Pabbabarn / Pabbadrengur / Pabbastelpa / Pabbastrákur (n, hk/kk/kvk) Um börn sem þykja verulega hænd að föður sínum. „Hún sagðist alltaf hafa verið mikil pabbastelpa og meira fyrir útiverkin en inniveru“
Padda (n, kvk) A. Skordýr. „Hvaða padda skyldi þetta nú vera“. B. Líking um mann; kvikindi; viðbjóður. „Hann er stundum bölvuð padda í svona málum“. Sjá eiturpadda.
Pakk (n, hk) A. Skríll; óþjóðalýður; hyski. „Það þarf að reka þetta pakk úr túninu sem fyrst“. B. Þéttiefni; pakkning. „Mér sýnist að hér vanti eitthvað pakk á milli“.
Pakka inn (orðtak) Setja hlut í umbúðir. „Ég átti eftir að pakka inn einni jólagjöf“.
Pakka niður (orðtak) Ganga frá hlutum í kassa til geymslu eða í tösku til ferðalags.
Pakka saman (orðtak) Ganga frá; hætta verki. „Ég held að mjólkurbændur geti þá farið að pakka saman, ef þeir ætla að breyta mjólkurflutningunum svona“!
Pakka sig saman (orðtak) Taka saman sinn farangur og setja í töskur/kassa fyrir ferðalag/flutning.
Pakka upp (orðtak) Taka upp úr kössum/töskum.
Pakkhús (n, hk) Vöruhús; vörugeymsla. Eitt elsta pakkhús landsins er Pakkhúsið á Vatneyri á Patreksfirði, en það var reist 1897 af Pétri J. Thorsteinssyni. Húsið rúmaði 500 tonn af ís sem tekinn var úr Vatninu. Við það var frystihús sem rúmaði 200 tunnur af síld, og elsta þurrkhús landsins, byggt 1906 til þurrkunar á saltfiski með kolakyndingu. Stutt frá var byggt salthús uppúr aldamótum, og við það vélsmiðja enn síðar.
Pakksaddur (l) Vel mettur; alveg saddur; sprengsaddur. „Nú er ég svo pakksaddur að ég get varla hreyft mig“.
Pall (n, hk, lint l) Hak í vélbúnaði sem heldur hreyfanlegum vélarhluta á sínum stað, oft með gormi. „Gírstöngin á Farmalnum hrökk stundum úr palli sínu í gafflinum; til að laga það þurfti að opna gírkassann“.
Pallbíll (n, kk) Vörubíll. Var áður notað um stærstu vörubíla, t.d. í vegagerð, en nú oftar um sendiferðabíla eða jeppa með palli.
Pallborð (n, hk) A. Orðið merkti upphaflega notað um pall í hinum fornu skálum. Langeldur var á gólfi og autt svæði kringum hann, en pallur/pallborð með veggjum. Á pallborði sátu einungis húsbændur og þeir sem mestrar virðingar nut, en vinnumenn og aðrir sátu á skör/þrepi pallsins; voru skör lægra settir; áttu ekki upp á pallborðið. Settist það fólk upp á pallinn þótti sumum að skörin væri að færast upp á pallinn. B. Í seinni tíð er orðið notað um háborð í veislum; t.d. brúðkaupsveislu þar sem brúðhjón sitja, eða um borð í ráðstefnusal þar sem þeir sitja sem svara fyrirspurnum úr sal.
Palletta (n, kvk, lint l) Lítið vörubretti. Ekki gamalt í málinu.
Pallgólf (n, hk) Gólf klætt timburfjölum á gólfbita.
Pallíetta (n, kvk, lint l) Gljáandi doppa til skrauts á kvenklæðnaði.
Pallur (n, kk) A. Almennt um slétt gólf; stall; upphækkun. B. Timburklætt gólf í baðstofu. Pallur var jafnan upphækkun frá moldargólfinu, og þar var baðstofa heimilisins, þar sem sofið var og unnin ýmis verk, s.s. tóvinna. Sumsstaðar var pallurinn einskonar 2. hæð í húsinu, og þá stundum hafðar kýr undir til upphitunar og hagræðis. Nefndust það fjósbaðstofur. C. Flutningaskúffa aftaná vörubíl.
Pamfíll (n, kk) Nafn á laufgosa í spilinu púkki. Sjá lukkunnar pamfíll.
Panelklætt / Panelþiljað (l) Þiljað með panel.
Panell / Panill (n, kk) Þiljuviður; oftast úr þunnum grenifjölum; felldur saman í nót og iðulega einnig strikaður.
Panna (n, kvk) A. Grunnt ílát út málmi til eldunar/bökunar. B. Neðsti hluti bílvélar; olíubyða.
Pansari (n, kk) Hlífðarfatnaður/brynja úr efni sem vopn bíta treglega á.
Panta (s) Biðja um/ falast eftir til eignar. Fyrirrennarar kaupfélaga voru pöntunarfélög, en þau byggðu á að hvert býli pantaði sér vörur hjá sameiginlegum starfsmanni, sem síðan sá um að senda sameiginlega pöntun til heildsala. Með því náðist hagkvæmni í innkaup frá því að hver og einn verslaði við kaupmann. Eftir tilkomu síma og kaupfélaga með vörulager á staðnum (Hænuvík, Gjögrum, Hvalskeri) hringdi hver bær sína pöntun inn; hún var tekin til; færð í reikning og send með næstu ferð, sem oft var landpósturinn eða mjólkurbíllinn.
Pantur (n, kk) Veð. Fyrrum tíðkuðust pantleikir barna og var orðið mest notað í þeim.
Papar (n, kk, fto) Írskir einsetumunkar fyrr á öldum. Nafnið „papa“ er latína og merkir „faðir“). Nokkrar líkur benda til þess að á Íslandi hafi verið einhver byggð þegar landnám víkinga hófst, á 9.öld. Til þess bendir m.a. Landnáma; höfuðheimildin um landnám, en þar hefur Ari fróði eftir Beda presti (d. 735) að hér hafi verið eitthvað írskt landnám fyrir. Segir svo í Landnámu: „En áðr Ísland byggðist af Nóregi váru þar þeir menn er Norðmenn kalla Papa. Þeir váru menn kristnir, ok hyggja menn at þeir hafi verit vestan um haf“. Og stuttu síðar: „Í þann tíð var Ísland viði vaxit milli fjalls ok fjöru. Þá váru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla Papa, en þeir fóru síðan á braut af því at þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir bækr sínar ok bjöllur ok bagla. Af því mátti skilja at þeir váru menn írskir“. Undir þetta renna stoðum sagnir af írska dýrlingnum Brendan, sem samkvæmt þeim sigldi til Íslands kringum árið 548; gagngert til að hafa samband við írska einsetumenn sem hér höfðu aðsetur. Ýmislegt fleira bendir reyndar til að siglingar um heimshöfin hafi orðið fyrr og umfangsmeiri en áður var talið. Þar á meðal eru hinar óljósu heimildir um gríska sæfarann Pytheas sem kann að hafa siglt hingað frá Marseille í Frakklandi árið 325 fyrir Krist. Ekki er vafi á að haffær skip voru til á þeim tíma, víðsvegar um Evrópu, og allnokkur þekking á úthafssiglingum. Hafi verið víðtækt papalandnám á Íslandi fyrir hið norræna, þá má heita öruggt að Kollsvík hefur verið álitleg til búsetu fyrir einsetumunka sem þurftu að lifa af landsins gæðum. Þar er sauðhagi góður; fiskimið við land; ágæt lending; reki og mór til eldiviðar; egg í klettum og mjög skjólasælt norðantil í víkinni; að ekki sé minnst á hina guðlegu náttúrufegurð. Líklegt er að papar hefðu þá, líkt og Kollur síðar, valið sér búsetu norðantil í víkinni; og þá sennilega á svipuðum stað og gamli Kollsvíkurbærinn stóð síðar um aldir. Hér er rétt að glugga í vangaveltur Árna Óla fræðimanns, sem vildi færa rök fyrir því að Kollur sjálfur hafi verið papi, og skrifaði árið 1979 í bók sína „Landnámið fyrir landnám“: „Kollur hefur áreiðanlega verið kristinn og má vera að honum hafi verið falin trúboðsstörf, eins og Örlygi. Hann braut skip sitt í vík þeirri sunnan Patreksfjarðarflóa er enn heitir Kollsvík og við hann er kennd. Þarna settist hann að, en nam ekkert land nema víkina; örlítinn blett sem ekki líktist neinu landnámi, meðan enn var af nógu að taka. Gæti það bent til þess að hann hafi hugsað meira um trúboð en búskap. Vel má vera, þótt þess sé ekki getið, að hann hafi reist kirkju í Kollsvík. (Þarna var kirkja í kaþólskum sið, og var bærinn þá nefndur Kirkjuból). Kollsnafn kemur nokkuð víða fyrir í örnefnum, og eins í samsettum viðurnefnum, svo sem Ólafur jafnakollur, Þorgrímur hærukollur, Ásgeir æðikollur, Össur slagakollur. Slíkum viðurnefnum fjölgar þegar framí sækir. Í Noregi er Þorgeir afráðskollur um þær mundir er Ólafur Tryggvason kemur til ríkis. Þorgeir átti heima í Niðnesi og mun hafa verið fróður maður (lærður?). Ari fróði hafði fróðleik sinn um Noregskonunga eftir Oddi Kollssyni, Hallssonar á Síðu, en Oddur nam af Þorgeiri afráðskoll. Þar kemur „kolls“-nafnið fyrst fyrir í Noregi svo vitað sé. Að öllu athuguðu tel ég lítinn vafa leika á því að Kollur hafi merkt sama og Papi á landnámsöld, og að Kollafirðirnir þrír hér á landi og Kollabúðir sé við Íra kennd, og á þessum stöðum hafi verið Papaver, þegar norrænir landnemar komu hingað“ . Svo segir í bók Árna Óla. Allt er þetta áhugavert umhugsunarefni, fyrir þá sem eru tilbúnir að efast um bókstaflega meiningu Landnámu þar sem haldið er fram m.a. að Kollur hafi heitið á Þór í sínum hrakningum. Forvitnilegt væri að horfa yfir öxl síðari tíma fornleifaræðinga þegar hafist verður handa að greina hinar miklu hleðslur og aðrar mannvistarleifar í Kollsvík. Þar kann margt að koma á óvart. (VÖ).
Pappakassi / Pappastokkur (n, kk) Kassi úr pappa. Oftast eru kassar nútildags úr bylgjupappa, en áður oft úr massívum pappa. Þannig voru t.d. molasykurskassar sem þóttu mjög gagnleg ílát á sinni tíð, eftir upprunalega notkun. Mjög lítill pappakassi nefnist pappastokkur.
Pappaspjald (n, hk) Spjald úr pappa. Þau voru til margvíslegra nota; t.d. sem undirlag sláturvarnings. Handhæg pappaspjöld voru notuð til skrásetningar á staðnum, t.d. númer lamba þegar markað var í haga; fengnar ær þegar farið var með hrút og númer fugls þegar farið var í fuglamerkingaleiðangur.
Pappi / Pappír (n, kk) A. Pappír er safnheiti um hvaðeina blað eða spjald sem gert er úr pappírskvoðu. Pappi er notað um þykkan pappír; hvort heldur er gegnheilan eða bylgjupappa. B. Pappír er einnig notað um skjal, og gæluorð um mann; „Hann er nú ekki merkilegur pappír í mínum augum“.
Pappírsblað / Pappírsörk (n, hk) Blað/örk úr pappír. „Áttu pappírsblað sem ég get fengið“?
Pappírsbréf / Pappírslappi / Pappírssnifsi / Pappírsmiði (n, kk) Pappír; pappírssnifsi; bréfmiði. „Finndu einhvern pappírslappa til að hafa með í fjárhúsin, þegar við förum með hrútinn“.
Par (n, hk) A. Tvenna; tveir hlutir sem eiga saman, s.s. kærustupar, skópar, hnífapar, bollapar o.fl. B. Ögn, arða, það sem er lítilfjörlegt. „Ég er ekki par hrifinn af þessum hugmyndum“. „Hann sagði ekki par“.
Para (s) Búa til par. „Fuglarnir eru farnir að para sig saman“.
Para (n, kvk) Bumbur; hamur; húð á fugli. Heitir oftast bumbur í Kollsvík.
Paradísarsæla ( n, kvk) Sérlega góð vist; blíða. „Það mátti hanga á þessu í vestangutlandanum, þó ekki væri það nein paradísarsæla“.
Parrak (n, hk) Þrengsli; örtröð. „Féð ruddist út úr réttinni; fegið að sleppa úr parrakinu“. Parrak mun áður hafa verið notað um ól/taum.
Parraka (s) Yfirleitt um fé; hnappa saman; hafa í þröngum hópi. „Það er vont að þurfa að parraka féð lengi í vona þröngu hólfi meðan það bíður slátrunar“.
Parruk (n, hk) Hárkolla.
Parta (s) Skipta upp í parta/hluta/búta. „Þegar bæjum fjölgaði voru túnin pörtuð í smáskækla“.
Partur (n, kk) Hluti; bútur. „Túninu var skipt í tvo parta“. Sjá einnig á pörtum; sér á parti; mestanpart ofl.
Partí (n, hk) Safn hluta; fjárhópur. „Leyfið okkur að komast allavegana norður á Hallinn með Kollsvíkurpartíið áður en þið hleypið Látrapartíinu úr réttinni“. „Kaupfélagið var að fá nýtt partí af gúmmískóm“.
Partur (n, kk) Hluti; stykki. „Túnið á Láganúpi hét ýmsum nöfnum eftir því hver parturinn var. Þessir voru helstir: Túnshali, Þrjótur, Hólar, Svunta, Bæjarbrekka og Urðir“ (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).
Pass (uh) Sögn í spilum, s.s. vist. Merkir að maður taki ekki afstöðu; hafi enga sögn. Sjaldnast er heimilt að segja pass í forhönd.
Passa (s) A. Gæta; sjá um. „Passaðu að féð sleppi ekki út um hliðið“. B. Segja pass í spilum. „Ég held ég passi þetta bara“. C. Duga; nægja. „Ég átti fimm krónur og það passaði fyrir skíðum“ (IG; Sagt til vegar II).
Passandi / Passlegur (l) Sem passar/fellur. „Mér sýnist þessi peysa vera alveg passandi“.
Passasamur (l) Aðgætinn; á verði. „Hann er mjög passasamur í peningamálum“. Meira notað af Kollsvíkingum en orðið „pössunarsamur“ sem annarsstaðar þekktist.
Passasemi (n, kvk) Aðgæsla; aðhaldssemi. „Það er nú dálítið annað passasemi með peninga en hrein níska“.
Passi (n, kk) A. Ákveðin regla/venja/rútína. Sjá viss passi og pass í spilum. „Þetta er passinn hjá kúnum; byrja á því að gá hvort hliðið sé lokað á garðinum“! B. Vottorð; vegabréf. C. Það sem passar/ er hæfilegt/venjulegt. „Þetta er að verða passinn hjá okkur; hálf tunna í róðri“.
Passíusöngur (n, kk) A. Söngur um krossfestingu og þjáningar Krists. B. Kirkjulegur söngur, og þá helst það sem er sönglað/tónað og er einkum áberandi í kaþólskum messum.
Passklossi (n, kk) Kubbur í veggþykkt sem hafður er í steypumótum til að halda þeim sundur þar til steypt er.
Passlega (ao) Mátulega; hæfilega. „Þú kemur passlega; ég var að hella uppá“. „Ketið er passlega saltað“.
Passlegur (l) Hæfilegur. „Ég pjakkaði svo hingað, á piparsveinamót./ Passlegan ég vildi hafa drenginn./ Ég er nú reyndar hvorki lagleg eða ljót/ á liðnum árum vildi mig þó enginn“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Pasturslítill (l) Mannlýsing; veigalítill; lítill að manni; veiklulegur. Þetta er nú óttalegur rýringur greyið og ég er hræddur um að hann verði pasturslítill við dráttinn“.
Pat (n, hk) A. Bending/sveifla með höndum. „Vertu ekki að þessu pati út í loftið; ég sé ekkert hvað þú ert að benda mér á“! B. Vandræði; vesen. „Það var allt í pati hjá þeim; netið í skrúfunni og stýrið bilað“.
Pata (s) Benda ótt og títt; baða út höndum. Sjá hafa pata af.
Patent (n, hk) A. Sniðug lausn; snjöll hönnn. „Mikið asskoti er þetta mikið patent“. B. Einkaleyfi. „Eina íslenska patentið sem fengist hefur fyrir hverfli er í höndum Kollsvíkings“.
Pati (n, kk) Hugboð, grunur. Sjá hafa/fá pata af.
Patína (n, kvk) A. Diskur undir oblátur. B. Líkingamál um lítinn disk; platur.
Patró (n, sérn) Stytting á nafninu Patreksfjörður, og á styttingin eingöngu við þorpið sem áður var Geirseyri og Vatneyri. Patró varð til sem sjálfstætt sveitarfélag með klofningi úr Rauðasandshreppi árið 1907, en var svo sameinað aftur ásamt fleiri sveitarfélögum þegar Vesturbyggð varð til. Eldra folki þótti styttingin gárungsháttur og héldu sig ýmist við Vatneyri“ eða „Patrkeksfjörð“. „Ég þarf að skreppa inn á Patró“.
Patróna (n, kvk) Skothylki. „Eftir skytteríið söfnuðum við saman tómum patrónum; sorteruðum þær eftir tegundum og geymdum eins og dýrgripi. Var illa séð af húsmæðrum að finna birgðirnar undir rúmum“.
Patt / Pattstaða (n, hk/kvk) Staða sem getur komið upp í skák, þegar hvorugur getur leikið og skákinni því lokið. Notað í líkingamáli um svipaða læsta stöðu í öðrum tilefnum.
Pattaralegur (l) Feitur; kubbslegur. „Hann er nærri óþekkjanlegur; svona feitur, pattaralegur og með skalla“.
Patti (n, kk) Snáði; lítill drengur. „Ég var bara patti þegar þetta skeði“. Sjá smápatti.
Pauf (n, hk) Puð; þóf; erfiði. „Ég gafst loks upp á þessu paufi og kallaði eftir aðstoð“.
Paufa (s) Bisa við; dragnast með; draga með erfiðismunum. „Einhvernvegin tókst mér að paufa trénu uppúr fjörunni einsamall“.
Paufast (s) Ganga með erfiðismunum, t.d. í myrkri, mótvindi og/eða ófærð. „Hvað ertu að paufast þetta í myrkrinu? Hafðu frekar vasaljós“. „Svo var paufast áfram heim að Látrum...“ (MG; Látrabjarg).
Paufi (n, kk) Lítill poki; posi; pokaskjatti; gjúðra. „Hann hélt á litlum paufa með föggum sínum“.
Paur (n, kk) A. Náungi; maður. „Þarna kemur paurinn, þá getum við farið að setja niður“. B. Fjandinn; djöfullinn. „Paurinn sjálfur! Ég gleymdi nestinu minu heima“! „Ja, hver paurinn“!
Pausi (n, kk) Lítill poki. „Nesti höfðu menn með sér á sjóinn í litlum pausa; kaffi, smurbrauð, fýlsegg og stundum ávexti“.
Páfagaukalærdómur (n, kk) Utanað-/utanbókarlærdómur án skilnings á efninu.
Páfaskák / Páfatafl (n, kvk/hk) Sá almenni verknaður að kúka/ hafa hægðir á klósetti, kamri eða í guðsgrænni náttúrunni. Dregið af því að tefla við páfa. Það orðasamband var þó mun meira notað en þessi nafnorð.
Pálegg (n, hk) Álegg; ostur, kæfa eða annað sem sett er á smurbrauð. Dönskusletta sem var sumum töm, en er líklega hvorki gamalt né almennt í máli Kollsvíkinga.
Páll / Pálreka (n, kk/kvk) Stungureka af gamalli gerð, með þykku blaði. Pállinn var undanfari nútíma stungureku; forðum einatt úr tré en egg/var járnslegin.
Pálmasápa (n, kvk) Handsápustykki sem framleidd voru um tíma af sápugerðinni Sjöfn á Akureyri. Líklega hefur verið notuð í þau pálmaolía sem þá var vinsæl.
Pálmasunnudagur (n, kk) Næsti sunnudagur fyrir páska ár hvert. Haldinn heilagur vegna þess að þá átti Kristur að hafa riðið inn í Jerúsalem, og íbúar að hafa stráð pálmagreinum á leið hans.
Pálsdagur / Pálsmessa (n, kvk) 25 janúar. Þann dag á Sankti Páll að hafa snúist til kristni eftir að hafa mætt Jesu Kristi á veginum til Damaskus, og eftir það stundað trúboð í stað ofsókna á kristnu fólki. Pálsmessa var merkur veðurspádómsdagur, því eftir henni var talið að myndi viðra um vorið; a.m.k. í aprílmánuði. Allt til loka 20. aldar höfðu eldri menn í Rauðasandshreppi yfir þuluna; „Ef heiðríkt er og himin klár/ á helga Pálusmessu/ mun þá verða mjög gott ár/ mark skalt taka á þessu“.
Pápíska (n, kvk) Rótgróin íhaldsemi/forneskja/forstokkun í siðum. „Þótti sumum þetta jaðra við pápísku“
Pápískur (l) Íhaldssamur/forneskjulegur/forstokkaður í skoðunum og afstöðu. „Hann þykir dálítið pápískur varðandi þessa siði“. „Það mun hafa verið venja eftir siðaskipti að óvirða pápískar kirkjur og kirkjugarða með því að byggja þar gjarnan fjós og önnur útihús enda hefur fjósið og fjóshlaðan staðið þarna í aldir“ (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).
Pár (n, hk) Ógreinileg/ólæsileg/lítilfjörleg skrift; krot. „Eitthvað pár sýnist mér vera hér á blaðinu“.
Pára (s) Gæluorð um að skrifa/rita. „Ég páraði eitthvað um þetta á blað“.
Párandi (l) Skrifandi.
Pása (n, kvk) Síðari tíma sletta um hvíld/vinnuhlé.
Páskafasta (n, kvk) Langafasta; sjöviknafasta; fasta kristinna manna fyrir páska. Páskafastan var haldin á fyrri tíð, og hófst hún sunnudaginn 7 vikum fyrir páska. Strangt föstuhald var þó ekki fyrr en með öskudegi, og stóð þá í 40 virka daga til páska.
Páskafrí (n, hk) Frí frá vinnu og skóla um páskatímann.
Páskar (n, kk) Elsta hátíð kristinna manna og sú mikilvægasta; haldin til minningar um dauða og upprisu Krists. Hátíðin og nafnið er þó mun eldra og á rætur í minningarhátíð Gyðinga um það að Drottinn hlífði Ísraelsmönnum í Egyptalandi þegar hann deyddi frumburði Egypta. Nafnið er á hebresku „pesakh“ sem merkir framhjáhaup/sniðganga. Í fyrstu héldu kristnir menn páska á sama tíma og Gyðingar, þ.e. um fyrstu tunglfyllingu eftir vorjafndægur. Síðar var ákveðið að páskadagur skyldi alltaf vera sunnudagur um það leiti.
Pedali (n, kk) Fótstig; ástig. „Það þarf að herða pedalann á reiðhjólinu“. „Hafðu bremsupedalana samlæsta á Farmallnum“.
Peðra (s) Dreifa; sáldra. „Vertu nú ekki að peðra sykrinum um allt borðið“!
Peðringur (n, kk) Það sem dreift/sáldrað er; dálítið. „Það var nokkur peðringur af smáufsa en lítið af þorski“.
Pekill (n, kk) Pækill; saltupplausn til söltunar á matvælum. Venja var að segja og skrifa orðið með „e“ í Kollsvík, en annarsstaðar virðist „æ“ hafa verið algengara. Sjá má dæmi um þetta m.a. í viðtali Hallgerðar Gísladóttur á þjóðháttadeild Þjóðminjasafns við Sigríði Guðbjartsdótttur á Láganúpi, um reykingu matvæla, en það er birt á vef þjóðháttadeildarinnar. Styrkur pekils er talinn hæfilegur ef í honum marar meðalstór kartafla, en sumir vildu þó að hann fleytti stærri kartöflu með tútommunagla.
Pekilsaltaður (l) Saltaður í pekil/saltupplausn. „Rauðmaginn var stundum pekilsaltaður fyrir reykingu“.
Pekilsöltun (n, kvk) Söltun matvæla í pekil; ekki þurrsöltun. „Sumir velja pekilsöltun framyfir þurrsöltun“.
Pekilmælir (n, kk) Mælir til að mæla styrkleika pekils/saltlausnar, annaðhvort kvarðaður flotmælir eða kartafla af hæfilegri stærð sem í er stungið nagla.
Pelabarn (n, hk) A. Barn sem notar pela. B. Mannlíking í niðrandi merkingu.
Pelamál (n, hk) Kanna til að mæla vökva í pelum. Orðið var meira notað áðurfyrr, þegar vín var flutt til landsins á tunnum og látið renna úr þeim í pelamál áður en hellt var á flöskur eða annað.
Pelastikk (n, hk) Hnútur af sérstakri gerð. Sé pelastikk rétt hnýtt er það mjög tryggt. Það er m.a. notað af bjargmönnum þegar festa þarf vað tryggilega um festu.
Peli (n, kk) A. Fjórðungur úr potti/lítra. B. Lítil flaska; brennivínspeli; barnapeli. C. Tolla; ræði; þollur. „Band var í pokunum; tilsniðið að smokka ofanyfir pelann framan, og láta þá svo leggjast undir kinnungana á bátnum„ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Pell (n, hk) Dýrt fínofið fataefni/klæði, líkt silki. Einungis fordildar- og fyrirmenn fyrri tíma klæddust „pelli og purpura“, og var notað sem háðsyrði um aðra.
Pelk / Hóstapelk (n, hk) Hósti; þrálátur hósti; bopp. „Mér líst ekkert á pelkið í þér; hefurðu prófað að taka mixtúruna“? „Það heyrðist ekki mannsins mál fyrir hóstapelkinu í karlinum“.
Pelkja (s) A. Hósta. „Ég er búinn að vera pelkjandi í allan dag; gæti trúað að ég sé að kvefast“. B. Ganga; einkum við erfiðar aðstæður; í mótvindi eða ófærð. Hugsanlega stofnskylt við verkfærið pál, þannig að menn stingi fótum í fönn líkt og pál í jarðveg eða hósti með svipuðu hljóði og ef páll væri notaður. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar o.fl.).Notað í mæltu máli til þessa dags í Kollsvík en virðist ekki þekkt annarsstaðar. Merking orðsins er önnur í Orðab.Menn.sj. en þar þýðir það „að háma í sig“; sú var aldrei merkingin vestra.
Pelsa (s) Síðari tíma orð um það að flá loðdýr sem alin hafa verið í búri, og gera söluvöru úr skinninu/pelsinum. Notað á þeim tímum þegar refarækt var í Kollsvík á 9.áratug 20.aldar.
Pempía (n, kvk) Aumingi; tilgerðardrós. „Óttaleg pempía ertu! Að þola ekki þó maður leysi ölítinn vind“.
Pempíuháttur / Pempíuskapur (n, kk) Ofurviðkvæmni; tilgerð; aumingjabragur. „Óttalegur pempíuháttur er þetta; að geta ekki snert á hrífu eða kvísl vettlingalaus“!
Pempíulegur (l) Tilgerðarlegur; aumingjalegur. „Vertu nú ekki svona andskoti pempíulegur; taktu innanúr fiskinum, fyrst þú varst að veiða hann“!
Pendúll (n, kk) A. Kólfur sem sveiflast til beggja hliða í taug. Pendúll hefur tilhneygingu til að halda sveiflu sinni meðan ekkert hindrar hann; vegna jarðsnúningsins virðist frjáls pendúll því snúa sveiflu sinni í hring á einum sólarhring. „Pendulus“ á latínu merkir „hangandi“. B. Kólfur í klukku/pendúlklukku.
Penheit (n, hk, fto) Fínheit; tilgerð; snurfus. „Það er ekki hægt að vera með gaffal eða önnur penheit þegar svið eru étin. Langbest er að halda á þessu í greipinni og kroppa það uppí sig með hnífnum“.
Peningaaustur (n, kk) Eyðsla/sóun fjármuna. „Svona verklag við vegagerð er bara peningaaustur“.
Peningaleysi / Peningaskortur (n, hk/kk) Fátækt; fjárskortur; blankheit. „Þeir kvarta um peningaleysi“.
Peningalítill (l) Með lítil fjárráð; blankur. „Undir vorið voru skóladrengir orðnir peningalitlir“.
Peningaplokk (n, hk) Óréttmæt innheimta fjár; okur. „Þetta er nú ekkert annað en peningaplokk“.
Peningasóun (n, kvk) Eyðsla á fé. „Ég held að þessi kaup séu hrein peningasóun“!
Peningaveski (n, hk) Seðlaveski.
Peningseign (n, kvk) Eign í búfé/búpeningi. „Peningseign bænda rýrnaði mjög í fellinum“.
Peningsfellir (n, kk) Fjárfellir; mikill dauði búfjár. „Peningsfellir af harðindum hefur ekki orðið á síðari tímum“.
Peningshirðing (n, kvk) Umhirða búfjár. „Um þá er sérstaklega fóðra vel, s.s. bændurna á Lambavatni, er öðru máli að gegna. Þar verða lítil mistök; hvorki í heyverkun né peningshirðingu. Er ekki annað hægt að segja en að afkoman þar sé í besta lagi; svo góð að þar er sú fyrirmynd sem vert er að fara eftir“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1933).
Peningshús (n, hk, fto) Útihús fyrir búfé; fjós, hlöður, hesthús o.fl.
Peningur (n, kk) A. Fémæt mynt; gjaldmiðill; peningaseðill. B. Upphæð. „Þetta er allmikill peningur“. C. Búfé, s.s kindur, kýr, hestar, hænsni o.fl. Sjaldnar notað í þeirri merkingu á síðari tímum. „Ég ræð því almennt til að spara hey fyrrihluta vetrar handa þeim pening er notið getur beitar…“ (ÞÓT; Forðagæslubók Rauðasands 1929). „Undanskil ég þá bændurna þá bændurna á Lambavatni, er verka betur hey sín en líklega nokkrir aðrir í þessu umdæmi. Samfara því er frábær hirðing hjá þeim á öllum pening“ (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929).
Penn (l) Fínn; vel klæddur. „Mikið ertu pen í tauinu núna; ertu að fara á ball“? Framborið með dn-hljóði.
Pennadós (n, kvk) Blikkdós sem í eru geymdir pennar, þ.e. endar sem settir voru framaná pennastöng og dýft í blekbyttu fyrir daga sjálfblekungspenna og kúlupenna. Nefndust slíkir pennar einnig fjaðrir/pennafjaðrir.
Pennadropi (n, kk) Lítill dropi; lítið magn af vökva. Oftast notað í neitunarsetningum. „Það er ekki pennadropi eftir í könnunni“.
Pennafeill / Pennavilla (n, kk) Misritun; mistök við ritun/stafsetningu. „Ég sé að hér hefur orðið slæmur pennafeill hjá mér“.
Pennafjöður (n, kvk) A. Flugfjöður af fugli sem notuð er sem penni. Þetta voru löngum skriffæri Íslendinga, m.a. þau sem skinnhandrit voru rituð með. B. Yddað stálblað sem sett er framaná pennastöng og síðan notað sem hin náttúruleg fjöður til skriftar. Í notkun frameftir 20. öld, eða þar til sjálfblekungar og kúlupennar komu til. Sjá pennadós.
Pennafær (l) Lipur skrifari; skrifar læsilega hönd; rétt málfar og áhugaverða framsetningu efnis.
Pennaglaður (l) Skrifar mikið; ekki pennalatur.
Pennahnífur (n, kk) Lítill lipur hnífur; notaður fyrrum til að ydda fjaðurpenna þegar hann varð sljór.
Pennalatur (l) Lítið fyrir skriftir; skrifar lítið. „Maður hefur verið frekar pennalatur í seinni tíð“.
Pennaleti (n, kvk) Það að vera pennalatur. „Þú verður að afsaka pennaleti mína“.
Pennalipur (l) Viljugur/duglegur/ að skrifa; vel ritfær. „Fáir voru pennaliprari en Össur á Láganúpi. Bæði skrifaði hann listagóða rithönd og hafði snilldarleg efnistök, og var þar á ofan mjög rökfastur“.
Pennaljós (n, hk) Vasaljós með tveimur mjóum rafhlöðum; líkt og penni í útliti og stungið í brjóstvasa.
Pennastokkur (n, kk) Tréhirsla sem algeng var áður til geymslu á ritföngum, einkum hjá skólabörnum.
Pennastöng / Pennaskaft (n, kvk) Fyrirrennari lindarpenna; stöng/skaft sem pennafjöðrum úr stáli var stungið í. Þess háttar pennum var dýft í blekbyttu áður en skrifað var. „Seinna skiptum við á stykkinu og góðri pennastöng, en hún ætlaði að hætta að skrifa eftir fermingu“ (IG; Æskuminningar).
Pennavilla (n, kvk) Villa/ rangt skrifað orð með penna; pennafeill.
Penni (n, kk) A. Skriffæri til ritunar með bleki. Í fyrstu, og um aldir, flugfjöður fugls með afskornum oddi, síðar stöng með stáloddi sem einnig var dýft í blek, síðar sjálfblekungar/lindarpennar og nú eru algengastir kúlupennar/tússpennar. B. Gæluorð um mann sem þykir vel pennafær/ er pennalipur.
Penta (n, kvk) A. Lítill heyflekkur. „Afraksturinn eftir þennan orfaslátt okkar afa bárum við niðurá nýslegið túnið í smáflekki sem afi kallaði pentur og rifjuðum þá með gamla laginu“. (GÖ; Minningabrot frá Láganúpi). Penta mun sumsstaðar hafa verið notað um skítahlass, eða klessu af öðru tagi. B. Síðari tíma orð yfir bátavél af gerðinni penta, en pentur voru í einhverjum bátum í Kollsvíkurveri.
Pensill (n, kk) Áhald með handfangi skafti í annan enda en þéttum hárum í hinn, notað til að mála eða bera á. Notað yfir ýmiskonar pensla; allt frá hárfínum listmálarapenslum upp í nokkurra tommu breiða þakpensla.
Pensla (s) Mála/ bera á með pensli.
Pentudúkur (n, kk) Munnþurrka sem höfð er hjá hverjum gesti þegar fram er borinn veislumatur á fínum vetitingastað; servíetta úr taui. Þvældist almennt lítt fyrir borðhaldi bænda.
Pergament (n, hk) Bókfell; skinn sem verkað hefur verið til að rita á það; sútað skinn. Oftast er þá helst átt við skinn af ungum geitum og sauðfé, sem mikið var notað erlendis, en síður kálfskinn sem mest var notað hérlendis. Þó nota útlendingar orðið yfir efnið í okkar handritum, sem við köllum vanalega skinn. Notkun pergaments til ritunar mun hafa staðið frá því um 200 árum fyrir Kristsburð, og er það kennt við borgina Pergamon í Litlu-Asíu.
Perla (n, kvk) A. Lítil hvít/skelplötugljáandi kúla sem verður til innaní sumum skeljum, s.s. ostrum. B. Lítill skartgripur með gati sem þræddur er upp á festi/perlufesti. Sjá kasta perlum fyrir svín.
Perla (s) Glitra eins og perlur; safnast í perlur. „Vatnið perlaði á bónuðum bílnum“.
Perlufesti (n, kvk) Band sem perlur hafa verið dregnar uppá og notað sem skartgripur kvenna.
Perlugler (n, hk) Öryggisgler; gler sem brotnar í fínan sand þegar það brestur, en ekki stórar flísar. Perlugler er því jafnan notað í bílrúður í dag, en þar er það einnig laminerað; þ.e. með plastfilmu á milli, sem heldur glerbrotunum saman þó rúðan brotni.
Perlugljái / Perlumóðurgljái (n, kk) Gljái hlutar sem líkist gljáa perlu; skeljagljái.
Perlulím (n, hk) Lím sem er í formi perla þegar það er keypt, en síðan brætt upp og notað heitt til límingar á ýmsu, t.d. pappír. Mikið notað t.d. við bókband.
Perlumöl (n, kvk) Möl sem sorfin er í vatni/sjó/jökli, þannig að hún er rúnnuð. Á oft fremur við fíngarða möl.
Perluskel (n, kvk) Skel sem perlur vaxa í. Stærstar verða þær í ostruskelinni Petria margaritifera, sem lifir í Indlandshafi. Hún verður allt að 25 cm og er mikið veidd og ræktuð vegna perlanna.
Perm (n, hk?) A. Áhald til útsaums: „Svo var áhald sem margar konur áttu sem hét perm. Það var rennt úr beini; a.m.k. það sem ég á (mynd), og notað til að gera göt þegar saumaður var svokallaður enskur saumur“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms). B. Jarðsögulegt tímabil; síðasta tímbil fornaldar; fyrir 299-251 milljón árum.
Permanent (n, hk) Krullur í hári, sem settar eru í með t.d. hárrúllum eða annarri aðferð.
Persía (n, kvk) Fornt nafn á því landsvæði sem nú er nokkurnvegin Íran. Þar stóð hið mikla Persaveldi fyrrum.
Persónubundið (l) Háð persónu; bundið við einstakar persónur.
Persónufylgi (n, hk) Kjörfylgi eins manns í flokki, sem er e.t.v. ekki það sama og flokksins.
Persónugera (s) Binda umræðu um málefni við eina persónu; forma málefni í myndlíkingu manneskju.
Persónulega (ao) Sem persóna/manneskja. „Ég græði ekkert á þessu persónulega, heldur félagið allt“.
Persónulegur (l) Með persónusérkenni; sem beinist að manneskju. „Þetta verður að vera með almennara orðalagi; þú mátt ekki leyfa þér að vera svona persónulegur“! „Þann 17.apríl símaði ég hreppsnefndaroddvita og bað um yfirskoðun á fé Ólafs Ólafssonar Krókshúsum vegna persónulegrar árásar í minn garð, um að ég gerði mannamun við einkanagjöf“ (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943).
Persónuleiki (n, kk) Það að vera einstök/sérstök persóna; mjög litríkur/áhrifaríkur karakter. „Hann var afskaplega sérkennilegur persónuleiki“.
Pertlína (n, kvk) Akkerisfesti; stjórafæri. „Við drekann var fest svonefndum forhlaupara, en það var mjó og liðlega keðja, 20-30 faðmar að lengd. ... Síðan kom stjórafærið, eða hin svonefnda pertlína; gildur kaðall úr besta hampi. Stjórafærið var 300-350 faðmar á lengd (sem akkeri á skútum).... “ (GG; Skútuöldin).
Perudós (n, kvk) Blikkdós með niðursoðnum perum, en fyrrum var þessi ávöxtur eingöngu fáanlegur þannig.
Pervisinn (l) Rýr; aumingjalegur. „Strákurinn var óttlega lítill og pervisinn þegar hann kom fyrst í sveitina“. Ekki er augljós skýring á orðinu. Líklega hefur það upphaflega verið „bervisinn“ og þá í sömu merkingu og beinaber. B í upphafi orðs verður svo sterkara í framburði með tímanum.
Pest / Pestarsótt (n, kvk) Smitsjúkdómur; smitpest. Notað fyrr yfir mannskæða smitveiki, en mun víðtækara síðarmeir. „Einhver árans pestarskítur er að hellast í mig“.
Pestardrulla / Pestarfjandi / Pestarfýla / Pestarmolla / Pestarskítur / Pestarstand (n, kvk/kk) Lýsandi orð yfir veikindi af smitpestum. „Það er að hellast í mig einhver pestardrulla“. „Ég er ekki orðinn góður af pestarskítnum enn“. „Það er eitthvað árans pestarstand þar á bæ“.
Pestargemlingur / Pestargemsi / Pestarungi (n, kk) Pestsækin manneskja. „Óttalegur pestargemlingur geturðu nú verið, greyið mitt“. „Hann er svoddan pestarungi grípur allan ófögnuð sem er á ferðinni“.
Pestarket (n, hk) Ket af sóttdauðum gripum, t.d. úr bráðapest, en það er ekki talið hæft til neyslu.
Pestarlossi (n, kk) ....óviss merking.... (e.t.v. sama og pestargemlingur; VÖ) Orðið virðist ekki hafa verið notað utan Kollsvíkur. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Pestaróvera / Pestarvottur (n, kk) Væg einkenni pestar. „Einhver fjárans pestaróvera er þetta líklega“. „Ég er ekki frá því að þetta sé einhver pestarvotur“.
Pestnæmur / Pestsækinn (l) Hætt við að sýkjast af pestum/farsóttum. „Maður er orðinn svo skolli pestsækinn í seinni tíð“.
Pestveikur (l) Veikur af umgangspest/smitsjúkdómi. „Hann liggur enn pestveikur heima“.
Petti (n, hk) Blettur; lítið svæði/reitur; í seinni tíð notað um lítinn stall eða vik í klettum. „Hér inni í gjánni er dálítið petti sem auðvelt er að komast í. Þar má oft ná dálitlu af eggjum“.
Pex (n, hk) Þras; rifrildi; múður. „Vertu nú ekki að þessu béuðu pexi alla tíð, krakki“.
Pexa (s) Jagast; deila; þræta; nöldra. „Ég nenni ekki að pexa meira um þetta“!
Peyi (n, kk) Gæluorð um mann í milt niðrandi merkingu; náungi; gripur; kóni. „Ég held að sá peyi ætti bara að halda sig á mottunni“!
Peys / Peysa (n, kk/kvk) Prjónuð ytri flík ofan mittis. . „Réttu mér peysinn minn; hann liggur þarna á stólnum“.
Peysuföt (n, hk, fto) Íslenskur kvenbúningur sem samanstendur gjarnan af peysu, pilsi, svuntu, slifsi, peysubrjósti og skotthúfu. Hefur líklega fyrst farið að tíðkast í lok 18.aldar.
Peysugarmur / Peysugopi / Peysulufsa / Peysuræfill (n, kk/kvk) Gæluorð um peysu. „Sérðu nokkuð hvar ég lagði af mér peysulufsuna mína“?
Peysufatasvunta (n, kvk) Svunta sem tilheyrði peysufötum kvenna. „Fyrir ein jól man ég eftir að hún saumaði mér kjól úr peysufatasvuntunni sinni“ (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).
Peysugarmur / Peysugopi (n, kk) Gæluorð um peysu; léleg peysa. „Ætli sé ekki rétt að fara í peysugarminn ef hann er að kólna“. „Réttu mér peysugopann þarna af stólnum“.
Pési (n, kk) A. Bæklingur; þunn bók. B. Gæluorð um lítilfjörlegan mann eða strákhnokka.
Pétur og Páll (orðtak) Safnheiti um hvern sem er. „Ég er ekkert hrifinn ef hann er að lepja þetta slúður í Pétur og Pál“! „Hann gekk þegjandi út og kvaddi hvorki Pétur né Pál“.
Pétursbeita (n, kvk) Lubbi; kverksigi á þorski. Hann var talin tálbeita fyrir þorsk og var skorinn úr með svipuðum hætti og gellan, nema að úr varð skálmarlagað stykki. Kennd við Pétur postula vegna þess að á henni er pétursskeggið.
Pétursblettur / Pétursrák Svartur blettur aftan við auga ýsu og svört rák aftur eftir búknum. Sagt draga nafn af því að Pétur postuli vildi grípa ýsu og náði góðu taki þar sem bletturinn er, en ýsan rann samt úr greip hans og er rákin ummerki um það. Orðin finnast ekki í orðabókum en hafa, ásamt sögunni, lifað góðu lífi í munnlegri geymd Kollsvíkinga. Sagan er annarsstaðar sögð á annan hátt: „Eitt sinn þreyttu skolli og Sankti-Pétur fiskdrátt. Dró skolli þá ýsu or er hún kom að borði sagði Pétur; Sleppi það sem heldur“. Losnaði ýsan þá af önglinum, en skolli brá hendinni útfyrir borðstokkinn og tók um ýsuna fyrir aftan eyruggana, en hún straukst úr greip hans. Sagði þá skolli; „Sleip er ýsan“. Eftir fingur hans; skollatakið, ber ýsan svarta bletti við eyruggana og svarta tauma langs með síðunum“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV). Heitið Pétursfiskur yfir ýsu vísar í þessa sögu.
Péturslamb (n, hk) Lamb sem löngum tíðkaðist að fóðra fyrir sóknarprestinn, og talið í gustukaskyni. Kirkjan hafði fyrrum kverkatak á öllu þjóðlífi og blóðpíndi bændur eins þeir framast þoldu. Ekki var nóg með að hver bóndi sem grasnyt hafði var skyldugur að fóðra svokallað prestlamb, hvernig sem áraði, heldur var í kaþólsku tekinn upp sá siður að bændur fóðruðu bæði eða annaðhvort Péturslamb og Maríulamb. Kvöðin mun lengst hafa haldist sumsstaðar á Norðurlandi og Snæfellsnesi, og var ekki endanlega afnumin fyrr en 1909. Ekki er vitað hvort eða hvenær hún hvíldi á bændum í Saurbæjarsókn og nágrannasóknum.
Pétursmessa (n, kvk) Einn af messudögum kaþólsks siðar. 22.febrúar. Til minningar um það þegar Pétur postuli stofnaði biskupsstól í Antíokkíu í Sýrlandi. Sú þjóðtrú var við hana bundin að talið var að svo viðraði næstu 40 daga sem viðraði á Pétursmessunótt.
Pétursmessa og Páls (orðtak) 29.júní ár hvert. Til minningar um postulana tvo.
Pétursmold (n, kvk) Barnamold; kísilgúr. „Fremst í Hvanngörðum var á bletti hvít mold sem kölluð var pétursmold“ (BÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).
Pétursskip / Pétursbudda (n, kvk) Egg skötunnar, en þau eru sægræn/svört að lit, ferhyrnd, fremur flöt og með festiþræði í hornunum. Pétursskip rak oft á fjörur í Kollsvík meðan skatan var algeng á Vestfjarðamiðum. „Sankti Pétur átti eitt sinn að segja hvaða fiskakyn hann áliti helgast og eðlislbest í sæ. Bað hann þá Guð að sýna sér það; varpaði síðan út öngli sínum og dró þegar skötu. Sankti Pétri þótti fiskurinn ljótur og fleygði honum út aftur. En svo fór þrem sinnum að hann dró skötu. Slægði hann hana þá og fann í henni buddur þær sem Pétursbuddur eru kallaðar... Sérstakt happ þótti að finna pétursbuddu með steini í, sem þá var óskasteinn. Maður átti að láta hann á tungu sér og óska sér einhvers, en óskasteinn var hann aðeins í það eina skipti. Úr því átti að geyma hann í buddunni; sem dró þá að sér fé svo lengi sem aurar voru hafðir í henni. Því var almennt trúað að sá sem geymdi pening í pétursbuddu hefði peningaheill“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).
Pétursskegg Skegg; þráður neðan á trjónu þorsks. Kennt við Pétur postula en tenging þess óviss.
Pétursspor (n, hk) Lóðrétt felling framan á höku; mismundi greinilegt eftir persónum. Kennt við Pétur postula en ástæða þess mun nú týnd. „Sumir eru með áberandi pétursspor í höku“
Pikkfastur (l) Alveg fastur; þrælfastur. Algengt í seinni tíð að nota um bíla sem gjarnan sátu fastir í ófærð yfir Hænuvíkunháls eða aðra fjallvegi. Einnig um annað: „Kýrin álpaðist ofan í skurðinn og sat þar pikkföst“. Orðið finnst ekki í orðabókum.
Pikkfalur (n, kk) Dragreipi úr enda pikks á loggortusegli. Pikkfalur gengur í gegnum blökk í sjálfu mastrinu, og þannig er auðvelt að hækka og lækka pikkinn að vild.
Pikkreist (l) Um seglabúnað; annar endi seglrár þversegls/loggortusegls mun hærri en hinn. Sjá pikkur.
Pikkur (n, kk) Halli/hæðarmunur sem myndast á reistri rá á báti með þversegli, en þó einkum loggortusegli þar sem pikkurinn er um 2/3 hlutar seglrárinnar. „Dragreipið var fest nokkuð fyrir framan miðju á ránni og á skektum var þriðjungur hennar fyrir framan rábragðið. Seglráin reis því miklu hærra að aftan, enda seglið sniðið þannig. Hæðarmunur þess hét pikkur, og seglið pikkreist“ (LK; Ísl sjávarhættir II).
Pilja (n, kvk) Trénaður gróður; stöng eða sina. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Pilkur (n, kk) Sakka á færi til skakveiða. „Í Kollsvík heyrði ég (VÖ) orðið notað um heimasmíðaðar sökkur sen smíðaðar voru í mínu minni. Þá var bráðnu blýi rennt í járnhólk og sigurnagli í enda. Á þá voru ekki festir krókar. Annarsstaðar á landinu virðist pilkur einungis eiga við sökkur með áföstum krókum“.
Pilla / Pillast (s) Tína; velja úr. „Ætlarðu að pilla þetta uppí þig með puttunum“? „Ertu ekki sofnaður enn strákur? Pillaðu þig uppí eins og skot“! „Ætli við förum nú ekki bara að pillast heimáleið; þetta er orðið gott í dag“. St-endingin er þarna notuð eins og í „komast“, „drattast“ og víðar. Hún er stytting af „sig“ og var fyrrum „sik“; „komask“, „drattask“.
Pilla sig (orðtak) Hypja sig. „Pillið ykkur strax í rúmið strákar“! „Ætli maður fari ekki að pilla sig af stað“.
Pilla af/inn/í/upp/úr (orðtök) Tína. „Vertu nú ekki að pilla hýðið af nýjum kartöflum“! „Við pillum sláturlömbin inn í dilkinn“. „Bíddu meðan ég pilla mig í sokkana“. „Perlufestin slitnaði, og það var handleggur að pilla perlurnar upp úr gólfinu“. „Ertu að pilla rúsínurnar úr kökunni drengur“?
Pilludót / Pilludrasl / Pilluhaugur (n, hk/ kk, ft) Niðrandi heiti á töflum/ ofgnótt taflna. „Það er ekki nokkur lífsins leið að lifa á þessu pilludrasli alla sína hundstíð“! „Læknirinn lét mig hafa einhvern pilluhaug til að koma þessu í lag“.
Pilsasláttur / Pilsaþytur (n, kk) Kraftur/flýtir í kvenmanni; vargagangur. „Það var naumast pilsaslátturinn á þeirri gömlu á þorrablótinu“!
Pilsgarmur / Pilsgopi (n, kk) Gæluorð um pils; lélegt/hlífðarlítið pils. „Og svo var stelpuskátan illa búin í þokkabót; húfulaus, berleggjuð og í einhverjum pilsgopa sem náði varla niðurfyrir klof“!
Pilsvargur (n, kk) Skammaryrði um ákveðna/illskeytta konu. „Vesalings karlinn; að búa við þennan pilsvarg“!
Piltungur (n, kk) Gæluorð um strák/pilt. „Svona öflugur piltungur getur verið á við fullorðinn í smalamennskum“.
Pinkill (n, kk) Böggull; lítill pakki. „Pinkillinn var í maskinupappír og bundið að með seglgarni“.
Pinnfastur (l) Alveg fastur/festur; niðurnegldur, „Réttu mér kúbeinið; þetta er alveg pinnfast“.
Pinni (n, kk) Tittur; lítill nagli; smáspík.
Pinkulítið (l) Örlítið; pínulítið. „Varstu pinkulítið hræddur að ganga þetta einn í myrkrinu, stúfurinn minn“?
Piparjúnka / Piparkarl / Piparkerling / Piparmey / Piparsveinn (n, kvk/kk) Háðungarheiti yfir einstaklinga sem ekki eru í sambúð/giftir. „Ég er á sextugsaldri, og silfra tekið hár/ en samt ég vildi hamingjunnar leita. Því piparkerling hef ég verið alltaf þessi ár/ en ætla að finna hnossið upp til sveita“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Pipra (s) A. Nota pipar í mat. B. Vera ekki í sambúð. „Eg fer að halda að hann ætli að pipra alla ævina“.
Pirra (s) Ergja; ama; fara í taugar/pirrur. „Það pirrar mig dálítið að hafa misst af lúðunni, svona rétt við borðið“. „Veriði nú ekki að pirra karlangann svona síknt og heilagt strákar“. „Maður getur bara pirrast af því einu að sjá myndir af þessari þingmannsnefnu“!
Pirraður (l) Argur; úrillur; fúll. „Það gagnast víst ekkert að vera pirraður yfir veðrinu“.
Pirrandi (l) Ergilegt; til leiðinda; ertandi. „Svona tuð er afskaplega pirrandi til lengdar“.
Pirringur (n, kk) Kurr; ami; ergelsi. „Það er einhver pirringur í mönnum vegna aflaleysis“.
Pirrur (n, kvk, fto) Ergelsi; ami. „Þetta eilífa suð fer svo óskaplega í pirrurnar á mér“
Pissa í skóinn sinn (orðtak) Sjá eins og að míga/pissa í skóinn sinn.
Pissa/míga á/í sig (orðtök) Pissa í buxurnar. „Nú sýnist mér að sá stutti sé búinn að pissa í sig“.
Pissa/míga undir (orðtök) Pissa óvart í bóliðs sitt; missa þvag í svefni. Stundum notað sem vísun til ungbarnaaldurs. „Hverskonar bjánaskapur er þetta í mönnunum; eru þeir ekki hættir að pissa undir“?!
Pissa upp í vindinn (orðtak) Um einstrengingshátt sem þykir mjög kjánalegur; berja hausnum við steininn. „Það er eins og að pissa upp í vindinn að halda þessu til streitu“. Í seninni tíð notað um verkfræðinga, en líklega mun eldra í málinu en sú stétt.
Pissa utaní (orðtak) Koma sér í kynni við/ mjúkinn hjá; eltast við. „Strákurinn hefur eitthvað verið að pissa utaní stelpuna af næsta bæ“.
Pisserí (n, hk) Klósett á almenningssalerni fyrir karlmenn að pissa í; mígildi; hlandskál. „Svo voru sett upp tvö dýrindis pisserí á strákaklósettinu í nýja skólanum; nú held ég að menn geti slysalaust migið standandi“! Líklega má eigna GJH heiðurinn af þessu nýyrði eins og fleirum, en orðið var almennt notað eftir byggingu nýs skóla í Fagrahvammi, ásamt orðinu mígildi.
Pistill (n, kk) A. Kafli í biblíunni/ritningunni; í þröngri merkingu notað um bréf postulanna. B. Í síðari tíð notað einkum um blaðagrein eða ræðu. Stundum um skammarræðu. „Ég las honum pistilinn og sagði honum umbúðalaust mitt álit á þessu“.
Pitsa / Pitsufjandi (n, kvk/kk) Flatbaka; pítsa. Kollsvíkingar báru fæstir mikla virðingu fyrir þessum ítalska þjóðarrétti þegar pítsuæðið brast á hérlendis síðla á 20. öld. „Það verður enginn vinnandi maður saddur af þessum pitsufjanda; næfurþunnum hveitibleðli með tómatsósulepju“!
Pía (n, kvk) Dönskusletta yfir stúlku; pige. „Hvaða píu var hann með upp á arminn á ballinu“?
Píkuskrækir (n, kk, fto) Hvell óp/hróp; hvíur. „Skárri eru það nú andskotans píkuskrækirnir í ykkur“!
Píla (n, kvk) A. Ör. „Ég hljóp eins og píla og náði að komast fyrir fjárhópinn“. B. Magapína; niðurgangur. „Ég fékk einhverja árans pílu í magann“.
Pílagrímsganga (n, kvk) Ferðalag af hugsjón/þrjósku án mikilla vona um árangur. „Ég gæti trúað að þessi smalamennska verði bara pílagrímsganga, en það er nú kannski rétt samt að fara þetta“.
Pílatusarþvottur (n, kk) Viðleitni til að hvítþvo sig af slæmum málarekstri/niðurstöðum. „Ég er hræddur um að þessi pílatusarþvottur hjá ríkisstjórninni blekki engan“.
Pílári (n, kk) Spelur. Oftast notað um rennda mjóa spítu sem ásamt mörgum slíkum mynda grindverk, t.d. í stiga eða fyrir kirkjualtari.
Píláraverk / Píláragrindverk (n, hk) Grindverk úr pílárum.
Pílusending / Píluskot (n, kvk/hk) Örvarskot. Oftast notað sem líkingamál um skammaryrði eða athugasemdir sem fara á milli manna. „Það eru ennþá einhverjar pílusendingar á milli þeirra útaf þessu“.
Pína (n, kvk) Kvöl. „Það var alger kvöl og pína að sitja á þessum bekkjum“.
Pína (s) Kvelja; pynta. „Vertu ekkert að pína þig til að borða þetta ef þér líkar það ekki“.
Pína/þvinga til sagna (orðtak) Ganga hart að einhverjum til að hann segi frá/ leysi frá skjóðunni.
Píningarbekkur (n,kk) Upphaflega píningartæki; nú notað í afleiddri merkingu um slæma/neyðarlega aðstöðu eða það að þjarmað sé að. „Ég játa það aldrei fyrr en á píningarbekknum að hafa kosið þennan flokk“!
Píningsdómur (n, kk) Dómur sem Diðrik Píning höfuðsmaður kvað upp á Býjaskerjum á Suðurnesjum árið 1490, þar sem mörkuð voru lok vetrarvertíðar ár hvert. Segir þar m.a; „So oc dæmdum vier j sama dome at vertid skylldi wera ute a faustudagen þa ix nætr ero af sumre oc setia þa upp skip oc bua vel um og seigia af sina abyrgd“. Dómurinn fjallaði einnig um skuldir Norðlendinga vi Sunnlendinga og lúkningu þeirra, þó nú sé ekki ljóst hvernig þær voru tilkomnar. Svonefndur skipadómur árið 1564 varðaði einnig vertíðarlengd.
Pínlegt (l) Neyðarlegt; afkáralegt. „Honum þótti dálítið pínlegt að sitja undir þessu slúðri um sitt nánasta fólk“. „Það yrði pínlegt ef flokkurinn neyðist til að framfylgja stefnumálum fyrri stjórnar, sem hann barðist gegn“.
Pínsaddur (l) Búinn að borða ærið nóg; pakksaddur. „Ekki meira fyrir mig, þakka þér fyrir; ég er alveg pínsaddur“.
Pínsfullur (l) Sneisafullur; troðfullur; smekkfullur. „Við setjum ekki meira í þennan dilk; hann er pínsfullur“.
Pínsfylla (s) Kjaftfylla; troðfylla; yfirfylla; fleytifylla. „Vertu ekki að pínsfylla fötuna; þá er bara erfiðara að koma henni upp á brún á handlegg“.
Pínshlaðinn (l) Um hleðslu á báti; hlaðinn eins og framast er unnt. „Mér finnst ekkert vit í því þegar menn eru að koma með bátana svo pínshlaðna í land að ekki megi slá af vél án þess að fljóti inn“.
Pínulítið (l) Mjög lítið; örlítið. „Mér finnst það pínulítið skrýtið“. „Svo setjum við pínulítið af salti í þetta“.
Pípa (n, kvk) A. Fremur mjótt rör. B. Reykjarpípa. Sjá pípustertur.
Pípa (s) Tuða; nöldra. „Það þýðir ekkert að vera að pípa um þetta“.
Pípandi (l) Um niðurgang/skitu; rennandi; ákafur. „Ég er búinn að vera með pípandi drullu í allan dag“!
Pípubarningur / Pípusláttur (n, kk) Það að berja reykjarpípu í sterkan öskubakka til að ná úr henni ösku síðustu reykingar. Slíkur barningur gat verið langvarandi og hávaðasamur; einkanlega ef pípukóngurinn var orðinn þröngur og kolaður að innan. Veikari öskubakkar þoldu slíkt illa og því voru öskubakkar reykingamanna sterkbyggðir. Össur á Láganúpi notaði lengi vel holustein af Hnífunum fyrir öskubakka.
Pípubræla / Pípusvæla / Pípureykur (n, kk) Reykur/reykjarkóf úr reykjarpípu. „Bölvuð pípubræla er nú hérna inni; datt engum ykkar í hug að opna glugga“?!
Pípuglóð (n, kvk) Glóð í tóbaki í pípu meðan verið er að reykja. „Hann sat nokkra stund í mykrinu og hugsaði eftir að hann hafði slökkt á luktinni; og var pípuglóðin eina týran þarna á fóðurganginum“.
Pípuhaus / Pípukóngur (n, kk) Fremsti hluti reykjarpípu, sem tóbak er reykt úr. Pípukóngur var algengara heiti vestra. „Ári er nú að verða þröngur pípukóngurinn hjá mér.
Pípuhreinsari (n, kk) Mjór vír eða annað sem unnt er að nota til að hreinsa reykjargöng pípu af pípusósu og öðrum óhreinindum. Sérstakir pípuhreinsarar voru til skamms tíma seldir í búðum; vír sem í var snúið mjúku filti. Voru þeir einnig nokkuð notaðir í föndur af ýmsu tagi.
Pípusósa (n, kvk) Sterkur svartbrúnn lögur sem gjarnan safnaðist í reykjargöng reykjarpípu. Samanstóð líklega af munnvatni, tjöru og öðru sem féll út úr reyknum. Pípusósu var vanalega hellt út um munnstykki pípunnar, en stundum þurfti að hreinsa með pípuhreinsara.
Pípuskafa (n, kvk) Áhald sem notað er til að skafa innanúr pípukóng, en með mikilli notkun hætti þeim til að kolast að innan.
Pípusteinn (n, kk) Kol sem safnast innanum pípuhausinn/pípukónginn við margendurteknar reykingar. Var stundum hreinsaður út með pípusköfu, vasahníf eða öðru áhaldi. En það þurfti að gera varlega því oft var kóngurinn sjálfur orðinn veikari en pípusteinninn og sprakk þá út.
Pípustertur (n, kk) Gæluorð um reykjarpípu. „Pípureykingar voru nokkuð almennar í Útvíkum um og eftir miðja 20. öld, eingöngu þó meðal karlmanna, og margir settust varla svo niður að ekki væri pípusterturinn kominn á loft; bæði við útivinni og inni í húsum. Pípur voru í ýmsum gerðum og mislangar; sumar með beinum legg en aðrar bognar, þannig að kóngurinn var neðar munnstykkinu. Minni hætta var þá á því að pípusósan rynni í munn reykingamanns. Nokkuð viðhald var á pípum; innan í pípukónginn vildi safnast pípusteinn og sumum hætti til að bíta illyrmislega í munnstykkið ef pípa var í munni og mikið var umleikis, eða mönnum hitnaði í hamsi. Pípuhreinsarar; flosaður vír, voru notaðir til hreinsunar á pípum, en stundum þurfti að nota grannan vír eða puntstrá ef þeir voru ekki við hendina þegar pípa stíflaðist. Undir aldamótin voru pípureykingar svo að segja aflagðar, enda stöðugur og trúverðugur áróður rekinn gegn þeim. Nú kemur enginn lengur inn í íbúðarhús þar sem ilmandi pípureykur hlykkjast í lofti líkt og ský í miðjum hlíðum. Ekki heyrist lengur slegið úr pípu eða eldpýta dregin við stokk. Menn dunda sér ekki lengur við að troða í kóng meðan mál eru brotin til mergjar. Án þess að dreginn sé í efa óhollusta reykinga, þá má geta þess að enginn okkar Láganúpsbræðra hefur beðið tjón af því að alast upp við allmiklar óbeinar reykingar, og fæstir okkar hafa nokkrusinni notað tóbak“ (VÖ).
Píputott (n, kvk) Niðrandi orð yfir reykingar; það að reykja/totta pípu. „Maður er hálf feginn að vera laus við þetta píputott og vesenið sem því fylgir“.
Píputóbak (n, hk) Tóbak sem notað er til pípureykinga; reyktóbak. Í Gjögrabúð voru einkum seldar tvær tegundir af píputóbaki; mest af Prince Albert en einnig nokkuð af Half and half“.
Píra (s) A. Skammta mjög lítið; mjatla. „Það er til bóta að píra örlitlu lýsi í fóðrið hjá fénu fyrir burð“. B. Stara með kipruð/nær lukt augu. „Með því að píra augum upp í særokið gat ég grillt í ströndina“.
Píreygur (l) Með kipru/nær lukt augu. „Ósköp verður maður píreygur af reyknum í kofanum“.
Píringur (n, kk) A. Smáskammtar; mjatl. „Það væri nú betra að greiða þetta árlega heldur en að vera að þessum píringi í hverjum mánuði“. B. Lítilsháttar snjókoma; lítið fjúk. „Það er lítilshattar píringur úr lofti“.
Pírumpár (n, hk) Afkáraleg/ofhlaðin skreyting/teikning; krot. „Hvað skyldi svo þetta pírumpár eiga að vera“?
Pírumpára (s) Krota; rissa. „Hvað ertu að pírumpára á þetta blað“?
Píska (s) Lemja með vendi/svipu/ól eða öðru, hýða.
Píska út (orðtak) Níðast á; lemja áfram; jaska út. Sjá útpísikaður.
Pískra (s) Hvíslast á; tala saman í lágum hljóðum. „Hvað eruð þið að pískra“?
Pískur (n, hk) Hvískur; hvísl í hálfum hljóðum. „Ég heyrði eitthvað hvískur um þetta; ég veit ekki meira“.
Pískur (n, kk) Svipa; vöndur.
Písl (n, kvk) A. Lítilfjörlegur maður eða skepna; rýringur. „Þessi tvílembingur er óttaleg písl“. B. Þjáning. Heyrist lítið notað í þeirri merkingu nema í trúarlegu tilliti.
Píslarganga (n, kvk) A. Ganga sem menn fara í trúarlegum tilgangi til að gera yfirbót vegna synda sinna. B. Þung spor; erindi sem erfitt er að reka. „Ætli hamm verði ekki að leggja í þessa píslargöngu og tala við bankastjórann“.
Píslarvættissvipur (n, kk) Andlitssvipur sem sýnir armæðu/uppgjöf. „Hvaða píslarvættissvipur er þetta“?
Plampa (s) Ganga; labba. „Ég lét mig hafa það að plampa alla heiðina í rigningunni“.
Plokkunarkutti (n, kk) Hnífur til að plokka fugl. „Notaðir voru sérstakir hnífar, kallaðir plokkunarkuttar. Þeir voru með sérstöku lagi og liprir í hendi; heimasmíðaðir, venjulega úr ljáblöðum“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Pjakka (s) A. Pikka/stinga, t.d. í fastan jarðveg. „Það verður verk að pjakka niður úr klakanum“. B. Ganga; rölta. „Hann pjakkaði eitthvað niður á Bakkana“. „Ég pjakkaði svo hingað, á piparsveinamót./ Passlegan ég vildi hafa drenginn./ Ég er nú reyndar hvorki lagleg eða ljót/ á liðnum árum vildi mig þó enginn“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).
Pjakkur (n, kk) Stubbur; kútur; gæluorð um smástrák. „Varstu að detta á hausinn pjakkurinn minn“?
Pjara (s) Lappa uppá; lagfæra; bæta. „Ætli maður verði ekki að pjara eitthvað við þetta sprungna dekk“. „Potturinn var orðinn lekur en ég pjaraði við það með kjarnorkukítti“.
Pjaskast (s) Basla; rísla; burðast. „Ég nenni ekki að pjaskast með alltof mikið af ílátum; við höfum líklega ekki mikið af eggjum upp úr svona snagi í byrjun varps“.
Pjatt (n, hk) Tilhald; óþarfa fínheit. „Þetta má nú kalla óþarfa pjatt“.
Pjatla (n, kvk) A. Bútur af klæði; bót. B. Gæluorð um fatnað.
Pjattaður (l) Sá sem viðhefur pjatt. „Heldur ertu nú pjattaður; að draga fram blankskó fyrir þetta tilefni“.
Pjattrófa (n, kvk) Tilhaldssöm manneskja. „Hún hefur nú alltaf verið dálítil pjattrófa í sér“.
Pjási (n, kk) Lítill poki; malur. „Ég setti hvítu ullina í stóran balla en sú dökka komst í lítinn pjása“.
Pjátrari (n, kk) Blikksmiður. Stundum notað sem gæluorð um óhönduglegan smið; klastrari.
Pjátur (n, hk) Blikk; tinhúðuð málmþynna; ónýti. „Óttalegt pjátur er nú í þessum kínversku vörum“.
Pjáturdós (n, kvk) Blikkdós; t.d. niðursuðudós eða neftóbaksdós.
Pjáturdiskur (n, kk) Diskur úr pjátri. „Ég þreif vekjaraklukkuna af pjáturdiskinum er ég staðsetti hana venjulega á til að fá hljóm hennar sem mestan“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Pjönkur (n, kvk, fto) (et „pjanka“ aldrei notuð) Töskur; farangur; hafurtask tjönkur. „Ertu þá kominn með allar þínar pjönkur“? Var oft notað með t í stað p í Kollsvík.
Plaga (s) Ama; há. „Það er einhver kverkaskítur a plaga mig núna“. „Fátæktin hefur löngum plagað hann“.
Plagg (n, hk) A. Skjal. „Ég þurfti að undirrita eitthvað plagg, þessu til staðfestingar“. B. Fatnaður. Á ég ekki að þvo af þér sokkaplöggin“? C. Farangur. „Eitthvað týndist af plöggum hans í ferðinni“.
Plagsiður (n, kk) Slæmur siður, vond venja. „Það er orðinn plagsiður að segja að menn éti og skepnur borði“.
Plamp (n, hk) Erfið/þunglamaleg gönguferð; þramm. „Það er óttalegt plamp alla leið upp á Kóngshæð“.
Plampa (s) Ganga; kjaga; þramma. „Hætt er við að nútímabörn hefðu talið það eftir sér að plampa daglega frá Láganúpi út í Breiðuvík um sauðburðinn til að fylgjast með lambánum, en það gerðu börn á fyrrihluta tuttugustu aldar“.
Plan (n, hk) A. Áætlun; bígerð. „Hefurðu einhver plön um framhaldið“? B. Sléttur flötur/svæði; bílastæði.
Plana / Planera / Planleggja (s) Skipuleggja; áætla; gera ráð fyrir. „Ég er nú ekki búinn að planera þetta í þaula“. „Eitthvað þurfum við að planleggja ferðina“.
Plankabraut (n, kvk) Braut sem lögð er úr battingum/timburplönkum. „...og látinn rúlla á sverum rörbútum sem lagðir voru þvert á plankabrautina“ (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).
Plankabútur / Plankastubbur / Plankastúfur (n, kk) Bútur/endi af planka. „Þarna fann ég rekinn plankastubb úr rauðviði sem mætti nýta í ýmislegt“.
Plankabyggður (l) Smíðaður úr plönkum. Oftast notað um bát/skip sem er sléttbyrt/stokkbyrt; þ.e. ekki er skarsúðað, heldur gert út þykkum borðum/plönkum sem felldir eru saman á jöðrum.
Planki (n, kk) Battingur; þykk fjöl. „Ótrúlega stórir eru sumir steinarnir sem þar eru, en hjálpartæki voru ekki nema járnkarl, skófla og planki sem notaður var sem vog“ (IG; Sagt til vegar I).
Planleggja (s) Skipuleggja; áætla. „Eigum við að planleggja þetta með smalamennskur á morgun“?
Planlagt (l) Skipulagt; áætlað. „Ég er ekki með neitt sérstakt planlagt um helgina“.
Planta (n, kvk) Jurt; gróður. „Veistu latneska heitið á þessari plöntu“? B. Gæluorð um mann. „Alveg er hann einstök planta“!
Planta (s) A. Gróðursetja plöntu. Þarna plantaði ég fáeinum birkiplöntum á sínum tíma“. B. Staðsetja; koma fyrir. „Ég plantaði mér á aftasta bekk í salnum“.
Planta út (orðtak) Grisja; gróðursetja plöntur gisnara en verið hefur; gróðursetja plöntur í garð sem komið hefur verið til í bakka.
Plast / Plastik (n, hk) Þegar plast fór að verða algengt í flestum munum á síðari hluta 20.aldar voru jöfnum höndum notuð yfir það orðin plastik og plast. Það síðara hefur svo orðið allsráðandi.
Plastdót / Plastdrasl / Plastrusl (n, hk) Ónýtir hlutir úr plasti. „Skelfing er þetta plastdót leiðinlegt á fjörunum“!
Plastfata (n, kvk) Fata úr plasti. „Plastföturnar eru léttari í meðförum sem eggjafötur, en höldurnar á þeim eiga það til að vera varasamar“.
Plastkúla (n, kvk) Kúla úr plasti. Oftast notað um holar plastkúlur/netakúlur sem rekið hefur í miklu magni á fjörur í seinni tíð.
Plasttunna (n, kvk) Tunna úr plasti. Plasttunnur fóru að tíðkast undir hrogn grásleppukarla í Rauðasandshreppi á 8.áratug 20.aldar, og á nokkrum árum leystu þær af hólmi trétunnurnar. Varð af því allmikið hagræði, þar sem bæði voru þær mun léttari á höndum og ekku þurfti lengur að útvatna/þétta tunnur tímanlega fyrir notkun og loka þeim með gjarðaslætti. Fyrstu plasttunnurnar voru sívalar, en síðar urðu þær kantaðar og röðuðust þá betur í rými.
Plat (n, hk) Blekking; skrök. Oftast mildara/saklausara en lygi, prettir og svik. „Ég sá öngva kind þarna; þetta var bara allt í plati hjá honum“. „Ég er hræddur um að þetta sé eitthvað plat“.
Plata (s) Skrökva; blekkja; ljúga. „Maður lætur nú ekki plata sig í þessu fyrir hverjar kosningar“.
Plata (n, kvk) A. Skífa; hlutur sem er að lögun þunnur og úr hörðu efni, t.d. málmi, tré eða plasti; getur verið í ýmsum stærðum. T.d. krossviðsplata, þakplata o.fl. B. Stytting úr „hljómplata“.
Platrass / Platrófa (n, kk/kvk) Gæluheiti um þau sem plata/blekkja án þess að skaða mikið. „Nú léstu mig hlaupa í erindisleysu; platrassinn þinn“! „Hún á það til að vera skelfileg platrófa, með allt sitt ímyndunarafl“.
Plattfiskur (n, kk) Fornt nafn á skreið sem flött er; kaupstaðarskreið. „Á verslunarmáli nefndist útflutningsskreiðin plattfiskur, en á máli landsmanna malflattur fiskur/ kviðflattur fiskur/ reithertur fiskur“ (LK; Ísl.sjávarhættir IV). Mjög líklegt er að plattfiskur hafi forðum verið verkaður í Láganúpsveri til útflutnings, en ekki verður sagt um það nú hvaða nafn var heimamönnum tamast um hann. Á dönsku nefnist plattfiskur „Platfisk“ en á þýsku „Flachfische“. Sjá skreið
Plattfótur (n, kk) Ilsig. „Þeir sem eru með plattfót þurfa oft sérstakt innlegg í sína skó“.
Platur (n, hk) Lítill diskur eða skál, einkum ætlað gæludýrum. „Komdu hérna með platrið kattarins fyrir afgangana“. Stundum þó um aðra diska: „Réttu mér eitthvað platur undir lifrina“. Orðið virðist ekki þekkt utan svæðisins, en var þar mikið notað; finnst ekki í orðabókum.. Líklega sami stofn og í mörgum germönskum málum, s.s. „plate“ (e); gæti því verið mjög gamalt á svæðinu.
Plága (n, kvk) A. Almennt um mannskæða faraldra s.s. smitsóttir/drepsóttir, náttúruhamfarir eða annað. Einnig drepsóttir/faraldra í bústofni. T.d. sögn biblíunnar um sjö plágur Egyptalands. B. Líkingamál um manneskju sem þykir mjög uppáþrengjandi/friðspillandi/leiðigjörn. Sjá einnig plágan mikla.
Plágan mikla / Plágan síðari Heiti á skæðri drepsótt sem geisaði á Íslandi 1494-95. Heitið „plágan mikla“ er oft notað um svartadauða (sjá þar) og er þessi faraldur því oft nefndur „plágan síðari“. Þessi síðari drepsótt er talin hafa borist með kaupskipi til Hafnarfjarðar sumarið 1494 og breiddist fljótt út um landið, en mun þó ekki hafa náð til Vestfjarða. Enn hefur ekki tekist að ráða í hvaða sjúkdómur þetta var í raun og veru. Mannfall varð gríðarmikið, svo að sumir hreppar lögðust nánast í eyði. Biskupsannálar greina frá því að konur hafi fundist látnar við skjóluna undir kúnum; ungbörn fundist sjúgandi látnar mæður sínar og þeir sem báru lík til grafar enduðu þar jafnvel sjálfir í ferðinni. Þó mannfallið hafi verið minna en í svartadauða áður var það gríðarlegt og lamaði samfélagið töluvert.
Pláneta (n, kvk) Reikistjárna; himinhnöttur sem gengur um sólstjörnu. Orðið er þó ekki notað um litla hnetti, s.s. smástirni, halastjörnur og loftsteina. Vísindamenn komu sér saman um skilgreiningu hugtaksins árið 2006. Þá féll Pútó í flokk dvergreikistjarna, en hafði áður talist níunda reikistjárna okkar sólkerfis. Með síendurbættri sjónaukatækni hefur komið í ljós að plánetur fylgja líklega flestum sólstjörnum, og margar þeirra hafa ýmis grundvallarskilyrði þess að líf geti þróast á þeim. Fyrrum var almennt talið að staða greinilegustu plánetanna á himinhvolfinu hefði spásagnargildi, og enn eru stjörnuspádómar tíðkaðir.
Plánetugír (n, kk) Gírun með tannhjólum, á þann veg að nokkur smá tannhjól ganga í kringum stórt tannhjól, sem nefnt er sólhjól.
Pláss (n, hk) A. Rúmmál; rými. „Þessi sófi tekur alltof mikið pláss í stofunni“. B. Gæluorð um kaupstað. „Ég leitaði árangurslaust í öllum búðum í plássinu“. C. Eggpláss; fles; staður í bjargi þar sem farið er til eggja. „Eigum við ekki að fara í hitt plássið á morgun“? D. Netapláss; línupláss; staður á miðum þar sem vænlegt er að leggja net/fiskilínu. „Tvö góð pláss eru á Landamerjahleininni, þó fleiri strengir hafi oft verið þar. Torfi Jónsson var gjarnan í öðru plássinu en við í hinu“.
Plássfrekur (l) Tekur mikið rými/pláss. „Þessi ullarballi er skratti plássfrekur“.
Plásslaus (l) Skortir pláss/rými. „Það er orðið plásslaust í þessum dilk, við verðum að nota Hafnardilkinn“.
Plássleysi (n, hk) Skorur á rými/plássi. „Það er orðið dálítið plássleysi í þessu hólfi“.
Plástra (s) Setja plástur/bót á. „Þetta er bara smáskeina; ég held það sé engin þörf að plástra þetta neitt“.
Plikt (n, kvk) A. Skylda. „Ætli maður reyni ekki að standa sína plikt. B. Virðing; respekt; lotning. „Ég ber nú ekki mikla plikt fyrir svona kónum“!
Plikta (s) Skikka; skylda; neyða. „Það ætti auðvitað að plikta menn til að gera fjallskil“.
Pliktugur (l) Skyldugur. „Ég er víst pliktugur til að smala þetta þó ég eigi þar ekki eina einustu kind“.
Plitta (s) Gera plitta í bát; ganga frá plittum í bát.
Plittur (n, kk) Laus pallur í botni báts, sem felldur er að byrðingnum og hvílir á botnröngunum. Einn plittur er í hverju rúmi, og eru þeir teknir úr þegar báturinn er þrifinn. Plittir eru hluti af farviði báts. „Svo fengum við aðra báru og þá kom talsvert mikið í. Flutu upp plittarnir og svona hálfa leið í þóftur, sjórinn“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Hann dró letilega upp færið sitt; lét lóðið detta á plittinn; sló af sér vettlingum niður á þóftuna... “ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Plíserað (l) Um fatnað; með fínum skörpum brotum. „Hún var í hálfsíðu plíseruðu pilsi“.
Plokk (n, hk) Það að plokka. Oftast notað um fjárplógsstarfsemi/peningaplokk.
Plokka (s) A. Reyta fiður af fugli. Til þess voru stundum sérstakir plokkunarhnífar. Í sængur, kodda og dýnur var notað fiður og dúnn af svartfugli, máf, æðarfugli (pokaönd) og öðrum þeim sem í náðist. „Í 16.-17. viku sumars var farið í fýlunga og veiddist oft mikið. Fýllinn var plokkaður en fiðrið þurfti að geymast lengi til að losna við lyktina áður en það var notað. Mikið af því var selt. Svo var fýllinn fleginn og saltaður; það sem ekki var borðað nýtt. Laukurinn (fitan undir bumbunni) var bræddur til ljósmetis á kolur“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). „Það var mikið verk sem beið kvenfólksins, að plokka allan þann fugl sem veiddur var... “ (ÁE; Ljós við Látraröst). B. Líkingamál um að hafa fé af manni. „Alltaf ná þeir að plokka eitthvað af manni með þessum aukagjöldum“. C. Spila á strengjahljóðfæri með því að slá hvern streng sérstaklega.
Plokkfiskur (n, kk) Soðinn fiskur og soðnar kartöflur sem skorið er í bita, hitað í mörflotti/feiti og borið þannig fram sem einn réttur. Ýmist nýr fiskur eða saltfiskur. Það sem í dag kallast almennt plokkfiskur var í Kollsvík kölluð fiskstappa, en reyndar var þá ekki vanalegt að hveitisull og pipar væri uppistaðan í réttinum.
Plokkun (n, kvk) Sú vinna að plokka. „Eftir plokkun var máfurinn sviðinn lauslega yfir eldi“.
Plokkunarhnífur / Plokkunarkutti (n, kk) Hnífur sem notaður er til að plokka fugl. Hentugast er að nota blaðstuttan hníf sem fer vel í hendi, með hæfilega sljórri egg. „Notaðir voru sérstakir hnífar, kallaðir plokkunarkuttar. Þeir voru með sérstöku lagi og liprir í hendi; heimasmíðaðir, venjulega úr ljáblöðum“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Plomp (n, hk) Gusugangur/skellur þegar hlutur fellur á yfirborð. „Bjargið féll í sjóinn fyrir framan okkur með miklu plompi og öldugangi“.
Plompa (s) Falla/hlunkast skyndilega niður. „Hann sá ekki í myrkrinu að grindin var uppi og plompaði því rakleiðis niður í forina í fjárhúskjallaranum“.
Plógbátsmaður (n, kk) Maður í áhöfn plógbáts (sjá spilbátur/plógbátur). „Það gat skeð að plógurinn fengi festu aftur um stund. Annars fóru plógbátsmenn strax að hnakkabandinu og drógu plóginn upp“ (KJK; Kollsvíkurver).
Plógbein (n, hk) Bein í höfuðkúpunni; (vomer). Myndar neðri afturhluta nasaskilveggjar.
Plógfar (n, hk) Far í jörð eftir plóg. „Enn eru plógförin á sléttunni til nokkurra vandræða“.
Plógræsa (s) Ræsa/þurrka ræktarland með kílplóg; kílræsa.
Plógstrengur (n, kk) A. Umvent jarðvegsmön sem rist hefur verið upp með plógi. „Plógstrengir voru löngum til baga í sléttum í Kollsvík eftir djúpplægingu“. B. Strengur/vír/lína úr spili í kúfiskplóg. „Enn var og sú aðferð við þessa beituöflun viðhöfð að spili; ýmist handsnúnu eða gangspili, var fest á landi og plógur fluttur út. Komist varð af með einn bát, plógbátinn, en ef til vill nokkru lengri lengri plógstreng“ (KJK; Kollsvíkurver; sjá kúfiskur).
Plógspil (n, hk) Spil sem notað er til að draga skelfiskplóg. Sjá spilbátur.
Pluma sig (orðtak) Spjara sig; duga; komast af. „Þau pluma sig bærilega þarna á nýja staðnum“.
Plundra (s) Ræna; stela. Dönskusletta sem enn heyrðist á 20.öld.
Pluss (n, hk) Flosvefnaður; flauel.
Plussering (n, kvk) Yfirbreiðsla, einkum segl yfir bát, ekrru eða þessháttar. Virðist ekki þekkt utan svæðisins.
Plús (n, kk) A. Merki í stærðfræði sem táknar samlagningu talna. B. Í rafmagnsfærði; jákvætt skaut; jákvæð hleðsla; hleðsla róteindar. C. Í eðlis- og veðurfræði; hiti yfir frostmarki. D. Líkingamál; kostur; ávinningur.
Plögg (n, hk, fto) Fatnaður; föt, einkum sokkar. „Það þarf að stoppa í eitthvað af þessum sokkaplöggum“.
Plöntureitur (n, kk) Lítið verndað og skjólsælt svæði þar sem plantað er litlum trjáplöntum sem síðar verða grisjaðar. „Um 1970 fengu Össur og Ingvar nokkrar trjáplöntur til að gera tilraun til ræktunar í Kollsvík. Þær voru settar niður í plöntureiti; annan í Urðunm framan Bæjarhólsins á Láganúpi og hinn hjá Kryppukarli í Kollsvík. Lenti í útideyfu að sinna þeim plöntum sem lifðu, og því rann þessi tilraun út í sandinn, en líklegt er að einhverjar plöntur hefðu spjarað sig ágætlega þarna í Urðunum með nægri vernd fyrir beit.
Plötubútur / Plöturæfill / Plötuskækill (n, kk) Bútur/afklippa/ræfrildi af plötu, t.d. bárujárnsplötu eða krossviðarplötu. „Það má vel nota þennan plötuskækil til að svíða hausa á honum“.
Poka (s) A. Um net; poka sig; verða pokamyndað í straumi í stað þess að leggjast flatt, þannig að fiskur ánetjist frekar. Í þeim tilgangi er stundum sett stag milli teinanna. B. Um ull o.fl; setja í poka. Stundum voru kindur pokaðar, t.d þegar þeim var bjargað úr svelti eða þær fluttar í bíl.
Poka sig (orðtak) Um net; pokamyndun í netinu þegar straumur leggst í hlið þess. Mikilvægt er að innsetning netsins sé rétt til að það nái að poka sig hæfilega. Sömuleiðis er mikilvægt að það sé dregið frá réttum enda miðað við straum, til að hvolfa ekki þeim grásleppum úr pokanum sem eru illa ánetjaðar.
Pokaband (n, hk) A. Band sem notað er til að hnýta fyrir poka. „Landpósturinn flutti póstinn í hnakktöskum meðan hestar voru notaðir; en þar ofaní var honum pakkað í önnur ílát. Sendibréf voru í bréfatösku, en dagblöð voru í þéttofnum strigapokum, sem bundið var fyrir með pokaböndum“. B. Band í poka skelfiskplógs sem liggur úr pokanum fram í plóggrindina.
Pokabragð (n, hk) Bragð úr nýsaumuðum kaffikönnupoka. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Pokabuxur (n, kvk, fto) Buxur sem eru áberandi víðari að ofanverðu en að neðanverðu.
Pokadráttur (n, kk) A. Það að draga poka. B. Nafn á leik sem fyrrum var stundaður, m.a. af vermönnum í landlegum. „Pokadráttur er ekki ósvipaður hráskinnaleik þar sem tekist er á um blautt skinn. Þá sitja menn flötum beinum á jörðinni, hvor á móti öðrum með strigapoka sín á milli og takast á um hann. Sigur fékkst með því að ná til sín pokanum eða með því að rífa hinn úr sætinu“ (PJ; Vermannaleikir).
Pokagarn (n, hk) Þráður sem áður var notaður til að saums fyrir sekki, s.s. áburðarsekki o.fl. Pokagarn var gjarnan notað í þarfabönd og m.a. vinsæl hjá börnum til girðinga í hornabúum.
Pokadula / Pokagarmur / Pokakægill / Pokalús / Pokarytja / Pokaræfill / Pokapjási / Pokaskjatti / Pokaskaufi / Pokasnigill / Pokastertur / Pokataddi / Pokatuðra / Pokatuska (n, kk) Gæluorð um poka; lítill poki. „Farangurinn kemst allur í þennan pokakægil“. „Hann sagði að þorri hefði ekki verið byrjaður þegar karlinn kom röltandi með pokatuðruna sína og bað um fáein strá; hann væri að verða heylaus“.
Pokahlaup (n, hk) Keppni í því hver er fljótastur að hlaupa/stökkva ákveðna vegalengd með því að hafa fæturna í poka sem hann heldur uppi fyrir framan sig. Oft eitt skemmtiatriða á útisamkomum, t.d. í Fagrahvammi á 17. Júní hátíðarhöldum.
Pokahnútur (n, kk) Hnútur sem notaður er til að hnýta fyrir poka botnvörpu/trolls. Fljótlegt er að leysa hann eftir að varpan er komin um borð, til að hleypa veiðinni úr henni.
Pokanál (n, kvk) Rúllupylsunál; fjaðurnál; stór saumnál; ætluð til frágangs matvöru og var einnig notuð til að sauma saman strigapoka, t.d. til að loka ullarböllum.
Pokaprestur / Pokaklerkur (n, kk) Niðrandi heiti á presti sem þykir ekki mikill andlegur kennimaður og/eða lélegur í messuhaldi/messugerð. Uppruninn er óljós en líklegast vísar orðið til þess að lélegum presti gæti fremur hæft lélegur strigapoki en vönduð hempa. Ólíklegra er að það vísi til þess þegar hinum illræmda biskupi Jóni Gerrekssyni var drekkt í Brúará árið 1433. Hugsanlega tengist því orðið að vera forpokaður, og orðatiltækið allt verður fyllt nema pokinn prestsins.
Pokaönd / Pokönd (n, kvk) Annað heiti á æðarfugli; til komið vegna þess að þrátt fyrir bann var hann stundum skotinn til matar og þótti óviðkunnanlegt að segja frá því berum orðum. Enginn þurfti þó að tegundargreina þær andartegundir sem hann hafði óséðar í poka. „Jæja; selurinn hló að mér úr vognum en á hleininni sat fugl sem ég segi þér ekki hvað hét, en var kallaður pokaönd. Þennan fugl skaut ég en hann valt í sjóinn“. (IG; Sagt til vegar).
Pokast (s) Um efni/net; verða pokalaga. „Mér líkar ekki hvernig peysan pokast um herðarnar“. „Sumir telja betra að staga netin, þannig að þau pokist betur í straumnum“.
Poki (n, kk) Notað um ílát úr mjúku efni af ýmsu tagi og til ýmissa nota; sekkur; posi; pjási.
Pokurinn (n, kk, m.gr) Skrattinn; fjandinn. „Pokurinn hirði þessa ríkisstjórn“. „Ja, hver pokurinn“!
Polli (n, kk) A. Gæluorð um strák; hnokki; stubbur; stúfur. B. Stautur/þollur/festa/hæll fyrir tóg eða vír.
Pollhægur (l) Mjög/alveg lygn. „Það var komin bölvuð fjarðarbára frammi, en uppundir var hann pollhægur“.
Pollrólegur (l) Alveg rólegur; slakur. „Hann var pollrólegur og deplaði ekki auga þegar hann var dreginn aftur upp í bátinn“.
Pollslétt (l) Sjólaust; renniblíða. „Það er ekki hægt að hanga í landi í svona pollsléttu: Nú förum við fram“.
Pompólabrauð (n, hk) Brauð sem fransmenn höfðu með sér í nesti á skútum sínum í Íslandsveiðum. kennt við borgina Pompól í Frakklandi. Líklegt er þeir hafi m.a. átt viðskipti við Kollsvíkinga og látið þá pompólakex og biskví í staðinn fyrir vettlinga og annað prjónles, líkt og þeir gerðu annarsstaðar.
Pompúlerast (s) Basla með. „Hann kemur þarna kjagandi og pompúlerast með einhverja dúnka“. Orðið virðist bundið við Rauðasandshrepp. Óviss uppruni, en e.t.v. tengt frönskum sjómönnum frá Pompól.
Pommsa / Pompa (s) Detta; hlunkast. „Ég átti erfitt með mig þegar karlinn pommsaði á rassinn í forinni“.
Ponta (n, kvk) A. Baukur undir nef/munntóbak; ílangur og flatur, með töppum í enda og fer vel í vasa. Oft úr horni. Tóbaksponta. B. Ræðustóll. „Hann sté í pontu og ávarpaði fundinn“.
Poplín (n, hk) Fínofið efni sem um tíma var vinsælt í fatnað, dúka, áklæði o.fl. Fyrrum úr silki, nú fremur úr bómullarefnum.
Poppkorn (n, hk) Maís sem hefur verið hitaður/blásinn, þannig að hann springur út í hvítar frauðkenndr kúlur. Vinsælt hjá sumum sem naslmatur frá síðari hluta 20.aldar.
Popptónlist (n, kvk) Rokktónlist síðari tíma, einkum notað eftir tilkomu Bítlanna. „Afi kunni illa að meta popptónlistina; sagði að hún væri engu betri en fjárans djassinn og þetta eilífa sinfóníugaul“.
Porra (s) Síðari tíma gæluorð um að kæta/hressa/vekja. „Það mætti nú fara að porra hann; það er komið langt framá morgun“. Líkt orð, „púrra“ sem líklega er samstofna, var notað um það þegar varir eru lagðar að húð og blásið, svo heyrist líkt og prumphljóð. „Barnið hló dátt þegar það var púrrað í hálsinn“.
Porra (einhvern) upp (orðtak) Kæta; hressa við. „Og tókst þá að porra hann dálítið upp úr þunglyndinu“.
Port (n, hk) A. Forgarður; lokaður garður við hús. B. Á dekkuðu skipi; kluss; gat á lunningu, þar sem sjór rennur út af dekkinu; op fyrir byssur á herskipi. C. Loft í húsi, þannig að bil er frá lofti/loftbitum upp að sperrufótum. „Er húsið stórt og vel vandað; ein hæð með porti“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58).
Portbyggt hús (orðtak) Hús með nýtanlegu risi, sem byggt er þannig að bil er frá loftgólfi upp að sperrufótum.
Portæð (n, kvk) Vena porte). Stór bláæð í líkamanum sem liggur frá meltingarfærum til lifrar.
Posagrýta / Posakægill / Posalús / Posapísl / Posapjási / Posasnigill / Posaskaufi / Posaskjatti / Posatuðra (n, kk) Lítill poki; smásekkur. „Þhu! Þeir létu mig hafa þennan ómyndar posaskjatta undir póstinn. Þetta tekur varla öll bréfin; hvað þá heldur þessi ódæmi af Tímanum sem fara á hvern bæ“!
Posi (n, kk) Lítill poki; smásekkur; pokaskjatti. „Við tíndum þarna í dágóðan posa af fjallagrösum“.
Posjón (n, kvk) Slatti; slumpur; skammtur. „Við þurfum að klára síðustu posjón af eggjunum fyrst“. Enskusletta, „portion“, sem töluvert var notuð í máli sumra Kollsvíkinga í lok búsetu þar.
Postilla (n, kvk) Húslestrarbók. Sjá húslestur.
Postulahestar (n, kk, fto) Um ferðamáta; mannsfætur. „Hentugustu farskjótarnir þarna eru postulahestarnir“.
Postulatala (n, kvk) Talan tólf. „Við förum nú fjandakornið ekki heim fyrr en við erum í það minnsta komnir með postulatöluna; við getm ómögulega komið í land með öngulinn í rassinum“
Postuli (n, kk) Lærisveinn Jesú Krists. Oftast er þó átt við þá tólf sem voru honum nánastir.
Postulín (n, hk) A. Postulínsleir; fíngerður leir sem notaður er til að steypa borðbúnað og skrautmuni, oft íblandaður öðrum efnum. B. Leirtau og skrautmunir úr postulínsleir. Jafnan brennt í ofni, með miklum gljáa og gjarnan fagurlega skreytt. Postulín þótti fyrrum nokkuð stöðutákn hinna efnameiri.
Postulínsdúkka (n, kvk) Ofurviðkvæm manneskja. „Nú ég keyri bara eins og venjulega. Þessar postulínsdúkkur að sunnan geta þá bara haldið sig heima ef þær þola ekki landsbyggðavegina“!
Postulínshvítur (l) Um mann; mjög fölur; náhvítur. „Hann kom æðandi inn, postulínshvítur í framan og hríðskjálfandi og fullyrti að það væri draugur í hlöðunni“.
Postullegur (l) A. Blessunarorð prests í kirkju; kristileg blessun. „Takið hinni postullegu kveðju“. B. Hátíðlegur; heiðarlegur. „Hann setti upp postullegan svip og sagði að þetta væri hreinasatt“!
Pot (n, hk) A. Það þegar ýtt er við einhverju með mjóum hlut eða fingri, eða bent í átt að einhverju. B. Líkingamál; veiðiskapur, einkum með veiðistöng. C. Líkingamál; þegar reynt er að koma sínum skoðunum á framfæri eða sér sjálfum.
Pota (s) A. Ýta við með mjóum hlut eða fingri; benda í áttina. B. Stunda veiðar, einkum með veiðistong. C. Koma sér eða sínum skoðunum á framfæri; afla sér fylgis.
Pota inn (orðtak) Gælumál um að setja búfé inn í hús; hleypa/láta/setja inn. „Ætli maður fari ekki að pota fénu inn hvað úr hverju“.
Pota niður (orðtak) Gælumál um að setja niður kartöflur. „Ég potaði þarna niður nokkrum kartöflulufsum“.
Pota sér (orðtak) Trana sér fram; reyna að komast framar öðrum með óviðurkvæmilegum hætti.
Pota sér í (orðtak) Klæða sig; koma sér í föt. „Ætli maður þurfi þá ekki að pota sér í einhverja skárri leppa; ef við ætlum til kirkju“.
Potast (s) Þokast; gaufa; mjakast. „Þetta potast þó hægt fari“.
Potast við (orðtak) Gaufa við; gera óhönduglega/með litlum afköstum „Það gengur ekki að potast við þetta með svona handarbakavinnubrögðum“!
Pottaleppur (n, kk) Efnisbútur sem notaður er til að verja fingur við bruna þegar tekið er á heitum potti.
Pottaska (n, kvk) Efnasamband kalíums og karbónats. Var fyrrum unnið úr viðarösku eða þara. Hefur frá fornu fari verið nýtt m.a. til að gera gler og sápu; einnig í tilbúinn áburð. Stundum í stað lyftidufts í matargerð, og til að koma í veg fyrir ystingu mjólkur.
Pottbrauð / Pottkaka (n, hk) „Pottbrauð (pottkaka eða drymbi) er (seytt) rúgbrauð bakað í eða undir potti, oft í hlóðum við glóð. Áður en eldavélar komu, voru rúgbrauðin bökuð undir pottinum. Það krafðist mikillar kunnáttu og nákvæmni ef vel átti að takast, þ.e. að hafa glóðina jafna um pottinn og byrgja hann síðan á þann veg, að ekki gæti dregið úr hitanum á einum stað frekar en öðrum. Ekkert súrdeig var haft í pottbrauðin, en oft bleytt í þeim með mysu eða sýrublöndu í stað vatns, og bökuð svo rauðseydd, og voru þá lin og ilmandi.
Stundum voru pottkökur kryddaðar með kúmeni.Algengast var að baka þau með að leggja járnhellu yfir glæður og setja brauðdeigið á það og hvolfa svo potti yfir og skara svo að glóð. Þaðan er komið orðatiltækið "að skara eld að sinni köku". Pottkökur voru oft skreyttar öðru megin með flúri sem konur teiknuðu með spónarskafti eða stíl. Stundum voru þær flattar út á brauðmóti með spegilskrift svo að úr mátti lesa málshætti eða vísuparta. Slíkar kökur voru oft bakaðar til vinargjafa og voru algengar orlofsgjafir á 19. öld “ (Þjhd.Þjms).
Potteyra / Potthalda (n, hk/kvk) Eyra/halda/hanki utaná barmi potts til að ná á honum taki. Potteyru voru fyrrum oftast steyptur hluti af pottjárnspottum þeirra tíma. Síðar tíðkaðist að hafa þau áskrúfuð úr gerviefnum.
Pottflaska (n, kvk) Flaska sem tekur einn pott af vökva.
Pottgrýta (n, kvk) Gæluheiti um lítinn pott. Vísar líklega til uppruna potta, en þeir voru upphaflega klappaðir úr grjóti. Fundist hafa hérlendis innfluttir pottar úr klébergi.
Potthlemmur (n, kk) Pottlok. „Potthlemmar eru á stærri pottum; pottlok á þeim litlu“.
Pottjárn (n, hk) Steypujárn; járn með miklu kolefnisinnihaldi (yfir 2%). Það er venjulega stökkt og ekki unnt að hamra það til eins og mýkra smíðajárn, og vandasamara er að sjóða við það. Það er vanalega steypt í endanlegt form í verksmiðju, og notað til margra hluta.
Pottlok (n, hk) A. Lok á potti. B. Derhúfa; sixpensari. „Hvar er nú pottlokið mitt“?
Pottormur (n, kk) Óþekktarangi; hrekkjalómur; grallari. „Hvar skyldi þessi pottormur nú halda sig“?
Pottrör (n, hk) Rör úr pottjárni/steypujárni, en þau voru algeng um tíma í lögnum; t.d. frárennslislögnum“.
Pottur (n, kk) A. Ílát. Oftast notað um ílát úr málmi sem ætlað er til að sjóða í eitthvað matarkyns. Sjá víða er pottur brotinn. B. Lagarmál sem algengt var fyrrum en er enn nokkuð notað. Einn pottur er oftast í dag talinn vera sama og einn lítri/10 rúmdesimetrar en í raun jafngildir hann 0,9661 lítrum. Einn pottur er sama og 1/32 tengingsfet; 2 merkur; 4 pelar og 1/8 kútur; 1/120 tunna. C. Stytting á pottjárn. „Það er líklega pottur í þessu röri“. D. Pottormur; patti; drengstauli. „Hvað eru pottarnir nú að bralla“? E. Næturgagn; koppur. „Hleldurdu að þú nennir að skvetta fyrir mig úr pottinum útfyrir hlaðið“? „Réttu mér nú pottinn minn“.
Pottur brotinn (orðtak) Sjá víða er pottur brotinn.
Potturinn og pannan í (orðtak) Stjórnandi/ höfuðpaur í. „Hann er potturinn og pannan í þessu félagi“
Pottþétt (l) Alveg þétt; án þess að leki. Orðið var notað í bókstaflegri merkingu til skamms tíma vestra, enda var mikilvægt að eldhúsáhöld og borðbúnaður væru án leka. „Konurnar ... komu töltandi til pabba ef gat kom á pott hjá þeim eða bilaði halda, og hann sauð í þetta... Alls staðar var gert við leirtau; það var saumað saman; boruð göt og þrætt saman. Þetta var alveg pottþétt. Ef diskur brotnaði í tvennt datt engum annað til hugar en að gera við hann“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Pólití (n, hk) Gæluorð um lögreglu/lögreglumann; dönskusletta.
Pólitík (n, kvk) Stjórnmál og það sem þeim viðkemur.
Pólitíkus (n, kk) Stjórnmálamaður; sá sem fæst við stjórnmál.
Pólitískur (l) Af stjórnmálalegu tagi; sem hefur vísun í stjórnmál; sem hefur skoðanir á stjórnmálum.
Pólitískt viðrini (orðtak) Niðrandi heiti á þeim sem er óákveðinn í pólitík/ fellur illa undir ákveðinn flokk/ hefur mótsagnakennda stefnu; flokkahlaupari. „Ekki veit ég hvað hann kýs þetta árið, og líklega veit hann það ekki sjálfur. Hann hefur löngum verið pólitískt viðrini“.
Pólnorður (ao) Réttvísandi norður; landfræðilegt norður; í átt að norðari snúningspól jarðar.
Pólriða / Pólvelta (n, kvk) Óregla á möndulhalla jarðar. Pólveltan lýsir sér þannig að hinn hugsaði snúningsmöndull jarðar fer í hring á 26 þúsund árum. Þannig vísar möndullinn alls ekki alltaf á Pólstjörnuna. Veltn stafar af því að jörðin er ekki nákvæmlega kúlulaga, svo aðdráttarafls tungls og sólar hafa þessi áhrif. Pólriðan er aftur á móti vaggandi hreyfing jarðmöndulsins á þessari hringferð.
Pólsjór / Pólstraumur (n, kk) Kaldur hafstraumur sem liggur suðurmeð austurströnd Grænlands. Í Grænlandssundi, milli Vestfjarða og Grænlands, liggur hann samsíða hlýrri golfsraumnum sem gengur í gagnstæða átt norðurfyrir land. Styrkur þessara strauma ræður miklu um hlýindi og lofslag á landinu, og kann að hafa verið veigamikil orsök kuldaskeiða á fyrri tímum.
Pólskekkja (n, kvk) Segulskekkja; mismunur meilli stefnu á landfræðilegan norðurpól annarsvegar og stefnu á segulskaut jarðar hinsvegar. Pólskekkja er mismunandi eftir stöðum og breytileg með tíma.
Pólskipti (n, hk, fto) Víxlun á segulpólum jarðar, þannig að suðurskaut verður norðurskaut og öfugt. Þar sem ýmis jarðlög sýna stefnu segulsviðsins á myndunartíma þeirra er núna unnt að sýna framá að pólskipti hafa iðulega orðið í jarðsögunni. Að meðaltali skeður þetta minnst 8-10 sinnum á hverjum milljón árum. Líklegt er að pólskipti hafi orðið minnst þrisvar sinnum síðan þau jarðlög mynduðust sem nú eru neðst sýnileg í jarðlagastafla Kollsvíkur. Ástæður pólskipta telja menn vera breytingar á kvikuflæði í kjarna jarðar.
Pólskór (n, kk) Geymisskór; sjá þar.
Pólstjarnan (n, kvk) Norðurstjarnan; Stella polaris; stjarna á himinhvolfinu sem sést sæmilega með berum augum í heiðskíru lofti, og er nokkurnvegin yfir norðurpól jarðar. Bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni (Ursa Minor). Er í raun fjölstirni nokkurra sólstjarna í 325-425 ljósára fjarlægð frá jörðu. Fyrr á tímum voru stjörnur mjög notaðar til miðunar í úthafssiglingum, og gegndi pólstjarnan þá mikilvægu hlutverki.
Pósitífur (l) Jákvæður; samþykkur. Sletta sem nokkuð var notuð á síðari hluta 20.aldar. „Mér heyrðist að margir væru pósitífir gagnvart þessari tillögu“.
Póstafgreiðsla (n, kvk) Bréfhirðing; staður þar sem póstur er móttekinn, flokkaður og sendur áfram til viðtakenda. Helsta póstafgreiðslan fyrir Rauðasandshrepp var á Patreksfirði, en bréfhirðing fyrir ytri bæina var löngum á Hnjóti, í umsjá Ólafs Magnússonar. Þaðan var póstur fluttur til notenda með landpósti.
Póstbíll (n, kk) Bíll landpóstsins. „Mér sýnist að þetta sé póstbíllinn sem þarna kemur“.
Póstferð (n, kvk) Ferð með póst; útburður pósts. „Gott væri að fá þetta með næstu póstferð“. Póstferðir landpósts voru lengst af tvisvar í viku.
Pósthestur (n, hk) Hestur landpóstsins. „Lítið nú eftir pósthestunum strákar, meðan Kitti fær sér kaffi“.
Pósthirðing (n, kvk) Bréfhisriðin; staður (bær) þar sem póstmiðstöð; póstur flokkaður, seld frímerki o.fl. „Pósthirðing var lengi á Hnjóti, og var Ólafur Magnússon póstmeistari. Hún var starfsstöð frá pósthúsinu á Patreksfirði“.
Pósthús (n, hk) Póstafgreiðsla; flokkunarstöð og dreifingarmiðstöð pósts.
Póstkaffi (n, hk) Kaffi sem boðið var landpósti. „Kristinn Ólafsson í Hænuvík gegndi störfum landpósts í Útvíkum allan síðari hluta 20.aldar; af einstakri samviskusemi og elju. Það var til siðs að póstur þægi kaffi; nánast á hverjum bæ, og tæki af sér gust meðan póstur var afgreiddur og spurt var frétta. Undantekningarleust var þá reitt fram kaffi og meðlæti. Kitta þótti lítið varið í ef mjólk vantaði í kaffið eða meðlæti með því; nefndi hann slíkt berrassað kaffi með fyrirlitningu“ (VÖ).
Póstkassi (n, kk) Póstkassar þekktust lítt við bæi í Rauðasandshreppi fyrr en á síðustu áratugum 20.aldar. Þá þótti einhverjum skriffinnum ástæða til að kassavæða þar sem annarsstaðar. Þetta var litið hornauga, bæði af notendum og ekki síður af fyrri tíma landpósti. Enda var póstþjónustan ekki síður félagslegt samfélagsfyrirbæri en eiginlegt póststarf. Pósturinn var allt í senn heimilisvinur; félagsleg tilbreyting og nauðsynleg fréttamiðlun.
Póstleið (n, kvk) Fyrirfram ákveðin leið sem landpóstur fer, með viðkomu á vissum stöðum. „… ég var eina barnið á póstleiðinni sem fékk að fara á bak pósthestinum, því ég hélt í hestana á meðan frændi minn fór inn og fékk kaffi“ (MH; Mbl 04.01.2017).
Póstlúður (n, kk) Lúður sem landpóstar höfðu til að gera vart við sig á bæjum áðurfyrr. „Dagbjartur Björgvin Gíslason frá Koti var um tíma landpóstur í Útvíkum. Hann hafði þann sið að blása í póstlúður sinn uppi á Kálfskletti í Húsadal þegar hann kom niður í Kollsvík“.
Póstpoki / Pósttaska (n, kk/kvk) Hirslur landpóstsins. Að jafnaði voru bréf flutt í pósttösku, sem var skjaltaska úr leðri. Dagblöð, pakkar og slíkt var í sérstökum póstpokum úr þéttum striga. Hvorttveggja var lengst af sérstaklega merkt, og virðulega var farið með þær ríkiseignir. Meðan landpóstur var á hestum var þetta reitt í hnakktöskum. „Hefur nú kattarfjandinn hjassað í póstpokann“?
Póststimpill (n, kk) Stimpill með dagsetningu og heiti pósthirðingar sem bréf voru stimpluð með þegar þau voru póstlögð. Sérstakur póststimpill var í bréfhirðingunni á Hnjóti, sem nú er eftirsóttur af söfnurum.
Póstur (n, kk) A. Bréf sem berast milli manna með sérstöku flutningskerfi; nær einnig stundum yfir dagblöð, böggla og annað. B. Sá sem ber út póst; landpóstur; bréfberi. Getur einnig orðið að sérheiti/uppnefni þess sem lengi gegnir; t.d. gekk Kristinn Ólafsson landpóstur að jafnaði undir viðurnefninu Kitti póstur eða einfaldlega „Pósturinn“. C. Atriði/þáttur málefnis/útgjalda. „Raforka er allstór póstur í útgjöldunum“. D. Glugga-/dyrastoð = gluggapóstur; dyrapóstur. vatnshani/vatnsdæla = vatnspóstur. E. Tölvupóstur/-skeyti.
Póststeinn / Póstvarða (n, kk/kvk) Síðari tíma heiti sem gárungar í Rauðasandshreppi gáfu lausum staksteinum sem sumsstaðar mátti sjá á vegum í upphafi bílaaldar; einkum í brekkum. Tilkoma þeirra var sú að menn sem á fullorðinsaldri höfðu tekið bílpróf, en voru vanari hestum og traktorum, voru fremur óöruggir að taka af stað í brekkum þegar þar hafði verið þörf á að stoppa, s.s. til að binda upp keðjuhlekk eða kasta vatni. Var þá steinn, einn eða fleiri, settur aftan við hjól bílsins svo ekki rynni afturábak meðan kúplað var að,; bremsu létt af og gefið inn. „Ég er ekki með þrjá fætur til að stjórna þessu öllu í einu“ sagði þáverandi landpóstur, en þáverandi kaupfélagsstjóra fannst við hæfi að nefna steina þessa í höfuðið á honum. Pósturinn notaði þetta úrræði nokkuð, en það gerðu einnig fleiri. Ef brösulega hafði gengið upp brekku mátti stundum sjá fjölda slíkra steina í henni á eftir“.
Pótintáti (n, kk) Hrokagikkur; burgeis. „Ég umgengst lítið þessa hvimleiðu pótintáta“. Úr dönsku; „potentat“, og latínu „potentatus“; merkir sá sem hefur vald/stöðu (potus).
Prakkaralega (ao) Eins og prakkari; með spenningi/ánægju yfir óláni/hrekk/óþægð o.fl.
Prakkaralegur (l) Hrekkjalegur; glottleitur/laundrjúgur yfir óláni/hrekk/óþægð o.fl.; líklegur til að fremja skammarstrik.
Prakkaraskapur / Prakkarastrik (n, kk) Hrekkir; glenna; bekkni. „Við gerðum þetta auðvitað í prakkaraskap og hálfkæringi“.
Prakkarast (s) Bekkjast; gera óleik/glennu; hrekkja; láta illa. „Nú hafa strákarnir enn verið að prakkarast“!
Prakt (n, kvk) Virðing. Oftast notað sem liður orðtaksins með pomp og prakt.
Praktísera (s) Vinna við; framkvæma; starfa. „Hann praktíseraði lengi sem dýralæknir í sveitinni, þó ekki væri hann skólagenginn í þeim efnum“.
Praktuglega (ao) Með viðhöfn; virðulega. „Kaffið var praktuglega fram borið í viðhafnarstelli“. „Hann lifði víst í vellystingum praktuglega eftir þetta“.
Prang (n, hk) Ágeng sölumennska; sala í óleyfi; niðrandi heiti á verslun.
Pranga (s) Stunda prang.
Pranga inná (orðtak) Fá/blekkja/tæla til að kaupa; stunda ágenga sölumennsku/ prang. „Léstu hann virkilega pranga þessari bíldruslu inná þig“?!
Prangari (n, kk) Sá sem stundar prang; ágengur sölumaður.
Prat (n, hk) Mont; gort; glorragangur.
Prata (s) Hreykja sér; monta sig; gorta. „Þetta er nú ekkert til að prata af“.
Pratalegur (l) Um hest; fælinn. Um mann; grobbinn; hress. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Predika (s) A. Flytja predikun í kirkju. B. Predika yfir; skammast; gefa skipanir; hafa vit fyrir; flytja ræðu.
Predika yfir (einhverjum) (orðtak) Segja einhverjum til syndanna; leggja einhverjum lífsreglurnar; flytja ræðu á yfirlætislegan hátt.
Predika/lesa yfir hausamótunum á (orðtak) Skamma; ávíta; messa yfir. „Sneri hefillinn við í Dalnum?! Nú þarf ég heldur betur að predika yfir hausamótunum á verkstjóranum“.
Predikun (n, kvk) A. Stólræða prests í kirkju. B. Skammir; reiðilestur; langloka. „Þeir þurftu víst að hlusta á töluverða predikun þegar landeigandinn greip þá glóðvolga á brúninni“.
Preláti (n, kk) Gæluheiti á presti/ prestvígðum manni.
Premía (n, kvk) A. Verðlaun/uppbót/ábót ofaná vinnulaun eða fyrir greiðasemi. B. Bónusgreiðsla/aukagreiðsla af sérstöku tagi, sem greidd er ofaná laun.
Prent (n, hk) Það sem prentað er; prentað mál. „Ég trúi nú ekki öllu sem stendur á prenti“!
Prenthæft (l) Um efni/ummæli; hæft til prentunar/birtingar; ekki klúrt/meiðandi/vaðandi í villum. „Það var víst ekki allt prenthæft sem hann ruddi út úr sér af því tilefni“.
Presenningur (n, kk) Þykk yfirbreiðsla; segl til yfirbreiðslu. „Presenningur var strekktur yfir bátinn, svo ekki snjóaði í hann, og gengið var frá með búkkum og sigum“.
Pressa (s) A. Almennt; þrýsta; ýta á. B. Um fatnað; strauja.
Pressa við (orðtak) Rembast við; gera með átökum. „Við urðum að draga okkur upp í hvern gang af öðrum. Við pressuðum okkur við þetta upp á efsta gang“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).
Prestakall (n, hk) Umdæmi sem allajafna er þjónað af einum presti. Prestakall getur tekið yfir nokkrar fámennar sóknir. Með auknum fólksflutningi úr dreifbýli í þéttbýli hafa mörg dreifbýlisprestaköll verið sameinuð og fjölmennum prestaköllum í þéttbýli hefur verið skipt og/eða er þjónað af fleiri en einum presti.
Prestakragi (n, kk) Hvítur pípukragi sem tilheyrir embættisskrúða prests.
Prestastefna (n, kvk) Þing presta, þar sem þeir ræða kirkjuleg málefni.
Prestlamb (n, hk) Lamb sem hver bóndi var fyrrum skyldugur til að ala fyrir sinn sóknarprest; oft nefnt heytollur. Lambinu skyldi hann skila presti í sæmilegum holdum á eldaskildaga; þ.e. eftir að vetrareldi var lokið en sauðburður enn ekki hafinn. Sjá einnig péturslamb.
Prestlegur (l) Eins og presti hæfir. „Séra Jón Ísleifsson var á margan hátt sérkennilegur kvistur, og ekki fannst öllum hann prestlegur í hvívetna. En þjarkur var hann til margra veraldlegra verka“.
Prestlingur (n, kk) Guðfræðinemi. „Þórður taldi prestlinginn þokkalega brúklegan í smalamennskur“.
Prestnefna / Prestskepna (n, kvk) Gæluorð um prest. „Ekki fannst mér honum mælast neitt sérlega vel í dag, prestskepnunni; þetta var ekki hans besta ræða“. „Það eru víst ekki allir sáttir núna við þessa prestnefnu“.
Prestsetur (n, hk) Aðsetur/bújörð prests. Sauðlauksdalur var löngum prestsetur í Rauðasandshreppi. Meðan hreppurinn laut ægivaldi Saurbæjarhöfðingja höfðu þeir prest á sínum vegum á jarðarskika á Lambavatni.
Prestskyld (n, kvk) Skattur fyrir messusöng sem leiguliði kaþólsku hálfkirkjunnar í Kollsvík þurfti að standa skil á til Saurbæjarprests. „Í skiptabréfi Ólafar Loftsdóttur frá 1480 er getið um Kirkjuból í Kollsvík, en sú jörð var þá meðal eigna hennar. Liggur beint við að álykta að hér sé um að ræða jörð þá, sem nú er samnefnd víkinni, að vitað er, að Láginúpur var um þetta leyti í Bæjarkirkju, en Grundir voru hjáleiga frá Láganúpi. Af bréfi einu frá 1509 má ráða, að guðshús hefur staðið á jörð þessari, en þar er skýrt frá leigumála jarðarinnar, og skyldi leiguliði m.a. "svara prestsskyld" af henni. Prestskyld þessi hefur sjálfsagt verið kaup fyrir að syngja messu við guðshúsið“ (Lýður B. Björnsson; Guðshús í Barðastrandasýslu“).
Prestur (n, kk) Embættismaður kirkju, sem vígður hefur verið af biskupi og gegnir hlutverki kennimanns í guðdómnum, auk þess að sjá um sálgæslu síns safnaðar og kirkjulegar athafnir s.s. messu, altarisgöngu, skírn, fermingu, giftingu og jarðarför. Orðið er komið úr grísku; „presbýteros“ sem merkir „sá eldri“. Fyrst eftir kristnitöku þjónuðu hérlendis einkum erlendir prestar, en höfðingjar byggðu gjarnan kirkjur á jörðum sínum; tóku prestvígslu og nefndust þá kirkjugoðar. Bann var sett við vígslu þeirra árið 1190. Fyrrum tíðkaðist nokkuð að prestar væru leigðir af höfðingjum til þjónustu á kirkjum þeirra, og nefndust þeir leiguprestar eða þingaprestar. Sumir höfðingjar kostuðu presta til náms og voru þeir síðan skyldugir að þjóna á kirkjum þeirra. Staða presta styrktist síðar, við upptöku tíundar og með vaxandi sjálfstæði kirkjuveldisins gagnvart höfðingjum t.d. eftir staðamálin. Prestum í kaþólskri tíð var bannað að kvænast, en þeir tóku sér oft frillur og barneignir þeirra voru ekki óalgengar.
Leiða má að því líkum að fyrsti prestur hérlendis hafi verið Kollur í Kollsvík. Þeir fóstbræður Örlygur og Kollur komu í trúboðserindum og varð Kollur fyrri til fastrar búsetu. Líklega hefur hann þegar reist fyrstu kirkju landsins (sjá kirkjuból) fyrir sig og áhöfn sína og orðið sjónarmun á undan Örlygi, sem kom að Esjubergi ári síðar og reisti þar kirkju. Báðir voru þeir lærðir í Kólumbusarklaustrinu á Iona og hafa eflaust séð um kirkjulegar athafnir hvor á sínum stað.
Pretta (s) Svíkja; svindla; blekkja.
Prettir (n, kk, fto) Hrekkir; blekkingar; óþverraháttur. „Ég kann nú ekki við svona pretti í viðskiptum“!
Prettvís (l) Ótraustur/viðsjárverður í viðskiptum. „Maður skyldi varlega treysta þeim prettvísu pröngurum“.
Prettvísi (n, kvk) Hneigð til pretta; hrekkvísi; undirferli. „Það þurfti dálítið að verast prettvísi karlsins“.
Prik (n, hk) Stöng; skaft. „Hænurnar sátu á prikum í hænsnakofanum, sem stungið var í holur í hlöðnum veggjunum“.
Prika (s) Stinga/þreifa með priki. „Ég prikaði inn í holuna eins og skaftið náði, en fann engan botn“.
Prikstúfur (n, kk) Stutt prik; brot af priki. „Áraspaðinn var krossviðsbútur, festur á prikstúf“.
Prinsipmaður (n, kk) Þverhaus; þvergirðingur; á sem stendur fast á sínum skoðunum/framfylgir reglum í æsar. „Víst má kalla hann prinsipmann; þetta stendur víst svona í Biblíunni. En mér finnst þetta þverhausaháttur“!
Príl (n, hk) Glannalegt klifur; tildur; klöngur. „Vertu nú ekki að þessu bölvuðu príli fyrir fáein egg“.
Príla (s) Klifra glannalega; klöngrast. „Við vorum ekki háir í loftinu þegar við fórum að príla í sjávarklettum“.
Príla (n, kvk) Stigi; trappa yfir girðingu/garð. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Prímsigna (s) Gera krossmark fyrir heiðnum manni, en það var fyrrum talin nauðsynlegt til að hann gæti verið samneytum við kristna menn.
Prímus (n, kk) Tæki til eldunar/hitunar með steinolíu. „Heimamönnum færður grautur, mjólk og soðning, en eftir að þeir fengu prímusa, suðu þeir sjálfir soðninguna í Verinu á prímus“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). „Sofið var í tjöldum og eitt tjaldið notað sem eldhús. Tvo prímusa hafði ég til eldamennsku“ (SG; Vegavinna; Þjhd.Þjms). „Þá var prímus, kaffiketill, kanna og fantar til að drekka úr; blikkfata eða pottur til að sjóða soðninguna“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). „Ætlarðu ekki að hafa þig í að kveikja á prímusnum drengur; það er naumast að þú hefur sofnað“! kvað aftur við í formanninum“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).
Prímusnál (n, kvk) Sérstakt áhald til að hreinsa stíflu úr mjög þröngri rás, t.d. spíss í prímus eða gaslukt. Spaði með grannri nál hornréttri útúr öðrum endanum.
Prís (n, kk) A. Verð; endurgjald. „Hann kvartaði yfir því að karlfjandinn væri stöðugt í því að sprengja upp prísana hjá stelpunni“. B. Hrós; hól; þökk. „Guði sé lof og prís“.
Prísa sig sælan (orðtak) Þakka sínum sæla; hrósa happi. „Ég prísa mig sælan fyrir hvern dag sem ég get stytt dvölina í borginni. Ekki skil ég hvernig menn una við það alla ævi“.
Prívat (ao) Sérstaklega. „Hún bað mig að skera stóra sneið með mikilli fitu; prívat fyrir sig“.
Prívatskoðun (n, kvk) Persónulegt álit. „Þú mátt auðvitað hafa þína prívatskoðun á þessu“.
Prjál (n, hk) Tildur; óþarfa glingur/skraut. „Ekki veit ég hvaða tilgangi svona prjál á að þjóna“!
Prjón (n, hk) A. Það sem verið er að prjóna; hálfprjónuð flík. „Réttu mér prjónið mitt“. B. Aðferð við að prjóna; t.d. garðaprjón, sokkaprjón. Prjón er upprunnið í Austurlöndum en barst til Íslands á 16.öld ásamt hinum löngu bandpr´jonum. Síðan hafa Íslendingar verið allra þjóða duglegastir að prjóna, enda hentuðu prjónaflíkur vel í íslensku loftslagi og húsakosti.
Prjóna (s) A. Vefa fatnað með því að lykkja saman þráð með prjónum. B. Um hesta; reisa sig upp á afturfætur og slá framfótum upp og niður. C. Um farartæki; rísa upp að framanverðu.
Prjóna við (orðtak) A. Bæta við fatnað með prjóni. B. Bæta við hlut/byggingu/sögu/ljóð o.fl. „Ég heyrði þessa sögu síðar, og þá var heldur betur búið að prjóna við hana“.
Prjónaband / Prjónagarn (n, hk) Það efni sem prjónað er úr.
Prjónaflík (n, kvk) Fatnaður sem prjónaður er. Prjónaflíkur taka forskeytinu prjóna-, s.s. prjónapeysa; prjónahúfa; prjónapils o.fl; eða prjón-; s.s. prjónhúfa.
Prjónakona (n, kvk) Yfirleitt hefur prjónaskapur verið kvenmannsverk svo langt sem heimildir greina, en á því hafa líklega alltaf verið undantekningar. Sögur fara af miklum prjónakonum sem aldrei sátu auðum höndum, og ekki þótti tiltökumál að nýta tímann til prjónaskapar meðan gengið var á stöðul eða á milli bæja.
Prjónaklukka (n, kvk) Undirföt stúlkna fyrr á tíð; ullarpils með mislitum röndum og hlýrum. „Prjónaklukkur á stelpur voru úr hárfínu tvinnuðu bandi eða einspinnu; þær voru prjónaðar með klukkuprjóni“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).
Prjónaskapur (n, kk) Það að prjóna; prjón. Þótti það mikil dyggð hverrar konu að vera dugleg við prjónaskap.
Prjónavél (n, kvk) Vél sem unnt er að prjóna með. Prjónavélar fóru að flytjast til landsins á 20.öld og komu í einhverri mynd á mörg heimili. Sumar prjónuðu klæði í vissri breidd en aðrar voru svonefndar hringprjónavélar eða sokkaprjónavélar og prjónuðu í hólk.
Prjónles (n, hk) Prjónaður fatnaður af öllu tagi. Orðið var mikið notað til skamms tíma en heyrist nú varla. „Svotil hið eina innlegg bænda var fiskur og prjónles...“ (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru). „Við systkinin smíðuðum okkur prjóna og mér fannst mun meira gaman að framleiða prjónana en prjónlesið“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).
Prjónn (n, kk) A. Hverskonar grönn stöng. B. Áhald, yddað í báða enda, sem notað er við prjónaskap; jafnan þá tvö eða fleiri saman. „Fyrstu prjónar sem ég man eftir voru stálprjónar, og svo man ég eftir kopar- eða eirprjónum sem ég held að hafi verið heimasmíðaðir. En aðallega voru notaðir tréprjónar, heimasmíðaðir. Voru þeir úr bambuslegg sem mikið rak af á Rauðasandi. Þetta var einstaklega heppilegt efni í prjóna. Leggirnir voru klofnir niður og skornir til eftir því hvað þeir áttu að vera grófir. Notað var ysta lagið á leggnum. Svo voru prjónarnir skafnir vel og vandlega og pússaðir með sandpappír þar til þeir voru alveg örðulausir og hálir. Við systkinin smíðuðum okkur prjóna og mér fannst mun meira gaman að framleiða prjónana en prjónlesið! Þessir tréprjónar þóttu fara mun betur með hendur prjónakvenna en stálprjónarnir sem voru taldir orsaka handadofa. Prjónakonur geymdu gjarnan prjónana í prjónastokkum. Ég hef ekki vitað prjónað á fleiri prjóna en fjóra-fimm. Tínur voru til og notaðar undir hnykla og annað smádót. Þær voru gerðar úr þunnum fjölum sem voru sveigðar í aflangar öskjur milli oka sem voru á endum tínanna; lok voru smellt“ (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).
Próf (n, hk) A. Þolraun sem leiðir í ljós getu, úthald, seiglu o.fl.. B. Samræmd þraut sem lögð er fyrir nemendur til að mæla frammistöðu þeirra.
Prófa (s) A. Reyna; kanna. „Leyfðu mér að prófa hvernig þetta er“. B. Leggja próf fyrir nemendur.
Prófalestur (n, kk) Undirbúningur/upprifjun nemanda fyrir próf.
Prófastsdæmi (n, hk) Umdæmi prófasts.
Prófastur (n, kk) A. Prestur sem er yfir öðrum prestum í prófastdæmi; fulltrúi biskups á tilteknu svæði. Heitið er komið úr latínu; „præpositus“, þ.e. „sá sem er hærra settur“, og var upphaflega notað um aðstoðarmenn ábóta í klaustrum. Í kaþólskum sið voru prófastar fremur aðstoðarmenn biskupa en að þeir hefðu tiltekin svæði. B. Gælunafn á lunda. Tilkomi vegna virðulegs yfirbragðs og vegna þess að litir minna á mann í kjólfötum.
Prófblað (n, hk) Blað sem próf nemanda er ritað á. „Fyrsta prófið mitt var hraðlestrarpróf, en venja var að kanna lestrargetu barna áður en þau hófu skólagöngu. Prófblaðið var lítil A5 örk með texta og stökum stöfum sem lesa átti upp; greinilega og á sem stystum tíma. Prófað var heima á Láganúpi; ég sat einn á móti kennara sem var faðir minn og prófdómara sem var Júlíus í Tungu, og hafði hann skeiðklukku í hendi. Halldóra amma fékk að vera áheyrandi, en hún átti drjúgan þátt í minni lestrarkunnáttu. Ég þótti komast ágætlega frá þessu prófi, en ekki nándarnærri eins og Guðbjartur bróðir, sem varð fljótt afburða vel læs. Lestrartilsögn heima þótti sjálfsögð þá, en virðist hafa hnignað mjög á síðustu árum“ (VÖ).
Prófdómari (n, kk) Maður sem, ásamt kennara, situr yfir nemendum meðan þeir þreyta próf; yfirfer prófin og metur frammistöðu til einkunna. „Össur á Láganúpi var löngum prófdómari skólabarna í Rauðasandshreppi“.
Prófessor (n, kk) A. Kennari við háskóla. B. Líkingamál um mann sem er í þungum þöngum/ utan við sig.
Prófraun (n, kvk) Eldskírn; álagspróf. „Báturinn hefur reynst listasmíð og staðist allar prófraunir“.
Prósessía (n, kvk) Fylking; hópganga; gönguhópur. „Hvaða prósessía er að koma þarna niður Hjallana? Ég hélt að féð væri allt frammi í Vík“.
Prótókollur (n, kk) A. Fundargerðabók; embættisbók. B. Regluverk, einkum í stjórnsýslu og réttarfari. „Ég bara geri þetta eins og mér finnst best við eiga, þó það sé ekki alveg eftir prótókollinum“.
Próventa (n, kvk) A. Gjöf/innistæða sem afhent er gegn því að viðtakandi sjái gefandanum fyrir framfærslu í veikindum eða elli. Nokkuð var um slíkt á fyrri öldum, og má segja að það hafi verið liður í almannatryggingakerfi þess tíma. Sá sem átti bústofn, lausafé eða jarðeign gaf það þá oftast velmegandi bónda; höfðingja; kirkju eða klaustri gegn framfærsluskyldu. Má ætla að mikið af jarðeignum kirkju og klaustra hafi verið þannig til komnar. B. Tekjur/jarðeignir kirkju.
Próventukarl / Próventukerling / Próventukona (n, kk/kvk) Manneskja sem er í umsjá annarra vegna elli eða lasleika, en leggur með sér eignir eða innkomu til framfærslu.
Prufa (s) Prófa; reyna.
Prufa (n, kvk) Sýnishorn; lítilsháttar reynsla. „Hann vissi ekki hvort ketið af hvalnum væri í lagi, en ákvað að taka bita og sjóða, til prufu“.
Prufukanna (n, kvk) Kanna með svörtu millispjaldi sem var notuð til prófunar á júgurbólgu í mjólkurkúm. Dregin var buna af mjólk á spjaldið, og sátu kekkir á því ef mikil júgurbólga var. Áður var prófað með því að mjólka bunu í flórinn, en síðar voru teknar upp efnafræðilegar aðferðir.
Prufukeyra (s) Aka bíl/traktor til reynslu; sigla vélbát til að prófa vél áður en vertíðarnotkun hefst. „Þegar hægt var að komast á sjó að prufukeyra, þá var strákunum venjulega lofað með“ (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).
Prufusigling (n, kvk) Sigling báts til prófunar, oft í byrjun sumars/vertíðar, eða eftir viðgerð. „Okkur strákunum var leyft að koma með í prufusiglinguna“.
Prump (n, hk) A. Það að reka við/ leysa vind. „Vertu nú ekki að þessu prumpi við matborðið“!. B. Búkvindur; viðrekstur. C. Í líkingamáli; bull; staðleysa; fánýti. „Þetta er algjört prump“!
Prumpa (s) Freta; reka við; leysa vind. „Hver var að prumpa svona ferlega fúlt“?
Prumphænsni (n, hk, fto) Niðrandi heiti á hópi fólks. „Á þetta að heita háskólagengið fólk sem svona talar?! Þvílíkt samansaft prumphænsna“!
Prumplykt (n, kvk) Lykt af freti/viðrekstri; búkloft; viðrekstrarfýla. Getur verið svæsin og ertandi í nefjum þeirra sem ekki eiga. „Út með þig og þína skollans ekkisen prumlykt; Hvað varstu eiginlega að éta“?!
Prúðbúa sig (orðtak) Klæða sig uppá; fara í fín föt. „Ég er nú ekkert að prúðbúa mig fyrir svona samkomu“.
Prúðbúinn (l) Vel/snyrtilega klæddur; í sparifötum.
Prúðlyndur (l) Skapgóður; vel skapi farinn; hæglátur; jafnflyndur.
Prúðmannlega (ao) Kurteislega; snyrtilega. „Þið hagið ykkur svo prúðmannlega í kirkjunni strákar“.
Prúðmenni (n, hk) Rólegur/prúðlyndur maður. „Hann var mesta prúðmenni í allri framgöngu“.
Prúðmennska (n, kvk) Kurteisi; góðmennska; háttvísi. „Hún þvældist ekkert fyrir honum prúðmennskan í þeim viðskiptum“.
Prúður (l) Kurteis; stilltur; hæglátur. B. Snyrtilegur; virðulegur. Sbr. hárprúður.
Prúskinn (l) Kotroskinn; mannalegur. Orðið virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Prútt (n, hk) Þjark/deilur um verð; tilraun til að gera góð kaup.
Prútta (s) Deila/þrátta um verð; reyna að fá verð lækkað.
Prýddur (l) Skreyttur; fegraður. „Búningurinn var stífpressaður og prýddur gylltum tölum og borðum“.
Prýða (s) Fegra; skreyta; gera fallegra.
Prýði (n, kvk) Fegurð; skreyting. „Ekki finnst mér svona glingur til mikillar prýði“.
Prýðilega (ao) Óaðfinnanlega; vel; ágætlega. „Nýi presturinn stendur sig alveg prýðilega“.
Prýðilegur / Prýðisgóður (l) Ágætur; fyrirtaksgóður; ljómandi. „Þetta er hinn prýðilegasti farkostur“. „Þessi matur finnst mér bara prýðisgóður“.
Prýðisafli (n, kk) „Þetta verður nú að teljast prýðisafli“.
Prýðisfallegur / Prýðislaglegur (l) Mjög fallegur/laglegur. „Hér er prýðislaglegur gripur“.
Prýðisgripur (n, kk) Fyrirtaks gripur/-áhald /-nautpeningur. „Þessi hrútur er alveg prýðisgripur“.
Prýðisdrengur / Prýðisnáungi / Prýðiskona / Prýðisstúlka (n, kk/kvk) Lofsyrði um gott fólk/ fyrirmyndarfólk. „Hann reyndist hinn mesti prýðisnáungi“.
Prýðisgóður (l) Mjög/fyrirmyndar/framúrskarandi góður. „Þetta er prýðisgóður hákarl“.
Prýðisveður (n, hk) Fínviðri; gott veður; blíðviðri. „Hér hefur verið prýðisveður í allan dag“.
Prýðisvel (ao) Mjög vel; ágætlega. „Bárurinn er fallegur og gengur prýðisvel“.
Prýkka (s) Fríkka; verða fallegri/laglegri. „Ekki fannst mér báturinn prýkka við þessa breytingu“.
Puð (n, hk) Erfiðisvinna; basl. „Það var bara þó nokkuð puð að ná þessum bol uppúr fjörunni“.
Puða (s) Basla; erfiða. „Ekki veit ég til hvers þú ert með vél í bátnum;og þarft svo að puða við landróður“!
Puðra (s) Dreifa; skjóta. „Vertu nú ekki að puðra sykrinum um borðið“. „Ég puðraði á rebba á stuttu færi“. „Ekki botna ég baun í bala í þessum vitleysingum sem kvarta og kveina undan peningaleysi en puðra svo upp flugeldum fyrir svimandi fjárhæðir um hver áramót“.
Puðvinna (n, kvk) Strit; erfiðisvinna. „Ég hef það alveg ágætt, en skrokkskömmin er orðin lítlfjörleg til puðvinnu eða langhlaupa“.
Pukra/pukrast með (orðtak) Fara laumulega með; leyna. „Hvern skrattan er nú hundurinn að pukrast með“.
Pukur (n, hk) Leyndarmál; leyndardómur; það sem farið er dult með; sá háttur að pukrast/leyna. „Mér líkar ekki þetta pukur í kringum svona málefni“!
Pukurslegur (l) Eins og sá sem vill halda leyndu/ pukrast; líklegur til að pukrast. „Óttalega eruð þið eitthvað pukurslegir á svipinn strákar; hvaða skammarstrik eru nú í bígerð“?!
Pumpa (n, kvk) Dæla; áhald til að dæla með. „Pumpan á bensínankinum er alveg að gefa sig; hún pumpar bara dropa í hverju slagi“.
Pumpa (s) A. Dæla. „Svo kemur þú hérna afturfyrir Siggi, og tekur pumpuna ef með þarf“ (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). B. Ganga hart eftir upplýsingum. „Ég reyndi að pumpa hann um þetta atriði, en varð lítið ágengt“.
Pumpustokkur / Pumpustöng / Pumpubulla (n, kk/kvk) Hlutar dælu; svonefndrar stokkpumpu sem algeng var í bátum. Sjá þar.
Pumpulið (n, hk) Hópur; lið; notað í lítilsvirðandi merkingu. „Það er akur af fé kominn inná slétturnar. Farið þið nú og rekið þetta pumpulið útaf og skoðið girðingarnar“. „Ljóta pumpuliðið þessir þingmenn núna“. Sjá; allt er það eins, pumpuliðið hans Sveins.
Pund (n, hk) A. Þyngdareining; mismunandi að gildi eftir tíma og stað. Er hérlendis í dag ýmist talið vera 0,5 kg eða 0,498 grömm. Fyrrum taldist eitt pund vera 2 merkur; eða 16 únsur; eða 32 lóð; eða 128 kvintín; eða 512 ort. Enskt pund, skammstafað lb (dregið af libra, sem var massaeining rómverja), er 453,5924277 grömm. Skippund er önnur mælieining, einatt höfð um fisk. Það er 600 kg óslægður fiskur með haus; eða 500 kg slægður fiskur með haus; eða 400 kg flattur fiskur; eða 250 kg fullstaðinn saltfiskur. „Heldurðu ekki að hann leggi sig bærilega, svona að minnsta kosti með þrjátíu og fimm punda skrokk“? „Nei fari það í helvíti. Það kemur ekki til mála að þessi kettlingur hafi 35 punda skrokk. Það þori ég að veðja um“! (PG; Veðmálið). B. Ensk mynteining, táknuð með £ (sem var merki rómverja yfir libra). Upphaflega var verðgildi hennar hið sama og í 454 g silfurs sem var 92,5% að hreinleika en blndað kopar; svonefnds „sterling silfurs“. Af því er dregið orðið „sterlingspund“. Fyrir 1971 var undirmynt pundsins 20 shillingar, en í einum shilling voru þá 12 penny/pence. Eftir þann tíma jafngilti pundið 100 penny/pence. C. Óskilgreind verðmæti eða eignir. „Gott er að ávaxta vel sitt pund“.
Punda (s) Hlaða; demba á. „Gilti einu hvaða spurningum var pundað á hann; alltaf átti hann svör“.
Pundari (n, kk) A. Vog sem til forna var notuð til að vega og meta lögmæta mynt. Í Grágás er talað um „lögpundara“, sem enginn vissi lengi vel hvað vera skyldi. Við uppgröft í Álaborg kom m.a. upp munur sem menn telja vera pundara. Á stutt lóðrétt skaft er festur láréttur teinn með þolinmóð; hann er með spaða á öðrum enda en hinn nær lengra frá þolinmæðinum. Væri mynt af réttum þunga lögð á spaðann hélt teinninn jafnvægi. B. Í dag er heitið haft um litlar gormavogir; m.a. þær sem notaðar eru af laxveiðimönnum.
Punga út (orðtak) Borga; greiða; leggja út. „Ætli maður verði ekki að punga út fyrir þessu eins og öðru“.
Pungapróf (n, hk) Nýyrði um skipstjórnarréttindi á smábáta.
Punghlaðinn (l) Drekkhlaðinn; mikið hlaðinn. „...þegar þeir komu að landi með punghlaðinn bát...“ (LK; Ísl. sjávarhættir II; heim; ÓETh). Orðið var notað í Kollsvík en finnst ekki í orðabókum.
Pungsveittur (l) Löðursveittur; rennsveittur; kófsveittur. „Maður verður pungsveittur í svona puði“.
Pungsvitna (s) Svitna mjög mikið; verða rennsveittur. „Mér pungsvitnaði við að hamast svona í sólinni“.
Pungur (n, kk) A. Hluti æxlunarfæra karla og karlskepna. B. Niðrandi uppniefni á manni; drullusokkur. C. Niðrandi heiti á bát; bátpungur.
Punkta (s) A. Teikna með punktum. B. Skrifa. Sjá punkta niður / punkta hjá sér. C. Sjóða málm með litlum suðupunktum til að halda stykkjum saman.
Punkta hjá sér / Punkta niður (orðtök) Skrifa á blað til minnis.
Punktaletur (n, hk) Blindraletur; Braille-letur; letur úr upphleyptum stöfum.
Punktera (s) Um dekk; springa; verða loftlaust. „Það punkteraði hjá mér á háfjallinu“.
Punktur (n, kk) A. Depill. Í stærðfræði; óendanleg smæð rýmis. B. Setningarmerki sem notað er á eftir setningu. C. Áhersluatriði í máli. Sbr. vendipunktur.
Punktur og basta (orðtak) Búið og gert; lok málsins. „Þetta verður svona og ekki öðruvísi; og það með punktum og basta“!
Punt (n, hk) Skraut; skreyting; snyrting. „Frúin var með glæsilega uppsett hár og hlaðin punti og glingri“. „Þessi steinn er svo skondinn í laginu að það mætti hafa hann uppá punt“.
Punta (s) Gera fínt; snyrta; skreyta. „Ég var lítið að punta fyrir þessi jólin“. „Hún er eitthvað að punta sig“.
Puntaður (l) A. Skreyttur. „Salurinn var mikið puntaður“. B. Kenndur; fullur. „Nú er karl orðinn puntaður“.
Puntgras / Puntstrá / Puntur (n, hk/kk) A. Ættkvísl grasaættar (descampsia); plöntur af grasaætt með leggjuð smáöx. B. Húsapuntur; Elymus repens). Vex víða um land, og reyndar um norðurhvel jarðar; algengur í Kollsvík. Barst til landsins eftir landnám; var algengur á bæjarhlöðum og húsþökum fyrri tíma, og dregur nafn af því. Myndar gjarna þétta og harða hnúska og getur verið erfitt að uppræta hann. Blöðin eru löng og mjó; hörð á efra borði en mjúk undir. Axið er grænt; smáöxin þrí- til fimmblóma. Skríður með hvítum sterklegum neðanjarðarrenglum. C. Orðið puntur er oft notað um öx ýmissa jurtategunda og þá einkum með blómskipun punts.
Punthandklæði (n, hk) Dúkur; oftast útsaumaður, sem húsmæður hengdu gjarnan á vegg í eldhúsi; oft undir hillu með skrautmunum. „Svo var mikið saumað í punthandklæði oftast með kontorsting...“ (SG; Útsaumur; Þjhd.Þjms). Sumsstaðar tíðkaðist orðmyndin „puntuhandklæði“.
Pura (n, kvk) „Pura var húð fuglsins undir fiðrinu kölluð, stundum líka laukur, og þótti lostæti“ (ÁE; Ljós við Látraröst).
Purka (n, kvk) A. Fornt heiti um svín/gyltu. Sú var ein hjátrú sjómanna að ekki mátti nefna svín á sjó, því þá væri verið að ákalla svínhvelið, sem var illhveli hið mesta. Þess í stað var notað orðið purka. B. Líkingamál um mann sem þykir rólegur/latur. Einnig í samsetningunni svefnpurka.
Purpa (n, kvk) Tægja; tuska; tjása. „Hér eru einhverjar purpur af fugli; skyldi kattarfjandinn nú hafa náð í maríuerluna í garðinum“?
Purpa í sundur (orðtak) Trosna í sundur; tyggja í sundur. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).
Purpuri (n, kk) A. Hárauður eða rauðfjólublár litur. B. Klæði í purpuralit; oftast úr dýrum vefnaði. Purpuri varð því einkenni höfðingja og kónga; talað var um pell og purpura sem óhófsvarning.
Pus (n, hk) Ágjöf; skvetta; sædrif. „Það verður töluverður austur í þessu pusi. Settu lensidæluna í gang“.
Pusa (s) A. Gefa á bát. „Það pusaði hressilega á okkur þarna í Röstinni“. B. Skvetta; ausa. „Pusaðu nógu vatni í kerruna til að skola skítinn úr“. „Ég ætla að pusa dálítið innanum bátinn áður en hann er settur upp“.
Pusi (n, kk) Niðrandi heiti á seinfærum manni; letingi; gaufari. „Sá pusi hefur lítið að gera í smalamennskur“!
Pussa (s) A. Slægja steinbít. „Næst kom til kasta pussarans, sem oft var hálfdrættingur, en verk hans var fólgið í að hreinsa allar innyflaleifar, munnamaga, lifraaragnir að framan en garnarendann að aftan og kera burt gotraufina, en í henni var oft skel og sandur sem tók bitið úr flatningshnífnum og óhreinkaði fiskinn. Var þetta kallað að pussa eða grúnsa“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV) (sjá pussari og steinbítur). B. Vinna óhönduglega/slælega. „Það dugir ekki að pussa þessu bara einhvernvegin saman; þú verður að vanda þig“!
Pussari (n, kk) Sá sem slægir steinbit (sjá pussa og steinbítur).
Pussuhnútur (n, kk) Ótryggur hnútur; illa hnýttur „réttur hnútur“. „Gæta þarf þess þegar hnýttur er réttur hnútur að síðara bragðið sé rétt, annars verður úr því pussuhnútur“.
Pussverk (n, hk) Illa unnið verk; ómyndar frágangur. „Þetta er ljóta pussverkið“.
Puta (s) Fingra; pota; eiga við með puttum/putum. „Það er erfitt að puta við þetta í myrkrinu“.
Putalingur (n, kk) Gæluorð um smástrák. „Komdu hérna putalingur; það þarf að þurrka á þér nebbann“.
Puti (n, kk) A. Gæluorð um putta/fingur. B. Lítill maður/drengur. „Ég var bara lítill puti á þessum tíma“. Sjá smáputi.
Puttafar (n, hk) Fingrafar; far eftir putta. „ Það átti að gera skákross í mörtöflurnar. Þetta er bara venja; pabbi gerði þetta alltaf. Setti puttafar i hornin og miðja vegu. Það voru sem sagt 5 fingraför; eitt í hverju horni og eitt í miðjunni og rákir á milli. Ég geri þetta alltaf þegar ég er að hnoða“ (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).
Puttaferðalangur / Puttalingur (n, kk) Sá sem ferðast „á puttanum“; þ.e. gangandi en með því að sníkja sér far með bílum. Gefur hann þá merki með því að veifa fingri á sína stefnu. „Það getur verið stórvarasamt að taka þessa puttalinga upp í bílinn“.
Putti (n, kk) A. Fingur. B. Gæluorð um lítinn mann/dreng/fisk.
Pú (n, hk) Más; blástur. „Við heyrðum púið í honum þegar hann nálgaðist brúnina“.
Púa (s) A. Blása; anda; vera móður. B. Reykja. „Ertu farinn að púa vindla“?
Púa í skeggið (orðtak) Blása lengdregið um nær lokaðar varir; gjarnan gert þegar menn þurfa að hugsa sig um áður en svarað er erfiðri spurningu, eða til að lýsa vanþóknun. Notað um skeggjaða sem skegglausa. „Þórður svaraði þessu ekki strax, heldur púaði um stund í skeggið eins og hans var gjarnan vandi“.
Púdda (n, kvk) Gæluorð um hænu. „Það þyrfti að kasta einhverju fóðri í púddurnar og sækja eggin“.
Púðaver (n, hk) Klæði utanum púða.
Púði (n, kk) A. Koddi/svæfill sem hafður er til þæginda og skrauts, t.d. í stofusófa. B. Hverskonar þófi til að mýkja högg/átak, t.d. við fjöðrun farartækja. C. Niðrandi heiti á manni. Skítapúði.
Púðra (s) A. Dreifa púðri; reykja. B. Skjóta me byssu. „Það þýðir ekkert að púðra á hann í þessari hæð“.
Púður (n, hk) A. Hverskonar fóngert duft. B. Duft til að dreifa á húð til mýkingar/snyrtingar. C. Kornað sprengiefni sem notað er m.a. í byssuskot. D. Fjör; skemmtun. „Það er eitthvað púður í þessu“!
Púður í (orðtak) Varið í; bragð af. „Honum þótti lítið púður í þessum samkvæmisleikjum; hann vildi helst sjá almennileg slagsmál; allavega glímu“. Hér er púður líkl. í merkingunni krydd.
Púðurfýla / Púðurlykt / Púðurreykur / Púðurstækja / Púðursvæla (n, kvk/kk) Rykur/lykt af púðri/byssuskoti. „Púðurfýlan sat eins og ský í Byrginu og jók á veiðigleðina“.
Púðurkerling (n, kvk) Lítil sprengja; knalletta; kínverji. Sprengd til skemmtunar, t.d. um áramót.
Púðurskot (n, hk) Skot sem hlaðið er púðri en ekki kúlu.
Púðursnjór (n, kk) Mjög fíngerður og léttur snjór; laus á jörðu og rokgjarn. „Það verður augalaus bylur þegar hann hreyfir þessum púðursnjó“.
Púkablístra (n, kvk) Hljóðfæri úr þjóðtrúnni; notað til að kalla púka til þjónustu. Gjarnan notað um uppruna á einhverju óþægilegu eða torkennilegu hljóði. „Úr hvaða árans púkablístru skyldi nú þessi síbylja koma“?
Púkalegur (l) Hallærislegur; ómerkilegur; nískur. „Vertu nú ekki svona púkalegur við yngri bróður þinn“.!
Púkaskapur (n, kk) Hrekkvísi; gárungsháttur. „Hann gerði þetta af tómum púkaskap“.
Púki (n, kk) A. Ári; skratti. Púkar eru í þjóðtrúnni taldir vera vistmenn satans sjálfs. Þeir búa allajafna í neðra, en ganga stundum erinda satans þegar hrella þarf mannfólkið. Er þá einungis á færi slyngustu galdramanna að hafa hemil á þeim. Sumir þeirra, eins og Sæmundur fróði í Odda, eru þekktir fyrir að hafa tekið þá í þjónustu sína. Sagt var að púkar nærðust á blóti og illmælgi manna. Þeir fitnuðu og færðust allir í aukana þegar mikið var bölvað og sóttu í félagsskap þeirra sem það gerðu. Þeir voru þannig nauðsynlegur hluti af hreintrúarhyggju fyrri tíma. Í seinni tíð fer minni sögum af þeim, þó ekki ætti að há þeim næringarskortur. B. Líkingamál um hrekkjóttan mann. Stundum notað um smástrák/peyja.
Púkk (n, hk) A. Sérstakt spil, sem spilað er með venjulegum spilastokk. Oftast spilað upp á peninga eða ígildi þeirra, s.s. eldspýtur eða kvarnir. Spilarar geta verið 2-7; hver spilari velur sér spil; tíur, mannspil og ása. Einn fær laufgosann sem nefnist pamfíll. Lágspil eru tekin úr stokknum; frá tvisti til fimmu; stundum líka sexur og sjöur. Allir leggja í púkk þegar gefið er; hver fær 5 spil; bunkanum svo hvolft og eitt uppíloft hjá honum; sá litur er tromp. Nánar verður spilinu ekki lýst hér, en það gengur auðvitað útá að græða sem mest. B. Líkingamál um sjóð sem menn leggja í; leggja í púkk. C. Undirstaða úr grófu efni, t.d. grjótfylling undir veg eða grjóthaugur sem frárennsli er leitt í.
Púkka uppá (orðtak) Eiga með; viðhalda; halda uppá. „Ég held að það sé nú varla hægt að púkka upp á þessa ríkisstjórn lengur; hún hlýtur að falla í kosningunum“.
Púkkenholt (n, hk) Lignum vitae; mjög hörð, dökk, seig og eðlisþung viðartegund Guaiac-trjáa. Í viðnum er mikið af harpix, sem gerir hann vatnsfælinn, og eðlisþyngd hans er slík að hann sekkur í vatni. Viðurinn var m.a. notaður í legur, t.d. í stefnisrör skipa og í vindmyllulegur.
Púl / Púlsvinna / Púlverk / Púlvinna (n, hk/kvk) Erfiðisvinna; puð. „Það var púl að draga (línuna)“ (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). „Maður svitnar mikið við svona púlverk í sólarbreyskjunni“.
Púla (s) Puða; erfiða. „Maður verður þyrstur á að púla svona í sumarhitanum“.
Púls (n, kk) Hjartsláttartíðni; regluleg dæling blóðs um æðar. Heilbrigður maður á besta aldri í hvíld hefur u.þ.b. 60-80 hjartslög á mínútu; þ.e. púlsinn er 60-80. Hann hægist yfir svefn, en eykst með áreynslu og geðshræringu.
Púlshestur (n, kk) Hestur sem notaður er við erfiðisverk, t.d. drátt á kerru eða plógi, en ekki til reiðar.
Púlsæð / Púls (n, kvk/kk) Slagæð. Einkum notað um slagæðina í úlnlið manns.
Púlt (n, hk) Geymslukassi með hallandi loki, oft hólfaður; hentugur til að hafa á hnjám sér undir skriftum.
Púlver (n, hk) Duft; púður. „Mundu eftir að kaupa fyrir mig gerpúlver“.
Púntera (s) Um bíldekk/slöngu; springa; fara að leka. „Það púnteraði hjá mér og varadekkið var loftlaust“.
Púpa (n, kvk) Þroskastig skordýrs; frá lirfu til fullþroskaðs dýrs. Þegar skordýr púpar sig fer það í nokkurskonar hýði, og leggst þá oft í tímabundinn dvala.
Púra (l) Hreint; skíra. „Það sprettur ekki mikið í púra skeljasandi“. „Það er púra gullhúð á þessu“.
Púrra (s) Leggja varir að húð og blása, svo myndast prr-hljóð; stundum notað til að ærslast í börnum. „Viltu að ég púrri þig aftur í hálsakotið stubbur“? Annarsstaðar var notað um þetta orðið „purra“, skv orðabókum, en „púrra upp“ merkir þar að hressa við. Um það var gjarna notað að porra eða orðtakið „porra upp“.
Púsl / Púsluspil (n, hk) Myndakotra; dægradvöl sem felst í því að raða saman bútum úr mynd sem skorin hefur verið niður, þannig að þeir falli rétt og sýni myndina.
Púsla (s) A. Kotra; setja saman púsl/púsluspil/myndakotru. Sjá kotra. B. Líkingamál um að koma einhverju brotakenndu/vandamáli/verki í heillega lausn. „Það verður erfitt að púsla þessu öllu saman“.
Púss (n, hk) A. Upphaflega lítill poki/pyngja. Í seinni tíð einungis notað í yfirfærðri merkingu; „að eiga eitthvað í pússi sínu“. „Að skilnaði gaf hann mér vasahníf sem hann dró úr pússi sínu“. B. Fín föt; skartklæði. „Þá (á álfadansinum) gengu álfakóngur og drottning um Sandinn í fínasta pússi og með kórónur...“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).
Pússa (s) A. Slípa; glatta; slétta. „Hér hefði mátt pússa gólfið betur“. B. Gefa saman; gifta. „Það eru tíu ár síðan þau létu pússa sig saman“.
Pússning (n, kvk) Múrhúðun. „Gamla húsið var orðið lélegt og pússningin farin að losna frá“.
Pússningabretti (n, hk) Áhald sem notað er til múrhúðunar; flöt slétt plata með handfangi.
Pússningasandur (n, kk) Sandur sem hentar vel til múrhúðunar.
Púst (n, hk) A. Það að hvíla sig/ kasta mæðinni; hvíld/hlé frá vinnu til að kasta mæðinni. „Við skulum nú aðeins tylla okkur og taka smá púst; brekkan er ansi mikið á fótinn“. B. Mæði; blástur. „Hann kom ekki upp orði fyrst í stað, fyrir pústi og púi“. C. Stytting á „púströr“; rör sem leiðir útblástur frá sprengihreyfli. D. Sprenging/viðbragð vélar/sprengihreyfils. „Vélin tók nokkur púst í byrjun en vildi svo ekki í gang aftur“.
Pústa (s) A. Kasta mæðinni; ná að hvílast og anda eðlilega; taka púst. „Leyfðu mér nú aðeins að pústa áður en ég segi þér ferðasöguna“. B. Um vél/sprengihreyfil; þeyta frá sér afgasi; ganga; fást í gang; taka púst. „Það pústar aðeins út við hljóðkútinn“.
Pústgrein (n, kvk) Greinótt rör sem tekur við afgasi/útblæstri sprengihreyfils og safnar í eitt púströr.
Pústkerfi / Púströr (n, hk) Rör sem leiðir afgas/útblástur sprengihreyfils frá vélinni.
Púta (n, kvk) Hæna; púdda. „Ætlar þú að skreppa og kasta í púturnar og taka egginn“?
Pútugrey / Pútuskarn (n, hk) Gæluorð um hænu. „Óskaplega er hún orðin rytjuleg, pútugreyið“.
Pútuhópur / Pútuskari (n, kk) Hópur af hænsnum/púddum. „Er nú ekki allur herjans pútuskarinn kominn í moldarbað í rófubeðinu“?!
Pylsa (n, kvk) A. Bjúga. B. Í seinni tíð notað um mjónur þær, fylltar fitu, ketsulli og rotvarnarefnum, sem menn leggja sér gjarnan til munns nú á tímum, ásamt sérstaklega löguðum brauðum og sósugumsi. Afleitar matvenjur sem þjóðin hefur tileinkað sér frá danskinum; sem nefnir fyrirbærið „pölse“, en Bretar kalla „heitur hundur“ sem er skiljanlegra nafn. Innflutningurinn hefur þó ekki lánast betur en svo að deilt er um hvort i- eða u-hljóð sé í orðinu.
Pylsubrauð (n, hk) Brauð það sem pylsur eru jafnan étnar úr nú til dags. Sú erlenda hefð hefur fest sig í sessi að pylsur megi helst ekki éta nema með brauði af vissri gerð og með stöðluðu lagi. Það skal vera hvítleitt og aflangt; í það skorin þuma öðrumegin og þar í látin pylsan ásamt gumsi af ýmsu tagi. Allt skal það vera af svipaðri óhollustu og pylsan; brauðið af hvítu hveiti og sósurnar eitursterkar.
Pyngja (n, kvk) Lítill sekkur/posi. Oftast er átt við leðurpyngju/peningapyngju/buddu sem notuð er til að geyma í peninga/mynt. Stundum yfir veski almennt, eða fjárhag. „Það hlýtur eitthvað að hafa linast hjá honum pyngjan við þessi kaup“.
Pynta (s) Pína; kvelja. „Vertu nú ekki að pynta okkur með þessu gargi í útvarpinu“!
Pynting (n, kvk) Píning; slæm meðferð. „Alveg er ég handviss um að þessi hálsbindi hafa upphaflega verið fundin upp til pyntinga“!
Pyntingatæki (n, hk) Tæki til pyntinga. „Kirkjubekkirnir voru í raun hálfgerð pyntingatæki“.
Pysja (n, hk) Það sem er létt/loftkennt í sér; fiða. Mun hafa verið notað um mosakenndan jarðveg, t.d. ofaná mólagi í jörð. Aldrei notað um lundaunga vestra, líkt og í Vestmannaeyjum; vestra nefnast þeir kofa.
Pysjulegur (l) Slappur; veiklulegur. „Mér fannst hann ári pysjulegur og ekki til stórræðanna“
Pyttla (n, kvk) Uppspretta vatns. „Mikkupytlan á Stekjarmel er gott vatnsból ef varin er ágangi Árinnar“.
Pyttur (n, kk) Djúpt dý; djúp hola, stundum með vatni/for. „Harðatorfspyttur er uppsprettulind í Melaröndum“.
Pýrrusarsigur (n, kk) Dýrkeyptur sigur; sigur sem ekki er varanlegur/raunverulegur. Vísar til sigurs gríska herforingjans Pyrhosar frá Epíros á Rómverjum í orrustunni við Heracleu árið 280 f.Kr og orrustunni við Asculum árið eftir. Í báðum orrustum misstu Rómverjar fleiri menn og Pyrrhos fagnaði sigri. En í raun sigruðu Rómverjar þar sem þeir gátu stöðugt endurnýjað lið sitt en Pyrrhos hafði einungis það lið sem komið var til Ítalíu.
Pýþagórasarregla (n, kvk) Regla í flatarmálsfræði/stærðfræði sem kennd er við forngríska heimspekinginn og stærðfræðinginn Pýþagóras, þó hún hafi í raun verið uppgötvuð fyrr. Reglan segir að samanlagðar lengdir tveggja skammhliða þríhyrnings í öðru veldi séu jafngildar lengd langhliðarinnar í öðru veldi. Reglan er allmikið notuð í verklegum efnum til að finna rétt horn, t.d. við húsbyggingar.
Pæ (n, hk) Sulta; marmelaði. Tökuorð úr ensku sem GJH notaði óspart, eins og fleiri gæluorð. „Það er svo ljómandi gott að hafa pæið með þessu“.
Pækill (n, kk) Pekill; saltlögur; vatn sem mettað er uppleystu salti að tilteknu marki. Var oftar borið fram með e- fremur en i-hljóði í Kollsvík, þó hvorttveggja heyrðist. Sjá pekill.
Pækilsalta (s) Pekilsalta; salta í pækil/pekil/saltlög. „Ég pækilsaltaði bútunginn“.
Pækilsaltaður (l) Um fisk/kjöt; pekilsaltað; saltað í saltlupplausn en ekki þurrsaltað. Ýmist var þetta orð notað eða „pekilsaltaður“. „Ég neita því ekki að söltun verður jafnari sé hangikjötið pækilsaltað“.
Pækla (s) Pækilsalta matvæli; bæta pækli á ílát með pækilsöltuðum matvælum.
Pæklun (n, kvk) Ábót pækils/pekils á ílát sem pækilsaltað hefur verið í.
Pæla (n, kvk) A. Stinga upp jarðveg; losa um jarðveg fyrir ræktun. Orðið er stofnskylt orðinu páll, sem er fornleg gerð stungureku. B. Síðari tíma líkingamál um að vinna í verki; hugsa; grufla.
Pæla (n, kvk) Staður/lægð í jörð þar sem torf hefur verið skorið af. Orðið var ekki notað í Kollsvík í seinni tíð, og skal ekki fullyrt hvort það hafi verið notað þar áður.
Pæna (n, kvk) Þunn fjöl; spækja. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).
Pæla (n, kvk) Grasflöt þar sem torf hefur verið skorið. „Það rigndi svo að vatn settist í polla í pælunni“.
Pöddufullur (l) Ofurölvi; mígandi fullur; augafullur. „Í bílnum var hver einasti maður pöddufullur“.
Pöddutegund (n, kvk) Tegund skordýrs/pöddu.
Pökkun (n, kvk) Það að pakka/ setja í umbúðir. „Ég þarf víst að mæta í pökkun í sláturhúsinu í fyrramálið“.
Pönnukaka (n, kvk) Þunn kaka sem bökuð er á sérstakri pönnu/pönnukökupönnu, úr hveiti, eggjum og mjólk. Pönnukökur eru yfirleitt annaðhvort stráðar sykri og borðaðar upprúllaðar, eða með sultu og rjóma. Íslenskar pönnukökur eru þynnri en þær sem tíðkast í örðum löndum.
Pönnusteiktur (l) Um fisk eða annan mat; steiktur á pönnu. „Pönnusteikt grásleppa er sælgætismatur“.
Pöntun (n, kvk) Beiðni til seljanda um vöruútttekt. „Sveitaverslun í Rauðasandshreppi,eftir tilkomu pöntunarfélaga og kaupfélaga, var mestmegnis með þeim hætti að frá hverjum bæ var lögð inn pöntun, oftast símleiðis. Vörurnar voru teknar til í versluninni og skuldfærðar með nótu á viðskiptareikning kaupanda. Oft sáu landpóstur eða mjólkurbíl um að flytja vörurnar til bæjanna, t.d. í Útvíkum. Oft gerðu menn sér þó ferð í verlsunina og tóku vörurnar heim sjálfir“.
Pöntunarfélag (n, hk) Félag sem menn stofna til að auðvelda sér innkaup vöru og nýta fjöldainnkaup til að fá hana á lægra verði. Pöntunarfélag Rauðasandshrepps var stofnað árið 1908. Félagsmenn gerðu áætlanir um vöruinnkaup og keyptu inn sameiginlega í stórum pöntunm, gegn loforði um innlegg sinna afurða. Pöntunarfélög urðu fyrirrennarar kaupfélaganna, sem voru í fastara formi. Kaupfélag Rauðasands var stofnað 1933 með aðsetur á Hvalskeri og 1936 var stofnað Sláturfélagið Örlygur sem hafði aðesetur á Gjögrum, og einnig um tíma í Hænuvík.
Pöntunarlisti (n, kk) Bæklingur sem verslun sendir í pósti inn á heimili, með vörum sem unnt er að panta. Fyrstu almennu pöntunarlistarnir hafa líklega verið svonefndir „Hagkaupslistar“ sem verslunin Hagkaup sendi inn á öll heimili á fyrstu starfsárum sínum. Var þeim víða flett og úr þeim pantað.
Pöpull (n, kk) Lýður; fólk; almenningur. „Pöpullinn í dag lætur almennt stjórnast af fjölmiðlaruglinu“.
Pöróttur (l) Hrekkjóttur; hrekkvís; baldinn. „Ýmsar sögur gengu af vermönnum í Kollsvíkurveri. Virðast þeir hafa verið uppáfinningasamir og pöróttir í meira lagi, þegar drepa þurfti tímann í landlegum“.
Pörupiltur (n, kk) Óþekktarormur; misindismaður; þrjótur. „Það þarf að loka svona pörupilta inni“!
Pössun (n, kvk) Gæsla; eftirlit. „Ég er með árans túnrollurnar í stöðugri pössun“.