Faðmlangur (l)  Faðmur að lengd.  „Ég fór í þessum faðmlanga spotta í lás niður í Sveltið, en pabbi hélt við“.

Faðmsbreiður (l)  Faðmur að breidd.  „Galtastæðið má vera um faðmsbreidd þína á kant“.

Faðmstór (l)  Með víðan/stóran faðm.  „Það duga sex föng þín á garðann; þú ert svo faðmstór“.

Faðmstuttur (l)  Með þröngan/stutan faðm.  „Það þýðir ekkert að hafa svona faðmstuttan mann í forðagæslu“!

Faðmur (n, kk)  Lengdareining sem jafngildir 3 álnum, eða 167cm.  Faðmur var lengst notað sem eining annarsvegar til sjós, t.d. varðandi dýpi, og varðandi bjargsig, t.d. vaðlengd.

Fagnaðarefni (n, hk)  Gleðiefni; tilefni til að kætast.  „Auðvitað er það fagnaðarefni þegar vel fiskast“.

Fagnaðarfundur (n, kk)  Gleðilegt að hittast.  „Ekki urðu minni fagnaðarfundir er þeir félagar komu heim“  (ÖG; Þokuróður). 

Fagnaðarsnauður (l)  Dapurlegur; vesæll.  „Ósköp ert þú fagnaðarsnauður núna vinur.  Er eitthvað að“?

Fagurgali (n, kvk)  Blíðmælgi; fláræði.  „Ekki skorti fagurgalann fyrir kosningar, þó minna yrði úr efndum“.

Faktor (n, kk)  Kaupmaður.  Orðið var einkum notað á dögum selstöðuverslunarinnar dönsku eftir 1787, um verslunarstjóra danskra kaupmanna sem höfðu með höndum verslun á verslunarstöðum landsins, s.s. á Vatneyri.  Sjá selstöðukaupmaður.  Heitið hvarf að mestu úr notkun með auknu verslunarfrelsi.  Það var yfirfært, í glensi, á kaupfélagsstjórana sem síðar komu, og gekk t.d. GJH stundum undir heitinu „faktorinn“.  „Ég knúði þar nú dyra og komst þar óðar inn,/ erindi mitt faktornum ég sagði./  „Því er nú verr og miður, ég verð ei bóndi þinn“./  „Hvað veldur því“? ég segi nú að bragði“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).   

Falast eftir (orðtak)  Leita eftir að fá; biðja um; hafa ágirnd á; anbefala.  „Ég falaðist eftir bátnum til kaups“.

Falla að stöfum (orðtak)  Um hurð; falla í falsinn.  „Stofuhurðin er undin og fellur ekki vel að stöfum“.

Fala af / Fala útúr / Falast eftir (orðtök)  Vilja fá/ kaupa af.  „Ég falaði af/útúr honum þetta tæki en honum var sárt um það“.  „Þeir föluðust eftir að fá þetta lánað, og ég taldi að það ætti að geta gengið“.

Falda (n, kvk)  A.  Um klæðnað; brydda; brjóta uppá; setja fald/borða á efni.  B.  Hafa/ setja upp höfuðfat (einkum hluta af þjóðbúningi).  C.  Um báru; hvítna.  „Aðeins er farið að falda/falla úr báru“.

Faldbúningur (n, kk)  Búningur íslenskra kvenna; kenndur við höfuðbúnaðinn sem var hár hvítur faldur.  Elsti þjóðbúningur kvenna hérlendis og notaður við ýmis tækifæri af allra stétta konum frá því snemma á 18.öld og framyfir miðja 19.öld.  Skiptist í fald, treyju með kraga og klút, upphlut, skyrtu, pils, svuntu og handlínu.

Faldur (n, kk)  A.  Innábrot á jaðri fatnaðar.  B.  Hvítur höfuðbúnaður með íslenskum kvenbúningi; faldbúningi.  C.  Efsti hluti hárrar báru/brotsjóar.  „Báturinn reis snöggt að framan, og stakk sér svo í gegnum fald bárunnar“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Fall (n, hk)  A.  Sjávarfall.  „Þá var verið aðeins eitt fall, þ.e. milli flóðs og fjöru“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  B.  Það að detta.  C.  Málfræðileg staða orðs.  D.  Skrokkur af sláturfé/nauti.  E.  Það að vera komin að fæðingu/burði:  „Konan var komin að falli“.  F.  Tilfelli:  „Í öllu falli kem ég, þó óvíst sé um frúna“.

Fall er farar heill (orðatiltæki)  Sú trú að óhapp í upphafi ferðar/verkefnis boði velgengni.  Heill merkir heppni/hamingja í þessu sambandi.

Falla (s)  A.  Detta; hrasa; hrapa.  „Það féll ekki dropi úr lofti þann daginn“.  B.  Líka við; Geðjast að.  „Mér fellur ágætlega við nýja vinnumanninn“.  „Hvernig fellur þér þarna“?  Gat stundum staðið sjálfstætt í sömu merkningu:  „Strákar mínir hættið nú að rífast og látið ykkur falla“.  C.  Falla til; ske.  „Um það leyti sem við áttum að mæta á skólanum féll engin skipsferð frá Patreksfirði til Þingeyrar“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Falla að /Falla út (orðtök)  Um flæði og fjöru.  „Það er betra að lenda þegar meira er fallið að“.

Falla af/úr báru (orðtak)  Hvítna í öldum vegna þess að eykur sjó.  „Er þá farið all mjög að herða vind og farnar að sjást fuglabringur á sjónum; þ.e. farið að falla af báru...“  (ÖG; Fiskiróður).  „Fór nú vindur óðum vaxandi en jafnframt var komið norðurfall á móti vindi.  Jók það báru mjög fljótt, þannig að farið var að falla af báru og sjá í hann hvítan“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Falla af honum (orðtak)  Hvítna í báru.   (JT Kollsvík; LK;  Ísl. sjávarhættir III).

Falla aldrei/ekki verk úr hendi (orðtak)  Vera sístarfandi/úðrandi.  „Henni féll aldrei verk úr hendi“.

Falla/detta allur ketill í eld (orðtak)  Fallast hendur; verða dolfallinn/lémagna við atvik.  „Honum féll allur ketill í eld þegar traktorinn sökk upp að öxlum í seilinni“.  Ketill/pottur hékk oft yfir hlóðaeldi áðurfyrr, og vísar orðtakið líklega til þeirra óskapa sem orðið gátu ef hann féll í eldinn.

Falla á (orðtak) A.   Gera náttfall/áfall/dögg á jörðu.  „Það er þýðingarlaust að rifja meira í dag, það er farið að falla á“.  „Við þurfum að drífa heyið inn áður en fellur meira á“.  B.  Um silfur/kopar; oxíderast.

Falla á sjálfs síns/ eigin bragði (orðtak)  Hefnast fyrir slæmar ákvarðanir/gerðir.  „Hann flýtti sér að leggja á undan öllum öðrum, en féll svo á sjálfs síns bragði þegar gerði norðangarð nóttina eftir“.

Falla bölvanlega/illa/meinlega/miður (orðtak)  Vera illa við.  „Mér féll bölvanlega við þá niðurstöðu“.

Falla ekki/aldrei verk úr hendi (orðtak)  Vera aldrei iðjulaus; vera duglegur.

Falla eins og flís við rass / Falla vel að (orðtak)  Passa mjög vel; flísfalla.  „Þessi peysa fellur mér eins og flís við rass,  Hún fellur betur að herðunum en eldri peysan“.

Falla ekki verk úr hendi (orðtak)  Vera aldrei iðjulaus.  „Hún er sívinnandi og virðist aldrei þurfa að hvílast.  Jafnvel meðan á barneignum stóð má segja að henni hafi ekki fallið verk úr hendi“.

Falla ferð (orðtak)  Ferð farin sem unnt er að nýta.  „Ég beið fyrir sunnan eftir að ferð félli vestur“.

Falla frá (orðtak)  A.  Deyja; látast.  „Hann féll frá um miðjan aldur“.  B.  Hætta við; skipta um skoðun.  „Nú eru þeir loksins fallnir frá þessari árans vitleysu“.

Falla/fara/detta fyrir borð (orðtak)  Á báti; falla útbyrðis.

Falla fyrir freistingu (orðtak)  Láta freistast; gefa eftir fyrir löngun.  „Við það að sjá þessa fallegu kjötbita sem í skrínunni voru féll hann marflatur fyrir freistingunni“  (PG; Veðmálið). 

Falla/detta í dúnalogn (orðtak)  Komast alger kyrrð á það sem var fyrirgangur/hávaði/læti.  Oftar er talað um að detta í dúnalogn.

Falla í geð (orðtak)  Geðjast að.  „Mér er nokk sama hvort honum fellur þetta vel eða illa í geð“!

Falla í (þá) gryfju (orðtak)  Verða hált á tiltekinni freistingu/ tilteknum verknaði; freistast til.  „Þarna hefur hann fallið í þá gryfju að leggja trúnað á slúður og sögusagnir“.

Falla í kramið (orðtak)  Falla vel að; líka vel.  „Þessi ákvörðun féll vel í kramið hjá krökkunum“.

Falla í ljúfa löð (orðtak)  Um ósætti/deilur/misklíð; jafna sig; sættast.  „Mér heyrist allt vera fallið aftur í ljúfa löð á milli þeirra“.  Löð er gat í steðja, sem járnsmiður notaði til að móta t.d. nagla í réttan sverleika, með því að keyra smíðajárnstein í gegnum það.  Járn sem rennur þétt en ljúflega í gegn, fellur í ljúfa löð.

Falla í nyt / Detta niður í nyt (orðtak)  Um mjólkurkú; mjólka minna, t.d. vegna veikinda eða annarra atvika.  „Hún hefur furðu lítið fallið niður í nyt frá burði“.  „Það er hætt við að kýrnar detti niður í nyt við þessa fóðurbreytingu“.

Falla í ónáð (orðtak)  Verða óvinsæll; verða fyrir gremju.  „Mér er nokk sama þó ég falli í einhverja ónáð hjá þessum pótintátum“!

Falla í órækt (orðtak)  Um tún; ræktun; garð; verða vanhirt.  „Túnin eru öll fallin í órækt og hús lítils virði“.

Falla í skaut (orðtak)  Fá; hlotnast.  „Hann sagðist alls óverður þess heiðurs sem honum hafði með þessu fallið í skaut“.  Skaut merkir kelta/fang, og er merking orðtaksins að fá upp í fangið.

Falla í slétt (orðtak)  Um það þegar skefur svo miklum snjó með jörð að slétt sýnist þó mishæðótt sé.  „„Það féll í slétt yfir allt af veðurofsanum og moldinni“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Falla í stafi (orðtak)  Verða yfir sig hrifinn; verða bergnuminn.  „Maður féll alveg í stafi yfir fegurðinni“.  Líking við það þegar tunna fellur í sundur þegar hún losnar úr gjörðunum.

Falla/hníga í valinn (orðtak)  A.  Vera veginn í orrustu.  B.  Eingöngu nú í líkingamáli; falla frá; deyja.  „Líklega eru núna fallnir í valinn allir sem lágu við í verbúðum í Kollsvíkurveri“.  Sjá valhoppa.

Falla í yfirlið/öngvit  (orðtak)  Fara í yfirlið; missa meðvitund. 

Falla niður á milli / Falla milli þils og veggjar (orðtak)  Gleymast; týnast; fara í útideyfu.  „Ég ætla ekki að láta þetta mál falla milli þils og veggjar“.  Steinhlaðin hús voru oft þiljuð, en munir gátu fallið út af veggsyllunni, og voru þá milli þils og veggjar“.

Falla til (orðtak)  A.  Verða afgangs; vera fyrir hendi.  „Hundurinn fær ýmislegt sem til fellur“.  B.  Um nyt kýr; aukast; græða sig.  „Það er enn ekki farið að falla til hennar; enda ekki furða þegar svo stutt er frá burði“.

Falla til hugar (orðtak)  Detta í hug; detta til hugar; koma í hug; koma til hugar.  „Ég var svo grandalaus að mér féll ekki einusinni til hugar að þetta gæti skeð“!

Falla/detta/velta um (orðtak)  Falla alveg niður; falla flatt.  „Fuglahræðan hafði fallið um koll“.

Falla úr báru (orðtak)  Skjóta í báru/fuglsbringur; hvítna í bárufald.  „Við fórum að huga að því að draga upp, þegar farið var að falla úr báru“.

Falla úr dagur (orðtak)  Líða dagur án.  „Það má helst aldrei falla úr dagur svo ekki sé vitjað“.

Falla vel (orðtak)  Vera góðir vinir; koma sér vel saman.  „Krokkunum fellur mjög vel hvoru við annað“

Falla við (orðtak)  Hrasa vegna.  „Höggið kom á bringuna á honum, svo hann féll við“.

Falla (vel) við  (orðtak)  Líka vel við; hafa góða tilfinningu fyrir.  „Mér fellur ágætlega við nýja grannann“.

Falla þungt (orðtak)  Þykja miður; verða sorgmæddur/leiður.  „Honum féll það þungt að svona fór“.

Fallaskipti (n, hk, fto)  Þegar sjávarfall gengur niður í eina átt og fer að falla í gagnstæða átt eftir liggjandann.  Fiskur gefur sig gjarnan betur til í liggjandann en í fallið.

Fallast á (orðtak)  Samþykkja; taka undir.  „Ég féllst á að fara með honum að leita að kindunum“.

Fallast á árar (orðtak)  A.  Fara að róa; taka til ára.  „Nú held ég að verði að fallast á árar og kippa aðeins“.  B.   Taka undir málflutning; fallast á sveif með.

Fallast á sveif með (orðtak)  Taka undir með; hjálpa.  Komið úr sjómannamáli; sveif merkir þarna líklega sama og ár eða stýrissveif.  Merkingin er sú að maður hleypur til og hjálpar öðrum við að stýra/róa.  „Ég held að ég verði nú að fallast á sveif með honum í þessu máli“.

Fallast hendur/hugur (orðtak)  Lamast; verða verklaus af áfalli.  „Þegar ég sá eyðilegginguna féllust mér hendur“.  „Það þýðir ekki að láta sér fallast hugur þó á móti blási um tíma“.

Fallega lætur hann (orðtak)  Oftast um veður; heyrist mikið á húsum.  „Fallega lætur hann núna; það er mikið að hann rífur ekki gaflinn úr húsinu í þessum andkotans rokum“!

Fallegur (l)  A.  Fríður; laglegur.  „Þetta er virkilega fallegur bátur“.  „Við það að sjá þessa fallegu kjötbita sem í skrínunni voru féll hann marflatur fyrir freistingunni“  (PG; Veðmálið).   B.  Um lamb; vænt; vænlegt til ölslu.  „„Ég skal lofa þér fallegustu lífgimbrinni minni í haust hafir þú rétt fyrir þér; og ég skal meira að segja leggja til skotið“!  (PG; Veðmálið). 

Fallið í sinu (orðtak)  Um tún; þakið sinu eftir mikla sprettu um eitt eða fleiri ár án þess að slegið/nýtt sé.

Fallin (s)  Um kýr sem komin er að burði.  Þá má glöggt sjá að breytingar verða á mölunum; malabandið slaknar og þær verða innfallnari en venjulega.  „Hún Skjalda er alveg fallin og ber trúlega á morgun“.  Kýr getur verið hálffallin; alveg fallin; fallin öðrumegin eða báðumegin.

Fallinn í tóft (orðtak)  Um hús/bæ/verbúð; þak fallið, svo tóftin stendur eftir.  „Allar verbúðir eru fallnar í tóft, og sumar sandi orpnar“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fallítt (ao)  Gjaldþrota; fara í þrot.  „Miklir fjármunir töpuðust þegar Milljónafélagið varð fallítt“. 

Fallstykki (n, hk)  Stórt stykki sem fallið hefur úr bjargi.  „Ásgeir bóndi á Hvallátrum kastaði máli á eitt fallstykki er hann var á gangi undir Bjarginu...; lengd 150m, breidd 20m, hæð 120m“  (MG; Látrabjarg).

Fals (n, hk)  Fláræði; undirferli; mjúkmæli.  „Varaðu þig á karlinum; stundum er hann ekkert nema falsið“!

Falsa (s)  Plata; lokka.  „Ég reyni að falsa hann í þetta“.

Falshefill (n, kk)  Handverkfæri; hefill með landi og fremur mjóu blaði; ætlaður til að taka spor í jaðar.

Falskur (l)  A.  Mannlýsing; undirförull; fláráður; lyginn.  „Hann á það til að vera dálítið falskur, blessaður“.  B.  Um tónlist/söng; ekki í réttri tóntegund.  „Flestir viðstaddir tóku undir söng í Breiðavíkurkirkju, og þessi óæfði kór hljómaði merkilega vel.  En oftast var þó ein og ein fölsk rödd sem illa fylgdi hinum“.

Falslaus (l)  Heiðarlegur; ólyginn.  „Engan mann þekkti ég jafn hrekklausan og falslausan“.

Falsrök (n, hk, fto)  Tylliástæður; gylliboð; lygar; rökleysa.  „Þetta eru nú bara falsrök sem ekki fá staðist“.

Falsvon (n, kvk)  Von sem ekki stenst; tálvon.  „Það reyndist bara falsvon að hann myndi hlýna um páskana“.

Falur (n, kk)  A.  Um seglabúnað báta; reipið sem sprytsegl og fokka eru hífð upp með.  Gegnir því sama hlutverki og dragreipi þversegla.  B.  Hólkurin ofan blaðs á spjóti sem skaftið gengur í.

Falur (l)  Fæst keyptur; til sölu.  „Ég sagði honum að ég vildi kaupa af honum hrútinn ef hann væri falur“.

Fanatískur (l)  Sanntrúaður/einsýnn/ofstækisfullur á reglu;.  „Hann er fanatírkur bindindismaður“.

Familsjúrnal (n, kk)  Danskt tímarit sem löngum var keypt og lesið um sveitir vestra á 20.öld; Familie journalen.  „Hér eru þeir með ágætis læknisráð í Familisjúrnalnum“.

Fanatískur (l)  Ofstækisfullur; stækur; róttækur í skoðunum; alger bindindismaður  „Ég var fanatískur á vín áður en þetta gerðist. ...  Viskíið sem Áslgeir kom með hressti mann svo vel... að eftir þetta varð ég að minnsta kosti ekki fanatískur“  (  Björgvin Sigurbj.son; Útkall við Látrabjarg). 

Fang (n, hk)  A.  Það magn af heyi sem unnt er að taka í fangið til að gefa á garða; setja upp í galta eða hey o.fl.  Dagsgjöf á garða var yfirleitt mæld í föngum, þó reyndar væru þau dálítið misstór eftir þeim sem gaf.  „Ég gaf fimm föng á jötu í Melfjárhúsunum; féð hefur lítið haft úti í þessum jarðbönnum“.  „Rifjað var þrisvar á dag, og rakað upp að kvöldi; í föng ef hey var blautt, annars lanir og að lokum galta; oftast kringlótta, þegar heyið var farið að þorna vel“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).   „Mér fannst þetta leiðinlegt og erfitt, svo ég fór að stinga mér kollhnís niður alla brekku með föngin“  (IG; Æskuminningar).  B.  Framanverður líkaminn.  „Við höfðum vindinn í fangið mestalla leiðina, og það tafði okkur töluvert“.  C.  Getnaður, einkum þegar rætt er um kýr.  „Ég er ekki viss hvort hún Búbót er með fangi.  Mér sýndist vera gangur á henni“.

Fangafæði (n, hk)  Lélegur/óætur/naumt skammtaður matur.  „Þessar pylsur finnst mér vera hálfgert fangafæði“.

Fangahús (n, hk)  Fangelsi; hús fyrir fanga.  „Bygging sameiginlegs fangahúss hreppanna á Patreksfirði“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Fangalína (n, kvk)  Kolluband; festarlína; band í stefni báts sem notað var m.a. til að halda honum við land.

Fangamark (n, hk)  Persónulegt tákn manneskju; upphafsstafir eða annað einkenni manns.  Nafnið fangamark er dregið af því að menn merkja með því sín föng; þ.e. sínar eigur, muni, reka eða annað.

Fangaráð (n, hk)  Heillaráð; neyðarúrræði.  „...og var það þeirra fangaráð þegar gatan hvarf undir skaflinn að senda einn á undan til að finna hana hinum megin...“  (MG; Látrabjarg).

Fangbragð (n, hk)  Handfesti/tak eins manns á öðrum; glímubragð; glíma.  „Þeir tókust á, fangbrögðum“.

Fanggæsla (n, kvk)  Manneskja, oftast kona, sem annaðist ýmis störf í landi í verum.  Nefndist svo vegna þess að hluti starfa hennar var að gæta aflahluta og eigna sjómanna meðan þeir voru í róðri.  „Víðast var etinn soðfiskur að lokinni aðgerð, en þá matseld annaðist einhver af áhöfninni eða fanggæslan.  Víða átti hver vermaður sinn disk, fyrrum úr tré, sem soðningin var færð upp á, og átti hann sjálfur að sjá um þrif á honum“  (Frásögn ÓETh o.fl.)  (LK;  Ísl. sjávarhættir II). (Sjá vermata og verskrína.)  Ekki sjást heimildir um að fanggæsla hafi starfað í Kollsvíkurveri á síðari tímum þess, þó svo kunni að hafa verið áður.  Hinsvegar fengu vermenn ýmsa þjónustu hjá heimilum í Kollsvíkinni og gátu keypt þar mjólk og fleira.

Fanir (n, kvk, fto)  A.  Tálknop á fiski.  B.  Sá hluti flug- eða þakfjöður á fugli sem ekki er leggur eða leggrót.

Fannbarinn (l)  Þakinn snjó; snjóugur.  „Í Hænuvík var okkur boðið til stofu; fannbörðum og snjóugum“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Fanndrífa (n, kvk)  Snjódrífa; áköf snjókoma.  „Það sást varla útúr augum í fanndrífunni“.

Fannfergi (n, hk)  Djúpir snjóar; mikil snjóalög.  „Það er töluvert fannfergi á öllum heiðum eftir hretið“.

Fannir (n, kvk, fto)  Mikil og þykk snjóalög.  „...urðum við að velta böggunum yfir mestu fannirnar“  (BS; Barðstrendingabók).

Fannkóf (n, hk)  Kóf; fínkornaður og þéttur kafaldsbylur; skafmold.  „Við sáum lítið í þessu fannkófi“.

Fannkyngi (n, hk)  Mikil og samfelld snjókoma/ofankoma.  „Skyldi þessu fannkyngi ekkert ætla að linna“?

Fannþekja (n, kvk)  Samfelldur, tiltölulega sléttur snjór.  „Fannþekjan hélt illa og var erfið yfirferðar“.

Fans (n, kk)  Stór hópur/söfnuður; mikill fjöldi.  „Það er kominn fans af fé inná, þarna norður á Melnum“.  Sjá fábjánafans; rollufans og túnrollufans.

Fanta knífur er fyrstur í smjör (orðatiltæki)  Ruddinn/frekjan ryðst oft framfyrir aðra þegar gott er í boði.  Málshátturinn á rætur í þeim tímum þegar smjör var eftirsóttast matvæla, og dýrmætur gjaldmiðill.

Fantalegur (l)  Ruddalegur; harðhentur.  „Vertu nú ekki svona fantalegur við hann bróður þinn“!

Fantaskapur (n, kk)  Slæm meðferð; ruddaskapur; meiðingar.  „Þetta kalla ég bara fantaskap“.

Fantur (n, kk)  A.  Drykkjarkanna.  „Réttu mér fantinn minn“.  Þá var prímus, kaffiketill, kanna og fantar til að drekka úr; blikkfata eða pottur til að sjóða soðninguna “  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  B.  Fól.  „Við réðum illa við bölvaðan fantinn“.

Far (n, hk)  A.  Mikil ferð á skýjum.  „Það er far á skýjum í dag“ var sagt þegar ský fuku hratt í háloftavindum þó hægara væri við jörð.  B.  Miklar sveiflur í norðurljósum.  „Það var trú áðurfyrr að mikið far á norðurljósum boðaði hvassviðri úr þeirri átt sem þau sáust í“.  C.  Skip; bátur.  „...innan við tvítugt var hann orðinn formaður á eigin fari“  (ÖG; Minningargrein um AK).

Far á skýjum / Far í lofti (orðtök)  Ský á mikilli hreyfingu fyrir vindi í háloftunum.  „Það er mikið far í lofti; mér kæmi ekki á óvart að hann ætti eftir að hvessa meira“.  Sjá einnig rek á skýjum.

Fara á hausinn (orðtak) 

Fara á sjó (orðtak)  Fara í róður; róa; leggja úr vör.  „Eigum við ekki að nota sjóveðrið og fara á sjó í dag“?

Fara bil beggja / Fara milliveginn (orðtök)  Velja meðalhóf/samningaleið; fara ekki í hið ítrasta.  „Í svona deilumálum er oft best að fara bil beggja“.

Fara í hár saman (orðtak)  Fara að rífast/slást heiftarlega.  „Þeir þoldu hvor annan afskaplega illa og ekki mátti orðinu halla svo þeir færu ekki í hár saman“.  Vísar til þess að grípa í hár andstæðings í slagsmálum.

Fara í kapp (orðtak)  Reyna/þreyta með sér; keppa; fara í kapphlaup.  „Eigum við að fara í kapp niður að girðingunni“?

Fara með mat í verið / Færa þeim í verinu (orðtök)  Heimamenn af bæjum í Kollsvík lágu við í verinu, líkt og aðkomumenn, og sinntu konur, gamalmenni og börn bústörfum yfir vertímann.  Heimamönnum í verinu var færður matur að heimann, oftast af börnum sem tóku þá um leið fisk heim í soðið.  „Þá var að fara með mat í verið; sækja fisk í soðið og svo varð maður að klippa hausana frá deginum áður“  (IG; Æskuminningar). 

Fara með sig (orðtak)  A.  Þróast; gerast; verða.  „Mér sýnist veðrið ætla að fara þokkalega með sig; hann er meira að segja að rofa fyrir sól“!  B.  Annast sjálfan sig.  „Þú þarft að fara vel með þig meðan pestin gengur yfir“.  „Það er ekki furða að skrokkurinn sé farinn að bila; eins og hann hefur farið illa með sig á vinnu“.

Fara rangt/rétt með (orðtak)  Segja rangt/rétt frá.  „Þetta gerðist ekki alveg svona; þú verður að fara rétt með“!

Fara spart með (orðtak)  Vera nýtinn/aðhaldssamur/sparsamur.  „Þetta fé gæti dugað nokkuð lengi ef spart er farið með“.

Fara vel/illa að ráði sínu (orðtak)  Breyta vel/illa.  „Ári fór hann illa að ráði sínu núna.  Hann skildi negluna eftir í, þannig að nú er báturinn hálffullur af rigningarvatni“.

Fara að öllu með gát (orðtak)  Fara mjög gætilega.  „Ef átakið á lóðinni breyttist þegar leið á dráttinn var einhver annar stærri dráttur með; oftast lúða.  Þá varð að fara að öllu með gát“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG). 

Fara (ganga) bónleiður til búðar (orðtak)  Vera neitað um það sem um er beðið; vísað á bug.  „Ég held að enginn hafi farið bónleiður til búðar þegar ferðamenn þurftu aðstoð, jafnvel gistingu“.

Fara að (orðtak)  Bera sig til; nota aðferð.  „Hvernig á ég að fara að þessu“?  „Hvernig færi ég að án þín“?

Fara að fara (orðtak)  Búast til ferðar; hugsa/hyggja sér til hreyfings.  „Ættum við ekki bráðum að fara að fara“?  „Ekki laga meira kaffi fyrir mig; ég fer að fara“.

Fara að koma lokin í (orðtak)  Fer að ljúka; er að verða búið.  „Mér sýnist að það fari að koma lokin í vertíðina hjá okkur ef veiðin glæðist ekki í næstu vitjun“.

Fara að óskum (orðtak)  Fara/enda eins og óskað hefði verið eftir.  „Þetta fór allt að óskum; féð heimtist allt“.

Fara (illa/vel/þannig/svona) að ráði sínu (orðtök)  Breyta; gera; framkvæma.  „Ekki dettur mér í hug að kjósa þá þingmenn sem fara svona að ráði sínu“!  „Þarna fannst mönnum hann ekki fara hyggilega að ráði sínu“.

Fara að vonum (orðtak)  Fara/enda eins og vænta hefði mátt.  „Allt fór þetta að vonum, og eins og til var stofnað; traktorinn drap á sér í miðjum Vaðlinum, og ekillinn óð í land með sína flösku“.

Fara að sofa í hausinn á sér (orðtak)  Fara að sofa; fara í háttinnn.  Oft sagt í ávítunartón við krakka sem vildu vaka:  „Fariði nú að sofa í hausinn á ykkur strákar og hætta þessu masi“.

Fara af bæ (orðtak)  Fara að heiman.  Sjá bregða sér af bæ.

Fara af fötum (orðtak)  Hátta sig.  „Þegar hæst stóð sauðburðurinn fór hann vart af fötum allan sólarhringinn“.

Fara af stöfnum (orðtak)  Fara með sig; ganga.  „Við byrjum smátt og sjáum hvernig það fer af stöfnum“.

Fara/farast af slysförum (orðtök)  Látast/deyja vegna slysa; t.d. drukknunar. 

Fara af stöfnum (orðtak)  Ganga fram; ganga fyrir sig; reiða af.  „Við eigum nú alveg eftir að sjá hvernig þetta mál fer af stöfnum í atkvæðagreiðslunni“.  Líklega dregið af hegðun báts í miklum sjó; þá skiptir miklu hvort báturinn ver sig; þ.e. hvort hann lyftir stafni upp á ölduna eða stingur sér í hana.

Fara aflaga (orðtak)  Fara úr skorðum; bila; ganga úr sér.  „Það þarf að laga það sem aflaga fór í veðrinu“.

Fara aftanað hlutunum (orðtak)  Gera/byrja öfugt.  „Það er nú að fara aftan að hlutunum að klórast fyrst laus niður og fá svo til sín vaðinn“.

Fara aftur (orðtak)  Verða verri/lakari/veikari/ónýtari.  „Mér finnst að honum sé heldur að fara aftur í söngnum“.  „Mér er farið að fara verulega aftur í þessu; maður stirðnar með aldrinum“.

Fara afvelta (orðtak)  Um kind; velta á bakið og komast ekki á fætur aftur.  Alltaf verða einhver afföll á fjáreign bænda af þessum sökum.  Sérstaklega er hætt þeim kindum sem eru í góðum holdum og því þungar á sér; hrútum og stirðum gamalám.  Þá er fé hættara í þúfóttu landslagi.  Dauðastríðið tekur oft langan tíma, og oft er hrafn fljótur á vettvang og kroppar þá í augu og garnir á lifandi fé.  Sjá einnir fara í svelti og fara ofaní.

Fara alfarinn (orðtak)  Fara/flytja fyrir fullt og allt; fara endanlega, t.d. að heiman.  „… og á skírdag þennan sama vetur fór systir mín alfarin að heiman til bróður síns í Breiðuvík“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Fara á (orðtak)  Líta út; virðast.  „Það fer ekki illa á því að hér komi amen á eftir efninu“.

Fara á annan veg (en ætlað var) (orðtak)  Fara/enda öðruvísi en búist var við; enda á annan hátt.  „Þetta fór á annan veg en ætlað var“.  „Þetta hefði getað farið á annan veg ef hann hefði ekki áttað sig í tíma“.

Fara á bakvið (einhvern) (orðtak)  Gera án vitneskju einhvers.  „Ég kann illa við að farið sé á bakvið mig með svonalagað“.

Fara á einn veg / Fara á eina lund / Fara á eina leið (orðtak)  Fara eins; fara/ganga illa; mistakast.  „Það var sama hvernig hann reyndi; alltaf fór það á einn veg“.  „Þetta fer allt á eina lund með svona vinnubrögðum“!  Einnig oft talað um að vera á einn veg.

Fara á fjörurnar við (orðtak)  Reyna við; stíga í vænginn við; fara einhvers á leit; tala utanað.  „Í fundargerðinni er farið á fjörurnar af oddvita hvort hægt sé að komast inn í styrkjakerfið sem stofnað var með lögum um ræktunarsambönd 1945“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).   „Það hefur flogið fyrir að hann sé að gara á fjörurnar við vinnukonuna á næsta bæ“.  Líking við að leita reka í fjöru.

Fara á flot (orðtak)  Fara á sjó.  „Ég fór á flot 10 ára... “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  „Það var beitt í bjóð í landi um kvöldið og vaknað tímanlega klukkan fjögur eða fimm.  Þá var farið á flot, eftir því hvernig stóð á straum...“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Fara á færum (orðtak)  Um legu færa í sjó; standa á færi.  „Renndu þínu færi fyrst; við skulum sjá hvernig fer á færum.  Ef norðurfallið er byrjað þurfum við kannski að snúa bátnum“.

Fara á fætur / Fara á ról  (orðtak)  Klæða sig og ganga til verka.  „Hún fór fyrst á fætur á morgnana og síðust í rúm að kveldi“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).

Fara á hausinn (orðtak)  Um fyrirtæki; verða gjaldþrota.  „Margir misstu alla sína inneign þegar félagið fór á hausinn“.

Fara á hundavaði yfir (eitthvað) (orðtak)  Gera/lesa/segja í fljótheitum; gera óvandað/flausturslega/ í stórum dráttum, á sem stystum tíma.  „Ég er ekki búinn að lesa bókina, en ég fór á hundavaði yfir nokkra kafla og sýndist hún vera í stíl við annað hjá höfundinum“.  Dregið af því að hundar fara gjarnan stystu leið yfir á, jafnvel þó þeir þurfi þá að synda.  Menn velja sér hinsvegar vað þar sem minna dýpi og straumur er.

Fara á kreik (orðtak)  Fara á stjá; fara á fætur.  „Hann fór á kreik eldsnemma og gáði til veðurs“.

Fara (einhvers) á leit (orðtak)  Biðja um eitthvað; fara framá eitthvað.  „Fór oddviti þess á leit að alþingismaðurinn ynni að því að þessi vaxtaliður yrði viðurkenndur sem byggingarkostnaður“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

 Fara á lærvað (n, kk)  Um bjargferðir; að fara á lærvað hét það þegar bjargmaður fór niður klett með því móti að bregða vaðnum í klof sér; undir annað lærið og halda við hann utanvið lærið með höndinni þeim megin en halda með hinni höndinni um vaðinn fyrir ofan sig.  Með því móti sat hann tryggilega í vaðnum og gat rennt sér niður á nokkurri ferð; stýrt sér með því að reka fætur í bergvegginn og stöðvað sig með því að herða tökin.  Best er að hafa þunna vettlinga (góða vinnuvettlinga) á höndum til að brenna sig ekki af vaðnum, og gæta þarf þess að hleypa sér ekki á of mikla ferð.

Fara á milli (orðtak)  Talast við; segja hvor við annan.  „Enginn vissi hvað þeim fór á milli í því samtali“.

Fara á milli mála (orðtak)  Vera vafa undirorpið; vera málum blandið.  „Ekki fer á milli mála að svona hefur þetta gerst“.

Fara/ganga á mis við (orðtak)  A.  Rata ekki á; hitta ekki.  „Við hljótum að hafa farið á mis við vörðuna í þokunni“.  Sjá einnig farast á mis.   B.  Missa af tækifæri.  „Ég hefði ekki viljað fara á mis við þessa skemmtun“.  „Menn verja vanalega öllum handbærum fjármunum sínum í það að svala ílönguninni í þessi efni (áfengið) og ganga venjulega heldur alls annars á mis, bæði til fæðis og klæðis“  (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938). 

Fara á saumum (orðtak)  A.  Um fatnað; saumspretta; rifna um saum.  B. Um bát; gefa sig/bila um sauminn; slá úr sér.  „Báturinn var víða farinn á saumum og hriplekur“.

Fara á sjó (orðtak)  Fara í róður; fara fram; halda til veiða.  „Nú held ég að við ættum að nota veðrið og fara á sjó.  Við þurfum að fara að fá okkur eitthvað í soðið“.

Fara á stjá (orðtak)  Fara á fætur.  „Það verður að fara snemma á stjá til að ná morgunflóðinu“.

Fara á stúfana (orðtak)  Leggja af stað; fara.  „Ætli maður verði ekki að fara á stúfana og gá að þessu“‘.  Stúfar merkir þarna fætur.

Fara á sveitina (orðtak)  Verða sveitarómagi/þurfalingur; þiggja af sveit.  Fyrir daga almannatryggingakerfis var það eina úrræði þeirra sem ekki gátu séð fyrir sér sjálfir, og höfðu ekki fjölskyldu til þess, að þiggja vist hjá öðrum, sem þá fengu framfærslustyrk frá viðkomandi sveitarsjóði/hreppssjóði.

Fara á svig við (orðtak)  A.  Fara í boga fyrir/framhjá.  „Þú þarft að fara á svig við fjárhópinn og reyna að standa fyrir í gjánni“.  Sjá komast á svig við.  B.  Sniðganga, t.d. reglur/fyrirmæli.  „Ég tel bara sjálfsagt að fara á svig við lög sem hvorki eru sett af skynsemi né sanngirni“!

Fara á vergang (orðtak)  Flosna upp frá búi vegna fátæktar/harðinda/skulda og leggjast í flakk og betl. 

Fara á vit feðra sinna (orðtak)  Látast; sálast; burtkallast.  „Hann er þá farinn á vit feðra sinna blessaður“.

Fara á vonarvöl (orðtak)  Verða öreigi/allslaus/gjaldþrota; flosna upp.  „Það er betra að hætta búskapnum tímanlega en flosna upp og fara á vonarvöl“.  Vonarvöl er fornt orð yfir betl, þ.e. að vonast eftir að eiga á betri kosti völ.

Fara batnandi (orðtak)  Lagast; batna.  „Veðrið hefur verið ári slæmt, en það fer óðum batnandi núna“.

Fara/lánast/lukkast betur en á horfist (orðtak)  Lánast betur en útlit er fyrir.  „Þetta fór betur en á horfðist; ég hélt að hann væri stórslasaður eftir þessa byltu“.

Fara bil beggja / Fara meðalveginn (orðtak)  Fara millileið; gera málamiðlun.  „Ætli maður fari ekki bil beggja og kjósi Framsókn“.

Fara bónarveg að (orðtak)  Biðja um; fara fram á.  „Ég held að það væri hyggilegra að fara bónarveginn að honum, heldur en að heimta þetta“.

Fara bónleiður til búðar (orðtak)  Fara/biðja án þess að ná árangri; fá ekki sínu framgengt.  „Þeir hafa allir farið bónleiðir til búðar sem hafa reynt að kaupa af honum bátkrílið“. Sjá láta synjandi frá sér fara.

Fara bónarveg (orðtak)  Biðja vel/auðmjúklega.  „Það er stundum bera að fara bónarveg en heimta af frekju“.

Fara dagbatnandi/dagversnandi  (orðtök)  Batna/versna með hverjum degi sem líður.

Fara dult með (orðtak)  Leyna; vera ekki að sýna/flíka.  „Hann fór ekki dult með sínar skoðanir í þessu efni“.

Fara eftir (orðtak)  A.  Sækja; ná í.  „Það þurfti að fara eftir vatni norður í Á, fyrir hrútana á Melnum“.  B.  Verða svo; rætast; ganga eftir.  „Þessi spádómur hefur ekki alveg farið eftir“.

Fara eigin götur/leiðir (orðtak)  Gera hlutina á sinn hátt; vera sérvitur; láta ekki berast með fjöldanum.  „Fer hann ávallt eigin götur uppfrá þessu;/ situr eigi sálumessu“  (JR; Rósarímur). 

Fara eins og köttur í kringum heitan graut (orðtak)  Koma ekki beint að efninu/málunum; vera ragur að nefna.  „Hann játaði þetta ekki beint, heldur fór eins og köttur í kringum heitan graut“.

Fara ekki allir í fötin/sporin hans/hennar (orðtak)  Ekki eru allir jafn hæfir og hann/hún; hann/hún getur það sem aðrir geta ekki allir.  „Þetta klifraði karlinn upp á sokkaleistunum og bandlaus, en það fara nú ekki allir i sporin hans“!

Fara ekki fet / Fara ekki hænufet / Fara ekki spor (orðtak)  Fara alls ekki neitt; fara alls ekki af stað.  „Ég fer ekki fet fyrr en ég hef lokið við kaffið“.  „Þú ferð ekki hænufet fyrr en þú klárar heimalærdóminn“!

Fara ekki í grafgötur með / Fara ekki í launkofa með (orðtak)  Leyna ekki ; fara ekki dult með.  „Ég fór ekki í neinar grafgötur með mitt álit á þessu“.  „Hún var ekkert að fara í launkofa með framhjáhaldið í karlinum“.   Grafgötur eru niðurgrafnir vegir.  Vísar orðtakið til þess að menn; t.d. óvinir, gátu laumast þar um, óséðir.  Launkofi er felustaður, t.d. útilegumanns eða þýfis.

Fara ekki lengra út í þá sálma (orðtak)  Ræða það ekki nánar.  Gæti vísað til fyrri tíðar, þegar sálmar voru á latínu.  Allir voru skyldugir til að sækja messu og þá kunna a.m.k. byrjun á einhverjum sálmum.  En líklegt er að menn hafi síður kunnað síðari erindin, og vissara að hætta sér ekki lengra út í þá sálma.

Fara ekki ofan af (orðtak)  Víkja ekki frá sinni skoðun/sannfæringu; skipta ekki um skoðun.  „Ég fer aldrei ofan af því að þetta er stærri þorskur en sá sem þú fékkst um daginn“!

Fara ekki troðnar slóðir / Fara ótroðnar slóðir (orðtak)  Fara/gera öðruvísi en hefð er fyrir; fara sínar eigin leiðir.  „Spurul leitar unlingsönd/ eigi troðnar slóðir./  Bakvið fjarskans bláu rönd/ bíða lönd og þjóðir“  (JR; Rósarímur).

Fara ekki troðnar slóðir (orðtak)   Líking um það að gera ekki eins og aðrir/ nota ekki sömu aðfeerðir og aðrir.

Fara ekki varhluta af (orðtak)  Komast ekki hjá; vera ekki hlíft.  „Fólksflóttinn frá smábátaútgerð og frumstæðu búskaparbasli er byrjaður.  Kollsvíkin fer ekki varhluta af því, þótt hún fáum árum fyrr þætti blómlegasti hluti sveitarinnar til afkomu“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fara engum sögum af (orðtak)  Segir lítið af; fréttist ekki af.  „Fer ei sögn af ferðum hans/ fyrr en viku síðar:/  Rísa fyrir Rósinkrans/ rauðar skriðuhlíðar“  (JR; Rósarímur).

Fara fáir í fötin (orðtak)  Eru fáir jafnokar; fáir sem jafnast á við.  „Hann var snillingur á þessu sviði og í þeim efnum fara fáir í fötin hans“.

Fara fetið (orðtak)  Fara/ganga mjög hægt; lötra; feta sig áfram.  Ganga rólega og þannig að um tíma séu báðir fætur á jörð í hverju skrefi.  Orðalagið er notað bæði um menn og skepnur.

Fara fjallasýn (orðtak)  Fara yfir fjöll; fara beint milli staða, þó um fjöll þurfi að fara.  „Ásgeir vildi nú fara fjallasýn, beint út á Bjarg, en Aðalsteinn vildi ekki samþykkja það“  (MG; Látrabjarg).  „TD14 vél þeirra frænda var nefnd Sleipnir.  Fór hún fjallasýn úr Hænuvík að Breiðuvík og vann þaðan á móti hinum“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Fara flatt á (einhverju) / Fara flatt fyrir (einhverjum) (orðtak)  Lenda í áföllum vegna; verða hált á.  „Hann fór flatt á þessum viðskiptum“.  „Heldur fór ég flatt fyrir honum í skákinni“.  Vísar til þess að bátur fær á sig ólag/skakkafall eða annað áfall og leggst flatur fyrir frekari sjóum.

Fara fljótt yfir sögu (orðtak)  Segja ekki frá öllum smáatriðum; stikla á stóru í frásögn.

Fara forgörðum (orðtak)  Glatast; eyðileggjast; týnast; fara i glatkistuna.  „Hætt er við að hin sérstæðu máleinkenni Útvíkna fari forgörðum þegar byggðin er lögst af um tíma, ef ekkert er að gert“.  Forgarðar voru garðar framanvið bæi.  Orðtakið var áður „að fara að forgörðum“; þ.e. að fara áleiðis af bænum.

Fara fram (s)  A.  Fara á sjó; fara á flot.  Svo var nefnt þegar menn brugðu sér í róður í Kollsvík.  „Það er renniblíða um allan sjó og fiskur á grunnmiðum.  Nú verðum við að fara fram“.   „Væri mikill afli, var einn maður skilinn eftir í landi við aðgerð, en þrír fóru fram aftur “  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG).  Einnig:  komast fram.   B.  Um fólk/skepnur/gróður ; taka framförum; verða leiknari; verða vænni; grænka; taka vaxtarkipp.  „Þér er að fara fram“.  „Túnunum fer ört fram í gróðrarskúrunum þessa dagana.  C.  Fara framar í hús/fram í anddyri.  D.  Ske; verða.  „Lömbin voru rekin til réttar við sláturhúsið, þar sem þau hvíldust eftir reksturinn og biðu slátrunar sem fór fram hinn næsta dag“  (PG; Veðmálið). 

Fara fram í hvinið (orðtak)  Um bjargsig í Látrabjargi:  „Ef farið var tæpt á brún var talað um að fara fram í hvinið“  (LK; Ísl.sjávarhættir V). 

Fara framum / Fara norðurá/norðurum / Fara suðurá/suðurum (orðtök)  Siglingaráttir á sjó útaf Útvíkum.  Þegar talað var um að fara framum var átt við að fara dýpra/ fjær landi.  Fara norðurá merkir að fara norðar, t.d. norður á Hyrnur eða Flóa.  Fara suðurá gat t.d. merkt að fara suður á Stekka, Bletti, Breiðavík eða jafnvel suður á Röstina.  „Hér er líklega fátt um fína drætti; ættum við kannski að fara ögn meira suðurá“?

Fara framá (orðtak)  A.  Róa dýpra/ á djúpmið.  „Hér er lítið að hafa; við skulum fara aðeins framá og reyna þar“.  B.  Fara fram á hnýfil á báti.  „Farðu framá og fylgstu með dýpinu hérna, svo við sláum ekki skrúfunni niður“.  C.  Biðja um; óska eftir.  „Mér þykir þú ekki fara framá neitt lítið“!  Orðtakið er líklega dregið af því að sá fer fram á skipið, sem kemur að landi eða öðru skipi; vilji hann biðja hina einhvers.

Fara framhjá (einhverjum) (orðtak)  Er ekki veitt athygli af einhverjum; einhver tekur ekki eftir.  „Það fór alveg framhjá mér hverju hann spáði í veðrið“. 

Fara framúr sér / Fara offari (orðtök)  Fara of geyst; gera meira en hóflegt er.  „Við skulum nú ekki fara framúr okkur í þessu; sofum á þessu í nótt“!

Fara fyrir (orðtak)  A.  Verða um; hljóta örlög.  „Hættu nú að leika þér þarna í stiganum drengur; ekki viltu að það fari fyrir þér eins og bróður þínum, sem skoppaði niður og skarst á ofninum“!  B.  Vera í forystu; fara fremstur í flokki.  „Ekki bregst það að Grána gamla fer fyrir hópnum, eins og endranær“.  C.  Fara framfyrir t.d. fjárhóp til að beina honum á rétta leið.  „Nú þarf einhver að fara fyrir; féð er að leita heimyfir Strympur“.

Fara/falla/detta fyrir borð (orðtök)  Falla útbyrðis.  „Það munaði engu að ég færi fyrir borð hinumegin þegar netateinninn slitnaði úr festunni“.

Fara fyrir lítið (orðtak)  Verða að engu; verða til lítils gagns; koma ekki að tilætluðum notum; skemmast; eyðileggjast.  „Það er hætt við að netin fari fyrir lítið ef við náum þeim ekki upp fyrir norðangarðinn“.

Fara fyrir ofan garð og neðan (orðtak)  Fara framhjá; grípa ekki athyglina.  „Hann þuldi upp formúlu fyrir þessu efnahvarfi, en það fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér“.

Fara grunnt/djúpt (orðtök)  Sigla nálægt/fjarri landi.  „Það er því farið svo grunnt sem má fyrir Blakkinn“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fara gætilega/varlega í sakirnar (orðtök)  Gera varlega; fara gætilega/rólega að; sýna varkárni.  „Við skulum nú fara varlega í sakirnar í þessum efnum; hér er að mörgu að hyggja“.

Fara halloka (orðtak)  Bíða lægri hlut/ verða undir í viðureign.  „Hann fór heldur halloka í þessum viðskiptum“.

Fara hjá sér (orðtak)  Vera feiminn; roðna; líta undan.  „Hann fór dálítið hjá sér þegar hún brosti til hans“.

Fara hjá því (orðtak)  Komast hjá; sleppa undan.  „Ef þú gengur í þessa stefnu þá fer ekki hjá því að þú lendir fljótlega á hestaveginum“.

Fara hljótt (orðtak)  Um orðróm/málefni; kvisast lítið út; vera haft fyrir leyndarmál.  „Þetta mun hafa farið fremur hljótt í sveitaslúðrinu“.

Fara huldu höfði (orðtak)  Leynast; fara með leynd.  „Mér finnst það ári skítt ef þingmenn fara með huldu höfði; þá sjaldan að þeir flækjast í sitt kjördæmi“!

Fara höndum um (orðtak)  Handfara; þreifa á.  „Leibbdu mér ögn að fara höndum um þetta hútalamb“.

Fara illa að ráði sínu (orðtak)  Breyt/gera það sem óráðlegt/rangt er; gera það sem hefur slæmar afleiðingar.  „Þarna fórstu illa að ráði þínu; þú hefðir átt að opna réttina áður en reksturinn kom“.

Fara illa/vel í sjó (orðtak)  Um bát; vera slæmt/gott sjóskip.

Fara innaní (orðtak)  Taka útúr; slægja.  „Þú þarft að fara vel innaní fiskinn, þannig að allt slóg náist“.

Fara innmeð (orðtak)  Um fæðingarhjálp kúa/kinda; fara með netta hönd inn í fæðingarveginn, innmeð lambi/kálfi í fæðingu, til að hagræða eða festa band svo unnt sé að hjálpa til við fæðinguna.

Fara/ganga/koma í bága við (eitthvað) (orðtök)  Stangast á við eitthvað; vera ekki í samræmi við eitthvað.  „Svona athæfi fer í bága við öll lög“!

Fara í bál og brand (orðtak)  Lenda í illdeilum; verða að deiluefni.  „Ég rer að reyna að sætta þá áður en allt fer í bál og brand útaf þessu“.  Líking við það að kvikni í húsi.  Á því var mikil hætta fyrrum, meðan opinn eldur var notaður til hitunar, eldunar og ljósa.  Sjá fara með báli og brandi og fara í hund og kött.

Fara í bjarg / Fara í kletta (orðtak)  Fara þar sem þverhnípt er, t.d. til fyglinga/eggja.

Fara í bólið/bælið/fletið/háttinn/lúsina/rúmið (orðtak)  Ganga til náða; fara að hátta; draga sig í bólið/bælið/fletið/lúsina“.  „Farðu nú að koma þér í bólið stubburinn minn“.  „Ætli sé ekki tímabært að fara í háttinn núna“.

Fara í Bug /Fara í beitufjöru (orðtök)  Fara úr Kollsvíkurveri inní Skersbug til að afla kúfisks í beitu.  „Það var kallað að fara í Bug eða fara í beitufjöru, þegar grafið var eftir skelinni með berum höndum.  “ (KJK; Kollsvíkurver) (Sjá kúfiskur).  „Í þriðja lagi var svo farið í Bug; þ.e. inn fyrir Sandoddann í Sauðlauksdal, og skelin grafin upp með höndum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Fara í egg (orðtak)  Fara í kletta og sækja egg; fara í bjarg.  „Ekki áttu þess þó allir kost að afla sér þessa bragðbætis og búdrýginda með fábreyttri vermötu, enda ekki á allra færi að fara í egg, eins og það var kallað“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fara í ergelsi á (orðtak)  Fara í taugarnar á; ergja; pirra.  „Þetta eilífa rigningarveður fer í ergelsið á mér“!

Fara í fjandans rass (orðtak)  Blótsyrði; andstaða þess að óska einhverjum velfarnaðar; fara í rass og rófu; fara í rassgat.  „Fari þeir þá bara í fjandans rass, fyrst þeir vilja ekki þiggja góð ráð“!

Fara í gegnum sjálfan sig (orðtak)  Verða tvísaga; flækjast í eigin lygavef; vera ekki samkvæmur sjálfum sér.  „Mér þótti hann fara nokkuð í gegnum sjálfan sig með þessari síðustu fullyrðingu“.

Fara í geitarhús að leita ullar (orðatiltæki)  Leita einhvers á röngum stað.  Ull er fátækleg á geitum. „ Líklega væri að fara í geitarhús að leita ullar að spyrja þremenningana sem fræddu okkur síðast um verstöðina“  (JB; Verstöðin Kollsvík). 

Fara í glatkistuna (orðtak)  Glatast; fara forgörðum; týnast.  „Hætt er við að margt fari í glatkistuna sem einkennt hefur hina sérstæðu menningu Kollsvíkinga og nágranna þeirra, eftir að byggðin hefur beðið svona mikinn hnekki“.

Fara í grafgötur með (orðtak)  Leyna; læðupokast með; draga fjöður yfir.  „Það þarf ekki að fara neitt í grafgötur með það sem gerist hér ef fiskistofnarnir hrynja“.

Fara í handaskolum (orðtak)  Misfarast; mistakast.  „Ég vil þó geta þess að ærpeningur á Lambavatni er þunnholda undan sumrinu; en á vorin eru þær í ágætu standi.  Þeir fóðra því ær; og lömb sérstaklega, að mínu áliti best; einkum Egill.  Undrar mig oft á því eldi er gemlingarnir hjá honum hafa fengið.  En það er fleira en þetta sem ekki fer í handaskolum hjá þessum heiðursbændum; (svo sem) snyrtimennska á heimilum þessum, úti og inni“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Fara í hart (orðtak)  Gera mikið mál úr; standa fastur á sínum málstað og þoka ekki; sækja sitt mál af hörku.  „ég er tilbúinn að fara í hart ef hann gefur sig ekki“.

Fara í hár saman (orðtak)  Lenda í slagsmálum.  „Rifrildið jókst orð af orði og endaði með því að þeir fóru í hár saman“.  Líklega leitt af því að menn grípi hvor í annars hár í áflogum.  Hinsvegar má benda á skýringu úr A-Skaft. eftir sögn Sigurðar á Brunnhól:  „Ekki mátti setja saman hár úr tveimur hárgreiðum (þ.e. hár tveggja manna).  Af því áttu að leiða illindi þeirra sem hárið áttu (fara í hár saman)“ (ÞT; Þjóðhættir og þjóðtrú). 

Fara í hund og kött (orðtak)  Týnast; hverfa út í buskann; eyðileggjast; fara í bál og brand.  „Eitt sinn var þetta heilt lyklasett, en það er allt farið í hund og kött fyrir löngu síðan“.

Fara í hundana (orðtak)  Fara illa; mislánast; fara á vonarvöl.  „Þau áform fóru öll í hunana“.

Fara í húsin (orðtak)  Fara til gegninga; fara út í skepnuhús til reglulegra gegninga; t.d. til að gefa og vatna skepnum; moka flór; mjólka; fara með hrút o.fl.  „Ég má ekkert vera að þessu; ég þarf að fara í húsin“.

Fara í hönd (orðtak)  Koma; leggjast að; byrja.  „Það þarf að ná þessum kindum áður en harðari vetur fer í hönd“.  „Nú fer hátíð í hönd“.

Fara í kaldakol (orðtak)  Daga uppi; fara fyrir lítið; lognast útaf; renna út í sandinn.  „Hann réði ekkert við að stýra félaginu; þetta var allt að fara í kaldakol eftir árið“!  Líking við að ekki takist að halda glóð í eldi milli mála/daga.  Ef glóð slökknaði var ekki annað fyrir hendi en sækja eld til næsta bæjar.

Fara í land (orðtak)  Sigla í land.  „En þá var ekkert um annað að ræða en fara í land“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Fara í launkofa með (orðtak)  Leyna; fara leynt með.   „Það var nú fjári gott að þetta lánaðist.  En það tók á; ég fer ekkert í launkofa með það“.

Fara í loftköstum (orðtak)  Hlaupa í harðaspretti/sem fætur toga.  „Hann fór í loftköstum fyrir kindurnar“.

Fara í manngreinarálit (orðtak)  Gera sér mannamun; gera uppámilli manna.  „Stjórnvöld mega ekki fara í manngreinarálit varðandi þessi mál“.

Fara í rass og rófu / Fara í rassgat (orðtök)  Í heitingum/skömmum.  „Viltu ekki þennan fína hákarl?!  Farðu þá í rass og rófu; bíddu bara þangað til ég býð þér hann næst“!  „Ég sagði honum þá bara að fara í rassgat; hann gæti þá sjálfur reynt að ná þessum snarvitlausu rollutruntum“!

Fara í róður (orðtak)  Fara fram; halda til veiða; fara á sjó.    „Eigum við ekki að fara í róður í dag“?

Fara/leggjast í sama farið aftur (orðtak)  Verða aftur með sama hætti; halda áfram sömu venju/ sama lagi.  „Við þurfum að laga girðinguna vel þarna; annars leggst þetta allt í sama farið hjá túnrollunum“.

Fara í saumana á  (orðtak)  Rannsaka; skoða nákvæmlega.  „Það þarf að fara í saumana á þessu máli“.

Fara í sjálfheldu/svelti (orðtak)  Um kind; fara á þann stað í klettum sem hún kemst ekki af.  Fé er yfirleitt mjög brattgengt og fótvisst í brattlendi.  Stundum freistast kindur þó á grösuga stalla og komast ekki til baka.  Oft þannig að þær stökkva niður.  Endalokin verða oftast hrp og dauði ef ekki tekst að taka/bjarga úr svelti.  Fyrrum lögðu bændur mikið á sig til að bjarga kindum úr svelti, og voru oftast fengnir færustu menn sveitarinnar í það.  Í seinni tíð hefur meita tíðkast að skjóta féð niður í stað þess að leggja menn í hættu.  Sjá einnig fara afvelta og fara ofaní.

Fara í sund / Fara sund (orðtök)  Fara um sund.  Í Kollsvík notað um það að fara milli Blakknesboðans og hleinarinnar landmegin.  Með því komast menn hjá að sigla um Blakknesröstina sem oft er straumhörð, úfin og jafnvel hættuleg stórum skipum.  Hinsvegar er sundið ekki fært nema í tiltölulega sjólausu og aðeins þeim sem þekkja leiðina.  Halda þarf Bræðragjám í Núpnum rétt sýnilegum þar til komið er fyrir boðann.  „Þegar við komum upp að Blakknesi var um það að ræða hvort fara ætti í Sund eða fyrir framan Nesboðann.  Ekki er fært sundið milli boðans og lands nema lítill sé undirsjór“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Fara í súginn (orðatiltæki)  Misfarast; tapast; fara fyrir lítið.  Hugsanlegar eru tvær upprunaskýringar.  Annarsvegar er súgur nafn á áhaldi; holu í endann, sem notað er til smíða á bátum.  Með honum var haldið við róna á bátasaum meðan hnoðað var, og því fer endi saumsins“í súginn“.  Þetta er hin venjulega orðskýring.  Hinsvegar er súgur notað yfir flæði haföldunnar upp að landi og til baka.  Bátar geta átt í erfiðleikum þar sem er mikill súgur og jafnvel farist; „farið í súginn“ (VÖ).

Fara í taugarnar á (einhverjum) (orðtak)  Gera/segja það sem einhver er ekki sáttur við/ einhver reiðist; vera þannig að einhverjum líki ekki.  „Skelfing fer þessi ósiður í taugarnar á mér“!

Fara í utanyfir (orðtak)  Fara í utanyfirföt/hlífðarföt.  „Þú ættir nú að fara í eitthvað utanyfir; þetta er skítverk“.

Fara/lenda í útideyfu (orðtak)  Um verknað/fyrirætlun; farast fyrir; dragast afturaf; verða lítið úr.  „Ég ætlaði að sækja þetta til þín fyrir helgina, en það fór í útideyfu hjá mér“.

Fara í veðrið (orðtak)  Fjúka; eyðileggjast í stormi.  „Ég held að við ættum að binda bátinn niður svo hann fari ekki í veðrið“.

Fara/hverfa (út) í veður og vind (orðtak)  Hverfa; fjúka burt; tapast í veðrið.  „Galtarnir stóðu rokið furðanlega vel af sér, en sumar hærurnar voru farnar út í veður og vind“.

Fara í vöxt (orðtak)  Aukast; verða algengara. 

Fara krókaleiðir að (orðtak)  Velja óþarflega langa leið/aðferð til að ná markmiði; t.d. setja fram spurningu eða fá/veita upplýsingar.  „Ég var ekkert að fara krókaleiðir að þessu; heldur sagði honum þetta hreint út“.

Fara laus (orðtak)  Klífa í klettum án þess að hafa stuðning af vað; klifra (sjá þar).  

Fara/halda leiðar sinnar / Fara sína leið (orðtak)  Fara það sem ætlað er; hverfa á braut; fara í burtu.  „Hann fór leiðar sinnar norður veg, en gleymdi alveg að loka hliðinu“.  „Ég nenni ekki að eltast við gemlinginn sem slapp við réttina; hann verður bara að fara sína leið“.

Fara létt með (orðtak)  Vinna/framkvæma á auðveldan hátt; gera án áreynslu.  „Gestur Jósepsson bar koffortið í fötlum frá Brjánslæk að Siglunesi, og virtist fara létt með það“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Fara mannavillt (orðtak)  Ruglast á mönnum; taka eina manneskju fyrir aðra.  „Nú ert þú örugglega að fara mannavillt; ætlaðirðu ekki að tala við bróður minn“?

Fara með (orðtak)  A.  Bera burt.  „Farðu heim með þetta“.  B. Um veiðiaðferð; vitja um net með því að fara á báti meðfram því; lyfta því upp að borðstokk og hirða aflann; beita og leggja línuna/netið jafnharðan og dregið er; fara með borði.  (Sjá beitning).  „Á liggjandanum og í logni var stundum látið duga að fara með grásleppunetunum“.  C.  Fara meðfram fjall/vegg/fjöru eða öðru.  D.  Í upphrópun; eyðileggja stemmingu/sögu.  „Þar fórstu nú alveg með það“!  E.  Segja; flytja; vitna í; fullyrða; segja fullum fetum. „Hann fór með vísu sem hann hafði gert“.   „Ég vona að ég fari rétt með þetta“. „Ég þori ekki alveg að fara með það, en ég held að hann hafi jánkað því“. F.  Verða samferða.  „Fæ ég að fara með ykkur í róðurinn“?  G.  Sjá um; annast.  „Farðu nú vel með leikföngin þín“.  „Laglega fóru þeir með prestinn“!  „… við Pétur kunnum hvorugur að fara með vél og getum ekki tveir hagrætt seglum eftir vindstöðu“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964).  G.  Sjá um; hafa umsjón með; hafa umboð til.  „Hann fór með sjávarútvegsmál í þeirri ríkisstjórn“.

Fara með báli og brandi (orðtak)  Fara um og eyðileggja.  „Byggðastefna stjórnvalda hefur farið með báli og brandi um allar útkjálkabyggðir landsins“!  Líking við að kveikja í húsum, en það var talin fólskuleg aðferð í hernaði.  Sjá fara í bál og brand.

Fara með brún (orðtak)  Um bjargferð; fara í lásum eða síga á mörgum stöðum af brún, en stutt niður á hverjum stað, t.d. í efsta og næstefsta gang.

Fara með eins og mannsmorð (orðtak)  Dylja; leyna;læðuppkast með.  „Menn eignuðust að sjálfsögðu börn framhjá þá eins og nú, en með það var farið eins og mannsmorð; aðalatriðið var að „rétt“ væri feðrað“.

Fara með fleipur / Fara með endaleysu / Fara með staðlausa stafi (orðtak)  Ljúga; segja ósatt.  „Ég held að ég sé ekki að fara með fleipur; allavega heyrði ég þetta svona“.

Fara með hrút (orðtak) Hleypa hrút til kinda um fengitíma.  Venjulega var hrútur ekki laus í fé í Kollsvík (síðari hl. 20. aldar), heldur var völdum hrúti hleypt til þeirra áa sem gengu í það skiptið og fært í ærbók.

Fara með löndum (orðtak)  Tala utanað málefni/erindi án þess að segja það berum orðum; fara varlega í umræðuefni; tala í hálfkveðnum vísum.  „Blessaður vertu ekkert að fara með löndum í þessu; viðurkenndu bara að þú kaust þessa skrattakolla“! Dregið af því að stundum er lygnara eða minni straumur uppi við landið þegar báti er róið.

Fara með sig (orðtak)  A.  Um veður/sjólag; verða reyndin; þróast í.  „Kannski við ættum að fara fram með morgunflæðinni, en við skulum sjá hvernig hann fer með sig yfir nóttina“.  B.  Um manneskju; ganga frá sér; fara illa með sig.  „Vertu nú ekki að lyfta þessu einn; þú ferð alveg með þig í bakinu á þessu“!

Fara með staðlausa stafi  (orðtak)  Segja ósatt; fullyrða meira en unnt er.  „Hann segir að við höfum samið um þetta í byrjun, en þar fer hann vísvitandi með staðlausa stafi“.

Fara með veggjum (orðtak)  Láta lítið fyrir sér fara; læðast óséður; skammast sín.

Fara með vitið úr bænum (orðtak)  Fara/yfirgefa án þess að kveðja heimafólk eða vera fylgt til dyra/ úr hlaði.  „Ég ætla að fylgja þér út á hlað, svo þú farir ekki með vitið úr bænum“.

Fara meðalveginn/milliveginn (orðtök)  Gæta hófs; fara bil beggja; fara/sigla milli skers og báru

Fara mikinn (orðtak)  Fara hratt; vera ákafur/óðamála.  „Mér fannst hann fara full mikinn í þessu máli“.

Fara milli skers og báru (orðtak)  Fara meðalveginn.  „Ég valdi það að fara milli skers og báru, því hvorugan vildi ég styggja“  Sjá sigla milli skers og báru.

Fara mjúkum höndum um (orðtak)  Meðhöndla mjúklega; fara gætilega með.

Fara neðan (orðtak)  Fara upp brekku; upp kletta; upp stiga.  Þetta var ríkjandi málvenja í Kollsvík, en heyrist ekki utan Rauðasandshrepps.  Upp var þó einnig notað, en í öðruvísi samhengi:  „Ég fór neðan klettana; upp í neðsta ganginn“.  „Kindurnar settu sig neðan brekkuna og hlupu þindarlaust á brún“.

Fara niðurá milli (orðtak)  A.  Týnast; verða útundan; gleymast; fara í útideyfu.  „Ég ætlaði að gera þetta í gær, en það fór alveg niðurá milli“.  Um kind; festast í grindunum; festast á milli spela.  „Hér eru spelirnir orðnir ári gisnir og slitnir; það er hætt við að féð fari að fara niður á milli ef þetta er ekki lagað“.

Fara norður og niður (orðtak)  Fara til fjandans/helvítis.  „Fari það þá norður og niður þetta hyski; ég nenni ekki að eltast lengur við þessar bykkjur“!  Vísar til Niflheima í Ásatrú, en leiðin til þeirra liggur norður og niður.

Fara of geyst (orðtak)  Fara/ganga of hratt; ganga of hart fram; fara offari.  „Farðu ekki of geyst, svo strákurinn nái að halda í við þig“.

Fara ofan (orðtak)  Fara niður brekku; niður kletta; niður stiga.  Ríkjandi málvenja í Kollsvík.  „Eru niðri?  Bíddu meðan ég kem ofan“.  „Tveir héldu við vaðinn á brún meðan einn fór ofan“.

Fara ofan af (orðtak)  Skipta um skoðun; láta af skoðun/þversku.  „Ég fer aldrei ofan af því að þetta var fjörulalli, og ekkert annað!  Ertu kannski svo vitlaus að halda að hér hafi verið ísbjörn á ferð“?!

Fara ofangarðs og neðan hjá (orðtak)  Um það þegar maður tekur ekki eftir því sem sagt er, eða skilur það ekki; þá fer það ofangarðs og neðan hjá manni.  „Presturinn var eitthvað að þylja um þá sem brúkuðu ókristilegt orðalag, en ég held að ég hafi dottað á þeim stað í ræðunni svo það fór að mestu ofangarðs og neðan hjá mér“.

Fara ofaní (orðtak)  A.  Um fé; festa sig í dýi/mýri.  „Það þyrfti að gá í Mýrarnar; hvort eitthvað hafi farið ofaní“.  Mikil afföll hafa jafnan verið af fé í Kollsvík sem fer ofaní á Mýrunum.  Var þó reynt að hafa á því góðar gætur, og oftast var farið um Mýrarnar daglega til eftirlits þegar hættan var mest.  Fé er duglegt að bjarga sér í votlendi, en nái það að sökkva í dý upp á miðjar síður eða dýpra án viðspyrnu á það sér lítillar bjargar von.  Hrafninn er fljótur að koma auga á dauðastríðið og byrjar þá jafnan á að kroppa augu og vömb.  Sjá einnig fara í svelti og fara afvelta.  B.  Fara niður í kjallara/vatn/sjó//dal//laut/hlíð/fles o.fl..  C.  Dýfa hendinni niður í vatn eða þ.h.  D.  Um málefni; endurskoða; gaumgæfa.  „Það þyrfti að fara ofan í öll þessi mál“.

Fara ofaní saumana á (orðtak)  Grannskoða; athuga vandlega; endurskoða.  „Það þarf að fara vel ofaní saumana á þessu máli“.  Líklega dregið af lúsaleit, en lýs geta lengi leynst við sauma á fatnaði.

Fara offari (orðtak)  Ganga of hart fram; fara of geyst: fara framúr sér.  „Margir töldu að hann hefði farið offari í þessu máli; betra hefði verið að fara varlegar í sakirnar“.

Fara orð af (orðtak)  Vera sagt um; vera frægur fyrir.  „... fór það orð að Arnfirðingum að þeir kynnu ýmislegt fyrir sér...“  (TÖ; viðtal á Ísmús 1978).

Fara saman (orðtak)  Fylgjast að; vera samferða.  „Fór þá saman þreifandi öskubylur og aftaka stormur“.

Fara/halda sem leið liggur (orðtak)  Fara eftir vegi; fara eftir fyrirhugaðri/réttri leið.  „Við gengum eins og leið lá fram allan Vatnadal, án þess að verða varir við þetta fé“.

Fara sér að voða (orðtak)  Fara ógætilega; leggja sig í hættu.  „Fariði ykkur nú ekki að voða þarna; það tekur því ekki fyrir fáeina eggjakoppa“!

Fara sér ekki að neinu óðslega / Fara sér hægt (orðtak)  Ganga/gera rólega/varlega; vera ekki með óðagot. 

Fara sínar eigin leiðir (orðtak)  Gera ekki eins og aðrir; hafa sína hentisemi.  „Hann var oft býsna frumlegur og fór sínar eigin leiðir, en flaut ekki með fjöldanum eins og flestum hættir til.

Fara sínu fram (orðtak)  Gera það sem maður sjálfur vill og telur rétt, án tillits til annarra/annars.  „Hann virti engin boð og bönn, heldur fór sínu fram“.

Fara spart með (orðtak)  Spara; eyða ekki um of; vera aðhaldssamur; halda spart á.  „Vsapeningarnir entust honum frameftir vetri, enda fór hann mjög spart með“.

Fara svo/þannig (orðtak)  Verða með þeim hætti; raungerast.  „Þó fór svo að Jón varð á undan að komast á flot…“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Fara sögur af (orðtak)  Eru sagðar sögur af; er sagt frá.  „... Benedikt Gabríel var talinn einhver snjallasti galdrameistari sem sögur hafa farið af á þessum slóðum“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Fara til andskotans/fjandans/helvítis (orðtök)  Öflug áhersluorð/blótsyrði.  „Fari þeir bara fjandans til fyrst þeir ætla að hafa þetta svona“!  „Þetta má fara til andskotans mín vegna“!  „Fari það nú til helvíts; þarna hrökk vasahnífurinn minn fyrir borð“!

Fara til eggja (orðtak)  Fara í kletta að tína egg.  „Við fórum til eggja í Breiðinn í gær“.

Fara til berja/grasa (orðtak)  Fara á fjöll til að tína ber eða fjallagrös.  Ber eru víða í kringum Kollsvík; einkum krækiber, en víða einnig töluvert af bláberjum og aðalbláberjum.  Hrútaber uxu til skamms tíma í Urðunum ofan Kollsvíkubæjar.  Víða finnast góð fjallagrös á svæðinu, ekki síst í lautum í Kóngshæð og Jökladalshæð.  „Farið var til grasa á hverju vori eða sumri.  Fjallagrös voru notuð bæði í brauð og grauta“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Fara til fyglinga (orðtak)  Fara í leiðangur/sig til að snara bjargfugl.  „Upp af Stóðum eru Gunnarshillur.  Þangað var farið til fyglinga“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Fara í gegningar / Fara til gegninga (orðtök)  Fara í húsin; fara í útihús til að gefa skepnurnar; hirða um þær og e.t.v. mjólka kýr.  „Ætli maður þurfi ekki óðara að fara í gegningar“.

Fara til sjóar (orðtak)  Fara á vertíð; fara í ver.  „Segir nú ekki frá því fyrr en árið eftir; það var fermingarárið mitt.  Ég gat því ekki farið til sjóar fyrr en eftir hvítasunnu; 14 ára gamall“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  Sjór var jafnan „sjóar“ í eignarfalli; fremur en „sjávar“ eins og algengast er.

Fara til spillis/ónýtis (orðtak)  Ónýtast; verða ekki að gagni.  „Farðu varlega þegar þú hellir bensíninu; að það fari ekki til spillis“!  „Það er óþarfi að láta góðan mat fara til spillis, þó hann sé farinn að breyta bragði“!

Fara tæpt (orðtak)  Fara á ystu nöf í brattlendi; fara um tæpan/hættulegan þræðing í klettum/bjargi.  „Gættu nú vel að handfestunum þegar þú ferð svona tæpt“!

Fara um (orðtak)  A.  Ganga um; leggja leið sína um.  „Ég fór um alla hlíðina; þar var ekki nokkur kind“.  B.  Velta; fara á hliðina.  „Mjólkurkannan fór um, svo nú flæðir um allt borð“.  „Bíllinn hallaðist sífellt meira í brekkunni, og fór að lokum alveg um“.  C.  Verða hræddur/skelfdur.  „Það var farið að fara um mig þegar ég varð loksins var við að einhver tók í spottann niðri í bjarginu“.  D.  Um þægindi/velferð.  „Hvernig fer svo um ykkur á nýja heimilinu“?  „Láttu fara sem best um þig“.

Fara undan í flæmingi (orðtak)  Gefa eftir sinn málstað í samtali/rökræðum; finna ekki rök fyrir sínu máli; reyna að finna hverja tylliástæðuna eftir aðra.  „Hann fór bara undan í flæmingi þegar ég spurði um ástæður fyrir þessu, og játaði loksins að þetta hefðu líklega verið mistök“.  Flæmingur merkir í raun brottrekstur; samanber orðtakið flæma burt.  Sjá flæmi; flæmingur; vera á flæmingi.

Fara undir (bjarg) (orðtak)  Fara á bát undir Látrabjarg eða Bæjarbjarg til eggjatöku eða í fygling.  Einnig notað gæluorðtakið gá undir/ kíkja undir.

Fara upp (orðtak)  A.  Venjuleg merking, t.d. fara upp kletta eða stiga.  B.  Stranda; sigla í strand.  „Þarna norðan við Flöguna strandaði enskur togari árið 1914 (British Empire).  Hann fór upp á smá vog og lagðist eins og að bryggju“  (IG; Sagt til vegar I).  

Fara uppfyrir (orðtak)  A.  Bókstafleg merking.  „Ég ætla að fara uppfyrir féð og vísa því aftur niður“.  B.  Vaða svo djúpt að vatn/sjór fossi uppfyrir stígvél/skó.  „Þetta þótti stór viðburður og allir strákarnir í Víkinni, en þeir voru nokkuð margir þá, þurftu að prófa (klofstígvélin); og auðvitað var farið uppfyrir“  (IG; Æskuminningar).  C.  Fara í útideyfu; komast ekki í verk.  „Ég ætlaði að klára verkið daginn eftir, en lenti þá í öðru svo það fór eitthvað uppfyrir hjá mér“.

Fara uppí (orðtak)  Fara í rúmið; fara upp í bát.  „Farðu nú uppí stubburinn minn; ég kem og breiði ofan á þig“.  „Farið þið uppí; ég skal ýta frá“.   „Ég heyrði að hann var kominn fram úr en móðir mín vann hann með góðu að fara upp í aftur“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Fara utan (orðtak)  Fara til útlanda; fara erlendis.  Orðalagið hefur haldist í málinu frá landnámstíð, eða frá því að heimaslóðir flestra landnámsmanna var Noregur.  Þeir sem fóru þaðan, t.d. til Íslands, fóru út; þ.e. út frá Noergi.  Þeir sem komu frá öðrum löndum til Noregs komu/fóru utan.  Líklega er þetta það orðalag sem vísar sterkast til uppruna þjóðarinnar, og má furðu sæta hve það hefur haldist lengi í málinu.  Sjá utanferð.

Fara/tala utanað (einhverju) (orðtak)  Brúa á einhverju; nefna eitthvað óbeint; færa eitthvað lítillega í tal.  „Ég fór utanað þessu við hann og hann tók því ekki fjarri“.  Sjá hinsvegar raka utanað.

Fara úr einu í annað (orðtak)  Vaða úr einu í annað; skipta skyndilega um umræðuefni/viðfangsefni. 

Fara úr böndunum (orðtak)  Fara á annan veg en ætlað var; mistakast; verða ofviða; fara úr skorðum; fara úrskeiðis.  „Við megum ekki láta útgjöldin fara úr böndunum“.  Líking við það að hey hrynji úr böndum þegar verið er að flytja það af velli.

Fara/vaða úr einu í annað (orðtak)  Skipta um umræðuefni/viðfangsefni.  „Svo ég fari nú úr eini í annað; ...“

Fara úr hárum (orðtak)  Fella hár í miklu magni af feldi sínum.  „Farðu nú og kembdu tíkarkvikindinu; hún er að fara svo mikið úr hárum þessa dagana“.

Fara úr hendi (orðtak)  Gera; inna af hendi; vinna.  „Kitti sá alltaf um að sundra, og fór það vel úr hendi“.

Fara úr hverri spjör (orðtak)  Berhátta; klæða sig úr hverri flík. 

Fara úr skorðum / Fara úrskeiðis (orðtak)  Ganga úr þeim stellingum sem vera skal; fara á annan veg en ætlað er.  Hið fyrra vísar til báts sem skorðaður hefur verið á kambi með skorðum, en hið síðara til þess að hellist niður úr skeið eða ausu.  „Þessi áætlun fór öll úr skorðum hjá okkur“.

Fara úr ullinni/reyfinu (orðtak)  Um kind; losna við reyfi eftir að henni er fyllt, þannig að það slitnar af.

Fara úr öskunni í eldinn (orðtak)  Um ástand/aðstæður sem horfir til verri vegar.  Notað í svipuðum efnum og að bæta gráu ofan á svart eða lengi getur vont versnað.

Fara út á bæi (orðtak)  Fara til Sellátraness eða Hænuvíkur frá bæjum í Örlygshöfn eða innar í firðinum.  „En þeir sem komu úr Hænuvík eða Sellátranesi voru alltaf nefndir utanbæjamenn og sagt að fara út á bæi ef fara átti þangað“  (KJK; Örnefnaskrá Tungu).

Fara út í annað / Fara út í aðra sálma (orðtök)  Skipta um umræðuefni.  „Þegar ég spurði hvað þeir væru komnir með margar tunnur þá fór hann út í allt aðra sálma“.

Fara út í það / þá sálma (orðtak)  Ræða það; fjalla um það.  „Við förum ekkert nánar út í það“.

Fara/ganga út í öfgar (orðtak)  Gerast róttækur; ganga of langt; verða ýkjukennt.  „Honum hættir til að fara út í öfgar í þessari umræðu“.

Fara út um þúfur (orðtak)  Mistakast; renna út í sandinn.  „Þessi áætlun fór alveg út um þúfur hjá okkur“.

Fara varhluta af (einhverju) (orðtak)  Sleppa við; vera afskiptur.  „Fólksflóttinn frá smábátaútgerð og frumstæðu búskaparbasli var byrjaður.  Kollsvíkin fór ekki varhluta af því þótt hún, fáum árum fyrr, þætti blómlegasti hluti sveitarinnar til afkomu“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fara varlega í sakirnar (orðtak)  Gera gætilega; ganga ekki of hart fram; sýna aðgát. 

Fara veg allrar veraldar (orðtak)  Týnast; eyðileggjast; fjúka burt; hverfa.  „Við áttum fullt í fangi með að bjarga tjaldinu áður en það færi veg allrar veraldar“.

Fara vel (orðtak)  A.  Enda vel; fá góð málalok.  „Ég er bara feginn því að allt fór vel að lokum“.  B.  Sitja haganlega; líta vel út.  „Mér finnst málverkið fara vel á þessum vegg“.  „Þessi skyrta fer þér vel“.

Fara vel á (orðtak)  Vera við hæfi; henta vel; vera til prýði.  „Það fer vel á því að hann njóti þess sjálfur sem hann hefur búið í haginn fyrir aðra“.

Fara vel í sjó (orðtak)  Um skip; ver sig vel í slæmum sjó og siglir vel.  „...var það kallað að liggja fyrir klofa.  Fór skipið þannig mun betur í sjó en ef festinni væri brugðið um stefni“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi; um eldri Fönix í Kollsvík).

Fara vel með það (orðtak)  Láta ekki á því bera; hampa því ekki.  „Hann er hinn mesti æringi, þó hann fari oftast vel með það“.  „Þeir segja að hann geti alveg sagt satt, en hann fer oftast afskaplega vel með það“!

Fara vel um (orðtak)  Líða vel; hafa það gott.  „Gunnar, annar sonur Einars utan hjónabands, ólst fyrst upp hjá vandalausum þar til hann var 11-12 ára, og hafði ekki farið vel um hann þar“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).   „Heyrðu hérna lagsi, lýst þér ekki á mig?/  Lagleg er ég, sérstaklega í myrkri./  Ég fylgi þér í rúmið, þá fer svo vel um þig,/ og faðma þig með jómfrúrhendi styrkri“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Fara versnandi (orðtak)  Versna; fara á verri veginn.  „Mér sýnist að verið fari heldur versnandi“.  „Sjórinn var orðinn óskaplegur og fór versnandi“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Fara villur vega (orðtak)  Á villigötum; fara ranga leið; fara með rangt mál.  „Nú ertu alveg að fara villur vega“.

Fara víða / Fara vítt og breitt (orðtök)  Fara um mikið landsvæði; tala um margvísileg málefni. 

Fara yfir á hundavaði (orðtak)  Lesa lauslega; þylja í stuttu máli.  Líking við það að hundar stökkvi á hraðferð yfir grunnt vatn, þannig að gusur gangi í allar áttir.  Á líkan hátt getur margt misskilist sem farið er yfir á hundavaði.

Fara yfir stag (orðtak)  Um siglingu skips; stagvenda

Fara yfir strikið (orðtak)  Ganga helst til langt; fara yfir eðlileg mörk.  „Henni þótti hann fara freklega yfir strikið þegar hann spurði hvort hún hefði stigið á vigt nýlega“.  Vísar líklega til þess að fara yfir tiltekna markalínu, en getur einnig vísað til þess að breyta stefnu skips of mikið, þannig að fari yfir áætlað strik á áttavitanum.

Fara yfir um (orðtak)  A.  Deyja; sálast.  „Ég er að fara yfir um af tilhlökkun“.  B.  Fara milli staða, t.d. yfir að Láganúpi frá Kollsvík eða innyfir Hænuvíkurháls.  „Ég ætla að koma með ef þú ert að fara yfirum“.

Fara þess á leit / Fara þess á flot (orðtak)  Biðja hóflega um; fara framá; leita hófanna um.  „Þeir fóru þess á leit við mig að ég tæki að mér formennsku í nefndinn“.  Hið síðara var mun sjaldnar notað. 

Fara þétt með (orðtak)  Um haglabyssu; vera þannig þrengd í hlaupinu að haglahríðin haldist tiltölulega þétt, eins langt og skotið dregur.  „Hún fer dálítið þétt með, svo hún er betri á nokkuð löngu færi“.

Fara þverrandi (orðtak)  Minnka; ganga til þurrðar.  „Ég fann að úthaldið fór þverrandi“.

Fara öðruvísi en ætlað var / Fara á annan veg (orðtök)  Verða með öðrum hætti en menn hefðu áætlað.

Fara öfugt ofaní (einhvern) (orðtak)  Einhver bregst illa við því sem hann heyrir; einhver misskilur það sem við hann er sagt.  „Þetta fór eitthvað öfugt ofaní hann; hann varð alveg stjörnuvitlaus og hótaði kærum“.

Farandfugl (n, kk)  Farfugl.  „Svartþröstur er all algengur farandfugl hér að vetrarlagi“  (EG; Fuglalíf í Kollsvík).

Farandi (l)  Unnt að fara; fært.  „Ekki er farandi í Stigaskúta nema fyrir sérstaka, og þá aðeins einn í einu“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Farandlýður (n, kk)  Flökkufólk; flækingar; bakpokalýður.  Oft notað af sumu sveitafólki um ferðafólk í upphafi túristavæðingar á Íslandi.  „Skyldi þessi farandlýður ekkert hafa þarfara að gera en flækjast um með sjálfa sig, svona um hásumarið“?!  Þeir sem hæst töluðu þannig áður hafa lifibrauð af ferðaþjónustu í dag.

Farandverslun (n, kvk)  Verslun sem er færanleg; verslun þar sem verslunarmaðurinn flytur sinn vörulager og sölu á vænlegt markaðssvæði, eftir þörfum.  Líklega hefur eina umfangsmikla farandverslun landsins verið sú sem Magnús Ólafsson í Vesturbotni (Mangi í Botni) stundaði á síðari hluta 20. aldar.  Eftir að hann hætti sem brautryðjandi, ýtustjóri og verkstjóri í vegagerð fékk Mangi sér stóra rútu; lét innrétta hana á hentugan hátt sem verslun og bústað og flakkaði svo á þessum ljósbláa bíl um allt Ísland með sinn vorulager og seldi; jafnt í kaupstöðum sem á afskekktum sveitabæjum.  Enn í dag er „Magnús vítamín“ þekktur í flestum byggðarlögum, en bætiefni af öllum gerðum var hluti af hans fjölbreytta vöruúrvali, og hann þreyttist seint á að útskýra gagnsemi þeirra.  Kaupmönnum um landið var fremur í nöp við þessa vinsælu farandverslun; töldu að hún hefði af þeim viðskipti.  Urðu af því nokkur upphlaup, njósnastarfsemi og lögreglumál sem Magnús hafði mikið gaman af, enda vissi hann fátt skemmtilegra en þras og rökræður.  Í verslun Magnúsar var mjög fjölbreytt vöruval; líklega mun fjölbreyttara en í stærstu stórmörkuðum landsins í dag; t.d. fatnaður, verkfæri, búsáhöld, bætiefni, matvara, sælgæti o.fl. o.fl.  Þar á meðal mangakrem og mangabrjóstsykur.  Magnús kom stundum út í Kollsvík, þó Beygjan í Hæðinni væri þessum stóra bíl nokkuð þröng.  Magnús var af Kollsvíkurætt; fæddur 1913 og lést 1998.  Hann var stórhuga brautryðjandi á ýmsan hátt; framsýnni um margt en aðrir og fór sínar eigin leiðir.  Auk farandverslunarinnar birtist framsýni hans t.d. í snjallri vegalagningu víða í Barðastrandasýslum; frumkvöðlastarfsemi í fiskeldi; stórhuga virkjanaframkvæmdum; hugmyndum um jarðgangagerð undir heiðar; stórfellt fiskeldi og jafnvel sjávarfallavirkjanir.

Fararleyfi (n, hk)  Leyfi til að fara/ferðast.  „Ertu búinn að fá fararleyfi hjá frúnni“?

Farartálmi (n, kk)  Hindrun í leið/vegi.  Í raun og veru voru þetta nú ekki miklir farartálmar að sumrinu, en gátu orðið það að  vetrinum“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).   „Hellan hefur stundum reynst erfiður farartálmi á Stígnum; einkum eftir vetur þegar þar hefur fallið aurskriða og fjárgata ekki náð að myndast“.

Farast (s)  Hafa efni á; vera í stöðu/færum til.  „Var hann að setja útá vinnulagið?  Honum ferst!  Sem sjálfur lyftir ekki hendi til nokkurra verka“!  „Mér ferst víst illa að gagnrýna aðra í þessum efnum“.

Farast á mis (orðtak)  Fara hvor framhjá öðrum; hittast ekki.  „Við ætluðum að hittast í Flosagilinu en hann var svo fljótur fyrir Breið að við fórumst á mis“. 

Farast fyrir (orðtak)  Gleymast; falla niður.  „... sýslumaður mátti innheimta einn harðsteinbít af hverjum vermanni, en innheimta sú fórst jafnan fyrir“  (KJK; Kollsvíkurver).

Farast með manni og mús (orðtak)  Um skip eða annan farkost; farast/sökkva með þeim afleiðingum að allir um borð láta lífið.

Farast úr hendi (orðtak)  Heppnast; vinnast; skila verki.  „Ósköp fer þér þetta illa úr hendi vinur“.  „Honum fórst það alveg bærilega úr hendi að slá hólinn“.

Farast vel/illa (orðtak)  Lánast vel/illa, koma vel/illa fram við einhvern.  „Mér fannst þeim farast illa við karlangann“.  „Vertu ekkert að eiga meira við gemlinginn; ekki fórst þér það svo vel síðast“.  „Gísli Konráðsson segir að Guðrún hafi þótt stórlynd, en mikilhæf í mörgu og Einari hafi farist vel við hana þótt jafnan héldi hann framhjá henni, eins og Gísli orðar það“. ...  „En þá lét Guðrún Einar taka hann til sín, og fórst vel við hann að sögn“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Farborð (n, hk)  Borð í byrðingi á skarsúðuðum báti; annað borðið frá kilinum.  Borð í bátssíðu voru þessi (talið frá kili að borðstokk):  Kjalsíða; farborð; undirúfur; yfirúfur; hrefna; sjóborð; sólborð og rimaborð.

Farbúnaður (n, kk)  Farviður og annar búnaður sem þarf til sjóferðar á bát.  „Í Útvíkum báru hásetar farbúnað á skip meðan formaður naglfesti.  (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.

Fardagaflan (n, hk)  Fardagahret; hret eða óverðurskafli um fardaga (í júníbyrjun).   (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Fardagar (n, kk, fto)  Fjórir fyrstu dagarnir í 7. viku sumars.  Þessa daga fluttu menn búferlum ef slíkt stóð til, og við fardaga miðaðist ábúð leigujarða.  Fardagur presta var lögskipaður 1847 og er 6. júní.  „Þetta sama vor í fardögum fluttum við frá Hnjóti alfarin að Kollsvík í sama hreppi til bróður míns, Torfa, er þar bjó með konu sinni, Guðbjörgu“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Farðu nú hægt (orðatiltæki)  Bíddu nú við; vertu rólegur.  „Já hvenær var þetta nú aftur?  Farðu nú hægt; ætli ég geti ekki glöggvað mig á því með tíð og tíma“.

Farg (n, hk)  A.  Hverskonar þungi; hlass; þyngsli.  „Mikið er ég feginn því að þessu fargi er af mér létt“.  B.  Grjót sem nýtt er ár eftir ár til að fegja vothey.  Þegar votheysgryfja er orðin full, og nánast fullsigið í henni, er raðað a.m.k. tveimur lögum af hnullungssteinum nokkuð jafnt ofaná heyið; oftast þó ofaná járnplötur.  Við það þjappast efra borðið, til jafns við neðri lögin, og loft á ekki greiða leið að heyinu til að hindra góða verkun.  Steinarnir voru geymdir í grjótrúst við gryfjuvegginn meðan þeir voru ekki í þessari notkun.  Í seinni tíð var farið að nota þykkan plastdúk, og raða sandpokum í stað steina; og þá aðeins með veggjum gryfjunnar.  Síðar komu aðrar kenningar um frágang sem ekki verður lýst hér.

Farga (s)  Slátra; lóga; eyðileggja.  „Andvirði óskilafjár sem fargað er skal lagt inn á reikning, þannig að greiða megi út verð hverrar kindar ef eigandi finnst“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).   „Af þessu leiddi að í Rauðasandshreppi var ekki fargað verulega af bústofni“  (SJTh; Árb.Barð 1955-56). 

Fargan (n, hk)  Vesen; tilgangslaust/heimskulegt framferði.  „Helst vil ég vera laus við það bölvað fargan“.

Fari bölvuð sú lygin! (orðatiltæki)  Upphrópun; andmæli við því sem fullyrt hefur verið.  „Sagði hann að ég hefði gleymt þessu?!  Fari bölvuð sú lygin!  Hann átti sjálfur að muna eftir því“!

Fari bölvuð sú ögnin! (orðtak)  Upphrópun til að lýsa smæð eða ónýti einhvers, eða firra sig.  „Fari bölvuð sú ögnin að hér sé nokkur kind“!  „Ég hef ekki snert við þessu hjá þér; fari bölvuð sú ögnin“! Sjá ögn.

Fari það fjandans til (orðtak)  Upphrópun/blótsyrði; fari það og veri; fari það í hoppandi.  „Nei; fari það nú fjandans til; gleymdi ég að setja hurðina í dilkinn!  Og öll komin strollan út;  með það sama“!

Fari það í fjandans rass (orðtak)  Svipuð merking og „fari það og veri“.

Fari það í hoppandi (orðtak)  Svipuð merking og „fari það og veri“.  Ekki er örgrannt um að stundum væri gripið til efsta stigs; ef mönnum var mikið niðrifyrir, t.d.; „fari það nú í heitasta helvíti“.

Fari það í (hurðarlaust) helvíti / Fari það í kolað/logandi / Fari það í svartan sjó (orðtak)  Blótsyrði eða upphrópanir.  „Nei fari það í helvíti.  Það kemur ekki til mála að þessi kettlingur hafi 35 punda skrokk.  Það þori ég að veðja um“!   (PG; Veðmálið).   „Nei; fari það nú í hurðarlaust helvíti:   Ég missti slóðann með öllu saman; rétt uppvið borðið“!

Fari það norður og niður! / Fari það veg allrar veraldar / Fari það bölvað/grábölvað (orðtak)  Blótsyrði eða upphrópun.  „Fari þær þá norður og niður, bölvaðar bykkjurnar!  Þetta er ljónvitlaust af styggð“!  Til mun hafa verið viðbótin „… og í níunda heim“.  Hún heyrðist ekki í Kollsvík í seinni tíð, en kann að vísa til fyrri hugmynda um húsakost helvítis.

Fari það og veri (orðtak)  Upphrópun sem lýsir hneykslun eða reiði; notað í stað blótsyrðis.  „Nei, fari það nú og veri; nú missti ég hamarinn ofan í hlandforina“.  Einnig gæti komið í sama tilefni; fari það nú fjandans til.

Farið að halla degi / Farið að líða á dag(inn) / Farið að líða á nóttina  (orðtök)  Orðið áliðið dags/nætur.  „Það var farið að halla degi þegar við komum til baka úr ferðinni“.

Farið að harðna á dalnum (orðtak)  Orðinn skortur; farið að sverfa að.  „Enn er ég sæmilega birgur af fóðri, en það gæti farið að harðna á dalnum ef ég þarf að hafa lambær á fóðrum langt fram á sauðburð“.

(Einhverjum er) farið að segja fyrir (orðtak)  Einhver sýnir þess merki að vera feigur/ kominn á grafarbakkann. Notað sem upphrópun um það þegar einhver gerir eitthvað óvænt/óvanalegt; oftast þá jákvæðara en vant er, en það var talið feigðarmerki áður  „Nei, nú er honum farið að segja fyrir; haldiði ekki að hann sé kominn á fætur án þess að vera vakinn“!  Svipuð trú ríkti vestra og Sigurður á Brunnhól í A-Skaft segir frá í samtalsbók sinni:  „Almennt var talið að hverjum manni ætti að bregða fyrir sitt bnadægur og gat komið fram í því að nískur maður varð örlátur og örlátur maður nískur“  (ÞT; Þjóðhættir og þjóðtrú).  Sjá feigð.

Farið að síga í (einhvern) / Farið að súrna í (einhverjum) / Farið að þykkna í (einhverjum) (orðtök)  Einhver er orðinn önugur/reiður/fúll.  „Hættiði nú að stríða karlinum; það er farið að síga verulega í hann“!  „Það var dálítið farið að súrna í mér þegar ég mætti engu nema þumbarahætti hjá honum“.

Farið að sjá í hann hvítan (orðtak)  Brotnar úr báru; fellur úr báru.  „Fór nú vindur óðum vaxandi en jafnframt var komið norðurfall á móti vindi.  Jók það báru mjög fljótt, þannig að farið var að falla af báru og sjá í hann hvítan“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Farið að slá í (orðtak)  Farið að úldna.  Sjá slá í.

Farið að stropa (orðtak)  A.  Um egg; byrjaður að myndast stropi í eggi sem komið er nærri því að verða ungað.  B.  Líkingamál um þann sem orðinn er pirraður/langleiður; farið að súrna í einhverjum.  „Ég er hræddur um að það geti farið að stropa í karlinum ef þú ferð ekki að skila kerrunni til hans“.

Farið aftanað hlutunum (orðtak)  Farið öfugt að; gert á rangan hátt; klaufalega/rangt farið að.  „Mér finnst nokkuð farið aftanað hlutunum með þessu lagi“.

Farið hefur fé betra (orðatiltæki)  Ekki mikill skaði.  „Það eru nú ekki hundrað í hættunni þó þessi ríkisstjórn falli; farið hefur fé betra“.

Farið veg allrar veraldar (orðtak)  Horfið að eilífu.  „En húfan fauk og er líklega farin veg allrar veraldar“.

Farinn að láta á sjá (orðtak)  Sýnilega orðinn slitinn/gamall/máður/skemmdur.  „Þessi dúkur er farinn að láta nokkuð á sjá; enda orðinn mjög gamall“.

Farinn að segja til sín (orðtak)  Farið að muna um; orðinn áberandi.  „Norðansjórinn er farinn að segja til sín við ströndina, og eykst með hverri báru“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Farinn að þreki/heilsu/kröftum/aldri (orðtök)  Orðinn þreklaus/heilsulaus/máttlítill/gamall.

Farín (n, hk)  Eldra orð á púðursykri.  GJH kaupfélagsstjóri notaði þetta líklega síðastur í Rauðasandshreppi.

Farkennsla (n, kvk)  Sjá farskóli.

Farkennari (n, kk)  Sá sem kennir börnum í farkennslu.  Eftirtalda farkennara í Rauðasandshreppi nefnir Birgir Þórisson í samantekt sinni; „Fólkið, landið og sjórinn“:  Hákon Jónsson, Hnjóti, kenndi í Breiðavíkursókn (Brvs) 1897-91; Sigurlaug Traustadóttir Breiðuvík, Brvs 1898-1902; Ólafur Jónsson Hvalskeri 1901-03 og 1906-08; Samúel Eggertsson skrautritari og teiknari Stökkum og Kollsvík 1894-1903 og 1903-08; Þórður Ó Thorlacius Saurbæ 1902-11; Pétur Jónsson Stökkum 1907-08; Gísli Gíslason Sjöundá kenndi í Saurbæjarsókn 1907-09; Eyjólfur Sveinsson Lambavatni 1910-21 og 1925-41; Ólína Erlendsdóttir Látrum 1914-?; Ólafur Þórarinsson Saurbæ 1915-17; Valdimar Össurarson (eldri) Kollsvík 1921-25; Æeofur Finnbogason 1938-40; Kjartan Þorgilsson 1940-41; Jón G. Guðjónsson 1941-43; Haraldur Þórarinsson 1942-43; Kristján Júlíus Kristjánsson Efri-Tungu 1943-45 og 1959-60; Jón Arnar Magnússon Saurbæ 1946-47; Oddný Guðmundsdóttir 1947-48 og 1957-58; Eggert Ó Briem 1948- (kláriði ekki kennsluárið); Egill Ólafsson Hnjóti og Anna Hafliðadóttir Látrum 1949-50; Össur Guðbjartsson Láganúpi 1950-53 og 1958-59 (kenndi einnig síðar í barnaskólanum Örlygshöfn); Tryggvi Eyjólfsson Lambavatni 1953-57; Ásgerður Emma Kristjánsdóttir Efri-Tungu 1960-61; Flosi Jónsson 1961-62; Magnús Gestsson 1962-64 og síðar í barnaskólanum Örlygshöfn.  Þorkell Hjaltason varð síðastur farkennara í Rauðasandshreppi (og fyrsti kennari VÖ).  Hann kenndi í Sauðlauksdal 1964-65 og í Kollsvík 1965-66.  Eftir það fór kennsla fram í skólanum í Örlygshöfn.  Sjá einnig farskóli og barnaskóli

Farkostur (n, kk)  Farartæki; farskjóti.  „Nóg er hér af farkostunum til að koma þér heim“.

Farlama (l)  Illa ferðafær vegna hreyfihömlunar.  „Ég er nú ekki svo farlama ennþá að ég komist ekki niður í efstu ganga“.

Farlaus (l)  Vantar far; þarf að sig ferjaðan/fluttan.  „Eftir að bíllinn bilaði vorum við farlausir“.

Farlúinn (l)  Ferðamóður; þreyttur eftir langferð/erfiða ferð.  „Ertu ekki farlúinn eftir þessa langferð“? 

Farmur (n, kk) Flutningur; hleðsla farartækis.  „Ég tek ekki meiri farm í einni ferð“.

Farnast (s) A.   Komast/reiða af; fara af stöfnum.  „Við biðum í fjörunni til að sjá hvernig þeim farnaðist út af læginu“.  B.  Braga; koma fram við.  „Honum hefur farnast vel við sína fósturforeldra“.

Farskóli (n, kk)  Skólaform sem um tíma var viðhaft í Rauðasandshreppi, sem víðar, eða frá ofanverðri 19.öld framtil 1968. Þá ferðaðist kennari milli heimila.  Kennt var í heimahúsi og kennari hafði þar oftast aðsetur, en börn af nálægum bæjum gengu daglega heimanfrá sér í námið.  Kennarar voru Þorkell Hjaltason, Magnús Gestsson og stundum Össur Guðbjartsson.  Síðasti farskólinn í Rauðasandshreppi var í Kollsvík veturinn 1967-68.  Þorkell kenndi þá í Kollsvíkurbænum, en börn sem komu af bæjum víðsvegar úr hreppnum höfðu sum aðsetur þar, en önnur á Láganúpi.  Össur hafði, mörgum árum áður, verið farskólakennari á Lambavatni. „Þegar ég var í Kollsvík við barnalærdóm (farkennslu) fyrir hálfri öld, voru þar að minnsta kosti níu heimili með um 50—60 manns; félagslymt og lífsglatt fólk, sem lék sér mikið úti á vetrarkvöldimi og um helgar, þegar veður leyfðí“ (ÞJ; grein í Mbl 14.01.1972).  „Skólagangan tók ekki langan tíma hjá börnum á þessum árum.  Kennsla hófst um veturnætur og var kennt á þremur stöðum hér í útsveit; hálfan mánuð á hverjum stað í einu; á Hvallátrum; í Kollsvík og í Breiðavík“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  Sjá einnig barnaskóli og farkennari.

Farsæll (l)  Gæfusamur; lánsamur; góður; slysalaus.  „Hann reyndist afar farsæll formaður“.

Farsællega (ao)  Vel; giftusamlega; gæfulega.  „Þetta lánaðist bara farsællega hjá okkur“.

Fart (n, kvk)  Ógnarhraði; flýtir; asi.  „Óskapleg fart var á honum; það var eins og hann væri að sækja eld“!

Fartau (n, hk)  Farskjóti; farartæki.  „Kemurðu einum aukafarþega með í þitt fartau“?

Farteski (n, hk)  Farangur; hafurtask.  „Hann var með einn kartöflupoka í farteski sínu og varð að bera hann langleiðina upp Dalinn, sakir kraftleysis bifreiðarinnar“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Farvel Frans! (orðtak)  Kveðjuorð sem oft er notað í háði, t.d. um þann sem gott er að vera laus við.  Uppruni ekki viss en þess má geta að Farvel var algengt bátsnafn; t.d. nafn á áttæringi sem eittsinn hafði uppsátur í Breiðavík vestra.

Farviður (n, kk)  Lausir munir sem þurfa að vera í bát til að hann sé sjófær.  Til farviðs telst m.a; negla, árar, stýri, austurtrog, ankeri, siglutré; reiði og seglabúnaður.  „Úr bátnum er allur farviður farinn.  Mennirnir í bátnum geta því enga björg sér veitt“.  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þetta er borið í bátinn ásamt farviðnum; þ.e. árum og segli“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).   „„Bindið vel farviðina“! gall við úr skutnum“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „Strengjabitinn tilheyrði farviði skipsins“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Fas (n, hk)  Hegðun; framkoma.  „Beggja fas og fótatak/ firra setu boðna./  Hafa tröll í brjóst og bak/ belgi uxa troðna“ (JR; Rósarímur). 

Fasmikill (l)  Gustmikill;  mikilúðlegur.  „Sú gamla ruddi sér leið að slagsmálahundunum æði fasmikil; þreif í sinn karl og dró hann umyrðalaust útfyrir vegg.  Þar upphófst mikill reiðilestur um mannasiði og fyllerí“.

Fast að (orðtak)  Allt að; hátt í; nærri; uppundir.  „Hann var kominn fast að fimmtugu þegar barnið fæddist“.

Fast að orði kveðið (orðtak)  Með áherslu á hvert orð; með ákveðnu/hörðu orðalagi.  „Sumum þótti fast að orði kveðið, en hann sagði að það þýddi ekkert að tala neitt rósamál við þessa kerfiskarla þarna fyrir sunnan“.

Fast í (orðtak)  Um fláningu sláturfjár; erfitt að skilja gæru frá skrokk/mötu.  Líklega stytting úr „fast í skinninu/gærunni“, en einungis notað stytt á seinni tímum.  Mjög er misjafnt hve erfitt er að flá sláturfé.  Virðist sem það fari eftir ætterni, bithögum/fóðri, holdafari og e.t.v. fleiru.  T.d. þótti fé af Hænuvíkurhlíðum fremur fast í þegar það var flegið í Gjögrasláturhúsi, en fé úr Örlygshöfn var auðveldara að flá.  Mikið reyndi á styrk og hnúa fláningsmanna þegar fé var fast í.

Fast í botni (orðtak)  Um niðristöðu/stjóra/veiðarfæri sem ekki næst að draga vegna þess að það situr fast við hafsbotn; vanalega þar sem er grýttur botn/haun.  „Helvítis niðristaðan er enn þrælföst í botni; prófum að keyra dálítið á hana“.

Fast í hendi (orðtak)  Erfitt að fá til láns/kaups.  „Hann sagði að þetta væri í raun erfðagripur og því væri sér það fremur fast í hendi“.  Sjá laust í hendi.

Fast land (orðtak)  Jörð; ekki eyja/sker/hólmi.  „Kindurnar óðu af skerinu upp á fast land áður en þær flæddi“.

Fasta (s)  Neita sér um mat; svelta sig.  „Þú étur árann ekki neitt drengur; þú dettur í sundur ef þú fastar svona“!

Fastabeita (n, kvk)  Beita gorms og steinbítsbita á sama krók.  „Þegar handfæraöngull var beittur fyrir steinbít var gorminum úr honum snúið við og hann fikaður/fitjaður upp á öngulinn.  Sumir skáru þá ferning úr steinbítskinn og höfðu á leggnum fyrir ofan gorminn agnhaldsmegin; á Vestfjörðum kallað fastabeita“ (LK; Ísl. sjávarhættir; ÓETh).

Fastákveðið (l)  Harðákveðið; í gadda slegið.  „Það var nú ekkert fastákveðið með þetta“.

Fastheldinn (l)  A.  Vanafastur; reglusamur. „Pabbi var fastheldinn á ýmsa siði varðandi andakt á jólum, þó enginn væri hann kreddumaður í trúmálum“.  B.  Nískur; aðahaldssamur.  „Hann þykir fastheldinn á aurana“.

Fastheldni (n, kvk)  A.  Ávani; reglufesta.  „Þó Kollsvíkingar séu upp til hópa fordómalausir og víðsýnir þá ríkir almennt meðal þeirra veruleg fastheldni á venjur og siði“.  B.  Níska; aðhaldsemi.  „Eitt er nú að sýna fastheldni og aðgát, en þetta er nú bara hreinn nánasarháttur“!

Fastmilk (l)  Um kýr sem erfitt er að mjólka; gagnstætt við lausmilk.  „Gott ráð við fastmilkar kýr er að þvo júgrin úr volgu vatni og mjólka með hægum og ákveðnum strokum“.  Sjá handmjólka.

Fastmælum bundð (orðtak)  Ákveðið; samþykkt.  „Eftir nokkrar umræður var það fastmælum bundið að leggja af stað í býtið daginn eftir“.

Fastsetja (s)  Ákveða; binda fastmælum; taka frá.  „Eigum við að fastsetja einhvern dag í þetta verk“.

Fastskorðaður (l)  Í tryggu stæði; hreyfist ekki.  „Tréð var fastskorðað í stórgrýtinu“.

Fastsofandi (l)  Steinsofandi; sefur vært.  „Hann er enn fastsofandi, en ég get ýtt við honum ef þú vilt“.

Fastsótt og harðsótt (orðtak)  Erfitt en hafðist/tókst fyrir þrjósku/einbeitni.  „Það var fastsótt og harðsótt að komast útyfir hálsinn í þessari leiðindafærð“.

Fastur á sinni/þeirri skoðun (orðtak)  Stendur fast á sinni skoðun; er ákveðinnar skoðunar.  „Ég reyndi að hann ofan af þessu, en hann er fastur á sinni skoðun“.

Fastur fyrir (orðtak)  Ákveðinn; lætur ekki sinn hlut; þrjóskur; þver.  „Ég reyndi að semja við hann, en hann var fjári fastur fyrir.  Kannski þér gangi betur að tala hann til“.

Fastur í gír (orðtak)  Um traktor eða annað ökutæki; næst ekki úr gír.  Meðan smíði og frágangur gíra var með frumstæðari hætti en nú er var ekki óalgengt að t.d. traktor væri áfram fastur í einum eða tveimur gírstillingum þó gírstöngin væri í „hlutlausu“; einkum þegar búnaðurinn var orðinn slitinn.  Var þetta nokkuð þekkt vandamál á Farmal-A á Láganúpi.

Fastur í sessi (orðtak)  Tryggur á valdastóli; hefðbundinn; öruggur á sínum stað.  „Þessi siður er nú orðinn fastur í sessi“.

Fat (n, hk)  A.  Eintala af föt, t.d. höfuðfat.  B.  Opið, grunnt, kringlótt ílát, t.d. vaskafat.  C.  Járngjörð utanum vaðstein eða annað, til að unnt sé að festa hann í vað/færi.  Oft fellt í gróp sem klöppuð var í steininn.

Fatableðlar (n, kk, fto)  Lítilfjörlegur fatnaður; skjóllítil klæði.  „Þetta eru aumu fatableðlarnir sem vesalings stelpan er í“.

Fatahjallur (n, kk)  Hjallur sem föt eru hengd í til þerris, uppi á snúrum.  „á Hjallhól var fatahjallur“  (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).

Fatakista (n, kvk)  Kista þar sem geymdur er fatnaður.  Fatakistur voru á hverju heimili frameftir 20.öld; þar til fataskápar leystu þær að mestu af hólmi.  Enn ínotkun á Láganúpi.

Fatalítill (l)  Hefur/á lítið af fötum.  „Það þýðir ekkert að fara svona fatalítill til langdvalar“.

Fatalt (l)  Dauðadæmt; glatað; vonlaust; hættulegt; dæmt til að mistakast.  „Það er alveg fatalt að reyna þetta í svona veðri“.  Svipuð merking og notkun og stofnskylda orðið í ensku; „fatal“.  Heyrðist nokkuð notað í máli sumra Kollsvíkinga uppúr miðri 20. öld og e.t.v. mun fyrr.

Fataníð (n, hk)  Slæm meðferð á fatnaði; mikið álag á föt.  „Múkkaeggjatekja er hálfgert fataníð, því þó maður sleppi vð að fá æluna á sig þá er maður skríðandi í lýsisbornu grasi og rífandi föt á nibbum“.

Fatapjönkur / Fatalarfar / Fataleppar / / Fatalufsur/ Fatagarmar / Fataplögg / Fatarýjur / Fataræflar / Fatatau/ Fatatuskur (n, hk, fto)  Gæluorð yfir föt; druslulegur/skítugur fatnaður.  „Farðu nú úr þessum fatagörmum svo ég geti þvegið af þér“.  „Gakktu nú frá fatapjönkunum þínum“!   „Hvar eru nú fatalarfarnir mínir“?  „Áttu ekki einhverjar betri fatalufsur til að vera í“?

Fatatilur (n, kvk, fto)  Föt; fatnaður; rýjur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  „Ég ætti kannsi að fara í einhverjar einhverjar skárri fatatilur áður en gestirninr koma“.

Fatatirjur (n, kvk, fto)  Fatnaður, einkum léleg föt; fatadruslur; fatatilur.  „Ósköp eru nú þessar fatatirjur að verða snjáðar og druslulegar“!

Fatli (n, kk)  Létti; bardóna; lykkja sem þungi er bundinn upp með til að létta burð.  A.  Binding laskaðrar handar upp að bringu til að létta á henni.  B.  Létti; band sem brugðið er um axlir til að létta burð á því sem borið er í höndum, t.d. eggjakútum.

Fatnaður (n, kk)  Hann skipti verulegu máli í veðráttunni í Útvíkum, sem ekki var alltaf blíð.  Fram á 20. öld voru Kollsvíkingar sjálfum sér nægir með fataframleiðslu.  „Það var mikið ofið á veturna.  Uppistaðan var tvistur; fyrirvaf var ull.  Ennfremur var þráður í uppistöðu og tvistur í fyrirvafi þegar ofið var í milliskyrtur og sængurver sem notuð voru í verbúðunum.... Það var mestmegnis ofið í öll föt; lítið sem ekkert keypt af útlendu fataefni.   Nærföt, buxur og skyrta voru úr hvítum vaðmálsdúk“  (ÞB; Lesbók Þjóðv; viðtal við HM).

Fatta (s)  Fá festu; ná gripi.  „... var þá skútan búin að losna fjórum sinnum, en ætíð þegar við ætluðum að fara að hífa inn, fattaði hún aftur“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli). 

Fattur (l)  Boginn/reigður afturábak.  „Það er erfitt að standa lengi svona fattur; haltu vel undir ljósakrónuna“.

Fau (l)  Foj; móðgaður; snúðugur.  „Hún varð dálítið fau við, þegar ég spurði hana að þessu“. Foj þó oftar notað.

Fausi (n, kk)  Þrjótur; dratthali.  „Árans fausinn hélt mér uppi á kjaftæði svo að flekkurinn rigndi“.

Fauskur (n, kk)  A.  Fúin trjáhnyðja/raftur.  B. Þrjótur; kauði.  „Mér er nokkuð sama hvað sá fauskur segir“!

Fautaháttur (n, kk)  Verk sem unnið er klaufalega og af offorsi; fantaskapur.  „Svona fautaháttur gagnast lítið“.

Fautalegur (l)  Fantalegur; harkalegur; klaufalegur.  „Ósköp var kerlingin fautaleg við hann“!

Fauti (n, kk)  Fantur; klaufi; klunni.  „Vertu nú ekki þessi fauti við hann bróður þinn“.

(s)  A.  Gefast; höndla; eignast.  B.  Um það þegar ær makast með hrúti.  „Hún Grána var með þeim sem fengu fyrsta daginn, hún á því tal mjög snemma þetta árið“.

Fá að heyra það (orðtak)  Fá skammir; fá til tevatnsins.  „Hann skal sko fá að heyra það þegar ég næ á hann“!

Fá að kenna á því (orðtak)  Fá að þefa úr því; fá ráðningu/ slæma útreið.  „Ég er hræddur um að maður fái að kenna á því ef hann kemst að því að ég stalst í egg í hans landi“.

Fá að láni (orðtak)  Fá lánað/léð.  „Ég fékk þessa bók að láni hjá bókasafninu“.

Fá að þefa úr því (orðtak)  Eiga mikið verk fyrir höndum; fá ráðningu/slæma útreið.  „Þeir fá að þefa úr því þingmennirnir þessa dagana.  Það verður enginn leikur að koma saman fjárlögunum“.  Einnig var notað orðatakið „fá að vita af því“, af svipuðum tilefnum.

Fá af sér (orðtak)  Geta; geta fengið sig til.  „Hann var svo umkomulaus að ég fékk ekki af mér að vísa honum á dyr, heldur bauð honum gistingu“.  „Ekki skil ég hvernig nokkur fær af sér að skjóta rjúpukvikindin“.

Fá á (orðtak)  Valda hugarangri/sorg.  „Var jafnvel orð á því gert, hve lítið svo stór atburður fékk á hana“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Fá á baukinn/lúðurinn/kjaftinn (orðtök)  Fá kjafsthögg; fá ráðningu.  „Hann fékk víst aldeilis á baukinn hjá kerlingunni þegar hann kom heim eftir fylleríið“.  Baukur merkir þarna munnur/munnhol.  Sjá baukur.

Fá á fæturna (orðtak)  Um orðróm/slúður; breiðast út; fréttast.  „Það hefur víst fengið á fæturna að þau séu eitthvað að draga sig saman, en hafðu það samt ekki eftir mér“.

Fá á sig stimpil (orðtak)  Fá ómaklegt orðspor; vera álitinn. 

Fá bakþanka/eftirþanka (orðtak)  Fara að hugsa eftirá; sjá eftir.  „Ég fékk allt í einu dálitla bakþanka útaf þessu“.  „Ég hef verið með eftirþanka vegna þessarar ákvörðunar“.

Fá bágt fyrir (orðtak)  Fá skammir/ámæli fyrir eitthvað.  „Ég hélt ég væri að hjálpa honum með þessu, en þess í stað fékk ég bágt fyrir!  Bíði hann bara þar til ég hjálpa honum í annað sinn“!

Fá borgað (orðtak)  Fá ráðningu/refsingu fyrir.  „Ég hét honum að þetta skyldi hann fá borgað, þó síðar yrði“.

Fá botn í (orðtak)  Botna í; skilja; fá fram niðurstöðu.  „Ég hugsaði málið mikið en fékk engan botn í það“.

Fá bót meina sinna (orðtak)  Batna veikindi; gróa sása sinna; fá lækningu.  „Hann dó án þess að fá nokkurntíma bót meina sinna“.

Fá byr í seglin / Fá byr undir báða vængi (orðtök)  Um orðróm/málefni; öðlast styrk/fylgi; breiðast út.  „Orðrómurinn fékk byr undir báða vængi eftir saumaklúbbsfundinn“.  Líking við fugl á flugi í uppstreymi.

Fá ekki rönd við reist (orðtak)  Geta ekki spornað á móti/ aftrað.  „Bændur fengu enga enga rönd við reist þegar Mjólkursamlagið var lagt niður“.  Vísar til þess að geta ekki brugðið skildi/skjaldarrönd fyrir sig, til að verjast í bardaga.

Fá ekkert aðhafst (orðtak)  Geta ekkert að gert.  „Nokkrir menn bíða í fjörunni, en fá ekkert aðhafst“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fá far með / Taka sér far með (orðtök)  Fá að verða samferða með tilteknu farartæki/ tilteknum hópi.  „Ég fékk far með honum innyfir hálsinn“.

Fá forsmekkinn af (orðtak)  Reyna að litlu leyti.  „Við fengum dálítinn forsmekk því sem koma skal“.

Fá fram niðurstöðu (orðtak)  Leiða sannleika í ljós; fá botn/niðurstöðu í.  „… en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi…“  (PG; Veðmálið). 

Fá framgengt / Fá til leiðar/vegar komið (orðtak)  Um málefni; ná fram; koma í höfn.  „Ég fékk þessu framgengt gegn því að gefa annað eftir“.

Fá fyrir ferðina / Fá fyrir vikið (orðtak)  Komast að því fullkeyptu; fá að þefa úr því; fá til tevatnsins; fá refsingu.  „Sá skal nú aldeilis fá fyrir ferðina ef hann svíkur mig aftur“!  Vísar líklega til þess upphaflega að hefna þurfi fyrir aðför/herför sem andstæðingur hefur gert.

Fá fyrir hjartað (orðtak)  Verða mjög hverft við; fá hjartaslag.  „Það lá við að ég fengi fyrir hjartað“!

Fá (á) fæturna (orðtak)  Um kjaftasögu/slúður; ná útbreiðslu/flugi; komast í hámæli.  „Sú saga fékk á fæturna að hann væri ekki faðir barnsins“.  „Ekki veit ég hvernig þetta fékk fæturna, en ekki er það frá mér komið“.

Fá hviðu (orðtak)  Fá kast; hleypa í sig dugnaði/framtaki.  „Nú fékk hún eina hviðuna til, helvítis kerlingin hjá skattinum; nú heimtar hún skýringar á frádrættinum á söluskattsskýrslunni“!

Fá hvorki vott né þurrt (orðtak)  Fá hvorki að drekka né borða/éta.  „Mundu eftir nestisskjóðunni.  Það er ómögulegt að vera við vitjun allan daginn og fá hvorki vott né þurrt“.

Fá (góðan) höggstað á (einhverjum) (orðtak)  Fá gott tækifæri til að þjarma að einhverjum.  „Þarna taldi hann sig fá góðan höggstað á mér“.  Vísar til bardaga; að glufa sé í vörnum andstæðings.  Sjá gefa höggstað á sér.

Fá inni (orðtak)  Fá að vera/gista/búa.  „Ég fékk inni hjá skyldmennum þennan vetur“.

Fá í fangið (orðtak)  Fá upp í hendurnar; fá upp á sína arma.  „Ég fékk þetta viðamikla verkefni í fangið“.

Fá í gogginn/ belginn/sarpinn (orðtak)  Fá að borða; matast.  „Réttu mér nestið.  Nú fáum við okkur eitthvað í gogginn“.  „Viltu ekki fá þér eitthvað í belginn áður en þú leggur af stað“?

Fá í veganesti (orðtak)  Fá í nesti til ferðar.  Oftast notað í líkingamáli um eitthvað það sem menn eða málefni fær sér til viðurværis.  „Þótt gleðin væri hamslaus/ þá skulfu hjarta og höndin,/ og heitar móðrbænir/ í veganesti fékk“  (EG; Vorhret). 

Fá í sig (orðtak)  Um fóðrun/beit; fá einverja magafylli.  „Það fær ekki mikið í sig þegar svona áfreði er á jörð“.

Fá í soðið (orðtak)  Fiska/veiða nóg til að dugi í soðningu.  „Ekki var nú aflinn mikill; en við fengum þó rúmlega í soðið“.

Fá (einhvern) í tauið (orðtak)  Fá einhvern til að taka þátt/ vera með í einhverju.  „Við reyndum mikið að fá hann í tauið með okkur, en hann sagðist ekki taka þátt í svona hrekkjum“.

Fá (sér) í tána (orðtak)  Fá vín; verða dálítið kenndur/drukkinn.  „Eitthvað er hann búinn að fá sér í tána“.

Fá lítinn byr í seglin (orðtak)  A.  Um siglingu; njóta ekki byrjar.  B.  Um málefni; fá litlar undirtektir.

Fá nasasjón af (orðtak)  Hafa veður af; verða áskynja; hafa grun um.  „Foreldrarnir fengu einhverja nasasjón af þessum fyrirætlunum og bönnuðu strákunum að koma nálægt klettunum“.  Sjá hafa nasasjón af.

Fá nóg af (orðtak)  Verða þreyttur af; ofbjóða.  „Ég fékk nóg af borgarlífinu á fyrsta degi“.

Fá (einhvern) ofan af (einhverju) (orðtak)  Telja hughvarf, fá einhvern til að skipta um skoðun.  „Ég fékk hann ofan af því að æða af stað undir kvöldið í þessu veðurútliti“.

Fá ofan í sig (orðtak)  Fá að borða; verða mettur.  „Það er óþarfi að þakka þetta.  Fékkstu nokkuð ofan í þig“?

Fá ofaní (orðtak)  Um heyskap; þegar rignir niður í flatt hey án þess að náist að garða það;hirða eða galta.  „Hann er að ljókka fjandi fljótt; ég er hræddur um að við fáum ofaní uppi á Hólunum“.

Fá ofbirtu í augun (orðtak)  Blindast vegna mikillar birtu.  „Ég fékk ofbirtu í augun af sólinni þegar ég kom út úr kofanum“.

Fá (að heyra) orð í eyra (orðtak)  Fá tiltal/skammir.  „Hún mátti segja þetta, en aðrir hefðu fengið orð í eyra“  (IG; Æskuminningar).

Fá/hafa ógeð á (orðtak)  Verða leiður á; fyllast viðbjóði/andúð yfir.  „Ég fékk strax ógeð á þessu óæti“.

Fá/hafa pata af (orðtak)  Fá veður af (sjá þar).  Ég fékk einhvern pata af þessu ráðabruggi og varð lítt hrifinn“.

Fá/gefast/hafa ráðrúm/svigrúm/tækifæri til (orðtak)  Fá nægan tíma til að gera.  „Mér gafst ekkert ráðrúm til að hugsa, heldur framkvæmdi þetta alveg ósjálfrátt“.

Fá rétt upp í hendurnar (orðtak)  Fá afhent það sem með þarf.  „Þú getur ekki búist við að fá allt rétt upp í hendurnar; allir þurfa eitthvað fyrir lífinu að hafa“.  Sjá margs verður sá án sem einskis biður.

Fá rönd við reist (orðtak)  Sjá fá ekki rönd við reist.

Fá sér bita / Fá sér hressingu (orðtak)  Fá sér að borða; fá sér af nesti.  „Þarna er upplagt að fá sér bita og láta líða úr sér“  (IG; Sagt til vegar II).  „Þá voru lagðar lóðirnar og legið yfir nokkurn tíma, og var þá legið í öðru bólfærinu, á meðan var skorinn beita, síðan var farið að draga og var þá beitt út, að því loknu var farið í land til að fá sér hressingu og gera að því sem hafði aflast“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Fá/finna sér til (orðtak)  Finna tylliástæðu fyrir.  „Það má alltaf fá sér eitthvað til ef maður vill gagnrýna aðra“.

Fá sér blund/kríu/lúr (orðtök)  Leggja sig; fleygja sér; blunda; lúra; taka stuttan svefntíma til hvíldar.  „Hann fékk sér stundum blund eftir hádegið“.  „Ég ætla að fá mér smá kríu“.

Fá sér í nefið/nösina/slóna (orðtak)  Taka neftóbak í nefið.  „Fáðu þér nú duggunarögn í slóna“.

Fá sér (eitthvað) í sarpinn (orðtak)  Fá sér að borða; fá sér snarl.  „Nú skulum við setjast aðeins niður og fá okkur eitthvað í sarpinn áður en við drögum næsta streng“.

Fá sér í svanginn (orðtak)  Fá sér að borða; matast; snæða.  „Komdu nú innfyrir og fáðu þér eitthvað í svanginn“.

Fá sér í staupinu / Fá sér neðan í því (orðtak)  Fá sér vín.  „Það hendir hann nokkuð oft að fá sér heldur mikið í staupinu“.  „Heldurðu að karlinn hafi verið búinn að fá sér neðan í því“?

Fá sér kríu (orðtak)  Leggja sig stutta stund; kasta sér; fleygja sér. „Ég ætla að fá mér örlitla kríu“.

Fá sitt fram / Fá sínu framgengt (orðtak)  Ná þeirri niðurstöðu í mál sem maður vildi. 

Fá skömm í hattinn (orðtak)  Fá skammir; vera skammaður.  „Við fengum skömm í hattinn fyrir að koma heim drullublautir í fæturna“.

Fá smérþefinn af (orðtak)  Fá forsmekkinn af; reyna lítilsháttar.  „Það er ágætt að þessir þingmenn fái smérþefinn af því hvernig er að búa við svona vegi“!

Fá stýri fyrir bátinn sinn (orðtak)  Fá stjórnanda; fá t.d. maka sem stjórnar manni.  „Þeir segja að þarna hafi hann loksins fengið stýri fyrir bátinn sinn; það ku vera búið með allt fyllerí og slark á þeim bænum núna“.

Fá (einhverju) til leiðar/vegar komið (orðtak)  Fá einhverju framgengt; sjá um að eitthvað sé samþykkt/gert.

Fá til tevatnsins (orðatiltæki)  Fá ráðningu/skammir; fá það óþvegið; fá fyrir ferðina.  „Strákarnir fengu víst aldeilis til tevatnsins þegar upp komst um hrekkina“.  Líklega komið úr dönsku; „få til tevandet“.

Fá til við sig (orðtak)  Fá einhvern til að slást/leika við sig.  „Hann er alltaf að hnoða nautkálfinn og fá hann til við sig; það endar með því að kálfskrattinn verður mannýgur“!

Fá/gefast tóm til (orðtak)  Fá tækifæri/ráðrúm til; hafa tíma til.  „Mér hefur ekki gefist tóm til að lesa bókina“.

Fá um það ráðið (orðtak)  Geta ráðið um.  „Þetta verður aldrei, ef ég fæ einhverju um það ráðið“!

Fá (góðar/slæmar/dræmar) undirtektir (orðtak)  Fá jákvæð ummæli/viðbrögð hjá öðrum við því sem maður hefur sagt.  „Aðeins hreyfði ég þessu við hann, en fékk heldur dræmar undirtektir“. 

Fá upp á sig (orðtak)  Um eggjaferðir; fá í hæfilega byrði.  „Það má alveg fá upp á sig, ef maður fer einsamall í efstu gangana“.  „Á höfðann er stutt sig, en þar má fá uppá einn mann“.

Fá upp á sína arma / Fá upp í hendurnar (orðtak)  Fá í fangið; fá viðfangsefni/gjöf.  „Þetta leit ekki vel út þegar ég fékk það upp í hendurnar“.  „Ég fékk þetta verkefni upp á mína arma“.  Sjá fá rétt upp í hendurnar.

Fá upp í sig (orðtak)  Komast í svo mikla berjatínslu að maður geti etið nægju sína.  „Það mátti alveg fá uppí sig af bláberjum þarna í lautunum“.

Fá uppúr (orðtak)  Fá til að segja/upplýsa.  „Þú færð aldrei uppúr honum hvað hann kaus“.

Fá út (orðtak)  Fá / komast að niðurstöðu; reikna út.  „Hvernig færðu það út að einhverja vanti ef fimmtíu eru í hverjum karmi og fjörutíu og fjórar í hrútakarminum“?

Fá vatn í munninn (orðtak)  Langa í tiltekna fæðu.  „Ég fæ alltaf vatn í munninn þegar ég hugsa um hákarl“.

Fá/hafa veður af (orðtak)  Komast á snoðir um; verða áskynja um; fá vitneskju um.  „Hann fékk veður af þessum fyrirætlunum og reyndi að koma í veg fyrir þetta“.

Fá vind í seglin / Hafa meðbyr / Hafa vind í seglum ( orðtök)  A.  Í bókstaflegri merkingu um siglingu báts.  B.  Í likingamáli um velgengni manns.

Fá yfir höfuðið (orðtak)  Fá svima; sortna fyrir augum. „Hann fékk yfir höfuðið og varð að setjast“.

Fá það óþvegið (orðatiltæki)  Fá miklar skammir; fá til tevatnsins.  „Ég lét hann hafa það alveg óþvegið“.

Fáanlegur (l)  Unnt að fá; á lausu; tiltækur.  „Heldurðu að þú værir fáanlegur í smalamennskur með mér“?  „Þessir öndvegis gúmmískór eru ekki fáanlegir lengur“.

Fábjánafans (n, kk)  Hópur heimskra manna.  „Það hefur þurft heilan fábjánafans til að semja svona arfavitlausa reglugerð“!

Fábjánagangur / Fábjánaháttur (n, kk)  Frámunalega heimskulegur verknaður/hugsanagangur.  „Hverskonar fábjánaháttur er þetta hjá þeim“?!

Fábjáni (n, kk)  Vitleysingur; bjáni; kjáni.  „Stattu ekki þarna eins og fábjáni; reyndu að hjálpa aðeins til“!

Fábreytilegt / Fábreyttur (l)  Tíðindalítið; tilbreytingalítið; fábrotið.  „Héðan eru bara ósköp fábreytilegar fréttir“.  „Skelfing finnst mér þessir íþróttafréttamenn tala fábreytt og kjánalegt mál“.  „Enda þótt neysla manna á aðfluttum varningi á þessum tímum væri mun fábreyttari en nú er orðið, hefði orðið tafsamt að flytja allar aðfluttar vörur á hestum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  „Jólahald var fábreytt framan af“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Fábrotinn (l)  Einfaldur; íburðarlaus.  „Maturinn smakkaðist vel þó fábrotinn væri“ .  „Karlmenn saumuðu sjálfir sjóklæði sín að vetrinum.  Tæki til þess voru fábrotin; aðeins tvær nálar, fyrirseyma og eftirseyma, svo og klembrur sem voru einskonar nálatöng“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fábýlt (l)  Um byggðarlag; með fáum bæjum/bóndabýlum.  „Fábýlt er orðið í Rauðasandshreppi nú, miðað við það sem var fyrir fáeinum áratugum“.

Fádæma (l)  Sem fá dæmi eru um; sjaldgæfur.  „Það var fádæma gott veður allan tímann“.

Fáeinir (l)  Örfáir; nokkrir.  „Taktu með þér fáeina eggjakoppa í nesti“.

Fága (s)  Gera skínandi fallegt útlits.  „Allt var hreinsað og fágað sem hægt var fyrir jólin... “  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Fágæfur / Fágætur / Fáhittur / Fáséður (l)  Sjaldgæfur.  „Svona vanskapaður fiskur er líklega fáhittur“.

Fáheyrt (l)  Heyrist sjaldan um; sjaldan í umræðu.  „Það er nú alveg fáheyrt að svona komi fyrir“!

Fáir eru smiðir í fyrsta sinn (orðtak)  Flestir þurfa einhverja þjálfun til að verða snjallir í sínu verki.  Einnig; enginn verður óbarinn biskup.

Fáir kunna eitt barn að ala (orðatiltæki)  Vísar til þess að vandasamt er að ala upp einbirni, þannig að það falli vel að öðrum börnum.  Einbirni er hættara við að verða ofdekrað.

Fáir kunna sig í fögru veðri heiman að búa (orðatiltæki)  Þeir sem leggja af stað í langferð í góðu veðri gleyma stundum að skjótt skipast veður í lofti.

Fáir kunna úr fullri hlöðu að deila (orðatiltæki)  Sá ríki deilir auðnum ógjarnan með öðrum, og sá bóndi sem vel hefur fyrnt og vel heyjað setur fremur upp í hey aukalega en gefa þeim sem minna heyja.  Ekki er það þó einhlítt.

Fáklæddur (n, kk)  Lítið klæddur; í fáum fötum.  „Það var brakandi sólskin og steikjandi hiti í Bjarginu, og við því eins fáklæddir og unnt var“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Fákunnátta (n, kvk)  Þekkingarleysi; vankunnátta.  „Ég skal alveg viðurkenna mína fákunnáttu þarna“.

Fákunnandi (l)  Með litla þekkingu; fáfróður.  „Ég er afskaplega fákunnandi í þessum efnum“.

Fála (n, kvk)  Flagð; mjög erfið/stygg kind.  „Heldur lamar mæði mann/ meira nú en hana./  Loksins fyrir fálu hann/ fellur máttarvana“ (JR; Rósarímur). 

Fálátlega / Fálega (l)  Með lítilli hrifningu; dauflega.  „Hann tók þessu frekar fálega“.  „Finnst á Rósa ferðasnið./  Fáleg helliskona/ morgun þenna manninn við/ mælir orðum svona“ (JR; Rósarímur). 

Fáleikar (n, kk, fto)  Lítil vinátta; kuldalegt viðmót.  „Einhverjir fáleikar eru þar á milli bæja nú um stundir“.  Sjá fátt á milli.

Fáliðaður (l)  Með lítinn mannskap/litla aðstoð.  „Nú er orðið fáliðað á flestum bæjum til smalana“.  „Bað hann um aðstoð svo fljótt sem hægt væri, þar eð þeir væru orðnir þjakaðir og of fáliðaðir... “  (ÞJ; Sargon strandi; Árb.Barð 1949). 

Fálkaháttur (n, kk)  Aulaháttur; hugsunarleysi; meiriháttar yfirsjón.  „Skelfilegur andskotans fálkaháttur er þetta!  Eru þeir ekki með augun í hausnum, þessir menn“?!

Fálkalegur (l)  Aulalegur; bjánalegur.  „Skelfing geturðu verið fálkalegur ef þú skilur þetta ekki“!

Fálki (n, kk)  A.  Ránfuglategund sem stundum sést í Kollsvík og nágrenni.  B.  Kjáni; rati; maður sem er utan við sig/ annarshugar.  „Óttalegur fálki geturðu verið, að taka ekki eftir þessu“!

Fálm í myrkri (orðtak)  Um það þegar menn vinna eftir litlum leiðbeiningum/vísbendingum.  „Þó menn reyni að giska á lífshætti fyrstu Kollsvíkinganna þá verður það alltaf aðeins fálm í myrkrinu“.

Fálæti (n, hk)  Áhugaleysi; deyfð.  „Hann hefur alltaf tekið því af fálæti þegar þetta er nefnt“.

Fámáll/ Fámæltur / Fáorður / Fáskiptinn / Fátalaður (l)  Talar lítið; segir fátt.  „Hann var alltaf fremur fámáll um þennan atburð“.  „Hann hefur alltaf verið fáskiptinn við nágrannana“.

Fámenni (n, hk)  Fátt fólk; strjálbýli.  „Félagslíf á erfitt uppdráttar í þessu fámenni“.

Fámennt (l)  Fátt fólk.  „Það er fámennt á bænum þessa stundina“.

Fánýtur (l)  Sem notast í fátt; hégómlegur.  „Ég nenni ekki að velta fyrir mér svona fánýtm hlutum“!

Fár kennir jarl í fiskivoðum (orðatiltæki)  Tignarmaður þekkist illa ef hann klæðist fötum vinnandi manns.  Notað sem líking ef einhver þekkist ekki sökum breytinga/búnings.  Fornt máltæki.

Fárast (s)  Fjargviðrast; hneykslast, bera sig illa.  „Ekki minnist ég þess að menn fáruðust svo teljandi væri, um það hversu erfitt þeir ættu; að þurfa að sinna þessum verkum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Fáráðlingur / Fáráður (n, kk)  Heimskingi; auli.  „Það þýðir ekkert að standa bara gapandi eins og fáráðlingur“!  „Hvers konar fáráður getur maðurinn eiginlega verið“!

Fáránlega (ao)  Fráleitt; eins og fjarstæða.  „Mér finnst þetta fáránlega mikið verð“.

Fáránlegheit (n, hk, fto)  Furðuleg uppátæki/framkoma/fyrirbæri.  „Ég hef sjaldan séð þvílík fáránlegheit“.

Fáránleiki (n, kk)  Fjarstæða; kórvilla.  „Svona bull er slíkur fáránleiki að ég er nenni ekki að ræða það“!

Fárra kosta völ (orðtak)  Ekki mörg úrræði í boði; milli fárra kosta að velja.  „Það sýnist með öllu ófært fyrir Blakk nú.  Enda erum við hér á versta tíma norðurfallsupptakanna, en fárra kosta er völ“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Fárveikur (l)  Mjög veikur; bráðveikur.  „Hann var orðinn fárveikur þegar hann kom heim“.

Fárviðri (n, hk)  Mikið óveður; oftast hífandi rok og mikil ofankoma.  „...en skömmu eftir að bátarnir voru komnir til miða skall á fárviðri mikið af norðri og fórust þeir allir...“  (BS; Barðstrendingabók).

Fáséður (l)  Sjaldséður; sem sést sjaldan.  „Örn er fremur fáséður á þessum slóðum“.

Fásinna (n, kvk)  Fáránleiki; fáviska.  „Það væri bara fásinna að leggja af stað í svona útliti“.

Fásinni (n, hk)  Tilbreytingaleysi; lítið um að vera.  „Svona viðburður léttir mönnum lífið í fásinninu“.

Fáskiptinn (l)  Þegjandalegur; ekki málgefinn/skrafhreyfur.  „Hann var óvenju fáskiptinn fannst mér“.  „Fremur er hann fáskiptinn um ferðir hinna,/ traustur vinur vina sinna“  (JR; Rósarímur). 

Fáskrúðugt (l)  Fábreytt; lítil fjölbreytni.  „Skelfing finnst mér þetta fjölmiðlafólk tala fáskrúðugt mál“.

Fást um (orðtak)  Fárast yfir; gera athugasemdir við.  „Það tjóar lítið að fást um orðinn hlut“.

Fást við (orðtak)  Vinna/starfa við.  „Hvað ert þú að fást við þessa stundina“?

Fát (n, hk)  Vanhugsuð aðgerð; flaustur vegna geðshræringar.  „Ég veit ekki nema það komi fát á strákinn og hann geri einhverja vitleysu“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Fáta (s)  Fuma; fikta; þreifa.  „Mér er ekki vel við að þú sért að fáta í þessari hirslu“.

Fátítt (l)  Sjaldgæft; kemur sjaldan fyrir.  „Það er fátítt núorðið að sjá hafís þokast suðurfyrir Blakkinn“.

Fátt amar fullsöddum (orðatiltæki)  Speki sem vísar til mikilvægis þess að hafa nóg að borða.  Var þó eflaust brýnna fyrr á tíð.

Fátt á milli (einhverra) (orðtak)  Fáleikar með einhverjum; einhverjir talast lítið við; eru fúlir hvor við annan.  „Eftir það var afar fátt á milli nábúanna og fór mig nú að gruna hvað var að gerast…“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Fátt er svo ágætt að eigi finnist annað slíkt (orðatiltæki)  Alltaf má finna annað eins og það sem um er rætt.  Mjög fornt í málinu.

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott (orðatiltæki)  Ekkert er svo alvont að ekki megi sjá í því eitthvað jákvætt eða einhverja útleið.

Fátt til ráða / Fátt til fanga (orðtök)  Fá úrræði til; fátt hægt að gera.  „Það er fremur fátt til fanga við svona aðstæður“.

Fátt um fína drætti / Fátt um góða kosti (orðtak)  Lítið gott í boði; lítið um að velja.  „Nú förum við að kippa; hér er orðið fátt um fína drætti“.  „Mér sýnist fátt um góða kosti í stöðunni“.  Sjá skrælt um góða kosti.  Sjá fækkar nú um fína drætti.

Fátt um svör (orðtak)  Svara vant; hefur engin svör.  „Það varð fátt um svör þegar ég innti eftir aflabrögðum“.

Fátæklegt (l)  Fábreytt; af vanefnum. „Afsakaðu hvað þetta er fátæklegt með kaffinu núna; þú færð betra næst“.

Fátækrafæða (n, kvk)  Mjög lélegur/slæmur matur; óæti.  „Það er ljóta fátækrafæðan þetta pastarusl“.

Fátækrajöfnunarfé (n, hk)  Fjárveiting sem hreppar fengu frá ríkissjóði fyrrum, til að standa undir brýnustu velferðarmálum.  Var einskonar fyrirrennari Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.  „Fátækrajöfnunarfé árið 1942, kr 1.255“ (Sjóðbók Rauðasandshrepps 1942).

Fátækramál (n, hk, fto)  Málaflokkur sem fyrrum var á hendi sveitarfélaga.  Málaflokkurinn ber það heiti í bókum Rauðasandshrepps frá 1944.

Fátækraþerrir (n, kk)  Þurrir dagar rétt fyrir jól.  Þjóðtrúin segir að guð láti alltaf koma góðviðri og þurrk rétt fyrir jólin til að þeir fátæklingar geti þvegið og þerrað sín föt, sem ekki eiga önnur til spari.

Fátæktarbragur (n, kk)  Með fátæklegu móti. „Það er nú orðinn hálfgerður fátætarbragur á útgerðinni hjá manni ef allir vettlingar eru orðnir götóttir“.

Fátækur (l)  Með lítil efni/fjárráð.  „Við vorum nú báðir af fátækum heimilum, og þótti gott að fá björg í bú .  Svo þetta var nú dágóður fengur fyrir okkur, og við vorum ánægðir með þetta“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Fáviska / Fávitagangur / Fávitaháttur / Fávitaskapur (n, kk)  Bjánagangur; heimskulegt háttalag.  „Hvílíkur fávitaskapur“!

Fávitalega (ao)  Heimskulega; bjánalega; fáránlega.  „Mér fannst þarna fávitalega svarað“.

Fávitalegur (l)  Fáránlegur; heimskulegur.  „Þetta er fávitaleg athugasemd“.

Fáviskukjaftæði (n, hk)  Heimskulegt tal; vitleysa; þvæla.  „Ég tek nú ekki mark á svona fáviskukjaftæði“!

Fáviti (n, kk)  Hálfviti; vitleysingur; auli.  „Hverskonar fáviti getur hann verið; að láta sér detta þetta í hug“!

Fávís (l)  Heimskur; fáfróður.  „Skelfing geturðu verið fávís ef þú áttar þig ekki á þessu“!

Febrúar (n, kk)  Annar mánuður ársins að okkar tímatali.  Honum mun hafa verið aukið við hið fornrómverska dagatal nokkru fyrir Krists burð og var þá síðasti mánuður ársins.  Það skýrir það að í febrúar eru færri dagar en í öðrum mánuðum.  Þeir eru vanalega 28, en í hlaupárum er 29. deginum bætt við.  Nafn febrúar er dregið af hreinsunarhátíð sem Rómverjar tíðkuðu í þessum mánuði; „februa“.

Feðraður (l)  Nefndur/tilgreindur að faðerni.  „Illar tungur segja að sá drengur sé ekki rétt feðraður“!

Feðranna dáðleysi er barnanna böl (orðatiltæki)  Börnin njóta oft eða gjalda þess hvernig foreldrar og forfeður hafa staðið sig.

Fegins hendi / Feginsamlega / Feginshugar (orðtak/ l)  Feginn; með fögnuði/þakklæti.  „Ég þigg það fegins hendi ef þú vilt aðstoða mig“.  „Ég bauðst til að aðstoða við þetta, og hann þáði það feginsamlega“.

Fegurðarríkur (l)  Sem býr yfir mikilli fegurð; mjög fallegur.  „Fegurðarríkasti hluti ársins) (Umræðuefni á 2. starfsári Umf Vöku; stofnað 1916).

Feilgrípa (s)  Taka í misgripum; flaska á.  „Ég feilgreip mig á brúsum og setti vatn á vélina í stað bensíns“.

Feigð (n, kvk)  Ákvarðaður dauðdagi samkvæmt forlagahyggju; aðdragandi dauða.  Feigð er nátengd hjátrú, og ýmislegt var talið boða feigð/dauða; svonefndir feigðarboðar eða feigðarmerki.  Slys urðu tíðust á sjó.  Sá sem fékk hrognkelsi á öngul var talinn feigur.  Væri bát snúið rangsælis þegar árar voru lagðar út var áhöfnin líkast til feig.  Blóðlitur í kjölfari báts var feigðarboði.  Sé tungl stafnhvasst á kvartilaskiptum boðar það bátstapa.  Það gerir einnig fugl sem sest á hnýfil báts í upphafi róðrar.  Flygi hrafn á móti báti í útróðri var vissara að róa strax í land aftur.  Óheillamerki er einnig ef selur syndir þvert á stefnu báts á útleið.  Óvanalega mikill afli gat verið feigðarafli.  Sá sem allt í einu gerðist aflakló en hafði áður verið ófiskinn var líkast til feigur.  Ólán fylgir því að syngja við veiðar, en það er í lagi á siglingu eða við róður.   Til voru þó húsráð:  Sá sem hefur smára í fötum sínum á sjó verður ekki sjódauður.  (LK; Ísl. sjávarhættir).  Kollsvíkingar voru í seinni tíð líklega ekki trúaðir á feigðarboða, en báru virðingu fyrir gömlum siðum og kenndu þá sínum afkomendum.

Feigðarboði / Feigðarmerki (n, kk/hk)  Merki um feigð (sjá þar). 

Feigðardráttur (n, kk)  Sú trú að óvanalegur fiskur boði ólán sé hann dreginn á færi.  Í Útvíkum boðaði það ólán að draga marhnút á færi, og sama gilti um rauðmaga.  Slíkum ódráttum átti að kasta strax fyrir borð, en gæta þess þó að spýta uppí þá fyrst.

Feigðarflan (n, hk)  Ferð sem farin er í mikilli tvísýnu; glannaskapur.  „Mér finnst þetta óttalegt feigðarflan“!

Feigðarfley (n, hk)  Manndrápsbolli; manndrápsfley; bátur sem er feigur; bátur sem innan tíðar mun farast.  Þjóðtrúin ber þess vitni að menn báru óttablandna virðingu fyrir hættum hafsins; reyndu að finna ástæður fyrir slysförum á sjó og leggja við víti til að forða þeim.  Þannig var því trúað að sumir bátar væru feigir frá því að þeir væru smíðaðir, væru þessi víti brotin.  Ekki mátti nota manndrápsvið í báta, en hann var m.a. blóðeik og selja.  Konur máttu helst ekki koma nærri smíðinni og alls ekki væru þær á blæðingum. 

Feigðarför (n, kvk)  Ferð sem endar með dauða/banaslysi; mjög hættulegt ferðalag.  „Það styrkti mjög þessa trú að Einar hafði átt að smíða skeifur úr skutuljárni því sem fannst í hvalnum, og þær skeifur voru einmitt undir hestunum er þeir fóru sína feigðarför“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Feigur (l)  Dauðvona; merktur dauðanum farið að segja fyrir.  Komið úr forlagatrú; sá sem er feigur á lítið eftir af sínum fyrirfram ákveðna líftíma.  Notað þegar einhver gerir eitthvað óskiljanlegt/óvanalegt. stundum lífshættulegt.  „Ég held að þeir hljóti að hafa verið feigir; að fara út í svona veðurútliti“!  Einnig var notað orðið bráðfeigur, til áhersluauka; mjög feigur.  Mörg örðök tengjast þessu:  „Enginn veit hvar feigur flækist“ og „Eigi verður feigum forðað, né ófeigum í hel komið“  Fyrriparturinn oft einn, þegar eitthvað fór úrskeiðis.  Einnig; „Þar skildi á milli feigs og ófeigs“, þegar einhver bjargast naumlega.  „Meðan þessu fer fram segir einn af heimamönnum; Árni J. Thoroddsen bóndi; skarpskyggn maður „Þarna eru feigir menn um borð“.  Það reyndist orð að sönnu.  Skipið rak upp að svokölluðum Bjarnaboða sem er þarna frammi á Læginu; þar tók sig upp mikil holalda og hvolfdi skipinu.  Fórst það með allri áhöfn“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Feikidýr / Feiknadýr (l)  Mjög dýr; rándýr.  „Þið eigið ekki að vera að gefa mér svonalagað; var þetta ekki feikidýrt“?  „Það getur orðið félaginu feiknadýrt að hafa menn á kaupi ef ekkert er að gera“.

Feikihár / Feiknahár (l)  Mjög hár.  „Ég hef heyrt að kúskelin nái feikiháum aldri“.

Feikilega (l)  Mjög; afar.  „Það hefur verið feikilega mikið af þara í vetur“.

Feikilegur / Feikimikill / Feikistór (ao/l)  Afar/mjög mikill/stór.  „Þessu fylgdi víst feikilegur kostnaður“.  „Þeir ku hafa fengið feikimikinn afla strax í fyrstu lögn“.

Feikn (n, hk)  Ósköp; býsn.  „Hann fékk lítið af þorski en feiknin öll af ýsu“.  „Þetta er feikna fallegur hrútur“.  „Veturinn hefur verið feikna snjóþungur“.  „Þetta síðasta sumar var votviðrasamt svo varla er munað annað eins jafnlengi.  Hey urðu að mestu öll hrakin og urðu sumstaðar til á túnum.  Fóðurbætiskaup urðu því feikna mikil“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1955). 

Feiknahraði (n, kk)  Mjög mikill hraði; ofsahraði.  „Maður gat náð feiknahraða á þessu farartæki“.

Feiknakraftur (n, kk)  Firnamikill kraftur; ógnarafl.  „Einhver hefur sá feiknakraftur verið sem kastaði þessu bjargi neðan úr stórgrýtinu í fjörunni uppá sjávarklettana“.

Feiknakuldi (n, kk)  Fimbulkuldi; gaddfrost.  „Hann spáir einhverjum feiknakulda í vikulokin“.

Feiknalegur / Feiknamikill (l)  Heljarmikill; svakalega mikill.  „Hann er víst með feiknamikið af netum í sjó“.

Feiknastór (l)  Afar stór/ mikill vexti.  „Það hefur hrunið feiknastórt bjarg niður á veginn“.

Feila sig á (orðtak)  Gera mistök með; misreikna sig; misskilja.  „Hann feilaði sig á því hvað féll hratt að, og náði ekki fyrir forvaðann í tæka tíð“.

Feilhögg (n. hk)  Högg sem geigar; miheppnað högg.  „Studdu staurinn þannig að þú getir forðað lúkunum ef ég skyldi slá feilhögg“.

Feila (s)  A.  Mistakast.  „Þetta þarf að vera vel undirbúið; það má alls ekki feila“.  B.  Bila; fara í sundur.  „Mér sýnist að hér sé vaðurinn farinn að feila á einum stað“.

Feilhögg (n, hk)  Högg sem mistekst/er framhjá.  „Passaðu að slá ekki feilhögg; þá eyðileggurðu boltann“!

Feilaður (l)  Bilaður; trosnaður.  „Ef vaðurinn er feilaður þá verður að taka hann í sundur og splæsa“.

Feill (n, kk)  Mistök; misgrip.  „Það var feill hjá þér að gleyma nestinu í landi“.  „Ég tók feil á hrútum í myrkrinu“.  „Kannski hef ég gert feil þegar ég setti á undan þessari ær af Bjarginu“.

Feillaust (l)  Án mistaka.  „Það má segja að honum hafi tekist þetta, nokkurnvegin feillaust“.

Feilpúst (n, hk)  Þegar vél missir úr slag, þ.e. sprengir ekki í slagi en sprengir oft þá með hvelli í næsta slagi.  „Hún er farin að slá ansi mörg feilpúst; það þyrfti örugglega að fara að skipta um kerti“.

Feilskot (n, hk)  Skammarskot.  „Ég held að það hafi ekkert feilskot orðið hjá mér í dag“.

Feilslá sig (orðtak)  Slá af sér; gera mistök.  „Hann feilsló sig alveg með þessum samningi“.

Feilstig (n, hk)  Misstig; rangt spor.  „Gættu að þér þarna í þræðingnum; eitt feilstig getur verið dýrkeypt“.

Feimni (n, kvk)  Mikil hlédrægni; mannfælni.  „Er einhver feimni í honum, að ræða sjálfur við mig“?

Feimnislega (ao)  Um umtal/hegðun; á lágstemmdum nótum; með hlédrægni/varfærni.  „Það var aldrei talað mikið um þessi mál, þó menn ræddu þau stundum feimnislega sín í milli“.

Feimnismál (n, hk)  Mál sem menn hliðra sér hjá að ræða.  „Þetta var nokkuð feimnismál á þeim tíma“.

Feitisdæla / Feitissprauta (n, kvk)  Koppafeitissprauta; handdæla til að koma smurfeiti í smurkoppa.

Feiti / Feitmeti (n, hk)  Feitur matur; fita; viðbit.  „Ég gef lítið fyrir þessa nýmóðins matarkúra; mér hefur aldrei orðið misdægurt af feitmetinu“.  Bræddur mör til útáláts var nefndur flot í Kollsvík en ekki feiti, eins og víðast er nú.

Feitlaginn (l)  Feitur; þéttholda.  „Gísli segir að Einar hafi orðið gamall og afar feitlaginn“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Feitmetislaust (l)  Um mat; án þess að nota flot/feiti útá.  „Fiskurinn er ári þurrætur, svona feitmetislaus“.

Fela hlut (orðtak)  Leikur barna sem gengur útá það að einn felur einhvern fyrirfram ákveðinn hlut sem hinir eiga síðan að reyna að finna.  Sá sem faldi getur gefið vísbendingar s.s. „þú ert heitur“ ef leitarmaður nálgast, eða að hluturinn sé „nærri himni“ ef hann er hátt uppi eða „niðri í fjöru“ ef hann er neðarlega.

Felast í (orðtak)  Liggja í; innibera.  „Árangurinn felst í dugnaði og úthaldi“.

Feldmjúkur (l)  Mjúkur á feld; fláráður; ekki allur þar sem hann er séður.  „Það er eins með hann og köttinn:  Þó hann sýnist feldmjúkur þá eru klærnar ekki langt undan“. 

Fella (s)  A.  Hrinda; kollvarpa.  „Ég felldi hann á hælkrók“.  B.  Fella segl.  „Þar felldi Guðmundur“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Fella (n, kvk)  Gildra.  „Ég setti músafellut í hænsnakofann“.

Fella af (orðtak)  A.  Um prjónaskap; fella lykkju af prjóni á þann hátt að ekki rakni upp prjónlesið.  B.  Fella brögð af röri á netatein þegar net er fellt/sett inn með bekkfellingu.

Fella net (orðtak)  Setja inn; setja netateina/-þini upp á netaslöngu og ganga frá hnýtingum, flotum og sökkum.  Sjá fellingabekkur; netanál; netafelling.

Fella niður (orðtak)  A.  Um vefnað í vefstól; taka niður þegar búið er að vefa.  „Oft var búið að vefa einn vef og fella niður fyrir jól“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  B.  Í líkingum um málefni; taka af dagskrá; láta niður falla.

Fella / Fella segl (orðtak)  Taka niður segl á bát.  „Skipar hann mér að fella seglið og ætlar að róa upp sjálfur“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  Oft notað stytt:  „Töldu sumir að fellt hefði verið, og ætlunin færi að róa til lands“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Fella sig við (orðtak)  Sætta sig við; viðurkenna.  „Ég get illa fellt mig við þá tilhugsun“.

Fella tár (orðtak)  Tárast; gráta; brynna/vatna músum.  „Ætli sé nokkur ástæða til að fella tár þó sá flokkur missi mann af þingi“.

Felliborð (n, hk)  Borð sem unnt er að fella niður og setja upp aftur með einföldum hætti.  „Gylfi smíðaði matarborð í eldhúsið á Láganúpi, sem að hálfu var felliborð og kræktist upp í fals undir glugganum“.

Fellimöskvi (n, kk)  Möskvi í jaðri nets sem gengur upp á þininn/teininn.  Venjulega úr þolnari þræði en netmöskvarnir sjálfir, enda mæðir töluvert á, í miklum sjógangi.

Felling (n, kvk)  A.  Brot/mislagning í fatnaði/klæði/skinni o.fl.  B.  Innsetning nets á tein/þin.  „Felling er mun tryggari með nál, en í bekk“.  C.  Slaki sem hafður er í neti þegar það er fellt á tein/þin.  Sé slakinn of lítill verður netið of strekkt og ekki fiskið.  Venja var fyrrum að fellt net væri tveir þriðju af lengd netsins fyrir fellingu, en á síðari tímum er oftast fellt til helminga.  „Það er alltof lítil felling í þessum netum; þau geta aldrei orðið veiðin ef þau ná ekki að poka í sjónum“. 

Fellingabekkur (n, kk)  Áhald til að fella net á tein (flá).  Samanstendur af hólki sem festur er við fjöl; henni er síðan fest á bekk, en á honum er setið þegar fellt er.  Netaslangan er gerð klár og síðan eru möskvar í öðrum jaðri netsins þræddir upp á hólkinn.  Með jöfnu bili, oft 3ja eða 5ta hvern möskva, er sett á skutilbragð (hestahnútur).  Netateinninn er síðan þræddur í rörið hinumegin frá og möskvarnir felldir upp á hann þegar hann kemur í gegn.  Hert er vel á hnútunum með skutilbragðinu.  Gæta þarf þess að hafa hæfilegan slaka (poka; fellingu) á netinu, til að netið verði fiskið.  Oft eru net stöguð eftir fellinguna; þ.e. settur þráður (stag) milli fláaþinar (flotteins) og steinaþinar (blýteins) sem er styttri en netdýptin og pokar netið í sjónum.  Bekkfelling nets er af mörgum talin lakari en nálarfelling; þar sem fellt er með netanál; fellingargarnið þrætt í möskvana í stað teinsins og hnýtt á teininn.  Fóru sumir bil beggja og felldu á þráð í bekk, en bensluðu hann síðan við teininn.

Fellingagarn (n, hk)  Grannt en sterkt garn, notað m.a. til að fella net/ setja inn net; innsetningagarn; netagarn.

Fellir (n, kk)  Hungurdauði; fjöldadauði af völdum hungurs/harðinda.  „Á harðindavetrum fyrri ára er ekki vitað til að fellir skepna og manna hafi orðið nærri verstöðvum, líkt og tíðum varð í öðrum héruðum landsins“.

Fellujárn (n, hk)  Járn sem er tvíbrætt og því hreinna en blásturjárn (sjá þar).  Segja má að rauðablástur hafi nær því lagst af þegar mikið fór að flytjast til landsins af fellujárni kringum 1500, en Einar í Kollsvík mun síðastur manna hafa stundað rauðablástur hérlendis.

Fellur að (orðtak)  Flæðir; tekur að.  „Það þarf að gæta að fé á skerjunum þegar fellur að“.

Fellur af sjó (orðtak)  Eykur sjó lítillega, en þó enn sjólítið.  Heimild; Jón Torfason (LK; Ísl.sjávarhættir III).

Fellur aldrei/sjaldan verk úr hendi (orðtak)  Um vinnusama manneskju; er sívinnandi/dugleg/ sjaldan verklaus.  „Enn er hann að úðra; ég held að þesum manni fallist sjaldan verk úr hendi“.

Fellur (streymir) á (orðtak)  Um það hvernig háttar sjávarfalli þegar byrjað er að draga net/línu  eða þegar stjóra er létt á seglskipi.  Mikilvægt er að byrja á réttum enda við netadrátt til að fiskur sem laus er í poka netsins lokist fremur í honum en velti út, en þar skiptir straumur miklu máli.   Einnig þarf að vita hvernig skal hagrætt seglum á seglskipi til að það falli á réttan veg þegar það tekur ferð af lægi.  „Ertu búinn að sjá hvernig fellur/streymir á hérna“?

Fellur ei tré við fyrsta högg ( orðatiltæki)  Oft þarf að reyna ítrekað til að árangur sjáist/náist.

Fellur eins og flís við rass (orðatiltæki)  Passar nákvæmlega, flísfellur.

Fellur hver þó frækinn sé ( orðatiltæki)  Allir hljóta að falla/deyja fyrr eða síðar, hversu góðir eða frægir sem þeir kunna að vera.

Fellur í berg (orðtak)  Sjór fellur í kletta svo þar verður ófært, a.m.k. um flæði.  „Fjöruna var ekki hægt að fara á strandstað þar sem svokallaður Helluvogur er á þeirri leið, en þar fellur sjór í berg“;  Um strand togarans Croupiers undir Blakk; líklega haft eftir GG;  (EÓ; skipsströnd í Rauðasandshreppi)

Fellur út (orðtak)  Fjarar.  „Það er farið að falla út og hugsanlega fært fyrir Forvaðann“.

Felmtur (n, hk)  Ótti; hræðsla.  „Við þessa atburði kemur felmtur á Frakkana og brestur flótti í lið þeirra“  (MG; Látrabjarg).

Felubúningur (n, kk)  Dulargervi; litur dýra sem hjálpar þeim að leynast.  „Felubúningur margra unga er svo fullkominn að þeir sjást alls ekki fyrr en hreyfing kemst á þá“.

Feluleikur (n, kk)  Leikur barna sem gengur útá það að einní hópnum felur sig, en hinir byrja að leita hans eftir fyrirfram ákveðinn tíma eða þegar hann kallar til.  Náskyldur þessum, er leikurinn að fela hlut; sjá þar. „Það var í hitteðfyrra, ein stúlka kom á kreik,/ svo knúsandi og dásamleg að tarna./  Við þessa glöðu meyju ég fór í feluleik./  Hún faldi sig í rúminu mínu þarna“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).    

Fen (n, hk)  Dý; drápsseil.  „Sefið var eiginlega fen eða dý niður af bænum, og þurfti hey þaðan mikinn þurrk“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Feneyjasaumur (n, kk)  Sérstök tgund útsaums.  „Svo var mikið saumað í punthandklæði oftast með kontorsting en ég á enn slitur af þannig handklæði sem mamma saumaði með feneyjarsaum og poka undir óhrein barnaföt í sama lit“  (SG;  Útsaumur; Þjhd.Þjms). 

Fengin (l)  Um ær; með fangi; búið að hleypa til.  „Ég hef þær í sérstakri stíu sem fengnar eru og hleypi hrútnum til hinna“. 

Fengitíð / Fengitími (n, kvk, kk)  Sá tími ársins sem ám er haldið undir hrút, en hann hefst oftast um jólaleytið.  „Fengitími á Láganúpi hófst á þorláksmessu“. 

Fengsæld (n, kvk)  Það að afl/fá nóg; góð aflabrögð.  „Fjarri leiðum fengsældar; frá því snemma á hausti;/ rambar nú mitt frostafar/ fram úr vetrarnausti“  (JR; Rósarímur).

Fengsæll (l)  Aflasæll; veiðinn; gefur af sér góða veiði.  „En hvað var það þá sem aftraði þeim svo mjög frá þessum fengsælu miðum?  Jú, það var þessi slæma torfæra á sjóleið smábáta frá Patreksfirði og út á Víkur; Blakknesröstin“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Fenna (s)  A.  Snjóa, oft í fremur hægu veðri.  „Hann er byrjaður að fenna drjúgt“.  B.  Um fé og hluti; lokast/grafast niðri í fönn.  „Það fenntu hjá mér þrjár kindur í góuhretinu“.

Fennt (l)  Snjóað í kaf; snjóað fyrir.  „Það fennti fyrir alla glugga hér sunnanmegin á húsinu“.

Fer að styttast í (orðtak)  Fer að styttast tíminn þar til; líður að.  „Nú hlýtur að fara að styttast í að þeir komi með reksturinn“.

Fer eins og fara vill (orðtak)  Fer eftir því sem verkast vill; fer einhvernvegin.  „Maður getur lítil áhrif haft á þetta; það verður bara að fara eins og fara vill“.  Oftast ýmist „það“ eða „þetta“ á undan.

Fer ekkert/ekki (á) milli mála (orðtak)  Er óyggjandi/greinilegt/öruggt.  „Þetta fé er frá Hænuvík; það fer ekkert á milli mála“.

Fer orð af (orðtak)  Er um talað; er frægt/orðlagt.  „Það fer mikið orð af kunnáttu hans í þessum efnum“.

Fer sem fara vill / Fer sem fer (orðtök)  Atvik verða eins og þeim er ætlað; ekki unnt að stýra atburðarás.  „Þetta verður bara að fara sem fara vill héðanaf“.  „Hann batt kútinn ekki nógu vel í spottann; því fór sem fór“.  „Þetta fer sem fer; það stjórnar því enginn héðanaf“.

Fer tvennum sögum af (orðtak)  Bæði góðar og slæmar frásagnir; heyrist gott og illt.  „Hann lagði einhverntíma net þarna, en það fer tvennum sögum af því hver veiðin var“.

Ferðafær (l)  Tilbúinn að ferðast.  „Þú ert nú varla ferðafær svona illa búinn“!

Ferðagarpur / Ferðalangur (n, kk)  Sá sem mikið/langt ferðast/ hefur mikið úthald í ferðalög.  „Hingað komu tveir lúnir ferðagarpar, gangandi útyfir Víknafjall“.  „Ferðalangar þurfa staðgóða fæðu“.

Ferðahugleiðingar (n, kvk, fto)  Áætlanir um ferð/ferðalag.  „Eruð þið nokkuð í ferðahugleiðingum í dag; liggur ykkur nokkuð á heim strax“?

Ferðahugur (n, kk)  Hugur á brottför; hugsa sér til hreyfings.  „Er kominn ferðahugur í þig strax?  Viltu ekki stoppa framyfir kvöldmatinn“?

Ferðakvíði (n, kk)  Kvíði vegna ferðalags sem til stendur.

Ferðaryk (n, hk)  Óhreinindi eftir langt ferðalag, t.d. á hestum.  Var þó notað áfram í seinni tíð um þá/af þeim sem nýkomnir voru úr ferðalagi:  „Ég ætla að skella mér í bað og skola af mér ferðarykið“.

Ferðasmár (l)  Ferðast lítið.  „Ég er orðinn ósköp ferðasmár og heimakær í seinni tíð“.

Ferðaveður (n, hk) Nægilega gott veður til að ferðast.  „Þegar allt var búið til fararinnar var tekið ferðaveður, fyrsta er gafst“  (PJ; Barðstrendingabók).

Ferðbúinn (l)  Tilbúinn í ferðalag; búinn að hafa sig til.  „Jæja, nú er ég alveg ferðbúinn“.

Ferðlaus / Ferðlítill  (l)  Með litlum/engum hraða; mjög hægur.  „Það vildi til að bíllinn var nær ferðlaus þegar þetta varð“.  „Baturinn var ferðlítill þegar hann nam við hleinina“.

Ferðlúinn (l)  Þreyttur eftir ferðalag.  „„Er kvikmyndatakan síst hitaverk fyrir ferðlúinn mann... “  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Ferfætlingur (n, kk)  Dýr með fjóra fætur.  „Þessi hola getur verið hættuleg, bæði fólki og ferfætlingum“.

Fergja (s)  Bera farg á svo ekki fjúki; setja þunga ofan á vothey til að bæta/flýta verkun.  „Við þurftum að fergja þakið svo það tættist ekki burt í rokinu“.  „Fergja þarf votheyið vel il að ekki skemmist efst í gryfjunni“.

Ferhyrndur (orðtak)  Um sauðfé; með fjögur horn.  Slíkur hornvöxtur er fremur sjaldgæfur og ættgengur.  Ferhyrnt fé var um tíma á Láganúpi í seinni tíð.  Guðbjartur Össurarson (f 16.02.1954) fékk ferhyrnda á í skírnargjöf frá systkinunum Ívari og Jónu Ívarsbörnum í Kirkjuhvammi á Rauðasandi.  Undan henni kom m.a. ferhyrndur hrútur sem var geltur, og lifði sá sauður alllangt fram á 7. áratuginn.  Horn hans voru síðan varðveitt á Láganúpi.

Ferjubryggja (n, kvk)  Bryggja sem er lendingarstaður ferju, en þær nutu sérstakra ríkisframlaga fyrr á tímum.  „…taldi hann að hreppsnefndin ætti að reyna að vinna að því að bryggjan verði gerð að ferjubryggju“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Ferkantaður í skapinu (orðtak)  Mjög argur í skapi; ferlega fúll; hefur allt á hornum sér.  Sjaldan notað.

Ferlega (ao)  Ógnarlega; óskaplega; illa.  „Mér finnst þetta ferlega slæmt“.  „Nautið öskraði ferlega“

Ferlegur (l)  Ógnvænlegur; hrikalegur.  „Fyrir löngu bjó jötunn einn ferlegur þarna í berginu um Miðlandahillu“ (MG; Látrabjarg).  „Sér til ferða ferlegs manns,/ fylgir mikil dyrgja./  Risavaxnar herðar hans/ hellismunnan byrgja“  (JR; Rósarímur).

Ferma (s)  A.  Setja farm í bát/skip.  „Þegar Fönix er fullfermdur, er hann færður fram á Lægið og lagt við stjóra.  Tveir róðrarbátar af Barðaströnd eru einnig fermdir“  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Skíra ungling í kristinna manna tölu; biskupa.

Ferming (n, kvk)  Kristileg vígsla unglings; staðfesting á skírninni.  „Magðalena Össurardóttir var 3 vor í Verinu og kvaðst heldur vilja gera það en vinna bæjarverkin.  Hún var um fermingu þegar hún byrjaði í Verinu“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  „Á Hvítasunnudag vorið 1939 var ég fermdur í Sauðlauksdal, ásamt 5 öðrum börnum úr sveitinni; eftir viku dvöl og undirbúning hjá séra Þorsteini Kristjánssyni í Sauðlauksdal.  Eftir fermingu fór ég að róa með Einari bróður mínum og pabba, og rerum við vorið og sumarið“  (IG; Æskuminningar). 

Fernir (l)  Fjögur pör.  „Amma kom með ferna sokka, nýprjónaða“.  Einnig tvennir og þrennir.

Fernsolía (n, kvk)  Vökvi úr viðarolíum, notaður til að verja, fegra og mýkja við, skinnklæði o.fl.  „Þau skinnklæði tóku miklu betur við áburði; fernisolíu eða lýsi, og urðu mýkri að klæðast í“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Nefnist gjótan Pallanáma, og munu hinir lítríku steinar hennar hafa verið muldir út í fernisolíu og það notað sem málning á báta í Kollsvík fyrr á tíð“  (HÖ; Fjaran). 

Ferskeytla (n, kvk)  Um kveðskap; vísa með fjórum ljóðlínum, stuðluð og rímuð; ferhendur háttur.  Í ferskeytlunni eru fjórar kveður í frumlínum (fyrstu og þriðju ljóðlínu) en þrjár í síðlínum (annarri og fjórðu).  Frumlínur eru stýfðar, þ.e. enda í hákveðu, en síðlínur óstýfðar; enda í lágkveðu.  Óbreyttur er hátturinn án innríms en með víxlrími; þ.e. fyrsta og þriðja ljóðlína ríma í enda og önnur og fjórða einnig.  Ferskeytlan er algengasti bragarhátturinn og talinn sá elsti.  Elsta ferskeytla sem um er vitað er Ólafs ríma Haraldssonar frá miðri 14.öld, talin vera eftir Einar Gilsson lögmann og er hún varðveitt í Flateyjarbók.   Dæmi um ferskeytlu er þessi, eftir Andrés Björnsson frá Brekku: „Ferskeytlan er Frónbúans/ fyrsta barnaglingur,/ en verður seinna í höndum hans/ hvöss sem byssustingur“.

(Einhverjum) ferst ekki (orðtak)  Einhver hefur ekki efni á; einhverjum væri nær að líta í eigin barm.  „Honum ferst ekki að tala um klaufaskap hjá öðrum, sem sjálfur lagði ofaní hjá okkur í síðustu viku“!

Feræringur (n, kk)  Fjögurra/fimma manna far; bátur sem róinn er af fjórum ræðurum; þ.e. með átta ræði/tollur.  Feræringar voru oftast fimm manna för, þ.e. fimmti maðurinn var þá formaðurinn, sem stýrði.  Stundum voru ræðin fleiri, en báturinn samt nefndur feræringur; væri hann af þeirri stærð.  Feræringar voru algengstir þeirra bátategunda sem notaðar voru í Kollsvíkurveri undir það síðasta, og hafa sennilega alltaf verið.  Það helgast einkum af því að þeir eru nægilega léttir til að áhöfnin ráði sjálf við að setja þá, en samt nógu stórir til að unnt sé að róa þó nokkur ylgja sé.  „Af feræringum í Barðastrandasýslu árið 1905, voru 17 smíðaðir fyrir aldamót, en hinir á árunum 1900-1907.  Elsti feræringurinn var smíðaður í Kollsvík 1839 og var 20,7 fet á lengd (6,50m).... Lengdin var mæld á milli stafna, og því má bæta við 1 feti (30 cm) til að fá mestu lengd“  (LK; Ísl.sjávarhættir II).

Festa (n, kvk)  A.  Hvaðeina sem unnt er að nota til að festa það sem laust er.  „Á brún Blakksins eru víða stórir steinar sem unnt er að nota sem festu fyrir lásband.  Þar sem slíkt er ekki er festa útbúin með því að binda utan um vel lagaðan stein og fergja hann með nokkrum öðrum steinum“.  B.  Botnfesta; festa í grunni.  C  Ákveðni; einbeiting.  „Mikilvægt er að tekið sé á svona málum af festu“.  D.  Það þegar ökutæki situr fast í t.d. snjó eða aurbleytu.  „Við lentum í slæmri festu úti á Breiðsholti; það var nokkuð bras að ná bílnum upp“.

Festa (s)  A.  Binda/negla/skrúfa/þvinga hlut fastan.  „Við festum bátinn við hleinina meðan við fórum upp á stallinn til eggja“.  B.  Verða fastur; festast; „Ég festi bílinn uppi í Hæðinni“.  C.  Um reka; sitja fastur í fjöru.  „Það rekur töluvert þarna, en festir illa“.

Festa á blað (orðtak)  Skrifa; skrásetja.  „Ég hefði gaman af að reyna að festa á blað smá endurminningar... “  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Festa blund (orðtak)  Sofna; renna í brjóst.  „Ég var um það bil að festa blund þegar veðrið skall á“.

Festa í grunni/botni (orðtak)  Um það þegar færi liggur í botni og festist.  Oft tapast þá sakkan og jafnvel allur slóðinn.  Því er mikilvægt að tekið sé hæfilegt grunnmál eftir því hvernig botnlagið er og miðað við rek bátsins.  „... nú festist trúlega öngullinn þinn og lóðið í grunni; eins og viðskilnaðurinn þinn var áðan“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Festa sér í minni (orðtak)  Leggja á minnið; reyna að muna.  „Ég sé eftir að hafa ekki fest mér það betur í minni hvað gömlu mennirnir sögðu um þetta“.

Festa sitt ráð (orðtak)  Eignast maka; stofna til hjónabands/sambúðar.  „Þetta var áður en hann festi sitt ráð“.

Festa svefn (orðtak)  Sofna.  „Ég náði ekki að festa svefn fyrr en samtali þeirra lauk“.

Festarauga (n, hk)  Vaðarauga; siglykkja; lykkja á enda sigfestar eða landfestar.  Venja er í Útvíkum að fremur sé notað orðið „vaður“ en „festi“, a.m.k. á síðari öldum.

Festarendi (n, kk)  Endi á bjargfesti/bjargvað.  „Þessi er fjárafli margs manns að fara í björgin að taka egg ok fugla.  Þessháttar afli fremst á þann hátt að fuglarinn fer í festarenda ofan fyrir bjargið; gerist það oftlega með miklum háska ok bráðum manntapa, því að festinni kann margt að granda“  (Saga Guðmundar byskups).

Festarhari (n, kk)  Hjólmaður; maður sem situr undir vað næst brúnahjóli á bjargbrún, og vaktar merki frá sigaranum.  Orðið er ekki notað í seinni tíð, en til fyrritíðar notkunar bendir þessi gamla vísa sem ónefndur bjargmaður kvað á brún Látrabjargs forðum; „Festarhari hugrakkur;/ hraustur snar og fljótur; / vertu bara vaðglöggur, / viðris skora njótur“ (LK; Ísl.sjávarhættir V).  Sjá einnig skorarviðri, sem er vindur sem stendur upp á bjargbrún. 

Festifjara (n, kvk)  Fjara þar sem reka tekur ekki út.  Í Kollsvík er óvíða góð festifjara og því þarf að ganga á reka og bjarga reka undan sjó, eigi honum ekki að skola aftur út á næsta flóði.  „Undir Hreggnesa er sumsstaðar sæmileg festifjara fyrir reka ef gefst, en torvelt um björgun“  (HÖ; Fjaran). 

Festir ekki/lítið/varla snjó á jörð/vegi (orðtak)  Snjór safnast ekki/lítið/varla á jörð/veg.

Festuhætta (n, kvk)  Hafsbotn þar sem hætta er á að net festist í botni.  „Það er varasamt að leggja beint fram af Ánni í Hænuvík; þar er festihætta í togaraflaki“.

Festusteinn (n, kk)  Steinn nærri bjargbrún sem unnt er að nota fyrir festu.  „Þarna er þessi fíni festusteinn“!

Feta sig / Fikra sig (orðtak)  Ganga mjög hægt/varlega og velja hvert fótstig.  „Ég fetaði mig eftir trjábolnum og komst þannig yfir ána“.  „Hillan var tæp á þessum stað, og við þurftum að fikra okkur varlega þar um“.

Fetilband (n, hk)  Létti; band sem notað er til að bera byrði í fetlum; band sem lagt er yfir axlir og brugðið á byrðar.  „Taktu með einhver fetilbönd til að bregða á eggjakútana“. 

Fetlar (n, kk)  Fetilband; band sem notað er til að létta á byrðum með því að bregða því yfir axlir.  „Ekki er sama hvernig fetilböndum er brugðið á eggjakassana þegar borið er í fetlum“.

Fetslengd (n, kvk)  Eitt fet á lengd.  „Hafðu svona fetslengd lausa á hvorum enda“.

Fetta fingur út í (orðtak)  Finna að; gera athugasemdir við.  Bókstafleg merking er að benda á með fingri.

Fetta sig (orðtak)  Sveigja bak/bolinn/skrokkinn afturábak; rétta óeðlilega úr sér með því að sveigja bakið aftur. 

Fetta sig og bretta (orðtak)  Haga sér afkáralega með óeðlilegum líkamshreyfingum.  „Með því að fetta sig og bretta á ströndinni náði hann að lokka þennan forvitna sel alveg uppundir fjöruborðið“.

Feygjast (s)  Verða feyskinn/fúinn.  „Þessi grindarslá er farinn að feygjast allmikið; hér þyrfti að skipta um“.

Feyra (s)  Mygla; grána.  „Mörinn er örlítið farinn að feyra, en ekkert til skaða“.

Feyskinn (l)  Fúinn, ótraustur.  Oftast notað um við, en einnig stundum um ótraustan ís.

Feyskna (s)  Feygjast; verða fúinn/feyskinn.  „Hornstaurinn er farinn að feyskna neðst“.

Fé er jafnan fóstra líkt (orðatiltæki)  Um áhrif uppeldis á hegðan; dýr markast oft af húsbónda sínum og venjum hans, og talið var fyrrum að sjá mætti persónueinkenni eigandans í hegðan búfjár hans.  Í seinni tíð einkum notað um hegðun barna, þegar talið er að uppeldi sé ekki eins og æskilegt er.  Sjá fjórðungi bregður til fósturs.

Fédraugur (n, kk)  Draugur sem gengur aftur til að vitja auðæfa sinna.  Ekki eru heimildir um fédraug í Kollsvík, enda dóu menn þar sjaldnast frá miklum auði þó bjargálna væru flestir.

Fégírugur / Fégráðugur (l)  Ágjarn; vill græða peninga.  „Mér fannst hann fjandi fégírugur þegar hann hækkaði verðið á druslunni, og sagði honum að hann gæti þá bara átt hana sjálfur“.

Félagi (n, kk)  Vinur; lagsmaður; kunningi.  „…  þyrptust nú flestir réttarmenn að þeim félögum“  (PG; Veðmálið). 

Félagshugsjón (n, kvk)  Tilgangur/markmið félags.  „Fjelagshugsjónin er þessi:  Árið tvö þúsund eftir Krists burð neytir enginn tóbaks í sveitinni okkar, sem í henni er fæddur og uppalinn...“  (VÖe; Lög Tóbaksbindindisfjelags Rauðasandshrepps). 

Félagshyggjufólk (n, hk)  Fólk sem vinnur að sínum málefnum í félagi/ sameiginlega.  „Rauðsendingar voru yfirleitt félagshyggjufólk... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Félagsskítur (n, kk)  Sá sem ekki fylgir meginstraumi með að mæta á samkomur eða er illa við að vera í fjölmenni; forðast samneyti við annað fólk.

Félagssvæði (n, hk)  Svæði sem félag starfar á.  „Vestri var með félagssvæði um Breiðavíkursókn; þ.e. Látra, Breiðavík og Kollsvík“  (IG; Sagt til vegar II). 

Félagsverslun (n, kvk)  Kaupfélag; pöntunarfélag.  „Var þá gjarnan skroppið innyfir háls að Hænuvík, meðan Sláturfélagið Örlygur hafði verslun þar; eða á Gjögra, eftir að félagsverslunin var flutt þangað“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Félagsvist (n, kvk)  Spilið vist, spilað þannig að margir fjögurra manna hópar spila í einu, en skipt er í hópunum eftir ákveðnum reglum í hverju spili.  „Jafnan var spilur félagsvist á spilakvöldum í Fagrahvammi“.

Félega (ao)  Álitlega; ágætlega.  Oft í neikvæðni:  „Félega viðrar hann þessa stundina, eða hitt þó heldur“!

Félegur (l)  Álitlegur; eigulegur.  Venjulega í neikvæðri merkingu; „Þeir eru ekki félegir þessir kauðar sem endalaust karpa á þingi um innantóma vitleysu“!  „Það er aldeilis félegur útgangurinn á þér núna krakki“!  Í sömu merkingu er lýsingarorðið „térlegur“ sem þó er af annarri rót.

Félítill (l)  Ekki með mikil fjárráð; fremur blankur.  „Hann sagðist vera félítill þessa stundina“.

Fénaður (n, kk)  Upprunaleg merking er búfé, en notað í seinni tíð í víðari merkingu um verðmæti og í líkingamáli um hóp óvandaðra manna.  „Svona glæpahyski er ekki dægilegur fénaður“!  „Farið nú og rekið útaf strákar; mér sýnist allur fénaðurinn vera aftur kominn inná“!  „Fénaður var vel framgenginn, og gekk því sauðburður mjög vel“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58).  „Með því að líta í tölurnar sjá menn heybirgðirnar; fénaðinn að tölu, og svo hvernig hann áleist vera fóðraður“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Fénögl (n, kvk)  Hvít rönd við naglarrótina.  Hún var í þjóðtrúnni talin ábending um hve vel mönnum græddist fé; þeim mun meira sem hún var breiðari og skýrari.

Féránsdómur (n, kk)  Dómur á þjóðveldisöld sem hafði það hlutverk að gera upptækar og skipta eignum manns sem dæmdur var í fjörbaugsgarð, og útvega honum griðastaði/fjörbaugsgarða.

Fésæll (l)  Ríkur; lánsamur í viðskiptum.  „Hann var vel efnaður og þótti fremur fésæll“.

Fiða (n, kvk)  Eitthvað lítilfjörlegt og fislétt; t.d. flík; efni sem er loftkennt og létt í sér.  „Það er nú ofrausn að kalla þessa fiðu trefil“..  Notað t.d. um mjög fíngert og loftmikið þurrhey, sem hrófast upp sé það ekki troðið.  „Það er varla hægt að moka þessari fiðu með kvíslum“. 

Fiðra (s)  Verða loðinn af myglu; feyra.  „Annars var mörflot notað út á allan fisk.  Það átti að geyma mörinn og láta hann fiðra dálítið áður en farið var að hnoða“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms). 

Fiðurfénaður (n, kk)  Alifuglar; hænsni, gæsir og endur.  „Er nú fjandans fiðurfénaðurinn kominn  í garðinn eina ferðina enn“!  „Farðu nú og kastaðu í fiðurfénaðinn“.

Fiffa (s)  Hagræða; laga í skyndingu.  Síðari tíma tískuorð.  „Er ekki hægt að fiffa þessu á auðveldan hátt“?  Einnig nafnorðið „fiff“, um skyndilausnir eða brellur.

Fika (s)  Fikra; feta; færa.  Sjaldgæfara vestra en „fikra“ en notað í svipaðri merkingu.  „Hann er alltaf að fika sig meira upp á skaftið“.

Fikra (s)  Fara mjög hægt og varlega; feta.  „Fikraði sú fyrri sig alltaf tæpara og tæpara eftir brúninni en hin þræddi í sporin...“  (MG; Látrabjarg).

Fiktnáttúra (n, kvk)  Tilhneyging til að fikta/ prófa það sem getur verið hættulegt.  „Það gæti nú komið sú tíð að þér hefnist fyrir þessa bölvaða fiktnáttúru“!

Fiktrass (n, kk)  Sá sem fiktar mikið/leggur sig í hættu.  „Strákurinn er eldhress og hinn mesti fiktrass“.

Fimbulfamba (s)  Bulla; skálda.  „Það gagnar engum að fimbulfamba um það hvernig þetta hefði getað orðið“.

Fimbulfrost (n, hk)  Hörkufrost; firnamikið frost.  „Hann getur nú varla haldið svona fimbulfrosti að eilífu“.

Fimbulkuldi (n, kk)  Gaddfost; helkuldi.  „Hann heldur enn sama fimulkuldanum“.

Fimbulvetur (n, kk)  Mjög kaldur og erfiður vetur.  „Ekki er betra að ná fénu eftir að kominn er fimbulvetur“.

Fimmhundraðahæð (sérn, hk)  Nafn á hæsta hluta Hænuvíkurháls. „ Upp af Hærri-Láturdal er svo Fimmhundraðahæð, 324 m há.  Uppi á henni er tjörn sem heitir Aurtjörn“ (Örn.skrá Hænuvíkur).   Fimmhundraðahæðin var fiskimið af sjó:  „Fimmhundraðahæðin kemur framundan Láturdalshyrnu.  Djúpmið: Hafnarmúlinn framundan Hyrnunum.  Þar áttu að fást fimm hundruð fiskar þegar rennt var og fiskur var í göngu“ (SG; Örn.skrá Hænuvíkur).     Ekki voru allir sáttir við þessa skýringu nafnsins, og var uppruni þess löngum umræðuefni í Kollsvík.

Fimmróið (l)  Róið til fiskjar fimm sinnum sama daginn.  „Fyrir kom að það var fimmróið“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Fimmpundalína (n, kvk)  Lína af ákveðnum styrkleika.  „Færi voru úr fimmpundalínum, frönskum“  (GG; Kollsvíkurver).

Fingra (s)  Góma; ná taki á.  „Þetta er svo fíngert að ég á erfitt með að fingra það“.

Fingradigur (l) Með svera fingur.  „Helgi Árnason í Tröð var organisti í Breiðavíkurkirkju.  Þótti mörgum undrum sæta hve hann var fær í því, eins fingradigur og hann var.  Heldur var hann lágur í sæti, og því hafði hann sjafnan sérstaka steinhellu ofaná organistabekknum.  Hún er enn varðveitt ofaní bekk nýju kirkjunnar“.

Fingrafimur (l)  Handlaginn; fimur að fingra; næmur í fingrum.  „Ég er ekki nógu fingrafimur í prjónaskap“.

Fingralangur (l)  Gefinn fyrir að stela.  „Nú hefur einhver gerst fingralangur í kökuboxinu“.

Fingrarím (n, hk)  Forn aðferð við tímatalsreikning (sjá tímatal).  Með henni eru hnúar og liðir fingranna notaðir til að finna dagsetningar kirkjuhátíða, tunglkomur, vikudaga o.fl. ár og aldir fram og aftur í tímann á skjótan hátt.  Þetta krefst þó allmikillar þekkingar og góðrar reiknikunnáttu.  Þessi kunnátta lagðist að mestu af eftir tilkomu dagatala.

Fingravettlingar (n, kk, fto)  Vettlingar sem sniðnir eru að hverjum fingri; ekki belgvettlingar.  Orðið var meira notað áður yfir það sem nú er oftast kallað vinnuvettlingar.

Fingurbjörg (n, kvk)  A.  Lítil hetta, oftast úr málmi, til að vernda fingur gegn nálarstungu þegar saumað er, og til að ýta á eftir nálinni gegnum efni.  B.  Mælieining; viðmiðun um magn.  „Settu svosem eina fingurbjörg af þvottaefni hér útí vatnið“.

Fingurbjargarfylli (n, kvk)  Viðmiðun um mælingu vökva/dufts.  „Það var ekki von að vélarkvikindið kjaftaði lengur; það var ekki fingurbjargarfylli af bensíni á tanknum“!

Fingurmein (n, hk)  Sár á fingri.  „Mamma var fljót að búa um fingurmein þó plástur væri ekki við hendina.  Hún reif hæfilega breiða ræmu úr lérefti; vafði hana um fingurinn; reif uppí enda ræmunnar um 10 cm; vafði þeim mjóu renningum hvorum á móti öðrum og batt þétt að.  Með þessu hafðist sárið vel við“.

Fingursbreidd (n, kvk)  Lengdareining; tomma; um 2,5 cm.  „Ekki er sama hvort rætt er um fingursbreidd, eða þverfingur, en sú mælieining er um 17-20 mm“.  Einnig fingursbreiður; sama og tommulangur.

Finna (s)  A.  Hafa uppá; sjá það sem týnt var.  „Röltir nú Júlli út í kofa; finnur skrínu bróður síns og opnar hana“  (PG; Veðmálið).   B.  Hitta; eiga fund með.  „Viltu finna mig hérna smástund“?  C.  Fá tilfinningu fyrir; skynja.  „Ég fann múkkaæluna renna niður bakið á mér“.

Finna (eitthvað) á förnum vegi (orðtak)  Finna eitthvað á víðavangi; finna þar sem síst skyldi.

Finna hvar feitt er á stykkinu (orðtak)  Finna hvar von er um arð/hagnað.  „Hann er fljótur að finna hvar feitt er á stykkinu og hagnýta sér það“.

Finna hvar skórinn kreppir að (orðtak)  Skynja vandamál.  „Ég finn hvar skórinn kreppir að í þessu máli“.  Líking við þröngan skó.

Finna inná (orðtak)  Fá tilfinningu fyrir; finna út.  „Ég var fljótur að finna inna það að hann þurfti að segja mér eitthvað mikilvægt“.

Finna (einhvern) í fjöru (orðtak)  Hótun um skammir.  „Nú þarf að finna þennan þingmann í fjöru og nudda honum uppúr loforðunum sem hann gaf fyrir kosningar“.  Í gömlum lögum munu vera ákvæði um að þjófum skuli refsað í fjöru, og vísar orðtakið til þess.

Finna mun á sér (orðtak)  Finna breytingu á sér.  „Ég finn mikinn mun á mér eftir að ég losnaði við þessi aukakíló“.  Stundum notað um það þegar menn verða hífaðir/kenndir af áfengi; finna á sér.

Finna sér eitthvað til (orðtak)  Finna tylliástæðu/fyrirslátt.  „Hann finnur sér alltaf eitthvað til, svo hann þurfi ekki að mæta á fundi“.  „Menn geta alltaf fundið sér eitthvað til ef þeir vilja efna til ófriðar“.

Finna sér til (orðtak)  Taka til handagagns; gera klárt það sem á að nota; finna til.  „Bíddu aðeins; ég á enn eftir að finna mér til nothæfa vettlinga“.

Finna smérþefinn af (orðtak)  Komast á bragðið; fá forsmekkinn af.  „Það þyrfti að bjóða þessum þingmönnum öllum í heimsókn að vetrarlagi, svo þeir fái smérþefinn af samgöngumálum hér vestra“.

Finna snöggan/viðkvæman blett á (orðtak)  Um deilur; finna hvar andstæðingur er veikur fyrir.  Vísar líklega til snoðbletta sem stundum eru á sauðfé, en þar hlífir ekki ullin gegn kulda.

Finna (einhverju) stað (orðtak)  Sanna/sannreyna eitthvað; færa rök fyrir einhverju.  „Menn hafa ekki fundið þessari fullyrðingu nokkurn stað í öðrum heimildum“.

Finna til (orðtak)  A.  Hafa verki; verkja; hafa tilfinningu/samúð.  „Ég er allur að lagast eftir byltuna, en ég finn enn til í handleggnum“.  „Hún sagðist finna til með þessum vesalingum“.  B.  Finna sér til; finna það sem á að nota.  „Ég er búinn að finna til ílátin, vaðinn og hjálmana; nú ættum við að vera klárir“.

Finna til foráttu (orðtak)  Benda á galla/veikleika/neikvæða þætti.  „Hann var talinn ágætur hreppstjóri, en menn fundu það honum helst til foráttu hve hann var aumingjagóður“.  „Fann hann sameiningu ýmislegt til foráttu og helst þá mismunandi hagsmuni sveitabænda og kaupstaðarbúa“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Finna til þyngsla (orðtak)  Finnast maður vera veikur.  „Ég finn til árans þyngsla í höfðinu“.

Finnast/sýnast/virðast öll sund (vera) lokuð (orðtak)  Sjá ekki neinar færar útgönguleiðir í stöðu sinni; finnast vera í vonlausri aðstöðu.  Líking úr sjómannamáli; vísar til þess að leiðir séu ófærar um allar siglingaleiðir milli skerja/eyja/nesja.

Finnanlegur (l)  Sem hægt er að finna.  „Ég skila þessu til hans ef hann er einhversstaðar finnanlegur“.

Finnast nóg um (orðtak)  Vera (nær) ofboðið; finnast vera heldur mikið af því góða.  „Mér fannst alveg nóg um bölvað slúðrið í þeim og fór að bera í bætifláka fyrir hann“.

Finnast skömm til (þess) koma (orðtak)  Finnast miðu/lítilmótlegtr; skammast sín fyrir.  „Mér finnst skömm til þess koma ef enginn setur saman vísu af þessu tilefni“.

Finngálpast (s)  Fara um með látum; brauðhófast; ryðjast.  „Verið ekki að finngálpast uppi á borðinu strákar“.

Fipa / Fipast (s)  Rugla/ruglast.  „Nú fipaðirðu mig alveg í talningunni“!  „Ekki fipast honum við þetta verk“.

Firn og býsn / Firn og fádæmi (orðtak)  Með endemum; stórfurðulegt.  „Þetta þykja mér hin mestu firn og fádæmi!  Ætla þeir virkilega ekki að opna veginn fyrir þorrablótið“?!  Til forna merkti sögnin  að „firna“ að álasa/ávíta.

Firna (ao)  Mjög; afar.  „Ég lenti í firna basli með þetta“. 

Firnadýpi (n, hk)  Regindýpi; mjög mikið dýpi.  „Hérna réttu utan við kantinn er firnadýpi“.

Firnastór / Firnamikill (l)  Mjög stór/mikill.  „Það er firnamikill ís út af núpunum“.  „Þetta er firnastór jaki“.

Firra (n, kvk)  Fjarstæða; vitleysa.  „Þetta er bara eins og hver önnur firra; láttu mig vita þetta“!

Firtinn (l)  Gjarn á að firtast/móðgast/reiðast.  „Verið ekki að hleypa honum upp; þið vitið hvað hann er firtinn“.

Fisfúinn (l)  Grautfúinn; gegnfúinn.  „Það þýðir ekkert að nota þennan fisfúna drumb í hornstaur“.

Fisjað saman (orðtak)  Illa samsettur/gerður; hrófað upp.  „Það sýndi sig í þessari þolraun að honum er ekki fisjað saman“.

Fiska á bert (orðtak)  Veiða/dúa með berum krók(um).  Áðurfyrr mun stundum hafa verið fiskað á bert, einkum ef fiskur var kominn undir; orðinn viljugur.  Eftir tilkomu gervibeitu er það sjaldan gert.

Fiska eftir (orðtak)  Veiða uppúr; höggva eftir; reyna að fá upplýsingar um ákveðið málefni.  „Ég reyndi sérstaklega að fiska eftir því hjá honum hvernig verklagið var við þetta fyrr á tíð“.

Fiska fyrir föstu (orðtak)  Renna fyrir fisk meðan bátur liggur fyrir stjóra.  Þetta var t.d. gert meðan legið var yfir línu; þá bundu menn sig við annað bólið.  Talið var þó  fiskilegra að láta bátinn flatreka.

Fiska upp (orðtak)  Líkingamál um það að krækja/ná í eitthvað.  „Hnífurinn datt niðurum grindurnar, en mér tókst að fiska hann upp með vírlykkju“.

Fiska við fast (orðtak)  Stunda skakveiðar meðan bátur liggur fyrir föstu/ liggur við akkeri, en rekur ekki.

Fiska við laust (orðtak)  Stunda veiðar án þess að báti sé fest við stjóra/akkeri.  Oftast var talað um að láta reka, í þessari merkingu.

Fiskaður (l)  Búinn að afla fiskjar/ veiða; orðinn birgur/hlaðinn af fiski.  „Eitt sinn um vorið er við komum af sjó mjög vel fiskjaðir var talsvert brim komið, svo engin tiltök voru að lenda með óseilað“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Fiskast lítið á þurru landi (orðtak)  Enginn afli fæst ef ekki er róið.  Oft viðhaft, bæði í eiginlegri merkingu og sem liking um það að menn þurfi að bera sig eftir björginni.

Fiskaferð (n, kvk)  Heimflutningur vermanna á vertíðarafla.  „Eftir miðja 10. viku sumars fóru þeir sem lengst vor að komnir að hugsa til heimflutnings, og slepptu ekki góðu ferðaveðri úr því.  Fóru þeir þá heim á róðrarbátunum fullfermdum og sóttu önnur skip og stærri; áttæringa og teinæringa, til að flytja heim voraflann.  Ferðir þær voru kallaðar fiskaferðir.  Skip þessi voru reyndar öll tíróin eins og þau sem nefnd voru áttæringar, og höfðu því fimm rúm.  Fiskaferðaskipin báru flest 16-24 hundruð tólfræð, auk hausa þorsks og riklings.  Voru þau því tíðum miðuð við burðarmagnið og talin sextán-, átján- og tuttugu-hundraðaskip o.s.frv.  Allur fiskur og fugl var þá talinn í tólfræðum hundruðum, þ.e. 120 í hundraði hverju.  Jafnan var skilinn eftir maður af báti hverjum í verinu meðan fiskaferðaskipið var sótt.  Voru þeir nefndir eftirliggjarar.  Skyldu þeir hirða um afla þann sem ekki var full þurr og líta eftir fiskifangi og föggum félaga sinna.  Aldrei nam sú bið skemur en þremur dögum, stundum viku eða lengur“  (PJ;  Barðstrendingabók). 

Fiskafföll (n, hk, fto)  Fiskúrgangur; slóg; hryggir, hausar og innvols úr fiski við slægingu.  „Heimamenn og bændurnir notuðu þó sín fiskafföll til áburðar á túnin“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fiskaferðaskip (n, hk)  Skip sem notað er til fiskaferða.

Fiskbiti (n, kk)  A.  Biti/bútur af fiski.  B.  Matarskammtur af soðnum fiski.  „Liggur þér nokkuð á strax; viltu ekki hinkra eftir matnum og fá þér fiskbita með okkur“?

Fiskakóngur (n, kk)  Fiskur sem er þannig vanskapaður að hann hefur krung á nefinu.  Því var trúað að sá sem veiddi slíkan fisk yrði mjög aflasæll á eftir (sjá afli).

Fiskflís (n, kvk)  Ögn af fiski; lítilsháttar af harðfiski.  „Réttu mér dálitla fiskflís ef þú tímir að sjá af henni“.

Fiskhelgi (n, kvk)  Það svæði sjávar framundan jörð sem heyrir til jarðarinnar varðandi réttindi til nytja og eignar.  Um þetta gilda tvær regur, sem báðar eiga stoð í hinni fornu lögbók Jónsbók.  Önnur, og sú sem vísar til veiði- og eignarréttar,  er reglan um netlög.  „Allir menn eiga að veiða fyrir utan netlög að ósekju.  En það eru netlög yst er selnót stendur grunn, tuttugu möskva djúp að fjöru, og komi þá allar flár upp úr sjó....  Landeigandi á þar flutningar allar og vogrek allt og þá hvali alla er fyrir mönnum hlaupa á land upp, og veiðar allar í netlögum og í fjörunni“  (Jónsbók, 2. kapítuli Rekaþáttar).   Þetta jafngildir um 2,9m dýptarlínu.  Í veiðitilskipun árið 1849 voru netlög skilgreind á annan hátt, eða þannig að jörð ætti veiðirétt allt að línu sem afmarkaðist af 60 faðma fjarlægð frá ysta fjöruborði um stórstraumsfjöru.  Hin meginreglan á einnig stoð í Jónsbók, og tekur til eignarhalds á hval sem flýtur fyrir landi jarðar.  „Ef maður finnur hval á fljóti, þá skal hann flytja hvert er hann vill, ef það er utar fyrir annars manns landi en fisk sér á borði.  Það skal vera þorskur flattur, álnar í öxarþærum, á því borði er til lands veit...“  (Jónsbók 6. kapítuli Rekaþáttar).

Fiskhjallur (n, kk)  Sjá hjallur.  „Við endann á Evu ... var fiskhjallur kallaður Adam“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Fiskibein (n, hk)  Bein úr fiski; fiskbein.  „...en fiskurinn sem þeir veiddu var aðallega fiskibein sem voru þarna á stöku stað í sandinum“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Fiskifang (n, hk)  Afli sem kominn er á land.  „Ekki fór ég nú á sjó á hverjum degi, heldur var ég oft í landi til að gæta fiskifangs og hafa til beitu... “  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Fiskigengd (n, kvk)  Magn af veiðanlegum fiski í sjó.  „Slík fiskgengd hafði ekki sést í háa herrans tíð“.

Fiskifang (n, hk)  Afli; fiskveiðar.  „Lækirnir sem um hefur verið getið, komu í góðar þarfir til uppþvottar á fiskifangi áður en sett var í verkun; salt eða herslu“  (KJK; Kollsvíkurver).  „... og kæmi landlegudagur var nóg að gera; skera úr hausum; hlaða garða og vinna margt fleira við fiskifangið“  (ÓG; Úr verbúðum í víking).  „Á Skiptingshól ... komu menn einnig saman til að ...  sjá út sjóveður til hákarlaveiða og annarra fiskifanga ....“  (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).

Fiskifjalir (n, kvk)  Fjalir undir þóftu báts sem mynda skil, þannig að fiskur renni ekki á milli rúma í bátnum.  „Gættu þess að bursta vel fiskifjalirnar þegar þú þrífur bátinn“.

Fiskifluga (n, kvk)  Maðkafluga; Calliphora uralensis; tvívængja fluga af maðkaflugnaætt.  Fiskiflugur eru stórar, dökkar og fremur kubbslegar flugur sem algengar eru um allt land og sækja mikið í matvæli, einkum fiskmeti.  Þær sækja mjög í að vía fiskinn; þ.e. verpa eggjum sínum í hann, einkum í afkima og þar sem blóð eða slor er að hafa.  Úr víunum klekjast lirfur sem oftast kallast maðkar/hvítmaðkur, sem getur unnið veruleg spjöll á matvælum.  Fiskiflugan er því ekki aufúsugestur í verum, og reyna menn ýmis ráð gegn henni.  Best er, sé fiskur hengdur til þurrks, að hreinsa hann vandlega og gæta þess að sem minnst sé um afkima, slor og blóð.  Þá er mikið atriði að hann nái að þorna/skelja sem allra fyrst.  Óþurrkatíð gat orðið skæð flugnatíð.

Fiskifrétt n, kvk)  Tíðindi af aflabrögðum.  „Kanntu ekki einhverjar fiskifréttir af staðnum“?

Fiskifæla (n, kvk)  Uppnefni um mann sem veiðir lítið eða er talin fæla fisk undan bátnum.

Fiskigengd (n, kvk)  Ný og veruleg ganga fisks á mið.  „Það hefur verið þokkaleg fiskigengd uppá síðkastið“.

Fiskikarfa (n, kvk)  Karfa sem notuð er til að bera fisk.  Oftast fléttuð úr tágum áðurfyrr; nú úr plasti“.

Fiskikarl (n, kvk)  Dordingull; húsakönguló; veiðimaður.  „Þarna hangir fiskikönguló í sínu færi; stundum nefnd veiðimaður.  Hún er svo nefnd vegna þess að hegðunin minnir á veiðar með færi“.  Ólánsmerki var talið að slíta viljandi niður dordingul.

Fiskikóngur (n, kk)  Sá sem er aflahæstur.  „..Bjarni Jóhannesson fiskikóngur í Stykkishólmi... “   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Fiskilegt (l)  Veiðilegt; líkur á að veiðist.  „Hér finnst mér ekki fiskilegt.  Kippum dálítið dýpra“.  „Faðir minn talaði m að fara suður í Breiðubukt, því þar þótti fiskilegra“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Fiskileysi (n, hk)  Lítil veiði; lítill afli.  „Það má heita algert fiskileysi uppi á grunnmiðum nú um stundir“.

Fiskileysisár (n, hk)  Tími þegar lítið veiðist af þorski.  „Síðan fiskileysisárin tiltóku hefur landsdrottinn so dispenserað að nokkrur hafa ei goldið nema 3 fjórðunga (í vertoll í Láganúpsveri) “  (ÁM/PV Jarðabók). 

Fiskilóð / Fiskilína (n, kvk)  Lóð til fiskveiða.  Sjá lóð.

Fiskimaður (n, kk)  Sá sem veiðir fisk/ er duglegur að veiða.  „Hann er meiri fiskimaður en kvennamaður“.

Fiskimið (n, hk)  Mið; staður á sjó sem áður fyrr var miðaður útfrá kennileitum í landi.  Oftast þurfa tvö kennileiti að bera saman í aðalmið og önnur tvö í þvermið.  „Góð fiskimið eru víða útifyrir Kollsvík, en víst er að mið á mörg þeirra hafa gleymst“.

Fiskimjöl (n, hk)  Mjöl úr fiskúrgangi, en það var nokkuð keypt og notað sem fóðurbætir.  „Fóðurbætir, aðallega fiskimjöl og síldarmjöl, var venjulega í 100 kg pokum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Fiskinn (l)  A.  Um veiðimann; veiðir mikið; fiskisæll.  „Hann var fiskinn með afbrigðum og svo ákafur að hann hafði enga ró í sínum beinum ef nokkur skipverja var með svipaðan afla“ (GG; Skútuöldin).    B. Um veiðarfæri; veiðir vel.  „Mér finnst stöguð net stundum fisknari; einkum í miklum straumi“.

Fiskipoki (n, kk)  Poki með fiski.  „Við tókum saman ílát og annað sem við áttum að taka með okkur heim, og ekki máttum við gleyma fiskipokanum“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Fiskirí (n, hk)  Aflabrögð; afli.  „Hvernig hefur fiskiríið verið hjá ykkur þessa vikuna“?

Fiskirígur (n, kk)  Metingur milli manna um það hver/hvor hafi veitt meira.

Fiskiróður (n, kk)  Sjóferð til að afla fiskjar.  „Annað skipið, sem fyrr hélt af miðum, náði landi, og sýndist mönnum þá sjór ófær.  Þetta var í fiskiróðri og reru skipin frá Láturdal“ (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Fiskiskáli (n, kk)  Fornt heiti á verbúð. 

Fiskislóð (n, kvk)  Veiðislóð; fiskimið.  „Hinir formennirnir voru allkunnir fiskimiðum á Kollsvík og þekktu þar helstu boða og grynni; svo sem Djúpboða, Arnarboða, Leiðarboða og Þembu, sem allt eru blindsker á fiskislóð og brjóta ef um stórsjó er að ræða“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Fiskispaði / Fiskspaði (n, kk)  Áhald með til að taka soðinn fisk uppúr potti; flatur platti með skafti, oft götóttur.  Réttara mun að hafa orðið án „i“ í miðju, og þannig var það fyrrum í Kollsvík, þó hitt sé almennt talað nú.

Fiskistappa (n, kvk)  Maukaður soðinn fiskur, oft borinn fram með kartöflum og útáláti samanvið.  Í Kollsík var fiskstappa oft gerð úr afgöngum fyrri máltíðar; fiskur, kartöflur og mörflot stappað saman og borið fram heitt.  Væri fiskur og kartöflur ekki maukað, heldur hrært í bitum, hét það plokkfiskur.

Fiskistingur (n, kk)  Áhald til að taka upp fisk úr kös á jörð, t.d. til að færa hann upp í ruðning eða ker.  Einnig til að stinga rauðmaga í pollum.  Skaft með járnoddi í öðrum enda; svipar um sumt til broddstafs.

Fiskisúpa (n, kvk)  Súpa sem gerð er úr fisksoði.  „Gera má fiskisúpu úr öllum fiski, en best þykir hún úr feitum fiski s.s. lúðu.  Í hana er oft bætt rúsínum, lárviðarlaufi, salti og méli til þykkingar ef vill“.

Fiskisæld (n, kvk)  Um veiðisvæði/veiðitíma; góð veiði.  „Hér hefur verið mikil fiskisæld á grunnmiðum síðsumars“.

Fiskisæll (l)  A.  Um sjómann; fiskinn; veiðir mikið.  „Andrés var listasjómaður; heppinn og fiskisæll“.  B.  Um mið; gjöfult; veiðist oft mikið.  „Þar fyrir framan eru hin fiskisælu Kollsvíkurmið, sem er sandræma fyrir allri Víkinni, með þeim boðum og grynnum sem áður eru talin; dýpi um 12 faðmar“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Fiskiver (n, hk)  Ver.  Oftast var notað orðið ver í Kollsvík í seinni tíð, en þó heyrðist stundum nefnt fiskiver.  Líklega er það síðarnefnda upprunalegra, en hefur verið stytt í málinu.

Fiskivænlegt (l)  Líkur á að veiða; líklegt til fiskjar.  „Fiskivænlegra þótti að leggja línuna nærri þessum hleinum eða miðum, og oft var keppst um að ná þeirri aðstöðu“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fiskkró (n, kvk)  Söltunarkró; stía sem fiskurinn er saltaður í.  „Við lækinn sunnanverðan voru ruðningar, þar sem gert var að fiski og fiskkrær stóðu sem fiskurinn, þ.e. þorskurinn, var saltaður í“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fiskkvikindi (n, hk)  Einn stakur fiskur eða fáir fiskar.  Stundum í neikvæðri setningu.  „Hér er ekki fiskkvikindi að hafa“.  „Fáein fiskkvikindi öngluðum við upp yfir daginn“.

Fisklaus (l)  Enginn fiskur.  „Um árabil var fisklaust á öllum grunnmiðum“.  „Maður getur ekki verið fisklaus“.  „Á öllu grunninu verður fisklaust á veturnóttum“  . ... Meðan dragnótaveiðar voru ótakmarkaðar var orðið fisklaust að kalla inni í fjörðunum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Fiskleysi (n, hk)  A.  Enginn fiskur á miðum.  „Þeir kvarta undir fiskleysi syðra núna“.  B.  Skortur á fiski til matar.  „Hann sagðist aldrei hafa þurft að búa við fiskleysi meðan hann bjó í Kollsvík“.

Fiskleysisár (n, hk)  Tími fiskleysis.  „Kollsvíkingar hafa getað framfleytt sér á búskap í fiskleysisárum“.

Fisklítill (l)  Lítið um fisk.  „Ég fer að verða fisklítill; maður þyrfti að fara að komast í róður“.

Fiskmeti (n, hk)  Fiskur til matar.  „Steinbítur er bundinn í bagga, sem og annað fiskmeti, svo það taki minna rúm í flutningi“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fiskmetiskös (n, kvk)  Hrúga af matfiski.  „Yfirbreiðslur höfðu lítið hlíft.  Sandur hafði allsstaðar smogið undir og inn í fiskmetiskösina “  (KJK; Kollsvíkurver).

Fiskrask (n, hk)  Það af fiski sem ekki er nýtt sem mannamatur.  Fiskrask var jafnan borið á tún áðurfyrr í Kollsvík.  Eflaust á það mikinn þátt í þeirri grósku sem þar er í gömlum skeljasandstúnum, t.d. á Láganúpi, Hólum og Grundum.

Fiskreitur (n, kk)  Þurrkreitur; manngerður steinlagður hóll eða þústa,  sem notaður var til að þurrka fisk í veri.  „Fiskreitir voru lagðir grjóti og þurfti jafnan að rífa þá upp á hverju vori, því sandur barst í þá að vetrinum“  (KJK; Kollsvíkurver).  Sjá einnig þurrkreitur.  „Þá þurfti að rífa upp alla fiskreiti, en þeir fylltust af sandi á hverjum vetri.  Reitirnir voru úr smágrjóti sem var raðað þétt saman til þess að þurrka á saltfiskinn.  Seinna komu vírreitir sem voru á lofti“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Fiskslor (n, hk)  Fiskslóg; ræksni; innyfli og afgangar af fiski.  „Þá var eitt skylduverkið að keyra fiskslorið í kerru úr Verinu og heim að Láganúpi.  Þar var það látið rotna í tunnu og síðan var það blandað með vatni og notað sem áburður“  (IG; Æskuminningar). 

Fiskslóg (n, hk)  Fiskslor; slóg.  Sjá slóg.

Fisksoð (n, hk)  Soð af fiski; vatn sem fiskur hefur verið soðinn í.  „Fisksoð er hinn næringarríkasti drykkur“.

Fiskstirtla (n, kvk)  Sjá stirtla.

Fiskstykki (n, hk)  Stykki/bútur af fiski.  „Gefðu mér eitt fiskstykki í viðbót á diskinn; helst sporðstykki“.

Fiskstakkur / Fiskstæða / Saltfiskstæða (n, kk/kvk)  Stafli af saltfiski, sem raðað er reglubundið upp.  „Mikil framför þótti þegar unnt var að geyma allar fiskstæður innandyra“.

Fisktittur (n, kk)  Lítill fiskur; smáfiskur.  „Það var ekki nokkurn fisktitt að hafa uppi á grunnmiðum um margra áratuga skeið, en nú stendur á hverju járni ef slóði kemur í sjó“.

Fisktutla (n, kvk)  Tægja/ögn af fiski.  „Mig var farið að langa í fisk.  Ég hafði ekki smakkað fisktutlu í háa herrans tíð í þessari sveit“.

Fiskvart (l)  Vart við fisk.  „Á þeim miðum hefur ekki orðið fiskvart í seinni tíð“.

Fiskur (n, kk)  Hryggdýr í sjó, samkvæmt almennri skilgreiningu í dag.  B.  Þorskur.  Fyrrum var málvenja að einungis væri átt við þorsk þegar rætt var um fisk:  „Formenn þessir (í Láganúpsveri) og hásetar gefa í vertoll ½ vætt, og afhendist þar hálft í fiski; hálft í steinbít... “  (ÁM/PV Jarðabók). 

Fiskur á hverju járni / Fiskur á hverju bandi (orðtök)  Um veiðiskap; fiskur á öllum önglum á slóða færis, eða svo langt sem séð verður niður á lóð í drætti.  „Við lentum í honum svo snarvitlausum að um tíma stóð fiskur á hverju járni“.  „Færum var rennt í sjó, og strax var fiskur á hverju bandi; allir kepptust við dráttinn“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Fiskur genginn á grunn (orðtak)  Þorskur kemur gjarnan upp á grunnmið í göngum þegar hlýnar í sjó á vorin.  Það gerist gjarnan um sumarmál, og var vorvertíðum í Kollsvíkurveri hagað eftir því.  „Í þessari ferð fréttum við að Kollsvíkingar hefðu róið og orðið varir við fisk.  Það var vani að róa með handfæri svona fyrst, áður en farið var með lóðir; til að prufa hvort fiskur væri kominn á grunninn“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Fiskur liggur undir steini (orðtak)  Eitthvað býr undir; leyndarmál/ráðgáta verður ljós.  „Hér er ekki allt eins og það sýnist; mig grunar að þarna liggi fiskur undir steini“.  Notað um málefni/umræðuefni sem fer á milli mála/ fer leynt.  Líkingin vísar líklega til fisks sem dylst við stein eða árbakka.

Fiskverkunarland (n, hk)  Svæði/lóð sem fiskur er verkaður á.  Meðan fiskur var breiddur til þerris þurfti til þess allmikið svæði undir fiskreiti og fiskstakka/fiskstæður.  „... keypti félagið sölubúð hans og hafði þar á eftir húsin og allmikið fiskverkunarland ...“ “  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Fiskvænlegt (l)  Von um veiði; fiskilegt.  „Það er ekki fiskvænlegt á grunnmiðum eftir svona stórviðri“.

Fiskþvottur (n, kk)  Þvottur á söltuðum fiski.  „Einnig var oft einn maður af báti skilinn eftir í landi við fiskþvott eða annað viðkomandi verkuninni“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fiskþykkt (n, kvk)  Þykkt á fiskholdi.  „Flökin (af lúðunni) hengd upp og látin skelþorna; síðan voru þau rist þannig að skurður var skorinn inn í miðja fiskþykktina.  “  (KJK; Kollsvíkurver).

Fisléttur (l)  Mjög léttur; laufléttur.  „Þetta er svo fislétt að ég ræð alveg við það einn“.

Fitja uppá (orðtak)  Byrja verkefni/umræður.  „Við fitjuðum uppá ýmsu, okkur til skemmtunar“.

Fitja uppá nefið (orðtak)  Sýna andúð/fyrirlitningu/hneykslun.  „Hann þurfti mikið að fitja uppá nefið yfir þessari niðurstöðu fundarins“.

Fitja uppá trýnið (orðtak)  Um dýr, einkum hunda; sýna tennurnar sem varnaðarmerki eða í illsku.  „Hundurinn fitjaði uppá trýnið og urraði þegar kjölturakkinn kom hlaupandi“.

Fitleiki (n, kk)  Strabbi; brestur; dilla; einn margra nafngreindra hluta á lúðu.  „Þess voru dæmi að sá hluti fitleikans sem fylgdi bolnum þegar sporðurinn var skorinn frá, væri einungis nefndur brestur, en strabbi parturinn sem var áfastur blökunni“ (LK; Ísl.sjávarhættir; heimld: Guðbj.Guðbjartsson).

Fitubeit (n, kvk)  Beit sem saufé er sett á til að fita það fyrir slátrun.  „Sighvatur lét sauð síga niður í Stóðin sem við hann eru kennd.  Hann hafði hann þar yfir sumarið í fitubeit og seig eftir honum um haustið“. 

Fitudróg (n, kvk)  Fituögn; tægja/ögn af fitu/mör.  „Eittsinn þótti ket ekki matur nema það væri sæmilega feitt.  Nú eru menn hrifnastir af horketinu.  Hvergi má sjást fitudróg í nokkrum mat“!

Fífill (n, kk)  Túnfífill; ætifífill; Taraxacum officinale.  Algengt fjölært blóm af körfublómaætt.  Af honum eru þó ýmsar undirtegundi sem erfitt er að greina í sundur.  Eins og nafnið bendir til vex túnfífill gjarnan í frjósamri mold; helst nokkuð sendinni, s.s. hæfilega ábornum túnum; síður þó í sáðsléttum eða mójörð.  Plantan er með stólparót; upp af henni vaxa annarsvegar laufblöð sem nefnast hrafnablökur (sjá þar) og hinsvegar holur stilkur með fagurgulu blómi; oft 10-40 cm hár.  Í allri plöntunni er fíflamjólk (sjá þar); hvítur beiskur safi.  Beiskja hennar er mest síðsumars í rótinni, en á vorin í blöðum og stilk.  Blómkarfan er þéttskipuð aflöngum gulum blöðum í hvirfingu.  Hún lokast á kvöldin og opnast í sólarupprás ef úrkomulaust er.  Þegar líður á þroskaskeið plöntunnar breytist blómkarfan í biðukollu.  Hún er samsett úr fjölda fræja, sem hvert hefur laufléttan hárbrúsk efst á stilk.  Fræin losna af plöntunni í vindi, sem grípur fræðið í þessari fallhlíf sinni og getur borið það langar vegalengdir.  Algeng skemmtun barna var að brjóta stilkinn af og blása bræjum af biðukollunni. 
Fífillinn var nytjaður áðurfyrr.  Segir Björn Halldórsson í Grasnytjum sínum 1783 að fíflarætur séu góðar, séu þær soðnar í mjólk, nægilega lengi til að remman fari úr þeim. Ræturnar megi einnig þurrka til mjölgerðar.  Blöðin megi nota í salat.  Þau hafi sefandi áhrif.  Segir björn að marin sé jurtin góð við höfuðverk og bruna.  Einnig að seyði af plöntunni bæti andlitslit manna.  Á síðari tímum hefur lækningagildi fífils verið rannsakað með tilraunum.  M.a. virðist af þeim að fíflaafurðir virki hemjandi á krabbameinsfrumur, t.d. í brjóstakrabbameini.  Ekki er talið að neysla fífils hafi nein eitrunaráhrif.

Fíflagangur / Fíflaháttur / Fíflaskapur  (n, kk)  Bjánagangur; heimska; kjánalegir tilburðir.  „Auðvitað var það ekkert nema fíflagangur að reyna þetta“!  „Hvað skyldi þessi fíflagangur eiga að þýða þarna í þinginu“?

Fíflalega (ao)  Aulalega; kjánalega.  „Greyið mitt hagaðu þér ekki svona fíflalega“!

Fíflalæti (n, hk, fto)  Tilgangslaus hávaði/fyrirgangur.  „Hættið nú þessum fíflalátum krakkar“!

Fíflamjólk (n, kvk)  Mjólkurlitur, beiskur vökvi sem er í æðum fífils og veldur því að hún er ekki bitin af búfé.  Kreista má fíflamjolk t.d. úr leggnum. Sjá fífill.

Fíflinu skal á foraðið etja (orðatiltæki) Um það að vísa heimskum manni yfir hættulega leið.  Notað um það að etja heimskum manni til að gera það sem hinir forðast/hræðast sem telja sig vera skynsamari. 

Fífufláki (n, kk)  Svæði vaxið fífu, oftast í mýrlendi.  „Varaðu þig á seilinni þarna handan við fífuflákann“.

Fígúra (n, kvk)  A.  Stytta; eftirlíking; mannsmynd.  „Hann teiknaði einhverjar fígúrur á striga“.  B.  Niðrandi heiti á manni; skrípi; bjáni.  „Það eru furðulegar fígurur sem vinna þarna á skattstofunni“.

Fígúruháttur (n, kk)  Sýndarmennska; fíflagangur; ýkt/yfiborðskennd hegðun.  „Alltaf er hann með þennan fígúruhátt ef kvenfólk er nálægt“.

Fígúrulegur (l)  Kjánalegur; með ýkta/yfirborðskennda hegðun.  „Mér fannst hann alltof fígúrulegur“.

Fílefldur (l)  Mjög sterkur/hress/öflugur.  „Við látum þetta gott heita í dag en mætum fílefldir í fyrramálið“.

Fílsterkur (l)  Mjög sterkur/kraftamikill.  „Hann er fílsterkur, drengurinn“.

Fína til (orðtak)  Laga til; gera fínt.  „Ekki veitti manni af að fína aðeins til í herberginu“.

Fínheit / Fínirí (n, hk, fto)  Skart; mikil snyrtimennska; prjál.  „Ég nenni ekki að vera með bindi eða slík fínheit“.  „Það kom ýmislegt fínirí í Kaupfélagið nú fyrir jólin“.

Fínheita (ao)  Ágætis; dýrindis; herlegheita.  „Það þýðir nú lítið að mæta í smölun á einhverjum fínheita blankskóm!  Áttu ekkert almennilegt á lappirnar“?

Fínn/Fínlegur í tauinu (orðtak)  Prúðbúinn; uppábúinn; snyrtilega klæddur.  „Mikið ertu fínn í tauinu núna“.

Fínsmiði (n, kvk)  Smíði úr smágerðum hlutum, sem krefst nákvæmni, handlagni og góðra verkfæra.  „Fáir munu hafa staðið Guðbjarti Egilssyni á Lambavatni á sporði í fínsmíði.  Sá hæfileiki erfðist til barna hans; Sigíðar, Svavars; Pálma og Gylfa, sem öll eru orðlögð fyrir handlagni“.

Fínviðri (n, hk)  (n, hk)  Gott veður; prýðisveður.  „Það gerði mugguskratta hér í morgun, en eftir það hefur verið fínviðri og bjart“.

Fír (n, kk)  Niðrandi heiti á manni.  „Hvað skyldi sá fír halda að hann geti?  Hann ætti bara að hafa sig hægan“!

Fíra (s)  A.  Um hífingu; gefa niður; slaka.  „Ætlar þú að vera í bátnum og taka á móti, ef ég fíra eggjunum niður“?  B. Skjóta.  „Ég fíraði náttúrulega á tófuna, en færið var alltof langt“.

Fíra af (orðtak)  Hleypa af; skjóta.  „Fíraðu af maður; ætlarðu að missa hann úr færi“!

Fírhólf (n, hk)  Eldhólf á kola-/olíueldavél.  „Nú þurfum við að bíða eftir að fírhólfið kólni“.

Fírkantur (n, kk)  Járn/tré sem er ferkantað í þversnið; sérstaklega lagaður skrúflykill.

Fírtomma (n, kvk)  Fjögurra tommu langur saumur/nagli.  „Ég fékk pakka af galvaniseraðri fírtommu“

Fírugur (l)  Fjörugur; hress; glaðlyndur.  „Sá gamli var bara ári fírugur, og dansaði eins og herforingi“.

Físisveppur (n, kk)  Belgsveppur (Lycoperdalae) sem algengur er í hæfilega þurru mólendi.  Verður hnöttóttur, á stærð við epli; hvítleitur í byrjun og gróin innaní þá eins og skyr.  Nefnist þá skyrsveppur eða merarostur.  Síðar verður innihaldið brúnleitt, líkt og ræpa eða gor, og nefnist sveppurinn þá gorkúla.  Enn síðar gránar hirslan að utan og gróin verða brún, þurr og rokgjörn.  Þá nefnist sveppurinn físisveppur eða kerlingareldur.  Sé hann sprengdur á því stigi dreifast gróin líkt og reykský. Algengasta heitið í Kollsvík er gorkúla. 

Fítonsfart (n, kvk)  Ógnarhraði; asi; hraðferð.  „Hann skurkaði hér framhjá á þessari býsna fítonsfart; ég held að það hljóti að hafa orðið slys einhversstaðar“!

Fítonskraftur / Fítonsandi (n, kk)  Ofurmannlegur kraftur; óskiljanlegur kraftur.  „Óskiljanlegur er sá fítonskraftur sem hefur verið í karlinum við allar þessar grjóthleðsur, þegar höfð eru í huga önnur verk hans og heilsubrestur“.  „Það hlýtur að hafa hlaupið í hann einhver fítonsandi“.

Fjaðurpenni (n, kk)  A.  Penni sem gerður er af flugfjöður fugls.  Slíkir pennar voru notaðir lengi fyrr á öldum; m.a. til ritunar skinnhandritanna.  B.  Pennastöng með stálþynnu (pennafjöður) sem notuð er á líkan hátt og hinir eiginlegu fjaðurpennar; þ.e. dýft í blek.  Fyrirrennari blekpenna og kúlupenna. 

Fjaðurnál (n, kvk)  Rúllupylsunál; pokanál; stór saumnál sem notuð var við frágang matvöru o.fl.

Fjalarspækja (n, kvk)  Léleg fjöl; fjalarbrot.  „Ég negldi fjalarspækju yfir gatið til bráðabirgða“.

Fjalarstubbur / Fjalarstúfur (n, kk)  Stutt fjöl/spýta.  „Mjaltakollurinn var út fjalastubbum“.

Fjalfella (n, kvk)  Notað um ís eða annað sem þekur yfirborð; „Það var fjalfella af ís á sjónum, svo langt sem augað sá“.  „Síldin var eins og fjalfella um allan sjó“.  „Við lítum niður...þarna er ein fjalfella öll fjaran:  Við sjáum þarna dýnur og fatnað...úr strönduðu skipi...“  (MG; Látrabjarg).

Fjalhögg (n, hk)  Höggstokkur, t.d. trjádrumbur upp á endann, sem þægilegt var að höggva t.d. kjöt í spað, höggva til viðaráhöld eða annað.

Fjallabaksleið (n, kvk)  Lengri leið en unnt er að fara; óþarflega löng/torsótt leið.  Mest notað í líkingamáli, t.d. þegar menn hafa langt mál um það sem mætti segja í fáum orðum, eða fara óþarfa krókaleið.

Fjallabjart (l)  Nægilega bjart vegna náttmyrkurs eða dimmviðris til að sjáist til fjalla; bjart uppaf.  „Það er orðið fjallabjart.  Við ættum að drífa okkur af stað að smala“.

Fjallafála (n, kvk)  Ljónstygg kind sem erfitt er að smala af fjöllum.  „Sú var tíðin að maður hafði roð við hverri einustu fjallafálu“.

Fjallferð (n, kvk)  Ferð yfir fjall/heiði/háls.  „Það leggur enginn í fjallferðir í þessu útliti“!

Fjallagrasagrautur (n, kk)  Sjá grasagrautur.

Fjallagrasamjólk (n, kvk)  Sjá grasamjólk.

Fjallagrasaseyði Sjá grasaseyði.

Fjallagrasate (n, hk)  Sjá grasate.

Fjallagrasatekja (n, kvk)  Tínsla fjallagrasa; svæði þar sem mikið er um fjallagrös.  „Í Grasabrekkum er fjallagrasatekja“  (ÍH; Örn.skrá Melaness).

Fjallagrös (n, hk, fto)  Skræður; fléttur sem vaxa upp um fjöll og eru tíndar til mata; Lichen Islandicus.  „Vakan var til kvöldmatar kl 9.  Það var oftast flautir og bygggrautur með fjallagrösum“ ... „ Farið var til grasa á hverju vori eða sumri.  Fjallagrös voru notuð bæði í brauð og grauta.  Það eru reglulega góð rúgbrauð, blönduð með fjallagrösum.  Grasatevatn var búið til úr fjallagrösum og mjólk“   (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).   „Farið var til grasa á hverju vori eða sumri.  Fjallagrös voru notuð væði í brauð og grauta.  Það eru reglulega góð rúgbrauð blönduð með fjallagrösum.  Grasatevatn var búið til úr fjallagrösum og grasamjólk“  “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  

Fjallahringur (n, kk)  Röð af fjöllum í hring/boga kringum láglendi.  „Fjallahringurinn í Kollsvík er einstalega tignarlegur; allt frá Blakknesi og Núp, suður um Jökladalshæð; Hæð; Kóngshæð; Hauga; Stórafell; Litlafell; Axlarhjalla; Sandslágarkjaft; Hærri Hjalla; Nónvörðu; Þúfustekk og vestur á Undirhlíðarnef og Hreggnesa“.  „Víkin sjálf var einnig fögur, þótt ekki væri hún ýkja gróðursæl.  Fjallahringurinn einnig fagur og tilkomumikill“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fjallarok (n, hk)  Mjög snarpur vindur hlémegin við fjöll.  „... ég er að enda við að renna stýrinu fyrir þegar slær niður fjallaroki með þeim stærsta sjó sem ég hef fyrirhitt“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli).

Fjallasýn (n, kvk)  A.  Ásýnd fjalla.  „Óvíða er fegurri fjallasýn en í Kollsvík“.  B.  Fara fjallasýn; sjá þar.

Fjallaskúrir (n, kvk; fto)  Skúraleiðingar til fjalla, sem ekki gætir á láglendi.  „Einhverjar fjallaskúrir hafa verið frammi í Keldeyrardal, en við fengum alveg frið til að raka upp“.

Fjallavegleysa (n, kvk)  Ferðalag um fjöll utan vega.  „Við hugsuðum okkur að fara fjallavegleysu útá Bjarg, en hverfum brátt frá því...“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Fjallbrattur (l)  Um mann; eldhress; óbanginn.  „Ég er búinn að jafna mig á pestinni og orðinn fjallbrattur“.

Fjalldrapi (n, kk)  Betula nana; dvergbirki; lágvaxinn/jarðlægur runni af birkiætt sem vex víða til fjalla í deigu molendi.  Í Kollsvík er hann núna útbreiddastur í Víðilækjum í Vatnadal.  Telja má öruggt að hann hafi verið mun útbreiddari áður; jafnvel niður allan Vatnadal og í Kollsvíkinni.  Hinsvegar hefur hann eflaust verið rifinn mjög til nytja, og búsvæðin því minnkað.  Fjalldrapi var mikið notaður til eldiviðar; sem tróð í húsþök og í rúmstæði; til kolagerðar og til reykinga matvæla.

Fjallfróður (l)  Hefur mjög mikla þekkingu; veit mikið.  „Þú ættir að inna hann eftir þessu; hann er fjallfróður á þessu sviði“.

Fjallgöngur / Fjallleitir (n, kvk, fto)  Göngur; smalamennskur; fjallskil.  „Tvennar skulu fjallgöngur á hausti.  Fyrri leitardagur skal vera mánudagur í 22. viku sumars; síðari leitardagur tveimur vikum seinna“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).  Yngri merking orðsins fjallgöngur er að príla fjöll sér til skemmtunar.

Fjallkonan (n, kvk)  Kvenímynd sem rómantísk skáld 18. og 19.aldar komu á fót sem ímynd Íslands.  Fyrsta skáldið til þess var Eggert Ólafsson, en síðar t.d. Bjarni Thorarensen í „Eldgamla Ísafold“.  Fjallkonunni var mjög hampað á áratugunum kringum lýðveldisstofnunina.  Enn er hennar minnst á lýðveldissamkomum, þegar leikkona í hennar gervi les upp ættjarðarljóð, en óvíst er að hún lifi af jafnréttisbylgju samtímans.

Fjalllendi (n, hk)  Fjöllótt og hæðótt landslag; hálendi.  „Útvíkurnar liggja að hafi til norðvesturs; aðskildar sín á milli og frá öðru láglendi af allmiklu fjalllendi; núpum, hæðum og hálsum“.  „…sökum mikils og sívaxandi ágangs fjár frá Barðstrendingum á fjalllendi Rauðsendinga“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Fjallsbrún (n, kvk)  Efst á fjalli; efsti hluti fjallshlíðar.  „Ég sá kindurnar hverfa uppaf fjallsbrúninni þarna“.

Fjallsegg (n, kvk)  Efsti hluti fjalls; fjallsbrún.  „Hér er allt á kafi í snjó nema hæstu fjallseggjar“.

Fjallskil (n, hk, fto)  Göngur; fjárgöngur; fjárleitir.  „Öllum er skylt að gera fjallskil, sem jörð eða kind eiga“.

Fjallskilamál (n, hk)  Málefni sem varða fjallskil.  „Ívar Ívarsson hafði framsögu um fjallskilamál“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Fjallskilaseðill (n, kk)  Gangnaboð; blað sem hreppsnefnd útbjó; listi yfir allar jarðir í hreppnum og þá sem skyldu annast fjallskil, ásamt réttardögum og hvar skuli rétta.  Fjallskilaseðillinn var látinn ganga bæ frá bæ, rétta boðleið,  og var hver viðtakandi skyldur að koma honum til næsta bæjar í þeirri röð sem seðillinn sagði.  „Hlutaðeigandi sveitarstjórn skal semja fjallskilaseðil og birta þeim sem hlut eiga að máli; minnst viku fyrir göngur...“ (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).

Fjallskilasjóður (n, kk)  Sjóður vegna fjallskila- og réttamálefna.  „Oddviti óskaði eftir að heyra álit manna um það hvort kjósa ætti alla fjallskilanefnd og stofna fjallskilasjóð“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Fjallskilaskylda (n, kvk)  Gangnaskylda; skylda fjáreiganda/jarðeiganda til að gera fjallskil.  „Ef menn sinna ekki fjallskilaskyldu ættu þeir hvorki að fá að eiga jörð né fé“.

Fjallskilaskyldur (l)  Skyldugur til að smala ákveðið svæði að hausti.  „Fjallskilaskyldur er hver fjáreigandi; hver ábúandi eða húsráðandi sem fé á.  Einnig er hann fjallskilaskyldur fyrir hjú sín og börn, eigi þau fé; einnig fóðrafé og hagagöngufé...“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).

Fjallslægjur (n, kvk, fto)  Útslægjur; hey sem fengið er af slægjum í úthaga, t.d. brok af tjörnum eða gras úr bjargflesjum.  „Þetta er sorgarsagan um fjallslægjur á Vestfjörðum.  Ef mýrarnar þorna er berglagið undir þeim svo opið að jarðvegurinn hverfur að mestu og eftir verður aðeins mosinn, þegar best lætur; annarsstaðar bara berar urðirnar“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Fjallsmegin (ao)  Þeim megin sem vísar að fjalli/fjallshlíð.  „Ég komst framhjá steininum fjallsmegin“.

Fjallsnúpur (n, kk)  Áberandi/stór núpur/múli.  „Landamerkjahlein markar landamerki Láganúps og Breiðavíkur; er það klettahlein fremur lág og löng sem liggur fram undan fjallsnúpnum Breið u.þ.b. miðjum“  (HÖ; Fjaran)

Fjalltryggur (l)  Mjög tryggur; óaðskiljanlegur.  „Ég hef engan vitað fjalltryggari en þennan hund“.

Fjallvegasamgöngur (n, kvk, fto)  „Fjallvegasamgöngur við Kollsvíkinga héldust óbreyttar til ársins 1955, að lokið var við bílveg alla leið yfir Hænuvíkurháls“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Fjallvegur (n, kk)  Vegur yfir fjalllendi/háls.  „Líklega eru hvergi fleiri fjallvegir á byggðu bóli á Íslandi en í Rauðasandshreppi.  Meðan skólaakstur var stundaður að Grunnskólanum í Örlygshöfn þurfti skólabíll að fara yfir 3 fjallvegi; Hænuvíkurháls að Kollsvík; Hafnarfjall að Breiðuvík og Skersfjall á Rauðasand.  Til viðbótar eru fjallvegir yfir Látraháls að Hvallátrum, um Brunnahæð að Keflavík og troðningur um Hnjótsheiði inn í Dalverpi og á Brúnir.  Hér er þó ekki talin með Hlaðseyrarhæð á leið til Eyra, né Kleifaheiði, né Mikladalsfjall til Tálknafjarðar, sem áður var að hluta í Rauðasandshreppi“.

Fjallþök (n, hk, fto)  Fjalfella; samfelld breiða á yfirborði.  „Frá Surtseyjargosinu voru um tíma fjallþök af vikri um allar fjörur í Kollsvík“.

Fjandafæla (n, kvk)  A.  Viðsjárvert/hættulegt fyrirbæri.  „Það var ljóta fjandafælan þessi kvótalög“. B.  Jurt sem vex víða til fjalla, þó ekki í Kollsvík svo vitað sé.  Var áður notuð til að fæla frá sér drauga og ára.

Fjandagangur (n, kk)  Fyrirgangur; gauragangur; læti.  „Fyrr má nú vera bölvaður fjandagangurinn“!

Fjandalega (l)  Illa.  „Mér líður bara fjandalega af þessari pest“.  „Netin fóru fjandalega í norðangarðinum“.

Fjandalegur (l)  Mjög slæmur.  „Tuddinn er fjandalegur við að eiga fyrir einn; ég kem með þér“.

Fjandaher (n, kk)  Herlið óvina; óvelkominn hópur.  „Voruð þið ekki að reka túnrollurnar útaf rétt áðan?  Ég sé ekki betur en þessi fjandaher sé aftur kominn inná“.

Fjandakornið (n, hk, m.gr)  Blótsyrði eða áhersluorð.  „Ég veit fjandakornið ekki hvað skal segja um það“.

Fjandalega (ao)  Bölvanlega; illa; helvítlega.  „Mér líður bara fjandalega í bakinu eftir þessi átök“.

Fjandalegt (l)  Bölvað; slæmt.  „Það er fjandalegt að ná taki á þessu“!

Fjandalið (n, hk)  Hópur óvinveittra; óvelkominn hópur.  „Ég ætla að fara og víkja þessu fjandaliði úr túninu“.

Fjandann (sjálfan) að ég veit! (orðtak)  Mér er alls ekki kunnugt um það; ég veit ekkert um það.  „Það má ljótikarlinn vita hvar þetta hrútahyski heldur sig núna; fjandann að ég veit“!  Áhersla á „ég“.

Fjandann ekkert / Fjandann ekki neitt (orðtak)  Lítið sem ekkert; óverulegt.  „Ég finn fjandann ekkert til í þessu lengur“.  „Það var fjandann ekki neitt að hafa á grunnmiðum í sumar“.

Fjandann ráðalausan (orðtak)  Mjög mikið; oheyrilega;endalaust.  „Hann ætlar bara að rigna fjandann ráðalausan“!  „Hann dró fjandann ráðalausan yfir allan snúninginn, meðan ég fékk andskotan ekki neitt“!

Fjandans (n, kk, ef.m.gr.)  Blótsyrði sem nokkuð oft er notað til áhersluauka með nafnorðum..  „Fjandans óheppni var að tapa slóðanum“!  Fjandans vesen er þetta“. 

Fjandans/andskotans nógu gott  „Ég held að ég sé andskotans nógu fínn fyrir svona samkomu“.  „Skyldi þetta ekki vera fjandans nógu gott í kjaftinn á þeim“!

Fjandans ekkisen (orðtak)  Upphrópun með mikilli áherslu.  „Fjandans ekkisen óheppni var þetta“!

Fjandans nógu gott (orðtak)  Fullgott; alveg nægjanlegt.  „Þetta ætti að vera fjandans nógu góð redding í bili; ég laga netið betur þegar við fáum betra næði“.

Fjandans sama (orðtak)  Alveg sama; skítsama.  „Mér er fjandans sama hvað hann segir um þetta; svona gekk það fyrir sig, og ekki orð um það meir“!

Fjandans/fjárans/árans/angans sú ögnin (orðtak)  Alls ekki neitt; fyrir það brennt.  „Ég myndi láta þig hafa saltlúku ef ég ætti hana, en fjandans sú ögnin að hér sé nokkuð til af því taginu“.

Fjandansári (ao)  Áhersluorð með lýsingarorðum; mjög; gríðarlega.  „Það var fjandansári sárt að horfa uppá lambið soppa framaf; eins og þetta var nú vænn hrútur“!  „Þetta er fjandansári blautt enn“.

Fjandansekkisen (l)  Áherslulýsingarorð með nafnorðum.  „Það er fjandansekkisen vesen orðið að fá leyfi til að fiska í eigin landhelgi“!  „Fjandansekkisen óheppni var að þetta þetta skyldi bila núna“.

Fjandansgreyið (n, hk, m.gr.)  Áhersluorð; milt blótsyrði.  „Ég hélt ég væri búinn að króa lambið af, en þá setti það sig niður í næsta gang, fjandansgreyið“.  „Hann datt af króknum alveg uppi við borðið, fjandansgreyið“!

Fjandansnær (orðtak)  Áhersluorð; heldur; frekar.  „Óttalegt slugs er á honum; honum væri fjandansnær að halda sig að heyskapnum svo hann klárist fyrir snjóa“!  „Mér hefði verið fjandansnær að taka skóna inn; þá væru þeir ekki forblautir núna“.

Fjandanssama (l)  Kæri kollóttan; gef skít í; er alveg sama.  „Mér er svosem fjandanssama þó þeir kúðri þessu; það kemur þeim sjálfum í koll“!

Fjandansögn / Fjandans sú ögnin (n, kvk/ orðtak)  Áhersluorð um ekki neitt.  „Hann sagði að hér hefði hann séð tvær kindur, en fjandansögn sem hér er nokkuð fé“!  „Við börðum hér um allan sjó, en fjandans sú ögnin að við yrðum nokkursstaðar varir; allsstaðar sama ördeyðan“!  Sjá ögn.

Fjandast til (orðtak) Koma sér að; hefja verk; skrattast til.  „Skelfingar leti er í honum!  Hann gæti nú fjandast til að útvega mann fyrir sig í göngur þó hann nenni því ekki sjálfur“!

Fjandi (ao)  A  Blótsyrði til áhersluauka.  „Fjandi var þetta snubbótt veiði“.  „Hann var bara fjandi brattur“.  B.  Óvinur.  „Sækjum fast að fjanda her;/ flæmum hann úr landi./  Það sem engan ávöxt ber/ ei hjá gróðri standi“  (EG;  Sækjum fram). 

Fjandi/fjári af mér/þér/honum (orðtak)  Slæm mistök hjá mér; ég sé mikið eftir.  „Fjandi var nú af mér að gleyma húfunni á réttarveggnum“.

Fjandinn eigi/hafi/hirði (orðtak)  Upphrópun um það sem maður gefst upp á.  „Fjandinn eigi bara þessar bykkjur“!  „Fjandinn hirði þá ef þeir fara ekki að birtast; þá förum við bara á undan þeim“!  „Fjandinn eigi það að ég komi nokkurnhlut nálægt þessu“!

Fjandinn fjarri mér! (orðtak)  Upphrópun/áhersluorð, oftast sem andsvar við fráleitri fullyrðingu/spurningu.  „Nei, fjandinn fjarri mér!  Ég held ég fari nú ekki að kjósa þessa fósa aftur á þing“!

Fjandinn hossi/vorkenni (í minn stað) (orðtak)  Skammaryrði/hneikslun í ummælum um aðra. „Nennti hann ekki að koma með?  Nú fjandinn hossi honum þá; hann fær þá ekki egg að éta í kvöld“!   „Eru þeir búnir með heyskapinn?  Nú fjandinn vorkenni þeim í minn stað; með tugmilljóna græjur og vaðandi mannskap“!

Fjandinn/skrattinn sér um sína (orðatiltæki)  Satan sér um sínar sálir; þeir bjargast oft í lífinu sem taldir eru hafa selt skrattanum sína sál.  „Alltaf kemst hann skaðlaust frá þessum glannaskap í fjármálum; já það verður ekki annað sagt en að fjandinn sjái um sína“!

Fjandinn/skrattinn kominn í spilið (orðtök)  Eitthvað ekki með eðlilegu móti; eitthvað bilað/úrskeiðis; fjandinn laus.  „Ég missti féð uppá brún og þá var auðvitað fjandinn kominn í spilið“!

Fjandinn laus (orðtak)  Allt í voða/uppnámi; mikill gauragangur; hættuástand.  „Þeir eru til friðs núna, en það má ekki orðinu halla; þá verður fjandinn laus“.

Fjandinn má hirða það í minn stað! (orðatiltæki)  Fúkyrði um það sem ekki er manni að skapi.

Fjandinn sjálfur (orðtak)  Áhersluorð/blótsyrði.  Ýmist notað sjálfstætt sem upphrópun eða í tegingum.

Fjandsemi (n, kvk)  Illhugur; meinsemi; slæmt viðmót.  „Hann vildi ekki sýna þeim neina fjandsemi“.

Fjandskapast við (orðtak)  Rækja fjandskap við; elda grátt silfur við.  „Hann hefur lengi fjandskapast við þau á hinum bænum, og fundið sér eitthvað til“.

Fjarðarbára (n, kvk)  Vindbára þegar vindur stendur eftir firði, en jafnvel sjólítið útifyrir.  Gerist oftast í aðlögn, en einnig getur vindur legið af fjöllum út fjörð, og vakið upp fjarðarbáru.   „Það er betra að vera búinn að vitja um netin í firðinum fyrripart dags, til að losna við árans fjarðarbáruna seinnipartinn“.

Fjarðarbotn (n, kk)  Innsti hluti fjarðar.  „Barðstrendingar sem reru úr Kollsvíkurveri, fóru í vertíðarlok með báta sína inní fjarðarbotn í Patreksfirði.  Þar hrýgjuðu þeir afla sínum á Skeiðseyri þar til hann yrði sóttur; hvolfdu bátum sínum á eyrinni til geymslu, og gegnu heimleiðis yfir Kleifaheiði“.

Fjargviðrast (s)  Fárast; býsnast.  „Það þýðir ekkert að fjargviðrast yfir þessu; bara að drífa í að laga það“.

Fjargviðri (n, hk)  Hitamál; æsingur.  „Það er óþarfi að gera eitthvað fjargviðri útaf þessu“.

Fjarlægðin gerur fjölin blá (og mennina mikla) (orðatiltæki)  Vísar til þess að oft er það fallegt/eftirsóknarvert sem lengt er frá í tíma eða vegalengdum, þó ekki sé þegar/ef það væri nær.  Síðari hlutinn heyrist sjaldnar.

Fjarlægt (l)  A.  Sem er langt í burtu.  „Að Kollsvík sóttu menn til róðra úr fjarlægum byggðum“.  B.  Fráleitt.  „Það var honum fjarlægt að hugsa um greiðslu fyrir svona hjálpsemi við náungann“.

Fjarskalega (l)  Mjög; afar.  „Þá var fjarskalega vond tíð; frosthörkur, stormar og stórhríðar...“  (ÓTG; Ágrip af æviferli).  „Mér fannst alveg hræðilegt að heyra þetta um Jón./  Ég hrifin var svo fjarskalega af honum./  Nei það var ekki glæsilegt að gera úr okkur hjón/ fyrst greyið hafði ofnæmi fyrir konum“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Fjarskyldur (l)  Ekki náskyldur.  „Eitthvað held ég að hann sé fjarskyldur mér“.

Fjarstaða (n, kvk)  Fjarlægð.  „Tóbaksnautn meðal yngri manna, upp undir þrítugt, er engin á fjelagssvæðinu, og má þakka það fjarstöðu hjeraðsins við kaupstað... “  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Fjas (n, hk)  Innihaldslaust tal; blaður.  „Óttalegt fjas er þetta, um nákvæmlega ekki neitt“!

Fjasa (s)  Blaðra; masa; bulla.  „Hún hélt áfram að fjasa um málið þó enginn hefði áhuga á því“.

Fjáður (l)  Ríkur; auðugur; loðinn um lófana.  „Hann er ágætlega fjáður þó hann lifi eins og fátæklingur“.

Fjáraflamaður (n, kk)  Sá sem aflar mikils fjár/auðs.  „Hann reyndist hinn öflugasti fjáraflamaður fyrir félagið“.

Fjárakornið (n, hk, m.gr)  Milt blótsyrði; oftast notað til áhersluauka.  „Þú ætlar þó fjárakornið ekki að sitja heima í kosningunum“.

Fjáralega (ao)  Illa; erfiðlega; bölvanlega.  „Mér gengur fjáralega að fá þá til að skilja þetta“.

Fjárans (n, kk, ef.m.gr.)  Milt blótsyrði/áhersluorð.  „Fjárans vesen var að missa þessar kindur“.

Fjárbeit (n, kvk)  Bithagi/beit fyrir sauðfé.  „Góð fjárbeit er í Kollsvík og daldrögunum í kring, en engu að síður leitaði fé frá Láganúpi alltaf töluvert út í Breiðuvík og einnig lítilsháttar á Bjargið“.

Fjárborg / Fjárbyrgi (n, kvk/hk)  Staður, oftast manngerður, þar sem sauðfé getur leitað skjóls í illviðrum.  Ekki tíðkaðist að hlaða slík mannvirki í Rauðasandshreppi, enda næg skjól í landslaginu.  Þó var hlaðið aðhald t.d. við stekki, stundum nefnt fjárbyrgi.  Fjárborgir á öðrum landsvæðum eru oft topphlaðnar.

Fjárbúð (n, kvk)  Fjárhús sem notað er sem verbúð að vori og sumri, en slík notkun var algeng í Útvíknaverum.  „Skipbrotsmenn (skútunnar Telephone) fengu til umráða tvær allstórar fjárbúðir og höfðust þar við í nærfellt þrjár vikur“  (TÓ; Skipströnd í Rauðasandshreppi).

Fjárböðun (n, kvk)  Böðun sauðfjár sem stunduð var um árabil til varnar gegn fjárkláða af völdum fjárkláðamaurs (Psoreptes ovis).  Fjárkláði barst til landsins með kindum af Merinokyni sem Hastfer barón flutti inn árið 1760 á bú sitt við Elliðavatn.  Kláðinn barst sem faraldur víða um land og olli gríðarlegum fjárskaða, en þó ekki í Vestur Barðastrandasýslu og nokkur önnur svæði á Vestfjörðum.  Ein af aðgerðum sem gripið var til var böðun fjár uppúr sérstökum baðlyfjum.  Böðun var framkvæmd að vetrarlagi, í sérstakri baðþró sem var víðast steypt fremst í jötu fjárhúss.  Tveir alhlífaðir menn tóku ána á milli sín; lyftu henni upp í baðþróna og kaffærðu hana.  Hún gat síðan gengið upp tröppur úr þrónni og í hóp kinda sem stóðu um stund í jötunni meðan vatnið seig af þeim og rann aftur í þróna.  Síðar var farið að nota baðlyf í sprautuformi, og lögðust þá fjárbaðanir af.

Fjárdráttur (n, kk)  Sundurdráttur/rag fjár í réttum.  „Enginn má hleypa fé úr dilk fyrr en réttarstjóri leyfir, og fjáreigendur mega ekki fara úr rétt fyrr en fjárdrætti er lokið“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).

Fjárfellir (n, kk)  Hungurdauð/niðurskurður búfjár.  „Ofan á þetta bættust tveir snjóavetur; veturinn 1919 – 1920 og 1920 – 1921, svo gera varð stórfelld kaup á dýrum fóðurbæti til að komast hjá almennum fjárfelli“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Fjárflutningar (n, kk, fto)  Flutningar á sauðfé.  Nútildags oftast á vörubílum eða sérstökum fjárflutningabílum.

Fjárgata (n, kvk)  Greinilegur slóði sem troðinn er af miklum umgangi sauðfjár.  Fjárgötur geta verið varanlegar og áberandi í landslaginu um aldir, þar sem kindur hafa einstakt lag á að velja sér leiðir þar sem hægast er að fara og halda þeirri venju.  „Skriðurnar eru vel færar þar sem fjárgata er um þær, en varasamar annarsstaðar“.

Fjárglöggur (l)  Sá sem þekkir einstakar kindur í sundur, jafnvel í fjarlægð.  Mjög er misjafnt hve fjárglöggir menn eru.  Til voru þeir bændur sem þekktu ekki einungis hverja kind í sinni eigu, heldur allar þær sem þeir höfðu séð á næstu bæjum.  Svo var t.d. sagt um Guðbjart Guðbjartsson á Láganúpi.

Fjárheimtur (n, kvk, fto)  Heimtur á fé; endurheimtur sauðfjár af sumarhögum.  „Fjárheimtur voru slæmar.  Vetur kom snemma og harkalega; fé því víða um fjöll og ónáð úr Bjarginu“  (ÞJ; Árb.Barð 1969).

Fjárheld (l)  Um girðingu/rétt o.fl.; halda fé inni/frá.  „Það þarf sumsstaðar að hlaða réttarveggina upp; þessi dilkur er varla fjárheldur“.  „Vegna stöðugs grjóthruns reyndist ókleyft að halda girðingunni á Urðarhrygg fjárheldri“  (HÖ; Fjaran).

Fjárhundur (n, kk)  Hundur sem gagnast vel til að smala fé; gæta fjár og verja tún. „Góðir fjárhundar eru mjög gagnlegir sínum húsbændum og spara mikið erfiði.  Besti fjárhundur sem ég man eftir í Kollsvík var Dalli, sem Ingvar í Kollsvík átti.  Hann var svo glöggur á fé og sinn eiganda að Ingvar þurfti ekki annað en gefa honum litla bendingu eða segja eitt orð; þá skildi hann skipunina og framkvæmdi hana.  Til dæmis man ég að Ingvar bað hann að sækja fé að kvöldi dags, sem þá hafði eigrað útum Skarð, út í Vatnadal, og sást því ekki.  „Sæktu féð í Vatnadal“ sagði Ingvar og benti.  Dalli þaut af stað og eftir nokkurn tíma sást til hans frammi í Skarði með allan fjárhópinn“.  „Hér var það líka sem Skuggi, fjárhundur Torfa móðurbróður, fauk framaf og var allur“  (IG; Sagt til vegar I).  

Fjárhús (n, hk, fto)  Hús sem kindur eru hafðar í að vetri.  Fjárhús í Kollsvík og öðrum Útvíkum voru allajafna við sjóinn áðurfyrr, til að hægara væri að nýta fjörubeitina.  Þau voru grjóthlaðin, oft með hálfþili í gafli og heilu timburþili að framanverðu sem sneri/vissi til sjávar.  Hjá þurrabúðarmönnum voru þetta þó oft litlir kofar hærra í landi, með jötu við vegg.  Á bújörðunum voru eitt eða fleiri hús með hlaðinni jötu/ jötubálki/garða í miðju.  Fé var fyrrum haft á taði, en í seinni tíð voru grindur undir fénu og skítkjallari.  Eftir að farið var að baða fé gegn lús var oft steypt baðþró í framenda jötunnar, sem að jafnaði var lokuð.  „Þá þurfti að aðstoða við smalamennsku og fjárrag; sækja vatn bæði fyrir heimilið og kýrnar, eftir því sem geta og vilji náði, og fara með pabba að gefa fénu.  Það var í fjárhúsum við sjóinn til ársins 1941 þegar byggð voru fjárhús á Láganúpi“  (IG; Æskuminningar). 

Fjárhúsgrindur (n, kvk, fto)  Grindur undir sauðfé í fjárhúsi, til að skítur troðist niður í fjárhúskjallara.  „Þetta timbur væri líkast til upplagt í fjárhúsgrindur“.

Fjárhústóft (n, kvk)  Tóft af fjárhúsi.  „Einnig má finna í vegg í fjárhústóft á Grundabökkum ártalið 1911.  Það er verk Kristjáns Júlíusar Kristjánssonar, sem þá átti heima á Grundum“  (HÖ; Fjaran). 

Fjárklippur (n, kvk, fto)  Sauðaklippur; klippur til að taka ull/reyfi af kind.  Vanalega gerðar þannig að tvö breið stálblöð eru fest saman með boginni fjöður.  Enginn þolinmóður er; heldur haldast blöðin saman af átaki rúningsmanns og fjaðrarinnar.

Fjárkláði (n, kk)  Kláðapest; kláðaveiki; kláði; faraldur af völdum kláðamaurs (Psoroptes ovis).  Fjárkláði hefur tvisvar borist til landsins með innfluttu fé; 1760 og 1855.  Hann olli gríðarlegu tjóni, einkum í fyrra skiptið.  Vestfirðir sluppu þó í bæði skiptin, en þar þurftu menn eigi að síður að baða fé fram á síðari hluta 20. aldar.  Kláðanum var útrýmt að mestu með niðurskurði og böðun.  „Fjárkláða hefur einnig orðið vart á þremur ám í Saurbæ, og hrútur í Kirkjuhvammi varð mjög sjúkur af kláða“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932).   

Fjárkrít / Fjárlitur (n, kvk)  Lituð krít sem seld er og notuð til að merkja kindur til aðgreiningar.  Sjá litamerkt.  Fjárkrít var t.d. ein vörutegunda sem voru á boðstólum í Gjögrabúð.

Fjármaður (n, kk)  Sauðamaður; sá sem gætir fjár og hirðir um það.  „Konan segist enga hjálp geta veitt.  Maðurinn sinn sé veikur í Reykjavík og fjármaðurinn sé einn karlmanna heima.  Fjármanninn bar að í þessu…“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Fjármargur (l)  Á margt fé.  „Sama er hve karlinn fjölgar í áhöfn; aldrei verður hann svo fjármargur að hann þekki ekki hverja kind með nafni“.

Fjármálaóstjórn (n, kvk)  Stjórnleysi í fjármálum.  „Össur Guðbjartsson taldi að víta bæri harðlega þá fjármálaóstjórn (sjúkrahúss) sem hér væri um að ræða“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Fjárpeningur (n, kk)  Sauðfé.  „Þá er komið uppfyrir Hjallana.  Þar er skjólasamt og fjölbreyttur gróður og gott beitiland í kring; hefur áreiðanlega verið gott fyrir fjárpening þar“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Fjárpössun (n, kvk)  Gæsla sauðfjár.  „Hann fékk eitthvað greitt fyrir lagfæringar á réttinni og fjárpössun“.

Fjárrag / Fjárstúss (n, hk)  Sýsl með kindur; sundurdráttur.  „Þeim dvelst í húsunum við þetta fjárrag“.  „Þá þurfti að aðstoða við smalamennsku og fjárrag“  (IG; Æskuminningar). 

Fjárráð (n, hk, fto)  A.  Fjármunir; lausafé; reiðufé.  „Hann sagðist hafa fremur lítil fjárráð þessa stundina“.  B.  Stjórn fjármála; fjárhald.  „Mér skilst að hún sé með öll fjárráð á því heimili“.

Fjárrekstur (n, kk)  Rekstur sauðfjár.  „Ég var eitt haustið með í því að fara með fjárrekstur innyfir Hænuvíkurháls; inn Fjörur og inn að Gjögrum til slátrunar.  Eftir það var farið að flytja sláturfé á bílum“.

Fjárrétt (n, kvk)  Rétt sem fé er rekið í til aftektar eða sundurdráttar.  „Við förum framhjá fjárrétt á Brunnsbrekkunni“  (IG; Sagt til vegar I).  

Fjárræktarmaður (n, kk)  Sá sem leggur sig fram um ræktun sauðfjár.  „Össur faðir minn var mikill fjáræktarmaður, sem og Guðbjartur afi; faðir hans.  En nokkuð ólíkum að ferðum beittu þeir.  Afi ræktaði eftir sínu höfði og tilfinningu, án allrar skráningar að því að ég veit best.  Hinsvegar notaði pappi vísindalegar aðferðir; færði allt til bókar og notaði sinn bændaskólalærdóm.  Báðum farnaðist þeim vel í þessum efnum“.

Fjárskúfur (n, kk)  Lítill hárbrúskur eða –burst, fremst á snoppu sauðfjár. 

Fjárslóð (n, kvk)  Kindagata.  „Nónskarðsvegur hét fjárslóð um Nónskarð, og var þar stundum farið með hesta“  (ÓETh; Örn.skrá Vatnsdals).

Fjáröflunarleið (n, kvk)  Aðferð til að afla fjár.  „Á smá hól við Gilið var Vestri með kartöflugarð um nokkur ár, sem fjáröflunarleið“  (IG; Sagt til vegar II). 

Fjollaður (l)  Heimskur; ruglaður.  „Óttalega geturðu verið fjollaður“!

Fjórbýli / Fjórbýlt  (n, hk/ l)  Fjögur býli á sama bæ.  „Þríbýlt var löngum á Hvallátrum, og jafnvel fjórbýlt“.

Fjórðungur (n, kk)  A.  Einn fjórði hluti einhvers.  B.  Þyngdareining að fornu, og um leið verðeining í vöruskiptum.  Á síðari tímum vöruskipta (eftir 1618) var fjórðungur 4,96 kg (áður 4,3).  Fjórðungur samsvarar 10 pottum eða 20 mörkum.  Í einni vætt eru 8 fjórðungar.  C.  Landsfjórðungur.  Fyrsta svæðaskipting landsins var líklega skipting þess í fjórðunga, sem hver annaðist dómsmál og framfærslumál.  Sú skipting var komin á árið 965.  Mörk Vestfirðingafjórðungs voru annarsvegar við Hvítá í Borgarfirði og hinsvegar við Hrútafjarðará.  Þau fyrrnefndu fluttust að Botnsá í Hvalfirði á 13.öld.  Í hverju vorþingi urðu þrjú vorþing, og í hverju þingi voru þrjú goðorð; stjórnað af goðum. 

Fjórðungi bregður til fósturs (orðatiltæki)  Forn speki segir að persónugerð og hæfileikar manns mótist af fjórum meginþáttum, að frátöldu því sem hann sjálfur hefu lifað:  Fjórðungi bregður til móður; fjórðungi til föður; fjórðungi til fósturs og fjórðungi til nafns“.  Samkvæmt þessu mótar uppeldið menn að einum fjórða.  Sjá fé er jafnan fóstra líkt.

Fjórðungi bregður til nafns (orðtak)  Gömul speki segir að maður mótist af nafni sínu að einum fjórða.  Því þóttu nafngjafir mjög miklu skipta fyrr á tímum; þá tíðkaðist ekki sá fáránleiki samtímans að keppast um skrípanöfnin.  Sjá einnig fjórðungi bregður til fósturs.

Fjórróinn (l)  Um bát; róið með fjórum árum.

Fjórskær (l)  Sem unnt er að skera með þremur skurðum í fimm bita; t.d. fiskur.

Fjósabuxur (n, kvk, fto)  Utanyfirbuxur/buxur sem notaðar eru í fjósverk.

Fjósaferð (n, kvk)  Sinning í fjósum/fjósi; mjaltir.  Á Láganúpi voru um tíma tvö fjós, en orðið kann þó að vera mun eldra í þessari mynd.  „Ætli ég gleypi ekki eitthvað í mig áður en kemur að fjósaferð“.

Fjósafýla / Fjósalykt (n, kvk)  Lykt sem fylgir fjósum.  „Fjósalykt er mjög misjöfn og missterk eftir fjósum.  Fer það líklega mjög eftir þrifum, loftræstingu, meðferð mjólkur og fleiri atriðum“.

Fjósaföt / Fjósagalli / Fjósastakkur / Fjósaskupla (n, hk, fto/ kk/kvk)  Hlífðarfatnaður sem notaður var af fjósafólki.  Fjósastakkur var vinnublússa, en fjósaskupla var slæða/klútur sem fjósakonur notuðu á höfuðið við fjósgegningar til að verja hárið.  Sjá mjaltaföt/mjaltagalli.

Fjósaskófla (n, kvk)  Fjósreka; flórreka; mykjuskófla; skítreka.  „Hvað varð af fjósaskóflunni“?

Fjósastígvél (n, hk, fto)  Stívél sem eru notuð í fjósverk.  „Nú er komið gat á fjósastígvélin mín“.

Fjósatími (n, kk)  Tími til að sinna gjöfum, mokstri, mjöltum og öðrum fjósverkum.  „Ég býst við að verða kominn aftur fyrir fjóstíma“.

Fjóshaugur (n, kk)  Skítahaugur sem safnast framanvið fjós, af kúaskít sem daglega er mokað út.

Fjóshjólbörur (n, kvk, fto)  Skítabörur; hjólbörur sem jafnan eru notaðar til að koma skít úr fjósi á haug.

Fjóshlaða (n, kvk)  Heyhlaða við fjós.  Vanalega var sett í hana betra og kjarnmeira hey en ætlað var sauðfé.

Fjósreka (n, kvk)  Fjósaskófla; reka/skófla sem höfð er í fjósi til að moka flórinn.

Fjósstaðið vatn (orðtak)  Vatn sem staðið hefur inni í fjósi og er því ekki ískalt úr brunni.  Mun hafa verið siður að láta vatn standa inni áður en það var gefið kúm; einkanlega þótti slæmt að gefa nýbærum ískalt vatn.

Fjósverk (n, hk, fto)  Sinning í fjósi á fjósatíma; mjaltir, gjafir, skítmokstur o.fl.  „Ætli það sé ekki kominn tími á fjósverkin núna“.

Fjósúlpa (n, kvk)  Yfirhöfn sem notuð er til gegninga í fjósi.  „Nú þyrfti að fara að þvo fjósúlpuna mína“.

Fjúk (n, hk)  Lítilsháttar snjókoma, oftast í hægum vindi.  Stundum getur komið fjúk úr heiðskíru lofti, ef skyndlega kólnar í lofti.  „Hann er að setja yfir eitthvað fjúk“.

Fjúka (s)  Berast með vindi.  „...rakettan sem bera átti bandið fauk bara sitt á hvað“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Fjúka í (orðtak)  Reiðast skyndilega; snöggreiðast; rjúka upp;  verða illur; síga í.  „Það fauk í mig þegar ég sá þessar aðfarir“.  „Er nokkur furða þó það fjúki í mann þegar þingmaður talar af slíkri fávisku“?

Fjúkandi illur/reiður/vondur (orðtak)  Mjög reiður; afarreiður; heitt í hamsi; ofsareiður; snakillur.  „Hann var fjúkandi illur yfir þessum slóðaskap og sagðist aldrei ætla að treysta á þá aftur til fyrirstöðu“.

Fjærmið (n, hk)  Það mið í landi sem fjær er, þegar miðað er við tvö mið af sjó.  „Haugarnir eru fjærmið á samnefndum miðum, en Stekkavarðan er þá nærmið“.

Fjöður (n, kvk)  A.  Á fugli.  B.  Sveigjanlegt stál til fjöðrunar á bíl, kerru eða öðru farartæki.  C. Fjármark; lítill skurður sem gerður er í fram- eða afturjaðar eyra.  Fjöður/standfjöður vísar niður frá jaðri en hangfjöður upp.

Fjögramannafar/ Fjögurra manna far (orðtak/heiti)  Feræringur; bátur sem róinn er af fjórum ræðurum; þ.e. með minnst átta ræði/tollur og oft 6 í áhöfn.  Fjögramannaför eru oft um 20 fet eða 6,5 m, og 2,5-3 tonn að burðargetu.  Sú bátastærð hefur verið notuð í Kollsvíkurveri í gegnum tíðina.  Guðrún Eggertsdóttir gerði út eitt fjögurra manna far í Láganúpsveri árið 1703, og eitt fimm manna far.  „Af 50 feræringum í Barðastrandasýslu árið 1905 eru 17 smíðaðir fyrir aldamót.  Elsti feræringurinn í þeim flota hafði verið smíðaður í Kollsvík árið 1839, og var 20,7 fet (6,5 m)“ (LK; Ísl sjávarhættir II).  Bátar í Kollsvíkurveri á 19. og 20. öld voru þó nokkru minni, eða allir á milli 1 ¼ og 1 ½ tonn að burðargetu, og ættu því e.t.v. að flokkast sem þriggja manna för, en yfirleitt voru þeir þar nefndir fjögramannaför.  „Bátur Þórðar var sexæringur en hitt voru fjögramannaför“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).   „Vöðubátar voru frekar litlir; minni en fjögramannaför, en það var hin venjulega stærð róðrarbáta“  (GG; Kollsvíkurver).

Fjögranátta (l)  Um legu línu/nets í sjó; hefur legið í fjóra sólarhringa.  „Nú færum við trossuna einhvert annað!  Það gengur ekki að draga þetta galtómt fjögranátta“!

Fjöldamargt (l)  Mýmargt; fjölmargt.  „Hann hafði fjöldamargt að segja úr ferðinni“.

Fjöldinn allur (orðtak)  Mjög mikið af; aragrúi.  „Þar sem áður höfðu verið veiðileg grásleppumið kom nú aðeins upp fjöldinn allur af ígulkerum og úldinn þari“.

Fjölfarinn (l)  Um leið/veg; sem mikið er farið um.  „Þetta var mjög mikil framför til þess að fylgjast með skipaferðum, en hér fyrir Víkurnar var, og er enn, fjölfarin skipaleið“  (ÖG; Slysavarnadeildin Bræðrabandið). 

Fjölkunnugur (l)  Göldróttur.  „Í þann tíð var maður uppi í Arnarfirði er Benedikt Gabríel nefndist, og var Jónsson.  Hann var hvala- og selaskutlari mikill.  Talinn var hann forn í skapi og fjölkunnugur, og ekki góður viðfangs ef á hluta hans var gert“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Fjölmargt (l)  Mjög margt; urmull; fjöldi.  „Í þessari upptalningu er fjölmargt látið liggja milli hluta“.

Fjölmúlavél (n, kvk)  Flókið/fjölhæft tæki.  „Hann smíðaði þessa fjölmúlavél sem fáir skilja til fulls“.  Annarsstaðar virðist hafa þekkst orðið fjölmúlavíl, í merkingunni fyrirgangur/umstang; óþekkt í Kollsvík.

Fjölorður (l)  Margmáll; talar mikið.  „Afi var aldrei fjölorður um sína ævi, þó viðburðarrík hafi verið“.

Fjölyrða (s)  Tala mikið um; ræða mikið.  „Það þarf ekki að fjölyrða mikið um landkostina í þessum víkum“.

Fjölþreifinn (l)  Kvensamur/kelinn/áleitinn um of.  „Sagt er að hann verði dálítið fjölþreifinn eftir fyrsta glas“.

Fjörbaugsgarður (n, kk)  Ein tegund refsingar á þjóðveldisöld, samkvæmt lögum Grágásar sem var lögtekin um 970.  Sá sem dæmdur var í fjörbaugsgarð var dæmdur útlægur úr landinu innan þriggja ára og dveljast þrjú ár erlendis.  Var það nefnt landhreinsun.  Eftir það var hann sýkn saka.  Þar til hann færi utan gat hinn dæmdi dvalið óáreittur á þremur griðastöðum; fjörbaugsgörðum, en ekki mátti vera lengra milli þeirra en dagleið.  Hann var einnig friðhelgur innan örskotshelgi á leið til skips.  Féránsdómur skipti upp eigum hins dæmda og sá um að útvega honum griðastaðina/fjörbaugsgarða.  Skyldi fjörbaugsmaður greiða viðkomandi goða fé, sem upphaflega var silfurhringur, og er hann hinn eiginlegi fjörbaugur.  Gerði hann það ekki var hann dæmdur skógarmaður, þ.e. algerlega ófriðhelgur og réttdræpur.  Sömu viðurlög voru við því að fara ekki utan, eins og sannaðist á Gunnari á Hlíðarenda.  Fjörbaugsgarður var numinn úr gildi með Járnsíðu, 1273.

Fjörbrot (n, hk, fto)  Dauðateygjur; vöðvakippir í skrokk dýrs eftir dauða.

Fjörður skyldi milli frænda og vík milli vina (orðatiltæki)  Vísar til þess að oft er betra að nánir viðnir eða ættingjar búi ekki í of nánu sambýli, til að ekki slettist upp á vinskapinn.  Síðari hlutinn er oft notaður sem sjálfstætt orðtak.  Sjá vík milli vina.

Fjöregg (n, hk)  Egg sem samkvæmt þjóðsögum geymir líf tiltekins einstaklings.  Í síðari tíma líkingum notað um það sem er mjög mikilvægt einhverjum.

Fjörfiskur (n, kk)  A.  Fiskur sem spriklar mikið þegar hann er veiddur.  B.  Gæluorð um fjörugan krakka.  C.  Ósjálfráðir, síendurteknir kippir í vöðva, oftast tímabundið en geta verið hvimleiðir.

Fjörgast (s) Lifna við; hýrna yfir; færast fjör í.  „Aðeins er lambið farið að fjörgast þegar það fær yl í sig“.  „Karlinn var búinn að fá sér í glas og var farinn að fjörgast verulega“.

Fjörgamall (l)  Mjög gamall; háaldraður.  „... með því að Einar var orðinn fjörgamall er hann lést (f. 1759 – d. 1836) “  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Fjörinu/frelsinu feginn (orðatiltæki)  Fagnar því að halda lífi.  „Eftir að ég hafði losað lóuna úr netinu, flug hún í burtu, eflaust fjörinu fegin“.

Fjörkálfur / Fjörmaður (n, kk)  Gæluorð um fjörugan/tápmikinn mann/krakka; æringi.  „Hann (Kristján Ásbjörnsson) var kjark- og fjörmaður“  (TÓ; Skipströnd í Rauðasandshreppi).

Fjörmikill (l)  Líflegur; uppátækjasamur; frískur; kraftmikill.  „Gummi var á æskuárum sínum nokkuð baldinn eins og títt er um fjörmikla krakka“  (PG; Veðmálið). 

Fjöruarfi (n, kk)  (Honckenya peploides).  Lágvaxin jurt af hjartargrasaætt, sem vex í stórum breiðum í sandi, og er algeng í Kollsvík þar sem friður er fyrir sandfoki og sjógangi.  Blöðin eru lítil, þykk og gljáandi og berin græn og hnöttótt; vel æt.  Ekki er vitað um miklar nytjar af fjöruarfa, en fé bítur hann gjarnan.

Fjörubeit (n, kvk)  Fjörubeit var mikilvæg undirstaða fjárbúskapar í Kollsvík .  „Alltaf var beitt ef veður leyfði og þá staðið hjá yfir daginn.  Beitt var í fjöru ef þari var, og bitfjöru yfir stórstraum.  Mest sótti féð í söl og maríukjarna ....  Ef féð fyllti sig vel á krafsjörð og fékk eitthvað í fjöru var ekkert hey gefið“  (ÖG; Niðjatal HM/GG).
„Fjörubeitin hefur verið mjög mikið notuð á fyrri tímum og er sumsstaðar enn.  Alþekkt var að ær á fjörubeitarjörðunum urðu frjósamari en aðrar ær.  Sá galli fylgdi fjörubeitinni, að ef hún var mikið notuð síðari hluta vetrar fæddust lömbin máttlaus eða máttlítil, en sum misstu mátt nokkurra daga gömul.  Máttleysið (fjöruskjögur) stafaði af koparskorti, en fjörugróðurinn kemur í veg fyrir að koparinn nýtist“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).  

Fjöruborð (n, hk)  Flæðarmál.  „Þar sér maður í fjöruborðinu hörpudiskana og kúskeljarnar í sjálfri kvörninni“  (FÓT; Smiður í fjórum löndum).  „Fundurinn skorar á hæstvirt Alþingi að framkvæma útfærsluna og nethelgin verði eigi minni en 500 m frá stórstraums fjöruborði“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 22.03.1961; ritari ÖG). 

Fjöruburður (n, kk)  Burður á afla úr bát um útfiri.  „...að geta lent í háflóð svo hægt væri að fríast við fjöruburð með þann þunga afla sem steinbíturinn var“  (ÓG; Úr verbúðum í víking).

Fjörugata (n, kvk)  Gata/troðningur sem myndast við endurteknar ferðir fjárhópa í og úr fjörubeit.  „Fjörugötur fjár á Láganúpi lágu vanalega annarsvegar úr fjárhúsum að hliði girðingar við sjó og hinsvegar með öllum Grundarbökkum, fyrir Garðsendann og upp Brunnsbrekku; upp á Hjalla“.  Troðningur manna til verstöðva, t.d. af gamla bæjarhólnum í Kollsvík niður í Ver, var oftast nefndur sjávargata, en sjaldnar fjörugata.

Fjörugrjót (n, hk)  Brimsorfið grjót í/úr fjöru.  „Svo virðist sem fyrr á öldum hafi menn ekki vílað fyrir sér að lenda bátum sínum upp í fjörugrjót, þó á síðari tímum hafi menn fremur kosið mjúka sanda til lendinga.  Greinilegt er að mikil útgerð hefur verið í Láganúpsveri áðurfyrr þar sem nú er stórgrýtisfjara, og hefur líklega alltaf verið.  Þar sýnist vera meira um fornar útgerðarmenjar en við slétta sandfjöruna í Kollsvíkurveri.  Þetta kann að skýrast af því annarsvegar að léttara hefur verið að setja báta í stórgrýtinu, sem verkar líkt og hlunnar; einkum áður en góðir hlunnar komu til sögunnar.  Hinsvegar af því að um hálffallið taka hleinarnar úr mestu öldunni, þannig að sæmilegur friður getur orðið í landtökunni“.  „Var það ungur maður frá Grundum að ganga örna sinna í fjörugrjótinu, eins og alsiða var“  (HÖ; Fjaran).  

Fjöruilmur / Fjörulykt (n, kvk)  Lykt sem berst úr fjöru í álandsvindi.  Oftast blanda af sjávarseltulykt og þaralykt.  Getur stundum stungið í nef ef þarabunkar ná að úldna í sólskini.

Fjörukambur (n, kk)  Rif/bakki fyrir ofan hæsta flæðarmál.  „Við þurfum að koma trénu upp á fjörukambinn“.

Fjörukarl (n, kk)  Sú tegund hrúðurkarla sem algengust er á fjörum við landið.  Sjá hrúðurkarl.

Fjörugrös (n, hk, fto)  Guðmundargrös.  Rauðþörungar; (Chondrus crispus) 5-20 cm háir.  Vaxa stundum mjög þétt á steinum og klöppum í brimasömum fjörum.  „Fjörugrös eru þar nokkur (í Láganúpsfjöru)“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Fjörukambur (n, kk)  Kambur; sjávarkambur; rif.  Hæsti hluti fjöru, þar sem sjórinn hefur á hæstu flæðum ýt upp garði af möl eða sandi. 

Fjörukál (n, hk)  (Cakile maritima); jurt af krossblómaætt sem vex í sandfjörum og er algeng í Kollsvík.  Vex ýmist stök eða í breiðum.  Blómin hvít eða dauffjólublá.  Blöðin eru vel æt, en ekki er vitað til að þau hafi verið nýtt.

Fjörulalli (n, kk)  Kynjakvikindi sem þjóðtrúin segir að skríði úr sjó og sé stundum á reiki í fjörum.  Til var fólk sem taldi sig hafa séð fjörulalla í Kollsvíkurfjöru, en helst voru þeir á reiki í þoku eða þegar skuggsýnt var orðið.  Fjörulallar voru um sumt líkir kindum, kúm eða selum tilsýndar, en frábrugðnir að ýmsu leyti.  GÖ hélt því fram að til væru nokkrar tegundir fjörulalla.  Skeljaskrímslið var ein þeirra, en það var svo þakið skeljagróðri að í því hringlaði við minnstu hreyfingu.  „Þar sem fjörubeit var þurfti að hafa góða beit á fénu yfir fengitíma, því að til var kvikindi sem var á stærð við sauðkind og var kallað fjörulalli.  Hann lá á því lúalagi að vera áleitinn við ærnar.  Lömb þau sem undan honum komu voru oft vansköpuð  (líklega skýring þjóðtrúar á fjöruskjögri)“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin). 
„Ekki var til neins að ætla sér að skjóta skelja skrímsli með blýhöglum... heldur þurfti að nota silfurhnappa eða grávíðishumal.  ... Tvær telpur af Rauðasandi vöktu yfir túninu og sáu þá eitt sinn afarstórt skrímsli koma upp ú rsjónum og þramma í átt til þeirra.  Þær völdu þann kost að fela sig í hesthúsi, sem var þeirra eina afdrep.  En þannig stóð á að engin var hurðin; dyrnar krepptu því að skrímslinu, svo að það stóð grafkyrrt fram undir morgun.  Þá gekk það í sjóinn aftur og telpurnar voru orðnar örvita af hræðslu.  Fjörulalli er ekki talinn mannskæður, en reynir að komast uppfyrir menn og hrekja þá í sjóinn.  Seinn er hann á fæti og má hlaupa undan honum.   Fé er hætt við fjöruskjögri ef fjörullalli kemur saman við það.  (LK; Ísl.sjávarhættir V).  Sjá einnig marbendill, óskabjörn og flæðarmús.  „Magnús langafi minn var skytta, og til er saga af honum þar sem hann lá fyrir tófu og að honum sótti fjörulalli.  Hann hlammaði á kvikindið og komst nokkuð lerkaður og móður undan honum“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Fjörumaðkur (Arenicola marina) lifir í sjó og grefur sig í sand á útfiri.  Þar má sjá úrgangshauga hans.  Mikið er um fjörumaðk í Kollsvíkurfjöru.  Þar var hann áður grafinn upp og nýttur til beitu.  „Beita er maðkur og brandkóð.  Item heilagfiski á vor... maðkafiskar engir“  (ÁM/PV; Jarðabók; um Láganúp).  Um Hænuvík segir: „Maðkafiskar gefast af óskiftu, ef sá er grefur missir fyrir það svefns síns, og grefur maðk um nætur.   Ella skiftast hásetar til, og tekur enginn neina maðkafiska“ (ÁM/PV; Jarðabók¸um Hænuvík).   „Björn Halldórsson fullyrðir að fjörumaðkur sé talinn til fjörunytja, enda er hann um 1600 hafður fyrir agn“ Ekki er vitað nú hvernig maðkur var grafinn upp í Kollsvíkurfjöru áður, en vera kann að til þess hafi verið notuð maðkakvísl eins og gert var á Suðurnesjum, e.t.v. páll eða bara prik.  Mest er um maðk fremst í fjörunni, og því mest veiðivon um stórstraumsfjörur.  Þar sem mikið hefur verið grafið eftir fjörumaðki verða að líða tvær flæðar þar til unnt er að tína aftur.  Beita þarf maðki samdægurs, en þó var sumsstaðar haldið lífi í honum í sérstökum maðkagryfjum í allt að viku.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Fjörumaður (n, kk)  Maður sem vinnur í fjöru, t.d. að söfnun reka, burði á afla eða öðru.  „Annað var það starf okkar fjörumanna, að tína saman það sem fyglingarnir í Bjarginu köstuðu niður.“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Fjörumóður (n, kk)  Krapaður sjór í fjörum sem frýs í klakabakka í flæðarmörkum.  „Það er ekki til neins að hleypa fénu í fjörumóðinn.  Þó það bíti eitthvað þá verður það svo þungt af klaka að það kemst varla heim“.

Fjörumörk (n, hk, fto)  Sjávarmörk; mörk fjöru og þurrlendis; efstu flæðarmörk.  „Frjálslega verður farið með fjörumörk, og mun verða getið staðhátta og sagna jafnvel nokkur hudruð metra frá fjörunni…“  (HÖ; Fjaran)

Fjörupollur (n, kk)  Pollur á útfiri í fjöru.  „Á sumrin var lítill frítími, en hann var notaður í brönduveiðar eða veiðar á vorseiðum í fjörupollunum“  (IG; Æskuminningar). 

Fjörusandur (n, kk)  Skeljasandur úr fjöru.  Sjóþveginn skeljasandur þykir betri í steinsteypu en sá sem legið hefur lengi í jörðu.  Æskilegt er þó talið að þvo út honum mestu seltuna.  Sömuleiðis var hreinn skeljasandur notaður fyrir undirburð í hús áðurfyrr, bæði í verbúðir og skepnuhús.  „Látið var fjara undan bátnum og kassanum, sem var aðalflutningurinn, var síðan rennt út á fjörusandinn“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Fjöruskjögur (n, hk)  Taugasjúkdómur í lömbum.  Þeim lömbum var sérstaklega hætt sem voru undan ám sem beitt hafði verið mikið í fjöru.  Talið stafa af röngum efnaskiptum, þar sem fjörugróðurinn hindrar upptöku kopars (sjá fjörubeit).  Fjöruskjögur var nefnt fjörufall áður, t.d. segir í Jarðabókinni að sauðfé á Hvallátrum sé hætt við fjörufalli eða „bráðasótt úr fjöru“.

Fjörusnöp (n, hk, fto)  Lítilfjörleg fjörubeit.  „Það getur bjargast með tæp fóður ef eitthver fjörusnöp eru með“.

Fjöruverk (n, hk, fto)  Gera til góða; aðgerð; verkun og frágangur á afla áður en róðri telst lokið.  „Þau eru drjúg, fjöruverkin“.  „Störfin að hausa, slægja, slíta og fletja kölluðust fjöruverk“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Fjötur um fót (orðtak)  Hindrun; trafali.  „Þessi óframfærni er honum iðulega fjötur um fót“.

Flaðra uppum (s)  Sýna mikil blíðuhót; kjassa og faðma; hoppa uppum (um dýr).  „Stundum getur reynst erfitt að kenna hundum að flaðra ekki uppum fólk“.

Flaður (n, hk)  Blíðulæti; kjass; faðmlög.  „Honum er illa við þetta flaður utaní Evropusambandinu“.

Flagbrjósk (n, hk)  Oddmynduð brjóskflaga neðst á bringubeini manna og dýra. 

Flagð (n, hk)  Tröllskessa; norn.  „Hann sagðist ekki forma að koma þar við ef kerlingarflagðið væri heima“.   „Hvorugt boðar hinu grið;/ hamast flagð og drengur./  Handargripin hamrömm við/ hold frá beini gengur“ (JR; Rósarímur). 

Flagð er undir fögru skinni (orðatiltæki)  Oft blekkir útlitið fyrir raunverulegum eiginleikum; lítið er að marka útlitið.  Spekin var oft þannig, en einnig; oft er flagð undir fögru skinni.

Flaggrind (n, kvk)  Flaghefill; hjólagrind sem dregin er með traktor, með tönn í miðju til að jafna flög sem rækta á í túnsléttur.  „Fjórhjóluð flaggrind var til á Láganúpi, gerð af Guðbjarti Egilssyni á Lambavatni“.

Flagmeri (n, kvk) A.  Torfa í flagi.  Sagt var einnig að fyrsta torfa í torfskurði hefði kallast flagmeri.  B.  Flökkutorfa, sem flotið hefur upp úr frostgíg samfrosin ís, en situr eftir á frálagssvæði þegar ísferjan bránar.  Sjá kenningar VÖ um frostgíga.

Flagsa (s)  Flögra; blakta; flagga.  „Girtu þig nú drengur; ósköp eru að sjá þig með skyrtuna flagsandi uppúr buxunum“!

Flak (n, hk)  A.  Fiskhelmingur sem skorinn hefur verið frá hrygg; fiskflak.  B.  Rekald; skipsflak.  „Fór því nokkur tími í að leggja að flakinu“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Flaka (s)  Skera fisk af beini þannig að af honum fáist tveir beinlausir helmingar með roði.  „Mjög er misjafnt hve menn eru lagnir að flaka fisk, en mikið er einnig komið undir að flökunarhnífur sé góður og bíti vel“.

Flakandi lúða (n, kvk)  Lúða, svo stór að unnt væri að flaka hana eftir þeim reglum sem um það giltu.  „Lok eða lúðulok var smálúða; lóa var einnig heldur smá; spraka, heilagfiski og flakandi lúða var það stór að hægt var að taka af henni rikling.  „Ekki treysti ég mér til að lýsa aðgerð á lúðu en nöfn hef ég heyrt á ýmsum hlutum hennar.  Höfuðflak, hnakka(flak)stykki, vaðhorn (fremst á kviðflaki), spildingur (beinin sem fylgdu hrygg), rafabelti og riklingur. Lúðuriklingur var skorinn í strengsli og hert. Settir voru pinnar milli strengslanna svo að þau vefðust ekki upp. Sporðstykki var kallað strabbi. Beinin í sporði voru kölluð ljáir. Rafabelti voru oftast hert. Þau urðu reyndar aldrei hörð vegna þess hvað feit þau voru. Rafabeltin voru pækilsöltuð fyrst og síðan hert og borðuð þegar þau töldust orðin verkuð og kölluð einæt.“  (SG; Sjávar- og strandnytjar; Þjhd.Þjms). 

Flakatrúss (n, hk)  Einstaklingur í flaksandi fötum.  „Girtu þig nú drengur og hnepptu skyrtunni; þú lítur út eins og flakatrúss“!  E.t.v. upprunalega notað um hest sem illa var bundið uppá.

Flan (n, hk)  A.  Um það þegar alda flanar upp í fjöru í sjógangi.  „Verið ekki að flækjast niðri í flaninu drengir; það getur verið hættulegt“.  B.  Óskynsamleg ferð/aðgerð.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Flana (s)  A.  Þegar alda skellur upp í fjöru og faldur hennar þeytist langt upp fyrir það sjávarmál sem þá er.  Lengst flanar í aflíðandi sandfjöru.  Bátum og reka þurfti að bjarga nægilega hátt svo ekki flanaði undan þeim.  B.  Ana; flumbra.  „Við skulum nú skipuleggja hlutina; það er ástæðulaust að vera með þetta flan.

Flana að (einhverju) (orðtak)  Gera eitthvað í skyndi og hugsunarleysi/bráðræði.  „Það er óþarfi að flana að neinu í þessum efnum; koma tímar koma ráð“!

Flandra (s)  Flækjast; kippa í tilgangsleysi í róðri.  „Ég hef engan tíma til að flandra á aðra bæi núna“.

Flandur (n, hk)  Flækingur; flakk.  „Maður lagðist nú bara í flandur eftir heyskap og fór hringveginn“.

Flangs (n, hk)  Ástleitni; alvörulítið tilhugalíf.  „Ekki veit ég hvað svona flangs á að fyrirstilla“!

Flas (n, hk)  Flaustur; asi.  Nær eigöngu í orðasamböndum; sjaldan er flas til fagnaðar; koma í flasið á.

Flas er ekki til fagnaðar / Flas gerir engan flýti ( orðatiltæki)  Ekki er verkflýtir að því að vinna flausturslega.

Flasa (s)  Flaustra; ana.  „Farðu nú hægt!  Það þýðir ekkert að flasa að þessu verki“!

Flasið er sjaldnast til fagnaðar (orðtak)  Ekki er ráðlegt að rasa um ráð fram/ að flýta sér um of.

Flaska á (orðtak)  Feilgrípa sig ; yfirsjást.  „Hann flaskaði á því að fella netin alltof lítið“.

Flaski (n, kk)  A.  Lurkur/brot úr tré sem brotnað hefur eftir árhringunum.  B.  Geiri úr appelsínu.

Flati (n, kk)  Flötur; slétt hlið.  „Leggðu bakpokann á flatinn í bílinn; hann veltur til ef hann liggur á kúpunni“.

Flatkjafta (n, kvk)  Lítil töng með langan og flatan kjaft.  „Gott var að nota flatkjöftu við gerð álmerkja“.

Flatlenda (s)  Lenda báti upp í fjöru á flatan byrðinginn.  Sagt stundum hafa verið notað í brimlendingu til að allir gætu stokkið strax frá borði og hjálpast að við að bjarga bátnum.

Flatmaga (s)  Liggja útaf/láréttur.  „Það þýðir ekki að liggja bara og flatmaga þegar nóg er að gera“!

Flatning (n, kvk)  Aðferð til að búa fisk undir söltun.  Fleiri en ein aðferð eru til við flatningu, en þeim er sameiginlegt að skorið er beggjamegin við hrygginn/dálkinn þar sem hann er þykkastur, og hann tekinn að mestu úr fiskinum.  Alltaf er þó sporðurinn látinn halda sér, ásamt nokkru af aftasta hluta hryggsins.  Mikilvægt er að notuð séu rétt handbrögð við flatningu, en mjög er misjafnt hve menn eru góðir flatningsmenn.  Meðan sumir hjakka allt  í sundur og ná hvorki nýtingu á fisk né biti í hníf þá virðast aðrir veifa tálguðum dálkinum úr á svipstundu og aldrei skorta bit í stál.

Flatningsborð (n, hk)  Borð til að fletja á fisk, til saltfiskverkunar.  „.... þannig er aflinn borinn upp í ruðning.  Ruðningur var trékassi á löppum.  Flatningsborð á öðrum endanum en stúkað fyrir hausa á hinum“   (IG; Niðjatal HM/GG).

Flatningshnífur (n, kk)  Aðgerðahnífur; bredda; stuttur hnífur með beina egg og oddinn fremst á henni, en sveigður fremst í bakkann.  Sérlega hentugur til flatningar á fiski en einnig til að blóðga og hausa.  Fyrrmeir voru flatningshnífar heimasmíðaðir, iðulega úr aflögðum ljáblöðum og með skafti úr snærisvöfðu tré.  Nú eru þeir úr ryðfríu stáli og ásteyptu plastskafti.  Þegar hnífur var notaður til að skera veiðarfæri, einkum þegar aðrir höfu lagt yfir, nefndist hann oft sýslumaður.  Sá sem fyrrum fór í ver fyrir sína húsbændur skyldi fá meðferðis flatningshníf.

Flatningur (n, kk)  Aðgerðaborð í veri, hjá ruðningi.  „Öðrumegin við ruðninginn var hlaðinn grjótbálkur sem tók meðalmanni í mjöðm, og hella lögð ofan á.  Á hellu þessari var fiskurinn flattur.  Bálkurinn var kallaður flatningur.  Raðað var nokkuð stórum steinum kringum dálítinn blett við flatninginn, þar sem flatningsmennirnir stóðu.  Hinsvegar við flatninginn voru tvær þrær sem stórum steinum var raðað kringum.  Í aðra þeirra var flatta fiskinum kastað, en í hina er hann hafði verið rifinn upp“  (ÓETh; Barðstrendingabók). 

Flatreka (s)  Að láta bát flatreka er að láta láta reka með straum og/eða vind þvert á síðuna.

Flatt hey (orðtak)  Hey sem liggur á jörðu, án þess að vera garðað; galtað eða hirt.

Flatur fyrir báru (orðtak)  Um sjómennsku; þegar bátur snýr hlið í ríkjandi öldustefnu.  „Svo missir Björgvin út árina þegar við vorum komnir nokkuð grunnt uppá og þá náttúrulega, þegar átakið kom á annað borðið sló flötu... og báturinn lá flatur fyrir bárunni“  (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004).

Flaug (n, kvk)  Armur á dreka/akkeri/kröku/kríp.  Vanalega er akkeri með tveimur flaugum að framanverðu og stokk að ofanverðu.  Kraka/dreki/krípur er oftast minni; með fjórum flaugum og án stokks.  Flaug er vanalega með nokkuð hvössum oddi og stundum einnig með spaða til að ná festu í mjúkum botni.

Flaumósa (l)  Óðamála; óðakjafta; ber ótt á.  „Hann var svo flaumósa þegar hann kom að enginn skildi orð“.

Flaustra (s)  Flýta sér um of við verk, svo það verður óvandað/misheppnað.  „Það dugir ekki að flaustra svona við smíðina; þetta er dálítið vandaverk ef vel á að vera“.

Flautaþyrill (n, kk)  A.  Áhald sem notað er til að þeyta flautir; nokkurskonar þeytari.  B.  Í líkingum um mjög fljótfærinn/kvikan mann.

Flautaþyrilsháttur (n, kk)  Fljótfærni flaustur; flumbrugangur.  „Skelfingar flautaþyrilsháttur er þetta“!

Flautir (n, kvk, fto)  Verkun mjólkur sem algeng var áðurfyrr en þekkist nú ekki.  Þá var dálítið af mjólk/undanrennu hitað örlítið og síðan þeytt með sérstöku áhaldi, flautaþyrli, þannig að freyddi og óx að rúmmáli.  Síðan notað t.d. útá grauta eða skyr; þótti léttmeti.  „Vakan var til kvöldmatar kl 9.  Það var oftast flautir og bygggrautur með fjallagrösum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  

Flatning fisks  „Aðferðin við að kviðfletja skreiðina var nákvæmlega eins og síðar tíðkaðist um saltfisk, þegar flatt var á sporð.  Fiskurinn var látinn liggja á vinstri hlið og sporðurinn vissi að flatningsmanni, sem með einu hnífsbragði skar úr gotraufinni tvo til þrjá þumlunga aftur fyrir gotraufaruggann, hægra megin við hrygginn.  Síðan var hnífnum snúið við og rist frá fyrsta skurði alla leið fram úr, á milli angiljubeina, og hnífsoddurinn látinn fylgja hryggjarliðunum.  Á sama hátt var svo skorið frá gotrauf og aftur að sporði; kallað að skera fyrir.  Síðan var fiskinum snúið, þannig að hnakkinn vissi að flatningsmanni.  Um hrygginn var tekið með vinstri hendi svo að skurðurinn opnaðist, og skorið bak við hrygginn alveg við liðna eftir endilöngu, aftur á móts við annan og þriðja lið fyrir aftan gotrauf.  Hryggurinn var að því búnu sniðinn í sundur á ská yfir báða liðina og kom þá fram tölustafurinn 8.  Þetta var gert til þess að blóðið rynni vel úr hryggnum.  Gæta varð þess að sem minnst af holdi fylgdi blóðdálkinum.  Þann fisk sem átti að salta varð að fletja hæfilega djúpt; ekki roðfletja, fara sem næst mænunni, en ekki yfir í líkið hinu megin.  Til þess að fiskurinn legðist ekki saman um sporðinn varð að gæta þess að rista hann vel aftur úr.  Þar að auki átti að gæta þess að raufaruggarnir fylgdu þeim hluta fisksins sem hryggurinn var í.
Þegar flatt var í labra var fyrst rist milli angiljubeina, aftur á milli raufarugga og inn að möninni.  síðan var hryggurinn losaður eins og áður hefur verið lýst, en tekinn sundur tveim liðum framar. 
Við hnakkaflatningu varí byrjun haldið með vinstri hendi um eyruggann og klumbuna.  Hnakkinn vissi að hægri hendi og fremst frá honum var rist með hnífnum yfir hrygginn; farið undir tvo fremstu uggana og beygt inn að möninni.  Sumir ristu ofan af öllum uggum.  Síðan var fiskinum flett í sundur og hryggurinn losaður með sama hætti og á þeim kviðflatta, en þess gætt að hann væri djúpflattur á dálk.  Við flatningu skerast rifin frá dálkinum og fylgja fiskinum; heitir rifgarður, þar sem mætast þunnildi og þykkildi, og er því jafnlangur holi fisksins.
Þegar slægður fiskur var flattur í ráskerðing til útflutnings eða innanlandsneyslu átti að byrja á að skera af bakugga og raufarugga.  Hann var síðan ristur eftir endilöngu framan frá kviðmegin og öðrum helmingnum fylgdi þá allur hryggurinn, er þá var losaður; aðeins skildir eftir þrír liðir næst sporðinum.  Þannig urðu til tvö beinlaus flök, nema eyruggi og kviðaruggi fylgdu hvoru þeirra. “  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Flatningsmaður (n, kk)  Sá sem fletur fisk.  Góðir flatningsmenn hafa verið eftirsóttir, bæði fyrr og síðar.  Í Útvíkum var nauðsynlegt að kunna til verka, enda fiskveiðar drjúgur hluti mataröflunar.  Við flatningu fisks högðu menn gjarnan ullarvettling á vinstri höndinni, til að ná góðu taki á dálkinum.  (Sjá flatning fisks)

Flatningur (n, kk)  Stór hella sem notuð var til að fletja á fisk í veri.  „Öðrumegin við ruðninginn var hlaðinn grjótbálkur sem tók meðalmanni í mjöðm, og hella lögð ofan á.  Á hellu þessari var fiskurinn flattur.  Bálkurinn var kallaður flatningur.  Raðað var nokkuð stórum steinum kringum dálítinn blett við flatninginn, þar sem flatningsmennirnir stóðu.  Hinsvegar við flatninginn voru tvær þrær sem stórum steinum var raðað kringum.  Í aðra þeirra var flatta fiskinum kastað, en í hia er hann hafði verið rifinn upp“  (PJ; Barðstrendingabók). 

Flatreka (s)  Um bát/skip; reka þannig að ráðandi afl (vindur / straumur) komi á aðra hliðina.  Í Kollsvík var venja að láta flatreka meðan rennt var; stundum var andæft meðan mest var rek.  Sumsstaðar tíðkaðist að fiska fyrir föstu.

Flatsæng (n, kvk)  Dýna sem höfð er á gólfi sem flet til bráðabirgða.  „Það var búið um pabba inni í búri í flatsæng“  (Ólöf Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Flaumósa (l)  Óðamála; hraðmæltur; ber ótt á.  „Hann var svo flaumósa að enginn greindi orðaskil, önnur en þau síðustu; „nautið ofaní forinni; pabbi líka; komiði strax““.

Flaustra (s)  Kasta höndum að verki; vera óvandvirkur; gefa sér ekki tíma við verk.

Flaustrari (n, kk)  Flumbrari; sá sem flaustrar/er fljótfær.  „Hann þótti nokkur flaustrari við vinnu“.

Flausturslega (ao)  Í flaustri; eins og sé gert í flaustri.  „Skelfing er þetta flausturslega frágengið“.

Flautaþyrill (n, kk)  Upprunalega áhald til að þeyta flautir (rjóma); í seinni tíð notað um fljótfæra manneskju.

Flautaþyrilsháttur (n, kk)  Fljótfærni; brussugangur.  „Svona flautaþyrilsháttur gengur ekki við þetta verk“!

Flautir (n, kvk, fto)  Undanrenna eða nýmjólk sem hleypt er örlítið og síðan þeytt með flautaþyrli.  „Vakan var til kvöldmatar, klukkan 9.  Það var oftast flautir og bygggrautur með fjallagrösum“  (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964). 

Flá (n, kvk)  A.  Brött hlíð.  „Í Blakknum, upp af Trumbum og Gangi, er grasfláki sem gengur upp í efri klettana og heitir Flár.  Þangað fara ekki nema færustu menn“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  B.   Flotholt.  Var einkum notað um korka sem halda uppi efri teini (þini) á neti til veiða.  Hann var þá nefndur fláateinn eða fláaþinur.

Flá (s)  A.  Ná skinni/húð/gæru af skepnu sem slátrað hefur verið.  Fyrst er vanalega afhausað; síðan rist fyrir; hæklað, rist framúr; gengið frá vélinda; skorið fyrir görn og fjarlægt pungur, júgur, rófa eða hali eftir atvikum.  Við fláningu er skrokkurinn oft hengdur upp á hæklum, þannig að háls vísi niður, en þó er það ekki algilt.  Sláturfé er stundum flegið á bekk, og stórgripir á jafnsléttu.  Oftast er unnt að flá sláturfé með berum höndum og án hnífs, en húð stórgripa þarf að flá af með góðum fláningshníf.  Mikilvægt er að skemma hvorki húð/gæru né skrokkinn/mötuna.  Eftir fláningu eru gærur/skinn annaðhvort spýtt eða söltuð og síðan verkuð frekar.  Svipaðar fláningsaðferðir eru notaðar við seli, en eftir fláningu þarf að skafa spiklag innanúr skinninu.  Áðurfyrr tíðkaðist stundum að flá í belg (sjá þar).  Mjög er misjafnt hve sláturfé er fast í; þ.e. hve gæran er föst við skrokkinn.  Fleira er flegið en búfé:  „Svo var fýllinn fleginn og saltaður; það sem ekki var borðað nýtt“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).   B.  Rífa roð af steinbít.  „Þegar steinbítur var fleginn, þ.e. rifið af honum roðið svo það mætti nýta í skó, var kerling, ásamt kerlingarugga og kerlingarfiski rist af.  Síðan var skorin smáfjöður uppi við sárið kviðarmegin í helmingnum og í broddi hennar fundin himna sem yrði laus við roðið en föst við fiskinn og héldi kúlunum saman.  Hét það að taka uppundir.  Ef það var ekki gert nægilega vel gekk illa að flá.  Þegar kom afturundir gotraufina þótti vissara að skera þar fyrir, því að oft vildi rifna þar um.  Hvorum roðhelmingi til skógerðar fylgdi kerlingin“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimildarmenn einkum; ÞJ; ÁE; DE; ÓETh).  „Nú var lambið skotið og skorið og síðan flegið í snatri og gert til“  (PG; Veðmálið). 

Flá í belg (orðtak)  Flá skepnu þannig að skinnið af skrokknum sé sem heillegast og það megi nýta sem ílát eða flot/bauju.  Eftir að haus hefur verið skorinn af er hæklað á venjulegan máta; skorið af júgur/pungur og skorið fyrir görn. Síðan er flegið með hendi inn með hálsi; aftur fyrir bóga; niðurfyrir bringu; leggir dregnir úr og gæran losuð frá eins og til næst; síðan er gærunni vent við aftureftir skrokknum og klárað það sem kann að vera eftir.  Eftir verkun gærunnar er saumað/bundið fyrir smærri op og fellt trélok í hálsop.

Flá kött (orðtak)  Leikur/fimleikabragð, sem fer þannig fram að maður hangir á fótum/hnésbótum á haus uppi í loftbita.  Kúnstin er að fara þannig úr og í jakka/úlpu/vesti eða annarri flík.

Fláateinn / Fláaþinur (n, kk)  Flotteinn; korkateinn; efri þinurin á neti, sem heldur efri jaðrinum uppi.  Var áðurfyrri með flotholtum úr korki/viði og síðar plasti, sem nefndust flár.

Flágrynni (n, hk)  Aðgrunnt; lítið dýpi langt frá landi; hallalítill botn.  „Já, hér er flágrynni; landgrunninu hallar afarhægt.  Hér snardýpkar ekki fyrr en við Víkurál, sem er um 9 stunda ferð frá Patreksfirði“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Flái (n, kk)  Halli.  „Hafðu dálítinn fláa á gryfjuveggnum, svo bakkinn falli ekki framyfir sig“.

Flámæli (n, hk)  Tunguháttur/framburðarmáti sem felst í því að sérhljóðar verða með opnari framburði en allajafna; t.d i verður e og u verður ö.  Stundum nefnt sunnlenskur framburður, enda algengt þar áðurfyrr.  „Mekeð væri nú telvaleð að fá sker á eftir selungnum; hann var svolíteð þörr“.

Fláning (n, kvk)  Það verk að flá húð/skinn af skepnu.  „Sumir ná miklum hraða við fláningu meðan aðrir eru seinni og/eða fara illa með skrokkana.  Sumir fláningsmenn fengu sigg á hnúa yfir sláturtíðina“.

Fláningsbekkur (n, kk)  Sérstakt borð sem útbúið er þannig að þægilegt er að flá á því.  „Misjafnt er hvaða aðstöðu menn hafa við fláningu.  Oft var slátrað á velli áður fyrr, og þá valinn hreinlegur grasbali til fláningar.  Sumir komu sér upp fláningsbekkjum til að geta unnið standandi´“.

Fláningsgálgi (n, kk)  Gálgi með krókum sem skrokkur var hengdur á hæklunum til fláningar, þar sem hægara er að flá þegar fláningsmaður er standandi en á hnjánum.  „Í sláturhúsinu á Gjögrum var fláningsgálgi“.

Fláningshnífur (n, kk)  Hnífur sem hentar vel til fláningar; vanalega lítill og með stuttu blaði.

Fláttskapur (n, kk)  Undirferli; fláræði.  „Fagurt tala þeir; blessaðir frambjóðendurnir.  En hvað skyldi svo vera djúpt á gleymskuna og fláttskapinn“?!

Fleða (n, kvk)  A.  Þunn sneið.  „Svo er rófan skorin í þunnar fleður“.  B.  Sá sem er með fleðulæti.

Fleða (s)  Skera í þunnar fleður.  „Mörinn er fleðaður niður áður en hann er hnoðaður“.

Fleðuglott (n, hk)  Tilgerðarlegt bros þess sem vill koma sér í mjúkinn hjá öðrum.  „Hann er þá búinn að setja upp sitt fleðuglott, blessaður frambjóðandinn“. 

Fleðulegur (l)  Smeðjulegur; gerir sér upp góðvild; smjaðrandi.  „Hann er leiðinlega fleðulegur stundum“.

Fleðulæti (n, hk, fto)  Smeðjuleg vinahót; skjall; gullhamrar.  „Býsn eru að sjá þessi fleðulæti í henni“.

Fleiðra (s)  Flumbra; skeina sig; meiðast lítillega.  „Varstu að fleiðra þig á hnífnum“?

Fleiður (n, hk)  Sár; hrufl; skeina.  „Hvaða fleiður ertu með á enninu“?

Fleinbra (s)  Særast; meiðast; fá sár.  „Formaðurinn datt á stein í götunni og fleinbraði sig á enninu“. 

Fleinn (n, kk)  Pinni; gaddur; fleygur.  „Ég rak flein í endann á rekatrénu til að festa tóginu“.

Fleipra (s)  Segja ósatt; ljúga; segja frá í heimildarleysi; skolta.  „Ekki ætla ég að fleipra með þetta“.

Fleipur (n, hk)  Bull; lygi; kjaftæði.  „Ég heyrði þetta svona, en kannski er þetta bara eitthvað fleipur“.

Fleira er illt en stela og ljúga (orðatiltæki)  Auðskiljanleg speki.

Fleira er matur en feitt ket (orðatiltæki)  Þetta orðatiltæki var oft viðhaft í Kollsvík; einkum þegar einhverjum matvöndum mislíkaði það sem á borðum var.  Ket var áður talið því betra sem það var feitara, þó nútíminn heimti helst horket.  Áður þurfti fólk orku til að stunda erfiðisvinnu og lifa við kaldranalegar aðstæður.  Er því ekki að undra að orkuríkur matur var í hávegum hafður, en hann var ekki alltaf í boði.  Stundum var í orðtakinu notað „smér“ í stað „ket“.  Stundum þessi orðaröð; „fleira er matur en ketið feitt“.

Fleira hangir á spýtunni (orðtak)  Annað býr undir en augljóst er.  „Mig grunaði það þegar hann gaf mér hrútinn, að fleira héngi á spýtunni.  Það er náttúrulega velkomið að launa fyrir þannig greiða“.

Fleira þarf að gera en gott þykir (orðatiltæki)  Gera þarf fleira en gott þykir.

Fleira þarf í dansinn en fína/fagra skó (orðtak)  Meira þarf til; annað þarf til að koma.  „Fleira þarf í dansinn en fína skó; það er ekki nóg að eiga öflugan riffil ef þú kannt ekkert að skjóta úr honum“!

Flekkja (s)  Um heyskap; raka hey saman eftir slátt í flekki, til að minni vinna sé að rifja það með hrífu.  Einkum var þetta gert þar sem þunnt var á.

Flekkótt (l)  A.  Um lit á sauðfé; hvítt með svörtum/gráum/mórauðum flekkjum/litaskellum á skrokki og oftast einnig á haus.  Svartflekkótt, gráflekkótt, móflekkótt.  B.  Skellótt.

Flekkur (n, kk)  A.  Skella; blettur.  B.  Breiða af heyi.  Oftast var einungis rætt um flekk þegar nokkuð þykkt var á.   „Allt gras var rakað saman í flekki; misstóra eftir sprettu“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  „Það var verið að þurrka hey uppi á Hólum.  Mamma var með Össur, sem sat við flekkina“  (IG; Æskuminningar). 

Flengja (s)  A.  Rassskella.  B.  Róa báti.  „Við flengdum suður á Breiðavík, en urðum fjandann ekkert varir“.  C.  Fara hratt; ferðast í flýti.  „Hann þurfti að flengja á Patró í einum grænum“.

Flengja um allan sjó (orðtak)  Fara víða í leit að fiski/veiði.  „Við flengdum um allan sjó, en fjandakornið að við yrðum nokkursstaðar almennilega varir“.

Flengjandi (l)  Hraðfara; í flýti.  „Hver skyldi koma flengjandi þarna norðan veg“?

Flengrifinn (l)  Alveg rifinn; illa rifinn.  „Eftir storminn voru strengirnir á Bótinni ýmist samansúrraðir eða svo smekkfullir af þaraskít að netið flengrifnaði í drætti“.

Flengrifna (s)  Rifna/skemmast mjög mikið/illa; rofna sundur.  „Við náðum hámerinni úr, en netið flengrifnaði á löngum kafla“.  „Buxurnar voru þröngar og flengrifnuðu þegar hann beygði sig niður“.

Flengrífa (s)  Rífa mjög mikið/illa; skaða mikið.  „Við náum ekki að draga netið svona kjaftfullt af skít án þess að flengrífa það; við skulum fara í hinn endann“.

Flenna (s)  Fletja; breiða úr.  „Það er gott að hafa þunnt á þegar breitt er úr göltum, en ekki samt flenna um of“.

Flenna sig yfir (orðtak)  Leggja undir sig; gína yfir.  „Það þýðir nú lítið að vera að flenna sig yfir meira en maður ræður við“.

Flennibjart (l)  Mjög bjart; alveg bjart.  „Maður getur nú ekki sofið lengi þegar orðið er flennibjart“.

Flennibirta (n, kvk)  Skær/mikil birta.  „Maður blindast um stund þegar komið er út í svona flennibirtu“.

Flennifærð / Flennifæri (n, hk)  Um vegi; mjög góð færð; skruggufæri.  „Það er flennifæri suður alla hálsana“.

Flenniskuð (n, hk)  Gýgjarpus; sæbjúga.  „Á vorin var oft mikið af flenniskuði (hraunpussu, sæfífli) í Látraröst og komu þá stundum tvö og þrjú á sama öngulinn í senn.  Flyðra sem veiddist á flenniskuð var nefnd oddafiskur og var hlutarbót þess sem fyrir því happi varð“ (LK; Ísl.sjávarhættir III; eftir Ó.E.TH Vatnsdal).

Flennistór (l)  Mjög stór; víðáttumikill.  „Mér er illa við að hafa flennistóra glugga á móti norðanáttinni“.

Fles (n, hk)  Grasi vaxið svæði í klettum/bjargi.  Aldrei notað í annarri merkingu í Útvíkum.  „Til að komast ofan í flesið þarf að fara alllangan lás niður gjána; út í gang; festa vað í enda hans og í honum annan lás í flesið“.

Flest/allt er hey í harðindum (orðatiltæki)  Um það að nota það sem fæst/ er nærtækt þó það sé ekki það sem menn helst hefðu viljað nota.  „Ég notaði stóran skiptilykil fyrir sökku eftir að hafa tapað tveimur slóðum; allt er hey í harðindum“.

Flest/allt er betra en berir önglar (orðatiltæki)  Notað um að allt er betra en ekki neitt / betra er að veifa röng tré en öngvu.  Líkingin vísar til þess að slæm beita er betri en engin beita, þegar rennt er fyrir fisk.

Flest/allt er nú til! (orðtak)  Upphrópun í undrunar- eða hneykslunartón þegar gengur yfir mann.  „Nú eru þeir víst búnir að finna upp vélmenni til að mjólka kýrnar.  Ja flest er nú til; ég segi það nú bara“!

Flest/allt er sætt á sjálfs búi ( orðatiltæki)  Manni finnst það yfirleitt betra sem maður hefur sjálfur aflað/ unnið að/ framleitt/ er vanur.

Flest er það! / Flest/allt getur nú skeð! (orðtök)  Upphrópanir sem gjarnan eru viðhafðar þegar manni ofbýður; þegar gengur fram af manni.  „Eru þeir að heimta skýrslur núna?  Flest er það!  Þeir halda að maður hafi bara ekkert annað að gera yfir háheyskapartímann“!  „Flest getur nú skeð!  Ég gleymdi að setja baujuna í bátinn sem ég ætlaði að hafa með!  Við verðum þá að láta olíubrúsann duga áfram“.

Flest étur svangur prestur (og soltinn djákni) (orðatiltæki)  Andsvar þegar hungruðum manni er boðinn matur; vísar e.t.v. til þeirra tíma þegar óbreyttir prestar lifðu á barmi hungurs og örbirgðar; kúgaðir af höfðingjaveldinu sem þeir unnu fyrir.  Kann einnig að vísa til græðgi kirkjuvaldsins, sbr máltækin; allt verður fyllt nema pokinn prestsins og seint fyllast sálir prestanna.

Flest frumsmíð stendur til bóta (orðatiltæki)  Flesta nýsmíði/frumhönnun má endurbæta.  Speki úr Háttatali Snorra Eddu, sem á jafn vel við í dag um alla þróunarvinnu.  Niðurlagið er meira notað; sjá standa til bóta.

Flest fyrnist þá frá líður (orðatiltæki)  Segir sig sjálft.

Flest má nota í neyð/nauðum (orðtatiltæki)  Bjargast má við margt þegar nauðsyn krefur ef ekki er völ á neinu betra; allt er betra en ekkert.

Flest má svöngum bjóða (orðatiltæki)  Hinn hungraði/svangi er yfirleitt ekki jafn matvandur og sá metti.

Flest vinnur svangur maður til saðnings (orðatiltæki)  Svangur maður gerir ýmislegt til að fá magafylli, sem sá metti myndi ekki gera.  T.d. notað ef róið er til fiskjar í tvísýnu veðri.

Flestallir (fn)  Flestir; langflestir.  „Flestallir fóru í smalanir og réttir á réttardaginn“.

Flestir sótraftar á sjó dregnir (orðtak)  Allt tiltækt notað; ólíklegustu menn fengnir til verka.  „Þá eru nú flestir sótraftar á sjó dregnir fyrst þú ert mættur í smalamennskur“.  Vísar til þess að menn notist við allt sem flýtur, jafnvel sótuga þakviði, til að fleyta sér í róður þegar fiskur er uppi við land og fleytu vantar.  Sjá sótraftar á sjó dregnir.

Flestu/öllu gamni fylgir nokkur alvara (orðatiltæki)  Oftast er nokkur meining í því sem virðist grín.

Flestum þykir lofið gott (orðatiltæki)  Fáir hafna hrósyrðum eða fyrtast við þau.

Fletja (s)  A.  Rista fisk á sérstakan hátt til söltunar.  Handtök við það geta verið nokkuð mismunandi, en ávallt er skorið beggja megin við dálkinn (hrygginn) og hann tekinn að mestu úr fiskinum.  Misjafnt er hve flatningsmenn eru lagnir og fljótir en mikilvægt er að sem minnst rýrni af fiski og að holdið haldist heillegt.  Sjá flatning fisks.  B.  Þegar bátur leggst flatur fyrir sjó í lendingu.  „Við lendingu er ár rennt út í skutnum til að varna því að bátinn fletji, því skakkafall var oft með sandinum“ (IG, Niðjatal HM/GG).  „Hitt kom fyrir að báta fyllti og flatti við landtöku...“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Fletja verður þó smátt sé (orðatiltæki)  Fisk þarf að fletja, þó hann sé smár.  Ekki var þó einhlítt að smáfiskur væri flattur.  Í seinni tíð var hann ýmist spyrtur til þurrks eða saltaður í bútung.

Fletjandi fiskur (orðtak)  Fiskur, svo stór að hann megi fletja í saltfisk.  „Hér er lítið um fletjandi fisk“.

Fletta tré (orðtak)  Saga tré (rekatré) að endilöngu.  Rekaviður sem á land berst í Kollsvík er af ýmsu tagi, en áðurfyrr var hann allur nýttur með ýmsu móti.  Smásprek voru höfð til eldsmatar; kefli til reftingar húsa, í grindaslár og í girðingarstólpa.  Stærri trjám var oftast flett, þannig að úr yrði planka- og borðviður til t.d. bygginga, bátasmíða o.fl.  Fyrr á öldum var oft notuð sú aðferð við flettinguna að reka fleyga í trén, þannig að þau rifnuðu eftir því hvernig lá í trefjunum, og síðan voru borðin höggvin til með exi.  Þegar viður er sagaður eftir legu trefjanna (langsum) þarf að nota gróftennta sög; vel skerpta og best að tönnum sé lagt nokkuð á misvíxl svo sagarfarið verði rúmt.  Í Kollsvík var á síðari tímum notuð tveggjahanda sög; þ.e. stórviðarsög með breiðu blaði og handfangi á hvorum enda.  Tveir söguðu og drógu sögina á milli sín.  Einnig var notuð stór langviðarsög fyrir eina hönd; með framhallandi tönnum.  Báðar sagirnar eru enn til á Láganúpi.  Fylgt var hinni fornkveðnu reglu; „tré skal frá rót rífa en toppi saga“; þ.e. byrjað var að saga frá toppenda bolsins, svo sagarsárið lokaðist síður.  Í sama tilgangi voru fleygar reknir í sagarsárið eftir því sem sögun miðaði.  Fyrir sögun var tréð lagt á hentuga búkka; ákveðið hvernig skyldi saga til að ná góðri nýtingu og þeim viði sem þurfti.  Tréð var þvínæst „þrætt“, en þá var þráður vættur í lýsi eða öðru og svertur með sóti.  Hann var síðan strengdur eftir trénu þar sem fyrsta sögun skyldi verða og festur á nagla.  Þráðurinn var síðan þaninn frá viðnum og látinn smella á hann aftur, en við það myndaðist svört bein lína.  Sögunin var töluvert erfiðisverk.  Sagaður viður nefndist „flettingar“.  „Bök“ nefndust flettingar af úthlið bolsins.  Síðastur til að vinna rekavið í nokkru magni var Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi.  Hann byggði sér smíðakofa uppúr gömlum tóftum niður við sjó á Láganúpi (líklega kringum 1950).  Kofinn var grjóthlaðinn, með tyrfðu helluþaki, hálf- og heilgafli og gluggum í þeim.  Á efri árum dvaldi hann þar löngum og fletti stórvið.  Mun hann hafa hugsað hann að einhverju leiti til viðgerða á bát sínum „Rut“, sem þó ekki varð af.  Kofinn féll niður um 1980.  Í seinni tíma hefur lítið verið unnið úr rekatrjám, en þá helst með keðjusög.

Flettingur (n, kk)  Tré sem sagað hefur verið (flett) að endilöngu í borðvið; battinga eða bök.  Hvert slíkt stykki heitir flettingur.  Aðrir viðir voru svo sagaðir úr flettingum.

Flettisög (n, kvk)  Langviðarsög; stór, gróftennt sög til að fletta trjám að endilöngu.  „Enn er varðveitt á Láganúpi flettisög sem Guðbjartur Guðbjartsson notaði við trjáflettingar í sjávarkofanum“.

Fley (n, hk)  Skip; far.  Oftast notað í skáldskap núorðið.  „Sem þar kemur sögn áf yrsta sumardegi/ brýndi ég mínu fjalars fleyi“ (JR; Rósarímur). 

Fleyga tré (orðtak)  Aðferð við að fletta tré.  Notaðir eru (í seinni tíð) járnfleygar og með þeim er tréð rifið/klofið í sundur.  Fleygar voru einnig notaðir til að létta á langviðarsögun trés, með því að reka þá niður í sagarfarið aftan við sögina til að halda farinu betur opnu.

Fleygbein (n, hk)  Hausbein í þorski; ofan munnholsins.  Þegar haus/kringluhaus er skorinn upp til herslu þá er skorið meðfram fleygbeininu og kinnarnar sveigðar frá því (sjá þorskhaus).

Fleygiferð (orðtak)  Mjög mikill hraði; hraðferð.  „Báturinn rann á fleygiferð uppí sandinn“.

Fleygja fúkyrðum (orðtak)  Fúkyrðast; hreyta ónotum; bölva.  „Hann fleygði fúkyrðum á eftir þeim“.

Fleygja sér (orðtak)  Leggja sig; fá sér dúr/lúr/blund; hvíla sig liggjandi.  „Ég ætla að fleygja mér smástund.  Vektu mig ef ég skyldi sofna“!

Fleygt niður á (orðtak)  Um hæfni manneskju; hefur hæfileika til; liggja vel fyrir.  „Honum var fleygt niður á málanám og kunni fjölmörg tungumál reiprennandi“.

Fleyta (s)  Um bát; setja niður/upp; láta fljóta; róa; sigla.  „Þegar veður er ógæft (í Kollsvíkurveri) gengur ei nema eitt skip af hvörs bónda hendi, og fleyta þá hvörju því hásetar allir af bátunum“  (AM/PV Jarðabók). 

Fleyta kerlingar (orðtak)  Leikur sem felst  í keppni í kasta litlum flötum steinum eftir vatnsfleti.  Ef kastað er undir réttu horni og á réttum hraða, með réttum snúningi; þá hoppar steinnin eftir vatnsfletinum.  Steinar eru mismunandi góðir fleytisteinar.  Keppnin er annaðhvort í því hver fær flest „hopp“ eða hver fleytir steininum lengst.  „Heiglum vist á víðum mar/ varla hentug myndi./  Kænan fleytir kerlingar; knúin gýgjarvindi“  (JR; Rósarímur).

Fleyta kúskel (orðtak)  Um mikið logn og algera ládeyðu.  „Kjörin hafa verið slík alla vikuna að það hefur mátt fleyta kúskel við fjöruna alla daga“.  Nokkuð algeng samlíking í Kollsvíkurveri, enda nærtæk.

Fleyta rjómann ofanaf (orðtak)  A.  Um skiljun mjólkur með gömlu lagi. Þá var nýmjólkin sett í trog og látin standa þar til rjóminn flaut ofaná undanrennunni.  Troginu var síðan hallað, þannig að undanrennan rann út um eitt horn þess.  Stundum var rjóminn í þess stað fleyttur ofanaf.   B.  Í líkingamáli um að hirða aðeins um það besta. 

Fleyta sér (orðtak)  A.  Halda sér á floti.  „Formaður fjelagsins, Ármann Guðfreðsson úr Sauðlauksdal, leiðbeindi nokkrum unglingum í sundi, er landlegur voru í Kollsvíkurveri, og lærðu þeir þannig að fleyta sjer.  Þá lærði Valdimar Össurarson fyrst að fleyta sjer, en hann kendi seinna sund í Kollsvík og víðar“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).  B.  Komast áfram;bjarga sér.  „Ég get fleytt mér í ensku“.

Fleytifullur (l)  Yfirfullur; flóandi fullur; barmafullur.  „Nú hellti ég í fleytifullan bollann“!

Fleytifylla (s)  Fylla alveg; barmafylla.  „Það má ekki fleytifylla tunnuna svona; pækillinn þarf sitt pláss“!

Fleyting (n, kvk)  A.  Það að láta hlut fljóta á vökva.  B.  „Tilfærsla flökkuefnis sem frosið er fast neðan í fljótandi ís.  Uppdrift/flotmagn íss í vatni (vegna mismunandi eðlisþyngdar þessara fasa) nægir til að ferja nokkuð magn af flökkuefni sem er mun eðlisþyngra“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Notað í Kollsvík vegna jarðfræðikenningar um frostgíga sem þar er upprunnin.

Fleytisteinn (n, kk)  Flöt steinvala sem heppileg er til að láta fleyta kerlingar.

Flétta (s)  Bregða saman þáttum þráða á ákveðinn hátt til að búa til tóg/reipi/línu o.fl.  „Konur spunnu; karlmenn táðu, greiddu hrosshár og spunnu það á vinglu, eða fléttuðu reipi og brugðu gjarðir“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  

Flikka uppá (orðtak)  Lagfæra; gera betra útlits.  „Eitthvað þyrfti að fara að flikka uppá kerruræfilinn“.

Flikkflakk (n, hk)  Handahlaup, þannig að maður fellur fram- eða afturfyrir sig á báða lófa samtímis; sveiflar upp fótum alla leið í boga þar til staðið er jafnfætis í það; nýtir sveifluna til að svifla næst höndunum, og þannig koll af kolli.  Er þá til að sjá eins og prik endastingist í sífellu. 

Flinkheit (n, hk, fto)  Handlagni; lagni; sniðugheit.  „Ekki vantar í hann flinkheitin, drenginn“!

Flinkur (l)  Fimur; laginn; liðugur.  „Það er enginn honum flinkari í vélaviðgerðum“.

Fliss (n, hk)  Aulalegur/bældur hlátur.  „Ég nenni ekki að hlusta á flissið í honum þegar hann heyrir þetta“.

Flissa (s)  Hlægja lágt/aulalega.  „Er nokkuð að undra þó maður flissi dálítið yfir þessu“?

Flíka (s)  Sýna; láta bera á.  „Maður kann ýmislegt fyrir sér, þó maður sé ekki alltaf að flíka því“.

Flísfellur (s)  Passar nákvæmlega; fellur eins og flís við rass.

Fljóta (s)  A.  Algeng merking; hlutur flýtur á vatni.  B.  Um farartæki/mann/skepnu; geta gengið/ekið á snjó án þess að sökkvi í hann.  „Menn voru misjafnlega lagnir við að láta bíl fljóta á snjónum“.

Fljóta með (orðtak)  Vera með; fylgja með.  „Hann langar að fljóta með í næsta róður, þó hann sé alveg óvanur“.  „Ég læt þennan hálfa ullarpoka fljóta með í sendingunni“.

Fljóta sofandi að feigðarósi (orðtak)  Vera andvaralaus/grandalaus um aðsteðjandi hættu; vara sig ekki.  „Þú þarft að fara að huga að þessu; það dugir ekki að fljóta bara sofandi að feigðarósi“!

Fljótaskrift (n, kvk)  A. Eiginleg merking er hraðskrift; snarhönd; skrift sem er fljótleg en oft ekki eins áferðarfalleg og önnur.  B.  Afleidd merking og algengari í seinni tíð er hroðvirknislega unnið verk; flumbrugangur eða sýndarvinna.  „Skelfileg fljótaskrift er á þessu verki öllusaman“.

Fljótdreginn (l)  Um afla; fljótt verið að draga að borði.  „Aflinn er fljótdreginn þegar fiskur er svona kolvitlaus alveg uppi undir borði“.

Fljótfarið / Fljótgengið (l)  Það sem hægt er að fara fljótt yfir; ekki seinfarið.  „Ég skal skreppa eftir þessu; það er fljótfarið á bílnum“.  „Víknafjall er skemmtileg gönguleið en ekki mjög fljótgengin“.

Fljótfær/Fljótfærinn (l)  Flumbrar; framkvæmir án fyrirhyggju.  Báðar þessar orðmyndir heyrðust. .  „Gummi var lægri og grennri maður en Liði, en kvikur á fæti, ákafa- og dugnaðarmaður, fljóthuga og gat átt það til að vera dálítið fljótfær“  (PG; Veðmálið). 

Fljótfærni (n, kvk)  Yfirsjón sem stafar af of miklum flýti.  „Þetta var nú árans fljótfærni í mér“.

Fljótfærnismistök (n, hk, fto)  Mistök sem gerð eru í fljótfærni/asa.  „Bölvuð fljótfærnismistök voru þetta“!

Fljótgert (l)  Mjög fljótlegt í framkvæmd.  „Það var fljótgert að koma aflanum í land“.

Fljóthlaðinn (l)  A.  Um vegg; fljótlegt að hlaða.  B.  Um bát; fljótgert að fylla af afla..

Fljóthuga (l)  Fljótfær; sem er fljótur að taka ákvarðanir.  „Gummi var lægri og grennri maður en Liði, en kvikur á fæti, ákafa- og dugnaðarmaður, fljóthuga og gat átt það til að vera dálítið fljótfær“  (PG; Veðmálið). 

Fljótillur (l)   Bráðgeðja; ör í skapi.  „Nemendur skemmtu sér stundum við að espa karlinn upp, en hann var fljótillur ef honum þótti eitthvað“. 

Fljótillska (n, kvk)  Mikil reiði sem varir stutta stund; stundarbræði; stundarreiði.  „Hann sá stundum eftir því sem hann hafði látið fjúka í einhverri fljótillsku“.

Fljótmjólkað (l)  Fljótt verið að mjólka.  „Það er fljótmjólkað þegar flestar kýrnar eru í geldstöðu“.

Fljótræði (n, hk)  Ótímabær verknaður/framkvæmd.  „Þetta hafðirðu uppúr bévítans fljótræðinu í þér“!

Fljótsagt (l)  Sem unnt er að segja á skömmum tíma.  „Það er fljótsagt hvað mér finnst um svona andskotans uppátæki; þetta er það vitlausasta sem nokkrum manni gerur dottið í hug“!

Fljótslegið (l)  Fljótlegt að slá.  „Þessi blettur er fljótsleginn“.

Fljótsvarað (l)  Fljótgert að svara.  „Þessari spurningu er fljótsvarað“.

Fljótt á litið (orðtak)  Í fljótu bragði; við fyrstu sýn.  „Fljótt á litið sé ég ekkert athugavert við þetta“.

Fljótt flýgur fiskisgan (orðtak)  Um útbreiðsluhraða á kjaftasögu.  „Fljótt flýgur fiskisagan.  Sést hafði til þeirra í kiki af Sandinum, og inni á vegamótum beið Keflavíkureigandi í bíl sínum“.

Fljótt/skjótt skipast veður í lofti (orðtök)  A.  Veðrabrigði geta orðið á stuttum tíma.  B.  Líkingamál; fljótt verður breyting.  „Það leit ekki vel með að við næðum fénu í rétt, svona liðfáir.  En fljótt skipast veður í lofti; allt í einu rennir í hlað fullur bíll af fólki“.

Fljóttekið / Fljóttínt (l)  Fljótt verið að taka/hreinsa egg af svæði.  „Stallurinn er sléttur og breiður og þar er fljóttekið af eggjum“.  „Það er fljóttínt efti að maður er kominn á höfðann“.

Fljótur á sér (orðtak)  Framkvæmir of fljótt / áður en hugsar til enda.  „Nú var ég allt of fljótur á mér; máfurinn var alls ekki kominn í færi“.

Fljótur til (orðtak)  Fljótur að; gerði í fljótheitum; skjótur.  „Þannig hagaði til að Júlli var með þeim fyrstu til að ljúka dagsverki sínu og var þá fljótur til að komast út úr húsi og undir bert loft“  (PG; Veðmálið). 

Fljótur til andsvars/svars (orðtak)  Svarar fljótt.  „Hann var fljótur til svars þegar ég spurði hvernig honum litist á nýja frambjóðandann“.

Fljótur upp (orðtak)  Fljótur að reiðast; fljótillur; vanstilltur.  „Hann var yfirleitt mesti rólyndismaður, en gat verið fljótur upp ef honum þótti við einhvern“.

Fljúga í höfuð/hug (orðtak)  Detta í hug; fá hugmynd; muna eftir.  „Allt í einu flaug mér það í höfuð að ég hefði líklega aldrei kveikt á kaffivélinni“.

Fljúga með (orðtak)  Um flug máva: fljúga meðfram fjöruborði og meðfram Görðunum á Grundarbökkum.  Við enda þeirra er skotbyrgi þar sem algengt var áðurfyrr að mávur væri skotinn á fluginnu, og hafður til matar.  „Mér sýnist að hann sé farinn að fljúga með núna.  Ættum við ekki að fara að rölta niður að Görðum“?

Fljúgandi hálka (orðtak)  Mjög mikil hálka.  „Það er fljúgandi hálka í Hænuvíkurbrekkunum“.

Fljúgandi læs (orðtak)  Allæs; mjög vel læs; farinn að lesa hiklaust.  „Halldóru ömmu fannst það ómögulegt að barn í hennar nærveru væri ekki orðið fljúgandi læst þegar það færi í skóla.  Þau voru enda ófá börnin sem hún kenndi að lesa; bæði í fjölskyldunni og af mestallri Vatneyri“.

Fljúgandi mælskur / Fljúgandi hagmæltur (orðtök)  Mjög vel talandi/skáldmæltur. 

Fljúgast á (orðtak)  Slást; berjast.  „Talið er að þeir hafi verið ölvaðir; hafi orðið missáttir og flogist á svo að bátnum hvolfdi“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Floga (s) A.  Flökta; fljúga; flögra; flýja.  „Hrafninn flogaði eitthvað framyfir brúnina þegar ég kom að“.  „Ég náði særðum máfnum ekki strax til að lóga honum; hann flogaði lengi vel undan þegar ég nálgaðist hann“.   B.  Hrökkva undan; flýja.  „Féð flogaði á harðarennsli upp í hlíðina þegar hundurinn fór að gjamma“.

Flokkadráttur (n, kk)  Liðsöfnuður; skipting fólks í fylkingar.  „Þó yfirleitt ríkti eindrægni og samheldni í Rauðandshreppi urðu öðru hvoru flokkadrættir um einstök mál, s.s. skólamál, vegamál o.fl.“.

Flokkahlaupari (n, kk)  Sá sem styður einn stjórnmálaflokkinn eftir annan; pólitískt viðrini; gjarnan notað um þingmann sem skiptir um flokk.  „Er hann enn að ferðbúast þessi flokkahlaupari“?  Einnig heyrðist „flokkaflakkari“, en sjaldnar.

Flokkapólitík (n, kvk)  Fylgi fólks við einstaka stjórnmálaflokka.  „Flokkapólitík var lík í Rauðasandshreppi og víða til sveita.  Þannig var t.d. á árunum 1960-1970 að á flestum bæjum átti Framsóknarflokkurinn allt fylgi.  Sjálfstæðisflokkurinn var talinn eiga öruggt fylgi á 6 bæjum og fáeinir einstaklingar studdu Alþýðubandalagið.  Krati (Alþýðuflokksmaður) fyrirfannst ekki í sveitinni“.

Flokkaritnefnd (n, kvk)  Ritstjórn/ritnefnd blaðs, þannig að hver meðlimur sér um sinn efnisflokk.  „Dvergur, hið skrifaða blað fjelagsins, hefur komið út á hverjum fundi.  Fyrstu árin var ein ritnefnd yfir veturinn, en svo var komið á flokkaritnefnd og gafst það vel að sumu leiti“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Flosna upp (orðtak)  Um búandfólk; fara á flakk; hrekjast frá sínum búum.  „... var hann (veturinn 1802) á Vestfjörðum kallaður Klaki.  Mikill fjöldi manna varð bjargþrota og margir bændur flosnuðu upp“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Flot (n, hk)  A.  Mör sem útálát.  Flot var almennt notað um mör og tólg sem haft var til útáláts á mat.  Yfirleitt var notaður hnoðmör út á fisk og kartöflur, en stundum hangiflot ef soðið hafði verið hangiket stuttu áður.  Óhnoðuð tólg var yfirleitt ekki notuð sem útálát fyrrum.  Smjör eða margarín (smjörlíki) var notað útá brasaðan (steiktan) fisk, og var þá nefnt feiti.  „Réttu mér flotið“.  „Sjaldan hef ég flotinu neitað“.  B.  Fleyting; flotkraftur.  „Við setjum á flot þegar fellur örlítið meira að“.  C.  Flotholt; flá; netaflá; korkur.

Flotdolla / Flotkolla / Flotpottur / Flotspanda (n, kvk/kk)  Ílát sem flot er brætt í og einnig oftast borið fram í; oftast lítil kastarhola/ lítill skaftpottur.  „Réttu mér flotkolluna“.  „Taktu flotdolluna af vélinni ef flotið er bráðið“.  „Brenndirdu þig á flotpottinum“?  „Handlangaðu hingað flotspönduna“.

Flotteinn (n, kk)  Korkateinn; fláateinn; flotþinur.  Efri þinur á neti; sem heldur því uppréttu í sjónum.

Flott skal það vera! (orðtak)  Upphrópun, oft notuð ef einhverjum ofbauð fordild/flottræfilsháttur annars.

Flottheit (orðtak)  Fínheit; glæsileiki.  „Þar vantar ekki flottheitin“.

Flottræfilsháttur (n, kk)  Sýndarmennska; glysgirni; hégómi.  „Þetta er nú bara flottræfilsháttur“.

Flóafriður (n, kk)  Stundarfriður; hlé á gauragangi.  „Það er bara ekki flóafriður fyrir fjandans símanum“!

Flóandi (l)  Flæðandi; streymandi.  „Stelpugreyið kom til mín, flóandi í tárum, og sagði að hún væri höfð útundan“.  „Hversvegna er allt borðið flóandi í mjólk“?

Flóandi fullur (orðtak)  Fleytifullur; yfirfullur; fullur svo útúr flóir.  „Ekki hella svona flóandi fullt glasið“!

Flóðamörk (n, hk, fto)  Sú hæðarlína í fjöru sem sjór fellur að á háflæði.  „Við þurfum að koma trénu örugglega uppfyrir hæstu flóðamörk“.

Flóðatafla (n, kvk)  Tafla/skrá yfir tímasetningu sjávarfalla, sem á síðari tímum er útgefin í ýmsum handbókum og almanökum.  „Mér sýnist ætla að verða ágætis sjóveður á morgun; ertu búinn að skoða flóðatöfluna“?

Flóðgarður (n, kk)  Garður til varnar vatns- eða sjávarflóðum.  Ekki er unnta að fullyrða að neinar af þeim miklu hleðslum sem finnast í Kollsvík sé eiginlegur flóðgarður.  Tvennt gæti þó verið að athuga í Láganúpslandi:  Annarsvegar Garðarnir með öllum Grundabökkunum, sem vermenn hlóðu að mestu.  Þeir hafa áreiðanlega fyrst og fremst verið þurrk- og vörslugarðar og skjól fyrir hafnæðingi, en hafa einnig stöðvað sjó í því að flana uppyfir tún í hæstu sjávarstöðu og sjógangi.  Hinsvegar eru hinar fornu garðleifar sem sjá má ofanvið Flötina á Láganúpi (áður Svuntu).  Ofanvið garðinn er farvegur sem Gilið hefur brotið sér, áleiðis niður í Svuntumýrina sem áður var þar sem Brunnhússkurðurinn er nú.  Garðurinn gæti hafa verið hlaðinn til að beina vatnavöxtum í Gilinu framhjá túnblettinum á Svuntunni.  Einnig hafa verið uppi kenningar um að garðurinn væri sandvarnagarður, og jafnvel fyrirmynd Rangláts í Sauðlauksdal.

Flóðhey (n, hk)  Hey af flæðiengjum.  Einkum er slíkar engjar að finna á Rauðasandi, þar sem sjór gengur upp á gróið land á stærstu flæðum og skilur eftir allmikil næringarefni.  Má segja að nýting þess sem fóðurs hafi t.d. átt verulegan þátt í auði og velgengni Saurbæjar.  Fyrir kom, í grasleysisárum seint á 20.öld, að hey var flutt úr Bæjarodda á Kollsvíkurbæi.  Það þótti þó mun síðra fóður en túnataðan.  „Að lokum ræð ég flestum þeim til er gefa flóðhey; jafnvel þó vel verkist, að gefa með þeim steinefni; salt.  Efnarannsókn hefir leitt í ljós einmitt steinefnavöntun í þessum heyjum“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Flóðleka (s)  Leka mikið.  „Eitthvað hefur báturinn slegið úr sér í látunum; hann flóðlekur þarna við skeytið“.

Flóðlekur (l)  Um ílát eða bát; mikið lekur.  „Fóru þeir virkilega á sjó á bátskriflinu svona flóðleku“?!

Flóðmjólk (n, kvk)  Mjög há nyt í mjólkurkú.  „Það má ekkert minnka við hana fóðrið meðan hún er enn í þessari flóðmjólk“.  „Það er orðið knappt um brúsa þegar svo margar eru í flóðmjólk“.

Flóðmjólka (s)  Um kýr eða ær; mjólka mikið.  „Búkolla fljóðmjólkar enn þó hún ætti að vera komin á geldstöðu“.

Flóðrigna (s)  Hellirigna; rigna mjög mikið.  „Það er farið að flóðrigna eins og hellt sé úr fötu“.

Flóðrigning (n, kvk)  Hellirigning; rignir eins og hellt sé úr fötu.  „Það er sama flóðrigningin ennþá, við skulum hinkra dálítið lengur með þetta“. 

Flókatryppi (n, hk)  Upprunalega um ljótt tryppi, en í seinni tíð notað um ósnyrtilega manneskju  „Farðu nú og greiddu þér krakki.  Þú lítur út eins og flókatryppi“!

Flónsháttur / Flónska (n, kk)  Heimskupör; heimska.  „Skelfingar flónsháttur er það að binda ekki bátinn“.  „Það var auðvitað bara flónska að leggja af stað í svo tvísýnu útliti“.

Flónskupör (n, hk, fto)  Heimskupör; flónska.  „Vonandi gerir hann ekki svona flónskupör aftur“.

Flórgoði (n, kk)  Podiceps auritus; sefönd.  Fugl af goðaætt sem fremur sjaldgæfur er á Íslandi en verpir núna víða á landinu, þó helst við Mývatn.  Hefur sést í Kollsvík (á Startjörnum í Vatnadal).  Líkist sumpart smávaxinni önd; höfuðið stórt og svartgljáandi; stórir gulir fjaðrabrúskar aftur frá augum; háls og síður rauðbrún; bak og afturháls dökk; kviður hvítur; yfirvængir með hvítum speglum.  Lifir á hornsílum og öðrum vatnakvikindum, en étur eigin fiður til að bæta meltinguna.  Góður sundfugl og kafari en þunglamalegur að taka á loft.  Stígur tilkomumikinn dans í tilhugalífi; verpir í grunnu hreiðri skammt frá vatns-/árbakka; syndir gjarnan með unga á baki sér.  Að mestu farfugl með vetrarstöðvar við Bretland og Frakkland.

Flórmokstur (n, kk)  Mokstur kúaskíts úr flór út á haug eða í haughús. 

Flórreka (n, kvk)  Fjósaskófla; fjósreka; skítaskófla; mykjuskófla.

Flug (n, hk)  Það að fljúga.  Í Kollsvík var orðið notað sérstætt; um það þegar mikið af máfi flýgur með Görðunum, en þá er mögulegt að liggja í skotbyrgi og skjóta á fluginu.  „Mér sýnist vera töluvert flug“.

Fluga (n, kvk)  Þegar rætt var um flugu í Kollsvík var einkum átt við fiskiflugu/maðkaflugu (sjá þar) enda var hún mesti skaðvaldurinn.    „Passaðu að þrífa vel allt blóð og að spyrðurnar liggi ekki saman, svo ekki sæki í þær fluga“.  Einnig er oft mikið af þangflugu í þaranum og húsflugu í húsum.

Flugbeittur (l)  Mjög beittur; bítur mjög vel.  „Gærur sem nota átti í sjóklæði voru rakaðar með flugbeittum hníf; síðan lagðar í blásteinslút“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Fluggáfaður (l)  Mjög vel gefinn; mjög greindur.  „Hann er sagður fluggáfaður og margfróður“.

Flughamar (n, kk)  Þverhnípi; standklettur; strengberg.  „Þarna er bara flughamar undir“.

Flughálka (n, kvk)  Fljúgandi hálka; mikil hálka.  „Gættu að þér í þessari flughálku“.

Flughraði (n, kk)  Mjög mikill hraði.  „Við góðar aðstæður gátu menn náð flughraða á góðum sleða, ef byrjað var efst í Hólabrekkunni, þar sem brattast er“.

Flugnatíð (n, kvk)  Tímabil þegar mikið er um flugu/fiskiflugu.  „Það er ferleg flugnatíð í mollunni“.

Fluglínutæki (n, hk, fto)  Björgunartæki til að bjarga mönnum í land úr strönduðu skipi.  Þau sönnuðu rækilega gildi sitt þegar björgunarafreikið við Látrabjarg var unnið, en þar voru Útvíknamenn fremstir í flokki.  Aftur nýttust fluglínutækin þegar Sargon strandaði undir Hafnarmúla nokkru síðar, og aftur voru Útvíknamenn fremstir í flokki Björgunarsveitarinnar Bræðrabandsins, sem bjargaði þeim sem af komust.  Fluglínutæki voru lengi geymd á Stekkjarmel, og víðar í hreppnum.  Sjá halablökk.

Fluglæs (l)  Mjög fær í lestri.  „Mikið var lagt upp úr því fyrrum að börn væru fluglæs áður en þau færu í skóla“.

Flugnager (n, hk)  Mikið af flugu; flugnaplága.  „Árans flugnager er hérna eftir að ég hengdi upp grásleppuna“.

Flugrek (n, hk)  Mikið rek á sjó; mikil drift.  „Það þýðir ekkert að dýfa færi í sjó í þessu flugreki; við skulum bíða þangað til ferð að kippa úr“.

Flugstig (n, hk)  Efsta stig.  „Hann var kominn á flugstig að skjóta þegar hann mundi að byssan var óhlaðin“.

Flugsyndur (l)  Mjög góður í sundi.  „Ekki segi ég að maður yrði flugsyndur á námskeiðinu, en það hjálpaði“.

Flugufótur fyrir (orðtak)  Sannleikskorn í.  „Það er kannski einhver flugufótur fyrir þessari sögu“.  Sjá fótur fyrir.

Flugufrétt (n, kvk)  Frétt sem flýgur fyrir; ávæningur; örstutt frétt.  „Einhverja flugufrétt heyrði ég um það“.

Flugumynd (n, kvk)   Um það sem varla verður vart við:  „Ég get ekki sagt að ég hafi séð hann undanfarið.  Hann kemur hér í flugumynd; fær sér einn kaffibolla og er rokinn aftur“! 

Flugveður (n. hk)  A.  Stíf og jöfn norðanátt, svo nefnd í því samhengi að þá var heppilegt að liggja við í skotbyrginu á Grundarbökkum og skjóta máf á fluginu.  B.  Síðari tíma merking; fært veður fyrir flugvélar.

Flumbra (s)  A.  Vera fljótfær og óvandvirkur; klúðra.  „Ekki dugir að flumbra að þessu vandasama verki“.  B.  Meiða, skursla.  „Gætttu þín að flumbra þig ekki á þessu“.

Flumbra sig (orðtak)  Hrufla/skera sig; meiða sig svo af verði opið sár.  „Þú hefur eitthvað flumbrað þig á hnéu þegar þú dast“.  „Farðu nú varlega með bettan hnífinn svo þú flumbrir þig ekki“.  Eldri mynd: fleinbra.

Flumbraður (l)  Meiddur; skrámaður.  „Hann var eitthvað flumbraður á hendinni eftir fallið“.

Flumbrari (n, kk)  Sá sem flumbrar/flaustrar við verk.  „Hann var talinn nokkur flumbrari, en vel gekk undan honum og hann var hrókur alls fagnaðar á vinnustað“. 

Flumbur / Flumbrugangur / Flumbruháttur (n, kk/hk)  Óvandvirkni; fljótfærni.  „Skelfingar flumbur er þetta; hér er það vandvirknin sem gildir“!  „Þessi flumbrugangur við smíðina er óviðunandi“. 

Flunkunýr (l)  Glænýr; alveg nýr.  „Slátturinn gekk seint og illa því Barnið (draugur) tafði fyrir honum.  Ekkert bætti það um þó Jón tæki með sér Biblúna eða aðrar algengar guðsorðabækur í slægjuna.  Barnið kunni þetta allt og ónáðaði Jón við sláttinn.  En svo kom séra Gísli með flunkunýja húslestrarbók og fékk Jóni bura.  Þessa bók hafði Barnið aldrei séð og Jón gat farið að slá og lauk stykkinu á sæmilegum tíma.  Bók þessi var húslestrarbók Árna Helgasonar biskups.  En þessi vera Jóns bura í Sauðlauksdal dró þann dilk á eftir sér að nærri oll börn séra Gísla ærðust og sagnir mynduðust um sendingu og draug þar í dalnum er var nefndur Dalli“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Flus (n, hk)  Kartöfluhýði.  „Kastaðu svo flusinu í hundadallinn þegar þú ert búinn að flysja kartöflurnar“.

Flutningabátur (n, kk)  Bátur til flutninga, t.d. á afla úr veri.  „Róðrarbátarnir tóku oft ekki allt það er ein skipshöfn hafði til flutnings, þótt áður væri búið að losa sig við þorskaflann.  Var þá helst til ráðs að fá stærri flutningabáta til þessara ferða“  (KJK; Kollsvíkurver).

Flutningadallur (n, kk)  Flutningaskip.  „Þessi flutningadallur siglir óvanalega grunnt fyrir“.

Flutningaferð (n, kvk)  Ferð til flutninga, t.d. á afla úr veri.  „Ég hef áður minnst á gamla Fönix í Kollsvík.  Kom hann talsvert við sögu í flutningaferðum“  (KJK; Kollsvíkurver).

Flútt (n, hk)  Jöfn hæð/lengd.  „Grunnbólið er í flútt við tangann“.  Sjá flútta og í flútt við.

Flútta / Flútta við (s/orðtak)  Vera jafnt; bera saman.  „Heyvagninn flúttaði við neðri brún töðugatsins, svo við gátum rennt heyinu inn án þess að lyfta því“.  Dönskusletta; „flugte“; nokkuð notuð í Kollsvík.

Flyðra (n, kvk)  Lúða; sjá þar.

Flygsa (n, kvk)  Flykki/tætla á lofti;.  „Einhver stór flygsa var inni í kríugerinu; það var hrafninn“.  „Þær eru ekki litlar flygsunar í þessu éli“.

Flygsast (l)  Flaksa; feykjast.  „Ég ætla að festa betur hærurnar á göltunum; sumar þeirra eru farnar að flyksast“.

Flykki (n, hk)  Stórt stykki; það sem er stórvaxið.  „Hvalurinn var gríðarstór flykki“!  Orðið er ýmist ritað með „y“ eða „“i“ í miðju, og má ekki milli sjá hvort er réttara, þar sem orðið er komið af erlendum samheitum sem gefa báðar fyrirmyndir:  T.d. forndanska, fornsænska Flykke“ og nýnorska „flykkje“; en færeyska flikki og fornenska „flicce“.  Upprunalega merkti það einkum svínslæri eða flesksíða.

Flys / Flus (n, kvk, fto)  Sköturoðsvefjur; fótabúnaður úr sköturoði.  „Í vefjur var einungis notað roð af stórri skötu; flenju/gammskötu, og voru oftast tekin af henni nýrri.  Roðið var lagt þannig á fótinn að totan, efsti hluti þess, kom fyrir tærnar og undir þær.  Það huldi síðan fótinn að ofan og náði upp á legginn.  Margbundið var um þessa vestfirsku sköturoðsvefju/flys/flus, sem einkum var höfð til hlífðar í slabbi við útiverk“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimild m.a. ÁE). 

Flysja (s)  Skræla; taka hýði af kartöflum  „Það þarf ekkert að flysja svona nýjar kartöflur“.  Alfarið notað í Kollsvík, en ekki „skræla“.

Flytja (s)  A.  Færa til; fara með.  „Það verður handleggur að flytja þetta útyfir hálsinn“!  B.  Færa búsetu sína; skipta um aðsetur.  „Vorið 1961 fluttum við að Kollsvík og bjuggum þar í 10 ár, til haustsins 1971, en þá fluttum við í Kópavog“  (IG; Æskuminningar). 

Flytja á mölina (orðtak)  Slanguryrði yfir það að flytja úr sveit í kaupstað. Ástæða orðalagsins er sú að kaupstaðir eru flestir á malareyrum.

Flytja búferlum (orðtak)  Flytja heimili/bú sitt milli staða.  „Auk þess er einnig borið á minni bát frá Vesturbotni, sem aðeins hafði verið nokkra daga við róðra í Verinu.  Eigandi hans hafði fyrir fáum árum flutt búferlum frá Láganúpi í Kollsvík að Vesturbotni“  (KJK; Kollsvíkurver).  Búferli eru færanlegt fé.

Flytja í verið (orðtak)  Um útgerð Kollvíkurbænda; flytja sig tímabundið úr íbúðarhúsi í verbúð, þar sem dvalið var yfir vertíðina.  „Í síðustu viku vetrar eða fyrstu viku sumars var flutt í Verið; helst alltaf á laugardegi“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Flytja lögmann (orðtak)  Hægja sér; ganga örna sinna.  „Sagt er að Lögmannsláin, dýpsta lautin í Grundatúni, dragi nafn af því að þangað hafi vermenn í Láganúpsveri gengið til að flytja lögmann“.

Flytjast  (s)  Vera fluttur inn.  „Það voru fyrstu bakhlaðningarnir sem fluttust“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli). 

Flýgur fiskisagan ( orðatiltæki)  Þær fréttir berast fljótt út sem merkilegar þykja, hvort sem það eru sögur af góðum aflabrögðum eða öðru.

Flýja á náðir einhvers (orðtak)  Leita athvarfs/skjóls hjá einhverjum. 

Flýta sér / Flýta för sinni (orðtak)  Vera fljótur; herða á hraða; haska sér; hraða sér.  „Þú verður að flýta þér ef þú ætlar ekki að missa af þeim“!  „Sá flýtti för sinni svo að hann gaf sér ekki tíma til að fara af baki til að pissa“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Flýtur meðan ekki sekkur (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að alltaf sé von meðan unnt er að haldast á yfirborðinu; meðan maður er ekki dauður.

Flýtur sofandi að feigðarósi (orðatiltæki)  Hætta getur steðjað að meðan maður hefur ekki vara á sér.  Sjá fljóta sofandi að feigðarósi.

Flæða (s) A.  Um hegðun vökva í halla; renna.  „Í asahláku flæðir stundum leysingavatn úr Gilinu niður yfir Flötina“.  B.  Í líkingamáli.  „Mjólkin flæðir úr kúnum í gróandanum“. „Það flæddi úr honum óstöðvandi munnræpa“.  C.  Um sjávarfall; falla að.  „Við þurfum að setja bátinn hærra áður en flæðir meira“.  D.  Um hættu fyrir sauðfé; drukkna á útfiri vegna aðfalls.  „Þarna á skerinu er flæðihætta, og þurfti að vakta fé á aðfallinu til að það flæddi ekki þar“.

Flæðarhátt (l)  Háflæði; háflóð.  „Var síðan byrjað að draga þá upp sem á nefinu vour um nóttina, því flæðarhátt var; ekki var hægt að byrja á þeim sem voru í fjörunni“  (SbG; Að vaka og vinna). 

Flæðarmál (n. hk)  Mörk þess sem sjór fellur hæst á flæði.  „...takmörkuð grjótnámsréttindi, að minnsta kosti ofan við flæðarmál“  (PJ; Barðstrendingabók).

Flæðarmús (n, kvk)  A.  Þjóðsagnakvikindi; mús sem sögð er lifa í sjó, en skríður stundum upp á útsker; logagyllt að lit, og er stundum á kreiki í flæðarmálinu.  Náist hún, dregur hún peninga að eiganda sínum úr sjónum.  Láti menn pening undir hana sækir hún samskonar pening út í sjó.  Eina leiðin til að veiða flæðarmús er að leggja fyrir hana fínriðið net úr meyjarhári.  Best mun vera að geyma hana í hveiti; liggjandi í meyjarhári og þar undir skal vera gullpeningur.  En menn urðu að losna við hana áður en þeir dóu, og það var ekki vandalaust.  Best var að setja hana í sjóvettling; sívefja með snærum og róa með hana út á sjó.  En það þurfti að gera með aðgát, því þegar músin kemur í sjó veldur hún mannskaðaveðri og gríðarlegu hafróti; svonefndu flæðarmúsaveðri./músarbyl.  B.  Dýr (Aphrodite aculeata) af ætt burstaorma sem lifir á grunnsævi og finnst oft fremst framá útfiri í sandfjöru.  Brúnleit, flöt, sporöskjulaga og alsett grábrúnum burstum á hliðum; einskonar kögri. Verða allt að 15-20cm.

Flæðarróður (n, kk)  Fiskiróður sem hafinn er í flæði, sjá róa í flæðina.  „Eins og áður er getið var ávallt róið í flóð og fjöru.  Flæðarróðrarnir voru betur þokkaðir, af ástæðum sem fyrr greinir“ (KJK; Kollsvíkurver).

Flæði (n, kvk)  A.  Flóð; sá tími sjávarfalla þegar sjór stendur hæst; háflæði.  B.  Stundum notað um þann tíma sjávarfalla þegar fellur að.  „Við lendum í flæðina“.

Flæðihætta (n, kvk)  Hætta á að sauðfé lokist af þegar sjór fellur að; að féð flæði.  „...klettahlein sem heitir Stórahryggshlein.  Á henni er flæðihætta og hefur oft flætt þar fé“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  „Þar sem flæðihætta var varð að smala öllu fé daglega“ (PJ; Barðstrendingabók).

Flæðisker (n, hk)  Sker/hlein þar sem er flæðihætta.  Samheiti fyrir flæðisker, svelti og drápsdý er „hættur“.  Sjá á flæðiskeri staddur.

Flæðivaðall (n, kk)  Vaðall/áll sem sjávarfalla gætir í.  „Nyrst er landið brattar hlíðar, en er sunnar dregur myndast láglendi nokkuð meðfram vatni því sem er á láglendingu og fellur bæði úr og í og nefnist flæðivaðall“  (KJK; Örn.skrá Tungu).

Flækingskind / Flækingsfé / Flækingsskjáta (n, kvk/hk)  Kind/fé sem heimtist annarsstaðar en hennar/þess er von.  „Stundum heimtist ein og ein flækingskind innan af Barðaströnd í Breiðavíkurrétt“.  „Hér er komin einhver flækingsskjáta frá kaffibrúsakörlum á Patró“.

Flækingshundur / Flækingsköttur (n, kk)  Hundur/köttur sem flakkar á aðra bæi, án eiganda.  „Nú er tíkin á lóðaríi; það er ekki þverfótað fyrir flækingshundum“.   „Einhver flækingsköttur er kominn í hlöðuna“.

Flækingur (n, kk)  Flakk; óvissuferð; ferð án skipulags.  „Ekki veit ég hvaða flækingur var á honum þarna“.

Flækja (n, kvk)  A.  Flóki; hverskonar samanhnýttur ruglingur á þræði/neti/línu/vað/færi.  B.  Samanvöðluð fiskilína/lóð sem tíðum hefur rekið á fjörur Útvíkna á seinni tímum.  Flækjur með heillegri línu voru oftast teknar heim og greiddar.  Fengust úr þeim hin ágætustu þarfabönd.  Sumum fannst hin besta skemmtun og gestaþraut að greiða flækjur og hrósuðu happi að komast í slíkt. 

Flækjufótur (n, kk)  Sá sem er mjög dettinn/hrösull.  „Varstu nú að detta í grjótinu og meiða þig; skelfilegur flækjufótur geturðu nú verið“!

Flækjugjarn (l)  Um lina línu/tóg/færi/band sem gjarnara er að slást inní og flækjast en öðru sem stífara er.  Einnig um net sem gjarnt er á að flækjast.  „Mikið sé ég eftir að hafa notað þessa hamplínu í netatein; hún er svo andskoti flækjugjörn“.

Flæma af /frá/burt (orðtök)  Hrekja af/frá burt.  „Við skulum ekkert vera að flæma fuglinn af hreiðrinu“.  „Vertu ekki með þennan hávaða; þú flæmir fiskinn frá bátnum“!  „Hann sagði að það hefði kostað nokkrar særingar að flæma óvættinn frá“.  Vísar líklega til „flæmi“; víðátta.  Sjá fara undan í flæmingi og vera á flæmingi.

Flæmi (n, hk)  A.  Víðátta.  „Það er handtak að smala allt þetta flæmi“.  B.  Stórt svæði í bjargi/klettum, sem oft má fara um og jafnvel nýta þar varp.  Orðið er ekki notað annarsstaðar í þessari merkingu en í Bjarginu og grannbyggðum þess.  „Utan við ritugjá er Eiríksflæmi.  Það er rétt fyrir ofan vitann.  Flæmi er hverlfing inn í bjargið.  Þar er ekki gras“  (DE; Örn.skrá Látrabjargs).

Flæmingur (n, kk)  Hrakhólar flækingur.  Eingöngu notað í orðtökunum fara undan í flæmingi og vera á flæmingi.  Dregið af flæmi í merkingunni víðátta.

Flærð (n, kvk)  Undirferli; óheilindi; fals.  „Svo koma þessir skrattakollar rétt fyrir kosningar; ekkert nema flærðin uppmáluð, og þykjast allt vilja fyrir mann gera“!

Flæsa (n, kvk)  Þurrkflæsa; öflugur þurrkur með frískum vindi; oft skammvinnur en nýttist gjarnan vel.  „Það var erfitt að þurrka heyið í vætutíð og þess vegna var um að gera að nota hverja flæsu til hins ítrasta“  (FÓT; Smiður í fjórum löndum).  Sjá vestanflæsa; norðanflæsa; þurrkflæsa.

Flæsudagur (n, kk)  Þurrkdagar; dagar sem unnt er að þurrka hey.  „Þetta hefur verið samfelld óþurrkatíð, fyrir utan þessa fáu flæsudaga í byrjun“.

Flögra/Flökra að (orðtak)  Detta í hug; íhuga.  „Flökra var notað í neitunarsetningum en „flögra“ í hiksetningum.  „Það flökraði ekki að méreitt augnablik að skilja barnið eftir eitt heima“.  „Ég játa að það hefur stundum flögrað að mér að hætta við þetta alltsaman“.

Flökkueðli (n, hk)  Löngun til að flakka/ferðast.  „Hann segist vera haldinn þessu flökkueðli“.

FlökkuefniFlökkuaur / Flökkusteinn / Flökkutorfa (n, kk)  „Efni sem ís fleytir/ hefur fleytt úr botni frostgígs upp á frálagssvæði.  Efnið getur verið af ýmsu tagi; frá aur og leir upp í allnokkra hnullugssteina og frá moldarhnúskum uppí allstórar torfur.  Orðið „flökkusteinn“ hefur lengi verið notað um grjót á fjörum sem borgarís hefur borið frá Grænlandi, m.a. upp á Kollsvíkurfjörur, og einnig gengur undir heitinu grænlendingur.  Segja má að hér sé um það sama að ræða; enda er flutningsmátinn um margt líkur þó uppruni sé annar“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Notað í Kollsvík vegna jarðfræðikenningar um frostgíga sem þar er upprunnin.

Flögra að / Flökra að (orðtak)  Detta í hug; koma til hugar.  „Það flögraði stundum að mér að hætta við allt saman“.  „Aldrei flökraði það að neinum þeirra að gefast upp, þó útlitið væri dökkt“.

Flökra við (orðtak)  Bjóða við; fá velgju/ælutilfinningu.  „Byrjendum flökrar oft við lyktinni af netunum, þegar þau eru dregin eftir brælu; oft full af úldnum þara, svampdrullu og sundurrotnuðum fiski“.

Flökkuhundur (n, kk)  Hundur sem flakkar á aðra bæi en heimabæ.  „Því var viðbrugðið í sveitinni, hér áður, að þegar flökkuhundarnir höfðu gert einhverja skömm af sér þá stungu þeir skottinu á milli lappanna og étu sig hverfa á hljóðlátan hátt“ (AÍ; Árb.Barð 1980-90).

Flökt á fugli (ortak)  Notað af mávaskyttum um það þegar fugl flýgur stefnulaust í stað þess að fljúga ákveðið með fjörubökkunum og gefa þannig færi á sér.  „Það er eitthvað flökt á fugli þarna suður með Hreggnasanum.  Óvíst samt hvort þetta kemur hér norðurmeð“.

Flökta (s)  A.  Um ljós; hafa misjafna birtu; vera óstöðugt.  „Lokaðu fyrir súginn svo ekki flökti svona á kertinu“.  B.  Um flug fugla; fljúga stefnulítið.  „Þarna flöktir einn með flæðarmálinu; vertu til með byssuna“.

Flöktandi (l)  Óákveðinn; hikandi.  „Ég var nú dálítið flöktandi með það hvað skyldi kjósa núna“.

Flökurleiki (n, kk)  Ælutilfinning; klígja; velgja; viðbjóður.

Flökurt (l)  Klígja;verða umbult.  „Mér er hálf flökurt í þessum veltingi; ég held ég láti það eftir mér að æla“.

Flös (n, kvk)  Grynningar í sjó, sem ekki koma uppúr en oft brýtur á og eru hættulegar bátum.  Oftar var notað „grynningar“ vestra, en þetta heyrðist þó.

Flöskuskeyti (n, hk)  Boð sem skrifuð eru á bréfmiða og sett í flösku sem síðan er varpað í sjó.  Flöskuskeyti rekur stundum á fjörur, t.d. í Kollsvík.

Fnasa / Fnæsa (s)  Hvæsa/blása/hnissa út um nef.  „Kindin sneri sér við uppi í brekkunni og fnæsti á okkur“.  „Nú er hann fnæsandi af reiði yfir þessari nýju uppákomu“.

Foj (l)  Móðgaður; fúll.  „Hún varð bara eitthvað foj þegar talið barst að kvenseminni í karlinum“.  Orðið finnst ekki í orðabókum, en þar er nefnt orðið „fau“, svipaðrar merkingar.

Foj for satan (orðtak)  Blótsyrði/upphrópun til að lýsa fyrirlitningu/vanþóknun.  „Nú þykist þessi flokkur ætla að gera nákvæmlega það sem þeir bölsótuðust yfir þegar þeir voru í stjórnarandstöðu!  Foj því for satan“!

Fok (n, hk)  A.  Skaði af völdum vinds.  „Varð eitthvað fok hjá ykkur í veðrinu“?  B.  Það sem fokið hefur í vindi; fokdreifar; sandskaflar.  „Það hefur sest töluvert fok í skafla ofanvið hlöðuna“.

Fokdreifar (n. kvk, fto)  Slæður af heyi sem dreifst hafa í vindi; dreifar.  „Við rökuðum mestu forkdreifarnar“.

Fokdýr (l)  Mjög kostnaðarsamur; rándýr.  „Er svona bíll ekki fokdýr“?

Fokhætta (n, kvk)  Svo hvasst að munum, húsum og/eða heyi er hætt við að fjúka.

Fokið í flest/öll skjól (orðtak)  Flestir góðir kostir útilokaðir; fátt um úrræði.  „Okkur þótti fokið í flest skjól þegar hann brást okkur“.  Líking við það að snjóskaflar séu komnir á flesta staði þar sem annars væri unnt að leita skjóls í hríðarveðri.

Fokillur /Fokvondur /Foköskuvondur (l)  Mjög reiður; bálreiður.  „Hann varð fokvondur þegar hann heyrði þessi málalok“.

Fokk (n, hk)  Dund; gagnslítil vinna.  „Ég nenni ekki að standa í svona fokki þegar nóg annað er að gera“.

Fokka (n, kvk)  Fokkusegl/stagsegl; þríhyrnt segl sem oftast er notað ásamt sprytsegli, gaffalsegli eða loggortusegli, en sjaldan með þversegli.  Fokka er framanvið siglu, og er fremra horni oft fest á spruð/útleggjara/bugspjót, sem gengur fram af stefninu.

Fokka (s)  A.  Dunda; dúðra; vinna það sem lítið gagn er að.  B.  Falla.  Sjá láta fokka.

Foksandsdyngja / Foksandsskafl (n, kvk)  Hóll/skafl/ stór ahugur af foksandi.

Foksandur (n, kk) Skeljasandur sem fokið hefur úr fjöru.  „Foksandur hefur stundum verið til vandræða við búskap sunnantil í Kollsvíkinni.  Í byrjun 18. aldar kvarta bændur yfir því að tún spillist árlega af foksandi“.

For (n, kvk)  Leðja; úrgangur manna eða dýra í safnþróm.  „Það þarf að ausa mestu forinni úr haughúsinu áður en hægt er að byrja að stinga út“.  Forað var notað í sömu merkingu.

For Satan (orðtak)  Blótsyrði í mildari kantinum; ættað frá Dönum.  „Ég veit ekki for Satan hvað af þessu varð“!

Fora út (orðtak)  Drulla/skíta út; gera skítugt/forugt.  „Ansi ertu nú búinn að fora þig mikið út, greyið mitt“!

Forað (n, hk)  A.  Bleytuseil; drulludý; fúafen.  „Féð fer ekki yfir þetta forað“.  B.  Flagð; tröll.  „Fíflinu skal á foraðið etja“.

Foraðsblautur (l)  Forblautur; rennandi blautur.  „Féð er foraðsblautt eftir slagveðrið“. 

Foraðsbleyta (n, kvk)  Mjög mikil bleyta; einkum notað um bleytu í grasi; mikið náttfall.  „Það er enn sama foraðsbleytan; ég var að þreifa á rétt áðan“.

Foraðsdý / Foraðskelda / Foraðskviksyndi (n, kvk/hk)  Drápsdý; botnlaust fen.  „Garðurinn liggur fram hjallana og svo niður brekkuna í svonefnt Garðsendadý sem var foraðskelda undir brekkunni“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).  „Þarna á milli holtanna eru sumsstaðar stórhættuleg foraðskviksyndi“.

Foraðsrigning / Foraðsdemba / Forðaðsúrhelli (n, kvk)  Úrhellisrigning; skýfall.  „Ég ætla að láta sjá aðeins með að setja féð út; láta sjá hvort dregur ekki úr þessari foraðsrigningu“.

Foraðsslydda / Foraðsslydduél / Foraðshríð (n, kvk)  Mikil og blaut slydda í hvassviðri.  „Það er varla fært milli húsa í þessari foraðsslyddu“. 

Foraðsveður (n, hk)  Mjög slæmt veður; veðurofsi; hrakviðri.  „Við látum féð ekki út í þetta foraðsveður“.

Forakt (n, kvk)  Fyrirlitning; lítilsvirðing.  „Ég ætla nú að sýna þessu þá forakt sem mest ég má“!

Forakta (s)  Sniðganga; sýna lítilsvirðingu.  „Strákunum hætti til að forakta þessi eindregnu tilmæli að koma strax heim.  Stundum þurfti að snudda örlítið í bröndum fyrst“.

Foraktaður (l)  Fyrirlitinn; sniðgenginn; sýnt einelti.  „Fyrir þessa sérvisku var hann foraktaður af ýmsum“.

Forardý ( Forarmýri (n, hk, fto)  Forarveita; foraðskelda.  „Drápsdý nefndust forardý er voru áður í túninu í Sauðlauksdal...“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Forarveita / Forarvilpa / Forarsvað (n, kvk)  Dýjasvæði; miklar seilar; varasamt svæði vegna bleytu. „Varaðu þig á forarveitunni hér neðanvið“.  „Þetta svæði er allt ein forarvilpa sem ekki reyndist unnt að ræsa fram“.

Forarpyttur / Forarkelda (n, kk)  Dý: drápsauga.  „Gætið ykkar á forarpyttunum; þeir geta leynt á sér“.

Forarsvakki (n, kk)  Mýrarsvakki; Forarveita.  „Fram af Löngumýri er Hreinlætisaugu; forarsvakki“  (SbG; Örn.skrá Hænuvíkur).

Forarvað (n, hk)  Vað/leið yfir forarseil.  „Á Réttarkrók var Svartavað á gömlu götunni úr Oddanum; forarvað ofarlega, rétt hjá Stórakrók“  (ÍÍ; Örn.skrá Saurbæjar).

Forarþró (n, kvk)  Hlandfor; skítkjallari; þró framanvið fjós sem hland/skítur safnast í.

Foráttubrim (n, hk)  Mjög mikið brim; ólendandi með öllu.  „Það var komið foráttubrim í lendingunni, enda hafði vindur nú snúist til suðvesturs og kominn sortabylur“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Forátturigning (n, kvk)  Ausandi rigning; slagveðursrigning.  „Enn heldur hann þessari forátturigningu“.

Foráttustórhríð / Foráttubylur (n, kvk/kk)  Glórulaus hríðarbylur, oftast bleytuhríð/slydda.  „Það er glórulaus foráttubylur enn“.  „Það setti á okkur þvílíka andskotans foráttustórhríð að við urðum gegnblautir“.

Foráttuveður (n, hk)  Mjög vont veður; stormur og rigning eða hríð.  „Ætlarðu húfulaus út í þetta foráttuveður“?

Forbannað / Forboðið (l)  Harðbannað; alveg bannað.  „Veistu ekki að það er forbannað að skjóta pokaendur“?

Forblautt á / Foraðsblautt á / Drullublautt á (orðtak)  Mikil dögg í grasi; kafblautt á; fossblautt á.  „Það er ennþá forblautt á.  Við breiðum sennilega ekki á næstunni“.

Forblautur (l)  Rennandi blautur.  „Farðu úr sokkunum krakki; þú ert forblautur í fæturna“!

Fordild (n, kvk)  Hégómi; hégómleiki; trú á veraldarglys/metorð.  „Þetta er ekkert annað en bévítans fordild“!

Fordildarlaus (l)  Hégómalaus; laus við fordóma.  „Hann var talinn réttsýnismaður og fordildarlaus“.

Fordjarfa (s)  Skemma; eyðileggja; týna.  „Einhver hefur fordjarfað neglunni úr bátnum“.

Fordjarfast (s)  Týnast; skemmast; eyðileggjast.  „Hlunnarnir hafa allir fordjarfast í tímans rás“.

Fordjúpt (l)  Hyldjúpt; mjög djúpt.  „Sem sagt; þetta er fordjúpt svað“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Fordómafullur (l)  Fyrirtektarsamur; fullur hleypidóma.  „Kannski er maður stundum fordómafullur“.

Fordómalaus (l)  Laus við fordóma. 

Fordjörfun (n, kvk)  Eyðilegging; glötun.  „Hver ber ábyrgð á fordjörfun þessara muna“?

Fordæða (n, kvk)  A.  Flagð; galdrakerling.  B.  Hjátrú; villutrú; kukl; fráleitt/skelfilegt.  „Hvílík endemis fordæða er að heyra þetta“!

Fordæða er þetta! (orðtak)  Upphrópun í mikilli vanþóknun þegar eitthvað gengur mjög illa eða eitthvað þykir með ólíkindum.  Fordæða er þá líklegast í merkingunni galdrar eða draugur.

Fordæma (s)  Víta; lýsa mikilli andúð á; finna til foráttu.  „Fordæmdi hann í flestum atriðum frumvarp það til laga um sameiningu sem fyrir liggur“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ritari ÖG; Ívar Ívarsson um frumvarp Alþingis um sameiningu hreppa 1969). 

Fordæmalaust (l)  Án fordæma/fyrirmynda; í fyrsta sinn.  „Ég held að þetta sé alveg fordæmalaust“.

Forðagæsla / Forðagæslueftirlit (n, kvk)  Opinbert eftirlit með heyforða og búfjárhaldi.  Forðagæslumenn voru til skamms tíma tveir í Rauðasandshreppi.  Þeir fóru milli bæja að hausti; mældu fóðurforða bænda og gáfu álit um ásetning búfjár fyrir veturinn.  Aftur komu þeir um síðvetrar til að meta hvernig fóðrast hefði og hvort forði nægði.  Fyrrum var hreppnum skipt í forðagæslusvæði; þannig var Rauðisandur sérstakt umdæmi:  „Því lengur sem ég skoða og set á, eða hef þetta forðagæslueftirlit, því betur sannfærist ég um að fóðrun á öllum ofangreindum búpeningi fer batnandi frá ári til árs“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Forðagæslubók (n, kvk)  Bók sem inn eru færðar niðurstöður forðagæslu.  „Bók þessi, sem er 240 -tvö hundruð og fjörutíu- tölusettar blaðsíður; gegnum dregin og útbúin með innsigli Barðastrandasýslu, löggildist hér með til að vera forðagæslubók fyrir Rauðasandsumdæmi í Rauðasandshreppi.  Skrifstofu Barðastrandasýslu 12.desember 1946; Jóhann Skaptason, sýslumaður Barðastrandasýslu“.  (Forðagæslubók Rauðasands).

Forði mér frá því! (orðatiltæki)  Upphrópun þegar mælandi frábiður sér eitthvað kröftuglega.  Upphaflega var „drottinn“ eða „guð“ í byrjun, og orðatiltækið var reyndar oft notað þannig.  Stundum sleppt 2 síðustu orðum.

Forðagæsla (n, kvk)  Eftirlit með því að bændur eigi nægan heyforða fyrir skepnur sínar og fóðri þær sæmilega.

Forðagæslumaður (n, kk)  Eftirlitsmaður á vegum sveitarfélagsins (nú annarra yfirvalda) sem sinnir forðagæslu.  Forðagæslumenn í Rauðasandshreppi voru tveir, á síðari hluta 20. aldar.  Þeir komu í fyrri ferð sína að hausti, að lokinni sláturtíð og um það leyti sem farið var að hýsa fé.  Fénaður allur var talinn; hey mæld í álnum; fóðurþörf áætluð og bónda gert viðvart ef hann taldist skorta fóður.  Hann varð þá að útvega sér það eða bæta upp með kjarnfóðri.  Um vor komu forðagæslumenn aftur, til að meta hvernig fóðrast hefði; hvernig fénaður kæmi undan vetri og hvaða fyrningar væru af heyjum. 

Forðagæsluumdæmi (n hk)  Svæði sem heyrir undir sama forðagæslumann.  „Annarsstaðar bar ekki á kvilla í forðagæsluumdæminu“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1956). 

Forði mér frá (orðtak)  Stytting á guð forði mér frá, en oft notað þannig stytt.  „Ég held að maður fari nú ekki að kjósa þannig apparat á þing; forði mér frá slíku“!

Forðum daga / Forðumtíð (orðtak/ n, kvk)  Í fyrri tíð; fyrrum.  „Þetta var allt með öðrum brag forðumtíð“.

Foreldrahús (n, hk, fto)  Heima hjá foreldrum.  „Ég dvaldi í foreldrahúsum í nokkur ár eftir fermingu“.

Forfallinn (l)  Djúpt sokkinn; glataður; hruninn.  „Hann er víst orðinn forfallinn drykkjumaður“.

Forfarinn (l)  Leikinn; æfður; laginn.  „Hann er talinn forfarinn í þessháttar viðgerðum“.

Forflytja (s)  Flytja á milli staða.  „Það tekur því ekki að forflytja blásarann yfir víkina fyrir þetta; við mokum þessu bara inní hlöðuna með höndum“.

Forframaður (l)  Frægur; upphafinn.  „Hann er heldur forframaður núna; búinn að fara í sólarlandið“.

Forfrömun (n, kvk)  Upphefð; hækkun í áliti; aukin reynsla/þekking.  „Honum þótti þetta mikil forfrömun“.

Forfæra (s)  Færa til; flytja úr stað.  „Það tók nokkurn tíma að forfæra alla áburðarstæðuna“.

Forfæring (n, kvk)  Flutningur.  „Trillan létti mjög þessar forfæringar“.

Forföll (n, hk, fto)  Það að geta ekki komist/ verið viðstaddur; fjarvistir.  „Hann boðaði forföll“.

Forgamall (l)  Mjög gamall; afgamall.  „Hér eru einhver forgömul stígvél sem kannski mætti nota“.

Forgangsatiði / Forgangsmál (n, hk)  Það sem hefur forgang/ gengur fyrir.  „Þetta er algert forgangsatriði“!

Forgefins (ao)  Í tilgangsleysi; tókst ekki.  „Við reyndum góða stund á þeim miðum, en það var allt forgefins“.

Forgengilegur (l)  Hættir til að eyðast/eyðileggjast; skammvinnur.  „Ég er viss um að öll blessunarorðin og þakkirnar sem hann fékk fyrir þetta hafa nýst honum betur þessa heims og annars en einhverjir forgengilegir aurar, sem fólk átti reyndar vægast sagt lítið af“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Forgylltur (l)  Gullsleginn; gullhúðaður; með gullskreytingu.  „Ansi eru menn fínir í tauinu núna; bara með forgylltum hnöppum og fínheitum“!

Forgöngumaður (n, kk)  Frumherji; frumkvöðull.  „Pabbi var forgöngumaður ýmiskonar framfara í félagsmálum sinnar sveitar“.

Forhalaður (l)  Bilaður; flæktur; áhlekkjaður.  „Hér er netið eitthvað forhalað; kubburinn hefur slegist inní“.

Forhalast (s)  Eyðileggjast; bila; týnast; skemmast; fordjarfast.  „Einhvernveginn hefur þetta forhalast“.

Forheimska sig (orðtak)  Gera sig að fífli; sýna greindarskort.  „Frambjóðandinn þótti hafa forheimskað sig með þessu blaðri.  Hann hafði greinilega lítið vit á búskap á þessum slóðum“.

Forheimskun (n, kvk)  Heimska; heimskupör.  „Þvílíka forheimskun hef ég sjaldan fyrirhitt“!

Forhertur (l)  Harðsvíraður; illa innrættur.  „Fjandi ætla þeir að vera forhertir í þessum verðhækkunum“.

Forhlaupari (n, kk)  Neðsti hluti akkerisfestar/legufæra; keðja sem liggur úr tóginu í akkerið/drekann og gegnir því hlutverki að gera átakið lárétt og hald akkerisins tryggara.  „Við drekann var fest svonefndum forhlaupara, en það var mjó og liðlega keðja, 20-30 faðmar að lengd. ... Síðan kom stjórafærið, eða hin svonefnda pertlína; gildur kaðall úr besta hampi.  Stjórafærið var 300-350 faðmar á lengd (sem akkeri á skútum).... “  (GG; Skútuöldin).

Forholning (n, kvk)  Útgangur; fyrirkomulag; klæðnaður.  „Hverskonar forholning ér á þér drengur; ertu í úthverfri peysunni, eða hvað“?  „Það er ljóta forholningin á fjósin núna; Búbót hefur slitið niður halabandið og málað allt í kringum sig uppúr flórnum“!.

Forhönd (n, kvk)  Sá er í forhönd sem fyrstur á að láta út spil í hópspili, s.s. vist, bridds eða þ.h.

Forkastanlegt (l)  Fráleitt; hneykslanlegt.  „Úr þessu urðu svo skrílslæti sem mér finnst alveg forkastanleg“ (SG; Bankahrunið - búsáhaldabyltingin; Þjhd.Þjms).  

Forkaupsréttur (n, kk)  Réttur kaupa á eign sem gengur framar rétti annars kaupanda, oftast þá þannig að forkaupsréttarhafi gengur inn í hæsta tilboð.  Sveitarfélög hafa að jafnaði forkaupsrétt á jörðum.  „Ekki nýttur forkaupsréttur að Koti, Krókshúsum, ½ Króki og ½ Stökkum“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Forkelast (s)  Kvefast eða kólna um of.  „Búðu þig betur ef þú vilt ekki forkelast“. 

Forkostulega (ao)  Skrýtilega; furðulega; einkennilega.  „Hann gat hermt alveg forkostulega eftir þeim“.

Forkostulegur (l)  Óborganlega/einstaklega fyndinn/skrýtinn/aðdáunarverður.  „Hann Jónsi var alveg forkostulegur í hlutverki hreppstjórans.  Þetta er eitt albesta leikrit sem ég hef séð á þorrablóti“.

Forkunnarlaglegur / Forkunnarfallegur (l)  Afburða fallegur.  „Þetta er forkunnarlaglegur bátur“. 

Forkur (n, kk)  A.  Gaffall (sjaldan notað þannig í seinni tíð).  B.  Afburðaduglegur maður; dugnaðarforkur.  „Hann er mesti forkur til allrar átakavinnu“.

Forlagatrú (n, kvk)  Örlagatrú; trúin á að allt, einkum ævi manna, sé ákveðið fyrirfram; „því verði ekki breytt sem fram á að koma“.  Fléttast inn í öll trúarbrögð, eins og sjá má m.a. af píslarsögu Krists. Sjá forlög/örlög.

Forláta (s)  Afsaka; fyrirgefa.  „Þú verður að forláta hvað þetta er lítilfjörlegt með kaffinu“.

Forláta (l)  Til áhersluauka: Dýrmæta; fína.  „Þarna ertu með þennan forláta silfurskjöld“.

Forláta góður (orðtak)  Mjög/framúrskarandi góður.  „Það er foláta góð vél í þessum bát; slær aldrei feilpúst“.

Forlátagripur (n, kk)  Dýrgripur; þénanlegur hlutur.  „Þegar hann kom í hádegiskaffið lofaði hann þennan forlátagrip... “  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Forleginn (l)  Gamall; aldraður; langleginn; sem hefur legið/geymst lengi.  „Þetta reyndist bara hinn ágætasti saltfiskur, þó þetta væri heiðgulur og forleginn fjári“.

Forljótur (l)  Mjög ljótur; afskaplega ófríður.  „Mér finnst þessi bátur forljótur“.

Forlög (n, hk, fto)  Örlög; það sem mönnum er áskapað í upphafi ævinnar um gang hennar og dauða.  Margir trúa því að ævi manns sé fyrirfram ákveðin við fæðingu; bæði lífsferill og dánardægur.  Virðist sú trú hafa loðað við mannkyn frá fyrstu tíð, og fléttast við önnur trúarbrögð.  Sjá feigur; örlög og skapadægur

Forma (s)  A.  Móta.  „Mörinn er formaður í töflur“.  B.  Bera við; snerta á; reyna.  „Ég forma það ekki að byrja smölun með svo fáa menn“.  „Við urðum að bíða í tvo tíma þangað til við töldum formandi að byrja björgun... „  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Formaður (n, kk)  Skipstjóri á báti.  Þetta heiti var einatt notað um skipstjóra á bátum í Kollsvík.  Kristján Júlíus Kristjánsson tók saman skrá yfir formenn sem hann mundi eftir að hafi róið úr Kollsvíkurveri, en sjálfur var hann lengi í þeim hópi.  Samtals eru þar nöfn 48 manna; þar af voru 9 frá Kollsvík; 2 frá Láganúpi; 8 frá Grundum; 19 frá öðrum bæjum í Rauðasandshreppi; 7 af Barðaströnd og 3 frá Patreksfirði og Tálknafirði.  Nefnir hann þar 24 báta þessara formanna, sem hann mundi eftir. (sjá KJK; Kollsvíkurver).  „Þegar sexæringur var settur niður vestra hlunnaði hálfdrættingur eða annar austurrúmsmaður, en hinn bakaði að aftan ásamt formanni; miðskipsmenn ýttu og studdu um róðurinn, en andófsmenn bökuðu að framan.  Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.

Formannavísa (n, kvk)  Vísa sem ort er í veri um formann/formenn báta sem þaðan róa.  „Enginn kveðskapur var jafn algengur í verstöðvum og formannavísur.  Mest af þeim varð til í landlegum, vermönnum til mikillar dægra styttingar.  Sama máli gegndi um hásetavísur, vermannadagatöl og skipsvísur.  Þessi skáldskapargrein mun vera óþekkt á Norðurlöndum og virðist því sérstæð fyrir Íslendinga“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).    Vitað er að formannavísur voru ortar í Kollsvíkurveri og einhverjar þeirra munu enn vera til.  „Helgi þegar hratt fram gnoð/ og hervæddist sinni brók,/ þá skalf hvert einasta sköturoð/og skarkolinn andköf tók“  (ÖG; glefsur og minningabrot; formannsvísa um Helga Árnason í Tröð). 

Formannskaup (n, hk)  Viðbót formanns við skiptahlut sinn; aukahlutur formanns.  „Í kvaðarnafni er ábúandi (á Grundum) formaður fyrir landsdrottins (Sauræjarbónda)skipi þar, og hefur í formannskuap höfuðin af skiphlutnum“  (ÁM/PV Jarðabók).    Sama kvöð og skiptaregla gilti um bóndann á Hólum.

Formannsrif (n, hk)  Aukabiti sem formaður í verum Útvíkna gaf hásetum eftir fyrsta róður og ef einstaklega vel aflaðist, svo og góðum gestum.  „Í verstöðvum norðan Bjargs var skammturinn (sem vermaður fékk til mötu) hálfvættarkind yfir vertíðina; geld ær eða sauður.  Nokkuð af kjötinu var reykt en hitt saltað, og síðan stundum búin til kæfa úr hvoru tveggja.  Þar var algengt að formaður hefði með sér, auk kæfunnar, huppa bringukolla og síður, því að þegar gestir komu bauð hann uppá skrínuna, eins og það var kallað.  Einnig var venja hans að gefa hverjum háseta eitt hangikjötsrif; formannsrifið, eftir fyrsta róðurinn, þá er vel aflaðist.  Einnig kom það fyrir að formaður gæfi hásetum bita úr skrínu sinni, auk formannsrifsins, þegar þeir komu að landi dauðlerkaðir með punghlaðinn bát.  Slíkum formanni gekk oft betur en öðrum að fá háseta, og jók þetta á vinsældir hans“ (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh).

Formálalaust (l)  Án þess að tala fyrst.  „Hann gekk ábúðarmikill að túristunum og spurði formálalaust hver hefði gefið þeim leyfi til að aka yfir túnið“.

Formelta (s)  Hafa bakflæði fæðu.  Bakflæði nefna meltingarfræðingar það þegar neðstu vöðvar vélinda/vælinda eru svo slappir að fæða í maga nær að leita aftur upp í munn.  Í Rauðasandshreppi var þetta nefnt að „formelta“ matinn; þ.e. ná e.t.v. að tyggja hann betur áður en honum væri aftur rennt ofaní maga.  Orðið kann að vera upprunnið hjá nýyrðasmiðnum GJH, og því ekki gamalt; en það lýsir jákvæðum og vísindalegum skilningi á fyrirbærinu.  „Það er nauðsynlegt að formelta dálítið svona tormeltan mat“.

Formennska  (n, kvk)  Stjórnun báts/nefndar o.fl.  „Sá er þetta rifjar upp hafði þarna á hendi formennsku og vélgæslu“  (KJK; Kollsvíkurver).

Formerkja (s)  Greina; finna; skynja; anmerkja.  „Ég get ekki formerkt að hann hefði neitt á móti þessu“.  „Ekki gat hún formerkt að neitt ill hlytist af þessu“  (Dagbjört Torfadóttir; upptaka á Ísmús; um huldufólk í Kollsvík)

Formlegheit (n, hk, fto)  Siðir; venjur; ritúal; prótókollur.  „Það er óþarfi að vera með einhver formlegheit við þetta; notaðu bara guðsgafflana ef þér finnst það betra“.  Einnig „til formlegheita“ og „uppá formlegheitin“.

Formúa (n, kvk)  Ógrynni fjár.  „Þetta blessað tónlistarhús kostaði víst einhverja formúu af opinberu fé“.

Formúlera (s)  Áforma; hugsa fyrir; skipuleggja.  „Ég hef nú lítið formúlerað hvernig við gætum farið að“.

Formælingaflaumur / Formælingar (n, kvk, fto)  Blótsyrði; bannsöngur.  „Svona formælingar gagna nú lítið; þér væri nær að fara að hnýta á nýja sökku og renna aftur“!

Forn í orðum/orðavali (orðtak) Notar fornt orðalag/ mikið af gömlum orðum.  Á síðari hluta 20 aldar voru enn nokkrir einstaklingar í Rauðasandshreppi svo fornir í orðum að eftir var tekið.  Má þar t.d. nefna Guðbjart Guðbjartsson á Láganúpi, sem hélt tryggð við hinn fastkveðna vestfirska framburð alla sína ævi.  Af þeim sem lengur lifðu má nefna Óla Ingvarsson á Geitagili, sem manna drýgstur var á notkun orða sem aðrir höfðu síður á hraðbergi lengur.

Forn í skapi (orðtak)  Sem hefur fornan hugsunarhátt/ forna trú; oftast notað um galdramenn.  „Í þann tíð var maður uppi í Arnarfirði er Benedikt Gabríel nefndist, og var Jónsson.  Hann var hvala- og selaskutlari mikill.  Talinn var hann forn í skapi og fjölkunnugur, og ekki góður viðfangs ef á hluta hans var gert“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Fornaldarhugsunarháttur (n, kk)  Hugarfar/viðhorf sem tíðkaðist fyrr á tímum.  „Menn eru helst til fastir í þeim fornaldarhugsunarhætti að landsins gæði séu einungis búskapur eða fiskirí“.

Fornaldarvinnubrögð (n, hk, fto)  Úreltar aðferðir; óhentugt vinnulag.  „Það er óþarfi að nota svona fornaldarvinnubrögð nú á tímum“.

Fornar slóðir (orðtak)  Staður sem hefur þýðingu varðandi fortíðina/ var mikilvægur fyrrum.  „Þarna var ég kominn á fornar slóðir og minningarnar sóttu að“.

Fornbýll (l)  Sá er fornbýll sem á hey frá fyrri árum; mat; verðmæti eða fyrningar af öðru tagi.  Afleidd merking er aðhaldssamur; sem lætur vistir endast.  „Áttu enn eftir af sælgætinu drengur.  Mér þykir þú fornbýll“.

Forneskja (n, kvk)  A.  Fornir/forsögulegir tímar.  „Þetta hefur haldist svona frá því aftanúr grárri forneskju“.  B.  Galdrar; kukl; forn kunnátta.  „Forneskjunnar fargi létt og fjötur brostinn./  Stendur hann eins og steini lostinn“  (JR; Rósarímur). 

Fornfálegur / Fornlegur (l)  Forn í útliti; gamaldags; hrumur; úr sér genginn.  „Skelfing er þessi bílskrjóður fornfálegur að sjá“.  „Neðanvið Vörðubrekkuna er gamall fornlegur stekkur; Stekkur (46).  Hann er að nokkru grafinn í jörð og dyr eins og gat inn í kró, þar sem lömbin hafa verið sett í gegn“  (Helgi Einarsson; Örn.skrá Geitagils).

Fornkunningi / Fornvinur (n, kk)  Gamall vinur/kunningi.  „Þarna hitti ég fornkunningja minn sem ég hef ekki séð lengi“.  „Þeir eru fornvinir, og óaðskiljanlegir í flestu“.

Fornmaður (n, kk)  A.  Fólk landnámstíðar og sögualdar.  „Ekki verður fullyrt um alla lífshætti fornmanna í Kollsvík, en margt má ráða af líkum og samanburði“.  B.  Örnefni í Láganúpslandi.  Aflangur hóll í krikanum undir Axlarhjöllum.  Sú sögn fylgir hólnum að þar sé heygður fornmaður.  Grafið hefur verið í hann, en þar var ekkert að finna nema klappir og aurblendna möl.  Sagan kann að hafa myndast af lögun hólsins, en hinsvegar fellur staðsetningin vel að þeirri meginreglu sem virðist hafa verið á staðsetningu grafhauga/kumla.  Fornmaður er hæfilega langt frá bæjum; góð heimsýn; gott útsýni; utan túna og með honum liggja þjóðleiðir; norður Umvarp til Kollsvíkur;  innyfir Tunguheiði og á veginn yfir Víknafjall, til Rauðasands og áfram.

Fornótt (n, kvk)  Bók sem Einar Jónsson (ættfaðir Kollsvíkurættar) átti, og sumir hafa talið galdraskræðu.  „Er sagt að Einar (Jónsson ættfaðir í Kollsvík)hafi verið kallaður vitur maður og lesinn, og búhöldur mikill.  Við manntal 1820 er hann líka sagður vel lesinn og gáfaður maður, og svipað er jafnan um hann sagt.  En Gísli Konráðsson segir ennfremur að lítill mundi hann trúmaður, og læsi jafnan villurit það er kallast „Jesús og skynsemin“, og héldi mjög af því.  Bjarni Þórðarson, skáld á Siglunesi, sem var trúmaður mikill, orti sálm til Einars, sen nefndist fríþenkjarasálmur.  Tekur Gísli í þátt sinn 3 síðustu erindin, en ekki telur hann að Einar hafi svarað þessu.  Sú sögn gekk þar vestra á æskuárum mínum um síðustu aldamót (1900) að Einar gamli í Kollsvík, eins og hann var jafnan nefndur, hefði átt bók er Fornótt hét, og geymt hana vandlega.  Er þetta líklega afbökun úr Fornuft, með því að bókin hefur óefað verið á dönsku og heitið „Jesus og fornuften“, að ég hygg; enda er það nafn í samræmi við það sem G.K. getur um“  (TÓ; Kollsvíkurætt).  „Sú sögn gekk þar vestra á æskuárum mínum (TÓ) um síðustu aldamót (1900) að Einar gamli í Kollsvík, eins og hann var jafnan nefndur, hefði átt bók er „Fornótt“ hét, og geymt hana vandlega.  Er þetta líklega afbökun úr „Fornuft“. með því að bókin hefur óefað verið á dönsku og heitið „Jesus og Fornuften“ “  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Fornumaður (l)  Móðgaður.  „Stelpan fornumaðist dálítið þegar hún sá einkunirnar“. (n er framb. veikt). 

Fornslægja (n, kvk)  Dauð sina og jafnvel mosi í heyi/ túni sem slegið er.  „Það er ekki að undra þó mikið sé af fornslægju í þessu heyi; þessi blettur var ekki sleginn í fyrra“.

Fornt hey (orðak)  Gamalt hey; fyrningar frá fyrra ári af heyi.  „Það er í góðu lagi að gefa geldfénu fornt hey“.  Sjá tvífornt hey og fyrningar.

Fornuma (s)  Móðga; fyrta; stuða.  „Ég vildi ekki fornuma hann með því að vanþakka kaffið“.

Fornumaður (l)  Móðgaður; fúll; óánægður.  „Hann er eitthvað fornumaður vegna þess að ég bauð honum ekki með“.  „Ég er dálítið fornumaður útaf þessum úrslitum“.  Einnig heyrðist myndin „fornemaður“, en sjaldnar.

Fornumast (s)  Móðgast; fara í fýlu.  „Það er ástæðulaust að fornumast útaf svona smáræði“.

Forordning (n, kvk)  Tilskipun; skipun; boð.  „Ég fékk strengilega forordningu frá konunni að vera kominn aftur fyrir kvöldmat“.

Fororð (n, hk)  Tilmæli; skilyrði; skipun.  „Ég fékk spottann með því fororði að hann yrði ekki notaður í bjargferðir.  Hann sagðist ekki vilja bera ábyrgð á því að einhver dræpi sig á því“.

Forpokaður (l)  Kreddufullur; haldinn ofstæki.  „Hann hefur verið forpokað íhald alla sína tíð“!  Vísar líklega til þess að búa í einangruðum hugarheimi, líkt og í poka.  Sama skýring á líklega við orðið forstokkaður, sem er líking við að vera tálgaður í tré og geta því ekki aðlagast/ tekið sönsum.  Hugsanleg er tenging við orðið pokaprestur, en það er fremur ólíklegt. 

Forpokun (n, kvk)  Kreddufesta; sérviska.  „Oft hef ég kynnst sérvisku, en aldrei svona stækri forpokun“!

Forresten (ao)  Eiginlega; þegar öllu er á botninn hvolft.  „Hann ræður hvort þú færð að leika þér að þessu dóti; það nú forresten hann sem á það“.

Forretning (n, kvk)  Fyrirtæki; verslun; umsvif.  „Hann er víst alveg að fara á hausinn með sína forretningu“.

Forréttindapakk (n, hk)  Forréttindahyski; skammaryrði um þá sem njóta betra atlætis en aðrir þjóðfélagsþegnar vegna stöðu sinnar, ættar eða annars; án þess að hafa heiðarlega til þess unnið.  „Nú er hver einasti fisktittur í sjónum orðinn einkaeign einhvers forréttindapakks; jafnvel þeir sem synda um landhelgi annarra manna.  Svona hafa þessir andskotar stýrt lagasetningu í landinu í gegnum árin“!

Forríkur (l)  Mjög ríkur; veit ekki aura sinna tal.  „Sagt er að hann sé orðinn forríkur af þessu braski“.

Forsenda / Fatsenda (n, kvk)  Festingar færis við fatið/járngjörðina sem liggur kringum vaðstein á færi/handfæri.  Forsenda gegndi því hlutverki fyrrum sem sigurnagli gegnir nú.

Forsett (l)  Fyrir sett/lagt; fyrirskipað.  „Ég gerði bara það sem mér var forsett og stóð fyrir í Flosagilinu; þeir hinir áttu að passa að féð rynni ekki upp hlíðina og upp Hjallagötu“!

Forsjá.  (n, kvk)  Fyrirhyggja; varfærni.  „Ekki verður þó annað sagt en sjór væri sóttur af kappi en þó með hæfilegri forsjá“  (KJK; Kollsvíkurver).

Forsjáll (l)  Fyrirhyggjusamur; hefur vaðið fyrir neðan sig.  „Ég var svo forsjáll að hafa með mér nesti“.

Forsjálni (n, kvk)  Fyrirhyggja; varfærni.  „Við ættum nú að sýna forsjálni og geyma hluta af þessu“.

Forsjón (n, kvk)  A.  Lukka; almættið sem allt sér fyrir.  Svo er forsjóninni fyrir að þakka“.  B.  Fyrirhyggja; skynsemi.  „Mér þykir lítil forsjón að fara á sjó í þessu útliti“.

Forskala (s)  Múra; setja múrhúð utan á klæðningu.  „Láganúpshúsið var forskalað að utan“.

Forskaling (n, kvk)  Múrhúð, einkum utaná timburhúsi.  „Forskalingin er farin að brotna og falla af sumsstaðar“.

Forskillegur (l)  Mismunandi; ýmis.  „Í þessum stokk eru hinar forskillegustu gersemar“.

Forskriftabók (n, kvk)  Línustrikuð bók sem ætluð er til æfinga í skrift. Fremst í hverri línu er stafur sem hafður er sem fyrirmynd.  Sjá gefa forskrift.

Forskrúfa (s)  Herða skrúfbolta/ró of mikið, þannig að gengjur forhalist/skemmist.  „Þessi ró er forskrúfuð“.

Forslá (s)  Stinga uppá.  „Ég ætla bara að forslá að þið gistið hér yfir nóttina“.  Ekki mikið notað í seinni tíð.

Forsmá (s)  Lítilsvirða; vanvirða; gera lítið úr; fordæma.  „Ég ætlaði nú ekki að fara að setjast hér upp í mat, en ekki ætla ég að forsmá þennan dýrindis hrísingjónavelling“.

Forsmán (n, kvk)  Skömm; niðurlæging.  „Forsmán er að heyra í þér bullið“!  „Það er náttúrulega algjör forsmán þegar forseti tekur ráðin af löglega kjörinni ríkisstjórn“.

Forsmánarlega (ao)  Til skammar; skammarlega.  „Þetta er forsmánarlega lítið sem þú færð með kaffinu núna“. 

Forsorga (s)  Sjá um; framfæra (dönskusletta sem fyrrum var algeng).  „Húsmaður hjá Jóni (bónda í Kollsvík) er bróðir hans með konu sinni, sem forsorgar sig og hana á sjáfarafla og hefur hvorki grasnyt nje fyrirsvar, nema það sem bróðirinn ljær honum“  (AM/PV Jarðabók). 

Forsóma / Forsmá (s)  Lítilsvirða; vanþakka.  „Ég stoppa aðeins lengur fyrst þú helltir uppá kaffi.  Ekki ætla ég að forsóma það“.  „Stjórnarandstaðan keppist við að forsmá þennan árangur ríkisstjórnarinnar“.

Forsorga (s)  Sjá um; bera fyrir brjósti.  „Ætli þurfi ekki eitthvað að forsorga lambeymingjann“.

Forsóma (s)  Vanvirða; vanrækja.  „Ekki er hægt að forsóma þetta ágæta boð“.

Forspá (n, kvk)  Spá; ágiskanir.  „Mín forspá reyndist rétt í aðalatriðum“.

Forsprakki (n, kk)  Sá sem stjórnar/ á upptökin; fyrirliði.  „Hann var forsprakkinn að þessum leiðangri“.

Forspurður (l)  Ekki spurður.  „Við förum ekki í egg að landeiganda forspurðum“.

Forstagur (n, kk)  Stag til fremri festingar á siglu í báti, strekkt frá siglutoppi á ská niðurí framstafn.

Forstokkaður (l)  Forhertur; óforbetranlegur; forfallinn.  „Hann er alveg forstokkaður í þeim efnum“.  Sjá forpokaður.

Forstokkun (n, kvk)  Forneskja; rótgróin íhaldsemi; pápíska.  „Hún var svo þver að það jaðraði við forstokkun“

Forstreymis (ao)  Undan straumi; gagnstætt við andstreymis.  „Færin rak á glæ forstreymis þegar herti fallið“.

Forsvara (s)  Verja; bera blak af.  „Það er erfitt að forsvara frekari fjáraustur í þetta tilgangslausa verkefni“.

Forsvarandi (l)  Verjandi; afsakanlegt.  „Það er ekki forsvarandi að fara um hlíðina í þessari hálku“.

Forsvaranlega (ao)  Þannig að verjandi sé; vandlega.   „Gakktu nú forsvaranlega frá hnútunum“.

Forsvaranlegt (l)  Verjandi; afsakanlegt.  „Mér finnst það varla forsvaranlegt að láta skepnuna þjást lengur“. 

Forsæla (n, kvk)  Skuggi; var fyrir sólskini.  „Í svona breyskjuhita er gott að komast í forsæluna“.

Forsögn (n, kvk)  Spá; spádómur.  „Það hefði einhverntíma þótt forsögn að mannlaust yrði í Kollsvík“.

Forsöngvari (n, kk)  Sá sem leiðir söng í hópsöng/kórsöng.  „Grundarsystkinin voru afburða söngmenn.  Halldóra amma var nánast alltaf syngjandi eða raulandi; hafði skæra og fallega rödd og kunni ógrynni af sönglögum.  Júlíus í Tungu, bróðir hennar, var mikill söngmaður og einatt forsöngvari á fundum og samkomum.  Til siðs var að allir risu úr sætum og syngju fjöldasöng þegar fólk úr sveitinni hittist á samkomum; hvort sem það voru skólasetningar, skólaslit, kaupfélagsfundir, hreppsfundir, þjóðhátíðarhöld, jólaskemmtun eða annað tilefni.  Sá siður hafði þroskast vel í ungmennafélögum; ekki síst í Kollsvík“.

Fort (ao)  Harkalega; hratt; af afli.  „Ekki reka fort á eftir fénu; það þarf tíma til að lera sig inn í réttina“.

Fortaka (s)  Banna; útiloka; afslá.  „Hann fortók það með öllu að þeir fengju að taka egg í sínu landi“.  „Ekki ætla ég að fortaka það að úr þessu rætist“.

Fortakslaust (ao)  Ákveðið; án undantekninga.  „Hann bannaði þeim fortakslaust að stíga fæti á sitt land“.

Fortekið (l)  Útilokað; kemur ekki til greina.  „Þeir sögðu þetta mjög ólíklegt; en ekki er það þó alveg fortekið“.

Fortölur (n, kvk, fto)  Röksemdafærsla; tilraun til að sannfæra á annan veg/ telja um fyrir.  „Það dugðu hvorki hótanir né fortölur; hann sat fast við sinn keip“.  „En ég hafði ekki áhuga og fór ekki nema upp í stigagatið og lét hlerann hvíla á mér og fór ekki lengra, þrátt fyrir fortölur“  (IG; Æskuminningar).

Forugur (l)  Ataður eðju/for/drullu.  „Fjandi varð ég forugur við að hjálpa kindinni uppúr“.

Forugur uppfyrir haus (orðtak)  Mjög skítugur; allur drullugur.  „Farðu nú úr böslunum úti og þvoðu þér áður en þú kemur inní hús; þú ert allur forugur uppfyrir haus“!

Forundarlegt (l)  Mjög undarlegt/skrýtið.  „Mér fannst þetta alveg forundarlegt í fyrstu“.

Forundran (n, kvk)  Mikil undrun; steinhissa.  „Ég fylgdist bara með þessu sjónarspili í forundran“.

Forundrandi (l)  Mjög undrandi; steinhissa. „Ég er nú bara forundrandi á þessu háttalagi“!

Forundrunarsvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir mikilli undrun.  „Hann setti upp forundrunarsvip og þóttist ekkert vita“.

Forundrunarvert (l)  Furðulegt; mjög einkennilegt.  „Ég kalla það forundrunarvert að þeir skyldu bjargast“

Forút (ao)  Framvegis; allt til enda; eins langt og séð verður.  Bæði notað um stað og tíma.  „Ég er nú farinn að halda að hann ætli að liggja í rigningum alveg forút“!  Þau fáu dæmi sem finnast í orðabókum sýna eilítið aðra merkingu; þ.e. eingöngu „út“.

Forvaði (n, kk)  Sjávarklettur sem nær fram í sjó á flæði en gengt er fyrir um fjöru eða hálffallið.  „Víða eru forvaðar undir nesjum og hlíðum.  T.d. undir Blakk, Hnífum og Breið“.  Fyrrum var heitið í í hvorugkyni; „forvað“, og frá þeim tíma er orðtakið síðustu forvöð.

Forvara (s)  Varðveita.  „Nei, drottinn forvari mig; það dettur mér ekki ´hug“!  Lítið notað í seinni tíð.

Forvari (n, kk)  Fyrirvari; varnagli.  „Ég lofaði að koma, en hafði þann forvara á að ég gæti forfallast“.

Forvegur (n, kk)  Sjá „í forveginn“.  Eingöngu notað í því orðtaki.

Forveri (n, kk)  Sá sem er/var á undan.  „Forveri minn í starfi var einstaklega laginn við þetta“.

Forvitnast (s)  Athuga; frýnast; skoða.  „Ég kom bara til að forvitnast um hvað þú værir að bedrífa“.

Forviða (l)  Hissa; hlessa; mjög undrandi.  „Ég er nú aldeilis forviða yfir þessu“!

Forviðris (ao) Undan veðri/vindátt; í skjóli.  „Ég beið forviðris við klettinn meðan élið gekk yfir“.

Forvitnast um (orðtak)  Inna eftir; spyrja um; frýnast/hnýsast/garva í.  „Mig langar að forvitnast um það hjá þér hvort þú manst eftir þessu“? 

Forvígismaður (n, kk)  Sá sem er fremstur í víglínu/baráttu; sá sem knýr málefni fram.  „Pabbi var forvísismaður margra framfaramála í hreppnum á sinni oddvitatíð“.

Forynja (n, kvk)  Óvættur; ókind; ófreskja.  „Ég áttaði mig ekki strax á hvaða forynja kom þarna útúr þokunni“.

Forystukind (n, kvk)  Kind sem hefur sérstakt viljaþrek og er gjörn á að hafa forystu fyrir fjárhópi.  Bæði kindur og kýr koma sér upp virðingarstiga (líkt og fuglar goggunarröð).  Forystukindur eru frekari, úrræðabetri og drottnunargjarnari en aðrar í hópnum.  Oft leiða þær hópinn, t.d. í beitarrekstrum og fjöruferðum; í heimferðum; í því að sækja í tún og öðru.  Þessi eiginleiki gengur gjarnan í erfðir eins og fleira.  Einatt var talað um forystukindur í Kollsvík en orðabækur nefna „forystuær“. 
„Forystufé er hvergi þekkt í heiminum nema á Íslandi, en hér hefur það verið um aldaraðir og löngum verið mikils metið.  Í Jónsbók eru forystusauðir taldir metfé, en það þýddi að þeir voru í hærra verði en aðrar kindur.  Forystukindur hafa það í eðli sínu að fara á undan fjárhóp í rekstri.  Aðrar kindur í hópnum treysta forystukindinni og fylgja henni eftir yfir svo að segja hvað sem er.  Í göngum uppi á hálendinu kom það fyrir, ef gangnamenn fengu dimmar hríðar og voru ekki vissir um að rata, að þeir treystu á forystuféð og létu það ráða ferðinni“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).  Tekið var mark á hegðun forystufjár varðandi veðurspádóma.  Lægi það frammi við fjárhúsdyr boðaði það góðviðri, en illviðri ef það lá innst í garða eða hélt sig aftarlega í fjárhópnum.

Forystusauður (n, kk)  Sauður sem hefur forystu fyrir fjárhópi (sjá forystukind).  „Þá er það eitt sinn að smalamaður Einars í Kollsvík kom með þær fréttir að forystusauður eða besti sauður Einars hafi fundist fótbrotinn og dauður, svo að ekki geti talist einleikið“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Forþéntur (l)  Verðugur.  „Nú held ég að við ættum að fá okkur vel forþént nesti“.

Foræði (n, hk)  Forarvilpa; for; seil; dý.  „Állinn er nú orðinn þurr, en var áður hálfgert foræði...“  (ÓlÓ; Örn.skrá Vesturbotns).

Foræðismýri (n, kvk)  Botnlaus fúafen; mörg samfelld drápsdý.  „Varið ykkur á Hestkeldunni; hún er bölvuð foræðismýri“.

Foröktun (n, kvk)  Fyrirlitning; óhlýðni.  „Túnrollurnar sýna hundinum ekkert nema foröktun; þeim er nokk sama hvað hann gjammar og sperrir sig“.

Fossaföll (n, hk, fto)  Margir fossar.  „Atgangurinn getur orðið mikill í leysingum þegar Gilið steypist niður af Hjöllunum í háværum fossaföllum; rennur á huldu þar sem þrengst er, en breiðir annarsstaðar úr sér eins og stórfljót; djúpgrænt að lit og ófært hverri skepnu.  Getur byggt krapastíflur á svipstundu og hlaupið uppúr farvegi sínum, tildæmis niður Flötina.  Er þá hætt við að flæði inn í verkfærahús og jafnvel í hlöður.  Kaldabrunnslækurinn yfirfyllist og Fitin verður eins og innhaf yfir að líta“.

Fossblautt á (orðtak)  Mjög blaut jörð; mjög mikil dögg í grasi; forblautt á.  „Það er enn fossblautt á; við hreyfum ekki mikið hey í dag sýnist mér“.

Fossblæða (s)  Blæða mjög mikið úr sári.  „Það fossblæðir úr þessu.  Farðu og fáðu bundið um puttann“.

Fossandi úrhelli (orðtak)  Fossrigning; úrhellisrigning.  „Það gerði allt í einu slíkt fossandi úrhelli að vatnspollar mynduðust í hverri laut og holu“.

Fossrigna (s)  Rigna mjög mikið; hellirigna; rigna eins og hellt væri úr fötu.  „Við vorum rétt komnir heim á Ormana þegar hann fór að fossrigna“.

Fossrigning / Fossdemba (n, kvk)  Mjög mikil rigning; hellirigning; eins og hellt sé úr fötu.  „Þvílík andskotans fossrigning er þetta!  Maður er innúr um leið“!  „Ég hef nú sjaldan upplifað svona fossdembu“!

Fossvaðandi (n, kk)  Mjög mikil bleyta á jörð/ í grasi.  „Árans fossvaðandi hefur orðið úr þessu náttfalli; hann verður tíma að þorna af í þessu logni“!  Sjá vaðandi.

Foxandi illur/vondur / Foxillur / Foxvondur (l)  Blóðillur; fjúkandi reiður; fokillur; fokvondur; saltvondur.  „Hann er foxillur yfir þessari meðferð“.  „Ég er bara foxvondur yfir þessari fjandans vitleysu“! Líklega sama orðið og fokillur/fokvondur, en „s“ komið inní vegna framburðarhagræðis og til áhersluauka.  „Andi“- endingin er líklega tilkomin til að auka hrynjandi og áherslu.  „Hún varð foxandi vond við að heyra þetta“.

Fóðra (s)  A.  Gefa skepnu fóður að éta.  „Það þarf að fóðar gemlingana vel ef á að hleypa til þeirra hrút í vetur“.  „Ég vil þó geta þess að ærpeningur á Lambavatni er þunnholda undan sumrinu; en á vorin eru þær í ágætu standi.  Þeir fóðra því ær; og lömb sérstaklega, að mínu áliti best; einkum Egill.  Undrar mig oft á því eldi er gemlingarnir hjá honum hafa fengið…„“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).  B.  Setja fóður/ innra byrði í jakka eða aðra flík; setja innra lag í rými, s.s. veggfóðra.  C.  Afsaka; helga tilgang.  „Það getur orðið dálítið erfitt fyrir hann að fóðra þennan gerning fyrir öðrum félagsmönnum“.

Fóðrafé (n, hk)  Fé sem einn maður tekur í fóður fyrir annan.  „Einnig er fjáreigandi  fjallskilaskyldur fyrir hjú sín og börn, eigi þau fé; einnig fóðrafé og hagagöngufé...“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).

Fóðrun (n, kvk)  Það að fóðra (sjá þar).

Fóðurblöndun (n, kvk)  Það að blanda saman ýmiskonar fóðri áður en skepna er fóðruð.  Frá fornu farið hefur fóðurblöndun verið stunduð í Kollsvík og öðrum útræðisstöðum.  Skepnum var gefið slóg/rask úr fiski með heyjum, ásamt t.d. saxaðri grásleppu.  Lýsi var mikið notað með heyjum.  Eftir miðja 20. öld var fengin söltuð síld sem söxuð var með heyjum og einnig var gefið maís og bygg.  fljótlega eftir það fór einnig að koma blandaður fóðurbætir úr verksmiðju; fyrst sem fóðurmél en síðar sem fóðurkögglar.  Eftir að Kollsvíkurbændur fóru að gera út á grásleppuhrogn var grásleppan um tíma verkuð í meltu, með maurasýru, og henni hellt yfir heyin.  Saltsteinar voru hafðir aðgengilegir fyrir fé, eftir að þeir urðu tiltækir, en fé sem gekk í fjöru og haga fékk þar mikið af nauðsynlegum bætiefnum.

Fóðurbætir (n, kk)  Kjarnfóður; kraftmikið fóður sem gefið er búfé með heyjum.  „Talsverð vinna fór í að bleyta, berja og höggva fiskibein, en þau voru eini fóðurbætirinn sem féð fékk, auk lýsis sem gefið var alla vetur“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  Síðar var notaður aðkeyptur fóðurbætir.  „Hausar og hryggir voru einnig fóðurbætir bænda hér.  Lifrin var líka oftast hirt á tunnur og látin renna sjálf.  Var henni blandað í hey á veturna“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Fóðurbætisgeymsla (n, kvk)  Geymsla fyrir fóðurbæti, þannig að hann sé öruggur bæði fyrir að skepnur komist ekki í hann og fyrir rakaskemmdum.  „Kassinn undan Farmalnum var lengi notaður sem fóðurbætisgeymsla í hlöðunni á Láganúpi, en endaði ævina sem reykingakofi niðri í Kaldabrunni“.

Fóðurbætisjata (n, kvk)  Aflangur stokkur sem settur er upp úti í girðingarhólfi til að gefa nýbornum kindum fóðurbæti; einkum tvílembum sem þurfa kjarnfóður til að mjólka lömbum sínum vel.  Gerð úr borðviði.

Fóðurbætiskaup (n, hk, fto)  Kaup á fóðurbæti.  „Þetta síðasta sumar var votviðrasamt svo varla er munað annað eins jafnlengi.  Hey urðu að mestu öll hrakin og urðu sumstaðar til á túnum.  Fóðurbætiskaup urðu því feikna mikil“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1955). 

Fóðurbætislán (n, hk)  Lán sem veitt er bónda til kaupa á kraftfóðri/fóðurbæti, t.d. í erfiðum heyskaparárum.  „Greiðsla af fóðurbætislánum bænda frá 1955“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; hreppsnefndarfundur 16.01.1959; ritari S.J.Th. oddviti). 

Fóðurbætisskál (n, kvk)  Skál til að gefa einni skepnu fóðurbæti.  „Oft þarf að gefa einni skepnu meiri næringu en annarri; svo sem tvílembdum, snemmbornum ám og nýbornum kúm, og var það tíðum gert með fóðurbæti.  Til þess var hentugt að nota netakúlur úr áli, sem oft rak á fjörur fyrrum; þær voru teknar í sundur og tekinn af þeim hankinn.  Fóðurbætisskál var einnig notuð til að ausa uppúr fóðurbætispokum“.

Fóðurdrýgindi (n, hk, fto)  Það sem verður til sparnaðar á fóðurbirgðum/heyjum.  „Til fóðurdrýginda var fénu stundum gefin saltsíld eða grásleppuslang.  Meðan verstaða var í Kollsvík var því gefið fiskdálkar“.

Fóðurgangur (n, kk)  Gangur í hlöðu eða skepnuhúsi sem farið er um með hey.  „Ég sópaði fóðurganginn“.

Fóðurlétt (l)  Um búskaparskilyrði; lítil þörf á vetrarfóðrun sauðfjár í venjulegu árferði.  „Í Kollsvík er góð útbeit fyrir sauðfé að vetrum; bæði hagabeit og fjörubeit.  Þar er því mjög fóðurlétt í meðalári“.

Fóðurmél (n, hk)  Fóðurbætir; fóðurmjöl.  „Gættu þess að sáldra ekki fóðurmélinu á hausana á fénu“!

Fóðurvöntun (n, kvk)  Skortur á fóðri/heyi fyrir búfé.  „Tilkynning um fóðurvöntun bónda“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).  „Þá er fram liðu stundir kom í ljós að fóðurvöntun var almennt meiri en álitið var skoðunardagana“   (ÓHE;  Forðagæslubók Rauðasands 1920).  

Fólksflótti (n, kk)  Hröð og óeðlileg fækkun íbúa á svæði.  „Samhliða því fækkar fólki í Víkinni; það flyst burtu, einkum til Patreksfjarðar eða til Reykjavíkur.  Fólksflóttinn frá smábátaútgerð og frumstæðu búskaparbasli er byrjaður“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fólksfæð (n, kvk)  Fámenni; lítið um fólk.  „Hrun byggða í Kollavík, og síðan í öllum Rauðasandshreppi, hefur glögglega leitt í ljós hvernig blómlega samfélög molna vegna fólksfæðar.  Fyrsta fórnarlambið er félagslíf og samhjálp sem ekki er bráðnauðsynleg, en menn hafa sér til afþreyingar og lífsuppfyllingar.  Næst fara innviðir sem samfélaginu eru nauðsynlegir s.s. velferðarstofnanir, skólar, verslun o.fl., auk þess sem félagslegum þroska fer stórlega aftur.  Síðast molna grunnstoðirnar, s.s. vegakerfi,orkudreifing, póstdreifing og annað slíkt.  Eftir sitja þessar fornfrægu og gjöfulu byggðir sem augnstungnir afþreyingarstaðir fyrir burtfluttar ættir og ferðafólk úr þéttbýlinu.  Þannig hafa nútíma stjórnarhættir leikið land forfeðranna:  Það sem hallærum og drepsóttunum mistókst á umliðnum öldum hafa fávísir stjórnarherrar klárað með glans“!  „Meðan það ástand ríkir að jarðir fara í eyði og eyðijarðir byggjast ekki, og þar af leiðandi fólksfæð til að inna fjallskil af hendi…“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 24.03.1962; ritari ÖG). 

Fólksvagn (n, kk)  Bíll af gerðinni Volkswagen, oftast þá átt við litlu fólksbílana sem nefndust „bjöllur“.  „Ertu kominn á nýjan fólksbíl Dóri“?

Fólskubragð / Fólskuverk (n, hk/kk)  Illur verknaður; óþverraháttur.  „Svona framferði hlýtur nú bara að teljast meiriháttar fólskubragð, þegar lítilmagnar eiga í hlut“.

Fór betur en á horfðist (orðtak)  Endaði betur en stefndi í.  „Það var óglæsilegt að sjá lambhrútinn velta niður hlíðina, en það fór betur en á horfðist“.

Fór góður biti í hundskjaft (orðtak)  Fór það góða forgörðum; glataðist það eigulega/girnilega.  „Hann varð höndum seinni að krækja í þennan kvenkost.  Sumir gætu sagt að þar færi góður biti í hundskjaft“.  Sjá þar fór góður biti í hundskjaft.

Fórna höndum (orðtak)  Slá upp/ frá sér höndum í skelfingu/æsingi.  „Ég fórnaði höndum þegar ég sá þetta“.

Fórnarlund / Fórnfýsi (n, kvk)  Óeigingirni; auðmýkt.  „Sýnir þetta e.t.v. betur en flest annað fórnarlund hans, ósérhlífni og drengskap“  (ÖG; minn.grein um AK).

Fórnfús (l)  Sem er reiðubúinn að fórna miklu.  „Kr. Júl. Kristjánsson þakkaði Hafsteini fyrir fórnfúst starf í þessum málum“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Fósi (n, kk)  A.  Fauskur; höfðingi.  „Þeir ráða þessu; fósarnir fyrir sunnan“.  B.  Kóngur í spilum.

Fósturjörð (n, kvk)  A.  Jörðin/landið sem maður lifir á.  „Ó fögur er vor fósturjörð...“  B.  Gæluheiti um hafsbotninn.  „Þú ert sko ekki með neina lúðu góði minn; þetta er bara fósturjörðin“!

Fóstursonur / Fósturdóttir / Fósturbarn (n, kk/kvk/hk)  Barn uppalið af þeim sem ekki eru blóðforeldrar.  „Einn úr hópnum var fóstursonur hans…“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Fótaburður (n, kk)  Göngulag.  „Gunnsi sagði að svona fótaburður nefndist þúfnavagg.  Hann hefði hvergi séð það nema hjá einstaka Kollsvíkingi og hjá geimförum sem lent hefðu á Tunglinu“.

Fótabúnaður (n, kk)  Skóbúnaður.  „Gúmmískór eru stórhættulegur fótabúnaður í klettum“.

Fóta sig (orðtak)  Lappa sig; ná fótfestu.  „Það er dálítið erfitt að fóta sig í þessari hálku“.

Fótafeiti (n, kvk)  Fita sem safnað var af soði sviðalappa.  Hún var notuð sem alhliða feiti og sáraáburður.  „Smolt var notað í ull þegar verið var að kemba, til að mýkja hana.  Yfirleitt var það samt fótafeiti.  Þetta er svolítið svipað; storknaði ekki“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).  „Sumar tóvinnukonur báru fótafeiti af soðnum sviðalöppum samn við þelið til að það kembdist betur og hægt væri að teygja það í fínni þráð við spunann“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).   Sjá tóvinna.

Fótaferðartími (n, kk)  Tími til að fara á fætur; morguntími.  „Hann svaf langt framyfir fótaferðatíma“.

Fótalaus (l)  A.  Án fóta.  „Þeir komast furðu hratt yfir, maðkarnir, þó fótalausir séu“.  B.  Svo þreyttur að maður finnur ekki til fóta.  „Ég er alveg fótalaus eftir þessa göngu“.  C.  Hlaupa svo hratt að fætur sjáist ekki.  „Tuddinn sperrti sig allt hvað af tók, en strákur hljóp fótalaust yfir allar hindranir og náði að fleygja sér yfir girðinguna í þann mund sem boli kom aðvífandi“.

Fótaskortur (n, kk)  Hras; fall á göngu.  „Gætið nú að ykkur þarna í þræðingnum; að verða ekki fótaskortur“.

Fótavist (n, kvk)  Það að vera á fótum/ geta gengið um.  „Hann er ári slappur karlanginn, en hann hefur samt fótavist ennþá og minnið er ekkert farið að gefa sig“.

Fótband (n, hk)  Band sem brugðið er um annan framfót stórgrips; neðan lagklaufa, svo hann sé meðfærilegri í taumi.  „Við ættum að hafa fótband á nautinu, til öryggis“.

Fótbrot (n, hk)  Brot á fæti.  Fótbrot kinda voru nokkuð algeng eftir að grindur fóru að tíðkast í fjárhúsum, enda var timbrið í þeim fljótt að slitna og þá festu kindur sig í grindunum og fótbrotnuðu iðulega við það.  Margir voru lagnir við að búa um fótbrot með spelkum og umbúðum, og oft greri brotið sem heilt á eftir.  Bein voru gjarnan brotin til mergjar, en þjóðtrúin segir að ekki megi brjóta sauðalegg því þá fótbrotni lifandi kind.

Fótfesta (n, kvk)  Staður sem veitir öruggt stig fyrir fót við bjargklifur eða göngu í brattlendi.  „Það er auðvitað mikið auðveldara fyrir dráttarmenn ef maður nær góðri fótfestu, heldur en að vera dreginn í lofti“.

Fótfrár (l)  Léttur á fæti; fljótur að hlaupa.  „Stóðst það oft á endum að báðir komu jafnsnemma í Verið; bátsverjar og hinir fótfráu æskumenn, sem ekki víluðu fyrir sér að spretta úr spori undir leiðarlokin“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fótgangandi (l)  Gangandi; á fæti.  „Þá fengum við úr Rauðasandshreppi leyfi skólastjóra til þess að fara fótgangandi vestur yfir heiðar og fá bátsferðir yfir firði“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Fótfúinn (l)  Slæmur í fótum; stirður til gangs.  „Maður gerist nú heldur gamall og fótfúinn fyrir svona ferðir“

Fóthvatur / Fótlipur (l)  Sprettharður; fjótur að hlaupa; snar.  „Mikið skolli er hann fóthvatur drengurinn“!

Fótkaldur (l)  A.  Kaldur á fótum.  „Skelfing ertu orðinn fótkaldur drengur; þú ert blóðrauður á tánum“!  B.  Hættir til að fá fótkulda.  „Ég þarf að fá mér inniskó; ég er orðinn svo fótkaldur í seinni tíð“.

Fótkuldi (n, kk)  Kuldi sem sækir á fæturna.  „Skelfingar fótkuldi er alltaf í húsinu hjá þeim“.

Fótlama (l)  Bagaður/meiddur á fæti; snúinn á ökkla.  „Ég er bara hálf fótlama, annars kæmi ég með ykkur“.

Fótlatur (l)  Latur til gangs; nennir ekki að fara/ganga.  „Ég er nú frekar fótlatur að fara svona í erindisleysu“.

Fótstuttur (l)  Klofstuttur; stuttur til klofsins.  „Þú ferð nú ekki hratt í smalamennskum, stubburinn minn, meðan þú ert ennþá svona fótstuttur“.

Fótur fyrir (orðtak)  Sannindi; við rök að styðjast.  „Eg held varla að það sé nokkur fótur fyrir þessu rugli“.  Sjá flugufótur fyrir.

Fótviss (l)  Öruggur á göngu/í klettaklifri.  „Hann var furðu fótviss sá gamli þegar hann hljóp yfir urðina“.  „Fjaran er þó fær sæmilega fótvissu fólki, norður að Helluvogi…“  (HÖ; Fjaran). 

Frakkneska (n, kvk)  Eldra heiti á tungumáli því sem nú er einatt nefnt franska. „Vatneyringar voru vanir hieimsóknum Frakka, þar sem þangað komu fiskiduggur þeirra á hverju sumri og töluðu allir mál það er þeir kölluðu frakknesku, en Frakkar kölluðu Íslensku; skildu hvorir aðra mæta vel“  (um Frakka á Vatneyri 1808; ók.höf; Árb.Barð 1955-56).

Frakkneskur (l)  Franskur.  „Síðla sumars 1808 komu þrjú herskip frakknesk inn á Vatneyrarhöfn og léttu þar akkerum“  ...  „Þessa mánuði streymdi frakkneskt gull yfir Vatneyri“  (um Frakka á Vatneyri 1808; ók.höf; Árb.Barð 1955-56).

Frakkur (l)  Frekur; ágengur; áræðinn.  „Mér þykir hann ári frakkur, að heimta þetta“!

Fram (ao)  A.  Áttavísun.  Fram merkir ekki það sama allsstaðar á landinu.  Í munni íbúa Rauðasandshrepps og e.t.v. víðar á Vestfjörðum, merkir það áttina upp landið; frá sjó.  Að fara fram dalinn merkir að fara frá sjó og uppeftir landinu, en í sumum landshlutum er merkingin þveröfug.  „Það er fé lengst frammi í Vatnadal; framan við Kollsvíkurtó“.  „Framan við bæinn (fram merkir frá sjó) er Dagmálagil“  (Örnefnaskrá Skápadals).  „Var jólatréð heimagert og bundinn á það einir sem sóttur var fram í Vatnadal“  (ÖG; Glefsur og minningabrot).   B.  Fram á sjó. Orðið breytir um merkingu þegar kemur út fyrir landsteina, þar sem þá merkir það áttina frá landi.  „Það er gott sjóveður; ég held að við ættum að fara fram“.  „Það er lítið að hafa hér uppi á grunni núna.  Við skulum sigla lengra fram og reyna þar“.  „Færum er rennt.  Fiskur tregur.  Keipað um stund; síðan kippt fram á Stekka“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Fram að þessu  (orðtak)  Hingað til; til þessa dags.  „Fram að þessu hafði verkmenning þjóðarinnar litlum breytingum tekið, allt frá landnámstíð“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fram á grafarbakkann (orðtak)  Þar til yfir lýkur; til dauðadags.  „Frá því ég man eftir mér heima á Lambavatni varst þú alltaf raulandi og syngjandi, og það gerðir þú fram á grafarbakkann“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Fram á milli fella (orðtak)  Staðbundið orðalag, sem vísar til þess að fara frá Láganúpi, t.d. með fé til beitar, fram Tún; uppá Fremri-Hjalla; upp Sandslágarkjaft og um skarðið sunnanvið Litlafell; um Kjóavötn og framí Skarð; útí Pálslaut; eða Smávatnabrekkur/Stóravatnsbrekkur í Vatnadal.  Ekki er því farið á milli Stórafells og Litlafells, eins og orðalagið gæti bent til.

Fram á Víkina (orðtak)  Til hafs; fram/út á Kollsvíkina.  „Væri ekki ráð að róa hérna fram á Víkina og renna í þessi gjör, sem hafa staðið uppi síðan í morgun“.

Fram á rauðanótt (orðtak)  Langt framá nótt.  „Vertu nú ekki að lesa framá rauðanótt; þú þarft að vakna í fyrramálið“.

Fram í fingurgóma (orðtak)  Allur; eins og hann leggur sig; algerlega.  „Þetta er ágætis náungi, en hann er helblátt í hald alveg framí fingurgóma“!

Fram í rauðan dauðann (orðtak)  Áhersluorð; oftast um mikla þrjósku/sannfæringu.  „Hann verður tryggur sínum flokki fram í rauðan dauðann; sama hvaða afglöp sá flokkur fremur“.

Fram í snjóa (orðtak)  Þar til fer að snjóa að hausti.  „Það er ekkert betra að geyma þessar smalamennskur fram í snjóa“!

Fram og til baka (orðtak)  Afturábak og áfram; úr einni átt til öndverðrar.  „Ég gekk fram og til baka á Bökkunum til að halda á mér hita meðan féð beitti sér í fjörunni“.

Fram úr (öllu) hófi / Fram úr máta (orðtak)  Yfirmáta mikið; helst til mikið.  „Hann var alltaf glaðlyndur, en fram úr hófi stríðinn“.

Framaf (ao)  Framfyrir/niðurfyrir brúnina.  „Farðu varlega að gemlingnum þarna á brúninni, svo hann stökkvi ekki framaf“. 

Framanað (ao)  Að framanverðu; framantil.  „Mér finnst nú alltaf betra að koma framanað málunum“.

Framanaf (ao)  Í byrjun/upphafi; á fyrri helmingi.  „Framanaf ævinni fór maður í egg á hverju vori“.  „Framanaf var Ekkna- og munaðarleysingjasjóður í umsjá deildarinnar, og var sama stjórn hans og deildarinnar“  (ÖG; Slysavarnadeildin Bræðrabandið). 

Framanfrá (ao) Að framanverðu; réttu megin  „Gættu a þér þegar þú kemur að ljósavélinni framanfrá í þessu myrkri; að reka þig ekki í ásinn“.

Framaní (ao)  Inni/uppi í að framanverðu.  „Mér sýnist vera kind á hillunni framaní efri klettunum“.

Framansagt (l)  Um ritmál; það sem hér fyrr stendur skrifað.  „Framansagt er alveg á mína ábyrgð“.

Framantil (ao)  Að framanverðu; framan við miðju.  „Vertu frekar framantil í bátnum svo hann sitji réttari í sjónum á siglingu“. 

Framanundir (fo)  Undir að framan/framanfrá.  „Mér heyrist vera eitthvað bank framanundir bílnum“.

Framanúr ao)  Úr/af að framanverðu.  „Ég ætla að strjúka framanúr mér mesta skítinn“.  „Það varð töluvert hrun framanúr klettunum“.  „Þeir eru enn ókomnir framanúr Vatnadal“.

Framanvið (ao)  Fyrir framan.  „Tveir höfrungar fylgdu okkur og stukku framanvið bátinn“.

Framarlega (ao)  Framanvið miðju; frammi í/á.  „Vertu ekki of framarlega í bátnum, svo skrúfan taki vatn“.

Framavegur (n, kk)  Framabraut; leið til upphefðar/frama.  „Honum þykir lítill framavegur í svona gutli“.

Framá (ao)  Tvenn merking þegar orðið stendur sjálfstætt:  Annarsvegar um bát: „Farðu framá með kollubandið“.  Hinsvegar um áliðnar ástíðir:  „Það er gott að eiga fyrningar þegar kemur framá“. 

Framávið (ao)  Í áttina áfram.  „Heldur miðaði okkur framávið þó hægt gengi róðurinn“.

Frambrýndur (l)  Um mann/klett/bjarg; með framstæðar/hvassar brúnir.  „En brátt hefur sig upp að nýju stakur bergröðull, uppmjór sem klakkur, og liggur niður hlíðarjaðarinn sem þunnur kambur, frambrýndur, allt niður í fjöru, og endar í strengbergi.  Má í raun heita ógengur um þvert, en hefur þó verið klifinn en þykir glæfraför“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Framburður í Kollsvík breyttist mjög á 20. öld.  Hinn harði „vestfirski“ framburður sem þar hafði verið notaður um aldir vék fyrir hinni almennu linmælgi landsmanna, en hafði þó geymst þar lengur en annarsstaðar.  Jafnvel mætti tala um „kollvískan“ framburð eða „kollvísku“, þar sem ekki er vitað til að þessi framburðareinkenni hafi neinsstaðar lifað lengur samfellt.  Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi var sá síðasti sem hélt hinum forna framburði til dauðadags.  Einkennandi fyrir hans framburð var harður framburður á „ð“;  „f“ og jafnvel fleiri samhljóðum þegar þeir voru í áhersluatkvæði, ásamt almennt hörðum framburði allra samhljóða.  Einnig var haldið hreinum og ákveðnum framburði á „a“ í stað þess að breyta því í „á“ eins og tíðkast nú, t.d. í „langur“.  Sama gilti um fleiri sérhljóða.  Þar sem ég veit ekki um aðra sem héldu þessum framburði lengur þá hallast ég að því að með Guðbjarti afa hafi dáið út kjarninn í hinum hreina og forna framburði íslensks máls; a.m.k. á þessum slóðum (VÖ).  Gamall vestfirskur húsgangur lýsir þessum framburði varðandi „ð“:
„Nordan hardan gerdi gard
geysi hardur vard‘ann
upp hann dregur ennisband
inn í skördin Bardans“          (Þannig haft eftir EB, Hringsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).
Dæmi um harðan framburð á „f“ og „ð“ er þetta andsvar afa þegar ég kvartaði um handkulda:  „Habbdirdu ekki vettlinga“?  (VÖ)
Annað einkenni á kollvísku málfari var lokun o-hljóða;  „ó“ í stað „o“:  „Kómu þeir ekki með allt féð“?
Þá var það ekki háttur Kollsvíkinga að syngja í gegnum nefið á „ng“ og „nk“ samstöfum, eins og nú tíðkast almennt.  Dæmi um það er einmitt orðið „syngja“, sem var borið fram eftir stafanna hljóðan en ekki sungið gegnum nefið.  Sama er um t.d. orðið „banki“; það var borið fram eftir stafanna hljóðan en þó ekki ýkt, eins og gert er í norðlenskum framburði.
Enn var það eitt framburðareinkennið, og það sem sennilega eimir hvað helst eftir af ennþá, en það er tilhneyging til mikillar áherslu á fyrsta orð í setningu; jafnvel fyrsta atkvæði í setningu, og meiri áhersla á kjarnaorð setningar en almennt gerist.  Eftir þessu hefur verið tekið af aðkomufólki í Kollsvík, og mun það mikils til vera rétt.
Þó það teljist e.t.v. ekki til framburðarsérkenna þá má geta hér þeirrar tilhneygingar Kollsvíkinga að stytta mál sitt eins og unnt var; tala í stuttum meitluðum setningum.  Þetta var sérlega áberandi t.d. hjá fyrrnefndum Guðbjarti Guðbjartssyni:  „Kenndirdu“? í stað „Fannstu til“?  „Á“? í stað „Er það svo“?  „Ódstu“? í stað „Ertu blautur í fæturna“?
Sú kenning hefur verið sett fram að framburðareinkenni mótist af lífsháttum, og er hún ekki ólíkleg.  Framangreind einkenni renna stoðum undir þetta:  Mikilvægt er að mál sjómanna sé þannig að orð séu skýrt borin fram til að yfirgnæfa vindgnauð, brimhljóð og skarkala í umhverfinu.  Vestfirðirnir mótuðu sína íbúa.

Frambærilegur (l)  Boðlegur; við hæfi.  „Ekki líkaði honum búningurinn á gömlu konunni og þótti ekki frambærilegur fyrir gest, þó nágranni og heimilisvinur væri ...“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Framdalur (n, kk)  Fremri hluti dals; sá hluti dals sem nær er fjalllendinu.  „Það er fjárlaust í framdalnum“.

Frameftir (ao)  A.  Um áttavísun; fram dal/tún/vík o.þ.h.  „Mér sýnist kýrnar vera komnar í Túnshalann.  Ég ætla að rölta frameftir og byrja að mjólka“.  B. Um tíma; seint; áliðið.  „Ég þarf að vakna snemma og ætla því ekki að vaka lengi frameftir i kvöld“.  „Síðan var dansað frameftir nóttu“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Framfaramál (n, hk)  Málefni sem bætir aðstöðu/lífskjör margra.  „Eitt þeirra framfaramála sem pabbi beitti sér mjög fyrir var rafvæðing allra bæja, og skoðun á virkjanamöguleikum í hreppnum“.

Framfleyta sér (orðtak)  Afla lífsviðurværis; komast af.  „Einhvernveginn þarf maður að framfleyta sér“.

Framfrá (ao)   Í áttina frameftir; fremst.  „Sumar kýrnar eru komnar niður að fjósi en aðrar eru ennþá framfrá“.

Framfyrir (ao)  Framúr; fram fyrir.  Orðið er almælt vestra eins og annarsstaðar, og notað sem eitt orð, líkt og t.d. framundir; framundan o.fl.  „Duflið er komið framfyrir bátinn“. 

Framfærni (n, kvk)  Þor; framhleypni; frekja.  „Ekki vil ég vera með framfærni, en fannst rétt að nefna þetta“.

Framfærsla (n, kvk)  Lífsbjörg; lífsviðurværi; tekjur.  „Þetta er það eina sem hann hefur til framfærslu“.

Framgangur (n, kk)  Velgengni; viðgangur.  Einkum notað um velgengni málefnis/baráttumáls.  „Tillagan var lögð fram á fundinum en fékk ekki framgang“.

Framgenginn (l)  Um ásigkomulag/vænleika búfjár eftir vetrarfóðrun.  „Fénaður var vel framgenginn, og gekk því sauðburður mjög vel“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58). 

Framhjá (ao)  Meðfram; til hliðar við; í framhjáhaldi.  „Með Guðrúnu konu sinni átti Einar í Kollsvík 4 syni og eina dóttur.  Tvo syni átti Einar framhjá Guðrúnu“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Framhlaðinn (l)  A.  Um bát; með mikinn farm framanvið miðskip; siginn að framanverðu.  „Við þyrftum að kasta einhverju af fiski úr framrúminu í miðrúmið; báturinn er ansi framhlaðinn“.  B.  Um byssu af eldri gerð, sem hlaðin er með því að hella púðri,  forhlöðum og höglum inn í hlaupið að framanverðu.  Sjá afturhlaðinn.

Framhleypinn (l)  Frakkur; ókurteis; frekur.  „Stundum er hann helst til framhleypinn, þessi drengur“.

Framhleypni (n, kvk)  Framfærni; áræðni; frekja.  „Mér finnst þetta nú dálítil framhleypni í honum“.

Framkominn (l)  Kominn fram; birtur.  „Fyrir því skorar fundurinn á Alþingi að fella framkomna tillögu um kjördæmamálið“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Framkvæmanlegt (l)  Unnt/mögulegt að gera.  „Þetta ætti nú að vera vel framkvæmanlegt“.

Framkvæmdaleysi (n, hk)  Aðgerðaleysi; ódugnaður.  „Skelfingar framkvæmdaleysi er í honum“!

Framkvæmdalítill / Framtakslítill (l)  Verkasmár; latur.  „Heldur þykir hann framkvæmdalítill“.

Framkvæmdamáttur (n, kk)  Kraftur til framkvæmda/framtaks.  „Þetta fámenna og févana sveitarfélag er dreift í tvö kaupfélög; eða jafnvel í þrjú félög.  Við þetta lamast framkvæmdamáttur þeirra beggja, borið saman við það ef þau gengju sameinuð til starfa“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Framkvæmdanefnd (n, kvk)  Nefnd sem sér um framkvæmdir.  „Þá var kosin framkvæmdanefnd Fagrahvamms fyrir næsta ár“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Framlágur (l)  Þreyttur; úrvinda; niðurlútur.  „Þeir voru orðnir framlágir eftir tveggja sólarhringa vökur“.

Framlot (n, hk, fto)  Halli framstefnis á báti.  „Ekki eru mikil framlotin á þessari trillu“.

Framleiðslustýring (n, kvk)  Kvótasetning í landbúnaði og fiskveiðum; „nýyrði yfir mestu hagstjórnarmistök Íslandsögunnar; ástæðu þess að blómlegar sveitir eru nú í eyði sem áður voru lífæð samfélagsins.  Þar er þó fremur um að kenna þeim leiðum sem voru valdar í stjórnun framleiðslu, heldur en þörfin á stýringu.  Pólitík réði því að fjölmennustu byggðirnar soguðu til sin allar heimildir til framleiðslu inn á takmarkaðan markað, en dreifðari byggðir voru skipulega teknar af lífi; jafnvel þó þar væru mun meiri rök fyrir áframhaldandi framleiðslu.  Ofan á þetta bættist dómgreindarleysi þingmanna Vestfjarðakjördæmis, sem t.d. sögðu að ekkert yrði af kvótasetningu í sjávarútvegi; jafnvel eftir að kvótakerfið var farið að valda byggðahruni“.

Frammeð (ao)  Meðfram; til hliðar við.  „Við náðum landi á vogskorinni strönd, undir klettabelti.  Við gengum frammeð því, að leita uppgöngu... “  (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Víktu fénu hér frammeð Axlarhjallanum“.

Frammí (ao)  Framanvert í bát eða bíl.  „Settu nestispokann frammí lúkar, svo hann sé ekki í ágjöfinni“.

Framorðið (ao)  Seint að kvöldi; áliðið.  „Það var nokkuð framorðið þegar lokið var við að hirða þann daginn“.

Framrás (n, kvk)  Farvegur vatns.  „Fann vatnið þar framrás til sjávar“.

Framrúm (n, hk)  Rúm það í litlum báti sem er framan við miðskipsþóftu.  „... stakk Árni upp á því að hella útbyrðis úr þeim poka sem í framrúmi var...“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Framræsla (n, kvk)  Skurðgröftur til að þurrka upp votlendi til ræktunar.  Framræsla mýrlendis og stórfelld ræktun eftir miðja 20. öld eru líklega mestu breytingar sem orðið hafa í Kollsvíkinni af mannavöldum frá því byggð hófst; bæði varðandi lífríki og ásýnd lands.  Framræslan var aðferð dugnaðarbænda til að viðhalda því farmleiðslustigi jarðanna sem þurfti í nútímabúskap, og því viðleitni til að halda byggð í víkinni.  Í stað drápsmýra komu véltæk og frjósöm tún.  En á móti breyttist lífríki og ásýnd, ásamt örnefnum og sérkennum.

Framsettur (l)  Um konu; ólétt.  Um mann; feitlaginn; með ýstru.  „Hún er að verða all framsett og blómleg“

Framskip (n, hk)  Framhluti á skipi/báti.  „Guðjón og Sigurður sátu í framskipinu og röbbuðu saman þar, en við Árni á skutþóftunni“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).  „Skaut nú Ásgeir á framskipið, og kom línan á vantinn“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Framsóknarbarátta (n, kvk)  Sókn.  „Hin neikvæðu öfl sem allstaðar eru að verki til að tefja framsóknarbaráttuna, hafa dregið þjóðir sem hæst stóðu í menningu niður í vesaldóm og spillingu“  (EG; Vakandi æska). 

Framspeni (n, kk)  Tvenn pör af milkum spenum eru jafnan á kúm; framspenar og afturspenar, en auk þess eru ómilkir dvergar/dvergspenar aftar.  Þegar handmjólkað er eru framspenar mjólkaðir samtímis, og síðan afturspenar samtímis.

Framstafn (n, kk)  A.  Um skip/bát; fremra stefni.  B.  Um hús; sá gafl sem snýr framá hlað.

Framstagur (n, kk)  Stag úr toppi siglu báts í framstefni.  Stögin til hliðar, niður á borðstokka heita höfuðbendur.  (Sjá þar og  sigling).

Framstig (n, hk) A.  Skref áfram.  B. Um hlutfall í stiga/tröppum.  Þægilegt hlutfall framstigs og uppstigs í tröppum er að tvöfalt uppstig að viðbættu framstigi sé um 620mm.  Æskilegur halli er 33°- 36°.  Frá þessu var þó verulega vikið í sumum eldri húsum; þar sem stigar voru hafðir brattir og með háu uppstigi.

Framsýni (n, kvk)  Hæfileiki til að spá um óorðna hluti; tilfinning/næmni fyrir framvindu mála.  „Húsbyggingar á Láganúpi lýsa mikilli framsýni; hvort heldur er litið til útihúsanna sem byggð voru 1940-45 eða íbúðarhússins sem byggt var 1974“.

Framsækinn (l)  Kappsamur; ötull; með framtíðarsýn.  „Með honum var stórt skarð höggvið í hóp framsækinna útvegsbænda“  (KJK; Kollsvíkurver).

Framsögn (n. kvk)  Listin að segja skýrt frá, og á skipulegan hátt, einkum þegar haldin er ræða fyrir marga.  Skýr og góð framsögn þjálfaðist mjög á tímum ungmennafélaganna í Kollsvík og víðar.

Framtaksdjarfur / Framtakssamur (l)  Tiltektarsamur; framkvæmdasamur; skörulegur.  Notað í jákvæðri merkingu um þann sem kemur hutunum í verk, en einnig um þann sem fer framúr sér; fer offari.  „Nú þykir mér hann vera orðinn einum of framtaksdjarfur“!

Framtakssemi (n, kvk)  Döngun; dugur; atorka; áræði; dugnaður. 

Framtil (ao)   Fram að; þangað til.  „Við unnum sleitulaust við þetta framtil miðnættis“.

Framtíðarhorfur (n, kvk, fto)  Útlit til framtíðar.  „Þórður Jónsson ræddi um rekstur barnaskólans og framtíðarhorfur“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Framtíðarkennslustaður (n, kk)  Staður þar sem kennsla fer fram til frambúðar.  „Össur Guðbjartsson gat þess að reynsla sín sem kennara af félagsheimilinu fyrir kennslustað væri góð, en ekki mætti reikna með því sem framtíðarkennslustað“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Framtíðarlausn (n, kvk)  Lausn til framtíðar; lausn sem dugir.

Framum (ao)  A.  Um stefnu; fram; frameftir; frá landi.  „Áttir og stefnur voru með lítið eitt öðrum hætti í Útvíkum og nágrenni en annarsstaðar tíðkaðist og nú er algengast.  Ekki síst átti það við á sjó, en einnig á landi:  Framum þýðir dýpra/fjær landi eða inn dalinn; uppum þýðir grynnra/nær landi eða ofar í landinu;  útum þýðir út fjörðinn eða í stað sem er utar á landsvæði; innum þýðir inn fjörðinn eða innyfitr heiði/ inn í fjörð“.  „Við skulum sigla hér aðeins framum og reyna þar“.  B.  Framyfir.  „Nú var komið framum hádegi og suðurfall“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Framundir (ao)  A.  Um staðsetningu; frammi undir/við.  „Kýrnar hafa eigrað framundir Fossa, sýnist mér“. „Sumir segja að hestarnir væru eltir framundir Vatnadalsbrekkur“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).   B.  Allt að; nærri því.  „Mér skilst að bíllinn hafi kostað framundir eina milljón“.  „Ám er gefið fram á burð allvíðast, og aldar inni frá því um hátíðar og framundir apríllok“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Framundir þetta (orðtak)  Hingað til.  „Framundir þetta hefur verið ágæt tíð, en nú sýnist mér að hann gæti verið að breyta eitthvað“.

Framúr (ao)  A.  Fram og útúr; útfyrir rúmstokkinn.  „Það getur verið dálítið erfitt að koma sér framúr þegar maður er svona illa sofinn“.  „Ég heyrði að hann var kominn fram úr en móðir mín vann hann með góðu að fara upp í aftur“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).    B.  Framvegis; til eilífðarnóns; til enda.  „Skyldi hann ætla að hafa þessa ótíð alveg framúr“?!  Í þessari merkingu er áherslan jafnan á síðasta atkvæðinu; „úr“, en í hinni merkingunní á „fram“.  „Ég efast um að honum dugi þessi hey framúr“.  C.  Út veturinn.  „Heldurðu að þér dugi þessi hey framúr“?

Framúrlegur (l)  Framlágur; þreytulegur.  „Mér þykir hann all framúrlegur eftir þetta strit“.  Líklega leitt af eldra orði; „framorðlegur“, sem vísar til þess að orðið er framorðið/kvöldsett.

Framvegis (ao)  Til frambúðar; hér eftir; héðanífrá.  „Framvegis ætla ég að sjá um þetta sjálfur“.

Framvið / Frammivið (ao)  Frammi hjá; fremst við.  „Þarna eru kindur framvið Startjarnir“.  „Járnkarlinn er líkast til frammivið Túnshalahliðið“.

Framvík (n, kvk)  Fremri hluti víkur; sá hluti víkur sem nær er hálendinu og fjær sjónum.  „Þegar Breiðavík var smöluð þá smöluðum við Kollvíkingar úr Fjarðarhorninu; niður Flosagil og Hjallagötur, en Hafnarmenn og Breiðvíkingar smöluðu niður framvíkina.  Látramenn og Breiðvíkingar smöluðu Breiðavíkurver og útvíkina“.

Framvísa (s)  Sýna/ koma með til skoðunar/eftirlits.  „Skoðunarmaður hugðist leita réttar síns, en sá það ekki fært vegna galla laganna; sem ekki skylda fjáreigendur að framvísa fé sínu til skoðunarmanns“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1938). 

Framyfir sig (orðtak)  Slútandi; lotinn; loft.  „Kletturinn er þarna dálítið framyfir sig, og því útilokað að komast að hrafnshreiðrinu“.  „Ári er karlinn orðinn mikið framyfir sig í seinni tíð“.

Framþófta (n, kvk)  Fremsta þóftan í litlum báti; hinar eru miðskipsþófta og afturþófta.

Framþungur (l)  Um hleðslu á farartæki; þungt að framanverðu.  „Báturinn er alltof framþungur; skrúfan sleppir sjó í kvikunni“!

Framþykkur (l)  Framsettur; feitur.  „Ég var þá orðinn framþykkur fyrir brjóstinu“ (af sullaveiki).  (ÓTG; Ágrip af æviferli).

Framættir (n, kvk, fto)  Ættir manns lengra aftur í tímann.  „Þó Kollsvíkurætt sé rakin frá Einari Jónssyni bónda í Kollsvík frá 1797 til 1836, þá ná framættir Kollsvíkurættar mun lengra aftur á þessum stað.  T.d. var einn forfaðir Guðrúnar Jónsdóttur, konu Einars, Halldór Jónsson, einn hinna kunnu Sellátrabræðra, sem bjó á Láganúpi frá árinu 1703.  Bróðir hans var Bjarni Jónsson sem bjó í Kollsvík um 40 ára skeið“.

Fransklína / Frönsk lína (orðtak)  Fiskilína af þeirri gerð sem fransmenn notuðu þegar þeir veiddu hér ið land á skútum, en slíkar linur voru notaðar í veiðarfæri í verum Útvíkna.  „Lóðastrengur var gerður úr tveimur þáttum franskrar línu, en franskar línur voru af þremur aðalþáttum.  Þriðji þátturinn úr fransklínunni var rakinn niður í grennri þætti, og voru tveir slíkir snúnir saman í öngultauma“  (GG; Kollsvíkurver).

Fransmenn (n, kk, fto)  Frakkar.  „Fransmenn gerðu út fjölmargar skútur á Íslandsmið; mest á tímanum frá fyrrihluta 19. aldar framundir fyrri heimsstyrjöld, en áætlað hefur verið að undir það síðasta hafi þeir verið hér um 5000 talsins.  Skúturnar voru mikið að veiðum á Vestfjarðamiðum, og voru tíðir gestir inni á Patreksfirði.  Þótt þess finnist ekki stað í heimildum þá má leiða að því líkum að franskir sjómenn hafi komið á land í Kollsvík, og líklega átt einhver viðskipti við heimamenn, t.d. keypt vettlinga og prjónles.  Afi var fáorður um þetta, en þó man ég eftir að hann talaði um pompólabrauð og biskví, sem var þeirra sjóarakex“.  „Um nafn Sölmundargjár er þjóðsaga að strákur að nafni Sölmundur hafi naumlega sloppið frá fransmönnum sem hugðust nota hann í hákarlabeitu“  (HÖ; Fjaran). 

Frat (n, hk)  Það sem er ónýtt/lítilsvert; fretur; viðrekstur.  „Ég gef nú bara frat í þessi kosningaloforð þeirra“!  „Óttalegt frat er þessi skrúfsía“.  „Hann lýsti frati á þessar fyrirætlanir; sagði að þetta væru bara draumórar“.

Fratgepill (n, kk)  Niðrandi uppnefni á manni.  „Ég gef nú lítið fyrir það sem sá fratgepill er að gaspra“!

Frauka (n, kvk)  Niðrandi heiti á frú/ungfrú/konu.  „Ég held að þessi frauka hafi lítil efni á að þenja sig“!

-frá (ending áttalýsinga)  Í Kollsvík tíðkast áttalýsingar sem sumum finnast framandi, og er þetta ein þeirra.  Sá sem er á Láganúpi segir að fólk á Kollsvíkurbæjarins sé norðurfrá og að það geti komið norðanfrá.  Það segir hinsvegar að sá sé yfirfrá en geti komið að handan.  Sá sem er fyrir innan Hænuvíkurháls er innfrá og getur komið að innan, en sá sem er í Vatnadal, Breiðuvík og Látrum er útfrá og getur komið að utan.  Sama segir sá sem er inni í Patreksfirði um þá sem eru í Kollsvík.

Frá aldaöðli (orðtak)  Um margar aldir; um langan tíma.  „Frá aldaöðli hefur verið mikil útgerð í Kollsvík“.  Orðið „aldaöðull“ eða „aldaöðal“ er aldrei notað nú á tíð nema í þessu örðtaki.  Líklegt er að hljóðbreyting hafi orðið og merkingin sé „óðal aldanna“ eða „staðurinn sem tíminn er talinn frá“.  Einnig kann rótin að vera að „öðlast“; og vísi þá til þess að hið umrædda hafi þróast á löngum tíma.  En vissulega eru bæði orðin stofnskyld.

Frá ári til árs (orðtak)  Milli ára; frá einu ári til þess næsta.  „Upp af Bugtinni er landið nefnt Seil.  Er það land sem er alltaf að breytast frá ári til árs“   (ÍH; Örn.skrá Melaness).  „Því lengur sem ég skoða og set á, eða hef þetta forðagæslueftirlit, því betur sannfærist ég um að fóðrun á öllum ofangreindum búpeningi fer batnandi frá ári til árs“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Frá blautu barnsbeini (orðtak)  Alla ævi; frá unga aldri.  „Hér hef ég átt heima frá blautu barnsbeini“.

Frá borði (orðtak)  Í land; af báti/skipi.  „Svo var tekið á móti okkur af öllum mannskapnum.  Það var ekki verið að hleypa okkur frá borði.  Það var tekið á loft þetta mikla skip, Korkanesið sjálft, og við bornir upp á Kamb með öllum aflanum í, og sjónum, og það var mikill hlátur af öllu saman“  (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004). 

Frá degi til dags (orðtak)  Milli daga; frá einum degi til næsta.  „Aflinn er mismikill frá degi til dags“.

Frá deginum áður (orðtak)  Frá fyrra degi; frá deginum á undan.  Algengt orðtak í Kollsvík.  „Þá var að fara með mat í verið; sækja fisk í soðið og svo varð maður að klippa hausana frá deginum áður og koma þeim í þurrk“  (IG; Æskuminningar). 

Frá fornu fari / Frá ómunatíð (orðtak)  Frá því á fornum/gömlum tíma.  „Brók og skinnstakkur voru þau hlífðarföt sem almennt voru notuð í verstöðvum frá fornu fari og fram um 1930“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Þaðan hefur frá ómunatíð verið sóttur sjór á smábátum“  (ÖG; Þokuróður).

Frá fyrri tíð / Frá gamalli tíð (orðtak)  Um það sem gamalt er.

Frá fyrstu hendi (orðtak)  Frá upphafsmanni/ fyrsta heimildarmanni.  „Ég vildi heyra söguna frá fyrstu hendi, svo ég fór og hitti hann sjálfan“.

Frá/af (einhvers) hendi (orðtak)  Frá einhverjum; að hálfu einhvers.  „Ég hef aldrei mætt ósanngirni frá hans hendi“

Frá hvirfli til ilja (orðtak)  Allur líkaminn; frá kolli til fóta.  „Hann var forugur frá hvirfli til ilja“.

Frá mínu sjónarhorni / Frá mínum sjónarhóli / Frá mínum bæjardyrum séð (orðak)  Fyrir mína parta; hvað mig snertir; að mínu áliti.  „Það dæmir auðvitað hver fyrir sig, en frá mínum bæjardyrum séð er þetta í besta lagi“.

Frá náttúrunnar hendi (orðtak)  Eins og mótast/orðið hefur af náttúruöflum.  „Þarna virðist hafa orðið til risastórt mannshöfuð frá náttúrunnar hendi“.

Frá ómunatíð (orðtak)  Svo lengi sem elstu menn muna; frá tíma sem enginn man lengur.  „Svona hefur þetta gengið til frá ómunatíð“.

Frá sér (orðtak)  Brjálaður; ruglaður; notað sem upphrópun.  „Ertu frá þér, maður?  Þetta máttu ekki gera“!

Frá sér numinn (orðtak)  Í geðshræringu; óttasleginn; ofsahrifinn.  „Hann varð víst alveg frá sér numinn af kæti yfir kosningaúrslitunum“.

Frá tagli skal tré rífa en frá rót saga (orðatiltæki)  Ef til vill má í þessari speki finna elstu smíðaleiðbeiningar sem enn halda sínu gildi.  Tagl merkir þarna króna/toppur á trjábol.  Ef kljúfa skal tré er auðveldara að byrja á krónuendanum, en þeir sem reynt hafa að saga trjábol að endilöngu hafa vit á að byrja rótarmegin, svo skurðurinn opnist en lokist ekki og klemmi sögina.

Frá toppi til táar (orðtak)  Frá hvirfli að tám.  „Ég komst við illan leik uppúr dýinu; forugur frá toppi til táar“.

Frá unga aldri (orðtak)  Frá barnsárum; frá blautu barnsbeini.  „Ég hef haft þessar freknur frá unga aldri“.

Frá upphafi vega / Frá örófi alda (orðtak)  Um aldaraðir; frá öndverðu; í ómunatíma.  „Útræði hefur hér verið frá örófi alda“.

Frá vinnu (orðtak)  Óvinnufær; getur ekki unnið, t.d. vegna veikinda/slyss.  „Ég reri um vorið með Einari og fór síðan einn túr á togaranum Gylfa frá Patreksfirði.  Líkaði mér það vel og ætlaði að vera áfram, en fékk brjósthimnubólgu og var frá vinnu um sumarið“  (IG; Æskuminningar). 

Frá vöggu til grafar (orðtak)  Frá fæðingu til dauða; alla ævi.  „Í þeirri ætt hafa allir verið sjálfstæðismenn; nánast frá vöggu til grafar“!

Frá örófi alda (orðtak)  Frá því í forneskju; um mjög langan tíma.  Orðið „öróf“ er í raun „ör-hóf“; þ.e. eitthvað það sem ekkert hóf er á.  „Sjósókn hefur verið í Kollsvík frá örófi alda“.

Frábiðja sér (orðtak)  Biðja um að sér verði vægt/ ekki íþyngt.  „Ég frábið mér svona ásakanir“!

Frábitinn (l)  Afhuga; ekki gefinn fyrir; langar ekki til.  „Hann er alveg frábitinn öllu helgistagli“.

Frábógur (n, kk)  Annar leggurinn þegar krusað var með landi í beitivindi, þ.e. þegar siglt var fjær landinu.   Hinn leggurinn, í átt nær landi, nefndist uppbógur.  „Var þá skipið á frábóg í á annan sólarhring“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli).  Orðið finnst ekki í orðabókum.

Frábrugðinn (l)  Öðruvísi.  „Mér finnst þessi ekki svo mjög frábrugðinn hinum“.

Frábær (l)  Stórkostlegur; betri en aðrir.  „Undanskil ég þá bændurna þá bændurna á Lambavatni, er verka betur hey sín en líklega nokkrir aðrir í þessu umdæmi.  Samfara því er frábær hirðing hjá þeim á öllum pening“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929). 

Frábærlega (ao)  Mjög; afar.  „Mér fannst hann standa sig alveg frábærlega vel“.

Fráfarandi (l)  Sem er að hætta í starfi.  „Oddviti þakkaði einnig fráfarandi nefnd og bauð hina nýju nefnd velkomna til starfa“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Fráflakandi (l)  A.  Um ull á fé; flaksandi frá líkamanum.  „Við þurfum að ná þessari kind sem er með fráflakandi reyfið, áður en hún fer í ullarhaft.  B.  Um fatnað á fólki; losaralegur; flaksandi. „Skelfing er að sjá karla nú til dags; með fráflakandi skyrtuna í hálsmálið“!

Fráfælast (s)  Styggjast; hrökkva frá; hætta við.  „Mér finnst þetta verð á svona grip, ekkert til að fráfælast“.

Fráfærur (n, kvk, fto)  Það að taka lömb frá kindum til að unnt sé að mjólka þær og vinna mat úr mjólkinni.  Fráfærur voru hluti sauðfjárbúskspar gegnum íslandssöguna, en lögðust af um og eftir aldamótin 1900.  Fært var frá í 9-13 vikur; frá því snemma í júní og framá haust.  Lömbin voru stíuð frá ánum yfir nótt í stekk og ærnar mjólkaðar að morgni áður en þær fengu lömbin aftur.  Sá tími nefndist stekktíð.  Lömbin voru síðan vanin alveg undan ánum fimm til átta vikna gömul.  Ærnar voru síðan mjólkaðar í kvíum tvisvar á dag fram á haust; þó aðeins einusinni á dag undir lokin.  Þurfti þá að sitja yfir ánum dag og nótt fyrist eftir að lömbin voru tekin undan.  Einnig þurftu lömbin mikla gæslu.  Smalinn þurfti að vera mættur með ærnar að stekknum þegar mjaltakonur mættu, en mjaltir og mjólkurvinnsla var kvennaverk.  Mjólkin var yfirleitt notuð til smjörgerðar, en einnig fékkst úr henni skyr og sýra.  Á síðari tímum fráfæru mjólkaði meðaláin um 40-50 lítra yfir sumarið.  15 l mjólkur þurfti til að gera kíló af smjöri, en skyr var oftast gert úr undanrennunni.  Stekkir eru víða nærri bæjum í Rauðasandshreppi.  Frá sumum bæjum tíðkaðist að hafa í seli, en þá bjó vinnufólk á grösugum stað í nokkurrii fjarlægð frá bænum og mjólkaði þar fé og jafnvel kýr.  Tilgangurinn með því var að nýta grösuga haga til að auka nytina. (Heimild; Hallgerður Gísladóttir o.fl.).

Frágangssök (n, kvk)  Ómögulegt; óaðgengilegt.  „Það er kannski ekki frágangssök þó molasykurinn vanti“.

Frágenginn (l)  A.  Kláraður; lokið við.  „Að löglega frágenginni slíkri sameiningu samþykkir fundurinn að veita þeim nýja félagsskap vaxtalaust framlag…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).  B.  Sem hafnað hefur boði.  „…en samkvæmt fjallskilasamþykkt er óheimilt að leyfa utanhreppsmönnum upprekstur nema að innansveitarmönnum frágengnum“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Frákast (n, hk)  Endurkast.  „Í skútanum undir Bæjarvellinum er frábær aðstaða til að taka á móti eggjum, sem þá eru látin síga af vallarbrúninni beint niður í gúmbát.  En ef mikill súgur er, þarf að vara sig á frákasti öldunnar sem gegnur inn í hellinn og kastast þaðan út aftur af töluverðu afli og með drunum miklum“.

Frákonumegin (ao)  Sú hlið kýrinnar sem veit frá mjaltakonu; venjulega vinstri hlið.  „Kýrin hefur stigið sig í framspenann, frákonumegin“.  Það er eitt af sérkennum huldufólks að það mjólkar jafnan kýrnar frákonumegin, sem aldrei er gert af mennsku mjaltafólki.  „Þó var meira áberandi að huldufólk birtist í draumi; einkum konum.  Þannig bað mörg huldukonan um mjólk handa barni sínu og kýrin húsmóðurinnar var mjólkuð frákonumegin; þ.e.a.s. vinstra júfur kýrinnar“  (Ívar Ívarsson Kirkjuhvammi; Hvatt bæði; grein í Lesbók Tímans 1964).

Frálag (n, hk)  Slátrun til matarnytja.  „Sauðurinn ætti að verða góður til frálags í þessari beit“.

Frálagssvæði (n, hk)  „Svæði í gígdæld, uppi á bökkum frostgígs, þar sem flökkuefni sest eftir að hafa flotið með ís úr gígnum.  Frálagssvæðið er það svæði sem ís getur flotið um í mestu vatnshæð, samfrosinn flökkuefni“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Notað í Kollsvík vegna jarðfræðikenningar um frostgíga sem þar er upprunnin.

Frálaus (l)  Laus frá, t.d. landi.  „Þú kemst ekki út á þessa hlein; hún er alveg frálaus“.

Fráleitur (l)  Fjarstæðukenndur; afleitur.  „Það er alveg fráleitt að ég hafi nokkurntíma sagt þetta“.    „…og taldi fráleitt annað en að honum yrði mætt á myndarlegan hátt“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Fráleiði (n, hk)  Hluti sjóferðar; sigling/róður úr veri á fiskimið.  Mikilvægt var, þegar róið var, að haga róðrum þannig að meðstraumur fengist bæði á fráleiði og í heimróðri.

Fráleitt (l)  Fáránlegt; óhugsandi; af og frá.  „Það er alveg fráleitt að fara svona að þessu“!  „

Frámunalega (ao)  Mjög; afskaplega; einstaklega.  „Mér fannst þessi dagskrá bara frámunalega léleg“!

Frámunalega heimskulegt/vitlaust (orðtak)  Arfavitlaust; endemisvitlaust.  „Þetta er svo frámunalega heimskuleg athugasemd að ég hef sjaldan heyrt annað eins“!  „Þetta er svo frámunalega vitlaust“!

Frámunalegt (l)  Fáránlegt; yfirgengilegt.  „Þetta er auðvitað frámunaleg heimska“!  „Alveg er þetta frámunalegt klúður“!

Fráreikna (s)  Draga frá í útreikningi.  „Ég tek ekki við þessari endurgreiðslu nema að þú fráreiknir þinn kostnað við þetta“.

Frásagnavert (l)  Vert að segja frá/ tala um.  „Ég hef eflaust sleppt ýmsu sem frásagnarvert gæti talist...“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Fráskila (l)  „Lambið var frekar rýringslegt og hefur trúlega orðið fráskila við móðurina snemmsumars“.

Fráskorið (l)  A.  Afskorið; skorið af/frá.  Sjaldan notað í eiginlegri merkingu.  B.  Afleidd merking; útilokað; af og frá; kemur ekki til greina.  „Það er alveg fráskorið með róðra í dag, sýnist mér“.  „Það er nú kannski ekki alveg fráskorið að ég geti þetta“.

Fráskot / Fráskotsborð / Fráskostumfar (n, hk)  Borð/skíði í byrðingi/súð á báti; fyrsta borðið frá kjalsíðunni.  „Fráskotsumfarið var í þrennu lagi; tveir vindingar og í miðjunni eitt ískeyti“ (LKr; Ísl.sjávarhættir II).

Fráslá (s)  Slá frá; hafna; synja.  „Ég myndi nú ekki strax fráslá svona tilboði“. „Hann frásló þessu alveg“.

Frátafasamur (l)  Hætt við frátöfum; seinlegt vegna tafa.  „Honum varð frátafasamt við verkið vegna smalana“.

Frátafir (n, kvk, fto)  Tafir frá verki/verkum.  „Það eru eilífar frátafir í símann núna“.

Frátalinn (l)  Undanskilinn; tekinn til hliðar.  „Veið erum sex ef hann er frátalinn; það dugir fyrir þetta sig“.

Frátekinn (l)  A.  Eignaður öðrum.  „Það á enginn frátekin nein stæði í netalögnum; við leggjum hérna“.  B.  Undanskilinn; frátalinn.  „Veturinn mátti heita ágætur, að fráteknum desember og janúar“  (SJTh; Árb.Barð 1955-56). 

Frávita (l)  Sturlaður; óstjórnlega æstur: ruglaður.  „Hann varð alveg frávita af reiði yfir þessu“.

Freði (n, kk)  Frostskán; jarðfrost.  „Það er enn töluverður freði í jörð.

Freðinn (l)  Frosinn.  Bæði orðin notuð jöfnum höndum, en þó þótti „freðinn“ hafa þyngri áherslu.

Fregna (s)  Frétta; fá fréttir af.  „Nú fregnar Benedikt Gabríel hvalrekann, og það með að skutull hans hafi í honum fundist; og svo það að Einar bóndi í Kollsvík hafi tekið upp hvalinn allan og flutt á hestum heim til sín“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Freistarinn (n, kk)  Sá sem freistaði Jesú; Satan; skrattinn.  „Hvíslar þá ekki freistarinn í eyra honum að líklega eigi Gummi bróðir eitthvað ætilegt í skrínu sinni“  (PG; Veðmálið). 

Freistast til (orðtak)  Láta undan freistingum; gera það sem maður veit þó að er rangt.  „Ég var orðinn glorhungraður og freistaðist til að kíkja í nestisboxið.

Frekar en fyrri daginn (orðtak)  Frekar en endranær.  „Þú ert ekki fágaður í mannasiðunum frekar en fyrri daginn“!

Frekast (l, est)  Jafnvel.  „Hægt var að fara Kumbara um vel hálffallinn sjó; frekast þó brim væri, ef tir að Grásleppuvör var dýpkuð“ (AS ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Frekjugangur (n, kk)  Ásælni; heimtufrekja; gleypugangur.  „Hættu þessum frekjugangi krakki“!

Frekjuhundur (n, kk)  Mjög frek og leiðinleg manneskja.  „Hinn hreytti í hann ónotum og kallaði frekjuhund“.

Frekjuskarð (n, hk)  Skarð milli framtanna á manneskju.  Hjátrú segir það merki um frekju. 

Freklega (ao)  A.  Frekjulega; gróflega.  „Honum þótti freklega að sér vegið“.  B.  Rúmlega; rösklega.  „Ég áætla að þetta séu freklega tvöhundruð kíló“.

Freknóttur (l)  Með mikið af dökkum dílum/freknum, einkanlega í andliti.  Jöfnum höndum  notað um fólk, sauðkindur og önnur dýr s.s. fugla.

Frekur (l)  A.  Yfirgangssamur; sérplæginn.  „Þetta finnst mér frekt“.  B.  Rúmur; ríflegur; umfram.  „Aðfall sjóar eru tvær eyktir frekar; útfall eins langt“  (BH; Atli).   „Ég hef ekki fengið frekari fréttir af þessu“.

Frekur er hver til fjörsins (orðatiltæki)  Allir vilja lifa; lífseigur; erfitt að fyrirkoma/drepa.  „Líklega hefðu einhverjir gefist upp þarna í brimgarðinum, en það að honum skyldi takast að ná landi sýnir að frekur er hver til fjörsins“.

Frelsaður (l)  A.  Laus úr prísund/þjökun.  B.  Laus undan löngun í vín.  „Hann er víst frelsaður núna“.

Frelsun (n, kvk) A.   Lausn úr fjötrum/ánauð.  B.  Lausn frá því sem er pirrandi/þjakandi.  „Þetta var mikil frelsun; að vera laus við fjandans óperugargið í útvarpinu“.

Fremd (n, kvk)  Aukin virðing/álit.  „Það er lítil fremd í því að yrkja níð um fólk“!

Fremdarsnauður (l)  Nýtur lítils álits.  „Hann var ekki vel liðinn; var álitinn fremdarsnauður ribbaldi“.

Fremja (s)  Gera; vinna.  Notað um sérstakan verknað s.s. fremja glæp; fremja gerning o.fl.

Fremur (ao)  Nokkuð; heldur.  „Þegar tekið er tillit til þess að vetur hefur verið fremur góður…“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1924).  

Fremur en fyrri daginn (orðtak)  Fremur en áður.  „Hann var ekkert að rífa sig á fætur núna fremur en fyrri daginn“.

Frenja (n, kvk)  A.  Frekja; óhemja; bryðja.  „Láttu nú ekki eins og frenja, stelpa“!  B.  Niðrandi heiti á frekri/uppivöðslusamri kind/kú.  „Það eru naumast lætin í þessari frenju“!

Frenjugangur / Frenjuháttur (n, kk)  Frekja; óhemjugangur; yfirgangur.  „Óttalegur frenjuháttur er þetta“! 

Freri (n, kk)  Klaki; ís; frosin jörð.  „Við hefðum ekki einusinni getað höggvið með grjóthellum því þeim var ekki hægt að ná uppúr jörðinni í freranum“  Frásögn ÁH  (ÓS; Útkall við Látrabjarg).

Freskir menn sem ófreskir (orðtak)  Ófreskur maður er eldra heiti yfir skyggnan mann, þ.e. mann sem sér drauga, huldufólk og annað sem öðrum er hulið.  Freskur er sá sem ekki hefur það skyn.  Orðtakið er notað um báða hópa.  „Þetta ljósfyrirbæri sáu bæði freskir menn sem ófreskir“.

Fresta því ekki til morguns sem unnt er að gera í dag (orðatiltæki)  Speki hins hagsýna/vinnusama.

Frestur er á illu bestur (orðatiltæki)  Stundum er gott að láta óþægilega/slæma hluti/verknaði bíða.  Þó er til önnur speki sem segir; sjaldan er bið til batnaðar; og; geymdu ekki til morguns sem þú getur gert í dag.

Freta (s)  Prumpa; reka við; leysa vind; létta á sér.  „Hver var að freta svona skelfilega fúlt“?

Freta á (orðtak)  Skjóta á.  „Hann fretaði á tófuna af alltof löngu færi“.  Slanguryrði.

Frethólkur  (n, kk)  Óvandaður maður; kjaftaskur; byssa.  „Sá frethólkur er ekkert nema kjafturinn“!

Fretur (n, kk)  Viðrekstur; prump.  Það hefur alltaf verið talið hraustleikamerki, en ekki ókurteisi, í Kollsvík að geta fretað fullan fret án slysa; þ.e. án þess að kría gerðist í brækur.  Hinsvegar hefur þetta ekki alltaf aflað Kollsvíkingum vinsælda í fínum samkvæmum utan heimaslóða, sér í lagi ef loftgæði þykja spillast.

Frétta á skotspónum (orðtak)  Sjá heyra á skotspónum.

Fréttafár / Fréttasnauður (l)  Hefur ekki mikið fréttnæmt að segja.  „Heldur er maður fréttafár núna; það skeður ekki mikið á þessari póstleið“.

Fréttafróður (l)  Hefur mikið fréttnæmt að segja; veit margt.  „Þú hlýtur að vera nokkuð fréttafróður“.

Fréttalétt / Fréttalítið (l)  Tíðindalítið; fátt fréttnæmt að segja.  „Af okkar slóðum er allt fremur fréttalétt“.

Fréttnæmt (l)  Það sem telst til tíðinda; frásagnarvert.  „Kanntu nokkuð fréttnæmt“?

Friðarspillir (n, kk)  Sé sem heldur uppi ófriði/ er til leiðinda.  „Ætlar þú að fara að verða einhver friðarspillir“?

Friðlaus (l)  Órólegur; eirðarlaus.  „Hann er alveg friðlaus að komast ekki á sjóinn“.

Friðmælast við (orðtak)  Sættast við.  „Hættið nú að kýta drengir; og reynið að friðmælast“!

Friðsemd (n, kvk)  Friður; rólegheit.  „Hér er bara allt í friðsemd“.  „Við leystum málin í mestu friðsemd“.

Friðsemdarmaður (n, kk)  Sá sem er friðsamur; rólegheitamaður.  „Ég á bágt með að trúa að sá friðsemdarmaður hafi átt upptökin að þessu“.

Friðslit (n, hk, fto)  Rof á friði; ófriður.  „Það er óþarfi að stofna til einhvenna friðslita útaf þessu máli“.

Friðsæld (n, kvk)  Friður; ró.  „Hvergi finnst meiri friðsæld en sú að setjast niður úti á Hnífum í góðu veðri“.

Friðvænlegt (l)  Til friðar fallið; horfir til friðar.  „Þá er kannski friðvænlegra í sveitinni, fyrst hann er farinn“!

Fría sig (orðtak)  Losa sig undan/frá.  „Það fríar ekki landeiganda frá smölun að hann sé fjárlaus“.

Fríðleikskona/ -maður/ -fólk / -piltur/ -stúlka Um frítt fólk.

Fríborð (n, hk)  Það sem uppúr sjó stendur af byrðingi báts; borð fyrir báru.  „Við tökum ekki meira af netum í land núna; það er nauðsynlegt að hafa eitthvað fríborð í þessum veltingi“.

Fríbýttari (n, kk)  Sjóræningi; sjóreyfari.  Fríbýttara nefndu samtíma Íslendingar þá Englendinga sem höfðu leyfi kóngs/drottningar til sjórána, á 16. og 17. öld.  Ófriður var með Spánverjum og Englendingum þegar þeir fyrrnefndu hófu að flytja hvern skipsfarminn af öðrum af verðmætum frá hinni nýfundnu Ameriku.  Upp komst stétt ófyrirleitinna skipstjóra/útgerðarmanna, sem höfðu leyfi drottningar til að ræna þau spænsku skip sem þeir gátu.  Þessir sjóræningjar/fríbýttarar réðust stundum á skip annarra þjóða, sem Englendingum voru ekki að skapi, og einstaka sinnum freistuðust þeir til gripdeilda hjá Íslendingum.  Enskir fríbýttarinn og fálkakaupmaðurinn Jón Falck  stóð fyrir aðförinni að Eggerti Hannessyni, fyrrverandi lögmanni í Saurbæ á Rauðasandi árið 1579, með því að vísa félögum sínum á auðævi Eggerts.  60 reyfarar neyddu bóndann í Hænuvík til að vísa sér leiðina að Saurbæ; rændu þar bæ og kirkju og höfðu Eggert á brott með sér út Víknafjall, í skip á Hænuvík.  Eggert var síðar leystur út af þýskum kaupmanni, og flutti alfarinn til Hamborgar árið 1580.  (Sjá ránið í Saurbæ).  Enski sjóræninginn Tucker gerði tilraun til sjórána á Vatneyri sumarið 1615, en uppreisn var gerð í skipinu sem bjargaði staðnum í það skiptið.  Árið áður, 1614, hafði fríbýttarinn Jón Gentilmann rænt í Vestmannaeyjum. 
Gera þarf þó skýran greinarmun á þessum ribböldum og fiskimönnunum ensku sem hér stunduðu friðsamar veiðar um margar aldir, og voru hér fjölmennir; líklega um 8000 á um 400 skipum þegar mest var.  Þeir áttu ýmis friðsöm viðskipti við landsmenn; keyptu af þeim sokka, vaðmál og fleira í skiptum fyrir t.d. veiðarfæri og annað.  Líklegt má telja að þeir hafi átt töluverð viðskipti við Kollsvíkinga og þeirra sveitunga, enda þurftu þeir oft að leita landvars í brælum.  (Heimild; Helgi Þorláksson; Sjórán og siglingar1999).

Fríkka (s)  Verða fríðari/fallegri.  „Þú fríkkar ekki af þessu kaffiþambi drengur“!

Frílysta sig (orðtak)  Fara í frí; lyfta sér upp. Oft í vandlætingartón:  „Það er ekki mikið að gera hjá bændum á þeim bænum!  Nú eru þeir bara að frílysta sig í í útlöndum yfir bjargræðistímann“.

Frímerki /Frímerkjasöfnun  Frímerki voru mikið notuð fyrir daga tölvupósts og fyrir daga stimpilvéla.  Á Láganúpsheimilið barst mikill póstur; ekki síst í oddvitatíð Össurar Guðbjartssonar.  Frímerkjasöfnun var tómstundagaman barna og fylgdi henni nokkur metnaður. 

Frískandi (l)  Hressandi; endurnærandi.  „Það er nú bara frískandi að fá hressilega ágjöf yfir sig“.

Frískleikastrákur (n. kk)  Hressilegur/sprettharður drengur.  „Það munar öllu að hafa svona frískleikastrák með í hópnum“.

Frískur byr (orðtak)  Góður byr; liðugur vindur.  „Bátarnir...koma von bráðar siglandi til lands í frískum byr“  (KJK; Kollsvíkurver)

Frísprok (n, hk)  Ráðrúm; svigrúm; pláss.  „Vélin var dregin í gang með spotta, þó þarna væri lítið frísprok til þess“.  „Hann taldi sig þurfa meira frísprok til að hugsa málið áður en hann tæki ákvörðun“.

Frítími (n, kk)  Tími sem ekki er unnið; frí frá vinnu.  „Á sumrin var lítill frítími, en hann var notaður í brönduveiðar eða veiðar á vorseiðum í fjörupollunum“  (IG; Æskuminningar). 

Fríþenkjari (n, kk)  Skynsemistrúarmaður; kreddulaus maður.  „Sagt var að Einar bóndi í Kollsvík hafi verið fríþenkjari í sínum viðhorfum“.

Fríþenkjarasálmur (n, kk)  Ljóðabálkur, ortur til fríþenkjara.  „Er sagt að Einar (Jónsson ættfaðir í Kollsvík)hafi verið kallaður vitur maður og lesinn, og búhöldur mikill.  Við manntal 1820 er hann líka sagður vel lesinn og gáfaður maður, og svipað er jafnan um hann sagt.  En Gísi Konráðsson segir ennfremur að lítill mundi hann trúmaður, og læsi jafnan villurit það er kallast „Jesús og skynsemin“, og héldi mjög af því.  Bjarni Þórðarson, skáld á Siglunesi, sem var trúmaður mikill, orti sálm til Einars, sen nefndist fríþenkjarasálmur.  Tekur Gísli í þátt sinn 3 síðustu erindin, en ekki telur hann að Einar hafi svarað þessu“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Frjósa í staup (orðtak)  Frjósa saman; frjósa í kökk.  „Vatnið í stampinum er frosið í eitt staup“.

Frjósa saman sumar og vetur (orðatiltæki)  Vísar til gamals veðurspádóms, en talið var að gott myndi sumar ef frost væri aðfaranótt sumrdagsins fyrsta.  „Frjósi saman fyrstu nótt/ fargi enginn á né kú./  Gróðakonum gerist rótt;/ gott mun verða undir bú“  (gömul staka; ÞJ; Árb.Barð 1978).

Froðufella (n, kk)  Um naut; fá froðu kringum munninn eftir að hafa bölvað mjög mikið/ orðið æst.  Notað í líkingu um mann sem verður reiður:

(n, kvk)  Hrönn/bakki af sjávarlöðri í fjöru. 

Froðufellandi af reiði/illsku (orðtök)  Mjög reiður.

Froðubakki / Froðuhrönn (n, kvk)  Bakki/bunki af froðu meðframflæðarmáli eftir mikið brim.  „Féð þurfti að vaða í gegnum froðubakka upp á miðjar síður, til að komast fram í fjöruna“.  „Eftir langvarandi sveran norðangarð situr stundum eftir þykk froðuhrönn efst í fjöruborðinu þegar fellur út“.

Froðuhvítur (l)  Um sjólag; hvítfreyðandi brim.  „Ekki sýnist mér mikið linunarmót á norðanáttinni; hann er enn froðuhvítur hér lengst útí hafsauga“!

Froðukenndur / Froðulegur (l)  Laus í sér; losaralegur; frauðkenndur.  „Þessi viður er ónothæfur í þetta; hann er alltof linur og froðukenndur“.  „Mér fannst þessi röksemdafærsla fremur froðukennd“.

Froðulaust (l)  Um efni/jarðveg/hey/snjó; mjög laust í sér.  „Heyið er enn froðulaust í hlöðunni; það á alveg eftir að síga“.  „Gættu að þér þegar þú ferð yfir urðina; hún er alveg froðulaus“.  „Mjöllin er froðulaus“.

Froðusnakkur (n, kk)  Kjaftaskur; orðhákur.  „Mér fannst hann fremur leiðinlegur froðusnakkur“.

Frosinn (l)  Frystur; freðinn.  Til áhersluauka var notað orðið beinfrosinn.

Frosinn í kökk (orðtak)  Frosinn saman.  Notað þegar hlutur fraus sem þurfti að vera liðugur:  „Vettlingunrinn var frosinn í kökk“.  „Heyið var frosið í kökk við vegginn“.  Einnig var notað orðið kökkfrosinn.

Frosinn í staup (orðtak)  Frosinn saman.  Notað þegar hlutir frusu saman sem þurftu e.t.v. að vera aðskildir:  „Fiskurinn í balanum fraus allur í staup yfir nóttina“.

Frost í jörðu (orðtak)  Freri í jörðu í sumarbyrjun.  „Það er enn töluvert frost í jörðu“.

Frost við jörð (orðtak)  Frostkalt lag af lofti við jörð þó hlýrra sé ofar.  Aðstæður sem myndast oft t.d. á haustnóttum þegar kyrrt er í veðri og heiðskírt.  Getur þá frosið á pollum og hrímað jörð.

Frostakafli (n, kk)  Tímabil með hörðu frosti.  „Það tók eiginlega fyrir fjöru í frostakaflanum“.

Frostavetur (n, kk)  Sérlega kaldur vetur, með miklum frosthörkum.  „Nokkrir vetur hafa fengið heitið „frostavetur“ eða „frostaveturinn mikli“.  Á síðari tímum eru veturnir 1880-81 og 1918 alræmdastir.  „Guðbjartur afi á Láganúpi talaði oft um frostaveturinn mikla, árið 1918 en þá bjuggu þau Hildur í Tröð.  Einnig var veturinn 1881 mönnum þá í fersku minni, þó hann væri fyrir fæðingu Guðbjartar“.

Frostbitinn (l)  Doðinn af kulda í miklu frosti.  „Ég var fannbarinn og frostbitinn í andliti þegar heim kom“.

Frostblóm (n, hk)  Frostrós; hrímmyndun á einföldu gleri í glugga, en hún tekur oft á sig jurtamynstur.

Frostbólga (n, kvk)  Kuldabólga; bólga sem kemur í húð þegar hún verður fyrir mikilli kælingu/ miklu frosti; áður en hún skemmist og kal tekur að myndast.

Frostbólginn (l)  Bólginn í andliti eða á útlinum vegna mikillar kælingar; nærri kalinn.

Frostbrestur (n, kk)  Frostsprenging; hvellur sem verður við það að jörð springur sundur í miklu frosti.  „Í miklum vetrarfrostum má oft heyra háværa frostbresti framan af Mýrum; þegar klakahellur og klakabólstrar springa.  Hávaðinn er oft svo mikill að undir tekur í fjöllum allt í kringum víkina, ef kyrrt er í veðri“.

Frostgígur (n, kk)  Djúp laut með bröttum börmum, í grónum botni á grunnum dal. „Á nokkrum stöðum í kringum Kollsvík má sjá stóra gíga, t.d. í Kjóavötnum, Smávötnum, Hvolfum og Keldeyrardal.  Þetta hafa hingaðtil verið álitnar tómar tjarnir sem vatn hripar niðurúr að sumarlagi, en hér er sett fram kenning um líklega tilurð þeirra:  Upphafið er það að í grunnri, gróinni laut safnast dálítill pollur, t.d. í hlýindakasti að vetrarlagi.  Næst þegar frystir botnfrýs vatnið, ásamt dálitlu af jarðveginum undir.  Aftur kemur hlýindaskeið og nú með meira vatni; t.d. vorleysingar.  Ísinn á pollinum brotnar í fleka sem fljóta uppá yfirborðið og taka með sér jarðvegstorfuna sem frosin var.  Ríkjandi vindátt ber þennan fleka til hliðar, svo torfan sest á öðrum stað þegar lautin tæmist.  Eftir er sár í lautarbotninum; reglulegt að lögun.  Séu aðstæður hentugar, mun þessi atburðarás endurtaka sig; sífellt frjósa klakaflekar í lautar-/gryfjubotninum; fljóta upp með efsta lagi jarðvegsins og bera það til hliðar.  Gígurinn sem myndast við þetta er með flötum, ógrónum botni; bröttum bökkum; tómur af vatni að sumarlagi, nema e.t.v. í mestu rigningum.  Ég hef séð svona myndunarferli frá fyrstu byrjun; í Lögmannslá í Grundatúni, neðan Láganúps.  Nánari lýsing þess er í sérstakri greinargerð“.  „Áberandi trog í botni gígdældar, sem myndað er við sérstakar aðstæður;  þannig að ís fleytir efni úr botninum upp á bakkana/frálagssvæðið.  Nafnið „frostgígur“ er valið fremur en „frostpyttur“, þar sem hið síðarnefnda vísar fremur til þess þegar kviksyndi verður til við það að frost fer úr jörð.  Samlíkingin við gosgíg er ekki með öllu fráleit; við báðar myndanir flyst efni til hliðar, og eftir er oftast  hola í jörðina, þó flest annað sé ólíkt í ferlinu“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Notað í Kollsvík vegna jarðfræðikenningar um frostgíga sem þar er upprunnin.

Frostherða (s)  Herða fisk þannig að hann fái á sig frost í upphafi herðingar.  „Við þurfum endilega að ná okkur í steinbít meðan enn er kuldatíð.  Það er upplagt að frostherða hann núna“.

Frostherðing (n, kvk)  Herðing fisks að haust- eða vetrarlagi, þannig að hann fái á sig frost í verkuninni.

Frosthertur (l) Um fisk sem nær að frjósa  fljótlega eftir að hann er hengdur upp til herðingar.  „Frosthertur fiskur verður oft bragðmeiri og mýkri en sá sem hertur er að sumarlagi“.

Frosthörkur (n, kvk, fto)  Langvarandi grimmdarfrost.  „Þessum frosthörkum hlýtur að fara að linna“.

Frostkaldur (l)  Frosinn; kaldur í frosti.  „Manni kólnar fljótt að sitja svona á frostkaldri jörðinni“.

Frostlaus (l)  Ekkert frost.  „Það væri kannski ráð að baða féð meðan hann er frostlaus“.  „Þetta voru leiðindaaðstæður; bleyta og dimmt, en frostlaust“  (Anna Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Frostleysa (n, kvk)  Hitastig yfir frostmarki.  „Hann er þéttingshvass, en frostleysa“.

Frostlítill (l)  Lítið frost.  „Hann er að verða frostlítill“.

Frostlyfting (n, kvk)  Hreyfing sem verður í rökum jarðvegi við það að vatn í honum frýs og þenst út.  Frostlyfting mótar mjög áferð lands sem aurborið er í yfirborði.  Þannig má t.d. sjá reglulega melatígla og lanir smásteina á Strympum og víðar í grennd við Kollsvík.  Frostið spýtir stórgýti upp á yfirborðið; jafnvel stærstu grettistökum; það býr til þúfur í mýrlendi sem áður var slétt, og hækkar þær ár frá ári.  Til frostlyftingar má einnig telja frostgígana sérkennilegu sem víða má sjá í kringum Kollsvík. 

Frostlæða / Frostmóða / Frostreykur (n, kvk/kk)  Þunn og staðbundin þokuslæða/hrímþoka sem liggur stundum yfir röku og hitagæfu landi í miklum, skyndilegum frosthörkum og kyrru veðri.  Þannig frostlæðu mátti t.d. sjá á Handanbæjarmýrunum frosta- og hafísveturinn 1967; t.d. yfir Hestkeldu og Álunum.  Einnig getur verið frostlæða/frostreykur yfir sjó og yfir kaldavermslum.

Frostnepja (n, kvk)  Kuldi í frosti.  „Þú þarft að hafa betri vettlinga í þessari bölvaðri frostnepju“.

Forstrigning (n, kvk)  A.  Rigning sem frýs þegar hún kemur á frostkalt yfirborð.  Myndast við þær aðstæður að hitastig í lofti er yfir frostmarki en frost við jörðu.  B.  Örsmáir ofurkældir rigningardropar sem eru undir frostmarki en frjósa þá fyrst þegar þeir lenda á föstu yfirborði.  Getur valdið allmikilli ísingu.

Frostrósir (n, kvk, fto)  Mynstur sem myndast í hrími þegar það sest á gler eða aðra fleti.  Geta orðið úr því hinar fjölbreytilegustu myndir.  Lítið sést af frostrósum eftir tilkomu einangrunarglers í húsum.  Tekið var mark á frostrósum til veðurspádóma.  Ef þær sneru upp vissi það á gott, en sneru þær niður vissi það á verra veður.  Dögg á gluggum á sumrin veit á gott, og þeim mun betra sem hún er meiri.

Frostskán / Frostskel (n, kvk)  A.  Frosið lag efst á haug, jarðvegi eða öðru.  „Það var frostskán á moðhaugnum“.  B.  Þunnt frosið jarðvegslag undir þýðu yfirborði; leifar jarðfrosts.

Frostsprenging (n, kvk)  Frostbrestur; hvellur sem heyrist þegar jörð eða ís springur í miklu frosti.  Slíkar sprengingar heyrast iðulega framan af Mýrunum í Kollsvík í frosthörkum.

Frostsprunginn (l)  Jarðvegur sem sprungið hefur í miklu frosti.  Í síðari tíð notað um miðstöðvarlagnir og vélar sem sprungið hafa í frosti.

Froststillur (n, kvk, fto)  Stillt veður/ hæglæti í miklum frostum.  „Oft fer saman hörkufrost og fimbulfrost.  Leiðir það enda af sjálfu sér að þá verður kaldast að vetrarlagi þegar engin blöndun er í loftlögum; enginn hiti berst með vindi frá hlýrri sjó; himinn er heiðskír og mikil hitageislun frá jörð.  Mest ber á þessu þegar hæðarsvæði er kyrrstætt yfir landinu um langan tíma að vetrarlagi.  Þannig froststillur voru t.d. 1967“.

Froststirðningur (n, kk)  Frostskán á jörðu eða ofan á sköflum.  „Ekkert sögulegt gerðist á leiðinni út á brúnina, enda veður got og gangfæri með besta móti, þvi froststirðningur var svo uppi héldu þeir snjóskaflar sem á leið þeirra urðu“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Frostþoka (n, kvk)  Þoka við viss skilyrði, þegar vatnið í örfínum dropunum er ofurkælt og frýs um leið og það snertir yfirborð.  Getur þá myndað miklar breiður af hrími/hélu/ eða jafnvel þykka ísingu.

Fróðleiksbrunnur / Fróðleiksnáma / Fróðleiksuppspretta (n, kk/kvk)  Uppspretta fróðleiks; fróðlegt rit; fróður maður.  „Hann var botnlaus fróðleiksbrunnur“.  „Þessi bók var mér hin mesta fróðleiksuppspretta“.

Fróðleiksþorsti (n, kk)  Löngun til að auka sífellt sína þekkingu.  „Á Láganúpi er allnokkuð bókasafn með hinni fjölbreytilegustu samsetningu efnis.  Þar var því alltaf eitthvað til að svala fróðleiksþorstanum, en inná milli gat maður gleymt sér í yfirborðskenndum en krassandi ævintýrabókum og sykursætum ástarrómönum“.

Fróður er sá sem fregna kann (orðatiltæki)  Sá veit mikið sem marga hittir og kann að lokka fréttir uppúr viðmælendum sínum.  Ættað úr Hávamálum:  „Fróður þykist/ er fregna kann/ og segir ið sama./  Eyvitu leyna/ megu ýta synir/ því er gengur um guma“  (Hávamál).  Fróður er sá sem kann að afla frétta.  Börn eiga það til að segja það sem þau heyra, þó ekki sé í þökk hinna fullorðnu.  Samanber betri er belgur en barn.

Frómheit (n, hk, fto)  Heiðarleiki; sannsögli.  „Hann var ekkert nema frómheitin uppmáluð, svo ég freistaðist til að trúa þessu“.

Frómt/Frómlega frá sagt (orðtak)  Í sannleika sagt; í hreinskilni.  „Frómt frá sagt hef ég ekki prófað þetta sjálfur, en mér er sagt að þetta sé feikna gott“.

Frómum leggst ætíð eitthvað til (orðatiltæki)  Hinum heiðarlegu/einlægu berast oftast einhver bjargráð.

Frómur (l)  Heiðarlegur; sannsögull.  „Hún er nú merkilega fróm, tíkarkvikindið.  Alveg lætur hún ketlærið í friði úti á hlaði meðan henni er ekki gefið það“.

Frugga (n, kvk)  Mygluryk í þurrheyi og stundum einnig í þurru votheyi.  Merki um að heyið hafi verið rakt og hitnað hafi í því í hlöðu.  Frugguna þarf að hrista úr heyinu fyrir gjöf og er hún slæm þeim sem hafa heyofnæmi.

Frugga (s)  Um hey; verkast svo illa að í því myndast frugga.  „Heyið náði að frugga dálítið i hlöðuendanum“.

Fruggað (l) Um hey; með mikilli fruggu.  „Sjálfrunnið lýsi batt ryk í frugguðu fóðri“ (Magnús á Skógi; Árb.Barð; 1959-67). 

Fruggast (s)  Rykast úr heyi. „Svo mikið getur fruggast úr lélegu heyi að ekki sjái handa skil í hlöðunni.

Frugguhey (n, hk)  Hey með mikilli fruggu.  „Við skulum ekki vera að gefa þennan stabba; þetta er hálfónýtt frugguhey“. 

Frugguloft / Fruggumökkur (n, hk)  Mikil frugga í andrúmslofti, t.d. í hlöðu.  „Það er nú engin hollusta að vera lengi inni í þessu fruggulofti án þess að hafa rýju fyrir vitunum“.   „Skelfingar fruggumökkur er nú úr þessu“!

Frumatriði / Frumskilyði (n, hk)  Alger forsenda.  „Það er auðvitað algert frumskilyrði að verkfærin bíti“.

Frumbernska (n, kvk)  Barnsaldur; byrjun barnsævi.  „Tvö börn dóu í frumbernsku...“  (S.G; Bréf til mömmu).

Frumburður (n, kk)  Elsta barn í systkinahópi.  „Frumburðurinn þeirra er núna að fara að heiman“.

Frumefni (n, hk)  Efni sem ekki er efnasamband tveggja eða fleiri efna, heldur gert úr einsleitum frumeindum. 

Frumhlaup (n, hk)  Fljótfærni; mistök.  „Það var frumhlaup af þeim að leggja netin í þessu veðurútliti“.

Frumvarp (n, hk)  Tillaga; uppkast að t.d. lögum/reglum.  „Ný reglugerð um innheimtu fasteignaskatts.  Hreppsnefndin lagði fram frumvarp að slíkri reglugerð fyrir Rauðasandshrepp“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Fruntaháttur (n, kk)  Ruddaskapur; fantabrögð.  „Svona aðfarir eru bara algjör fruntaháttur“!

Fruntalegur (l)  Ruddalegur; fantalegur.  „Vertu nú ekki svona fruntalegur við yngri krakkana“.

Frunti (n, kk)  Ruddi; frekja; fantur. „Mér finnst hann bara algjör frunti; svona hreint út sagt“!

Fruss (n, hk)  Ýringur; skvettur; ágjöf.  „Það má alltaf búast við einhverju frussi yfir bátinn þegar siglt er uppí báru og vind“.

Frussa / Frussast (s)  Ýrast; skvettast; gefa á.  „Passaðu að maurasýran frussist ekki á bert hörundið“.

Frýja (einhverjum) hugar (orðtak)  Væna einhvern um heigulshátt/ragmennsku.  „Hvergi munu heiglar mér/ hugar frýja lengi./  Hvað sem oss að höndum ber,/ hræddan sér mig engi“  (JR; Rósarímur).

Frýjunarorð (n, hk, fto)  Mönun; ögrun; hæðnisorð.  „Hann stóðst ekki frýjunarorð félaga sinna og óð útí“.

Frýja  (einhverjum) vits (orðtak)  Væna einhvern um heimsku/vitsmunaskort. 

Frýnast í (orðtak)  Forvitnast í; gægjast í; skoða í leyfisleysi.  „Ég vil nú ekki vera að frýnast í þínar hirslur“.

Frýnilegur / Frýnn (l)  Álitlegur; fallegur.  „Ekki var hann frýnilegur þegar hann náðist úr fjóshaugnum“.  „Karlinn var aldeilis ekki frýnn á svip þegar hann áttaði sig á þessu“.

Frýs saman sumar og vetur (orðtak)  Það þótti merki um gott sumar ef frost var aðfaranótt sumardagsins fyrsta; ef saman fraus sumar og vetur.

Fræðaþulur (n, kk)  Margfróður/gagnfróður maður; sá sem er fróðari en almennt gerist og miðlar sínum fróðleik.  „Maður má sjá eftir því á síðari árum að hafa ekki numið meira af gengnum fræðaþulum“.

Fræðingadót / Fræðingalið / Fræðingapakk (n, hk)  Skammaryrði um það virðulega og sprenglærða fólk sem stundum vill hafa vit fyrir „fáfróðum“ sveitamönnum í ystu Íslandsbyggðum.  „Þarna er þessu fræðingapakki rétt lýst“!  „Það er nú ekki mark takandi á þessu fræðingadóti, frekar en fyrri daginn“!  Ef mönnum var mikið niðri fyrir og þótti að sér vegið voru viðhöfð sterkari orð sem illa henta á prent.

Frægðarför (n, kvk)  Mikilvæg ferð; ferð sem markar tímamót.  „Þetta var nú engin frægarför hjá okkur, þó ekki kæmum við með öngulinn í rassinum í land“.

Frækilega (ao)  Við góðan orðstí; merkilega; snilldarlega.  „Sveltistakan tókst frækilega vel“.

Frækilegur (l)  Sem mælist vel fyrir; merkur; afrek.  „Ég fullyrði að þessi björgun ( við Látrabjarg) er sú frækilegasta sem unnin hefur verið hér á landi“  (Guðbjartur Ólafsson form SVFÍ; Útkall við Látrabjarg). 

Frændgarður (n, kk)  Ætt.  „Bókin „Kollsvíkurætt“ rekur upphaf frændgarðs Einars Jónssonar í Kollsvík“.

Frændmargur (l)  Á marga frændur/ mörg skyldmenni.  „Hann sagðist vera svo frændmargur að hann þyrfti stærra hús fyrir afmælisveisluna“.

Frændrækinn (l)  Hefur mikil samskipti við sín skyldmenni.  „Ekki get ég státað mig af að vera frændrækinn“.

Frændsystkini (n, hk, fto)  Frændfólk.  „Þarna voru stödd nokkur af mínum frændsystkinum“.

Frændur eru frændum verstir (orðatiltæki) Viðhaft t.d. um það að maður ætlast gjarnan til meira af þeim sem eru manni skyldir; jafnvel um of.  Einnig vill oft verða svo að þegar misklíð kemur upp, verði hún hatrammari milli skyldmenna en vandalausra.

Frærófa (n, kvk)  Rófa á öðru ári.  Sé rófa skilin eftir í jörð yfir vetur, eða sett niður að vori, þó sprettur upp af henni njóli sem síðan ber fræ. 

Fuðla (s)  Gusa; skvetta; krumpa.  „Veggirnir eru skellóttir og þyldu að einhverri málningu væri fuðlað á þá fljótlega“.  „Það er ekki alveg sama hvernig kortinu er fuðlað saman“!

Fuðra upp (orðtak)  Brenna ákaft; kvikna í.  „Þegar loginn komst í þilið fuðraði kofinn upp á skömmum tíma“.

Fugl (n, kk)  A.  Þau kvikindi sem tilheyra ættbálki fugla.  B.  Svartfugl.  Svartfugl hefur löngum verið mikilvægastur matfugla í Útvíkum.  Einkum var það á jörðum eins og Látrum og Breiðuvík, sem höfðu svartfuglavörp í sínum landareignum, en einnig í Kollsvík, þar sem Kollsvíkingar hafa alla tíð stundað eggjatöku í Bjarginu að einhverju marki og/eða fengið þaðanfugl og egg.  Því var oft eingöngu átt við svartfugl í Útvíkum, þegar talað var um fugl; og fuglsegg merkti svartfuglsegg, væri ekki annað tiltekið.  C.  Máfur.  Svartbakur og hvítmáfur voru skotnir á fluginu í Kollsvík og hafðir til matar.  Stundum var talað um fugl í því samhengi að allir vissu að átt var við þessar tegundir.  „Ég ætla niður að görðum að gá hvort ég sé fugl“.  „Er ekki enn eitthvað eftir af fugli í kvartelinu“?

Fuglabjarg (n, hk)  A.  Bjarg þar sem mikið verpur af svartfugli.  B.  Líking um stað þar sem hávaðinn líkist þeim sem er í fuglabjargi.

Fuglabringur (n, kvk, fto)  Hvítt brot efst í bárufaldi.  Sagt var að hann væri „farinn að skjóta í fuglabringur“ þegar byrjaði að hvítna í báru.  .  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  „Er þá farið all mjög að herða vind og farnar að sjást fuglabringur á sjónum; þ.e. farið að falla af báru...“  (ÖG; Fiskiróður).

Fuglabyrgi (n, hk)  Byrgi á brún fuglabjargs til að geyma í fugl sem veiddur hefur verið.  „Fuglabyrgi voru af sömu gerð og vaðbyrgin (sjá þar) og voru höfð til að geyma í fugl þegar ekki hafðist undan að flytja heim.  En fuglinn þurfti að verja fyrir vörgum“.  (MG; Látrabjarg; frás. Daníels Eggertssonar; Hafliða Halldórssonar o.fl.).  Tóft af fuglabyrgi/vaðbyrgi má t.d. sjá ofan Stígs, undir Geldingsskorardal.

Fugladrit (n, hk)  Fuglaskítur.  „Í Látrabjargi var afar gott haglendi, þar sem það á annað borð var grasi gróið; enda var það ríkulega áborið af fugladriti“  (PG; Veðmálið). 

Fuglafiður (n, hk)  Fiður af fugli.  „Þangað var seld öll framleiðsla, sem var nær eingöngu saltfiskur og ull; lítið af fuglafiðri og lýsi“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Fuglagarnir (n, kvk)  Fuglagarnir voru mikið notaðar til beitu fyrr á tíð, og líkast til hafa menn því beitt ýmsum ráðum til að verða sér úti um þær.  Sjá einnig beitning.

Fuglager (n, hk)  Hópur fugla á flugi yfir litlu svæði; gjarnan átt við svartfuglahóp sem steypir sér ákaft í sílistorfu, en það bendir til þess að undir gæti verið þétt fiskitorfa.  „Við skulum renna í fuglagerið og sjá hvort við fáum eitthvað uppúr því“.

Fuglahilla (n, kvk)  Fuglasylla; hilla/sylla í bjargi þar sem mikið verpur af bjargfugli.  „Þórðarbrandshöfðahilla er fuglahilla undan Stígnum og stutt e farið eftir henni“ (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).

Fuglahræða (n, kvk)  A.  Brúða í mannsmynd sem sett er upp í varplandi til að fæla varg.  Notuð um tíma þegar reynt var að koma upp æðarvarpi á Láganúpi, en með litlum árangri.  B.  Líking, um mann sem er illa til fara.

Fuglaket (n, hk)  Kjöt af fugli.  Fuglaket var mikilvægur hluti hinnar fjölbreyttu fæðu í Kollsvik og öðrum Útvíkum.  Kollsvíkingar fóru nokkuð í Bjargið með landeigendum eða í leyfi þeirra og öfluðu sér svartfugls, meðan fugl var þar snaraður.  Kollsvíkingar stunduðu það líka að skjóta á fluginu; þ.e. skjóta máf sem flýgur með Grundarbökkunum.  Þá var til siðs um tíma að taka fýlsunga áður en hann fór á flug.  Önnur fuglaveiði var t.d. sú að skjóta lunda með riffli í Álkuskútanum, og ekki skal svarið fyrir að pokaendur hafi ekki stundum sálast þegar byssumenn voru á ferli.  Ef mikið aflaðist af fuglaketi var það saltað í tunnur, og var slíkur vetrarforði af máf síðast til á Láganúpi  á 7. áratug 20. aldar.  Fuglaket er hinn ágætsti matur, og var oftast soðin af því fuglasúpa.

Fuglakippa (n, kvk)  Karmi; kippa/knippi af svartfugli, hentug til að draga marga saman uppá brún og flytja heim.  „Þegar formanninum niðri þykir hæfilegt að fara að draga upp er byrjað að bera fuglinn að vaðnum.  Kippuböndin eru tekin.  Þetta eru bönd úr meðalildu snæri, og þurfa að vera ófúin og traust...  Kippubandið er um 60 cm langt, með rennihnútsknappfellu á hvorum enda.  Fuglinum er raðað með hálsana í knappfellulykkjuna og hnútunum rennt að.  Lykkjuhnúturinn kemur í veg fyrir að losni á leiðinni, þó kippurnar verði fyrir hnjaski.  15 fuglar eru látnir í hvorn enda kippubandsins, og var knippið kallað karmi.  Menn kippa upp þar sem fuglinn liggur og bregða miðju kippubandsins á öxl sér, sem snýr frá berginu á leið til vaðsins...  Sigarinn bregður bensli á mitt vaðaraugað, þannig að nú eru tvö augun (lykkjur.  Hann lætur kippuband vega salt í neðra auganu með því að smeygja kippunni í gegn.  Í efra augað lætur hann annað kippuband, og fuglarnir í því taka niður að neðri kippunum.  Nú eru komnir 60 fuglar í vaðinn og þá er komið í ferðina; þetta vegur nær 60 kg.  (MG; Látrabjarg; frás. Daníels Eggertssonar; Hafliða Halldórssonar o.fl.)

Fuglamerkingar (n, kvk, fto)  Merkingar fugla í því skyni að fræðast um ferðir, hætti og örlög þeirra.  Slíkar merkingar hafa lengi verið stundaðar af Náttúrufræðistofnun og einstaklingar víða um land hafa merkt fugla.  Það var gert af áhuga í Kollsvík; fyst líklega af einari Guðbjartssyni og bræðrum hans, en Ingvar og Össur héldu þeim sið ásamt sínum börnum framyfir 1970.  Sjá fuglamerkingaferð/fuglamerkingaleiðangur.

Fuglamerkingaferð / Fuglamerkingaleiðangur (n, kvk/kk)  Gönguferð sem farin er að vor- eða sumarlagi til að merkja unga ýmissa fuglategunda áður en þeir kæmust á flug.  Börnum þóttu þessar ferðir mjög spennandi, og nutu samveru og fræðslu af fullorðnum auk skemmtunar í náttúrunni.  Farið var víða um og handsamaðir og merktir þeir ungar sem náðust og voru nægilega bragglegir til merkingar.  Búnaðurinn samanstóð af númeruðum álmerkjum af ýmsum stærðum; þræddum uppá plastslöngur; töng til að klemma þá hæfilega um fuglsfætur; flatkjöftu ef hagræða þurfti merkinu blýanti til skrifta og stílabók eða pappaspjaldi til skrásetningar.  Eftir heimkomu var allt skráð og sent til Náttúrufræðistofnunar.  Oft bárust síðar tilkynningar um merkta fugla sem fundist höfðu; ýmist hérlendis eða í fjarlægum löndum.  Sá sem lengst hefur stundað fuglamerkingar í Rauðasandshreppi er efalaust fræðimaðurinn  og bóndinn Tryggvi Eyjólfsson á Lambavatni.

Fuglari (n, kk)  Eldra nafn á fyglingi; þ.e. manni sem sígur í bjarg til fuglaveiða.  Orðið var þekkt en ekki notað í Útvíkum á seinni tímum.  „Þessi er fjárafli margs manns að fara í björgin að taka egg ok fugla.  Þessháttar afli fremst á þann hátt að fuglarinn fer í festarenda ofan fyrir bjargið; gerist það oftlega með miklum háska ok bráðum manntapa, því að festinni kann margt að granda“  (Saga Guðmundar byskups góða).

Fuglasetur (n, hk)  Stór varpstaður bjargfugla; flæmi; stór hilla í bjargi með miklu varpi.  Oft stytt í setur.

Fuglastallur / Fuglasylla (n, kvk)  Fuglahilla; hilla/sylla í bjargi þar sem mikið verpur af bjargfugli.  „Neðarlega í Lambhöfða eru tveir fuglastallar sem heita Gufur“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur). „Undirhlíðarhillur eru fuglasyllur milli Bæjarvallar og Undirhlíðar“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).

Fuglastöng (n, kvk)  Stöng sem notuð var til að snara svartfugl í bjargi.  „Nú taka karlar fram... veiðivopnin; fuglastengurnar...  Snaran er á enda sex til sjö álna (3,80-4,40 m) langrar stangar úr völdum viði.  Stöngin er í þann endann sem maðurinn heldur um, að gildleika á við svert hrífuskaft; 2,0-3,0 cm í þvermál, en mjókkar til hins endans, aðallega frá miðju, og er sá endinn um einn og hálfur sentimetri í þvermál.  Á þann endann er snaran fest.  Snörutaugin er 40-50 cm löng, fléttuð úr taglhári hrossa, og 3-4 mm að þvermálsgildleika.  Annar endi snörutaugarinnar er bundinn tryggilega um skoru, 2 cm frá mjórri enda stangarinnar.  En frá skorunni mjókkar stöngin til endans, lítið eitt.  Á lausa enda snörutaugarinnar er brugðin lykkja, sem er hæfilega víð til að geta runnið upp á endamjódd stangarinnar og stöðvast þar.  Þegar snöruauganu hefur verið brugðið til knappfellu uppá snörulegginn, og síðan stöðvað á stangarendanum, er komin snörulykkja sem hlaupið gæti yfir hausinn á kollóttri kind.  við minnsta átak á innra borð lykkjunnar rennur snöruaugað fram af stangarendanum og herðir að því sem um grípur, ef kippt er snöggt í stöngina“.  (MG; Látrabjarg).  „Kollsvíkikingar áttu sjálfir vaði og stangir, en ekki eins góðan útbúnað og Látramenn“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Fuglasúpa (n, kvk)  Súpa af fuglaketi.  „Mávaket er hinn besti matur; bæði nýtt og saltað.  Jafnan er soðin af því fuglasúpa og hjörtun þá höfð með sé þess kostur, enda eru þau hið mesta lostæti“.

Fuglasveimur (n, kk)  Hópur af fljúgandi fugli. 

Fuglatekja (n, kvk)  Fengur/afli af fugli sem snaraður er í bjargi.  „Fuglatekja var á Brothillum“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Fuglatekjupláss (n, hk)  Staður í bjargi þar sem fugl var nytjaður áðurfyrr.  „Í Þorsteinshvammi var fuglatekjupláss, en heldur óþægilegt vegna vatnsrennslis úr berginu“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Fuglavaður (n, kk)  Bjargvaður sem notaður er til að hífa kippur af fugli uppúr bjargi við bjargnytjar.  „Til siga voru ekki notaðir nema nýlegir og óskemmdir vaðir, en þeir sem voru farnir að slitna voru notaðir til að draga upp fugl þegar hann var tekinn (mannavaðir og fuglavaðir)“  (MG; Látrabjarg). 

Fuglberg / Fuglbjarg (n, hk)  Fuglabjarg; bjargsvæði sem fugltekja er í.  „Skjaldargjá er úr brún og niður undir fuglbergið um mitt bjarg, en nær ekki að sjó“  (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Fuglferð (n, kvk)  Líflegt og áberandi flug fugla í þéttum hópi yfir sjó, þar sem mikið er af síli undir; sílferð; gjör.  „Það er búin að vera mikil fuglferð suður á víkinni í allan morgun.  Er ekki ástæða til að fara fram“?

Fuglgammur (n, kk)  Stór hvolflaga skápur í bjargi þar sem fá mátti mikið af fugli meðan hann var nytjaður. „Melagammur er fuglgammur niður úr Melalykkjunni, og eru 30 faðmar úr henni í gamminn“ (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs)

Fuglmikið sig (orðtak)  Bjargsig þar sem fá má mikið af fugli á sama sigstað.  „Niðri í bjarginu er Sléttanefshilla niður af Sléttanefi.  Er 60 faðma sig á hana af nefinu; eitt fuglmesta sig í Bjarginu“  (DE; Örn.skrá Látrabjargs). 

Fuglríkur (l)  Um fuglabjarg/varpstað.  „Jötunsaugu eru allstórir strokklaga hellar, sem mjókka inn, með þunnum vegg á milli.  Þeir eru mjög fuglríkir, en þröngir innst, svo þar verður að skríða“ (DE; Örn.skrá Látrabjargs).

Fuglsblundur (n, kk)  Mjög stuttur svefn.  „Það var ágætt að fá svona fuglsblund“.

Fuglsegg (n, hk)  A.  Egg úr fugli (almenn notkun).  B.  Svartfuglsegg.  Allajafna var átt við svartfuglsegg þegar rætt var um fuglsegg í Útvíkum, enda voru þau löngum mikilvægust allra eggja til matar.

Fuglssmolt (n, hk)  Smolt; fita af fuglaketi.

Fuglssvæði (n, kk)  Svæði i bjargi með miklu af bjargfugli.  „Melalykkja er fuglssvæði eða höld, sem kallað var“  (Ólafur Þórarinsson; Örn.skrá Breiðavikur). 

Fugltekja / Fuglveiði (n, kvk)  Snörun/veiði fugla í bjargi til matar/hlunninda.

Full... (forsk)  Um of.  Forskeyti sem gefur til kynna magn eða styrk.  „Þetta er nú fullmikið af því góða“ (Þetta er of mikið).  „Kannski var ég full harðhentur við hann í glímunni“. „Grauturinn er full saltur fyrir mig“.

Full gjöf (orðtak)  Um fóðrun búfjár; fullur skammtur af heyi; innistöðugjöf.  „Þat tekur í ef þarf að hafa féð lengi á fullri gjöf vegna ótíðar“.  „Það er óþarfi að gefa fulla gjöf fyrst það greip eitthvað niður úti“.

Full upp í mæni (orðtak)  Um heyskap í hlöðu; búið að fylla og troða allsstaðar upp í ráfur/mæni.  „Þetta er nú alveg þokkalegur heyskapur; allar gryfjur kjaftfullar; hlöður fullar upp í mæni og allstórt hey uppsett úti“.

Fullbata (l)  Albata; fullfrískur; búinn að jafna sig af veikindum/meiðslum.

Fullboðlegur (l)  Sem vel er boðlegur/ í góðu lagi að bjóða.  „Það er ekkert að þessum rauðmaga; hann er fullboðlegur fyrir hvern sem er“.

Fullburða (l)  Fullskapaður; fullhraustur; í heilu lagi.  „Mín þekking á þessu er kannski ekki fullburða enn“.

Fullburðugur (l)  Fullfær um.  „Ég ætla ekkert að stjana við hann; hann er fullburðugur að gera þetta sjálfur“!

Fullbúinn (l)  Albúinn; tilbúinn.  „Nú er ég fullbúinn í hvaða sjóferð sem er“.  „Hann er fullbúinn að ná sér“.

Fullfermdur (l)  Með fullan farm; með eins mikinn flutning og framast er unnt.  „Þegar Fönix er fullfermdur, er hann færður fram á Lægið og lagt við stjóra“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fullfermi (n, hk)  Full hleðsla; fullur farmur.  „Mér sýnist þeir vera á leiðinni í land með fullfermi“.

Fullfrekur (l)  Helst til frekur/yfirgangssamur.  „Nú þykir mér hann vera orðinn fullfrekur á saltið“.

Fullfrískur / Fullröskur (l)  Í góðu líkamlegu formi; vel á sig kominn.  „Þetta ætti ekki að vera ofraun neinum fullfrískum manni“.

Fullfær um (orðtak)  Getur auðveldlega.  „Maður er nú fullfær um að binda sig sjálfur í vaðinn fyrir sig“.

Fullgera (s)  Ljúka við; klára.  „…veitt verði þegar á þessu ári nægilegt fé til þess að fullgera sýsluveginn frá Gjögrum að Kollsvík“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 24.03.1962; ritari ÖG). 

Fullgott (l)  Alveg nógu gott; ágætt.  „Mér finnst þetta fullgott í kjaftinn á honum fyrst hann mætir ekki í mat á réttum tíma“.

Fullharka (n, kvk)  Um sjávarfall; með fullum þunga.  „Lagt var þvert á straum, og hyllst var til að leggja lóðina í fullhörku á straum“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Fullheimta (s)  Alheimta; fá allt fé að hausti sem búist var við.  „Nú tel ég mig vera búinn að fullheimta, eða því sem næst“.  „Nú er að verða fullheimt af Bjarginu“.  Algengara vestra en „alheimta“.

Fullherða (s)  A.  Um fisk; herða að fullu; gera að harðfiski/skreið o.þ.h.  B.  Um skrúfu/ró/bolta; herða alveg.

Fullhertur (l)  Um fisk; orðinn hertur/harður.  „Hann kom með þá tillögu að hver útgerðarmaður borgaði okkur einn steinbít; fullhertan, góðan, vel verkaðan harðsteinbít; kúlaðan“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Fullhertur með (l)  Á þolmörkum; með ítrustu áreynslu.  „Við vorum fullhertir, tveir, með að bjarga þessu tré undan sjó á skrúftóg“.

Fullheyja (s)  Alhirða; koma öllu heyi af túnum í hlöðu.  „Hann er víst að verða búinn að fullheyja“.

Fullhirt (l)  Búið að hirða öll hey af túni/jörð.  „Það er fullhirt af Melstúnunum, en eitthvað eftir heima“.

Fullhraustur (l)  Vel hraustur/sterkur.  „Tveir fullhraustir menn ættu að geta komið trénu uppúr fjörunni“.

Fullhreinsa (s)  Hreinsa að fullu.  „Við tókum nokkur þaranet í land til en fullhreinsuðum önnur og lögðum þau aftur“.

Fullhreinsað (l)  A.  Búið að tína öll egg sem nást.  „Það er fullhreinsað af Jónshöfðanum en eftir að fara í Árnastaðina“.  B.  Búið að hreinsa öll net í sjó; hey af túnum; fé af fjöllum eða annað.

Fullhvíldur (l)  Úthvíldur; ekki lengur þreyttur.  „Við lögðum af stað með reksturinn fullhvíldir“.

Fullir kunna flest ráð (orðatiltæki)  Betra er að leysa viðfangsefni ef menn eru mettir en ef hungur sverfur að.  Spekinni hefur stundum á seinni tímum verið rangsnúið upp á gáfnafar þeirra sem ölvaðir eru.

Fullkeyptur á (l)  Fullhertur með: fullt í fangi með.  „..t.d. fór hann sinna ferða í því veðri sem mun stærri skip töldu sig fullkeypt á“  (ÖG; minn.grein um AK).

Fullklyfjaður (l)  Með fulla byrði.  „Einhverjir svitadropar hafa líklega fallið þegar menn örkuðu yfir Hæanuvíkurháls fullklyfjaðir varningi úr verslun; jafnvel með 50 kg sekk á herðum, auk annars“.

Fullkominn (l)  A.  Alger; yfirgengilegur.  „Það var fullkominn klaufaskapur að missa lúðuna“!.  B.  Gallalaus; óaðfinnanlegur.  „Þetta finnst mér fullkomin sæla; að dóla sér á skaki frammá Kollsvíkinni í renniblíðu“!

Fullkomlega (ao)  Alveg; til fulls; algerlega.  „Þetta er mér fullkomlega óskiljanlegt“!  „Eigi að síður gáfust hey fullkomlega í meðallagi…“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1929). 

Fullkunnugt (l)  Vel kunnugt/ljóst; þekki ekki vel.  „Líklegt tel ég hinsvegar að Liði hafi fengið fallega lífgimbur hjá Gumma um haustið, en um það er mér ekki fullkunnugt“  (PG; Veðmálið). 

Fulllangt  (l)  Of langt.  „Mér finnst nú fulllangt gengið þegar þessi ríkisstjórn tekur ævafornan veiðirétt af verstöðvum sem haldið hafa lífinu í þjóðinni í aldaraðir; bara til að færa hann góðvinum sínum á einhverju öðru landshorni“!  „Þessi spotti er fulllangur fyrir svona stutt snag“.

Fulllítið (l)  Of lítið; helst til lítið.  „Þessi stígvél eru fulllítil fyrir mig“.

Fulllæs (l)  Vel læs; fluglæs.  „Börn fengu góða tilsögn og kennslu heimavið; iðulega hjá afa og ömmu ekki síður en foreldrum, og voru yfirleitt orðin fulllæs um sex ára aldur“.

Fullmektugur (l)  Með fullt vald; fulltrúi; fær um.  „ Þú er fullmektugur að skrifa undir, fyrst hann er ekki hér sjálfur“.

Fullmikið af því góða (orðtak)  Of mikið af því sem í hófi er viðunandi. 

Fullnaðarpróf (n, hk)  Lokapróf eftir að barnaskólagöngu lauk í fyrra skólakerfi, meðan barnaskóli var við lýði.  Eftir fullnaðarpróf tók við tveggja til þriggja ára gagnfræðaskóli eða eins árs landspróf, áður en nemandi gæti farið í menntaskóla, iðnskóla eða aðra sérskóla.  Þetta kerfi lagðist af þegar grunnskólinn var upp tekinn.  „Voru börnin útskrifuð með gamla fullnaðarprófinu til 1968“ (MG; Árb.Barð 1959-67). 

Fullnægja (s)  Uppfylla; gera nægilega.  „Oddviti gat þess að enn hefði eigi verið fullnægt ákvæði í lögum að ráða byggingafulltrúa fyrir sýslufélagið“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Fullnægjandi (l)  Nægilegur; uppfylltur.  „Ég myndi nú telja þetta alveg fullnægjandi frágang“.

Fullorðið (l)  Fullorðið fé; ekki lömb eða gemlingar.  Oft er einungis notað fyrra orðið þegar rætt er um sauðfé.  „Þarna í Breiðnum sá ég að minnsta kosti þrennt fullorðið og fimm lömb“.

Fullorðnast (s)  A.  Verða uppkominn.  „Það er meira hvað tognar úr drengnum þegar hann fullorðnast“.  B.  Verða gamall/ellihrumur.  „Hann fer nú að fullorðnast blessaður, enda kominn á níræðisaldur“.

Fullorpinn / Fullverptur (l)  Um fuglategund; kominn í fullt varp; alorpinn.  Báðar orðmyndir heyrðust.  „Langvían er fullorpin núna og það fyrsta byrjað að skemmast, en álkuegg gætu verið óskemmd“.  „Það þýðir lítið að gá að eggjum þegar fuglinn er fullverptur og ekkert búið að hreinsa áður“!

Fullráða / Fullmanna (s)  Ráða alla í skipsrúm sem þarf fyrir vertíð.  „Þá voru allir búnir að fullráða“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Fullreykja (s)  Reykja að fullu/ nægilega.  „Ég tók nokkra rauðmaga niður áður en búið var að fullreykja þá“.

Fullreykt (l)  Um matvöru; búið að reykja nóg/ að fullu.  „Það er hæpið að þetta sé fullreykt ennþá; það væri til bóta að kveikja nokkrum sinnum undir því í viðbót“.

Fullreynt (l)  Búið að reyna að fullu; allar tilraunir hafa mistekist.  „Ég held að þessi aðferð sé alveg fullreynd, við þurfum að beita einhverjum öðrum ráðum“.

Fullreynt er í fjórða sinn (orðatiltæki)  Vísar til annars orðatiltækis; allt er þá þrennt er, og er oft haft sem viðbót við það, en einnig oft sjálfstætt.  „Veið reynum einusinni enn, en hættum ef það tekst ekki; fullreynt er í fjórða sinn“.  Sjá allt er þá þrennt er.

Fullríflegt (l)  Heldur mikið; einum um of.  „Þetta er fullríflegt af eggjum; ég þarf ekki svona mikið“.

Fullsalta (s)  Um matvæli; salta að fullu.  „Á að fullsalta fiskinn eða bara nætursalta hann“?

Fullsaltaður (l)  Saltaður að fullu; saltaður til langrar geymslu.  „Þessi fiskur er fullsaltaður“.

Fullseldur (l)  Dýr; í toppverði.  „Þú ræður auðvitað hvað þú borgar, en mér finnst báturinn alveg fullsseldur á þessu verði“.

Fullsigið (l)  Um hey; torfgarð; vegg o.fl; búið að síga að fullu.  „Ég held að nú sé fullsigið í votheysgryfjunni“.

Fullskapaður (l)  Fullgerður; tilbúinn.  „Þetta verður ágætis peysa hjá þér þegar hún er fullsköpuð“.

Fullsmalað (l)  Búið að smala öllu fé.  „Með þessu ætti Bjargið að vera fullsmalað“.

Fullsnemma (ao)  Heldur snemma; aðeins of fljótt.  „Leggðu út og hafðu örlítið framá, svo ég nái baujunni; ég drap fullsnemma á vélinni“.

Fullsnemmt (l)  Heldur snemmt; of fljótt.  „Það er fullsnemmt að beita tvílembum á úthagana ennþá“.

Fullspenntur (l)  Með mestu spennu; á hæstu stillingu.  „Ég greip með varúð í innsogið; annað var fullspennt, og vélin bætti við sig“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Fullsprottið (l)  Sprottið að fullu.  „Sléttan við Grásteininn er orðin fullsprottin, og sama er með efstu sléttuna“.

Fullsterkur (n, kk)  Einn af aflraunasteinum í steinatökum, sem voru við hverja verstöð til mælinga á kröftum vermanna.  Líklegt er að þannig steinatök hafi verið í Láganúpsverstöð, þó ekki sjái þeirra merki í dag, en þau hafa varðveist á Hvallátrum.  „Steinatökin á Hvallátrum eru fjögur..  Þyngsti steinninn, Alsterkur, er 354 pund; næstur er Fullsterkur; 288 pund; Hálfsterkur 214 pund og Amlóði 192 pund“  (LK; Ísl.sjávarhættir IV).

Fullstrembið (l)  Heldur erfitt.  „Þessi reikningsbók er fullstrembinn fyrir barn á þessum aldri“.

Fullteins (ao)  Jafnvel meira.  „Mér sýnist að það rigni fullteins mikið í dag og í gær“.  „Mér finnst heimaræktuðu kartöflurnar fullteins góðar og þær aðkeyptu; ef ekki bara miklu betri“. „Hann stóð sig fullteins vel“.  

Fullteinsgott (l)  Ráðlegt; jafn gott.  „Ég held að þér sé fullteinsgott að vera ekkert að rífa kjaft, eftir þína frammistöðu“!  „Er ekki fullteinsgott að fara þessa leið niður á hilluna“?

Fullteinsmikið (l)  Jafnmikið eða meira.  „Ég held að þetta sé fullteinsmikið af hrognum og í gær“

Fulltilreynt / Fullreynt (l)  Gerðar allar tilraunir; gert það sem unnt er. „Það er nú ekki fulltilreynt með þetta fyrr en eftir nokkra daga“.   „Mér finnst enn ekki fullreynt hvort þetta sé hægt“.

Fulltíða / Fullveðja (l)  Fullorðinn; kominn til vits og ára.  „Þetta eru núna orðnir fulltíða menn“.

Fulltínt (l)  Um eggjatöku; fullhreinsað; búið að tína þau egg sem nást. „Ég held að það megi heita fulltínt úr Stóðunum, þó lengi megi snaga eftir einu og einu eggi“.

Fullum fetum (orðtak)  Um fullyrðingu; án vafa/skilyrða.  „Hann hélt því fram fullum fetum að þarna væri fé“.

Fullur (l)  A.  Búið að fylla; ekkert pláss eftir.  „Þessi hrognatunna er alveg að verða full“.  B.  Ölvaður.  „Hvenig á ég að muna eftir þessu; maður var fullur og vitlaus“!  C.  Fyllilega; rösklega.  „En 1797 eða 1798 hefur hann flust að Kollsvík og bjó þar til dauðadags, eða að heita má full 40 ár“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  D.  Um tungl; óskert; að loknu síðasta kvarteli.  „Það var fullt tungl og því vel ratljóst“.

Fullur að vöngum (orðtak)  Búlduleitur; kinnamikill

Fullvel (l)  Mæta vel; mjög vel.  „Þú veist það fullvel að það er ósiður að freta hátt í fínum samkvæmum“.

Fullveldisdagurinn (n, kk, m.gr)  Hinn 1.desember 1918 fengu Íslendingar sjálfstæði frá Danaveldi.  Þess er enn minnst á fullveldisdaginn hvert ár.  Hinsvegar hefur Ísland aldrei náð fullveldi fremur en nokkuð annað ríki.  Sjálfræði þjóða eru þeir hagsmunir og það sjálfræði sem þær njóta innan þeirra marka sem aðstæður setja, þar með talið alþjóðlegir samningar og viðskipti.  Eftir inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið þarf þjóðin t.d. að lúta lagasetningu Evrópuþingsins í veigamiklum atriðum.  Það var verulegt framsal á fullveldi.

Fullvissa sig um (orðtak)  Vera öruggur; Ganga úr skugga um.  „Hún fullvissaði sig um að slökkt væri á kertinu í fjósinu áður en hún fór heim“.

Fullvíst (l)  Öruggt; alveg víst.  „Ég tel fullvíst að þetta verði svona“.  „Það er ekki fullvíst enn hvort ég kemst“.

Fullþakkað (l)  Að fullu þakkað fyrir; fyllilega launað.  „Þessi greiðvikni veður seint fullþökkuð“.

Fullþorna (s)  Þorna að fullu; alþorna.  „Það liggur við að heyið nái að alþorna á einum degi í þessum þurrki“.

Fullþurrt (l)  Lokastig verkunar þurrheys; skraufþurrt; fullþurrkað.  „Fyrrum þurfti að fullþurrka allt hey.  Síðar kom votheysverkun; súgþurrkun og loks rúlluheyskapur.  Þá nægði að hey væri grasþurrt.

Fuma (s)  Fálma; þreifa; fáta.  „Ég fumaði í óðagoti eftir ífærunni þegar lúðan kom uppundir borðið“.

Fumlaust (l)  Án fáts; með öryggi.  „Fumlaust greip hann um stýrissveifina og sneri bátnum uppí brotið“.

Fundahús / Fundarhús (n, hk)  Hús sem notað er til fundahalda; húslán.  „Leiga eftir fundahús; Bragi Thoroddsen; kr 30“ (Sjóðbók Rauðasandshrepps 1943).

Fundament (n, hk)  Undirstaða.  „Steyptur var stallur sem fundament undir ljósavélina“.

Fundarfært (l)  Unnt að halda fund vegna veðurs/færðar/aðsóknar eða annars.  „Ég held að það séu alveg nógu margir mættir til að teljist fundarfært“.  „Fundurinn verður haldinn næsta fundarfæra dag“.

Fundarseta (n, kvk)  Seta/vera á fundi.  „Oddviti þakkaði síðan fundarmönnum nokkrum orðum komuna á fundinn og góða fundarsetu“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Fundarsköp (n, hk, fto)  Fundarreglur.  „Við förum bara að fundarsköpum varðandi þetta atriði“.

Fundarspjöll (n, hk, fto)  Brot á fundarreglum; hindrun á eðlilegu fundarhaldi.  „Eru þetta ekki fundarspjöll“?

Fundastúss (n, hk)  Frátafir/annir vegna funda.  „Það verður lítið úr heyskap með öllu þessu fundastússi“.

Furða (n, kvk)  A.  Fyrirboði; feigðarboði.  Þetta mun vera upprunaleg merking orðsins, en heyrist ekki sem slík á síðari tímum vestra.  Stofnskylt „fyrir“, sbr fyrirboði.  B.  Undur; undrun.  „Það er mesta furða hvað hann spjarar sig“.  „Mörgum fannst furðu gegna að þetta skyldi vera hægt“.  „Það er furðu mikill sandur í Grjótunum“.

Furða sig á (orðtak)  Undra sig á; undrast; þykja furðulegt.  „Ég furða mig á hvað þeir eru lengi í ferðinni“.

Furðanlega (l)  Með ólíkindum; betur; meira en búist var við.  „Hann hefur staðið sig furðanlega vel“.

Furðu lostinn (orðtak)  Steinhissa; mjög forviða.  „Ég var svo furðu lostinn yfir þessari uppákomu að ég mátti varla mæla“.

Furðu- Forskeyti með mörgum lýsingarorðum til að lýsa hástigi; furðulega; undravert.  „Líður vetur furðufljótt/flegðan gjörva lætur/ dýrri víns og vista gnótt/ veislu daga og nætur“ (JR; Rósarímur). 

Furðubrattur (l)  Hressari/heilbrigðari en búast hefði mátt við.  „Mér finnst hann furðubrattur eftir allt þetta“.

Furðurfljótur / Furðusnöggur (l)  Mjög fljótur/snar.  „Hann var furðufljótur að jafna sig eftir þetta“.  „Drengurinn var furðusnöggur að skjótast fyrir kindina“.

Furðufyrirbæri (n, hk)  Furðuleg/sjaldséð dýr eða hlutur; ólíkindatól.  „Það er meira furðufyrirbærið þessi kostgangari sem þau eru komin með“.

Furðugepill / Furðugripur / Furðufugl (n, kk)  Skrýtinn/sérkennilegur náungi.  „Hann var furðugepill, en ágætisgrey inni við skinnið“.  „Þetta er meiri furðugripurinn“!

Furðukvikindi / Furðudýr / Furðuskepna (n, hk)  A.  Furðulegt dýr.  „Ekki vissi ég að svona furðukvikindi væri til“.  B.  Líking um einkennilegan mann.  „Maður veit aldrei hvar maður hefur þessa furðuskepnu“.

Furðulangur (l) Mjög langur; undarlega langur.  „Mér finnst þetta orðinn furðulangur tími“.

Furðulegheit (n, hk, fto)  Undarlegheit; óvanalegt; bilun.  „Það eru einhver furðulegheit í þvottavélinni“.  „Hann gaf frá sér einhver furðulegheita hljóð; ég hef bara ekki heyrt svonalagað áður“.

Furðulengi (ao)  Undarlega lengi.  „Hann er búinn að vera furðulengi á leiðinni; mér stendur nú ekki á sama“.

Furðumikið (l)  Undarlega mikið.  „Það er furðumikill klaki enn í jörðu þarna“.

Furðuverk (n, hk)  Furðulegt fyrirbæri/tæki.  „Mér fannst þetta sannkallað furðuverk“.

Furtaháttur (n, kk)  Bolabrögð; yfirgangur; kúgun.  „Mér finnst þetta nú bara vera hreinn furtaháttur“.

Furti (n, kk)  Hrotti; rusti; harðstjóri.  „Hættu að haga þér eins og furti við yngri krakkana, drengur“!  Orðið finnst ekki í orðabókum utan eitt miðalda dæmi sem ekki er ljóst að tákni það sama.  Enn notað í Kollsvík.

Furuskíði (n, hk, fto)  Skíði úr furu.  „Skíði pantaði Einar frá Noregi; furuskíði, bindingalaus“  (IG; Æskuminningar). 

Fus (n, hk)  Kusk; rusl.  „Það þyrfti að ryksuga þetta fus úr bílsætunum“. 

Fuss (n, hk)  Hnuss; fyrirlitningarhljóð.  „Hann gaf sitt álit til kynna með háværu fussi“.

Fussumsvei (uh)  Upphrópun til að lýsa vandlætingu/fyrirlitningu.  „Sá varð nú heldur byrstur og sagði: „Fussum fei;/ ég fer víst ekki að leika mér við skvísu./  Það kemur ei til mála; nei og aftur nei;/ ég var nefnilega að horfa á hana Dísu“!“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Fúabiti / Fúaraftur (n, kk)  Fúinn máttarviður/raftur í húsum; fúinn grindarbiti í fjárhúsi.

Fúadrasl  / Fúasprek / Fúatimbur (n, hk)  Fúinn viður.  „Það þýðir ekki að nota svona fúasprek í þetta“.

Fúafýla / Fúalykt (n, kvk)  Lykt af fúa.

Fúamýri / Fúafen (n, hk)  Mýri sem heldur ekki gangandi manni.  „Hér er varasamt svæði; seilar og fúafen“.

Fúahjallur (n, kk)  Lélegt timburhús.  „Þessi fúahjallur þeirra er varla mannabústaður lengur“.

Fúasund (n, hk)  Blautlend lægð.  „Inn af Litladalsbotni er fúasund sem liggur að vegi, og er það nefnd Vonska“  (VP;  Örn.skrá Hvalskers).

Fúaskemmd / Fúavottur (n, kvk)  Skemmd/veiking í viði vegna fúa.  „Þarna er fúaskemmd í bitanum“.

Fúaspotti (n, kk)  Lélegt tóg/band; fúið reipi.  „Þú berð það ekki við að nota þennan fúaspotta í lásband“!

Fúaspýta / Fúaspækja (n, kvk)  Fjöl/spýta sem orðin er áberandi fúin; fúasprek.  „Það þýðir ekkert að nota þessa fúaspækju í viðgerðina; hún brotnar eins og skot“.

Fúi (n, kk)  Skemmd í viði vegna fúasvepps og rotnunar viðaræða.  Oftast vegna mikils raka og loftleysis.

Fúinn (l)  Feyskinn.  Viður vill fúna með tímanum, einkum í raka.  Rekaviður fúnar þó mun hægar.

Fúinnfótur (n, kk)  Maður sem er orðinn stirður til gangs; skakklappi.  „Ég fer ekki hratt yfir; eins mikill fúinnfótur og ég er núna orðinn.  En einhverntíma fyrr á tíð hefði ég þó manað ykkur strákana í kapphlaup“.

Fúkka (s)  Mygla; fúlna.  „Á Fúkkateig hraktist yfirleitt og vildi hey fúkka“  (Sigurbjörn Guðjónsson; Örn.skrá Geitagils).

Fúkkabragð (n, hk)  Myglukeimur; óbragð; geymslubragð.  „Mér finnst komið fúkkabragð af kökunum“.

Fúkkaloft (n, hk)  Fúkkalykt/ þungt loft í húsi.  „Skelfingar fúkkaloft er hérna; opnaðu út úr dyrum smástund“.

Fúkkalykt (n, kvk)  Myglulykt; staðnað loft; ólykt.  „Út með þessa dýnu; það er af henni bölvuð fúkkalykt“.

Fúkyrðast (s)  Skammast; tuða; rífast.  „Það er tilgangslaust að fúkyrðast við nautið; það lagast ekki við það“!

Fúkyrðaflaumur (n, kk)  Skammarræða; samantvinnuð blótsyrði.  „Ég þóttist illa heyra fúkyrðaflauminn“.

Fúkyrði (n, hk)  Skammaryrði; blótsyrði; þung orð.  „Þetta er ágætt bréf, ef hreinsuð eru úr því fáein fúkyrði“.

Fúlasta alvara (orðtak)  Rammasta alvara; mjög mikil alvara.  „Ég var ekki að gera að gamni mínu með þetta; mér er fúlasta alvara“!

Fúlbefarinn (l)  Þaulkunnugur; mjög æfður/vanur; útlærður.  „Láttu hann um að gera við þetta; hann er fúlbefarinni í því“.  „Þú ert fúlbefarinn í ensku; viltu ekki þýða þetta fyrir mig“?

Fúlegg (n, hk)  Skemmt egg vegna þess að fuglinn hefur ekki legið á því eða vegna lélegrar geymslu. 

Fúlga (n, kvk)  A.  Hrúga; oftast hrúga af heyi.  „Mokað var góðri fúlgu af heyi inn um töðugatið.  Henni var svo ýtt innar af tveimur mönnum með kvíslar, og jafnað innantil í hlöðunni“.  B.  Há peningaupphæð; mikill sjóður.  „Þessi bátur kostaði víst einhverja fúlgu“.  Ekki er ólíklegt að upprunalega merki orðið þarabunki í fjöru, sem orðið getur nokkuð fúll með tímanum.  Sú notkun var þó ekki í seinni tíð.

Fúll (l)  A.  Í vondu skapi; niðurdreginn; móðgaður.  „Láttu hann vera; hann er eitthvað fúll núna“.  B.  Reiður; pirraður.  „Ég er virkilega fúll útí þessa ríkisstjórn“!  C.  Með vondri lykt / vondu bragði.  „Fjári ertu andfúll“!  „Láttu renna vel áður en þú notar kranavatnið; það getur verið fúlt vatn í lögninni“.

Fúllyndur (l)  Þungt í skapi; viðskotaillur.  „Karlinn er afskaplega fúllyndur í landlegum og fiskileysi“.

Fúlmannlega (ao)  Óþokkalega; lúalega; með kvikindisskap/ruddaskap.  „Þetta fannst mér fúlmannlega gert“.

Fúlmenni (n, hk)  Slæmur maður; ruddi; illmenni.  „Ekki trúi ég að hann sé slíkt fúlmenni að gera svonalagað“.

Fúlmennska (n, kvk)  Illska; mjög slæm meðferð/framkoma.  „Hafiði heyrt um aðra eins fúlmennsku“?

Fúlsa við (orðtak)  Vilja ekki; hundsa.  „Kýrnar fúlsuðu við heyinu, enda var það síðslegið og úr sér sprottið“. 

Fúlviðri (n, hk)  Slæmt veður; dimmviðri; oft notað um langvarandi súldartíð.

Fúna niður (orðtak)  Eyðileggjast af fúa/elli.  „Endalok bátsins urðu þau að hann fúnaði niður undir húsvegg“.

Fúndament (n, hk)  Undirstöður.  Tökuorð; heyrðist nokkuð notað. „Vélin þarf að setjast alveg á fúndamentið“.

Fúnkera (s)  Virka; braga; láta.  „Ég skil bara ekki hvernig þetta á að fúnkera“.

Fús (l)  Viljugur; greiðlegur; sáttur.  „Hann var þess fús að koma með okkur“.

Fúska (s)  Vinna að án þekkingar/getu/lags.  „Ég þori ekkert að fúska við þetta inndú í vélinni“.

Fúskari (n, kk)  Sá sem vinnur við verk án fagmenntunar/þekkingar/lags.  „Ég er bara fúskari í þessu“.

Fúslega (ao)  Greiðlega; með góðum vilja.  „Ég skal fúslega viðurkenna að þetta kom mér mjög á óvart“.

Fúss (n, hk)  Fyrirlitning; neikvætt viðhorf; ósætti.  „Hann yfirgaf fundinn í hálfgerðu fússi“.

Fútt (n, hk)  Fjör; gleðskapur.  „Kitti og harmonikkan sáu um að ekki vantaði fúttið á ballinu“.

Fygling (n, kvk)  Snörun/veiði bjargfugls.  „Látramenn fóru á hverju sumri til fyglinga, og oft munu Kollsvíkingar hafa verið í þeirra flokki.  Einnig fóru Kollsvíkingar á Almenning í Bjarginu“.

Fyglingur (n, kk)  Sá sem snarar fugl í bjargi.  Einnig var talað um að „fara í fygling“ þeirra erinda.  „Fyglingurinn þurfti að nota báðar höndur á vað... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Fylgd (n, kvk)  Samfylgd; félagsskapur/aðstoð á ferðalagi.  „Þú ættir nú að fá þér einhverja fylgd innyfir hálsinn fyrst veðurútlitið er svona tvísýnt“.

Fylgdarlaust (l)  Án fylgdar.  „Mér finnst ómögulegt að þú farir fylgdarlaust innyfir Hálsinn í þessu færi“.

Fylgdarmaður (n, kk)  Sá sem fylgir; leiðsögumaður; aðstoðarmaður.  „Fékk ég þá ljósmyndaranum öruggan fylgdarmann; Össur Guðbjartsson, og bað hann að koma honum af fjallinu; á annanhvorn vegin“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949).  „Fékk Jens Hermannson  okkur fylgdarmann…“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Fylgifiskur (n, kk)  Sá/það sem fylgir; fylgdarmaður.  „Ég þarf að hafa þennan fylgifisk til að aka mér“.  Orðið kann að eiga uppruna í trú á það að sérhver fiskur eigi sér einn eða fleiri fylgifiska.  Í trausti þess hafa menn dorgað áfram, eftir að fyrsti fiskurinn var veiddur, í von um að veiða fylgifiskana.

Fylgispakur (l)  Trúr; fylginn.  „Flestir eru þeir fylgispakir sínum flokki, hvernig sem hann klúðrar málum“.

Fylgispekt (n, kvk)  Tryggð.  „Það skilur eiginlega enginn þessa fylgispekt hans við íhaldið“.

Fylginn sér (orðtak)  Fylgir sínum áherslum/baráttumálum eftir; ákveðinn; ýtinn.  „Hann þótti harður í horn að taka og fylginn sér í flestum málum“.  „Hann er nokkuð fylginn sér, þó hann sé ekkert nema hógværðin uppmáluð allajafna“.

Fylgja (n, kvk)  A.  Hildir; næringarkerfi sem umlykur fóstur í kvið móður, en skilar sér með afkvæminu við fæðingu.  B.  Vera úr þjóðtrú; draugur sem fylgir lifandi manneskju; oft uppvakningur, eða andi framliðins.  Fylgja manns birtist oft á undan honum þegar hann var gestur á bæ.  Urðu heimilismenn hennar varir með ýmsu móti, t.d. með því að smáóhöpp urðu eða syfja sótti að fólki.  „Bræður frá Hnjóti drukknuðu 19. maí 1781.  Bát þeirra rak upp í Breiðuvík.  Það sögðu margir að fylgjur þeirra hefðu sést kringum skipið um sumarið, áður en það var rifið á Breiðavíkurfit“ (LK; Ísl.sjávarhættir V). 

Fylgja á leið / Fylgja áleiðis / Fylgja úr hlaði / Fylgja á veg (orðtak)  Veita einhverjum fylgd hluta leiðar frá upphafi.  „Það þarf að fylgja fénu aðeins á leið, en svo rennur það sjálft í fjöruna“.  „Ég fylgdi honum áleiðis norður“.  „Maggi hafði þann starfa að fylgja póstinum á veg og opna fyrir hann túnhliðið“.  „Móðir mín fylgdi henni á leið og lengi var hún og oft var ég búin að gá hvort hún kæmi ekki“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Fylgja (einhverju/einhverjum) eftir (orðtak)  A.  Fara jafn hratt og einhver; hafa við einhverjum.  B.  Þrýsta á um framgang máls.

Fylgja í kjölfarið (orðtak)  Fylgja á eftir; vera afleiðing.  Sjá í kjölfar (einhvers). 

Fylgja straumnum / Láta berast með straumnum (orðtök)  Láta berast í þá átt sem straumurinn liggur.  Oft notað í óeiginlegri merkingu um þann sem lætur tíðarandann eða almenningsálitið ráða sínum gerðum.

Fylgja til dyra / Fylgja úr garði/hlaði (orðtök)  Fylgja gesti sem er að fara, annaðhvort til dyra eða út að mörkum bæjarhlaðs.  Þótti það sjálfsögð kurteisi húsráðenda.  Sjá fara með vitið úr bænum.

Fylgja vegi (orðtak)  Fara eftir vegi/götu.  „Við fylgdum vegi útyfir Tunguheiðina, þar til komið var í Hafnarlautir.  Þá fórum við niður Keldeyrardal og Húsadal; heim að Kollsvík“.  Einnig „fylgja símalínu“.

Fylgjast að (orðtak)  Ferðast fleiri en einn saman.  „Við fylgdumst að upp Vörðubrekku; þá fór ég niður á Breiðsbrún en hann hélt áfram útyfir Sanddal“.  „Farið var af stað um kl 7, og fylgst að með reksturinn út að Litlavatni; þar skildu leiðir“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Fylkja sér um (orðtak)  Hópast að; mynda lið/hóp með.  „Útvíknamenn, Bæjamenn og Hafnarmenn fylktu sér um sitt sláturfélag, meðan Rauðsendingar og flestir Innfjarðarmenn sameinuðust um áframhaldandi slátrun hjá sínu kaupfélagi.  Á endanum fór þó svo að öllu fé úr Rauðasandshreppi var slátrað á Gjögrum“.

Fylla (n, kvk)  Sver og mikil bára.  „Þá kemur stór fylla sem gengur fram eftir öllu skipinu“.

Fylla (s)  Bát getur fyllt, t.d. í ólagi eða við að fara veltu.  „Hitt kom fyrir að báta fyllti og flatti við landtöku, jafnvel fyllti við útróður“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Snerist nú báturinn og fyllti og tók að sökkva“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Fylla sig (orðtak)  Um fé; fá nóg að bíta til að verða mett.  „Ef féð fyllti sig vel á krafsjörð og fékk eitthvað í fjöru var ekkert hey gefið“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Fylla tuginn (orðtak)  Fá upp í tíu; verða tíu.  „Ég vil nú helst fylla tuginn áður en við förum að kippa“!

Fylla töluna (orðtak)  Fá eins margt og tilskilið/vænst er.  „Enn vantar mig tvær kindur til að fylla töluna, af því sem ég átti von á af Bjarginu“.  Einnig var talað um að „fylla postulatöluna“ þegar náðist upp í tólf.  „Þá er maður búinn að fylla postulatöluna!  Við förum allavegana ekki tómhentir í land“.

Fyllast heilagri vandlætingu (orðtak)  Verða mjög hneykslaður yfir einhverju; þykja eitthvað vera mjög gróft/guðlaust/hneykslanlegt eða á annan hátt óviðeigandi.  Einkum viðhaft um hneykslun trúaðra og siðavandra.

Fyllilega (ao)  Til fulls; almennilega.  „Ég skildi aldrei fyllilega hvað hann meinti með þessu“.

Fylling (n, kvk)  A.  Magafylli; saðning.  „Féð fær kannski einhverja fyllingu af þessari sinu en þetta er afskaplega lélegt fóður“.  B.  Fullur máni.  „Ég gæti trúað að hann færi að lina frostið eftir næstu fyllingu“.  C.  Blekhylki í penna.  „Kauptu fyrir mig nokkrar fyllingar og umslög ef þú ferð inn að Gjögrum“.

Fyllingur (n, kk)  Þel; mjúk og gisin ull innan við tog og þel á ærinni.  „Gæta þarf þess við aftekt að klippa í fyllingnum en hvorki skemma ullina með því að klippa í hana né særa kindina“.  Þetta var ætið orðað þannig í Kollsvík, en annarsstaðar heyrðist talað um „fylding“.

Fyllirísraus (n, hk)  Brennivínsrugl; rövl í ölæði.  „Vertu nú ekki með þetta andskotans fyllirísraus“.

Fyllt (l)  Með góðan fylling.  „Mjög er mismunandi hve vel kindum er fyllt.  Fyllingur batnar þegar kemur fram á miðsumar, en einnig er þetta einstaklingsbundið.  Sumum kindum verður aldrei vel fyllt“.  Orðið finnst ekki í orðabókum en var almælt í Kollsvík.

Fyndni (n, kvk)  Gamansemi; spaug.  „Alltaf var stutt í glens og fyndni hjá honum“.

Fyrir (fs)  Um mið; sem sést fyrir.  „Sólóvélin sett í gang og keyrt suður á Bæi; Kollsvíkurbær fyrir Hnífana og Breiðavíkurbær fyrir Breiðinn“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Fyrir aldur fram (orðtak)  Áður en viðmiðunaraldri er náð.  „Hann lést langt fyrir aldur fram“.

Fyrir alla (lifandis) muni / Fyrir hvern mun (orðtak)  Endilega; í guðanna bænum.  „Fyrir alla muni farðu varlega ef þú ferð í Smérhellisflesið“.  „Fyrir alla lifandis muni farðu nú út með þennan óþverra“!  „hann vildi fyrir hvern mun losna við að gera þetta“.

Fyrir allan mun (orðtak)  Mjög; endilega.  „Ég vil fyrir allan mun klára þetta fyrir kvöldið; það bíður sér ekki til bóta“.

Fyrir allar aldir (orðtak)  Eldsnemma; mjög árla dags.  „Hann vaknaði fyrir allar aldir og leit til veðurs“.  „Sú leit hefur eflaust verið erfiðust, því að enda þótt lagt væri af stað fyrir allar aldir komu leitarmenn af Bjarginu oftast seinastir til réttar“  (PG; Veðmálið). 

Fyrir alvöru (orðtak)  Svo um munar; verulega.  „Ég held við ættum nú að fara að pilla okkur í land áður en hann hvessir fyrir alvöru“.

Fyrir bestu (orðtak)  Fer best á; lánast best á þann hátt.  „Kannski var það okkur fyrir bestu að ná ekki að leggja á víkinni í gær.  Það gerði árans norðanvelting í nótt, svo það hefi allt kjaftfyllst af skít“. 

Fyrir bí (orðtak)  Til einskis; ónýtt; farið.  „Þau voru ósköp ástfangin um tíma, en ég er hræddur um að það sé allt fyrir bí núna“.  Úr dönsku; „forbi“.

Fyrir borð (orðtak)  Útyfir borðstokk báts.  „Kastaðu þessum óþverra fyrir borð“.  Eftir lagningu bílvega lá beint við að það sem færi fram af vegkanti færi „fyrir kant“.

Fyrir borð borinn (orðtak)  Oftast notað um réttindi sem eru lítilsvirt.  „Mér fannst mínir hagsmunir í þessu máli vera algerlega fyrir borð bornir“.  Líkingin vísar til þess að einhverju sé kastað útbyrðis á bát.

Fyrir bí (orðtak)  Búið að vera; liðin tíð.  „Þeirra samband er longu fyrir bí“.  Af dönsku; „forbi“

Fyrir engan/öngvan mun (orðtök)  Alls ekki.  „Passaðu vel uppá hnífinn; ég vil fyrir engan mun missa hann“.

Fyrir eina tíð (orðtak)  Einu sinni; fyrir löngum tíma.  „Þarna stóð bærinn Hólar fyrir eina tíð“.

Fyrir forvitnissakir (orðtak)  Af forvitni/áhuga.  „Margir leggja leið sína þangað fyrir forvitnissakir“.

Fyrir frændsemissakir (orðtak)  Vegna skyldleika.  „Ég gerði þetta í og með fyrir frændsemissakir“.

Fyrir fullt og allt / Fyrir fullt og fast (orðtak)  Endanlega; algerlega; ófrávíkjanlega. „Nú er ég hættur þessu fyrir fullt og allt“.   „Þú þarft að ákveða þetta fyrir fullt og fast“. 

Fyrir garð genginn (orðtak)  Látinn; dáinn; sálaður.  „Flest þetta fólk er núna fyrir garð gengið“.

Fyrir gesti og gangandi (orðtak)  Um mat; beina; greiða; fyrir hvern sem er; fyrir alla sem að koma.  „Það er sko alls ekkert fyrir þér haft:  Ég hef þetta kex bara á borðinu fyrir gesti og gangandi“.

Fyrir handan (orðtak)  A.  Sunnanmegin í Kollsvík; yfirfrá.  Málvenja er í Kollsvík að aðalstefnur séu norður og yfir, og að þeir sem eru sunnanmegin í víkinni séu fyrir handan eða yfirfrá.  B.  Hinumegin.  Notað(þó sjaldan) bæði um þá sem eru látnir  og (oftar) um þá sem eru öðru megin við t.d. vatn/fjall en sá sem talar.

Fyrir hendi (orðtak)  Tiltækur; í boði.  „… en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi…“  (PG; Veðmálið). 

Fyrir hendingu (orðtak)  Af tilviljun.  „Ég var búinn að leita að hamrinum útum allt, en fyrir hendingu ráfaðist ég til að gá inn í traktorinn, og þar lá hann“.

Fyrir hvern mun (orðatk)  Fyrir alla muni; endilega.  „Á sjó gat hann ekki flutt hvalinn vegna ógæfta, en vildi fyrir hvern mun ná honum sem fyrst heim til sín“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Fyrir höndum (orðtak)  Um verkefni sem fyrir liggur að framkvæma.  „Þú átt aldeilis mikið verk fyrir höndum“!  „Við eigum langa ferð fyrir höndum“.  Sjá á höndum.

Fyrir kurteisissakir (orðtak)  Til að sýna fulla kurteisi; af tillitssemi  „Ég var ekki kaffi þurfi, en þáði samt boðið fyrir kurteisissakir“.

Fyrir langalöngu (orðtak)  „Nú eru flest búðastæði týnd í Láganúpsveri þó þar væri mikil verstöð, enda lagðist útgerð þar af fyrir langalöngu“.

Fyrir landi (orðtak)  Framundan landi.  „Góð grásleppumið eru fyrir landi, norðantil á Kollsvíkinni“.

Fyrir langalöngu (síðan) (orðtak)  Fyrir mjög löngum tíma; fyrir lifandis löngu.  „Ég man þetta ekki glöggt; enda gerðist það fyrir langalöngu síðan“.

Fyrir lifandis löngu (orðtak)  Fyrir löngum tíma síðan/alltof löngum tíma.  „Óttalegt minnisleysi er þetta!  Manstu ekki eftir að ég bað þig um þetta fyrir lifandis löngu“?   „Þá var þetta útihús hjá bónda sem bjó á býlinu Hólum, sem nú er komið í eyði fyrir lifandi löngu“  (SG; Reyking matar; Þjhd.Þjms). 

Fyrir lífstíð (orðtak)  Um allan aldur; alla ævi.  „Maður er nú ekki bundinn neinum flokki fyrir lífstíð“.

Fyrir löngu síðan / Fyrir margt löngu (orðtak)  Fyrir löngu; fyrir löngum tíma.  „Þetta gerðist fyrir löngu síðan“.  „Sá bær fór í eyði fyrir margt löngu“.

Fyrir margra hluta sakir (orðtak)  Af mörgum/ýmsum ástæðum.  „Þetta er forvitnileg bók fyrir margra hluta sakir“.

Fyrir mér (ortak)  A.  Hvað mig varðar.  „Þú mátt eiga þetta fyrir mér, en þú þarft að spyra hana mömmu þína líka“.  B.  Mín vegna; fyrir mína parta.  „Fyrir mér eru þetta engin ný sannindi; ég vissi þetta alltaf“. 

Fyrir miklu/mestu (orðtak)  Mikilvægast.  „Það var leiðinlegt að þið komust ekki innyfir hálsinn, en þó fyrir mestu að þið skylduð komast aftur niður áður en veðrið versnaði“.

Fyrir mína parta / Fyrir mitt leyti (orðtak)  Hvað mig varðar; að því er mig snertir; að mínu áliti; að minni hálfu.  „Málinu er að fullu lokið fyrir mína parta“.

Fyrir munni sér (orðtak)  Lágt út um munn.  Jafnan með sagnorði framanvið, t.d. tauta, bölva eða syngja.  „Hann gekk snúðugt í burtu og tautaði ljótt fyrir munni sér“.

Fyrir náð og miskunn (orðtak)  Náðasamlegast; með undirgefni.  „Fyrir náð og miskunn fékk ég leyfi til að fara yfir túnið, en einungis fótgangandi“.

Fyrir neðan allar hellur (orðtak)  Óviðunandi; ófært; sæmir/hæfir alls ekki.  „Svona framkoma er auðvitað fyrir neðan allar hellur.

Fyrir ofan garð og neðan (orðtak)  Út og suður; út um allt; mislánast.  „Ég var svo niðursokkinn í þessr spekúlasjónir að mal kennarans fór fyrir ofan garð og neðan í það skiptið“.

Fyrir opnu hafi (orðtak)  Móti úthafi.  „Lendingin er fyrir opnu hafi, og því ótrygg; sérstaklega í norðanátt“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Fyrir opnum tjöldum (orðtak)  Opinberlega; svo allir geti séð.  „Það er sjaldgæft að heyra þá deila svo hart fyrir opnum tjöldum; vanalega er reynt að dylja svona á bakvið flokksmúrana“. Sjá bakvið tjöldin.

Fyrir orðastað (orðtak)  Vegna beiðni.  „Sjálfur hafði ég ekki mikinn áhuga á þessu, en fyrir hans orðastað lét ég tilleiðast að gefa kost á mér“.

Fyrir rest (orðtak)  Að lokum.  „... þá var mér orðið svo skrambi kalt fyrir rest að ég fann ekki fyrir myndavélinni“  (Óskar Gíslason kvikm.gerðarmaður um Sargon-strandið; Útkall við Látrabjarg).

Fyrir rælni (orðtak)  Fyrir tilviljun; af hendingu.  „Það var bara fyrir rælni að ég tók eftir þessu“.

Fyrir siðasakir (orðtak)  Til að sýna háttvísi; til að sýnast.  „Fyrir siðasakir tókum við byssuna með“.

Fyrir sig (orðtak)  Eitt fyrir sig; útaf fyrir sig; aðskilið mál; sérstakt málefni.  „Það væri nú fyrir sig ef hann gerði þetta bara einusinni, en það er ólíðandi að þetta komist upp í vana“!

Fyrir skemmstu / Fyrir stuttu (orðtak)  Fyrir stuttum tíma.  „Fyrir skemmstu fór ég í ferðalag“.  „Ég sá þessar kindur bara fyrir stuttu“.

Fyrir sopann (orðtak)  Vínhveigður; ölhneigður; háður víndrykkju; sækir í vín.  „Hann þykir helst til mikið fyrir sopann blessaður, en annars er þetta öndvegisnáungi“.

Fyrir stafni (orðtak)  Framundan báti; í stefnunni.  „Skjólið hafnar hyggja á/ hetjujafnar lúnir./  Fyrir stafni ströndin grá/ stígur drafnarkófi frá“  (JR; Rósarímur).  Sjá hafa fyrir stafni.

Fyrir stundu (orðtak)  Fyrir nokkru; fyrir dálitlum tíma; áðan.

Fyrir þá skuld / Fyrir þá sök / Fyrir því (orðtak)  Af þeirri ástæðu; vegna þess.  „Hann er löglega afsakaður frá þessari smölun, fyrir þá skuld að hann sneri sig á færi í gær“.  „Fyrir því skorar fundurinn á Alþingi að fella framkomna tillögu um kjördæmamálið “  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Fyrir vikið (orðtak)  Í staðinn; þess vegna; sem afleiðing.  „Hann fór að finna að rekstrinum við forstjórann, en var rekinn fyrir vikið“.  „Mér tókst að elta uppi þessa bykkju, en fyrir vikið er ég alveg uppgefinn“.

Fyrir víst (orðtak)  Örugglega; vafalaust.  „Ékki veit ég hvenær þetta hófst, en ég veit það fyrir víst að því var lokið fyrir mitt minni“.  „Ég get ekki sagt um þetta fyrir víst, því ég man það ekki svo glöggt“.

Fyrir það brennt (orðtak)  Útilokað; engin leið.  „Það er svo gjörsamlega fyrir það brennt að ég muni hvað þessi maður heitir þó ég þekki hann í sjón“.

Fyrir það fyrsta (orðtak)  Í fyrsta lagi.  „Ástæðurnar fyrir minni ákvörðun eru margar, en fyrir það fyrsta þá hef ég engan áhuga á svona löguðu“.

Fyrir því (orðtak)  Vegna þess.  „Það er í lagi að þú farir heim; við erum nægilega margir fyrir því“  „Fyrir því er það ósk mín að stjórnir beggja félaganna ræði með sér hugsanlega möguleika á að sameinast í eitt félag“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Fyrir öllu (orðtak)  Mest um vert; mikilvægast.  „Það var auðvitað hábölvað að missa bátinn; en þó fyrir öllu að mannskapurinn bjargaðist“.

Fyrirband (n, hk)  Band sem notað er til að loka poka/sekk/skjóðu.  „Hvar er nú fyrirbandið af póstpokanum“?

Fyrirbjóða (s)  Banna; leyfa ekki.  „Ég fyrirbauð þeim alveg að aka utan vegarins“.

Fyrirboði / Fyrirburður (n, kk)  Spásögn; forspá; vísbending.  Sumir tóku mark á ýmsum atvikum, draumum, hugboði, sýnum eða öðru sem fyrirboða þess sem ætti eftir að verða; einkum varðandi veðurútlit; aflabrögð; slys eða dauðsföll.  Mjög var misjafnt hvað fólk var næmt og sannspátt í þessum efnum.  „Um morguninn sagði séra Þorsteinn frá þeim fyrirburði að seinni hluta nætur hefði hann vaknað við það að sungið var fyrir utan gluggann hjá honum erindið „Dimmur var Ægir“.  Þótti presti þetta illur fyrirboði enda fórst hann ekki löngu seinna...“  (Frásögn ÁE; MG; Látrabjarg).  „Sigurður kvað þetta vera í fyrsta sinn sem óhapp hefði hent sig í hákarlalegu og væri þetta fyrirboði þess að ekki færi hann í fleiri legur á þessu skipi; og reyndist það svo“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Fyrirbrigði / Fyrirbæri (n, hk)  Óvenjulegt sem sést/ber fyrir augu.  „Ekki skal fullyrt að geimverur hafi heimsótt Kollsvíkina, en ennþá er óútskýrt það fyrirbæri sem sást á suðurhimni, líklega fyrir 1970.  Ingvar bjó þá í Kollsvík og kom í hendingskasti yfir að Láganúpi.  Hann lýsti því að hann hafi séð bjartan krans af ljósum sem bar yfir Hólahjallana, frá Kollsvík séð.  Í miðjum kransinum hafi verið skærara og rauðleitara ljós.  Þeir bræður, Ingvar og pabbi, fóru báðir uppá Flatir og Strympur að leita, ásamt okkur krökkunum.  Gengið var um svæðið í góðan tíma án þess að neitt fyndist, og engin skýring hefur síðan fundist á þessu.  Þórður á Látrum lýsti þessu í Moggafrétt, en Látramenn urðu varir við þetta á nokkuð annan hátt“ (VÖ).

Fyrirbundinn (l)  Sem bundið er fyrir.  „Með hverju upphaldi hleyptum við niður þremur til fjórum pokum; fyrirbundnum, fullum af hausum, slori og hryggjum“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Fyrirfara / Fyrirkoma (s)  Sálga; drepa; myrða.  „Í Klúku bjó í kofa kona sem Gunna hét ( snemma á 19. öld?) og kölluð Klúku-Gunna.  Var talið að hún ætti börn, en fyrirfæri þeim, þar til hún var tekin úr kofanumrétt áður en hún átti hið síðasta; og lifði það“  (PJ; Örn.skrá Rauðasands).

Fyrirfarast (s)  Fara í útideyfu; týnast.  „Það var alger klaufaskapur að það skyldi fyrirfarast hjá mér að koma þessum boðum til skila“.

Fyrirfinnast (s)  Finnast dæmi um.  „Um sum orðanna fyrirfinnast fá eða engin dæmi, þó önnur séu algeng“.

Fyrirgangur (n, kk)  Brölt; gauragangur; vesen.  „Skelfilegur fyrirgangur er þetta í ykkur strákar“!

Fyrirfinnanlegur (l)  Finnanlegur; greinanlegur.  „Sum orð í máli Kollsvíkinga eru ekki fyrirfinnanleg annarsstaðar á landinu; í það minnsta ekki nú á tímum“.

Fyrirfinnst (s)  Til er; hugsast getur.  „Hollari hreyfing fyrirfinnst ekki en þessar eggjaferðir“.

Fyrirframvitað (l)  Áður þekkt/vitað.  „Það var nú alltaf fyrirframvitað að svona myndi fara“.

Fyrirgangur (n, kk)  Læti; óskapagangur.  „Það er óttalegur fyrirgangur í honum við uppsláttinn“.

Fyrirgefanlegt (l)  Afsakanlegt; skiljanlegt.  „Það er vel fyrirgefanlegt þó maður stoppi til að kasta af sér vatni“.

Fyrirgefningarkoss (n, kk)  Koss til merkis um fyrirgefningu.  „Gefðu honum svo fyrirgefningarkoss“.

Fyrirgera (s)  Spilla; glata.  „Með þessu hefur hann algerlega fyrirgert sínum rétti“.

Fyrirgengilegur (l)  Lítur illa út; ræfilslegur.  „Mér fannst hann vera orðinn fyrirgengilegur“.

Fyrirgirða (s)  Hindra; koma í veg fyrir.  „Ég tek þetta fram til að fyrirgirða misskilning“.

Fyrirgreiðsla (n, kvk)  Greiði; úrbót.  „Ferðamönnum er veitt sú fyrirgreiðsla sem unnt er, eftir aðstæðum“.

Fyrirgrennslan (n, kvk)  Fyrirspurnir; leit; rannsóknir.  „Mín fyrirgrennslan um þetta hefur enn engu skilað“.

Fyrirhafnarlaust (l)  Án erfiðis/fyrirhafnar; auðveldlega.  „Þetta hafðist; nokkurnvegin fyrirhafnarlaust“.

Fyrirhafanarsamt (l)  Sem kostar mikla fyrirhöfn.  „Það var nokkuð fyrirhafnarsamt að ná þessum eggjum“

Fyrirhitta (s)  Komast í kynni við; sjá.  „Þetta er einhver illvígasti netahnútur sem ég hef nokkrusinni fyrirhitt“.

Fyrirhleðsla (n, kvk)  Hindrun sem sett er t.d. til að veita vatni eða beina för búpenings.  „Fyrirhleðslur voru á nokkrum stöðum í klettum kringum Kollsvík; í fyrsta lagi til að fé færi ekki í sjálfheldu; í öðru lagi til að það rásaði ekki milli svæða, s.s. fyrirhleðslur í Takakletti í Blakknum og í Breiðsgjá; og í þriðja lagi til að afmarka vörsluhólf/beitarsvæði, s.s. í Ytri Lambhaganum í Hnífum.  Óljóst er hvaða tilgangi fyrirhleðslur í Sandhelli hafa átt að þjóna“.
 „Var það gert með fyrirhleðslu í þrjá ganga Breiðavíkurmegin…“  (HÖ; Fjaran).

Fyrirhuga (s)  Áætla; ætlast fyrir.  „Hvað hefur þú fyrirhugað þér að gera í þessu máli“?

Fyrirhyggjusamlega (ao)  Af fyrirhyggju/forsjálni.  „Þetta var mjög fyrirhyggjusamlega gert“.

Fyrirhyggjusemi (n, kvk)  Forsjálni; hyggindi.  „Ég kalla það mikla fyrirhyggjusemi að muna eftir kíkinum“.

Fyrirkallaður (ao)  Fyrirhittur; áttaður.  Vanalega notað í neikvæðri merkingu:  „Hann var eitthvað illa fyrirkallaður morguninn eftir ballið og var því seinn í morgunverkin“.

Fyrirkoma (s)  Sálga; drepa.  „Þeim ætlaði aldrei að takast að fyrirkoma steinbítsslánanum“.

Fyrirkvíðanlegur (l)  Ískyggilegur; uggvænlegur.  „Það er fyrirkvíðanlegur fjandi ef þessar áburðarhækkanir verða að veruleika“.

Fyrirlagt / Fyrirsett (l)  Uppálagt; umbeðið; fyrirskipað.  „Ég gerði bara það sem mér var fyrirlagt“.

Fyrirlitning (n, kvk)  Lítilsvirðing.  „Kötturinn sýndi einstaka fyrirlitningu með því  að míga á skott hundsins“.

Fyrirmatur (n, kk)  Fyrri máltíð af tveimur þegar borðað er tvíréttað.  „Til skamms tíma tíðkaðist í sveitum vestra að bera fram tvíréttað.  Var þá oftast kjöt- eða fiskréttur í fyrirmat en grautur eða súpa í eftirmat“.

Fyrirmálsborið / Fyrirmálsfætt (l)  Um lamb:  A.  Fætt/borið fyrir tal/ áður en fullri meðgöngu er lokið.  B.  Fætt/borið nokkru áður en sauðburður byrjar yfirleitt.  „Þessi hrútur er fyrirmálsfæddur“.

Fyrirmálsfengin (l)  Um kind; höfnuð af hrút snemma á fengitíma, þannig að lamb fæðist fyrir venjulegan sauðburðartíma.  „Þessar útigangskindur voru allar fyrirmálsfengnar, enda hefur hrútinn ekki drepist frá þeim fyrr en kom fram á harðasta veturinn“.

Fyrirmálsgimbur / Fyrirmálshrútur / Fyrirmálslamb (n, hk)  A.  Lamb sem fætt er fyrir tal; þ.e. eftir styttri meðgöngu en ætlað var.  B.  Lamb sem fætt er nokkru áður en sauðburður byrjar yfirleitt.  „Það er ekki marka stærðina á þessari; þetta er fyrirmálslamb“.  Síðari merkingin var almennari í Kollsvík; a.m.k. í seinni tíð.

Fyrirmun (n, kvk)  Bann; meinloka; slæm mistök; yfirsjón.  „Ég skil ekkert í þessari fyrirmun í þér að gleyma að hespa karminum“. „Bölvuð fyrirmun var það að missa tvævetluna; hún sést líklega ekki meir í bili“.

Fyrirmuna (s)  Banna; meina.  „Það getur enginn fyrirmunað einum manni að fara til eggja eða berja, ef hann er einungis að afla fyrir sjálfan sig“.

(Einhverjum er) fyrirmunað (orðtak)  Einhverjum er meinað/ókleyft/útilokað.  „Ég á að þekkja þennan mann en mér er fyrirmunað að muna nafnið“.  „Bölvaður klaufaskapur er þetta; var ykkur alveg fyrirmunað að standa fyrir þessum rolluskjátum“!

Fyrirmunun (n, kvk)  Eiginleg merking; það sem er fyrirmunað; bannað.  Afleidd og mest notuð merking; meinloka; minnisleysi; huglæg hömlun.  „Hvers konar fyrirmunun er það að gleyma pakkanum heima“?

Fyrirmynd (n, kvk)  Það sem öðrum er rétt að líta til/ stefna að; það sem telst vera nægjanlega fullkomið. „Um þá er sérstaklega fóðra vel, s.s. bændurna á Lambavatni, er öðru máli að gegna.  Þar verða lítil mistök; hvorki í heyverkun né peningshirðingu.  Er ekki annað hægt að segja en að afkoman þar sé í besta lagi; svo góð að þar er sú fyrirmynd sem vert er að fara eftir“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1933).   

Fyrirmyndar-  Algengt forskeyti á það sem skarar framúr; fyrirmyndarbóndi/-heimili/-nemandi o.fl.

Fyrirmyndaraðferð / Fyrirmyndarbragur (n, kvk/kk)  Mjög góð aðferð/ gott yfirbragð.  „Við urðum að gera þetta svona við þessar aðstæður, en þetta er engin fyrirmyndaraðferð“.  „Mér fannst fyrirmyndarbragur á öllu því sem hann gerði í þessu efni“.

Fyrirmyndarbarn / Fyrirmyndardrengur / Fyrirmyndarstúlka (n, hk/kk/kvk)  Mjög mannvænleg börn.

Fyrirmyndarbátur / Fyrirmyndarfleyta (n, kk)  Mjög góður bátur; vel heppnuð bátasmíð.

Fyrirmyndarbóndi (n, kk)  Mjög góður bóndi og góð fyrirmynd.

Fyrirmyndarbú / Fyrirmyndarbúskapur / Fyrirmyndarbýli (n, hk/kk)  Mjög gott bú; farsæll búskapur.

Fyrirmyndarheimili (n, hk)  Mjög gott heimili.

Fyrirmyndarhandbragð (n, hk)  Mjög gott handbragð; snilldarverk.  „Hann velti kistlinum fyrir sér í nokkra stund og grannskoðaði hann, en sagði svo að sjaldan hefði hann séð slíkt fyrirmyndarhandbragð“.

Fyrirmyndarhleðsla (n, kvk)  Mjög/listilega vel hlaðinn veggur.

Fyrirmyndarhleðslugrjót (n, hk)  Mjög gott hleðslugrjót; grjót sem gott er að hlaða úr, þannig að vel fari og vel standi.

Fyrirmyndarhrútur (n, kk)  Mjög laglegur/góðurhrútur; hrútur sem getur góð lömb/ er frjósamur/farsæll.  „Hann var tvímælalaust mesti fyrirmyndarhrútur sem ég hef nokkurntíma átt“.

Fyrirmyndarkennari / Fyrirmyndarnemandi / Fyrirmyndarskóli (n, kk)  Mjög góður kennari/nemandi/skóli.

Fyrirmyndarnáungi / Fyrirmyndarfólk / Fyrirmyndarkona / Fyrirmyndarkvenmaður / Fyrirmyndarmaður

Fyrirmyndarrithönd / Fyrirmyndarskrift (n, kvk)  Skrift/rithönd sem er til fyrirmyndar; mjög góð skrift.

Fyrirmyndaruppeldi (n, hk)  Mjög gott uppeldi; góðar uppeldisaðferðir.  „Ég fullyrði það hiklaust að óvíða á landinu gefst aðstaða til slíks fyrirmyndaruppeldis og býðst í Kollsvík.  Enda hefur það sannast á þeim sem það hlutu“.

Fyrirrista (n, kvk)  A.  Sár sem skorið er eða stungið í jarðveg til að afmarka stærð á torfi sem rista skal í þökur.  B.  Skurður í húð á skrokk sláturfjár eða nautgrips eftir slátrun og áður en flegið er, sem hluti af hæklun.

Fyrirristuhnífur (n, kk)  Hæklunarhnífur; hnífur sem sérstaklega er ætlaður í fyrirristu.  Hann er með hnúð á blaðoddinum, þannig að rista megi með samfelldu bragði, án þess að skemma kjöt eða gæru.

Fyrirrúm (n, hk)  A.  Eiginleg merking; fremsta eða næstfremsta rúm í báti. Til forna var fyrirrúm fyrir framan lyftinguna (fremra þilfar), en síðar merkti það næsta rúm aftanvið hálsrúm.  B.  Afleidd og mest notuð merking í seinni tíð; forgangur.  „Við höfum það þá í fyrirrúmi að taka fólkið með en látum farangurinn mæta afgangi“.

Fyrirrúmsþófta (n, kvk)  Þóftan framanvið fyrirrúmið, sem sá sat á sem reri í fyrirrúminu.

Fyrirsát / Fyrirsátur (n, hk)  Flotholt á netafæri eða stjórafesti, stutt frá bauju.  Þar sem mikill straumur er getur verið nauðsynlegt að hafa fyrirsát til að auka flotmagnið en einnig sýnir afstaða þess við bauju greinilega hvernig fellur/ streymir á.  Þá er bót að fyrirsát þegar krækja skal færinu upp í bátinn.  Báðar myndir notaðar.

Fyrirseyma / Eftirseyma (n, kvk)  Nálar við skinnklæðasaum (nánar þar).  „Karlmenn saumuðu sjálfir sín skinnklæði að vetrinum.  Tæki til þess voru fábotin; aðeins tvær nálar, fyrirseyma og eftirseyma, og klembrur. ...   Fyrirseyman var með fjöðrum eða þrírennd, svo hún skæri lítið eitt frá sér, en hin var sívöl, nokkuð sverari um miðjan legg.  Saumgarnið var alltaf heimaspunninn togþráður, en náldragið annaðhvort hampgarn eða hvalseymi, ef það var til.  Saumþráðurinn var venjulega hafður sex- eða áttfaldur“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fyrirséð (l)  Fyrirsjáanlegt; vitað fyrirfram.  „Undarlegt var að þeir skyldu halda áfram þó fyrirséð væri að vegurinn væri kolófær“.  „Þetta hrun var alveg fyrirséð, eins og vitleysugangurinn hafði verið“.

Fyrirsjón (n, kvk)  Aðgæsla; varúð; umsjón.  „Það er engin fyrirsjón að leggja af stað í þessu veðurútliti“.  „Jónas mælti þá; „Þar sér þú fyrirsjón þína Guðmundur“  Um leið fylltist skipið…“ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Fyrirsláttur (n, kk)  Afsökun; tilbúin ástæða.  „Þessi lasleiki er bara fyrirsláttur hjá honum“.

Fyrirstaða (n, kvk)  A.  Það að standa fyrir fé, t.d. í smalamennskum; beina því í rétta átt eða halda í hópi.  „Það vantaði betri fyrirstöðu hjá Hjallagötunum þegar reksturinn kom úr Fjarðarhorninu“.  B.  Þrenging eða haft sem stöðvar framrás.  „Einhver fyristaða er í skolplögninni“.  C.  Um veðurfar.  Vindátt sem virðist varna því að blási úr gagnstæðri átt.  „Hann getur hangið uppi meðan þessi fyrirstaða er í norðrinu, en ómögulegt er að segja hvað það verður lengi“.  „Væri ekki lát á fyrirstöðu boðaði hún drýgindi; sama veðurlag í nokkra daga“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).   D.  Í líkingum um málefni; tregða; andstaða.  „Málið fór í gegnum þingið án verulegrar fyrirstöðu“.

Fyrirstilla (s)  Merkja; þýða.  „Hvað á svona háttalag eiginlega að fyrirstilla“?  „Hann ætlar víst í framboð en ekki veit ég hvað svoleiðis á að fyrirstilla“.  „Hvað á þetta eiginlega að fyrirstilla“?!

Fyrirstraumur (n, kk)  Stórstreymi sem verður næst á undan mesta stórstreymi á misserinu.  Stærstu straumar ársins eru í kringum jafndægri á vori og hausti.  Vorstórstreymið hafði meiri þýðingu vegna róðra, og nefnist góuginur.  Á undan þeim var stór fyrirstraumur, en á eftir fylgdi stór eftirstraumur.

Fyrirstöðumaður (n, kk)  Sá sem stendur fyrir þegar fé er smalað, til að það fari rétta leið.  „Fyrirstöðumaðurinn þarf að vera kominn í Flosagilið áður en féð kemur úr Fjarðarhorninu“.

Fyrirsvar (n, hk)  Umsjón; forsvar; ábyrgð.  „Húsmaður hjá Jóni (bónda í Kollsvík) er bróðir hans með konu sinni, sem forsorgar sig og hana á sjáfarafla og hefur hvorki grasnyt nje fyrirsvar, nema það sem bróðirinn ljær honum“  (AM/PV Jarðabók). 

Fyrirsverja (s)  Þvertaka fyrir; sverja fyrir.  „Ekki skal ég nú fyrir það sverja að einhver egg hafi brotnað“.

Fyrirsögn (n, kvk)  A.  Forspá; það sem sagt er fyrir um óorðna hluti.  „Það hefði einhverntíma þótt (ótrúleg) fyrirsögn að þessi kind yrði ellidauð“.  B.  Tilmæli; skipun; forskrift.  „Við gerðum þetta að hans fyrirsögn“.  C.  Yfirskrift skrifaðrar klausu/fréttar.

Fyrirtaks (l)  Afbragðs; fyrirmyndar.  „Þetta eru alveg fyrirtaks klattar hjá þér“.  „Hér er fyrirtaks hornsteinn“.

Fyrirtekt (n, kvk)  Sérviska; matvendni; dyntir.  „Það er nú bara fyrirtekt að vilja ekki signa grásleppu“!

Fyrirtektalaus (l)  Laus við sérvisku/hleypidóma/dynti.  „Undarlegt er það að í þessari fjölskyldu skuli finnast svo fyrirtektarlaus náungi; honum kippir lítið í kynið“!

Fyrirtektasamur (l)  Sérvitur; vandfýsinn.  „Það er nú ekkert nema fyrirtektasemi að vilja ekki smakka“.

Fyrirtæki (n, hk)  A.  Aðgerð; verkefni.  „Það er allnokkuð fyrirtæki að komast í þetta eggpláss“.  B.  Síðari tíma merking; firma; stofnun. 

Fyrirvaf (n, hk)  Þræðir sem liggja þversum í vefnaði þegar ofið er.  „Það var mikið ofið á veturna.  Uppistaðan var tvistur; fyrirvaf var ull.  Ennfremur var þráður í uppistöðu og tvistur í fyrirvaf þegar ofið var í milliskyrtur og sængurver sem notuð voru í verbúðunum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Fyrirverða sig (orðtak) Skammast sín.  „Það er óþarfi að fyrirverða sig þó maður æli í fyrstu sjóferðinni“.

Fyrningar (n, kvk, fto)  Hey sem ekki hefur nýst yfir veturinn og geymist (fyrnist) til næsta vetrar.  Einnig núorðið notað um snjó sem ekki nær að bráðna yfir sumarið.

Fyrna (s)  Gera fornt; geyma til síðari tíma.  „Það þýðir ekki að fyrna þetta hey aftur; betra að gefa það“.  „Öllum dugðu heyin; nokkrir fyrna“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Fyrnast (s)  Gleymast; verða gamalt.  „Hætt er við að ýmislegt fyrnist og týnist, sem nú er í munnlegri geymd“.

Fyrningar (n, kvk, fto)  Hey sem geymist í hlöðu yfir sumar, til næsta vetrar.  „Fyrningar voru mjög litlar hér frá fyra ári; mest mun það hafa verið á Skógi, eða um 80-90 álnir“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1925).  

Fyrnist flest þá frá líður (orðatiltæki)  Flest gleymist með tímanum.

Fyrnt (s)  Gleymt; geymt.  „Ýmislegt varðandi útgerð í Láganúpsveri er nú fyrnt og týnt“.

Fyrr á tíð/tímum (orðtak)  Fyrrum; áðurfyrr.  „Nefnist gjótan Pallanáma, og munu hinir lítríku steinar hennar hafa verið muldir út í fernisolíu og það notað sem málning á báta í Kollsvík fyrr á tíð“  (HÖ; Fjaran). 

Fyrr eða síðar (orðtak)  Um síðir; snemma eða seint; örugglega.  „Slíkt búskaparlag hrynur fyrr eða síðar“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1933). 

Fyrr en seinna (orðtak)  Sem fyrst.  „Ég held að við ættum að setja upp bátinn fyrr en seinna; það flæðir ört“.

Fyrr en varir (orðtak)  Fyrr en maður áttar sig á.  „Höldum nú á; það verður komið myrkur fyrr en varir“.

Fyrr er bati en albati (orðatiltæki)  Allri framför ber að fagna, jafnvel þó maður hefði gjarnan viljað hafa hana meiri.  Notað bókstaflega um batamerki í veikindum en einnig um aðstæður sem eru að lagast.

Fyrr má nú rota en dauðrota (orðatiltæki)  Miklu meira en nóg; yfirdrifið; það er aldeilis!; eitthvað má nú á milli vera!  „Ég átti nú von á einhverjum glaðningi frá skattinum, en fyrr má nú rota en dauðrota“.

Fyrr má nú (aldeilis) vera (orðatiltæki)  Nú gengur fram af mér; mér er misboðið.  „Fyrr má nú vera andskotans frekjan í þessum máfi; að ræna kríuungum alveg uppvið húsvegginn“. „Halda þessir ráðherrar að fólk láti endalaust traðka á sér; fyrr má nú aldeilis vera heimskan“!

Fyrramál (n, hk)  Snemma morguns.  „Við þurfum að vakna snemma í fyrramálið og tygja okkur af stað“.

Fyrravetur /Fyrrasumar/ Fyrravor/ Fyrrahaust  Liðnar árstíðir síðasta árs.  „Það er kaldara en í fyrravetur“.

Fyrri (ao)  A.  Sá sem er á undan.  „Ég skýt á fyrri máfinn; þú tekur þann síðari“.  B.  Áður.  „Þetta hefur aldrei fyrri skeð“.  „Ég hef ekki séð hann fyrri“.  „Ég man ekki til þess að þeta hafi skeð fyrri“.

Fyrri róður (orðtak)  Fyrri fiskiróður af tveimur, ef tvíróið var úr veri sama daginn.  „Það kom fyrir, ef afli var góður í fyrri róðri og einsýnt veðurútlit, að skilinn var einn maður eftir í landi, til þess að halda áfram við aðgerð“  (KJK; Kollsvíkurver).

Fyrrihluti (n, kk)  Fyrri/fremri hluti/partur.  „Ég ræð því almennt til að spara hey fyrrihluta vetrar…“  (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1929).  

Fyrrinótt (n, kvk)  Nóttin á undan síðustu nótt.  „Ég sá feikna loftsteinadrífu í fyrrinótt“.

Fyrritíðarfólk / Fyrritíðarmenn (n, hk/ kk, fto)  Fólk/menn fyrr á tímum.  „Fyrritíðarfólk hafði mun meiri tilfinningu og útsjónarsemi fyrir nýtni en samtíðarfólk“.  „Mikil framför væri að því ef nútímamenn hefðu vinnuhörku fyrritíðarmanna, þó ekki væri nema hálfa“.

Fyrrmeir (ao)  Áðurfyrri; fyrrum.  Hér fyrrmeir var nánast hver einasti karlmaður með skegg“.

Fyrrum (ao)  Áðurfyrri; áður og fyrrmeir.  „Fyrrum var margbýlt á Grundum og á Kollsvíkurjörðinni“.

Fyrrumtíð (ao)  Áður; fyrr á tímum.  „Fyrrumtíð slógu menn þar sem einhverja grastoppa var að hafa“.

Fyrst… á annað borð (orðtak)  Um afleiður og forsendur.  „Það er best að þú klárir þetta, fyrst þú á annað borð ert kominn“.  Sjá á annað borð.

Fyrst í stað (orðtak)  Til að byrja með; upphaflega; í byrjun.  „Fyrst í stað sá ég ekki hvaðan hljóðið kom“.

Fyrst og fremst (orðtak)  Einkum; aðallega.  „Fyrst og fremst þarf að tryggja öryggið“.

Fyrst skal frægan telja (orðatiltæki)  Hinn þekkta skal nefna fyrst.  Oft viðhaft þegar rætt er um þekkta menn.

Fyrsta kastið / Fyrst um sinn (orðtak)  Í fyrstu; strax.  „Fyrst yrðlingurinn slapp úr búrinu þá má heita öruggt að hann lætur ekki sjá sig aftur;  að minnsta kosti ekki fyrsta kastið“.  „Þetta verður að duga fyrst um sinn“.

Fyrstakálfskvíga (n, kvk)  Kvíga/kú eftir burð fyrsta kálfs.  „Ekki finnst mér hún verulega mjólkurlagin; en hinsvegar er lítið að marka það hjá fyrstakálfskvígu“.

Fyrsti vetrardagur (orðtak)  Laugardagur að lokinni 26. viku sumars; sjá vetrardagurinn fyrsti/vetrarbyrjun.

Fyrstu réttir (orðtak)  Aðalréttir að hausti, sem jafnan fóru fram í 22.viku sumars.  „Þetta mun hafa verið í fyrstu rétt haustið 1946“  (PG; Veðmálið). 

Fyrstur kemur - fyrstur fær (orðatiltæki)  Sá hlýtur/fær sem fyrstur er á vettvang.

Fyrtast (s)  Reiðast; æsa sig; móðgast.  „Það er óþarfi að fyrtast yfir svonalöguðu“.

Fyrtinn (l)  Móðgunargjarn, viðkvæmur.  „Ég áttaði mig ekki á að maðurinn væri svona fyrtinn“.

Fyrtni (n, kvk)  Skyndileg reiði; viðkvæmni.  „Það þýðir ekkert að taka þessu með einhverri fyrtni“.

Fýkur á brún (orðtak)  Um læk sem fýkur til baka á klettabrún vegna uppstreymis í hvassviðri.

Fýla (n, kvk)  A.  Vond/stæk lykt; óþefur.  B.  Von/þungt skap; missætti.  C.  Súld; rigningarfýla; súldarfýla.  „Það er sama fýlan og í gær“!

Fýla grön (orðtak)  Um skepnur; bretta upp á efri vörina.  Oft siður hrúta þegar þeir eiga við ær um fengitíma.

Fýlavarp / Fýlapláss / Fýlungavarp (n, hk)  Staður þar sem mikið af fýl verpur.  „Það er skemmst af að segja að þarna var svo þétt af fýlavarpi að varla varð stigið niður fæti milli eggja“. (ÖG; Sighvatsstóð).  „Í Breiðnum hefur lengi verið allmikið fýlavarp“  (HÖ; Fjaran).  Oftar var þó talað um múkkavarp og múkkapláss í máli Kollsvíkinga, a.m.k. á síðari tímum. 

Fýldur (l)  Í fýlu; fúll/þungbrýnn á svip/ í fasi.  „Hversvegna ert þú svona fýldur núna“?

Fýll (n, kk)  Fuglstegund; múkki; fýlungi; Fulmarus glacialis.  Nokku stór sjófugl af ætt pípunefja; algengur varpfugl við Ísland.  Fýll, sem reyndar var áður nefndur fýlungi í Kollsvík, hefur líklega alltaf orpið að einhverju marki í klettum í nágrenni Kollsvíkur.  Þegar sjósókn jókst að miklum mun með aukinni togaraútgerð á fyrrihluta 20. aldar jókst fýlungavarp í klettum  á svæðinu.  Nýting eggja stórjókst, og menn stunduðu klettaferðir töluvert yfir varptímann.  Víða eru góð eggpláss sem fengu sín heiti, og fundnar voru leiðir að þeim.  Sumsstaðar þurfti að síga, en allvíða mátti fara laus eða í lásum.  Undir lok 20. aldar fækkaði fýl mjög í klettunum, einkum í efri göngum og þar sem léttast var að komast að.  Ugglaust er helsta ástæðan fæðurskortur, þar sem farið var að hirða það af aflanum sem áður hafði verið hent og/eða koma með aflann óslægðan í land.  Einnig fjölgaði ref mikið á svæðinu þegar slakað var á með grenjavinnslu, og hann er fljótur að hreinsa þau eggpláss sem aðgengilegust eru.  Fyrrum var fýllinn veiddur nokkuð til matar, einkum unginn, en því var hætt fljótlega eftir aldamót 1900.  „16. – 17. viku sumars var farið í fýlunga og veiddist oft mikið.  Fýllinn var plokkaður, en fiðrið þurfti að geymast lengitil að losna við lyktina áður en það var notað.  Mikið af því var selt.  Svo var fýllinn fleginn og saltaður; það sem ekki var borðað nýtt.  Laukurinn (fitan undir bumbnum) var bræddur til ljosmetis á kolur“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Fýlsegg (n, hk)  Egg úr fýl; múkkaegg.  „Í Kollsvík var talað jöfnum höndum um fýlsegg og múkkaegg“.

Fýlseggjatekja (n, kvk)  Tekja/taka fýlseggja/múkkaeggja.  „Fýlseggjatekja í Blakknum virðist hafa aukist ár frá ári, eftir að fýl fór að fjölga þar verulega“.

Fýludallur (n, kk)  Sá sem er iðulega í þungu/slæmu skapi eða niðurdreginn.  „Hresstu þig nú við; það er niðurdrepandi að vera alltaf einhver fýludallur.

Fýluferð / Fýluför (n, kvk)  Tilgangslaus ferð; gabb.  „Fjárhópurinn var farinn, svo þetta var fýluferð hjá okkur“.  „Það þótti því engin fýluför þegar Guðbjartur Þorgrímsson brá sér út á Bjargtanga til að huga að sel en kom aftur með spónný gúmí stígvél... “  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Fýlufjandi / Fýluskítur  (n, kk)  Niðrandi heiti á fínni rigningu/sudda. „Hann ætlar að halda þessum fýlufjanda dag eftir dag“.  „Enn er sami fýluskíturinn og í gær.  Hann verður fljótur að rofa til með norðanáttinni“.

Fýlulega (ao)  Afundið; ekki fjörlega.  „Hann svaraði þessu fremur fýlulega“.

Fýlungahilla (n, kvk)  Sylla/stallur/gangur þar sem mikið verpur af múkka/fýlunga.  „Miðhald er aðeins austar en Kóngshaldarhryggur; aðeins þó heimar, ekki alveg beint niðuraf.  Það er aðallega fýlungahlla“  (AS; Örn.lýsing Breiðavíkur).

Fýlungaket (n, hk)  Kjöt af fýlsunga, en það var áður nýtt í Kollsvík.  „Afi sagði að fýlungaketið hefði verið þolanlegur matur en með dálítið sterkum keimi.  Hann hefði ekki verið hrifinn af því“.

Fýlungatekja (n, kvk)  Það tíðkaðist í Kollsvík fram yfir aldamótin 1900 að tekinn væri fýlungi til matar, og þá einkum í Hnífunum.  Einungis var tekinn unginn og hyllst til að ná honum rétt áður en hann varð fleygur.  Þá er hann sílspikaður og næringarrík fæða.  Þetta hefur verið óþrifaverk, enda æla bæði ungi og foreldri fremur daunillum grút á þá sem nærri koma.  Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi talaði um að ketið hafi verið mjúkt, en með sterkum lýsiskeim.  Fýlungatekja var m.a. í Kofahelli og í Undirhlíðarflesi í Hnífum.

Fýlungavarp (n, hk)  Heyrðist hjá eldra fólki í Kollsvík, en þó einatt talað þar um múkkavarp.

Fýlungi (n, kk)  Múkki; fýll.  Nafnið á við fuglategundina (endingin –ungi á hér ekki við ungfugl fremur öðru, heldur er af sama meiði og t.d. í orðinu „sveitungi“), en orðið er litið notað í seinni tíð.  „Í 16.-17. viku sumars var farið í fýlunga og veiddist oft mikið.  Fýllinn var plokkaður en fiðrið þurfti að geymast lengi til að losna við lyktina áður en það var notað.  Mikið af því var selt.  Svo var fýllinn fleginn og saltaður; það sem ekki var borðað nýtt.  Laukurinn (fitan undir bumbunni) var bræddur til ljósmetis á kolur“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  Til var að orðið væri haft eins í nefnifalli og þolfalli:  „Þarna verða breytingar á gróðri eftir fuglalífi, t.d. fjölgar þar fýlungi“  (ÓS; Örnefnaskrá Lambavatns).  „Í Hreggshöfða mátti fyrrum fá eitthvað af fugli, en síðar vað þar aðallega ritupláss og fýlunga“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).  Líklegt er að orðið hafi í upphafi verið „fýlungur“ í nf. en síðan breyst í „fýlungi“, enda er það fyrrnefnda ekki síður gamalt í málinu annarsstaðar á landinu.

Fýlungsegg (n, hk)  Fýlsegg; múkkaegg.  „Eldra fólk, s.s. G.G. afi minn, talaði oftar um fýlungsegg en fýlsegg“.

Fýlupoki / Fýlupúki / Fýluskjóða Fúllynd persóna; sá sem er í fýlu.  „Vertu nú ekki þessi fýlupúki“.

Fýluróður (n, kk)  Róður sem ekki skilar afla á land.  „Það má segja að þetta hafi verið fýluróður hjá okkur“.

Fýlusvipur (n, kk)  Þungur svipur; svipmót þess sem er ekki í góðu skapi.

Fýlusuddi (n, kk)  Suddi; fýluveður; fúlviðri.  „Farðu nú í stakkinn svo þú blotnir ekki í þessum fýlusudda“.

Fýluveður (n, hk)  Fíngerður, þéttur regnúði og dimmviðri; vætutíð.  „Skelfing er ég leiður á þessu fýluveðri“.

Fýluþoka (n, kvk)  Þokusúld.  „Það þyrfti að setja yfir galtana svo þeir dropi ekki í þessari fýluþoku“.

Fýrverk (n, hk)  Rakettur; skotfæri.  „Það var kveikt í herjans miklu fýrverki um gamlárskvöldið“.

Fýsa (s)  A.  Langa; vera fús.  „Mig fýsir lítið að fara út í þetta veður“.  B.  Reka við; prumpa; leysa vind.

Fýsibelgur (n, kk)  Áhald sem notað er til eldsmíði; loftdæla til að auka súrefni/hita í deiglu.

Fýsilegt (l)  Ráðlegt; áhugavert.  „Mér sýnist bara ekkert fýsilegt að leggja af stað í þessu útliti“.

Fýsir augu illt að sjá (orðatiltæki)  Vísar til þeirrar áráttu margra að vilja helst trúa illu upp á aðra, eða hyggja fláræði búa undir öllu sem frá öðrum kemur, eða þykja slæmar fréttir áhugaverðari en góðar.

Fýsir eyrun illt að heyra ( orðatiltæki)  Vísar til áráttu manna að þykja varið í slæmar fréttir; jafnvel hrakfarir af náunganum eða illindum í sveitinni.  Sú árátta er ekki útdauð, samanber t.d. fréttaflutning fjölmiðla. 

Fýsisveppur (n, kk)  Kerlingareldur; skyrsveppur.  Sjá gorkúla.

Fæðast með silfurskeið í munni (orðtak)  Fæðast inn í efnaða fjölskyldu; vera af auðugum ættum.  „Það eru ekki allir fæddir með silfurskeiðina í kjaftinum eins og hann“!

Fæðingargalli (n, kk)  Vansköpun.

Fæðingarhálfviti (n, kk)  Skammaryrði; erkiheimskingi.  „Hvílíkur fæðingarhálfviti getur maðurinn verið“!

Fæðingarsylla (n, kvk)  Sylla/hilla í bjargi þar sem fugl hefur komið úr eggi.  „Bjargfuglinn bíður færis að komast fyrir á sinni fæðingarsyllu... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Fæðuskortur (n, kk)  Skortur á mat/fæðu.  „Víst má telja að matarkistan Kollsvík hafi bjargað mörgu fólki frá hungurdauða í þeim fæðuskorti sem fylgdi hallærum fyrr á öldum“.

Fægiskófla (n, kvk)  Fægiskúffa; stuttur spaði til að sópa uppá ryki af gólfum.  „Sæktu kúst og fægiskóflu“.  Var notað jöfnum höndum við „fægiskúffu“ í Kollsvík.

Fækka á fóðrum (orðtak)  Skera niður; slátra búfé til að fóðurbirgðir endist út veturinn.  „Ég er hræddur um að hann megi fækka verulega á fóðrum ef honum tekst ekki að kaupa sér meira hey“.  Stundum notað í líkingamáli um það að fólki fækki í heimili.

Fækkandi (l)  Verða færri.  „Þeim fer óðum fækkandi sem nota þetta orðalag“.

Fækkar (nú) um fína drætti (orðatiltæki)  Nú er orðið erfitt að fá það sem helst er vænst; nú fækkar kostum sem í boði eru.  „Það fækkar nú um fína drætti ef hann fæst ekki í verkið; ég veit ekki hver gæti unnið þetta“.  Líking sem vísar í tregt fiskirí.  Sjá fátt um fína drætti.

Fæla (n, kvk)  Mikið magn; ókjör; djöfuldómur; býsn; kynstur; aragrúi; gomma; ógrynni.  „Það var þvílík fæla af eggjum á þessum smástalli að ílátið dugði ekki“.  „Hann á fælu af bókum um þetta efni“.

Fær (l)  A. Fær um að klifra eða síga í bjargi; brattgengur.  „Jón Torfason á Hnjóti var þrekmenni mikið og talinn manna færastur í bjargi“  (MG; Látrabjarg). B. Um færð á vegi;  „Það er orðið sæmilega fært yfir Hálsinn núna“.  C.  Um sjóleið; unnt að sigla um.  „Töldum við að ekki væri fært sundið og fórum fyrir framan“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Fær í flestan sjó (orðtak)  Tilbúinn í hvað sem er; alveg reiðubúinn.  „Nú er ég fær í flestan sjó, fyrst ég hafði uppá vasahnífnum aftur“.  „Hann var kominn í hlífarnar og fær í flestan sjó“.  Sjá þykjast fær í flestan sjó.

Færa (n, kvk)  Vegalengd sem fært er um í einni atrennu.  „Best er að raka í tvo garða þegar hey er sett á heyvagn með handkvíslum.  Ef tveir eru að láta á, þá getur hvor mokað úr sínum garðinum við hverja færu“.

Færa (einhverri) á sængina (orðtak)  Færa sængurkonu sængurgjöf í tilefni barneignar.

Færa frá (orðtak)  Taka lömb undan kindum þegar þær eru mjólkaðar á stekk.  Sjá fráfærur.  „Hérna sat ég stundum yfir kvíaánum.  Fært var frá einu sinni eftir að ég man eftir.  Það var árið 1934.  Lömbin voru rekin inn í Sauðlauksdal til sumargöngu“  (IG; Sagt til vegar I).  

Færa (einhverjum) heim sanninn um (orðtak)  Sýna; sýna framá; leiða í ljós; sýna framá sannleika/staðreynd; kenna.  „Þetta færði mönnum heim sanninn um að þannig atvik hefðu eins getað gerst áður“.  Orðtakið er fornt.  Í Ljósvetningasögu segir er Norðlendingar sendu mann til Guðmundar ríka til að færa honum heim sanninn um þann baga sem þeir hefðu af fjölmennum yfirreiðum hans.

Færa í / Bera í (orðtök)  Festa ífæru í lúðu eða öðrum stórfiski sem á að innbyrða.

Færa í föt / Færa úr fötum (orðtök)  „Ætlardu ekki að fara að færa þig í fötin“?

Færa í letur (orðtak)  Skrifa; rita.  „Meiri leirburður hefur, held ég, aldrei verið í letur færður“.

Færa í stílinn (orðtak)  Ýkja; skálda.  „Sumir eru lagnir við þá list að færa skemmtilega í stílinn án þess að skaða neinn með grófum lygum eða slúðri.

Færa í tal (orðtak)  Brydda/brúa á; nefna; orða; minnast á; taka upp; ámálga; hreyfa; andvarpa um; hefja samræður um.  „Ég færði þetta aðeins í tal við hann, en hann tók því fremur þunglega“.

Færa rök fyrir (orðtak)  Rökstyðja; leiða rökum að; sanna.  „Fyrir þessu hafa verið færð gild rök“.

Færa sér í nyt (orðtak)  Nýta sér; notfæra sér; grípa tækifærið.  „Ég færði mér það í nyt þegar hann þurfi að anda, og kom að nokkrum andmælum“.

Færa sig um set (orðtak)  Flytja sig til; skipta um stað/sæti.  „Nú var farið að falla óþægilega mikið að, svo við færðum okkur um set og hlóðum annað byrgi ofar í fjörunni“.

Færa sig upp á skaftið (orðtak)  Færast í aukana; gerast djarfari/frekari; komast lengra.  „Þeir eru alltaf að færa sig meira upp á skaftið með þessa gjaldtöku“.  Líkingin er e.t.v. dregin af ár sem róið er af tveimur ræðurum.  Sá sem er nær síðu skipsins hefur líklega verið lægri að virðingu og honum var hættara við ágjöf og kulda.  Því var honum nokkur freisting að færa sig ofar eftir árahlummnum/skaftinr; einnig til að ná betra átaki.

Færa sig upp í bekkinn (orðtak)  Gerast frakkari/djarfari/ágengari; færast í aukana; færa sig upp á skaftið.  „Nú þykir mér hann vera farinn að færa sig nokkuð upp í bekkinn, ef hann heldur að ég fórni sjóveðri fyrir svona óþarfa“!  Líkingin er líklega forn, eða frá þeim tíma að menn skipuðust á misháa bekki í húsum/skálum eftir virðingarstöðu.  Sjá skörin færist upp í bekkinn; þétt setinn bekkurinn og bekkur.

Færa sönnur á (orðtak)  Færa sannanir fyrir; sanna; staðreyna.  „Engar sönnur hafa nokkrusinni verið færðar á þessa frásögn“.

Færa til betri/verri vegar (orðtök)  Skilja/endursegja málflutning á verri/betri veg en meintur er; gera ástand betra/verra.  „Heldur hefur ástandið færst til verri vegar, ef eitthvað er“.

Færa til bókar (orðtak)  Bóka; skrásetja; hripa/skrifa niður.  „Ég fór með honum í fjárhúsin til að „skrifa“; þ.e. færa til bókar nafn á kind sem fékk, og með hvaða hrút það var“.

Færa upp (orðtak)  Taka mat upp úr potti eftir suðu.  „Svo var allt fært upp og tínd úr þau bein sem náðust...“  (SG um hausastöppu; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Færa út kvíarnar (orðtak)  A.  Bókstafl:  Um færikvíar; stækka kvíarnar.  B.  Líking: Auka starfsemi.

Færafiskur (n, kk)  Fiskur sem veiddur er á handfæri, til að greiningar frá netafiski eða togarafiski.

Færaflækja (n, kvk)  Um það þegar tvö handfæri á sama báti flækjast saman. „Við skulum leyfa bátnum að stöðvast alveg áður en við rennum, til að lenda ekki í færaflækju“.

Færafriður (n, kk)  Nægilegt bil milli færa til að ekki flækist.  „Þú verður að gæta þess að hafa færafrið á milli okkar áður en þú rennir“. 

Færandi hendi (orðtak)  Með veglegar gjafir.  „Hann kom færandi hendi og gaf okkur lúðu í soðið“.

Færar leiðir (orðtak)  Fært til lendingar í Kollsvíkurveri.  „Ef í norðanátt braut á Giljaboða og Djúpboða í Kollsvík var ekki róið, enda voru þá tæpast færar leiðir“  (LK; Ísl.sjávarhættir III; heim. ÓETh)

Færast (allur) í aukana (orðtak)  Magnast; verða meiri/sterkari.  „Vertu nú ekki að mæla upp í honum bölvað montið; þá færist hann bara allur í aukana“.

Færast (mikið) í fang (orðtak)  Takast mikið á hendur; leggja í stórvirki; byrja á stóru verkefni; ætla sér um of; gleypa sólina.

Færast undan (orðtak)  Víkja sér undan (t.d. að svara); biðjast undan.

Færð (n, kvk)  Gengi til að ferðast.  Færð getur verið góð; þá er greiðfært, eða slæm og endað með ófærð.

Færi (n, hk)  A.  Færð til göngu/aksturs.  „Það er ágætis færi hér innyfir Hálsinn en Fjörurnar eru illfærar“.  B.  Tækifæri; möguleiki.  „Við sætum færis eftir næsta ólag og róum til lands“.  C.  Veiðitæki til skakveiða.  „Lengst af voru færi með einum krók, og stundum tveimur, en síðar með margra króka slóða“.  „Hann bauð mér að róa með sér með færi“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  D.  Bólfæri; fyrirsát; lína í enda nets/fiskilínu sem bauja/ból er fest við.  E.  Fjarlægð sem veiðibráð verður skotinn á.  „Refurinn snuddaði í kringum tófuhúsið en kom ekki í færi“.  „Ég held að þessi máfur ætli að gefa færi“.

Færishönk (n, kvk)  Uppgert færi.  Áður en færarúllur komu í báta voru færi hönkuð uppi í færishönk, en í seinni tíð hefur orðið táknað hverskonar hönk af bandi/línu:   „Höfum með okkur þessa færishönk í tildráttarband“.

Færislengd (n, kvk)  Lengd venjulegs færis til skakveiða; 60 faðmar.  „Snemma virðist sá háttur komast á að telja sextug (þ.e. 60 faðma) færi hæfilega löng“  (GG; Skútuöldin). 

Færist fjör/líf í leikinn (orðtak)  Lifnar yfir; eykst atgangurinn; byrjar ballið.  „Ef hann blandar sér í þessar deilur er hætt við að færist fjör í leikinn“.

Færist í aukana (orðtak)  Eykst; versnar.  „Sjór er lítt fallinn að, svo enn tekur allan kraft úr brimi, sem þó færist sífellt í aukana er það brotnar á Klökkunum“  (KJK; Kollsvíkurver).

Færist skörin upp í bekkinn (orðtak)  Verður full mikið af því góða; verður yfirdrifið.  „Mér finnst nú skörin vera að færast nokkuð mikið upp í bekkinn ef hann ætlast til að ég smali líka á morgun fyrir hann“!  Sjá; skörin færist upp í bekkinn.

Færleikur (n, kk)  Færni; hæfni.  „Svo lengi sem vitað er hefur steinn þessi verið notaður til æfinga fyrir þá sem vilja reyna færleik sinn“  (ÞJ; Örn.skrá Hvallátra).

Fæst orð hafa minnsta ábyrgð (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að tala ekki af sér.

Fætur hljóta búk að bera (en bolur höfuð) (orðatiltæki)  Rökvísi sem oft er gripið til, t.d. ef menn eru aumir/þreyttir í fótum.

Föðurbetrungur (n, kk)  Afkomandi sem þykir skara framúr föður sínum að tilteknu leyti. 

Föðurland (n, hk)  A.  Land sem maður er frá; heimaland; ættjörð.  B.  Nærbuxur með síðum skálmum.  Voru prjónaðar heima úr ull, áður fyrr; síðar aðkeyptar úr bómull.  „ Annars var „föðurlandið“ úr smáu tvinnuðu bandi“. (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Föðurleifð (n, kvk)  Land/jörð sem erfst hefur frá föður til afkomanda.  Sjá arfleifð.

Föðurleysingur (n, kk)  Föðurleysingi (eldri mynd).  „Heimilismenn Bjarna (bónda á ½ Kollsvík) 9; Jóns (á hinum jarðarhelmingnum) 9, með föðurleysingi sem sveitin gerir nokkurn lítinn styrk“ (ÁM/PV; Jarðabók). 

Föggur (n, kvk, fto)  Farangur; hafurtask; pinkill; böggull.  „Einhversstaðar ætti ég að hafa þetta í föggum mínum“.  „Viltu ekki hjálpa gestinum að bera inn föggur sínar“?  Í færeysku merkir „fjöggur“ gömul dula eða lúinn fatnaður.  Í sænsku merkir „foggor“ handraði eða felustaður.

Föl (n, ýmist kvk eða hk).  Þunn snjóhula á jörð; litur af snjó á jörð.  „Hann hefur eiginlega alveg tekið upp þessa litlu föl frá því í gær“.  „... gerði svolítið föl í nótt“ (HM í sendibréfi).  Oftar notað í kvk í seinni tíð.

Föl á jörð (orðtak)  Þunnt sýnilegt lag af snjó á jörð.  „Hann gerði föl á jörð í fyrrinótt“.  Ekki var yfirleitt notuð endingin „u“ með jörð í þágufalli; ekki fremur en „i“ í þágufalli t.d. báts.

Fölskvast (s)  Dofna; mást út.  „Þetta er kannski eitthvað farið að fölskvast í minningunni“.  „Skrúfaðu örlítið upp í lampanum; ljósið er heldur að fölskvast“.

Fölskvalaus (l)  Hrekklaus; sannur; án undirferla.  „Hún var einlæg og fölskvalaus og átti trúnað allra“.

Föndra (s)  Dunda; leika sér við.  „Ég hef verið að föndra við að koma þessu saman“.

Föngulegur (l)  Laglegur; eigulegur.  „Mér sýndist hann vera kominn með föngulegan kvenmann upp á arminn“.  „… og sumir huguðu að afrakstri sumarsins sem birtist í föngulegum og lagðprúðum haustlömbum.  Allt í einu heyrðist kallað úr almenningnum“  (PG; Veðmálið). 

Fönix (sérnafn)  Nafn á hákarla- og flutningaskipi Kollsvíkinga.  Um tvö skip er að ræða; eldri og síðari Fönix.  „Eldri Fönix var teinæringur og átti uppsátur í Kollsvíkurveri og Láganúpsveri.  Eigendur voru Guðrún Anna Magdalena Halldórsdóttir bóndi í Kollsvík og Halldór Ólafsson bóndi á Grundum.  Formaður á Fönix um árabil var Guðbjartur Ólafsson, bóndi á Grundum.  Fönix mun upphaflega hafa verið sexæringur, en smíðaður upp og stækkaður af Sturlu Einarssyni bónda í Vatnsdal, Einarssonar bónda á Hnjóti.  Fönix var stærsta hákarlaskipið í Rauðasandshreppi.  Honum er svo lýst að hann hafi verið glæsilegasta hákarlaskipið í sveitinni fyrr og síðar.  Í skutnum á þessu skipi var fjöl og á hana skorið:  „Farsæli Fönix.  Skipið frá Kollsvík“. Fönix var með strengjabita, en það var vænt tré að gildleika sem lá þvert um skipið um hálsþóftuna og út yfir borðstokkanaStjórafærinu var brugðið um strengjabitann er lagst var fyrir í hákarlalegum og var það kallað að liggja fyrir klofa.  Fór skipið þannig mun betur í sjó heldur en ef festinni væri brugðið um stefni.  Strengjabitinn náði það langt útfyrir borðstokka skipsins að tveir menn gátu haft handfestu á bitaendunum hvoru megin skipsins og haldið skipinu réttu í lendingu meðan borið var af.  Strengjabitinn tilheyrði farviði skipsins.  Fönix var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og flutningaskip í kaupstaðarferðum.  Hann var notaður til að flytja timbur úr skipinu Ossian fra Mandal sem strandaði undir Djúpadal í Látrabjargi árið 1878.  Ossian var hlaðið timbri og var það flutt inn í Keflavík, þar sem það var selt á uppboði.  Áhöfnin á Fönix var venjulega 11 til 12 menn.  Fönix var happaskip.  Endalok hans urðu þau sömu og flestra gæfuskipa:  Hann var rifinn uppúr aldamótum 1900 og efnið úr honum var notað sem árefti á hús í Kollsvík“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi; eftir KJK o.fl.).
Uppsátrið (í Kollsvíkurveri) var einkum í allbreiðum bás milli Syðri- og Norðari-Kletta.  ... Norðanvert í hólnum stóðu fjórar verbúðir, tvær og tvær saman, en milli þeirra var allstórt bátsnaust.  Þar hafði vetrarskjól Fönix; teinæringur allstór sem var hákarlaskip Kollsvíkinga; einnig notaður að sumrinu til skreiðar- og vöruflutninga.  Naustið féll þegar eldri Fönix leið undir lok, en var byggt upp að nýju þegar vélbáturinn Fönix síðari var keyptur.  Var það um 3ja lesta bátur; einkum ætlaður til flutninga. ... Meðan gamli Fönix var við líði lögðu skipshafnir saman og sóttu salt á honum til Patreksfjarðar.  Þessar ferðir voru alltaf farnar þegar veður var gott og einsýnt.
Um 1920 var síðari Fönix, 3ja lesta vélbátur, keyptur.  Var hann smíðaður fyrir Kollsvíkinga af Gísla Jóhannssyni skipasmið af Bíldudal.  Var bátur þessi eingöngu notaður til flutninga, þar til útgerð dróst svo mjög saman úr Kollsvíkurveri upp úr 1930, ásamt því að fólk fluttist þaðan burt.  Þá var báturinn seldur til Patreksfjarðar, tveim Kollsvíkingum sem áður höfðu verið, þeim Guðmundi Torfasyni og Andrési Karlssyni“  (KJK; Kollsvíkurver).  Kristján Júlíus reri úr Kollsvíkurveri og var um tíma formaður á síðari Fönix.
Yngri Fönix var með vél.  Ekki er vitað með vissu um seglabúnað eldri Fönix, en hann kann annaðhvort að hafa verið með loggortusegli (sjá þar), eða þversegli.

Fönn (n, kvk)  Djúpur snjór.  „Þarna var allt enn á kafi í fönn“.  „Það eru töluverðar fannir uppi í lautunum“.

För (n, kvk)  Ferð; ferðalag.  „Með í för voru tveir nemendur úr Arnarfirði…“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Förla / Förlast (s)  Daprast minni; gleyma.  „Nú er þér farið að förlast“.  „Dálítið er honum farið að förla“.

Föst í grindunum (orðtak)  Um kind; með einn eða fleiri fætur niðurámilli grindaspela.  „Það er ein föst í grindunum; réttu mér kúbeinið þarna“.  Þegar spelir fóru að slitna í grindum varð bil á milli þeirra meira, og þá var hætta á að kindur festust í grindum.  Mest var hættan í troðningi við gjafir.  Mikil hætta var á fótbrotum, eða öðrum lemstrunum við þetta.

Föst ofaní (orðtak)  Um sauðkind; föst í dýi/feni.  „Ég dró eina uppúr sem var föst ofaní.  Það veitti ekki af að endurreisa girðinguna kringum Grænukelduna“.

Föstudagur (n, kk)  Sjötti dagur vikunnar, sem oftast er talin byrja á sunndegi.  Nafnið vísar til föstuhalds í kaþólskum sið, en áður hét dagurinn frjádagur; sennilega kenndur við Freyju eða Frigg.

Föstudagurinn langi  Langi frjádagur; föstudagurinn fyrir páska.  Helgidagur meðal kristinna þjóða, þar sem þann dag er talið að Kristur hafi verið krossfestur.

Föstuinngangur (n, kk)  Fyrstu dagar þeirrar viku sem langafasta hefst í; þ.e. sunnudagur, mánudagur (bolludagur) og þriðjudagur (sprengidagur) á undan öskudegi.

Fötin skapa manninn (orðatiltæki)  Fötin gefa hverjum manni yfirbragð sem áhorfandinn reynir að dæma hann af; hafi hann ekki önnur viðmið.

Fötugarmur (n, kk)  Léleg fata; fötuskrifli.  „Það má kannski nota þennan götótta fötugarm undir egg“.

Fötumjaltakerfi (n, hk)  Mjólkurvél sem byggir á því að kerfi loftlagna með undirþrýstingi liggur um fjósið.  Hver kú er mjólkuð með sérstakri mjaltafötu með sogskipti sem tengdur er lögninni.  Spenahylkjum er brugðið á spena kúarinnar og sogpúlsar í hylkjunum mjólka kúna.  Mjólkin rennur síðan í fötuna, sem borin er á milli kúa þegar mjólkað er, og tæmd í mjólkurtank.  Fötumjaltakerfi var á Láganúpi og í Kollsvík, meðan þar var mjólkurframleiðsla til sölu, en ekki rörmjaltakerfi.

Fötuskaði (n, kk)  Tjón sem verður við það að eggjfata hrapar/fýkur í eggjaferð.  „Ég varð fyrir fötuskaða þarna á Höfðanum“.

Leita