Jaðar (n, kk)  Brún; kantur; það sem er yst á fleti.  „Grjótið var borið útfyrir túnjaðarinn“.

Jaðarmenning (n, kvk)  Þau sérkenni og afbrigði menningar, t.d. tungumáls, siða, atvinnuhátta o.fl, sem lifa og er viðhöfð á afmörkuðu svæði í jaðri stærra svæðis sem verður fyrir mun meiri áhrifum og blöndun erlendra menningarstrauma og þar sem meiri tískusveiflur verða í menningarþáttum.  Jaðarmenning á „afskekktum“ stöðum á Íslandi geymir því að öllum jafnaði eldri og verðmætari rætur menningararfsins betur en þétbylli svæði sem verða fyrir meiri áhrifum og sveiflum.  Þetta staðfestist m.a. í þessu orðasafni, þar sem þúsundir orða eru skrásett sem ekki eru finnanleg í hinu opinbera og miðlæga orðasafni þjóðarinnar.  Engu að síður gengur treglega að fá suma fræðimenn til að viðurkenna þessa staðreynd, og stjórnvöld hafa ekki viljað stuðla að varðveislu þessa dýrmæta menningararfs, sem nú er að glatast vegna hruns byggðanna.  Fullyrða má að víða á landinu, þar sem stórar byggðir hafa þegar eyðst, hafi nú þegar glatast dýrmætur og óbætanlegur þáttur íslenskrar menningar.  Hér er reynt að sporna við að það sama gerist í Kollsvík og nágrenni.

Jaðarmöskvi (n, kk)  Möskvi á jaðri nets.  Jaðarmöskvar nets eru oft úr sterkara efni en netið sjálft, enda eru þeir notaðir til að fella/festa netið á teininn/þininn.  Sjá innsetningarnál.

Jaðarsamfélag (n, hk)  Samfélag sem oft og tíðum er á útnesjum og skögum, í jaðri stærra og fjölmennara samfélagssvæðis, þangað sem vegir eru gjarnan torsóttir, langir og lélegri en í meginsamfélaginu, byggðn fámennari og atvinnuhættir fábreyttari.  Í jaðarsamfélögum gerast breytingar í menningar- og atvinnuháttum með hægari móti en annarsstaðar, og endurnýjun mannafla verður hægari og staðbundnari.  Jaðarsamfélög eiga jafnan í erfiðleikum vegna fólksfæðar, fjarlægðar og erfiðleika við að njóta nútímaþæginda; þau hafa lítið stjórnmálalegt vægi og ná því lítt eyrum stjórnvalda.  Afleiðingin verður undantekningarlaust sú að jaðarsamfélögum hnignar og þau eyðast.  Með þeim hverfa m.a. ómetanleg verðmæti jaðarmenningar; fjölbreytileika þjóðarinnar hnignar og náttúruverðmæti standa óvernduð.  Hnignun jaðarsamfélaga er því mjög óæskileg þróun fyrir sjálfstæði og ímynd þjóðarinnar og sjálfbærni hennar til lengri tíma.  Jaðarsamfélag er ekki gamalt orð í íslensku máli; enda ekki þörf á því fyrr á tíð.  Mikilvægt er að það verði meira notað eftirleiðis, en stjórnvöldum er mjög í nöp við það; það fellur ekki að þeirra byggðaeyðingastefnu.

Jaðra við (orðtak)  Stappa nærri; liggja við.  „Það jaðraði við að bátnum hvolfdi í þessum ósköpun“.

Jafn (l)  A.  Eins (mikill/stór/þungur/mikilvægur o.s.frv).  B.  Um fiskimið; ber saman.  „Þegar rekið hafði um tíma sáum við að við vorum komnir suður á Látraröst; líklega á Tálkna og Jafna Tanga“  (ÖG; Fiskiróður).

Jafna ágreining (orðtak)  Verða sammála; komast að niðurstöðu; semja frið. 

Jafna / Jafna til (s/orðtak)  Laga til hey í hlöðu/gryfju, þannig að það setjist í jöfnum lögum en sé ekki misþykkt.  „Ég skal vera inni með litlu kvíslina og jafna, en það væri gott að fá annan með til að troða“.

Jafna metin (orðtak)  Rétta sinn hlut gagnvart öðrum; bæta úr óréttlæti/ójafnvægi.  „Sá tími mun koma að landsbyggðin jafnar metin gagnvart þéttbýlinu“.

Jafna niður (orðtak)  Um álagningu sveitagjalda; þegar hreppsnefnd heldur niðurjöfnunarfund til að gera fjárhagsáætlun hreppsins og jafnar útgjöldum niður á íbúana; hvað hver og einn á að  greiða hátt útsvar.  Jafnað var niður eftir sérstökum reglum, sem tóku mið af aðstæðum hvers manns og hverrrar fjölskyldu.

Jafna sakir (orðtak)  Gera út um mál; ganga frá deilumáli með bótum, samningum, bardaga eða öðru móti.  „Eftir fyrsta glasið sagðist hann þurfa að fara og jafna sakirnar við þessa bévítans skálka“.

Jafna sig / Jafnast (orðtak)  Hvílast og ná kröftum/áttum eftir átök/veikindi/áfall; ná sér verða jafngóður.  „Eftir nokkurn tíma lætur hann okkur styðja sig upp að bjarginu og jafnaði sig þar nokkuð áður en farið var að draga hann upp“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Jafna sig upp með (orðtak)  Vera að meðaltali; ná til jafns við.  „Aflinn hefur verið misjafn, en ætli þetta jafni sig ekki upp með tonn á dag, þessa dagana“.

Jafna (langt) til/við (orðtak)  Bera saman við.  „Þetta er leiðindatíð, en ég jafna því samt ekki við rosann í fyrrasumar“.  „Þessi ríkisstjórn er hérumbil jafn ráðlaus og sú síðasta, og er þá langt til jafnað“!

Jafna um (orðtak)  Veita ráðningu; lumbra á.  „Hann sagðist ætla að jafna um hrekkjalómana, þó síðar yrði“.

Jafna úr (orðtak)  Slétta/jafna, t.d. þúfur/hnúska í túni, hey í hlöðu, skít sem borinn er á tún, fellingu á neti o.fl.

Jafnaðargeð (n, hk)  Gott skap að jafnaði; stöðuglyndi.  „Ég reyndi að taka þessu með jafnaðargeði“.

Jafnaðarhóf (n, hk)  Lítillæti; stöðuglyndi; millivegur.  „Ætli jafnaðarhófið sé ekki best í þessu sem öðru“?

Jafnaðarlega (ao)  Að jafnaði; til jafnaðar; venjulega; allajafna.  „Enginn lækur er jafnaðarlega í Sandagili, en í vorleysingum rennur eftir því leysingavatn af Sanddal, ofan fjallsbrúnar“  (HÖ; Fjaran). 

Jafnaðarmennska (n, kvk)  Meðalmennska; frammistaða í meðallagi.  „Mér hefur aldrei verið vel við neina jafnaðarmennsku í svona málum; hér þarf að taka betur á“!

Jafnaðarverð (n, hk)  A.  Hóflegt/sanngjarnt verð.  Þetta mun hafa verið hin upprunalega merking orðsins.  B.  Meðalverð; meðaltal hærri og lægri verðlagningar.  Þetta er hin viðtekna nútímamerking orðsins.

Jafnaldra / Jafngamall (l)  Svipaður/jafn að aldri.  „Ætli hann hafi ekki verið nokkurnvegin jafnaldra mér“.  „Þau voru jafngömul  og í sama bekk“. 

Jafnaldri / Jafnaldra (n, kk/kvk)  Jafn gamall/gömul.  „Hann var jafnaldri minn“.  „Nokkuð var hún minni en jafnaldra hennar“.  „Þegar í land kom var ég hinn roggnasti og lét í ljós við jafnaldra mína að þetta hefði verið hin mesta glæfraför“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður).  „Var slíkt okkur krökkunum kærkomið tilefni til að hitta jafnaldra okkar á næstu bæjum“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). 

Jafnan (ao)  Venjulega; allajafna.  „... sýslumaður mátti innheimta einn harðsteinbít af hverjum vermanni, en innheimta sú fórst jafnan fyrir“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Við manntal 1820 er hann líka sagður vel lesinn og gáfaður maður, og svipað er jafnan um hann sagt“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  „Jafnan var það svo að formenn þar voru kappsamir um sjósókn“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Jafnast á við (orðtak)  Vera jafnoki; vera líkur; vera jafn mikill.  „Það jafnast ekkert á við vel kæstan hákarl“.

Jafnauðveldlega (ao)  Eins auðveldlega/léttilega.  „Ekki er víst að okkur takist næsta verk jafnauðveldlega“.

Jafnákveðinn (l)  Eins ákveðinn.  „Ég er enn jafnákveðinn í að fara þetta“.

Jafnbrattur (l)  Um brattlendi/hlíð; með jöfnum halla.

Jafndauður (l)  Eins dauður; eins illa staddur.  „Það er mér alveg að meinalausu þó þú sláir þetta sléttuhorn; ég er alveg jafndauður fyrir það“.

Jafndýpi (n, hk)  Nokkurnvegin sama sjávardýpi yfir allmikið svæði.  „Utanvið Grundatanga, Arnarboða, Djúpboða; framundan Hnífum, er jafndýpi suðureftir, og sandgljá.  Þar voru lóðamið Kollsvíkinga“.

Jafndægur / Jafndægri (n, hk)  Sá árstími þegar dagur er jafnlangur nóttu.  Jafndægur að vori er 19.-20. mars, en jafndægur að hausti 21.-24. september.  Breytileikinn stafar einkum af hlaupárum.

Jafneinstakur (l)  Eins merkilegur/einstakur/sérstakur.  „hans skarð verður erfitt að fylla; jafneinstakur og hann var í þessum efnum“.

Jafnfallinn (l)  Um snjó; jafnt dreift á jörð; í jafnþykku lagi.  „Um morguninn var kominn ökkladjúpur jafnfallinn snjór“.

Jafnfalskur (l)  Eins undirförull/ótrúverðugur/lyginn.  „Allir eru þessir sölumenn jafnfalskir“!

Jafnfljótur (l)  Eins snöggur/fljótur.  „Stundum var hann jafnfljótur að fara fyrir Breiðinn eins og við að fara yfir hann; ef hvorugur tafðist við fé“.  „Ég nennti ekki að fara á bílnum, heldur rölti þetta á tveimur jafnfljótum“.

Jafnframt (ao)  Ennfremur; um leið.  „Jafnframt þessu gæti ég sagt ýmislegt um hina hlið málsins“.  „Á þessum tíma var ég sparisjóðsstjóri, en sá jafnframt um afgreiðslu kaupfélagsins“.  „Jafnframt smöluðu Kollsvíkingar Breiðavíkurháls og norðanverða Breiðuvík á leið sinni til réttar“  (PG; Veðmálið).  „Ólafur krafðist þess að jafnframt yrði skoðað féð á Stökkum, og var svo gert“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943).   „Fór nú vindur óðum vaxandi en jafnframt var komið norðurfall á móti vindi“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Jafnfráleitt (l)  Eins fjarstæðukennt/óhugsandi.  „Ég svaraði ekki þessari athugasemd; eins fráleit og hún var“.

Jafnfrískur (l)  Eins hraustur/hress/heilsugóður.  „Ekki er ég nú alveg orðinn jafnfrískur aftur“.

Jafnfróður (l)  Eins fróður.  „Hann er örugglega jafnfróður og ég í þessum efnum; ef ekki fróðari“.

Jafnfætis (ao)  Með báða fætur samhliða; jöfnum fótum.  „Ég lék mér að því að stökkva jafnfætis yfir girðinguna og skurðinn í einu“.  „Enginn stóð honum jafnfætis í þessum efnum“.

Jafngilda (s)  Gilda að jöfnu; vera jafngilt/ jafn verðmætt.  „Ein þingmannaleið jafngildir 37,5 kílómetrum“.

Jafngildur (l)  Viðlíkur; gildir að jöfnu við.  „Ég tel þetta jafngilt fullnaðaruppgjöri“.

Jafngott  (l)  Mátulegt; eins gott.  Oft framborið „jamgott“.  „Það væri jafngott að þú fengir ofaní fyrst þú ert að rjúka í breiða í svona útliti“.  „Ég held að brotið sé að gróa og að fóturinn verði jamgóður á eftir“.

Jafngóður (l)  A.  Eins góður/notadrjúgur.  „Ekki finnst mér þetta jafngóðar klippur og hinar“.  B.  Jafn heill heilsu; albata.  „Ég er mikið skárri af pestinni, þó enn sé ég ekki orðinn jafngóður“.  C.  Jafn vel settur; skaðlaus.  „Ég get alveg lánað þér fóðurbætispoka; ég er jafngóður fyrir það“.  Sjá jafnsettur.

Jafnhallandi (l)  Með svipuðum/jöfnum halla.  „Hryggirnir eru allir jafnhallandi, en mislangir“.

Jafnharðan (ao)  Jafnóðum; um leið.  „Þó svæðið teljist allt mjög úrkomusamt virðist öll sú úrkoma hverfa jafnharðan niður í jökulurðina sem er nánast allsráðandi í landslagi ofan við ca 100 m“  (HÖ; Fjaran).

Jafnharður (l)  Eins harður.  „Stöfuðu af þessu hin mestu harðindi til lands og sjávar, og mundi enginn jafnharðan vetur“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Jafnhatta (s)  Lyfta þungum hlut uppfyrir höfuð sér með báðum höndum, þannig að rétt sé að fullu úr baki, höndum og fótum.  „Honum munaði lítið um að jafnhatta trjádrumbinn“.

Jafnhár (l)  Eins hár; jafn að hæð.  „Sjávarklettarnir eru þarna nokkuð jafnháir yst sem innst“.  „Hann komst ekki alveg jafnhátt upp klettinn og ég“.

Jafnhittur (l)  Eins að mæta; eins í viðmóti.  „Farðu vel að karlinum; hann er ekki alltaf jafnhittur“.  „Þarna getur stundum fengist ágætur fiskur, en þó er hann ekki alltaf jafnhittur“.

Jafnhlaðinn (l)  Um hleðslu á bát; situr vel í sjó; lík hleðsla aftan og framan og á bæði borð. 

Jafnhliða (l)  A.  Með jafnar hliðar.  „Stykkið er eins og jafnhliða þríhyrningur að lögun“.  B.  Um leið; samhliða.  „Jafnhliða þurfti að gera ýmsar ráðstafanir“.

Jafnhlýr (l)  Eins hlýr/heitur/mildur.  „Ekki er hann nú jafnhlýr í dag og undanfarna daga“.

Jafnhungraður (l)  Eins svangur.  „Maður er alveg jafnhungraður þó maður gófli í sig svona pitsufjanda“!

Jafni (n, kk)  Litunarjafni; Diphasiastrum alpinum; mosategund sem algeng er í lautum, einkum þar sem snjór skýlir að vetrum.  Jurtin er lágvaxin með langa jarðlæga stöngla með uppréttum marggreindum greinum.  Litunarjafni var notaður til að lita ullarvarning gulan.  Var jafninn þá lagður í bleyti í sólarhring; dreift síðan yfir ullina; hún vafin saman; sett í ketil og látið malla í nokkra tíma.  Væri hvítmaðra notuð um leið mátti fá gulrauðan lit.  Jafni var einnig notaður sem litfestir með öðrum litunarjurtum.

Jafnilla (ao)  Jafn illa/erfiðlega.  „Alltaf gengur mér jafnilla að skilja hvernig nokkur nennir að fylgjast með þessum boltafjanda“.

Jafningi (n, kk)  Jafn að hæfileikum, virðingu eða öðru.  „Ég veit engan mann hans jafningja í þessum efnum“.

Jafnir baggar fara/sitja best / Jafnir fiskar spyrðast best (orðatiltæki)  Best er að byrði sé sem jöfnust á hestbaki.  Þegar fiskar eru hengdir í spyrðu til þurrks er reynt að velja þá þannig að nokkuð jöfn þyngd sé beggja megin rárinnar.  Orðtakið er einnig notað sem líking um annað, sbr lík börn leika best.

Jafnir núpar / Jafnir Tangar (orðtök)  Um fiskimið; þegar tveir núpar/tangar bera saman; þegar .  „Þegar rekið hafði um tíma sáum við að við vorum komnir suður á Látraröst; líklega á Tálkna og Jafna Tanga“  (ÖG; Fiskiróður).

Jafnjúgra (l)  Um spendýr; með jafnsíð/jafnstór júgur; ekki misjúgra/halljúgra.  „Þetta er fallegasta fyrstakálfskvíga; vel byggð og jafnjúgra“.

Jafnkaldur (l)  Eins kaldur.  „Ekki finnst mér hann alveg jafnkaldur og í gær“.

Jafnkunnur (l)  Eins kunnugur; þekkir eins vel til.  „Guðbjartur Torfason er jafnkunnur öllum staðháttum hér og við, og á engan hátt ófærari til sjómennskulegra aðgerða en við“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Jafnlangur / Jafnlengi (l)  Eins langur/lengi.  „Ætli maður reyni ekki að rölta þetta eins og vant er; meðan báðir fætur eru jafnlangir“.  „“Ég nenni nú ekki að halda jafnlengi til dagsins núna og í gær“.

Jafnlágur (l)  Eins lágur.  „Mér sýnist staurarnir báðir jafnlágir“.

Jafnleiðinlegur (l)  Eins leiðinlegur.  „Ég held að leitun sé að jafnleiðinlegum og þurrum ræðumanni“.

Jafnlent (l)  Um landsvæði; lárétt.  „Svæðið milli Oddavatns og Stóravatns er jafnlent og líklega frekar gróðurlítið og hrjóstrugt“  (Magnfríður Ívarsd.  Örnefni undir Skörðum).

Jafnlyndur (l)  Með jafnaðargeð; skiptir ekki oft skapi.  „Það kemur honum vel hvað hann er jafnlyndur“.

Jafnmikill (l)  Eins mkill.  „Ekki var það jafnmikill afli og síðast, en þokkalegur samt“.

Jafnnær / Jafnnærri (l)  Engu nær; engu fróðari.  „Hann reyndi að útskýra málið en ég var jafnnærri á eftir“.

Jafnoki (n, kk)  Jafningi að afli/gjörvuleik.  „Hann átti sér fáa jafnoka í þessari íþrótt“.

Jafnóðum (ao)  Jafnharðan; um leið.  „Gengu menn svo í að gera til fiskinn og var allt draslið látið í poka jafnóðum, og þeim kastað út fyrirbundnum eftir hendinni“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Jafnóhrjálegur / Jafnótótlegur (l)  Eins lélegur /illa útlítandi.  „Kofagarmurinn getur varla staðið mikið lengur uppi; jafnóhrjálegur og hann er orðinn“.  „Ég held ég hafi aldrei séð neinn jafnótótlegan og þennan prestræfil við skírnina.  Niðurundan krimpaðri hempunni gægðust grútskítug búmmístígvél; hendurnar voru grómteknar af skít og um einn fingurinn flaksaðist kolsvart sárabindi.  Skírnin tókst samt slysalaust, og ekki veit ég annað en barnið hafi orðið til fyrirmyndar í alla staði“.

Jafnræði (n, hk)  Jöfn völd/virðing; jafnrétti.  „Þótti mikið jafnræði með þeim hjónum“.

Jafnsettur (l)  A.  Jafn vel haldinn; skaðlaus; jafngóður.  „Hann sagðist vel geta hjálpað okkur með bensínlögg; hann væri alveg jafnsettur með það“.  B.  Jafn að virðingu; jafn hátt settur.  „Í réttum er enginn jafnsettur réttarstjóra; þar hefur hann alræðisvald“.

Jafnséður (l)  Eins glúrinn/klókur/fyrirhyggjusamur.  „Enginn er jafnséður í fjármálum og hann“.

Jafnskárri (l)  Örlítið skárri að jafnaði.  „Ég er nú jafnskárri af pestinni í dag en í gær“.

Jafnslétta (n, kk)  Slétt svæði með litlum sem engum halla.  „Halda þurfti báðumegin að fjárhópnum eftir að komið var niður á jafnsléttu“.

Jafnsnemma (ao)  Eins snemma/árla.  „Við vöknuðum báðir jafnsnemma og fórum að undirbúa róðurinn“.

Jafnsnöggur (l)  Eins snar/fljótur/snöggur.  „Maður er ekki alveg jafnsnöggur í hreyfingum og áður“.

Jafnsterkur (l)  Eins sterkur.  „Ég held að þeir séu báðir nokkurnvegin jafnsterkir“.

Jafnsvæsinn (l)  Eins skæður/illvígur/erfiður.  „Þessi pest var ekki alveg jafnsvæsin og sú fyrir jólin“.

Jafnt á komið með (orðtak)  Eins ástatt um; í jafn góðum/slæmum málum.  „Þá er nokkuð jafnt á komið með okkur; ég þrælkvefaður en þú bullandi sjóveikur“!

Jafnvel (ao/st)  Eins vel; meira að segja; gæti eins verið.  „Ég sá ekkert eyrnamark á tvævetlunni, en sýndist hún jafnvel vera hornmerkt“.  „Mér þykir eggin jafnvel betri ef þau eru farin að setjast dálítið“.

Jafnvinda (l)  Með jöfnum vindi; án vindhviða.  „Eftir að komið var á opna víkina varð hann meira jafnvinda“.

Jafnvígur (l)  Jafn fær/getumikill.  „Hann er jafnvígur á flesta bragarhætti“.

Jafnvægi (n, hk)  A. Jöfn þyngd/ jafn styrkur beggja megin.  „Lóðið var síðan fært til, þar til reislan var í jafnvægi“.  B. Hæfni manna til að falla ekki til hliðar.  „Í klettum kemur sér vel að geta haldið jafnvægi“.  C.  Sálarstyrkur; jafnaðargeð; rósemi.  „Allmikið þurfti til að koma honum úr jafnvægi“.

Jafnvægisskyn / Jafnvægistilfinning (n, hk/kvk)  Skynjun jafnvægis; næmi/tilfinning fyrir jafnvægi.  „Góð jafnvægistilfinning er eitt frumskilyrða þess að vera fær í bjargi og brattlendi“.

Jafnþykkur (l)  Eins/jafn að þykkt.  „Múrnum þarf að smyrja á í jafnþykku lagi þar sem slétt er“.

Jafnþyngd (n, kvk)  Sama þyngd.  „Þetta er virði jafnþyngdar sinnar í gulli“.

Jafnömurlegur (l)  Eins bágur/sorglegur/leiðinlegur.  „Fátt veit ég jafnömurlegt og fótboltalýsingar“.

Jag (n, hk)  A.  Álag; þvælingur; snúningar.  „Það hefur verið mikið jag á honum í vinnunni í dag“.  B.  Slit/sundurliðun efnis með ítrekaðri sveigju.  „Vírinn gaf sig eftir nokkuð jag“.  C.  Deilur; karp; rifrildi.  „Veriði nú ekki að þessu eilífa jagi um það hver eigi að sækja kýrnar; fariði bara báðir“!

Jaga (s)  A.  Beygja/liða í sundur; mæða á; nudda.  „Það tókst að jaga vírinn í sundur“.  B.  Ýta/urga af stað; klifa á þráspyrja.  „Reyndu nú að jaga hann með þér í þetta“. C. Elta; veiða.  „Er nú hvolpfjandinn farinn að jaga hænurnar?  Það verður að venja hann af þessu“!

Jagaður (l)  Liðaður; beygður ítrekað; lúinn.  „Lamirnar voru hérumbil jagaðar úr stafnum“.

Jaga í (orðak)  Fá einhvern til með fortölum.  „Mér tókst loks að jaga hann í að gera þetta fyrir mig“.

Jaga útúr (orðtak)  A.  Þrábiðja þar til látið er undan.  „Á endanum tókst honum að jaga útúr mér bókina“.  B.  Um liðamót/samsetningu; slitna/liða þar til losnar.  „Boltinn jagaðist útúr gatinu á löngum tíma“.

Jagari (n, kk)  Klýfir; lítið þríhyrnt segl sem stundum er á skipum, og þá framanvið fokkuna.  Jagara er oftast fest með stögum í bugsbjót, siglu og aftur í borðstokk.  Orðið var jafnan með „i“ í enda í Kollsvík.

Jagast (s)  A.  Deila; kíta; munnhöggvast.  „Alveg er einkennilegt hvað þeir geta sífellt verið að jagast um þetta“.  B.  Liðast; þreytast.  „Kerran jagaðist í sundur í holunum“.

Jahér / Jahérna / Jahérnahér / Jahverárinn / Jahverskollinn / Jahverþremillinn / Jahvurandskotinn Upphrópanir, oftast í byrjun setningar, sem lýsa mikilli undrun yfir því sem kemur á óvart.  „Jahérna; þetta hafði ég ekki hugmynd um“!  „Jahvurandskotinn; þessu bjóst ég síst við af honum“!

Jakaburður (n, kk)  Fleyting ísjaka; drift ísjaka í straumi.  „Töluverður jakaburður var niður ána“.

Jakahröngl (n, hk)  Töluverður fjöldi af ísjökum.  „Allmikið jakahröngl kom á fjöruna í Kollsvík veturinn 1968.  Stærð jakanna var allt frá vættarþyngd upp í stóran borgarís sem botnaði frammi á víkinni“.

Jaki (n, kk)  A.  Ísjaki.  „Nokkrir stórir jakar steyttu grunn töluvert frammi á víkinni, og mikið jakahröngl hafði rekið upp í fjöru“. B.  Beljaki; stór/sterkur maður.  „Þeim jaka varð ekki mikið um að henda lambinu á pall“.

Jakka (s)  Jappa; hjakka; tvístíga; hreyfast lítillega fram og til baka / upp og niður.  „Enn jakkar allt við það sama“.

Jakkagarmur / Jakkalarfur (n, kk)  Gæluheiti á jakka.  „Ætli þurfi ekki kannski að bursta þennan jakkagarm“.  „Hvar skyldi nú vera jakkalarfurinn minn“?

Jakobsfífill (n, kk)  Fjölært körfublóm, algengt í Kollsvík sem annarsstaðar um landið.  Karfan er oft 1-1,5 cm í þvermál; stök á stöngulenda; hveítleit eða fjólublá.  Blómgast í júní-júlí.

Jakobsvegur / Jakobsstigi (n, kk)  Heiður himinn í norðaustri á sunnanverðum Vestfjörðum.  Stafar af því að hálendi Vestfjarða tekur raka úr vindi af þeirri átt, og því er þar oft heiðskírt að sjá í norðaustan áttum.  „Þegar það hérað loftsins í austnorðri sem menn kalla Jakobsveg eða –stiga er skært, hvítt og fagurt á kvöldin, boðar skírviðri“  “ (BH; Grasnytjar).  Sama lögmál á einnig við á Suðvesturlandi.

Jakt (n, kvk)  Tegund seglskipa, sem ruddi sér nokkuð til rúms um 16-1700.  jaktskip voru með bugspjóti, gafli og gaffalsiglingu.  „Skip átti hann í förum milli Íslands og Danmerkur í félagi við danskan kaupmann á Patreksfirði; Thomsen að nafni.  Það skip týndist í hafi eitt sinn síðla sumars á útleið, með öllu sem á því var, og mun það hafa verið óvátryggt.  Skipið hét Delphin, og var fremur lítil jakt“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Jaml (n, hk)  Nöldur; muldur.  Einkum notað í samhenginu „japl og jaml og fuður“, um sífellt nöldur.

Jamla (s)  Suða; nöldra; staglast.  „Hættu nú að jamla um þetta drengur; þú átt nóg af leikföngum“.

Jamm (uh)  Afbrigði af já.   

Jammogjæja / Jammogjæjaþá (uh)  Afbrigði af hikorðinu jæja.  Án merkingar, en gjarnan notað annaðhvort sem aðdragandi að setning sem er fyrirboði athafna, eða sérstætt sem andsvar eða dæs.  „Jammogjæjaþá; ætli við þurfum ekki að fara að hafa okkur í þetta“.

Jamta (s)  Jánka; taka undir.  „Ég spurði hvort hann væri til í þetta, og hann jamtaði því“.

Japl (n, hk)  A.  Það að tyggja mikið/ tönnlast á.  „Ekki linaðist ólseigur ketbitinn mikið við japlið“.  B.  Klif; tuð; sífellt nöldur.  „Vertu nú ekki að þessu japli“! C.  Japp; það að tvístíga.  „Kýrin var með sár á spenanum; það var ástæðan fyrir þessu sífellda japli“.

Japl og jaml og fuður (orðtak)  Nöldur og raus; kvartanir.  „Eftir japl og jaml og fuður tókst loks að koma honum í fermingarkyrtilinn, en sjá má á fermingarmyndunum hvílík sæla það var“.

Japla (s)  A.  Tyggja síendurtekið.  „Það var sama hvernig karlinn japlaði; ekki linaðist ketbitinn“.  B.  Endurtaka í sífellu; tuða; sífra.  „Enn japlar hann á þessu sama“!  C.  Tvístíga; jappa.

Japp (n, hk)  Það að tvístíga; stapp.  „Það er eitthvað bannsett japp í henni Búkollu; eins og henni líði illa“.

Jappa (s)  Tvístíga.  „Vertu nú ekki að jappa lengur þarna í dyrunum; komdu innfyrir og sestu niður“.  Virðist ekki þekkt utan svæðisins í þeirri merkingu.  Einnig notað í afleiddri merkingu um að þrástagast á einhverju.  „Enn er hann að jappa á þessu sama“. 

Jarðabókin (n, kvk m.gr)  Undantekningarlítið er átt við jarðabók þá er Árni Magnússon og Páll Vídalín skráðu á árunum 1702-1714, og er ein gagnmerkasta heimildin um jarðir, íbúa og þjóðarhagi á fyrri tíð.  Bókin var samin að tilhlutan Friðriks 4; kóngs Danaveldis og þar með Íslands, til að unnt væri að fá heildarmynd af ástandi lands og lýðs, líklega m.a. til að kanna skattþol þegnanna.  Árni Magnússon skrifaði sjálfur þann hluta bókarinnar sem fjallar m.a. um Rauðasandshrepp.  Víða koma fram lýsingar á bágum högum íbúa, bæði af völdum aflabrests og náttúrufars, en ekki síður vegna kúgunar höfðingjaveldisins.  T.d. má víða sjá hörku og kúgun Guðrúnar Eggertsdóttur, sem þá var Saurbæjarhöfðingi.  Skrifaði Árni sumsstaðar athugasemdir í þá veru á latínu eða þýsku, í þeirri von að höfðingjarnir skildu þær síður.

Jarðabætur (n, kvk, fto)  Aðgerðir til að bæta gæði jarðar til að gera hana betur fallna til búskapar; t.d. framræsla, ræktun, girðingar o.fl.  Ýmist það sem áður voru taldar þarfar jarðabætur sætir í dag nokkurri gagnrýni vegna ágangs á óspillta náttúru.  Má þar t.d. nefna framræslu.

Jarðamat (n, hk)  Verðgildi bújarða.  Frá fornu fari hafa jarðir verið metnar í svonefndum jarðarhundruðum.

Jarðanefnd (n, kvk)  Nefnd sem fjallar um jarðasölur.  Samkvæmt jarðalögum nr 65/1976 skyldu settar á fót jarðanefndir; ein fyrir hverja sýslu, sem skyldu fylgjast með eigendaskiptum jarða, hafa eftirlit með mannvirkjagerð og að búseta væri í samræmi við ábúðarlög.

Jarðarafnot (n, hk, fto)  Nytjar sem jarðeigandi heimilar öðrum úr sínu landi.  „Þurrabúðarbændur höfðu jarðarafnot fyrir fáeinar kindur, og stundum kálgarðsholu að auki“.

Jarðarberjareitur (n, kk)  Gróðurreitur/vermireitur þar sem jarðarber eru ræktuð undir gleri/plasti.  „Sigríður á Láganúpi var mikil ræktunarmanneskja.  Jarðarberjareitur var í horni garðsins við gamla Láganúpshússins, og við hlið hans voru beð með rófum, næpum, gulrótum, hvítkáli, blómkáli, grænkáli, salati og fleiri nytjajurtum; ásamt fjólu, morgunfrú og fleiri skrautjurtum.  Kartöflugarður var frammi á skurðbakkanum“.

Jarðareigandi (n, kk)  Eigandi jarðar.  „Í seinni tíð hefur eignarhald nokkurra jarða í Rauðasandshreppi orðið nokkuð flókið, og jafnvel óljóst; einkum vegna þess að eigendur og yfirvöld hafa ekki framfylgt reglum um skipti dánarbúa.  Þannig hefur t.d. verið ástatt um Hvallátra og Keflavík“.

Jarðarfararsvipur (n, kk)  Sorgarsvipur; dapurt yfirbragð.  „Hvaða jarðarfararsvipur er á þér núna“?

Jarðargróði (n, kk)  Gróður; afurðir þess sem vex úr jörðu.  „Ekki skil ég í þeim bændum sem vilja fremur ryðja aðkeyptum fóðurbæti í skepnurnar en nýta þann jarðargróða sem vex við fjárhúsvegginn“!

Jarðarhundrað (n, hk)  Verðgildiseining á jarðeignum; verðeining í landaurareikningi; stytt í hundruð.  Eitt jarðarhundrað jafngilti 120 aurum silfurs og síðar 120 álnum vaðmáls.  Það jafngilti lengi einu kýrverði, en á 17. Öld var ákveðið að hvert jarðarhundrað skyldi nema tveimur kúgildum.  Meðaljörð lagði sig oft á um 20 hundruð, en þó minna á Austurlandi.  Hugsanlega hefur jarðhundrað í byrjun vísað til þess fjölda fjár sem fóðra mætti á jörð, en það á þó illa við á síðari tímum.  Láganúpsjörðin, með hjáleigunum Hólum og Grundum, hefur verið metin 18 hundruð frá því elstu heimildir greina; en Kollsvíkurjörðin 24 hundruð.  Breiðavík, Hvallátrar og Hænuvík voru metin 30 hundruð hver jörð.

Jarðarmen (n, hk)  Staður þar sem jarðvegsyfirborð hefur raskast; sár í gróðursvörð.  Oftast notað í orðtakinu að gangast undir jarðarmen (sjá þar).

Jarðarnot / Jarðarnytjar (n, kvk, fto)  Afnot af jörð.  „Hann hafði allar jarðarnytjar á grannjörðinni eftir að hún fór í eyði“.

Jarðarpartur (n, kk)  Hluti af jörð; landskiki.  „Hvallátrajörðin hefur nú skipst í fjölmarga jarðarparta“.

Jarðarverð (n, hk)  A.  Verðgildi jarðar.  B.  Há fjárhæð, óskilgreind.  „Bíllinn hlýtur að kosta jarðarverð“.

Jarðbönn (n, hk, fto)   Jarðlaust; jarðleysa.  „Veturinn verður að teljast í meðallagi harður og heyfrekur.  Á tímabili jarðbönn sakir áfreða og djúpfennis“  (SJTh; Árb.Barð 1955-56).  „Veturinn eftir að þetta gerðist var harður er leið á þorra.  Gerði þá jarðbönn og stórhríðar með frosti; svo taka varð hross á hús og hey“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Jarðeigandi (n, kk)  Sá sem á jörð.  Langt frameftir öldum var mikið af jörðum í Rauðasandshreppi í eigu höfðingja, t.d. Saurbæjarhöfðingja, og bændur því flestir ánauðugir landsetar.  Þjóðtrúin segir að borði maður smér við hangiketi verði maður aldrei landeigandi ( JÁ; Þjs), og má því velta því fyrir sér hvort viðbitið eigi sök á þessu eignarhaldi.

Jarðeign (n, kvk)  Eign í formi bújarðar; eignarhald á bújörð.  „Saurbæjarbændur áttu víða jarðeignir“.

Jarðeldur (n, kk)  Eldgos; eldvirkni.  „Allt er svæðið myndað af jarðeldi, líkt og Ísland allt“.

Jarðepli (n, hk)  Kartafla.  „ Fjelagið sá um að drengir innan 14 ára, sem í því voru, hafa komið sér upp garðholu og ræktað þar jarðepli og selt þau“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Jarðeplagarður (n, kk)  Kartöflugarður.  „Jarðeplagarð hefur það (Umf Von) átt í mörg ár“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Jarðfall (n, hk)  Lægð í landslagi þar sem yfirborðið hefur sigið, t.d. við samfall hellis eða vegna úrrennslis.  „Sumir hafa viljað meina að Grófarstekkur sé jarðfall, en aðrir að ísaldarjökullinn hafi skafið ofanaf helli“. 

Jarðfastur (l)  Fastur í yfirborði jarðar.  „Mikilli vinnu var varið til að grjóthreinsa gamla Kollsvíkurtúnið þegar það var sléttað.  En Biskupsþúfan var skilin eftir.  Olli því hvorttveggja að í henni er jarðfastur steinn, en ekki síður hin ævagamla arfsögn sem þúfunni fylgir“.

Jarðfræði (n, kvk)  Fræðigrein sem lýtur að þekkingu á myndun, eðli og sögu landsvæða og jarðefna.  Kollsvíkingar hafa löngum lagt stund á jarðfræði í einhverjum mæli, og þar hefur jafnan verið mikil umræða um myndun hinna ýmsu fyrirbæra sem þar má sjá.  Nýlegt dæmi þessa er kenning orðabókarhöfundar um myndunarferli frostgíga.

Jarðfrost (n, hk)  Frost í jörðu; jarðklaki.  „Það gengur ekkert að koma niður staurnum meðan enn er jarðfrost“.

Jarðgöng  „Í Kollsvík hefur gætt meiri framsýni í jarðgangagerð en dæmi eru um annarsstaðar á Íslandi, og þó víðar væri leitað, sé gengið út frá viðteknum sannindum munnmæla.  Voru a.m.k. þrjú misjafnlega löng og víð jarðgöng þar til komin löngu fyrir mennskt landnám.  Ein þeirra eru úr huldufólksborginni Stórhól á Hnífum, tiltölulega stuttan spöl fram í Sandhelli þar neðan við.  Önnur, mun verklegri, voru úr Tröllkarlshelli þar stutt frá, alla leið á bak við Kollsvíkina og norður í Tröllkonuhelli á Hænuvíkurhlíðum.  Þarf ekki að efa að þau voru títt notuð til ástarfunda; eða allt þar til tröllin gleymdu sér og döguðu uppi sem steindrangarnir Karl og Kerling í fjörunni innan Blakks.  Þriðju göngin eru úr Kattarholu utan Þyrsklingahryggs í Blakk; alla leið á Kattarholuveg í Keflavík, eða líkt og Víknafjall sem er sjö  roðskóa leið.  Þau göng eru líklega sínu þrengst, enda hefur ekki spurst af annarri umferð um þau en katta“ (VÖ; byggt m.a. á örnefnaskrám).

Jarðgryfja (n, kvk)  Víð hola eða gröf sem gafin er í jörðina.  „Afi gerði tilraun með að verka þara í jarðgryfjum á Láganúpi.  Það mun hafa tekist sæmilega, en vinna við það var erfið á þeim árum“.

Jarðhús / Jarðhýsi (n, hk)  Manngert rými, að mestu hulið jarðvegi.  „Á flestum bæjum voru jarðhýsi sem notuð voru sem kartöflugryfjur; sumsstaðar allvönduð hús“.

Jarðklaki (n, kk)  Klaki íjörðu; jarðfrost.  „Nú er ég hræddur um að jarðklakinn geti hlaupið niður í hlákunni, svo að frjósi í vatnslögninni“.   

Jarðlag (n, hk)  Lag í jarðvegsmyndun/bergmyndun lands.  „Þarna virðist vera eitthvað gljúpara jarðlag sem vatnið kemst um“.

Jarðlagastafli (n, kk)  Stafli jarðlaga.  „Þetta trjáríka hraunlag má rekja í jarðlagastaflanum sunnanfrá Vatnadalsbót norður í Blakk.  Víða eru holur eftir missvera boli og sumsstaðar eftir hríslur og börk“.

Jarðlaust (l)  Jarðbönn; jörð hulin klaka eða þykkum skara, þannig að fé nær hvorki að bíta né krafsa sér til beitar.  Það þýddi innistöðu og fulla gjöf sem gat endað í heyleysi.  „Það hefur haft dálitla krafsjörð til þessa, en nú má segja að sé orðið alveg jarðlaust“.  „Það var mál manna fyrr á tíð, að að aldrei yrði jarðlaust; þ.e. tæki fyrir beit, fyrir útigöngufé á Þyrsklingahrygg“  (HÖ; Fjaran). 

Jarðleysa (n, kvk)  Jarðbönn; það að ekki er beitarjörð fyrir saufé vegna áfrera/hjarns/fannfergis.  „Vetur þessi var, eins og menn muna, einn sá allra harðasti hvað jarðleysur áhrærir.  Á flestum bæjum var hrein innistaða í 4-5 mánuði.  Vildu mönnum til miklar og góðar heybirgðir“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Jarðlíf (n, hk)  Líf í þessum/áþreifanlegum heimi; lifanda líf.  „Ætli maður láti það ekki hjá líða í þessu jarðlífi að bægslast út í lönd í einhverri þarfleysu“.

Jarðlítið (l)  Lítið jarðnæði; þröngt til búskapar.  „Sellátranes er um margt góð bújörð, en fremur jarðlítil“.

Jarðneskar kvalir  Miklar kvalir; mjög sárir verkir.  „Hún sagði mér frá því sjálf hún Guðrún að það hefðu verið jarðneskar kvalir sem þær hefðu tekið út allan veturinn...“.   (Eftir snjóflóðið í Kollsvík 1857)  (ÓTG; Ágrip af æviferli).

Jarðnytjar (n, kvk, fto)  Nýting bújarðar.  „Hann hefur núna allar jarðnytjar af nágrannajörðinni“.

Jarðnæði (n, hk)  Jörð/land til búskapar.  „Það er af sem áður var, að hér í hreppi sé skortur á jarðnæði“.

Jarðraki (n, kk)  Raki sem vanalega er í jörð, þó yfirborðið sé þurrt.  „Galtarnir höfðu staðið lengi og jarðraki dregist upp í botn þeirra.  Það hey var því dálítið fruggað og þurfti góðan þurrk“.

Jarðríki (n, hk)  Jörð; jarðlíf; raunveruleikinn.  Upphaflega notað af trúuðum sem andlag við himnaríki.  „Ég held bara að ekki finnist annar eins hálfviti á jarðríki!  Að láta sér detta svona fjarstæða í hug“!

Jarðrask (n, hk)  Hreyfð/röskuð jörð; staður þar sem jarðvegur hefur rótast til.  „Allmikið jarðrask varð á þeim stöðum sem efni var tekið til ofaníburðar, og frágangur ekki alltaf með besta móti“.

Jarðrækt (n, kvk)  Ræktun nytjagróðurs; umbætur lands til ræktunar.  „Björn Halldórsson í Sauðlauksdal varð fyrstur Íslendinga til að hvetja til jarðræktar og kenna hana með ritum sínum“.

Jarðræktarverkefni (n, hk)  Verkefni um að rækta jörð/ gera tún il nytja.  Kollsvíkingar keytu traktor í samlagi árið 1945, og gerðu samning um notkun hans sem nefndist „Jarðræktarverkefni Kollsvíkinga“.

Jarðsími (n, kk)  Símalína sem lögð er í jörð.  „Jarðsími var lagður að Kollsvík, líklega eftir 1980.  Hann lá ofanaf Fimmhundraðahæð; niður Steilur og Húsadal.  Sífelld vandræði voru með þennan streng, þar sem eldingum sló ítrekað niður í hann.  Að lokum gáfust menn upp, og settu upp örbylgjusamband í hans stað“.

Jarðsnöp (n, hk, fto)  Snöp á jörð; lítilsháttar kropp fyrir sauðfé sem beitt er út að vetrarlagi. 

Jarðsögutími (n, kk)  Sjá tertíer.

Jarðvatn (n, hk)  Vatn í jörð; vatn sem rennur undir yfirborði.  „Jarðvatn safnaðist í holuna yfir nótt“.

Jarðvatnsborð (n, hk)  Hæð yfirborðs jarðvatns.  „Hér liggur jarðvatnsborðið fremur lágt“.

Jarðvöðull (n, kk)  Klunni/ruddi í verklagi; Sá sem böðlast áfram í verki en skemmir e.t.v. meira en ávinnst.  „Það þýðir ekkert að fara um langvíuhilluna eins og jarðvöðull; þú þarft að gá hvar þú stígur maður“! „   Henni þótti ég oft mikill sóði og jarðvöðull“  (IG; Æskuminningar).  Sumir vilja ekki hafa „ð“ í orðinu, og hafa það jarvöðull.  Það kann jafnvel að vera rökréttara; fyrri hlutinn sé þá jara, sem er fornt heiti á orrustu.  Orðið hafi því áður haft sömu merkingu og berserkur eða stríðskappi.  Aðrir telja að orðið megi rekja til hesta sem sífellt festa sig í mýrlendi, enda ekki jafn upplagðir fyrir það og kýrnar.

Jarðvöðulsháttur (n, kk)  Yfirgangur; ruddaskapur; sóðaskapur.  „Menn sáust lítt fyrir í jarðvöðulshættinum þegar framræsla og túnaræktun komst í algleyming með tilkomu stórvirkra véla.  Í atganginum týndust fjölmörg örnefni, álagablettir voru óvirtir og jafnvel tortímdust merkar fornminjar“.

Jarðýta (n, kvk)  Vinnuvél á beltum með öflugri dísilvél og tönn, einkum notuð til að ýta efni.  Jarðýtur gegndu lykilhlutverki í vegagerð og jarðrækt eftir miðja 20.öld.  „Áður en jarðýtur komu hingað í hreppinn var byrjað að leggja bílveg yfir Hænuvíkurháls.  Sést gerla fyrir hleðslu vegkantsins upp brekkuna í Kollsvík“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Jargansmikill (l)  Firnamikill; orkansmikill.  „Þar var jargansmikill steinn á miðjum veginum“.  Orðið var ekki mikið notað í Rauðasandshreppi í seinni tíð, en heyrðist þó.

Jarki (n, kk)  Handar- eða fótarjaðar, ytri.  „Óttalega ertu hjólbeinóttur; skórnir slitna mest á jörkunum“.

Jarl (n, kk)  Tignarmaður Noregskonungs fyrr á tímum; herforingi og fullvalda höfðingi sem hafði á hendi dómsvald og skattheimtu á sínu svæði.  Sá eini hérlendis sem naut þeirrar tignar var Gissur Þorvaldsson, en Hákon kóngur skipaði hann jarl árið 1258 yfir þeim héruðum sem hann taldi sig eiga tilkall til.  Vald hans var þó mest á Norður- og Suðurlandi.  Kollsvíkurætt er rakin m.a. til norskra jarla; t.d. Þrándar Haraldssonar, jarls í Þrándheimi og Naumudal, en forfaðir hans voru jarlarnir Brandur Hersisson og Hersir Möndulsson.

Jarma (s)  A  Um sauðkind; gefa frá sér jarm.  „Það þyrfti að athuga með þessa kind sem hefur verið jarmandi hér frammi á Mýrunum“.  B.  Líkingamál; nöldra; sífra.

Jarma sig saman (orðtak)  Um það þegar lamb og kindin móðir þess jarma og leita hvort annars með því að ganga á hljóðið.  Einig notað í líkingum um það þegar menn ná saman um málefni.

Jarmur (n, kk)  A.  Hljóð sem sauðkindur gefa frá sér.  Í seinni tíð hefur gætt tilhneygingar til að hafa orðið í hvorugkyni; jarm (jarmið með greini).  B.  Líkingamál um nöldur/raus í manneskju. 

Jarpur / Jarphærður / Jarpskeggjaður (l)  Með brúnleitt hár/skegg. 

Jarteikn (n, hk)  A.  Undursamlegt/yfirskilvitlegt atvik; kraftaverk.  Orðið var mikið notað í kaþólskri trú, en til að menn kæmust í raðir helgra manna þurfti að sanna að kraftaverk hefðu gerst fyrir þeirra tilverknað.  Deilt er um uppruna orðsins, en líklega er fyrri liðurinn jara, í merkingunni orrusta.  Orðið gæti þá í upphafi hafa merkt tákn sem menn þættust sjá, t.d. í skýjafari eða himintunglum, um velgengni í fyrirhugaðri orrustu.  Vegna vafa um uppruna hefur orðið verið haft á ýmsan hátt; t.d. jarðteikn; jartegn; jartein o.fl.  B.  Afleidd merking; ummerki; ábendingar.  „Ég get ekki séð nein jarteikn um að fylgi sé að aukast við þetta“.

Jarvöðull (n, kk)  Jarðvöðull (sjá þar); klunni; ruddi í verklagi.  Menn nota orðið ýmist með eða án „ð“, og rökstyðja má báðar orðmyndir.  Líklega er sú ð-lausa jafnvel rökréttari, þar sem vísað sé til þess sem hart gengur fram í orrustu (jöru) án tillits til afleiðinga; samnefni við berserkur eða stríðskappi.  „Skelfilegur jarvöðull geturðu nú verið“!

Jaska (s) Slíta óhóflega eða hratt.  „Óttalega ertu fljótur að jaska buxunum í sundur strákur“!

Jaskaður (l)  Volkinn; hrakinn; slitinn.  „Fjandi er maður nú jaskaður eftir þessa Stígsferð“.

Jaskast á (orðtak)  Þjösnast á; jaga.  „Hættu að jaskast svona á stólnum drengur; þú liðar hann í sundur“.

Jastra (s)  Hjastra; murka í sundur; mylja niður.  Kollsvíkingar notuðu einvörðungu orðmyndina hjastra (sjá þar), en þessi heyrðist hjá aðkomufólki.

Jata (n, kvk)  Stallur sem sauðfé étur sitt fóður af.  Í Kollsvík tíðkaðist að jafnaði ekki að jata væri nefnd garði, eins og víða annarsstaðar á landinu.  Garði í munni Kollsvíkinga merkir króin/stían sem féð er í.  Þó viðhöfðu þeir orðtakið að „gefa á garðann“ í merkingunni að gefa fénu í jötuna, en það er eina tilvísunin í því efni.  Talað var um að „sópa jötuna“; „laga jötuna“ o.fl.  Á vorin voru stundum settar upp útijötur, þar sem fé var fóðrað úti meðan það var haft inni á túnum.  „Er nú hrútfjandinn að smíða jötuna einusinni enn; og ég var nýbúinn að skipta um jötufjölina“!

Jaxl (n, kk) A.  Tönn aftarlega í gómi, aftanvið fram- og augntennur í mönnum.  „Hann brá snærinu í munn sér og tannaði það milli jaxlanna til að mýkja það“.  B.  Hörkutól; hetja; maður sem er harður af sér. 

Já og amen (orðtak)  Fullkomið samþykki.  „Ég er nú ekki tilbúinn að segja já og amen við þessari vitleysu, þó aðrir hafi gert það“!  „Og sagðir þú bara já og amen við þessu“?

Jákvæðni (n, kvk)  Jákvæður hugur; bjartsýni; vonarhugur.  „Mikið líkar mér betur að heyra svona jákvæðni í staðinn fyrir sífelldar úrtölur og vonleysi“.

Jákvæður (l)  A  Bjartsýnn; vongóður.  „Eigum við ekki bara að vera jákvæðir meðan ekkert kemur uppá“?  B  Samþykkjandi.  „Ég gat ekki betur heyrt en hann væri þessu jákvæður“.

Jákvæður gagnvart (orðtak)  Samþykkur; lítur góðum/réttum augum á.  „Ég er fremur jákvæður gagnvart þessum breytingum, eins og hugmyndin er sett fram“.

Jálkur (n, kk)  A.  Hestur sem notaður er til erfiðisvinnu; dráttarklár; lélegur reiðhestur.  Einnig húðarjálkur.   B.  Líkingamál um skilningslítinn mann, eða þann sem vinnur hugsunarlaust.  „Hvað var jálkurinn nú að gera“?

Jánka (s)  Játa; taka undir; samsinna.  „Hann spurði hvort féð væri komið heim og ég jánkaði því“.

Járn (n, hk)  A.  Málmur; efnatákni Fe.  B.  Lamir á hurð.  „Á fjárhúsunum voru sex hurðir; allar á járnum“.  C.  Þakjárn; bárujárn; sléttjárn; steypustyrktarjárn.  „Hjallurinn var klæddur járni á þaki og ofantil á hliðum“. D.  Krókur/öngull á skakfæri.  „Ég útbjó slóðana flesta með fimm járnum, en suma þó með sex“.  „Á tímabili komst slóðinn varla fyrir borðið áður en fiskur stóð á hverju járni“.  E.  Járnkarl.  „Þessi steinn verður ekki hreyfður nema með góðu járni“  F.  Handjárn.  Sbr að „leggja einhvern í járn“.  G.  Vopn; sverð.  „Hann bitu engin járn“.  „Nú standa á honum öll járn“.  H.  Skeifur á hestum; mannbroddar á fólki.

Járn standa á (einhverjum) (orðtak)  Sjá öll járn standa á (einhverjum).

Járna (s)  A. Járna hest; setja skeifur undir hest.  Þjóðtrúin segir að ekki megi járna hest á sunnudegi; þá heltist hann. ( JÁ; Þjs).   B.  Járna hurð; setja hurð á lamir; lama hurð.  C.  Koma ífæru í lúðu, hákarl eða hval.  „Hvalinn hafði Benedikt Gabríel skutlað, en misst áður en tókst að járna hann“.  D.  Járna þak; koma þakjárni á hús.

Járna rimbu (orðtak)  Leikur sem stundaður var fyrr á tíð.  Ekki skal sagt hve mikið han var stundaður í Kollsvík, en heitið var þar a.m.k. þekkt.  Ólafur Davíðsson lýsir leiknum svona:  „Hér er lýsing á gömlum leik, sem mörgum þótti erfiður og þurfti talsverða æfingu til þess að geta leikið hann. Reipi er strengt á milli tveggja stólpa og á að vera dálítið bil undir það.  Rimbujárnarinn tekur prik í hönd sér, sezt á reipið langsetis og krossleggur fæturna upp að því. Fyrst hefur hann prikið í hægri hendi, slær því upp í vinstri ilina og segir um leið: „Geng ég í haga." Því næst slær hann annað högg og segir: „Tek ég meri mína." Við þriðja höggið segir hann: „Teymi ég hana í hlaðið" en „tálga ég hófinn" við fjórða höggið. Síðan segir hann: „Rek ég einn nagla," o. s. frv. upp að tuttugu og fjórum og slær eitt högg við hvern nagla. Ekki er allt búið enn. Rimbujárnarinn heldur áfram og segir: „Legg ég á hnakkinn," og um leið tekur hann prikið úr hægri hendi með hinni vinstri og yfir reipið og hné sér. Að því búnu bregður hann prikinu undir reipið, grípur það aftur með hægri hendi og segir um leið: „Spenni ég gjörðina." Seinast segir hann: „Spenni ég reiðann," og bregður jafnframt prikinu aftur fyrir sig með hægri hendinni og grípur það með þeirri vinstri. Ef þetta gengur allt slysalaust, þá hefur hann unnið þrautina, en velti hann út af reipinu, ofan á gólf, áður en hann hefur spennt reiðann, þá er rimbutruntan ójárnuð eftir sem áður. Þess verður að geta, að rimbujárnarinn má stinga prikinu í gólfið sér til stuðnings svo oft sem hann vill, en aldrei má hann taka fæturna af reipinu, og því síður rétta úr þeim. Fleiri frásagnir eru af þessum leik, og er hann á sumum stöðum kallaður að járna pertu í staðinn fyrir rimbu“.  Svo er að sjá að þetta hafi verið innileikur barna, líklega stundaður þar sem setið var að tóvinnu.

Járnaður (l)  Um hval; skutlaður; búið að koma í hann skutuljárni.  „Einar í Kollsvík lét skera hval sem járnaður hafði verið af galdramanninum Benedikt Gabríel“.  B.  Um hest; með skeifur undir hófum.

Járnahaugur / Járnahrúga (n, kk/kvk)  Haugur/hrúga af járni; ónýtt/lélegt tæki úr járni.  „Þarna hafði verið grafið yfir einhvern járnahaug“.  „Mér sýndist þetta fremur vera járnahrúga en bíll; þetta kemst ekki langt“!

Járnbali (n, kk)  Bali úr járni.  „Á vorin rerum við á járnbala í sandinum í Stóragilinu“  (IG; Æskuminningar). 

Járnbentur (l)  Styrktur/girtur með járni.  „Kistan var sterk og járnbent“.  „Veggir eru úr járnbentri steinsteypu“.

Járnbrá / Járnbrák (n, kvk)  Járnlá; brák/himna á vatnsyfirborði, sem speglast í öllum regnbogans litum með ljósbroti; myndast gjarnan þar sem vatnið hefur runnið um járnrík lög neðanjarðar.  Meðan rauðablástur var stundaður var járnbrák talin merki um það hvar mýrarauða væri að finna, sem e.t.v. mætti vinna.  Sjá rauðablástur.  Víða er mýrarrauða að finna í Kollsvík, og víða bregður járnbrá á vatní keldum og lækjum.

Járndrag (n, hk)  Flatjárn, vanalega dúpt öðrumegin, sem haft er undir kili báts sem slitkjölur; til að auka styrk og minnka slit þegar bátur er settur.  Einnig notað um blikkrenning (girði) undir sleðameiða í sama tilgangi.

Járndreki (n, kk)  Dreki/akkeri úr járni.  „Við höfðum meðferðis fjórflauga járndreka fyrir akkeri“.

Járnfat (n, hk) A.   Flatt járn sem haft er utanum hlut til að halda að honum og/eða til að unnt sé festa í hann.  Járnfat var þannig tíðum haft utanum steina sem notaðir voru fyrir akkeri; stjórasteina.  B.  Fat/bali/ ílát úr járni.  „Bleyjurnar voru þvegnar upp úr emaleruðu járnfati“.

Járnfata (n, kvk)  Fata úr járni.  Það var mikil framför þegar álfötur leystu járnföturnar af sem mjaltaílát“.

Járngerð (n, kvk)  Rauðablástur (sjá þar).

Járngerðarmaður (n, kk)  Sá sem bræðir járn úr jarðefnum, s.s. mýrarrauða.  Einar Jónsson í Kollsvík mun síðastur Íslendinga hafa stundað hina fornu iðn; rauðablástur.

Járnharður (l)  Harðákveðinn; glerharður.  „Hann var járnharður á því að þetta væri engin missýning“.

Járnharka (n, kvk)  Mjög mikil harka.  Einkum notað í samskiptum manna.  „Þótti sumum hann koma fram af járnhörku gagnvart hinum varnarlausu leiguliðum“.

Járnhjólbörur (n, kvk, fto)  Hjólbörur úr járni.  „Fyrstu járnhjólböruranar voru e.t.v. ekki mikið léttari en tréhjólbörurnar sem þær leystu af hólmi; en mun liprari í notkun“.

Járnkarl (n, kk)  Verkfæri úr hertu járni; sver stöng sem notuð er t.d. til að losa um þétt jarðefni með pjökkun eða sem vogastöng til að hreyfa mjög þunga hluti.

Járnlá (n, kvk)  Járnbrá; slikja á járnríku vatni.  „Mikil járnlá var á vatni í neðsta skurðinum“.

Járnmél (n, hk, fto)  Hluti beislisbúnaðar hests; mél/spangir úr járni, sem höfð eru í munni hestsins.

Járnsíða (n, kvk)  Lögbók sem gilti á Íslandi 1271-81, en hún var lögleidd í framhaldi af Gamla sáttmála, þegar landsmenn gengust Noregskóngi á hönd.  Að mestu er hún samin uppúr Guðlaþingslögunum norsku og mun Sturla Þórðarson sagnaritari hafa komið að ritun hennar.  Nafnið er komið af því að bókin var bundin í járnspjöld.  Járnsíða fékk fremur slæmar viðtökur hérlendis.  Jónsbók kom í hennar stað og líkaði betur.   

Járnsleginn (l)  Járnbentur; með járngjörðum/járnhlífum.  „Þar inni var járnslegin kista; mjög fornfáleg“.

Járnsmiður (n, kk)  A.  Maður sem smíðar úr járni.  B.  Nebria rufescens; svört bjöllutegund, sem algeng er bæði í húsum og haglendi; stærsta bjalla sem finnst í Kollsvík og nágrenni. 

Járntolla (n, kvk)  Stautur uppúr borðstokk báts sem á er húkkað auga á árinni, þegar bátnum er róið. (Lint l)

Járnútfelling (n, kvk)  Járn sem skilast hefur út úr bræðingi, t.d. bráðnu bergi.  „Einnig sést vel í þennan berggang (Strengbergsgjár) í fjörunni sunnan við Bekkinn, og eru í honum sérkennilegar járnútfellingar“  (HÖ; Fjaran). 

Járnvilji (n, kk)  Mikil einbeiting/einþykkni í að ná settu marki.  „Það þarf járnvilja til að ná svona langt“.

Járnþak (n, hk)  Þak lagt bárujárni en ekki hellum eða álplötum.  „Nokkrar seinni búðirnar voru með járnþaki og torfi, en þær þóttu verri; járnið var miklu kaldara en helluþökin“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Járnþollur (n, kk)  Hæll úr járni.  „Þegar ég fór í fyrsta skipti á Gorgánshilluna fann ég í brekkubrúninni ofan hennar járnhæl.  Síðar kom í ljós að hann var frá þeim tíma að Kristján Júlíus Kristjánsson stundaði það að fara á hilluna eftir eggjum.  Hann fór einsamall; setti fast á þollinn og fór í lás niður“ (VÖ).

Játa (s)  Viðurkenna; meðganga.  „Ég verð að játa það að þetta er einn sá besti harðfiskur sem ég hef fengið“.

Játast undir (eitthvað) (orðtak)  Samþykkja eitthvað; skuldbinda sig til.  „Íslendingar játuðust undir Noregskóng árið 1362“.

Jeminn / Jeminneini / Jeminneinisanni (u)  Upphrópanir/jesúsanir sem algengar voru í munni viðkvæmra og hneykslunargjarnra, einkum kvenna.  „Jeminneini; varstu að slasa þig“?

Jesúhróp (n, hk, fto)  Ákall frelsarans/Jesú; jesúsa sig.  „Íbúarnir hlupu út með jesúhrópum þegar kviknaði í“.

Jesúsa sig (orðtak)  Viðhafa guðsorð í geðshræringu; ákalla Jesú; „Það gagnar lítið að jesúsa sig eftirá“!

Joðóform  (n, hk)  CHJ3; gulleitt kristallað efni, notað til sótthreinsunar.  „Ef menn skáru sig var sett joðóform í sárið og vafið um hreinu léreftstykki“.  „Joð var víðast til og var til að sótthreinsa sár, en mest man ég eftir jöðóformi, sem var duft með sterkri lykt, og ég skil ekki af hverju er hætt að nota það; jafn sótthreinsandi og það er“  (SG; Læknisráð; Þjhd.Þjms).

Joðríkur (l)  Með mikið joðinnihald.  „Það var gamalt húsráð í Kollsvík að setja nýjan þara undir kýrnar, í básinn, ef þær voru með báshellu eða höfðu stigið sig.  Síðar kom í ljós að þetta á við þau rök að styðjast að þarinn er mjög joðríkur, en joð er græðandi“.

Jollast (s)  Rölta; þvælast.  „Varstu nú að jollast úti í bleytunni á gúmmískóm drengur?  Þú er rennbautur í fæturna“!  Framborið lint.

Jollur (n, kvk, fto)  Gæluheiti á stígvélum.  Einnig stígvélajollur.  Einstaka sinnum um húfu, sjá húfujolla.  „Hvar fór ég nú úr jollunum mínum“?

Jóðla á/yfir (eitthvað) (orðtak)  Bera einhverskonar áburð/olíu/málningu á eitthvað í ríkulegum mæli; klína/gusa/hnoða á með höndum eða pensli.  „Ég jóðlaði olíu á þann hluta stólpans sem fór í jörð“.  Uppruni orðins hefur vafist fyrir mönnum, en er e.t.v. sá sami og í orðtakinu „jóðla á (einhverju)“.

Jóðla á (einhverju) (orðtak)  Japla á einhverju; tyggja eitthvað.  „Honum fannst harðfiskurinn mjög góður en sagði erfitt að jóðla á honum, svona tannlaus eins og hann væri orðinn“.  E.t.v. hljóðbreyting úr „jórtra“.

Jóðsótt (n, kvk)  Fæðing; hríðir; barnsnauð.

Jólaávextir (n, kk, fto)  Ávextir sem neytt er um jólaleytið.  „Mikið var lagt uppúr því að fá jólaávexti fyrir jólin.  Verslun Sláturfélagsins Örlygs á Gjögrum fékk vanalega epli og appelsínur fyrir jól, þó ekki væri slíkt fáanlegt endranær á fyrri tíð.  Magnið var vanalega áætlað fyrirfram, og gert ráð fyrir hálfum og heilum kassa af hvoru á heimili til jafnaðar.  Um aðra ávexti var ekki að ræða“.

Jólabað (n, hk)  Þvottur fólks fyrir jól.  „Þvottar og böðun var með öðru og erfiðara móti áður en vatn var lagt í hús og baðker og sturtur urðu staðalbúnaður heimila.  Hreinlæti var þó vel sinnt af flestum.  Menn þvoðu skrokkinn reglulega með þvottapoka uppúr vaskafati eða bala.  Undantekningarlaust var farið í jólabað rétt fyrir jólin, og síðan fundin til bestu fötin“.

Jólaboð (n, hk)  Boð einnar fjölskyldu til annarrar um heimsókn um jólaleytið.  „Jólaboð voru einatt milli bæjanna í Kollsvíkinni og einnig nágrannabæja og skyldmenna“.  „Annan í jólum var oftast farið í jólaboð til nágrannanna“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). 

Jóladagur (n, kk)  25.desember.  „Á jólanóttina var alltaf látið lifa ljós, og það þótti manni nú aldeilis gaman.  Þegar jóladagur rann upp, las pabbi okkur húslesturinn snemma morguns.  Að því loknu fórum við krakkarnir út á sleða, ef þannig viðraði.  Seinnipart dags fór svo fólk að drífa að, vegna þess að jólatréð var núna á okkar heimili, og klukkan sex til sjö var kveikt á trénu“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Jólaepli (n, hk)  Epli sem eru á boðstólum á jólum.  „Til skamms tíma voru ávextir ófáanlegir nema rétt fyrir jól; a.m.k. í sveitum Rauðasandshrepps.  Fyrst þegar ég man eftir þurfti hver bær að panta heilan eða hálfan kassa hjá kaupfélaginu nokkru fyrir jól, og þurfti það að duga uppá hátíðina alla.  Einungis voru í boði epli og appelsínur í fyrstu, en þegar leið á 7. áratuginn fóru að koma mandarínur og síðar fleiri tegundir“ (VÖ).

Jólafasta (n, kvk)  Aðventa, tími sem byrjar fjórum helgum fyrir jól og lýkur á jólum.  Í kaþólskum sið var fastað á kjötneyslu á jólaföstu.  Fastan var fyrrum mikill annatími; ekki síst þar sem áhersla var lögð á að ljúka við þá tóvinnu sem fór til innleggs, auk þess að undirbúa hátíðina fyrir heimilisfólk.

Jólaferð (n, kvk)  Af bæjum í Rauðasandshreppi var farin ein jólaferð, sem svo var kölluð, til Patreksfjarðar.  Í þeirri ferð var reynt að kaupa inn allt sem taldist þurfa upp á jólahaldið; t.d. matvöru til viðbótar þess sem til var; fatnað; lítilsháttar skreytingar, t.d. grenigrein; gos; jólagjafir og einhverja flugelda uppá áramótin“.

Jólafrí (n, hk)  Frí frá vinnu/skóla yfir jólahátíðina og oft dagana fyrir og eftir.  „Síðan gerðist ekkert sögulegt fram að jólafríi“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Jólagjöf (n, kvk)  Gjöf sem gefin er á jólum.  „Þótt ekki tíðkuðust jólagjafir í mínu ungdæmi, var það svo margt sem gladdi á jólunum.  Öll fengum við kerti og spil, sem var okkar sameign“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).

Jólagrautur (n, kk)  Grautur sem snæddur er á jólum.  „Jólagrautur var alltaf eldaður, áður en ís leysti hann af hólmi eftir að rafmagn kom í hús.  Oft var það hnausþykkur ávaxtagrautur sem eldaður var á aðfangadag og borinn fram kaldur með rjóma í hádeginu á jóladag.  Til var þó að eldaður var þykkur hrísgrjónagrautur og sett í hann mandla, að erlendum sið.  Eitthvað smáræði var svo í möndlugjöf fyrir finnandann“ (VÖ). 

Jólahald (n, hk)  Sá siður að halda jólin hátíðleg 24. og 25.desember ár hvert.  „Jólahald var fábreytt framan af.  Torfi móðurbróðir minn hafði fyrstur manna jólatré hér, það hefur líklega verið árið 1903 (síðustu jólin áður en hann fórst).  Hann smíðaði jólatré og klæddi greinarnar með eini... Fyrir jólin voru bakaðar lummur, laufabrauð, kleinur og stór kaka.  Spariskór, jólaskór, voru úr svörtu skinni; bryddir með hvítu eltiskinni og rósaleppar í þeim. ... Hangikjöt var alltaf soðið fyrir hátíðirnar.... Fyrir jólin voru steypt tólgarkerti, jólakertin, og lifði alltaf ljós á jólanóttina.  Á eftir aðfangadagshugvekju var alltaf sungið „Aðfangadagur dauða míns; Drottinn kemur þá að...“.  Á jóladag, á undan jólaguðspjallinu var sungið „Í dag eitt blessað barnið er; borið og fætt í heiminn...“.  Á jóladagsmorguninn var lesið snemma (húslesturinn); við krakkarnir vorum þá oftast í rúminu....  Aldrei var spilað á aðfangadag jóla, en á jóladag sátu allir við spil og var mest spilað púkk.  Mamma og Torfi bóðir hennar gátu teflt allan jóladaginn “  (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964). 

Jólahelgi (n, kvk)  Sérstök andakt eða stemning sem menn finna til um jól.  „Líklega er hin eiginlega hjólahelgi frekar á undanhaldi í nútímasamfélagi; í það minnsta er orðin mikil breyting á henni frá því sem var í hinu kyrrláta sveitasamfélagi.  Í mínu ungdæmi var þessi þróun e.t.v. hafin, þar sem ekki var lengur siður að lesinn væri húslestur/jólaguðspjall heimafyrir á aðfangadagskvöld.  Hinsvegar var lögð á það rík áhersla að allir heimilismenn sætu prúðbúnir og hljóðir og hlýddu á jólamessu í útvarpi.  Töluvert átak var að halda uppi þeim aga þegar spenningur var í krökkum yfir óopnuðum jólapökkum, en þó var þessi siður virtur og mikill hátíðleikablær var yfir þeirri andakt.  Einungis húsmóðirin var á ferli í undirbúningi jólamatar.  Eftir messu voru jólin komin; allir óskuðu gleðilegra jóla með kossi og sest var að veglegum jólamat.  Að honum loknum máttu yngstu börnin opna einn jólapakka en aðrar jólagjafir voru ekki opnaðar fyrr en eftir gegningar“ (VÖ).

Jólahreingerning (n, kvk)  Gagnger þrif húsa fyrir jól.  „Nokkrum dögum fyrir jól fór fram hin árlega jólahreingerning.  Þá var húsið allt þrifið í hólf og gólf.  Mest hvíldi sú vinna á mömmu“.

Jólakaffi (n, hk)  Kaffisamsæti á jólum.  „Fjölskyldur bræðranna í Kollsvík og á Láganúpi buðu á víxl í jólakaffi á jóladag“.

Jólakaupstaðarferð (n, kvk)  Ferð sveitafólks til jólainnkaupa í kaupstað.  „Algengt var, ekki síst að vetrarlagi, að menn báru þungar klyfjar á eigin herðumyfir Hænuvíkurháls.  T.d. þegar komið var úr jólakaupstaðarferð, en jafnan var farið í kaupstað fyrir jólin og þá keyptur ýmis varningur til hátíðarhaldsins“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Jólakerti / Jólaljós (n, hk)  Kerti/ljós sem logar á jólum/jólanótt.  „Fyrir jólin voru steypt tólgarkerti; jólakertin, og lifði alltaf ljós á jólanóttina“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Jólalegt (l)  Líkt því sem er á jólum.  „Hér er að verða jólalegt“.  „Þú ert ekki mjög jólalegur í þessum lörfum“.

Jólamánuður (n, kk)  Desember.  „Í jólamánuðinum var ótalmargt sem þurfti að gera, svo allt yrði tilbúið þegar hátíðin gengi í garð“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Jólamessa (n, kvk)  Messa á aðfangadagskvöldi.  „Allir sátu hljóði og hlýddu á jálamessuna“.

Jólanótt (n, kvk)  Nóttin fyrir jóladag.  „Á jólanóttina var alltaf látið lifa ljós, og það þótti manni nú aldeilis gaman“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).  Sjá  jólakerti.

Jólapoki (n, kk)  Kramarhús sem sælgæti er sett í.  Oft hengt upp á jólatréð og börnum síðan gefið í jólatrésskemmtuninni.  „Ákveða varð hvað ætti að kaupa til að láta í jólapokana, og hverjir ættu að búa þá til.  Stundum var ekki til efni í pokana.  Þá voru teknar kápurnar utanaf stílabókunum okkar, sem voru allavega litar, og notaðar sem efni í jólapokana....  Nú var runnin upp sú stund sem allir höfðu beðið eftir; bæði ungir og gamlir.  Fyrst var gengið í kringum jólatréð og jólasálmar sungnir, og allir fengu jólapoka“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Jólaskraut (n, hk)  Skraut/glingur til að prýða heimili og jólatré á jólum.  „Mest af jólaskrautinu var heimatilbúið í mínu ungdæmi; hafði töfrast fram úr meistarahöndum mömmu.  Hún tók fatninguna af ónýtum ljósaperum; málaði lmyndir og listaverk á þær; festi á þær þráð og hengdi á jólatréð.  Hún teiknaði, málaði og sagaði út jólasveina og annað úr krossviði.  Hún gerði ævintýraland úr kallíttplötum, pappír, karamellubréfum, pípuhreinsurum, lérefti og fleiru; kirkju, bæ og landslag, ásamt prúðbúnu smáfólki.  Þetta var svo lýst upp með perum.  Óróar voru hengdir í loft, ásamt músastigum o.fl.  Er þó minnstur hlutinn talinn af hennar listaverkum sem tengdust jólum“ (VÖ).

Jólatré (n, hk)  Tré sem sett er upp skreytt í stofu um jólin.  Heitið var einnig haft um jólatrésskemmtun, þ.e. skemmtun þar sem jólatré var uppivið (sjá tilvitnun í ÖG).  „Jólahald var fábreytt framan af.  Torfi móðurbróðir minn hafði fyrstur manna jólatré hér, það hefur líklega verið árið 1903 (síðustu jólin áður en hann fórst).  Hann smíðaði jólatré og klæddi greinarnar með eini... “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 
„Jólatré í Kollsvík voru með því móti sem amma lýsir, langt fram eftir 20. öld.  Á Láganúpi er enn til jólatréð sem notað var í mínu ungdæmi.  Stofn þess er ca 120 cm hár og 40mm sver, sívöl trjáspíra; hún er greypt niður í flatan, kassalaga kubb og inn í þennan stofn eru felldar mislangar, grennri spýtur; sívalar en gerðar flatar í endann, þar sem á var fest kertaklemma.  Lengstu spýturnar, eða „greinarnar“ voru neðst, ca 40 cm langar, en þær stystu efst, ca 7cm langar.  Ofan í enda stofnsins var rekinn nagli sem toppur trésins sat á; oftast silfurlituð stjarna.  Tréð var í fyrstu ólitað en síðar málaði móðir mín það grænt.  Lengi vel var tréð skreytt með einilyngi; sortulyngi og krækiberjalyngi  sem sótt var út í Vatnadal.  Man ég eftir ferð sem ég fór með pabba fram í Vatnadalsbotn; í miklum snjó og frosti, daginn fyrir þorláksmessu.  Mokað var ofanaf einilyngi og það dregið heim í poka á litla sleðanum mínum.  Mamma festi síðan lyngið á tréð með svörtum tvinna.  Hún bjó sjálf til skrautið að mestu; málaði meistaraleg málverk á ljósaperur sem skrúfgangurinn hafði verið tekinn af, og festi þær á tréð með tvinna.  Við bræður fléttuðum bréfkörfur eftir hennar forskrift og settum í þær heimagert konfekt, karamellur og brjóstsykur.  Yfir tréð var sett englahár eftir að það fékkst, og fóturinn þakinn bómull.  Ekki voru til jólaseríur eða rafmagn á þær þegar ég fyrst man eftir, en þess í stað var litlum jólakertum komið fyrir á greinaendunum í séstökum klemmum.  Gæta þurfti sérstakrar varúðar við þau og ekki var kveikt á þeim nema fólk væri nærri.  Einusinni man ég eftir að kviknaði í skrauþurru lynginu, en menn voru handfljótir að slökkva.  Síðar var farið að festa greni á tréð í stað lyngs, en mér fannst það tilkomuminna.  Löngu síðar kom gervijólatré og seríur“ (VÖ). 
„Eitt af því sem þurfti að gera í sambandi við undirbúning jólatrésskemmtunarinnar, var að fara fram í Vatnadal og ná í lyng til að nota á tréð; varð alltaf einilyng fyrir valinu.  Tréð, sem var gertúr spýtu, var svo hulið með lynginu.  Allavega kúlur voru líka settar á tréð, svo sem nú er gert, og efst á því trónaði svo toppur.  Síðan voru sett lítil kerti á það, í þar til gerðum klemmum.  Tilbúið tréð var svo geymt þar til kom að jólum“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 
Á annarsdagskvöld var haft jólatré fyrir alla krakka í Víkinni.  Var það heimagert og bundið á það einir sem sóttur var fram í Vatnadal.  Gengið var kring um jólatréð og sungnir sálmar og ýmsir söngvar.  Einnig var farið í leiki, svo sem að segja Spánarkonung dauðan o.fl. þess háttar“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku).  
„Hann pabbi smíðaði jólatré sem notað var á hverju ári í Ungmennafélagshúsinu og vafið með lyngi og eini.  Þetta tré hefur tæpast átt sinn líka á landinu; svo hugvitssamlega sem það var hannað, og hægt að taka það sundur til geymslu“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Jólatrésskemmtun / Jólaskemmtun (n, kvk)  Jólaskemmtun við jólatré.  „Einhver mesta tilhlökkunin var að undirbúa jólatrésskemmtunina, sem Ungmennafélagið Vestri sá um fyrir börn úr Kollsvíkinni“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).  „Jólaskemmtun og jólatrje fyrir börn í Kollsvík hefir fjelagið (Vestri) á hverjum jólum.  Einnig hafði það kortakassa á jólunum um eitt skeið“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Jólatungl (n, hk)  Sá tunglmánuður sem stendur yfir þrettándann.  Í gamla tímatalinu var ýmislegt miðað við jólatunglið; bæði fyrir og eftir það.

Jólaundirbúningur (n, kk)  Tilstand fyrir jólin.  „Enn hef ég ekki minnst á það hver bar hitann og þungann af öllu umstanginu og vinnunni sem þessum jólaundirbúningi fylgdi“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Jólavindill (n, kk)  Vindill sem reyktur er á jólum/ keyptur er uppá jólin.  Meðan mest var um reykingamenn, um og eftir miðbik 20. aldar, var algengt að á hvert heimili væru keyptir jólavindlar, til að fá þá sérstöku lykt í húsin og geta boðið gestum.  Vinsælasta tegundin var líklega Bjarni frá Vogi, en einnig London docks o.fl.  Á sumum bæjum áttu menn vín til að bjóða gestum staup, en það var ekki til siðs á Kollsvíkurbæjum.

Jómfrú (n, kvk)  A.  Hrein/óspjölluð mey; skírlífur kvenmaður; ungfrú.  „Heyrðu hérna lagsi, lýst þér ekki á mig?/  Lagleg er ég, sérstaklega í myrkri./  Ég fylgi þér í rúmið, þá fer svo vel um þig,/ og faðma þig með jómfrúrhendi styrkri“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).  B.  Hluti reiðabúnaðar; kósi úr horni eða járni; kringla til að strekkja höfuðbendu á siglu báts með undirgjörð niður í togklampa á borðstokknum.  Neðri endi höfuðbendunnar, stagsins á siglunni, var þá bundinn utanum jómfrúna, en  undirgjörðin, bandspotti upp frá togklampanum, var þræddur í gegnum hana og með henni var höfuðbendan strekkt.

Jónsbók (n, kvk)  Lögbók Íslendinga sem tók við af Járnsíðu árið 1281 og gilti lítt breytt fram á síðari hluta 17. Aldar, þegar einveldi komst á.  Jónsbók er kennd við Jón Einarsson sem vann að henni á vegum Magnúsar lagabætis, Noregskonungs.  Jón kom með bókina til Íslands árið 1280 og fylgdi honum konungserindreki; Loðinn leppur.  Nokkrar deilur urðu um bókina í upphafi en á endanum var hún mestöll lögtekin.  Enn munu einhver ákvæði Jónsbókar vera í gildi; einkum þau sem lítt reynir á í nútímasamfélagi.

Jónsmessa (n, kvk)  Tveir merkisdagar voru með þessu nafni á kaþólskri tíð.  Annar var Jónsmessa á vori eða Jónsmessa Hólabiskups, 23. apríl; andlátsdagur Jóns biskups Ögmundssonar árið 1121.  Hinn var Jónsmessa að sumri, 24. júní; fæðingardagur Jóhannesar skírara.  Þó helgi þess dags hafi verið afnumin 1770 er hann nú hin eiginlega Jónsmessa sem um er rætt; hin hefur fallið meira í gleymsku.  Jónsmessunótt er aðfaranótt þess dags, en þá átti það að vera allra meina bót að velta sér uppúr morgundögginni.

Jórtur (n, hk)  A.  Þeir lífshættir jórturdýra (t.d. sauðfjár og nautgripa) að tyggja fæðuna í annað sinn eftir að hún hefur farið um hluta meltingarfæranna.  „Ekkert heyrðist í kvöldkyrrðinni nema jórtur kindanna og gelt stelksins í fjarska“.  B.  Hálfmelt fæða sem jórturdýr æla upp í munn sér til að tyggja betur. 

Jórturgúmmí / Jórturleður (n, hk)  Tyggigúmmí; tyggjó.  Gömul heiti á tyggjói sem lengi voru notuð, og þá oft í lítilsvirðandi merkingu.

Jórturtugga (n, kvk)  A.  Jórtur; hálfmelt fæða sem jórturdýr ælir upp í munn sér til að tyggja betur.  B.  Afleidd merking; endurtekin vitleysa.  „Byrjar hann enn á þessari gömlu jorturtuggu“!  C.  Annað heiti á tyggjói.

Juð (n, hk)  Tuð; jag; stagl.  „Vertu nú ekki að þessu eilífa juði“!

Juða (s)  Endurtaka í sífellu; tuða.  „Hann hélt áfram að juða um þetta þangað til mér fór að leiðast þófið“.  B.  Nudda; núa; jaga.  „Vertu nú ekki að juða stólnum svona fram og tilbaka“!

Jugga (einhverju) / Jugga til (s/orðtak)  Rórilla; róa/ýta einhverju fram og til baka.  „Bíllinn var þó ekki fastari en svo að með því að jugga honum fram og aftur tókst mér að losa hann úr festunni“.  Samstofna enska orðinu „joggle“.

Jukk (n, hk)  Hræringur; þykkni; sulta; hlaup.  „Það er ekki gott að segja hvað er í þessu ameríska jukki“.

Jull / Julla (n,hk/ kvk)  Mjög lítill bátur; bátshorn; skekta.  Ýmist haft í hvorugkyni eða kvenkyni.  „Hilmar smíðaði sér jullu úr krossviði, og var hún höfð á Stóravatninu um tíma“.

Jullár (n, kvk)  Stutt ár sem höfð er á jullu.  Orðið var oftast notað á þennan hátt, en ekki með u; „julluár“.

Júbílera (s)  Fagna; halda uppá.  Þessi dönskusletta var lítið notuð í Rauðasandshreppi, en heyrðist þó.

Júdasarkoss (n, kk)  A.  Koss sá er Júdas kyssti Jesú í Getsemanegarði, að sögn Biblíunnar, en hann hafði þá þegar svikið hann í hendur Rómverja fyrir 30 silfurpeninga.  B.  Líkingamál um koss sem ekki þykir lýsa sannri væntumþykju eða einlægni.  „Þetta er nú Júdasarkoss elskan mín; ég veit hvert þú ert að fara“.  (Frásögn í „Niðjatali Halldóru og Ólafs í Krók“, samantekið af Ásbirni E. Torfasyni 1993; um samskipti Ólafs Ólafssonar á Stökkum og Guðbjargar Guðmundsdóttur konu hans.  Ólafur hélt framhjá henni með a.m.k. tveimur konum og var það tilefni þessara orða.  Önnur þeirra var Guðbjörg Guðmundsdóttir, móðir Ólafs þess sem giftist Halldóru frá Grundum og „Króksfólk“ er komið frá).

Júfferta (n, kvk)  A.  Trjábolur; sver viðarplanki; burðarviður.  „Þar hafði rekið feiknamikil júfferta“  B.  Líkingamál um fyrirferðarmikla/gustmikla konu.  „Ég legg ekkert í að munnhöggvast við þá júffertu“!

Júgur / Júfur (n, hk)  Líffæri spendýra sem samsvarar brjóstum konu, þar sem mjólk verður til.  Framburðarmyndin „júfur“ er mjög forn, en var notuð af sumum í Rauðasandshreppi frameftir 20.öld.  „Þannig bað mörg huldukonan um mjólk handa barni sínu og kýrin húsmóðurinnar var mjólkuð frákonumegin; þ.e.a.s. vinstra júfur kýrinnar“  (Ívar Ívarsson Kirkjuhvammi; Hvatt bæði; grein í Lesbók Tímans 1964).

Júgurbólguslyndra (n, kvk)  Þykkildi/buska í mjólk sem kemur úr júgurbólgusmituðu júgri. 

Júgurbólgustand / Júgurbólguvesen (n, hk)  Þrálát júgurbólga í kúm.  Júgurbólga í kúm varð nokkuð vandamál á síðari árum kúabúskapar á Láganúpi, eins og víðar. 

Júgursíð (l)  Um kýr; síðjúgra.  „Dimma var svo júgursíð að hún þurfti júgurhaldara svo hún stigi sig ekki“.

Júgursmyrsl (n, hk)  Áburður/salvi sem borinn var á spena áður en handmjólkað var.  Samanstóð einkum af vaselíni, en með sótthreinsandi og græðandi efnum.  Þótti einnig gott á sár og þurrar hendur.  Fyrrum mýktu mjaltakonur hendur sínar með floti eða tólg.  Þá hafa sumar einnig þann sið að taka mjólkurfroðu með fingri og núa á hendur sínar.

Júgurþvottur (n, kk)  Þvottur á júgri og spenum kýr áður en mjólkað er.  „Mikilvægt er að vanda til júgurþvottar; að þvottaklúturinn sé hreinn og vatnið hæfilega volgt, svo kýrnar selji vel og til að tryggja gæði mjólkurinnar.  Kýr eru mjög næmar á handbrögðin og selja illa ef flaustrað er við júgurþvott“.

Júlíanska tímatalið Gamli stíll; tímatal sem Júlíus Sesar innleiddi í Rómaveldi 45 f.kr og varð útbreitt um vestrænan heim.  Þó árið hefði 365 daga, með hlaupári fjórða hvert ár, þá hliðruðust árstíðir með tímanum, eða um 3 daga á hverjum 400 árum.  Gregorískt tímatal (nýi stíll) var tekið upp í þess stað og innleitt hérlendis árið 1700.

Jústera (s)  Stilla/rétta af; hagræða.  „Eitthvað þarf að fara að jústera stofuklukkuna núna“.

Jæja / Jæjaþá / Jæjaþið (u)  Litla hikorðið jæja var töluvert notað í máli Kollsvíkinga, og þó það í sjálfu sér sé merkingarlaust þá fær það töluvert vægi eftir því hvernig það er sagt og hvar í orðaröðinni það stendur.  Jæja getur verið sjálfstæð og innihaldsrík setning, eftir framburði, áherslum og tóntegund.  Nefna má nokkra algenga notkun orðsins:  a.  Í byrjun samtals; til að rjúfa þögn og „gefa tóninn“.  Oftast sagt rólega og langdregið með áherslu á æ. Jafnvel var notað lengra orð í staðinn; jæjaþá, með áherslu í byrjun. Sumir notuðu bræðinginn jæjaþið, þegar tveir eða fleiri voru viðstaddir.  b.  Sem andsvar í spurn, hrifningu eða eftirvæntingu, eftir óvæntar upplýsingar.  Áherslan á æ, en nú í hækkuðum tóni. Þá var orðið stundum lengt í nújæja; með áherslu á æ, og það teygt.  c.  Andsvar sem lýsir vanþóknun eða vonbrigum við því sem sagt var.  Áherslan á langt æ en nú í lækkaðri tóntegund.  d.  Andsvar í mikilli hneykslun eða forundran.  Áherslan er á ja í endanum, og það jafnvel í tveimur eða fleiri tóntegundum í sama andsvari.  Stundum var orðið slitið í sundur þegar viðbragðið var mikil og varð þá jahja, með áherslu á fyrra atkvæðið og það í hærri tóni. Var þá stutt yfir í annað andsvar; jahér/jahérna/jahérnahér, með áherslu á fyrsta atkvæði.  e.  Í formála að upphafi verks.  Jæja er þá gjarnan sagt stundarhátt, með áherslu á fremra atkvæði en hitt einnig vel skýrt.  f.  Í samfelldri frásögn er orðið bæði notað í upphafi, til að hefja söguna, og einnig inni í sögunni til að brjóta hana upp og skipta um sviðsmyndir.  Góðir sögumenn voru margir í Rauðasandshreppi og voru þeir gjarnan snillingar í notkun orðsins.  Í upphafi sögu var tóntegund oft svipuð og lýst var í a-lið.  Inni í sögunni voru tónar og áherslur orðsins fjölbreyttari; allt eftir því sem frásögnin gaf tilefni til.  Oftast var áhersla á fremra atkvæðið og það ofar í tóntegund en það síðara. Stundum varsíðara atkvæðið verulega hækkað í tóni, þó það væri áhersluminna.   g.  Upphrópun þegar eitthvað gerist sem beðið hefur verið eftir og mælandi orðinn langeygur.  Var þá áherslan á seinna atkvæðið; það í lægri tóntegund; hækkaðri í endann og gjarnan langdregið.  Fylgdi stundum setning, t.d.: „Jæja; það var kominn tími til“.  h.  Andsvar við beiðni; þegar látið er undan með semingi.  Áherslan er þá á seinna atkvæðið og það í örlítið lægri tóni.  Stundum notað jæjaþá, og hin breytta tóntegund færð á síðasta atkvæðið.  Þessi upptalning er alls ekki algild og þaðan af síður tæmandi fyrir þetta litla orð.

Jöfnum höndum (orðtak)  Um leið; jafnframt; jafnt og þétt; stöðugt.  „Karlarnir skutu máfa úr reininni í gríð og erg, og við strákarnir hlupum til og tíndum þá saman jöfnum höndum.  Sumum þurfti að slá við stein til að dauðrota þá“.

Jökulfönn (n, kvk)  Fönn sem liggur lengi og breytist í klaka.  „Jökladalur dregur eflaust nafn af jökulfönninni sem þar liggur langt fram á sumar, og stundum til næsta vetrar“.

Jökulkaldur (l)  Mjög kaldur; kaldur eins og ís.  „Þú ert orðinn jökulkaldur á fingrunum drengur“!

Jökulkuldi (n, kk)  Fimbulkuldi; mjög kalt.  „Féð gerir lítið í þessum jökulkulda, en það er rét að viðra það og láta það vatna sér“.

Jökulleir (n, kk)  Leir sem verður til við núning jökuls við berg.  „Víða má finna jökulleir ofaná klöppum og móhellu, þegar grafið er í Kollsvíkinni“.

Jökulnúinn / Jökulsorfinn (l)  Um klöpp/berg; með rákum/förum/ummerkjum eftir jökulskrið á ísöld.  „Jökulnúnar klappir eru áberandi á hæsta punkti Strengbergs“  (HÖ; Fjaran). 

Jökulnúið grjót (orðtak)  Holtagrjót; grjót sem núið er eftir að hafa rótast í jökulruðningi.  Mikið notað til hleðslu, og er t.d. Hesthúsið á Hólum og réttin á Brunnsbrekku úr því efni. Sjá skriðugrjót.

Jökulrák / Jökulrispa  (n, kvk)  Rák/rispa/far í klöpp, eftir núning skriðjökuls.  Jökulrákir er víða að finna í grennd Kollsvíkur, og gefa góða vísbendingu um meginstefnu skriðjökla í lok ísaldar.

Jökulruðningur / Jökulurð (n, kk/kvk)  Urð sem ísaldarjökull hefur skilið eftir sig.  „Þó svæðið teljist allt mjög útkomusamt virðist öll sú úrkoma hverfa jafnharðan niður í jökulurðina sem er nánast allsráðandi í landslagi ofan við ca 100 m“  (HÖ; Fjaran). 

Jötuband (n, hk)  Fjöl yfir jötufjöl í fjárhúsi, til að fé komist ekki uppí jötuna og slæði síður niður heyinu.

Jötubálkur (n, kk)  Jata; undirstaða jötu.  „Í innri gafli Hesthússins er hlaðinn öflugur en mjór jötubálkur“.

Jötufjöl (n, kvk)  Fjöl á kanti jötu, til að halda heyinu í henni.  Jötufjölum og jötubandi er fest á stoðir.

Jötunátak (n, hk)  Gríðarmikið/ofurmannlegt átak.  „Það þarf eitthvað jötunátak til að færa þennan stein til“.

Jötunsterkur (l)  Gríðarlega sterkur.  „Þó hann væri ekki hár í loftinu var hann sagður jötunsterkur“.

Jötunuxi (n, kk)  Skordýr sem lifir í rotnandi lífrænum leifum.  Rándýr á t.d. bjöllur og lirfur; stór, og með gráhært belti yfir skjaldarvængina.   Þjóðtrúin segir að ef maður gleypi brunklukku muni hún éta hann innanfrá og drepa hann.  Eina bjargráðið sé þá að finna jötunuxa og gleypa hann lifandi; hann muni þá ráða niðurlögum brunnklukkunnar.

Jötupláss (n, hk)  Rými sem kind þarf við jötu til að éta sitt fóður.  „Mjög er einstaklingsbundið hvað kindur taka sér mikið jötupláss.  Sumar eru mjög heimaríkar og ofarlega í tignarstiganum og geta bolað frá sér á báða bóga.  Oft velja þær sér stað fremst eða innst við jötuna til að þurfa ekki að berja frá sér nema á annan veginn.  Tveimur slíkum man ég eftir úr Láganúpsfjárhúsum; Gibbu og Pontu.  Gibba var í upphafi heimalingur en þeir verða að jafnaði frekjur í fjárhúsi.  Ponta var að upplagi stirð á geði og fékk sitt nafn af því að hún lyfti framfæti þegar hún vildi ógna; líkt og til að bera pontu upp að nefinu“ (VÖ).

Leita