Obbinn af því (orðtak)  Megnið af því; mestmegnis.  „Obbinn af fénu skilar sér vanalega heim án smölunar“.  Obbi mun þýða nef, goggur eða trjóna, og er t.d. stofninn í ybba, sbr ybba gogg.

Obboðlítill (l)  Agnarsmár; duggunarlítill;öggulítill.  „Það er ágætt að hafa obboðlítið af sykri útá þetta“.

Obbosí (u)  Upphrópun sem gjarnan var notuð þegar börn voru tekin upp eða þeim lyft.

Obláta (n, kvk)  Altarisbrauð; lítil bökuð skífa úr ósýrðu hveiti, sem við altarisgöngu er lögð á tungu fólks sem tákn um hold Krists.  Á eftir er gefinn sopi af messuvíni, sem tákn um blóð Krists, og til að kyngja oblátunni.  Saman eru þessir helgisiðir nefndir sakramenti/náðarmeðul og altarisganga; að ganga til altaris.  Sjá sakramenti.

Oddaflug (n, hk)  Hópflug sumra fuglategunda í ákveðnu mynstri, til að minnka loftviðnám á fluginu.  Einkum er þetta áberandi hjá gæsum og helsingjum.  Fremsti fuglinn klýfur loftið og þeir sem á eftir koma nýta „bógbylgjuna“ frá honum til að létta sér flugið, svo hópurinn myndar v-laga mynstur í loftinu.

Oddbeita (n, kvk)  A.  Beita/agn sem beitt er fremst á odd önguls/króks, framanvið aðrar beitur ef um þær er að ræða.  Helst tíðkaðist það á hákarlaveiðum að hafa margar tegundir beitu, og var þá sú girnilegasta höfð sem oddbeita.  Oft var það biti úr hrossaketi, selspik, hnísuspik eða gallpungur (stykki úr hákarlslifur).  B.  Ljósabeita sem skorin er í oddlaga lengju og beitt á bug öngulsins.  Báðar merkingar orðsins voru þekktar í Kollsvík, en sú síðari meira notuð í seinni tíð.

Oddbeita (s)  Beita öngul með oddbeitu.  Sjá einnig roðbeita.

Oddbeittur (l)  A.  Um hníf eða annað áhald; beittur í oddinn.  „Varaðu þig á breddunni; hún er svo ári oddbeitt“.  B.  Um krók/öngul sem búið er að oddbeita.

Oddafiskur (n, kk)  Lúða sem veiðist á flenniskuð.  „Á vorin var oft mikið af flenniskuði (hraunpussu, sæfífli) í Látraröst og komu þá stundum tvö og þrjú á sama öngulinn í senn.  Flyðra sem veiddist á flenniskuð var nefnd oddafiskur og var hlutarbót þess sem fyrir því happi varð“ (LK; Ísl.sjávarhættir III; eftir Ó.E.TH Vatnsdal). 

Oddamaður (n, kk)  Sá sem úrslitum ræður í hópi, t.d. þegar atkvæði eru greidd.  Fjöldi manna í nefndum og stjórnum er oftast látinn standa á oddatölu, til að mál falli síður á jöfnum atkvæðum.  Með oddamanni er þó stundum átt við tiltekinn mann í nefnd/hópi sem hefur meira vægi en aðrir eða starfar öðruvísi. 

Oddatala (n, kvk)  Önnur hver tala í réttri talnaröð heilla talna; tala sem ekki er jöfn tala; heil tala sem ekki er unnt að deila í með tveimur.

Oddbeita (s)  Aðferð við beitningu á handfæraveiðum.  „Handfæraönglar voru oftast roðbeittir; en þá var oddinum stungið í gegnum fisk og roð; beitan hékk á bugnum.  Þá var sagt að öngullinn væri oddbeittur.  Þegar oddinum var stungið milli himnu og roðs svo beitan gekk niður í bug hét það að bugbeita“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  Sjá einnig beita; bugbeita; roðbeita.

Oddbogi (n, kk)  Bogi sem er oddmyndaður í buginn.  Algengur stíll á miðöldum, en víða má sjá kirkjuglugga, letur og annað með þessu lagi frá þeim tíma.

Oddbrotinn  (l)  Með brotinn odd.  „Ég lána þér ekki aftur vasahníf ef ég fæ hann oddbrotinn til baka“!

Oddhagur (l)  Góður útskurðarmeistari/myndskeri; laginn við beitingu oddjárna.

Oddhenda (n, kvk)  Vísa með sérstökum bragarhætti.  Oddhendur eru hringhendur þar sem endarím fyrstu og þriðju ljóðlínu rímar við annan braglið allra ljóðlína.  Dæmi um oddhendu er þessi vísa Steins Steinarrs:  „Lífs um angurs víðan vang/ víst ér ganginn herði./  Eikin spanga í þitt fang/ oft mig langa gerði“.

Oddhvass / Oddmjór (l)  Oddbeittur; skarpur/hvass í oddinn.

Oddlaus / Oddsljór (l)  Án odds; sljór í oddinn.  „Veistu eitthvað um oddlausu skærin“?

Oddsnerta (n, kvk)  Það þegar fiskur snertir við beitu á krók þannig að veiðimaður telur sig finna það; verða varan.  „Einhver oddsnerta held ég að hafi verið hjá mér núna.  Hann gæti verið að gefa sig til“.  Einnig í neitunarsetningum um algert aflaleysi.  „Skammi sú ögnin að hér sé nokkur oddsnerta“!  „Við reyndum á nokkrum stöðum, en það var hvergi oddsnerta“. 

Oddvitatíð (n, kvk)  Tími sem maður gegnir starfi oddvita í hreppsnefnd eða annarri stjórn.  „Ég vélritaði nokkrar fundargerðir frá oddvitatíð föður míns“.

Oddviti (n, kk)  Einn hreppsnefndarmanna, og sá sem sinnti daglegum sveitarstjórnarstörfum.  „Í Rauðasandshreppi var þriggja manna hreppsnefnd.  Össur Guðbjartsson á Láganúpi gegndi lengi vel störfum oddvita, eða þar til hann veiktist alvarlega.  Stuttu síðar var stjórnsýslan sameinuð í Vesturbyggð.  Össur var vinsæll oddviti, eins og sést af þakkarskjali sem sveitungarnir færðu honum að gjöf“.

Of eða/né van (orðtak)  Of mikið eða of lítið.  „Það er ýmist of eða van með þessa rigningu“.

Of/heldur fljótur á sér (orðtak)  Of bráður; fljótfær; hleypur á sig.  „Nú var ég heldur fljótur á mér að kasta út færinu; ég er hræddur um að það hafi slegist saman við þitt vegna ferðarinnar á bátnum“.

Of/heldur gefinn (orðtak)  Of dýrt/verðmætt.  „Ég fórna ekki harðviði í girðingarrenglu; hann er heldur gefinn í slíkt“.  „Ertu frá þér; að ætla að nota hamarshausinn í sökku!  Hann er allt of gefinn til þess“! 

Of/heldur/full mikið af því góða (orðtak)  Yfirdrifið; of mikið.  „Það er bara ánægjulegt að fá heimsókn.  En þegar menn sitja frá morgni til kvölds og halda manni frá verki, þá er það of mikið af því góða“.

Of/heldur mikið af því góða (orðtak)  Heldur mikið, þó vel sé þegið.  „Það er alltaf vel þegið að fá í soðið, en þetta er kannski heldur mikið af því góða.

Of seint er að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofaní (orðatiltæki)  Orðatiltækið vísar til þess að sýna þurfi fyrirhyggju til að afstýra vandræðum eða slysum.

Of seint er að iðrast eftir dauðann (orðatiltæki)  Skýrir sig sjálft.  Mikið notað í þeim tilvikum að menn sjá eftir því sem gert hefur verið.  „Ég hefði átt að asnast til að raka þetta upp í gærkveldi.  En það er víst of seint að iðrast eftir dauðann.  Hann var ekki svo rigningarlegur þá“.

Of seint er að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofaní (orðatiltæki)  Auðskilið máltæki sem notað er í líkingum um að betra er oft að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir en taka afleiðingunum.

Ofalinn (l)  Sem fengið hefur of mikið fóður/fæði.  „Hundur og húsbóndi báru þess merki að hafa verið ofaldir“.

Ofan (ao)  Niður; ofanfrá; undan.  „Sú málvenja er nú nánast horfin sem áður var algild, að nota orðið „ofan“ um það þegar eitthvað kom niður eða farið var niður.  Og sama gildir um orðið „neðan“, um það sem nú heitir „upp“.  Þessi háttur var þó tamur eldra fólki á síðustu öld, t.d. GG á Láganúpi og ÖG notaði þetta einnig töluvert“.  „Gáðu að þér þegar þú kemur ofan stigann“.  „Kindin setti sig neðan alla kletta og upp á brún“.

Ofanafsleikjur (n, kvk, fto)  A.  Sláttur túns, þar sem einungis er slegið ofanaf grasinu en ekki við rót.  B.  Líkingamál; hroðvirknislega/illa unnið verk; taka efnis án þess að klára/hreinsa.  „Ég kalla það ekkert annað en ofanafsleikjur; að sækja bara fjárhópa þar sem til þeirra sést en leita ekkert í lautunum“! 

Ofanaftekin/óofnanaftekin ull (orðtak)  Ull sem búið er að taka togið ofanaf, þannig að þelið er eftir.  „Svo var send ull í Gefjun á Akureyri til að vinna úr henni lopa. Fólk gat fengið unnið úr sinni ull og þá ýmist óofanaftekin ull eða þel og var þá þó nokkur vinna að taka ofan af mörgum reyfum. (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Ofaná (ao)  Uppá; efst á.  „Saxaðu fyrir mig gott fang til að setja ofaná galtann“.  „Ég datt ofaná prýðishugmynd  til lausnar á þessu vandamáli“.

Ofaná allt (annað) / Ofaná allt saman (orðtak)  Þar á ofan; til viðbótar; ofaní kaupið.  „Svo kom hann með þetta fjárans hret ofaná allt saman“!

Ofanáliggjandi (ao)  Sem liggur ofaná.  „Vélin er með ofanáliggjandi knastás“.

Ofanásetur (n, hk)  Hluti af skinnbrókum; sjá skinnklæði.  „Í hverja brók þurfti fjögur skinn; eitt í setskauta, helst kálfskinn; eitt í hvora brókarskálm og eitt í ofanásetur“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Ofanbylur / Ofandrífa / Ofanfjúk / Ofankafald / Ofanhríð / Ofanmyglingur / Ofansáldur  (n)  Snjókoma að ofan, til aðgreiningar frá skafrenningi; ofankoma.  Endingin vísar til þéttleika og snjógerðar.

Ofandekks / Ofanþilja (l)  Um dekkbát/skip; uppi á þilfari/dekki. 

Ofaneftir (fs)  Niðureftir.  „Ertu að fara ofaneftir“? (niður í fjós/fjárhús).  „Hann er koma þarna ofaneftir hlíðinni“.  „Ég ætla að fara að víkja fénu ofaneftir“ (niður í fjöru).

Ofanfall (n, hk)  A.  Mikill ofanbylur; mikil ofanhríð; steypiregn; úrhellisrigning; ofansóp.  Oftar var notað ofansóp um gríðarmikla úrkomu.  B.  Fugl undir fuglabjargi sem orðið hefur fyrir grjóthruni.  Slík hlunnindi voru nýtt áðurfyrr, t.d. frá Keflavík innan Keflavíkurbjargs.

Ofanfallinn (l)  Fallinn niður.  „Sá kofi er fyrir löngu ofanfallinn“.

Ofanferð (n, kvk)  Sig/lás af brún niður í bjarg.  „Mesta lofthræðslan fór af honum eftir fyrstu ofanferðina“.

Ofanfrá (fs)  Að ofan; niðurímóti.  „Það er farið í Sighvatsstóðin ofanfrá, þó þau nái niðurfyrirmiðja kletta“.

Ofanfyrir fs)  Niðurfyrir.  „Það snarhægði um leið og við komum ofanfyrir brekkubrúnina“.

Ofanför / Ofanganga (n, kvk)  Ferð niður.  Stundum notað um það þegar farið er niður í kletta, t.d. til að sækja fé eða til eggja.  „Ofanförin er nokkuð greið, þar til kemur að kletti í miðri gjánni“.

Ofangarðs og neðan (orðtak)  Sjá fara ofangarðs og neðan hjá.

Ofangengt (ao)  Gengt/fært niður ofanfrá.  „Ofangengt er í flesið, en betri leið er þó neðanfrá“.

Ofangreindur (l)  Sem nefndur er að ofan; framangreindur.  „… því betur sannfærist ég um að fóðrun á öllum ofangreindum búpeningi fer batnandi frá ári til árs“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Ofaní (fs)  A.  Niður í.  „Settu skærin ofaní skúffu“.  „Ætlarðu alveg ofaní mig drengur“?!  B.  Um sauðfé sem festir sig í feni/dýi.  „Nú er ég hræddur um að einhver sé ofaní; hrafnarnir láta mikið þarna við Hestkelduna“.  Sjá fara ofaní og föst ofaní

Ofaní kaupið (orðtak)  Þar á ofan; til viðbótar; ofan á allt saman.  „Það var ekki nóg með að hann mætti í róður á strigaskóm; heldur var hann bara í anórakbleðli utanyfir sig ofaní kaupið“!

Ofaníburður (n, kk)  Fremur fíngerð möl sem sett er á veg til að slétta hann og mýkja til aksturs.  „Námur ofaníburðar eru á Aurtjörninni; uppi á Núpnum og í Húsadal, en heldur er efnið þó auri blandið“.  „Barðstrendingar geymdu báta sína fram að vertíð innst í Patreksfirði; við árósana á Skeiðseyri; sléttri grasigróinni eyri vestan fjarðarins, sem nú hefur að mestu verið tekin til ofaníburðar.  Þeir standsettu bátana áður en þeir komu í Verið“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Ofanídauður (l)  Um sauðfé; hefur farið ofaní (dý/fen) og drepist.  „Það eru nokkrar ofanídauðar á þessu sumri“.

Ofanídýfing (n, kvk)  Það að dýfa einhverju ofaní.  „Þeir skýra víst með ofanídýfingu, eins og í sauðfjárböðun“.

Ofanígjöf (n, kvk)  Skammir; ávítur.  „Þeir fengu víst einhverja ofanígjöf hjá foreldrunum“.

Ofanímilli (fs)  Niður á milli.  „Ég missti peninginn ofanímilli sætanna í bílnum“.

Ofanímokstur (n, kk)  Mokstur ofan í gröf/gryfju.  „Við skulum sjá um ofanímokstur og frágang þegar kirkjugestir eru farnir“.

Ofanímóti (ao)  Niðurímóti; niður.  „Það er ósköp notalegt og fljótlegt að rölta hérna ofanímóti, en mosaþemburnar eru fjári leiðar þegar menn ganga fullklyfjaðir af eggjum hér neðan dalinn“.

Ofanjarðar (ao)  Á yfirborði; ekki niðurgrafið.  „Strengurinn liggur þarna ofanjarðar á löngum kafla“.

Ofankletta (ao)  Fyrir ofan kletta.  „Ég smalaði hlíðina ofankletta, en hann gekk fjöruna“.

Ofankoma (n, kvk)  Snjókoma, notað til aðgreiningar frá skafrenningi.  „Það er töluverð ofankoma“.

Ofanleystur (l)  Með buxurnar niðrum sig; ógirtur.  „Þú ert dálítið ofanleystur ennþá anginn minn; biddu hann afa þinn að girða þig betur“.

Ofanmýra (ao)  Fyrir ofan mýrar.  „Þið skuluð fara með kýrnar upp á Umvarp; það er hægara að reka þær ofanmýra en í bleytuseylunum fyrir neðan“.

Ofanreiddur (l)  Um útslægjur uppi á fjalli; reitt niður á hestum.  „Mér var sagt af kunnugum að hjallinn hefði gefið af sér í bestu árum 100 hesta af heyi ofanreidda, ef hann var allur sleginn út í skækla“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Ofansjávar / Ofansjóar (ao) Fljótandi á yfirborði sjávar.  „Ég held að þessi bauja sé ekki lengur ofansjávar“.

Ofansóp (n, hk)  Gífurleg úrkoma; úrhellisrigning; mikill moldbylur.  „Þetta er sannkallað ofansóp; eins og hellt sé úr fötu“.

Ofantekinn (l)  Tekinn niður.  „Fönixnaustið mun hafa verið ofantekið í kringum 1970“.

Ofantil (ao)  Ofanvið miðju; ofarlega; uppi.  „Er þetta kind ofantil í Hæðinni“?

Ofanum (ao)  Niður um.  „Hann mun hafa drukknað þegar hann fór ofanum ís á vatninu“.  „Það hefur fennt dálítið ofanum gatið á þakinu“.

Ofanundir (fs)  Niðurundir; undir.  „Það var gott að komast ofanundir mjúka sængina“. „Það hefur snjóað ofanundir miðjar hlíðar“.

Ofanúr (fs)  Niður úr.  „Ef þið hættið ekki þessum óskapagangi strákar, þá er hætt við að hún Grýla fari að finna til sekkinn sinn og komi askvaðandi ofanúr fjöllum“!

Ofanvið (fs)  Fyrir ofan. „Ofanvið Hjalla eru fyrst Flatir, en síðan Strympur og Ormar“.

Ofanyfir (fs)  Yfir.  „Settu svo balann ofanyfir fiskinn svo kvikindin fari ekki í hann“.  „Nú dettur ofanyfir mig; hver haldiði að sé nú að koma í heimsókn“?!

Ofanþilja (ao)  Uppi á dekki/þilfari á skipi.  „Eftir að brotið reið yfir sást enginn lengur ofanþilja“.

Ofaukið (l)  Umfram.  „Mér sýnist að hér sé einni ofaukið í þessum karmi“.

Ofarlega (ao)  Ofanvið miðju.  „Mér sýnist þetta vera kind, þarna ofarlega í klettunum“.

Ofát (n, hk)  Það að éta yfir sig/ borða of mikið; offylli. „Hættu nú að ryðja svona í þig; þú getur annars ekki hreyft þig í smalamennsku af ofáti“!

Ofbeit (n, kvk)  Beitarálag af sauðfé, sem er umfram beitarþols svæðis. „ Þegar mest var af fé í víkinni, kringum 1960; stappaði nærri ofbeit á sumum stöðum í nágrenni hennar“.

Ofbakað (l)  Of mikið bakað brauð/bakkelsi.  „Kakan varð dálítið ofbökuð hjá mér“.

Ofbarinn (l)  Um harðfisk; of mikið barinn.  „Það er verra að hafa harðfiskinn í nesti ef hann er ofbarinn“.

Ofbeit (n, kvk)  Álag á gróður af völdum beitar, í meira mæli en nemur endurnýjunargetu.  Ofbeit var ekki í Kollsvíkur- eða Láganúpslöndum, að undanskildu tímabilinu í kringum 1960.  Þá bjuggu þrír bændur í Kollsvík; hver með mun stærri fjárstofn en þekkst hafði áður.  Þegar einn þeirra brá búi þótti nokkuð sjá á úthögum.  Líklegt er að offjölgun ígulkersins skollakopps eftir 1980 hafi valdið ofbeit þaraskógar á grunnsævi í Kollsvík og víðar.  Þetta olli því að þarinn dró ekki úr afli grunnbrota í sama mæli og áður, þannig að brot æddu hærra á land svo rof hófst í Grundabökkum og spjöll urðu á Görðunum.  Sandur á víkinni rótaðist í meira mæli í fjörur og olli auknu sandfoki.  Þarabunkar hættu að sjást í fjörum í þeim mæli sem áður var.  VÖ setti fram tilgátu um þetta orsakasamhengi í ársbyrjun 2017, og lýsti í ritgerð.

Ofbeldislaust (l)  Án ofbeldis/ofstopa/nauðungar.  „Oft komu upp deilumál í verum, en ekki fer sögum af öðru en að þau hafi verið leyst ofbeldislaust“.

Ofbjóða (s)  Yfirganga; ganga framaf; leggja of mikið á.  „Jafnan var þess gætt heima, að ofbjóða ekki unglingum með erfiðisvinnu“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  „Mér ofbauð gjörsamlega þetta óhóf“!

Ofboð (n, hk)  A.  Skelfing; uppnám; flýtir.  „Ég reyndi í ofboði að gogga fiskinn en náði því ekki“.  B.  Áhersluorð/ -forskeyti.  „Sérðu hvað þetta er ofboð lítið og fínlegt“?

Ofboðsfát (n, hk)  Fum/fálm í ofboði; ómarkviss viðbrögð við óvæntar aðstæður. 

Ofboðshræðsla / Ofboðsskelfing (n, kvk)  Hræðsla þegar óvænt atvik kemur upp; ofboðsfát.

Ofboðslega (ao)  Afar/hræðilega mikið.  „Hann flýtti sér svo ofboðslega að hann gleymdi erindinu“.

Ofboðslegur (l)  Afar/hræðilega/feiknalega mikið.  „Ekki var nú aflinn neitt ofboðslegur“.

Ofborgaður / Ofgoldinn / Ofgreiddur (l)  Greiddur um of.  „Svona greiði verður seint ofgoldinn“.

Ofdirfska (n, kvk)  Fifldirfska; glannaskapur.  „Mörgum þótti þetta fyrirhyggjulaus ofdirfska“.

Ofdrykkja (n, kvk)  Of mikil neysla áfengis.  „Bindindisfélagið bannaði ekki einungis alla ofdrykkju, heldur setti ströng viðurlög við því ef nokkurntíma vitnaðist um vínneyslu af einhverju tagi“.  

Ofeldi (n, kvk)  Of mikil fóðrun; offita á skepnum vegna fóðurgjafar. 

Offari (l)  Sjá fara offari.

Offeiti / Offita (n, kvk)  Of mikið spik á manni/skepnu.  „Nú verð ég að hætta; áður en ég drepst hér við borðið úr offeiti“.

Offermdur (l)  Um bát/skip; með of mikinn farm/flutning; hættulega hlaðinn/fermdur.  „Sagt var að báturinn hefði verið offermdur, og ekki þolað ágjöfina“.

Offermi (n, hk)  Ofhleðsla báts/skips; of mikill farmur/flutningur.  „Talið var að offermi hefði verið orsök slyssins“.

Offjölgun (n, kvk)  Of mikil fjölgun.  „Uppúr 1980 fór að bera á því að þaragarðurinn hvarf á stórum svæðum á grásleppumiðum vegna offjölgunar ígulkerja sem átu hann upp til agna.  Sum svæði urðu verr úti en önnur, t.d. svæðið utan Selskers og utanverð Hænuvík“.

Offlýtir (n, kk)  Asi; ras; það að flýta sér um of.  „Oft tefur offlýtirinn“  (Umræðuefni á fundi Umf Vestra 1919). 

Offors (n, hk)  Ofsi; yfirgangur; fruntaháttur.  „Þú nærð engu fyrr fram með svona offorsi“.

Offra (s)  Fórna; farga/glata í einhverjum tilgangi; kosta til.  „Ég er ekki alveg tilbúin að offra sníðaskærunum mínum í svonalagað“.

Offur (n, hk)  Fórn; tilkostnaður.  „Það væri nú ekki stórt offur af minni hendi þó ég hjálpaði ykkur við þetta“.

Offylli (n, kvk)  Ofát; ofmettun af fæði/mat.  „Mikið var þetta góður matur.  Nú getur maður varla hreyft sig af offylli“.

Ofgefinn (l)  Gefinn/greiddur umfram skyldu.  „Það er síst ofgefið þó maður láti þig hafa þennan ketskrokk fyrir alla hjálpina“.

Ofgera (s)  Ofbjóða; misbjóða.  „Það þótti ekki goðgá þó börn væru látin vinna áður fyrr, en þess var vandlega gætt að þeim væri ekki ofgert í vinnu“.

Ofgera sér (orðtak)  Leggja/reyna of mikið á sig; ganga of hart fram í vinnu.  „Gættu þess að ofgera þér ekki á öllu þessu puði“!

Ofgnótt (n, kvk)  Kynstur; býsn; yfirdrifið.  „Ég hef sjaldan séð álíka ofgnótt af berjum“!

Ofgott (l)  Of gott.  „Honum er ekki ofgott að bæta fyrir sín mistök“.

Ofhaldinn (l)  Býr við of góðan kost/í vellystingum; er of vel gert við.  „Það er nú enginn ofhaldinn af þessum smánarlaunum“.

Ofharðna (s)  Verða of harður.  „Ávallt snerust skálmarnar undan vindi, og blés þá inn í brókina svo að hún þornaði næsta fljótt, en mátti ekki ofharðna“  (KJK; Kollsvíkurver).

Ofheimta (s)  Fá/heimta meira fé í haustsmölun en búist var við.  „Hann sagðist búinn að ofheimta; hann hefði fengið eina útigengna með tveimur lömbum“.

Ofherða (s)  A.  Um harðfisk/skreið; herða/þurrka of mikið.  „Það er ekki gott að ofherða grásleppuna, þá verður minna úr henni“.  B.  Um skrúfbolta/ró; taka of mikið á við herslu.

Ofhitna (s)  Hitna um of.  „Svo illa vildi til að rauðmaginn ofhitnaði við reykinguna og lá við að hann soðnaði“.

Ofhlaðinn (l)  Um bát; hlaðinn svo mikið að hann ver sig ekki gegn sjóum og getur sokkið eða hvolft.  „Þegar þeir höfðu siglt um hríð og tekið var að gæta straumsins í Látraröst kom í ljós að skipið var ofhlaðið, og fóru hásetar að tala um að það mundi ekki geta varið sig“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Ofhleðsla (n, kvk)  Of mikill/þungur farmur/afli í skipi.  „Sagt er að báturinn hafi farist vegna ofhleðslu“.

Ofhól / Oflof (n, hk)  Of mikið hrós/hól/lof í garð einhvers.  „Maður fer hjá sér við svona oflof“!

Ofinn (l)  Um vefnað/fléttu; brugðinn; fléttaður.  „Hjartaþráðurinn er ofinn inn í vaðinn“.

Ofílagt (l)  Of mikið lagt í; of miklu fórnað.  „Það er kannski ekki ofílagt þó þú farir í almennileg föt fyrir svona fína veislu“.

Ofjarl (n, kk)  Sá sem hefur yfirburði/ er öðrum meiri.  „Hann er alger ofjarl minn í þessum efnum“.

Ofjandinn / Ofjárinn (u)  Mild áhersluorð, oftast í andsvari og sögð rólegri röddu þegar ekki liggur mikið við.  „Nei ofjandinn; það held ég ekki“.  „Ofjárinn; heldurðu að það geti verið“?

Ofkeyptur (l)  Keyptur of dýru verði.  „Ég sé núna að þessi hnífbrók hefur verið ofkeypt; þetta er liðónýtt“!

Ofkælast (s)  Kólna um of; kvefast/dofna/veikjast af kulda.  „Þú þarft að búa þig betur ef þú ætlar ekki að ofkælast í þessum kulda“.

Ofkæling (n, kvk)  Það að ofkælast.  „Talið var að heilahimnubólgan hefði stafað af ofkælingu“.

Oflauna (s)  Launa um of; greiða of há laun.  „Svona strit verður seint oflaunað“.  Sjá aldrei er gott oflaunað.

Oflátungsháttur /Oflæti (n, kk/hk)  Mont; ofætlan; mikilmennskubrjálæði.  „Svona oflátungsháttur hefur nú sjaldnast borgað sig.  Það er nú heillavænlegra að hafa báða fætur á jörðunni“.

Oflátungur (n, kk)  Sá sem þykist meiri/öflugri/betri en hann er.  „Ég tek nú lítið mark á þeim oflátungi“!

Oflof (n, hk)  Of mikið lof/hrós; mærðarhjal; lofa í hástert.  „Ýmist hlýtur framtakið oflof eða fordóma“.

Oflæti (n, hk)  Yfirborðsmennska; mont; gort; belgingur.  „Hann var raunsær og laus við allt oflæti“.

Oflætisfullur (l)  Sýnir oflæti; raupsamur; montinn; vindhani.

Ofmargt (l)  Of mikill fjöldi.  „Það er ofmargt í þessum dilk; við þurfum að draga í annan“.

Ofmeta (s)  Gera of mikið úr; virða of mikils.  „Ég hef ofmetið dýpið hérna; niðristaðan er alltof löng“.

Ofmetnast (s)  Verða of montinn/sjálfsöruggur; líta of stórt á sig.  „Mönnum hættir til að ofmetnast við svona upphefðir; þó þær séu í rauninni harla innihaldslausar“.

Ofmælt (l)  Of mikið sagt; ekki svo mikið.  „Það er ofmælt hjá honum að ég hafi lofað einhverju um þetta“.

Ofn (n, kk)  A.  Hitað hólf til eldunar/bökunar.  B.  Hitaflötur á húsvegg, til hitunar á rými.

Ofnrör (n, hk)  Pípa/rör til að leiða vatn að/frá ofni.  „Leggðu vettlingana á ofnrörið svo þeir þorni“.

Ofnotað (s)  Of mikið notað; útjaskað.  „Orðið jafnræði er töluvert ofnotað af þeim sem virða það lítils“.

Ofraun (n, kvk)  Of mikil áreynsla; hurðarás um öxl.  „Það er honum engin ofraun að klára þetta í dag“.

Ofrausn (n, kvk)  Of mikil gjafmildi; óspilunarsemi.  „Skyldi það vera þeim algjör ofrausn, þessum háu herrum á þingi; að veita hingað einhverjum smáaurum svo vegirnir verði færir“!

Ofreyna sig (orðtak)  Taka of mikið á; ganga fram af sér.  „Vertu nú ekki að ofreyna þig á þessum átökum“.

Ofreynsla (n, kvk)  Of mikil átök; of mikið álag.  „Ég fékk tak í bakið; líklega af ofreynslu í þessum átökum“.

Ofríki (n, hk)  Yfirgangur; undirokun; frekja.  „Margir landnámsmenn Íslands eru sagðir hafa flúið ofríki Haralds hárfagra Hálfdánarsonar Upplandakóngs.  Það á þó líklega ekki við um Koll og Örlyg.  Þeir fóstbræður voru í söfnuði Patreks Suðureyjabiskups og hafa líklega komið hingað í trúboðserindum“.

Ofsabrim (n, hk)  Stólpabrim; aftakabrim.  „Það er ekki þarablað í fjörunni eftir þetta ofsabrim“.

Ofsaddur (l)  Búinn að borða/éta sér til óbóta; of mettur.  „Það er ekki betra að vera ofsaddur þegar maður er að fara í svona verk“.

Ofsafeginn (l)  Mjög/afar feginn/kátur.  „Mikið yrði ég ofsafeginn ef þú hættir að klifa á þessu í smástund“!

Ofsafenginn / Ofsafullur (l)  Ofstopafullur; fljótillur; bregst óþarflega hart og illa við.

Ofsaferð (n, kvk)  Mjög/of hröð ferð; mikill asi.  „Bjargið æddi niður hlíðina á ofsaferð; stutt frá okkur“.

Ofsagt (l)  Of mikið sagt; ofsögum sagt.  „Víst ar þetta ári mikill veltingur, en það er kannski ofsagt að við höfum verið í verulegri hættu“.

Ofsakæti (n, kvk)  Mjög mikil kátína/gleði/kæti.  „Þvílík ofsakæti í hundinum yfir að heimta húsbóndann“!

Ofsalega (ao)  Mjög; afar; fjarskalega.  „Mig langar ofsalega mikið að biðja þig um þetta“.

Osalta (s)  Salta of mikið.  „Það þarf að gæta þess að ofsalta ekki bútunginn“.

Ofsareiður (l)  Fjúkandi illur; heitt í hamsi.  „Hann brást ofsareiður við þessum ásökunum“.

Ofsarok / Ofsaveður (n, hk)  Stórviðri; fárviðri.  „Kirkjan í Saurbæ fauk í þessu ofsaroki“.

Ofsi/Ofsaveður/Ofsarok   Mjög hvasst og vont veður.  „Stundum ber það við að menn fá ofsarok á sjó, svo naumast er annars kostur en að láta renna á reiðanum eða sigla með litlum bleðli..“  (HE; Barðstrendingabók).  „Þegar líða tók að morgni fór að slá svolítið á mesta ofsann“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Ofsjónir (n, kvk, fto)  Missýning; sýnir sem ekki eru raunverulegar.  „Ég hélt fyrst að ég væri að sjá ofsjónir, en það fór ekki á milli mála að þarna var sú útigengna komin“.

Ofsoðinn (l)  Um mat; hefur fengið of langa suðu.  „Eins og mér finnst fiskur mikill herramannsmatur, þá finnst mér fátt ólystugra en fiskur sem er ofsoðinn og kominn í mauk“.

Ofsóknir (n, kvk, fto)  Árátta til að gera persónu eða hópi skaða eða valda ótta; hrellingar; einelti.

Ofstopamaður (n, kk)  Maður sem er um of bráður/árásargjarn.  „Sumir vilja meina að Egill frændi vor Skallagrímsson hafi verið ofstopamaður.  Aðrir telja að hann kunni að hafa verið ofvirkur og siðblindur“.

Ofstopaveður (n, hk)  Ofsaveður; fárviðri.  „Það er skollið á andskotans ofstopaveður og sér ekki útúr augum“!

Ofstopi (n, kk)  A.  Yfirgangur; æsingur; ógnun.  „Það er óþarfi að nálgast þetta mál með einhverjum ofstopa“.  B.  Mjög slæmt veður; hífandi rok; bálviðri.  „Ég hef nú sjaldan vitað annan eins ofstopa“!

Ofstuðlað (l)  Um ljóð/kvæði; með of mörgum stuðlum eða höfðuðstöfum.  „Þetta er ágæt vísa hjá þér þó hún sé ofstuðluð í síðustu hendu“.  Rétt stuðluð ferskeytla er með tveimur stuðlum í tveimur hákveðum í fyrstu ljóðlínu/hendu og samhljóða höfuðstaf í fyrstu hákveðu annarrar ljóðlínu.  Þriðja og fjórða ljóðlína eru einnig með innbyrðis sama ljóðstaf/stuðul.  Algengast er að ofstuðlað sé með endurtekningu á höfuðstaf í sömu ljóðlínu.

Ofstæki (n, hk)  Kredda; blind trú á málefni; óbilandi/óhófleg sérviska/trú t.d. í stjórnmálaskoðunum eða trúmálum.  „Þetta er farið að jaðra við ofstæki hjá honum“!

Ofstækisfullur (l)  Haldinn miklu ofstæki.  „Nokkuð þykir mér hann ofstækisfullur í pólitík“.

Ofsæll (l)  Of vel haldinn; lifir í hóglífi.  „Það verður enginn ofsæll af þessum launum“.

Ofsögum sagt (orðtak)  Logið; ýkt; sagt meira en fótur er fyrir.  „Ég held að þarna sé nokkrum ofsögum sagt, en einhver flugufótur er þó fyrir þessu“.

Oft á tíðum (orðtak)  Oft; um ýmsa tíma; í mörg skipti.  „Þetta hefur oft á tíðum gerst“.

Oft bylur hátt í tómri tunnu (orðatiltæki)  Sjá bylur hátt í tómri tunnu.

Oft er á botninum betra (orðatiltæki)  Oft er kjarnbetri matur á botni ílátsins/pottsins, t.d. þegar um súpu er að ræða.  Nokkuð mikið notuð speki, en er í raun útlegging á annarri; sjaldan er á botninum betra.

Oft er dári í dánumannsætt (orðatiltæki)  Oft er svartur sauður í fjölskyldunni; oft er einn auli/þrjótur í hópnum/ættinni.  Dári merkir flón eða skúrkur.

Oft er dyggð undir dökkum hárum (orðatiltæki)  Útlit segir ekki mikið um innri mann; sá sem er illilegur í útliti getur verið mesta gæðablóð.  Aldrei skyldi dæma fólk af útliti, sbr oft er flagð undir fögru skinni.

Oft er flagð undir fögru skinni (orðatiltæki)  Vísar til þess að útlitið getur blekkt; bæði hjá fólki og öðru.  Sja flagð er undir fögru skinni.  Eldri gerð er lítt þekkt í seinni tíð; „oft eru hvinn undir hvítu skinni“ (sjá hvinnskur).  Andstætt orðtak er oft er dyggð undir dökkum hárum.

Oft er (það) gott sem gamlir kveða (orðatiltæki)  Allajafna býr eldra fólk yfir mikilli reynslu/þekkingu sem hinum yngri væri gott að leita eftir og taka tillit til.  Töluvert notað í Kollsvík framá þennan dag.

Oft er í holti heyrandi nær (orðatiltæki)  Holt merkir skógur í þessu gamla máltæki, en það er stundum viðhaft til að minna á að tala ekki of hátt um það sem aðrir mega ekki heyra; hljóðbærara getur verið en ætlað er.

Oft er misjafn sauður í mörgu fé (orðatiltæki)  Vísar til þess að í stórum hópi manna er oftast einhver sem er óheiðarlegur eða á annan hátt úr takti við samfélagið.

Oft er nöpur náttgjólan (orðtatiltæki)  Vindur er jafnan kaldari að næturlagi, þar sem sól vermir ekki landið sem hann blæs yfir.  Notað í líkingum um t.d. kalt viðmót.

Oft er skammt milli hláturs og gráts (orðatiltæki)  Vísar til þess hve hamingja/gleði getur verið skammæ; hve tilfinningar geta verið fljótar að breytast.

Oft er skjól undir skafli (orðatiltæki)  Bókstafleg merking er auðskilin, en er stundum notað til að lýsa mikilvægi þess að eiga sér víst athvarf/ vísa aðstoð annarra.

Oft er tryggðin tármild (orðatiltæki)  Menn og dýr sakna gjarnan þeirra sem mikil tryggð er við.

Oft er það í koti karls sem kóngs er ekki í ranni (orðatiltæki)  Vísar til þess að hinn fátæki/ illa menntaði veit/veitir oft eða áorkar því sem hinn betur stæði veit/getur ekki.  Hefst stundum á „margt“ í stað „oft“.

Oft er þras á þingum (orðatiltæki)  Mikið er oft deilt og skeggrætt þar sem margir koma saman. 

Oft er/var þörf en nú er nauðsyn (orðtak)  Nú er mun brýnni þörf en nokkurntíma áður.

Oft fylgir böggull skammrifi (orðtak)  Sjá böggull fylgir skammrifi.

Oft fær kötturinn það sem kónginum var ætlað (orðatiltæki)  Speki varðandi það að stundum fær annar en upphaflega var ætlað. 

Oft hlotnast hundi það sem hjúum er ætlað (orðtatiltæki)  Viðhaft þegar eitthvað fer öðruvísi en ætlað er, og þá á þann hátt að annar hafi hag af því en til stóð.

Oft kemur góður þá getið er; illur þá um er rætt (svangur þá étið er) (orðatiltæki)  Mikið notuð og gegnsæ speki.  Gjarnan viðhaft þegar einhver kemur/birtist sem verið hafði í umræðunni stuttu áður.  Oftast heyrðist fyrsti hlutinn einn; stundum annar hlutinn með, en þriðji hlutinn sjaldan.

Oft kemur illur þá um er rætt (orðtak)  Gjarnan við haft þegar einhver birtist sem illa var talað um rétt áður.  Sjá oft kemur góður þá getið er.

Oft kemur óveður í endaðan þey (orðatiltæki)  Veðurkafli með hægum og mildum vindi endar oft í mun verra veðri, segir þjóðtrúin:  „Austanvindar endast oft með hreggi og þar af er komið máltækið; oft kemur óveður í endaðan þey“  “ (BH; Grasnytjar).

Oft kemur skin eftir skúr (orðatiltæki)  Sama speki og öll él birtir upp um síðir.

Oft leiðir langt kíf af lítilli þrætu (orðtak)  Smávægilegur ágreiningur getur spunnist upp í langvarandi og mikil illindi ef þverhausar eiga í hlut, og sáttavilji enginn.

Oft má satt kyrrt liggja (orðatiltæki)  Vísar til þess að ekki er alltaf viðeigandi að tala um vissa hluti, jafnvel þó sannleikur sé; stundum er betra að láta sumt ósagt, fremur en vekja með því óhug/sorg/reiði eða önnur slæm viðbrögð „Það má vel vera að honum hafi orðið á þessi mistök, en ég sé enga ástæðu til að rifja þau upp; oft má satt kyrrt liggja“!

Oft má vaskur víkja (þá vesæll skal ríkja) (orðatiltæki)  Sá sem er hæfur og hraustur verður oft að láta í minni pokann fyrir þeim sem er t.d. betur ættaður eða kemst í valdastöðu fyrir klókskap.  Gjarnan einungis notaður fyrriparturinn:  „Oft má vaskur víkja:  Ekkert líst mér á þennan nýja forsætisráðherra“.

Oft mælir fagurt sá sem flátt hyggur (orðatiltæki)  Vísar til þess að sumir eru undirförulir og tala mjúklega þó þeir hafi illt í huga.

Oft njóta hjú góðra gesta (orðatiltæki)  Jafnan er gert betur í mat þegar gesti ber að garði; einkum til sveita þegar gestakomur eru meiri viðburður en í þéttbýli.  Heimilisfólk nýtur þá að sjálfsögðu þess viðurgernings.  Annað orðtak heyrðist einnig: oft nýtur hundurinn herra síns.

Oft nýtur hundurinn herra síns (orðatiltæki)  Viðhaft þegar einhver húsbóndahollur; hundur eða maður, fær umbun fyrir að hafa verið herra sínum fylgispakur.  Má vel heimfæra á kjördæmapot þingmanna og fleira.

Oft og mörgum sinnum / Oft á tíðum / Oft og tíðum (orðtak)  Margsinnis; ítrekað; oft.  „Þetta hef ég oft og mörgum sinnum séð“.  „Það gerist oft og tíðum að flóð ná hingað upp“.

Oft ratast kjöftugum rétt/satt á munn (orðatiltæki)  Oft flýtur sannleikskorn með ef mikið er bullað.  „Það er yfirleitt ekki orð að marka þessa íhaldspésa, en oft ratast þó kjöftugum satt á munn, eins og þar stendur“.

Oft rís bára af bröttum grunni (orðatiltæki)  Speki sem lýsir reynslu sjómanna; bárur rísa gjarnan á yfirborði ofan grynninga og marbakka.  Glöggt dæmi um slíkt má sjá á Kollsvíkinni í þyngslasjó, þegar brýtur á boðum þó sléttur sjór sé annarsstaðar.  Þá var sagt um Snorralendingu, sem annars var talin neyðarlending, að hún væri varasöm þar sem bára rís gjarnan af bröttum marbakkanum.  Það varð manni að aldurtila árið 1904.  Notað sem líkingamál um það t.d. að ör maður þarf lítið til að æsa sig, eða þegar mikið er gert úr máli sem ekki sýnist stórvægilegt.

Oft sér greiði til greiða (orðatiltæki)  Sá sem gerir einhverjum greiða má oft vænta greiða/velvild hans á móti.

Oft sést það síst sem nefinu er næst (orðatiltæki)  Oft sér maður ekki það sem er við nefið á manni.  Einnig notað um það að maður á erfitt með að greina kosti/galla/misgjörðir síns sjálfs eða sinna nánustu.

Oft skjöplast skýrum (orðatiltæki)  Oft kemur fyrir að menn hafi rangt fyrir sér þó hann sé ágætlega greindur.

Oft tefur offlýtirinn (orðatiltæki)   Speki í sömu merkingu og ekki er flas til fagnaðar.  (Umræðuefni á fundi Umf Vestra 1919). 

Oft var þörf en nú er nauðsyn (orðatiltæki)  Viðhaft um það sem þykir nauðsynlegra en oftast áður. 

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að lítilfjörlegasta atriði getur oft ráðið úrslitum um málalok stærri mála.  Í bókstaflegri merkingu vísar þetta líklega til þess að lítil ójafna á vegi getur orðið til þess að maður/hestur dettur eða hjól fer undan vagni, þannig að flutningur steypist niður.

Oft verður góður hestur úr göldum/geldum fola (orðtatiltæki)  Speki sem yfirfæra má t.d. á mannfólk:  Oft rætist vel úr því barni á fullorðinsárum sem ekki er mannvænlegt á unglingsaldri.

Oft verður löng deila af litlu efni (orðatiltæki)  Ekki þarf alltaf mikið tilefni svo úr verði langvarandi misklíð.

Oft verður mikið bál af litlum neista (orðatiltæki)  Gegnsæ speki; notuð í ýmsum líkingum.

Oftaka sig (orðtak)  Ofreyna sig; reyna of mikið á sig.  „Vertu nú ekki að oftaka þig á þessu“.

Oftalið (l)  Meira talið en raunverulega er; of mikill fjöldi ætlaður.  „Það er engin aukakind; ég hafði oftalið í einum karminum“.

Oftar en ekki (orðtak)  Oftast; í flest skipti.  „Í Rauðasandshreppi er yfir þrjá fjallvegi að fara, sem gerir vetrarsamgöngur oftar en ekki erfiðar“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Oftari (l, mst)  Miðstig lýsingarorðsins „oft“ var stundum höfð þannig að i var bætt aftanvið það sem algengast er í dag.  „Að sjálfsögu var þessi vanalega fátækt fyrir hendi; sú sem oftari fylgdi þeim sem hófu búskap sem leiguliðar og áttu ekki til ríkra að telja, sem gætu veitt þeim aðstoð“  (AÍ; Árb.Barð 1980-90). 

Oftastnær (ao)  Oftast; vanalegast.  „Oftastnær voru kýrnar búnar að stilla sér upp á stöðlinum fyrir mjaltir“.

Oftelja (s)  Telja of mikið/margt; mistelja.  „Mér hættir alltaf frekar til að oftelja en vantelja í svona hópi“.

Oftlega (ao)  Oft; iðulega.  „Það kom oftlega fyrir að hæna lét sig hverfa, og lagðist þá á egg í einhverri holu til að unga út.  Stundum fannst hún ekki fyrr en hún kom með stóran ungahóp heim aftur“. „Oftlega gerðist það í róðri að hnísur komu að bátnum, einkum á siglingu“.

Oftnefndur (l)  Oft nefndur á nafn; margnefndur; títtnefndur.  „Hann er oftnefndur í þessari frásögn“.

Oftrú (n, kvk)  Of mikið traust; of mikil tiltrú.  „Ég held að menn hafi haft oftrú á þessari lækningaaðferð“.

Oftsagt (l)  Sagt mjög oft.  „Þetta er oftsögð speki sem enn er í fullu gildi“.

Ofurafl (n, hk)  Ofurefli; óviðráðanlegur kraftur.  „... að halda vörð um þá bresku þegna sem þarna höfðu látist í baráttunni við ofurafl storms og sjóa“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Ofurefli (n, hk)  Of mikill styrkleiki; óviðráðanlegur liðsmunur/aflsmunur.  „Ég sá strax að þarna var við ofurefli að etja og gaf glímuna“.

Ofurhugi (n, kk)  Glanni; sá sem telur sig vera færari en aðrir.  „Ég hef ekkert að gera með hetjur og ofurhuga í svona leiðangur; hér þarf að hafa reynda og gætna menn“.

Ofurhægt (l)  Mjög hægt/silalega; löturhægt.  „Við drógum ofurhægt meðan hann var að komast upp á brúnina“.

Ofurkapp (n, hk)  Mjög mikil áhersla/viðleitni.  „Við lögðum ofurkapp á að koma þurrheyinu í hlöðu fyrir rigninguna“.

Ofurlítill (l)  Mjög lítill/smávaxinn; pínulítill; svolítill.  „Í pollinum var ofurlítið hrognkelsaseyði“.

Ofurlúinn (l)  Útkeyrður; mjög lúinn.  „Hann var svo ofurlúinn eftir puðið að hann steinsofnaði“.

Ofurmannlegt (l)  Meira en vænta má af manni.  „Mér finnst það næstum ofurmannlegt að nokkur maður skuli hafa klifið þarna upp; það er hvorki hand- eða fótfestu að sjá og slútir heldur yfir sig, ef eitthvað er“!

Ofurmáta (ao)  Mjög; afar.  Notað til áhersluauka, sjá orðtök hér á eftir.

Ofurmáta eðlilegt (orðtak)  Mjög eðlilegt.  „Mér finnst það ofurmáta eðlilegt að hann hafi neitað þessu“.

Ofurmáta skiljanlegt (orðtak)  Mjög skiljanlegt.  „Honum þótti það ofurmáta skiljanlegt að henni hefði leiðst í borginni; það væri ekki nokkur staður til langdvalar“.

Ofurrólega (ao)  Mjög hægt/rólega/varlega.  „Ég læddist ofurrólega uppfyrir fjárhópinn“.

Ofurseldur (l)  Algerlega afhentur slæmum örlögum.  „Strandað skipið var ofurselt reginafli brimsins“.

Ofurvald (n, hk)  Mikið vald; ógn af valdi.  „Kotbændur máttu sín lítils gegn ofurvaldi höfðingja og kirkju“.

Ofurvarlega (ao)  Óskaplega varlega; undurhægt.  „Fari maður ofurvarlega, má strjúka kollunni á hreiðrinu“.

Ofvaxið skilningi (orðtak)  Skil ekki; get ekki skilið.  „Það er gjörsamlega ofvaxið mínum skilningi hvernig hann getur étið þessi ósköp af eggjum“.

Ofverk/ Ofvirki   (n, hk)  Um megn; of mikið verk.  „Það væri þeim nú varla ofverk að ganga almennilega frá hrífunum“!  „Þessir þingmenn gætu nú lagt fram tillögur í vegabótum hérna.  Það væri nú varla ofverkið þeirra“!

Ofviða (ao)  Ofverk; of erfitt; gengur of langt.  „Það er einum manni algerlega ofviða að draga marga fulla eggjakúta alla þessa löngu leið upp úr Stóðunum“.  „Taldi hann að framkvæmd þessa máls myndi ekki verða okkur ofviða“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Ofviðri (n, hk)  Snældubrjálað veður; aftakaveður.  „Kirkjan tókst á loft í ofviðrinu og fauk töluverðan spöl“.

Ofviti (n, kk)  Sá sem veit meira en aðrir menn; sá sem er óeðlilega fróður/vís.  „Ef hægt er að tala um ofvita, þá hlýtur það að eiga við hann“.

Ofvökva (s)  Vökva plöntu/gróðri of mikið.  „Mér hættir alltaf til, ýmist að ofvökva blómin eða drepa þau úr þurrki“.

Ofþakka (s)  Þakka of mikið/vel fyrir.  „Honum verður seint ofþakkað hans ómetanlega framlag“.

Ofþakkaður (l)  Of mikið/vel þakkaður.  „Svona vinargreiði verður seint ofþakkaður“!

Ofþorna (s)  Þorna of mikið; skrælna.  „Það er hætt við að sandsléttur fari að ofþorna í þessum þurrki“.

Ofþreyta (s)  Þreyta einhvern of mikið.  „Við skulum dóla hægt með féð yfir Breiðinn; það er ekki gott að ofþreyta þær hægfærustu svo þær gefist upp á leiðinni“.

Ofþreyta (n, kvk)  Ofreynsla; of mikil áreynsla/þreyta.  „Ég held að þetta sé ofþreyta en ekki pestin“.

Ofætlan (n, kvk)  Færast of mikið í fang; ætla sér um of.  „Þetta er ofætlan hverjum manni“.

Ofætlunarverk (n, hk)  Ofætlan; of mikið færst í fang.  „Ég held að það sé ekkert ofætlunarverk hjá okkur að klára að draga þessa átta strengi í dag“.

Og (ao)  Einnig; líka.  „Þá held ég og, að hann hafi átt þetta líka“.  „Honum varð lítið fyrir að sporðrenna átta múkkaeggjum; sem og tveimur brauðsneiðum og stóru mjólkurglasi“.  „Það var og“.

Og meira til (orðtak)  Meira í viðbót; framyfir.  „Þetta nægði til að fylla öll ílát, og meira til“.

Oggulítill (l)  Agnarlítill; pínulítill; agnarsmár; örlítill.  „Þú getur alveg étið oggulítinn hringorm“!  Nokkuð notað í Kollsvík.  Líklega myndað með hljóðbreytingu á aggalítill; sjá þar.

Ogsvo (ao)  Dönskusletta (også); einnig.  Einstaka sinnum notað í máli sumra Kollsvíkinga framá þennan dag; annarsvegar þegar bætt er við umræðu eftir nokkuð hik:  „Ogsvo þetta; að hann er ekki sérlega glúrinn í fjármálum“.  Hinsvegar í stakri áherslu- eða hiksetningu; „Það var ogsvo“.

Ojá / Ojájá / Ojú / Ojújú / Ojæja (uh)  Upphrópanir sem þó eru eins langt frá því að vera upphrópanir og hugsast getur.  Öl þessi orð eru jafnan notuð í mesta hæglæti, til að svara játandi og með gætni; oft með langdregnu o, en stundum með langdreginni áherslu á seinni lið eða miðlið.  Oft er lögð áhersla á tóntegundina, og þannig getur orðið lýst fyrirlitningu, hneykslun, undrun, mæðu eða einungis hiki

Ojæja (u)  Hikorð eða innihaldslaust andsvar. „Gleymdi hann nestinu?  Ojæja; hann verður fljótlega kominn eins og byssubrenndur til aðsækja það; sannaðu bara til“!

Oki (n, kk)  A.  Slá til að taka við átaki hlutar.  B.  Klampi/fjöl/stafur sem er festur þvert á aðra hluta smíðisgripar, t.d. hliðgrindar eða meiss, til að halda þeim saman.   Sjá skáoki.

Okkar á milli (að segja) (orðtak)  Sem enginn má vita nema við tveir.

Okkur (n, hk)  Leirduft/leirsteinn sem inniheldur járnoxíð og er gulbrúnt eða stundum rauðleitt eða fjólublátt að lit.  Okkur var fyrsta litarefni sem menn notuðu, eftir því sem næst verður komist, en með því eru máluð hin víðfrægu hellamálverk frá steinöld. 

Okra (s)  Selja á of miklu verði; græða óhóflega á sölu.  „Láttu hann ekki okra á þér með bílhræið“.

Okrari (n, kk)  Sá sem okrar.  Gníari var jafnvel meira notað um slíka menn af Kollsvíkingum.

Október (n, kk)  Tíundi mánuður ársins núna, en var sá tíundi á dögum rómaveldis.  Okto er átta á latínu.

Okurgjald / Okurleiga / Okurprís / Okurverð (n, kk/hk)  Alltof/hóflega hátt verð.  „Þvílíkir okurprísar eru orðnir á bensíninu“!

Olía (n, kvk)  Samheiti yfir margskonar lög, sem oftastnær er byggður af kolvetnasameindum; blandast ekki vatni og er léttari en vatn.  Orðið er núna mest notað um olíu sem notuð er á vélar, annaðhvort sem eldsneyti eða smurningur.  Hráolía er unnin úr jarðolíu, en hún kemur úr olíuríkum jarðlögum og er í raun jurtaolía frá forsögulegum tímum.  Matarolíu hafa menn unnið mjög lengi úr jurtum, enda er orðið olía samstofna við orðið olífa.  Langt er einnig síðan menn komust upp á lagið með að vinna dýraolíu eða lýsi úr lifur. 

Oíublautur (l)  Ataður olíu; með olíu á/í sér.  „Olíublautir sjófuglar berast iðulega upp á fjörur í Kollsvík.  Þeirra bíður vanalega ekkert nema dauðinn.  Þó voru þeir ófáir sem Didda á Láganúpi tók upp á sína arma; hlynnti þeim og fóðraði þar til þeir höfðu jafnað sig“.

Olíubrennari / Olíufíring (n, kk)  Tæki til að brenna olíu; oftast notað um hluta kynditækja.  Olíubrennarar voru settir í margar kolaeldavélar um miðja 20.öld, og þannig var gamla Láganúpshúsið kynt með olíukyntri kolaeldavél og vatnsmiðstöð síðari hluta þeirrar aldar.

Olíubrúsi / Olíudunkur (n, kk)  Brúsi/dunkur sem olía er eða hefur verið höfð í.  Smurolía á vélar var oftast keypt á fjögurra gallona köntuðum blikkbrúsum síðla á 20.öld.  Þeir voru síðan nýttir á ýmsan hátt, t.d. undir varabirgðir af bensíni þegar farið var í róður eða af börnum til bátasmíða.

Olíufat (n, hk)  Olíutunna.  Oftast var átt við 150 l tunnu áðurfyrr, en nú er olíufat viðmiðun á heimsmarkaði olíu, og merkir 159 lítra.  „Þannig átti Erlendur Kristjánsson á Látrum stundum 16 olíuföt með söltuðum fugli“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Olíuhaldari (n, kk)  Ílát og undirstaða olíulampa; byða fyrir lampaolíu.  „Svo smíðaði hann pabbi olíulampa úr kopar, og ég á enn tvo af þeim.  hann keypti á þá kransana sem glösin stóðu í , en kveikti saman olíuhaldarann og grind til að hengja hann upp“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Olíukálfur (n, kk)  Olíutankur á hjólum og með beisli til að festa aftaní ökutæki. 

Olíulampi (n, kk)  Lampi til lýsingar sem brennir olíu.  „Ljós voru þá lýsislampar; eða þar til ég varð 10 ára.  Fyrsti olíulampinn mun hafa komið í Kollsvíkina um aldamótin (1900) “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn  HM).  

Olíulugt (n, kvk)  Handlugt til lýsingar, með steinolíu fyrir eldsneyti og kveik í glerhólk.  „Olíulugtir voru oftast notaðar hjá hænsnunum...  Þegar ég man fyrst var notuð heimasmíðuð lugt, sem var nokkurskonar kassi með gleri í hliðum og týru til birtugjafar.  Týran var úr blekbyttu með korktappa, en í gegnum tappann var mjó málmpípa.  Gegnum pípuna kom bómullarkveikur; olía var sett í byttuna og svo var um að gera að hafa kveikinn mátulega mikið upp úr pípunni svo ekki ósaði.  ein hlið lugtarinnar var með renniloki svo hantera mætti týruna.  Lítill rammi var í botni lugtarinnar sem passaði utanmeð týrunni, svo hún haggaðist ekki ef hún var borin í hendi“   (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Olíustakkur (n, kk)  Sjóstakkur; regnstakkur.  Olíustakkar voru notaðir í Kollsvíkurveri eftir að þeir urðu almennir, og leystu þá af hólmi kinnklæðin sem hlíft höfðu sjómönnum um aldir.  Með stökkunum notuðu menn barðastóra sjóhatta, bundna undir kverk; sjóvettlinga og klofstígvél.

Olnboga sig áfram (orðtak)  Ryðja sér leið; ýta öðrum úr vegi.  „Ég þurfti að olnboga mig áfram til að komast að sviðinu“.

Olnbogabarn (n, hk)  Barn sem haft er útundan á heimili sínu eða annarsstaðar; barn sem lagt er í einelti. Forliðurinn vísar til þess að barninu sé olnbogað/ýtt frá: að það sé óvelkomið. Nú hefur orðskrípið „eineltisbarn“ verið tekið upp í stað olnbogabarns. 

Olnbogabót (n, kvk)  A.  Krikinn innanvert á milli fram- og upphandleggs.  B.  Bót/leppur sem sett er á gat sem myndast hefur á olnbogagat fatnaðar.

Olnbogaskot (n, hk)  Það að reka olnboga í næsta mann til að gera honum viðvart.  „Hún gaf karlinum olnbogaskot öðru hvoru, þegar hann var við það að sofna undir stólræðu prestsins“.

Olnbogi (n, kk)  Ölnbogi; liðurinn milli fram- og upphandleggs.  Oft er einungis átt við kúluna á utanverðum liðnum; olbogakúluna.  Upprunalegt heiti er ölnbogi, komið af öln er fornt nafn á framhandlegg, og af því dregin mælieiningin alin.

Opið fyrir veðri og vindum (orðtak)  Um hús/byggingu; óþétt; galopið.  „Hlerarnir höfðu fokið frá hlöðunni svo hún var opin fyrir veðri og vindum“.

Opinbera (s)  A.  Skýra/segja frá opinberlega.  „Ég veigraði mér við að opinbera fávisku mína á þessu sviði, og tók því þann kost að þegja“.  B.  Um kærustupar; segja opinberlega frá gagnkvæmum tilfinningum.

Opinmynntur (l)  Með opinn munn.  „Við strákarnir sátum dolfallnir og hlustuðum opinmynntir á lygasögur Arinbjarnar um marsbúana sem höfðu falið hausa sína í hrossastráum til að þeim yrði ekki stolið meðan þeir skoðuðu sig um í Kollsvíkinni.  Síðan þusti allt liðið niður á Fit að leita“.

Opinn bátur (orðtak)  Bátur sem ekki er með þilfari, og því berskjaldaðri fyrir ágjöf en dekkbátur.

Opinn eldur (orðtak)  Óvarinn eldur; eldur sem ekki er í lukt, peru eða öðru skjóli.  „Þið farið ekki með opinn eld inn í hlöðuna“!

Opinskár (l)  Hreinskilinn; dylur ekki.  „Hann talaði opinskátt um þetta mál við mig“.

Opinskárlega (ao)  Á opinskáan hátt; hreinskilnislega.  „Það er stundum betra að tala opinskárlega um svona hluti en byrgja þá inni“.

Opna (n, kvk)  Staður milli blaða í bók/blaði; opið rit.  „Ég sá þetta í frétt á annarri opnu í Tímanum“.

Opna augu einhvers fyrir (orðtak)  Leiða einhverjum fyrir sjónir/ í ljós; sýna einhverjum.  „Þetta slys opnaði augu manna fyrir nauðsyn þess að hafa björgunarbúnað tiltækan og nálægan“.

Opna upp á gátt (orðtak)  Opna alveg (t.d. dyr eða glugga).  „Ég opnaði dyrnar á reykkofanum upp á gátt til að reyna að sjá handaskil þar inni“.

Ordrur (n, kvk, fto)  Fyrirmæli; skipanir.  „Hann sagðist hafa fortakslausar ordrur um að hefla ekki lengra en að Gjögrum.  Það er alltaf sama sagan með þessa Vegagerð“!

Orð að sönnu (orðatiltæki)  Alveg satt; sannleikur.  „Kannski verða það orð að sönnu hjá spámanninum...“.

Orð á gerandi (orðtak)  Er þess vert að minnast á; frásagnarvert; markvert.  „Það skeði ekkert í ferðinni sem orð er á gerandi“.

Orð eru til alls fyrst (orðatiltæki)  Máltæki sem minnir á að góðar uppástungur geta orðið vísir að þörfum framkvæmdum; einnig að velheppnað verk hefst á góðri skiplagningu.  Hugsanlega biblíutilvitnun; „Í upphafi var orðið…“.

Orð í eyra (orðtak)  Skammir; ávítur.  „Sá skal fá orð í eyra þegar ég hitti hann næst“! Sjá fá orð í eyra.

Orð í tíma töluð (orðtak)  Um það sem þörf er á að sagt sé.  „Sumum fannst þessar umvandanir ekki við hæfi, en mér fannst þetta orð í tíma töluð“.

Orð og efndir (orðtak)  Um efndir á loforðum.  „Ekki er sama, orð og efndir“.  Sitt er hvað orð og efndir“.  „Hjá honum fara nú ekki alltaf saman orð og efndir“.

Orð skulu standa (orðatiltæki)  Menn skulu efna sín heit/ sína samninga; það verður ekki aftur tekið sem sagt hefur verið.

Orða (s)  A.  Færa (hugsun) í orð/talmálsbúning.  „Nú misskilurðu mig; ég ætti kannski að orða þetta öðruvísi“.  B.  Nefna; minnast á.  „Þetta var orðað svona í mín eyru; meira veit ég ekki“.

Orða vant (orðtak)  Skortir orð; eiga ekki til orð; orðlaus.  „Ég varð svo hissa að mér var gjörsamlega orða vant í fyrstu“.  „Honum varð ekki orða vant í þetta skiptið, fremur en endranær“.

Orða við (orðtak)  A.  Nefna við; viðra við; færa í tal við; tala utanað við; brúa á.  „Þú skalt orða þetta við hann föður þinn og sjá hvernig hann tekur í það“. „Ég orðaði þetta aðeins við hann, og hann tók því ekki fjarri“.   B.  Tengja einhvern við í frásögn.  „Hann hefur dálítið verið orðaður við forsetaframboð“.

Orðabelgur (n, kk)  Málgefin manneskja; blaðurskjóða.  „Ég tek nú lítið mark á þeim orðabelg“!

Orðafátækt (n, kvk)  Skortur á tiltækum orðum.  „Mestallt tal manna nú á dögum, bæði munnlegt og skriflegt, einkennist af sorglegri orðafátækt; sé miðað við það sem gerðist fyrir fáum áratugum“.

Orðaflækja (n, kvk)  Málskrúð; flókin/óhöndugleg frásögn.  „Það er óþarfi að hafa um þetta einhverjar orðaflækjur; við skulum bara segja þetta hreint út“!

Orðaforði (n, kk)  Það úrval orða sem maður býr yfir til að orða frásögn sem skiljanlegast.  „Eins og sést af þessu yfirliti var orðaforði Kollsvíkinga og þeirra nágranna all drjúgur“.

Orðagjálfur / Orðaglamur / Orðaglingur / Orðahjal (n, hk)  Innantómt tal; bull; skvaldur.  „Þetta var mestmegnis orðagjálfur um ekki neitt“.  „Mér leiðist svona orðaglamur; skyldu menn ekkert læra í þessum háskólum“?!  „Þetta er nú bara orðahjal sem ekkert mark er á takandi“.

Orðahnippingar (n, kvk, fto)  Orðaskak; vægar deilur; meiningarmunur; orðaskipti.  „Þessi orðaskipti höfðu nú vakið athygli þeirra sem næst stóðu, og þar sem allt benti til að þetta væri upphafið að skemmtilegum orðahnippingum þá þyrptust nú flestir réttarmenn að þeim félögum“  (PG; Veðmálið). 

Orðalag (n, hk)  Sá háttur sem orðum er raðað saman í máli; framsetning máls.  „Þetta er skrýtið orðalag“.

Orðaleppar (n, kk, fto)  Orðskrípi; orðatiltæki; orðhengilsháttur; skammir.  „Hann hafði uppi einhverja orðaleppa um frammistöðu hreppsnefndarinnar og yfirgaf svo fundinn“.

Orðasafn / Orðaskrá (n, hk)  Safn orða, oft með skýringum; orðabók; orðasjóður.  „Þetta orðasafn er einungis yfilit yfir sumt af því sem Kollsvíkingar ræddu sín á milli og við granna sína, en alls ekki tæmandi um þeirra málfar.  Enda hefur höfundurinn einungis sína sýn á málfarið, bæði í stað og tíma, auk örfárra heimilda“.

Orðasenna (n, kvk)  Rifrildi; deila.  „Sló í orðasennu milli þeirra út af þessu.  neitaði Einar harðlega að láta laust neitt af því er hann hafði handfest“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Orðasjóður (n, hk)  Orðaforði; orðasafn; tiltæk orð; áunninn málkunnátta, oft mjög staðbundin fyrrum.

Orðaskak (n, hk)  Rifrildi; deilur; karp ; orðahnippingar.  „Það varð af þessu nokkuð orðaskak þeirra í milli“.

Orðaskil (n, hk)  Bil á milli orða; einstök orð.  „Ég heyrði samtalið álengdar, en greindi ekki orðaskil“.

Orðaskipti (n, hk)  Samtal; rifrildi.  „Þessi orðaskipti höfðu nú vakið athygli þeirra sem næst stóðu“  (PG; Veðmálið). 

Orðastaður (n, kk)  Viðræða deila.  Eingöngu notað nútildags í orðtökum; eiga orðastað við einhvern; í orðastað einhvers.

Orðatiltæki (n, hk)  Máltæki; málsháttur; speki.  Orðatiltæki er í þessu orðasafni notað yfir það sem sumir skilgreina sem málshátt/máltæki.  Oftast er það setning, svipuð að lengd og ljóðlína í kvæði og, líkt og hún,  með kveðum, hljómfalli og stuðlum.  Undantekningarlítið lýsir orðatiltækið speki/heilræði sem byggir á reynslu.  Hinsvegar er orðtak í þessu safni notað yfir ákveðna samsetningu orða; tiltekið orðalag, sem alltaf er/var notað á sama hátt líkt og um eitt orð væri að ræða.  Það lýtur ekki sömu bragfræðilegu lögmálum og fullskapað orðatiltæki, en er stundum hluti orðatiltækis.

Orðavaðall (n, kk)  Kjaftæði; málæði; bull; innantómt raus.  „Skelfing finnst mér þetta innantómur orðavaðall“!

Orðaval (n, hk)  Val á orðum; orðalag.  „Þú þarft að vera gætinn í orðavali um svona viðkvæm mál“.

Orðfall (n, hk)  Skorta orð; mállaus.  „Mér varð bara orðfall af undrun“.

Orðfæri (n, hk)  Notkun orðanna í málinu og þekking á orðum.  Hluti málfæris.  „Hann hafði hljómmikla rödd og magnað orðfæri“.  „Orðfæri manna var mun auðugra fyrr á tíð en nú er“.

Orðhákur (n, kk)  Kjaftaskur; bullukollur.  „Hann er skelfilegur orðhákur þegar hann er í ham“.

Orðheldinn (l)  Efnir sín loforð; sannorður.  „Engan veit ég orðheldari mann en hann“.

Orðheldni (n, kvk)  Efndir á loforðum; áhersla á að standa við það sem lofað/sagt er.

Orðhengilsháttur (n, kk)  Orðskrípi; markleysa.  „Þetta var nú bara orðhengilsháttur og ekkert að marka“.

Orðheppinn (l)  Laginn að koma orðum að því sem segja skal; talar gott mál.  „Hún var einstaklega orðheppin“.

Orðhittinn (l)  Fundvís á rétt orð til að lýsa því sem þarf; með góða tilfinningu fyrir málfari.

Orðhvass / Orðhvatur (l)  Mikill skapmaður/orðhákur; stóryrtur.  „Að jafnaði var hann rólyndismaður en gat verið orðhvatur þegar hann reiddist“. 

Orðið er laust (orðtak)  Viðhaft á fundum af fundarstjóra, þegar hann gefur fundargestum tækifæri til að tjá sig.

Orðið fátt um fína drætti (orðtak)  Lítið fæst; fiskirí orðið tregt.  „Ansi er farið að lækka í neftóbaksdósinni; þar fer að verða fátt um fína drætti“.

Orðið framorðið (orðtak)  Orðið áliðið kvölds; komið framá.  „Ansi er orðið framorðið; ég set vélina í gang“.

Orðin tóm (orðtak)  Innantóm orð; innihaldslaus loforð/fyrirheit.  „Þeir segja nú svo margt í kosningabaráttunni sem síðan reynist ekkert nema orðin tóm“!

Orðinn langeygur eftir (orðtak)  Farið að lengja eftir; búinn að bíða mikið eftir; sakna.  „Maður er nú farinn að verða langeygur eftir að ríkisstjórnin efni sín fyrirheit“.

Orðinu halla (orðtak)  Segja neikvætt; lasta.  „Það má ekki orðinu halla í garð þessa stórvinar hans“!

Orðklápur (n, kk)  Sá sem talar glæfralega/ er grófur í tali; orðhákur; kjaftaskur. 

Orðkynngi (n, kvk)  Magnaður/mikill orðaforði; það að búa yfir miklum orðaforða.  Einkum notað um góða ræðumenn eða skáld.

Orðlagður (l) Frægur; þekktur.  „Hann var orðlagður fyrir sína málsnilld og færni sem ræðumaður“.

Orðlaus (l)  Á ekki til orð; er mállaus; getur ekkert sagt.  „Ég varð orðlaus af undrun“.

Orðlengja (s)  Hafa langt/mikið mál um; vera langorður um.  „Er nú ekki að orðlengja þessa sögu; nema ég náði þarna að hrekja fjörulallann niður í flæðarmálið og hann hvarf á haf út“.

Orðljótur (l)  Blótar mikið; óvæginn í orðum.  „Æstust leikar á fundinum og sumir gerðust helsti orðljótir“.

Orðmargur (l)  Talar mikið um; segir mikið.  „Hann var aldrei orðmargur um þennan atburð“.

Orðrétt (l)  Eins og sagt/skrifað er/var; eftir orðanna hljóðan.  „Ég er ekki að bæta neinu við; hann sagði þetta orðrétt svona“.

Orðrómur (n, kk)  Kvis; slúður; sögusagnir.  „Einnig gat hann um þann orðróm sem gengið hefur um að fresta ætti þessum framkvæmdum“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Orðsending (n, kvk)  Boð; skilaboð.  „Ég fékk orðsendingu frá honum þessa efnis“.

Orðsnilld (n, kvk)  Málsnilld; mjög gott vald á málinu; lagni við að orða vel sína meiningu.

Orðstír (n, kk)  Frægð; orðspor.  „Deyr fé/ deyja frændur;/ deyr sjálfur it sama./  En orstír/ deyr aldregi/ hvem es sér góðan getur“ (Hávamál).

Orðtak (n, hk)  Tvö eða fleiri orð sem einatt eru sögð í einu, í sömu röð og sömu meiningu, sem eitt orð væri.  Orðtak er þannig skylt orðatiltæki/máltæki/málshætti, en er ekki sjálfstæð setning og hefur ekki sama bragfræðilega yfirbragð (sjá orðatiltæki).  Orðtak er stundum hluti af orðatiltæki.

Orðum aukið (orðtak)  Ýkt; ekki alveg sannleikanum samkvæmt.  „Eitthvað held ég að aflinn hjá þeim sé orðum aukinn“.

Orðum fylgir ábyrgð (orðatiltæki)  Mikill sannleikur sem þó er sjaldan rifjaður upp a seinni tímum.  Skipti sköpum fyrr á tíð, þegar orð og handsal þóttu jafn trygg sem skriflegur samningur.

Orðvana (l)  Mállaus; gat ekki talað; átti ekki orð.  „Mér brá svo við þessi tíðindi að ég var alveg orðvana“.

Orðvar (l)  Talar af gætni; gætir orða sinna; fámáll.  „Hann var orðvar um það sem gerst hafði“.

Orétt (l)  Andsvar þess sem tekur undir/samþykkir það sem sagt var; með áherslu á o.  Líklega samruni orðanna „og það er rétt“.  Nokkuð algengt viðkvæði í Rauðasandshreppi á síðari hluta 20. aldar; ýmist stakt eða í upphafi frekara andsvars.

Orf (n, hk)  Amboð sem notað var um aldir til að slá gras.  Orf hafa verið af margvíslegum gerðum gegnum tíðina, en í Rauðasandshreppi og víðar voru þau svipuð að gerð þegar notkun þeirra lagðist að mestu af á 20. öld.  Hlutar orfs eru; orffjöl og hæll sem haldið er um; ljár og hólkar (2) til að festa hann.  Í seinni tíð voru hólkar úr járni, en fyrrum var ljá fest með þvengjum/ljáböndum.  Að taka ljá úr orfi hét að slá úr.  Mikilvægi orfa minnkaði mikið með tilkomu sláttuvéla.  Í Kollsvík kom fyrsta dráttarvélin árið 1944, og með henni hófst vélasláttur.  Fá tún voru véltæk í byrjun og því var orfið áfram mikilvægt fyrstu árin.  Eftir stórfellda framræslu á 6. og 7. áratugnum missti það alveg sitt mikilvægi.  „Guðbjartur afi á Láganúpi lét þó ekki í minni pokann í þessu fremur en öðru.  Hann alla tíð ofsjónum yfir því hve mikið láttuvélar skildu eftir af slægjum í dældum og toppum, og gekk því gjarnan á eftir traktornum og sló betur með orfinu sínu.  Hann hélt einnig sínum vanalegu víglínum sem sláttuvélarvesöldin náði ekki til; svo sem Urðunum, Túnbrekkunni og Sláttumýrunum.  Þar goggaði gamli maðurinn öll sumur meðan kraftarnir entust og fékk okkur strákana til að bera grasið í föngum niður á þurrkvellina.  Hann var listamaður við slátt eins og önnur búverk; skárarnir jafnir og reglulegir; bitið í ljánum lygilegt og aldrei man ég eftir að slegið væri í stein eða þúfu.  Þar sem það var unnt sló hann í múga; þannig að ekki sást eitt einasta strá í skárunum.  Enn heyri ég í huganum suðið í ljá á hverfisteini; taktfastan slátt brýnisins við eggina og silfurtæran söng ljásins í slægjunni, en innámilli einstaka tóbakssnýtu gamla mannsins.  “  (VÖ).

Orffjöl (n, kvk)  Sá hluti orfs sem haldið er um efri hönd (vinstri hönd hjá rétthendum) þegar slegið er.  Orffjölin er vanalega breiðari þar sem hún er felld í orfið, en mjókkar í annan jaðarinn frá því.  Á einstaka orfi var grópað handfang þversum yst á orffjölina, en annars var haldið um fjalarendann þegar slegið var. „Stakk hann efri enda orfsins upp að orffjöl upp í rassgatið á nautinu og þannig stýrði hann því að drullupytti sem var í nágrenninu“ (TÓ; upptaka á Íslmús 1978)

Organistahella (n, kvk)  Grjóthella sem Helgi Árnason, þá organisti Breiðavíkurkirkju, notaði til að hækka sig í sæti.  „Það var áletraður kassi utan um grágrýtishellu sem organisti kirkjunnar til fjölda ára hafði í kirkjunni til að hækka sig í sessi, en hann var lágvaxinn“  (SG; Kirkjur; Þjhd.Þjms).

Orfhólkur (n kk)  Hólkur úr járni fremst á orfi, sem ljánum er fest með.  Fyrrum tíðkuðust skinnþvengir í stað hólka, en sérstaka lagni þurfti til að þeir héldu til lengdar.

Orfhæll (n, kk)  Handfang á orfi, sem haldið er um þegar slegið er.  Oft var í Kollsvík talað um einn orfhæl, en efri hællinn nefndur orffjöl (sjá þar).

Org (n, hk)  Grenjur; öskur; óp; garg.  „Han rak upp mikið org þegar hann hélt að steinninn stefndi á sig“.

Orga (s)  A.  Um barn; skæla; gráta.  „Nú er stubburinn vaknaður og farinn að orga“.  „Ég man að ég fór að orga þegar ég kom út í bátinn og var mjög hræddur“  (ÖG; glefsur og fyrsta sjóferðin).  B.  Æpa; kalla hátt.

Organisti (n, kk)  Sá sem spilar á orgel.

Orgínal (l)  Upprunalegur; í frumgerð.  „Það er ekki að furða þó orgínal dekkin séu orðin slitin á traktornum“.

Orka (s)  Geta; hafa orku/kraft til.  „Ég var svo uppgefinn eftir hlaupin að ég orkaði ekki strax að draga lambið uppúr forinni“.  „Hann óð eins og hann orkaði, þá var hann bara kominn í axlir, og hrópaði í mig að henda tauginni til sín... “  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Orka (n, kvk)  Afl; eiginleiki sem framkallað getur vinnu/hreyfingu/hita o.fl.  „Fyrr á tímum voru Kollsvíkingar ekki háðir aðkeyptri orku, eins og nú er.  Þeir nýttu sína eigin krafta eða hesta sína til vinnu; tóku upp mó og söfnuðu rekaviði til hitunar; reru sjálfir bátum sínum eða nýttu vindorku í segl; og nýttu sjávarfallaorku til að létta róður á mið.  Í dag er Kollsvíkingur leiðandi meðal Íslendinga um nýtingu sjávarfallaorku“.

Orka tvímælis (orðtak)  Leiða annaðhvort til góðs eða ills.  „Það getur nú orkað tvímælis að leggja of snemma“.

Orkan (l)  Firna; heljarmikill.  „Mikið orkan fífl geturðu verið“!   „Það er orkan stórt, þetta skemmtiferðaskip“.

Orkanáhlaup / Orkanhvellur / Orkanstórviðri (n, hk, kk)  Fárviðri; mikið óveður.  „Það gerði orkanhvell um jólaleytið“.  „Það var ekki að furða þó einhverjar þakplötur fykju í þessu orkanstórviðri“.

Orkansmikill (l)  Mjög stór/umfangsmikill.  „Þetta er orkansmikill jeppi“. 

Orkar tvímælis (orðtak)  Gagnrýnivert; vafa undirorpið.   „Slík aðgerð hlýtur að orka mjög tvímælis“.

Orkubolti (n, kk)  Kraftmikill/duglegur/öflugur maður.  „hann er alveg magnaður orkubolti“!

Orkulaus / Orkulítill (l)  Kraftlaus; getulítill; úthaldslítill.  „Maður er hálf orkulaus eftir þessi átök“.

Orlof (n, hk)  A.  Frí frá störfum.  B.  Leyfi til að gera; orð/beiðni um.  „Ég gaf honum ekkert orlof til að hreyfa við þessu“!  „Hann sagðist gera þetta í orlofi sinna húsbænda“.  Orðið er ekki sýnilegt í orðabókum í þessari merkingu, en var notað þannig af sumum í Rauðasandshreppi frameftir 20.öld.  Orðstofninn er „orðlof“ (loforð); stofnskylt þýsku; „urlaub“.

Ormabæli (n, hk)  A.  Ormaveita; staður með miklu af maðki/ormum, s.s. rotnandi hræ.  B.  Líkingamál um stað þar sem spilling eða önnur óáran af mannavöldum er talin ríkja.  „Best er að koma ekki nærri því ormabæli“.

Ormafiskur (n, kk)  Hárafiskur / ormaveita; fiskur sem undirlagður er af hringormi.  „Ég hendi nú þessum ormafiski“.

Ormagryfja (n, kvk)  Óþverramál; samansafn vandræðamála/haturs; pandóruaskja.  „Ég held að mörgum brygði við sem sæi ofan í þá ormagryfju“.

Ormalyf / Ormameðal (n, hk)  Lyf sem gefið er búpeningi og gæludýrum gegn iðraormum.  Ormalyf sauðfjár var í töfluformi áður, og gefið inn með ormalyfsbyssu, en nú í vökvaformi og gefið inn með sérstakri dælu.

Ormalyfsbyssa (n, kvk)  Síðari tíma orð; inngjafarbyssa; áhald til að koma ormalyfi ofaní kind.  Töflunni, sem var ílöng, sívöl, ca 1“ löng, var komið fyrir fremst í grönnu plaströri sem síðan var rennt aftur fyrir tungurætur kindarinnar.  Töflunni var ýtt úr með teini í rörinu.  Síðar komu til dælur til að gefa inn ormalyf í fljótandi formi.

Ormapest / Ormar / Ormaveiki (n, kvk/ kk, fto)  Veiki í sauðfé sem stafar af iðraormum.  „Ormaveiki í sauðfé hefur oft gert mikinn usla hér á landi.  Iðraormar valda skitupest sem magnast þegar fé er illa fóðrað.  Þegar ormalyf kom fyrst til sögunnar, eftir 1930, skipti mjög um til hins betra með heilsufar á sauðfé.  Lungnaormar valda líka vanþrifum í sauðfé og ormalyf eru líka notuð gegn þeim“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).  Ormalyf voru áður gefin fullorðnum kindum í uppleystu formi, og þá hellt ofan í það úr lítilli glerflösku.  Síðar komu til lyf í töfluformi.  Aflangar töflur voru gefnar kindum með sérstökum ormalyfsbyssum.  Í seinni tíð mun ormalyf aftur vera gefið í fljótandi formi og nú með byssum sem henta í það.  „Ormaveikin hefur gjört vart við sig á stöku bæjum.. Ennfremur lystarleysi í ám og lömbum, þó orma hafi ekki orðið vart hjá þeim hinum sömu.  Með innsprautingu hefur tekist að ráða bót á þessu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Ormaveita (n, kvk)  A.  Fiskur eða annað með iðandi hvítmaðki.  B.  Fiskur með miklu af hringormi; hárafiskur; hringormafiskur.

Ormapoki (n, kk)  Húðpoki sem myndast neðan á kjálkum kindar sem er illa haldin af ormaveiki.

Ormétið (l)  Um tré/við; maðkétið; maðksmogið; mjög gatað af maðki.  „Staurinn var fúinn og ormétinn“.

Ormur (n, kk)  A.  Maðkur; stór flokkur lindýra.  B.  Líkingamál; óþekkur strákur; viðsjáll maður.

Orna (s)  Hita; hitna.  A.  Um það að hlýja sér:  „Mikið er nú gott að orna sér hérna við eldavélina eftir slarkið“.  B.  Um það þegar hitnar í heyi í hlöðu þegar það er hirt linþurrt.  „Heyið hefur ornað verulega í efri hlöðunni, og er sumsstaðar kolað.  Hér hefur legið nærri íkveikju“.  C.  Um fisk; sólbakast; hitna um of, þannig að hann verður linur.  „Hengdu rauðmagann innarlega í reykkofanum svo hann orni ekki“.

Orna sér (orðtak)  Hlýja sér; fá í sig hlýju/yl.  „Mikið er gott að orna sér við eldavélina í þessu veðri“.

Ornað hey (orðtak)  Hey sem náð hefur að orna.  „Það er mun minni næring í heyinu svona ornuðu“.

Orpinn (l)  A.  Hulinn/næstum hulinn af sandi/jarðvegi.  „Girðingin er nú svo sandi orpin að lítið stendur uppúr.  B.  Um fugl; verptur; búinn að verpa.  „Kollsvíkingr orðuðu það þannig í seinni tíl að fugl væri orpinn, en stundum að hann væri verptur, og kann það að vera eldri beyging“.

Orrahríð (n, kvk)  Stríð; orrusta; heiftarlegt rifrildi.  „Eftir þessa orðahríð sló nokkurri þögn á viðstadda“.

Orrustugnýr (n, kk)  Hávaði frá stríði/stríðsvélum.  „Pabbi sagði að í seinni heimsstyrjöldi hefði einstaka sinnum mátt heyra orrustugnýinn; líklega sprengingar þegar þjóðverjar gerðu árásir á skipalestir.  Til dæmis hefðu þeir bræður heyrt dyn af sprengingunni í Hood þegar honum var sökkt af Bismarck, þó í fjarlægð væri, en þeir voru þá í róðri frammi á Kollsvíkinni“ (VÖ).

Orsaka (s)  Leiða til; verða valdandi.  „Ég átta mig bara ekki á því hvað hefur getað orsakað lekann í bátnum“.

Orsakast af (orðtak)  Leiða af; eiga skýringu í.  „Kýr eru einnig vanfóðraðar í Kirkjuhvammi, sem orsakast af átleysi, sem áður fyr eftir óþurrkasumur“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932).   

Orsök (n, kvk)  Ástæða; það sem veldur; uppruni atviks/atburðarásar.  „Einhver orsök er fyrir þessu“.

Ort (n, hk)  Gjaldmiðilseining; sjá ríkisort.

Ostur / Ostbiti / Ostsneið / Oststykki  Ostur var mikið notaður í Kollsvík sem annarsstaðar.  Fyrr á tíð var hann heimagerður, en í tíð orðasafnara var hann aðkeyptur og hann því lítt í stöðu til að lýsa verkunaraðferðum.

Ota (s)  Trana fram; ógna með.  Oftast um ógnanir.  „Vertu ekki að ota hnífnum framaní fólk“!

Ota sínum tota (orðtak)  Vilja koma sínu fram; skara eld að sinni köku.  „Það reynir hver að ota sínum tota í pólitíkinni“.  Toti er gamalt heiti á trýni.

Óaðfinnanlega (ao)  Sem ekki er hægt að setja út á; mjög vel.  „Hann leysi þetta verkefni óðaðfinnanlega“.

Óaðgengilegur (l)  A.  Á slæmum stað; erfitt að komas/ganga að.  Kassinn er fremur óaðgengilegur þarna á bakvið staflann“. B.  Óásættanlegur.  „Mér finnst þetta atriði samningsins alveg óaðgengilegt“.

Óa (s)  Hræðast; finnast sér ógnað.  „Mér óar öll þessi skefjalausa vopnasöfnun um allan heim“.

Óa við (orðtak)  Vera hærddur við; skelfast.  „Mig óar við því ef hvessti nú á alla þessa lausamjöll“.

Óaðfinnanlega (ao)  Án þess að unnt sé að finna að/ gera athugasemdir; mjög vel.  „Mér sýnist hann hafa skilað þessu verki óaðfinnanlega“.

Óaðfinnanlegur (l)  Sem ekki er unnt að finna að.  „Þessi frágangur er óaðfinnanlegur“.

Óaðgát / Óaðgæsla (n, kvk)  Yfirsjón; skortur á varúð/athygli.  „Þetta strand varð alfarið vegna óaðgæslu“.

Óaðgengilegur (l)  Ekki greiður aðgöngu; erfitt að komast að.  „Þetta er fjári girnilegur eggjastallur, en mér sýnist hann fremur óaðgengilegur“.

Óaðgerður (l)  Um fisk; óslægður. 

Óaðgæsla / Óaðgætni (n, kvk)  Skortur á varúð/aðgæslu; óvarkárni.  „Þarna var óaðgæslu um að kenna“.

Óaðskiljanlegur (l)  Sem ekki er unnt að skilja að/frá.  „Hreinskilnin hefur verið óaðskiljanlegur hluti hvers Kollsvíkings til þessa, og óþarfi að skammast sín fyrir það“.

Óaðspurður (l)  Ekki inntur álits; gengið framhjá.  „Hann sagði mér þetta óaðspurður“.

Óaflátanlega (ao)  Án afláts/hlés; án þess að stoppa.  „Vindurinn og seltan sem næða óaflátanlega um bergið, hafa smám saman sorfið holur í mykri hluta þess, með milligerðum úr harðara bergi“.

Óaflokið (l)  Ekki búið; ólokið; enn eftir.  „Við getum ekki farið meðan fráganginum er óaflokið“.

Óafmáanlega (ao)  Sem ekki verður máð af; sem ekki gleymist.  „Margir Kollsvíkingar hafa skráð sín nöfn óafmáanlega á spjöld sögunnar“.

Óafsakanlegt (l)  Ekki réttlætanlegt; verður ekki bætt í orðum.  „Þetta finnst mér algjörlega óafsakanlegt“!

Óaftekin (l)  Enn í reyfi/ullu; ekki verið tekið af.  „Þarna er ein óaftekin, frammi í réttinni“.  „Við sáum nokkrar óafteknar kindur niðri í hlíðinni“.  Líklega ekki þekkt annarsstaðar í þessari merkingu; annarsstaðar „órúin“.

Óafvitandi (ao)  Án þess að vita/verða var við.  „Ég hafði, óafvitandi, rekið mig í kranann“.

Óalandi og óferjandi (orðtak)  Um þann sem átti ekkert gott skilið.  „Svona kónar eru óalandi og óferjandi“.  Sjá nánar; óferjandi.

Óaldarflokkur / Óaldarlið / Óaldarlýður (n, kk)  Óheiðarlegt fólk/pakk; rumpulýður.  „Er nú þessi óaldarflokkur aftur mættur í túnið“?!  „Kirkjur voru oft ólæstar áður, en ég held að hætt sé að hafa þær ólæstar nema þar sem fólk er á staðnum... þar sem óaldarlýður er víða á ferð“  (SG; Kirkjur; Þjhd.Þjms).

Óalgengt (l)  Ekki algengt; sjaldgæft.  „Það er fremur óalgengt að fé setji sig í svelti á þessum stað“.

Óalmennilegur (l)  Slæmur; illskeyttur; leiðinlegur.  „Hann var alls ekki óalmennilegur við hana“.

Óargadýr (n, hk)  Villidýr; grimmt/skaðlegt dýr.  „Minkfjandinn er óargadýr sem engu eyrir“.

Óart (n, kvk)  Óeðli; óþokkaskapur.  „Strákurinn launaði illa fyrir; var ekkert nema óartin við gamla manninn“.

Óartarlegur / Óartugur (l)  Um þann sem fer illa með menn og skepnur; illa innrættur; kvikindi.  „Hann var helsti óartarlegur við hana systur sína þó hún stjanaði kringum hann“.

Óartugheit (n, hk, fto)  Vanþakklæti; fyrirlitning; slæmur hugur.  „Mér finnst lúalegt af honum að sýna gömlu hjónunum svona óartugheit“.

Óathugað (l)  Ekki hugað að; ekki skoðað.  „Það er alveg óathugað enn hvort hann kemst með í ferðina“.   Sjá einnig að óathuguðu máli.

Óáborið (l)  Um tún/ræktun; hefur ekki fengið áburð.  „Efsta sléttan er óáborin“.

Óábyggilegt (l)  Óáreiðanlegt; ótraust; ekki til að treysta á.

Óábyrgt (l)  Ekki ábyrgt; ekki vel ígrundað.  „Mér finnst óábyrgt af honum að setja ekki bátinn ögn hærra“.

Óágjarn (l)  Ekki gráðugur/ósanngjarn í viðskiptum.  „Mér hefur fundist hann heiðarlegur og óágjarn í öllum okkar viðskiptum“.

Óáheyrilegur (l)  Sem ekki er skemmtilegt/notalegt að hlusta á.  „Hann hafði eintóna og óáheyrilega rödd“.

Óákveðinn (l)  Ekki ákveðinn; óviss. „Hann er enn óákveðinn í þessu“.  „Fjöldinn er enn óákveðinn“.

Óálitlegur / Óásjálegur (l)  Ekki mikið fyrir augað; ekki glæsilegur/fallegur.  „Heldur fannst mér bátkoppurinn óálitlegur og lítilfjörlegur.

Óánægður (l)  Ekki ánægður; leiður; fúll.  „Hann getur þá bara leitað annað ef hann er óánægður“.

Óánægja (n, kvk)  Ekki ánægja; leiðindi; kurr; fýla.  „Mikil óánægja var með þessa ákvörðun“.  „…kom fram nokkur óánægja hjá Össuri Guðbjartssyni um það (snjómokstur) “  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Óánægjurödd (n, kvk)  Kvörtun; aðfinnsla; óánægja sem látin er í ljósi.  „Enn urðu nokkrar umræður um málið og komu fram margar óánægjuraddir með símaþjónustuna“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Óáran (n, kvk)  Hörmungar; slæmur tími; vandræði.  „Það er búið að vera samfelld óáran hjá þeim frá áramótum; kolvitlaus tíð; afföll af skepnum og pest í mannfólkinu“!

Óáreiðanlegur (l)  Ekki áreiðanlegur/traustur/tryggur.  „Mér reyndist hann fremur óáreiðanlegur“.

Óáreittur (l)  Í friði; ekki áreittur.  „... en hestinn frá Láganúpi, sem Einar átti ekki, hafi draugurinn látið óáreittan“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Óárennilegt (l)  Ekki álitlegt viðureignar.  „Mér finnst þetta heldur óárennilegt ferðaveður“.

Óásjálegur (l)  Ekki álitlegur/fallegur/glæsilegur.  „Ósköp ertu óásjálegur í tauinu drengur“!

Óát (n, hk)  Átleysi; lystarleysi.  „Ég skil ekki þetta óát í kúnni; það hlýtur eitthvað að vera að henni“.

Óátalinn (l)  Án aðfinnslu; ekki gerðar athugasemdir við.  „Þetta hefur verið látið óátalið hingað til“.

Óátekinn (l)  Sem ekki hefur verið opnað/ hreyft við.  „Ég á enn óátekið allt heyið í stöku gryfjunni“.

Óáþekkur (l)  Ekki líkur; öðruvísi.  „Mér finnst tíðarfarið núna ekki óáþekkt því sem var um þetta leyti í fyrra“.

Óáþreifanlegur (l)  Sem ekki er unnt að handfjatla.  „Hin óáþreifanlegu verðmæti eru stundum mikilvægust“.

Óbagaður (l)  Háir ekki; ekki hindraður.  „Hann sagðist alveg orðinn óbagaður af beinbrotinu núna“.

Óbanginn (l)  Óhræddur; ósmeykur.  „Strákurinn er alveg óbanginn við nautkálfana“.

Óbarinn (l)  Ekki barinn/laminn.  „Ef þú segir þetta upp í opið geðið á honum er óvíst að þú sleppir óbarinn“.  Sjá enginn verður óbarinn biskup.

Óbágur (l)  Ekki spar/fastheldinn; ósínkur; óragur.  „Hann er óbágur á loforðin, en oft verður minna um efndir“.

Óbeðinn (l)  Sem ekki hefur verið beðinn; að eigin frumkvæði.  „Hann gerði þetta alveg óbeðinn“.

Óbehaganlegt (l)  Óþægilegt; umhendis.  „Það er dálítið óbehaganlegt fyrir mig að gera þetta alveg strax“.

Óbeinlínis (ao)  Með óbeinum hætti.  „Þó ekki sé þetta honum að kenna þá á þessi vanræksla óbeinlínis stóran þátt í þessu óhappi“.

Óbeinum orðum (orðtak)  Ekki skýrt; undir rós.  „Með þessu sagði hann óbeinum orðum að hann væri óánægður“.

Óbeit (n, kvk)  Andstyggð; viðbjóðstilfinning.  „Eftir alla þessa yfirlegu var ég kominn með óbeit á skólaskræðum af þessu tagi“.  Líklega hefur orðið upphaflega verið haft yfir það að ær beitti sér ekki í haga eins og eðlilegt þótti, e.t.v. vegna vannæringar, veiki eða elli.  Þá var í henni óbeit.

Óbeittur (l)  Um öngul/krók; ekki með beitu; ber.  „Þú fiskar lítið á krókinn óbeittan“!

Óbermi (n, hk)  Óvandaður maður; skúrkur; ódámur.  „Óttalegt óbermi hefur hann verið þessi Hitler“.

Óbermilega (ao)  Ótótlega; rustalega.  „Skelfing ertu óbermilega til fara drengur!  Girtu þig að minnsta kosti“!

Óbermilegur (l) A.  Ruddalegur; óárennilegur.  „Fremur fnnst mér hann óbermilegur í sínum málflutningi“.  B.  Ófínn; druslulegur til fara; ótótlegur.  „Skelfing ert þú eitthvað óbermilegur í tauinu“!  Oftar í þeirri merkingu.

Óbeygður (l)  Hefur ekki látið bugast.  „Hann er merkilega óbeygður eftir allar þessar raunir“.

Óbifandi / Óbifanlegur (l)  Óhagganlegur; sem ekki verður þokað.  „Ég hef óbifandi trú á á þetta er framkvæmanlegt“.  „Hann var alveg óbifanlegur og lét sig ekkert með þetta“.

Óbifur (n, kk)  Ótrú; ýmugustur.  „Afi hafði einhvern óbifur á þessum nýmóðins tækjum; fannst þau vinna illa“.

Óbilandi / Óbugandi (l)  Sem ekki bilar/bregst; staðfastur.  „Hann hafði óbilandi trú á spottanum, þó gamall væri og trosnaður“.  „Hann var óbugandi í þessari afstöðu“.

Óbilgirni (n, kvk)  Stífni/þrái/mótþrói gegn því að velja sanngjarna lausn; ósanngirni.

Óbilgjarn (l)  Ósanngjarn; ósveigjanlegur í samningum/viðskiptum.  „Honum fannst ég óbilgjarn í sinn garð“.

Óbjagað (l)  Oftast notað um mál; skýrt; án afbökunar.  „Hverskonar málfræðikennsla er þetta eiginlega orðin í þessum skólum?!  Það liggur við að yngra fólk geti ekki komið einni setningu óbjagaðri útúr sér“!

Óbjargandi (l)  Sem ekki er unnt að bjarga.  „Skepnu sem þar villist niður í klettana er alveg óbjargandi“.

Óbjörgulegt (l)  Sem illa lítur út með; uggvænlegt.  „Það er heldur óbjörgulegt ástandið á bænum ef bæði skortir kaffi og tóbak“!

Óblandinn (l)  Hreinn; sannur; fölskvalaus.  „Ég sá, mér til óblandinnar gleði, að þarna var hrúturinn heimtur“.  Einkum notað til áhersluauka með lýsandi og jákvæðum nafnorðum.  Sjá til óblandinnar ánægju.  

Óblíð (l)  Harðneskjuleg; óvægin.  „Vissulega getur veðráttan verðið óblíð í Útvíkum eins og annarsstaðar, en sjaldnast þrýtur þar öll bjargráð“.

Óblíður á manninn (orðtak)  Ekki kurteis/ljúfur í viðmóti.  „Hann var fremur óblíður á manninn þegar hann skreið uppúr ánni, og sagði að þeir hefðu truflað sig vísvitandi við stökkið“.

Óboðinn (l)  Sem ekki hefur verið boðið.  „Ég kann ekki við að mæta óboðinn í afmælið“.

Óboðlegur (l)  Sem ekki þykir frambærilegur/ við hæfi.  „Hætt er við að flestum þætti þær vinnuaðstæður óboðlegar í dag sem menn þurftu að búa við fyrir einni öld“.

Óborganlegur (l)  Ómetanlegur; dýrmætari en metið verður.  „Þetta fannst honum óborganleg skemmtun“.

Óborin (l)  Um kind/kú; ekki borin enn.  „Við skulum reka niður á Grundatún það sem óborið er af fénu“.

Óbotnandi skammir (orðtak)  Óbótaskammir; reiðilestur.  „Hann fékk óbotnandi skammir fyrir tiltækið“.

Óbotnandi skuldir (orðtak)  Mjög miklar skuldir/fjárskuldbindingar.  „Ég ætla ekki að steypa mér í óbotnandi skuldir fyrir svona bölvaðan óþarfa“!

Óbólusett (l)  Um lamb/sauðfé; ekki búið að fá bólusetningu.  „Lambið var ómarkað og óbólusett“.

Óbót (n, kvk)  Skaði sem ekki/varla er unnt að bæta.  Einatt í samsetningum; sjá berja til óbóta.

Óbótamaður / Óbótamanneskja (n, kk/kvk)  Sakamaður; bófi.  Mun upphaflega hafa átt við sakamann sem var réttdræpur án þess að manngjöld (sektir/skaðabætur) væru greidd fyrir hann.

Óbótaskammir (n, kvk, fto)  Miklar/óbotnandi skammir; rótarskammir; húðarskammir.  „Karlinn fékk óbótaskammir frá kerlu þegar hann missti niður hespuna, svo allt fór í flækju“.

Óbótaþjófur (n, kk)  Þjófur.  Upphaflega þjófur sem var réttdræpur án manngjalda.  Sjá óbótamaður.

Óbótaþræll (n, kk)  Þræll sem er réttdræpur án manngjalda.  Á síðari tímum notað um þann sem stritar fyrir lítil laun.  „Hann neitaði að púla lengur við þetta eins og óbótaþræll, fyrir ekkert annað en vanþakklætið“.

Óbragð (n, hk)  Slæmt bragð; ókeimur.  „Nú er komið óbragð af mjólkinni“.

Óbragglegur (l)  Veiklulegur; illa haldinn; hrörlegur.  „Mér finnst hann ekki líta óbragglega út“.

Óbrákaður / Óbrotinn (l)  Ekki beinbrotinn; heill.  „Ég held ég sé óbrákaður, en fjandi var þetta slæm bylta“.

Óbrenglað (l)  Ekki afbakað/ruglað/afflutt.  „Ég vona að skilaboðin komist óbrengluð til skila“.

Óbreyttur (l)  Samur; ekki breyttur.  „Hann spáir óbreyttu fram á morgundaginn“.

Óbrigðult (l)  Traust; áreiðanlegt; sem bregst ekki.  „Ég kann ekkert óbrigðult ráð í þessu efni“.

Óbrotgjarn (l)  Sem ekki brotnar/eyðist.  „Verk hans eru óbrotgjarn minnisvarði“.

Óbrúklegur (l)  Ónothæfur; ekki nýtanlegur.  „Þessi hrífa er orðinn tindalaus og alveg óbrúkleg“.

Óbugaður (l)  Sem ekki er niðurbrotinn/bugaður.  „Merkilegt er hvað hann er enn óbugaður eftir þetta“.

Óbundinn (l)  A.  Ekki festur í band.  „Er kýrin óbundin á básnum“?.  B.  Um sigara; ekki festur í vað; laus.  „Við sigurm óbundnir niður snarbrattan frerann, en héldum okkur í vand; í svokölluðum lás“  (Björgvin Sigurbj.son; Útkall við Látrabjarg).  C.  Óráðstafaður; ekki heftur.  „Ég tel mig óbundinn af þessum samningi núna“.  D.  Um kveðskap; ekki stuðlaður eða rímaður.

Óburðugur (l)  Illa fær um; illa í stakk búinn; ekki sterkur.  „Strákurinn er fremur óburðugur í svona vinnu“.

Óbúandi við (oðrtak)  Ekki hægt að búa/una við; gengur ekki.  „Það auðvitað óbúandi við það að þurfa að hella niður mjólk skipti eftir skipti vegna skorts á snjómokstri“!

Óbyggður (l)  Ekki í byggð.  „Byggð hefur líkast til verið samfelld í Kollsvík síðan Kollur kom þar fyrst að óbyggðu landi; líklega um miðbik landnáms á Íslandi eða nærri árinu 900“.

Óbyrgður (l)  Ekki byrgður/hulinn/aflokaður.  „Það fer enginn með óbyrgt ljós inn í hlöðu.

Óbærilega (ao)  Ekki bærilega; sem ekki er hægt að umbera.  „Um hádegið var orðið nær óbærilega heitt niðri í bjarginu, í steikjandi sólinni“.

Óbætandi (l)  Sem erfitt er/ ekki er hægt að bæta.  „Sandfok hefur stundum valdið óbætandi spjöllum á landi“.

Óbættur (l)  Sem ekki hefur verið bættur/lagaður/aukinn/greiddur.  „Þú getur ekki verið í þessum buxum svona óbættum“.  Sjá einnig að liggja óbættur hjá garði.

Ódannaður (l)  Kann sig ekki; illa siðaður; óháttvís.  „Maður er heldur ódannaður fyrir svona fínar veislur“.

Ódannelsi (n, hk)  Ókurteisi, skortur á mannasiðum.  „Mér finnst það bara ódannelsi að reka við í kirkjunni“!

Ódaunn (n, kk)  Fýla; ólykt; stækja.  „Ferlegur ódaunn er nú af þínum freti; hvern fjandann varstu að éta“?!

Ódámur (n, kk)  A.  Óvandaður maður; skúrkur.  „Og bévítans ódámurinn stökk í burtu frá konu og börnum“.  B.  Vægt blótsyrði; fjandinn; rækallinn.  „Hver ódámurinn; nú gleymdi ég nestisskjóðunni í landi“!  Sjá dámur.

Ódeigur (l)  Óragur; duglegur.  „Ekki þýddi fyrir aðra en þá sem ódeigir voru að sækja gull í greipar Ægis þar...“  (ÖG; minningargrein um AK).

Ódó (n hk)  Óþokki; óhræsi.  „Karlinn kom fram við hana eins og bölvað ódó“.

Ódráttur (n, kk)  A.  Fiskur sem kemur á færi og er ekki er nýtanlegur, t.d. marhnútur.  B.  Sluddmenni; þrjótur.  „Það var sagt að karlinn hefði verið hinn mesti ódráttur á heimilinu“.

Ódrekkandi (l)  Sem ekki/varla er unnt að drekka.  „Helvítis hiti er á kaffinu; það er alveg ódrekkandi“.

Ódrengilega (ao)  Ekki heiðarlega/ af hreinskildi; skammarlega.  „Mörgum þótti þessi framkoma ódrengileg“.

Ódrenglyndi / Ódrengskapur (n, hk)  Skúrksháttur; lítilmennska; svik.  „Ekki bjóst ég við svona ódrenglyndi af hans hendi“.

Ódrengur (n, kk)  Skúrkur; lítilmenni; svikahrappur.  „Hann er mistækur, en samt enginn ódrengur“.

Ódrjúgur (l)  Endist illa; fljótur að eyðast; endasleppur.  „Þegar tekið er tillit til þess að vetur hefur verið fremur góður er það sjáanlegt eftir mælingu á heyjunum í haust þá hafa þau almennt verið laus og því ódrjúg“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1924).  

Ódrukkinn (l)  A.  Um kaffi, te, mjólk, vatn o.fl; sem ekki hefur verið drukkið.  „Ekki dugir að koma með kaffið ódrukkið í land aftur“.  B.  Um mann; ekki drukkinn/ölvaður.  „Svonalagað gerir enginn ódrukkinn“.

Ódrýgindi (n, hk, fto)  Rýrnun; minnkun.  „Þessi vorbeit á túnum veldur náttúrulega ódrýgindum á heyjum“.

Ódrýgja (s)  Gera endasleppt; klárast.  „Jólakonfektið vildi stundum ódrýgjast, væri það fyrir allra augum“.

Óduglegur (l)  Ekki duglegur/röskur; latur.  „Maður er óttalega óduglegur í svona óþarfa flandri“.

Ódugnaður (n, kk)  Framkvæmdaleysi; leti.  „Skömm er að sjá þetta hús ónýtast fyrir tóman ódugnað“!

Óduldur / Ódulinn (l)  Meðvitaður; vitandi vits.  „Menn skulu vera alveg óduldir um það að svona góðviðristíð að vetri hefnir sín í bölvuðum hretum að vori; vitiði bara til“!  „Ég gekk þess ekki ódulinn“.

Ódyggð (n, kvk)  Mannlegur breyskleiki; synd; ótryggð; svik.  „Ekki get ég svarið mig af öllum ódyggðum í þessu efni“.

Ódyggur (l)  Ótryggur; svikull.  „Heldur þykja mér nú ódyggir margir flokksmenn“.

Ódæði / Ódæðisverk (n, hk)  Illvirki; heigulsháttur; glæpur.  „Eitt mesta ódæði íslenskra stjórnvalda á síðari tímum var að svipta sjávarjarðir þeim heimamiðum sem þær hafa nýtt síðan land byggðist“.

Ódæll (l)  Óþægur; baldinn; fyrirferðamikill.  „Hann hefur spekst mikið; eins og hann þótti nú ódæll í æsku“.

Ódælni (n, kvk)  Óþægð; styggð.  „Þú sendir bara hundinn fyrir féð ef það er með einhverja ódælni“.

Ódæma (l)  Firna; býsna; óvenju.  „Það eru ódæma háir þarabunkar í fjörunni núna“.

Ódæmamikill (l)  Firna mikill; afar mikill.  „Við fengum þarna ódæmamikinn afla á stuttum tíma“.

Ódæmi (n, hk, fto)  Ósköp; býsn; hellingur.  „Þarna var lítið um fisk, en ódæmi af snarvitlausum ufsatittum“

Ódöngun (n, kvk)  Veiki; lumbra; ólag.  „Mér finnst vera einhver ódöngun í mér núna; hiti og slappleiki“.

Óðaferð (n, kvk)  Mjög mikil ferð; hraðferð.  „Báturinn stefndi á óðaferð upp í fjörugrjótið“.

Óðagot (n, hk)  Asi; flumbrugangur.  „Í óðagotinu gleymdi ég alveg að taka með mér rakvélina“.

Óðagotsháttur (n, kk)  Flumbrugangur; asi.  „Það þýðir ekki að fara að fénu með svona óðagotshætti“!

Óðakapp (n, hk)  Flýtir; asi.  „Þeir eru í óðakappi að raka upp áður en fer að rigna“.

Óðakjafta (l)  Óðamála; bera ótt á; flaumósa.  „Hann var svo óðakjafta yfir þessu að kaffið kólnaði í bollanum“. 

Óðal (n, hk)  Jörð/jarðeign sem lýtur sérstökum reglum um eignarhald.  Óðal gengur að erfðum; vanalega til elsta sonar eiganda.  Lengi gilti sú regla að jörð hefði öðlast óðalshefð þegar hún hefði verið í eigu sömu ættar í 20 ár eða lengur.  Þegar jarðalög voru endurskoðuð árið 1999 voru óðalsjarðir á landinu yfir 100 að tölu, og með þeim varð óheimilt að stofna nýtt óðal.  Orðstofninn má líklega rekja til gotneska orðsins „atta“ sem merkir faðir.  Stofnskylt því er líklega orðið „aðal“.

Óðamála (l)  Talar mjög mikið og hratt; veður á; berst ört á; er mikið niðrifyrir; bullar.  „Hann var svo óðamála að ég skildi varla hvað hann sagði“.

Óðar / Óðara (ao)  Bráðum; fljólega.  „Það er óðara komið myrkur“.  „Þetta batnar óðara“.  „Það fer nú óðar að líða að því að ég komi heim“.  „Ég knúði þar nú dyra og komst þar óðar inn,/ erindi mitt faktornum ég sagði./  „Því er nú verr og miður, ég verð ei bóndi þinn“./  „Hvað veldur því“? ég segi nú að bragði“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).   

Óðbær sjór (orðtak)  Brim, þannig að lending er varasöm.  „Á sumum stöðum er langt á milli ólaga og þá um lagabrim að ræða.  Þótti betra að reyna lendingu á síðustu báru þess en öftustu ólagsöldu í óðbærum sjó.  Þessi var reynsla víða um Vestfirði“  (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).

Óðfluga (ao)  Mjög hratt; með ógnarhraða.  „Nú líður óðfluga að matartíma; við þurfum að drífa okkur“.

Óðfús (l)  Mjög ákafur/áfjáður.  „Hann vildi óðfús koma með okkur í róður“.

Óðinshani (n, kk)  Skrifari; Phalropus lobatus.  Lítill vaðfugl sem verpir á norðurslóðum heimsins en heldur sig á sjó í hitabeltinu yfir sumartímann.  Algengur í Kollsvík sem annarsstaðar á Íslandi.  Gráleitur að ofan; fremur dökkur á sumrin en ljósari að vetrum; ljós að neðan.  Í sumarbúningi hefur hann breiðan rauðgulan kraga um háls og hvítan blett í kverk.  Litir kvenfugls aðeins skærari en karlsins.  Goggur stuttur og svartur; fætur dökkgráir með sundblöðkum.  Kvenfuglinn velur hreiðurstæði og maka og á frumkvæði að mökun.  Eftir varp fer hún á braut en karlinn ungar eggjunum út.  Hriðrið er gjarnan dæld á milli þufna eða í háu grasi.  Ungar yfirgefa hreiðrið fljótlega; lappalangir og ljósbrúnir hnoðrar.  Óðinshaninn sést oftast á sundi á grunnu vatni í ætisleit.  Hann liggur hátt í vatninu; hringsnýst og dýfir goggi ótt og títt í vatnið þegar hann tínir upp skordýr sem gruggast upp í iðunni.  Í Kollsvík hefur hann einatt verið nefndur skrifari.  Skyldur óðinshana er þórshani, en hann er sjaldséður í Kollsvík.  Það þótti boða storm ef óðinshani sást synda kringum bát úti á sjó, og var þá vissara að hafa strax uppi og koma sér í land.

Óðs manns æði / Óðsmannsæði (orðtak/ n, hk)  Brjálæði; vitfirring; heimska.  „Það er algjört óðsmannsæði að fara í ríður í þessu veðurútliti“!  „Um hitt voru þeir sammála, að óðs manns æði væri að reyna þetta nú“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Óðslega (ao)  Með æðibunugangi/asa; í flaustri.  „Hann fór sér ekki að neinu óðslega, og gaf sér góðan tíma“.

Óðsmannsæði / Óðs manns æði  (n, hk/ orðtak)  Brjálæði; vitleysa; fyrirhyggjuleysi.  „Það er óðsmannsæði að leggja á fjallveg í þessu veðri“.

Óðum (l)  Fljótt, brátt.  „Ekkert bar nú til tíðinda fyrr en þeir félagar sjá bát er sigldi á eftir þeim, og nálgaðist óðum“  (ÖG; Þokuróður).  „Fór nú vindur óðum vaxandi en jafnframt var komið norðurfall á móti vindi“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Óður (n, kk)  Lofgerðarkvæði; ljóð.  Sjaldan notað og þá einkum við hátíðleg/ljóðræn tilefni.  „Rym ég óð um Rósinkrans/ reginmóði vígur./  Kær með þjóð í kotum lands/ kappans hróður flýgur“  (JR; Rósarímur).  

Óður fiskur (orðtak)  Um veiðar; mikil vild á fiski; stendur á hverju járni; fiskur tekur krók uppi í sjó, oft um leið og hann kemur niður.  „Við lentum þarna í óðum fiski yfir allan snúninginn“.  „Fiskur var orðinn svo óður að stóð á hverju járni um leið og slóði komst í sjó“.

Óður og uppvægur (orðtak)  Af miklum ákafa; mjög ákafur.  „Hann vill óður og uppvægur koma með okkur í róður“.

Óeðli (n, hk)  Það í fari manns eða skepnu sem ekki er eðlilegt; ónáttúra. 

Óeðlilega (ao)  Undarlega; ekki eðlilega.  „Mér finnst lækka óeðlilega hratt í bensíntanknum“.

Óeðlilegur (l)  Ekki eðlilegur/normal; undarlegur.  „Mé finnst gangurinn í vélinni dálitið óeðlilegur“.

Óefað (l)  Án vafa; eflaust.  „Þar voru tóttaleifar gamlar og hefur þar óefað verið sel“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).  „Hefur óefað verið sætt suðurfalli út fyrir Nesið“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Óefanlegt (l)  Sem ekki/varla verður efast um; óumdeilanlegt.  „Ég held að þetta sé alveg óefanleg staðreynd“.

Óefni (n, hk)  Þrot; úrræðaleysi.  Sjá komið í óefni og stefna í óefni.

Óefnilegur (l)  Vonlaus; lítilsgildur; lítilsvirði.  „Þetta er alls ekki óefnilegur strákur“.

Óeigingjarn (l)  Ekki eigingjarn; fórnfús; gjafmildur.  „Össur fékk viðurkenningu allra sinna sveitunga í Rauðasandshreppi fyrir mikið og óeigingjarnt starf að félagsmálum í þágu sinnar sveitar“.

Óeigulegur (l)  Lítil virði; ómerkilegur.  „Þetta er ekki óeigulegur gripur“.

Óeining (n, kvk)  Ósamstaða; ósamlyndi.  „Einhver óeining var í flokknum um þessa stefnu“.

Óeirð (n, kvk)  Óróleiki; ókyrrð.  „Það er einhver óeirð í fénu; það rásar bara um og lítur varla niður“.

Óeirðabelgur / Óeirðarmaður / Óeirðaseggur (n, kk)  Slagsmálahundur; óróaseggur; vandræðamaður.  „Hann er alltaf sami óeirðabelgurinn með víni; eins og þetta er mikill ljúflingur dagsdaglega“.

Óeirðabæli (n, hk)  Ófriðsæll/róstusamur staður.  „Enn berjast þeir í þessu óeirðabæli í Miðausturlöndum“.

Óeirinn (l)  A.  Óþolinmóður; óþreyjufullur; órólegur; tollir ekki lengi á sama stað.  „Féð er eitthvað svo óeirið í dag, og gerir lítið annað en rápa“.  B.  Gefur ekki grið; eirir engu.  Mjög sjaldan notað í þeirri merkingu.

Óeirni (n, kvk)  Óþolinmæli; óróleiki; ráp.  „Skelfingar óeirni er þetta í fénu; ég má fara og standa hjá því“!

Óeitraður (l)  Ekki eitraður.  „Þetta er engin matjurt, en ég held að hún sé alveg óeitruð“.

Óekta (l)  Ekki ekta; ekki af því efni sem sýnist.  „Steinninn í hringnum er gullfallegur þó hann sé óekta“.

Óendanlega (ao)  Án afláts; eilíflega.  „Ég er þeim óendanlega þakklátur fyrir þeirra umönnun“.

Óendanlegur (l)  Ekki endanlegur; látlaus; sífelldur.  „Skyldi þessi ótíð bara verða óendanleg“?!

Óendanleiki (n, kk)  Sá eiginleiki að vera óendanlegur.  „Ég nennti ekki að hlusta lengur þegar þeir voru farnir að ræða eilífðarmálin og óendanleika tilverunnar“.

Óétandi (l)  Óætur; sem ekki er unnt að borða.  „Fiskurinn var illa útvatnaður og óétandi með öllu“.

Óétinn (l)  A.  Hefur ekki verið borðaður/étinn.  „Hvað hljóp í strákinn að fara frá grautnum óétnum“?  B.  Ekki búinn að borða/snæða.  „Ég er alveg óétinn ennþá; ég þurfti að drífa mig af stað áður en maturinn var klár“.

Ófagur (l)  Ekki fallegur/álitlegur; ljótur; ófrýnilegur.  „Ekki veit ég hverju hann hreytti í þá, en ófagurt var það“.  „Þetta er ófagur andskoti; hér hefur netið lent út á sandblett og er kkjaftfullt af óþverra“!

Ófagur/ljótur munnsöfnuður (orðtök)  Bölbænir; blótsyrði;ragn.  „Ég nenni ekki að hlusta á hans skoðanir á þessu; það er heldur ófagur munnsöfnuður“!

Ófarinn (l)  Ekki farinn; enn á staðnum.  „Ég var rétt ófarinn út þegar síminn hringdi“.  „Hann er enn ófarinn“.

Ófarir (n, kvk, fto)  Ófarnaður; ólán; slæm endalok.  „Það er lítið vit að róa í þessu; ég ætla ekki að bera ábyrgð á einhverjum óförum“!  „Það er lítil upphefð í því að hlakka yfir óförum annarra“!

Ófarnaður (n, kk)  Ógæfa; ólán; hörmungar.  „Hann taldi að þessu gæti fylgt einhver ófarnaður“.  Sjá leiða til ófarnaðar.

Ófá skipti/tilfelli / Ófáum sinnum (orðtak)  Oft; iðulega.  „Þetta hefur líklega gerst í ófá skipti áðurfyrr“.

Ófáanlegur (l)  Sem ekki fæst.  „Svona gúmmískór eru líklega ófáanlegir í dag“.

Ófár (l)  Margur.  „Þeir eru ófáir steinarnir sem hann hefur lyft í vegghleðslu“.

Ófeðraður (l)  Um barn; ekki kunnugt um faðerni.  „Barnið var fyrst í stað ófeðrað, þó margir vissu hið sanna“.

Ófeigur (l)  Ekki feigur; ekki ætlað að deyja.  „Ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið“.  Sjá þar.  „Skildi þar milli feigs og ófeigs“.  Sjá þar.

Ófeiminn (l)  Ekki banginn/hræddur/hlédrægur.  „Nú skulu þeir fá að heyra skírnarnafnið sitt; ég er alveg ófeiminn við að segja þessum idíótum til syndanna“!

Ófeiti (n, kvk)  Hor; grönn hold; uppdráttur.  „Þeir sem bjuggu við sjávarútveg komust fremur af þegar harðindi herjuðu á landið, en hinir drápust úr ófeiti og kröm sem urðu að treysta alfarið á landið“.

Ófengin (l)  Um kind/kú; ekki verið haldið undir hrút/naut.  „Þeim fækkar óðum sem ófengnar eru“.

Óferðafær (l)  Ekki hæfur til ferðalaga.  „Bíllinn er óferðafær meðan keðjurnar vantar, eins og færið er núna“.

Óferjandi (l)  A. Sem ekki má aðstoða við flutninga/ferðalög.  Samkvæmt réttarreglu þjóðveldisaldar mátti dæma sakamenn til þess að þeir væru óalandi og óferjandi.  Þýddi það þá útskúfun samfélagsins að enginn mátti aðstoða þá á nokkurn hátt; ekki gefa þeim að borða og ekki ferja þá yfir ár eða vísa til vegar.  Nú á dögum er það skammaryrði um menn að þeir séu óalandi og óferjandi.  B.  Sagt er um vatnsfall að það sé óferjandi ef það er ófært báti t.d. vegna jakaburðar.

Ófégjarn (l)  Ekki gráðugur í auð; fórnfús.

Ófénaður (n, kk)  Slæmar skepnur.  „Farið nú og reynið að koma þessum ófénaði úr túnunum“.

Óféti (n, hk)  Óhræsi; óvættur; þrjótur.  „Ég er handviss um að þetta var fjörullalli eða annað eins óféti“.

Ófétis (n, hk, ef)  Óhræsis; ótætis; árans; áhersluorð sem notað var í neikvæðri merkingu.  „Ófétis pest er þetta“.

Ófiskinn (l)  Ekki fiskinn/fengsæll.  Notað ýmist um menn:  „Hann þótti dugandi sjómaður, en fremur ófiskinn“.  Eða um veiðarfæri:  „Svona innsett net hlýtur alltaf að verða ófiskið“.

Ófínn / Ótérlegur í tauinu (orðtök)  Illa til fara; larfalegur; ekki vel klæddur.  „Skelfilega ertu ótérlegur í tauinu!  Ég held að þú ættir að skipta um föt áður en gestirnir koma“.

Óflattur (l)  Um fisk; sem ekki er búið að fletja.  „Við setjum bara í bútung þennan smáfisk sem óflattur er“.

Ófleginn (l)  Um skrokk; sem ekki er búið að flá.  „Við förum ekki frá þessu óflegnu“.

Óflekkaður (l)  Ekki syndugur; saklaus.  „Mín samviska er alveg óflekkuð af þessum sökum“.

Óforbetranlegur (l)  Um mann; sem ekki er unnt að siða betur.  „Margir nasistar voru óforbetranlegir þrjótar“.

Óforgengilegur (l)  Sem ekki eyðist/hrörnar.  „Gullið er talið óforgengilegra en aðrir málmar“.

Óformlegur (l)  Ekki formlegur/hefðbundinn/ samkvæmt reglu.  „Þetta var óformlegur fundur“.

Óforsjáll (l)  Ekki fyrirhyggjusamur.  „Ári var ég óforsjáll; að taka ekki með mér fleiri ílát“!

Óforskammaður (l)  Frekur; frakkur; dónalegur.  „Skelfing gat maðurinn verið óforskammaður að gera þetta“!

Óforskömmugheit / Óforskömmun (n, hk, fto)  Frekja; dónaskapur.  „Fyrr má nú vera óskömmunin“!

Óforspurður (l)  Ekki spurður; ekki fengið leyfi.  „Þeir tóku þetta í algeru leyfisleysi; að mér óforspurðum“!

Óforstöndugur (l)  Óaðgætinn; heimskur.  „Mér finnst hann afskaplega óforstöndugur í þessum efnum“.

Óforsvaranlegt / Óforsvarandi (l)  Óafsakanlegt; ekki verjandi.  „Það er óforsvaranlegt að láta barn aka dráttarvél yfir hálsa“!  „Mér finnst gjörsamlega óforsvarandi af ráðherra að segja svona nokkuð“.

Óforvarendis (ao)  Af tilviljun; fyrirvaralaust.  „Hann birtist bara óforvare ndis og gerði engin boð á undan sér“.

Óforþént (l)  Óverðskuldað.  „Ég þakka fyrir hrósið, en held að það hafi að mestu verið óforþént“.

Óframfærinn (l)  Feiminn; hlédrægur; hefur sig lítið í frammi.  „Skelfing er hann alltaf óframfærinn, blessaður“.

Óframfærni (n, kvk)  Feimni; hlédrægni.  „Þessi óframfærni er honum stundum fjötur um fót“.  Óframfærni og femni voru umræðuefni á fundi Umf Vestra árið 1918.

Óframkvæmanlegt (l)  Ekki unnt/auðvelt að framkvæma.  „Mér sýnist þetta nánast óframkvæmanlegt, með ekki fleiri mönnum en hér eru“.

Ófrátekinn (l)  Sem aðrir hafa ekki eignað/helgað sér. „Við leggjum við hleinina; sá staður er enn ófrátekinn“.

Ófrávíkjanlegt (l)  Undantekningarlaust; þarft.  „Mörgum var ófrávíkjanleg regla að signa sig fyrir svefninn“.

Ófrelsi (n, hk)  A.  Helsi; ánauð; höft. B.   Kollsvíkingar og sumir aðrir í Rauðasandshreppi notuðu orðið í nokkuð óhlutbundnari merkingu en almennt gerðist; eða um einskonar álög/ofnautn.  „Ertu enn að éta?  Þetta er nú bara ófrelsi og ekkert annað“!  Mikið notað þar enn en ekki annarsstaðar í þeirri merkingu.

Ófremdarástand (n, hk)  Slæmt/óviðunandi ástand.  Upphaflega notað um ástand sem enginn heiður/frami var að; skammarlegt ástand.  „Á þessum tíma ríkti ófremdarástand um málefni félagsins“.

Ófreskja (n, kvk)  Óvættur; skrýmsli; ógnvænlegt kvikindi. 

Ófreskur (l)  Skyggn; sér það sem öðrum er hulið.  Orðið er stofnskylt orðinu ófreskja, og var í upphafi notað um sjón villidýra, en þau sjá ýmislegt gleggra en mannfólkið.  „Þann draug sáu bæði freskir menn og ófreskir“.

Ófriðarseggur (n, kk)  Ribbaldi; sá sem veldur ófriði.

Ófriðhelgur (l)  Ribbaldalegur; ruddalegur; forhertur.  „Þessi minkfjandi er aldeilis ófriðhelgur; nú drap hann allar hænurnar í kofanum á einu bretti“!  Lítið eitt önnur meining í máli Kollsvíkinga en annarra“.

Ófriðlega / Ófriðsamlega (ao)  Með ófriði/ illum látum. 

Ófriður (n, kk)  A.  Mikill sjór, þannig að illa er vært við veiðar.  „Það fer nú bara að verða ófriður ef hann eykur báruna meira“.  B.  Stríð; væringar; ónæði.  C.  Ónæði til t.d. vinnu eða hvíldar.  „Ansans ófriður er nú af ykkur strákar; farið nú og leikið ykkur úti“!

Ófríkka (s)  Verða ófríðari/ljótari.  „Þú hefur ekkert að gera með kaffi drengur; þú ófríkkar bara af því“!

Ófrískur (l)  A.  Ekki hraustur; veikur; lasburða.  „Ég er búinn að vera heldur ófrískur síðustu dagana“.  B.  Um konu; barnshafandi.  „Er hún ófrísk eina ferðina enn; aftur og nýbúin“?!  Nær alfarið notað í þeirri merkingu í seinni tíð, og sýnir hve merking orða getur umturnast með einni kynslóð.

Ófrjór (l)  A.  Um dýr/plöntu; getur ekki eignast afkvæmi; geldur.  B.  Um jarðveg; ófrjósamur.

Ófrosinn / Ófreðinn (l)  við hitastig undir frostmarki.  „Jörð var víðast enn ófreðin niðri í byggð um áramót“.

Ófróður (l)  Ekki fróður; þekki ekki til.  „Ég er alls ófróður um svonalagað“.

Ófróður er sá sem einskis spyr (orðatiltæki)  Sá veit lítið um málefni sem ekki innir eftir því.

Ófrómheit (n, hk, fto)  Óheiðarleiki; þjófnaður.  „Orð lá á um ófrómheit hans í þessari vist“.

Ófrómur (l)  Óheiðarlegur; fingralangur; stelinn.  „Lyginn var hann, en ekki ófrómur með annarra eigur“.

Ófrýnilegur  / Ófrýnn  (l)  Ljótur; ógnvegkjandi; úðalegur.  „Tuddinn var fremur ófrýnn og bölvaði hátt“.

Ófrægð (n, kvk)  Niðurlæging; skömm; óorð; rógur. „Hann hafði sér það helst til ófrægðar unnið að bera litla virðingu fyrir pótintátum staðarins“.  „Ég tel honum það nú ekki til ófrægðar“.

Ófrægja (s)  Baktala; tala niðrandi um.  „Þeir reyndu að ófrægja hann á alla lund“.

Ófrændrækinn (l)  Sem rækir ekki vel ættartegsl; sem heldur ekki góðu sambandi við skyldmenni sín.

Ófrændrækni (n, kvk)  Að vera ófrændrækinn.  „Ég verð víst að teljast fremur ófrændrækinn“.

Ófullburða (l)  A.  Um nýfætt afkvæmi; ekki vel þroskað; veiklulegt.  B.  Líkingamál um málefni og annað; ekki vel frágengið/ígrundað/gert.  „Ég legg til að þessari ófullburða tillögu verði vísað frá“.

Ófullgerður (l)  Ekki fullgerður/frágenginn/lokið.  „Ég fer ekki frá þessu ófullgerðu“.

Ófullkominn (l)  Gallaður; hefur vankanta.  „Aðstaðan var fremur ófullkomin, en hún gagnaðist samt“.

Ófullnægður (l)  Ekki uppfylltur.  „Hann slapp úr haldi meðan dómnum var enn ófullnægt“.

Ófullnægjandi (l)  Ekki fullnægjandi/nægilegt; naumur.  „Þetta eru ófullnægjandi upplýsingar“.

Ófullur (l)  Ekki undir áhrifum áfengis; ekki ölvaður.  „Þetta hefði hann aldrei sagt ófullur“.

Ófullveðja (l)  Ekki fullorðinn/sjálfráða.  „Þetta er ekki ætlandi ófullveðja unglingi“.

Ófundinn (l)  Ekki fundinn; enn týndur.  „Hnífurinn er enn ófundinn“.

Ófundvís (l) Ekki fundvís; ekki laginn/heppinn að finna það sem týnt er.  „Skelfing ertu nú ófundvís; hnífurinn var hérna uppi á hillu; beint fyrir framan nefið á þér“!

Ófúinn (l)  Ekki fúinn/feyskinn.  „Staurinn má nýta áfram; hann er nánast ófúinn“.

Ófús (l)  Ekki viljugur; tregur.  „Hann var fremur ófús að fylgja okkur eftir niður klettana“.

Ófyrirgefanlegt (l)  Ekki unnt að afsaka/fyrirgefa.  „Þetta var ófyrirgefanlegur klaufaskapur hjá mér“.

Ófyrirleitinn (l)  Hortugur; kvikindislegur; óskammfeilinn.  „Hann er ótrúlega ófyrirleitinn“.

Ófyrirleitni (n, kvk)  Hortugheit; óskammfeilni; dirfska.  „Ég hef sjaldan kynnst svona mikilli ófyrirleitni“!

Ófyrirséð (l)  Ekki séð/greint fyrirfram.  „Svona ófyrirséð atvik geta alltaf komið upp“.

Ófyrirsjáanlegt (l)  Sem ekki er unnt að sjá/greina fyrirfram.  „Þetta var algerlega ófyrirsjáanlegt“.

Ófyrirsjáll (l)  Ekki fyrirhyggjusamur; fljótfær.  „Það voru samt ekki ófyrirsjálnir ævintýramenn sem þessa ákvörðun tóku“  (MG; Látrabjarg). 

Ófyrirsynja (n, kvk)  Sem ekki verður synjað fyrir.  Notað um það sem gert er að ástæðulausu og án sakarefna.  „Þú mátt ekki berja bróður þinn svona alveg að ófyrirsynju“!  Líklegt er að málfræðingar séu á villigötum varðandi upprunaskýringu, t.d. í Orðab.Menningarsj og Orðsifjabók HÍ.

Ófyrndur (l)  Sem ekki er fyrndur að lögum.  „Ég hygg að þessi réttur sé ófyrndur ennþá“.

Ófyrtinn (l)  Ekki uppnæmur/fyrtinn þó verði fyrir áreiti/stríðni.  „Ég er ekki eins ófyrtinn og hann“.

Ófýsilegt (l)  Ekki aðlaðandi; sem ekki heillar/freistar.  „Heldur finnst mér ófýsilegt að fara þarna niður í lás“.

Ófælinn (l)  Ekki gjarn á að hræðast/fælast/styggjast.  „Þegar fuglinn situr svona ófælinn á egginu er líklegt að það sé farið að unga“.

Ófær með öllu (orðtak)  Allsendis/alveg ófær; kolófær.  „Lending er oftast slæm eða ófær með öllu á þessum stað“  (HÖ; Fjaran). 

Ófær sjór (orðtak)  Ekki unnt að vera á sjó vegna sjólags.  „Annað skipið, sem fyrr hélt af miðum, náði landi, og sýndist mönnum þá sjór ófær.  Þetta var í fiskiróðri og reru skipin frá Láturdal“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Ófæra (n, kvk)  Hindrun.  „Hver dj..., það er grunnbrot á Þembunni.  Þetta er alger ófæra; eða hvað sýnist þér Sigurður“?  “  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   „Ég ætla að biðja ykkur um að leggja ekki í neina ófæru“.

Ófærð (n, kvk)  Slæm færð.  „Það er enn ófærð í efra sniðinu“.

Ófærðarlítið (l)  Lítil ófærð; sæmilega greiðfært.  „Er sagt að presturinn í Sauðlauksdal hafi farið Prestahjalla ef hann fór til Breiðavíkur að vetrarlagi, því ófærðarlítið hafi verið á þessum hjalla; ekki fest snjó“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Ófært (ao)  A.  Vegir geta orðið ófærir vegna snjóa, veðurs, skriðufalla eða hruns.  B.  Ófært getur orðið á sjó vegna veðurs og sjólags.  „Ófært reyndist á sjó sökum brims og einnig á landi vegna bleytu og klaka“ (GG um strand togarans Croupiers undir Blakk; EÓ; Skipsströnd í Rauðasandshreppi).  „Svo horfa þeir út á Víkina.  Margir bátar; vinir þeirra og kunningjar.  Allt er þegar ófært. ... Það sýnist með öllu ófært fyrir Blakk nú“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Ófært veður (orðtak)  Veður sem hamlar öllum ferðalögum; óveður.  „Það er enn gjörsamlega ófært veður; við verðum að láta það bíða morguns með að gá að færð“.

Ófærukafli (n, kk)  Vegalengd vegar sem ófær er, t.d. vegna snjóa.  „Það er langur ófærukafli í Jökladalshæð“.

Ófæruseil (n, kvk)  Seil/forardý sem erfitt/hættulegt er að fara yfir.  „Norðan við Uxadýsál er ófæruseil sem nefnd er Svartaseil“  (Örnefnaskrá Láganúps).  Orðið seil virðist ekki hafa þekkst í þessari merkingu nema í Kollsvík og nágrenni.

Ófæruslefra / Ófæruslöður (n, kvk/hk)  Sundurslitinn gangur í klettum, sem er sæmilega fær báðumegin við.  „Það er kannski möguleiki að komast yfir ófæruslefruna með bandstuðningi“.

Ófæruurð (n, kvk)  Urð/helurð sem ófær er gangandi fólki og skepnum.  „Þú þarft að fara niðurfyrir ófæruurðina“.

Ófögnuður (n, kk)  Viðbjóður; slæmska.  „Marglytta í netunum verður ferlegur ófögnuður þegar kemur framá“.

Ógagn (n, hk)  Til trafala/skaða.  „Vertu ekkert að setja plástur á þetta sár; hann gerir bara ógagn“.  „Ég held að þessar aðgerðir geri að minnsta kosti meira gagn en ógagn“.

Ógagnlegt (l)  Sem ekki er gagn að; óþarft; til trafala/leiðinda.  „Skelinni fylgdi oftast sandur, steinar og sitthvað annað ógagnlegt“  (KJK; Kollsvíkurver; sjá kúskel). 

Ógagnsær (l)  Ekki gagnsær; mattur.  „Rúðan er að verða ógagnsæ af hélu“.

Ógaman (l)  Óskemmtilegt; illt í efni; slæmt.  „Það væri ógaman að missa fótanna þí snarbrattri skriðunni“.

Ógangur (n, kk)  A.  Hávaði; fyrirgangur; læti.  B.  Notað á síðari tímum um ójafnan gang í vél.  „Nú er þessi ógangur byrjaður í vélarrokknum aftur; skyldi vera einhver skítur í bensíninu“?

Ógangviss (l)  Um vél; gengur ekki jafnt; er ekki örugg í gangi.  „Heldur finnst mér hún ógangviss enn“.

Ógataður (l)  Án gata.  „Fatan lítur ekki vel út, en ég held hún sé samt ógötuð“.

Ógáfaður (l)  Ekki vitur/hygginn.  „Heldur var ég ógáfaður að hugsa ekki út í þetta“.

Ógáfulegt (l)  Ekki hyggilegt/viturlegt.  „Það var ógáfulegt að fara á sjóinn  á gúmmískónum“.

Ógát (n, kvk)  Óaðgæsla; hugsunarleysi; óvilji.  „Í ógáti hellti ég úr röngu íláti“.

Ógeð (n, hk)  A.  Um geð/viðmót manns; andúð; reiði; móðgun.  Sjá fá ógeð á.  B.  Í seinni tíð notað um hluti sem þykja viðbjóðslegir/fráhrindandi.  „Þetta er algert ógeð“.

Ógeðfelldið (l)  Ógeðslegt; óviðkunnanlegt; fráhrindandi.  „Svona háttalag fannst mér fremur ógeðfelldið“.

Ógeðugur (l)  Fráhrindansi; ógeðfelldinn.  „Þetta var alls ekki ógeðugur piltur“.

Ógegnd (n, kvk)  Ósköp; óhóf.  „Það er hrein ógengd hvað maðurinn getur étið“! „Þarna á hillunni var þvílík ógegnd af eggjum að við urðum að skilja eftir“.  Líklega dregið af því að gegni engri skynsemi.

Ógegndarafli / Ógegndarveiði (n, kk/kvk)  Mokveiði; frábær aflabrögð.  „Ekki get ég nú nefnt þetta ógengdarafla; en hann var vel við“.  „Ég hef sjaldan vitað aðra eins ógengdarveiði; en hún var bara í blá grunnendann á netinu; alveg uppi í hleininni“!

Ógegninn / Óhlýðinn (l)  Gegnir/hlýðir ekki vel.  „Tíkin getur verið gagnleg við smalamennskur, en hún er stundum ferlega ógegnin“.

Ógeltur (l)  Sem ekki hefur verið geltur/vanaður.  „Það er ábyrgðarhluti að hafa svona stálpaða nautkálfa ógelta í lausagöngu“.

Ógenginn (l)  A.  Um leið sem ekki hefur verið farin.  „Ég átti bara örfá fet ógengin þegar ég sá grilla í brúnina í myrkrinu“.  B.  Um göngu fisks á mið.  „Þorskur virðist enn ógenginn í fjörðinn, þó hann sé kominn upp á víkur“.

Ógengur (l)  Ófær; ekki hægt að ganga um.  „En brátt hefur sig upp að nýju stakur bergröðull, uppmjór sem klakkur, og liggur niður hlíðarjaðarinn sem þunnur kambur, frambrýndur, allt niður í fjöru, og endar í strengbergi.  Má í raun heita ógengur um þvert, en hefur þó verið klifinn en þykir glæfraför“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Ógerð (n, kvk)  A.  Ódöngun; veikindi; ónot.  „Það er einhver árans ógerð í mér ennþá“.  B.  Slæmt/hráslagalegt veður; oftast notað um ákafa slyddu sem bleytir mjög þegar hún sest á menn/skepnur.  „Það er ekki hægt að hafa féð úti í þessari ógerð, enda gerir það ekkert til beitar“.

Ógerðarlegur (l)  A.  Um hlut; ólánlegur; ólaglegur; ljótur.  „Ósköp finnst mér þetta hús ógerðarlegt í laginu“.  B.  Um veður; leiðinlegt; hráslagalegt.  „Það er heldur ógerðarlegt veður; slydduslítingur og kalt“.

Ógerðarlegt veður / Ógerðarveður (orðtak/ n, hk)  Leiðinlegt veður.  „Úti var slydda og kuldaþræsingur:  Fremur ógerðarlegt veður“.  Oft stytt:  „Þetta er bévítans ógerð“.  „Bölvað ógerðarveður er nú þetta“!

Ógerðarskítur / Ógerðarslydda / Ógerðarslydduskítur (n, kk/kvk)  Él/snjókoma af blautri slyddu, sem klínist í fatnað, bleytir og kælir það sem hún fellur á.  „Það er enn sami ógerðarskíturinn“!  „Við lentum í ógerðarslydduskít þegar við komum niður Hafnarlautirnar“.

Ógerla / Ógjörla (ao)  Ekki í þaula; ekki til hlítar.  „Ég vissi ógerla hvar ég var staddur þegar élinu létti“.  Orðmyndin „ógerla“ var meira notuð í Kollsvík.

Ógerlegt (l)  Óframkvæmanlegt; ómögulegt.  „Það reyndist ógerlegt að ná ánni úr þessari sjálfheldu og því varð að skjóta hana niður“.  Orðið finnst ekki í orðabókum en er mjög algengt vestra. 

Ógerningur / Ógjörningur (n, kk)  Ógerleg framkvæmd; ófæra.  „... enda kom það fljótt á daginn að ógerningur var að halda fjelaginu saman til langframa“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).  Orðmyndin „ógerningur“ var meira notuð í Kollsvík.

Ógert (l)  Óframkvæmt; kyrrt.  „Þið ættuð að láta það ógert að stríða karlinum; þið vitið aldrei hvenær hann rýkur upp“!  „Mér sýnist megnið af því ógert sem hann ætlaði að gera í gær“.

Ógervilegur / Ógjörvilegur (l)  Ómyndarlegur; ekki álitlegur/aðlaðandi/vænlegur.  „Þetta var alls ekki ógervileg stúlka“.  Oftar með „e“ framburði í Kollsvík.

Ógetið (l)  Ekki nefnt/orðað.  „Hann lét þess ógetið að hann hefði sjálfur átt þátt í að svona fór“.

Ógilt (l)  Ekki marktækt; ekki í gildi.  „Hann dæmdi þessa glímu ógilda“.

Ógirtur (l)  A.  Um landsvæði/tún; ekki með heldri girðingu/ löglegum garði.  „Það gengur ekki lengi að hafa nýræktina svona ógirta“.  B.  Um klæðaburð manns; ekki vel hysjað upp buxum utanyfir skyrtu.  „Reyndu nú að þvo þér um hendurnar og girða þig drengur; þú sest ekki svona til borðs“!

Ógjarn (l)  Ekki viljugur.  „Ég er nokkuð ógjörn á að lána þér nýju skærin í svona verk“.

Ógjarnan (ao)  Helst ekki.  „Ég er kannski ekki allskostar ánægður með hann, en vil þó ógjarnan missa hann“.  Orðið var alltaf með n í enda í máli Kollsvíkinga, en þannig rithátt er ekki að finna í orðabókum.

Óglaður (l)  Ókátur; óhress.  „Hann varð fremur óglaður við þessi tíðindi, sem vonlegt var“.  Sjá verða óglatt.

Ógleði (n, kvk)  Ælutilfinning; velgja.  „Finnurðu enn til einhverrar ógleði“?

Ógleymanlegt (l)  Sem ekki gleymist auðveldlega; eftirminnilegt.  „Þetta varð mér ógleymanlegt“.

Ógleymdur (l)  Ekki gleymdur.  „Á manntalsþingið mættu tuttugu manns, að ógleymdum sýslumanni sjálfum“.

Óglæsilegt (l)  Ekki viðkunnanlegt; skelfilegt; slæmt.  „Þetta er fremur óglæsilegt útlit“.  „Það var óglæsilegt að sjá lambhrútinn velta niður hlíðina, en það fór betur en á horfðist“.

Óglöggur (l)  A.  Almennt:  Ekki viss; þekkir ekki.  „Á þessum slóðum er ég fremur óglöggur á landamerkjum“.  B.  Um sauðfé:  Ekki fjárglöggur; þekkir ekki sundur einstaklinga í fjárhópi.  „Ósköp ertu nú óglöggur“!

Ógn (n, kvk)  A.  Hætta; yfirvofandi hörmung/slys.  „Ég hreinsaði laust grjót úr brúninni, sem sigara gæti stafað ógn af“.  B.  Áhersluorð.  „Henni þótti steinninn ógn fallegur“.  „Manni þykir ógn vænt um sína fjölskyldu“.

Ógna (s)  Hóta; láta hættu/illindi í veðri vaka.  „Sandfok hefur löngum ógnað byggð á Láganúpi“.  „Mér ógnar dálítið að leggja af stað í svona veðri“.

Ógnarafl / Ógnarkraftur (n, hk/kk)  Gríðarlegt afl; firna kraftur.  „Maður á erfitt með að ímynda sér þá ógnarkrafta brimsins sem kastað hafa þessu bjargi hér upp“.

Ógnarfjöldi (n, kk)  Firn; akur; býsn; mýgrútur.  „Slíkan ógnarfjölda af fólki sagðist hann aldrei hafa séð“. 

Ógnarmargt (l)  Mýmargt; fjölmargt; aragrúi.  „Við verðum að fara að setja eitthvað útaf af fénu; það er ekki hægt að hafa svona ógnarmargt á túninu um langan tíma“.

Ógnarkuldi (n, kk)  Fimbulfrost; helkuldi.  „Þessi ógnarkuldi hélst langt fram í Góu“.

Ógnarlengi (ao)  Mjög lengi; heila eilífð.  „Manni fanst tíminn ógnarlengi að líða á aðfangadag“.

Ógnarlæti (n, hk, fto)  Fyrirgangur; brambolt; hávaði.  „Ógnarlæti eru nú í ykkur strákar“!

Ógnarmikill (l)  Heilmikill; mjög mikill.  „Það er ógnarmikið bjarg á miðjum vegi á Fjörunum“.

Ógnarmyrkur (n, hk)  Svartamyrkur; niðadimma.  „Maður gerir ekkert af viti í þessu ógnarmyrkri“.

Ógnarraust (n, kvk)  Mjög sterk/kraftmikil rödd.  „Takiði nú rösklega á áraspýtunum“, öskraði hann með ógnarraust um leið og hann ýtti frá og vatt sér uppí bátinn“.

Ógnarskepna (n, kk)  Mikil/stór/ógnarleg skepna.  „Þetta skeljaskrímsli var ógnarskepna; ég er handviss um að það var á stærð við mókofann“!

Ógnarsmár (l)  Pínulítill; agnarsmár.  „Merkilegt er hvað svona ógnarsmár ungahnoðri getur hlaupið hratt“.

Ógnarstór (l)  Hrikastór; gríðarmikill.  „Þetta er ógnarstór ísjaki sem þarna er að koma fyrir Blakkinn“.

Ógnarþungi (n, kk)  Heljarþungi; mikið farg.  „Brimskaflinn skall í bergið með ógnarþunga“.

Ógnvaldur (n, kk)  Sá sem veldur ótta; skelfir; hrellir.  „Hafísinn gat orðið ógnvaldur fyrr á tímum; þegar tók fyrir fjörubeit; jarðbönn voru í haga og ekkert nema fellir framundan“.

Ógoldinn (l)  Ógreiddur.  „Mér finnst enn vera ógoldin skuld mín við þau gæðahjón“.

Ógóður (l)  Slæmur; vondur.  „Heldur fannst mér sullið ógott til drykkjar“.

Ógreiðfær (l)  Ekki greiðfær/ vel fær.  „Leiðin niður Flosagjá var þá orðin ógreiðfær hestum“.

Ógreiði (n, kk)  Óleikur; skráveifa.  „Þú gerðir mér ógreiða með því að taka hnífinn“.

Ógreiðlega (ao)  Ekki greiðlega/vel.  „Heldur gekk honum ógreiðlega að fikra sig niður til okkar“.

Ógreiður (l) Ekki greiður/greiðfær.  „Þarna er fremur ógreið leið yfir urðina“.

Ógreiðvikinn (l)  Ekki hjálpsamur/greiðvikinn.  „Ekki er ég svo ógreiðvikinn að ég geti ekki tekið pakkann“.

Ógreiðvikni (n, kvk)  Óliðlegheit; skortur á hjálpsemi.  „Þetta finnst mér ógreiðvikni af honum“.

Ógreindarlega (ao)  Ekki gáfulega; heimskulega.  „Þetta fannst mér ógreindarlega orðað af menntamanni“!

Ógreindur (l)  Heimskur; treggáfaður.  „Hann er ekki ógreindur plturinn; og röskur til vinnu“.

Ógreinilega (ao)  Óljóst; ekki glögglega.  „Ég sá þetta fremur ógreinilega, en þóttist samt nokkuð viss“.

Ógreinilegur (l)  Ekki greinilegur/skýr.  „Gatan er ógreinileg þarna á holtunum, en vörður standa enn“.

Ógrynni (n, hk, fto)  Fæla; gomma; gríðarlegur fjöldi.  „Þvílíkt ógrynni af ígulkerjum hef ég ekki séð áður í einum netstubba“.

Óguðlega (ao)  Ekki kristilega; léttúðlega.  „Talaðu ekki svona óguðlega, blessað barn“!

Óguðlegur / Ókristilegur (l)  Óhæfilegur; óviðeigandi.  „Hver skyldi vera að hringja á svona óguðlegum tíma“.  „Það er nú varla kristilegt að setja svona þungt hlass á heyvagninn“.

Ógurlega (ao)  Gríðarlega; firna; óhemju.  „Nautið bölvaði ógurlega þegar ég nálgaðist það“.

Ógurlegur (l)  Ógnandi; gríðarlegur; afskaplegur.  „Þarna er ógurlegur bratti  og ófært bæði mönnum og fé“.

Ógæfa (n, kvk)  Ólán; óheppni.  „Hann varð fyrir þeirri ógæfu að missa konu sína“.

Ógæft (l)  Gefst ekki; gefur ekki á sjó.  „Þegar veður er ógæft (í Kollsvíkurveri) gengur ei nema eitt skip af hvörs bónda hendi, og fleyta þá hvörju því hásetar allir af bátunum“  (AM/PV Jarðabók).

Ógæftadagar / Ógæftakafli (n, kk/fto)  Dagar/tími þegar ekki gefur til sjósóknar.  „Þetta fer að verða ansi langur ógæftakafli.  Það er hætt við að fiskur geti lagst frá í þessari ylgju“.

Ógæftasamt (l)  Tíðar landlegur vegna veðurs eða sjólags.  „Heldur hefur verið ógæftasamt það sem af er“.

Ógæftatíð (n, kvk)  Tímabil sem ekki gefur á sjó; landlega.  „Það hefur verið samfelld ógæftatíð í þrjár vikur“

Ógæftir (n, kvk, fto)  Óveðurskafli; ekki sjóveður.  „Á sjó gat hann ekki flutt hvalinn vegna ógæfta, en vildi fyrir hvern mun ná honum sem fyrst heim til sín“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Ógæfulega (l)  Illa; ófarsællega.  „Mér líst ógæfulega á að við náum þessum móðurlausu lömbum með heim“.

Ógæfulegur (l)  Um mat á manneskju/hlut/fyrirbæri/verklagi; óheppilegur; getulítill; árangurslítill.  „Heldur líst mér hann ógæfulegur sem smalamaður“.  „Mér fannst þetta ógæfulegar aðferðir til að setja bát“.

Ógæfumaður (n, kk)  Ólánsmaður; maður sem lent hefur í vandamálum/ógæfu eða framið glæp.

Ógæfumerki (n, hk)  Slæmur fyrirboði.  „Það eru ýmis ógæfumerki á lofti fyrir þessari ríkisstjórn“.

Ógæfusamlega (ao)  Ekki gæfulega/heppilega; ólánlega.  „Svo ógæfusamlega vildi til að hann missti stýrið“.

Ógæfusamur (l)  Ólánssamur; óheppinn.  „Ég vorkenni þeim sem eru svo ógæfusamir að búa alla ævi í borgarskítnum og komast aldrei á græn grös“.

Ógætilega (ao)  Gáleysislega; óvarlega.  „Farðu ekki svona ógætilega með hnífinn“! „Mér finnst hann fara frekar ógætilega þarna í þræðingnum“.

Ógætinn (l)  Óvarkár.  „Hann var fremur ógætinn í peningamálum og hélst illa á fé“.

Ógætni (n, kvk)  Flumbrugangur; yfirsjón; óvarkárni.  „Þarna var einungis um að kenna ógætni minni“.

Ógætt (l)  Ekki búið að gá/athuga/skoða.  „Það er enn ógætt í flesið hér fyrir utan“.

Ógöngur (n, kvk)  A.  Svelti; sjálfhelda.  „Nú verður vart fjár í ógöngum; og er þeim þá skylt er sér að tilkynna það oddvita...“ (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).  B.  Afleidd merking; hverskyns vandræði.

Óhafandi (l)  Ómögulegur; óhæfur; óþolandi.  „Þetta fyrirkomulag er algjörlega óhafandi“.

Óhaganlega (ao)  Ekki af lagni/verkhyggju.  „Skelfing er þessu óhaganlega fyrirkomið“!

Óhaggað (l)  Sem ekki hreyfist/bifast.  „Hans verk á þessu sviði munu standa óhögguð um alla framtíð“.

Óhagganlegur / Óhræranlegur (l)  Án þess að hvika/bifast.  „Brotið náði okkur og braut á skutnum og baki formannsins; en það var eins og bátnum væri skotið áfram.  Þannig sat hann í brotinu, óhagganlegur, þar til stóð; þá kom mikill sjór inn“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Óhagkvæmt / Óhagstætt (l)  Ekki hagstætt/arðbært; borgar sig ekki.  „Búskapur á þessum stað var orðinn óhagkvæmur“.

Óhagræði (n, hk)  Umhendis; sem ekki er sparnaður að.  „Þeim þótti óhagræði að því að fara þennan krók“.

Óhaltur (l)  Ekki haltur; stingur ekki við fæti.  „Ég er farinn að geta gengið óhaltur og staflaus“.

Óhappafleyta (n, kvk)  Ekki lánsamur bátur.  „Títanik átti ekki að geta sokkið, en reyndist mesta óhappafleyta“.

Óhappagat (n, hk)  Slysagat.  „Ef óhappagat kom á brók var gert við á þann hátt að smíðaður var tappi með rauf í röndunum.  Honum smeyft í gatið; svo vafið utanum raufina með fínu bandi.  Það var kallað að tappa brókina“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Óhappagemlingur / Óhappagemsi (n, kk)  Sá sem er mjög óheppinn; hrakfallabálkur.  „Varstu að flumbra þig aftur?  Skelfingar óhappagemsi geturðu verið, greyið mitt“!

Óhappalítið (l)  Með litlum áföllum/óhöppum/slysum.  „Að öðru leyti gekk ferðin óhappalítið“.

Óhappatilvik (n, hk)  Óheppni; ólán.  „Þetta verður að teljast óhappatilvik, sem engum er um að kenna“.

Óharðnaður unglingur (orðtak)  Ungmenni sem ekki er fært um öll verk fullorðinna.  „Hann fer ekkert með í svona slarkferð; þetta er bara óharðnaður unglingur ennþá“.

Óháður (l)  Ekki bundinn af; óskuldbundinn.  „Við fáum einhvern óháðan til að skera úr um þetta“.

Óheflaður (l)  A.  Um við/fjöl/veg; ekki búið að hefla; ósléttur.  B.  Líkingamál um mann; ruddalegur; ókurteis.

Óheftur (l)  A.  Um kind/kú/hest; ekki bundinn með hafti.  „Þessi kýr er svo spök að það má alveg mjólka hana óhefta“.  B.  Um mann, náttúruafl eða fleira; lausbeislað; villt.  „Hún var alveg óheft í sinni listsköpun“.

Óheilindamaður (n, kk)  Lygari; svikari; sá sem blekkir.  „Hann hefur ekki verið talinn óheilindamaður“.

Óheilindi (n, hk, fto)  Undirferli; lygar; fláræði.  „ég kann ekki að meta svona óheilindi“!

Óheillaákvörðun / Óheillaráð / Óheillaskref / Óheillaspor / Óheillaverk (n, hk)  Óráð; ekki góð ráðstöfun/aðgerð.  Þetta reyndist óheillaákvörðun, og afdrifarík“.  „Það var óheillaráð að loka Þræðingnum“.  „Ég held að það hafi verið óheillaskref fyrir byggð í Rauðasandshreppi að sameina hann öðrum hreppum“.

Óheillakráka (n, kvk)   Lánlítill maður; slæmur fyrirboði.  „Ekki líst mér vel á nýja hásetann.  Gæti trúað að hann verði okkur óheillakráka“.

Óheillamerki (n, hk)  Slæmur fyrirboði.  „Það er nokkuð óheillamerki að hvergi sér fugl á sjónum“.

Óheillasending (n, kvk)  Ekki góður fengur.  „Mér finnst að þessi sýslumannsnefna sé árans óheillasending“.

Óheillavænlegur (l)  Ekki líklegur til að leiða til góðs.  „Mér finnst þetta óheillavænleg þróun“.

Óheilnæmur / Óhollur (l)  Ekki góður fyrir heilsu.  „Heldur er það óheilnæmt þetta déskotans reykjarkóf“!

Óheimskur (l)  Ekki heimskur; frekar gáfaður.  „Hann er óheimskur þó sérvitur sé“.

Óheimt (l)  Um fé sem ekki er heimt/ekki er komið af fjalli.  „Áttu mikið enn óheimt“?

Óhemja (n, kvk)  A.  Það sem erfitt er að hemja/ hafa stjórn á.  „Kerlingin lét eins og óhemja við karlinn þegar hún komst að því að hann hafði fengið sér neðan í því“.  B.  Mjög mikið; ósköp; ógengd.  „Þarna var óhemja af ígulkerjum, en fjandann engin grásleppuveiði“.

Óhemjugangur / Óhemjuskapur (n, kk)  Fyrirgangur; læti.  „Skárri er það nú óhemjugangurinn!  Ætlið þið að æra mig“?  „Maður var nú bara hálf hræddur við óhemjuskapinn í kerlingunni“!

Óhemjumikill / Óhemjustór (l)  Afar/mjög mikill/stór; gríðarmikill.  „Það er óhemjumikill snjór í Kinninni“.

Óhemjusterkur (l)  Gríðarsterkur; jötunn að burðum. 

Óhentugur (l)  Ekki hentugur/þénanlegur.  „Þetta er fremur óhentugt ílát“.

Óheppilega (ao)  Illa; slysalega.  „Það vildi svo óheppilega til að réttarþilið gaf sig“.

Óhespuð (l)  Um hurð; ekki lokuð með hespu.  „Hurðin á syðsta karminum var óhespuð, en snöruð að innanverðu“.

Óheyrilega (ao)  Gríðarlega; óhemju; afskaplega.  „Þarna fékkst óheyrilega mikill afli fyrrum“.

Óheyrilegur (l)  Gríðarlegur; afskaplegur.  „Þetta er alveg óheyrilegur klaufaskapur“!

Óheyrt (l)  Hefur ekki heyrst fyrr; áður óþekkt; dæmalaust.  „Svona nokkuð er alveg óheyrt“!

Óhikað (l)  Án hiks/vafa.  „Þetta get ég óhikað fullyrt“.

Óhindraður (l)  Án hindrunar.  „Hann gleymdi að loka hliðinu svo féð gat óhindrað valsað í slægjuna“.

Óhirða (n, kvk)  Reiðuleysi; hirðuleysi.  „Þið eigið ekki að skilja amboðin eftir úti á túni í óhirðu“.

Óhirðandi (l)  Um hey; ekki unnt að hirða í hlöðu.  „Þetta er enn óhirðandi nema í súgþurrkun“.

Óhlaðinn (l)  A.  Um bát/bíl; ekki með hleðslu/þunga.  B.  Um byssu; ekki með virku skoti.

Óhlutdrægur (l)  Hlutlaus; dregur ekki taum annars/eins aðilans.

Óhlutrænn (l)  Ekki hlutbundinn; óáþreifanlegur.  „...og ekki heldur glápa út í loftið á eitthvað óhlutrænt, sem við vitum ekki hvað er“  (EG; Vakandi æska). 

Óhnykktur (l)  Um nagla/saum; ekki hnykktur/beygður eftir að hafa verið rekinn í gegnum efni.  „Það er ekki undarlegt þó þakplatan hafi losnað; hér er allt óhnykkt á langböndunum“.

Óhnýttur (l)  Ekki hnýttur/bundinn.  „Þú gengur ekki langt á óhnýttum skónum“.

Óhollusta (n, kvk)  Það sem er óhollt/óheilnæmt.  „Vertu nú ekki að setja þessa óhollustu í nefið á þér“!

Óhóf / Óhófsemi (n, hk)  Vellystingar; eyðsla umfram þarfir.  „Ég kann ekki að meta svona óhóf“.

Óhóflegur (l)  Í óhófi.  „Hann lét bíða eftir sér í óhóflegan tíma“.

Óhófslifnaður / Óhófslíf (n, kk/hk)  Lifað í óhófi/umframneyslu.  „Þeir endast stutt á svona stað sem vanir eru óhófslifnaði í borgunum“.

Óhófsmaður (n, kk)  Maður sem stundar einhverskonar óhóf.  „Hann var óhófsmaður á vín og tóbak“.

Óhólfaður (l)  Óskiptur; ekki stúkaður í sundur.  „En uppi (á Lambavatni) var baðstofa, nokkuð rúmgóð; óhólfuð sundur...“  (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).  

Óhrakinn (l)  A. Um manneskju/skepnu; ekki illa farin af útiveru/hrakningum.  „Hann var þreyttur eftir gönguna, en óhrakinn og jafnaði sig fljótt“.  B.  Um hey; ekki veðrað svo að orka hafi tapast.  „Galtarnir höfðu varið sig vel, svo heyið var alveg óhrakið“.  C.  Um fullyrðingu/kenningu; ekki afsönnuð.

Óhraustur / Óhress (l)  Ekki hraustur/frískur.  „ég hef verið fremur óhraustur síðustu dagana“. 

Óhreinka (s)  Skíta út; saurga.  „Passiði að óhreinka ekki fötin ykkar áður en við förum í kirkjuna“.

Óhreinlyndi / Óhreinskilni (n, hk)  Undirferli; ófrómheit; fals.  „Mér líkar illa svona óhreinlyndi hjá fólki“.

Óhreinlyndur / Óhreinskilinn (l)  Undirförull; ófrómur; ekki traustur.

Óhrjálegur (l)  Illa útlítandi; í slæmu ástandi.  „Bíllinn er orðinn býsna óhrjálegur“.

Óhreint (l)  A.  Skítugt; sölugt; óþrifalegt.  B.  Reimt; með draugagangi.  „Þar eru tveir balar með lægð á milli; var það nefnt Djöflaþúfur.  Þar var margt óhreint á ferðinni“  (Ók.höf; Örn.skrá Króks á Rauðasandi).  „Ó, já já, hugsa ég; það er þá eitthvað óhreint hér; það er nú líklega betra að verda ekki á vegi þess“  (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn Guðmundar Jónssonar).  „Átti hann að hafa grunað að eitthvað óhreint lægi á bakvið, og öruggast væri að eiga ekki neitt á hættu með því að hafa sauðinn til matar“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Óhrekjandi / Óhrekjanlegt (l)  Sem ekki er auðvelt/unnt að hrekja.  „Þetta er óhrekjandi staðreynd“!

Óhrekkvís (l)  Sem ekki hrekkir; hrekklaus.  „Hann var heinlyndur og óhrekkvís“.

Óhreyfanlegur (l)  Sem ekki hreyfist/ er unnt að hreyfa.  „Það eru fá björg óhreyfanleg ef rétt er að farið“.

Óhreyfður (l)  Ekki hreyfður/raskaður.  „Það er varasamt að róta mikið í bæjarhólum sem staðið hafa óhreyfðir frá landnámstíð, líkt og líklega er bæði á Láganúpi og í Kollsvík“.

Óhrjálegur (l)  Ótérlegur; hrörlegur; illa útlítandi; skítugur; ósjálegur.  „Skelfing ertu orðinn óhrjálegur í tauinu drengur; farðu nú og skiptu minnsta kosti um buxur“! (Sjá hrjálegur)

Óhroði (n, kk)  A.  Skítur; óþrif.  „Netin eru full af óhroða eftir vestanveltinginn“.  B.  Slæmt umtal; níð; slúður.  „Það er erfitt að verjast svona óhroða, sem enginn vill kannast við“.

Óhróður (n, kk)  Slúður/lygar/áburður um manneskju.  „Ég er lítið í að bera út svona óhróður um aðra“.

Óhræddur (l)  Ekki hræddur/smeykur.  „Hann gekk óhræddur að nautinu og greip í miðnesið“.

Óhrærður (l)  Um skyr; ekki úthrært/mjólkurblandað.  „Hér er eitthvað af óhrærðu skyri“.

Óhræsi (n, hk)  A.  Skrýmsli; óvættur; ótukt; ribbaldi.  „Hún lét eins og bölvað óhræsi við karlkvikindið“!  B.  Gæluorð um dýr.  „Krummi er að kroppa í beinið.  Ég held honum sé ekki ofgott af því, óhræsinu atarna“.

Óhræsisanginn / Óhræsisgarmurinn / Óhræsisgreyið / Óhræsistetrið / Óhræsistötrið / Óhræsisgarmurinn (n, m.gr.)  Gæluorð í vorkunnartón um þann (mann/skepnu) á bágt og e.t.v. hefur orðið eitthvað á.  „Hann gat nú ekki vitað það óræsistetrið að þú ættir þennan kökubita; hann var nú bara að hreinsa af borðinu“!

Óhuggandi (l)  Svo niðurdreginn/sorgbitinn að erfitt er að hugga/hughreysta.  „Hann er alveg óhuggandi yfir að hafa tapað vasahnífnum“.

Óhugnaður (n, kk)  Viðbjóður; voðaverk; það sem vekur óhug/ógn/skelfingu.

Óhugnanlegur (l)  Ógnvænlegur; uggvænlegur; illilegur; skelfilegur.

Óhugsað (l)  Sem ekki hefur verið ígrundað/ hugsað til hlítar.  „Ég sló þessu fram, svona óhugsað“.

Óhugsandi / Óhugsanlegt (l)  Sem ekki/varla er unnt að hugsa/ímynda sér.  „Það er óhugsandi að fé sé mikið uppi eftir að komið er svona framá vetur og skafið í lautir“.

Óhugur (n, kk)  Ótti; viðbjóður; óróleiki.  „Það setur hálfgerðan óhug að manni við svona frétt“.

Óhultur (l)  Úr hættu; öruggur.  „Við vorum óhultir þarna í skútanum, fyrir grjóthruni úr bjarginu“.  Ekki er á hreinu með upprunaskýringu orðsins, og hugsanlega hefur ritun þess eða merking breyst í aldanna rás.  „Hultur“ merkir í raun það sama; þ.e. að vera öruggur með því að hyljast/ fara huldu höfði.  „Ó“ið í forskeytinu hefur því e.t.v. verið „æ“ til áhersluauka eða að „óhultur“ hefur upphaflega merkt að geta hvergi dulist, t.d. fyrir hættu af óvinum.  Hinsvegar má einnig benda á að forskeytið „ó“ er stundum notað til áhersluauka í í öðrum orðum, s.s. „hljóð“ og „óhljóð“; „læti“ og „ólæti“.

Óhvikull (l)  Sem ekki hvikar/ breytir um afstöðu/skoðun.  „Hann var alveg óhvikull í þessu máli“.

Óhýr (l)  Óhress; ekki hrifinn.  „Ég var fremur óhýr með þessa ákvörðun“.  „Þetta var litið óhýru auga“.

Óhýstur (l)  Ekki búið að hýsa/ taka á hús.  „Það gengur ekki að hrútar séu óhýstir á þessum árstíma“!

Óhæfa (n, kvk)  A.  Það sem alls ekki þykir við hæfi.  „Svona óhæfu fremja menn ekki með fullu ráði“.  B.  Mjög mikið magn; ósköp.  „Ég hef sjáldan séð slíka óhæfu af eggjum á einum stalli“.

Óhæfilega (l)  Óhemju; óskaplega; of.  „Hann setti óhæfilega mikið í kerruna og auðvitað brotnaði fjöðrin“.

Óhæfuverk (n, hk)  Glæpur; óhæfa; verknaður sem ekki þykir við hæfi.  „Það var óhæfuverk að ganga á bæjarhólinn með jarðýtu“!

Óhægð (n, kvk)  Óþægindi; óhagræði.  „Við náðum að bjarga trénu, en sandrokið var okkur til óhægðar“.

Óhægt er að gera við ákveðnu (orðatiltæki)  Forn speki sem vísar í örlagatrú í heiðni.  Mönnum eru ásköpuð forlög/örlög af skapanornum sem ekki verður breytt.  Í Kollsvík heyrðist afleitt orðtak; óhægt við að gera.

Óhægt við því að gera (orðtak)  Ekki gott að ráða bót á því; ekki unnt að stöðva/bæta úr.  Sjá orðatiltækið óhægt er að gera við ákveðnu.  „Víst er það hundleiðinlegt að fara í bað ljúfurinn, en það er óhægt við því að gera“.

Óhægur (l)  Ekki auðveldur; erfiður.  „Björgun var óhæg, því straumur var mikill og bára töluverð, en skip Ólafs hlaðið af fiski“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna). 

Óhægt um vik (orðtak)  Erfitt; snúið.  „Ég á fremur óhægt um vik með þetta núna“.

Óhætt (ao)  Í lagi; án hættu.  „Það er óhætt að fara að hleypa fénu út núna; hann er að birta alveg upp“.

Óhönduglega (ao)  Klaufalega; ankanalega.  „Honum fórst þetta fremur óhönduglega“.

Óhönduglegur (l)  Illa heppnaður; illa gerður.  „Kofinn varð frekar óhöndugleg smíði“.

Óhöndugur (l)  Klaufalegur; ólaginn.  „Ári ertu eitthvað óhöndugur við þetta; hana, ég skal sýna þér“!

Óinnbundin (l)  Um bók; ekki bundin inn í harðspjöld.  Almennt notað áður en fundið var upp orðið „kilja“.

Óinnfærð (l)  Um kind; ekki búið að skrá í ærbók.  „Surtla er enn óinnfærð; hún fékk með Óðni í gær“.

Óinnkomið (l)  Ekki komið inn.  „Við afskrifum þau félagsgjöld sem enn eru óinnkomin eftir þrjú ár“.

Óígrundað (l)  Ekki vandlega íhugað/hugsað; óathugað.  „Ég sló þessu fram, svona alveg óígrundað“.

Ójafn (l)  A.  Ekki eins; ólíkur.  „Mér fannst fremur ójafnt skipt“.  B.  Óslétt; hrufótt; með ójöfnum.  „Vegurinn er ári ójafn þar sem vatn rann á honum í sniðinu“.

Ójafna (n, kvk)  Mishæð; hnúskur; það sem stendur uppúr.  „Þetta er rennislétt; hvergi ójafna á“.

Ójafnaðarmaður (n, kk)  Ófriðsamur maður; ribbaldi; skálkur.

Ójá (uh)  Upphrópun/andsvar með mismunandi meiningu eftir tóntegund og áherslu atkvæða. 

Ójú (uh)  Upphrópun/andsvar oftast samþykki við þvi sem viðmælandi á undan hefur sagt/spurt og oftast þá með viðbót á eftir.  Fer eftir tóntegund, áherslum og samhengi, hvaða skapbrigðum orðinu er ætlað að lýsa.

Ójöfnuður (n, kk)  Óréttlæti; yfirgangur; undirokun. 

Ókalinn (l)  Ekki kalinn/frostskemmdur á útlimum.  „Hann var orðinn alvegg dofinn en þó ókalinn“.

Ókalkaður (l)  Ekki elliær/farinn að tapa minni.  „Alveg er hann ókalkaður ennþá, karlinn“.

Ókannað (l)  Ekki skoðað/athugað/kannað.  „Þetta svæði er alveg ókannað enn“.

Ókarað (l)  A.  Eiginleg merking; um lamb; ekki karað/sleikt af móðurinni.  B.  Líkingamál; óklárað.

Ókaup (n, hk, fto)  Slæm kaup/viðskipti.  „Þessi bílaviðskipti voru líklega mín mestu ókaup um ævina“.

Ókaupandi (l)  Ekki hægt/ráðlegt að kaupa; oftast vegna verðs.  „Tóbakið er orðið alveg ókaupandi“!

Ókátur (l)  Vansæll; fúll; reiður.  „Hann var fremur ókátur með þessa niðurstöðu“.

Ókeimur (n, kk)  Óbragð; vont bragð.  „Það er einhver árans ókeimur af þessum bita“.

Ókenndur (l)  A.  Óþekktur; sem ekki hafa verið borin kennsl á.  B.  Ófullur; ekki ölvaður/kenndur.

Ókennilegur (l)  Óþekkjanlegur; illþekkjanlegur.  „Þarna er einhver ókennilegur bíll niðri á beygju“.

Ókeypis (l)  frítt; án þess að greiða fyrir.  „Hrís og lyng máttu menn fá ókeypis“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Ókind (n, kvk)  Skrýmsli; óvættur; þjóðsagnavera.  „Guðmundur góði safnaði ókindunum á einn stað“.

Ókíttaður (l)  Ekki þétt/fest með kítti.  „Ein rúðan í fjárhúsinu var ókíttuð og skrölti í vindinum“.

Ókjör (n, hk)  Gríðarlegt magn; fæla; aragrúi.  „Það er óþarfi að setja þessi ókjör af sykri á pönnukökuna“. E.t.v. komið af „ógjör“ sem ritdæmi eru um.  Merking gæti þá verið „meira en vel er gerlegt“.

Óklár (l)  A.  Um mann; óviðbúinn; ekki tilbúinn.  „Bíðið aðeins; sigarinn er óklár enn“.  B.  Um mann; ekki viss; þekkir ekki til.  „Ég er óklár á miðunum á þessum slóðum“.  C.  Um band/vað/net/línu o.fl.; ekki greiður; ekki með réttu lagi.  „Hver gerði þetta eiginlega upp?  Hönkin er öll óklár“!  „Það þarf að vanda sig við lagninguna; netið veiðir lítið ef það fer óklárt í sjóinn“!

Óklárað (l)  Ekki lokið.  „Verkið er enn óklárað“.

Óklárast (s)  Um veiðarfæri/vað/línu; hlekkjast á, flækjast.  „Nú ókláraðist netið eitthvað í lagningunni.  Við þurfum að draga flækjuna inn aftur“.  „Ég kastaði vaðnum niður en hann ókláraðist og náði ekki alla leið“.

Ókleyft (l)  Ómögulegt; ógerlegt.  „Vegna stöðugs grjóthruns reyndist ókleyft að halda girðingunni á Urðarhrygg fjárheldri“  (HÖ; Fjaran).

Óklökkur (l)  Ekki með klökkva í röddinni.  „Maður getur varla rætt þetta óklökkur“.

Óknyttaormur (n, kk)  Hrekkjalómur; strákur sem skammað hefur sig upp; óþekktarangi.  „Hvar eru þessir bévítans óknyttaormar“?!

Óknyttur (n, kk, fto)  Hrekkur; óþverraskapur; kvikindisskapur.  „Ekki var öll tómstundaiðja vermanna í Kollsvíkurveri í ungmennafélagsandanum, og sögur hafa farið af óknyttum sem vart eru prenthæfir“.

Ókominn (l)  Ekki kominn; vantar enn.  „Svo fór að skyggja og enn var hún ókomin“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Ókostur (n, kk)  Galli; neikvæðir eiginleikar.  „...mikið var af drápsdýjum í Láganúpsmýrunum.  Það er tekið fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem mikill ókostur á jörðinni.  Um sauðburðinn þurftum við að fara annan hvern dag út í Breiðavík, en þar gekk mikið af okkar fé.  Nokkur ókostur var hve féð leitaði mikið í kletta; sérstaklega þegar snemma var sleppt“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Ókristilega þenkjandi (orðtak)  Um þann sem ekki þótti sýna næga guðrækni í orðum og/eða athöfnum meðan trúarhiti var enn merkjanlegur hjá Íslendingum.  Skammaryrðið hefur eflaust átt við marga Kollsvíkinga, enda var þeim brýnna að sinna raunsæi og brauðstriti við sínar aðstæður en guðsorðastagli.

Ókristilegt athæfi (orðtak)  Ekki siðlegt/ við hæfi að gera.  Ekki alltaf bundið trúarlegum efnum.  „Er það ekki ókristilegt athæfi að fá sér snafs á þessum tíma dags“?

Ókristilegt orðbragð (orðtak)  Orðalag sem guðhræddu fólki ofbauð.  Sumum Kollvíkingum er gjarnt að grípa til sterkra áhersluorða þegar mikið lá við og uppskera þá stundum umvandanir þeirra sem hófstilltari eru.

Ókristilegur tími (orðtak)  Óvenjulegur/óboðlegur/slæmur tími.  „Það er komið framyfir miðnætti.  Hver skyldi vera að hringja á svona ókristilegum tíma“?

Ókræsilegt (l)  Ólystugt; fráhrindandi.  „Ósköp finnst mér þetta ókræsilegur matur“.  Veðrið er orðið dálítið ókræsilegt“.

Ókræsinn (l)  Ekki vandlátur/fyrirtektasamur.  „Hann var alveg ókræsinn á það þó eggin væru farin að unga“.

Ókunnandi (l)  Ekki kunnandi; þekki ekki til; fávís.  „Ég er alveg ókunnandi í þessum fræðum“.

Ókunnuglega (ao)  Ekki kunnuglega; framandi.  „Þetta hljómar ekki ókunnuglega í mínum eyrum“.

Ókunnugleiki (n, kk)  Vanþekking; fákunnátta.  „Ég verð að játa ókunnugleika minn á þessum slóðum“.

Ókunnugt fé (orðtak)  Aðkomufé; fé sem ekki er af viðkomandi bæ.  „Ókunnugt fé sem kom í réttina var látið í hús; það var svo rekið til réttar á mánudegi“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Ókunnur / Ókunnugur (l)  Þekkir ekki til; hefur ekki þekkingu á.  „En þeir voru alls ókunnir brimlendingunni í Kollsvík og öðrum Útvíkum“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Ókurteis (l)  Ekki kurteis/siðaður/tillitssamur; sýnir ókurteisi.  „Mér fannst hann bara ókurteis“!

Ókurteisi (n, kvk)  Tillitsleysi; skortur á mannasiðum.  „Ég kann fremur illa við svona ókurteisi“.

Ókvíðinn (l)  Ekki kvíðinn/áhyggjufullur.  „Ég er alveg ókvíðinn yfir því“.

Ókvæða (l)  Orðlaus.  „Hann varð ókvæða við þegar hann heyrði fréttina“.  „Ég brást ókvæða við“.

Ókvæðisorð (n, hk, fto)  Köpuryrði; skammir; uppnefni.  „Hann var varla kominn í kallfæri þegar hann hellti ókvæðisorðum yfir þá“.

Ókvæntur (l)  Ógiftur.

Ókærinn (l)  Kærulaus; hirðulaus; hugsunarlaus.  „Mér þykir hann alltof ókærinn um námið“.  Orðið var og er talsvert notað í Kollsvík, en heyrist lítið almennt.

Ókyrr (l)  A.  Órólegur; iðandi.  „Ansi er kýrin ókyrr meðan hún er mjólkuð; gæti hún verið að fá júgurólgu“?  B.  Um sjólag; ylgja; ófriður; nokkur sjór.  „Hann gæi verið ókyrr hér utar við landið“.

Ókyrrast (s)  A.  Verða órór; sýna fararsnið.  „Hann er farinn að ókyrrast og vill komast af stað“.  B.  Auka sjó.  „... Þó reri hann hið þriðja sinn, því lygndi, en þegar hljóp á útnyrðingur með ylgju mikili og ókyrrðist mjög sjór við það, svo illlendandi var“  (TÓ, frás. Gísla Konráðssonar; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi).

Ókyrrð (n, kvk)  A.  Óróleiki í mönnum/skepnum.  „Það er bölvuð ókyrrð á fénu; það heldur sér illa til beitar“.  B.  Sjógangur; bára.  „Mér sýnist vera heldur mikil ókyrrð til að leggja bátnum að hleininni núna“.

Ókænn (l)  Ekki séður/gáfaður/fyrirhyggjusamur.  „Mér fannst hann fremur ókænn í þessum viðskiptum“.

Ókærinn (l)  Kærulaus; hirðulaus; óvarkár.  „Skelfing geturðu verið ókærinn með flugbeittan ljáinn“.

Ókærni (n, kvk)  Kæruleysi; fífldirska.  „Ég teldi það bara ókærni að reyna að klífa klettana á þessum stað“.

Ókæti (n, kvk)  Leiði; ami; þungt í skapi.  „Mér finnst einhver ókæti hafa verið í honum síðustu dagana“.

Ól (n, kvk)  A.  Borði, oftast úr leðri fyrrum en nú oft úr gerviefnum.  B. Taumur.  „Um tíma var Láganúpsféð flest í fjárhúsum á Melnum og þangað var hrútur leiddur daglega í ól meðan fengitími stóð“.

Óla (s)  A.  Binda með ól.  B.  Seila fisk upp á seilaról eða burðaról.

Óla fast / Óla niður (orðtök)  Binda með ól.  „Kassinn var ólaður niður á hvalbak bátsins“.

Ólafssúra (n, kvk)  Oxyria digyna; súrblaðka; kálsúra; hrútablaðka; súrkál.  Algeng jurt af súruætt sem vanalega vex í sérstæðum hnúskum á skuggælum og rökum stöðum, þar sem beitar er ekki að vænta t.d. í klettum.  Blöðin eru þykk og nýrnalaga; safarík og með mildum súrum keim.  Jurtin er því bragðgóð og vinsæl til átu.  Hún var notuð til matar og lækninga áðurfyrr, t.d. gegn skyrbjúg.  Blóm á stöngli eru græn, smá og mörg saman í klasa; fræin rauð.  Mikið er af Ólafssúru í Kollsvík, t.d. í Hjöllum og Hnífaklettum.

Ólag / Ólagsalda / Ólagssjór (n, hk/kvk/kk)  Brimalda við strönd; háskaleg við lendingu.  „Eins og allir vita er ólagið þrjár bárur eða grunnskaflar sem ganga hver eftir aðra á land, en síðan verður talsvert sléttari sjór á eftir“  (HE; Barðstrendingabók)  Sú lýsing mun hafa átt við Breiðafjörð en um Kollsvík segir; „Ólagsöldurnar eru taldar 4-5 og í vaxandi brimi er ætíð styttra milli ólaga“  (JT Kollsvík; LK; Ísl.sjávarhættir III).  „Ólagið nær þeim og bátnum hvolfir...“  (KJK; Kollsvíkurver). „Nú gengu ólögin hærra en áður...“  (MG; Látrabjarg).  „En þegar upp á Lægið (í Kollsvíkurveri) kom reið undir ólag af norðansjó og bátnum hvolfdi“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Ólagaður (l)  A.  Um hlut; ekki búið að lagfæra; ólagfærður.  B.  Um kaffi; ekki búið að hella uppá.

Ólagasjór (n, kk)  Sjólag þar sem hætta er á að ólög geti tekið sig upp.

Ólagfærður (l)  Ekki búið að lagfæra; ólagaður.  „Réttin er ónothæf meðan hún er enn ólagfærð“.

Ólaghentur / Ólaginn / Ólagtækur (l)  Ekki laginn/fingrafimur; klunni; klaufi.  „Heldur finnst mér hann ólaginn við þetta“.  „Pilturinn er alls ekki ólagtækur“.

Ólaglega (ao)  Ekki með góðu lagi; óhönduglega.  „Honum fórst fremur ólaglega að leggja bátnum að“.

Ólaglegur (l)  Ómyndarlegur; ljótur.  „Þetta er alls ekki ólagleg stúlka“.

Ólagsalda (n, kvk)  Ólag; stór og hættuleg brimalda í lendingu.  „Á sumum stöðum er langt á milli ólaga og þá um lagabrim að ræða.  Þótti betra að reyna lendingu á síðustu báru þess en öftustu ólagsöldu í óðbærum sjó.  Þessi var reynsla víða um Vestfirði“  (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III). 

Ólarþöngull (n, kk)  Hrossaþari; leggur hrossaþara.  Var nýttur til elduviðar þurrkaður áðurfyrr.

Ólaskaður (l)  Óbrotinn; óskemmdur.  „Báturinn reyndist ólaskaður eftir áfallið“.

Ólastaður (l)  Ekki lastaður/níddur/niðurlægður.  „Að öðrum ólöstuðum er hann maður dagsins“.

Ólastandi (l)  Sem ekki er lastað/niðurlægt/ gert lítið úr.  „Svona framferði verður vart látið ólastandi“!

Ólatur (l)  Duglegur; ósérhlífinn.  „Strákurinn er ólatur, til dæmis við að reka úr túninu og halda á hrífu“.

Ólán (n, hk)  A.  Óheppni; ógæfa.  „Hann varð fyrir því óláni að missa tvo slóða“.  B.  Slæmur/illa gerður hlutur.  „Þessi hamar er bölvað ólán; ég dauðsé eftir að hafa keypt hann“.

Ólánast (s)  Mislánast; misheppnast.  „Eitthvað hefur netalögnin ólánast hérna“.

Ólanið ríður ekki við einteyming (orðatiltæki)  Líkingin er notuð um það þegar hvert óhappið virðist elta annað.  Einteymingur er einfalt beisli á hesti; með einum taum og því erfitt til stjórnunar.  Þarna  er vísað til þess að óláninu sé beint rakleiðis gegnt manni.

Ólánlega (ao)  Óhönduglega; illa; slysalega.  „Það tókst svo ólánlega til að kýrin festist í skurðinum“.

Ólánlegur (l)  Óheppilegur; ólögulegur; óþénanlegur.  „Svo ólánlega tókst til að bátnum sló flötum í lendingunni“.  „Peysuskrattin er verksmiðjuprjónuð og ólánleg í öllu sköpulagi“.

Ólánsbuxur / Ólánspeysa / Ólánsskyrta / Ólánsskór / Ólánsstígvél (n, kvk)  Fatnaður sem fer illa/ er óþægilegur/ passar ekki.  „Mikið sé ég eftir að hafa keypt þessar ólánsbuxur;  handa hvaða manntegund skyldi þetta vera framleitt“?!  „Það er útilokað að vinna í þessari ólánsskyrtu; maður er eins og í spennitreyju“!  „Skelfingar ólánsstígvél eru þetta!  Þau eru níþröng um kálfann“.

Ólánsskepna (n, kvk)  Húsdýr sem ekki gerir sitt gagn.  „Þessi hrútkægill hefur verið hálfgerð ólánsskepna“.

Ólánsskinnið  / Ólánsgarmurinn / Ólánsgreyið (n, m.gr)  Gæluheiti um menn dýr í vorkunnartón.  „Hann getur lítið að því gert ólánsskinnið, þó hann kunni ekki að halda á hrífu; þeir læra það liklega ekki í háskólanum“!

Ólánsveiðarfæri (n, hk)  Lélegt/afkastalítið veiðarfæri; veiðarfæri sem illa fiskast á/ spillir veiði.  „Þó Kollsvíkingar á síðustu öld hafi staðið í þeirri meiningu að línuveiðar hafi hafist rétt fyrir þáliðin aldamót, benda ýmsar líkur til að á fyrri öldum hafi verið veitt með línu; þar sem annarsstaðar.  hinsvegar hafi hún verið talin ólánsveiðarfæri þegar fiskgengd minnkaði, og menn helst viljað gleyma hennar tilveru“.

Ólátgangur (n, kk)  Ólæti; fyrirgangur, fíflagangur.  „Hættiði nú þessum ólátagangi strákar“!

Ólátaseggur (n, kk)  Óróaseggur; sá sem stendur fyrir ólátum/ er með ólæti. 

Ólátast (s)  Láta illa/órólega; vera með læti/fyrirgang; atast.  „Hættið nú að ólátast svona með hundinn“!

Ólegið (l)  Um egg; ekki orðið legið/ farið að stropa; nýorpið.  „Þessi egg eru öll glæný og ólegin með öllu“.

Óleiðitamur (l)  Ekki fylgispakur; lætur illa að stjórn; fer ekki að fyrirmælum.

Óleikur (n, kk)  Hrekkur; bekkni.  „Þú gerðir okkur árans óleik með því að gleyma aukasökkunum í landi“.

Ólekja (n, kvk)  Nýtt skyr, ósíað.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Ólempinn (l)  Ekki lempinn/laginn; gengur illa að miðla málum/ höndla með hluti.

Ólendandi (ao)  Ekki hægt, eða mjög hættulegt, að lenda vegna brims.  „Þegar að lendingu er komið er brimið orðið mjög mikið, en ekki virtist þó ólendandi“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Ólafur Halldórsson frá Grundum taldi það með ólíkindum að menn væru undir Bjarginu þegar var ólendandi í Kollsvík“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík).  „Við sáum fjölda manna koma hlaupandi niður í fjöruna.  Áður höfðu þeir staðið uppvið búðir, því það er siður í verstöðvum vestra að fara ekki til sjávar þegar þeir telja ólendandi“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Ólentur (l)  Ekki lentur; ekki kominn að landi.

Ólesandi (l)  Ekki unnt að lesa; rugl; leiðinlegt.  „Þessi þingtíðindi eru oftast alveg ólesandi“.

Ólesinn (l)   A.  Ekki búið að lesa; eftir að lesa.  „Þetta moggaþvaður fer oft ólesið í ruslið“.  B.  Illa lesinn; ekki búinn að lesa sér til.  „Þú getur ekki farið ólesinn í skólann“.

Óleyfi (n, hk) Leyfisleysi; heimildarleysi.  „Mér sýnist á sporunum að einhver hafi farið hér um í óleyfi“.

Óleyfilegt (l)  Ekki leyfilegt.  „Hann taldi sig ekki vera að gera neitt óleyfilegt með þessu“.

Óleysandi / Óleysanlegur (l)  Ekki unnt að leysa.  „Réttu mér sýslumanninn; þessi hnútur er algerlega óleysandi“!  „Mér sýnist þessi mál vera komin í óleysanlegan hnút“.

Ólétt (l)  Um konu; þunguð.  Ekki notað um kvendýr.

Ólétta (n, kvk)  Þungun; það að vera barnshafandi.  „Það þýðir ekkert lengur hjá henni að reyna að klæða af sér óléttuna“.

Ólga (s)  Um vökva; sjóða; bulla; hvirflast.  „Vatn ólgaði þarna upp úr jörðinni í leysingunum“. 

Ólga (n, kvk)  A.  Suða/iðumyndun/loftbólumyndun í vökva.  B.  Iðuköst/öldugangur í sjó.  „Það er árans ólga þarna við hleinina“.  C.  Óróleiki í hópi manna.  „NOkkur ólga er í mönnum vegna þessara verðhækkana“.

Ólgra (s) Ólga með loftbólum og tilheyrandi hljóðum.  „Óskaplega ólgrar í maganum á mér núna; skyldi ég hafa farið óvarlega í nýja rúgbrauðið“.  „Mér heyrist eitthvað ólgra í vatnslögninni“.

Ólgra (n, kvk)  Ólga; það sem ólgrar.  „Einhver  árans ólgra er enn í vömbinni á mér“.

Ólgusjór (n, kk)  Allmikill sjór/sjógangur; hverandi sjór.  „Við lentum í bölvuðum ólgusjó í röstinni“.

Óliðlega (ao)  Ekki með lagni/liðugheitum/mýkt/hjálpsemi.  „Hann brást fremur óliðlega við þeirri bón“.

Óliðlegheit (n, hk, fto)  Ástæðulaus tregða á aðstoð/hjálpsemi.  „Það væru bara óliðlegheit ef við hjálpum ykkur ekki að setja bátinn“.

Óliðlegur / Óliðugur (l) A.  Ekki liðugur; stirður í hreyfingum.  „Fremur fannst mér þetta óliðlegar aðfarir“.  B. Ekki hjálpsamur.  „Ekki vil ég vera óliðlegur, en mér er þetta öldungis ókleyft á morgun“.

Ólifað (l)  Eftir að lifa; ekki enn lifað.  „Ætli maður verði ekki svona þrjóskur og þver það sem maður á eftir ólifað“.

Ólifnaður (n, kk)  Slæmt/óhollt líferni.  „Svona ólifnaður lengir nú varla líf nokkurs manns“.

Ólipur (l)  A.  Ekki hjálpsamur; óliðugur að veita aðstoð.  „Hann er ekki ólipur að hlaupa undir bagga ef með þarf, skarnið atarna“.  B.  Klaufalegur; stirður.  „Heldur finnst mér hann ólipur sem bjargmaður“.

Ólipurlega (ao)  Af lítilli lipurð; stirðlega.  „Mér þykir þetta ekki ólipurlega kveðið, en af litlu viti“.

Ólíðandi  / Ólíðanlegt (l)  Ekki unnt að þola/líða/umbera.  „Það er ólíðandi að hávær minnihluti ráðskist með félagið; það er bara með öllu ólíðanlegt“!

Ólíft (l)  Ekki líft; ekki hægt að lifa.  „Hættu nú þessum andskotans viðrekstrum!  Það er að verða ólíft hér inni“!  „Það verður að hafa rifu á fjárhúsdyrunum; það er annars ólíft hjá gemlingakvikindunum í þessum hita“.

Ólífvænlegt (l)  Ekki lífvænlegt; ekki vænlegt til góðs lífs.  „Nútímavæðing og mistök stjórnvalda hafa gert Kollsvíkina og fleiri staði ólífvænlega; a.m.k. eins og sakir standa.

Ólíkindabragur (n, k)  Yfirbragð lyga/ósennileika/ótrúlegheita.  „Einhver ólíkindabragur fannst mér á þessari frásögn; mér er næst að halda að hann hafi logið þessu frá rótum“!

Ólíkindafrásögn / Ólíkindasaga (n, kvk)  Ótrúleg frásögn/saga.  „Mér fannst þetta hin mesta ólíkindafrásögn; svonalagað hefði aldrei getað gerst“.

Ólíkindalæti (n, hk)  Yfirdrepsskapur; látalæti.  „Það þýðir ekkert að vera með þessi ólíkindalæti, eins og ykkur komi þeta á óvart; ég veit að þið brutuð rúðuna“!

Ólíkindaskepna (n, kvk)  Dýr sem erfitt er að reiða sig á; skepna með óútreiknanlega hegðun.  „Grásleppan hefur alltaf verið mesta ólíkindaskepna; maður veit aldrei hvenær hún gefur sig til“.  „Það þaf mannskap til að handsama þá gráu í Lambahlíðinni; þetta er mesta ólíkindaskepna“.

Ólíkindasvipur (n, kk)  Óræður svipur; „pókerfés“.  „Maður veit ekkert hvað býr í svona ólíkndasvip“.

Ólíkindi (n, hk, fto)  Ótrúlegheit; það sem er lygilegt/ótrúlegt.  „Mér fannst það með ólíkindum“ að nokkur skepna hefði komist upp bjargið á þessum stað.

Ólíkindatól (n, hk)  Óutreiknanlegur; viðsjárgripur.  „Hann gat verið mesta ólíkindatól“.

Ólíklega (ao)  Ótrúlega; ósennilega.  „Láttu mig vita ef svo ólíklega vill til að þú verður kindanna var“.

Ólíklegur (l)  Ekki líklegur.  „Mér finnst hann frekar ólíklegur sem hreppstjóraefni“.  „Mér finnst það fremur ólíklegt, en ekki vil ég þó alveg fortaka það“.

Ólíkur (l)  Ekki eins/líkur; frábrugðinn.  „Þeir eru býsna ólíkir; bræðurnir“.  „Það er ekki alls ólíklegt að féð leiti niður þegar kólnar svona í veðri“.  „Mér finnst ólíkt skemmtilegra að vinna við þetta í þurru en í rigningu“.

Ólítill (l)  Ekki lítill; allmikill; stór; drjúgur.  „Það er ekki ólítið fóður sem þarf fyrir svona mikla áhöfn“!

Óljós (l)  Óskýr; ekki greinilegur.  „Ég sá þetta fremur óljóst í rökkrinu“.  „Frásögnin var fremur óljós“.

Óljóslega (ao)  Óljóst; ekki greinilega.  „Hann sagði svo óljóslega frá atvikum að ég var litlu nær“.

Óljúft (l)  Ekki þægilegt/gleðiefni/léttbært.  „Mér er það afar óljúft að þurfa að slátra þessum hrút“.

Óljúgfróður (l)  Sannsögull; trúverðugur.  „Þetta fullyrðir sá óljúgfróði maður; efist svo hver sem vill“.

Ólmast (s)  Láta illa/ófriðlega; hamast; slást.  „Veriði nú ekki að ólmast hér inni strákar!  Af hverju fariði ekki út í góðaveðrið“?

Ólmur (l)  Ákafur; áfjáður; gírugur; villtur.  „Bragði snjöllu konan kná/ kann ei móti gætur./  Hana Rósi ofaná/ ólmur fallast lætur“ (JR; Rósarímur). 

Ólmur fiskur (orðtak)  Viljugur fiskur; stendur á hverju járni; fiskur hleypur strax á færi þegar í sjó kemur.

Ólofaður (l)  A.  Ekki frátekinn; ekki búið að ánafna neinnum.  „Segir Össur strax að hann eigi eina búð ólofaða og allt sem henni fylgi; bæði reitur, hjallur og ruðningur aðgerðapláss eru við hvern læk“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).  B.  Ekki trúlofaður/ á föstu.  „Honum þótti merkilegt að svona kvenkostur skyldi vera ólofuð enn“.

Óloft (n, hk)  Ólykt; óheilnæmt/þungt loft; skítalykt.  „Bölvað óloft er nú hérna inni“!

Ólofthræddur (l)  Ekki lofthræddur.  „Það er mesta furða hvað hann er fær; og alveg ólofthræddur“.

Ólogið (l)  Satt; ekki lygi.  „Þetta er alveg ólogið hjá honum, þó svo sé ekki alltaf“.

Ólokið (l)  Ekki lokið/búið.  „Við eigum enn ýmsu ólokið áður en við hættum“.

Ólseigur (l)  Mjög seigur/erfiður að tyggja.  „Þetta kjöt er ólseigur andskoti; ég gæti alveg eins étið skósóla“!

Ólukka (n, kvk)  Ólán; ógæfa.  „Ólukka var að missa tvævetluna afvelta“!

Ólukkans (l)  Mildasta útgáfa blótsyrðis; árans; fjárans.  „Hvar lagði ég nú ólukkans gleraugun“?  „Ólukkans vesen er þetta“!

Ólukkulega (ao)  Óheppilega.  „Þá vildi svo ólukkulega til að hnífurinn hrökk fyrir borð“.

Ólund (n, kvk)  Fýla; slæmt skap.  „Það er einhver ólund í honum núna vegna kosningaúrslitanna“.  „Einhver bölvuð ólund er í ljósavélinni núna“.

Ólundarsvipur (n, kk)  Fýlusvipur. 

Ólundast (s)  Hafa á hornum sér; illskast; agnúast.  „Það þýðir vist lítið að ólundast yfir þessu“.

Ólúinn  (l)  Óþreyttur; úthvíldur.  „Það er betra að halda áfram ólúnir við þetta á morgun“.

Ólyfjan (n, kvk)  Slæmt meðal; óhollur drykkur; eitur.  „Maður veit aldrei hvaða ólyfjan er í þessum flöskum sem rekur á fjörur“.

Ólyginn (l)  Sannsögull; trúverðugur.  „Hann þykir hvað ólygnastur af þeim bræðrum“.

Ólyginn sagði mér (orðtak)  Samkvæmt öruggum heimildum; ég hef fyrir satt.

Ólykt (n, kvk)  Slæm lykt; fýla; fnykur.  „Bölvuð ólykt er nú af viðrekstrinum úr þér“!

Ólyst (n, kvk)  Lystarleysi; átleysi.  „Það er einhver ólyst í mér; bara hálfgerð lumbra, held ég“.

Ólystugur (l)  A.  Ekki girnilegur til átu; ógeðslegur.  „Frekar er nú þetta ket orðið ólystugt“.  B.  Ekki með góða matarlyst.  „Kýrin er eitthvað ólystug eftir burðinn; hún gæti verið að fá súrdoða“.

Ólýsanlega (ao)  Sem ekki er unnt að lýsa; óumræðilega.  „Ég varð ólýsanlega feginn að sjá hann“.

Ólýsanlegur (l)  Sem ekki er gott/unnt að lýsa.  „Þetta var alveg ólýsanleg tilfinning“.

Ólæknandi / Ólæknanlegur (l)  Sem ekki er unnt að lækna.  „Karlinn var haldinn ólæknandi stelsýki“.

Ólærður (l)  Ekki menntaður.  „Ég er ekki alveg ólærður í þessum fræðum, þó engin sé prófgráðan“.

Ólæs (l)  Ekki lesandi; kann ekki að lesa.

Ólæsi (n, hk)  Það að kunna ekki að lesa.  „Ólæsi er óalgengt nú á tímum“.

Ólæsilegur (l)  Sem ekki er unnt að lesa.  „Þetta krot hans er ólæsilegt með öllu“!

Ólög (n, hk, fto)  Óréttlát lög.  „Standi þetta einhversstaðar á lögbók þá eru það bara andskotans ólög“!

Ólögfróður (l)  Ekki kunnugur lögum.  „Á þessu sviði er ég heldur ólögfróður“.

Ólöglega (ao)  Ekki með lögformlegum/lögmætum hætti. 

Ólögulega (ao)  Ekki lögulega/laglega/reglulega.  „Heldur fannst mér þetta ólögulega gert“.

Ólöglegur / Ólögmætur (l)  Ekki löglegur.  „Þetta reyndist vera ólöglegur gerningur“.

Ólögulegur (l)  Óreglulegur; ljótur.  „Þessi hrútur er nú heldur ólögulegur og ekki til ásetnings“.

Ómaðkétið / Ómaðksmogið (l)  Um rekavið/rekatré; ekki með götum eftir trjámaðk.  „Tréð var algerlega ómaðkétið innaní“.

Ómagi (n, kk)  Niðursetningur.  Þeir sem á fyrri tíð lentu í því að geta hvorki unnið fyrir sér né eiga neina fyrirvinnu voru „settir á sveit“, en þá sá samfélagið fyrir þeim.  Þeim var þá ráðstafað í vist á bæjum, sem sjá skyldu þeim fyrir lífsviðurværi.  Á tímum fátæktar og naumhyggju gat sú vist skiljanlega orðið næsta ömurleg, og fer mörgum skelfilegum sögum af henni.  Má þó gera ráð fyrir að þeir ómagar hafi mátt mestu happi hrósa sem lentu í vist nærri verstöðvum; þar sem matarvon var úr sjó.  Sjá manneldi.

Ómak (n, hk)  Fyrirhöfn.  „Vertu ekki að gera þér ómak mín vegna“.

Ómaka (s)  Gera fyrirhöfn.  „Ég gat ekki verið að ómaka hann fyrir þetta lítilræði“.

Ómaka sig (orðtak)  Gera sér ómak; hafa fyrir.  „Hann var ekki að ómaka sig við að standa uppúr stólnum til að slökkva, heldur teygði sig í haglabyssuna og skaut á ljósið“.

Ómaklega (ao)  Óverðskuldað; að tilefnislausu.  „Mér finnst ómaklega vegið að honum í þessu máli“.

Ómaklegt (l)  Óverðskuldað; ástæðulaust.  „Mér fannst þetta allsendis ómaklegt af þeim“.

Ómaksins vert (orðtak)  Þess virði; borgar sig.  „Mér sýnist alveg ómaksins vert að fara niðuar á stallinn; þarna gætu verið tvöhundruð egg eða meira“.

Ómaksvert (l)  Þess virði; fyrirhafnarinnar virði; borgar sig.  „Það væri ómaksvert að rölta útá Stíg; það gæti hent sig að rollurnar hafi leitað þangað niður“.

Ómakslaun (n, hk, fto)  Vinnulaun; laun fyrir viðvik/greiðasemi. 

Ómalað (l)  Ekki malað.  „Kaffi var keypt í stórum strigasekkjum; óbrennt og ómalað“.

Ómannblendinn (l)  Feiminn; útúrborulegur.  „Frekar hef ég talið það dyggð að vera dálítið ómannblendinn“.

Ómannblendni (n, kvk)  Útúrboruháttur; einræna; óbeit á félagsskap.   

Ómanneskjulegt (l)  Ekki mennskt/ af samúð/réttsýni; ekki hollt fólki.  „Mikið hlýtur svona vinna að vera vélræn og ómanneskjuleg til lengdar“.

Ómannfælinn (l)  Ekki mannafæla; mannblendinn; spakur.  Oftast notað um villtar skepnur.  „Eftir stuttan tíma var langvían orðin ómannfælin og farin að éta fisk úr hendi“.

Ómannglöggur (l)  Ekki laginn að þekkja menn í sundur.  „Ég er nú svo ómannglöggur að ég bara þekkti þig ekki; svo var ekki af ókurteisi að ég heilsaði þér ekki strax“.

Ómannlegt (l)  Sem hæfir ekki manni; heigulsháttur.  „Mér fannst ómannlegt að renna af hólminum; svo ég beið þess sem verða vildi“.

Ómannúðlegt (l)  Ekki af miskunnsemi/mannúð. 

Ómannvanur (l)  Ekki vanur mönnum.  „Hér mun enda af gnægtum hafa verið að taka til aflafanga. Já allsstaðar var fullt af lífi.  Fullt af spökum, ómannvönum lífverum“  (KJK; Kollsvíkurver).

Ómarinn (l)  Ekki marinn/meiddur.  „Hann virðist hafa sloppið ómarinn frá þessari byltu“.

Ómark (n, hk)  Það sem ekki er marktækt; markleysa.  „Honum fannst það ómark og svindl að hafa svona orð í endarími þegar menn væru að kveðast á“.

Ómarkað (l)  Ekki með marki.  „Ég sá þarna eina hvíta kollótta með tveimur ómörkuðum lömbum“.

Ómarkglöggur (l)  Ekki glöggur á fjármörk; finnur lítinn mun á benjum og þekkir fáa markeigendur.  „Það þýðir lítið að hafa svo ómarkglöggan mann fyrir réttarstjóra“.

Ómarkverður (l)  Ekki markverður/merkilegur.  „Það er nú heldur ómarkvert sem ég get sagt í fréttum“.

Ómarkviss (l)  Ekki hnitmiðað/markvisst.  „Þessar aðgerðir finnst mér fremur ómarkvissar“.

Ómálga (l)  Mállaus; ekki farinn að tala.  „Í þessum efnum er hann eins og ómálga barn“.

Ómáttugt (l)  Sem ekki er á færi/ í valdi.  „Honum er fátt ómáttugt í þessum efnum“.

Ómeðfærilegur (l)  Sem ekki er þægilegt/mögulegt að meðhöndla/lyfta/fara með.  „Aðstöðaðu mig ögn við rúmbálkinn; hann er svo ómeðfærilegur fyrir einn“.

Ómeðtækilegur fyrir (orðtak)  Ekki opinn fyrir; viðurkenni/meðtek/samþykki ekki.  „Ég er afskaplega ómeðtækilegur fyrir svona kjaftæði“.

Ómegð (n, kvk)  A.  Barnahópur; barnafjöldi.  Orðstofninn er „mega“ og vísar til þess að barn má/getur ekki jafn mikið og fullorðinn.  Upphafleg merking á „ómagi“ er barn, sem „ómegð“ vísar síðan til.  „Þau áttu barnaláni að fagna og því var löngum mikil ómegð á því heimili“.  B.  Barnsaldur.  „Hann sagðist hafa verið farinn að yrkja frambærileg sléttubönd þegar hann var enn í ómegð“!

Ómegin (n, hk)  Meðvitundarleysi; magnleysi.  Orðstofninn er mega/geta, og eiginleg merking því skortur á getu.  Sjá hníga í ómegin.

Ómegnugur (l)  Ekki fær um; getur ekki.  „Hann var alls ómegnugur að lyfta svo stórum steini“.

Ómeiddur (l)  Ekki meiddur/slasaður.  „Það er fyrir mestu að allir eru ómeiddir“.

Ómeltanlegur (Sem ekki er unnt að melta.  „Þessi maís er aldeilis ómeltanlegur fjandi“!

Ómengað (l)  Ekki blandað/mengað.  „Meðan ég var að alast upp var íslenskan enn tiltölulega ómenguð af enskuslettum sem síðar komu frá bíómyndum, tölvum og „alþjóðavæðingu“.

Ómeltur (l)  Ekki meltur.  „Í saur fuglanna var ómelt fræ, sem líklega var upphaf gróðurs á þessum stað“.

Ómenni (n, hk)  Sá sem ekki er mannlegur; illmenni; varmenni; þrjótur. 

Ómenning (n, kvk)  Aðkomnir siðir sem eru til þess fallnir að eyðileggja menningu sem fyrir er.  Ýmiskonar ómenning, bæði erlend og frá öðrum landshlutum, hefur spillt verulega þeirri menningu sem einkenndi byggðir í Rauðasandshreppi frameftir 20. öld.

Ómenningarbragur (n, kk)  Yfirbragð ómenningar.  „Skelfilegur ómenningarbragur er nú á þessum andskotans fíflalátum“!

Ómennska (n, kvk)  Drullusokksháttur; landeyðuháttur.  „Það þýðir ekki bara að liggja í leti og ómennsku“!

Ómenntaður (l)  Ófróður; illa að sér í mannlegri hugsun/hegðun.  Í seinni tíð hættir mönnum til að telja þann ómenntaðan sem ekki hefur lokið skólagöngu.  Slíku fer víðsfjarri, enda eru flestar leiðir líklega betri til menntunar en löng skólaganga og glansandi prófgráður. 

Ómerkingur (n, kk)  Lamb sem ekki er markað.  „Hver sá sem fjallskil innir af hendi.. skal leitast við að handsama.. ómerkinga sem vart kann að verða og auðkenna þá ef þeir fylgja móður“  (Fjallsk.reglg V-Barð).  „Þegar menn voru búnir að borða og ræða málin var dregið í sundur, og boðið upp ef ómerkingar voru“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Ómerkilegheit (n, hk)  Svik; lítilmennska; ræfildómur.  „Skelfileg ómerkilegheit finnst mér þetta af honum; að reyna að ljúga upp á aðra til að fría sig sjálfan“.

Ómerkilegur (l)  A.  Ekki markverður/áhugaverður/merkur.  „Mér fannst þetta heodur ómerkilegur árangur“.  B.  Um mann; auvirðilegur; lítils virði; ómarktækur.  „Ansi finnst mér hann nú ómerkilegur að koma svona fram við hana móður sína“!

Ómerkingur (n, kk)  A.  Lamb sem ekki er merkt/markað.  „Ómerkingurinn var boðinn upp á réttinni“.  B.  Síðari tíma likingamál; maður sem lítið er að marka; ómerkilegur maður.

Ómerkja (s)  Gera marklaust; nema úr gildi.  „Þessi úrskurður var síðar ómerktur af hæstarétti“.

Ómerkt (l)  Um sauðskepnu; ekki merkt/mörkuð.  „Mér sýnist sú einhyrnda hafa eignað sér ómerkta lambið“.

Ómerkur (l)  A.  Ómerkilegur; ómarktækur.  „Þetta fullyrðir ekki ómerkari maður en Ari fróði Þorgilsson“.  B.  Ógildur.  „Þessi orð falla dauð og ómerk í mínum eyrum“.

Ómetandi / Ómetanlegt (l)  Mjög mikils virði/dýrmætt.  „Þessi aðstoð er mér ómetanleg; ekki veit ég hvað ég gerði án þín“.  „Hann veitti okkur ómetandi aðstoð“.

Ómetanlega (ao)  Sem erfitt er að meta; á mjög dýrmætan hátt.  „Hundurinn gagnaðist okkur ómetanlega“.

Ómetanlegur (l)  Mikils virði; sem erfitt er að meta.  „Háfurinn þótti ómetanlegur þegar farið var til eggja í Breiðnum.  Hinsvegar þótti hann ekki gagnast eins vel í Blakknum“.

Ómeti (n, hk)  Óæti; hungurfæða.  „Það þýðir ekkert að bjóða mér svona ómeti“!

Ómildilega (ao)  Ekki af miskunnsemi/mildi/vægð.  „Hann las heldur ómildilega yfir þeim fyrir tiltækið“.

Ómildilegur / Ómildur (l)  Ekki blíður/mildur.  „Ég var kannski heldur ómildilegur við strákagreyin“.  „Hann var ómildur á manninn þegar hann loksins mátti mæla fyrir mæði“.

Óminnishimna (n, kvk)  Dökk himna innan á þunnildi fisks. 

Óminnisveigar (n, kvk, fto)  Vín; áfengi; það sem veldur minnisleysi/óminni.  „Ég hef alla tíð látið þessar óminnisveigar nokkurnvegin í friði“.

Óminnugur (l)  Gleyminn.  „Um þetta atriði er ég fremur óminnugur“.

Ómissandi / Ómissanlegur (l)  Sem ekki er unnt að vera án; nauðsynlegur.  „Vasahnífur er ómissandi öllum vinnandi mönnum“.  „Einn þeirra manna sem þóttu nánast ómissandi í Bjargleitina var Hafliði Halldórsson á Miðbæ á Látrum“  (PG; Veðmálið). 

Ómjöltuð / Ómjólkuð (l)  Um kú; sem ekki er búið að mjólka.  „Kvígan er enn ómjólkuð; ég þarf líklega einhverja aðstoð við hana“.

Ómjúklega (ao)  Ekki mildilega; harkalega.  „Hann tók víst fremur ómjúklega á móti þeim á brúninni“.

Ómjúkur (l)  Ekki mildur/vægur/miskunnsamur/mjúkur.  „Hann var heldur ómjúkur á manninn við þá sem áttu að standa fyrir“.  „Ég lenti á steini á hinum bakkanum, svo lendingin var nokkuð ómjúk“.

Ómokað (l)  Ekki búið að moka/ryðja.  „Flórinn er enn ómokaður“.  „Þeir ruddu Fjörurnar, en Hálsinn er ómokaður“.

Ómótaður (l)  Ekki mótaður/formaður.  „Mínar hugmyndir í þessu efni eru enn ómótaðar“.

Ómótmælanlega (ao)  Sem ekki er unnt að mótmæla/andmæla.  „Þetta er ómótmælanlega stærsti þorskur sem dreginn hefur verið á þessu sumri“.

Ómótmælanlegur (l)  Sem ekki er unnt að mótmæla/andmæla.  „Þetta er ómótmælanleg staðreynd“!

Ómótstæðilegur (l)  Sem erfitt er að standast/ standa gegn.  „Svona hákarl finnst mér ómótstæðilegur“.

Ómótt (l)  Að verða ómótt er að fá ónotatilfinningu; hálfgert yfirlið/andnauð/ógleði.  „Mér varð hálf ómótt þarna inni; í þessari stækju“.

Ómóttækilegur (l)  Ekki tilbúinn að samþykkja; ekki hrifinn; viðurkenni ekki.  „Hann reyndist algerlega ómóttækilegur fyrir okkar tillögum“.

Ómunablíða / Ómunaveðurblíða (n, kvk)  Meiri veðurblíða en menn muna eftir áður.  „Hér hefur verið ómunablíða síðasta mánuðinn“.

Ómunatíð (n, kvk)  Lengri tími en munað verður.  „Þetta hefur tíðkast hér frá ómunatíð“.  „Undir fossinum (í Láturdalsá) var ofurlítil þró eða hylur í klapparskál, sem fossinn hefur verið að grafa niður í bergið frá ómunatíð.  Var allur fiskurinn þveginn upp úr þessari þró.  Er það eitt hið besta uppþvottaker er ég hefi þekkt í nokkurri veiðistöð“  (HO; Ævisaga). 

Ómur (n, kk)  Fjarlægt/lágvært hljóð.  „Ég heyrði ekki nema óminn af því sem hann var að kalla“.

Ómynd (n, kvk)  Um hluti sem eru illa útlítandi og/eða illa gerðir; ekki til fyrirmyndar.  „Kofaskriflið er skelfingar ómynd“.  „Það er nú hálfgerð ómynd á því að ekki skuli flaggað í þessu tilefni“.

Ómyndarfrágangur (n, kk)  Slæmur/óvandaður frágangur/viðskilnaður. 

Ómyndarlegur (l)  Ólaglegur; ljótur.  „Þetta var ekki ómyndarleg kona, og bráðvel gefin“.

Ómyndarskapur (n, kk)  Leti; illa gert verk; framkvæmdaleysi.  „Það er ekki ómyndarskapurinn þar á bæ“!

Ómyndugur (l)  A.  Um mann; umboðslaus; skortir vald.  „Hann er alls ómyndugur til að taka þessháttar ákvarðanir“.  B.  Um ungling; ekki orðinn lögráða/ sjálfs sín ráðandi. 

Ómyrkur í máli (orðtak)  Talar skýrt; segir hlutina hreint út. 

Ómþýður (l)  Hljómar vel; lætur vel í eyrum.

Ómæðinn (l)  Úthaldsmikill; verður ekki fljótt mæðinn.  „Hann var bæði sprettharður og ómæðinn“.

Ómælandi / Ómæltur (l)  Getur ekki talað.  „Hann var alls ómælandi á þýska tungu, en ég kunni eitthvað hrafl“.

Ómældur (l)  Ekki mældur.  „Ég sá mér til ómældrar ánægju að hrúturinn hafði lappað sig niður“.

Ómælanlegur (l)  Sem ekki er unnt að mæla; óræður.  „Með ómælanlegum hraða fleygist tíminn áfram og gerir það gamalt sem einu sinni var ungt“  (EG; Vakandi æska).

Ómögulega (ao)  A.  Útilokað; óframkvæmanlega.  „Það getur ómögulega gengið að þarna sé ekki smalað“.  B.  Alls ekki.  Sjálfstæð neitun í andsvari.  „Ómögulega takk; ekki meira kaffi fyrir mig núna“.

Ómögulegheit (n, hk, fto)  Fyrirstaða; það sem nær ómögulegt er að hrinda í framkvæmd. 

Ómögulegt (l)  Útilokað; ekki hægt.  „Mér er lífsins ómögulegt að skilja hvernig kýrnar komust yfir girðinguna“!

Ónafn / Ónefni (n, hk)  Heiti sem ekki er við hæfi; niðrandi heiti.  „Honum var nokk sama þó þeir helltu sér yfir hann og kölluðu hann ýmsum ónefnum; hann sagðist vera þarna í fullum rétti“.

Ónafngreindur (l)  Ekki nefndur á nafn. 

Ónauðsynjar (n, kvk, fto)  Varningur sem er ekki nauðsynlegur; óþarfi.  „Mér finnst óþarfi að eyða fé í einhverjar ónauðsynjar eins og utanlandsferðir“.

Ónauðsynlegt (l)  Ekki nauðsynlegt/þarft.  „Ég vildi ekki ráðast í einhverjar ónauðsynlegar framkvæmdir“.

Ónáð (n, kvk)  Óvinsældir; gremja.  „Hræddur er ég um að ég sé fallinn í ónáð hjá honum fyrir gleymskuna“.

Ónáð (l)  Ekki náð; ekki tekist að ná.  „Fjárheimtur voru slæmar.  Vetur kom snemma og harkalega; fé því víða um fjöll og ónáð úr Bjarginu“  (ÞJ; Árb.Barð 1969).

Ónáða (s)  Trufla; pirra.  „Það er best að vera ekkert að ónáða hann að óþörfu“.

Ónáð (l)  Ekki fengið/heimt.  „Enn er þessum skjátum ónáð af Stígnum“.

Ónákvæmni (n, kvk)  Ekki nákvæmni/vissa; skekkja.  „Þarna gætir verulegrar ónákvæmni í frásögninni“.

Ónákvæmur (l)  Óviss; óstyrkur; með skekkju.  „Staðsetning hans var nokkuð ónákvæm“.

Ónáttúra (n, kvk)  Það í fari manns eða skepnu sem óeðlilegt/óviðeigndi er; óeðli.  „Hann sagði að sig varðaði lítið um annarra álit; það væri ónáttúra og ekkert annað þegar tveir karlmenn vildu verða hjón“.

Ónefndur (l)  Sem ekki er nefndur á nafn.  „Ónefnd manneskja sagði mér þetta í óspurðum fréttum“.

Ónefndur (n, kk)  Sá sem ekki er nefndur; nafnlaus.  „Ónefndur sagði mér þetta í trúnaði“.

Ónei (uh)  Upphrópun; áhersla á neitun.  „Þú hélst þú næðir þessu á kóngræfilinn?!  Ónei karl minn: ástetrið er hærra“!

Óneitanlega (ao)  Sem vart verður andmælt/neitað.  „Þetta er óneitanlega betri kostur en hitt“.

Óneitanleg staðreynd (orðtak)  Það sem ekki er unnt að neita. 

Ónískur (l)  Ekki spar/nískur; ósínkur.  „Hann var ónískur á nestið við okkur“.

Ónot (n, hk, fto)  Fúkyrði; skammir.  „... var hann feikna þungur á brún og annað veifið hreytti hann úr sér ónotum“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Ónotabeygur / Ónotakennd / Ónotatilfinning (n, kk)  Uggur; ótti; kvíði.  „Það er alltaf einhver ónotabeygur í manni að fara þarna um einsamall í myrkri“. 

Ónotaður (l)  Ekki notaður/nýttur.  „Svona tækifæri lætur maður ekki ónotað“.

Ónotahrollur (n, kk)  Óþægilegur hrollur/skjálfti.  „Það er einhver ónotahrollur í mér núna“.

Ónotakuldi (n, kk)  Óþægilegur kuldi.  „Réttu mér peysuna; það er einhver ónotakuldi í mér“.

Ónotalega (ao)  Óþægilega; illilega.  „Mér brá ónotalega við þessar fréttir“.

Ónotalegur (l)  A.  Um föt; óþægileg; falla illa.  B.  Um veður/hitastig.  „Hann er orðinn frekar ónotalegur í tíðinni“.  C.  Um framkomu:  Hryssingslegur; ónærgætinn.  „Það var sérstaklega einn sem var ónotalegur við mig“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli).

Ónotakrampi / Ónotapirringur / Ónotastingur / Ónotatak / Ónotaverkur (n, kk/hk)  Líkamleg óþægindi af ýmsu tagi og misslæm.  „Ég fékk ónotakrampa í kálfann eftir hlaupin“.  „Einhver árans ónotapirringur hefur verið í auganu á mér í dag“.  „Helvíti er að fá svona ónotatak í bakið“.

Ónotatilfinning / Ónotatilkenning (n, kvk)  Slæm tilfinning; ælutilfinning; sjóveiki. 

Ónothæfur (l)  Ekki hægt að nota; ónýtur; óbrúklegur.  „Hnífurinn er ónothæfur í þetta verk“.

Ónógur (l)  Ekki nægur.  „Það gengur ekki að hafa ónóg drykkjarföng á sjóinn“.

Ónógur sjálfum sér (orðtak)  Leiður; einmana.  „Maður er eitthvað svo ónógur sjálfum sér þegar veðrið er svona og vantar mestan hlutann af fjölskyldunni“.

Ónuminn (l)  Um land; ekki búið að helga neinum.  „Kollur kom að ónumdu landi.  Hver sem tildrög þess urðu þá nam hann sjálfur ekki nema Kollsvíkina eina, en lét skipverjum sínum eftir alla Vestur-Barðastrandasýslu, að undanteknum Rauðasandi og Barðaströnd, sem aðrir höfðu numið“.

Ónytjaður (l)  Ekki nýttur.  „Bjargið hefur verið að mestu ónytjað í seinni tíð“.

Ónytjungsháttur (n, kk)  Landeyðuháttur; slæpingsháttur; leti.  „Það gengur lítið heyskapurinn með svona ónytjungshætti“!

Ónytjungsbjálfi / Ónytjungsgrey / Ónytjungsræfill / Ónytjungstuska / Ónytjungur (n, kk/kvk)  Maður sem er til lítils gagns; auli; væskill.  „Þetta er ónytjungsbjálfi sem aldrei hefur nennt að vinna“.

Ónytsamlegt (l)  Ekki til nota; óþarfi.  „Margt hefur verið keypt ónytsamlegra en þetta verkfæri“.

Ónýta (s)  Eyðileggja; skemma; gera gagnslaust.  „Þessi gestagangur ónýtti fyrir mér daginn“.

Ónýtast (s)  Eyðileggjast; glatast.  „Skipið ónýttist með öllu“  (TÓ; Skipströnd í Rauðasandshreppi).

Ónýti (n, hk)  Það sem ónýtt/duglaust er.  „Nýju hrífusköftin eru ljóta ónýtið; standa varla undir sjálfur sér“!

Ónýtilegur (l)  Ekki vel nothæfur; ónothæfur.  „Þessi hnífur er alls ónýtilegur í svona verk“.

Ónýttur (l)  Ónotaður; ekki nýttur.  „Engn flæsa var látin ónýtt til heyskapar“.

Ónýtur (l)  Ónothæfur; eyðilagður.  „Mér sýnist að þessi net megi heita ónýt með öllu“.

Ónýtur við (eitthvað) (orðtak)  Óduglegur við eitthvað.  „Hann er ansi ónýtur við smalamennskur, en hann gettur vel nýst til að standa fyrir“.

Ónæði (n, hk)  A.  Rask á næði/friði.  „Ég vildi ekki gera þér ónæði svona seint að kveldi“.  B.  Um veiðiskap; veltingur/ókyrrð.  „Það var komið bölvað ónæði þarna frammi, svo ég færði mig grynnra“.

Ónæðissamt (l)  Ókyrrð; hávaði; veltingur.  „Það var orðið fjári ónæðissamt að vitja um síðustu strengina“.

Ónæmi (n, hk)  Skortur á næmi; hæfileiki líkamans til að hafna endurtekinni smitun/sýkingu.  „Flestir á bænum höfðu fengið þessa pest áður og voru því líklega komnir með ónæmi fyrir henni“. 

Ónæmur (l)  A.  Sýkist ekki af smitsjúkdómi vegna fyrri mótefnamyndunar.  B.  Gengur illa að læra; tornæmur.

Ónærfærinn / Ónærgætinn (l)  Ekki tillitssamur; höstugur.  „Þú þarft að gæta þess að vera ekki svona ónærfærinn við hann; hann var jú að reyna að gera sitt besta“!

Ónærfærni / Ónærgætni (n, kvk)  Það að vera ´nærfærinn/ónærgætinn.  „Svona ónærfærni aflar fárra vina“.

Óofanaftekin (l)  Um ull sem ekki hefur verið tekið ofan af.   „Fólk gat fengið unnið úr sinni ull og þá ýmist óofanaftekin ull eða þel og var þá þó nokkur vinna að taka ofan af mörgum reyfum“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Óofaníborinn (l)  Um veg; ekki með ofaníburði/fínni möl; ófrágenginn á yfirborði.  „Annars er mikið af vegum í Rauðasandshreppi enn óofaníbornir; eru eins og ýtustjórar gengu frá þeim“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58). 

Óopnaður (l)  Ekki opnaður.  „Hér er óopnað jólakort“.

Óorð (n, hk)  Slæmt/neikvætt umtal.  „Hann hafði fengið á sig óorð í sinni heimabyggð fyrir þessa hvinnsku“.  „Svona fyllibyttur koma óorði á brennivínið“!

Óorðheldinn (l)  Svikull; svíkur það sem hann lofar.  „Nokkuð fannst mér hann óorðheldunn um þetta“.

Óorðinn (l)  Ekki skeður.  „Merkilegt var hvernig hann gat séð fyrir óorðna atburði“.

Óorpinn (l)  Um fugl; ekki orpinn/verptur.  „Það þýðir ekkert að fara núna á Þórðarbrandshöfðann; þar er bara álka, og hún er óorpin ennþá“.

Óp (n, hk)  Hróp; öskur.  „Það þýðir ekkert að fara að fénu með ópum og köllum“!

Óperugaul (n, hk)  Niðrandi heiti á óperusöng og jafnvel annarri klassískri sönglist.  „Slökktu nú á þessu bévítans óperugauli í útvarpinu“!  Lélegar útvarpsútsendingar og ofspilun þessháttar tónlistar hefur ekki aflað þessu listformi vinsælda, þó vissulega kunni margir að meta það.

Óplokkaður (l)  Um fugl; ekki búið að plokka/reyta.  „Hér eru enn fáeinir fuglar óplokkaðir“.

Óplægður (l)  A.  Um akur/túnblett; ekki plægður með plógi til ræktunar.  B.  Um við; ekki rásaður í jaðar til að falla betur.  „Reisifjöl var slétthefluð borð, óplægð, sett innan á sperrur í gömlum baðstofum helluþöktum; stundum aðeins yfir rúmunum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Ópraktískt (l)  Ekki hagkvæmt/gagnlegt.  „Mér finnst fremur ópraktískt að gera þetta svona“.

Óprestlegur (l)  Ekki eins og prestur á að vera.  „Einhverjum fannst séra Jón nokkuð óprestlegur í mörgu“.

Óprúðmannlegur / Óprúður (l)  Ekki snyrtilegur/vandaður.  „Hann var óprúður í orðavali í bréfinu“.

Óprúttinn (l)  Ekki heiðarlegur/frómur.  „Einhverjir óprúttnir náungar höfðu stolið færunum“.

Óprýða (s)  Gera ljótara/ósnyrtilegra; lýta.  „Mér finnst þetta stýrishús óprýða bátinn mikið“.

Óprýði (n, kvk)  Lýti; bagi.  „Mér finnst frekar óprýði að þessum sólpöllum utaní hverju húsi“.

Ópuntuð (l)  Ekki snyrt/förðuð/ með skartgripum.  „Hún sagðist ekki fara ópuntuð í svona vína veislu“.

Óra fyrir (orðtak)  Gruna; renna í grun; vita fyrirfram.  „Engan gat órað fyrir því þá að svo snögg yrði byltingin; að svo gjörsamlega yrði kollvarpað þeim lifnaðarháttum sem litlum breytingum höfðu tekið um hundruð ára“  (EG; Ábúendur Kollsvík; Niðjatal HM/GG).

Órabelgur (n, kk)  Draumóramanneskja; rugludallur.  „Hann getur nú verið svoddan órabelgur stundum“.

Órabið (n, kvk)  Mjög löng bið.  „Það varð órabið á því að mér bærist svar“.

Óradýpi (n, hk)  Firnadýpi; mjög mikið dýpi.  „Það þarf alllöng færi á þessu óradýpi sem þarna er“.

Órafjarlægð (n, kvk)  Firna langt í burtu.  „Ég greini nú ekki hvaða bátur þetta er, í svona órafjarlægð“.

Órafjarlægur (l)  Mjög fjarlægur/ langt í burtu.  „Þetta er órafjarlægur möguleiki“.

Óragur (l)  Hvergi banginn; óbanginn; óhræddur; frakkur.  „Hann er alltaf óragur við að príla, þó tæpt sé“.

Órahæð (n, kvk)  Mjög mikil hæð.  „Það þýðir ekkert að hlamma á máfinn í þessari órahæð“.

Órakaður (l)  A.  Um slægjublett; ekki búið að raka hey saman.  B.  Um mann; ekki búinn að raka sig.

Óralangur (l)  Mjög langur.  „Mér finnst kominn óralangur tími síðan þeir ætluðu að vera komnir“.

Órar (n, kk, fto)  Grillur; hugmyndir/langanir sem eru óraunhæfar/rangar; hugarburður; vitleysa.  Orðið er talið stofnskylt orðunum „ærsl“ og „ær“, einnig enska orðinu „weary“ (þreyttur).  „Þetta eru bara órar sem aldrei verða að veruleika“.  Sjá draumórar.

Óraskaður (l)  Óhreyfður; ekki eyðilagður/skemmdur/bjagaður.  „Ingvar ákvað að láta Biskupsþúfuna vera áfram óraskaða þegar hann slétti þúfurnar kringum hana undir tún“.

Óratími (n, kk)  Mjög langur tími; eilífð.  „Ég skil nú ekki hvaða óratíma þetta tekur“!

Óraunhæfur (l)  Ekki framkvæmanlegur/sannur.  „Mér finnst þessar hugmyndir óraunhæfar með öllu“.

Óraunsær (l)  Hugsar ekki rökrétt; lifir í draumaheimi/tálsýnum.  „Mér finnst hann stundum svo óraunsær“.

Óravegur (n, kk)  Mjög löng leið/ mikil fjarlægð.  „Ég nenni ekki að fara að sigla einhvern óraveg niður á Skeggja núna“.

Óráð (n, hk)  A.  Ráðleysa; röng ákvörðun; vitleysa; bjánagangur.  „Ég held að þetta sé óráð hjá ykkur; að ætla að sigla niður á Skeggja þegar svona er áliðið dags“.  B.  Rugl sem talað er upp úr meðvitundarleysi eða algeru hugsanaleysi.  „Heldurðu að þú fáir að aka traktornum krakki?  Ég held þú sért bara með óráði“!

Óráðið (l)  Ekki ákveðið; óákveðið.  „Það er enn alveg óráðið hvenær af þessu getur orðið“.

Óráðlegt (l)  Ekki ráðlegt/skynsamlegt.  „Mér finnst óráðlegt að leggja af stað í svona útliti“.

Óráðsbull / Óráðsblaður / Óráðshjal / Óráðskjaftæði / Óráðsraus / Óráðstal / Óráðsþvaður / Óráðsþvæla (n, hk, kvk)  Algert bull; mjög heimskulegt/óábyrgt tal.  „Skelfingar óráðsbull er þetta“!  „Ég hlusta nú ekki á neitt óráðsþvaður um þessa hluti“!

Óráðstafaður (l)  Sem ekki er búið að ráðstafa/ ætla stað/örlög; laus; óseldur. 

Óráðsflan (n, hk)  Það sem framkvæmt er í hugsunarleysi/ að óathuguðu máli.  „Auðvitað var það ekki annað en óráðsflan; að róa í uppgangsveðri“!

Óráðsía (n, kvk)  Óráðleg hegðun; eyðslusemi.  „Þessu hefur öllu verið eytt í óráðsíu sem engum gagnast“.

Óráðvendni (n, kvk)  Óheiðarleiki; hvinnska.  „Hann hafði aldrei fyrr orðið uppvís að neinni óráðvendni“.

Óráðþæginn (l)  Þiggur ekki ráðleggingar annarra.  „Hann er stundum ansi óráðþæginn“.

Óráðþægni (n, kvk)  Það að vilja ekki heyra/þiggja annarra manna ráðleggingar. 

Órefsað (l)  Ekki refsað/hegnt.  „Svona brot er ekki hægt að láta órefsað“!

Óregla (n, kvk)  A.  Óreiða; ruglingur.  „Það kemur fljótt niður á nytinni ef óregla er á mjöltum“.  B.  Fíkn í áfengi; drykkjuskapur.  „Það ku hafa verið einhver óregla á honum í seinni tíð“.

Óreglulega (ao)  Ekki í reglu/röð.  „Póstur hefur borist hingað mjög óreglulega í vetur, vegna færðar“.

Óreglulegur (l)  Ekki reglulegur.  „Þú þarft að fara til læknis ef hjartslátturinn er eitthvað óreglulegur“.

Óreglugemsi / Óreglumaður / Óreglupési / Óreglupeyi (n, kk)  Sá sem drekkur í óhófi; drykkjumaður.  „Ég nennti ekki að hlusta á rausið í þessum óreglupésum lengur og sagðist ætla að fara að sofa“.

Óreiða (n, kvk)  Ruglingur; skortur á reglusemi.  „Skelfingar óreiða er á þessum fatnaði þínum“!  „Sagt var að einhver óreiða hefði verið á bókhaldinu hjá þeim“.

Óreiðumaður (n, kk)  Sá sem stundar óreiðu; sá sem hefur ekki/slæma stjórn á fjárhag.

Óreyktur (l)  Um matvæli; ekki búið að reykja.  „Mér finnst rauðmaginn líka ágætur óreyktur“.

Óreyndur (l)  Ekki reyndur/sjóaður; reynslulaus. 

Órétti (n, hk)  Óréttlæti; kúgun.  „Maður á erfitt með að sætta sig við að vera beittur þessu órétti“.

Óréttlátur / Óréttvís (l)  Ósanngjarn.  „Mér fannst óréttlátt að fá ekki að fara með í þessa ferð“.

Óréttlæti (n, hk)  Það sem er óréttlátt gagnvart einhverjum.

Óréttmæti (n, hk)  Það sem er gert á óréttlátan/óheimilan hátt.  „Óréttmæti uppboðsins fólst í því að hann var ekki formlegur réttarstjóri“.

Óréttmætt (l)  Það sem gert er á óréttlátan/óheimilan hátt.  „Uppboðið reyndist því óréttmætt, og þurfti að endurtaka það síðar“.

Óréttsýnn (l)  Óréttlátur; sem sér/gerir ekki það sem rétt er.  „Í þessu máli finnst mér hann afar óréttsýnn“.

Óréttur (n, kk)  Óréttlæti; óréttsýni.  „Maður verður auðvitað sár þegar maður er órétti beittur“.  „Guðmundur Arason var talinn hafa með órétti sölsað undir sig Láganúp og Vesturbotn, ásamt fjölda annarra jarðeigna“.

Órifinn (l)  Ekki rifinn/skemmdur; heill.  „Best er að gotan komist heil og órifin alla leið í pottinn“.

Órifjað (l)  Um hey; ekki rifjað.  „Ég er búinn að snúa í neðri flekknum en sá efri er órifjaður“.

Óriftanlegur (l)  Um samning/formskjal.  „Hann taldi að samningurinn væri óriftanlegur nema með dómi“.

Órigndur (l)  Um hey; ekki blotnað í rigningu.  „Það er fyrir miklu að ná heyinu saman órigndu“.

Órímað (l)  Um skáldskap/ljóð; ekki með rími í enda eða innan.  „Nú tíðkast mest að yrkja órímað; og menn telja það skáldskap ef einhver tyllir saman tveimur orðum; sama hver þvættingurinn er“!

Óríon (n, kk)  Risinn; veiðimaðurinn; stjörnumerki sem vel sést af norðlægum slóðum og eitt auðþekktasta stjórnumerkið á himni.  Það er í suðri á miðnætti um miðjan desember.  Bjartasta stjarnan í því er Rígel en Betelgás nefnist sú næstbjartasta.  Stjörnurnar þrjár sem mynda belti veiðimannsins nefnast fjósakonurnar, en fiskikarlar þeir sem mynda sverðið.  Með sjónauka má sjá hina frægu sverðþoku í sverðinu; þar sem nýjar stjörnur eru að verða til.  Öll nöfnin eru sótt í grísku goðafræðina, eins og margt fleira í stjörnufræðinni. 

Órjúfandi / Órjúfanlegur (l)  Sem ekki verður auðveldlega rofið/sundurslitið.  „Kollsvíkingar verða alla ævi tengdir víkinni sinni með órjúfanlegum böndum; sérílagi þeir sem þar eru uppaldir“.

Órofinn (l)  Ekki rofinn/sundurslitinn.  „Kollsvíkurætt má rekja órofna til nokkurra nafnkenndra manna í Íslandssögunni á fyrri tíð, svo sem Sæmundar fróða; Ragnheiðar á rauðum sokkum; Guðmundar ríka Arasonar; Haraldar konungs gullskeggs í Sogni; Ingólfs Arnarsonar Reykjavíkurbónda; Egils Skallagrímssonar Borgarbónda; Brunda-Bjálka; Hjörleifs Hörðakonungs kvensama; Jösurs Ögvaldssonar Rogalandskonungs; Þorleifs Björnssonar hirðstjóra; Sturlu Þórðarsonar sagnaritara; Þorgeirs ljósvetningagoða lögsögumanns; Þórólfs smjörs (háseta Hrafna-Flóka), og fjölda annarra“. (heimild; TÓ; Kollsvíkurætt).

Óróabelgur / Óróagepill / Óróaseggur (n, kk)  Sá sem lætur ófriðlega; friðarspillir; vandræðaseggur.

Óróasamt (l)  Róstursamt; ófriðlegt.  „Tíðarfarið hefur verið nokkuð óróasamt síðustu vikuna“.

Órói (n, kk)  A. Sjógangur.  „Ég held hann sé að auka þennan óróa“.  B.  Ókyrrð/óróleiki/fararsnið á manni ;er orðinn órór.  „Er kominn einhver órói í þig“?  C.  Búnaður í klukku/úri, með m.a. fjöður og hjóli, sem heldur ákveðinni sveiflu, og kemur í stað pendúls í pendúlklukku. 

Óróinn (l)  A.  Um bát; ekki farinn í róður.  B.  Um vettling; ekki þæfður eftir átök á árahlumm.  „Fjögur lýsingarstig voru höfð um róðrarvettlinga; órónir; hálfrónir og svellrónir sama og kútrónir“ (LK; Ísl.sjávarhættir  III).

Órólegur / Órór (l)  Uggandi; iðandi; spenntur.  „Ég var að verða nokkuð órólegur þegar kominn var klukkutími framyfir áætlaðan komutíma þeirra“.  „Mörgum var órótt yfir afdrifum þeirra“.

Óruglaður (l)  Ekki elliær/kalkaður/bilaður á geði.  „Alveg er karlinn óruglaður enn, þó orðinn sé aldraður“.

Órúinn (l)  Um sauðkind; ekki aftekin.  „Óaftekinn“ var mun oftar notað.

Órætt (l)  Sem ekki hefur verið rætt/umtalað.  „Enn er eitt mál órætt á þessum fundi“. 

Óræður (l)  Sem ekki verður ráðið í.  „Hann svaraði engu en setti upp óræðan svip, svo útilokað var að sjá hvort honum líkaði betur eða verr“.

Órækt (n, kvk)  Svæði sem ekki er ræktað/haldið í rækt.  „Þetta er allt fallið í órækt í seinni tíð“.

Óræktarblettur / Óræktarkargi / Óræktarmelur / Óræktarmói / Óræktarmýri / Óræktarstykki (n, kk/kvk)  Svæði/skiki sem ekki er ræktaður/ erfitt er að rækta.

Óræktarhýjungur (n, kk)  Lítilfjörlegt skegg, t.d. á unglingi.  „Skafðu nú af þér þennan óræktarhýjung drengur; ég efast um að hann gagnist nokkuð á stelpurnar“!

Órækur (l)  Óhrekjandi; trúverðugur.  „Lurkarnir í Mýrunum eru órækur vitnisburður um að í Kollsvík var verulegur skógur; líklega á hlýskeiðum fyrir nokkur þúsund árum“.

Óræktarlegur (l)  Sem lítil rækt er í; illa gróinn.  „Fjári er þessi slétta að verða óræktarleg“.

Óræsti (n, hk)  Illyrmi; ótukt; óskapnaður; plága.  „Minkurinn er bölvað óræsti og hefur valdið miklum skaða“.

Órökstuddur (l)  Ekki sannað með rökum.  „Þetta eru bara órökstuddar fullyrðingar og blaður útí loftið“!

Ósa (s)  Um það þegar svartan reyk leggur upp af eldi eða glóð; oftast notað um kerti, lampa eða reykjarpípu.  Ekki þykir gott að ósi inni í húsum, þar sem af því verður óloft.  „Olía var sett í byttuna og svo var um að gera að hafa kveikinn mátulega mikið upp úr pípunni svo ekki ósaði“   (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Ósagt (l)  Ekki búið að segja/greina frá.  „Ég læt það alveg ósagt“.  „Í þessu riti er fjölmargt ósagt“.

Ósamansettur (l)  Ekki settur saman.  „Dráttarvéln var keypt og flutt út í Kollsvík innpökkuð í stóran rammgerðan trékassa, og var að miklu leyti ósamansett“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Ósamboðið (l)  Ekki við hæfi; ekki sæmandi.  „Ef þessum frambjóðendaræflum finnst félagsskapur kotbændanna sér ósamboðinn, þá hlýtur það að vera gagnkvæmt þegar kemur að kosningunum“!

Ósamfelldur (l)  Ekki samfelldur/samhangandi.  „Vorið 1968 var íshella langt útfyrir bryggjuna á Gjögrum, en þar utar nokkuð ósamfelldari ís.  Þórður bóndi á Suðureyri kom á skektu sinni til að sækja tvo drengi sem þá gengu í skóla í Fagrahvammi.  Hringsólaði hann nokkra stund frammi á firðinum án þess að komast uppað.  Á endanum gafst hann upp, og voru strákarnir sendir á flutningum landleiðina norður á Tálknafjörð“.

Ósamhljóða (l)  Ekki samhljóða; rímar ekki við.  „Hennar álit var nokkuð ósamhljóða bónda hennar“.

Ósamhljómur (n, kk) A.  Um tónlist/sönglist; ekki góður heildarhljómur þar sem margir spila/syngja saman.  B.  Um skoðanir manna; ekki sammála; mismunandi álit. 

Ósamkvæmur (l)  Ekki í takti við; stemmir ekki við.  „Þetta er nokkuð ósamkvæmt fyrra áliti hans“.  Sjá sjálfum sér ósamkvæmur.

Ósamlyndi (n, hk)  Óeining/ósamstaða/illindi í hópi.

Ósammála (l)  Ekki sammála; ekki á eitt sáttir.  „Karlarnir urðu heiftarlega ósammála um þetta og töluðust lítið við það sem eftir var róðursins“.

Ósamrýmanlegt (l)  Fer ekki saman með; stenst ekki með tilliti til.  „Mér fannst að þessi trúarkredda væri afskaplega ósamrýmanleg þrautsönnuðum náttúruvísindum“.

Ósannað (l)  Ekki sannað/sannreynt.  „Þó margir hallist að því að í Kollsvík hafi fyrrum verið Papabyggð þá er það enn ósannað.  Fáir staðir væru þó heppilegri fyrir slíka einsetumunka, auk þess sem nafnið segir sitt“.

Ósannferðugur / Ósannfærandi (l)  Ekki sannfærandi/trúverðugur.  „Afskaplega fannst mér þessi frásögn ósannferðug.  Trúað gæti ég að þetta væri haugalygi frá rótum“!

Ósanngirni (n, kvk)  Óréttur; óréttlæti.  „Mér finnst þetta árans ósanngirni sem Reykjavíkurvaldið sýnir dreifbýlinu, síknt og heilagt“.

Ósanngjarn (l)  Ekki réttsýnn/sanngjarn.  „Mér fannst þessi framkoma ósanngjörn í hans garð“.

Ósannindamaður (n, kk)  Sá sem lýgur/segir ósatt.  „Fyrst svo er gef ég eftir; ekki vil ég vera ósannindamaður“.

Ósannindi / Ósannindavefur (n, hk, fto/ kk)  Lygi/lygavefur.  „Þetta eru helber/rakin ósannindi“!

Ósannspár (l)  Sem ekki spáir rétt fyrir um atburði.  „Hann reyndist ósannspár um þetta atriði“.

Ósannsögli (n, hk)  Lygi; skreytni; tilbúningur.  „Ég hef aldrei fyrr staðið hann að ósannsögli“.

Ósannsögull (l)  Segir ekki sannleika; lyginn.  „Landnáma kann að vera ósannsögul um ýmis atriði eins og nöfn landnámsmanna, en ástæðulaust er að rengja hana um megindrætti“.

Ósar (n, kk, fto)  Upptök vatnsfalls.  „Árósar heitir svæðið norðan Hestkeldu, sem Áin sækir mest vatn sitt til í upphafi“.  Þessi upprunalega merking orðsins hefur varðveist í þessu örnefni, og er ekki vitað til að svo sé annarsstaðar.  Gamalt orðtak segir „á skal að ósi stemma“, og þar er sama forna merkingin.  Í almennu máli í dag hefur orðið allt aðra merkingu; þ.e. útfall ár til sjávar.  Sjá árósar.

Ósatt (l)  Ekki satt; lygi.  „Það er algerlega ósatt mál að ég hafi att hundinum á féð“!  „Hann hefur ekki verið þekktur að því að segja ósatt“.

Ósauðglöggur (l)  Ekki fjárglöggur/sauðglöggur.  „Hann er ágætur smali þó ósauðglöggur sé“.

Ósár (l)  Ekki meiddur/særður.  „Ég fékk ansi mikla byltu en ég held að ég sé ósár“.

Ósáttfús (l)  Ekki tilbúinn að sættast/semja.  „Hann var ósáttfús og vildi halda sínum rétti til streitu“.

Ósáttur (l)  Ekki sáttur; óánægður.  „Ég er ósáttur við þessi skipti“.

Óseðjandi (l)  Sem ekki verður saddur/mettur; sem heldur sífellt áfram neyslu.  „Ég hef verið haldinn óseðjandi fróðleiksþorsta frá því að ég fyrst fór að geta lesið mér til gagns“.

Ósegjanlega (ao)  Meira en orð fá lýst; óumræðilega.  „Mér létti ósegjanlega þegar ég var kominn á brún“.

Óseilað (l)  Um afla; ekki seilað út fyrir lendingu.  „Eitt sinn um vorið er við komum af sjó mjög vel fiskjaðir var talsvert brim komið, svo engin tiltök voru að lenda með óseilað“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Ósekja (n, kvk)  Sakleysi.  „Ég mátti að ósekju sitja undir ákúrum fyrir þetta“.

Ósennilegt (l)  Ekki trúlegt/líklegt.  „Mér finnst ósennilegt að féð sé komið að húsunum strax“.

Óséð (l)  Án þess að sjást/sjá.  „Kindinni tókst að lauma sér óséðri útúr hópnum og leyndi sér í gilinu“.  „Ég vildi ekki kaupa þetta óséð“.

Ósérhlífinn (l)  Hlífir sér ekki í vinnu; kemur ekki verki yfir á aðra.  „Mangi var einn ósérhlífnasti maður sem ég hef kynnst, og þekkti ég þó margt slíkt fólk í uppvextinum“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Ósérhlífni (n, kvk)  Dugnaður; fórnfýsi.  „Sýnir þetta e.t.v. betur en flest annað fórnarlund hans, ósérhlífni og drengskap“  (ÖG; minn.grein um AK).

Ósérplæginn (l)  Ekki eigingjarn; setur sinn eiginn hag ekki í forgang. 

Ósérplægni (n, kvk)  Fórnfýsi; hjálpsemi; óeigingirni.  „Hann gerði þetta af stakri ósérplægni og umhyggju“.

Óséttlað (l)  Um deilumál; ekki komnar á sættir; ekki leitt til lykta.  „Báðir ruku burt í fússi, svo þetta mál er enn óséttlað“.

Ósiðlega (ao)  Dónalega; óheflað; hneykslanlega.  „Gakktu ekki svona ósiðlega að matnum drengur“!

Ósiðlegur (l)  Ekki háttvís; óheflaður; dónalegur.  „Henni fannst karlinn ósiðlegur; að míga utaní húshornið“.

Ósiðsemi (n, kvk)  Hneykslanlegt athæfi; dónaskapur.  „Hún sagðist ekki vera hrifin af svona ósiðsemi hjá ógiftu fólki“

Ósiður (n, kk)  Venja/athöfn sem þykir ekki til fyrirmyndar.  „Skelfingar ósiður er þetta að þurfa að reka við í tíma og ótíma; og það með þessum andskotans hávaða og eiturbrælu“!

Ósiginn (l)  A.  Um fisk; ekki búinn að síga/hanga.  „Grásleppan er enn helst til ósigin“.  B.  Um hey í hlöðu/gryfju; ekki búið að hitna og síga.  „Það er enn nokkuð ósigið í efri gryfjunni“.

Ósigndur (l)  Ekki búinn að signa sig; ekki búið að signa.  „Ekki var venja að fara ósigndur í róður úr Kollsvíkurveri, og hafa Kollsvíkingar haldi þeim ævaforna sið að biðja sjóferðabæn“.

Ósínkur / Ósíngjarn (l)  Óspar; ekki nískur/síngjarn.  „Hann var ósínkur á nestið sitt“.  „Þeir eru oft ósínkir á annarra manna fé fyrir kosningar; blessaðir þingmennirnir“.  Sínkur er af orðstofninum „sinn“.

Ósjaldan (ao)  Ekki sjaldan; oft.  „Ósjaldan vék hann okkur súkkulaðibita úr kistunni“.

Ósjálegur (l)  Óhrjálegur; illa útlítandi; lítilfjörlegur.  „Ansi er þetta ósjálegur lambkægill“!

Ósjálfbjarga (l)  Geta ekki bjargað sér; vera háður öðrum um aðstoð.  „... en þegar hann átti eftir 4 mílur í Bjargtanga ríður brotsjór yfir skipið; brýtur stýrið og tekur af skorsteininn, svo skipið er alveg ósjálfbjarga“  (ÁE; Ljós við Látraröst; Jería-strandið).

Ósjálfrátt (l)  Án eigin atbeina/frumkvæðist/hugsunar; umhugsunarlaust.

Ósínkur (l)  Óspar; ekki nískur/aðhaldssamur.  „Strákurinn er alveg ósínkur að gefa með sér af sælgætinu“.

Ósjóaður (l)  Óvanur veltingi/sjómennsku.  „Maður er alltaf með hálfgerða velgju í fyrstu vitjunum; meðan maður er ósjóaður“.

Ósjófær (l)  Um bát; ekki hæfur til siglinga/sjóferða.  „Rutin var ósjófær eftir að stefnið á henni klofnaði.  Til stóð að Andrés Karlsson gerði við hana, en af misgáningi lenti hún á áramótabrennu meðan hún stóð upp á Patreksfirði“.

Ósjór (n, kk)  Mikill veltingur/sjógangur/gutlandi.  „Við lentum í bölvuðum ósjó og ágjöf þarna í röstinni“.

Ósjúkur (l)  Ekki veikur.  „Hann sagði allt gott að frétta; allt væri mannheilt og ósjúkt af sínu fólki“.

Óska (einhverjum) árs og friðar / Óska gleðilegs árs (orðtak)  Óska einhverjum alls hins besta á nýju ári.

Óska gleðilegra jóla (orðtak)  Votta innileika/væntumþykju á jólum.

Óska til hamingju (orðtak)  Óska þeim góðrar framtíðar sem stendur á tímamótum, t.d. um afmæli eða varðandi nýtt hús/ nýjan bíl o.s.frv.

Óskabjörn (n, kk)  Stór þanglús, sem festir sig stundum á roð fiska með sterkum klóm á framlimunum.  Getur einnig synt á milli hýsla.  Hann er þó í raun hrææta eins og marflóin.  Sú þjóðsaga er um óskabjörninn að hann hafi í fyrndinni verið með stærstu hvalfiskum.  Eitt sinn þegar hann elti bát Péturs postula og ætlaði að granda honum, kastaði Pétur vaðsteini sínum í gin hans og sagði um leið að hann skyldi verða hið vesælasta kvikindi í sjó og skríða um á sporðum annarra fiska.  Ef óskabjörn er þurrkaður heill og síðan krufinn finnst í honum steinn eins í lögun og klappaður vaðsteinn.  Sá sem ber hann á sér á aldrei að fá sinateygjur.  Sá getur óskað sér hvers sem er sem lætur lifandi og afvelta óskabjörn bíta sig fastan við tunguræturnar.  Sé óskabjarnarsteinn hafður í buddu dregur hann að peninga.  Gott þótti að drekka seyði af steininum við hjartaverk. 

Óskabyr (n, kk)  Kjörbyr; sá meðvindur á siglingu sem hentar best.

Óskaddaður (l)  Ómeiddur; óskemmdur.  „Ég mátti þakka fyrir að sleppa óskaddaður frá hruninu“.

Óskammfeilinn (l)  Frakkur; djarfur.  „Mér þykir þú skratti óskammfeilinn að koma með svona ásakanir“!

Óskammfeilni (n, kvk)  „Þvílík óskammfeilni er þetta í strákrassgatinu“!

Óskammtað  (l)  Ekki skammtað/útdeilt á hvern og einn.  „Búðing fékk hver í sinni skál sem ábót á sunnudögum, og var þeyttur sjómi með; óskammtaður“.

Óskandi (l)  Æskilegt; vonandi.  „Það væri nú óskandi að hann færi að lægja þetta norðanbál“.

Óskapa (n, hk, fto, ef)  Óskaplega.  Orðið „ósköp“ er oft notað sem forskeyti þegar býsnast er yfir einhverju.  „Óskapa tíma tekur þetta hjá þeim“.  „Hættið nú þessum óskapa hávaða strákar“!  „Óskapa fjöldi er þetta“!

Óskapagangur / Óskapalæti (n, kk)  Læti; fyrirgangur; gauragangur.  „Hættið nú þessum óskapagangi strákar“!

Óskapast (s) Fjargviðrast; fárast; vera með læti.  „Ég nenni ekki að óskapast meira útaf þessu máli“.

Óskapaveður (n, hk)  Mjög vont veður; vitlaust veður.  „Þú ferð ekki út í þetta óskapaveður og niðamyrkur hundlaus og ljóslaus“!

Óskapfellt (l)  Ekki að skapi; andstætt.  „Honum var þetta nokkuð óskapfellt, en varð vel að líka eins og á stóð“.

Óskaplega (ao)  Afar; mjög; gríðarlega.  „Óskaplega fer þetta kjaftæði í taugarnar á mér“!

Óskaplegur (l)  Gríðarlegur; mjög/óhemju mikill.   „Sjórinn var orðinn óskaplegur og fór versnandi“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Óskapnaður (n, kk)  Um það sem er afkáralegt; ólögulegt; ómynd og illa gert.

Óskaspá (n, kvk)  Veðurspá eins og best yrði á kosið.  „Þetta er engin óskaspá, en ætli við verðum ekki samt að halda áætlun með verkið“.

Óskastund (n, kvk)  Stund þegar unnt er að fá óskir uppfylltar.  Þjóðtrúin segir að óskastund sé á hverri nýársnótt, ásamt fleiri furðum. Sama er sagt um Jónsmessunótt.  En kunnáttu og nákvæmni þarf til að geta nýtt sér hana.

Óskeð (l)  Ekki orðið.  „Það er óþarfi að ímynda sér hið versta um það sem enn er óskeð“.

Óskeikull (l)  Hefur alltaf rétt fyrir sér; hittir alltaf í mark.  „Ég viðurkenni að í þessu er ég ekki óskeikull“.

Óskemmdur (l)  Heill; óskaðaður; óslasaður.  Notað fyrrum jafnt um dauða hluti sem fólk og skepnur.  „Jónína var óskemmd“   (Eftir snjóflóðið í Kollsvík 1857)  (ÓTG; Ágrip af æviferli).

Óskemmtilegt (l)  Ógaman; leiðinlegt.  „Það væri óskemmtilegt að lenda í svona aðstöðu“.

Óskertur (l)  Ekki skertur/niðurskorinn.  „Strákurinn fær auðvitað óskertan hlut, enda stóð hann sig ekkert síður í eggjaferðinni en aðrir“.

Óskikkanlega (ao)  Ekki við hæfi; ósæmilega.  „Henni fannst hann haga sér fremur óskikkanlega í veislunni“.

Óskilafé / Óskilafénaður / Óskilakindur / Óskilalömb (n, hk/kk/kvk, fto)  Fé sem enginn á; enginn dregur sér á rétt eða ókunnugt fé sem heimtist eftir haustsmölun.  „Réttarstjóri skal annast um að ómörkuð lömb séu hirt á réttinni og dregin sér í dilk, svo eigendum gefist kostur á að láta lambsmæður helga sér þau.  Að afloknum réttum tekur hreppstjóri þau, og annað óskilafé sem ekki finnast eigendur að, í sína vörslu og skal því þegar lógað í sláturhúsi.  Áður en því er lógað skal hann skrifa nákvæma lýsingu á því, þar sem getið sé marks og annarra auðkenna er eigendur gætu helgað sér eftir.  Beti enginn helgað sér eignarrétt á slíku fé rennur andvirði þess í sveitarsjóð viðkomandi fjallskiladeildar.  Óskilafé sem fram kemur eftir rétttir og ekki finnast eigendur að, skal fara með á sama hátt.  Andvirði óskilafjár sem fargað er skal lagt inn á reikning, þannig að greiða megi út verð hverrar kindar ef eigandi finnst“  (29.gr Fjallskilareglugerðar V-Barð; Stjtíð. B, nr 239/1982).  „Heimalönd annarra en Breiðvíkinga voru smöluð sunnudaginn fyrir gangnadaginn og óskilafé rekið til skilaréttar að Breiðuvík“  (PG; Veðmálið). 

Óskilgetinn (l)  Um barn; fætt utan hjónabands.  Á tímum strangtrúnaðar var það litið nokkru hornauga af samfélagi og kirkju ef barn fæddist óskilgetið, þó nú þyki slíkt ekki tiltökumál.

Óskiljanlegt (l)  Hulin ráðgáta; fyrirmunað að skilja. „Mér er alveg óskiljanlegt hvernig þetta er hægt“.

Óskiptur (l)  Ekki skiptur/deildur; heill.  „Bátshluturinn var tekinn af óskiptum afla“.

Óskipulagður (l)  Ekki skipulagður/ í föstum skorðum.  „Netalagnir í Kollsvík voru á þessum tíma mun óskipulagðari en inni á Hlíðum, enda mun færri strengir“.

Óskipulega (ao)  Ekki með reglu/skipulagi.  „Heldur þykir mér óskipulega staðið að þessu verki“.

Óskoðaður (l)  Ekki skoðaður; óséður.  „Ég fer nú ekki að að kaupa þetta óskoðað“!

Óskoraður (l)  Óumdeildur; óskertur.  „Hann var óskoraður aflakóngur á þessari vertíð“.

Óskólagenginn (l)  Ekki menntaður í skóla.  „Oft skara þeir óskólagengnu framúr gráðusöfnurunum; einkum í því sem frumleika og áræðni snertir.  Margt má læra án langskólagöngu.  Með því er ég alls ekki að gera lítið úr þeirri skólagöngu sem hæfir hverjum og einum“.

Óskráð lög (orðtak)  Meginregla/hefð sem almennt er viðurkennd en þó hvergi skráð sem lög.  „Það eru óskráð lög meðal sjómanna að hnýta ávallt saman aftur þegar skera þarf veiðarfæri vegna yfirlagningar“.

Óskrifað blað (orðtak)  A.  Bókstafleg merking; blað sem ekki er búið að rita á.  B.  Líkingamál um mann/málefni eða annað sem ekki er komin reynsla af.  „Hann er enn óskrifað blað í þessu starfi“.

Óskrifandi (l)  Kann ekki að skrifa svo meining sé í.  Menn voru almennt ekki skrifandi fyrr á öldum, meðan skólaganga var ekki almenn.  Þegar kom framá 20.öld varð slíkt fátítt.  Síðasti maður vestra sem var gersamlega óskrifandi og viðurkenndi það fúslega var Guðbjartur Þórðarson 12.07.1931-30.11.2002) sem lengi var virtur vörubílstjóri og rak um tíma stórfyrirtæki á því sviði á Patreksfirði.  Þyrfti hann að skrifa nafn sitt undir skjal setti hann X, og treysti öðrum til að skrifa textann.

Óskreytinn (l)  Ólyginn; sannsögull.  „Dálítið var talað um huldufólk þegar ég var á Láganúpi og erfitt var að efast þegar óskreytið fólk sagði frá þessu“  (Guðný Ólafsd. frá Láganúpi; upptaka Ísmús 1970).

Óskuldbundinn (l)  Ekki skyldugur/skuldbundinn; frjáls.  „Ég tel mig óskuldbundinn af loforðum annarra“.

Óskundi (n, kk)  Usli; ógagn.  „Þú mátt ekki gera þann óskunda að koma með fiskinn óslægðan í land“!  „... hvolpurinn tók að gerast ódæll; hanga í sokkum og pilsföldum fólks... “  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Óskurmað (l)  Um egg; ekki með skurni.  „Þarna var óskurmað egg í hreiðri, sem ég lét vera“.

Óskyggn (l)  Ekki skyggn; sér ekki huldar verur.  „Flestir menn eru sagðir óskyggnir.  En þjóðtrúin segir að óskyggn maður geti orðið skyggn við það að horfa undir hönd á skyggnum manni“.

Óskyggnt (l)  Um egg; ekki búið að skyggna (sjá þar).

Óskyldugur til (orðtak)  Ekki skyldugur/skuldbundinn til; þarf ekki.  „Ég er alls óskyldugur til að smala þessu fé“.

Óskyldur (l)  Ekki skyldur/ tengdur blóðböndum.  „Þessir menn voru óskyldir“.

Óskynsamlegt (l)  Ekki skynsamlegt; heimskulegt.  „Mér finnst óskynsamlegt að róa í þessu útliti“.

Óskynsamur (l)  Ekki skynsamur; heimskur; vitgrannur.  „Þetta er alls ekki óskynsamur piltur“.

Óskýr (l)  Ógreinilegur; þokukenndur.  „Ég sá þetta fremur óskýrt, en sæskrýmsli var það örugglega“!

Óskýrast (s)  Verða óskýrt; mást.  „Sumt er kannski farið að óskýrast í minni mínu, en annað er ljóslifandi“.

Óskýrmæltur (l)  Þvoglumæltur; ógreinilegur í máli.  „Settu nú í þig tönnurnar; þú ert svo fjári óskýrmæltur“! 

Ósköp (l)  A.  Mjög; afar.  „Hvað ætti ég að geta frætt þig um góði minn?  Ég er ósköp hrædd um að það verði lítið“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  B.  Mikið magn; gomma; hellingur.  „Þeir fengu þarna einhver ósköp af fiski á stuttum tíma“.

Ósköpin öll (orðtak) Mjög mikið; firn; býsn.  „Þegar ísinn kom uppundir Útvíkur, árið 1968, rak ósköpin öll af timbri og trjáviði; bæði sæmileg tré, unninn við og firn af spreki“.

Óslasaður (l)  Ekki slasaður/meiddur.  „Við vissum það eitt að þeir væru óslasaðir“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg). 

Ósláandi (l)  Ekki hægt að slá.  „Túnið er nærri ósláandi fyrir grjóti, eftir að flæddi yfir það í leysingunum“.

Ósleginn (l)  Ekki búið að slá.  „Melslétturnar eru enn óslegnar“.

Ósleitilega (ao)  Samfellt; hvíldarlaust; án afláts.  „Gömlu karlarnir stungu saman nefjum á réttarveggnum og tóku ósleitilega í nefið“.

Óslétta / Ósléttublettur (n, kvk/kk)  Svæði/blettur sem ekki er vel slétt.  „Gættu þín á ósléttublettinum framarlega á stykkinu; þar þarf að fara hægt um á vélinni“.

Óslitinn (l)  A. Samhangandi; ekki rofinn/slitinn sundur.  „Búskapur hefur verið óslitið í Kollsvík frá landnámi Kolls til ársins 2001 þegar Hilmar Össurarson brá búi“.  B.  Um fatnað; ekki snjáður.  „Þessi skyrta er stráheil og óslitin, þó hún sé dálítið tóbakug að framanverðu“.

Óslítandi (l) A.  Um flík/taug o.fl; slitnar ekki hratt við notkun.  „Þetta nýja gerviefni er óslítandi“.  B.  Sleitulaust; óþreytandi.  „Hann hefur haldið óslítandi tryggð við heimahagana“.

Óslægður (l)  Um fisk; ekki búið að slægja/ taka innanúr.  „Ég er ekkert að fara með þetta óslægt í land“.

Óslægja (n, kvk) Gras/svæði sem ekki er búið að slá.  „Reynið að ganga sem minnst yfir óslægjuna“.

Óslægjujaðar / Óslægjukantur (n, kk)  Jaðar/kantur svæðis óslegið er.  „Ég leitaði að ungunum í óslægjujaðrinum“.   „Við skulum girða spottakorn frá óslægjukantinum“.

Óslökkvandi (l)  Sem ekki er unnt að slökkva/ drepa niður.  „Ég lá yfir hverri bók sem á heimilinu fannst, af óslökkvandi fróðleiksþorsta“.

Ósmalað (l)  Ekki búið að smala.  „Enn er ósmalað á Stígnum“.

Ósmátt (l)  Ekki lítið.  „Það er ósmátt sem tapast af almannafé með þessu móti“!

Ósmekklegur (l)  Ekki við hæfi; ókurteist.  „Henni þótti þetta ósmekkleg athugasemd“.

Ósmekkvís (l)  Þykir ekki hafa smekkvísi/næmni.  „Hún sagði að ég væri afskaplega ósmekkvís í fatavali“.

Ósmeykur (l)  Óhræddur; ófeiminn.  „Ég er alveg ósmeykur við að segja þeim mína skoðun á svonalöguðu“!

Ósmiðslegt (l)  Ekki eins og fagmaður hafi unnið.  „Svona frágangur er nú frekar ósmiðslegur“.

Ósmíði (n, kvk)  Klambur; illa smíðaður gripur.  „Skelfingar ósmíði er þetta nú“!

Ósmurt (l)  Um brauð; ekki smurt; þurrt; þurrætt.  „Ætlarðu að éta brauðið ósmurt“?

Ósnertur (l)  Ekki hreyfður.  „Kýrin er lítið að lagast; heyið hjá henni er nær ósnert frá því í morgun“.

Ósnið (n, hk)  Óheppilegt lag á fatnaði.  „Bölvað ósnið er nú á þessari skyrtu sem ég keypti“!

Ósnortinn (l)  A.  Ósnertur.  B.  Ekki hrifinn; áhugalaus.  „Fegurð Kollsvíkurinnar lætur engan ósnortinn“.

Ósnotur (l)  Ekki fallegur/laglegur.  „Þetta er ekki ósnotur bátur, en burðarmikill er hann ekki“.

Ósnoturlega (ao)  Á ósnotran/ólaglegan hátt.  „Þetta var alls ekki ósnoturlega gert hjá honum“.

Ósnyrtilega til fara (orðtak)  Ekki snyrtilega klæddur.  „Skelfing fannst mér hann ósnyrtilega til fara“!

Ósoðinn (l)  Ekki soðinn; hrár.  „Stærri kartöflurnar eru enn ósoðnar“.

Ósofinn (l)  Ekki búinn að sofa í einhvern tíma.  „Óttalegt rugl er þetta; að ætla að fara ósofinn í róður“!

Ósogið (l)  A.  Um júgur/kind; hefur ekki verið sogið.  „Mér sýnist hún vera ósogin öðrumegin og orðin verulega misjúgra/halljúgra“.  B.  Um lamb; ekki búi að sjúga.  „Gimbrin var alveg nýgotin og ósogin“.

Ósoltinn (l)  Ekki soltinn/svangur.  „Ég er nýbúinn að éta nestið svo ég er alveg ósoltinn“.

Ósopið (l)  Ekki sopið/étið.  „Enn er kálið ósopið, þó í ausuna sé komið“.

Ósorterað (l)  Ekki flokkað.  „Taktu frekar egg úr hinni hrúgunni til suðu; þar er allt ósorterað“.

Ósómi (n, kk)  Skömm; vanvirða; þrjótur.  „Hvað er þessi ósómi að vilja í framboð hér“?  Meira notað í samsetningum:  „Hvað í ósómanum er hundurinn nú að éta“?

Óspakur (l)  A.  Um dýr; ekki mannelskt; ekki hænt að mönnum.  B.  Um mann; ódæll; baldinn.

Óspar (l)  Ekki sparsamur/aðhaldssamur.  „Hann hefur nú löngum verið óspar á annarra eigur“.

Ósparlega (ao)  Ekki í hófi; sóun.  „Farið ekki svona ósparlega með sykurinn; þetta er það eina sem til er“.

Óspektir (n, kvk, fto)  Ófriður; óeirðir; slagsmál.  „Árans óspektir eru nú í drengjunum“!

Óspennandi (l)  Sem lítið er varið í; leiðinlegur; ekki aðlaðandi.  „Það er heldur óspennandi að hanga hér öllu lengur, þegar ekki er oddsnerta hvað þá annað.  Við skulum kippa aðeins suðurávið“.

Óspenntur fyrir (orðtak)  Ekki hrifinn af; finnst lítið til koma.  „Ég er heldur óspenntur fyrir svona veislum“.

Óspillt veður (orðtak)  Gott/sæmilegt veður.  „Ég held að við ættum að fara að koma okkur í land meðan enn er óspillt veður“.

Óspilunarsamur (l)  Eyðslusamur; galgopalegur í fjármálum. 

Óspilunarsemi (n, kvk)  Eyðslusemi; galgopaháttur í fjármálum.  „Hann fór á hausinn fyrir óspilunarsemi“.

Óspíruð (l)  Um kartöflu; ekki komin með spírur.

Ósporrækt (l)  Ekki unnt að rekja fótspor/för.  „Ósporrækt var þar sem lágarenningur hafði fyllt í slóðina, en á köflum var hún greinileg“.

Ósprottin (l)  Um tún; ekki í mikilli sprettu.  „Tún eru að stórum hluta ósprottin eftir þessa kulda- og þurrkatíð“.

Ósprunginn (l)  Ekki sprunginn.  „Sprunga var í farborði bátsins eftir áreksturinn, en önnur borð virtust vera ósprungin“.  „Ég fann eitt sinn torkennilegan fetlangan álhólk rekinn á fjörur í Kollsvík; lokaðan í báða enda og með vírum útúr.  Ég sagaði þetta í sundur með járnsög og fann dökkan kekkjaðan massa innaní, en rafeindabúnað í endanum.  Taldi þetta sprengju.  Síðar sögðu mér sprengjusérfræðingar að þetta myndi hafa verið svonefndur „marker“, en það er merkiblys fyllt með fosfór sem á að kvikna í þegar blysið kemur í sjóinn.  Sögðu þeir mildi að ég hefði ekki stórslasað mig við þessar rannsóknir“.

Óspurður (l)  Ekki spurður; sniðgenginn; ekki inntur eftir.  „Ég var óspurður um þetta“  „Hann sagði mér þetta í óspurðum fréttum“.

Óst (n, kvk)  Hóst; holan ofan við bringubeinið á skepnum og fólki.  „Kúnum finnst fátt makindalegra en að láta klóra sér í óstinni og í hnakkanum“.  Oftar var talað um óst en hóst í Kollsvík.

Óstabíll (l)  Óstöðugur; ekki treystandi á.  „Hann hefur vinnu öðru hvoru, en hún er mjög óstabíl“.  Nýleg sletta; d: „ustabil“; e: „unstable“.

Óstaðfastur (l)  Ístöðulaus; vingulslegur; laus í rásinni.  „Það þýðir ekkert að láta svona óstaðfastan aula sjá um þessa samninga; hann gengur að hverju sem þeir bjóða honum“!

Óstaðfestur (l)  Um orðróm; ekki staðfestur/vottaður.  „Ég hef bara fyrir mér þessa óstaðfestu frásögn“.

Óstaðið (l)  Í spilum; sögn t.d. í bridge sem ekki nást slagir uppí.  „Þessi tvö grönd eru óstaðin hjá ykkur“.

Óstaðinn/óstiginn upp (orðtak)  Ekki risinn/stiginn á fætur.  „Ég var rétt óstaðinn upp til að fara til dyra, þegar ég áttaði mig á að strákarnir voru að gera at í mér“.

Óstaðlyndi (l)  Vingulsháttur; óstaðfesta; ístöðuleysi; geðsveiflur.

Óstaðsettur í hús (orðtak)  Býr ekki á einum ákveðnum stað; heimilislaus.  „Það má segja að ég hafi verið óstaðsettur í hús á þeim tíma“.

Óstand (n, hk)  Slæmt ástand; óefni.  „Það hefur bara verið bölvað óstand á kúnum hjá þeim“.

Óstappaðar (l)  Um kartöflur; ekki stappaðar/marðar/maukaðar í kartöflustöppu.  

Óstálpaður (l)  Um barn/ungling; ekki fullorðinn/ kominn á legg/ harðnaður.  „Það gengur ekki að setja óstálpaðan ungling í svona ábyrgðarstöðu“!

Óstillilega (ao)  Í geðshræringu/reiði; harkalega; heiftúðlega.  „Hann tók þessu ekki óstillilega“.

Óstilltur (l)  Baldinn; illur/slæmur viðureignar; vanstilltur.  Notað m.a. um fólk, fénað, veðráttu og sjólag.  „Tíðarfarið hefur verið ansi hreint óstillt upp á síðkastið“.

Óstokkaður (l)  Um spil/spilastokk; ekki búið að stokka/rugla.  „Spilin eru óstokkuð eftir síðasta spil“.

Óstraffað (l)  Órefsað; refsilaust.  „Svona glópsku er ekki hægt að láta óstraffaða“!

Óstropað (l)  Um egg; ekki farið að stropa.  „Ég kalla þetta alveg nýtt og óstropað; þó rauðan sé komin útí“.

Óstuddur (l)  Án stuðnings/aðstoðar.  „Stýrimaðurinn ... gekk alveg óstuddur heim að Tungu“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Óstuðlað (l)  Um kveðskap; ekki með stuðlum og höfuðstöfum.  „Eitthvað rímaði þessi samsetningur, en óstuðlaður var hann með öllu“.

Óstundvís (l)  Ekki stundvís/ næmur á tíma.  „Skelfing er hann óstundvís núna“!

Óstundvísi (n, kvk)  Það að gera ekki verk/ mæta ekki á réttum tíma.  „Ég þoli ekki svona óstundvísi“!

Óstyggur (l)  Ekki styggur/mannfælinn; spakur.  „Fuglinn er óstyggari í rigningu en þurru veðri“.

Óstyrkur (l)  Ekki sterkur/stöðugur; skjálfandi; hikandi; veiklulegur.  „Heldur þykir mér þakviðirnir óstyrkir“.

Óstýrilátur (l)  Lætur illa að stjórn; óhlýðinn.  „Drengurinn er sagður nokkurð kjaftfor og óstýrilátur“.

Óstýrilæti (n, hk)  Óþægð; óhlýðni.  „Hann var rekinn fyrir þvermóðsku og óstýrilæti við yfirmenn“.

Óstætt (l)  Ekki unnt að standa vegna veðurofsa, dýpis, sjólags eða annars.  „En þegar þangað kom var veðurofsinn svo, að óstætt var og sjódrifið svo mikið að lítið sást frá sér“  (MG; Látrabjarg).  „Mér skaut fljótt upp aftur, en þarna var alveg óstætt vatn; líkast til svona 10-15 faðma dýpi“ (Júl. Reynir Ívarsson; Maður og kindur í ísvök; Lesb.Tímans). 

Óstöðugleiki (n kk)  Það að vera ekki stöðugur; ókyrrð; órói.  „Bölvaður óstöðugleiki er þetta í tíðarfarinu“!

Óstöðugur í rásinni (orðtak)  A.  Um mann; kvikur/ómarkviss í skoðunum og gerðum.  B.  Um bát/skip; rásar; leitar; ekki stefnufast.  „Ef skip þótti skima mikið; vera óstöðugt í rásinni var það kallað að elta lambær...“ (LK; Ísl. sjávarh. ÓETh).

Óstöðvandi (l)  Ekki auðvelt að stöðva; linnulaus.  „Hann fékk óstöðvandi hóstakast í miðri messunni“.

Ósumarlegur (l)  Ekki sumarlegur; vetrarlegur að sumarlagi.  „Heldur finnst mér hann ósumarlegur; komið þetta langt framá“!

Ósundurleyst (l)  Ekki leyst/losað í sundur.  „Við drógum netin óhreinsuð og ósundurleyst inn í bátinn“.

Ósundurliðað (l)  Um reikningshald; ekki aðskilið/sundurgreint.  „Þetta var ósundurliðað í bókhaldinu“.

Ósundurslitið (l)  Ekki sundurskilið; órofið.  „Þær eru búnar að halda línunni með þessu kjaftæði ósundurslitið í nærri tvo klukkutíma“!

Ósúr (l)  Ekki súr/súrsaður.  „Mér finnst bringan alltaf heldur betri ósúr, en langbest er hún reykt“.

Ósvangur (l)  Ekki svangur; langar ekki í mat.  „Ég var ósvangur, en orðið nokkuð kaldur og þreyttur“.

Ósvarað (l)  Ekki svarað.  „Mörgum spurningum er enn ósvarað um fyrstu búskaparár Kolls“.

Ósveigjanlegur (l)  Þver; ekki tilbúinn að gefa eftir skoðun/meiningu.  „Hann var alveg ósveigjanlegur með verðið“.

Ósviðinn (l)  Ekki búið að svíða.  „Hausarnir eru ósviðnir í poka úti á hlaði“.

Ósvikinn (l)  Ekki svikinn/falsaður; ekta.  „Réttast væri að þessi skrattakollur fengi ósvikið kjaftshögg fyrir að láta svona nokkuð útúr sér“!

Ósvinna (n, kvk)  Heimska; fávísi; bjánagangur;óhæfa.  „Mér finnst það árans ósvinna að leggja veginn þarna“.  Orðstofninn er „svinnur“ sem merkti vitur/kænn, en er fallið úr notkun.

Ósvinnur (l)  Heimskur; óvitur.  Seint koma ósvinnum ráð í hug.

Ósvipaður (l)  Ólíkur.  „Hann er ekki ósvipaður bróður sínum“.  Oftast notað með neitun.

Ósvífinn (l)  Ófyrirleitinn; djarfur; móðgandi.  „Mér finnst hann ansi ósvífinn ef hann ætlar að halda þessu til streitu“!

Ósvífni (n, kvk)  Óskammfeilni; frekja.  „Ég hef sjaldan heyrt álíka ósvífni“!

Ósyfjaður (l)  Ekki syfjaður; úthvíldur.  „Það er betra að geyma verkið til morguns og koma að því ósyfjaður“.

Ósykrað (l)  Ósætt.  „Ætlarðu að borða skyrið ósykrað“?

Ósyndur (l)  Kann ekki að synda.  „Mörg banaslys hafa eflaust orðið í Kollsvíkurfjörum sem rekja má til þess að menn voru lengst af ósyndir.  Það síðasta árið 1904, þegar Torfi Jónsson drukknaði í Snorralendingu.  Ástandið í þeim efnum lagaðist stórum þegar Valdimar Össurarson (eldri) hóf sundkennslu um miðja  19.öld.  Menn settu það ekki fyrir sig á þeim tíma að synda í köldu mýrarvatninu í Miðlæknum“.  „Torfi var ósyndur, eins og reyndar allir hinir; en þar sem hann náði aldrei taki á bátnum, varð honum allra bjargráða vant“  (KJK; Kollsvíkurver).

Ósynja (l)  Ónauðsyn; þarfleysa.  „Við erum ekkert að fara þetta að ósynju; ef þarna er ekkert fé“.

Ósýnilegur (l)  Sem ekki sést.  „Huldufólkið er ósýnilegt öðrum en skyggnu fólki“.

Ósýnt (l)  Ekki séð; ófyrirséð.  „Lengi vel var glíman jöfn og ósýnt hver myndi vinna“.

Ósýnt um (orðtak) Ekki laginn við; hirðir ekki um.  „Bændum í dag er ósýnt um hirðingu ullar; enda kannski fátt sem hvetur þá til þess eins og ullarverðið er orðið“.  „Honum er helst til ósýnt um útlitið“.

Ósýrður (l)  Ekki súr/sýrður.  „Smjör var ýmist geymt sýrt eða saltað og ósýrt; eftir að salt fór að flytjast“.

Ósæmandi (l)  Ekki sæmandi/ við hæfi.  „Svona kjaftæði er ósæmandi manni í hans stöðu“!

Ósæmilega (ao)  Ekki við hæfi.  „Þeim fannst hann víst haga sér fremur ósæmilega“.

Ósæmilegur (l)  Óviðeigandi; meiðandi; móðgandi.  „Skoðun fór engin fram hjá Ólafi Ólafssyni í Krókshúsum.  Hann vissi að skoðunarmaður væri á leið frá Naustabrekku en vildi ekki halda fé inni vegna þess að langt væri liðið á dag, en klukkan var 10 f.h. er þeir skildu.  Ekki vildi Ólafur heldur ná í féð, sem ekki var langt í burtu.  Hafði hann heldur ósæmileg orð um skoðunarmann“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1938). 

Ósærður (l)  Ekki meiddur/sár.  „Hrafninn var að mynda sig til að kroppa í kindina, en ég held að hún hafi þó verið ósærð þegar ég náði henni uppúr“.

Ósætt (l)  A.  Ekki sykrað.  „Ég drekk kaffið alltaf ósætt“.  B.  Ekki unnt að sitja/vera.  Sjá ósætt á sjó.

Ósætt á sjó (orðtak)  Ekki hægt að vera á sjó.  „Aftur á móti var ósætt á sjó þegar grunnbrot féll á Giljaboða og Þembu, að minnsta kosti með landtöku í Kollsvíkurveri í huga“  (KJK; Kollsvíkurver).

Ósættanlegur (l)  Ekki unnt að sætta/ miðla málum.  „Þessi andstæðu sjónarmið eru alveg ósættanleg“.

Ósætti (n, hk)  Deilur; misklíð.  „Þarna hefur lengi verið ósætti á milli bæja“.

Ósökkvandi (l)  Ekki unnt að sökkva.  „Menn trúðu því í byrjun að Títanik væri ósökkvandi með öllu“.

Ósölnað (l)  Um gróður; ekki fölnaður/fallinn.  „Féð hefur það ágætt þarna; allavega meðan gróður er enn ósölnaður“.

Ósöluhæfur (l)  Ekki hæfur til sölu; ekki söluvara.  „Fiskur gat orðið ósöluhæfur ef svo mikið barst í hann af sandi að ekki næðist að þvo hann úr“.

Ótakmarkaður (l)  Án takmarkana; endalaus; takmarkalaus.  „Ég hef ekki ótakmarkaðan tíma“.

Ótal (n, hk)  Það sem ekki er unnt að telja.  „Þarna í klettunum á ég ótal spor“.  Orðið hefur í upphafi eflaust stýrt eignarfalli, en er í dag oftast notað nánast sem atviksorð.

Ótalað (l)  Ósagt; vantalað.  „Ég á ýmislegt ótalað við hann ef ég hitti hann“.

Ótalandi (l)  Getur ekki talað/mælt.  „Ég túlkaði, þar sem hann var nánast ótalandi á ensku“.

Ótalinn (l)  Ekki (upp) talinn.  „Það eru minnst tuttugu fjár á Djúpadal og Kynngilöndum, og þá er ótalið það sem er á Stígnum“.

Ótalmargt (l)  Mjög margt; urmull; fjöldi.  „Ég gæti talið upp ótalmargt þessu til sönnunar“.

Ótalsinnum (ao)  Margoft; mjög mörgum sinnum.  „Þetta hef ég gert ótalsinnum, án nokkurra vandkvæða“.

Ótekið (l)  Ekki búið að taka/tína/hreinsa.  „Það er búið að tína öll egg af höfðanum, en enn er ótekið úr ganginum þar neðanundir“.

Óteljandi (l)  Sem erfitt/útilokað er að telja vegna fjölda/skilgreininga.  „Óteljandi ísmolar höfðu brotnað úr borgarísnum og borist uppá fjöruna“.

Óteljanlegt (l)  Sem ekki er unnt að telja.  „Farið nú uppúr dilknum í smástund.  Féð er óteljanlegt þegar það er allt á hreyfingu“.

Ótemja (n, kvk)  Skepna (oftast hestur) sem ekki er tamin.

Ótenntur (l)  Ekki með tennur.  „Það er lítið hægt að saga með þessari sagargeiflu; hún er nánast ótennt“!

Ótepptur (l)  Ekki tepptur; óstíflaður.  „Vegurinn er ótepptur út í Hænuvík, en nokkur ófærð í Brekkunum“.

Ótérlegur (l)  Ótótlegur; óhrjálegur.  „Skelfing var karlinn ótérlegur á þorrablótinu“. 

Ótilhafður (l)  Ekki uppábúinn/snyrtur/fullfrágenginn.  „Ég get ekki mætt í veisluna svona ótilhafður“.

Ótilhlýðilegur (l)  Óviðeigandi; á ekki við; hentar ekki.  „Mér fannst ótilhlýðilegt að nefna þetta við hann þarna í veislunni“.  „Er það ekki dálítið ótilhlýðilegt að strákurinn fiski miklu meira en skipstjórinn“?

Ótilkominn (l)  Ekki orðinn/kominn til.  „Meðan brúin á Ánni var ótilkomin var farið á vaði, aðeins neðar“.

Ótilneyddur (l)  Ekki neyddur/knúinn til.  „Þessa leið sagðist hann aldrei fara aftur ótilneyddur“.

Ótiltekinn (l)  Ótilgreindur; ekki nefndur sérstaklega.  „Ótiltekið er hver þeirra gerði þetta“.

Ótiltækur (l)  Ekki í handraða/kallfæri/nánd.  „Ég varð að nota skiptilykil þar sem sakkan var ótiltæk“.

Ótíð (n, kvk)  Langvarandi slæmt tíðarfar.  „Það er nú varla hægt að kalla þetta annað en bölvaða ótíð“.

Ótíðarkafli (n, kk)  Tímabil erfiðrar veðráttu.  „hann fer nú að verða fjári langur, þessi ótðiðarkafli“.

Ótíðindi (n, hk, fto)  Slæmar fréttir.  „Þetta finnst mér hin verstu ótðíðindi“.

Ótíður (l)  Sjaldgæfur; sjaldséður.  „Æðarkóngar eru ekki ótíðir gestir í Kollsvík“.

Ótímabær (l)  Sem ekki ætti að vera komið að/ kominn tími á.  „Mér finnst ótímabært að kalla strax eftir aðstoð; hugsanlega klárum við þetta án þess“.

Ótímgun (n, kvk)  Órækt; kyrkingur; slæmur framgangur; slæm heilsa; pest.  „Ekki veit ég hvaða ótímgun er í þessari kind; hún horast þó hún fái nóg af góðu fóðri“.

Ótími (n, kk)  Óheppilegur tími; of seint/snemmt.  „Við skulum ekki leggja af stað í ótíma; bíðum þar til smalarnir koma framanúr víkinni“.  „Hættu nú að bora í nefið á þér í tíma og ótíma“!

Ótíndur (l)  Óvandaður; óvalinn.  Nú oftast notað sem áhersluorð á undan niðrandi heiti.  „Það eru auðvitað ekki annað en ótíndir þjófar sem ræna aldagömlum veiðirétti sjávarjarða og afhenda það sínum útvöldu vinum“!

Ótjölduð (l)  Um sjóbúð; veggir ekki huldir að innanverðu ofan rúmstæða með tjöldum/dúk.  „Þegar komið var í verið var fyrsta verkið „að búða sig“:  Hreinsa búðirnar; tjalda veggi upp af rúmstæðum (þótt sumir létu það ógert); búa um rúmir; koma fyrir matarskrínum og eldunartækjum og bera þurran skeljasand á gólfin“  (KJK; Kollsvíkurver).  Búðir á þingstöðum voru einnig tjaldaðar til forna, en þá var líklega átt við að yfir tóftina var tjaldað þaki af líni.

Ótó (n, hk)  Ótukt; óhræsi.  „Bannsett ekkisen ótó getur karlinn verið; að fara svona með kálfana“!

Ótótlegur / Ótútlegur (l)  Illa til fara; tættur; skítugur.  „Þú ættir nú að skipta um föt; þú ert heldur ótótlegur í þessu“.  „Bretarnir voru afskaplega ótótlegir og illa á sig komnir“  (Anna Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Ótrauður (l)  Einbeittur; ákveðinn; ekki hikandi/trauður.  „Færðin var þung, en ég hélt ótrauður áfram“.

Ótraustur ís (orðtak)  Ís sem ekki er öruggur til yfirferðar.

Ótroðinn (l)  Ekki þjappaður/troðinn.  „Bíllinn leitaði útúr förunum; útí ótroðna mjöllina“.

Ótrú (n, kvk)  Tortryggni; vantraust; lítil trú.  „Í byrjun ríkti hin megnasta ótrú á þessu apparati“.  „Af einhverjum ástæðum hef ég dálítla ótrú á að þetta lánist“. 

Ótrúlega (ao)  Ósennilega.  „Þetta tókst ótrúlega vel, miðað við aðstæður“.

Ótrúlegur (l)  Ósennilegur; lygilegur.  „Þetta finnst mér nokkuð ótrúleg frásögn“.

Ótryggilega (ao)  Ekki tryggilega; lauslega; óvandað.  „Heldur fannst mér þessu ótryggilega fest“.

Ótryggur (l)  Ekki alltaf öruggur.  „Lendingin er fyrir opnu hafi, og því ótrygg; sérstaklega í norðanátt“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Ótryggt útlit (orðtak)  Válegar veðurhorfur.  „Mér líst ekkert á að róa í svona ótryggu útliti“.

Ótræða (n, kvk)  Ófæra; ekki fær gönguleið/tröð.  „Þá var aldrei farið með stórgripi um sandinn undir Múlanum, heldur eftir hestagötu uppi í miðri hlíðinni.  Hitt var oftast ótræða, nema það er sjór féll yfir“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Ótt (l)  Ört; fljótt.  „Og þótt fjelögum (í Umf Vestra) fækki nú ótt, þá vona ég að hann haldi í horfinu“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Ótt og títt / Hart og títt (orðtak)  Hratt og endurtekið.  „Hann drap tittlinga ótt og títt“.

Ótta (n, kvk)  Tími sólarhrings samkvæmt gamla tímatalinu.  Oftast er átt við kl 3.00 að næturlagi, en eyktin ótta taldist vara frá miðnætti, kl 12.00, til kl 3.00 að nóttu.

Óttalaus (l)  Óhræddur.  „Ég er alveg óttalaus í þeim efnum“.

Óttasleginn (l)  Hræddur; skelfdur.  „Ég viðurkenni fúslega að ég var hálf óttasleginn þegar mest gekk á“.

Óttalega (ao)  Skelfilega; mjög; verulega.  „Gamla þinghúsið var óttalega lítið og hálfgerður hjallur, en smt voru haldin böll þarna“  (DÓ; Að vaka og vinna).

Óttalegur (l)  Skelfilegur; ferlegur; mikill.  „Óttalegur klaufi geturðu verið við þetta“.  „Um morguninn ég uppdagaði óttalega þraut;/ ég alsettur var heljarmiklum bólum./  Með þessar rosaskellur til Þóris læknis þaut,/ ég þreyttur var og linnti ekki gólum“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).    

Óttast (s)  Skelfast; hræðast.  „Ég óttast mest að þeir hafi farið að fikta í klettunum“.

Óttast um (orðtak)  Lengja eftir; verða hræddur um.  „Ég fer nú að óttast um þá; ef þeir fara ekki að skila sér“.

Ótukt (n, kvk)  Óhræsi; slæm manneskja; fantur.  „Ég er hræddur um að hann sé óttaleg ótukt við krakkana“.

Ótuktarlegur (l)  Óartarlegur; slæmur; fer illa með.  „Hún hefur stundum sætt ótuktarlegri meðferð, blessunin“.

Ótuktarskapur (n, kk)  Ódrengskapur; óart.  „Svona hrekki kalla ég nú bara ótuktarskap og ekkert annað“!

Ótvílinn / Ótvílráður (l)  Óhikandi; óhræddur; ekki á báðum áttum.  „Hann var alveg ótvílinn í þessu“.

Ótvíræður (l)  Án vafa/efa; óumdeildur.  „Hann var ótvíræður aflakóngur á þeirri vertíð“.  „Mér finnst ótvírætt að þetta hafi skeð með þessu móti“.

Ótyrfður (l)  Ekki búið að tyrfa.  „Hugsanlegt er að búðir fyrr á tíð hafi verið ótyrfðar að hluta eða öllu leyti“.

Ótæk lending (orðtak)  Lýsing á lendingarskilyrðum.  Gat átt við varanleg skilyrði, líkt og segir í Jarðabók ÁM: „Lending er þar (í Láganúpsfjöru) ótæk sökum brims og grynninga“.  Einnig var talað um að lengding gæti orðið ótæk ef mikið brimaði.  Einnig var talað um ótrygga lendingu, þar sem landtaka var ekki örugg.

Ótækt (l)  Ómögulegt; gengur ekki; óþolandi.  „Það er ótækt að láta féð ganga svona í túninu“!  „Vermatan var þá farin að ganga til þurrðar hjá sumum, enda ótækt að geyma brauðamat svo lengi“  (KJK; Kollsvíkurver).

Ótæmandi (l)  Óþrjótandi; endalaus.  „Það geta verið ótæmandi möguleikar í þessu“.

Ótæpilega / Ótæpt (ao/l)  Í óhófi; ekki sparlega.  „Helvíti hefur hann sopið ótæpilega á flöskunni; hún er linlega hálf“!  „Taktu bara ótæpt af sandinum; nóg er af honum“!

Ótæti (n, hk)  Óhræsi; ónýti; meinvættur; garmur.  „Þessi þeytari er bölvað ótæti“!

Ótætis (n, hk, ef)  Óhræsis; árans; áhersluorð sem notað var í neikvæðri merkingu.  „Þær eru þá komnar inná eina ferðina enn; ótætis túnrollurnar“.

Ótætisflokkur / Ótætislýður (n, kk)  Slæmur hópur/stjórnmálaflokkur.  „Það skal nú úr því teygjan áður en ég kýs þann ótætisflokk; þeir mega éta sína hatta uppá það“!  „Nú er þessi ótætislýður kominn aftur inná túnin“!

Óumbeðinn (l)  Án þess að vera beðinn.  „Hann færði mér hrútinn, alveg óumbeðinn“.

Óumbreytanlegt (l)  Sem ekki er hægt að breyta; endanlegt.  „Hann sagði að þessi ákvörðun væri óumbreytanleg hvað hann snerti“.

Óumbúinn (l)  Ekki búið að búa um.  „Sárið var óumbúið, og blæddi nokkuð úr“.  „Rúmið er enn óumbúið“.

Óumdeilanlega (ao)  Sem ekki/varla verður deilt um.  „Telur fundirnn það óumdeilanlega menningarlega afturför að láta útgáfu Árbókarinnar falla niður“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Óumdeildur (l)  Óvéfengjanlegur.  „Össur var óumdeildur forystumaður sinnar sveitar meðan hann starfaði sem oddviti; og jafnvel allrar Vestur-Barðastrandasýslu“.

Óumflýjanlegt (l)  Ekki hjá komist; verður yfir að ganga.  „Er þar á nokkrum stöðum hægt að komast upp í hlíðina, enda er það óumflýjanlegt nokkru norðar, þar sem sjávarklettarnir heita Bekkur og ganga í sjó á nokkuð breiðum kafla“  (HÖ; Fjaran). 

Óumræðilega (ao)  Ósegjanlega; sem orð fá ekki lýst.  „Mér finnst þetta óumræðilega leiðinlegt“.

Óumrætt / Óumtalað (l)  Sem ekki hefur verið um rætt/ á minnst.  „Það deilumál var óumrætt á fundinum“.

Óumsamið (l)  Ekki búið að semja um.  „Enn er óumsamið um kaupverðið“.

Óungað (l)  Um egg; ekki byrjað að unga.  „Eggið var örlítið setið, en alveg óungað“.

Óuppdreginn (l)  Illa siðaður; ókurteis; forhertur.  „Alveg er það merkilegt hvað þessir þingmenn geta stundum verið óuppdregnir þegar þeir koma í ræðustólinn og tala yfir alþjóð“! 

Óuppgerður (l)  A.  Vaður/færi sem ekki hefur verið hankað/gert upp.  „Ég þarf að ganga frá færunum sem enn eru óuppgerð“.  B.  Ógreiddur.  „Mér sýnist að þessi skuld sé enn óuppgerð“.

Óuppkominn (l)  Enn á barnsaldri.  „Þau eiga tvö óuppkomin börn“.

Óupplesinn (l)  Ekki lesinn upp.  „Þá er fundi að verða lokið, en enn er fundargerðin þó óupplesin“.

Óupplýstur (l)  A.  Óútskýrður; ekki vitað um.  „Þetta mál er enn óupplýst“.  B.  Ekki fróður/lærður.  „Menntapostular fyrr á tímum drógu gjarnan skýra línu milli sín og óupplýsts almúgans“.

Óuppnæmur (l)  Æsir sig ekki yfir; fæst ekki um.  „Ég er alveg óuppnæmur fyrir svona stríðni“.

Óupprifinn (l)  Ekki búið að rífa upp.  „Enn er eitthvað óupprifið af saltfiskstæðunni“.

Óuppsett (l)  A.  Um hey; ekki uppsett í galta eða hey.  „Við náðum að galta megnið af sléttunni, en eittvað rigndi óuppsett“.  B.  Um hár; ekki uppsett í hnút/tagl eða annað. 

Óupptalinn (l)  Ekki talinn/listaður upp/tilgreindur.  „Þá er óupptalið það sem mikilvægast er...“.

Óupptekið (l)  Um garðávexti; ekki búið að taka upp.  „Það er enn óupptekið úr norðasta beðinu“.

Óútkljáð / Óútrætt (l)  Ekki leitt til lykta.  „Þetta mál er enn óútkljáð“.  „Hér er margt enn óútrætt“.

Óútskýrt (l)  Ekki útskýrt.  „Enn er óútskýrt hvernig hrúturinn komst lifandi niður í fjöru á þessum stað“.

Óvanalega (ao)  Öðruvísi en vant er.  „Það er komið óvanalega mikið af marglyttu á þessum árstíma“.

Óvandabundinn (l)  Ekki skyldur/tengdur/venslaður.  „Hann er mér óvandabundinn, eftir því sem ég best veit“.

Óvandaður (l)  Ekki vandaður/heiðarlegur.  „Einhver óvandaður maður hefur stolið þessu“.

Óvandvirkni (n, kvk)  Flaustursleg vinnubrögð; klunnaskapur; fljótfærni. 

Óvandvirkur (l)  Ekki vandvirkur/natinn; hroðvirkur.  „Hér hefur einhver óvandvirkur komið að verki“.

Óvani (n, kk)  A.  Ósiður; slæmur ávani.  „Þú þarft að venja þig af þessum óvana“.  B.  Skortur á vana/þjálfun.  „Það má að mestu kenna þetta óvana hans, að fást við svona hluti“.

Óvaningur (n, kk)  Sama merking og viðvaningur, en sjaldnar notað.

Óvanur (l)  Ekki vanur; reynslulaus.  „Ég er óvanur að fást við svonalagað“.  „Það er ekki fyrir óvana að komast slysalaust frá þessháttar vandaverki“.

Óvarðaður (l)  Um veg/leið; ekki með vörðum.  „Þarna liggur óvarðaður slóði niður á brúnina“.

Óvarfærinn / Óvarkár (l)  Gálaus; fer ekki varlega.  „Mér finnst hann helst til óvarfærinn í klettum“. „Mér finnst hann helst til óvarkár í klettum“.

Óvarfærni / Óvarkárni (n, kvk)  Ókærni; aðgæsluleysi.  „Það væri óvarfærni að fara á sjó í þessu útliti“.  „Hann þótti djarfur í sókn, án þess nokkurntíma að sýna glannaskap eða óvarkárni“.

Óvar um sig (orðtak)  Óvarkár; ekki á verði; ugga ekki að sér.  „Tófan var upptekin við hræið og óvör um sig“.

Óvarlega (ao)  Ekki varlega/gætilega/ af fyrirhyggju/gætni.  „Aktu ekki svona óvarlega með eggin“!

Óvart (l)  Að ósekju; án fyrirvara.  „Ég felldi kertið óvart um koll þegar ég stóð upp“.  „Þau komu mér á óvart með þessari gjöf“.  Sjá koma á óvart.

Óvarkærnislega (l)  Óvarlega; léttúðlega.  „Mér finnst þið fara óvarkærnislega á traktornum þarna í hallanum“. 

Óveðrasamur (l)  Um tíðarfar; mikið um óveður.  „Þorrinn hefur verið ansi snjóþungur og óveðrasamur“.

Óveður (n, hk)  Mjög slæmt veður; mjög hvasst og mikil úrkoma.  „Er hann ekkert að ganga niður með þetta ansvítans óveður“?!

Óveðurskráka (n, kvk)  Sá sem er óheppinn með veður/ á sök á slæmu veðri.  „Ansans óveðurskráka er þessi nýi háseti; það hefur bara verið landslega síðan hann kom“!

Óveðursspá (n, kvk)  Spá um illviðri.  „Miðað við þessa óveðursspá er líklegt að maður verði bara heima“.

Óvegur (n, kk)  Slæmur/úfinn/torfær vegur.  „Þetta er bölvaður óvegur; þú verður bara að aka í litlu stöngunum“.

Óveiðinn (l)  Ekki veiðinn.  „Gættu þín að fella netið ekki of lítið, þá verður það óveiðið“.

Óveill (l)  Ósjúkur; heilbrigður.  „Nú þurfa allir að hjálpast að; þeir sem eru heilir og óveilir“.

Óvel (ao)  Ekki vel; miður vel; illa.  „Ýmsum þótti óvel hafa til tekist“. 

Óvendilega (ao)  Óvandlega; ekki vel; illa.  „Þetta þykir mér frekar óvendilega gert“!

Óvendni (n, kvk)  Óvandvirkni; slæleg vinnubrögð.  „Þú mátt ekki venja þig á svona óvendni í vinnubrögðum“!

Óvenjufljótur (l)  Óvanalega fljótur.  „Þú varst óvenjufljótur í förum“.

Óvenjugóður (l)  Óvanalega góður.  „Þetta eru óvenjugóðar appelsínur; annað en vatnsgjúgurnar síðast“.  „Tíðin hefur verið alveg óvenjugóð það sem af er vetri“.

Óvenjuharður (l)  Óvanalega harður; gríðarharður.  „Veturinn var ansi rysjóttur, en ekki held ég að hann hafi verið neitt óvenjuharður“.

Óvenjuhár (l)  Óvanaulega hár.  „Sjór hefur flanað óvenjuhátt í þessum stórstraumi“.

Óvenjukaldur (l)  Óvanalega kaldur.  „Vorið var óvenjukalt framanaf“.

Óvenjulangur (l)  Óvanalega langur.  „Þetta tók óvenjulangan tíma“.

Óvenjulítill (l)  Óvanalega lítið; furðulítið.  „Það er óvenjulítil spretta á þessari sléttu núna“.

Óvenjumikill (l)  Óvanalega mikill.  „Það hefur sest óvenjumikill snjór í Kinnina“.

Óvenjuskæður (l)  Óvanalega skæður/illvígur.  „Það er víst að ganga einhver óvenjuskæð flensa“.

Óvenjustór (l)  Óvanalega stór.  „Þarna veiddum við óvenjustóra grásleppu í sumar“.

Óvera (n, kvk)  Ögn; lítilræði; smávegis.  „Ég er að verða saltlaus; það er bara óvera eftir í pokanum“.  „Vertu nú ekki að þakka fyrir meðlætið; þetta var svoddan óvera“.  Orðið var aldrei notað í merkingunni „óvættur“.

Óverandi (l)  Ekki verandi/vært; ekki unnt að vera.  „Það er óverandi utandyra í svona veðri“.

Óverðskuldaður / Óverðugur / Óverður (l)  Sá sem ekki verðskuldar/er ekki verðugur.  „Svona þakkir í minn garð eru alveg óverskuldaðar“.  „Þessi skjöl sýnir hann ekki óverðugum“.

Óverjandi (l)  Ekki verjandi; óforsvarandi.  „Það er óverjandi að láta meira fé í þetta verkefni“.

Óverkaður (l)  Ekki verkaður/unninn.  „Það er lítið varið í grásleppuna óverkaða“.

Óverulega (ao)  Ekki að ráði; mjög lítið.  „Það hefur eitthvað óverulega dregið úr veðrinu“.

Óverulegur (l)  Ekki verulegur; hverfandi; mjög lítill.  „Aflinn var afskaplega óverulegur“.

Óvéfengjanlega (ao)  Sem ekki verður hrakið/dregið í efa.  „Þetta er óvéfengjanlega hans mark“.

Óviðbúinn (l)  Ekki viðbúinn/reiðubúinn.  „Þessu var ég gjörsamlega óviðbúinn“.

Óviðeigandi (l)  Sem ekki passar/ á við.  „Mörgum þótti þetta óviðeigandi athugasemd í stólræðu“.

Óviðfelldinn (l)  Fráhrindandi; ógeðslegur; óviðkunnanlegur.  „Heldur fannst mér hann óviðfelldinn og ruddalegur í framkomu“.

Óviðjafnanlegur (l)  Án hliðstæðu; einstakur.  „Alltaf er það óviðjafnanleg tilfinning að aka framá Núpinn og líta yfir heimahagana“.

Óviðkunnanlegt (l)  Ekki við hæfi/viðeigandi.  „Mér fannst óviðkunnanlegt að hringja svo seint að kvöldi“.

Óviðunandi (l)  Ekki viðunandi/hægt að búa við.  „Mér finnst alveg óviðunandi að þetta finnist ekki í orðabók“!

Óviðurkvæmilega (ao)  Ótilhlýðilega; ekki viðeigandi.  „Ætli ég verði kannski ekki að kannast við það að hafa hugsanlega í einhvern tíma talað óviðurkvæmilega um hinn háæruverðuga söfnuð akademíunnar“.

Óviðurkvæmilegur / Óviðurkvæmur (l)  Óviðeigandi.  „Þetta voru kannski óviðurkvæmar athugasemdir“.

Óvild / Óvildarhugur / Óvildarþel (n, kvk)  A.  Hatur; þungur hugur.  „Ég ber þó enga óvild til hans“.  „Ég held að þetta hafi fremur verið af vanþekkingu sagt en óvildarhug“.  B.  Tregða fisks við að taka agn.  „Það er óttaleg óvild á honum í svona veðri og þegar nóg æti er í sjónum“.

Óvildarmaður (n, kk)  Óvinur; sá sem vill illt.  „Hann átti fjölda tryggðarvina en óvildarmenn afar fáa“.

Óvildarorð (n, hk)  Hallmæli; styggðaryrði; rógur.  „Ég hef ekki lagt honum til eitt einasta óvildarorð“.

Óvilhallur (l)  Hlutlaus; óhlutdrægur; sanngjarn.  „Hann var fenginn til að úrskurða í málinu, enda talinn óvilhallur og sanngjarn af þeim sem til hans þekktu“.

Óviljandi (ao)  Án ásetnings/vilja.  „Ég hellti óviljandi niður úr glasinu“.

Óviljaverk (n, hk)  Óhapp/slys sem verður án ásetnings; ekki ásetningsverk.  „Þetta var algjört óviljaverk“.

Óvilji (n kk)  Tregða; neikvæðni.  „Nokkur óvilji var til þess hjá bændum að tileinka sér þessi vinnugbrögð“.

Óviljugur (l)  Tregur; ekki áfjáður um; ófús.  „Fremur er ég óviljugur að taka þetta að mér“.

Óvinafagnaður / Óvinafögnuður (n, kk)  Það sem kemur andstæðingi vel.  „Það yrði heldur en ekki óvinafagnaður ef ég léti þessu ómótmælt“.

Óvinátta / Óvinskapur (n, kvk)  Fjandskapur; misklíð.  „Ég held að þeirra óvinátta sé öll að baki núna“.

Óvingast (s)  Komast upp á kant við; verða andvígur einhverjum.  „Ég hef engan áhuga á að óvingast við hann fyrir útaf svona lítilræði“.

Óvingjarnlegur / Óvinsamlegur (l)  Fjandsamlegur; andsnúinn.  „Hann kom vel fyrir og var ekki óvingjarnlegur í okkar garð“.

Óvinnandi vegur (orðtak)  Ekki unnt; ómögulegt.  „Það er óvinnandi vegur að draga féð án þess að þrengja að því í réttinni“.

Óvinnufær (l)  Frá vinnu; getur ekki unnið; frá vinnu t.d. vegna slyss eða annarrar uppákomu.

Óvinsældir (n, kvk, fto)  Almenn andúð/óánægja með.  „Óvinsældir Halldórs Laxness meðal eldra fólks þarna vestra má eflaust rekja til skrifa hans um verbúðalífið, sem mönnum fannst lítið annað en rakalaus rógur og þvættingur; skrifað af hreinni vanþekkingu“.

Óvinsæll (l)  Ekki vinsæll/dáður.  „Af þessu varð hann fremur óvinsæll í byggðarlaginu“.

Óvinveittur (l)  Ekki vinsamlegur; andvígur.  „Sá þingmaður er ekki að líta við á óvinveittum bæjum“.

Óvirða (s)  Sýna óvirðu/óvirðingu; lítilsvirða.  „Það er óþarfi að óvirða gamlar hefðir í þessum efnum“.

Óvirða / Óvirðing (n, kvk)  Fyrirlitning; skömm.  „Ég geri minni ætt ekki þá óvirðu að horfa á fótboltaleiki“!  „Hinir kappsömu vermenn í Kollsvíkurveri kunnu ýmis ráð til að sýna þeim óvirðingu sem þeir öttu kappi við í sjósókn og veiðimennsku.  Eitt þeirra var það að sá formaður sem fyrr var á sjóinn en annar sýndi hinum óvirðingu með því að setjast ofangirtur á borðstokkinn og snúa sitjandanum að þeim sem varð höndum seinnisetja fram.  Annar hrekkur var sá að snúa bát keppinautarins öfugt í skorðum sínum; þannig að afturstefni vissi upp á land.  Þótti það sínu verra þegar bátnum var sýnd óvirðing en þó áhöfnin væri niðurlægð“  (VÖ eftir ÖG og GÖ).

Óvirðulega (ao)  Án tilhlýðilegrar virðingar; niðrandi.  „Talið nú ekki svona óvirðulega um látinn mann“!

Óvirðulegur (l)  Niðurlægjandi; án tilhlýðilegrar virðingar.  „Einn vermanna fékk það óvirðulega hlutverk að gæta þrifa þar sem menn gengu örna sinna, en sem sárabót hafði hann hið virðulega heiti „sýslumaður“.

Óvirkjaður (l)  Um orkugjafa; ekki nýttur til raforkuframleiðslu.  „Mestu orkuauðlindir Íslendinga eru enn óvirkjaðar, en það eru hafstraumar og ölduorka allt í kringum landið.  Sá eini sem unnið að úrbótum á því sviði er Kollsvíkingurinn Valdimar Össurarson, en skilningur stofnana og sjóða hefur lítill verið“.

Óviss (l)  Ekki viss/öruggur; hikandi; á báðum áttum.  „Ég er óviss um að þetta takist“.

Óvissa (n, kvk)  Vafi; óöryggi.  „Enn er allt í óvissu um mokstur hingað úteftir“. 

Óvistlegt (l)  Ekki gott að vera/búa í.  „Nútímafólki þætti líklega vistin í verbúðunum nokkuð óvistleg“.  „Bauð Össur okkur að koma með sér yfir að Láganúpi, því óvistlegt myndi verða hjá okkur að nóttu til í slíku veðri“  (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949). 

Óvit (n, hk)  A.  Vanþekking; þekkingarleysi.  „Ég held að þetta hafi fremur verið af óviti gert en illvilja“.  B.  Fyrirhyggjuleysi glannaskapur.  „Ég teldi það mesta óvit að róa í þessu útliti“.  C.  Ön gvit; meðvitundarleysi.

Óvitaaldur (n, kk)  Aldur ungbarns sem ekki hefur vit fyrir sér.  „Þetta tel ég mig muna rétt, þó ég hafi enn verið á óvitaaldri á þeim árum“.

Óvitað (l)  Ekki vitað/þekkt/kunnugt.  „Það er allsendis óvitað hvað af þessari bók hefur orðið“.

Óvitaskapur (n, kk)  Kjánaháttur; hugsunarleysi; barnaskapur.  „Ég hellti þessu niður af tómum óvitaskap“.

Óviti (n, kk)  A. Ungbarn sem enn hefur ekki vit fyrir sér.  „Hann er nú bara óviti ennþá, þessi stubbur; það er ekki von að hann skilji þetta“.  B.  Líkingamál um glópskan mann.  „Hverslags óvitar geta þetta verið“?!

Óvitlaus (l)  Ekki fráleitur/heimskulegur.  „Krummi er alveg óvitlaus.  Það sýnir sig best þegar hann er að ná æti af hundinum“.  „Ég held að það væri óvitlaust hjá ykkur að sækja kýrnar áður en hann fer að rigna“.

Óvíða (ao)  Ekki víða; á fáum stöðum.  „…en hitt mun líka sanni næst að víða séu þau í lausara lagi, því óvíða mun hafa hitnað í heyjum svo neinu nemi“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1923). 

Óvígður (l)  Ekki blessaður/vígður.  „Guðmundur góði lét Heiðnukinnina óvígða þegar hann vígði Látrabjarg, svo þar mætti verða friðland vætta.  Sá góði biskup taldi ástæðulaust að hrófla við lífríki vætta í björgunum kringum Kollsvík, þegar hann dvaldi þar; enda hafa þær þá líklega lifað í meiri sátt við mannlega íbúa.  Því er enn nábýli trölla og huldufólks í Stórhól og Tröllkarlshelli í Hnífum, og tröllkarlinn hefur enn óhindruð undirgöng að skessu sinni í Tröllkonuhelli í Blakknum.  Sömuleiðis kemst huldukötturinn enn sinna ferða neðanjarðar úr Kattarholu í Blakknum í Kattarholu í Urðahjalla“.

Óvílsamur (l)  Hræðist ekki; kvartar ekki; miklar ekki fyrir sér.  „Hann var áræðinn og óvílsamur; sama hvað á gekk“.

Óvon (n, kvk)  Engin/lítil von; engar/litlar væntingar.  „Ég nennti ekki að bíða eftir honum í einhverri óvon“.  Sjá uppá von og óvon.

Óvottaður / Óvottfestur (l)  Ekki staðfestur af vitnum/vottum.  „Þessi samningur er lítils virði ef hann er óvottfestur“.

Óvæður (l)  Ekki unnt að vaða.  „Mjótt sund er milli lands og Arnarboða, og þari kemur þar víðast úr sjó á stórstraumsfjöru, en þó er það algerlega óvætt“.

Óvægilega (ao)  Án vægðar/miskunnar; óvarlega.  „Farið ekki svona óvægilega að fénu í réttinni strákar“!

Óvæginn (l)  Harður; miskunnarlaus.  Notað ýmist um veðurfar, fólk og fleira.  „Þorrinn hefur verið fremur óvæginn, það sem af er“.  „Hann var víst nokkuð óvæginn þegar hann skammaði strákana fyrir tiltækið“.

Óvægur (l)  Óþreyjufullur; spenntur; ákafur.  „Við strákarnir vildum óvægir komast í róður“.

Óvæni (n, hk)  Óvættur; óboðinn gestur.  „Þá birtist eitthvað óvæni uppúr fjörunni“.  Var í síðari tíð oftast notað um ketti sem líkingamál.  „Þarna kemur þetta kattaróvæni“.  Annarsstaðar heyrðist orðmyndin „óvæmi“ og hefur það verið talið samstofna orðinu „vomur“.

Óvænkast (s)  Horfa til verri vegar; líta verr út.  „Heldur þótti mér óvænkast um minn hag þegar hrundi úr ganginum“.

Óvænt (l)  A.  Óviðbúið; óundirbúið; fyrirvaralaust.  „Það var óvænt ánægja að fá þau í heimsókn“.  B.  Ógnarlegt; hættulegt; óefni.  Sjá sjá sitt óvænna.

Óvær (l)  Órólegur; pirraður; uggandi.  „Mér þykir barnið nokkuð óvært í svefninum núna“.  „Hann var óvær yfir fénu þegar fór að falla að, og taldi vissara að fara og líta eftir því“.

Óværa (n, kvk)  A.  Það sem pirrar/ er til leiðinda.  „Árans óværa er þessi túnrollufjandi“!  B.  Lús.  „Ekki var óalgengt fyrrum að menn þyrftu að búa við óværu á sínu skinni“.

Óværð (n, kvk)  Órói; óþreyja; værðarleysi; spenna.  „Það kemur óværð í féð að vera innilokað á túnum þegar hagar eru farnir að taka svona vel við sér“.

Óvættur (n, kk)  Ófreskja; ógnarleg vera; tröll.  „Óvættur er talinn hafast við á Látraheiði.  Líklega er eitthvað af honum dregið í seinni tíð, en síðast réðist hann á ferðalang í byrjun 20.aldar“.

Óyfirstíganlegur (l)  Sem ekki verður komist yfir/ sigrast á.  „Þessar reglur gætu skapað mönnum óyfirstíganlega örðugleika“.

Óyggjandi (l)  Sem ekki verður efast um/ dregið í efa.  „Ég tel mig hafa óyggjandi sannanir fyrir þessu“.

Óyndi (n, hk)  Leiði; heimþrá; ókyrrð.  „Ég kvaldist af óyndi þennan tíma; fjarri fjölskyldu og heimahögum“.

Óyndisráð / Óyndisúrræði (n, hk)  Aðgerð/framkvæmd sem þykir slæm/ er óvinsæl; neyðarúrræði.  „Við þurftum að grípa til þess óyndisúrræðis að skilja eggjafötuna eftir“.

Óýkt (l)  Engar ýkjur; lygilaust; satt.  „Ég segi þér það alveg óýkt að þarna hefði draugurinn haft mig undir, hefði ég ekki kunnað sitthvað fyrir mér“!

Óþakkað (l)  Ekki búið að þakka fyrir.  „Enn er óþakkað allt hans mikla starf á þessu sviði“.

Óxu (s, þt)  Uxu.  „Á Ýluflöt óxu grös, sem hægt var að blása í röndina á; ýlustrá“ (AS ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Óþarfabruðl / Óþarfaeyðsla / Óþarfainnkaup / Óþarfakostnaður / Óþarfaútgjöld / Óþarfaspreð (n, hk/kvk/kk)  „Mér finnst það óþarfabruðl að kaupa þetta jólaskraut“!  „Ég er ekki mikið fyrir svona óþarfainnkaup“.  „Þetta eru auðvitað þínir peningar, en mér finnst þetta óþarfaspreð“!

Óþarfarask / Óþarfarót (n, hk)  Umrót/jarðrask sem talið er nauðsynjalaust. 

Óþarfatímaeyðsla / Óþarfatöf / Óþarfaverk (, kvk/hk)  Famkvæmd sem talin er tefja/nauðsynjalaus.

Óþarfavesen (n, hk)  Óþörf vinna/fyrirhöfn.  „Vertu ekki með neitt óþarfa vesen útaf minni heimsókn“.

Óþarfi (n, kk)  Það sem ekki er nauðsynlegt/þarft.  „Það er alger óþarfi að koma með meðlæti fyrir mig“.  „Eyddu þessu nú ekki öllu í óþarfa“!

Óþarflega (ao)  Umfram þarfir; óhóflega; of mikið.  „Þú hefur gefið óþarflega mikið í gær; féð stóð yfir þegar ég kom í húsin í morgun“.

Óþarft er að kvíða fyrr en á dettur (orðatiltæki)  Ástæðulaust er að fjargviðrast yfir því sem ekki er orðið til baga.  „Ég er ekki viss um að þetta lánist hjá honum einum, en óþarft er að kvíða fyrr en á dettur“.

Óþarfur (l)  A. Ekki nauðsynlegur/þarfur.  „Þessi langi vaður er óþarfur fyrir svona stutt snag“.  B.  Til skaða/ama.  „Hann hefur reynst flokknum heldur óþarfur með öllu sínu andófi“.

Óþefur (n, kk)  Fnykur; ólykt.  „Skelfingar óþefur er nú af þessu“!

Óþekkjanlegur (l)  Ekki þekkjanlegur; mjög breyttur.  „Þú ert næstum óþekkjanlegur svona nýklipptur“!

Óþekkt (n, kvk)  Óhlýðni; stífni; óþjálni.  „Það var bölvuð óþekkt í kindunum sem voru fremst í dalnum“.

Óþekktarangi / Óþekktarormur (n, kk)  Gæluorð um óþekkan krakka.  „Hættu þessu, óþekktaranginn þinn“!

Óþekktur (l)  Ekki kunnugur/þekktur.  „Svona nokkuð trú ég að sé alveg óþekkt“.

Óþekkur (l)  Ódæll; óhlýðinn; baldinn.  „Ef þú ætlar að vera áfram svona óþekkur er hætt við að Grýla fari að finna pokann sinn“!

Óþesslegur (l)  Óíklegur; ekki líklegur til.  „Hann er ennþá ári slappur og heldur óþesslegur að hann sé að fara í göngur í dag“.

Óþénanlegur (l)  Óhentugur; ólánlegur.  „Þetta er heldur óþénanlegt verkfæri í svnalagað“.

Óþéttur (l)  Ekki þéttur/heldinn; lekur.  „Tunnan er enn óþétt; hún þarf að vatnast dálítið lengur“.

Óþiðnaður (l)  Um snjó; óbráðinn.  „Enn eru einhverjir óþiðnaðir skaflar í giljum“.       

Óþjakaður (l)  Ekki þjakaður/plagaður/mæddur.  „Hann er alveg óþjakaður af feimni“.

Óþjáll (l)  Ekki þægilegur/passlegur/lipurlegur; liðlegur.  „Óttalega finnst mér þessi skæri vera óþjál“.

Óþjóðalýður (n, kk)  Ribbaldar; skálkar.  „Þessi óþjóðlýður er búinn að koma sér vel fyrir í stjórnkerfinu“.

Óþokkabragð (n, hk)  Óþverraháttur; slæmur hrekkur; kvikindisháttur.  „Þetta finnst mér nú vera algjört óþokkabragð; að setja salt í vodkaflöskuna hjá karlanganum“!

Óþokkalegur (l)  Óþverralegur; óþrifalegur.  Þar sem Klein var í þjóðbraut fékk margur óþokkalegt bað þegar ís var ótraustur“  (SE; Örn.skrá Stakkadals).

Óþokkapör (n, hk, fto)  Fólskuverk; illur verknaður; skandall.  „Það ætti að dæma menn í fangelsi fyrir svona óþokkapör“!

Óþokki (n, kk)  Skálkur; ribbaldi; skelmir.  „Ég er ekki slíkur óþokki að ég reyni ekki að aðstoða nauðstadda“.

Óþolandi (l)  Sem erfitt er að umbera/þola.  „Slökktu nú á þessu óþolandi sinfóníusargi í útvarpinu“!

Óþoli (n, kk)  Gamalt heiti á eyrugga fisks, s.s. þorsks og spröku.  Þjóðtrúin segir að ef þunguð kona borðar óþola af steinbít muni barnið aldrei verða kyrrt eftir að það fæðist.  ( JÁ; Þjs). 

Óþreyja (n, kvk)  Eftirvænting; erfið bið; óþol.  „Ég bíð með óþreyju eftir skýringu á þessu“.

Óþreyjufullur (l)  Eftirvæntingarfullur; spenntur.  „Ég fer nú að verða nokkuð óþreyjufullur“.

Óþreyttur (l)  Ekki lúinn/þreyttur.  „Hann virtist alveg óþreyttur eftir öll þessi hlaup“.

Óþrif (n, hk, fto)  A.  Óhreinindi.  „Vertu nú ekki að bera þessi óhreinindi inn í húsið“.  B.  Niðurgangur; skita.  „Það eru einhver óþrif í fénu.  Það þyrfti líklega að fá ormalyf“.  C.  Skítaveður; oftast haft um slyddu eða frostlaust kóf sem settist á fólk og skepnur; seig inn í föt og gerði óþrifalegt á gólfum í skepnuhúsum og mannabústöðum.  „Það verður að hleypa fénu inn; það verður bara gegnblautt í þessum óþrifum“.   Einnig talað um óþrifatíð og óþrifaél/óþrifaveður.

Óþrifabloti (n, kk)  A.  Skammvinn hlýindi sem ekki ná að bræða snjó heldur gera hann að krapa sem frýs í svell.  B.  Slydda sem bleytir menn og fénað.

Óþrifaél (n, hk)  Snjóél með blautri slyddu sem klessist á og bleytir.  „Ég lendi í þvílíku óþrifaéli að ég er eiginlega blautur innúr“.

Óþrifalegur (l)  Skítugur; óhreinn.  „Ári er maður eitthvað óþrifalegur eftir svona verk“.

Óþrifatíð (n, kvk)  Hrakviðristíð, oft með blota og frostum á víxl.  „Það er enn ekki lát á þessari óþverratíð“.

Óþrifaveður (n, hk)  Mikil og þétt slydda.  „Við þurfum að drífa féð inn úr þessu óþrifaveðri“.

Óþrifaverk (n, hk)  Verk sem fylgja mikil óþrif; skítavinna.  „Einhver verður að vinna þessi óþvrifaverk“.

Óþrifaverk / Óþrifavinna (n, hk/kvk)  Skítverk; vinna í óhreinu/óheilnæmu umhverfi; erfiðisvinna.

Óþrifnaður (n, kk)  A.  Skítur; kám; óhreinindi.  „Þessu fylgir nokkur óþrifnaður“.  B.  Skita í fé. 

Óþrjótandi (l)  Endalaus; sem ekki þrýtur.  „Hann var óþrjótandi viskubrunnur í þessum efnum“.

Óþurft (n, kvk)  Óþarfi; skaði.  Sjá til óþurftar.

Óþurftarverk (n, hk)  Illur verknaður; skaði; hryðjuverk.  „Það var mikið óþurftaverk að bera þetta á bál“.

Óþurrkakafli / Óþurrkatíð (n, kk)  Rigningatímabil; votviðriskafli.  „Þessi óþurrkakafli hefur sett strik í reikninginn“.  „Maður gerir lítið í heyskap í svona óþurrkatíð“.

Óþurrkasamur (l)  Einkennist af óþurrkum.  „Hjá allflestum munu hey vera lakari en í meðallagi, því sumarið var óþurrkasamt…“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1925). 

Óþurrkasumar (n, hk)  Sumar án góðra þurrka til heyskapar.  „Kýr eru einnig vanfóðraðar í Kirkjuhvammi, sem orsakast af átleysi, sem áður fyr eftir óþurrkasumur“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932).   

Óþurrkur (n, kk)  Votviðri; rigningatíð.  „Hann spáir óþurrki alla næstu viku“.  „Heyin kunna að vera ekki góð sökum óþurrks undanfarið sumar, og verða þar fyrir mikilgæfari“   (ÍÍ;  Forðagæslubók Rauðasands 1944).  

Óþveginn (l)  Ekki þveginn; óhreinn.  Sjá einnig láta fá óþvegið.

Óþverrabragð (n, hk)  Kvikindisleg aðferð; lúalegur hrekkur.  „Mér fannst það óþverrabragð að setja vatn í stólinn hjá honum“.

Óþverraél / Óþverraslydduél (n, hk)  Niðrandi heiti á slydduéli/bleytukafaldi.  „Við skulum bíða af okkur þetta óþverraél“.  „Ég lendi í óþverraslydduéli þegar ég var hálfnaður heim“.

Óþverragepill / Óþverragerpi (n, hk)  Niðrandi orð um mann; óþverri.  „Það þyrfti að kjöldraga þennan óþverragepil; hverjum dettur svona ótugtarskapur í hug“?!

Óþverraháttur (n, kk)  Lúaleg framkoma; kvikindisskapur; skandall.  „Mikill óþverraháttur er þetta af honum“!

Óþverralegur (l)  Lúalegur; skítlegur; mjög slæmur/óhreinn.  „Við lentum í ansi óþverralegu éli“.

Óþverraveður (n, hk)  Skítaveður; slæmt veður; oft notað um hvassviðri og slyddu eða dimmt él/kóf.

Óþverraskammir (n, kvk, fto)  Miklar skammir/ávítur; óbotnandi skammir; húðarskammir.  „Ég er þá ekkert að hjálpa honum við smalamennskur oftar; ef maður fær bara óþverraskammir fyrir“!

Óþverri (n, kk)  A.  Skítur; ógeð; viðbjóður.  „Hvaða illa lyktandi óvþerra hefur hudnurinn dregið heim“?.  B.  Óvandaður maður; skálkur; ótukt.  „Hann kom fram við hana eins og algjör óþverri“.

Óþynntur (l)  Ekki útvatnaður/þynntur.  „Maurasýran er hættuleg ef hún kemur á hörund; sérstaklega óþynnt“.

Óþyrmilega (ao)  Vægðarlaust; harkalega; hryssingslega.  „Mér brá óþyrmilega við þetta“.

Óþýði (n, hk)  Illþýði; ribbaldlýður.  „Ég ætla að stökkva og reka þetta óþýði úr túninu“.

Óþýfður (l)  Án þúfna; þúfulaus.  „Túnið er tiltölulega óþýft á þessu svæði“.

Óþægðarbykkja (n, kvk)  Niðrandi heiti á kind sem reynst hefur mjög erfið í smölun og/eða er strokgjörn; vanvirðir girðingar, jötubönd eða þ.h.  „Hún er gjörsamlega óþolandi þessi óþægðarbykkja“!

Óþægð (n, kvk)  Óhlýðni; mótþrói.  „Einhver óþægð er enn í vélarfjandanum“.

Óþægðarbykkja / Óþægðargerpi / Óþægðarkvikindi (n, kvk/hk)  Niðrandi heiti á kind sem reynst hefur mjög erfið í smölun og/eða er strokgjörn; vanvirðir girðingar, jötubönd eða þ.h.  „Hún er gjörsamlega óþolandi þessi óþægðarbykkja“! „Ég gafst upp við þetta óþægðargerpi og skildi hana eftir“.

Óþægðast (l)  Sýna óþægð/mótþróa.  „Varstu eitthvað að óþægðast við hana móður þína“?

Óþægilega (ao)  Ekki þægilega; óhægt.  „Nú er að verða óþægilega heitt í bjarginu“.

Óþægilegur (l)  Ekki þægilegur/passandi.  „Mér fannst nýju skórnir dálítið óþægilegir í fyrstu“.

Óþægindi (n, hk, fto)  Það sem ekki er þægilegt.  „Mér finnst þetta dálítið til óþæginda“.

Óþægur (l)  Ódæll; erfiður viðureignar; óhlýðinn.  „Féð var óþægt, og nokkur hlaup við það“.

Óþægur ljár í þúfu (orðtak)  Um það sem er illt viðureignar; grir mönnum erfitt fyrir.  „Þessi vélarfjandi ætlar að reynast okkur heldur óþægur ljár í þúfu“.  Líkingin dregin af því þegar sláttumaður festir ljá sinn ítrekað í þúfu, og kennir honum um fremur en sjálfum sér.

Óþökk (n, kvk)  Vanþakklæti; skortur á þökk.  Sjá í óþökk.

Óæðri endi (orðtak)  Rass; sitjandi; gumpur.  „Mér sýnist buxurnar þínar vera flengrifnar á óæðri endanum“.

Óæti (n, hk)  Vondur/óætur matur; fátækrafæða; ómeti; hungurfæði.  „Í fæði síðari kynslóða er að finna allskonar óæti, svo sem hvítlauk, gúrkur og pasta“.

Óætur (l)  Ekki ætur/ unnt að borða.  „Þessi pastafjandi er óætur með öllu“!

Óöfundsverður (l)  Ekki öfundsverður/sæll.  „Hann er óöfundsverður af þessu hlutverki, þykir mér“.

Óöld (n, kvk)  Mjög slæmir tímar.

Óöld í heiðni (orðtak)  Mikil harðæri og hungursneyð sem gengu yfir í Noregi kringum 970.  Flosnuðu þá margir upp og glæpir jukust stórum.  Þá fjölgaði sekum skógarmönnum svo mikið að lögtekið var að hver gæti frelsað sig sem dræpi þrjá seka; nema um stórglæpi væri að ræða.  Sjá Skóggangur.

Óöruggur (l)  Ekki viss/öruggur.  „Vertu ekkert að fara þetta ef þú ert eitthvað óöruggur“.

Óöryggi (n, hk)  Skortur á öryggi/eðlilegheitum.  „Auðvitað þykir það nokkuð óöryggi nú á tímum að búa á stað sem getur verið lokaður langtímum saman frá aðgengi að læknum, verslun og öðru“.

Leita