Rabarbaragarður (n, kk)  Garður/reitur þar sem ræktaður er rabarbari.  „Kýrnar eru uppi við rabarbaragarð“.

Rabarbaragrautur (n, kk)  Grautur soðinn úr niðurbrytjuðum rabarbara í vatni og sykri; með kartöflumjöli til þykkingar.  Ef of mikið er af kartöflumjöli vill grauturinn vera hlaupkenndur og samhangandi.

Rabarbarasaft / Rabarbarasulta (n, kvk)  Saft/sulta úr rabarbaraleggjum (sjá safta).

Rabarbari / Rabarbarablaðka / Rabarbarahnaus / Rabarbaraleggur Rabarbari (tröllasúra; Rheum rhabarbarum) og hlutar hans.  Rabarbaragarður var við hvern bæ.  Rabarbarinn var einkum nýttur í sultugerð, en einnig í grauta, kökur o.fl; og etinn nýr.  Mikið er af oxalsýru í rabarbara sem gerir hann súran, og því sækja skepnur ekki í hann.  Vestra tíðkaðist að tala um rabarbarahnaus en ekki rabarbararót eins og heyrist annarsstaðar.  „Gott er að stinga rabarbararótina í sundur þegar hún eldist, og bera vel á af skít til að halda góðum vexti“.

Rabb (n, hk)  Skraf; viðræður.  „Við áttum þarna ágætt rabb um allt og ekkert“.

Rabba (s)  Ræða; skrafa; tala við.  „Þegar þær fara að rabba  má reikna með að línan sé upptekin þann daginn“.

Rabbat (n, hk)  Ágóði; hagnaður; arður.  „Og svo fengum við tvö lúðulok í rabbat“.

Raddblær / Raddbrigði (n, kvk, hk/fto)  Breyting í röddinni eftir skapi, t.d. við uppnám.  „Ég þóttist heyra það á raddbrigðum hans að ekki væri allt í lagi“.

Raddlaus / Raddlítill (l)  Búinn að missa röddina; hás; ekki raddmikill.  „Ég er orðinn raddlaus af að kalla á ykkur“.

Raddmikill  / Raddsterkur (l)  Með hljómmikla rödd.  „Hann var raddmikill og mátti vel greina tautið í honum í land í logninu, þegar fiskur tapaðist við borðið“.

Radíóviti (n, kk)  Mastur með öflugu loftneti sem sendir frá sér radíóbylgjur í merkjum sem skip og flugvélar geta miðað stefnu sína og staðsetningu við.  „Árið 1965 var bætt við vita á Bjargtöngum, og settur radíóviti sem þótti þýðingarmikið; ekki síst gagnvart fluginu“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Radísa (n, kvk)  Hreðka (sjá þar).

Radísubeð (n, kvk)  Beð í matjurtagarði, þar sem radísur/hreðkur eru ræktaðar. 

Raða (s)  Koma í skipulag; setja í röð/halarófu.  „Hausunum var raðað á tóma fóðurbætispoka á grindunum, og stráð dálitlu salti í strjúpann“.

Raða í sig (orðtak)  Borða mikið og samfellt.  „Ertu enn að raða í þig?  Mikið andskoti geturðu étið“!

Raða niður netum (orðtak)  Leggja mörg net á samliggjandi svæði.

Raf (n, hk)  Rafabelti; uggar á lúðu.  „„Allar lúður sem minni voru en svo að tekin yrðu af þeim fjögur flök og rafabelti, voru stofnaðar sem kallað var.  Þær voru þá flattar; tekinn úr þeim hryggurinn og höfuð skorið af; sitt rafið var látið fylgja hverri kápu“  (PJ;  Barðstrendingabók

Rafabelti (n, hk, fto)  Uggastykki af lúðu.  Feitur matur og þótti gómsætur; oftast hert.  „Þegar búið var að rista fyrir uggum; rafabeltum, var rist fyrir flökum...  Saltað var í rafabeltin og þau látin liggja í salti í tvo daga og síðan hengd upp til þurrks.  Þetta var talinn hátðiðarmatur er þau höfðu hlotið verkun, enda þótt komið væri fram á næsta vetur“  (KJK; Kollsvíkurver).  (Sjá nánar um „vaðhorn“ og „riklingur“).

Raffínera (s)  Sletta sem merkir í raun að heinsa, t.d. jarðeldsneyti eða matarolíu.  Stundum notað um að fínstilla eða gera snyrtilegt.  „Aðeins þyrfti nú að raffinera ganginn í vélarrokknum“.

Rafgirðing / Rafmagnsgirðing (n, kvk)  Girðing með einum eða fáum strengjum sem bera rafspennu frá spenni/spennugjafa, þannig að skepna/maður sem snertir streng og leiðir strauminn til jarðar fær óþægilegt rafstuð í stuttan tíma.  Skepnur eru fljótar að læra að forðast slíkar girðingar.  Spennan frá rafgirðingu getur verið um 3000 volt en stuðið varir um 0,2 millisekúndur.  Fyrstu rafgirðingar komu í Kollsvík kringum 1970-80 og voru notaðar sem léttar færanlegar girðingar við kúahaga.  Síðar voru girt með þeim tún.

Rafhitun / Rafkynding / Rafmagnskynding / Rafmagnshitun (n, kvk)  Húshitun með rafmagskyntri miðstöð.  Rafkynding húsa varð fyrst möguleg í Kollsvík með tilkomu dísilrafstöðva laust fyrir 1970.  Fram að þeim tíma höfðu íbúðarhús um nokkurra áratuga skeið verið kynt með olíueldavélum; en þar áður með viðar- og kolaofnum.  Með rafmagnskyndingu komu önnur þægindi, s.s. rennandi heitt vatn úr krana og baðker. 

Rafhlaða (n, kvk)  Batterí.  Um tíma var Kollsvíkingur einn stærsti innflytjandi rafhlaðna á Íslandi; Sigurvin Össurarson sem flutti inn Hellesen batterí.

Raflýsing (n, kvk)  Líklega hefur fyrsta raflýsingin í Kollsvík verið frá vindmyllu sem um tíma var uppi á Stekkjarmel eða frá myllu sem þar var í Ánni.  Ekki skal fullyrt um ártalið, en líklega hefur það verið öðruhvorumegin við 1940.  Meginverkefni þessara orkustöðva var þó að hlaða rafgeyma fyrir útvarp sem í fyrstu var einungis á Stekkjarmel.  Síðar komu litlar 12 volta ljósavélar á Kollsvíkur- og Láganúpsbæi, en Ingvar Guðbjartsson byggði stíflu fyrir 12 volta vatnsvirkjun í Ánni.  Arftakar þessara véla voru 220 volta dísilvélar, og þá fyrst var farið að nota rafmagn til eldunar og kyndingar en ekki eingöngu til ljósa og útvarps.  Veiturafmagn var lagt yfir Hænuvíkurháls 1973.

Rafmagnaður (l)  Hlaðinn stöðurafmagni/rafhleðslu.  Sé tveimur hlutum af ákveðnum mismunandi efnum núið saman myndast stöðurafmagn; þannig að rafeindir færast af öðru efninu yfir á hitt.  Slíkt gerist t.d. þegar þurrt hár er greitt lengi með plastgreiðu og þegar gler er núið með ull.  Sé greiðan eða glerið borið að léttum hlut, t.d. bréfsnifsum á borði eða mjórri vatnsbunu dragast þessir hlutir að hinum hlaðna hlut líkt og að segli.  Gangi maður lengi á teppalögðu gólfi getur myndast stöðurafmagn sem síðan losnar sem neisti þegar t.d. hurðarhúnn er snertur.  Stöðurafmagn myndast í lofthjúpi jarðar við ákveðnar aðstæður, og er það orsök eldinga.  Raf er eitt þeirra efna sem unnt er að hlaða stöðurafmagni og er þar af komið orðið „rafmagn“.

Rafmagnsleysi (n, kvk)  Skortur/rof á rafmagni.  Rafmagnsleysi háði aldrei byggðunum áður en rafmagn varð aðgengilegt.  Hinsvegar er það hvimleitt og jafnvel skaðlegt þegar heimili og rekstur treysta á stöðugt rafmagn og eðlilegt líf miðast við aðgengi að því.  Eftir að veiturafmagn var lagt í Kollsvík á 8. áratug 20.aldar settist þessi húsdraugur að, og lætur iðulega á sér kræla; einkum í slæmum veðrum.

Rafmagnskapall / Rafleiðsla / Rafmafnsleiðsla / Rafmagnssnúra / Rafmagnsvír / Rafstrengur / Raftaug (n, kk/kvk)  Vír/leiðari sem oftast er einangraður, til flutnings á rafmagni.  „Ég setti ísóleringaband á skemmdina í rafmagnssnúrunni“.

Rafstöð (n, kvk)  Vél sem framleiðir raforku úr öðru orkuformi.  Fyrstu rafstöðvar í Rauðasandshreppi voru litlar vindmyllur og vatnsmyllur sem einkum voru notaðar til að hlaða batterí fyrir fyrstu útvörpin, en einnig lítilsháttar til ljósa.  Síðar voru á sumum bæjum settar upp öflugar vatnsaflsvirkjanir, og um leið fóru að koma bensín- og síðar dísilknúnar rafstöðvar.  Veiturafmagn kom í Rauðasandshrepp á 8.áratug 20.aldar.  Í framtíðinni verða eflaust rafstöðvar í sjó sem nýta hina orkumiklu sjávarfallastrauma við strendur víða í hreppnum.  Að því vinnur höfundur þessarar samantektar.

Raftur / Raftviður (n, kk)  A.  Tré; trjábolur; burðarviður; burðarbiti.  „Ég bjargaði tveimur brúklegum röftum undan sjó“.  B.  Raftur er líkingamál um vínhneigðan/drukkinn mann; fylliraftur. 

Rafveita (n, kvk)  Rafkerfi sem dreifir rafmagni til margra notenda, og rekstur þess.  Einn helsti hvatamaður þess að stofnuð væri rafveita fyrir alla Vestfirði; Orkubú Vestfjarða, var Össur Guðbjartsson á Láganúpi.  Var hann í undirbúningsnefnd Orkubúsins og lengi stjórnarmaður“.

Rag (n, hk)  A.  Sortering; flokkun; niðurröðun.  „Það var bara byrjunin að ná fénu í rétt.  Nú er allt ragið eftir“.  Sjá fjárrag.  B.  Líkingamál; vesen; fyrirhöfn; umsýsla.  

Raga (s)  A.  Flokka; raða niður.  „Við þurfum svo að raga féð í karmana“.  B.  Muna. Sjá ragar hvorki til né frá.

Ragar hvorki til né frá (orðtak)  Munar engu; skiptir ekki máli.  „Það ragar hvorki til né frá með þessar krónur sem þú skuldar mér; vertu ekkert að hafa áhyggjur af þeim“.

Ragast í (orðtak)  Vinna í; beita sér fyrir.  „Fjármál félagsins skýrðust eftir að hann fór að ragast í þeim“.

Raggeit (n, kvk)  Heigull; bleyða.  „Bölvuð raggeit er hann ef hann þorir ekki að standa fyrir máli sínu“!

Raggeitarháttur (n, kk)  Heigulsháttur; aumingjadómur; bleyðuskapur.  „Ég kalla það bölvaðan raggeitarhátt ef hann þorir ekki að mæta mér og standa fyrir máli sínu“!

Ragmenni (n, hk)  Óþokki; skíthæll; svikari.  „Ég er ekki slíkt ragmenni að ég láti mína sök falla á aðra“.

Ragn (n, hk)  Bölbænir; blót; ljótur munnsöfnuður.  „Eitthvað verður nú ragnið í karlinum þegar hann kemst að þessu“!

Ragna (s)  Blóta; bölva.  „Ætli maður sé nokkuð bættari með að ragna yfir þessu“?

Ragnarök / Ragnarökkur (n, hk, fto)  A.  Heimsendir samkvæmt norrænni trú.  Orðið merkir örlög goðanna (rögn = goðmögn).  Í Gylfaginningu Snorraeddu er þeim lýst þannig m.a. að í byrjun komi Fimbulvetur; orrustur verði um heim allan; úlfurinn sem elt hefur sólina nær henni og gleypir; sömu örlög fær tunglið; stjörnur hverfa; jörð skelfur; Fenrisúlfur losnar úr fjötri sínum; Miðgarðsormur gengur á land og spýr eitri yfir allt; Múspellssynir ríða af himnum með eldjötuninn Surt fremstan í flokki; Bifröst brotnar undan þeim; orrusta verður milli þeirra og ásanna; Fenrisúlfur gleypir Óðin; Þór deyr af eitri Miðgarðsorms; Týr fellur einnig; Surtur slær eldi yfir jörð og brennir allan heiminn.  Eftir Ragnarök rís jörðin úr hafinu; grænni og fegurri en áður; mannfólkið Leifþrasi og Líf komast af og geta nýtt mannkyn.  Fáein goð komast einnig af og einnig dóttir sólarinnar.  „Þessu fári verst í vök/ veldið trölla forna./  Þaðan koma ragnarök;/ reiði skapanorna“ (JR; Rósarímur).  B.  Líkingamál um óskapagang/eyðileggingu.  Einnig notað í viðkvæðinu; „Ætlarðu að bíða með þetta alveg fram í ragnarökkur?!

Ragmennska (n, kvk)  A.  Linkind; hræðsla; óframfærni.  „Það er kannski ragmennska af mér, en ég legg ekki í að klórast eftir svona tæpum gangi“.  B.  Óþverraháttur; Óþokkabragð  „Mér finnst svona framkoma vera ragmennska af versta tagi“!

Ragur er sá er við rassinn glímir (orðatiltæki)  Sá er huglaus sem ræðst aftan að manni.  Mikið notað orðtak í Kollsvík ef lýsa þaft heigulshætti og sviksemi.

Rak (n, hk)  A.  Dreifar af heyi sem raka þarf af túnum.  Jafnan notað í þeirri merkingu í Kollsvík í seinni tíð, og þá einatt í fleirtölu.  „Það borgar sig að hirða rökin við garðaendana“.  B.  Þráður/kveikur í kerti.  Í heimaunnin tólgarkerti fyrri tíma var notað rak úr fífu, lérefti, bómul eða hrosshári, eftir því hvað tiltækt var.

Raka (s)  A.  Taka saman hey eða dreifar af heyi með hrífu.  B.  Skafa skeggbrodda af húð, einkum andliti karla.  C.  Í líkingamáli; raka saman fé/peningum, um það að auðgast/hagnast.

Raka af túnum (orðtak)  Raka umframskít af túnum, sem hafður hefur verið til áburðar.  „Fyrir slátt var túnið hreinsað; þá var skíturinn sem ekki vannst niður rakaður í hrúgur.  Það var svo starf okkar krakkanna að tína þær upp í trog og hella þeim í poka.  Afrakið var síðan borið heim í mókofa og notað sem eldiviður.  Heldur þótti okkur leiðinlegt verk að taka hrúgur“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Raka/skara eld að sinni köku (orðatiltæki)  Sjá skara eld að sinni köku.

Raka frá (orðtak)  Raka hey með hrífum frá skurðbökkum, steinum, girðingum o.fl. til að unnt sé að beita rakstrarvél til að raka saman á túni/sléttu.  Kom til á vélaöld og var yfirleitt hlutverk barna og unglinga.

Raka/taka saman (orðtök)  A.  Raka saman hey með hrífu eða rakstrarvél.  „Ég fer að raka saman ef þið setjið upp“.  „Ég treysti ekki ve þessu útliti; ætli við förum ekki bara óðara að taka saman“.  B.  Tína mikið saman á stuttum tíma; græða.  „Á Bæjarvellinum er fljótlegt að raka saman eggjum í hvern kútinn eftir annan“.

Raka slæður (orðtak)  Raka dreifar af heyi, t.d. eftir rakstur með rakstrarvél; söfnun með vél eða fok.

Raka upp (orðtak)  Raka saman hey.  „Allt gras var rakað saman í flekki; misstóra eftir sprettu.  Rifjað var þrisvar á dag, og rakað upp að kvöldi“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).   „Hann er að ljókka fjári mikið núna; við verðum að raka upp í hvelli“.

Raka utanað (orðtak)  Raka jaðar á heyflekk, þannig að hann verði minni og því minna verk að vinna við hann, t.d. rifja og taka saman.  Einnig notað um það að raka frá.  „Eruð þið til í að fara og raka utanað á litlu sléttunni strákar“?

Raka utanúr (orðtak)  Raka með hrífu niður uppsett hey t.d. í galta eða á heyvagni, til að taka lausar slæður sem annars myndu falla/fjúka af og fara til spillis.

Rakalaus (l)  A.  Sem er laus við raka/sagga. „Kartöflurnar þarf að geyma í rakalausum stað“.  B.  Sem ekki styðst við rök/sannindi; sem ekki er fótur fyrir.  „Þetta er bara rakalaus þvæla“!

Rakalaus þvættingur (orðtak)  Staðlausir stafir; uppspuni frá rótum; lygasaga; slúður. 

Rakasamt (l)  Um jörð/tún; raklent; blautt um.  „Þarna var mjög þunnur jarðvegur og rakasamt...“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Rakblað (n, hk)  Stálþynna með eggbrýndum jöðrum; sérstaklega löguð til að falla í rakvél, og notuð til að raka skeggbrodda af manni.

Rakbolli (n, kk) Bolli með vatni sem hafður er við hendina þegar maður rakar sig með rakvél og raksápu; til að skola burstann og væta raksvæðið.  Nýtist oft til geymslu á rakáhöldum þess á milli.

Rakbursti (n, kk)  Lítill bursti/kústur, notaður einkum til að bera raksápu úr stauk/bolla á neðra andlit manns fyrir rakstur.

Raketta (n, kvk)  Flugeldur; lítil eldflaug með stýripriki sem skotið er á loft til skemmtunar; einkum á áramótum.  Misstórar og sumar með ljóskúlum sem springa þegar upp er komið.  Fremur var talað um rakettur en flugelda vestra, eftir að þessi fyrirbæri fóru að tíðkast á síðari hluta 20.aldar.  Sjá ýluraketta.

Rakettubúnt / Rakettupakki (n, kk)  Búnt/pakki af rakettum.  Gjarnan var keypt búnt af litlum rakettum fyrir hvert barnmargt heimili, og fáeinar stórar.  Um tíma voru rakettur seldar á vegum Sláturfélagsins Örlygs.

Rakettuprik (n, hk)  Prik á rakettu, sem gegnir því hlutverki að stýra henni upp í loftið og uppí vind.

Rakettuskot (n, hk)  Það að skjóta upp rakettu. 

Raki í rót (orðtak)  Væta í rót; rök jörð/ neðst í gróðri þó þurrt sé á yfirborði.  „Það er að þorna af, en það er enn raki í rót“.

Rakið sjóveður (orðtak)  Einsýnt sjóveður; fyrirsjáanlega unnt að róa vegna veðurs.  „Það er ekki hægt að liggja svona í landi þegar er rakið sjóveður hvern daginn eftir annan“.

Rakinn (l)  A.  Eindreginn; einsýnn; fyrirsjáanlegur.  „Mér heyrist á spánni að það verði rakið sjóveður næstu daga“.  B  Einboðinn; liggja beint við.  „Það er alveg rakið að nýta sér þetta tækifæri“.

Rakin norðanátt (orðtak)  Eindregin og einsýn norðanátt.   „Ég held áfram að slá allt niður; hann spáir rakinni norðanátt eins langt og séð verður“.

Rakinn þurrkur (orðtak)  Einsýnn/eindreginn þurrkur; góð þurrktíð; þerrir.  „Samkvæmt spánni ætti að vera rakinn þurrkur næstu dagana“.

Rakka niður (orðtak)  Niðurlægja í orðum; tala niður; gagnrýna ótæpilega.  „Það er alltaf bjargráð þeirra sem ekkert geta og engu nenna; að rakka niður allt framtak annarra“!

Rakkaband (n, hk)  Rakki; sigluband; mastursband; band sem bundið er í hring utanum mastur/siglu báts og jaðar/lík segls, og gegnir því hlutverki að halda seglinu við mastrið.  Það er haft nægilega rúmt til að geta runnið upp og niður mastrið þegar segl eru reist og lækkuð.  Mörg rakkabönd eru á hverjum segljaðri.

Rakkarapakk (n, hk)  Niðrandi heiti á hópi manna/fólks. 

Rakki (n, kk)  A.  Annað heiti á hundi.  B.  Rakkaband; bandhólkur sem hefur það hlutverk að halda rá seglbáts að mastrinu.  Sjá rakkaband.

Rakleiðis (ao)  Beina leið; í beina stefnu.  „Sú svarta strauaði rakleiðis út á Bjarg aftur, með sitt lamb“.

Rakleitt (ao)  Beint; beint strik.  „Kýr fara jafnan rakleitt á sína réttu bása þegar þær koma í fjós; einkum þær sem komnar eru af kálfs aldri“.

Raklent (l)  Um landsvæði/tún; blautt um; rakasamt.  „Grásteinsslétturnar voru fremur raklendar, lengi eftirr að þar var ræst fram“.

Rakna upp / Rakna sundur (orðtak)  Um flík; dragast út garn/þráður svo losni í sundur prjón/saumur.  Einnig rekja upp.

Rakna úr (orðtak)  Greiðast úr; rætast úr; lagast.  „Eitthvað er að rakna úr með fjármálin hjá þeim“.

Rakna við / Rakna úr roti (orðtök)  Komast til meðvitundar eftir djúpan svefn eða meðvitundarleysi.  „Það var mikið að maður raknaði úr rotinu; mikill andskotans syndasvefn er þetta“!

Raksápa (n, kvk)  Freyðandi og sápukennt efni sem borið er á skeggvaxna húð fyrir rakstur, til að mýkja hana og auðvelda raksturinn.  Raksápa var löngum seld í stykkjum eða í rakbollum, en er nú jafnan í þrýstibrúsum.

Rakspegill (n, kk)  Lítill handhægur spegill með fæti, notaður þegar maður rakar sig.  Slíkir speglar sjást lítt í dag, en voru algengur hluti af rakáhöldum fyrri tíma.

Rakstrarlag (n, hk)  Aðferð við að að raka heyi með hrífu.  „Þetta er ómögulegt rakstrarlag; að skilja eftir mikinn hluta af heyinu; það mætti halda að þið hefðuð aldrei snert á hrífu fyrr“!

Rakstrarfólk / Rakstrarmaður / Rakstrarkona (n, hk/kk/kvk)  Fólk sem vinnur við rakstur túna.  „Nú þyrfti ég að fá með mér öfluga rakstarmenn til að raka slæður á eftir vélinni“.

Rakstrarvél (n, kvk)  Heyvinnutæki sem dregið er af traktor (hestum fyrrum) til að raka saman hey af túni.  „Á Láganúpi var dragtengd Bambford rakstarvél sem bæði gat rifjað hey í litlum görðum, líkt og með hrífu, en einnig rakað því saman með mismikilli skekkingu“.  Ólafur Ólafsson Thorlacius í Saurbæ fékk sér sláttuvél og rakstrarvél, fyrstur manna í Barðastrandasýslu; líklega stuttu eftir aldamótin 1900, er hann bjó í Saurbæ.

Rakstur (n, kk)  A.  Það að raka saman hey á túni.  B.  Það að raka skegg af kjamma manns.

Rakstursáhöld / Raktau (n, hk, fto/ hk)  Rakvél, rakbursti, rakbolli, rakspegill og önnur áhöld sem maður notar þegar hann rakar sig. 

Rall (n, hk)  A.  Söngur; söngl; raul.  „Í logninu heyrðist rallið í karlinum þar sem hann sat á traktornum og rifjaði“.  B.  Skemmtun; útstáelsi.  „Hann kom víst seint heim af rallinu“.  C.  Á síðari tímum haft yfir torfæru- og hraðaksturskeppni.

Ralla (s)  Raula; syngja; tralla.  „Hann rallaði við sjálfan sig meðan hann fékkst við hnútinn“.

Rallfullur / Rallhálfur / Rallandi fullur / Rallandi hálfur (s/orðtök)  Kenndur/ölvaður af víndrykkju.

Ramakvein (n, hk)  Hátt/skerandi óp.  „Það þýðir lítið að reka upp ramakvein síðar; vitlegra er að fyrirbyggja að svona fari“.

Ramba (s)  A.  Reika; ganga; vaga; lötra.  „Ég ætla að ramba norður Mýrar og gá hvað er um fyrir hrafninum“.  „Fjarri leiðum fengsældar; frá því snemma á hausti;/ rambar nú mitt frostafar/ fram úr vetrarnausti“  (JR; Rósarímur).  B.  Velta/sveiflast fram og til baka um fastan punkt.  „Mér líst illa á steininn sem rambar þarna á brúninni“.

Ramma (s)  A.  Setja í ramma; ramma inn.  B.  Finna; hitta á; rekast á. „Ætli ég rammi þetta ekki einhvernvegin, þó myrkur sé“.

Rammasta alvara (orðtak)  Fúlasta alvara; mjög mikil alvara.  „Mér er rammasta alvara með þetta“!

Ramba á / Ramma á (orðtak)  Finna; rekast á.  „Einhvernvegin rambaði ég á rétta leið í þokunni“.  „Tilviljun og óveður réðu því að Kollur rammaði á Kollsvík“.

Rambald (n, hk)  A.  Ás sem kirkjuklukka hangir í., en á honum getur hún sveiflast/rambað fram og til baka þegar henni er hringt; og slæst þá kólfurinn í hlið hennar.  B.  Umbúnaður kompáss/áttavita sem gerir honum kleift að sveflast og haldast láréttur í veltingi.  C.  Hvaðeina annað sem sveiflast; t.d. stundum notað um leiktæki barna sem almennt nefnast „vegasalt“.

Rammbeiskur (l)  Mjög beiskur.  „Bjóddu mér þennan fjanda ekki aftur; þetta er rammbeiskt“!

Rammbundinn (l)  Súrraður; mjög tryggilega/vel bundinn; mjög háður/upptekinn.  „Ég kemst ekki með í þetta; ég er alveg rammbundinn í gegningum“.

Rammbúkki (n, kk)  A.  Sterkur planki/battingur sem hafður er innaná jötum og milligerðum í hrútastíu, til að hlífa viðkvæmari fjölum við eilífu stangi og hnibbi hrútanna; að þeir „smíði ekki allt í sundur“.  B.  Algengari merking:  Þungt tré sem til forna var notað í bardögum til að brjótast inn í virki óvina.  C.  Tré framúr stefni stríðsskips, neðan sjólínu, til að laska óvinaskip sem siglt er á.

Rammbyggt (l)  Tryggilega/sterklega byggt.

Rammbyggilega (ao)  Sterklega; sterkbyggt; tryggilega.  „Þótti með ólíkindum þegar þessi rammbyggilega kirkja sviptist af grunninum í einni vindkviðu og brotnaði í smátt“.

Rammfalskur (l)  Alveg laglaus/tónvilltur.  „Ekki datt mér í hug að taka undir; eins rammfalskur og ég er“.

Rammfang (n, hk)  Tanacetum vulgare.  Fjölær garðaplanta af aster-ætt, upprunnin af hlýsvæðum Evrópu og Asíu.  Blöðin eru fjölgreinótt, verða 10-15 cm að lengd en plantan verður 50-150 cm há.  Blómin eru gul og hnapplaga; vaxa í klösum.  Blómgun er frá miðju sumri framá haust.  Ilmurinn líkist kamfóru.  Laufin eru eitruð ef þau eru étin í miklu magni, og forðast skepnur þau.  Jurtin var víða ræktuð við bæi fyrrum, og langt frameftir 20.öld öx hún enn í gömlum beðum, t.d. í Tröðinni.  Hún var notuð sem lækningajurt, gegn iðraormum, meltingatruflunum, hita og fleiru.  Einnig var því trúað að hún hefði hreinsunarmátt væri hún notuð til andlitsþvotta.  Jurtin mun enn vera notuð til lyfjagerðar.

Rammflæktur (l)  Kyrfilega/illilega flæktur.  „Hvernig gerðirðu línuna eiginlega upp?  Hún er rammflækt“!

Rammforn (l)  Ævagamall; úr grárri froneskju.  „Þessi siður er líkastil rammforn“.

Rammger / Rammgerður (l)  Sterkbyggður; traustur.  „Dráttarvélin var keypt og flutt út í Kollsvík innpökkuð í stóran rammgerðan trékassa“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Rammgöldróttur (l)  Mikill galdramaður; fjölkunnugur.  „Svona afla fær enginn á einni dagstund nema hann sé rammgöldróttur“.

Rammheiðinn (l)  Alveg heiðinn; ekki kristinn.  „Líklega eru þorrablótinn uppahaflega rammheiðinn siður“.

Rammhnýttur (l)  Tryggilega hnýttur; súrraður.  „Hliðið var svo rammhnýtt aftur að ég ætlaði aldrei að geta opnað það“.

Rammíslenskur (l)  Hreinn Íslendingur; íslenskur að öllum uppruna.   „Þetta er rammíslenskur siður“.

Rammkatólska (n, kvk)  Mikil pápíska/kaþólsk trú.  „Á hólnum hafa staðið hús a.m.k. frá rammkatólsku“.

Rammkatólskur (l)  Haldin kaþólskri trú; pápískur.  „Hann ruglaðist eitthvað og er nú sagður rammkatólskur“.

Rammlega (ao)  Traustlega; vel; vandlega.  „Kofinn er svo rammlega byggður að hann þolir nánast allt“.

Rammneglt (l)  Mjög mikið/ryggilega neglt.  „Borðin voru rammnegld á bitann“.

Rammpólitískur (l)  Með mjög sterkar skoðanir í stjornmálum/pólitík.

Rammsaltur (l)  Mjög/of saltaður.  „Grauturinn var rammsaltur og algerlega óætur“.

Rammskakkur (l)  Mjög skakkur/misvísandi/bjagaður.  „Það dugir ekki að hafa grunninn rammskakkan“!

Rammskorðaður (l)  Mjög vel skorðaður.  „Báturinn var rammskorðaður og tryggilega frá honum gengið“.

Rammsterkur (l)  A.  Um mann; mjög sterkur/öflugur.  B.  Um mat/drykk; rótsterkur.

Rammstuðlað (l)  Um kvæði/ljóð/vísu/mælt mál; með áberandi stuðlum.  „Þetta er rammstuðlað hjá þér“.

Rammsúr (l)  Mjög súr; gallsúr.  „Ég helli þessari mjólk niður; hún er orðin rammsúr“.

Rammur (l)  A.  Aflmikill sterkur; ramur.  B.  Um bragð; beiskt; sterkt.  „Skelfilega er rammur keimur af þessu kaffi“! „Marga hlaut hann ramma raun á rán að kanna/ bestu meðal barningsmanna“  (JR; Rósarímur). 

Rammur að afli (orðtak)  Mjög sterkur; kraftajötunn.  „Brynjólfur Eggertsson var rammur að afli.  Þegar hann reri að Brunnum sótti hann níðþunga hellu fram á útfiri og rölti með hana í fötlum upp að búðunum, þar sem hún skyldi nýtast; líklega sem soðhella eða dyrahella.  Steinninn er þykk hella; 281 kg að þyngd, og er notaður sem aflraunasteinn.  Þykir sá fullsterkur sem getur látið vatna undir helluna“.  „Rammur“ merkir göldróttur.

Rammvilltur (l)  Þegar maður er svo villtur að hann veit ekki hvar hann er staddur eða hvert skal halda.

Rampur (n, kk)  Skábraut.  „Hlaðinn var rampur upp að töðugatinu á nýju hlöðunni“.

Ramur / Rammur (l)  Sterkur.  „Hann var ramur að afli“.  Ýmist sagt með tveimur eða einu emmi.  „Á togara tók sér far,/ traust reyndist barnsins mund./  Óðar af öðrum bar/ að afli og víkingslund./  Hvar sem á knæpu var/ kvenna og drykkju von;/ rammastur reyndist þar/ Rósinkrans Ívarsson“  (JR; Rósarímur). 

Rand (n, hk)  Ráp; óþörf/endurtekin stutt ferð; flakk.  „Veriði nú ekki að þessu eilífa randi út og inn strákar“!

Rand og ráp (orðtak)  Tíðar stuttar ferðir; mikill umgangur.  „Veriði nú ekki sífellt að þessu randi og rápi strakar; annaðhvort leikið þið ykkur inni eða úti“!

Randa (s)  Rápa; flakka; fara endurteknar/óþarfar stuttar ferðir.  „Ég vil helst ekki þurfa að randa í kaupstað í hverri viku yfir heyskapartímann“!

Randir (n, kvk, ft)  Fleirtala af „rönd“ var áður “randir“, en er nú oftast „rendur“.  Því er í Kollvík örnefnið Melarandir, ofan Leira; neðan Stekkjarmels og norðureftir; og Holtarandir, ofan Nautholts og neðan Holta.

Ranga (n, kvk)  Úthverfa; ranghverfa; öfug hlið.  „Farðu nú ekki í peysuna á röngunni drengur“!

Ranga (s)  A.  Mjaka; hnika til „Okkur tókst að ranga bjarginu af veginum“.  B.  Velta á rönginni (um tunnu).  Sjá hallranga.

Rangali / Ranghali (n, kk)  Afkimi; útúrgöng. „Þegar kemur inn í Sandhelli er ranghali til hægri sem heitir Þumall“.  H heyrist ekki í framburði, og ekki er fullljóst hvort orðið er nafngerð af „rangur“ eða hvort það vísar til hala. 

Rangarauki (n, kk)  Viðauki við band/röng í bát.  Á bátum fyrr á tíð voru bönd stundum í nokkrum hlutum; t.d. bunkastokkur í botni og síðubönd á síðum.  Rangarauki, sem einnig nefnist áfella/eyra/rangargrís er framlenging á síðubandi og nær að hluta til hliðar við það.

Rangarfullur (l)  Um hleðslu á báti; fullt rúm upp að röng/langýsu, sem liggur undir þóftunum.

Rangeygur (l)  Skjálgur; með misvísandi horf augna/ horfir í sína stefnuna með hvoru auga.  Jafnan án ð í framburði Kollsvíkinga, en sumir segja orðið „rangeygður“.

Rangfeðraður (l)  Ekki kenndur við raunverulegan föður í heimild.  Eflaust hefur meira verið um það að börn væru rangfeðruð fyrr á tímum; t.d. í þeim tilvikum að húsbændur, höfðingjar eða prestar höfðu átt vingott við vinnukonur eða aðrar lágstéttarkonur og þvinguðu fram ranga feðrun barnsins.  Því er valt að treysta rituðum kirkjubókum og ættarskrám.  Jafnvel hafa simir borið brigður á bók allra bóka; Kollsvíkurætt, í einhverjum tilvikum.

Rangfæra (s)  Fara rangt með; segja rangt frá.  „Segja skal hverja sögu eins og hún gengur fyrir sig; ég ætla ekkert að fara að rangfæra þettaeða fegra“!

Rangfærsla (n, kvk)  Rangt sagt frá/ ritað.  „Helmingurinn af bókinni er rangfærslur og hinn helmingurinn lygi“!

Ranghermi (n, hk)  Rangt eftir haft/vitnað í.  „Það er algjört ranghermi að ég hafi komið þessari sögu á flot“.

Ranghermt (l)  Ekki rétt haft eftir/ vitnað í.  „Það var ranghermt hjá honum; þetta sagði ég aldrei“.

Ranghugmynd (n, kvk)  Rangur skilningur; afbökuð hugsýn.  „Mikið ber á ranghugmyndum hjá borgarbúum um lífsbaráttu forfeðra þeirra í sveitalífi fyrri alda“.

Ranghverfa (n, kvk)  Ranga; úthverfa.  „Hann er hinn vænsti maður dagsdaglega, en ekki langar mig að sjá ranghverfuna á honum þegar hann reiðist“!

Ranghvolfa (s)  Um augnaráð; renna augum öfgafullt upp, t.d. í reiði eða vanþóknun.

Ranghverfur (l)  Um fatnað; úthverfur; umsnúinn.  „Ætlarðu að fara í buxurnar ranghverfar drengur“?

Rangindi (n, hk, fto)  Ranglæti; órétti; rangar sakargiftir; áfærni.  „Maður verður að verja sig þegar maður er beittur svona rangindum“.

Rangl (n, hk)  Rölt; ról; hæg, stefnulítil ganga.  „Síðast sá ég hann á rangli að gá að lambfé“.

Rangla (s)  Rölta; ganga í rólegheitum; eigra.  „Hann er eitthvað að rangla um og huga að lambfé“.

Ranglátur (l)  Óréttlátur; ekki byggður á sannindum/réttlæti.  „Taldi Ívar það mjög rangláta skattlagningu…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Ranglátur (n, kk, sérnafn)  Heiti á garði þeim sem Björn Halldórsson, Sauðlauksdaldprestur, lét hlaða neðan við tún sín til varnar sandfoki.  Kóngur gaf út sérstaka ordru sem skyldaði sóknarbörnin að hlaða garðinn í þegnskylduvinnu.  Því óréttlæti var erfitt að una og því gáfu hinir kúguðu garðinum þetta nafn.  Enn má sjá dálitið slitur af rústum Rangláts. 
Í riti Björns, Atla, má e.t.v. finna helsta hvatann að byggingu Rangláts.  Kóngur Íslands og Dana hafði árið 1776 gefið út tilskipun/forordningu um garða og þúfnasléttun, þar sem jarðeiganda er heitið 16 skildingum í skenk/verðlaun fyrir hvern faðm sem hlaðinn er á jörðinni umfram hleðsluskyldu sem þar er tilskilin (6 faðmar grjótgarðs árlega).  Þetta skyldi í boði fyrir bændur og „þau allra fátækustu prestköll“.  Garðarnir skyldu vera löglega hlaðnir; þ.e. minnst 2ja álna háir og svo breiðir að fullvaxinn maður geti vel gengið um þá.  Harðar fésektir voru lagðar við því ef einhver óhlýðnaðist „yfirboðurum“ um garðhelsluskyldu.  Má svo velta því fyrir sér hvort Björn hafi fengið greitt fyrir Ranglát útá „sjálfboðavinnu“ sóknarbarnanna.  Björn kann að hafa verið mikill fræðimaður og ræktunarfrömuður, en tæpast verður hann talinn boðberi mannjöfnuðar og lítillætis á nútíma mælikvarða.

Ranglega (ao)  Ekki með réttu; öfugt.  „Ég sagði þetta ranglega og biðst velvirðingar á því“.

Ranglæti (n, hk)  Rangindi; óréttur.  „Ef þetta er þeirra réttlæti; má ég þá fremur biðja um þeirra ranglæti“!

Rangnefndur (l)  Nefndur röngu nafni/heiti.  „Hann er rangnefndur í bókinni“.

Rangnefni (n, hk)  Nafn sem ekki passar/ekki er rétt.  „Það má vel vera að Langisjór sé rangnefni, en það er ekki heldur rétt að kalla hann drullupoll“.

Rangsinna / Rangsinnaður (l)  Á villigötum; með rangar skoðanir; ruglaður.  „Að flestu leyti kann ég ágætlega við þennan náunga, en mér finnst hann dálítið rangsinna í byggðamálunum“.

Rangskreiður (l)  Um skip eða annað farartæki sem helst illa á beinni stefnu.  „Andrés smíðaði allmarga báta en það orð fór af sumum að þeir væru dálítið rangskreiðir“.

Rangsleitinn (l)  Hefur rangt við; beitir óréttlæti.  „Það má margt um hann segja, en rangsleitinn er hann ekki“.

Rangsleitni (n, kvk)  Rangindi; óréttlæti.  „Það verður að bregðast við þegar manni er sýnd svona rangsleitni“.

Rangsnúa (s)  Snúa öfugt; láta horfa illa við; afbaka; snúa útúr.  „Þú mátt ekki rangsnúa bátnum svona“!

Rangsnúinn (l)  Öfugsnúinn; illa fyrir komið; óskiljanlegur.  „Mér finnst þetta mjög rangsnúin hugmynd“.

Rangstæður (l)  Er á röngum stað þegar verið er að smala fé eða standa fyrir því.  „Þetta gat ekki farið öðruvísi fyrst karlbjáninn var rangstæður“!  Notað í annarri merkingu í einhverjum boltaleikjum.

Rangstæður (l)  Stendur á röngum stað, t.d. þegar staðið er fyrir fé.  „Þú varst alveg rangstæður þarna við skriðufótinn; féð leitar alltaf með klettunum á þessum stað“.

Rangsýnn (l)  Óréttlátur; hættir til að misskilja/taka rangar ákvarðanir.  „Í þessu máli finnst mér hann rangsýnn“.

Rangsælis (ao)  Um snúningsátt; á móti sólargangi.

Rani (n, kk)  A.  Trjóna á dýri.  Einkum átt við rana á fíl, ranabjöllu o.fl.  B.  Aflangt holt í landslagi; hryggur; barð.  Rani er heiti á grónu sandbarði sem gengur niðureftir Grundatúni.  Örðumegin hans voru Grundabæir en hinumegin áveitur.  Allt er það gróið tún sem slegið ver til skamms tíma. 

Ranka við sér / Ranka úr roti (orðtök)  Komast til meðvitundar; taka við sér; vakna upp af djúpum hugleiðingum; muna eftir.  „Ég ranglaði áfram í þungum þönkum og rankaði ekki við mér fyrr en ég var kominn langt af leið“.

Rannsaka (s)  Grannskoða; athuga gaumgæfilega.  „Þetta þarf að annsaka eitthvað betur“.

Rannsókn / Rannsökun (n, kvk)  Grannskoðun; gaumgæfileg athugun.

Rannsóknarvert (l  Þarfnast nánari skoðunar; athugavert.  „Það væri rannsóknarvert þetta bruðl ráðamanna í utanlandsferðir.  Ég get ekki séð neina þörf á þessu í þágu almennings“.

Rappa (s)  Um múrverk; kasta þunnri sementslögun/sandsteypu á vegg til að múrhúða hann.  Oft er þá búið að setja á vegginn múrhúðunarnet/rappnet til að halda múrhúðinni og styrkja hana.

Rapport (n, hk)  Skýrsla; greinargerð; frásögn.  „Ég þurfti að gefa honum nákvæmt rapport um leiðangurinn“.

Rapporta / Rapportera (s)  Gefa skýrslu; segja frá; gera grein fyrir.  „É þarf sko ekkert að rapporta það fyrir neinum hvernig þetta vildi til; þetta bara fór svona, og ekkert meira með það“!

Rart (l)  Fágætt; skeður sjaldan.  „Þetta kalla ég alveg rart; svonalagað sér maður ekki dagsdaglega“!

Rarítet (n, hk)  Fágæti; nytsamur hlutur.  „Svo tók hann sig til og smíðaði heyvagn sem þótti mikið rarítet.  Sá var á fjórum járnhjólum, fremur litlum en breiðum.  Stýringar voru á framhjólunum og tveimur hestum beitt fyrir“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Ras (n, hk)  Fljótfærni; flaustur; hras.  „Við skulum nú forðast allt ras í þessum efnum“.

Rasa að (orðtak)  Flýta sér um of; gera í fljótfærni.  „Ég held það væri ráð að rasa ekki að neinu í þessu máli“.

Rasa um/fyrir ráð fram (orðtak)  Framkvæma í fljótfærni; gera í hugsunarleysi.  „Nú megum við ekki rasa um ráð fram.  Ég held að við ættum að bíða með landtöku meðan svona mikill súgur er við hleinina“.  Sjá illt er að rasa um ráð fram.

Rasa út (orðtak)  Fjargviðrast/þusa um stund.  „Hann verður að fá að rasa út; svo jafnar hann sig á þessu“.

Rasandi (l)  Mjög reiður; saltvondur; bálillur.  „Alveg er ég rasandi yfir þessum andskotans vinnubrögðum“!

Rask (n, hk)  A.  Slóg úr fiski; innyfli, hrogn, og annað aukmeti af fiski.  „Heiter á Vestfiordum allra handa trosfiske; ludur, steinbitar, keilur, qvod alibi matfiske......  Rask og das. Id est höfuðkinnar, steinbítskinnar, þorskhöfuð, slóg fyrir utan lifur. Kallast öðru nafni dasfiski  (Jarðabók ÁM, PV).  Rask úr fiski var vel nýtt í Kollsvík fyrr á öldum.  Það sem ekki ver nýtt til beitu var annaðhvort nýtt til skepnufóðurs eða sem áburður á tún.   B.  Umrót; umturnun.  „Ég hef reynt að forðast allt rask á þessu svæði; ég vil að það haldist eins og verið hefur“.

Raska (s)  Róta; hreyfa við.  „Ingvar ákvað að raska ekki Biskupsþúfunni þegar hann sléttaði kringum hana“.

Raska ró (einhvers) (orðtak)  Ýta við; gera einhverjum ónæði/rúmrusk.  „Stjakaðu kettinum bara úr sófanum; ég held það sé í góðu lagi að raska hans ró“.

Raspa (s)  Sverfa með raspi/þjöl.  „Það þarf að raspa gúmmíið vel áður en límið er sett á“.

Rasphúsið (n, hk)  Vinnufangelsi í Kaupmannahöfn, stofnað 1662 og starfaði í einni eða annarri mynd til 1928.  Lengi framanaf var það ætlað karlkyns lífstíðarföngum sem þar unnu m.a. að því að raspa niður litunartré frá austurlöndum til framleiðslu á litarefnum.  Þangað voru sendir þeir Íslendingar sem framið höfðu alvarlegustu afbrotin.  Vistin í rasphúsinu var slæm, í dimmu rykfylltu húsi og slæmri hreinlætisaðstöðu; enda hrundu menn unnvörpum niður.  Meðal kunnra íslenskra fanga í Rasphúsinu voru Sigurður Gottsvinsson Kambránsmaður og Sölvi Helgason flækingur og listamaður.

Raspur (n, kk)  Gróf þjöl með göddum.  Notuð t.d. til að sverfa við/klaufir/hófa eða við límingar á gúmmíi.

Rassakastast (s)  Andskotast; fara um með látum.  „Nú er hundfjandinn að rassakastast í fénu enn einusinni“.

Rassaköst (n, hk, fto)  Fyrirgangur; asi; flýtir.  „Hann fór á rassköstum niður að sjó og hellti sér yfir þessa vitleysinga sem voru þarna að skjóta út í loftið í leyfisleysi“.  „Byrinn hvass í reiða og rá/ rymur bassa köldum./  Fokku-assan furðu kná/ fer með rassaköstum þá“  (JR; Rósarímur). 

Rassast í  / Rassakastast í (orðtök)  Vesenast í; vinna með látum; hefja verk að óþörfu/ þannig að skaði hljótist af.  „Við förum ekkert að rassast í þessu án þess að ráðgast við hann áður“.  „Farðu nú og kallaðu á hundinn; hann er að rassakastast í fénu“.

Rassast með (orðtak)  Bramboltast/brauðhófast/vesenast með; fara með í óleyfi.  „Voruð þið eitthvað að rassast með eldspýturnar strákar“?

Rassbaga (n, kvk)  Ambaga; málvilla; afbakað orð.  „Skelfing kann ég illa við þær rassbögur sem vaða uppi í mæltu máli nú til dags, bæði hjá ungum sem öldnum“.  „Skelfing er nú að heyra svona rassbögu“!

Rassbeltingur (n, kk)  Draugur sem einnig gekk undir nafninu Hringsdalsdraugur og Brjánslækjardraugur.  Maður nokkur, nefndur Árni blót, lagði á Þingmannaheiði á bleikri hryssu með brennivínskúta tvo.  Hann var varaður við veðurútliti en sinnti því engu; sagðist sennilega verða kominn til Vítis áður en dagur væri á enda.  Um vorið barst lík hans fram í Kjálkafjörð.  Einar bóndi á Auðshaugi vakti Árna upp og sendi hann til Hringsdals í Arnarfirði til að drepa Sturlu sem fengið hafði konu; Guðrúnar, sem Einari var meinað að eiga.  Margir urðu draugsins varir og sögðu hann vera á mógrárri úlpu, með slapahatt á höfði og ólarbelti um sig; sigið mjög niður á rassinn.  Hlaut hann því nefnið Rassbeltingur.  Hann var skaðræðisgripur fyrst eftir vakninguna; drap fólk og fénað og gerði ýmsum skráveifur sem hann fylgdi.  Um tíma var hann á Brjánslæk og truflaði mjög prest í messugerðum, svo hann varð iðulega að þagna fyrir altarinu.  Löngu síðar var Bjarni skáld Þórðarson til grasa á Þingmannaheiði og fann þá stafi úr brennivínskútum Árna og beinagrind af merinni.  (Endurs. frás. í Vísi 146. tbl 1960).

Rassblautur (l)  Blautur á rassinum eftir að setjast í bleytu, t.d. á blautan mosa.  Einnig orðað „rassvotur“ en það var minna notað í Kollsvík.  „Við sátum þarna í brattri brekkunni á klakanum.  Maður varð fljótt rassblautur“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg). 

Rassbora (n, kvk)  A.  Rass; endaþarmur.  Sjá bora.  B.  Þröngt rými/stía/herbergi/íbúð, eða hvaðeina sem þrengir að sínu hlutverki; jafnvel föt og skór.  „Verkfærahúsið er ágætt til ýmiskonar smiða, en það er hálfgerð rassbora til að lagfæra bil þar inni“.

Rassborulegur / Rassgatslegur (l)  Þröngur fyrir það sem um er rætt.  „Skelfing finnst mér þessi bíll vera rassborulegur þegar eitthvað þarf að flytja“.  „Rúmið fer nú að verða dálítið rassborulegt þegar strákurinn stækkar meira“.  „Óskapslega eru þessir nýju uppþvottaburstar rassgatslegir; þetta er bölvað rusl“!

Rassbreiður / Rassmikill / Rassstór (l)  Með fyrirferðarmikinn rass; mittismikill.  „Á þennan bekk komast varla nema þrjár rassbreiðar fraukur“.

Rassbrotinn (l)  Með beinbrot eftir fall; rófubeinsbrotinn. 

Rassbögulegt (l)  Um málfar/orð.  Lætur illa/kjánalega í eyrum.  „Þetta er nú ansi rassbögulegt orðalag hjá þér“.

Rassbögusmiður / Rassbögumeistari (n, kk)  Sá sem kemst iðulega illa að orði eða klæmist á orðum.  „Skelfingar rassbögusmiður geturðu nú verið; hér á bæ segir þú ekki „mér langar“ heldur „mig langar““.  Sjá einnig ambögusmiður og koma afturábak/öfugt útúr.

Rassbögustagl (n, hk)  Talað/ritað mál með miklum málvillum; bull.  „Ég hef sjaldan lesið annað eins rassbögustagl!  Svona málleysur skrifa engir aðrir en hálærðir menn eða algerir tossar“!

Rassfar (n, hk)  A.  Sæti; þar sem maður situr.  „Færðu þig um eitt rassfar svo ég geti setið hér á milli ykkar“.  B.  Far í snjó/ lausan jarðveg þar sem maður getur/hefur setið.  „Ég krafsaði í skriðuna til að fá rassfar og viðspyrnu, meðan hann losaði lausagrjót frá brúninni“.

Rassgat (n, hk)  A. Eiginleg merking; endaþarmur.  B.  Afleidd merking; það sem lítur illa út eða þjónar illa sínu hlutverki.  „Þessi hnífur er hálfgert rassgat til þessara nota“.  C.  Í blótsyrðum/heitingum.  „Fari þær þá bara í rassgat; þetta eru snarvitlausar bykkjur“!   „Þú átt ekki rassgat í þessum vasahníf; ég á hann“!  „Fjandann eru þeir að senda mér Moggann, þessir heiðingjar; þeir geta nú bara stungið honum í rassgatið á sér“.  D.  Niðrandi heiti á mjög afskekktum stað.  „Þeir lögðu net á einhvern hólfjanda; lengst úti í rassgati“.

Rassgatslegt (l)  Umhendis/erfitt að nota/ koma fyrir sig; þröngt; lítið.  „Mér finnst þessir háu bollar eitthvað svo valtir og rassgatslegir“.

Rassgörn (n, kvk)  Endaþarmur; rassgat.

Rasshandarlag (n, hk)  Sleifarlag; slæmt vinnulag; klaufaskapur.  „Skelfingar rasshandarlag er nú þetta“!

Rasshönd (n, kvk)  A.  Bakhönd; sá sem síðastur lætur út í hópspili, s.s. vist eða bridds.  B.  Klaufalegt vinnulag.  „Mér sýnist að þetta hafi nú mest verið unnið með rasshöndinni; þvílík vinnubrögð sem þetta eru“!

Rassía (n, kvk)  Átak; skurk; tiltekt.  „Það þyrfti að gera rassíu í endurnýjun girðinga á þessum kafla“.  „Ætli maður geri nokkra rassíu í þessu fyrr en árans pestin lagast“.

Rasslaus (l)  Aumur í sitjandanum; rasssár.  „Maður verður alveg rasslaus að sitja á varadekkinu aftir í jeppanum í þessum fjandans holukarga

Rassmótor (n, kk)  Gæluheiti um utanborðsvél á bát. 

Rasssár (l)  Aumur í rassi/sitjanda.  „Það er hætt við að menn verði rasssárir að sitja lengi á þessum bekkjum“.

Rasssíður (l)  Seinn/tregur til; latur; óduglegur; drumbsíður; vögusíður; draugsíður; rassþungur.  „Ætli maður veri ekki fremur rasssíður í fyrramálið eftir að puða svona fram á nóttina“.

Rassskella (s)  A.  Flengja.  B.  Róa bát með látum/ í flaustri, þannig að árar skelli við hafflötinn.  C.  Flandra; flakka; steðja.  „Ég rassskellti norður á Ísafjörð til að sækja þetta.  Líklega dregið af B.

Rassskellandi (l)  Blaðskellandi; í miklum flaustri.  „Þarna kemur einhver rassskellandi yfir víkina“. 

Rassskelling (n, kvk)  A.  Flenging.  B.  Niðurlæging; hnekkir.  „Þeir fengu þarna viðeigandi rassskellingu“.

Rassskellur (n, kk)  A. Rassskelling.  B.  Áfall; óhapp.  „Þessi hlöðubruni var herjans rassskellur fyrir þau“.

Rasstorta (n, kvk)  Afturendi; gumpur; rass; rumpur; torta.  „Settistu á rasstortuna ofan í skítahlassið krakkakjáni?!  Vintu þér strax úr buxunum svo ég geti þrifið þær“.

Rasssæri (n, hk)  Eymsli í sitjanda; sár á rasskinn.  „Maður fær bara rasssæri af því að sitja svona mikið“.

Rassvasi (n, kk)  Vasi á buxum aftanverðum.

Rassvasabókhald (n, hk)  Ónákvæmt bókhald/reikningshald; óreiða á bókhaldi. 

Rassvotur (l)  Sjá rassblautur.

Rassþungur (l)  Sjá rasssíður.

Rastastraumur (n, kk)  Annnesjaröst; sjávarfallastraumur við annnes, sem er stríðari en á svæðunum í kring.  „Við skulum kippa aðeins; okkur hefur rekið hér norður á mesta rastastrauminn“.

Rastarstrengur (n, kk)  Mjótt svæði í annnesjaröst; bogamyndað fyrir annnesið og útfrá því; þar sem straumgöndull veldur meiri straumhraða.  Oft sýnilegt á yfirborði vegna meiri brotsjóa; einkum þegar fellur undir vind.  Rastarstrengur sést stundum í Blakknesröst; í norðurfalli undir norðanátt og nokkrum sjó.

Rata (s)  Þekkja leiðina.  „...þoka er mikil á fjallinu...  Það er erfitt að rata“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Rata á sinn bás (orðtak)  A.  Um kú; fara á sinn venjubundna bás þegar hún er látin inn í fjós.  Kýr eru afskaplega vanafastar; einkum varðandi stað sinn í fjósi eða á stöðli.  Gömul kýr bregst mjög illa við ef t.d. yngri kýr stelur bás hennar í ógáti.  B.  Líkingamál um það að þekkja sín takmörk/ sína stöðu. 

Rataháttur (n, kk)  Aulagangur; glópska.  „Ferlegur rataháttur er þetta í þér; að gleyma að loka fjárhúsunum“! 

Ratalegur (l)  Aulalegur; einfeldingslegur.  „Ósköp ertu nú ratalegur; penninn var hérna rétt við nefið á þér“!

Rataskaft (n, hk)  Kjánaleg mistök; aulaháttur; axarskaft.  „Þetta var ljóta rataskaftið hjá mér“!

Rataskapur (n, kk)  Sjá rataháttur.

Ratast rétt/satt á munn (orðtök)  Hafa rétt fyrir sér; segja rétt frá.  „Hann er stundum ansi ýkinn, en þarna held ég að honum hafi ratast rétt á munn“.

Ratast til/á (orðtak)  Aulast til; slampast á.  „Einhvernveginn rataðist ég til að finna féð í hríðinni“.  „Oft ratast kjöftugum satt á munn“.

Ratatoskur (n, kk)  Nafn á íkorna í norrænni goðafræði, sem hleypur í stofni Asks Yggdrasils; milli drekans Níðhöggs sem nagar rætur asksins og arnar sem situr í efstu greinunum, með haukinn Veðurförni milli augna sér.  Ratatoskur er í Gylfaginningu sagður bera slúður og níð á milli þeirra og magna þannig öfund og hatur. 

Rati (n, kk)  Auli, bjálfi.  „Óttalegur rati geturðu verið krakki; að týna vettlingnum“!

Ratljóst (l)  Göngubjart; ratfært; þegar sést til að ganga/rata vegna myrkurs/dimmviðris.  „Það fer að verða ratljóst“.  Mun meira notað en ratfært, þó það heyrðist einnig.

Ratt (n, hk)  Gæluheiti á stýri, t.d. báts, bíls eða dráttarvélar.  „Ég man vel að sjá roskna bændur ríghalda um „rattið“ og leggja sig fram um að ná árangri við stjórnina“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Ratviss / Ratvís (l)  Um þann sem á auðvelt með að rata/ er öruggur að átta sig.  „Það var með ólíkindum hvað hundurinn var ratvís í þokunni“.

Ratvísi (n, kvk)  Sú list/gáfa/næmni að rata betur leiðar sinnar en aðrir.  „Furðaði okkur á ratvísi Össurar, að hann skyldi hafa ratað þessa leið (að Láganúpi) á móti veðrinu“  (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949). 

Ratt (n, kvk)  Gæluheiti yfir stýri á bát/skipi; þá helst hjólstýri.  Sjá einnig rór og rör.

Rauð jól (orðtak)  Um það þegar jörð er snjólaus á jólum.  Hvít jól þegar snjór er á jörð á jólum. 

Rauð jörð (orðtak)  Auð/snjólaus jörð.  „Ég man nú ekki eftir því að á þessum tíma vetrar hafi verið rauð jörð vikum saman“!  Sjá dökkur díll.

Rauðaberg (n, hk)  Rauð steintegund í millilögum í blágrýtisstafla Vestfjarða.  Rauðabergið er að mestu pressuð og ummynduð eldfjallaaska; oft með blágrýtismöl í bland.  Það er mjög misjafnt að áferð, lit og hörku.  Sumsstaðar er það prýðilegur tálgusteinn, þó hann vilji fljótt veðrast og molna.

Rauðabergslag (n, hk)  Rauðleitt millilag í stafla gosbergs; sjá rauðaberg.  Hreinasta rauðabergslagið í grennd við Kollsvík er líklega í Pallanámum, norðantil á Bekk undir Hryggjunum.

Rauðablástur (n, kk)  Vinnsla járns úr mýrarauða.  „Einar í Kollsvík mun síðastur Íslendinga hafa stundað rauðablástur; líklega um eða eftir aldamótin 1800“.  „Rauðablástur fer þannig fram, að þurrkuðum mýrarauða er blandað saman við viðarkol sem unnin eru með því að brenna viði í kolagröf þannig að loft komist ekki að. (Sjá gera til kola.) Síðan er kveikt í blöndunni í ofni. Við brunann afoxast járnið úr (vötnuðu) járnoxíði í járnmálm sem er bráðinn og seytlar niður í botn ofnsins og er síðan „hleypt undan“. Eftir verða efnasambönd (steindir) sem ekki bráðnuðu, og nefnast sori eða gjall. Öllu máli skiptir hlutfallið milli járnoxíðs og kísils í hráefninu; sé það 1:1 gengur ekkert járn af. Sorinn er fayalít (Fe2SiO4) (Vísindavefur HÍ). 
„Rauðinn er bræddur í einföldum jarðofnum...  Grafin er hola í jörðina og fóðruð innan með steinum eða leir.  Rauðinn var mulinn og raðað í ofninn lagskipt sitt á hvað við viðarkol.  Síðan lagður eldur í kolin og flásið að með físibelg.  Þá bráðnaði járnið og settist sem járnkaka eða klumpur á botninn.  Var ofninn síðan rofinn, og járnkakan, sem nefndist blástursjárn, tekin og hituð á afli í smiðju og lamin með hamri eða sleggju á smiðjusteini.  Hraut þá sorinn eða sindrið úr járninu, og eftir varð járnköggull sem nefndist fellujárn eða fellt járn.  Við endurtekna hitun og barning hreinsaðist járnið smám saman og skýrðist.  Þetta íslenska járn mun þó aldrei hafa orðið vel gott smíðajárn; enda gáfu viðarkolin ekki nægilegan hita til að bræða járnið fullkomlega vel.  Það var mun lélegra en járn sem unnið er úr járngrýti með steinkolum....  Talið er að þurft hafi fimm lítra af rauða í eitt kíló af járni og tíu sinnum meira rúmmáls af viðarkolum; eða fimmtíu lítra kola í járnkílóið“  (Þór Magnússon; Málmsmíðar/Þjóðminjasafn)  „Járnið vann hann úr mýrum á jörð sinni með rauðablæstri.  Mælt var að hann hefði fengið járn er nægði í einn hestskónagla úr hverri hitun.  Má af því marka hve erfitt var að afla sér smíðajárns með rauðablæstri í þá daga.  Einar mun hafa verið hinn síðasti sem vann járn með þessari aðferð hér í Vestursýslunni“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).  Sjá einnig járnbrák og mýrarauði.

Rauðabruni (n, kk)  Rauðleitt og blöðrótt blágrýti í millilögum; oft frauðkennt og brothætt.  „Það er hæpið að fara yfir rauðabrunann í ganginum til að sækja þessi örfáu egg sem þarna eru“.

Rauðabýti (n, hk)  Eldsnemma; mjög árla dags; rauðamorgunn.  „Hann vakti okkur í rauðabýtið og sagði að nú væri þetta fína sjóveður“.  Forliðurinn vísar líklega til morgunroðans.  Sjá býti

Rauðagrjót (n, hk)  Rautt millilag í blágrýtisklettum; glerjuð gosaska.  „Rauðagil er allbrött skriða, og nokkuð í henni af rauðagrjóti... “  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Rauðamorgunn (n, kk)  Rauðabýti; eldsnemma; árla dags.  „Við komum ekki í land fyrr en undir rauðamorgun“.  Meira notað í Kollsvík en rauðabýti.  Sjá rauðanótt.

Rauðamyrkur / Rauðanótt (n, kvk)  Langt fram á nótt; mjög seint að kvöldi.  „Svo var harmonikkan þanin fram á rauðanótt“.  „Nú fer að verða sjálfhætt þessari vinnu; það er komið rauðamyrkur“.

Rauðamýrarforæði (n, hk)  Rauðamýrarseil; mýrardrag með hættulegum rauðamýrardýjum.  „Mýrin frá Engi inn að Byttulæk heitir Fagramýri; rauðamýrarforæði, en mikið gras“  (ÍÍ; Örn.skrá Saurbæjar).

Rauðamýrarlitur (n, kk)  Rauðleitur litur.  Oftast notað um lit á ljósleitu fé sem hafði greinilega sokkið að meira eða minna leyti í rauðamýri.  „Þessi hefur greinilega farið ofaní; með rauðamýrarlit upp á bak“.

Rauðamýrarseil (n, kvk)  Mýrardrag með rauðamýri.  „... á milli hólmanna eru rotnar rauðamýrarseylar...“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Rauðamýri (n, kvk)  Mýri,/dý þar sem áberandi mikið er um mýrarauða (ryðlit járnsambönd), stundum svo að mýrin er öll fagurrauð.

Rauðanótt (n, kvk)  Langt liðið á nótt.  „Það var komin rauðanótt þegar þeir loksins komu heim“.

Rauðaviður (n, kk)  Rauðleitar viðartegundir.  „Stöku sinnum rekur ágæta rauðaviðarboli“.

Rauðáta (n, kvk)  Calanus finmarchicus.  Svifdýr af ættbálki krabbaflóa.  Eitt 170 svifdýra af þeim ættbálki hér við land; algengasta átan hér við land, og eitt algengasta svifdýr í Norður-Atlantshafi.  Nafnið er dregið af rauðu karótíni sem er forðanæring dýrsins.  Fullvaxin um 4 mm, og ein stærsta krabbaflóin.  Líkaminn skiptist í höfuð, frambol og afturbol.  A höfði eru tveir langir fálmarar og tveir minni aftar.  Hefur aðeins eitt auga.  Líkaminn er umlukinn kítínskel.  Síar smáar fæðuagnir úr sjónum.  Rauðátan heldur sig í dýpri lögum sjávar á vetrum, en leitar upp í yfirborðið snemma vors.  Hún gegnir mikilvægu hlutverki í vistkeðju hafsins vegna magns hennar í hafinu.  Áhrif viðkomubrests rauðátu geta því verið mikil hjá lífverum ofar í fæðukeðjunni, svo sem fiskum og skíðishvölum.

Rauðbarði (n, kk)  Ungur kúffiskur.  „Pabbi minnist þess að Torfi Jónsson bóndi í Kollsvík hafi smíðað kúffiskplóg úr skeifnajárni og með honum var m.a. reynt að plægja undir Breiðavíkurrifi, en skel sú sem þar fékkst var aðallega rauðbarði (GG; Lóðir í Kollsvíkurveri; skrás EÓ)

Rauðbiður (n, kvk, fto)  Rauðrófur.  „Ég læt nú frekar lítið í þessar rauðbiður“.

Rauðbirkinn (l)  Oftast um húðlit manns; rauðleitur á hörund/ í andliti.  Stundum notað um rauðhærðan mann.

Rauðegni (n, hk)  Slang; rauðleit beita fyrir fisk; svo sem nýtt fuglaket, selgarnir, silungur, sauðainnyfli eða annað slíkt.  Orðið notar LK í Ísl. sjávarháttum, en það var ekki notað í Kollsvík í seinni tíð og óvíst með notkun þess þar fyrr.  Líklega hefur fremur verið notað orðið „slang“ um þvílíka beitu í Kollsvík.  Hinsvegar var þar talað um ljósabeitu, sem er afskurður úr fiski sem beitt er.

Rauðeygur (l)  Með rauð augu; rauðleitur um augu.  „Hann var orðinn rauðeygur af reyknum“.

Rauðglóandi (l)  Mjög heitur.  „Passaðu þig á eldavélinni; hún er rauðglóandi heit eftir baksturinn“.

Rauðgreni (n, kvk)  Picea abies.  Sígrænt barrtré af þallarætt.  Fullvaxið tré nær 35-55 m hæðog allt að 1,5 m þvermáli stofns.  Útbreitt í Evrópu, frá Norður-Noregi suður á Balkanskaga, og austur til Úralfjalla.  Getur náð 1000 ára aldri.  Ein þeirra viðartegunda sem reka á fjörur í Kollsvík.

Rauðhaus (n, kk)  Gæluorð um þann sem er rauðhærður.

Rauðhita (s)  Hita þar til orðið er rauðglóandi.  Oftast um járn eða járnmuni.  „Ég þurfti að rauðhita boltann til að ná rónni af“.

Rauðhærður (l)  Með rautt hár.

Rauði (n, kk)  Járn sem fallið hefur út úr járnríku vatni; mýrajárn.  Úr rauða var unnið járn með hitun/rauðablæstri, en síðastur til þess hérlendis var Einar Jónsson í Kollsvík.

Rauðir hundar (orðtak)  Heiti á veirusjúkdómi.  Nokkuð smitandi, en ekki jafn ágengur og mislingar og hlaupabóla og leggst misjafnlega þungt á fólk.  Á síðari tímum er bólusett gegn rauðum hundum á barnsaldri.  Veiran smitast með smásæjum dropum í andardrætti.  Byrjar gjarna sem eymsli í eitlum í hnakkanum en síðar koma rauðleit útbrot á handleggi, fætur og jafnvel búk.  Gengur oftast yfir á fáum dögum.  Sjúkdómurinn getur verið hættulegur þunguðum konum og valdið fósturláti.

Rauðkynda (s)  Hita hitunartæki/hús mjög mikið.  „Það er óþarfi að rauðkynda húsið í svona veðurblíðu“.

Rauðleitur (l)  Rauður á lit; með rauðu yfirbragði; rjóður. 

Rauðmagaflís (n, kvk)  Sneið af reyktum rauðmaga.  Reyktur rauðmagi er yfirleitt notaður sem álegg á brauð á síðari tímum, eða eintómur sem sælgæti.  Fyrrum var hann þverskorinn, og skar hver maður hrygg úr á sínum diski, en í seinni tíð er hann gjarnan skorinn af hrygg í sneiðar/flísar áður en borið er á borð.  „Gefðu mér nú rauðmagaflís“.

Rauðmagahnútur (n, kk)  Hnútur/flækja í neti, tilkominn vegna þess að rauðmagi hefur ánetjast, stungið sér oft í gegnum netið og flækt það.  Rauðmagahnútar verða því oftar í grásleppunetum en rauðmaganetum, og getur orðið tafsamt að greiða þá ef um lítinn og fjörugan rauðmaga hefur verið að ræða. 

Rauðmagahvelja (n, kvk)  Hvelja/rask af rauðmaga.  Rauðmagahveljur á fjörum, sem mávur og hrafn höfðu dregið upp og kroppað, voru vanalega fyrstu merki um að hrognkelsi væru farin að ganga á grunnmið“.

Rauðmagakippa / Rauðmagaspyrða (n, kvk)  Spyrða/kippa af rauðmaga, oftast 4 spyrtir saman, en stundum 5 eða 6.  Var reynt að velja þá saman eftir stærð, þannig að ekki hallaðist á þegar spyrðan var hengd á rá.

Rauðmagakvikindi / Rauðmagastýri (n, hk)  Gæluorð um rauðmaga.  „Nennirðu að skera til þessi rauðmagastýri og koma þeim í salt“?

Rauðmagalagnir / Rauðmagamið (n, kvk/hk, fto)  Netalagnir/mið í þaragarði, oftast á grunnsævi nærri landi.  Ekki er alltaf jafn góð veiði af rauðmaga og grásleppu þó kjörsvæði séu þau sömu.  Góðar rauðmagalagnir eru á Bótinni í Kollsvík.  Einnig innmeð Hænuvíkurhlíðum; við Bænagjótu, Láturdal og Helma.

Rauðmagalifur (n, kvk)  Lifur úr rauðmaga.  „Mundu svo eftir að taka rauðmagalifur til að sjóða með þessu“.

Rauðmaganet (n, hk)  Net til veiða á rauðmaga.  Rauðmaganet eru jafnan smáriðnari en grásleppunet; oft með 7“ til 8“ möskvastærð.

Rauðmagaslanga (n, kvk)  Rauðmaganet sem ekki er búið að fella.  

Rauðmagastrengur (n, kk)  Nokkur rauðmaganet bundin saman enda í enda í streng/tengsli.  Í hverjum streng eru oft 3-5 rauðmaganet.  Einnig er stakt rauðmaganet oft haft í enda grásleppustrengs.

Rauðmagasúpa (n, kvk)  Súpa sem gerð er af rauðmaga og rauðmagalifur um leið og þau eru soðin.  Oft með rúsínum, méli, lárviðarlaufi, salti og e.t.v. dálitlu ediki og sykri.

Rauðmagaverkun (n, kvk)  Verkun rauðmaga til neyslu.  Sjá rauðmagi.

Rauðmagi (n, kk)  Karlfiskur hrognkelsis; Cyklopterus lumpus.  Töluvert veiddur og nýttur; sjá grásleppa.  Bæði veiddist hann sem meðafli í grásleppunet, en einnig voru lögð sérstök rauðmaganet sem varu fínriðnari.  Borðaður nýr, saltaður og reyktur.  Um skurð og reykingu á nýveiddum rauðmaga:  „Það var byrjað aftantil og skorið aftan við kambinn, skorið fram með, niður með hausnum og svo kviðhveljan aftur að uggunum, ekki aftur að sporði heldur aftur að gotraufinni. Þetta var tekið bara í einum skurði. ... Hann var pekilsaltaður og svo var hann látinn þorna lengi og eiginlega þykja mönnum svolítið vafasamar aðferðir sem manni virðist vera sumsstaðar notaðar, að passa að láta hann ekki þorna of mikið, því þá verður hann náttúrulega léttari. En hérna vildu menn hafa hann vel þurran og hanginn.  Svo var þetta bara reykt; hengt upp og reykt í dálítinn tíma; ekki mjög lengi, en þó svona aðeins. Og þetta var gjarnan reykt við tað, ef hægt var að fá þurrt sauðatað; og alltaf var einhver viður líka, svona í uppkveikjuna: Gjarnan ef að menn, það var nú kannski hálfgert feimnismál; ef þeir náðu í klær af krækiberjalyngi, þá þótti það mjög gott til að gera gott bragð. Og svo var þetta byrgt með torfi til þess að ekki logaði uppúr, því að ekki mátti rauðmaginn hitna.“  (SG; Reyking matar; Þjhd.Þjms).  Sjá hrognkelsi.  „Stundum var reynt að veiða rauðmaga í fjörupollunum“  (IG; Æskuminningar). 

Rauðmálaður (l)  Litaður/málaður í rauðum lit.  „Húsaþök eru gjarnan rauðmáluð“.

Rauðnefjaður af kulda (orðtak)  Skýrir sig sjálft; nef roðnar gjarnan í kulda.

Rauðsendingur (n, kk)  A.  Íbúi í Rauðasandshreppi.  Í raun réttri nefnist það fólk „Rauðasandshreppsbúar“, en er oft notað þetta heiti um íbúa þessa vestasta samfélags Evrópu.  B.  Heiti íbúa á Rauðasandi, sem er byggðahluti í Rauðasandshreppi.  Samfélaginu í Rauðasandshreppi er skipt upp í svæði, og hefur svo verið eins langt aftur og menn vita gerst.  Þessi svæði lúta öðrum lögmálum en hinir stjórnskipulegu hreppar og hinar trúarlegu sóknir.  Hér ræður einkum landfræðileg skipting; lega hálsa og núpa og hagkvæmni fjársmölunar og annars samstarfs.  Svæðin eru þessi (stuttheiti innan sviga, en þau voru gjarnan notuð):  1.  Rauðisandur (Sandur), frá Stálfjalli að Bjargi.  Til Sandsins töldust jaðarbæirnir Skor, Naustabrekka og Keflavík, þó stundum væru áhöld um þann síðastnefnda.  Greiðari gangur er milli Melaness, Móbergs, Kirkjuhvamms, Saurbæjar, Stekkadals, Grafar, Stakka, Króks og Lambavatns.  2.  Útvíkur (Víkur), frá Látrabjargi að Blakki.  Víkurnar eru skýrt landfræðilega afmarkaðar og í byggð eru þrjár; Látravík, Breiðavík og Kollsvík.  Fjölbýlt var löngum í hverri vík.  T.d. voru á Látrum Heimabær, Húsabær, Miðbær og fleiri; tvíbýlt longum í Breiðavík.  Í Kollsvík eru Láginúpur og Kolslvík, auk smærri býla um lengri og skemmti tíma.  Í öllum Útvíkum voru mikil útver, og fylgdi þeim mikil byggð á fyrri tíð.  Hin fjórða af Útvíkum er Seljavík sem er óbyggð.  3.  Bæir er fábýlasta svæðið; frá Blakk að Gjögrahyrnu.  Til þeirra teljst byggð í Hænuvík og Sellátranes.  4.  Örlygshöfn  (Höfn) er svæðið frá Gjögrahyrnu að Hafnarmúla.  Þar er blómleg samliggjandi byggð, líkt og á Sandinum; helstu bæir Tunga, Geitagil og Hnjótur.  5.  Innfjörður (Fjörður) nær yfir svæðið frá Hafnarmúla að Altarisbergi.  Jarðir eru þar nokkrar en aðskildar; Kvígindisdalur, Sauðlauksdalur, Hvalsker, Skápadalur, Vesturbotn, Hlaðseyri og Raknadalur.  6.  Eyrar er samfélagshutinn frá Altarisbergi að hreppaskilum í Tálknatá.  Eina byggðin þar er á hinum samliggjandi jörðm Geirseyri og Vatneyri, en þar er reyndar þéttbýlið mest í hinum forna Rauðasandshreppi.  Þar hefur risið upp kauptún sem nafn dregur af firðinum í daglegu tali, með nokkurhundruð íbúa byggð og all fjöbreyttri atvinnustarfsemi.  Eyrar urðu stjórnskipulega sjálfstætt sveitarfélag frá Rauðasandshreppi árið 1907; Patrekshrepp, en 1994 voru hrepparnir aftur sameinaðir í sveitarfélagið Vesturbyggð, ásamt Barðaströnd og Bíldudal (sem þá var sameinaður Ketildalahreppi).
Orðið Rauðsendingur merkir í máli heimamanna það að búa á Rauðasandi eftir þessari skiptingu, en í máli margra annarra það að búa í hinum forna Rauðasandshreppi.

Rauðskjömbótt (l)  Með rauða flekki/ rauðar skellur.  „Hún Píla er öll rauðskjömbótt að neðanverðu; hún hýtur að hafa farið ofaní dý“.  „Ári er þakið orði rauðskjömbótt; maður þyrfti að fara að mála það aftur“.

Rauðspretta (n, kvk)  Annað nafn á kola/skarkola, tökuorð úr dönsku (rödspætte).  Dregið af rauðum dílum í roði á dökku/efri hliðinni.

Rauðvínstunna (n, kvk)  Tunna með rauðvíni.  „Þegar ég var stálpaður fannst rauðvínstunna á reki.  Hún var flutt á land í Kollsvík.  Hreppstjórinn kom og lét bjóða í.  Þetta var ekki sterkt vín“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Rauður (l)  A.  Litaður/málaður í rauðum lit; með rauðum blæ.  B.  Um stjórnmálaskoðun; mjög vinstrisinnaður í skoðunum; styður róttæka/kommúniska flokka.  „Hann var talinn rauður í gegn“.

Rauðviður (n, kk)  Rauðleitur viður.  Orðið er notað í ýmiskonar merkingu, og líklega mismunandi milli manna.  Nokkuð er um rauðleitan við í rekaviði á fjörum.  Sumt af því er viður sem allajafna er ljós en hefur tekið í sig salt og fengið rauðari blæ.  Annað er þéttur viður, s.s. mahogný, sem góður er til hverskonar fínsmíða, jafnvel í mublur og útskurðarverk.  Rauðviður er annað heiti á lerki í munni sumra; risafuru hjá öðrum.

Rauðvik (n, hk)  Hugtak í stjörnufræðinni yfir doppleráhrif sem verða við það að stjarna fjarlægist áhorfanda.

Rauf (n, kvk)  A.  Rifa; bil; skora; klauf.  B.  Endaþarmsop, sbr raufaruggi.

Raufaruggi (n, kk)  Kviðuggi; uggi á fiski sem er framan endaþarmsopsins.  Oftar notað kviðuggi vestra.

Raul (n, hk)  Söngl; lágvær söngur manneskju fyrir sjálfa sig eða nærstadda.

Raula (s)  Syngja með sjálfum sér; ekki alltaf svo hátt að aðrir heyri.  „Frá því ég man eftir mér heima á Lambavatni varst þú alltaf raulandi og syngjandi, og það gerðir þú fram á grafarbakkann“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Raun (n, kvk)  A.  Raunveruleiki; reynd.  „Í rauninni átti ég einskis annars kost“.  „Hann reyndist mér vinur í raun“.  B.  Erfiður atburður; sorg; mæða.  „Honum var raun að þessum sífelldu hrekkjum strákanna“.  „Þeir lentu þarna í allmiklum raunum og villtust um tíma í hríðinni“. 

Raun ber vitni um (orðtak)  Reynslan sannar; kemur í ljós.  „Þetta tókst allt með ágætum, eins og raun ber vitni um“.

Raun orðin á (orðtak)  Hefur skeð/ komið í ljós.  „Enginn hefði fyrir hálfri öld getað spáð þeirri fólksfækkun í Rauðasandshreppi sem nú er raun orðin á“.

Raunabót / Raunaléttir (n, kvk/kk)  Linun/úrbót/mildun rauna/vandræða.  „Okkur þótti það hábölvað að komast ekki á sjó, í aflahrotuna sem nú virtist standa; en var þó nokkur raunabót og huggun að því að aðrir þurftu að bíta í það sama epli“.

Raunalegur (l)  A.  Sorgmæddur; dapur. „Ósköp ertu eitthvað raunalegur á svipinn“.  B.  Dapurlegur; sorglegur.  „Rutin hlaut þau raunalegu endalok að lenda á áramótabrennu Patreksfirðinga“.  „Næst fór ég á Rauðasand,/ þar rýringur er einn,/ raunalegt að hann skuli ekki fitna./  Í kvenna og ástamálum er hann mjög svifaseinn/ í sína ævi byrjaði að vitna“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Raunamæddur (l)  Áhyggjufullur; sorgmæddur; niðurdreginn.  „Ósköp ert þú  raunamæddur núna“.

Raunar (ao)  Reyndar; á hinn veginn; í raun og veru. 

Raunarlegur (l)  Sorglegur; dapurlegur.  „Sögulokin urðu dálítið raunarleg“.  „Hann var raunalegur á svip“.

Raunasaga (n, kvk)  Sorgarsaga; frásögn af slæmum/dapurlegum málefnum.

Raunasvipur (n, kk)  Sorgarsvipur; dapurlegt yfirbragð.  „Óttalegur raunasvipur er nú á þér unginn minn; hvað er nú að“?

Raungóður (l)  Reynist vel; þrautgóður; traustur.

Raunhæfur (l)  Stenst raunverulega; fær staðist; kemur að notum.  „Nú þarf þessi blessaða ríkisstjórn að fara að gera eitthvað raunhæft í málunum“.

Raunsær (l)  Rökvís; sem horfir á það sem er raunverulegt fremur en ágiskanir og langanir.

Raunsæismaður (n kk)  Sá sem lítur á mál af raunsæi/sanngirni; sá sem bæði metur kost og löst/ rétt og rangt varðandi málefni; sá sem ekki er óhóflega bjartsýnn eða svartsýnn.

Raunverulegur (l)  Sannur; ekki ímyndun/uppspuni/tálsýn. 

Raunveruleiki (n, kk)  Staðreynd; ekki ímyndun/uppspuni/tálsýn.  „Ég held að menn verði að horfast í augu við raunveruleikann með þetta“.

Raunvísindi (n, hk, fto)  Orðskrípi sem ekki var notað af Kollsvíkingum nema til að skopast að því.  Orðið er fundið upp og notað af þeim langskólagnengnu mönnum sem vilja upphefja sig yfir glöggskyngt fólk og telja sínar rannsóknir og skoðanir vera meira virði og sannari en annarra.  Ekki eina dæmið um misnotkun monthana á íslensku máli.

Raup (n, hk)  Mont; gort; ýkjur.  „Helvítis raup og raus er þetta í karlfuglinum“!

Raupa (s)  Gorta; guma; hreykja sér.  „Ég held að hann ætti nú ekki að vera að raupa mikið um þessa frammistöðu sína“!

Raupgjarn / Raupsamur (l)  Montinn.   „Hann þótti alltaf nokkuð raupsamur og góður með sig.

Raus (n, hk)  Þus; þvaður; blaður; rugl.  „Óttalegt bölvað raus er þetta nú“!

Rausa (s)  Þusa; blaðra; masa.  „Þú getur rausað svona endalaust, en mig langar að heyra eitthvað sem vit er í“.

Rausn (n, kvk)  A.  Höfðingsskapur; gjafmildi.  „Alltaf veittu Kollsvíkingar af rausn ef gesti bar að garði, jafnvel þó af misjöfnum efnum væri“.  B.  Lausaþófta í barka báts.  „Þegar róið var í steinbít í Víkum norðan Látrabjargs voru hákarlaskip endrum og sinnum mönnuð með tveimur áhöfnum venjulegra vertíðarbáta.  Tveir unglingar voru þá oft látnir róa á lausaþóftu frammi í barka og við lausa  keipa. Þ essi lausaþófta kallaðist rausn.  Lítil fremd þótti í að vera þar, enda tíðum sagt í niðrandi merkingu:  „Hann er þá kominn á rausn““  (frás ÓETH; LK; Ísl. sjávarhættir.)

Rausnarbragur (n, kk)  Höfðingsskapur; gjafmildi; sýnilegur vilji til að veita vel.  „Þarna skorti ekki veisluföngin; þar var rausnarbragur á öllu“.

Rausnarheimili (n, hk)  Gestrisið heimili; þar sem veitt er af myndarskap.

Rausnarkarl / Rausnarkona (n, kk/kvk)  Gestrisið/gjafmilt/veitult fólk.

Rausnarlegheit / Rausnarskapur (n, kvk)  Gestrisni; höfðingsskapur.  „Ekki spyr ég nú að rausnarskapnum á því heimili“.

Rausnarlegur (l)  Myndarlegur; vel útilátinn; höfðinglegur.  „Sumir voru svo rausnarlegir að þeir létu okkur hafa steinbítinn af hverjum háseta, svo við vorum allbirgir þarna“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Rausnast til/við (orðtak)  Sýna örlæti/stórhug.  Oft notað í kaldhæðnistóni á síðari tímum.  „Þeir ætla víst að rausnast til að moka fyrir kosningarnar; aldrei þessu vant“!  Einnig heyrðist orðalagið „rausnast við“.

Raust (n, kvk)  Hávær rödd; sterkur málrómur.  „Hann kvað við raust meðan hann þæfði vettlingana“.  „Ég þurfti dálítið að brýna raustina til að fá hljóð í fundarsalinn“.

(n, kvk)  A.  Tréstöng sem fiskur er hengdur á til þurrks/herslu/signingar (sjá þurrkhjallur og harðfiskur).  B. þvertré í reiðabúnaði skips (sjá sigling og pikkur).  C.  Sérstakt skýjafar, skýjarönd yfir bjargbrún sem líkst rá á bát.  „Þegar ský setti á loft í Gilsfirði, en á Látrabjargi mynduðust hnoðrar eða lausaþykkni, var slíkt veður nefnt rá, eða hann væri að búa til rá“  (LK; Ísl.sjávarhættir III). Þetta er haft eftir breiðfirskum sjómönnum.  Líkur eru á að orðið hafi verið notað í Útvíkum, þar sem þeir sóttu mikið þangað til útróðra. 

Ráband / Rábandshnútur (n, hk/kk)  Band/snæri sem dregið er í gegnum jaðar/lík segls og hnúturinn sem festir það við rána. 

Rábragð (n, hk)  Hnútur sem notaður var til að festa dragreipi seglbáts við rána.  „Dragreipið sem lá í gegnum húnboruna var lagt yfir rána og síðan tvíbrugðið svo vel hertist að; kallað rábragð“  (LK; Ísl. sjávarhættir II).

Ráð (n, hk)  A.  Heilræði; ráðlegging; tillaga; lausn; úrræði.  „Ég kann ágætt ráð við þessu“.  „Hann er mikið að draga úr rigningunni; ég held það væri ráð hjá okkur að fara að leggja af stað núna“.  „Það er ekki nokkurt ráð að róa í svona útliti“!  B.  Vit; skynsemi.  „Ég held að þú sért ekki með réttu ráði; að láta þér detta svonalagað í hug“!   C.  Hegðun; ákvörðun; hjúskapur; örlög.  „Hann lofaði að bæta sitt ráð og gera betur eftirleiðis“.  „Hann er búinn að festa sitt ráð og þau búa fyrir sunnan“.  „Ríkisstjórnin hefur öll ráð bænda í hendi sér“.  D.  Umráð; yfirráð.  „Hún hafði öll ráð innanstokks á því heimili“.  E.  Fámennur hópur ráðamanna.  T.d. stjórnarráð; ríkisráð; bankaráð o.fl.

Ráð er undir rifi hverju (orðatiltæki)  Til eru mörg úrræði þegar vandi steðjar að; a.m.k. jafn mörg og rifin í manni eru. 

Ráð í tíma tekið (orðtak)  Tímabært úrræði.  Sjá ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Ráða (s)  A.  Hafa völd/umráð; ákveða.  „Hann verður að ráða þessu; þetta er hans fé“. „Áin ræður merkjum milli Kollsvíkur og Láganúps“.   B.  Fá til verks/vinnu.  „Ég er búinn að ráða þá í tímabundið starf“.  C.  Leysa þraut.  „Ég réði myndagátuna strax á öðrum degi“.  D.  Ráðleggja; veita ráðgjöf.  „Ef ég á að ráða þér heilt þá held ég að þú ættir að gefa þetta frá þér“.  E.  Ríkja.  „Þetta gerðist meðan kóngur réði hér ríkjum“.

Ráða af (orðtak)  Lesa í; merkja af/eftir; skilja af.  „Hún sagði ekkert, en ráða mátti af svipnum að henni mislíkaði“.

Ráða af dögum (orðtak)  Myrða; lífláta. 

Ráða á (einhvern) veg (orðtak)  Ráðstafa með (einhverjum) hætti.  „…hafi ekki á fimm ára tímabilinu viðskipta- og félagsmálum sveitarfélagsins skipast á þann veg að sveitarstjórn og framkvæmdastjórn félagsins verði sammála um að ráða þessum málum á annan veg…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Ráða bót á (orðtak)  Bæta; lagfæra; færa til betri vegar.  „„Ormaveikin hefur gjört vart við sig á stöku bæjum. …  Með innsprautingu hefur tekist að ráða bót á þessu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Ráða (einhverjum) frá (orðtak)  Ráðleggja (einhverjum) að gera/fara ekki.  „Ég réði þeim eindregið frá því að leggja á fjallið í þessu útliti og svona ófærð“.

Ráða framúr (orðtak)  Komast til botns í; skilja.  „Það er erfitt að ráða framúr þessari skrift“.

Ráða fyrir (orðtak)  Stjórna; stýra.  „Fór þá Gestur Jónsson frá Látrum af stað í land, en hann réði fyrir einum þeirra fimm báta er róið höfðu“  (ÖG; Þokuróður).  „Þeir voru búnir að fá 30 fiska, frétti ég seinna, á bátnum sem Karl réði fyrir...“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).   „Hver ræður fyrir því að féð er komið inná gegnum opið hliðið“?

Ráða í (orðtak)  Giska á; botna í; finna skýringu á; gruna.  „Það er erfitt að ráða í hvaða þýðingu þetta hefur“.

Ráða lögum og lofum (orðtak)  Ráða öllu; ráðskast með allt.  „Réttarstjóri ræður lögum og lofum á réttum“.  Vísar til þess að ráða banni (lögum) og heimildum (lofum).

Ráða niðurlögum (orðtak)  Verða að aldurtila/bana; drepa niður.  „En þó átti hann að hafa ráðið niðurlögum draugsins með kunnáttu sinni, og eftir það náði hann fullum bata“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Ráða ráðum sínum (orðtak)  Ráðgast við; skiptast á skoðunum; bera saman bækur sínar.  Hreppsnefndin hittist á fundi til að ráða ráðum sínum um þetta“.

Ráða sér ekki (fyrir veðri) / Ráða ekki við sig (orðtak)  Hafa ekki stjórn á sér í óveðri/uppnámi; vera í fokhættu.  „Það er orðið svo aftakahvasst að maður ræður sér varla óstuddur“.

Ráða skipi (orðtak)  Vera skipstjóri/formaður.  „Ég bað Guð að hjálpa mér þegar ég sá bátinn snúa hér að landi; nema Árni Dagbjartsson ráði þar skipi.  Og létti stórlega er ég kenndi bátinn“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Ráða (einhverjum) til (orðtak)  Gefa einhverjum ráð; ráðleggja.  „Ég ræð því almennt til að spara hey fyrrihluta vetrar…“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1929).   „Að lokum ræð ég flestum þeim til er gefa flóðhey; jafnvel þó vel verkist, að gefa með þeim steinefni; salt.  Efnarannsókn hefir leitt í ljós einmitt steinefnavöntun í þessum heyjum“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Ráða bát/skipi til hlunns (orðtak)  Setja skip upp á hlunnum.

Ráða sér ekki (orðtak)  Geta ekki stjórnað gerðum sínum, t.d. vegna æsings, ofsaveðurs eða annars.  „Hundurinn réði sér ekki fyrir kæti þegar húsbóndinn kom heim“.  „Það fauk svo í mig að ég réði mér varla“.  „Farðu ekki nærri brúninni í þessu veðri; það er svo hvasst að þú ræður þér ekkert í hviðunum“!

Ráðabreytni (n, kvk)  Framferði; ákvörðun.  „Þetta fannst mörgum furðuleg ráðabreytni“.

Ráðabrugg / Ráðagerð (n, hk)  Launráð; samráð.  „Mér líst ekkert á þetta ráðabrugg þeirra“.

Ráðagóður (l)  Úrræðagóður; ráðugur; snjall.  „Hann hefur oft reynst mér ráðagóður þegar mikið liggur við“.

Ráðahagur (n, kk)  Gifting; trúlofun; makaval.  Vísar til þeirra tíma þegar giftingar réðust af stétt, og voru ákveðnar af foreldrum eða öðrum forráðamönnum með tilliti til hagkvæmni og sæmdar.

Ráðamaður (n, kk)  Sá sem ræður/stjórnar.  „Ég er enginn ráðamaður um þetta“.

Ráðast (s)  A.  Ráða sér; fara sem fara vill.  „Það verður bara að ráðast hvernig þetta fer; ég get engn áhrif haft á það“.  B.  Láta ráða sig.  „Hann réðist til trésmíðafyrirtækis þegar suður kom“. 

Ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur (orðtak)  Velja ekki auðveldustu verkefnin.  Vísar líklega til hernaðar.  Þegar menn sóttu að víggirtum andstæðingi reyndu menn auðvitað að finna veikan stað á víggirðingunni; hvort sem það var skíðgarður eða hleðsla.

Ráðast í (orðtak)  Hefja; byrja á; hella sér í.  „Þau ætla víst að ráðast í húsbyggingu“.

Ráðast í vist til (einhvers) (orðtak)  Koma til einhvers til lengri eða skemmri veru. 

Ráðdeild / Ráðdeildarsemi (n, kvk)  Hyggindi; góð ráð/úrræði; fjármálavit.  „Hann var þekktur fyrir ráðdeild í fjármálum“.

Ráðdeildarkona / Ráðdeildarmaður (n, kvk/kk)  Einstaklingar sem sýna mikla ráðdeild.

Ráðdeildarsamur (l)  Hefur fjármálavit; hygginn í fjármálum.

Ráðfæra/ráðgast við (orðtak)  Hafa samráð við; tala við.  „Ég ráðfærði mig við hann áður en verkið hófst“.

Ráðgáta (n, kvk)  Gáta; óskiljanlegt mál/atvik.  „Okkur var ráðgáta hvernig þetta hefði getað gerst“.

Ráðgera (s)  Áætla; skipuleggja; hafa í huga.  „Ekkert varð af ferðinni sem ráðgerð hafði verið“.

Ráðhollur (l)  Hollráður; góður ráðgjafi; gefur góð ráð.  „Hann reyndist mér oft hjálpsamur og ráðhollur“.

Ráðinn (l)  A.  Festur í vinnu/starfi.  „Ég var ráðinn kennari við Iðnskólann á Patreksfirði eftir að ég hafði lokið fyrri tveimur bekkjunum, enda kennaraskortur mikill“.  B.  Staðráðinn; ákveðinn.  „Ég er ekki alveg ráðinn í því hvað ég geri í þessu máli“.

Ráðkænska (n, kvk)  Kænska; hyggindi; klókindi.  „Ráðkænska hans kom okkur að góðum notum í þetta sinn“.

Ráðlaus (l)  Úrræðalaus; ráðvilltur.  „Fjandi fannst mér hann ráðlaus að átta sig ekki á þessu“!

Ráðlegging (n, kvk)  Ráðgjöf; hollráð.  „Ég þáði hans ráðleggingar í þessu efni“.

Ráðleggja (s)  Veita ráð; benda á úrræði/lausnir. „Ég kann lítið að ráðleggja þér um þetta“.

Ráðlegt (l)  Rétt; skynsamlegt.  „Mér finnst nú ekki ráðlegt að leggja af stað í svona útliti“.

Ráðleysa (n, kvk)  Ekki vænlegt/gott ráð; óskynsamleg lausn.  „Ég held að það sé ráðleysa að setja þennan hrút á þó hann sé fallegur.  Þú verður að athuga að þetta er einlembingur“.

Ráðleysi (n, kvk)  Heimska; fyrirhyggjuleysi; úrræðaleysi.  „Óttalegt ráðleysi er þetta; að fara á sjó án þess a hnífur sé um borð“! 

Ráðleysisfát / Ráðleysisflaustur (n, hk)  Fát/flaustur sem kemur á menn sem ekki eru búnir að átta sig á aðstæðum og grípa til skipulegra úrræða, þegar atvik verða.  „Þetta var í einhverju ráðleysisflaustri gert“.

Ráðleysisgauf / Ráðleysishik (n, hk)  Hik/aðgerðarleysi manna sem skortir ákveðni/áræði.

Ráðleysisrugl (n, hk)  Algert ráðleysi; mikið fyrirhyggjuleysi.  „Svona háttalag er auðvitað ráðleysisrugl og ekkert annað“!

Ráðning (n, kvk)  A.  Það að fá mann til starfa.  „Ráðning mín var tímabundin“.  B.  Refsing; hirting.  „Það þyrfti að veita þessum bjálfum duglega ráðningu einu sinni; þá kannski fara þeir að hugsa“!  C.  Lausn á gátu.  „Ég var nokkurn tíma að átta mig á ráðningu þessarar gátu“.

Ráðríki (n, hk)  Yfirgangur; stjórnsemi; frekja.  „Hún þoldi ekki ráðríkið í karlinum“.

Ráðríkisseggur (n, kk)  Frekjudallur; sá sem vill öllu ráða/ er með yfirgang.  „Hann hefur löngum verið árans ráðríkisseggur og rusti“.

Ráðríkur (l)  Yfirgangssamur; frekur; stjórnsamur. 

Ráðrúm (n, hk)  Svigrúm; tækifæri.  „Ég þarf að fá ráðrúm til að íhuga þetta aðeins“.

Ráðsettur (l)  Skynsamur; yfirvegaður; ráðagóður. 

Ráðskona (n, kvk)  Kona sem ráðin er til bústjórnar/heimilishalds, en er að jafnaði ekki heimililmaður.

Ráðslag (n, hk)  Breytni; gerðir; úrræði; hættir.  „Hverskonar ráðslag er það að blóðga ekki fiskinn strax“?

Ráðslaga (s)  Ráða framúr; ákveða; skipuleggja.  „Það er alltaf viðsjárvert þegar þessir háu herrar fara að ráðslaga með byggðaþróun í dreifbýlinu“.

Ráðsmaður (n, kk)  Maður sem ráðinn er til bús til að annast verk, s.s. skepnuhald og e.t.v. bústjórn; ýmist með bónda eða í hans stað.  „Hallgrímur á Dynjanda var ráðsmaður á Láganúpi, meðan Össur var á búnaðarþingi“.

Ráðsmennska (n, kvk)  A.  Það að vera ráðsmaður.  B.  Ráðslag; breytni; umsýsla.  „Mér líkar ekki hans ráðsmennska í þessum efnum“.

Ráðsmennskast (s)  A.  Vera ráðsmaður.  B.  Ráðslaga; hafa umsýslu; sýna yfirgang; höndla án samráðs.  „Karlinn ráðsmennskaðist einn með sjóðinn í fjölda ára, án nokkurs aðhalds“.

Ráðsnilld / Ráðsnilli (n, kvk)  Hugkvæmni; sniðugheit.  „Með þess sýndi hann einstaka ráðsnilld“.

Ráðstafa (s)  Koma hlutum/málefnum í ákveðið horf; stjórna; hlutast til um.  „Ég hef enga heimild til að ráðstafa þessu án samráðs við meðeigendur“.

Ráðstefna (n, kvk)  Samkoma manna til ráðagerða/samráðs.  Uppruni; mönnum er stefnt saman til ráðagerða.

Ráðstöfun (n, kvk)  A.  Gerð; ráðslag; breytni; úrræði.  „Ég þarf að gera einhverjar ráðstafanir varðandi þessa heimsókn“.  B.  Afhending; umsýsla.  „Ráðstöfun fjárins í þessu skyni var mjög umdeild“.

Ráðstöfunarréttur (n, kk)  Réttur til að ráðstafa; umráðaréttur.  „Hann hefur allan ráðstöfunarrétt á þessu“.

Ráðugur (l)  Úrræðagóður; snjall.  „Fjandi varstu ráðugur að leysa úr þessu“.

Ráðunautur (n, kk)  A.  Ráðgjafi.  „Hann var minn ráðunautur í þessum málum“.  B.  Sérfræðingur sem starfar á vegum búnaðarfélags eða annars aðila, m.a. við að veita bændum sérfræðiaðstoð.

Ráðuneyti (n, hk)  A.  Aðstoð; það að veita ráðleggingu/ráðgjöf.  „Ég var honum til ráðuneytis um þetta“.  B.  Starfsmannahópur/skrifstofa undir stjórn ráðherra; s.s. landbúnaðarráðuneyti; sjávarútvegsráðuneyti o.fl.

Ráðvandur (l)  Heiðarlegur; sem breytir/gerir hyggilega/rétt.

Ráðvendni (n, kvk)  Heiðarleiki; það að breyta rétt/hyggilega.  „Hann var þekktur að ráðvendni og sannsögli“.

Ráðvilla (n, kvk)  Úrræðaleysi; vingulsháttur.  „Óttaleg ráðvilla er nú á þeim; ætla þeir að missa féð“?!

Ráðvilltur (l)  Úrræðalaus; ringlaður; ruglaður.  „Það þarf aðeins að tauta utaní þessa ráðvilltu þingmenn“.

Ráðvænlegt (l)  Ráðlegt; gott/vænlegt úrræði/ráð.  „Mér finnst það ekki ráðvænlegt að róa í þessu útliti“.

Ráðþrota (l)  Úrræðalaus; ráðalaus.  „Við erum kannski ekki alveg ráðþrota ennþá“.

Ráðþæginn / Ráðþægur (l)  Tilbúinn að þiggja ráð; opinn fyrir ráðgjöf.  „Hann er ekki alltaf ráðþæginn, blessaður“.

Ráf (n, kvk)  Stefnulaus ganga; rjátl; reik.  „Féð er lítið að beita sér; þetta er mest eirðarleysi og ráf“.

Ráfa (s)  Ganga í rólegheitum, e.t.v. stefnulaust; eigra.  „Kýrnar hafa kannski ráfað út á Hnífa“.

Ráfa (n, kvk)  Auli; bjálfi.  „Óttaleg ráfa geturðu verið að taka ekki betur eftir“.

Ráfast til (orðtak)  Slysast; álpast.  „Fyrir hendingu ráfaðist ég til að opna skápinn, og þar svaf þá kettlingskvikindið“.  Stundum notað sem kammaryrði: „Hann hefði nú getað ráfast til að loka hliðinu“.  Ætlarðu ekki að fara að ráfast til að raka frá skurðunum drengur“?

Ráfesta (s)  Um fisk; hengja upp á rá til herslu; þurrkunar.

Ráfugangur / Ráfuháttur (n, kk)  Aulaskapur; gleymska; afglöp.  „Ég skil ekki svona ráfugang“!  „Endemis ráfuháttur er þetta; að gleyma sökkunum í landi“!

Ráfulegur (l)  Utangarna; viðutan; hugsunarlaus.  „Skelfing geturðu nú verið ráfulegur“!

Ráhertur fiskur (orðtak)  Skreið; harðfiskur (sjá skreið).

Rák (n, kvk)  A.  Strik; rönd.  B.  Heiti á rönd á hlið fisks.  Skynfæri sem skynjar hreyfingu og titring.  Samkvæmt þjóðtrú er rák ýsunnar far eftir klær fjandans, er hún rann úr höndum hans.  C.  Skora í klöpp þar sem ísaldarjökull hefur rispað hana.  Jökulrákir sýna skriðstefnu jökulsins sem svarf bergið.

Ráka (s)  Strika.  Víða má finna rákaðar klappir í grennd við Kollsvík.

Ráma í (orðtak)  Muna óljóst; hilla eftir.  „Mig rámar í að hafa haft húfu þegar ég kom, en finn hana hvergi“.

Rámur / Rámraddaður (l)  Dimmraddaður; hás; með surgandi rödd.  „Ég er enn fjári rámur eftir pestina“.

Rámúlaband (n, hk)  Heiti rábandsins þar sem það er fest við rámúlann.

Rámúli (n, kk)  Ráarendi; ráarhnokki.  Utarlega á enda seglrár voru oft skorur, til að fá festu fyrir rábandið/rámúlabandið.  Endi rárinnar þar utanvið nefnist rámúli.

Rán (n, kvk)  Annað heiti á hafi.  Oftast notað í skáldskap.

Rán (n, hk)  Stórfelldur stuldur/þjófnaður; miklar gripdeildir.

Rán og rupl (orðtak)  Gripdeildir; rifs og hrifs; þjófnaður.  „Hver hefur nú farið með ráni og rupli um mína verkfærakistu“?!

Rándýr (l)  Svo dýr að líkja má við rán; fokdýr.  „Maður bruðlar ekki með áburðinn; síst af öllu meðan hann er svona rándýr“.

Rándýr / Ránfiskur / Ránfugl / Ránhveli (n, hk/kk)  Dýr ofarlega í fæðukeðjunni sem drepa lifandi bráð sér til matar; einnig tamin dýr sem upprunalega voru þess eðlis.  „Minkfjandinn er vafalítið skæðasta rándýr sem nú lifir hér á landi, en háhyrningurinn er stórvirkasta ránhvelið hér við land“.

Ránið í Saurbæ  Eitt þekktasta mannrán hérlendis fyrr á öldum, framið 1579.  Um 70 erlendir ribbaldar, undir forystu fálkakaupmannsins Jón Falck, fóru þá að Eggerti Hannessyni, fyrrverandi lögmanni í Saurbæ á Rauðasandi.  Þeir komu að landi í Hænuvík og neyddu bóndann til að vísa sér leiðina að Saurbæ.  Þar rændu þeir bæ og kirkju og höfðu Eggert á brott með sér út Víknafjall, í skip á Hænuvík.  Eggert var síðar leystur út af þýskum kaupmanni, og flutti alfarinn til Hamborgar árið 1580.  Jón taldi sig eiga Eggert grátt að gjalda fyrir að hafa tekið af honum fálka veturinn áður.  Margir ránsmanna voru síðar handteknir og líflátnir.  Þetta rán varð Magnúsi prúða, tengdasyni Eggerts, tilefni til þess að kveða upp vopnadóm sinn í Tungu árið 1581 (sjá þar).

Ráp (n, hk)  Flakk; flandur; ókyrrð; stjákl.  „Vertu nú ekki að þessu rápi; vertu annaðhvort úti eða inni“!

Rápa (s)  Fara endurtekið/þarflaust; flakka um; flandra; þvælast.  „Ég rápaði af rælni niður að sjó“.

Ráptuðra (n, kvk)  Ferðaskjóða; innkaupapoki.  „Það er ágætt að hafa ráptuðru meðferðis í búðina“.

Rás  A.  (n, hk)  Ráp/hlaup fjár.  „Það er mikið rás á fénu núna eftir að kónaði í veðri“. B.  (n, kvk)  Farvegur vatns.  „Það eru komnar rásir yfir veginn í leysingunum“. 

Rása (s)  A.  Um fé; vera eirðarlaust og mikið á ferðinni; fara langt.  „Þær hafa verið rásandi hér um allan dalinn“.  B.  Um bát; erfitt að stýra í setta stefnu, t.d. vegna lögunar eða rangrar hleðslu.  C.  Um farartæki; vera óstöðugt í stefnunni vegna t.d. rangrar hjólastillingar eða annars.

Rásandi (l)  Stefnulaus; hvimar fram og aftur/til hliða.  „Ósköp er féð rásandi; það nær bara ekkert að beita sér“.

Rásegl (n, hk)  Segl báts sem haldið er opnu með rá, og er að því leyti frábrugðið t.d. stagsegli.  Er stundum einungis haft um þversegl, en nær í raun einnig yfir loggortusegl, gaffalsegl og sprytsegl. 

Rásfastur (l)  Um bát; heldur vel settri stefnu; ekki rásandi. 

Rásigldur (l)  Um bát; með rásegli. 

Ráskerðingur (n, kk)  Harðfiskur af þorski/ýsu; fiskur sem flattur er á sérstakan hátt, þannig að hann hangir saman við sporðinn, og var þannig hengdur upp á rár.  Verkunaraðferð sem nokkuð var notuð áðurfyrr (sjá flatning fisks).  Ráskerðingur var fluttur út áðurfyrr og var stundum í hærra verði en plattfiskur.

Rebbi (n, kk)  Gæluheiti á ref.

Refabú / Refaeldi (n, hk)  Refarækt; búskapur með refi til skinnaframleiðslu.  Refaeldi hefur tvisvar verið stundað í Kollsvík á 19. öld.  Í fyrra skiptið líklega á árunum kringum 1930-1940, þegar Einar Guðbjartsson hafði nokkra refi í búri á Láganúpi; ofan við Gróumel.  Síðara sinnið var þegar Össur Guðbjartsson og -90.  Jötur voru teknar út og húsið fyllt með fjölmörgum refabúrum.  Fóður var blandað á staðnum með aðfluttu hráefni úr meltu og frá fóðurstöð sem þá var á Patró.  Refunum var lógað í hlöðunni og þeir flegnir.  Þetta útheimti mikla vinnu en gaf ekki verulegar tekjur og var því hætt, eins og víðar um landið á þeim tíma.  Þar á undan voru þrír yrðlingar um tíma í búri í Gilinu, en þeir höfðu orðið móðurlausir þegar foreldrarnir voru unnir á greninu í Víðilækjum í Vatnadal.  yrðlingarnir voru fóðraðir á ýmsu sem kom í grásleppunetin á þeim tíma, og lifðu yfir sumarið, en þegar þeir stálpuðust nöguðu þeir sig iðulega út úr netinu og var að lokum lógað.

Refaeyðing / Refavinnsla (n, kvk)  Tófuvinnsla; grenjavinnsla; viðnám gegn mikilli fjölgun refa/tófu,  löngum með skipulegum hætti að tilhlutan sveitarstjórnar og með verðlaunum eða öðrum greiðslum fyrir unnin dýr og greni.  Orðið er í raun markleysa því hvorki er almennt geta né vilji til þess að uppræta að fullu íslenska refinn; menn telja almennt að hann eigi sér rétt í náttúrunni.  Hinsvegar er það reynslan að mikil fjölgun verður í stofninum ef ekkert er veitt, og fæðuskortur sem af því leiðir eykur líkur á að refir leggist á fé; gerist dýrbítar, með þeim skaða og þjáningum sem því fylgir.

Refafóður (n hk)  Fóður fyrir refi í eldi, sjá refabú.

Refahús (n, hk)  Hús þar sem refaeldi er stundað.

Refaskotbyrgi (n, hk)  Tófuhús; hús þar sem legið var fyrir tófu með niðurburði.  Orðið tófuhús var oftar notað um þessi litlu hús, en áður mun einnig hafa tíðkast refaskotbyrgi, sem er líklega bundið við svæðið.  „Þá er eftir að geta um refaskotbyrgi sem vitað er um a. m. k. sjö í Kollsvíkinni. Þar sem ég veit ekki til að þau séu annarsstaðar skráð þá held ég að ég megi til að bæta því hér við. Eitt byrgið er hér úti á Strengbergsbrúninni, alveg fram á blábrún svo tófan komst ekki framhjá nema fyrir ofan byrgið. Byrgin voru ekki meira en tæpur metri á lengd að innan máli, smá bálkur í endanum til að sitja á og rétt rými fyrir einn mann. Hlaðnir smá veggir og tyrft yfir. Dyr voru rétt hæfilegar til að skotmaður gæti skriðið um. Gjarnan var reynt að gera holu niður í brúnina, svo þetta yrði sem lægst og bæri minna á því. Svo var niðurburðurinn; dauð kind eða slíkt, hafður í hæfilegu skotfæri og grjót sett yfir svo rebbi rifi þetta ekki allt í sig þegar enginn var í byrginu. Þetta byrgi átti Ólafur Ásbjörnsson afabróðir minn, sem bjó á Láganúpi um síðustu aldamót og sagt var að hann hefði verið vanur að leggja sig í rökkrinu og sofna og ef hann dreymdi tófu fór hann út í byrgið og náði þá venjulega tófunni.  Annað byrgi var niðri við sjó, á svokölluðum Hreggnesa. Það munu Grundamenn hafa notað. Útbúnaður var sá sami á þessum byrgjum var eins og byggt fram á blábrún.
Svo var eitt byrgi á Kollsvíkurnúpnum og eitt á Sanddalsbrúnum rétt við Vallagjánna. Eitt ævafornt er á brúninni við Katrínarstekk og annað frammi á brún við Þúfustekk. Enn eitt er á Melsendaklettunum fyrir norðan Kollsvíkurverið“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms). 
Þessi byrgi eru nokkru fleiri en að framan greinir.  Eitt er t.d. undir Grenjalág og annað í Sandslágarkjaftinum (VÖ).

Refaskott (n, hk)  Skott refa hafa um áratuga skeið verið verðmæti í þeim skilningi að þau eru sönnun þess að refaskytta hafi banað ref og eigi því rétt á skotlaunum úr viðkomandi sveitarsjóði. 

Refaverðlaun (n, hk, fto)  Þóknun frá hreppssjóði fyrir veiði á tófu/ref.  Til að fá verðlaunin þurfti að framvísa skotti til oddvita hreppsins.  „Refaverðlaun, Ásgeir Erlendsson, kr 60“  (Sjóðbók Rauðasandshrepps 1949).

Reffilegur (l)  Hressilegur; myndarlegur.  „Hún segir að þetta sé hinn reffilegasti náungi“.

Refill (n, kk)  Vefnaður sem er langur miðað breidd, teppi eða dúkur.  Blóðrefill á sverði var upphaflega mynstur eftir endilöngu blaðinu, en merkti síðar sverðsblaðið allt eða sverðsoddinn.

Refilsaumur (n, kk)  Sérstök tegund útsaums sem notuð var við að sauma út myndir á refil.  Er t.d. hinn frægi Bayeux-refill saumaður á þann hátt.  Saumað er í tveimur áföngum; fyrst flatsaumur og síðan þræðir þvert yfir hann.  Refillinn lýsir landvinningum Vilhjálms bastarðs í Englandi í innrás árið 1066.

Refjar (n, kvk, fto)  Eftirtölur; nöldur; umkvartanir; afsakanir.  „Hann var með einhverjar refjar um að ekki væru nægar fjárveitingar í þessa vegi, og hann skiti ekki peningum“.

Refjalaust (l)  Umyrðalaust; eftirtölulaust; án kvartana.  „Ég krefst þess að fá þetta endurgreitt refjalaust“!

Refjast um (orðtak)  Tregðast við; gera með eftirgangsmunum/semingi.  „Karlinn ætlaði að refjast um að greiða þetta fullu verði, en ég gaf það ekkert eftir“.

Refsigjarn (l)  Gjarn á að refsa/hegna/hefna. 

Refskapur (n, kk)  Klókindi; bragðvísi; slægð; undirferli.  „Mér líkar ekki svona refskapur“!

Refslegur (l)  Slægur; undirförull; bragðvís; klókur.  „Sumum þótti hann refslegur í viðskiptum“.

Refsmoginn (l)  Um holu/greni; ber merki þess að refur hafi haft viðkomu.  „Holan var greinilega refsmogin; þarna voru bæði hár og nýleg spor“.

Refta (s)  Setja þak/þakviði á hús/tóft.  „Ég hlóð upp gamla hrútakofatóft í Ytragilinu  og refti yfir hana með sperrum; bárujárni og torfi.  Þessi kofi var einkum notaður til reykingar, bæði á rauðmaga og keti“.

Refur (n, kk)  Alopex lagopus.  Tófa; lágfóta; skolli; tæfa; melrakki.  Hin mörgu heiti refsins stafa líklega af því að nafnið skolli er einnig nafn satans, og það mega strangtúaðir helst ekki leggja sér í munn.  Karldýrið nefnist steggur/refur en kvendýrið læða/tófa.  Íslenski refurinn er sú grein heimskautarefsins sem skildist frá öðrum í lok síðustu ísaldar fyrir 10.000.  Af tófu eru tvo litarafbrigði; hvítt og mórautt.  Hvít dýr eru hvít að vetrum en dökkmógrá ofantil á sumrum.  Mórauðu dýrin, sem eru um 80% stofnsins á Vestfjörðum, eru flest dökkbrún allt árið, en þó heldur ljósari á veturna.  Bæði litarafbrigði æxlast saman, og ráða gen litum.  Feldurinn er mjög þéttur og veitir dýrinu mikla eingangrun, jafnvel í verstu kundum.  Refurinn verður að jafnaði 6-10 ára í náttúrulegu umhverfi, og um 3-4,5 kg á þyngd: 40-70 cm frá trýni á afturenda, auk um 30cm loðins skotts.  Tófan er nánast alæta, en helsta fæðan er fuglar, ungar, egg, mýs.  Að vetrarlagi sækir hún mjög í fjöru og étur hvaðeina sem rekur á land, s.s. fiskhræ o.fl.  Hún sækir í það sem til fellur frá búskap, s.s. hildir húsdýra og hræi í haga.  Ef hungur sverfur að tófu, eða hún á erfitt með að afla sér matar s.s. vegna vansköpunar, þá á hún það til að ráðast á lifandi sauðkind.  Helst sækir hún þá í að bíta í snoppuna og finnast stundum illa útleiknar kindur eftir slíkt.  Sú tófa nefnist dýrbítur og er helsta orsök þess að bændur leggja mikla áherslu á að halda fjölda refsins niðri.  Um aldir hafa menn notað ýmsar aðferðir til veiða, og sumsstaðar má finna haganlega útbúnar gildrur í því skyni; t.d. á Gildruhjalla í Seljadal á Hvallátrum.  Skipulegar skotveiðar á ref hafa lengi verið stundaðar, og hafa sveitarstjórnir umsjón með þeim.  Bæði eru skotin einstök dýr yfir allt árið, svonefnd hlaupadýr, en einnig eru unnin greni.  Nýta menn sér þar að tófa leggur/gýtur oft á sömu stöðum, sem vel liggja við veiðilendum varðstöðu og sól.  Bústaður tófu nefnist greni.  Það er oft í stórgrýttri urð eða grafið inn í hól og á því eru oftast nokkrar flóttaleiðir.  Oft gýtur tófa í greni sem er vel falið og fjarri ströndum, en flytur í annað greni nær veiðilendum þegar yrðlingarnir eru stólpaðir og orðnir þurftafrekir.  Steggur og læða halda oftast saman meðan bæði lifa.  Yrðlingar fæðast efttir um 50 daga meðgöngu; oftast um miðjan maí..  Þeir verða sjáandi um 15 dögum eftir got; eru háðir móðurmjólk í 3 vikur, en síðan í auknum mæli því sem foreldrarnir draga í búið af fæðu.  Eftir um 12 vikur fara þeir af greni, eða snemma í ágúst.
Refir hafa löngum verið veiddir til að halda stofni í skefjum eins og áður sagði, en einnig vegna skinnanna sem löngum hafa verið verðmæt söluvara.  Á fyrrihluta 20. aldar var skinnaverð mjög hátt, og enn lifa í manna minnum sögur af því sem menn lögðu á sig þá til að ná í tófur.  Frá þeim tíma eru mörg tófuhúsanna sem víða má sjá í Kollsvík og grennd.  Á síðari tímum hefur tíðkast að stunda ræktun á ref í búrum til skinnaframleiðslu.  Einar Guðbjartsson hafði um tíma tófur í búri efst á Gróumel.  Feðgarnir Össur og Hilmar höfðu um nokkur ár refabú í fjárhúsunum á Melnum. 
Í landi Kollsvíkur og Láganúps eru nokkur þekkt greni, t.d. í Vatnadal og Breið.  Refurinn sækir í gnægtir fuglabjarga og er mjög fær í klettum, en á veturna sækir hann í fjöru.  Sérkennilegt samband hefur myndast milli refs og hrafns um fæðuöflun.  Hrafninn er afkastamikill eggjaræningi og ber mikið magn eggja úr björgum sem hann felur lauslega uppi á brúninni og stundum allfjarri henni.  Þessi egg eru mikilvæg fæða fyrir refinn.  Á hinn veginn nýtur hrafninn stundum góðs af leifum bráðar refsins. 

Reginafl / Reginátak / Reginkraftur / Reginmáttur / Reginorka (n, hk/kk/kvk)  Firnamikið afl; gríðarlegir kraftar.  „Það er erfitt að ímynda sér þau reginöfl sem köstuðu þessum 60-70 tonna steini uppá klöppina eins og fisi“.

Regindjúp / Regindýpi (n, hk)  Mjög djúpt; mikið dýpi; firnadýpi.  „Grásleppan skríður af regindýpi til að hrygna uppi í hleinum“.

Reginfirra (n, kvk)  Fráleit vitleysa; bull; ósannindi.  „Það er reginfirra að nafli alheims sé í Reykjavík“.

Reginauli / Reginfífl (n, hk)  Erkihálfviti; alger bjálfi.  „Mikill andskotans reginauli getur manngrýlan verið“!

Reginfjarlægð (n, kvk)  Órafjarlægð; langt í burtu.  „Féð var í reginfjarlægð frá sem að þú sást það“.

Reginfjöll (n, hk, fto)  Fjalllendi langt frá mannabyggð.  „Það tekur tíma að ganga ofan af reginfjöllum“.

Reginhaf / Reginsjór (n, hk)  Úthaf; hafsvæði fjarri landi.  „Það fékkst ekki sæmilegur fiskur fyrr en komið var niður á reginsjó“.

Reginheimska (n, kvk)  Mikil fáviska; fáránleiki.  „Sjaldan hef ég vitað aðra eins reginheimsku og þettað“!

Reginhneyksli (n, hk)  Skandall; mjög hneykslanlegt.  „Þetta er auðvitað reginhneyksli og ekkert annað“!

Reginkjaftæði / Reginvitleysa (n, kvk)  Firra; alger vitleysa/heimska.  „Þvílikt reginkjaftæði er þetta nú“!  „Vertu nú ekki að segja svona reginvitleysu“.

Reginkuldi (n, kk)  Fimbulkuldi; firnamikill kuldi; hörkufrost.  „Féð tollir ekkert við beit í þessum reginkulda“.

Reginmisskilningur (n, kk)  Alger misskilningur.  „Það er reginmisskilningur að halda að þetta sé liðið hjá“.

Reginmistök / Reginskyssa (n, hk, fto /kvk)  Mjög mikil/alvarleg mistök.  „Það voru reginmistök að gera þetta ekki fyrr“.  „Þarna hef ég gert reginskyssu“.

Reginmunur (n, kk)  Mjög mikill munur/mismunur.  „Még finnst reginmunur á þessum hrútum“.

Reginsandur (n, kk)  Miklir sandflákar; mikið sandflæmi.  „Það þýðir ekkert að leggja hér sunnar á víkinni; þar er ekkert nema reginsandur“.

Registur (n, hk)  Skrá; listi.  „Þetta registur yfir orðanotkun Kollsvíkinga er einungis lítið sýnishorn“.

Reglubundinn / Reglulegur (l)  Hefur reglu/skipulag; gerist með jöfnu/vissu millibili. 

Reglufastur (l)  Vanafastur; heldur sig við reglu/vana/sið.  „Ég er nokkuð reglufastur með matartímann“.

Reglufesta (n, kvk)  Vani; það að halda sig við reglu/sið.  „Það verður að vera meiri reglufesta í þessu“!

Reglugerð (n, kvk)  Regla; lög; ráðherratilskipun sem byggir á lögum (hefðbundin notkun orðsins).

Regluheimili (n, hk)  Heimili sem er laust við vímuefnanotkun og regla/velgengni ríkir um heimilishald.

Reglulega (ao)  Með jöfnu/reglulegu millibili.  „Á vorin þurfti að huga reglulega að lambfénu“.

Reglusamur (l)  A.  Sem heldur reglu á því sem um er rætt.  B.  Misnotar ekki áfengi.

Reglusemi (n, kvk)  Regla; skipulag; góður siður; umhyggja.  „Hann annaðist þetta af stakri reglusemi“.

Reglustika / Reglustrika (n, kvk)  Lítil réttskeið til að strika við beina línu; og oft einnig til mælinga.  Orðið   er ýmist ritað með „r“ eða án, og getur hvortveggja verið rökrétt; sé kvarði á jaðrinum. 

Regn (n, hk)  Rigning.  Afar sjaldan notað í Kollsvík nema í fáum samsettum orðum; fremur talað um rigningu.  „Í Kirkjuhvammi er nokkuð af heyjunum fyrir neðan meðaltestu og einnig hefir nokkuð af útibornum heyjum skemmst af regni“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1957). 

Regnbogi (n, kk)  Marglitt og reglulegt ljósbrot; myndast helst gegnt sólu í votviðri eða þegar sól skín á fossúða.  Litirnir raða sér í reglulegan boga vegna ljósbrots í dropum; rauður litur brotnar mest og er yst; næst gulur, grænn og blár en fjólublár litur er innst.  Af svipuðum toga eru glitský sem stundum má sjá í mikilli hæð, milli sólarlags og sólarupprásar.  Í norrænini goðafræði nefnist regnboginn Bifröst, og er brú milli Ásgarðs guðanna og Miðgarðs mannanna.  Þjóðtrúin segir að komist maður undir enda regnbogans bíði hans þar sneisafull gullkista.  Regnbogi var talinn vita á rosatíð/bleytutíð.

Regnfatnaður / Regngalli (n, kk)  Hlífar; sjógalli.  „Ég var í sæmilegum regnfatnaði og blotnaði ekki“.

Regúlator (n, kk)  Gangstillir.  „Það þyrfti að stilla regúlatorinn á ljósavélinni“.

Reiða (s)  Flytja á hesti; láta vera á hesti.  „Einn þeirra; þann sem var í brúnni, varð að reiða að Gjögrum“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).  „Þá lifir enn sú saga að Benedikt hafi átt að segja að Einar í Kollsvík skyldi ekki reiða hval á hestunum sínum næsta sumar“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Reiða (n, kvk)   Viðbúnaður; skipulag.  Sbr reiðufé; óreiða; vera til reiðu; henda reiður á.

Reiða (s)  A  Flytja á hesti/reiðhjóli.  „Hann reiddi mig á bögglaberanum“.  B.  Gera reiðubúið/tilbúið; undirbúa.

Reiða af (orðtak)  Fara af stöfnum; ganga fram; ganga fyrir sig.  „Hvernig skyldi strengjunum reiða af, sem við lögðum á Landamerkjahleininni; ætli við fáum þá ekki kjaftfulla af skít eftir garðinn“?

Reiða af hendi (orðtak)  Láta fjármuni af hendi; greiða; borga.  Sjá láta af hendi.

Reiða ekki vitið í þverpokum / Reiða það ekki í þverpokunum (orðtak)  Þykja ekki stíga í vitið; þykja ekki vitur/hygginn; bera ekki vitið í hripunum.  „Ég bjóst ekki við miklu af þessum aula; hann hefur nú ekki reitt vitið í þverpokum hingað til“.  Þverpoki er poki sem liggur þvert yfir bak hests þegar reitt er; langur og fremur mjór.  Oft var heitinu „vit“ sleppt, eins og til að milda dómhörkuna.

Reiða fram (orðtak)  Bjóða; leggja fram; inna af hendi.  „Ég reiddi fram uppsett kaupverð“.

Reiða sig á (orðtak)  Treysta á; byggja á.  „Það er erfitt að þurfa að reiða sig á svona  duglítinn þingmann“.

Reiða til höggs (orðtak)  Búast til að slá/lemja.  „Ég tvíhenti sleggjuna og reiddi hana til höggs“.

Reiðari (n, kk)  Útgerðarmaður/eigandi skips.  Heyrist sjaldan í seinni tíð.

Reiðarslag (n, hk)  Afar þungt högg/áfall.  „Fráfall hans var reiðarslag fyrir heimilið“.  Einnig notað um eldingu/þrumu.  Vísar líklega til þess að reiða til höggs.

Reiðast (s)  Verða reiður/illur; hitna í hamsi.  „Það er ástæðulaust að reiðast honum fyrir þetta óviljaverk“.  „Ég man samt ekki til að ég reiddist“  (IG; Æskuminningar).t

Reiði (n, kk)  Seglabúnaður; siglutré með seglabúnaði.  Sjá syngja í rá og reiða

Reiði (n, kvk)  Illska; heift; bræði.   Sjá reita til reiði, renna reiðin; reiðinnar býsn.

Reiðigjarn / Reiðinn (l)  Gjarn á að reiðast; fljótillur; ör. 

Reiðilaust (l)  Án illinda; óátalið.  „Ef þið viljið þetta þá er það alveg reiðilaust að minni hálfu“.

Reiðilegur (l)  Reiður á svip/ í útliti.

Reiðilestur (n, kk)  Skammarræða; skammir; ávítur; þus.  „Ég nennti ekki að hlusta lengur á reiðilesturinn“.

Reiðileysi (n, hk)  Án umhirðu; án þess að gengið sé frá.  „...ekki vildu þeir skilja við bátinn í reiðileysi og ..sendu niður stein allvænan svo hægt væri að festa hann við land“  (MG; Látrabjarg).

Reiðingast (orðtak)  Riðlast á; traðjóla; brauðhófast.  „Verið nú ekki að reiðingast uppi á heyvagninum strákar; þið getið dottið niður“!  „Við náðum að reiðingast yfir skaflinn, með því að setja í lágadrifið“.

Reiðingshestur (n, kk)  Hestur sem flutningur er reiddur á.  „Eins og að líkum lætur voru vöruflutningar á reiðingshestum yfir fjallvegi seinlegir og ýmsum annmörkum háðir“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Reiðingur (n, kk)  A.  Undirlag klyfbera á hesti til að mýkja álagið; oft dýna og/eða torf (reiðingstorf).  B.  Líkingamál um illa útlítandi búnað/klæðnað.  „Ekki leist mér á reiðinginn á honum“.

Reiðinnar býsn/ósköp (orðtak)  Ógrynni; mjög mikið.  „Hann þurfti að greiða einhver reiðinnar býsn fyrir“.  Stundum afbakað i „reiðarinnar ósköp/býsn“.

Reiðir ekki vitið í þverpokum (orðtak)  Er heimskur/grunnhygginn.  „Þessi nýi þingmaður okkar er örugglega besta sál, en ekki finnst mér hann reiða vitið í þverpokunum“.  Þverpoki var sérútbúinn poki á hestbak“.

Reiðleið / Reiðvegur (n, kvk)  Leið sem riðin er á hesti.  Notað til aðgreiningar frá gönguleið, sem oft er ekki fær hestum.

Reiðskjóti (n, kk)  Reiðhestur.  Hestar voru mikilvægir í búskap og samgöngum fyrr á tíð, í Kollsvík líkt og annarsstaðar.  Hinsvegar má segja að varla hafi verið til reiðskjóti þar eftir að trakorar komu til og bílvegir urðu færir.

Reiðubúa (s)  Hafa til reiðu; gera klárt.  „Það þarf víst eitthvað að reiðubúa hlöðuna áður en við hirðum“.

Reiðubúinn (l)  Tilbúinn; albúinn; klár.  „Þú þarft að vera reiðubúinn þegar kallað verður til skips“.

Reiðufé (n, hk)  Handbært/tiltækt fé; peningar; lausafé; sjóður.  „Hann greiddi þetta allt í reiðufé“.

Reiðuleysi (n, hk)  Ruglingur; óreiða; ráðleysi; skortur á festu.  „Það er komið árans reiðuleysi á smalamennskur“.  „Þessar vélar lentu í reiðuleysi þegar stofnað var Ræktunarsamband V-Barðastrandasýslu“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Reiður (l)  A.  Illur; skapvondur.  B.  Sem unnt er að ríða um á hesti.  „Vaðallinn er vel reiður við sjóinn“.

Reiðver (n, hk)  Hnakkur; söðull eða annar búnaður til að gera reið á hesti þægilegri.  „Ég gekk alla leiðina en móðir mín reið á reiðveri“  (JVJ; Nokkrir æviþættir). 

Reifa (s)  A.  Búa um með reifum.  „Hann var með höndina reifaða og í fatla“.  B.  Flytja ræðu um málefni; koma málefni í orð.  „Hann reifaði málið í byrjun, en síðar urðu nokkrar umræður um það“.

Reifabarn (n, hk)  A.  Barn sem vafið er reifum, líkt og gert var fyrr á tíð.  B.  Líkingamál um mann til að líkja óvitahætti og þekkingarleysi hans við ungbarn.  „Hann hefur viðlíka mikla innsýn í þessi mál og reifabarn“!

Reifar (n, kvk, fto)  Umbúðir sem ungbörn voru vafin fyrrum, en eru nú meira notaðar utanum sár; sárabindi.  „Því ertu með þessar reifar um hendina“? 

Reifun (n, kvk)  A.  Umbúnaður ungbarns/sárs með reifum/umbúðum.  B.  Líkingamál um það að reifa mál.

Reifur (l)  Upprifinn; glaðvær; kátur; fjörugur.  „Eftir fyrsta staupið var karlinn orðinn vel reifur“.  Sjá einnig glaður og reifur.

Reigingsháttur / Reigingur (n, kk)  Derringur; hroki; mont.  „Ég kann illa við þennan reigingshátt í honum“.

Reigingslega (ao)  Með derringi/yfirlæti/hroka.  „Þetta hljómar dálítið reigingslega“.

Reigingslegur (l)  Yfirlætislegur; hrokafullur.  „Mér fannst hann ári reigingslegur í viðmóti“.

Reigja sig (orðtak)  A.  Fetta sig í baki; vinda uppá bolinn/skrokkinn.  „Með því að reigja mig afturábak gat ég náð taki á klettanefi og undið mig aftur inn á sylluna“.  B.  Sýna af sér yfirlæti/derring/mont/hroka.  „Hann ætti bara ekkert að vera að reigja sig í þessum efnum; hann er ekki mikið betri sjálfur“!

Reigja sig og teygja (orðtak)  Gera ýmiskonar hreyfingar; teygja á útlimum vöðvum; teygja sig.  „Ég náði ekki í vaðarendann; hvernig sem ég reigði mig og teygði“.

Reika (s)  Ganga; rangla; ráfa stefnulítið.  „Við reikuðum fram á túnið meðan við spjölluðum saman“.

Reikandi (l)  Óstöðugur; óviss; hvimandi.  „Ég hef verið dálítið reikandi í mínum skoðunum á þessu málefni“.

Reikistjarna (n, kvk)  Himinhnöttur á braut um jörðu, með lagskiptum kjarna sem er eða hefur verið virkur.  Jörðin er reikistjarna, sem og 7 aðrir hnettir í okkar sólkerfi.  Taldar frá sólu eru þær; Merkúr; Venus; Jórðin; Mars; Júpiter; Satúrnus; Úranus og Neptúnus.  Enn utar er Plútó sem til skamms tíma var talin 9. reikistjarnan, en telst nú til smástirna sem eru stórir loftsteinar.  Kringum margar reikistjörnur sveima minni himinhnettir af ýmsum stærðum sem nefnast tungl.  Með bættri tækni finnast æ fleiri sólkerfi með reikistjörnum; sumar af því tagi að þar gæti kviknað og þróast líf.

Reikna frá (orðtak)  Draga frá; minnka sem nemur.  „Ég held að skuld mín við félagið sé ekki há, þegar búið er að reikna frá mína vinnu“.

Reikna (fastlega) með (orðtak)  Vænta; búast við; eiga von á.  „Ég reikna fastlega með að af þessu verði“.

Reikna naugið (orðtak)  Reikna nákvæmlega.  „Ég hef ekki reiknað þetta svo naugið; mér liggur ekkert á að fá þetta greitt alveg strax“.  Sjá naugið.

Reikna saman (orðtak)  Um fjölda/tölur/upphæðir; leggja/taka saman.  „Ertu búinn að reikna það saman sem ég skulda þér“?

Reiknast til (orðtak)  Fá niðurstöðu í útreikninga.  „Mér reiknast svo til að nú sé þessi skuld greidd að fullu“.

Reikningabók (n, kk)  Bók sem inniheldur uppgjör/ársreikninga; höfuðbók í bókhaldi. 

Reikningshald (n, hk)  Bókhald.  „Hann hafði á hendi allt reikningshald fyrir félagið“.

Reikningshaus / Reikningsheili / Reiknisnillingur (n, kk)  Maður sem er sérlega fær í reikningi/hugarreikningi.  „Ívar í Kirkjuhvammi var annálaður reikningsheili, og gat lagt tölur hraðar saman á blaði en annar gæti með reiknivél“.

Reikningsskil (n, hk, fto)  Uppgjör tekna og gjalda; skulda og eigna.  „Nú þyrftum við að fara að gera einhver reikningsskil fyrir þetta verkefni“.

Reikningur (n, kk)  A.  Stærðfræði; meðhöndlun talna.  „Hann er algert séní í reiikningi“.  B.  Krafa um greiðslu; oftast á rituðu formi.  „Ég var að fá reikning fyrir vinnunni“.  C.  Uppgjör fjármála aðila, t.d. ársreikningur fyrirtækis.  D.  Viðskiptabókhald eins aðila hjá öðrum; viðskiptareikningur.  „Andvirði afurðanna lagðist inn á reikning hvers bónda eftir haustið“.

Reikull í rásinni / Reikull í spori (oðtak)  Ekki stefnufastur; rásar; hvimar.  „Karlinn var dálítið hífaður og reikull í rásinni“.

Reim (n, kvk)  A.  Þvengur, t.d. til að festa á sig skó.  B.  Borði úr gúmmíi til að færa afl milli vélahluta, t.d. viftureim.

Reima (s)  Herða að með reim; þræða reim.  „Bíddu aðeins, meðan ég reima skóna mína“.

Reimdrifinn (l)  Um vél; afl fært á milli vélarhluta með reim.  „Súgþurrkunarblásarinn var reimdrifinn frá Listervélinni, en hana mátti einnig nýta til að knýja rafal með því að færa reimarnar yfir á hann“.

Reimleiki (n, kk)  Draugagangur; slæðingur; reimt.  Ekki fara sögur af reimleikum í Kollvíkinni á síðari öldum, eða allt frá því að monsjör Einar í Kollsvík sneri niður draug þann í nautslíki sem galdramaðurinn Benedikt Gabríel sendi honum.  Þeir höfðu þá orðið ósáttir vegna hvalreka.  Einar teymdi þann draug inn yfir Hænuvíkurháls og batt hann við stein á innanverðum hálsinum; utan sinnar landareignar.  Þar voru lengi reimleikar, eða þar til draugurinn fór, eftir leiðsögn Einars, norður í Arnarfjörð og plagaði Benedikt sjálfan.  „Eftir það hvarf allur reimleiki af völdum draugsins í Kollsvík.... “  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Reimt (l)  Með draugagangi; þar sem draugagangur er.  „En reimt þótti lengi eftir á staðnum, þar sem draugnum hafði verið komið niður“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Rein (n, kvk)  Mjó ræma/röð; afmarkað mjótt ílangt svæði.  „Víða má enn sjá reinar eftir áburðarflug um úthaga kringum Kollsvík; einkanlega á Strympum og uppaf þeim“.

Reipi (n, hk)  Tóg; kaðall; sver taug.  Reipi var á fyrri tíð ritað „reip“ og virðist einnig hafa þekkst í karlkynsmyndinni „reipur“ sbr orðtakið að eiga við ramman reip að draga.

Reipishönk (n, kvk)  Uppgerður reipisspotti.  „Taktu með þér reipishönkina ef við förum eitthvað í lás“.

Reiprennandi (l)  Um mál; hiklaust; án þess að stoppa.  „Gunnar og Sigurvin Össurarsynir voru miklir málamenn og töluðu báðir t.d. flest evrópumál reiprennandi; þ.m.t. tékknesku.  Sigurvin var auk þess sæmilegur í Rússnesku og mandarínkínversku“  (VÖ)

Reiptog / Reipadráttur (n, hk)  A.  Kraftakeppni milli tveggja manna eða tveggja hópa sem felst í því að toga sín á milli í reipi, og hefur sá vinninginn sem togar hinn/hina í sína átt.  B.  Líkingamál um deilu/misklíð, sem gengur í raun útá hið sama; utan að keppt er í rökvísi eða þrætubókarlist.  Reipadráttur var einvörðungu notað í þessari afleiddu merkingu á síðari tímum.

Reisa (n, kvk)  Ferð; ferðalag; dönskusletta úr „rejse“.  „Hann var að koma úr heilmikilli reisu til útlanda“.

Reisa (s)  A.  Rétta við/upp.  „Við fundum afvelta kind og reistum hana við“.  B.  Byggja; setja sperrur/þakviði á hús.  „nú höldum við reisugilli; fyrst búið er að reisa“.  C.  Ferðast; leggja af stað.  „Hvert ert þú nú að reisa“?

Reisa (l) Um kind; geta ekki staðið upp vegna máttleysis/vannæringar.  „Fé í Kollsvík gat yfirleitt gengið úti í haga- eða fjörubeit þó fóður væru mismikil og engum sögum fór af því að kindur yrðu reisa úr hor.  Hinsvegar gátu lömb orðið reisa úr t.d. fjöruskjögri og fullorððfé úr votheysveiki“.

Reisa burst (orðtak)  A.  Skjóta upp kryppu; það viðbragð hunds, kattar eða annars dýrs að setja kryppu á hrygginn og ýfa hárin þegar hann bregst til varnar, til að sýnast ógnvænlegri. B.  Notað í líkingum um mann sem verður mjög reiður/ rennur í skap, og þá stundum í fleirtölu.  „Það er hætt við að hann muni reisa burstir ef einhver dregur hans heilindi í efa í þessu máli“.

Reisa Góu (orðtak)  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  Óviss merking; orðtakið finnst ekki annarsstaðar  Kann að merkja velgjörðir eða ávarp í upphafi Góu:  „Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi nærri á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu. Nokkuð var ort um Góu á 17. - 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að góu var færður rauður ullarlagður  Árni Björnsson; Saga daganna; 2000).

Reisa ekki haus/höfuð frá kodda (orðtak)  Vera rúmliggjandi/ mjög veikur.  „Ég hef ekki reist höfuð frá kodda í meira en vikutíma“.

Reisa haus/höfuð frá kodda (orðtak)  Vakna; fara á fætur.  „Nú held ég að þessi árans ekkisen ríkisstjórn verði að fara að reisa haus frá kodda og gera eitthvað í málunum“!

Reisa horgemling (orðtak)  Leikur sem algengur var fyrrum, en lítið stundaður nú á tímum.  Þegar reistur er horgemlingur þá setjast leikmenn flötum beinum, setja hægri hendi undir vinstra hné og grípa í eyrnasnepil á hægra eyra.  Með vinstri hendi er haldið í buxnastrenginn að aftan.  Síðan reyna menn að standa upp án þess að missa tökin.  Þetta er alls ekki auðvelt, en sagt er að þeir sem ekki geta reist horgemling hafi fallið úr hor.  Sjá vermannaleikir.

Reisa kuttasköft (orðtak)  Um róðrarlag:  „Ef menn duttu aftur fyrir sig með fætur upp í loftið var það að reisa kuttasköft“  (Frásögn GG; Láganúpi; LK; Ísl. sjávarhættir III).

Reisa sér hurðarás um öxl (orðtak)  Færast of mikið í fang.  „Ég er hræddur um að hann sé að reisa sér hurðarás um öxl með þessum jarðakaupum“.

Reisa skorður við (einhverju) (orðtak)  Fyrirbyggja; koma í veg fyrir; hindra.  „Ég þarf að reisa einhverjar skorður við því að menn aki hér utanvega“.  Líking við það að setja skorður undir bát; skorða bát.  Sjá setja (einhverju) skorður.

Reisa við (orðtak)  Rétta við; reisa upp.  „Ákveðið hafði verið að við Guðmundur stæðum upp og færum alveg niður á brúnina til að reisa mennina við þegar þeir kæmu upp“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg). 

Reisifjöl (n, kvk)  Aðferð til frágangs á þaki/lofti torfbæjar.  Ofan á sperrur eru sett 3-4 langbönd og á þau eru festar fjalir, hlið við hlið, sem rísa frá veggsyllum upp í mæni; í sömu stefnu og sperrur.  Ofan á þær kemur annar þakfrágangur; tróð; hellur og torf.  Hús sem þiljuð voru í loft voru annaðhvort með reisifjöl eða skarsúð, en þá lágu fjalirnar langsum og sköruðust.  Samkvæmt lýsingu Hildar hér á eftir virðist reisifjölin hafa verið innan á sperrum, sem var óvenjulegt og virðist hafa verið gert eftir að smíði þaks var lokið.  „Baðstofan sem ég man fyrst eftir var með moldargólfi.  Loft var yfir og þiljað upp fyrir rúmin; síðan var sett reisifjöl.  Reisifjöl var slétthefluð borð, óplægð, sett innan á sperrur í gömlum baðstofum; helluþöktum.  Stundum aðeins yfir rúmunum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Reisla (n, kvk)  Vog; sérstök jafnvægisstöng til að vega vöru eða annað.  Hún er hengd upp í krók sem er nær öðrum enda en hinum; síðan er það sem vega skal hengt í krók á stutta endanum, en lóði er rennt til eftir lengri endanum þar til jafnvægi næst.  Er þá unnt að lesa þyngdina af skala á stönginni.  Reislur voru notaðar í Kollvík meðan búið var.  Einkum voru vegnir upparballar; ketstykki; fiskur; salt o.þ.h.  Einnig var vegið lifandi fé, á þann hátt að strigapoki var dreginn undir kviðinn; í enda hans festar grannar tréslár með böndum.  Kindina mátti þá hengja upp með því að bregða böndunum á reislukrókinn.  „Brá nú Gummi skjótt við og hljóp við fót heim að íbúðarhúsinu til þess að sækja kindabyssu sína; hníf, reislu og önnur nauðsynleg áhöld“…. „Þegar því lauk stóð Bjarni í Hænuvík með reisluna; tilbúinn að vigta skrokkinn“  (PG; Veðmálið). 

Reisn (n, kvk)  A.  Það að vera uppreistur/uppistandandi/hnarreistur; virðing; sjálfsálit.  „Alltf heldur hann sinni reisn; þrátt fyrir mótlætið“.  B.  Upphækkun/yfirbygging á þilfari skips.  Oft notað um rými það ofanþilja sem er undir brú skipsins. 

Reistur (l)  Um það sem rís upp/er bratt/trónir.  „Báturinn er mikið reistur í stafninn en fremur borðlágur“.  „Mér sýnist þetta húsþak vera nokkuð reistara en hitt“.

Reisugildi (n, hk)  Útafbreytni í mat/drykk þegar sperrur í húsi hafa verið reistar.  „Ekki veit ég hvað þetta er gamall siður vestra, en a.m.k. frá því farið var að byggja timbur- og steinhús.  Oft var festur fáni á síðustu sperruna sem reist var, og síðan fengu menn sér hátíðakaffi og e.t.v. lögg af víni, sem það brúkuðu“ (VÖ).  Framborið uppá dönsku; án þess að d-hljóð heyrist, en líkt og l séu tvö.

Reisulegur (l)  Hnarreistur; myndarlegur; höfðinglegur.  „Þarna stóð fyrrum reisulegur bær“.

Reisupassi (n, kk)  A.  Vegabréf til ferðalaga innanlands.  Meðan reglur um vistarbönd voru í gildi á landinu þurftu allir að hafa reisupassa frá sýslumanni til að mega ferðast milli sýslna; og varðaði brot á því þungri refsingu, s.s.hýðingu.  B.  Á seinni tímum merkir orðið uppsögn úr vinnu.  „Ég fékk reisupassann í gær“.

Reita til reiði (orðtak)  Egna; espa.  „Ég vona að ég hafi ekki reitt hann mikið til reiði með þessu glensi“.

Reithertur (l)  Um fiskverkun; fiskur sem hertur/þurrkaður er á þurrkreit.  Reithertur fiskur og malflattur fiskur voru löngum annað heiti á skreið (sjá þar).

Reitingur (n, kk)  Um aflabrögð; einn og einn fiskur sem veiðist, en ekki líflegt fiskirí; landburður.  „Hann var vel við um snúninginn, og jafnvel þokkalegur reitingur yfir harðasta fallið“.  Sjá strjálingsveiði.

Reitlagður (l)  Um fiskireit; þakinn steinum sem þurrkað er á.  „Ekki var róið næsta dag, þótt veður leyfði.  Þá þurfti ýmislegt að lagfæra útivið:  rífa upp ruðninga, því þeir voru lengst af reitlagðir úr fremur smáu grjóti og með allskonar steinum umhverfis“  (KJK; Kollsvíkurver).

Reitur (n, kk)  A.  Afmarkað svæði, oft til sérstakra nota.  Sbr reitur í taflborði.  B.  Steinlagður blettur/hóll sem fiskur er þurrkaður á; stakkstæði.  Fjöldi reita er enn sjáanlegur í Kollsvíkurveri.  Þeir eru þaktir steinum, og í byrjun hverrar vertíðar þurfti að lyfta steinunum uppúr sandi sem fokið hafði í reitinn. 

Rek (n, hk) A.   Sá hraði sem bátur eða annað fer á undan vindi/straumi á sjó.  „Það er komið töluvert rek“.  B.  Sú vegalengd sem bát rekur þar til kippt er; þ.e. farið aftur á fyrri stað.  „Við tókum tvö rek norður yfir Hyrnurnar“.  C.  Hrakningur undan vindi/straumi.  „..Kollsvíkingar fundu hval á reki og tókst eftir langa mæðu að bjarga honum í land í Kollsvík“  (TE; Kollsvíkurætt; Hvalur róinn í land í Kollsvík).  D. Aldursbil.  „Í þessum hópi voru nokkrir strákar á svipuðu reki og ég“.

Reka (n, kvk)  A.  Skófla.  Oftar var notað orðið“ reka“ í Kollsvík.  B.  Skóflufylli.  „Ég kastaði nokkrum rekum af skít yfir kálbeðið“.  „Nú er búið að kasta rekunum yfir þann sómamann“.

Rek á skýjum (orðtak)  Um það þegar stök lágský berast hratt með vindi, samanborið við háský í bakgrunni  Einnig er talað um far á skýjum.

Reka (n, kvk)  Skófla.  Heitin voru notuð jöfnum höndum vestra á seinnihluta 20. aldar.  Heyrist nú sjaldan notað.  Nú er stungureka orin stunguskófla og rekustunga orðin skóflustunga.  Prestur kastar þó enn rekunum.

Reka að (orðtak)  A.  Reka fé að/nær húsum eða öðrum stað.  B.  Um bát; reka nær fjöru.  C.  Koma/líða að.  „Það rekur brátt að því að við þurfum að leggja af stað“.

Reka af (orðtak)  Notað um það þegar bát rekur af góðri veiðislóð og þarf að kippa á hana aftur.  „Ég er hræddur um að nú höfum við rekið af þessu.  Settu aðeins í gang og kipptu suður“.

Reka af höndum sér (orðtak)  Vísa frá því sem óæskilegt er.  „Þau þurftu víst að reka þennan vinnumann snarlega af höndum sér; hann var víst dálítið fingralangur“.  „Túristar eru yfirleitt sómafólk, en stundum getur þurft að reka þá af höndum sér, svosem ef þeir ganga illa um landið“.

Reka af sér slyðruorðið (orðtak)  Sýna framá að maður sé ekki aumingi/letingi/gagnslaus.  Slyðra var notað yfir gauð/aumingja; einnig um lint gras, og er sama orðið og slyndra, sem enn er notað um þykkildi eða slím.

Reka augun í (orðtak)  Koma auga á; sjá.  „Hefurðu nokkuð rekið augun í gleraugun mín einhversstaðar“?

Reka á (orðtak)  A.  Um veður; bresta á.  „Ofsaveður hafði rekið á, með kafaldi og stórsjó“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  B.  Um veiðiskap; bát rekur yfir færi/niðristöðu/net.  „Hafðuúti; það er farið að reka dálítið á núna“.  „Við þurfum að fara í grunnbólið á næsta streng; það er farið að reka töluvert á“.  C.  Um fjárrekstur; reka til; flytja fé til.  „Þið megið ekki reka of stíft á mig“!  „Hann hefur rekið á jörðina í heimildarleysi“.

Reka á ból (orðtak)  Reka fé í náttstað; smala fé þangað sem því er ætlað að liggja yfir nóttina.  Einkum tíðkað meðan staðið var yfir fé, á þeim tíma sem fráfærur tíðkuðust.  Orðtakið lifir í Vorvísu Jóns Thoroddsen:  „Vorið er komið og grundirnar gróa/ gilið og lækirnir fossa af brún./  Syngur í runni og senn kemur lóa;/ svanur á tjarnir og þröstur í tún./  Nú tekur hýrna um hólma og sker;/ hreiðra sig blikinn og æðurinn fer./  Hæðirnar brosa og hlíðarnar dala./  Hóar þar smali og rekur á ból./  Lömbin sér una við blómgaða bala./  Börnin sér leika á skeljum á hól“.

Reka á dyr (orðtak)  Vísa á dyr; reka út.  „Ekki ætla ég að reka þig á dyr, en ertu ekki að verða of seinn“?

Reka á eftir (með) (orðtak)  A.  Í bókstaflegri merkingu; reka, t.d. fjárhóp.  „Ég rak á eftir fénu fram á Foldin“.  B.  Líkingamál:  Ganga eftir; inna eftir verklokum.  „Það má nú fara að reka á eftir honum með þetta“. 

Reka á reiðanum (orðtak)  Að halda skipi undan í stórviðri án segla.  „“Stundum ber það við að menn fá ofsarok á sjó svo að naumast er annars kostur en að láta reka á reiðanum eða sigla með litlum bleðli...“  (HE; Barðstrendingabók).

Reka á stampinn / Reka á gat (orðtök)  Gera svaralausan/orðlausan; spyrja þannig að ekki verði svarað.  „Þarna rakstu mig alveg á stampinn; þetta veit ég ekki“.  „Fátt gladdi nemendur meira en að reka kennarann á gat“.  Hvortveggja er sennilega líking við að reka dýr í gildru.

Reka áróður fyrir (einhverju) (orðtak)  Vinna einhverju fylgi; milda afstöðu manna til einhvers.

Reka endahnútinn á (orðtak)  Reka smiðshöggið á; ljúka verki; klára mál.  „Það passaði, að rétt þegar við vorum að reka endahnútinn á verkið fór að hellirigna“.  „Sex árum síðar er svo Sigurvin Einarsson farinn að búa í Saurbæ, og það er hann sem rekur endahnútinn á þessar áskoranir til Búnaðarfélags Íslands“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Reka flóttann (orðtak)  Elta; hlaupa á eftir þeim sem er á flótta.  „Hundurinn tók þann kost að renna af hólminum, en kötturinn rak flóttann langt upp á tún“.

Reka frá / Reka frá mýrunum / Reka frá túni (orðtak)  A.  Reka fé frá stöðum þar sem það er óæskilegt.  Þannig þurfti að reka frá dýjum/mýrum/skurðum til að fé færi ekki ofaní og dræpist, en það sótti einkum í græn dýin á vorin þar sem gróður vaknaði þar fyrst, og á haustin þegar gróður í haga fór að sölna.  „Eitt af vorverkunum, sem að mestu kom í hlut unglinga eftir að róðrar hófust, var eftirlit með sauðfé.  Eftirlitið fólst í því að reka frá mýrunum kvölds og morgna, því mikið var af drápsdýjum í Láganúpsmýrunum“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).   „Skrepptu nú fram á Mýrar og rektu frá“.   Þar sem flæðihætta var þurfti að reka fé af útfjari áður en falla tók .  Reka þurfti frá fjárhúsum þegar fé átti að beita sér að vetrarlagi, en sótti of snemma í gjöfina sína í húsunum.  Þá þurfti að reka frá túnum; einkum fé sem sótti í túnin og/eða þegar túngirðingar voru ekki fjárheldar.  „Það þurfti að hirða féð er því var sleppt og reka frá mýrunum kvölds og morgna“  (IG; Æskuminningar).   B.  Um trjáreka eða annan reka; fljóta frá landi.  „Er þetta ekki tré þarna úti á Bótinni?  Mér sýnist það heldur vera að reka frá“.

Reka frá sjó (orðtak)  Reka fé frá hættum í fjöru, t.d. flæðihættu eða stöðum þar sem það getur króast inni við þarabunka eða móð.

Reka fúlt við (orðtak)  Freta með mikilli og slæmri lykt.  „Mikið helvíti rekurðu fúlt við núna; hvað í dauðanum varstu eiginlega að setja ofan í þig“?!

Reka hornin í (orðtak)  Líking um það að vera með aðfinnslur/meinbægni; setja útá; gagnrýna harkalega.  „Honum var illa við þessar reglur og sætti sig aldri úr færi að reka hornin í þær“.

Reka inn (orðtak)  Reka fé inn í rétt eða fjárhús.  „Heimilisfólk í Breiðavík kom og hjálpaði okkur að reka inn“.  „Þegar leitarmenn af Bjarginu höfðu skilað sér til réttar og búið var að reka inn safnið sem þeir komu með, varð gjarnan nokkurt hlé á annríkinu“  (PG; Veðmálið). 

Reka í (orðtak)  Ýta á bát við setningu. 

Reka (einhvern) í gegn (orðtak)  Vega/skaða mann með spjóti eða öðru lagvopni í bardaga.

Reka í roðskó (orðtak)  Sauma roðskó; sauma skó úr steinbítsroði.  Þetta var ekki lengi gert af vel þjálfaðri manneskju, en reka þurfti í mörg pör af roðskóm ef gengið var yfir heiðar.

Reka í stans / Reka í rogastans (orðtak)  Verða svo hissa/undrandi að manni verði verkfall/orðfall; verða standandi hissa/hlessa.  „Mig rak algerlega í stans þegar ég sá þetta“.  „Höktu í foldarhupp/ harðsvíruð ægistól./  Búsmalinn beiddi upp/ bændur litu ei sól./  Rak fólk í rogastans/ riðaði foldin við/ er ribbaldinn Rósinkrans/ ruddist úr móðurkvið“  (JR; Rósarímur).  Stans merkir þarna fallaskipti.  Líking við bát sem rekur undan straumi, en rekið stöðvast á fallaskiptum/snúningi.  Sönnun þess er eignarfall andlagsins.

Reka í vörðurnar (orðtak)  Vera hikandi/stamandi í tali.  „Mér tókst að stauta mig í gegnum lestrarprófið á sæmilegum tíma og án þess að reka verulega í vörðurnar“.  Líklega vísar orðtakið til þess þegar maður gengur um varðaða leið í dimmviðri og þarf að staldra við hverja vörðu til að skima eftir þeirri næstu áður en haldið er áfram.

Reka nefið í gættina (orðtak)  Koma í mjög stutta heimsókn; líta stutt við.  „Ég er á mikilli hraðferð, en langaði aðeins að reka nefið í gættina“.

Reka nefið í nóttina  A.  Fara út áður en háttaðer, líklega oftast til að gá til veðurs en e.t.v. einnig til að míga/ganga örna sinna.  Orðtakið virðist ekki hafa verið notað utan Kollsvíkur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  B.  Í líkingamáli;  vaða í villu; sjá ekkert; komast ekkert áfram.

Reka inn (orðtak)  Reka fé inn í rétt (stundum fjárhús).  Við þurfum meiri mannskap til að reka inn“.

Reka inn nefið (orðtak)  Koma í mjög stutta heimsókn; líta við.  „Hann rak inn nefið en mátti ekki vera að því að stoppa neitt“.

Reka innyfir / Reka til slátrunar  (orðtak)  Reka fé úr Kollsvík til slátrunar á Gjögrum.

Reka í roðskó (orðtak)  Sauma skó úr steinbítsroði (sjá roðskór).

Reka í rogastans (orðtak)  Verða furðu lostinn; verða mjög hissa.  „Mann rekur í rogastans yfir svona háttalagi“!  Stans er fallaskipti/snúningur á sjó, og roga- er áhersluforskeyti.  Líkingin er líklega við það að maður verður jafn dolfallinn og bát sem hættir að reka og liggur kyrr yfir fallaskiptin.

Reka í vörðurnar (orðtak)  Um framsögn/málfar; hika í setningum; stama; gera málhlé milli orða.  E.t.v. líking við það að maður sem gengur um varðaða leið stoppar öðru hvoru til að laga vörðurnar; leggja/reka í þær steina, en slíkt þótti sjálfsagt meðan hestavegir voru mikilvægir og varðaðir.  Við það tefjast menn dálítið, og er líkingin líklega dregin af þeim töfum. Sjá varða.

Reka lestina (orðtak)  Vera síðastur í röð; vera á eftir.  Vísar til þess að vera síðastur í lest/röð t.d. í skreiðarlest eða kaupstaðarferð, og sýnast því vera að reka þá sem á undan eru.

Reka minni til (orðtak)  Muna eftir; minnast.  „Mig rekur ekki minni til að þetta hafi gerst áður“.

Reka norður/norðuryfir (orðtak)  Fara með fjárrekstur af Breiðavíkurrétt norðuryfir Breið til Kollsvíkur.  „Misjafnt var hversu margir ráku norður, en eitt sinn fór ég einn með rekstur og gekk vel“.  Að smala norður þýddi annað; það var að smala fé handantil úr Kollsvíkinni í réttina í Tröðinni.

Reka ofaní (orðtak)  Gera einhvern afturreka með fullyrðingu/málflutning; láta éta ofaní sig.  „Ég var nú fljótur að reka þetta kjaftæði ofaní hann, og bað hann að gá betur að orðum sínum í framtíðinni“.

Reka saman (orðtak)  A.  Reka fé í rétt eða fjárhús.  Oftast átt við að reka það fé sem áður hefur hefur verið smalað af fjalli inn á tún.  „Eigum við ekki að reka saman á morgun“?  B.  Gæluorð um smíðar.  „Ég rak saman kassa utanum þetta“.  Einnig notað um vísnagerð.

Reka sig uppundir/utaní (orðtak)  Rekast t.d. óvart upp í loft/ út í veggi eða annað.

Reka smiðshöggið á  (orðtök)  Binda endahnútinn á; klára verkefni/viðfangsefni.  „Nú er ekkert annað eftir en að reka smiðshöggið á þetta“.

Reka til hafs (orðtak)  Reka frá landi.  „Okkur hefur rekið þónokkuð til hafs; við ættum að kippa svolítið upp“.

Reka til réttar (orðtak)  Kollsvíkingar og Látramenn ráku til réttar í Breiðavík, en skilarétt var í Bjarngötudal.  „Ókunnugt fé sem kom í réttina var látið í hús; það var svo rekið til réttar á mánudegi“... „Í Hjallagötu mættust svo allir og ráku til réttar“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  „Lömbin voru rekin til réttar við sláturhúsið, þar sem þau hvíldust eftir reksturinn og biðu slátrunar sem fór fram hinn næsta dag“  (PG; Veðmálið). 

Reka til slátrunar (orðtak)  Reka fé til sláturhúss.  „Féð var rekið til slátrunar inn í Örlygshöfn daginn fyrir slátrun; venjulega inn yfir Tunguheiði“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  „… og nú stóð svo á að skömmu eftir hinn umtalaða réttardag þurfti Gummi að reka sláturlömb sín inn yfir Hafnarfjall og til slátrunar á Gjögrum“  (PG; Veðmálið). 

Reka við (orðtak)  Freta; prumpa; leysa vind.  „Það getur tekið í nefið  að reka fúlt við í sjógallanum“.

Reka undan/frá sjó (orðtak)  Reka fé af flæðiskerjum áður en fellur svo mikið að að flæðihætta skapist.

Reka upp (orðtak)  Um rek báts; reka nær landi; reka á grynnra vatn/dýpi.  „Ég fer nú að setja í gang áður en okkur rekur lengra upp“.

Reka upp bofs/gelt/gól (orðtök)  Um hund; gelta; gefa frá sér hljóð.  Bofs er minnst en gól mest.

Reka upp hljóð/óp/öskur (orðtök)  Æpa; öskra.  „Henni brá svo að hún rak upp skaðræðisöskur“.

Reka upp stór augu (orðtak)  Verða stóreygur af t.d. undrun; verða mjög hissa/forviða.  „Ég rak upp stór augu þegar ég sá hvernig þarna hafði verið staðið að verki“.

Reka (einhvern) út á gaddinn / Vísa (einhverjum) út á gaddinn (orðtak)  Úthýsa einhverjum; meina einhverjum um fæði og húsaskjól.  „Í hallærum leitaði uppflosnað fólk unnvörpum í verin, enda voru minni líkur til að þar yrði því vísað út á gaddinn sem fiskur var dreginn úr sjó“.  Sjá gaddur; setja á guð og gaddinn; éta (einhvern) út á gaddinn.

Reka útaf (orðtak)  Reka túnrollur úr túni.  „Maður er varla kominn til bæjar þegar þarf að reka útaf aftur“!

Reka útúr sér tunguna (orðtak)  Ulla; láta tunguna útúr munni, stundum til að sýna einhverjum lítilsvirðingu.

Reka við (orðtak)  A.  Prumpa; leysa vind.  „Hættu nú að reka svona fúlt við; það er að verða ólíft hér innandyra fyrir viðrekstrarfýlu“!  B.  Líta við; koma við; koma í heimsókn.  „Þú ættir nú að reka við einhverntíma ef þú ert á ferðinni“.

Reka (einhvern) öfugan aftur/út (orðtak)  Reka einhvern af höndum sér; reka burt óboðinn gest.  „Ég sagði honum að hann yrði rekinn öfugur út af fundinum ef hann hætti ekki að gjamma frammí“!

Rekaátt (n, kvk)  Vindátt af hafi, sem gjarnan drífur reka á fjörur.  „Það hefur ýmislegt borist á land í vetur, enda oft verið hagstæð rekaátt“.

Rekabálkur (n, kk)  Lagaákvæði í fornum lögbókum sem varða rekaréttindi.  „Rekabálkur Jónsbókar er að mestu leyti enn í fullu gildi“.

Rekabás (n, kk)  Vík/vogur þar sem gjarnan safnast reki á land. 

Rekadrumbur / Rekaviðardrumbur (n, kk)  Rekatré; oft fremur digurt en stutt.  „Það má kljúfa þessa rekadrumba í hornstaura“.

Rekafjara / Rekapláss (n, kvk/hk)  Fjara þar sem allajafna er nokkur reki.  Einnig notað um vog sem rekþari safnast í.

Rekahnyðja / Rekaviðarhnyðja / Rekaviðarkrikkja (n, kvk)  Rót/hnyðja af tré sem rekið hefur á fjöru.  Krikkja er rótarbrot sem fyrrum þótti heppilegt til smíða á kollörðum og krikkjum í báta.

Rekaítak (n, hk)  Ítak jarðar í reka annarrar jarðar.  „Bæjarkirkja átti að fornu ítak í stórviðar- og hvalreka í öllum Rauðasandshreppi“.

Rekajörð / Rekaland (n, kvk)  Jörð þar sem eru hlunnindi af reka.  „Kollsvík og Láganúpur eru báðar miklar rekajarðir“.  „Ekki höfðu Hænuvíkurbændur neitt af hvalnum, þótt þeir ættu rekaland til.  Þorðu þeir ekki að hreyfa því máli opinberlega“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Rekakefli / Rekastaur / Rekaviðarkefli / Rekaviðarstaur (n, hk/kk)  Fremur lítið rekaviðartré.  „Ég kastaði upp tveimur rekakeflum“.

Rekakkeri (n, hk)  Áhald sem notað er á sumum bátum á síðari öldum til að hægja á reki, t.d. þegar legið er á skaki.  Nokkurskonar fallhlíf sem sett er í sjóinn og tengd bátnum með taug.  Viðnám þess í sjónum hægir á drift bátsins vegna vinds.

Rekald (n, hk)  Það sem rekur/ er á reki.  „Gættu að!  Þarna er eitthvað rekald í siglingarstefnunni“. Einnig notað sem líking um mann eða annað sem hrekst um eða lendir utangátta.  „Rétt í grennd við Rauðasand/ -risi boða innar-/ raunverunnar rak á land/ rekald sögu minnar“  (JR; Rósarímur).

Rekamark  (n, hk)  Merki sem hver rekaeigandi átti, og notaði til að merkja sér gagnlegan reka í fjöru.  Einkum reyndi á þetta þar sem margir áttu samliggjandi rekafjöru.  En einnig kom það fyrir að ekki var unnt að bjarga reka strax undan sjó og var því mikilvægt að merkja sér hann áður en hann færi í sjóinn og ræki annarsstaðar.  Sá á reka sem sannað getur rétt sinn með rekamarki.  Landeigandi má einnig merkja sér með rekamarki þann reka sem hann á í fiskhelgi sinni, en samkvæmt Grágás nær hún svo langt á haf út sem sjá má flattan þorsk á borði báts, sem samsvarar röskri sjómílu. 

Rekaspíra (n, kvk)  Grannt en langt rekatré.  „Rekaspírurnar eru besti stauraviður sem fáanlegur er“.

Rekaspýta (n, kvk)  Fremur smár rekaviður.  „Eldiviðurinn var mest mór og rekaspýtur sem var raunar talsvert af“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Rekast (s)  Um sauðfé og aðrar skepnur; unnt að reka.  „Hænuvíkurféð rakst allajafna illa á rétt í Kollsvík“.

Rekast hvað á annars horn (orðtak)  Verða árekstrar; stangast á; falla ekki saman.  „Mér finnst þessi frásögn enganvegin fá staðist; hér rekst hvað á annars horn“!

Rekast inn (orðtak)  A.  Um gesti; koma í heimsókn.  „Mér datt í hug að henda einhverju í ofninn ef einhver skyldi rekast inn í dag“.  B.  Um fé; unnt að reka inn í fjárhús/rétt.  „Féð rekst illa inn í góða veðrinu“.

Rekast í (orðtak)  Rexa í; sinna; fást við; vesenast með.  „Ég fór að rekast í þessum málum fyrir félagið“.

Rekasveit (n, kvk)   Hreppur þar sem reki á fjörur er mikill.  „Rauðisandur yfir allt er rekasveit“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Rekasæld (n, kvk)  Mikill reki að jafnaði.  „Í lítilli sandvík sem er milli Gvendarhleinar og Melsendakletta er stundum nokkur trjáreki.  Líklega er rekasæld þar hin mesta í Kollsvíkur- og Láganúpslandi“  (HÖ; Fjaran). 

Rekatré / Rekaviðardrumbur / Rekaviðarraftur/ Rekaviðartré (n, hk)  Tré sem rekið hefur á fjörur.  „Af og til rekur feiknamikil rekatré.  Miklu skiptir að vera þá fljótur að bjarga þeim, því ekki er allstaðar festifjara til lengdar“.

Rekaviðarfjöl / Rekaviður / Rekaspýta / Rekatimbur (n, kk/kvk/hk)  Viður sem rekur á fjörur; tré, fjalir, kefli, hnyðjur og annað.  „Eldiviður var mest mór og rekaspýtur, sem var raunar talsvert af“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Rekaviðarkubbur (n, kk)  Stuttur bútur af rekavið; oft tilsagaður á eina eða fleiri hliðar.

Rekaviðarsögun (n, kvk)  Sögun á stórvið/rekavið; stórviðarsögun.  Við það verk er notuð stórviðarsög; annaðhvort einhent eða tvíhent.  Tréð er mælt vandlega og skipulagt hvernig saga skal áður en byrjað er að saga.  Tréð er haft á búkkum meðan sagað er.

Rekaviður (n, kk)  Hverskonar viður sem rekur á land.  Rekaviður getur verið af ýmiskonar trjátegundum; verið í ýmsum stærðum og útliti og verið misjafnlega á sig kominn.  Stundum er hann skemmdur af fúa; smoginn af maðki; strúaður eftir núning við ís eða brotinn í fjöru.  Viður sem legið hefur lengi í sjó og dregið hann í sig er afskaplega vel fúavarinn; jafnvel betur en unnt er að gera með nútímatækni.  Rekaviður hefur um aldir verið dýrmæt hlunnindi í þessu skóglausa landi, enda viður nauðsynlegur til hverskonar bygginga og annarra framkvæmda, auk eldsneytis.

Reki (n, kk)  Hvaðeina sem rekur, þar með talinn rekaviður og annað gagnlegt.  Einnig notað um líkur á að rekaviður og annað gagn berist á fjörur.  „Reki (í Kollsvík) hefur hepnast; þó sjaldan, því straumar bægja“ (ÁM/PV; Jarðabók).   Þessi athugasemd lýsir því hve Kollsvíkingar fyrr á öldum höfðu íhugað legu strauma fyrir landinu.  Þeir vissu sem var, að Látraröstin spýtir flestu því frá landi sem ella hefði upp borist, nema álandsvindur verði yfirsterkari.

Rekinn (l)  A.  Hefur rekið á fjöru.  „Ég fann allstórt tré rekið niðurundan Byrginu“.  B.  Látinn hætta í vinnu.

Rekistefna (n, kvk)  Vesen; málarekstur.  „Það tekur því ekki að gera neina rekistefnu útaf svona misskilningi“.  „Ekki er ólíklegt að nokkur rekistefna hafi orðið út af landshlut í hvaldnum, þó óvíst sé hvernig henni hefur lyktað“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Rekís n, kk)  Hafís sem er á reki eða hefur rekið.  „Úr ísspönginni barst nokkur rekís upp á siglingaleiðina og alla leið upp í fjöru“.

Rekja (n, kvk)  A.  Rök jörð eftir rigningu eða náttfall.  Gott þótti að slá í rekju því þá rann ljárinn vel í grasinu.  „Þrjótur og Hólar voru harðbakkar og þurfti því að slá þá í rekju“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  B. (einungis í fleirtölu;)  Slæður; rök; hey sem rakað er af jörð eftir að búið er að heyja.  „Ætlaður var 1 hestur á kindina; 30 hestar fyrir hverja kú, og hrossi var ætlaður úrgangur, moð og rekjur“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Rekja (s)  A.  Um flík; rekja upp; draga garn/saum út svo flíkin losni í sundur.  „Mér fannst peysan misheppnuð svo ég rakti hana upp og ætla að prjóna nýja“.  B.  Fara eftir förum/slóð.  „Hann rakti slóð ertir tófuna fram alla Ívarsegg og innyfir Kóngshæð“.  C.  Telja upp; þylja; segja frá.  „Unnt er að rekja Kollsvíkurætt til fjölmargra sögufrægra Íslendinga og konunga á Norðurlöndum; og reyndar mun lengra aftur“.  „Hann rakti fyrir okkur hvernig eltingarleikurinn hefði gengið“.

Rekja garnir (orðtak)  Þræða garnirnar úr garnmörnum, þegar slátur var unnið til matar.  Þær voru síðan  þvegnar rækilega og notaðar í bjúgur og fleira, en mörinn í t.d. lundabagga.

Rekja garnirnar úr (einhverjum) (orðtak)  Líkingamál; yfirheyra; inna einhvern frásagnar/frétta.  „Ég þurfti að rekja garnirnar úr honum varðandi þetta slúður, og hvernig það var tilkomið“.

Rekja í sundur / Rekja upp (orðtak)  Aðskilja/ taka í sundur prjónles/fat sem prjónað hefur verið.

Rekja raunir sínar (orðtak)  Segja frá erfiðleikum/mótlæti/andstreymi.  „Hann spurði hvað væri að, og ég rakti honum raunir mínar varðandi svefnleysið“.  „Það hefur lítið uppá sig að fara í undirmennina og rekja raunir sínar; þú verður að hjóla beint í toppana“!

Rekja ristil (orðtak)  Nema ristil úr garnmör, sjá þar.

Rekja sig (orðtak)  Koma/birtast koll af kolli; vera í röð/runu.  „Vörðurnar rekja sig inn yfir fjallið, þó vegurinn sé misjafnlega greinilegur“.

Rekja úr (einhverjum) garnirnar (orðtak)  Yfirheyra; inna frétta.  „Mikið væri fróðlegt að hafa þá gömlu nú við hendina til að geta rakið úr þeim garnirnar varðandi þeirra reynslu“.  Líking við að rekja garnir.

Rekjast úr / Rakna úr (orðtak)  A.  Um flækju/flóka; greiðast úr.  „Nú held ég að eitthvað sé að rekjast úr þessum árans grásleppuhnút“.  B.  Liðkast um stöðu/fjárhag manns.  „Ég leyfði honum að vera hér leigulaust um tíma, þar til fór að rakna aðeins úr fyrir honum með fjárhaginn“.

Rekjusamt (l)  Rigningasamt; vætutíð.  „Það hefur verið ári rekjusamt uppá síðkastið“.

Rekjuspá (n, kvk)  Veðurspá fyrir rigningu; vætuspá; rigningarspá.  „Hann er með eindregna rekjuspá fyrir næstu daga“.

Rekjutíð (n, kvk)  Regntími; tímabil rigninga/vætu; úrkomusamt.  „Það gengur hægt með heyskapinn í þessari rekjutíð“.

Rekka (s)  A.  Almennt; ná; duga; sleppa til.  „Sjórinn tók okkur í mitti; rétt svo að brækurnar rekkuðu“   (ÁE; Ljós við Látraröst).  B.  Ná að teygja sig.  „Ég reyndi að teygja mig í eggið hinumegin við nefið en ég rekkaði ekki“.  C.  Um dýpi á á/vatni/sjó.  „Hann óð yfir ósinn, en við vesturbakkann var állinn svo djúpur að hann rekkaði ekki og varð að synda“.  „Ég rekka til botns með árinni“.

Rekki (n, kk)  Hilla; grind.  „Við hlið skotklefans var hausarekki, og í hann kastaði skotmaður hausunum“.

Rekkjufélagi / Rekkjunautur (n, kk)  Sá sem sefur í sama rúmi.  „Rekkjufélagar sváfu andfæting og höfðu koffortin sín; skrínurnar, við höfðalagið“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Rekkur (n, kk)  Maður; hermaður.  Einungis notað í skáldskap nútildags.  „Rekkar nefna Rósinkrans/ reifaþundinn fríða./  Orka vex og andi hans./  Áfram stundir líða“  (JR; Rósarímur).

Reklaust (l)  Um sjósókn; ekkert rek; enginn straumur; fallaskipti.  „Mér sýnist að sé orðið alveg reklaust; færin standa beint niður.  Hann ætti að geta hlaupið á þessvegna“.

Rekleysa (n, kvk)  Fallaskipti á sjó; snúningur; stans; bát eða annað rekur ekki.  „Það fiskast þá aldrei hérna ef ekki er í svona stillu og rekleysu“.

Reklítið (l)  Um sjósókn; lítið rek; nærri fallaskiptum.  „Við erum ekkert að kippa; það er orðið reklitið“.

Reknagli / Reksaumur (n, kk)  Nagli/saumur sem rekinn er í við.  Til aðgreiningar frá hnoðnagla, sem festur er með hnoðun og ró á öndverðri hlið efnis.

Rekspölur (n, kk)  Fyrri hluti leiðar.  Vísar til þess að fé er rekið áleiðis til beitarhaga og gengur afganginn án eftirfylgdar.  Eingöngu notað í orðtakinu komið á rekspöl.

Rekstrarmaður (n, kk)  Sá sem rekur t.d. fjárhóp.  „Það væri gott að fá annan rekstrarmann með mér til að reka heim af Breiðavíkurrétt“.

Rekstur (n, kk)  A.  Fjárhópur sem rekinn er; fjárrekstur.  „Þeir eru að koma úr Fjarðarhorninu með töluverðan rekstur; það þarf að standa fyrir í Hjallagötunum“.  „Tveir héldu áfram með reksturinn upp Vörðubrekku og áttu að smala Sanddalina og Breiðavíkurhjallana “ ... „Þá var réttarstörfum lokið og rekstrar fóru að tínast burt.   Hjá okkur far 3ja tíma rekstur eftir“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).   B.  Það að reka fé/fyrirtæki.  „Svona hraður rekstur verður bara til þess að gamalærnar gefast upp“!  „Hann er með all umfangsmikinn rekstur“.  Þegar rekið var frá rétt var talað um heimrekstur.  „Það væri gott að fá annan með sér í heimreksturinn“.

Rekublað / Rekuspaði (n, hk/kk)  Blað á reku; gælunafn á reku.  „Hvar hef ég nú látið rekuspaðann“?

Rekur að því (orðtak)  Kemur/líður að því; sá tími nálgast.  „Það rekur fljótt að því að við megum útvega okkur meira salt“.

Rekur sig hvert á annars horn (orðtak)  Stangast á; er mótsagnakennt/ruglingslegt.  „Ég botna ekkert í þessari frásögn; það rekur sig hvert á annars horn.  Best gæti ég trúað að þetta væri haugalygi frá rótum“!

Rekuskaft (n, hk)  Skaft á skóflu/reku.

Rekuspík (n, kvk)  Gæluheiti á reku/skóflu.  „Hvar skyldi ég hafa lagt frá mér rekuspíkina“?

Rekustunga (n, kvk)  Dýpt sem svarar lengd rekublaðs.  „Þarna er um það bil rekustunga niður á móinn“.

Rekustunguþykkur (l)  Þykkt sem svarar lengd rekublaðs/skóflublaðs; stunguþykkt; rekustunga.  „Í Svarðarholtinu er nærri rekustunguþykkt lurkalag; líklega myndað fyrir um 8 þúsund árum“.

Rekþari (n, kk)  Þari sem slitnað hefur upp og rekur í sjónum.  Oftast er talað um rekþara ef hann er í yfirborðinu eða kemur í veiðarfæri í sjó, en botnrek ef hann rekur með botninum.

Rell (n, hk)  Suð; kvartanir; tuð.  „Vertu nú ekki alltaf með þetta rell krakki“!  Með dl-framburði.

Rella (n, kvk)  A.  Rell; suð; kvartanir; tuð.  Sjá gera sér rellu.  B.  Skrúfuhverfill; vindmylla. 

Rella (s)  Suða; kvarta; tuða; biðja/nöldra um.  „Vertu nú ekki sífellt að rella í mér útaf þessu“!  „Hættu nú að rella um þetta“!

Rellinn (l)  Kvartsamur.  „Óttalega geturðu verið rellinn drengur“!

Rembast við (orðtak)  Reyna mjög mikið; taka verulega á.  „Ég var að rembast við að velta steininum upp í hleðsluna“.  „Hann er að rembast við að hnoða saman vísu“.

Rembast eins og rjúpa við staur (orðtak)  Reyna mikið; streða við; sperrast við.  „Það var sama hvernig hann rembdist eins og rjúpan við staurinn; steinninn bifaðist ekki“.  Líklega dregið af þjóðtrú sem segir að setji menn prik/hæl í hreiður rúpu, muni hún halda áfram að verpa þar til hrúgan er jöfn prikinu á hæð.  Kann einnig að vísa til veiða á rjúpu með snöru sem fest er við staur.

Rembingsháttur (n, kk) Rembingur; gort; mont.  „Ég kann ekki við þennan rembingshátt í honum“!

Rembihnútur (n, kk)  A.  Erfiður hnútur; erfitt úrlausnarefni.  „Mér sýnist að þetta sé komið í hinn mesta rembihnút“.  B.  Réttur hnútur.

Rembingskoss (n, kk)  Innilegur/mikill koss.  „Hann fékk rembingskoss að launum fyrir gjöfina“.

Rembingslegur / Rembinn (l)  A. Montinn; reigingslegur; þykist yfir aðra hafinn.  „Mér fannst hann skelfing rembingslegur og þurr á manninn“.  B.  Um veður; garralegur; belgingslegur; vindasamur. 

Rembingur (n, kk)  A.  Gort; mont; óhóflegt sjálfsálit.  „Skelfilegur rembingur er þetta nú í þér góurinn“.  B.  Um veður; stífur vindur; vindstrambi.  „Það er enn sami bölvaður norðanrembingurinn“.

Remma / Remmubragð / Remmukeimur (n, kv/hk)  Beiskt/rammt bragð.  „Ferlegt remmubragð er af þessu“.

Remmufýla / Remmupest / Remmuþefur (n, kvk)  Mjög sterk/þræsin/römm lykt.  „Mér finnst einhver remmufýla af þessu“  „Fereg remmupest er af þessu eplaediki þínu“!

Rengi (n, hk)  Fitulag á hval, milli kjötsins (þjósunnar) og spiksins; fituríkur vefur, trefjaríkari og seigari en sjálft spikið.  „Sumum þykir rengið jafnvel betra en sjálft spikið“.

Rengja (s)  Vefengja; segja/telja vera rangt.  „Mér finnst ástæðulaust að rengja hann með þetta“.

Rengla (n, kvk)  A.  Grönn tréspíra/rekaspíra; grannur girðingarstaur sem sjaldnast er jarðfastur.  B.  Grönn manneskja/kind.  „Skelfingar rengla er nú þessi fyrirsæta.  Væri hún kind þá væri hún ekki til ásetnings“!

Renglulegur (l)  Mjósleginn; horaður; slánalegur.  „Fjandi ertu nú að verða reglulegur; éturðu ekkert“?

Renna (n, kvk)  A.  Stokkur til að beina vatni, vökva, fé eða öðru sem eftir rennur í ákveðna stefnu.   „Hreinsa þurfti hey og sand reglulega úr rennunum á hlöðu og fjárhúsi, svo þær ekki stífluðust“.  „Hallandi renna var uppúr dilknum, sem sláturlömbin voru rekin um upp á vörubílspallinn“. B.  Sund sem fari/siglt er um.  „Við renndum bátnum upp rennu milli skersins og hleinarinnar“.  C.  Atrenna; tilraun; lota; samfella.  „Við drógum alla strengina á Breiðavíkinni í einni rennu“.

Renna (s)  A.  Um vökva; flæða af/um.  „Svitinn rann af mér í stríðum straumum“.  „Lifrin var sett í ílát og látin renna“.  B.  Skrika til í snjó; á svelli eða öðruvísi;  renna sér: „Við renndum okkur þá oft á sleðum niður Hólabrekkuna“.  Renna til: „Ég rann örlítið til og steyptist á hausinn“.  C.  Um skakveiðar; renna fyrir fisk; láta niður færi.  „...var þegar tekið að renna er komið var til miða“.  (ÖG; Þokuróður).  D.  Hlaupa; ganga; fara hratt.  „Féð rann upp hjallagöturnar líkt og hvítur lækur rynni upppímóti“.  „Drengs í brjósti heimfús hugur hlær og brennur./  Fyrir honum hjörðin rennur“  (JR; Rósarímur).  E.  Forma efnisbút í rennibekk.  „Stólfæturnir voru listilega renndir“.

Renna að sér / Renna upp (orðtök)  Renna upp rennilás á flík til að loka henni að sér.  „Renndu nú að þér áður en þú ferð út; það er hávaðarok“!

Renna/hopa/flýja af hólmi (orðtak)  Flýja; hörfa frá; leggja á flótta; láta undan síga.  „Ætli maður reyni ekki við þetta próf; það gagnar lítið að renna af hómi núna“.  Líking við það að flýja úr einvígi/hólmgöngu.

Renna augum yfir (orðtak)  Líta yfir; skoða lauslega.  „Ég renndi augunum yfir fyrirsagnirnar í blaðinu“.

Renna á (orðtak)  Koma yfir; sækja að.  „Ég hallaði mér eftir matinn og það rann á mig dálítið mók“.

Renna á éli (orðtak)  Ganga á með éli; setja yfir él.  „Komdu inn; hann er að renna á með éli sýnist mér“.

Renna á rassinn með (orðtak)  Gefast upp við; falla frá áætluðum verknaði.  Einnig notað um veður:  „Skyldi hann alveg ætla að renna á rassinn með þennan þurrk, sem manni sýndist að gæti orðið“? 

Renna á tvær grímur (orðtak)  Efast; vera á báðum áttum.  „Ég hafði nöldrað mikið um að fara með þeim í róður, en það runnu á mig tvær grímur þegar ég sá sjólagið“.

Renna blint í sjóinn (orðtak)  Reyna án þess að vita árangur fyrirfram.  „Ég renndi alveg blint í sjóinn þegar ég fór út í þennan rekstur“.  Komið úr veiðimennsku; renna færi án þess að sjá til miða.

Renna blóðið til skyldunnar (orðtak)  Vera /finna sig knúinn til vegna ættartengsla/skyldleika.  „Mér rann nokkuð blóðið til skyldunnar að hjálpa honum; þetta er jú bróðir minn“.  Orðtakið má eflaust rekja til tíma blóðhefnda og ættbálkasamfélaga, þar sem skyldmenni báru gagnkvæma hefndarskyldu og samábyrgð.

Renna fyrir fisk / Renna færi / Renna (færi) í sjó / Renna í botn / Renna út (orðtök)  Láta færi í sjóinn til að fá fisk; reyna fyrir fisk.  „Eigum við ekki að fara fram og renna fyrir fisk“?  „Færum var rennt í sjó, og strax var fiskur á hverju bandi; allir kepptust við dráttinn“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „Færum er rennt.  Fiskur tregur.  Keipað um stund; síðan kippt fram á Stekka“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Renna grun í (orðtak)  Gruna; sjá fyrir; setja sér fyrir sjónir.  „Mig var farið að renna grun í þetta“. Sjá renna í grun.

Renna hýru auga til (orðtak)  Hafa ágirnd/augastað á; líta girndarauga; ágirnast.

Renna í (orðtak)  A.  Um snjó/skafrenning; safnast í för og dældir.  „Það var farið að renna í þegar ég kom til baka, þannig að ekki var auðvelt að rekja slóðina“.  B.  Um söltun kets í reyk; saltið síast inní ketið.  „Við látum þetta bíða svona í þrjá daga og leyfum saltinu að renna í“.

Renna í brjóst (orðtak)  Dotta; gleyma sér; detta útaf.  „Ég held bara að mér hafi aðeins runnið í brjóst undir ræðunni hjá prestinum“.

Renna í för (orðtak)  Skafa snjó í för eftir mann, bíl eða annað.  „Það var lúmskt mikill skafrenningur uppi; hann verður fljótur að renna í förin“.

Renna í grun (orðtak)  Óra fyrir; gruna.  „Mig var reyndar farið að renna í grun að svona væri í pottinn búið“.  Sjá renna grun í.

Renna í hlað (orðtak)  Aka bíl heim að húsi.  „Mér heyrist pósturinn vera að renna í hlað“.

Renna í skap (orðtak)  Reiðast; mislíka; stökkva upp á nef sér.  „… en þó kom það fyrir að honum rann í skap; og sat þá oft lengi í honum þykkjan“  (GiG; Frá ystu nesjum).

Renna kalt vatn milli skinns og hörunds (orðtak)  Verða mjög/skyndilega hræddur/bugðið; gripinn ofsahræðslu/angist.  „Mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds þegar ég horfði á hann fikra sig upp klettaveggin; þar sem hvorki virtist hand- né fótfestu að hafa“.  Fyrrum var ýmislegt sagt vera milli skinns og hörunds.  T.d. trúðu sumir því að þar yrðu lýsnar til, sem löngum plöguðu fólk.

Renna með (orðtak)  Renna skafmold með jörðu.  „Élið er stytt upp núna en hann rennir drjúgt með“.

Renna niður (orðtak)  Kyngja mat úr munni í maga.  „Ég var svo gráðugur að ég gaf mér varla tíma til að renna niður“.  „Þessi matur rann ljúflega niður“.

Renna reiðin (orðtak)  Róast; spekjast.  „Honum rann fljótt reiðin þegar hann sá hverjir voru þarna á ferð“.

Renna saman (orðtak)  A.  Um sauðfé/nautgripi; stangast á.  B.  Um skyggni/veðurlag; „Það er aðgæslufæri á hálsinum, þegar allt rennur saman í snjóþokunni“.

Renna sér (orðtak)  Láta sig renna niður halla þar sem er nægilega bratt, slétt og sleipt, oft á sleða eða öðru.  „Ein besta skemmtun okkar Láganúpsstrákanna á veturna var að renna okkur á sleða.  Til þess var oftast farið upp á Hóla; stundum alla leið uppundir Hjalla, eða upp i Túnbrekkuna eða niður Rabbarbarhólinn“.

Renna sér fótskriðu (orðtak)  Renna sér standandi, annaðhvort niður hallandi ís/brekku eða með tilhlaupi.

Renna sitt skeið (orðtak)  Líða; klárast.  Oftast notað um tímabil, viðburð, stefnu eða annað ástand.  „Þessi tími rann sitt skeið án sérstakra stórviðburða“.

Renna stoðum undir (orðtak)  Um málstað/fullyrðingu/niðurstöðu; rökstyðja; færa sönnur á; gera líklegra.

Renna til rifja (orðtak)  Falla þungt; finna til trega/meðaumkunar.  „Ég játa fúslega að mér rennur það til rifja að sjá blómlegar byggðir leggjast í eyði vegna einhverrar tískusveiflu í atvinnuháttum“.  Vísar til þess að fá sting fyrir hjarta.

Renna trogi / Renna undan (orðtak)  Um matargerð fyrrum; halla mjólkurtrogi/mjólkuríláti sem búið er að standa um tíma, þannig að undanrennan renni undan rjómanum meðan haldið er við hann t.d. með hendinni.

Renna tvær grímur á (orðtak)  Verða efins/ gripinn vantrú; verða á báðum áttum.  „Þegar við komum fyrir Blakkinn runnu tvær grímur á okkur með framhaldið, enda hvítnaði víða í báru á Kollsvíkinni“.

Renna upp (ljós) fyrir (orðtak)  Skilja; sjá samhengi; átta sig á; ljúkast upp fyrir.  „Þegar ég sá að stóran hluta af fénu vantaði við fjárhúsin þá rann upp fyrir mér ljós, hvað tíkin hefði verið að segja mér“.

Renna uppað (orðtak)  Koma að landi.  Renna að landi..

Renna út í sandinn (orðtak)  Um fyrirætlun; mistakast; fara út um þúfur; verða að engu.  „Skyldi þetta kosningaloforð renna út í sandinn eins og allt annað hjá þessari ríisstjórn“?  Líking við læk sem rennur út á sand og hverfur ofan í hann.

Renna við (orðtak)  A.  Skrika fótur; missa fótanna.  B.  Um siglingu báts; snúast um leið og alda kemur aftanundir hann.  „Það er beðið lags, en þegar það er tekið varir það svo stutta stund að fyrsta bára á næsta ólagi kemur undir bátinn í því að hann rennur upp yfir hleinabrúnina.  Hann rennur við, og honum hvolfir á samri stundu“  (KJK; Kollsvíkurver).

Renna (augum) yfir (orðtak)  Skoða; lesa lauslega.  „Ég renndi lauslega yfir ritgerðina“.

Rennblautur / Rennvotur / Rennandi blautur/votur (l)  Rennblautur; holdvotur; forblautur; mjög blautur.  „Þú verður rennvotur í ágjöfinni ef þú hlífar þig ekki“. „Hann kom rennblautur inn úr rigningunni“.

Rennbleyta (s)  Bleyta mjög mikið/alveg.  „Passaðu að rennbleyta ekki bókina í þessari rigningu“.

Rennblotna (s)  Verða rennblautur.  „Farðu í gallan áður en þú rennblotnar.  Það er dálítil ágjöf“.

Renndur (l)  Formaður í rennibekk.  „Borðfæturnir voru renndir og lakkaðir“.

Rennhlaðinn (l)  Um bát; Mjög hlaðinn af afla/farmi; pínshlaðinn; drekkhlaðinn.  „Ekki var hann neitt rennhlaðinn hjá okkur, en þetta var ágætur afli“.

Rennibekkur (n, kk)  Verkfæri til að forma/renna efnisbút.  Efninu er þá fest í rennibekkinn sem snýr því meðan haldið er að því skurðarjárnum/rennijárnum.  „Guðbjartur Egilsson þjóðhagasmiður á Lambavatni átti fótstiginn rennibekk, smíðaðan af Valdimar bróður sínum, sem Gylfi sonur Guðbjartar eignaðist síðar og knúði með rafmótor“.

Renniblíða (n, kvk)  Logn og sjólaust.  „Það væsir ekki um okkur núna; renniblíða um allan sjó“

Rennifæri (n, hk)  Mjög góð færð á vegi.  „Það er rennifæri hér yfir Hálsinn, eins og er“.

Rennihjarn (n, hk)  Hjarn/freði á jörð eða ofaná lausari snjó, sem snjór/skíði rennur vel eftir; slétt hjarn.

Rennihleri / Renniloka (n, kk)  Hleri sem rennur eftir brautum til að opna eða loka opi/lúgu.  „Rennihlerar voru fyrir gjafalúgunum/fóðurlúgunum á gamla fjósinu, þannig að koma mátti heyi beint úr hlöðu í jötu“.

Rennihurð (n, kvk)  Hurð sem rennur til hliðar til að opna/loka dyrum.  „Rennihurðir voru milli fjárhúss og hlöðu í skepnuhúsum í Kollsvík“.

Rennijárn (n, hk)  Bitjárn til að renna efni í rennibekk.

Rennilás (n, kk)  Síðari tíma tækni til að festa saman efnisjöðrum á fljótlegan hátt, og er t.d. mikið notuð á fatnaði.  Byggir á tenntum krókum sem krækjast saman þegar farið er um þá með sérstöku áhaldi.  Fundinn upp af Bandaríkjamanninum Whitcomb Judson árið 1893.

Rennilykkja (n, kvk)  Hleypilykkja; kappmella.  „Strákarnir gerðu sér að leik að snara kálfana, og notuðu við það bandspotta með rennilykkju“.

Renningur (n, kk)  A.  Skafrenningur; skafmold.  „Það er kominn drjúgur renningur og fyllir fljótt í förin“.  B.  Umferð af fé/fólki.  „Það er dálítill renningur á þeim í fjöruna eftir að fór að falla út“.  „Í sumar hefur verið töluverður renningur af túristum. En maður verður yfirleitt lítið var við þá hér heima á bæ“.  C.  Ferðamaður; túristi; stytting úr „umrenningur“.  „Það kemur hér einn og einn renningur; aðallega um helgar“.  D.  Mjó fjöl; mjó efnisræma, s.s. teppi.  „Hér er laglegur renningur sem við getum notað í þetta“.

Rennirí (n, hk)  A.  Mikil ferðalög; renningur.  „Ég hef verið á eilífu renniríi í allan dag, og ekki haft tíma til að sinna þessu“.  „Hér hefur verið stöðugt rennirí af gestum alla helgina“.  B.  Ferðamenn; túristar.  „Hér er orðin allmikil ásókn af allskonar renniríi á síðustu árum“.

Renniskítur (n, kk)  Bráð skita; veggspýtingur; steinsmuga.  „Ég hef verið með einhverja helvítis lumbru í vömbinni í allan dag, og óstöðvandi rennsiskít“.  Finnst ekki í orðabókum, fremur en ýmis önnur lýsandi heitiVíknamanna í meltingarfræðum.

Rennisléttur / Rennsléttur (l)  Alveg sléttur.  Notað um sjó, veg eða annað.

Rennismíði (n, kvk)  Smíðar með því að renna hlut í rennibekk.  Guðbjartur á Lambavatni fékkst mikið við rennismíði og var fær í henni; sem og synir hans Svavar, Gylfi og Pálmi.

Rennsli (n, hk)  A.  Straumur í á, læk eða krana.  „Það er lítið rennsli í Ánni núna“.  B.  Sprettur; hraður akstur.  „Fjárhópurinn var á miklu rennsli niður Brunnsbrekku“.  „Hann blússaði hér hjá á miklu rennsli“.   C.  Skaklota í fiskiróðri.  „Við fengum ágætis fisk í síðasta rennsli en ekkert eftir að við kipptum“.

Rennsveittur / Rennandi sveittur (l/orðtak)  Kófsveittur; löðursveittur; pungsveittur.  „maður verður rennsveittur í þessum hita“.

Rennur/hnígur varla í honum blóðið (orðtak)  Um þann sem þykir mjög latur, værukær eða jafnlyndur.  „Þetta eru þvílíkir sniglar í þeirri stofnun að það rennur varla í þeim blóðið“!

Rennustokkur (n, kk)  Stokkur sem vatn rennur um.  „Afi hlóð brunnhús í skurðinum sem grafinn var neðanvið Gamlatúnið á Láganúpi; ofanvið Svuntumýri.  Fyrst hellulagði hann gólfið þykkum hellum, báðumegin; hlóð mannhæðarháan vegg á hvora hlið og samsvarandi vegg ofantil.  Reisti á þetta þekju með bárujárni en hafði opinn gaflinn að neðanverðu.  Í gegnum efri gaflinn hafði hann rennustokk úr tré, og fossaði vatnið úr honum niður í flatan kassa í miðju gólfi.  Unnt var að hleypa úr kassanum með dragloku að neðanverðu, en vanalega var hann lokaður og fullur af vatni.  Brunnhúsið hefur eflaust verið hugsað til þvotta og fleiri nota, en var einkum notað til að útvatna saltfisk og reyndist prýðilega til þess.  Um 1990 var þak þess niður fallið.  Þá var sett í gegnum það ræsi og það fyllt upp, og þannig fékkst akstursbrú yfir á efstu sléttuna.  Í þeirri brú eru því enn heilir hinir grjóthlöðnu veggir Guðbjartar, ásamt frágangi hans á gólfi.  Sjá brunnhús.

Rennvökna (s)  Rennblotna; vökna mikið.  „Ég fékk ágjöfina yfir mig og rennvöknaði“.

Renta (n, kvk)  Um fjármál; vextir; ávöxtun; arður.  „Hann hefur litlar rentur haft af þessum eignum“.  Sjá með rentu.

Renta fylgir nafni (orðtak)  Framkoma/hegðun/lífshættir eru í samræmi við nafn.  „Hann var nefndur Brynjólfur sterki, og fylgdi renta nafni“. Sjá bera nafn með rentu.

Renta sig (orðtak)  Ávaxta sig; safna vöxtum; borga sig. 

Rentulaus / Rentulítill (l)  Án (mikilla) vaxta; án hagnaðar.

Rentureikningur (n, kk)  Útreikningur vaxta/ávöxtunar; prósentureikningur.

Renus (l)  A.  Sögn í spilum; merkir „ég á ekki þennan lit“.  Notað t.d. í vist og bridge. „Ég er alveg renus í hjarta“.  B.  Kjaftstopp; eiga ekki orð.  „Ég er nú alveg renus yfir þessu háttalagi í manninum“.

Resept (n, hk)  Lyfseðill; uppáskrift lyfja.  „Læknirinn skrifaði resept fyrir einhverju lyfjasulli“.  Einnig stundum notað um uppskrift/formúlu.

Respekt (n, kvk)  Virðing.  „Ég ber nú litla respekt fyrir svona pótintátum“!

Reskjast (s)  Verða aldraður/gamall.  „Hann var farinn að reskjast nokkuð á þessum árum“.

Rest (n, kvk)  Afgangur; leifar; það sem eftir er.  „Ég skammtaði þeim vel á diskana og át sjáfur restina“.  Sjá einnig fyrir rest = að lokum.

Revía (n, kvk)  Söngleikur, oftast stuttur með gamanvísum/kersknisvísum um samtímamálefni.  Þorrablótin sem lifðu góðu lífi í Rauðasandshreppi framundir lok 20.aldar voru í raun revíur af fullkomnustu gerð, og allajafna furðu vandaðar miðað við íbúafjöldann sem að þeim stóð.

Rex (n, hk)  A.  Það að rexa/tuða/nöldra.  „Skelfing leiðist mér þetta eilífa rex“.  B.  Stöðugur/síendurtekinn umgangur.  „Hættið nú þessu rexi strákar; verið þið annaðhvort úti eða inni“!

Rex og pex (orðtak)  Nöldur og raus; tuð.  „Skelfing leiðist mér þetta eilífa rex og pex í karlhólknum“!

Rexa (s)  A.  Nöldra; tuða; þrábiðja.  „Vertu nú ekki að rexa svona í mér“.  B.  Vera mikið á ferðinni, fram og til baka.  „Ætlið þið að rexa svona til eilífðarnóns?  Það kólnar fljótt í húsinu með þessu móti“!

Reyður / Reyðarfiskur / Reyðarhvalur (n, kvk/kk)  Skíðishvalur.  „Í dagbók Árna Sigurðssonar í Flatey...  er þess getið að árið 1813 hafi rekið stóran reyðarhval í Kollsvík vestra“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Reyfarakaup (n, hk)  Mjög góð kaup; hræódýrt.  „Ég gerði reifarakaup á strigaskóm á útsölunni“.

Reyfarakennt (l)  Líkt skáldsögu/reyfara

Reyfari (n, kk)  A.  Sjóræningi; ribbaldi; sævíkingur.  Reyfarar komu upp á Hænuvík árið 1578, undir stjórn fálkafangara nokkurs sem taldi sig eiga sakir við Eggert Hannesson hirðstjóra í Saurbæ.  Rændu þeir manni í Hænuvík og neyddu hann til að fylgja sér til Saurbæjar þar sem þeir rændu öllu fémætu og fluttu Eggert með sér til skips.  Þar héldu þeir honum þar til lausnargjald var greitt.  Urðu af þessu eftirmál, en í kjölfarið sigldi Eggert til Hamborgar alfarinn.  Dóttir hans var Ragnheiður á rauðum sokkum, sem giftist síðar Magnúsi prúða sýslumanni í Ögri og Saurbæ, og var frá þeim komið mikið höfðingjaslekti.  B.  Skáldsaga; spennusaga.

Reyfi (n, hk)  Samhangandi ull af kind.  „Á réttarveggnum voru tvö reyfi af hvítu og eitt af mislitu“.  „Ég sá tvær kindur á dalnum og önnur var nærri komin úr reyfinu en hin var í tveimur reyfum“.

Reykfullur / Reykfylltur (l)  Fullur af reyk/reykjarkófi.  „Ég þreifaði mig um reykfylltan kofann og fann krofið á nagla á innstu sperrunni“.

Reykháfur (n, kk)  Strompur; rör uppúr þaki húss til að leiða reyk frá hlóðum, ofni eða öðru.  Reykháfar munu ekki hafa þekkst á húsum á Norðurlöndum fyrr en um eða eftir 1600.

Reykhús (n, hk)  Hús sem notað er til reykinga á keti; reykkofi.

Reyking / Reykkofi (n, kk)  Hús til reykingar matvæla; vanalega hlaðinn torfkofi.  Reyking er; ásamt þurrkun, elsta og upprunalegasta aðferðin til geymslu kjöts og fiskmetis.  Kjöt af sauðfé var reykt í misstórum stykkjum en oftast voru hlutarnir þessir:  Frampartur skiptist í háls; bringu; bóg og stundum voru síður teknar sér.  Í seinni tíð var farið að taka hrygg sem sérstakt stykki.  Afturpartur nefndist krof ef lærin voru samhangandi.  Slög voru stundum fyrrum pressuð og reykt sem magálar, en í seinni tíð voru þau oft vafin upp ásamt þindum og garnmör og saumaðir lundabaggar, sem ýmist voru reyktir eða súrsaðir.  Kjöt var hakkað og sett í langa sem bjúgur; sem síðan voru reyktar.  Fiskmeti var einnig reykt; einkum rauðmagi sem áður hafði verið þurrkaður nokkra daga.  „En hérna vildu menn hafa hann vel þurran og hanginn“   (SG; Reyking matar; Þjhd.Þjms).   Eftir að salt varð fáanlegt var venja að salta matinn áður en hann var reyktur.  Í byrjun var eingöngu þurrsaltað; þ.e. stráð yfir með grófu salti og endurtekið með þykkustu stykkin.  Síðar var farið að leggja í saltpækil og sumir gengu svo langt að sprautusalta; þ.e. sprauta saltpækli í þykkustu vöðvana með nál.  Reykt var eftir hverja sláturtíð og stundum oftar; t.d. þurfti að reykja rauðmaga snemmsumars, þegar hann veiddist.  Ketið var hengt upp þannig að snærislykkju var brugðið í þumu sem skorin var í jaðar, en læri og krof voru hengd upp á hæklum.  Oftast voru tvö og tvö fest saman í kippu, af minni stykkjunum.  Bjúgu og lundabaggar voru fest upp; annaðhvort með snæri eða sett í grisjupoka.  Í seinni tíð var einnig farið að setja allan mat til reykingar í grisjupoka til varnar sóti, eftir að skaðsemi þess var talin staðfest.  Rauðmagi var hengdur upp í kippur eða spyrður.  Oftast voru þá tveir spyrtir á sporðunum; þrætt í gegnum þumu í stirtlunum, og síðan var hengdur sinn rauðmaginn neðan í hvern.  Ýmist var hengt á nagla í þakviðum eða á sérstakar slár sem settar voru í loft kofans.  Sumir þóttu lagnari en aðrir við reykingar og tóku þá að sér reykingar fyrir marga.  Var því oft þétt raðað í kofann.  Reynt var að hafa eldstæðið sem fjærst matnum, svo síður væri hætta á að hann soðnaði.  Lengi var reykt í Hesthúsinu á Hólunum á Láganúpi.  Þar var eldstæðið næst dyrunum; fremst í göngunum.  Grafin var dálítil hola í sandinn og hún stundum fóðruð innan með steinum.  Þar í var sett brennið, sem oftast samanstóð af viðarspækjum, sauðataði og þurru torfi eða .  „Og þetta var gjarnan reykt við tað, ef hægt var að fá þurrt sauðatað; og alltaf var einhver viður líka, svona í uppkveikjuna: Gjarnan ef að menn, það var nú kannski hálfgert feimnismál; ef þeir náðu í klær af krækiberjalyngi, þá þótti það mjög gott til að gera gott bragð“   (SG; Reyking matar; Þjhd.Þjms).   Kveikt var upp með eldspýtum og e.t.v. notuð steinolía og/eða dagblöð til að fá eldiviðinn til að loga.  Þegar vel var farið að loga var eldurinn hulinn með góðri torfu.  Við það minnkaði súrefnisflæðið; bruninn varð hægari og glóðin framleiddi mikinn reyk.  Nokkur kúnst var að tempra loftflæði, þannig að ekki slökknaði alveg í glæðunum, en það byggði líka á hæfilega þurru brenni.  Ekki mátti heldur loga uppúr torfunni því þá gat maturinn skemmst af hita og jafnvel kviknað í kofanum.  Slík slys gátu þó hent á öllum bæjum og endrum og eins varð töluvert tjón af þeim toga.  Því fóru sumir í seinni tíð að hafa eldstæði utandyra og leiða reykinn inn með röri.  Halda þurfti reykkofum við og gæta þess m.a. að þeir væru nógu þéttir til að halda reyknum inni.  Oftast var kveikt undir daglega meðan reykt var, en væri reykkofinn góður nægði uppkveikja annan kvern dag.  Fyrrum þurfti að reykja mat mikið til að hann fengi nægt geymsluþol en eftir tilkomu frystingar var minni reyking látin nægja.  Uppkveikja í reykkofa var ýmist nefnd að kveikja undir eða kveikja upp eða setja reyk í kofann.

Reykingamaður (n, kk)  Maður sem reykir sígarettu eða pípu.

Reykja (s)  A.  Um verkun matvæla; láta reyk leika um tíma um matvæli til að verja þau rotnun og fá fram reykingabragð.  Reyking matvæla hefur tíðkast frá upphafi Íslandsbyggðar og er enn notuð til bragðbætingar þó geymsla felist einkum í frystingu.  B.  Anda að sér reyk af glóandi tóbaki í sígarettu, vindli eða pípu.  Reykingar urðu mjög almennar um og uppúr miðri 20.öld, en hafa síðan notið síminnkandi vinsælda, eftir því sem skaðsemi þeirra hefur orðið fólki ljósari.  C.  Um vél; gefa frá sér mikinn reyk.  „Ári er ljósavélin farin að reykja mikið í seinni tíð; það þarf líklega að fara að skipta um stimpilhringi aftur“.

Reykjarbræla / Reykjarkóf / Reykjarmökkur / Reykjarstybba / Reykjarsvæla (n, kvk, kk)  Mikill reykur.

Reykjarslæða (n, kvk)  Þunnt lag af reyk sem greinileg sést í hreinna lofti.  „Hann tottaði pípu sína í þungum þönkum meðan bláleit reykjarslæðan lagðist eins og bláleitt teppi í höfuðhæð um alla stofuna“.

Reykjarstrókur (n, kk)  Reykjarmökkur sem stígur í súlu upp af eldstæði, vél eða skipi.  „Liðnir eru þeir tímar þegar reykjarstrókar sögðu til ferða kolatogaranna, jafnt úti á víkinni sem handan sjóndeildarhringsins“.

Reykjavíkurvald (n, hk)  Heiti sem fólk í þessum hluta dreifbýlis (og e.t.v. víðar) hafði yfir stjórnarstofnanir staðsettar á Reykjavíkursvæðinu, sem oft á tíðum hafa mun minni skilning á þörfum og aðstæðum úti á landi en hag þéttbýsisins í næsta nágrenni.  „Það koma þá bommerturnar frá Reykjavíkurvaldinu enn“!

Reykkofi / Reykingakofi (n, kk)  Torfhús sem notað er til reykinga matvæla.  „Hesthúsið á Hólum er elsta hús á Íslandi til atvinnunota og elsta bygging Vestfjarða sem verið hefur undir þaki frá byggingu, en það var að líkindum byggt árið 1650; jafnvel fyrr.  Á síðari hluta 20. aldar var það notað sem reykkofi“.

Reyklaus (l)  Án reykjar.  „Uppkveikjan hafði ekki lánast í gær, svo það var reyklaust í kofanum“. 

Reykrör (n, hk)  Rör til a leiða reyk. „ Frá þvottapottinum í verkfærahúsinu lá reykrör uppúr þakinu“.

Reyktóbak (n, hk)  Tóbak sem ætlað er til reykinga; píputóbak.  „Helstu tegundir reyktóbaks voru Prince Albert og Half and half“.

Reyktur (l)  Um matvæli; búið að reykja.  „Ég lét hann hafa tvær kippur af reyktum rauðmaga“.

Reykur (n, kk)  Svæla frá því sem brennur/sviðnar.

Reykurinn af réttunum (orðtak)  Sýnishorn af heildinni; forsmekkurinn; tilfinning fyrir því raunverulega.  „Þetta er nú bara reykurinn af réttunum; stjórnvöld eiga eftir að leggja allan hreppinn í eyði með þessum stjórnunaraðferðum“!

Reyna (s)  A.  Gera tilraun til; gera atlögu að.  „Ég er að reyna að vanda mig“.  B. Renna færi fyrir fisk; skaka.  „Nú förum við að drepa á vél og reyna“.  C.  Upplifa; á/hafa reynslu af.  „Hún hefur sitthvað reynt um sína daga“.  D.  Þreyta; keppa.  Þeir reyndu með sér í kapphlaupi“.   E.  Prófa styrkleika.  „Ávallt skal reyna vað áður en hann er notaður í klettum“.

Reyna vað (orðtak)  Toga hressilega í vað við öruggar aðstæður til að tryggja að hann sé traustur og/eða festa hans.  „Karlmennirnir fara að greiða niður vaðina og reyna þá. Það er gert með því að binda annan endann við jarðfastan stein, en nokkrir menn ganga á hinn endann og toga í,  Kemur þá í ljós ef festin hefur fúnað í geymslunni“  (MG; Látrabjarg).  „Einnig var vaður reyndur í hvert sinn sem farið var neðan í hann í lás; einkum ef hann hafði verið færður til, eða á hann hafði komið hrun.  Sá sem niðri var lagðist þá af fullum þunga í lásbandið/vaðinn, áður er hann treysti á hann til uppgöngu“ (VÖ).

Reyna (einhvern) að (orðtak)  Hafa þá reynslu af einhverjum.  „Ég hef aldrei reynt hann að ósannindum“.

Reyna á sig (orðtak)  Leggja á sig; taka á; beita kröftum.  „Ég þurfti að reyna verulega á mig við þetta“.

Reyna á þolrifin (orðtak)  Ganga á þolinmæði/langlundargeð.  „Þessi túnrollufjandi er virkilega farin að reyna á þolrifin í mér“!

Reyna fyrir fisk (orðtak)  Renna fyrir fisk; renna færi til fiskveiða.  „Ætlaði Ólafur að fara fram á Látravík eða Röstina og reyna fyrir fisk“  (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi). „Við reynum öðru hvoru, en verðum lítið varir fyrr en við erum komnir á miðið þar sem Hrútanef í Látrabjargi kemur fyrir Bjarnarnúpinn og Tálkninn fyrir Blakkinn... “  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Reyna fyrir sér (orðtak)  Reyna; láta á reyna; renna fyrir fisk.  „En þegar við höfðum reynt fyrir okkur nokkra klukkutíma og lítið fengið, kipptum við frá og suður á Barðsbrekku... “  (ÖG; Þokuróður). 

Reyna ís (orðtak)  Meta styrkleika íss á vatni/á með því að feta sig varlega útá hann; helst með staf eða festur í línu.  „Bíðið hérna aðeins, meðan ég reyni ísinn“.

Reyna með sér (orðtak)  Keppa; takast á; þreyta með sér; fara í kapp.  „Strákarnir reyndu með sér í kapphlaupi“.

Reyna sig (orðtak)  Láta reyna á getu sína; keppa; rembast.  „Margir reyna sig við Brynjólfstakið á Brunnum“.

Reyna til við (orðtak)  Reyna að gera; gera atrennu að; reyna fyrir sér; stíga í vænginn við hitt kynið.  „Ætli við þurfum ekki að reyna til við þetta rekatré; ekki veltur það hjálparlaust undan sjó“.

Reyna til þrautar (orðtak)  Reyna eins og unnt er.  „Ég tel mig vera búinn að reyna þetta til þrautar og án árangurs“.  Sjá þraut.

Reynandi (l)  Þess virði að reyna; gerlegt.  „Ég held að það væri reynandi að klórast þarna upp á stallinn“.  „Við bárum þetta undir hann og hann áleit að þetta væri reynandi“.

Reynast (s)  A.  Verða; koma á daginn; koma í ljós.  „Hvalurinn reyndist vera grind, en ekki mjaldur“.  B.  Oft sem stjórnarsögn lýsingarorða; t.d. reynast erfitt; reynast auðvelt; reynast slæmur/góður o.s.frv.

Reynast rétt/satt vera (orðtak)  Vera satt.  „Ég spurðist fyrir, og þetta reyndist rétt vera hjá þér“.

Reynast illa/vel (orðtök)  Verða slæm/góð reynsla af.  „Bíllnn hefur reynst mér vel öll þessi ár“.

Reynd (n, kvk)  Raun; raunveruleiki; staðreynd.  „Margir hafa í gegnum tíðina „fundið upp“ eilífðarvél, en reyndin er sú að ekki er unnt að skapa orku úr engu“.  Sjá í reyndinni.

Reyndar (ao)  Raunar; hinsvegar; þegar betur er að gáð.  „Skipbrot Kolls var fyrsta sjóslysið í Kollsvík, og reyndar hið fyrsta sem sögur fara af við Ísland“.  „Bátur Gísla Guðbjartssonar á Grænumýri hét Korkanes.  Ég man reyndar ekki eftir þeim bát“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Reyndur (l)  Með reynslu; vanur; þjálfaður.  „Hann var reyndur og öruggur sjómaður“.

Reynsla (n, kvk)  Raun; reynd; þjálfun; vani.  „Hann hefur litla reynslu af svona störfum“.

Reynslan er besti kennarinn (orðatiltæki)  Sannindi sem oft er vísað til.

Reynslan er ólygnust (orðatiltæki)  Sömuleiðis sígild speki.

Reynslulaus / Reynslulítill (l)  Án reynslu; óvanur.

Reynsluleysi (n, hk)  Skortur á reynslu/þjálfun; óvani; nýgræðingsháttur; byrjendabragur. 

Reynsluróður / Reynslusigling (n, kk/kvk)  Sjóferð/róður til reynslu, oft í byrjun sumars/vertíðar; prufusigling.

Reynsluskortur (n, kk)  Skortur á reynslu; óvani.  „Nokkuð háði mér reynsluskorturinn“. 

Reynslutími (n, kk)  Tími sem reynt er; prófunartími.  „Engar bilanir komu upp á reynslutímanum“.

Reyr / Reyrgresi (n, hk)  Hierochloë odorata.  Ilmandi grastegund sem vex á láglendi um alla Evrasíu og N-Ameríku, ásamt Íslandi.  Blöðin eru breið og gljáandi.  Reyrgresi má t.d. finna í Breiðnum.  Af reyrnum leggur sterka lykt við þurrkun og því var hann stundum hafður í fatakistum til að minnka fúkkalykt.  „Man ég eftir að við pabbi fórum eitt sinn í Breiðinn til að sækja ilmgresi fyrir Lóu í Hænuvík, sem ætlaði að hafa það í kistunni sinni“ (VÖ).

Reyra (s)  Binda þéttingsfast/tryggilega; sívefja böndum; súrra.  „Gættu þess að reyra sárabindið ekki of fast“.

Reyrður (l)  Þétt bundinn; súrraður.  „Að lokum var lundabagginn reyrður með seglgarni“.

Reyrilmur (n, kk)  Ilmur af reyr/ryrgresi.  „Neðanúr Breiðshlíðinni barst reyrilmurinn upp á brúnina“.

Reyringur (n, kk)  Súrringar; hert/þétt binding.  „Hverskonar andskotans reyringar eru þetta; ja þessi pakki hefur ekki átt að detta í sundur“!

Reyta (s)  A.  Rífa upp.  Sbr hárreyta; reyta arfa/fugl.  B.  Safna/öngla saman.

Reyta af sér brandara (orðtak)  Segja skrýtlur; fara með gamanmál.  „Salurinn lá í hlátri þegar hann reytti af sér brandara úr sveitalífinu“.

Reyta af sér fötin/leppana (orðtak)  Hátta; fækka fötum.  „Maður var pungsveittur þó maður væri búinn að reyta af sér nær alla leppana“.

Reyta arfa (orðtak)  Tína illgresi úr garðrækt.  „Ekki var það vinsælasta verkið hjá börnum að reyta arfa“.

Reyta fugl (orðtak)  Plokka fugl; reyta fiður og fjaðrir af bumbi fugls.  „Ég nennti nú ekki að reyta allan mávinn; suma fló ég“.

Reyta hár sitt og skegg (orðtak)  Lýsing á mikilli reiði/vanlætingu/hneykslun.  „Það stoðar lítið að reyta hár sitt og skegg; við verðum bara að bregðast við þessari uppákomu“!

Reyta í (orðtak)  Gæluorð um að gefa skepnum fóður.  „Ætli maður verði ekki að reyta eitthvað í hrúta og gemlinga, þó fénu sé beitt“.

Reyta saman (orðtak)  Safna saman; tína til.  „Ég er búinn að reyta saman einhverjum eldivið“.

Reyta upp (orðtak)  Fá afla í tregfiski; sarga upp.  „Hann var sáratregur, en okkur tókst að reyta aðeins upp hér útá Röstinni“.

Reyta úr (netum) (orðtak)  Hreinsa þara og annað rusl úr netum.  „Fæ ég þig með mér að reyta úr“?

Reytist (orðtak)  Aflast/fæst með tregðu; kemur/safnast smám saman.   „Aðeins fór að reytast þegar kippti úr fallinu, og svo var þokkalega líflegt yfir liggjandann“.

Reytast til (orðtak)  Finnast, fást; tínast til.  „Ég verit nú ekki hvort ég á nokkuð með kaffinu, en kannski reytist eitthvað til ef ég leita“.

Reytingskot (n, hk)  Örreytiskot; kotbýli; jörð sem hefur ekki mikla möguleika til að framfleyta góðu búi.

Reytingsafli / Reytingsfiskirí / Reytingsveiði (n, kk)  Um magn; töluvert; dálítið.  „Þarna var reytingsafli yfir snúninginn“.  Af þessum orðum voru reytingsafli og reytingur mest notuð í Kollsvík.

Reytingskot (n, hk)  Rýr jörð; jörð sem ber naumlega búskap; örreytiskot.  „Þarna hefur varla verið annað en reytingskot“.

Reytingur (n, kk)  A.  Reytingsafli; tregfiski; treg veiði; slítingur.  „Það var reytingur hér suður á Stekkunum“.  B. Slítingur af grasi; gras sem reytt er upp til fóðuröflunar.  „Fyrr á tíð voru heimatún oft litil og léleg; einkum við hjáleigur og kot.  Þá stunduðu menn gjarna útslægjur þar sem við var komið; í grastóm, lautum, broktjörnum og í klettaflám.  Þar sem orfi varð ekki viðkomið reyttu menn grasið og báru heim í pokum.  Sú eftirtekja var nefnd reytingur“.

Reyttur og tættur (orðtak)  Druslulegur; um rifin/götótt föt; með úfið hár.  „Hvað kom fyrir buxurnar þínar; hversvegna eru þær rifnar og tættar“?

Reytur (n, kvk, fto)  Eignir; lausafé (oftast þá fátæklegt).  „Hann dó án erfingja og því voru reyturnar hans boðnar upp af sýslumanni“.  Orðið vísar til fátæklegra eigna sem eigandinn hefur reytt saman.

Réna (s)  Minnka; linast; hægjast; rýrna.  „Mér finnst þessi norðanbelgingur lítið að réna“.  „Heldur er nú að réna fallið“.  „Nokkuð rénaði vinátta þeirra eftir þessar deilur“.  „Reki hefur rénað mjög í seinni tíð“.

Rénun (n, kvk)  Linun; minnkun.  „Mér sýnist að norðangarðurinn sé nú eitthvað í rénun“.  „Nú var fallið í rénun og því léttara að draga og beita hana út“  (KJK; Kollsvíkurver).

Rétt (n, kvk)  Fjárrétt; aðhald sem fé er safnað í til rögunar; aftektar eða annars.  Haustréttir, skilarétt.  „Eitthvað þyrfti nú að dytta að réttinni fyrir haustið“.

Rétt (ao) Naumlega; tæplega; með hæpni/semingi.  „Þetta skeði bara rétt í þessu“.  „Ég teygði mig eins og ég gat, og rétt náði í bláendann á vaðnum“.  „Snáðinn er rétt að byrja að ganga“.

Rétt að segja (orðtak)  Nærri því; um það bil.  „Ég var rétt að segja í seilingarfjarlægð frá lambinu þegar það tók viðbragð og stökk framaf“.

Rétt að skjótast (orðtak)  Fara í snögga ferð; fara um skamma stund.  „Ég þarf rétt að skjótast; ég kem fljótt til baka“.

Rétt aðeins (orðtak)  Rétt svo; örlítið; aðeins; smávegis.  „Ég þarf rétt aðeins að skreppa frá“.

Rétt áðan (orðtak)  Fyrir mjög stuttri stundu.  „Hann hefur varla farið langt; hann var hérna bara rétt áðan“!

Rétt boðleið (orðtak)  A.  Upprunaleg merking; ákveðin röð bæja í byggðarlagi, sem boð voru látin ganga um.  Upphaflega voru boðin herör, en síðar boðkefli, krossboð og þingboðsöxi.  Lengst hefur lifað sá siður að senda fjallskilaseðil rétta boðleið.  Einatt var um sömu röð bæja að ræða, sem ákveðin var útfrá hagkvæmni og legu leiða.  Sjá nánar: boðleið, axarboð, skera upp herör, þingboðsöxi.  „Ennþá fór gangnaseðillinn rétta boðleið um hreppinn í tuttugustu viku sumars, og gangna- og réttardagur til fyrstu réttar var mánudagurinn í tuttugustu og annarri viku viku“  (PG; Veðmálið). 

Rétt bráðum / Rétt strax (orðtök)  Mjög bráðlega; nærri því strax.  „Ég kem rétt bráðum aftur“.

Rétt bærilega/vel/þokkalega (orðtak)  Ágætlega; vel, mátulega.  „Þetta gekk bara  rétt bærilega hjá okkur“.  „Ég trúi því nú rétt vel sem hann segir“.  „Slátrunin hefur farið rétt þokkalega af stöfnum“.

Rétt eins og er / Rétt í bili / Rétt sem stendur (orðtak)  Á þessari stundu; núna.  „Hann er ekki við rétt eins og er“.  „Ég er upptekinn rétt sem stendur“.

Rétt góður (orðtak)  Vel góður; alveg góður.  „Ekki er það nú rétt gott, en það má bjargast við það“.

Rétt hjá (orðtak)  Mjög stutt frá; mjög nálægt.  „…meðan slátrun stóð yfir haust hvert gistu flestir í torfhúsi sem byggt hafði verið í því skyni og stóð rétt hjá sláturhúsinu“  (PG; Veðmálið). 

Rétt horf (orðtak)  A.  Rétt siglingarstefna báts.  „Mikilvægt er að halda í réttu horfi þegar siglt er ofanvið Blakknesboðann.  Miðið í sundið, sé farið frá Kollsvík, er að halda Bræðragjám sýnilegum þar til Tálkninn kemur framundan Trumbum“.  B.  Afleidd merking; rétt stefna í málum.  „Mér sýnist að þessi mál séu í sæmilega réttu horfi núna“.

Rétt í skóvarp (orðtak)  Um snjódýpt; ekki dýpri snjór en það að markar í/ nær varla uppá tær.  „Það er sáralítill snjór kominn enn; rétt svona í skóvarp“.

Rétt í svip (orðtak)  Í örstutta stund.  „Ég sá ærina rétt í svip og náði ekki að greina markið“.

Rétt nokk (orðtak)  Nokkuð rétt; nærri lagi; hérumbil rétt.  „Þetta er rétt nokk hjá honum“.

Rétt óbyrjaður á (orðtak)  Í þann veginn að; nærri byrjaður; rétt óhafinn.  „Ég var rétt óbyrjaður á kaffinu þegar ég tók eftir rolluskröttunum í túninu“.

Rétt óhafinn (orðtak)  Um það bil að hefjast; nærri hafinn/byrjaður; rétt óbyrjaður.  „Sundurdráttur var rétt óhafinn þegar hrundi úr réttarveggnum“.

Rétt ókominn / Réttókominn (l/orðtak)  Um það bil að koma; nærri kominn. „Við vorum réttókomnir að baujunni þegar drapst á vélinni“.   „Hann er ekki inni, en hann hlýtur að vera rétt ókominn í kaffið“.

Rétt ósestur (orðtak)  Um það bil að setjast.  „Hún var rétt ósest þegar hún sá að kaffið var ókomið á borðið“.

Rétt ósofnaður (orðtak)  Alveg að sofna.  „Ég var rétt ósofnaður þegar mér flaug þetta í hug“.

Rétt (sem) snöggvast (orðtak)  Í smástund; í mjög stuttan tíma; eitt augnablik.  „Komdu hérna rétt sem snöggvast“.

Rétt sem er / Rétt sem stendur (orðtök)  Á þessum tímapunkti; um þessar mundir; þessa stundina; eins og er; eins og stendur; nú sem stendur.  „Ég er dálítið upptekinn rétt sem stendur, en ég kem bráðum“. 

Rétt skal vera rétt (orðtak)  Hafa skal það sem sannara reynist; hið sanna/rétta skal lagt til grundvallar.  „Þetta skiptir auðvitað engu máli í þessum skiptum, en rétt skal vera rétt“!  Mikið notað máltæki.

Rétt strax (orðtak)  Von bráðar; eftir stuttan tíma.  „Undir Flosagili beygjum við til vinstri og förum fram með Hjöllunum.  Rétt strax komum við að lágum hól með hlöðnum tóftum á“  (IG; Sagt til vegar II). 

Rétt svo (orðtak)  Með naumindum/hörmungum; naumlega.  „Þetta rétt svo dugir til að fylla fötuna“. 

Rétt svo mátulegt (orðtak)  Hæfilegt; við hæfi.  „Það  var þeim rétt svo mátulegt að lenda í þessari úthellisskúr, fyrst þeir fóru að ana af stað í svona veðurútliti“!

Rétta (n, kvk)  A.  Rétt hlið; andstæða við „ranga“.  „Er þetta réttan á peysunni; mér finnst þetta vera rangan“.  B.  Það sem rétt er; rétt eignarhald.  „Hann á þessa kind með réttu“. 

Rétta (s)  A.  Gera rétt/beint.  „Ég rétti naglana, svo þá mætti nota aftur“.  B.  Handlanga; afhenda.  Geturðu rétt mér hamarinn“?  C.  Halda réttarhöld; setja rétt.  „Réttað var yfir þeim á sýslumannssetrinu“.  D.  Reka fé í rétt og draga það.  „Réttað var í Breiðavíkurrétt 20. september“.

Rétta af (orðtak)  A.  Um bát; snúa í rétt horf fyrir lendingu eða við veiðar.  „Róðu ögn meira á stjórnborðið til að rétta hann af, svo hann komi stafnréttur uppað“.  B.  Rétta halla.  „Það þyrfti að rétta hornstaurinn af og staga hann til að ná betri strekk á girðinguna“.

Rétta hendi (orðtak)  A.  Bókstafleg merking.  „Á ég ekki að rétta þér hendi meðan þú kemur upp á brúnina“?  B.  Hjálpa til; rétta hjálparhönd.  „Gætirðu rétt mér hendi við þetta“?

Rétta hjálparhönd (orðtak)  Veita aðstoð; aðstoða; hjálpa.  „Maður reynir af bestu getu að rétta hjálparhönd“.

Rétta hlut (einhvers) (orðtak)  Ná fram réttlæti fyrir einhvern.  „Háum launum heitið er/ hverjum þeim er kynni/ bænda rétta hlutinn hér/ hreysti meður sinni“  (JR; Rósarímur).

Rétta litlafingur/litlaputta (orðtak)  Sýna viðleitni.  „Ekki rétti hann okkur litlafingur til aðstoðar þó hann sæi að við vorum í vandræðum“. Einnig í orðatiltæki/líkingu:  „Það má ekki rétta honum litlaputta þá tekur hann alla hendina“.

Rétta sig upp (orðtak)  Hvíla sig frá vinnu; fara í frí.  „Ætli það sé ekki kominn tími til að rétta sig aðeins upp“.

Rétta sinn hlut (orðtak)  Ná rétti sínum; fá réttlæti framgengt í sínum málum.  „Ég reyndi hvað ég gat að rétta minn hlut fyrir skattayfirvöldum“.

Rétta skrattanum/fjandanum litlafingurinn (orðtak)  Líkingamál varðandi ágengni.  „Það er eins og að rétta skrattanum litlafingurinn ef maður byrjar að hjálpa honum eitthvað; þá er öll hendin tekin“!  Vísar til þess að fjandinn hirði menn að fullu og öllu ef honum er sýnd einhver linkind.

Rétta upp hendi/hönd (orðtak)  Gefa merki með því að rétta aðra höndina upp í loft.  Getur t.d. merkt að stöðva skuli; hjá sigara getur það verið merki um að draga upp; atkvæðagreiðsla á fundi eða kveðjumerki.

Rétta úr kútnum / Rétta/réttast við (orðtök)  Ná sér á strik; komast yfir erfiðleika/vandræði; efnast.  „Eitthvað er hann að rétta úr kútnum fyrst hann gat fjárfest í nýjum traktor“.  Vísar til þess að rétta úr bakinu; ganga uppréttur.  „En aftur á móti réttist Dagbjartur heldur við“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Rétta úr sér (orðtak)  Rétta sig upp; rétta úr líkamanum; teygja sig; liðka sig. 

Rétta við (orðtak)  A.  Reisa upp/við.  „Það þyrfti að rétta staurinn við, áður en neglt er á hann“.  B.  Verða heilsubetri; batna af veikindum.  „Ég held ég sé nú eitthvað að rétta við eftir þessa árans pest“.

Rétta yfir (orðtak)  Dæma; halda réttarhöld yfir; setja dóm.  „Einar í Kollsvík var sækjandi þegar réttað var yfir Bjarna og Steinunni á Sjöundaá“.

Réttarbót (n, kvk)  Breyting á lögum/reglum sem bætir hag/rétt manna. 

Réttarbrot (n, hk)  A.  Brot gegn rétti einhvers; lögbrot.  B.  Leifar af fjárrétt.

Réttardagur (n, kk)  Dagur sem fé er rekið í rétt til sundurdráttar.  Gangnadagur var í raun sama og réttardagur hjá Útvíknamönnum.  Hann var, a.m.k. í seinni tíð, mánudagurinn í 22.viku sumars, sem var um 20.september ár hvert.  Þá fóru Kollsvíkingar útyfir Breið; smöluðu af honum og úr Fjarðarhorni en Hafnarmenn komu niður Breiðavíkina og Breiðvíkingar smöluðu Melana og norðurslétturnar.  Kom allur sá rekstur saman undir Hjallagötum og var rekinn heim á tún í Breiðavík.  Þar var beðið komu Breiðvíkinga sem fóru að smala Breiðavíkurverið og Látramanna sem komu með rekstur sem smalast hafði af Bjarginu og Dölunum.  Var síðan allt rekið inn í Breiðavíkurrétt.  Að loknum innrekstri var oftast boðið í réttarkaffi í Breiðavík en síðan hafist handa við sundurdrátt undir stjórn réttarstjóra.  Að honum loknum þurfti að skera úr um vafamörk; láta vita af flækingsfé og e.t.v. bjóða upp óskilafé.  Síðan flutti hver sitt fé heim.  Hafnarmenn fengu oftast að hleypa út fyrst, og ráku norðuryfir Hall og Á og uppmeð Hafnargili innyfir Hafnarfjall.  Á síðari árum var fé þeirra færra og var þá ekið af rétt.  Látramenn hleyptu út fljótlega á eftir þeim, og ráku sitt fé heimleiðis yfir Látraháls.  Síðast var Kollsvíkurfénu hleypt út og það rekið norðuryfir Breiðavík; upp Hjallagötur; Norðuryfir Breið og Strympur.  Var það ýmist rekið strax í rétt á Brunnsbrekku til að draga í sundur Láganúps- og Kollsvíkurfé, eða látið inná Láganúpstún og dregið í sundur síðar.  Sjá gangnadagur.  „Ennþá fór gangnaseðillinn rétta boðleið um hreppinn í tuttugustu viku sumars, og gangna- og réttardagur til fyrstu réttar var mánudagurinn í tuttugustu og annarri viku viku“  (PG; Veðmálið). 

Réttargjald (n, hk)  Gjald sem bóndi greiðir til hreppssjóðs til að standa straum að t.d. byggingu og viðhaldi skilaréttar.

Réttarhleðsla / Réttarsmíði /  Réttarviðgerð (n, kvk)  Upphleðsla/smíði/viðgerð á fjárrétt.  „Guðbjartur á Láganúpi réðist í réttarhleðslu á Brunnsbrekku, með aðstoð sona sinna.  Staðsetningin var ekki tilviljun, en þar um rennur fé sem rekið er af Breiðavíkurrétt, auk þess sem þarna var gnægð hleðslugrjóts við hendina“.  „Ætli við þurfum ekki að fara út í Breiðavík í réttarviðgerðir fyrir gangnadag“.

Réttarkaffi (n, hk)  Kaffiveitingar á réttarstað. „Í Breiðavík var jafnan boðið upp á réttarkaffi inni í bæ þegar búið var að koma rekstrum í rétt; bæði norðan að og frá Látrum“.

Réttarmaður (n, kk)  Sá sem vinnur í fjárrétt í sláturhúsi og hefur það hlutverk að afhenda skotmanni lömb fram í skotklefann/banaklefann.

Réttarregla (n, kvk)  Regla um rétt manna; skráð eða óskráð.  Réttarregla getur myndast sem hefð/venja, án þess að vera skráð á lögbók.  Skilyrðið er að um hana ríki almenn sátt og skilningur.

Réttarsmölun (n, kvk)  Smölun fjár úr högum til réttar.  „Kollsvíkingar fóru jafnan í seinni leitir frammi í Breiðuvík nokkru eftir réttarsmölun og ráku þá oftast beint norður, enda undantekningarlítið þeirra fé“.

Réttarstjóri (n, kk)  Sá sem stjórnar í réttum.  „Hreppsnefnd skal skipa duglega réttarstjóra við hverja lögrétt“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).  Réttarstjóri hefur alræðisvald á réttarstað meðan réttir standa, líkt og t.d. skipstjóri á skipi eða slökkviliðsstjóri á brunastað.  Hans vald nær ekki einungis til sundurdráttar og skila á fé, heldur getur hann einnig fyrirskipað t.d. handtöku manna sem standa að óspektum; fjarlægt rangstæð ökutæki og látið gera breytingar á réttarstað. 

Réttarstörf (n, hk, fto)  Verk sem vinna þarf á réttum, s.s. reka inn, draga í sundur, ráðstafa ómerkingum o.fl.  „Þá var réttarstörfum lokið og rekstrar fóru að tínast burt“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Réttarstæði (n, hk)  Staður fyrir fjárrétt.  Réttarstæði voru allajafna valin þar sem hentugt þótti til innreksturs, og gjarna þar sem náttúrulegt aðhald var fyrir.  Þannig er t.d. um réttina á Bergjum í Kollsvík.

Réttartimbur (n, kvk)  Timbur sem nota skal við smíði/viðgerð fjárréttar.  „Eitthvað sýndist þeim hafa rýrnað réttartimbrið sem var geymt í Bjarngötudalnum“.

Réttarveður (n, hk)  Veður á réttardag.  „Við erum heppnir með réttarveðrið“.

Réttarveggur (n, kk)  Veggur á fjárrétt.  „Réttarveggirnir í Breiðavík voru helsti samkomustaður bænda á gangnatímanum.  Þar spjölluðu þeir um fjallskil, heimtur, vænleika, veðráttu, fallþunga, frjósemi, vanhöld, dýrbíta, svelti, mörkun og annað sem nöfnum tjáir að nefna.  Þar var spjallað, bollalagt, hnakkrifist, púaðar pípur og tekið í nefið.  Þar kættust krakkar; þar hjöluðu húsmæður; þar gofruðu gamlingjar.   Réttarveggir þurftu að standa undir þessu félagslega hlutverki sínu, ekki síður en að halda fé í dilkum.  Því voru þeir hafðir eins traustbyggðir og kastalaveggir miðalda.

Réttbær (l)  Hefur rétt á/ umboð til.  „Hann réði mestu um þetta, þó hann væri ekki réttbær stjórnandi“.

Réttdræpur (l)  Sem réttilega má drepa ef til næst.  „Minkfjandinn er af flestum talinn réttdræpur“.

Rétthár (l)  Með mikinn rétt; í góðr/hárri stöðu.  „Sagt er að sjómaðurinn; alklæddur hlífðarfötum, væri öðrum rétthærri, t.d. á við prestinn í stólnum“  (KJK; Kollsvíkurver).

Rétthentur (l)  Sem notar hægri höndina fremur en þá vinstri við vinnu/nákvæmnisverk; andstaða við örvhentur.

Rétthermi (n, hk)  Það sem rétt er haft/hermt eftir; rétt vísað í frásögn/staðhæfingu.  „Þetta var kannski ekki alveg rétthermi hjá honum; ég sagði þetta ekki nákæmlega svona“.

Réttilega / Réttvíslega  (ao)  Rétt; með réttum hætti.  „Þú þarft að fara réttilega að þessu“.  „Hann sagði það réttilega“.

Réttindabarátta (n, kvk)  Barátta fyrir auknum rétti, t.d. aðbúnaði og kjörum vinnandi fólks.  Gott dæmi um slíkt er Aðalheiður Hólm Sigurgarðsdóttir, síðar Spans (1915-2005).  Hún var af Kollsvíkurætt (frá Einari Einarssyni Jónssonar).  Aðalheiður var fyrsti formaður starfsstúlknafélagsins Sóknar; frá 1934 í rúman áratug.  Þar var hún frumherji í kjarabaráttu kvenna hérlendis og leiddi Sókn í fyrstu kjarasamningum starsstúlkna ríkisspítalanna árið 1935.  Í þeim voru ákvæði um lengd vinnudags, greiðslur fyrir yfirvinnu og veikindarétt.  Hefur þetta verið talið til mestu afreka í réttindabaráttu hérlendis.  Aðalehiður giftist Wubold Spans 1944 og bjó eftir það í Hollandi.

Réttindalaus (l)  Ekki með réttindi/vottun til ákveðinna sérhæfðra starfa.  „Maður er alveg réttindalaus til að stjórna svona stórum bát“.

Réttindi (n, hk, fto)  A.  Sérstakt leyfi sem maður hefur til ákveðinna/sérhæfðra starfa/verka.  „Fyrri ökuskírteini gáfu réttindi til aksturs stærstu vörubíla og hópferðabíla, þó að baki lægi minna nám en nú gefur einungis réttindi til aksturs smábíla“.  B.  Réttur manns varðandi daglegt líf, t.d. réttindi launafólks.

Rétting (n, kvk)  A.  Það að rétta hlut á milli manna.  „Við höfðum klórast bandlausir niður í fjórða gang.  Þar fylltum við fötuna af eggjum, en auðvitað kostaði það okkur töluvert príl og réttingar að koma henni með okkur upp á brún aftur“.  B.  Það að rétta úr hlut, t.d. rétta beyglur á bíl eða slá boginn saum beinan.

Réttkjörinn (l)  Kosinn réttilega í kosningu.  „Hann taldist því vera réttkjörinn í stjórn félagsins“.

Réttlaus (l)  Án réttar; ekki í rétti.  „Ég kann nú betur við að spyrja landeiganda um leyfi, heldur en að fara þetta réttlaus og vitlaus“!

Réttlátur (l)  Sanngjarn.  „Mér fannst þetta nokkuð réttlátur úrskurður“.

Réttlæta (s)  Finna rök/réttlætingu fyrir gerðum/staðhæfingu/ástandi.  „Það er ekki með nokkru móti hægt að réttlæta svona framkomu“!

Réttlætanlegt (l)  Sem hægt er að verja/réttlæta; verjandi.  „Mér finnst varla réttlætanlegt að eyða meira fé í svona vitleysu“.

Réttlæti (n, hk)  Sanngirni; það sem samræmist lögum/siðferði/réttlætiskennd. „ Það er lítið réttlæti í því að forn veiðiréttur sé tekinn af sjávarjörðum og afhentur einhverjum útvöldum kvótakóngum og gróðahyski“!

Réttlæting (n, kvk)  Rökstuðningur; það að finna gerðum/fullyrðingum/ástandi siðferðilegar, eðlilegar eða lagalegar ástæður.

Réttlætismál (n, hk)  Málefni sem stefna þarf að til að réttlæti sé fullnægt.  „Það hlýtur að vera réttlætismál að hinir gömlu útgerðarstaðir fái notið veiðireynslu liðinna alda á sínum fiskimiðum“.

Réttlætisvottur (n, kk)  Ögn/vottur af réttlæti.  „Það er ekki nokkur réttlætisvottur í því að fornum réttindum sjávarjarða sé stolið með einfaldri lagasetningu Reykjavíkurveldistins, og það fært í hendur kvótakónganna“!

Réttmæti (n, hk)  Rétt rök; forsendur.  „Ég á erfitt með að sjá réttmæti þess að fara svona að hlutunum“.

Réttmætur (l)  Réttur; löglegur.  „Hann var úrskurðaður réttmætur eigandi lambsins“.

Réttnefni (n, hk)  Nafn sem hefur augljósa ástæðu/tilvísun.  „Hann var nefndur Brynjólfur sterki, og þótti öllum réttnefni“.

Réttnokk (ao)  Svosem; reyndar.  „Mér er réttnokk sama þótt þessir túristar gangi um landið; svo lengi sem þeir gera engan skaða“.

Réttritun (n, kvk)  Það að rita/skrifa rétt málfar; skrifa samkvæmt málfarsreglum. 

Réttrækur (l)  Sem reka má með réttu.  „Skipstjórinn tilkynnti honum að ef hann þyrfti að vera að staupa sig úti á sjó væri hann réttrækur af bátnum þegar í land kæmi“.

Réttsinna (l)  Með réttar skoðanir.  „Mér finnst hann ekki réttsinna í þessu máli, þó oft séum við sammála“.

Réttskeið (n, kvk)  Bein fjöl sem notuð var við smíðar til að fá beina línu; stór reglustrika/linjall.  „Góð réttskeið er t.d. þénanleg við flest múrverk“.

Réttskikkanlega (ao)  Með sæmilegu móti; til fyrirmyndar.  „Vertu ekki með þennan óskapagang krakki!  Hagaðu þér nú einusinni réttskikkanlega!

Réttstæður (l)  Stendur á réttum stað, t.d. þegar staðið er fyrir fjárrekstri.  „Hann var alveg réttstæður þarna á holtinu, en það hefði vantað annan til að standa fyrir við Ána“.

Réttsvo (ao)  Með naumindum; tæplega.  „Ég náði réttsvo með fingrunum uppá brúnina“.  „Hellirinn er réttsvo manngengur“.  „Það var réttsvo að hann komst fyrir fjárhópinn“.

Réttsýnn (l)  Sanngjarn; með réttlætiskennd.  „Hann hefur alltaf verið réttsýnn að þessu leyti“.

Réttsælis (ao)  Um snúning; í sömu átt og sól gengur á himni; sólarsinnis.

Réttsæmilegt / Réttskikkanlegt Réttskaplegt  (l)  Í góðu lagi/horfi.  „Þetta er nú alveg réttsæmilegur afli yfir þennan tíma“.   „Veðrið hefur verið svona réttskikkanlegt síðustu dagana“. 

Rétttrúaður (l)  Með réttar skoðanir; með réttan átrúnað.  „Hann hefur þarna töluverð ítök, enda alltaf verið rétttrúaður íhaldsmaður“.

Rétttrúnaður (n, kk)  Réttar skoðanir (að áliti einhvers); þröngsýni. 

Réttur bragliður (orðtak)  Bragðliður er eining sem ljóð/vísa er byggt upp úr; oftast tvö eða fleiri atkvæði/kveður.  Réttur bragliður er það þegar áherslan er á fyrsta atkvæði bragliðs.  T.d. „fljúga“ í hendingunni „fljúga hvítu fiðrildin…“.

Réttur og sléttur (orðtak)  Óbreyttur; lágt settur; ekki tignarmaður.  „Við; réttir og sléttir bændur, fáum litlu ráðið í þessu efni“.

Réttvel (ao)  Hæfilega vel.  „Ég trúi því svona réttvel að þú hafir lyft þessu einsamall“.

Réttvísi (n, kvk)  Réttlætiskennd; lög og regla; réttlæti; dómkerfi.

Ribbaldaháttur (n, kk)  Yfirgangur; ofstopi; djöfulgangur; bægslagangur; jarvöðulsháttur.

Ribbaldalið /Ribbaldalýður (n, kk)  Rumpulýður; ruslaralýður;  hópur óvandaðra manna.  „Það þyrfti að taka þetta ribbaldalið og koma því fyrir á einhverri góðri urð eða syllu í Bjarginu.  Þá væri þetta ekki að vinna neitt ógagn á meðan“!

Ribbaldast (s)  Hafa í frammi ribbaldahátt/yfirgang/ofstopa.  „Enn ætlar þessi ríkisstjórn að ribbaldast gegn viðkvæmustu byggðarlögunum á landsbyggðinni“!

Ribbaldi (n, kk)  Þrjótur; rusti; berserkur.  „Höktu í foldarhupp/ harðsvíruð ægistól./  Búsmalinn beiddi upp/ bændur litu ei sól./  Rak fólk í rogastans/ riðaði foldin við/ er ribbaldinn Rósinkrans/ ruddist úr móðurkvið“  (JR; Rósarímur). 

Rið (n, hk)  A.  Stór bára; brotsjór.  „..því það má með engu móti vera hægur gangur á skipi er menn sniðhálsa stórrið, sökum þess að skipið getur þá auðveldlega gengið undir riðið..“ (HE; Barðstrendingabók).  B.  Gangur í klettum; berggangur.  C.  Sveifla/tíðni.  „Rafallinn gat framleitt 2 kílóvött af 220 volta 50 riða riðstraumi“.

Riða / Riðusótt / Riðuveiki (n, kvk)  A.  Skjálfti; óstöðugleiki, sbr. sjóriða.  B.  Visna, smitandi sauðfjársjúkdómur sem valdið  hefur miklum búsifjum á vissum svæðum frá því hún barst fyrst til landsins 1878.  Hefur ekki orðið vart í Rauðasandshreppi, en herjaði á Barðaströnd undir lok 20. aldar.  Sjúkdómurinn berst með smitefni, svonefndu príón-prótíni, en hvorki með veiru né bakteríu.  Smitefnið er lífseigt og getur lifað árum saman í umhverfinu.  Fé er misnæmt fyrir smiti, eftir stofngerð.  Sjúkdómurinn veldur rýrnun í heila, og einkennin eru m.a. skjálfti, fælni, kláði og tanngnístur.   Smitað fé þrífst illa og veslast upp.  Eina úrræðið hingað til er niðurskurður fjár af riðubæjum og þar sem samgangur hefur verið, ásamt smithólfun svæða.

Riða (s)  A.  Hnýta net úr þræði.  „Ég man samt eftir að Einar bróðir vann tog í tuttugu faðma innsett net; kembdi, spann, tvinnaði, riðaði og setti inn; og veiddi svo ágætlega í netið“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).   „Fyrrum þurftu bændur við sjávarsíðuna almennt að kunna að riða sín net“.  B.  Skjálfa; tina; velta.  Sjá riða til falls.

Riða til falls (orðtak)  Vera við það að velta; vega salt.  „Ég forðaði mér þegar ég sá að hleðslan riðaði til falls“.

Riði / Riðill (n, kk)  Möskvastærð á neti.  „Rauðmaganetin eru með mun smærri riða en grásleppunetin“.  Bæði orð voru notuð í Kollsvík, en líklega hefur riði verið þar upprunalegra. 

Riðill (n, kk)  Áhald sem notað er til að máta rétta möskvastærð nets.  Flöt viðarfjöl með vissri breidd.

Riðl (n, hk)  Læti; áníðsla.  „Verið ekki að þessu riðli (að riðlast) uppi á kofagarminum krakkar“!

Riðla (s)  Raska; rugla; fella um koll.  „Nú eru kálfaskrattarnir búnir að riðla úr hliðinu aftur“!

Riðlast á (orðtak)  Djöflast á; hamast á.  „Veriði nú ekki að riðlast uppi á kofaþakinu strákar“!

Riðtíð (n, kvk)  Fengitími sauðfjár.  (sjaldan notað).

Riðuveiki (n, kvk)  Banvænn, kvalafullur, langvinnur og smitandi taugasjúkdómur í sauðfé.  Stafar af próteinsýklum; svonefndum príon-prótínum, sem eru eins að efnasamsetningu og heilbrigð prótín en með öðru lagi.  Það er torleystara; hættir að taka þátt í efnaskiptum líkamans; safnast saman við frumuhimnur í heila og eitlum og skemmir útfrá sér.  Þær skemmdir leiða til sjúkdómseinkenna, sem eru skjálfti, titringur, tannagnístur, fælni af minnsta tilefni og þrálátur kláði.  Riðuveik kind er óstöðug á fótum; gengur á fyrirstöður; ber framfætur hátt; er viðþolslítil af kláða og mjög fælin.  Engin lækning er þekkt við riðu og engin bóluefni eru til.  Dreifingarleiðir smitsins eru heldur ekki að fullu þekktar en vitað er að það getur verið í jarðvegi, húsum og öðru umhverfi mjög lengi.  Eina ráð til að stemma stigu við faraldri eru að skera fé niður á bæjum þar sem veikinnar verður vart og sjá til þess að þangað komi ekki nein skepna í mörg ár.  Einnig þarf að hreinsa hús rækilega og gæta þess að hlutir berist ekki þaðan á aðra bæi.  Riðuveiki barst fyrst til Íslands 1878 með enskum hrút sem kom í Skagafjörð.  Síðan hefur veikinnar víða orðið vart.  Ekki er vitað til að hún hafi komið í Rauðasandshrepp, en á Barðaströnd kom veikin 1953 og þar var skorið niður allt fé á 8.áratug 20.aldar.  Um það leyti var girt milli hreppanna til að verjast smiti.

Rif (n, hk)  A.  Rifbein; hluti af brjóstkassa manns eða skepnu.  B.  Rifband; band í segli sem notað er til að minnka segl/ rifa seglin.  C.  Fjörukambur; kambur; sjávarkambur; há mön ofan fjöruborðs og oft samsíða því, sbr sandrif/malarrif.  D.  Það að rífa niður, sbr niðurrif.

Rifa (n, kvk)  A. Lítið bil; glufa.  „Hafðu dálitla rifu á glugganum“.  B.  Gat sem rifnað hefur á klæðnað/vefnað/efni.  „Ég þarf að sauma þessa rifu á buxunum þínum“.

Rifa (s)  A.  Búa til rifu/glufu.  „Hann lét rifa í augun“.  B.  Binda upp segl; rifa segl.

Rifa fyrir sól (orðtak)  Birta fyrir sól; ský að grisjast.  „Mér sýnist að aðeins sé farið að rifa fyrir sól;  hann ætlar kannski að ná að rífa af sér“.

Rifa seglin (orðtak)  A.  Í líkingamáli; fara sér hægar; slappa af.  B.  Raunveruleg merking; minnka seglflöt seglskips til að draga úr ferð og minnka hættu á kollsigningu í stormi/mjög miklum vindi.  „Þegar vindur var orðinn svo sterkur að ekki þótti ráðlegt að tjalda lengur öllum seglum fóru menn að rifa.  Sérstaklega var það algengt að rifa hin stærri segl, en toppsegl voru tekin og forseglum oftast fækkað eftir þörfum.  Þó var hægt að tvírifa forsegl, fokku og stagsegl, og var það stundum gert.  Stórsegl og skonnortusegl mátti þrírifa.  Á einstaka skipi var hægt að fjórrifa stórsegl..  Þvert yfir seglið...voru gerð á það dálítil göt með jöfnu millibili og saumaðar þar í rifkósir“  (GG; Skútuöldin).  Segl voru rifuð þannig að það var lækkað lítillega á siglunni en neðri jaðar þess festur við rána undir seglinu með rifböndum sem dregin voru í gegnum rifkósirnar.  Á stærri skútum voru segl rifuð með sérstökum búnaði og fljótvirkum hætti, en á þeim smærri var hverju rifbandi fyrir sig bundið um rána.  „Skútur sem þarna voru höfðu þrírifað seglin, og allar á landleið“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Rifahjarn (n, hk)  Harður snjór; þéttur og vel frosinn; lætur ekki undan fæti.

Rifbein (n, hk)  Rif; bein í brjóstkassa manns/skepnu.  „Rifbein stórhvala voru gjarnan notuð í árefti á hús og búðir, og einnig sem hlunnar til setningar á bátum“.

Riffilfæri (n, hk)  Vegalengd sem unnt er að skjóta með riffli.  „Tófan var í góðu riffilfæri“.

Riffill (n, kk)  Byssa með löngu hlaupi, riffluðu innanvert, gerð til að skjóta einni kúlu.  „Pabbi átti nettan 22ja kalibera riffil, sem einkum nýttist til að lóga kindum“.

Riffla (n, kvk)  Fíngerður upphleyptur hryggur, jafnan margir samsíða.

Rifflaður (l)  Með rifflum.

Rifgarður (n, kk)  A.  Garður í flekk af heyi; hæfilega mjór til að honum megi snúa með hrífu (rifja).  B.  Beinagarður/geislabein í fiski, sem fylgja flakinu þegar flatt er.  „Heitir rifgarður þar sem mætist þunnildi og þykkildi og er því jafnlangur kviðarholi fisksins“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Rifinn í lær og laka (orðtak)  Í gauðrifnum fötum; illa til fara.  „Skelfing er að sjá útlitið á þér krakki; grútskítugur og rifinn í lær og laka“!

Rifja (s)  Snúa heyi með hrífu.  Með viðeigandi handtökum var heyið rakað í litla garða og snúið við í leiðinni.  Snúningurinn var svo endurtekinn í þurrki þar til heyið var orðið þurrt.  Meðan margt fólk var á bæjum raðaði það sér upp, þannig að hver gekk á eftir öðrum og sneri sínum garði.  Þannig vinnubrögð voru aflögð með vélvæðingunni.  „Allt gras var rakað saman í flekki; misstóra eftir sprettu.  Rifjað var þrisvar á dag, og rakað upp að kvöldi“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Rifja upp (orðtak)  Grafast fyrir í minni sínu; framkalla vitneskju í huganum.  „Ég þarf að rifja upp hvenær þetta gerðist“.  „Veðmálið varð um langan aldur vinsælt umræðuefni meðal þeirra sem viðstaddir voru og enn í dag hafa menn gaman af að rifja það upp…“  (PG; Veðmálið).   Líkingin vísar til þess að rífa upp það sem farið er að síga saman; t.d. legið hey á velli.

Rifjabiti (n, kk)  Síðubiti; kjötbiti úr síðu lambs eða annarrar skepnu, með rifbeini/rifbeinum.  Jafnan talað um síðubita áðurfyrr.

Rifjar á boðum (orðtak)  „Öldur sem taka sig upp á boðum án þess að brotna“  Heimild Jón Torfason, Kollsvík  (LK; Ísl.sjávarhættir III).

Rifjárn (n, hk)  A.  Kúbein eða annað langt járn, sem notað er til að rífa/spenna hluti í sundur.  B.  Sérstakt verkfæri sem ætlað er til að ná taki á haus neglds nagla og draga hann út.  Stundum uppnefnt „Símon kjaftur“, af ástæðum sem höfundi eru ókunnar, en það gæluheiti var fyrr haft um stormklýfi á skútu.

Rifna (s)  Dragast í sundur; skemmast af myndun rifu.  „Hann vildi alls ekki geyma bátinn í húsi vegna þess að borðin gætu þá verpst eða rifnað af þurrki“.

Rifna af/úr monti (orðtak)  Gæluhugtak yfir að vera mjög montinn/yfirlætislegur.  „Ég var alveg að rifna úr monti yfir að hafa dregið stærsta fiskinn þó þetta væri minn fyrsti róður“.

Rifna úr hlátri (orðtak)  Gæluorðtak yfir að hlæja mjög mikið.  „Jónsi á Hnjóti var leikari af guðsnáð, og sýndi iðulega slíka tilburði á þorrablótum að viðstaddir ætluðu gersamlega að rifna úr hlátri.“.

Rifrildi (n, hk)  A.  Fyrri merking; rytjur/ræfrildi/brak/flak af einhverju.  „Hér er rifrildi af gamalli biblíu“.  „Þegar Hvallátrabændur fóru undir Bjargið til eggja fundu þeir rifrildi af yfirbyggingu togara hátt uppi i urð“  (TÓ; Skipströnd í Rauðasandshreppi).  B.  Síðari merking; deilur; orðaskak.  „Þeir byrjuð að kýta eitthvað um hrúta, en eftir nokkurn tíma var það komið upp í hávaðarifrildi“.

Rifs og hrifs (orðtak)  Rán og rupl, þjófnaður; gripl.  „Hann sagðist ekki vera hrifinn af því að menn færu í hans egglönd með rifsi og hrifsi án þess að biðja um leifi“.

Rifsendi / Rifshaus (n, kk)  Endi á rifi sem liggur með sjó.  „Ég náði loks kindinni norður á rifshausnum“.

Rifta (s)  Bregða; afturkalla; hætta við það sem samkomulag var um.  „Við neyddumst til að rifta þessum kaupum þegar upp komst um gallann“.

Riftun (n, kvk)  Það að rifta.  „Þetta getur kostað riftun samninga“.

Rigg (n, hk)  Rið; rugg; stutt hreyfing fram og til baka.  „Við þetta margendurtekna rigg kom los á staurinn, en ekki nóg til að ég næði að draga hann uppúr“.

Rigga (s)  Rugga; hreyfa stutt fram og til baka.  „Með því að rigga bílnum síendurtekið afturábak og áfram, tókst mér að losa hann úr mestu festunni“.

Rigna (s)  A.  Koma regn úr lofti.  „Ári er hann orðinn ljótur; það styttist í að hann fari að rigna“.  B.  Verða fyrir rigningu.  „Við náðum að galta megnið af flekknum en hitt rigndi í görðum“.

Rigna djöfulinn ráðalausan (orðtak)  Rigna mjög mikið/endalaust að því er virðist.  „Það er búið að rigna djöfulinn ráðalausan í heila viku“.  Ekki veit ég við hvað þetta lendir“!

Rigna eins og hellt sé úr fötu (orðtak)  Hellirigna; um steypiregn.  „Nú rignir hann eins og hellt sé úr fötu“.

Rigna eldi og brennisteini (orðtak)  Ganga mikið á; koma óþverri.  „Nú skulum við forða okkur:  Það á eftir að rigna eldi og brennisteini ef karlinn sér að við höfum verið að rísla í þessu“.

Rigna niður (orðtak)  Rigna á; blotna mikið.  „Komdu inn úr rigningunni; vertu ekki að láta þig rigna niður úti á hlaði“.  „Hlaupið nú strákar og látið kartöflupokann inn; hann er að rigna niður hérna úti“.

Rigning (n, kvk)  Regn; úrkoma í fljótandi formi.  Líklega er orðið regn mun upprunalegra, en rigning hefur yfirtekið í seinni tíð, sem nafnkenning af „rigna“.

Rigning forút (orðtak)  Látlaus/eilíf rigning.  „Sama er hverju þeir reyna að spá; það er bara rigning forút“!

Rigningardagur (n, kk)  Dagur sem rignir.  „Enn er það einn rigningardagurinn“!

Rigningardropar (n, kk, fto)  Vottur af rigningu.  „Það eru komnir einhverjir rigningardropar“.

Rigningaraustur / Rigningarflóð (n, hk)  Steypiregn; úrhellisrigning; ofansóp.  „Þvílíkur rigningaraustur er þetta“!  „Er hann ekkert að stytta upp rigningarflóðið“?

Rigningarfýla (n, kvk)  Fíngerð rigning eða grófur suddi; oft með vindi.  „Það var strekkingsvindur á suðaustan og rigningarfýla“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Rigningardemba / Rigningargusa / Rigningarskvetta (n, kvk)  Mikil rigning í stuttan tíma.  „hann gerði á okkur bölvaða rigningardembu á leiðinni, svo maður er hérumbil innúr“!

Rigningarhraglandi (n, kk)  Strjál rigning en þá oft í köldu og hvössu veðri.  „Það er enn sami rigningarhraglandinn“.  Sjá hraglandi.

Rigningarlaus (l)  Úrkomulaus; uppihang; án rigningar.  „Hann er rigningarlaus þessa stundina“.

Rigningarlegur (l)  Lítur út fyrir rigningu.  „Hann er orðinn töluvert rigningarlegur; best að drífa saman heyið“.

Rigningarrosi (n, kk)  Mikil rigningatíð/vætutíð.  „Enn er sami rigningarrosinn; það er ekkert linunarmót á því“!

Rigningarskulfa (n, kvk)  Demba; hellirigning; rigningarslagur; ekki þó endilega í miklu hvassviðri.  „Hann setti yfir okkur slíka rigningarskulfu að við urðum blautir inn að beini“.

Rigningarskúr (n, kvk)  Rigning í stuttan tíma, en endurtekið með uppstyttu/uppihangi  á milli.

Rigningarslag / Rigningarslagur (n, hk/kk  Mjög mikil rigning.  „Skömmu síðar gerði rigningarslag“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  Ekki vorum við komin langt þegar á okkur skall suðaustanbylur sem smám saman breyttist í rigningarslag“  (ÖG; Harðsótt heimferð í jólafrí).   Fyrir kom að notað var orðið „rigningarslagur“ í nefnifalli, og þá í karlkyni, en oftast var það í hvorugkyni.  „Skyldi þessi rigningarslagur engan endi taka“? 

Rigningarslítingur (n, kk) Lítil rigning; dropar; slítur úr sér.  „Hann er enn með þennan rigningarslíting“.

Rigningarspá (n, kvk)  Veðurspá um rigningu/óþurrk.  „Er hann enn með þessa rigningarspá fyrir morgundaginn“?

Rigningarsuddi (n, kk)  Súld; fíngerð rigning; þokusúld; úði.  „Heyið blotnar strax í gegn í rigningarsuddanum“.

Rigningarúði (n, kk)  Súld; úði; suddi.  „Mér finnst þetta vera dálítill rigningarúði, en ekki bara náttfall“.

Rigningarþykkni (n, hk)  Dimmviðri vegna rigningar.  „Það sér ekki milli bæja í þessu rigningarþykkni“.

Rigningasamt (l)  Mikið um rigningu.  „Oft er rigningasamt á haustin, og stundum fengu menn hin mestu hrakviðri... “  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Rigningatíð (n, kvk)  Tími sem rigningar standa; rigningasöm veðrátta; votviðristíð.  Skelfing er ég orðinn leiður á þessari eilífu rigningatíð“.

Rigningavatn (n, hk)  Regnvatn.  „Stundum safnast rigningavatn í tjörn neðan við húsið“.

Rigningaveður (n, hk)  Votviðri; væta; hætt við rigningum.  „Hættara er við hruni úr klettunum eftir mikið rigningaveður“.

Rignir djöfulinn ráðalausan (orðatiltæki)  Hellirignir; rignir án afláts.

Rignir eins og hellt sé úr fötu (orðatiltæki)  Hellirignir.

Rignir jafnt á réttláta sem rangláta (orðatiltæki)  Auðskilið í bókstaflegri merkingu, en notað sem líking um margt annað sem yfir mannfólkið gengur og ekki gerir sér mannamun.

Rigs (n, hk)  Sláttur; halasláttur; stærilæti.  „Ég þoli illa svona kauða sem viðhafa mont og rigs og eru of fínir til að heilsa almúganum“.

Rigsa (s)  Strunsa yfirlætislega/reigingslega.  „Hann rigsaði í salinn og hlammaði sér niður án þess að heilsa“.  Hefur líklega hljóðbreyst úr „reigsa“.

Rigtugheit (n, hk, fto)  Réttlæti; það sem rétt er.  „Hann þóttist eiga þetta með rigtugheitum“.

Rigtuglega (ao)  Með réttu; réttilega.  „Hann safði rigtuglega að þetta væri ekki alfarið sín sök“.

Riklingur (n, kk)  Harðfiskur af lúðu.  „Riklingurinn, einkum af smærri lúðum, var venjulega þurrkaður.  Flökin hengd upp og látin skelþorna.  Síðan voru þau rist þannig að skurður var skorinn inn í miðja fiskþykktina.  Byrjað var að skera beggja megin við augað sem hengt var upp á, en síðan mæst í einum skurði rétt fyrir neðan augað.  Síðan var fiskurinn flattur útundir jaðar beggja megin við skurðinn.  Þá var flakið opnað og tveim tréteinum stungið undir roðið, beggja megin aftan frá.  Annars var riklingurinn líka saltaður, einkum af feitum lúðum.  Var hann þá saltaður í pækil, sterkan saltlög, því annars vildi hann þrána.  Saltað var í rafabeltin og þau látin liggja í salti í tvo daga og síðan hengd upp til þurrks.  Þetta var talinn hátðiðarmatur er þau höfðu hlotið verkun, enda þótt komið væri fram á næsta vetur“  (KJK; Kollsvíkurver).  Sjá nánar um vaðhorn.

Riklingslúða (n, kvk)  Lúða sem vegur milli 7 og 10 kg.  (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: Guðbj.Guðbjartsson).

Rikti (n, hk)  Orðrómur; slúður.  „Það segir það riktið að þau ætli að skilja“.

Riktið segir (orðtak)  Altalað/sagt er; slúðursögur segja.  „Riktið segir að hann eigi bara ekkett í krakkanum, en berðu mig samt ekki fyrir því“.

Riktugheit (n, hk, fto)  Réttlæti; það sem rétt er.  „Hann skilaði þessu með mestu riktugheitum“.

Riktuglega (ao)  Réttilega; með rétti.  „Hann hélt því riktuglega fram að þetta væri ekkert að marka“.

Rill (n, hk)  Ról; það að róa fram og til baka.  „Vertu nú ekki að þessu rilli á stólnum strákur“! Hart ell.

Rilla (s)  Róa sér í sætinu; skjökta/jagast í; hreyfa fram og til baka.  „Það er ekkert hægt að rilla þessu neitt“.

Rimbaldast (s)  Róa/velta á; vega salt..  „Það þyrfti að binda bátinn betur framar í kerruna svo hann sé ekki að rimbaldast svona mikið“.

Rim (n, kvk)  A.  Spelur í grindverki/hjóli/sleða; þrep í stiga.  „Gættu að þér á næstefstu riminni í stiganum; hún er varasöm“.  B.  Brún; kantur.  „Bollinn er fleytifullur; súptu varlega af riminni“.  C.  Efsta borð í byrðing báts; rimaborð.  Innan á rimaborðið er fest borðstokknum.

Rimaborð (n, hk)  Rim; efsta borðið í byrðing báts.  Á rimaborð festist borðstökkur/hástokkur.

Rimafullur (l)  Um ílát; fullt upp að brún; fleytifullt.  „Það þýðir ekki að hella glasið svona rimafullt“!

Rimahjól (n, hk)  Hjól með spelum/rimum frá miðju út að gjörð/kanti.

Rimi (n, kk)  Gróið barð/ás í landslagi.  „Rimi er t.d. nafn á löngu barði í Grundatúni“.  „Svo er svæði sem nefnt er Deildar og þar innar er stykki nefnt Vikuverk...  Þetta eru rimar og dældir á milli“  (ÓS; Örnefnaskrá Lambavatns).

Rimill (n, kk)  Rimi; spelur.  „Rimlarnir í grindinni eru alltof gisnir“.  Spelur var mun meira notað.

Rimma (n, kvk)  Viðureign; rifrildi; reilur; slagsmál.  „Þeir mega varla sjást án þess að taka rimmu“.

Rimpa (s)  Rippa; sauma á enfaldan/fljótlegan hátt.  „Leyfðu mér nú að rimpa í gatið á sokknum þínum“.

Rimpa (n, kvk)  Rytjuleg/horuð kind; rytja; gæksni.  „Furðulegt hvað þessi gamla rimpa getur gert væn lömb“.

Rindi (n, kk)  Grasgeiri í fjallshlíð; rimi.  „Klettariðin í brúninni eru fá, ná skammt niður og jafnvel smágerðari en gerist í kring, og grænum rindum bregður fyrir sumstaðar“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Rindill (n, kk)  A.  Stytting á músarrindill.  B.  Líkingamál; rýringur; væskilslegur/pasturslítill maður; hrútkægill; aumingi.  „Það þyrfti einhver að taka þennan rindil og flengja hann rækilega fyrir kjaftháttinn“!

Rindilshreiður (n, hk)  Hreiður músarrindils.  „Aðeins einusinni höfum við fundið rindilshreiður“  (EG; Fuglalíf í Kollsvík).

Rindilslegur (l)  Væskilslegur; horaður.  „Hrútkægillinn er ári rindilslegur miðað við gimbrina“.

Ringl (n, hk)  Rugl; áttavilla; slæm áttun.  „Það er ennhálfgert ringl á manni eftir höfuðhöggið“.

Ringlaður (l)  Ruglaður; áttavilltur; viðutan.  „Ég er nú orðinn hálf ringlaður í þessum ártölum“.

Ringulreið (n, kvk)  Óreiða; skipulagsleysi.  „Ég var búinn að laga hér til fyrir nokkrum dögum, en nú er þetta allt komið á ringulreið“!

Rippa (n, kvk)  Rytjuleg/léleg/horuð kind.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Rippa (s)  Sauma; oftast átt við að gera við flík með saumaskap.  „Það þarf að rippa þessa saumsprettu“.

Rippildi (n, hk)  Ræfill; aumingi; ræfilsleg ær eða lamb.  „Það þýðir ekkert að senda svona rippildi í sláturhús“.

Ris (n, hk)  A.  Uppgangur.  T.d. ris sólar.  B. Reisn.  „Það var ekki hátt á þeim risið eftir þennan fyrirlestur“.  C. Burst; hæsti staður í burstabyggðu húsi. 

Risavaxinn (l)  Mjög stór; ógnarstór.  „Við þurfum að laga þetta áður en úr því verður risavaxið vandamál“.

Risikó (n, hk)  Áhætta.  „Mér finnst þetta allnokkuð risikó hjá honum“.  Sletta úr „risk“.

Rislágur / Rislítill (l)  A.  Um hús; með lágu risi þaks; ekki með brattri burst.   B.  Líking um mann; lúpulegur; niðurlútur; skömmustulegur.  „Heldur voru þeir rislágir þegar þeir komu í land“.  Sjá lágt risið.

Rismál (n, hk, fto)  Ein hinna fornu eykta sólarhringsins; miðmorgunn; miður morgunn; kl 6 að morgni. 

Rismikill (l)  A.  Um hús; með bratta burst/ bratt og hátt ris.  B.  Líking um mann; áberandi; stæðilegur; stór.  „Einar Benediktsson er yfirleitt talið meðal rismeiri skálda“.

Risna (n, kvk)  Gestrisni; veitingar.  „Risna var hvarvetna talin skylda (í Rauðasandshreppi) og flestum ljúf, enda fáir verr rómaðir en nirflar....“  (Ghag; Sonur Bjargs og Báru).  Þessi þjóðlega skilgreining var nokkuð notuð á svæðinu áður en stórfyrirtæki og ríkisskattstjóri tóku orðið traustataki og breyttu merkingunni.

Risnuheimili (n, hk)  Heimili þar sem vel er veitt gestum; gestrisið heimili.  „Þar var alþekkt risnuheimili“.

Rispa (n, kvk)  A.  Grunnt/lítið sár.  „Fékkstu rispu á gaddavírnum“?.  B.  Grunnt far í jarðveg/yfirborð.  „Best er að sá fræjunum í dálitlar rispur“.  C.  Vinnulota; skurk.  „Við klárum að draga þessa strengi í einni rispu“.

Rispa (s)  A.  Búa til far/rispu/skoru/skurð.  „Hann var dálítið rispaður á höfði eftir byltuna“.  B.  Gæluorð um það að skrifa; pára.

Riss (n, hk)  Óvönduð teikning/skrift; skissa.  „Ekki var önnur teikning gerð af húsinu en riss á umbúðapappír“.

Rissa (s)  Teikna óvandað; hripa niður; skissa.  „Hann rissaði sína hugmynd niður á blað“.

Rissa (n, kvk)  Fugltegundin rita var svo nefnd vestra áður; russa.  „Var það þá að Bjarni vildi fara að rissungaveiði (rituungaveiði) og veiddi nokkra“  Frásögn DE (MG;  Látrabjarg).

Rissmát (n, hk)  Verkfæri með kvarða og nál á stykki sem rennt er eftir honum.  Tekin er viss lengd í kvarðann og honum rennt með brún efnis, þannig að nálin rissi far innar á brúninni og samhliða henni. 

Rissungi (n, kk)  Rituungi; ungfugl ritu .  „Við skutum nokkra máva og einn rissunga“.  Líklega hefur í orðinu verið tvöfalt u, en það heyrðist ekki í framburði.  Notað frameftir 20.öldinni.

Rist (n, kvk)  A.  Ofaná fæti, gagnstætt il.  „Um leið og ég stakk kvíslinni af miklu afli niður í heyið geigaði lagið, svo álman stakkst á kaf í ristina á mér“.  B.  Grind.  „Rist var lögð ofan á olíufötuna eftir að kveikt hafði verið í, og við eldinn voru sviðin sviðin“.

Rista (s)  A.  Skera.  B.  Um skip; ná niður í sjó. 

Rista djúpt (orðtak)  A.  Um skip; ná djúpt niður í sjó, undir sjólínu.  B.  Um manneskju; stíga ekki í vitið; hugsa ekki málin til enda.  C.  Um reiði/móðgun; vera ekki djúpstæð.

Rista framúr (orðtak)  Um slátrun fjár/gripa:  A.  Rista uppúr á framanverðum hálsi eftir að hausað hefur verið, og skrokkurinn liggur á baki.  Hníf er rennt með barkanum ofanverðum inn í brjóstholið og rist uppámilli hálsæðanna.  Síðan eru barki og vælinda rifin upp; skorið á milli, þannig að barkakýli fylgi vælindanu, og hnýttur einfaldur hnútur á vælindað svo ekki renni út gor.  B.  Skera/saga binguna í sundur; frá opnu brjóstholi og framí háls.    

Rista fyrir (orðtak)  A.  Sláturvinna, oftast samhliða hæklun; skera skurði á vissan hátt í húð/gæru sláturfjár/stórgripa/sela eftir slátrun, áður en farið er að flá.  B.  Um torfskurð; gera skurðsár í jarðveginn áður en rist er ofanaf.

Rista grunnt/ ekki djúpt (orðtak)  Um reiði/þekkingu o.fl; ekki verulegt.  „Hann móðgast stundum af litlu tilefni, en það ristir vanalega frekar grunnt“.  „Mín þekking á þessu sviði ristir ekki tiltakanlega djúpt“.

Rista ofanaf (orðtak)  Rista gróðurþöku ofanaf jörð, oftast til að nota hana til að tyrfa hús, hey eða annað.

Rista torf (orðtak)  Skera torfur af jarðvegi, t.d. til að þekja hús.

Rista uppúr (orðtak)  Um aftekt kindar, skera reyfi eftir miðju baki þegar tekið er af eða áður en byrjað er að taka af.  Einkum var rist uppúr þegar um var að ræða lélega ull eða þegar kindum var illa fyllt svo erfitt var að taka af þeim.  Reynt var að halda góðri ull í heilum reyfum, því þannig var hún verðmeiri.

Ristarband / Ristarþvengur (n, hk/kk)  Þvengur á rist á skinnskó til að herða hann að fætinum (sjá gæra).

Ristill (n, kk)  A.  Neðsti hluti meltingarvegar; neðan botnlanga.  Ristill úr sauðfé var nýttur áðurfyrr og framá síðari hluta 20 aldar.  Þegar tekið var innanúr var hann settur til hliðar og storknaði í fitunni í einskkonar hlemm.  Síðan var ristillinn rakinn varlega úr; kallað að rekja ristil, og þess gætt að hann slitnaði ekki, til að ekki kæmi saur í mörinn.  Garnmörinn var síðan nýttur, t.d. í lundabagga eða bjúgu.  Fyrrum var ristillinn sjálfur einnig skafinn vandlega upp og nýttur í lundabagga.  B.  Útbrot á húð; Herpes zoster.  Stafar af hlaupabólu-ristilveiru; þ.e. endurvakningu á hlaupabólu sem maður hefur áður fengið.  Ristill er smitandi og getur valdið hlaupabólu í næmum einstaklingum.

Ristir ekki djúpt (orðtak)  Um ýmislegt; t.d. vit manns eða ágreining manna; er ekki djúpstætt.  Líkingamál við djúpristu báts/skips.

Ristuspaði (n, kk)  Þökuskeri; spaði sem hentar vel til að rista torf; vanalega með litlu ferköntuðu blaði þar sem eitt horn snýr fram; með löngu skafti; rennt undir/gegnum grasrótina til að losa torfið.

Rita (n, kvk)  Skegla; rissa; Rissa tridactyla.  Smávaxin máfategund; 39-46cm með 1m vænghaf; með svarta vængbrodda, gulan gogg og svarta fætur.  Heldur mikið til úti á sjó; steypir sér eftir æti eins og kría.  Félagslyndur fugl og verpur í stórum byggðum.  Býr sér til hreiðurlaup úr sinu og öðrum jurtaleifum.  Eggin eru oftast tvö; ljósleit með brúnum flekkjum.  Þau eru góð til átu, en síður tekin en svartfuglsegg þar sem skurnin er viðkvæmari og erfiðara að komast að þeim.  Mikið verpur af ritu í Látrabjargi, t.d. í Ritugjá.  Má oft sjá flokka af henni baða sig í Látravatni.  Ritan er farfugl og er stofnstærð hennar hérlendis talin vera um 630 þúsund fuglar.

Ritblý (n, hk)  Fyrrum heiti á blýanti; í seinni tíð gæluorð yfir blýant.

Ritdeila (n, kvk)  Rökræður/deilur manna sem rita sína greinina hver/hvor á víxl i dagblað eða tímarit.

Ritfinnur (n, kk)  Sá sem er duglegur að skrifa; sá sem er ritfær.

Ritfrelsi (n, hk)  Frelsi til að skrifa það sem meður vill. 

Ritfær (l)  Pennafær; fær í að tjá sig með skriftum/ í rituðu máli.  „Hann er afskaplega vel ritfær“.

Ritföng (n, hk, fto)  Þau áhöld og pappír sem þarf til að geta skrifað.

Ritgerð (n, kvk)  Samantekt; skýrsla; greinargerð; stutt rit höfundar um tiltekið efni.

Ritháttur (n, kk)  Aðferð til ritunar. 

Rithönd (n, kvk)  Lag við skriftir; áferð skriftar.  „Össur á Láganúpi skrifaði sérlega fallega rithönd og var því eftirsóttur t.d. til ritunar fundagerða.  Guðbjartur sonur hans hefur erft þennan hæfileika“.

Ritleikni (n, kvk)  Færni í skriftum; geta til að skrifa rétta og fallega skrift; komast vel að orði og hafa gott málfar á valdi sínu.

Ritlingur (n, kk)  Lítið rit; bókarkorn.  „Í tengslum við sýningu hugvitsmanna í Þjórsárveri tók ég saman lítinn ritling: „Hugvit og hagleikur“, sem enn er víða til“.

Ritlist (n, kvk)  Geta/færni til að skrifa; ritun góðs máls/ góðra rita.  „Ritlist hefur verið í hávegum höfð í Kollsvík, svo lengi sem heimildir greina“.

Ritmál (n, hk)  Málfar sem notað er þegar ritað/skrifað er.  Ritmál er oft nokkuð frábrugðið töluðu máli í því að það er settlegra/smásmugulegra og tíðum er notað íhaldssamara/eldra orðalag en í talmáli.  Helgast það eflaust af því að ritmál þarf að standast nánari skoðun og tímans tönn í meira mæli en það sem sagt er.

Ritning (n, kvk)  Merkir í raun hvaðeina sem ritað er, en hefur einvörðungu verið notað um biblíu kristinna manna, svo langt sem heimildir greina.  Gjarnan í samhenginu; „heilög ritning“.

Ritsími (n, kk)  Tæki til sendingar og móttöku á merkjum/morsmerkjum sem var undanfari talsímans.  Ritsíminn er talinn fundinn upp af bretanum Samuel Morse 1837, en aðstoðarmaður hans, Alfred Vail, þróaði Morse-stafrófið sem enn er notað sem táknmál.  Merkin eru send með því að ýta stutt eða lengur á sendilykil og fara sem rafboð um málmþráð um mismikla vegalengd en koma fram í móttökutæki sem hljóðmerki eða punktar og strik á pappír.  Lokið var lagningu sæstrengs ritsíma milli Færeya og Seyðisfjarðar árið 1906, og var það fyrsta fjarskiptasamband Íslans við önnur lönd.

Ritskoðun (n, kvk)  Endurskoðun ritaðs máls áður en það er fjölfaldað og gefið út.  Orðið er almennt notað í neikværi merkingu um það þegar yfirvald vill ráða því sem birtist á prenti og breytir því í þá átt að fegra sinn hlut og auka sitt fylgi.

Ritsmíð (n, kvk)  Ritverk; skáldverk; skrif.  „Ekki er ég allskostar sammála þessari ritsmíð“.

Ritsnilld (n, kvk)  Færni í ritun/frásögn/skáldskap, t.d. á þann hátt að lesandinn fær mjög góðan skilning á því sem við er átt eða/og hrífst inn í frásögnina.

Ritstuldur (n, kk)  Notkun efnis sem annar hefur ritað án hans leyfis.  Oftast þarf þá kaflinn sem þannig er stolinn að vera nægilega langur til að greinilega sjáist einkenni/orðalag höfundarins.  Ritstuldur þykir slæmur blettur á hverjum höfundi.

Ritun (n, kvk)  Skriftir; það að skrifa. 

Ritupláss (n, hk)  Varpsvæði ritu; ritubyggð; rituvarp.  „Í Hreggshöfða mátti fyrrum fá eitthvað af fugli, en síðar varð þar aðallega ritupláss og fýlunga“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Ritúal (n, hk)  Kredda; regla; forskrift.  „Farið var eftir ritúalinu þegar vélin var gangsett, enda tókst það strax“.

Ritvél (n, kvk)  Tæki til að vélrita texta á blað með því að slá/stimpla mótuðum stöfum á það með blekborða á milli.  Ritvélin kom fram um 1870 og varð almenningseign á Íslandi eftir miðja 20.öld.  Var varla til sá skrifandi einstaklingur sem ekki átti ferðaritvél þegar fyrstu einkatölvur komu til uppúr 1970-1980.  Eftir það tóku tölvur og tölvuprentarar fljótlega við hlutverki ritvéla.

Ritvilla (n, kvk)  Rangt skrifað orð; oftast vegna þess að stafur gleymist eða stafavíxl verður, en stundum einnig vegna ónógrar kunnáttu höfundar í réttritun.  Eflaust má finna margar ritvillur í þessu skrifelsi.

Ríða (s)  A.  Sitja/ferðast á hesti.  B.  Hafa samfarir.  C.  Riða/hnýta net.  D.  Rjóða; bera á.

Ríða að fullu (orðtak)  Vera ofraun; reynast ofviða; ganga frá; drepa.

Ríða af (orðtak)  Um byssuskot; hlaupa úr byssu.  „Við hnipruðum okkur niur í Byrgið þangað til skotið reið af; þá hlupum við og sóttum fuglinn ef komið hafði á“.

Ríða af sér (orðtak)  Ríða hraðar en samfylgdarmenn, svo þeir dragast afturúr.  Sjá ganga af sér.

Ríða á (orðtak)  Liggja á; vera áríðandi/mikilvægt.  „Nú ríður á að þetta takist í fyrstu tilraun“.  „Mér ríður á að fá þessa pappíra sem allra fyrst“.

Ríða á slig (orðtak)  A.  Leggja svo mikið á hest að hann fái ekki borið, eða ríða hesti svo illa að hann gefist upp.  B.  Líkingamál um að níðast á manni/málefni; leggja óhóflegar álögur á mann. 

Ríða (fyrstur) á vaðið (orðtak)  Byrja á; eiga frumkvæði að.  „Ætlar enginn að leggja fyrstur í terturnar‘  Ætli sé þá ekki best að ég ríði á vaðið“.

Ríða baggamun (orðtak)  Mismunur sem skiptir sköpum.  „Þetta eina atkvæði reið baggamuninn, svo hann náði kjöri“.  Dregið af því þegar hey var reitt í böggum á hestum.  Ef baggar voru misþungir svo hallaðist á, þá var léttur krakki látinn ríða öðrumegin hryggjar, til að jafnar sæti á.  Hann reið baggamuninn.

Ríða berbakt (orðtak)  Ríða hesti án þess að hafa hnakk, söðul eða annað reiðver undir sér. 

Ríða feitum hesti frá (einhverju) (orðtak)  Líkingamál; hagnast á einhverju; njóta góðs af einhverju.  „Ég held að ríkisstjórnin ríði ekki feitum hesti frá þessu máli“.

Ríða húsum / Ríða röftum (orðtak)  Djöflast uppi á húsum; berja hús utan; berja harkalega að dyrum.  „Hver skyldi vera að ríða húsum svona seint að kveldi“.  Þjóðtrúin segir að draugar sæki í það af hrekkjum sínum að sitja á húsþökum og láta ófriðlega, svo brakar í hverju tré.  Sjá það kostar klof að ríða röftum.

Ríða í garð (orðtak)  Koma ríðandi heim að bæ.  B.  Líkingamál; ganga í garð; byrja.              

Ríða í loftinu/loftköstum (orðtak)  Ríða svo hratt á hesti að svo sýnist sem fljúgi.  Síðar yfirfært á bíla; aka í loftinu.

Ríða niður/ofan (orðtök)  A.  Hrynja; falla niður; falla saman.  „Það hrikti í húsinu í versti hviðunum, eins og það ætlaði að ríða ofan“.  B.  Ríða á/yfir einhvern á hesti með þeim afleiðingum að hann fellur.

Ríða til páfans (orðtak)  Leikur sem stundaður var m.a. af vermönnum í landlegum. „ Tveir hraustir menn bera á öxlum milli sín sívalan ás, t.d. sterka ár eða siglutré.  Á ásnum situr maður klofvega, en hann leikur ferðamann.  Annar maður kemur aðvífandi með pokaskjatta og e.t.v. einnig bréf í hendi.  Hann vill koma sendingu til páfans með ferðamanni, sem neitar því.  Þá leitast hinn eftir því að slá hann af ránni.  Nái ferðamaður að sitja þessar árásir af sér á slánni hefur hann náð fundi páfa.  En stundum hékk hann eftir neðan í ránni, sem þótti lúpulegur fundur við páfa.  Ekki mátti slá á hendur hans“  (PJ; Vermannaleikir).  Sjá vermannaleikir.

Ríða undir/yfir (orðtök)  Dynja/skella undir/yfir.  „Bátnum var snúið leiftursnöggt, en hann var samt ekki orðinn fyllilega réttur er stór sjór reið undir“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Ríða uppi (orðtak)  Ríða á eftir öðrum og hraðar en þeir, þar til þeim er náð.

Ríður á (orðtak)  A.  Er áríðandi/mikilvægt.  „Nú ríður á að ná fénu fljótt inn í réttina, meðan það er enn á rennsli“.  B.  Veltur/rúllar/vaggar um eitthvað.  „Það er einhver óslétta á gólfinu sem kassinn ríður á“.

Ríður ekki við einteyming (orðtak)  Um það þegar óheppni/ógæfa virðist elta mann.  „Ólánið reið ekki við einteyming; þegar komið komið var hálfa leið í land án þess að fá bein úr sjó varð vélin bensínlaus“.  Einteymingur er það þegar beisli liggur einungis öðrumegin útúr hesti, og veitir takmarkaða stjórn.  Ólán sem ekki ríður við einteyming er því líklegra til að elta menn uppi.

Rífa af sér (orðtak)  Létta til; glaðna til.   „Ég held að hann ætli nú eitthvað að fara að rífa af sér; það er stytt upp.

Rífa í (orðtak)  A.  Taka harkalega/snöggt í.  „Ég reif í stýrið og náði að sveigja frá hleininni“.  B.  Um fæðu; hafa mjög sterkt bragð.  „Farðu varlega í flöskuna góði; þetta rífur hressilega í“!

Rífa kjaft/stólpakjaft/rótarkjaft (orðtök)    Brúka munn; rífast; svara uppi.  „Vert þú ekkert að rífa kjaft“.

Rífa lönguhausa (orðtak)  Geispa mikið og langdregið.  „Ég held ég fari bara að draga mig til kojs; ég er búinn að vera að rífa lönguhausa í allt kvöld“.  Líking við það að rífa í sundur hertan lönguhaus, en það er gert í löngum togum sem geisparnir minna á.

Rífa ræfil úr svelli (orðtak)  Vinsæll leikur fyrrum, m.a. bæði hjá börnum og vermönnum.  Leikmaður leggst endilangur á jörðina og leggur einhvern hlut þar sem hann hefur höfuðið. Rís síðan upp í sömu sporum og áður. Síðan setur hann vinstri hendi aftur fyrir bak en mjakar sér áfram á hægri hendi þar til hann nær hlutnum með munninum og stendur síðan upp með hann aftur. Ekki má koma við jörðu nema með fótum og hægri hendi og ekki stíga úr sporunum. Ef það mistekst er ræfillinn enn fastur í svellinu.  Sjá vermannaleikir.

Rífa sér ból (orðtak)  Biðjast gistingar; gista; búa um sig.  „Mætti ég kannski rífa mér ból hér yfir nóttina“?

Rífa sig (ofan í rass /rassgat) (orðtök)  Hella sér yfir; skammast óbótaskömmum.  „Það þýðir ekkert að rífa sig ofan í rassgat við strákakvikindin þó þeim hafi orðið á í messunni“.  „Vertu bara ekkert að rífa þig“!

Rífa sig upp / Rífa sig á fætur/lappir (orðtak) A. Fara eldsnemma á fætur; vakna fyrir allar aldir.  „Ætli við þurfum ekki að rífa okkur upp í fyrramálið til að ná fyrri flæðinni“.  Einnig stundum aukið í og talað um að „rífa einhvern upp á rassgatinu“.  B.  Hressa sig við; verða hressari.  „Maður þarf að fara að rífa sig upp úr þessari pest“.  C.  Um veður; hvessa; versna.  „Nú er hann eitthvað að rífa sig upp með vestanátt, sýnist mér“.

Rífa upp (orðtak)  A.  Auka sjó; versna sjólag.  „Hann er að rífa upp sveran norðansjó“.  B.  Taka upp saltfisk sem legið hefur um tíma í salti. 

Rífa til (orðtak)  Tvenn merking.  A.  Rusla út; fikta (oftast um börn).  B.  Létta í lofti.  „Eitthvað gæti hann nú verið að rífa til í norðurloftið“.

Rífa upp báru (orðtak)  Um versnandi sjólag; auka báru; auka sjó.  „Mér sýnist að hann sé að rífa upp einhverja norðanbáru“.

Rífa upp klittið (orðtak)  Losa klitti á gæru frá skrokknum þegar búið er að hækla og rista fyrir.  „Þú mátt ekki gleyma að rífa upp klittið“!

Rífa upp reit/fiskreit (orðtak)  Lyfta steinum í fiskreit uppúr sandi áður en vertíð hefst.  „Þá þurfti að rífa upp alla fiskreiti, en þeir fylltust af sandi á hverjum vetri“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Rífa upp steinbít (orðtak)  Skera steinbít að endilöngu fyrir herslu.  „Steinbíturinn var fluttur kúlaður á garða eða í hjalla.  Þar var hann rifinn upp.  Það gerðu þeir sem báru hann þangað, með því að taka í sína kerlinguna hvor og halda steinbítnum á lofti milli sín og láta fiskinn snúa að sér.  Annar hafði hníf í hendi; spretti á roðinu við hnakkann og skar fimlega með oddinum niður eftir hryggnum út í roð og aftur að marki.  Síðan var fiskurinn rifinn meðfram bakugganum og var þar með kominn í tvo helminga sem héngu saman á markinu/dyllunni/dyndlunni.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh). 

Rífa upp sjó (orðtak)  Auka ókyrrð í sjólagi.  „Hann hefur verið að rífa upp vestansjó með morgninum“.

Rífa úr lofti (orðtak)  Ský hverfa af himni með breyttri vindátt.  „Ef skýjað var, og reif skyndilega úr suðurlofti svo heiðbirti í hásuðri í stutta stund, var norðan hvassviðri í aðsigi“  (ÓETh o.fl.  LK; Íslsjávarhættir III).

Rífa úr roði (orðtak)  Rífa roð af fiski; nýjum, signum eða hertum.  Oftast notað um roðflettingu harðfisks.

Rífa þorskhaus (orðtak)  Vinna hertan þorskhaus til matar.  Meðan þorskhausar voru almennt nýttir til matar voru notaðar sérstakar aðferðir til að rífa þorskhausinn til að nýta hann sem best.  Aragrúi nafna var á hinum ýmsu beinum, himnum, fiskvöðvum og öðru (sjá þorskhaus).

Rífandi þurrkur (orðtak)  Mjög góður þurrkur með sólskini og blæstri.  „Það er bara rífandi þurrkur í dag“.

Ríflega (ao)  Rúmlega; rösklega; umfram.  „Settu ríflega af salti yfir fiskstæðuna“.

Ríflegur (l)  Rösklegur; rúmlegur; yfirdrifinn; umfram.  „Oddviti drap á það hvort fundurinn vildi ekki samþykkja áskorun til sýslunefndar að veitt yrði það ríflegt framlag til Víknavegar að hægt væri að gera fært fyrir vörubíla milli Gjögra og Hænuvíkur“  (Gerðabók Rauðas.hr; alm.hreppsfundur 22.03.1961; ritari ÖG). 

Rífur í (orðtak)  Er bragðsterkt/beiskt/rammt.  „Farðu varlega í brennivínið hjá karlinum; það rífur í“!

Rígaþorskur (n, kk)  Mjög stór þorskur; golþorskur.  „Réttu mér gogginn; hér kemur rígaþorskur“.

Rígbinda / Rígfesta (s)  Binda/tjóðra mjög vel; súrra.  „Það er vissara að rígbinda þetta, svo ekki fjúki“.

Rígbundinn / Rígfastur / Ríghertur (l)  Súrraður; mjög fast/vel/þétt bundinn/festur.  „Við erum nú ekki rígbundnir af því að klára þetta verk í dag“.

Rígfastur (l)  Pikkfastur; alveg fastur.  „Boltinn sat rígfastur í gatinu“.

Rígfullorðinn (l)  Mjög gamall/aldraður.  „Hann hlýtur að vera orðinn rígfullorðinn, sé hann enn á lífi“.

Ríghalda (s)  Halda mjög fast/þétt.  „Hann ríghélt sér í vaðinn meðan við slökuðum honum framaf“.

Rígmontinn (l)  Mjög hreykinn/montinn.  „Þú mátt alveg vera rígmontinn af þessum hrút; hann stendur fyrir sínu“!

Rígnegla (s)  Negla mjög vel/þétt. 

Rígnegldur (l)  Mjög vel/þétt negldur.  „Hurðin var svo rígnegld aftur að ég ætlaði aldrei að geta opnað“!

Rígsalta (s)  Salta mjög mikið; kakksalta.  „Það má ekki rígsalta bútunginn svona; hann verður bra glerharður“!

Rígsaltaður (l)  Mjög mikið saltaður.  „Grauturinn má hvorki vera saltlaus né rígsaltaður“.

Rígskorða (s)  Skorða mjög vel; stilla vel undir. 

Rígskorðaður (l)  Skorðaður mjög vel.  „Báturinn var dreginn hátt í fjöru og rígskorðaður þar“.

Rígsöltun (n, kvk)  Mikil söltun.  „Ketið þolir ekki neina rígsöltun“.

Rígur (n, kk)  A.  Ósamkomulag; deilur; spenna.  „Þarna hefur lengi verið rígur á milli bæja“.  B.  Stirðleiki; vöðvabólga.  „Ég er kominn með hálfgerðan ríg í hálsinn“.

Rígvænt (l)  Um sauðfé; vel vænt; mjög vel fram gengið; í góðum holdum.

Ríkari hlýtur að ráða (orðatiltæki)  Gegnsæ speki sem vísar til valds höfðingja og ríkidæmis.  Hefur eflaust verið meira notað á tímum höfðingjavalds og kúgunar.

Ríkisbubbi (n, kk)  Niðrandi heiti á þeim sem þykir ríkur/ vel efnaður.

Ríkisdalur / Dalur (n, kk)  Gjaldmiðill í Danaveldi og í Skandinavíu áðurfyrr, eða til 1875 þegar króna var upp tekin.  Nefndist ríkisbankadalur eftir hrunið mikla í byrjun 19. aldar.  Ríkisdalurinn danski jafngilti 96 skildingum í lok síns notkunartíma.  Tvennskonar ríkisdalir voru í umferð: Kúrantdalur var pappírsmynt en spesía var mæld í slilfri; jafngilti 27 gr af því.  Til viðmiðunar um verðgildi voru árslaun héraðslækna á bilinu 600 til 1500 ríkisdalir.   

Ríkisort / Ríksort / Ort (n, hk)  Mynteining fyrrum í ríkjum Danakóngs, og gilti þá einnig á Íslandi.  Venjulega ¼ úr ríkisdal, eða 24 skildingar.  5 ríkisort voru í spesíu.

Ríkisráð (n, hk)  Æðsta valdastofnun í Noregi og Danmörku fyrr á öldum, ásamt konungi.  Ríkisráð í Noregi var arftaki hirðar konungs; fyrst nefnt 1302.  Ríkisráðsfyrirkomulagið fluttist til Danmerkur með Kalmarsambandinu 1397.  Á árunum 1534-1536 var konunmgslaust, og fór þá ríkisráð með hans völd.  Á þeim árum sátu í ríkisráði Íslendingarnir og biskuparnir Jón Arason og Ögmundur Pálsson.  Með heimastjórn og stjórnarskrá Íslendinga árið 1874 fengu þeir ráðherra í ríkisráði sem nefndist Íslandsráðherra.  Ísland fékk svo sitt eigið ríkisráð með sambandslögunum 1918, en í því áttu sæti konungur, ríkisarfi og ráðherra í ráðuneyti Íslands.  Kosinn var ríkisstjóri Íslands 1941, og 1944 var lýðveldi formlega stofnað á Íslandi.  Ríkisráð Íslands, sem er samráðsfundur forseta með ríkisstjórn, var starfsamt fyrstu árin.  Það er enn til samkvæmt stjórnarskrá, en fundir þess eru afar sjaldgæfir í seinni tíð, og nánast formlegheitin ein.

Ríkja (s)  A.  Um konung/höfðingja; ráða fyrir ríki; stjórna ríki; ráða ríkjum.  B.  Almennt; vera við líði; tíðkast; vera viðvarandi.  „Um þetta mál hefur ríkt helsttil mikil þögn“.

Ríkmannlega / Ríkulega (ao)  Af góðum efnum; höfðinglega; rausnarlega.  „Hann launaði okkur þetta ríkmannlega“.  „Þarna var ríkulega veitt“.

Ríkmannlegur / Ríkulegur (l)  Líkur því að ríkur/efnaður sé; rausnarlegur; höfðinglegur.  „Ekki er nú þetta ríkmannlegur búskapur þykir mér“!  „Þetta bar ríkulegan ávöxt“.

Ríkulega (ao)  Af rausn/gjafmildi/ríkidæmi.  „Í Látrabjargi var afar gott haglendi, þar sem það á annað borð var grasi gróið; enda var það ríkulega áborið af fugladriti“  (PG; Veðmálið). 

Ríkur (l)  A.  Efnaður; vel stæður.  B.  Með mikið af því sem tiltekið er. „Ég óska ykkur gæfuríks árs“.  Ríkur og ríki er dregið af orðstofninum rex sem merkir konungur. 

Ríll (n, kk)  A.  Geldfé.  B.  Óþjóðalýður.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Rílótt (l)  Litur á sauðfé.  Hvítt með smáum dökkum blettum um skrokkinn.  Væri meira, var það flekkótt, en fíngeraðara/minna var það spræklótt.

Rím (n, hk)  A.  Hljóðlíking orða sem notuð er til að auka hrynjandi og takt í kveðskap.  Af því er dregið nafnið ríma, sem er ein tegund kveðskapar.  B.  Tímatalskerfi.  Einkum var orðið notað yfir fyrri tímatalsreglur og aðferðir til að átta sig á þeim.  Til þess var m.a. notað fingrarím.  Orðtakið að „ruglast í ríminu“ vísar til þess að menn rugluðust í tímatalinu, sem líklega hefur oft borið við fyrir tíð dagatala og klukkna.

Ríma (n, kvk)  Tegund kveðskapar.  Rímnaháttur hefur tíðkast á Íslandi frá miðöldum og fram á þennan dag, þó Jónasi Hallgrímssyni hafi nokkuð tekist að „kveða þær í kútinn“ á sínum tíma.  Rímur eru ortar undir sérstökum bragarháttum sem nefnast rímnahættir.  Oftast eru þetta söguljóð, og eru nokkur kvæði í hverri rímu; þær lengstu mikilir rímnabálkar/rímnaflokkar.  Oft er breytt um bragarhátt innan rímnabálksins.  Oft byrjar ríma á mansöng, þar sem skáldið afsakar vanmátt sinn gagnvart því sem mæra skal og höfðar gjarnan til kvenna.  Oft er síðasta vísan kveðin dýrar en hinar fyrri, t.d. með innrími.  Gróflega má skipta rímnaháttum í þrjá flokka; ferskeytlu, braghendu (þrjár línur) og afhendingu (tvær línur).  Menn lögðu gjarnan á sig að læra fjöldann allan af vísum, þar á meðal rímur, og var með ólíkindum hvað sumir voru minnugir á slíkt.  Af þekktum rímum má nefna Númarímur Sigurðar Breiðfjörð og Andrarímur.  Síðasti íbúi Rauðasandshrepps sem vel var kveðandi var Ásgeir Erlendsson á Hvallátrum (1909-1995).  Hann kunni ógrynni ljóða og rímna og kvað rímur undir þeim háttum sem áður tíðkuðust.  Af rímum um íbúa Rauðasandshrepps má nefna Rósarímur, sem er rímnaflokkur sem Jón Rafnsson (1899-1980) orti um Rósinkrans Ívarsson í Kirkjuhvammi; gamansamur ýkjukveðskapur.  „Sleppi ég ei lífs til lands/ læt ég on´á fljóta/ rímnastúf um Rósinkrans./  Rúnastínatóta“  (JR; Rósarímur).
„Að kveða rímur var algeng verbúðaskemmtun.  Ekki lét öllum að kveða en í fjölmennum verstöðvum voru jafnan góðir kvæðamenn og margir í sumum.  Sjálfsagt þótti að launa kvæðamanni.  Var honum þá oft fært kaffi og væn kaka með smjöri og kæfu.  Á Brunnum og í Víkum þótti það ekki verið hafa kvæðavertíð ef eigi voru kveðnar rímur eftir Sigurð Breiðfjörð og Úlfarsrímur. Svo alræmdur var rímnakveðskapurinn í verum að í Húsagatilskipuninni frá 1746 er m.a. bannað  „að fara með svonefndar sögur og rímur er ekki sómi kristni og heilagur andi hryggist við“.  Yrði einhver að slíku uppvís átti að setja hann í gapastokk ef hann hefði ekki bætt ráð sitt eftir að hafa verið í eitt skipti aðvaraður.  Ekki verður séð að þetta bann hafi breytt sögu- eða rímnavali í verstöðvunum; enda mun fremur hafa veri talið óljóst hvað ekki sómdi kristnum og þá eigi síður hvað gat hryggt heilagan anda!  (heimild; LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Ríma (s) Vera í líkingu/takti/samfellu.  Líklega almennt notað þannig áður, t.d. um tímatal (sjá rím).  Nú oftast notað um kveðskap; annað hvort að búa til rímaða vísu eða að láta vísuorð ríma.  Mikilvægur þáttur hefðbundinnar vísnagerðar er að láta endaorð ríma; þ.e. hafa líka sérhljóða í áhersluatkvæði  Í ferskeytlu ríma t.d. endaorð 1. og 3. línu og 2. og 4..  Stundum þó öll endaorðin.  Sé innrím í vísunni rímar ein kveðan í öllum línum.  Með rími er þó ekki einungis átt við hljóðgerð atkvæða heldur einnig hrynjandi ljóðsins og áferð.  Bragarhættir eru margir og einnig reglur um rím þeirra.  „Líður gríma,ljósri brá/ lyftir skímuvaldur./  Sæluvíma þokar þá,/ þráðinn rímu finna má“  (JR; Rósarímur).  

Rímað (l)  Um ljóð/vísu; með rími.  Ljóð í dag eru ýmist rímuð eða órímuð.

Rímfræði (n, kvk)  Þekking á tímatali, ásamt merkisdögum og stjörnufræði sem því tengist.  Sjá rím.

Rímnabálkur (n, kk)  Samstæða af rímum sama efnis.  „Hann þuldi heilu rímnabálkana án nokkurs hiks“.

Rímnadrusla (n, kvk)  Ríma sem kveðin er við sálmalag; gæluheiti á kvæði/rímu.  „Allar þær fornsögur sem nú eru prentaðar og boðnar eru til kaups finnast hér; og fleiri enn nú, og mörg kvæði forn og rímnadruslur“  (Séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal; sóknarlýsing 1840). 

Rímnalag (n, hk)  Laglína sem ríma er kveðin eftir. 

Rímspillir (n, kk)  Tímabil í gamla íslenska tímatalinu þar sem allir viðmiðunartímar tengdir misseratímatalinu verða degi seinna vegna þess að sumarauka er skotið inn degi síðar en venjulega; oftast á 28 ára fresti.  Þetta var gert til að samræma tímatalið náttúrulegum gangi himintungla og árstíða.  Rímspillir stendur frá sumaraukanum (miðsumri) og fram á hlaupársdag næsta árs.  Sjá einnig tímatal.

Rísa undir (orðtak)  A.  Geta lyft/ haldið á lofti.  B.  Mest notað í líkingamáli; vera fær um; standa undir.  „Maður reynir að rísa undir því trausti sem manni er sýnt“.

Rísa upp (orðtak)  A.  Reisa sig upp úr liggjandi stöðu.  B.  Lifna við úr dái/dauða.  „Dauðir munu upp rísa á hinum efsta degi“.  C.  Gera uppreisn.  „Landsmenn risu upp gegn þessari kúgun“.

Rísa upp á afturfæturna/skottleggina (orðtök)  Bregðast illa við; snúast öndverður við.  „Það er hætt við að kjósendur rísi upp á skottleggina ef þair samþykkja svona ólög“!

Rísa upp við dogg (orðtak)  Reisa sig upp á olnboga/ til hálfs úr liggjandi stellingu.  Doggur var heiti á litlum hákarli og vísar líkingin trúlega til þess þegar hann sveigði sig á botni báts, nýveiddur.

Rísa úfar (orðtak)  Verður ósætti/misklíð; eykst ófriður.  „Einhverjir úfar risu milli landeiganda vegna landamerkja á þessum stað“.  Sjá úfur.

Rísa úr rekkju (orðtak)  Fara á fætur.  „Ég reis árla úr rekkju og gáði til veðurs“.

Rísingrjónagrautur (n, kk)  Gæluheiti á grjónagraut.  „Þetta þykir mér skjólgóður rísingrjónagrautur“.

Rísl (n, hk)  Dund; rjál; grams; rask.  „Skelfing leiðist mér þetta rísl við pappír alla daga“!

Rísla í (orðtak)  Gramsa í; hreyfa við; raska.  „Var einhver að rísla í verkfærunum? Ég finn enga skrúfsíu“.

Rjá (s)  Fást við/um.  „Ekki tjóar víst um það að rjá þó maður fái pestarfjanda“.  „Víst vildi ég hafa betra veður í þetta verk, en það er víst við stóran að rjá um það“.  „Það er ekki um það að rjá; skóflan finnst hvergi“.

Rjáfur (n, hk)  Innanvert risþak.  „Hangiketið var hengt upp í rjáfur kofans“.

Rjál (n, hk)  Rísl; dund; gutl; lágvært suð.  „Ég held að þetta rjál hans skili ekki miklu“.

Rjála við (orðtak)  Fást við; fitla/gutla við; strjúkast stöðugt við.  „Hann er að rjála við byssuna“.

Rjátl (n, hk)  A.  Rölt; umgangur; stefnulaus gangur.  „Mér sýndist ég sæi hann á rjátli hér rétt áðan“.  B.  Rugl; rutl; heimskulegar/röklausar gerðir; manía.  „Ég held það hljóti að vera eitthvað rjátl á ykkur; það þýðir lítið að gá til eggja þegar fuglinn er varla byrjaður að verpa“!

Rjátla (s)  A.  Rölta; eigra; rangla:  Ég rjátlaði niður á bakka að gá til reka“.  B.  Verða alsgáður:  „Eitthvað mundi hann slitrótt frá samkomunni þegar rjátlaðist af honum daginn eftir“.  C.  Rjála við; rísla í:  „Og ég heyri þá að það er komið inn göngin og það er rjátlað við hurð á herbergi undir gólfinu“  (MG; Látrabjarg).

Rjátlast af (orðtak)  A.  Batna veiki/pest.  „Ég ætla nú að vona að flensufjandinn fari að rjátlast af mér“.  B.  Renna af; verða edrú; jafna sig; ná áttum.  „Hann mundi lítið eftir gærkvöldinu þegar rjátlaðist af honum“.

Rjátlast úr (orðtak)  Um pest; batna; lagast.  „Ég ætla að vona að þetta pestarslen fari að rjátlast úr mér“.

Rjóða (s)  Bera á; nudda á.  „Rjóðaðu dálitlu júgursmyrsli á eymslin; það mýkir“.

Rjóður (n, hk)  Autt svæði innanum tré eða aðrar hindranir.

Rjóður (l)  Rauðleitur í andliti.  „Við vorum rjóðir í kinnum í kuldanum“.

Rjól (n, hk)  Neftóbak í þéttum massa; stundum notað yfir munntóbak.  Algengt í notkun áðurfyrr, og þá selt í upprúlluðum lengjum sem slitið var af.  „„Það verður gott veður framan af deginum að minnsta kosti“ sagði Árni (Dagbjartsson) og snaraði sér fram á stokkinn; fór með hendina niðurmeð rúmbríkinni og náði í rjólbita; stubba utan af honum og beit í, en stakk honum svo niður með bríkinni aftur ...  Árni seildist aftur niðurmeð rúmbríkinni; tók upp rjólbitann; dró úr honum tvo toppa; rakti utanaf honum kvartilsbút sem hann skar af og stakk í vasann“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).  Neyðarástand skapaðist hjá neftóbaksmönnum á árum síðari heimsstyrjaldar, þegar tók fyrir innflutning rjóls frá Danmörku.  Þá var gripið til þess að flytja hrátóbak frá Bandaríkjunum og Kollsvíkingurinn/efnafræðingurinn Trausti Einarsson var fenginn til að búa til skorið neftóbak sem líktist rjólinu frá Brödrene Braun, sem tóbaksunnendur könnuðust við.  Sjá rulla; skro; tóbak.

Rjómabland (n, hk)  Mjólk blönduð rjóma.  „Mikið er gott að fá rjómabland útá skyrið“.

Rjómablíða / Rjómalogn (n, hk)  Algjört logn; stafalogn; koppalogn; svartalogn; renniblíða.  „Hann er dottinn niður í rjómalogn.  „Það er bara ekki hægt að hanga í landi þegar er svona rjómablíða útúr öllu, og fiskur uppi í landsteinum“!  „Það er nú einhvernvegin hægt að vera á sjó í svona rjómablíðu“!

Rjómabolla (n, kvk lint l)  Brauðbolti sem rjómi, og oftast sulta, hefur verið settur innaní.  Hefðbundinn réttur nú til dags á bolludaginn.  Siðurinn er nýlegur hérlendis, en um 1700 tíðkaðist í Danmörku að borða hveitibollur með mjólk og smjöri á föstuinnganginum.  Sjá bolludagur.

Rjómadolla (n, kvk)  Ílát undir rjóma.  Ekki verður fullyrt hvernig það hefur verið að gerð.  Rjómi var fyrrum skilinn þannig úr mjólk að hún var látin standa í trogi og síðan var undanrennunni hellt undan meðan haldið var við rjómann í troginu.  Rjómadollan hefur eflaust verið ílát sem rjóminn var geymdur í þar til hann var strokkaður, og þá líklega skilið sig enn betur.  „Það voru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar.  Jón Torfason afi minn smíðaði flest ílát í sveitinni.  það voru glettilega fallegir askarnir útskornir.  Hornspænir voru hér ekki algengir“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Rjómagulur / Rjómahvítur / Rjómalitur (l)  Um lit; hvítur en með gulleitum blæ, líkt og rjómi.  „Veggurinn var málaður rjómagulur“.

Rjómakaffi (n, hk)  Kaffi með rjóma útí í stað mjólkur.  „Það er bara rjómakaffi; flott skal það vera“!

Rjómakanna (n, kvk)  Lítil kanna með rjóma, sem borin er á borð.

Rjómaskán (n, kvk)  Skán/himna sem leggst ofaná mjólk þegar hún stendur í íláti um tíma.  Það á þó ekki við þá fitusprengdu mjólk sem nú er seld til neyslu.  Rjómi er léttari en undanrenna, og fyrir daga skilvindna var notuð sú aðferð við mjólkurvinnslu að láta mjólk standa í trogi og skilja sig.  Undanrennunni var síðan hellt undan meðan haldið var við rjómaskánina.

Rjómaterta (n, kvk)  Lagterta með rjóma á milli laga og ofaná, auk annars til skrauts og bragðbætis.  Algengur veislumatur á 20. öld þegar fólk gerði sér dagamun, en hefur vikið í heilsurugli síðari tíma.

Rjómatrog (n, hk)  Nauðsynlegt ílát við mjólkurvinnslu fyrr á tímum; áður en skilvindur komu á bæi.  Trog gátu verið af ýmsum gerðum, en oft voru þau flöt með hallandi hliðum.  Nýmjólk var rennt í trogið og látin standa þar um tíma.  Þá skildist hún, þannig að rjómi flaut í skán ofaná en undanrennan var undir, þar sem hún er eðlisþyngri.  Þá var troginu hallað meðan haldið var við rjómaskánina með hendi, svo undanrennan rann í annað ílát.  Úr rjóma var einkum. unnið smjör en úr undanrennunni skyr.

Rjómi (n, kk)  Mikilvæg mjólkurafurð; feitari hluti mjólkur.  Rjómi var unninn fyrr á tímum bæði úr sauðamjólk og kúamjólk.  Mjólkin var skilin í trogum og rjóminn var einkum nýttur til smjörgerðar.  Sjá smjör.  „Aðalmáltíðin var hangikjöt, og ávaxtagrautur með rjóma útá á eftir“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku hans). 

Rjúfa (s)  Taka í sundur; rífa; rifta.  „Með kvótasetningunni var rofin sú samfélagssátt sem ríkt hafði um eignarrétt og sjálfbærni jarðeigna“.

Rjúka (s)  A.  Sjást reykur/gufa.  „Það rýkur enn úr kofanum frá síðustu uppkveikju“.  B.  Kólna.  „Kaffið er snarpheitt; þú ættir að leyfa því að rjúka áður en þú drekkur það“.  C.  Flýta sér af stað.  „Ég held að ég verði að rjúka núna“.  D.  Um sjó/sand; fjúka/blása af; feykja úr faldi.  „Hann er enn að hvessa; það er farið að rjúka á Leirunum“.  „Öll ströndin rauk af brimi...“  (TÓ; upptaka á Íslmús 1978).  „En er þeir komu inn undir Látrabjargið var svo hvasst að sjór rauk“  (ÖG; Þokuróður). 

Rjúka upp (orðtak)  A.  Um veður; hvessa skyndilega.  „Það er stórstraumur og rjúki hann hastarlega upp af norðan þá veistu hvernig hann er fyrir Blakknum“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „Ef norðanátt gekk skyndilega niður, en rauk aftur upp sama sólarhringinn; uppherðingur, boðaði það vaxandi norðanátt næstu dægur“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).  B.  Um skapferli; reiðast snögglega og hreyta fúkyrðum; fjúka í.  „Ekki veit ég af hverju hann rauk allt í einu svona upp“.

Rjúka upp eins og naðra (orðtak)  Snöggreiðast; fjúka í.  „Þú skalt fara varlega í að spyrja hana út í þetta; hún á það til að rjúka upp eins og naðra vegna meiri smámuna“.

Rjúka úr (orðtak)  Um þykkju/ósætti; jafna sig; róast.  „Hann gat átt það til að rjúka upp útaf hinum mestu smámunum, en jafnan var það jafnfljótt að rjúka úr honum aftur“.

Rjúka úr báru (orðtak)  Sópa af; feykja sælöðri úr öldufaldi í miklu roki. „Það rýkur úr báru frammi á víkinni“.

Rjúpa (n, kvk)  A.  Fugltegundin rjúpa; Lagopus muta/mutus.  Fremur lítill fugl af orraætt; 31-35 cm á lengd.  Rjúpan er staðfugl og verpir á heimskautasvæðum á norðurhveli; einkum til heiða.  Algengur varpfugl í nágrenni Kollsvíkur.  Fuglinn skiptir um fjaðurham að hluta þrisvar á ári og breytir litum eftir árstíðum; brún með svörtum flikrum á sumri og hausti en alhvít með svart stél að vetrarlagi.  Í júlí fella rjúpur flug- og stélfjaðrir.  Karlfuglinn nefnist karri og hann helgar sér óðal snemma að vori.  Kvenfuglinn kemur fáum vikum síðar.  Rjúpan verpir að jafnaði 12 eggjum; útungunartími er 3 vikur og ungarnir yfirgefa hreiðrið strax.  Fæða rjúpunnar er einkum rjúpnalauf, en einnig kornsúrulaukar, ber, lyng og fleira.  Rjúpan var af sumum talinn spáfugl.  Ef hún leitar ofan í byggð áhaustin má búast við hinu versta, en ef hún heldur sig hátt í fjöllum veit það á gott.  Það veit á illt ef rjúpur eru ólmar að tína, en séu þær spakar veit það á gott.  Sitji rjúpur öðrumegin í gili má búast við að hvessi úr þeirri áttinni.  Rjúpan hefur alltaf verið alfriðuð í Kollsvík, en víða um land er hún allmikið veidd.  Kollsvíkingar hafa jafnan álitið það jafn fráleitt að veiða rjúpu eins og að veiða spörfugla og vaðfugla.  Reyndar er það aldagömul þjóðtrú að ætíð sé sultur og seyra í búi, þar sem mikið er veitt af rjúpum.  Þjóðtrúin segir einnig að borði vanfær kona valslegna rjúpu muni barnið fæðast með valbrá.  B.  Garn- eða bandhnota sem rakið er innanúr.  „Hvar setti ég nú garnrjúpuna“?

Rjúpnalauf (n, hk)  Blöð holtasóleyjar og mikilvæg fæða rjúpu.  Holtasóley er algeng í Rauðasandshreppi.

Rjúpuegg (n, hk)  Egg rjúpunnar.  Ljósbrúngræn með dökkbrúnum flikrum, sem er góður felulitur fyrir lyngholtin sem þeim er oft orpið í.  Þjóðtrúin segir að borði vanfær kona rjúpuegg verði barið freknótt.

Roð var nýtt á margan hátt áðurfyrr.  Roð af nýjum fiski var etið með fiskinum.  Roð af hertum fiski var stundum steikt á glóð og síðan etið.  Roð, uggar, sporðar og þunnildi var látið í skyrog súr.   Sumsstaðar var búin til roðastappa úr vel útvötunðum roðum.  „Í Víkum vestur (líklega þó aðeins á Hvallátrum) voru ætíð soðnar fuglsbringur á Þorláksmessu.  Þá var venja að rífa roð af steinbítum; þrífa þau og skafa og sjóða með bringunum.  Voru þau þá etin með feitinni sem kom af fuglinum“  (LK; ´sil. sjávarhættir IV; heim; DE).  Mikilvægustu not steinbítsroðs í Útvíkum hafa þó eflaust verið til skógerðar (sjá roðskór).

Roða af degi (orðtak)  Birta af degi; koma morgunroði.  „Það var farið að roða af degi þegar ég kom heim úr eggjaferðinni“.

Roðalaus (l)  Ekki rjóður/rauður; laus við roða í kinnum/andliti.  „Hún (huldufólksstúlkan) er illa búin fötum; andlitið langt, þó nokkuð stórt, en litarfar mórautt og roðalaust“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans).

Roðavika (n, kvk)  Síðasta vika vertíðar í Kollsvíkurveri var nefnd því nafni, en þá var vermatan (nestið) farið að ganga mjög til þurrðar.  „Eflaust er það gamalt í málinu að síðasta vika vertíðarinnar var nefnd roðavika, og bendir það til þess að þá hafi að mestu verið lifað á fiskmeti, bæði soðnu og þurrkuðu“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Roðavika var gamalt nafn á síðustu vertíðarvikunni“.  (LK;  Ísl. sjávarhættir II; frásögn ÓETh).  „Oft þrengdist í búi hjá vermönnum er að vertíðarlokum leið, enda var gamalt nafn hjá vermönnum á síðustu vertíðarvikunni.  Nefndu þeir hana Roðaviku“.  (PJ;  Barðstrendingabók).  „Áður en skipt var voru tekin frá tvö stærstu rafabeltin, svokölluð skiptabelti sökum þess að þau voru skorin í sundur og þeim deilt á milli áhafnarinnar.  Fékk hver skipverji eina skiptabeltissneið og vænan riklingsbita.  Slíkur skammtur þótti koma sér vel í lok roðavikunnar.  Skipverjar settust síðan allir að snæðingi.  Þess er getið að sumir hafi verið svo lystugir að þeir hafi étið smjör með skiptabeltissneiðinni sinni.  Að síðustu var hitað kaffi og sjaldan mun þá brennivínstár hafa brostið til að sæta með soðið“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; eftir ÓETh og ÞJ). 

Roðbeita / Oddbeita / Bugbeita (s)  Aðferðir við beitningu á handfæraveiðum.  „Handfæraönglar voru oftast roðbeittir; en þá var oddinum stungið í gegnum fisk og roð; beitan hékk á bugnum.  Þá var sagt að öngullinn væri oddbeittur.  Þegar oddinum var stungið milli himnu og roðs svo beitan gekk niður í bug hét það að bugbeita“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Roðbeita / Roðkrækja (s)  Aðferð við beitningu, með fiskmeti sem agn; krækja önglinum í gegnum fisk og roð.  Þannig helst beitan mjög vel á önglinum, en hinsvegar er erfiðara að afbeita heldur en ef einungis er stungið í gegnum fiskholdið.  Því vildu t.d. bandarískir lúðuveiðimenn hér við land ekki roðkrækja fiskbeitu á lúðulóðir sínar.   „Handfæraönglar voru oftast roðbeittir; en þá var oddinum stungið í gegnum fisk og roð; beitan hékk á bugnum.  Þá var sagt að öngullinn væri oddbeittur.  Þegar oddinum var stungið milli himnu og roðs svo beitan gekk niður í bug hét það að bugbeita“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  Sjá einnig beita; oddbeita; bugbeita.

Roðbreiða (s)  Breiða fisk til þerris þannig að roðið snúi niður.  „Fyrrum var algengast að herða kringluhausa á möl, klöppum eða fiskgörðum.  Þeir voru þá fyrst roðbreiddir, en eftir að hafa spýtt sjónum og visast eilítið  var þeim snúið (sjá þorskhaus)  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Roðdraga (s)  Um fisk; rífa úr roði; ná roði af fiski.  Oftar talað um að rífa úr roði.

Roðfletja (s)  Fletja fisk á rangan hátt, þannig að sjái í roðið og fiskur fylgi dálki (sjá flatning fisks).

Roðhænsn (n, hk)  Bjáni; vitleysingur; auli.  „Þetta er nú meira roðhænsnið; og býður sig fram til þings“!

Roði (n, kk)  Rauður litur; roðmi.  „Þessu fylgdi nokkur bólga og roði á húð“.  „Svo rís hún á fætur og roða slær fjöll/ sá roðmi er skínandi fagur./  Og landið mitt verður að himneskri höll,/ en hikandi um allt rennur dagur./  Þeim helgifrið raskað ei annar fær enn/ en ástmögur sólar, er dag kalla menn“  (VÖe; Ísland). 

Roðmegringur (n, kk)  Stór og magur þorskur.  (LK; Ísl. sjávarhættir; heimild; GG).

Roðmi (n, kk)  Rauður litur á húð.  „Ég fékk töluverðan roðma í sólinni“.

Roðskera (s)  Skera of djúpt í aðgerð á fiski, þannig að gangi í gegnum roðið.  Þótti argur klaufaskapur.

Roðskóa leið (orðtak)  Mælieining um lengd fjallvega:  Í Útvíkum var talað um að fjallvegur væri svo og svo margra roðskóa leið; eftir því hve ætla þyrfti mörg pör af roðskóm til göngunnar.  Roðskór entust stutt í því grýtta landslagi sem þarna er.  „Víknafjall, frá Kollvík að Naustabrekku, var talið 7 roðskóa leið; Látraheiði var 6 roðskóa leið; Tunguheiði frá Kollsvík í Örlygshöfn var fjögurra  roðskóa leið; Hafnarfjall, frá Breiðuvík í Örlygshöfn sama, og einnig Hnjótsheiði, frá Hnjóti að Naustabrekku“.

Roðskóasaumur (n, kk)  Gerð roðskóa (sjá þar).

Roðskór (n, kvk, fto)  Skór úr steinbítsroði.  Roðskór voru algengir í Útvíkum fyrr á tímum og var gerð þeirra kölluð að reka í roðskó.  Þeir voru ekki endingargóðir á grýttum gönguleiðum, síst í bleytu.  Á fjallvegi þurfti nokkur skópör og voru vegalengdir þeirra mældar í fjölda skópara (sjá roðskóa leið).  En hráefnið var tiltækt og framleiðslan tiltölulega einföld. „Þegar steinbítur var fleginn, þ.e. rifið af honum roðið svo það mætti nýta í skó, var kerling, ásamt kerlingarugga og kerlingarfiski rist af.  Síðan var skorin smáfjöður uppi við sárið kviðarmegin í helmingnum og í broddi hennar fundin himna sem yrði laus við roðið en föst við fiskinn og héldi kúlunum saman.  Hét það að taka uppundir.  Ef það var ekki gert nægilega vel gekk illa að flá.  Þegar kom afturundir gotraufina þótti vissara að skera þar fyrir, því að oft vildi rifna þar um.  Hvorum roðhelmingi til skógerðar fylgdi kerlingin“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh).  
„Þegar taka átti roð af nýjum steinbít var hann hengdur upp á nagla í gegnum augun.  Skorið var fyrir eyrugganum þvert yfir fiskinn, svo hann fylgdi roðinu.  Með jöfnu átaki var roðinu flett af, en það skiptist í tvennt um bakuggann.  Því næst voru eyruggarnir skornir frá roðinu.  Slógmeri var flegin á sama hátt, en þá fylgdi roðið kviðnum.  En af hörðum steinbít var ekki unnt að fá roð í skó nema hann væri kúlaður.  Slíkt roð var ávallt bleytt upp áður en það var sniðið í skó.  Roði var flett af saltaða steinbítnum eftir afvötnun.  Best þótti roðið af úlfsteinbít, þar sem úr því var hægt að fá efni í fjóra skó/ tvenn pör.  Fremri hlutinn fór í fullorðinsskó en sá aftari; dyllan, í minniskó; dylluskó.  Úr meðalroði var yfirleitt hægt að fá tvenn unglingsskæði.  Roð af hertum kúlusteinbít þótti endast betur en af nýjum eða söltuðum.  Úr framhluta roðsins fengust fallegri skór en úr dyllunni.  Þá rifnaði síður út úr varpinu á skó úr hnakkaroði en dylluroði.  Tvær gerðir voru af roðskóm.  Á annarri voru þeir saumaðir saman í tá og hæl, en á hinni var aðeins saumur á tánni, en þvengjað í hæl, og var það algengara.  Við roðskóasaum var notuð þrístrend nál og saumgarnið var togþráður.  Varpað var með þvengjanál; skórinn dreginn saman með þvengnum, sem ýmist var úr roði eða lamskinni; honum vafið tvisvar um legginn og hnýtt að.  Sumir stungu tvö spor sitt hvoru megin við tásauminn /gerðu tábragð og í þau var þvengurinn dreginn.  Vörp voru talin haldast betur á skóm með tábragði.  Unglingar gerðu sína eigin skó.  Sá kostur var við roðskóna að þeir voru léttir; hörðnuðu ekki; hlýir; mjög þægilegir í frosti og mjúkum snjó; féllu vel að fæti svo lítið fór ofan í þá.  Ókostur var hve þeir voru endingarlitlir og þoldu illa slabb.  Kvenfólk notaði roskó innivið að vetri til og á töðuvelli á sumrum, en kalmenn mest í snjó á vetrum.  Ef farin var löng bæjarleið var venja að hafa með sér mörg pör af roðskóm; þeim slitnu var fleygt en þvengirnir hirtir.  Skór úr hlýraroði þóttu fallegri en úr steinbítsroði.  Um 1910 var hætt að gera skó úr roði, a.m.k. í Útvíkum“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimildir m.a. GG; EÓ; ÁE; ÞJ o.fl.)

Roðþurr (l)  Um fisk sem hengdur hefur verið upp til signingar/herslu; roð farið að þorna en fiskur lítt sem ekki.  „Það er í það fyrsta að sjóða signa fiskinn; hann er rétt orðinn roðþurr“.

Rof (n, hk)  A.  Eyða í þoku eða annað dimmviðri.  „Ég held að það sé að koma eitthvað rof í þetta.  Það er farið að sjást milli húsa“.  Sjá upprof.  B.  Gamalt torf eða annað byggingarefni torfhúsa sem stundum mátti nýta að nýju.  Þetta virðist vera hin upphaflega merking orðsins og hún hélst lengi í Kollsvík.  C.  Jarðvegsrof; sambandsslit o.þ.h. (síðari tíma merking).  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  D.  Slitið það sem annars er samfella.  „Eitthvað rof varð á greiðslum meðan hann átti í þessum erfiðleikum“.  Sjá reka í rof.

Rof í lofti (orðtak)  Sér í heiðan himinn, en annars allnokkuð skýjað.  „Það er bara rof í lofti!  Skyldi hann ætla að rífa þetta alveg af sér í dag“?

Rofa frá (orðtak)  Um þoku; létta til; grisja.  „Ég sá Blakknibbuna þegar aðeins rofaði frá um tíma“.

Rofa fyrir / Rofa (orðtak/s)  Um sólfar: Móa fyrir; skína gegnum ský; létta til.  „Eitthvað er að létta upp.  Mér sýnist að það sé farið að rofa fyrir sólu“.  „Aðeins er hann að byrja að rofa“.

Rofa fyrir sól (orðtak)  Gera sólskin eftir ríkjandi dimmviðri.  „Hann létti til með morgninum, og um hádegið fór að rofa fyrir sól“.

Rofa í (orðtak)  Birta/létta til.  „Um tíma var élið svo þétt að ekkert sást, en síðan rofaði aðeins í“.

Rofa til (orðtak)  Birtir eftir dimmviðri/úrkomu.  „Eitthvað held ég að hann sé að fara að rofa til“.  „Er þeir höfðu siglt svo um tíma rofaði til, og voru þeir þá komnir nálægt landi í Kollsvík“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Rofabarð (n, hk)  Barð sem rofið er af vindi eða vatni í jaðri/jöðrum en gróið að öðru leyti.  Mikið er um rofabörð í Kollsvík, þar sem uppblástur skeljasands vinnur á þeim norðanmegin.

Roga (s)  Bisa; lyfta/færa með erfiðismunum.  „Okkur tókst að roga endanum á trénu upp í bakkana“.

Rogast með (orðtak)  Bisa við; bera eitthvað þungt.  „Menn roguðust með ótrúlega þunga steina í hleðslur“.

Rogginn (l)  Hreykinn; góður með sig.  „Það er nú í lagi að vera dálítið rogginn með svona einkunnir“.  „Þegar í land kom var ég hinn roggnasti og lét í ljós við jafnaldra mína að þetta hefði verið hin mesta glæfraför“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Rogginn með sig (orðtak)  Rogginn; hreykinn; góður með sig.  „Hann var heldur betur rogginn með sig þegar hann sýndi lúðuna“.

Rok (n, hk)  Mikið hvassviðri; rýkur úr öldu.  „...rokið var svo mikið að þessi litla handbyssa dró ekki þetta langt á móti..“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  Oft notað með lýsingarorði; öskrandi rok; hvínandi rok; hávaðarok o.fl.

Roka (n, kvk)  Öflug vindhviða; hvass bylur.  „Hann gengur á með bölvuðum rokum en dúrar aðeins á milli“.

Rokbelgingur (n, kk)  Viðvarandi rok.  „Það er sami rokbelgingurinn og var“!

Rokbylur / Rokhnútur / Rokhviða (n, kk/kvk)  Öflug vindhviða/roka; vindhnútur. „Hann gekk á með rokbyljum“.  „Á þessari leið er Brunnanúpur, en fram af honum er í þessari átt hætt við misvindi og rokhnútum“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Rokgræða (s)  Græða/þéna/hagnast mjög mikið.  „Hann rokgræddi á þessum viðskiptum“.

Rokhvass (l)  Bálhvass; mjög hvass; farið að rjúka úr báru.  „Hann er að verða rokhvass núna“.

Rokhvessa (s)  Verða rokhvass.  „Hann var farinn að rokhvessa þegar við komum uppað“.

Rokinn (l)  Farinn; hlaupinn.  „Ertu bara rokinn strax; án þess að fá þér kaffi“?

Rokk (n, hk)  A.  Rugg; ið til og frá; hreyfing fram og til baka.  „Það er þetta eilífa rokk í veðrinu; skúrafjandar annan daginn en sæmilega þurrt hinn“!  B.  Síðari tíma notkun yfir sérstaka tónlistarstefnu.

Rokka (s)  A. Sveiflast til og frá; rugga.  Vertu nú ekki að rokka þér á stólnum“.  B. Færast úr einni vindátt í aðra:  „Hann hefur verið að rokka svona síðustu dagana; úr norðanþurrkflæsu í austnorðan með vætu“.

Rokkadrejari (n, kk)  Rennismiður sem smíðar m.a. rokka; stundar rokkasmíði (n, kvk)  „“Í föðurætt minni hafa verið góðir smiðir, mann fram af manni.  T.d. var það Árni Jónsson, bróðir Gunnlaug langafa míns; í skráðum heimildum nefndur Árni rokkadrejari.  Þessi rokkasmíði hélst nokkuð í ættinni, þú manst eftir öllum rokkunum sem hann pabbi smíðaði, ég held ég megi segja af snilld“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  Tökuorð; finnst ekki í orðabókum.

Rokkur (n, kk)  A.  Verkfæri til að spinna lopa í band.  Sjá tóvinna.  „Það voru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  B.  Líkingamál um vél; „Bölvuð óþægð er nú í rokknum; hann vill bara alls ekki í gang“!  C.  Líkingamál um mann sem þykir óáreiðanlegur; óstöðugur í rásinni.  „Hvað þykist hann nú ætlast fyrir; bannsettur rokkurinn“!?

Rokmökkur (n, kk)  Mökkur efnis/móstu sem fokið hefur upp í roki.  „Rokmökkurinn af Leirunum var stundum svomikill að varla sást milli Láganúps og Stekkjarmels“.

Rokna (l)  Svaka; heljar; býsna.  „Hann rak upp rokna hlátur“.  „Þetta eru rokna miklir golþorskar“.

Roknabasl (n, hk)  Mikil vandræði; miklir erfiðleikar; heljarbasl.  „Ég lenti í roknabasli með að halda fjárhópnum á götunni; margar vildu taka sig útúr og leita á brekkuna“.

Roknabrim (n, hk)  Mjög mikið brim; rótarbrim.  „Það er hætt við að netin verði féleg eftir svona roknbrim“!

Roknadrellir (n, kk)  Mjög stór hlutur/skepna.  „Nokkrir steinar hafa hrunið á veginn; einn þeirra roknadrellir sem verður ekki hreyfður svo glatt“.

Roknahögg (n, hk)  Mjög þungt högg.  „Ég sló roknahögg í vegginn með sleggjunni, en hann lét sig ekki“.

Roknakjaftur (n, kk)  Stólpakjaftur; mikð/hávært rifrildi. „Hann reif bara þennan roknakjaft og sagðist aldrei hafa fengið vasahnífinn lánaðan“!

Roknamikill / Roknastór (l)  Mjög/afar mikill; firnamikill.  „Þarna var rekinn roknamikill hvalur“.

Roknaskammir (n, kvk, fto)  Óbótaskammir; mjög miklar ávítur.  „Hann fékk þvílíkar roknaskammir fyrir að gleyma aðalerindinu“.

Rokrassgat (n, hk)  Vinda-/næðingssamur staður; rokrass.  „Alltaf er þarna sama rokrassgatið“.

Rokseljast (s)  Seljast mjög vel; vera seldur í miklu magni.  „Eitthvað ætti það að hækka hrognaverðið ef hrognin eru farin að rokseljast útum allan heim“.

Roksperringur (n, kk)  Mikið rok; vindsperringur; stormsperringur.  „Skárri er það nú roksperringurinn“!

Rokspretta (n, kvk)  Mikil spretta gróðurs.  „Það er rokspretta í arfanum eftir að ég bar skít í garðinn“.

Rokspretta (s)  Spretta mjög vel; vera í örum vexti.  „Sléttan er farin að rokspretta eftir að rekjan kom“.

Roksveljandi (n, kk)  Mjög hvasst; mikill næðingur.  „Hann ætlar seint að lægja þennan roksveljanda“.

Rola (n, kvk)  Ráfa; heigull; gauð; gunga.  „Dauðans rola getur maðurinn verið; að láta traðka svona á sér“!

Rolast (s)  Hangsa; gaufa; dveljast.  „..svo ég verð ein að rolast með þessum körlun, hver veit hve lengi“. Frásögn Maríu Torfadóttur  (ÓG; Úr verbúðum í víking).

Rolla (n, kvk)  A.  Ær; kind.  Rolla var yfirleitt ekki notað nema í neikvæðri/niðrandi merkingu fyrrum þó nú sé það breytt.  Fremur var notað „ær“ um kindur almennt, en „kind“ um einstakar ær.  „Við vorum berlappaðir og rollurnar voru tregar til að hreyfa sig“  (IG; Æskuminningar).   B.  Löng ræða; langur texti.  „Hann flutti langa og leiðinlega rollu, svo ég held að flestir hafi verið farnir að dotta í lokin“.

Rollingur (n, kk, lint l)  Strákhnokki; drengstauli.  „Ég læt rollingana standa fyrir við réttina“.

Rollufans (n, kk)  Fjárhópur; oftast notað um hóp af túnrollum.  „Það er þá kominn inná þessi árans rollufans, eina ferðina enn; það verður nú að fara að finna leiðina þeirra“!  Einnig túnrollufans.

Rollubykkja / Rollufjandi / Rollufrenja / Rollurass / Rollustirra (n, kk)  Niðrandi heiti á kind; stundum hreytt um áleitna og pirrandi túnrollu.  „É´ld þessi rollubykkja tóri nú ekki lengur en framá haustið“!  „Skyldi rollufjandinn enn láta sig vaða undir girðinguna?  Þá er að ná henni áður en hún hefur færi á að líta niður“.

Rolluhópur (n, kk)  Fjárhópur; kindahópur.  „Þarna stefnir einhver rolluhópur upp í hlíðina“.

Rollukvikindi (n, hk)  Niðrandi, en þó stundum vorkennandi heiti á kind.  „Ég nennti ekki að eltast við þessi fáu rollukvikindi lengst frammí í Dalbrekkum; mérsýndist þær ekki vera í mikilli ull“.  „Það er engin aðferð að hundbeita rollukvikindin“!

Rollulaust (l)  Fjárlaust; án kinda.  „Ég held að þetta svæði megi núna teljast rollulaust, en hinsvegar gætu einhverjar leynst enn í lautum hér utar“.

Rolluskjáta / Rollurass / Rolluskita (n, kvk)  Gæluheiti á kind.  „Það eru einhverjar rolluskjátur ókomnar heim úr fjörunni“.  „Ætli maður leyfi henni ekki að hafa lambið þett árið, rolluskitunni“.

Rolluslátur (n, hk)  Slátur af fullorðnu (fé).  „Ég held ég sé ekkert að taka heim þetta rolluslátur núna“.

Rollustagur (n, kk)  Fjöldi af kindum/rollum; fjárhópur.  „Það er þá rollustagurinn í túninu; rétt einn ganginn“!

Rollustúss (n, hk)  Vinna/basl/snúningar við kindur/rollur/fé.  „Ætli það verði ekki að sinna þessu rollustússi“.

Rolugangur / Roluháttur/ Roluskapur (n, kk)  Aumingjaskapur; gunguháttur; linka

Rolulegur (l)  Aumingjalegur; linur; væskilslegur.  „Skelfing getur hann verið rolulegur“!

Romsa (n, kvk)  Þula; langloka.  „Skárri er það nú andskotans romsan sem vellur uppúr karlinum“!

Romsa (s)  Þylja; fara með langloku; bulla.  „Ég fylgdist nú ekki vel með hvað hann var að romsa“.

Romsa uppúr/úr sér (orðtak)  Þylja upp; segja viðstöðulaust frá.  „Þrátt fyrir sína vankanta var karlinn furðu minnugur.  Hann gat romsað uppúr sér kosningaúrslitum frá lýðveldisstofnun; nærri því upp á atkvæði“.

Rontulegur (l)  Laslegur; slappur; illa fyrirkallaður.  „Maður er enn fjái rontulegur eftir pestina“.

Roluháttur (n, kk)  Aulaskapur; aumingjadómur.  „Skelfingar roluháttur er þetta í manngarminum“.

Ropa (s)  A.  Sleppa lofti uppúr maga, með sérkennilegu korrandi hljóði.  Þykja ekki góðir mannasiðir ef heyrist í fjölmenni.  B.  Um rjúpu; gefa frá sér korrandi hljóð.  Getur einnig heyrst í fleiri dýrum, s.s. fiskum.

Ropa uppúr sér (orðtak)  Segja frá; upplýsa um; anda um.  „Hann hefði nú mátt ropa því uppúr sér að það væri að verða saltlaust“!

Ropvatn (n, hk)  Heiti á gosdrykkjum, notað af þeim sem lítt kunnu að meta þegar þeir komu fyrst á markað.  „Hafðirðu ekkert með til drykkjar í róðurinn en þetta ansvítans ropvatn“.

Rorra (s)  Vera valtur; róa í sætinu.  „Hún er farin að rorra í stólnum og bíður eftir að komast af stað“.

Rorrandi (ao)  Róandi; hangandi.  „Hann sat þarna rorrandi og þvældi einhverja fyllerísendaleysu“.

Rosabaugur (n, kk)  Hringur kringum sólina í vissum veðurskilyrðum; ljósbrot í blikuskýjum í háloftum.  Þótti vera fyrirboði um versnandi veðráttu og óþurrkatíð; rosa.  Þóttust menn geta greint hvað langt væri í rosann eftir því hve hringurinn var víður um sólina.  Sjá blæs út sólir.  „Hnyklaði himinský/ hryllti hvern meðaldraug./  Máninn öslaði í/ illspáum rosabaug./  Allskonar fjandafeikn/ fóru helreið um land./  Loguðu í ljósi teikn/ lýstu upp Rauðasand“  (JR; Rósarímur). 

Rosabullur (n, kvk, fto)  Gæluheiti á stígvélum.  Hvorkiki gamalt í málinu, né almennt notað.

Rosalega (ao)  A.  Fyrri tíma merking; svakalega; ógnvænlega; gapalega.  „Farðu ekki svona rosalega með hnífinn“!  B.  Síðari tíma merking; mjög; afar; mikið.  „Mig langar rosalega í þetta“.

Rosalegur (l)  A.  Um veðurútlit; ljótur; útlit fyrir rosa/óveður/óþurrk.  „Ári finnst mér hann rosalegur í vesturloftinu“.  B.  Svakalegur; ógnvekjandi; hrikalegur.  „Mér finnst hann rosalegur gapi í klettum“. 

Rosi / Rosatíð / Rosaveður  (n, kk/hk)  Mjög slæm tíð fyrir þau verk sem vinna þurfti.  Gat átt við þrálátar rigningar yfir heyskapartímann eða þráláta norðanátt og brim yfir vertíðartíma.

Roskinn (l)  Aldraður; fullorðinn; gamall.  „... má geta þess að tveir rosknir bændur gengu í fjelagið þegar það var stofnað“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Rostafenginn (l)  Glorralegur; svakalegur; ruddalegur.  „Hann er stundum heldur rostafenginn við strákana“.

Rostaskapur (n, kk)  Ruddaskapur; hávaðaskammir.  „Hættu nú þessum bölvuðum rostaskap“!

Rosti (n, kk)  A.  Gorgeir; merkilegheit.  „Ég ætla að veita honum ærlegt tiltal.  Það ætti að lækka í honum rostann“.  B.  Erfitt tíðarfar; kuldi og hvassviðri; rok.  „Skyldi hann ekki fara að lina þennan eilífðar rosta“?

Rot (n, hk)  A.  Rotnun; fúi; grotnun.  „Hér er komið rot í húðina“.  B.  Meðvitundarleysi; vönkun; víma.  „Hann var sleginn í rot á þorrablótinu“.  „Hann var að vakna úr totinu eftir fyllirí“.

Rota (s)  A.  Ýlda; láta lífrænt efni rotna; láta hár rotna af húð fyrir sútun.  B.  Slá í rot; slá til dauðs/meðvitundarleysis. 

Rota jólin (orðtak)  Gera sérlega vel við sig í mat; borða óvanalega mikið.  Var áður notað um veisluhöld á þrettándanum.

Rota köttinn (orðtak)  Um veiðiskap; fá óvanalega mikla veiði; afla afburða vel.

Rota rjúpur (orðtak)  Dotta sitjandi, þannig að höfuðið fellur öðruhvoru niður á bringu; dotta þannig að einstöku hrota heyrist.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Rotari (n, kk)  Kylfa/hnallur til að rota skepnu.  Rotari er mikilvægt áhald þegar stenibítur er veiddur á skaki, og því var hnakki goggs oft útbúinn sem slíkur; gjarnan með hvalbeinsgildingu.

Rotblettur / Rotskella (n, kk)  Blettur þar sem rot hefur myndast á einhverju lífrænu; t.d. skinni, viði eða túni (kalblettur).

Rotbyssa (n, kvk)  Pinnabyssa; byssa ætluð til slátrunar búfjár, með pinna sem hleypt er fram með púðurskoti“.

Rothögg (n, hk)  A.  Högg sem veldur roti/meðvitundarleysi/dauða.  B  Líkingamál um áfall sem gengur nærri manneskju, byggðarlagi, atvinnugrein eða öðru.  „Það var rothögg fyrir kúabúskap í Kollsvík þegar mjólkurvinnsla á Patreksfirði var lögð niður“.

Rotinn (l)  A.  Fúinn; úldinn; skemmdur.  B.  Líkingamál um aðfinnsluverðan málatilbúnað; misferli.

Rotinpúra (n, kvk)  Gæluorð um þann sem er gugginn og grár.  „Maður er bara bölvuð rotinpúra eftir pestina“.

Rotinpúrulegur (l)  Gugginn; fölur.  „Óttalega ertu eitthvað rotinpúrulegur geyið mitt; ertu með hita?“ 

Rotna (s)  Grotna; fúna; úldna; skemmast; mygla.  „Þá var eitt skylduverkið að keyra fiskslorið í kerru úr Verinu og heim að Láganúpi.  Þar var það látið rotna í tunnu og síðan var það blandað með vatni og notað sem áburður“  (IG; Æskuminningar). 

Rotpyttur (n, kk)  Fúafen; drulludý.  „Sortaugu voru rotpyttir, en horfnir nú þar sem búið er að grafa.  Þar var sorta tekin til litunar og þótti góð“  (ÍÍ; Örn.skrá Grafar).

Rotta (n, kvk)  Miðlungsstór nagdýr, nokkru stærri en mýs.  Tvær tegundir af rottum finnast á Íslandi í dag; svartrottur (Rattus rattus) og brúnrottur (Rattus norvegicus), en þær síðarnefndu eru algengari.  Brúnrottu varð fyrst vart hérlendis á 18.öld, en breiddist lítið út fyrr en á þeirri 19.  Rottur kunna best við sig í holræsum og á ruslahaugum, þar sem nóg er um rotnandi æti.  Þær eru nagdýr; éta það sem tönn á festir og eru ötular í að naga og skemma.  Rottur eru með óvinsælli dýrum og hafa slæmt orð á sér.  Þykir mikilvægt að ráða niðurlögum þeirra með öllu móti.  Rottur, eða flær sem á þeim lifa, geta borið sjúkdóma og er talið að með þeim hafi svartidauði borist út.

Rotta sig saman (orðtak)  Hafa samráð; ráðgast við.  Líklega nýlegt orðtak.

Rottueitur (n, hk)  Eitur til að drepa rottur og ráða niðurlögum rottuplágu; oftast eitrað maískorn.  Rottueitri var útbýtt af oddvita sveitarinnar til þeirra sem með þurftu.

Rotvarnarefni (n, hk)  Efni til að verja rotnun í efni/mat.  „Blásteinn var fluttur inn í föstu formi, en síðan leystur upp með vatni og notaður sem rotvarnarefni“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Rotta sig saman (orðtak)  Bindast samtökum; hópast.  Oftast notað í niðrandi merkingu, og líklega ekki gamalt.

(n, kvk)  A.  Kyrrð; hæglæti; friðsemd.  „Hér er allt með ró og spekt“.  B.  Svefn.  „Ætli maður fari ekki að koma sér í ró“.  C.  Læsing/mótstykki á skrúfnagla/maskinubolta, með skrúfgangi í gati.  D.  Völur; málmþynna sem myndast framan á eggjárni sem t.d. hefur verið brýnt of mikið.  „Hér hefur myndast ró á ljánum“.

Róa (s)  A. Að koma báti áfram með áratogum.  „Farið var róandi því Svalan var árabátur“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður).  B.  Fara í sjóferð.  „Fyrst þegar ég man eftir mér reru héðan ekki nema heimamenn“  (GG; Lesbók Þjóðv.).   „Magðalena Össurardóttir var 3 vor í Verinu og kvaðst heldur vilja gera það en vinna bæjarverkin.  Hún var um fermingu þegar hún byrjaði í Verinu.  Guðný Ólafsdóttir, Ásbörnssonar bónda á Láganúpi, reri ung með föður sínum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  C.  Um egg á eggjárni; brýna egg svo mikið á á henni myndist /völur, sem er þynna sem auðveldlega leggst flöt og tekur bit úr eggjárninu.  „Gættu þess að róa ekki eggina“!  D.  Stilla; lægja æsing/ofsa/skelfingu.  „Hann róaðist þegar ég sagðist sjá til þeirra frammi á Hjöllum“.

Róa (hval/hákarl/reka) að landi (orðtak)  Draga í land með róðrarbáti.  „Einar lét róa hvalinn á land í Láturdal“.

Róa að (einhverju) öllum árum / Róa öllum árum að því að… (orðtak)  Vinna ötullega að; gera/vinna allt til.  „Þeir róa að því öllum árum að koma honum í framboð“.  Líking úr sjómannamáli.

Róa alskipa (orðtak)  Róa öllum haffærum bátum.  „Þá var róið alskipa frá Látrum“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Róa á borð með (einhverjum) / Róa á sama borð og (einhver) (orðtak)  A.  Róa sömu megin í báti og annar.  B  Líkingamál; vera sammála. 

Róa á bæði borð / Róa á tvær árar (orðtak)  Sjómennska; um það þegar einn maður rær á bæði borð.  Hitt lagið var að tvímenna á þóftu og þá reri hver á sitt borð.  „Svo reri hann á tvær árar framí en sagði mér að vera í barkanum...“   (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004).

Róa bakföllum (orðtak)  Taka bakföll; róa þannig að maður hallar sér mjög aftur í enda áratogs.

Róa eggina (orðtak)  Brýna eggjárn rangt/of mikið, þannig að örþunn málmhimna, ró,  myndist sem leggst til hliðar og hindrar bitið.  „Gættu þess að brýna hæfilega mikið; að róa ekki eggina“.

Róa einhendis/tvíhendis (orðtak)  Róa með einni eða tveimur höndum á sama árahlummnum.  Þegar sami maður reri á bæði borð varð hann auðvitað að róa einhendis.

Róa einni ár að (einhverju) (orðtak)  Gera með hangandi hendi; vinna ekki markvisst/ötullega að.  Líking við það að reyna að koma bát áfram með einni ár, sem gengur mun seinlegar en sé róið á bæði borð.

Róa fram í gráðið (orðtak)  Sitja og rugga efri hluta bolsins fram og til baka.  Líkingamál við að róa til sjóar, en gráð merkir þarna ölduvottur á sjó.  „Hún sat á rúmstokknum; reri fram í gráðið og söng fyrir munni sér“.

Róa fyrir hlessum (orðtak)  Róa í land úr leguróðri með hákarla á tampi (utanborðs). 

Róa fyrir seil (orðtak)  Róa með seil af fiski utanborðs.  Í miklum sjógangi var stundum gripið til þess að létta bátinn með því að seila aflann út og láta bátinn draga seilina.  Einungis mun það hafa verið gert á lensi/undanhaldi eða við landtöku. 

Róa hval í/á land (orðtak)  Draga hval í land með árabáti.  „Í annál 19. aldar árið 1802 segir svo:  „Um vorið fundu sjómenn í Kollsvík hvalskrokk á sjó, beinlausan, er þeir hugðu drepist hafa í ís; var hann róinn á Bæjarkirkjuland og voru á honum 200 vættir“ “  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Róa í aðtakið/flæðina/brestinn (orðtak)  Um sjósókn; fara í róður þegar byrjað er að falla að/flæða.  Mikilvægt er, einkum þegar róið er á árum, að haga róðrum þannig að straumur liggi með og létti róðurinn.  Eins var hillst til þess að komið væri á miðin fyrir snúninginn/fallaskiptin, því þá gefur fiskur sig jafnan betur til.

Róa í samlagi (orðtak)  Þegar menn fara í róður á einum báti, sem allajafna tilheyra öðrum áhöfnum.  „Ekki var það alltaf á sama tíma sem flutt var í verið.  Réði því oft veðrátta og fiskigengd á grunnmið.  Oftast voru heimamenn búnir að róa nokkra róðra í samlögum, þvi hásetar þeirra voru oft lengra að“  (KJK; Kollsvíkurver).

Róa í spikinu (orðtak)  Vera akfeitur/sílspikaður.  „Þessi burgeis sem rær í spikinu þykist vita hvað fátækt er“!

Róa kipp / Róa snertu (orðtak)  Um veiðiskap; kippa; kippa á; róa/sigla bát stuttan spöl til að vinna gegn því sem hann hefur rekið.

Róa langan og seinan (orðtak)  Um róðrarlag; tvíhnykkislag; róa þannig að hnykkt er tvisvar á í sama áratoginu.  Var stundum viðhaft í lygnum sjó.

Róa með hvolpa (orðtak)  Um róðrarlag; róa þannig að olnbogum sé haldið frá síðunum.  Þótti ljótt og lint róðrarlag; líking við að maður hafi sinn hvolpinn undir hvorri hönd.

Róa rimbu (orðtak)  (líkl.)  Barni skemmt með því að það situr og rær á hnjám fullorðins; gjarnan kveðin vísa í takt við þetta.  Orðtakið virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Róa sér (orðtak)  Rugga sér; róa fram í gráðið.  „Vertu nú ekki að róa þér á stólgarminum“!

Róa skerping (orðtak)  Um róðrarlag; róa kröftuglega; taka hraustlega á við róður.

Róa/sækja stíft (orðtök)  Sækja sjó/ róa af kappi; vera ákafur í sjósókn. 

Róa til fiskjar (orðtak)  Fara í veiðiferð; fara í fiskiróður.  „Frá Kollsvík hefur líklega verið róið til fiskjar allt frá landnámstíð.  Líkur benda til að þar hafi verið ein fjölmennasta verstöðin á sunnanverðum Vestfjörðum“. „Þar er sandur í botni, og var aðal leiksvæði okkar systkina.  Þar áttum við báta sem reru til fiskjar, en aflinn var fiskbein“  (IG; Sagt til vegar I).  

Róa til miða (orðtak)  Róa fram á fiskimið til veiða.  „Síðan var róið til miða, sem var mjög stutt“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Róa undir (orðtak)  A.  Upprunaleg merking; róa með árum meðan einnig eru höfð uppi segl, til að flýta för.  „Þegar borið var um var ekki meira kul en það að þeir ákváðu að róa báðir undir og binda skautið“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  B.  Afleidd merking; hvetja til einhvers með áróðri eða aðgerðum.

Róa undir vind (orðtak)  Róa bát þangað sem kular, til að geta notað segl.

Róa upp (orðtak)  Róa í land/ til lands.  „Svo rerum við upp“  (TÓ; upptaka á Íslmús 1978).  „Skipar hann mér að fella seglið og ætlar að róa upp sjálfur“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Róa út (net/lóð) (orðtak)  Róa báti í rétta stefnu meðan lögð eru net eða lóðir.  „Þeir reru af krafti; reru út lóðina“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  „Nú tók hinn báturinn plóginn, og með hann var síðan róið út, uns strengurinn var kominn á enda“  (KJK; Kollsvíkurver).  Sjá netalagning.

Róa vestur / Róa vestur á sveitir (orðtök)  Orðalag sem Breiðfirðingar notuðu um það að fara til vers í Útvíkum, t.d. í Kollsvíkurver.  „Eyjaverstöðvarnar breiðfirsku voru ekki lengra undan landi en svo að oftast mátti sjá fyrir ferðafært veður.  Öðru máli gegndi um þá sem reru vestur, eða vestur á sveitir eins og það var orðað, en þá var átt við Hvallátur við Bjarg eða Víkur.  Engir þurftu að sæta eins löngum verleiðum á sjó og Vestureyingar, því sumir þeirra þurftu að vera með nokkurra daga millibili sunnan Öndverðarness og norðan Bjargs“  (LK; Ísl sjávarhættir II, bls 388).

Róa öllum árum að (einhverju) (orðtak)  Vinna markvisst að; stefna ákveðið að.  „Nú rær hann að því öllum árum að koma nágrannanum í burtu“.  Dregið af róðri stórra árabáta.  Stundum ákvað formaður að helmingur ræðara hvíldi og reri til skiptis til að hvíla mannskapinn, en ef mikið lá við var róið öllum árum.

Róða (n, kvk)  A.  Kross; líknenski af Jesú eða dýrlingi; kross með jesúlíkneski.  B.  Fornt lengdarmál:  1 róða samsvaraði 12 fetum.  Annars virðist hér um að ræða sama orð og „rood“ í ensku, sem merkir sömuleiðis róðukross en einnig flatarmál sem samsvarar ekru; 1012 m².

Róðarí (n, hk)  Óreiða.  Dönskusletta, upptekin á síðari tímum.  „Ekkisens róðarí er þetta“!

Róði (n, kk)  Fornt heiti á ræði á bát.  Lifir í orðtakinu að leggja/kasta fyrir róða, sem merkir að kasta á glæ; varpa fyrir borð.

Róðrafjöldi (n, kk)  Fjöldi róðra á tímabili, t.d. á dag.  „Það sem ég sagði þér áðan, um róðrafjöldann, var venjan; en stundum voru líka 4 – 5 róðrar í lotu.  Uppstigningardagur var haldinn helgur og róið að kvöldi uppstigningardags; og síðan í lotu fram að helgi.  Þetta var kallað „uppstigningardagsruna“.  Það kom oft fyrir, einkum ef landlegur höfðu verið og helgi fór í hönd, að tekin var svona lota“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Róðrar (n, kk, fto)  Vertíð.  „Því var það hlutverk kvenna að sjá um búið meðan róðrar stóðu yfir, frá sumarmálum fram að slætti“.  (FG; Niðjatal HM/GG).  „Magðalena Össurardóttir var 3 vor í Verinu og kvaðst heldur vilja gera það en vinna bæjarverkin.  Hún var um fermingu þegar hún byrjaði í verinu.  Guðný Ólsafdóttir, Ásbjörnssonar bónda á Láganúpi, reri ung með föður sínum.  Tvær konur og unglingar önnuðust heyskapinn.  Konurnar bundu heyið...  Já Ég batt oft“  (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964). 

Róðrarband / Róðrarvesti (n, hk)  Nokkurskonar vesti sem ræðarar báts notuðu stundum til að létta erfiðan róður.  Breið gjörð sem lá yfir bakið og undir hendina, og komu endar þeirra saman framanvið brjóstið í langri snærislykkju, sem smokkað var upp á árahlumminn.  Ekki vitað hvort notað var í Kollsvíkurverum.

Róðrardagur (n, kk)  Dagur sem róið er; dagur sem gefur á sjó.  „Róðrardagar hafa ekki verið margir það sem af er vertíðar“.

Róðrarbátur (n, kk)  Bátur sem notaður er til fiskiróðra í veri.  „Róðrarbátarnir tóku oft ekki allt það er ein skipshöfn hafði til flutnings, þótt áður væri búið að losa sig við þorskaflann“ “  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þeir fara frá Kollsvík fyrri part dags af stað, á róðrarbát sem hét Heppinn“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). 

Róðrarlag (n, hk)  Lag sem ræðari hefur við róður.  Róðrarlag manna er misjafnt; einkum þeirra sem óvanir eru.  Vanur ræðari finnur það lag sem hentar best til að nýta átakið.

Róðrarmaður (n, kk)  Vermaður; maður sem rær úr veri.  „Á móti þessum tolli njóta róðrarmenn lýngrifs úr Keflavíkurlandi“  (ÁM; Jarðabók).

Róðrarskauti (n, kk)  Bakskauti; sá skauti sem snýr að róðrarmanni.  Skauti er hlífðarþynna á ár, þar sem hún leikur í keipunum; oft úr hvalbeini.

Róðrarskorða (n, kvk)  Skorða; fjalarbútur sem rennt er sem skástífu undir súð báts til að skorða hann í sátri.  Nefnist svo vegna þess að stundum voru skorður teknar með á sjóinn og notaðar til hagræðis ræðurum.

Róðrartími (n, kk)  Tími þegar vanalega er róið.  „Þegar ekki þótti einsýnt sjóveður á venjulegum róðrartíma, var það oft að formenn og fleiri söfnuðust saman til þess að „bræða veðrið“, sem svo var kallað“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Formenn miðuðu róðrartíma við það að vera komnir til miða um liggjandann; þ.e. straumaskipti norður- og suðurfalls“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Róðrarvettlingur (n, kk)  Sjóvettlingur; vettlingur sem notaður er við róður.  Slíkir vettlingar vildu þófna mjög við átökin og urðu kúlulaga.  Voru þá nefndir rónir vettlingar eða kútar.

Róðukross (n, kk)  Róða; kross; kross með kristslíkneski.  Mikil helgitákn fyrr á tíð, og átrúnaður við þá bundinn.  Í kaþólsku fóru menn um langa vegu í pílagrímsferðir að krossum sem þóttu góðir til bæna og áheita, t.d. að krossinum í Kaldaðarnesi.  Þjóðtrúin segir að óyggjandi sé til varnar fjárpest að láta róðukross úr tré undir taðhnaus innanvið þröskuldinn í fjárhúsinu.

Róður (n, kk)  Getur merkt athöfnina að koma báti áfram með árum, en einnig sjóferðina sjálfa:  „Við fórum í róður í gær, en róðurinn í land var þungur móti golunni“.  „Sú trú var rík fyrrum að ungum mönnum færi ekki verulega fram líkamlega fyrr en þeir færi til sjávar...  Ef ár var haldið í tveim höndum var það að róa tvíhendis, en einhendis eða tvíára ef sami maður reri tveimur árum.  Samtímis og vertíð hófst áskipaði formaður, þ.e. raðaði róðrarmönnum á sína staði í bátnum...  Hreyfing árar, eitt sinn fram og aftur, hét áratog en farið í sjónum eftir blaðið, árafar..  Til að vel nýttist úr áratogi þurfti að ná brotkrafti á árinni, dýfa henni mátulega djúpt í sjóinn; leggja henni hæfilega langt aftur; taka bakfallið á réttu augnabliki; skiljast við eftirróðurinn (lok áratogsins) með róðrarhnykk um leið og því var sleppt.  Að halla sér mjög langt aftur í lok hvers áratogs var að taka bakföll, en þá ver einnig tekinn langur áradráttur.  Að koma báti áfram með róðri var að hafa áfram; andstætt því var að hamla, en að stöðva bát og halda kyrrum var að stinga við.  Ef árunum var skellt svo í sjóinn að hlunkur heyrðist og upp skvettist, var það kallað að rota andskotann, en blaðskella sjóinn ef árin snerist í hendi og árablaðinu var skellt flötu í sjóinn.  Ef menn duttu aftur fyrir sig með fætur upp í loftið var það að reisa kuttasköft (sögn GG; Láganúpi).  Að róa hægt var að amla, en að lamma var haft um hægan lognróður.  Stuttur róðrarspölur hét að kippa.  Þegar vindur stóð á móti var barningur“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Þegar tveir reru, sinn á hvort borðið, var mikilvægt að annar léti hinn ekki snúa á sig; léti ekki standa upp á sig.  „Hægir róður hrönnum á;/ hlægir móðan strönd að ná./  Ægis glóða foldum frá/ fæ ég ljóðagjöldin smá“  (JR; Rósarímur). 

Rófa (n, kvk)  A.  Skott á dýri, t.d. kattarrófa.  Kunn er þessi vísa sem eignuð er Hallgrími Péturssyni ungum:  „Í huganum var ég hikandi/ af hræðslu nærri fallinn,/ er kattarrófan kvikandi/ kom hér upp á pallinn“.  B.  Garðávöxtur með gildri rót, sem góð þykir til matar og mikið ræktuð.  T.d gulrófa; rauðrófa.  C.  Gæluorð um stelpu; stelpurófa. 

Rófnafræ (n, hk)  Fræ rófu.  Fremur var talað um rófnafræ en rófufræ í Kollsvík.

Rófnarækt (n, kvk)  Ræktun á rófum til matar.  „Já, það voru alltaf ræktaðar kartöflur og þær spruttu; og þær spruttu vel.  Það var alltaf sett mánuð af sumri.  Rófur voru einnig ræktaðar.  Þetta tilheyrði vorverkum kvennanna“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Rófukál (n, hk)  Kál af rófum.  „Rófukál var oft gefið kúm eða kálfum, sem þeim þótti mesta hnossgæti“.

Rófubeð (n, hk)  Beð í garði, þar sem ræktaðar eru rófur.  „Stingtu vel upp rófubeðið“.

Rófubein (n, hk)  A.  Bein í rófu á dýri; neðsti hluti hryggjar á mönnum.  B.  Niðrandi heiti á manni.  „Hvað skyldi hann nú ætlast fyrir; árans rófubeinið“?

Rófubyssa (n, kvk)  Heimasmíðuð byssa sem notuð var til að skjóta rófubitum.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  „Svo voru gerðar... rófubyssur úr fjöðurstöfum helst úr álftafjöðrum. Stafurinn var skorinn af og endinn skorinn svo úr varð hólkur, svo voru sneiddar kartöflur (ekki rófur þó þetta héti rófubyssa!). Tálgaðir svokallaðir krassar, þ.e. smáprik með hnúð á enda sem passaði inn í hólkinn en hnúðurinn hélt við þegar krassanum var þrýst snöggt inn í legginn. En fyrst var byssan blásin með því að endum fjöðurstafsins var þrýst niður í kartöflusneiðina til skiptis svo kartöflutappar komu í báða enda. Svo var krassanum þrýst í annan endann og hljóp þá kartöfluskotið af. Væri krassinn mátulega langur sat annað skotið eftir í stafnum svo bara þurfti að hlaða aftur annan enda pípunnar fyrir næsta skot“  (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).  

Rófugarður (n, kk)  Garður þar sem rófur eru ræktaðar.

Rófukál (n, hk)  Kál af rófum.  Nýtt afskorið rófukál var gjarnan gefið kúm, sem kunna vel að meta það.

Rófusneið (n, kvk)  Sneið af rófu.  „Við sátum um það, þegar rófurnar voru skornar í pottinn, að fá sína rófusneiðina hvor“.

Rófustag (n, hk)  „Sérlega var erfitt að láta reiðing tolla sæmilega á hesti niður brekkur, þvi honum hætti alltaf til þess að síga fram á makkann, jafnvel þótt sett væri rófustag; þ.e. að kaðall væri bundinn í klyfberann og undir stert hestsins“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Rófustappa (n, kvk)  Stappaðar/maukaðar rófur, yfirleitt með einhverjum sykri.  Notuð sem meðlæti með ýmsum mat, s.s. slátri og sviðasultu.

Rófustýri (n, hk)  A.  Rótarendinn á rófunni, sem skorinn var af fyrir neyslu.  B.  Lítil rófa.  „Sæktu fyrir mig nokkur rófustýri út í garð“.  C.  Stýri á bát, á þann hátt að ár er lagt aftur af skutnum.

Rógberi (n, kk)  Sá sem ber út róg/níð um mann.

Rógburður / Rógur (n, kk)  Söguburður; það að rægja; slúður.  „Ég er ekki hrifinn af svona rógburði“!

Róinn (l)  A.  Farinn í róður; farinn á sjó.  B.  Þæfður; einkum notað um belgvettlinga sem orðnir voru vel þéttir af notkun og lagaðir eftir greipinni.  „... þeir þykkustu voru sjóvettlingar.  Þeir þófnuðu gjarnan á árinni og voru þá kallaðir rónir“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Ról (n, hk)  A.  Hægur gangur; labb.  „Hann er á róli uppi á Túni að gá að lambfé“.  B.  Góð heilsa; fótaferð.  „Maður er fyrst að komast á ról núna, eftir þessa árans pest“.

Róla (n, kvk)  Leiktæki til að róla sér í, fram og til baka.  „Róla var jafnan í snúrustaurunum við hjallinn, en á sumrin var stundum sett upp síðari róla yfir jötunni í fjárhúsunum“.

Róla (s)  A.  Ganga hægt; dóla.  „Ég ætla að róla niður að sjó“.  „Ég held að þokan sé nú eitthvað að róla frá“.  B.  Sveifla til og frá.  „Það er loft þarna, en unnt er að komast inn í hellinn með því að róla sér í vaðnum“.

Rólega (ao)  Hægt; varlega; með gætni.  „Farið rólega að lambfénu krakkar“.

Rólegheit / Rólyndi  (n, hk, fto)  Hæglæti í fasi; hægð; leti.  „Skelfingar rólegheit eru á manni þessa dagana“.

Rólegheitaakstur / Rólegheitakeyrsla / Rólegheitadól / Rólegheitadund / Rólegheitaganga / Rólegheitarekstur / Rólegheitarölt / Rólegheitastarf / Rólegheitavinna / Rólegheitvítl (n, kk/kvk/hk)  Það sem gert er með hæglæti/ í rólegheitum; hægar athafnir.  „Þetta er klukkutíma rólegheitaakstur“.  „Það er hætt við að þetta verði rólegheitarekstur; með þessa gömlu svona haltrandi“.  „Það er ágætt að fást við svona rólegheitavítl í sólskininu, þegar ekki er annað aðkallandi fyrir stafni“.

Rólegheitalíf (n, hk)  Hæglátt/áhyggjulaust líf.  „Þetta hefur bara verið rólegheitalíf í fríinu“.

Rólegheitamanneskja / Rólyndismanneskja / Rólegheitaskepna / Rólegheitamaður / Rólegheitafólk  (n, kvk/kk/hk)  Um þann/þá/þau/það sem taka lífinu með ró; æsa sig ekki yfir smámunum.  „Það vill þér til happs að ég er rólegheitamanneskja, annars fengirðu á baukinn“!  „Það þarf ekkert að binda þessa rólegheitaskepnu“.

Rólegur í tíðinni (orðtak)  Rólegur; ekki að flýta sér.  „Mér finnst hann einum of rólegur í tíðinni með þetta“.

Rólfær (l)  Með fótavist; fær um að ganga.  „maður er að verða rólfær eftir þessi veikindi“.

Róluband / Rólufjöl (n, kvk)  Hlutir rólu.  Rólubnd er fest í láréttan bita í báða enda, með miklum slaka milli enda.  Rólufjölin er með götum eða kríum í endum sem bandið liggur um, og er setið á henni, neðst í lykkju rólunnar.

Rólyndi (n, hk)  Jafnaðargeð; skapstilling.  „Hann er nú ekki beint þekktur fyrir rólyndi“.

Rólyndismaður (n, kk)  Sá sem jafnan heldur rólyndi/skapstillingu.  „Það vill til að þetta er rólyndismaður“!

Rólyndisskepna (n, kvk)  Dýr sem er geðgott/rólegt/stillt að eðlisfari.  „Nótt var mesta rólyndisskepna, en nokkuð fastheldin á daglegar venjur, s.s. básinn sinn og réttan mjaltatíma“.

Rólyndur (l)  Hæglátur; skapstilltur.  „Þetta er fremur rólyndur maður, en þjarkur til vinnu“.

Róm var ekki byggð á einum degi (orðatiltæki)  Sum verk verða ekki framkvæmd í snatri; allt tekur sinn tíma.

Róma (s)  Láta vel af; bera vel söguna; dásama.  „Hann rómaði mjög gestrisni þeirra“.

Rómaður (l)  Orðlagður; frægur; víðkunnur.  „Sá Halldór bjó á Láganúpi 1703, og var einn hinna kunnu Sellátrabræðra, sem rómaðir voru fyrir atorku og hreysti“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Rómanakjaftæði / Rómanarusl (n, hk)  Ástarsögur; ástarsöguvella; álit þeirra sem ekki kunna að meta, á ástarsögum; og stundum „fagurbókmenntum“ yfirleitt. „Ég nenni ekki að lesa þetta rómanakjaftæði“!

Rómani (n, kk)  A.  Rómverji; maður frá Róm; maður í Rómarríki.  B.  Bók með ástarsögu.

Rómanskur (l)  Sem kominn er af latneskum stofni/ byggt latneskumælandi fólki.  Sbr rómanska Ameríka.

Rómantík (n, kvk)  A.  Óraunsæ og oft listræn fegrun í hugverkum, s.s. bókmenntum eða myndlist.  B.  Það sem er draumkennt/heillandi í ástamálum/skáldskap.  C.  Listastefna sem einkennir tímabil.

Rómantískur (l)  Dreyminn; hugsar/talar fegurra en raunveruleikinn er; haldinn rómantík.  „Ég hef líklega aldrei verið mjög rómantískur í hugsun“.

Rónagli / Rósaumur (n, kk)  Bátasaumur; bugningur; hnoðnagli; nagli sem ró/skinna er hnoðuð á endann.  Rónagli er einkum notaður til að festa saman borð á bát, eða bönd við byrðing. 

Rónegla (s)  Festa saman með rónagla.

Róni (n, kk)  Drykkjumaður; drykkjurútur; maður sem neytir áfengis í óhófi; áfengissjúklingur.

Rór (n. hk)  Stýri; einkum notað um hjólstýri/ratt á stóru skipi, en sundum sem gælunafn á stýrissveif báts.  Sjá einnig rör og ratt.

Rór (l)  Rólegur; hægur; með jafnaðargeð.  „Mér var ekki rótt fyrr en hann var kominn upp á brún“.

Rórill (n, hk)  Rugg; jask; veltingur.  „Ekki líst mér á rórillið í ykkur þarna uppi á mæninum“.

Rórilla (s)  Rugga; jaska; velta.  „Vertu nú ekki að rórilla þér á grindinni; hún bara liðast í sundur á því“.

Rósabeður (n, kk)  Rúm sem rósablöðum hefur verið sáldrað um; lúxushvíla.  Vanalega notað í neikvæðri merkingu/ kaldhæðni.  „Rúmbálkurinn var kannski enginn rósabeður, en hann dugði“.

Rósaleppur (n, kk)  Leppur í skó sem í er saumað blómamynstur.  „Spariskór, jólaskór, voru úr svörtu skinni; bryddir með hvítu eltiskinni og rósaleppar í þeim.  Annars var gengið á skóm úr steinbítsroði heima fyrir“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Rósamál (n, hk)  Þegar talað er undir rós; orðagátur; tal með óbeinni merkingu.  „Mér fellur alltaf betur þegar menn segja hlutina hreint út, og eru ekki með neitt rósamál“.

Rósaverk (n, hk)  Útflúr/útskurður/útsaumur/skreyting sem minnir á blómskraut. 

Rósemd / Rósemi (n, kvk)  Hæglæti; yfirvegun; stilling.  „Hann tók þessu af furðu mikilli rósemd“.

Rósemdarmaður (n, kk)  Hæglætismaður; stillingarmaður.  „Það vill til að hann er rósemdarmaður“.

Rósemdarskepna (n, kvk)  Spök/róleg kind/kýr/hundur.  „Þetta er rósemdarskepna, enda orðin ýmsu vön“.

Rósemdarsvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir hugarró/stillingu/hæglæti.  „Hann leit á skemmdirnar með rósemdarsvip og bað okkur að fara varlegar næst“.

Róstusamt (l)  Ófriðlegt; lítill friður.  „Það ku vera nokkuð róstusamt þarna milli bæja þessa stundina“.

Rót (n, kvk)  A.  Eiginleg merking um rót á jurt.  B.  Ódámur; sá sem er öðrum skæður í umtali eða gjörðum.  „Hann er óttaleg rót við kerlinguna sína stundum“.  „Þetta er nú rótarháttur af versta tagi“. C.  Öldurót; stórsjór.  „Hann hefur rifið upp töluvert rót í nótt“.  D.  Rugl; reiðileysi.  „Það hefur verið dálítið rót á honum síðan hann skildi við konuna“.  E.  Ástæða; uppruni.  „Það þarf að leita að rótum vandans“.  F.  Hnyðja.  „Það er rekin boldangsmikil rót norður undir Gvendarhlein“.

Rót (n, hk)  Umrót; hreyfing; brimrót; tilfærsla.  „Eitthvað rót hefur komist á fjárhópinn“.  „Ég er hræddur um að eitthvað gæti gutlast af skít í netin í þessu róti“.

Róta (s)  A.  Raska; hreyfa; ryðja.  „Hver hefur nú verið að róta í verkfærunum mínum“?  „Brimið hefur róta upp feiknamiklu sandrifi suðurmeð Grjótunum“.  B.  Um jurt; fá rætur.

Róta sér (orðtak)  Hreyfa sig.  „Hann rótaði sér ekki þó ég reyndi að kalla á hann í kaffi“.

Róta sig (orðtak)  Um jurt; fá rætur.  „Ég setti græðlingana í vatn og mér sýnist að þeir séu að róta sig núna“.

Rótarbrim / Rótarsjór (n, hk)  Mjög mikið brim.  „Hann hefur rifið upp rótarbrim yfir nóttina.  Það held ég að strengirnir okkar verði félegir í næstu vitjun“.

Rótarfiskirí (n, kk/hk)    Mikill afli; mokveiði.  „Þarna lentum við í rótarfiskiríi um tíma“.

Rótarháttur (n, kk)  Lúalegir hrekkir; kvikindisskapur; meinsemi.  „Mér finnst það bölvaður rótarháttur þegar þingmenn svíkja á fyrsta þingdegi þau mál sem þeir lofuðu kjósendum sínum“. 

Rótarhnyðja (n, kvk)  Rót af tré, oftast þá sjórekin.  „Það var rekin feiknamikil rótarhnyðja í Grjótunum“.

Rótarhrekkur (n, kk)  slæmur/illyrmislegur hrekkur; óþverrabragð.  „Mér finnst fulllangt gengið með svona rótarhrekkjum; þið hefðuð getað drepið manngreyið“!

Rótarhugsunarháttur (n, kk)  Hugsun/fyrirætlun sem miðar að grófum hrekkjum; slæmar fyrirætlanir.  „Svona rótarhugsunarháttur getur nú ekki talist vel kristilegur, en kannski er þetta honum jafngott eins og hann hefur komið fram“.

Rótarí (n, hk)  Óreiða; rót; rusl.  „Óttalegt rótarí er nú í herberginu ykkar strákar“!

Rótarkjaftháttur / Rótarkjaftæði (n, kk/hk)  Ruddalegt tal; haugalygi; mikil áfærni/ósannindi.  „Ég hef nú sjaldan heyrt slíkan rótarkjafthátt“!  „Þetta er ekkert annað en rótarkjaftæði“!

Rótarkjaftur / Stólpakjaftur (n, kk)  Digurbarkalegt málfæri; rifrildi; gróf/hörð andsvör.  „Það getur verið rótarkjaftur á honum, þó þetta sé dagfarsprúður náungi“.  Orðið „rótarkjaftur“ finnst ekki í orðabókum en heyrðist notað vestra þó hitt væri algengara.

Rótarlegur (l)  Kvikindislegur; ófyrirleitinn; skammarlegur.  „Ósköp var hann rótarlegur við systur sína“!

Rótarskammir (n, kvk, fto)  Miklar ávítur/skammir; húðarskammir; óbótaskammir.  „Ég er þá ekkert að hjálpa honum; ef maður fær bara rótarskammir fyrir“!

Rótartjása (n, kvk)  Rótarlýja; grasrót.  Einkum notað um rætur í rofabörðum, sem orðnar eru berar og visnaðar. 

Rótast ekki / Róta sér ekki (orðtök)  Vera rólegur; æsa sig ekki upp; hreyfast/fara ekki.  „Ég hóaði hátt, en kindurnar rótuðust ekki“.  „Hann rótaði sér ekki þó hann fengi yfir sig kalda ágjöfina“.

Rótast í (orðtak)  Brauðhófast; hræra í; drífa áfram.  „Málið gekk hvorki né rak fyrr en hann fór að rótast í því“.

Rótbitið / Rótnagað (s)  Um beitarland; mjög mikið bitið; bitið niður í rót.  „Þegar mest var af fé í Kollsvík var orðið töluvert álag á úthögum og sumir blettir voru rótbitnir“.  „Rótbitinn“ finnst ekki í orðabókum.

Rótgróinn (l)  Mjög fastur í sessi; kominn til að vera.  „Þetta er gamall og rótgróinn siður“.

Rótlaus (l)   Um mann; ekki staðfastur; laus í rásinni; ístöðulaus. 

Rótnaga (s)  Um grasbít; bíta gróður niður í rót.  „Það dugir ekki að láta féð rótnaga túnin þegar komið er svona framá“!

Rótleysi (n, hk)  Staðfestuleysi; vingulsháttur; reiðileysi.  „Það var orðið dálítið rótleysi á honum“.

Rótsterkur (l)  Um drykk/mat; mjög bragðmikill/bitur/sterkur.  „Þetta er rótsterkt vín“!

Róttækur (l)  Sanntrúaður á málstað/málefni/trúarbrögð.  Oft einvörðungu notað um þá sem eru vinstrisinnaðir í stjórnmálaskoðunum, en getur einnig verið á hinn veginn.  „Gunnar Össurarson var sagður róttækur vinstrimaður; jafnvel kommúnisti, og sjálfur var hann stoltur af því“.

Rubba s)  Ryðja; koma í verk í fljótheitum, þó ekki sé vandað.  „Við náðum að rubba heyinu í hlöðuna áður en byrjaði að rigna“.  „Við rubbuðum netunum inn í bátinn með skít og öllu saman“.

Rubba af (orðtak)  Um verk; vinna í flaustri; koma fljótt frá/af.  „Það ætti að vera fljótlegt að rubba þessu af“.

Rubba upp (orðtak)  Hrófa upp; smíða/hlaða í flýti.  „Við rubbuðum upp girðingu til að létta innreksturinn“.

Rubbi (n, kk)  Brimót; mikill sjór.  „Það nýtist illa bitfjaran meðan hann heldur þessum rubba“.

Ruddafenginn / Ruddalegur (l)  Dónalegur; grófur; ókurteis; óheflaður.

Ruður (n, kvk, fto)  Afgangar; leifar; rusl.  „Gefðu hundinum ruðurnar“.

Ruddabrim / Ruddasjór (n, kk)  Mikið brim; stólpabrim.  „Fjaran er alveg þvegin eftir þetta ruddabrim“.  „Hann hefur rifið upp ruddasjó af vestan í nótt“.

Ruddamenni (n, kk)  Ruddi; svaðamenni.

Ruddaháttur / Ruddaskapur (n, kk)  Óþverraháttur; fantabrögð; frekja.  „Það er óþarfi að sýna þennan ruddaskap“.

Ruddaskítur (n, kk)  Ruddi.  Getur verið notað um slæmt veður; slæmt sjólag; slæm hey eða annað.

Ruddatíð (n, kvk)  Ótíð; rysjótt/slæmt tíðarfar.  „Það hefur verið hálfgerð ruddatíð yfir allan stauminn“.

Ruddaveður (n, hk)  Slæmt veður.  „Það var ruddaveður á leiðinni til Englands en allt gekk þetta tíðindalaust“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Ruddavegur (n, kk)  Illfær/grófur vegslóði.  „Þetta er ruddavegur á köflum, og varla bílfær“.

Ruddi (n, kk)  A.  Frekur og grófur maður.  B.  Slæmt eða ónýtt hey; heyruddi.  Algengasta notkun orðsins.  „Það þýðir ekki að bjóða nokkurri skepnu þennan rudda“.  C.  Mikill sjór; brim.   „Hann er búinn að rífa upp bölvaðan rudda á stuttum tíma“.  D.  Þoka; þokuruddi.  „Hann er að leggja upp biksvartan rudda frá sjónum“.

Ruddi í hafið (orðtak)  Ljótur til hafsins; slæmt veðurútlit í norðurátt.

Ruddi til hafsins/sjóarins (orðtök)  Mikill sjór; mikið brim.  „Skelfingar ruddi er þetta til sjóarins ennþá“.

Ruddur (l)  Um veg; búið að ryðja/moka/ gera bilfæran.  „Hálsinn verður líklega ruddur á morgun“.

Ruðamikill (l)  Stór; þungur; digur; erfiður í manureringum.  „Skápurinn er alltof ruðamikill.  Hann kemst ekki í þetta skot“.  „Þessar árar eru heldur ruðamiklar fyrir svona lítinn bát“.  Orðið finnst ekki í orðabókum en var og er mjög tamt Kollsvíkingum.  „Ruði“ merkti það sem var mikið um sig, t.d. svert rekatré (Orðab. Menn.sj.).  Það orð er alveg horfið úr notkun en þetta afleidda orð lifir í máli Kollsvíkinga.

Ruði (n, kk)  Það sem er stórt og þungt; rekadrumbur; erði.  „Þú ræður ekki einn við þennan ruða“.

Ruðja (s)  Ryðja (sjá þar).  Sögnin að ryðja var iðulega framborin með u-hljóði af Kollsvíkingum og öðrum á svæðinu.  Þetta var áberandi meðal eldra fólks á síðari hluta 20. aldar, en heyrist ekki lengur; enda ekki við það stutt af hinu einsleita skólakerfi.  „Þeir þurftu að ruðja bátinn áður en lent var“.  „Vegagerðin ætlar víst ekki að ruðja þessa útkjálkavegi oftar þennan veturinn“.

Ruðja/ryðja úr sér (orðtak)  A.  Halda (skammar-)ræðu; segja sína meiningu; skamma; segja frá í ákafa.  „Þegar hann var búinn að ruðja úr sér með miklu offorsi sagði ég með hægð að hann gæti sjálfum sér um kennt“.  B.  Rigna; kasta éli.  „Mér sýnist að hann sé byrjaður að ruðja úr sér þarna norðurundir“.

Ruðningsgrjót (n, hk)  Grjót sem rótað/rutt hefur verið til.  „Í vegginn notaði ég ruðningsgrjót úr veginum“.

Ruðningsholt (n, hk)  Holt úr jökulruðningi/jökulseti/jökulurð frá ísöld; holt sem augljóslega hefur verið rutt upp.  „Brunnsbrekkan er ruðningsholt eða jaðarurð frá lokum ístímans“.

Ruðningur (n, kk)  A. Snjóruðningur; skurðruðningur; uppmokstur, þar sem viðkomandi efni hefur verið rutt til.  B.  Skýjaruðningur, um það þegar þykknar upp.  C.  Óvandaður/slæmur vegur; vegur sem ruddur hefur verið, án frágangs/sléttunar.  D.  Fiskistía í verstöð, sem aflinn er settur í fyrir aðgerð. 
„Eitt af því sem tilheyrði vergögnum var svonefndur ruðningur.  hann var svo gjörður að lagður var reitur úr hnullungsgrjóti, lítið eitt lægri í miðju, og stórum steinum raðað i kring.  Þurfti ruðningurinn að vera svo stór að hann tæki allan aflann úr róðri hverjum.  Þangað var fiskurinn borinn er í land var komið.  Öðrumegin við ruðninginn var hlaðinn grjótbálkur sem tók meðalmanni í mjöðm, og hella lögð ofan á.  Á hellu þessari var fiskurinn flattur.  Bálkurinn var kallaður flatningur.  Raðað var nokkuð stórum steinum kringum dálítinn blett við flatninginn, þar sem flatningsmennirnir stóðu.  Hinsvegar við flatninginn voru tvær þrær sem stórum steinum var raðað kringum.  Í aðra þeirra var flatta fiskinum kastað, en í hia er hann hafði verið rifinn upp“  (PJ; Barðstrendingabók). 
„Við Syðrilækinn sunnanverðan voru ruðningar þar sem gert var að fiski og fiskkrær stóðu sem fiskurinn var saltaður í....  Meðfram Búðalæknum áttu allt að 14 skipshafnir ruðninga sína og nokkrar þær efstu áttu yfirbyggðar söltunarkrær; voru það einkum heimamenn.  Aðrir, sem neðar áttu ruðninga, söltuðu oftast fiskinn í stóra kassa, en þegar hann var rifinn upp og umsaltaður var hann borinn á öruggari stað, vegna flóða sem komið gátu ef brimaði um stórstreymi “.  „Ruðningar voru lengst af reitlagðir úr fremur smáu grjóti og með allstórum steinum umhverfis“  (KJK; Kollsvíkurver). 
„Aflinn var dreginn upp í ruðninginn sem var grjótreitur, lægstur í miðju og kringsettur stórum steinum.  Öðru megin við ruðninginn var bálkur, hlaðinn úr grjóti.  Á honum hvíldi ílöng hella sem var vel slétt, og það stór að ekki fengu rogað henni færri en fjórir fullgildir menn.  Þetta var flatningsborðið“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).
„Um aldamótin 1900 kom stór stór trékassi með stuttum fótum með rimlabotni í stað ruðningsins, en hélt engu að síður nafni hans.  áfast við kassann var flatningsborð sem tveir menn gátu staðið við.  Úr fjöru var fiskurinn borinn í kassann en af flatningsborðinu í þvottakar.  Sá kostur var við þessa nýju gerð af ruðningi að auðvelt var að færa hann til“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  „Ruðningur var trékassi á löppum.  Flatningsborð á öðrum endanum, en stúkað af fyrir hausa á hinum“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Ruður (n, kvk, fto)  Leifar; afgangar; rusl.  „Það er ekkert eftir á fiskfatinu nema ruðurnar“.

Rugg (n, hk)  A.  Vagg (t.d. hluta eða manna).  B.  Veltingur; allnokkur sjór.  „Hann hefur verið að auka sjóinn með morgninum; það er komið allnokkuð rugg“.  C. Um veg; óslétt.   „Það er bölvað rugg hérna á kafla“.

Rugga (n, kvk)  Vagga; barnsrúm sem getur hreyfst fram og til baka.

Rugga (s)  Velta/róa fram og til baka.  „Aldan hafði ruggað bátnum lengra upp í fjöruna“.

Rugguhestur (n, kk)  Leikfang í hestlíki sem getur ruggað og barn getur setið á.

Ruggustóll (n, kk)  Stóll sem getur ruggað; ruggandi hægindastóll.

Rugl (n, hk)  A.  Vitleysa; kjaftæði; þvæla.  „Óttalegt rugl er núna í þér; þetta hef ég aldrei sagt!  B.  Ruglingur; blöndun.  „Ekki veit ég til hvers við vorum að flokka eggin ef þið setjið þetta svo allt í rugl núna“! C.  Vönkun; vitfirring.  „Ekki veit ég hvaða rugl þetta var á honum“.

Rugl og kjaftæði/þvæla/vitleysa (orðtök)  Fjarstæða; endaleysa.  „Svona nokkuð er nú bara rugl og kjaftæði“!

Rugla (n, kvk)  Ranghugmynd; ímyndun; rugl.  „Hvernig dettur þér svonalagað í hug; ég held þú sért bara kominn með rugluna“! 

Rugla (s)  A.  Fara með /segja þvælu/fjarstæðu/rugl.  „Hann var eitthvað að rugla með allt annað mál“.  B.  Gera rugl/óreiðu; blanda.  „Nú er búið að rugla öllum skjölunum fyrir mér“!

Rugla saman (orðtak)  A.  Blanda saman.  B.  Villast á; taka rangan fyrir réttan.  „Mér hættir enn til að rugla tvíburunum saman“.

Ruglaður (l)  A.  Almennt; í óreiðu; víxlaður.  B.  Um mann; illa áttaður; ringlaður; heimskur.

Ruglandi (n, kk)  Öldulag kemur úr a.m.k. tveimur áttum í senn.  Þetta getur t.d. gerst þegar undiralda hefur aðra stefnu en vindbára á staðnum, eða þegar straumur úr röstum myndar báru á yfirborði.  Getur skapað hættu og jafnvel stór áföll.

Ruglaður í ríminu (orðtak)  Ráðvilltur; ruglaður; búinn að missa röð/takt/tölu.  „Það er svo mikið far á fénu í dilknum að ég er alveg orðinn ruglaður í ríminu; það er ekkert hægt að telja þetta svona“!

Ruglast í ríminu (orðtak)  Rugla; gera mistök.  „Stundum ruglast hænurnar í ríminu og fara að basla við að gala, en það eru heldur ófögur hljóð“  (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).  Líkingin vísar í fornra aðferða til að henda reiður á tímatali.  Til þess notuðu sumir fingrarím eða svokölluð rímspjöld, og var þá mikilvægast að kunna skil á messudögum, hátíðum og öðrum merkisdögum.  Á þessa kunnáttumenn hefur eflaust mjög verið treyst, og alvarlegt var þegar þeir rugluðust í ríminu, á tímum þegar ekki voru klukkur, dagatöl, fjölmiðlar eða tölvur til að koma skikki á tímatalið aftur.

Ruglingslegt (l)  Líkt óreiðu; óskipulegt.  „Mér finnst þetta dálítið ruglingslegt alltsaman“.

Ruglingur (n, kk)  Mistök; víxl; umskipti.  „Hér hefur orðið einhver ruglingur í merkjunum“.

Rugludallur / Ruglukollur (n, kk)  Vitleysingur; kjáni; sá sem viðhefur rugl/þvælu.  „Ég hlusta nú ekki á þann rugludall“!  „Skelfing leiðist mér svona ruglukollur“!

Rukka (s)  Innheimta; krefja um greiðslu.  „Það voru ekki aðrir byrjendur, og við áttum ekki að þurfa að rukka hvern sem notaði þetta svæði“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Rukkari (n, kk)  Sá sem innheimtir/ krefur um greiðslu.  „Hann gerðist rukkari fyrir sunnan“.

Rukkun / Rukkunarbréf (n, kvk)  Fjárkrafa; innheimta; reikningur.  „Hér var að koma rukkun fyrir árgjaldinu“.

Rulla (n, kvk, hart l)  A.  Rúlla; vindingur.  Oftast notað um munntóbak áðurfyrr, en það seldist í upprúlluðum lengjum. Sjá rjól; neftóbak; skro; tóbak.  B.  Hlutverk í leikriti.  „Hann lék sína rullu óaðfinnanlega“.  C.  Líkingamál og dönskusletta um mikilvægi málefnis:  „Þetta spilar enga rullu“.

Rummungsþjófur/ Rummungur (n, kk)  Ræningi; stórþjófur.  „Nú kemur í ljós að þessi „óskabörn Íslands“  voru ekkert annað en rummungsþjófar og rumpulýður“!  Rummungur er stundum notað yfir golþorsk.

Rumpulýður / Ruslaralýður (n, kk)  Óþjóðalýður; skálkar; illmenni.  „Það er nú varla komandi í þessa Reykjavík lengur; þeir eru búnir að setja knæpur á hvert götuhorn og þar elst upp glæpahyski og rumpulýður sem engu eirir“!

Rumpur (n, kk)  Rass; afturendi.  „Hvað er að sjá á þér fumpinn; ertu með saumsprettu“?

Rumsk (n, hk)  Hreyfing; ið.  „Hverskonar þyrnirósarsvefn er þetta í manninum; komið framá hádegi og enn ekki minnsta rumsk á honum“?!

Rumska (s)  Hreyfast; rísla; vakna.  „Maður er nú yfirleitt farinn að rumska um sjöleytið“.

Rumur (n, kk)  Risi; beljaki.  „Þetta var heljarmikill rumur og óárennilegur“.          

Runa (n, kvk)  Röð.  „Þarna koma kindurnar allar í runu uppfrá sjónum“.  „Það heyrðist runa af blótsyrðum“.

Runhenda (n, kvk)  Bragform, þar sem samstæðar ljóðlínur ríma í enda.  Geta minnst verið tvær samstæðar ljólínur með sama endarím, en mest allar.

Rupl (n, hk)  Þjófnaður; stuldur; rán.  „Stjórnvöld hafa stundað grímulaust rán og rupl á fiskimiðum sjávarjarða; áratugum saman.  Væri nú ekki ráð að vildarvinir þeirra færu að skila veiðiheimildum á sína staði“?

Rupla (s)  Stela; ræna; nappa.  „Hver hefur nú ruplað frá mér skærunum“?

Rusk (n, hk)  Læti; ónæði.  „Verið ekki með þetta rusk hér inni meðan barnið sefur“!.

Ruska (s)  Róta til; rugla.  „Það er undireins búið að ruska öllu til þó ég hafi nýlega komið því í gott horf“.

Ruska í (orðtak)  Róta/hræra í.  „Veriði nú ekki að ruska í kistunni strákar“!

Ruska út / Rusla út (orðtak)  Sóða út; dreifa rusli; gera óreiðu.  „Gætið þess að ruska ekki allt út“!

Rusl (n, hk)  A.  Almennt um ónýta hluti; drasl; afgangar; ruður.  B.  Smælki; fiskur svo smár að varla er nýtanlegur.  C.  Lélegt fóður.  „Það þýðir ekki að gefa lambánum þetta rusl“.

Rusla (s)  A.  Rísla/róta í; hræra.  „Verið ekki að rusla í verkfærunum strákar“.  Sópa saman/í.  „Það gengur ekki að rusla ullinni bara einhvernvegin ofan í ballann!  Það þarf að vefja hvert reyfi saman og hagræða því“.

Ruslafata (n, kvk)  Fata/ílát sem rusli er safnað í.  „Settu þetta í ruslafötuna undir vaskinum“.

Ruslakompa (n, kvk)  Herbergi/rými þar sem óreiða ríkir.  „Þetta er meiri ruslakompan hjá honum“!

Ruslaralega (ao)  Óskipulega; í óreiðu/ belg og biðu; ruglingslega.  „Afsakaðu hvað þetta er ruslaralega borið á borð hjá mér, en ég átti ekki von á gestum á þessum tíma“.

Ruslaralegt (l)  Í óreiðu; óskipulegt; í drasli.  „Ansi er nú orðið ruslaralegt í herberginu ykkar strákar“!

Ruslaralýður (n, kk)  Óþjóðalýður; hópur af óþokkum/ruddum/þrjótum.  „Ég vil ekkert af þessum ruslaralýð vita meir“!

Ruslmatur / Ruslfæði (n, kk/hk)  Lélegt fæði; matur sem ekki er staðgóður/næringarríkur/hollur.

Russa / Russuungi (n, kvk)  Annað heiti á fuglinum ritu, en einnig heyrðist notað ryssa.  Skegla var hinsvegar lítt sem ekki notað um fuglinn vestra.  „Kringum Kórana var mest rita, sem reyndar var í daglegu tali jafnan nefnd russa (russuungi). (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Rustaháttur (n, kk)  Ruddaháttur; gróf/hranaleg framkoma. 

Rustalegur (l)  Groddalegur; grófur; ruddalegur; hranalegur.  „Skelfing finnst mér hann rustalegur í framkomu“!

Rusti (n, kk)  Ruddi; groddi; þrjótur; skálkur.  „Það er ekki hægt að líða svona rusta innanum siðað fólk“!

Rutl (n, hk)  Rugl; óráð.  „Það er nú orðið óttalegt rutl á henni í seinni tíð, blessaðri“.

Rutla (s)  Rugla; tala í óráði.  „Það hendir hann stundum á efri árum að rutla eitthvað samhengislaust“.

(n, hk) Ull á sauðfé, einkum fullvaxin og gömul ull.  „Ekki þótti gott að láta fé ganga lengi í rúinu og því var smalað til rúnings, eða aftektar, á hverju sumri; helst fyrir sláttinn.  Fyrir kom þó, einkum þegar útgangsfé heimtist, að fé var í tveimur reyfum“.   Ef ekki var tekið af, eða rúið, var hætt við að féð færi í ullarhaft; þ.e. að fæturnir flæktust í ullinni svo það gæti ekki gengið, auk þess sem kindin þrífst illa sé henni of heitt.  Við aftektina var kindin ýmist bundin við staur í réttinni á hornum eða með múl, eða einhver hélt í.  Sá var stundum nefndur íhaldsmaður.  Oftast voru notaðar sauðaklippur til aftektar, en stundum hnífur.  Sumir kunnu því best að nota sinn vasahníf.  Vanalega er byrjað að skera uppúr undir kverkinni, en stundum þó eftir hryggnum.  Síðan var ullin klippt í fyllingunni, en það eru fínu hárin innanvið togið.  Misjafnt var hvað ám var vel fyllt og var vandasamt að rýja þær sem var illa fyllt.  Til skammar þótti ef kindin var særð eða skorin eftir rúninginn.  Þegar hleypt var út var oft staðið yfir hópnum um stund, meðan ærnar lembdu sig; þ.e. fundu lömbin sín.  Ullin var flokkuð eftir lit; látin þorna og síðan troðið þéttingsfast í stóra poka sem nefndust ullarballar.  Stundum fóru þar með hagalagðar sem safnað hafði verið í úthögum“  (VÖ). 

Rúbaggi (n, kk)  Kind í tveimur reyfum; óaftekin kind; kind sem er áberandi þjökuð af reyfi sínu.  „Það þarf endilega að ná þessum rúbagga sem fyrst“.

Rúða (n, kvk)  A.  Gler í glugga.  B.  Reitur, t.d. á strikuðu blaði, flík eða í túni.

Rúðóttur (l)  Með rúðum; köflóttur.  „Svuntan var af rúðóttu taui, sem var kallað skoskt tau; óhrein eða upplituð, því að framaná svuntunni var bót af sama efni er sýndi hinn upprunalega lit tausins“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).

Rúétinn (l)  Um hræ í sjó; étið af marfló/hráa; hráétinn.  „Í netinu voru tvær rúétnar grásleppur“.

Rúff (n, hk)  Brak; drusla.  „Heldurðu að þú komist til Reykjavíkur á þessu rúffi“?  Orðið mun upphaflega hafa verið notað um þilfarsskýli á bát/skipi, og er líkl. samstofna orðinu hróf og enska orðinu „roof“ = þak.

Rúgbrauð (n, hk)  Brauð, að uppistöðu úr rúgmjöli.  „Myr; kartöflusmæliki, var gjarnan notað í rúgbrauð; sem og fjallagrös.  Kartöfluafgangar voru gjarnan stappaðir og notaðir í rúgbrauð; það var mjög gott með kartöflum.  Rúgbrauðin voru bökuð í kringlóttum boxum sem pabbi smíðaði“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).  „Fjallagrös voru notuð bæði í brauð og grauta.  Það eru reglulega góð rúgbrauð, blönduð með fjallagrösum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Rúgkaka (n, kvk)  Eldsteikt flatkaka úr rúgmjöli.  „Verkoffortið með rúgkökum eða hveitikökum; rúgbrauði, smjöri, og svo kæfu til nokkurra daga“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Þegar líða tók á vertíðina fengu vermenn bakaðar rúgkökur á bæjunum og heimamenn fengu sendan spónamat; graut og mjólk“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Rúgmél / Rúgmjöl (n, hk)  Mél úr rúgi/rúgkorni.  Rúgur (Secale cereale) er korntegund af grasaætt.  Úr korni hennar er malað rúgmél.  Rúgur vex villtur í Litlu Asíu, en hefur verið ræktaður frá nýsteinöld.  Hérlendis er rúgur sumsstaðar ræktaður í dag, einkum til beitar.

Rúinn (l)  Sviptur munum/verðmætum.  „Búðirnar höfðu verið rúnar og yfirgefnar, svo að hendi lá næst að flytja rúmfatnað og annað er þar þurfti til vistar til búða á ný... “  (KJK; Kollsvíkurver).

Rúlla (n, kvk)  A.  Sívalningur almenn, t.d. hárrúlla, plastrúlla, vírrúlla o.fl.  t.  B.  Heyrúlla.  Rúllupökkun á heyi fór að tíðkast sem verkunar- og geymsluaðferð á síðustu áratugum 20.aldar. 

Rúlla (s)  A.  Snúa sívalningi; vinda; velta; vefja.  B.  Binda hey í heyrúllu með rúllubindivél.

Rúlluhlunnur (n, kk)  Keflahlunnur; hlunnur með járnrúllum til að auðvelda setningu báts; líklega uppfinning Ásgeirs Erlendssonar á Hvallátrum:  „Fljótlega eftir að við Þórður fengum Kóp (1932) fór ég að velta því fyrir mér á hvern hátt mætti gera setninginn úr sjá og á auðveldari.  Upp úr þessum vangaveltum smíðaði ég keflahlunna úr járni og eik.  Þeir reyndust vel, en entust ekki eins og skyldi, svo ég fór þá með teikningu af þeim í vélsmiðjuna Héðin, og brugðust þeir vel við og smíðuðu sterka og vandaða hlunna sem leystu hvalbeinshlunnana alveg af hólmi.  Ekki varð ég þó ríkur af þessari uppfinningu, enda ekki til þess gert“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Rúkragi (n, kk)  A.  Slitur af ull um háls/bóga á sauðfé, en þar slitnar það gjarnan síðast af þegar kind fer úr ullinni.  B.  Sérstök tegund kraga á rúllukragapeysu; kragi sem rúllast utanum hálsinn.

Rúllulega (n, kvk)  Sérstök tegund legu/lagers, með litlum pinnum/keflum/rúllum; keflalega.

Rúllupylsa (n, kvk)  Vindilbjúga; vöðlubjúga; slagvefja.  Rúllupylsur eru gerðar úr slögum/magálum/huppum sem lögð eru saman með salti, (lauk) og kryddi inná milli; rúllað þétt upp; síbundið þétt utanum; saltað og reykt og notað sem álegg á brauð.

Rúllupylsunál (n, kvk)  Fjaðurnál; pokanál; stór saumnál (um 15cm löng); blaðlaga að framan; notuð til að sauma saman lundabagga, rúllupylsur, vambir o.fl.  Einnig til að spyrða saman rauðmaga til upphengingar og sauma saman strigapoka.

Rúlluterta (n, kvk)  Sérstök tegund bakkelsis/köku, sem gert er með því að þunnu lagi köku, sem smurt er með sultu eða kremi, er rúllað upp svo úr verður rúlla.  Hún er síðan sneidd niður og í verður spíralmynstur.

Rúm (n, hk)  A.  Svefnbekkur; svefngagn.  B.  Hólf í báti.  Hverjum báti var skipt upp í rúm (sjá „bátur“).  „Svo reri hann á tvær árar framí en sagði mér að vera í barkanum, sem er fremsta rúmið í bátnum, og kasta í land tauginni þegar að væri komið því nægur mannskapur var í fjörunni að taka á móti okkur“  (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004).  Bil milli þófta er 77-94cm og nefnist rúm.  Hver þófta og rúm hefur sitt heiti.  Á tveggja og fjögurra manna fari í Kollsvík voru þóftur 3:  Barki/hálsrúm var fremsta rúmið;alveg fram í stafn. Aftan við barka er andófsþófta og aftan við hana andófsrúm/fyrirrúm.  Aftan þess er miðskipsþófta og aftan þess austurrúm .  Aftasta þóftan er bitaþófta og aftan við hana er skutur.  Reyndar var á sumum bátum lítil formannsþófta í skutnum, en stundum sat formaður á lausri fjöl.  (sbr. LK; Ísl. sjávarhættir II).

Rúma (s)  Taka; hafa pláss/rúm/rými fyrir.  „Báturinn rúmar ekki fleiri með góðu móti“.

Rúmbálkur / Rúmflet (n, kk)  Gæluorð um rúm.  „Eigum við ekki að færa rúmbálkinn að hinum veggnum“?

Rúmbrík (n, kvk)  Rúmstokkur.  „Við rúmbríkina hjá mér er kistill“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Rúmfastur (l)  Þarf að vera rúmliggjandi vegna veikinda.  „Ég hef verið rúmfastur í nokkra daga“.

Rúmfatnaður / Rúmföt (n, hk, fto)  Sæng og koddi, auk sængurvers, koddavers og laks í rúm.  „Flestir höfðu einhverjar undirsængur og rúmföt (í búðum í Verinu) “  ... „ ... eftir að bjargferðum var lokið var fiðrið líka söluvara; það sem ekki var notað til rúmfata heima“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Rúmfrekur (l)  A.  Frekur á pláss/stæði í rúmi báts.  B.  Almennt; tekur mikið pláss.  „Stóllinn er alltof rúmfrekur í svona litlu herbergi“.

Rúmgóður (l)  Sem rúmar vel/ hefur gott pláss.  „Fjárhúsin eru þrifaleg og rúmgóð“.

Rúmhelgur dagur (orðtak)  Virkur dagur; ekki helgidagur.  „Venja var áður að vinna undir drep á rúmhelgum dögum en gera vinnuhlé á sunnudögum og öðrum helgidögum“.

Rúmlega (n, kvk)  Lega í rúmi.  „Pestin kostaði hann þriggja daga rúmlegu“.

Rúmlega (ao)  Ríflega; rösklega; um of.  „Við fengum rúmlega í kút af höfðanum“.

Rúmmari (n, kk)  Stoð sem heldur uppi rúmi; uppistaða sem rúmfjalir eru festar á.  Í torfbæjum og verbúðum fyrri tíma náði rúmmarinn jafnan upp í sperrur eða aðra máttarviði hússins.  Sjá mari.

Rúmrusk (n, hk)  Spilling svefns; vakning; ófriður um nótt.  „Ekki ætlaði ég nú að gera ykkur rúmrusk“.

Rúmsjór (n, kk)  Opið haf; úthaf; hafsvæði utan hafna eða annarra þrenginga.  „Þú siglir ekki þarna milli skerjana eins og þú sért úti á rúmsjó“.

Rúmstokkur (n, kk)  Fjöl sem liggur með brún, langsetis eftir rúmi; rúmbrík.  Einnig haft um brún rúms þó engin sé fjölin.  „Hann settist fram á rúmstokkinn og klæddi sig“.

Rúmstuðull / Rúmmari (n, kk)  Hlutar af rúmi/fleti í verbúð.  „Rúmin voru þannig að rúmstokkur, fjöl, var fyrir framan, en við báða enda hennar rúmstuðull er nefndur var uppstandari ef hann náði upp í sperru.  Við báða enda rúmstokksins lá fjöl eða kefli lárétt í vegginn; rúmmarinn.  Búðareigandi lagði til rúmstokk, rúmstuðul og rúmmara.  Rúmbotnar voru víðast hvar riðnir úr snæri, reyndar þekktust einnig trébotnar.  “  (LK;  Ísl. sjávarhættir II; frás. ÓETh og KJK).

Rúmstæði / Rúmbálkur (n, hk/kk)  Flet; rúm.  „Næst var að huga að búðunum sem búa átti í, vor og sumar.  Það þurfti að laga vegg sem var farinn að ganga; bera nýjan sand á gólfið; laga rúmstæði og fleira “  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Honum bregður í brún þegar hann sér að á rúmbálknum (í Látraseli) liggur kona ein ung“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Rúmur (l)  A.  Almennt um magn/rúmmál/lengd o.fl; ríflegur; yfirdrifinn; röskur; meira en.  „Tréð var rúmir þrír faðmar á lengd“.  B.  Um fatnað; heldur stór; í stærra lagi.  „Skórnir voru vel rúmir“.

Rúnagaldur (n, kk)  Galdur/seiður með notkun rúna/rúnaleturs.  Engar heimildir eru fyrir því hvernig rúnir voru notaðar til galdra, en í fáeinum fornheimildum er minnst á slíkt; t.d. í Egils sögu, er honum hafði verið boðinn eitraður mjöður:  „ Egill brá þá knífi sínum og stakk í lófa sér; hann tók við horninu og reist á rúnar og reið á blóðinu“.  Líklega gildir um þennan galdur sem marga aðra að menn sem þóttust kunna eitthvað fyrir sér hafa stundum freistast til að nota kunnáttuna til að hræða aðra og auka sér virðingu.

Rúnakefli (n, hk)  Trébútur sem á eru ristar rúnir.  A.m.k. 4 rúnakefli hafa fundist hérlendis, t.d. að Bergþórshvoli og í Viðey; og 27 í Grænlandi.  Ekki er vitað nákvæmlega um tilgang þeirra, en líklega hafa a.m.k. sum þeirra verið verndargripir; hugsanlega gegn sóttum. 

Rúnaletur / Rúnir (n, hk/ kvk, ft)  Rúnir eru fornt stafróf sem notað var í mörgum germönskum málum frá 2.öld þar til þær viku fyrir latnesku letri, um líkt leyti og kristni ruddi sér rúms.  Elstu rúnaristur sem fundist hafa eru á greiðu frá um 150 e.k. sem fannst á Fjóni.  Fyrirmynd rúnanna kann að vera grískt letur eða annað frá Miðjarðarhafslöndum.  Rúnaletur er stundum nefnt „fúþark“ eftir fyrstu stöfum þess.  Rúnaristur finnast á steinum; rúnasteinum, um norðanverða Evrópu; einkum á Norðurlöndum.  Rúnaletur var að mestu aflagt þegar Ísland byggðist, en hefur þó verið notað hér af og til.  Elsta heimild um það er svonefnd „Indriðarista“; tréreka frá 12. Öld sem fannst í Skorradal.  Í íslenska rúnaletrinu eru 16 tákn.  Heitið rún er líklega eldra en letrið og e.t.v. stofnskylt „brún“ eða „renna“, og hefur líklega merkt hverskonar rás eða rista.  Sbr orðtak sem enn lifir um að andlit manns sé rúnum rist.

Rúningur (n, kk)  Aftekt.  Yfirleitt var talað um aftekt í máli Kollsvíkinga, en þó stundum rúning.  „Það þarf að hafa góð fjárhús til að geta viðhaft vetrarrúning sauðfjár“.

Rúnnaður (l)  Ávalur; með ávölum brúnum/hornum; sívalur. 

Rúnta (s)  Aka; fá sér bíltúr.

Rúntur (n, kk)  Bíltúr; ökuferð.  „Ég ætla að fá mér rúnt inní Skarð og gá hvernig er í Hænuvíkurlendingu“.

Rúnum rist (orðtak)  Um andlit eða landslag; alsett hrukkum/rásum/dældum.  Orðtakið er líklega mjög fornt; eldra en rúnaristur fyrr á tíð.  Rún merkir rás eða rista, og hefur rúnaletur sennilega tekið nafn af því.

Rúsínan í pylsuendanum (orðtak)  Besti/kjarnmesti hlutinn af því sem um er rætt; lokahnykkurinn á sögunni.  Orðatiltækið mun ættað frá Danmörku eins og pylsur nútímans, en þar á bæ mun vera gamall siður að setja rúsínu í enda pylsu þegar hún er gerð.

Rúsínubúð (n, kvk)  Krambúð; búð sem selur jafnt matvöru sem annan þurftavarning, líkt og var t.d. með kaupfélagsverslanir til sveita.  Heitið er líklega fundið upp af Guðm. Jóni Hákonarsyni á Hnjóti, sem lengi var kaupfélagsstjóri á Gjögrum, og mun vera glensheiti á þeirri búð.  Hefur síðan verið notað af mörgum öðrum um aðrar slíkar verslanir.  „Þetta fékk ég í rúsínubúðinni“.

Rúsínugrautur (n, kk)  Grautur með rúsínum og ákasti/méli til þykkingar.  Oft með sveskjum eða öðru.  „Það var venja á sunnudögum að eldaður væri rúsínugrautur“  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna magnússonar).

Rúsínukaka (n, kvk)  Jólakaka; kaka með rúsínum í.  „Hún hafði bakað herjans mikla rúsínuköku“.

Rúsínukassi (n, kk)  Kassi með rúsínum.  Rúsínur voru fyrrum seldar í 25 punda pappakössum.

Rúskinn (n, hk)  Sútað skinn með ósléttum holdrosa sem snýr út.  „Þú ferð ekki út í forina á rúskinnskóm; finndu þér frekar stígvél“.

Rússaáróður (n, kk)  Nafngjöf Morgunblaðsins og íhaldsmanna á flestu því sem sagt var að hálfu Sovétríkjanna og bandamanna þeirra.  Almenningur talaði ekki síður um „Kanaáróður“; það sem Bandaríkjamenn sögðu.

Rússagrýla / Rússahræðsla (n, kvk)  Ógnun sem haldið var á lofti af Morgunblaðinu og íhaldsmönnum um hættuna sem stafaði af Sovétríkjunum og útþenslustefnu þeirra.  Rússagrýlan var ástæða þess að gerður var herverndarsamningur við Bandaríkinn; haft hér herlið og gengið í Nató.

Rússajeppi / Rússi (n, kk)  Jeppategund af gerðinni Gaz eða Uaz, sem flutt var inn frá Sovétríkjunum.  „Össur og Ingvar í Kollsvík áttu saman rússajeppa í mörg ár, og fengu Bjarna Sigurbjörnsson í Hænuvík til að byggja yfir hann.  Hann var löngum notaður m.a. til mjólkurflutninga innyfir Hænuvíkurháls“.

Rússarúgbrauð (n, hk)  Frambyggður rússajeppi af gerðinni UAZ.

Rússi (n, kk)  A.  Maður frá Rússlandi eða fyrrum Sovétríkjunum.  B.  Bíll frá Rússlandi.  Einkum var þetta notað yfir húddjeppa af gerðinni GAZ, og frambyggðan jeppa af gerðinni UAZ, sem einnig var nefndur Rússarúgbrauð.  Sá fyrrnefndi var lengi til í Kollsvík; fyrst í sameign Ingvrs og Össurar, en rúgbrauðið kom síðar, í eigu Hilmars.  C.  Spilið rússi.  Tveggja manna spil þar sem hluti stokksins er lagður í borð þegar gefið er, en hluti á hendi.  Sá vinnur sem fær fleiri slagi.

Rússneska (n, kvk)  Tungumál Rússa; slavneskt tungumál af indóevrópskum ættum.  Rússneska er rituð með afbrigði af kýrillísku letri.  Sigurvin Össurarson frá Kollsvík lærði rússnesku og talaði hana þokkalega.

Rúst (n, kvk)  A.  Steinhrúga; haugur af efni.  „Þarna í rústinni er tófugreni“.  B.  Tóft/leifar af húsi/bæ.  „Það verður forvitnilegt þegar fornleifafræðingar fara að grafa í þessar fornu bæjarrústir“.  C.  Jarðfræðfyrirbæri sem finna má á mýrlendum svæðum/ flám, og nefnist „pingo“ á erlendum málum.  Myndast á svipaðan hátt og þúfur; frost lyftir jarðvegi að vetrarlagi, sem ekki nær að setjast aftur að sumri heldur vex smaám saman uppúr rakara undirlaginu.

Rústa (s)  A.  Hlaða rúst/farg úr steinum; fergja.  „Ég rústaði hræ af rollu sem farið hafði afvelta þarna á dalnum“  „Það þyrfti að rústa járnplöturnar áður en hvessir, til að þær fari ekki í veðrið“.  B.  Leggja í rúst; hrinda; eyðileggja.  „Óveðrið rústaði gömlu kirkjunni“.  C.  Ryðga. 

Rústarbrot (n, hk)  Tóftarbrot; leifar húsbyggingar/hleðslu, illa farnar/greinanlegar.  „Hvergi sjást nein merki selsins, nema ef vera skyldu rústarbrot sem eru á hjallanum“  (Helgi Einarsson; Örn.lýsing Geitagils).

Rústfrír (l)  Um málm; ryðfrír; úr málmi sem ekki ryðgar.

Rústir (n, kvk, fto)  Leifar af mannvirkjum; tóttir/garðar/hleðslur/byggingar.  „Ég er hrædd um að of lítil virðing hafi verið borin fyrir gömlu rústunum og margir talið landhreinsun að slétta yfir þær; og það sem enn verra er, að róta þeim burt með jarðýtum. ... Hér í Kollsvík er örnefni og sést raunar fyrir tótt, út á svonefndum Hústóttarbökkum sem eru yst á Hnífum en það eru háir sjávarklettar með graslautum og slökkum í brúninni. Engar sagnir eru nú um þessa tótt en hún gæti hafa verið beitarhús eða kannske heytótt eða smalakofi en þó tæplega þar sem hún er trúlega of stór til þess. Bæjarhúsatóttir eru hér víða en ég held flestar frá þessari öld en margar trúlega byggðar upp úr eldri tóttum.  Gott hleðslugrjót var notað öld eftir öld, kynslóð eftir kynslóð....   Hér á Láganúpi var í túninu hjáleiga sem hét Hólar. Þeir voru í byggð þegar Jarðamatsbók Árna og Páls var skrifuð þar er sagt að þar hafi byggst fyrir um 50 árum og síðast sem ég veit til er getið um Hólabónda í málsskjölum frá Sjöundármálum um aldam. 1800. Þessar bæjartóttir eru vel sýnilegar enn, þó sjálfsagt hafi verið rifið úr þeim grjót. Til gamans má geta þess að eitt af útihúsum Hólabónda er notað enn en efri hluti veggja verið byggðir upp og þak gert upp en það var með helluþaki þar til fyrir 3-4 árum. Þessi kofi er enn notaður hér fyrir reykhús. Þessi hluti túnsins heitir enn Hólar. Svo er hér upp með Gilinu gömul tótt að mestu horfin í sandfok en mótar aðeins fyrir. Engin deili vita menn á henni....   Gamlir grjótgarðar hafa fundist hér á kafi í sandi og gróið yfir svo engin merki sjást á yfirborði. Þeir hafa ekki verið kannaðir en virðast liggja þvert á norðanáttina sem hefur verið skæð með að ausa hér sandi úr fjörunni upp á túnið svo til vandræða hefur horft. Hefur mönnum því dottið í hug að þetta hafi verið sandvarnargarðar....“  (SG; þjóðhættir í Kollsvík og á Rauðasandi;þjhd.Þjms).  „Get ég ekki gömul spor/ í gömlum rústum fundið.  Ekki heldur elju og þor/ í eftirlíking bundið“  (ÖG; glefsur og minningabrot; ort við kortlagningu Kollsvíkurvers). 

Rúta (n, kvk)  A.  Leið/ferð sem farin er; skipulögð/áætluð leið.  B.  Hópferðabíll; áætlunarbíll.

Rútína (n, kvk)  Venja; það sem gert er venjubundið; passi.

Rútta (s)  Færa; ryðja til.  „Það er pláss hérna ef aðeins er rúttað til“.

Ryðberja / Ryðhreinsa (s)  Berja/lemja ryðgaðan járnhlut svo ryðið brotni af. 

Ryðblettur / Ryðgat / Ryðhaugur / Ryðhrúga (n, kk/hk/kvk)  Skemmdir vegna ryðs/oxunar í járni. 

Ryðbrunninn / Ryðétinn (l)  Um járnhlut; mjög ryðgaður.  „Þarna gróf ég upp ryðbrunninn hring með keng“.

Ryðga (s)  A.  Um járnhlut; verða ryðgaður; oxast.  B.  Um mann; gleyma.  „Ég er nú farinn að ryðga í þessu“.

Ryðja (s)  Ruðja  A.  Almennt um að róta frá sér hindrun/haug/stafla.  B.  Moka snjó og aðra ófærð af vegi.  „Þeir ætla að ryðja hingað úteftir á morgun“.  C.  Taka afla/farm úr bát, annaðhvort við löndun eða til að létta í óveðri.  „Rutt var mestu af saltinu og haldið undan, því ekki voru tiltök að halda áfram á móti veðri“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Ryðja bát (orðtak)  Létta bát í slæmu sjólagi með því að ryðja afla/farmi fyrir borð; ryðja.

Ryðja (einhverju) braut (orðtak)  Greiða götu einhvers; koma einhverju á; innleiða eitthvað.

Ryðja brautina fyrir (eitthvað) (orðtak)  Greiða fyrir framgangi einhvers. 

Ryðja dóm (orðtak)  Um dómskipan að fornu.  Dómur var skipaður allmörgum dómendum.  Sækjandi máls átti rétt á að láta vissan fjölda dómenda víkja, teldi hann þá óæskilega; og sama gilti um verjanda. 

Ryðja frá sér (orðtak)  Færa/ýta/moka frá sér til að skapa sér pláss.  „Ruddu frá þér í miðrúminu svo þú getir staðið þar við að kútta“.

Ryðja inn (orðtak)  Um heyskap; koma heyi í hlöðu í flýti.  „Hann er að ljókka ári mikið; við þurfum að fara að ryðja inn í hvelli“!

Ryðja niður snjó (orðtak)  Fenna/snjóa mjög mikið.  „Fjandi getur hann rutt niður af snjó“!

Ryðja/raða í sig (orðtak)  Borða mjög mikið; borða látlaust.  „Þó þetta sé góður matur, þá þýðir ekkert að ryðja í sig svo botnlaust og vitlaust , þannig að maður verði óvinnufær á eftir“.

Ryðja sér (til) rúms (orðtak)  Verða alsiða; komast í tísku.  „Þessi tækni er óðara að ryðja sér til rúms“.  Orðið er líklega dregið af því að háseti/ræðari á bát þarf stundum að ryðja afla frá sér til að komast fyrir í rúmi bátsins, t.d. til að geta róið.

Ryðja sig (orðtak)  A.  Um verkun matar; kæsast.  „Meðan skatan var að gerjast í kösinni; ryðja sig, vað að verja hana fyrir vatni svo hún spilltist ekki..“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  B.   Um vatnsfall; ryðja fram stíflu af krapi, aur eða öðru.  „Það var tilkomikið að horfa á þegar Gilið var að ryðja sig í vorleysingum, eftir snjóþungan vetur“.  C.  Um veður; létta til; ryðja skýjahulu úr loftinu; rífa af sér.  „Mér sýnist hann heldur vera að ryðja sig“.

Ryðja upp brimi/haugsjó/sjó (orðtök)  Auka sjó mikið og hratt.  „Hann er að ryðja upp vestansjó“.

Ryðja upp þoku (orðtak)  (orðtak)  Leggja upp þoku; koma með þoku.  „Hann hefur rutt upp slíkri þoku að maður sér varla handa skil; hvað þá að það sjáist nokkur kind“.

Ryðja úr sér (orðtak)  A.  Um veður/óveðurský; gefa frá sér úrkomu; rigna.  „Við þurfum að drífa heyið inn; hann fer óðara að ryðja úr sér“.  B.  Um mann; segja frá; tala mikið/hratt.  „Kvæðið hafði ég lært utanbókar og gat rutt því úr mér vandræðalaust“.

Ryðkláfur (n, kk)  Hlutur úr járni sem orðinn er mjög ryðgaður.  T.d. notað um mjög ryðguð hús, skip eða bíla.

Ryðskán / Ryðskóf (n, kvk)  Flaga af ryði/járnoxíði.  „Ég barði af þessu mestu ryðskófirnar“.

Ryðsleginn / Ryðstokkinn (l)  Ryðgaður; farinn að ryðga.

Ryðsækinn (l)  Gjarn á / hættir til að ryðga.

Rykarða / Rykögn (n, kvk)  Lítil arða/ögn af ryki.  „Það má ekki vera rykarða á myndavélarlinsunni“.

Rykdust (n, hk)  Smávegis af fíngerðu ryki.  „Hvaða rykdust er þetta á borðinu“?

Rykfallinn (l)  Sem ryk hefur fallið á; gleymdur; óhreyfður.

Rykkilín (n, hk)  Hvítur kyrtill sem prestur ber yfir svartri hempu sinni.  Tekur nafn af því að það er rykkt í hálsmálið og liggur því í lóðréttum fellingum.

Rykkóf / Rykmökkur / Rykský (n, hk/kk)  Mikið ryk í lofti.  „Rykkófið í hlíðinni var lengi að setjast, þar sem steinninn hafði komið niður“.

Rykkja á (orðtak)  Hnykkja á; taka í eitthvað með snöggu átaki.

Rykti (n, hk)  Orðstír; frægð; orðrómur; orðspor; sveitaslúður.  „Það segir það ryktið að hún sé ólétt“.

Rykugur (l)  A.  Þakinn ryki; rykfallinn.  „Bíllinn er orðinn fjári rykugur eftir sumarið“.  B.  Gæluorð um mann; ruglaður; drukkinn; ölvaður.

Rymja (s)  Drynja; umla; urra; gefa frá sér djúpt bælt hljóð.  „Hann svaraði þessu engu, heldur rumdi við“.

Rysja / Rysjuveður (n, kvk/hk)  Rosi; ótíð; umhleypingar; slæmt veður; garri.  „Það er sama rysjan í dag og síðustu daga“.  Rysja er hljóðbreyting á „rosi“ og hefur nánast sömu merkingu.  „Gengur brátt í illa átt;/ upphefst tími rysju./  Ölduslátt með eðli grátt/ elur máttug vindagátt“  (JR; Rósarímur). 

Rysjótt (l)  Um tíðarfar; umhleypingasamt; illviðrasamt.  „Veðrið hefur verið skrambi rysjótt þessa dagana“.

Rysjutíð (n, kvk)  Umhleypingasamt tíðarfar.  „Hér er búin að vera bölvuð rysjutíð það sem af er vori“.

Ryskingar (n, kvk, fto)  Áflog; slagsmál; bardag; ófriður.  „Það kom til einhverra ryskinga á þorrablótinu“.

Rytja (n, kvk) A.  Ræfrildi af fatnaði; skepnu; bók o.fl.  „Þessi bók er lítið annað en rytjur“.  „Það var ekkert eftir af hræinu nema rytjurnar“..  B.  Ræfilsleg ær. „Þessi rytja stingur dálítið í stúf við hópinnn“. 

Rytjulegur (l)  Ræfilslegur; tætingslegur; vesæll.  „Skelfing er þessi hrútur rytjulegur“.

Rýja (s)  Taka af; fjarlægja upp af sauðfé.  Sjaldan notað af Kollsvíkingum; þeim var tamara að taka af.  Heyrðist þó, enda af sama stofni og sem iðulega var notað.  Sjá í rúinu.

Rýja (n, kvk)  A.  Tuska; drusla; rytja.  „Finndu einhverja rýju til að þurrka af borðinu“.  B.  Grey; gæluorð um börn eða aðra minnimáttar.  „Komdu nú hérna rýjan mín og fáðu þér eitthvað í gogginn“.

Rýja inn að skinni/skyrtunni (orðtak)  Taka allt sem mögulegt er; ganga nærri.  Vísar til þess að ekkert sé skilið eftir af fylling þegar tekið er af kind, en venja er að skilja eins mikið eftir af honum og mögulegt er.  Notað t.d. um það að gengið sé svo nærri manni með álögum/greiðslu/gjaldheimtu að hann eigi lítið sem ekkert eftir.

Rýkur úr báru (orðtak)  Svo hvasst að vindur feykir sjó/froðu úr öldufaldinum, en til þess þarf allmikið rok. 

Rýma (s)  Búa til pláss með því að taka úr; ryðja; tæma.  „Við rýmdum geymsluna til að koma þessu fyrir“. 

Rýma til (orðtak)  Búa til pláss; rýma; hagræða.  „Það má rýma til á bekknum svo þú getir sest“.

Rými (n, hk)  Pláss; hólf; rúm.  „Þett þarf ekki mikið rými“.

Rýmilega (ao)  Rösklega; rúmlega; yfirdrifið.  „Ég lét hann hafa vel rýmilega af salti“.

Rýmilegt (l)  Rúmlegt; viðunandi; yfirdrifið.  „Ég held að þetta hafi verið vel rýmileg gjöf hjá kúnum núna.  Það er óþarfi að láta þær standa yfir leyfðu“. 

Rýmka / Rýmkva (s)  Skapa rými/pláss; gera rúmt.  „Það þarf að rýmka holuna aðeins fyrir þennan staur“.

Rýmkast / Rýmkvast (s)  Verða rýmra.  Báðar myndir notaðar jöfnum höndum.

Rýna (s)  A.  Skoða/horfa vandlega; einblína.  „Ég sá öngv kind; hvernig sem ég rýndi“.  B.  Lesa.  „Mér þykir gott að rýna aðeins í bók fyrir svefninn“.

Rýna eftir (orðtak)  Gá að; leita að.  „Ég rölti niður á Bakkana til að rýna eftir þessum kindum“.

Rýr (l)  Lítill; léttvægur.  „Heldur var aflinn rýr úr þessum róðri“.  „Þetta er rýrasta eftirtekjan af öllum bjargferðum sumarsins“.  B.  Horaður; magur; léttur.  „Skelfing eru tvílembingarnir rýrir hjá henni“.

Rýr í roðinu (orðtak)  Innihaldslaus.  „Heldur fannst mér nú framkvæmdin rýr í roðinu eftir öll fyrirheitin“.  Upphafleg merking er væntanlega horaður fiskur sem reynist lítið annað en roðið eftir verkun.

Rýra (s)  Minnka; skerða.  „Ég ók hægt yfir ósléttuna til að rýra ekki eggjafenginn“.

Rýrð (n, kvk)  Minnkun; skerðing.  Sjá orðtakið kasta rýrð á.

Rýrðarafli / RýrðareftirtekjaRýrðarfengur  (n, kk/kvk)  Lítill afli; lítil/léleg eftirtekja.  „Það var hálfgerður rýrðarafli í þessum róðri“.  „Þetta kalla ég rýrðareftirtekju úr Stígsferð“!

Rýrðarkostur (n, kk)  Lélegt/lítið fæði; ómeti.  „Þetta árans poppkorn er óttalegur rýrðarkostur“.

Rýrðarkvikindi / Rýrðarskepna / Rýrðarskjáta (n, kvk)  Horuð/léleg kind/stelpa; grásleppulæpa.  „Þetta er óttaleg rýrðarskepna; varla setjandi á annan vetur“.  „Grásleppurnar núna  eru óttaleg rýrðarkvikindi; orðnar svona legnar“.

Rýrðarpláss (n, hk)  Eggfles þar sem lítið er að hafa.  „Efstu gangarnir eru orðnir rýrðarpláss síðustu árin“

Rýrðarspretta (n, kvk)  Léleg grasspretta; lítil gróska.  „Það er rýrðarspretta á sandtúnum í þessum þurrkum“.

Rýringslegur (l)  Horaður; pervisinn; smávaxinn.  „Skelfing er þetta rýsingslegt hrútkvikindi“.  „Aflinn var óttalega rýringslegur þennan daginn, enda hvergi flóarfriður í þessum vindstramba“.

Rýringur Rýringsgrey / Rýringskvikindi (n, kk)  Væskill; oftast horaður og pasturslítill maður, en gat einnig átt við lítið lamb að hausti.  „Ég held að þessi rýringur eigi ekkert eftir nema að horfalla“.  „Næst fór ég á Rauðasand,/ þar rýringur er einn,/ raunalegt að hann skuli ekki fitna./  Í kvenna og ástamálum er hann mjög svifaseinn/ í sína ævi byrjaði að vitna“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Rýrna (s)  Minnka; ganga til rýrnunar; skerðast..  „Hér hefur gluggakíttið rýrnað“.

Rýta (s)   Gefa frá sér rýt /svínahljóð. 

Rýtingur (n, kk)  Dálkur; sterkur beittur hnífur; laghnífur.  „Þetta er ári fallegur rýtingur“.  Sjá eins og rýtingsstunga í bakið“.

Ræða (n, kvk)  Langt tal eins manns til hóps; ávarp; framsaga.  „Skelfing fannst mér þessi ræða innihaldslaus“!

Ræða (s)  Tala saman um; segja; spjalla.  Sjá um að ræða.

Ræða (um) landsins gagn og nauðsynjar / Ræða málin (orðtak)  Spjalla um daginn og veginn.  „Hinir sátu góða stund við kaffiborðið og ræddu landsins gagn og nauðsynjar“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).   „Þegar menn voru búnir að borða og ræða málin var dregið í sundur, og boðið upp ef ómerkingar voru“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Ræðari (n, kk)  Sá sem rær bát.  „Fyrsta vorið sem barnaskólinn í Fagrahvammi starfaði gerði skólastjórinn, Ingólfur Þórarinsson út á rauðmaga, og hafði skólabörnin fyrir ræðara.  Róið var á Gjögrum á vélarlausri skektu í eigu Slysav.deildarinnar Bræðrabandsins, og lagt á Gjögralögnum“. Sjá árinni kennir illur ræðari.

Ræði (n, hk)  Tolla; keipar; umbúnaður sem árin leikur í á borðstokk árabáts.  Yfirleitt er talað um tollur í Kollsvík en stundum þó ræði.  Ræði hafa tekið breytingum í gegnum tíðina.  Keipur var lengi notaður fyrr á öldum.  Þá var plankabútur; keipstokkur, festur ofaná borðstokkinn og í honum sat keipurinn; 3“ hár trénabbi sem árin nam við þegar áratog var tekið.  Til viðhalds í framtakinu var hömluól/hamla; smeygur sem dregin var í gegnum keipinn og árinni var stungið í.  Ef ræðari missti árina gat hún dregist úr hömlu, sem síðan hefur lifað sem orðtak.  Í stað ólarinnar voru stundum tveir keipar, og árin þá milli þeirra.  Til var það að skarð var gert í borðstokkinn sem ræði; nefnt skarðaræði.  Í fornöld þekktist að gat væri efst í byrðinginn fyrir ræði; nefnt hábora/háboruræði.  Tolluræði fór að tíðkast eftir miðja 19.öld, og þá fyrst á Vestfjörðum.  Það var af tvennum toga.  Önnur var með trékeip aftanvið; járntollu framanvið og bút sem slitlag á milli; oft úr hvalbeini og nefnt gilding.  Stundum voru báðar tollur úr járni; boraðar niður gegnum borðstokkinn og milli þeirra/áþær fellt flatjárn, nefnt þrælka.  Sú gerð sem algengust var í Kollsvíkurveri og víðar í seinni tíð var ein tolla sem fest var í þrælku á borðstokkinn, og lykkja á árastokknum féll uppá hana þegar róið var.  (heimild; LK; Ísl sjávarhættir II)

Ræðinn (l)  Málgefinn; samkjaftar ekki; lipur í talandanum.  „Hann var mjög ræðinn og mannblendinn“.

Ræðuefni (n, hk)  Umræðuefni; kjarni ræðu/ummæla.  „Á ungmennafélagsfundum í Kollvík voru tekin fyrir hin margvíslegustu ræðuefni.  Gjarnan einhver sem til framfara horfðu í samfélaginu“.

Ræðulist (n, kvk)  Færni í að halda ræðu; mælskulist.  „Í ungmennafélagsstarfinu þjálfuðust menn í ræðulist og skipulegri framsetningu“.

Ræðupúlt / Ræðustóll (n, kk)  Upphækkun/borð sem ræðumaður stendur við.

Ræðusnillingur (n, kk)  Sá sem er fær ræðumaður/ kemur vel fyrir sig orði/ hrífur fólk með ræðuhaldi.

Ræfildómur (n, kk)  Aumingjadómur; gauðsháttur.  „Skelfilegur ræfildómur er þetta að láta heyið rigna“!

Ræfill (n, kk)  A.  Aumingi; vesalingur.  „Maður er óttalegur ræfill eftir að hjartað fór að gefa sig“.  B.  Ótukt; þrælmenni.  „Skelfingar ræfill getur maðurinn verið“!  C.  Garmur; drusla; hræ.  „Bókin er orðin óttalegur ræfill“.  „Við fundum þarna ræfil af kind sem hafði farið afvelta“. Sjá rífa ræfil úr svelli.

Ræfilsgarmur / Ræfilsgrey / Ræfilsskarn/ Ræfilseymingi / Ræfilsgrey/ Ræfilskvikindi/ Ræfilsskinn /Ræfilstuska / Ræfilstötur.  Gæluorð sem notuð voru í vorkunnartóni um/við skepnur, t.d. oft um hunda, og sumt af því stundum í gælutón við barn.  „Komdu hérna ræfilsskarnið og sæktu þetta bein í kjaftinn á þér“.  „Ertu eitthvað stúrinn, ræfilstötrið mitt“.

Ræfilsháttur (n, kk)  Aumingjadómur; vesalmennska; eymd.  „Þetta er nú óttalegur ræfilsháttur af þeim að reyna ekki að ná fénu“!

Ræfilslegur (l)  A.  Um mann; veiklulegur; slappur; aumur.  „Pestin er að mestu afstaðin, en maður er fjári eitthvað ræfilslegur ennþá“.  B.  Lítilfjörlegur; rýr.  „Þú afsakar hvað þetta er ræfilslegt sem þú færð með kaffinu núna; ég vr bara ekki búin að baka“.

Ræfla (n, kvk)  Annað nafn á rafabelti af lúðu (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: STh Kvígindisdal).

Ræflast til (orðtak)  Koma sér að; drattast til.  „Hann gæti nú reynt að ræflast til að hýsa hrúta á réttum tíma“!

Ræfrildi (n, hk)  Drusla; leifar af nytjahlut/fatnaði/bók; ræfill.  „Það var lengi til ræfrildi af þessari bók, en ég hef ekki séð það neitt nýslega“.  „Þessi vinnustakkur er lítið annað en ræfrildi sem þyrfti að henda“.

Ræfur (n, hk)  Rjáfur; innanvert ris í húsi.  „Net var strengt neðan í ræfrið á Hesthúsinu og á það settar bjúgur til reykingar“.

Rægja (s)  Segja/ bera út róg/slúður/óhróður; baknaga.  „Ég læt það alveg vera að rægja fólk“.

Rækallansári (n, kk)  Áhersluorð/milt blótsyrði; skrambansári; býsna.  „Hann er farinn að rigna rækallans ári drjúgt“.  „Rækallansárinn hefur nú orðið af gleraugunum mínum“.

Rækallinn (n, kk, m.gr)  Skrattinn; fjandinn.  „Hvað skyldu þessar rækallans túnrollur gera af sér næst“?  Blótsyrði voru notuð í misjöfnum mæli í Kollsvík, allt eftir trú, viðhorfum og uppeldi hvers og eins.  Sumir kváðu fullsterkt að, t.d. „Fari það nú í heitasta helvíti“,  meðan aðrir fundu það form á blótsyrðin sem þeir töldu Kristi þóknanlegra.  Fjandinn gekk því undir ýmsum nöfnum; Rækallinn; Pokurinn; Danskurinn; Röndóttur o.fl.  Í stað Andskotans- þótti betur við hæfi að segja Bévítans-; Ankollans-; Rækallans-; Angans-; Árans- ; Skollans-; Gollans- o.fl.  Sjá hver rækallinn!

Rækilega (ao)  Vandlega; vel; ítarlega.  „Ég þvoði fiskinn rækilega“.

Rækilegur (l)  Almennilegur; vel útilátinn; ítarlegur.  „Hann fékk víst rækilegt kjaftshögg“.

Rækja (n, kvk)  Smá liðdýr af ættbálki skjaldkrabba.  Sú rækjutegund sem lifir hér við land nefnist í daglegu tali rækja, en eldra heiti er stóri kampalampi (Pandalus borealis), sem er langmest veidda tegund kaldsjávarrækju í heimi.  Gerður er greinarmunur á rækju eftir kjörsvæðum; djúpsjávarrækja lifir á meira en 200m dýpi en fjarðarækja í innfjörðum.  Rækja er ekki á Kollsvíkurmiðum svo vitað sé, en hún hefur verið mikið veidd í Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi og víðar.  Sömuleiðis sást rækja líklega ekki á matborðum Kollsvíkinga fyrr en seint á 20. öld.  Til voru þeir sem ekki vildu sjá þvílíkt ómeti, og einn Kollsvíkingur er sagður hafa afþakkað brauðtertu með rækju, sem þá tíðkaðist, með orðunum að hann „vildi ekki sjá blautar tertur með fiski“.

Rækja (s)  Stunda; iðka; hirða um.  „Hann rækti vel sínar skyldur í þessum efnum“.  „Maðurr er skammarlega latur að rækja ættartengslin“.

Ræksnastampur (n, kk)  Ílát sem ræksnum/slógi er kastað í þegar slægt er í landi eða þegar slægt er á sjó og ræksni tekin í land til nýtingar. 

Ræksni (n, hk, fto)  A.  Fiskslor; innyfli og slóg úr fiski.  „Ræksni voru áður notuð sem áburður á tún og í skepnufóður“.  Þegar talað var um ræksni til beitu, var einkum átt við slóg úr hrognkelsi, og var fremur talað um hrognkelsabeitu á Vestfjörðum.  B.  Það sem orðið er mjög lélegt og úr sér gegnið.  „Þessar hjólborur eru orðnar hálfgert ræksni“.

Ræksnislegur (l)  Lélegur; druslulegur; ræfrildi.  „Skelfing er nú þetta húfupottlok orðið ræksnislegt“.

Rækt (n, kvk)  A.  Ræktun. Sbr sauðfjárrækt, nautgriparækt o.fl.  B.  Spretta; gróska.  „Gamla túnið er enn í góðri rækt“.  C  Ástund; samviskusemi; umhyggja.  „Hann lagði mikla rækt við námið“.

Rækta (s)  A.  Yrkja, efla stofn nytjajurta/búfjár.  „Guðbjarti afa á Láganúpi þótti skynsamlegra að rækta hyrndan fjárstofn en kollóttan, og gulleitan fremur en hvítan; háfættan fremur en lágfættan.  Hann var þannig á móti straumum samtímans, en rök hans voru sterk og eru nú að sannast“.  B.  Hirða um; rækja.  „Ég hef ekki verið duglegur að rækta tengsl víð þetta fólk“.

Ræktanlegt land / Ræktunarland (orðtak/ n, hk)  Sá hluti jarðar sem er tún eða unnt er að breyta í túnrækt. 

Ræktarlegur (l)  Umhyggjusamur/velviljaður í garð sinna vina/ættingja.  „Alltaf er hún jafn ræktarleg í sér“.

Ræktarsamur (l)  Natinn; umhyggjusamur; hugulsamur.  „Þau eru mjög ræktarsöm við ömmu sína“.

Ræktarsemi (n, kvk)  Umhyggja; alúð; velvild.  „Hann hefur alltaf sýnt sinni heimasveit mikla ræktarsemi“.

Ræktun (n, kvk)  A.  Það að rækta/yrkja.  B.  Tún; túnslétta; akur.

Rækur sjór / Færar leiðir (orðtak)  Færar leiðir inn á lægið í Kollsvíkurveri.  „Þá var einnig kannað hvort braut á vissum boðum.  Reyndist svo, þótti ekki rækur sjór.  Ef í norðanátt braut á Giljaboða og Djúpboða í Kollsvík var ekki róið, enda voru þá tæpast færar leiðir“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heim, ÓETh).

Rælnast (s)  Þvælast; fikta; fara í tilgangsleysi.  „Ég var að rælnast niðri á Bökkunum þegar ég sá þetta“.

Rælni (n, kvk)  Fikt; tilviljun; þvælingur.  „Fyrir rælni var ég þarna staddur þegar á þurfti að halda“.  Sjá af rælni; fyrir rælni.

Ræma (n, kvk)  A.  Renningur; afrifa; skák.  „Hún reif kjólræfilinn í ræmur og fléttaði úr honum band, sem hún síðan rúllaði saman og saumaði í kringlótta mottu“. B.  Hálsbólga; kverkaskítur; kvef; hálsræma.  „Það er einhver bölvuð ræma í hálsinum á mér“.

Ræmdur (s)  Þekktur að; sagður; með orðspor.  „Hann var illa ræmdur fyrir hvinnsku“.

Ræna (n kvk)  A.  Meðvitund.  „Þegar hann komst til rænu aftur sagðist hann hafa dottið svona illa á höfuðið“.  B.  Hugsun; fyrirhyggja; skynsemi.  „Þessir aular höfðu enga rænu á að hafa með sér góðar yfirhafnir“!  C.  Hægur vindur.  „Hann er kominn með einhverja rænu af norðri og farinn að rífa upp báru“.

Ræna (s)  Stela; rupla; taka ófrjálsri hendi.  „Sjóræningjar lögðu leið sína í Saurbæ og rændu Eggert Hannessyni hirðstjóra“.

Ræningi (n, kk)  Sá sem rænir.  „Krummi er hinn mesti ræningi í egglöndum á vorin“.

Rænulaus (l)  A.  Meðvitundarlaus; rotaður.  „Hann var hálf rænulaus eftir höggið“.  B.  Hugsunarlaus; fyrirhyggjulaus.  „Skelfing eruð þið rænulausir strákar; að taka ekki eftir túnrokkuskröttunum þarna“!

Rænuleysi (n, hk)  A.  Meðvitundarleysi; rot.  B.  Hugsunarleysi; fyrirhyggjuleysi.  „Skelfingar rænuleysi er þetta í karlinum; vissi hann ekki hvenær við ætluðum af stað“?!

Rænuleysisrugl (n, hk)  Það sem sagt er í rænuleysi.

Rænulítill (l)  Með litla meðvitund; vankaður.

Ræpa (n, kvk)  A.  Niðurgangur; steinsmuga.  B.  Kjaftæði; munnræpa.

Ræsa (s)  A.  Búa til rás/ræsi/farveg fyrir vatn.  Sjá ræsa fram.  B.  Setja af stað.  „Hlaupararnir voru ræstir með klappi“.  C.  Vekja.  „Það má nú fara að ræsa unglinginn“.  D.  Setja vél í gang. 

Ræsa fram (orðtak)  Veita vatni í rás/farveg; þurrka mýrlendi/fen.  „Verstu drápsdýin í Mýrunum hafa nú verið ræst fram og eru flest orðin hættulaus“.

Ræsaspaði (n, kk)  Amboð til að grafa mjóa skurði til ræsingar.  Ræsaspaði var til á Láganúpi í tíð Össurar.

Ræsi (n, hk)  Rás sem vatn, skólp eða annað rennur um.  Merkir nú lokaða rás, en gat áður merkt opna rás.

Ræsking (n, kvk)  Það að ræskja sig.  „Eftir miklar ræskingar hóf hann upp ræðu sína“.

Ræskja sig (orðtak)  Losa um slím í kverkum með niðurbældum hósta eða hryglu.

Ræsta (s)  Þrífa, hreinsa.  Heyrðist lítt sem ekki í Kollsvík; þess í stað talað um að þrífa, skúra o.fl.

Ræsting (n, kvk)  Þrif; hreinsun. 

Ræta sig (orðtak)  Um jurt; mynda rót. „Melurinn er seigari er flestar aðrar jurtir að ræta sig í sandinum“.

Rætast (s)  Raungerast; koma í ljós; sannast.  „Hún rætist illa hjá þeim, þessi veðurspá“!

Rætast úr (orðtak)  Verða betra en búist var/ leit út fyrir.  „Það ætlar að rætast betur úr þurrkinum en hann spáði“.  „Ég sagðist skyldu lána honum fyrir þessu þangað til færi að rætast úr fyrir honum“.

Rætinn (l)  Illkvittinn; rótarlegur.  „Hann er stundum fjári rætinn í umtali um nágrannana“.

Rætni (n, kvk)  Illkvittni; ódrengskapur.  „Saklausir hrekkir eru í góðu lagi, en þetta var hreinræktuð rætni“.

Rætnislaust (l)  Án illkvittni/illgirni.  „Þetta var bra rætnislaus ábending af minni hálfu“.

Rödd (n, kvk)  A.  Málrómur.  B.  Söngrödd/tóntegund.  „Hann hefur nokkuð góða rödd“.

Röð (n, kvk)  Runa; skipuleg lengja staka.  „Kýrnar stilltu sér upp í röð við fjósdyrnar“.

Röðull (n, kk)  Roði á himni, t.d. morgunroði eða kvöldroði.  „Líðinn er dýrðlegur dagur./  Í djúpanna skaut er brátt hniginn/ rósrauður röðull svo fagur./  Ró yfir dalinn er sigin“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík). 

Röfl (n, hk)  Nöldur; raus; neikvætt tal.  „Hættu nú þessu endemis röfli um ríkisstjórnina; ætli þinn flokkur hefði nokkuð gert betur í þessum málum“?!

Röfla (s)  Hafa uppi neikvætt tal; tala í neikvæðum tón; kvarta.  „Enn röfla kvótakóngar um gengisfellingu“!

Röð og regla (orðtak)  Gott skipulag.  „Hjá honum er röð og regla á hlutunum“. 

Rögg (n, kvk)  Myndugleiki; kjarkur; kraftur.  Sjá taka á sig rögg.  Rögg mun fyrrum hafa merkt ullarlagður; sbr röggvarfeldur.

Röggsamur (l)  Duglegur; röskur.  „Hann þótti hinn ágætasti formaður; röggsamur og drífandi“.

Röggsemdarmaður / Röggsemdarkona / Röskleikamaður / Röskleikakona  (n, kk/kvk)  Sá/sú sem sýnir mikið framtak/dugnað.

Röggsamlega (ao)  Rösklega; af dugnaði.  „Þetta þótti mér röggsamlega gert“.

Röggsamur (l)  Duglegur; drífandi.  „Mér sýnist þetta nokkuð röggsamur náungi“.

Röggsemdarpiltur / Röggsemdarstúlka / Röggsemdarmaður / Röggsemdarkona / Röggsemdarhjón / Röggsemdarfólk (n, k/kvk/hk)  Um fólk sem sýnir röggsemi/drift/dugnað/framtak. 

Röggvarfeldur (n, kk)  Loðfeldur; loðkápa.  Rögg merkti fyrrum ull eða það sem loðið var.

Rök (n, hk, fto)  A.  Sannindi; stuðningsatriði.  B.  Dreifar af heyi á jörð, t.d. eftir að rakað hefur verið upp með vél.  Í byrjun vélaaldar var vani að fólk rakaði með hrífum eftir vélinni en nú mun slík aðhaldssemi úr sögunni.  „Það eru lítil búhyggindi að hirða ekki um rökin þegar búið er að kosta uppá ræktun og slátt“.

Rökfastur (l)  Sem færir góð rök fyrir máli sínu.

Rökfræði / Rökfærsla / Rökleiðsla / Röksemdsfærsla / Rökstuðningur (n, kvk)  Stuðningur fullyrðinga með rökum/sönnunum.  „Þetta finnst mér furðuleg rökleiðsla hjá þér“.

Rökfæra / Rökstyðja (s)  Færa rök/sannanir fyrir.

Rökhugsun / Rökhyggja (n, kvk)  Skynsamleg/rökrétt hugsun.  „Það er erfitt að sjá nokkra rökhugsun í þessu“.

Rökkur (n, hk)  Húm; skuggsýnt; nokkuð myrkur; tíminn frá sólarlagi til myrkurs og frá birtingu til sólarupprásar.  „Mamma kunni mikið af ljóðum og sögum.  Oft sagði hún okkur sögur þegar við vorum hjá henni við ýmis störf, eða þegar hún sat með prjónana sína í rökkrinu“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  „Fyrst á haustin var setið í rökkrinu og prjónað.  Þegar kom fram á skammdegið lagði eldra fólkið sig í rökkrinu  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Rökkurbyrjun (n, kvk)  Sá tími dags að farið er að dimma lítillega.  „Komum við þangað í rökkurbyrjun“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Rökkurhugsanir (n, kvk, fto)  Það sem hugsað er í myrkri/rökkri.  Umræðuefni á fundi Umf Vestra 1918. 

Rökkursvefn (n, kk)  Lúr sem algengt var fyrrum að menn tækju sér síðdegis; þar til kveikt var á ljósfærum.  „Trúlega hefur það ekki verið algengt á afskekktum sveitabæ, að í stað rökkursvefnsins sem algengur var á bæjum meðan beðið var eftir að hæfilegt væri að kveikja á lampanum, væri æfður raddaður kórsöngur í borðstofunni“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Rökkva (s)  Dimma af degi; skyggja.  „Byrjað var að rökkva er lagt var af stað frá Hnjóti...“  (MG; Látrabjarg).

Rökkvað (l)  Skuggsýnt; hálfdimmt.  „Það verður erfiðara að finna féð eftir að rökkvað er orðið“.

Rökleysa (n, kvk)  Falsrök; rökvilla; engin röksemd.  „Það‘ er algjör rökleysa hjá þér að vísa í þetta“!

Rökréttur (l)  Skynsamlegur; sem styðst við rök/skynsemi/sannanir.  „Mér finnst þetta rökrétt niðurstaða“.

Rökræða (s)  Tala saman til að færa rök fyrir sínum skoðunum/álitum; rökstyðja.  „Hann sat fastur við sinn keip; sama hvernig ég reyndi að rökræða við hann“.

Rökræður (n, kvk, fto)  Samtal þar sem menn rökræða; rök sem færð eru fyrir máli; sannfæringar.  „Hann samþykkti þetta eftir nokkrar rökræður“.

Röksemd (n, kvk)  Rök; sönnun.  „Þetta finnst mér fremur haldlitlar röksemdir í málinu“.

Rökstólar (n, kk, fto)  Rökræður.  Talað er um að sitja á rökstólum.  „Enn sitja þeir á rökstólum og ræða um búskapinn hjá Kolli“. 

Rökvilla (n, kvk)  Falsrök; rökleysa; veila/veikleiki í röksemdafærslu.  „Þetta er bara rökvilla hjá þér“!

Rökviss (l)  Rökfastur; sannfærandi.  „Svo rökviss var hann að hinir sannfærðust um að þetta væri lausnin“.

Rökþrot (n, hk, fto)  Engin rök lengur finnanleg.  „Hann var alveg komin í rökþrot í sínu máli“.

Rökþrota (l)  Getur ekki sannað sitt mál lengur; kjaftstopp.  „Þar kom að hann varð alveg rökþrota“

Rölt (n, hk)  Hægur gangur; dól; rangl.  „Hann er hér einhversstaðar á rölti“.

Rölta (s)  Ganga í rólegheitum; ganga hægt.  „Ég ætla að rölta aðeins niður að sjó“.  „Nú er hann svangur og lúinn að loknu löngu dagsverki og matarlaus, en á eftir að rölta heim til sín um það bil hálftímagang“  (PG; Veðmálið). 

Rölthraði (n, kk)  Hægur hraði.  „Þetta er klukkustundar gangur á rölthraða; minna ef rösklega er gengið“.

Römm er sú taug er rekka dregur (föðurtúna til) (orðatiltæki)  Ljóðlína úr Hávamálum, þrungin er speki líkt og annað sem þar stendur.  Fátt er sterkara en tryggðin í huga hvers manns við uppeldisstöðvar og átthaga.  Samantekt þessa sérstæða orðasafns er glöggt dæmi um það.  Rekki er fornt heiti yfir mann.  Sjá einnig; man sauðurinn hvar hann lamb gekk.

Römm eru reiðitár (orðatiltæki)  Sá sem fellir tár af reiði er líklegur til langrækni eða átaka. 

Röndóttur (l)  Um lit; með mislitum röndum.  B.  Blótsyrði; „Hver röndóttur“!

Röng (n, kvk)  Band í báti; síðuband í báti, ef bunkastokkur er stakt stykki.  „Mundu eftir að stinga hníbbnum aftur undir röngina þegar þú ert búinn að blóðga, svo hann fari ekki í austurinn“.  Stundum er tekið út rönginni, þannig að bil/hol myndast á milli hennar og súðarinnar; nefnist hún þá holröng.  Er það gert til að unnt sé að koma bandi undir til festingar t.d. á stjórafæri eða reiða.

Rör (n, hk)  A.  Pípa, t.d. bremsurör, vatnsrör, klóakrör o.fl.  B.  Gæluheiti yfir stýri á bát/skipi.

Röra (s)  Hreyfa við; snerta; róta.  „Hann vogaði sér ekki að röra við kistunni eftir þetta“.

Rörbútur (n, kk)  Bútur/stubbur af röri.

Rörmjaltavél (n, kvk)  Mjaltavél með tvöföldu kerfi röra; loftkerfi sem mjólkar spena kúnna og mjólkurlögn sem leiðir mjólkina yfir í safntank.  Frábrugðið fötumjaltakerfi, sem notað var í Kollsvík á síðustu árum mjólkurframleiðslu þar; þar er einungis loftkerfi, en mjólkin safnast í sérstaka mjaltafötu sem færð er milli kúa þegar mjólkað er.

Rörtöng (n, kvk)  Stillanleg töng sem hentug er til að ná góðu átaki til að snúa sívölum/ávölum hlutm.

Rösklega (ao)  A  Duglega; af krafti; með tilþrifum/afli.  „Tökum nú rösklega á þessu drengir“!  „Hann tók rösklega til matar síns“.  B.  Rúmlega; dálítið yfir/meira; liðlega.  „Klukkan er rösklega tíu“.  „Við fengum í tunnu, og rösklega það“.

Rösklegur (l)  Dugnaðarlegur; lítur út fyrir að vera röskur.

Röskleikabragur (n, kk)  Svipmót röskleika/dugnaðar/framtaks.  „Ekki finnst mér nú röskleikabragur á þessu“.

Röskleikamaður / Rösklegheitamaður / Rösklegheitamanneskja / Rösklegheitanáungi / Rösklegheitapiltur (n, kk/kvk)  Um duglegt/röst/framkvæmdasamt/drífandi fólk.  „Svona rösklegheitamanneskja er ekki á hverju strái“!  „Þetta virðist vera rösklegheitanáungi, þó lítið sé tilreynt ennþá“. „Þetta var sæmilegur bóndi og röskleikamaður til allra verka“  (MG; Látrabjarg).

Röskur (l)  Duglegur; afkastamikill.  „Strákurinn er bara ári röskur“. 

Röst (n, kvk)  A.  Almennt; iðustraumur; hraður straumur.  B.  Hraður straumur sem myndast við annes, þegar sjávarfallabylgjan fer fyrir þau.  T.d. Blakknesröst; Látraröst; Straumnesröst o.fl.  C.  Hryggur/hrönn á yfirborði hlutar/landslags.  „Miklar rastir af vikri rak á fjörur í Kollsvík og nágrenni í Surtseyjargosinu 1963-67.  D.  Gömul mælieining lengdar; gömul norræn míla, sem var um 12 km. 

Rösull (l)  Dettinn; óstyrkur á fótum.  „Hann ætti ekki að flækjast niður í kletta; eins rösull og hann er“.

Leita