur; votheyskarfa; heykarfa.
Tágamura (n, kvk) Sjá silfurmura.
Tággrannur (l) Mjög grannur; mjór eins og tág. „Það er ekki nema fyrir tággranna að fara um Gatið“.
Táheinn (l) Tandurhreinn; alveg hreinn. „Ég sé ekki betur en fatan sé alveg táhrein“. Hefur eflaust í upphafi verið „tárhreinn“, en fallið niður stafur með tímanum.
Tál (n, kvk) Ginning; blekking.
Tálbeita (n, kvk) Sérlega girnileg/beitin beita fyrir fisk: Vel beitt, þannig að hvorki sér í odd né agnhald og gott er að hún sé lífleg í sjónum. Því er ráð að hafa beituna langa og krækja í annan enda hennar. Tálbeita getur t.d. verið lubbi eða ljósabeita. Þessi forni bragur sýnir hve mikilvægt var að beita rétt, en hann kann að hafa tekið einhvejum breytingum gegnum tíðina og er e.t.v. meira lýsandi fyrir óskhyggju og galdrahneigð en þá beitu sem tíðast var notuð: „Fuglsfóarn og flyðrubita;/ mannaket á miðjum krók/ og mús á oddi;/ Komi þá enginn kolmúlugur úr kafi/ þá er ördeyða á öllu Norðuratlantshafi“. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Táldraga (orðtak) Draga á tálar; blekkja einhvern til að gera eitthvað; fífla kvenmann.
Tálga (s) Skera út/laga til með hníf. „Vasahnífur er hverjum manni ómissandi, allavegana var það svo áðurfyrr; til að marka lömb; taka af; flá; hækla; skera snæri; blóðga fisk; spyrða og ótal annarra nota. Hann er líka mjög hentugt tæki til að tálga. Tálga þurfti sköft á hrífur og annað svo þau féllu í sitt gróp; enda á handfangi sem stungið var í strjúpa þegar sviðið var, o.fl. Laghentir menn tálguðu gjarnan ýmsa muni, af misjafnlega mikilli list. Guðbjartur afi á Láganúpi tálgaði oft leikföng fyrir okkur bræðurna; ýmist spýtukarla, háa og leggjalanga, eða trébáta. Stundum gerði hann fugl eða sel úr klumbubeini af ýsu. Ég hef sjálfur haldið þeim sið að skilja aldrei við mig vasahnífinn og hann kemur iðulega í góðar þarfir,þó lítið sé tálgað“ (VÖ).
Tálguhnífur (n, kk) Hnífur sem hentar til að tálga með; kuti.
Tálgusteinn (n, kk) Lint rauðaberg sem unnt er að tálga; myndbreytt og samanpressuð elfjallaaska, rauð að lit. „Í Pallanámum, norðast á Bekknum undir Hryggjunum, er náma af tálgusteini“. Vill molna og veðrast fljótt.
Tálkn / Tálknþanir (n, hk/kvk, fto) Öndunarfæri fiska. Húðfellingar með þunnu og miklu yfirborði aftan á tálknbogunum í tálknopi fiska, þar sem fiskurinn nemur súrefni úr vatni/sjó.
Tálknbarð / Tálknlok (n, hk) Aftasti hlutinn á fiskhaus, nokkurskonar lok yfir tálknopunum.
Tálknbogi (n, kk) Beinbogi sem tálkn fisks situr á í tálknopinu.
Tálknormur (n, kk) Annað nafn á illu (sjá þar).
Tálknop (n, hk) Op aftan við haus á fiski, þar sem sjór/vatn streymir úr munni útyfir tálknin.
Tálma (s) Hindra; tefja; koma í veg fyrir. „Það ætti ekkert að tálma framgangi þessa máls“.
Tálmi / Tálmun (n, kk/kvk) Hindrun; töf; torfæra. „Ég sé enga tálma í vegi fyrir þessu“. „Blakknesröstin getur verið veruleg tálmun fyrir smábáta“.
Tálmunarlaust (l) Án hindrana/tálmana. „Við þurftum að stinga úr skafli í Beygjunni, en annars var tálmunarlaust inn í Höfn“.
Tálsýn (n, kvk) Draumsýn; ímyndun; óraunhæfar væntingar. „Þetta er ekkert annað en tálsýn hjá honum“.
Tálvonir (n, kvk, fto) Falsvonir; óraunhæfar væntingar. „Ég geri mér engar tálvonir um að þetta standist“.
Táplítill (l) Daufur; fjörlítill; dapur. „Heldur er hann víst táplítill síðan þetta gerðist“.
Tápmikill (l) Fjörugur; frískur; kröftugur. „Það tekur því ekki að fjargviðrast útaf svona gárungshætti; þetta eru bara tápmiklir unglingar“.
Tár (n, hk) A. Líkamsvessi úr tárakirtlum við auga. B. Lögg; lítið magn vökva, t.d. víns. „Þiggurðu tár“?
Táradalur (n, kk) Hörmungarstaður. Á tímum eymdar og trúarofsa var með þessu orðalagi átt við jarðlífið sjálft; þar sem lítið væri gleðiefni; fátt annað en syndir og þjáningar. Á síðari tímum er orðið notað sem lýsing á hverjum öðrum eymdarstað. „Ég hef lítið að sækja í þann táradal“!
Tárast (s) Gráta; fella tár. „Ég held að fáir tárist þó þessi ríkisstjórn sálist; það verður enginn ástvinamissir“!
Tárfella (s) Gráta; brynna/vatna músum; fella tár.
Tárhreint (l) Tandurhreint; alveg hreint. „Það er alveg óþarfi að þvo sér þegar maður er tárhreinn“.
Társtokkinn / Tárvotur (l) Grátbólginn; með tár á hvarmi; hefur sýnilega grátið.
Tása (n, kvk) Ullarlagður sem búið er að tæja. Sjá tóvinna.
Tásaumur (n, kk) Saumur ofaná tá á skóm, t.d. skinnskóm.
Tátiljur (n, kvk, fto) Mjúkir inniskór. „Tátiljur voru algengar og krakkar æfðu sig gjarnan á prjónaskapnum á slíku prjónlesi“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). SG á Láganúpi hefur sjálf prjónað sínar tátillur og saumað leðursóla undir. Framborið veikt.
Táúrtaka (n, kvk) Úrtaka á tá þegar sokkur er prjónaður. „Húfuhæll var prjónaður eins og táúrtökur nema úrtökurnar styttri (mynd) þá var prjónað í auka band þvert á „húfuna“ það var svo rakið úr eins og þegar var rakið úr fyrir þumli og teknar upp lykkjurnar og prjónaður framleisturinn“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).
Te (n, hk) A. Þurrkuð og oftast mulin lauf af terunna. B. Seyði af telaufum eða af annarri plöntu. Grasate var soðið af fjallagrösum.
Teðja (s) Skíta. „Þessar túnrollur eru búnar að teðja ofan í flekkinn“. „Passaðu að kýrin teðji ekki í fötuna“!
Tefja (s) A. Seinka vinnu hjá öðrum með því að halda honum uppteknum/dreifa athyglinni. „Ég ætla þá ekki að tefja þig lemgur með kjaftæði“. B. Staldra við. „Ég tafði ekki lengi þar, heldur hélt áfram“.
Tefja fyrir (orðtak) Hindra; þvælast fyrir. „Ég tek strákinn ekki með í þessa ferð; hann tefur bara fyrir“.
Tefja tímann (orðtak) Draga á langinn; eyða tímanum. „Vertu nú ekki að tefja tímann með þessu gaufi“!
Tefla (s) Leika með tafl. „Mamma og Torfi bróðir hennar gátu teflt allan jóladaginn. Mamma kenndi okkur krökkunum tafl“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Tefla á tvær hættur / Tefla djarft (orðatiltæki) Taka áhættu. Afleidd merking úr skákmáli. „Það er ekki verjandi að tefla á tvær hættur fyrir eitt lamb. Við skjótum það niður úr sveltinu“. Líkingin er komin úr tafli/skák.
Tefla á tæpasta vað (orðtak) Fara hæpna/hættulega leið; stefna í tvísýnu. „Mörgum fannst hann tefla þarna á tæpasta vað“. Líklega er þarna átt við að menn hætti sér í bjargferð með ótraustum vað.
Tefla (einhverju) fram (orðtak) Leggja/setja fram; bjóða; kynna. „Hann tefldi fram öflugum rökum“.
Tefla (einhverju) í tvísýnu (orðatiltæki) Taka áhættu. Afleidd merking úr skákmáli.
Tefla við páfann (orðtak) Kúka; ganga örna sinna; flytja lögmann; ganga örna sinna; hægja sér; skíta. „Hann þurfti að skjótast aðeins frá til að tefla við páfann“. Vísar til þeirrar áráttu Íslendinga að niðurlægja kaþólskan sið eftir siðaskiptin. Hér hefur einhverjum gárunga dottið í hug líking við það að sitja að tafli og um leið gefa skít í hans heilagleika. Annar gárungsháttur af sama tagi var að reisa fjós á kirkjustöðum kaþólskra, eins og t.d. var gert í Kollsvík.
Teglundur / Tehland / Tepiss / Teskólp (n, hk) Niðrandi heiti á tei. „Ég hef aldrei verið hrifinn af þessu teglundri“! „Mér þætti nú betra að fá almennilegt kaffi en eitthvað tepiss“. Te var almennt ekki vinsæll drykkur í Kollsvík, þó á því hafi verið undantekningar, og kaffifólk brást sumt illa við ef te var boðið.
Teiga (s) Þamba; drekka í löngum lotum/teigum. „Þeir voru með eina sýruflösku og ég setti hana á munninn og teigaði“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Teigur (n, kk) A. Lítið svæði lands, einkum notað um gróðursælt svæði í rýrari landi. „Eru þetta ekki kindur þarna uppi í teigunum“? B. Landspilda sem slegin er; túnskiki. Árnateigur er örnefni í Kollsvík. C. Mælieining flatarmáls; dagslátta; samsvarar ferhyrningi sem er 30 faðmar á hvorn veg.
Teikn (n, hk, fto) Ummerki; tákn. „Ég get ekki séð nein teikn um að hann sé að bregða þessum þurrki“.
Teikna (s) A. Draga upp mynd. B. Tákna. „Ekki veit ég hvað þetta á að teikna“!
Teikna til (orðtak) Benda til; vera vísbending um. „Mér sýnist allt teikna til þess að hann sé að snúa sér í áttinni“.
Teiknari (n, kk) Sá sem teiknar. „Kollsvíkin hefur fóstrað marga snilldarteiknara. Þekktastur þeirra er Samúel Eggertsson, bróðursonur Matthíasar Jochumssonar, en hann bjó um tíma á kotbýlinu Grund, í Láganúpslandi og var jafnframt barnakennari. Samúel var snilldarteiknari og afkastamikill með afbrigðum. Má fullyrða að fyrr hafi ekki komið fram afkastameiri og vandvirkari teiknari á tímum prentlistar. Einnig fékkst hann við landmælingar og kortagerð og er m.a. til kort af Rauðasandsrhreppi eftir hann. Af öðrum listamönnum á þessu sviði má nefna Sigríði Guðbjartsdóttur á Láganúpi, en eftir hana liggja fjölmörg verk. Hún er sú eina sem náð hefur tökum á hellumálun, og hefur verið afkastamikil á því sviði“.
Teina (s) A. Slá járn í tein/teina. B. Stundum notað um það að fella net á teina/þini. Sjá úrteina.
Teinn (n, kk) A. Mjór aflangur hlutur. B. Þinur; lína sem net er fest á, t.d. blýteinn; flotteinn. C. Mjó rönd á fatnaði. D. Lárétt stöng sem járnbrautarlest gengur eftir; járnbraut.
Teinóttur (l) Um fatnað; með mjóum röndum. „Hann var í teinóttum buxum“.
Teint járn (orðtak) Fornt heiti á sérstaklega hreinu og unnu járni sem líklega hefði í dag flokkast sem stál. Teint var ekki verðlagt í kaupsetningum (verðskrám) heldur var það talið metfé. Sjá blásturjárn.
Teinæringur (n, kk) Bátur sem róið er af tíu mönnum, þ.e. með 20 ræði; um 10m langur og um 7 ½ tonn að burðargetu. Áhöfnin er þó oft mun fjölmennari, og t.d. voru 11 eða 12 í áhöfn eldri Fönix í Kollsvíkurveri, sem var teinæringur. (sjá Fönix).
Teista (n, kvk) Cepphus grylle. Meðalstór svartfugl; 30-38cm að stærð og um 400g að þyngd. Svört með áberandi hvítar skellur á vængjum; svart nef og áberandi rauða fætur. Vængir stuttir og breiðir. Er meiri einfari en aðrir svartfuglar; verpir gjarnan í klettaskorum, sprungum, undir steinum eða á syllum. Algeng á vestanverðu landinu; einkum við Breiðafjörð, en einnig á Norður- og Austurlandi. Stofnstærð á Íslandi er talin 20-30.000 pör. Teista verpur oft í fjöru undir klettum við Kollsvík, t.d. undir Hnífum. Má þá á varp- og ungatíma heyra mjög hátóna en lágvært garg inni í urðum. Fæðan er smáfiskur, einkum spretfiskur, sandsíli og krappadýr. Teistan var áður einnig nefnd Péturskofa; líklega vegna þess að hún kemur til landsins um Pétursmessu; 22.febrúar.
Teiti (n, hk) Veisla; gleðskapur; samkoma.
Tekið að (orðtak) Fallið að. „Það er hæfilegt að halda til lands núna. Það verður hæfilega tekið að þegar við komum að til að auðvelt verði að koma bátnum í vagninn“.
Tekinn af kulda (orðtak) Manni sem orðið er mjög kalt. „Hann var orðinn tekinn af kulda og skjálfandi“.
Tekinn í andliti / Tekinn til augnanna (orðtak) Skarpleitur/skarpholda/horaður í framan; raunalegur á svip. „Ósköp er hún guggin og tekin í andliti“.
Tekinn í kristinna manna tölu (orðtak) Fermdur. „Persónulega var mér nokk sama, en lét undan verulegum þrýstingi á heimilinu um að ég skyldi tekinn í kristinna manna tölu“.
Tekk (n, hk) Tegund harðviðar. Tekk er þéttur brúnn viður og er vinsæll til smíða. Rekur stundum á fjörur í Kollsvík og hefur verið smíðaefni hagleiksfólks.
Tekja (n, kvk) A. Almennt; eftirtekja; það sem fæst/næst. B. Oftast um eggjatekju í seinni tíð: „Það var ekki mikil tekja hér“. C. Í fleirtölu; „tekjur“ er orðið notað um laun; þénustu.
Tekjuöflun (n, kvk) Öflun tekna/launa/arðs. „Vorum við hreyknir af þessum málalokum og þessari tekjuöflun okkar“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Tekst ef tveir vilja (orðtatiltæki) Meiri líkur eru á árangri ef tveir vinna að honum en einn. Einnig heyrðist afbrigði af þessu; „tveir eru sem tíu; einn sem enginn“. Einnig; betur mega tveir en einn.
Tekur af í miðjar hlíðar (orðtak) Sjólag í mikilli undiröldu. „Þegar sjórinn rís í vatnsmiklum, breiðum hryggjum sem ekki brotna fyrr en á grunni, er um undiröldu að ræða, og hana oft bakhaldamikla. Ef hún hylur allt láglendið þegar báturinn er niðri í öldudalnum þá tekur af í miðjar hlíðar“ (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Tekur á taugarnar (orðtak) Um mikla og langvarandi taugaspennu/eftirvæntingu; er taugatrekkjandi.
Tekur (því) (nú) ekki að svara þessu (orðtak) Þetta er ekki svaravert.
Tekur ekki betra við (orðtak) Ekki batnar. „Ekki tók betra við þegar við komum uppá holtið, því þar var hífandi rok“.
Tekur ekki/engu tali (orðtak) Nær ekki nokkurri átt; er útí hött; er fráleitt; ræðir ekki um; er ekki til umræðu; kemur ekki til greina/mála. „Þetta finnst mér svo fráleit tillaga að hún tekur engu tali“! „Svona vitlaust tilboð tekur auðvitað ekki nokkru tali“! Sjá hinsvegar taka (einhvern) tali.
Tekur hann til! (orðatiltæki) Notað sem upphrópun um hneykslun á háttsemi einhvers. „Tekur hann nú til enn einusinni! Ég fer nú að þreytast á þessum skreytnisögum“!
Tekur í (orðtak) Finnst fyrir; sígur í; er þungt/erfitt; kostar mikið. „Það tekur í að greiða skuldina svona hratt“. „Það tekur í að draga svona þungan mann í loftsigi“. „Það tekur stundum í að ná netunum úr botnfestu“.
Tekur í hnjúkana (orðtak) Mikið um að vera; mikið að gert; mikil tíðindi; fullmikið af því góða. „Nú tekur heldur betur í hnjúkana! Þykist hann vita betur en ég um þessi mál“?! „Nú tekur í hnúkana; andskotans læti eru þetta í krökkunum“ Upprunalega haft um mikið hvassviðri, þegar þaut í fjallahnjúkum.
Tekur í löppina/lærið (orðtak) Himbriminn var af sumum talinn spáfugl. Ef hann gólar hátt og ákaft er sagt að „hann taki í löppina“ og að það sé fyrir vindi. (LK; Ísl.sjávarhættir III).
Tekur í sig sjó (orðtak) Bátur sýpur á; fær sjó inn í sig. „...þó ekki svo mikið að hann tæki inn í sig sjó“ (KJK; Kollsvíkurver)
Tekur niðri (orðtak) Skip strandar. „Allt í einu tekur skipið niðri á skeri því er Selkollur heitir, og situr þar fast“ (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).
Tekur sig upp brot (orðtak) Stórsjór breytist í grunnbrot. ...allt í einu tekur sig upp allstórt brot skammt frá bátnum“ (KJK; Kollsvíkurver).
Tekur steininn úr (orðtak) Keyrir úr hófi; verður allt vitlaust. „Tíkin gelti jafnan meira á póstinn en aðra gesti, en þá fyrst tók nú steininn úr ef hann fór að skammast í henni. Þá umhverfðist hún gjörsamlega“. Líklega vísar þetta til þess að mikilvægur steinn sé tekinn úr hleðslu, þannig að veggurinn fellur.
Tekur undan (orðtak) Fiskur hættir að veiðast, t.d. vegna upptöku falls. „Það tók alveg undan í suðurfallinu“.
Tekur (botninn/) steininn úr (orðtök) Er yfirgengilegt; tekur útyfir allan þjófabálk; keyrir úr hófi: kastar tólfunum. „Hann hefur löngum verið ruddalegur, en þarna fannst mér taka steininn úr“! Myndlíkingar. Vísar til þess í öðru tilvikinu að botn bresti í keraldi/tunnu, svo innihaldið flæði um gólf; en í hinu að steinn losni úr stíflu/vegg, svo bresti.
Tekur út (orðtak) Um það sem fer í sjóinn. „Tréð hefur tekið út aftur í nótt sem rak í gær“. „Það var sagt að hann hefði tekið út af skipi, hér í Látraröstinni“.
Tekur útyfir allan þjófabálk (orðtak) Gengur framúr öllu hófi; stenst engar reglur. Þjófabálkur er sá hluti laga sem lýtur að viðurlögum við þjófnaði. „Mér finnst það taka útyfir allan þjófabálk ef þeir ætlast til að við leggjum niður sláturhúsið“!
Tekur því ekki (orðtak) Er ekki fyrirhafnarinnar virði; er ekki nægur tími til. „Það tekur því ekki að hirða þessi smákvikindi“. „Mér þótti ekki taka því að byrja verkið þegar svo áliðið var dags“.
Tekur undir í (orðtak) Bergmálar í. „Það tók undir í klettunum handan dalsins þegar ér hóaði“.
Tekur útyfir / Tekur útyfir allan þjófabálk / Tekur yfir (orðtak) Er yfirgengilegt; tekur úr steininn; keyrir úr hófi. „Svona ruddaskapur tekur auðvitað útyfir allan þjófabálk“! Oft stytt í „tekur útyfir“ eða „tekur yfir“.
Tekur því ekki (orðtak) Það svarar ekki fyrirhöfn eða kostnaði. „Það tekur því ekki að ná í þessi tvö egg“.
Telgja (s) Tálga; tálga út; skera út. „Ég ætla að biðja afa að telgja fugl fyrir mig úr þessu klumbubeini“.
Telgdur (l) Tálgaður. „Fígúran var telgd úr furuviðarbút“.
Telja (s) A. Halda tölu á; athuga fjölda. B. Álykta; halda. „Systurnar stumra yfir honum, og töldu að hann hefði orðið bráðkvaddur“ (IG; Sagt til vegar II). „Taldi hann að menn úr Kollsvík myndu koma of seint...“ (ÞJ; Sargon strandi; Árb.Barð 1949). „Líklegt tel ég hinsvegar að Liði hafi fengið fallega lífgimbur hjá Gumma um haustið, en um það er mér ekki fullkunnugt“ (PG; Veðmálið).
Telja af með (eitthvað) (orðtak) Aftaka eitthvað; banna eitthvað. „Hann taldi af með það að hann gæti komið“.
Telja (einhvern) af (orðtak) Halda einhvern látinn; álíta að einhver hafi farist. „Eftir tveggja daga leit var báturinn talinn af“.
Telja (einhvern) á (eitthvað) (orðtak) Sannfæra einhvern um að gera eitthvað. „Ég taldi hann á að bíða þar til veðrið lagaðist“.
Telja eftir (orðtak) Sjá eftir; hafa orð um. „Ég tel það nú ekki eftir þó tekin séu nokkur egg í mínu landi“.
Telja eftir sér Sjá ekki eftir sinni vinnu; þykja ekki fyrirhöfn. „Ég tel það ekkert efir mér að aðstoða eitthvað við smalamennskur“. „Fólk taldi ekki eftir sér að tína út úr sér nokkuð af beinum“ (SG um hausastöppu; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Telja fram (orðtak) Upplýsa um eignir/vörslu manns á einhverju, t.d. telja fram til útsvars/skatts eða láta forðagæslumenn vita af búfjáreign. „Hann reyndist eiga mun meira fé en hann taldi fram“.
Telja (eitthvað) fullreynt (orðtak) Álíta að ekki þýði að reyna meira við. „Ég tel það fullreynt að ná ánni lifandi úr sveltinu; það er ekkert framundan annað en skjóta hana niður“.
Telja fært (orðtak) Álíta að unnt sé að róa; álíta að vegur sé fær; álíta að veður sé nógu gott til ferðalags; álíta að unnt sé að komast (t.d. í bjargi).
Telja gott/ágætt/fínt/meiriháttar (orðbrögð) „Þessi róður verður ekki til mikils fiskjar; ég tel það bara gott ef þið náið landi áður en veðrið skellur á“! „Ég teldi það ágætt ef við kláruðum þetta í dag“.
Telja (einhvern) á (orðtak) Fá einhvern til með fortölum; sannfæra einhvern um að ætla/gera. „Mér tókst að telja hann á að koma með okkur“.
Telja (einhverjum) hughvarf / Telja um fyrir (orðtak) Fá ofan af; fá einhvern til að skipta um skoðun. „Okkur tókst að telja honum hughvarf; hann ætlar að setja tvílembingana báða á“. „Ég reyndi að telja um fyrir honum, en það vita nú allir að þessi þverhaus fer sínu fram, hvað sem hver segir“.
Telja í (orðtak) A. Telja upp að fyrirfram ákveðinni tölu til undirbúnings t.d. keppni í hlaupi eða öðru, eða þess að kórsöngur upphefjist. B. Telja veiði í hvert net eða hvern netastreng.
Telja inn (orðtak) Telja það sem fer inn. T.d. var vani að telja kindur um leið og þær runnu inn í fjárhús til að hæfilega þétt væri í hverjum karmi. „Ég taldi ekki inn í síðasta garðann“.
Telja (einhverjum) kjark / Telja kjark í (orðtak) Auka einhverjum kjark/hugrekki/áræði með því að sannfæra hann; uppörva einhvern.
Telja með (orðtak) Hafa með í magni/upptalningu; hafa meðtalið. „Þetta er á annað hundrað fjár ef allt er talið með“.
Telja niður (orðtak) Telja afturábak. „Hann er farinn að telja niður dagana fram að þorrablóti“.
Telja saman / Telja upp (orðtak) Nefna hvern eftir annan. „Hann taldi upp alla sem hann taldi að myndu styðja flokkinn í þessum kosningum“.
Telja sér sigurinn vísan (orðtak) Finnast sigur vera að hafast í viðureign. „Ég taldi mér sigurinn vísan þegar lúðan var komin uppundir borðið, en þá tók hún viðbragð og sleit sig af króknum“.
Telja sér til tekna (orðtak) Telja að bæti um fyrir sér; telja kost við sig eða sinn málstað.
Telja (einhverjum) trú um (orðtak) Innræta einhverjum; sannfæra einhvern; fullvissa einhvern. „Mér var talin trú um það að þetta væri kostaboð“.
Telja uppá (orðtak) Telja; gera ráð fyrir; búast við; treysta á. „Ég tel uppá að þeir fari að koma heim í matinn“. „Það má telja uppá að þessi kind hafi strauað beint út á Bjarg aftur“. Líklega er grunnur orðtaksins sá að „hafa forsendur fyrir“; „byggja á“. Orðið „telja“ = „giska á“ er líklega stytting á þessu. Orðtakið lifir einnig enn góðu lífi t.d. í Árneshreppi á Ströndum, en heyrist vart utan Vestfjarða.
Telja úr (orðtak) Letja til; hafa uppi úrtölur. „Ég ætlaði að leggja strax af stað, en hann taldi fremur úr með það; sagið betra að bíða þar til birti almennilega“.
Telja út (orðtak) A. Hafa tölu á því sem látið er útfyrir, t.d. fé útúr húsi/rétt. B. Að verða búið; síðustu tímar einhvers. „Það fer nú að telja út, þetta árið“. „Það fer að telja út með saltbirgðirnar“.
Teljandi (l) Að ráði; verulegur. „Það er ekki komin teljandi ófærð ennþá, en færð er að versna“. „Ekki minnist ég þess að menn fáruðust svo teljandi væri, um það hversu erfitt þeir ættu; að þurfa að sinna þessum verkum“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Teljast til (orðtak) A. Tilheyra; flokkast með. „Þegar Hesthúsið á Hólum var byggt, kringum 1650, taldist Láganúpur með sínum hjáleigum til eignasafns Eggerts ríka Björnssonar í Saurbæ, líkt og flestar jarðir í Rauðasandshreppi“. B. Fá niðurstöðu í talningu. „Mér taldist svo til að þarna væru allir gemlingarnir“.
Teljast vera (orðtak) Vera talinn/álitinn. „Þetta svæði telst vera fullsmalað“.
Telpa (n, kvk) Stelpa; stúlka.
Telpuangi / Telpugopi / Telpuhnáta / Telputuðra / Telpustýri (n, kvk) Gæluorð um stelpu.
Telst (ekki) til tíðinda (orðtak) Er (ekki) fréttnæmt; (ekki) í frásögur færandi. „Það telst ekki til tíðinda lengur í Kollsvíkinni, þó þar sjáist flakkarar úr fjarlægustu heimshlutum“.
Temja (s) A. Venja; ala upp; gera taman. T.d. temja hest. B. Gera að venju. Sjá temja sér.
Temja sér (orðtak) Venja sig á; gera sér að reglu. „Þú þarft að temja þér meiri þolinmæði“.
Temmilega (ao) Hæfilega; nægjanlega. „Nú er komið temmilega mikið í fötuna, sýnist mér“.
Temmilegur (l) Hæfilegur; nægjanlegur. „Þetta ætti að vera temmilegur skammtur“.
Tempra (orðtak) Stilla í hóf; hafa stjórn á. „Það er erfitt að tempra hitann í húsinu í umhleypingunum“.
Tendra (s) Kveikja. „Lífsvonin tendrast á ný“ (KJK; Kollsvíkurver).
Tengdafaðir / Tengdamóðir / Tengdafólk / Tengdadóttir / Tengdasonur Fólk sem tengist gegnum giftingu/mægðir. T.d. er tengdafaðir sá sem er faðir eiginmanns.
Tengdir (n, kvk, fto) Tengsl fólks gegnum hjónaband.
Tenging (n, kvk) Tengsl; það sem tengir/brúar.
Tengja (s) Koma á tengslum/tengingu; koma í samband; gera grein fyrir sambandi/samhengi.
Tengsl (n, hk, fto) Tenging; vensl; samhengi.
Tengsli (n, hk) A. Netaskil; netamæti; staður þar sem tvö net eru set saman í streng/trossu. „Við skulum draga að næstu tengslum; þá getum við tekið í sundur og náð snúningnum af“. B. Strengur; trossa; fiskilínur/ net sem tengd eru nokkur saman í lengju. „Á grásleppuveiðum höfðum við 4-6 net í hverju tengsli, meðan dregið var á höndum. Fór lengdin eftir breidd þaragarðsins“. C. Kúppling milli vélar og gírs á bíl.
Tenings- Forskeyti fyrir rúmmálseiningu, t.d. teningsalin = ein alin á hvern veg; teningsmetri = rúmmetri.
Teningunum er kastað (orðatiltæki) Líking við teningaspil og getur merkt „spilið er hafið“ eða „úrslitin hafa verið ráðin“. Máltækið er oftast tengt Júlíusi Sesari rómakeisara, en sagt er að hann hafi tautað „iacta alea est“ um leið og hann hélt yfir Rubicon-fljót með her sinn, en með því lagði hann til atlögu við Pompeius fornvin sinn. Viðhaft þegar menn taka endanlega ákvörðun um örlög eða stefnu.
Tenntur (l) Með tennur/tönnur. „Strákurinn er orðinn sæmilega tenntur“. „Karlinn var illa tenntur og treysti sér ekki í harðfiskinn“. „Ansi er sögin orðin illa tennt“.
Tensa sig til (orðtak) Punta/snyrta sig; gera sig fína(n). „Ætli maður þurfi ekki eitthvað að tensa sig til fyrir þessa samkomu“.
Teppa (n, kvk) Hindrun; lokun; tappi. „Mikið var gott að losna við þessa teppu úr nefinu“.
Teppa (s) Hindra; loka fyrir; stífla. „Þú mátt ekki teppa gangveginn með þessu“!
Teppi (n, hk) A. Ábreiða úr tiltölulega þykku efni, t.d. rúmteppi. B. Gólfefni úr ofnu efni; gólfteppi.
Tepptur (l) Lokaður; ófær; stíflaður. „Vegurinn hingað úteftir hefur verið tepptur í hálfan mánuð“.
Tepra (n, kvk) Tilgerðarlegur einstaklingur. „Óttaleg tepra ertu; örlítið slor á höndunum drepur þig ekki“!
Tepruháttur / Tepruskapur (n, kk) Tilgerð; aumingjadómur. „Hana; blóðgaðu fiskinn og vertu ekki með þennan tepruhátt“!
Teprulegur (l) Tilgerðarlegur; fínn með sig. „Þeir eru orðnir svo teprulegir í sláturhúsinu; heimta að allir gangi í hvítu“.
Terra (s) Ota; teygja; reygja. „Kötturinn terrir rófuna þegar hann sér fuglana utanvið gluggann“.
Tertíer (n, hk) Tímabil í jarðsögunni frá 65 milljónum ára til 1,8 milljón ára, eða frá því að Atlantshafið tók að myndast til upphafs ísaldar; frá krítartímabilinu til kvartertímabilsins. Tertíer merkir „hið þriðja“. Tímabilinu er skipt niður í styttri jarðsögutíma; Paleósen; Eosen; Ólígósen; Míósen og Plíósen. Í byrjun Tertíer voru Ameríka, Evrasía og Afríka eitt meginland. Einhverjar breytingar í iðrum jarðar urðu til þess að möttulkvikan breytti streymi sínu og reif þetta mikla svæði í sundur þar sem nú er Atlantshaf. Þar sem kvikustraumurinn leitar upp að jarðskorpunni; á Atlantshafshryggnum, mynduðust flekaskil þar sem nýtt efni kemur upp og myndar nýjan hafsbotn beggja vegna hryggjarins. Á einum stað hryggjarins varð streymið ákafast; þar varð svonefndur heitur reitur þar sem meira barst upp af möttulefni en annarsstaðar. Tilurð heita reitsins má sjá í samkynja bergi á austurstrand Grænlands og í Skotlandi, en milli þessara staða liggur hryggur þar sem hafdýpi er minna en annarsstaðar, sem segir sitt um kvikustreymið um leið og þessi lönd rak í sundur. Þar er þykkt jarðskorpunnar um 24 km, en venjuleg úthafsskorpa er 6-7 km að þykkt. Á hryggnum eru Færeyjar og Ísland. Nú er talið að framanaf Tertíer hafi verið landbrú milli Grænlands og Skotlands og enn lengur milli Grænlands og Íslands. Hún hafi enn verið til staðar þegar elstu jarðlögin mynduðust sem sjá má neðst í jarðlagabunkum á Vestfjörðum og Austfjörðum fyrir um 16-18 milljón árum. Það merkir að ekki er útilokað að í millilögum megi finna ummerki um landdýr sem ráfað hafi frá Ameríku þegar langt hlé varð milli eldgosa. Líklegt er að jarðlög frá þessum tíma finnist neðst í fjöllum í Kollsvík og nágrenni. Nokkru ofar í jarðlögum tertier sjást ummerki mikillar hlýnunar fyrir 12 milljón árum, þegar surtarbrandslögin mynduðust sem sjá má t.d. í Stálfjalli, ofan Saurbæjar; ofan Raknadals; í Seljagili og í Surtarbrandsgili hjá Brjánslæk. Talið er að þá hafi landbrúin til Ameríku enn verið til staðar, enda sjást í þessum lögum leifar gróðurs sem þá óx vestra og lifði við um 40° meðalhita. Ástæður þessa mikla hita voru líklega aðrar aðstæður í hafstraumum; þar sem m.a. Norður- og Suður Ameríka voru aðskildar. Surtarbrandur hefur ekki fundist í Kollsvík, en hinsvegar eru þar víða í berglögum leifar af trjástofnum sem hraunið hefur runnið yfir á þessum tíma. Berglagastaflinn kringum Kollsvík er líklega 16-13 milljón ára gamall, eða frá Míósen-tíma.
Tesía (n, kvk) Lítið sigti sem rifin telauf eru sett í; það sett yfir bolla og sjóðheitu vatni hellt í gegnum það til að laga te.
Tesopi / Tevatn (n, kk) Te; tebolli. „Ég myndi þiggja hjá þér dálítinn tesopa, ef þú átt“. „Áttu til tevatn“? Sjá ortakið „fá til tevatnsins“.
Testamenti (n, hk) Vitnisburður. Heitið er oftast notað yfir tvo höfuðkafla biblíunnar; nýja og gamla testamenti, sem sannkristið fólk telur órækan vitnisburð um sinn Guð, og grundvöll trúarinnar.
Tesull (n, hk) Niðrandi heiti á te. „Það þýðir ekkert að bjóða mér þetta tesull; áttu ekki heiðarlegt kaffi“?!
Tetur (n, hk) Aumingi;hró; grey; það sem er lélegt/hrörlegt Oft notað sem seinniliður orða; „Hann er nú að verða skoli lélegur, karltetrið“; „Svona eldpredikun fer nú bara með sálartetrið í fólki“; en stundum sérstætt; „Hann getur varla að því gert, tetrið, þó hann sjái svona illa“. Í samsetningum; „Það sást hvorki tangur né tetur af fé á dalnum“.
Texti (n, kk) Ritað mál.
Teyga (s) Drekka af áfergju; drekka í stórum sopum.
Teygingar (n, kvk, fto) A. Það að teygja sig; iðulega notað í eggjaferðum í bjargi. „Þú ættir nú ekki að vera með þessar teygingar á svona afsleppri syllu“. B. Gras rimar sem teygjast upp í fjallshlíð. „Virkisteigur er grasflesjur; teygingar upp í hlíðina ofan Hærra Virkis“.
Teygja (n, kvk) A. Það að teygja úr sér. „Eftir miklar teygjur og geispa reis hann upp“. B. Eftirgefanleg taug; sá eiginleiki efnis að lengjast án þess að slitna.
Teygja (fram) álkuna (orðtak) Teygja höfuðið fram eða til hliðar til að sjá betur.
Teygja lopann (orðtak) Líkingamál; vera langorður; dunda of lengi við verk. „Mér fannst presturinn teygja lopann ansi mikið í ræðunni. Ég er ekki frá því að mér hafi horfið veröldin eitt augnablik“.
Teygja sig eftir (einhverju) (orðtak) Teygja hendina til að ná í eitthvað.
Teygja skanka sína (orðtak) Teygja sig; ná yfir. „Eftir að halla tók undan fæti í landbúnaði í hreppnum fór ferðaþónustan að teygja þangað skanka sína, og er nú orðin þar undirstöðuatvinnugrein“.
Teygja úr sér/skönkunum (orðtak) Rétta úr sér og e.t.v. rétta hendur og fætur útfrá sér; teygja sig eins langt á lengdina og unnt er.
Teygjan úr (orðtak) Þolinmæðin þrotin. Sjá þá skal nú teygjan úr.
Teygjanlegt (l) A. Sem unnt er að teygja á/úr. B. Ekki í föstum skorðum; álitamál.
Teygjubyssa (n, kvk) Leikfang til að skjóta litlum ögnum eða pílum. „Svo voru gerðar... rófubyssur úr fjöðurstöfum, helst úr álftafjöðrum. Stafurinn var skorinn af og endinn skorinn svo úr varð hólkur, svo voru sneiddar kartöflur (ekki rófur þó þetta héti rófubyssa!). Tálgaðir svokallaðir krassar, þ.e. smáprik með hnúð á enda sem passaði inn í hólkinn en hnúðurinn hélt við þegar krassanum var þrýst snöggt inn í legginn. En fyrst var byssan blásin með því að endum fjöðurstafsins var þrýst niður í kartöflusneiðina til skiptis svo kartöflutappar komu í báða enda. Svo var krassanum þrýst í annan endann og hljóp þá kartöfluskotið af. Væri krassinn mátulega langur sat annað skotið eftir í stafnum svo bara þurfti að hlaða aftur annan enda pípunnar fyrir næsta skot (Teikning). Öðruvísi byssur voru einnig smíðaðar en það voru tvinnakefli sem gúmmíteygja var negld yfir annan endann. Síðan telgd ör sem stungin var gegnum keflið og síðan dregið upp og hleypt af (Teikning). Baunabyssur voru útbúnar úr stífum vír sem gúmmírenningur var festur milli armanna, dregið upp og hleypt af baununum“ (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).
Teygur (n, kk) Sopi; það sem sopið er í einu, án kyngingar á milli. „Ég drakk þetta í einum teyg“.
Teyma (s) Leiða í taumi. „Við teymdum nautið út í girðinguna“.
Teyma andskotann/skrattann (orðtak) Ganga með hendur samankræktar fyrir aftan bak, en í því getur verið hvíld á göngu, einkum ef gengið er á móti veðri. „Þarna kemur hann kjagandi; og teymir andskotann“.
Té (n, hk) A. Bókstafur. B. Hlutur sem er líkur bókstafnum T í laginu, t.d. rörasamsetning. C. Tjá; lán, sbr að „láta í té“ í merkingunni að afhenda.
Téður (l) Sá sem talað er um. „Téðan vasahníf hef ég ekki snert; það er áfærni að ég hafi stolið honum“!
Térlegur (l) Þokkalegur; sæmilegur. Oftast notað í neikvæðri umræðu: „Það var térleg saga sem ég var að frétta af þessum náunga“! „Þú ert aldeilis térlegur núna drengur; ekkert nema mold og drulla! Farðu nú úr fötunum“! Oft einnig „félegur“ í sömu merkingu. Það orð er þó líklega af sjálfstæðri rót fremur en hljóðbreytingu.
Tifa (s) Ganga í stuttum skrefum. Oftast notað um gang/hljóð úrs/klukku.
Tiginmannlegur (l) Fyrirmannlegur; glæsilegur í framkomu/útliti. „Ekki finnst mér þessi sýslumaður mjög tiginmannlegur að sjá“!
Tiginn (l) Af háum virðingarstigum.
Tign (n, kvk) Virðing; virðingarstaða. „Þegar kemur niður á Neðri Jökladalshæð birtist Kollsvíkin í allri sinni tign“.
Tigna (s) Tilbiðja; bera virðingu fyrir. „É´ld maður fari nú ekki að tigna þá andskota sem svona haga sér“!
Tignarlegt (l) Virðulegt; tilkomumikið. „Hann tók undir sig tignarlegt stökk upp á hleinina, en rann til í sleipunni og fór á bólakaf í sjóinn“.
Tignarstaða (nb, kvk) Virðingarstaða.
Tiktúruháttur (n, kk) Gikksháttur; tiktúrur; sérviska. „Ef þú ert með einhvern gikkshátt þá ætla ég bara ekkert að vera að dekstra þig“!
Tiktúrulaus (l) Ekki gikkur/sérvitringur; laus við tiktúrur. „Hann er tiltölulega tiktúrulaus, allavegana miðað við suma aðra í þeirri fjölskyldu“!
Tiktúrur (n, kvk, fto) Gikksháttur; óþægð; sérviska. „Vertu nú ekki með þessar tiktúrur krakki og borðaðu matinn þinn“!
Til að bíta höfuðið af skömminni (orðtak) Til að kóróna alltsaman; til að auka á misgerðir/skammir. „Þeir hafa ekki heflað veginn í mannsaldur, og til að bíta höfuðið af skömminni tóku þeir hann úr tölu þjóðvega“!
Til að byrja með (orðtak) Í byrjun; upphaflega; fyrst í stað. „Til að byrja með var aðeins eitt útvarp í Víkinni, og var það haft miðsvæðis í henni; eða á Stekkjarmel“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).
Til að kóróna alltsaman (orðtak) Til að bíta höfuðið af skömminni; til að auka enn á skammir/misgerðir/hneyksli. „Ég var búinn að standa í mokstri og basli yfir allan hálsinn, og endaði svo með því að festa bílinn endanlega hér niðri á beygju; það var nú til að kóróna alltsaman“!
Til að mynda (orðtak) Til dæmis; sem dæmi. „Ýmislegt var honum andstætt í búsetunni; hann átti t.d. ekki bíl, og kunni auk þess ekki að aka“.
Til að sjá / Tilsýndar að sjá (orðtak) Eins og lítur út í nokkurri fjarlægð. „Eftir að skriðan féll var fjallið til að sjá eins og eldfjall; hulið reyk og ryki í nokkurn tíma“.
Til að æra óstöðugan (orðtak) Getur gert mann brjálaðan. „Lækkaðu nú niður í þessu ansvítans bítlagargi! Þetta er alveg til að æra óstöðugan“! „Það er til að æra óstöðugan að ætla að finna nokkuð í þessari óreiðu“. Sjá einnig; aldrei skyldi egna óstöðugan.
Til allrar hamingju/lukku (orðtök) Svo vel vildi til; sló fyrir heppni; sem betur fór. „Bátinn rak hratt upp að skerinu, en til allrar hamingju hrökk vélin í gang áður en illa fór“.
Til alls vís (orðtak) Trúandi/líklegur til alls. „Ekki myndi ég treysta á atkvæðið hans í þessu máli; hann er til alls vís“.
Til alls þarf nokkuð að bera (orðatiltæki) Einhver rök þarf að hafa fyrir máli sínum; rökstyðja þarf sínar fullyrðingar. Líklega gamalt í málinu. Viðhaft þegar menn vilja rökstyðja eða biðja um rökstuðning.
Til augnanna (orðtak) Á svipinn. „Heldur fannst mér hann dimmur til augnanna, en hann steinþagði“.
Til áherslu / Til áréttingar (orðtök) Til að undirstrika það sem sagt er. „„Fulla ferð“! Og til áréttingar var ýtt harkalega á öxl mér“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Til ásetnings (orðtak) Til ölslu; til lífs; um það að setja á; þ.e. ákveða að hausti að ala skepnu yfir vetur.
Til átu (orðtak) Til að borða/eta. „Ekki fannst mér þetta sérlega gott til átu, en lét mig hafa það“.
Til baga (orðtak) Til óhagræðis/leiðinda/tafa. „Eins varð það til baga ef vindur stóð á land; þá varð fjaran lakari“ (KJK; sjá kúfiskur).
Til baka (orðtak) Afturábak; aftur sömu leið. „Hann var kominn hálfa leið til baka þegar ég náði honum“.
Til bóta (orðtak) Bætir; jákvætt. „Ekki flýtir það ferðinni að tekið er suðurfalli nærri landi. Þó er það til nokkurra bóta. Enn eru eftir nokkrar leifar norðanbárunnar, einkum þar sem eða meðan straumur liggur með bárunni“ (KJK; Kollsvíkurver).
Til bragðs að taka (orðtak) Til ráða/úrræða. „Úr vöndu var að ráða, en ég tók það þá til bragðs að hlaða steinum undir mig, og náði með því móti klórast upp í næsta gang“. „Ég veit þá ekki hvað á til bragðs að taka ef þetta gagnast ekki“.
Til bráðabirgða (orðtak) Fyrsta kastið; í skamman tíma; sem skyndiaðgerð. „Þessi lagfæring verður að duga til bráðabirgða; ég lít betur á þetta þegar við komum í land“.
Til dauðadags (orðtak) Til æviloka. „En 1797 eða 1798 hefur hann flust að Kollsvík og bjó þar til dauðadags, eða að heita má full 40 ár“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Til dauðs (orðtak) Í hel; til dauða. „Þú þarft að fara að gefa fénu meira; eða ætlarðu að svelta þær til dauðs“?
Til drýginda (orðtak) Sem viðbót; til aukningar. „Fiskslógið var áður gefið skepnum til drýginda öðru fóðri“.
Til dundurs (orðtak) Til að hafa ofanaf fyrir sér; til dægrastyttingar. „Ég gerði mé það til dundurs í óþurrkinum, að greiða línuflækju“.
Til dægrastyttingar (orðtak) Til að stytta daginn; til að hafa ofanaf fyrir sér; til að skemmta sér. „Oft kom það fyrir, þótt ekki væri err í mánuðinum, að menn tóku upp spil sér til“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Til efs (orðtak) Í vafa. „Þetta voru nú engar hallir, héldu hvorki vindi né vatni, mér er til efs að nokkur nútímamaður trúi því hvernig aðbúnaður var hjá vermönnum í þá daga...“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).
Til eilífðarnóns (orðtak) Að eilífu; endalaust. „Farðu nú að klára matinn þinn drengur; ætlarðu að vera hangandi yfir þessu til eilífðarnóns“?
Til einhvers (orðtak) Hafa tilgang. „Heldurðu að það sé til einhvers að fá fram í Vatnadal að fénu“?
Til einskis (orðtak) Hefur enga þýðingu; gagnslaust; tilgangslaust. „Þetta virtist allt vera til einskis“.
Til fara (orðtak) Um útgang/klæðnað manns; til reika. „Ósköp fannst mér hann illa til fara“. „Skepnur vel til fara“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1945).
Til formlegheita / Uppá formlegheitin (að gera) (orðtök) Til að allt sé löglegt að forminu til; svo fylgt sé réttum reglum. „Mér sýnist að allt féð sé komið, en það er rétt að slá á þetta tölu til formlegheita“. „Munnlegur samningur dugir alveg milli okkar, en ætli við verðum ekki að setja eitthvað á blað, uppá formlegheitin að gera“.
Til forna (orðtak) Í fyrri tíð; fyrrum. „Innanvið Múlann er Hergerðargjá og var þar farið upp úr fjörunni til forna með hesta, líkt og í Flosagjá í Breiðuvík“ (ÓETh; Örn.skrá Vatnsdals).
Til forsvars (orðtak) Í forsvari fyrir; forystumaður; formaður. „Maðurinn minn henti aldrei frímerki, en hann fékk mörg slík þar sem hann var lengi í forsvari fyrir sveitarfélagið og auk þess flest félagasamtök á svæðinu“ (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).
Til fóta (orðtak) Við fótalag/fótagafl í rúmi. „Kettlingurinn svaf ofaná barninu og hundurinn til fóta“.
Til fótanna (orðtak) Á fótunum. „Ansi finnst mér þú illa skæddur til fótanna“.
Til frambúðar (orðtak) Um alla framtíð; framvegis. „Mér sýnist að þessi steinn geti verið þarna til frambúðar“.
Til framdráttar (orðtak) Til bjargráða/bóta/hagnaðar. „Það er honum varla til framdráttar í kosningunum að hafa þetta mál á bakinu“.
Til frálags (orðtak) Í slátrun; í matvæli. „Ég gæti trúað að þessi kálfur verði góður til frálags í haust“.
Til frásagnar / Til sagna (orðtak) Sem sagt geta/getur frá. „Hann var einn til frásagnar um þessa atburði“. „Um þetta verður lítið fullyrt, þar sem ekki eru margir til sagna“.
Til friðar heyrir (orðtak) Heyrir undir; tekur til. „Það er best að ég sjái um að útkljá þessi mál; ég veit vel hvað til míns friðar heyrir“.
Til friðs (orðtak) Í friði/friðsemd; með góðu lagi. „Þessi óróaseggur er aldrei til friðs“! „Ég festi hljóðkútinn og vona að hann verði til friðs á næstunni“.
Til fulls (orðtak) Að fullu/öllu leyti. „Ég hef aldrei skilið þetta til fulls“.
Til fæðis og klæðis (orðtak) Varðandi mat og föt. „Menn verja vanalega öllum handbærum fjármunum sínum í það að svala ílönguninni í þessi efni (áfengið) og ganga venjulega heldur alls annars á mis, bæði til fæðis og klæðis“ (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938).
Til gagns og gamans (orðtak) Til nytja en um leið skemmtunar. „Ennfremur að viðra úti, helst daglega, ær lömb og hross, og halda nefndum pening til haga séu nokkur tök til þess; þeim til heilsubótar en okkur til gagns og gamans…“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Til góða (orðtak) Til hagsbóta/góðs. „Það kemur honum til góða að vera í fínu formi“. „Nú þyrfti fljótlega að fara að gera kofaræflinum eitthvað til góða“.
Til hafður (orðtak) Um útlit manneskju. „Hann er alltaf hreinn og vel til hafður á mannamótum, eins og hann getur verið tætingslegur og illa til hafður heima fyrir“.
Til hafsins / Til sjóarins / Í sjóinn (orðtak) Til hafs að sjá. „Hann er orðinn eyddur til hafsins; það gæti orðið þurrkur á morgun“. „Það er kominn bakki til hafsins; líklega fer þá að styttast í þurrkinum að sinni“. „Hann er ljótur til sjóarins. „Til hafsins var svartur þokubakki sem virtist færast hægt nær...“ (ÖG; Þokuróður fyrir 44 árum). Sjá einnig í sjóinn.
Til halds og trausts (orðtak) Til öryggis; til að veita stuðning/öryggi/öryggistilfinningu. „Hann hafði broddstaf, sér til halds og trausts, þegar hann fór um freðna hlíðina“.
Til handa (orðtak) Til gjafa/eignar; í þágu. „Við sendum góðar kveðjur, honum til handa“.
Til háborinnar skammar (orðtak) Algerlega til skammar. „Það væri til háborinnar skammar ef lengi væri bátlaust í Kollsvíkinni og enginn nennti lengur að renna þar fyrir fisk“.
Til háðungar (orðtak) Í óvirðingarskyni. Honum til háðungar settu þeir bátinn öfugan upp á kambinn“.
Til hálfs (orðtak) Að hálfu leyti; að/um miðju. „Hann náði að skríða til hálfs gegnum gatið, en þar sat hann fastur“.
Til heimilis (orðtak) Um heimilisfesti/búsetu. „Hann er hjá þeim til heimilis um stundarsakir“.
Til helminga / Til hálfs (orðtak) Að hálfu; að tvennu jöfnu; að helmingi. „Við skiptum aflanum nokkurnvegin til helminga“. „Hann fyllti flöskuna til hálfs“.
Til hins (betra/verra/skárra/lakara o.fl) (orðtök) Til þess. „Hann breytti aftur til hins betra þegar leið á föstuna“.
Til hlés (orðtak) Undan vindi; hlémegin; á hléborða (á skipi). „Skipverjar reyndu að kynda bál út um brúarglugga til hlés, en gekk það illa... “ (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).
Til hlítar (orðtak) Ofan í kjölinn; gjörla; vel. „Reynt var að hreinsa og hrista sandinn burt eftir föngum, en það tókst ekki nándar nærri til neinnar hlítar“ (KJK; Kollsvíkurver).
Til hnjóðs (orðtak) Um ummæli/umsögn; sem meiðir/skaðar; til skaða. „Ég segi það ekki honum til hnjóðs heldur álitsauka, þegar ég kalla hann sjóhund“.
Til hugarhægðar (orðtak) Til að róa/ sætta við. „Hann gengur sér til hugarhægðar út á Bjargtanga“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Til húsa / Til heimilis (orðtök) Í vist; dveljandi. „Ég var til húsa hjá þeim þennan vetur“.
Til hvurs? (orðtak) Til hvers; í hvaða tilgangi? „Til hvurs væri það“?
Til hægðarauka (orðtak) Til að auðvelda; til hagræðingar. „Til hægðarauka var ég með tvo tilbúna slóða og aukasökkur“.
Til í (orðtak) Tilbúinn að gera. „Ég er til í að koma með þér“.
Til í dæminu (orðtak) Hugsanlegt; mögulegt; gæti verið. „Ég sá hvergi kindurnar, en það er vel til í dæminu að þær hafi leynst í einhverri lautinni“. „Það er ekki til í dæminu að ég styðji svona fáránlega tillögu“!
Til í tuskið (orðtak) Tilbúinn í slagsmál/aðgerðir/verk. „Ég var strax til í tuskið þegar hann nefndi bjargferð“.
Til jafnaðar (orðtak) Að jafnaði/meðaltali; holt og bolt. „Þetta voru til jafnaðar um hundrað egg á mann“.
Til jafns við (orðtak) Eins hátt/langt/þungt/mikilvægt/gamalt og. Jafn mikið og. „Þetta er ágætis afli, þó hann sé lítill til jafns við hlaðninginn í gær“.
Til lands og sjávar / Til sjávar og sveita (orðtak) Á landi sem á sjó. Oft notað um tíðarfar. „Sumarið var einstaklega gott; jafnt til lands sem til sjávar“. „Hann var atorkumaður til lands og sjávar“.
Til langframa (orðtak) Til lengdar; til frambúðar. „Fjelagið (Baldur) náði yfir allan hreppinn nema Rauðasand, og voru kraftarnir því dreifðir; enda kom það fljótt á daginn að ógerningur var að halda fjelaginu saman til langframa“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Til lengdar (orðtak) Um langan/lengri tíma; lengi. „Við látum féð inn ef veðrið verður svona til lengdar“.
Til lista lagt (orðtak) Hæfur í; vel fær í. „Honum er margt/ýmislegt til lista lagt“.
Til lífs (orðtak) Um búfé; til ölslu; til ásetnings. „Ég ætla nú að taka þessa tvílembinga frá til lífs“.
Til lítils (orðtak) Hefur ekki mikinn tilgang. „Það er til lítils að reka út túninu ef girðingin er ekki lagfærð“.
Til loftsins (orðtak) Til lofts að sjá; útlits. „Mér finnst hann að verða ískyggilega dimmur til loftsins“.
Til lýta (orðtak) Til skaða; svo skemmi útlit. „Mér finnst þetta ör ekki mikið til lýta á honum“.
Til lækninga (orðtak) Í læknismeðferð. „Hann þurfti að fara suður til lækninga“.
Til marks um (orðtak) Vitnar um; sýnir; sem merki um. „Bóndi var kattþrifinn og nostursamur. Til marks um það er að hann sópaði alltaf grindurnar eftir að hann lét féð út til beitar“.
Til matar (orðtak) Til átu; sem matur; til matargerðar. „Rjúpa var aldrei höfð til matar í Kollsvík“.
Til málamynda (orðtak) Til að sýnast; uppá útlitið; til siðasaka. „Settu nú slaufuna á þig til málamynda“.
Til með (orðtak) Tilbúinn að gera; vís til að gera; til í. „Ertu til með að aðstoða mig við þetta“! Sjá mega til með.
Til miðs (orðtak) Miðstil; í/um miðju; til hálfs. „Sagaðu þetta sundur, nokkurnvegin til miðs“.
Til miðs við (orðtak) Miðað við; í samjöfnuði við. „Þetta er bara lítið til miðs við það sem áður var“.
Til mikilla/lítilla muna (orðtök) Mikið meira/minna. „Veðrið hefur lægt til mikilla muna“.
Til minnkunar (orðtak) Sem skerðir mannlega reisn/virðingu. „Þetta framferði þótti verða honum heldur til minnkunar“. „Það er engum til minnkunar að hætta við róður þegar útlitið versnar“. Sjá gera til minnkunar.
Til moldar borinn (orðtak) Borinn til greftrunar; jarðaður. „Í dag er til moldar borin mikil heiðurskona“.
Til moldar hniginn (orðtak) Dáinn; sálaður; burtkvaddur. „Þá er sá kappi til moldar hniginn“.
Til móts við (orðtak) A. Gegn; gegnt; andspænis; í áttina til. „Ég gekk til móts við aðkomumanninn“. B. Jafn mikið/stórt og. „Ég fyllti flöskuna aftur; til móts við það sem áður var í henni“.
Til (mikilla) muna (orðtak) Sem munar um; verulega. „Kálgarð byrjaði fjelagið (Vestri) að byggja 1925, og hefir verið sáð í hann og fengist uppskera til muna... “ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). „Eins og skýrslan ber með sér vantar suma til muna fóður, og munu þeir reyna að bæta það upp með aðkeyptu fóðri“ (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1924).
Til munns og handa (orðtak) Um hæfileika; í tali og handlagni. „Sigríður á Láganúpi var hög bæði til munns og handa. Um það vitna hennar mörgu listaverk og það sem eftir liggur af rituðu máli, þó öllu sé það minna“.
Til og frá (orðtak) Út og suður; í allar áttir; til hliðanna. „Þarna voru, til og frá um fjöruna, innviðir úr skipi sem auðsjánlega hafði liðast í sundur“ (MG; Látrabjarg).
Til orðs og æðis / Til munns og handa (orðtak) Í framkomu og tali; á allan hátt; í hvívetna; með ráðum og dáð. „Hann hefur unnið af heilindum að hag félagsins; bæði til orðs og æðis“. „Hann er einn vandaðasti maður sem ég hef kynnst; jafnt til munns og handa“.
Til óblandinnar ánægju (orðtak) Til mikillar ánægju/gleði.
Til óbóta (orðtak) Til skaða; svo meiðsli hljótist af. „Þeir hótuðu að berja hann til óbóta ef hann hætti ekki þessu leiðinda söngli“.
Til ófagnaðar (orðtak) Til leiðinda; til vandræða. „Ég held að það yrði bara til ófagnaðar ef ég færi að blanda mér í þeirra deilur“.
Til óþurftar (orðtak) Til óþæginda/skaða; í óþarfa. „Vertu nú ekki að eyða þessum peningum til óþurftar“!
Til prufu (orðtak) Til reynslu; til að prófa. „Ég fékk mér smávegis í skeiðina, til prufu, en fannst það vont“.
Til ráða (orðtak) Til bragðs/úrræða. „Við ræddum hvað helst væri til ráða í þessari stöðu“. „Nú er ekki gott að segja hvað sé til ráða“.
Til reiðu / Til taks (orðtak) Tilbúinn; í boði; reiðubúinn; í hendi. „Ég taldi vissara að hafa allt til reiðu ef kallað yrði til skips“. „Ég hafði gogginn til taks þegar lúðan nálgaðist borðstokkinn“.
Til reika (orðtak) Útleikinn; til fara; útlítandi. „Hann var illa til reika þegar hann komst loks til mannabyggða“.
Til reynt (orðtak) Reynt við; gerð tilraun til; reynt. „Flokkurinn náði ekki manni inn þó mikið væri til reynt“. „Við náðum lambinu ekki, enda var nú ekki mikið til þess reynt. Það virtist hafa það ágætt þarna“.
Til réttlætingar (einhverju) (orðtak) Til að gerð sýnist réttlætanleg. „… upphófust nú háværar samræður. Í lok þeirra sagði Gummi; svona til réttlætingar því hann varð undir í þetta skiptið: „Hefði ég vitað að lambið hafði gengið á Stígnum, þá hefði ég hugsað mig betur um““ (PG; Veðmálið).
Til sama lands (orðtak) Til baka; aftur á sinn stað. „Ég var ekki fyrr búinn að reka þessar túnrollur út í Breiðavík en þær voru komnar aftur til sama lands“!
Til samans (orðtak) Samanlagt; alls. „Ég bætti við þetta söluskatti, og til samans gerði það þúsund krónur“.
Til samlætis (orðtak) Til að veita félagsskap. „Sestu nú niður og fáðu þér kaffibolla, mér til samlætis“.
Til sannindamerkis (orðtak) Til að sanna sitt mál. „Hann fullyrti að lúðan hafi verið risavaxin. og til sannindamerkis sýndi hann þeim uppréttan öngulinn“.
Til sáluhjálpar / Til siðbótar og sáluhjálpar (orðtak) Til yfirbótar fyrir syndir; til að forða frá helvítisvist; til að bjarga sálu sinni. Oftast þó notað í seinni tíð án mikillar trúarsannfæringar. „Ég gerði þetta nú ekki af neinni nauðsyn; heldur kannski meira mér til siðbótar og sáluhjálpar“.
Til siðasaka (orðtak) Til að sýnast; til að sýna háttvísi. „Til siðasaka þáði ég hjá þeim kaffisopa“. Oftast orðað þannig, en einnig stundum „Fyrir siðasakir...“
Til siðs (orðtak) Venja; siður. „Áðurfyrr var það til siðs að þögn væri á heimilinu meðan hlýtt var á jólamessu“.
Til sinnis (orðtak) Að skapi. „Mér er það ekki vel til sinnis að jörðin vari í eyði“.
Til sjóarins (orðtak) Til sjávar/hafs að líta; í sjólaginu. „Hann virðist eitthvað vera að lina þetta til sjóarins“. „Mér þykir hann frekar dimmur til sjóarins“.
Til sjós (orðtak) Á sjó; sjómaður. „Á Bíldudal þekkti ég marga sjómenn því þaðan fór ég til sjós í fyrsta sinni...“. Frásögn Jóns Guðjónssonar (ÓG; Úr verbúðum í víking).
Til sjós og lands (orðtak) Bæði á sjó og landi. „Allan síðasta mánuð hefur verið einstök blíða til sjós og lands“.
Til skaða / Til skemmda / Til tjóns (orðtök) Svo mikið að skaði/skemmdir/tjón hljótist af. „Ég þigg að fá hjá þér í soðið; ef það er ekki þér til skaða“. „Heyið hafði myglað til skemmda í gryfjuhorninu“. „Svona vinnulag leiðir ekki til nema annars en tjóns“! „Í Skolladýi skepna dó/ til skaða oft á vorin./ Um Mýrar Holt og Harðató/ heilmörg liggja sporin“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).
Til (háborinnar) skammar (orðtak) Niðurlægjandi; til vansæmdar. „Alveg finnst mér það til háborinnar skammar hvernig stjórnvöld svíkja ellilífeyrisþegana“! „Svona tal er honum til háborinnar skammar“!
Til skamms tíma (orðtak) Þar til nýlega; nýverið. „Til skamms tíma var þessi byggð sjálfri sér næg um flest“.
Til skila haldið (orðtak) Haldið til skila; gerð grein fyrir; tekið með í reikninginn/uppgjörið. „Hann átti stóran þátt í þessu ásamt mér; svo því sé nú til skila haldið“.
Til skilningsauka (orðtak) Til að auka skilning; til skýringar.
Til skiptis (orðtak) Á víxl; sitt á hvað. „Við drógum spil til skiptis úr stokknum“.
Til skrafs og ráðagerða (orðtak) Til að ræða málin; til að hafa samráð. „Hreppsnefndin var kölluð saman til skrafs og ráðagerða um málið“. „Ég þyrfti að hitta þig til skrafs og ráðagerða“.
Til sóma (orðtak) Til virðingar/vegsauka. „Frágangurinn er allur til mikils sóma“.
Til spari (orðtak) Um það sem notað er á tyllidögum/ notað sjaldan. „Þetta bollastell höfum við bara til spari“.
Til staðar (orðtak) Fyrir hendi; til reiðu; nærtækur. „Þarna er nægt drykkjarvatn til staðar“.
Til stórræða (orðtak) Til mikils gagns; mikilvægur; fær um stórvirki. „Ég get svosem komið með ykkur, en ég er hræddur um að ég sé ekki til stórræðanna í klettum“.
Til svona (orðtak) Sisona; tisona; tilsvona; þannig; svona. Þessi orð/hikorð voru notuð nokkuð jöfnum höndum; mismunandi hvers þeirra var gripið til. „Það er nú til svona; við þessu máttirðu búast“.
Til sýnis (orðtak) Fyrir aðra/fólk að sjá; sýnilegt. „Það er nú varla hægt að hafa þetta til sýnis“.
Til taks (orðtak) Tiltækur; tilbúinn. „Hann tók af sér vettlingana og blés í kaun, en hafði byssuna hlaðna til taks í byrgishorninu“.
Til tilbreytingar (orðtak) Til nýbreytni; til að bregða út af vananum. „Við höfum þetta þannig til tilbreytingar“.
Til trafala / Til stórtrafala (orðtak) Til að tefja för. „Ekki eru vatnsföll til trafala um þessar slóðir frekar en á öðrum leiðum um Rauðasandshrepp“ (MG; Látrabjarg). Orðið trafali er stofnskyld orðunum „truflun“, „traf“ og „trefill“; þ.e. vísar til þess að eitthvað druslist; flækist fyrir. Hugsanlegt er að trafali hafi einhverntíma verið heiti á hafti sem fætur dýra eru bundnir með, til að geta hæglega náð þeim.
Til (stórra) vandræða (orðtak) Veldur miklum vandræðum. „Sandurinn getur orðið til stórra vandræða“.
Til vara (orðtak) Aukalega ef annað bilar/ er ekki tiltækt.
Til veru (orðtak) Til að vera/búa til frambúðar. „Ég er ekki kominn til veru að þessu sinni; stoppa bara stutt“.
Til viðbótar/tilbótar (orðtak) Í viðbót; í ofanálag. „Svo fékk ég nýja húfu til tilbótar“.
Til vinnandi (orðtak) Þess virði; vert. „Ég held að það sé alveg til vinnandi að reyna þetta“.
Til vitnis um (orðtak) Sem vottur um; sem vottar/sýnir. „Hann er til vitnis um mína frásögn“.
Til vonar og vara (orðtak) Til öryggis; í öryggisskyni/varúðarskyni. „Ég hafði margsinnis farið þessa leið bandlaus, en hafði núna lásband til vonar og vara þar sem blautt var í rót í sinunni“.
Til þessa (orðtak) Hingaðtil; til þessa dags/tíma. „Þetta hefur dugað til þessa; hvað sem svo verður“.
Til þess að gera (orðtak) Svo að segja; hér um bil; nærri því; sama sem. „Vatnstunnan er, til þess að gera, tóm“. „Vegurinn er alveg auður yfir Hálsinn, eða til þess að gera; bara örfáar driftir“.
Til þess er leikurinn gerður (orðtak) Sá er tilgangurinn; til þess er ætlast. „Ferðamenn hafa streymt í Kollsvík í allmiklum mæli eftir að þar voru gerðir göngustígar; sett upp upplýsingaskilti og vefsíða, enda var leikurinn til þess gerður að kynna þennan merkisstað“. Vísar til þess markmiðs að sigra í keppni/leikum.
Til þess eru vandamálin að leysa þau (orðatiltæki) Gjarnan viðhaft af Kollsvíkingum og öðrum sem láta vandamál og uppákomur ógjarnan hindra sig heldur vinna að lausn þeirra.
Til þess eru vítin að varast þau (orðatiltæki) Speki um mikilvægi þess að forðast hætturnar; oft notað þegar óhapp/ólán hefur orðið eða gæti augljóslega orðið. Daglegt líf fólks fyrr á öldum sneri annarsvegar að lífsbjörginni, en ekki síður að því að varast eilífar kvalir í helvíti eftir dauðann. Fyrir því var rekinn öflugur áróður af kirkjuvaldi og prestum, auk þess sem trúin var innbyggð í alla lagasetningu. Helvítin eru mörg, í sumum kenningum kristni og annarra trúarbragða. Sjá víti að varast.
Til þess tekið (orðtak) Tekið eftir því; vakti athygli. „Hann var mikið snyrtimenni, og var til þess tekið af ferðafólki hvað þar var staðarlegt heim að líta“.
Til þess var leikurinn gerður / Til þess voru refirnir skornir (orðatiltæki) Það var nú ætlunin; einmitt. „Til þess voru nú refirnir skornir; ég var nú ekki að baka pönnukökurnar til að henda þeim“.
Til þessa (orðtak) Hingaðtil; þar til nú; fram á þennan tíma; til þessa dags. „Mér þykir heldur týra ef hann er búinn að taka hrúta núna; hann hefur ekki tekið þá á réttum tíma til þessa“!
Til þrautar (orðtak) Til loka; þar til úrslit liggja fyrir. „Við verðum að berjast til þrautar í þessu máli“. „Ég er búinn að reyna þetta til þrautar“. Sjá þraut.
Til þrifa (orðtak) Til velgengni/árangurs. „Þessi ákvörðun varð honum til lítilla þrifa“. Þrif merkir góð hold/ vænleika á skepnu. Góð fóðrun er því til þrifa.
Til ölslu (orðtak) Til lífs; til ásetnings. „Ég hafði hugsað mér að taka þennan hrút til ölslu“.
Tila (n, kvk) Flík; fatnaður. Lítið notað í seinni tíð. (Orðabók IG) „Farðu nú og taktu saman tilurnar þínar“.
Tilbeiðsla (n, kvk) Bæn; trúartignun. „Það var enginn tími til tilbeiðslu eða skelfingar; þarna varð að taka ákvarðanir á svipstundu ef ekki átti illa að fara“.
Tilberi (n, kk) Snakkur; þjóðsagnakvikindi sem sagt var að kunnáttumenn gætu skapað sér úr mannsrifi, í þeim tilgangi að ná nyt úr búpeningi nágrannanna og drýgja með því sínar birgðir. Eins og aðrar afurðir galdramanna var þetta vandmeðfarið kvikindi, og þurfti eigandinn t.d. að geyma það á beru brjósti sínu. Þegar hann fór til altaris spýtti hann þremur gúlsopum í kvikindið, sem þá lifnaði við. Þá var hægt að senda hann í leiðangur til að smjúga undir kýr eða kvíaær grannans, en afurðunum spýtti hann í strokk eigandans. Tilberasmjör var auðþekkt ef gert var yfir því krossmark, því þá hrökk það í sundur. Konur sem héldu tilbera áttu að láta hann sjúga blóð úr innanverðu læri sínu. Ekki fer sögum af tilberum í Kollsvík, né heldur af nágrannaerjum sem skýra hefði þurft með slíkum lygasögum.
Tilbiðja (s) Tigna; trúa á; snúa bænum sínum til. „Þeir mega þá vel við una, sem tilbiðja þann flokk“.
Tilbót (n, kvk) Viðbót; ábót. „Hundurinn hafði dregið fuglshræið heim á hlað, og migið yfir það í tilbót“. „Við fengum nokkra ágæta fiska, og eitt lúðulok til tilbótar“.
Tilbreyting (n, kvk) Umskipti; nýbreytni; útafbreytni. „Það verður tilbreyting að bragða svona veislumat“. Sjá einnig til tilbreytingar.
Tilbreytingalaust / Tilbreytingarsnautt (l) Án tilbreytinga; með sama móti. „Þessi ördeyða fer nú að verða hálf tilbreytingalaus“! „Lífið í Kollsvík var aldrei tilbreytingarsnautt. Alltaf var eitthvað nýtt að gerast“.
Tilbrigði (n, hk) Afbrigði; frávik; útafbreytni; tilbreyting. „Hann sagði söguna aldrei á sama hátt, heldur var sitt tilbrigðið á henni í hvert sinn“.
Tilburðir (n, kk, fto) A. Aðgerðir; athafnir. „Hann hafði ekki uppi neina tilburði til að hindra þetta“. B. Atburðarás; orsakir. „Enginn veit ennþá með hvaða tilburðum þetta varð“.
Tilbúinn (l) Reiðubúinn; klár/til í; ekkert að vanbúnaði. „Ég er tilbúinn að standa við það sem ég sagði áðan, en hafi ég rétt fyrir mér fæ ég skrokkinn af þínu lambi“… „Þegar því lauk stóð Bjarni í Hænuvík með reisluna; tilbúinn að vigta skrokkinn“ (PG; Veðmálið).
Tilbúningur (n, kk) Uppspuni; ósatt. „Það er engin kind í sveltinu núna. Annaðhvort er hún hröpuð eða að þetta hefur verið einhver tilbúningur hjá sjómönnunum“.
Tilbærilegt (l) Viðeigandi; tilhlítandi. „Prestur hóf síðan skírnina, með tilbærilegum serimóníum, en sumum fannst kómiskt að sjá í óhrjálegar vinnubomsur standa undan hempunni og að olíublautt sárabindið skildi eftir sig brák í skírnarfontinum“.
Tildra (s) Hrófa/setja á óvandaðan hátt eða tæpt. „Það þýðir ekki að tildra skálinni þarna upp; þú verður að ganga mikið betur frá henni“!
Tildra sér (orðtak) Príla; klifra tæpt. „Mér er illa við að horfa á aðra tildra sér í klettum, jafnvel þó mér finnist ekkert að því að fara um sömu leiðir sjálfur“.
Tildra upp (orðtak) Hrófa upp; byggja lauslega/illa upp. „Þarna hafði hann tildrað upp kofaskrifli“.
Tildráttarband (n, hk) Tildráttartaug; taug sem notuð er t.d. til að draga eggjakúta milli ganga; við sjóbjörgun með fluglínutækjum eða við að draga fiskseilar á land.
Tildráttur (n, kk) Það sem dregst til. „Þegar net er sett inn í bekk er meiri hætta á að tildráttur verði á teinunum; þ.e. að netahnútarnir dragist til á teininum þegar t.d. festist í botni eða net fyllist af skít“
Tildregið (l) Það sem dregist hefur til. „Hér þarf að laga; hér er netið tildregið á teininum“.
Tildrög (n, hk, fto) Aðdragandi; forspil; orsök. „Ekki veit ég hver voru tildrög þessarar deilu“.
Tildur (n, hk) A. Prjál; prjálsemi; glingur. „Þetta þykir mér bara óþarfa tildur“. B. Að fara ógætilega í klettum; tildra sér. „Vertu nú ekki að tildrast þetta fyrir örfá egg“! C. Óvönduð smíð; hrófatildur.
Tildurdrós / Tildurrófa (n, kvk) Kvenmaður sem að einhvers áliti viðhefur tildur/ leggur mikla áherslu á tískufatnað, málun og skartgripi.
Tilefni (n, hk) Ástæða. „Einhverntíma hefur verið fagnað af minna tilefni“. „Ég sé ekkert tilefni til slíks“. „Var slíkt okkur krökkunum kærkomið tilefni til að hitta jafnaldra okkar á næstu bæjum“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku).
Tileinka (einhverjum eitthvað) (s) Semja/birta eitthvað til virðingar einhverjum; eigna einhverjum eitthvað.
Tileyg(ð)ur (l) A. Rangeygur; með vanstillingu augna, þannig að augnaráð vísar saman. B. Um það að renna hýru auga til einhvers.
Tilfallandi (l) Það sem fellur til/gefst. „Hann vann ýmis tilfallandi störf þar á bænum“.
Tilfelli (n, hk) Tilvik; uppákoma; staða. „Þetta er alveg sérstakt tilfelli“. „Það kom upp eitt tilfelli af riðuveiki“ „Ég færi ekki af stað í svona veðri nema í því tilfelli að um neyð væri að ræða“.
Tilferð (n, kvk) Undirbúningur; bígerð; aðdragandi. „Ég er enga stund með þetta verk; þetta er lítið annað en tilferðin“. „Ertu ekki í tilferð með að hafa þig til í ferðalagið“? Notað enn af Kollsvíkingum.
Tilfinnanlega (ao) Verulega; átakanlega. „Það varð sem betur fer ekki tilfinnanlega mikið tjón í þessu veðri“.
Tilfinnanlegur (l) Sem bagar/ finnst fyrir. „Það fer að verða tilfinnanlegur skortur á klósettpappír“. „Sem skýrslan sýnir er búpeningur vel til fara og fóðurvöntun hvergi tilfinnanleg…„“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1935).
Tilfinning (n, kvk) A. Skynjun; sársauki. „Ég er aðeins að byrja að fá tilfinningu í fingurgómana; en skrambi var mér orðið kalt“! B. Hugboð. Hafa á tilfinningunni.
Tilfinningalaus (l) Án tilfinninga; dofinn.
Tilfinningamál (n, hk) Málefni sem maður tekur nærri sér/ sem manni er ekki sama um; hjartans mál.
Tilforna (ao) Að fornu; í fyrri tíð. „Heimabændur (í Láganúpsveri) hafa tilforna goldið fyrir sig og sín hjú hálfan toll, en fyrir 2 árum hefur landsdrottinn þennan toll aftekið, so nú gjalda heimabændur ekkert í því nafni“ (ÁM/PV Jarðabók).
Tilfæra (s) Tilgreina; nefna til. „Hann verður að tilfæra einhver rök; máli sínu til stuðnings“.
Tilfæringar (n, kvk, fto) Fyrirhöfn; stímabrak; amstur. „Það kostaði miklar tilfæringar að koma katlinum út“.
Tilgangslaust (l) Án tilgangs/þýðingar. „Það er tilgangslaust að reyna þetta“.
Tilgangsleysi (n, hk) Gagnsleysi; þýðingarleysi. „Ekki veit ég hvað þeir eru að ana þetta í algjöru tilgangsleysi“!
Tilgangslítið (l) Gagnslítið; þýðingarlítið. „Það er tilgangslítið að smala fénu ef þið missið það við réttina“!
Tilgangur (n, kk) Þýðing; innihald; markmið. „Þetta var nú í góðum tilgangi gert“.
Tilgangurinn helgar meðalið (orðatiltæki) Niðurstaðan/ætlunin réttlætir aðferðina. Kenning sem stundum er notuð til réttlætingar á ruddaskap en þekkist víða. T.d. í latínu; „exitus acta probat“.
Tilgáta (n, kvk) Kenning; hugmynd/lausn sem sett er fram; ágiskun. „Þetta er mín tilgáta, en ég veit ekki fremur en aðrir hvort hún stenst“.
Tilgerð (n, kvk) Uppgerð; tilhald; sýndarmennska. „Mér leiðist allt svona tildur og tilgerð að ástæðulausu“.
Tilgerðarhlátur (n, kk) Uppgerðarhlátur; hlátur sem ekki er einlægur, heldur ýktur á einhvern hátt.
Tilgerðarlaus (l) Laus við sýndarmennsku/uppgerð/leikaraskap. „Mér fannst hann ósköp tilgerðarlaus og blátt áfram“.
Tilgerðarlegur (l) Með yfirborðsleg látalæti; með tilgerð. „Óttalega finnst mér hún tilgerðarleg“.
Tilgetið (l) Um getið; nefnt. „Þess er hvergi tilgetið í leiðarvísinum að þetta þoli ekki að blotna“. „Þetta var rétt tilgetið hjá honum; kindurnar vour þarna“.
Tilgreina (s) Nefna; benda á; tilfæra. „Ég tilgreindi þetta ekki sérstaklega í upptalningunni“.
Tilgreindur (l) Sem nefndur er/ bent er á; tilfærður.
Tilhafður (l) Undirbúinn; útbúinn; gerður. „Reyndu nú að vera sæmilega tilhafður þegar þú ferð á ballið“.
Tilhald (n, hk) Undirbúningur; það að halda uppá/ halda til. „Það er óþarfi að vera með neitt tilhald þó maður líti við“.
Tilhaldssemi (l) Um það að vera áberandi fínn til fara. „Þetta þykir mér tilhaldssemi svona á virkum degi“.
Tilheyra (s) Eiga við; vera viðeigandi/hæfandi. „Mér finnst tilheyra að draga fána að hún á þessum degi“. „Féð var rekið inn í réttina með tilheyrandi fyrirgangi og óhljóðum“.
Tilheyrandi (n, kk) Áheyrandi; sá sem heyrir það sem sagt er. „Hann hvatti alla tilheyrendur til að kjósa rétt“.
Tilheyrandi (l) Vi9ðkomandi; sem snertir/tilheyrir. „Steinninn kastaðist niður hlíðina með tilheyrandi dynkjum og moldarmekki“.
Tilhlakk (n, hk) Tilhlökkun; tilhlökkunarefni; eftirsóknarvert. „Það er lítið tilhlakk að ná fé úr þessu svelti“.
Tilhlaup (n, hk) Atrenna. „Ég tók tilhlaup og stökk yfir skurðinn“.
Tilhleyping (n, kvk) Það að fara með hrút; fang; láta kind fá. „Það er betra að klára tilhleypingarnar áður en farið er að leysa heyið, til að ekki komi órói í féð“. Ekki var talað um „tilhleypingatíma“ heldur „fengitíma“.
Tilhliðrun / Tilhliðrunarsemi (orðtak) Það að hliðra/víkja til; aðlögun. „Með tilhliðrun var unnt að koma honum að við borðið“. „Þetta kostaði bara smá lempni og tilhliðrunarsemi“.
Tilhlutan (n, kvk) Atbeini; afskipti; íhlutun. „Að tilhlutan formannsins var þessum lið bætt við tillöguna“.
Tilhlýða (s) Vera viðeigandi; hæfa. „Mér fannst tilhlýða að minnast hans við þetta tækifæri“.
Tilhlýðilega (ao) Á fullnægjandi/viðeigandi hátt. „Hann leit eftir að þetta væri tilhlýðilega gert“.
Tilhlýðandi / Tilhlýðilegur (l) Viðeigandi; sæmandi. „Hann stóð upp frá borðinu með tilhlýðilegum ropum og viðrekstrum“. „Allt var þetta gert með tilhlýðandi serimóníum“.
Tilhlökkun (n, kvk) Eftirvænting; óþreyja; tilhlakk. „Einhver mesta tilhlökkunin var að undirbúa jólatrésskemmtunina, sem Ungmennafélagið Vestri sá um fyrir börn úr Kollsvíkinni“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).
Tilhlökkunarefni (n, hk) Ástæða til eftirvæntingar. „Að síðustu langar mig að minnast á leitirnar. Þó þær væru hvorki langar eða erfiðar heima, voru þær eitt mesta tilhlökkunarefni bæði barna og fullorðinna“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). „Ekki verður það neitt tilhlökkunarefni að draga strengina hér frammi eftir þennan garð“.
Tilhlökkunarsvipur (n, kk) Svipur/bragur sem lýsir eftirvæntingu/tilhlökkun. „Við strákarnir horfðum á pakkahrúguna í horninu með tilhlökkunarsvip“.
Tilhugsun (n, kvk) Hugsun; hugmynd. „Ég fæ hroll, bara af tilhugsuninni einni saman“! „Það er erfitt að sætta sig við þá tilhugsun að Kollsvíkin verði í eyði til langframa, enda er það næsta ólíklegt“.
Tilhneiging (n, kvk) Hvati/vani/löngun til að gera. „Ég hef tilhneygingu til að halda að þetta gæti verið rétt“.
Tilhugalíf (n, hk) Tímabil þegar par er í ástarhugleiðingum; aðdragandi giftingar/sambúðar; trúlofun.
Tilhugsun (n, kvk) Ímyndun; hugsun; það að setja sér fyrir sjónir. „Ekki líkar mér sú tilhugsun að íhaldið fái landbúnaðarráðuneytið“.
Tilhæfa (n, kvk) Sannindi; sannleikskorn. „Það er engin tilhæfa í þessu slúðri“!
Tilhæfulaust (l) Ósatt; uppspuni. „Þetta er tilhæfulaust með öllu“!
Tilhæfulítið (l) Lítil sannindi í; hefur við lítið að styðjast. „Ég held að þetta sé fremur tilhæfulítið“.
Tilhöggvinn (l) Sem búið er að laga til með t.d. öxi. „Sperrufóturinn var tilhöggvinn svo hann félli í grópina“.
Tilhögun (n, kvk) Fyrirkomulag. „Við ákveðum nánari tilhögun þegar á staðinn er komið“.
Tiljafna (s) Bera saman; gera jafnt. „Ég tiljafna því ekki, hvað þetta kaffi er miklu betra en hitt skólpið“!
Tiljafnað (l) Gert jafnt öðru. „Þessu tvennu verður ekki tiljafnað“. Sjá langt tiljafnað.
Tilkall (n, hk) Krafa; heimting. Sjá gera tilkall til.
Tilkalla (s) Fá/kalla til; sækja. „Nú má tilkalla réttarstjóra; að skera úr um markið“.
Tilkallaður (l) Hafa löngun/köllun til. Einkum í orðtakinu margir eru tilkallaðir en fáir útvaldir.
Tilkenning (n, kvk) A. Tilfinning; aðkenning (almennt). „Mér finnst ég vera að fá einhverjar tilkenningar að þessari árans pest“. B. Sjóveikitilfinning. „Ertu með einhverja tilkenningu“?
Tilkenningarlaus (l) Laus við tilfinningu/aðkenningu/sjóveiki/ógleði. „Ég er alveg tilkenningarlaus orðinn“.
Tilkeyra (s) Nota vél undir litlu álagi meðan hún er ný. „Hann er enn að tilkeyra nýju vélina í bátnum“.
Tilkippilegur (l) Tilbúinn/reiðubúinn til; til í. „Værir þú ekki tilkippilegur að hjálpa mér örlítið við þetta“.
Tilknúinn (l) Neyddur; skyldugur. „Hann fann sig tilknúinn að gera við þetta athugasemdir“.
Tilkoma (n, kvk) Koma; aðkoma; birting. „Hér er eiginlega þörf á tilkomu fagmanns“.
Tilkominn (l) Orðinn; til stofnaður. „Þessi aurspýja er nýlega tilkomin á þessum stað“.
Tilkomulaus / Tilkkomulítill (l) Ekki áhrifamikill/áberandi. „Heldur þótti mér borgin tilkomulítill staður“.
Tilkomumikill (l) Tignarlegur; mikilfenglegur; aðdáunarverður. „Tilkomumikið er að sitja uppi í hlíðinni ofan Helluvogs í miklu vestanbrimi og hlusta á gnýinn og finna titringinn er brimaldan skellur inn í hellinn og myndar þar lofttappa sem sprengir báruna til baka á móti þeirri næstu“ (HÖ; Fjaran).
Tilkosta (s) Eyða; kosta til. „Ég ætla ekki að tilkosta miklu í svona ónýti“.
Tilkostnaður (n, kk) Kostnaður; fé sem lagt er í eitthvað.
Tilkynna (s) Upplýsa; láta vita af. „Hann hefur ekki tilkynnt mér um þetta“.
Tillag / Tillegg (n, hk) Framlag; árgjald; greiðsla. „Enn vantar nokkur tillög til félagsins á þessu ári“.
Tillaga (n, kvk) Uppástunga; ráðgjöf.
Tilleiðanlegur / Tilkippilegur (l) Til í; fáanlegur/viljugur til; fellst á. „Hann sagðist ekki geta komið með í ferðina, en að kannski yrði hann tilleiðanlegur með að lána okkur bílinn“. „Vittu nú hvort hann sé tilleiðanlegur að hjálpa þér við þetta“.
Tillit (n, hk) Augnaráð. „Ekki leist mér vel á tillitið sem ég fékk hjá honum“.
Tillitslaus (l) Skeytingarlaus; tekur ekki mið af óskum/þörfum annarra. „Skelfilega er hann tillitslaus“.
Tillitsleysi (n, hk) Það að vera tillitslaus/skeytingarlaus um aðra. „Þetta er helsti mikið tillitsleysi“.
Tillitssamur (l) Nærgætinn; skilningsríkur.
Tillíka (ao) Jafn; til jafns; álíka; viðlíka; sama. Sjá láta sér vel tillíka.
Tillögugóður (l) Leggur gott til mála; kemur með góðar /skynsamlegar tillögur. „Hann er oft tillögugóður“.
Tilmæli (n, hk, fto) Beiðni; það sem mælst er til/ beðið er um. „Þetta voru hans eindregnu tilmæli“.
Tilnefna (s) Velja; nefna til; útnefna. „Hann er tilnefndur í stjórn að hálfu deildarinnar“. „Hreppsnefndin varð vel við og tilnefndi yfirskoðunarmenn Ívar Halldórsson og Magnús Sveinsson“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943).
Tilneyddur (l) Þvingaður; neyddur. „Ég geri þetta ekki nema tilneyddur“.
Tilpassandi / Til passandi (l/ orðtak) Hæfilegt; sem fellur/passar við. „Ég fann bolta og tilpassandi ró“. „Úlpan var dálítið skítun, en hún var líka til passandi við gauðrifnar buxurnar“.
Tilraun (n, kvk) A. Það sem prófað/reynt er. „Ég gerði tilraun til að útskýra þetta fyrir honum“. B. Prófun. Strax í fyrstu tilraun varð ljóst að hverfillinn virkaði ágætlega“.
Tilreiddur (l) Framreiddur; tilhafður. „Ansi ertu nú illa tilreiddur í tauinu drengur“!
Tilreykja (s) Um reykjarpípu; reykja í nokkur skipti, þar til horfinn er mesti keimurinn af smíðaefninu.
Tilreynt (l) Reynt; prófað. „Ég veit ekki hvort þetta gagnast; það er ekki mikið tilreynt ennþá“.
Tilræði (n, hk) Alvarleg/lúaleg árás; árás úr launsátri.
Tilsegja (s) Leiðbeina; kenna. „Ég hef verið að tilsegja þeim aðeins í eðlisfræðinni“.
Tilsetja (s) Gera að skilyrði; gera kröfu um. „Ég greiði auðvitað það sem þú tilsetur fyrir þetta“.
Tilsettur (l) Tilgreindur; tiltekinn. „Gekk ferðin að óskum og vorum við mætt á tilsettum tíma í skólann“ (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).
Tilsíðst (ao) Að lokum; á endanum. „Tilsíðst tókst okkur að ná öllu fénu í hús“.
Tilsjón (n, kvk) Möguleiki; von; greining. „Það er ekki nokkur tilsjón að leggja uppað hleininni núna“! Þessi notkun orðsins virðist vera staðbundin vestra; dæmi orðabókar merkja „eftirlit“ eða „umsjón“.
Tilskipa (s) Gefa fyrirmæli; ákveða.
Tilskipun (n, kvk) Fyrirskipun; reglugerð; ákvörðun yfirvalds.
Tilskorinn (l) Skorinn út/til; klipptur út.
Tilskrif (n, hk, fto) Bréf sem ætlað er einhverjum; sendibréf; nóta. „Hér varstu að fá tilskrif“.
Tilskrif (n, hk, fto) Sendibréf; ritaður miði sem ætlaður er öðrum til lesturs; tölvubréf. „Ekki veit ég hvort hann verður hrifinn af þessum tilskrifum, en ég segi nú bara mína meiningu hreint út“!
Tilslökun (n, kvk) Eftirgjöf; linun. „Hann fékk enga tilslökun á þessum erfiðu skilmálum“.
Tilsniðinn (l) Passandi; hæfilegur; tilbúinn. „Þessi plata er alveg eins og tilsniðin til að loka gatinu“.
Tilspara (s) Spara; knífa; sýna aðhald. „Ekkert var tilsparað í íburðinum“.
Tilsvona / Tisona (ao) Þannig; svo. „Það er nú tisona með hann; þetta er ekkert nema sérviskan“! Notkun á þessum orðum var mismunandi mili manna og/eða milli tilefna hjá sömu manneskju. Meðfram voru notuð sisona og til svona.
Tilstand / Tilstáelsi (n, hk) Uppákoma; hátíð; nýbreytni; fyrirhöfn. „Ég verð ekki með neitt tilstand á afmælisdaginn“. „Það verður víst eitthvað tilstáelsi í tilefni af þessu“.
Tilstilli / Tilstuðlan (n, hk) Atbeini. „Það var ekki síst fyrir hans tilstilli að málið náðist í höfn“.
Tilstyrkur (n, kk) Styrkur; stuðningur. „Með tilstyrk þeirra tókst mér að standa við greiðsluna“.
Tilsvör (n, hk) Andsvör; svör. „Karlinn gat verið alveg kostulegur í tilsvörum, og snöggur upp á lagið“.
Tilsvarandi (l) Samsvarandi; jafngilt. „Ég veit ekki um tilsvarandi hávaða í nokkurri annarri ætt“
Tilsýndar (ao) Að sjá úr fjarlægð/utanífrá; ásýndar. „Tilsýndar er Undirhlíðarnefið eins og tröllkarlsandlit“.
Tilsögn (n, kvk) Leiðbeining; kennsla. „Hann veitti mér tilsögn í algebrunni“. Sjá taka tilsögn.
Tiltaka (s) Tilgreina; velja; útnefna. Hann tiltók engan sérstakan stað þegar hann leyfði þeim að tjalda“.
Tiltakanlega (ao) Sérlega; mjög; svo eftir er tekið. „Þetta var nú ekki tiltakanlega erfitt“.
Tiltal (n, hk) Skammir; ávítur. „Hann fékk tiltal hjá sýslumanni fyrir brotið“.
Tiltekt (n, kvk) A. Hreinsun/uppröðun í rými; förgun/uppröðun hluta. „Ég fór í tiltektir í geymslunni“. B. Framkvæmdir; gerðir. „Mér er ekkert gefið um svona tiltektir á minni jörð í leyfisleysi“.
Tiltektarhugleiðingar (n, kvk, fto) Áætlanir/ráðagerð um tiltekt. „Ég held að maður fresti öllum tiltektarhugleiðingum meðan hann rignir; það er ekki hægt að bera neitt út“.
Tiltektarsamur (l) A. Uppátækjasamur; framkvæmdasamur í óþökk annarra. „Þeim þykir hann víst full tiltektarsamaur í vélakaupum fyrir fyrirtækið“. B. Fyrtinn; lætur margt fara í taugar/skap; smámunasamur. Sú notkun orðsins heyrðist vart vestra, meðan fyrri notkunin var hin almenna.
Tiltelgdur (l) Tálgaður/telgdur til; útskorinn. „Í gatið var fellt vandlega tiltelgt spons“.
Tiltrú (n, kvk) Traust; trúnaður. „Ég hef fremur litla tiltrú á þessari bíldruslu; að hann komist yfir hálsinn“. „Þeir (drykkjumenn) missa alla löngun til þess að standa í skilum við aðra, það sem þeim ber; og missa þar af leiðandi tiltrú í mannfélaginu“ (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938).
Tiltrúandi (l) Trúandi til; líklegur til; gæti gert. „Hafðu auga með hundinum; honum væri tiltrúandi að hlaupa í féð ef það kemur nærri honum“.
Tiltæki (n, hk) Aðgerð; verknaður; framtak. „Þeir fengu óbotnandi skammir fyrir tiltækið“.
Tiltækilegur / Tiltækur (l) Í handraðanum; nærri. „Láttu skærin á sinn stað svo þau séu mér tiltækileg í næsta skipti“. „Úr síðustu róðrunum var steinbíturinn oftst saltaður; bæði vegna þess að þannig var hann tiltækilegri til flutnings, og eins var hann hinn ágætasti soðfiskur, sem heimilunum var kærkominn“ (KJK; Kollsvíkurver).
Tiltök (n, hk, fto) Möguleikar; gerlegt. „Rutt var mestu af saltinu og haldið undan, því ekki voru tiltök að halda áfram á móti veðri“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003). „Þórður kvaðst hafa þurft að ná í símstöðina á Patreksfirði gegnum talstöð þar sem ekki voru tiltök, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að fá stöðina til þess að svara“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Tiltökumál (n, hk) Mikið atriði; stórmál. „Ekki þótti sérstakt tiltökumál fyrir fullfrískan karlmann að leggja á bakið fimmtíu kílóa byrði í slíkum ferðum“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Tiltölulega (ao) Nokkuð mikið; í samanburði; í sjálfu sér. „Eftir tiltölulega skamma viðdvöl héldu þeir heimleiðis að Látrum“ (ÖG; Þokuróður).
Tilurð (n, kvk) Sköpun; gerð; upphaf. „Enginn veit nú um tilurð þessara sagna“.
Tilvalið (l) Kjörið; gráupplagt; vel til fundið. „Ég held að það væri tilvalið að nýta veðrið og fara í róður“.
Tilvera / Tilvist (n, kvk) Það að vera til.
Tilverknaður (k, kk) Aðgerð; verknaður; atbeini. „Fyrir hans tilverknað tókst að ljúka þessu fyrir dimmingu“.
Tilveruréttur (n, kk) Rétturinn til að lifa/vera til; réttur á sér. „Svona illyrmi eiga sér engan tilverurétt“!
Tilvik (n, hk) Atvik; atburður. „Gerð var undantekning í þessu tilviki“.
Tilviljun (n, kvk) Hending; það sem skeður/ vill til.
Tilvinnandi (l) Borgar sig að gera; þess virði að ná. „Það er varla tilvinnandi að sækja þessi tvö egg“.
Tilvitnun (n, kvk) Það sem orðrétt er haft eftir einhverjum/ einhverri heimild.
Tilvísun (n, kvk) Það að vísa til; ábending. „Eftir hans tilvísun gekk vel að finna grenið“.
Tilvonandi (l) Væntanlegur; verðandi.
Tilþrif (n, hk, fto) Kraftur; mikill atgangur; átök. „Hann hóf moksturinn með miklum tilþrifum“.
Tilþrifamikill (l) Fyrirferðamikill; atorkusamur; handóður. „Nú hefur hann verið helsti tilþrifamikill“.!
Tilætlaður (l) Sá sem til er ætlast; væntur. „Oftast bar þetta tilætlaðan árangur, og kom þá gamla konan með eitthvað gott í svuntuvasa sínum og gaf okkur“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Tilætlun (n, kvk) Fyrirætlun; áætlun; meining. „Tilætlunin var sú að komast þetta í einum áfanga“.
Tilætlunarsemi (n, kvk) Ofætlan; þegar ætlast er til of mikils. „Það er nokkuð mikil tilætlunaremi ef þú heldur að ég ætli að þrífa upp eftir þig skítinn“!
Timbraður (l) A. Smíðaður úr timbri/viði. B. Líkingamál; með hausverk eftir víndrykkju.
Timbur (n, hk) Unninn/niðursniðinn viður sem notaður er til smíða.
Timburbotn (n, kk) Botn úr timbri. „Inni (í búðinni) var slegið upp rúmum með timburbotnum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Timburplanki (n, kk) „Timburplankar voru lagðir í braut upp á kambinn, og eftir þeirri braut var kassinn síðan dreginn með venjulegu bátaspili og látinn rúlla á sverum rörbútum sem lagðir voru þvert á plankabrautina“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Timburrétt (n, kvk) Fjárrétt byggð úr timbri. „Guðbjartur á Láganúpi hlóð, með aðstoð sona sinna, allmikla fjárrétt á Brunnsbrekku; neðanvið Strýtustein. Neðantil við hana byggði Össur sonur hans tilburrétt sem notuð var meðan fjárbúskapur var á Láganúpi. Sama fyrirkomulag var í réttinni við Tröð í Kollsvík; steinrétt með timburrétt framanvið. Í báðum réttum voru gerðir dilkar til að draga í sláturlömb, og rennur til að setja þau á fjárflutningabíl“.
Timburverk (n, hk) Smíði úr timbri.
Tina (s) A. Smíða/lóða með tini. B. Snúa/riða höfði í sífellu til og frá og ósjálfrátt. Þjoðtrúin útskýrir þetta þannig að ef ólétt kona horfir á bragandi norðurljós muni barninu hætta til að tina.
Tinda hrífu (orðtak) Setja tinda í hrífuhaus.
Tindabykkja / Tindaskata (n, kvk) Raja radiata; lóskata; lótaska; lítil skötutegund, sem algeng er kringum allt land. Verður oft um 40-70 cm að lengd með stirtlunni/halanum. Tígullaga eins og stórskata; með augu á efra borði en munn að neðanverðu. Nafnið hefur hún af göddum/tindum á efri hliðinni. Lifir á 20-1000 m dýpi; á grunnmiðum á sumrin, einkum vestanlands, en heldur á djúpmið undir vetur. Kemur iðulega á færi og línu og er ágætur matfiskur. Helsta fæða hennar er ormar, krabbadýr, skelfiskur og smákrabbar. „Alltaf fékkst eitthvað af þeirri skötu sem tindabykkja heitir.. Fyrr á tímum var hún hert og eingöngu hirt sem skepnfóður“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). Nú er tindaskata talinn góður matfiskur og seld á mörkuðum.
Tindafátæk / Tindalaus / Tindasnauð (l) Um hrífu; farin að tapa tindum. „Ansi er þessi hrífa orðin tindafátæk“! „Ætlar þú að bata þessari tindasnauðu hrífu eitthvað til“?
Tindasmíði (n, kvk) Smíði hrífutinda (sjá þar).
Tindáti (n, kk) Lítil líkneskja hermanns, gerð úr tini og notuð sem leikfang. Fyrrum var leikur að tindátum vinsæll, einkum meðal drengja eftir stríð og í þéttbýli; allt þar til plastleikföng leystu þá af hólmi.
Tindilfótur (n, kk) Gæluheiti á manni sem er fljótur að hlaupa, eða barni.
Tindilfættur (l) A. Skrefstuttur; hraðgengur. B. Oftar notað í líkingum; viljugur; fljótur til. „Þeir eru ekki alltaf tildilfættir að efna kosningaloforðin þegar þeir eru komnir á þing, blessaðir“.
Tindós (n, kvk) Blikkdós.
Tindra (s) Sindra; glitra; glampa á. „Fátt er meira töfrandi en það að sjá tunglsljósið tindra á svelli þaktri Kollsvíkinni í froststillum og fullu tungli“.
Tindur (n, kk) A. Efsti toppur á fjalli. B. Gaddur, t.d. hrífutindur; tætlutindur; greiðutindur.
Tinna (n, kvk) Hörð steintegund/steind, öðru nafni hvítt kvarz eða kísill SiO . Mikið notuð á steinöld til áhaldagerðar, og síðar til að slá neista til að tendra eld eða hleypa skoti úr byssu. Tinna finnst ekki í jörð í Kollsvík en berst á fjörur sem flökkusteinn frá Grænlandi. Hraftinna finnst þar ekki heldur en hún er allt annars eðlis; dulkornótt svart og gljáandi afbrigði líparíts.
Tinnusvartur (l) Svartur eins og hrafntinna.
Tipla (s) Ganga tíðum og smáum léttum skrefum, gjarnan á tánum.
Tipla á tánum (orðtak) Ganga á tám og framhluta iljar; læðast. „Mér fannst kalt að vera berfættur í snjónum og tiplaði því á tánum þegar ég hljóp heim í hús“. „Hann tiplaði á tánum til að hún vaknaði síður“.
Tippi (n, hk) Sjá typpi.
Tippilsinna (l) Smámunasamur; fyrirtektarsamur. „Maður er kannski óþarflega tippilsinna í þessum efnum“.
Tipptopp (l) Síðari tíma lýsingarorð; í fullkomnu lagi; fullkominn.
Tirja (n, kvk) Drusla; ræfill. Oftast notað um föt/ fatatirjur/fatatilur. „Það þyrfti að þvo þessar tirjur“.
Tirjulegur (l) Rytjulegur; illa til fara; tætingslegur. „Ég get ómögulega sest að borðum svona tirjulegur“.
Tissi (n, kk) Tippi; tittur; nabbi. „Það er tissi þarna utan á vélinni til að drepa á henni“. Orðið finnst ekki í orðabókum.
Titilblað (n, hk) Fremsta ritað blað í riti, sem titill og fleiri upplýsingar eru prentaðar/skrifaðar á.
Titill (n, kk) A. Meginheiti, t.d. ritverks. B. Gráða/virðingarheiti manneskju.
Titla (s) Nefna að titli/virðingarheiti. „Hann er titlaður hreppstjóri þar í sveit“.
Titlatíningur (n, kk) Niðrandi heiti á titlum/virðingarheitum. „Ég nenni ekki að vera með einhvern titlatíning í svona bréfi. Það kemur bara illa heim og saman við innihaldið“.
Titra (s) Skjálfa; nötra.
Titrandi (l) Skjálfandi; nötrandi. „Tíkin virtist ómeidd, en var titrandi af hræðslu eftir þetta“.
Titringur (n, kk) Skjálfti; ið. „Einhver titringur fannst mér koma á færið; kannski eitthver oddsnerta“.
Titta (s) Negla með litlum nöglum/saum/tittum. „Það þarf að titta pappann á, áður en þakjárnið kemur“.
Tittaslítingur (n, kk) Um veiðiskap; sarg; dræm veiði, þar sem mestmegnis fæst smáfiskur. „Ég nenni ekki að hanga lengur í svona tittaslítingi; við skulum hafa uppi og keyra aðeins dýpra“.
Tittlingaskítur (n, kk) A. Óvera; það sem er mjög smátt/óverulegt; þaraþyrsklingur. „Ég nenni ekki að eiga við svona tittlingaskít; við skulum kippa aðeins dýpra“. B. Óvirðulegt tal; skætingur. „Svona tittlingaskítur er nú ekki svaraverður“!
Tittlingur (n, kk) A. Lítill fugl, t.d. snjótittilingur; þúfutittlingur. B. Lítill fiskur/þorskur; þyrsklingur. Í gömlum heimildum er Þyrsklingahryggur norðaní Blakk nefndur Tittlingahryggur. C. Getnaðarlimur; reður.
Tittur (n, kk) A. Lítil spýta; pinni. „Til að festa selskinnin niður í völlinn voru tálgaðir tittir úr völdum viði... “ (Magnús á Skógi; Árb.Barð; 1959-67). B. Lítill fiskur; fisktittur. „Blessaður hentu þessum titti í sjóinn“. C. Lítill nagli/saumur. D. Gæluheiti á smávöxnum manni/dreng.
Tíbrá (n, kvk) Hitabrot ljósgeisla við jörðu, sem veldur sjónbjögun; af svipuðum toga og hillingar. Líklega hefur orðið upprunalega verið „tíðbrá“, enda var tíbrá talin merki um batnandi tíð.
Tíð (n, kk) Í einstaka tilvikum er orðið í karlkyni, einkum í orðtakinu „í þann tíð“. Líklega dönsk áhrif.
Tíð (n, kvk) A. Tíðarfar; veðurlag yfir tímabil. „Tíðin hefur verið allgóð það sem af er sumri“. B. Tímabil sem einkennist af einhverju tilgreindu. „Í Kollsvík stóð hálfkirkja í kaþólskri tíð“.
Tíð til sjóarins (orðtak) Gæftir til róðra; veðurlag varðandi sjósókn. Oftast með lýsingarorði fyrir framan. „Sumarið var þokkalegt framanaf, og góð tíð til sjóarins“. „Hvernig hefur tíðin verið til sjóarins“?
Tíðarandi (n, kk) Siðir og mannlíf hvers tíma; bragur samfélags.
Tíðarfar (n, hk) Meðaltal veðurs yfir langt tímabil. „Tíðarfar var mjög erfitt í janúar..“ (ÖG í Mbl, maí 1983) „Tíðarfar ókyrrðist venjulega þegar leið að hausti og lentu menn því oft í misjöfnum veðrum“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG). „Mér finnst hann vera að ókyrrast dálítið í tíðinni“.
Tíðindalaust (l) Engar fréttir; ekkert að frétta. „Héðan er allt tíðindalaust“.
Tíðindalítið (l) Fréttalétt; fréttalítið; lítið að frétta. „Héðan er nú bara allt fremur tíðindalítið“.
Tíðindasnautt (l) Lítið að gerast/fréttnæmt. „Það er alveg tíðindasnautt hér á bæ; þú ert með allar fréttitnar“.
Tíðindavænt (l) Tíðinda að vænta; viðburðaríkt. „Það er óþarfi að spyrja um afla; það er nú ekki tíðindavænt í þessari ördeyðu“!
Tíðindi (n, hk, fto) Fréttir; nýjungar.
Tíðir (n, kvk, fto) A. Bænasöngur/guðþjónusta. B. Reglulegar blæðingar kvenna. C. Beygingarmáti sagnorða.
Tíðka (s) Iðka; stunda. „Þá var líka tíðkað að fara í heimsóknir á aðra bæi; einnig að koma saman og fara í boltaleik og útilegumannaleik þegar fór að dimma“ (IG; Æskuminningar).
Tíðkast (s) Vera til siðs/vanalegt. „Þótt ekki tíðkuðust jólagjafir í mínu ungdæmi, var það svo margt sem gladdi á jólunum“ (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). „Svo tíðkaðist það á þessu vori að ýmsir unglingar fóru í laugardagsróður“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „…en læs var ég þegar ég fór að heiman. Það var frekar snemma eftir því sem þá tíðkaðist því kennt var á Rana og því stutt að fara“ (IG; Æskuminningar).
Tíðkast (þau) nú breiðu spjótin (orðatiltæki) Viðhaft af þeim sem þykir annar fara fram með offorsi. Kemur fyrst fyrir í Grettis sögu.
Tíðni (s) Hraði endurtekninga. Þegar um sveiflur er að ræða er miðað við endurtekningu hverrar sveiflu, t.d. í rafsegulbylgjum, riðstraumi, haföldu eða sjávarföllum.
Tíðrætt (l) Oft rætt/talað um. „Ýmsum hefur orðið tíðrætt um uppruna örnefna“. Sjá verða tíðrætt um.
Tíðum (ao) Oft; margsinnis. „Þetta bar oft og tíðum á góma í okkar spjalli“.
Tíður (l) A. Sem oft gerist; endurtekinn; algengur; ör. „Hann var tíður gestur á heimilinu“. „Hann pataði ótt og títt og var alveg óðamála“. „Einhverjar kindur eru tíðast þarna frammi á eyrunum“. B. Dæll; vinsæll; kær. Sbr gera sér títt við einhvern. C. Fréttnæmur. „Er nokkuð títt“?
Tíeyringur (n, kk) Tíu aura peningur, sem í gildi er þegar króna er nægilega verðmikil.
Tígulega (ao) Glæsilega; tignarlega. „Hann tók tilhlaup og sveif tígulega… ofaní miðjan skurðinn“.
Tígulegur (l) Glæsilegur; tignarlegur. „Hún var þokkafull og tíguleg í útliti“.
Tík (n, kvk) A. Kvenkyns hundur. B. Líkingamál; niðrandi heiti á kvenmanni, vél eða öðru kvenkyns.
Tíkarafmán / Tíkarforsmán / Tíkargrey / Tíkarskarn (n, hk) Gæluorð um hundtík. „Hvert er nú tíkarafmánin að fara“? „Taktu nú skóinn af tíkarforsmáninni“! „Farðu með þetta út í Skurðenda, í kjaftinn á tíkarskarninu“.
Tíkall (n, kk) Tíu króna peningur. Á tíu króna seðli var mannsmynd, og af því er líkingin dregin.
Tíkargjóla / Tíkargola (n, kvk) Dálítill vindur. „Þetta voru nú engin aftök; bara rétt tíkargjóla“.
Tíkarglæta (n, kvk) Lítil birta; ljósskíma. „Ég ætla að gá hvort ég sé þessar kindur meðan enn er einhver tíkarglæta“.
Tíkarkvikindi (n, hk) Gæluorð um tík. „Jæja, tíkarkvikindið var nú með mér, og þegar við komum út á miðja Skápadalshlíð þá fer hún að þvælast fyrir fótunum á mér...“ (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn Guðmundar Jónssonar).
Tíkarlega lítið (orðtak) Skammarlega lítið. „Það hafðist tíkarlega lítið upp úr þessum róðri“
Tíkarlegur (l) Óþverralegur; lítilmótlegur; skammarlegur. „Mér finnst hún ansi tíkarleg við frænku sína“!
Tíkarleki / Tíkarögn (n, kk/kvk) Skammarlega lítið magn af einhverju. „Ég náði einhverjum tíkarleka úr tvævetlunni, en það er augljóst að hún mjólkar lambinu ekki nægilega“. „Þú mættir nú gefa mér meira af harðfiskinum en þessa tíkarögn“!
Tíma (s) Fá sig til; leggja í. „Ég tími varla að kaupa þetta á svona háu verði“. „Hann átti kvígu sem var mikið kýrefni, sem hann tímdi helst ekki að lóga...“ (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn Guðmundar Jónssonar). Merkti upphaflega að „fórna tíma fyrir“; „eyða tíma í“.
Tímabil (n, hk) Afmarkaður tími. „Á þessu tímabili var ekkert róið úr Kollsvík, nema af heimamönnum“.
Tímabundinn (l) Hefur lítinn tíma/ nauma tímaáætlun. „Ég er mjög tímabundinn. Ég þarf að komast á marga bæi í dag“. Notað vestra í allt annarri merkingu en algengt er annarsstaðar, sem er „til ákveðins tíma“.
Tímabært (l) Mátulegt/rétt í tíma. „Það er orðið tímabært að þú lærir að hnýta skóna á þig sjálfur drengur“.
Tímafrekur (l) Sem tekur mikinn tíma; seinlegur. „Það voru tímafrekar og óskaplega erfiðar ferðir“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Tímafrestur (n, kk) Nú almennt „frestur“, en notað í fullri lengd í Kollsvík til skamms tíma.
Tímahrak (n, hk) Tímaþröng, sjá þar. „Ég lenti í tímahraki og náði ekki að klára þetta“.
Tímalaus (l) Tímatæpur, sjá þar. „Flýttu þér, við erum að verða ansi tímalausir“! Í Kollsvík var orðið ekki notað um kýr sem ekki er með fangi; a.m.k. ekki í seinni tíð.
Tímaleysi (n, hk) Skortur á nægum tíma; hafa ekki ráðrúm til. „Þessu olli mestmegnis tímaleysi“.
Tímamót (n, hk, fto) Straumhvörf; það sem markar skil milli tímabila, oft vegna mikils viðburðar eða framfara. „Tilkoma véla í báta markaði tímamót í Kollsvíkurveri. Ekki einungis létti það alla sjósókn, þrátt fyrir að bátar yrðu þyngri í setningu; heldur varð fljótt ljóst að við þetta myndu bátar stækka svo að þeim yrði ekki haldið út frá stöðum sem byggju við hafnleysi“.
Tímanlega (l) A. Snemma; með fyrra fallinu. „Það var beitt í bjóð í landi um kvöldið og vaknað tímanlega, venjulega klukkan fjögur til fimm“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). B. Með nægum fyrirvara. „Þú þarft að láta þá vita tímanlega af þessu, svo þeir verði tilbúnir“. „Að loknum málsverði er lagst til svefns en vaknað tímanlega að morgni og tekið til starfa“ (PG; Veðmálið).
Tímanna tákn (orðtak) Vitnisburður um tíðaranda/menningu samtímans.
Tímans tönn (orðtak) Hrörnun sem verður með tímanum. „Tímans tönn hefur unnið verulega á öllum fyrri tíðar mannvirkjum í Kollsvík sem annarsstaðar.
Tímarit (n, hk) Blað/rit sem kemur út reglulega, en þó ekki notað um dagblað.
Tímarnir breytast og mennirnir með (orðatiltæki) Speki sem vísar til þess hve allt er breytingum háð, og hvernig fólk lagar sig að breyttum lífsháttum og siðum.
Tímarúm (n, hk) A. Ráðrúm; svigrúm; tímabil. „Ég þarf nokkuð tímarúm til að vinna að þessu“. B. Í seinni tíð notað um þá samfellu tíma og rýmis sem Albert Einstein tengdi með kenningum sínum.
Tímaröð (n, kvk) Röðun viðburða eftir tímasetningu þeirra. „Frásögnin er ekki í réttri tímaröð“.
Tímasetja (s) Setja á réttan tíma. „Ekki hefur tekist að tímasetja strand Kolls uppá ár“.
Tímaskekkja (n, kvk) Það sem ekki er talið viðeigandi á þeim tíma sem það gerist. „Þessi fornaldarvinnubrögð taldi hann vera algera tímaskekkju“.
Tímaskortur (n, hk) Ekki nægur tími; útideyfa. „Tímaskortur olli því að verkið kláraðist ekki þann daginn“.
Tímaskyn (n, hk) Tilfinning fyrir réttum tíma. „Það er staðreynd að tímaskyn manns sem er vanur að geta litið á klukku eða úr er mun lakara en hins sem ekki hefur þau tól nærindis“.
Tímasóun / Tímaeyðsla (n, kvk) Það að fara illa með tímann/ nýta tímann ekki/illa. „Þetta snurfus er bara tímaeyðsla; þessi þarablöð skerast úr netinu af sjálfu sér“.
Tímasparnaður (n, kk) Það sem sparar manni tíma. „Það er mikill tímasparnaður að þessum vinnubrögðum“.
Tímaspurning / Tímaspursmál (n, kvk) Spurning um tímasetningu. „Það er bara tímaspurning hvenær þetta gerist“.
Tímatal hefur ávallt verið mönnum afar mikilvægt, ekki síður fyrr á öldum en nú. Bæði þurfti að mæla tíma árs til að unnt væri að undirbúa og hefja hin ýmsu búverk og útveg og halda réttum föstum og messudögum, en ekki var síður áríðandi að halda réttum takti í daglegum verkum og málum og vita hvenær heilagt væri orðið á helgum þannig að ekki mætti vinna. Fyrir daga úra og klukkna var tími hvers dags einkum mældur af stöðu sólar og þá gjarnan miðað við föst einkenni í landslagsbrúninni, svokölluð eyktamörk. Mýmörg örnefni bera vitni um þessar fornu tímamælingar þó bærinn sem við þau miðaði sé e.t.v. löngu fallinn úr byggð. Í Kollsvík er t.d. Dagmálaholt; Hádegisvarða og Nónvarða, og á Hvallátrum Miðmundahæð. Hver eykt var 3 klst, en þær voru; miðnætti, ótta, miðmorgunn, dagmál, hádegi, nón, miðaftann og náttmál. Eyktarmark táknar ekki upphaf eyktarinnar, heldur hvenær hún er hálfuð, eins og séra Björn Halldórsson benti á: “Hefur hver þessi eykt í sér þrjár stundir, og eins merkir eyktarmark í sér heilar þrjár stundir en ekki punkt tímans eður afmarkað sinn“ (BH; Atli). Í grófari dráttum var sólarhringnum skipt upp í tvö dægur; dag og nótt, sem varði 12 tíma hvort.
Þeir sem hafa verið klukkulausir um tíma kannast við að hin innbyggða klukka líkamans er furðu nákvæm. Menn voru því nokkuð naskir á tímann þó ekki sæi til sólar. Taka mátti einnig nokkuð mið af tungli og stjörnum ef til þeirra sást, svo og af sjóarföllum: „Aðfall sjóar eru tvær eyktir frekar (rúmar); útfall eins langt. Nú eru 8 eyktir í degi og nóttu; eru þá 2 flóð og 2 fjörur í einum sólarhring. Þá er altíð fjara við sjó nær tungl er í suðri eða norðri, og líka er flóð nær tungl er í austri eða vestri“ (BH; Atli). Þá eru dýr stundum ágætt klukkuígildi; t.d. mæta sumar kýr á stöðul á sínum tíma til mjalta, og fé að húsi til gjafa. Á sama hátt dóu menn ekki ráðalausir meðan dagatöl voru óþekkt. Þá notuðu sumir fingrarím, sem var forn aðferð við að telja tímamót og merkisdaga á hnúum, liðum og kjúkum handanna.
Margir voru fróðir um sögu tímatalsins. Júlíanska tímatalið er kennt við Júlíus Sesar sem tók það upp í Rómaveldi árið 46 f. Kr. Árið hófst samkvæmt því í mars og stóð í 365 daga, með hlaupári 4. hvert ár. Hlaupársdagur nægði þó ekki til að jafna skekkjuna. Árið 1582 skipaði Gregoríus páfi að felldir skyldu niður 10 dagar úr tímatalinu. Þá urðu jafndægur og páskar aftur á réttum dögum. Þetta nýja tímatal; Gregoríanska tímatalið, var tekið upp hérlendis árið 1700, en hefur enn ekki verið innleitt í sumum löndum s.s. Rússlandi.
Árinu skiptu menn í mánuði, en einnig í misseri; sumar og vetur. Venja var að mæla aldur fremur í vetrum en árum, og hefur sá siður haldist til þessa dags varðandi sauðfé. Þar sem misseratímatalið miðaðist við fjórar sjödaga vikur í sex þrítugnættum mánuðum varð skekkja miðað við raunverulegar árstíðir. Hún var löguð með því að bæta við einni viku; sumarauka/lagningarviku, á nokkurra ára fresti, ásamt aukanóttum. Frumkvæði að því átti fræðimaðurinn Þorsteinn surtur, um miðja 10. öld. Misserunum skiptu menn í vikur. Lengi vel var almennara að tala um þessa eða hina vikuna í vetri eða sumri, heldur en mánaðardag. Var svo í munni gamals fólks langt frameftir 20. öld. Þannig skyldi aðalgangnadagur allajafna vera mánudagurinn í 22. viku sumars í V-Barðastr.sýslu. Fardagar nefndust fjórir fyrstu dagarnir í 7. viku sumars, en við þá var miðaður ráðningartími hjúa o.fl. Miðsumarsdagur/heyannabyrjun er sunnudagurinn í 14. viku sumars, en miðsvetrardagur/bóndadagur er föstudagurinn í 13. viku vetrar.
Gömlu íslensku mánaðarheitin voru: Þorri (frá föstudegi í 13. viku vetrar, kringum 20. janúar); Góa/Gói (frá sunnudegi í 18.v.vetrar; kringum 20. febr); Einmánuður (frá þriðjd í 22.v.v; um 23 mars); Harpa (frá fimmtud eftir 18.apr); Eggtíð/Stekktíð/Skerpla (frá laugard í d.v. sumars, um 22. maí); Sólmánuður (frá mánud. í 9. v.s.; um 22. júní); Heyannir (frá sunnud eftir aukanætur, um 26. júlí); Tvímánuður (frá þriðjud í 18.v.s.; um 25. ágúst); Haustmánuður; (frá fimmtud. í 23.v.s.; um 23. sept); Gormánuður (frá laugard. um 24. okt); Frermánuður/Ýlir (frá mánud. í 5.v.vetrar; um 24. nóv); Mörsugur (frá miðvd. í 9. v.v.; um 24. des). Sum þessara heita hafa ílenst lengur í málinu en önnur, t.d. verður Þorra minnst meðan þorrablót eru við líði. Sama er um hin fornu vikudagaheiti. Þau voru; Sunnudagur, Mánudagur, Týsdagur, Óðinsdagur, Þórsdagur, Frjádagur og Þvottadagur/Laugardagur. Forn goðaheiti þeirra urðu illa úti hérlendis í viðskiptum við hreinkristna málhreinsunarmenn; líklega fyrir aldamótin 1200, en sluppu betur í grannlöndunum.
Tímatæpur (l) Hefur knappan tíma; er tæpur með tíma. „Nú er ég að verða ansi tímatæpur“!
Tímaþjófur (n, kk) Það sem tekur tíma frá öðrum verkum. „Sjónvarpið er hinn mesti tímaþjófur“.
Tímaþröng (n, kvk) Þegar stuttur tími er til reiðu/eftir. „Við erum að lenda í tímaþröng með að komast fram“.
Tímgast (s) Dafna; blómgast; fjölga sér. „Minkurinn tímgast vel meðan veiðum er ekki sinnt“.
Tími (n, kk) A. Grundvallareiginleiki tilverunnar, sem veldur því að atburðir verða í samfellu. Hluti af rúminu og afstæður, eftir nýjustu kenningum. Tími er í huga manna reglulega afmarkaður og mældur með klukkum, dagatölum og öðru sem sameiginlegur skilningur ríkir um. B. Tímabil sem gjarnan er kennt við eitthvað einkennandi, t.d. forsögulegur tími. C. Stytting á orðinu kennslustund.
Tími til kominn (orðtak) Orðið tímabært; þarf að fara að framkvæma. „Nú finnst mér tiími til kominn að maður fari að koma sér í bælið“.
Tíminn græðir/læknar flest sár (orðatiltæki) Gagnsæ speki; einnig notuð í líkingum um andleg áföll.
Tímunum saman (orðtak) Langa stund; í langan tíma; í marga klukkutíma. „Í svona góðu veðri getur maður setið tímunum saman og horft á náttúruna og fuglalífið“.
Tína (n, kvk) A. Berjatína; sérstakt áhald með löngum samsíða pinnum; handfangi og safnpoka, til að tína krækiber og bláber. B. Prjónatína; sérstakur stokkur undir prjónadót. „Tínur voru til og notaðar undir hnykla og annað smádót. Þær voru gerðar úr þunnum fjölum sem voru sveigðar í aflangar öskjur, milli oka sem voru á endum tínanna. Lok voru smellt“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).
Tína (s) Taka upp; safna saman T.d. tína ber; hagalagaða; krækling, fjallagrös, egg, flær o.fl.
Tína uppí sig (orðtak) Tína ber og éta þau samstundis. „Hann var búinn að fylla og farinn að tína uppí sig“.
Tína utanaf sér fötin/spjarirnar / Tína utanaf sér (orðtök) Hátta sig; fara úr fötunum; fækka fötum. „Ég fann hvað ég var orðinn þreyttur þegar ég fór að tína utanaf mér spjarirnar“. „Farðu nú að tínu utanaf þér og koma þér í rúmið stubbur minn“.
Tína utaná sig spjarirnar (orðtak) Klæða sig; fara í föt; klæðast. „Þú þarft að fara að vakna og tína utaná þig spjarirnar ef þú ætlar að koma með í róður“!.
Tínast til (orðtak) Fást; fást í viðbót; finnast ; reitast til. „Það leit ekki glæsilega út með þetta orðasafn í byrjun, en það er mesta furða hvað tínist til þegar lagt er af stað“.
Tíningur (n, kk) Hrafl; samtíningur; samsafn. „Þetta orðasafn er tíningur úr ýmsum áttum“.
Tínupoki (n, kk) Poki sem tínt er í. Elsta notkun orðsins átti líklega við poka sem fjallagrös voru tínd í, en síðar var heitið notað um poka á berjatínu.
Tíra (s) Loga með litlu/daufu ljósi. „Það tírir enn á lugtinni“.
Tíra (n, kvk) A. Dauft/lítið ljós. „Þú getur nú varla lesið við þessa tíru“. B. Algengt hundsnafn, einkum ef hann hefur „ljós í rófu“, þ.e. ljósan enda á dökku skotti.
Tíróinn (l) Um bát; með ræðum/tollum fyrir tíu ræðara.
Tíræður (l) Um aldur; hundrað ára.
Tíska (n, kvk) Tíðarandi; siður. Einkum í því er lýtur að fatnaði eða útliti. „Er þessi ófögnuður virkilega í tísku núna“?! Orðstofninn er „tíð“, og orðið því „tíðska“; það sem viðgengst á hverri tíð. Sjá tolla í tískunni.
Tískutildur (n, hk) Tilhneyging/löngun sumra til að falla í hópinn/tíðarandann, hvað sem það kostar.
Títtnefndur (l) Margumræddur; sem oft heyrist nefndur. „Hann er títtnefndur í þessari umræðu“.
Tíund (n, kvk) Skattur sem lögleiddur var hérlendis 1096-7að forgöngu Gissurar Ísleifssonar Skálholtsbiskups og fyrir atbeina Sæmundar fróða og fleiri. Með tíundinni var fjárhagslegt sjálfstæði kirkjunnar eflt, en hún gerði öllum skylt að telja fram og virða eignir sínar á hreppssamkoum að hausti. Má til þess rekja virðingu jarða í hundruðum. Tíundin var þannig eignaskattur hérlendis, en erlendis kom hún síðar, og þá sem tekjuskattur. Allir yfir 16 ára aldri voru tíundarskyldir, ættu þeir yfir hálfu hundraði, þ.e. hálfu kúgildi, í eignum. Tíund af eign allt að fimm hundruðum rann óskipt til fátækra; svonefnd þurfamannatíund. Af meiri eignum var reiknuð tíund, þ.e. 10%, sem skiptist í fjóra hluta; biskupstíund; preststíund; kirkjutíund og fátækratíund/þurfamannatíund. Kirkju- og preststíund runnu til kirkjubænda, sem áttu kirkjurnar og stóðu undir kostnaði við helgihaldið. Tíund mátti greiða í öllum löglegum gjaldmiðli, þar með talið vaðmáliull, gærum, kvikfé, mat eða góðmálmum, og eftir að sjávarútvegur efldist á 14.öld varð fiskur einnig löglegur gjaldmiðill. Greiðslur í peningum þekktust vart fyrr en eftir siðaskipti. Tíundarskattur var felldur niður í áföngum frá 1877 til 1914, þegar önnur skattheimta kom í stað hans.
Tíunda (s) Um málefni/atriði; taka fram/nefna. „Ég var ekkert að tíunda það að við hefðum farið á höfðann“.
Tjald (n, hk) A. Dúkur sem hengdur er upp til skrauts eða fegrunar t.d. á vegg. Þannig var t.d. gjarnan siður fyrrum að tjalda veggi búða, s.s. verbúða til að gera þær vistlegri. B. Skýli úr dúk, sem haldið er uppi t.d. af súlum og hælað/stagað niður.
Tjalda (s) A. Um búnað íbúðar/verbúðar; þekja veggi með dúk/tjaldi. „ Moldargólf var í öllum búðunum, en ætíð þakið sandi; oftast ljósum. Eftir 1900 var farið að þilja veggina eða látið nægja að tjalda þá innan með striga“ (LK; Ísl. sjávarhættir II; frás. ÓETh og KJK).B. Reisa tjald til útilegu/íveru.
Tjalda til einnar nætur (orðtak) Vanda ekki til verka; gera til bráðabirgða. „Það þýðir lítið að tjalda til einnar nætur ef maður byrjar á þessu á annað borð“. Líkingin vísar til fyrirhafnar við að reisa tjald.
Tjalda því sem til er (orðtak) A. Um siglingu skips; sigla fullum seglum. B. Líkingamál; nota allt sem er fyrir hendi/til staðar. „Við leggjum hverja einustu netadruslu sem finnsr; það verður að tjalda því sem til er á meðan við hreinsum óþverrann úr hinum“.
Tjaldbúðir (n, kvk, fto) Þyrping tjalda. „Vegavinnumenn lágu við í tjaldbúðum“.
Tjaldbúi (n, kk) Sá sem býr í tjaldi.
Tjaldur (n, kk) Haematopus ostralegus. Vaðfugl af tjaldaætt og ættbálki vaðfugla. Algengur hérlendis, einkum við sjóinn, og víða við strendur norðvestanverðrar Evrópu; þjóðarfugl Færeyja. Tjaldur verður 40-45 cm að lengd og rúmlega hálft kíló að þyngd. Svartur að ofan og niður á bringu en hvítur undir; fætur rauðbleikir og gildir; goggur rauðgulur og langur; gumpur hvítur og augu rauð. Fæðan er mest kræklingur, kuðungar og önnur skeldýr sem þeir opna með sterkum goggnum; einnig skordýr og ormar. Á utanverðum Bökkunum í Kollsvík má iðulega finna mikið af nákuðung sem tjaldurinn hefur borið upp og kroppað innanúr. Hann verpur helst á þurrum stað t.d. í malarfjöru eða sandi; 3-4 eggjum. Tjaldurinn er farfugl að hluta, en margir fuglar halda þó kyrru fyrir við sjávarsíðuna yfir veturinn.
Tjalli (n, kk) Gæluheiti á breskum manni. Líklega afbökun á nafninu Charlie. Heitið var allmikið notað sem skammaryrði á tímum þorskastríðanna, en hefur síðan lítt heyrst.
Tjara (n, kvk) A. Svartbrúnn þykkur og slímkenndur vökvi; seigfljótandi við herbergishita. Var fyrrum unnin með þurreimingu á viði, einkum furu og greni. Koltjara er unnin með þurreiingu úr kolum. Tjara var mikið notuð áðurfyrr til tjörgunar báta, húsa og annars tréverks til að verja gegn fúa. Þannig voru líkleg flestir bátar tjargaðir í Kollsvíkurveri fyrr á tíð, þó nokkrir væru málaðir að hluta eða öllu leyti. Síðast var bátur tjargaður í Kollsvík kringum 1962, þegar Guðbjartur Guðbjartsson tjargaði Rutina í skemmunni á Grundum, rétt áður en hún var tekin ofan. B. Líkingamál; vitleysa; þvæla. „Þetta er bara tóm tjara“!
Tjarfura (n, kvk) Tegund furu sem stundum rekur á fjöru hérlendis. Mun vera trjátegundin Pinus rigida, eða pitch pine á ensku, sem vex á Atlantshafsströnd N-Ameríku. Notuð hér m.a. til bátasmíða.
Tjarga / Tjörubera (s) Bráða; bika. Bátar voru yfirleitt tjargaðir/bráðaðir fyrrum. „Á einmánuði, eða nokkru fyrir sumarmál, voru bátarnir búnir undir vertíðina; vor- og sumarróðra. Þeir voru vandlega hreinsaðir og búnir undir bikun eða málningu. allir voru þeir bikaðir/tjörubornir innan og sumir að mestu utan. Hástokkar, borðstokkar og slettulisti voru oftast málaðir, og stundum einnig eitt umfar. Aðrir voru málaðir að sjólínu og bikaðir eða málaðir í öðrum lit þar fyrir neðan. Enn aðrir voru málaðir í einum lit. Þar fyrir utan var útlit bátanna mjög sundurleitt“ (KJK; Kollsvíkurver). „Enn man ég eftir því þegar skemman við gamla Grundabæinn var enn uppistandandi, þó gafllaus væri orðin; að Guðbjartur afi var þar að bræða tjöru og tjarga Rutina. Tjöruna bræddi hann í hálfri netakúlu. Þetta hefur sennilega verið stuttu eftir 1960“ (VÖ).
Tjarnslétt (l) Um sjólag: Algerlega sjólaust. „Hann er tjarnsléttur í dag; skömm að því að fara ekki fram“.
Tjasl (n, hk) Óvönduð smíði/viðgerð; hrákasmíð. „Mér líkar illa svona bölvað tjasl“.
Tjasla (s) Lappa uppá; lagfæra til bráðabirgða. „Ég var þá með eftirlit með símanum og tjaslaði þessu upp til bráðabirgða“. (I.G. Sagt til vegar II).
Tjasla saman / Tjasla við (orðtak) Setja saman/ gera við til bráðabirgða; lappa uppá. „Ég reyni að tjasla við þetta svo það dugi“.
Tjá (s) A. Gera skiljanlegt; skýra frá; segja. „Ég ætla ekkert að tjá mig um þetta núna“. „Ég tjáði honum mína afstöðu í málinu“. Einnig þekkist þátíðin „téði“. B. Gagnast; tjónka; tjóa; stoða. „Það tjáir lítið að fást um það, úr því sem komið er“. „Ekki tjáir þetta slór! Við þurfum að drífa okkur af stað“.
Tjá og tundur (orðtak) Óreiða;drasl. „Neðan þilja var allt á tjá og tundri eftir ólagið“. Erfiðlega hefur gengið að finna rökrétta skýringu eða uppruna á orðtakinu. Séra Björn í Sauðlauksdal taldi að upprunalega hefði það átt við það að gera klárt fyrir gestamóttöku. Hafa uppi tjá (gestrisni) og kveikja í tundri (kertakveik). En Björn var e.t.v. ekki óskeikull um það fremur en Ranglát. Sjá á tjá og tundri.
Tjáir ekki að fást um það / Tjáir/þýðir ekki um það að rjá (orðtak) Tilgangslaust að ræða það. „Túnin verða líklega lítið notuð þetta árið fyrir kali, en það tjáir nú víst lítið að fást um það“. „Fötufjandinn skoppaði í fjöru! Það tjáir víst ekkert um það að rjá“!
Tjáning (n, kvk) Það sem sagt/tjáð er/ gefið er í skyn. Það að tjá sig.
Tjása (n, kvk) Lagður; lufsa; visk. „Það er nú lítið til að taka af þessari kind; bara lítilsháttar tjásur um hálsinn“. „Einhverjar tjásur er hann nú að draga upp á austurloftið“.
Tjása (s) Tægja; tæta. „Vertu nú ekki að tjása svona í flækjuna! Það verður að reyna að greiða þetta dálítið skipulega ef það á að hafast“.
Tjásulegur (l) Ótótlegur í háralagi; ræfilslegu; rifinn og tættur; illa til fara. „Hún Surtla gamla er orðin óttalega tjásuleg“. „Ansi ertu orðinn tjásulegur um hausinn; á ég ekki að klippa aðeins neðanaf þessu“?
Tjásur (n, kvk, fto) A. Ullarlagðar; hagalagðar. Ullarslitur af fé á fjárhúsgrindum, í haga eða á girðingum eftir túnrollur. B. Skýjaslitrur. „Það eru einhverjar tjásur í austrinu, annars er skafheiðríkt“.
Tjóa (s) Þýða; gagna; stoða; tjónka. „Ekki tjóir um það að rjá úr þessu; lúðan heilsar varla aftur uppá okkur“.
Tjóar ekki/lítið að æðrast um orðinn hlut (orðatiltæki) Mikið notuð speki; taka verður því sem að höndum hefur borið, og gera það besta úr ástandinu.
Tjóar ekki um það að rjá (orðtak) Þýðir ekki að æðrast/fjargviðrast vegna þess; þýðingarlaust að andmæla. „Miklu heldur vildi ég nú vera að draga kakkfull net af grásleppu en reyta þennan andskotans þara. En það tjóar víst ekki um það að rjá; þetta fylgir svona útgerð“.
Tjóðra (s) Binda rækilega; reyra/súrra fast. „Ég tjóðraði kýrnar og batt upp halana“.
Tjóður (n, hk) Helsi; festi. Það þyrfti að skipta um tjóðurbönd hjá kúnum“.
Tjóðurband / Tjóðurhæll (n, hk/kk) Band sem notað er í tjóður, og hæll sem tjóðrað er við.
Tjónka (s) Stoða; gagnast; tjóa; tjá. „Þetta tjónkar ekki, við þurfum að reyna eitthvað annað“. „Það tjónkar ekki að hangsa endalaust í kaffi; þetta gerir sig ekki sjálft“!
Tjónka við (orðtak) Koma vitinu fyrir; ræða við. „Það bara var ekkert hægt að tjónka við karlinn“.
Tjúllaður (l) Brjálaður; genginn af göflunum. „Ertu alveg tjúllaður, maður“?
Tjúllast (s) Verða brjálaður; ganga af göflunum. „Hann tjúllaðist alveg þegar hann komst að þessu“.
Tjönkur (n, kvk, fto) Pjönkur; farangur; hafurtask. „Um morguninn tóku tjaldbúarnir saman tjönkur sínar og fóru“. „Farðu nú að taka saman tjönkur þínar og gera þig kláran í skólann“! Kollvíkingar notuðu hitið bæði með p eins og víðar þekktist, en einnig oft með t.
Tjörn (n, kvk) Stór pollur; lítið stöðuvatn. „Tjarnir mynduðust oft í leysingum eftir snjóavetur. Á síðustu áratugum 20.aldar og það sem af er þeirri næstu hefur mun minna verið um þetta. T.d. eru nokkrir áratugir síðan tjörn myndaðist milli húss og hlöðu á Láganúpi, sem var árviss áður“.
Tjörubelgur (n, kk) Tjargaður lóðabelgur úr striga með tréhlemmi, en slíkir belgir voru algengir fyrir daga plastbelgja, fram á miðja 20.öld, og ráku iðulega á fjörur.
Tjöruhampur (n, kk) Tjöruborinn hampur sem notaður er til þéttinga, t.d. á skipum og í pípulögnum.
Tjörukaðall/ Tjörutóg (n, kvk) Tóg/vaður sem fúavarinn er með tjöru. „Eru þá reknir heim hestar til að reiða á þeim eggjakassana og vaðina. Það eru gildir strengir úr tjörukaðli“ (ES; Látrabjarg; Barðstrendingabók).
Tjörukaggi (n, kk) Kassi sem tjara er geymd/flutt í.
Tjörukústur (n, kk) Stór pensill sem notaður er til að tjörubera, t.d. báta.
Tjörupappi (n, kk) Tjöruborinn og vatnsheldur pappi sem notaður er til vatnsþéttinga t.d. húsþaka.
Tjörupottur / Tjöruskál (n, kk/kvk) Pottur/skál sem tjara er hituð í áður en hún er borin á t.d. bát, til að gera hana þjálli og svo hún renni betur inn í viðinn. GG hitaði tjöruna í skál sem var hálf alúminíumkúla.
Tjörutóg (n, kvk) Tóg/taug sem er tjöruborin til fúavarnar. Allmikið notuð áðurfyrr, einkum til sjós en einnig til bjargferða.
Tog (n, hk) A. Ytra lag ullar/reyfis af sauðkind. Ullin er samsett af tvennskonar hárum; togi og þeli. „Toghárin eru löng, með litlar bylgjur; fremur gróf og oft vel gljáandi. Þelhárin eru fremur stutt; mjög fín og létt; óreglulega liðuð, fjaðurmögnuð og mjúk viðkomu. Auk þessa eru svokallaðar illhærur stundum í uppinni. Þær eru mjög gróf hár; oftast rauðgular á litinn“ (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin landið og þjóðin). B. Það að toga/draga.
Toga (s) Draga; halda í eitthvað og reyna að taka til sín. „Við toguðum af öllu afli og náðum að þoka trénu uppfyrir flæðarmál“.
Togari / Togbátur / Togskip (n, kk) Skip sem veiðir í vörpu sem það dregur á eftir sér.
Togast á (orðtak) Toga sinn í hvora áttina; deila/þræta um málefni. „Hann horfði á hundana togast á um bandspottann“. „Þarna togast á tveir ólíkir hagsmunir“.
Toginleitur (l) Langleitur; opinmynntur; hissa. „Hann varð víst ansi toginleitur þegar hann sá afköstin“.
Togklampi (n, kk) Tréklampi/kubbur með gati, sem festur er innaná borðstokka eða annarsstaðar á bát, en gegnum gatið var dregið stag eða höfuðbenda fyrir siglu; ellegar undirgjörð til festingar á þeim.
Togleður (n, hk) Gamalt heiti á teygjanlegu gúmmí. Var síðar notað sem gæluheiti á tyggigúmmí.
Togna (s) A. Teygjast; verða lengra. „Það þarf að herða stögin eftir því sem tognar á þeim“. „Eitthvað er farið að togna úr deginum, eftir því sem líður nær vori“. „Heldur hefur tognað úr stráknum; þú ert bara að ná mér“! B. Snúa sig á liðamótum, þannig að meiðsli/eymsli verði af. „Hann tognaði á ökkla“.
Tognun (n, kvk) Það að snúa sig/ togna á liðamótum.
Togveiðar (n, kvk) Veiðar togara. „Á fyrstu árum togveiða voru togveiðar leyfðar uppi í fjörusteinum“.
Togþráður (n, kk) Þráður úr togi ullar. Sjá tóvinna. „Saumgarnið var alltaf heimaspunninn togþráður, en nálardragið annaðhvort hampgarn eða hvalseymi, ef það var til“ (KJK; Kollsvíkurver). Sjá skinnklæði. „Þá þurfti að athuga um hrognkelsanetin; gera við þau eða riða ný net. Í þau var notað seglgarn eða netagarn þegar ég man eftir, en áður var notaður togþráður“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Tolla (n, kvk, linur frb) Ræði; þollur á borðstokk báts sem árin leikur á í lykkju. „Best er að kippa árinni af tollunni með því að lyfta snöggt undir hlumminn“. Borið fram lint. „Svo missti ég nú aðra árina upp af kengnum; eitthvað afslepp tollan. Þá sló flötu, ég lenti í broti og það skvettist duglega í Korkanesið“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). Oftast var notað „tolla“ í Kollsvík, en annarsstaðar var líklega oftast talað um „ræði“. Einstaka sinnum höfðu Kollsvíkingar orðið í karlkyni „tolli“ eða „ræði“.
Tolla (s, harður frb) Loða; sitja/vera á sínum stað. „Sérlega var erfitt að láta reiðing tolla sæmilega á hesti niður brekkur“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG). „Féð tollir ekkert á beit í þessu veðri“.
Tolla í tískunni (orðtak) Viðhafa þá tísku sem viðgengst þá stundina; vera í tískufatnaði. „Ég hef nú aldrei lagt mikið uppúr því að tolla í tískunni“!
Tollera (s, linur frb) Kasta manni upp í loftið og grípa hann aftur.
Tollfiskur (n, kk) Fiskur sem notaður er til greiðslu, t.d. á uppsátursgjöldum eða öðrum sköttum/gjöldum.
Tolli (n, kk) Tolla; þollur; ræði. „Nokkru ofanvið brúnina var tolli sem hann brá lásbandinu á“.
Tollur (n, kk) A. Afgjald af notkun/innflutningi verðmæta til eiganda/yfirvalds. T.d bolatollur, vertollur. B. Fórnir af einhverju tagi. „Sjósókn hefur alltaf tekið sinn toll af mannslífum; einkum fyrr á tíð“.
Tolluræði (n, hk) Það afbrigði ræðis á báti að nota tollur en ekki t.d. kefa. Tolluræði tíðkaðist í Kollsvík a.m.k. í seinni tíð.
Tollver (n, hk) Ver/útgerðarstaður þar sem tollar eru greiddir fyrir uppsátur skipa og aðra aðstöðu. „Að sögn Gísla Konráðssonar átti Einar Kollsvík með tollverum öllum; hafi þar að jafnaði gengið 11-12 skip, en 15 steinbítar goldnir fyrir hvern mann. Hefur Einar því líklega verið vel efnum búinn. Samkvæmt gamalli venju, að reikna 3 steinbíta í alin, hefur vertollur verið 5 álnir, eða ¼ vættar. til samanburðar má geta þess að um 1700 komst vertollur á þessum slóðum upp í ½ vætt, en lækkaði svo verulega vegna aflaleysis, og hefur sennilega haldist lægri tollur úr því. Vertollur Einars í Kollsvík hefur því getað verið 6-7 hundruð af steinbít, eða 200-240 álnir“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Tollvernd (n, kvk) Vernd innlendrar vöru með tollum á erlenda samkeppnisvöru.
Tombóla (n, kvk) Hlutavelta. Happdrætti sem felst í því að menn kaupa miða eða pakka án þess að tryggt sé að hlutur fáist í staðinn sem stendur fyrir verðgildinu, en geta e.t.v. hlotið hlut sem er langt umfram verðgildið.
Tombóluverð (n, hk) Lágt verð á hlut. „Ég fékk þetta á tombóluverði“.
Tomma (n, kvk) A. Þumlungur; mælieining lengdar; 2,54 cm. „Borðið var tveimur tommum of stutt“. B. Tommusaumur; nagli sem er tomma að lengd. „Ég fekk einn hálfpakka af tommu með haus“.
Tommar ekki/ varla (orðtak) Ferð sækist mjög hægt vegna ófærðar og/eða óveðurs. „...rokið var svo mikið í fangið að maður tommaði varla í hviðunum.“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Tommuborð / Tommuviður (n, hk/kk) Borðviður/fjöl sem er ein tomma á þykkt. „Fremri réttin var úr tommuborðum“. „Þetta er fjári fallegur tommuviður, og stendur vel mál“.
Tommunagli / Tommusaumur / Tommutittur ( n, kk) Nagli/saumur sem er ein tomma að lengd. „Listarnir eru festir með tommusaum“. „Það er haldlaust að nota tommutitti í þetta; hér þarf lengri saum“.
Tommustokkur (n, kk) Samanbrjótanleg mælistika, vanalega með tommu- og millimetrakvarða.
Toppstykki (n, hk) Gæluorð um höfuð; efsti hluti einhvers. „Reyndu nú að nota á þér toppstykkið maður“!
Tommusver (l) Ein tomma í þvermál. „Sigvaðurinn var tommusver, og með hjartaþræði“.
Tommutóg (n, kvk) Vaður/tóg sem er ein tomma í þvermál. Bjargvaðir eru oft af þeim sverleika.
Tommuþykkur (l) Ein tomma á þykkt. „Við þurftum að brjóta tommuþykkan klaka af vatnsbólinu“.
Tonn (n, hk) Þyngdareining; smálest; 1000 kg.
Toppljós (n, hk) Ljós í siglutoppi skips.
Toppótt (l) Með toppum. Oft notað um illa slegið tún. „Ansi finnst mér þetta illa slegið og toppótt“!
Toppreist (l) Um hús; Þakið tekið upp í topp/burst/mæni. Þannig voru mörg torfhús sem voru með skammbitasperrum og langböndum, en e.t.v. síður þau sem voru með ásaþökum.
Toppsegl (n, hk) Segl efst í siglu á stórum bát eða skipi.
Toppskarfur (n, kk) Phalacrocoraz aristotelis. Sjófugl af ætt skarfa; um og yfir 70 cm að lengd og með um eins meters vænghaf; nokkru minni en dílaskarfur. Á varptíma er hann alsvartur með grænleitri slikju. Fullorðnir fuglar hafa uppsveigðar fjaðrir á höfði frá áramótum framá vor. Algengur varpfugl neðst í sjávarklettum í V-Evrópu og N-Afríku. Mesta skarfabyggð hérlendis er í Breiðafirði, m.a. undir Látrabjargi, og hefur hann orpið undir Breið og Hnífum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi; oft atað umhverfis af ljósum skít fuglsins. Hann lætur ófriðlega ef að hreiðri er komið; teygir fram álkuna og gargar. Góður sundfugl og kafari. Fæðan er fiskmeti, einkum sandsíli. Fiðrið blotnar við köfunina, og sest þá fuglinn upp á sker til að þurrka það. Má oft sjá skarfa fremst á hleinum í góðviðri; baðandi út vængjum líkt og prestur sé að blessa sinn söfnuð. Klaufskur til gangs og lágfleygur. Var nokkuð skotinn til matar í Kollsvík, enda matarmikill og ketið herramannsmatur, en hætt er honum við hringormasýkingu.
Toppstand (n, hk) Nýyrði um gott ástand hlutar. „Bíllinn er í toppstandi“.
Toppur (n, kk) A. Efsti hluti einhvers. T.d. fjallstoppur. B. Lokkur; skúfur. T.d hártoppur; sinutoppur; grastoppur.
Toppurinn á ísjakanum (orðtak) Aðeins sýnilegur minnihluti af heildinni. „Þetta eru vissulega vandræðamál, en hræddur er ég um að þetta sé bara toppurinn af ísjakanum“.
Torf (n, hk) A. Gróðursvörður; ýmist fastur á jörð eða skorinn í torfur til notkunar. Gott torf til ristu var talið til hlunninda jarða áðurfyrr. B. Líkingamál um það sem illa skilst. „Honum fannst stærðfræðin mesta torf“.
Torfa (n, kvk) A. Flaga af grasrót í meðfærilegri stærð og þykkt; torf. Torfur voru skornar, oft með sérstökum torfljá eða undirristuspaða, og notaðar til að þekja hús/hey; fela eld; leggja undir reiðing og í bása o.fl. B. Þéttur hópur fiska. „Þar sem gerið stóð uppi var sílistorfa undir, sem fugl og fiskur sótti ákaft í“. C. Þyrping húsa á litlu svæði.
Torfaljár (n, kk) Bakkaljár; skoskur ljár (sjá þar). Ljáir þessir voru fyrst kynntir hérlendis af Torfa Bjarnasyni búnaðarfrömuði í Ólafsdal (1838-1915) sem kynnst hafði þeim erlendis.
Torfalög (n, hk, fto) Sjá gjalda torfalögin.
Torfarið (l) Slæm færð. „Sneru menn síðan heim á leið og var torfarið lausum mönnum“ (um strand togarans Croupiers undir Blakk, líkl. haft eftir GG).
Torfbær (n, kk) Íbúðarhús með torfþaki. Oftast er átt við fyrri tíðar torfbæi, með hlöðnum veggjum.
Torfenginn (l) Erfitt að fá/ ná í. „Svona hnífar eru torfengnir“.
Torfgarður (n, kk) Garður sem hlaðinn er úr torfi. Túnvörslugarðar í Kollsvík voru ýmist hlaðnir úr torfi eða grjóti, eftir því hvort efnið var nærtækara. Enn má sjá leifar torfgarða, t.d. undir Brunnsbrekkunni.
Torfhlaðinn (l) Hlaðinn úr torfi. „Neðanvið Garðsendadýið má sjá leifar af torfhlöðnum garði“.
Torfhleðsla (n, kvk) Hleðsla úr torfi, t.d. torfgarður.
Torfhnaus (n, kk) Hnaus/kubbur sem stunginn er úr torfi/jarðvegi.
Torfhús / Torfkofi (n, hk) Oftast er vestra átt við steinhlaðið hús með torfþaki. „…meðan slátrun stóð yfir haust hvert gistu flestir í torfhúsi sem byggt hafði verið í því skyni og stóð rétt hjá sláturhúsinu“ (PG; Veðmálið). „Við hlið Mókofans stóð annar torfkofi; hænsnakofinn“.
Torfinnanlegt (l) Erfitt að finna. „Hætt er við að féð verði torfinnanlegt eftir að skyggja tekur“.
Torfkirkja (n, kvk) Kirkja með torfþaki. Oftast átt við kirkjur byggðar með gömlu lagi.
Torfljár (n, kk) Ljár til að rista torf/þökur. Torfljár getur verið einristuljár, þ.e. með tveimur höldum og torfan rist í einu lagi, eða tvíristuljár, og þá með haldi á öðrum enda, en þá er torfan rist í tveimur ristum; sitthvorumegin frá. Einristuljár er enn til á Láganúpi.
Torfrista / Torfstunga / Torftak (n, kvk) Torfvöllur; staður þar sem rista má gott torf. „Viða er góð torfrista í Kollsvík“.
Torfristuítak (n, hk) Réttur einnar jarðar til torfristu í landi annarrar jarðar.
Torfusnepill (n, kk) Hluti af torfu; jarðvegsbútur; ljámús. „Hentu torfusneplinum úr heyinu“.
Torfþak (n, hk) Hús í Kollsvík, eins og annarsstaðar á landinu, voru með torfþaki; allt þar til járn varð fáanlegt í byrjun 20. aldar. Torfkofar stóðu þó lengi uppi áfram; sumir með helluþökum og upprunalegri þakgerð. Hesthúsið á Hólum er líklega elsta hús á Vestfjörðum, og jafnvel á landinu öllu, en það hefur staðið undir sínu torfþaki allt til þessa dags. Það hefur líklega byggst upp á sama tíma og Hólabærinn, eða um miðja 17. öld, og er því um 360 ára gamalt. Önnur gömul hús sem stóðu með torfþaki framyfir 1960 voru t.d. Mókofinn og hænsnakofinn á Láganúpi; kartöflugryfja í Gilbarminum; Brunnhús ofan við Flötina; Tófuhús á Strengbergi; Skemma við Grundabæinn; Sjávarhúsið (afakofi) við Láganúpsfjöru; Jónshlaðan í Kollsvík og hrútakofi ofan við hana; Kartöflugryfja í Kollsvík; brunnhús í Kollsvík og Fönixnaustið í Kollsvíkurveri. Þessi torfhús týndu tölunni eitt af öðru;voru flest tekin niður áður en þau hrundu. Flest þeirra voru með helluþaki og mörg hafði byggt hleðslumeistarinn Guðbjartur Guðbjartsson, bóndi á Láganúpi; a.m.k. Mókofann; hænsnakofann; kartöflugryfju í Gilinu; brunnhúsið ofanvið Flötina og Sjávarhúsið.
Torfær (l) Um leið; illfær; erfitt að komast um. Fjaran undir Breiðnum er mjög stórgrýtt og torfær yfirferðar“ (HÖ; Fjaran).
Torfæra (n, kvk) Slæm leið; hindrun á leið. „En hvað var það þá sem aftraði þeim svo mjög frá þessum fengsælu miðum? Jú, það var þessi slæma torfæra á sjóleið smábáta frá Patreksfirði og út á Víkur; Blakknesröstin“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Torfæruskriða (n, kvk) Illfær skriða í fjallshlíð.
Torfæruurð (n, kvk) Illfær/stórgrýtt/gróf urð. „Neðst í Grenjalánni er torfæruurð, en þægilegra er að ganga um aurhrygg, fremst í henni.
Torfæruvegur (n, kk) Illfær vegur; erfið leið.
Torga (s) Ljúka mat; geta klárað matarskammt. „Fáðu þér nú eitthvað af þessu; ég torga því ekki einn“.
Torkennilega (ao) Einkennilega; ógreinilega. „Þetta kemur mér torkennilega fyrir sjónir“.
Torkennilegur (l) Einkennilegur; ógreinilegur; illþekkjanlegur. „Mér finnst eitthvað torkennilegt við það“.
Tormerki (n, hk, fto) Fyrirséðir erfiðleikar. „Hann taldi öll tormerki á að hann gæti tekið verkið að sér“.
Torga (s) Borða. „Þetta er svo vel útilátinn skammtur að ég næ varla að torga honum“. Giskað hefur verið á að orðið hafi upphaflega merkt það að bjóða eitthvað falt á sölutorgi. Sá sem ekki getur torgað einhverju treystir sér þá ekki til að selja það á torgi. Á því líklega rætur í verslunarmáli víkinga, fyrir daga Íslandsbyggðar.
Torgsala (n, kvk) Sala einhvers á sölutorgi.
Torkennilega (ao) Undarlega; furðulega. „Þetta mál kemur mér torkennilega fyrir sjónir“.
Torkennilegt (l) Undarlegt; illþekkjanlegt. „Mér finnst þeir sumir torkennilegir þessir nýju ávextir“.
Torlega (ao) Treglega; erfiðlega. „Okkur gekk fremur torlega að fá féð útí ána“.
Torlært (l) Sem erfitt er að læra. „Sigurvin lét mig hafa rússneskar kennslubækur; lingafón og orðabækur, en skrambi fannst mér þetta torlært þegar til átti að taka“.
Torlæs (l) Illa læs; rekur í vörðurnar. „Undarlegt er að svo torlæs maður skuli vera á þingi“.
Tormelt (l) Illa meltanlegt; þungt í maga. „Það er hætt við að plastið reynist kálfinum tormelt“.
Torráðinn (l) Sem erfitt er að ráða/leysa. „Þetta ætlar að reynast okkur torráðin gáta“!
Tormerki (n, hk, fto) Merki um erfiðleika/vandamál. „Ég sé nú ýmis tormerki á að framkvæma þetta“.
Tornæmur (l) Treggáfaður; skilningslaus. „Óttalega geturðu verið tornæmur að skilja þetta ekki“!
Torræður (l) Sem erfitt er að ráða í. „Hann var svo torræður á svip að útilokað var að sjá hvað honum fannst“.
Torskilið (l) Sem ekki er auðvelt að skilja. „Mér fannst þessi skilaboð afskaplega torskilin“.
Torskillegt (l) Torskilið; ekki auðskilið; illskiljanlegt. „Það er dálítið torskillegt að þetta má skuli enn vera óleyst“. „Mér er þetta svolítið torskillegt, allt saman“. Nokkuð notað, t.d. af SG, enn í dag.
Torsótt / Torvelt (l) Erfitt að ná/komast/fá fram. „Það gæti orðið torsótt að koma þessu máli í höfn“. „Tvær aðrar kirkjusóknir voru í Rauðasandshreppi, en það voru kirkjur í Breiðuvík og að Saurbæ á Rauðasandi. Til þeirra var torvelt að komast úr Hænuvík, enda yfir veglaus og erfið fjöll að fara“ (DÓ; Að vaka og vinna).
Tort (l) Illt við að búa; ranglátt. „Mér finnst það fjári tort, ef þeir komast upp með svona níðingshátt“.
Torta (n, kvk) A. Afturendi; rass. „Til að sýna álit sitt á frambjóðandanum sneri hún í hann tortunni“. „Reyndu nú að sitja kyrr á tortunni drengur, svona rétt yfir messutímann“. „Komdu innfyrir og tylltu þér á tortuna meðan ég laga kaffi“. B. Nef. „Komdu hérna kúturinn minn og leyfðu mér að snýta á þér tortuna“. Stundum notað heitið neftorta (sjá þar). Orðið virðist ekki þekkt víðar í þessari síðarnefndri merkingu, en hvorttveggja er í góðu samræmi við hinn germanska orðstofn.
Tortíma (s) Eyðileggja; leggja í auðn/rúst; fordjarfa. „Mér finnst óþarfi að tortíma þessu algjörlega“.
Tortíming (n, kvk) Eyðilegging; gjöreyðing. „Veður geysa af hafi. Brimið er stórkostlegt; tröllaukin grunnbrot sem hóta tortímingu því nær öllu lífi; jafnvel sjávargróðri“ (KJK; Kollsvíkurver).
Tortrygginn (l) Efins; sem tekur einhverju með varúð/fyrirvara. „Mikið er ég tortrygginn gagnvart þessu“.
Tortryggja (s) Gjalda varhug við; efast um; hafa vantraust á. „Er einhver ástæða til að tortryggja þetta“?
Tortryggni (n, kvk) Vantraust; viðsjá. „Þetta er alveg ástæðulaus tortryggni, finnst mér“.
Tortryggnissvipur (n, kk) Svipur efasemda/tortryggni/vantrúar.
Tortubein (n, hk) Rófubein.
Tortuljótur (l) Skítugur um afturendann. „Skelfing eru gemlingarnir tortuljótir! Það er ekki vanþörf á að stinga út undan þeim“.
Tortúr (n, kk) Kvalræði; píning. „Þetta ullarhaft hlýtur að hafa verið alger totúr fyrir kindarræfilinn“.
Torvelda (s) Gera erfitt; valda erfiðleikum/vandræðum; há. „Ófærðin torveldaði þessa björgun nokkuð“.
Torvelt (l) Erfitt; torsótt. „Torvelt er að komast í Tröllkarlshelli, og nær útilokað fyrir aðra en staðkunnuga að finna hann“ (HÖ; Fjaran). „Undir Hreggnesa er sumsstaðar sæmileg festifjara fyrir reka ef gefst, en torvelt um björgun“ (HÖ; Fjaran).
Tosa (s) Draga með erfismunum; drösla. „Ég rétti honum höndina og tosaði hann upp á brúnina“.
Tosast (orðtak) Mjakast áfram; ganga hægt. „Heldur tosast þetta hjá okkur þó hægt fari“.
Tota (n, kvk) Tá/trjóna sem gengur framúr meira efni og er mjórri en það, t.d. likt þumli á vettling eða spena á júgri. „Hann hafði þann kæk að setja totu á munninn þegar hann var djúpt hugsi“.
Tott (n) Eftirhreytur; mjólk sem hreytt/tottuð er úr kú eftir helstu mjaltir. „Gefðu bara kálfinum tottið“.
Totta (s) A. Sjúga, t.d. spena, sígarettu eða reykjarpípu. „Pabbi sat í djúpum þönkum á jötubandinu og tottaði pípustertinn“. B. Mjólka kú í lok mjalta; tutla; hreyta. „Það þarf að passa að totta vel afturspenana á Sokku; hún selur fremur illa úr þeim“. Yfirleitt voru notuð orðin að totta eða tutla yfir það sem annarsstaðar merkir að hreyta, þó vissulega væri það einnig notað yfir það þegar ungabörn tottuðu pela og putta. Orðið virðist bundið við Kollsvík og e.t.v. nágrenni;: annarsstaðar virðist orðið eingöngu hafa verið notað yfir slíkar munnathafnir. Sjá handmjólka.
Tottast/Togast/Tosast í áttina Mjakast áfram; ganga hægt. „Ætli sé ekki rétt að fara að togast í áttina“.
Totti (n, kk) Toppur; visk. „Það er nokkuð bratt þarna í ganginum og fátt til að halda sér í nema tottar af sinu“. Sjá einnig grastotti og sinutotti.
Tó (n, kvk) Gróinn jarðvegur á litlu svæði. Í Útvíkum hafði heitið mjög sértæka merkingu, en það var haft yfir grænar lænur sem mynduðust í gróðursnauðari holtum, þar sem lækur rann í eða stutt neðan yfirborðs. Þannig hagar til um Kollsvíkurtó og Hænuvíkurtó í Vatnadal og Stóru- og Litlutó í Breiðavík.
Tóbak (n, hk) A. Tóbaksplanta. B. Sjá tóbaksnotkun.
Tóbaksbaukur (n, kk) Neftóbaksdós; tóbaksponta. „Þeir anda léttar, en þó sveittir og blautir. Tóbaksbaukar ganga á milli manna. Sumir leggja hendina aftur á bakið og stynja við, en það er sigurglampi í augunum; orrustan er liðin hjá“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Tóbaksbindindisflokkur (n, kk) Hópur fólks sem ætlar ekki að stunda reykingar. „Sama ár og fjelagið var stofnað var stofnaður tóbaksbindindisflokkur í Vestra og gengu allir fjelagar í hann, sem ekki neyttu tóbaks“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Tóbaksbindindisfélag (n, hk) Félag fólks sem ætlar ekki að brúka tóbak. „Nú hefur Tóbaksbindindisfjelag Rauðasandshrepps“, sem einn af fjelögum í Vestra stofnaði, leyst hann af hólmi... “ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Tóbaksbindindisstarfsemi (n, kvk) Starfsemi tóbaksbindindismananna. „Tóbaksnautn meðal yngri manna... , er engin á fjelagssvæðinu, og má þakka það fjarstöðu hjeraðsins við kaupstað, tóbaksbindindisstarfsemi og áhrifum barnakennara í tuttugu ár“ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).
Tóbaksbréf (n, hk) Pakki/poki af tóbaki. „Ekki veit ég hvar ég hef lagt frá mér tóbaksbréfið og eldspýturnar“.
Tóbaksdós (n, kvk) Dós með tóbaki/ undan tóbaki. Ýmist átt við dós sem fellur í vasa eða stærra ílát.
Tóbakskorn (n, hk) A. Eitt korn af tóbaki. „Það er bölvað að fá tóbakskorní augað“! B. Lítið eitt af tóbaki. „Áttu nokkuð tóbakskorn í nös“? Oft stytt í „korn“.
Tóbakslús (n, kvk) Lítið magn af tóbaki. „Mér áskotnaðist örlítil tóbakslús. En ein dós dugir nú skammt“.
Tóbaksmökkur / Tóbaksreykur (n, kk) Þykkur reykur af reykingu tóbaks. „Tóbaksmökkurinn lá í þykku lagi í haushæð í stofunni, en undir honum mátti grilla í karlana í hrókasamræðum“.
Tóbaksnautn / Tóbaksnotkun / Tóbaksneysla (n, kvk) Notkun á tóbaki. „Einnig var tóbaksneysla bönnuð á fundum fjelagsins og samkomum. ... „Tóbaksnautn meðal yngri manna, upp undir þrítugt, er engin á fjelagssvæðinu... “ (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). „Tilgangur fjelagsins er að útrýma tóbaksnautn úr hreppnum“ (VÖe; Lög Tóbaksbindindisfjelags Rauðasandshrepps).
Tóbaksnotkun var nokkuð útbreidd og veruleg um vestustu sveitir, sem og annarsstaðar, um og eftir miðja 20. öld, enda höfðu reykingar aukist að stórum mun eftir hernám landsins. Almennt má segja að húsbændur á heimilum hafi reykt pípu en kvenfólk, sem reykti mun minna og sjaldnar, tók í sígarettur. Á þessu voru vitanlega fjölmargar undantekningar, en tíðarandinn er öflugur í þessu sem öðru. Vindlanotkun var óveruleg, en þó gripu sumir í vindla til tilbreytingar. Neftóbaksnotkun var, eftir 1960, nær eingöngu bundin við eldri karlmenn. Á réttum mátti sjá þverskurð af tóbakshefðunum, þegar menn röðuðu sér við réttarvegginn og köstuðu mæðinni: Húsbændurnir drógu upp pípustertinn, tóbaksbréfið og eldspýtustokkinn; helltu tóbakssósunni úr munnstykkinu; fylgdu því hreinlæti kannski eftir með pípuhreinsara; tróðu sér í pípukóng; kveiktu sér í pípu og púuðu síðan; hver eftir sínum smekk; Prince-Albert; Raleigh eða Half-and-Half. Sumir, einkum yngri karlmenn, drógu sígarettupakka úr brjóstvasa; Camel; Marlboro eða annað; báru eld að og síðan lagði reyk úr öllum vitum. Einn og einn bar á sér sígarettuvefjara; handhægt tæki til að vefja eigin sígarettur úr píputóbaki og bréfi. Eldri karlarnir héldu sig flestir við neftóbakið; drógu með hægð úr vasa sínum nefntóbaksdós með fínskornu tóbaki; bönkuðu létt á lokið áður en opnað var; byrjuðu á að bjóða nærstöddum í nefið; tóku síðan klípu milli tveggja fingra og komu henni fimlega fyrir á sínum stað; annaðhvort í slónni (nösunum) eða fremst í neðri vörinni. Á undan og eftir var neyslustaður oftast þurrkaður með tóbaksklútnum, en þó eyddu sumir litlum tíma í slíkt óþarfa hreinlæti. Sumir voru höfðinglegri í háttum á viðhafnarstundum sem réttardögum; drógu tappa úr skínandi pontu og sturtuðu snyrtilegum tóbaksgarði á handarbakið sem síðan var dreginn upp aðra nös eða báðar. Neftóbaksmenn þekktust tíðum úr fjarlægð á sínu dimmrauða nefi; dökkum taum sem oft lá niður efri vörina og þrumandi hreppstjórasnýtum. Munntóbaksmenn sömuleiðis auðkenndust iðulega á dökkum tann- og munnsvip. Þeir þurftu iðulega að spýta og, þrátt fyrir mikla þjálfun og lagni, var ekki alltaf unnt að henda reiður á áfangastað slummunnar, og nærstaddir höfðu því varann á. Heimafyrir héldu sumir þeim gamla sið úr torfbænum að spýta slummunni fimlega í eitthvað húshornið; þrifalegum húsmæðrum til armæðu. Á réttarveggnum má þó sjá marga fullorðna sem ekki stunda tóbaksneyslu af nokkru tagi; unglingum undir lögaldri, einkum stúlkum, var ákveðið haldið frá allri tóbaksneyslu; sem reyndar varð ýmsum hvatning til að prófa þessa forboðnu ávexti. Þó ekki verði efast um skaðleg áhrif tóbaks þá virðist fljótt á litið að tóbak hafi ekki verið mikill skaðvaldur í þessu reykjandi samfélagi Útvíkna á fyrri tíð; nema ef vera kynni á fjárhag og tannheilsu einhverra.
Fyrrum fluttist munntóbak til landsins í þéttpressuðum upprúlluðum lengjum sem skera eða klípa mátti af. Nefndist það rjól, rulla eða skro.
Séra Hallgrímur Pétursson skáld sá bæði kost og löst á tóbaki: „Tóbakið hreint/ fæ ég gjörla greint;/ gjörir höfðinu létta;/ skerpir vel sýn./ svefnbót er fín,/ sorg hugans dvín./ Sannprófað hefi ég þetta“. Og um ókostina: „Tóbak nef neyðir;/ náttúru eyðir;/ upp augun breiðir;/ út hrákann leiðir;/ minnisafl meiðir;/ máttleysi greiðir/ og yfirlit eyðir“ (HP; Tóbaksvísur).
Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal; upphafsmaður kartöfluræktunar á Íslandi, segir: „Alslags jarðeplablöð mega brúkast sem reyktóbak. Blöðin plokkast á haustin þegar þau eru orðin gul. En sú nokkur af þeim græn pressa menn þau saman svo þau hitni og gulni. Menn saxa blöðin og tóbak saman við svo þau fái tóbakslykt. Verður þetta samsax sæmilega gott í tóbaks stað“. (BH; Grasnytjar).
„Ekki voru margir sem reyktu í mínum uppvexti Rauðsandi, en þó einstaka maður. Þegar messað var í Saurbæjarkirkju þá var söfnuðurinn alltaf boðinn í kirkjukaffi; kannski orsök svo frábærrar kirkjusóknar sem þar var. Þarna voru mjög stór og rúmgóð húsakynni, rúmgóð borðstofa og setustofa inn af henni. Þar hélt presturinn sig eftir kaffið, en hann var oddviti sveitarinnar. Menn áttu margir við hann erindi og vindlailminn lagði þar út. Mér þótti hann mjög hátíðlegur. Þó held ég að prestur hafi ekki reykt, en man það þó ekki. Höfðingjanum og valmenninu Gísla Thorlacíus í Bæ þótti viðeigandi að láta vindla liggja frammi, fyrir þá sem vildu.... Annars held ég að sumir hafi farið að reykja sígarettur sem afleiðingar kynna af bandaríska hernum... Afi minn tuggði rullu. Hann átti hrút einn stóran og mikinn. Þegar hann kom í fjárhúsin og gekk um jötuna (hér er talað um jötu ekki garða, en garði er það sem víða kallast kró) þá mjakaði hrússi sér að jötunni með opið ginið. Gamli maðurinn hafði vanið hann á að spýta upp í hann. Hrúturinn smjattaði á þessu með mikilli velþóknun, enda orðinn tóbakshrútur hinn mesti. Neftóbaksmönnum þótti gott að setja koníakslögg í tóbakið, einkum ef það hafði þornað“ (SG; Tóbakshættir; Þjhd.Þjms).
Tóbaksponta / Neftóbaksponta (n, kvk) Baukur með sérstöku lagi, til að geyma í neftóbak og hafa í vasa. Upphaflega stórgripahorn með tréloki í sverari enda en töppuðu gati í hinum. Síðar úr silfri eða öðrum efnum, en svipuðu lagi. Oft skreytt. Stunum settu menn pontuendann upp í nösina og helltu, en stundum var tóbakinu dreift í lön á handarbakið og sogið uppí nefið.
Tóbakspungur (n, kk) A. Pungur af hrút, sem verkaður hefur verið til að nota sem geymslu undir tóbak. B. Gæluorð um bréf af reyktóbaki.
Tóbaksslumma (n, kvk) Hráki manns sem tekur í vörina. „Tóbaksslumman lenti beint á gleraugum viðmælandans. Ekki vildi Þórður viðurkenna að það hefði verið ætlunin, heldur kenndi vindinum um“.
Tóbakstala (n, kvk) Biti af munntóbaki. „Svo settist hann á skutþóftuna og hafði sveifina undir hendinni, meðan hann náði í tóbakstölu úr vasa sínum“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Tóbakstaumur (n, kk) Litur af tóbaki í andliti, þar sem lekið hefur tóbakslitaður hor eða litað munnvatn niður yfir tóbaksnotanda. „Tóbakstaumurinn náði frá nefi niðuryfir hökuna“.
Tóbakstugga (n, kvk) Munnfylli af munntóbaki. „Svo skyrpti hann útúr sér tóbakstuggunni, sem var víst orðin bragðlaus, og fékk sér aðra nýja í staðinn, svo ekki þyrfti hann tóbakslaus að taka land“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Tóbakugur (l) Litaður í framan af tóbaki; með tóbakslit/tóbakskorn í fötum. „Ég held nú að þú ættir að þurrka framan úr þér áður en við förum inn í kaffið. Þú ert tóbakugur langt útundir eyru“.
Tófa (n, kvk) Refur (sjá þar). Orðið tófa er líklega stofnskylt sögninni að „tefja“, og vísar e.t.v. til þess að refurinn snuðrar eftir æti.
Tóft (n, kvk) Tótt; hús/vegghleðsla án þaks. Bæði orðin eru notuð; tóft og tótt, og eru jafngild. Málfræðingar telja „tóft“ réttari og upprunalegri rithátt. Orðstofninn er þó eitthvað á reiki; orðið er talið sama og í færeysku; „toft“ og í nokkrum norðurlandamálum merkir „toft“ eða „tomt“ húsgrunn eða grasblett við hús. Þá er aftur komið að tengingu við íslenska orðið „totti“ (sbr grastotti), sem réttlætir ritháttinn „tótt“.
Tóftarbrot (n, hk) Hluti af tóft; leifar af vegghleðslu húss.
Tóftarveggur (n, kk) Veggur tóftar; hlaðinn húsveggur.
Tófubitin (l) Um sauðkind; dýrbitin; særð af ref/tófu. Refir eiga það til að ráðast á lifandi sauðkind og reyna að bana henni. Oftast er það sami refur sem tekur uppá þessu og nefnist þá dýrbítur. Leggja bændur mikið á sig til að eyða honum. Refurinn ræðst helst á veikburða skepnur; gjarnan pasturslítil lömb eða gamalær, og þá jafnan með því að naga snoppu eða afturhluta. Er slíkt fé oft hörmulega útleikið ef það næst lifandi, og þarf yfirleitt að lóga því.
Tófufjandi / Tófuskratti (n, kk) Köpuryrði um tófu/ref. „Það má mikið vera ef tófufjandinn hefur ekki nartað eitthvað í snoppuna á þessu lambi“!
Tófugagg (n, kvk) Gagg í tófu/ref.
Tófuganga (n, kvk) Leit að tófu; tófuveiðar. Meðan tófuskinn voru í háu verði á fyrrihluta 20.aldar lögðu menn mikið á sig í löngum fjallferðum og vöku og margir urðu snillingar að rekja för og veiða. „...Ásgeir Erlendsson rakst af tilviljun á byrgi sakamannsins þegar hann var á tófugöngu...“ (MG; Látrabjarg). „Tófugöngur að vetri voru iðkaðar hér um sveitir frá því byssur náðu útbreiðslu hér á landi... “ (MG; Árb.Barð 1959-67).
Tófugildra (n, kvk) Refagildra (sjá þar).
Tófugreni (n, hk) Refagreni; greni (sjá þar).
Tófugras (n, hk) Cystopteris fragilis. Burkni af fjöllaufungsætt. Algengasti burkninn á Íslandi og finnst t.d. víða í grennd við Kollsvík; einkum í klettasprungum og urðum, þar sem skugga ber á. Líklega er heitið dregið af þessum vaxtarstöðum plöntunnar. Miðlungsstór burkni; 10-30 cm á hæð en getur orðið mun stærri þar sem hann teygir sig í skjólsælli glufu. Stilkurinn langur og brotgjarn; blöðkurnar eru á um helmingi blaðsins; grænar, margskiptar; tví- til þrífjaðraðar; breiðastar neðantil en mjókka í odd. Hliðarsmáblöð gisin neðst, en þéttari og mjórri nær oddi. 5-12 kringlóttir gróblettir í tveimur röðum á neðra borði smáblaða.
Tófuhús (n, hk) Refaskotbyrgi; hús þar sem legið var fyrir tófu með niðurburði. Orðið tófuhús var oftar notað um þessi litlu hús, en áður mun einnig hafa tíðkast refaskotbyrgi, sem er líklega bundið við svæðið. „Þá er eftir að geta um refaskotbyrgi sem vitað er um a. m. k. sjö í Kollsvíkinni. Þar sem ég veit ekki til að þau séu annarsstaðar skráð þá held ég að ég megi til að bæta því hér við. Eitt byrgið er hér úti á Strengbergsbrúninni, alveg fram á blábrún svo tófan komst ekki framhjá nema fyrir ofan byrgið. Byrgin voru ekki meira en tæpur metri á lengd að innan máli, smá bálkur í endanum til að sitja á og rétt rými fyrir einn mann. Hlaðnir smá veggir og tyrft yfir. Dyr voru rétt hæfilegar til að skotmaður gæti skriðið um. Gjarnan var reynt að gera holu niður í brúnina, svo þetta yrði sem lægst og bæri minna á því. Svo var niðurburðurinn; dauð kind eða slíkt, hafður í hæfilegu skotfæri og grjót sett yfir svo rebbi rifi þetta ekki allt í sig þegar enginn var í byrginu. Þetta byrgi átti Ólafur Ásbjörnsson afabróðir minn, sem bjó á Láganúpi um síðustu aldamót og sagt var að hann hefði verið vanur að leggja sig í rökkrinu og sofna og ef hann dreymdi tófu fór hann út í byrgið og náði þá venjulega tófunni. Annað byrgi var niðri við sjó, á svokölluðum Hreggnesa. Það munu Grundamenn hafa notað. Útbúnaður var sá sami á þessum byrgjum var eins og byggt fram á blábrún.
Svo var eitt byrgi á Kollsvíkurnúpnum og eitt á Sanddalsbrúnum rétt við Vallagjánna. Eitt ævafornt er á brúninni við Katrínarstekk og annað frammi á brún við Þúfustekk. Enn eitt er á Melsendaklettunum fyrir norðan Kollsvíkurverið“ (SG; Rústir; Þjhd.Þjms). Þessi byrgi eru nokkru fleiri en að framan greinir. Eitt er t.d. undir Grenjalág og annað í Sandslágarkjaftinum (VÖ).
Tófukvikindi (n, hk) Gæluheiti á tófu. Stundum einungis „kvikindi“.
Tófuleit (n, kvk) Leit að tófu; tófuganga. „Tófuleit var nokkuð stunduð á árunum milli stríða, þegar skinnaverð var mjög hátt. Fóru menn í langar göngur; oftast að kvöld og næturlagi, þegar tunglsljóss naut við; veður var stillt og vel sporrækt á jörðu, en tófan er helst í ætisleit að nóttu til. Bæði Sigurvin Össurarson og Hafliði Halldórsson sögðu mér sögur af ótrúlega löngum göngum og miklum ævintýrum sem þeir lentu í, en menn lögðu á sig gríðarlegar þrekraunir til að ná hinum verðmætu aukatekjum sem skinnin gáfu“ (VÖ).
Tófuskinn (n, hk) Skinn af tófu/ref. „Sá var að hreinsa tófuskinn, en óðar undan leit/ og upphóf sína dóma þarna í hvelli./ „Þú ert alltof gömul; þú ert alltof feit;/ þú ert eins og belja á hálu svelli“!“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Tófuskott (n, hk) Refaskott; skott af tófu. Greidd eru verðlaun fyrir unnin ref, bæði hlaupadýr, grendýr og yrðlinga; en til sannindamerkis þurfa menn að skila inn skottunum til viðkomandi sveitarsjóðs.
Tófuspor (n, hk, fto) Tófuslóð; för eftir tófu í snjó/sandi/aur. „Það voru tófuspor norður alla fjöru“.
Tófuyrðlingur (n, kk) Refayrðlingur; yrðlingur (sjá þar).
Tóg / Tó (n, oftast kvk/stundum hk) Reipi; vaður. Tóg var fyrrum unnið úr togi kindarullar, og fær þaðan nafn sitt. Síðar var farið að nota í það erlendan hamp, vanalega manillahamp. Nú á dögum er tóg yfirleitt úr gerviefnum. Tóg nýttist til margvíslegra hluta, t.d. dráttartóg til dráttar og bjargtóg til siga og annarra bjargferða. „Það er best að bera tógina á báðum öxlum; að skipta hönkinni og binda saman á brjósti“.
Tól (n, hk) A. Verkfæri; áhald; vél. B. Símtól; tal- og heyrnatæki síma. C. Gæluheiti á kynfærum manns.
Tólffótungur (n, kk) Lirfa fiðrildis.
Tólfrætt hundrað (orðtak) Magneining fyrrum; 120; stórt hundrað. „Fiskaferðaskipin báru flest 16-24 hundruð tólfræð, auk hausa þorsks og riklings. Voru þau því tíðum miðuð við burðarmagnið og talin sextán-, átján- og tuttugu-hundraðaskip o.s.frv. Allur fiskur og fugl var þá talinn í tólfræðum hundruðum, þ.e. 120 í hundraði hverju. “ (PJ; Barðstrendingabók).
Tólg (n, kvk) Feiti; mör sem hefur verið bræddur og látinn storkna. Tólg hefur frá fornu fari verið nýtt á ýmsan hátt, enda var feitmeti fyrrum eftirsótt til matar. Hún er notuð sem útálát á fisk og viðbit með ýmsum mat; til steikingar; til kertagerðar og til geymslu matvæla. T.d. var tólg oft hellt yfir kæfu og annað kjötmeti til að ekki kæmist loft að. Vafalítið stofnskylt sagnorðinu að „tálga“, enda er auðvelt að sníða tólg með hníf.
Tólgarkerti (n, hk) Kerti sem búið er til úr tólg fyrir tíma stearinkerta/vaxkerta. Kertagerðin hófst á því annarsvegar að feiti var brædd og hellt í djúpt ílát; gjarnan strokk. Kveikur/rak var búinn til úr ull, fífu, hrosshári eða léreftsræmum og fest á prik; gjarnan 6-8 saman. Rakinu var dýft ítrekað í bráðna tólgina, þannig að lag eftir lag hlóðst utan á það af storknaðri tólg; allt þar til kertið var hæfilega svert. Stundum voru steypt kóngakerti; þriggja arma kerti sem notuð voru á jólum og áttu að tákna vitringana þrjá frá Austurlöndum.
Tóm (n, hk) A. Ráðrúm; tómarúm; stund; tækifæri. „Mér gafst ekkert tóm til umhugsunar“. B. Það sem er tómt; það sem ekkert er í. „Hann sat um stund og starði út í tómið“.
Tóm della / Tóm endaleysa / Tómt bull / Tómt kjaftæði / Tóm vitleysa / Tóm tjara / Tóm þvæla (orðtök) Algert bull; einber þvættingur; innihaldslaust kjaftæði. Iðulega notað til áherslu þegar eitthvað gengur framaf mönnum sem sagt er.
Tómarúm (n, hk) A. Ráðrúm. B. Tóm; það sem ekkert er í.
Tómahljóð (n, hk) A. Hljóð í nær tómu íláti þegar það er hrist eða barið í það. B. Afleidd merking; merki um að eitthvað sé orðið lítið/að tæmast. „Það er eitthvað tómahljóð í sjóðnum, þessa stundina“.
Tómhentur (l) Án nokkurs í höndum; án veiði. „Við tökum þessi egg; við komum þá ekki tómhentir heim“.
Tómlega (ao) Af fálæti. „Hann tók þessu heldur tómlega, fannst mér“.
Tómlegur (l) Sem virðist tómur; ekki með miklu innihaldi. „Ósköp var fjósið tómlegt þegar kýrnar voru úti“.
Tómleiki (n, kk) A. Það sem virðist tómt/autt/innihaldslaust. B. Tilfinning eftirsjár/sorgar.
Tómlæti (n, hk) Hugsunarleysi; afskiptaleysi; sinnuleysi. „Hann sýndi þessu bara tómlæti“.
Tómstund (n, kvk) Tími manns utan skyldustarfa/vinnu; tími til að sinna áhugamálum/ til hvíldar.
Tómstundabúskapur (n, kk) Búskapur með fáar skepnur, sem menn stunda sér fremur til gamans en aðalatvinnu/viðurværis.
Tómstundagaman / Tómstundaiðja (n, hk/kvk) Það sem gert er sér til gamans í tómstundum.
Tómt mál um að tala (orðtak) Skiptir ekki máli; tilgangslaust að ræða það. „Kindurnar hefðu náðst ef ég hefði komið með þér; en það er tómt mál um að tala, fyrst ég hugsaði ekki útí það strax“.
Tómt kjaftæði / Tóm þvæla (orðtak) Algert bull; innihaldslaust tal. „Þetta er tómt kjaftæði hjá honum“!
Tómthús (n, hk) Hús/bústaður sem ekkert jarðnæði fylgir. Einkum notað um hús í þéttbýli á fyrstu tímum þéttbýlismyndunar Vestra var fremur rætt um þurrabúð.
Tómur (l) A. Auður; án innihalds. B. Eintómur; einber. „Ég held að þetta sé nú tóm skreytni hjá honum“. „Helluhnjúkur er eins og hann sé hlaðinn úr tómum hellum“ (Örnefnaskrá Kollsvíkur). „Hér eru tómir klettar í sjó“ (SbG; Örn.skrá Hænuvíkur).
Tómur tilbúningur / Tómur þvættingur (orðtök) Alger skáldskapur; haugalygi; lygi frá rótum.
Tóna (s) Syngja messu á sérstakan hátt, með sönglandi hátónum. Viðhaft af prestum við messugerð.
Tónelskur (l) Sem nýtur þess að hlusta á tónlist, og jafnvel er fær á sviði tónlistar.
Tónlist (n, kvk) List sem lýtur að notkun tóna, framleiddum með hljóðfæri eða mannsrödd.
Tónlistarfólk (n, hk) Manneskjur sem eru færar á sviði tónlistar. Í Kollsvík hafa verið tónlistarmenn svo lengi sem vitað er; bæði söngfólk og hljóðfæraleikarar. Sem dæmi um þá síðarnefndu má t.d. nefna Karl Kristjánsson á Stekkjarmel, sem spilaði á fiðlu, og Ásbjörn Helga Árnason í Tröð sem var löngum organisti í Breiðavíkurkirkju. Gott dæmi um söngfólk er Grundafjölskyldan; Kristján Ásbjörnsson og afkomendur hans. Einkum voru Kristján Júlíus og Halldóra Kristjánsbörn einstaklega tónelsk. Sú síðarnefnda var nánast sísyngjandi og hafði mikla hæfileika á því sviði; sömuleiðis dóttir hennar Sigríður á Láganúpi.
Tónn (n, kk) A. Blær á hljóði; tóntegund. B. Rödd; skammir. Sbr senda einhv. tóninn.
Tór (n, kk) Torfusneplar/ reiðingsbútar í steinhlöðnum veggjum; haft til þéttingar í steinhleðslu til að veggfyllingin rynni ekki úr. Stutla var nafn á litlu priki sem notað var til að þjappa tórinn og fyllinguna vel að hleðslunni og nefndist það verk einnig að stutla. „Þunnt torf sem haft var til þéttingar á veggjum var þarna kallað tór“ (LK; Ísl. sjávarhættir II; frásögn KJK). Oðið mun ekki hafa verið notað annarsstaðar í þessari merkingu, a.m.k. ekki í seinni tíð, en það er þekkt sem „bjarmi í skýjum“ og sem færiband í síldarþró (Ásgeir Blöndal; Ísl. orðsifjabók).
Tóra (n, kvk) A. Stytting úr líftóra; líf; lífsandi. „Mér er of annt um tóruna í mér til að ég leggi ekki í svona glannaskap“! B. Um veður; glampi í auðan himin milli/neðan skýja. „Einhver tóra er enn í norðrinu“.
Tóra (s) Skrimta; lifa; komast lífs af. „Mér sýnist að lambið tóri; það þyrfti að koma einhverri velgju og mjólk í það“. „Ég ætla að halda í mína sérvisku meðan ég tóri“. „Nú þykir mér tóra á tíkarskottinu“!
Tóra á tíkarskottinu (orðtak) Um það sem er ótrúlegt/lygilegt/stórundarlegt; stórmerkilegt. „Nú þykir mér heldur en ekki tóra á tíkarskottinu; ef hann þykist vera orðinn forstjóri“!
Tótt (n, kvk) Tóft; leifar af húsi; veggjabrot/tóttarbrot. „Hér á Láganúpi var í túninu hjáleiga sem hét Hólar. Þeir voru í byggð þegar Jarðamatsbók Árna og Páls var skrifuð þar er sagt að þar hafi byggst fyrir um 50 árum og síðast sem ég veit til er getið um Hólabónda í málsskjölum frá Sjöundármálum um aldam. 1800. Þessar bæjartóttir eru vel sýnilegar enn, þó sjálfsagt hafi verið rifið úr þeim grjót. ... Svo er hér upp með Gilinu gömul tótt að mestu horfin í sandfok en mótar aðeins fyrir. Engin deili vita menn á henni. ... Bærinn Grundir var hér niðri við sjóinn. Hann fór í eyði um 1945. Þar standa allar tóttir að vísu nokkuð hrundar en þó furðu lítið. Bæjartóttir eru þar allgamlar; hafa verið byggðar upp í sama form gegn um tíðina .... Svo er í Grundatúninu fjóstótt og undirstæður undan hlöðu. Einnig smiðjutótt og yngri hlöðutótt. Niðri á bökkunum var byggt grasbýli framan af þessari öld og sér fyrir þeim tóttum. Þarna á sjávarkambinum er annars tótt við tótt. Þar voru fjárhús frá Grundum og Láganúpi ásamt lambhúsum, hrútakofum og fjárrétt. Þarna voru fyrir löngu verbúðir, en upp úr þeim tóttum munu fjárhúsin hafa verið byggð. .... Í Tröð er mikið af tóttum, reyndar ekki mjög gamlar; byggt um 1910 af tengdaföður mínum, en þær standa mjög vel. Hann hlóð líka garð um túnblettinn. Hann hóf þar búskap um 1909. Á gamla bæjarhólnum í Kollsvík eru margar tóttir. Þar var jafnan tví og þríbýlt og væri kannske þess virði að þessar rústir væru rannsakaðar betur. T. d. sést vel fyrir tótt af baðstofu sem hrundi eða fauk árið 1857 og varð af mannskaði“ (SG; þjóðhættir í Kollsvík). Um rithátt; sjá tóft.
Tóttahróf (n, hk) Samanfallnar/ógreinilegar tóttir. „Veiðistöð var við Torftóttir, eins og básar grafnir við bakkana og tóttahróf þar við. Vermenn þar áttu að hafa séð til útilegumanna“ (BÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).
Tóttaleifar (n, kvk, fto) Leifar af tóttum; tóttabrot. „Á Seljagilseyrum voru tóttaleifar gamlar... “ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).
Tóverk (n, hk) Öll bönd sem þarf til báts; þar með talinn reiðabúnaður, legufæri og annað.
Tóvinna (n, kvk) „Það var kölluð tóvinna að vinna band úr ullinni og flíkur úr bandinu... Fyrst var ullin táin. Þá var hún greidd í sundur milli fingra sér og jafnað úr henni. Tásan var síðan kembd í gömlu grófu kömbunum. Eftir því sem greiddist úr ullinni í kömbunum var kembda ullin dregin úr þeim í lengju sem kölluð var lopi og lögð í rimlakassa sem hér lár. Þetta hét að lyppa. Áður en rokkar komu til landsins á 18. öld var allur lopi spunninn í band á snældur. Hér á landi voru snældusnúðar gjarnan úr beini eða tré á síðari öldum. Lengi vel var allt band unnið í voðir. Það var ekki fyrr en á síðari hluta 16. aldar sem menn lærðu að prjóna hér á landi. Vefstóllinn sem lengi var notaður hér var kljásteinavefstóllinn, sem erfitt og seinlegt var að vefa á. Ný vefstólagerð barst til landsins árið 1724. Það var danski vefstóllinn, sem kallaður var, en miklu léttara var að vefa á hann. Prjónarnir ollu hreinni byltingu í tóvinnu, því þeir voru léttir í meðförum og hver sem var gat lært að prjóna. Oft var prjónað í myrkrinu á vetrarkvöldum þegar ljósmeti var af skornum skammti. Tóvinnan var mjög mikilvægur þáttur í störfum þjóðarinnar. Vaðmál til fatnaðar á heimilisfólk voru framleidd í íslenskum sveitum frá landnámi og fram um 1940.
Þegar búið var að vefa eða prjóna voð eða flík þurfti að þæfa hana. Við þófið varð flíkin þétt í sér, þykk, skjólgóð og entist betur. Það sem átti að þæfa var þvegið úr keytu og síðan undin úr því mesta bleytan áður en þófið hófst. Sokkar og vettlingar voru þæfðir í höndum sér, en peysur, pils og brækur voru þæfð í trogum. Vaðmálsvoð var oft þæfð undir fótum sér, en til var það að tveir menn þæfðu vaðmál á milli sín í tunnu sem lá á hliðinni og var opin í báða enda. Þá spyrntu þeir voðinni á milli sín innan í tunnunni.
Ef eitthvað fínna átti að vinna, var tekið ofan af ullinni og hún stundum hærð líka. Í flestum reyfum af íslenskri ull eru þrjár tegundir hára. Yst eru löng og fremur gróf toghár, en niðri í reyfinu eru fín og mjúk þelhár. Einnig koma fyrir í sumum reyfum mjög gróf hár, misjöfn að lend, sem kallast illhærur. Þegar vinna átti fínan og fallegan dúk úr ull, t.d. kjólefni, þá var fyrst valin fín og þelmikil ull til að vinna úr. Síðan var tekið ofan af með því að draga togið uppúr reyfinu, en þelfóturinn sat eftir. Síðan þurfti að ná stuttu, grófu hárunum; illhærunum, úr þelinu. Það var gert með því að halda þellögðum upp að birtunni og tína úr grófustu hárin sem sáust. Stundum var þelinu troðið fast í lítinn poka og látið bíða dálítinn tíma. Þegar þelið var tekið aftur úr pokanum, réttu stinnustu og grófustu hárin fyrst úr sér og voru tínd úr. Þetta hét að hæra þelið. Þelið var síðan kembt og spunnið úr því. Á 18. öld var farið að nota nýja gerð kamba, sem kallaðir voru ullarkambar. Þeir voru með vírtennur festar í skinn, sem neglt var á fjöl með áföstu skafti. Fínasta gerðin af þessum kömbum var kölluð þelkambar. Kembur voru ekki lyppaðar heldur spunnið beint úr þeim. Hægt var að spinna mjög fínan þráð úr þelinu. sumar tóvinnukonur báru fótafeiti af soðnum sviðalöppum samn við þelið til að það kembdist betur og hægt væri að teygja það í fínni þráð við spunann.
Kjólefni úr fínum einföldum þelþræði sem ofin voru með einskeftuvefnaði urðu áferðarfalleg, þunn og létt eins og fínasta léreft. Tvinnaður þelþráður var líka notaður til að prjóna úr sérstaklega vandaða sokka, hyrnur sjöl og fína dúka. Togið var kembt í gömlu togkömbunum. Það var dregið þannig úr kömbunum að toghárin lægju því sem næst öll langs eftir þræðinum. Dregna togið var vafið upp í hönk sem síðan var spunnið úr. Togþráðurinn varð að vera með jafnan og harðan snúð. Togþráðurinn var notaður til að sauma með honum. Hann var sterkur, háll og gljáandi. Hann var líka notaður í vefnað og útsaum og til að flosa með. Þá voru net líka riðin með togþræði“ (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).
„Það var mikið ofið á veturna. Uppistaðan var tvistur, fyrirvaf var ull. Ennfremur var þráður í uppistöðu og tvistur í fyrirvaf þegar ofið var í milliskyrtur og sængurver, sem einnig voru notuð í verbúðunum. Oft var búið að vefa einn vef og fella niður fyrir jól. Við krakkarnir réttum í haföldin og skeiðina. Það var mestmegnis ofið í öll föt; lítið sem ekkert keypt af útlendu fataefni. Nærföt, buxur og skyrta voru úr hvítum vaðmálsdúk. Já ég varð svo fræg að spinna þráð í vef“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
„Ef nota átti bandið í vinnupeysur karla eða grófari sokkaplögg var kembt saman tog og þel, eða notað eingöngu tog; en tekið var ofan af sem kallað var þegar tog og þel var aðskilið“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).
Traðir (n, kvk, fto) Laut eða opin göng sem farið er um; oftast manngerð. „Hestavegurinn liggur víða í tröðum sem myndast hafa af aldalangri notkun og úrkasti lausagrjóts“. „Snjómoksturstækin skilja eftir sig traðir“.
Traðjark (n, hk) Ið; spark; læti. „Verið ekki með þetta traðjark í sófanum strákar; hann gæti liðast í sundur“!
Traðjarkast (s) Brauðhófast; fara um með látum. „Getið þið ekki traðjarkast annarsstaðar strákar“?
Traðjóla (s) Spora út; óhreinka með umferð. „Vertu ekki að traðjóla um allt á stígvélunum inni í húsi“.
Traðk / Tramp (n, hk) Spark; troðningur; fótspor. „Í hellisskúttanum var mikið traðk eftir sauðfé“.
Traðka / Trampa (s) Stíga; spora, bæla með átroðningi/göngu. „Nú hefur kattarfjandinn traðkað á blautri steypunni“! „Gætið þess að traðka ekki mikið yfir óslægjuna þegar þið rekið féð útaf“.
Traf (n, hk) Klútur; klæðisbútur. T.d. höfuðklútur eða sárabindi.
Trafaaskja (n, kvk) Lítil askja til geymslu á trafi o.fl.
Trafakefli / Trafastokkur (n, hk/kk) Sívalningur úr tré, notaður til að slétta/strauja lín og annan vefnað, og fjöl til að velta honum. Klæðinu var þá vafið utanum sívalninginn, og honum svo velt með fjölinni, sem oft var með handfangi og iðulega skreytt á einhvern hátt.
Trafali (n, kk) Hindrun. Sjá til trafala. Orðið trafali er stofnskyld orðunum „truflun“, „traf“ og „trefill“; þ.e. vísar til þess að eitthvað druslist; flækist fyrir. Hugsanlegt er að trafali hafi einhverntíma verið heiti á hafti sem fætur dýra eru bundnir með, til að geta hæglega náð þeim. Enska sagnorðið „travel“ (ferðast) merkti líklega í byrjun að komast yfir hindranir/trafala.
Traktera (s) Bjóða; bera fram. „Jónsi trakteraði mig á hangiketi með ananaskurli og æðareggjum“.
Trakteringar (n, kvk, fto) Meðferð; veitingar. „Það voru víst kjarnyrtar trakteringar sem þingmaðurinn fékk á fundinum“. „Ég fékk þessar fínu trakteringar á bænum og var að auki nestaður þegar ég fór“.
Traktor (n, kk) Dráttarvél. Sletta, t.d. í ensku „tractor“.
Traktorskvísl (n, kvk) Stór heykvísl sem sett er á ámoksturstæki traktors og notuð t.d. til að moka heyi uppá heyvagn. „Ég rétti tindinn sem bognaði í traktorskvíslinni“.
Tralla (s) Syngja án þess að leggja áherslu á texta; raula. „Karlinn var í góðu skapi; söng og trallaði“.
Trampa (s) Stíga fast til jarðar; hlunkast. „Passið að trampa ekki niður plönturnar í beðunum strákar“.
Trampari (n, kk) Gönguskór; spássersskór. „Þessir nýju tramparar eru alveg öndvegisþing“.
Trana (n, kvk) A. Vansköpun/líkamseinkenni í andliti, þannig að efri kjálki gengur áberandi langt framyfir þann neðri. „Lambið er með svakalega trönu; ég er ekki viss um að það lifi lengi“. B. Rá/hjallur til þurrkunar á fiski. „Hausar og fiskur eru hengdir á trönur; hryggirnir þurrkaðir á reitunum“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). C. Fótur/statív undir málverki.
Trana sér fram (orðtak) Ota sér fram; hampa sjálfum sér; ryðjast fram. „Ég vil ekki trana mér fram fyrir aðra“.
Transporta (s) Flytja; fara; ferja. „Við þurftum sjálf að transporta mjólkinni inn í Hænuvík“. Oft í merkingunni fara: Hvert ætlar þú núna að transporta“?
Trantaralýður (n, kk) Ruslaralýður; rumpulýður; þrjótar. „Ég vil ekki sjá svona trantaralýð hér útí víkur“!
Tranthali (n, kk) Örnefni í Kollsvíkurlandi, brött brekka við heimari enda Bekksins. „Ekki er vitað um nafnskýringu, en hugsanlega hefur Bekkurinni í Núpnm einhverntíma heitið „Trantur“ og Tranthali hefur þá merkt endann á honum, líkt og orðið Túnshali, handnmegin í Víkinni“.
Trantur (n, kk) Kjaftur; munnur. „Ekki vantar á hann trantinn, þennan bölvaðan strigakjaft“!
Trappa (n, kvk) Stigi; þrep í stiga. „Hann var orðinn fremur stirður í stiganum og steig báðum fótum í hverri tröppu“.
Trappa (s) A. Trampa; stíga á. B. Gera í þrepum. „Lyfjagjöfin er tröppuð niður þegar einkenni minnka“.
Trassa (s) Um verk; draga; slóðast með. „Þú mátt ekki trassa námið“.
Trassa von úr viti (orðtak) Trassa lengi. Sjá draga von úr viti.
Trassafenginn / Trassalegur (l) Slóðalegur; seinn til framkvæmda. „Hann er nú stundum óttalega trassafenginn“. „Skelfing geturðu verið trassalegur með þetta“!
Trassaháttur / Trassaskapur (n, kk) Sleðaháttur; leti; dráttur á verki/máli. „Þetta er óafskanlegur trassaskapur“!
Trassalegur (l) Latur; slóðalegur.
Trassi (n, kk) Slóði; framkvæmdalítill. „Skelfilegur trassi ertu með fráganginn á þessu drengur“!
Trauðfundinn (l) Vandfundinn; sjaldgæfur. „Sá maður er líklega trauðfundinn sem leikur þetta eftir“.
Trauðfær (l) Ekki greiðfær. „Ég er hræddur um að sú leið geti verið trauðfær“.
Trauðla / Trauðlega (ao) Erfiðlega. „Betri maður er trauðla fundinn í þetta verk“. „Trauðlega trúi ég því“.
Trauður (l) Erfiðlegur; erfiður; vandasamur. „Mér finnst trautt að treysta þessu veðurútliti“.
Traust (n, hk) Trúnaður; öryggi. „Ég set allt mitt traust á að þetta takist“. Ekki ber ég mikið traust til þessarar blessuðu ríkisstjórnar“!
Traustabrestur (n, kk) Brak/brothljóð/marr í hlut, án þess að skaða verði vart. „Í miklum stormi heyrðust allskonar hljóð í gamla húsinu. Afi sagði að þetta væru bara traustabrestir“.
Traustur (l) Öruggur; sterkur; haldgóður. „Heldurðu að gamli vaðurinn sé fyllilega traustur“?
Traustabrestur (n, kk) Brak/hljóð sem ekki er merki um skemmd eða veikleika. „Í hvassviðri gnauðaði margbreytilega í gamla Láganúpshúsinu og söng hátóna í símalínum. Undir það spil dunkuðu traustabrestir í máttarviðum, svo úr varð áheyrilegasta simfónía“.
Traustatak (n, hk) Öruggt/traust tak. Sjá taka traustataki.
Traustbyggður (l) Rammgerður; vel byggður/gerður; sterkur.
Traustlega (ao) Rammlega; vel; örugglega. „Sperrur voru traustlega negndar með hnykktri fírtommu“.
Traustur ís (orðtak) Ís sem unnt er að treysta; mannheldur ís. Hið gagnstæða er ótraustur ís.
Traustverður (l) Sem unnt er að treysta; sem er trausts verður; trúverðugur.
Trautt er að þjóna tveimur herrum (orðatiltæki) Erfitt er að hafa tvo yfirmenn/ að fá misvísandi fyrirskipanir úr ólíkum áttum.
Tregast / Tregðast (s) Dregur úr veiði. „... tregaðist fiskur svo mjög að menn slitu aðeins upp drátt og drátt með alllöngu millibili“ (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).
Tregða (n, kvk) Mótþrói; viðnám; hindrun; treggjaldi. „Einhver tregða er í þeim að samþykkja þetta“.
Tregðast (s) Verða tregur. „Eitthvað er rennslið farið að tregðast í vatnslögninni“.
Tregðast við (orðtak) Streitast á móti; halda aftur af sér; standa fastur á sínu; móast/þverskallast við. „Hann tregðast enn við að greiða að fullu“.
Tregðulaust (l) Án tregðu/vandkvæða; liðugt; lipurt. „Það gekk tregðulaust að koma fénu upp á brún“.
Tregðulögmál (n, hk) Grundvallarlögmál um hreyfingu massa, sem segir að massi muni halda þeirri ferð og stefnu sem hann hefur meðan ekki verka á hann neinir kraftar. Ein birtingarmynd tregðulögmálsins er miðflóttaaflið. Tregðulögmálið er gjarnan kennt við Isaac Newton.
Tregfiski (n, hk) Treg veiði; aflaleysi. „Í tregfiski var smærri fiskurinn alltaf viljugri en sá stóri“. „Í tregfiski kom fyrst í ljós munurinn á aflaklóm og fiskifælum. Þá voru góðir dráttarmenn alltaf að draga öðru hvoru þó aðrir fengju ekki nokkurn ugga“ (GG; Skútuöldin).
Treggáfaður (l) Illa gefinn; heimskur; skilningslaus. „Ég hélt að hann væri ekki svona treggáfaður“.
Treggjaldi (n, kk) Hindrun; tálmi; tregða. Fremsti hlutinn í ruddri vör;oft stórgrýtisþröskuldur sem ekki tókst að ryðja, en var viðsjárverður á stærstu fjörum. Þessi forna vísa drepur á ýmis heiti á varasömum grynningum, þó eitthvað hafi hún ruglast í ríminu: „Ég get djarft úr flokki talið;/ flögur, flesjur, flösur, hnúfur/ treggjaldi, töskur, naggur/ klöpp, hleinar, boðar“. (LK; Ísl.sjávarhættir). Í Kollvík var orðið notað um hindrun af ýmsu tagi. „Einhver bölvaður treggjaldi er nú kominn í niðurfallið“.
Tregi (n, kk) A. Sorg; söknuður. B. Tregða; treggjaldi. „Það er enn einhver tregi í vatnsrennslinu“.
Treglega (ao) Erfiðlega; varla. „Mér hefur gengið fremur treglega að fá þetta greitt“.
Treglæs (l) Illa læs; seinlæs; rekur í vörðurnar. „Hann komst í gegnum þetta, en ósköp er maðurinn treglæs“.
Tregur (l) A. Ekki viljugur; seinn; þverskur. „Við vorum berlappaðir og rollurnar voru tregar til að hreyfa sig“ (IG; Æskuminningar). B. Tornæmur; skilur illa; ekki vel gefinn. „Mikið andskoti geturðu verið tregur ef þú skilur þetta ekki“! C. Um afla; lítill afli; lítið fiskirí. „Það var mjög tregt og illt í sjóinn; það lagði á norðan spænu með hálfgerðum brimhroða“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „100 fiskar í róðri þótti tregur afli, en 200 og meira þótti góður afli“... „Áður en vertíð lauk var fiskur oft orðinn tregur á línu“ (KJK; Kollsvíkurver). „Færum er rennt. Fiskur tregur. Keipað um stund; síðan kippt fram á Stekka“ (ÖG; glefsur og fyrsti róður).
Tregur í taumi (orðtak) Ekki leiðitamur; lætur illa að stjórn; þrjóskur. „Þeim þótti hann fremur tregur í taumi í þessu máli“.
Treikantur (n, kk) Það sem er þríhyrningslagað. „Efsti hlutinn á Flötinni er treikantur“.
Teikantþjöl (n, kvk) Þrístrend þjöl. „Réttu mér treikantþjölina“.
Treikvart / Treikvarttomma / Treikvartmetri / Treikvartlítri (n, kvk/kk) Þrír fjórðu mælieiningar.
Treikvartborð (n, hk) Borðviður/fjöl sem er um þrjá fjórðu úr tommu að þykkt.
Treikvartsaumur / Treikvartskrúfa (n, kk/kvk) Saumur/skrúfa sem er þrír fjórðu tommu að lengd. „Það er líklega mátulegt að hafa treikvartskrúfur í lömunum“.
Treikvarttomma (n, kvk) A. Lengdin tveir fjórðu tommu. B. Treikvartsaumur.
Treikvarttunna (n, kvk) Tunna sem tekur þrjá fjórðu úr rúmmáli heiltunnu, eða 90 lítra.
Treitomma (n, kvk) Þriggja tommu saumur/nagli. „Ég fékk pakka af galvaníseraðri treitommu“.
Treina (orðtak) Spara; geyma sér. „Það verður að treina sér tóbakið fram að næstu Eyrarferð“.
Trekk í trekk (orðtak) Aftur og aftur. „Hann reyndi þetta trekk í trekk, án nokkurs árangurs“. Dönskuseltta; træk = lota. Af sama stofni eru orðin trekkja og trekkur.
Trekkja (s) A. Draga upp, t.d. gangverk í klukku; strekkja á. B. Vera/myndast súgur. „Ansi trekkir mikið innmeð hurðinni þegar veðrið stendur uppá hana“! C. Æsa upp. „Vertu nú ekki að trekkja strákinn svona fyrir svefninn“!
Trekklaus (l) Án gegnumtrekks/dragsúgs. „Þetta var allra þokkalegasta verbúð grafinn að mestu inn í hól, og var hún því að mestu trekklaus“ (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).
Trekkur (n, kk) Einkum notað um óæskilegan vind í húsum; gegnumtrekkur. Hinsvegar þurfti að trekkja hæfilega mikið upp um reykháfinn þegar kynt var með kolum eða olíu. Var þá trekkspjald í skorsteininum sem takmarkaði trekkinn og kom í veg fyrir að reyknum slægi niður og inn í hús.
Trekktur (l) Æstur; taugaspenntur.
Trekt (n, kvk) Keilulaga hólkur, oft notaður til að hella vökva í ílát. „Mundu eftir að setja bensínbrúsann og trektina í bátinn“.
Trektlaga / Trektlagaður (l) Eins og trekt í laginu; uppvíður.
Treyja (n, kvk) Yfirhöfn að ofanverðu. Orðið var almennt notað fram um miðja 20.öld en hefur nú nánast alveg vikið fyrir öðrum, s.s. jakki, blússa, hettupeysa, flíspeysa, úlpa o.fl.
Treysta (s) A. Bera traust til; reiða sig á. „Ég treysti honum fullkomlega fyrir þessu“. B. Gera öruggara/traustara; styrkja. „Ég ngldi klampa utaná sperruna til að treysta hana“. C. Kanna styrk með því að reyna á. „Áður en haldið var á bjargið var vaðurinn alltaf treystur með því að binda hann um jarðfastan stein eða annað og síðan lögðust bjargmenn allir í hann af fullum þunga“.
Treysta á (orðtak) Reiða sig á. „Þó kom það fyrir að þurrabúðarfólk hafðist þar við með fáeinar kindur, en treysti að öðru leyti á sjávargagn sér til framfærslu“ (HÖ; Fjaran). „Þórarinn átti styttri leið í Verið og treysti á það“ (ÖG; glefsur og minningabrot).
Treysta sér til (orðtak) Telja sig færan um. „Hann treysti sér ekki til að klífa upp á Völlinn“.
Treystast (s) Treysta sér. Endingin hefur fyrrum verið –sk, sem er stytting úr „sik“ eða „sig“. Þannig endingu fengu fleiri sagnorð, s.s. „kastast“; farast“; „heimtast“ o.fl. „Þrír þeirra treystust ekki til að leggja strax af stað aftur ...“ (SbG; Björgun undir Látrabjargi; Árb.Barð; 1948).
Treystist (ekki) til (orðtak) Treysti mér/sér (ekki) í. „Ég treystist varla til að fara einn með nautið“. „Hann treystist ekki til að kaupa bílinn þegar á reyndi“.
Tré (n, hk) A. Stórvaxin fjölær planta, iðulega með sveran bol með eiginleikum sem gera hann eftirsóttan til smíða. B. Viður; timbur; efni í/úr bol trjáplöntu. C. Mastur/siglutré á skipi.
Tré skal frá tagli rífa en rót telgja/saga (orðatiltæki) Speki sem segir til um skynsamlega vinnslu trábols/rekaviðs. Æðar trésins liggja inn að miðju uppfrá rótinni. Því skyldi jafnan tálga (telgja) frá rótinni til að hnífurinn leiti ekki inn í efnið. Sama gildir þegar tré er sagað: Ef byrjað er frá krónu (tagli) mun sagarsárið lokast og sögin festist, en sé byrjað frá rót mun það opna sig. Ef skipta skal tré með því að rífa það með fleygum er hinsvegar rétt að byrja frá krónu (tagli); þá klofnar jafn planki (bak) utanaf bolnum. Ef byrjað er frá rótinni er líklegt að einungis rifni inn í bolinn en ekki alla leið.
Tréhestur (n, kk) A. Hestlíkneski úr tré. B. Niðrandi heiti á manni sem þykir skilningssljór eða stirður í samskiptum.
Tréklumpur (n, kk) Vænn/þykkur en stuttur bútur af tré/trjábol; viðarbútur. „Ég stillti tréklump undir tjakkinn til að hann næði upp í hásinguna“.
Trémaðkur (n, kk) Trjámaðkur (sjá þar).
Tréna (s) A. Um jurtir; verða trékenndur og með seigar trefjar. B. Um fólk; gleyma; hætta að muna. „Ég er líklega farinn að tréna dálítið í algebrunni“. C. Trénast Um fólk; verða langþreyttur á einhverju; gefast upp. „Ég fer nú að trénast á þessum félagsstörfunum ef áhuginn er almennt að hverfa hjá öðrum“.
Trénaður (l) A. Um jurt; farin að tréna. B. Um fólk; orðinn gleyminn/stirður/ leiður á.
Trénast upp á (einhverju) (orðtak) Verða þreyttur/leiður á einhverju; gefast upp á einhverju. „Ég fer alveg að trénast upp á þessum félagsstörfum ef enginn áhugi er hjá öðurm“.
Trénagli / Tréþollur (n, kk) Lítill pinni/nagli úr tré/viði. „Heima (á Lambavatni) var svo slátrað þeim skepnum sem voru ætlaðar sem kjötforði fyrir heimilin. Fyrir sláturdaginn var afi minn búinn að útbúa litla trénagla sem hann notaði til að verka hangikjötið í salt. Það var saltað nýslátrað; stráð í það volgt og staflað upp í stæðu. Tekið var í reyk helst geldfé; gjarnan valið vænt fé. Tekin voru krof af því; þ.e. skrokkurinn tekinn í sundur þvert aftanvið bógana, og læri, hryggur og síða saltað í heilu lagi. Svo var framparturinn klofinn eftir hrygg, og þá fór afi að nota tréþollana sína. Skorið var inn með herðablaðinu í einskonar vasa og þar var sett salt í vasann. Svo var nælt fyrir með trénöglunum svo saltið rynni ekki úr þessum vasa. Þetta var gert til þess að öruggt væri að saltaðist jafnt um þetta stykki. Þetta var kallað skammrifsbrók. Dilkakjötið var svo saltað í tunnu“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Tréni (n, hk) A. Trefjar í trénaðri jurt; trénuðum ávexti. B. Sellulósi; beðmi; fjölsykra sem gefur flöntufumum styrk og er eitt af næringarefnum í plöntum. Aðeins þau dýr geta nýtt sér tréni til fæðu sem hafa viðeigandi ensím í örverum í þörmum sínum.
Tréreisa (s) Reisa siglutré á báti. „Þegar seglbúið var fylgdu því ýmiss konar fyrirskipanir formanns til háseta: Setjið upp og greiðið úr seglum! Tréreisið! Takið til! ..“ (LK; Ísl. sjávarhættir III, sjá sigling). „Það var ekkert annað en fara að ausa uppá karft; leggja upp árar og tréreisa sem kallað var, en það var að reisa mastrið og draga upp þversegl sem var í þá daga í flestum bátum í Kollsvík“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).
Tréskeri / Tréskurðarmaður (n, kk) Myndskeri; útskurðarmaður; sá sem sker út í tré.
Tréskurður (n, kk) Útskurður; myndskurður.
Trésmiður (n, kk) Sá sem smíðar út tré.
Trilla (n, kvk) A. Tiltölulega lítill vélbátur, oftast ódekkaður; trillubátur. Upphaflega átti heitið einungis við vélina. B. Litill vagn með hjólum, hjólatrilla. C. Lagstúfur. „Hann tók háværar trillur meðan hann saltaði í óðakappi“.
Trilla (einhverju) (s) Flytja eitthvað á farartæki/trillu. „Ég trillaði einum hjólbörum af skít upp í garðinn“.
Trillubátur (n, kk) Trilla; lítill vélbátur. „Eftir að Einar bróðir byggði á Gjögrum kom þar fljótlega bryggja, þannig að aðstaða til útgerðar trillubáta þaðan batnaði til muna“ (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður).
Trimma (s) Nýleg enskusletta; hlaupa. Upphaflega um líkamsrækt, en notað um ýmiskonar gönguferðir.
Trippa (n, kvk) A. Mertryppi. B. Niðrandi heiti um konu sem þykir léttúðug eða líking um ódæla stelpu.
Trippi (n, hk) Ungur hestur, fárra vetra.
Trissa (n, kvk) A. Skoruhjól, t.d. í blökk/talíu. B. Það sem farið er, sbr orðasambandið út um allar trissur. Uppruni orðsins hefur vafist fyrir málfræðingum. Líklega er stofninn sami og orðsins træde í dönsku, sem merkir að fara eða ganga.
Trínitatis Þrenningarhátíð; fyrsti sunnudagur eftir hvítasunnu. Aðrir sunnudagar voru við hann miðaðir í fyrra tímatali; fyrsti, annar, þriðji o.s.frv sunnudagur eftir trínitatis. Trínitatis var fyrst skipaður helgidagur af Jóhannesi 22. páfa, á 14.öld, til heiðurs heilagri þrenningu.
Trítill (n, kk) Sá sem er lítill; gæluorð um lítinn strák; rindill.
Trítilóður / Trítilvitlaus (l) Snarvitlaus; mjög æstur; frá sér af reiði/æsingi. „Karlinn varð alveg trítilóður þegar hann frétti af þessu“. „Ég tala ekki við hann meðan hann er enn svona trítilvitlaus“!
Trítl (n, hk) A. Tif; létt og títt fótatak. „Þeir sem sváfu í bragganum sögust hafa heyrt títlið í músunum innanþilja“. B. Gæluorð um stutta gönguferð. „Ég læt mig ekki muna um svona stutt trítl“.
Trítla (s) Ganga stuttum skrefum; keifa. „Ég ætla að trítla norður á Mel og gá að lambénu“.
Trjábolur / Trjáviður / Trjástofn (n, kk) Rekaviður; rekatré. „Þetta er ári jafn og myndarlegur trjábolur, líklega lítið maðksmoginn“.
Trjábútur / Trjádrumbur / Trjástubbur (n, kk) Stutt tré. „Ég henti þessum trjádrumb uppfyrir flæðarmál“.
Trjáhnyðja / Trjárót (n, kvk) Rót trés, einkum eftir að hún er sjórekin. „Þarna var rekin stór trjáhnyðja“.
Trjákvistur (n, kk) Kvistur í viði. „Þetta er hart eins og trjákvistur“.
Trjákvoða (n, kvk) Kvoða úr viði; harpix.
Trjámaðkur (n, kk) Trémaðkur; Teredo norvegica. Samloka af timburmaðkaætt sem lifir í N-Atlantshafi; eins og ormur í lögun. Fremst á líkamanum eru örsmáar hvassar skeljar og með þeim borar maðkurinn göng í viðinn, sem hann síðan húðar með kalki. Hann verður allt að 30 cm langur og veldur oft miklum skaða á t.d. bryggjustólpum, skipum og öðru. Rekaviður er oft mjög maðksmoginn, einkum í ytra byrði, og stundum ónýtur til smíða vegna þess. Þá sljóvgar kalkið mjög bit í sögum og öðrum eggjárnum.
Trjáreki / Trjáviðarreki (n, kk) Reki trjáviðar. „Fyrir kemur að trjáreki er undir Breið eða í Vatnadalsbót…“ (HÖ; Fjaran). „Í lítilli sandvík sem er milli Gvendarhleinar og Melsendakletta er stundum nokkur trjáreki. Líklega er rekasæld þar hin mesta í Kollsvíkur- og Láganúpslandi“ (HÖ; Fjaran).
Trjárækt (n, kvk) Ræktun trjáa. Trjárækt hefur ekki verið stunduð í Kollsvík. Páll Guðbjartsson gerði tilraun um miðja 20.öld til að planta í reit heiman Litlavatns. Plönturnar döfnuðu margar vel, en eyddust um leið og fé komst yfir girðinguna kringum reitinn. Á 8.áratugnum voru runnaplöntur settar niður í reiti í Urðunum í Kollsvík og Láganúpi, en drápust þegar það lenti í útideyfu að planta þeim út. Síðar kom Sigríður Guðbjartsdóttir sér upp runnum í garði sínum, og stuttu síðar komu runnar einnig við Kollsvíkurhúsið.
Trjátegund (n, kvk) Tegund af tré. „Enn hafa trjátegundir ekki verið greindar í holunum í Bótinni“.
Trjáviður (n, kk) Viður; tré sem efni. „Þetta var allt smíðað úr trjáviði“.
Trjóna (n, kvk) A. Það sem skagar fram. B. Framendi/nef á skelfiskplóg.
Trjónukrabbi (n, kk) Hyas araneus. Stór tífættur krabbi sem algengur er í grunnsjó við landið. Í Útvíkum er hann algengari en bogakrabbi. Bakskjöldurinn mjókkar fram í trjónu og verður allt að 8 cm á karldýrum en um 6 hjá kvendýrum. Augun standa á stuttum stilkum sitthvorumegin á trjónunni. Stuttir fálmarar eru við augun. Undan skelinni að aftan kemur flatur hali sem liggur þétt framundir kviðinn. Halinn er bogadreginn á kvendýrum, en hliðar inndregnar hjá körlum. Trjónukrabbinn hefur fjögur pör af gangfótum, sem eru lengri en skelin. Fremst hefur hann tvær griptengur sem enda í sterklegri kló. Litur er brúnn eða rauðbrúnn, en nærri hvítur að neðan. Skelin roðnar mjög í sólarljósi. Trjónukrabbinn er rándýr sem ét bæði hræ og þær lífverur sem þeir ráða við. Í fjörunni má oft sjá mikið af krabbaskeljum sem fugl og önnur kvikindi hafa étið úr.
Troða (s) A. Þjappa/þvinga hey/ull eða annað í poka/körfu/hlöðu eða annað ílát. „Það þarf að troða svo vel í ullarballann að ekki lauti undan fingri“. „Það er mikið atriði að jafna vel í votheysgryfjunni og troða vandlega, ekki síst með veggjunum svo ekki nái að mygla“. B. Stíga á; þjappa snjó í ófærð. „Það er dálítil krepja í snjónum svo það er ágætt að troða núna; betra er að leggja förin meðan snjórinn treðst vel“.
Troða af giftingu (orðtak) Viðhaft um það þegar fiskur dettur af færi áður en næst að innbyrða hann. Upprunalega merkir það að annar aðilinn hlaupi frá áætlaðri giftingu. Orðtakið virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Troða illsakir við (orðtak) Standa í illindum við; eiga í illdeilum við; vera andstæðingur. „Ekki er ég sammála þessu, en ég nenni kannski ekki að troða illsakir við þá útaf því“.
Troða í kóng (orðtak) Setja í pípu og fá sér að reykja. „Nú held ég að ég setjist niður og troði í kónginn“.
Troða marvaðann (orðtak) Svamla í sjó/vatni í þeim tilgangi að halda sér á floti án þess að um sund sé að ræða. Mar merkir sjó og vaði er nafnorðsmynd sagnarinnar að vaða.
Troða niður skóinn (orðtak) Níða/rakka/tala niður málefni/persónu; tala illa um. „Mér finnst illa gert að troða niður skóinn af þessu ágæta framtaki, og gera það tortryggilegt“. Sjá níða skóinn niður af (einhverjum).
Troða sig út (orðtak) Borða í óhófi; steyta/þenja vömbina.
Troða (einhverjum) um tær (orðtak) Valda ónæði/ágangi; þvælast fyrir. „Það væri vel þegið fá gistingu, en síst vildi ég þó troða ykkur um tær“.
Troða (einhverju) upp á (einhvern) (orðtak) Þvinga einhvern til að taka við einhverju/ meðtaka eitthvað. „Gegnum aldirnar hefur guðsorðinu verið troðið uppá mannskapinn frá vöggu til grafar“.
Troðast undir (orðtak) Verða undir í miklum troðningi/ mililli þröng. „Gættu þess að engin troðist undir þegar þú gfur fóðurbætinn á garðann“.
Troðfylla (s) Yfirfylla; fylla svo þvingað sé í. „Ég er búinn að troðfylla þennan ullarballa“.
Troðfylltur (l) Yfirfylltur; fylltur svo þvingað sé í. „Eftir að kerran hafði verið troðfyllt var lagt af stað“.
Troðinn / Troðfullur (l) Smekkfullur; sneisafullur; pínsfullur. „Þá held ég að þessi gryfja megi heita troðin“.
Troðin í rjáfur Um hlöðu; troðin af heyi upp í rjáfur. „Efri hlaðan er troðin í rjáfur en eitthvað pláss er í hinni“.
Troðjúgra (l) Um kýr; með júgur þrútin af mjólk. „Það þarf að létta aðeins á kúnni strax og hún er borin; hún er orðinn svo troðjúgra“.
Troðningur (n, kk) A. Þröng; þyrping; þrengsli. „Vertu við réttardyrnar svo þar verði síður troðningur þegar við hleypum fénu út“. B. Troðinn stígur; gata.
Troðsnjór / Troðslusnjór (n, kk) Hnoðsnjór. Snjór sem klessist auðveldlega saman, en þó ekki mjög krapkenndur. Samgöngur í Rauðasandshreppi að vetri eru oft slæmar í miklum snjóum, enda ekki daglegur mokstur að hálfu þess opinbera. Því var mikilvægt, þegar hæfilegur troðslusnjór myndaðist vegna hlýjukafla, að grípa tækifærið og leggja góða slóð þar sem miklar fannir voru. Voru sumir bílstjórar einkar lagnir við slíkt, og oft var ekið heilan vetur á slíkri slóð; iðulega nokkuð utan eða ofan vegar. Bæði orðin heyrðust notuð; troðslusnjór þó oftar.
Trog (n, hk) Ílát úr tré,sem mikið var notað við allskyns matargerð; geymslu og framreiðslu matar fyrrum. Trog er vanalega flatt með lágum hliðum, sem oft eru hallandi. Mörtrog er til á Láganúpi og var til skamms tíma notað til að hnoða mör. „Það voru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar. Jón Torfason, afi minn, smíðaði flest ílát í sveitinni“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Troll (n, hk, linur frb) Botnvarpa. Úr ensku; „trawl“, sem að stofni er sama orðið og „trefill“.
Trolla (s) Veiða í troll/botnvörpu. „Sú var tíðin að togarar máttu trolla hérumbil uppi í kálgörðum“!
Trollfiskur (n, kk) Fiskur sem veiddur er í troll/botnvörpu. Hefur einatt verið talin verri vara en fiskur veiddur á krók.
Trollgarn (n, hk) Sterkt band, ca 5mm lína, sem notað er til ýmissa hluta, bæði á sjó og landi. Nú framleitt úr gerviefnum. „Einnig þurfti að útbúa lóðir, meðan þær voru enn notaðar í Kollsvíkurveri. Trollgarn var notað í lóðaþininn“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Trollkúla (n, kvk) Kúla sem notuð er til að fleyta höfuðlínu á trolli og halda því þannig opnu í drætti. Trollkúlur hafa ætíð rekið mjög á fjörur í Kollsvík og víðar; fyrst úr járni, síðar áli og síðast úr plasti.
Trollpoki (n, kk) Aftasti hluti trolls/botnvörpu, sem fiskurinn safnast í þegar veitt er.
Trollspil / Trollvinda (n, hk/kvk) Vélknúið/vökvaknúið spil á togara til að draga inn trollið.
Trollstakkur (n, kk) Olíustakkur; sjóstakkur; vatnsheldur hlífaðarfatnaður sem menn steypa yfir sig sem einskonar hempu. Oftast eru menn þá í klofstígvélum og með sjóhatt.
Tromla (n, kvk) Sívalningur; tunna. Gjarnan átt við stóran sívalning til að vinda vír eða tóg uppá, eða tunnu í þvottavél.
Tromma (n, kvk) Trumba; ásláttarhljóðfæri.
Tromma (s) Slá taktfast á eitthvað. „Hann trommaði fingrum á borðið meðan hann hugsaði“.
Tromp (n, hk) Litaröð í spilum sem hefur meira gildi en aðrar. Stofnskylt enska orðinu „triumph = sigur“.
Trompa (s) A. Í spilum; taka slag með trompi. B. Í líkingamáli um að hafa betur með snjallri aðferð; máta.
Trompa út (orðtak) Setja tromp út í forhönd þegar spilaður er litur (tromp) t.d. í vist eða bridds.
Trompast (s) Brjálast; fara á toppinn. „Hann myndi trompast ef hann vissi af þessu“.
Tros (n, hk) Fiskur, annar en fletjandi þorskur, svo og innmatur úr fiski. „Saltaður steinbítur var oftlega nefndur tros. Einnig náði þetta heiti yfir annan saltaðan soðmat, t.d. lúðu, skötu og kola“ (KJK; Kollsvíkurver). „Steinbítur sem veiddist seinnipart sumars var saltaður í tunnur og síðan tekinn upp og stráð í hann salti; þá var hann kallaður tros“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Trosna (s) Um band/við; rakna upp í enda; strúast. Benslaðu endann á vaðnum svo hann trosni ekki“. „Tréð er stráheilt, en dálítið trosnað í endana“.
Trosnað (l) Um band; strúað/raknað/núið/dregið svo ystu þættir losna og veikjast.
Trossa (n, kvk) A. Haugur/flækja af bandi/línu/vað/netum. B. Strengur; nokkur fiskinet sem bundin eru enda í enda. „Það má hafa nokkrar trossur af grásleppunetum á Bótinni undan Sandagilinu, en ekki má hafa mörg net í hverri til að lenda ekki á sandi“.
Tróð (n, hk) Það sem troðið er í. A. Fylling sem höfð var stundum í þaki torfhúsa, s.s. lyng, hrís o.fl. Einnig í rúmfleti. B. Kjalföttun á skipi.
Tróna (s) A. Hreykja sér hátt; vera á veldisstóli/tróni. B. Skaga hátt til lofts. „Efst á Stórafellinu trónir tvöföld sambyggð varða, meistaralega hlaðin af Guðbjarti Guðbjartssyni“.
Trufla (s) Ónáða; raska. „Hann sat í þungum þönkum og ég forðaðist að trufla hann“.
Truflaður á geði (orðtak) Geðveikur; ruglaður. „Ég heyrði að hann væri orðinn eitthvað truflaður á geði“.
Truflun (n, kvk) A. Ónæði; rask. B. Geðveiki; rugl.
Trumba (n, kvk) A. Ásláttarhljóðfæri. B. Haus/trjónubrjósk á hákarli. C. Fremsti hluti á annesi. Trumba er örnefni í Blakknesi; þrír stórir, grónir klettaranar í Blakkneshlíðum: Norðasta-Mið- og Syðstatrumba.
Trumba (s) Gera gat á trumbu/haus hákarls ofanvið augu, til að drepa hann endanlega og til að unnt sé að koma í hann festi. Sjá trumbuhnífur.
Trumbuhnífur (n, kk) Áhald til að trumba hákarl, svo unnt sé að setja hann á tamp. „Það var gert með sérstökum hníf sem kallaður var trumbuhnífur. Blaðið á honum var eins og rör; sagað eftir endilöngu. Þessum hnífi var stungið í gegnum trjónu hákarlsins og snúið. Stóð þá eftir gat sem kaðall var þræddur í“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Trumbusláttur (n, kk) Það að slá trumbu eða annað og gera með því hávaða. „Það þýðir ekkert að reka féð með svona hávaða og trumbuslætti; þið gerið það bara konvitlaust af styggð“!
Trunta (n, kvk) A. Bikkja; niðrandi heiti á merhrossi. B. Líkingamál; niðrandi heiti á kvenmanni.
Truntulegur (l) Óþverralegur; hryssingslegur; skömmóttur. „Skelfing er hún stundum truntuleg við karlinn“!
Trú (n, kvk) A. Dýrkun/tignun/tilbeiðsla æðra máttarvalds, s.s. Guðs. B. Sannfæring. „Ég hef litla trú á því að þetta takist“.
Trúa (n, kvk) Trú. Einungis núna í orðtakinu; það veit trúa mín / trúa mín veit.
Trúa mín veit (orðtak) Viðhaft til sannfæringar. „Trúa mín veit að ég stal engum vasahníf“!
Trúa (s) Vera trúaður; láta sannfærast. „Ég trúi nú ekki öllu sem mér er sagt“!
Trúa á stokka og steina (orðtak) Trúa á fyrirbæri í náttúrunni en ekki óhlutbundna veru (stokkur = tré). Fyrrum, á tímum strangrúar, var litið á slíka trú sem hjátrú sem tíðkaðist eingöngu hjá frumstæðum heiðnum þjóðflokkum. Við nánari skoðun kemur í ljós að málið er ekki svo einfalt. Segja má t.d. að Ásatrú sumra landnámsmanna hafi að hluta verið trú á náttúruvætti. Um það finnast dæmi í fornsögum og örnefnum. Má þar t.d. benda á aragrúa af Helguþúfum; sem m.a. eru margar í Rauðasandshreppi. Innan kristninnar er mikið um trú á náttúruvætti, og má þar t.d. benda á helga krossa og skrín í kaþólskri tíð og alla Gvendarbrunnana sem enn í dag er trúað á. Ekki er liðinn mannsaldur síðan vatn var sent úr Gvendarbrunni í Kollsvík til sjúkrar konu í Bandaríkjunum, sem trúði staðfastlega á lækningamátt þess.
Trúa (einhverju) eins og nýju neti (orðtak) Gleypa við (einhverju); trúa einhverju efasemdarlaust. „Þeir halda alltaf að maður trú þessum kosningaloforðum eins og nýju neti. Ætli maður sé nú ekki orðinn eldri en tvævetur“! Líkingin vísar líklega til þess að nýtt net sést verr í vatni/sjó en gamalt, og því ugga fiskarnir ekki að sér fyrr en þeir ánetjast.
Trúa ekki sínum eigin augum (orðtak) Trúa ekki/varla því sem maður sér. „Ég trúði varla mínum eigin augum þegar ég sá veiðina hjá þeim“.
Trúa ekki svo glatt (orðtak) Vera ekki trúaður á; vera tortrygginn gagnvart. „Ég trúi því nú ekki svo glatt að honum hafi sjálfum dottið þessir hrekkir í hug“!
Trúa mátulega (vel) (orðtak) Leggja ekki mikinn trúnað á. „Ég trúi því mátulega að þetta standist“.
Trúa mín veit (orðtak) Ég er sannfærður um; ég trúi því; það veit trúa mín. Áherslusetning til sannfæringar.
Trúa statt og stöðugt (orðtak) Trúa örugglega; vera algerlega viss um. „Ég trúði því statt og stöðugt að þetta loforð stæði; mér kom aldrei til hugar að hann myndi svíkja það“!
Trúa uppá (orðtak) Trúa að einhver gæti gert. Vanalega er átt við slæman verknað. „Ég hefði aldrei trúað svona óþverrahætti uppá hann að óreyndu“!
Trúaður (l) Sem trúir einlæglega; sem er heitur/sannur í trúnni.
Trúaður á (orðtak) Haldandi; finnast líklegt. „Ekki er ég nú trúaður á að þetta takist“.
Trúandi til (orðtak) Líklegur til; tiltrúandi. „Þessum bjánum er trúandi til allskonar asnastrika“.
Trúarathöfn (n, kvk) A. Messa eða önnur athöfn í nafni trúar. B. Hátíðlegur verknaður. „Hann viðhafði ýmsar serimóníur þegar hann tók í nefið. Var það nánast eins og trúarathöfn“.
Trúaratriði (n, hk) Mikilvægt atriði; frágangssök; ásteytingarsteinn. „Það er nú kannski ekkert trúaratriði að hvíla sig á þessum stað á leiðinni, en ég hef alltaf haft það fyrir venju“.
Trúarlíf Kollsvíkinga og nærsveitunga hefur eflaust verið í aðalatriðum eins og annarra landsmanna á hverjum tíma; enda voru yfirvöld ekki mjög umburðarlynd í þeim efnum fyrr á tíð. Kollsvíkingar hafa þurft að leggja á sig einhverjar lengstu kirkjuferðir sem um getur á landinu; um sjö roðskóa heiðar, hvernig sem viðraði og hvað sem við lá. Auk þess byggðu þeir um tíma sína eigin kirkju, og hafa því síst staðið sig verr í trúnni en aðrir. Þó má leiða líkum að því annarsvegar að hið miðlæga kirkjulega vald hafi ekki verið jafn öflugt þarna á ystu nesjum eins og annarsstaðar, og hinsvegar að hin nána snerting við náttúruöflin við öflun lífsviðurværis kunni að hafa haldið lífi í ýmiskonar sérvisku og nærguðum en annarsstaðar. Víst er um það að „trú“ á náttúruvætti hefur alltaf lifað góðu lífi í Kollsvík; haldið verndarhendi yfir náttúrurfyrirbærum s.s. álagablettum og Biskupsþúfu, og haldið á lífi sögnum um sæskrýmsli og bústaði huldufólks og trölla. Margir gamlir Kollsvíkingar á 19.öld töldu sig hafa orðið vara við eitthvað af öðrum heimi; sem þeir röktu oftast til huldufólks. Fram á þennan dag er það trú eina Kollsvíkingsins sem enn á þar lögheimili, að huldufólkið þurfi stundum að fá lánaða muni, sem þá eru ekki finnanlegir á meðan. Það sé hinsvegar skilvíst með afbrigðum og sé þá erfitt að útskýra hvarfið með öðrum hætti. Sjóferðabænir hafa verið beðnar í Kollsvík frá örófi alda og enn fer enginn þar á sjó nema fara með bænina húfulaus áður en haldið er úr Lægi. Vatn Gvendarbrunns í Kollsvík er enn talið öflugasta lækningameðal allra meina sem hugsast getur, og hjá Gvendarbrunni á Látraheiði skal hlaða þrjár vörður í fyrstu ferðum manns þar um; vilji hann komast hólpinn þar um. Þá er íhugunarvert að í máli Kollsvíkinga hafa haldist orðin verndarengill og sagnarandi. Í þeim má finna minni um ævaforna vætti sem taldir eru fylgja mönnum. Annar verndar fyrir hættum en hinn segir fyrir um óorðna hluti og tengist mjög forlagatrú. Trúin á Helvíti var mikilvægur hluti miðaldakristninnnar. Ekki verður þess vart að Kollsvíkingar hafi haft af henni annað gagn en það að finna þar ógrynni blótsyrða sem þeir notuðu óspart til áhersluauka í harðri lífsbaráttu útnesjamannsins. Eins og sjá má í þessari orðaskrá er þar um mikið litróf að ræða; allt frá vægustu andvörpum til kröftugra; samantvinnaðra og baneitraðra særingaþulna, í þeim tilfellum sem mjög mikið lá við. (VÖ)
Í sóknarlýsingu sinni frá 1840 lýsir séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal m.a. áhugamálum og trúarlífi sóknarbarna sinna í Sauðlauksdalsprestakalli svo: „Á vetrum eru til skemmtunar lesnar fornaldarsögur og vísindabækur... Siðferði í þessum hrepp er sómasamlegt, því hér er ráðvant fólk og trúrækni vex, en gömul hjátrú fellur óðum með upplýsingunni..“ (GíÓl; Sóknarlýsingar Vestfjarða). Svo virðist því að menn hafi gripið eitthvað annað en guðsorðabækur þegar tími gafst til lestrar, án þess þó að fyrirgera trúrækninni.
Trúarmið (n, hk) Mið sem menn hafa mikla trú á til fiskjar. „Árið 1936 var mikill þorskafli fyrir sunnan Bjarg, eftir Nefjunum... Þá stóð fiskurinn mjög glöggt eftir þessu trúarmiði„ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Trúboð (n, hk) Boðun trúar. Oftast er þá átt við að trúarsamfélag sendi fulltrúa sinn gagngert til að boða trú meðal þeirra sem ekki hafa aðhyllst það trúarsamfélag. Fyrsta trúboð sem sögur fara af á Íslandi er leiðangur fóstbræðranna Kolls og Örlygs á lannámsöld. Í Landnámabók segir að þeir hafi verið að fóstri hjá Patreki biskupi á Suðureyjum, en vafalítið er þar átt við Kólumbusarklaustrið á eynni Iona, sem var trúarmiðstöð kristinna manna í vestanverðri Evrópu. Hann hafi gert þá út í leiðangur til Íslands með kirkjuvið og messuáhöld í þeim tilgangi að kristna samfélagið sem þá var að festast í sessi á Kjalarnesi. Hrakningar leiddu þá vestur fyrir Bjarg. Örlygur náði landi í Örlygshöfn og nefndi fjörðinn eftir sínum biskupi, en Kollur sneri frá Blakknesröstinni; leitaði lands í Kollsvík og braut skip sitt á Arnarboða. Landnáma, sem rituð var um 300 árum síðar, skýrir skipbrotið með því að hann hafi veiklast í trúnni og heitið á Þór í nauðum sínum. Vel má það heit satt vera, en þá þarf að hafa í huga að þeirrar tíðar fólk hélt lengi í heiðna siði þó kristið væri; líkt og t.d. við blótum Þorlák nú á dögum þó ekki trúum við á kaþólska dýrðlinga. Örlygur hélt suður að vetri; reisti kirkju að Esjubergi og hefur vafalítið stundað það trúboð sem fyrirhugað var. Kollur lét hinsvegar fyrirberast þar sem forlögin höfðu ráðið honum stað. Hann nam land í Kollsvík og Vatnadal upp að vatnaskilum og lét sér þannig nægja langminnsta landnám á Íslandi. Skipsfélagar hans voru hinsvegar stórtækari, en þeir námu allan Tálknafjörð og Rauðasandshrepp að frátöldum Rauðasandi og Kollsvík. Þó ekki sé þess getið í hinum fornu heimildum er alls ekki ólíklegt að Kollur hafi, líkt og fóstbróðir hans Örlygur, reist kirkju í landnámi sínu og stundað það trúboð sem Patrekur uppálagði. Bæ sinn hefur hann vafalítið reist á skjólsælasta stað Kollsvíkur; uppi undir Núpnum norðanmegin, þar sem Kollsvíkurbær stóð síðan um lengsta tíð. Kirkjuna hefur hann þá líklega reist á lágum hól 30 metrum suðuraf bænum, þar sem síðar stóð kaþólsk hálfkirkja um aldir ásamt kirkjugarði. Leiða má líkum að því að þetta hafi verið hin fyrsta kirkja á Íslandi, þar sem Örlygur tafðist um veturinn í Örlygshöfn og reisti ekki kirkju að Esjubergi fyrr en þangað kom. Líklegt er, sé tekið mið af venjum samtímans, að Kollur hafi einnig reist keltneskan steinkross vestur af kirkjudyrum í sjávarátt. Hann hefur þá líklega staðið á stærstu þúfunni sem þar er 60 metrum frá kirkju. Þúfan nefnist Biskupsþúfa og munnmæli herma að undir henni hafi Kollur fólgið verðmæti sín. Krossinn hefur Kollur væntanlega helgað Patreki biskupi, en eftir fall hans kann þúfan að hafa haldið helginni og fengið örnefni sitt. Önnur saga er það að mörgum öldum síðar áði á þúfunni Guðmundur biskup góði á leið sinni til vígslu Gvendarbrunns sem þarna er, og vilja munnmæli kenna nafnið við hann. Nú má spyrja hverjir voru sóknarmenn Kollskirkju, og hverjum boðaði Kollur trú? Á þessum tíma var allt Ísland að byggjast, en talið er að það hafi verið fullnumið á 60 árum. Fyrstu landnámsmennirnir voru fésýslumenn sem seldu frá sér hin stóru landnám og mynduðu þannig það byggðamynstur sem varð um aldir. Þannig var um Rauðasandshrepp. Kollur hafði því nægan starfa, utan sjósóknar á sín gjöfulu fiskimið, við að kristna nýbúa í sínu nágrenni og uppfylla þannig trúboðsskyldur sínar. Því er ekki ólíklegt að þarna á vestasta hjara landsins hafi myndast fyrsta kristna samfélagið á Íslandi. Það var hinsvegar í nokkurri fjarlægð frá þeim sem 300 árum seinna rituðu þau slitur úr sögu landsins sem nú eru þekkt. Þögn Landnámu og annarra handrita sgir því lítið um lífsins gang þar vesturfrá, en ýmislegt má lesa útúr því fáa sem þó er frá sagt.
Íslensk skólabörn jafnt sem guðspekinemar hafa löngum lært það af bókum að Þorvaldur víðförli hafi verið fyrsti íslenski kristniboðinn, ásamt hinum þýska Friðrik sem auknefndur var biskup. Þeir ferðuðust um landið kringum árið 981; boðuðu trú og enduðu með manndrápi. Þegar þeir komu var landnám um garð gengið og því hafa þeir örugglega verið síðar á ferð en fóstbræðurnir og trúboðarnir Örlygur og Kollur. Fræðimönnum og kennurum væri því nær að breyta að ráði Ara fróða og „hafa það sem sannara reynist“.
Trúboði (n, kk) Sá sem sendur er af kirkjuyfirvöldum til að boða trú meðal vantrúaðra. Fyrsti trúboði Íslands var líklega Kollur landnámsmaður, ásamt Örlygi bróður sínum; sjá trúboð.
Trúðsháttur (n, kk) Fíflagangur; bjánagangur; sýndarmennska. „Skelfing leiðist mér svona trúðsháttur hjá fullorðnu fólki“!
Trúgirni (n, kvk) Það að trúa nánast hverju sem sagt er. „Trúgirnin hefur stundum háð kjósendum“.
Trúgjarn (l) Auðtrúa; trúir gjarnan því sem sagt er. „Pósturinn var frændi minn, og hann var trúgjarn“ (MH; Mbl 04.01.2017).
Trúin flytur fjöll (orðatiltæki) Því eru lítil takmörk sett sem sá getur framkvæmt sem hefur óbilandi trú á sinni getu.
Trúkka (s) Þrefa; deila; rökræða. „Það þýddi ekkert að trúkka við hann umverðið“.
Trúlaus (l) Trúir ekki á neitt yfirnáttúrulegt/guðlegt; ástundar engin trúarbrögð. Til eru þeir, jafnt í hópi Kollsvíkinga og aðrir, sem telja sig vera trúlausa. Draga verður í efa að svo sé þó að öllu leyti, þar sem mannshugurinn virðist hafa óslökkvanlega þörf fyrir einhverskonar óhlutlæga lausn sem kalla má trú. Hinsvegar geta menn að sjálfsögðu fjarlægt sig hinum formlegu trúarbrögðum og trúarsiðum.
Trúlega (ao) Líklega; sennilega. „Hann kemur trúlega á morgun“. „Það er trúlega eftir að smala Stíginn“. Orðið var mikið notað vestra á seinni hluta 20 aldar í þessari merkingu, en meðan það var hvað almennast á landinu var það oftast í merkingunni „trúr“ eða „af sannfæringu“.
Trúlegt (l) Sennilegt; líklegt. „Mér þykir trúlegt að af þessu verði“. „Slepptirðu kindinni viljandi segirðu? Það er trúlegt! Ætli þú hafir ekki bara misst hana“! Þannig notað í Rauðasandshreppi; sjá trúlega.
Trúmaður (n, kk) Sá sem er trúaður/trúir á Guð. „„Er sagt að Einar (Jónsson ættfaðir í Kollsvík)hafi verið kallaður vitur maður og lesinn, og búhöldur mikill. Við manntal 1820 er hann líka sagður vel lesinn og gáfaður maður, og svipað er jafnan um hann sagt. En Gísi Konráðsson segir ennfremur að lítill mundi hann trúmaður, og læsi jafnan villurit það er kallast „Jesús og skynsemin“, og héldi mjög af því“ (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).
Trúmannlega (ao) Af trúmennsku; dyggilega. „Þessi félagsmálastörf vann hann trúmannlega og af alúð“.
Trúmálakarp / Trúmálaumræða (n, hk/kvk) Rökræður/dielur um trúmál. „Rökræðulist hefur mikið verið stunduð meðal Kollsvíkinga, og þá til fundin ýmis málefni. Ýmist eru þau úr nærumhverfinu s.s. það sem tengdist atvinnuháttum, umhverfi, verklagi, tíðarfari, landsköpun, örnefnum, leiðum, fólki, ættfræði eða slíku; eða af almennara tagi; um vísindi í öllum greinum , heimspeki, pólitík og trúmál. Í röðum Kollsvíkinga hafa margir í gegnum tíðina verið víðlesnir og vel heima í sinni rökvísi, og hafa umræður stundum orðið fræðilegri en í nokkurri akademíu. Hinsvegar er mörgum gjarnt að sitja fast á sinni skoðun og ekki hefur verið óalgengt að lítilsháttar ágreiningur kallaði fram Kollsvíkurhávaðann. Slíkt hendir ekki síst í trúmálakarpi og pólitík, enda um margt náskyldar greinar“ (VÖ).
Trúmennska (n, kvk) Dyggð; hollusta; einlægni. „Hún stjanaði við gömlu hjónin af stakri trúmennsku“.
Trúnaðarmaður (n, kk) A. Fyrri tíðar merking; sá sem rúað er fyrir ábyrgð eða því sem aðrir vita ekki; erindreki. B. Síðari tíma merking; Einn starfsmanna á vinnustað sem kemur fram fyrir hönd hinna. „Um tíma var ég trúnaðarmaður skipverja á Núpnum, og eitt sinn bundum við bátinn í höfn til að knýja fram hækkun á heimalöndunarálagi“.
Trúnaðarstarf (n, hk) Ábyrgðarmikið starf sem manni er trúað fyrir; starf sem krefst nærgætni í samskiptum. „Júlli naut mikillar virðingar meðal sveitunga sinna, enda var hann hinn ágætasti maður og var valinn til ýmissa trúnaðarstarfa fyrir sveitunga sína“ (PG; Veðmálið).
Trúnaðartraust (n, hk) A. Fyrri tíðar merking; trúarsannfæring. B. Síðari tíma merking; mikið traust; mikill trúnaður; einlægni. „Með þessu sýndu þeir honum mikið trúnaðartraust“.
Trúnaður (n, kk) Tryggð; traust. „Ég sagði honum þetta í trúnaði“. „Honum gekk illa að halda trúnað um þessi viðskipti“. „Ég legg nú lítinn trúnað á svona slúður“!
Trúr (l) Dyggur; tryggur; öruggur; áreiðanlegur.
Trúrækinn (l) Sem rkir vel trúna; trúaður; sækir vel kirkjulegar athafnir.
Trúrækni (n, kvk) Tryggð við trú; skyldurækni við trú og kirkjusókn; ástundun trúar. „Mér er kannski ýmislegt betur gefið en trúræknin“.
Trúskiptingur (n, kk) Sá sem skiptir um átrúnað/grundvallarskoðun. „Þeir treysta illa á þannig trúskiptinga í pólitík“.
Trúss (n, hk) Baggi; klyfjar; farangur; hafurtask. Oftast í orðtakinu binda (sitt) trúss við.
Trússhestur (n, kk) Hestur með klyfjar/farangur.
Trútt um talað (orðtak) Ættir að vita þetta. „Þú getur trútt um talað; varst sjálfur á staðnum“.
Trúverðugur / Trúverður (l) Traustur; áreiðanlegur; sem unnt er að trúa fyrir.
Trúverðuglega (ao) Á ttrúverðugan/sennilegan hátt „Hann gat ekki trúverðuglega gert grein fyrir þessu“.
Trúvilla (n, kvk) Trú á það sem aðrir álíta hégóma/fánýti/illsku; hjátrú. „Hann ku hafa lent í þeirri slæmu trúvillu að kjósa Sjálfstæðirflokkinn“!
Tryggð / Trygglyndi (n, kvk) Trúnaður; trúfesti; það að vera tryggur. „Hann hefur sýnt þeim einstaka tryggð“.
Tryggðarpantur (n, kk) Hlutur sem ein manneskja gefur annarri til merkis um tryggð sína; veð.
Tryggðarskepna (n, kvk) Trygglynt dýr. „Tíkarkvikindið var mér alltaf hin mesta tryggðarskepna“.
Tryggðartröll (n, hk) Gæluheiti þess sem þykir mjög tryggur. „Hann hefur reynst gömlu hjónunum hið mesta tryggðartröll“.
Tryggilega (ao) Örugglega; rammlega. „Ertu búinn að ganga tryggilega frá hlöðunni fyrir veðrið“?
Tryggilegur (l) Traustur; rammlegur; öruggur. „Ég gekk úr skugga um að festan væri tryggileg“.
Trygging (n, kvk) A. Öryggi; örugg festa. „Gættu að því að tryggingar séu klárar á brúninni áður en þú ferð í vaðinn“! B. Fjárhagslegur samningur við aðila sem tryggir skaðleysi tjóns gegn reglulegri greiðslu.
Tryggja (s) A. Gera öruggt/tryggt. „Ég fór í að tryggja vaðinn meðan hinir tóku til eggjaílátin“. B. Um bát; ganga frá festingum báts. C. Taka tryggingu hjá tryggingafélagi.
Tryggja sér/einhverjum (orðtak) Sjá til þess að maður/einhver hljóti það sem tiltekið er. „Ég er búinn að tryggja mér hlut í saltsendingunni“.
Tryggt útlit (orðtak) Öruggt veður til þess sem gera skal „Mér ekki nógu tryggt útlit til að við förum að breiða þessa galta“.
Tryggur (l) Öruggur. „Er þetta örugglega trygg festa“? „Við ættum að vera tryggir með að ná til lands á þessum bensíndropum“.
Trylla (s) Æsa mikið upp; gera trylltan/brjálaðan/snarvitlausan/frávita. „Það gengur ekki að hundurinn æði í fjárhópinn og trylli skepnurnar“! Orðstofninn er „tröll“, en þau voru sögð geta gert menn vitskerta/frávita.
Tryllingslega (ao) Eins og trylltur sé. „Þurfiði að láta svona tryllingslega strákar“?!
Tryllingur (n, kk) Brjálæði; vitfirring. „Skárri er það nú andskotans tryllingurinn í þessum aðkomubikkjum“!
Trylltur (l) Brjálaður; ær; sleppir sér. „Það þýðir ekkert að eiga við tvævetluna meðan hún er svona tryllt“.
Trýnaveður (n, hk) Svo nefna Vestfirðingar þau veður sem standa fyrir annes og magnast af þeim. Einkum er þá um norðlæg ofsaveður að ræða. Lýst er einu slíku mannskaðaveðri í frásögn Jochum M. Eggertssonar „Trýnaveður“ sem birtist í Eimreiðinni 1949 og síðan í safnbókinni „Því gleymi ég aldrei“. Þó sagan sé í skáldsögustíl er hún þó allgóð heimild, m.a. um útræði frá Láturdal í byrjun 20.aldar.
Trýni (n, hk) A. Fremsti hluti snoppu á dýri. B. Gæluorð um fremsta hluta á einhverju s.s. nesi/bát o.fl. C. Örnefni varðandi fiskimið: „Þegar fremstu tána á Breið...ber í Hnífaflögu og Tálkni kemur framundan Blakk, er það kallað að vera á Tálkna og Trýnum. Trýni var kölluð fremsta nibba á Breið“ (Örnefnaskrá Kollsvíkur).
Tröð (n, kvk) A. Vegur/stígur heim að bæ og næst bænum. B. Nátthagi eða afgirt svæði. C. Örnefni/býli í Kollsvík, norður undir Traðarhæð. Gæti verið nefnt eftir merkingu orðsins í A eða B; hvorttveggja á við.
Tröll eiga búsetu í Kollvík og nágrenni, eftir því sem sagnir og örnefni herma. Þessi trú á náttúruvætti hefur sennilega lifað lítið breytt á þeim slóðum allt frá landnámi, þó sviptingar hafi orðið í ríkistrúnni. Tröllin og lífshættir þeirra eru samofin hinu stórskorna landslagi. Víða eru risahellar fyrir bústaði; drangar á sjó og landi sem vitna um örlög þeirra sem ekki þola dagsljósið og jafnvel þarf ekki lengi að rýna í klettaveggi og björg til að greina stórskorin andlit sem þar hafa verið greypt um árþúsundir. Margar sagnir eru enn til á svæðinu af tröllum og samskiptum manna við þau, t.d. hin alkunna sögn af vígslu Látrabjargs og góðum vættum og slæmum sem þar búa. Þar hefur e.t.v. verið gerður fyrsti sáttmáli Íslandssögunnar um nýtingu náttúruauðlinda, verndun umhverfis og fyrirbyggjandi slysavarnir. Enn lifir sagan um tröllskessuna í Rauðaskegginu utan Lambavatns sem elti Saurbæjarprest og skemmdi kirkjugarðsvegginn varanlega. Í Kollsvíkurlandi búa fjölmörg tröll og sum þeirra hefur SG á Láganúpi fest á sín hellumálverk. Í Hnífum er gímaldið Tröllkarlshellir skammt neðan við brún og gengt í hann. Hann á að vera tengdur Tröllkonuhelli, við Sölmundargjá norðantil í Blakknum með undirgöngum.
Tröllahlátur (n, kk) Stórkarlalegur og hávær hlátur. „Þú vekur barnið með þessum tröllahlátri“!
Tröllaukinn (l) Tröllvaxinn; eins stór og tröll. „Veður geysa af hafi. Brimið er stórkostlegt; tröllaukin grunnbrot sem hóta tortímingu því nær öllu lífi; jafnvel sjávargróðri“ (KJK; Kollsvíkurver).
Tröllaglott (n, hk) Mjög glaðlegt/ögrandi bros; ýkt bros. „Hverskonar tröllaglott er eiginlega á þér“?
Tröllahlátur (n, kk) Grófur og hávær hlátur, eins og gjarnan drynur úr kverkum sumra Kollsvíkinga.
Tröllasaga (n, kvk) Ýkjusaga. „Það ganga tröllasögur af þessum manni. Ég læt það allt liggja milli hluta“.
Tröllasúra (n, kvk) A. Annað nafn á rabarbara. B. Njóli sem stundum kemur á rabarbara, einkum ef hann vex óáreittur, en á njólann koma fræ. Einnig notað um plöntutegundina njóla.
Tröllatrú (n, kvk) Sannfæring; óbilandi trú. „Ég hef tröllatrú á að þessi mixtúra nái úr þér kvefinu“.
Tröllaukinn (l) Hrikalegur; gríðarstór. Þjóðtrúin segir að þeir sem hafa mikil samskipti við tröll geti tekið upp ýmsa þeirra hætti, vaxtarlag og útlit.
Tröllavegur (n, kk) Mjög erfiður vegur; illfæra. „Hægt er að fara gangandi frá Skor á Barðaströnd en það er tröllavegur...“. (KG; Frá Rauðasandi til Rússíá).
Trölldómur (n, kk) Tröllsháttur; galdrar trölla. Steinarnir voru friðhelgir og skyldu látnir hlutlausir, því þeim fylgdu álög álfa- og trölldóms langt aftan úr forneskju“ (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).
Tröllheimskur (l) Mjög heimskur. „Þú ert bara tröllheimskur að segja ekki hærra á svona spil“! Þær sögur fara af tröllum að þau stigi ekki í vitið.
Tröllin hafi það (orðtak) Áherslusetning; væg blótsyrði. „Ég var beðinn að vera á framboðslista fyrir þennan flokk, en tröllin hafi að ég eigi nokkuð við það¨! Einnig var sagt í sömu merkingu: „Ég gef það tröllunum“!
Tröllkarlshellir / Töllkonuhellir (n, kk) Aðsetur/lögheimili trölla. Tröllakyn er líklega orðið fleira í Rauðasandshreppi en mannfólkið, eftir byggðabreytingar síðustu áratuga; a.m.k. ef byggðir eru allir staðir sem við tröll eru kenndir. Tröllkarl ræður ríkjum í Hnífaklettum og býr í Tröllkarlshelli. Hann ku vera þar einbúi en í fjarbúð með tröllskessu þeirri sem byggir Tröllkonuhelli innanvert í Blakknum. Liggja jarðgöng milli hellanna, þeim til hægðarauka. Tröllkarlinn nýtur nábýlis við huldufólk í Stórhól og má því ætla að hlunnindi séu vel nýtt á þeim slóðum; fiskimiðin í Vatnadalsbót; múkkavarp í Hnífum og skjólagott beitarland í Grófum og á Hústóftarbökkum.
Tröllríða (s) Ganga á með látum; óskapast; yfirganga. „Það er eins í þessu máli og öðrum hjá þessari ríkisstjórn; heimskan og skammsýnin tröllríður öllum þeirra ákvörðunum“.
Tröllslegur (l) Grófgerður; hrikalegur; mikill. „Þú verður að vera nettari við þetta; svona tröllslegar aðfarir duga ekki“!
Tröllsterkur (l) Afburða sterkur; firnasterkur.
Tröllslæti (n, hk, fto) Grófur atgangur; ólæti; djöfulgangur. „Bölvuð tröllslæti eru nú í þér strákur“!
Trölltryggur (l) Mjög trúr sínum vinum/ættingjum. „Ég hef sjaldan vitað jafn trölltryggan hund“.
Tröllvaxinn (l) Gríðarstór; stærri en gengur og gerist. „Ekki finnst mér hann verulega sterkur; af svona tröllvöxnum manni að vera“.
Trönur (n, kvk, fto) A. Grindverk sem sett er upp í ákveðnum tilgangi. T.d. eru stundum settar upp trönur til að saga stórvið. Fiskþurrkjallar eru stundum nefndir trönur. B. Grind sem sett er upp til hægðarauka við listmálun málverks.
Trönusíli (n, hk) Hyperoplus lanceolatus. Smáfiskur af sandsílaætt; getur orðið 35 cm langt, en er þó oft mun minna. Lifa á grunnsævi, allt niður á 60 m dýpi. Nafngiftin kemur af því að neðri skolturinn stendur mun framar en sá efri. Fæðan er ýmsir botnlægir hryggleysingjar; bustaormar, krabbadýr, fiskeyiði og hrogn. Líkt og sandsíli og marsíli eru trönusílin mikilvæg fæða margra fuglategunda, t.d. bjargfugla og kríu, og fer stofnstærð fuglanna mjög eftir afkomu sílanna.
Tröppugangur (n, kk) Misjafnt gengi; gengur ýmist vel eða illa. „Það hefur verið dálítill tröpugangur á þessu“.
Tröppuhleðsla (n, kvk) Steinhlaðnar tröppur; hleðsla steina, þannig að úr verði steinhlaðnar tröppur. „Tröppuhleðslan neðan Breiðavíkurkirkju hefur nokkuð gengið til með tímanum“.
Tuddaháttur / Tuddaskapur (n, kk) Ruddaháttur; ótugtarskapur. „Þetta fannst mér nú hálfgerður tuddaskapur í honum“!
Tuddalegur (l) Óþverralegur; ruddalegur. „Hann getur stundum verið óttalega tiddalegur við hana finnst mér“.
Tuddi (n, kk) A. Naut, oftast notað sem gælunafn. B. Ruddi; fantur; frunti. „Vertu ekki svona mikill tuddi“.
Tuða (s) Suða; sífra; nöldra. „... sendi hann gömlu konunni tóninn; „Komdu þér í rúmið amma“, en hún lét sem hún heyrði ekki. Hann hélt áfram að tuða þar til henni varð að orði: „O láttu nú ekki svona Bjarni minn.
Tuðra (n, kvk) A. Skjóða; poki; taska. Sbr nestistuðra. B. Niðrandi heiti á kvenmanni. C. Gæluheiti á gúmbát eða bolta; gúmmítuðra.
Tuðra í sundur (orðtak) Rífa niður í litla búta. „Holpurinn var búinn að tuðra blaðið allt í sundur og dreifa ruslinu um öll gólf“. E.t.v. hljóðbreyting á orðtakinu purpa í sundur eða sögninni að tægja.
Tugakerfi (n, hk) Mæli- og reiknikerfi sem grundvallast á því að einingar flokkist í tíu/tug og margfeldi af þeim. Til hægðarauka er nafn fyrir hvert safn, s.s. tuttugu, þrjátíu…; hundrað, þúsund… o.s.frv. Annað slíkt kerfi er t.d. tvenndarkerfið. Tugakerfið var líklega fyrst notað í Indlandi, en Arabar tileinkuðu sér það og kynntu fyrir umhveiminum.
Tugga (n, kvk) A. Það sem tuggið hefur verið, t.d. biti af mat eða tala af munntóbaki. B. Dálítið af heyi. „Ætli maður verði ekki að fara að kasta einhverri tuggu í féð“. „Það var ekki þurr tugga í görðunum eftir úrhellið“. „Hann var búinn að gefa hverja tuggu úr fjóshlöðunni og þurfti að búa uppá sníkjur framá vorið“.
Tugga (s) A. Um hey; mjatla/flytja í litlum einingum. „Heyskapurinn tók stakkaskiptum þegar farið var að setja hey á vagn með stórri traktorskvísl. Það var nú eitthvað annað en tugga það á vagninn með handkvíslum“. B. Orðalag sem er margsinnis endurtekið. „Þessa tuggu hef ég nú heyrt áður“!
Tugginn (l) A. Búið að tyggja. „Maturinn þarf að vera almennilega tugginn þegar honum er rennt niður“. B. Um band/vað/spotta; trosnaður vegna núnings. „Ég stytti vaðinn aðeins; hann var orðinn tugginn í endann“.
Tugur (n, kk) Tíu. „Mér sýndist að þarna gæti verið um tugur fjár niðri i hlíðinni“.
Tukta til / Tuska til (orðtak) Veita ráðningu; taka í lurginn á; taka til. „Þeir tuktuðu hann víst dálítið til fyrir þetta“. „Mig hefði langað að ná á þessa andskota og tuska þá til“! „Tukta“ er önnur mynd orðsins „taka“.
Tukthús (n, hk) Fangelsi. Heitið mun fyrst hafa verið notað um fangelsið sem byggt var við Arnarhól 1765-70, en meðal almennings gekk það einnig undir heitinu Múrinn. Meðal fanga þar var Steinunn frá Sjöundaá. Hún sætti harðræði af hálfu fangavarðar og eignaðist barn áður en hún lést í fangavistinni. Árið 1819 var húsið nýtt fyrir bústað stiftamtmanns og nefndist kóngsgarður eftir að Kristján 9. stóð þar við. Frá 1904 hefur það verið stjórnarráðshús og þar var um tíma skrifstofa forsetaembættisins.
Tukthúslimur (n, kk) Fangi í fangelsi. Styttingin limur var oft nýtt sem niðrandi heiti á manni.
Tuldra (l) Muldra; buldra; taut; tala í lágum róm. „Ég heyri ekkert hvað hann er að tuldra“!
Tuldra/tauta fyrir munni sér (orðtök) Segja eitthvað svo lágt að aðrir greina ekki/illa.
Tuldur (n, hk) Muldur; buldur; það að tuldra; lágt tal/eintal. „Ég heyri ekki þetta tuldur; hvað varstu að segja“?
Tundur (n, hk) Eldra heiti á púðri/sprengiefni. Nú einkum í orðtakinu á tjá á tundri.
Tundurdufl (n, hk) Stórar sprengjur í sjó. „Tundurdufl rak á fjörur í Kollsvík eftir stríðsárin. Andrés Karlsson á Stekkjarmel er sagður hafa gert eitt slíkt óvirkt upp á sitt einsdæmi. Það var svo löngum við Stekkjarmel, en Ingvar Guðbjartsson lét gera úr því olíutank sem lengi var við heimreiðina að Kollsvík“.
Tunga (n, kvk) A. Líffæri í munni; vöðvaþykkildi sem t.d. hjá mönnum gegnir mikilvægu hlutverki við það að matast og við tal. B. Hlutur sem að lögun minnir á tungu. T.d. tunga innanvið reimar í skó; tunga í landslagi t.d. á mótum tveggja vatnsfalla. C. Stytting á tungumál, t.d. þjóðtunga.
Tungl (n, hk) A. Tunglið er fylgihnöttur jarðarinnar og nálægasti himinhnöttur okkar. Það er nánast hnöttótt og þvermálið er um 3.474 km. Tunglið gengur eftir sporbraut um jörðu og er meðalfjarlægðin 384.400 km. Það er 27 daga, 12 klst og 43 mín að ljúka hverri umferð, sé miðað við fastastjörnur; og meðalhraðinn er 1, 022 km/sek miðað við jörðu. Eðlismassi tunglsins er 3.346 kg/m³. Lausnarhraði hlutar frá yfirborði tungls er 2,38 km/sek. Tunglið snýr alltaf sömu hlið að Jörðu. Hitastigið á yfirborði er frá -247°C til +120°C. Menn telja núna að Tunglið hafi myndast í árdaga sólkerfisins, við það að hnöttur á stærð við Mars rakst á jörðina og sundraði úr henni miklu efnisskýi sem þéttist og myndaði tunglið. Aðdráttarafl tungls er höfuðorsök sjávarfalla á jörðinni. Tunglmyrkvi verður þegar tunglið gengur inn í skugga jarðar. Kvartilaskipti tungl orsakast af mismunandi sjónarhorni jarðarbúa á þann helming tungls sem er upplýstur af sólu. Yfirborð tungls er alsett gígum eftir árekstur loftsteina, en þar er engin veðrun eða annað sem eyðir þeim eins og á jörðu. Á yfirborðinu sjást einnit stór dökk svæði sem nefnast höf, en eru í raun miklar bergsléttur sem urðu til fyrir ævalöngu, þegar hraun vall upp á yfirborðið. Fyrsta lending manna á tunglinu varð með leiðangri Apollo 11 árið 1969. Í norræni goðafærði var Máni persónugervingur tunglsins, en hann var sonur Mundilfara og bróðir Sólar. Úlfurinn Hati elti Mána og þegar hann beit í tunglið varð tunglmyrkvi. Við Mána er kenndur mánudagur. B. Tímatal sem miðast við gang og kvartilaskipti tunglsins. Tunglmánuðir voru mikilvægur hluti tímatals fyrr á tíð og jafnvel í huga eldra fólks langt frameftir 20. öld. Tunglmánuður er tíminn sem líður frá því að tungl er nýtt, til þess að það hefur lokið síðasta kvartili og í þann veginn að verða aftur nýtt. Raunverulegur tunglmánuður er því að meðaltali 29,53 dagar, en er ýmist hafður með 29 eða 30 dögum. Hver tunglmánuður hafði sitt heiti, sem miðaðist við þann tíma/mánuð sem hann endaði í; s.s. janúartungl, febrúartungl. Eða samkvæmt fyrra tímatali; þorratungl, góutungl o.s.frv.
Tunglbjart / Tunglskin / Tunglskinsbjart / Tunglsljós (l/n, hk) Birta Tunglsins; bjart af tungli. „Það var tunglskinsbjart og gott að rata“
Tunglfylling (n, kvk) Það að tungl verður fullt, þ.e. albjart á himni. „Ég gæti best trúað að hann héldi þessum stillum, fyrst hann breytti ekki með þessari tunglfyllingu“.
Tunglið (n, hk) Máninn. Eini stóri fylgihnöttur jarðarinnar. Tunglið er nær hnöttótt; 3.476 km í þvermál og fjarlægð þess frá jörðu er milli 363.400 og 405.500 km vegna sporöskjulaga brautar. Umferðartími um jörð er 27,32 dagar, sé miðað við fastastjörnur, en 29,53 dagar sé miðað við sólina; þ.e. milli tunglfyllinga. Heitið mánuður vísar til gangs tunglsins. Brautarhraðinn er því 1,2 km/sek. Það snýr alltaf sömu hlið að jörðinn. Talið er að tunglið hafi myndast stuttu eftir að jörðin myndaðist; meðan hún var enn rauðglóandi. Þá hafi hnöttur á stærð við Mars rekist á jörðina, þannig að mikið efni þeyttist út í geim. Hluti þess myndaði tunglið. Yfirborð tuglsins skiptist í stórum dráttum í mikla fjallgarða og dökkar hraunsléttur, sem nefndar eru höf. Yfirborðið er alsett gígum af ýmsum stærðum og mismunandi gömlum; enda nánast ekkert andrúmsloft til varnar, líkt og á jörðu. Innri gerð tunglsins er að sumu leyti lík jörðinni; járnkjarni með seigfljótandi möttli, sem þó nær ekki að mynda landrek eða fleka. Ekkert rennandi vatn finnst á tunglnu, þó finna megi vott af ís.
Sólskin getur verið á tungli þó næturmyrkur sé á jörð, og getur fullt tungl varpað tunglbirtu á jörðina, þannig að vel ratljóst verði. Frá jörðu séð verða kvartilaskipti á tungli; þ.e. mismunandi stór hluti þess er upplýstur. Þegar tungl er aldimmt er talað um „nýtt tungl“; eftir um vikutíma verður helmingur þess upplýstur af sól og er það þá sagt vera „á fyrsta kvartili“; þegar það er alveg upplýst er talað um „fullt tungl“, en þegar það verður aðeins ljóst á hinum helmingnum er sagt að tungl sé „á seinna/fjórða kvartili“; eftir tunglmánuðinn er það aftur nýtt og sveiflan hefst að nýju. Sólmyrkvi verður þegar tungl skyggir á sól, séð frá jörðu, en tunglmyrkvi þegar jörð skyggir á tungl.
Tunglið veldur ýmsum áhrifum á jörðu. Greinilegurst eru sjávarföllin, en með aðdráttarafli sínu veldur tunglið tveimur sjávarfallabylgjum sem jörðin snýst í gegnum. Auk þess má greina ýmsar breytingar í stórstreymi. Það hefur m.a. þau áhrif að súr flýtur upp í sýrutunnum; skepnur verða fremur blæsma; skepnur fæða fremur sín afkvæmi o.fl.
Í flestum trúarbrögðum heims kemur tunglið verulega við sögu. Í norrænni trú var Máni persónugervingur tunglsins; sonur Mundilfara og bróðir Sólar. Hann ferðaðist um himininn í hestvagni, en þurfti að vara sig á úlfinum Hata, sem stundum náði að gleypa Mána; þá varð tunglmyrkvi. Persónugervingur tunglisns nefndist Selena hjá Grikkjum; Luna hjá Rómverjum; Chandra hjá Hindúum; Tecciztecatl hjá Aztekum; Maka Quilla hjá Inkum og Chang‘e hjá Kínverjum.
Fyrsta lending manna á tunglinu varð 20.júlí 1969. Þá steig Bandaríkjamaðurinn Neil Armstrong fyrstur þar fæti, og á hæla hans Buzz Aldrin. Bandaríkjamenn sendu nokkra slíka Appollo-leiðangra til tunglsins, en auk þess hafa þar lent fjölmargir ómannaðir kannar.
Tungljurt / Tunglurt (n, kvk) Botrychium lunaria. Lásagras; þjófajurt. Burkni af naðurtunguætt sem vex víða um heim og þar á meðal í Kollsvík. Ber eitt blað sem skiptist í geldan og gróberandi hluta. Neðri hlutinn er geldur og á honum eru hálfmálalaga smáblöð, mjög þéttstæð. Efri hlutinn er gróberandi og ber 2-6 cm langan klasa af gróhirslum. Vex í mó- og valllendi. Samkvæmt þjóðtrúnni nefndist tungljurtin einnig lásagras og með hanni átti að vera unnt að opna lása.
Tunglkoma / Tunglkviknun (n, kvk) Byrjun á nýju tungli. „Trúað gæti ég að hann færi að frysta með næstu tuglkviknun“.
Tunglmyrkvi (n, kk) Myrkvun tungls við að það gengur inn í skuggakeilu jarðarinnar.
Tunglsbirta / Tunglskin / Tunglsljós (n, kvk/hk) Sólarljós það sem tunglið endurkastar og lýsir upp yfirborð og hluti á jörðinni. „Fjöllin vörpuðu sérkennilegum skuggum í tunglsbirtunni‘“. „Vel var ratljóst í tunglskininu, enda tungl fullt og heiðskírt veður“. „Ég þarf ekkert vasaljós í þessu tunglsljósi“.
Tungu er oft tamast það sem hjarta er kærast (orðatiltæki) Oft notað þegar manni verður á mismæli, eða segir eitthvað vanhugsað.
Tunguband / Tunguhaft (n, hk) Húðfelling í munni, milli neðri hluta tungu og gómsins.
Tungubleðill (n, kk) Þynnsti hluti tungunnar, fremst og til hliða.
Tungubroddur (n, kk) Fremsti hluti tungunnar. „Hann náði að sleikja sultardropa af nefi sínu með tungubroddinum“.
Tungulipur (l) A. Málsnjall; kann að koma fyrir sig orði. „Heldur þykir mér þú tungulipur“. B. Ýkinn; lyginn; mjúkmæltur um of. „Sumum þykir hann dálítið tungulipur“.
Tungumálamaður (n, kk) Sá sem er fær um að nota mörg önnur tungumál en sitt eigið. „Báðir voru þeir bræður miklir tungumálamenn, Gunnar og Sigurvin“.
Tungumjúkur (l) Mjúkmáll; talar blíðlega/biðjandi. „Þú getur reynt að vera dálítið tungumjúkur við hann pabba þinn og sjá hvort hann leyfir þér að fara með“.
Tungurót (n, kvk) Neðri hluti tungunnar, þar sem hún er föst við góminn. Þjóðtrúin segir að menn geti óskað sér hvers sem er ef þeir láta lifandi og afvelta óskabjörn bíta sig fastan við tunguræturnar.
Tungutak (n, hk) Málfar; talað mál. „Hann er skýr í hugsun, þó stirt sé um tungutak“.
Tunnubátur (n, kk) Að Láganúpi í Kollsvík þróaðist, á sjöunda áratug 20. aldar, einstök bátagerð, sem voru tunnubátar. Sú útgerð hófst með notkun stórs kringlótts blikkbala sem notaður hafði verið fyrir ullarþvott og hundahreinsun, en hann reyndist hin versta veltikolla. Var því hafin smíði úr olíutunnum úr blikki sem stundum rak á fjörur. Fyrst í stað voru þær klipptar í tvennt að endilöngu, en þeir bátar reyndust varasamir og enduðu oft á lækjar- eða tjarnarbotni. Þá datt höfundi þessarar samantektar það í hug að klippa aðeins lummu úr hlið tunnunnar, falda brúnirnar og setjast niður um gatið. Þetta reyndist ósökkvandi farkostur ef þess var gætt að sitja vel í hliðinni hinumegin, enda var þá þyngdar punkturinn mjög neðarlega og mikið borð fyrir báru. Til að koma bátnum áfram var spaði í hvorri hendi; gerður úr prikstubba með plötubút á enda. Einnig var gerð tilraun með seglabúnað; þversegl á mastri sem sett var innan á frambotn tunnunnar. Það gafst vel, en svigrúm vantaði til siglinga á Torfalæknum, þar sem stíflað hafði verið til siglinganna. Stundum myndast uppistöðulón neðst í Ánni eða Búalæknum af fyrirhleðslu sandrifsins, og þar voru siglingar stundaðar af kappi. Fyrir kom að laumast var með tunnubát í sjó, en hann reyndist ekki vel í báru, þar sem stefnið vantaði. Orðið fyrirfinnst ekki í orðabókum og ekki hefur spurst af slíkri bátasmíði annarsstaðar.
Tunnubotn (n, kk) Botn í/úr tunnu.
Tunnufleki (n, kk) Fleki sem flýtur á tómum tunnum. „Bíll var tekinn í land heima á Látrum á tunnufleka... “ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Tunnugjörð (n, kvk) Fat; gjörð/band utanum tunnu til að halda stöfum hennar saman. „Í seinni tíð hafa tunnugjarðir verið úr járni, en áður voru þæt úr girði, sem er sveigjanleg og sterk viðartegund“.
Tunnujárn (n, hk) Flatt járn, oft með áföstu handfangi, sem slegið er á með hamri til að slá til tunnugjarðir.
Tunnulok (n, hk) Lok á tunnu. Meðan trétunnur voru við lýði var oftast einungis talað um tunnubotn, enda sama lok í báðum endum. Tunnulok varð einkum altalað eftir að plasttunnur fóru að notast.
Tunnupoki / Tunnusekkur (n, kk) Poki/sekkur sem tekur eina tunnu. „Uppi á loftinu eru nokkrir tunnusekkir“. „Það þótti gott ef maðurinn gróf upp 2-3 tunnupoka (af kúfiskskel) yfir fjöruna“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). „Hvíta ullin fyllti þrjá tunnusekki og einn hálfsekk“.
Tunnuprammi / Tunnufleki (n, kk) Farkostur í leikjum barna í Kollsvík. Fjórar olíutunnur voru undir trépalli og öllu fest saman með trégrind. Flekanum var stjakað með löngum bambusstöngum á lónum í Ánni og Búðalæknum. Eitt sinn var farið með hann á sjó í góðu veðri, en við lá að illa færi þegar straumurinn bar flekann á meira dýpi og stjakarnir náðu varla til botns. Til að fyrirbyggja slys var flekinn rifinn.
Tunnustafur (n, kk) Stafur úr tré, en margir slíkir mynda eina tunnu. „Fyrstu skíðin voru gerð úr tunnustöfum og létu illa að stjórn“.
Turn (n, kk) Há og mjó bygging eða byggingarhluti, sbr kirkjuturn. Á fyrri tíð tíðkaðist ekki að hafa turn á kirkjum, og því hefur hálfkirkjan í Kollsvík eflaust verið turnlaus. Svo hefur einnig verið um kirkju þá sem Kollur landnámsmaður gæti hafa byggt; fyrstu kirkju landsins, en ásamt fóstbróður sínum Örlygi kom hann í trúboðserindum til landsins.
Turna (s) A. Snúa; venda. „Þegar þú ert búinn að snafsa ljósavélina tvisvar; þá er ágætt að turna henni nokkrum sinnum áður en sett er í gang“. „Eggin eru sett þétt í lokaðan kassa sem síðan er turnað reglulega“. B. Láta einhvern skipta um skoðun. „Mér tókst að turna karlinum og fá hann ofan af þessari vitleysu“.
Turnast (s) Skipta um skoðun/trú. „Mér þykir hann aldeilis hafa turnast í þessu máli“.
Tusk (n, hk) Lítilsháttar slagsmál. „Verið nú ekki að þessu tuski strákar; þið hljótið að geta rætt þetta mál“.
Tuska (n, kvk) A. Rýja; klæðisbútur.; dula. „Það má nota þennan skyrturæfil í tuskur. Oftast um það sem lélegt er. B. Líking um máttfarna manneskju. „Ég er óttaleg tuska eftir þessa árans pest“.
Tuska / Tuska til (s) Lúskra á; lemja; slást við. „Hann er sjóðandi illur við karlinn og vill helst fara og tuska hann dálítið til fyrir þetta slúður“.
Tuskast (s) Fljúgast á; slást. „Hættiði nú að tuskast strákar áður en þið meiðið hvorn annan“!
Tuskudúkka (n, kvk) Saumuð brúða. „Ýmist var talað um leikföng eða dót; leikföng kannski spariorð en dót svona hvunndags. Oftar var takal um brúður en dúkkur. en þekktist þó hvot tveggja; dúkka frekar sletta. Eldri börn gerðu oft ýmis leikföng fyrir yngri systkini sín og líka foreldrar. T.d. saumuðu mæður gjarnan tuskudúkkur fyrir dæturnar...“ (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).
Tuskulegur (l) Ræfilslegur; lasinn; máttlaus. „Ég hef verið ári tuskulegur síðustu daga“.
Tutl (n, hk) Mjatl; hreytur; það að hreyta kú í lok mjalta.
Tutla (n, kvk) Ögn; snifsi. „Það var ekki tutla af keti eftir á beinunum þegar hann hafði unnið að þeim“.
Tutla (s) Hreyta; mjólka; mjatla. „Ég er búinn að tutla niður úr kúnum“.
Túða (n, kvk) Stútur; strompur.
Túkall (n, kk) A. Gæluheiti á tveggja krónu mynt/ tveggjakrónapeningi sem algeng var á fyrri hluta 19. Aldar, en orðið er líklega komið úr dönsku. B. Nafn á gofóttri kind á Láganúpi (líkl. 1960-70); alræmdri og slyngri túnrollu.
Túli (n, kk) Niðrandi heiti á munni. „Ég held að hann ætti sem minnst að opna sinn túla um þessi mál; hann hefur ekki hundsvit á þessu“.
Tún (n, hk) Ræktað svæði, oftast heima við bæ og oftast afgirt. Tún voru fyrrum við hvern bæ og af þeim fékkst vetrarfóður fyrir bústofninn, einkum kýrnar. Á sjávarjörðum í Rauðasandshreppi var sauðfé ekki ætlað mikið vetrarfóður; því var beitt í fjöru og á haga. Tún voru ekki mikið sléttuð umfram það að steinar voru ýmist fjarlægðir eða þaktir torfi. Ekki þótti verra að tún væru þýfð; aukið yfirborð drýgði slægjuna. Áburðurinn var annarsvegar skítur úr kúm; klíningur sem klíndur var á þúfnakollana og síðan rakaður af, en hinsvegar rask/slóg úr fiski. Hið síðarnefnda á eflaust mikinn þátt í hinum gróskumiklu gömlu túnum í Kollsvík, sem enn verða skrúðgræn eftir margra alda slógburð. Eftir miðja 20.öld hófst vélvæðing sem gerði kleyft að brjóta þurrkuð svæði til ræktunar og sá í þau gróskumiklu sáðgresi með mun meiri afrakstri heyja.
Túnasláttur (n, kk) Sláttur túna, til aðgreiningar frá engjaslætti og útslægjum.
Túnáburður (n, kk) Áburður á tún. „Var önnur ferðin farin snemma vors og þá var aðflutningurinn tilbúinn túnáburður“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Túnblettur / Túnskák / Túnskækill (n, kk) Lítið tún.
Túnbrekka (n, kvk) Hallandi tún. Túnbrekka er neðan Kollsvíkurbæjar.
Túnbykkja (n. kvk) Túnrolla; skammaryrði um túnsækna kind. „Það mætti reyna að vísa þessum túnbykkjum út í Breið. Hugsanlega staðnæmast einhverjar þar um tíma“.
Túnfífill (n, kk) Fífill, sjá þar.
Túnfótur (n, kk) Jaðar túns, einkum neðantil; neðri hluti túns.
Túngarður (n, kk) Vörslugarður kringum tún. „Þegar kemur heim úr Sandslágarskarði komum við niður á Fremrihjallana. Þar var gott berjaland og stutt að fara, því þeir eru rétt við túngarðinn sem pabbi hlóð um túnið á Láganúpi; fyrsta og annan veturinn sem hann bjó þar (1927-1929), að mestum parti á kvöldin þegar tunglskin var. Garðurinn er um 500 – 600 metra langur; tvíhlaðinn neðst en einhlaðinn að ofan, og ein gaddavírssnúra ofan á honum“ (IG; Sagt til vegar II).
Túngirðing (n, kvk) Girðing kringum tún og sléttur. „Túngirðingin nær norður að Ánni“.
Túnrolla (n, kvk) Ær sem sækir ítrekað í tún; er túnsækin Slíkt var illa séð af bændum, en sumar túnrollur urðu nafntogaðar í þessum starfa; útsmognari en færustu innbrotsþjófar og skæðari en illvígustu hryðjuverkamenn. Settu sig óhikað í gegnum góðar gaddavírsgirðingar; skriðu undir eins og moldvörpur eða stukku yfir girðingar í meira en tvöfaldri hæð sinni. Þær leystu jafnvel hnúta á hliðum og kunnu á flestar gerðir af hliðklinkum. Verstu tilfellin voru stundum fjarlægð af brotavettvangi og flutt um langa vegu, jafnvel út á Bjarg. En allt kom fyrir ekki; þær voru mættar á grænasta blettinn í túninu daginn eftir. List túnrolla virtist stundum ganga í erfðir.
Túnrollufans / Túnrollufargan / Túnrolluhópur / Túnrollustóð (n, kk/hk) Hópur/flokkur af túnrollum; undantekningarlaust illa séður í túnum á sprettutíma. „Er ekki nokkur lifandis leið að stöðva þetta túnrollufargan“?! „Farið nú strákar og víkið túnrollustóðinu útfyrir“!
Túnrækt (n, kvk) Ræktun túna.
Túnshali (n, kk) Endinn á ílöngu túni. Örnefni í Láganúpstúni, milli Urða, Svuntumýrar og Garðsenda. Þar var löngum nátthagi fyrir kýr og voru þær mjólkaðar þar. Orðið virðist ekki þekkt annarsstaðar.
Túnsnidda (n, kvk) Ljámús; lítil torfa í heyi. „Endilega hendið þið túnsniddunum úr heyinu“.
Túnsúra (n, kvk) Rumex acetosa. Lambasúra; lambablaðka. Fjölær jurt sem algeng er á láglendi og upp eftir fjöllum. Henni er iðulega ruglað saman við hundasúru, en er frábrugðin henni að því leyti að hornin neðantil á blöðunum vísa niður en eru ekki útstæð eins og á hundasúru. Góð til átu, líkt og hundasúran, og með súru bragði vegna oxalsýru. Var talin góð við bjúg, lystarleysi, hægðatregðu og gyllinæð.
Túnsækin (l) Um kind sem sækir í að komast inn á tún; túnrolla. „Hún Svört er að verða fjandi túnsækin“.
Túnvingull Festuca rubra. Grastegund sem finnst villt á Íslandi og erlendis. Puntgras sem nær 40-80 cm hæð. Punturinn hefur yfirleitt
Túnþaka (n, kvk) Torfþaka skorin úr túni.
Túpa (n, kvk) Aflangt hylki með stút sem unnt er að sprauta innihaldinu um t.d. með kreistingu, sbr tannkremstúpa. B. Málmblásturshljóðfæri sem gefur djúpa tóna.
Túr (n, kk) A. Ferðalag, t.d. bíltúr. B. Sjóferð á stóru skipi, t.d. togara. Stundum er átt við útilegu yfirleitt, en stundum eingöngu um sölusiglingu á erlenda markaði. „Ég reri um vorið með Einari og fór síðan einn túr á togaranum Gylfa frá Patreksfirði“ (IG; Æskuminningar). C. Síðari tíma merking; blæðingatími konu.
Túrbína (n, kvk) A. Hverfill; úr dönsku/ensku (turbine). „Eina íslenska túrbínan er fundin upp af Kollsvíkingi“. Hverflar geta verið af margvíslegum toga, en er það sameiginlegt að vera safn spaða sem raðað er kringum einn eða fleiri ása og ganga kringum þá. Hverflar geta verið ætlaðir til að vinna orku úr straumi lofts eða vökva eða til að valda straumi í þeim efnum, þó fyrrnefndi skilningurinn sé algengari. Því eru hverfilblöð með ákveðnu áfallshorni gagnvart straumstefnunni. Dæmi um túrbínur/hverfla er t.d. skipsskrúfan; vatnshjólið; vindmyllur; aflstöðvar í virkjunum og sjávarfallahverfill Valorku, eini hverfillinn af íslenskum uppruna sem hlotið hefur einkaleyfi, enda fundinn upp af Kollsvíkingi. B. Tæki í bílvél þar sem afl útblásturs er notað til að þjappa lofti inn á brunahólf til að auka afl vélarinnar.
Túristakvikindi (n, hk) Heiti sem viðhaft var um ferðamenn, meðan þeir voru tiltölulega sjaldséðir í sveitum og bændur töldu þá fremur til ama en tekna. Eftir að sömu menn fóru að hafa tekjur af „túristakvikindunum“ breyttist mjög í þeim hljóðið, og tala þeir nú af virðingu um ferðafólk og ferðaþjónustu.
Túristi (n, kk) Erlent heiti yfir ferðamann, sem allmikið er notað.
Túrna (s, n framborið með dn-hljóði) Skæla; vola; súldra; fárast. „Yfir hverju ert þú nú að túrna, lambið mitt“?
Túskildingsvirði (n, hk) Verðgildi túskildings var ekki mikið, og því er orðtakið „ekki túskildingsvirði“, vottur um verðleysi hlutar.
Túskildingur (n, kk) Mynt sem er tveir skildingar að verðgildi. Var um tíma gjaldgeng mynt hérlendis. Heitið lifir í málinu íorðtökum; ekki túskildingsvirði; eiga ekki túskilding; eiga ekki grænan túskilding með gati.
Tútal (l) Vitlaus; geggjaður; frá sér; ekki með öllum mjalla. „Ertu alveg tútal, maður“! Enskusletta sem vísar til „totally mad“ = algerlega geggjaður/brjálaður.
Tútinn (l) Þrútinn; að springa; útþaninn. „Hann var tútinn af reiði og skipaði þeim að hypja sig burt“.
Tútna út (orðtak) Verða tútinn; þenjast út. „Ansi eru þessir hvítölskútar að tútna mikið út“!
Tútomma /Treitomma / Fírtomma (n, kvk) Tveggja-, þriggja- og fjögaratommu naglar/saumur. Algengt heiti til skamms tíma vestra, en virðist lítið hafa verið notað annarsstaðar.
Tútommunagli / Tútommusaumur (n, kk) Tveggja tommu nagli/saumur.
Tútta (n, kvk) Gúmmíhetta með gati sem sett er á stút t.d. flösku, etil að ungviði geti sogið hana líkt og spena. „Heimalningurinn geit gat á túttuna“.
Túttuskór (n, kk, fto) Dúdduskór; svartir gúmmískór sem um tíma voru framleiddir hérlendis og mikið notaðir, ekki síst til sveita. Einungis var notað gúmmí í allan skóinn, sóla sem annað, en ekki strigi til styrktar. Gerð þeirra minnti um margt á roðskó. Endingin var ekki mikil og skórnir voru hvorki þénanlegir í grýttu landslagi né votu.
Tveggjamannatal (n, hk) Það sem sagt er milli tveggja manna en fer ekki lengra; leyndarmál tveggja. „Ég er ekkert að gaspra um það sem ég segi í tveggjamannatali“.
Tveggja manna tak (orðtak) Byrði sem þarf tvo til að hreyfa/lyfta/ ráða við. „Steinninn er tveggja manna tak“.
Tveggjablaða (l) Með tveimur blöðum. Oftast notað um vasahníf með tveimur misstórum blöðum; festu sínu í hvorn enda skaftsins. „Hann gaf mér tveggjablaða vasahníf sem ég átti í mörg ár“.
Tveggjahanda járn (orðtak) A. Hnífur með tveimur handföngum B. Viðsjálsgripur; viðsjárverður maður. „Það er vissara að hafa eftirlit með honum; hann getur stundum verið tveggjahanda járn“. Sjá beggjahandajárn.
Tveggjahanda trog (n, hk) Austurstrog í bát sem gert er til að halda því með tveimur höndum meðan ausið er. „Ólafur Arnfjörð jós með tveggja handa trogi“ (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).
Tveggjamannafar (n, hk) Smábátur sem ber tvo menn; kæna. „Menn róa nú ekki djúpt á tveggjamannafari“.
Tveggjamannamaki (n, kk) Sá sem hefur í fullu tré við tvo; á við tvo í vinnu/bardaga. „Hann var nauðtsterkur og tveggjamannamaki í hvaða verki sem hann tók sér fyrir hendur“.
Tveggjamannatak (n, hk) Það sem þarf tvo menn til að lyfta/ ráða við. „Í miðri hleiðslunni er gríðarstór steinn; minnst tveggjamannatak að þyngd“ „Vertu ekki að bisa við þetta einn; þetta er tveggjamannatak“!
Tveggjamannatal (n, hk) Það sem sagt er milli tveggja manna en fer ekki lengra; leyndarmál tveggja. „Ég er ekkert að gaspra um það sem ég segi í tveggjamannatali“.
Tveggjanátta (l) Hefur verið um tvær nætur/ tvo sólarhringa. Oftast notað um legutíma neta í sjó. „Við drögum þetta tveggjanátta meðan veiðin helst svona góð“.
Tveimmegin (ao) Frá/að/á tveimur hliðum. „Við koum því tveimmegin að hópnum og hann hrökk heimleiðis“.
Tveir / Tvennir (to) Talan tveir er sögð „tvennir“ þegar um samstæður/pör er að ræða. „Ég keypti mér tvenna sokka“ „Það veitir ekkert af tvennum vettlingum í þessum kulda“.
Tveir jafnfljótir (orðtak) Fæturnir; postulahestarnir. „Framundir það að akfærir vegir komu í Rauðasandshrepp á árunum 1950-60 var þar mest ferðast á tveimur jafnfljótum, því reiðhestar flýttu lítið för í því fjalllendi sem þar er. Helst var farið með hesta milli bæja ef um verulegan flutning var að ræða.
Tvennar eru tíðir(nar) (orðtak) Viðhaft þegar lýst er mismunandi aðbúnaði/viðhorfum/veðurfari o.fl. á mismunandi tímum. „Tvennar eru tíðirnar. Ég man þá tíma að svona iðjuleysingjar voru lítils metnir“.
Tvennslags (l) Af tveimur gerðurm; með tvennu móti. „Tvennslags verkun var á heyi; vothey og þurrhey“.
Tvinnað band / Tvistur (orðtak) Band sem spunnið er úr tveimur þráðum. „ Annars var „föðurlandið“ úr smáu tvinnuðu bandi. Prjónaklukkur á stelpur voru úr hárfínu tvinnuðu bandi eða einspinnu, þær voru prjónaðar með klukkuprjóni.“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). „Það var mikið ofið á veturna. Uppistaðan var tvistur; fyrirvaf var ull. Ennfremur var þráður í uppistöðu og tvistur í fyrirvaf þegar ofið var í milliskyrtur og sængurver sem notuð voru í verbúðunum“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).
Tvistur (n, kk) A. Tvinnað band eða klæði úr tvinnuðu bandi. B. Spil sem er tveir að gildi. C. Flóki úr bómullarafgöngum notaður til þurrkunar olíuleifa o.fl.
Tvisvar/lengi verður gamall maður barn (orðatiltæki) Vísar til þess að á gamals aldri verða menn oft sem börn; ósjálfbjarga; gleðjast yfir litlu og jafnvel bilaðir í hugsun og rökvísi þannig að líkist barns getu.
Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest (orðatiltæki) Gott þykir að setjast á stein til hvíldar á langri göngu yfir heiðar, en hinsvegar er einnig gott þegar upp er staðið af hörðum steininum.
Tvíálma kvísl (n, kvk) Heykvísl með tveimur álmum/tindum.
Tvíátta / Tvíáttaður (l) Um það þegar vindur virðist standa úr tveimur áttum samtímis; blæs sitt á hvað. „Það er eins og hann sé tvíáttaður“. Einnig er þá talað að „hann komi ekki áttinni fyrir sig“.
Tvíbanda prjón (orðtak) „Tvíbanda prjón var það kallað þegar prjónað var með tveim eða fleiri litum“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).
Tvíbeita (s) Beita sömu línuna tvisvar. „Tvíbeitt var í hverjum róðri, og voru þannig beittar 40 lóðir á dag“ (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).
Tvíbent (l) Verkar tvímælis; tvíeggjað. „Það er nú dálítið tvíbent að láta hann hafa svo mikil völd“.
Tvíblóma (l) Um egg; tvær auður í sama egginu. „Tvíblóma egg eru frekar sjaldgæf“.
Tvíborga / Tvígreiða (s) Greiða sömu skuld/vöru/vinnu tvisvar. „Ekki ætla ég að láta þig tvíborga þetta“!
Tvíbregða (s) Bregða bandi tvo vafninga utanum festu/hald. „Snærinu var tvíbrugðið um þininn og undir þátt í öðrum vafningnum“. „Ég tvíbrá um mig vaðarendanum í aðsetunni“.
Tvíbrjóta (s) Brjóta tvisvar/ á tveimur stöðum. „Hann varð fyrir því að detta og tvíbrjóta á sér handlegginn“. „Nauðsynlegt var að tvíbrjóta málbeinið til að tryggja að ungbarn á heimilinu yrði ekki holgóma“.
Tvíbrugðið (l) Bum festu vaðs/línu; bugðið tvo hringi um festu/hald. „Vaðnum var tvíbrugðið um nefið“.
Tvíbýli (n, hk) Tveir bæir á sömu jörð. Sem dæmi má nefna Kollsvík, þar sem oft var tvíbýli. Bjuggu þá tvær fjölskyldur annaðhvort í sama húsi eða húsasamstæðu; gjarnan hvor með sinn bústofn, en úthagi var sameiginlegur og ýmis samvinna um búreksturinn. Annað dæmi um tvíbýli er Efri- og Neðri-Tunga í Örlygshöfn. Þar eru húsatorfurnar aðskildar, sem og allur búrekstur, en úthagi er í sameign bændanna.
Tvídraga (s) Um net/fiskilínu; draga tvisvar yfir stuttan tíma. „Heyrðu! Er þetta ekki strengurinn sem við vorum að draga áðan? Það er nú varla svo mikil veiði að við förum að tvídraga sama daginn“!
Tvíefldur (l) Öflugri en áður; af auknum krafti. „Eftir að hann fékk önnur lyf er hann allur annar maður og tvíefldur í vinnu“.
Tvíeggjað (l) Vafasamt; tvíbent. „Það geturverið tvíeggjað að byrja á þessu; þú veist ekki hvernig það fer“.
Tvíeggjað sverð (orðtak) Notað um það sem getur gert manni gagn en um leið getur reynst manni hættulegt. „Honum fannst að vera tvíeggjað sverð að fara með svo þunga vinnuvél út á túnið“.
Tvíforn (l) Búinn að geymast í tvö ár. „Tvíforn saltfiskur er ágætur, hafi hann fengið góða söltun og geymslu“.
Tvífornt hey (orðtak) Hey frá því í hittiðfyrra; tveggja ára hey. „Það má gefa geldfénu þetta tvíforna hey“.
Tvífylla (s) Fylla tvisvar. „Þarna var svo mikið af berjum að ég tvífyllti fötuna“.
Tvígiftur / Tvíkvæntur (l) Giftur tvisvar; búinn að vera í tveimur hjónaböndum.
Tvíheilagt (l) Um hátíð; stendur tvöfalt lengur en venja er; stendur í tvo daga.
Tvíhenda (s) Taka hlut með báðum höndum. „Ég tvíhenti stöngina og var tilbúinn að slá tudda hraustlega í hausinn ef hann gerði atlögu“.
Tvíhendisár (n, kvk) Ár sem róið er með báðum höndum.
Tvíhendistrog (n, hk) Austurstrog sem gert er til að tvíhenda það/ ausa með báðum höndum.
Tvíhita (s) Hita tvisvar upp. Oftast notað um ketsúpu. „Það er bara til bóta að tvíhita ketsúpuna“.
Tvíhitaður (l) Hitaður tvisvar upp. Oftast notað um ketsúpu. „Alltaf er hún nú betri ketsúpan ef hún er að minnsta kosti tvíhituð; jafnvel þríhituð“.
Tvíhlaða (s) A. Um vegghleðslu; hlaða með tvöföldu byrði. B. Um veiðiskap; róa tvisvar sama daginn og fé fullfermi/góðan afla í bæði skiptin.
Tvíhlaðinn (l) Um grjóthlaðinn vegg; hlaðinn með innra og ytra byrði. Hrýgjugarðar voru tvíhlaðnir og sterkari en steinbítsgarðar. Tvíhlaðnir húsveggir eru vanalega með þjappaðri veggfyllinguá milli.
Tvíhljóði (n, kk) Tveir sérhljóðar með eigin framburði, s.s. au, ei og ey.
Tvíhleypa (n, kvk) Haglabyssa með tveimur hlaupum; annaðhvort hlið við hlið eða efra og neðra.
Tvíhleypt (l) Um haglabyssu; með tveimur hlaupum. „Ég á líka ágæta Brúnó; tvíhleypta“.
Tvíhnepptur (l) Um fatnað, einkum yfirfatnað; með tvöfaldri röð af hnöppum.
Tvíhvolfa (s) Um bát; hvolfa tvisvar; fara tvisvar á hvolf. „Bátnum tvíhvolfdi eftir þetta áfall, en í bæði skiptin komst hann á kjöl“.
Tvíkjálka prjónavél (l) Prjónavél með tveimur kjálkum. „Farið var að prjóna lopapeysur eftir að farið var að vinna ullina í lopa en oftast voru vinnupeysur úr bandi (Gefjunarband) og þá prjónaðar í tvíkjálka prjónavélum ef fólk átti aðgang að slíkum... Svo var ein kona á Rauðasandi sem átti tvíkjálka prjónavél og prjónaði talsvert fyrir sveitungana. Hún hét Kristín Pétursdóttir og hún og bræður hennar voru í mörgu á undan sinni samtíð.“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). Orðið finnst ekki í orðabókum.
Tvíkúpla (s) Aðferð sem nota þurfti við stjórn fyrri bílategunda, til að skipta þeim úr hærri gír í lægri. Hún fólst í því að stíga á kúplingu; taka úr gír og gefa kúplingu upp aftur; gefa vélinni inn til að auka snúning hennar til jafns við lægri gíra; stíga aftur á kúplingu; skipta í lægri gír og kúpla aftur að. Mjög voru menn misjafnlega lagnir við þetta,og vildi oft skrölta óhugnarlega í gírum hjá sumum; var það stundum nefnt „tannburstun“. Síðar urðu gírkassar fullkomnari í þessum efnum.
Tvíkynja (l) Bæði karlkyns og kvenkyns í senn. Algengt er að plöntur séu tvíkynja og einnig er slíkt algengt meðal lindýra. Kemur fyrir sem vansköpun hjá hryggdýrum. Sjá tvítóla.
Tvíl (n, hk) Efi; efasemdir; vafi. „Ég held að ekki sé nokkurt tvíl um þetta“.
Tvíla (s) Efast; vera í vafa. „Ég tvíla það ekki að hann sé svekktur með úrslitin“. „Ekki er að tvíla það“. Orðstofninn er „tveir“, og merkingin líklega upprunalega „milli tveggja að velja“
Tvílinn (l) Í vafa; á báðum áttum. „Ég er enn dálítið tvílinn um þetta“. Sjá ótvílinn.
Tvílemba (n, kvk) Kind sem ber tveimur lömbum í sama burði. „Það þarf að gefa tvílembunum fóðurbæti“. „Tvílembum fjölgar og kjötþungi lambanna hefur aukist“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Tvílembd (l) Um kind; með tveimur lömbum. „Ekki bregst það nú fremur en áður að Eygla er tvílembd“.
Tvílembingsgimbur / Tvílembingshrútur (n, kvk/kk) Lamb fætt sem tvílembingur. „Hún er ansi væn af tvílembingsgimbur að vera; og miðað við stærð móðurinnar“.
Tvílembingur (n, kk) Annað lamb frá tveimur í sama burði. „Við setjum þennan tvílembing á í vetur“.
Tvílesa (s) Lesa tvisvar. „Ég þurfti að tvílesa þetta áður en ég trúði mínum eigin augum“.
Tvílitur (l) Í tveimur litum. „Ég held ég hafi einu sinni séð tvílita tófu“.
Tvíllaust / Án tvíls (l/orðtak) Vafalaust; án vafa; efalaust. „Ég held að það sé alveg tvíllaust að þarna geta kindurnar ekki verið“. „Ég get fullyrt þetta án nokkurs tvíls“!
Tvílráður (l) Í vafa; fullur efasemda; efins. „Mér finnst hann helsti tvílráður í þessu efni ennþá“.
Tvílyftur (l) Um hús; með tveimur hæðum. Orðstofninn er „loft“.
Tvílæsa (s) Læsa betur en vanalega er gert. Sumar skrár eru þannig að unnt er að snúa lykli lengra en vanalega er gert með einfaldri læsingu, og þannig tryggt betur að ekki sé unnt að dýrka upp lásinn.
Tvímala (s) Mala tvisvar, t.d. korn.
Tvímarka (l) Um eyrnamörkun sauðfjár; marka í annað sinn, vegna t.d. eigendaskipta. „Það er ósköp erfitt að átta sig á þessu þegar búið er að tvímarka“.
Tvímastra / Tvímastraður (l) Um bát/skip; með tveimur möstrum/siglutrjám.
Tvímánuður (n, kk) Mánuður í fornu tímatali. Fimmti mánuður sumars og hefst næsta þriðjudag eftir 20.ágúst, á eftir Heyönnum. Nefndur kornskurðarmánuður í Snorra-Eddu. Þá lauk selstöðu og oftast einnig engjaslætti. Nafnið gæti verið dregið af því að þá eru tveir mánuðir eftir af sumri.
Tvímenna (s) Vera tveir/tvær/tvö saman t.d. á hestbaki.
Tvímjólka (s) Mjólka tvisvar í sama mál.
Tvímælalaust (l) Vafalaust; efalaust; án nokkurs vafa. „Þetta er tvímælalaust besta leiðin“.
Tvímæli (n, hk, fto) Vafi; efi; það sem er vafa undirorpið.
Tvímælt (ao) Með tveimur málum. Oftast er átt við tvær máltíðir á dag en stundum þó notað um mjaltir eða fóðurgjafir. Sjá einmælt.
Tvímöstrungur (n, kk) Tvímastra skip.
Tvínefni (n, hk) Tvö nöfn á sama manni/ sömu skepnu. Fyrrum voru tvínefni á fólki fátíð og reynt að sneiða hjá þeim. Talin var dyggð að halda sig við algeng nöfn og helst af biblíulegum uppruna. Nú er öldin önnur; foreldrar virðast reyna að finna börnum sínum sem flest nöfn og fáránlegust.
Tvínóna við (orðtak) Hika; draga á langinn. „Hann var ekkert að tvínóna við þetta, heldur kláraði verkið í einni lotu“. Líklega komið af því að vera við verk í meira en sólarhring; þ.e. yfir tvö nón.
Tvípeð (n, hk) Í skák/tafli; tvö peð sama litar í sömu línu frá skákmanni.
Tvípunktur (n, kk) Í ritmáli/reikningi; tveir punktar, annar yfir hinum. Greinarmerki eða deiling.
Tvíraddað (l) Í söng; þegar tveir syngja saman, gjarnan sinn í hvorri rödd/tóntegund.
Tvírifað (l) A. Um siglingu; segl rifað tvöfalt meira en vanalega. B. Fjármark; tvöföld rifa í eyra.
Tvíristuljár (n, kk) Torfljár með handfangi á öðrum enda, og ristir einn maður torfuna í teimur ristum, sitthvorumegin frá. Einristuljár er með handföngum á báðum endum og rista tveir menn torfuna í einni ristu á milli sín. Einristuljár gamall er til á Láganúpi og var notaður til ca 1970.
Tvírit (n, hk) Skjal í tveimur eins eintökum.
Tvíróið (l) Róið tvisvar á dag. „Alltaf var tvíróið á sólarhring, enda oftast gott veður“ (FÓT; Smiður í fjórum löndum). „Róið var með lóðir, átta lóðir, og yfirleitt tvíróið“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Þegar tví- eða þríróið var, fengu menn sér bita á milli þess að farið var á sjóinn“ (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh).
Tvíróinn (l) Um bát; unnt að róa með tveimur árum; með tvö ræi/ tvær tollur.
Tvíræðni (n, kvk) Það sem skilja má á tvo vegur.
Tvírætt (l) Unnt að skilja á tvo vegu. „Þetta hljómaði nú dálítið tvírætt hjá honum“.
Tvísaga (l) Segir ekki eins frá sama atviki. „Hann er orðinn tvísaga í þessum efnum“.
Tvísalta (s) Salta tvisvar; umsalta. „Það er ekki lag í öðru en tvísalta fiskinn“.
Tvísauma (s) Sauma tvisvar sama saum. „Allt var þetta tvísaumað, og þurfti síðari saumurinn að fylla vel út í hvert nálfar og herða vandlega hvert nálspor“ (KJK; Kollsvíkurver). Sjá skinnklæði.
Tvísjóa (l) Um sjólag; alda úr tveimur áttum; ruglingur. „Tvísjóa var; aðallega vestanalda, en ofan á hana var kominn norðansjór. Ferðin til Kollsvíkur gekk vel...“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi. Árb.Barð. 2003).
Tvískallaður (l) Um hamar; með skalla beggja megin. „Tvískölluð sleggja er notuð til að berja harðfisk“
Tvískeraplógur (n, kk) Plógur sem ristir tvö plógför samtímis.
Tvískeri (n, kk) Tvíristuljár (sjá þar).
Tvískinnungsháttur (n, kk) Ósamkvæmni; hafa tvennar mismunandi skoðanir samtímis.
Tvískinnungur (n, kk) A. Tvöfalt húðlag á sári. B. Oftast notað sem líkingamál um tvíræðni í afstöðu til máls eða ákvörðunum.
Tvískær (l) Sem unnt er að skera með þveimur skurðum í þrjá hluta; t.d. fiskur.
Tvíslá (s) Slá sömu slægju tvisvar yfir sumarið. „Ég tvísló allar slétturnar þetta árið“.
Tvísmala / Tvíleita (s) Smala/leita sama svæði tvisvar. „Ég efast um að kindurnar geti verið uppi í Stæðum; þar er búið að tvísmala fyrir stuttu“.
Tvísoðinn (l) Soðinn tvisvar. „Sagt var um hrafnsegg að þau mætti einungis éta tvísðoðin“.
Tvístirni (n, hk) Tvær sólstjörnur í slíkri nálægð hvor við aðra að þær ganga um sameiginlega miðju.
Tvístíga (l) Iða; aka sér; ókyrrast. „Þessi læknisskoðun tók æði langan tíma. Ekki furða þó þú sért farinn að tvístíga að bíða eftir mér“.
Tvístígandi (l) Hikandi; á báðum áttum. „Hann er enn dálítið tvístígandi í þessu máli“.
Tvístra (s) Sundra; dreifa; sprengja sundur. „Tíkinn æddi inn í fjárhópinn og tvístraði honum“.
Tvístýft (l) Eyrnamark búfjár; stýfður eyrabroddurinn af og síðan tekinn annar stallur niður, frá miðjur eyra.
Tvístæðufjós (n, hk) Fjós með tveimur básaröðum; þannig að kýr snúi hölum saman.
Tvísýna (n, kk) Tvísýnt veður; færð; bjargferð eða önnur athöfn. „Sýndist sumum þá teflt í mikla tvísýnu“. „Þeir vissu því vel hvað þeir voru að gera þegar þeir streittust við að láta þann gula ekki lokka sig í tvísýnu út á Kollsvík“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Tvísýnt veður (orðtak) Veður getur farið á báða vegu. „Þegar veður var tvísýnt gat borið til beggja vona að dagurinn yrði til enda tryggur, en oftast þó sá róðurinn sem róinn var“ (KJK; Kollsvíkurver).
Tvísöngur (n, kk) Söngur tveggja; sungið tvíraddað. Tvísöngur er talinn hafa verið sunginn til forna, í heiðni, en vék fyrir kristnum kirkjusöng. Sungið var í samstigum fimmundum. Efri rödd syngur laglínu en fylgirödd skýst stundum uppfyrir hana og fylgir henni fimmundum ofar.
Tvítaka (s) Endurtaka það sem sagt er.
Tvítelja (s) Telja tvisvar. „Eg tvítaldi í karminum til öryggis“.
Tvítekin (l) Um mál/söng; endurtekin einusinni. „Síðasta laglínan er tvítekin“. „Hann heyrði svo illa að ég þurfti að tvítaka nánast allt sem ég sagði“.
Tvítóla (l) Um vansköpun; með æxlunarfæri beggja kynja. „Þú setur þennan hrút ekki á; hann er tvítóla“.
Tvívegis (ao) Tvisvar sinnum; í tvö skipti. „Tvívegis á báturinn eftir að velta ennþá, en ávallt ná þeir fjórir sem eftir voru til bátsins, og náðu að síðustu að hjálpa hver öðrum upp í hann“ (KJK; Kollsvíkurver).
Tvítugt dýpi (orðtak) Um sjávardýpi; tuttugu faðmar. Töluorðið oftast notað án endingar „Við rerum nokkuð undan; ætli það hafi ekki verið niður á tvítugt, og þar fengum við ágætis kennsli“.
Tvítyngdur (l) Talar tvö tungumál.
Tvívegis (ao) Tvisvar.
Tvíverknaður (n, kk) Það sem gert er tvisvar; óþörf endurtekning. „Það er best að klára þetta fyrir kvöldið; það yrði bara tvíverknaður að þurfa að fara aftur til þess á morgun“.
Tvíþekja (n, kvk) Flugvél með tvo aðalvængi.
Tvíþættur (l) Gerður af tveimur þáttum. Notað annarsvegar um band/taug; hinsvegar um málefni.
Tvíær (l) Um jurt; hefur tveggja ára lífsferil.
Tvíæringur (n, kk) Bátur sem róið er tveimur árum; kæna.
Tvævetla (n, kvk) Tveggja vetra ær. „Tvævetlulömb eru oft mjög væn, enda móðirin ung og hraust“.
Tvævetur (l) Tveggja vetra. „Ég er nú eldri en tvævetur; það þýðir ekki að reyna að ljúga þessu að mér“!
Tvöfaldur í roðinu (orðtak) Leikur tveimur skjöldum; ekki allur þar sem hann er séður; ótraustur; beggja handa járn. „Þeim þótti karlinn vera helst til tvöfaldur í roðinu og óvarlegt að treysta á hans atkvæði“.
Tvöfeldni (n, kvk) Fláttskapur; ekki einlægni; undirferli. „Hann sýndi tvöfeldni og ósannsögli í málinu“.
Tyfta (s) Refsa; hirta. Fremur lítið notað orð á seinni tímum.
Tyggja (s) Tanna; japla á. „Einmitt þegar Júlli hafði stungið upp í sig fyrsta bitanum og tuggði með velþóknun“ (PG; Veðmálið).
Tyggja (ofan) í (einhvern) (orðtak) Endurtaka þrásinnis/oft. „Ég nenni ekki að tyggja það ofaní hann einusinni enn hvernig best er að standa að þessu“.
Tyggja (eitthvað) upp aftur og aftur (orðtak) Endurtaka oft það sama.
Tygja sig (til/ af stað/ til ferðar) (orðtak) Búast til brottferðar; koma sér af stað. „Það er best að fara að tygja sig“.
Tylft (n, kvk) Tólf stykki; dúsín.
Tylftareiður (n, kk) Eiður svarinn af 12 mönnum. Slíkur eiður var réttarúrræði fyrrum. Sá sem borinn var sökum um galdra sem hann vildi ekki játa, gat hreinsað sig af ákæru fengi hann tólf menn til að votta samkleysi sitt. Tækist það ekki gat hann átt á hættu að vera borinn á bál.
Tylla (s) A. Setja; leggja á; tildra. „Tylltu bókinni upp á hilluna“. B. Tylla sér; setjast; hvíla sig. „Ég held að við tyllum okkur aðeins hérna og borðum nestið“.
Tylla niður fæti (orðtak) Stíga niður. „Það var svo þétt af eggjum á syllunni að varla var unnt að tylla niður fæti“. „Kindin er aðeins farin að tylla niður fæti, svo brotið hlýtur að vera farið að gróa“.
Tylla sér (niður) (orðtak) Setjast niður; hvíla sig. „Mikið er nú gott að tylla sér eftir öll þessi hlaup“! „Trantalinn hann tyllir sér/ tæplega undir Bekknum./ Gíslahillan ennþá er/ upp af gamla Stekknum“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).
Tylla sér á skák (orðtak) Setjast á stól eða annað setgagn. „Tylltu þér nú á skák og segðu mér fréttir“.
Tylla sér á tá (orðtak) Fara upp á tærnar til að ná hærra upp. „Með því að tylla mér á tá náði ég með fingurgómunum upp á sylluna, en þó ekki nóg til að vega mig upp á hana“.
Tylliástæða (n, kvk) Fyrirsláttur; léleg röksemd; falsrök; rökleysa. „Hann kom með allskonar tylliástæður fyrir þessu, en auðvitað var það bara hreinræktaður trassaaskapur“!
Tyllidagur (n, kk) Hátíðisdagur; viðhafnardagur. „Svona mat fær maður aðeins á hátíðum og tyllidögum“.
Typpi (n, hk) A. Toppur; tissi; tittur; nabbi. Oft óvissa um ritun með i eða y. „...og skaut vekjaraklukkunni undir sæng mína; því tippi það er þagga skyldi niður í henni var brotið“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). B. Gæluorð um getnaðarlim. C. Siglutoppur. Sjá uppi á e-m tippið.
Typpingur (n, kk) Brött en smá alda; báruutyppingur. „Hann er eitthvað að auka þennan typping“.
Tyrðill (n, ll) Væskill; rýringur. „Mér sýnist karlinn vera óttalegur tyrðill og ekki til mikillar erfiðisvinnu“.
Tyrðilslegur (l) Ræfilslegur; væskilslegur; aumingjalegur; rýr. „Skelfing er hrútkægillinn tyrðilslegur“!
Tyrfið (l) Um verkefni/nám; erfitt; flókið; torskilið. „Mér fannnst stærðfræðin dálítið tyrfin á þessu stigi“.
Tyrki (n, kk) A. Maður frá Tyrklandi. B. Notað um þá ribbalda sem rændu fólki í Vestmannaeyjum og víðar, einkum í Tyrkjaráninu 1927, sigldu með það út og seldu í þrældóm. Uppruni ræningjanna var þó margvíslegur. Foringi þeirra, Jan Janszoon var hollenskur reifari sem sest hafði að í Marokkó og gerði út leiðangur skipa frá Algeirsborg í Tyrkjaránið. C. Notað sem skammaryrði um rusta/ribbalda.
Tyrkjahúfa (n, kvk) A. Vefjarhöttur; túrban. B. Notað um skuplu sem vafin er um höfuð og minnir á vefjarhött. Stundum einnig um prjónhúfu sem brett er áberandi mikið upp á jöðrunum.
Tyrrinn (l) Önugur; viðskotaillur. „Hann var syfjaður og frekar tyrrinn“.
Tyrtulegur (l) Hvefsinn; hryssingslegur. „Hann gat stundum virst fráhrindandi og jafnvel tyrtulegur í augum ókunnugra“. Virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Týhraustur (l) Mjög hraustur; við hestaheilsu. Líklega fremur dregið af dönsku heiti nauts en goðinu Tý.
Týna/tapa áttum (orðtak) Villast. „Gættu að því að týna ekki áttum í þokunni þarna uppi“.
Týna niður (orðtak) Gleyma; förlast. „Eitt sinn kunni ég þetta ljóð, en ég er alveg búinn að týna því niður“.
Týna tölunni (orðtak) Fækka. „Ansi finnst mér hrífurnar vera að týna tölunni“!
Týnast (s) A. Hverfa. B. Um skip; farast.
Týnt og tröllum gefið (orðtak) Um það sem er alveg týnt og glatað. „Einu sinni var til þessi forláta dembúll sem gagnaðist í öllum veðrum, en hann er nú týndur og tröllum gefinn eins og margt annað“.
Týra (n, kvk) A. Dauft ljós, ljóstýra. B. Lítið ljósfæri, gert þannig að pípu með kveik er stungið niður í byðu með eldsneyti, t.d. lýsi eða grút.
Tæfa (n, kvk) Gæluorð yfir tófu.
Tægja (n, kvk) Tætla; nurta; drusla; dróg. „Hann stangaði tægjur úr tönnum sínum“. „Bennvaðar tægjur eru í þessum appelsínum núna“! Stofnskylt „tág“.
Tæja (s) Þáttur í ullarvinnslu. Tekin er ullarvisk í aðra hönd og dregnir út úr henni ullarþræðir með hinni, og þannig rétt úr þráðunum og þeir lagðir samhliða. „Þegar lokið var við að borða og drekka var sest að ullarvinnu. Konur spunnu; karlmenn táðu, greiddu hrosshár og spunnu það á vinglu eða fléttuðu reipi og brugðu gjarðir“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). Sjá tóvinna. „... heimilisfólikið sat við sína handavinnu; tækja ull, kemba, spinna, prjóna, sauma, flétta reipi og fleira sem til féll“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Tækifærisljóð / Tækifærisvísa (n, hk/kvk) Ljóð/vísa sem ort er í vissu tilefni, t.d. vegna afmælis o.fl.
Tækniframfarir (n, kvk, fto) Kollsvíkingar og sveitungar þeirra voru fljótir að nýta sér tækniframfarir þær sem urðu á 20.öld. Vélar komu í báta; traktorar komu á búin; mýrlendi var þurrkað og ræktað; rafmagn, hitunar- og eldunartæki komu í hús o.s.frv.
Tækt (l) Unnt; gerlegt; líðandi. „Það er hreint ekki tækt að karlinn sé að skrölta í bjargferðum á þessum aldri“!
Tæla (s) Svíkja; draga á tálar; blekkja; lokka; ginna; gabba.
Tæmandi (l) Fullnaðar-; til fullnustu; algjört. „Þessi orðaskrá getur aldrei orðið tæmandi yrirlit“.
Tæpa á (orðtak) Minnast á; brúa á; nefna lítillega. „Hann tæpti aðeins á þessu við mig, en við ræddum það ekkert nánar“.
Tæpitunga (n, kvk) A. Smámæli; það að vera smámæltur; segja ógreinilega. B. Í líkingamáli; það sem gefið er í skyn en ekki sagt fullum fetum.
Tæpitungulaust (l) Án hálfvelgju; umbúðalaust. „Kollsvíkingum er tamt að tala tæpitungulaust“.
Tæplega (ao) Varla; hæpið; ekki miklar líkur til; ekki alveg „Ég trúi því tæplega að af þessu verði“. Þeir koma varla í dag úr þessu“. „Klukkan er tæplega þrjú“. „Ívar Ívarsson taldi að bókafulltrúi hefði tæplega þann íhlutunarrétt sem fram kemur í bréfi hans“ (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).
Tæpur (l) A. Knappur; lítill; naumur. Menn geta verið tæpir með hey og þá var oftast óþarfi að klára setninguna: „Heldurðu að þú sért að verða tæpur“? „Reynt var að hreinsa og hrista sandinn burt eftir föngum, en það tókst ekki nándar nærri til neinnar hlítar, enda aðstaða þarna ómöguleg og tími tæpur “ (KJK; Kollsvíkurver). „Það er tæpt á að þetta nægi“. „… því flestir þeir sem tæpastir eru eiga dálítinn fóðurbætir…“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1925). B. Gangur í bjargi getur verið tæpur. C. Svo getur maður verið heilsutæpur eða jafnvel tæpur á geði.
Tæpur með (orðtak) Á lítið af; er að verða búinn með. „Við erum að verða tæpir með saltið“.
Tæpur með fóður/hey (orðtak) Heytæpur; á lítið af fóðri/heyjum fyrir sínar skepnur. „Ertu að verða tæpur með hey“? „Forðagæslumenn töldu hann tæpan með fóður í haust, en þetta virðist ætla að duga honum framúr“.
Tær (l) Hreinn; glær; gegnsær.
Tæri (n, hk) Eingöngu notað núna í orðtakinu að „komast í tæri við (inhvern/eitthvað)“. Tæri merkir þarna skýra sýn, þ.e. að maður sé kominn nógu nærri til að greina vel.
Tæring (n, kvk) A. Eyðing. Einkum notað nú til dags um oxun málma. B. Annað heiti á berklum/berklaveiki. Uppruna orðsins er líklega einfaldlega að leita í því að vatn verður tært við það að grugg fellur til botns.
Tæta / Tætla (n, kvk) Snifsi; pjatla; ræfrildi. „Af bókinni voru einungis eftir ólæsilegar tætur“. „Netið var rifið í tætlur eftir hámerina“.
Tæta (s) Rífa í sundur; purpa; dreifa; tæja. „Veriði nú ekki að tæta heyið svona niður“!
Tæta sig upp (orðtak) A. Um veður; hvessa skyndilega. „Ári er hann að tæta sig upp allt í einu; hann verður fljótur að auka báru með þessu áframhaldi“! B. Um manneskju; vakna snemma. „Mér sýnist að það verði lítið sjóveður á morgun, svo það er óþarfi að tæta sig upp“.
Tætingslegur (l) A. Illa til höfð/úfin manneskja. Greiddu nú á þér lubbann drengur; þú ert óttalega tætingslegur um hausinn. B. Ógreinilegt/úfið skýjafar. „Hann er fjári tætingslegur, svo það er erfitt að spá um hvað hann gerir í þetta“.
Tætingur (n. kk) A. Óreiða; óskipulag; drasl. „Skelfilegt er nú að sjá þennan tæting“. B. Sneplar; það sem tætt hefur verið. „Hvaða tætingur er þetta, hér á gólfinu“? C. Hryssingslegt veður; hvasst og jafnvel misvinda. „Það er bölvaður tætingur í honum núna“. Kann að hafa átt við ull sem búið var að tæja/tæta.
Tætingur í veðrinu (orðtak) Óveður; hvassviðri; rok. „Búðu þig nú vel; það er óttalegur tætingur í veðrinu“.
Tætla (n, kvk) A. Ögn; snifsi; lítil afrifa. „Mér sýnist að þetta séu tætlur úr sólskríkju sem kötturinn hefur unnið að“. „Það sést hvorki tangur né tætla eftir af þara í fjörunni eftir þetta brim“. B. Stytting á heytætla.
Tætla (s) Vinna með heytætlu/tætlu við að þeyta heyi til þurrkunar.
Tætlutindur / Heytætlutindur (n, kk) Tindur í heytætlu, sem festur er á stjörnu sem snýst og grípur í heyið til að tæta það og lyfta því svo þorni hraðar. Brotna iðulega, t.d. ef rekst í stein eða jörð.
Tættur (n, kvk, fto) Tóttir. „Á Stekkjarhjalla eru stekkjartættur, nefndar Stekkur“ (KJK; Örn.skrá Tungu).
Töðugat (n, hk) Sátugat; op á hlöðu sem heyið var látið inn um; op úr hlöðu í jötu. Framan af vélaöld voru töðugöt fremur lítil. Látið var inn með heykvíslum og inni var fólk við að jafna og troða. Síðar var heyi blásið inn, en enn síðar var það bundið í bagga og rúllur. Orðið töðugat var oftar notað í Kollsvík en orðið sátugat, en virðist óþekkt annarsstaðar.
Töðugjöld (n, hk, fto) Samkoma, þar sem bændur og vinnufólk þeirra fagnar lokum heyskapar. „Almenn töðugjöld eru oftast um mánaðarmótin ágúst-september...“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58).
Töðuheyskapur (n, kk) Heyöflun á túnum (ekki engjaheyskapur). „Þegar töðuheyskapur var búinn var farið að slá Sláttumýrarnar, en þar var heyskapur seintekinn“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Töðuilmur (n, kk) Töðulykt; heyilmur; ilmur/lykt af þurrkuðu heyi. Reyndar er lyktin nokkuð mismunandi, og fer það eftir því hvers eðlis taðan er; hve vel og fljótt hún hefur þornað og hvort um er að ræða hey sem verið er að hirða úr flekk; hey sem verið er að breiða úr göltum; hey sem byrjað er að orna í hlöðu eða hey sem verið er að leysa í hlöðu; verkað og staðið. Önnur „flóra“ af heyilmi er svo votheysilmur/votheyslykt.
Töðuteigur (n, kk) Grasteigur með kjarnmiklu grasi sem gjarnan er slegið. „Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó. Einnig töðuteigar í Kollsvíkurtó í Vatnadal“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Töf (n, kvk) Dvöl; seinkun; óstundvísi.
Töfra (s) A. Galdra; leggja í álög. B. Heilla; hrífa.
Töfrabrögð (n, hk, fto) Brellur; sjónhverfingar. „Séra Þórarinn Þór hafði búningaskipti eftir jólaboðskapinn, og sýndi töfrabrögð við mikinn fögnuð barna og annarra á jólatrésskemmtun í Fagrahvammi“.
Töggur (n, kk) Seigla; styrkur; úthald. „Sýndu nú hvaða töggur er í þér“! „Það er töluverður töggur í honum“.
Tök (n, hk, fto) Færi; tækifæri; möguleikar. „Heldurðu að þú hafir tök á að hjálpa mér við þetta núna“? „Hann reyndi að synda fyrir Forvaðann, en þess voru engin tök“. Hugsanlegt er að Takaklettur í Blakk dragi nafn af því að um mjóan gang hans er eini staðurinn þar sem tök eru á að komast um hlíðina norður á Trumbur. Einnig kann nafnið að stafa af því að heiman klettsins eru stór björg í hlíðinni, eða tök.
Tök til (orðtak) Möguleiki á; tilsjón. „Ennfremur að viðra úti, helst daglega, ær lömb og hross, og halda nefndum pening til haga séu nokkur tök til þess…“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930).
Tökubarn (n, hk) Barn sem alið er upp af vandalausum, og telst þeirra barn.
Tökuorð (n, hk) Orð sem tekið er upp í íslenskt mál úr öðru máli; sletta sem festist í sessi.
Tölt (n, hk) A. Sérstök gangtegund hests, milli skeiðs og brokks. B. Ganga; rölt. „Strákurinn var lúinn eftir töltið“.
Tölta (s) Rölta; ganga; labba; trítla. „Hann tölti niður í fjöru“.
Töluð orð verða ekki aftur tekin (orðtak) Augljós speki sem oft er viðhöfð; menn skyldu gæta orða sinna.
Töluvert / Tölvert (l) Allmikið; verulegt; umtalsvert. „Það er töluvert kaldara en í gær“. „Þeir fengu víst töluverðan afla á Vatnadalsbótinni“. „Þetta er töluvert bratt“. „Hann var töluvert lengi á leiðinni“. Algengt í máli Kollsvíkinga en heyrist lítið notað almennt. Í mæltu máli er „u“ í miðju oft sleppt. „Þeir voru komnir á undan okkur og lentir þegar við komum upp á Lægið; þá var kominn brimhrotti töluverður“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Þessi vetur er einhver sá besti er menn muna, en þó hafa hér á Sandinum gefist töluverð hey“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1926).
Töng (n, kvk) Áhald/verkfæri með tveimur örmum á þolinmæði framarlega, þannig að vogarafl myndast þegar gripið er um handföngin. Líklega elsta verkfærið sem ekki er ætlað til skurðar eða sláttar, en töng varð mönnum fljótt nauðsynleg t.d. við málmvinnslu.
Tönn (n, kvk) A. Bein með glerjungshúð í munni hryggdýra. B. Hluti verkfæra og véla sem á einhvern hátt hefur líkingu við tönn í munni. T.d. hefiltönn, sagartönn, ýtutönn o.fl. Í Kollsvík tíðkaðist fleirtölumyndin „tönnur“ framundir lok 20.aldar, og hefur líklega verið ráðandi þar fyrrum, líkt og t.d. „höndur“.
Tönnla (s) Tyggja; naga. „Réttu mér nú harðfisk til að tönnlast á“.
Tönnlast á (orðtak) A. Tyggja; naga; tönnla; starta á. B. Stagas/klifa á; bera fram bjagað. „Hættu nú að tönnlast á þessu; oft má satt kyrrt liggja“!
Tönnur (n, kvk, fto) Tennur. Í fleirtölu notuðu Kollsvíkingar fyrri tíðar einatt þennan beygingarmáta á orðinu „tönn“. T.d. orðaði GG á Láganúpi þetta aldrei öðruvísi. „Settu nú tönnurnar fyrir mig í glasið á bordinu“. Sama var um hljómskyld orð, s.s. hjörur, börur og körur.
Törn (n, kvk) Lota; atrenna. T.d. vinnulota. „Við hvílum okkur nú aðeins fyrir næstu törn“. Nýlegt tökuorð.
Törna (s) Snúa; láta snúast. „Törnaðu vélinni dálítið á svinghjólinu“. „Það þarf að törna sviðahausunum nægilega hratt yfir eldinum svo þeir brenni ekki“.
Töskuboli (n, kk) Sæðingamaður. Notað þegar sæðingar hófust og varð útbreitt í Rauðasandshreppi en e.t.v. ekki mikið víðar.
Tötrabaggi (n, kk) Sá sem er tötrum búinn/ mjög tötralega klæddur. „Þú ert nú dálítið eins og tötrabaggi, skinnið mitt; með svona gauðrifna úlpuna“.
Tötralega búinn/klæddur/tilhafður (orðtök) Druslulega/fátæklega klæddur.
Tötralúði (n, kk) Tötralegur/druslulegur búningur/fatnaður. „Það er kannski best að taka af sér tötralúðann áður en maður fer að hitta fólk“.
Tötulseigur (n, kk) Gæluorð um mann sem er duglegri en útlit hans ber með sér. „Sjáið nú bara tötulseigan; bara kominn með stórlúðu uppundir borðið“! Líklega hefur fyrrum verið r í stað l í miðju orði, og vísað til fátæklega búins manns; vesalings.
Tötur (n, hk) A. Um fatnað (alltaf í fleirtölu); druslur; larfar. „Farðu nú úr tötrunum og skólpaðu af þér mesta skítinn áður en gestirnir koma“! B. Um manneskju (jafnan í eintölu); grey; aumingi; skarn. Notað einkum í vorkunnartón; gjarnan með öðru orði. „Komdu nú ræfilstötrið“. „Ertu eitthvað stúrinn, tötrið mitt“.
Töturslega búinn/klæddur (orðtak) Illa/fátæklega búinn; ekki hlýlega til fara. „Skelfing ertu nú töturslega búinn! Fardu nú í eitthvað hlýlegra í nepjunni drengur“.