Idíótí (n, hk)  Heimska; heimskuhjal.  „Þetta var bara kjaftæði hjá íhaldinu, eins og annað þeirra idíótí“  GnÖ frá Láganúpi notaði gjarnan þetta orð.

(n, hk)  Fíngerð en ör hreyfing; órói.  „Vertu nú ekki á þessu iði meðan ég er að klippa þig“!

Iða (n, kvk)  Hringstraumur.  „Gættu að þér þegar þú leggur að hleininni; þar myndast oft fjári þung iða þegar súgur er“.

Iða (s)  Vera á sífelldri hreyfingu.  „Vertu nú ekki að iða þetta á bekknum; messan fer alveg að klárast“.

Iða/brenna í skinninu (orðtak)  Skjálfa af eftirvæntingu.  „Hann iðar í skinninu eftir að fá að komast á sjó“.

Iðagrænn / Iðjagrænn / Iðgrænn (l)  Um tún; vel græn/sprottin.  „Enn eru tún iðagræn í Kollsvík, þó búskap sé lokið fyrir nokkru“.  Allar orðmyndir heyrðust notaðar vestra, en j-laust var einna helst hjá Kollsvíkingum.

Iðinn við kolann (orðtak)  Duglegur; heldur sig að verki.  „Alltaf er hann jafn iðinn við kolann; hann lætur ekkert trufla sig“.  Uppruni óljós.  Sumir tengja þetta við kolaveiðar, en sennilegra er að þarna sé vísað til kolagerðar.  Gerð viðarkola var tímafrek iðja og nauðsynlegt að halda sig vel að verki.

Iðjulaus (l)  Aðgerðalaus; án verkefnis.  „Ég kann illa við að vera iðjulaus meðan aðrir eru að vinna“.

Iðjuleysi (n, hk)  Aðgerðarleysi; atvinnuleysi.  „Skelfing kann ég illa þessu iðjuleysi“.

Iðjuleysisdund / Iðjuleysisgauf (n, hk)  Fánýt tómstundaiðja; það sem gert er til að drepa tímann.  „Maður er að reyna að hafa ofanaf fyrir sér meðan ekki gefur á sjóinn, en þetta er bara hálfgert iðjuleysisgauf“.

Iðjusamur (l)  Duglegur, atorkusamur.  „Hrúturinn hefur verið fjandi iðjusamur í nótt; hann var búinn að mölva jötubandið og stoðina líka“!

Iðjusemi (n, kvk)  Dugnaður; áframhald við verk.  „Þó fólk á fyrri tíð hafi ekki verið langskólagegnið, upp til hópa, þá kunni það iðjusemina ölu nútímafólki betur“.

Iðka (s)  Stunda; gera reglulega.  „Rolluskrattin er farin að iðka það að bíða þar til ég er kominn heim; og stökkva þá aftur yfir girðinguna“!

Iðnsýning (n, kvk)  Sýning á iðnaðarvörum.  „Einu sinni tók Vestri þátt í iðnsýningu á Rauðasandi með fjelögum í Von og Baldri.  Von var aðalþátttakandinn og gekst fyrir sýningunni“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Iðra (s)  Sjá eftir; harma.  „Það iðra ég mest að hafa ekki tekið af þeim andskotans byssuhólkinn; þeir voru strax byrjaðir að freta í allar áttir um leið og ég yfirgaf þá“.

Iðraloft (n, hk)  Vindgangur; loft í meltingarvegi; viðrekstur; fretur.  „Skelfingar iðraloft er nú að ryðjast úr þér maður; það fer að verða ólíft hérna inni“!

Iðrapest (n kvk)  Magapest; slæmska/veikindi í maga.  „Það ku vera að ganga einhver iðrapest“.

Iðrast eftir (orðtak)  Sjá eftir; iðra.  „Ég iðrast eftir að hafa ekki spurt hann betur út í þetta“.

Iðrakveisa (n, kvk)  Magapína; kviðverkir; niðurgangur.  „Einhver leiðinda iðrakveisa hefur verið að há mér“.

Iðraverkir (n, kk, fto)  Magaverkir; slæmska í maga; magapest.  „Pestin væri nú útaf fyrir sig; ef ekki fylgdu henni þessir fjandans iðraverkir og innantökur“.

Iðukóf (n, hk)  Snjókóf í misvindi.  „Iðukófið var svo mikið við fjárhúsin að ekki grillti í féð“.

Iðulaus stórhríð (orðtak)  Mjög þétt og samfelld hríð í jöfnum vindi, svo hvergi verða skil á.

Iður (n, hk)  A.  Vömb (sbr; iðrakveisa)  B.  Blóðmörskeppur eða vömb sem tilbúin var að bera uppí við sláturgerð.  Oftast var talað um iður fyrir suðu en kepp eftir suðu.

Iðustraumur (n, kk)  Hvirfilstraumur; straumiða; straumgöndull.

Ill er sjómannsins ævi (orðatiltæki)  Málsháttur sem vafalítið vísar til þeirrar staðreyndar fyrri tíma, að sá sem lengi var á sjó, kannski lungann úr sinni ævi, var líklegur til að eiga fremur stutta og vosmikla ævi og enda hana í votri gröf.  Þó bátasmiðir væru færir og sjómenn útsjónarsamir þá var sjór fast sóttur á smáum fleytum, sem líklega var haldið til sjóar þó vart væru haffærar sakir aldurs eða viðhaldsleysis.  Margir reru ánauðugir á bátum Bæjarhöfðingja, sem átti flestar jarðir í Rauðasandshreppi, og áreiðanlega ekki allir fúsir eða hæfir til róðra.  Ekki er því að undra að slíkt máltæki yrði til.

Illa (n, kvk)  Tálknaormur; krabbadýr (Lernaeocera branchialis) sem festir sig á tálkn þorsks og er oft greinilegt með berum augum.  Kvikindið skýtur grein til hjarta og veldur þar skemmdum sem draga úr vexti og lífslíkum fisksins.  Á lirfustigi býr þetta sníkjudýr á hrognkelsi eða flatfiski.  „Í tálkni er einstöku sinnum lítið blóðþykkildi.. kallað tálknormur, illa eða kveisa... Kveisuna mátti ekki eta; það gat haft iðraverk, kveisu, í för með sér“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  

Illa að sér (orðtak)  Fákunnandi; fáfróður; þekkir illa til; ókunnugur.  „Ég er fremur illa að mér í öllu því sem snertir íþróttir; enda tel ég það fánýtasta fróðleik sem hugsast getur“!  Sjá vel að sér.

Illa af guði gerður (orðtak)  Oftast um mann; vanskapaður; með mikla skapgerðarbresti; með slæma eiginleika.  „Hann getur auðvitað lítið gert að því hve hann er illa af guði gerður“. Sjá; þannig/vel af guði gerður.

Illa aftur farið (orðtak)  Verri/lakari en áður var; breytt til hins verra.  „Honum er þá illa aftur farið ef hann ekki svarar fyrir sig þegar svona er þjarmað að honum“.

Illa á sig kominn (orðtak)  Í slæmu ástandi/ásigkomulagi.  „Þegar þau komu voru þau illa á sig komin; örþreytt, blaut, svöng og uppgefin“  (Anna Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Illa/vel á vegi staddur (orðtak)  Í slæmu/góðu horfi með eitthvað.  „Honum gengur ágætlega í enskunni en hann er illa á vegi staddur með dönskuna“.  „Ef þú klárar þetta ert þú vel á vegi staddur“.

Illa áttaður / Illa stæður (orðtök)  Um vindátt; óhagstæð; ekki heppileg.  „Ég hefði sennilega brennt sinu af þessu hólfi ef hann væri ekki svona svona illa áttaður; vindinn leggur beint á húsið“.  „Ætli við verðum ekki að draga (netið) á móti straumi, fyrst hann er svona illa stæður með vind“.

Illa búinn (orðtak)  Hefur slæman klæðnað miðað við veðurlag.  „Óttalega ertu illa búinn drengur“.

Illa fenginn (orðtak)  Þjófstolinn.  „.... en vaðurinn var illa fengið snæri og reyndist fúið“  (ÞJ; Örn.skrá Hvallátra)

Illa fyrirkallaður (orðtak)  Stendur illa í bólið; óviðbúinn; í slæmu ástandi.  „Hann var illa fyrirkallaður morguninn eftir þorrablótið og kýrnar þurftu víst að bíða dálítið eftir morgunmjöltunum“.

Illa gáfaður (orðtak)  Heimskur; vangefinn; ekki gáfulegur/hugsandi.  „Þarna varstu nú illa gáfaður; að fara húfulaus út í þetta beinfrost“!

Illa gefast heimskra manna ráð (orðatiltæki)  Gegnsæ speki og allmikið notuð af Kollsvíkingum.  Annarsstaðar þekktist hún svona „illa gefast ill ráð“.

Illa gróa gömul sár (orðatiltæki)  Vísar til þess að ef sár grær ekki strax og rétt er hætt við að það grói seint.  Oft notað sem líking um andleg áföll sem erfitt er að gleyma.

Illa grær um hreyfðan/hrærðan stein (orðtak)  A.  Gróður festir ekki rætur þétt við stein sem iðulega er hreyfður.  Í skjóli steina vex oft kjarngott gras, og á þeim tíma sem menn gogguðu hvern grænan grasbrúsk með orfi sínu var þeim illa við að þannig landgæðum væri spillt.  B.  Líkingamál um það að sú sorg gleymist ekki sem ýfð er upp með umtali; það mál fyrnist ekki sem viðhaldið er.

Illa haldinn (orðtak)  Líður illa; er mjög veikur; þjakaður.  „Ég er ekki svo illa haldinn að ég sé við bælið“.

Illa hægt (orðtak)  Illframkvæmanlegt; óhægt um vik; fer illa saman.  „Mér finnst illa hægt að skamma hann í öðru orðinu en biðja hann um greiða í hinu“.

Illa innrættur (orðtak)  Slæmur að upplagi; hefur slæmar tilhneygingar.  „Hann er ekki illa innrættur, greyið atarna“. 

Illa í ætt skotið (orðtak)  Ættleri; öðruvísi/lakari en aðrir í ættinni.  „Þér er nú illa í ætt skotið ef þú kannt ekki eitthvað að yrkja“.

Illa luktandi (orðtak)  Illa lyktandi/þefjandi; með vondum þef.  „Ketbitinn hafði geymst helst til lengi í hitanum, og var orðinn heldur illa luktandi“.

Illa settur / Illa staddur (orðtök)  Ekki í góðri stöðu; stendur illa að vígi.  „Við erum illa settir ef vélin kemst ekki í gang; þá er ekki um annað að gera en róa í land“.  „Fyrir traustu taki vífs/ tjáir vörn ei lengur./  Illa settur sér til lífs/ svarar fallinn drengur:“ “ (JR; Rósarímur). 

Illa séð / Ekki vel séð  (orðtök)  Ekki tekið fagnandi/vel; mönnum er illa við.  „Það er ekki vel séð á því heimili að menn séu að gagnrýna þessa blessaða íhaldsstjórn“. Sjá vel séð.

Illa/vel skæddur/skóaður (orðtak)  Í slæmum/góðum skóm.  „Þú ert nú frekar illa skæddur til að fara niður í kletta, sýnist mér“.  „Það er munur að vera vel skóaður fyrir smalamennskurnar“.

Illa sofinn (orðtak)  Svefnvana; hefur ekki fengið nægan svefn. 

Illa svikinn (orðtak)  Mjög vonsvikinn/undrandi/hissa.  „Hundurinn er horfinn uppaf.  Ég er þá illa svikinn ef hann kemur ekki fljótlega með kindurnar sem sluppu áðan“.

Illa/óhönduglega úr garði gerður (orðtak)  Óvandaður; illa frágenginn/útbúinn/smíðaður.  „Ansi hefur þessi hnífur verið illa úr garði gerður, fyrst hann þoldi ekki svona lítið átak“.  Sjá vel úr garði gerður.

Illa vinnur sá er ekki kann / Illa gengur þeim er ekki kann ( orðatiltæki)  Auðskilin speki.  Einnig höfð þannig; erfitt veitist þeim er ekki kann.

Illa til fara (orðtak)  Dreuslulegur; í slæmum klæðnaði; illa búinn.  „Ósköp var hann illa til fara strákgreyið“.  „Ég er varla nógu vel til fara til að koma með þér á samkomuna“.

Illa tilhafður (orðtak)  Ótótlegur; ekki snyrtilegur; larfalega klæddur.  „Hann var órakaður og illa tilhafður“.

Illar tungur (orðtak)  Illkvittið/meinfýsið fólk.  „Ég þekki þetta auðvitað ekkert, en illar tungur segja að hann geri fleira þarna á kvöldin en hjálpa henni við bústörfin“.

Illbærilegur (l)  Slæmur; afleitur.  „Bakverkurinn er nánast illbærilegur þessa stundina“.

Illdeilur (n, kvk, fto)  Harðar deilur; illindi.  „Þeir höfðu lengi átt í illdeilum“.

Illframkvæmanlegt / Illgerlegt  (l)  Erfitt í framkvæmd.  „Þetta er illgerlegt með svona verkfærum“.

Illfygli (n, hk)  Skæður fugl; ránfugl.  „Örninn var álitinn bölvað illfygli fyrr á öldum“.

Illfær (l)  Illa fær bílvegur/gangur/skriða.  „Í þurrkum eru aurskriðurnar illfærar“.  „Það er illfært inn Fjörurnar“. „Þá er komið að gjótu sem heitir Illugjóta.  Hún er illfær; laust grjót í henni“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Illgerlegt / Illmögulegt (l)  Mjög erfitt, nær óframkvæmanlegt.  „Mér sýnist að þetta sé illgerlegt við svona aðstæður“.

Illgerningur (n, kk)  Mjög miklir erfiðleikar; það sem er illgerlegt.  „Mér sýnist að það geti orðið illgerningur að ná kindinni úr þessu svelti“.

Illgirni (n, kvk)  Ovild; kali; þungur hugur; slæmur ásetningur.  „Ég held að hann hafi ekki gert þetta af illgirni, heldur hafi þetta verið óviljaverk“.

Illgjarn (l)  Hatursfullur; með slæman ásetning.  „Enginn getur verið svo illgjarn að fagna þessari ógæfu“.

Illharður (l)  Grjótharður; harður undir tönn.  „Steinbíturinn er illharður, svona óbarinn“.

Illhertur (l)  Um hnút; mjög súrraður/hertur.  Um skrúfnagla/ró; mjög hert.  „Fjandi er hann illhertur, þessi hnútur eftir þorskinn“.

Illhugur (n, kk)  Meinsemi; meinbægni; fjandsemi; slæmt viðmót.  „Þetta var ekki af neinum illhug gert“.

Illhryssingslegur (l)  Um veðurlag; óveðurslegur; hvassviðri í aðsigi.  „Fjári finnst mér hann illhryssingslegur í vestrinu.  Hann á eftir að setja á eitthvað leiðindaveður“.

Illhryssingur (n, kk)  Óveður; stormur.  „Búðu þig nú almennilega í þessum illhryssingi“!

Illhærur (n, kvk, fto)  Stök dökk hár í ull sem annars er hvít, en það lækkar hana í gæðum til sölu.  Ullin er samsett af tvennskonar hárum; togi og þeli.  „Toghárin eru löng, með litlar bylgjur; fremur gróf og oft vel gljáandi.  Þelhárin eru fremur stutt; mjög fín og létt; óreglulega liðuð, fjaðurmögnuð og mjúk viðkomu.  Auk þessa eru svokallaðar illhærur stundum í uppinni.  Þær eru mjög gróf hár; oftast rauðgular á litinn“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin landið og þjóðin). 

Illhveli (n, hk)  Mannskæður hvalur.  „Valdimar Össurarson (eldri) samdi smásöguna „Einn á báti og illhvelið nærri““. 

Illilega (ao)  A.  Á illan hátt.  „Nú spilaði ég illilega af mér; ég hefði átt að setja kónginn á þetta“.  B.  Með illum/þungum svip. 

Illilegur (l)  Þungur á brúnina; hvass á svip. 

Illindalaust (l)  Án verulegra deilna; illskulaust.  „Þetta var alveg illindalaust að minni hálfu“.

Illindaseggur (n, kk)  Óeirðaseggur; ribbaldi; slagsmálahundur. 

Illindi (n, hk, fto)  Harðar deilur; illska; rifrildi.  „Deilur voru um tíma milli þeirra og jafnvel illindi“.

Illkaldur (l)  Mjög napur; mikil kæling. „Asskoti finnst mér hann vera orðinn illkaldur.  Þetta er vettlingaveður“.

Illkleifur (l)  Um þverhnípi/klett; nær ófær; mjög erfitt að klífa.  „Mér þótti Bæjarvöllurinn nokkuð illkleifur, og sneri frá.  Nokkrum árum síðar klifu Skersbræður hann, og komu fyrir spotta sem enn er til staðar“.

Illkvittinn (l)  Meinstríðinn; hrekkjóttur; meinhæðinn.  „Fjandi getur hann verið illkvittinn“!

Illkvittni (n, kvk)  Meinsemi; hrekkir; meinhæðni.  „Ekki gerði ég þetta af tómri illkvittni, heldur voru þetta bara mannleg mistök“.

Illkvittur (n, kk)  Kjaftasaga; rógburður; slúður.  „Hinsvegar kom upp sá illkvittur að Látrabændur hefðu ef til vill átt þátt í slysinu... “  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Illkynjað (l)  Af slæmri gerð.  „Hann greindist með illkynjað æxli“.

Illlendandi (l)  Mjög erfitt/hættulegt að lenda.  „Ókyrrðist sjór mjög við það, svo illlendandi var“  (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Illmeltanlegur (l)  Um mat; meltist illa.  „Hrossaketið var ólystugur, ólseigur og illmeltanlegur fjandi; mér er nær að halda að annaðhvort hafi hrossið orðið sjálfdautt eða að þeir hafi soðið hnakkinn í misgripum“!

Illræmdur (l)  Þekktur að illu; illa þokkaður.  „Hún kveið því að aka fyrir þennan illræmda Hafnarmúla“.

Ills viti (orðtak)  Vottur um slæmt/illt.  „Aðeins fór að bera á norðansjó þegar suðurfallinu tók; þótti öllum það ills viti“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Illseigur (l)  A.  Um mat; mjög seigur; illa hægt að tyggja.  B.  Í afleiddri merkingu um úthaldsgóðan mann.

Illska (n, kvk)  Mikil reiði; heift.  „Hann kastai frá sér skóflunni í illsku, og gekk þegjandi heimáleið“.

Illskast (s)  Fjargviðrast; hreyta ónotum/illyrðum.  „Það þýðir ekkert að illskast við hann útaf þessu“.

Illskárri (l)  Betri en aðrir slæmir.  „Ég held að það sé þó illskárri kostur að reyna að hlunkast í áttina heim en norpa hér í þessum næðingi“.

Illskárstur (l)  Bestur slæmra kosta; skömminni til skárstur.  „Ég tók þann kostinn sem mér fannst illskárstur“.

Illskeyttur (l)  Illur viðskiptis; harðdrægur.  „Gættu að þér á tuddanum; hann getur verið ansi illskeyttur“.

Illskuflár (l)  Með illt í huga/ illa fyrirætlan.  Ósjaldan var viðhaft þetta erindi úr Passíusálmunum:  „Andskotinn illskuflár/ enn hefur snöru snúna:/ snögglega þeim tilbúna/ sem fara með fals og dár“  (HP; Pass.sálmar).

Illskuáhlaup / Illskuveður (n, hk)  Óveður; slæmt áhlaup; mjög vont veður.  „Það var jafngott að féð var komið inn áður en þetta illskuáhlaup skall á“.  „Hann brast á með illskuveðri eins og hendi væri veifað“.

Illskulaust  (l)  Án illinda.  Oftar var þó notað illindalaust.

Illskiljanlegt (l)  Erfitt að skilja.  „Mér er illskiljanlegt hver stefna stjórnvalda er í þessum málum“.

Illskældinn (l)  Meinskældinn; semur níðvísur/ meiðandi vísur.  „Hann gat átt það til að vera illskældinn mjög“.

Illslægur (l)  Erfitt að slá.   „Fyrst var slegið umhverfis bæinn, síðan fram eftir túninu; fram að Túnshala.  Hann var mjög illslægur; þýfður og grýttur og því oft látinn bíða, ásamt Brekkunni og Urðunum“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  „Árnapostilla er einn illslægasti blettu af Sauðlauksdalstúni í þurrkatíð.  Ánamaðkurinn, sem yfirleitt þykir bæta ræktað land með því að blanda og losa jarðveginn, gerir í Sauðlauksdalstúni þau spjöll að drífa upp á yfirborðið hrúgum sem geta verið allt að 8 cm að hæð og þar eftir gildar.  Þessar hrúgur eru nokkuð sundurlausar, en glerharðar í þurrkatíð, og stendur engin egg í ljá er borin er á þennan völl þá þurrt er.  Þegar vöknar í rót virðast þessi leirhnoð minnka og mýkjast, samt verður ekkert hey af svona slægju sandlaust þó það sé margrakað upp og skarpþurrkað“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Illsviti (n, kk)  Veit á illt; váboði.  „Fall er sagt vera fararheill ef það verður á leið að heiman, en ef maður dettur á heimleið er það illsviti“.

Illt (l)  Sárt.  „Mér er orðið illt í maganum af þessu ofáti“.

Illt er að deyja ráðalaus (orðatiltæki)  Menn reyna að finna undankomuleið frá dauðdaga.  Oftast er notaður síðari hlutinn; sjá deyja ekki ráðalaus.

Illt er að eggja óbilgjarnan / Illt er að egna oflátung (orðatiltæki)  Varast skyldi að æsa þann upp sem bráður er í skapi og gefur aldrei eftir sína málsókn.

Illt er að eiga tungu í annars (manns) höfði (orðatiltæki)  Ekki er gott að annar tjái það sem maður vill sjálfur segja; betra er að segja hlutina sjálfur en láta annan tala fyrir sig.

Illt er að eiga þræl að einkavin (orðatiltæki)  Varasamt er að bindast vinaböndum við þann sem er illa innrættur.  Þræll er í þessari merkingu skúrkur; illmenni.

Illt er að ginna gamlan ref (orðatiltæki)  Erfitt er að leika á þann sem lúmskur/glöggur er. 

Illt er að glettast við auðnumann (orðatiltæki)  Enginn skyldi efna til illinda við þann sem auðna/gæfa/heppni fylgir.  Líklega oftast viðhaft af þeim sem tapar viðureign/deilumáli.

Illt er að kenna gömlum hundi að sitja (orðatiltæki)  Vísar til þess að mönnum(eins og hundum)  gengur erfiðllegar að læra en þeim sem yngri eru; að erfitt er að breyta útaf vananum.

Illt er að lasta almannaróm (orðatiltæki)  Varasamt er að gera lítið úr því sem allir aðrir eru sammála um.  Reyndar er þessi speki ekki alltaf í hávegum höfð meðal allra Kollsvíkinga, sem einmitt hafa unun af því að ganga gegn því sem almennt er álitið.  Sama á við um skylda speki; sjaldan lýgur almannarómur.

Illt er að ljá það annar á (orðatiltæki)  Enginn getur lánað öðrum það sem hann á ekki sjálfur.

Illt er að níðast á annarra góðvild (orðatiltæki)  Ekki skal misnota hlýhug/velvild annarra.

Illt er að rasa um ráð fram / Margur rasar um ráð fram (orðatiltæki)  Menn skyldu ekki taka mikilvægar ákvarðanir í flaustri; ekki skal framkvæma í hugsunarleysi. Sjá rasa um ráð fram.

Illt er að róa áralaus (orðatiltæki)  Lítið er unnt að gera án viðeigandi verkfæra/áhalda.  GÖ rifjaði upp þetta orðatiltæki í vísu;  „Björn á Gjögrum brýndi raust,/ bölvaði hátt með freti./  Illt er að róa áralaust / ýmislegt þó geti“ ( GÖ, líkl. um 1985).  Þá hafði árum verið stolið úr bát Björns smiðs Guðmundssonar.

Illt er að róa einni ár / Illt er einni ár til lands að róa (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að hafa þarf árar á bæði borð til að geta róið báti skammlaust.  Á sama hátt er gott að hafa með sér félaga til að koma málum í höfn/ ná árangri.

Illt er að sitja aðgerðalaus (þegar næg eru verkefnin) / Illt er að vera iðjulaus ( orðatiltæki)  Speki sem mikið var notuð og lýsir vel vinnuhörku fyrri tíma, þegar það var nánast refsiverð synd að láta sér verk úr hendi falla.  Allir voru sívinnandi; frá börnum upp í gamalmenni; frá því í rauðabítið fram á rauðanótt.  Einungis í svefni og á helgum dögum var slegið af.

Illt er að sitja af sér sjóveður ( orðatiltæki)  Menn sitja ekki aðgerðalausir í landi í góðu sjóveðri, nema hafa til þess gildar ástæður.  Sjá sitja af sér sjóveður.

Illt/bágt/erfitt er að þjóna tveimur herrum (orðatiltæki)  Augljós speki sem vísar til þess að erfitt er að taka við misvísandi fyrirskipunum um sama efni.

Illt er betra að gera en ekki neit (orðatiltæki)  Sjá betra er illt að gera en ekki neitt.

Illt er í ætt gjarnast (orðtak)  Vísar til þeirrar hjátrúar að illir eiginleikar erfist frekar en góðir.  Lestir manna eru oft minnisstæðari en kostirnir, og því er lasta forfeðra oft leitað í ranni afkomenda.

Illt er strákinn að stæla (orðtak)  Ekki er ráðlegt að espa/mana strák upp, né þann sem er hrekkvís. 

Illt er þeim að kenna sem ekki vill læra (orðatiltæki)  Auðskilin speki.

Illt í sjóinn (orðtak)  Töluverður sjór; vont sjólag.  „Það var mjög tregt og illt í sjóinn; það lagði á norðan spænu með hálfgerðum brimhroða“  (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004).   „Í öðrum stað er rýmra uppsátur (fyrir 12 skip eða fleiri, en þar er hætt lending þá illt er í sjóinn, og öngvir reitir til að leggja fisk á…“  (ÁM/ Jarðabók; um Keflavík). 

Illt kemur vel á vondan (orðatiltæki)  Sá sem er illa innrættur má vænta alls ills.  Sjá kemur vel á vondan.

Illt tré ber illan ávöxt (orðatiltæki)  Ekki er að vænta góðs af því illa.

Illt yfirferðar (orðtak)  Ekki gott að komast um; ekki gott umgangs.  „Urðin var fremur  ill yfirferðar“.

Illu er best aflokið (orðatiltæki)  Best er að ljúka því verkefni sem fyrst sem erfitt/óvinsælt er, því þá þarf ekki að kvíða því.

Illur á jafnan ills von / Illur á sér ills von (orðatiltæki)  Sá sem er öðrum slæmur getur átt von á ýmsu sjálfur.

Illur fengur illa forgengur (orðatiltæki)  Speki sem vísar til hættunnar á því að það misfarist; endist illa eða verði til ógæfu sem þjófstolið er.

Illur flýr þó enginn elti (orðatiltæki)  Skúrkurinn er aldrei öruggur með sig/ er eilíft hræddur að ástæðulausu.

Illur gleðst af annars skaða (orðtak)  Sá sem fagnar óförum/óhöppum annarra er illa innrættur.

Illúðlega (ao)  Með reiðisvip; ógnvænlega.  „Hann sagði ekkert, en horfði illúðlega á mig“.

Illúðlegur (l)  Illilegur ásýndum; ógnvekjandi.    „Röstin getur verið ansi illúðleg við þessar aðstæður“.

Illverandi (l)  Illa vært; ekki gott að vera.  „Hættu nú þessum andskotans viðrekstrum!  Það er illverandi í stofunni fyrir bölvaðri skítalyktinni“!

Illviðrakafli (n, kk)  Tímabil illviðra; óveðurskafli.  „Það er vonandi að nú sé þessi illviðrakafli á enda“.

Illviðrasamur (l)  Mjög slæmt tíðarfar.  „Veturinn var harður og illviðrasamur“.

Illviðri (n, hk)  Mjög slæmt veður; óveður.  „Það fer enginn upp á fjöll þegar spáir svona illviðri“.  „Sjóhatt áttu flestir, er aðeins var settur upp þegar ágjöf var eða illviðri“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þótt veturinn hafi verið snjólaus hafa samt verið innistöður að mestu sökum illviðra fyrri hluta vetrarins, en kulda og storma með þurrkum eftir góubyrjun“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1942). 

Illviðrisdagur (n, kk)  Óveðursdagur.  „Þetta hefur verið alveg einstök tíð; ekki einn illviðrisdagur í mánuð“!

Illviðriskafli (n, kk)  Tímabil með slæmu veðri.  „Þessum illviðriskafla hlýtur að fara að linna“.

Illviljaður (l)  Með slæman ásetning.  „Þetta var nú alveg óvart, en ekki af því ég væri þér svona illviljaður“.

Illvilji (n, kk)  Slæmur hugur/ásetningur gagnvart manneskju; meinsemi.  „Ég held að þetta hafi ekki verið af illvilja gert, heldur hafi honum þarna orðið á mistök“.

Illvígur (l)  Erfiður viðureignar.  „Þessi flensufjandi er illvígur mjög“.

Illvætt (l)  Erfitt að vaða.  „Annað klifið, og það meira, heitir forvaði og er illvætt fyrir“ (MG; Látrabjarg).

Illyrði (n, hk)  Skammir; snuprur; bölv; skætingur.  „Ekki man ég eftir að honum hrykki nokkurntíma illyrði af munni í garð nokkurs manns“.

Illyrmi (n, hk)  Afstyrmi; sá/það sem er skaðlegt/ erfitt viðureignar.  „það var fögnuður að losna við illyrmið hann Hitler og hans hyski, en það er eins og alltaf komi maður í manns stað“.

Illyrmislega (ao)  Hrikalega; ógnarlega; kvikindislega.  „Þetta var illyrmislega sárt“.

Illyrmislegur (l)  Kvikindislegur; meinlegur.  „Ég hef sjaldan haft svona illyrmislegan bakverk“.

Illþekkjanlegur (l)  Sem erfitt er að þekkja; ókunnuglegur.  „Þú ert illþekkjanlegur, svona nýrakaður“.

Illþolandi (l)  Ekki gott að búa við/ umbera/afbera.  „Það er illþolandi fjandi að hafa þessi drullusvöð í vegunum endalaust“!

Illþolanlegur (l)  Mjög erfitt að umbera; þrautleiðinlegur; óbærilegur.  „Hitinn í hlöðunni er illþolanlegur“.

Illþýði (n, hk)  Hyski; hópur óþokka/þrjóta; túnrollur.  „Stuggið nú þessu illþýði úr túnunum strákar“!

Illþýfi (n, hk)  Kargaþýfi; svæði með miklum og háum þúfum sem erfitt er að slá/ komast um.

Ilma (s)  Gefa frá sér góða lykt.  Var þó stundum notað í gagnstæðri merkingu.  „Þú ættir að hafa fataskipti áður en gestir koma; þú ilmar all hressilega af votheyinu“.

Ilmbjörk (n, kvk)  Betula pubescens.  Tré af birkiætt.  Ilmbjörk er jafnan nefnd birki í daglegu tali, en auk hennar vex önnur jurt hérlendis af birkiætt; fjalldrapinn.  Þessar tvær tegundir geta bladast og er þá afkvæmið einskonar runni.  Ilmbjörkin er eina tréð hér sem myndar skóga.  Talið er að við landnám hafi um fjórðungur landsins verið þakinn birkiskógi.  Líklegt er að slíkur skógur hafi verið norðantil í Kollsvík þegar Kollur brölti fyrstur manna þar á land úr skipbroti sínu.  Þeir skógar hafa þó líklega verið fljótir að eyðast; bæði af beit og sem eldsmatur.  Hinsvegar má í miðri víkinni finna lurkalag frá hlýskeiðum fyrir þúsundum ára; líklega að miklum hluta birki.  Birkiskógar eru í Rauðasandshreppi, bæði við Suðurfossá og í landi Vestubotns.  Líklegt er að hjá tengdaföður sínum í Vesturbotni hafi Einar í Kollsvík gert til kola sem hann nýtti til rauðablásturs, en hann stundaði hann síðastur Íslendinga.  Birki á Vestfjörðum er mun kræklóttara og lágvaxnara en það sem annarsstaðar vex á landinu. 

Ilmreyr (n, kk)  Grastegund; Anthoxanthum odoratum, sem vex víða um land, t.d. á nokkrum stöðum í Kollsvík.  „Eitt vorið fór ég með pabba út í Breið að sækja ilmrey fyrir Ólafíu gömlu Magnúsdóttur í Hænuvík, en hún vildi hafa hann í handraða kistu sinnar líkt og fyrrum tíðkaðist til að fá í hana góða lykt.  Við fundum allmikið af ilmrey á Landamerkjahrygg og var sú gamla þakklát fyrir viðvikið“ (VÖ).

Ilmsterkt (l)  Gefur frá sér mikla/greinilega lykt.  „Fjári er votheyið ilmsterkt þarna neðst í gryfjunni“.

Imbakassi (n, kk)  Nafngift raunsæismanna á sjónvarpi.  Orðið var almennt notað þegar fyrstu sjónvörpin voru að ná fótfestu og spilla dýrmætum vinnutíma sveitafólks.  Þetta heiti lagðist síðan af, líklega vegna enskuslettunnar sem í því er, án þess að hentugt heiti kæmi í staðinn.

Imbrudagar (n, kk, fto)  Fjögur árleg föstu- og bænatímabil sem í kaþólskum sið stóðu í þrjá daga hvert; miðvikudag, fimmtudag og föstudag.  Fyrstu imbrudagar eru eftir öskudag; næstu eftir hvítasunnudag; þriðju eftir krossmessu (14. sept) og hinir síðustu eftir Lúsíumessu (13. des).  Nafnið er af erlendum stofni en umdeilt.

Impóneraður (l)  Hrifinn; snortinn.  Dönskusletta sem heyrðist stundum.  „Ekki var ég impóneraður af þessu“.

Impra á (orðtak)  Hafa orð á; minnast á; nefna.  „Hann var feiminn og þorði varla að impra á erindinu“.  Uppruni orðsins er óljós; sem og ritun þess.  Sjá ympra á.

Indælisfólk / Indæliskona / Indælismaður / Indælismanneskja / Indælispiltur / Indælisstúlka (n, hk, kvk, kk)  Hrósyrði um sérlega gott fólk.  „Hún var mesta indæliskona“.

Indælisveður (n, hk)  Veðurblíða; mjög gott veður.  „Það má nú einhvernvegin fást við heyskap í svona indælisveðri“! 

Indælistilfinning (n, kvk)  Mikil vellíðan; sælutilfinning.  „Mikil indælistilfinning er það nú; að eiga engin net í sjó í þessum norðanveltingi“.

Indælistíð (n, kvk)  Mjög gott/hagstætt tíðarfar.  „Hér hefur verið indælistíð yfir allan sauðburðinn“.

Indæll (l)  Mjög góður/þægilegur/yndislegur.  „Hér var svo indælt að una;/ aftur að sjá þessar grundir./  Í andanum ennþá að muna/ æskunnar glaðværu stundir“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík). 

Inn við beinið (orðtak)  Innst inni; í sálinni.  „Hann er gæðasál inn við beinið, þó hann flíki því ekki dagsdaglega“.

Inna af hendi (orðtak)  Framkvæma; gera; koma í framkvæmd; greiða; leggja fram.  „Hver bóndi í sókninni innti af hendi verulega sjálfboðavinnu við byggingu Breiðavíkurkirkju“.

Inna eftir / Inna um (orðtak)  Spyrja um; spyrjast fyrir um.  „Ég innti hann eftir munnlegu svari, en hafði reyndar áður innt hann um það skriflega“.  

Inna frétta / spyrja frétta (orðtak)  Ræða landsins gagn og nauðsynjar þegar tveir eða fleiri hittast.  Gestakomur voru stjálli meðan samgöngur og samgöngutæki voru með hægari brag, og því var ýmislegt sem þurfti að ræða þegar svo bar við“. „Komdu innfyrir, ég þarf að inna þig frétta“.

Innaf (ao)  Innfyrir; fyrir innan.  „Ég hóaði í kindurnar á Aurtjörninni, og ég held að þær hafi hrokkið innaf“.  Við lögðum strenginn innaf Magnúsarhelminum“.

Innan skamms / Innan stundar / Innan tíðar (orðtök)  Eftir stuttann tíma; bráðlega.  „…vegirnir gengju stöðugt úr sér; svo mjög að innan stundar komi að því að loka yrði vegum ef ekki yrði aukið fé til viðhalds“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Innanað (ao)  Að innan; innanfrá.  „Ég var að koma innanað, og var kominn út í Jökladalshæð þegar ég varð var við þetta“

Innaná (ao)  Á innra byrði; að innanverðu.  „Ári er mikil móða komin innaná úrglerið“.

Innanborðs (l)  Inni í bátnum.  „Það er tekið til að seila aflann, en allir nema einn hafa seilarnar innanborðs“  (KJK; Kollsvíkurver).

Innanbrjósts (ao)  Í huga; um líðan/hugsun.  „Mér var þungt innanbrjósts þegar ég fór að heiman“.  Mér var dálítið einkennilega innanbrjósts“.  Fyrrum var talið að tilfinningar og hugsun byggju í hjartanu, og þar með í brjósti manns.  Sjá brjóst.

Innandyra (ao)  Inni í húsi.  „Þó umhverfi hússins sé óhrjálegt er mjög snyrtilegt innandyra“.

Innaneftir (ao)  Að innan og úteftir. „Við rekum féð innaneftir Lambaganginum og út í Lambahlíðardal“.

Innanfeitur (l)  Mörvaður; spikaður; i góðum holdum.  „Ég lifi alveg nestislaus yfir ferðina, maður er víst alveg nógu innanfeitur til þess“.

Innanfjarðar (ao)  Inni í firði.  „Netin innanfjarðar sluppu betur í vestanáttinni en netin á víkunum“.

Innanfjarðarbátur (n, kk)  Bátur sem stundar innanfjarðarveiðar/innanfjarðarfiskirí.  „Stundum; einkum þegar skyndilega brældi á djúpmiðum, komu innanfjarðarbátarnir með meiri afla en þeir sem lengra reru“.

Innanfjarðarfiskirí (n, kvk)  Veiðar inni í firði.  „Fyrir kom að vel aflaðist á þessu innanfjarðafiskiríi“.

Innanfótar (ao)  Á þeim hluta fætis sem veit inn í klof.  „Kýrin var eitthvað særð á vinstri afturleggnum, innanfótr; líklega eftir gaddavír“.

Innanfrá (ao)  Að innan, á leið út/úteftir.  „Það er eins og tréð hafi fúnað innanfrá“.

Innangengt (l)  Hægt að ganga í innanfrá/ án þess að fara út.  „Þar var innangengt úr íbúðarhúsi í verkfærahús og fjós“.

Innanhallt (ao)  Að innanverðu; innantil.  „Það er leiðinda úrrennsli innanhallt á Aurtjörninni“.

Innahandar (ao)  Nálægur; hjálplegur.  „Nágrannarnir voru þeim innanhandar eftir þetta slys“.

Innaní (ao)  Í; inni í.  „Innaní stuðlunum við Straumskerið eru hringir, og innst er kjarni úr mjög járnríku bergi“.

Innanlandsbarátta (n, kvk)  Barátta í heimalandi.  „Hér er því þörf fyrir æskumanninn að vera vakandi.  Ekki aðeins í innanlandsbaráttunni fyrir frelsi og lýðræði; heldur og í baráttu allra jarðarbúa fram til þróunar,verður honum falið hlutverk að vinna“  (EG; Vakandi æska). 

Innanmein (n, hk)  Innri meinsemd; meinsemd inni í líkamanum. 

Innanrifja (ao)  Í brjóstkassa.  „Ég fékk einhvern sting innanrifja; það kann að vera árans gigtin“.

Innanskers (ao)  Innanvið sker; í hléi við sker.  „Þarna var rólegt innanskers, þó töluverður typpingur væri ytra“.

Innansleikjur (n, kvk, fto)  Afgangar; það sem situr eftir í íláti.  Einnig notað í líkingum.  „Það er alltaf sama hugsunin varðandi viðhald vega:  Fyrst er atkvæðafjöldanum þjónað og svo fá kotin innansleikjurnar“!

Innanstokks (ao)  Innandyra; inni í húsi.  „Húsið brann, ásamt öllu því sem innanstokks var“.

Innanstokks sem utan (orðtak)  Inni í húsi og utanhúss.  „Hann keypti þetta alltsaman; innanstokks sem utan“.

Innanstokksmunir (n, kk, fto)  Húsgögn og annað sem allajafna er í húsi. 

Innansveitar (ao)  Í sveitinni/hreppnum.  „Töluverð útgerð var orðin frá Eyrum meðan jarðirnar voru enn innansveitar í Rauðasandshreppi“.

Innansveitarmaður (n, kk)  Maður sem býr í tilteknum hreppi.  „…en samkvæmt fjallskilasamþykkt er óheimilt að leyfa utanhreppsmönnum upprekstur nema að innansveitarmönnum frágengnum“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Innantil /Innanvert (ao)  Innarlega í húsi/á heiði o.fl.  „Ég sá nokkrar kindur innantil á Gjárdalnum“.

Innantómur (l)  Svangur; hungraður.  „Ósköp er maður orðinn innantómur eftir allt þetta puð“.

Innantóm orð (orðtak)  Lygi; orðin tóm; innihaldslaus fyrirheit.  „Þetta reyndust einungis innantóm orð“.

Innantómt kjaftæði / Innantómt orðagjálfur (orðtök)  Merkingarlaust tal; vella.  „Ég nenni ekki að hlusta á svona innantómt kjaftæði“.  „Þetta reyndist lítið annað en innantómt orðagjálfur“.

Innantúns (ao)  Inni á túni.  „Ég sé þessa kind hvorki innantúns né utan; hún virðist alveg hafa gufað upp“!

Innantökur (n, kvk, fto)  Mikil uppköst og niðurgangur.  „Ég er með bölvaða pest með ferlegum innantökum“.

Innanum (ao)  A. Inn á milli; í bland.  „Þetta er frekar smár fiskur, en samt nokkrir sæmilegir boltar innanum“.  B.  Á innra byrði; að innanverðu.  „Nokkuð sót var innanum kofann frá því þar var reykt áðurfyrr“.

Innanundirfatnaður / Innanundirföt / Innanundirbuxur / Innanundirhúfa / Innanundirpeysa / Innanundirsokkar / Innanundirskyrta / Innanundirvettlingar   Fatnaður sem borinn var innanundir öðrum af sama tagi; hinn innri þó oft þynnri og óverulegri.  „Ertu ekki í neinum innanundirsokkum“?

Innanúrtaka (n, kvk)  Taka/brottnám innyfla úr skrokk.  „Ég vann um skeið við innarúrtöku í sláturhúsinu“.

Innanverður (l)  að innan; innri hluti.  „Heldur nú Einar sem leið liggur með bola upp á hálsinn innanverðan“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Innanvert við (orðtak)  Innantil við.  „Smérhaldshillur eru innanvert við Djúpadalsgjá“ (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).

Innanvið (fs)  A.  Fyrir innan; innanvert við.  „Sleggjan er rétt innanvið dyrnar í verkfærahúsinu“.  B.  Minna en.  „Við fengum eitthvað innanvið tunnu í þessari vitjun“. 

Innanþilja (ao)  Inni í vegg þiljaðs húss.  „Þarna hafði músin hreiðrað um sig innanþilja“.

Innari / Innri (l, mst)  Sá sem er innar en annar.  Í seinni tíð hefur sterkari beygingarmyndin „innri“ verið almennt notuð, en líklega er veikari beygingarmyndin „innari“ upprunalegri.  Meðal Kollsvíkinga var algengt að tala um t.d. innari stíuna í fjárhúsi, eða innari strenginn á netamiðum.  Sama var með utari -ytri, sjá þar.

Innarlega (ao)  Innantil; nær innri enda.  „Við fundum féð innarlega á Hálsinum“.

Inná (ao)  Inn á tún; inni á túni.  „Hún Grána er enn einusinni komin inná“.  „Ætliði að hafa kindurnar inná í allan dag“?  Orðið sést ekki í orðabókum en svo virðist sem boltafréttamenn hafi tileinkað sér þetta málfar Kollsvíkinga í seinni tíð. 

Innávið / Innum (ao)  Inneftir; innum; í áttina inn.  „Við förum hlíðina innávið; inn í Láturdal“.  „Ég mætti honum á Hænuvíkurhálsinum á leið innávið.  Hann hefur líklega snúið við á Núpnum“.  Ertu á leið innum“?

Innbyrða (s)  Taka inní bát.  „Þegar því var lokið voru niðurstöðurnar gerðar upp; belgirnir innbyrtir og róið í land. “  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Inndú / Inndúls (n, hk)  Innvols; innmatur; innihald.  „Það er mikill matur í inndúlsinu“.  (Inndúls er úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar). 

Inneftir (ao)  Um áttir:  Talað er um að fara inneftir þegar farið er frá Kollsvík inn í Hænuvík; Örlygshafnarbæi; innfjarðarbæina; Rauðasand eða á Patró.  Hinsvegar er talað um að fara úteftir þegar farið er að Breiðuvík eða Hvallátrum.  „Ég er þá farinn inneftir; ég kem við á Gjögrum og tek úttektina“.

Inneftirleið (n, kvk)  Leiðin/ferðin inneftir.  „Ég sá kindahóp niðri á Sanddal á inneftirleiðinni“.  Getur einnig merkt fyrirætlan:  „Ertu á inneftirleið eitthvað á næstunni“?

Innfelldur (l)  A.  Felldur inní.  Texti með innfelldum myndum“.  B.  Um net; innsett; felld inn; felld á teina.

Innfjarðarbóndi (n, kk)  Bóndi inni í firði.  „Innfjarðarbændur eru óhressir með þessa niðurröðun á slátrun“.

Innfjarðarbúi / Innfjarðarmaður (n, kk)  Íbúi á innfjarðarbæ, þ.e. bæ við innanverðan Patreksfjörð.  „Innfjarðarbúar þurftu ekki að fara fjallvegi í kaupstað, en Raknadalshlíðin var öllum jafn leiðinleg“.

Innfjarðarbær (n, kk)  Bær sem tilheyrir Innfirðinum í Rauðasandshreppi.  „Innfjarðarbæirnir sáu um blótið í fyrra, ásamt Rauðsendingum“.

Innfjarðarfé (n, hk)  Sauðfé innfjarðarmanna.  „Það er stefnt að því að slátra innfjarðarfé á mánudaginn“.

Innfjarðarmið (n, hk, fto)  Fiskimið inni í firði.  „Sum innfjarðarmið þekki ég; einkum grásleppumiðin“.

Innfjörður (n, kk)  A.  Innri hluti fjarðar.  B.  Byggð við innri hluta fjarðar.  Þetta var hin almenna notkun orðsins í Rauðasandshreppi.  Til innfjarðarins taldist byggðin við Patreksfjörð innan Örlygshafnar.  „Er ekki Innfjörðurinn með þorrablótið næst“?  C.  Fjörður innaf öðrum firði.  „Ósafjörðurinn er innfjörður úr Patreksfirði.  Á Skeiðseyri, innst í Ósafirði, geymdu Barðstrendingar báta sína; milli þess sem þeir reru úr Kollsvíkurveri“.

Innfrá (ao)  Innanvið; fyrir innan Hálsinn.  „Þau skruppu inná Gjögra.  Við klárum þetta meðan þau eru innfrá“.

Innfyrir (ao)  Í hvarf inneftir.  „Ég horfði á eftir honum innfyrir Trumbuna“.  „Komdu innfyrir“.

Inngjafarbyssa (n, kvk)  Síðari tíma orð; ormalyfsbyssa; áhald sem notað er til að koma ormalyfi ofaní sauðfé; ýmist pípa til að færa töflu afturfyrir tungurætur eða dæla til að koma fljótandi lyfi á sama stað.

Inngjöf (n, kvk)  A.  Það sem gefið er inn, t.d. lyf.  Oftast þá notað um ormalyfjagjöf sauðfjár.  B.  Stjórntæki vélar, til að gefa henni aukið eldsneyti og þar með afl; bensíngjöf.

Inngróinn (l)  A.  Um það sem gróið hefur inn í skinn.  „Það var erfitt að ná þessari inngrónu tánögl“.  B.  Líkingamál um það sem orðið er mönnum venja/árátta.  „Hann breytir varla svo inngrónum ávana“.

Innhallandi (l)  Um það sem hallar inn/innávíð.  „Tóftarveggurinn er orðinn mjög innhallandi, og gæti verið hættulegur bæði skepnum og fólki“.

Innhlaup (n, hk)  Afdrep; skjól; samastaður.  „Hjá þeim hjónum átti ég alltaf innhlaup þegar ég var á ferð í bænum“.

Innibundinn (l)  Bundinn inni.  „Kýrin er ansi óróleg að vera svona innibundin; skyldi þessi sæðingamaður ekkert vera á leiðinni“?

Innibyrgður (l)  Lokaður inni.  „Það er ekki hægt að hafa kýrnar innibyrgðar í þessari blíðu“.

Innibyrgja (s)  Loka inni.  „Veðrið er mikið að lagast, svo ég er ekkert að innibyrgja féð lengur“.

Innidráp (n, hk)  Aflögð veiðiaðferð, en þá var svartfugl rekinn í aðhald eða kvíar í bjarginu og drepinn þar.

Innidyr (n, kvk, fto)  Dyr inni í húsi; dyr innaf útidyrum.  „Hleyptu hundinum inn í skúrinn en lokaðu innidyrunum“.

Innifóðrað (l)  Um búfé; haft inni og gefið fóður.  „Fóðurþörf er nokkuð fyrirsjáanleg á innifóðraða kind, en erfiðara að ætla á það sem hefur útigang“.

Innifóðrun / Innigjöf (n, kvk)  Fóðrun búfjár á húsum; innistaða.  „Féð hefur verið á innigjöf þessa óveðursdaga“.

Innifóður (n, hk)  Fóður til að fóðra búfé á innistöðu að vetrarlagi.  „Mun láta nærri að hey nægi í innifóður; kúm í 35 vikur, hrossum og saufé í 20 vikur“  (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1930).  

Innihaldslaus (l)  Oftast um málefni/fullyrðingu/ræðu; án upplýsinga/meiningar/vitræns samhengis.  „Mér fannst þessi ræða að mestu vera innihaldslaust kjaftæði“!

Innidráp (n, hk)  Slátrun bjargfugls eftir að hann hefur verið kvíaður inni á kvíarhillum í bjarginu.  „Ekki var allur fugl snaraður.  Víða á hillum í Bjarginu, þar sem hagaði vel til og í skútum, voru hlaðnar kvíar, sem kallað var.  Þetta voru einfaldar grjóthleðslur, 60-90 cm háar, sem girtu af fyrir framan varpstæðið.  Var haft hlið á girðingunni, stundum framá og stundum opið til annars endans.  Fuglinn lenti af fluginu á brúninu framanvið girðinguna, eða á syllunni til hliðar, og gekk um hliðin út og inn.  En svartfuglinn er þannig er þannig byggður til flugtks að hann getur ekki spyrnt sér um leið og hann tekur flugið.  Hann getur ekki spyrnt sér upp inni í kvíunum.  Þegar veiðimennirnir komu fóru þeir í hliðin og gripu fuglinn inni.  Þetta hét innidráp“  (MG; Látrabjarg; heimild DE).

Innidroll / Innihangs /Inniseta (n, hk/kvk)  Hangs/droll inni í húsi þegar veður er gott og/eða nóg er að gera útivið.  „Ég held ykkur væri nær að kíkja upp í hornabú í svona veðri strákar, en vera að þessu innihangsi“!

Innikakkað / Inniparrukað / Innisperrt (l)  Lokað inni.  „Hann er örlítið að laga veðrið, sýnist mér; ég ætla að láta féð aðeins út.  Það er ómögulegt að hafa það svona innikakkað allan daginn“.  „Ég held að þetta ullarát komi ekki síst til ef féð er lengi inniparrukað“.

Innikróaður (l)  Lokaður af; umkringdur; innilokaður.  „Við vorum þarna innikróaðir milli tveggja snjóflóða“.

Innikökkun (n, kvk)  Innilokun við þröngar/slæmar aðstæður.  „Ég er ekkert fyrir svona innikökkun á fé þegar eitthvað viðlit er að beita því út“.

Innilegheit (n, hk, fto)  Innileiki; ástúð; blíða.  „Það voru víst engin innilegheit þegar þeir fóru að ræða eignarhaldið á hrútnum“!  „Þau hjón hafa ekki sýnt okkur annað en innileguheit og velvild“.

Innilokaður / Innitepptur (l)  Lokaður inni; innikróaður.  „Ófærðin var oft so mikil í snjóþungum vetrum, að Kollsvíkingar voru innilokaðir vikum saman“.

Innísláttur (n, kk)  Um lykkju af netatein sem slegist hefur inní netið og flækt það.  Oftast gerist það þegar notaðir eru kubbar eða blý uppá linum teinum.  „Hér hefur orðið fjárans innísláttur“.

Innistaða (n, kvk)  Ekki hægt að hleypa fé út til beitar vegna óveðurs; fannfergis  eða annars.  Innistaða þýddi fulla gjöf og jafnvel vatnsburð.  Langvarandi innistaða var fátíð í Kollsvík meðan fé var haldið til beitar.  „Vetur þessi var, eins og menn muna, einn sá allra harðasti hvað jarðleysur áhrærir.  Á flestum bæjum var hrein innistaða í 4-5 mánuði.  Vildu mönnum til miklar og góðar heybirgðir“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   „Kom allur fénaður á innistöður með desembermánuði, sem hélst sökum beitarskorts fram á fyrstu viku góu“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1937). 

Innistöðudagur (n, kk)  Dagur sem fé er ekki látið út, allajafna vegna veðurs.  „Innistöðudagar á fé voru tveir á vetrinum; annar vegna rigningar og hinn vegna skafrennings“ (MG; Árb.Barð 1959-67). 

Innistöðufé (n, hk)  Fé sem hýst er allan veturinn.  „Innistöðufé þarf góð húsog gott fóður“.

Innistöðugjöf (n, kvk)  Fóðrun fjár á innistöðu.  „Féð fékk lítið í sig úti núna; það þarf fulla innistöðugjöf“.

Innistöðutíð (n, kvk)  Svo slæmt tíðarfar að fé er iðulega á innistöðu, þar sem ekki er unnt að halda því til beitar.

Innistöðuveður (n, hk)  Svo slæmt veður að fé er ekki haldið til beitar.

Innivera / Innivist (n, kvk)  Dvöl inni í húsi.  „Maður getur orðið ruglaður á þessum bóklestri og inniveru“.

Inniverk (n, hk)  Verk sem unnið er inni í húsi.  „Ég kem og hjálpa ykkur þegar ég er búin með inniverkin“.

Innivið (ao)  Inni; inni í húsi.  „Hann er ekki innivið eins og stendur, en ég skila þessu til hans“.

Innísláttur (n, kk)  Um lykkju eða stein af netatein sem slegist hefur inní netið og flækt það.  Oftast gerist það þegar notaðir eru kubbar eða blý uppá linum teinum.  „Hér hefur orðið fjárans innísláttur“.

Innísleginn (l)  Um netastein/blý/lykkju; sleginn inn/upp í netið.  „Steinninn var innísleginn, og því var lítil veiði í endann“.

Innkulsa (l)  Ofkældur; gegnkaldur.  „Vertu ekki að glænapast svona; farðu inn áður en þú verður innkulsa“.

Innlagður (l)  Lagður inn  „Það munar um hvern innlagðan dilk í reikningunum“.

Innlagnarfjandi / Innlagnargjóla / Innlagnarskítur (n, kk/kvk)  Önnur/niðrandi heiti á innlögn  „Við skulum klára að vitja hér frammi; það verður ekki betra þegar kominn er innlaganarfjandinn“.

Innlagnargutlandi / Innlagnartyppingur / Innlagnarveltingur (n, kk)  Slæmt sjólag vegna innlagnar.  „Hann getur orðið fjandi krappur þessi innlagnartyppingur“.

Innlagnarvottur (n, kk)  Vottur að innlögn; upphaf innlagnar.  „Er kominn einhver innlagnarvottur svona snemma dags“?

Innlátning (n, kvk)  Fé hleypt inn í fjárhús.  „Féð er allt að koma heim að húsum undan veðrinu; ætlar þú að fara í innlátningu“?

Innlánsdeild (n, kvk)  Einskonar bankastarfsemi sem mörg kaupfélög landsins stunduðu.  Þau tóku þá fé til geymslu og greiddu af því vexti/innlánsrentu.

Innlegg (n, hk) A.   Það sem bóndi leggur inn í sitt kaupfélag/pöntunarfélag/sláturfélag af afurðum búsins.  „Síðari ferðin var svo farin á haustin.  Var þá venjulega farið með ullina til innleggs; væri ekki búið að koma henni frá sér áður“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  B.  Sérstakur illeppur í skó, vegna ilsigs.  C.  Innskot/framlagning máls í umræður.  „Þakka þér fyrir þitt innlegg“.

Innlit (n, hk)  Viðkoma; viðstaða; heimsókn.  „Þakka þér fyrir innlitið“.

Innlyksa (l)  Innilokaður.  „Hann sagði að færðin væri að versna og hann vildi ekki verða innlyksa“.

Innlögn (n, kvk)  Sólfarsvindur/ aðlögn.  Eftir hlýjan og sólríkan dag má allajafna búast við að talsverður vindur leiti inná land síðdegis og framá kvöld.  Innlögn getur orðið allhvöss í Patreksfirði og rifið upp krappa vindbáru.  Sólfarsvindur í Kollsvík nefnist aðlögn.  „Farið var af stað síðari hluta dagsins þegar innlögn lá í fjörðinn, en komið út að nóttinni þegar lygnt hafði eða jafnvel var kominn landsynningskaldi“  (KJK; Kollsvíkurver).

Innmatur (n, kk)  Slátur; allt matarkyns af búfé utan skrokkurinn sjálfur; t.d. haus, hjarta, lifur, nýru, mör, blóð, vambir, vélinda, barki, lungu, lappir og fleira.  „Lengi vel var engin sala í innmat úr lömbunum sem lögð voru inn í Kaupfélagið, svo slátrið var tekið heim og unnið úr því.  Það var mikil vinna, en allt var nýtt sem ætt taldist  Fyrst þegar ég man að ég kæmi að slíku var að ég hélt í ristla meðan þeir voru ristir og skafnir“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Innmið (n, hk)  A.  Staðir inni í firði sem fiskimið eða siglingaleið eru miðuð við.  „Gáðu að innmiðum þegar farið er fyrir Nesflöguna; þá þarf Háanesið að vera vel ljóst“.  B.  Fiskimið inni í firði.  „Ætli við gætum ekki fyrst í strengina á Láturdalnum en geymum þá sem eru á innmiðunum“.

Innpakka (s)  Pakka inn.  „Ég innpakkaði sérlega vel því sem brothætt var“.

Innprenta (s)  Innræta, gera trúlegt í augum annars.  „nú gengur hann um sveitir og reynir að innprenta fólki þessa nýju pólítík“.

Innrekstur (n, kk)  Sú athöfn að reka kindur í rétt/aðhald.  „Það þarf fleira fólk í innreksturinn“.

Innréttaður (l)  Um hús/bíl eða annað lokað rými; frágengið að innan. B.  Líkingamál um mann; hugsandi; innrættur.  „Mér datt ekki í hug að stela þessu; ég er ekki þannig innréttaður“.

Innridyr (n, kvk, fto)  Gangdyr; dyr innanvið útidyr og anddyri.  „Hallaðu innridyrunum svo hundurinn sé ekki vaðandi hér um allt“.

Innrím (n, hk)  Um kveðskap; rím í miðri hverri ljóðlínu sem rímar út alla vísuna.  „Andans flótti ógnar mér,/ orðagnóttin flúin./  Njörvadóttir nálgast fer./ nærri þróttur búinn“ (JR; Rósarímur). 

Innrætni (n, kvk)  Art; eðli; upplag í geðslagi/hegðun manns.  „Þarna kom innrætni hans berlega í ljós“.

Innsandur (n, kk)  Innri hluti Rauðasands og bæir sem þar eru.  Oft var þá átt við bæi innanvið Saurbæ, en stundum þó aðeins miðað við bæi innan Bjarngötudals.

Innsetning (n, kvk)  Felling nets upp á tein/þin.  „Mér finnst innsetningin ekki vera góð á þessum netum“. 

Innsetningabekkur (n, kk)  Fellingabekkur; sérstakt áhald til að setja inn/fella net á tein með rörfellingu.  Bekkurinn er statív/standur sem á er fest röri (um ø 40-50mm).  Þegar sett er inn er byrjað á að bregða öllum fellimöskvum á öðrum jaðri netsins netsins upp á rörið; hluta þeirra er brugðið uppá það með skutilbragði.  síðan er netateinnin/þinurinn þræddur gegnum rörið, móti þeim sem setur inn, um leið og hann fellir hvern möskva eftir annan fram af rörinu og um teininn og hefur hnútana með vissu millibili.  Sama aðferð er viðhöfð við hinn jaðar netsins og að lokum er gert fyrir endana með augasplæsi eða endasplæsi.  Vestra var lengi til sérstakur lágur tréstóll með þessum búnaði áföstum, og gekk hann milli bæja eftir þörfum.

Innsetningagarn (n, hk)  Fellingagarn; netagarn; garn sem notað er til að fella net, þ.e. festa net á tein/þin, oftast með nálarfellingu.  Garnið er þá undið upp á netanál með sérstökum hætti; nálinni er síðan stungið í gegnum nokkra samliggjandi jaðarmöskva netsins í einu, sitt á hvað, og gerður hnútur á teininn/þininn með vissu millibili, þannig að slaki verður í netinu miðað við þininn.

Innliglingarvarða (n, kvk)  Leiðarvarða; leiðarmerki; varða sem noruð er sem mið á innsiglingarleið í höfn/lægi.  „Innsiglingarvarða var á Norðariklettunum“.

Innsjón (n, kvk)  Innsæi; hugljómun; skilningur. 

Innsog (n, hk)  Stilling á vél, sem ræður því hve sterk eldsneytisblanda fer inná strokkana. „Ég greip með varúð í innsogið; annað var fullspennt, og vélin bætti við sig“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Innsprauting (n, kvk)  Sprautun; lækning með sprautun.  Orðið heyrist ekki í seinni tíð.  „Ormaveikin hefur gjört vart við sig á stöku bæjum.. Ennfremur lystarleysi í ám og lömbum, þó orma hafi ekki orðið vart hjá þeim hinum sömu.  Með innsprautingu hefur tekist að ráða bót á þessu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Innsti koppur í búri (orðtak)  Sá aðili sem öllu ræður á tilteknum stað; ráðamaður staðar/starfssviðs.  Orðtakið er stytting úr málshættinum; „Ekki skyldi bóndi innsti koppur í búri“.   Vísar það til þess að húsbóndi á að skipa verkum á heimilinu en ekki vera eins og hreyfingarlaust ílát innst í búri, sem húsfreyja grípur til stöku sinnum þegar hún þarf að nota það.  Fyrri partur málsháttarins heyrist ekki nú á tímum.

Innstraumur (n, kk)  Straumur/fall með stefnu inn fjörð.  „Hér er kominn innstraumur, við byrjum þá að draga grunnendann“.

Innstrúx (n, hk)  Tilskipun; fyrirskipun.  „Ekki veit ég til hvers þetta Alþingi er nú til dags; það gerir lítið annað en skrifa uppá einhver innstrúx frá Evrópusambandina, án þess að hafa neitt um þau að segja“!

Innstunga (n, kvk)  Rafmagnstengill í vegg.  Var almennt notað í fyrstu rafvæðingu, og er enn af sumum, þó flestir noti orðið „tengill“.

Inntak (n, hk)  Innihald; meining; boðskapur.  „Ekki greip ég það nú allt sem hann sagði, en ég held ég hafi náð inntakinu í því“.

Inntaka (s)  Meðtaka; grípa; skilja.  „Voruð þið nokkuð að inntaka það sem ég sagði ykkur strákar“?

Inntaka (n, kvk)  A  Samþykki inn í hóp; innganga; innlimun.  „Ég fékk inntöku í landsprófið“.  B.  Neysla; át; drykkja.  Einkum notað um lyf.  „Ekki veit ég nú hversu holl þessi inntaka er, en það er á læknisins ábyrgð“!

Inntakslítið (l)  Innihaldslítið; merkingarlaust; dauft.  „Mér fannst þetta vera inntakslítið raus um allt og ekkert“.

Inntekt (n, kvk)  Tekjur; innkoma.  „Grásleppuveiðarnar bættu verulega inntekt bænda sem þær stunduðu“.

Inntökubátur / Inntökuskip (n, hk)  Bátur sem fær uppsátur í útveri, og greiðir þar vertoll (sjá þar).

Inntökuskiphöfn (n, kvk)  Áhöfn á aðkomubáti í veri.  „Vermannabúðir hafa þar (í Lágnúpsveri) tilforna 18 verið.  Nú eru þar uppi 4ar sem þessar inntökuskiphafnir liggja við“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Innum (ao)  Um stefnu; inn fjörð/vík.  „Áttir og stefnur voru með lítið eitt öðrum hætti í Útvíkum og nágrenni en annarsstaðar tíðkaðist og nú er algengast.  Ekki síst átti það við á sjó, en einnig á landi:  Framum þýðir dýpra/fjær landi eða inn dalinn; uppum þýðir grynnra/nær landi eða ofar í landinu;  útum þýðir út fjörðinn eða í stað sem er utar á landsvæði; innum þýðir inn fjörðinn eða innyfitr heiði/ inn í fjörð“.   „Það var kaldaskítu og veltingur úti á Flóanum, en lægði mikið hér innum“.

Innundir (ao)  Inn undir.  „Hægt er að sigla innundir Breiðavíkurkleifina, og út hinumegin“.

Innundir sig (orðtak)  A.  Um mann; slóttugur; kænn.  „Karlinn var nokkuð ólíkindatól og innundir sig“.  B.  Um klett/bjarg; slútir framyfir sig; loft.  „Það gæti verið loftsig þarna neðst; þar sem bjargið er innundir sig“.

Innúr (ao)  Áttavísun; inn í fjörð, t.d. úr Kollsvík inn í Hænuvík/Örlygshöfn/Patreksfjörð.  „Það er nokkur tími síðan hann fór innúr; hann ætti að vera kominn á Gjögra“.

Innúr / Innúrblautur / Innúrvotur (l)  Blautur inn að skinni; gegnvotur.  „Ég varð gjörsamlega innúr í þessari fossrigningu“.  „Skiptu nú um föt áður en þú ferð; þú getur ekki farið aftur af stað svona innúrblautur“.

Innúrleið (n, kvk)  Ferð innávið, t.d. úr Kollsvík inn í Hænuvík/Patreksfjörð.  „Ertu á innúrleið í dag“?

Innvafinn (l)  Vafinn/pakkaður/flæktur inn í.  „Bókin var innvafin í mörg lög af maskinupappír, en þar utanyfir var jólapappír“.  

Innveggur (n, kk)  Milliveggur/skilveggur inni í húsi.  „Innveggir voru einfaldir að gerð“.

Innver (n, hk)  Ver inni í firði/flóa.  Mun áðurfyrr hafa verið notað til aðgreiningar frá útverum, sem voru utan fjarða og rasta.  Verstöðvar í Skor og Keflavík voru þannig innver, en útver voru í Úvíkum.  Óljóst er til hvorst flokksins Láturdalur taldist; hefur sennilega verið innver eins og Hænuvík og Gjögrar.

Innvið (ao)  Inni hjá/við; innst við.  „Náðu fyrir mig í þessa upphyrndu, þarna innvið gaflinn“.

Innvik (n, hk)  Skarð; slöður; vogur; úrtaka.  „Utan Klaufartanganna er lítið innvik sem nefnist Bænagjóta“.

Innvikla (s)  Flækja í; draga inní.  „Sumir vildu innvikla hann í þessi mál“

Innviklaður (l)  Viðriðinn; viðkomandi.  „Eitthvað var hann innviklaður í þennan hóp“.

Innviklun (n, kvk)  Aðkoma/aðild (að máli/hópi).  „Ég skýrði mína innviklun í þetta“.

Innvirðulega (l)  Innilega; virðingarfyllst.  „Ef ég einhvern móðgað þá biðst ég innvirðulega afsökunar“.

Innvirðulegur (l)  Með innilegri virðingu.  „Ég kann þér mínar innvirðulegustu þakkir fyrir þetta“.

Innvirðulegheit (n, hk, fto)  Innileiki; virðing; yfirborðskennd kurteisi.  „Mér finnst nú alveg óþarfi að sýna þessum slordónum einhver innvirðulegheit með titlatogum, eins og þeir hafa komið fram“!

Innvígður (l)  Tekinn fullgildur/formlega í hóp/söfnuð.  „Í þeirri nefnd sitja aldrei aðrir en innvígðir sjálfstæðismenn“.

Innvígja (s)  Taka formlega inn í hóp/söfnuð.  „Maður hlaut að innvígjast í hóp gamalmenna, fyrst maður sneri ekki upp tánum áður en að því kom“.

Innvísandi (l)  Með vísun innávið.  „Hér er komið aðfall; mér sýnist færið vera heldur innvísandi“.

Innvols (n, hk)  Inndúls; innihald; innyfli.  „Nú er minna matreitt úr innvolsinu en áður“  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).  „Var all; bæði hausar og innvols, setti í poka jafnhliða“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal).  Oft stytt í vols

Innvortis (l/ao)  Inni í líkamanum; í innyflum; innra með sér.  „Hann kvartaði undan verkjum innvortis“.  „Manni líður betur innvortis þegar maður hefur sagt sína meiningu“.

Innvortisóþægindi / Innvortisseiðingur / Innvortisverkur (n, hk/kk)  Óþægindatilfinning/verkur innvortis.  „Einhver fjárans innvortisseiðingur er búinn að vera að hrella mig í dag“.

Innyfir / Inn yfir (ao/orðtak)  Inneftir og yfir.  „… og nú stóð svo á að skömmu eftir hinn umtalaða réttardag þurfti Gummi að reka sláturlömb sín inn yfir Hafnarfjall og til slátrunar á Gjögrum“  (PG; Veðmálið). 

Innyfli (n, hk, fto)  Innvols; innri líffæri.  „Þú mátt ekki æla öllum innyflunum drengur; við eigum enn eftir að borða nestið“!

Interessaður (l)  Áhugasamur; uppveðraður.  „Mér fannst hann lítið interessaður fyrir þessu“.

Irritera (s)  Ergja; pirra.  „Veriði nú ekki alltaf að irritera karlinn strákar; þið gerið hann bara kolruglaðan“!

Irriteraður (l)  Argur; pirraður; ergilegur.  „Hann var orðinn þreyttur og irriteraður eftir erfiðan dag“.

Irriterandi (s)  Truflandi; ergilegt.  „Andskoti er það irriterandi þegar þessir frambjóðendur gleyma loforðunum um leið og þeir eru sestir á þingstólana“!

Irrur (n, kvk, fto)  Pirringur; erjur; misklíð.  „Þannig gekk á ýmsum irrum og stríðni milli manna í Kollsvíkurveri, eins og víðar í verstöðvum“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Í aðra röndina (orðtak)  Öðrum þræði; dálítið; að sumu leiti.  „Þó það væri kannski ágætt að hafa meira hár til að halda hita á toppstykkinu, þá er maður í aðra röndina hálf feginn að þurfa sjaldnar að greiða sér“.

Í aðsigi / Í vændum (orðtök)  Væntanlegt; á leiðinni; að koma; yfirvofandi.  „Asskoti dimmir hann á suðurloftinu; nú gæti ég trúað að hellidemba sé í aðsigi“.  „Lukka lét sig hverfa með lömbin, eins og hún vissi hvað var í vændum“.

Í alfaraleið (orðtak)  Í þjóðbraut; við fjölfarna leið.  „Kollsvík er ekki í alfaraleið nú á tímum.  Hingað lágu þó leiðir margra um aldir; einkanlega meðan árabátaútvegur var undirstaða samfélagsins“.

Í alla staði (orðtak)  Að öllu leyti.  „Þessi flutningur tókst í alla staði vel, eins og til var stofnað, enda vel undirbúinn og unninn af gætnum mönnum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Í allra heilagra bænum / Í allra bænum / Í guðanna bænum (orðtök)  Upphrópanir/áherslusetningar sem oftast eru notaðar í upphafi aðalsetningar, sem þá er jafnan fyrirskipun, ákveðin beiðni eða aðvörun.  „Í guðanna bænum hættiði nú þessum hávaða, krakkar“!  „Í allra bænum farðu nú varlega í bjarginu“!  „Ég bað hann í allra heilagra bænum að reyna ekki að segja mér svonalagað bull“!

Í alvöru / Í fúlustu alvöru (orðtök)  Ekki í gamni/gríni/þykjustu; með alvöruþunga; í raunveruleika.  „Hann sagði þetta í fúlustu alvöru“.

Í andaslitrunum (orðtak)  Að dauða kominn; aðframkominn; langt leiddur.

Í annan stað (orðtak)  Auk þess; til viðbótar; að öðru leyti. 

Í annan tíma (orðtak)  Ekki núna; á öðrum tíma.  „Í annan tíma hefði ég reynt að hreinsa af stallinum, en nú var farið að rigna og ekki annað ráð en að koma sér uppá brún“.  „Ég hef ekki orðið hræddari í annan tíma“!

Í auknum mæli (orðtak)  Í auknu magni; með auknum fjölda/þunga.  „Telur fundurinn að verði það ekki gert sé sú hætta fyrir hendi að fólk flytji brott úr sveitinni í stórauknum mæli“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).    Sjá í miklum/töluverðum/auknum mæli.

Í axlir / Í mitti / Í klof / Í hné / Í ökkla / Í skóvarp (orðtök)  Um dýpi á vatni, sjó, snjó eða öðru.  „Gáfu þeir hann út og hann óð eins langt og hann orkaði; þá var hann kominn í axlir“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Í (góðum) álnum/efnum (orðtak)  Ríkur; efnaður; við álnir/efni.  „Hann er sagður í góðum álnum“.  Alin vaðmáls var fyrr á tíð helsta verðeiningin í landnu.

Í árdaga (orðtak)  Í upphafi tímans; fyrir löngu.  „En svartbakurinn var á vakt, og stóð við sinn hluta samningsins sem hann gerði við selinn í árdaga.  Hann var þannig að svartbakurinn átti að vaka yfir selnum þegar hann fengi sér blund á landi; gegn því að svartbakurinn fengi alla afganga af veiði selsins“  (IG; Sagt til vegar I).  

Í áttina (orðtak)  A.  Í rétta átt; áleiðis.  „Ég fylgdi honum í áttina“.  B.  Áleiðis að takmarki; nokkuð.  „Þetta eru ekki miklar kjarabætur, en þær eru þó í áttina“.  „Hann sagði þetta, eða eitthvað í þá áttina“.

Í bak / Í stjór (orðtök)  Um siglingu báts/skips; á bakborða/stjórnborða.  „Á sama augnabliki vék Árni bátnum í bak og bað um fulla ferð. ...  Báturinn reis að aftan og hallaðist mikið í bak, svo við lá að hann tæki sjó um bátsrúmið“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   

Í bak og fyrir (orðtak)  Á alla kanta; allur.  „Hún faðmaði mig í bak og fyrir þegar hún heilsaði“.  Einnig þekktist orðtakið „í brjóst og bak“ í sömu merkingu.

Í barnsminni (orðtak)  Í minni frá barnæsku.  „Þessi atburður er mér enn í barnsminni, eins og hafi gerst í gær“.

Í bága við (orðtak)  Í andstöðu við; ekki í samræmi við.  „Hann gerði þetta í bága við mín tilmæli“. Sjá bági og fara/ganga/koma í bága við

Í bál og brand (orðtak)  Um það sem fer illa/ það sem endar í slagsmálum/óreiðu.  „Ekki var hann fyrr búinn að stilla til friðar en allt var komið í bál og brand aftur“.  Brandur merkir hér eldibrandur/eldiviður.

Í beit (orðtak)  Í röð; hvað á eftir öðru.  „Lengi vel var ekkert að hafa þarna nema smáfisk á stangli, en yfir liggjandann dró ég meira en tuttugu golþorska í beit“.

Í belg og biðu (orðtak)  Samtímis og óskipulega.  Sjá tala í belg og biðu, og leggja orð í belg.  Belgur og biða eru hvorttveggja ílát.  Það sem talað er niður í þau skilst illa vegna bergmálsins.

Í besta/versta falli (orðtak)  Í besta/versta tilfelli.  „Ég held að þú fiskir ekki mikið þarna; í besta falli einhverja marhnúta“!  „Við skulum reyna þetta.  Í versta falli höfum við ekkert uppúr krafsinu“.

Í bili (orðtak)  Í stuttan tíma; eins og nú er; núna.  „Báturinn var þurrausinn í bili“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Í bígerð (orðtak)  Á prjónunum; í bruggi/undirbúningi.  „Hann er með ýmislegt í bígerð, þessu viðvíkjandi“. 

Í bítið / Í rauðabítið (orðtak)  Snemma/árla morguns.  Rauðabíti vísar til morgunroða á himni.  „Hann gisti þar um nætursakir, en lagði aftur af stað í rauðabítið morguninn eftir“.

Í bland (orðtak) Í og með; meðfram; sumpart.  „Líklega hefur þetta í bland verið ætlun hans frá upphafi“.

Í bland við (orðtak)  Blandað saman við; með; ásamt.  „Þetta er ágætt hvort í bland við annað“.

Í blálokin (orðtak)  Í lokin; að síðustu; þegar er að enda.  „Það kom svolítil hrota í blálokin á vertíðinni“.

Í blíðu og stríðu / Í blíðu jafnt sem stríðu (orðtak)  Gegnum þykkt og þunnt; í velgengni nafnt sem mótlæti.  „Þeir hafa alltaf staðið saman í blíðu og stríðu, og munu gera það í þessu máli“.

Í blóð borinn (orðtak)  Meðfæddur.  „Ég var barnungur, fimm ára, en áhugi á hestum var mér í blóð borinn“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Í blóma lífsins (orðtak)  Á besta æviskeiði.  „Alltaf er það sorglegt þegar menn eru burtkallaðir í blóma lífsins“.

Í blóra við (orðtak)  Án vitundar; út á.  „Sú kjaftasaga fékk fæturna að gamli maðurinn hafi reyndar látist mörgum mánuðum fyrr, og heimilisfólkið hafi geymt hann í frystikistu og fengið ellilaunin áfram í blóra við þann gamla.  En fyrir alla muni hafðu þetta ekki eftir mér“.   Orðið blóri hefur fyrir löngu týnt upphaflegri merkingu, en lifað í orðtökum, s.s. „blóraböggull“; „gott er að hafa barn til blóra“ og „hafa sér til blóra“.  Vegna þess hefur merking þess að „gera í blóra við“ stundum ranglega yfirfærst á að „gera í trássi við“.

Í bobba (orðtak)  Í vandræðum/þröng; aðþrengdur.  „Ég er í nokkrum bobba með þetta“.  Sjá bobbi; kominn í bobba; setja í bobba.

Í bragði (orðtak)  Um svipbragð/líðan/viðmót einhvers.  Jafnan notað með lýsingarorði:  „Hann var fremur dapur í bragði þegar hann lýsti því hvernig lambið hrapaði fyrir augunum á honum“.  „Hann sagði glaður í bragði að þetta hefði alveg bjargað deginum fyrir sér“.

Í bráð og lengd (orðtak)  Til styttri og lengri tíma.  „Mér verður hugsað til þess í bráð og lengd að þetta hefði getað farið á annan veg“.

Í bráðina (orðtak)  Á næstunni; fljótlega.  „Ég lagaði girðinguna; þær koma ekki inná þarna í bráðina“.

Í brjósti/broddi fylkingar / Í fylkingarbrjósti / Í fylkingarbroddi (orðtak)  Fremstur í hópi/liði/fylkingu.  „Össur var í brjósti fylkingar fyrir sína sveit í félagsmálum; mestan part sinnar starfsævi“.  Sjá brjóst.

Í bruggi (orðtak)  Um skipulagningu/undirbúning/ráðagerð; í undirbúningi; í ráðum; í bígerð.  „Þeir eru eitthvað með það í bruggi að reyna að komast undir Bjarg um helgina“.

Í brúki (orðtak)  Í notkun.  „Þú getur fengið skærin núna; þau eru ekki í brúki þessa stundina“.

Í byrjun (orðtak)  Í upphafi; til að byrja með; fyrst.  „Maður var hálf klaufalegur í byrjun, en vandist fljótt“.  „Þar sem þetta var í byrjun sláturtíðar þetta haustið, gekk dagsverkið heldur hægar en áætlað hafði verið“  (PG; Veðmálið). 

Í dauðans ofboði (orðtak)  Í miklum flýti.  „Sá ég þar út og í dauðans ofboði þrengdi ég mér í glufuna“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Í dauðanum / Í veröldinni/heiminum (orðtök)  Áhersluorð inni í setningum:  „Hvað í dauðanum gastu étið til að reka svona fúlt við“?  „Hvar í veröldinni voruð þið strákar; ég er búinn að kalla lengi á ykkur“?

Í deiglunni (orðtak)  Í vinnslu; í bígerð; verið að vinna að því.  „Mér skilst að þessi hugmynd sé enn í deiglunni, þó ekkert hafi enn orðið úr henni“.  Líking við járn sem brætt er í deiglu í smiðju, en það getur tekið tíma.

Í dentíð / Í þann tíð (orðtak)  Í þá tíð; á þeim tíma.  „Í dentíð var til siðs að fólk kysstist vð gestakomur“.

Í djöfulmóð (orðtak)  Upp á kraft; af offorsi.  „Svitinn bogaði af okkur eftir að hafa rutt inn heyinu af vagninum í djöfulmóð“.

Í eftirdragi (orðtak)  Dragandi á eftir; í togi.  „Kom hann taug í hvalinn og tókst að róa með hann í eftirdragi út í Kollsvík, en þar var hann dreginn á land“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Í eina tíð (orðtak)  Eitt sinn fyrir löngu; á liðnum tíma.  „Í eina tíð var þarna stekkur“.

Í einni striklotu (orðtak) Sjá í striklotu.

Í einni/sömu svipan (orðtak)  Allt í einu; um leið.  „Í einni svipan snerist báturinn og netið fór í skrúfuna“.

Í einni veifu (orðak)  Í samfelldri/snarpri vinnuskorpu/hreyfingu; í einu vetfangi.  „Hann vippaði hrútnum uppí kerruna í einni veifu“.  Veifa merkir hér hreyfing/sveifla.

Í einrúmi (orðtak)  Einn; útaf fyrir sig; ekki með öðrum.  „Hann vildi helst gera þetta í einrúmi“.

Í einu/tvennu/þrennu lagi (orðtök)  Heilt/ í tveimur/þremur hlutum.  „Hann tók svo hressilega á árinni að hún lá eftir í tvennulagi“.

Í einu vetfangi (orðtak)  Skyndilega; allt í einu; í einni veifu.  „Í einu vetfangi sviptist þakið af kofanum“.

Í einum grænum (hvelli) (orðtak)  Í hasti/hvelli/hendingskasti; með hraði; í einni svipan.  „Hentu til mín goggnum í einum grænum“!

Í essinu sínu (orðtak)  Í stuði; í góðu skapi; skrafhreyfur.  „Þá var Árni í essinu sínu; en skipanir hans voru ekkert mömmuhjal“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   Stolið orðtak frá Dönum (at være i sit es) og Þjóðverjum (in seinem Esse sein).  Merkingin er í raun að hafa gott olnbogarými.

Í fangið (orðtak)  Um það þegar vindur/veður er beint á móti.  „Þetta veður var beint í fangið, mest af leiðinni“  (ÖG; Harðsótt heimferð í jólafrí).

Í farvatninu (orðtak)  Á leiðinni; í aðsigi. „Það gætu verið fleiri breytingar í farvatninu“. Farvatn merkir siglingaleið; sjór/vatn sem farið er um.

Í ferðunum (orðtak)  Um þann sem þótti oft fara í ferðalög, t.d. til Reykjavíkur eða erlendis, var sagt að hann væri í ferðunum.  Jafnvel var orðtakinu bætt við nafn hans um tíma.  Þetta orðtak er að öllum líkindum upprunnið hjá GJH eins og margt annað staðbundið og hnyttið málfar í Rauðasandshreppi; enda notaði hann það gjarnan:  „Heldurðu að Ólafur í ferðunum sé kominn heim“?

Í fersku minni (orðtak)  Man mjög vel/glöggt.  „Þessir atburðir eru mér ennþá í fersku minni“.

Í félagi (orðtak)  Sameiginlega; í samvinnu; óskipt.  „Gísli skipti úr fjöru Einars hlut, en við lögðum inn í félagi; ég og formaðurinn“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Í félagi við (orðtak)   Í sameign.  „Hálfdán átti fjögurra manna far í félagi við Guðbjart“ (ÁE; Ljós við Látraröst).

Í fljótheitum/skyndingu / Í fljótu bragði (orðtak)  Með stuttum fyrirvara; strax; án umhugsunar/undirbúnings.  „Ég lagaði þetta í fljótheitum“.  „Í fljótu bragði sé ég ekkert athugavert við þetta“.

Í flútt við (orðtak)  Jafnt við; sem ber við/saman.  „Hornstaurinn er ekki vel í flútt við girðinguna“.  Sjá flútta.

Í forundran (orðtak)  Mjög undrandi/hissa.  „Hann var alveg orðlaus og starði á þetta í forundran“.

Í forveginn (orðtak)  Í varúðarskyni; til undirbúnings.  „Hann hafði fulla stjórn á bátnum í brimlendingunni en lét þó hella lýsi í sjóinn í forveginn, til að lægja ölduna“.

Í frómleika frá sagt (orðtak)  Í sannleika/einlægni sagt; satt best að segja.  „Ég heyrði þessa sögu svona, en í frómleika frá sagt þá verð ég að efast um ýmislegt í henni“.

Í fulla hnefana (orðtak)  Að fullreyndu.  „Hann lét sig ekki með þetta fyrr en í fulla hnefana“.

Í fullri meiningu (orðtak)  Um skammir/ávítur; með fullum þunga.  „Ég sagði við hann nokkur vel valin orð í fullri meiningu“.

Í fullu fjöri (orðtak)  Vel hress/vinnufær; ágætlega heilsuhraustur/ern.  „Hann sagðist vilja ljúka smíðinni meðan hann væri enn í fullu fjöri“.

Í fullu tré (orðtak)  A.  Um segl skipa; dregið upp að fullu.  „Skektan fannst seinna um sumarið norður í Patreksfjarðarflóa og kom þá í ljós að seglið hafði verið í fullu tré og bundið bæði dragreipi og skaut“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  B  Afleidd merking; að hafa í fullu tré við einhvern er að standast honum snúning í keppni/átökum.

Í fússi (orðtak)  Móðgaður; í fýlu; fornumaður.  „Hann rauk burt í einhverju fússi“.

Í fyrirrúmi (orðtak)  Í forgangi; mikilvægast.  „Ég læt það sitja í fyrirrúmi að greiða þessa skuld“.  Fyrirrúm er fremsta rúm í bát; aftan við háls/hálsrúm.  Í því rúmi reru bestu ræðararnir jafnan.

Í fyrndinni (orðtak)  Endur fyrir löngu; á fornum tímum. „Líklega hefur þarna staðið hús, einhverntíma í fyrndinni“.

Í fyrra/seinna lagi (orðtök)  Með fyrra/seinna fallinu; heldur fyrr/síðar en vonlegt var.  „Ég var mættur í fyrra lagi“.  „Maturinn verður í seinna lagi útaf rafmagnsleysinu“.

Í fyrradag (orðtak)  Daginn fyrir gærdaginn. 

Í fyrramálið (orðtak)  Snemma á morgun; í býtið á morgun.  „Við leggjum af stað í fyrramálið“.

Í fyrsta lagi (orðtak)  Ekki fyrr en.  „Hann verður í fyrsta lagi kominn eftir hálftíma, en líklega heldur síðar“.

Í fyrstu (orðtak)  Í upphafi; til að byrja með; framanaf.  „Ég hélt í fyrstu að ég hefði sett í lúðu“.

Í för með (orðtak)  Fylgjandi; meðfylgjandi.  „Hann slóst í för með mér út að Breiðuvík“.

Í föstum skorðum (orðtak)  Í röð og reglu; skipulega fyrirkomið; eins og vera ber.  „Formaðurinn sá til þess að félagsstarfið var í försum skorðum“.  Vísan til þess að skorður báts séu stöðugar/tryggar.

Í gadda slegið (orðtak)  Harðákveðið; alveg frá gengið.  „Þetta er nú ekki ennþá alveg í gadda slegið“.

Í garð (einhvers) (orðtak)  Um orð/tal; til einhvers; ætlað einhverjum.  „Ég þakka fyrir hlý orð í minn garð“. 

Í góðri meiningu/trú (orðtak)  Í góðum tilgangi; af góðum hug.  „Þetta var nú í góðri meiningu gert“.

Í góðu meðallagi (orðtak)  Alls ekki lakara en það sem venjulega/almennt er; rúmlega í meðallagi.  „Mér sýnist veiðin vera í góðu meðallagi, miðað við undanfarin ár“.

Í góðu/besta standi (orðtak)  Sem mjög vel er ástatt um.  „Spursmálslaust munu allar skepnur vera í besta standi allsstaðar“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Í góðu yfirlæti (orðtak)  Í góði vist; vel haldinn.  „Gistum við þar í góðu yfirlæti um nóttina“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Í gríð og erg (orðtak)  Af kappi; kappsamlega.  „Við hömuðumst við það í gríð og erg að moka heyinu inn af vagninum áður en færi að rigna fyrir alvöru“.

Í guðanna bænum / Í guðsbænum / Í öllum (guðs-)bænum (orðtak)  Endilega; fyrir alla muni.  „Í guðanna bænum farið þið nú varlega á þessum tunnubátum“.  Líklega er ákall til guða í fleirtölu eldra en ákall í eintölu, og má því ætla að þau séu notuð sitthvorumegin við kristnitökuna.  Síðasta orðtakið er hlutlausara.

Í guðsgrænni náttúrunni (orðtak)  Í grónu og friðslælu umhverfi.  „Við höfum með okkur nesti og snæðum það einhversstaðar á leiðinni; úti í guðsgrænni náttúrunni“.

Í guðsótta og góðum siðum (orðtak)  Um uppeldi fyrr á tímum.  Mikil áhersla var á að börn væru uppalin í guðsótta og góðum siðum.  Þetta hefur stórlega minnkað á síðari tímum; einkum guðhræðslan, enda er afkoma fólks tryggari; kirkjuveldið veikara og ótímabær dauði fjarlægari í huga fólks en fyrrum var.

Í gustukaskyni/guðsþakkarskyni (orðtak)  Af greiðvikni/góðvilja.  „Ég aðstoðaði hann við þetta í gustukaskyni; mér datt ekki í hug að taka neitt fyrir það“.  Sjá gustuk.

Í gær (orðtak)  Síðasta dag; daginn fyrir þennan. 

Í gærkvöldi (orðtak)  Síðastliðið kvöld.  „Hann kom hingað í gærkvöldi“.  Algengt er nú að sagt sé „gærkveldi“, en þá er verið að beygja heitið „kveld“ en ekki „kvöld“.

Í habít (orðtak)  Í óðakappi; í hlandspreng; keppist við.  „Ég var í habít að reyna að klára þetta verk“.

Í handaskolum (orðtak)  Í mistökum/óreiðu; mislánast.  „Þeir voru að reyna að greiða úr þessu, en það fór allt í handaskolum hjá þeim“.

Í hasti / Í snarhasti (orðtök)  Í flýti; undireins.  „Við drógum síðasta strenginn í snarhasti og náðum inn á fjörðinn áður en veðrið skall á“. 

Í háa herrans tíð/tíma (orðtak)  í mjög langan tíma.  „Þvílík fiskigengd hefur ekki sést í háa herrans tíð“.

Í hálfa gátt (orðtak)  Um dyr/glugga o.fl; opið til hálfs.  „Dyrnar voru í hálfa gátt“.

Í hálfu tré (orðtak)  Um siglingu skips; með segl uppi til hálfs/ í miðju siglutré.

Í hár saman (orðtak)  Rífast; slást; fljúgast á.  „Nú eru þeir enn komnir í hár saman útaf pólitík“!  Vísar til þess að áflogahundar rífa í hvors annars hár.

Í hástert (orðtak)  Óhóflega mikið; af hámarkskrafti.  Oftast um hrós/lof.  „Hann var hrifinn af bátnum og hrósaði honum í hástert“.

Í hávegum haft (orðtak)  Virt; borin virðing fyrir; haft til eftirbreytni; haldið uppá.  „Virðing fyrir fróðleik og sannindum var ávallt í hávegum höfð meðal Kollsvíkinga“.

Í heiminum / Í veröldinni (orðtök)  Til áherslu með spurnarorðum:  „Hvernig í heiminum datt þér þetta í hug“?!  „Hvar í veröldinni skyldu þessar kindur hafa haldið sig“?!  „Hvernig í veröldinni átti ég að vita það“?!

Í hel (orðtak)  Til dauðs; til dauða.  „Hækkaðu nú ögn hitann á ofninum, áður en við frjósum í hel“.

Í hendi/höfn (orðtak)  Komið fyrir vindinn; bjargað; fengið.  „Það verður ágætt að fá þetta, en það er nú ekki í hendi ennþá“.  „Loksins tókst að kom þessu máli í höfn“.

Í hendingskasti / Í (einum) (þan)spretti (orðtak)  Í einum grænum; í miklum flýti.  „Ég hljóp í hendingskasti niður að hliðinu“.  „Hann ætlaði ekki að láta kindurnar sleppa, og þaut í einum þanspretti yfir dalinn“.

Í henglum (orðtak)  Um klæði/segl/föt sem er gauðrifið/mikið rifið.  Hengill var áður heiti á kólf í klukku, en ekki notað sérstætt í seinni tíð.  „Yfirbreiðslan rifnaði öll í hengla í rokinu“.

Í heyranda hljóði (orðtak)  Þannig að allir viðstaddir heyri vel.  „Stefnuvottar gættu þess samviskusamlega að lesa stefnuna í heyranda hljóði“.

Í hita leiksins (orðtak)  Vegna ákafa/fyrirgangs/óláta/ærsla.  „Við lentum í eltum við þessar rolluskjátur, og í hita leiksins hef ég týnt húfunni úr vasa mínum“.

Í hitteðfyrra/hittifyrra (orðtak)  Á næstsíðasta ári; fyrir tveimur árum.  „Það var í hitteðfyrra, ein stúlka kom á kreik,/ svo knúsandi og dásamleg að tarna./  Við þessa glöðu meyju ég fór í feluleik./  Hún faldi sig í rúminu mínu þarna“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).   

Í hjáverkum (orðtak)  Sem aukavinna með öðru verki.  „Sigríður Guðbjartsdóttir á Láganúpi hefur málað firnin öll af listaverkum á steinhellur, og er þau víða að finna.  Allt var það unnið í hjáverkum með fullu móður- og húsfreyjustarfi“.

Í (einum) hlandspreng (orðtak)  Um hlaup/vinnu; í miklum flýti; með asa; af óðakappi.  „Við drifum flekkinn saman í galta í einum hlandspreng þegar við sáum að hann var að ljókka“.

Í hlutlausum (orðtak)  Um traktor/bíl; í frígír; ekki í áfram-/afturábakgír.  „Hafðu hann í hlutlausum á meðan ég sný í gang“.

Í humátt (orðtak)  Rakleiðis á eftir; í sömu átt.  „Strákurinn fór fremstur en í humátt á eftir honum komu heimalningurinn, kálfurinn, gæsin; og hundurinn rak lestina“.

Í hund og kött (orðtak)  Í hár saman; í rifrildi/slagsmál.  „Ekki má af ykkur líta, þá eruð þið komnir í hund og kött“!

Í hundraðavís (orðtak)  Svo hundruðum skiptir.  „Á höfðanum voru múkkahreiður í hundraðavís“.

Í húfi (orðtak) Sjá eiga í húfi; mikið í húfi.

Í húsi föður míns eru margar vistarverur (orðatiltæki)  Biblíutilvitnun sem oft er gripið til þegar lýst er einhverju stóru, oftast mikilfenglegu húsi.  Einnig notað í háði í orðastað þess sem er raupsamur.

Í (einum grænum) hvelli (orðtak)  Strax; tafarlaust.  „Sæktu hrífuna í einum grænum hvelli“.  „Sá var að hreinsa tófuskinn, en óðar undan leit/ og upphóf sína dóma þarna í hvelli./  „Þú ert alltof gömul; þú ert alltof feit;/ þú ert eins og belja á hálu svelli“!“ (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Í hvívetna (orðtak)  Að öllu leyti; algerlega.  „Það (áfengið) gjörir hann latan og kærulausan til allra nytsamlegra starfa og spillir heilsu hans í hvívetna“  (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938).

Í hægðum sínum (orðtak)  Með hægðinni; í rólegheitum.  „Hann gekk í hægðum sínum heim á leið“.

Í hæsta máta (orðtak)  Mjög; afar; algerlega.  „Þetta finnst mér í hæsta máta óeðlilegt“.

Í hönd (orðtak)  Yfirstandandi; viðvarandi.  „Það var lágsjávað og aðfall í hönd“  Frásögn ÍÍ (MG; Látrabjarg)

Í hönk (orðtak)  Aðþrengdur; skortir mjög.  „Ég á eitthvað af fóðurbæti til að lána þér; ertu alveg í hönk“?

Í illu (orðtak)  Af illindum; í reiði/sárindum.  „Það er allt annað að jagast í góðu en að slást í illu“.

Í kaldakoli (orðtak)  Í vitleysu/tjóni.  „Eftir sjóflóðið var auðvitað flest í kaldakoli á bænum“.  Sjá fara í kaldakol.

Í kaupbæti (orðtak)  Í ofanálag; til viðbótar; að auki.  „Í kaupbæti gaf hann mér hálfa hákarlslykkju“.

Í kili skal kjörviður (orðatiltæki)  Í kjöl á bát skal nota úrvalsvið.  Málshátturinn er líklega mjög gamall en Jónas Hallgrímsson notaði hann sem ljóðlínu í „Alþing hið nýja“ árið 1840 (2.erindi):  „Traustir skulu hornsteinar/ hárra sala./  Í kili skal kjörviður. /  bóndi er bústólpi;/ bú er landstólpi;/ því skal hann virður vel“.

Í kjölfar (einhvers)  (orðtak)  Á eftir einhverjum; í humátt á eftir einhverjum.  „Nokkurrar óánægju gætti í kjölfar þessarar ákvörðunar“.  Kjölfar skips á siglingu er iðukastið á eftir því.  Sjá fylgja í kjölfarið.

Í klof (orðtak)  Um snjó-vatnsdýpi; nær upp í klof.  „Þarna var snjór í klof, og hálfgerð ófærð“.

Í kluftir (orðtak)  Um snjó- vatnsdýpt; ekki dýpra en svo að varla hylur klaufir kinda á göngu.  Kluftir eru efst í bilinu milli klaufa sama fótar.  „Ekki er þetta djúpur snjór, varla nema í kluftir“.

Í krappan dans (orðtak)  Í erfiðleika; í slæmar aðstæður.  „Ég komst í ári krappan dans þarna í Röstinni“.

Í lakara lagi (orðtak)  Með verra móti; rýr.  „Uppskera úr görðum var í lakara lagi“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58). 

Í lamasessi (orðtak)  Bilað; virkar ekki; orðið lélegt.  „Flest tækin hjá honum eru í lamasessi“.  Lamasess er sæti lamaðs manns.

Í lágum hljóðum (orðtak)  Ekki hátt.  „Þeir töluðu eitthvað saman í lágum hljóðum, svo ég heyrði ekki“.  Sjá lesa í lágum hljóðum.

Í leiðinni (orðtak)  A.  Á veginum/leiðinni.  „Þetta er í leiðinni, þegar þú ekur inn fjörðinn“.  B.  Um leið; jafnframt.  „Ég setti féð inn og lagaði lömina á hurðinni í leiðinni“.

Í leiðslu (orðtak)  Annarshugar; hugsandi; hugfanginn; bergnuminn; úti á þekju. „Hann sat eins og í leiðslu og hlustaði á frásögnina“.

Í lengstu lög (orðtak)  Eins lengi og unnt er; eins og framast er unnt.  „Nauðsynlegt er að varðveita gamla og sérstæða menningu í lengstu lög“.

Í leti og ómennsku (orðtak)  Aðgerðalaus; latur.  „Það aflast lítið með því að liggja í landi í leti og ómennsku“.

Í leyfisleysi (orðtak)  Án leyfis.  „Við förum ekki í leyfisleysi í annarra manna björg“!

Í líkingu við (orðtak)  Líkt; svipað; með svipmót af; nærri því.  „Veðrið er ekkert í líkingu við spána“.

Í lítilli/mikilli mjólk / Í lítilli/hárri nyt (orðtök)  Um kú; mjólkar lítið/vel. 

Í ljá (orðtak)  Um tún; slegið; búið að slá.  „Ég átti þrjár sléttur i ljá þegar hann brast á með þessum látum“.

Í ljósi þess (orðtak)  Með skírskotun til þess; vegna þess.  „Í ljósi þessara upplýsinga var þetta ákveðið“.

Í (beinni) loftlínu (orðtak)  Í beinni línu milli staða/punkta (ekki eftir vegi).  „Milli bæjarhóla í Kollavík og á Láganúpi eru nákvæmlega tveir kílómetrar í beinni loftlínu.  Sama vegalengd er milli núverandi íbúðarhúsa á þessum bæjum (um árið 2000), sé farið eftir bílvegi“.

Í lokin (orðtak)  Að lokum; að síðustu; að endingu.  „Þessi úrslit komu Gumma gjörsamlega á óvart og upphófust nú háværar samræður.  Í lok þeirra sagði Gummi; svona til réttlætingar því hann varð undir í þetta skiptið…“  (PG; Veðmálið).   Einnig; í blálokin.

Í lóði (orðtak)  Um það hvort eitthvað sé lóðrétt.  „Mér sýnist að stoðin sé alveg í lóði núna“.  Dregið af mælingum með lóðlínu.

Í lófa lagið (orðtak)  Hæg heimatökin; auðvelt; tiltækt.  „Honum hefði verið í lófa lagið að vera búinn að þessu“.

Í lukkunnar velstandi (orðtak)  Í (stakasta) lagi; með kyrrum kjörum; með ró og spekt.  „Ég leit inn í fjárhúsin og þar virtist allt vera í lukkunnar velstandi“.

Í lygnu vatni er langt til botns (en í ströngu stutt grunnmál) (orðatiltæki)  Í lygnu má gjarnan sjá til botns þó djúpt sé.  Það sannast óvíða betur en á sandblettunum frammi á Kollsvíkinni.  Síðari hluti máltækisins var lítt notaður í Kollsvík, en hann vísar til þess að straumur er gjarnan stríðari þar sem grunnt er. 

Í manna minnum (orðtak)  Svo lengi sem elstu menn muna.  „Svona vetrarhlýindi hafa líklega ekki komið í manna minnum“.

Í makindum (orðtak)  Í afslöppun/vellíðan.  „Það dugir víst ekki að liggja hér í makindum þegar verkið bíður“.

Í mannaminnum (orðtak)  Svo lengi sem menn muna.  „Ég held bara að svona veður hafi ekki orðið á þessum slóðum í mannaminnum“.

Í massavís (orðtak)  Í miklum fjölda.  „Einhversstaðar eru bilaðar girðingar, eins og féð er farið að sækja inná í massavís“.

Í meðallagi (orðtak)  Hvorki mikið né lítið; í hófi.  „Eigi að síður gáfust hey fullkomlega í meðallagi…“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929).  Sjá í góðu meðallagi.

Í megnasta ólagi (orðtak)  Mikið bilaður; alls ekki í lagi.  „Vélin reyndist í megnasta ólagi“.

Í meira lagi (orðtak)  All/fremur mikið; nokkuð um of.  „Heldur þótti mér hávaðinn í meira lagi þarna á ballinu“.

Í meira lagi ankannalegt/skrýtið/undarlegt (orðak)  Mjög undarlegt; skýtur mjög skökku við.  „Mér þykir það í meira lagi ankannalegt ef þetta hefur farið framhjá mér“.

Í mesta lagi (orðtak)  Í það mesta; í versta falli; ekki meira en.  „Það verður lítið af þessum bletti; í mesta lagi tveir til þrír heyvagnar“.

Í miðið (orðtak)  Í miðjunni; um miðbik.  „Ég er líklega þessi í miðið á myndinni“.

Í miðjan legg (orðtak)  Um dýpt á snjó/vatni/sjó; upp á miðjan legg á fæti.  „Snjórinn er víða í miðjan legg“

Í miðju kafi (orðtak)  Meðan athögn/verk stendur yfir.  „Hann var að setja egg í kút, en hætti í miðju kafi og hljóp framá brúnina til að gá hvað hefði skeð“.

Í miðjum sjó (orðtak)  Milli botns og yfirborðs sjávar.  „Ég er handviss um að ég var með feiknarstóra lúðu á; en hún reif sig af í miðjum sjó“.  „Netasteinninn féll úr lykkjunni í miðjum sjó“.

Í miklum metum (orðtak)  Vinsæll; mikils metinn.  „Eitt verð ég þó að nefna í viðbót, sem meðal annars varð til þess að hann var í miklum metum hjá öllum gömlu konunum á Rauðasandi...“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Í miklum móð (orðtak)  Af miklu kappi; af dugnaði; í ham.  „Við ruddum heyinu í hlöðuna í miklum móð“.

Í miklum/töluverðum/verulegum mæli (orðtak)  Mjög/töluvert/verulega mikið; í miklu/verulegu magni.  „Ferðafólk er farið að sækja í Kollsvík í verulegum mæli á síðari árum“.  Vísar til þess að eitthvað, t.d. kornvara, sé mæld í mælikeri.  Sjá í auknum mæli.

Í millitíðinni (orðtak)  á tímanum sem líður á milli.  „Hann reri á tuðrunni með eggjakútana út í bátinn, en í millitíðinni gerðum við fleiri kúta klára til að slaka þeim niður af Vellinum“.

Í minnalagi (orðtak)  Með minna móti; minna en vant er/ búist var við.  „Aflinn var í minnalagi, en annars gekk róðurinn bara vel“.

Í minnum haft (orðtak)  Munað eftir; talað um.  Að hafa eitthvað í minni/minnum merkti áðurfyrr að drekka skál fyrir einhverju merku, en hefur fengið áðurnefnda merkingu í nútímamáli.

Í mínu ungdæmi (orðtak)  Þegar ég var ung(ur).  „...enn stunda ég hænsnabúskap með líku sniði og gert var í mínu ungdæmi“  (SG; Alifuglarækt; Þjhd.Þjms).  „Þar var róið að vorinu og nokkuð að sumrinu og jafnvel alveg fram á haust stöku sinnum í mínu ungdæmi“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Í mjólk (orðtak)  Um kú; mjólkandi.  „Hér eru tvær kýr í mjólk og ein geld“.

Í mýflugumynd (orðtak)  Um það/þann sem stendur stutt við; hefur stutta viðdvöl.    „Hann kom hér í mýflugumynd; rétt til að kasta kveðju á fólkið, en svo þurfti hann að rjúka“.

Í mörg horn að líta (orðtak)  Margt að gera/ fást við; mörg að sinna; önnum kafinn.  „Ég hef haft í mörg horn að líta þessa dagana“.  Stundum haft „ýmis“ í staðinn fyrir „mörg“.

Í nauðum staddur (orðtak)  Þarfnast aðstoðar; í neyð.  „Maður er auðvitað alltaf tilbúinn að aðstoða menn sem eru í nauðum staddir“.

Í náðinni hjá (einhverjum) (orðtak)  Nýtur góðvildar einhvers; í vinfengi við einhvern.  „Ég held ég sé ekki beinlínis í náðinni hjá honum eftir þetta“.

Í náinni framtíð (orðtak)  Á næstunni; á næstu dögum/tímum/vikum.  „Heldurðu að þetta verði eitthvað lagfært í náinni framtíð“?

Í neðra (orðtak)  Í Helvíti; í verri staðnum.  „Nú líkar honum lífið þarna í neðra; netið er allt samansúrrað af flækjum“!

Í nöp við (orðtak)  Fremur illa við; hafa ímugust á.  „Mér er alltaf dálítið í nöp við þessar enskuslettur“.  Nöp er heiti á nösum eða ölluheldur nasagöngum.  Orðtakið vísar líklega til þess að hnussa gegnum nefið.

Í nösunum á (einhverjum) (orðtak)  Um reiði/vandlætingu/móðgun sem er meira í orði en í raun.  „Það er ekki að marka hvernig hann bölsótast yfir þessu; það er nú bara í nösunum á honum“.

Í ofanálag (orðtak)  Til viðbótar/tilbótar; í viðbót; að auki.  „Svo gaf hann mér hákarlslykkju í ofanálag“!

Í og með (orðtök)  Að hluta til; að sumu leiti.  „Í og með hefur mig alltaf langað til að prófa þetta“.

Í orðastað (einhvers) (orðtak)  Fyrir munn (einhvers).  „Hann orti kvæðið í orðastað Kolls, þegar hann sneri við í Blakknesröstinni til að mæta örlögum sínum við Arnarboða“.

Í orði jafnt sem á borði / í orði en ekki á borði (orðtök)  Um það að saman fari orð og athafnir/ að maður geri það sem maður segist gera eða ætla að gera.  „Mér finnst að hann hafi unnið að þessu af fullum heilindum; í orði jafnt sem á borði“.  „Henni fannst þetta vera meira í orði en á borði hjá honum“.

Í orði kveðnu (orðtak)  Að sögn; látið líta út fyrir þó ekki sé raunverulega.  „Hann á jörðina í orði kveðnu, en í raun er bankinn hinn raunverulegi eigandi“.

Í orðsins fyllstu merkingu (orðtak)  Eins og framast er unnt að túlka; samkvæmt orðanna hljóðan. 

Í óða önn (orðtak)  Upptekinn við; í gríð og erg; af miklu kappi.  „Við vorum í óða önn að hirða af neðstu sléttunni þegar hann þykknaði skyndilega upp“.

Í óhirðu/ólestri (orðtak)  Í óreiðu/ólagi; í bland.  „Mér sýndist að skráningin á þessu væri öll í mestra ólestri“.

Í óskilum (orðtak)  Ekki í skilum; ekki hjá réttum eiganda.  „Hjá mér eru tvö ómörkuð lömb í óskilum“.

Í óspurðum fréttum (oðtak)  Án þess að innt væri eftir.  „Hann sagði mér í óspurðum fréttum að nú væri annað barn á leiðinni hjá þeim“.

Í óþökk (orðtak)  Móti vilja.  „Ég hreyfi ekki við fénu í óþökk eigandans“.

Í pottinn búið (orðtak)  Búið um hnútana; hagar til; liggur í hlutunum.  „Ég hef engar áhyggjur af þessu fyrst svona er í pottinn búið“.  „Hann greip strax til sinna ráða þegar hann sá hvernig í potinn var búið“.  Líking við matreiðslu; það sem sett er saman í pott til eldunar. 

Í praxís (orðtak)  Raunverulega; í raunveruleikanum/framkvæmd.  „Þetta hljómar ágætlega en getur orðið dálítið erfitt í praxís“.

Í rassi með (orðtak)  Of seinn með; búinn að láta dragast úr hömlu.  „Þú ert að verða í rassi með allt heimanámið drengur; farðu nú að herða þig við þettað“.

Í rauðabýtið (orðtak)  Eldsnemma; árla morguns.  „Hann fór á fætur í rauðabýtið; fékk sér morgunmiguna og gáði til veðurs“.

Í raun og sann / Í raun og sannleika / Í raun réttri (orðtök)  Með réttu lagi; í raun og veru; raunverulega; strangt til tekið.  „Í raun og sannleika átti hann jörðina, þó hann byggi þar ekki sjálfur“.  „Í raun réttri eiga Útvíknamenn enn fullan rétt til óheftra veiða á sínum miðum, líkt og verið hefur um aldaraðir“.

Í raun og veru / Í rauninni / Í reyndinni (orðtök)  Með réttu lagi; reyndar; raunar; eiginlega.  „Í rauninni þýðir þetta orðasamband harla lítið“.  „Í raun réttri ætti hann að laga sín mistök sjálfur“.  „Í reyndinni er þetta algerlega óhugsandit“.

Í ráði (orðtak)  Fyrirhugað; ætlað.  „Í ráði er að skipa nefnd til að móta þetta málefni“.

Í reyfinu/rúinu / Í ullu (orðtak)  Um kind; í reyfinu; í ullu; óaftekin.  „Þarna var ein í rúinu innanum hinar“. „Þarna á Stígnum voru tvær kindur með lömbum; báðar í reyfinu“.  Sjá rú; rýja; taka af.

Í ró og næði / Í ró og spekt / í ró og friðsemd / í mestu rósemi (orðtök)  Í friðsæld/rólegheitum.  „Það féll allt í ró og spekt eftir kosningarnar þó sumir séu sárir“.

Í rusli (orðtak)  A.  Um manneskju; í hugarvíli/angist; niðurbrotin; í öngum sínum.  „Hann var alveg í rusli yfir þessum mistökum“.  B.  Í óreiðu/drasli/ólagi.  „Þarna inni var allt í rusli“.

Í röð og reglu (orðtak)  Reglulegt; skipulega uppraðað/frágengið.  „Hjá henni var allt í röð og reglu“.

Í sama dúr / Í þeim dúr / Í sömu/þá veru / Í sömu/þá átt (orðtök)  Á svipaða/sömu/þá leið; þannig.  „Þórhallur ræddi mjög í sama dúr um málið og frummælandi“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Í sama bili / Í sama mund / Í sama vetfangi (orðtak)  Á sömu stundu; um leið.  „Í sama bili og þeir tóku landróðurinn tók sig upp gríðarmikil bára aftanvið bátinn“.  „Í sama mund kom Snæbjörn Thoroddsen... “  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Í sambandi við / Í tengslum við (orðtök)  Tengt; í framhamhaldi af; sem tengist umfjöllun.  „Í sambandi við þetta má nefna nythæð kúnna, sem er hærri en nokkru sinni áður; 3000 kg að meðaltali úr kúnni í aðalskýrslu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Í sannleika sagt (orðtak)  Satt best að segja; ef satt skal segja; í verunni.  „Ekki veit ég hvernig í fjáranm þetta vildi til, og í sannleika sagt er mér nokk sama“.

Í sátt og samlyndi (orðtak)  Í góðu vinfengi; í friðsemd.  „Mér skilst að þar sé allt í sátt og samlyndi milli bæjanna; í það minnsta þessa stundina“.

Í seinni tíð (orðtak)  Á síðari tímum; upp á síðkastið.  „Þetta heyrist minna notað í seinni tíð“.

Í seinustu/síðustu lög (orðtak)  Þegar allt um þrýtur; lokaúrræði.  „Ég vildi ekki reka féð yfir ána í þessu frosti fyrr en í síðustu lög, heldur fór með það lengri leið upp að brúnni“.

Í sendingskasti (orðtak)   Um hraðhlaup; í miklum flýti; eins og píla/ör.  „Ég hljóp í sendingskasti norðureftir og lokaði hliðinu“.  Vísar til hraða hlutar/spjóts sem kastað er.

Í senn (orðtak)  Í einu; samtímis.  „Þarna var margt að gerast í senn“.

Í síðasta lagi (orðtak)  Fyrir það síðasta; sem síðasta/lakasta kost.  „Hann bjóst við að koma seinnipart vikunnar; í síðasta lagi á föstudag“.

Í síðustu lög (orðtak)  Fyrir síðasta kost.  „Ég vildi í síðustu lög trúa því að svonalagað gæti gerst“.

Í sífellu (orðtak)  Sífellt; ítrekað; samfellt.  „Hann tautaði þetta fyrir munni sér í sífellu, til að leggja það á minnið“.

Í sjálfsmennsku (orðtak)  Sjá um sig sjálfur.  „Karlinn var bara í sjálfsmennsku meðan hún fór í ferðalagið“.

Í sjálfsvald sett (orðtak)  Ræður því sjálfur; hefur sjálfdæmi um.  „Mér er það í sjálfsvald sett hvernig ég geri þetta“.  „Honum á ekki að vera það í sjálfsvald sett hvort hann mætir í vinnuna“.

Í sjálfu sér (orðtak)  Raunverulega; eiginlega.  „Ég hafði hugsað mér þetta svona, en í sjálfu sér skiptir ekki máli hvaða aðferð er notuð“.

Í sjó að leggja (orðtak)  Um sjóhæfi báts.  Talað er um að bátur sé góður eða varasamur í sjó að leggja; þ.e. hvort hann verjist vel öldunni eða sé hættulegur í slæmum sjó.

Í sjóinn / Til sjávarins /sjóarins/hafsins (orðtök)  Um lýsingar sjólags.  Einatt var sagt/spurt til um hvernig „hann“ væri „í sjóinn“ eða „til sjávarins/sjórarins/hafsins“.  „Heldur er hann orðinn úfinn til hafsins  núna“.  „... fjörugrjót er þarna stórt og hált, en kvika var í sjóinn“  (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).  „Í Skorarvogi er blindsker sem brýtur á ef eitthvað er í sjóinn“  (AÍ; Örn.skrá Sjöundár).

Í sjónmáli (orðtak)  Sjáanlegt; í sjónlínu.  „Ég lagði strenginn út á milli tveggja annarra, og gætti þess að hafa djúpból beggja í sjónmáli“.

Í skorðum (orðtak)  A.  Um bát; frágenginn í sátri með skorðum undir súð til að halda honum á réttum kili.  „Oftast var báturinn skolaður áður en hann var að fullu settur undan sjó; nema því aðeins að ráð væri á unglingum til að gera það þegar báturinn var kominn í skorður“  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Í almennara samhengi; í röð og reglu.  „Hér er allt í góðum skorðum“.

Í skóvarp (orðtak)  Um dýpt á snjó/vatni o.fl; um ristardjúpt, eða um 3-4 cm.  Skóvarp var efri brún á skinnskóm.  „Það er ekki kominn mikill snjór ennþá; bara rétt í skóvarp“.

Í skyndi / Í skyndingu (orðtak)  Í hvelli; fyrirvaralaust; snöggt; með hraði.  „Hann kvaddi í skyndingu og hljóp af stað“.  „Ennfremur varð ég þess var að komin var ljósmóðir sveitarinnar, Ólafía Egilsdóttir á Hnjóti.  Hún hafði verið sótt í skyndi“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Í skömm við (orðtak)  Með gjaldfallna skuld við.  „Nú þyrfti ég að komast á Patró í dag, til að lenda ekki í skömm við bankann“.

Í skötulíki (n, hk)  Til að sýnast; illa gert:  „Allt viðhald vega hefur til dæmis verið í skötulíki“.

Í slagtogi með (orðtak)  Í félagsskap við; á flækingi með.  „Heimalningurinn er alltaf í slagtogi með hrútunum“. Slagtog gæti upphaflega hafa verið forndanska orðið slagtow, sem merkir reipi.

Í slöku meðallagi (orðtak)  Nokkuð undir meðallagi/ því sem eðlilegt er.

Í smáum stíl (orðtak)  Í litlu magni; ekki stórfellt.  „Búskapur var í fremur smáum stíl á þessu koti“.

Í snarhasti / Í snatri (orðtak)  Í miklum flýti; með miklum asa.  „Við þurfum að drífa þetta inn í snarhasti; áður en fer að rigna“!  „Nú var lambið skotið og skorið og síðan flegið í snatri og gert til“  (PG; Veðmálið). 

Í sollinum (orðtak)  Í skemmtanalífinu; í ræsinu; í stórborginni.  „Ekki veit ég hvað menn eru að sækja þangað suður.  Þar hanga menn víst atvinnulausir hvunndags og velta sér í sollinum um helgar“!

Í sparnaðarskyni (orðtak)  Til að spara.  „Fólk var mun hagsýnna í öllu daglegu lífi áðurfyrr; þrautnýtti og endurnýtti alla hluti.  T.d. var í sparnaðarskyni haldið til haga öllum niðursuðudósum og plastpokum.

Í (einhvers) stað (orðtak)  Í staðinn fyrir einhvern.  „Ef hann ætlar að hafa þetta svona þá má fjandinn eiga þetta í minn stað; ég kem ekki nærri því“!

Í staðinn fyrir (orðtak)  Í stað; í skiptum fyrir.  „Ég fékk mér fólksbíl í staðinn fyrir jeppann“.

Í stakk búinn (orðtak)  Klæddur; útbúinn.  Oftast notað í líkingamáli nútildags.  „Bændur eru illa í stakk búnir til að mæta svona áföllum“.  „Þið þurfið að vera vel í stakk búnir fyrir þessa ferð; það gæti viðrað ýmsu“.

Í standandi vandræðum (orðtak)  Í mjög miklum vanda; aðþrengdur.  „Ég var í standandi vandræðum með smalamennskur eftir að besti smalinn veiktist á versta tíma“.

Í stíl við (orðtak)  Í líkingu/samræmi við; með tilliti til.

Í stórum stíl (orðtak)  Í miklu magni; stórtækt.  „Fiskirask var borið á tún í stórum stíl“.

Í strássi við (orðtak)  Í andstöðu/mótsögn við; uppá móti; í veseni með; í trássi við.  „Ég nenni ekki að standa í strássi við þessa þverhausa öllu lengur“!

Í (einni) striklotu (orðtak)  Með óbreyttri stefnu; í einni atrennu; án þess að stoppa.  Merkir líklega upphaflega siglingu skips í einum legg, með óbreyttu striki á áttavita.  „Kindurnar hlupu í einni striklotu að gjánni“.

Í stríðum straumum (orðtak)  Með miklu rennsli.  Stríðir straumar vísar til hraðra sjávarfalla.

Í stuttu máli (sagt) (orðtak)  Sagt í fáum orðum; drepið á því helsta.  „Í stuttu máli sagt var þetta skemmtilegasa ferð sem ég hef nokkurntíma farið í“.

Í styttingi (orðtak)  Með fáum orðum; með óvild; stuttaralega.  „Hann var orðinn reiður og kvaddi okkur í styttingi“.

Í svanginn (orðtak)  Að borða; í magann; ofaní sig.  „Það var gott að komast heim og fá eitthvað í svanginn eftir þessa löngu ferð“.

Í sveit settur (orðtak)  Sjá þannig í sveit settur.

Í sveita síns andlitis (orðtak)  Með miklu erfiði/púli.  „Manni þykir helvíti hart að þurfa að borga í skatta, meira en helming þess sem maður vinnur sér inn í sveita síns andlitis“!

Í svip (orðtak)  Örstutta stund; í smátíma.  „Ég þóttist sjá bauju þarna rétt í svip, en sé hana ekki núna“.

Í svipinn (orðtak)  Eins og er; í augnablikinu; núna.  „Ég man þetta ekki í svipinn; því er alveg úr mér stolið“.

Í sömu andrá/svifum (orðtak)  Um leið; í sömu svifum.  „Í sömu andrá og hrundi úr hillunni náði ég að grípa vaðinn“.  „Hann bar að í sömu svifum og gat aðstoðað mig við verkið“.

Í sömu skorðum (orðtak)  Með sömu ummerkjum; óbreytt.  Líking við að bátur sé eins skorðaður og áður hefur verið gert.  „Roðasteinninn aldni er/ enn í sömu skorðum./  Systrahundruð sýnist mér/ svipuð vera og forðum“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík). 

Í sömu sveit settir (orðtak)  Í sama hópi; á sama báti.  „Það eru allir í sömu sveit settir hvað þetta varðar; allir eru orðnir tæpir með salt“.

Í tilefni af (orðtak)  Til að heiðra/minnast; vegna.  „Mamma bakaði tertu í tilefni af afmælinu“.

Í tilferð með (orðtak)  Að undirbúa/áforma.  „Mér sýnist hann vera í tilferð með að leggja af stað“.  „Eruð þið ekkert í tilferð með að sofa strákar“?

Í tíð (einhvers) (orðtak)  Á æviskeiði eða starfstíma einhvers.  „Einnig voru í hans tíð byggð mikil fjárhús“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Í tíma (orðtak)  Tímanlega; nægilega snemma.  „Hann áttaði sig í tíma og snarstoppaði“. 

Í tíma og ótíma (orðtak)  Alltaf; sýknt og heilagt; jafnvel þegar verst gegnir.  „Mikið vildi ég vera laus við þetta íþróttakjaftæði í fjölmiðlunum í tíma og ótíma“.  Sjá ótími.

Í tímans rás (orðtak)  Yfir langan tíma; meðan tíminn líður.  „Í tímans rás hafa myndast fjölmargir frostgígar í hálendinu kringum Kollsvík“.

Í togi (orðtak)  Í eftirdragi/slefi.  „Fönix leggur af stað með þrjá báta í togi og er ekki mjög hraðskreiður“  (KJK; Kollsvíkurver).

Í (góðu) tómi (orðtak)  Við (gott) tækifæri; þegar tími er til.  „Ég greip í þetta verk þegar tóm var til“.

Í trausti þess (orðtak)  Í þeirri fullvissu/trú.  „Ég lánaði honum þetta í trausti þess að hann skilaði því til baka“.

Í trássi við (orðtak)  Með óvilja; gegn; móti.  „Svona aðgerð er auðvitað í trássi við lög og rétt“. 

Í trúnaði (orðtak)  Með því skilyrði að ekki fari lengra.  „Hún sagði mér í trúnaði að karlinn væri líklega farinn að halda framhjá“.

Í tveimur reyfum (orðtak) Um kind; í ull frá nýliðnu (yfirstandandi) sumri og því síðasta; ekki verið rúin í tvö ár.  „Ég sé ekki betur en þarna sé ein útigengin kind í tveimur reyfum“.

Í tvísýnu (orðtak)  Með áhættu; hættulega.  „Við leggjum ekki af stað í þessari tvísýnu“.  „Það tekur því ekki að leggja í einhverja tvísýnu til að ná örfáum eggjakoppum“.  Tvísýna vísar til þess að menn geta séð fyrir sér bæði góðar og slæmar afleiðingar.

Í tvísýnu veðri (orðtak)  Í slæmu/uggvænlegu veðurútliti.  „Skelfing er mér illa við að þú sért að fara af stað í svona tvísýnu veðri“.

Í tæka tíð (orðtak)  Nógu tímanlega; fyrir.  „Þú þarft að hafa þig til í tæka tíð áður en bíllinn kemur“.

Í ull / Í ullu (orðtak)  Um kind; í reyfinu; óaftekin.  Hvorutveggja var notaðí Rauðasandshreppi  á síðari hluta 20.aldar, en líklega er u-endingin upprunalegri.  „Ég sá þarna þrjár kindur; allar í ullu“.

Í ungdæmi (orðtak)  Á yngri árum; á unga aldri.  „Er því fullvíst að sagnir um þetta hafa lifað á vörum afkomenda Einars í ungdæmi Ólafs Guðbjartssonar“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Í upphafi skyldi endirinn skoða (orðatiltæki)  Áður en verk/mál er hafið er rétt að íhuga hvernig það gæti endað.  Mikið notuð speki.

Í (algjörum/standandi) vandræðum (orðtak) Vandamál blasa við.  „Passaðu þig að missa ekki austurtrogið fyrir borð; þá værum við í standandi vandræðum“.

Í vafa um (orðtak)  Efast um; hugsandi yfir; ekki viss um.  „Hann var ekki í nokkrum vafa um þetta“.

Í vanda staddur (orðtak)  Í vandræðum/klípu.  „Þú lætur mig vita ef þú ert í vanda staddur“.

Í veðrið (orðtak)  A.  Um það þegar hlutir fjúka og hverfa:  „Við þurfum að festa þetta niður svo það fari ekki í veðrið“.  B.  Upp í vindinn; áveðurs.  „Það var íþrótt að skjóta svartbaksunga á flugi hér í víkinni.  Í norðanstormi þá flýgur fuglinn alltaf í veðrið og flýgur lágt“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Í veður og vind (orðtak)  Sjá fara/hverfa (út) í veður og vind.

Í vellystingum praktuglega (orðtak)  Í óhófi og munaði; í velsæld.  „Karlinn arfleiddi strákinn að öllu sínu, svo nú getur strákur lifað í vellystingum praktuglega og drukkið sig útúr á hverri helgi“.

Í verri staðnum (orðtak)  Í helvíti.  „Hann hélt að hann gæti lent í verri staðnum ef hann færi að ljúga til um þetta“.

Í verunni (orðtak)  Reyndar; í raunveruleikanum; í sannleika sagt.  „Í verunni var hann hjartanlega sammála þeim, en hann sleppti aldrei góðu tækifæri til að þrasa“.

Í véfréttarstíl (orðtak)  Um svör eða fullyrðingar sem þykja óljós.  „Það þýðir ekkert fyrir hann að tala í einhverjum véfréttarstíl; ég fer framá að fá skýr svör“!

Í viðlíkingu við (orðtak)  Til jafnaðar/samanburðar við.  „Hann er fjári hvass enn, en ekkert í viðlíkingu við það sem var í nótt“.

Í viðlögum (orðtak)  Þegar mikið liggur við.  „Þetta er óttalega lélegt, en gott að geta gripið til þess í viðlögum“.

Í vil (orðtak)  Í hag; að vilja.  „Honum gengur þetta allt í vil“.  „Ég reyndi að gera honum þetta í vil“.

Í vinfengi við (orðtak)  Í kunningsskap/slagtogi með; vinur.  „Ég er í litlu vinfengi við þá þessa stundina“.

Í vitorði með (orðtak)  Þátttakandi í; með vitneskju um fyrirætlan/verknað.  Oftast notað um glæp sem framinn er í samráði þess sem við er átt eða með hans vitneskju.

Í volli (orðtak)  Sjá allt í volli.

Í vök að verjast (orðtak)  Sjá eiga í vök að verjast.

Í það fyrsta (orðtak)  Varla orðið tímabært; heldur snemmt.  „Mér finnst í það fyrsta að fara að vitja um strengina í Flóanum; það var ekki svo mikil veiði í þá síðast“.

Í það heila tekið (orðtak)  Í heildina; að öllu samanlögðu.  „Í það heila tekið hefur veturinn ekki verið harður“.

Í það minnsta (orðtak)  A.  Að minnsta kosti; að lágmarki.  „Þú gætir nú í það minnsta reynt að aðstoða“!  B.  Það minnsta sem hugsast getur/ getur verið.  „Þetta er í það minnsta af salti, en ég held að það sleppi“.

Í það og það sinnið/skiptið (orðtak)  Í hvert sinn/skipti; hverju sinni.  „Yfir netavertíðina var matriddur sá meðafli sem kom í netin í það og það skiptið“.

Í þann mund/veginn / Í þeim svifum / Í því (sama) vetfangi / Í því (orðtak)  Á þeim tíma; um það leyti.  „Þeir birtust á Hjallabrúninni í þann mund sem ég ætlaði að fara að leita“.  „Ég var í þann veginn að fara að hella uppá könnuna“.

Í þakkarskuld við (orðtak)  Bera þakkarhug til; vera þakklátur.  „Ég stend í þakkarskuld við þau bæði“.

Í þann tíð (orðtak)  Þá; á þeim tíma.  „Hann gekk yfir hálsinn til að láta vita, en í þann tíð var enginn sími“.

Í þann veginn að (orðtak)  Rétt að fara að byrja; nærri byrjaður að; rétt óbyrjaður á.  „Ég var í þann veginn að ganga út úr dyrunum þegar síminn hringdi“. 

Í þarfleysu (orðtak)  Að nauðsynjalausu/óþörfu.  „Vertu nú ekki að skjóta út í loftið í þarfleysu“!

Í þaula (orðtak)  Algerlega; í hörgul.  „Ég þekkti þetta í þaula“.  „Hann spurði mig í þaula um þetta“.  Kvenkynsheitið „þaul“ hefur vafist fyrir málfræðingum.  E.t.v. á það sömu rót og  „þel“, sem í raun merkir undirlag eða grunnur.

Í þá veru / Í þá átt(ina) (orðtak)  Í átt að því; því viðvíkjandi.  „Hann lofaði einhverju í þessa veru“.  „Ég hef aldrei sagt neitt í þá áttina“!

Í þágu (einhvers) (orðtak)  Sem kemur einhverju(m) vel; einhverjum til framdráttar.  „Hann lagði til mikla vinnu í þágu félagsins“.  „Þetta var ekki gert í mína þágu“.  „Þórður Jónsson þakkaði þeim Ívari Ívarssyni og Snæbirni J. Thoroddsen sérstaklega þeirra störf í þágu sveitarinnar“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Í þeim/sömu svifum (orðtak)  Á sama tíma; um leið.  „Ég ætlaði að fara að leita, en í þeim svifum kom hann heim“.  Svif merkja í þessu tilliti hreyfing; sveifla.

Í þingum við (orðtak)  Í föstu sambandi/ástarsambandi við; trúlofaður.  „Hann er sagður í þingum við aðra“.

Í þjóðbraut (orðtak)  Um bæ/byggð; nærri alfaraleið; við fjölfarinn veg.  „Ekki verður sagt að Kollsvík sé í þjóðbraut eins og bílvegir liggja nú á dögum, en þangað liggur margra leið þrátt fyrir það.

Í þokkabót (orðtak)  Til viðbótar; í ofanálag.  „Og varstu svo í þokkabót að rífa buxurnar þínar drengur“?!  Þokkabót er það sem eykur þokka/fegurð.  Í orðtakinu er það einatt í öfugri merkingu, til háðs.

Í þungu skapi (orðtak)  Reiður; sorgmæddur; dapur; vonsvikinn.  „Ég sá að hann var í þungu skapi“.

Í þungum þönkum (orðtak)  Þungt hugsi; mikið hugsandi og tekur ekki eftir því sem fram fer.

Í þurru (veðri) (orðtak)  Meðan úrkomulaust er; áður en fer að rigna.  „Við náðum að klára þetta í þurru, en stuttu síðar fór að hellirigna“.

Í því / Í þeim svifum / Í þessu (orðtök)  Þá; um leið.  „En í því hann er að koma fram á brúnina veit ég ekki fyrri til en hann steypist framyfir sig; og framaf bjargbrúninni“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Í því augnmiði (orðtak)  Með það fyrir augum; til þess.  „Ég gerði þetta í því augnmiði að flýta fyrir okkur“.

Í því fólginn (orðtak)  Felst í því; er þannig.  „Afkoman er í því fólin að sýna sparsemi og þrautseigju“. Felast í.

Í því skyni (orðtak)  Í þeim tilgangi; til að.  „Skyn“ merkir hér „skilningur“.  „…meðan slátrun stóð yfir haust hvert gistu flestir í torfhúsi sem byggt hafði verið í því skyni og stóð rétt hjá sláturhúsinu“  (PG; Veðmálið). 

Í þykjustunni (orðtak)  Í ímynduðum heimi; í plati.  „Börn rata í hin furðulegustu ævintýri í þykjustunni“.

Í þörf fyrir (orðtak)  Þarfnast; þurfa; vanta.  „Ég er ekki í brýnni þörf fyrir neftóbak; en fyrst þú býður…“.

Í æsku (orðtak)  Þegar (einhver) var ungur/barn.  Algengt orðalag fyrrum en heyrist nú sjaldan.  „Þessa sögu sagði móðir mín mér í æsku“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Í ætt við (orðtak)  Skylt; nátengt; líkist.  „Ég er víst eitthvað í ætt við þetta fólk“.  „Mér finnst bragðið vera dálítið í ætt við bananabragð“.

Í ætt skotið (orðtak)  Sjá illa í ætt skotið.

Í öfugri röð (orðtak)  Öfugt raðað/gert/uppsett miðað það sem venjulegt/rétt er.

Í ökkla eða eyra (orðtak)  Of eða van; ekki mátulegt/jafnt.  „Þetta er ýmist í ökkla eða eyra; annaðhvort allt að skrælna úr þurrki eða látlaus rigning“!

Í ökufæru standi (orðtak)  Í því ástandi að unnt sé að aka.  „Bíllinn var ekki í ökufæru standi eftir óhappið“.

Í öllu falli (orðtak)  Hvað sem öðru líður.  „Það er í öllu falli búið að leita á dalnum þó ekkert hafi fundist“.

Í öllum (guðs)bænum (orðtak) Í guðanna bænum; fyrir alla muni; endilega.  „Hvað ertu að gera með þessa maðkaveitu inn í hús?  Í öllum guðsbænum fleygðu þessu sem lengst í burtu“!

Í öndverðu (orðtak)  Upphaflega; í byrjun; á fyrstu tímum.  „Þetta var ákveðið þegar í öndverðu“.

Í öngum sínum / Í örvæntingu (orðtök)  Angistarfullur; eyðilagður; í áfalli.  „Hann er í öngum sínum yfir að komast ekki“.

Í önnum (orðtak)  Upptekinn við verkefni; starfandi; mikið að gera.  „Ég hef verið í önnum þessa vikuna“.

Íbjúgur (l)  Boginn; sveigður.  „Járnplatan var dálítið íbjúg í annan endan og því tilvalin snjóþota“.

Íblástur (n, kk)  Íganga var vaxandi skýjafar af ríkjandi átt, og merki um að hún héldist.  Íblástur táknaði nánst það sama; átti þó öllu heldur við um sjálft veðrið“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).  Halldór Kiljan Laxness nam þetta orð í heimsókn sinni vestra og notaði það í Paradísarheimt.

Íburðarlaus (l)  Án íburðar/skrauts/óhófs.  „Kotið var íburðarlaust, en þó hvorki hrörlegt né fátæklegt“.

Íburður (n, kk)  A.  Óhóf/fordild/skraut, t.d. í klæðaburði eða húsagerð.  B.  Sú athöfn að koma ífæru í spröku eða hákarl.  C.  Það að bera efni í klæði eða annað; t.d. að bera lýsi í skinnklæði.

Íbúðarhús (n, hk)  Hús sem búið er í.  „Brá nú Gummi skjótt við og hljóp við fót heim að íbúðarhúsinu til þess að sækja kindabyssu sína“  (PG; Veðmálið). 

Íbyggilega (ao)  Á íbygginn hátt; þannig að meira liggi augljóslega undir en í sagt er.  „Hann sagði þetta svo íbyggilega að ekki fór á milli mála að hann vissi allt um málið“.

Íbyggilegur / Íbygginn (l)  Um svipmót sem einhver meining býr á bak við.  „Hann sagði, íbygginn á svip, að pakkinn væri ekki alveg tómur“.

Íbyggnisglott / Íbyggnissvipur (n, hk/kk)  Glott/svipur sem gefur í skyn að meira búi undir en sagt er/ að viðkomandi viti meira en hann talar um.  „Ég fékk ekkert upp úr honum annað en eitthvað íbyggnisglott“.

Ídíal (l)  Tilvalið; upplagt.   „Það er alveg ídíal að nota kruður útí rauðgrautinn“.  Stundum framborið „ídeal“.

Íðilblíða (n, kvk)  Eindæma veðurblíða.  „Þvílík íðilblíða er þetta“!

Íðilgott (l)  Fyrirtaks/afbragðs gott.  „Það er óvíst að við fáum svona íðilgott sjóveður á morgun“.

Íðilheimska (n, kvk)  Frámunalega mikil heimska; fábjánaháttur.  „Ég hef sjaldan vitað álíka íðilheimsku“!

Íferð (n, kvk)  Ígerð.  Sjaldnar notað, og þá einkum um forstig ígerðar.

Íflatur  (l)  Flatur á kafla/ að hluta.  „Sauðabólshlíð endar niðri á klettanefi; grasigrónu, íflötu“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Ífæra (n, kvk)  Stór krókur sem hafður var tiltækur í bát til að færa í lúðu þegar hún var komin uppundir borð, þar sem þá var hætta á að krókurinn slitnaði úr henni.  Var ífærunni smeygt inní tálkopin eða í kjaftinn og útum tálknopin.  Auga var jafnan á efri enda ífærunnar til að festa henni með bandi í bátinn.  „Önglunum var raðað á hástokkinn svo lóðin færi ekki í flækju út úr bátnum ef lúðan strikaði.  Það varð að vera tilbúið með ífæruna og koma henni í gott hald á hausnum, þegar lúðan kom að“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). 

Ífæruauga (n, hk)  Auga á ífæru, þar sem ífærubandinu er fest í hana.

Ífæruband (n, hk)  Band sem festir ífæruna við bátinn; um faðmur á lengd og vel sterkt.

Ífærulaus (l)  Án ífæru.  „Ífærulaus fer ég ekki aftur í róður; það er alveg nóg að tapa einni lúðu fyrir það“!

Íganga / Ígangsveður /  Ígangsstórviðri (n, hk)  Uppgangsveður; óveður að bresta á; veður að versna mjög.  „Íganga var vaxandi skýjafar af ríkjandi átt, og merki um að hún héldist“   (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).  „Þú ferð ekkert af stað núna; það er ígangsveður og ég vil ekki vita af þér uppi á fjöllum í glórulausri stórhríð“!

Ígerð (n, kvk)  Gröftur/sýking í sári/meini; graftarkýli.  „Ég er hræddur um að það sé komin ígerð í sárið“.

Ígreiptur (l)  Innfelldur; festur í.  „Þetta er forláta gullhringur með ígreiptum steini“.

Ígrip (n, hk)  Íhlaupavinna; vinna sem unnin er í áföngum, þegar færi gefst.  „Ég kláraði að greiða úr þessari lóðaflækju í ígripum; með fram öðrum verkum“.

Ígripaverk (n, hk)  Íhlaupaverk; verk sem unnið er öðru hvoru, þegar ekkert er þarfara að gera.

Ígrunda (s)  Þaulhugsa; hugsa til hlítar; leggja grunn að.  „Mér sýnist að þetta hafi verið illa ígrundað“.

Ígrundun (n, kvk)  Umhugsun; spekúleringar.  „Þetta þarf allmikla ígrundun“.

Ígulker eru flokkur skrápdýra sem algeng eru í sjó allt í kringum landið.  Þau rekur iðulega á fjörur og eru einnig borin upp af sjófuglum.  Þau ánetjast iðulega í netum og er stundum nokkuð vesen að greiða þau úr.  Fjölgi þeim verulega, eins og hefur gerst á síðari árum, éta þau upp þaraskóga og eyðileggja með því búsvæði/veiðisvæði hrognkelsa og annarra sjávardýra.  Algengasta tegund ígulkerja er skollakoppur; Strongylocentrotus droebachiensis; grænbrún og fremur smávaxin tegund; verður mest um 8 cm í þvermál, en oftast minni.  Hann lifir einkum á grunnsævi.  Hrygnun og sviljun á sér stað á sama tíma í ígulkerjabyggð.  Lirfurnar lifa sem svif fyrstu árin en setjast síðar á botninn og umbreytast í ígulker.  Skollakoppur lifir einum á blaðþara af ýmsum tegundum, t.d. stórþara og hrossaþara.  Miklar sveiflur geta orðið í stofnstærð hans.  Höfundur hefur leitt að því líkum að slík offjölgun kringum árið 1980 hafi lett til mikillar ofbeitar þaraskóga víðsvegar við strendur, sem aftur leiddi til þess að brimbáran komst óhindrað upp á fjörur og olli þar miklum spjöllum.  Slíkt átti sér m.a. stað í Kollsvík undir lok 20.aldar, en þar braut brimið niður Grundabakka; olli spjöllum á Görðunum og bar upp kynstur af sandi sem síðan olli auknu sandfoki.  Þessu orsakasamhengi hafði ekki verið lýst fyrr en VÖ sagði frá því í blaðagrein.
Önnur tegund ígulkerja er marígull; Echinus esculentus;  sem er mun sjaldgæfari en kemur þó oft upp t.d. í grásleppunetum.  Marígull er bláleitur eða fjólublár að lit og getur orðið yfir 20 cm að stærð.

Ígulkerjaflækja (n, kvk)  Flækja sem verður í neti við það að eitt eða fleiri ígulker festast í því.

Ígulkerjaplága (n, kvk)  Vandræði vegna mikillar fjölgunar ígulkerja á veiðislóð.  Ígulkerjum getur fjölgað mjög hratt við vissar aðstæður og eru þau þá fljót að éta upp þaraskóg, þannig að það sem áður var gjöfull veiðistaður verður alger auðn, auk þess sem netaveiðar tefjast mjög vegna síendurtekinnar ígulkerjaflækju.

Ígulkerjastagur / Ígulkerjavaðall (n, kk)  Mikið af ígulkerjum í netum þegar þau eru dregin.  „Hér er ekkert nema andskotans ígulkerjastagur; ekki ein einasta grásleppa“!

Íhald (n, hk)  A.  Fylking fólks sem er „hægrisinnað“ í stjórnmálaskoðunum, þ.e. trúir fremur á mátt og rétt einstaklingsframtaksins en fjöldans.  B.  Einstaklingur sem aðhyllist sömu skoðanir.  „Þú finnur ekkert annað en sótsvart íhaldið á þeim bæjum“.  „Allt er betra en íhaldið“.  Oft notað í niðrandi merkingu.

Íhaldsdindill / Íhaldsfroskur / Íhaldsgepill / Íhaldshækja / Íhaldskurfur / Íhaldspési / Íhaldsseggur / Íhaldsskarfur (n, kk/kvk)  Niðrandi heiti á íhaldsmanni/ manneskju sem styður sjálfstæðisflokkinn eða aðra hægriflokka.  „Hann er kannski ágætisgrey fyrir marga parta; en þetta er árans ekkisen íhaldsfroskur“.  „Ætli allir viti ekki hvað sá íhaldsdindill kýs“!

Íhaldskanna (n, kvk)  Gæluorð um kaffikönnu sem tekur langan tíma að hella úr.  „Þú skrúfar tappann aðeins til hliðar og hellir.  En þetta er árans íhaldskanna, svo hún gefur ekki mikið í einu“.

Íhaldsmaður (n, kk)  Maður sem aðhyllir íhaldssamar skoðanir; sá sem kýs sjálfstæðisflokkinn eða aðra „hægrisinnaða“ stjórnmálaflokka.  „Hann hefur alltaf íhaldsmaður verið, og fer varla að svíkja lit núna“.  Sjá svartnættisíhald og íhaldskurfur.

Íhaldssamur (l)  A. Sem heldur sig við þá gömlu siði/hugsunarhætti/vinnuhætti sem fyrrum tíðkuðust eða viðkomandi var vanur.  „Ég hef löngum verið íhaldssamur í þessum efnum“.  B.  Sem hallast að skoðunum íhaldsmanna/ hægrimanna. 

Íhaldssemi (n, hk)  Það að vera íhaldssamur.

Íhaldssnepill (n, kk)  Niðrandi heiti á blaði íhaldsmanna; oftast átt við Morgunblaðið/Moggann.

Íhendisskel (n, kvk)  Sá helmingur öðuskeljar/krákuskeljar sem sveigður er að munni þegar skelin er notuð sem skeið/spónn með hægri höndinni.  Hinn helmingurinn nefnist úrhendisskel.

Íhlaup / Íhlaupaverk / Íhlaupaverkefni / Íhlaupavinna (n, hk, fto/ hk/kvk)  Verk sem sinnt er í stuttan tíma inn á milli annarra verka.  „Þetta vinnst fremur hægt þegar það er einungis gert í íhlaupum“.  „Ég sinnti þessu um tíma sem íhlaupaverkefni, en svo mátti ég ekki vera að því lengur“.   „Ég hef þessa flækju  fyrir íhlaupaverk“. 

Íhlutun (n, kvk)  Afskipti; tilhlutun.  „Þetta hefði varla tekist nema fyrir þína íhlutun“.

Íhuga (s)  Hugsa/skoða vel; hugleiða.  „Þetta þarf að íhuga nánar“.

Íhugandi / Íhugunarvert (l)  Hugleiðingavert; athugandi.  „Það væri alveg íhugandi að breyta þessu“.   „Ég held það væri íhugunarvert að hlaða þarna í ganginn áður en fleiri kindur fara þar í svelti“.

Íhvolfur (l)  Skálarlaga; öfugt hvelfdur.  „Vatnspollur sat á íhvolfri hellunni“.

Íkveikja (n, kvk)  Lagður eldur að húsi eða öðru.  Um eld í eldstæði var notað uppkveikja.

Ílagagóður / Ílagamikill (l)  Heldur mikill; vel úti látinn.  „Þessi skammtur er nú helst til ílagamikill fyrir mig“.  Ekki notuð utan Kollsvíkur, svo heimildir séu um.

Ílangur (l)  Aflangur; meiri á lengdina en breiddina.  „Hér er fjári góður hleðslusteinn; ílangur og kantaður“.

Ílátalaus (l)  Án íláta; hefur engar hirslur.  „Þarna var svo mikið af eggjum að við urðum fljótt ílátalausir“.

Íla (s)  Um vatn; vætla; aga; smita; leka mjög hægt.  „Hér ílar vatn útum sprungu í klöppinni“.

Ílangur (l)  Aflangur; teygður.  „Best er að velja ílanga steina fyrir niðristöður á færum“.

Ílátafátækur / Ílátatæpur (l)  Vantar fleiri ílát.  „Mér sýnist að við séum að verða nokkuð ílátafátækir“.  „Hafðu pokana með; það er slæmt að verða ílátatæpur ef eitthvað er að hafa“.

Ílátalaus (l)  Án nægra íláta.  „Þarna var töluvert meira af eggjum, en ég varð bara ílátalaus“.

Ílátaleysi (n, hk)  Skortur á ílátum.  „Ári er hart að þurfa að hætta fyrir ílátaleysi“!

Ílega (n, kvk)  Aurar; hætta á aurbleytum þegar frost er að hlaupa úr jörðu.  „Hér gæti verið ílega“.

Ílengjast (s)  Vera/dvelja um langan tíma.  „Ég held við verðum að fara að koma okkur, ef við ætlum okkur ekki að ílengjast hér til frambúðar“.

Íleppur (n, kk)  Innlegg; leppur sem hafður er í skó, einkum roð- og skinnskó, til að mýkja sólann.  Íleppar voru oft vandaðir og skreyttir listilega; sjá rósaleppur.

Ílögn (n, kvk)  Múrhúð sem sett er á gólf.  „Hræran þarf að vera hæfilega þunn við ílögn“.

Ílöngun (n, kvk)  Löngun eftir; ágirnd.  „Ílöngun í tóbak hefur aldrei háð mér“.

Ílöngunaraugu (n, hk, fto)  Svipur sem lýsir ílöngun.  „Hann horfði á hákarlinn ílöngunaraugum“.

Ímugustur (n, kk)  tortryggni; andúð; antípat.  „Margir höfðu ímugust á honum vegna þessa orðróms“.

Ímyndunarkjaftæði / Ímyndunarþvæla (n, hk/kvk).  Tilbúningur; bull; staðlausir stafir.  „Þetta var tómt ímyndunarkjaftæði í honum“!  „Ég nenni nú ekki að hlusta á svona ímyndunarþvælu“!

Ímyndunarveikur (l)  Með ranghugmyndir; telur sig sjá/finna/muna það sem ekki er raunverulegt; með of sterkt ímyndunarafl.  „Við fundum engan þarna, hvernig sem við leituðum.  Hann er bara ímyndunarveikur“! 

Írafár (n, hk)  Mikill æsingur; upphlaup; óskapagangur.  „Það er óþarfi að vera með svona írafár útaf þessu“.

Ísa (s)  A.  Fá á sig íshúð eða ísbrynju.  „Skipið var þá orðið mjög ísað“.  B.  Í seinni tíð um að setja ís á nýjan fisk til að auka geymsluþol hans.

Ísaldarmenjar / Ísaldarmyndun / Ísaldarframburður / Ísaldarhryggur / Ísaldarjökull / Ísaldarleir / Ísaldarruðningur / Ísaldarset  Hugtök sem notuð hafa verið á seinni tíð til að lýsa ummerkjum/jarðlögum frá ísöld, en allt landslag í Kollsvík og nágrenni er einkum mótað af ísaldarjökli fyrir meira en 10 þúsund árum.  Talið er þó að þetta svæði hafi fyrr orðið íslaust en mörg önnur.  „Neðst í gryfjunni var komið niður á glerhart ísaldarset“.  Sjá einnig ísaldarholt, ísaldarkambur og frostgígur.

Ísaldarholt / Ísaldarkambur (n, hk)  Malarholt/malarkambur neðst í víkum og dölum sem ísaldarjökullinn hefur skilið eftir sig og víða má sjá í Rauðasandshreppi sem annarsstaðar.  Holt þessi og kambar eru gjarnan rík af möl, sem jafnvel er þvegin af vatni og því er þar að finna gott efni í steinsteypu og önnur mannvirki.  Nöfn tengd ísöld eru vitaskuld ekki eldra en vitneskja manna um hana, en á svæðinu hafa menn fylgst með vísindakenningum og yfirfært þær á sitt umhverfi þó hugtökin væru svæðisbundin.  „Breiðsholt og Gjögraholt eru ágæt dæmi um ísaldarholt“.

Ísaldarruðningur (n, kk)  Jökulalda/jaðarurð frá ísöld.  „Ísaldarruðninga er víða að finna.  T.d. Breiðsholtið, neðst í Vatnadalnum og Brunnsbrekkuna“.  „Fyrir innan Tófukletta er ísaldarruðningur, sem kallast Hraun“  (ÓS; Örnefnaskrá Lambavatns). 

Ísalög (n, hk, fto)  Lagnaðarís; hafþök.  „Svo mikil ísalög gátu orðið í Patreksfirði í frostavetrum að gengt var frá Sandodda að Þúfneyri“.

Ísavetur / Ísavor (n, kk)  Vetur/vor með miklum frosthörkum, svo sjó leggur innanfjarða og móður kemur á fjörur.  Einnig stundum notað um hafísvetur.

Ísferja (n, kvk)  „Ísklumpur sem samfrosinn er flökkuefni og laus frá botni.  Getur bæði átt við þá myndunarsögu frostgíga sem hér er lýst, sem og borgarís sem flytur flökkusteina t.d. úr berggrunni Grænlands upp á landgrunn og fjörur Íslands“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Notað í Kollsvík vegna jarðfræðikenningar um frostgíga sem þar er upprunnin.

Ísing (n, kvk)  Ísskán; klakaskán.  „Talið er að skipið hafi sokkið vegna ísingar“.

Ísilagt (l)  Um vatn; lagt; frosið á yfirborði.  „Vötn voru öll ísilögð eftir nóttina“.  Oftast stytt í „lagt“.

Ísjökulkaldur (l)  Mjög kaldur, helkaldur.  „Þú ert ísjökulkaldur vegna þess að þú gleymdir vettlingunum“.

Ískaldur (l)  Mjög kaldur.  „Mikið er svalandi að drekka ískalt vatnið úr Kaldabrunninum í þessum hita“.

Ískra (s)  Gefa frá sér mjög hátóna hljóð.  „Það þyrfti að smyrja lamirnar á hurðinni; þær ískra fjári hátt“.

Ískuldi (n, kk)  Mikill kuldi; jökulkuldi.  „Maður fer víst ekki langt berhöfðaður í þessum ískulda“.

Ískur (n, hk)  Hátóna hljóð; væl.  „Skelfing leiðist mér þetta ískur í lömunum“!

Ískyggilega (ao)  Hættulega; uggvænlega.  „Sjórinn var farinn að verða ískyggilega sver, og lifandi bára farin að leika á bökum hinna sveru sjóa“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Ískyggilegur (l)  Uggvænlegur; hættulegur; ógnvekjandi.  „Hann er orðinn nokkuð ískyggilegur hér suðurá“.  „Þá var veðurútlit orðið mjög ískyggilegt“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Íslenskættaður (l)  Af íslenskum ættum. 

Ísmóður (n, kk)  Krap á sjó/fjöru.  Ísmóður var með sjónum, og gott göngufæri á honum“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Ísnúinn (l)  Um stein/klöpp/klett; með núningsförum eftir steinaldarjökul. „... víða er þriggja metra sandlag ofan á þessum kambi, en í honum er sæbarið og ísnúið grjót“ (ÞJ; Örnefnaskrá Hvallátra).

Ísóleringaband (n, hk)  Einangrunarband.  Var nokkuð almennt notað eftir að raflagnir fóru að koma fyrst í hús í Rauðasandshreppi.  Ísóleringaband var i fyrstu eingöngu svartur lím- og tjöruborinn strigaborði.

Ísrák (n, kvk)  Rák sem ísaldarjökull skilur eftir sig á yfirborði klappa, og sýnir skriðstefnu jökulsins.  Slíkar rákir eru víða sýnilegar í grennd við Kollsvík.

Ísrek (n, hk)  Rek íss, t.d. hafíss á fjörur.  „Allmikið ísrek var upp á fjörur í Útvíkum árið 1968“.

Ísrönd (n, kvk)  Ísjaðar; jaðar hafísfláka/hafísspangar.  „Allmikill reki safnast oft við ísröndina“.

Ísspöng (n, kvk)  Hafísspöng; mikil tunga hafíss sem stundum rekur með straumi og vindi í átt til landsins.  „Ofan af Hálsinum mátti sjá hvíta ísspöngina, sem teygði sig svo langt til norðurs sem augað eygði“.

Ístað (n, hk)  A. Hluti reiðbúnaðar á hest; lykkja til að hvíla fótinn í , oft úr málmi.  B.  Sigurnagli í hákarlavað.

Ístími / Ísöld (n, kk/kvk)  Jarðsögutímabilið ísöld.  Ístími var meira notað fyrr á árum, en nú er ísöld almennt notað yfir þennan tíma.  „Núverandi mótun landsins fór einkum fram á ístímanum“.

Ístra (n, kvk)  Vömb; offita á maga.  „Ellin færðist yfir Jón / og ístru stóra fékk´ann“  (GÖ; Hlekkir hugarfarsins).

Ístrubelgur (n, kk)  Niðrandi heiti á feitlögnum manni.  „Bölvuð frekja er nú í þessum ístrubelg“!

Ístrumikill (l)  Með áberandi ístru.  „Ansi er maður að verða ístrumikill með aldrinum“.

Ístöðulaus / Ístöðulítill (l)  Vantar festu í ákvarðanatöku; hvimandi; staðfestulítill/-laus.

Ístöðuleysi (n, hk)  Skortur á festu; vingulsháttur.  „Þarna fannst mér hann sýna alltof mikið ístöðuleysi“.

Ísþekja (n, kvk)  Samfelldur ís á vatni/sjó.  „Okkur sýndist vera smfelld ísþekja úr Flóanum og norðurúr“.

Ísþoka (n, kvk)  Þoka sem myndast þegar rakt loft berst yfir ís.  „Ísþoka myndaðist við ísinn í sunnanáttinni“.

Ítak (n, hk)  Réttindi sem einn hefur varðandi eignir annars.  Oftast er orðið notað þegar rætt er um rétt sem ein jörð hefur eignast í landi annarrar jarðar.  Mikið var um að kirkjujarðir, klaustur og höfuðból ættu ítök í hlunnindum jarða sem ekki höfðu jafn sterka stöðu.  Einnig voru samningar gerðir milli jarða þegar nauðsynlega lífsbjörg vantaði á aðra þeirra svo hún væri byggileg.  „Er þetta (uppsátur Láganúpsbáta í Kollsvíkurveri) eftir samkomulagi jarðeigendanna á milli, en ei ítak í Kollsvíkurland, so mikið menn vita“  (ÁM; Jarðabók).  „Sauðlauksdalskirkja á skógarhögg í Botnsskógi, og brúka leiguliðar þar kolaskóg ókeypis“….  „Sauðlauksdalskirkja á hér (í Keflavík) rekaítak eftir máldögum“   (ÁM; Jarðabók).  Sjá beitarítak.

Ítarlega (ao)  Nákvæmlega; í þaula.  „Ég spurði hann ekki ítarlega út í þetta“

Ítarlegur (l)  Nákvæmur; rækilegur.  „Hann gaf okkur ítarlegar lýsingar á málsatvikum“.

Ítem (ao)  Einnig; ásamt; að auki.  Sletta sem fyrrum var mun algengari en nú er.

Ítreka (s)  Endurtaka; segja aftur; undirstrika.  „Ég skal ítreka þetta við hann aftur“.

Ítrekaður (l)  Endurtekinn.  „Þetta hefur ítrekað komið fyrir“.

Ítrekun (n, kvk)  Árétting; endurtekning.  „Þetta var bara ítrekun á á því sem ég áður sagði“.

Ítroðsluaðferð (n, kvk)  Vinnulag þar sem troðið er í með afli.  „Svona ítroðsluaðferðir gagnast ekki á eggjakútana; þetta endar allt með ósköpum“.

Ívaf (n, hk)  A.  Um vefnað; sá hluti vefþráðarins sem skotið er lárétt inná milli uppistaða í vefstólnum og liggur þvert í vefnaðinum.  B.  Um málefni; það sem er samtvinnað öðru málefni.  „Ekki skal ég alveg fortaka að þessi saga sé með einhverju skáldlegu ívafi, en svona heyrði ég hana“.

Ívafinn (l)  Vafinn í.  „Þessi vaðarspotti var ljósleitur, en ívafinn rauðum þræði“.

Ívera (n, kvk)  Vist í; vera.  „Þau notuðu þennan skúr til íveru meðan íbúðarhúsið var í bygginigu“.

Íverubraggi (n, kk)  Braggi sem gist var í yfir sláturtíð.  Sjá braggi.

Íverustaður / Íveruhús (n, kk/hk)  Dvalarstaður; verustaður.  „Verbúðirnar voru þokkaleg íveruhús í góðri tíð“.

Ívið (ao)  Heldur; öllu-.  Notað í samanburði:  „Þetta eru ívið meiri hey en í fyrra“.  „Þú ert ívið léttari en ég“.  Svo nátengt lýsingarorðum í framburði að ætti með réttu að rita sem eitt orð; t.d. „íviðskárri“; „íviðlakari“

Ívilna (s)  Hygla; verðlauna; gera betur við en jafnaðarlega er gert. Hygla var meira notað.

Íþrótt (n, kvk)  Þrekvirki; leikni; gagnleg iðja/hreyfing.  „Það þótti þónokkur íþrótt að komast þarna upp bandlaus“.  Fyrir daga nútímafjölmiðlunar var orðið líklega ekkert notað vestra um það sem í dag nefnist „keppnisíþróttir“, enda hefur slíkt iðjuleysi og tímasóun ekki talist standa undir nafni sem íþróttir.  Keppnisíþróttir voru þó alltaf einhverjar meðal vermanna, eins og t.d. eru sagnir um á Strákamel ofan Kollsvíkurvers; t.d. glíma og hlaup.  Meiri uppgangur varð í slíku með tilkomu ungmennafélaganna.

Ívilnun (n, kvk)  Hygling; forréttindi; ábót; veðlaun.  „Ekki fékk hann neina ívilnun fyrir þetta“.

Íþyngja (s)  Vera byrði/dragbítur; vera til trafala; auka erfiðleika.  „ég vil alls ekki íþynjgja þér með þessu“.

Leita