Maddama (n, kvk)  Tignartitill hefðarkonu fyrrum.  Notað í seinni tíð í merkingunni frú, en þó oft í nokkuð kaldhæðinni merkingu.

Maðka (s)  Koma maðkur í.  „Fiskhausinn er farinn að maðka“.

Maðkaður (l)  Kominn maðkur í; kvikur af maðki.  „Fleygðu þessari grásleppu; hún er möðkuð“.

Maðkafiskur (n, kk)  Fiskur sem goldinn var fyrrum fyrir tínslu á möðkum í beitu; var tekinn af óskiptum afla báts.  „...maðkafiskar engir“  (ÁM/PV; Jarðabók; um Láganúp).  „Maðkafiskar gefast af óskiftu, ef sá er grefur missir fyrir það svefns síns, og grefur maðk um nætur.   Ella skiftast hásetar til, og tekur enginn neina maðkafiska“ (ÁM/PV; Jarðabók¸um Hænuvík).  

Maðkafjara (n, kvk)  Fjara þar sem fjörumaðk er að finna.  Var áður talin hlunnindi, þar sem maðkur var nýttur til beitu.  Maðkafjara er ágæt í Kollsvík.

Maðkafluga (n, kvk)  Sjá fiskifluga.

Maðkafæða (n, kvk)  Möðkum að bráð; dauður.  „Ætli maður reyni nú ekki að malda í móinn yfir svona óréttlæti, meðan maður er ekki enn orðin maðkafæða“.

Maðkahrúga / Maðkaskítur (n, kvk/kk)  Hrúga úrgangs fjörumaðks frammi á útfiri, en undir slíkum hrúgum má reikna með að maðkurinn búi í holu sinni.  Stundum er mikið um þannig maðkaskít, einkum ef mikið hefur verið um þararek og þarinn farinn að rotna í fjörunni.

Maðkaveita (n, kvk)  Kös af hvítmaðki.  „Þegar ég skar signa fiskinn í sundur vall útúr honum maðakveita“.

Maðkbeita (n, kvk)  Fjörumaðkur notaður sem beita á þorskveiðum.

Maðkétinn / Maðksmoginn  (l)  Um við/tré: ormétinn; með miklu af ormagötum.  „Þessi bolur er svo maðkétinn að hann eir varla nýtanlegur í staura, hvað þá annað“.

Maðkur (n, kk)  Samheiti um ýmsar tegundir maðka og lirfa.  A.  Ánamaðkur.  Hann er algengur í öllum moldarjarðvegi og mikilvægur liður í ræktun.  Nýttur lítillega til beitu, einkum fyrir bröndur.  B.  Hvítmaðkur; lirfa fiskiflugu.  Meindýr í fiskverkun.  Fluga sækir mjög í að verpa/vía í rotnandi fisk og því þarf að gæta þess að þrífa vel, einkum þegar hengt er upp.  C.  Fjörumaðkur var mikið nýttur til beitu fyrrum (sjá þar).  D.  Trjámaðkur lifir ekki hérlendis, en rekaviður er oft mjög maðksmoginn og skemmdur.

Maðkur í mysunni (orðtak)  Vafasamt málefni; mál ekki með skýrum hætti; eitthvað óheiðarlegt í gangi.  „Hann sagðist hafa keypt þetta fullu verði, en ég þóttist strax sjá að hér var maðkur í mysunni“.

Maðra (n, kvk)  Samheiti yfir jurtategundirnar hvítmöðru og gulmöðru.

Maður að meiri (orðtak)  Meiri maður; heiðarlegri/virðingarverðari maður.  „Hann væri maður að meiri í mínum augum ef hann viðurkenndi sína yfirsjón í stað þess að koma þessu yfir á aðra“.

Maður á aldrei að segja aldrei / Maður skyldi aldrei segja aldrei (orðatiltæki)  Speki sem minnir á að aldrei er hægt að útiloka neitt til frambúðar.

Maður er manns gaman (orðatiltæki)  Allir þurfa félagsskap.  Þessi speki á misvel við menn; sumir þola einlífið ágætlega meðan öðrum er það ómögulegt.  „Ungur var ég forðum/ fór ég einn saman./  Þá varð ég villtur vega./  Auðugur þóttumst/ er ég annan fann;/ maður er manns gaman“  (Hávamál).

Maður fyrir (orðtak)  Maður til; maður til að valda/ standa fyrir.  „Hann er varla orðinn maður fyrir öllum þessum búrekstri lengur“.

Maður gengur undir manns hönd (orðtak)  Allir hjálpast að; allir eru samtaka; allir boðnir og búnir.  „Það gekk maður undir manns hönd að hjálpa þeim í þessum erfiðleikum“.

Maður getur sjálfan sig séð (orðtak)  Maður getur sett sig í annars manns spor/hlutverk í huganum.  Oft viðhaft:  „Það er auðvelt að gera mistök við þessaar aðstæður; maður getur bara sjálfan sig séð í því“.

Maður guðs og lifandi! (orðtak)  Upphrópun til að sýna undrun eða til áherslu.  „… og þvílíkt fiskirí; maður guðs og lifandi!  Fiskurinn var svo viljugur að færið komst varla útfyrir áðuren beit á“!

Maður kemur í manns stað (orðatiltæki)  Vísar til þess að þó einhver deyi/forfallist/gangi úr skaftinu, þá verður oftast einhver annar til að fylla í skarðið.  Einnig; einn kemur þá annar fer.

Maður lifandi / Maður guðs og lifandi (orðtak)  Upphrópun, vanalega í hrifningu, vandlætingu eða til áherslu.  „Það var aldeilis fjör á þorrablótinu; maður lifandi“!  „Láttu þér ekki detta svona vitleysa í hug; maður guðs og lifandi“!

Maður lítilla sanda og lítilla sæva (orðatiltæki)  Niðrandi mannlýsing; um þann sem þykir smár/þröngsýnn í hugsun, jafnvel heimskur eða illgjarn.  Tilvitnun í Hávamál:  „Lítilla sanda;/ lítilla sæva;/ lítil eru geð guma./  Því allir menn/ urðut jafnspakir,/ hálf er öld hvar“ (úr Hávamálum).  Merkingin er sú að þeir sem koma frá byggðum þar sem þröngsýni ríkir verða óhjákvæmilega þröngsýnir sjálfir.  Fólk er jafnan ófullkomið.

Maður með mönnum (orðtak)  Jafnmikill öðrum mönnum.  „Strákurinn þykist nú aldeilis vera maður með mönnum, fyrst honum tókst að ná öllu fénu úr hlíðinni einsamall“.

Maður skyldi aldrei segja aldrei (orðatiltæki) Gegnsætt og mikið notað orðatiltæki.

Maðurinn deyr en mannorðið ekki (orðatiltæki)  Góð verk manna, og mikilfengleiki þeirra, getur lifað mjög lengi eftir að þeir eru látnir.  „Deyr fé; deyja fændr; deyr sjálfr it sama./  En orðstírr deyr aldregi; hvem es sér góðan getr“ segir í Hávámálum, og vísar þetta orðatiltæki til þess.

Maðurinn lifir ekki á brauði einusaman (orðatiltæki)  Fleira þarf til framfærslu en mat.  Einnig notað þegar eitthvað nauðsynlegt skortir.  Biblíutilvitnun, sem hefur þessa viðbót; „…heldur hverju orði sem fram gengur af guðs munni“.

Maður til (orðtak)  Fær um; nægilega hraustur/hress til.  „Þá segir Sigurður:  „Nú skulum við fara niður“.  „Ertu nokkur maður til þess“? spyrjum við“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  

Mafía (n, kvk)  Síðari tíma níðyrði um hóp/klíku manna sem brugga launráð eða stunda grimma sérhagsmunagæslu.  „Ekki held ég að maður fari að hlusta á þessa mafíu þarna fyrir sunnan“!

Magafylli (n, kvk)  Búkfylli; saðning.  „Ég kalla það nú ekki mat, þessa pissubleðla sem þeir gófla í sig þarna fyrir sunnan.  Það er ekki nokkur vegur að fá í sig magafylli af þessum þerripappír“!

Magakveisa (n, kvk)  Slæmska í maga; magaverkir; magapest.  „Hann segist ekki vera góður af magakveisunni ennþá; hann heldur mestmegnis til á kamrinum“.

Magamál (n, hk)  Hæfileg saðning; takmörk átgetu.  „Það er nú ekki á hverjum degi sem maður fær hausastöppu, en maður verður nú að kunna sér magamál þó maturinn sé góður.

Magapest (n, kvk)  Magaveiki; veiki sem magaverkir fylgja; uppgangspest; niðurgangur.  „Ég er hræddur um að ég fari lítið á sjóinn fyrr en þessi magapest lagast“.

Magapína (n, kvk)  Verkur/veikindi í maga; bumbult.  „Ég er ekki hissa á að þú fáir magapínu af þessu áti“!

Magapláss / Magarúm (n, hk)  Pláss í maganum fyrir mat.  „Nei takk; ómögulega meira fyrir mig; ég held ég eigi bara ekki meira magapláss þó ég feginn vildi“!

Magarín (n, hk)  Margarín; smjörlíki.  „Það eru nú hálfgerð harðindi að nota magarín í staðinn fyrir smjör“.

Magáll (n, kk)  „Magálar eru búnir til úr kviði heimaslátraðs fjár; helst vænna sauða.  Kviður skorinn úr upp undir bringubein; að rifjum og niður að huppum; snoggsoðið og saltað eftir suðu.  Ef kviðirnir þóttu heldur þunnir voru þeir lagðir saman tveir og tveir og lagt létt farg á.  Síðan saumað utanum þunnt lérefti eða blað og hengt upp í reyk“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Magn (n, hk)  A.  Afl; orka; úthald; styrkur.  „Það var á mörkunum að ég hefði magn til að lyfta þessu“.  „Þú verður að borða vel, svo þú hafir magn í smalamennskurnar í dag“.  B.  Fjöldi; mikilleiki; massi.  „Töluvert magn af salti hefur þurft til að verka aflann í Kollsvíkurveri á hverri vertíð“.

Magna upp (orðtak)  Auka; bæta við; gera kröftugra.  „Benedikt Gabríel magnaði upp draug og sendi á Einar í Kollsvík vegna deilu þeirra um hvalinn“.  „Nú held ég hann sé að magna upp eitthvað skítaveður“.

Magnað (l)  Mikið; meiriháttar.  „Alveg er það magnað hvað hákarlinn er alltaf fljótur að klárast“!

Magnetta / Magnettukveikja (n, kvk)  Smellikveikja; segulkveikja sem var algeng t.d. í fyrstu báta- og traktorsvélunum.  „Alltaf eru sömu vandræðin með bölvaða magnettuna; það er bara aldrei hægt að treysta þessu“!  Kveikjur þessar voru fremur vangæfar og gat oft þurft að skrifa þeim til.

Magnlaus (l)  Máttlaus; þróttlaus.  „Skelfing verður maður magnlaus í þessu leiðindaveðri dag eftir dag“.

Magnleysi (n, hk)  Máttleysi; þróttleysi.  „Það kom yfir mig eitthvað magnleysi, svo ég varð að setjast“.

Magnþrota (l)  Máttlaus; þróttlítill.  „Ærin var orðin alveg magnþrota, svo við urðum að bera hana heim“.

Magur (l)  A.  Um mann/skepnu/ket; horaður; grannur; rýr.  „Ári er þetta magurt súpuket“.  B.  Um beitiland/fóður; rýrt; með lítið fóðurgildi.  „Þessi sinuruddi er afskaplega magurt fóður“.

Mahoní / Mahoníviður (n, hk/kk)  Rauðleit viðartegund.  Rekaviður af mahogní var m.a. notaður til útskurðar af listafólki, m.a. Sigríði Guðbjartsdóttur á Láganúpi. (Ritað hér eins og fram var borið).

Maka (s)  Ata; rjóða; bera á.  „Það þarf að maka nægri málningu á þetta til að ekki sjái í bert járn“.

Maka krókinn (orðtak)  Hygla sjálfum sér; skara eld að eigin köku. „Mér sýnist að hann sé að nota sér aðstöðuna til að maka krókinn, en hugsi lítið um kúnnana“.   Hugsanlega vísar orðtakið til þess að taka mat uppúr potti með krók, og væri þá að „mata krókinn“ eins og stundum er enn sagt.  Hinsvegar gæti það vísað til þess að beita öngul.  Sá sem vel beitir/makar/matar er líklegur til að fá fisk.

Makalaust (l)  Dæmalaust; yfirgengilegt.  „Alveg er það makalaust hvað hann er fljótur að hlaupa“!

Makindalega (ao)  Í rólegheitum/þægindum.  „Ég kom mér bara makindalega fyrir og beið á brúninni“.

Makindi (n, hk, fto)  Þægilegheit; hægindi; rólegheit; munaður.  „Kötturinn hagræddi sér í mestu makindum uppi á staurnum meðan hundurinn hamaðist með óhljóðum fyrir neðan“.

Makk (n, hk)  Samráð; ráðabrugg; brall.  „Mér líkar ekki þetta makk og pukur“.

Makka (s)  Hafa samráð; pukast; bralla saman.  „Árann skyldu þeir nú vera að makka“.

Makka rétt (orðtak)  Gera rétt; vera samvinnuþýður.  „Vélarfjandinn vildi ekki makka rétt á landleiðinni“.

Maklegt (l)  Mátulegt; jafngott.  „Þetta var honum maklegt fyrir árans uppástöndugheitin“!

Makleg málagjöld (orðtak)  Réttlát ráðning/refsing; hefnast fyrir.  „Þarna fékk hann makleg málagjöld fyrir bölvaða hrekkina“!

Makríll (n, kk)  Somber scombrus.  Hraðasyndur uppsjávarfiskur af makrílætt.  Albengur í köldum sjó í N-Atlantshafi og heldur sig í stórum torfum nálægt yfirborði.  Hann kemur að ströndum í fæðuleit á sumrin þegar hitastig sjávar er hæfilegt, eða 11-14°C.  Á veturna heldur hann sig dýpra.  Svifæta sem fer í miklar göngur norðurum Atlantshaf, og hefur á síðari árum komið í miklu magni á grunnmið við Ísland.  Fannst fyrst hér 1895; var áberandi 1944, en algengur eftir 2005.  Hafa veiðar af honum verið umtalsverðar við Ísland síðustu ár, en sveiflukenndar.  M.a. hefur verið vaðandi makríll á grunnslóð í Kollsvík síðustu ár, en ekki fara sögur af veiði hans á þeim slóðum áðurfyrr.

Makræði (n, hk)  Leti; hóglífi.  „Nú dugir ekki að liggja í einhverju makræði; hér þarf að hafa hraðar hendur“!

Makt (n, kvk)  Veldi; yfirráð; afl.  „Ætli maður verði ekki að virða hans makt og herradóm í þessu efni“.

Mal (n, hk)  A. Murr í ketti.  „Skárra er það nú malið í kettinum“!  B.  Tal í síbylju; orðagjálfur.  „Ég nennti ekki lengur að hlusta á malið í þeim“.

Mala (s)  A.  Um kött; murra.  B.  Tala í síbylju; hafa uppi kjaftavaðal.  C.  Mylja; brjóta í smátt.  „Strákurinn var ansi duglegur við að mala kaffið“.

Mala/brjóta mélinu smærra (orðtak)  Brjóta í smátt; eyðileggja algerlega.  „Togaraflakið malaðist mélinu smærra á næstu flæði“.

Malandi (n, kk)  Kjaftavaðall; síbylja.  „Það bara stoppar hreint ekki í henni malandinn þegar hún byrjar“!

Malareyri (n, kvk)  Eyri úr möl sem skagar fram í vatn eða fjörð.  „Vatneyri, Þúfneyri og Hlaðseyri nefnast malareyrar í Patreksfirði norðanverðum, en sunnanfjarðar er Sandoddi, sem er skeljasandseyri“.

Malarfjara (n, kvk)  Fjara með sjávarmöl.  „Oftast er malarfjara í vogunum undir Hryggjunum heimanverðum, en stundum setur þar upp töluverðar sanddyngjur í miklum vestansjó“.

Malargryfja (n, kvk)  Uppgröftur/lægð þar sem tekin hefur verið möl, t.d. til vegagerðar.  „Víða voru opnaðar malargryfjur til að fá ofaníburð í vegina.  T.d. var ein slík í Húsadal; önnur á Núpnum og ein til á Aurtjörn“.

Malarhaugur / Malarhrúga (n, kk/kvk)  Haugur/hrúga af möl.

Malarholt (n, hk)  Holt úr möl; oftast jökulalda frá ísöld.  „Breiðsholt er gríðarmikið malarholt neðst í Vatnadal. Það er sundurklofið af Árdal“.

Malarkambur / Malarrif (n, kk)  Sjávarkambur/rif efst í fjöru, myndaður af sjávarmöl.  „Fiskur í Kollsvíkurveri var þurrkaður á steinlögðum reitum, á tímum saltfiskverkunar.  Fiskur í Láganúpsveri var líkast til mestmegnis verkaður í skreið, en vera kann að hann hafi verið þurrkaður á malarkambinum þar“.

Malarreka / Malarskófla (n, kvk)  Spíssreka; skófla/reka til að moka möl; með íhvolfu og spísslaga blaði.

Malda í móinn (orðtak)  Andmæla; hafa uppi mótbárur.  „Það tjóaði lítið þó ég reyndi að malda í móinn“.  „Malda“ merkti fyrrum að snjóa í logni.  Orðtakið vísar líklega til þess að litlu breytir þó þannig mygli niður snjó í haga ef menn þurfa að beita fé sínu, og á sama hátt breyti væg mótmæli litlu.

Malflattur fiskur (orðtak)  Fiskur sem flattur er og síðan þurrkaður á möl/fiskreitum.  Sjá flatning og skreið).

Malir (n, kvk, fto)  Spjaldhryggur; mjaðmir.  Sjaldnar er talaðum malir á fólki en á dýrum.  „Ekki líkar mér hvað þessi lambhrútur er rýr um malirnar“.

Mall (n, hk)  Sull; jukk; hrærigrautur.  „Hvaða mall er hér í potti“?

Malla (s)  A.  Sjóða vægt.  „Grauturinn mallar“.  B.  Hræra.  „Það væri kannski hægt að malla einhvern hræring úr þessu“.  C.  Ganga hægt.  „Ég mallaði bara í rólegheitum“.

Malli / Mallakútur (n, kk)  Gæluheiti á maga.  „Er þér eitthvað illt í malanum, stúfurinn minn“?  „Girtu nú uppum þig stubbur; þú ert með beran mallakútinn“.

Malning (n, kvk) Málning.  Í Kollsvík var áður fyrr talað um malningu ekki síður en málningu.  Þetta hefur máðst út í síðari tíð, eins og fleiri smærri frávik í framburði.  „Okkur vantar meiri malningu á þakið“.

Malpoki / Malsekkur / Malur (n, kk)  Nestispoki.  „Mundu að setja malsekkinn um borð“.

Malt (n, hk)  A.  Bygg sem verkað hefur verið til ölgerðar.  B.  Bragð sem stundum kemur af mat sem geymdur er illa eða lengi án þess að úldna eða mygla, t.d. þegar fiskur nær að hitna í verkun.  Þessi merking orðsins virðist ekki hafa verið þekkt víða.  „Mér finnst eins og það sé komið eitthvað malt í brauðið“.

Maltaður / Maltur (l)  Farinn að breyta bragði án þess að vera beinlínis úldinn að ráði; kominn á forstig úldnunar.  „Rauðmaginn hefur ekki verkast vel þetta árið; hann er dálítið maltur“. Sjá einnig skreið.  „Mér finnst dálítið malt bragð komið af brauðinu“.  „Aðeins er fiskurinn orðinn maltaður; en ekki neitt til skaða“.

Maltast (s)  Um fisk, brauð og aðra matvöru; breyta bragði; komast á stig kæsingar.  „Við þurfum að flýta okkur að hengja fiskinn í hjallinn; hann er fljótur að maltast ef hann liggur svona í sólinni“.

Maltbragð / Maltkeimur (n, hk)  Bragð af mat sem farinn er að maltast (sjá þar).  „Það er komið leiðinda maltbragð af þessu“.  „Er það ímyndun í mér, eða er kominn einhver maltkeimur af brauðinu“?

Man sauðurinn hvar hann lamb gekk (orðatiltæki)  Fullorðin ær sækir mjög gjarnan á uppeldisslóðir sínar; þangað sem hún gekk fyrsta sumarið í sínu lífi.  Eins er það um mannfólkið; römm er sú taug er rekka dregur, föðurtúna til“.

Mana / Mana til / Mana upp í (s, orðtök)  Egna; egna/spana til/upp í.  „Þeir mönuðu hann uppí að hlaupa yfir nautagirðinguna endilanga“.

Mang (n, hk)  Brask; verslun.  „Seint held ég að hann verði ríkur af þessu mangi sínu“.

Manga (s)  Braska; höndla/versla með.

Mangabrjóstsykur (n, kk)  Brjóstsykur sem seldur var (og er e.t.v. enn) undir nafninu „brenndur bismark“.  Gekk undir nafninu mangabrjóstsykur í Rauðasndshreppi og e.t.v. víðar, þar sem hann var ein þeirra fjölmörgu vörutegunda sem fengust í farandverslun Magnúsar í Vesturbotni.  Minnir mig að Mangi hafi selt þennan brjóstsykur í stórum pokum, ef ekki í lausri vigt, og að jafnvel hafi molarnir verið stærri en þeir sem fengust í pokum í öðrum verslunum.

Mangakaramellur (n, kvk, fto) Stórar karamellur sem Magnús í Vesturbotni seldi í farandverslun sinni.  Líklega sömu gerðar og þær sem sumir nefndu haltukjaftikaramellur.

Mangakrem (n, hk)  Sárakremið „helosan“.  Svo nefnt vegna þess að Magnús Ólafsson í Vesturbotni (Mangi í botni) seldi það í verslun sinni og farandverslun, en annars var það ófáanlegt um tíma, a.m.k. þarna vestra.  Mangakrem var selt í stórum túpum, og þótti einstaklega græðandi á sár manna og skepna, og þó milt.

Manilla (n, kvk)  Ein gerð af hampi (sjá þar). Unninn úr blaðslíðrum bananategundar á Indlandseyjum. „Vindurnar sem áður voru nefndar voru erfið dráttartæki.  Á þeim var notaður dráttarstrengur úr „manillu“; brugðið tveim brögðum strengsins á vinduásinn, en síðan einn maður settur í það að draga af vindunni jafnóðum og strengurinn kom inn“  (KJK; Kollsvíkurver).

Manía (n, kvk)  Árátta; þráhyggja.  „Skelfingar manía er þetta í þér!  Er þér gjörsamlega fyrirmunað að skilja að þetta geturekki gengið svona til?

Manískur (l)  Haldinn maníu/áráttu/þráhyggju.  „Hann var talinn allt að því manískur í þessu efni“.

Mann fram af manni (orðtak)  Frá einum til annars; einn eftir annan.  „Til er saga af örnefninu (Hnífar) sem líkast til er gömul en hefur verið sögð mann fram af manni.  “ (EG; Viðtal á Ísmús 1968).

Manna (s)  Leggja til mannskap, t.d. í áhöfn skips.  „Eigendur Laufa voru bændur á Rauðasandi, og mönnuðu þeir skipið“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Manna sig upp (orðtak)  Hressa sig við; safna kjarki; verða borubrattari.  „Þú verður að manna þig upp og segja þessum kjaftöskum þína meiningu, umbúðalaust“!

Manna sig upp í (orðtak)  Herða sig upp í; drífa í; hleypa í sig kjarki til að gera.  „Ætli maður verði ekki að manna sig upp í að klára þessa blessuðu skýrslu“.

Mannabústaður (n, kk)  Bústaður/híbýli manna; boðlegt hús til að búa í.  „Það er nú varla hægt að kalla þetta kot mannabústað“.

Mannaður (l)  Með mannskap/aðstoðarmenn.  „Ég er ágætlega mannaður fyrir þessar smalamennskur“.

Mannafli (n, kk)  Mannskapur; lið aðstoðarmanna/vinnumanna/hermanna o.fl.  „Það þarf töluverðan mannafla til að smala allt þetta svæði á sama tíma“.

Mannaforráð (n, hk, fto)  Forræði/stjórn fyrir mannafla/mannskap.  „Hann er enginn maður til að hafa mikil mannaforráð“.

Mannafæla (n, kvk)  Mjög hlédræg/feimin manneskja; sá sem aldrei kemur á mannamót.  „Ég samþykki það nú ekki að vera talinn mannafæla þó maður stundi ekki hverja einustu samkomu á svæðinu“.

Mannahallæri / Mannahrak (n, hk)  Vantar mannskap/fólk til vinnu.  „Það lítur út fyrir mannahallæri í slátruninni á morgun.  gætir þú komið og bjargað málunum“?

Mannakaup (n, hk, fto)  Uppskipti á taflmönnum í skák, með gagnkvæmum mannfórnum.

Mannalega (ao)  Eins og maður/karlmaður; hraustlega; hressilega.  „Hann tók þessu nokkuð mannalega“.

Mannalegur (l)  Eins og fullvaxinn maður; borginmannlegur.  „Strákurinn er ári mannalegur í þessum nýju sparifötum“.

Mannalæti (n, hk, fto)  Mont; sýndarmennska.  „Þetta eru nú bara mannalæti í honum“.

Mannamatur (n, kk)  Matur sem hæfir fólki.  „Fullorðnir svartbakar þóttu ekki mannamatur....  Kál var notað í kjötsúpur og soðið.  Karlar gamlir töldu þetta ekki vera mannamat; vildu heldur éta gras.  Það var erfitt að kenna þeim það.  Össur maður Sigríðar vandist ekki við að éta svona kálmeti, því það var lítið gert af því í Víkunum“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Mannamót (n, hk)  Samkoma fólks; fundur; samkoma.  „Það er varla hægt að láta sjá sig svona úfinn á mannamótum“.

Mannaráð (n, hk, fto)  Forræði/stjórn á hópi manna.  „Það er nú hæpið að fela svona manni mikil mannaforráð, eins og hann hefur hagað sér“.

Mannaskuld (n, kvk)  Mannleg mistök; klaufaskapur; af mannavöldum.  „Auðvitað er það bara mannaskuld að leggja veginn um þessar snjóalautir“.  Orðið finnst ekki í orðabókum en var almennt notað vestra.

Mannast (s)  Verða fullorðinn; verða mannskapsmeiri; fara að haga sér stillilegar.  „Hann hefur heilmikið mannast síðan ég sá hann síðast“.

Mannasiðir (n, kk, fto)  Góðir siðir fólks; kurteisi; tillitssemi.  „Ég kann að mjólka belju, ég kann að elda mat;/ konur þekkja enga mannasiði./  Ég kæri mig sko ekki um kvenmannsapparat,/ kom því brott og láttu mig í friði“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Mannasættir (n, kk)  Sá sem sættir menn/ber klæði á vopn; friðsamur maður.  „Þá sagði hann að hann hefði aldrei fyrr séð svona ummæli bókfærð í kirkjubók um hinn látna: „Hann var mannasættir“ stóð við nafn pabba.  Það var nú kannski ekki svo ofmælt“   (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  

Mannauðn (n, kvk)  Ekkert fólk; enginn mannskapur.  „Fólksfækkun var svo hröð í Rauðasandshreppi undir lok 20. aldar að til algerrar mannauðnar horfði um tíma“.

Mannavegur (n, kk)  Vegur sem farinn er af fólki; þjóðleið; leið sem fær er mönnum.  „Eftir að hafa klöngrast heimeftir ganginum lýsti hann því yfir að þetta væri ekki mannavegur; þetta færi hann aldrei aftur“!

Mannavaður (n, kk)  Bjargvaður/sigvaður sem notaður er af sigara við bjargsig.  „Til siga voru ekki notaðir nema nýlegir og óskemmdir vaðir, en þeir sem voru farnir að slitna voru notaðir til að draga upp fugl þegar hann var tekinn (mannavaðir og fuglavaðir)“  (MG; Látrabjarg). 

Mannaverk (n, hk)  Það sem gert/unnið er af mönnum.  „Ég er ekki viss um hvort tóftin er náttúrusmíð, eða hvort einhver mannaverk eru á henni“.

Mannbjörg (n, kvk)  Björgun manna.  „Til allrar hamingju varð mannbjörg í þessu sjóslysi“.

Mannblendinn (l)  Félagslyndur; sækist eftir félagsskap.  „Misjafnt er hve menn eru mannblendnir“.

Mannblendni (n, kvk)  Sókn eftir félagsskap fólks.

Mannborulegur (l)  Góður með sig; brattur; kotroskinn.  „Strákurinn var bara skratti mannborulegur“.

Mannbroddar (n, kk, fto)  Gaddar sem settir eru undir fætur manns til að hann eigi öruggara um gang í hálku.  Ekki er vitað til þess að mannbroddar hafi almennt verið notaðir fyrr en á 20. öld.

Manndómsár (n, hk, fto)  Fullorðinsár; tímabil þegar einstaklingur fullorðnast.

Manndómsbragur (n, kk)  Vel gert.  „Gakktu nú vel frá bátnum, þannig að einhver manndómsbragur sé að“

Manndómsleysi (n, hk)  Kjarkleysi; skortur á hetjulund/þori.  „Skelfingar manndómsleysi er þetta í þeim; að þora ekki niður í ganginn til að halda við endann“!

Manndómsmikill (l)  Um mann; sterkur; áræðinn; öflugur.  „Hann er nú aldrei þótt sérlega manndómsmikill blessaður“.

Manndómstákn (n, hk)  Það sem talin eru einkenni manndóms/karlmennsku. 

Manndómur (n, kk)  Karlmennska; uppburðir; þor; þrek.  „Ekki er nú mikill manndómur í þeim ef þeir eru að láta svona tíkargjólu stoppa sig“!

Manndrápsbein (n, hk)  Banabiti; lítið bein neðst á kjálkafiskinum innanverðum í þorskhaus (sjá þar).  „Það var numið burt úr kjálkafiskinum, en væri það ekki gert átti sá hluti sem beinið var í að valda dauða þess sem á, og því nefnt banabiti  (LK; Ísl sjávarhættir IV). 

Manndrápsbolli / Manndrápsfleyta / Manndrápsdallur (n, kvk)  Hættulegur bátur.  „Báturinn reyndist veltikolla og var talinn manndrápsfleyta“.  Dallur var yfirleitt notað um stærri skip.

Manndrápsbylur / Manndrápsveður / Manndrápsöskubylur (n, hk)  Ofsaveður, svo hætt er við mannsköðum.  Stundum þó notað í áhersluskyni:  „Það er kominn á svartnættis manndrápsöskubylur“!

Manndrápsviður (n, kk)  Viður sem menn vöruðust að nota í báta, því þá yrðu þeir feigðarfley/manndrápsbollar.  Þjóðtrúin segir að t.d. blóðeik sé manndrápsviður; einnig selja einkum blóðselja.  Þá þurfti að huga vel að kvistum í viðnum; væru þeir vaxnir niðurávið var það manndrápsviður.  Sumir munu hafa höggvið spón af fyrirhuguðum viði og fleytt á vatni.  Sykki spónninn var um manndrápsvið að ræða.

Mannekla (n, kvk)  Skortur á vinnufólki/mannskap.  „Það lá við að yrði að fella niður slátrun vegna manneklu“.

Manneldi (n, hk)  A.  Fyrri tíma merking: Framfærsla ómaga/niðursetnings á heimili.  Ef ómagar áttu engan að féll framfærsluskylda þeirra á heimahrepp þeirra, þingsókn, fjórðung eða landið allt eftir atvikum.  Þeir voru þá vistaðir á bæjum sem niðursetningar; stundum fluttir ítrekað milli bæja.  Þessi vist og kostnaðurinn við hana nefndist manneldi, og jöfnuðu hreppstjórar því niður eftir efnum og ástæðum heimila.  Eftir 1808 var manneldisskyldan felld niður, en meðlagi ómaga jafnað niður á hreppsbúa.  Eftir 1834 var ómögum ráðstafað til ársdvalar, gegn meðgjöf hreppsins.  Urðu þá iðulega deilumál milli hreppa og ómagar fluttir hreppaflutningum.  Þeir lögðust af með lögum árið 1934. 
B.  Fæði; matur; það sem ætilegt/hollt er.  „Þetta kjöt er varla hæft til manneldis lengur“.

Mannelska (n, kvk)  Ást; umhyggja.

Mannelskur (l)  Hændur að fólki.  „Yrðlingar geta verið mannelskir meðan þeir eru ungir, en þegar þeir eldast vaknar í þeim villidýrið“.

Manneskja (n, kvk)  Mannleg vera; maður eða kona.  „Einhverja tvífætta veru sá ég þarna í fjörunni, og ég þori að hengja mig uppá að ekki var það manneskja“!  „Skyldi þessi lómur aldrei geta hagað sér eins og manneskja“?!

Mannfagnaður (n, kk)  Samkoma til skemmtunar.  „Með Fagrahvammi eignuðust sveitungarnir í fyrsta skipti sitt eigið félagsheimili til funda og mannfagnaða“.

Mannfall / Mannfellir / Mannfækkun (n, hk/kk/kvk)  Dauði fjölda fólks, t.d. af harðindum, drepsóttum eða stríði.  Sjávarbyggðir komust oft betur af þegar harðindi gengu yfir landið fyrr á tíð, með miklum mannfelli.

Mannfélag (n, hk)  Orðið „samfélag“ hefur nú að mestu leyst þetta ágæta orð af hólmi.  „Þeir (drykkjumenn) missa alla löngun til þess að standa í skilum við aðra, það sem þeim ber; og missa þar af leiðandi tiltrú í mannfélaginu“  (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938). 

Mannfjandi / Mannandskoti / Mannhelvíti / Mannskratti (n, kk)  Blótsyrði um mann.  „Getur mannfjandinn bara alls ekki skilið þetta“?!

Mannfjöldi (n, kk)  Fjöldi fólks.  Mannfjöldi hefur líklega ávallt verið mikill í Kollsvík, enda var þar bæði blómlegur búskapur og mikið útræði allt frá landnámi til síðustu áratuga.  Þegar Jarðabókin var tekin saman árið 1703 voru 35 heimilisfastir á 4 bæjum í Kollsvík, auk þess sem um 20 hafa bæst við um vertíðina.  Árið 1890 voru 44 skráðir til heimilis á 4 bæjum í víkinni.  Mestur hefur mannfjöldinn á síðari tímum líklega orðið um og eftir 1910.  Þá voru um 70 heimilisfastir.  Á þeim árum, eða næstu þar á eftir, voru flestir bátar gerðir út frá Kollsvíkurveri eða 25-26.  Sé við það miðað að fjórir hafi að meðaltali verið í áhöfn, og 4 bátanna verið heimabátar, hafa bæst um 90 manns við íbúafjöldann um vertíðina.  Þá hefur mannfjöldi í víkinni verið um 160 manns.  Einni öld síðar er Kollsvíkin komin í eyði.  Fáeinir túristar og burtfluttir Kollsvíkingar stjákla um hina fyrrum fjölmennu byggð, og verstöðvar liggja í rústum.

Mannfólk (n, hk)  Fólk; mennskir menn.  „Heimalingurinn kunni betur við sig hjá mannfólkinu en með öðru fé“.

Mannfýla / Manngrýla (n, kvk)  Skammaryrði um mann.  „Mikið andskotans reginfífl getur manngrýlan verið“!

Manngangur (n, kk)  Reglur um leyfilegar hreyfingar taflmanna á skákborði.  „Hann kenndi mér mannganginn, og helstu byrjendakúnstir í skákinni“.

Manngarmur / Manngrey (n, hk)  Vorkunnarorð um mann; vesalings maður.  „Hann ætti betra skilið, manngreyið“.

Manngengur (l)  Sem maður getur gengið um.  „Inngangurinn í Gvendarhelli er réttsvo manngengur, en hann er feiknavíður þegar inn er komið“.

Mannglöggur (l)  Glöggur á að þekkja fólk; greinir fólk auðveldlega.  „Ég hef aldrei verið sérlega mannglöggur, og kom þessum manni bara alls ekki fyrir mig“.

Manngreinarálit (n, hk)  Mismunun manna; það að gera mannamun.  „Ég fer ekkert í manngreinarálit með þetta; mér finnst að eitt eigi yfir alla að ganga“. 

Manngæska (n, kvk)  Velvild; hlýhugur. 

Mannheilt og ósjúkt (orðtak)  Góð tíðindi af fólki.  „Héðan er lítið að frétta, en allt mannheilt og ósjúkt“.

Mannheldur ís (orðtak)  Svo þykkur ís að hann ber gangandi mann.

Mannhæð / Mannhæðardjúpur / Mannhæðarhár / Mannhæðarþykkur (n, kvk/ l)  Jafn hár/djúpur/þykkur og meðalmaður.  „Það voru mannhæðarháir skaflar ofanvið öll hús“.   „Ef vel gekk gátu mógrafir orðið meira en mannhæð á dýpt, og var þá orðið býsna erfitt að kasta hnausum upp á bakkann“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  „Heim yfir Gálgasteinabrekkur, þar sem eru tveir rúmlega mannhæðarháir steinar með stuttu millibili“  (IG; Sagt til vegar II). 

Mannhætta (n, kvk)  Hættulegt að dvelja eða fara um.  „Ekki eru mannhættur stórar á þessu svæði nema bjargbrúnin“  (MG; Látrabjarg).

Mannjöfnuður (n, kk)  Samanburður á einstökum mönnum/persónum; manngreinarálit.  „Ég ætla nú ekki að fara í mikinn mannjöfnuð í þessum efnum, en mér finnst hann samt bera af öðrum“.

Mannkerti (n, hk)  Lítill/ómerkilegur einstaklingur.  „Hvað er nú þetta mannkerti að þenja sig núna“?

Mannkostakona / Mannkostamaður (n, kvk/kk)  Kona/maður sem þykir búinn miklum kostum.

Mannlaus (l)  Sem enginn maður er í.  „Kollsvíkin hefur að mestu verið mannlaus að vetrarlagi á síðustu árum“.

Mannlegur (l)  Sem er eins og maður; breyskur; með mannlega eiginleika.  „Þetta hlé var kærkomið til mannlegra samskipta“  (PG; Veðmálið). 

Mannleysa (n, kvk)  Liðleskja; aumingi; gauð.  „Óttaleg mannleysa geturðu nú verið; að gefa eftir fyrir svona frekjuhundi“!

Mannlíf (n, hk)  Líf fólks á tilteknu svæði.  „Um aldaraðir hefur blómlegt mannlíf blómstrað í Kollsvík eins og öðrum Útvíkum.  Á faeinum árum hefur skammsýnum stjórnvöldum tekist að leggja það í rúst“.

Mannorð (n, hk)  Æra/heiður hvers manns; orðspor/nafn sem hver maður aflar sér með framgöngu sinni og ævistarfi.  „Maðurinn deyr, en mannorðið ekki“.

Mannmargt (l)  Fjölmennt; mikill mannfjöldi; margt manna.  „það var nokkuð mannmargt á réttinni“.

Mannmargur (l)  Með marga menn með sér.  „Ég var ekki nógu mannmargur til að smala bæði svæðin í einu“.  „Gefur að skilja að mörg þörfin hefur kallað að á svo mannmörgu heimili“  (sr Einar Sturlaugsson um Halldóru Halldórsdóttur og Grundaheimilið).

Mannmergð (n, kvk)  Mikill fjöldi fólks; mannsöfnuður.  „Það ætti einhvernvegin að takast að reka inn með allri þessari mannmergð!

Mannorðsmeiðandi / Mannorðsspillandi (l)  Slæmt fyrir mannorðið; setur blett á heiðurinn.  „Það er mannorðsmeiðandi að taka þátt í svona ráðabruggi“.

Mannorðsmeiðingar (n, kvk, fto)  Árásir á mannorð; illt/skaðlegt umtal.  „Hann sagðist leggja það alveg að jöfnu við mannorðsmeiðingar að vera orðaður við þennan ótætisflokk“.

Mannorðsmissir (n, kk)  Tjón á mannorði; skertur heiður.  „Það er enginn mannorðsmissir þó maður lýsi yfir skoðun sem er á skjön við það hefðbundna“.

Mannpersóna (n, hk)  Manneskja.  „Eitthvað er þarna á ferðinni, en ég sé ekki hvort það er mannpersóna“.

Mannraun (n, kvk)  Lífsháski; þrekraun.  „...lentu í þeim hópi björgunarmanna sem í mestu mannraunina fór“  (MG; Látrabjarg).

Mannræna (n, kvk)  Manndómur; dugur.  „Merkilegt er það ef enginn flokkur hefur mannrænu í sér til að berjast fyrir ævafornum rétti sjávarjarða“.

Mannsaldur (n, kk)  Æviskeið manns.  „Á Bökkunum meðfram öllum Grundagrjótum er túngarður, grjóthlaðinn; furðu heill þó staðið hafi viðhaldslaus í mannsaldur“  (HÖ; Fjaran). 

Mannsbragur (n, kk)  Glæsileiki; reisn; fagmannleiki.  „Mér fyndist nú vera meiri mannsbragur að því ef allir hjálpuðust að við þetta verk“.

Mannsins mál (orðtak)  Mælt mál; það sem sagt er.  „Lækkaðu aðeins gargið í útvarpinu; það heyrist ekki mannsins mál hér inni“!

Mannskaðabylur / Mannskaðaveður (n, hk)  Svo mikið óveður að menn farast eða mönnum er mikil hætta búin.

Mannskaði / Manntjón (n, kk)  Dauðaslys; slys þar sem manntjón verður.  „Skráð sjóslys eru fremur fá í Kollsvík, en í ljósi hinnar miklu og langvarandi útgerðarsögu má ætla að þar hafi alloft orðið mannskaðar fyrr á öldum sem ekki voru færðir í annála“.

Mannskapsfrekur (l)   Krefst mikils mannskaps/mannafla.  „Bjargsig var nokkuð mannskapsfrekt; einkum ef langt var farið niður.  Lásasnag var það hinsvegar ekki.  Jafnvel gat einn maður komist langt niður í kletta og náð miklu af eggjum.  Betra var þó að tveir væru, til að koma fengnum upp“.

Mannskapslega (ao)  Karlmannlega; hraustlega.  „Hann bar sig ári mannskapslega og sagðist bara brattur“.

Mannskapslítill (l)  Duglítill; þreklítill; aumur; amlóði.  „Heldur finnst mér hann mannskapslítill til svona átakavinnu“.

Mannskapsmaður (n, kk)  Þrekmenni; vel að manni; dugnaðarforkur.  „Hann var mannskapsmaður hinn mesti“.

Mannskapsmikill (l)  Sterkur; stæðilegur; þolinn; úthaldsmikill.  „Marinó var svo mannskapsmikill að nægilegt var að hann sæti einn undir vað í lásum“.

Mannskapur / Mannafli (n, kk)  Hópur fólks.  „Síðan var farið í leiki, og færðist þá heldur betur fjör í mannskapinn“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).  „Því nægur mannskapur var í fjörunni að taka á móti okkur“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  „Gekk mjög vel að ná skipverjum í land, enda nógur og góður mannafli... “  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Mannskemmandi (l)  Spillandi; verður manni til skaða.  „Það má kalla að það sé mannskemmandi að koma nálægt búskap, eins og stjórnvöld eru búin að búa um hnútana“!

Mannskepna (n, kvk)  Maður; Homo sapiens.  „Það er nú svona með mannskepnuna; án matar getur hún ekki verið langtímum saman“.

Mannskratti (n, kk)  Blótsyrði/níðorð um mann.  „Ætlar mannskrattinn ekki að taka eftir kindinni rétt fyrir ofan hann í hlíðinni“?!

Mannslán (n, hk)  A.  Á fyrri tímum; vinnukvöð; þegnskylduvinna.  Oft notað um skyldu leiguliða til að vinna hjá húsbændum sínum, t.d. við róðra í verum.  B.  Í seinni tíð; lán á manni; verkabýtti.  „Ég skulda þér eiginlega mannslán, síðan strákurinn þinn hjálpaði okkur að smala“.

Mannslát (n, hk)  Andlát manns.  „Sumir eru berdreymir, og dreymir jafnvel fyrir mannslátum“.

Mannslíki / Mannsmynd (n, hk/kvk)  Eftirmynd manns.  „Óvætturinn á Látraheiði er stundum sagður vera í mannslíki, en þó þannig að hausinn sé eins og ógreinileg hrúga uppaf öxlunum“.

Mannspillast (s)  Blóta; formæla.  Orðið virðist ekki hafa verið notað utan Kollsvíkur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Mannstætt (l)  Gerlegt að standa vegna hvassviðris.  „Þvílíkt andskotans hávaðarok er þetta!  Það er bara varla mannstætt uppi á háhálsinum“.

Mannsvit (n, hk)  Vit eins og maður.  „Sagt er að selurinn hafi mannsaugu og mannsvit“.

Mannsæmandi (l)  Sem sæmandi/hæfilegt er mönnum.  „Maður vill auðvitað fá mannsæmandi laun fyrir svona erfiðisvinnu“.

Manntalsfiskur (n, kk)  Skattur sem vermönnumúr öðrum sýslum bar sumsstaðar að greiða til sýslumanns á dvalarstað.  Þetta gjald var þó ekki innheimt í Láganúps- eða Kollsvíkurverum:  „Lýng til eldiviðar rífa vermennirnir í Láganúpslandi.  Þar er engin skipleiga. 1 skiphlutur.  Allur hlutur skiptist ex æqvo (til jafnaðar) þá skift verður. Seglfiskar.  Maðkafiskar engir.  Manntalsfiskar engir.  Hospitalshlutur skiptist þar“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Manntalsþing (n, hk)  Manntalsþing voru lögboðin þing í hverjum hreppi, sem lögfest voru með Járnsíðu 1271-73.  Þinginu var stjórnað af sýslumanni og það skyldu sækja allir þingfararkaupsbændur sveitarinnar.  Á manntalsþingum var bókað hverjir skyldu greiða hina ýmsu skatta sem tíðkuðust á hverjum tíma, en auk þess fóru þar fram dómstörf, birting konungsbréfa og skipan hreppstjóra.  Jónsbók tilskipaði einmánaðarsamkomu að vori (manntalsþing til jafnaðar) og hreppsfund að hausti (tíundarskiptifundur), en sá háttur hafði tíðkast frá þjóðveldisöld.  Þingstörfin breyttust í tímanna rás, en manntalsþing voru víða haldin fram yfir 1990.  Í lokin snerust þau mestmegnis um tilkynningar um friðlýsingar; eigenda- og ábúðaskipti á jörðum og launagreiðslur til hreppstjóra, auk þess sem tekið var við greiðslum opinberra gjalda. Auk þess voru manntalsþingin hluti þeirra samkoma í sveitunum sem héldu samfélaginu saman félagslega.  Þangað komu menn ekki síður til að ræða saman og eiga góða stund.  Þingstaðurinn í Rauðasandshreppi var einatt í Tungu í Örlygshöfn.  Undir lok hreppsins var hann í Félagsheimilinu Fagrahvammi; þar áður í þingúsinu á Leiti, skammt frá; en líklega áður heima í Tungu.  Þar stóð t.d. þinghald árið 1581, þegar Magnús sýslumaður prúði kvað upp sinn fræga vopnadóm.

Manntetur / Manntötur (n, hk)  Vorkunnaryrði um mann.  „Hann getur illa að því gert, manntötrið, þó hann stami.  Það er óþarfi að gera grín að því“.

Mannúð (n, kvk)  Samkennd; miskunnsemi; góðverk; mannlegur skilningur á bágindum manna og skepna.

Mannúðarverk (n, hk)  Það sem gert er af mannúð.  „Ég held að það væri bara mannúðarverk að aflífa skepnuna, í stað þess að láta hana þjást svona“.

Mannvaður (n, kk)  Vaður/festi sem notaður er til bjargsiga; til að láta mann síga í.  „Mannaður þarf að vera mun traustari en tildráttartaugar, fuglavaðir og eggjavaðir“.

Mannval (n, hk)  A.  Upprunaleg merking; úrvalsmaður; sá besti úr hópi manna.  B.  Síðari tíma merking; úrval af góðu fólki; úrvalslið.  „Þarna var mikið mannval samankomið“.

Mannvalsmaður (n, kk)  Úrvalsmaður; mannval.  „Hann var einn mesti mannvalsmaður sem ég hef fyrirhitt“.

Mannvera (n, kvk)  Maður; manneskja.  „Ætli nokkur mannvera kunni lengur þetta verklag“?

Mannvirki (n, hk)  Það sem gert er af mannahöndum; framkvæmd; smíði. 

Mannvits/vits er vant þeim er margt hjalar (orðatiltæki)  Sá er heimskur sem bullar af vanþekkingu.

Mannvonska (n, kvk)  Illt innræti; meinfýsi; slæmur hugur.  „Ekki var þetta af hreinni mannvonsku hjá mér, heldur vissi ég ekki að hann væri niðri þegar ég dró upp spottann“.

Mannvænlegur (l)  Um barn/ungling; efni í góða/nýta manneskju.  „Þetta er hið mannvænlegasta barn“.

Mannýgur (l)  Um naut; hættulegt mönnum;gjarnt á að ráðast á fólk.  „Vertu ekki að hnoðast í kálfinum.  Það verður til þessa ð hann verður mannýgur þegar hann eldist“.

Mannþröng (n, kvk)  Þéttur hópur fólks.  „Ég þurfti að olnboga mig í gegnum mannþröngina“.

Mansal (n, hk)  Þrælahald.  Merkti upphaflega sala á konum, en hefur í seinni tíð verið notað í víðri merkingu um margskonar frelsissviptingu í ágóðaskyni.

Mansöngur (n, kk)  A.  Inngangskafli rímu.  B.  Ástarljóð.  Einvörðungu notað í þeirri merkingu nútildags.  „Miður fagurt mansöngshjalið muna þyngir./ Sögu minnar sími hringir“ (JR; Rósarímur).  „Mansöngs þrýtur mærðar skýtin lopa./  Andlits farða álkan svinn;/ ekki meira í þetta sinn“  (JR; Rósarímur). 

Manúrera (s)  Hreyfa/færa til; hagræða; koma fyrir.  „Setjið verkfærin þarna á bekkinn.  Ég manúrera þeim svo á sinn stað“.  „Með nokkrum erfiðismunum tókst loks að manúrera frystigámnum inn í salinn“. 

Manúreringar (n, kvk, fto)  Tilfærslur/hagræðingar hluta; uppröðun; bras.  „Það kostaði allmiklar manúreringar að koma þessu öllu fyrir“. 

Mar (n, kk)  Haf; úthaf.  Sjaldan notað nema í ljóðum og samsetningum, s.s. marflatur, marauður o.fl.  „Heiglum vist á víðum mar/ varla hentug myndi./  Kænan fleytir kerlingar; knúin gýgjarvindi“  (JR; Rósarímur).

Mar / Marblaðra / Marblettur  (n, hk/kk)  Slys/meiðsli á skinni eða vöðva, sem orsakast af höggi eða klemmu, og sést stundum sem blámi vegna storknaðs blóðs í húð/vöðva, eða blaðra fyllt dökku blóði. 

Mara / Mara í (hálfu) kafi (s/orðtak)  Fljóta í yfirborðinu.  „Var þá svo komið að báturinn maraði í sjólokunum, nær fullur af sjó“  (BS; Barðstrendingabók).  „Báturinn maraði að mestu leyti í kafi, og mennirnir sátu í sjó“  (KJK; Kollsvíkurver).

Mara (n, kvk)  A.  Óvættur sem, samkvæmt þjóðtrúnni, átti það til að ganga ofaná sofandi fólki og valda því martröðum og/eða andþyngslum.  Líklega er þetta alþýðstkýring á því sem nú er nefnt kæfisvefn.  Notað á seinni tímum í líkingum:  „Þetta liggur á honum eins og mara“.  B.  Hlýr vindur, einkum síðari hluta vetrar.

Marauður (l)  Alveg auður; snjólaus.  „Það er orðið marautt um allar jarðir eftir hlýindakaflann“.

Maraþonkjaftæði (n, hk)  Mikið málæði; endalaust bull.  „Nú held ég að við ættum að fara að gera eitthvað, í staðinn fyrir að hanga endalaust yfir einhverju maraðþonkjaftæði sem engu skilar“!

Maraþonsímtal (n, hk)  Mjög/óþolandi langt símtal.  Á tímum sveitasímanna gat notandi á einum bæ þurft að bíða all langan tíma eftir að notandi á öðrum bæ lyki símtali sínu, og þannig hefur orðið skapast.  „Hverskonar skelfingar marþonsímtal ætlar þetta eiginlega að verða hjá hreppstjóranum“?!

Marbakki (n, kk)  Bakki í sjó framan við lægsta fjöruborð, þar sem dýpi eykst verulega.  „Líka vorum við vöruð við að vaða í sjónum við Rifið; svo við lentum ekki fram af marbakkanum“  (SG; Læknisráð; Þjhd.Þjms).   Marbakki er víða mun lengra frá landi, t.d. í Patreksfirðinum sunnantil yst, þar sem hann er líklega um 2 sjómílur undan Hlíðunum.

Margbanna (s)  Banna oft; margítraka bann.  „Ég er búinn að margbanna ykkur að fikta í klettunum“!

Marbendill (n, kk)  Þjóðsagnavera sem sögð var búa í hafinu; maður að hálfu, en fiskur neðan mittis.  Yfirleitt urðu sjómenn ekki varir við marbendla, á annan hátt en þann að þeir áttu það til að leysa króka af færum ef sökku var rennt í höfuð þeirra.  Ef marbendill húkkaðist á færi og var dreginn úr sjó, átti að varast að horfa í augu hans; það boðaði mikla ógæfu; en gæfa fylgdi því að sleppa honum strax niður aftur.   Hinsvegar var margýgur/hafmeyja lítt þekkt meðal sjómanna í Kollsvík, a.m.k. í seinni tíð.

Marblaðra / Marbóla (n, kvk)  Dökk blóðfyllt bóla/blaðra þar sem mar hefur komið í húð.  „Vertu ekki að sprengja marbóluna, þá getur hlaupið illt í þetta“!

Marflatur (l)  Alveg flatur/sléttur/láréttur/liggjandi; flatur eins og sléttur sjór.  „Hann lá marflatur og steinsofandi þarna milli þúfna; kúguppgefinn eftir átökin“.

Margar hendur vinna létt verk (orðtak)  Verk sem er erfitt einum vinnst oft létt af mörgum. 

Margbjóðast til (orðtak)  Bjóða ítrekað fram aðstoð.  „Við vorum búnir að margbjóðast til að fara aftur út í skipið“  (ÁH um Sargon-strandið; Útkall við Látrabjarg).

Margbúinn (l)  Oft lokið við.  „Var þá auðvitað margbúið að róta í blöðum í sjkápnum... svo alveg er útilokað að lyklarnir hafi verið í skápnum allan tímann“  (SG; Huldufólk; Þjhd.Þjms). 

Margháttaður (l)  Á marga vegu; margvíslegur.  „Ívar Ívarsson sagði í stórum dráttum frá störfum sínum að félagsmálum, sem hafa verið margháttuð…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Margs verður vís sá er árla rís (orðatiltæki)  Sá sem er snemma á fótum fylgist betur með en þeir sem sofa frameftir.

Margt er skrýtið í kýrhausnum (orðatiltæki)  Ýmislegt furðulegt fyrirfinnst; margar eru furðurnar.  Viðhaft þegar eitthvað undarlegt ber við eða merkileg staðreynd kemur í ljós.  Líklega sprottið af því að þó kýr séu almennt ekki taldar gáfaðar eftir stærð, þá hafa þær ýmsar sérgáfur.  T.d. eru þær næmari á tíma og venjur en mannfólkið.

Margt er sér til gamans gert (orðatiltæki)  Menn finna sér ýmislegt til að stytta sér stundir.

Margt smátt gerir eitt stórt (orðtak)  Safnast þegar saman kemur; mikið getur orðið úr því sem lítið er, þegar mörg koma saman.

Margur geldur góðviljans (orðatiltæki)  Stundum skaðast menn á því að hjálpa öðrum.  „Hann er ekkert að flýta sér að skila verkfærunum sem ég lánaði honum.  Það er víst svona; margur geldur góðviljans“.

Marflatur (l)  Alveg sléttur/láréttur/flatur; pollsléttur.  „Leirurnar haldast alltaf marflatar og sléttar“.  „Við það að sjá þessa fallegu kjötbita sem í skrínunni voru féll hann marflatur fyrir freistingunni“  (PG; Veðmálið). 

Marfló (n, kvk)  Ættbálkur lítilla krabbadýra (Amphipoda) sem lifa aðallega í sjó.  Marflær hafa mjög þéttan líkama en enga skel; eru oftast brúnleitar á lit og misstórar.  Líkaminn skiptist í 13 hluta.  Höfuðið er samvaxið skrokknum og á því er tvenn pör af skynfærum; eitt af samsettum augum, og munn.  Fætur liggja oftast lárétt upp að líkamanum neðanverðum.  Fótapör eru átta; þau fremstu til mötunar; næstu fjögur til sinds áfram en síðustu 3 til sunds afturábak.  Tálkn eru á brjóstholi og opið blóðrásarkerfi að hjartanu.  Kirtlar á stirtlu stýra seltu í líkamanum.  Marflær eru oftast undir einum cm að stærð; hin lengsta í heimi var 28 cm og var mynduð á miklu dýpi í Kyrrahafi.  Þær eru hræætur lifa að mestu á leifum plantna og dýra.  Þær eru algengar í sjó allt í kringum Ísland.  Einkum verður vart við þær í tveimur tilfellum.  Annarsvegar þegar net eru dregin með dauðum fiski sem marfló hefur lagst á.  Hún er þar nefnd hrái, og fiskurinn kallaður hráétinn.  Kveður stundum svo rammt að þessu á sumum stöðum, að fiskurinn er ekki nema bein og roð þegar dregið er; hafi hann legið dauður um tíma.  Hinsvegar finnast marflær oft undir steinum og öðru í fjöru; frammi á útfiri.  Skríða þær undir steina, þarablöð o.fl þegar sjór fellur út, ot bíða flæðinnar.  Verður mikið uppnám í kösinni þegar hlutnum er lyft ofanaf.  Gamlir Kollsvíkingar sögðu að þegar Frakkar stunduðu veiðar á Íslandsmiðum hafi þeir stundum komið í land og leitað marflóa sér til matar, og étið þær lifandi.  Hvað sem til er í því, þá eru marflær áreiðanlega herramannsmatur, ekki síður en rækjan, og vannýttur veiðistofn.  Sumar tegundir marflóa lifa í ferskvatni.  Sumarið 1998 ar sýnt framá að marflær í Þingvallavatni hafa lifað þar frá ómunatíð, og m.a. lifað af ísaldir og eldgos.  Kann svo að vera víðar á landinu.

Margaðvara (s)  Vara oft við.  „Ég margaðvaraði hann um mýrarvilpuna, en samt óð hann beint útí hana“!

Margafsaka (s)  Afsaka mörgum sinnum.  „Hann margafsakaði sig á þessum leiðu mistökum“.

Margan blekkir báran (orðatiltæki)  Menn vanmeta oft báru á sjó; einkanlega þunga undiröldu í logni, sem ekki ber mikið á þegar litið er yfir hafflötinn.  Kraftur hennar sést best þegar hún skellur á strönd/klettum.

Margan hefur auður apað (orðatiltæki)  Sjá margur verður af aurum api, sem var oftar viðhaft.

Margan hendir það er minnst varir (orðatiltæki)  Maður verður oft fyrir því sem maður varar sig síst á; margt skeður óvænt.  Forn speki sem nokkuð er notuð.

Margan stelur vín viti (orðatiltæki)  Gegnsæ og raunsæ speki.

Margar hendur vinna létt verk (orðatiltæki)  Vinnan verður mönnum oftast léttari og fljótlegri ef margir vinna hana.  „Við vorum snöggir að klára eftir að hann kom; margar hendur vinna létt verk“.

Margarín (n, hk)  Smjörlíki; danskt smjör; óekta smjör.  Margarín kom fyrst fram árið 1869; fundið upp af Frakkanum Hyppolyte Mége-Mourniés, sem svar við beiðni Napóleons 3. um eitthvað í stað smjörs sem viðbits fyrir hermenn og lágstéttirnar.  Það var í fyrstu gert úr nautakjötsfitu og léttmjólk, en nú er smjörlíki framleitt í stórum stíl úr jurtaolíu og vatni; stundum að viðbættri mjólk, og notað sem viðbit og til ýmiskonar matargerðar og baksturs.  „Ég er ekkert hrifinn af að nota þetta árans margarín í staðinn fyrir gott smér“.

Margausa (s)  Ausa mörgum sinnum.  „Báturinn var árans ekkisen lekahrip, og þeir þurftu að margausa hann í þessum stutta róðri“.

Margámálga / Margáminna (s)  Minna ítrekað á; nefna oft.  „Ég margáminnti hann um að taka með sér kíkinn“.  „Ég margámálgaði þetta við hana, en hún eyddi því ætíð“.

Margbanna (s)  Banna oft; margítraka bann.  „Ég er búinn að margbanna ykkur að fikta í klettunum“!

Margbiðja (s)  Biðja oft/ítrekað.  „Þú getur þurft að margbiðja hann um þetta áður en hann lætur sig“.

Margbjóða (s)  Bjóða oft/ítrekað.  „Ég er búinn að margbjóða kúnum þetta, en þær líta ekki við því“.

Margblessaður (l)  Vel/oft blessaður.  „Guðlaun fyrir kaffið, og vertu svo ævinlega margblessaður“!

Margborga sig (orðtak)  Vera vel þess virði; vera heillaráð.  „Það margborgar sig að fara heldur krók uppá veginn, í staðinn fyrir að paufast beint yfir urðina“.  Mikið notað orðtak.

Margbreytilegur (l)  Fjölbreyttur; litskrúðugur; sem breytist iðulega.  „Tíðarfarið hefur verið margbreytilegt uppá síðkastið“.  „Það má gera þetta með margbreytilegum hætti“.

Margbrotinn (l)  Flókinn; fjölbreyttur.  „Þetta er nú ekki mjög margbrotinn búnaður“.

Margbúinn (l)  Oft búinn; ítrekað búinn.  „Var ég ekki margbúinn að banna ykkur þetta strákar“?

Margbýlt (l)  Staður með mörgum bæjum/býlum; fleirbýlt.  „Í Kollsvík var stundum margbýlt“.

Margendurtaka (s)  Segja margoft.  „Ég margendurtók þetta, í þeirri von að hann myndi það“. 

Margfaldlega (ao)  Með margföldum hætti; margfalt; oftlega.  „Það borgar sig margfaldlega að klára þetta í dag heldur en bíða með það til morguns, í svona ótryggu veðurútliti“.

Margforn / Margfyrndur (l)  Sem búið er að fyrna/geyma í mörg ár.  „Ég er nú ekki alveg eiðfær með neftóbakið.  Ég fann niðri í kistunni nokkur korn í dós; líklega margforn en vel brúkleg held ég“.  „Ég held ég gefi nú bara þennan stabba innst í hlöðunni; þetta er ágætis hey þó það sé margfyrnt“.

Margfróður (l)  Mjög fróður; vel heima; fjölfróður.  „Hann er margfróður í þessum efnum“.

Marggæta (s)  Gá/gæta/skoða oft/ mörgum sinnum.  „Ég skil ekki í því að þessar kindur hafi leynst þarna í lautinni; ég var búinn að marggæta þar“!

Margir (eru) kallaðir/tilkallaðir en fáir útvaldir (orðtak)   Margir vilja komast/gera en fáum tekst það.    „Margir voru tilkallaðir í þingsætin en fáir útvaldir“.  Vísun í biblíuna; margir vilja komast í himnaríki en samkvæmt bókstafstrúnni þurfa sumir að dvelja í verri staðnum.

Margítreka (s)  Ítreka/endurtaka oft.  „Ég margítrekaði það við hann að gæta sín á skerinu“.

Margítrekað (l)  Sem endurtekið/ítrekað hefur verið oft.  „Honum tókst þetta ekki, þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir“.

Marglesa (s)  Lesa oft.  „Ég er búinn að marglesa þetta, en aldrei tekið efti þessari villu fyrr“.

Margliði (n, kk)  Fiskur með þá vansköpun að hlykkir eru á hryggsúlunni aftanverðri.  „Margliði nefnist fiskur sem er með hlykki milli sporðs og gotraufarugga.  Sá sem dregur slíkan fisk fær eins mörg hundruð á vertíðinni og hlykkirnir eru margir (ÓETh; LK; Ísl.sjávarhættir V). 

Marglitur (l)  Í mörgum litum.  „Fuglinn var sérkennilega marglitur á vængjum“.

Marglofa (s)  Lofa oft og mörgum sinnum.  „Hann er búinn að marglofa þessu, en gleymir því jafnharðan“.

Marglytta (n, n, kvk)  Skollaskyrpa; hvelja.  Flokkur holdýra (Scyphoza) með hlaupkenndan og skálarlaga bol.  Marglyttur hafa eitt munnop og griparma í kringum það.  Á gripörmunum eru stingfrumur eða brennifrumur, sem þær nota til að drepa sér til matar eða til varnar.  Í brennifrumunum er eitrað efni sem getur valdið einskonar bruna á þeim lífverum sem fyrir verða; nægilegt til að drepa smáfiska og valda roða og kláða á hörundi manns.  Stórar marglyttutegundir geta drepið menn á nokkrum sekúndum.  Marglyttur hér við land eru á lirfustigi á vorin og vaxa jant og þétt þegar líður á sumarið og sjór hlýnar.  Hérlendis lifa tvær hveljutegundir; brennihvelja (Cyanea capillata) og bláglytta (Aurelia aurita) , og er sú síðarnefnda mun algengari.  Síðsumars geta hveljur brennihveljunnar orðið nær 40 cm í þvermál.  Hveljur bláglyttunnar verða öllu minni, eða nær 16 cm.  Marglyttur geta orðið hvimleiðar síðsumars, einkum þeim sem stunda netaveiðar innfjarðar, en stundum fyllast netin af marglyttu og veiða þá lítið, auk þess sem hveljan veldur sviða og leiðindum þegar hún kemur á hold fiskimanna.  Þjóðtrúin segir þetta af sköpun marglyttunnar:  eitt sinn gengu Jesús Kristur og Sankti Pétur meðfram sjó.  Kristur hrækti í sjóinn og af því varð raðmaginn.  Þá hrækti Sankti Pétur og af hans hráka varð grásleppan.  Rauðmaginn þykir herramannsmatur og grásleppan þarfafiskur.  Kölski var ekki fjarri þeim félögum og vildi ekki minni vera þegar hann sá hverju fram fór.  Úr hráka hans varð til marglyttan, en hún er ekki til neinna nytja.

Marglyttusúpa / Marglyttuvaðall (n, kvk/kk)  Mikið magn marglyttu í sjó; þétt ský af marglyttu.  „Skelfileg marglyttusúpa er þetta að verða hér inni í firðinum“.  „Það hefur ekkert uppá sig að leggja ofaní þennan marglyttuvaðal; netin fyllast strax af þessum óþverra“.

Margmáll / Margorður (l)  Segir margt; hefur mörg orð.  „Ég veit ekki hvort ég á að senda þér þetta; það er svo margort.  En margt kemur upp í hugann þegar byrjað er að skrifa“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).   

Margmenni / Margmennt (n, hk/ l)  Fjölmenni; margt fólk.  „Það var margmenni á brúninni þegr ég kom upp“.  „Ekki var nú margmennt á fundinum; bara örfáar hræður“.

Margmennur (l)  Fjölmennur; með marga menn í liði.  „Fyrrum var margmennt í Kollsvík“.  „Hann þarf að vera nógu margmennur til að geta hreinsmalað svæðið með einhverri vissu“.

Margnefna (s)  Segja oft; hafa orð á ítrekað.  „Ég er búinn að margnefna þetta við hann, en ekkert gerist“.

Margnefndur (l)  Sem nefndur er oft.  „Margnefnd vík liggur fyrir opnu hafi“.

Margoft (ao)  Ítrekað; alloft.  „Ég hef farið um þennan gang margoft áður, en aldrei í svona bleytu“.

Margorður (l)  Fjölorður; sem talar mikið.  „Ég þarf ekki að vera margorður um þetta; svo þekkt sem það er“.

Margramannamaki (n, kk)  Ígildi margra manna til vinnu; hamhleypa.  „Í erfiðisvinnu eins og grjótburði var hann margramannamaki.  Þar stóð honum enginn á sporði“.

Margreisa (s)  Reisa oft.  „Ég var búinn að margreisa kindina við, en hún stóð ekki á löppunum“.

Margreyna (s)  Reyna oftsinnis.  „Rokið var svo mikið að ég margreyndi að setja þrífótinn upp... en hann fauk alltaf burt“  (Óskar Gíslason kvikm.gerðarmaður, um Sargon-strandið; Útkall við Látrabjarg).

Margreyndur (l)  Mjög reyndur; sem oft hefur reynt.  „Ég er margreyndur í þessu“.  „Þetta er margreynt“.

Margs/alls verður án sá er einskis biður (orðatiltæki)  Sá sem aldrei biður aðra um neitt getur ekki ætlast til þess að allt rétt upp í hendurnar.

Margs er/verður vís sá er árla rís (orðatiltæki)  Vísar til þess að sá sem lengi sefur missir af því sem skeður snemma dags.  Sama merking og „morgunstund gefur gull í mund“.

Margsamanhnýttur / Margsamansettur (l)  Hnýttur/settur oft saman.  „Spottinn er grautfúinn og margsamanhnýttur“.  „Þú ferð ekki í langsig í margsamansettum vað“.

Margsannað (l)  Oft búið að sannreyna.  „Þetta er margsannað mál; um það þarf ekki að deila“!

Margsegja (s)  Segja oft.  „Ég var búinn að margsegja þeim þetta“.

Margsinnis (ao)  Oft; iðulega.  „Ég nenni nú ekki að tyggja margsinnis í þig sama hlutinn“!

Margskipta (s)  Skipta oft.  „Nú ertu búinn að margskipta um skoðun í sömu þrætunni“!

Margskoða (s)  Skoða oft.  „Þarna er ekki lendandi; það er búið að margskoða það“.

Margskonar / Margskyns / Margslags (l)  Ýmiskonar; af mörgu tagi. „Hann bar fyrir sig margskyns ástæðum“.  „Það kemur margslags aukafiski í netin, með grásleppunni“.

Margslitinn (l)  Sem oft/mikið hefur slitnað.  „Spottinn var grautfúinn og margslitinn“.

Margslunginn (l)  Fjölbreyttur; margháttaður; fjölþættur.  „Til viðbótar því sem þegar er sagt frá þessari margslungnu fjölskyldu í Neðribæ (á Lambavatni) verð ég að nefna gömlukonurnar tvær... “  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Margspyrja (s)  Spyrja ítrekað; þráspyrja.  „Ég margspurði hann eftir þessu en hann þvertók fyrir að hafa nokkurntíma heyrt á það minnst“.

Margstaga (s)  Staga/sauma mjög oft.  „Það er búið að margstaga í þessa sokka; þeir fara að verða ónýtir“.

Margstagast á / Margtyggja í (orðtak)  Þrástagast á; segja ítrekað.  „Ég margstagaðist á þessu við hann“.

Margsvíkja (s)  Svíkja oft.  „Þeir eru búnir að margsvíkja öll sín kosningaloforð“.

Margt býr í þokunni (orðatiltæki)  Margt getur verið nærri sem menn ekki sjá vegna þoku.  Einnig notað í líkingum um það sem hulið er af öðrum ástæðum.

Margt/margs er að varast (orðatiltæki)  Það þarf að vara sig á ýmsu; margt er hættulegt/varasamt. 

Margt/oft er gott sem gamlir kveða (orðatiltæki)  Spakmæli sem vísar til ágætis þess að nýta reynslu þeirra sem hana hafa.

Margt er líkt með skyldum (orðtatiltæki)  Viðhaft þegar hegðun/framferði skepnu/manns eða annars minnir á hegðun annars sem fallið gæti í sama flokk / talist gæti til sömu ættar. 

Margt er mannanna bölið (orðatiltæki)  Margt getur hrjáð mannskepnuna.  Spekin er sennilega mjög gömul, en Stefán Ólafsson skáld notaði hana í upphafi ljóðs síns „Svanasöngur“:  „Margt er manna bölið,/ misjafnt drukkið ölið,/ lífs um tæpa tíð./  Í dag byljir bíða,/ bjart er loftið fríða/ á morgun hregg og hríð“; o.s.frv.

Margt er skrýtið í henni harmóníu / Margt er skrýtið í kýrhausnum (orðatiltæki)  Viðhöfð þegar eitthvað óvenjulegt/einkennilegt er á seyði/ ber við/ er til umræðu.  Hið síðarnefnda langtum meira notað í seinni tíð.  „Margt er nú skýtið í henni harmóníu; nú keppist þessi ríkisstjórn við að rífa það niður sem hún böðlaðist við að koma á lappirnar í fyrra“!  „Nú vilja þeir láta rækta gærur án kjöts, þessir blessaðir gáfumenn þarna í háskólanum; já það er margt skrýtið í kýrhausnum“.

Margt er talað (og misjafnt) (orðatiltæki)  Ekki er allt jafn gáfulegt sem menn segja.

Margt er það í koti karls sem kóngs er ekki í ranni (orðatiltæki)  Vísar til þess annarsvegar að margt er ekki unnt að fá með peningum/auðæfum, og hinsvegar að maður lumi á stundum það sem aðrir eiga ekki.  Forn speki.

Margt fer öðruvísi en ætlað er/var / Margt fer á annan veg en ætlað var (orðatiltæki)  Notað um óvænt endalok, eða slæmar lyktir mála.

Margt getur hent á langri leið / Margt getur skeð á löngum tíma (orðatiltæki)  Auðskilin og algeng speki.

Margt/ýmislegt hefur á dagana drifið ( orðatiltæki)  Margt hefur skeð á tímabilinu.  „Margt hefur á daga mína drifið síðan þetta skeði, þó það sé misjafnlega frásagnarvert“.

Margt manna (orðtak)  Mannmargt; fjölmennt.  „Ég var í samkvæmi á Bíldudal. Þar var margt manna“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Margt og mikið (orðtak)  Fjölmargt.  „Hann sat lengi í kaffi, og spjallaði margt og mikið“.

Margt skipast á mannsævinni / Mörg er mannsævin (orðatiltæki)  Margar breytingar verða hjá manni yfir ævina. 

Margt smátt gerir eitt stórt (orðatiltæki)  Safnast þegar saman kemur.  „Það munar kannski lítið um hvern hagalagðinn, en margt smátt gerir eitt stórt“.

Margtyggja (s)  Margsegja; segja oft.  „Það var margtuggið í strákana að þeir mættu ekki fara á sjóinn í tunnubátunum, en auðvitað var það þá mest eftirsóknarvert“.

Margumræddur / Margumtalaður (l)  Títtnefndur; oft nefndur.  „Ekki er reynt að leysa margumræddan byggðavanda“.  „En sú þróun mála væri svik við byggðarlagið og þá margumtöluðu byggðastefnu sem allir vilja eiga og telja sig vinna fyrir“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Margur drukknar nærri landi (orðatiltæki)  Notað um það þegar menn tapa baráttu þó skammt virðist í sigur.  Líkingin er augljós við hættulegt starf sjómanna; einkum fyrr á tímum meðan sjómenn voru ósyndir.  Tvær drukknanir urðu í Kollsvík á öndverðri 20. öld, rétt við landið.

Margur er knár þótt hann sér smár (orðatiltæki)  Sumir eru duglegir/öflugir þó smáir séu. 

Margur er rámur en syngur samt (orðatiltæki)  Menn syngja flestir eitthvað, jafnvel þó söngröddin sé að sumra áliti ekki fögur.  Oft viðhaft sem hvatning til manneskju að taka þátt í söng, eða sem afsökun.

Margur er ríkari en hann heldur/hyggur (orðtak)  Menn átta sig ekki alltaf á því sem þeir eiga.  Oft viðhaft þegar menn finna það í fórum sínum sem þeir vissu ekki af áður.

Margur fellur á sjálfs síns bragði (orðatiltæki)  Mörgum verður það að falli sem hann ætlaði að nota til að koma öðrum í klípu.  Sjá falla á eigin bragði.

Margur fær lof fyrir lítið (og last fyrir ekkert) (orðatiltæki)  Vísar til þess að hrósi er oft beitt í óhófi, og sömuleiðis eru saklausir oft skammaðir.  Síðari hluti spakmælisins heyrðist ekki í Kollsvík í seinni tíð.

Margur gefur gull við eyri (orðatiltæki)  Sumir hafa svo lítið verðskyn að þeir myndu jafnvel láta gullpening í stað koparpenings (eyris).

Margur heldur mig sig (orðatiltæki)  Viðhaft sem andmæli við því að annar reyni að líkja mælandanum við sig.  „Hann fullyrti að ég hefði örugglega fallið í sömu freistinguna í hans sporum; ja, margur heldur mig sig“!

Margur hver (orðtak)  Hver sem er af mörgum; ýmis.  „Margur hver myndi víst vilja eiga slíkan grip“.  „Ég neita því ekki að sjálfstæðismenn eru skynsamir; margir hverjir, en þá gjarnan í eigin þágu“.

Margur hyggur auð í annars garði/húsi (orðatiltæki)  Speki; sumir öfunda aðra af auði/ríkidæmi/gæfu sem er svo ekki meiri en hjá þeim sjálfum.

Margur hyggur/ætlar mig sig (mátulega dyggan) (orðatiltæki)  Maður heldur oft að aðrir séu jafn breyskir og maður er sjálfur.

Margur láir það öðrum sem hann ætlar að sjálfum líðist (orðatiltæki)  Mörgum hættir til að hneykslast á gerðum/framferði annarra, en eru svo öngvu betri sjálfir.

Margur mælir fagurt en hyggur flátt ( orðatiltæki)  Almenn sannindi.  Menn segja gjarnan allt annað og fegurra í viðurvist þess sem um er rætt en honum á bak.  Sumir eru þó hreinskilnari en aðrir.

Margur seilist um hurð til lokunnar (orðatiltæki)  Margur leitar langt yfir skammt; maður fer stundum langa og erfiða leið að marki sem auðveldari leið er að.  Vísað er til loku á hurð, og það að maður teygi sig í lokuna á gagnstæðri hlið hennar.

Margur sparar eyrinn en kastar krónunni (orðatiltæki)  Um það þegar maður tímir ekki að leggja í lítinn kostnað sem í raun sparar manni stórfé/ skapar mun meiri ávinning.  Var fyrrum þannig;“ margur sparar skildinginn en sóar dalnum“.

Margur veit og varast ei (orðatiltæki)  Stundum ana menn út í hættu eða önnur afglöp þó þeir hefðu mátt vita betur.  „Margur veit og varast ei; ég hefði auðvitað átt að vita af þessum fjandans pytti“!

Margur verður af aurum api (orðatiltæki)  Vísar til þess að auður verður mönnum ekki alltaf til gæfu, heldur er upphafið á ógæfu sumra.  Komið úr Hávamálum:  „Veita hinn/ er vætki veit,/ margur verður af aurum api./  Maður er auðigur,/ annar óauðigur,/ skylit þann vitka vár“  (úr Hávamálum).  Sá er heimskur sem veit ekki að peningar glepja; sumir eru ríkir en aðrir ekki, en ekki skal fyrirlíta þann fátæka.  Þekkt var einnig; margan hefur auður apað, en öndvert er; græddur er geymdur eyrir.

Margurhver (l)  Margir; margur maðurinn.  „Margurhver hefði nú gefist upp fyrir löngu í hans sporum“. 

Margúa / Margýgur (n, kvk)  Hafmey.

Margvafinn (l)  Innpakkaður; sívafinn.  „Tóbakspontan var margvafin inn í vasaklútinn“.

Margvelta (s)  Velta margoft.  „Óvanir hleðslumenn þurfa að margvelta steininum fyrir sér til að sjá hvernig hann fellur, en vanur maður sér það á augabragði“.

Margvefja (s)  Sívefja; vefja ítrekað.  „Lambið var búið að margvefja vírnum um hornin á sér“.

Margvitað (l)  Vel vitað; hefur oft uppgötvast.  „Það er margvitað að þetta getur ekki gengið“.

Margvitur (l)  Veit margt; fjölfróður.  „Í þessum efnum er hann margvitur“.

Margvígður (l)  Vígður oftar en einusinni.  „Ef börn eru skírð heima hér í Víkinni þá er enn tekið skírnarvatn úr lindinni (Gvendarbrunni). Síðan var talið heilsusamlegt fyrir augun að baða þau úr margvígðu skírnarvatninu“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).

Margvíslega (ao)  Á margan hátt.  „Það má leysa þessa gátu margvíslega“.

Marvíslegur (l)  „Hann las upp margvísleg skjöl sem málið vörðuðu“.

Margþakka (s)  Þakka mjög mikið/oft fyrir.  „Hann margþakkaði mér fyrir þennan greiða“.

Margþveginn (l)  Þveginn margoft.  „Enn er brækjulyktin úr buxunum, þótt þær séu margþvegnar“.

Margþættur (l)  Gerður af mörgum þáttum/atriðum.  „Hér er við margþættan vanda að etja“.

Margæfður (l)  Margoft æfður/þjálfaður.  „Hann kunni þetta utanað, enda margæfður í rullunni“.

Marhálmur (n, kk)  Zostera angustifolia.  Graskennd jurt af marhálmsætt, sem vex í sjó á grunnsævi, einkum við vesturströnd landsins.  Marhálmur vex líklega ekki á Kollsvík, en er sumsstaðar að finna innfjarðar, t.d. á marbakkanum sunnantil í Patreksfirði, eftir að kemur innfyrir Hænuvík.  Kom þar iðulega í grásleppunet.

Marhnútur (n, kk)  Myoxocephalus scorpius.  Fiskur sem algengur er allt í kringum landið.  Heldur sig á grunnsævi á sumrum, en dýpra á vetrum.  Fremur latur fiskur og hreyfir sig lítið; fæðan er krabbadýr, seyði o.fl.  Brúnleitur og flekkóttur, og geta flekkirnir verið gulir, rauðir, grænir eða bleikir, þannig að hann fellur vel saman við sjávarbotninn.  Lengdin verður allt að 40-60 cm.  Á haus  og tálknalokum eru margir hvassir broddar, og hjá hængnum eru þeir eitraðir á mökunartímanum.  Marhnúturinn hefur fremur flatan haus, stóran kjaft of þykkar varir og þykir ekki smáfagur. Bakuggar eru tveir og háir og eyruggar eru einnig stórir.  Kviðuggar langir og mjóir.   Bolurinn er þykkastur aftan höfuðsins, en mjókkar mjög aftureftir.  Hann er því ekki matarmikill, og var ávallt talinn óætur áðurfyrr.  Á síðari tímum hefur þó sannast að hann er ágætlega ætur, en oft illa haldinn af ormi.

Mari (n, kk)  A.  Lóðrétt stoð; stólpi; uppistaða.  Oftast notað í seinni tíð í sambandinu rúmmari.  B.  Þýður vindur að vetrar- eða vorlagi. 

Marías (n, kk)  Tveggjamanna spil sem oft var spilað í Kollsvík, bæði á bæjum sem í Verinu.  Fimm spil eru á hendi hjá hvorum; stokkur á hvolfi í borði og spil þversum uppíloft undir honum er vísbending um tromp.  Spilað er uppá slagafjölda; hærra spil vinnur án bekenningar.  Dregið er úr stokk eftir hverjum slag, þannig að alltaf séu 5 spil á hendi. Eftir að stokkur í borði er uppurinn er skylda að bekenna.  Talin eru stig úr slögunum, þannig að öllu undir 10 er hent frá sem hundum.  Tían gildir 10 stig, gosinn tuttugu o.s.frv.  Fyrir venjuleg hjón eru 40 stig, en tromphjón 80.  Allir gosarnir er gosagrikkur; allar drottningar drottningargrikkur o.s.frv og eru stigin summa þeirra.

Maríubjalla (n, kvk)  Sérstök ætt kúlulaga bjallna; Coccinellidae, sem í eru um 4.500 tegundir á allri jörðinni.  Hérlendis finnast tvær tegundir; maríuhæna; Coccinella undecimunctata, og maríutítla; Scymus limonii.  Maríuhæna er um 4 mm á lengd, með svart höfuð og á skjaldvængjunum eru ellefu svartir dílar.  Þær eru venjulega á ferli frá því snemma á vorin og fram í september.  Þær verpa fyrri hluta sumars og lirfurnar eru fullvaxnar og púpa sig í ágúst.  Bjöllurnar skríða úr púpu snemma hausts og leggjast síðan í dvala þegar kólna tekur.  Þær finnast í gróðurlendi, og verður oft vart í Kollsvík.  Maríutítla er mun minni en maríuhænan, og með einn aflangan rauðan flekk á hvorum skjaldvæng.  Finnst á láglendi um allt land.  Maríuhænur nærast á blaðlúsum.

Maríuerla (n, kvk)  Motacilla alba.  Lítill spörfugl af erluætt.  Búsvæði maríuerlu er opið land, oft nálægt vatni og mannabústöðum. Má iðulega finna haganlega fléttaðar hreiðurkörfur inni í hinum mörgu steinhlöðnu görðum og tóftum í Kollsvík.  Að sumarlagi er mariúerlan grá að ofan og hvít að neðan; með áberandi svartan blett á kverk og niður á bringu; svartan koll og svart stél með hvítum jöðrum.  Dekkri vængir með hvítum vængbeltum.  Kvenfuglinn er dauflitaðri en karlfuglinn, og ungfuglinn enn daufari.  Maríuerlan er síkvikur og fjörlegur fugl.  Maríuerlan er farfugl sem yfirgefur Ísland í ágúst-september og heldur til vetrarstöðva í vestanverðri Afríku.  Varptíminn er í síðarihluta maí, og ungar verða fleygir seint í júní.  Fæðan er ýmis smádýr og skordýr.

Maríufiskur (n, kk)  Fyrsti fiskur sem maður dregur á ævinni.  Í Kollsvík var sagt að hann skyldi gefinn fátækum eða öldruðum.  „Minn maríufisk dró ég líklega þegar ég var um 6 ára.  Var ég látinn gefa hann Hildi ömmu minni, til að hafa í heiðri gamlan sið“  (VÖ).   „Mun hann í fyrndinni, eða í kaþólskri tíð, hafa verið heitfiskur og þá gefinn Maríu mey til fiskiheilla þeim sem á hana hét“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  „Fyrsti fiskur sem dróst á skip og var hann gefinn fátækum... Mun elt hafa eftir af páfadómi“ (ÁM/PV;  Jarðabók).  „Ég verð var og fæ minn Maríufisk.  Hann á að gefa í Guðskistuna samkvæmt þjóðtrúnni.  Ég læt hann til hliðar.  Kannski gef ég kettinum hann, ef ég man“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Maríuhæna (n, kvk)  Sjá maríubjalla.

Maríukjarni / Marinkjarni (n, kk)  Alaria esculenta; brúnþörungur allstór sem algengur er framarlega á útfiri og var mikilvægur, bæði til fjörubeitar og stundm til manneldis.  Þöngulhaus heldur jurtinni við klappir og stórgrýti en blaðkan er stór og með flatri og mikilli miðtaug.  „Alltaf var beitt ef veður leyfði og þá staðið hjá yfir daginn.  Beitt var í fjöru ef þari var og bitfjöru um stórstraum.  Mest sótti féð í söl og maríukjarna“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Maríumessa (n, kvk)  Messur helgaðar Maríu mey, en þær voru alls sjö í katólskri trú.  Fyrst í árinu var hreinsunardagur Maríu, 2. febrúar; öðru nafni og kunnari sem kyndilmessa.  Önnur var Maríumessa á föstu, 25. mars; öðru nafni Boðunardagur Maríu.  Þriðja var vitjunardagur Maríu, 2. júlí, í minningu þess að María heimsótti móður Jóhannesar skírara.  Fjórða var Maríumessa hin fyrri, eða himnaför Maríu, 15. ágúst; dánardagur Maríu.  Fimmta var Maríumessa hin síðari, 8. sept; fæðingardagur Maríu.  Sjötta var Maríu offurgerð, 21. nóv; minningardagur þess að María var sem barn vígð Guði í Musterinu.  Sjöunda var getnaðardagur Maríu, 8. des; minning þess að María var getin án erfðasyndar.

Maríustakkur (n, kk)  Alchemilla vulgaris.  Blóm af rósaætt; algengur er um allt land þar sem skjólsælt er; algengur í Kollsvík.  Um þrjár undirtegundir er að ræða; hlíðarmaríustakk, sem er algengastur; hnoðamaríustakk og silfurmaríustakk, og má greina nokkurn mun á þeim við nánari skoðun.  Blöð eru allstór; handstrengjótt, kringlótt eða nýrnalaga með tenntum sepum.  Stofnblöð eru stilklöng en stöngulblöð nærri stilklaus.  Blómin eru krónulaus, en með fjórum bikarblöðum og jafnmörgum utanbikarblöðum.  Blómskipun er gisinn skúfur með þéttstæðum blómum.  Blöðin eru vaxkennd og myndast því stórir dropar á þeim sem sögð voru vera tár Maríu meyjar.  Af þeim er nafn jurtarinnar dregið.  Þjóðráð þykir að þvo augun úr þeim.  Gott þótti að merja maríustakk og leggja við sár og bólgur; koma reglu á blæðingar og draga úr tíðaverkjum.  Plantan var mikið notuð til litunar.  Sú var trú að svæfi maður á maríustakki sæktu síður að mönnum martraðir og ótti. 

Maríusvunta (n, kvk)  A.  Ulva lactuca.  Blaðlaga þunnur grænþörungur; um 5-15 cm að lengd og 3-10 á breidd, en getur orðið um stærri.  Hún situr á klöppum og grjóti, fest með lítilli skífu, og uppaf henni er stuttur stilkur með einu heilu blaði; bylgjóttu; þunnu; heilrenndu og fagurgrænu á litinn.  Blaðið slitnar með aldrinum og göt koma í það.  Maríusvunta líkist nokkuð öðrum grænum himnum sem vaxa í fjörunni, m.a. grænhimnu og marglýju. Maríusvuntu rekur iðulega á fjörur í Kollsvík, og vex því örugglega þar á grunnsævi.  Maríusvunta var einnig nefnd slavak, uppá írska tungu, og gæti orðið „salat“ verið af því dregið.  Þörungurinn er prýðisgóður til átu, þó ekki fari sögur af nýtingu hans í Kollsvík. 
B.  Þunnur vöðvi sem liggur utaná kinnfiskinum í þorskhaus.

Maríutása (n, kvk)  Cirrocumulus.  Ein tegund háskýja; skýjabreiða í 6-10 km hæð, oft grisjótt og gerð úr hnoðrum, sem vegna fjarlægðar frá yfirborði eru örsmáir og mynda oft bönd eða rákir. Maríutása sést stundum við jaðar bliku, enda úr ískristöllum eins og hún, og oft eru klósigar nærri maríutásu.  Jafnan sést maríutása ekki nema í góðviðri.

Maríuvöndur (n, kk)  Gentianella campestris.  Blóm af maríuvandarætt.  Maríuvöndur er algengur á þurrum snöggrónum bölum, eins og t.d. sandbölum í Kollsvík.  Blóm eru dökkfjólublá eða purpurarauð.  Tvíær planta.  Krónan er pípulaga, um 2 cm á lengd; bikar klofinn langt niður; stöngull stinnur og gáraður; blöðin egglensulaga 2-3 cm að lengd; hárlaus og heilrend.  Blómgast í júlí-ágúst.  Líklegt er talið að átt sé við maríuvönd, þar sem í þjóðtrúnni er rætt um huliðshjálmsgras.  Vaxi það í kirkjugarði skal taka það um messutíma; stökkva yfir það vígðu vatni; gæta þess að snerta ekki með berum höndum; láta sól ekki skína á það, og geyma í hvítu silki og helguðu messuklæði.  Vilji maður ekki láta sjá sig skal gera kross í kringum sig í fjórar áttir; bregða yfir sig grasinu, og hverfur maður þá sjónum annarra.

Mark (n, hk)  A.  Fjármark; skurður/ben í jaðar á eyra sauðkindar sem helgar hana eiganda sínum.  Ben þau sem mynda mörk eru af nokkrum gerðum, og hafa líkastil verið lítt breytt frá grárri forneskju.  Af þeim algengustu má nefna bita; stýfingu; sneiðingu; fjöður; hóf; vagl; blaðstýfingu; sýlingu; sneiðrifu; stúfrifu; ; heilrifu; hömrun og gat.  Fjöldi, samsetning og staðsetning benjanna myndar mark hvers fjáreiganda.  T.d. var mark Guðbjartar Guðbjartssonar á Láganúpi Stýft og gagnbitað hægra; stýft vinstra.  Mark Össurar Guðbjartssonar á Láganúpi var biti aftan hægra; sneitt aftan og biti framan vinstra.  Mark Halldóru Kristjánsdóttur Grundum, og síðar Valdimars Össurarsonar Láganúpi, var sneitt aftan og biti framan hægra.  Venja er að tilgreina alltaf öll ben á hægra eyra og síðan á því vinstra.  Misjafnt var  hve vel mönnum fórst mörkun úr hendi; gat stundum orðið markleysa hjá sumum.  Einnig var mjög misjafnt hve menn voru markaglöggir.  Markað var með vel brýndum vasahníf, en á síðari tímum með markatöng.  Lömb voru mörkuð ung; oft eins til þriggja sólarhringa gömul, en þá blæddi minna en ef þau voru eldri.  Einnig voru notuð brennimörk og eyrnamerki sem auðkenni á fé.  Sjá einnig eyrnamark.  B.  Það sem tekið er mið af; viðmið.  „Ég tek nú lítið mark á svona vitleysu“!  „Svör drengsins þóttu til marks um góðar gáfur“.  C.  Endapunktur; lokatakmark.  „Ég var fyrstur í mark í víðavangshlaupinu á 17. júní“.

Mark (n, hk)  Dylla; dyndla; sá hluti í spyrðustæði steinbíts sem ekki er skorinn upp við flatningu að gömlu lagi; aftasti hluti stirtlu steinbíts, framan við sporð. (sjá steinbítur).  Orðið er til í ýmsum merkingum, en ekki er vitað til að þessi hafi þekkst utan Útvíkna, þar sem mest var verkað af steinbít.

Marka (s)  A.  Taka mark á; hlusta með athygli á.  „Ég marka það nú lítið þó þessi vitleysingur sé að gaspra eitthvað“!  B.  Setja mark á lambseyru/reka eða annað.  „Ég ætla að fara að marka og bólusetja“.  C.  Setja skil; merkja; tákna.  „Breytingar á verðlagi og framleiðslutakmarkanir mörkuðu þáttaskil í landbúnaði“.

Marka fyrir (orðtak)  Móta/móa fyrir; sjást ummerki um.  „Þarna markar enn fyrir búðatóftum hér og þar“.

Marka í (orðtak)  Spora; móta fyrir fótsporum.  „Skriðurnar eru varasamar og svo harðar að það markar ekkert í þegar farið er yfir þær“.

Marka (einhverju) bás (orðtak)  Skilgreina takmörk einhvers; takmarka starfssvið/valdsvið/heimildir einhvers. 

Marka sér bás (orðtak)  Hasla sér völl; vinna sig í álit á vissu sviði; sérhæfa sig í.  „Með þessum skrifum markaði hann sér bás sem helsti fræðimaður þjóðarinnar á þessu sviði“.

Marka undir (orðtak)  Þegar maður markar lamb þá markar hann það undir sitt mark eða annars markeiganda; markar það sér eða öðrum.

Marka upp (orðtak)  Eyrnamarka fé sem er með ógreinilegu eða röngu marki.  „“Sérhver fjáreigandi er skyldur til að hafa skýrt eyrnamark á fé sínu.  Aðfengið fé skal hann marka upp undir eyrnamark sitt...“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).  „Oft er kaupafé markað upp á eyrum, ef hægt er að breyta fyrra marki með góðu móti í mark kaupandans.  Sumir fjárríkir bændur, sem stóðu mikið í fjárkaupum, áttu svokölluð undanfæringarmörk, þar sem svo mikið var tekið af eyranu að hægt var að nota þau til að marka upp kindur með svo að segja hvaða marki sem var.  Þessi mörk voru stundum kölluð soramörk“   (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).   „Erindi mitt við þig, segir hún, er að biðja þig að útvega mér mark á kindurnar mínar er sé svo náið þínu marki að auðvelt sé að marka upp frá mér til þín“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Markatöng (n, kvk)  Klippitöng/bítur til að marka lömb.  „Afi notaði aldrei markatöng; honum fannst betra að nota vel brýndan vasahníf“.

Markaskrá / Markatafla (n, kvk)  Skrá yfir gild fjármörk á tilteknu svæði og eigendur þeirra.  Markaskrá var þarfaþing á hverju býli, og ómissandi á réttum og í sláturhúsi.  „Ívar Ívarsson ræddi nokkuð um sauðfjármörk og markaskrá“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Markavörður (n, kk)  Maður sem hefur það opinbera hlutverk að sjá um rétta skráningu gildra marka í markaskrá, og skera úr um lögmæti marka í eigu hvers manns.  Síðasti markavörður í Rauðasandshreppi var Júlíus Reynir Ívarsson á Móbergi.

Markeigandi (n, kk)  Réttur eigandi fjármarks, og þess fjár sem undir það er markað.

Markglöggur (l)  Þekkir mikið af mörkum og hverjir eru eigendur þeirra.  „Guðbjartur bóndi á Láganúpi var mjög markglöggur, og til hans leitað á réttum ef skera þurfti úr“.

Markhelmingur / Graðhelmingur / Dálkahelmingur (n, kk)  Annar helmingur flakaðs steinbíts (sjá steinbítur).  „Síðan var fiskurinn rifinn meðfram bakugganum og var þar með kominn í tvo helminga sem héngu saman á markinu/dyllunni/dyndlunni.  Annar kallaðist meyjarhelmingur; og honum fylgdi gotraufarugginn/meyjarugginn, en hinum fylgdi bakugginn og markið; nefndist markhelmingur/graðhelmingur/dálkahelmingur.  Ennfremur var talað um steinbítshelming eða aðeins helming... Yngsta aðferðin var að flaka hann og voru flökin þá kúluð eða skorin í tvö strengsli með bandshaldi. (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh). 

Marki brenndur (orðtak)  Gallaður; einkenndur; með annmarka.  „Hann er því marki brenndur að geta aldrei haldið sér saman þegar aðrir vilja ræða málin sín í milli“.  Líking við brennimerkingu sauðfjár.  Sjá því marki brenndur.

Marklaust/marklítið bull/hjal/kjaftæði/rugl/tal (orðtak)  Bull; tal/umræða sem ekki er hægt að taka alvarlega.  „Þetta er bara marklaust hjal“.

Markleysa (n, kvk)  Staðleysa; vitleysa; það sem ekki er mark á takandi.  „Ég sagði föður mínum frá draumnum, og töldum við hann markleysu“  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).

Markverður (l)  Merkilegur; eftirtektarverður.  „Fátt markvert gerðist í ferðinni“. 

Markviss (l)  Sem stefnir að tilteknu marki.  „Hann hefur lengi unnið markvisst að þessu“.

Markönglar (n, kk, fto)  Krókar sem sumsstaðar á fyrri tíðkaðist að hásetar fengju að hafa á lóðum þeirra  útvegsbænda sem þeir reru hjá, og hirða af þeim aflann af óskiptu.  Brögð voru að misnotkun á þessu, og því var þetta afnumið með „marköngladómi“ á Nauteyri árið 1567.  Um notkun marköngla er ekki vitað í Kollsvíkurverum, en ekki er ólíkleg að hún hafi tíðkast á fyrri öldum línuveiða.

Marteinsmessa er 11. nóvember, og var talinn spá fyrir um veður.  Fjúk og dimmviðri þann dag vissi á umhleypingasaman og kaldan snjóavetur.  Heiðríkja boðaði staðviðri og jafnvel frostavetur.

Marþýður (l)  Alveg þýður; frostlaus.  „Jörð var orðin marþýð fyrir páska, en svo hljóp hann í beinfrost“.

Marr (n, hk)  Urg; brakhljóð; surg.  „Ég vaknaði við marrið i hurðinni“.

Marra (s) Hljóðið sem heyrist þegar snjór pressast saman undir fæti.  „Það marrar í spori“.

Marsera (s)  A.  Um hermenn; ganga í takt.  B.  Um manneskjur og skepnur; ganga; skálma.  „Ég ætlaði að fara að gera dauðaleit að hrútunum þegar ég sá þá koma marserandi niður Hjallana“.

Marsvín (n, hk)  Grindhvalur; Globicephalia melas.  Allstór tannhvalur af ættkvísl grindhvala.   Sívalur um búkinn; gildastur framanvið miðju en mjókkar til beggja enda.  Hausinn er stuttur en hátt og kúpt enni sem skagar yfir stutt trýnið.  Í hvorum skolti eru 8-13 tennur.  Horn á baki er aftursveigt og framanvið mitt bak.  Bægslin eru löng og mjó.  Kýrnar verða allt að 5 metra á lengd, en tarfarnir yfir 6 metrar og 1.700 kg.  Fullorðin dýr eru svört eða dökkbrún, en með hvítan blett á bringunni.  Kálfar fæðast dökkgráir.  Marsvínið er hópdýr sem heldur til á úthöfunum á vetrm en fylgir smokkfisk upp á grunnið á sumrin, en smokkfiskur er aðalfæðan.  Í hverri hjörð grindar geta verið mörgþúsund dýr.  Ekki er óalgengt að höfrungar sláist í hópinn.  Grindhvalir synda stundum hópum saman uppá land, en ástæða þess er ekki þekkt.  Hérlendis hafa aldrei verið stundaðar skipulegar veiðar grindhvals, eins og gert er í Færeyjum, en strandaðir hvalir hafa verið nýttir.  Marsvín rak á fjörur í Grundagrjótum í Kollsvík sumarið 2016; nær 6m langt.

Marteinsmessa (n, kvk)  Hún er 11. Nóvember, og kennd við Martein biskup í Tours í Frakklandi, sem á að hafa dáið í kringum árið 1400.  Hann var rómverskur hermaður sem snerist til kristni og varð helgur maður.  Um vitrun hans er til helgisaga, og henni tengd er sá siður meðal sumra þjóða að slátra gæsum og snæða þær á Marteinsmessu.  Algengt var að miða við Marteinsmessu með það hvenær hæfilegt væri að hýsa hrúta, en sumir miðuðu það þó fremur við veturnætur og það viðmið er tilgreint í þjóðveldislögum.  Óvarlegt er að hafa þá lengur í fénu, þar sem gangur getur orðið á kindum uppúr miðjum nóvember.

Martröð (n, kvk)  A.  Slæmar draumfarir manneskju, sem stundum verða ólýsanlegur hryllingur.  Getur slíkt tengst kæfisvefni, slæmri lífsreynslu, áfalli, ofþreytu eða öðru. Fremri liðurinn er mara, sem samkvæmt þjóðtrúnni er óvættur sem gengur/treður ofaná sofandi fólki.  B.  Í líkingamáli; erfitt viðfangsefni/vandamál.  „Það var alger martröð að greiða þessa flækju“.

Marþýður (l)  Alveg þýð/frostlaus.  „Jörð er marþýð undir klakaskáninni“.  Líklega dregið af sjó/mar, sem jafnan er ófrosinn.

Mas (n, hk)  A.  Innantómt kjaftæði; þrálátt tal.  „Hættið nú þessu masi strákar og farið að sofa í hausinn á ykkur“.  B.  Vesen; mikil fyrirhöfn.  „Það var meira mas við þetta en ég hélt í byrjun“.

Masa (s)  Tala mjög mikið og óþarft; hafa uppi innantómt málæði.  „Ég nennti ekki að hlusta á það sem hann var að masa“.

Maska (s)  Brjóta í mask; mola; mölva.  „Hann ók utaní skaflinn í skeringunni og maskaði ljósið“.

Maskína (n, kvk)  Vél.  Yfirleitt þó ekki notað um vél í farartæki, og fremur um annan vélbúnað en sprengihreyfil.  Algengast var að orðið væri notað um stóra kola- eða olíueldavél eins og tíðkuðust um tíma í húsum til eldunar og kyndingar.  „Það þarf líkast til að auka aðeins við maskínuna ef hann ætlar að kólna svona mikið í veðri“.

Maskínujárn / Maskínukrókur (n, hk/kk)  Skari; áhald sem notað var til þess annarsvegar að krækja í lok og hringi á heitri kola-/olíueldavél án þess að brenna sig þegar hagræða þurfti þeim vegna mismunandi eldunaríláta eða annars.  En einnig var áhaldið notað til að skara í kolum eða liðka fyrir olíurennsli við kyndingu maskínunnar.  Vanalega var skarinn úr sívölum járntein sem beygður var í krók í annan endann en með auga á hinum.  Hékk oftast á krók yfir eldavélinni til geymslu.  Skari var algengara nafn.

Maskínuolía (n, kvk)  Þunn olía fyrir smávélar  o.fl. (handy oil).  „Gott er að setja maskínuolíu á lamirnar“.

Maskínupappír (n, kk)  Brúnn olíusoðinn pappír.  Oft notaður í umbúðir og sem undirlegg við vélaviðgerðir.

Masonít (n, hk)  Þunnar olíusoðnar og pressaðar texplötur, notaðar innandyra í veggjaklæðningu.

Mastra (s)  Reisa mastur; tréreisa.  Heyrðist ekki í seinni tíð í Kollsvík, en var líklega notað á tímum seglbáta. 

Mastur (n, hk)  A. Almennt yfir langa spíru sem stendur lóðrétt á jörð.  B.  Siglutré á bát.  „Það var ekkert annað en fara að ausa uppá kraft; leggja upp árar og tréreisa sem kallað var, en það var að reisa mastrið og draga upp þversegl sem var í þá daga í flestum bátum í Kollsvík“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Masturshæll (n, kk)  Neðsti hluti masturs, sem gengur niður í stellinguna í botni bátsins.

Mastursstelling (n, kvk)  Stelling; Traust stykki sem vandlega er fest í botni báts.  Á stellinguna er mastrið fest.  Orðtakið að setja sig í stellingar er dregið af því að tréreisa mastur á stellingu.

Masturstoppur (n, kk)  Efsti hluti masturs. „Í Útvíkum báru hásetar farbúnað á skip meðan formaður naglfesti.  Árar voru lagðar til lags; blöð andófsára lágu fram á söx en blöð miðskips- og austurúmsára aftur.  Mastur og segl lágu þannig að masturstoppur nam við hnýfil, en masturshæll við kollharð á miðskipsþóftu bakborðsmegin“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.

Mat (n, hk)  Álit; virðingargerð; skoðun.  „Það er mitt mat að óráðlegt sé að róa í svona tvísýnu“.

Mata (n, kvk)  A.  Það af slátur- eða veiðidýri sem er ætt.  B.  Fæði sjómanna í veri; vermata.

Mata (s)  A.  Gefa einhverjum mat; fóðra.  „Það þarf ekkert að mata þig lengur stubbur; þú getur bara borðað sjálfur“.  B.  Koma matur á.  „Sumum þykir hákarl ekki nægilega kæstur fyrr en matar á hníf sem stungið er í lykkjuna“.

Mata á (orðtak) Örla á; móa fyrir  „Farðu varlega hér við landið; mér sýnist mata á skerjakollum á bakborða“.

Mata krókinn (orðtak)  Græða/hagnast; gera sér mat úr.  „Þeir mata krókinn á þessu kaupmennirnir þó bændur fái skít og ekki neitt fyrir sínar afurðir“!

Matarást (n, kvk)  Hrifning á þeim sem gefur/veitir mat.  „Ég held að þessi samdráttur hans við ráðskonuna sé nú meira matarást en nokkuð annað“.

Matarbirgðir (, kvk, fto)  Birgðir af mat; fæðuforði.  „Það fer nú að ganga eitthvað á matarbirgðirnar ef maður kemst ekki í verslun á næstunni“.

Matarborð (n, hk)  Matborð; borð sem snætt er við.  „Hagið ykkur nú kurteislega við matarborðið strákar“.  Þetta heiti var algengara i máli Kollsvíkinga en heitið matborð, sem þó eru fleiri dæmi um í ritmálssafni.

Matarbragð (n, hk)  Bragð eins og af mat.  „Það er andskotann ekkert matarbragð af þessum árans maískökum; ekki myndi maður lifa lengi á þessu“!

Matardallur ( n, kk)  Skál/ílát undir mat.  Oftast notað um ílát sem hundi/ketti er gefið í.

Matardiskur (n, kk)  Diskur sem snætt er af.  „Það vantar einn matardisk í viðbót á borðið“.

Matarfat (n, hk)  Stór diskur sem matur er færður uppá til að bera hann á borð.

Matarforði (n, kk)  Birgðir af mat.

Matarfriður / Matfriður (n, kk)  Friður til að snæða/borða mat sinn.  „Það er ekki matfriður fyrir þessum árans síma“!  „Þú verður nú að gefa þér einhvern matarfrið frá þessu puði“.

Matarföng (n, hk, fto)  Það sem þarf til máltíðar; hvaðeina matarkyns.  „Ertu með næg matarföng fyrir þessa veislu“?

Matargat (n, hk)  Mathákur; gráðugur einstaklingur.  „Ósköp étur maðurinn.  Ég hef sjaldan séð álíka matargat“.

Matargestur (n, kk)  Gestur sem þiggur mat.  „Hann var hér eitt sinn matargestur“.

Matarílát (n, hk)  Ílát undir mat; það sem matur er settur í.  „Mundu eftir að taka nóg af matarílátum“.

Matarkartafla (n, kvk)  Kartafla sem höfð er til matar; ekki útsæðiskartafla.

Matarlaus (l)  Hefur ekkert að borða; án matar.  „Samúel damlaði á árarnar, og ekki bætti það úr skák að hann var alveg matarlaus“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík).  „Er við förum upp Skorarjaðarinn gengur konan í veg fyrir okkur og segir mér frá heimilisástæðum sínum; að hún sé matarlaus fyrir fólkið, og biður mig hjálpar með útvegun matvæla“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Matarleysi / Matarskortur (n, hk/kk)  Skortur á mat.  Líklega hafa menn síður þurft að líða langvinnan matarskort í Kollsvík og öðrum verstöðvum en annarsstaðar á landinu þegar hallæri og harðindi gengu yfir.

Matarlyst (n, kvk)  Lyst á mat; löngun í mat.  „Ég missti alveg matarlystina þegar ég sá hvað var á borðum“.

Matarmikill (l)  Drjúgur til matar; næringarríkur.  „Fýlseggin eru stór og matarmikil“.

Matarpottur (n, kk)  Pottur sem matur er eldaður í.

Matarskál (n, kvk)  Skál undir mat; skál sem matur er snæddur úr.

Matarsnarl (n, hk)  Lítilsháttar matur; skyndiréttur.  „Vertu ekkert að elda fyrir mig.  Mér dugir eitthvað létt matarsnarl núna“.  Oftast stytt í snarl.

Matarstrit (n, hk)  Vinna fyrir mat; brauðstrit.  „Við megum því ekki láta matarstritið beygja okkur, þó það með köflum kunni að reynast erfitt...“  (EG; Vakandi æska). 

Matartími (n, kk)  Matmálstími; tími sem matast er á.  „Kollvíkingum var ætíð tamara að tala um matartíma en matmálstíma“.

Matarúrgangur (n, kk)  Matarleifar.  „Matarúrgangur nýttist að mestu leiti fyrir kött, hund eða hænsni“.

Matarþurfi (l)  Svangur; með þörf fyrir að borða.  „Við vorum orðnir matarþurfi þegar í land kom“.

Mataræði (n, hk)  Matarvenjur; regla á mat og fæðuvali.  „Mikið hefur breyst í mataræði Íslendinga“.

Matarögn (n, kvk)  Arða af mat; mataróvera.  „Það hlýtur nú að vera til einhver matarögn fyrir þig“.

Matbjörg (n, kvk)  Nauðsynlegur matur til að lifa af.  „Til engra var að leita um matbjörg, nema til kaupmannsins“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).  „Hún heilsar mér blíðlega og þakkar mér fyrir þá hjálp er ég hafi veitt móður sinni, er ég úvegaði henni matbjörgina og flutti hana endurgjaldslaust inn í Skor“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Matborð (n, hk)  Matarborð; borð sem matast er við.  Orðmyndirnar matborð og matarborð voru notaðar jöfnum höndum, en lengri útgáfan þó e.t.v. „fínni“.  „Hagið ykkur nú skikkanlega við matborðið, strákar“!

Matbúa (s)  Hafa til mat; undirbúa máltíð.  „Hafði Halldóra verið í búrinu að matbúa þegar þetta skeði“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Matfiskur (n, kk)  Ætur fiskur.  „Marhnúturinn hefur nú aldrei verið talinn matfiskur“.  „Heiter á Vestfiordum allra handa trosfiske; ludur, steinbitar, keilur, qvod alibi matfiske......  Rask og das. Id est höfuðkinnar, steinbítskinnar, þorskhöfuð, slóg fyrir utan lifur. Kallast öðru nafni dasfiski  (Jarðabók ÁM, PV).

Matföng (n, hk, fto)  Matvara; það sem haft er til matar.  „Alltaf voru talsverð matföng flutt heim úr Verinu, bæði hert og söltuð“  (KJK; Kollsvíkurver).

Matgoggur (n, kk)  Matargat; mathákur.  „Jónsi og Óli gátu verið herjans miklir matgoggar á þorrablótum“.

Matgírugur (l)  Gráðugur; borðar mikið.  „Maður getur orðið nokkuð matgírugur eftir svona törn á sjónum“.

Matjurtir / Matjurtarækt „Það voru alltaf ræktaðar kartöflur og þær spruttu vel.  Það var alltaf sett niður mánuð af sumri.  Rófur voru einnig ræktaðar.  Þetta tilheyrði vorverkum kvennanna“  (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964).  „Þá (að vori) þurfti að vinna kartöflugarða og setja niður; vinna á túnum og hreinsa þau“  (HFG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).

Matmaður (n, kk)  Matgoggur; mathákur; á sem þarf mikið að borða / hefur yndi af því að borða.  „Hann þótti mikill matmaður, eins og vöxturinn undirstrikaði“.

Matmálstími (n, kk)  Tími sem matast er á; matartími.  „Hann passar vel uppá matmálstímann“.

Matmóðir (n, kvk)  Sú sem gefur að borða.  „Hún var matmóðir mín meðan ég dvaldi þarna“.

Matróna (n, kvk)  Virðuleg kona; hefðarfrú.  „Þér er nú best að kunna þig þegar þú ræðir við svona matrónur“!

Matrós / Matrósi (n, kk)  Háseti; farmaður.  Skylt enska orðinu „mate“ sem merkir skipsfélagi eða háseti.

Matsár (l)  Nískur á mat; tregur til að gefa af mat sínum.  „Vertu nú ekki svona andskoti matsár; þú mátt alveg við því að gefa öðrum með þér af þessum hákarlsbita“!

Matseld (n, kvk)  Eldamennska; matargerð.  „Hún er frammi í eldhúsi að fást við matseld“.

Matselja (n, kvk)  Ráðskona; eldabuska.  „Ég fékk hana fyrir matselju meðan konan er í burtu“.

Matvandur (l)  Sérvitur um mat; vill ekki allt sem aðrir borða.  „Fyrrum hafði enginn efni á að vera matvandur“.

Matvendni (n, kvk)  Sérviska á mat; gikksháttur.  „Matvendni er velmegunarlöstur nútímans“.

Matvinnungur (n, kk)  Sá sem vinnur fyrir mat sínum.  „Duglegt fólk undi því ekki lengur eftir 1940 að vera rétt rúmlega matvinnungar... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Matvæli (n, hk, fto)  Matvörur; það sem er matarkyns; matur.  „Er við förum upp Skorarjaðarinn gengur konan í veg fyrir okkur og segir mér frá heimilisástæðum sínum; að hún sé matarlaus fyrir fólkið, og biður mig hjálpar með útvegun matvæla“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).  Síðari orðliðurinn hefur ekki verið skýrður af málfræðingum.  Spurning er hvort hann sé af sama orðstofni og „val – velja“, og stofninn „væli“ sé nú týndur.  Það gæti útskýrt örnefni s.s. Vælaskor; Vælugerði og önnur, sem vísa þá til allnægta eða birgða/búrs.

Matur er fyrir öllu (orðatiltæki)  Fæðan er mikilvægari en flest annað í lífi manns.

Matur er mannsins megin (orðatiltæki)  Megin þýðir afl/kraftur, og í því ljósi er spekin auðskilin.

Matur og músin steikt (orðtak)  Sjá þetta er nú matur og músin steikt!

Matvandur (l)  Kenjóttur/kræsinn á mat; borðar ekki hvað sem er af mat.

Matvendni (n, kvk)  Það að vera matvandur.  „Þú verður að venja þig af þessari matvendni drengur“!

Matvinnungur (n, kk)  Sá sem vinnur fyrir fæði sínu. 

Matvæli (n, hk, fto)  Hvaðeina matarkyns, og það sem til matar heyrir/þarf.  Vafist hefur fyrir málfræðingum að skýra seinni lið orðsins, enda á hann ekki samsvörun í skyldum málum.  Hugsanlega er „v“ tilkomið síðar sem framburðarhagræði, og „matæli“ gæti þá þýtt matur til að ala; matur til eldis.

Mauk (n, hk)  Marningur; það sem kramið hefur verið í þykka stöppu.  „Bláberin stöppuðum við í mauk og bættum dálitlum sykri útí“.

Maukfúinn (l)  Fúinn svo orðinn er að mauki.  „Hornstaurinn var maukfúinn neðantil“.

Mauksoðinn (l)  Soðinn í mauk/kássu.  „Rauðmaginn er fljótur að verða mauksoðinn“.

Maula (s)  Japla á; snarla; narta í; tyggja hægt.  „Það er ágætt að hafa harðfiskstrengsli í nesti til að maula á leiðinni“.

Maurapúki (n, kk)  Aurasál; nirfill; nurlari.  „Karlinn var mesti maurapúki, enda sagður vellríkur“.

Maurasýra (n, kvk)  Karboxylsýra með efnaformúluna HCOOH.  Nafnið er komið af því að maurar og önnur skordýr nota sýruna sér til varnar, en einnig er sýruna að finna í plöntum s.s. brenninetlu.  Maurasýra er notuð til að bæta verkun votheys.  Óþynntri sýru er blandað varlega útí vatn; ca 1:20 ef heyið er grasþurrt, og blöndunni úðað yfir heyið í gryfjunni úr fötu með götuðu loki.  Um tíma var vinsælt að nota kofasalt í stað maurasýru, en það er ekki eins ætandi ef það kemur á hörund eða steypu.

Maurasýrufata / Maurasýrubrúsi (n, kvk/kk)  Maurasýrufata var gjarnan um 20 l blikkfata undan smurolíu, sem götuð var á um þriðjungi loksins.  Hún var fyllt að mestu af vatni, og síðan var um 1 lítra af maurasýru hellt varlega útí og hrist saman.  Svo var blöndunni úðað yfir votheyið.  Föturnar voru fljótar að ´tast í sundur í sýrunni, og þurfti iðulega að endurnýja þær.  Óþynnt maurasýran var keypt í ca 30 lítra maurasýrubrúsum úr plasti.

Maurildi (n, hk)  Lýsandi svif/örverur í sjónum.  Maurildi sést gjarnan í kjalsogi báts, einkum í skuggsýnu eða myrkri.  Einnig getur veri svo mikið af þessari átu í fiski að innvols hans lýsi það sem það snerir þegar slægt er.  „Ef maurildi sést mikið í sjó, boðar sunnanátt og þeyvind; oftast hvassan“  “ (BH; Grasnytjar).

Maus (n, hk)  Vesen; stímabrak; fyrirhöfn.  „Það er óttalegt maus að hreinsa þennan skít úr netunum“.

Mausa við (orðtak)  Brasa/basla við; bauka; dedúa.  „Hann er enn að mausa við vélina“.

Má af (orðtak)  Þiðna, þannig að jörð komi undan klaka.  Töluvert notað í Kollsvík um áhrif þýðviðris.  „Snjór er farinn að mást verulega af“; „Það máir fljótt af í sunnangolu og sólskini“.  Oftast um klaka en einnig snjó.

Má bóka það (orðtak)  Er öruggt; má ganga út frá því sem vísu.  „Ef ekki er gert við girðinguna má bóka það að hér verður krökkt af fé á túnum á morgun“.  „Nú er einhver að hlera á línunni; það má sko bóka það“.

Má drepa mann með (orðtak)  Um það sem er hart en á að vera lint; oftast notað um hart brauð.  „Fjandi er brauðið orðin hart undir tönn; það má drepa mann með því“!

Má eiga það (orðtak) Verður að segjast eins og er.  „Samviskusamari maður er vandfundinn; hann má eiga það“.

Má einu gilda / Gildir einu (orðtök)  Skiptir ekki máli hvort/hvert er; sama á hvern/hvorn veg fer.  „Það má einu gilda hvort þetta verður í dag eða á morgun“.  „Mig gildir einu hvort hrútlambið ég fæ“.

Má ekki af líta/sjá (orðtak)  Um hrifningu; ástúð; væntumþykju.  „Þau eru mjög samrýmd og mega helst ekki líta hvort af öðru“.  „Bókin er í miklu uppáhaldi hjá honum og hann má varla af henni sjá“.

Má ekki á/í milli sjá (orðtak)  Ekki hægt/ erfitt að greina mun.  „Það má ekki á milli sjá hvor þeirra er fljótari“.  „Sífellt harðna sviptingar/ sjá má vart í milli:/  Risinn neytir rammleiks þar;/ Rósi verst af snilli“ (JR; Rósarímur). 

Má ekki heyra nefnt (orðtak)  Tekur ekki í mál; vill ekki máls á ljá; finnst fráleitt.  „Hann má ekki heyra það nefnt að breyta útaf vananum í því efni“.

Má ekki minna vera (orðtak)  Væri slæmt ef það væri minna.  „Við getum sagt að við höfum orðið varir í dag, en ekki má það nú minna vera í einum róðri“.

Má ekki orðinu halla (orðtak)  Um viðkvæmni.  „Hann er svo hörundsár að það má bara ekki orðinu halla“.

Má ekki seinna vera (orðtak)  Á síðustu stundu; á tæpasta vaði.  „... og mátti ekki seinna vera að bjarga lífi hennar“  (Sturla Einarsson; um snjóflóðið í Kollsvík  3.des. 1857).

Má ekki til þess hugsa (orðtak)  Þoli illa að ímynda mér; finnst ekki koma til greina.  „Ég má ekki til þess hugsa að hann verði ráðherra; frekar kýs ég þá einhvern annan flokk“!

Má ekki vamm sitt vita (orðtak)  Er strangheiðarlegur; vill ekki flekka sitt orðspor.  „Össur naut fullkomins trausts af öllum sem hann þekktu, enda mátti hann ekki vamm sitt vita“.  Sjá vamm.

Má ekki/vart vatni halda yfir (einhverju) (orðtak)  Er mjög spenntur; gæti pissað á sig af eftirvæntingu.  „Þau mega vart vatni halda yfir þessari forsetaheimsókn“!

Má ekki við svo búið standa (orðtak)  Getur ekki verið óbreytt; þarfnast úrbóta.  „Ég sá strax að ekki mátti við svo búið standa, svo ég tók til minna ráða“.

Má fjandinn vita (orðtak)  Áherslusetning.  „Það má fjandinn vita hvað af þessum kindum hefur orðið“!  „Nú má fjandinn vita hvar ég hef týnt þessu“!

Má gott þykja ef (orðtak)  Væri betra en búast má við ef.  „Við náum ekki að hirða af allri sléttunni fyrir rigninguna; það má gott þykja ef við komum þessum vagni í hlöðu“.

Má heita (orðtak)  Er svo gott sem; er mjög nærri lagi; því sem næst.  „Sagði hann að nú mætti heita að skólahúsið væri fullbúið“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).  „Það skal hér tekið fram að á öllum bæjunum mega skepnur heita í ágætisstandi, eins og skýrslan ber með sér…“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1924).  

Má heyra saumnál detta (orðtak)  Líkingamál um algera kyrrð.  „Eftir þennan reiðilestur hljóðnaði allt, svo að mátti heyra saumnál detta“.

Má leiða af líkum (orðtak)  Má ætla/búast við af fyrirliggjandi ástæðum.   „Leiða má af líkum að Kollsvíkin væri enn fjölmennasti staður sunnanverðra Vestfjarða ef þar væru betri lendingarskilyrði“.

Má lítið útaf bera (orðtak)  Sjá bera útaf.

Má mikið vera (orðtak)  Sjá það má mikið vera.

Má missa sín (orðtak)  Um það sem má að skaðlausu hverfa/týnast.  „Ég held nú að þessi ríkisstjórn megi nú fara að missa sín; hún hefur ekki verið svo athafnasöm til þessa“!

Má muna sinn fífil fegri (orðtak)  Hefur áður verið glæsilegri.  „Ósköp er húsið nú orðið hrörlegt.  Það má muna sinn fífil fegri“.  Líkingin er dregin af því þegar litfagur fífill breytist í gráa biðukollu“.  „Man ég reyndar mína daga merkilegri;/ man ég og minn fífil fegri“ (JR; Rósarímur). 

Má nærri geta (orðtak)  Getur hver séð; auðvelt að sjá.  „Allan þvott þurfti að þvo á bretti; bera svo í körfu út í brunnhús og skola hann þar og vinda í höndum.  Má nærri geta að það var ekki lítið verk, á svo fjölmennu heimili“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Má spyrða þá saman (orðtak)  Um tvo menn sem þykja líkir í tilteknum efnum/atriðum.  „Alveg má spyrða þá saman félagana; báðir eru jafn ofstækisfullir í pólitík þó á sinnhvorn veginn sé“!

Má telja í honum rifin / hvert bein (orðtök)  Um horaðan mann/ horaða skepnu.  „Mér fannst skelfing að sjá strákgreyið; hann var svo horaður að það mátti telja í honum hvert bein“!

Má til sanns vegar færa (orðtak)  Getur verið rétt; má rökstyðja með góðu móti.  „Það er bara áfærni að Kollsvíkingar séu þverhausar, en hitt má til sanns vegar færa, að þeir geta verið stífir á meiningunni“.

Má trútt um tala (orðtak)  Getur talað af reynslu; getur trútt um talað.  „Hann má trútt um tala í þessum efnum; hann var jú upphafsmaðurinn að þessu“.

Má (vel) vera / Kann að vera (orðtak)  Kannski.  „Má vera að ég hafi sagt þetta; ég man það ekki“.  Stundum „Vel má vera...“.

Má/mætti þykja gott ef / Mér þætti gott/merkilegt ef / Þykir gott ef (orðtak)  Er vel sloppið ef; gæti verið verra; gæti farið verr.  „Það má þykja gott ef við náum þessum vagni þurrum í hlöðu áður en hann fer að rigna“.  „Mér þætti merkilegt ef við finndum baujuna í þessari þoku“!

Má öllum gera (orðtak)  Getur beinst gegn/ bitnað á hverjum sem er.  „Þetta má öllum gera; hann hefur ekki sagt mér rétt til um staðsetninguna“!

Máður (l)  Daufur; slitinn; núinn af.  „Stafirnir í skruddunni voru orðnir máðir, en samt læsilegir“.

Máfur (n, kk)  Mávur (sjá þar).  Rithátturinn er sitt á hvað, með f eða v, í Kollsvík eins og víðar. 

Mágur (n, kk)  Venslamaður manns; getur verið á tvo vegu:  Annarsvegar getur það verið eiginmaður systur eða bróðir eiginkonu.

Mái (n, kk)  Kúfur; meirihluti; það mesta; það sem máð hefur verið af.  „Heyið náðist ekki allt í hlöðu fyrir rigninguna, en ég held við höfum náð máanum af því“.

Mál (n, hk)  A.  Það sem talað er.  B.  Matmálstími; matur sem etinn er á matmálstíma.  „Maður getur orðið leiður á samskonar keti til lengdar, en saltvisk get ég étið í hvert mál“.  C.  Mjaltatími; mjaltir.  „Hún mjólkaði yfir 15 lítra að jafnaði í hvert mál; ég hef ekki átt mjólkurlagnari grip“.  D.  Drykkjarmál; ílát.  E.  Málefni; umræðuefni.  F.  Takmark.  „Nú er mál að linni“.  G.  Mælieining.  „Þessi fjöl stenst varla mál“.

Mál er að linni (orðatiltæki)  Nóg er komið; kominn er tími til að hætta.  Mál merkir þarna viðmið/tímamörk.

Mál manna (orðtak)  Það sem almælt er; almennt sagt.  „Það var mál manna fyrr á tíð, að að aldrei yrði jarðlaust; þ.e. tæki fyrir beit, fyrir útigöngufé á Þyrsklingahrygg“  (HÖ; Fjaran). 

Mál til komið (orðtak)  Orðið tímabært; kominn rétti tíminn til.  „Nú er mál til komið að leggja af stað“.

Mála dökkum litum / Mála skrattann á vegginn (orðtak)  Lýsa ástandinu verr en tilefni er til.  „Það er óþarfi að mála skrattann á vegginn áður en tilreynt er“.

Málaferli (n, hk, fto)  Dómsmál; ferli dómsmáls/kæru.

Málafylgjumaður (n, kk)  Sá sem berst ötullega fyrir málefni.  „... með öðrum orðum var hann málafylgjumaður mikill... “  (ÖG; Snæbj.J.Th; Árb.Barð 1980-90). 

Málaleitan (n, kvk)  Beiðni; málarekstur.  „Gekk sú málaleitan stundum erfiðlega fátækum manni, sem ekki hafði ættgöfgi að kynna sig með“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Málalengingar (n, kvk, fto)  Langar skýringar/setningar; langt mál.  „hann var ekkert með neinar málalengingar heldur tók nautkálfinn í fangið og henti honum upp á bílpallinn“.

Málalok (n, hk, fto)  Lyktir/niðurstaða mála.  „Vorum við hreyknir af þessum málalokum og þessari tekjuöflun okkar“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Málamaður (n, kk)  Sá sem kann mörg tungumál.  „Þeir bræður, Gunnar og Sigurvin Össurarsynir, voru báðir einstaklega miklir málamenn.  Báðir töluðu þeir auðvitað öll norðurlandamál, þýsku, frönsku og latnesk mál, en auk þess  var Gunnar vel fær í tékknesku, auk annarra mála, og Sigurvin gat talað bæði rússnesku og mandarín-kínversku“.

Málamiðlun (n, kvk)  Samningur um málalok þegar meiningarmunur er.  „Þetta var ágæt málamiðlun“.

Málamyndagerningur (n, kk)  Það sem gert er til að sýnast/ til málamynda.   

Málatilbúnaður (n, kk)  Reifun máls; tilefni og meðhöndlun máls.  „Þetta finnst mér furðulegur málatilbúnaður hjá honum; alveg að tilefnislausu“.

Málavafstur / Málaþras (n, hk)  Sýsl/vinna við mál/erindi/dómsmál; málarekstur. 

Málband (n, hk)  A.  Band til að mæla vegalengd, oftast með talnasettum kvarða.  B.  Lögbandsklyfjar; 4 vættir af heyi; um 160 kg.  Málbandsklyfjar átti að binda í reipi sem voru 3ja faðma löng frá hvorri högld.

Málbein (n, hk)  Tungubein; lítið bein við tungurturnar.  Þjóðtrúin uppáleggur ströng víti við meðferð á málbeinum úr sviðahausum, en ekki voru skilyrðin eins allsstaðar á landinu.  Í Kollvík var reglan sú að málbein varð að brjóta; annars gæti það valdið málhelti eða málleysi, einkum hjá ómálga börnum á heimilinu.  Helst átti einnig að setja það í veggjarholu til að flýta fyrir málþroska heimilisbarna.  Annarsstaðar virðist hafa verið bann við að brjóta málbein að viðlögðu sama víti.  Sameiginleg regla var þó að ekki má gefa hundi málbein, því þá fær hann málið og getur kallað bölvun yfir heimilisfólk.   Hinsvegar var sú trú eins í Kollsvík og annarsstaðar að varhugavert væri að brjóta fótlegg úr kind því þá geti önnur kind á bænum fótbrotnað.

Málblær (n, kk)  Hreimur í rödd manneskju. 

Máldagi (n, kk)  Skrá um eignir, tekjur og skipan hverrar kirkju.  Kirkjuhaldari þurfti að gera máldaga í samráði við biskup, til að auðvelda umsjón með eignum og kvöðum.  Máldagi var löghelgaður með þinglýsingu, og skylt að láta lesa hann upp árlega við messu.  Máldagar voru því ritaðir á íslensku, og eru sumir   meðal elstu ritaðra heimilda um málið.  Hinn elsti er Reykholtsmáldagi; eitt skinnblað með ýmsum rithöndum; sennilega frá 1185-1275.  Biskupar söfnuðu máldögum og nýttu sem sönnun fyrir eignarrétti kirkjuvaldsins.

Málefni (n, hk)  Innihald/tilefni máls.

Málfaðmur (n, kk) Forn lengdarmálseining; 7 fet; 3,5 alin; 1/5000 úr viku sjávar.

Málfar (n, hk)  Notkun tungumálsins.  Málfar getur verið gott eða slæmt, eftir því hve mjög menn leggja sig fram um skýra, rétta og víðtæka notkun þess og fylgja hefðum og lögmálum þess.

Málfiskur (n, kk)  Saltfiskur sem er lengri en  18 þumlungar (tommur) frá hnakka aftur á sporð (sjá saltfiskur).

Málfrelsi (n, hk)  Frelsi til að segja öðrum hvaðeina sem manni býr í brjósti, án þess að það sé hindrað af ráðandi öflum.

Málfriður (n, kk)  Friður/næði til að geta tjáð sig.  Ræðumaður á samkomu þarf t.d. málfrið, og einnig þeir sem ræðast við.  „Hættið nú þessum bévítans hávaða strákar; það er varla málfriður hér inni“!

Málfræði (n, kvk)  Reglur málsins, t.d. varðandi beygingar orða, greini, uppbyggingu setninga, framburð o.fl.

Málfundur (n, kk)  Fundur; samtal.  „Svo var á þessum málfundum pólitíkin krufin til mergjar, bæði á landsvísu sem innanhéraðs“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Málfæri (n, hk)  A.  Notkun málsins.  Notkun orða er oftast nefnd orðfæri.  B.  Líkamshluti sem notaður er til málmyndunar, t.d. raddbönd, tunga, varir, tennur og munnhol.

Málga (s)  Nefna; ámálga; tala um.  „Hefurðu nokkuð málgað þetta við hann sjálfan“?  Oftar var þó notað ámalga í þessu samhengi.

Málgefinn / Málglaður (l)  Tölugur; málugur; með þörf fyrir að tala.  „Mér þykir þú dálítið málgefinn, vinur“.

Málhaltur (l)  Sem hefur málgalla, t.d. stamar eða er gormæltur; sá sem á erfitt með að koma meiningu sinni í mælt mál, og rekur t.d. oft í vörðurnar.  „Það er dálítið erfitt að skilja hann, eins málhaltur og hann er“.

Málhelti (n, kvk)  Málgalli; vandamál við að tjá sig munnlega.  „Málheltin virðist alveg hafa elst af honum“.

Málhreifur (l)  Skrafhreifur; mikið fyrir að tala; tungulipur.  „Hann var málhreifur í besta lagi“.

Málhreimur (n, kk)  Tónn í rödd manneskju.  „Ég heyrði á málhreimnum að hún var ekki íslensk að uppruna“.

Málhress (l)  Nógu hress til að tala; málgefinn.  „Hann virðist vera vel málhress þessa stundina“.

Málhvíld (n, kvk)  Hvíld milli setninga í töluðu máli.  „Mér nefndi þetta þegar hann tók sér málhvíld“.

Máli (n, kk)  A.  Laun hermanns.  B.  Í fornu máli; samningur.

Málið er þannig vaxið (orðtak)  Málum er þannig háttað; þannig liggur í málunum.

Málkennd / Máltilfinning (n, kvk)  Tilfinning fyrir réttri notkun orða og máls.  „… íslenskan sem töluð er heimafyrir seytlar inn í málkennd barnanna“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Málkunnugur (l)  Kunnugur í gegnum samræður.  „Við vorum málkunnugir, en ég þekkti hann ekki náið“.

Mállaus (l)  A.  Orðlaus; getur ekki talað.  „Ég var í fyrstu mállaus af undrun“.  B.  Sem talar ekki tiltekið tungumál.  „Það er erfitt að vera lengi mállaus í þessu landi“.

Málleysingi (n, kk)  A.  Sá sem er mállaus.  B.  Dýr.  „Hún var jafn góð við menn og málleysingja“.

Mállýska (n, kvk)  Einkenni máls.  Oftast notað til að lýsa staðbundnu afbrigði tiltekins tungumáls.  Þó ýmis staðbundin einkenni íslenskunnar hafi þróast í Kollsvík og nágrenni, er varla unnt að nefna það mállýsku, en þó er það skilgreiningaratriði.

Mállýtanefnd (n, kvk)  Nefnd sem fjallar um/ bætir slæmt málfar.  „Dvergur hefur veitt mikla leikni og æfingu í að rita.  Mállýtanefnd hefur starfað flesta veturnar“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Málmgrýti (n, hk)  Berg með háu innihaldi málms.  Málmgrýti finnst í Kollsvík.  Annarsvegar er töluvert um járnauðug innskot í berggöngum, eins og t.d. má sjá í Strengbergsgjá og hjá Bekk á Straumskeri.  Hinsvegar hefur t.d. magnetít með háu járninnihaldi fundist meðal flökkusteina á fjörum; sem borist hefur með borgarís frá Grænlandi.

Málningarkústur (n, kk)  Málningarpensill, einkum notað um stóran pensil.

Málnyta (n, kvk) A.   Búfé (kindur eða kýr) sem nytjað er til daglegra mjalta.  Stundum var orðið þó eingöngu notað um kvíær.  B.  Samanlögð mjólk búpenings á tilteknum bæ.

Málpípa (n, kvk)  Talsmaður; sá sem lætur aðra stjórna orðum sínum.  „Þessi blaðsnepill er ekkert orðinn nema málpípa kvótakónga og braskara“!

Málreifur (l)  Skrafhreyfinn; málglaður.  „Hann var orðinn málreifur eftir fyrsta glasið“.

Málrómur (n, kk)  Rödd; raust; tal.  „Ég þurfti að hækka málróminn til að hann heyrði í mér“.

Málsatvik / Málsástæður (n, hk/kvk, fto)  Hvert atriði í atviki/uppákomu/gerningi, ásamt tildrögum.  „Ég kann ekki að lýsa málsatvikum svo gjörla“.

Málsbætur (n, kvk)  Það af málsatvikum/málsástæðum sem eru aðila máls til framdráttar.  „Það má alveg virða honum þetta til málsbóta, þó ekki sé hann laus allra saka“.

Málsgrein (n, kvk)  A.  Heilstæð setning í töluðu eða rituðu máli.  Getur jafnvel átt við margar setningar í heilstæðri klausu/frásögn.  B.  Nútíma skilgreining er sú að málsgrein merki það sem er á milli vel afmarkaðra greinarskila í rituðu máli.

Málsháttur (n, kk)  Speki; orðatiltæki; stöðluð setning/málsgrein sem gengur lengi manna í milli, jafnvel um þúsundir ára, og menn grípa til í ákveðnum tilvikum/aðstæðum.  Málsháttur er jafnan með kjarnyrtur og með meitluðu orðfæri; ein setning sem gjarnan er stuðluð svo hún verði áheyrilegri og eftirminnilegri.  Hann hefur oftast að geyma vísdóm sem grípur vel yfir tilefnið; stundum líkingu við allt aðrar aðstæður en þær sem uppi eru.  Til dæmis má nefna hinn ævagamla málshátt; „oft er í holti heyrandi nær“, sem enn er gripið til.  Holt er fornt orð yfir skóg, og spekin er sú að menn skyldu gæta orða sinna í skóginum, þar sem einhver nærstaddur gæti heyrt þau.  Sama á við um þunna veggi herbergja, eða hlerunartækni nútímans.

Málshefjandi (n, kk)  Sá sem hefur máls á einhverju/ tekur til máls um tiltekið málefni, t.d. á fundi.  „Samgöngumál.  Málshefjandi var Bragi Ó Thoroddsen“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Málshöfðun (n, kvk)  Kæra eða annar lagalegur málatilbúnaður á hendur manni fyrir ákveðnar sakir.

Málskrúð (n, hk)  Skrúðmælgi; málalengingar.  „Það er óþarfi að hafa neitt málskrúð í kringum þetta“.

Málsnilld (n, kvk)  Mikil leikni í notkun máls; orðsnilld; orðheppni.  „Sjaldan hef ég heyrt aðra eins málsnilld“.

Málsnillingur (n, kk)  Maður sem hefur tungumál vel á valdi sínu; býr yfir miklum orðaforða og segir mál sitt á mjög skipulegan hátt; í stuttu og meitluð máli þegar það á við, eða orðskrúði þegar það á við; einatt með réttum málreglum og beygingum.  Nokkuð var enn um slíka málsnillinga í Rauðasandshreppi á síðari hluta 20.aldar.  Að öðrum ólöstuðum má nefna Guðbjart á Láganúpi; syni hans Össur og Ingvar; Diddu á Láganúpi; Júlla í Tungu; Óla á Gili; Geira og Þórð á Látrum; Jónsa á Hnjóti; Snæbjörn í Kvígindisdal; Ívar í Kirkjuhvammi; Ívar á Melanesi og Kitta í Botni; en þeir voru þó mun fleiri.

Málsóði (n, kk)  Maður sem hefur slæmt vald á tungumálinu og/eða nennir ekki að vanda mál sitt.  Andstæða málsnillings.  Málsóðar hafa þekkst allsstaðar og á öllum tímum, en þeim fer hratt fjölgandi eftir því sem íslenskukennslu hrakar í skólum; uppeldi barna hrakar; tölvunotkun sækir á og áhrif erlendra mála aukast, t.d. í gegnum sjónvarp og kvikmyndir.  Mjög hefur sótt á verri veginn eftir að útvarpsstöðvar hættu að leggja áherslu á rétta málnotkun og fóru að hleypa málsóðum á öllum aldri inn í útsendingar sínar.

Málstaður (n, kk)  Afstaða til tiltekins máls; staða málsaðila í máli.  „Hún tók gjarnan málstað þeirra sem minna máttu sín“.  Mér finnst ég hafa góðan málstað að verja í þessu efni“.

Málstola (l)  Orðlaus; á ekki til orð; kjaftstopp.  „Ég varð gjörsamlega málstola við þessar fréttir“.

Málsvari (n, kk)  Varnarmaður; sá sem ver tiltekinn málstað eða talar fyrir tilteknu málefni.

Máltak / Máltæki (n, hk)  Orðatiltæki; málvenja; málsháttur.  „Þessi orð voru síðan höfð að máltaki í sveitinni“.

Máltíð / Málsverður (n, kk)  Matur sem snæddur er.  Oftast er þá átt við helsta snæðing hvers dags, en oft eru helstu máltiðir tvær á hverjum degi; hádegisverður/hádegismatur og kvöldverður/kvöldmatur.  „Að loknum málsverði er lagst til svefns en vaknað tímanlega að morgni og tekið til starfa“  (PG; Veðmálið). 

Málugur (l)  Málgefinn; kjaftagleiður.  „Ansi getur hann verið málugur pilturinn; hann bara þagnar ekki“!

Málum blandið (orðtak) Um málefni; liggur ekki ljóst fyrir; flóknara en strax sýnist; grunsamlegt.  „Mér fannst þetta eitthvað málum blandið, eins og það var lagt upp fyrir mér“.

Málungi matar (orðtak)  Matur í mál; máltíð.  „Hann átti ekki málungi matar, og ekkert framundan nema vergangur... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Málvenja (n, kvk)  Venja í notkun máls, oft óskráð og mynduð af þörf/máltilfinningu.  „Það er málvenja í Kollsvík að þeir sem eru sunnantil í víkinni eru „fyrir handan“, séð norðanfrá, og bæirnir sunnantil nefnast handanbæir.  Sömuleiðis er málvenja að segja „norðari“ en ekki „nyrðri“; sbr nafnið Norðariklettar“.

Málverk (n, hk)  Listaverk sem málað er á flöt.  Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi málaði mörg málverk; flest þeirra á steinhellur, en einnig mörg á pappír og striga.

Málvilla (n, kvk)  Rangt skrifað/sagt orð eða orðasamband; röng málnotkun.  „Skelfilega er leiðinlegt að sjá svona málvillur í opinberum skjölum“!

Málþóf (n, hk)  Þræta; orðaskak/andmæli í þeim tilgangi að tefja umræður eða niðurstöðu þeirra, þó málið sé tapað þeim sem málþófið stundar.  „Þetta er bara tilgangslaust málþóf; nú ertu alveg rökþrota“!

Málæði (n, hk)  Mas; kjaftæði; bull; mikið og innihaldslaust tal.  „Við skulum bara sleppa öllu málæði í kringum þetta og viðurkenna staðreyndirnar eins og þær eru“!

Mánaðartími (n, kk)  Mánaðarlangur tími; einn mánuður.  „Vegurinn var lokaður um mánaðartíma“.

Máni (n, kk)  Tungl.  Oftar var talað um tungl en mána í daglegu tali; máni var fremur notað í ljóðum.

Mánuður (n, kk)  Tímabil sem varir 28-31 daga, eftir því hvaða mánuð er um að ræða.  Kennt við tunglið/mánann, sem er um 28 daga að ganga kringum jörðina.  Má ætla að upphaflega hafi mánuður í tímatali verið sami og tunglmánuður, en lagfæringar þurfti að gera til að samræma fjölda tunglmánaða einu ári, sem svarar tímanum sem það tekur jörðina að ganga kringum sólu.

Mánudagur til mæðu (orðtak)  Þjóðtrúin segir að mánudagurinn sé varasamur, því þá megi búast við að ýmislegt fari úrskeiðis.  Enginn byrjaði verk á mánudegi að þarflausu, s.s. slátt eða búferlaflutninga.

Máríátla (n, kvk)  Maríuerla (sjá þar).

Más (n, hk)  Hávær andardráttur; andköf; blástur.  „Mér heyrist á másinu að karlinn sé að komast uppá brúnina“.

Mása og blása/hvása / Másandi og blásandi/hvásandi (orðtök)  Mæðast mjög; mjög móður.  „Upp á brúnina komst hann; másandi og blásandi“.  Blása var mun oftar notað.

Máske (ao)  Kannski, ef til vill.  „Máske hef ég einhvertíma sagt þetta“.

Mát (n, hk)  A.  Mót; kvarði; snið; það sem mátað/mælt er með, s.s. mátklossi og skíðmát.  B.  Í skák; endatafl á þann veg að kóngur getur ekki vikið sér undan atlögu/skák andstæðingsins.

Máta (s)  A.  Bera við; mæla.  „Viltu ekki máta peysuna og vita hvort hún passar“.  B.  Ljúka tafli/skák með því að gera andstæðinginn mát.

Máti (n, kk)  A.  Aðferð; háttur.  „Mér finnst best að gera þetta upp á gamla mátann“.  B.  Hóf; hófsemi.  „Þetta er fram úr öllum máta“.  C.  Kunningi; vinur.  „Þeir eru orðnir mestu mátar“.

Máttarstólpi (n, kvk)  Uppistaða; burðarstoð.  Oftast notað í óeiginlegri merkingu um mikilvæga menn.  „Fullyrða má að Össur á Láganúpi hafi verið máttarstólpi Rauðasandshrepps á margan hátt.  Eftir að hans naut ekki lengur við hófst strax hnignun sem endaði með nær algjöru byggðahruni.  Þar vor að verki ýmsar ytri aðstæður, en einnig forystuleysi innanhrepps eftir að hann  missti sína starfskrafta“ (VÖ).

Máttarviður (n, kk)  Burðarviður í húsi eða öðru mannvirki.

Máttfarinn (l)  Máttlaus; veiklulegur.  „Skipbrotsmenn voru orðnir máttfarnir af hungri og þreytu“.

Máttlaus (l)  Kraftlaus; skortir afl/þrek.  „Ég er nú ekki svo máttlaus að ég lyfti ekki steinvölunni“!

Máttleysi (n, hk)  Magnleysi; linka; linja; slen.  „Ennþá er eitthvað máttleysi í lambkettlingnum“.

Máttlítill / Máttvana (l)  Máttlaus; veikburða.  „Átti Guðrún að hafa sagt við mann sinn að „skammarnær hefði honum verið að láta Gunnar aldrei í burtu, en að taka við honum horuðum og máttvana“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Máttugur (l)  Sterkur; öflugur; kraftmikill; valdamikill. 

Mátulega (ao)  Hæfilega.  „Ég er svona mátulega trúaður á þessi kosningaloforð þeirra“.

Mátulegt (l)  A.  Hæfilegt.  „Ég held að þessi jakki sé alveg mátulegur“.  B.  Hæfileg ráðning/refsing; maklegt.  „Það væri honum alveg mátulegt að detta nú í sjóinn, fyrir þessa hrekki sína“!

Mávabyggð / Mávavarp (n, kvk/hk)  Svæði þar sem mikið verpur af máv.  (Ritháttur mávs er ýmist með f eða v, og telst hvorttveggja jafn rétt). 

Mávabyrgi (n, hk)  Skotbyrgi þar sem mávur var skotinn á fluginu.  „Mávabyrgi er á Grundabökkunum, þar sem Garðarnir enda.  Þar var legið fyrir mávi í hæfilegum vindi.  Einkum var skotinn ungfugl til matar“.

Mávager / Mávahópur (n, hk)  Hópur af mávum.  „Mávager á sjó þarf ekki að vera vísbending um fisk í æti; mávurinn getur allt eins verið þar í hræi.  Öðru máli gegnir um ger af svartfugli; það er einhlítt merki um sílferð“.  „Mér sýnist að þarna sé mávahópur að koma yfir Garðsendann; vonandi gefa þeir færi“.

Mávaket / Mávsket (n, hk)  Ket af máv.  Mávur var mikið skotinn á fluginu í Kollsvík á 20.öld, einkum ungfugl, og hafður til matar.  Mikið af honum var snætt nýtt, en annað saltað í tunnur.  Voru þá bringur og læri skilin að, og kranginn saltaður einnig.  Fyrrum var mávurinn plokkaður og bumburinn látinn fylgja ketinu, en í seinni tíð var fuglinn fleginn.  Mávaket er herramannsmatur, og alls ekki síðra en gæsaket eða kjúklingur.  Það fékk óorð á sig þegar salmonella tók að finnast í borgarmávi, sem lifði í klóaki og opnum ruslahaugum, en vestra lifði fuglinn á heilnæmara fæði og varð engum meint af neyslu hans.  Mávurinn var jafnan soðinn, og oftast búin til af honum mávasúpa, sem er sælkeraréttur. 

Mávaskita (n, kvk)  Neikvætt orð yfir löngun til að skjóta máv á fluginu, en sumir töldu það mestu tímaeyðslu meðan aðrir réðu sér vart í góðum mávastormi.  „Ansans ekkisen mávaskitan á ykkur alla tíð!  Búiði ykkur nú almennilega; það er skítkalt að norpa þarna í Byrginu í þessum norðangarra“!

Mávaskot (n, hk)  Haglaskot sem hentar til að skjóta máv.  Menn deildu um það hvaða tegundir væru bestar og áreiðanlegastar, og komu þar tegundirnar Seller & Bellot og Ely Alphamax m.a. til álita.  Hentugasta haglastærðin var álitin 4, af enskri mælieiningu.  Á síðari tímum fóru menn að nota magnumskot, en með þeim náðist fuglinn á lengra færi.  Hlaupvídd á byssum var yfirleitt 12, en Össur á Láganúpi átti byssu með hlaupvídd 16, sem gafst vel við mávaskytterí.  Eftir langan dag á mávaskytteríi lágu oft hrannir af tómum skotum eftir í Byrginu á Grundabökkum.  Haglaskot og riffilskot voru meðal fjölmörgra vörutegunda sem oftast voru á boðstólum í kaupfélagi Sláturfélagsins Örlygs á Gjögrum.

Mávaskytta (n, kvk)  Sá sem skýtur máv.  „Þarna koma klyfjaðar mávaskyttur“.

Mávaskytterí (n, hk)  Sú iðja að skjóta máv á fluginu.  „Einar og Páll í Borgarnesi komu vestur í Kollsvík flest haust, og þótti þá fátt eftirsóknarerðara en sitja niðrivið Garða á mávaskytteríi í góðum mávastormi“.

Mávastormur (n, kk)  Notað yfir vind af þeirri átt og vindstyrk þegar heppilegt er að „skjóta á fluginu“, þ.e. liggja í Byrginu við Garðana og skjóta máf sem flýgur þá lágt í norðanvindinum. 

Mávasúpa / Fuglasúpa (n, kvk)  Súpa sem soðin er af máv/mávsunga.  Í hana var yfirleitt sett það sama og í ketsúpu.  Ef fuglinn var bráðfeitur vildi oft safnast smolt á yfirborðið.  Hjörtu fuglsins voru soðin með, ekki síður en læri, bringa og krangi.

Mávsegg (n, hk)  Egg svartbaks/hvítmávs.  „Mávsegg eru mjög góð til átu; ekki ósvipuð hænueggjum á bragð og áferð, en bragðsterkari og mun matarmeiri.  Þau voru oft tekin með múkkaeggjum, og á svipuðum stöðum“.

Mávsvængur (n, kk)  Vængur af máv.  Mávsvængir voru mikilvægir í tvennu tilliti.  Annarsvegar voru á tímabili greidd verðlaun úr hreppsjóði fyrir fækkun vargfugls og var þá vængurinn sönnun fyrir því.  Hinsvegar voru mávsvængir notaðir til að veifa, en svo var það nefnt þegar útspenntu vængjapari var blakað af manni í skotbyrgi, líkt og þar væri mávur á lágflugi.  Með þessu voru ungmávar lokkaðir í skotfæri.  Það tókst iðulega ef ekki voru gamalmávar með í för, en þeir sáu í gegnum brelluna og reyndu að lokka þá yngri frá byrginu.  Krakkar og unglingar voru stundum hafðir með til að veifa þegar skotið var á fluginu.  Eftir að fyrsti fugl hafði verið skotinn var hann fremur hafður til að veifa með.  Þeir sem síðar voru skotnir voru settir framanvið byrgið og á Garðana, líkt og þar væri mávahópur í lágflugi.

Mávur (n, kk)  Ætt sjófugla.  Bæði vargfugl og nytjafugl í Kollsvík.  Algengustu mávategundir þar og í nágrenni eru hvítmávur og svartbakur (sjá þar).   Ritað ýmist með f eða v, og líklega hvorttveggja jafn rétt.

Medalía (n, kvk)  Myntpeningurt; orða.  Oftast notað um heiðurspening eða -orðu.  „Hann ætti skilið að fá medalíu fyrir sína frammistöðu“.

Með (ao)  Hjá; við.  „Upp, upp mín sál og allt mitt geð; / upp mitt hjarta og rómur með“  (HP; Pass.sálmar).  „Saltfiskur finnst mér bestur, og kartöflur og flot með“.

Með (fs)  Orðið „með“ verður forsetning þegar það stýrir falli orðsins sem það fylgir, annars er það atviksorð.  „Með haustinu verður veður rysjóttara“.

Með afbrigðum (orðtak)  Einstaklega; framúrskarandi.  „Kristín Pétursdóttir var framfarasinnuð með afbrigðum og tilbúin að prófa alla hluti“  (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).  „Guðbjartur hresstist vonum fyrr.  Var hann þrekmaður með afbrigðum“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).   „Þessi vetur var með afbrigðum góður, svo elstu menn muna vart annan þvílíkan“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929). 

Með afburðum (orðtak)  Afburða; svo af ber; einstaklega; frábærlega.  „Af vel fóðruðu sauðfé með afburðum má nefna á báðum bæjum á Lambavatni, því fé er þar grannt að hausti til; enda eru þarna alltaf vel verkuð hey“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932).   

Með annan fótinn í gröfinni (orðtak)  Nærri dauðanum; hálfdauður.  „Hann sagði að einhverntíma hefði hann tekið svona menn á hné sér og flengt þá, en hann gerði lítið í því núna; með annan fótinn í gröfinni“.

Með á nótunum (orðtak)  Skilur vel; með góðan skilning á; fylgist vel með.  „Ég er ekki vel með á nótunum hvað þetta mál varðar“.

Með (…yrði) á vör(um) (orðtak)  Segjandi; viðhafandi.  „Hann fleygði frá sér hamrinum með blótsyrði á vör og sagðist ekki geta notað svona handónýt verkfæri“.  „Hann var einatt með gamanyrði á vörum“.

Með (eitthvað) á samviskunni (orðtak)  Vitandi um verknað sem hvílir þungt á siðgæðisvitund; bera ábyrgð á.

Með ágætum (orðtak)  Mjög vel; með eindæmum.  „Hann skilaði því verki með miklum ágætum“.

Með barn á brjósti (orðtak)  Með brjóstmylking/kornabarn í sinni umsjá.  „Konur létu ekki sitt eftir liggja við heyskapinn; jafnvel þó þær væru komnar á steypirinn eða hefðu barn á brjósti“.

Með barni (orðtak)  Um konu; þunguð; barnshafandi.  Sjá ganga með (barn).

Með bein í nefinu (orðtak)  Ákveðinn; harður; með myndugleika.  „Nú vantar bara einhvern með bein í nefinu til að taka þessa kóna ærlega í gegn“!  Vísar líklega til þess að þeir sem hafa kónganef séu harðari í horn að taka en aðrir.  Sjá hafa bein í nefinu.

Með berum augum (orðtak)  Án gleraugna eða kíkis.  „Ég sé kindurnar í Blakknum með berum augum“.

Með betra/verra móti (orðtök)  Skárri; verri.  „Aflabrögð hafa verið með betra móti það sem af er þessum mánuði“.  „Fjárans hóstinn er með verra móti í dag“.

Með braki og brestum (orðtak)  Með miklum hávaða/fyrirgangi.  „Hjallurinn hrundi með braki og brestum þegar hann sló stoðina undan“.

Með bros á vör (orðtak)  Brosandi; í góðu skapi; hlæjandi.  Sjá stökkva ekki bros á vör.

Með böggum hildar (orðtak)  Mjög uggandi/kvíðinn/áhyggjufullur.  „Ég er nú dálítið með böggum hildar yfir því að vita af þeim uppi á Hálsi í svona veðri“.  Uppruni óviss en líklega vísar orðtakið til þess að hafa áhyggjur af úrslitum orrustu.  Hildur er annað heiti á orrustu.

Með eina görn eins og hrafninn (orðtak)  Um þann sem étur mikið án þess að bæta a sig holdum.  Þjóðtrúin segir að hrafninn geti étið endalaust, fái hann færi á því, en að hann fitni ekki vegna þess að hann hafi aðeins eina görn og engan maga. 

Með eindæmum (orðtak)  Einstakt; fordæmalaust.  „Þessi veðurblíða er bara aldeilis með eindæmum“.

Með endemum/Með ólíkindum (orðtak)  Einstakt; ótrúlegt.  Bæði orðtökin voru notuð í svipuðum tilfellum, en þó það fyrrnefnda fremur í neikvæðum....  „Draslarahátturinn á bænum þótti með endemum“.  ....en það síðara fremur í jákvæðum tilfellum:  „Það þykir með ólíkindum að hann hafi sloppið ómeiddur frá hrapinu“.

Með engu móti (orðtak)  Á engan hátt; allst ekki.  „Ég get með engu móti skilið hvernig hann fór að þessu“.

Með fettum og brettum (orðtak)  Með því að geifla andlitið; með táknmáli.  „Hættu nú að stríða honum með þessum fettum og brettum.  Þú ert nógu ófrýnilegur fyrir því“!

Með (eitthvað) fyrir augum (orðtak)  Með eitthvað í huga; í einhverjum tilgangi.  „Ég smíðaði réttina með það fyrir augum að auðvelt yrði að setja sláturfé á bíl“.

Með fyrra fallinu (orðtak)  Fremur fyrr en seinna; nokkuð snemma.  „Ferðin tekur töluverðan tíma, svo við ættum að leggja af stað með fyrra fallinu“.

Með glöðu geði (orðtak)  Með ánægju.  „Þetta skal ég með glöðu geði gera“.

Með góðri lyst (orðtak)  Af áfergju; hafa góða lyst á.  „Það var haft eftir Gumma að ..sér hefði verið sérstök unun að því að sjá bróður sinn sporðrenna með góðri lyst bita af lambsskrokknum…“  (PG; Veðmálið). 

Með grátstafinn í kverkunum (orðtak)  Með ekka í röddinni; erfitt um mál vegna geðshræringar.

Með hangandi hendi (orðtak)  Um vinnulag; slælega; af skyldurækni en ekki áhuga.  „Þú getur alveg eins látið þetta ógert eins og að vinna það með hangandi hendi“.

Með harðri hendi (orðtak)  Með miklum aga; með hörku.  „Ég rak hann með harðri hendi aftur af stað“.

Með harmkvælum/hörmungum (orðtak)  Við illan leik; með sársauka.  „Með harmkvælum tókst mér að losa hendina“. „Tókst með hörmungum að koma í veg fyrir stórslys“.

Með haus og hala (orðtak)  Með húð og hári; algerlega.  „Þessir þingmenn koma hér blaðskellandi rétt fyrir kosningar og buna útúr sér loforðunum.  Þess á milli hverfa þeir gjörsamlega; með haus og hala“!

Með hausinn ofaní bringu (orðtak)  Niðurlútur; lúpulegur; með hangandi haus.  „Hann tók þessum skömmum þegjandi og með hausinn ofaní bringu; gekk síðan út og skellti hurðum“.

Með hálfum huga (orðtak)  Hikandi; óframfærinn; feiminn; dálítið smeykur.  „Með hálfum huga fetaði ég mig eftir þræðingnum og gætti vel að hand- og fótfestum“.

Með hávaða og látum (orðtak)  Með óskapagangi; með ærslum og látum; með fyrirgangi.  „Það þýðir ekkert að reka kýrnar með svona hávaða og látum; þær fara ekkert hraðar fyrir því, heldur missa bara nytina“!

Með hendur/höndur í skauti (orðtak)  Aðgerðalaus.  Sjá sitja með hendur/höndur í skauti.

Með hendur/höndur í vösum (orðtak)  Það þykir ekki lýsa röskleika eða vinnufýri að hafa höndur í vösum.  „Þú smalar lítið með höndurnar í vösunum; sýndu nú einhverja röggsemi drengur“!

Með hjartað á réttum stað (orðtak)  Skilningsríkur; miskunnsamur; hjálpsamur; nærgætinn.  „Mikilvægt er að nágrannar séu með hjartað á réttum stað þegar svona áföll dynja yfir“.  Líking sem vísar til þess að fyrrum var sál og hugsun talin búa í hjartanu.  Þeir sem voru harðbrjósta hlutu að hafa hjartað öfugu megin.

Með hjartað í buxunum (orðtak)  Skíthræddur; lafhræddur.  „Strákurinn kom hlaupandi inn með hjartað i buxunum, og sagði að það væri draugur í hlöðunni“. 

Með hreina samvisku (orðtak)  Veit ekki uppá sig slæman verknað/ óheiðarleika.  Sjá með á samviskunni.

Með hundshaus (orðtak)  Fúll; önugur; óánægður.  „Það þýðir ekkert að vera með hundshaus yfir þessu“.

Með hávaxnari/hærri mönnum (orðtak)  Hávaxinn í samanburði við aðra.  „Liði var með hærri mönnum á vöxt og þrekinn…“  (PG; Veðmálið). 

Með höppum og glöppum (orðtak)  Einstaka sinnum og óreglulega.  „Það hafa komið þurrkdagar inn á milli; svona með höppum og glöppum“.

Með hörku og harðfengi (orðtak)  Með þrautseigju/úthaldi.  „Með hörku og harðfengi héngum við á þessu fram á snúninginn, en það var eiginlega engin aðvera í þessum skítaveltingi“.

Með hörmungum/harmkvælum (orðtök)  Með naumindum; rétt svo.  „Tréð var asskoti þungt á höndum, en okkur tókst með hörmungum að manúrera því uppfyrir flæðarmál“.

Með illu skal illt uppræta / Með illu skal illt út drífa/reka (orðatiltæki)  Vísar til þess að oft þarf að beita óvægnum/sársaukafullum aðferðum til að eyða/leysa vandamál/ lækna kvilla o.fl.

Með í maganum/vömbinni yfir/vegna (orðtak)  Uggandi/kvíðinn vegna.  „Nú er hann með í vömbinni yfir því hvort hann heldur áfram hæstu meðalvigtinni“.  „Ég er dálítið með í maganum yfir þessu ferðalagi“.

Með krafta í kögglum (orðtak)  Sterkur; kröftugur.  „Sá hefur haft krafta í kögglum sem lyfti þessum steini“.

Með kurt og pí (orðtak)  Kurteilega; háttvíslega; með virktum.  „Ég kvaddi þau með kurt og pí of hélt heim“.

Með kyrrum kjörum (orðtak)  Í ró og friði; í rólegheitum.  „Ég leit inn í fjárhúsið; þar var allt með kyrrum kjörum og engin burðarleg“.  Kjör er heiti á besta sjóveðri; logni og sjóleysu.

Með köldu blóði (orðtak)  Með yfirvegun; tilfinningalaust; miskunnarlaust.  „Með þessari vegaáætlun virðast stjórnvöld ætla, með köldu blóði, að leggja svona sveitir í eyði“!

Með lambi/kálfi (orðtak)  Um kind/kú; lembd/kálffull; sem lamb/kálfur gengur undir.  „Ég held að Mósa sé geld þetta árið; ég sé engin merki þess að hún sé með lambi“.  „Þarna á Stígnum sá ég tvær kindur með lömbum“.

Með lausa skrúfu (orðtak)  Ekki heill á geðsmunum; klikkaður; ruglaður; skrýtinn.  „Sumir slógu því föstu að karlinn væri með lausa skrúfu, en ég held að hann hafi bara verið langt á undan sinni samtíð“.

Með léttum leik (orðtak)  Leikandi létt; auðveldlega; án alls erfiðis.  „Ég gat með léttum leik kastað þessari steinvölu af veginum, þó þeir hafi báðir gefist upp við það“.  Jafnan áhersla á miðorðið.

Með lífið í lúkunum (orðtak)  Mjög hræddur um; á nálum; uggandi.  „Hann var með lífið í lúkunum meðan ekið var út Fjörurnar“.  Ég er alltaf með lífið í lúkunum þegar þið eruð að andskotast þarna innanum glervöruna“.

Með lögum skal land byggja (en ólögum eyða) (orðatiltæki)  Málshátturinn er ævaforn, og honum bregður m.a. fyrir í Njálssögu.  Í lögbókinni Járnsíðu er þetta orðað svo: „Með lögum skal land byggja, en eigi með ólögum eyða“.  Í hinum eldri og norsku Frostaþinglögum segir:  „Að lögum skal land vort byggja en eigi að ólögum eyða“.  Fyrri hlutinn mun hafa verið í lögum að fornu víða um Norðurlönd.

Með meiru (orðtak)  Auk annars.  „Hann gegndi störfum oddvita og sýslunefndarmanns með meiru“.

Með meira/minna/mesta/minnsta móti (orðtak)  Fremur mikið/lítið miðað við það sem vant er; í meira/minna lagi. „Oft hefur hann rignt, en þetta er nú með meira móti“! „Aflinn var með minna móti í þessum róðri“.  „Skepnuhöld hafa verið góð, að undanskildu því að í haust og fyrri hluta vetrar gjörði bráðapest vart við sig með mesta móti“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Með mikilli/ærinni fyrirhöfn (orðtak)  Með miklu erfiði.  „... og stundum sloppið nauðuglega með því að fleygja aftur í Ægi nokkru af afla þeim er þeir með ærinni fyrirhöfn höfðu sótt í greipar hans“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Með minna móti (orðtak)  Minni en oftast endranær.  „Stafar þetta af því að að frá lokum júlímánaðar 1936 var sumar afar votviðrasamt svo hefyfengur, þrátt fyrir góðan grasvöxt, varð með minna móti, og sumsstaðar ekki góð hey“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1935). 

Með (einhverju) móti (orðtak)  Á (einhvern) hátt.  „Hey manna eru almennt verkuð með langbesta móti, en munu nú sem í fyrra vera með lausasta móti“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1924). 

Með myndarbrag (orðtak)  Á virðulegan/glæsilegan hátt; til fyrirmyndar.  „Þannig stóð á að þáverandi sýslumaður Einar Jónasson hafði keypt á jörð og hóf þar búskap með miklum myndarbrag“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Með mörg járn í eldinum (orðtak)  Vinna við margt samtímis.  „Maður er með mörg járn í eldinum; og af ólíku tagi“.  Vísar til járnsmiðs sem hitar mörg járn samtímis í afli.

Með naumindum (orðtak)  Nauðuglega; við illan leik; á mörkunum.  „Mér tókst með naumindum að grípa fötuna áður en hún fauk framaf brúninni“.

Með nefið niðri/ofan í hvers manns koppi / Með nefið niðri í öllu (orðtök)  Snuðrandi í málefnum annarra; forvitinn um annarra hagi.  „Ég held hann ætti að líta sér nær, heldur en að vera svona með nefið ofaní hvurs manns koppi“.

Með nesti og nýja skó (orðtak)  Ferðbúinn; reiðubúinn í ferðalag; vel útbúinn; ferðbúinn.  Þetta tvennt var mönnum mikilvægast þegar langt var upp í langferð fyrr á tíð.  Skór voru fljótir að slitna; einkum roðskór þeir sem tíðkuðust í Útvíkum.  Mikilvægt var að hafa allmörg pör af skóm í langa göngu meðan roðskór voru enn notaðir.  Hvert par entist stutt, og t.d. var Víknafjall talið 7 roðskóa heiði.  Ekki var nesti síður mikilvægt.  „Nú má ég útbúa mig með nesti og nýja skó; hann taldi sig hafa séð hrútana frammi í Breiðavíkurbotni“! 

Með nóg á sinni könnu (orðtak)  Hlaðinn verkum;  á  fullt í fangi með sín verkefni; „Ég gat ekki verið að biðja hann um þetta; hann er með nóg á sinni könnu þessa stundina“.

Með oddi og egg (orðtak)  Um framgöngu; af einurð; án þess að hvika.  „Hann hefur unnið að þessu með oddi og egg, áratugum saman“.  „Ég beitti mér fyrir því með oddi og egg að fá þessu framgengt“.  Úr bardagamáli; með spjótsoddi og sverðsegg.

Með óhreint mjöl í pokahorninu (orðtak)  Grunaður/sekur um óheiðarleika; óheiðarlegur; grunsamlegur.  „Það var talið að hann hefði eitthvað óhreint mjöl í pokahorninu“.

Með ólíkindum (orðtak)  Furðulegt; ekki einleikið.  „Annars var með ólíkindum hvað smíðin hans pabba var fjölbreytt“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Með óskapagangi (orðtak)  Með hávaða//ærslum og látum.

Með pálmann í höndunum (orðtak)  Hrósa sigri; vera ofaná í máli/deilu/verkefni.  „Þeir þykjast vera með pálmann í höndunum; með þessa kraftmiklu vél í bátnum.  En þeir veiða nú lítið á hana, er ég hræddur um“.  Vísar til þess forna siðar erlendis að sigurvegari fái pálmagrein í hendur. 

Með pomp og pragt (orðtak)  Með glæsibrag; við mikil fagnaðarlæti; glæsilega. 

Með ráði og rænu (orðtak)  Með fulla meðvitund/skynsemi.  „Svonalagað gerir enginn með fullu ráði og rænu“!

Með ráðum gert (orðtak)  Gert af ásetningi; hefur tilgang.  „Sumum finnst það undarleg sérviska að hafa tvo þumla á sama vettlingnum, en það var með ráðum gert til að vettlingurinn slitnaði jafnt báðumegin“.

Með ráðum og dáð / Með orðum og gerðum (orðtak)  Á allan hátt; til munns og handa; í hvívetna; í orði og verki.  „Ég hef reynt að styðja félagið með ráðum og dáð“. 

Með rentu (orðtak)  Með vöxtum; að fullu.  „Skuldin var greidd með rentum“.  „Sá skal nú fá þetta borgað með rentum“!

Með réttu lagi (orðtak)  Í rauninni; eiginlega; ef rétt skyldi vera; í raun réttri.  „Með réttu lagi ætti hann að fara að koma“.

Með réttu og sanni (orðtak)  Í raun og sann; í raun og veru; raunverulega, í raun réttri; með réttu lagi.  „Með réttu og sanni er þetta ennþá hans eign, þó ég hafi fengið að nota það“.

Með réttu ráði (orðtak)  Með fulla hugsun; með öllum mjalla; með ráði og rænu.  „Þú ert nú bara ekki með réttu ráði, ef þér dettur í hug að fara yfir hálsinn í þessu svartakófi“!

Með riktugheitum (orðtak)  Með skilum; eins og til stóð; réttilega.  „Árgjöldin skiluðu sér með riktugheitum“.

Með ró og spekt / Með skikk / Með skikk og spekt (orðtök)  Eins og vera ber; í rólegheitum/reglu; í lukkunnar velstandi.  „Það var allt með ró og spekt í fjárhúsunum, en tvær eru í tilferð með að bera, sýndist mér“.

Með sama móti (orðtak)  Eins; án tilbreytinga; óbreytt.  „Enn er allt með sama móti hjá þeim“.

Með sama sniði / Með sömu skikk (orðtök)  Eins; sambærilegt; óbreytt.  „Við gerum þetta með sama sniði og áður“. 

Með sama svipmóti (orðtak)  Með svipuðum hætti; líkt.  „Þetta virðist vera með sama svipmótinu ennþá“.

Með seinni skipunum (orðtak)  Um það sem er seint fyrir/ kemur seint; seint og um síðir.  „Hann mætir alltaf á þessa fundi, en iðulega með seinni skipunum“.

Með seinna fallinu (orðtak)  Í seinna lagi; síðari hluta dags.  „Það gæti verið að ég kæmi með seinna fallinu til baka, ef þeir geta ekki afgreitt þetta strax“.  Vísar til síðara sjávarfalls.  Lína var oft lögð með fyrra fallinu og farið í síðustu vitjun með seinna fallinu.

Með seinni skipunum (orðtak)  Í seinna lagi; heldur seinn fyrir.  „Afsakið að ég mæti með seinni skipunum í þetta skiptið; ég varð fyrir óvæntum töfum“.

Með semingi (orðtak)  Treglega; með hundshaus; með hálfum huga.  „Ég samþykkti þetta með semingi, enda fannst mér þetta ekki góð lausn“.  Semingur merkir tregða/seinlæti/hik.

Með skikkanlegheitum (orðtak)  Í rólegheitum; eins og vera skal; eðlilegt.  „Ég gáði í fjárhúsin áðan og þar virtist allt vera með skikkanlegheitum, en þó gætu tvær verið í tilferð með að bera“.

Með skilum (orðtak)  Eins og vera ber.  „Ég fékk lánið greitt með skilum, og á réttum tíma“.

Með skít og öllu saman (orðtak)  Eins og kemur fyrir af skepnunni; án þess að hreinsa/ vanda til verka; með öllu sem fylgir.  „Ég hirti þetta með skít og öllu saman“.  „Vertu nú ekki að pilla gaddana svo nákvæmlega af grásleppunni; annaðhvort skilarðu matnum eða étur hann með skít og öllu saman“!

Með skjótum hætti (orðtak)  Skyndilega; hratt.  „En það brimar með skjótum hætti frá vestri, eins og oft vill henda“  (KJK; Kollsvíkurver).

Með sóma og sann (orðtak)  Af heiðarleika og trúfestu; dyggilega.  „Þessu starfi gegndi hann í marga áratugi með sóma og sann“.

Með strengdan kvið (orðtak)  Kviðdreginn; mjög horaður; langsoltinn.

Með störu (orðtak)  Starandi; stareygður; gónandi.  „Stattu ekki bara þarna með störu; reyndu að hreyfa þig“!

Með súrum sveita/svita (orðtak)  Með miklu erfiði/ mikilli fyrirhöfn.  „Mér tókst loks, með súrum sveita, að koma trénu uppfyrir flæðarmál“.  „Hann sagðist ekki ætla að fleygja því frá sér sem hann hefði aflað sér með súrum sveita“.  Sveiti er eldri mynd af sviti.

Með sömu ummerkjum (orðtak)  Eins og verið hefur; í sömu skorðum; óbreytt. 

Með tíð og tíma (orðtak)  Smám saman; með tímanum.  „Sjávarborð stóð hærra í víkinni á ísöld, en með tíð og tíma hefur ströndin fengið það svipmót sem nú er.

Með tvær hendur tómar (orðtak)  Tómhentur; hefur ekkert fengið.  „Ég fór og leitaði heilan dag á þessum slóðum, en kom aftur með tvær hendur tómar“.

 Með undrahætti / Með undrum (orðtak)  Undarlegt.  „Svo var smíðað utan um hann og svo var hann fluttur yfir fjörð að Sauðlauksdal og jarðaður þar en allt þótti þetta með eitthvað undrahætti“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   „Lesendum sem mig þekkja telja það með undrum að ég segi frá bjargferð úr Kollsvík...“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). 

Með virktum (orðtak)  Með virðingu; af innileika; með kurt og pí.  „Ég kvaddi þau með virktum og lagði svo af stað“.  Hún þakkað i mér með virktum fyrir broddflöskuna“.

Með það fyrir augum (orðtak)  Í þeim tilgangi; í því augnmiði

Með það sama (orðtak)  Um leið; samstundis.  „Ég opnaði rifu á fjárhúshurðina; rolluskrattinn ruddist út og var horfin út í myrkrið með það sama“.

Með þeim hætti (orðtak)  Þannig; á þann veg.  „Þar var þó við ramman reip að draga, því vegir voru með þeim hætti að ekki var mögulegt að flytja skurðgröfur um svæðið“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Með þessu/því móti (orðtak)  Á þann hátt; þannig.  „Með þessu móti vorum við mun fljótari að vitja um hvern streng“.  „Hann gat haltrað inn með því móti að styðja sig við vegginn“.

Með þjósti (orðtak)  Höstugur; með reiðitóni.  „Hann spurði með þjósti hvað við hefðum verið að gera þarna“.

Með því fororði (orðtak)  Með því skilyrði/fyrirvara.  „Ég lánaði honum bátinn með því fororði að reyndur maður væri með í för“.

Með því (orðtak)  Vegna þess; af þeim sökum.  „Einar í Kollsvík var í róðri, en líklegt er að fleiri bátar hafi verið á sjó, með því að bændur voru einnig á Láganúpi og Grundum, sunnantil í Kollsvíkinni“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Með því fororði (orðtak)  Með þeim fyrirvara/varnagla.  „Ég seldi bátinn með því fororði að ég fengi hann lánaðan í róður stöku sinnum“.

Með því móti (orðtak)  Á þann hátt; þannig.  „Hann komst upp á efri stallinn með því móti að hlaða undir sig stall í neðri ganginum“.

Með tíð og tíma (orðtak)  Eftir því sem tíminn líður; á sínum tíma.  „Þetta kemur allt með tíð og tíma; þú verður bara að bíða rólegur“.

Með veðrið/vindinn í fangið (orðtök)  Á móti vindi; gegn veðri.   „Það gengur væntanlega hægar heim; með veðrið í fangið“.

Með æðiber í rassinum (orðtak)  Um mann sem liggur mjög á að leggja í ferðalag /hefja verk; með óþreyju/asa.  „Það er alltaf eins og hann sé með æðiber í rassinum; hann er ekki fyrr kominn en hann er rokinn aftur“!

Með ærslum og látum/fyrirgangi (orðtak)  Með óskapagangi; með hávaða og látum.

Með öllu (orðtak)  Alfarið; algerlega.  „Þessi slúðursaga er með öllu tilhæfulaus“!

Með öllu móti (orðtak)  Á allan hátt; með öllum ráðum.  „Ég reyndi með öllu móti að fá hann ofan af þessu“.

Með öllu saman (orðtak)  Eins og það leggur sig; algerlega; allt.  „Vertu nú ekki að kroppa þetta úr matnum; láttu þetta bara í andlitið á þér með öllu saman“!

Með öllum mjalla (orðtak)  Heill á sönsum/geði; með réttu ráði.  „Ætlarðu einn í Bjargið?  Þú ert ekki með öllum mjalla drengur“!  Mjalli merkir í þessu sambandi skýrleiki; vit, en er í raun sama orðið og mjöll; sjnór.

Með öndina í hálsinum (orðtak)  Andstuttur; móður.  „Strákarnir komu hlaupandi og sögðu með öndina í hálsinum að þeir hefðu fundið hval rekinn í fjörunni“.  Önd merkir í þessu efni andardráttur.

Með öngulinn í rassinum (orðtak)  Óheppinn á veiðum; fisklaus.  „Mér þætti skratti lúrt að koma aftur í land með öngulinn í rassinum, líkt og úr síðasta róðri“.

Með öngvu móti/öllu mögulegu móti (orðtak)  Alls ekki/með öllum aðferðum.  „Ég get með öngvu móti áttað mig á þessari veðurspá núna“.  „Það verður að reyna með öllu mögulegu móti að klára þetta“.

Meðal (n, hk)  A.  Efni sem ætlað er til inntöku til lækninga, oftast er átt við einhverskonar mixtúru.  „Ári er þetta meðal bragðvont; það er eins gott að það virki“.  B.  Ráð; úrræði.  „Ég kann engin meðöl við þessu“.

Meðal (fs)  A.  Ásamt.  „Meðal þess sem við fundum var planki úr fallegu maghóní“.  B.  Milli; í hópi.  „Veðmálið varð um langan aldur vinsælt umræðuefni meðal þeirra sem viðstaddir voru…“  (PG; Veðmálið). 

Meðal annarra orða (orðtak)  Eitt vil ég/ langar mig að segja í viðbót. 

Meðal annars (orðtak)  Einnig; að auki.  „Honum voru falin ýmis trúnaðarstörf í sveitinni; meðal annars var hann lengi sýslunefndarmaður, auk oddvitastarfanna“.  „Gummi var vel að heiman búinn og meðal annars hafði hann í nestisskrínu sinni væna spaðbita af veðmálslambinu“  (PG; Veðmálið). 

Meðalaglas (n, hk)  Lítið ílát sem meðöl eru gjarnan geymd í.  „Tönnina varðveitti ég lengi í meðalaglasi“.

Meðalár (n, hk)  Meðaltal margra ára; meðaltal af svipuðum tíma og um er rætt.  „Hiti var nokkru meiri í sumar en í meðalári“.

Meðalfesta (n, kvk)  „Í Kirkjuhvammi er nokkuð af heyjunum fyrir neðan meðaltestu og einnig hefir nokkuð af útibornum heyjum skemmst af regni“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1957). 

Meðalhóf (n, hk)  Það sem hæfilegt er; hvorki of né van.  „Meðalhófið er best í þessu sem öðru“.

Meðalhófsmaður (n, kk)  Sá sem gætir meðalhófs.  „Hann var enginn meðalhófsmaður í sínum pípureykingum þegar mest var“.

Meðalkafli (n, kk)  A.  Handfang á sverði.  B.  Miðhluti á öðrum hlut, s.s. kaleik/bikar.

Meðallag (n, hk)  Meðaltal; það sem venjulegast er.  „Hiti hefur verið nokkuð fyrir neðan meðallag síðasta mánuðinn“.  „Hann var talinn greindur í góðu meðallagi“.  „Hey hafa víða verið lakari en í meðallagi“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Meðalmannsverk (n, hk)  Verk sem ætlast er til að meðalmaður vinni vel innan tiltekins tíma.  „Í Búalögum er það talið meðalmannsverk að slátra 10 sauðum og raka gærurnar að kvöldi“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).

Meðalmenni (n, hk)  Venjulegur maður.  „Allir voru þeir meira en meðalmenni að burðum“.

Meðalmennska (n, kvk)  Geta/frammistaða venjulegs manns.  „Mér er illa við alla meðalmennsku í þessum efnum; þarna á maður að geta gert betur“.

Meðaltal (n, hk)  Til jafnaðar.  Oftast notað um meðalvigt dilka að hausti.  „Ég var með heldur hærra meðaltal en í fyrra“.

Meðalvetur (n, kk)  Vetur sem er í meðallagi harður/kaldur/snjóþungur.  „Vetur þessi mun hafa verið betri en meðalvetur“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1925).  

Meðalvigt (n, kvk)  Meðalfallþungi dilka.  Í tali bænda voru fá orð oftar nefnd um sláturtíðina  en meðalvigt og heimtur, enda endurspeglaðist í þeim von manna um góða afkomu.

Meðaumkun / Meðaumkunarsemi (n, kvk)  Samúð; meðkennd; vorkunnsemi.  „Ég hef nú litla meðaumkun með þessum ævintýrapésum þegar þeir fara á hausinn vegna eigin glæfraskapar“.

Meðbróðir (n, kk)  Samborgari; náungi.  Oftast notað þegar höfðað er til samkenndar fólks í samskiptum hvert við annað.  Orðið „meðsystir“ er til, en hefur lítt verið haldið á lofti í jafnréttisumræðu nútímans.

Meðbyr (n, kk)  A.  Meðvindur/byr; vindur af hagstæðri átt, sem nýtist til að koma seglskipi rétta leið.  B.  Afleidd merking; hvaðeina sem gengur manni í haginn eða hjálpar að settu marki.

Meðfram (ao)  Frammeð; til hliðar við.  „Mér tókst að komast meðfram fjárhópnum og stóð svo fyrir honum við Flosagilið“.  „Hann er að vinna meðfram náminu“.

Meðvindur (n, kk)  Vindur í sömu átt og haldið er.  „Við vorum mikið fljótari heimleiðis, enda höfðum við þá meðvind“.

Meðvitund (n, kvk)  A.  Ráð og ræna; vitund/vitneskja lífveru um það sem fram fer í kringum hana.  „Hann vankaðist við höggið, og var nokkurn tíma að komast til fulrar meðvitundar“.  B.  Var áðurfyrr notað um vitneskju, t.d. um yfirhilmingu í sakamáli.

Meðvitundarlaus (l)  Vankaður; rotaður; án meðvitundar.

Meðfram (ao)  A.  Fram með; til hliðar við.  „Á Bökkunum meðfram öllum Grundagrjótum er túngarður, grjóthlaðinn; furðu heill þó staðið hafi viðhaldslaus í mannsaldur“  (HÖ; Fjaran).  B.  Í og með; í bland; sumpart.  „Svona meðfram var ég að vona að hann færi að stytta upp“.

Meðfærilegur (l)  Sem þægilegt er að meðhöndla/lyfta/ fara með.  „Eigum við ekki að velja einhvern meðfærilegri stein í þetta“?

Meðstraumur/mótstraumur (n, kk)  Miklu skipti á róðrarbátum að hafa strauminn fremur með sér en í móti ef þess var einhver kostur.  „Var þá meðstraumur út með hlíðunum, liggjandi á Sandflóa og út með Bjarginu og norðurfallsupptaka er kom út að Töngum“  (PJ; Barðstrendingabók).

Meðstreymt (l)  Um það þegar straumur liggur í sömu átt og siglt er í. 

Meðtaka (s)  Innbyrða; innlima; innbyrða; nema; skilja.  „Er þetta þá fyllileg meðtekið“?

Meðtækilegur (l)  Reiðubúinn fyrir; tilbúinn að meðtaka.  „Þú getur reynt að sannfæra hann um þetta, en ég er nærri viss um að hann er ekki vel meðtækilegur fyrir því“.

Mega (s)  A.  Hafa leyfi til.  „Hún má eiga þennan hlut“.  B.  Verða; vera tilknúinn.  „Þú mátt flýta þér ef þú ætlar að ná tæka tíð“.  „Við megum halda til dagsins með að raka upp“.  „Mátti hann svo hlaupa á milli, eftir því sem honum fannst sín húsbóndaskylda bjóða“  (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Mega á sama standa (orðtak)  Geta staðið á sama; ættu að láta sér í léttu rúmi liggja.  „Mér má svosem á sama standa um þetta; þetta er mál sem mér kemur í rauninni ekki við“.

Mega bera/hafa (einhvern) fyrir / Mega hafa eftir (einhverjum) (orðtök)  Mega vitna í; geta nefnt sem votta.  „Þú mátt bera mig fyrir þessu, ef einhver skyldi efast um það“.  „Það má hver sem er hafa það eftir mér; þetta á eftir að valda stórslysum“!

Mega ekkert aumt sjá (orðtak)  Þurfa að hjálpa öllum sem eiga bágt/minna mega sín/eru illa staddir.  „Hún vorkenndi ræflinum, enda má hún ekkert aumt sjá“.

Mega ekki/varla af (einhverjum) sjá/líta (orðtak)  Geta ekki slitið sig frá einhverjum A vegna þess að manni þykir svo vænt um hann, eða B vegna þess að hann getur þá farið sér að voða eða gert óæskilega hluti. „Hann er afskaplega skotinn í stelpunni, og má helst ekki af henni líta“.  „Árans fiktsemin í stráknum; það má bara ekki af honum líta“!

Mega ekki/varla/vart mæla fyrir/vegna (orðtak)  Geta varla talað vegna.  „Ég reyndi að kalla í hann og segja honum þetta, en mátti vart mæla fyrir rokinu“.

Mega ekki orðinu halla (orðtak)  Um viðkvæmni/móðgunargirni; þurfa að gæta sín mjög vel í umtali.  „Það má bara ekki orðinu halla um flokkinn; þá býst hann til varnar“.

Mega ekki/varla/vart vatni halda (orðtak)  Geta varla beðið; vera mjög óþreyjufullur; vara að farast úr spenningi.  „Hann má varla vatni halda af löngun til að komast aftur á sjóinn“!  Vísar til þess að geta varla haldið þvagi; vera í spreng.  Í seinni tíð stundum; geta varla haldið vatni yfir einhverju“.

Mega ekki vera að (einhverju) (orðtak)  Hafa ekki tíma til einhvers; vera of upptekinn fyrir eitthvað.  „Ég má ekkert vera að því að hugsa um þetta núna“!

Mega ekki við svo búið standa (orðtak)  Geta ekki verið/staðið/unað þannig; vera óviðunandi.  „Ég sá strax að ekki mætti við svo búið standa; þessu yrði að breyta tafarlaust“.  Sjá ekki má við svo búið standa.

Mega hvorugur af hinum/öðrum sjá (orðtak)  Um góðan vinskap tveggja; vera óaðskiljanlegir.  „Þær eru eins og samlokur; mega hvorug af hinni sjá“.

Mega til (með) (orðtak)  Verða; vera knúinn til.  „Þú mátt til með að heimsækja mig þegar þú verður næst á ferð“.  „En við megum til að rifja upp hvernig slátursuðupottar á Lambavatni voru“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  „Kallaði ég þá til Hálmars að hann mætti til að komast að fuglakippunum sem voru fastar í vaðnum sem maðurinn var fastur í, og skera þær í burtu... “  (SbG; Að vaka og vinna). 

Mega út með (orðtak)  Þarf að greiða; þarf að láta af hendi.  „Það dæmdist svo að vélin hefði bilað í mínum meðförum, svo ég mátti út með viðgerðarkostnaðinn“.

Mega við (orðtak)  Standast við; geta afborið; hafa ráð á.  „Ég er ekki svo birgur af heyi að ég megi við því að láta hann hafa það sem hann biður um“.  „Hann mátti illa við því að missa bestu mjólkurkúna“.

Meginaðdráttarferð (n, kvk)  Kaupstaðarferð þar sem aflað er helstu nauðsynja til langs tíma.  „Venjulega voru farnar tvær meginaðdráttarferðir á ári.  Var önnur ferðin farin snemma vors og þá var aðflutningurinn tilbúinn túnáburður, auk ýmissar matvöru til heimilisþarfa.  Síðari ferðin var svo farin á haustin“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Meginatriði (n, hk)  Aðalatriði; mikilvægast.  „Meginatriði málsins liggja ljós fyrir“.

Megineldsneyti (n, hk)  Það sem helst er nýtt sem eldsneyti.  „Venjulega var tekið mað lítið eitt af kolum, sem þótti gott að geta gripið til ef sérlega þurfti að skerpa lítillega á eldi.  Annars var megineldsneytið mór, allt fram yfir 1950“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Meginhluti / Meginpartur (n, kk)  Aðalhluti; helsti/stærsti hluti.  „Hann dólaði á eftir okkur meginpart leiðarinnar“.

Meginið af / Megnið af (orðtak)  Mestallt; kúfurinn af.  „Við vorum að hreinsa net meginið af deginum“.  „Megnið af kartöflunum náðist upp fyrir frostið“.

Meginmál (n, hk)  A.  Aðalatriði.  „Það er kannski ekki meginmálið hver gerði þetta, heldur hversvegna“.  B.  Meginhluti texta í rituðu máli.  „Þetta kemur fram í athugasemdum, en ekki í meginmáli bókarinnar“.

Meginmunur (n, kk)  Mikill mismunur.  „Mér finnst enginn meginmunur á þessu tvennu“.

Meginregla (n, kvk)  Aðalregla; ríkjandi regla.  „Meginreglan er þessi, en á henni eru þó undantekningar“.

Meginþorri (n, kk)  Mestur fjöldi.  „Meginþorri fundarmanna samþykkti tillöguna í atkvæðagreiðslu“.

Megn (l)  Mikil; ráðandi; almennur.  „Af þessu lagði megna og stæka fýlu“.  „Hann hafði megna ótrú á þessu“.

Megna (s)  Geta; ráða við.  „Ég megnaði ekki að bera meira í einni ferð“.

Megnið af (orðtak)  Meginhlutinn af; stærstur hluti.  „Megnið af steinbítnum var hert“

Megnugur (l)  Fær um; getur.  „Hann sýndi þarna hvers hann var megnugur“.

Megurð (n, kvk)  Hor; langvarandi hungur.  „Var hann aðframkominn af megurð, en komst þó til byggða og varð hjúkrað, svo hann lifði af“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Mehe (n, hk)  Múður; rövl; úrtölur.  Var einvörðungu notað í orðtakinu „ekkert mehe með það“, sjá þar.  Ekki verður fullyrt um það nú hvernig eða hvenær orðið er tilkomið eða hvað það var víða notað.

Meidd / Meiddi (n, hk)  Gæluorð um meiðsli/ sáran stað; bágt.  „Hættu nú að vola stúfur; mamma er búin að kyssa á meiddið“.  „Ertu með meiddi á puttanum“?

Meiddur (l)  Slasaður; sár.  „Hann var töluvert meiddur eftir þetta slys“.

Meiða (s)  Slasa; særa.  „Meiðiði ykkur nú ekki á ljánum strákar“!

Meiða sig (orðtak)  Slasa sig; særast.  „Varstu að meiða þig drengur“?

Meiði (n, kk)  Sá hluti á sleða sem hann rennur á, eftir snjó/ís/jörð.  „Við negldum girði undir meiðana á sleðunum til að þeir rynnu betur“.  Ávallt þannig í Kollsvík; sumsstaðar annarsstaðar „meiður“.

Meiðsli (n, hk, fto)  Sár; und; skaði.  „Hann er orðinn nokkurnveginn góður af þessum meiðslum“.

Mein (n, hk)  Sár.  „Hann þurfti að fara á spítala og láta skera í fingurmein“.

Meina (s)  A.  Hindra; neita um.  „Ég ætla ekki að meina þér að fara ef þú ert ákveðinn, en mér finnst það óráð“.  B.  Halda; hafa meiningu/skoðun.  „Hann meinti ekkert illt með þessu“.  „Ég var ekki að meina þessa bók, heldur þá sem ég var að lesa í gær“.  C.  Fyrirhuga; ætla.  „Kom þar fram að menntamálaráðuneytið meinar að draga mjög úr að kennsla fari fram hér í skólanum, og kennslan verði flutt til Patreksfjarðar“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Meináta (n, kvk)  Sár/ígerð sem veldur dæld/holu/rýrnun í vef.  „Hér er einhver meináta í fætinum á kindinni“.

Meinbagi (n, kk)  Óhagræði; skaði; ami.  „Ég læt þetta ógert ef honum er einhver meinbagi að því“.  „Tíðarfarið hefur verið erfitt þennan mánuð, en ekki þó svo að til meinbaga hafi verið“.

Meinbagalaus (l)  Án meinbaga; skaðlaus.  „Það er mér að meinbagalausu þó þið farið þarna í klettana“.

Meinbægjast við (orðtak)  Eiga í illindum við; ráðast gegn.  „Mér fannst ástæðulaust að meinbægjast við hann útaf þessu; þetta var líklega óviljaverk“.

Meinbægni (n, kvk)  Meinsemi; illgirni.  „Svo virðist sem þetta sé af einberri meinbægni gert“.  „Ég ætla ekki að vera með neina meinbægni við hann, en þarna fór hann bölvanlega að ráði sínu“.  Sjá bægni.

Meinbölvað (l)  Hábölvað; mjög slæmt.  „Mér finnst það meinbölvað ef þeir ætla ekki að nýta svona góðviðrisdag til að steypa“.

Meinfyndinn (l)  Gamansamur undir rós; kaldhæðinn; mjög hlægilegur.  „Hann getur verið meinfyndinn, þó sumum finnist hann drumbslegur við fyrstu kynni“.  „Þetta fannst mér alveg meinfyndið“.

Meinfýsi / Meingirni (n, kvk)  Meinsemi; illvilji; ásetningur um að ergja/pirra/skaprauna.  „Þetta hefur hann gert af tómri meinfýsi“!  „Þetta finnst mér ekkert annað en bölvuð meingirni“!

Meingallaður (l)  Með mikla/skaðlega/bagalega ágalla.  „Hrúturinn er meingallaður vegna hornalagsins“.

Meingalli (n, kk)  Slæmur annmarki/galli.  „Þetta finnst mér meingalli á annars ágætum bát“.

Meingetinn (l)  Lausaleiksbarn; fæddur eftir framhjáhald foreldris.  „Líklega hefur það upphaflega verið vel meint að láta hinn meingetna son ekki alast upp á heimilinu“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Meinhollt (l)  Mjög hollt/heilsusamlegt.  „Skelltu þessari mixtúru í andlitið á þér; þetta er meinhollt“.  „Fjallagrasaseyði hefur alltaf verið talið meinhollt við kvefi, hálsbólgu o.fl“  (SG; Læknisráð; Þjhd.Þjms).  

Meinhorn (n, hk)  Illgjarn/illkvittinn einstaklingur; ótukt.  „Hún gat stundum verið mesta meinhorn við karlinn“.

Meinhrekkjóttur (l)  Mjög hrekkjóttur; sem viðhefur slæma hrekki.  „Stráksi átti það til að vera stríðinn og meinhrekkjóttur“.

Meinhægðararmingi / Meinhægðargrey / Meinhægðarmaður / Meinhægðarnáungi / Meinhægðarskinn (n, kk/hk)  Meinlaus maður, og vísa sum orðin til lítilmagna.  „Það er nú ekki vandamálið með hann; þetta er mesti meinhægðararmingi“.  „Alltaf er þetta sama meinhægðarskinnið“.

Meinhægðartíð / Meinhægðarveðrátta / Meinhægðarveður (n, kvk/hk)  Gott/meinlaust tíðarfar/veður.  „Ég held að megi kalla þetta meinhægðartíð sem af er“.  „Það var komið meinhægðarveður daginn eftir“

Meinhægt/meinlaust veður / Meinhæg tíð / Meinhægur í tíðinni (orðtök)  Tiltölulega stillt veður/tíðarfar; ekki vindasamt eða mikil úrkoma.  „Það hefur verið sólarlaust, en annars mjög meinhægt veður“.

Meinhæðinn (l)  Sem gerir grín á kostnað annarra; sem hæðist að öðrum.

Meinhægur  (l)  Skaðlítill; ágætur.  „Héðan er bara allt meinhægt að frétta“.

Meinilla við (orðtak)  Vil helst ekki; forðast/hræðist mjög.  „Mér er meinilla við að þið séuð að fikta í klettunum strákar; sérstaklega svona bandlausir“!

Meining (n, kvk)  Skilningur; vilji.  „Mín meining er sú að strákurinn eigi að fá sama hlut og aðrir“.  „Margir voru á þeirri meiningu að þarna hefði ekki verið farið rétt að“

Meiningar (n, kvk, fto)  Álit sem ekki er sagt berum orðum; ósögð mógðun.  „Hann var með einhverjar meiningar í minn garð“.  B.  Fyrirætlun; áætlun„Og hefur þú einhverjar meiningar um framhaldið“?

Meiningarlaust / Meiningarlítið (l)  Innihaldslaust; illskiljanlegt.  „Heldur fannst mér þetta daufleg ræða; mestmegnis meiningarlítið hjal um allt og ekki neitt“.

Meiningamunur / Meiningarmunur (n, kk)  Mismunandi skilningur/áherslur á málefni; deilur.  „Ekki vil ég kalla þetta rifrildi, en milli þeirra var þó nokkur meiningarmunur“.  Ýmist með eða án r.

Meinkaldur (l)  Um veðráttu; illkaldur; bitur.  „Ég held ég setji nú bara upp húfuna; hann er meinkaldur“.

Meinkostulegur (l)  Stórfurðulegur; mjög undarlegur.  „Alveg finnst mér þetta meinkostulegt“!

Meinlaus (l)  Skaðlaus; ekki hættulegur.  „Þetta var bara meinlaust grín“.

Meinlega (ao)  Illa; á slæman/skaðlegan hátt.  „Mér er meinlega við að þú sért að flækjast einn í kletta“. „Stundum komst hann svo meinlega að orði að öðrum varð svarafátt“.

Meinlegur (l)  Illkvittinn; beinskeyttur; stríðinn.  „Hann var stundum meinlegur í orðum“.

Meinleysi (n, hk)  Skaðleysi; sakleysi.  „Ég sat bara þarna í mesta meinleysi“.

Meinleysingi (n, kk)  Sá sem ekki veldur skaða.  „Tuddinn er óárennilegur, en þetta er mesti meinleysingi“.

Meinleysisgrey / Meinleysiskvikindi / Meinleysissál / Meinleysisskepna / Meinleysisskinn (n, hk/kvk)  Góðleg/skaðlaus/aðgerðalaus/framtakslítil manneskja/skepna.  „Þetta er meinleysisgrey, en ekki er hann talinn reiða vitið í þverpokum“.

Meinleysisveður (n, hk)  Aðgerðalítið veður; hægviðri.  „Það rigndi dálítið, en annars var þetta meinleysisveður“.

Meinlítið (l)  Skaðlaust; meinhægt.  „Héðan er allt meinlítið að frétta“.

Meinloka (n, kvk)  Leiður og þrálátur misskilningur; þráhyggja; meinvilla.  „Eftir slysið var hann haldinn þeirri meinloku að örbylgjupfn í gangi hefði slæm áhrif á handarbrotið“.

Meinsemd (n, kvk)  Kvilli; sár; skaði.  „Ég held þessi meinsemd sé eitthvað að gróa“.  Einnig notað í líkingamáli nútildags, um samfélagsmein.

Meinsemi (n, kvk)  Illkvittni; stríðni.  „Þú gerðir þetta nú bara af eintómri meinsemi“.

Meinskældinn (l)  Illskældinn; semur meiðandi vísur/kvæði.  „Hann getur gert prýðisgóðar vísur af öllu tagi.  En á það líka til að vera beittur og meinskældinn“.

Meinslægur (l)  Um hest eða nautgrip; slær/sparkar með afturfætinum svo skaði getur orðið af.  „Gættu þín að hefta kvíguna nógu vel; hún er meinslæg þegar komið er nærri henni“.

Meinstríðinn (l)  Mjög stríðinn/hæðinn.  „Þetta var hinn besti karl en gat þó verið meinstríðinn“.

Meinsæri (n, hk)  Svardagar sem byggja á falsi; Þegar maður sver gegn betri vitund.  Það taldist mikill glæpur forðum ef á mann sannaðist meinsæri, enda þá meira byggt á svardögum en nú er gert.

Meintur (l)  Sagður; haldinn.  „Kollsleiði er meint vera haugur landnámsmannsins Kolls“. 

Meinvaldur (n, kk)  Sá sem veldur skaða/meini.  Oft notað um sýkil/sóttkveikju/sjúkdómsvald, en einnig um orsök tjóns.  „Ég fann meinvaldinn; það er naglagat í hlöðuþakinu; beint ofanvið myglublettinn“.

Meinvargur (n, kk)  Illþýði; skaðlegur vargur; meinvættur.  „Tófufjandinn er árans meinvargur í varpinu“.

Meinvilla (n, kvk)  Misskilningur; dilla; ranghugmynd; meinloka.  „Ég veit ekki hvaða árans meinvilla er í honum; að sjá ekki að þetta er sama lambið og hann þuklaði í réttinni“!

Meinvættur (n, kk)  Illyrmi; meinvargur; ófreskja.  „Minkurinn hefur reynst hinn mesti meinvættur í ám og vötnum, og útrýmt öllu lífi“.  Jafnan í karlkyni í Kollsvík, en hippsumhapps var með það annarsstaðar.

Meinyrtur (orðtak)  Skætingslegur/meiðandi í orðum.  „Í tali var hann jafnan hógvær og viðmótsþýður; þó gat út af því borið ef hann mætti óvæntri andstöðu.  Þá gat hann verið bæði hvassyrtur og meinyrtur “  (ÖG; Snæbj.J.Th; Árb.Barð 1980-90). 

Meinþröng (l)  Of þröng.  Búð í Kollsvíkurveri nefndist Meinþröng, og var það talið réttnefni. 

Meir / Meira (l)  Miðstig af lýsingarorðunum mjög og mikill.  „Hann sagðist ætla að koma um þetta leiti; ég veit ekki meir“.

Meira að segja (orðtak)  Í ofanálag; ennfremur.  „„Ég skal lofa þér fallegustu lífgimbrinni minni í haust hafir þú rétt fyrir þér; og ég skal meira að segja leggja til skotið“!  (PG; Veðmálið). 

Meira af vilja en getu/mætti (orðtak)  Drifinn áfram af viljastyrk þó getuna/kraftinn skorti; fremur til að sýna viðleitni en árangur.  „Ég er orðinn ansi lélegur til gangs.  Maður höktir þetta meira af vilja en mætti“.

Meira blóð eru í kúnni (orðatiltæki)  Meira gæti verið að hafa af því sem um er rætt.  „Hann var einstaklega lunkinn við að pumpa sögur úr mönnum og þráspurði í lokin; ef meira blóð gæti verið í kúnni“.

Meira eða minna (orðtak)  Að miklu leyti yfirleitt.  „Rauðmaginn var meira eða minna ónýtur eftir hitann“.

Meira en! / Meira er! / Meir´en!  (upphrópun)  Býsn eru þetta!; þú segir ekki!  Einkum notað til að lýsa vandlætingu á raupi eða yfirdrifnum lýsingum viðmælanda.  „Meir´en!  Ég hef nú aldrei heyrt að lúða geti náð þessari stærð“!

Meira en góðu hófi gegnir (orðtak)  Í óhófi; yfirdrifið.  „Karlinn er farinn að drekka meira en góðu hófi gegnir“.

Meira en lítið (orðtak)  Mjög; allmjög; allmikið.  „Þetta er nú meira en lítið undarlegt“!  „Þeir áttu eftir að sofa meira en lítið“  (Hrafnkell Þórðarson; Útkall við Látrabjarg). 

Meira hvað... (orðtak)  Upphrópun; býsnast yfir einhverju.  Með mikilli áherslu á „ei“ í meira.  „Það er nú meira hvað þessi rigning ætlar að endast“!  „Meira hvað þú getur étið drengur“!

Meira í orði en á borði (orðtak)  Um innihaldslítið tal/ fyrirætlanir sem ekki er staðið við.  „Hann talar alltaf fallega, en mér hefur fundist hans snilldarplön vera meira í orði en á borði“. Sjá meiri í orði en á borði.

Meira vinnur vit en strit (orðatiltæki)  Betra er að beita réttum/úthugsuðum aðferðum/vinnubrögðum en puða.

Meirapróf (n, hk)  Aukin ökuréttindi; réttindi til að aka stórri bifreið/ fólksflutningabifreið.  „… þar með var tilraunum mínum til mennta hætt að fullu; að umdanskildu því að ég tók meirapróf bifreiðarstjóra haustið 1947“  (IG; Æskuminningar).

Meiri í orði en á borði (orðtak)  Um þann sem stærir sig/ er montinn/drjúgur án þess að geta mikið.  Borð merkir þarna borðstokkur og montið vísar til ræðara sem þykist duglegri en hann reynist.  Sjá mikill í orði en minni á borði; meira í orði en á borði.

Meiriháttar (l)  Mikill; miðstig af mikilsháttar.  „Það stefnir allt í meiriháttar ófærð, ef hann heldur svona áfram að snjóa“.  Í Kollsvík var ekki tíðkuð sú ofnotkun orðsins sem nú er; þegar það er m.a. notað sjálfstætt sem upphrópun í hrifningu.

Meirihluti / Meiripartur (n, kk)  Bæði orð notuð; meiripartur þó líklega meira.

Meis (n, kk)  Laupur/grindakassi sem hey var borið í fyrrum, t.d. þegar búfé var gefið hey; hrip.  Síðar tóku heykörfur við því hlutverki.  Í einn meis komst það hey sem mjólkurkú þarf í mál.  Oftast þannig að á hverri hlið eru þrjár rimar sem fest er á hornstuðla/oka, en í botninum eru fjórar rimar.  Rimarnar eru felldar inní okana.  Þegar þær fóru að innþorna og losna voru settar með þeim tréflísar; hortittir.

Meistaralega (ao)  Eins og meistari/snillingur.  „Þetta fórst honum meistaralega úr hendi“.

Meistarastykki (n, hk)  A.  Smíðisgripur sem sá þarf að ljúka sómasamlega við sem vill verða meistari í iðngrein.  B.  Hverskonar smíðisgripur sem er haganlega gerður.

Meistaraverk (n, hk)  Verk/smíðisgripur/bók sem er vel/snilldarlega af hendi leyst.

Meistari (n, kk)  A.  Kennari; lærifaðir.  B.  Iðnaðarmaður með meistarréttindi.  C.  Afburðamaður; snillingur.

Meitill (n, kk)  Fleygmyndað verkfæri til ásláttar, notað til að kvarna úr steini, málmi eða öðru hörðu efni.

Meitla (s)  Kvarna úr og laga til hart efni með meitli.  „Og geislarnir skýra gamlar rúnir/ sem Guð hefur meitlað, um stalla og brúnir“  (EG; Blakkurinn; Niðjatal HM/GG). 

Meitlað í stein (orðtak)  Líkingamál um fyrirheit/reglur.  „Þetta er nú ekki meitlað í stein, heldur er þetta háð túlkunum á hverjum tíma“.  Sennilega líking við lögmálstöflur Móse eða lögmálsstein Hammúrabís.

Meitlaður (l)  A.  Sem unninn hefur verið með meitli.  B.  Um orðfæri/kveðskap; sett fram í knöppu og kjarnyrtu máli, en þó þannig að innihald/meining komist vel til skila.

Mekanikk (n, kvk)  Tækni; vélræn virkni.  „Ég skil ekki alveg mekanikkina í þessu“.  Nútímamál.

Mekkanó (n, hk)  Líklega seinni tíma orð; upprunalega haft yfir leikföng þar sem búa mátti til hluti með því að skrúfa saman stykki.  Síðan fært yfir á hvaðeina sem augljóslega var sett saman úr einingum, jafnvel lauslega, eins og spilaborg.  Eða hluti sem voru flóknir að gerð.  „Ég kann ekkert á svona mekkanó“.

Mekt (n, kvk)  Vald; veldi.  „Þarna mætti sýslumaður í allri sinni mekt; gullborðalagður og með kaskeyti“.

Mektarbóndi (n, kk)  Stórbóndi; bændahöfðingi.  „Hann var mektarbóndi hér í sveit“.

Mektarmaður (n, kk)  Valdsmaður; höfðingi.  „Maður steytir ekki kjaft við svoleiðis mektarmenn“!

Mektugur (l)  Máttugur; umkominn.  „Ég er einskis mektugur á þessum stað; þú verður að spyrja réttarstjórann“. 

Melauga (n, hk)  „Sérkennilegar holur í malarholt, sem fundust í barmi frostgíganna Smávatna í Vatnadal í júlí 2015“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Holurnar voru á a.m.k. tveimur aðskildum blettum í Smávötnunum.  Efst á aurblöndnu malarholti, á bletti sem var ca 4-5m í þvermál, voru um 15 holur í jarðveginn; hver um 30cm á breidd og um 10cm á dýpt; keilulaga.  Á milli voru ávalir rimar.  Engin augljós skýring var á þessu.  Ekki var grafið í holurnar.

Melabarð (n, hk)  Barð/harðbali/upphækkun/sandbarð í sandbornu landi, oftast með snöggum gróðri.  „Mér sýnist að alltaf sé að blása meira úr melabarðinu“.

Melaflöt / Melafit (n, kvk)  Slétt svæði með snöggum gróðri í samdbornu landi.  „Neðan núverandi fjárhúsa á Láganúpi eru sandbörð, en neðan þeirra slétt melafit, nefnd Fitin“.

Melaskarð (n, hk)  Rofdæld í melafit/melabarð.  Mikið er um melaskörð í Kollsvík, einkum ofan rifs nærri fjörunni.  Þau má sjá norðan og neðan Kollsvíkurbæjar; milli Syðrikletta og Stekkjarmels og neðantil í Litlufit og Fit á Láganúpi.  Melaskörð eru víða annarsstaðar í fyrrverandi og núverandi uppblásturssvæðum í Rauðasandshreppi, s.s. á Rauðasandi, Hvallátrum, Breiðavík, Örlygshöfn, Kvígindisdal og Hvalskeri.

Melasól (n, kvk)  Papaver radicatum.  Einnig stundum nefnd draumsóley.  Planta af draumsóleyjarætt; heimskautajurt sem finnst aðeins nyrst á norðurslóðum.  Hérlendis finnst hún á melum á Vestfjörðum, Norðvesturlandi og Austfjörðum.  Finnst í nágrenni Kollsvíkur.  Þrjú litarafbrigði finnast; gult, hvítt og bleikt.  Það gula er algengast, en það bleika og hvíta nefnist Stefánssól sem er mjög sjaldgæf og alfriðuð.  Blómin eru fjórdeild; bikarblöð tvö; stönglar þétthærðir, blaðlausir; laufblöð eru stofnstæð, stilkuð, fjaðurflipótt eða sepótt, grófhærð báðumegin.
Björn Halldórsson segir jurtina vera lækningajurt; hafa svæfandi kraft og að blóm legin í sterku víni séu góð við brjóstbveiki og hreinsi blóðið.  Gott sé að leggja blómið við enni og gagnaugu til lækninga á höfuðverk.

Melgras / Melgresi / Melur (n, hk/kk)  Leymus arenarius.  Grófgert og hávaxið gras, allt að 90 cm að hæð.  Ax melgresis er 12-20 cm að lengd og smáöxin hafa þrjú blóm.  Hefur einstaka hæfileika til að vaxa í þurrum sandi, og er notað til að hefta sandfok víða um land.  Korn af melgresi var sumsstaðar nýtt til brauðgerðar áðurfyrr; einkum á Austurlandi.  Eftir að kornið hafði verið skorið og skekið var það þurrkað í sofnhúsum.  Líklega hefur Melur verið notaður í reiðing, hér sem annarsstaðar fyrrum.  Jurtin er oftast nefnd melur í daglegu tali, og var á 19.öld sáð á nokkrum stöðum í Kollsvík til að hefta sandfok en hefur lítt gagnast.  Hinsvegar hefur tekist að stöðva sandfok í Sauðlauksdal og Kvígindisdal að mestu með mel.  Í Skersbug er allmikil slétt melslétta sem nytjuð var til sláttar og fóðrunar fjár.

Melhóll / Melþúfa (n, kk/kvk)  Þúfur og hólar sem myndast iðulega þar sem melur vex í toppum en ekki samfellt.  Sandur fýkur þá í toppana; melurinn grær uppúr honum; meira áfok verður sem grær uppúr, og þannig hækkar þúfan/hóllinn með tímanum.  Af þessum sökum hafa t.d. í Sauðlauksdal myndast stórir hólar sem sumir ná meira en mannhæð, og eru á annan tug metra í þvermál.

Melís (n, kk)  Eldra orð yfir sykur.  M.a. notað af GJH kaupfélagsstjóra á Gjögrum.

Melrakki (n, kk)  Annað heiti á tófu/ref.  Ekki notað í daglegu tali.

Melskurðarvél / Melsláttuvél (n, kvk)  Uppfinning úr Rauðasandshreppi.  Landgræðsla ríkisins hefur, allt frá stofnun, staðið fyrir söfnun melfræs af mestu melasvæðunum, til sáningar í uppblásturssvæði.  Melurinn var skorinn með höndum og var mannaflafrekur.  Ólafur Egilsson fann upp sérstaka sláttuvél í kringum árið 1980, en með henni er unnt að slá melinn með traktor, mun hraðar en með höndum.  Í stórum dráttum er vélin þannig að sláttuvélagreiða er fest á ámoksturstæki traktorsins, þannig að unnt er að stilla legu hennar stöðugt úr traktorssætinu.  Ljárinn er knúinn af vökvarótorum.  Ekki var tekið einkaleyfi fyrir uppfinningunni, og ekki er vitað hvort sammærilegur búnaður hefur verið fundinn upp erlendis.

Melslétta (n, kvk)  Slétta sem nýtt er til heyskapar, og uppistaða gróðurs er melgresi.  Melslétta í Skersbug var lengi slegin og nýtt.

Melspíra (n, kvk)  Oddmjó járnstöng sem notuð er m.a. til að splæsa svera kaðla eða ofna víra.  Heitið var notað um svipaðar járnstangir, þó ekki væru nýttar í þeim tilgangi.  Heitið mun vera tökuorð erlendum málum, t.d. dönsku; „mærlespiger“.

Melta (n, kvk)  A.  Ýlda; hræ, hold, matvara eða annað lífrænt sem farið er að rotna.  B.  Æla sem fugl gefur unga sínum að éta.  C.  Fiskur og kjötúrgangur, sem verkaður er til fóðurs fyrir skepnur með því að leysa hann upp í sýru.  D.  Sú líkamsstarfsemi að melta.  „Ég nokkra stund á meltunni eftir þessa veislu, en dreif mig svo af stað“.

Melta með sér (orðtak)  Velta fyrir sér; hugleiða.  „Ég melti þessa speki með mér nokkra stund“.

Meltingur (n, kk)  A.  Lambsfóstur sem fæðist dautt og ófullburða; stundum byrjað að rotna.  „Ég set hana ekki á aftur; þá sem átti meltinginn í fyrravetur“.  B.  Hálfmeltur/rotnaður matur; æla.

Melstrá  / Melstöng  (n, hk/kvk)  Strá melgresis.

Meltorfa (n, kvk)  Síðustu leifar uppblásins lands, þegar eftir situr afmörkuð gróin og hörfandi upphækkun í annars örfoka umhverfi. 

Melur (n, kk)  A.  Melgresi, sem er sennilega aðkomujurt í Kollsvík; sáð í viðleitni til að hemja sandfok.  Hún hefur hinsvegar orðið nokkuð ágeng, t.d. við bæjarhús á Láganúpi.  B.  Stytting á heiti Stekkjarmels.  C.  almennt notað um slétt sandbalasvæði, t.d. Torfamelur; Kallamelur o.fl.  D.  Skrattakollur; niðrandi heiti á manni sem gert hefur eitthvað af sér:  „Hann hefur bísað vasahnífnum mínum, árans melurinn“.

Men (n, hk)  Hálsfesti; hálsmen.

Menga (s)  A.  Saurga; spilla með íblöndun skaðlegra efna.  B.  Eldri merking orðsins er að blanda.

Mengun (n, kvk)  A.  Spilling/blöndun með skaðlegum efnum.  B.  Blöndun almennt.

Mennilegur (l)  Um mann; mannborulegur; viðkunnalegur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Menja (n, kvk)  Þykk málning.  Upphaflega einkum notuð um þykka (rauða) málningu sem bátar voru stundum málaðir með, en hefur síðan einkum færst annarsvegar yfir á botnmálningu báta og hinsvegar ryðvarnargrunn.

Menjar (n, kvk, fto)  Minjar; ummerki.  „Þeir sem af komust hresstust furðu fljótt, en víst munu sumir hafa borið þessa nokkrar menjar þaðan í frá þó enginn hlyti líkamsmeiðsli“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Hafði ég haft hamarinn í hendinni er ég var að bjótast út, og ber ég þess menjar á sjálfum mér ennþá þegar ég kem við knýtt beinin í brjóstinu á mér vinstra megin“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Mennilega (ao)  Eins og manneskja; að siðaðra manna hætti.  „Við skulum nú fara mennilega að þessu; það er óþarfi að flaustra að hlutunum“.

Mennilegur (l)  Karlmannlegur; hraustur; vel siðaður.  „Hann er orðinn hinn mennilegasti piltur“.

Menning (n, kvk)  Siðir; safn hefða og hegðunar sem mótast hefur með þjóð eða þjóðarbroti um tíma.  Margskonar ólík menning getur því blómstrað í einu landi/ríki, þó meðal þjóðarinnar ríki viss þjóðmenning sem er flestöllum sameiginleg.  Afmörkuð menningarsvæði myndast helst þar sem fólk/byggð er langtímum útaf fyrir sig án verulegrar blöndunar við meginstrauma.  Þannig aðstæður hafa verið í ystu byggðum Rauðasandshrepps, og því má finna þar ýmsa menniingarþætti.  Einn þeirra er hið sérstæða málfar sem kemur fram í þessari skrá.  Íslensk stjórnvöld hafa sýnt vítavert kæruleysi í því að varðveita menningu afmarkaðra svæða, og hefur það orðið til þess að mikið af slíku hefur glatast í þeirri gríðarlegu byggðaröskun sem sömu stjórnvöld hafa efnt til, og mest varð á 20. öld .  Hér er gerð tilraun til að bjarga einhverju af hinni sérstæðu menningu Útvíkna; með Kollsvíkina sem viðmið.

Menningararfur (n, kk)  Hvaðeina sem tilheyrir menningu liðinna tíma.  Menningararfur er þekking og vísdómur sem kynslóðum á hverjum tíma ber skylda til að varðveita að því marki sem skynsamlegt getur talist og geta er til.  Þar verður þó alltaf um einhverja forgangsröðun að ræða, þar sem ekki verður allt varðveitt sem til menningararfs getur talist.

Menningarbragur (n, kk)  Það sem vitnar um menningu; það sem er af menningarlegum toga.

Menningarlega sinnaður/þenkjandi (orðtak)  Sem setur menningarmál í forgang; áhugasamur um menningu/menningarviðburði; varðveislu menningar.

Mennskur (l)  Með mannlega eiginleika; eins og maður.  „Maður trúir varla að nokkur mennskur maður hafi afkastað þessu öllu“!

Mennskur máttur (orðtak)  Mannleg geta/orka.  „Það fengi mig ekki nokkur mennskur máttur til að kjósa þann flokk; hvað sem í boði væri“!

Mennt / Menntun (n, kvk)  Þekking; fróðleikur/hæfileikar sem maður aflar/ávinnur sér með námi.  Þá er ekki eingöngu átt við nám í skóla, heldur ekki síður það sem nema má í umhverfi og samfélagi, auk eigin rökhugsunar; sjá menntaður.  Menntun er ekki það sama og prófgráða frá skóla, þó það sé útbreiddur misskilningur.

Mennt er máttur (orðatiltæki)  Þekkingin getur reynst einstaklingnum öflugri en margt annað.

Mennta (s)  Uppfræða; auka vitneskju/fróðleik/hæfni. 

Menntadýrkun (n, kvk)  Öfgafull aðdáun á skólagöngu.  Borið hefur á slíkri hneigð í síauknum mæli í nútímasamfélagi.  Með hugtakinu er ekki átt við eðlilega og nauðsynlega ásókn manna í að afla sér þekkingar og hæfa sig til starfa, heldur þá tilhneygingu að telja menntað og langskólagengið fólk að öllu leyti æðri þeim sem hafa færri prófgráður; jafnvel þó hinir síðarnefndu hafi aflað sér meiri þekkingar og færni með eigin námi.  Nærtæk birtingarmynd menntadýrkunar birtist í kröfusetningu atvinnuauglýsinga, þar sem krafist er langskólagöngu og háskólaprófa að nauðsynjalausu.  Nærtækasta dæmið um innihaldsleysi og skaðsemi menntadýrkunar er hinsvegar það að alltof margir sem nú skrifast útúr æðri skólum eru illa talandi og skrifandi á rétt íslenskt mál, sem stuðlar að hnignun tungumálsins.

Menntadýrkandi (n, kk)  Sá sem stundar öfgafulla menntadýrkun.  „Ekki er hér ætlunin að kasta rýrð á gildi menntunar; hún er nauðsynleg að vissu marki í nútímasamfélagi.  Hinsvegar er sú menntadýrkun komin út í öfgar sem ávallt upphefur hinn langskólagengna umfram hinn sjálfmenntaða; burtséð frá raunverulegri hæfni.  Menntadýrkandanum hættir einnig til að gleyma því að með sérhæfingunni afsala menn sér þeirri víðtæku þekkingarleit sem sá getur stundað sem eyðir minni tíma í skólagöngu“.

Menntaður (l)  Býr yfir mikilli þekkingu/menntun.  Í Kollsvík og nærbyggðum var lögð mikil áhersla á menntun í víðum skilningi þess orðs.  Ekki einungis fengu börn bestu skólatilsögn sem völ var á á hverjum tíma, heldur voru þau einnig frædd vandlega af hinum eldri, og ávallt var tiltækur mikill bókakostur af margvíslegu tagi á hverju heimili.  Öllu þessu til viðbótar, og e.t.v. besti skólinn af þessu öllu, var reynslan af samveru við fólkið sem reynslu og þekkingu hafði og miðlaði henni beint og óbeint, auk samvistir við hina sérstæðu náttúru og mikilfenglegu sögu og menningu á staðnum.  Menntun verður aldrei metin í prófgráðum nema að sáralitlu leyti, enda þó það sé krafa viðskiptalíkans samtímans að troða öllum í gegnum hið meingallaða kassafyrirkomulag skólakerfisins.  Mörgum lánast sú vegferð ágætlega en alltof margir leka útúr fínustu háskólunum varla læsir og þaðanafsíður skrifandi, illa meðvitaðir um grundvöll sinnar tilveru og það umhverfi sem þeir lifa í.

Menntakerfi (n, hk)  Skólakerfi; viðleitni samfélagsins til að stofnanavæða menntunina; gera hana sjálfvirka og mælanlega í prófgráðum.  Um leið fjarlægist hún oft þá nauðsynlegu næringu sem hún þarf; nærveru nemenda við sitt samfélag, umhverfi og sínar menningarrætur.  

Menntamaður (n, kk)  Sá sem er margfróður og hefur víðtækan skilning.  Á ekkert skylt við prófgráður.

Menntasnobb (n, hk)  Plága sem harkalega ríður húsum í nútímasamfélagi, en hefur þó lengi haft viðgang í íslensku þjóðfélagi.  Menntasnobb er í raun uppgjöf þeirra sem ekki hafa prófgráður og langskólanám að baki og undirgefni þeirra gagnvart þeim sem gutlað hafa við skólanám og orðið sér útum skírteini frá menntastofnunum.  Þetta langskólafólk fær gjarna viðurnefnið sérfræðingur; enda þó hinn síður skólagengni hafi oft mun meiri þekkingu af eigin sjálfsnámi og/eða sé betur hæfileikum búinn að manngerð.  Menntasnobbið lýsir sér m.a. í því að hugvitsmenn eru sniðgengnir og hæfileikar þeirra nýtast ekki; atvinnuleysi er óþarflega mikið, þar sem einungis er auglýst eftir „sérfræðingum“ og framleiðni þjóðfélagsins er minni en í öðrum löndum vegna fordóma vinnumarkaðarins gagnvart getu meðalmenntaðs og sjálfmenntaðs fólks.  Þessi undirlægjuháttur kann að skýrast af langvarandi undirokun þjóðarinnar af höfðingum og þrælapískurum kónga, kirkju og höfðingja fyrr á ölsum.

Menntur (l)  Mannaður; með áhöfn/mannskap/aðstoðarmenn.  „Ég er tæpast nógu vel menntur í þessar smalamennskur“.

Merarostur (n, kk)  Sjá gorkúla.

Merbein / Mergbein (n, hk)  Skammaryrði um mann/skepnu; þrælbein.  „Skyldi hann ætla að svíkja þetta, árans merbeinið“?!  Sjá einnig mergur sem skammaryrði.

Mergð (n, kvk)  Fjöldi; aragrúi.  „Ég hef sjaldan séð viðlíka mergð af þessum fugli“!  Dregið af „margir“.

Mergfúið (l)  Um tré; fúinn mergurinn en aðrir hlutar trésins heilli. 

Mergjaður (l)  Kjarnmikill; kröftugur.  Einkum haft nútildags um lygasögur/draugasögur sem þykja spennandi/hrollvekjandi.  „Uppúr honum rann hver lygasagan annarri mergjaðri“.  Var fyrrum haft yfir manneskju eða skepnu sem var vel í holdum, en lítill mergur er í því sem horað er.

Merglaus / Merglítill (l)  A.  Um manneskju/skepnu; horuð; sem vantar merg í bein; huglaus; ragur.  B.  Um bók/sögu; óspennandi; litlaus.

Mergsjúga (s)  Taka allt af/frá; fjárkúga.  „Það er búið að mergsjúga bændur með þessum álögum“!

Mergsoginn (l)  Sem búið er að mergsjúga.

Mergsuga (n, kvk)  Sá sem tekur allt; sá sem gengur mjög nærri.  „Ekki líst mér á það ef þessi skattheimta ætlar líka að verða mergsuga á krökkum sem reyna að klóra sér einhverja aura“!

Mergur (n, kk)  A.  Feitur vefur inni í sumum beinum dýra og manna.  Hluti þess að vinna sér til matar er að brjóta þau mein til mergjar sem mergur er í.  B.  Kjarni einhvers.  „Þetta var nú mergurinn í því sem ég vildi sagt hafa“.  C.  Köpuryrði um mann; þrjótur.  „Ætlar hann ekki að standa við loforðið, árans mergurinn“.

Mergurinn málsins (orðtak)  Kjarni málsins; meiningin í því sem sagt er.  „Við skulum ekkert vera að hafa of mörg orð um þetta; segðu okkur bara hvað er mergurinn málsins“.

Meri (n, kvk)  A.  Kvenkyns hestur.  B.  Niðrandi heiti á manneskju eða skepnu.

Merja (s)  A.  Kremja; murka í sundur.  „Gættu þess, þegar þú ryður frá þér grjóti, að það lendi ekki á vaðnum; það gæti marið hann“.  B.  Geta/ná/takast naumlega.  „Ég marði sigur á honum í sjómanni, með æði átökum“.

Merki (n, hk, fto)  A.  Tákn; vottur.  „Ég sé engin merki þess að nokkuð sé að stytta upp“.  B.  Boð sem sigmaður sendir brúnamönnum, þegar hann vill stöðva, síga eða fá til sín slaka; með því að kippa í vaðinn eftir fyrirfram ákveðinni aðferð.  „Þú þekkir merkin Daníel“ (Hafliði Halldórsson við Daníel Eggertsson á Flaugarnefi; sigið í björgunarafrekið við Látrabjarg).  C.  Hvaðeina sem stendur fyrir boð eða leiðsögn; t.d. landamerki, innsiglingarmerki, eyrnamerki í búfé, rekamerki o.fl. 

Merkikerti (n, kk)  Monthani; vindbelgur.  „Hann er nú svoddan merkikerti; hann talar ekki við hvern sem er“.

Merkilega (ao)  Furðulega; undarlega; svo eftirtektarver er.  „Tóftin er merkilega heilleg ennþá“.

Merkilegheit (n, hk, fto)  A.  Mont; reigingur; rosti.  „Þessir stórbændur sýna okkur smælkinu svosem ekkert annað en merkilegheitin“.  B.  Furðulegheita; eftirtektarvert.  „Þessi bók er merkilegheita gripur“.  Í þessari merkingu var orðið undantekningarlaust í eignarfalli fleirtölu; eitt fárra orða sem breytti svo mjög um merkingu eftir föllum.

Merkilegheitafyrirbæri (n, hk)  Furðufyrirbæri; eftirtektarverður hlutur.  „Alveg er þessi karl merkilegheitafyrirbæri; frekar vill hann dunda sér við að sækja eina og eina kind heldur en þiggja aðstoð til að ná þeim öllum í einu“!

Merkilegheitaskepna (n, kvk)  Mjög furðuleg/skynsöm skepna.  „Hundurinn var merkilegheitaskepna.  Hann virtist alltaf vita í hvaða átt hann átti að sækja kindurnar, þó hann sæi þær alls ekki“.

Merkilegt fyrirbæri (orðtak)  Merkilegt; undarlegt.  „Það er merkilegt fyrirbæri að enn séu allir vegir marauðir, þó komið sé fram að hátíðum“.

Merkilegt nokk (orðtak)  Athyglisvert.  Skotið inn á eftir sagnorði eða haft sér, í enda setningar.  „Hann hafði, merkilegt nokk, aldrei komið þangað áður“.  „Strákurinn er bara sofnaður, merkilegt nokk“!

Merkilegur andskoti/fjandi (orðtak)  Furðulegt; sérkennilegt.  „Alveg er það merkilegur andskoti hvernig honum tekst að halda bílnum á veginum þó hann sé að keyra svona augafullur“.

Merking (n, kvk)  A.  Tákn; meining.  „Svona orð hafa litla merkingu“.  B.  Afmörkun; skrift eða annað tákn á hlut.  „Merkingin á baujunni er farin að mást“.  „Kollsvíkingar fengust nokkuð við merkingar fugla áðurfyrr“.

Merkingarlaust (l)  Sem hefur enga þýðingu/meiningu.  „Þetta er bara merkingarlaust kjaftæði“.

Merkisafmæli (n, hk)  Stórafmæli; tugsafmæli. 

Merkisbók / Merkisrit (n, kvk)  Merkileg bók.  „Ég hef nú aldrei talið hana „Skáldu“ neina merkisbók“!

Merkisdagur (n, kk)  Sérstakur/merkilegur dagur; hátíðisdagur; viðmið.  „Margir dagar voru merkisdagar í veðurfarslegu tilliti, og var mark á þeim tekið með veðráttuna sem á eftir fylgdi“.

Merkiskona / Merkismaður (n, kvk/kk)  Merkileg kona/ merkilegur maður.

Merkisfyrirbæri (n, hk)  Furðulegur/merkilegur maður/hlutur; furðukvikindi.  „Alveg er hann merkisfyrirbæri; suma daga ekkert nema landeyðuhátturinn, en afkastar öllum mönnum meira þegar hann fer af stað“!

Merkissvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir hofmóði/yfirlæti/monti.  „Hann setti bara upp einhvern merkissvip og lét sem hann hefði ekki heyrt spurninguna“.

Merkistíðindi (n, hk, fto)  Merkilegar/athyglisverðar fréttir.  „Þetta þykja mér merkistíðindi“.

Merkisviðburður (n, kk)  Merkilegur/athyglisverður viðburður. 

Merkja (s)  A.  Tákna; standa fyrir; hafa merkingu; fyrirstilla.   „Hvað skyldi þetta tákn eiga að merkja“?  B.  Setja auðkenni/tákn/merki á.  „Ég merkti lambið með rauðum lit“.  C.  Taka eftir.  „Ég gat ekki merkt að kýrin væri í tilferð með burð“. 

Merkjataska (n, kvk)  Spraututaska; taska sem í var geymt það hafurtask sem þarf til að bólusetja, marka og merkja nýfædd lömb að vori.  Taskan var gjarnan með axlaról, og í henni var m.a. bóluefni, sprauta, súlfatöflur, markatöng, merkjatöng, lambamerki, blýantur og minnisblað/minnisbók/númerabók til að skrá númer merkts lambs.  Stundum var taskan nefnd markataska, þar sem hún var með í för þegar markað var.

Merkjanlegt (l)  Sem unnt er að greina.  „Það hefur ekki orðið nein merkjanleg breyting á þessu“.

Merktur (l)  Sem merki er á.  „Þúfutittlingur; merktur sem fullorðinn fugl í Kollsvík í Rauðasandshr, V-Barð, 9.8.1942; drepinn af ketti á sama stað 30.8.1942“ (Skýrsla um fuglamerkingar Náttúrugr.safnsins 1942-43).

Merla (s)  Glitra; tindra.  Einkum notað í skáldskap nútildags.

Messa (n, kvk)  A.  Kirkjuleg athöfn; guðsþjónusta.  B.  Minningarathöfn um helgan mann sbr Þorláksmessa.

Messa (s)  A.  Um prest; standa fyrir messu.  B.  Predika; halda fyrirlestur; skamma. 

Messa yfir (orðtak)  Skamma; halda reiðilestur yfir.  „Það þarf eitthvað að messa yfir þessum ferðamönnum sem eru að traðka niður slægjuna“!

Messa/tala/tauta yfir hausamótunum á (einhverjum) (orðtak)  Skamma einhvern rækilega.

Messan / Messansegl (n, hk)  Aftursegl/skutsegl á skipi.  Messan er undantekningarlaust á öftustu siglu; messansiglu.

Messing (n, hk eða kvk)  Látún; málmblanda úr kopar og zinki.

Messuboð (n, hk)  Boðun messu á tilteknum tíma. 

Messudagar (n, kk, fto)  Dagarnir kringum Jónsmessu, 24. júní.

Messudagasteinbítur (n, kk)  Steinbítur veiddur í lok vertíðar/seinnihluta júní.  „Áður en vertíð lauk var fiskur oft orðinn tregur á línu.  Var þá farið með færi í steinbítsróðra.  Það var kallaður messudagasteinbítur sem þá veiddist.  Var hann þá orðinn miklu feitari og betri til átu en sá sem veiðst hafði á línu fyrr að vorinu“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Messufall (n, hk)  A.  Niðurfelling messu sem fyrirhuguð hafði verið.  B.  Hverskonar aflýsing viðburðar.

Messuferð (n, kvk)  Ferð til messu.

Messufært (l)  Unnt að halda messu vegna veðurs; vegna nægrar mætingar kirkjugesta eða annars.  Orðið er einnig notað í afleiddri merkingu um aðrar samkomur.

Messuvín (n, hk)  Rautt vín sem prestur útdeilir til þeirra sem ganga til altaris, ásamt oblátu.  Vínið er tákn um blóð Krists og oblátan um hold hans.  Vínið hluti af sakramenti/náðarmeðulum kirkjunnar.  Sjá sakramenti.

Mest af (orðtak)  Mikistil; að mestum hluta.  „Þetta var mest af ágætis fiskur, en þó tittir innanum“.  Mikið notað, og þá oftast sem eitt orð, og ætti e.t.v. að ritast þannig.

Mest/mikið um vert (orðtak)  Aðalatriðið; megináhersla.  „Kannski urðu ekki sett nein Íslandsmet í þessum íþróttagreinum, en mest var um vert að vera með“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Mest lítið (orðtak)  Fremur lítið; mjög lítið.  „Þetta var einkum hinum að þakka; ég gerði mest litið í þessu“.

Mesta furða / Mest að furða (orðtak)  Með ólíkindum; betur/meira en ætla mætti.  „Það er mesta furða hvað hún skilar góðum lömbum, sé miðað við stærðina á henni sjálfri“. „Það er mest að furða hvað hann getur hlaupið hratt þó fótstuttur sé“.  „Það er mest að furða hvað bensínið endist; það gæti dugað alla leið í land“.

Mestallur (l)  Megnið af; mikill meirihluti.  „Mestallur snjór er farinn af veginum“.

Mestanpart (orðtak)  Að mestu leyti.  „Ég smíðaði þetta mestanpart sjálfur“.  Sjá einnig mikinn part.

Mestallur (l)  Langmestur hluti af; megnið af.  „Mestallt féð er komið heim, en fáeinar ær eru þó eftir“.  „Grundagrjót ná allt norður að Rifi, eða því skeljasandsrifi sem einkennir síðan mestalla fjöru Kollvíkur, allt að Blakk“  (HÖ; Fjaran). 

Mestanpart / Mestanpartinn (ao)  Að mestu leyti; mestmegnis.  „Ég held að féð í Fjarðarhorninu sé mestanpart frá mér“.  „Ætli við klárum þetta ekki mestanpartinn í dag“.

Mestmegnis (ao)  Að mestu leyti; mestallt.  „Mestmegnis var það smáfiskur sem þarna fékkst“.  „Beitan var mestmegnis skelfiskur“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Met (n, hk)  A.  Lóð sem sett eru á vogaskálar til mótvægis þegar vigtað er.  B.  Álit; virðing.  „Ég kann ekki að meta þessa nýmóðins uppistandara“.  C.  Einstaklega góður árangur í keppni eða öðru.  „Ég held að þessi meðalvigt slái öll fyrri met“.

Meta (s)   Virða; setja verð á; leggja mat á.  „Ég kann ekki að meta svona fíflagang“!  „Það er erfitt að meta þetta til fjár“.

Meta að verðleikum (orðtak)  Virða á sanngjarnan hátt; meta rétts gildis/verðs.  „Ég held að hans snilligáfa hafi aldrei verið metin að verðleikum“.

Meta lítils/mikils (orðtök)  Bera litla/mikla virðingu fyrir; hafa skömm/mætur á.  „Ég met þitt álit mikils“.  „Er það satt, þú metir meir en mína bögu/ Hótel Borg eða Hótel Sögu? “ (JR; Rósarímur). 

Meta til fjár/verðs (orðtak)  Verðleggja; virða.  „Það er erfitt að meta svona gæðaskepnu til verðs“.

Metafli (n, kk)  Meiri afli en nokkurntíma áður.

Metall (n, kk)  A.  Málmur.  B.  Hverskonar efni; áfengi.  „Þetta er þrælgóður metall hjá þér“!

Metaskál (n, kvk)  Skál í vog; vogarskál.  „Mér finnst það vega þyngra á metaskálunum“.

Meter (n, kk)  Metri; lengdareining.  Ýmist var hvort menn notuðu meter eða metri, þó nú sé það síðara orðið staðlað í kassakerfum skóla og stofnana. 

Metersbil (n, hk)  Bil sem er einn meter/metri á breidd.  „Það er alltof langt að hafa metersbil á milli korka“!

Metersbreiður (l)  Einn meter/metri á breidd.  „Hann útbjó metersbreiða dragskóflu úr alúmíni“.

Metersbútur / Metersstubbur (n, kk)  Bútur sem er einn meter/metri að lengd.  „Þetta eru allt metersstubbar eða smærra“.

Metersdjúpur (l)  Einn meter/metri að dýpt.  „Hann ók þar inn í metersdjúpan skafl“.

Metershár (l)  Einn meter/metri á hæð.  „Hann lék sér að því að stökkva uppá metersháan stein, jafnfætis“.

Meterskefli / Metersspýta (n, hk/kvk)  Kefli/spýta/rekaviður sem er meter/metri að lengd.

Meterslangur (l)  Einn meter/metri að lengd.  „Skerðu þetta niður í meterslanga spotta“.

Metfé (n, hk)  Verðmætt fé; afburða fé.  „Þessi hrútur er algert metfé (metskepna)“.

Metast / Metast á (s/ orðtak)  Deila; jagast; rífast.  „Enn eru þeir að metast um hrútana“.  „Kerlingar tvær voru að fara yfir Kerlingarháls og metuðust á að stíga sem lengst til  og feta í för hvorrar annarrar“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Metfé (n, hk)  A.  Þau verðmæti sem ekki hafa fast verðlag heldur fer verðla þeirra eftir samkomulagi seljanda og kaupanda.  Sjá t.d. teint járn.  B.  Hlutur eða skepna sem erfitt er að meta til fjár.  Sjá metskepna.

Metingar (n, kvk, fto)  Deilur um hvor/hver sé betri/stærri/öflugri o.s.frv.; samanburður af metnaði.  „Hættiði nú þessum eilífu metingum útaf hrútunum; þær eru hálf kjánalegar og skila öngri niðurstöðu“!  Einatt í kvenkyni í fleirtölu en karlkyni í eintölu; sjá metingur.

Metingur (n, kk)  Metnaðarmál; deila um það hvor sé meiri eða hafi meira af einhverju.  „Stundum var metingur um það hjá bændum í réttum hver þætti eiga fallegasta hrútlambið til ásetnings“.  Sérkennilegt var í Rauðasandshreppi að eintalan var í karlkyni en fleirtalan í kvenkyni; sjá metingar.

Metnaðargjarn (l)  Með háleit/framsækin markmið; vill frama; stefnir hátt. 

Metnaðarlaus (l)  Með hófstillt markmið; nægjusamur.  „Þú nærð litlum árangri með þessu metnaðarleysi“!

Metnaðarmál (n, hk)  Kappsmál; í takt við mikinn metnað.  „Það var honum metnaðarmál að fá þetta í gegn“.

Metnaður (n, kk)  Kapp; árátta; sómi; dramb; oflæti.  Getur verið til góðs eða ills. 

Metorð (n, hk)  Virðing.  „Ég hef aldrei sóst eftir metorðunum“.

Metri (n, kk)  Meter (sjá þar).

Metskepna (n, kvk)  Afburðaskepna.  Sjá metfé.

Mettur (l)  Saddur; ekki svangur.  „Nú er maður orðinn vel mettur og alsæll“.

Mey skal að morgni lofa (en að kvöldi veður) (orðatiltæki)  Vísar e.t.v. til þess að karlmönnum verður ekki alltaf að ósk sinni þegar þeir girnast kvenfólk, og því rétt að bíða með þakkirnar til morguns.  Oftast viðhaft um það sem óvíst er hvort standist eða skili tilætluðum árangri.  Síðari hlutinn; „en að kvöldi veður“, heyrðist sjaldan, en vísar til þess að öruggara er að hrósa góðu veðri eftirá en spá fyrir um það.

Meyjarhelmingur (n, kk)  Annar helmingur flatts steinbíts.  „Síðan var fiskurinn rifinn meðfram bakugganum og var þar með kominn í tvo helminga sem héngu saman á markinu/dyllunni/dyndlunni.  Annar kallaðist meyjarhelmingur; og honum fylgdi gotraufarugginn/meyjarugginn, en hinum fylgdi bakugginn og markið; nefndist markhelmingur/graðhelmingur/dálkahelmingur.  Ennfremur var talað um steinbítshelming eða aðeins helming... Yngsta aðferðin var að flaka hann og voru flökin þá kúluð eða skorin í tvö strengsli með bandshaldi. (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh). 

Meyjarpappa (n, kvk)  Lítill kuðungur af poppuætt (naticidae); samnefni nokkurra tegunda þeirrar ættar sem algengir eru á útfiri í Útvíkum og sitja þá gjarnan á stórum steinum eftir að fallið er út.  Litir eru fjölbreytilegir; brúnn, grár, hvítur, hvít/brúnröndóttur og hálfgegnsæir.  Vinsælt var af börnum að tína þær meyjarpöppur sem lágu tómar í hrönnum í skeljasandinum og nota þær til leikja og skreytinga.  T.d. má líma þær á öskjur svo úr verður listaverk, eða nota sem lömb í kubbabúi

Meyjaruggi (n, kk) Gotraufaruggi á steinbít (sjá meyjarhelmingur og steinbítur).

Meyr (l)  A.  Mjúkur; eftirgefanlegur; fúinn.  „Gættu þín þegar þú ekur yfir aurinn; hann er dálítið meyr, svona snemma vors“.  „Ári er orðið meyrt í þessari sperru“.  B.  Viðkvæmur í lund; grátgjarn.

Meyra (n, kvk)  Mýkt; það sem orðið er meyrt.  „Ég skóf mestu meyruna af viðnum“.

Meyrna (s)  A.  Verða meyr/mjúkur/gljúpur.  „Fjölin er farin að meyrna og verða vatnssósa“.  B.  Um mann; vikna; verða klökkur.  „Maður kemst ekki hjá því að meyrna undir svona lofræðu“.

Mél (n, hk)  A.  Mjöl, s.s. haframél, hveitimél o.fl.  „Hér er ég með hundrað punda sekk af méli“.  B.  Fóðurbætir fyrir skepnur.  „Tvílemburnar þurfa töluvert mél meðan enn er ekki meiri beit“.  C.  Salli.  „Þetta brotnaði mélinu smærra“.  D.  Sá hluti beislis sem kemur upp í munn hests.

Méla (s)  Brjóta/mölva í smátt; kurla.  „Brimið hafði mélað kassann í grjótinu“.

Mélblettur (n, kk)  Blettur af méli, t.d. á fatnaði.  „Nú eru buxurnar allar í mélblettum“.

Mélbolli (n, kk)  Bolli af méli, t.d. þegar mælt er til baksturs.

Mélgrautur (n, kk)  Grautur úr mjöli, vatni og stundum með smjörklípu útí.  Þótti fátækrafæði.

Mélhnefi / Méllúka (n, kk/kvk)  Hnefafylli/lúkufylli af méli/mjöli.  „Búkollu þykir ósköp gott að fá méllúku, enda á hún það sannarlega skilið“.

Mélinu smærra (orðtak)  Í mjög smáa hluta.  „Ég missti diskinn í gólfið og hann brotnaði mélinu smærra“.

Mélkista (n, kvk)  Kista sem mél var geymt í. 

Mélkorn (n, hk)  Korn sem mél er malað úr; ómalað korn.

Mélkolla / Mélskál (n, kvk)  Kolla/skál af méli.  „Þrílemban þyrfti að fá dálitla mélkollu til að mjólka lömbunum“.

Mélkvörn (n, kvk)  Kvörn sem korn er malað í til mélgerðar. 

Mélkorn (n, hk)  A.  Mél; mjöl.  B.  Dálítið af méli.  „Gefðu kannski tvílembunni mélkorn í kollu“.

Méllaus (l)  Skortir/vantar mél.  „Mér sýnist stutt í að við verðum méllaus“.

Mélmatur (n, kk)  Matur sem í er mikið af méli.

Mélpoki / Mélsekkur (n, kk)  Sekkur af hveiti, rúgméli, fiskiméli eða slíku.  „Þótti það hraustlega gert af Brynjólfi að bera hundrað punda mélpoka á bakinu útyfir Hænuvíkurháls“.

Méltrog / Mjöltrog (n, hk)  Trog til að hnoða í brauð. 

Méltunna (n, kvk)  Tunna af méli/hveiti.  „Mundu að setja lokið vel yfir métunnuna“!

Mélugur (l)  Ataður méli.  „Hún var að baka og var dálítið mélug á svuntunni“.

Mélvara (n, kvk)  Varningur af méli; kornvara.  „Mig fer bráðum að vanta mélvöru og sitthvað fleira“.

Mér að meinalausu (orðtak)  Mér er ósárt um; skiptir mig ekki máli.  „Það væri mér að meinalausu þó þessi herjans hvítlaukur væri bannaður í öllum mat“.

Mér býður í grun / mér er ekki grunlaust um (orðtak)  Mig grunar; ég held; mig rennir í grun.  „Mér býður í grun að þetta muni hafa eftirmála“.  „Mér er ekki grunlaust um að hann vilji róa í dag“.

Mér er eiður sær (orðatiltæki)  Ég segi það satt; þetta er staðreynd.  „Mér er svo eiður sær með það að ég hef ekki snert á þínm gleraugum“.

Mér er nær/næst að halda (orðtak)  Ég held/tel/álít helst.  „Ég er ekki viss um hvert hann fór, en mér er nær að halda að hann hafi rölt niður í fjöru að ganga á reka“.

Mér er sem ég sjái/sæi (orðtak)  Ég gæti rétt ímyndað mér; ég á erfitt með að ímynda mér.  „Þetta gerði hann aleinn og hjálparlaust.  Mér er sem ég sæi aðra leika það eftir“!

Mér er spurn? (orðatiltæki)  Oft bætt aftan við efnislega spurnarsetningu til að leggja áherslu á hana og fá fram svör.  „Hvað á svo að gera við alla þessa brönduveiði?  Mér er spurn“?

Mér er það alveg/gersamlega hulið/óskiljanlegt / Mér er það hulin ráðgáta (orðtak)  Ég skil það alls ekki; mér er alls ekki kunnugt um það.  „Mér er það alveg hulið hvernig lambið komst lifandi niður úr ganginum“.  „Mér er þetta gersamlega hulin ráðgáta“!

Mér er það til efs (orðtak)  Ég efast um það; ég býst ekki við.  „Sumir segjast ekki borða kæsta skötu, en mér er það til efs að þeir hafi allir smakkað hana“.

Mér liggur við að / Mér liggur við að halda (orðtak)  Ég er nærri því að; mig langar til að; ég hallast að.  „Mér liggur eiginlega við að hringja í þessa bjálfa og segja þeim mína skoðun hreint út“!  „Mér liggur við að halda að þetta hafi ekki skeð fyrr en eftir aldamótin“.  Mikið notað í Kollsvík og nágrenni.

Mér segir svo hugur um (orðtak)  Mig grunar; Ég býst við.  „Mér segir svo hugur um að þessi ríkisstjórn muni ekki sitja út kjörtímabilið“.

Mér vitanlega (orðtak)  Eftir því sem ég best veit; með minni vitneskju.  „Mér vitanlega hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar fyrir þetta stefnuleysi í byggðamálum“.

Mið (n, hk, fto)  Fiskimið.  Í Kollsvík, sem víðar, voru vissir staðir sem þóttu fiskilegri en aðrir, einkum kringum misdýpi og boða.  Til að finna þá, og einnig til að marka siglingaleiðir á viðsjárverðum stöðum, var miðað við fasta staði í landi með tveimur hugsuðum sjónlínum sem hvor þarf að hafa tvo fasta punkta.  Punktarnir voru ýmist greinileg einkenni í landslagi; byggingar eða vörður sem hlaðnar voru í þessum tilgangi.  Má þar nefna Stekkjavörðuna á Hnífum, Grynnstasundsvörðu á Blakk og vörðurnar við Snorralendingu.  „Milli Miðklakks og Selkolls er Syðstaleið.  Er hún var farin var Kollsvíkurbærinn miðaður í norðustu búðirnar“  „Milli Bjarnarklakks og Miðklakks er Miðleið.  Hún var þannig miðuð að Leiðarhjalla í Hæðinni sunnan við Kollvíkurtún átti að bera í Klettabúð, sem var ein búðin á Norðari-klettunum“  „Leiðin um Grynnstasund var miðuð við vörðu; Grynnstasundsvörðu, á Blakknesinu og átti hún að fylgja klettabrúninni upp af Skekkingum“  Um leiðir inn á lægið í Kollsvíkurveri.  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Um slíkt var lítið skeytt, en tekið að renna er komið var til miða“  (ÖG; Þokuróður). 

Miða að (orðtak)  Stefna að; hafa fyrir takmark.  „Ég miða að því að klára þetta í dag“.

Miða áfram / Miða í áttina (orðtak)  Komast áfram, svo sjáist á viðmiðum; þokast áfram.  „Heldur miðar okkur í áttina með þetta, þó hægt fari“. 

Miða blint / Miða ljóst (orðtak)  A.  Um staðsetningu, t.d. fiskimið; láta fjarlægara miðið vera ljóst yfir/fyrir hið nærra, eða láta það fjarlægara hverfa bakvið hið nærra.  „Þú mátt láta grunnduflið fara á blindum Hnjótnum“.  B.  Um miðun/sigtun byssu; láta bráðina bera undir/yfir sigtið fremst á byssuhlaupinu.  „Gættu þín að miða byssunni ekki of ljóst; það hendir mig stundum“.

Miða sig niður (orðtak)  Taka mið í landi þegar net/legufæri eru lögð í sjó.  „Við þurfum svo að miða okkur niður þegar við erum búnir að leggja, til að vel gangi að finna þetta aftur“.

Miða út (orðtak)  Staðsetja með hjálp miða.  „Ég held að ég sé búinn að miða út staðinn, svo hann finnist aftur“.

Miða við (orðtak)  Taka mið af; nota til viðmiðunar; bera saman við.  „Þetta getur varla talist mikill afli, miðað við hlaðninginn sem við fengum í gær“.

Miðabjart / Miðaljóst (l)  Nægilega bjart til að sjáist til miða af sjó.  „Hann er að létta þokunni sýnist mér, og verða miðaljóst.  Við ættum kannski að sigla hérna fram á Haugana og reyna þar“. 

Miðaður (l)  Búið að miða út; borinn saman við.  „Grunnleiðin fyrir Blakk er annarsvegar miðuð við Tálkna en hinsvegar Bræðragjár í Núpnum“.

Miðaftann (n, kk)  Eykt að fornu tímatali, frá nóni til klukkan sex síðdegis; kl 18:00. Stundum með einu „n“.

Miðaglöggur (l)  Glöggur að greina mið.  Í dimmviðri reyndi mikið á það hversu menn voru miðaglöggir.

Miðaldahugsunarháttur (n, kk)  Gamaldags viðhorf.  „Hverskonar miðaldahugsunarháttur er þetta“?!

Miðaldir (n, kvk, fto)  Almennt er hugtakið ekki skýrt skilgreint, og í huga almennings nær það líklega oft yfir tímann frá „söguöld“ framtil loka einokunarverslunar.  Meðal sagnfræðinga nær hugtakið yfir tímabilið frá því að Rómaveldi leið undir lok árið 476 til þess að Kólumbus rambaði á Ameríku árið 1492 eða, hérlendis, við siðaskiptin um 1550.

Miðaldra (l)  Á miðjum aldri.

Miðavarða (n, kvk)  Varða í landi sem er mið af sjó.  Getur verið fiskimið, s.s. Stekkavarða á Hnífum, eða leiðarmerki, s.s. Grynnstasundsvarða á Blakk.

Miðbik / Miðdik (n, hk)  Miðkafli; miðja.  „Tréð er nokkuð strúað um miðbikið“.

Miðdagsbil / Miðdegisbil / Miðdegisleyti / Miður dagur / Siðdegi (n, hk, orðtak)  Oftast er notað síðdegi eða síðdegis.  „Hann hékk þurr í gær, en þó var tæpt með það síðdegis“.

Miðdagskaffi / Miðdegiskaffi / Síðdegiskaffi (n, hk)  Kaffi sem drukkið er um miðjan dag, kl 15.30-16.00, oftast nefnt síðdegiskaffi.  Venjulega kaffi, mjólk og  fjölbreytt meðlæti af kökum og kaffibrauði.

Miðdagsmatur / Midegisverður (n, kk)  Matartími fyrrum; á þeim tíma sem nú heitir kvöldmatur.  „Fyrst á haustin var setið í rökkrinu og prjónað.  Þegar kom fram á skammdegið lagði eldra fólkið sig í rökkrinu.  Kvöldvökur byrjuðu að lokinni sláturtíð, eða um veturnætur.  Það var kveikt kl 6-7 (síðdegis); þá var miðdagsmatur.  Hafði þá ekkert verið borðað frá því kl 10 árdegis, en kl 12 á hádegi var kaffi fyrir fullorðna en grasate fyrir börn og unglinga    (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Miðdagur (n, kk)  Miðparturinn úr deginum.  „Fallaskiptin eru einhverntíma í miðdaginn“.

Miðdegissól (n, kvk)  Sólskin um miðjan dag.  „Það var ári heitt á okkur þarna í bjarginu í miðdegissólinni“.

Miðdepill / Miðpunktur (n, kk)  Miðja; aðalatriði.  „Hann naut þess að vera miðdepill athyglinnar“.

Miðdilkur (n, kk)  Dilkur um miðjan vegg almennings í réttum.  „Hafnarmenn notuðu vanalega midilkinn í Breiðavíkurrétt“.

Miðdýpi (n, hk)  Hálfa leið frá yfirborði til botns.  „Í grunnendann var korkaþinurinn nærri miðdýpi“.

Miðfirðis / Miðfjarðar (ao)  Á miðjum firði.  „Við vorum komnir miðfirðis þegar fór að hellirigna“.

Miðfjaðrarbolti (n, kk)  Skrúfbolti sem gengur í gegnum miðja blaðfjöður ökutækis og heldur henni saman.

Miðgangur / Miðhilla / Miðpallur / Miðstallur / Miðþræðingur (n, kk)  Heiti til aðgreiningar á stöllum/göngum/þræðingum í bjargi/klettum.  „Það má fara miðþræðinginn með aðgát“.

Miðgóa (n, kvk)  Miðbik góu.

Miðhluti / Miðkafli / Miðpartur / Miðstykki (n, kk)  Miðja á hlut/svæði/sögu/tímabili. 

Miðhús (n, hk)  Hús í miðjunni.  „Hrútarnir voru í stíum innst í báðum körmunum í miðhúsinu“.

Miðhvapp (n, hk)  Það svæði í bjargi sem er í miðju.  „Það fæst oft vel af eggjum í miðhvappinu“.

Miðjaleið / Miðjavega / Miðjavegu (ao)  Á miðri leið; mitt á milli.  Ýmist í einu eða tveimur orðum eftir smekk.  „Miðjaleið út að Breiðavík áttaði ég mig á að ég hafði gleymt kíkinum“.  „Áin er miðjavega milli Kollsvíkur og Láganúps“. „Merkin eru um grjóttanga miðja vegu á brún upp af Gorgán“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).

Miðla (s)  Deila; skipta; koma til skila.  „Þið verðið að miðla þessu milli ykkar“.  „Megintilgangur þessa rits er að miðla af reynslu höfundar“.

Miðla málum (orðtak)  Hafa milligöngu um sættir í deilumáli. 

Miðlungi (ao)  Nokkuð; í meðallagi.  „Þessu trúi ég bara miðlungi vel“.  „Mér fannst þessi matur ekki nema miðlungi góður“.

Miðlungsasni / Miðlungsauli / Miðlungsvitleysingur (n, kk)  Meðalgreindur maður.  „Þetta veit hver miðlungsauli“!  „Hvaða miðlungsvitleysingur sem er hefði getað betur en þetta“!

Miðlungserfiður (l)  Erfiður í meðallagi; ekki mjög erfiður.  „Niður á höfðann er tvítugur lás; miðlungserfiður“.

Miðlungsfiskur (n, kk)  Meðalstór fiskur.

Miðlungsgáfaður / Miðlungsgreindur (l)  Gáfaður/greindur í meðallagi.  „Þetta ætti nú að vera augljóst hverjum miðlungsgáfuðum manni“!

Miðlungsgóður (l)  Í meðallagi góður; ekki mjög góður.  „Ekki var þetta nema miðlungsgóður afli“.

Miðlungsgrannur / Miðlungserfiður / Miðlungsharður / Miðlungshár / Miðlungssterkur / Miðlungsstór / Miðlungsstrembinn / Miðlungssver / Miðlungsþungur / Miðlungsþykkur (l)  Í meðallagi varðandi viðeigandi lýsingar.

Miðlungslega (n, kvk)  Lega lóðar/nets yfir hóflega langan tíma/ venjulegan tíma.  „Ég hef sjaldan vitað annan eins afla eftir miðlungslegu“.

Miðlungstekjur (n, kvk, fto)  Meðaltekjur; miðlungsháar tekjur.  „Hann hefur góðar miðlungstekjur“.

Miðlungi góður (orðtak)  Í meðallagi góður.  „Ekki þótti þetta nema miðlungi góður matur“.

Miðlungi vel (orðtak)  Hóflega vel; ekki mjög vel.  „Þeir tóku þessu svona miðlungi vel, og sumir höfðu uppi mótmæli“.

Miðlungshnullungur / Miðlungssteinn (n, kk)  Meðalstór steinn; viðráðanlegur steinn. 

Miðmorgunn (n, kk)  Rismál; klukkan 6.00 að fornu tímatali.

Miðmundi (n, kk)  Sá tími dags að fornu tímatali sem er mitt á milli hádegis og nóns; þ.e. um 13.30.

Miðmætingur / Miðmætingssteinn (n, kk)  Miðmætingur er sterkur hanki sem hafður er á netaskilum.  Hann tengir saman tvö net og í hann er festur miðmætingssteinn, sem er 1 ½-2 kg að þyngd (sjá hrognkelsi).

Miðnætti / Miðnættisleyti / Miðnæturbil (n, hk)  Kringum kl 12.00.

Miðrúm (n, hk)  Rúm/þóftubil um miðju á litlum báti.  Önnur rúm voru þá oftast framrúm/ fremra rúm; afturrúm/vélarrúm og e.t.v. skutrúm aftast og yfirbyggður lúkar fremst.  „Smáfiskurinn var skorinn í lítil stykki og lóðin beitt niður í miðrúmið“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Miðseymi (n, hk)  Skinnrenningur sem hafður er, oft tvöfaldur eða fjórfaldur, á milli sauma þegar skinnklæði eru gerð.  „Ennfremur þurfti nokkurt skinn í miðseymi; einkum notað úr gömlum skinnklæðum“  (KJK; Kollsvíkurver).

Miðskipa (ao)  Um staðsetningu um borð; í miðjum bát.  „Er sjórinn var kominn framum miðskipa, réttist báturinn og seig afturí“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Miðskips (ao)  Í miðjum báti.  „Svo röðuðum við okkur á bátinn og felldum skorður undan.  Tveir bökuðu aftan; einn studdi miðskips og einn ýtti að framan“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Miðskipsmaður (n, kk)  Háseti sem rær miðskips á bát; sá sem rær á miðskipsþóftu.  „Skipsmenn á sexæringi voru; andófsmenn, miðskipsmenn og austurrúmsmenn“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).  „Þegar sexæringur var settur niður vestra hlunnaði hálfdrættingur eða annar austurrúmsmaður, en hinn bakaði að aftan ásamt formanni; miðskipsmenn ýttu og studdu um róðurinn, en andófsmenn bökuðu að framan.  Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.

Miðskipsþófta (n, kvk)  Þófta í miðjum báti.  „Mastur og segl lágu þannig að masturstoppur nam við hnýfil, en masturshæll við kollharð á miðskipsþóftu bakborðsmegin.  “   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.

Miðský (n, hk)  Ský eru m.a. flokkuð eftir hæð þeirra á himni, í háský, miðský og lágský.  Meðal miðskýja eru netjuský og gráblika.  Þau eru í 2-6 km hæð yfir jörðu.

Miðslá (n, kvk)  A.  Þverslá í miðju þili, t.d. milli kórs og kirkju.  B.  Slá í grind í fjárhúsi, yfir skítakjallara.  Yfirleitt eru þrjár eða fjórar slár undir spelum í hverri grind, sé hún ætluð til að taka upp við útmokstur; tvær endaslár og ein eða tvær miðslár.

Miðsnesi (n, hk)  Brjóskið í miðju nefi; skilveggur milli nasahola.  „Oft má ráða við öflugustu naut ef maður nær góðu taki á miðsnesinu“.

Miðstykki (n, hk)  Stykki í/úr miðjunni.  „Mér varð það oft fyrir að fá mér miðstykkið úr bútungnum“.

Miðstærð (n, kvk)  Millistærð.  „Lengivel voru einungis þrjár stærðir af batteríum til almennra nota í vasaljós o.þ.h.; stór, miðstærð og lítil batterí“.

Miðstöð (n, kvk)  A.  Símstöð.  Á tímum sveitasímans vestra gekk símstöðin einatt undir heitinu „miðstöð“.  „Það þarf að hringja í gegnum miðstöð til að ná á bæi í Höfninni“.  B.  Kyndibúnaður í húsi.  C.  Miðja samgangna eða annarra athafna.

Miðstil (ao)  Um/til miðju; til helminga.  „Ég setti upp milligerð, nokkurnvegin miðstil í karminum“.

Miðsumar (n, hk)  Sá dagur sem markaði hálfnað sumar.  Að gömlu tímatali var miðsumar talið bera uppá sunnudaginn í 14. viku sumars, nema í sumaraukaárum; þá á sunnudegi í 15. viku sumars (sjá tímatal).  Heyannamánuður byrjar á miðsumarsdegi.  Sumir tala þó um miðsumar sem tímabil á miðju sumri.  Aðrir tala um Jónsmessu sem miðsumar, en það er innfluttur siður sem á ekki skylt við íslenskt tímatal.

Miðsvegar (ao)  Um miðja vegu; á miðri leið.  „Stekkjarmelur er miðsvegar frá Láganúpi að Kollsvík“.

Miðsvetrarbær (l) Um kú; kýr sem ber á miðjum vetri.  „... við keyptum okkur miðsvetrarbæra kú; mesta kostagrip“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Miðsvetrarleyti (n, hk)  Tíminn um miðjan vetur.  „Um miðsvetrarleytið breyttist tíðin verulega“.

Miðsvetrarpróf (n, hk)  Próf í skóla sem tekin eru á miðjum vetri.  „Einkunnir úr miðsvetrarprófum höfðu allmikið vægi í lokaeinkunnunum“.

Miðsvæðis (ao)  Á miðju svæði.  „Þó ekki væri deilt um að skólinn skyldi vera miðsvæðis í hreppnum, þá voru menn ekki einhuga um staðsetninguna.  Á endanum varð ofaná að hann yrði við Fagrahvamm í Örlygshöfn“.  „Þá drap hann á að hreppsnefndin sæi um að keypt væri a.m.k. ein vatnsdæla við Ferguson traktor, sem nota mætti ef bruna bæri að höndum, og yrði hún staðsett miðsvæðis í sveitinni“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 12.03.1960; ritari ÖG). 

Miður (ao)  Verr.  „Ýmsir sýndu mikla natni við þrif og verkun skinnklæða, en aðrir miklu miður, enda klæddust menn hlífðarfötum misjafnt eins og öðrum klæðum“  (KJK; Kollsvíkurver).

Miður (l)  Í miðju.  „Það var kominn miður nóvember þegar fyrst frysti“.

Miður vel (orðtak)  Ekki vel; fremur illa.  „Þetta gafst miður vel“.  „Honum gekk miður vel í prófunum“.

Miður vetur (orðtak)  Bóndadagur; sá dagur að gamla tímatalinu sem vetur telst hálfnaður.  Hann er talinn bera upp á föstudaginn í 13. vikur vetrar, sem er á bilinu frá 19.-25. janúar, en þó degi seinna í rímspillisárum (sjá tímatal).  Bóndadagur er fyrsti dagur þorra, og allajafna er þetta kaldasti tími ársins.

Mig rennir í grun (orðtak)  Mig grunar; ég býst við; mér er ekki grunlaust um.  „Mig rennir í grun að hann muni ekki taka þessu þegjandi“.

Mig undrar (ekki) (orðtök)  Ég er (ekki) hissa/undrandi.  „Mig fer bráðum að undra hvað dvelur þá“.  „Ertu búinn að klára súkkulaðið drengur?!  Mig undrar þá ekki að þú sért með í maganum“!´

Miga (n, kvk)  Það sem migið er; hlandbuna.  „Skelfingar þynnka er þetta kaffi; þetta er ekki betra en migan úr kettinum“!

Mikið (ao)  Áhersluorð.  „Ég þakka þér mikið vel fyrir hjálpina“! 

Mikið andskoti / Mikið ári / Mikil lifandis ósköp (orðtök)  Áherslusetningar.  „Mikið andskoti væri nú gaman að negla skóna hans við bekkinn og sjá hvernig honum verður við“!  „Mikið ári er ég orðinn leiður á þessari eilífu rigningu“!  „Mikil lifandis ósköp hafa safnast af snjó þarna í Beygjuna“!

Mikið/lítið á munum (orðtök)  Munar miklu/litlu.  „Ég var ögn fljótari, en það var ekki mikið á mununum“.

Mikið er að vita þetta! (orðtak)  Óskapleg finnst mér þetta slæmt; skelfing er að heyra þetta.  „Mikið er að vita þetta!  Og náðu þeir fénu þá ekki aftur“?  Oft annað orð í byrjun, t.d. „hörmung“; „andskoti“; „fjandi“ o.fl.

Mikið gengur á! (orðatiltæki)  Upphrópun þegar læti þykja keyra framúr hófi.  Næsta stig gæti verið; „hver andskotinn/þremillinn gengur eiginlega á“?!

Mikið í húfi / Mikið liggur við (orðtak)  Mikilvægt að vel takist til; mikið að veði.  „Nú liggur mikið við að vel sé staðið að verki“.  „Hér er mikið í húfi“.  Húfur er talið vera sama orðið og úfur, sem er tiltekið borð í bát.  Á knörrum víkinga- og landnámsaldar var húfurinn 10. borð að neðan; oftlega sterkara en önnur.  Ástæða þess var að skipunum var gjarnan lent fyrir flötu í fjöru, svo auðvelt væri að bera af.  Mæddi þá mikið á húfnum, og mikilvægt að hann gæfi sig ekki.  Þegar mikil hleðsla var á skipinu var „mikið í húfi“.  Sama merking liggur á bakvið orðtakið heill á húfi.  Líklegt er að „húfur“ hafi fyrr merkt skipsskrokkurinn allur, og verður þá orðtakið auðskiljanlegra.  Af sama stofni væru þá t.d. „hjúfra“ sem fyrrum hefur verið „hufra“; þ.e. liggja við land.  Sjá heill á húfi.

Mikið í mun (orðtak)  A.  Leggur mikla áherslu á; mjög áhugasamur um; ákafur varðandi.  „Mér er mikið í mun að þetta standist“.  B.  Mikið niðrifyrir; ákafur að segja frá; óðamála.  „Honum var mikið í mun, og hann heimtaði að ég kæmi strax með sér til að líta á hvað skeð hafði“.

Mikið í munni (orðtak)  Hljómar voldugt/mikilfenglega/vel.  „Það þykir víst mikið í munni núna að vera langskólagenginn“.

Mikið í munni (orðtak)  Hljómar vel/virðulega.  „Hann vill láta titla sig forstjóra; það þykir mikið í munni“!

Mikið/vel í lagt (orðtak)  Ofrausn; yfirdrifið.  „Mér finnst nokkuð mikið í lagt að hafa harðvið í girðinguna“.

Mikið i spunnið/varið (orðtak)  Eftirsóknarvert; vandað; gott.  En svo við snúum okkur aftur til hennar ömmu þinnar, þá hefur verið meira en lítið í hana spunnið...“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Mikið/slæmt/illt/verulegt í sjóinn (orðtök)  Mikill sjór; slæmt sjóveður.  „Í norðanátt er betra að fara Röstina í suðurfalli, ef eitthvað verulegt er í sjóinn... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Mikið í spunnið (orðtak)  Mikið varið í; gott; vandað.  „...þá hefur verið meira en lítið í hana spunnið...“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Mikið/lítið í sjóinn (orðtak)  Lýsing á gæðum sjólags.  „Það var mesti munur að geta lent tómum bát þegar mikið var í sjóinn“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   

Mikið má ef (hafa) vill (orðatiltæki)  Mikið skal til mikils vinna.

Mikið niðrifyrir (orðtak)  Í uppnámi; óðamála.  „Honum hættir til að stama þegar honum er mikið niðrifyrir“.  „Ég heyrði að það var faðir minn sem ávarpaði einhvern og var mikið niðri fyrir“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Mikið og margt (orðtak)  Margt og mikið; fjölmargt.  „Nú get ég sagt þér mikið og margt“.

Mikið raup fær spott í kaup (orðatiltæki)  Hinn montni uppsker gjarnan háð og aðhlátur. 

Mikið skal til mikils vinna (orðatiltæki)  Greiða þarf hátt gjald/ mikla fyrirhöfn fyrir mikil verðmæti. 

Mikið skal til mikils þýða (orðatiltæki)  Greiða þarf mikið fyrir dýran hlut. „Hún er treg til þess.  Svo segir sagan að þar kom að ágirndin varð yfirsterkari og hún segir þetta: „Mikið skal til mikils þýða; leggðu mig á milli hnífa““  Síðan heitir þetta Hnífar (EG; Viðtal á Ísmús 1968; frásögn um örnefnið Hnífa). 

Mikið stendur til (orðtak)  Mikið er fyrirhugað/að gerast.  „Ég verð að vera vel sofinn þegar mikið stendur til“.

Mikið til / Mikils til (orðtök)  Sjá mikilstil.  „Engidalsá hverfur mikils til þegar niður á Sandana kemur...“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Mikið um dýrðir (orðtak)  Mikil viðhöfn; mikil hátíð; glæsilegur viðburður. 

Mikið umleikis (orðtak)  Mikil umsvif; víðtækur rekstur; viðamikið.  „Maður er ekki með mikið umleikis í útgerðinni þó maður eigi þetta bátshorn“.

Mikið er/var! (orðtak)  Upphrópun; gjarnan viðhöfð þegar eitthvað gerist loksins sem beðið hafði verið eftir.  „Loksins eru þeir komnir á Stöðulinn með kýrnar; mikið var“!  Einnig notað; „það var mikið“!

Mikið var að beljan bar! (orðatiltæki)  Mikið var; loksins kom að því!  Vísar til þeirrar óþolinmæði sem eflaust hefur oft ríkt á fátækum heimilum meðan beðið var eftir burði einu kýrinnar, og mjólk hennar.

Mikið við haft (orðtak)  Mikið lagt í undirbúning; mikið tilstand; mikil virðing sýnd.  „Mér finnst nú fullmikið við haft; þetta er nú bara þingmannsnefna sem er á ferð en ekki forsetinn“!

Mikið vel (orðtak)  Mjög vel.  „Ég þakka mikið vel fyrir alla þína aðstoð“.

Mikið vill meira (orðatiltæki)  Sá sem hefur mikið vill gína yfir öllu. 

Mikið þó andskoti (orðtak)  Áherslusetning, oftast í byrjun fullyrðingar.  „Mikið þó andskoti held ég að hann verði hissa þegar hann sér þetta“!

Mikilfenglegur (l)  Stórkostlegur; tilkomumikill.  „Óvíða er mikilfenglegra útsýni en af Blakknesnibbu“.

Mikilgæfur (l)  Um hey; þarf mikið magn til fóðrunar; um léleg/kraftlaus hey.  „Heyin kunna að vera ekki góð sökum óþurrks undanfarið sumar, og verða þar fyrir mikilgæfari„“   (ÍÍ;  Forðagæslubók Rauðasands 1944).  

Mikilhæfur (l)  Hæfileikaríkur; snjall.  „Gísli Konráðsson segir að Guðrún hafi þótt stórlynd, en mikilhæf í mörgu og Einari hafi farist vel við hana þótt jafnan héldi hann framhjá henni, eins og Gísli orðar það“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Mikill að burðum (orðtak)  Sterkur; aflmikill; kröftugur.  „Hann var mikill að burðum, og vippaði sekkjunum upp í kerruna eins og fisi“.  Sjá burður og lítill að burðum.

Mikill að vallarsýn / Mikill á velli (orðtak)  Mannlýsing; stór/þrekinn/mikilfenglegur tilsýndar.  „Hann var mikill að vallarsýn og sterkur sem naut“.

Mikill á lofti (orðtak)  Montinn; góður með sig.  „Hann er dálítið mikill á lofti og málgefinn“.

Mikill í orði en minni á borði (orðtak)  Þykist meiri maður en hann er í raun; montinn.  „Ekki vantar gorgeirinn í þennan vindbelg; ætli hann sé kannski ekki minni á borði en í orði“!  Borð merkir þarna borðstokkur, og líkingin vísar til þess að menn þykist meiri ræðarar en þeir síðan reynast vera.  Sjá meiri í orði en á borði.

Mikill um sig (orðtak)  Feitur; þéttvaxinn.  „Ári er maður orðinn mikill um sig í seinni tíð“.

Mikill þó andskotinn! (orðatiltæki)  Öflugt blótsyrði sem sumum Kollsvíkingum hrekkur gjarnan af munni þegar mikið líggur við, eða óvæntir og miklir atburðir hafa skeð.  „Mikill þó andskotinn!  Haldiði ekki að hrútfjandinn hafi brotist úr stíunni í nótt“!  Sjá mikið þó andskoti held ég….

Mikillega (l)  Mikið; mjög.  „Ég þakka þér mikillega fyrir greiðann; það var vel gert af vandalausum“.  „Ég biðst mikillega afsökunar á þessm mistökum“.

Mikilmenni (n, hk)  Mikill/virðulegur maður; heiðursmaður; stórmenni. 

Mikilmennskubrjálæði (n, hk)  Oflátungsháttur; ofætlan; mont.  „Þetta er eintómt mikilmennskubrjálæði“.

Mikils um vert (orðtak)  Mikilvægt; áríðandi.  „Nú er mikils um vert að vel takist til“.  „Mér fannst mest um vert að hrúturinn kom í leitirnar“.

Mikilsháttar (l)  Mikilvægur; áríðandi.  „Efnt var til fundar ef um mikilsháttar málefni var að ræða“.

Mikilsmetinn (l)  Virtur; dáður.  „Fólk átti ekki von á þessu af svo mikilsmetnum manni“.

Mikilstil / Mikis til / Mikistil / Mikiðstil (ao/orðtak)  Mikið til; að mestu leyti; megnið af; langttil.  „Þó fiskafjöldinn yrði mikill þá var þetta mikilstil smælki“.  „Saltið er mikistil búið úr kassanum“.  „Hann er mikiðstil hættur að fenna“.  Orðið er algengt í máli Kollsvíkinga, og oftast notað án greinilegs „ð“ eða „l“.

Mikilsverður (l)  Mikilvægur; dýrmætur.  „Þarna náðist mikilsverður árangur“.

Mikilúðlegur / Mikilúðugur (l)  Ábúðarmikill; fasmikill; gustmikill.  „Ári ertu mikilúðlegur í þessum galla“!

Mikilvirkur (l)  Afkastamikill; öflugur; stórvirkur.  „Hann hefur verið mikilvirkur á þessu sviði“.

Mikilvægi (n, hk)  Vægi; það að vera mikilvægur.  „Mikilvægi þess verður seint ofmetið“.

Mikilvægur (l)  Þýðingarmikill; sem gegnir veigamiklu hlutverki.  „Það er mikilvægt að þetta takist“.

Mikinnpart / Mikinn part (ao/orðtak)  Að miklu leyti.  „Heyskapur er mikinnpart búinn“.  Sjá mestan part.

Mikla fyrir sér (orðtak)  Láta sér vaxa í augum; kvíða/óttast að óþörfu. 

Miklast af (orðtak)  Hreykja sér af; monta sig af.  „Það er nú of snemmt að miklast af því sem ólokið er“!

Mild/mjúk er móðurhöndin / Milt er móðurhjartað (orðtak)  Auðskilin speki um móðurást og ást til móður.

Milda (s)  Draga úr; gera mildara/betra/veikara.  „Ég umskrifaði bréfið og mildaði í því tóninn“.  „Það mætti aðeins milda bragðið af sósunni með rjóma“.  „Eitthvað er hann að milda frostið“.

Mildilega (l)  Með mildum/mjúkum/miskunnsömum hætti.  „Ég bað hann mildilegast að láta þetta ekki koma fyrir aftur“.

Mildur (l)  A.  Um veður/tíðarfar; fremur gott/hagstætt; harðindalaust.  „Á eftir góðu sumri fór gott haust og mildur vetur, fram í desember“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58).  B.  Um mann; góðlátlegur.

Milla (n, kvk)  Krókur úr málmi til að krækja saman fatnaði, t.d. upphlut á þjóðbúningi kvenna.

Milli heims og helju / Milli lífs og dauða (orðtök)  Á mörkum þess að lifa af; nærri dauður.  „Hann lá milli heims og helju nokkra daga, áður en hann fór að hjarna við aftur“.

Milli heys og grasa (orðtak)  Um fóðrun búfjár; tíminn frá því að hey er farið að minnka í hlöðu og þar til skepnur komast á græn grös.  Var oft drýgt með öðru, ef menn voru heytæpir.

Milli steins og sleggju (orðtak)  Í klípu; milli tveggja (slæmra) kosta.  „Ég var eiginlega búinn að lofa að smala í Hænuvík, en langar þó að hjálpa þeim að smala  Sauðlauksdalinn.  Þannig að ég er á milli steins og sleggju“.

Milli svefns og vöku (orðtak)  Hálf sofandi; nærri sofnaður.  „Ég var milli svefns og vöku um þetta leyti, en ekki gat ég betur séð en hann kæmi inn og héldi á hausnum undir hendinni“.

Milli tanna á fólki (orðtak)  Umtalaður; slúðrað um.  „Vegna þessa var hann mikið á milli tanna á fólki í langan tíma“.

Milli tveggja elda (orðtak)  Í klípu; aðþrengdur; sótt að úr báðum áttum.  „Ég var þarna á milli tveggja elda; að halda áfram upp klettinn, i þeirri von að finna handfestu, eða feta mig afturábak niður aftur“.

Milli verka (orðtak)  Tíminn frá því hætt er í einu verki og byrjað á öðru.  „Ég skal gera þetta; ég er milli verka þessa stundina“.

Milli vita (orðtak) Sjá á milli vita.

Milli vonar og ótta (orðtak)  Á báðum áttum; með ugg en þó í von.  „Við biðum líka milli vonar og ótta eftir að fá að vita hvort okkar menn kæmu allir heilir heim“  (Ólöf Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg).   

Milli þils og veggjar / Milli þilja (orðtak)  Í hlöðnum húsum fyrri tíma var oft sett timburþil að innanverðu, til að gera húsið vistlegra.  Bil varð milli þils og veggjar, einkum þegar hleðslan gekk til með tímanum.  Hlutir sem lagðir voru á sylluna ofaná þilinu gátu dottið milli þils og veggjar.  Einnig gat þar verið músagangur.

Milliból (n, hk)  Ból/bauja/belgur sem haft er á fiskilínu/neti auk endabólanna.  „Ekkert milliból var haft á þessari stuttu línu“  (KJK; Kollsvíkurver).

Millifiskur (n, kk)  Saltfiskur sem er milli 12 og 18 tommur frá hnakka aftur á sporð (sjá saltfiskur).

Milliganga (n, kvk)  Sendiboð; sáttaumleitan; boðburður.  „Þeirra sættir hefðu varla orðið nema fyrir mína milligöngu“.  „…hafði skólastjórinn pantað gistipláss fyrir okkur með milligöngu kollega síns þar…“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Milligengur (l)  Sem unnt er að ganga á milli.  „Milligengt var úr næstnorðasta karminum yfir í miðhúsið“.

Milligerð (n, kvk)  Skilrúm.  „Milligerðir voru settar í karmana í fjárhúsunum yfir sauðburðinn“.

Milligjöf (n, kvk)  Greiðsla með þvi ódýrara í kaupum/vöruskiptum.  „.... en hann vildi ekki láta hnífinn af hendi nema að hún léti þá milligjöf sem hverjum hvenmanni er dýrmætust.“ (EG; Viðtal á Ísmús 1968; frásögn um örnefnið Hnífa). 

Milligöng (n, hk, fto)  Göng milli hólfa/ annarra ganga.  „Milligöng eru milli tveggja af námunum í Stálfjalli“.

Millihurð (n, kvk)  Innri hurð; venjulega hurð milli anddyris og húss, en stundum milli herbergja.  „Muniði að loka millihurðinni í kartöflugryfjunni áður en útihurðin er opnuð“.

Millihönd (n, kvk)  Spilari sem hvorki er síðastur (bakhönd/rasshönd) né fyrstur (forhönd) í röð þegar látið er í borð/slag. 

Millikassi (n, kk)  Gírkassi í sumum jeppum fyrrum; aftanvið aðalgírinn.  „Milligírkassi var á rússanum, þar sem skipt var milli háa og lága drifsins, og framdrifið tengt og aftengt.  Einnig nefnt litlustangir

Milliskyrta (n, kvk)  Skyrta sem klæðst er yfir næbol/nærskyrtu.  Nú oft eini klæðnaðurinn að ofanverðu, einkum hjá karlmönnum.  „Ennfremur var þráður í uppistöðu og tvistur í fyrirvaf þegar ofið var í milliskyrtur og sængurver sem notuð voru í verbúðunum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).

Millilag (n, hk)  Lag milli annarra laga.  Oftast er orðið notað um áberandi rauðleit lög í blágrýtisstaflanum sem er berggrunnur Kollsvíkur og svæðisins alls.  Berggrunnurinn er byggður upp í síendurteknum gosum úr þunnfljótandi hrauni.  Millilögin eru talin mynduð í goshléum, en þau eru að mestu úr eldfjallaösku og gjósku.  Askan glerjast með þrýstingi og tíma; límist saman og verður rauð. Í lögunum má einnig finna lífrænar leifar, þar sem gróður hefur náð sér á strik milli gosa.  Sumsstaðar má jafnvel finna holur eftir trjástofna sem fallið hafa í gosinu, s.s. í grófarstekk og Vatnadalsbót. Í holuveggjunum eru afsteypur af trjáberkinum og sumsstaðar hefur hraunið runnið inn í brotinn stofn og má þar sjá mót af flísum og árhringjum.  Í millilögunum er nokkuð um hella; e.t.v. eftir það að hraunið rann yfir dyngju lausra efna sem á síðari tímum hefur veðrast út.  Þannig er t.d. margir hellar í Hnifunum.  Ekki er ólíklegt að í millilögum megi finna dýraleifar, þó ekki hafi það gerst enn; en löngum var landbrú milli Vestfjarða og Grænlands. 

Milliliður (n, kk)  Sá/það sem tengir tvo eða fleiri aðila/þætti.  „Sláturfélagið Örlygur var milliliður við sölu afurða frá bændum utantil í hreppnum, en Kaupfélag Rauðsendinga innar“.

Millitíð (n, kvk)  Tíminn sem líður á milli tiltekinna viðburða; hlé; bið.  „Hann brast aftur á með stórhríð stuttu síðar, en í millitíðinni gat ég hlaupið út og komið fénu inn“.

Milliveggur (n, kk)  Skilveggur; innveggur.  „Í tóftinni var einn milliveggur sjáanlegur“. 

Millivegur (n, kk)  A.  Leið milli staða.  B.  Meðalhóf; bil milli öfganna.  „Ég legg til að við förum milliveginn í innheimtu árgjaldsins.  Ekki megum við fæla neinn úr félaginu fyrir okur“.

Milljónarfélag (n, hk)  A.  Félag sem veltir milljónum króna eða hefur milljónir króna í hlutafé.  B.  Félag sem Pétur J. Thorsteinsson kaupmaður á Bíldudal stofnaði í samvinnu við danska og íslenska fésýslumenn árið 1907; þeirra á meðal Thor Jensen.  Oinbert heiti þess var P.J. Thorsteinsson & Co, en Milljónarfélagið var það nefnt vegna þess að hlutafé þess nam einni milljón, sem samsvaraði öllum ríisútgjöldum árið 1907.  Pétur rak um það leyti mikið viðskiptaveldi og útgerð á Bíldudal, Hafnarfirði og Vatneyri, og rann það inn í nýja félagið.  Félagið hafði mikil umsvif í útgerð á Vatneyri og í Viðey, þar sem var miðstöð togaraútgerðar.  Í Kollsvíkurveri byggði það steinsteypt salthús.  Árið 1910 gengu t.d. frá Vatneyri 9 stór þilskip og 12 opnir bátar.  Í Rauðasandshreppi, einkum í Kollsvíkurveri, gengu þá 24 opnir bátar, en þeir höfðu flestir viðskipti við félagið.  Það var þessari útgerð því mikið áfall þegar Milljónafélagið varð gjaldþrota í ársbyrjun 1914.  Ásæða gjaldþrotsins var mikil yfirbygging og ósamkomulag eigenda.  Margir þeir sem reru úr Kollsvíkurveri töpuðu þar stórfé; ekki síður en Íslandsbanki þess tíma.

Milljónamæringur (n, kk)  Sá sem á milljón/milljóna króna verðmæti í eignum.  Það þótti gríðarlegt fé framyfir miðja 20.öld, en síðar hefur verðfall krónunnar gert marga að milljónamæringum.

Millum (fs)  Milli.  „Millum“ er mun sjaldnar notað en“ milli“, og þá einkum í hátíðlegu máli eða í orðtökum.  „Ekkert hefur enn orðið af samningum þeirra í millum“.

Milt er móðurhjartað / Mjúk er móðurhöndin (orðatiltæki)  Enginn er skilningsríkari eða blíðari við barnið en móðir þess.  Einnig; glöggt er móðuraugað og þunnt er móðureyrað.

Milt veður /Milt í tíðinni (orðtak)  Hlýtt og hæglátt veður, einkum eftir rosta eða kuldakast. Oft einungis „milt“.

Miltisbrandur / Miltisbruni (n, kk)  Hættulegur og bráðdrepandi smitsjúkdómur sem kemur fyrir í dýrum; einkum grasbítum, en getur smitast í fólk við snertingu eða innöndun.  Pestin finnst um allan heim, þó ekki sé hún jafn útbreidd og fyrrum.  Miltisbrandssýkingar varð fyrst vart hérlendis 1865, og er talið að pestin hafi borist með húðum sem fluttar voru inn frá Afríku.  Á síðari árum hefur sjúkdómurinn ekki komið upp hér, en unnið er að því að kortleggja urðunarstaði dýra sem drepist hafa.  Ástæðan er sú að talið er að gró miltisbrands geti lifað og smitað í langan tíma, og geti losnað úr læðingi ef urðunarstöðum er hreyft. 

Minjagripur (n, kk)  A.  Gripur sem maður vill eiga til minningar/minja um eitthvað sem liðið er eða manni er kært.  B.  Fornmunur; hlutur sem vitnar um það sem liðið er, t.d. aflagða verkmenningu eða byggð.

Minkahundur (n, kk)  Hundur sem þjálfaður er í að veiða mink.  „Er hreppsnefndin sammála um það… að kaupa fullorðinn æfðan minkahund…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Minkaeyðir / Minkabani (n, kk)  Maður sem veiðir mink.  „Veiðistjóri réði Ólaf Sveisson Sellátranesi sem minkaeyði fyrir sveitina…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Minkfjandi (n, kk)  Villiminkur og það álit sem hann naut hjá Kollsvíkingum.  „En svo átti minkfjandinn leið um og drap allar hænurnar mínar og sennilega andarungana...“ (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).

Minkur / Minkaplága (n, kk/kvk)  Minkur er rándýr af marðarætt sem ekki tilheyrði dýraríki Íslands fyrr en á síðustu áratugum.  Árið 1931 var hann fyrstur fluttur inn, og var ætlunin að ala hann í búrum til skinnaframleiðslu.  En eitthvað af honum slapp út og fjölgaði sér fljótt í íslenskri náttúru.  Minkurinn er mjög öflugt rándýr og drepur iðulega mikið meira en hann kemst yfir að éta.  Hann er því mikill skaðvaldur í varplöndum, lækjum og vötnum.  Sveitarfélög hafa þá skyldu að halda mink í skefjum, en hafa víða brugðist henni í seinni tíð.  Eftir sameiningu Rauðasandshrepps í Vesturbyggð hallaði mjög á verri hlið í þessum efnum, og t.d. útrýmdi minnkur algerlega bröndum úr lækjum í Kollsvík og víðar.

Minna á (orðtak)  Vekja athygli á; nefna það sem um var talað; líkjast einhverju öðru.  „Ég minnti hann á það sem hann hafði lofað“.  „Drangurinn minnir dálítið á tröll með poka á baki“.

Minna má (nú) gagn gera (orðatiltæki)  Unnt væri að komast af með minna.  Oft notað sem upphrópun þegar manni finnst eitthvað yfirgengilegt/ of mikið af því góða.  „Víst bað ég hann um fáeinar kartöflur, en minna má nú gagn gera“!

Minnast (s)  Muna eftir.  „Ég minnist þess að hún talaði um hvað þeir Maggi og Einar væru oft búnir að borga sér“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  „Ég minnist þess mest hvað hún var róleg“  (IG; Æskuminningar).

Minnast á (orðtak)  Nefna; brúa á; færa í tal.  „Ég hef enn ekki minnst á þetta við hann“.

Minni (n, hk)  Minning; það sem munað er/ muna þarf.  „Mitt minni er dálítið farið að förlast“.  „Hann mælti fyrir minni kvenna“. 

Minniháttar (l)  Af minna tagi; ekki mikið/stórt/meiriháttar.  „Þetta er bara minniháttar rispa“.

Minni máttar (orðtak)  Ekki eins sterkur og aðrir; illa fær um að verja sig.  „... en jafnan dró hann taum þeirra sem minni máttar voru ... “  (ÖG; Snæbj.J.Th; Árb.Barð 1980-90). 

Minni/verri/lakari/lægri en skyldi (orðtök)  Ekki eins góður/mikill og ætti að vera.  „Afgangur heyja minni en skyldi, eftir jafn góðan vetur“  (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Minning (n, kvk)  Hugsun um liðinn atburð; liðið atvik/ horfið sögusvið/ horfin persóna sem geymist í minni manns.  „Það eru mínar leiðustu minningar frá unglingsárunum“  (IG; Æskuminningar). 

Minningarlundur (n, kk)  Trjálundur til minningar um mann/fólk/viðburð.  „… að koma upp girðingu kringum minningarlund sr Björns Hlldórssonar í Sauðlauksdal“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Minnisblað / Minnisbók / Minniskompa / Minnislappi / Minnissnepill (n, hk/kvk)  Blað/bók sem menn rita í minnispunkta um það sem annars gæti gleymst.  „Mundu að taka með þér merkjatöskuna og minnisblað ef þú ferð að vitja um lambféð“.

Minnisbrestur /Minnisleysi / Minnisskortur (n, kk/hk)  Skortur á að muna.  „Ég verð að viðurkenna minnisbrest minn um þetta atriði“.

Minnisgóður / Minnugur (l)  A.  Með gott minni.  „Ég er ekki eins minnugur á þetta í seinni tíð“.  B.  Með í huga.  „Lengi vel forðaðist ég þetta dýjasvæði; minnugur fyrri hrakfara“.

Minnislaus / Minnissljór (l)  Skortir gott minni; gleyminn.  „Maður er orðinn svo ári minnissljór í seinni tíð“.

Minnisstæður (l)  Sem lifir í minningu; minnisverður.  „Mun þetta mesta áhlaupsveður af norðri er smábátar á þessum slóðum hafa hreppt, og mun mörgum skipverjanna það minnisstætt“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Minnisvarði (n, kk)  Vanalega er átt við sérstakt stórt merki með upplýsingum um ágæti manneskju.  Ekki hefur tíðkast hingatil að reisa slíkan hégóma um merka Kollsvíkinga; þó ærin ástæða væri til.  Hinsvegar vitna verkin víða um mennina.  T.d. leyna sér ekki handarverk Guðbjartar á Láganúpi í öllum hans hleðslum; né heldur Össurar sonar hans í öllu hans félagsmálastarfi; eða Sigríðar hans konu í einstökum listaverkum.  Um það segja Hávamál:  „… en orðstír deyr aldregi; hvem er sér góðan getur“.

Minnka/stækka við sig (orðtök)  Fá sér minna/stærra (bústofn, hús, bíl o.fl.) en það sem maður hafði fyrir.

Minnkandi/stækkandi tungl orðtök)  Tungl sem stækkar með hverjum degi í átt að fullu tungli er stækkandi, en það sem daglega minnkar í átt að nýju tungli er minnkandi. 

Minnkun (n, kvk)  A.  Hverskonar skerðing/takmörkun.  B.  Skerðing mannlegrar reisnar/ sjálfsvirðingar.  „Það er engin minnkun að því að snúa frá; hitt væri heimska að leggja í ófæra röstina“.  Sjá til minnkunar.  C.  Stykki í pípulögn sem minnkar sverleika hennar.

Minnugur (l)  A.  Með gott minni; man vel.  „Mér þykir þú minnugur; að muna númerin á lömbunum yfir sumarið“.  B.  Með það í minni.  „Ég varaði mig núna á boðanum; minnugur síðustu hremminga minna þar“.

Mis (ao)  Misvíxl; framhjá.  Sjá fara á mis og leggja á mis.

Misalvarlega / Mishátíðlega (ao)  Misjafnlega hátíðlega/alvarlega.  „Menn tóku þessi tilmæli mishátíðlega“.

Misathugað (l)  Illa ígrundað; rangt/skakkt ályktað.  „Þetta var nú eitthvað misathugað hjá honum; gimbrin reyndist vera hrútur þegar betur var að gáð“!

Misauðvelt (l)  Misjafnlega auðvelt.  „Þarna eru nokkrir varpstaðir, en misauðvelt að komast að þeim“.

Misáberandi (l)  Misjafnlega greinilegt/áberandi.  „Sultardropinn virtist alltaf vera á sínum stað, en misáberandi eftir því hvað kalt var í veðri“.

Misáfjáður / Misáhugasamur (l)  Misjafnlega áhugasamur/ákafur.  „Bændur voru misáfjáðir í þessa nýju tækni“.  „Maður er misáhugasamur um námið, eftir námsgeinum“.

Misánægður / Misglaður / Miskátur (l)  Misjafnlega ánægður.  „Menn voru misánægðir með kosningaúrslitin; eins og gengur“.

Misbeita / Misbjóða (s)  Ætlast til of mikils; ganga fram af.  „Þú mátt ekki misbjóða söginni svona“!

Misboðið (l)  Sem hefur verið gengið fram af/ misbeitt.  „Frúnni var gjörsamlega misboðið þegar hún heyrði þetta; hún sagðist ekki ætla að líða svona rakalaust kjaftæði“.

Misbrestur (n, kk)  Galli; hörgull; skortur.  „Hver félagsmaður átti að greiða félagsgjöld, en misbrestur vildi verða á skilum þeirra“.

Misbrýndur (l)  Með misþykkar brúnir; fleyglaga.  „Úr torfskurðinum komu misbrýndar torfur, sem féllu vel saman þegar þær voru lagðar á þakið“.

Misdraga (s)  Draga kind/lamb í rangan dilk í rétt/sláturhúsi; misgrípa sig á mörkum; flokka kind ranglega/ til rangs eiganda.  „Ég er hræddur um að þetta lamb hafi verið misdregið á réttinni; þetta er ekki frá mér“.

Misdragast (s)  Vera misdregið.  „Ég ætla að fara aðeins innanum féð í dilknum áður en rekið er norður; ef eitthvað skyldi hafa misdregist“.

Misdráttur (n, kk)  Rangt dregið fé í réttum.  „Skal markaglöggur maður gæta þess að misdráttur eða ruglingur eigi sér ekki stað á sláturfé“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).

Misdrægur (l)  Um þann sem er misjafnlega fiskinn.  „Hann er misdrægur, en kappsamur og stundum errinn þegar honum gengur miður en honum líkar“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).  Finnst ekki í orðabókum.

Misdýpi (n, hk)  Misjafnt hafdýpi á litlu svæði; hólótt.  „Þarna í misdýpinu getur oft fengist ágætur fiskur“.

Misdægurt (l)  Heilsulaus; veikur.  „Honum varð aldrei misdægurt eftir að hann fór að drekka eplaedikið“.

Miserfitt (l)  Misjafnlega erfitt/tyrfið/torsótt.

Misfagurt / Misfallegt (l)  Misjafnleg fagurt/fallegt.  „Hann tautaði margt og misfallegt yfir vinnubrögðunum“.

Misfara með (orðtak)  Mistakast í meðferð einhvers; hafa rangt við; svindla.  „Ég hef aldrei misfarið með það fé sem méer hefur verið trúað fyrir“.

Misfarast (s)  Gera mistök; lánast/heppnast/takast ekki.  „Eitthvað misfórst honum við þetta“.  „Hér hefur eitthvað misfarist í skráningunni“.

Misfarnast (s)  Mislánast; mistakast.  „Eitthvað misfarnaðist þeim við lendinguna, svo bátnum sló flötum“.

Misfella (n, kvk)  A.  Ójafna; óslétta.  „Hér eru einhverjar misfellur á saumunum“.  B.  Hnökrar í framvindu.  „Hann var mjög reglusamur með mætingu, svo þar varð aldrei misfella á“.

Misfellulaus / Misfellulítið (l)  Án mistaka/hnökra.  „Honum tókst þetta misfellulítið“.

Misferli (n, hk)  Glæpur; óheiðarleiki í starfi/verki.  „Þeir voru grunaðir um misferli í störfum sínum“.

Misfiskinn ( Misveiðinn (l)  Misjafnlega heppinn við veiðar.  „Menn eru misfisknir mjög.  Jafnvel á sama báti og í sama róðri getur einn staðið í snarvitlausum fiski langtímum saman meðan annar verður ekki var.

Misgáningur (n, kk)  Mistök; ógætni; flumbrugangur.  „Af misgáningi hleypti hann út úr röngum dilk“.

Misgera við (orðtak)  Beita ranglæti; vera einhverjum slæmur.  „Ég biðst innilega afsökunar hafi ég misgert við þig á einhvern hátt í þessu máli“.

Misgerðir / Misgjörðir (n, kvk, fto)  Ávirðingar; rangindi; það sem maður gerir rangt.  „Fáir komast í gegnum lífið án nokkurra misgjörða“.

Misglöggur (l)  Misjafnlega naskur/glöggur.  „Menn eru misglöggir á fé.  Sjálfur þekki ég varla haus frá dindli, en Guðbjartur afi þekkti ekki einungis allar sínar kindur með nöfnum, heldur gat hann yfirleitt sagt til um eiganda kindar í utanverðum hreppnum, jafnvel þó hann sæi hana á langleið“.

Misgóður (l)  Ekki allur jafn góður.  „Hákarlinn var ágætur, en samt misgóður“.

Misgrípa sig (orðtak)  Taka/velja annað en það sem maður ætlar.  „Þarna hef ég misgripið mig, og tekið skeið í staðinn fyrir gaffal“.

Misgrípa sig á mörkunum (orðtak)  Greina fjármark ekki rétt.  „Þarna sýnist mér að sjálfur réttarstjórinn hafi misgripið sig á mörkunum; þetta lamb er ekki frá okkur“.  Einnig notað í líkingum um annarskonar mistök.

Misheppnast / Mislánast / Mislukkast / Mistakast (s)  Fara/ganga ekki eins og til er ætlast.

Mishittinn (l)  Hittist misjafnlega fyrir; er misjafnt hvernig hittist/stendur á.  „Hér fæst oft nokkuð vænn fiskur, en hann er gríðarlega mishittinn“.  „Farðu vel að honum; hann getur verið svolítið mishittinn, karlinn“.

Mishæðótt (l)  Landslag með hæðum/hólum; óslétt.  „Þarna er land mjög mishæðótt og kindur geta víða leynst“.

Misindismaður (n, kk)  Skálkur; glæpamaður.  „Í sveitinni fyrrum væntu menn ekki heimsókna misindismanna, og læstu því sjaldan húsum sínum þó allir færu af bæ“.

Misindisveður (n, hk)  Vont veður.  „Hann var dimmur í lofti og greinilegt að misindisveður gat verið í aðsigi“.   Virðist ekki þekkt utan Kollsvíkur (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Misjafn er sauður í mörgu fé (orðatiltæki)  Líkingin er oftast notuð um fólk; að ekki séu alltaf allir frómir heiðursmenn í stóru samfélagi.

Misjafnt/einkennilega/undarlega er sköpum skipt (orðatiltæki)  Örlög (sköp) manna eru misjöfn.  Sjá forlög/örlög og enginn má sköpum renna.

Misjúgra (l)  Um ær og kýr; halljúgra/hallinjúgra; með misjafnleg stór/síð júgur; ekki jafnjúgra.  „Hún Svört er orðin fjári misjúgra af því að lambið sýgur bara öðrumegin.  Það þyrfti að draga niður úr henni til að hún fái ekki júgurbólgu“.  Orðið finnst ekki í orðabókum, en þau voru nokkuð notuð í Kollsvík.

Misjöfn eru morgunverkin (orðtak)  Menn aðhafast ekki allir það sama þegar birtir af degi.  Líkingamál sem oft er viðhaft; tilvitnun í Laxdæla sögu.  Orð Guðrúnar Ósvífursdóttur við Bolla Þorleifsson mann sinn, er hann hafði vegið Kjartan Ólafsson meðan hún sat heima og spann „tólf álna garn“.

Misjöfn veður (orðtak)  Slæm veður; illviðri.  „Tíðarfar ókyrrðist venjulega þegar leið að hausti, og lentu menn því oft í misjöfnum veðrum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Miskabætur (n, kvk, fto)  Bætur fyrir tjón; skaðabætur.  Geta þó verið annars eðlis en skaðabætur; þ.e. verið vegna ærumeiðingar eða álitshnekkis.

Misklíð (n, kvk)  Ósætti; deilur.  „Útaf þessu spratt nokkur misklíð milli þeirra um tíma“.

Misklíðarefni (n, hk)  Tilefni deilu/ósættis.  „Við skulum útkljá þetta strax svo það verði ekki að misklíðarefni síðar“.

Miskunna sig yfir (orðtak)  Taka undir sinn verndarvæng; taka upp á sína arma.  „Ætli ég miskunni mig þá ekki yfir þetta eina egg sem eftir er; maður hlýtur að hafa magapláss fyrir eitt í viðbót“.

Miskunnarlaust (l)  Án hlífðar/afláts/ þess að gefa eftir.  „Ef eitthvað dúraði innámilli í ótíð var miskunnarlaust róið, og jafnvel tvíróið“.

Miskunnarverk (n, hk)  Góðverk; líknandi verknaður; gustuk.  Ég held að það væri bara miskunnarverk að slá þessa gömlu rytju af; hún er hætt að geta mjólkað lömbunum almennilega“.

Mislagðar hendur (orðtak)  Um það þegar gerð eru mistök eða árangur verður áberandi misjafn af því sem gert er.  „Hann var vel liðinn en sumum þótti honum mislagðar hendur við búskapinn“.  Til er fornt orðatiltæki sem orðtakið er komið úr; „mörgum eru mislagðar hendur í kné“.

Mislaginn (l)  Misjafnlega laginn.  „Menn voru mislagnir við að láta bíta; eða kannski mislygnir“.

Misleggja (s)  Leggja á misvíxl; láta skarast.  „Gott er að misleggja timbrið í stæðunni, meðan það er að þorna“.

Mislingar (n, kk, fto)  Mjög smitandi veirusjúkdómur af völdum veirunnar morbilli.  Óþægilegur og hættulegur barnasjúkdómur, sem getur haft ýmsa fylgikvilla.  Ekki lengur landlægur hérlendis vegna margra ára bólusetningar gegn sjúkdómnum.  Smitleiðin er með úða í lofti.  Ónæmi myndast eftir eina sýkingu en án þess geta allir smitast.  Þó ekki börn yngri en fjögurra mánaða, þar sem verndandi efni eru í móðurmjólkinni, hafi móðirin öðlast ónæmi.  Helstu einkenni eru hiti, nefrennsli, hósti, roði í augum, viðkvæmni fyrir ljósi, stór þykkildi á hálsi, eymsli í koki o.fl.

Mislitt fé (orðtak)  Fé sem ekki er hvítt er nefnt mislitt.  Gildir þá einu hvort það er svart, grátt, mórautt, mósótt, flekkótt, dílótt, spræklótt, golsótt, gofótt, höttótt, kinnótt, eyglótt eða með annan lit.  Fé í Kollsvík í seinni tíð var ýmist hvítt eða mislitt.  „Sú var þjóðtrú að ef jörð væri hvít um fengitímann þá yrðu flest lömb hvít, en ef jörð væri flekkótt þá yrðu mörg lömb mislit“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin). 

Mislíka (s)  Vera ekki sáttur við; líka ekki við.  „Honum mun hafa mislíkað þessi framkoma“.

Mislukkaður (l)  Misheppnaður; gallagripur.  „Mikið finnst mér þessir þingmenn stundum mislukkaðir“.

Mislukkast (s)  Mislánast; mistakast. 

Mislyndur (l)  Erfiður á skapsmunum; fljótillur; ör; með skapsveiflur.  „hann er að verða svo mislyndur í seinni tíð að það bara ekki orðinu halla“!

Mismikill (l)  Misjafnlega mikill.  „Aflinn hefur verið mismikill, frá degi til dags“.

Misminna (s)  Muna ekki rétt.  „Þetta var svona, ef mig misminnir ekki“.

Misminni (n, hk)  Ranglega munað.  „Þetta kann að vera misminni hjá mér“.

Mismjalta (l)  Um kýr; vera mjólkaðar óreglulega.  „Kýr eru mjög vanafastar skepnur.  Ef þær eru vandar á vissan mjaltat´ma kvölds og morgna, þá getur nytin dottið mikið niður við það að verða mismjalta“.

Mismuna (s)  Gera upp á milli; gera mismun/mannamun.   

Mismæli (n, hk)  Ranglega sagt orð; rassbaga.  „Öllum geta orðið á mismæli“.

Misorpinn (l)  Um fugl;  byrjar varp á misjöfnum tíma.  „Langvían getur verið mjög misorpin þarna“.

Misráðið (l)  Ekki ráðlegt/hyggilegt.  „Teljum mjög misráðið að leyfa dragnótaveiði næsta sumar á svæðinu Snæfellsnes-Horn“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 22.03.1961; ritari ÖG). 

Misrétti (n, hk)  Ónógur réttur manneskju; ranglæti.  „Eigendur sjávarjarða voru miklu misrétti beittir þegar af þeim voru tekin ævaforn réttindi og sett í hendur á braskaralýð“!

Misræmi (n, hk)  Ósamræmi; mismunur.

Missa (s)  Tapa; glata; bíða tjón.  „Ég missti vasahnífinn niðurámilli spela í grindinni“.  „Við misstum tvær kindur þegar rekið var í réttina, en þær náðust seinna“.  Oft notað sjálfstætt um vanhöld á fé:  „Hann er búinn að missa töluvert á þessu sumri; flest líklega í Bjarginu“.  Sjá missast.

Missa af (orðtak)  Fara á mis við; verða of seinn í/til/við.  „Ég tafðist og missti af fundarsetningunni“.

Missa af seinni blessuninni (orðtak)  Verða seinn fyrir með eitthvað; missa af einhverju.  „Ef við drögum streng enn er hætt við að við missum af seinni blessuninni; þá verður fallið frá bryggjunni þegar við komum að“.

Missa átið (orðtak)  Verða lystarlaus; hætta að éta/nærast.  „Það er hætt við að kýrnar geti misst átið ef þær komast í alltof krafmikið fóður“.

Missa fótanna (orðtak) Hrasa; detta; skrika fótur; renna við.  „Þegar búið var á Völlum var róið þaðan.  einu sinni sem oftar reri bóndinn.  Meðan hann var á sjó brimaði, svo ólendandi var á Völlum.  Þá ætlaði hann í lendingu í Skor, en á leiðinni lenti báturinn á blindskeri; Bjarnaboða, og hvolfdi.  En Geirlaug var þá stödd í miðjum skriðum.  Henni brá þá svo mikið að hún missti fótanna og hrapaði, þar sem síðar heitir Heljargil“  (ÍÍ; Örn.dkrá Sjöundár).

Missa (einhvers) í (orðtak)  Missa af einhverju; glata/tapa/týna einhverju.  „Það er nú ekki mikils í misst þó hann komist ekki; hann hefur aldri verið til stórræðanna í smölun“!

Missa jórtur (orðtak)  Um það þegar kind eða kýr nær ekki eðlilegri meltingu í gang eftir langvarandi svelti/veikindi/niðurgang.  Vandi getur verið að ná aftur upp jórtri og var m.a. gefið hafraseyði og síðan gott en þó ekki kraftmikið fóður í hófi.  Fyrrum þekktist að reyna að ná jórtri úr heilbrigðri kú og koma í þá veiku.

Missa kvið (orðtak)  Um eldi búfjár; verða kviðdreginn af vanfóðrun/næringarskorti.  „Aldrei fóru sögur af því að fé hafi misst kvið í Kollsvík, enda góðir bithagar og fjörubeit þó misjafnlega heyjaðist“.

Missa marks (orðtak)  Hitta ekki í mark sem skotið er að, t.d. í skotkeppni/steinkasti eða öðru.  Í líkingamáli um að fullyrðing/ásökun nái ekki tilgangi sínum.  Sjá skjóta yfir markið.

Missa móðinn (orðtak)  Gefast upp; leggja árar í bát.  „Við skulum ekki missa móðinn meðan við drögum andann“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Missa sín (orðtak)  Hverfa; glatast.  „Þessi skyrtufjandi mætti alveg missa sín mín vegna; þetta er mesta ósnið sem ég hef nokkurntíma séð á fatnaði“!

Missa sjónar á (einhverju) (orðtak)  Týna einhverju; hætta að greina/sjá eitthvað.  „Ég sá baujuna rétt í svip, en missti sjónar á henni aftur“.

Missa spón úr aski sínum (orðtak)  Missa hlunnindi/hlut/fríðindi/tekjur.  „Hann missti heldur betur spón úr aski sínum þegar leigjandinn fornumaðist og lét sig hverfa“.  Líklega vísar „spónn“ þarna fremur til magns en skeiðarinnar sjálfrar; þess að hellist niður af dýrmætum matarskammti eða af honum sé tekið.

Missa stýri / Missa sjó (orðtök)  Um siglingu báts; skera undan; lyftast svo hátt í skutinn að stýrið komi uppúr og hætti að virka.  „Færið ykkur aftar í bátinn svo hann missi ekki stýri í þessum veltingi“.  „Stundum reis skip svo hátt í sjónum að það var hálft á lofti að aftan og við það missti stýrið sjó.  Var þá sagt að skæri undan.  En þá stýrðist ekki og skipið rann við og átti á hættu að taka sjó“ (LK ‚Isl. sjávarhættir; eftir ÓETh). 

Missa undan (orðtak)  Um veiðiskap; missa fiskitorfu undan báti.  „Hafðu þitt færi örlítið lengur úti meðan ég dreg, til að við missum ekki fiskinn undan.  Það er komið svo mikið rek núna“.

Missa undan sér (orðtak)  Um kind/á; missa lamb.  „Mér sýnist að Grána hafi misstu undan sér á Stígnum“.

Missa vitið (orðtak)  Ganga af göflunum/vitinu; verða vitskertur; verða mjög órólegur/argur.

Missagt (l)  Ekki sagt rétt frá; ranghermt. „En hvátki er missagt í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur er sannara reynist“. (Ari fróði Þorgilsson; Íslendingabók).

Missaltaður (l)  Um matvöru; hefur fengið misjafnt salt.  „Það þarf að vanda vel til þurrsöltunar á hangiketi, svo ekki verði missaltað“.

Missaltur (l)  Misjafnlega saltur.  „Bútungurinn er missaltur; eftir því hvort er sporðstykki eða hnakkastykki“.

Missast (s)  Tapast; hverfa.  „Það væri gott ef fólk gæti staðið á réttarveggjunum þegar rekið er inn; það vill stundum missast ein og ein kind þar, meðan lítið er í réttinni“.

Missáttir (l)  Ósáttir; ósammála.  „Talið er að þeir hafi verið ölvaðir; hafi orðið missáttir og flogist á svo að bátnum hvolfdi“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Misseri (n, hk)  Hálft ár; sex mánuðir.  

Missetin (l)  Um egg; misjafnlega setin/unguð/stropuð.  „Eggin eru mjög missetin; varpið hefur verið óvanalega dreift núna“.

Missigið (l)  Ekki jafnt sigið.  „Óskaplega er missigið í hlöðunni núna; það hefur verið illa troðið öðrumegin“.

Missir (n, kk)  Skaði; tap.  Núorðið einkanlega notað þegar einstaklingur missir einhvern sér nákominn. 

Misskipt er mannanna láni (orðatiltæki)  Menn eru misjafnlega heppnir/lánsamir í sínu lífi.  Einnig; lánið er valt og lukkan hál.

Missmíð / Missmíði (n, kvk)  Gölluð smíði; galli á smíðisgrip.  „Ég gat ekki séð neina missmíð á þessu“.

Missprottin (l)  Um tún/sléttur.  „Tún eru mjög missprottin eftir svona þurrka; eftir því hvort þau eru á harðbala eða myldnu landi“.

Misstíga sig (orðtak)  A.  Stíga ekki rétt til jarðar með þeim afleiðingum að annaðhvort hrasi maður eða togni í ökkla.  B.  Líkingamál:  Taka ranga ákvörðun; gera mistök við höndlun málefnis/ábyrgðarstarfs.

Missvefn (n, kk)  Misjafnlega mikill svefn; óregla á svefni.  „Svona missvefn getur gert mann ruglaðan“.

Missvefnta (l)  Nær misjafnlega góðum svefni; sefur óeglulega.  „Maður verður óttalega ruglaður; svona missvefta og þreyttur“.  N í síðari hluta orðs heyrðist aldrei, en rökrétt er að það sé skrifað.

Missýning (n, kvk)  Tálsýn; óraunveruleg sýn.  „Ekki var nema hundrað metrar á milli þeirra, og sól og blíða, svo varla var um missýningu að ræða“  (IG; Sagt til vegar II). 

Missætti (n, hk)  Ósætti; ósamkomulag; ágreiningur.  „Vonandi ná þeir að jafna þetta missætti sín á milli“.

Misstreymi (n, hk)  „Ef bátur lá í straumæð var hann í jafnstreymi, en í misstreymi ef farið var utan í henni“  (DE Hvallátrum; LK;  Ísl. sjávarhættir III).

Missver (l)  Misjafnlega sver.  „Staurarnir eru nokkuð missverir, en það kemur ekki að sök“.

Missögn (n, kvk)  Mismæli; ranglega sagt frá.  „... vel mætti vera um einhverja missögn að ræða“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Mistalið (l)  Rangt talið.  „Það reyndist vera mistalið í einum karminum; það vantar enga kind“.

Mistalning (n, kvk)  Röng talning.  „Þetta hlýtur að vera mistalning; 52 dokkur af hosubandi“!

Mistelja (s)  Telja rangt; ruglast í talningu; oftelja eða vantelja.  „Það er auðvelt að mistelja þegar féð er allt á hlaupum“.

Mistur (n, hk)  Þunn og jöfn þoka; fíngerð gufa; fíngerð rykmengun í lofti.  „Skyldi hann ekkert ætla að hreinsa af sér þetta mistur“?

Mistækur (l)  A.  Um mann sem tekst misjafnlega vel upp.  „Hann þótti dálítið mistækur við sæðingarnar“.  B.  Um aflabrögð, sprettu eða þvílíkt:  „Afli gat verið ágætur á þessum miðum, en var þó dálítið mistækur“.

Mistök (n, hk, fto)  Feill; röng vinnubrögð/gerð/ákvörðun.  „Svona mistök mega ekki henda aftur“!

Misvel (ao)  Ekki að öllu leyti vel; misjafnlega vel.  „Mönnum varð misvel við þessi tíðindi“.

Misvindasamur/ Misvinda (l)  Staður þar sem vindi slær tíðum úr fleiri en einni átt á skömmum tíma.  „Þarna var ágætt bæjarstæði en þó gat orðið verulega misvindasamt í norðanátt“. „Hann var misvinda við Blakkinn“.

Misviðrasamt (l)  Tímabil með misgóðu veðri.  „Sumarið hefur verið æði misviðrasamt, það sem af er“.

Misvinda / Misvindi (n, hk)  Vindur úr fleiri en einni átt.  „Spritsigling ...þótti óheppilegri, einkum í misvindi, en ...var betri í beitivindi, og var það aðallega klýfinum að þakka“  (IN; Barðstrendingabók).  „Á þessari leið er Brunnanúpur, en fram af honum er í þessari átt hætt við misvindi og rokhnútum“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  „Þennan dag var gott sjóveður; fremur hægur suðaustanvindur, en í þeirri átt er oft nokkuð misvinda fram af Brunnanúp“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Misvinsæll (l)  Mælist misjafnlega fyrir; líkar ekki öllum.  „Víða er siður Vestfirðinga að koma saman á Þorláksmessu og borða vel kæsta skötu; kannske ekki til að sjóða hana í hverju húsi, þar sem ilmurinn af henni er misvinsæll; jafnvel hjá þeim sem þykir skata góður matur“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Misvitur (l)  Ekki alltaf jafn vitur/gáfaður.  „Svona ákvörðun má ekki vera háð duttlungum misvitra stjórnenda“.

Misvitur er Njáll (orðtatiltæki)  Líking sem gripið er til þegar menn efast um að breytni einhvers sé gáfuleg.  Tilvitnun í orð Hallgerðar langbrókar í Njáli, þegar hún gerði lítið úr framsýni Njáls við túnaræktun.

Misvísun (n, kvk)  Segulskekkja áttavita; hornið milli segulnorðurs (stefnu á segulpól jarðar) og rétts norðurs (stefnu á norðurpólinn).  Misvísun er mismunandi mikil eftir staðsetningu á hnettinum, en einnig breytist hún með tímanum, eftir því sem segulpóllinn færist til.  Misvísun á Íslandi getur numið tugum gráða.

Misvíxl (n, hk)  Sjá mis.

Misþykkja (n, kvk)  Ósætti; þungur hugur.  „Nokkur misþykkja hefur verið milli þeirra eftir þetta“.

Misþyrma (s)  Fara illa með; pína; lúskra á.  „Gættu að því að misþyrma ekki bakinu á þér með þessu“.

Misþyrming (n, kvk)  Slæm meðferð; píning.  „Skelfing er að heyra af svona miþyrmingu á dýrum“!

Mitt á milli (orðtak)  Miðja vegu.  „En mitt á milli Gilsins og Götunnar er slitur í Hjallana sem heitir Rauðagil“  (IG; Sagt til vegar II). 

Mitt í (orðtak)  Í miðju.  „Mitt í þessum djöfulgangi birtist kennarinn, og var ekki hýr á svip“.  „Mitt í lestrinum fékk hann mikinn hnerra, og tóbaksslettur gengu yfir bókina“.

Mitt síðasta (orðtak)  Síðustu augnablikin fyrir andlát mitt.  „Ég hélt um stund að þetta yrði mitt síðasta þegar ég sá steininn koma í loftköstum; en á síðustu stundu breytti hann um stefnu“.

Mittisdjúpur (l)  Dýpt upp í mitti á manni.  „Það eru víða mittisdjúpir skaflar yfir veginn“.

Mittisjakki / Mittistreyja (n, kk/kvk)  Jakki/treyja sem nær u.þ.b. í mitti á síddina.

Mittislykkja (n, kvk)  Bragð á sigvað sem kemur utanum mitti sigmanns.  Önnur brogð siglykkjunnar koma um lærin“.

Mittismikill (l)  Mikill um sig; rassbreiður; feitlaginn.  „Maður er sennilega orðinn of mittismikill núna til að fara um Gat á Forvaðanum undir Brekkuhlíðum“.

Mittisól (n, kvk)  Belti um mittið.  Sjá herða mittisólina.

Mixtúra (n, kvk)  Meðal.  Gat verið af ýmsu tagi og til ýmissa nota; t.d. hóstamixtúra.  Heimagerð meðul í Kollsvík í seinni tíð voru einkum grasate og grasaseyði(af fjallagrösum).

Míga (s)  Pissa; kasta af sér vatni; létta á sér.  „Ég ætla aðeins að skreppa fyrir horn að míga“.  Þátíð orðsins var áðurfyrri oftast „még“, eða jafnvel „mé“, en er nú oftast „meig“.  Fyrri hátturinn hélst í munni Kollsvíkinga meðan víkin var í byggð.  „Ég nærri því még á mig af hlátri“.

Míga í saltan sjó (orðtak)  Vera til sjós.  „Þá var hörgull á hásetum, og allir dregnir um borð sem einhverntíma höfðu migið í saltan sjó“.  „Það er ekki von að þeir kunni til verka sem aldrei hafa migið í saltan sjó“.

Míga í skóinn sinn (orðtak) Sjá eins og að míga/pissa í skóinn sinn.

Míga undir (sig) (orðtak)  Pissa í rúmið; halda ekki þvagi í svefni; væta rúm.

Míga úr sér (orðtak)  Rigna; leka.  „Enn rignir hann; ætlar hann bara aldrei að hætta að míga úr sér“?!  „Tunnan hafði migið úr sér pæklinum yfir nóttina“.

Mígandi (l)  Áhersluorð, einkum notað í tvennu sambandi:  A.  Mígandi rigning; um mikla rigningu.  „Það er ennþá mígandi rigning og varla fært útúr húsi“.  B.  Mígandi straumur; um straum eða stíft sjávarfall.  „Við þurfum að drífa netið inn, það er kominn mígandi straumur“.

Mígandi blautur/votur (orðtak)  Rennandi blautur/votur.  „Ég var mígandi blautur eftir volkið“.

Mígandi fullur (orðtak)  Ofurölvi; augafullur; blindfullur.  „Hann kom mígandi fullur heim af ballinu“.

Mígandi rigning (orðtak)  Hellirigning; mjög mikil rigning; eins og hellt sé úr fötu.

Mígandi (n, kk)  Gæluorð um rigningu.  „Einhver mígandi var enn í honum þegar ég kom inn“.

Mígandi straumur (orðtak)  Bullandi/hörku straumur/fall/sjávarfall.  „Það er kominn mígandi straumur hérna frammi; við hefðum þurft að komast töluvert fyrr fram“.

Mígblautt /Mígandi blautt (l/orðtak)  Mjög blautt; rennandi blautt.  „Það er mígblautt á jörð eftir náttfallið“.

Mígblotna (s)  Rennblotna; verða mjög votur.  „Þú mígblotnar í fæturna ef þú ferð ekki í stígvél“.

Mígildi (n, hk)  Hlandskál; pissuskál; pisserí  „Kollsvíkingar hafa aldrei séð nokkra þörf fyrir mígildi; hér hafa menn oftast vökvað jarðargróður eða mígið í saltan sjó þegar þörfin kallar“.  Sjá pisserí.

Mígla (s)  Láta/gefa smám saman; smáskammta.  „Ég hef verið að mígla þessu kraftlausa útheyi í féð; það er í lagi ef vel er gefið af góðri töðu“.  „Hann er að mígla niður töluverðum snjó í logninu“.

Mígleka (s)  Um ílát/bát; leka mjög mikið.  „Þessir stígvélagarmar eru farnir að mígleka“.

Míglekur (l)  Um ílát/bát; mjög óþéttur; hriplekur.  „Þú ferð ekki langt á svona mígleku bátshorni“.

Mígrigna (s)  Hellirigna; rigna mjög mikið.  „Við þurfum að drífa okkur að bæta á gryfjuna áður en hann fer að mígrigna“.  Sjá einnig mígandi rigning.

Mígur úr honum (orðtak)  Rignir mikið.  „Enn mígur úr honum; skyldi bara ekki ætla að stytta upp í dag“?

Míla (n, kvk)  Mælieining fyrir vegalengd.  Míla er vandræðamælieining, að því leyti að hún er mislöng eftir því hvort átt er við mílu á landi eða sjó, og eftir svæðum heims.  Orðið er dregið af „mille“ sem merkir þúsund á latínu og var upphaflega skilgreind sem sú vegalengd sem rómversk herdeild gat marserað í 1000 skrefum.  Sú vegalengd var um 1500 metrar, svo nokkuð hafa þeir verið stórstígir.  Oftast er átt við enska milu þegar rætt er um mílur hérlendis án frekari skilgreiningar.  Hún hefur nú verið skilgreind sem 1609,344 metrar, en er til hægðarauka oft sögð vera 1,6 km.  Til er dönsk míla sem nú hefur verið skilgreind 7,5 km, og sænsk-norsk míla sem skilgreind er sem 10 km.  Þýsk míla er kringum 7,5 km og frönsk míla er 4267 metrar.    
Sjómíla er mikið notuð á sjó og í flugi.  Hún er skilgreind sem ein hornmínúta (1/21600 hluti) af miðbaug jarðar.  Metri er upphaflega skilgreindur sem 1/10milljónasti fjarlægðar frá pól að miðbaug, og er sjómílan alþjóðlega skilgreind sem 1852 metrar.  Hraðaeiningin hnútur er ein sjómíla á klst.  Sjá sjómíla og hnútur.

Mímisbrunnur (n, kk)  A.  Fyrirbæri í norrænni goðafræði.  Viskubrunnur undir einni rót asks Yggdrsils í Jötunheimum.  Mímir gætir brunnsins og drekkur af honum daglega; hann er því fróðari en aðrir.  Aðrir þurfa að greiða sopann dýru verði, og m.a. þurfti Óðinn að láta fyrir hann auga sitt.  B.  Líkingamál; sá sem er mjög fróður; gáfnaljós.

Mín vegna (orðtak)  Hvað mig varðar; fyrir mér; fyrir mína parta.  „Hann má eiga þetta mín vegna; ég var löngu hættur að nota það“.

Mínúta (n, kvk)  A.  Tímaeining; 1/60 úr klukkutíma; 60 sekúndur.  B.  Horn- og lengdarmæling.  Hornmínúta er 1/60 úr gráðu; 60 hornsekúndur.  Hún samsvarar einni sjómílu eða 1850 metrum (sjá míla).

Mínútuvísir (n, kk)  Vísir á skífu klukku sem fer einn hring á klukkutíma.

Mínvegna (ao)  Fyrir mína parta; hvað mig áhrærir.  „Vertu ekkert að setja hvítlauk í þetta mínvegna“.  „Mínvegna mætti skera þetta stofnanafargan niður um helming eða meira“.

Mjaðmasídd (n, kvk)  Sídd fatnaðar niður á/fyrir mitti.  „Í skinnstakkinn fóru þrjú lambsskinn.  Hann var hafður í mjaðmasídd og tekinn saman í mitti með bróklinda“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Mjallahvítur (l)  Skjannahvítur; hvítur eins og mjöll.  „Mjallhvít bar nafn með rentu, og útaf henni var kominn nokkur stofn af mjallahvítu fé“.

Mjaka (s)  Hreyfa hægt til; mutra; hnika.  „Okkur tókst að mjaka steininum á sinn stað“.

Mjakast úr sporunum (orðtak)  Ganga; lötra; koma sér af stað.  „Það var erfitt að fá kýrnar til að mjakast úr sporunum þegar þær komust í grængresið“.

Mjalta (s)  Annað orð yfir að „mjólka“, en sjaldnar notað.  „Þorgrímur þessi missti ábýli sitt af því að hann þótti áleitinn við göngusilung í ánni og við ásauði Rauðsendinga; stíaði og mjaltaði fé er leitaði í óveðrum niður í Krákinn og heim að Selinu.  “  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Mjaltafata (n, kvk)  Mjólkurfata; mjólkurspanda; fata sem kú er mjólkuð í.  Með ýmsu lagi, en lága fötu þarf til að mjólka síðjúgra kú.

Mjaltaföt / Mjaltagalli (n, hk, fto/ kk)  Hlífðarfatnaður sem mjaltafólk notar við mjaltir.  „Nú þyrfti að fara að þvo mjaltagallann minn“.  Sjá fjósaföt/fjósagalli.

Mjaltagata (n, kvk)  Götuslóði frá bæ á stöðul, myndaður af umferð mjaltafólks og kúasmala.

Mjaltaílát (n, hk)  Mjaltafata; ílát sem mjólkað er í.  „Járnfatan er að byrja að ryðga og varla nothæf sem mjaltaílát lengur“.

Mjaltalag (n, hk)  Mismunandi aðferð manna við mjaltir.  „Mismunandi er hvernig mjaltalag menn viðhafa.  Sumir hefta kýr t.d. aldrei og gengur það vel.  Sumir draga niður úr spenum meðan öðrum lætur betur að kreista þá.  Sumir leggja mikið uppúr því að strjúka niður júgur kúnna til að þær selji betur, meðan aðrir sleppa því.  Kýr eru mjög vanafastar varðandi mjaltalag og lausmilkustu kýr geta selt þeim illa sem stunda nýtt mjaltalag“.

Mjaltakollur (n, kk)  Mjaltastóll; lágur stóll/hnallur sem setið var á þegar handmjólkað var.  „Það þarf að laga mjaltakollinn“.  Fyrrum voru kýrhausar notaðir fyrir mjaltastóla.

Mjaltakona (n, kvk)  Kona sem mjólkar/ sér um mjaltir.  „Þá er djúp laut niður í Hnífana sem heitir Eyvararstekkur, með samnefndum stekkjarrústum; líklega nefndur eftir mjaltakonu einhverntíma í fyrndinni“  (HÖ; Fjaran).  

Mjaltalag (n, hk)  Aðferð við það að handmjólka kú.  Þrjár meginaðferðir eru við það.  Önnur er sú að kreista spenana, og er hún mest notuð þegar kýr eru sæmilega lausmylkar.  Hin er sú að draga mjólkina niður með því að renna fingrum niður spenana.  Einkum er hún notuð við fastmjólka kýr og þegar verið er að totta/hreyta í lok mjalta.  Þriðja aðferðin er sú sjaldgæfasta en hún felst í því að kreista spenann í neipinni milli vísifingurs og löngutangar um leið og mjólkin er dregin niður.  Einkum er hún notuð á kindur og þegar kýr hafa smáa spena, s.s. fyrstakálfskvígur.  Sumir kjósa að skipta um aðferðir meðan kú er mjólkuð.  Jafnan er byrjað að mjólka framspenana og þeir hérumbil tæmdir áður en byrjað er að mjólka aftuspenana.  Þegar því er lokið er tottað; þ.e. mjólkaðir síðustu droparnir úr öllum spenum.  Stundum er tottað aftur í lok mjalta, áður en farið er úr fjósi; einkum ef hætta er á júgurbólgu í kúnum.  Ef mjög misjafnt er í júgrum þarf að einspena kúna; þ.e. mjólka einungis einn spena í einu.  Þá er oftast notuð togaðferðin, með báðum höndum á víxl.  Mjaltir voru fyrrum jafnan taldar kvenmannsverk, en það breyttist á 20.öld.  Ekki var talið ráðlegt að ófermdar stúlkur kæmu nálægt mjöltum.  Mikið var lagt uppúr því að fara vel með kýrnar; stjana við þær; kemba þeim; strjúka og jafnvel ræða rólega við þær.  Enda er það staðreynd að sú kýr mjólkar betur og selur betur sem er í góðu andlegu jafnvægi og ró.  Sérlega mikilvægt er að strjúka júgrið ákveðið en rólega fyrir mjaltir.Jafnvel þó kýr ólmist og sé óþæg má fjósa- eða mjaltamaður aldrei skipta skapi. 

Mjaltatími (n, kk)  Sá tími dags sem mjólkað er á.  „Það var komið framyfir mjaltatíma þegar ég kom heim“

Mjaltavegur (n, kk)  Vegalengd sem fara þarf til að mjólka.  „Um tíma voru kýrnar hafðar á uppi Hólum.  Var þangað nokkru styttri mjaltavegur en í Túnshalann“.

Mjaltavél (n, kvk)  Vél til að mjólka kýr.  Mjaltavél kom fyrst í Kollsvík kringum 1970, í búskapartíð Ingvars Guðbjartssonar.  Stuttu síðar kom önnur að Láganúpi, sem Össur fékk frá Sellátranesi.  Báðar voru þetta fötuvélar, drifnar af loftsogi.  Mikill vinnusparnaður var að þeim við mjaltir eftir að menn komust upp á lag með þær, en hvort sem það var þeim að kenna eður ei þá jókst verulega júgurbólga í kúm á sama tíma.

Mjaltir (n, kvk, fto)  Þau bústörf að mjólka kýr til að fá mjólk í mat og (á síðari tímum) til sölu.  Mjaltir eru tvisvar á dag; morgunmjaltir og kvöldmjaltir.  Fyrrum voru kýr mjólkaðar úti að sumarlagi, og komu ekki í fjós nema í verstu veðrum.  Hét það að mjólka á stöðli. 

Mjatl (n, hk)  Smáskammtar; píringur.  „Ég veit ekki til hvers er verið að þessu vikulega mjatli; hversvegna þetta er ekki greitt í einu lagi fyrir árið“.

Mjatla (s)  Gera eitthvað í smáskömmtum.  „Það gengur hægt að mjatla heyinu heim á svona litlum vagni“.  „Hver greiðsla gerir ekki stórt, en þetta safnast saman þegar jafnt og þétt mjatlast inn“.

Mjóaleggur (n, kk)  Neðri hluti fótleggjar, þar sem fótur er mjóstur neðanvið hné.  „Þessir skór voru þjálli og fóru betur á fæti.  Þeir voru varpaðir með snæri, og með því sama snæri bundnir yfir mjóalegginn“  (KJK; Kollsvíkurver).

Mjódd (n, kvk)  Sá hluti á einhverju sem er mjórri en aðliggjandi hlutar.  „Við skriðum til baka eftir ganginum, en þurftum að handlanga eggjafötuna yfir mjóddina, þar sem tæpast var“.

Mjóhyrnd (l)  Um hornalag sauðkindar; með áberandi mjó horn.  „Taktu ekki í hornin á þessari, hún er svo mjóhyrnd“.

Mjókka (s)  Verða mjórri.  „Sandhellirinn er víðastur yst, en mjókkar fljótt er innar kemur“.

Mjólka (s)  A.  Draga mjólk úr spenum á kú/kind.  „Kýr eru næmar á mjaltatíma.  Venjist þær því að mjólkað sé á vissum tíma getur nytin orðið minni ef vikið er frá honum“.  „Þá þurfti að mjólka kýrnar kvölds og morgna og koma mjólkinni í mat“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).   B.  Gefa af sér mjólk.  „Ég er hræddur um að gemlingurinn mjólki tvílembingunum ekki nægilega“.

Mjólka af sér (holdin) (orðtak)  Um kú; skila meiri nyt en hún bætir sér upp í fóðri/áti, og því grennast.

Mjólka frá / Mjólka/draga niður úr (orðtak)  Mjólka.  Oft notað um það þegar mjólkað var t.d. úr kindum sem misst höfðu lamb, til að þær fengju ekki júgurbólgu þegar ekki var sogið.

Mjólka vel Um kú; er nythá/í hárri nyt; mjólkar mikið.  „Hún mjólkar vel enn, þó komin sé á gamalsaldur“.

Mjólka tík (orðtak)  Um skakveiði; draga færið máttlítið og stutt í hverju skaki.  „Taktu nú meira á þegar þú ert að skaka, þú veiðir lítið með því að mjólka tíkina allan liðlangan daginn“.

Mjólkurá (n, kvk)  Ær sem mjólkuð var, meðan fráfærur voru stundaðar.  „Á Stöðlinum var kví fyrir mjólkurær“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Mjólkurbátur (n, kk)  Bátur sem stundar reglulega flutninga á mjólk frá bændum í kaupstað.  Mjólkurbátur var starfræktur á Patreksfirði áður en mjólkurbíll hóf að ganga um vegi, og voru skipstjórar hans sinn tímann hvor; Aðalsteinn Sveinsson frá Breiðavík og Pétur Ólafsson frá Hænuvík.  „Næsta morgun ætluðum við yfir fjörðinn með mjólkurbátnum yfir á Gjögra, en þá var kominn norðanbylur og blindófært yfir fjörðinn“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Mjólkurbland (n, hk)  Mjólkurskol; kálfaskol; mjólk sem þynnt hefur verið með vatni.  Á seinni tímum haft til fóðrunar kálfa sem farnir eru að stálpast.  Fátækramatur fyrrum.

Mjólkurbrúsi (n, kk)  Ílát; brúsi úr áli (fyrr stáli) sem notaður er til að flytja mjólk frá búi með mjólkurbíl til mjólkurbús/mjólkursölu.  Mjólkurbrúsar voru notaðir í Kollsvík frá því að mjólkursala hófst, í kringum 1970, og þar til farið var að flytja mjólkina með tankbíl.  Lengivel fóru Kollsvíkingar með sína mjólk inn í Hænuvík, til móts við mjólkurbílinn, en síðar sótti hann mjólkina að Láganúpi um margra ára skeið.  Mjólkurbrúsar voru oftast 20 lítrar, en sumir 50 lítrar.

Mjólkurbytta (n, kvk)  Mjólkurtrog (sjá þar).

Mjólkurfata (n, kvk)  Mjaltafata (sjá þar).

Mjólkurferð (n, kvk)  Ferð mjólkurbíls til að sækja mjólk; ferð bónda með mjólk sína til móts við mjólkurbíl.

Mjólkurfélag / Mjólkursamlag (n, hk)  Félag bænda í mjólkurframleiðslu um sölutilhögun og vinnslu mjólkurafurða.  „Oddviti las upp bréf frá fundi sem haldinn var á Patreksfirði og fjallaði um stofnun mjólkursamlags sem næði yfir þessa hreppa:  Barðastrandarhrepp, Rauðasandshrepp, Patrekshrepp og Tálknafjarðarhrepp“  … „Almennur hreppsfundur felur stjórn Mjólkurfélags Rauðasandshrepps að mæta, eða láta mæta, á væntanlegan undirbúningsfund að stofnun mjólkursamlags…“(Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 30.03.1963; ritari ÖG). 

Mjólkurflutningar (n, kk, fto)  Flutningur á mjólk frá bónda til afurðastöðvar.  „…nú fara mjólkurflutningar úr sveitinni til Patreksfjarðar fram á landi, en til skamms tíma fóru allir þeir flutningar fram á sjó“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Mjólkurfroða (n, kvk)  Froða sem myndast ofaná mjólk þegar mjólkað er.  Oft var hundi og ketti gefið af froðunni þegar mjólkað var.

Mjólkurhús (n, hk)  Hús sem mjólk er geymd/kæld í.  Mjólkurhús var byggt við „nýja fjósið“ þegar kúm var fjölgað á Láganúpi og fjárhúsi breytt í fjós.  Í húsinu var mjaltavél, mjólkurtankur og frystikista.  Fram að því hafði mjólk verið kæld í Kaldabrunni.

Mjólkurlögg  / Mjólkursopi  (n, kvk/kk)  Dálítið af mjólk.  „Gefðu mér nú mjólkursopa í glas“.

Mjólkurlagin (l)  A.  Gefur mikla mjólk í mál; er nythá/há í nyt  B.  Er lausmylk; selur vel.  Oftast var átt við fyrri merkinguna, en iðulega fer þetta tvennt saman.  „Hún Nótt var einstaklega mjólkurlagin, enda náði hún háum aldri“.

Mjólkurlagni (n, kvk)  Nythæð; hæfileiki kýr til að gefa af sér mjólk.  „Þetta er einstök mjólkurlagni hjá fyrstakálfskvígu“!

Mjólkurleið (n, kvk)  Leið sem farin er með mjólkurflutninga.  „Bragi taldi að ekki væri hægt að una við annað en það að fá mokaða mjólkurleiðina“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Mjólkurmatur (n, kk)  Matur úr mjólk eða sem inniheldur mikið af mjólk.

Mjólkurpóstur (n, kk)  Sá sem sér um reglulegan flutning á mjólk.  Í Rauðasandshreppi var orðið notað um þann sem flutti mjólk í brúsum á báti yfir Patrkesfjörð, fyrst eftir að mjólkursala hófst á 20.öld.  Því starfi sinnti lengstum Pétur Ólafsson í Hænuvík.  Síðar var mjólk flutt landleiðina með mjólkurbíl, en þá var orðið ekki lengur notað.  „Daginn eftir tók Pétur mjólkurpóstur okkur við Klettinn og flutti okkur út að Nesi, en þaðan löbbuðum við heim um kvöldið“  (IG; Æskuminningar). 

Mjólkursigti (n, hk)  Sigti sem nýmjólk er hellt í gegnum eftir að búið er að mjólka.  Stór skál með gatabotni, en á hann er settur vattbotn sem síar öll óhreinindi úr mjólkinni.  Sigtið var sett ofaná mjólkurbrúsa; mjólkurtank eða annað ílát, og mjólkinni hellt í það úr mjaltafötunni.  Öll seld mjólk var sigtuð, en einnig neyslumjólk til heimilisins og sigtun var hafin löngu áður en farið var að selja mjólk.

Mjólkurskegg (n, hk)  Rönd af mjólk á efri vör eftir að drukkin hefur verið mjólk úr glasi/bolla.  „Þurrkaðu nú af þér mjólkurskeggið góði minn, áður en þú ferð og þakkar fyrir þig“.

Mjólkurskol (n, hk)  Mjólk sem verulega er þynnt með vatni; kálfaskol.  Gefið stálpuðum kálfum.

Mjólkurspanda (n, kvk)  Mjaltafata; mjólkurskjóla; fata sem mjólkað er í.  „Og ég vissi ekki fyrr en ég lá í flórnum og kollurinn og mjólkurspandan aftur á stétt“!

Mjólkurstöð / Mjólkurvinnslustöð (n, kvk)  Vinnslustöð fyrir mjólk.  Mjólkursamlag Vestur-Barðstrendinga rak um langt árabil mjólkurstöð á Patreksfirði, þar sem unnin var mjólk af svæðinu.  „Séra Grímur gat þess m.a. að eining hefði ríkt þar um að leysa þessi mál, og þá helst með því að byggja mjólkurvinnslustöð á Patreksfirði“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 30.03.1963; ritari ÖG). 

Mjólkursýra (n, kvk)  A.  Lífræn sýra sem myndast í vöðvum eða rauðum blóðkornum.  Verður til við ófullkomið niðurbrot þrúgusykurs í vöðvum vegna skorts á súrefni. Í lifrinni er mjólkursykri breytt í þrúgusykur sem fer aftur til vöðvanna.  B.  Sýra/mysa af sömu gerð, sem mjólkursýrubakteríur framleiða með gerjun.  T.d. voru áfir jafnan hirtar og látnar súrna og var mysan notuð til súrsunar matvæla og sem svaladrykkur; blanda, sem t.d. var hafður sem nesti í róðra.  „Þá vil ég láta þess getið að þeir Gísli Ó Thorlacius og Jón Pétursson hafa gefið ám, lömbum og hrossum nýja mjólkursýru með ágætum árangri“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Mjólkurtrog (n, hk)  Mjólkurbytta.  Ein aðferðin til að skilja rjóma frá undanrennu er að láta mjólkina standa um tíma í mjólkurtrogi.  Eftir að rjómaskán hefur myndast á yfirborðinu er troginu hallað og haldið með hendi við rjómann á meðan undanrennan rennur undan henni.  Af því er dregið nafn hennar.

Mjólkurvinnsla, mjaltir.  „Þá þurfti að mjólka kýrnar kvölds og morgna og koma mjólkinni í mat.  Skilja mjólkina, strokka rjómann og hleypa skyr úr undanrennunni.  Áfunum sem komu þegar strokkað varog mysunni af skyrinu var safnað í tunnu og látið súrna.  Af áfunum kom þykk hvít sýra.  Í smástraum var hún við botn tunnunnar en í stórstraum kom hún upp á yfirborðið.  Var hún höfð til matar; ein sér, eða höfð út á graut.  Þegar mysan súrnaði var hún notuð til að sýra mat og einnig blönduð vatni og notuð til drykkjar; þá kölluð drykkjarblanda“  (HFG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG)

Mjómúlulegur (l)  Mjósleginn í annan endann; toginleitur á svipinn.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Mjóna (n, kvk)  Sú sem er mjó.  Notað um skepnur og uppnefni á manneskju.  „Ekki veit ég hvort þessi mjóna tórir af veturinn“.

Mjónulegur / Mjóssaralegur / Mjósleginn (l)  Mjór; horaður.  „Ansi er hann orðinn boginn og mjónulegur, karlgarmurinn“.

Mjór er mikils vísir (orðatiltæki)  Oft getur það orðið mikið sem er lítið í byrjun; lítill og mjór sproti getur verið vísir að voldugu tré.

Mjórra muna vant (orðtak)  Munar litlu; skellur hurð nærri hælum; hætt komið.  „Hér tókst giftusamlega til.  Enginn varð fyrir alvarlegu slysi, þó oft væri mjórra muna vant“  (SbG; Að vaka og vinna). 

Mjótt á mununum (orðtak)  Munar litlu.  „Upp á brún komumst við, en það var ansi hreint mjótt á mununum“.

Mjótt er mundangshófið (orðatiltæki)  Mundang er vísir á vog, og máltækið vísar til þess að erfitt er að finna meðalveginn; fá vogina til að vera í jafnvægi..

Mjúk er móðurhöndin (orðatiltæki) Enginn er betri ungviðinu en móðir þess.  Sjá milt er móðurhjartað.

Mjúkhentur (l)  Tekur varfærnislega á; fer næmum höndum um.  „Ekki veit ég hversu mjúkhentur hann verður hann kemst að þessum hrekkjum“.

Mjúkmáll / Mjúkorður (l)  Tungumjúkur; kurteis/hóflegur/biðjandi í tali.  „Þú þarft að vera nokkuð mjúkorður við hann ef þú ætlar að fá hann inná þetta“.

Mjúkt í / Mjúkt undir fæti (orðtök)  Undirlag gefur eftir.  Oftast notað um aurbleytu; þegar frost er enn undir þýðu yfirborði aurborins landslags, svo gangandi maður sekkur í vatnssósa yfirborðið þó traust virðist, álengdar að sjá.  Ekki var óalgengt að bílar lentu í festum á aurholtum þegar farið var til eggja á vorin.

Mjúkt undir kili (orðtak)  Um lendingu; mjúk landtaka.  „Um flóð var upp í sand að lenda; en um fjöru, eða þegar lágsjávað var, var stundum ekki eins mjúkt undir kili; nema í þröngu viki milli hleina, sem nefndist Klauf“  (KJK; Kollsvíkurver).

Mjúkur (l)  A.  Um hlut/voð/fatnað eða annað; voðfellt; þægilegt viðkomu; ekki hart.  B.  Stundum notað um ölvaðan mann, þegar hreyfingar eru orðnar silalegar.   „Hann er orðinn nokkuð mjúkur“.

Mjúkur á manninn (orðtak)  Ljúfur/þýður í viðmóti.  Sjá blíður á manninn.

Mjúkur undir tönn (orðtak)  Um mat; ekki harður að tyggja.  Notað t.d. um vel barinn harðfisk eða meyrt kjöt.  Sjá harður undir tönn.

Mjæmta (n, hk)  Kveinka sér.  „Fáir þorðu að mjæmta gegn kúgun höfðingjavaldsins“.  Líklega sambræðingur af orðunum mjálma og æmta.

Mjöður (n, kk)  A.  Vín sem bruggað er úr hunangi.  Algengara fyrr á öldum  B.  Gæluorð um hverskonar vökva; einkum áfengi.

Mjög / Mjög svo / Mjögsvo (ao)  Afar; heldur; mikið.  „Það rigndi mjög mikið“.  Mjögsvo er mildara, og oft notað stakt sem játandi andsvar eða í stuttum setningum.  „Þetta var mjögsvo góður matur“.  „Ekki man ég hvaða húsbændur voru þar þá (á Auðkúlu), en þar var okkur tekið mjög svo vel“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Mjöl / Mjölvara (n, hk/kvk)  Mulinn kornmatur (hveiti, rúgur, maís, bygg o.fl.), mikið notaður í brauð en einnig grauta o.fl. Fyrrum mun oftar hafa verið notuð orðmyndin mél, og héldu margir því fram í lok 20.aldar.   Mjöl var ein þeirra nauðsynjavara sem heimili þurftu að kaupa að, og var ekki alltaf auðfengið eða fyrirhafnarlaust fyrr á tímum.  Fyrrum var það malað heimavið, og voru myllusteinar á flestum bæjum.  Sumir gerðu sér vatnsdrifnar myllur í ám og lækjum og voru nokkrar slíkar í Kollsvík.  „Í verstöðvum norðan Bjargs var mjölskammturinn einn fjórðungur til mánaðar, en 12 harðir steinbítar voru látnir koma í staðinn, ef mjöl var ekki til“  (LK; Ísl.sjávarkhættir II; heim; ÓETh).  „Á bæjum í Kollsvík var margt gert fyrir vermenn, m.a. bakaðar kökur og brauð.  Þessi störf greiddu þeir með því að taka upp mó í landlegum fyrir heimabændur“  (LK; Ísl.sjávarkhættir II; heim; GG).  „Þar var báturinn fermdur, en flutningurinn var aðallega salt og eitthvað af mjölvöru og sykri“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Mjölbolli / Mjölhnefi (n, kk)  Mæling mjölmagns.  „Ég gaf heimalningum hálfan mjölhnefa“.

Mjöll / Mjallsnjór (n, kvk)  Léttur og laus snjór; venjulega nýfallinn.

Mjölmikill (l)  Um kartöflu eða ávöxt; þroskaður; ekki vatnskenndur eða harður.  „Mér finnst þetta epli mun betra en hitt; það er mun mjölmeira og ekki eins eitursúrt“.

Mjölpoki / Mjölsekkur (n, kk)  Poki/sekkur af mjöli.  Notað jafnt um hveiti-, rúgméls- og fóðurmélspoka.

Mjölsalli (n, kk)  Lítið eitt af mjöli.  Oftst notað um dreif af mjöli sem kuskast hefur yfir borð, gólf eða annað.

Mjöltunna (n, kvk)  Tunna sem mjöl er geymt í.  Mjöl var oftast geymt í tunnum eða kistum, en síður í sekkjunum sem það kom í, þar sem mýs gátu þá komist í það ef þær sluppu inn í matarbúrið.

Mjölugur (l)  Ataður/þakinn mjöli.  „Hún hafði verið í sláturgerð og var mjölug mjög að framanverðu“.

Mjölvara (n, kvk)  Matvara í formi mjöls, s.s. hveiti, sykur, rúgmjöl o.fl.  „Eins var þá algengt á útmánuðum, að farið var að ganga á þá mjölvöru sem keypt hafði verið til vetrarins“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Moð (n, hk)  Úrgangur úr heyi; afgangur eftir heygjafir.  „Ætlaður var 1 hestur á kindina; 30 hestar fyrir hverja kú, og hrossi var ætlaður úrgangur, moð og rekjur“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Moða úr (orðtak)  Vinna úr; hafa fyrir stafni.  „Fyrstu niðurstöður fiskbeinarannsókna í Láganúpsveri gefa sagnfræðingum ýmislegt nýtt til að moða úr“.

Moðbingur / Moðhaugur (n, kk)  Haugur sem myndast nærri skepnuhúsum, þar sem kastað er moði.

Moðkarfa / Moðlaupur / Moðmeis / Moðpoki (n, kvk/kk)  Karfa/laupur/meis/poki sem moð er borið í, t.d. þegar því er kastað úr jötu á mobing.

Moðreykur (n, kk)  Tvenn skýring er á heitinu:  Algengast er nú til dags að álíta þetta reyk af moði sem t.d. er notaður til reykingar matvöru.  Líklegra er að átt sé við gufu þá sem gjarnan leggur úr moðhaug þegar í honum hitnar, eins og jafnan gerist.  Til þess bendir orðtakið að „komast ekki uppfyrir moðreyk“ með eitthvað; sem merkir að koma máli ekki áfram.  Það hefur í nútímanum afbakast í að „komast ekki upp með neinn moðreyk“.  Moðreykur sem myndast af sjálfhitnun rís ekki hátt, og sést einungis nærri haugnum.

Moðrusl (n, hk)  A.  Moð og drasl sem því kann að fylgja, s.s. ljámýs og sina.  B.  Lélegt hey.  „Það má gefa geldfénu þetta moðrusl að snusa í“.

Moðsalli (n, kk)  Salli sem verður eftir í jötu ásamt moðinu, eftir að búfé hefur étið heyið sem ætilegt er.  Er að uppistöðu fræ, sandur og mold.

Moðsuða (n, kvk)  A.  Matreiðsluaðferð sem mun stundum hafa verið notuð áðurfyrr, til að spara dýrmætan eldivið.  Þá er maturinn fyrst soðinn við eld á venjulegan hátt, en þegar suðan er komin upp er potturinn tekinn og settur í moðbing sem hitnað hefur í.  Hitinn í bingnum nægir oft til að maturinn soðnar að fullu.  Sumsstaðar munu hafa verið útbúnir sérstakir moðsuðukassar í þessum tilgangi.  Ekki er vitað til að aðferðin hafi verið notuð í Kollsvík, enda þar meira brenni en víða annarsstaðar.  B.  Líkingamál um illa reifað málefni/ lélegan málatilbúnað.

Moðvelgja (n, kvk)  Hálfvelgja; hálfur hugur; loðin svör/ummæli.  „Skelfing leiðist mér svona moðvelgja“!

Moðvolgur (l)  A.  Volgur; svipað hitastig og verður í moðhaug sem sjálfhitnar.  B.  Með hálfum huga.  „Hann er fremur moðvolgur yfir þessum hugmyndum en að hann hafi á þeim brennandi áhuga“.

Moggi (n, kk)  A.  Stuttnefni á Morgunblaðinu.  Hefur líklega tíðkast um allt land frá því hann fyrst kom út.  B.  Stuttnefni á bíl af tegundinni Bens-unimog, sem var lítill torfærujeppi.  Þannig bíl átti Egill Ólafsson á Hnjóti, og er ekki grunlaust um að GJH hafi átt upptök að stuttnefninu, eins og fleiri snjallyrðum.

Moj (n, hk)  Vesen; erfiði.  „Það var töluvert moj við að koma þessu öllu fyrir“.  „Mesta mojið var að þrífa eftir þetta“. 

Mok (n, hk)  Stytting á mokafli/mokveiði.  „Það var ekki sama mokið hjá okkur núna eins og var í gær“.

Moka (s)  A.  Stinga og færa til efni, jarðveg eða annað með reku/skóflu.  B.  Ryðja snjó af vegi oeg gera hann bílfæran, t.d. með veghefli eða öðru moksturstæki.  „Þeir ætla ekki að moka yfir Hálsinn fyrr en veðurútlitið lagast“.

Moka flórinn (orðtak)  A.  Flórmokstur var eitt af föstum fjósverkum, og það sem byrjað var á þegar komið var til mjalta.  B.  Afleidd merking um að vinna úr vafasömum gerðum annarra.

Moka niður snjó (orðtak)  Hlaða niður snjó; snjóa mjög mikið.  „Hann mokar niður snjó þessa stundina“. 

Moka ofanaf (orðtak)  Hreinsa snjó af jörð í haga, svo fé geti bitið.  Mun áðurfyrr sumsstaðar hafa verið verk sauðamanna/hjástöðufólks, en mun sjaldan hafa þurft í Kollsvík þó þar væri mjög treyst á útibeit.

Moka/raka saman peningum (orðtak)  Verða mjög ríkur; græða mikið.  „Ekki held ég að maður væri neitt ánægðari þó maður sæti við það alla daga að moka saman peningum“.

Moka undan (orðtak)  Oftast notað um það að stinga skít út úr fjárhúskjöllurum(moka undan grindum/fénu), eða stinga tað úr fjárhúsum.  „Við kláruðum að moka undan í Miðhúsinu“.

Moka upp (orðtak)  A.  Moka ofanaf því sem fennt hefur á kaf/ er á kafi í snjó/sandi.  B.  Fá mjög mikinn afla.

Moka úr (haugum) (orðtak)  Dreifa þeim skít/húsdýraáburði um túnin sem sturtað hefur verið í hrúgur.

Moka úr húsunum / Moka skít / Stinga út (orðtök)  Moka skít útúr haughúsum/haugkjöllurum fjósa og fjárhúsa.  „Á Vestfjörðum var fé oft beitt í fjöru á veturna, en fé sem er á fjörubeit bleytir húsin mjög mikið.  Vestfirðingar fundu tvö ráð við þeim vanda.  Annarsvegar báru þeir sand í garðana í húsunum á haustin og létu hann draga í sig bleytuna úr taðinu.  Þegar taðskánin var orðin mettuð var efsta laginu mokað út.  Hin aðferðin sem Vestfirðingar fundu upp var að gera rimlagrindur úr tré sem lagðar voru í garðana og féð gekk á þeim.  Spörð og hland fór þá niður á milli rimlanna meðan rúm var fyrir.  Þegar fór að fyllast á milli rimlanna var grindinni lyft og hún færð svolítið til þannig að hún féll ekki í sama farið aftur heldur lagðist ofaná taðið.  Þá leið enn nokkur tími þar til fylltist milli rimlanna aftur.  Síðan þróaðist sú aðferð að grafa þrær í botninn á görðunum.  (Enn síðar voru haugkjallarar steyptir, þannig að grindaslár hvíldu í börmum þeirra)  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).  

Mokafli / Mokveiði (n, hk/kk/kvk)  Rótarfiskirí; mjög mikil veiði.  „Það hefur verið mok á línuna“.  „Ekki segi ég að þetta hafi verið mokveiði, en við getum ekkert kvartað“.

Mokél / Mokhríð (n, hk/kvk)  Él/hríð með gríðarmikilli ofankomu.  „Við lentum í þvílíku mokéli á leiðinni yfir, að ekki sá handaskil, og lá við að hrúturinn kæmist ekki úr sporunum fyrir ófærð“.

Mokfiska / Mokveiða (s)  Fiska/veiða mjög mikið; fá mikinn afla.

Mokstur (n, kk)  A.  Verkið að moka.  „Maður er dálítið þreyttur eftir moksturinn“.  B.  Efni sem mokað er upp.  „Mikilvægt er við snjómokstur, að ganga þannig frá mokstrinum að hann valdi ekki aukinni ófærð síðar“.

Mola (s)  Brjóta í smátt; maska; mölbrjóta.

Molakaffi / Molasopi (n, kvk)  Kaffi sem framreitt er án annars meðlætis en sykurmola og e.t.v. mjólkur.  „Ég þigg hjá þér kaffibolla, en hafðu það bara molakaffi; ég vil enga fyrirhöfn“!  „Kannski ég þiggi molasopa“.

Molakassi / Molasykurskassi (n, kk)  Kassi undan molasykri.  Molasykur var seldur úr kaupfélögum í kössum úr hnausþykkum massívum pappa, ca 60x40x30cm að stærð.  Þetta voru tvær skúffur, þar sem annari var hvolft yfir hina.  Molakassarnir nýtust mjög vel eftir að sykurinn hafði verið tekinn úr þeim, sem geymsluílát undir hitt og þetta; enda níðsterkir meðan þeir ekki blotnuðu.

Molasykur (n, kk)  Sykurmoli.  Bæði safnheiti og um einstakan mola.  Molasykur var fyrrum seldur í stórum pappakössum, líklega um 10-12 kg. 

Molasykurskar / Molakar (n, hk)  Ílát sem molasykur er borinn í á borð.  „Geturðu sett í molasykurskarið fyrir mig“?  „Það þýðir ekkert að hafa molakarið á borðinu þegar strákarnir koma í kaffi“!

Molasykurslaus / Molalaus (l)  Á enga mola; uppiskroppa með molasykur.  „Nú fór í verra; éga er bara alveg molasykurslaus; geturðu notað strásykur“?

Molbúaháttur (n, kk)  Heimskuleg vinnubrögð; forheimskun.  „Það er varla hægt að kalla þessar aðfarir annað en molbúahátt“.

Molbúalegur (l)  Líkur molbúa; fáránlegur; skondinn; furðulega klæddur; notar fráleit vinnubrögð.  „Óttalega geturðu nú verið molbúalegur við þetta, greyið mitt“!

Molbúi (n, kk)  A.  Maður sem býr í bænum Mols á Jótlandi.  Af þeim íbúum voru sagðar ýmsar skopsögur sem fluttust hingað til lands eins og fleira frá Danskinum.  Má líkja bröndurum um molbúana við Hafnfirðingabrandara sem hér hafa gengið.  B.  Furðulegur maður; maður sem er fáránlegur í háttum/búnaði eða fákunnandi til orðs og handa. 

Mold (n, kvk)  A.  Gróðurmold; jarðvegur, myndaður úr rotnuðum gróðurleifum.  B.  Skafmold; fínkornaður snjór sem fýkur undan vindi.  „Það féll í slétt yfir allt af veðurofsanum og moldinni“  (Sturla Einarsson; um snjóflóðið í Kollsvík  3.des. 1857).

Molda (s)  Sá þáttur í kristinni jarðarför að prestur kastar þremur litlum rekum af mold á kistu hins látna og minnir á að hann er af moldu kominn; að moldu muni hann aftur verða og af moldu muni hann aftur upp rísa.

Moldarbað (n, hk)  Hænsni eiga það til, ef þau komast í opið moldarflag, að setjast niður og ausa jarðvegi yfir sig; inn í fiðrið og um hausinn.  Á eftir hrista þau sig rækilega.  Líklega losna þau þannig við óværu.

Moldarborinn (l)  Um sand/jarðveg; verulega blandaður mold. 

Moldarbylur / Moldbylur / Moldhríð / Moldhríðarbylur / Moldrok / Moldviðri / Moldöskubylur (n, kk)  Skafmoldarbylur; kóf.  „Þá setti á suðaustan moldbyl“  (TÓ; upptaka á Íslmús 1978).  „Oft þurfti að líta eftir vitanum ef moldrok eða snjókoma var.“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Þú ferð lítið þessa stundina; það er skollinn á þreifandi moldöskubylur“!

Moldarflag (n, hk)  Ógróið moldarsvæði; flag.

Moldargólf (n, hk)  Gólf þar sem yfirborðið er mold eða annar jarðvegur.  „Baðstofan sem ég man fyrst eftir var með moldargólfi“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Moldargusa (n, kvk)  Gusa/strókur af mold.  „Tuddinn bölvaði hátt og rótaði með framfótunum, svo moldargusurnar gengu hátt yfir herðakamb hans“.

Moldarhnúskur (n, kk)  Moldarhnaus; kökkur af mold.  „Það þarf að berja vel í sundur moldarhnúskana“.

Moldarkóf (n, hk)  Skafmoldarkóf; skafbylur.  „Það setti yfir okkur svo þétt moldarkóf að ekki sá útúr augum“.

Moldarlaust / Moldarlítið (l)  Engin/lítil skafmold; rennir ekki/lítið snjó með jörðu.  „Á föstudagsmorguninn var veðrið vægara og moldarminna“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Moldfullur (l)  Mjög drukkinn; pissfullur; kófdrukkinn.

Moldin fýkur/rýkur í logninu (orðtak)  Viðhaft um það þegar mikið er gert úr litlu málefni, eða þegar menn hafa óþarfa áhyggur af smámunum. „ Nú þykir mér moldin farin að rjúka í logninu“.

Moldugur (l)  Ataður mold.  „Dustiði nú af ykkur úti strákar; þið eruð hressilega moldugir“!

Moli (n, kk)  A.  Hverskonar smástykki/brot.  „Þarna má víða finna mola af jaspis“.  B.  Sykurmoli.  „Gefðu mér tvo þrjá mola með kaffibollanum“.

Molla (n, kvk)  Hæglæti, hlýtt og rakt í veðri.  „Það er bölvuð molla í dag; kannski verður þurrkur á morgun“.

Molluhiti / Mollusvækja (n, kvk)  Hitakóf; hitamolla; mjög hlýtt og rakt í veðri.  „Heyið þornar ekki í þessari mollusvækju“. 

Mollulegt (l)  Svækja; raki og hiti.  „Opnaðu dyrnar smástund; það er orðið svo heitt og mollulegt hér inni“.

Molna (s)  Brotna af í molum; kvarnast.  „Gangurinn er orðinn varasamur; það er farið að molna úr honum“.

Molskinn (n, hk)  Þykkt, þéttofið bómullarefni.  Notað á síðari tímum í molskinnsbuxur, molskinnsjakka, molskinnsblússur og annan fatnað.

Moltinn (l)  Um matvæli (einkum fisk); linur og ólystugur af hita eða slæmri geymslu.  „Það mátti vel svæla í sig þessum rauðmaga þó hann hefði ofhitnað í reykingunni og væri orðinn fremur moltinn“.

Moltna (s)  Um matvæli; verða moltinn.  „... það varð að vara sig á því ef það var orðinn mikill hiti í tíðinni. Þá vildi rauðmaginn moltna svona og jafnvel koma fluga í hann...“  (SG; Reyking matar; Þjhd.Þjms). 

Molþurr (l)  Skraufþurr; alveg þurr; brakþurr.  „Vettlingarnir eru orðnir molþurrir og hlýir“.

Monsjör/Monsiör (n, kk)  Herra; virðingarnafnbót þeirra höfðingja fyrr á tímum sem gegndu opinberum störfum; komið úr frönsku, monsieur.  „Einar (Jónsson ættfaðir Kollsvíkurættar) var opinber ákærandi heima í héraði í hinu alræmda Sjöundármáli; nefndur monsiör Einar í skáldsögunni Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Mont (n, hk)  Stærilæti; yfirlæti; gorgeir; drýldni.  „Honum hefnist þá fyrir helvískt montið“!

Monta sig af (orðtak)  Stæra sig af; hreykja sér af.  „Þetta er árangur sem hver maður getur montað sig af“.

Montgosi / Monthani / Montrass / Montpúki (n, kk)  Drýldin/montin manneskja; mikill á lofti.  „Skelfilega er þetta hvimleiður montrass“.

Montinn (l)  Hofmóðugur; yfirlætislegur; með gorgeir.  „Þetta er ágætis náungi í ýma staði, en nokkuð þykir mér hann montinn“.

Montprik (n, hk)  Göngustafur sem sumir höfðu fyrr á tímum, sem þurftu þó ekki að ganga við staf.  Var á þeim tíma talið heldri manna háttur, líkt og hattur og vindill.  Notað í seinni tíð sem gæluorð um göngustaf.  „Eftir aðgerðina þurfti ég um tíma að ganga við montprik“.

Mor (n, hk)  Smælki.  A.  Fínsallað þararusl sem oft liggur á fjörum, einkum eftir mikið brim.  „Féð hafði ekki mikið í fjörunni, en það snasaði eitthvað í morið“.  B.  Fjöldi af mábörnum.  „Ég skal passa morið meðan þið skreppið inneftir“.  C.  Óhreinindi í ull.  „Þeir eru farnir að verðfella ári mikið ef þeir sjá mor í ullinni“.  D.  Grugg í vatni, einkum slý og annað rusl í sjó.  E. Viðarsmælki sem rekur á fjörur.  F.  Hverskonar fjöldi.  „Ég hef sjaldan séð annað eins mor af músum og það sem hljóp undan grindunum“.

Mora (s)  Vera urmull/kvikt af; úa og grúa.  „Ári finnst mér illa smalað þarna ef þar morar allt af fé ennþá“!

Morandi (l)  Kvikt; mikill fjöldi.  „Í svokölluðum Bergjum er gömul rétt; hlaðin, og þar og á Stöðlinum er bókstaflega allt morandi í hleðslum, garðar og kálgarðaveggir o. fl. sem mest er fallið í gleymsku“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).

Morð fjár (orðtak)  Mikil verðmæti; mikið fé.  „Þessi traktor hlýtur að hafa kostað morð fjár“?

Morðákæra / Morðsök (n, kvk)  Ákæra/sök um manndráp.  Það næsta sem útvíknafólk hefur komist slíku og áreiðanlegar sögur fara af, er morðmálið á Sjöundá á Rauðasandi síðvetrar 1802.  Þá dóu Jón Þorgrímsson og Guðrún Egilsdóttir, sitt af hvorum bæ á Sjöundá á Rauðasandi, og voru makar þeirra sökuð um dauðsföllin; Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir.  Upphófust þá mikil réttarhöld, en í þeim var monsjör Einar Jónsson í Kollsvík skipaður sækjandi ákæruvaldsins.  Hann sýndi röggsemi í því sem öðru og voru Bjarni og Steinunn dæmd sek um morðin.  Af Steinunni er kominn nokkur ættbogi, m.a. í Kollsvík.  Um Sjöundármálin ritaði Gunnar Gunnarsson bókina Svartfugl.  Óljósar sagnir eru um manndráp á Hvallátrum fyrr á öldum.  Sagt er að „Tyrkir“ hafi gert tilraun til rána á Látrum en verið vegnir og urðaðir þar sem nú er lágreistur hóll; Kárni, á Kárnafit milli Látrabæja og Brunna. 

Morgna (s)  Líða að morgni/ fram á morgun; birta af degi.  „Þegar morgnaði var jörð orðin alhvít aftur“.

Morgunbirta / Morgunbjarmi (n, kvk)  Birta að morgni dags; fyrsta skíma.

Morgundagur (n, kk)  Dagurinn á morgun; næsti dagur við daginn í dag.  „Við skulum láta sjá hvernig veðrið verður þegar kemur framá morgundaginn“.

Morgundögg (n, kvk)  Áfall; dropar sem myndast á grasstráum og öðru við þéttingu gufu úr lofti þegar kólnar, einkum þegar loft er heiðskýrt og sól enn ekki komin upp.  Orðið áfall var mun meira notað í Kollsvík.

Morgunflæði (n, kvk)  Morgunflæði; aðfall/flæði sem verður að morgni eða fyrripart dags.  „Við skulm setja bátinn ögn hærra; morgunflæðin er nokkru hærri en kvöldflæðin“.

Morgunfrú (n, kvk)  Calendula officinalis.  Gullfífill; einært skrautblóm af körfublómaætt, sem lengi hefur verið ræktað í görðum.

Morgungegningar (n, kvk, fto)  Sinning búfjár að morgni eða fyrrihluta dags.  „Ég skal líta á þetta þegar ég er búinn í morgungegningum“.

Morgungjöf (n, kvk)  A.  Fóðurgjöf kúa og annars búpenings að morgni.  B.  Gjöf sem eiginmaður gefur konu sinni morguninn eftir brúðkaupsnóttina.

Morgunhressing (n, kvk)  Næring/kaffi/snarl sem menn fá sér að morgni dags.  „Ertu búinn að fá þér nokkra morgunhressingu“?

Morgunhrollur (n, kk)  Skjálfti/hrollur sem stundum setur að mönnum þegar farið er út í kalt veður að morgni.  „Það er einhver árans morgunhrollur í manni“.

Morgunhundur / Morgunhani (n, kk)  Sá sem fer snemma á fætur á morgnana; sá sem tekur daginn snemma.  „Ég er svoddan morgunhundur, en ég er líka fjári kvöldsvæfur“.

Morgunhúm (n, hk)  Hálfrökkur að morgni. 

Morgunkaffi (n, hk)  Kaffi/kaffitími að morgni dags.  „Hún var búin að hella uppá morgunkaffið þegar ég kom fram“.  Kollsvíkingar höfðu flestir þann ófrávíkjanlega sið, a.m.k. á síðari tímum, að fá sér kaffi að morgni, og oftast smurbrauð með; börn fengu sér mjólkurglas.  Sjaldgæfara var að snæddur væri morgunverður, nema þá helst hafragrautur fyrir ungviðið.

Morgunkaldur (l)  Um það þegar kalt er að morgni, t.d. eftir fyrsu næturfrost að hausti.  „Hann er að verða dálítið morgunkaldur þessa dagana“.

Morgunkul / Mogunkæla (n, hk)  Gola/kaldi að morgni dags.  „Búðu þig nú almennilega; það er napurt í morgunkulinu“.  „Hann lagði upp einhverja morgunkælu á víkina, en lygndi aftur um hádegið“.

Morgunmiga (n, kvk)  Sú athöfn að kasta af sér vatni/ míga að morgni.  „Mér fannst, þegar ég fór út í morgunmiguna, að hann væri farinn að ljókka ári mikið“.

Morgunmjaltir (n, kvk, fto)  Mjaltir kúa að morgni.  Kýr þarf að mjólka tvisvar daglega; hitt eru kvöldmjaltir.

Morgunroði (n, kk)  Sólroði á himni við dagmál.  Því var trúað að honum gæti fylgt væta:   „Kvöldroðminn bætir en morgunroðminn vætir“  (BH; Grasnytjar). 

Morgunsár (n, hk)  Dagrenning; snemma/árla/ár morguns.  „Heldur er maður syfjaður, svona í morgunsárið“.  „Geisla bröndum glymur skjár/ ganar öndin morguns ár./  Ég af ströndu set til sjár/ siglu mönduls húðarklár“  (JR; Rósarímur). 

Morgunsól (n, kvk)  Sólskin að morgni dags.  „Morgunsólar gætir ekki í Kollsvíkurbænum, þar sem Núpurinn skyggir á“.

Morgunstund gefur gull í mund (orðatiltæki)  Vísar til þess sama og „drjúg eru morgunverkin“, þ.e. að mönnum verður yfirleitt mest úr verki ef snemma er farið á fætur.  Því eru rismál klukkan 6 að morgni, að hinu forna tímatali.  Sjá sá er árla rís verður margs vís / margs verður vís sá er árla rís.

Morgunsvæfur (l)  Hefur tilhneygingu til að sofa frameftir á morgnum.  Venja var að tala um kvöldsvæfar og morgunsvæfar manneskjur í Kollsvík, en viðtekin kjaftíska  víða í dag er „A-manneskjur“ og B-manneskjur“.

Morgunverk (orðtak)  Sú vinna sem framkvæmd er að morgni/ snemma dags. „Drjúg eru morgunverkin“.  Oft var átt við föst dagleg nauðsynjaverk, s.s. morgunmjaltir; vötnun gripa; morgungjafir o.fl.

Morka (n, kvk)  Ýlda; skemmd; linur/ornaður/úldinn/hráétinn fiskur; fúinn viður.  „Ekki líkar mér þessi fiskur.  hann hefur náð að sólbakast og er ekkert nema morka“.

Morkinn (l)  A.  Sundurdrafaður;  um fisk; laus í sér/ lausholda.  „Fiskurinn hafði legið helst til lengi í kösinni, og var orðinn hálf morkinn“.  B.  Maðksmoginn.  „Fjandi er þessi fallegi bolur morkinn að innan“.

Morkna (s)  Verða morkinn.  „Fiskurinn má ekki bíða neitt; hann er svo fljótur að morkna í sumarhitanum“.

Morra (s)  Dorma; rorra; hálfsofa; liggja/sitja nær hreyfingarlaus á sama stað.  „Ekki dugir að morra hérna við matborðið; ég þarf að fara að drífa mig af stað“!  Líklega hljóðbreyting af sögninni að mara.

Mosabeðja / Mosadyngja / Mosasæng / Mosaþemba (n, kvk)  Djúpar breiður af gamburmosa/grámosa, sem víða eru á fjöllum í Rauðasandshreppi.  „Það kemur út á manni svitanum að kjaga upp mosabreiðurnar á Geldingsskorardal; þungklyfjaður af eggjum“.

Mosafold (n, kvk)  Mosavaxið svæði.  „Mávaflatir eru sléttar mosafoldir uppi á brúninni; upp af bænum, suðaustur af Lambavatnsdal“  (ÓS; Örnefnaskrá Lambavatns).

Mosalýja / Mosalufsa / Mosatutla (n, kvk)  Slitrur/snifsi/tægjur af mosa.  „Ef þú ferð að sækja nokkrar  lyngklær fram í Víðilæki, þá mega fljóta með einhverjar þurrar mosalýjur.  Þær eru ágætar til uppkveikju“.

Mosastopp (n, hk)  Mosi sem notaður er sem stopp í eggjaílát.  Þar sem sina var ekki tiltæk gátu menn þurft að nota mosa í stopp, en það þótti mun verra en sinustopp þar sem mosinn var plássfrekari og vildi molna.  „Við sóttum eggin í byrgið á Breiðsbrún daginn eftir, en þurftum að nota mosastopp að hluta, þar sem ekki hafði verið tekið nóg af sinu með upp“.

Mosavaxinn (l)  Líkingamál um mann; staðnaður í starfi/viðhorfum; stirðbusalegur.  „Það er orðinn full þörf á endurnýjun í yfirstjórninni.  Þar eru margir orðnir ansi mosavaxnir og kalkaðir“.

Mosaþembur (n, kvk, fto)  Þykk mosabreiða.  „Það hagar þannig til á bjargbrúninni víðast hvar, að fyrst frá brúninni er töðugras og grafoldir sem við köllum; svo taka við mosaþembur“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Mosi (n, kk)  Mosar eru plöntutegund sem kom fram alllöngu á undan blómplöntum og öðrum „æðri plöntum“ í þróunarsögunni, og hafa margir mun meiri aðlögunarhæfileika gagnvart hrjóstrugu gróðurlendi.  Yfir 20 þúsund mosategundir eru þekktar, og hafa 600 þeirra verið greindar hérlendis.  Sveppir skiptast í þrjár fylkingar; laufmosa (baukmosa), soppmosa og hornmosa.  Flestir hérlendis eru af gerð laufmosa.  Langalgengasta og mest áberandi mosategundin í Kollsvík og nágrenni, og víðasthvar á landinu, er grámosi/gamburmosi/hraungambri; Racomitrium lanogiusum.  Breiður af honum þekja víða landið, einkum ofan láglendis þar sem jarðvegslítið er.  Best kann hann við sig þar sem nokkurs skjóls gætir og skjólsælla er, s.s. í lautum og daldrögum.  Í mýrlendi Kollsvíkur er mikið af því sem þar er nefnd dýjamosi, en líklega er þar um að ræða krækjumosa af einhverju tagi, t.d. mýrakrækju, lindakrækju eða tjarnakrækju, þó það hafi enn ekki verið greint.  Krókmosar af ýmsu tagi eru líklega algengari í mólendi, s.s. á Umvarpi og Svarðarholtum.

Mosk (n, hk)  Mulningur; smáhlutir; kríli.  „Yfirleitt eru þetta væn lömb en svo er eitthvað mosk innanum“.

Mosugur (l)  Ataður/þakinn mosa; með mosaklær fastar við sig.  „Dustaðu nú úr peysunni áður en þú kemur inn; þú ert ansi mosugur á bakinu“.

Motta (n, kvk)  Dregill; ofinn eða brugðinn efnisbútur á gólfi, til að mýkja/hlífa eða þurrka neðanaf skóm.  Ýmislegt var nýtt í þessum tilgangi.  Um tíma var þéttriðinn bútur úr togaravörpu notaður sem motta við útidyr á Láganúpi.  Þá er það dæmi um útsjónarsemi og nýtni fyrritíðarfólks að Halldóra frá Grundum fléttaði saman notuðum nælonsokkum og -sokkabuxum og saumaði fléttuna saman í kringlótta mottu.

Mottugarmur (n, kk)  Léleg motta.  „Það mætti fara að henda þessum mottugarmi“.

Móa (s)  Jaga; ýta; þoka.  „Það þyrfti að fara og móa fénu eitthvað frá dýjunum; það sækir í nýgræðinginn“.

Móa fyrir/á/í/undir (orðtak)  Móta óljóst fyrir; grilla í.  „Það er farið að hlána örlítið og móa á börðum“.  „Það móar ekki fyrir útihúsum í þessari þoku“.  „Þarna sýndist mér móa í brot á hleininni; sláðu nú dálítið af“.  „Kannski þokufýlunni sé eitthvað að létta; það er eins og mói undir hana þarna norðantil“.

Móa fyrir sól (orðtak)  Birta; létta til.  „Eitthvað er hann að létta þessum þokurudda; það er farið að móa örlítið fyrir sól, sýnist mér“.

Móa gegn (orðtak)  Andmæla; hafa uppi veikburða mótmæli.  „Ég hef reynt að móa gegn þessu í félaginu“.

Móaska (n, kvk)  Aska af brenndum mó.  Lítt þekkt í dag en ein afurða daglegs lífs áðurfyrr.

Móaslægjur (n, kvk, fto)  Þurrlendur slægjublettur í úthaga.  „Hlíðin inn eftir, frá Hagagilsbrekkum, heitir Krákur.  Þetta eru móaslægjur“  (SJTh; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Móast við (otðtak)  Þráast/þverskallast við; standa í móti; standa fast á sínu.  „Það þýðir víst lítið að móast við lengur þegar ekki er hægt að lifa sómasamlega af þessum búskap“.  „Ef hann móast við þessu verður að grípa til róttækari aðgerða“!

Móaþýfi (n, hk)  Þýft svæði í móa.  „Mest þurrlendi í Mýrunum er móaþýfi“.

Móbrúnn (l)  Dökkbrúnn.  „Hann var með móbrúna skinnhúfu á höfði“.

Móða (n, kvk)  Þoka; mistur; saggi.  „Mikil móða myndaðist oft innaná einföldu gleri sem fyrrum tíðkaðist í íbúðarhúsum.  Mest var hún í miklum vetrarkuldum, þegar vatn sauð á eldavél eða verið var að þurrka vosklæði.  Í miklu frosti mynduðust frostrósir innaná rúðunum; oft mikil listaverk.  Gluggasyllurnar voru oft vel útbúnar til að taka við afrennslinu af rúðunum; með köntum til að halda við vatnið, og affall oft borað út í gegnum karminn“.

Móðerni (n, hk)  Móðurætt; ætt manns í móðurlegg.

Móðir dylur barnsins bresti (orðatiltæki)  Móður er gjarnt að líta framhjá því neikvæða sem aðrir telja sig sjá í fari barns, og jafnvel neita að viðurkenna það sem að er.

Móðir er sú sem matinn gefur (orðatiltæki)  Vísar til þess að barn laðast fljótt að þeim/þeirri sem gefur því gott að borða og er því góður/góð.

Móðuharðindin (n, hk, m.gr)  Heiti á einum mestu náttúruhafmförum Íslandssögunnar og áhrifum þess á líf og samfélag: öðru nafni Skaftáreldar.  Hinn 8.júní 1783 hófst gríðarmikið eldgos nærri fjallinu Laka á Síðuafrétti, þegar þar opnaðist löng gossprunga.  Úr henni flæddi mesta hraungos sem orðið hefur hérlendis á sögulegum tíma, og eitt það stærsta í mannkynssögu heims.  Eldflóðið æddi niður með Síðunni, Skaftártungum og niður í Meðalland og ógnaði byggð á Kirkjubæjarklaustri.  Einnig kom upp óhemju magn ösku sem féll víða og spillti jörð.  Mikið kom upp af fíngerðari ösku og brennisteinsoxíði sem steig upp í heiðhvolfið, dreifðist víða um gufuhvolfið og dró úr sólgeislun á norðurhveli jarðar.  Hérlendis var móða í lofti allt sumarið eftir og af því er nafn hörmunganna dregið.  Á síðari tímum eru menn að gera sér grein fyrir afleiðingunum sem þessar loftslagsbreytingar höfðu á mannlíf víða um heim.  Uppskerubrestur varð víða, og er m.a. talinn hafa hrundið af stað frönsku byltingunni.  Hérlendis varð víða skepnufellir og mannfellir í kjölfarið.  Fólk flosnaði upp og fór á vergang; einkum sunnanlands.  Talið er að um 10.000 manns hafi látist af völdum hörmunganna, eða 20% þjóðarinnar; yfir helmingur nautgripa; 82% sauðfjár og aðrir gripir eftir því.  14,6% býla lagðist í eyði.  Til að bæta gráu ofan á svart urðu gríðarlegir jarðskjálftar á Suðurlandi í ágúst 1784, svo fjöldi bæja hrundi.  Skálholtsstaður lagðist í rúst og í kjölfarið var biskupssetrið flutt í Reykjavík.  Undirbúningur var hafinn að því að flytja íslensku þjóðina til Jótlandsheiða.  Gosinu lauk 1785.  Vestfirðir hafa blessunarlega sloppið við beinar hörmungar eldgosa og jarðskjálfta á sögulegum tíma.  Hinsvegar voru afleiðingar þessara viðburða svo alvarlegar á þjóðarhag að enginn landshluti slapp við þau.  Líkt og í mörgum hörmungum öðrum leitaði uppflosnað fólk gjarnan í verin í leit að lífsbjörg.  „Móðir föður míns hét Sólveig. Hún var húnvetnsk að ætt. Faðir hennar Leifur og kona hans Þorkatla voru í þeim tíu manna hópi er flýði vestur á firði í móðuharðindunum  því að þaðan fréttist að betra væri að lifa og ekki öskufall“  (JVJ; Nokkrir æviþættir). 

Móður (n, kk)  A.  Krapi sem myndast í sjó í miklu frosti og vindkælingu.  B.  Fjörumóður; svellbunkar sem myndast í flæðarmáli þegar móður/krapi hleðst þar upp og frýs.  „Það þarf að finna leið niðurfyrir móðinn“.  C.  Áhugi; kapp; dugur.  „Þeir mokuðu úr skaflinum af miklum móð“. D.  Tíska.  „Þetta er víst móðurinn í dag, segja þeir“.

Móður (l)  Með djúpum og hröðum andardrætti vegna áreynslu.  „Eftir gjörð hin greindu skil; gildur hjörvarjóður/ hallast upp við hamraþil,/ hvergi sár, en móður“ (JR; Rósarímur). 

Móður og másandi (orðtak)  Lafmóður; mjög móður.  „Hann var móður og másandi eftir þennan eltingarleik“.

Móðurkviður (n, kk)  Leg konu.  „Ég man alls ekki eftir þessu, enda hef ég trúlega enn verið í móðurkviði á þessum tíma“.  „Höktu í foldarhupp/ harðsvíruð ægistól./  Búsmalinn beiddi upp/ bændur litu ei sól./  Rak fólk í rogastans/ riðaði foldin við/ er ribbaldinn Rósinkrans/ ruddist úr móðurkvið“  (JR; Rósarímur). 

Móeyglótt (l)  Um lit á sauðfé; hvítt á búk og haus en með mórauðan lit í kringum augu; misáberandi.

Móflekkótt (l)  Um lit á sauðfé; hvítt með mórauðum flekkjum/litaskellum á bol, og oftast einnig á haus.

Mófugl (n, kk)  Safnheiti um þær fuglategundir sem verpa í úthögum, einkum um vað- og spörfugla.

Mógofótt (l) Um lit á sauðfé;  Mórauð ær með hvítan hvið, bringu og undir snoppu.

Mógolsótt (l)  Litur á sauðfé; ljóst yfir skrokkinn en mórautt að neðanverðu, á fótum, kvið og haus.

Mógrafarbakki (n, kk)  Bakki á mógröf.  Sjá mór.

Mógröf (n, kvk)  Gryfja þar sem grafið hefur verið eftir mó til eldiviðar.  Mógrafir eru á nokkrum stöðum í Kollsvík, enda er víða góðan mó að finna.  Sum svæðin hafa þó lent undir túnsléttum í seinni tíð.  Svo var t.d. með miklar mógrafir sem voru á Torfamel; um 50m austur af Grásteini.  Enn eru þó sýnilegar mógrafir þar austur af, á Áveitum, og á Svarðarholti nyrðra enn austar.  Á syðra Svarðarholti voru mógrafir.  Gríðarmikið mógrafasvæði er ofan Stekkjarmels, og annað þar uppaf.  Mór var af ýmsu tagi.  Sérlega hitagæfur mór fékkst í Harðatorfspytti, en þar sést ekki móta fyrir mógrofum nú.  Ekki heldur á Leirunum, en þar var grafið eftir mó forðum.  Spurning er hvor þar var um mó af þara að ræða, en hann er hulinn sandi. Sjá mór.

Mógul (l)  Litur á sauðfé; Mjög dökkur gulbrúnn litur á haus og fótum, og gul á lagðinn.

Móhálsótt (l)  Litur á sauðfé; móleitt/mórautt um bóginn, mismikið upp á háls og aftur á herðakamb, en ljóst um búkinn að aftan og um höfuð.  Hálsótt ef dökknan var grá eða svört.

Móhella (n, kvk)  Pressaður ísaldarleir í jörðu sem stundum er vatnsheldur og erfitt getur verið að vinna á.  Sjá deiglumór/smiðjuleir/smiðjumór.

Móhlaði / Mókofi (n, kk)  Stafli af þurrum mó.  „Þegar mórinn var orðinn sæmilega þurr var honum hlaðið upp í kringlótta hlaða og breytt yfir.  Þannig var hann látinn standa til hausts; þá var honum ekið heim í mókofa“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  Sjá einnig mór.

Móhnaus / Móköggull (n, kk)  Hnaus/köggull af mó sem stunginn hefur verið í mógröf.  Móhnausum var kastað upp á mógrafarbakkana, og síðan farið með þá á þurrkvöll, þar sem þeir voru klofnir sundur í flögur.  Móflögunum var síðan stillt upp á rönd, hverri við aðra, þar til þær þornuðu.  Síðan hlaðið í móhlaða.  Sjá mór.

Móhlaði (n, kk)  Hlaði/stæða af þurrkuðum mó.  Sjá mór.

Móhöfðótt (l)  Um sauðalit; ljós á skrokkinn en með mórauðan haus.  Ef móliturinn náði niðureftir hálsi var talað um móhöttótt.

Móhöttótt (l)  Litur á sauðfé; Ljóst á skrokkinn en móráutt yfir höfuðið, aftur á háls.

Mói (n, kk)  Móur; gróinn og að mestu þurrlendur úthagi.  Heitir móur í máli Kollsvíkinga.

Mók (n, hk)  Dos; blundur; óminni.  „Ég hallaði mér eftir matinn og það rann á mig dálítið mók“.

Móka (s)  Sofa laust; blunda; dosa. „Ég sofnaði ekki neitt; bara mókti smástund“.

Mókinnótt (l) Um lit á sauðfé;  Hvít ær með mórauðan vanga.

Mókrímótt / Mókolótt (l) Um lit á sauðfé;  Hvít ær, mórauð í framan og oftast einnig á fótum.

Mókofi (n, kk)  Útihús, ætlað til geymslu á þurrkuðum mó til eldiviðar.  „Mókofi var lengi uppistandandi nærri Láganúpsbænum (rétt sunnanvið nýja húsið). og stóð hænsnakofi við hlið hans.  Mókofinn var byggður af Guðbjarti Guðbjartssyni; steinhlaðinn með torfþaki og timburgöflum, og í honum var löngum hrútastía innar og smíðahús framar.  Hann var líkast til tekinn niður kringum 1980“.  „Fyrir slátt var túnið hreinsað; þá var skíturinn sem ekki vannst niður rakaður í hrúgur.  Það var svo starf okkar krakkanna að tína þær upp í trog og hella þeim í poka.  Afrakið var síðan borið heim í mókofa og notað sem eldiviður“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  Sjá einnig mór.

Mólokast (s)  Gaufa; dunda; hangsa.  Orðið virðist ekki hafa verið notað utan Kollsvíkur í þessari mynd, en annarsstaðar þekktist „molloka“ í sömu merkingu.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Mómold (n, kvk)  Mold sem er að uppistöðu mór.  „Kartöflur spretta sérlega vel í mómoldinni“.

Mópoki (n, kk)  Poki sem í er mór til eldiviðar.  „Og marga mópokana bar Lóa (Ólafía Magnúsdóttir) heim á bakinu“  (DÓ; Að vaka og vinna).

Mór (n, kk)  Samanpressaður forn jarðvegur, sem ekki hefur náð að rotna til fulls vegna sýrustigs í jörðu.  Er því orkuríkur og var helsta eldsneytiÍslendinga til eldunar og kyndingar allt framá 20.öld.  Mótekja til eldiviðar var erfitt starf, og eingöngu framkvæmt af karlmönnum.  Mógrafir Láganúps og Grunda voru ofantil við Júllamelinn og á Áveitunni, en þar þótti jarðvegur betri til mótekju.  Mótekja fór þannig fram að stungnar voru tvær stungur ofan á móinn, og var þeim hent í næstu mógröf (ekki brennanlegur mór), svo komu 5-6 stungur af mó.  Besti mórinn voru 2 neðstu stungurnar.  Verst var hve mikið vatn var í gröfunum.  Þó var alltaf hafður vatnsbakki, en hann vildi springa.  Svo sprakk oft upp botninn og gröfin fylltist af vatni; þá varð að byrja á nýrri.  Ef vel gekk gátu mógrafirnar orðið meira en mannhæð á dýpt, og var þá orðið býsna erfitt að kasta hnausunum upp á bakkann.  Síðan var mórinn keyrður á þurrkvöll sem var við Grástein; ýmist á hestakerru eða hjólbörum.  Þar tóku konur og unglingar við og stungu hnausana í flögur; um 2“ á þykkt.  Voru þær látnar þorna á efri hlið, en svo þurfti að hreykja; þ.e. raða flögunum saman upp á rönd.  Þegar mórinn var orðinn sæmilega þurr var honum hlaðið upp í kringlótta hlaða og breitt yfir.  Þannig var hann látinn standa til hausts, en þá var honum ekið heim í mókofa.  Seinast var tekinn upp mór á Láganúpi vorið 1953.   

Mórauður (l)  Rauðbrúnn; brúnn  Einkum notað yfir lit sauðkinda og ullarvöru sem af þeim er unnin.  Alltaf var nokkuð um mórautt og móflekkótt fé í Kollsvík, þó hvítt eða gulleitt væri ráðandi.  Einnig um lit tófu, sem ýmist er hvít eða mórauð.

Mórilla / Mórillulitur (n, kvk)  Skolp; skolplitur; grugg.  „Það kemur ekkert úr herjans krananum annað en mórilla“.  „Það er enn dálítill mórillulitur á kranavatninu“.

Mórillulegur (l)  Skólplitaður; gruggugur; ógreinilegur; óhreinn.  „Ósköp eruð þið mórillulegir í framan eftir þetta moldarstúss í ykkur strákar; fariði nú og strjúkið framanúr ykkur fyrir matinn“!  „Vatnið í Ánni er enn mórillulegt eftir leysingarnar“.

Móska (n, kvk)  Mistur; brimreykur; þunn þoka.  „... skyggni var slæmt; móska með sjónum við fjöruna og lítil von um að sjá“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Mósótt (l)  Um lit á sauðfé; ljósmórauð; mógrá.  „Gimbrin var mósótt og nefnd Mosa.  Hún var alla tíð gæflynd og gáfuð skepna og hafði oft forystu fyrir fjárhópnum“.

Móskóttur / Móleitur (l)  Brúnleitur; skítugur.  „Ári er féð móskótt sem kemur af Stígnum núna“.

Móskurður (n, kvk)  Upptaka, þurrkun og geymsla á mó til eldiviðar.  „Mótekja fór fram að vori.  Það var erfitt og tímafrekt starf“  (HFG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  „Bændur í Kollsvíkinni fóru þá auðvitað heim til ýmissa starfa.  Helst var það móskurður, smölun og rúningur sauðfjár o.fl.“ (KJK; Kollsvíkurver).   „Mótekja til eldiviðar var erfitt starf, og eingöngu framkvæmd af karlmönnum.  Mógrafir Láganúps og Grunda voru ofantil við Júllamelinn og á Áveitunni, en þar þótti jarðvegur betri til mótekju.  Mótekja fór þannig fram að stungnar voru tvær stungur ofan a móinn, og var þeim hent í næstu mógröf: svo komu 5-6 stungur af mó.  Besti mórinn var 2 neðstu stungurnar.  Verst var hve mikið vatn var í gröfunum.  Þó var alltaf hafður vatnsbakki, en hann vildi springa.  Svo sprakk oft upp botninn, og gröfin fylltist af vatni; þá varð að byrja á nýrri.  Ef vel gekk gátu mógrafir orðið meira en mannhæð á dýpt, og var þá orðið býsna erfitt að kasta hnausum upp á bakkann.  Síðan var mórinn keyrður á þurrkvöll við Grástein; ýmist á hestakerru eða hjólbörum.  Þar tóku konur og unglingar við og stungu hnausana í flögur, um 2 tommur á þykkt, og voru þær látnar þorna á efri hlið.  Svo þurfti að hreykja; þ.e. hlaða flögunum saman upp á rönd.  Þegar mórinn var orðinn sæmilega þurr var honum hlaðið upp í kringlótta hlaða og breytt yfir.  Þannig var hann látinn standa til hausts; þá var honum ekið heim í mókofa.  Seinast var tekinn upp mór á Láganúpi vorið 1953“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  „Jú, það var stunduð mótekja allt þar til fyrir 10 árum, og það er hér mikill mór; en erfitt er að taka hann vegna vatns.  Þegar kom að botni, sprakk hann upp vegna vatnsþrýstings“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).    „Hásetar hjá heimamönnum fóru oft heim með þeim á landlegudögum og unnu að móskurði“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Móspræklótt (l)  Litur á sauðfé.  Hvítt en með staka fíngerða mórauða lokka um allan skrokkinn.

Mósta (n, kvk)  Fíngert sandryk og selta.  Notað bæði um það þegar vindur er mettaður slíku ryki og sést greinilega drífa uppaf fjöru og melaskörðum, en einnig um rykið sjálft þegar það er sest á hluti.  „Það er töluverð mósta í lofti hér norður yfir“.  „Gluggarnir í fjárhúsinu eru þaktir móstu eftir sandbylinn“.

Móstumökkur / Móstustrengur / Móstustrókur / Móstuský (n, kk/hk)  Nöfn á slæmu skyggni sem verður á takmörkuðu svæði þegar norðanstormur þeytir seltu uppyfir sanda, bala, tún og hjalla.  Yfir að líta er sem mjólkurlitir taumar renni af Rifinu og Leirunum meðfram Melaröndum, upp Fitina og yfir Láganúpstúnið. 

Móstustorka / Móstubrynja / Móstuklessa / Móstuský (n, kvk/hk)  Heiti á því sem eftir situr á yfirborði gróðurs, sanda, húsa, véla og annarra hluta eftir að móstumökkur/móstustrengur hefur gengið yfir það í nokkurn tíma.  Eftir situr skán af seltu og fínkornuðum leir; misþykk eftir veðurhörkunni.  Þetta þvæst þó að mestu af í næstu rigningum, en iðulega þarf að þvo glugga og annað í kjölfarið. 

Mót (n, hk)  A.  Samkoma; hittingur; mannamót.  B.  Form; steypumót.  C.  Horfur; líkur á.  „Mér sýnist nú eitthvað mót á að hann sé að létta í élið“.  „Það er lítið mót á því að mér batni pestin, og því ekki víst að ég komist á þetta ættarmót“. 

Mót (fs)  Gagnstætt; það að fara á móti.  „Enginn dirfðist að mæla þessu í mót“.

Móta (s)  Forma; skapa í mynd/form.  „Kjörin móta manninn“.

Mótaborð / Mótatimbur / Mótaviður (n, hk/kk)  Borðviður sem notaður er til að smíða steypumót, þegar hús er byggt.  „Gunnar útvegaði ókjör af kassafjölum frá tékkneska sendiráðinu, sem spöruðu mjög kaup á mótaviði í Láganúpshúsið“.

Mótak (n, hk)  Svæði/jarðvegur þar sem vænlegt er að taka upp mó.  Gott mótak er í Svarðarholtunum, og einnig ofan Stekkjarmels“.

Mótar fyrir (orðtak)  Má greina; sést ógreinilega.  „Á Hólum mótar enn fyrir bæjarrústunum“.  Einnig; „sést móta fyrir“ og „má sjá móta fyrir“.

Mótauppsláttur (n, kk)  Smíði steypumóta, þegar byggja skal steinsteypt hús.

Mótbára (n, kvk)  Andmæli; mótmæli.  „Hann hafði ekki uppi neinar mótbárur gegn þessu“.  „Hann fór sínu fram, og skeytti engu um mótbárur“.

Mótblástur (n, kk)  Andóf; andstreymi; erfiðleikar.  „Þessi áform mættu verulegum mótblæstri“.

Mótbyr (n, kk)  A.  Um siglingu; beitivindur; mótvindur.  B.  Líkingamál; mótblástur.

Mótdrægt (l)  Andstætt; með mótlæti; erfitt.  „Margt varð honum mótdrægt í þessum rekstri“.  Sjá hnífadrægt.

Mótekja (n, kvk)  Nám/taka mós til eldiviðar.  Sjá mór/móskurður.

Mótfall (n, hk)  Sjávarfall gegn róðrarstefnu/siglingarstefnu báts.  Oftast var einungis notað fall.

Mótfallinn (l)  Andvígur; á móti.  „Ég ætla ekki að gera þetta ef þú ert því mótfallinn“.

Mótgerð (n, kvk)  Ami; mótlæti.  „Mér var lítil mótgerð í því þó húfan hafi fokið; hún var orðin léleg“.

Móti (fs)  Andspænis; gegnt.  „Um hádegið varð ansi heitt í klettunum; enda vita þeir þá beint móti sól“.

Mótlíka (l)  Ámóta; svipað; viðlíka.  „Ekki var þetta neitt mótlíka afli og í gær, þó sæmilegur væri“.  Var allnokkuð notað í Kollsvík út 20.öld en heyrist nú sjaldan.

Mótlæti (n, hk)  Mótgerðir; andstreymi.  „Því fannst mér það mikið mótlæti við mig, þá tíu eða ellefu ára gamla, eitt sinn er ég fékk ekki að fara með henni norður í Tröð“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Mótmæli (n, hk, fto)  Andmæli.  „Ég reyndi að hafa uppi einhver mótmæli, en var ofurliði borinn“.

Mótmæltur (l)  Andvígur; andsnúinn; mótfallinn.  „Ég var því fremur mótmæltur að þetta yrði leyft“.

Mótorbátur (n, kk)  Vélbátur.  „Síðan sjá þeir mótorbát sem liggur framaf Stórurð“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík).   Í upphafi vélaaldar var fremur talað um mótora en vélar í farartækjum og bátum.

Mótoristi (n, kk)  Vélstjóri; vélamaður með minni vélstjóraréttindi.  „Auk gagnfræðaprófs frá Flensborgarskóla og námsins í Noregi hafði Eyjólfur (Sveinsson) aflað sér réttinda mótorista, og var vélamaður á fiskiskútum í margar vor- og sumarvertíðir...“ (ÓG; Úr verbúðum í víking).

Mótorkassi (n, kk)  Vélarkassi; kassi utanum vél í bát.  „Vélin í Voninni var hálfgerður kenjagripur; einkum magnettukveikjan.  Voru þeir bræður orðnir vel þjálfaðir að svipta ofanaf henni mótorkassanum og annaðhvort „skrifa henni til“ eða þurrka þræði og annan rafbúnað“.

Mótorlampi (n, kk)  Blússlampi; blússbrennari; hitunartæki sem gengur fyrir steinolíu.  Með loftdælingu í olíugeyminn er skapaður þrýstingur sem dælir olíunni í gegnum þröngt op; spíss, þar sem kveikt er í bununni.  Verður af þessu allheitur logi; honum er beint framávið og hann siðan notaður til hitunar.  Oft var grunn skál undir spíssinum, og logaði þar eldur í olíulögg.  Var það til að unnt væri að skrúfa fyrir bununa, en þá kviknaði strax á lampanum aftur ef skrúfað var frá.  Nafnið er dregið af því að mótorlampar voru notaðir m.a. til að hita glóðarhausa á glóðarhausvélum, en þá mátti einnig nota til að svíða svið; hita brennimörk og lóðbolta og til að þýða klaka úr vatnslögnum úr járni.

Mótróður (n, kk)  A.  Róður gegn falli/vindi.  B.  Andspyrna; mótspyrna.  „Tillagan var samþykkt, þrátt fyrir allmiklum mótróðrur andstæðinganna“.  Algengari notkun í seinni tíð.

Móts við (orðtak)  Gegnt; á móti; jafnt.  „Móts við hlöðuna; vestanmegin, var byggð stök voheysgryfja“.

Mótsögn (n, kvk)  Andstæð fullyrðing.  „Þetta hljómar eins og mótsögn við það sem þú sagðir áðan“!   „Nú finnst mér að þú sért kominn í mótsögn við sjálfan þig“!

Móttækilegur fyrir (l)  Opinn fyrir; viljugur til; hefur áhuga á.  „Afi hafði áhuga á hinum ólíklegustu málefnum, en hann var lítið móttækilegur fyrir „bítlagargi“ og öðrum nýlistum; þá lokaðist útvarpið oft með lágu fussi“.

Mótvindur (n, kk)  Vindur á móti/í fangið; barningur.  „Við lentum í mótvindi fyrir víkina og þá gekk hægt“.

Mótþrói (n, kk)  Andóf; þverhausaháttur; þverska; stífni.  „Ætli maður reyndi nú ekki að sýna einhvern mótþróa gegn slíku gerræði“.

Móur (n, kk)  Mólendi; þýfð holt.  „Norðan Hestkeldu er móur sem heitir Hestkeldumóur...“  (GG; Örnefnaskrá Láganúps).  „Stórimóur er niðuraf og sunnantil í Heiðardal.  Upp af Stóramó er Rauðimóur, þar sem þúfurnar eru rauðar af finnungi“  (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).

Móverk (n, hk)  Safn; drasl.  Vísar e.t.v. upprunalega til þess sem þarf til að taka upp mó, eða blaut og skítug bösl þess sem tekur upp mó.  „Ég bara seldi kofann og allt heila móverkið með“. 

Móvilla (n, kvk)  Misskilningur; staðlausir stafir; svarthulavilla.  „Hér held ég að höfundurinn sé kominn í einhverja árans móvillu; þessir atburðir urðu með allt öðrum hætti en hann lýsir“.  Líklega líking við að villast úti í móa.

Mubla (n, kvk)  Húsgagn; stofustáss.  „Þessi mubla þyrfti bráðum að fá einhverja yfirhalningu“.

Mubla upp (orðtak)  Endurnýja húsgögn; setja upp húsgögn.  „Það er heldur veldi á þessum stórbændum.  Bara búið að mubla upp stofuna fyrir hátíðarnar“!

Muðla (s)  Maula; japla á; tyggja.  „Ég tók með mér harðfiskstrengsli svo við hefðum eitthvað til að muðla á leiðinni“.

Mugga (n, kvk)  Þétt snjókoma sem byrgir sýn.  „.. Sigldi á fullri ferð í náttmyrkri og kafaldsmuggu þvert í Látrabjarg“ (MG; Látrabjarg). 

Mugga (s)  Kyngja niður snjó, oft í fremur hægu veðri.  „Hann muggar drjúgt niður þessa stundina“.

Mugguél / Muggufjúk / Muggukafald (n, hk)  Blint él í hæglætisveðri.  „Hann setti yfir fjandi dimmt mugguél á leiðinni“.

Mugguloft (n, hk)  Dimmt í lofti vegna snjómuggu.  „Það er mugguloft, svo ég greini ekki hvort féð er komið að húsunum“.

Muldra (s)  Tauta; tala lágt/ógreinilega.  „Doddi kútur hlustaði litið á frambjóðandann, og eiginlega var mun áhugaverðara að hlusta eftir því sem hann muldraði við sjálfan sig meðan á ræðunni stóð“.

Muldur (n, hk)  Taut; lágt/ógreinilegt tal.  „Þú verður að lesa hærra; ég heyri ekki þetta muldur“.

Mulla (s)  Hreyfast mjög rólega; lötra.  „Farið þið bara á undan; ég mulla þetta bra í rólegheitunum“.

Mulningur (n, kk)  Mylsna; möl.  „Menn voru sífellt að fá yfir sig steina í bjargsigi og þurftu því oft að víkja sér undan mulningi og misstóru grjóti“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg). 

Muml (n, hk)  Æmt; ógreinilegt/bælt hljóð.  „Ekki heyrðist muml í stráknum meðan skorið var í kýlið“.

Mumla (s)  Umla; æmta; segja lágt og ógreinilega.  „Ég heyri ekkert hvað þú ert að mumla“.

Mun (ao)  Tíðaratviksorðið „mun“ var notað í Kollsvík á annan hátt en nú er víðast algengt.  Menn voru ekki jafn fullyrðingaglaðir; sögðu t.d. „Það mun hafa verið...“ í stað „Það var....“.  „Í Kollsvík mun hafa verið bænhús í Kaþólskum sið“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Þetta mun rétt vera, eftir því sem ég veit best“.  „Hún mun hafa gleymt að slökkva á eldavélinni, og því fór sem fór“.  „Einar mun hafa komið vestur í Rauðasandshrepp nokkru fyrir 1790.  Hann mun fyrst hafa verið á Vatneyri og kvænst þar um 1790“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  Sjá munu.

Mun hafa (orðtak)  Allmikið notað orðtak, einkum þegar sagðar eru sögur; þegar sagnamaður vill geta í það sem gerst hafði eða í hugarfar persóna.  „Svo fór líka í þetta skiptið, að Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum og sá ástæðu til að veita honum tiltal út af því“  (PG; Veðmálið).    „Vetur þessi mun hafa verið betri en meðalvetur“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1925).   „Þá mun ég hafa verið um það bil 3-4 ára.  Blíðuveður og sléttur sjór var þegar þessi ferð var farin“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Muna (einhverjum) (orðtak)  Hugsa einhverjum þegjandi þörfina; muna það sem einhver hefur gert á hlut manns.  „Nú gerðirðu mér fjárans óleik; þetta skal ég muna þér“!

Muna (einhversstaðar) eftir sér (orðtak)  Muna sína tíma á tilteknum stað.  „Þá bjuggu foreldrar mínir á Grund, sem er smá nýbýli úr Láganúpslandi sem Samúel Eggertsson skrautritari og kennari hafði stofnað og búið á í nokkur ár.  Þarna man ég ekki eftir mér“  (IG; Æskuminningar). 

Muna ekkert stundinni lengur (orðtak)  Vera mjög gleyminn; gleyma fljótt.  „Það þýðir ekkert að biðja hann um þetta; hann man ekkert stundinni lengur“!

Muna fífil sinn fegri (orðtak)  Hafa átt betri tíma; hafa lifað í meiri lystisemdum; hafa verið fegurri.  „Traktorsræfillinn má muna fífil sinn fegri“.

Muna með (orðtak)  Minna á.  „Þú manst það kannski með mér að hringja og panta tíma á morgun“.

Muna til (orðtak)  Muna eftir.  „Ég man ekki til þess að þeta hafi skeð fyrri“.

Muna tímana tvenna (orðtak)  Muna öðruvísi hætti/tíð/líferni o.fl. en nú er.  „Má í því tilliti muna tímana tvenna, þegar allur þorri bænda í Rauðasandshreppi gerði út báta; ýmist frá verstöðvum eða úr heimræði, þar sem jarðir lágu nærri sjó“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58). 

Munaðarvara / Munaðarvarningur (n, kvk/kk)  Allt það sem menn láta sig langa í, án þess að þurfa þess með; hverskona þarfleysa sem menn þurfa ekki á að halda, en sækja samt í.  Mikið notuð orð framum miðja 20.öld, en heyrast varla núorðið; enda neyslubrjálæðið í algleymingi og óglögg skil munaðar og nauðþurfta.

Munaður (n, kk)  Óhóf; gleðigjafi; lúxus; það sem er umfram nauðþurftir.  „Mig skiptir engu hvernig þeir hafa þetta á öðrum bæjum; ég get ekki leyft mér svona munað og hef engan áhuga á honum“.

Munaði minnstu / Munaði mjóu (orðtak)  Nærri/við lá; skakkaði litlu.  „Það munaði minntstu að bátnum hvolfdi þegar hann fékk skaflinn undir sig“.

Munar ekki um hvern kepp í sláturtíðinni (orðtak)  Líkingamál um það sem lítið munar um; um það sem gefið er af allsnægtum.  „Taktu það sem þú þarft af grásleppunni; það munar ekki um hvern kepp í sláturtíðinni“.  Sjá hvað munar grund um gras.

Munda (s)  Miða; reiða til höggs.  „Ég var höndum seinni að munda byssuna þegar mávahópurinn renndi sér lágt yfir byrgið“.  „Steinbíturinn lét ófriðlega þar til karlinn mundaði hnallinn og danglaði í hann“.

Mundang (n, hk)  Vísir á vog.  „Mundang var bæði haft yfir vísi á skífu borðvogar, sem og festingu þá sem lóð reislu rann í, eftir skaftinu“.

Mundu mig um ... (orðtak)  Mundu eftir því sem ég sagði/ bað um.  „Þú manst mig kannski um fáeinar grásleppur í upphengingu“.  „Þið munið mig um að fara varlega í þessum eggjaferðum“.

Mundu það með mér (orðtak)  Minntu mig á það síðar; skrifaðu það bakvið eyrað.  „Mundu það með mér að fara framí Hvolf með skóflu og husla þetta hræ“.

Munnamagi (n, hk)  Kok á fiski; sá hluti fæðuvegarins sem er milli kjafs og kútmaga og skorið er á við hausun.  „Aðgerðin hófst með því að skorinn var sundur munnamaginn“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Munnangur (n, hk)  Sár/bóla/blaðra/sýking í munni.

Munnbiti (n, kk)  Hæfilegur biti í munn.  „Hann er orðinn dýr munnbitinn af hákarl í dag“.  „Við það að sjá þessa fallegu kjötbita sem í skrínunni voru féll hann marflatur fyrir freistingunni; greip einn bitann og skar sér með vasahnífnum vænan munnbita“  (PG; Veðmálið). 

Munnfríður (l)  Með laglegan munnsvip.  „Ekki getur marhnúturinn talist sérlega munnfríður“.

Munnfylli (n, kvk)  Skammtur sem fyllir munn.  „Þetta rjúputetur er bara rétt munnfylli og varla til skiptanna“.

Munngopa (n, kvk)  Munnur; munnhol; gúll; gopa.  „Þettar er fínn matur; skelltu því bara í munngopuna á þér“.

Munnherkjur (n, kvk, fto)  Ósjálfráður kipringur eða stjarfi í munnvikjum þegar mönnum kólnar mjög.  „Ég var kominn með munnherkjur af kulda“.

Munnhlaup (n, hk, fto)  Kækur sumra þegar þeim er mikið niðri fyrir eða í uppnámi; kippir í munnvikjum, oftast með lokaðan munn.  (skrás. heyrði þetta iðulega notað um mann sem hafði þennan kæk ef honum rann í skap eða hann vann að vandasömu verki)  „Það kostaði bæði fyrirhleðslur og  munnhlaup hjá honum að ná jeppanum aftur af stað upp brekkuna“. 

Munnhola (n, kvk)  Munnur; kjaftur.  „Ekki vantar á þig munnholuna greyið mitt; þá það“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Munnhöggvast (s)  Rífast; þrefa; þræta.  „Þetta byrjaði á því að þeir voru eitthvað að munnhöggvast útaf smalamennskum, en endaði með stóryrðum og heitingum“.  „Ég nenni ekkert að munnhöggvast við ykkur um þetta; svona var þetta og hananú“!

Munni (n, kk)  A.  Op/inngangur á holu/helli.  „Munni Gvendarhellis er svo þröngur að maður rétt nær að skríða þar inn, en innifyrir er allmikill geimur; vel á aðra mannhæð og minnst tíu metra djúpur.  B.  Fremri endinn á haus ásláttarverkfæris, s.s. hamars, axar eða sleggju.  Aftari endi haussins nefnist skalli, sé hann þver fyrir.

Munnljótur (l)  Ófagur til munnsins; ljótur munnsvipur.  „Skolli er nú karlinn munnljótur, svona tannlaus“.

Munnmæli ( Munnmælasaga / Munnmælasögn   (n, hk, fto/ kvk)  Arfsögn; frásögn/saga sem lærist mann fram af manni um margar kynslóðir og varðveitist á þann hátt, án þess að vera rituð.  „Munnmælasaga segir að Kollur landnámsmaður hafi brotið skip sitt á Arnarboða, og að boðinn heiti utaní Örn, stýrimann Kolls“. „Til er saga af örnefninu (Hnífar) sem líkast til er gömul en hefur verið sögð mann fram af manni.  “ (EG; Viðtal á Ísmús 1968).

Munnræpa (n, kvk)  Málæði; kjaftagangur; kjaftablaður.  „Frambjóðandinn fór mikinn, en þvílíka munnræpu hef ég ekki heyrt, hvorki fyrr né síðar“!

Munnsopi (n, kk)  Gúlsopi; lögg.  „Það er nú varla nema munnsopi eftir í könnunni“.

Munnstykki (n, hk)  A.  Sá hluti reykjarpípu sem í munninn kemur.  „Réttu mér nú pípuhreinsara; það er stíflað hjá mér munnstykkið“.  B.  Stykki það á flautu eða öðru blásturshljóðfæri sem blásið er í.

Munnsöfnuður (n, kk)  Talsmáti; einkum átt við blótsyrði.  „Hverskonar munnsöfnuður er þetta eiginlega“?  Sjá söfnuður.

Munntóbak (n, hk)  Tóbak sem tuggið er, eða sett bakvið vörina.  Allnokkuð var notað af munntóbaki fyrrum, undir nöfnunum skro eða rulla.  Það var keypt í lengjum, sem af voru skornir hæfilegir munnbitar.  Á síðari tímum hefur tíðkast að nota fínskorið blautt tóbak sem sett er undir vör; nefnt snus.  Það er nú bannað, en menn notast við neftóbak í þess stað.

Munnvik (n, hk)  Krikinn í enda munns, þar sem efri og neðri vör mætast.  „Ég sagði honum erindið/, hann undrandi á mig leit/ og út í annað munnvikið kom gretta./„Ég er svo eftirsóttur í bæ og borg og sveit/ ó blessuð, þú ert alls ekki sú rétta“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Munstra (s)  A.  Forma; skreyta með formum/munstrum.  B.  Ráða/skipa í stöðu á bát/skipi.  „Ég var fljótlega munstraður sem vaktformaður“.  Oftar notað í þeirri merkingu.

Munstur (n, hk)  Form; skreyting; snið.  Einatt notað þannig, en ekki „mynstur“, eins og nú er almennt.

Munu (s)  Hjálparsögn þessi var mun meira notuð áðurfyrr en nútildags tíðkast.  „Hann mun hafa verið réttur faðir hennar, þó annað standi í kirkjubókum“.  Þetta mun hafa skeð rétt fyrir aldamótin“.  „Þú munt sjá það þegar þar að kemur“.  „Ekki mun af veita“.

Munur (n, kk)  Mismunur; frávik; framför; breytileiki.  Mikið notað sjálfstætt:  „Það er mikill munur að geta kveikt ljós með einum takka“.  „Ég var að fá ný gleraugu; þvílíkur munur“!  „Það er munur að vera með öfluga vél“.  „Haldiði að það sé munur“!  Síðastnefnt orðtak heyrðist oft þegar mikil framför varð, eða áfangi náðist.  Einnig notað til samanburðar, og þá með lýsingarorði:  „Þetta var mun minni afli en í gær“.  „Það er mun hlýrra þegar sólarinnar gætir“.

Murða (n, kvk)  Ögn; eitthvað mjög smátt.  Oftast notað í neikvæðum setningum:   „Það er ekki murða eftir á diskinum“.  „Það hefur skafið svo rækilega úr brekkunni að þar er núna ekki murða af snjó“.  „Á tímbili þurfti að róa ansi langt niður á haf til að fá í soðið.  Það var ekki murða af fiski á grunnslóð“.

Murka (s)  Drepa á hægvirkan hátt; sálga.  „Það gekk ekki vel hjá honum að murka lífið úr steinbítnum“.

Murra (s)  Mala; urra lágt.  „Kötturinn murraði makindalega þegar ég strauk honum“.

Musk (n, hk)  Mylsna; kusk; mosk.  „Það þarf að sópa muskinu af mörnum svo það troðist ekki í gólfið“.

Mussa (n, kvk)  Kápa; hempa; treyja; blússa.  „Þetta er ágæt mussa til að hafa í skítverkin“. Sjá utanyfirmussa.

Mutra (s)  A.  Um veiðiskap; draga varlega og lítið í senn. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  „Þegar steinbítur var kominn á var mutrað með fyrsta handtakinu en úr því dregið með mikilli skerpu“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  B.  Almennt; hnika til; færa mjög lítið úr stað.  „Þrátt fyrir þrengslinn reyndist unnt að koma lykli á róna og mutra henni af boltanum á löngum tíma“.

Múðra (s)  Nöldra; tauta.  „Það þýðir víst ekkert að múðra yfir þessu eftir að ákvörðun liggur fyrir“.  „Það heyrist ekkert frá honum nema múður og raus“.  Einnig heyrðist muður og muðra í sömu merkingum.

Múður (n, hk)  Taut; rövl; mótmæli.  „Ég vil ekki heyra neitt múður; þetta er í ykkar verkahring“!

Múga (s)  A.  Slá í múga; slá þannig að grasið leggist í einn garð af ljánum.  B.  Raka hey saman í garð.

Múgafjöl (n, kvk)  Fjöl á endanum á greiðusláttuvélum; hefur það hlutverk að greina slegið gras frá óslægju“. 

Múgasláttur (n, kk)  Um sláttulag með orfi; gras slegið þannig að það liggur allt í garði/mön hægramegin í skáranum.  „Annars var túnið frekar greiðfært og því mikið hægt að slá múgaslátt“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Múgavél (n, kvk) Vél til að raka heyi í múga/garða.

Múgi (n, kk)  Hey í löngum garði.  Notað um það þegar slegið var með orfi á þann hátt að grasið safnaðist saman í enda skárans; það hét að slá í múga.  Einnig um það þegar heyi var rakað með hrífu eða vél í langa garða.

Múgur (n, kk)  Mannfjöldi; stór mannsöfnuður með svipuð markmið eða tilgang.  „Eftir Hrunið mætti múgurinn niður á Austurvöll með sín eldhúsáhöld“.

Múhameðstrú (n, kvk)  Þau trúarbrögð sem í nútímamáli eru nefnt islam.  Það heiti heyrðist ekki fyrrum, enda átti trúin ekki upp á pallborðið hjá sannkristnu sveitafólki; og jafnvel ekki hjá Kollsvíkingum.

Múkkabjarg (n, hk)  Bjarg/klettar þar sem mikið verpur af múkka/fýl.  „Ekki eru fuglabjörg í kringum Kollsvík, en hinsvegar eru þar múkkabjörg í Blakknum, Hnífum og Breið“.

Múkkaegg (n, hk)  Egg úr múkka; fýlsegg.  „Jöfnum höndum var talað um fýlsegg og múkkaegg í Kollsvík“.

Múkkaeggjabragð (n, hk)  Bragð eins og af múkkaeggjunum.  „Það finnst vel múkkaeggjabragðið af kökunni“.

Múkkaeggjasnag / Múkkaeggjasnatt (n, hk)  Ferðir/tilraunir til að ná í múkkaegg.  „Hann skrapp út í Hnífabrún í eitthvað múkkaeggjasnag“.  „Þarna var lítið um svartfugl, svo við enduðum í múkkaeggjasnatti“.

Múkkaeggjatekja (n, kvk)  A.  Söfnun múkkaeggja í klettum.  B.  Möguleiki á að fá múkkaegg.  „Í gjánni getur verið þónokkur múkkaeggjatekja“.

Múkkafýla (n, kvk)  Sterk lykt af fýl/múkka.  „Það þyrfti kannski að þvo mestu múkkafýluna úr buxunum“.

Múkkahreiður / Múkkabæli (n, hk)  Hreiður/bæli múkka.  „Vertu ekki að teygja þig í eitt múkkahreiður“!

Múkkalýsi / Múkkaspýja / Múkkaæla (n, kvk)  Æla múkka/fýls þegar hann telur sér ógnað.  „Húfan ilmar dálítið af múkkalýsi“.  „Ég fékk múkkaæluna beint framan í mig“.

Múkkapláss (n, hk)  Staður þar sem mikið verpur af múkka.  „Þarna er múkkapláss sem þarf að komast í“.

Múkkastofn (n, kk)  Heildarfjöldi múkka/fýls.  „Eftir 1990 virðist hafa orðið mikið hrun í múkkastofninum, a.m.k. í múkkabjörgum kringum Kollsvík.  Þar kann mikil fjölgun tófu að eiga þátt að máli“.

Múkkatími (n, kk)  Varptími múkka/fýls.  „Það passar að fara að gá að langvíunni strax eftir múkkatímann“.

Múkkavarp (n, hk)  Varp múkka/fýls.  „Múkkavarp er varla byrjað að ráði ennþá“.

Múkkavertíð / Múkkaeggjavertíð (n, kvk)  Sá tími sem unnt er að taka múkkaegg til neyslu; þ.e. frá byrjun varps, eftir 20. Maí, fram til þess að egg verða flest stropuð, eða nokkuð fyrir miðjan júní.

Múkki (n, kk)  Fýll.  „Í Kollsvík var bæði talað um múkka og fýl, þó í seinni tíð sé síðara nafnið algengara.  Eldra fólki (t.d. Guðbjarti Guðbjartssyni) var tamara að tala um fýlunga“.  Sjá fýll.

Múlasni (n, kk)  A.  Afkvæmi graðhests og ösnu/asnahryssu.  Múlasnar eru oftast ófrjóir, þar sem þeir hafa 63 litninga í stað 64 hjá hestum og 62 hjá ösnum.  B.  Köpuryrði; bjáni.  „Þetta eru ljótu múlasnarnir“.

Múlbinda (s)  Eiginleg merking; mýla; tjóðra.  Oftar notað í líkindamáli; þvinga; hefta.  „Maður má nú aldrei vera svo múlbundinn sínum flokki að maður geti ekki tjáð sannfæringu sína“.

Múlbinda (s)  A.  Binda með múl; mýla.  B.  Líkingamál; þagga niður í mönnum; hefta aðgerðir manna.

Múli (n, kk)  A.  Snoppa á skepnu.  B.  Fjall sem minnir á snoppu á skepnu.  Greina má mun á þeim mishæðum sem frá fornu fari hafa heitið múli og þeim sem heitið hafa núpar, á því að núpar eru breiðari að jafnaði.  Bæði örnefni geta ýmist verið á landi eða skagað út í sjó.  Heitin nes og skagi voru einatt um staði sem skaga í sjó fram og eru víðtækari, þar sem þau annes geta einnig verið láglend.  Í Rauðasandshreppi má nefna Hafnarmúla sem dæmi um múla sem nær að sjó, og Tungumúla, ofanvið Efri-Tungu, um landluktan múla.

Múll / Múlband / Múltaumur (n, kk/hk)  Band sem bundið er á sérstakan hátt um höfuð á skepnu til að hana megi teyma eða tjóðra.  „Þegar múll er gerður er fyrst gerð lítil föst lykkja í enda bandspotta, og henni rennt upp á trýnið.  Síðan er bandinu brugðið afturfyrir hnakka og eyru og bundið í lykkjuna hinumegin kjammans.  Endi bandsins nýtist þá sem taumur/tjóður, en þyrftu tveir að teyma var annar spotti bundinn í lykkjuna við hinn kjammann“.

Múndering (n, kvk)  Einkennisföt; skrípaklæði.  „Ekki kann ég við þessa fáraánlegu múnderingu“.

Múr (n, kk)  A.  Veggur úr steinsteypu eða hlaðinn úr steyptum steinum.  B.  Steypa.  Oftast þá átt við sementslögun eða sandsteypu.  „Það þyrfti að renna múr í sprunguna“.

Múraður (l)  Efnaður; ríkur.  „Það er sagt að karlinn sé bara þokkalega múraður, þó hann lifi eins og öreigi“.

Múrhúð (n, kvk)  Klæðning múrs/steypu utan á hús.  Forskaling (sjá þar) var fyrrum meira notað.

Múrning (n, kvk)  Legufæri fyrir bát.  „Við festum bátinn við múrninguna frammi á legunni“.

Múrskeið (n kvk)  Áhald sem notað er við múr- og steypuvinnu; spaði með stuttu og tvíbognu skafti.

Mús (n, kvk)  A.  Lítið nagdýr.  Tvær tegundir músa eru algengar hérlendis; hagamús (Apodemus sylvaticus), sem algeng er í mólendi, fuglabjörgum, fjörusvæði og annarsstaðar sem fæðu er að hafa; og húsamús (Mus musculus), sem hændari er að mannabústöðum.  Hagamús er talin hafa borist til landsins með landnámsmönnum, og ekki er útilokað að mýs hafi bjargast af skipi Kolls eftir strandið við Arnarboða.  Hún getur orðið um 10 cm að lengd, en af því er skottið verulegur hluti.  Hún er brún með ljósan kvið og skottið nánast hárlaust.  Helsta fæða músa eru fræ, en þær eru annars alætur.  Þær gera sér hreiður í holum og safna þangað eins miklum matarforða og unnt er; einkum fyrir vetur.  Tímgun fer fram yfir hlýjustu mánuðina; meðganga tekur rúmar 3 vikur og yfir leitt eru 3-9 ungar í goti.  Ungarnir eru litlir, blindir og hárlausir, en stækka hratt og geta orðið kynþroska áðuren fæðingarsumarið er úti.  Mikil fjölgun getur því orðið frá einu pari á stuttum tíma.  Músin er mikilvægur hluti fæðukeðjunnar, og uppistaðan í fæði sumra ránfugla.  Hún getur hinsvegar verið mikill skaðvaldur þegar hún kemst í hús, og valdið spjöllum í matvöru og á innanstokksmunum.  B.  Vöðvi í upphandlegg.  C.  Áhald sem notað var við að spinna línu, t.d. fiskilínu, úr þræði.  Músin er keilulaga kubbur með skorum í, sem skilur þræðina að meðan undið er uppá þá með línurokk.  Þegar músin er dregin eftir línunni spinnast þræðirnir saman.

Músafaraldur / Músagangur / Músaplága (n, kk)  Óvenju mikið um mýs í eða nálægt mannabústöðum.  „Ég hef sjaldan vitað álíka músafaraldur“!  „Það ætlar seint að linna þessari músaplágu í fóðurbætisgeymslunni“.

Músafella (n, kvk)  Gildra/fella til að veiða mýs.  Ýmsar tegundir hafa tíðkast af músafellum.  Má þar nefna að ginna þær í fötu, tunnu eða annað ílát, þar sem þær annaðhvort drukkna í vatni eða komast ekki uppúr; ginna þær í fjalakött sem oftast kremur þær til dauðs; egna fyrir þeim í gildru, þar sem stálfjöður smellur á þær, eða annað.  Mikið hefur verið drepið með eitri eftir að það varð tiltækt, en síðasta gildrutegundin eru límgildrur.

Músahjastur (n, kk)  Kusk og skítur sem mús skilur eftir sig þar sem hún hefur verið að naga/éta.  „Nú er illt í efni; heldurðu að ég hafi ekki fundið nýlegt músahjastur aftanvið hveitisekkina“!

Músamuðlingur (n, kk)  Muðlingur; ber sortulyngsins; hárautt þegar það er fullþroskað.  Berin eru talin mikilvæg fæða músa.  Þau eru ekki góð til átu hrá, en munu þó eitthvað hafa verið nýtt áður (sjá sortulyng).

Músarhola (n, kvk)  Hola sem mús hefur grafið; bústaður músar.  Mark var tekið á því fyrrum í hvaða átt músarholur opnuðust.  Sagt var að músin væri forspá um veður og sneri holunum ætíð undan ríkjandi vindátt á komandi vetri.  Dýpt músarholu væri einnig vitni um það hve frost myndi ganga langt í jörðu þann vetur.

Músarnart (n, hk)  A.  Nart eftir mús; tannaför eftir mús.  „Er þetta nokkuð músarnart á bringukollinum“?  B.  Fæði sem sá borðar sem ekki hefur mikla matarlyst.  „Óttalegt músarnart er þetta; þú verður að borða betur en þetta strákur, ef þú ætlar að hafa einhvern uppistöðumátt“!

Músarrindill (n, kk)  Troglodytes troglodytes.  Lítill spörfugl af rindlaætt; var lengst af minnsti varpfugl á Íslandi, en nú hefur glókollur tekið þann sess.  Fjörlegur og síkvikur fugl, brúnn að lit, með stélið sérkennilega uppvísandi.  Músarrindillinn helgar sér óðal þar sem skjólsælt er og gott til matfanga, t.d. vog við sjó, þar sem mikið er um þararek með tilheyrandi maðki og flugu.  Óðalið ver hann af mikilli einurð, og gerist jafnvel skapvondur mjög ef fé eða fólk er lengi að hangsa á hans svæði.  Músarrindillinn er fjölkvænisfugl og notar karlinn mikla söngrödd sína og flókna tóna til að laða að kvenfugla.  Hreiðrið er kúla með opi á hliðinni sem karlinn fléttar listilega, en hann fóðrar það ekki innan fyrr en kerla hefur verið valin.  Það þótti boða kulda þegar músarrindils varð vart nærri bæjum eða inni í skepnuhúsum.  Vinsæl setur Músarrindils í Kollsvík eru t.d. vogarnir norðan Straumskers, og í Vatnadalsbót.

Músétinn (l)   A.  Með ummerkjum um músarnart; skemmdur eftir mús/músarnart.  „Það gleymdist að hengja upp einn bóginn, og hann var dálítið músétinn eftir nóttina“.  B.  Eins og nagaður eftir mús.  „Brókin var orðin nokkuð músétin neðanaf skálmunum, en annars þokkalega heil“.

Músikalskur (l)  Með tóneyra; tónvís; hefur áhuga á tónlist.  „Ekki vissi ég að þú værir svona músikalskur“.

Músin braut boð kattarins (orðatiltæki)  Viðhaft um það þegar sá minnimáttar rís upp gegn hinum voldugri, eða brýtur ósanngjarnar reglur.

Mútur (n, kvk, fto)  A.  Óheiðarleg greiðsla fyrir velvild/greiða.  B.  Hás rödd unglings á breytingaskeiði.

Mygla (s)  A.  Um mat og annað lífrænt efni; verða myglað; fá í sig myglusvepp.  B.  Mylgra; láta frá sér í smáskömmtum.  „Hann fékk lítið af ávöxtum og hefur verið að mygla þessu út í litlu magni“.

Myglast (s)  Pírast; önglast; safnast smám saman; þokast.  „Það hefur myglast niður þónokkur snjór“.  „Það er að myglast í sæmilega upphæð í þessari söfnun“.  „Færðin var þannig að við rétt mygluðumst áfram“.

Myglingsfjúk (n, hk)  Lítilsháttar myglingur/snjókoma í golu.

Myglingur (n, kk) A.   Píringur; lítið samansafn. B.  Fjúk af snjó; dálítil snjókoma.  „Hann er drjúgur þessi myglingur af snjó sem hefur verið í dag“.

Myglufrugga (n, kvk)  Frugga sem kemur úr mjög mygluðu heyi; oftast nefnd einungis frugga en þetta heyrðist þó, t.d. til aðgreiningar frá sandmóstu og moldarryki sem einnig getur setið í heyi.

Myglugrár (n, kk)  A.  Um veðurútlit; dimmt í lofti; éljalegt útlit.  „Hann er nokkuð myglugrár hér norðurá“.  B. Andlitslitur manns; veiklulegur; grámyglulegur.  „Ósköp ertu myglugrár; er sjóveikin ekkert að lagast“?

Myglukleggi/ Myglukökkur / Mygluskán (n, kk)  Myglaður kökkur í heyi, oft vegna þess að þar hefur verið rök ljámús þegar heyið var hirt

Mygluruddi (n, kk)  Hey sem skemmt er vegna myglu.  „Það þarf að moka þessum myglurudda út“.

Mykjureka / Mykjuskófla (n, kvk)  Fjósreka; fjósaskófla; flórreka.  „Það þarf að þvo mykjuskófluna vel áður en hún er notuð í sementið“.

Myldinn (l)  Um jarðveg; inniheldur mikið af mold; moldarkenndur.  „Skeljasandsléttur þurfa meiri áburð en þær sem eru myldnari“.

Mylgra (s)  Láta í smáskömmtum; snjóa.  „Ég hef verið að mylgra þessari síld í ærnar“.  Töluvert notað í Kollsvík þó notkun virðist hafa verið hætt annarsstaðar á landinu.

Mylgra niður / Mygla niður / Mylgra úr sér / Mygla úr sér (orðtak)  Snjóa í logni/hægviðri.  „Örlítið er hann byrjaður að mylgra niður snjó“.  „Eitthvað er hann að byrja að mylgra úr sér“.

Mylgringur (n, kk)  Píringur; myglingur; gisin snjókoma; smáskammtur af mat; lítið eitt af heyi eða annað sem kemur í mjög litlum skömmtum.  „Það er varla hægt að kalla þetta snjókomu, þennan mylgring“. 

Mylja undir (orðtak)  Dekra við; gera vel við.  „Það var ekki alltaf mulið undir niðursetningana á fyrri tíð“.  „Ég man eftir henni Gunnu gömlu í Gröf, sem var ein af þessum gömlu sívinnandi konum sem ekki hafði verið mulið undir um ævina“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Mylkja upp (orðtak)  Koma mjólkurframleiðslu aftur af stað í kýr/kind sem orðið hefur geld eða mjólkar ekki sínu afkvæmi.  „Mér sýnist að undirvaningnum hafi tekist ágætlega að mylkja hana upp“. 

Mylla (n, kvk)  A.  Borðspil sem nokkuð hefur verið spilað í Kollsvík sem annarstaðar.  B.  Kornmylla (sjá þar).

Mylsna (n, kvk)  Salli; fíngerðir molar; grófgert duft.  „Kastaðu mylsnunni af borðinu út til snjótittlinganna“.

Mynda sér skoðun á (einhverju) (orðtak)  Móta afstöðu sína til einhvers; taka afstöðu; gera upp hug sinn.  „Ég hef svosem ekki myndað mér neina skoðun á þessu ennþá“.

Mynda sig til (orðtak)  Búast til; ætla að byrja á.  „Hrafninn sat við hausinn á kindinni og myndaði sig til að höggva í augað á henni þegar ég hrakti hann upp“. 

Myndakotra (n, kvk)  Púsluspil; þraut sem felst í að fella rétt saman mynd á spjaldi sem klippt hefur verið niður í búta; kotra.  „Þessi myndakotra gæti verið ansi tímafrek og snúin“.  Sjá púsluspil og kotra.

Myndarbátur / Myndarskip (n, kk/hk)  Laglegur/ vel smíðaður bátur; fallegt skip.  „Mér sýndist þetta  vera myndarbátur sem hann var að fá“.

Myndarbragur (n, kk)  Um það sem unnið er með sóma/vandvirkni/góðum árangri.  „Hann gerði það með myndarbrag“.

Myndarbarn / Myndarbóndi / Myndardrengur / Myndarhjón / Myndarkerling / Myndarkona / Myndarkvenmaður / Myndarmaður / Myndarmanneskja / Myndarpiltur /  Myndarstrákur / Myndarstúlka  Myndarlegt/laglegt/duglegt fólk.

Myndarbú / Myndarbúskapur (n, hk)  Fyrirmyndarbú; vel rekið/ snyrtilegt bú.

Myndarlegur (l)  A.  Laglegur; vel útlítandi; fallegur.  „Hún er mjög myndarleg kona“.  B.  Laginn/iðinn í höndum; duglegur.  „Mikið ert þú myndarleg; það er ekki kastað höndunum að þessari peysu“!  Mikill; rausnarlegur; vel útilátinn.  „…og taldi fráleitt annað en að honum yrði mætt á myndarlegan hátt“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Myndarskapur (n, kk)  Dugnaður; vandvirkni; snilld.  „Mikill er í þér myndarskapurinn; það er annað en ég, sem nenni engu“!

Myndast til (orðtak)  Reyna; sýna viðleitni; gera tilraun til.  „Reyndu nú að myndast til að gera þetta eins og maður, en ekki með öfugum klónum“!  „Ég var að myndast til að hlaða, en gekk það ekki mjög vel“.

Myndast við (orðtak)  A.  Sýna viðleitni. „Ætli ég reyni ekki að myndast við þetta, þó ég kunni lítið til verka“. B.  Sýnast; þykjast.  „Hann er eitthvað að myndast við kartöfluupptektina, en mér sýnist þetta óttalegt gauf“.

Myndastytta (n, kvk)  Stytta; skúlptúr.  „Þú verður að standa betur fyrir fénu; ekki bara standa þarna eins og myndastytta, með hendur í vösum“!

Myndlist (n, kvk)  Kollsvíkingar hafa, sumir hverjir, fengist við hinar ýmsu listir með góðum árangri.  Í þeirra hópi er að finna skáld og kvæðamenn svo langt aftur sem heimildir greina, og enn blómstrar sú list.  Útskurðarmeistarar hafa þar verið margir, og afkastamiklir hleðslumeistarar, eins og verkin vitna um.  Margir Kollsvíkingar hafa fengist við myndlist.  Ein manneskja stendur þar líklega uppúr á seinni tímum; Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi.  Hún er listakona á mörgum sviðum.  Eftir hana liggja fjölmörg útskorin listaverk; hillur; kistlar; plattar; ljósakrónur; lampar; styttur og fleira.  Hún vefaði körfur; saumaði út; flosaði og gerði skúlptúra og styttur af margvíslegu tagi, auk annars.  En e.t.v. hefur hún verið afkastamest á sviði myndlistar.  Hún teiknaði blýantsmyndir; málaði á pappír og striga með vatnslitum, olíu og akrýl, en sérstæðust er aðferð sú sem hún þróaði við að mála á náttúrulegar steinhellur.  Er hún líklega fyrsti og eini Íslendingurinn sem það hefur stundað.  Hellumálverk hennar hafa verið mjög eftirsótt, og eru til á mörgum heimilum.  Myndefnið er margvíslegt.  Mikið myndefni sótti hún í þjóðsögur og munnmæli, ekki síst af síuu svæði.  Hún aflaði sér upplýsinga um gamla bæi í sveitinni og málaði þá, en flestir eru þeir horfnir.  Þá hefur hún málað fjölmargar myndir af  fólki, bæði lifandi og frá fyrri tíð; gæludýrum og fleiri skepnum; starfsháttum fyrri tíðar o.fl.“.

Myndskeri (n, kk)  Sá sem sker út myndir og annað í við; útskurðarmeistari.  Sveinn Ólafsson var lærður og eftirsóttur myndskeri“.

Mynduglegur (l)  Valdsmannslegur; virðulegur.  „Asskoti ertu nú mynduglegur við réttarstjórnina; þig vantar ekkert nema glansderið til að geta verið sýslumaður líka“!

Myndugleiki (n, kk)  Stjórnunarhæfileiki; valdsmannsbragur.  „Mér finnst að hann hefði mátt taka á þessum málum af meiri myndugleika en hann gerði“.

Myndugur (l)  Hæfur; fullveðja; fjárráða.  „Hann er nú ekkert barn lengur; þetta er orðinn myndugur maður“.

Mynni (n, hk)  Munni; inngangur; opnun t.d. fjarðar, vaðals eða áróss til hafs.  „Eitt sinn rak á fjörur í Kollsvík, gúmbát af grænlenskum rækjutogara sem sökk í mynni Patreksfjarðar“.

Mynt (n, kvk)  A.  Peningur úr málmi; klink.  B.  Gjaldeyrir ríkis.  Sjá gjalda í sömu mynt.

Myr (n, hk)  Smáar kartöflur.  „Myrið sorterum við þegar tekið er upp, og notum það fyrst“.  „Myr; kartöflusmælki, var gjarnan notað í rúgbrauð, sem og fjallagrös“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Myrfata (n, kvk)  Fata sem höfð er undir myr þegar kartöflur eru teknar upp úr garði.

Myrkfælinn (l)  Hræddur í myrkri; draughræddur.  „Karlanginn var svo myrkfælinn að hann fór ekki einn í hlöðuna að kvöldlagi“.

Myrkfælni/ Myrkhræðsla (n, kvk)  Hræðsla við myrkur/ímyndaðar verur.  „Myrkfælni plagar suma“.

Myrkrahöfðinginn (n, kk, m.gr)  Andskotinn sjálfur; fjandinn; milt blótsyrði.  „Það má sjálfur myrkrahöfðinginn vita hvað af þessu hefur orðið“.

Myrkrakompa (n, kvk)  Dimmt rými; ljóslaust/dimmt herbergi.  „Þetta er meiri myrkrakompan“.

Myrkranna á milli (orðtak)  Frá myrkri um morgunn til myrkurs um kvöld.  „Þá var dag farið að stytta og því verið á sjónum myrkranna á milli, og aðgerð framkvæmd við ljós“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Myrkraverk (n, hk, fto)  Verk sem unnin eru í dimmu; ólánsverk.  „Ég sé lítið til við þetta í dimmunni, svo þetta verða bara hálfgerð myrkraverk hjá mér“.

Myrkva (s)  Rökkva; dimma; verða myrkur.  „Það fer bráðum að myrkva; við förum óðara að koma okkur heim“.

Myrkviðursþoka (n, kvk)  Dimm þoka; þokumyrkur; gerningaþoka.

Mysa (n, kvk)  Þunnur, hálftær vökvi sem rennur af skyri þegar það er síað.  „Áfunum sem komu þegar strokkað var, og mysunni af skyrinu, var safnað í tunnu og látið súrna“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Mysuostur / Mysingur (n, kk)  Ostur sem búinn er til úr mysu.

Mý á mykjuskán (orðtak)  Ógrynni; mikill fjöldii; aragrúi; mýgrútur; akur.  „Þarna eru ferðamenn upp alla bjargbrún, eins og mý á mykjuskán“.

Mýgrúi / Mýgrútur (n, kk)  Ógnarfjöldi; aragrúi; akur.  „Mér stendur rétt á sama um það þó mýgrútur af sprenglærðum fræðimönnum sé á öðru máli í þessum efnum“.  „Þvílíkur mýgrúi er þetta af marglyttu“!

Mýkja (s)  A.  Um skinn eða annað efni; gera þjálla/mýkra/linara.  „Hann brá þvengnum í munn sér og tuggði hann um stund til að mýkja hann“.  B.  Um skaplyndi; róa; stilla.  „Aðeins mýktist hann við útskýringarnar“.

Mýla (s)  Leggja múl við skepnu (hest, nautgrip, sauðkind, draug); múlbinda.  „Einar hafði hrosshársreipi í hönd sér.  Mýlir hann svo kauða og leggur af stað með hann upp á Hænuvíkurháls... “  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Mýmargt (l)  Fjöldamargt; ógnarmargt.  „Ekki get ég nú sagt að það hafi verið mýmargt á þessum fundi“.

Mýradrag / Mýrafláki (n, hk/kk)  Mýrasvæði.  Niðurundan Tröðinni er mýrafláki sem nefnist Bugar, og mýradrög þar neðar“.

Mýrafen (n, hk)  Dý; djúp og hættuleg mýri.  „Þú mátt ekki reka kýrnar beint út í mýrafenið“!

Mýraljós (n, hk)  Ljós sem stundum sést yfir mýrlendi.  Engar heimildir eru um slíkt í Kollsvík eða nágrenni þó nafnið hafi lengi verið þekkt þar.  Mýrarljós hafa verið skýrð á þann hátt að kviknað hafi í metangasi/mýragasi.  Fyrirbærið er þekkt erlendis og nefnist „will-o´-the-wisp“ á ensku.  Hér er því um annarskonar ljós að ræða en það sem nefnt er hrævareldur, en hann myndast vegna stöðurafmagns í neðstu loftlögum.

Mýraloft (n, hk)  Methan; CH₄.

Mýramosi (n, kk)  Sjá mosi.

Mýramór (n, kk)  Mór sem tekinn er upp úr mýri.  „Í Nautholtadýjum var aðalmótakið í Kollsvík.  Þar var mýramór, svo mjúkur að hægt var að skrifa á hnausana með fingri, þegar þeir komu upp“  (GT/VT; Örn.skrá Kollsvíkur).

Mýramyndun (n, kvk)  Mýrar eru stór hluti láglendis í Kollsvík.  Uppruna þeirra má líklega rekja til ísaldarloka; þegar gríðarmiklir skriðjöklarnir höfðu lokið mótunarhlutverki sínu og voru horfnir af láglendi.  Jökulfargið hafði þrýst landinu langt niður fyrir núverandi hæð.  Sjávarstaða hafði þó verið enn lægri vegna bindingar vatns í hinum miklu jöklum; líklega hafa fjörumörk á ísöld verið í Víkurál.  Við bráðnunina hækkaði sjávarborð gríðarmikið, svo fjörumörk urðu líklega við Trantala, Brunnsbrekku, Nautholt og Svarðarholt um alllangt skeið; eða meðan landið var að lyfta sér.  Við þessar aðstæður byrjaði mýramyndun í Kollsvík, en það tímabil sem nefnt er síðjökultími, frá því fyrir 14 millj.árum til 10 millj.  Um það segir Þorleifur Einarsson í Jarðfræði sinni:  „Fyrsta skeið gróðurfarssögunnar hófst er jökla tók að leysa, og lauk á nútíma.  Starir, grös og víðir og ýmsar blómplöntur eru komnar til landsins á þessu skeiði…. Um norðvestanvert landið virðist birki hafa vaxið á þessu skeiði… Gæti það bent til þess að birki hefði tórt á síðasta jökulskeiði á jökulskerjum þar um slóðir.  Frá lokum þessa skeiðs og fram að landnámi virðast engar nýjar plöntutegundir bætast í íslensku flóruna“.  Síðan hefst mýramyndun í Kollsvík á birkiskeiðinu fyrra; þ.e. fyrir um 9 millj.árum:  „Birkiskógur og kjarr þakti fljótlega allt láglendi nema votustu mýrar.  Á þessu skeiði myndaðist neðra lurkalagið í mýrunum.  Á birkiskeiðinu fyrra var loftslag hlýtt og þurrt“.  Umrætt lurkalag má enn sjá greinilega í Mýrunum, t.d. norðan Miðlækjar, ofan vegarins.  Þar komu upp miklir birkilurkar þegar vegurinn var lagður.  „Fyrir 6-7000 árum jókst úrkoman, svo að mýrar blotnuðu og skógurinn hraktist úr mýrunum, eða nýjar mýrar mynduðust þar sem engar höfðu verið fyrir“.  Þá óx hér mikið af svarðmosa, sem varla er gróbær á landinu í dag.  „Fyrir um 5000 árum minnkaði úrkoma, svo birki breiddist út og lagði m.a. undir sig mýrarnar á ný.  Hófst þar með birkiskeiðið síðara, sem stóð þar til fyrir 2.500 árum.  Efra lurkalagið í íslenskum mýrum er frá þessu tímabili.  Loftslag mun þá hafa verið hvað best á nútíma hér á landi.  Meðalárshiti mun sennilega hafa verið 2-3° hærri en nú er; sumur hlýrri og vetur styttri og mildari.  Á þessu tímabili mun vart minna en ¾ hlutar landsins hafa verið grónir, og helmingur vaxinn skógi“.  (Stuðst við ÞE; Jarðfræði, með innskotum VÖ).

Mýrarauði (n, kk)  Járn sem er uppleyst í mýravatni; litar það rautt og safnast stundum fyrir í vinnanlegum kekkjum.  „Mýrarauði var notaður til járnvinnslu með rauðablæstri áðurfyrr, og mun Einar Jónsson í Kollsvík síðastur manna hafa stundað rauðablástur á Íslandi, skv.frás. Ó.E.Th. í Barðstrendingabók“.  „Rauðablástur fer þannig fram, að þurrkuðum mýrarauða er blandað saman við viðarkol sem unnin eru með því að brenna viði í kolagröf þannig að loft komist ekki að. Síðan er kveikt í blöndunni í ofni. Við brunann afoxast járnið úr (vötnuðu) járnoxíði í járnmálm sem er bráðinn og seytlar niður í botn ofnsins og er síðan „hleypt undan“. Eftir verða efnasambönd (steindir) sem ekki bráðnuðu, og nefnast sori eða gjall. Jafna efnahvarfanna er sýnd hér á eftir textanum. Af henni sést að öllu máli skiptir hlutfallið milli járnoxíðs og kísils í hráefninu — í jöfnunni er það 2:1, en sé það 1:1 gengur ekkert járn af. Sorinn hér er fayalít (Fe2SiO4) (Vísindavefur HÍ). Sjá einnig rauðablástur og járnbrák.

Mýraskeið (n, hk)  Tvö tímabil íslenskrar gróðursögu sem einkennast af mjög aukinni myndun votlendis og skerðingu skóga.  Mýraskeiðið fyrra hófst fyrir 7-8 þúsund árum og því lauk fyrir um 5.000 árum.  Þá höfðu jöklar ísaldar bráðnað og lofslag var hlýtt og rakt.  Gróður varð gróskumikill og mynduðust þá hin þykku mólög í mýrum, t.d. í Kollsvík.  Eftir það kólnaði í veðri, en mýraskeiðið síðara hófst þegr aftur hlýnaði fyrir um 2.500 árum, og stendur það enn.

Mýrarstallur (n, kk)  Mýrasvæði milli hjalla í hallandi landi.  „Álakeldur eru á mýrarstalli, slæmar yfirferðar og hættur fyrir fé“  (SJTh; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Mýrarsvakki (n, kk)  Mýarfen; djúpar mýrar/dý.  „Framan við Augnholtin eru blautir mýrarsvakkar, en vestan við holtið er blautt sund“  (SbG; Örn.skrá Hænuvíkur).

Mýrastykki (n, hk)  Mýrlent svæði; dýjafláki.  „Mýrastykkið neðanvið Tröðina nefndist áður Heimadý, en í seinni tíð hefur nafnið Bugar verið notað yfir það, þó áður væru þeir aðeins syðstu dýin“.

Mýrarsytra (n, kvk)  Lítilsháttar vatnsrennsli úr mýri/mýrarbletti.  „Þarna á Breiðavíkurhjöllunum eru sumsstaðar mýrarsytrur, og má vel drekka það vatn þó ekki sé það vel gott“.

Mýrarvilpa (n, kvk)  Lítið mýrastykki/dýjasvæði.  „Þurftirðu endilega að vaða útí mýrarvilpuna“?!

Mýrasóley (n, kvk)  Parnassia palustris.  Jurt af steinbrjótsætt sem vex í graslendi og móum; gjarnan í þyrpingum.  Blaðlaus stöngullinn verður allt að 30 cm langur og ber eitt hvítt blóm með fimm krónublöðum.  Algeng um allt land á láglendi; þar á meðal í Kollsvík.

Mýrastör (n, kvk)  Mjógresi; þjalargras; starungur; Carex nigra.  Stör sem vex í votlendi og verður 15-80 cm að hæð.  Hún vex upp af jarðstöngli sem dreifir sér með renglum.  Blöðin eru mjó, dökk- eða blágræn.  Mýrastör er ágæt beitarjurt og ein helsta fóðurjurtin í mýrum landsins; þar á meðal í Kollsvík.

Mýravatn (n, hk)  Dýjavatn; vatn sem rennur úr mýrum.  „Vertu ekki að drekka mikið af mýrarvatninu“.

Mýrlendur (l)  Með miklum mýrum.  „Allar eru Útvíkurnar mýrlendar að hluta, en einnig með sandbölum“.

Mýsla / Músartítla / Músaskott (n, kvk)  Gæluheiti á mús.  „Hér hefur músartítla verið á ferð“.

Mæddur (l)  Yfirkominn; sorgbitinn; hugsjúkur.  „Hann er náttúrulega dálítið mæddur yfir konumissinum“.

Mæða á (orðtak)  Dynja á; hvíla á; beinast að; koma hart niður á; leika grátt; bitna á.  „Málningin hefur skrapast af bátnum þar sem mest mæðir á“. 

Mæðast (s)  A.  Verða móður í andardrætti, t.d. vegna þreytu.  B.  Fárast; kvarta; nöldra.  „Það þýðir ekkert að mæðast yfir fráganginum á þessu; við verðum bara að gera það besta úr því“.

Mæðgur / Mæðgin (n, kvk/hk, fto)  Mæðgur eru móðir og dóttir; mæðgin eru móðir og sonur.

Mæðinn (l)  Mæðist fljótt; hefur lítið úthald.  „Maður er orðinn svo asskolli mæðinn með árunum“.

Mæðiveiki (n, kvk)  Skæður smitsjúkdómur í sauðfé.  Mæðiveiki barst hingað til lands með karakúlfé árið 1933.  Eftir að veikin fór að breiðast út var landinu skipt niður í varnarhólf með mæðiveikigirðingum.  Þau hólf eru enn við líði og hafa gagnast í vörn gegn útbreiðslu annarra sjúkdóma, s.s. riðu.  Innflutningur karakúlfjárins og ótímabær dreifing þess frá Hólum reyndust afdrifarík mistök.  Féð bar með sér þessa sjúkdóma; votamæði, sem grasseraði í landinu frá 1934 til 1952; þurramæði, sem loddi við frá 1939 til 1965; visnu, sem hvarf í fjárskiptunum sem á eftir fylgdu; garnaveiki, sem enn er útbreidd í klaufdýrum hérlendis; og kýlapest sem enn verður vart.  Skera þurfti niður fé í stórum landshlutum.  Vestfirðir sluppu þó, og einnig austanvert landið frá Jökulsá á Fjöllum til Mýrdalsands.  Fé var síðan flutt í miklu magni af Vestfjörðum til annarra svæða; einkum var kollótt fé frá Kleyfum í Gilsfirði vinsælt.

Mæðiveikigjald (n, hk)  Gjald sem innheimt var af bændum til að standa undir kostnaði við varnir gegn mæðiveiki í sauðfé.  Sáu sýslumenn um skil fjárins til ríkissjóðs.  Má sjá í bókum Rauðasandshrepps að þar hafa menn greitt þessi gjöld, þó það væri ósýkt svæði.

Mæðusvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir uppgjöf/áhyggjum/þreytu. 

Mæðutónn (n, kk)  Nöldurtónn; kvörtunartónn.  „Hún rakti sín vandræði með mæðutóni í röddinni“.

Mægðir (n, kvk, fto)  Tengsl með giftingu; vensl. 

Mægður (l)  Tengdur með giftingu; venslaður. 

Mæla (s)  A.  Tala; segja.  „Vertu nú ekki að mæla þetta mont upp í drengnum“!  B.  Taka mál af; leggja kvarða á; vega; meta rúmmál. 

Mæla af munni fram (orðtak)  Tala blaðalaust; yrkja/semja um leið og talað er.  „Þeir sem eiga léttast með að yrkja vísur mæla þær gjarnan af munni fram, um leið og tilefnið gefst“.

Mæla (einhverju) bót (orðtak)  Bera í bætifláka fyrir; afsaka eitthvað.  „Ég ætla ekki að mæla því bót sem þeir gerðu, en kannski var þetta ekki alfarið þeirra sök“.

Mæla (einhvað) eftir (orðtak)  Tala með eftirsjá um það sem maður hefur gefið/ látið af hendi eða greiða sem maður hefur gert öðrum.  „Mér finnst þetta vanþakklæti í honum; ég er nylega búinn að aðstoða hann með smalamennskur án þess að mæla það eftir“.

Mæla/tala ekki orð frá munni (orðtak)  Segja ekkert; steinþegja.  „Hann sat sem fastast allan fundartímann og mælti ekki orð frá munni“.  „Hann leit inn í herbergið en fór aftur án þess að mæla orð frá munni“.

Mæla fyrir minni (einhvers) (orðtak)  Halda minningarorð um manneskju eða annað.

Mæla/tala fyrir munn (einhvers) (orðtak)  Segja það sem annar vill koma á framfæri; tala í umboði annars.

Mæla fyrir um / Mæla svo fyrir (orðtak)  Skipa fyrir; setja reglur.  „Mælti hann svo fyrir um að ekki skyldi hann gera sér eða sinni ætt mein framar, og hefur það áunnist“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Mæla í mót (orðtak)  Andmæla; hafa á móti.  „Hann var höfðingi á sínu svæði og enginn dirfðist að mæla honum í mót“.

Mæla máli (orðtak)  Ávarpa; tala við.  „Hann var á svo mikilli hraðferð að það var varla hægt að mæla hann máli“.

Mæla með (orðtak)  Gefa meðmæli; ráðleggja; vera hliðhollur.  „Ég mæli með því að við hvílum okkur“.

Mæla sér mót við (orðtak)  Ákveða að hitta; sammælast um fund.  „Við mæltum okkur mót við Flosagilið um ellefuleytið; ég smalaði Sanddalinn og fór niður gilið, en hann fór fyrir Breið og smalaði Fjarðarhornið“.

Mæla um hug sér (orðtak)  Segja öfugt við það sem maður í raun vill; halda því fram sem maður er andvígur.  „Ég myndi mæla um hug mér ef ég segði að þetta væri góð smíði“.

Mæla upp í (einhverjum) (orðtak)  Hvetja einhvern; taka undir með einhverjum.  „Vertu nú ekki að mæla upp frekjuna í krakkanum“!  „Það er ekki gustuk að mæla upp sérviskuna í karlinum“.

Mæla út (orðtak)  Gera mælingar á; ákvarða mál á.  „Samþykkti Búnaðarfélagið Örlygur áskorun til Búnaðarfélags Íslands hinn 14.03.1947 um að láta mæla út skurði“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Mæla upp í (orðtak)  Hvetja með orðum; hrósa um of; tala kjark í; dekstra.  „Það er nú óþarfi að mæla upp í honum grobbið; það er ærið fyrir“  „Sumir foreldrar mæla allskonar sérvisku upp í börnunum“.

Mæla (einhverjum) út (orðtak)  Mæla eitthvað til að selja einhverjum.  „Hverjum bónda var mældur út skiki í túninu“.

Mælast illa/vel fyrir (orðtak)  Vera illa/vel tekið af þeim sem heyra; vera óvinsælt/vinsælt.  „Þessi ákvörðun stjórnvalda mæltist illa fyrir í sveitum landsins“.

Mælast til (orðtak)  Fara framá; biðja um; ámálga.  „Ég mæltist til þess að hann hjálpaði til við innreksturinn“.

Mælgi (n, kvk)  Orðaflaumur; málskrúð; munnræpa.  „Ekki skortir hann mælgina; þvílíkt bölvað raus“!

Mæli (n, hk)  Mál; tal; rödd.  „Hann vildi lítið um þetta tala, en ég heyrði á mæli hans að hann var beygður“.

Mælikvarði (n, kk)  A.  Stöng/prik sem mælt er með.  B.  Hlutfall vegalengdar á korti og í raun.

Mæliprik / Mælistika (n, hk)  Prik sem notað er til mælinga eða til að flytja mælingu á milli staða.  „Ég merkti á mæliprikið heppilega breidd á kartöflubeðinu og bil milli hola“.  „Hann notaði mælistiku til að sjá hæfilegt bil milli korka á teininum“.

Mælir (n, kk)  A.  Venjuleg notkun nú til dags; tæki til að mæla eitt og annað í tölum.  B.  Kollsvíkingar notuðu orðið mæli áðurfyrr einkum yfir tvennt; annarsvegar barómet/loftvog, og hinsvegar yfir lítil ílát; einkum yfir drykkjarílát sem nú eru kölluð drykkjarmál eða -könnur.  „Réttu mér mælirinn minn þarna af bordinu“.  C.  Annað orð yfir barómet (sjá þar).  „Mælirinn hefur fallið og sjáanlega er norðanátt í aðsigi, en hann er sjólaus ennþá“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).

Mælir sá fagurt er flátt hyggur (orðtak)  Spekin vísar til þess að stundum tala menn þvert um hug sér; hafa uppi blíðmælgi þó hugur fylgi ekki því máli.

Mælirinn fullur (orðtak)  Komið nóg; orðið nóg af slíku.  „Veriði nú ekki að stríða karlgarminum strákar; það kemur að því einn daginn að honum þykir mælirinn fullur, og þá megið þið bara vara ykkur“!

Mælitún (n, hk)  Tún sem mælt er, og slægjum skipt niður milli notenda.“Úr mælitúni ber jarðarparti þessum svokallaður Gíslapartur“ (Kaupsamningur Karls Kristjánssonar Stekkjarmel af Helga Gestarsyni Kollsvík).

Mælska (n, kvk)  Liðugur talandi; orðfimi.  „Ekki skortir hann mælskuna“.

Mælskumaður / Mælskusnillingur (n, kk)  Ræðumaður; sá sem á létt með að koma hugsunum í gott mál; ræðumaður sem vel getur talað blaðalaust.

Mælt mál (orðtak)  Það sem sagt er; talað orð; mannsins mál.  „Ég bað þig að reka kindurnar fram dalinn en ekki niður dalinn; skilurðu ekki mælt mál eða hvað“?!

Mæltur (l)  Talandi.  „Hann er ekki vel mæltur á íslensku“.  „Hann er asskoti vel mæltur; ekki vantar það“!

Mæna (s)  Blína; stara; góna.  „Við mændum í ofvæni út á sjóinn, í von um að hvalurinn kæmi aftur upp“.

Mæniás (n, kk)  Máttarviður í húsi; sterkur biti/bolur sem liggur láréttur í mæninum og efri sperruendar hvíla á.  Meðan hús voru öll með hellu- og torfþaki í Útvíkum var algengt að í þeim væri mæniás, og jafnvel fleiri þakásar langsum.  „Verbúðir í Víkum; Hvallátrum, Breiðuvík og Kollsvík, voru svipaðar Hagamannabúð á Hvallátrum (með mæniás; tréárefti; helluþaki og torfi...“  (LK;  Ísl. sjávarhættir II; frás. ÓETh og KJK).  Ýmist var hvort mæniás var í húsum Víknamanna, eða ekki.  Mörg hver voru með sperrum með skammbitum um miðjan legg; blaðaðar saman í toppinn og láréttur laski þar.  Sperrurnar hölluðu þá ívið meira, og stóðu sperrufæturnir oft niður á vegglægju; bita semvar láréttur ofaná innanverðri veggbrún. Má þar nefna Hesthúsið á Hólum, mókofann, brunnhúsið og fleiri.

Mænir (n, kk)  Hæsti hluti húsþaks; kjölur á risi húsþaks.  „Hlaðan var kjaftfull upp í mæni“.

Mænistoð (n, kvk)  Máttarviður í húsi; lóðrétt stoð undir mæniás eða öðrum máttarviði í mæni húss.

Mænustinga (s)  Drepa veiðibráð með því að stinga á mænuna.  Hákarl var oftast mænustunginn eftir að hann hafði verið dreginn að borði.  Til þess var notaður drepur.  „Eftir að lúðan hafði verið innbyrt var hún mænustungin um hausamótin“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).

Mæra (s)  Lofa; lofsyngja; hrósa.  „Það er óþarfi að mæra þá fyrir bölvaða heimskuna, þó þeir hafi komist lifandi til byggða; að álpast svona vanbúnir af stað í þessu veðurútliti“!

Mærð / Mærðarhjal / Mærðarvella (n, kvk/hk/kvk)  Innantóm lofræða; hástemmd  ræða.  „Skelfing leiðist mér þetta mærðarhjal“. 

Mæta afgangi (orðtak)  Verða útundan; verða gert síðast; sitja á hakanum.  Við skulum láta þessa leskingja mæta afgangi; klárum fyrst að skipta heilum eggjum“.

Mærðarlegur (l)  Vær; líður vel; afslappaður.  „Ósköp verður maður mærðarlegur eftir svona veislu“.

Mætagóður (l)  Ágætur; mjög góður; álitlegur.  „Það er bara mætagóður afli að fá tunnu af hrognum“.

Mætast stálin stinn (orðtak)  Hittast tveir þveir þverir/þrjóskir einstaklingar.  „En þar hafa mæst stálin stinn, því dóttirin neitaði að gefa unnustann upp á bátinn “  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Mætavel (ao)  Mjög vel.  „Við vissum svosem mætvel að klettarnir voru bannsvæði“.

Mætiskona / Mætismaður (n, kvk/kk)  Öndvegiskona/-maður.  „Hún var mikil mætiskona, blessunin“.

Mætti segja mér (orðtak)  Mig grunar; ég held.  „Það mætti segja mér að von sé á gestum í dag; ég missi bara allt úr höndunum“!  „Það mætti segja mér að Grána gamla steðji beina leið út á Bjarg aftur“.

Mætti ætla (orðtak)  Má gera ráð fyrir.  „Þó að ekki verði beinlínis um það fullyrt af neinum heimildum, mætti ætla að frekar hafi það verið fyrr en síðar á þessu tímabili...“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Mætur maður (orðtak)  Virtur/virðingarverður/kær maður.  „Hann var alla tíð mætur maður í sinni sveit“.

Mögla (s)  Kvarta; andmæla.  „Það þýðir lítið að mögla yfir veðrinu; það breytir víst litlu“!

Möglunarlaust (l)  Andmælalaust; án þess að mótmæla.  „Þessu á maður bágt að taka möglunarlaust“!

Möglunarlítið (l)  Án þess að mögla/kvarta mikið.  „Bændur létu þetta möglunarlítið yfir sig ganga“.

Möglunarorð (n, hk)  Kvörtun; volæðistal.  „... en ekki heyrðust möglunarorðin“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli).

Mögulega (ao)  Hugsanlega; kannski.  „Ég kem með þetta á morgun ef ég mögulega get“.  „Mögulega voru fyrstu landnemar í Kollsvík mýsnar af skipi Kolls“.

Mögulegur (l)  Hugsanlegur; gerlegur.  „Þetta gæti verið möguleg lausn“.

Möguleiki (n, kk)  Kostur; það sem er hugsanlegt.  „Er einhver möguleiki að þú getir aðstoðað mig“?

Mök (n, hk, fto)  A.  Samskipti; verslun.  „Englendingar höfðu allmikil mök við landsmenn á ensku öldinni“.  B.  Samfarir; holdlegt samræði.

Mökkur (n, kk)  Dimmur skýjaflóki.  „Þegar mökkur var á Blakknesi og Kóp var von á norðanátt..“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).  „Til hafsins er kominn norðan mökkur“  (KJK; Kollsvíkurver).

Mökun (n, kvk)  Samræði/samfarir manns og konu; getnaður karl- og kvenkyns skepnu.

Möl (n, kvk)  A.  Malað grjót, en þó grófara en sandur.  B.  Gæluorð um kaupstað/þéttbýli.  Sagt er að menn „flytji á mölina“ þegar flutt er í kaupstað.  Til komið vegna þess að flest kauptún standa á malareyrum.

Mölbrjóta (s)  Brjóta í smátt.  „Hann hótaði að mölbrjóta hvert bein í þeim sem dirfðist að gjóa öðru auganu í átt að nestinu hans“.

Mölfluga (n, kvk)  Teneola bisselliella; mölfiðrildi; mölur.  Lítið fiðrildi sem áður fyrr var mikill skaðvaldur í híbýlum manna, en lirfur þess leggjast gjarnan á ullarvörur og skinn.  Með vaxandi notkun bómullar- og gerviefna hefur skaðsemin minnkað mikið, og er mölur sjaldséðari nú á dögum.  Mölkúlur voru áðurfyrr notaðar til varnar gegn möl, en nú eru aðrar aðferðir ráðlagðar.

Mölva (s)  Brjóta; maska.  „Ég rak óvart skófluna í ljósið og mölvaði peruna“.

Mömmubarn / Mömmudrengur (n, hk)  Stundum viðhaft um þann sem nýtur sérlega mikillar verndar móður langt fram á unglings- og jafnvel fullorðinsár.

Mömmuleikur (n, kk)  Leikur barna að foreldrahlutverkum, oft með brúður fyrir börn.

Mömmuhjal (n, hk)  Móðurgælur; það sem hjalað er við börn.  „Þá var Árni í essinu sínu; en skipanir hans voru ekkert mömmuhjal“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Mön (n, kvk)  Hryggur; burst; veggur; grandi.  „Sandbleytur voru miklar á Leirunum, en gengt um þurra mön á milli þeirra“.  „Niður miðjar Grundir gengur lág gróin mön; Rani“.  „Heyinu var sturtað í mön á sandbalann“.

Möndl (n, hk)  Lagfæring; dund; föndur.  „Maður gleymir sér alveg í svona möndli“.

Möndla (s)  Hagræða; lagfæra.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  „Það hlýtur að vera hægt að möndla hælinn á orfið, þannig að það dugi til að klára að slá blettinn“.

Möndulgjörð (n, kvk)  Gjörð í gangspili, sem föst er á grindinni og spilkarlinn snýst í.

Möndulhalli (n, kk)  Halli á möndli/ás/öxli.  Oftast er heitið notað um halla hins ímyndaða áss sem jörðin snýst um.  Möndulhalli jarðar gagnvart sólu orsakar árstíðaskipti.  Kenningar eru um að frávik á þeim halla kunni að vera ein orsök ísaldanna miklu.

Möndull (n, kk)  Ás; öxull; völur; skaft.  Möndull var m.a. heitið á skafti handknúinnar kvarnar/myllu.

Mönnun (n, kvk)  Orð sem skipt hefur alfarið um merkingu á síðari tímum.  Fyrrum var það notað um uppeldi; það að gera dreng að manni.  Nú er það notað um öflun áhafnar á skip eða starfsfólks á vinnustað.

Mör (n, kk)  Dýrafita.  Oftast er átt við fitulagið í kviði slátur-/veiðidýra; garnmör; nýrnamör og netju.  Þegar tekið er innanúr er mörinn vanalega pakkaður innan í netjuna og storknar þannig sem einn skjöldur; mörvi.  Hann er síðan notaður til íblöndunar t.d. við sláturgerð; hnoðaður úr honum hnoðmör eða bræddur í tólg.  Sjá einnig mörflot.

Mörður (n, kk)  Ætt rándýra; Mustilidae.  Af þeirri ætt er m.a. minkurinn, og er heitið stundum notað um hann.

Mörflot (n, hk) Feiti úr hnoðmör; flot.  Hnoðmör verður til á þann hátt að þegar tekið er innan úr dilkskrokk er mörinn utan af vömbinni tekinn; inní hann settur annar innmör, s.s. utan af nýrum o.fl. og þetta látið kólna í klump sem þá kallast mörvi.  Þegar mör er hnoðaður eru mörvar saxaðir niður og síðan hnoðaðir vel saman í mörtrogi til að minnka sem mest loftbólur sem valdið gætu loðpurpum.  Þegar þetta er orðið þétt og mjúkt er það mótað í kassalaga, aflangar mörtöflur ca 10x10x25 cm sem síðan eru geymdar í saltpækli eða (nú til dags) frysti.  Venja var að móta með fingri kross horn í horn í eina hlið hverrar mörtöflu til að skrattinn ætti ekki eins greiða leið að þeim, en honum var mikið í mun að skemma matinn.  „Annars var mörflot notað út á allan fisk.  Það átti að geyma mörinn og láta hann fiðra dálítið áður en farið var að hnoða.  Það var karlmannsverk að hnoða.  Hnoðmörinn er geymdur í saltpækli.  Það átti að gera skákross í mörtöflurnar.  Þetta er bara venja; pabbi gerði þetta alltaf.  Setti puttafar i hornin og miðja vegu.  Það voru sem sagt 5 fingraför; eitt í hverju horni og eitt í miðjunni og rákir á milli.  Ég geri þetta alltaf þegar ég er að hnoða“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Mörg er búmanns raunin (orðatiltæki)  Margt getur gengið bændum í móti; margt verður til að mæða bóndann.  Viðhaft um hverskonar basl/mæðu sem menn lenda í; vandamál sem leysa þarf.

Mörg er matarholan (orðatiltæki)  Víða má fá eitthvað matarkyns/gagnlegt.  „Mörg er matarholan í Kollsvík, bæði til lands og sjávar“.

Mörg eru dags augu ( orðatiltæki)  Í dagsljósi sést það sem gert var í dimmu.  Tilvitnun í Hávamál: „Í vindi skal við höggva;/ veðri á sjó róa;/ myrkri við man spjalla;/ mörg eru dags augu“. 

Mörg eru mannameinin / Mörg eru mannanna meinin (orðatiltæki)  Margt r það sem hrjáð getur mennina.

Mörg járn í eldinum (orðtak)  Sjá hafa mörg járn í eldinum.

Mörghundruð (n, hk, fto)  Um það sem talið er í mörgum hundruðum.  „Fyglingarnir fikra sig eftir örmjóum syllum með mörghundruð metra hengiflug fyrir neðan sig“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Mörgu er að að hyggja / Mörgu er að að gá (orðtök)  Margt þarf að aðgæta; í mörg horn er að líta. 

Mörgum flotar ein ár til lands (orðatiltæki)  Menn bjargast oft þó bjargráðin séu fátækleg.  Betra er þó að hafa árar á bæði borð, sbr spekina illt er að róa með einni ár.

Mörk (n, kvk)  A.  Mælieining þyngdar; 249 grömm (eftir árið 1618; áður minna); hálfpottur; hálfpund.  Mörk var áður notuð til mælingar á þyngd gulls og silfurs og var þar með verðeining.  Mörk var þó meira notuð hérlendis í vöruskiptum.  „Þegar fiskvætt (40 fiskar) jafngilti hálfvættarkind, átti fallið af henni að vega 4 fjórðunga og mörinn 6 pund“ (LK; Ísl.sjávarhættir IV).  Í seinni tíð er mörk einkum notuð til mælingar á þyngd nýbura.  „Þann dag fæddist yngsti bróðir minn; Palli, sextán merkur að þyngd“  (ÖG; glefsur og minningabrot).  B.  Mælieining lagar, einkum mæling á nyt kúa.  Ein mörk jafngildir um 250 ml eða hálfpotti.  C.  Víðavangur; skógur (sjaldan notað).

Mörklessa (n, kvk)  Klessa/klíningur af mör.  „Ég skóf mestu mörklessurnar af borðinu eftir að ég hnoðaði mörinn, en það þarf að þrífa það betur“.

Mörkun (n, kvk)  A.  Sú athöfn að marka lamb eða annað búfé.  Sjá mark.  B.  Afmörkun, t.d. svæðis.

Mörkunarhnífur (n, kk)  Hnífur til að marka lömb.  Sumir vildu aldrei marka nema með vasahnífnum sínum en aðrir notuðu fremur markatöng, eftir að slík verkfæri urðu tiltæk.

Mörkunarleiðangur (n, kk)  Ferð sem farin er til að marka lömb.  „Á Láganúpi, líkt og á fleiri bæjum, bar fé á túnum.  Með nokkurra daga millibili var farið í mörkunar- og bólusetningarleiðangur.  Þá voru nýborin lömb handsömuð og þau mörkuð, merkt, bólusett og þeim gefið súlfalyf ef með þurfti.  Einnig var hugað að heilbrigði þeirra, t.d. hvort þau nærðust eðlilega eða væru teppt vegna skitu.  Hugað var að móðurinni, hvort hún mjólkaði lambinu; væri hraust og jafnjúgra“.

Mörkvartel / Mörtunna (n, hk/kvk)  Kvartel/tunna sem mör er geymdur/saltaður í.  „Hnoðmör var jafnan saltaður í kvartel eða áttung á Láganúpi framá 8.áratug 20.aldar.  Gæta þurfti þess að hafa saltpækilinn vel sterkan og að mörtöflurnar væru örugglega á kafi í honum.  Stundum var notað hellublað til að halda þeim á kafi.  Væru þær uppúr vildu þær feyra, og einnig orðið mús að bráð“.

Mörlandi (n, kk)  Uppnefni Íslendinga í Noregi á 19.öld, sem heyrst hefur af og til síðan.  Sagt tilkomið vegna þess að íslenskt fé var mörvaðra en það norska, sem Íslendingar hafa e.t.v. stært sig af.

Mörsugur (n, kk)  Þriðji mánuður í vetri að fornu tímatali; hrútmánuður.  Mörsugur var næstur á eftir Ýli og byrjaði á miðvikudegi í níundu viku vetrar; þ.e. á tímabilinu 20.-27.desember; um vetrarsólstöður.  Mörsugur var þrítugnættur, og á eftir honum kom þorri.  Sumir hafa talið nafnið dregið af því að þá „byrjaði veturinn að sjúga mör og þrótt úr skepnum og fólki“.

Mörtafla / Mörvi (n, kvk/kk)  Flatur klumpur innmörs sem látinn er storkna þar til hann verður hnoðaður í mörva eða nýttur til sláturgerðar.  Í mörvann var látinn nýrmör og garnmör og pakkað vel inn í netjumör.  Sjá mör og mörflot.

Mörtrog (n, hk) Stórt trog, ca 30x50x10 (botnxhæð) með mjög úthallandi hliðum; notað til að hnoða í hnoðmör. 

Mörvaður (l)  Feitur; spikaður.  „Hrúturinn er orðinn svo mörvaður að óvíst er hvort hann gagnast í vetur“.

Mörvambi / Mörvömb (n, kk)  Feitur/spikaður maður.  „Óttalegur mörvambi ertu nú orðinn“!

Möskvaleggur / Möskvastærð / Möskvi (n, kk)  Um grófleika nets; möskvi er hvert op í netinu, sem afmarkað er af þræði; möskvaleggur er bil milli hnúta í möskva nets; möskvastærð er mesta lengd möskvans þegar hann er teygður létt á langveginn, þ.e. samanlögð lengd tveggja möskvaleggja.  Algeng möskvastærð rauðmaganeta er um 3,5“ en grásleppuneta um 4“.

Möskvaslitið (l)  Um net; slitnir leggir á milli möskva.  „Þetta net er víða orðið möskvaslitið og druslulegt“.

Mösulbeina (l)   (líkl.) Áberandi horaður; beinaber. (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).  „Ári er hún nú mösulbeina eftir veturinn, hróið atarna; þetta verður nú líklega síðasta sumarið hennar“.

Möttull (n, kk)  A.  Skikkja; kápa.  B.  Sá hluti jarðarinnar sem er milli yfirborðsskorpu og kjarna.

Möttulstrókur (n, kk)  Sú kenning hefur verið sett fram að sumsstaðar í möttli jarðar séu iðustrókar sem eru öflugri en aðrir möttulstraumar, og flytji mjög heita kviku uppundir skorpuna.  Yfir slíkum strókum sé meiri eldvirkni og tíðari hraungos en annarsstaðar.  Einn slíkur möttulstrókur sé t.d. undir Hawai eyjum og annar undir Íslandi; suðaustanvið miðju.  Strókurinn sé orsök þess að Ísland er eini staðurinn sem er ofansjávar af Miðatlantshafshryggnum.  Sé þessi kenning rétt, má ætla að þessi strókur, og e.t.v. fleiri, sé ein meginorsök þess að Ameríku og Evrasíu tók að reka í sundur.  Hann er þá líka orsök þess hryggjar sem liggur frá Grænlandi um Ísland til Færeyja og Skotlands, en lengi var landbrú um hann.  Það styður þessa kenningu að finna má skylt blágrýti á austurströnd Grænlands og í Skotlandi.

Mötugur (l)  Ataður í matarleifum/mat.  „Þurrkaðu nú framan úr þér strákur; þú ert æði mötugur í munnvikjunum“.  „Hann hafði verið að slátra hrút og var nokkuð mötugur að framanverðu“.

Mötuneyti (n, hk)  A.  Félag manna um sameiginlega mataröflun og borðhald.  B.  Staður þar sem margir snæða saman, t.d. á vinnustað.

Mötuneytisaðstaða (n, kvk)  Aðstaða til eldunar og framreiðslu matar.  „Þeir sem voru lengra að komnir höfðu með sér nesti og bjuggu við skrínukost, enda var mötuneytisaðstaða engin“  (PG; Veðmálið). 

Mötuskrína (n, kvk)  Verskrína (sjá þar).

Mötustuttur / Mötulaus (l)  á lítið/ekkert eftir af nesti/mötu.  „Sagt var að vermenn væru mötustuttir þegar lítið var eftir í skrínu þeirra undir vertíðarlokin“.

Leita