Babb í bátinn (orðtak)  Ófyrirséð vandamál; hindrun; strik í reikninginn.  „Þegar átti að fara að blóðga kom babb í bátinn; hnífurinn hafði gleymst í landi“.  Talið er að babb merki ógreinilegt tal; babl.  Orðtakið gæti því vísað til þess að óánægjutónn sé kominn í áhöfn báts, t.d. vegna ákvörðunar formanns.

Babl (n, hk)  Blaður; óskiljanlegt tal; þvæla.  „Maður er litlu nær eftir að hlusta á þetta bévítans babl“.

Babla (s)  Segja óhönduglega; blaðra; þvæla.  „Um hvað er maðurinn eiginlega að babla“?

Bað (n, hk)  A.  Stytting úr baðker.  „Ég man þá tíð að hvorki var bað né klósett í íbúðarhúsi á Láganúpi.  Stutt frá húsinu var útikamar á steyptri þró.  Fólk þvoði sinn búk með þvottapoka uppúr vaskafati eins og löngum hafði verið gert.  Það var svo uppút 1960 að verkfærahúsið var byggt, og í því var kolakyntur þvottapottur og steinsteypt baðþró.  Þetta var mikil framför, jafnvel þó stundum hafi verið kalt að fara þar í bað í hörkufrosti.  Síðar kom stutt setbað inni í íbúðarhúsi, ásamt vatnsklósetti“.  B.  Það að baða sig.  „Nú er kominn tími á að drífa sig í bað“.

Baða (s)  Þvo/bleyta rækilega; þvo í baðkeri.  „Mikill ansvíti er nú að sjá þig drengur; varstu að baða þig uppúr drullupollinum“?!

Baða í rósum (orðtak)  Lifa í vellystingum; hafa það mjög gott.  „Ég held að menn baði ekkert í rósum eftir þessa vertíð“.

Baða út öllum öngum / Baða höndum (orðtak)  Vera með mikið handapat; veifa höndum (og fótum) af ákafa.  „Hann kom fljótt úr kafi og baðaði út öllum öngum“.

Baða vængjunum (orðtak)  Um fugl; blaka vængjunum; hreyfa þanda vængi án þess að fljúga.

Baðaður í drullu/for (orðtak)  Ataður skít/for.  „Déskoti er nú að sjá þig strákur; af hverju ertu svona baðaður í for?  Dastu í fjóshauginn eða hvað“?!

Baðhiti (n, kk)  Hitasvækja.  „Það verður óþolandi baðhiti í húsinu í þessari mollu“.

Baðlyf / Baðlögur (n, hk/kk)  Lyf sem notað í baðvatn við fjárböðun.  Baðlögur var stundum notað um blandað baðvatnið.

Baðstjóri (n, kk)  Stjórnandi fjárböðunar, ráðinn af hreppsnefnd.

Baðstjórn (n, kvk)  Stjórnun fjárböðunar.  Til þess var starfandi baðstjóri á vegum hreppsnefndar.

Baðstofa (n, kvk)  Helsti veru- og vinnustaður fólks innanbæjar á fyrri tíð.  Vera kann að Kollur landnámsmaður hafi reist baðstofu við skála sinn.  Í þann tíð var skálinn sérstakt baðhús sem tengdist skálanum oft með göngum, en síðar varð hún hluti af bæjarsamstæðunni; sá staður sem hlýjastur var og fólk hélt sig helst.  Þar svaf heimilisfólk; vann tóvinnu og aðra innivinnu; þar voru lesnir húslestrar, kveðnar rímur og fleira.  Baðstofa var við líði í Kollsvík allt til þess að hús fóru að byggjast af steisteypu og timbri á 20.öld.  .„Baðstofan sem ég man fyrst eftir var með moldargólfi.  Loft var yfir og þiljað upp fyrir rúmin; síðan var sett reisifjöl.  Reisifjöl var slétthefluð borð, óplægð, sett innan á sperrur í gömlum baðstofum; helluþöktum.  Stundum aðeins yfir rúmunum“  (H.M; Í Kollsvíkurveri; þáttur konunnar; Þorl.Bj; Sunnudbl.Þjóðv.1964). 

Baðstofuloft (n, hk)  Baðstofa á efri hæð húss.  Átti einkum við um fjósbaðstofur, sem algengar voru fyrr á tíð.  „Sama ár, í ágústmánuði, dreymir mig að stúlka kemur upp á baðstofuloftið svo snemma dags að ég er ekki kominn á fætur“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Baðþró (n, kvk)  A.  Steinsteypt gryfja til að baða sauðfé.  Á 20. öld var bændum gert skylt að baða allt fé gegn kláðamaur.  Á flestum bæjum var í því skyni steypt baðþró, fremst í jötu fjárhúss.  Þróin þurfti að vera um mannhæð að dýpt og var vanalega með tröppum ofantil svo ærin gæti fótað sig uppúr.  Böðun fór þannig fram að vatn var látið renna í þróna; blandað við það snarpheitu til að taka úr því kulið og einnig sérstöku baðefni í duft- eða vökvaformi.  Hópur fjár í örðum karmi fjárhússins var rekinn að þrónni, en þar hafði jötubandið verið fjarlægt.  Þar lyftu tveir menn kindinni upp í þróna; færðu hana á kaf í vatnið og héldu niðri smástund, þó þannig að hún gat andað.  Hún var svo fljót að krafsa sig upp þegar hún fann tröppurnar.  Í jötunni var vatnshalli niður í þróna og voru ærnar látnar standa þar um stund meðan seig af þeim mesta bleytan, áður en þeim var hleypt niður í karminn hinumegin.  Til böðunar var reynt að velja dag með sæmilegu veðri, þannig að féð ofkældist ekki meðan það var að þorna.  Eins og um mörg viðameiri verk hjálpuðust Kollsvíkingar að við sauðfjárböðun.  Þetta var óþrifaverk og þurftu baðmenn að vera hlífaðir.  Sérstakur böðunarstjóri var skipaður í sveitinni sem líta skyldi eftir framkvæmdinni.  Sauðfjárböðunum var hætt upp úr 1970, þar sem lyfjagjöf leysti þær af hólmi.  B.  Steinsteypt þró til böðunar á fólki; millistig áður en almennt var farið að setja baðker í íbúðarhús.  Þannig baðþró var t.d. steypt í verkfærahús sem byggt var á Láganúpi um 1962.  Sérstakt horn í húsinu var ætlað til böðunar og þvotta; nefnt þvottahús, með steyptu gólfi og niðurfalli.  Baðþróin var í einu horni þess (og er enn 2013) en í gagnstæðu horni var stór þvottapottur þar sem vatn var hitað yfir eldi af kolum eða viði.  Tappi var rekinn í baðþróna og ausið í hana vatni úr pottinum, blandað köldu þar til það var hæfilega volgt.  Þetta var mikil framför frá þvotti upp úr fati eða bala, eins og áður tíðkaðist.  Að vetrarlagi gat orðið nokkuð kaldsamt að koma uppúr baðinu, þar sem húsið var ekki einangrað, en enginn beið af því tjón.  Böðun með þessu móti stóð ekki mörg ár, þar sem fljótlega kom baðker í íbúðarhúsið.  Þvottapotturinn mikli var einnig notaður til þvotta á fatnaði og til slátursuðu að hausti. 

Baga (s)  Há; ama; hindra.  „Þessi fótmeiðsli eru dálítið að baga mig núna“.

Bagaður (l)  Fatlaður; hamlaður; gallaður.  „Hrúturinn er eitthvað bagaður.  Kannski hornin séu að meiða hann“.

Bagalegt (l)  Slæmt; til vandræða/skaða.  „Ansi var það bagalegt að bjóta gleraugun“.

Bagga hey (orðtak)  Binda hey í bagga til flutnings.

Baggaheyskapur (n, kk)  Um tíma tíðkaðist að vélbinda hey í bagga í Kollsvík.  Fram að þeim tíma hafði hey verið flutt og geymt laust.  Fengin var baggabindivél sem þjappaði fullþurrkuðu heyi í bagga og batt um með baggaböndum.  Baggarnir voru tíndir upp á heyvagn og staflað í hlöðu.  Vel þurfti að stafla ef súgþurrkun átti að gagnast, en best var að fullþurrka heyið fyrir hirðingu.  Baggaheyskapur lagðist af eftir nokkur ár, þar sem var komin rúllubindivél sem sparaði erfiði og breytti heyskap verulega.

Baggalútur (n, kk)  A.  Líkingamál um smástrák.  B.  Litlar kúlur sem verða stundum til við líparítgos, stundum samhangandi.  Finnast ekki í blágrýtismyndun.

Baggatækur (l)  Vel að manni; burðarmikill; sterkur; ræður við heybagga.  „Þetta er einn aflraunasteinninn og heitir Klofi.  Er sá vel baggatækur sem lyftir honum svo vel sé“  (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra“. 

Baggi (n, kk)  A.  Böggull; pinkill; hverskonar farangur eða annað sem pakkað hefur verið inn/saman.  B.  Byrði; þyngsli.  „Þessi skuld er allmikill baggi á honum“.

Bagi (n, kk)  Ami; erfiðleikar.  „Sandurinn hefur stundum orðið töluvert til baga“. Sjá meinbagi.

Bak (n, hk)  A.  Bak á manni, stól, fötum, húsi eða öðru slíku.  B.  Flettingur utan af tré; kúptur öðrumegin en sléttur hinumegin.  Bak má nýta sem máttarvið í hús; brýr o.fl, eða fletta því í renninga.  Sjá afbaka.  C.  Stytting úr bakborði/bakborð.  „Baujan er svolítið á bak“.  „Leggðu á hann hart í bak“!

Baka (s)  A.  Um setningu á bát; þegar maður snýr baki í skut eða sax og lyftir undir um leið og bátnum er ýtt í þá stefnu sem ætlað er; annaðhvort upp í sátur eða til sjávar.  Venjulega baka a.m.k. tveir í einu; sinn hvoru megin bátsins.  Stundum er líka hentugt að baka til að lyfta bátnum upp á hlunna eða annað.  Mikilvægt er að vel sé stutt við á meðan.  Bátar voru bakaðir t.d. þegar þeim var snúið í rétta stefnu og þegar þeim var vent á hvolftré til geymslu.  „Haltu vel við á meðan við förum undir skutinn til að baka“.  „Svo röðuðum við okkur á bátinn og felldum skorður undan.  Tveir bökuðu aftan; einn studdi miðskips og einn ýtti að framan“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).  B.  Um flettingu trjábols; höggva/saga sléttan flöt á eina hlið bolsins, svo unnt sé að strika fyrir sögun.  C.  Tilreiða brauð og aðra rétti með hitun.

Baka sér erfiði/skaða/tjón (orðtök)  Auka sér erfiði; valda sjálfum sér tjóni/skaða.  

Bakaferð / Bakaleið (n, kvk)  Ferðalag/leið til baka.  „Við erum ekkert að þvæla þessari letibykkju á rétt; við tökum hana með okkur í bakaleiðinni“.  „Bakaferðin gekk áfallalaust“.

Bakatil (ao)  Fyrir aftan; aftanvið.  „Sæktu fyrir mig rekuna.  Hún er bakatil við verkfærahúsið“.  Tekur oft með sér smáorðið „við“.  „Stórhæð er Bakatil við Móbergsdal; fjallbunga sem liggur allt að botni Patreksfjarðar“ (BÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).

Bakbelta sig (orðtak)  Setja á sig bakbelti í skinnklæðum..  „Menn bakbeltuðu sig ekki nema þegar sjógangur var mikill og í brimlendingu“ (EÓ; Skinnklæðagerð).  „Klæðst var brók og skinnstakki nær daglega við að bera fisk úr fjöru til ruðnings.  Þegar meiri vöðsluverk voru unnin, t.d. borinn farmur af skipi, þ.e. stærri flutningabátum í nokkru brimi, bjuggust menn svo sem best mátti vera eða bakbeltuðust.  Það var þannig að eftir að klæðst hafði verið brók og skinnstakki og bróklindi gyrtur, var öðrum linda brugðið utanum stakkinn og hann girtur fast að brókinni, en endanum síðan brugðið fram á milli fóta og festur í mittislindann.  Þannig búnir vörðust menn vætu, þótt bárur skvettust hærra en brækur náðu“ (KJK; Kollsvíkurver). (Nánar;skinnkæði)

Bakborði  / Bakborð (n, kk/hk)  Vinstri hlið báts; til vinstri við stefnu báts; gagnstætt við stjórnborða.  Komið frá þeim tíma þegar stýri skips var á hlið skips, aftantil.  Stýrið var alltaf hægra megin og sneri stýrimaður þá oft baki í hitt borðið, sem af því dregur nafn síðan.  Stjórntæki í brú síðari skipa eru jafnan stjórnborðsmegin.  „Á sama augnabliki vék Árni bátnum í bak og bað um fulla ferð“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Bakborðsmegin (ao)  Á bakborða; vinstra megin báts.

Bakborðssíða (n, kvk)  Bakborðshlið á bát.

Bakfiskur (n, kk)  Vöðvar í baki.  Upprunalega notað um fiskhold í baki, en meira notað nú í líkingamáli um viljastyrk manns.  „Það er nú ekki beysinn í honum bakfiskurinn; blessuðum armingjanum“.

Bakföll (n, hk, fto)  Það að reigja sig afturábak.  Gerist stundum þegar hlegið er innilega; einnig þegar tekið er á t.d. þegar dreginn er sigari í bjargi eða báti róið.  Sjá róa bakföllum.

Bakhjarl (n, kk)  Stuðningsaðili.  „Þau reyndust honum öflugir bakhjarlar á námsárunum“.  Líklega er endingin „hjarl“ eldra heiti á hjör á hurð, og bakhjarl er þá staflinn í dyrastafnum sem heldur við hurðina.

Bakhlaðningur (n, kk)  Byssa sem hlaðin er aftanfrá; ekki framhlaðningur.

Bakhluti (n, kk)  Oftast notað um rasskinnar manneskju.  „Réttast væri að dangla aðeins í bakhlutann á þessum þrjótum fyrir tiltækið“!

Bakholdamikill (l)  Sterkur; með mikla vöðva á baki og herðum.  „„Stelpurnar mínar“, sagði ég við Guðjón og skyrpti útúr mér söltum sjó.  „Voru þær svona fjandi bakholdamiklar; eins og þessi sem er að koma þarna“?  Ég leit fram:  Æðandi brotsjór kom á móti okkur og reis hátt“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Bakhönd (n, kvk)  A.  Um röð spilara t.d. í vist; rasshönd; síðastur til að láta út.  B.  Afleidd merking í orðatiltæki; vera með óvænt úrræði.  „Maður á nú kannski einhver ráð í bakhöndinni, ef illa fer“.

Bakk (n, hk)  Stig það í gírskiptingu farartkis sem lætur það ganga afturábak.  „Farmallinn vildi festast í bakkinu, vegna slits í gírstangarendanum“.

Bakka (s)  A.  Festa bakka á ljá.  B.  Um farartæki; fara afturábak.  C.  Líkingamál um mann; gefa eftir sína málafylgju; láta undan. 

Bakkafullur (n, kk)  Um læk; fullur upp á bakka, t.d. af vatnavöxtum í leysingum.  „Áin er bakkafull og gjörsamlega ófær“.

Bakkaljár (n, kk)  Torfaljár; skoskur ljár.  Ljáir sem Torfi Bjarnason í Ólafsdal kynnti fyrir Íslendingum á síðari hluta 19.aldar.  Ljáblaðið var mjög þunnt og úr slitsterku stáli, og var hnoðað á bakka með áföstu þjói.  Með þessum ljáum varð denging óþörf.  Voru bakkaljáir allmikið notaðir þar til Eylandsljáir komu til sögunnar, sem lagðir voru á hverfistein til skerpingar.

Bakkasög (n, kvk)  Sög með þykkri styrkingu á bakkanti, vanalega með stuttu og breiðu blaði og gerð til að saga fremur grunnt sagarfar.

Bakkelsi (n, hk)  Meðlæti; kökur.  „Vertu ekki að koma með neitt bakkelsi, en það væri gott að fá kaffi“.

Bakki (n, kk)  A.  Áberandi hækkun í landslagi; brysti; barð.  Bakkar er heiti á sjávarbökkunum neðan Grunda og Láganúps.  B.  Samfelldur láréttur dimmur skýjaflóki.  Oftast notað í Kollsvík yfir skýjaþykkni sem sést í norðurátt þegar norðanvindur blæs eða er væntanlegur.  C.  Aftari brún eggjárns.  D.  Flatt ílát sem t.d. er notað til að bera fram matvæli, s.s. bakkelsi og þorrablótsmat.  Einnig var rjómi fyrrum látinn skilja sig í bakka, sem síðan var hallað til að hella undanrennunni undan. 

Bakki í hafið / Bakki til hafsins (orðtak)  Staðbundið skýjafar í Kollsvík; notað þegar dökkur, samfelldur skýjabakki sást við hafsbrún í norðurátt frá Handanbæjunum.  Þetta var eitt vísasta merkið um ákveðna norðanátt, en hún var yfirleitt trygging fyrir þurrki.  Bakki til hafsins var því góðs viti varðandi heyskap.  Hinsvegar þótti uggvænlegt ef hann varð eyddur til hafsins, og þá þótti rétt að fara að raka upp.  „Mér sýnist hann vera að koma fyrir sig bakka í hafið.  Við ættum líklega að fara að slá meira niður“.

Baklás (n, hk)  Bilun í læsingu, þannig að lykill virkar ekki sem skyldi til að taka úr lás.  Sjá hlaupa í baklás.

Bakmælgi (n, kvk)  Illt umtal; rógur; baktal.

Baknag (n, hk)  Baktal; slúður; rógburður; skolt.  „Mér líkar illa þetta leiðinda baknag hjá þeim“.

Bakpokakútur (n, kk)  Plastkútur sem getur fallið ofaní bakpoka.  Fremur litlir kantaðir kútar undanmaurasýru hentuðu vel í slíkt.  Voru bakpokakútar notaðir til að bera múkka- eða svartfuglsegg og fóru mjög þægilega á baki.  Þeir tóku um 100 egg, eftir því hverrar tegundar þau voru.

Bakpokalýður (n, kk)  Fólk sem flækist um í tilgangsleysi, oft með bakpoka.  Orðið var stundum notað af heimafólki um ferðafólk þegar það fór fyrst að sjást í ystu byggðum landsins.  Heimafólk hafði lifað við það alla ævi, og mann fram af manni, að vinna hörðum höndum frá morgni til kvölds við búskap og sjósókn.  Það var því skiljanlega erfitt fyrir það að finna ástæðu eða réttlætingu fyrir þessum flækingi og landeyðuhætti hjá fullhraustu fólki.  Ferðafólk áttaði sig ekki alltaf á friðhelgi ræktaðra túna og taldi sig í fullum rétti til að fara um eignarlönd án þess að gera vart við sig að siðaðra manna hætti.  Sumir gleymdu jafnvel að loka hliðum!  Ofan á það bættist að ferðafólk þurfti stundum að leita aðstoðar eða ásjár heimamanna þegar það varð bensínlaust eða þegar bílar biluðu á misgóðum vegum.  Segja má að ferðaþjónusta hafi hafist í Rauðasandshreppi þegar Breiðavíkurbændur, Jónas H. Jónsson og Arnheiður Guðnadóttir, hófu gistiheimilisrekstur sem aðalatvinnu.  Hneyksluðust flestir á þeirri „firru“ og spáðu þeirri búgrein stuttri ævi.  Ferðaþjónusta er nú öflugasta atvinnugreinin í gamla Rauðasandshreppi og sumir þeirra sem mest hneyksluðust eru nú sjálfir orðnir ferðaþjónustubændur að aðalatvinnu.  Segja má að „bakpokalýðurinn“ sé orðinn mikilvægari skepna en búfé og þorskur í lífsafkomu íbúa á þessum ystu byggðum.

Bakpoki (n, kk)  Sekkur sem borinn er á bakinu, með hentugum ólum til þess og gjarnan stoðgrind.  Bakpokar í þeirri mynd fóru líklega ekki að tíðkast fyrr en á 20.öld.

Bakpottur (n, kk)  Pottur á eldavél sem í var haft heitt vatn til að grípa til.  Tók nafn sitt af því að hann var vanalega bakvið þá potta sem verið var að elda í.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Bakraun (n, kvk)  Erfiðisvinna með álagi á bakið.  „Grjóthleðsla er hin mesta bakraun til lengdar“.

Baks (n, hk)  Puð; erfiði; streð.  „Þetta verður eilífðar baks með þessu vinnulagi“.

Baksa (s)  Streða; erfiða.  „Ég baksaði við það lengi dags að ná traktornum úr festunni“.  Orðið er líklega komið úr sjómannamáli; af þeirri bakraun sem fylgir róðri gegn straumum og vindum.

Baksegl (n, hk)  Sú hlið á bátsegli sem er hlémegin.  Sjá slá í bakseglin.

Bakskaut (n, hk)  Katóða; mínuspóll á raftæki.  Plúspóllinn nefnist forskaut.  Bæði heiti lítt notuð í seinni tíð.

Bakskauti (n, kk)  Fremri skautinn í ræði á bát; skautinn sem veit að róðrarmanni; róðrarskauti.  Skautar voru tveir hælar á borðstokk sem árin lék milli þegar róið var, áður en tolluræði kom til.  Gjarnan úr hörðu efni.

Bakslag (n, hk)  A.  Það að slá til baka; högg sem kemur til baka.  T.d. þurfti að gæta sín á bakslagi þegar bíl- eða traktorsvél var sett í gang handvirkt, þar sem hún gat „slegið til baka“ þ.e. gefið neista á röngum tíma og þá slegið illilega í hönd þess sem sveifinni sneri.  B.  Afturkippur.  „Eitthvað bakslag kom í samningaviðræðurnar undir það síðasta“.

Bakstur (n, kk)  A.  Það að baka brauð/köku.  „Það er með öllu óskiljanlegt hvernig mamma fór að því að koma öllu í verk sem hún gerði.  Á sama degi að sumarlagi sá hún að fullu um matseld fyrir fjölmennt heimili; heimilisþrif og þvotta; fataviðgerðir og gestamóttöku; heyskap og hirðingar; mjaltir og mjókurvinnslu og gaf sér jafnvel tíma til að sinna sinni listsköpun eftir að búið var að koma unviðinu í bælið“.  B.  Brauð, kökur og annað sem bakað er.  C.  Heitt eða kalt klæði sem sett er við eymsli/bólgu.

Bakstur (n, hk)  Basl; erfiðismunir; bjástur.  „Ég var löðursveittur eftir allt þetta bakstur og basl“.  „Það kostaði okkur allnokkuð bakstur að bjarga trénu undan sjó“.

Bakstursofn (n, kk)  Bökunarofn í eldavél.  almennt nefndur svo áður, en nú veður uppi orðskrípið „bakarofn“.

Baksund (n, hk)  Sú aðferð sunds að snúa brjósti og andliti upp og aftur meðan synt er.

Baksvipur (n, kk)  Svipmót manneskju, séð aftanfrá.  „Ég þekkti hann strax á baksvipnum“.

Baksýn (n, kvk)  Það sem sést aftanvið það sem er í forgrunni, t.d. á mynd.

Baktal (n, hk)  Rógur; bakmælgi; baknag

Baktala /Baknaga (s)  Tala illa um einhvern sem ekki er viðstaddur.  „Ég vil ekki heyra svona baktal“!

Baktería (n, kvk)  Dreifkjarna fruma sem lifir sjálfstæðu lífi og telst því sérstök lífvera.  Hún vinnur sér næringu og fjölgar sér.  Algeng stærð er 1/1000 mm.  Talið elsta form lífs á jörðinni.  Tegundafjöldi baktería er gríðarlegur og svo er einnig um áhrif þeirra á umhverfið.  Sumar bakteríur teljast meindýr í samlífi við menn og skepnur, og valda jafnvel alvarlegum sýkingum.  Aðrar teljast skaðlausar og sumar jafnvel nauðsynlegar, s.s. mjólkursýrubakteríur.  Í einum millilítra af sjó eða grammi af mold geta verið margar þúsundir baktería. 

Baktjaldamakk (n, hk)  Brall/ráðabrugg bakvið tjöldin.

Bakveikur (l)  Slæmur í baki; með bakverk; þolir illa átak á bakið.

Bakverkur (n, kk)  Eymsli í baki, t.d. vegna brjóskloss, giktar eða annars.

Bakvið (fs)  Fyrir aftan; aftanvið. 

Bakvið lás og slá (orðtak)  Í fangelsi. 

Bakvið tjöldin (orðtak)  Um það sem ekki er gert fyrir opnum tjöldum/ opinberlega.

Bakþankar (n, kk, fto)  Eftirþankar; eftirsjá; efi.  „Ég var með bakþanka yfir því hvort ég hefði nóg bensín fyrir alla þessa leið“.  Sjá fá bakþanka.

Baldera (s)  Sauma út skrautsaum, stundum með gull- eða silfursaumi; bródera.

Baldering (n, kvk)  Útsaumur; skrautsaumur; bródering.

Baldinn (l)  Óþægur; uppreisnargjarn; illur viðureignar.  „Gummi var á æskuárum sínum nokkuð baldinn eins og títt er um fjörmikla krakka“  (PG; Veðmálið). 

Baldni (n, kvk)  Óþægð; uppreisn; mótspyrna.  „Ansans baldni er í kálfskrattanum“!

Baldursbrá (n, kvk)  Matricaria maritimum.  Fjölær jurt af körfublómaætt; algeng á þurrum stöðum t.d. á holtum og börðum; víða í Kollsvík sem annarsstaðar um norðanverða Evrópu.  Ber áberandi stóra hvíta blómkörfu með gulu auga.  Jurtin verður 10-60 cm há; stöngull uppréttur með stofnstæðum fjaðurskiptum blöðum.  Blómgast í júní-júlí.  Þekkt lækningajurt; sögð góð við mörgum kvensjúkdómum; einnig til að leggja við eyra við tannpínu.  Seyðið var notað í te og blöðin í súpur.  Björn í Sauðlauksdal segir baldursbrá vera afleita til fóðurs, þar sem hún þorni illa og gefi frá sér fælandi lykt.  Nafnið vísar til augnaráðs Baldurs hinn góða; ássins sem skotinn var til bana af Höður blinda fyrir áeggjan Loka Laufeyjarsonar.

Bali (n, kk)  A.  Harður gróinn og gjarnan sléttur jarðvegur; barð/mishæð í landslagi.  B.  Stórt ílát, vítt í hlutfalli við dýptina. 

Bali á ermi (orðtak) ...óljós merking....(e.t.v. óvandaður saumaskapur)  (Orðasafn IG).

Ball (n, hk, linur frb)  Dansleikur; skemmtun; fjör.  „Fólk lagði ýmislegt á sig til að komast á böllinn fyrr á tíð.  Eftir að traktor kom í Kollsvík var honum beitt fyrir kerru sem tjaldað var yfir, en í henni var prúðbúið fólk flutt á ball, t.d. í þinghúsinu á Leiti í Örlygshöfn“. 

Ballarhaf (n, hk)  Opið haf; rúmsjór.  „Þeir fengu töluverðan afla einhversstaðar lengst úti á ballarhafi“.  Böllur vísar líklega til hinna sveru sjóa sem algengari eru á úthafi en við land; líking við böll (getnaðarlim) eða bullu.  „Inni á grunni unni ég þunnu fangi,/ meðan þeir um þanið haf/ þrælast út í ballarhaf“  (JR; Rósarímur). 

Ballest (n, kvk)  Kjölfesta í skipi.  Upprunaleg stafsetning er líklega „barlest“

Ballfær / Ballklár (l)  Hæfur/tilbúinn til að fara á ball/dansleik; vel þrifinn/þveginn.  „Þú ert varla ballfær fyrr en þú ert búinn að skrúbba af þér mestu skítaskánirnar“.  „Þá held ég að maður sé að verða ballklár“.

Balli (n, kk, linur frb.)  Stór poki.  „Ég sendi tvo stóra balla af hvítri upp og einn af mislitri; auk eins pokaskjatta“. 

Bambus (n, kk)  Spanskreyr; stóraxin hitabeltisjurt af grasaætt, með holum stönglum.  Holrúmið skiptist í mörg hólf.  Bambusjurtir finnast í mismunandi loftslagi, en einkum kringum og sunnanvið miðbaug jarðar.  Bambus er notaður til margra hluta; smíða, vefnaðar, lækninga og matar.  Hérlendis er bambus notaður allmikið við fiskveiðar; í baujur og krókstjaka.  Slíkt týnist oft, og rekur þá á fjörur t.d. í Kollsvík.  Sjá bambussöng.  Í Kollsvík og víðar var bambus oft nefndur spanskreyr, en í raun er þar um aðra jurt að ræða.

Bambuskarfa (n, kvk)  Karfa fléttuð úr bambustágum.  Bambuskörfur voru mikið notaðar undir fisk áður en plastílát leystu þær af hólmi.  Mikið rak af þeim í Kollsvík og víðar, og voru þær mjög hentugar til gjafa á votheyi.  Heyið var þá borið í þeim frá votheysgryfju að jötu.  Mælieiningin var þá svo og svo margar körfur á jötuna, en átt var við nokkuð kúfaðar körfur.

Bambusleggur (n, kk)  Hluti úr bambusstöng.  „Fyrstu prjónar sem ég man eftir voru stálprjónar, og svo man ég eftir kopar- eða eirprjónum sem ég held að hafi verið heimasmíðaðir. En aðallega voru notaðir tréprjónar, heimasmíðaðir. Voru þeir úr bambuslegg sem mikið rak af á Rauðasandi. Þetta var einstaklega heppilegt efni í prjóna. Leggirnir voru klofnir niður og skornir til eftir því hvað þeir áttu að vera grófir. Notað var ysta lagið á leggnum. Svo voru prjónarnir skafnir vel og vandlega og pússaðir með sandpappír þar til þeir voru alveg örðulausir og hálir. Við systkinin smíðuðum okkur prjóna og mér fannst mun meira gaman að framleiða prjónana en prjónlesið! Þessir tréprjónar þóttu fara mun betur með hendur prjónakvenna en stálprjónarnir sem voru taldir orsaka handadofa“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Bambusstöng (n, kvk)  Bambusstengur voru notaðar í baujur áður en álið leysti þær af hólmi.  Stórar stengur voru notaðar á stærri línubátum og ráku oft á fjörur í Kollsvík.  Minni stengur voru notaðar á baujur smábáta, t.d. á niðristöður grásleppuneta.  Einnig notuðu börn þær í sköft á brönduháfa; í dorg o.fl..

Bana (s)  Deyða; slátra.  „Enginn vissi í raun hvað hafði banað honum“.  „Ég skýt helst ekki á veiðidýr ef ég er ekki nokkuð viss um að geta banað því í fyrsta skoti“.

Banabeður / Banasæng (n, kk/kvk)  Dánarbeður; andlátslega; það að liggja fyrir dauðanum.  „Hann uppljóstraði þessu á banabeði“.

Banabiti (n, kk)  A.  Manndrápsbein; lítið bein neðst á kjálkafiskinum innanverðum í þorskhaus (sjá þar).  Það var numið burt úr kjálkafiskinum, en væri það ekki gert átti sá hluti sem beinið var í að valda dauða þess sem á, og því nefnt banabiti  (LK; Ísl sjávarhættir IV).  B.  Afleidd merking; orsök þess að eitthvað endar eða eyðileggst.  „Það gleymdist að setja frostlög á vélina og það varð hennar banabiti þegar kólnaði í tíðinni“.

Banaklefi (n, kk)  Skotklefi; klefi í sláturhúsi þar sem sláturfé er skotið.  „Í nokkur haust í kringum fermingaraldurinn vann ég sem réttarmaður í sláturhúsinu á Gjögrum.  Mitt hlutverk var að ná sláturlömbum í réttinni; athuga mörk á þeim og stundum skrá númer; og síðan rétta þau skotmanni fram í banaklefann; eitt og eitt í einu.  Þess var gætt að láta lömbin í réttinni verða sem minnst vör við slátrun hinna og var lokuð hurð á milli.  Faðir minn var oftast skotmaður á þeim tima.  Ég leysti hann af einhverja dagstund, en kunni því starfi ekki vel.  Mikilvægt er, þegar lamb hefur verið skotið með rotbyssu sem þá var notuð, að skera strax á hálsæðar og láta blæða til að ketið verði ekki blóðhlaupið.  Stundum vann ég við að hræra í blóði, sem hirt var til sláturgerðar.  Þá er fat sett undir blóðbununa strax og banaklefinn hefur verið opnaður og svo þarf að hræra rösklega í meðan blóðið er að kólna til að ekki myndist blóðlifrar.  Til öryggis er blóðinu hellt í gegnum grisju í stærra ílát, og það síðan kælt betur.  Þegar blætt hefur nóg er hausinn skorinn af og síðan vippar skotmaður skrokknum uppá hæklunarbekkinn þar sem hæklarar eiga næsta leik.  Lengst vann ég sem hæklari í sláturhúsinu, bæði á Gjögrum og lítillega á Patró; þar sem nú er hótel“ (VÖ).

Banakringla (n, kvk)  Efsti liður í hálsi hryggdýra.  Þegr grip er slátrað er hausinn skorinn frá banakringlunni, þannig að hún fylgir skrokknum.  Alþjóðaheiti hennar er „atlas“, eftir risanum sem ber jörðina.

Banalega (n, kvk)  Banabeður; það að liggja fyrir dauðanum.

Banamaður (n, kk)  Morðingi; sá sem drepur.

Banani (n, kk)  Bjúgaldin; íbjúgt grænt aldin bananaplöntu.  Verður gult og síðast brúnt þegar það þroskast.  Bananar sáust fyrst í verslunum vestra uppúr 1960.

Banasár (n, hk)  Sár sem leiðir til dauða. 

Banaskot (n, hk)  Skot sem dauði hlýst af.  „Ég held ég hafi komið banaskoti á tófuna áður en hún hvarf í urðina“.

Banaslys (n, hk)  Slys þar sem andlát verður. 

Banaspjót (n, hk)  Spjót til manndrápa.  Sjá berast á banaspjótum.

Band (n, hk)  A.  Hverskonar þráður/festi sem unnt er að binda með.  B.  Garn til prónaskapar.  „Band var notað um garn úr íslenskri ull, en garn úr innfluttri ull þótti mýkra og betra í barnaföt og slíkt. Band var oftast heimaspunnið og spunakonur voru hreinir listamenn við rokkinn. Börn og unglingar (og karlmenn) kembdu ullina. Ef nota átti bandið í vinnupeysur karla eða grófari sokkaplögg var kembt saman tog og þel eða notað eingöngu tog en tekið var ofan af sem kallað var þegar tog og þel var aðskilið. Svo var send ull í Gefjun á Akureyri til að vinna úr henni lopa. Fólk gat fengið unnið úr sinni ull og þá ýmist óofanaftekin ull eða þel og var þá þó nokkur vinna að taka ofan af mörgum reyfum. Ekki þarf að taka fram að ullin var öll þvegin heima; úr keytu fyrst eftir að ég man eftir mér.... Þelband var mest notað í nærföt, einspinna í nærskyrtur, allt frá ungbarnaskyrtur og upp í kven- og karlmannaskyrtur og nærbuxur á yngstu börnin (bleyjubuxur). Annars var „föðurlandið“ úr smáu tvinnuðu bandi. Prjónaklukkur á stelpur voru úr hárfínu tvinnuðu bandi eða einspinnu, þær voru prjónaðar með klukkuprjóni.“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). C.  Stoðviður í báti/skipi; röng; rangaviður.  Bönd heita þverviðir þeir sem liggja þversum í bátnum; þvert á byrðing bátsins.  Hvert band hefur sitt nafn eftir staðsetningu, t.d. bitaþóftuband/sigluþóftuband/hálsband/miðskipsband.  Þau geta verið í heilu lagi eða mörgum pörtum og hefur þá hver partur sitt nafn.  Í botni var bunkastokkur/botnband; á miðsíðu síðuband/miðröng; þar ofar kálfur, en efst heitir rangarauki/rangargrís/eyra/gripröng/rangarhald.  Bönd geta verið höggvin eftir borðunum eða sveigð; svigabönd.  Band í botni heitir búkkastokkur eða kjalband. Að setja bönd í bát heitir að benda eða bandfella.  Mælt er fyrir böndum eftir að súðað/byrt hefur verið með rangakvarða.  (úr LK; Ísl. sjávarhættir II).

Bandalag (n, hk)  Samtök; náinn félagsskapur.  Hugsanlega er upprunaleg merking sama og fóstbræðralag.

Bandamaður (n, kk)  Náinn vinur/félagi/samherji.  Upphafleg merking er líklega fóstbróðir; sá sem er manni bundinn með bræðraböndum. 

Bandfesta (s)  Festa með bandi/taum; tjóðra.  „Ekki tókst honum að bandfesta heimasætuna“.

Bandbrjálaður / Bandóður / Bandvitlaus / Bandsyngjandivitlaus / Bandsjóðandivitlaus (l)  Kolvitlaus; stjörnuvitlaus.  „Það er komið bandbrjálað veður og best að halda sig heima“.  Einnig bandvitlaus í svipaðri merkingu.

Bandhnota / Bandhnykill (n, kvk/kk)  Rúlla/hnykill af bandi/snæri.

Bandhönk (n, kvk)  Hönk/vafningur/lykkja af bandi.

Bandingi (n, kk)  Sá sem bundinn er:  T.d. tjóðraður kálfur.

Bandormur (n, kk)  Sníkjudýr sem lifað getur í fólki og dýrum og valdið sullaveiki.  Sjá sullur.

Bandítt (n, kk)  Æstur maður; ruddi; ökufantur.  „Hann hentist upp í bílinn og ók eins og bandítt á eftir þeim“.

Bandlaus (l)  A.  Á ekki snæri/band/spotta.  B.  Laus; vaðlaus; spottalaus; fer um kletta óbundinn og án þess að styðjast við vað.  „Gastu komist þarna neðan bandlaus“?  „Í Bjargleitina þurfti að velja menn sem ekki veigruðu sér við að fara niður fyrir bjargbrún á þeim stöðum sem voru vel gengir bandlausum manni; svo sem á Stíginn, í Saxagjá og fleiri staði“  (PG; Veðmálið). 

Bandreipi (n, hk)  Reipi/vaður úr bandi/hampi.  Heitið var meira notað áðurfyrr, til aðgreiningar frá svarðreipi sem var reipi/vaður úr nautshúð.

Bandshald (n, hk)  Þuma; æsa; skurður sem skorinn er á stirtluenda fiskflaks til að unnt sé að ráfesta það; hengja það til herslu/signingar/þurrks upp á rá/nagla eða bregða í það bandi (sjá m.a. steinbítur).

Bandsokkar / Bandvettlingar (n, kk, fto)  Sokkar/vettlingar prjónaðir úr bandi en ekki lopa.

Bandspotti (n, kk)  Stutt band; bútur af bandi; þarfaband.  Band var dýrmætt fyrr á tíð, enda vafstursamt að afla þess, en notagildið mikið til sjávar og sveita.  Menn gættu því vel sinna bandspotta og litu það alvarlegum augum ef aðrir ágirntust þá (sbr. dauðadóm Jóns Hreggviðssonar á Reyn). 

Bandstuðningur (n, kk)  Um bjargferðir; stuðningur/hjálp af bandi/vað.  „Það er kannski möguleiki að komast yfir ófæruslefruna með bandstuðningi“.

Bandvefur (n, kk)  Einn af fjórum helstu tegundum vefjar í lífverum, en hinar eru þekjuvefur, vöðvavefur og taugavefur.  Bandvefur er úr frumum trefjum og utanfrumuefnum og hefur einkum það hlutverk að binda saman og styðja aðra vefi líkamans.

Bandþreifandi (l)  Áhersluorð, oftast tengt dimmviðri.  „Það var kominn bandþreifandi skafmoldarbylur uppi á Hálsinum“.

Baneitraður (l)  Lífshættulega eitraður; verulega viðsjárverður.  „Maður veit aldrei hvað er í þessum unnu matvælum sem eiga að þola nær ótakmarkaða geymslu í stofuhita.  Þetta getur verið baneitrað“.

Bang / Bank (n, hk)  Barsmíðar; það að banga/banka/lemja/slá.  „Hættu nú þessu bangi meðan ég hlusta á veðurfréttirnar“!  „Mér fannst ég heyra eitthvað bank“.

Banga (s)  Smíða; lemja; slá í/saman.  „Skyldi ekki vera hægt að banga saman þennan stólgarm“?

Banginn (l)  Hræddur; smeykur.  „Hann var hvergi banginn; sagðist geta sigið í bjarg alveg eins og aðrir“.

Bangsi (n, kk)  Gæluheiti á birni.

Banhungraður (l)  Sárhungraður; mjög svangur/soltinn; glorhungraður.  „Ertu ekki banhungraður eftir þetta ferðalag“?

Bani (n, kk)  Dauði; andlát; aldurtili.  „Enn er ekki vitað hvað varð honum að bana“.

Banka (s)  Slá létt högg, t.d. á hurð til að gera vart við sig.  Fyrrum var það til siðs að gestur bankaði þrjú högg í röð á dyr.  Þrír var tala heilagrar þrenningar, sem draugar og forynjur forðuðust að nota.

Bankabók (n, kvk)  Sparisjóðsbók.  Þegar fé var lagt inn á bankareikning áðurfyrr fékk innstæðueigandi í hendur litla bankabók/sparisjóðsbók með nokkrum auðum síðum.  Í hana var færð innstæðan og síðan vextir og aðrar hreyfingar sem urðu á innstæðunni.  Sparisjóðsbækur voru við líði framundir lok 20.aldar.

Bankabygg (n, hk)  Gróft heilt bygg.  Mikið notað til matar.

Banki (n, kk)  A.  Hverskonar uppsöfnun eigna, verðmæta eða annars, t.d. reynslubanki.  Notað um mikil fiskimið, t.d. Selvogsbanki.  B.  Fjármálafyrirtæki sem stundar bankaviðskipti, t.d. innlán og útlán fjármuna.

Bann (n, hk)  Forboð; synjun.  „Enginn þorði að brjóta gegn þessu banni“.  Sjá leggja blátt bann við.

Banna (s)  Meina; synja; forbjóða.  „Ég bannaði þeim að aka yfir túnið“.

Bannfæra (s)  Leggja á bannfæringu.

Bannfæring (n, kvk)  Stórmæli; forboð; útskúfun tiltekins einstaklings; eitt öflugasta refsiúrræði kaþólskrar kirkju.  Biskupar beittu bannfæringarvopninu nokkuð í deilum sínum við höfðingjaveldið vegna valda og eignayfirráðum.  Tvö stig voru á bannfæringu.  Hið minna forboð; excommunicato minor, útilokaði menn frá kirkjusókn og þjónustu presta.  En hin meiri bannfæring; excommunicato major, útilokaði menn frá samneyti við annað kristið fólk; útskúfaði þeim í raun úr samfélaginu; synjaði þeim um leg í vígðri mold og gerði eignir þeirra meira og minna upptækar til kirkjunnar.  Páfi hafði þó vald til enn öflugri aðgerða, en hann gat bannfært heilu löndin og landsvæðin, þannig að þar mætti engin prestverk vinna.  Bannfæring var numin úr lögum með konungsbréfi árið 1782.

Bannorð / Bannyrði (n, hk)  Orð eða hugtök sem ekki má nefna.  Sjómenn hafa löngum verið sérlega hjátrúarfullir, enda byggir þeirra líf og afkoma á heppni með veiði, veður og sjólag í hættulegu umhverfi.  Því var trúað að sum orð kölluðu ólukku yfir bát og bátsverja og spilltu aflabrögðum.  Sumir höfðu guðsorð mjög uppi.  Aldrei mátti nefna botn, heldur var talað um grunn, hraun, föðurlandið og fleira.  Hafa orðatiltæki haldist frá þeim tíma, þó bannhelgin sé ekki lengur virt.  „Það er fast í grunni“.  „Ég held ég sé að draga föðurlandið/fósturjörðina núna“.  Ekki mátti telja fisk sem sást á slóða eða línu áður en hann kom í bátinn..  Þess í stað var tíðum höfð yfir þessi þula:  „Einn fer að heiman“ (ef einn fiskur sást á slóða/línu); „tveir hafa það verið“ (um 2 fiska); „nei, heilagur andi“! (um 3 fiska); „.. og hefur staf“  (þegar fjórir fiskar voru í sjónmáli).   (KJK; Kollsvíkurver).  Lík þula var til í öðrum verstöðvum, t.d. í Eyjafirði.  Þegar við átti var stundum sagt að fiskur væri á hverju járni.  Sá sem taldi fiskana var kjaftaprestur.  Eftirfarandi vísubrot er frá vermönnum í Útvíkum:  „Ein er kindin, önnur sést; andinn, prikið, strollan, lest“.  Þegar lóð flaut upp vegna veiði hét það stagur.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; m.a. eftir ÓETh). 

Bannsettur (l)  Áhersluorð/blótsyrði.  „Bannsettur auli get ég verið að gleyma goggnum í landi“.  „Hann ætlar að trassa þetta eina ferðina enn, bannsettur“!

Bannsyngja (s)  Bölsótast; blóta.  „Það þýðir víst lítið að bannsyngja þessar íþróttir“.  Merkti fyrrum trúarlega athöfn þar sem maður var settur út af sakramentinu/ bannfærður.

Bannsöngur (n, kk)  Blót; bölbænir.  „Það mátti heyra bannsönginn í karlinum um allan dalinn, þegar hann missti kindina framhjá sér“.

Bannvara (n, kvk)  Hlutur sem bannaður er.  „Hvítlaukur ætti að vera bannvara í siðuðu þjóðfélagi“.

Bannvítans / Bannvítis (l/uh)  Vægt blótsyrði/áhersluorð, oftast notað með nafnorði.  „Ég hef sjaldan heyrt álíka bannvítans endaleysu“!  Sjá benvítans/benvítis.

Banvænn (l)  Sem líklega veldur bana/dauða; lífshættulegur.  „Fyrr á tíð voru margir þeir sjúkdómar banvænir sem nú er unnt að lækna fólk og skepnur af“.

Bara (ao)  Aðeins; einungis.  „Þetta er bara einhver kvefskítur í mér“.  „Bara að hann muni nú eftir þessu“.  „Þetta er bara ágætis grautur“.  „Komdu bara ef þú þorir“!

Bara í nefinu á honum (orðtak)  Ristir ekki djúpt; bara látalæti.  „Hann á það til að rífast svona og skammast þegar eitthvað fer úr skorðum, en það er bara í nefinu á honum; hann meinar ekkert með þessu“.

Barasta (ao)  Bara.  „Ég held barasta að ég kæmist þetta bandlaus“.  „Oj barasta; þetta er viðbjóður“!

Barátta (n, kvk)  Viðureign; bardagi; deila.  „Það er nú ærið fyrir bændur að standa í eilífri baráttu við veðráttuna, þó þeir þurfi ekki líka að kljást við heimsku og fordóma í stjórnkerfinu“!

Baráttuglaður (l)  Tilbúinn að standa í baráttu; þrasgjarn.

Baráttuhugur / Baráttuvilji (n, kk)  Vilji til að berjast fyrir sínu málefni/hugðarefni.

Baráttulaust / Bardagalaust (l)  Án mótmæla/andstöðu/varnar.  „Ég gef þetta ekki eftir bardagalaust“.

Baráttuþrek / Baráttuþróttur (n, hk)  Dugur/afl/úthald til að heyja baráttu/viðureign.

Barbari (n, kk)  Villimaður; ribbaldi; illa siðaður maður.  „Þeir hafa sölsað undir sig þjóðarauðlindirnar eins og algerir barbarar“.  Upphaflega notuðu Forn-Grikkir orðið yfir þá sem ekki töluðu grísku.

Barbarí (n, hk)  Vafasamur staður; útlönd.  „Og þú hefur sloppið úr Barbaríinu þarna í sólarlöndunum“.

Bardagaefni (n, hk)  Tilefni bardaga/orrustu.  „Í Bardagalágum segir sagan að hafi barist eitt sinn Tungu- og Sellátranesbóndinn, og var bardagaefnið Urðavellirnir“  (KJK; Örn.skrá Tungu).

Bardagaglaður (l)  Tilbúinn til átaka ef þörf er á.  „Ég segi kannski ekki að ég sé bardagaglaðari en aðrir, en ég er ekki tilbúinn að láta traðka mikið á mér eða mínum“.

Bardagalukka (n, kvk)  Stríðsgæfa; almennt um gæfu/velgengni.  „Eitthvað virðist bardagalukkan nú vera að snúast honum í hag“.

Bardagi (n, kk)  Viðureign; slagur.  „Við lentum í bardaga með að koma fénu uppúr hlíðinni“.

Bardónur (n, kvk, fto) A.   Band til að festa hluti niður, t,d, til varnar foki; sig.  „Þú ert búinn að setja feikna bardónur á bátinn; hann ætti varla að fjúka úr þessu“.  B.  Rammgerð smíði; t.d. slagbrandar fyrir hurð eða hrútabardónur í hrútastíu.

Bardús (n, hk)  Sýsl; dund.  „Það liggur við að karlgarminum finnist það spennandi, eftir allt hans amstur og bardús, að eiga nú að upplifa einn af þessum frægu skellibyljum“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Bardúsa (s)  Bauka; dunda.  „Hvað ert þú að bardúsa þessa dagana“?

Barð (n, hk)  A.  Bakki í landslagi.  „Mundu að líta undir börðin þegar þú gáir að lambfénu“.  B.  sundfæri/fiskmeti á skötu.  „Börð sem verkuð voru til útflutnings voru lögð í saltpækil; þvegin; söltuð og þurrkuð..“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).   C.  Kantur/brík af ýmsu tagi, s.s. hattbarð.  D.  Barð eða barði hefur líklega merkt sama og bjarg í eina tíð.  Líklegt er t.d. að Barðaströnd dragi nafn af björgum þeim og sæbröttum nesjum sem þar skaga fram, t.d. Látrabjarg, Breiður og Blakkur.

Barða (s)  Slægja skötu; taka innan úr skötu bakið, kviðinn, hlaunirnar og halann, svo eftir verði börðin sem voru verkuð til matar.  „Algengast var að skata væri börðuð í landi“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Barði (n, kk)  A.  Fornt heiti á skipi.  Ein hugsanleg skýring á nafninu Barðaströnd/Barðastrandasýslu er sú að forliðurinn vísi til skipa, og þá líklega til þess að þar hafi orðið meiri skipsskaðar en annarsstaðar á landnámsöld.  Núna er vitað um tvö sjóslys frá þeim tíma.  Annað er strand Kolls í Kollsvík sem frá er sagt í Landnámu, en hitt er mannskætt sjóslys sem líklega varð í Vatnsdal.  Þar fannst nýlega bátskuml sem gæti bent til slíks.  Fleiri slík kuml gætu enn verið ófundin.  B.  Gamalt heiti á beinhákarli

Barefli (n, hk)  Það sem notað er til að berja með, t.d. lurkur, kylfa, hamar, sleggja.  „Réttu mér eitthvað barefli til að slá niður staurinn“.  Síðari liðurinn vísar til þess að efla högg þegar barið er.

Barinn (l)  Laminn.  Sjá eins og barinn hundur.

Barka (s)  A.  Um sár; skurma; mynda hrúður þannig að lokist.  „Sárið er strax farið að barka“.   B.  Súta; garva; verka skinn o.fl. svo þau geymist án þess að rotna.  C.  Fletta börk af tré; barkfletta.

Barkakýli (n, hk)  Líffæri framaná barka/hálsi manna og dýra, gjarnan útstandandi og er líkingin dregin af graftrarkýli.  Barkakýlið er úr brjóski og í því eru raddböndin, en neðanvið það er skjaldkiritllinn sem gegnir mikilvægu hlutverki í hormónaframleiðslu.

Barkandi (l)  A.  Súrt; með sýruvirkni.  B.  Græðandi; flýtir því að sár barki.  „Elfting er barkandi og græðandi.   Lögur hennar læknar lífsýki og jurtin sjálf, ef vel er marin milli steina og stungið í nef manni eða lögð við enni, stillir nasablóð...“  (BH; Grasnytjar).

Barkarúm (n, hk)  Fremsta rúmið í báti, að frátöldum stafni.  Sjá barki.

Barkaþófta (n, kvk)  Þóftan framanvið barka í báti; fremsta þóftan í báti.

Barkfletta (s)  Fletta börk af tré; barka tré.

Barki (n, kk)  A.  Öndunarvegur á mönnum og skepnum, frá munni í lungu.  Barki af sláturfé var nýttur til matar framyfir 1960, t.d. á Láganúpi.  Barkar voru skornir upp langseftir; skafnir upp; soðnir og einkum étnir nýir; þótti sæmilegur matur.  B.  Fremsta rúmið (hólf milli þófta) í báti.  „Svo reri hann á tvær árar framí en sagði mér að vera í barkanum, sem er fremsta rúmið í bátnum, og kasta í land tauginni þegar að væri komið því nægur mannskapur var í fjörunni að taka á móti okkur“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  C.  Sveigjanleg slanga með þveröldóttri styrkingu sem að minnir á mannsbarka.

Barkskip / Barkur (n, hk/kk)  Stórt seglskip.  Oftast notað um þau hafskip sem notuð voru á tíma landafundanna miklu, en þau voru gjarnan þrímöstruð og með ráseglum.

Barlómur (n, kk)  Kvartanir; væl; bölsýni.  „Það þýðir víst ekkert að hafa uppi einhvern barlóm“.  Leit af orðtakinu að berja lóminn.

Barma sér (orðtak)  A.  Um manneskju; fárast; bera sig illa.  „Það þýðir víst ekkert að fárast yfir þessu“.  Orðtakið er innflutt, en t.d. í fornsænsku er það „barme sik“.  B.  Um fugl; draga athygli frá hreiðri sínu eða unga með því að þykjast vera vængbrotinn.

Barmafullur (l)  Um ílát; fullur uppá barma; fleytifullur.  „Balinn er að verða barmafullur af regnvatni“

Barmafylla (s)  Fylla ílát upp að barmi; fleytifylla.

Barmur (n, kk)  A.  Kantur; brún; brík; þröm; jaðar.  B.  Brjóst.  Mun upphaflega hafa átt við kvenbrjóst, en á nú fremur við jaðar/op klæðnaðar á bringusvæði.  Sjá stinga hendinni í barminn og líta í egin barm.  

Barn í brók (orðtak)  Raunveruleiki; afurð.  „Hann ætlar að smíða sér kerru úr þessu.  Ég er samt hræddur um að það verði aldrei barn í brók hjá honum; þar vantar meira til“.

Barna (s)  Geta barn við konu.  „Sagt var að hann hefði á efri árum barnað vinnukonuna á bænum“.

Barna söguna (orðtak)  Bæta við sögu/frásögn.  „Honum hefur aldeilis tekist að barna þessa sögu; þetta er bara alls ekki það sem gerðist“!

Barnabrek / Barndómsbrek (n, hk, fto)  Ungdómsbrek; óknyttir/skammir sem menn gera af sér sem börn, og litið er mildum augum vegna ungs aldurs.

Barnadauði (n, kk)  Andlát ungbarna.  Barnadauði var geigvænlega mikill fyrr á tímum; fyrir tíma bólusetninga og annarra lækninga sem nú þykja sjálfsagðar; ekki síst á fátækum heimilum og á þrengingatímum.

Barnafræðsla (n, kvk)  Kennsla barna.  „Ég man ekki eftir neinum átökum við lestrarnám, en læs var ég þegar ég fór að heiman.  Það var frekar snemma eftir því sem þá tíðkaðist því kennt var á Rana og því stutt að fara, en kennt var að hálfu í Kollsvík og svo að Látrum.  Þrjá vetur fyrir fermingu fylgdi ég kennaranum að Látrum og var þá fyrri tvo hjá Guðbjarti Þorgrímssyni og Guðmundínu, en einn hjá Daníel og Önnu.  Alla barnafræðslu fékk ég hjá Kristjáni Júlíusi Kristjánssyni, sem var mjög góður kennari“  (IG; Æskuminningar).  Sjá barnaskóli; farkennari.

Barnagaman (n, hk)  Skemmtun/leikir barna; barnaleikur.  „Það verður ekkert barnagaman að eiga við þetta“.

Barnaglingur (n, hk)  Leikföng barna; það sem börn leika sér með.

Barnagæla (n, kvk)  A.  Barngóð manneskja.  „Hann er mikilbarnagæla og fljótur að kalla fram brosið“.  B.  Vísur ætlaðar börnum; vögguvísur.  Sú merking er líklega eldri, en minna notuð í seinni tíð.

Barnakennsla (n, kvk)  Kennsla barna; barnafræðsla.  Skipuleg fræðsla barna var lítil fyrir aldamótin 1900 og miðaðist einkum við lestrar- og kristindómsfræðslu til fermingar.  Samkvæmt tilskipun Danakóngs frá 1790 var prestum bannað að ferma börn sem ekki kunnu að lesa á bók.  Alþingi samþykkti 1789 lög um fræðslu barna í lestri og reikningi, og barnafræðslulög voru sett árið 1907.  Eftir það var fyrst farið að stunda skipulega barnafræðslu, sem a.m.k. til sveita var í formi farkennslu.

Barnalán (n, hk)  Það að eiga mikið af börnum; það að börn manns séu heilsuhraust og efnileg.  „Þau áttu miklu barnaláni að fagna, en 18 þeirra komust til fullorðinsára“.

Barnalegur (l)  Eins og barn; þröngsýnn; skammsýnn; einfeldningslegur.  „Mér finnst þetta ósköp barnalegur hugsunarháttur“.

Barnaleikfang (n, hk)  Leikfang barna.  „Láttu byssuna kjurra; hún er ekkert barnaleikfang“!

Barnaleikur (n, kk)  Upprunalega merkingin er augljós, en orðið var mest notað um hvaðeina sem var auðvelt í framkvæmd.  „Þetta er bara barnaleikur“.

Barnamaður (n, kk)  Sá sem á mörg börn.  Oftast notað í seinni tíð í orðtakinu bláfátækur barnamaður.

Barnameðfæri (n, hk)  Sem barn getur höndlað/ ráðið við.  „Tréð er ekkert barnameðfæri; ég býst við að við þurfum þriðja mann til að bjarga því undan sjó“.

Barnamosi (n, kk)  Sphagnum; dýjamosi.  Mosi sem algengur er í dýjum og mýrum og var því oftar nefndur dýjamosi í Kollsvík.  Oft skærgrænn að lit og með grófari blöðum en t.d. gamburmosi.  Vaxi mosinn í blautlendi er vatnsinnihald hans áttföld eigin þyngd.  Hann er því mjög gleypur eftir þurrkun og rakadrægur.  Því var hann fyrrum notaður sem undirlag barna til að taka við vætu, og af því er nafnið dregið.

Barnapía / Barnfóstra (n, kvk)  Stúlka/kona sem gætir barns/barna. 

Barnaskapur (n, kk)  Einfeldingsháttur; bjánagangur.  „Óttalegur barnaskapur er þetta; að fara á þessum tunnubátum á sjó“!  „Það er barnaskapur að halda að ríkisstjórnin lifi út kjörtímabilið“.

Barnaskóli (n, kk)  Stofnun til menntunar barna, sem rekin er af hinu opinbera í hverjum hreppi.  Fyrr á öldum var barnafræðslu almennt ekki sinn nema af heimilisfólki og því sem þau lærðu við fermingarundirbúning, sem mest var trúarlegs eðlis.  Fyrsti barnaskólinn var stofnaður í Vestmannaeyjum 1745, en lagðist af eftir nokkur ár.  Sömuleiðis barnaskóli stofnaður á Álftanesi 1791.  Einkakennsla og kennslurit urðu algengari á 19.öld.  Miðbæjarbarnaskóli hóf starfsemi í Reykjavík 1862, og Eyrarbakkaskóli 1852 sem er sá elsti sem enn starfar.  Á næstu áratugum fjölgaði skólum, einkum í þéttbýli, og fræðsla varð lög- og kerfisbundin.
„Í upphafi 20.aldar voru jafnan nokkrir farkennarar í einu í Rauðasandshreppi (sjá farkennsla/farskóli) oftast einn í hverri sókn.  Í þéttbýlinu á Eyrum tók barnaskóli til starfa árið 1900…  Í sveitinni var oftast kennt á Rauðasandi; á Látrum; í Kollsvík og í Örlygshöfn.  Eins var oft kennsla í prestssetrinu í Sauðlauksdal“  (BÞ; Fólkið landið og sjórinn).  Kringum 1930 varð mikil umræða um stofnun heimavistarskóla í hreppnum og stofnaður var sjóður í því skyni 1945 með framlögum hreppsbúa og burtfluttra.  Ýmislegt tafði þó bygginguna, einkum þref um staðsetningu; hvort byggja skyldi í Sauðlauksdal eða Örlygshöfn.  Ákvörðun var tekin á almennum fundi í Kvígindisdal 18.sept 1963 um að byggja skólann við Félagsheimilið Fagrahvamm sem þá var risið í landi Tungu í Örlygshöfn.  Allir unnu einhuga að byggingunni, sem var heimavist og kennaraíbúð.  Byggingarkostnaður hans nam um 9,8 milljónum króna á þeim tíma, en af því greiddi hreppurinn um helming á móti ríkinu.  Kennsla hófst 1965 og var félagsheimilið einnig nýtt til kennslu, þar sem eiginlegar skólastofur voru aldrei byggðar.  Skólinn í Örlygshöfn starfaði til 2002, þegar hann var lagður niður í kjölfar sameininga hreppa á svæðinu í Vesturbyggð.  Skólastjórar barnaskólans í Örlygshöfn voru: Ingólfur Þórarinsson 1966-68; Magnús Gestsson 1968-70; Guðmundur Friðgeirsson 1970-92; Gunnar Þór Jónsson 1992-95; Arndís Harpa Einarsdóttir 1995-96 og Björg Baldursdóttir 1996-2002.  Allmargir fengust við stundakennslu á starfstíma barnaskólans.  (Farkennurum í Rauðasandshreppi eru gerð skil undir farkennarar).

Barnatrú (n, kvk)  Trúarlegur skilningur barna.  Börn eru móttækileg fyrir þeim trúarboðskap sem þeim er innrættur, og eru oft laus við þær efasemdir og þá rökhyggju sem sækir á suma hina fullorðnu.  Sumum tekst þó vel að halda í sína barnatrú framá efri ár.

Barnaútburður (n, kk)  Morð ungbarns á þann hátt að það er skilið eftir út til að deyja.  Þessi siður tíðkaðist í norrænum samfélögum í heiðni og var við lýði frameftir öldum hérlendis.  Í huga nútímafólks eru þetta óskiljanlegir og hryllilegir glæpir.  Við eigum þó erfitt með að setja okkur fyllilega inn í aðstæður þessara tíma.  Sambúð manns og konu fylgir löngun til samræðis og þegar ekki er völ á getnaðarvörnum eða fóstureyðingum fæðast börn í kjölfarið.  Þegar vart er unnt að framfleyta heimilisfólki sem fyrir er má velta fyrir sér hvað var til bragðs að taka.  Inn í þetta blandast svo trú fólks á guðs náð, framhaldslíf o.fl.
Við kristnitökuna árið 1000 var áfram leyfður barnaútburður eins og verið hefði, en sú undanþága var afnumin á 11.öld.  Alltaf var þó eitthvað um slíkt, eins og kemur fram í dómum, en mál af þessu tagi nefndust dulsmál.

Barnaveiki (n, kvk)  Diphteria; smitandi bakteríusjúkdómur sem áðurfyrr var landlægur og olli dauða fjölda ungbarna.  Skóf myndast á kokeitlum, sem í alvarlegum tilfellum breiðist út í kok, barka og lungu og getur valdið köfnun.  Byrjað var að bólusetja við veikinni 1941 og er hún nú skaðlaus hérlendis.

Barndómur (n, kk)  Hegðun/látbragð barns.  Sjá genginn í barndóm.

Barneign (n, kvk)  Geta til að eignast barn.  Sjá komin úr barneign.

Barngóður (l)  Sá sem er góður við börn / börn laðast að.  „Bæði voru þau hjón sérlega barngóð“.  Eldra orð er „barnelskur“.

Barnið vex en brókin ekki (orðatiltæki)  Lýsandi um það að föt þarf ört að endurnýja þegar barn stækkar.  Einnig notað um annað sem vex og fær nýjar þarfir.

Barningsbúskapur (n, kk)  Erfiður búskapur; hokur.

Barningsfærð (n, kvk)  Þæfingur; erfitt færi; barningur.  „Það var barningsfærð yfir háhálsinn“.

Barningsróður (n, kk)  Erfiður róður í t.d. miklum sjó og/eða mótvindi. 

Barningssteinn (n, kk)  Stór steinn nærri húsum sem nýttur er til að berja á harðfisk.  Þetta heiti var almennt notað í Kollsvík, en virðist ekki þekkt annarsstaðar, sbr;  „...hverju býli fylgdi fiskasteinn/barsmíðasteinn/börðusteinn/börslusteinn“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Barningstíð / Barningstíðarfar (n, kvk/hk)  Erfitt/slæmt tíðarfar; harðindi.  „Þetta fer að verða bölvuð barningstíð ef svona gengur áfram“.

Barningsveður (n, hk)  Mótvindur, einkum notað þegar róa þurfti móti veðri.  „Við fengum árans barningsveður yfir heiðina“.

Barningur (n, kk)  A.  Það að berja harðfisk; mýkja hann til neyslu.  „Áðurfyrri fór barningur fram á steini, með harðfiskhnalli, en nú er fiskurinn valsaður í vélum“.  B.  Torsóttur/erfiður róður á báti.  „Gátum við notað segl suður að Boða en þaðan var barningur í land og miklar ágjafir“  (GG um Kollsvíkurver).   „Komust þeir svo á venjulegri bátaleið fyrir Bjargtanga og tóku barning að Brunnum“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  Algengt var einnig að tala um barning þegar hafa þurfti mikið fyrir því að berjast gegn veðurofsa, einkum í ófærð ; barningsfærð.  C.  Erfiðleikar; mótlæti.  „Þetta er æði barningur hjá þeim, blessuðum“.  D.  Um fjárbeit; krafsjörð; fé þarf að krafsa til beitar.: „Það var barningur hjá því í dag“.

Barnlaus (l)  Á engin börn; er ekki með börn.  Sjá hljóður er barnlaus bær.

Barnmargur (orðtak)  Á mörg börn.  „Barnmargir fátæklingar voru hreppsnefndinni og efnameiri mönnum mikið áhyggjuefni“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Barnsaldur (n, kk)   Ungur aldur; aldur þess sem ekki er orðinn fullorðinn.

Barnsburður (n, kk)  Fæðing barns.

Barnsfaðir (n, kk)  Faðir barns utan hjónabands.  Heitið er oftast notað þegar rætt er um móður barns.  „Eftir að hún giftist slítnuðu að mestu tengs hennar við barnsföður sinn“.

Barnsfarir (n, kvk, fto)  Fæðing barns.  „Hún mun hafa látist af barnsförum“.

Barnslegur (l)  Eins og barn; hrekklaus.  „Ég trúði þessu, í minni barnslegu einfeldni“.

Barnsnauð (n, kvk)  Erfið fæðing; jóðsótt.

Barnsvani (n, kk)  Það sem maður venst við á barnsaldri.

Barnungi (n, kk)  Gæluorð um ungbarn/ lítið barn.  „Líttu eftir barnunganum andartak fyrir mig“.

Barnungur (l)  Á barnsaldri.  „Ég var barnungur, fimm ára, en áhugi á hestum var mér í blóð borinn“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Barnæska (n, kvk)  Tíminn þegar maður er á barnsaldri; ungdómsár. 

Barokk (n, hk)  Listastefna sem upp kom uppúr 1600 í Róm og breiddist út um Evrópu.  Hennar gætti í húsbyggingum, húsgagnahönnun, tónlistarsköpun, myndlist og fleiru.  Einkenni barokks og rókokkó, sem var náskyld stefna, var íburðarmikið flúr; flókin mynstur og tilfinningahiti.    

Barómet / Barómeter (n, hk)  Loftvog.  Fyrir daga útvarpsveðurspárinnar var barómet eitt mesta þarfaþingið á hverju bændaheimili, líklega næst á eftir klukku og vasahníf.  Fyrsta verkefni bónda þegar hann reis úr rekkju var að dumpa á barómetið; fara út fyrir húshorn og míga og líta til veðurs.  Af samspili veðurmerkja og barómetsstöðu voru menn furðu glúrnir að spá rétt fyrir um veður, að minnsta kosti þann daginn.  Barómet hefur tvo vísa; annan sem fylgir loftþrýstingi og hinn sem er samræmdur honum, handvirkt.  Þannig mátti sjá hvort loftþrýstingur hafði fallið eða stigið frá síðasta álestri.  Þegar dumpað var á barómetrið hrökk það örlítið í þá átt sem loftþrýstingurinn stefndi til í það skiptið, sem gaf viðbótarupplýsingar.  Fallandi loftþrýstingur bendir til þess að lægð sé á leiðinni og því hætta á versnandi veðri.  Hækkandi þrýstingur veit á hæð, með stöðugra og bjartara veðri, en e.t.v. einnig norðanátt og ógæftir.  „Hvernig stendur mælirinn“ spurði Guðbjartur gamli á Láganúpi og átti þá við barómetið.  Viðeigandi svar gat verið; „hann er heldur fallandi“ eða; „mér sýnist hann frekar vera á uppleið“.  Í seinni tíð „barómet“, en fyrr heyrðis „barómeter“.  „Árni lokaði glugganum; leit á barómetið; sló á það með tveim fingrum hægri handar; ók sér svolítið en stakk sér svo undir sængina meðan hitnaði á katlinum.....  „Það er besta veður eins og er, og getur orðið það í dag.  Mælirinn hefur fallið og sjáanlega er norðanátt í aðsigi, en hann er sjólaus ennþá“.  Svo fórust formanninum orð, en hann var mjög veðurglöggur“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).

Barsmíðar (n, kvk, fto)  Högg, annaðhvort í slagsmálum eða með verkfæri.  „Í logninu heyrðust að Láganúpi barsmíðar smiðanna þegar þeir járnuðu þakið á nýju hlöðunni í Kollsvík“.

Bartskeri (n, kk)  Gamalt heiti á hárskera.  Algengt var fyrr á öldum að bartskerar gegndu ýmiskonar læknisstörfum, enda áttu þeir að jafnaði betri og hentugri bitjárn en aðrir t.d. í skurðaðgerðir og aflimanir, auk þess þeir þurftu tíðum að græða sár af völdum eigin rakhnífa.  Urðu þeir mikilvæg læknastétt í Evrópu á síðmiðöldum og komu stundum hingað til lands. 

Basalt (n, hk)  Blágrýti; basískt gosberg.  Algengasta bergtegund jarðar og ráðandi bergtegund í hinum tertíera jarðlagastafla Íslands, á Austfjörðum og Vestfjörðum.  Einnig helsta bergtegundin á Tunglinu.  Helstu steindir basalts eru kísill, plagíóklas og pýroxen, en einnig ólivín, magnetít o.fl.  Basaltið í blágrýtisstaflanum t.d. í Kollsvík er gosberg, þar sem skiptast á hraunlög og millilög úr gosefnum og jarðvegi.  Í Kollsvík má einnig sjá basískt berg í lóðréttum göngum sem nefnist díabas, en í fjörum má finna flökkusteina m.a. úr grænlensku gabbró sem er grófkrystallað basískt djúpberg.

Baskar (n, kk, fto)  Þjóð í Baskalandi, sem talist hefur hluti Spánar á síðari tímum.  Baskar hafa þó allmikla sérstöðu, t.d. varðandi tungumál.  Á 17.öld hófu Baskar að stunda hvalveiðar hér við land og munu jafnvel hafa verið með einhverja bræðslu á Ströndum.  Samskipti þeirra við landsmenn voru lengst af friðsamleg, eða þar til kóngur fyrirbauð veiðar þeirra með konungsbréfi 1615 og fyrirskipaði sýslumönnum að reka þá úr landi.  Af því hlutust hin frægu Spánverjavíg sama ár, þar sem Ari Magnússon sýslumaður í Ögri og menn hans drápu meirihlutann af áhöfn þriggja Baskneskra hvalveiðiskipa eftir eltingaleik um allan Vestfjarðakjálkann.  Sjá hvalveiðar.

Basl (n, hk)  Erfiðisvinna við slæmar aðstæður án verulegs árangurs.  „Þetta er óttalegt basl á þeim blessuðum“.  Upphafleg ritun hefur líklega verið barsl; dregið af því að berjast.

Baslari (n, kk)  Sá sem leggur hart að sér án þess að ná tilætluðum árangri; sá sem puðar en er ekki lagtækur.

Baslbúskapur (n, kk)  Erfiður búskapur; hokur.  „Þetta er orðinn hálfgerður baslbúskapur hjá þeim“.

Bassi (n, kk)  Maður eða hljóðfæri með dimma rödd/ lága tóntegund.  „Hver kirkjugestur söng með sínu nefi, en úr því varð furðu góður kór.  Þeir sem voru ófeimnari við að sýna söngsnilld sína sungu gjarnan tenór, sópran og baritón, en hinir óframfærnari drundu bassann þó slitrótt væri.  Nokkuð var þó takturinn á reiki, einkum í sálmum sem sjaldan voru sungnir, og misjafnt hve lengi menn héldu tóninum“.

Bast (n, hk)  A.  Himna sem umlykur heilann.  B.  Seig trefjahimna milli barkar og viðar í tré.  C.  Tágar sem notaðar eru til að flétta muni.  Sjá einnig á tvist og bast.

Basta (ao)  Sletta sem notuð er í upphrópunarsetningum:  „Ég sagði að þetta væri nóg, og þar með punktur og basta“!  „Nú nenni ég þessu ekki lengur; bara búið og basta“!  Upprunnið úr ítölsku; bastare = nægilegt.

Bastarður (n, kk)  A.  Lausaleiksbarn; kynblendingur.  B.  Fyribæri sem sett er saman úr tveimur ólíkum hlutum.  „Pétur Stefánsson á Hvalskeri keypti þá Fordson traktorinn af Barðstrendingum og byggði upp úr honum og leifum af Dentor eitthvað sem líktist dráttarvél.  Mun sá bastarður hafa borið beinin suður í Hraungerðishreppi“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Bata (s)  Bæta; laga; gera betra/meira; bæta úr skák.  „Hann er eitthvað að auka þennan veltingsfjanda; og ekki batar innlögnin“!  „Það batar lítið að biðjast afsökunar; næst þegar þú þarft að reka svona fúlt við þá gerir þú það utandyra“!

Bata má verk þó ei bætt verði (orðatiltæki)  Sumt má laga/ lappa uppá þó ekki verði það gert eins og nýtt/ betra en upphafleg smíði. 

Bata sig (orðtak)  A.  Um manneskju; verða betri/leiknari/færari í einhverju.  „Strákurinn hefur heilmikið batað sig í reikningi þennan veturinn“.  B.  Um sauðfé; verða í betri holdum; slást við.  „Lömbin náðu að bata sig dálítið síðsumars, þegar ánum var hleypt á slétturnar“.  C.  Um mjólkurkýr; hækka í nyt; græða sig

Bata til (orðtak)  Bæta við; bæta úr; auka við.  „Heyin eru hálf léleg sem ég er að gefa núna, svo ég bata fénu dálítið til með fiskiméli“.

Bata um (orðtak)  Bæta úr; laga; auka við; framlengja; greiða fyrir.  „Ég er hræddur um að þetta bati lítið um“.

Bata um fyrir (orðtak)  A.  Auðvelda; greiða fyrir.  „Það er fjári mikið verk að hreinsa netin eftir svona velting; og það batar nú ekki um fyrir manni þegar aðrir hafa lagt ofaní“.  B.  Afsaka; bera í bætifláka fyrir.  „Það stoðaði lítið þó við reyndum að bata um fyrir honum og segja að þetta hafi verið óviljaverk“.

Bata upp (orðtak)  Bæta upp; bæta fyrir; gera bragabót.  „Signa grásleppan er frekar rýr í roðinu svo ég bata þér það upp með einni spyrðu af reyktum rauðmaga“.

Batamerki (n, hk, fto)  Merki um framför/bata/gróanda. „Ég sé enn engin batamerki á þessum kalblettum“.

Batavegur (n, kk)  Bati; bót; leið til bata.  „Ég er búinn að vera bölvaður ræfill, en held ég sé á batavegi núna“.

Batavon (n, kvk)  Von um bata/gróanda/framför.  „Þessi nýju meðöl gætu gefið einhvað meiri batavon“.

Batavottur (n, kk)  Merki um að eitthvað, t.d. tíðarfar, sé að batna.  „Það er þó batavottur ef hann kemur sunnanáttinni fyrir sig að einhverju gagni“.

Bati (n, kk)  A.  Bötnun veikinda.  „En þó átti hann að hafa ráðið niðurlögum draugsins með kunnáttu sinni, og eftir það náði hann fullum bata “  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  B.  Betra veðurfar/grasspretta/holdafar búfjár/nyt kúa.  „Dimma er komin í sæmilegan bata núna eftir júgurbólguna“.  „Það var leiðindaveðrátta í vetur en svo kom bati um páskana“.

Batna (s)  Verða betri; skána; lagast.  „Ég held að veðrið sé eitthvað að batna“.  „Mér er óðum að batna þessi pestarskratti“.  „Ekki batnar ástandið“!

Batnaður (n, kk)  Lagfæring; bót; úrlausn.  Sjá bíður sér ekki til batnaðar.

Batnandi manni er best að lifa (orðatiltæki)  Sá lifir betra lífi sem bætir sig / sýnir framfarir í hegðun eða skoðunum.  „Nú segist hann vera orðinn Evrópusambandssinni.  Batnandi mönnum er best að lifa, segi ég nú bara“!

Batterí (n, hk)  A.  Rafhlaða.  Nýleg merking en sú algengasta í seini tíð.  B.  Virki; varnargarður.  Tökuorð úr dönsku, sem vísar til bardaga.

Battingur (n, kk)  Planki; burðarviður.  „Það rak fjári mikinn batting í vetur, líklega úr bryggjusmíði eða álíka“.

Baugur (n, kk)  Hringur; hluti af hring; hringur til að setja á fingur eða arm; hnitakerfi jarðar.  Baugur er algengur forliður í kvenkenningum í skáldskap; t.d. baugalín, baugahrund.  Sjá efst á baugi.

Bauja (n, kvk)  Ból; dufl; flot; flotholt; belgur.  „Algengasta notkun á baujum er á veiðarfæri, s.s. net eða línu; eða á bólfæri/legufæri.  Bauja getur verið einn belgur/kúla eða flotholt með stöng í gegn, sökku á neðri enda en flaggi á toppi; þá nefnt stangarbauja“.

Baujubelgur (n, kk)  Belgur á neta- eða línubauju.  „Baujubelgir hafa iðulega rekið á fjörur í Kollsvík.  Núorðið eru þetta plastbelgir, ýmist með auga eða gegnumstungnir, en áður voru notaðir tjörubelgir.  Þeir voru úr tjörubornum striga, með tréloki sem fest var í.  Lengi mátti sjá leifar slíkra belgja í Láganúpsfjöru“.

Baujuflagg / Baujustöng (n, kk/kvk)  Hlutar stangarbauju.  Hún er þannig að stöng gengur gegnum kúlu eða belg.  Á neðri enda stangarinnar er lóð en efst er fest flaggi.  Stangarbaujur sjást oft lengra að en belgur eða kúla, einkum í ylgju, og voru allnokkuð notaðar t.d. á grásleppunet.

Baujuljós (n, hk)  Batterísknúið blikkljós sem í seinni tíð er farið að setja á stórar baujur.  Stundum vill svo til að afslitnaðar ljósabaujur reka á fjörur og í myrkri má þá sjá blikkið langt að.

Bauk (n, hk)  Dund; róleg vinna; sýsl.  „Hann er að einhverju bauki úti í verkfærahúsi“.

Bauka (s)  Bjástra; dunda; dedúa; hafa fyrir stafni.  „Hann er að bauka við að fella net“.

Bauka hver í sínu horni (orðtak)  Um það þegar hver vinnur að sínu án samvinnu við aðra.

Baukari (n, kk)  Dundari. Skelfing er hann verkasmár þessi baukari, þó hann sé síúðrandi“.

Baukur (n, kk)  A.  Lítið ílát; askja.  Sbr. sparibaukur.  B.  Aflagt heiti á munni.  Til þeirrar notkunar vísar orðtakið að fá á baukinn.

Baul (n, hk)  Hljóð sem kýr/nautgripur gerur frá sér.  Líkingamál um sambærileg hljóð. 

Baula (s)  Gefa frá sér baul.

Baula (n, kvk)  A.  Gelgjubein; baulubein; prjónlaga kinnbein í fiski.  B.  Bogin festing; oftast fyrrum notað um gjörð þá sem festir mastur við þóftu báts.  C.  Gæluheiti á kýr.

Baun (n, kvk)  A.  Erta; fræ blóma af ertublómaætt.  Einnig í líkingamáli um það sem er smátt; „Ég skil ekki baun“.  B.  Stytting á kaffibaun. 

Bauna á (orðtak)  A.  Skjóta á með byssu.  B.  Líkingamál; skjóta athugasemdum á; demba á.  „Ég baunaði á hann hverri spurningunni á fætur annarri“.

Baunabyssa (n, kvk)  Leikfang barna; byssa sem gerð er úr þvottaklemmu með því að hagræða hlutum hennar.  Með slíkri byssu má skjóta smáhlutum, s.s. þurrkuðum baunum, af nokkru afli.

Baunakaffi (n, hk)  Kaffi sem lagað er úr brenndum kaffibaunum en ekki með kaffibæti.  Notkun heitisins lagðist af þegar hætt var notkun kaffibætis.

Baunarækt (n, kvk)  Ræktun bauna til manneldis.  Var stunduð að einhverju marki á Rauðasandi um tíma.  „Utan við Helgulind eru grasbakkar, nefndir Hvanngarðar.  Líklega hefur verið þarna baunarækt“  (ÍÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).

Baunasúpa (n, kvk)  Súpa soðin úr gulum þurrkuðum hálfbaunum sem áður höfðu verið bleyttar upp; oft borin fram með saltketi, þó það væri ekki einhlítt.  Nú heyrist heitið sjaldan, heldur talað um „saltkjöt og baunir“.

Bauni (n, kk)  Uppnefni yfir Dani.  „Enn lifa mörg orð sem fyrri tíðar fólk tamdi sér frá Baununum“.

Bábilja (n, kvk)  Hjátrú; kredda.  „Ekki skil ég hverskonar fólk trúir svona bábilju“!

Báðar höndur/hendur við axlir fastar (orðtak)  Eitthvað verður ekki gert vegna anna við annað; vera bagaður/upptekinn.  „Ég myndi gjarna vilja koma með til berja, en ég þarf að bíða eftir þessu símtali svo mér eru báðar höndur við axlir fastar“.

Báðir (fn)  Allir tveir.  „Hún missti bæði lömbin“.  „Mér fannst ketið bæði of salt og illa soðið“.  „Hver á sneitt framan hægra og bitið aftan bæði“?  „Báðir eru þeir öndvegismenn“.  „Oft er best að fara bil beggja

Báðumegin (ao)  Á báðum hliðum; beggjamegin.  „Báðumegin við máfshreiðrið er mikið múkkavarp í ganginum.  Einn múkki er á hreiðri um hálfan metra frá máfnum, en þó ekki í sjónlínu; þar er barð á milli“.

Bágborinn (l)  Í slæmu ástandi; bágur; lélegur.  „Þetta finnst mér heldur bágborin afsökun“. 

Bági (n, kk)  Andstreymi; mótlæti; óhagræði.  Eingöngu í orðtökum s.s. fara/koma í bága við.

Bágindabasl (n, hk)  Miklir erfiðleikar; mikill hokurbúskapur. 

Bágindalega (l)   Illa; aumlega.  „Hann ber sig dálítið bágindalega, sem vonlegt er“.

Bágindalegur (l)  Aumur; vesældarlegur.  „Ósköp finnst mér það bágindalegur búskapur að hafa enga hrífu í góðu lagi“!

Bágindi (n, hk, fto)  Fátækt; aumingjadómur; slæmt ástand.  „Fólk flúði þá í verin úr eymd og bágindum“.

Bágstaddur (l)  Illa staddur; í vondri stöðu; hjálparþurfi; á vonarvöl.  „Maður hefur nú lagt það í vana sinn að hjálpa bágstöddum ef maður hefur tök á því“.

Bágt (n, hk)  Gæluorð um minniháttar meiðsli/sárindi.  „Á ég að kyssa á bágtið hjá þér stubbur minn“? 

Bágt er að gera svo öllum líki (orðatiltæki)  Alltaf má eitthvað að öllu því finna sem gert er.

Bágt er að hnoða brauð af steinum (orðatiltæki)  Matur er ekki gerður úr hverju sem er.  Einnig notað í líkingamáli um hvaðeina sem þarfnast réttra meðala/ rétts hráefnis. 

Bágt er að vera tveggja vinur og báðum trúr (orðatiltæki)  Erfitt getur verið að eiga tvo góðvini, einkum þegar þeir eru ekki sammála eða þeim sinnast.

Bágur (l)  Aumur; slæmur.  „Fjárhagurinn er bágur núna“.  „Það er bágt af þingmanni að villast í kjördæminu“!

Bákn (orðtak)  Ferlíki; það sem er mjög stórt/umfangsmikið.

Bál (n, hk)  A.  Mikill/ákafur eldur; bálviðri.  „Það kviknaði vel í þurrum kestinum, og varð brátt heilmikið bál“.  B.  Mikið hvassviðri; afspyrnurok; ofsaveður.  „Hann er að rífa upp bál af norðan.  Það verður innistaða í dag“. „Ætlar hann ekkert að lægja þetta norðanbál“?

Bálandi (l)  Bálhvass.  „Hann verður kominn með bálandi norðanrok þegar líður á“.

Bálfrost (n, hk)  Hörkufrost; mjög mikið frost.  „Féð hefur lítið í fjöru í þessu bálfrosti“.

Bálgarður (n, kk)  Ofsaveður; hífandi rok.  „Féð hefur lítið gagn af fjöru í þessum bálgarði“.

Bálhvasst (l)  Mjög mikið hvassviðri.  „Það er orðið bálhvasst“.

Bálkuldi (n, kk)  Mjög kalt, oftlega í frosti og norðanbáli.  „Búðu þig vel í þessum bálkulda“.

Bálkynda (s)  Auka kyndingu mikið í húsi.  „Það er óþarft að bálkynda þegar hlýnar svona í veðri“.

Bálillur / Bálvondur (l)  Mjög reiður; sótillur.  „Hann var orðinn bálvondur og hótaði öllu illu“.

Bálhvasst (l)  Mjög hvasst; rok; stormur; mikið hvassviðri.  „Það var orðið svo bálhasst að við urðum að hætta“.

Bálhvessa (s)  Hvessa mjög mikið; verða bálhvasst; rjúka upp.  „Hann er að bálhvessa allt í einu“!

Bálkuldi (n, kk)  Mikill kuldi; bálfrost.  „Vertu ekki að glænapast svona illa klæddur úti í þessum bálkulda“!

Bálkur (n, kk)  A.  Uppbyggður stallur, t.d. undir rúmstæði; annaðhvort hlaðinn eða gerður af timbri.  „Í Hesthúsinu er steinhlaðinn bálkur fyrir innri gaflinum“.  B.  Hluti af handvað til hákarlaveiða; kaðall úr vaðsteininum í hákarlavaðinn.  C.  Klásúla; lagagrein. 

Bálkynda (s)  Kynda/hita mjög mikið.  „Húsið var illa einangrað og í köldu veðri þurfti að bálkynda það til að fá þolanlega velgju“.

Bálreiður / Bálillur / Bálvondur  (l)  Mjög reiður; saltvondur.  „Hann varð bálvondur yfir þessu“.

Bálskotinn í (orðtak)  Mjög ástfanginn/hugfanginn/hrifinn af; fellir ástarhug til.  „Hann er bálskotinn í stelpunni, þó hann vilji ekki viðurkenna það“.

Bálstyggur (l)  Um skepnu; mjög fælin; mjög var um sig.  „Tvævetlan var bálstygg og tók á rás þegar ég kom fram á klettabrúnina“.

Bálviðri / Bálrok (n, hk)  Stormur; ofsaveður; norðanbál; bál.  „Hann ætlar ekki enn að hægja þetta bálviðri“.

Bára (n, kvk)  Alda.  „Það hvítnar í báru“.  „Það er hæg norðlæg átt og bárulaust“ (IG; Niðjatal HM/GG).

Bárótt (l)  Um yfirborð; gárótt; líkist bárum á sjó.  „Þar sem fellur út af skeljasandinum; neðan mesta hallans, verður yfirborð hans sérkennilega gárótt eftir ölduna“.

Bárufaldur (n, kk)  Öldufaldur; efsti hluti báru á sjó, einkum ef þar hvítnar.

Bárufall (n, hk)  Stórsjór; alda sem hvítnar í toppinn.  „Það var bárufall um alla vík og hvergi orðið vært“.

Bárufleygur (n, kk)  Ílát. oft belgur, með lýsi og opi sem það getur smitað útum.  Notaður kringum aldamótin 1900 sem öryggistæki á bát.  Þar sem lýsi er á yfirborði sjávar minnkar yfirborðsspennan og öldur ná ekki að rísa hátt áður en þær brotna.  Séra Oddur V. Gíslason kom með þessa nýjung frá Noregi og beitti sér mjög fyrir notkun bárufleygs, ásamt fleiru í slysavarnamálum sjómanna.

Bárugjálfur (n, hk)  Hljóð/niður í báru.  „Ég lagði mig aðeins frammi við lúkarinn, en ég hlýt að hafa sofnað útfrá bárugjálfrinu“.

Bárugutlandi (n, kk)  Nokkur sjógangur; ófriður við veiðar.  „Hann reif upp dálítinn bárugutlanda með norðangolunni“.

Bárujárn (n, hk)  Bylgjað og galvaniserað blikkjárn sem notað er sem klæðning á húsþök.  Ekki er ljóst hvenær bárujárnsklæðning leysti helluþök af hólmi í Kollsvík; líklega var það snemma á 20.öld.  Þegar KJK byggði sér íbúðarhús á Rana á Grundum sótti hann bárujárn á Patreksfjörð sjóleiðis og lagði það þversum yfir bátinn.  Ekki tókst þó betur til en svo að í Blakknesröstinni tapaðist járnið.  Var síðan ákveðið að klæða þakið með báruáli, sem var á því síðan.  GG á Láganúpi keypti síðar þetta hús og dró það uppundir Flötina á Láganúpi þar sem það stóð framundir 1980.

Bárukast (n, hk)  Um sjólag; sjór nokkuð úfinn og jafnvel sumsstaðar hvítt í báru.  „Það er dálítið bárukast frammi, en ef hann versnar ekki þá væri svosem hægt að hanga eitthvað á þessu“.

Bárulaust (l)  Sjólaust.  „Að kvöldi dags hafði storminn lægt og bárulaust að kalla við sandinn“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Það er hæg norðlæg átt og bárulaust; ákjósanlegt sjóveður“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Báruorpinn (l)  Allnokkur sjór.  „Hann var hvass og báruorpinn og skipið valt mjög“  (VÖ eldri; bréf 1930).

Báruskel (n, kvk)  Ætt skeldýra, Cardiiae, sem eru nær kringlóttar, samhverfar og all kúptar, með gildu nefi. Með áberandi bárum eða rifflum sem ganga frá nefi aftur á brún. Sumar tegundir báruskelja eru algengar á grunnsævi í Útvíkum, t.d. krókskel (Serripes groenlandicum); grýtuskel (Cardium minimum); báruskel (Cardium ciliatum); Pétursskel (Cardium fasciatum) og hjartaskel (Cardium edule).  Út frá fjölda skelja sem reka á fjörur má ætla að báruskelin sé þeirra algengust á Útvíkum.  Hún er hvít að lit þegar hún hefur velkst í sjónum, oft um 5-7 cm.

Báruskot (n, hk)  Skyndilegur veltingur/sjógangur.  „Hvaðan kemur þetta báruskot allt í einu“? 

Báruskvaldur (n, hk)  Töluverð bára; nokkur sjór.  „Heldur er hann að rífa sig upp með þetta báruskvaldur“.

Bárusláttur / Bárusperringur / Vindbárusperringur (n, kk)  Allmikil vindbára, sem oft lifnar þegar gerir golukast þó sjólaust sé að öðru leyti.  „Eitthvað er hann að auka bárusláttinn af vestri“.  „Hann er að rífa upp einhvern bölvaðan vindbárusperring; það fara að verða leiðindi að hanga á netum ef hann eykur þetta meir“.

Bárutoppur (n, kk)  Efsti hluti báru.  „Mér sýndist ég sjá baujuna rétt í svip þarna uppi á bárutoppi“.

Bárutyppinugur (n, kk)  Typpingur; brött bára, en þó ekki stórsjór.  „Hann er eitthvað að ganga niður með þennan bárutypping sýnist mér“.

Bárusláttur / Báruveltingur (n, kk)  Veltingur; nokkur sjór; ófriður.   „Bölvaður bárusláttur er þetta í koppalogni; þetta hlýtur að vera langt að komið“.  „Það gerði dálítinn báruvelting þega leið á daginn“.

Báruvottur (n, kk)  Dálítil bára, en þó ekki til ama.  „Ekki þýddi að sjóstja tunnubát ef einhver báruvottur var“.

Bás (n, kk)  A.  Stía í fjósi sem kýr er höfð á.  Milligerðir/veggir eru beggja vegna og jata framanvið en flór aftanvið.  Í básinn er oft sett undirlag til að mýkra sé að liggja; t.d. torf eða básamotta.  B.  Vik milli kletta/hleina í fjöru.  T.d. Bellubás sem er innanvert við Blakkinn; kenndur við skútuna Bellu sem þar strandaði.

Bása sig (orðtak)  Um kýr; fara á sinn bás.  „Kýrnar eru furðu glöggar á að bása sig.  Þær raða sér hver á sinn bás þegar þær eru settar inn, án teljandi árekstra þó auðvitað geri þær eldri kröfu um virðingu þeirra yngri“.

Báshella (n, kvk)  A.  Upprunalegt heiti; stór hella sem reist er upp á rönd og notuð sem milligerð milli bása í fjósi.  B.  Afleidd merking sem allsráðandi er á síðari tímum:  Harður bjúgur í júgri á kúm ef þær liggja lengi á hörðum bás.  Getur verið sýking (júgurbólga) en þarf ekki að vera.  Var læknað með því að bera undir kýrnar þara, en talið var að joðið í honum linaði bólguna, ásamt því að básinn var mýktur með moði eða öðrum undirburði.

Bássteinn (n, kk)  Aftari brún á bási, við flórinn, áður úr stórum steinum en steypt á síðari tímum.  „Mikilvægt er að básar séu ekki of langir, til að kúin mígi síður og skíti upp á bássteininn“.

Básúna (n, kvk)  Blásturshljóðfæri; lúður; gjallarhorn.

Básúna (s)  Æpa; slúðra.  „Það er alveg óþarfi að básúna þetta út um alla sýslu“.

Bátafiskur (n, kk)  Fiskur af bátum (ekki togarafiskur).  „Aðal verlunarvaran var bátafiskur, ull og kjöt, sem þá var fyrst að verða eftirspurð vara hér“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Bátafloti (n, kk)  Safnheiti um marga báta.  „Bátaflotinn í Kollsvíkurveri var allstór kringum 1920, þegar þar reru 25 bátar“.

Bátaleið (n, kvk)  Siglingaleið smærri báta.  „Komust þeir svo á venjulegri bátaleið fyrir Bjargtanga og tóku barning að Brunnum“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Bátasaumur (n, kk)  Bugningur; rónagli; saumur sem ætlaður er til bátasmíða.  Í víðtækri merkingu nær heitið bæði yfir bugning/rónagla, sem ætlaðir eru til að halda borðum/skeytum saman, og lengri saum/nagla sem notaður er t.d. til að negla bunkastokka og borð í stefni.  Leggur bátasaums er kónískur og hausinn oftast demantslaga að ofan.

Bátasmiður / Bátasmíði (n,kk/ kvk)  Smíði báta.  Nokkrir kunnir bátasmiðir hafa búið í Kollsvík.  Þeirra kunnastur á síðari árum var Andrés Karlsson frá Stekkjarmel.  Hann smíðaði allmarga báta, bæði meðan hann var í Kollsvík og eftir að hann flutti á Patreksfjörð.  Þeirra á meðal var hans eigin bátur; Farsæll, og Reynir, sem Marinó í Tungu átti.  Þegar Árni Magnússon heimsótti Kollsvík 1703 bjó á Kollsvíkurjörðinni Halldór Jónsson, en hann var einn svonefndra Sellátrabræðra sem allir voru frægir atorku- og hagleiksmenn.  „Bjarni var skipasmiður mikill og formaður.  Fór hann margar viðarferðir á Strandir á teinæringi sem hann smíðaði 19 ára gamall“ (TÓ; Ábúendatal Rauðasandshrepps).  Eigandi Kollsvíkur var þá séra Páll Björnsson í Selárdal, sem smíðaði sér haffæra skútu og stýrði henni sjálfur.  Ekki er ólíklegt að við smíði hennar hafi hann notið kunnáttu Kollsvíkurbóndans.  Fyrsti skipasmiður í Kollsvík kann þó að vera Kollur landnámsmaður eða skipverji hans.  Samkvæmt Landnámu braut Kollur skip sitt en varð eftir það landnámsmaður í Kollsvík.  Allt bendir því til þess að hann hafi komið sér upp báti til að geta nýtt hin gjöfulu fiskimið sem þar eru skammt undan landi.  Til þess hefur hann annaðhvort þurft að smíða sér bát eða nota eftirbát af knerri sínum.  Sjá bátur.

Bátaspil (n, hk)  Gangspil, sjá þar.  „...og eftir þeirri braut var kassinn síðan dreginn með venjulegu bátaspili og látinn rúlla á sverum rörbútum...“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Bátavél (n, kvk)  Ekki skal fullyrt hvenær fyrst kom vél í bát í Kollsvík.  Vera kann að fyrsti vélbáturinn þar hafi verið flutningaskipið Fönix.  „Um 1920 var síðari Fönix, 3ja lesta vélbátur, keyptur.  Var hann smíðaður fyrir Kollsvíkinga af Gísla Jóhannssyni skipasmið á Bíldudal.  Var bátur þessi nær eingöngu notaður til flutninga, þar til útgerð dróst svo mjög saman úr Kollsvíkurveri uppúr 1930, ásamt því að fólk fluttist þaðan burt.  Þá var báturinn seldur til Patreksfjarðar; tveim Kollsvíkingum, sem áður höfu verið, þeim Guðmundi Gestarsyni og Andrési Karlssyni“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Víknamenn tóku vel við sér með þessa nauðsynlegu nýjung, og má sjá í pappírum frá Rauðasandshreppi að einir sex eigendur báta bjóða í flutninga í Rauðasandshrepp árið 1921; allir úr Rauðasandshreppi.  Það er fróðlegt að líta yfir listann og skoða stærð bátanna og vélanna.  Sennilega hafa fleiri vélbátar verið komnir í Rauðasandshrepp en þessir hafa sennilega verið stærstir.  Bátur nr 1 er 4 tonn og 6 hestöfl; … gæti hafa verið út Kollsvík.  Hann var flutningaskip þeirra og stærri en gerðist, og bar nafnið Fönix.  Hann var með Ford bílvél, sem síðast var að velkjast í fjörunni á Hvalskeri“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi).  Líklega hafa Kollsvíkingar þó vélvæðst fyrr.  T.d. var snemma komin vél í bát Helga Árnasonar frá Tröð og sona hans, og einnig í Rut Guðbjartar á Láganúpi.  „Gamla Rut er sett á flot í Kollsvíkurveri.  Sólóvélin sett í gang og keyrt suður á Bæi“ (ÖG; minningabrot).

Bátaviður (n, kk)  Viður til smíða eða viðgerða á báti; einkum átt við efni í byrðing.  „Guðbjartur afi byggði sér kofa niðri við sjó, þar sem hann hugðist efna rekavið niður í bátavið til viðgerða á gömlu Rutinni.  Þar undi hann löngum við sögun meðan honum entist heilsa til“ (VÖ).

Báthróf (n, hk)  Naust; hlaðið geymsluhús eða tóft fyrir bát.  „Sagt er að veiðistöð hafi verið við Bjarnanes og mikið er af báthrófum utan við nesið“  (ÍÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).  Dæmi orðabókar HÍ annarsstaðar af landinu sýna aðra merkingu, eða bátskrifli/lélegur bátur.  Slík var ekki merking þess í Rauðasandshreppi.

Bátkoppur (n, kk)  Gæluheiti á bát.

Bátkríli / Bátkæna (n, hk)  Mjög lítill bátur.  „Ekki fer maður langt niður á haf á svona bátkríli“.

Bátkuml (n, hk)  Gröf frá heiðnum sið, þar sem maður hefur verið jarðaður/heygður í báti; oft með ýmsum grafarmunum og stundum hesti, hundi eða jafnvel fleiri manneskjum.  Nokkur bátkuml hafa fundist á Íslandi, t.d. í Kaldárhöfða; Dalvík og á Litlu-Núpum.  Eitt hið forvitnilegasta var þó Vatnsdalskumlið, sem fannst 1964 á sjávarbökkum Vatnsdals í Patreksfirði.  Þar höfðu sjö manneskjur verið heygðar í litlum bát á landnámsöld, ásamt ýmsum munum.  Sjá Vatnsdalskumlið.

Bátlaus (l)  Á ekki bát; hefur engan bát.  „Ekki er vitað til þess að Kollsvíkingar hafi nokkurntíma verið bátlausir um langan tíma, þó þeir hafi e.t.v. ekki alltaf átt sínar fleytur sjálfir.

Bátpungur (n, kk)  Niðrandi heiti á bát; lítill bátur.  „Mér sýnist að þarna sé einhver bátpungur við hleinina“.

Bátsferð (n, kvk)  Ferð með bát.  „Þá fengum við úr Rauðasandshreppi leyfi skólastjóra til þess að fara fótgangandi vestur yfir heiðar og fá bátsferðir yfir firði“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Bátshorn / Bátskel / Bátskæna (n, hk/kvk)  Lítill bátur; skekta.  „Flestir bátar í Kollsvíkurveri voru það sem kalla mætti líil bátshorn, enda henta illa stórir og þungir bátar þar sem setja þarf upp eftir hvern róður“. „En nú var það erfiðasta eftir; að koma stórhveli að landi með árunum einum saman, á lítilli bátskel“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Bátskast (n, hk)  Bátshlutur; skipshlutur; sá hlutur (kast) við aflaskipti sem síðast er bent á (sjá skipti).

Bátskrifli (n, hk)  Mjög lélegur bátur; hættulegur bátur.  „Þetta bátskrifli er ekki sjóhæft lengur“.

Batskuml (n, hk)  Kuml/gröf úr heiðnum sið þar sem jarðsett hefur verið í báti.  „Eitt merkasta bátskumls sem fundist hefur hérlendis er Vatnsdalskumlið“.

Bátslengd (n, kvk)  Lengd báts.  „...nema hvað þokubikið var slíkt að ekki sást nema fáar bátslengdir frá bátnum“  (ÖG; Þokuróður).  „Stórar brimskeflur brotnuðu á hleinum á stjórnborða, en í þær voru nokkrar bátslengdir“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Bátsmaður (n, kk)  A.  Áhafnarmaður skips; háseti.  B.  Fyrirliði háseta á skipi.

Bátsrúm (n, hk)  Bil milli þófta á bát.  „Báturinn reis að aftan og hallaðist mikið í bak, svo við lá að hann tæki sjó um bátsrúmið“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Bátur (n, kk)  Bátar sem gerðir voru út frá Kollsvíkurveri (sjá þar) voru yfirleitt 1 ¼ til 1 ½ tonn að stærð.  Stærsta skipið var Fönix, en hann (eldri Fönix) var eini áttæringurinn í Barðastrandasýslu um sína daga; 32, fet á lengd; 9,2 á breidd og 2,9 fet á dýpt; notaður til hákarlaveiða og flutninga.  Hér verða nefnd fáein nöfn bátshluta, en það er langt í frá tæmandi upptalning.  Helstu hlutar súðbyrts trébáts eru kjölur, en undir honum var oftast drag úr járni til hlífðar; framstefni, en efsti hluti þess var hnýfill sem á var hnýtt kollubandi; afturstefni, sem á var fest stýri með stýrissveif; kjalsíður voru neðstu borðaumförin nefnd, en síðan komu farborð, fráskotsborð, undirúfur, yfirúfur, hrefna, sjóborð, sólborð og rimaborð.  Þessi borðaheiti hefur Ólafur E. Thoroddsen í Vatnsdal eftir Sigurði Sigurðssyni Breiðvíkingi sem var á 19. öld kunnur bátasmiður í Útvíkum“  (LK; Ísl.sjávarhættir II).  Utan á ofanverðu rimaborði er slettulisti en ofan á því er borðstokkur, og hástokkur þar ofan á.  Krappi heitir stykki sem tengir borðstokka og stafna.  Borðin, umförin, eru sköruð lítillega og fest saman með bátasaum, sem oftast nefnist bugningur,  með skífu sem nefnd er , innanvert sem hnjóðuð er á með súg og hamriBönd eða rangir eru innan á bátnum til styrktar, þvert á umförin með nokkru millibili; þar sem band er á lofti við skarir myndast holröng.  Þvert yfir bátinn eru svo þóftur til styrktar og til setu fyrir bátsverja; þær hvíla á langböndum sem eru innan á böndum.  Niður undan hverri þóftu er stoð niður í kjölinn eða bunkastokkinn sem nefnist stelkur.  Milli þóftanna eru bil sem nefnast rúm.  Framanfrá talið hafa rúm og þóftur þessi nöfn:  Barki; barkaþófta; fyrirrúm; miðskipsþófta; austurrúm; bitaþófta; skutur og aftast skutlok.  Á þóftunum, úti við lunninguna, eru þríhyrnd stykki sem nefnast kollharðar.  Á borðstokkum eru tollur (stundum nefnd ræði eða keipar), járnteinar sem árar leika á þegar bátnum er róið, en þá er járnlykkju í árinni brugðið á tollu á borðstokknum.  Ofan á böndin í botni bátsins er festur plankabútur sem heitir stelling; í hann og utaná þóftu festist siglan.  Farviður nefnast einu nafni lausir hlutir sem fylgja þurfa báti.  Það eru árar; stýri; stýrissveif; akkeri; festar; sigla; segl; reiði; austurtrog; negla; stjaki ef er; plittar í botni og fiskifjalir milli rúma (séu þær ekki fastar).  Til farviðar teljast hvorki veiðarfæri báts né hlunnar, búkkar eða annað sem tilheyrir uppsetningu og uppsátri.  Hlutar árinnar eru blað, leggur, stokkur með lykkju og hlummur sem haldið er um.  „Á einmánuði, eða nokkru fyrir sumarmál, voru bátarnir búnir undir vertíðina; vor- og sumarróðra.  Þeir voru vandlega hreinsaðir og búnir undir bikun eða málningu.  Allir voru þeir bikaðir, tjörubornir, innan og sumir einnig að mestu utan.  Hástokkar, borðstokkur og slettilisti voru oftast málaðir að sjólínu, og stundum eitt umfar.  Aðrir voru málaðir að sjólínu og bikaðir eða málaðir í öðrum lit þar fyrir neðan.  Enn aðrir voru e.t.v. málaðir utan í einum lit.  Þar fyrir var útlit bátanna mjög sundurleitt“  (KJK; Kollsvíkurver).  Að tjörubera skip var einnig nefnt að bráða þau.  „Við vestanverðan Breiðafjörð var löngum þversegl....Hákarlaskip Vestfirðinga voru með einu þversegli.  Á þeim þekktist reyndar loggortusigling, t.d. í Víkum norðan Látrabjargs, en þar var þó hinsvegar þversegl á öllum venjulegum fiskibátum...“  (LK; Ísl. sjávarhættir II).  Sjá bátasmiður/bátasmíði.

Beddi (n, kk)  Gæluheiti á rúmi. Fremur notað um óvandað rúm; svefnbekk; svefnsófa.  Tökuorð úr ensku; bed.

Bedrift (n, kvk)  Verkefni; atvinnurekstur.  „Hverskonar bedrift hefur hann með höndum“?

Bedrífa (s)  Gera, aðhafast.  „Hvað fórst þú að bedrífa eftir að þú hættir á síðasta vinnustað“?

Beð (n, hk)  Matjurtareitur í garði, t.d. kartöflubeð, rófubeð o.fl.  Eftir að garður hefur verið stunginn upp og settur í hann húsdýraáburður er honum skipt upp í beð sem hvert er tæpur metri á breidd; aðskilin með götum.  Eigi að setja niður kartöflur eru oftast gerðar 4 holur þvert á beðið og með sama millibili langsum.  Til að gera holurnar var oft höggvið með horninu á hrífunni sem beðið var sléttað með.  Í holuna var útsæðiskartaflan sett og e.t.v. skítaköggull með.  Eftir að kartöflur voru komnar í allar holur var rakað yfir beðið og holunum með því lokað.  Síðan var e.t.v. stráð lítillega af áburði yfir.

Beðja (n, kvk)  Hrúga; haugur; flækja.  „Það eru beðjur af þara út um alla fit eftir þarahreinsunina úr grásleppunetunum“.  „Það þyrfti að hreinsa arfabeðjuna úr garðinum“.  „Grasið er allt lagst í beðju.

Beður (n, kk)  Rúm; uppbúið rúm.  Sjaldan í mæltu máli nú á tímum.  Sjá dánarbeður.

Befala (einhverjum) (s)  Fela (einhverjum); láta í hendur (einhvers).  Dönskusletta sem brá enn fyrir í munni sumra framá síðarihluta 20.aldar. 

Befalingsmaður (n, kk)  Umboðsmaður; fulltrúi; fullmektugur.  Sjá kóngsins befalingsmaður.

Beggja blands / Beggjablands (orðtak/l)  Á báðum áttum; óákveðinn; efins.  „Ég er enn beggja blands um það hvort ég á að fara“.  „Ég er dálítið beggjablands varðandi þessa ákvörðun“.Sjá efast sundur og saman og bland.

Beggja skauta byr (orðtak)  Byr sem kemur hornrétt á segl.  Hann var talinn geta verið viðsjárverður.

Beggjahandajárn / Beggja handa járn (n, hk/ orðtak)  Einstaklingur sem getur leikið tveimur skjöldum.  Ótraustur.  Einnig sagt; tveggja handa járn, en bæði orðtök merkja það sama.  „Ég myndi nú ekki leggja trúnað á allt sem hann segir í þessu efni; hann getur stundum verið beggjahandajárn“.

Beggjamegin / Beggjavegna / Beggja vegna (ao)  Báðumegin „Gömlu mennirnir sem stunduðu fiskveiðar á árabátum sínum beggjavegna Rastarinnar sögðu að hún lægi niðri, sem þeir svo kölluðu, einstaka sinnum“  (MG; Látrabjarg). „... upphækkaður vegur með skurðum beggja vegna“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).  „Bitanum var fest þannig að hann var bundinn niður í þóftuna beggja megin út við borðstokkana“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).

Begrafelsi (n, hk)  Jarðarför; erfidrykkja.  „Ég hitti mikið af gömlum sveitungum í begrafelsinu“.  Dönskusletta.

Behagar (s)  Hentar; kemur vel.  „Þessu liggur ekki á; þú hefur þetta eins og þér best behagar“.

Behollning (n, kvk)  Útgangur; útlit; afkáralegur klæðnaður.  „Hvers konar behollning er eiginlega á þér drengur?  Þú ferð ekki út í náttfötunum þó þú sért með húfu“!  „Það var orðin frekar larfaleg behollning á karlinum þegar hann fór af þorrablótinu“.

Beiða / Beiðast (s)  A.  Biðja; fara fram á. Var að öllum líkindum ráðandi áður í máli Kollsvíkinga, þó síðar yrði það sögnin að „biðja“. „Ég beiddi hann um að fá lánaðar hjólbörur“.   „Það þýðir ekki að beiða hann nokkurs“.  „Vatnaðirðu hrútunum eins og ég beiddi þig“?  „... sagði honum að afhenda mér það sem ég beiddi um“.  (ÓTG; Ágrip af æviferli).  „Hann beiddist þess af mér að fá hrútinn lánaðan nokkra daga“.   Gerdirdu það sem ég beiddi þig um“?  B.  Ganga; verða yxna.  „Mér sýnist að hún Skjalda sé farin að beiða“.  Notkun í þessari merkingu hefur haldist.

Beiða upp (orðtak)  Um kýr; ganga upp; verða yxna aftur.  „Ég er hræddur um að hún Skjalda hafi beitt upp“.  Algengara var þó í Kollsvík hugtakið að „ganga“; ganga upp“ og að það sé „gangur á kýrinni“.

Bekkinn (l)  Stríðinn; hrekkvís; óútreiknanlegur.  „Varaðu þig á naukálfinum; hann getur verið ári bekkinn“.

Bekkni (n, kvk)  Hrekkir; stríðni.  „Af bekkni við karlinn földum við annan inniskóinn í stígvélinu“.  Algeng var sögnin að bekkjast við einhvern í merkingunni að hrekkja einhvern.

Beiða (s)  Biðja.  Fyrrum var þessi framburðarmynd algeng, en heyrist ekki nú til dags.  „Ég gekk til hennar, lagði hendur um háls henni og beiddi hana að koma heim“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Beiða/biðja fyrir (orðtak)  Sjá um; koma til skila.  „Ég beiddi hann fyrir bréf til þeirra“. 

Beiða/biðja lengstra orða (s)  Biðja innilega; leggja áherslu á.  „Ég beiddi hann þess lengstra orða að koma ekki með þetta inn í hús“.  „

Beiða upp (orðtak)  Um kýr; ganga upp; verða aftur blæsma/ með gangi eftir að hafa verið haldið undir naut.  „Höktu í foldarhupp/ harðsvíruð ægistól./  Búsmalinn beiddi upp/ bændur litu ei sól./  Rak fólk í rogastans/ riðaði foldin við/ er ribbaldinn Rósinkrans/ ruddist úr móðurkvið“  (JR; Rósarímur). 

Beiðast (s)  Biðja um; fara framá.  „Hann beiddist afsökunar á þessu atviki“.

Beiðast ásjár (orðtak)  Biðjast gistingar; biðja um greiða.  „Ætli ég verði ekki að biðjast ásjár hjá ykkur aftur fyrst ekki verður flogið vestur í dag“.

Beiðast/biðjast gistingar (orðtak)  Biðja húsráðendur um leyfi til gistingar; fá að gista.  „Það var orðið áliðið svo ég beiddist gistingar, sem var auðsótt mál“.

Beiðni (n, kvk)  Það sem um er beðið; ósk; tilmæli.  „Hann hefur ekki enn orðið við minni beiðni“.

Bein A.  Fiskbein sem til féllu við fiskverkun í Verinu voru notuð sem skepnufóður.  „... hryggirnir eru líka hirtir.  Hausar og fiskur eru hengdir á trönur; hryggirnir þurrkaðir á reitunum.  Þessi bein voru notuð fyrir skepnur næsta vetur.  Þau voru bleytt upp; barin og höggvin“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  B.  Um mann/skepnu; niðrandi heiti.  „Nú er rolluskrattinn komin út á Stíg aftur, árans beinið“!  „Skyldi hann ekki nenna að hefla hér yfir víkina, herjans beinið“.

Beina (s)  Vísa; setja í stefnu.  „Það mætti beina fénu framá Axlarhjallana; ef það skyldi vilja kroppa eitthvað“.

Beina för sinni að/til  (orðatk)  Fara til; ætla að.  „Að Vesturbotni beindi ég för minni þá fyrst;/ þar frændur veit ég tvo, svo káta og hressa./  Ég heyrði sagt að þeir hefðu konu aldrei kysst/ og komst í stuð og hlakkaði til þessa“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Beina (einhverju) inn á aðrar brautir (orðtak)  Leiða eitthvað í aðra átt.  „Með þessu tókst mér að beina samræðunum inn á aðrar brautir“.

Beina sjónum að (orðtak)  Beina athygli að; taka eftir; skoða.  „Menn beina helst sjónum að þeirri ástæðu“.

Beina skotspónum að (einhverjum)  (orðtak)  Beina árásum/ásökunum að; beina spjótum aðSkotspónn hefur almennt verið talið merkja skotmark (sjá þar).  Sú orðskýring fellur þó illa að þessu orðtaki, þar sem ólíklegt er að skotmarki sé beint að einhverjum.  Hugsanlegt er annaðtveggja; að á einhverjum tíma hafi orðið „skotspónn“ komið inn í stað orðsins „spjót“, eða að merking „skotspóns“ hafi um tíma yfirfærst á örvar og önnur skotvopn; og síðar á boðörvar og boðaxir sem notaðar voru til að koma boðum milli bæja. (sjá þingboðsöxi og rétt boðleið).  Það útskýrir þá einnig orðtakið heyra á skotspónum (sjá þar).  Sbr.einnig hafa að skotspæni; vera skotspónn.

Beina spjótum að (einhverjum) (orðtak)  Beina árásum/ásökunum að; beina skotspónum að.  „Mér kemur þetta ekkert við; þú verður að beina spjótum þínum að þeim sem ábyrgðina bera“.

Beina (orðum sínum) að/til (orðtak)  Segja við.  „Fundurinn beinir því til næsta sýslufundar að hann beiti sér fyrir að dreift verði áburði úr lofti á næsta ári“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Beinaber (l)  Mjög magur/grannholda.  „Mikið er hún Búkolla gamla orðin beinaber og hrum“.

Beinagarður (n, kk)  Regluleg röð beina; var einkum notað um fisk.  „Það er ekkert mál að hreinsa fiskinn sjálfur strákur.  Þú þarft bara að átta þig á hvernig beinagarðurinn liggur“.

Beinagrind (n, kvk)  A.  Beinasamsetning/stoðkerfi lífveru.  B.  Líkingamál um mjög horaða skepnu/ grannholda mann.  „Hann er nú ekkert að verða nema beinagrindin“!

Beinahjasl / Beinahjastur / Beinamusl / Beinarusl (n, hk)   Úrgangur sem að uppistöðu er bein; beinflísar.  „Hér er eitthvað beinahjarsl fyrir hundinn“. „Það situr eitthvað beinahjastur fast milli tanna á mér“.  Óttalegt beinamusl er í þessum harðfiski“.  Líklega hafa orðin áður verið notuð um fiskbein sem barin höfðu verið til skepnufóðurs.

Beinakerling (n, kvk)  Varða sem hlaðin er við alfaraleið.  Beinakerlingar voru við suma hestavegi fyrr á tíð; einkum hátt á fjalli; fjarri mannabyggðum; þar sem gjarnan var áningarstaður.  Nafn þeirra er tilkomið af því að sá sem átti leið um, stakk stundum beini í hana.  Oft rituðu menn þá vísu á bréfmiða sem stungið var í brotinn legg, og skilin eftir í vörðunni; þeim til skemmtunar eða heilabrota sem síðar fundu.  Vísurnar voru með ýmsu móti; sumar ortar til vörðunnar og gátu þá orðið nokkuð klúrar.  Sjá klofavarða.

Beinakex (n, hk)  Hart matarkex.  „Það er munur að fá almennilegar kökur með kaffinu, en ekki beinakex“.

Beinakjanni / Beinakjammi (n, kk)  Kjannaður/kollaður/klofinn og hertur steinbítshaus; tveit kjannar sem hanga saman á granabeinum/kjaftabeinum (sjá steinbítur).

Beinakvörn (n, kvk)  Vél sem mylur bein.  „Stundum komu líka skip er sóttu þurrkuð fiskbein og fluttu þau á staði þar sem beinakvarnir voru, og þau voru möluð“  (JB; Verstöðin Kollsvík). 

Beinamél / Beinamjöl (n, hk)  Mjöl sem unnið er úr með hitun/brennslu og mölun beina og notað sem skepnufóður eða áburður.

Beinasleggja (n, kvk)  Stórvaxin en grannholda manneskja.  „Ekki var hún neitt smáfríð, þessi beinasleggja“.

Beinasni (n, kk)  Niðrandi heiti; hálfviti; fábjáni; fáráðlingur.  „Hverskonar beinasni getur maðurinn verið“!

Beinastór / Beinasmár (l)  Stórbeinóttur/smábeinóttur.

Beinatínsla (n, kvk)  Það að tína bein/ taka bein úr mat/munni.  „Vissulega fylgir hausastöppunni mikil beinatínsla, en samt er þetta besti veislumatur sem hugsast getur“.

Beináta (n, kvk)  Meinsemd í beini.

Beinbrot (n, hk)  Brot beina/beins t.d. vegna slyss. 

Beinfeiti (n, kvk)  Feiti fiskbeina/lúðubeina; spildingur úr lúðu.  „Vani var að sjúga beinfeitina vel úr beinunum áður en þeim var hent“  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).  „ Að undanskildum flökum var allt annað af flyðrunni sem kom til skipta kallað beinfeiti....  Mikill matur var í höfuðkinnum af stórum flyðrum og þær voru því taldar afbragðs beinfeiti.  “  (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: Guðbj.Guðbjartsson Lágnúpi).

Beinfreðinn /Beinfrosinn / Beingaddaður (l)  Mjög frosinn; gaddfreðinn.  Notað til áhersluauka.

Beinfrost / Beingaddur (n, hk)  Hörkufrost; heljarfrost.  „Féð gerir lítið í fjöru í þessu beinfrosti“.

Beinfrysta / Beingadda (s)  A.  Um veðráttu; hlaupa í mjög mikið frost.  „Hann er að beinfrysta um leið og hægir vindinn“.  B.  Verða mikið frosinn.  „Það er hætt við að beingaddi í drykkjarílátunum núna“.

Beinharður (l)  A.  Mjög harður.  „Steypan var orðin beinhörð eftir fáeina klukkutíma“.  B.  Um peninga; fullgildur; raunverulegar.  „Hann greiddi víst traktorinn í beinhörðum peningum“.

Beinhákarl (n, kk)  Cetorhinus maximus.  Stórvaxin tegund hákarls og næststærsti fiskur heims; stærsti fiskur við Íslandsstrendur.  Getur orðið nær 12 metrar að lengd.  Algengur um öll heimshöf, sem og við Ísland.  Nærist á svifi og syndir þá um með gríðarstóran gapandi kjaft og síar allt að 2000 lítra af sjó á klukkustund.  Þess á milli getur hann legið tímunum saman í yfirborðinu.  Beinhákarlinn er eina hákarlstegundin sem hefur beinkennda stoðgrind, og af því er nafnið dregið.  Annað sem gerir þá frábrugðna er að þeir gjóta ungum en ekki eggjum/pétursskipum.  Meðgöngutíminn er allt að þrjú ár, og kvendýr verða ekki kynþroska fyrr en við 15 ára aldur.  Got fer fram á miklu dýpi og er fátt um það vitað.  Lifrin er afarstór, eða allt að fjórðungur af þyngd dýrsins, líkt og í öðrum háfiskum.  Var hann veiddur vegna lýsisins áðurfyrr.  Kringum 1970 sást beinhákarl stutt undan landi við Melsendakletta í Kollsvík, en ekki er óalgengt að sjá til ferða hans utar.  Stendur þá bakugginn gjarnan uppúr yfirborðinu.

Beini (n, kk)  Veitingar, matur; þjónusta; greiði.  „Konur komu nú á stjá og var mönnunum veittur beini og hresstust þeir nú fljótt“  (MG; Látrabjarg).

Beiningamaður (n, kk)  Betlari; þurfalingur.  „Svo freklega hafa stjórnvöld þjarmað að þessari blómlegu sveit að ekki alleina leggjast jarðir flestar í eyði, heldur þurfa íbúar að hrökklast þaðan sem beiningamenn“!

Beinkröm  (n, kvk)  Sjúkdómur sem orsakast af D-vítamínskorti og einkennist af linum beinum.

Beinlaus (l)  Án beina.  „Ég held að þessi flök séu alveg beinlaus“.

Beinlínis (ao)  Alveg; beint.  „Það er kannski ekki beinlínis hægt að fullyrða með „vísindalegum“ röksemdum að þarna sé nafli alheimsins, en býsna margir hallast þó fremur að þeirri kenningu“.

Beinn (l)  Án hlykkja/sveigju.  „Eftir að komið var fyrir Djúpboðann var siglt í beina stefnu fyrir Blakknesboða“.

Beinskeyttur (l)  Rökfastur og hvassyrtur.  „Doddi kútur gat verið býsna beinskeyttur í garð yfirvalda“.

Beint (ao)  Mjög; afar; alveg.  „Það er ekki beint félegt veðrið þessa stundina“.  „Þetta var ekki beint fallegt“.

Beint af augum (orðtak)  Í beina stefnu eins og horft er; beint áfram.  „Þótt nú gerðist harðla hvasst/ hrikti í rám og taugum;/ segladótið set ég fast,/ sigli beint af augum“  (JR; Rósarímur).

Beint á að ganga (orðtak)  Greiðlegt aðgöngu; liggur beint við; augljóst hvernig á að framkvæma.  „Hann hafði sorterað fiskinn eftir stærð, svo það var beint á að ganga hjá mér að spyrða“.

Beint strik (orðtak)  Áhersla á beint; rakleiðis.  „Kindurnar settu sig beint strik neðan Hænuvíkurtó þegar ég hóaði í Gálgasteinabrekkunum“.  Í seinni tíð stundum „blátt strik“.

Beinvaxinn (l)  Um mann; hnarreistur; beinn í baki; keikur.  „Snæbjörn var fremur lágur maður; beinvaxinn og bar sig vel“  (ÖG; Snæbj.J.Th; Árb.Barð 1980-90). 

Beinverkir (n, kk, fto)  Eymsli sem virðast eiga upptök sín í beinunum.  „Pestinni fylgdi hár hiti og beinverkir“.

Beiskja (n, kvk)  A.  Beiskt bragð.  B.  Sárindi við einhvern; þungur hugur til einhvers; reiði; kali.

Beiskjublandinn (l)  Með vott af biturleika; sárindum; þykkju.  „Eftir að hann tapaði kosningunum óskaði hann aðndstæðingi sínum til hamingju, en sumum fannst ræðan þó nokkuð beiskjublandin“.

Beiskjulaus (l)  Reiðilaust.  „Það er beiskjulaust að minni hálfu þó þarna séu hirtir einhverjir eggjakoppar“.

Beisklega læturðu drottinn minn (orðatiltæki)  Viðhaft þegar eitthvað gengur í móti; þegar á móti blæs; þegar verk gengur illa.  „Ætlar hann svo að fara að hellirigna á okkur?  Ja, beisklega læturðu nú drottinn minn“!

Beisklyndur (l)  Beiskur í lund/huga. 

Beiskur (l)  A.  Bitur/sterkur á bragðið; með beisku bragði.  B.  Bitur; reiður; sár.  „Lengi eftir þetta var hann beiskur í garð hreppsnefndarinnar“.

Beiskur bikar/kaleikur (orðtak)  Það sem erfitt er að sættast á/ sætta sig við.  „Ætli maður verði ekki að sitja uppi með þennan beiska bikar“.  „Mér þótti það skolli beiskur kaleikur að vera svikinn um þetta“.

Beiskur ertu drottinn minn (orðtak)  Viðhaft þegar maður smakkar eitthvað mjög bragðsterkt, sýpur t.d. á sterku víni.  „Beiskur ertu nú drottinn minn; hvaða andskotans metall er þetta eiginlega“?

Beiskyrði (n, hk)  Reiðileg orð; fúkyrði.  „Frekari beiskyrði eru ekki til þess fallin að séttla þetta mál“.

Beisla (s)  A.  Leggja beisli/band við hest.  B.  Koma böndum/stjórn á eitthvað.  „Valdimar á Láganúpi vann að þróun hverfils til að beisla orku sjávarfalla í annesjaröstum“.  Til er nafnorðið beisla, sem merkir milligerð/hella milli bása, en það var ekki notað í Kollsvík í seinni tíð.

Beisli (n, hk)  A.  Taumur sem lagður er í munn hests til að stjórna honum.  Þá er útbúinn múll á hestinn, sem beislið festist í; járnmél eru í munni hestsins og taumar ganga úr þeim sem reiðmaður hefur hönd á.  B.  Búnaður aftaná farartæki, t.d. traktor, til að festa tæki/kerru aftaní til dráttar.  Á flestum traktorum nútildags er þrítengibeisli með vökvalyftu, en með henni er unnt að lyfta tæki sem tengt er á það, s.s. múgavél.

Beit (n, kvk)  A.  Það að búfénaður bíti gras sér til fóðrunar.  „Kýrnar voru á beit í Túnshalanum“.  B.  Svæði/graslendi þar sem búfé getur bitið sér til fóðrunar.  „Fénaði var ávallt haldið til fjöru- og hagabeitar í Útvíkum“.  C.  Samfella.  „Hann dró marga stórþorska í beit meðan ég fékk ekkert nema titti“.  Í þessari merkingu er heitið líklega dregið af því að sigla beitivind í einum samfelldum legg, en beit var fyrrum sumsstaðar notað um að sigla beitivind.

Beita (n, hk)  A.  Agn; það sem sett er á krók til að egna fyrir fisk.  Í Kollsvík hefur verið nýtt margskonar beita í gegnum tíðina.  Gamlar heimildir greina frá notkun fjörumaðks, og er hans getið í Jarðabókinni, þar sem rætt er um jarðir í Útvíkum.  „Beita er maðkur og brandkóð.  Item heilagfiski á vor“  (ÁM/PV; Jarðabók; um Láganúp).  Hluti útgerðar hefur því falist í að grafa eftir maðki og grípa bröndur, sem nóg var af í lækjum.  Lúða sem nýtt var til beitu nefnist beitulok.  Notuð var hrognkelsabeita þegar lóðir voru uppteknar í Kollsvík á 19. öld.  „Beita á lóðirnar þetta fyrsta vor var svokölluð hrognkelsbeita; þ.e. innyfli og hýði utan af hrognum, ásamt því sem í því loddi af hrognunum“  (Guðbjartur Guðbjartsson; veiðar í Kollsvíkurveri; viðtal EÓ 1962).  Fljótlega fóru menn þó að nota kúfisk á lóðir (sjá þar).  Kúskelin var opnuð með útbrotakutta, en hann var einnig nýttur á öðu og krækling sem rak á fjörur og var nýttur til beitu.  Ljósabeita var alltaf notuð töluvert.  Helst var þá tekinn kverksigi/gella af þorski, og nefndist þá Pétursbeita eða lubbi þegar hafður var í beitu.  Einnig var tekinn lífoddinn og skorið í mjóan fleyg aftureftir kvið; helst þannig að hjartað fylgdi.  Gormur (görn) úr steinbít var mikið notaður fyrir beitu í Útvíkum, enda óvíða meiri steinbítsveiði.  Lúðunnar hefur þegar verið getið.  Rauðegni nefnist sú beita sem rauðleit er, en það getur verið nýtt fuglakjöt; hnísugarnir; selgarnir; sauðainnyfli og brandkóð (bröndur).  Af þessu hafa sennilega fuglsgarnir og brandkóð helst verið notuð í Kollsvíkurveri, enda nærtæk beita.  Ekki fer sögum af notkun sílis sem beitu í Kollsvík, þó það kunni að vera, og ekki er vitað til að þar hafi verið beitt síld.  Smokkfisköngull gamall var lengi til á Láganúpi, en ekki er vitað til að smokkfiskur hafi verið nýttur til beitu á þar.  Eftir að lóðafiskiríi lauk, fyrir miðja 20. öld, urðu fljótlega algengir skakkrókar með gervibeitu og hafa þeir mest verið nýttir síðan.  B.  Stykki/lykkja af hákarli.  „Hann lét mig hafa hálfa beitu af girnilegum skyrhákarli og bita af glerhákarli“.  Fremur var talað um lykkjur í Kollsvík fyrrum.

Beita (s)  A.  Egna fyrir fisk.  (sjá beita fiskilega).  „Þá var lóðin stokkuð upp og tilbúin að beita hana“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Handfæraönglar voru oftast roðbeittir; en þá var oddinum stungið í gegnum fisk og roð; beitan hékk á bugnum.  Þá var sagt að öngullinn væri oddbeittur.  Þegar oddinum var stungið milli himnu og roðs svo beitan gekk niður í bug hét það að bugbeita“  (LK; Ísl. sjávarhæ ttir IV).  Sjá einnig bugbeita; oddbeita; roðbeita.  B.  Halda fé til beitar.  „Alltaf var beitt ef veður leyfði og þá staðið hjá yfir daginn.  Beitt var í fjöru ef þari var, og bitfjöru yfir stórstraum.  Mest sótti féð í söl og maríukjarna“  (ÖG; Niðjatal HM/GG).  C.  Sigla beitivind.  „Oft þurfti að beita uppí, og jafnvel nauðbeita“.  D.  Berjast fyrir.  „Hann beitti sér fyrir mörgum framfaramálum“.  E.  Draga. „Traktornum var beitt fyrir heyvagninn“.

Beita blekkingum/brögðum/kænsku/klækjum/klókindum (orðtök)  Viðhafa skipulagningu/brögð/blekkingar til að koma ætlunarverki í framkvæmd.  „Ég þurfti að beita nokkrum klókindum til að sannfæra karlinn“.

Beita fiskilega (orðtak)  Beita krók þannig að líkur séu á þeirri veiði sem óskað er.  Misjafnt var hve menn voru lagnir við þetta; bæði að skera góða tálbeitu og egna hana haganlega.  „Hann kenndi honum að búa út færi sitt og beita fiskilega í samræmi við dýpi á miðunum og þá stærð fiskjar sem mest var af...“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Beita fyrir (orðtak)  Láta draga.  „Farmallnum var beitt fyrir vagninn“.

Beita hörðu (orðtak)  Vera harður; sýna hörku.  „Ég þurfti að beita mig hörðu til að leggja út í hríðina“.

Beita sér (orðtak)  A.  Um sauðfé; bíta gras; vera á beit.  „Féð beitir sér lítið í þessu skítaveðri“.  B.  Um mann; berjast fyrir framgangi málefnis.  „Þetta fór fyrst að ganga eftir að hann hóf að beita sér í málinu“.

Beita sér fyrir (orðtak)  Vinna ötullega að; einbeita sér að því að fá fram.  „Össur beitti sér fyrir stofnun héraðsskjalasafns á Patreksfirði“. 

Beita uppí (orðtak)  Sigla beitivind; sigla nærri vindi; sigla bát í stefnu eins nærri mótvindi og unnt er.

Beita út (orðtak)  Beita línu um leið og hún er lögð á miðin.  „Formaðurinn dró.  Aðstoðarmaðurinn, eða einhver sem til þess var valinn, beitti út sem kallað var.  Á meðan legið var yfir þá var búið að brjóta úr skelinni sem höfð var með og skera í bita, og þessu var beitt út; kastað út jafnóðum og dregið var.  Og hálmennirnir urðu að róa til að hafa áfram“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  „Við höfðum skeljar í poka og skárum úr meðan legið var yfir.  Þegar var stórstraumur var þetta erfitt verk því alltaf var „beitt út“; þ.e. línan var dregin með borði; ekki innbyrt, og beitt jafnóðum og fiskurinn var tekinn af henni“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Beita tannbyrðing (orðtak)  Beita þannig á krók að raðað sé mörgum beitum saman; helst sinni af hvor tagi; t.d. fuglaketi, ljósabeitu og e.t.v. skel eða maðki á víxl.  ÖG á Láganúpi sagði að slíkt hafi stundum verið gert í Kollsvíkurveri þegar útbúa skyldi tálbeitu, t.d. fyrir lúðu.  Sjá tannbyrðingur.

Beita þögninni (orðtak)  Svara engu; svara með þögninni.  Orðtakið var allmikið notað seint á 20.öld í Rauðasandshreppi, og einkum notað um vissa persónu sem var all hnýsinn um annarra hagi en svaraði engu væri hann spurður um það sem að honum sneri.  GJH hélt þessu allnokkuð á lofti.

Beitarhefð (n, kvk)  Hefð fyrir því að bóndi beiti fé sínu á jörð í eigu annars.  „Þannig var hefð fyrir því að fé úr Kollsvík nýtti bithaga í Breiðuvík; einkum fé frá Láganúpi og Grundum“. 

Beitarhús (n, hk, fto)  Fjárhús eða skýli nærri bithaga eða bitfjöru, þar sem fé gat legið við opið og fengið skjól.  Yfileitt var fé þá á útigangi og án gjafa, nema tæki fyrir beit í mestu harðindum.  „Á Dalshúsum munu síðar hafa verið beitarhús frá Bæ“  (PJ; Örn.skrá Rauðasands).  „Fjarðarhornið er fallegur grösugur blettur í skjóli fyrir norðri...  Þarna sér fyrir beitarhúsatóttum og fjárrétt, og ef til vill kofa fyrir sauðamann“  (IG; Sagt til vegar I).  

Beitarítak (n, hk)  Réttur eins aðila (oftast kirkjujarðar) til beitar á land annars.  „Sauðulauksdalskirkja á beitarítak fyrir 60 sauði í landi Hvallátra.  Sagt er að einn vetur hafi sauðamaður horfið þar, ásamt fénu, og síðan hafi ítakið ekki verið nýtt“.

Beitarjörð (n, kvk)  Jörð sem hentar vel til hagabeitar fyrir sauðfé; fóðurlétt jörð; jörð sem einkum er nýtt til beitar en ekki annarra búskaparnytja.

Beitarland / Beitarsvæði /Beitiland (n, hk)  Svæði sem fé gengur á til beitar.  Mjög er misjafnt hvar fé af einstökum bæjum velur sér beitiland, en kindur eru fastheldnar á beitarsvæði ár frá ári.  Þannig gekk Láganúpsfé mestmegnis í kringum Láganúpstúnið; á Vatnadalssvæðinu; í Breiðnum; í  Breiðuvík og lítilsháttar á Bjarginu.  Hinsvegar gekk Kollsvíkurfé í kringum Kollsvíkurtúnið; í og á Blakknum; inn um Gjárdal; fram um Húsadal; Keldeyrardal; Hafnardali og Hvolf og lítilsháttar á Hlíðunum.  Breiðavíkurfé; Hænuvíkurfé og Hafnarfé heimtist stundum í Kollsvíkur- eða Láganúpsréttum, en þó furðu lítið.

Beitarnytjar (n, kvk, fto)  Notkun til beitar.  „Nágrannabóndinn hafði beitarnytjar af jörðinni“.

Beitarskortur (n, kk)  Ekki næg beit fyrir sauðfé.  „Kom allur fénaður á innistöður með desembermánuði, sem hélst sökum beitarskorts fram á fyrstu viku góu“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1937). 

Beitartollur (n, kk)  Gjald fyrir afnot af beitilandi. 

Beitiás (n, kk)  Seglás; ástré; stangi; stöng sem er hluti af seglabúnaði sumra b´ta með þversegl.  Öðrum enda beitiássins er stungið fremra skaut (neðra horn) seglsins og í hinn enda í kollharðskverk á fyrirrúmsþóftu og skipfestur (bundinn) þar.  Beitiásinn kom einkum að notum þegar sigldur var beitivindur, og var nefnt að leggja í áslag, þegar hann var notaður.  (LK; Ísl. sjávarhættir II). 

Beitilyng (n, hk)  Calluna vulgaris.  Lítill fjölær runni sem verður 20-30 cm hár og er algengur hérlendis sem og  í Evrópu og Asíu.  Finnst um allt Ísland en þó síst á Vestfjörðum.  Vex best í þurrum, tiltölulega súrum jarðvegi á opnum svæðum og er ríkjandi gróður á heiðum og í móum, en þó síður á láglendi.  Blómstrar bleikum, drúpandi blómum að hausti.  Þykir gott til vetrarbeitar sauðfjár, en var einnig haft í húsum til að fæla mýs frá.  Þótti gott við þvagfærasýkingum og sem svefnlyf.

Beiting (n, kvk)  A.  Það að beita fénaði á land eða í fjöru.  B.  Það að sigla beitivind.  C.  Neyting; notkun.  „Þetta er ekki rétt beiting á skóflunni“.  „Mikilvægt er að kunna rétta beitingu orðanna“.

Beitinn (l)  Um beitu; fiskin; tálbeita.  „Við Hvilft er Hilftarlækur og Hvilftartjörn, full af bröndum sem voru svo beitnar að það var vís spraka ef þeim var beitt“  (Kristján Jónsson; Örn.skrá Raknadals). 

Beitivindur (n, kk)  Mótvindur í siglingu.  Til að sigla beitivind þurfti að krusa, þ.e. fara skáhallt móti honum í krákustígum.    „Spritsigling...var betri í beitivindi, og var það aðallega klýfinum að þakka“  (IN; Barðstrendingabók).  „Stæði vindur um saxið var kominn beitivindur, og ef hann stóð enn framar var nauðbeit.  Þá var þess skammt að bíða að vindur tæki ekki segl“  (LK; Ísl. sjávarhættir III). 

Beitning (n, kvk)  Egning króks til fiskveiða, á línu eða handfærum.  Fyrir daga gervibeitu var ýmiskonar beita notuð (sjá þar).  Miklu skipti að vanda til beitunnar; að hún væri fersk; rétt skorin og rétt sett á krókinn.  Væri ljósabeita skorin af kviði náði hún oft frá eyrugga aftur á gotrauf.  Þegar beitt var lubba var króknum stundið í hann framanvert og hann síðan skorinn frá; helst með hjartanu.  Gott þótti að blóðrjóða ljósabeitu.  „Þegar handfæraöngull var beittur fyrir steinbít var gorminum úr honum snúið við og hann fikaður/fitjaður upp á öngulinn.  Sumir skáru þá ferning úr steinbítskinn og höfðu á leggnum fyrir ofan gorminn agnhaldsmegin; á Vestfjörðum kallað fastabeita.  En á oddinn létu menn oftast steinbítslifur.  Sami háttur var hafður á þegar steinbítsmaga var beitt.  En aðrir fiskar en steinbítur fengust einnig á slíkt agn“.  Handfæraönglar voru oftast roðbeittir; en þá var oddinum stungið í gegnum fisk og roð; beitan hékk á bugnum.  Þá var sagt að öngullinn væri oddbeittur.  Þegar oddinum var stungið milli himnu og roðs svo beitan gekk niður í bug hét það að bugbeita.  Sumir hræktu á beituna áður en færi var rennt, og þótti ekki lakara ef það var tóbaksslumma.  Brandkóði þarf að krækja þannig að gangi í gegnum roðið báðumegin.  Þegar öðu eða kræklingi var beitt voru oft hafðir 2-3 á hverjum krók og krækt í gegnum tungu og trjónu, en einn kúfiskur nægði á handfæraöngul.  „Meðan veitt var með hinum stóru síldarlausu handfæraönglum þótti fiskilegast að hafa fleiri en eina beitutegund, t.d. ljósabeitu og fuglakjöt á víxl; allt frá oddi að ávafi; kallað að beita tannbyrðing; öðru nafni tálbeita.  Gott þótti að hafa sprökuhjarta á oddinn.  Fjörumaðki var þannig beitt að önglinum var stungið í bolinn við halamótin og maðkurinn fitjaður upp á öngulinn, uns oddur og agnhald komu framúr hausnum“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimildir m.a. ÓETh og ÞJ). 
Ekki er kunnugt að neinn hafi beitt tannbyrðing þann sem þjóðsagan tilgreinir:  „Fuglsfóarn og flyðrubita;/ mannaket á miðjum krók/ og mús á oddi;/ Komi þá enginn kolmúlugur úr kafi/ þá er ördeyða á öllu Norðuratlantshafi“.  Þjóðsögur voru lífseigar um að Fransmenn sæktust eftir rauðhærðum drengjum í beitu.  Sölmundargjá á t.d. að draga nafn af því að þar hafi hinn rauðhærði Sölmundur bjargað lífi sínu á flótta undan Fransmönnum sem höfðu keypt hann í beitu, með því að klífa upp gjána. 
Eftir að lóðafútgerð frá Kollsvíkurveri komst á skrið á 19. öld var beitt kúfiski (sjá þar).  „Línan var beitt í landi að kvöldi hvers dags sem róið var, og fyrir fyrsta róður.  Var þá einn skipverja sem veitti; tók fiskinn úr skelinni og skar beituna“.  Eftir að línan hafði fyrst verið lögð var „skorið úr skel og beita brytjuð“.  Línan var síðan dregin og beitt jafnharðan út aftur.  Ef gaf var farið í annan róður samdægurs.  (KJK; Kollsvíkurver).  Þegar lína var lögð um leið og dregið var hét það að fara með eða fara með borði

Beitningarmaður (n, kk)  Sá sem beitir krók eða fiskilínu. 

Beitningaraðstaða / Beitningarpláss / Beitningarskúr (n, kk)  Staður þar sem lína er beitt. 

Beitningarborð (n, hk)  Borð sem fiskilína er beitt við.  Línan/bjóðið er þá haft uppi á borðinu ásamt beitunni en beitt í bala við borðhliðina.  Á borðinu er beitan skorin og þar eru krókar réttir. 

Beitningartrilla (n, kvk)  Búkki með snúningsborði, sem línubali er hafður á meðan lína er beitt í hann.  Unnt er að snúa balanum og með því ná auknum hraða við beitninguna. 

Beitningarvettlingar (n, kk, fto)  Vettlingar sem henta til að hlífa höndum og ná betra taki á beitunni.  Vanalega þunnir bandvettlingar.

Beitningarvinna (n, kvk)  Vinna við beitningu fiskilínu. 

Beittur (l)  A.  Um eggjárn/hníf; bitur; skarpur; með góðu biti í eggina; vel hæfur til að skera með.  „Ekki fannst mér ljárinn nógu beittur hjá þér“.  „Gættu þín á hnífnum; hann er flugbeittur“!  B.  Afleidd merking um t.d. háð, níð, skáldskap o.fl.  „Hann átti til þennan beitta húmor, þó fámáll væri oftastnær“.

Beitufjara (n, kvk)  Fjara þar sem beitu er aflað (t.d. maðks eða kúfisks).  „Fyrst var farið í beitufjöru í Bugnum á Hvalskeri og krafsað þar með höndunum kúffiskskeljarnar uppúr sandinum“  (Guðm. Jón Hákonarson; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrásetti; Árb.Barð 2004).

Beituhnífur / Beitukutti (n, kk)  A.  Kúfiskhnífur; hnífur sem hentar  til að ná innanúr kúskel og skera í hæfilega beitu.  Hentugur beitukutti er með stuttu blaði og voru oft notaðir oddbrotnir hnífar.  B.  Líkingamál um oddbrotinn hníf.  „Þessi vasahnífur er nú orðinn hálfgerður beitukutti“.

Beitukóngur (n, kk)  Buccinum undatum.  Ætikóngur; nákóngur.  Stór sæsnigill/kuðungur af kóngaætt.  Var áðurfyrr veiddur og nýttur til beitu og til matar.  Algengur um allt N-Atlantsha og finnst allt í kringum Ísland, einkum grynnra en 50 m dýpi en hefur fundist niður á 1200 metrum.  Litur er breytilegur; hvítur, gulleitur eða brúnleitur.  Traustlegur með nokkuð odddregnu horni; vindingar 7-8 og sá stærsti oft meirihlutinn af lengdinni.  Kaðalmynstur liggur í reglulegum bugðóttum röðum þvert á vindingana.  Munnopið er egglaga og ytri vör sveigð útávið.  Baugarnir á lokunni segja til um aldur kuðungsins, en sá elsti veiddur hér við land var um 13 ára.  Verður 7-10 cm á hæð og er breiddin um 60% hæðarinnar.  Skelin oft þakin ásætum s.s. hrúðurkörlum og kalkpípuormum.  Skyldasta tegundin er hafkónugur (Neptunea despecta).    Beitukóngur er veiddur til matar víða í Evrópu og í Kanada.  Svo var einnig hér við land fyrrum, en auk þess var hann veiddur til beitu eins og nafnið ber með sér.  Veiðiaðferðin var þannig að net var strengt á gjörð og þorskroð bundið í netið.  Gjörðin var lögð frammi á útfiri og dregin með útfallinu, en þá var roðið oft þakið kuðungum.  Í dag er beitukóngur veiddur í sérstakar gildrur. 

Beitulok (n, kvk)  Lítil lúða sem nýtt er í beitu/agn, m.a. í Kollsvík.  . „Beita er maðkur og brandkóð.  Item heilagfiski á vor“  (ÁM/PV; Jarðabók; um Láganúp).  „Oft var hausinn skorinn af, síðan sporðurinn; að því búnu var hnakkaflatt og úr tekinn spildingurinn.  Á kviðinn var gerð þuma og síðan var lokið ráfest og geymt þannig þangað til því var beitt.  Tíðum var það þá orðið hálfhert, enda var algengt á Vestfjörðum að tala um að beita riklingi“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

Beitumaðkur (n, kk)  Annað heiti á sandmaðki, sem mikið var notaður til beitu áðurfyrr.

Beitupoki (n, kk)  Þegar róið var með línu úr Kollsvíkurveri var beitt kúfiski, sem að mestu var sóttur inn í Skersbug.  Hann var tíndur í strigapoka og geymdur lifandi í nokkra daga í sjó.  „Nú vorum við með beitupokana í bátnum, svo tókum við salt eins mikið og hægt var“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Beitusmokkur (n, kk)  Smokkfiskur; Ommatostrephes todarus.  Þekktasti og algengasti smokkfiskurinn af 10 tegundum hér við land, enda nytjaður til beitu eins og nafnið ber með sér.  Með 10 arma sem sitja framaná hausnum og eru alsettir sogskálum.  Tveir armar eru lengri en hinir og hjá karldýrum geta þeir breyst í getnaðarlim.  Tenntur skolturinn situr milli armanna, en fiskurinn er beinlaus.  Kápa umlykur bolinn og innan hennar eru tálknin.  Smokkfiskurinn getur dælt sjó og spýtt honum af krafti til að knýja sig áfram; eða réttara sagt afturábak, því armar og augu eru undan stefnunni sem synt er í.  Þá getur hann spýtt svörtu bleki til að hylja sig og rugla andstæðing í ríminu.  Beitusmokkur kemur upp að Íslandsströndum í ætisleit uppúr miðju sumri og dvelur frameftir hausti.  Elstu heimildir um hann eru frá Vestfjörðum fyrir 1700, en þar gekk hann á land.  Hann er tálbeita fyrir fisk eins og nafnið bendir til.  Fyrrum var hann mest tíndur þegar hann hljóp á land, en eftir 1880 lærðu sjómenn af Frökkum að veiða hann á sérstaka smokkfisköngla.  Veiðarnar eru helst stundaðar á haustkvöldum og þá brugðið upp ljósi til að laða smokkfiskinn að. 

Beitutollur (n, kk)  Gjald sem greitt var fyrir að afla beitu úr annars manns landi.  „Sjaldan var meiri skel en svo að hver maður næði í 1-2 poka í ferðinni.  Beitutollur var 2 kr fyrir hvern mann yfir fjöruna“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimildir GG; KJK o.fl.; sjá kúfiskur). 

Beituöflun (n, kvk)  Það að afla/ ná í beitu til að geta veitt.  „Þegar byrjað var á vorin að leggja línuna, þurfti beituöflun áður að hafa átt sér stað.  Beita sú er nær eingöngu var notuð var kúfiskur“  (KJK; Kollsvíkurver).

Bekenna (s)  A.  Viðurkenna; meðganga.  „Hann vill nú ekki bekenna að hafa gert þetta“.  B.  Um spil; taka undir í sömu sort og forhandarmaður leggur út.

Bekenndur (l)  Viðurkenndur; samþykktur; álitinn.  „Hann var bekenndur sem fullgildur dýralæknir af öllum í sveitinni, þó engar hefði hann prófgráðurnar í því“.

Bekkfella (s)  Fella/setja inn net í fellingabekk (sjá þar og hrognkelsi).  Önnur aðferð var að nálfella netin.

Bekkfelling (n, kvk)  Felling nets í bekk.  Sjá setja inn.

Bekkinn (l)  Hrekkjóttur.  „Hann var alræmdur hrekkjalómur og þótti oft bekkinn við sambýlinga sína“. 

Bekkjast (til) við (orðtak)  Hrekkja; gera óskunda.  „Í verinu fengust menn við það meðal annars að bekkjast hver til við annan með misjafnlega gráu gamni“.  Í seinni tíð heyrist stundum sleppt milliorðinu „til“.  „Verið nú ekki að bekkjast við nautkálfinn strákar; það getur hefnt sín síðar“.

Bekkni (n, kvk)  Hrekkir.  „Þeir gerðu þetta af eintómri bekkni við hann“.

Bekkur (n, kk)  A.  (Almennt)  Sylla/hilla/barð í brattlendi.  „Við sigum tveir niður til hans.  Bekkur þessi var ekki breiður, og auk þess afsleppur“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  B.  Örnefni á tveimur stöðum í Kollsvíkurlandi.  Annað er Bekkurinn ofanvið Sandahlíð í Núpnum.  Hinsvegar heitir Bekkur, lágir klettar í með fjörunni ofan og heimanvið Straumsker undir Blakk.  C.  Set; sæti fyrir marga, hlið við hlið; t.d. kirkjubekkur/eldhúsbekkur.  D. Rúm; dívan; t.d. svefnbekkur.  „Ég svaf um tíma á bekk við austurgaflinn uppi á lofti í gamla Láganúpsbænum.  Viðir voru orðnir það feysknir að gaflinn sveiflaðist verulega í hvassviðri.  Hann datt svo úr húsinu stuttu eftir að flutt var úr því“ (VÖ).  E.  Vinnuborð, t.d. hefilbekkur.  F.  Lárétt mynstur í fatnaði, t.d. peysu.  F.  Hópur sem fylgist að í námi í skóla.
Orðið er samstofna heitinu „bakki“, um hækkun í landslagi, og hefur líklega snemma færst yfir á upphækkun/set/flet í íveruhúsi. Þaðan hefur það svo færst á aðrar ofangreindar líkingar.

Bekri (n, kk)  Hrútur.  Ekki notað í daglegu tali í seinni tíð.

Belgdur (l)  Þaninn; útblásinn; þembdur; ævareiður; skömmóttur.  „Nú er ég svo belgdur út af ketsúpunni að ég hreyfi mig ekki á næstunni“!  „Hann var fokvondur og belgdur útaf þessum mistökum“.

Belgflá (s)  Sjá flá í belg.

Belgfullur / Belgtroðinn (l)  Pakksaddur; sprengsaddur; úttroðinn.  „Nú er maður alveg belgullur af góðum mat“.  „Ég tíndi húfuna mína belgulla af eggjum og tókst að klöngrast með þau til baka, sömu leið“.

Belgfylli (n, kvk)  Magafylli; mettun.  „Ég held að féð hafi fengið sæmilega belgfylli í fjörunni í dag.  Það þyrfti kannski samt að hára því aðeins til viðbótar“.

Belgi (n, kk)  Maður frá Belgíu; einstaklingur af belgísku þjóðerni. (Ft; Belgar).

Belgingsgola / Belgingskaldi / Belgingsvindur (n, kk)  Allhvass/stífur vindur.  „Hann var farinn að leggja upp belgingsgolu“.  „Uppi á brúninni mætti okkur norðan belgingsvindur“.

Belgingsháttur (n, kk)  Mont; spjátrungsháttur; stærilæti.  „Þessi belgingsháttur er leiðinlegur til lengdar“.

Belgingshvass (l)  Allhvass; nokkuð mikill vindur.  „Búðu þig nú almennilega; hann er belgingshvass“!

Belgingslegur (l)  Um veður; garralegur; rembingslegur; vindasamur; hvass.  „Ári er hann enn belgingslegur í norðurloftið“.

Belgingur (n, kk)  A.  Stífur og langvarandi vindur; hvassviðri.  „Það er stöðugur norðan belgingur“.  Svipuð merking og þræsingur , sem þó merkti e.t.v. enn þrálátari vind.  B.  Mont; þus; raus.  „Vertu nú ekki með neinn bölvaðan belging“!

Belgja (s)  Þenja; blása út; þamba.

Belgja sig (orðtak)  A.  Gera sig breiðan; þenja sig; vera með merkilegheit; sýna yfirlæti/mont.  „Ég held að hann ætti bara ekkert að vera að blelgja sig um það sem hann hefur ekki hundsvit á“!   B.  Um veður; vinda.  „Eitthvað er hann að belgja sig af norðan“.

Belgja sig út (orðtak)  A.  Borða mikið; verða saddur.  „Það þýðir ekki að belgja sig svo út að maður verði óvinnufær á eftir“.   B.  Vera montinn; guma af sínu. 

Belgmikill (l)  Kviðmikill; með þaninn kvið; feitlaginn.

Belgnef (n, hk)  Sá hluti á lóðabelg sem hann er festur með í bandið/niðristöðuna.  Í belgnefinu er oftast auga sem bundið er í.

Belgur (n, kk)  A.  Upphafleg merking; skinn/húð sem þannig er flegin af skepnunni að sem minnst göt séu, t.d. eftir útlimi og haus, og síðan verkað og notað sem ílát eða flot.  Sbr flá í belg og betri er belgur en barn.  „Hvert ár voru drepnir nokkrir tugir uppkominna yrðlinga og voru belgir þeirra seldir fyrir kaffi og klúta“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).  B.  Húð/skrokkur/kviður.  „Hann strauk á sér belginn eftir matinn og sagðist hafa étið yfir sig“.  „Kettinum finnst ósköp gott að láta strjúka á sér belginn“.  C.  Bauja; flot á veiðarfæri, t.d. línu eða net.  Notað í seinni tíð um baujur  úr plastefnum.  „Sagan tygjar sóknargand,/ sviðið vígja líf og grand./  Belgi nýja ber á land/ brims í gný við rauðan sand“  (JR; Rósarímur). 

Belgvettlingar (n, kk, fto)  Vettlingar með sameiginlegan belg fyrir alla fingur nema þumla.  Belgvettlingar eru það sem nú er almennt nefnt „lúffur.  Á sumum belgvettlingum voru tveir þumlar, í þeim tilgangi að unnt væri að snúa vettlingnum.  Þannig entist hann lengur, en slitið verður mest í lófanum þegar mikið er unnið.

Belja (n, kvk)  Kýr.  Belja var einungis notað í niðrandi merkingu áður fyrr þó nú sé það breytt.

Belja (s)  A.  Um vatnsfall; ólga/vella fram í stríðum straumi.  B.  Líkingamál um það að öskra/baula.

Beljaki (n, kk)  Rumur; stór maður.  „Hann var æði mikill beljaki og sterkur eftir því“.

Beljandi (n, kk)  A.  Mikill vatnsflaumur.  „Varaðu þig á Ánni; það er árans beljandi í henni í vatnavöxtunum“.  B.  Stífur vindur; oft notað um hvimleiða norðanátt.  Svipuð merking og sveljandi.

Beljandi (s)  Flæðandi; sveljandi.  „Það er enn sami beljandi norðansvarrinn“.

Beljugrey / Beljukvikindi (n, kvk)  Gæluorð um kú.  „Það er ekki hægt að ætla beljukvikindinu að stökkva yfir lækinn; eins síðjúgra og stirð og hún nú er“!

Bellibrögð (n, hk, fto)  Töfrabrögð; hrekkir.  „Það þurfti að beita ýmiskonar bellibrögðum við þetta“.

Beltagrafa / Beltaskófla / Beltavél (n, kvk)  Skurðgrafa á beltum. 

Beltasleði (n, kk)  Búnaður sem belti í beltavél gengur eftir.

Beltishali (n, kk)  Endi rafabeltis af lúðu  (LK; Ísl.sjávarhættir; heim: ÞJ Hvallátrum).

Belti (n, hk)  A.  Ól sem maður hefur um mitti til að halda uppi buxum.  B.  Samfelldur uggi langseftir jaðri flatfisks.  T.d rafabelti.  C.  Ræma af einhverju tagi, t.d. gróður- eða landræma; klettabelti.  D.  Akstursbúnaður vélar, t.d. jarðýtu eða skurðgröfu. 

Beltisspenna / Beltissylgja (n, kvk)  Hespa til að læsa mittisbelti í æskilegri stöðu.

Beltisþari (n, kk)  Laminaria saccharina.  Þarategund sem algeng er á grunnsævi í Kollsvík og nágrenni.  Leggurinn verður oft um 1m langur og flöt, slétt blaðkan allt að 2m.  Festir sig á grjót og klappir neðansjávar með greinóttri rót.  Vex neðan lægsta fjöruborðs en kemur þó uppúr á stórum fjörum.  Ágætur til matar, þó ekki hafi verið nýttur þannig áðurfyrr nema í harðindum.  Var eitthvað verkaður til skepnufóðurs um tíma, og t.d. gerði GG á Láganúpi tilraun til þess.  Myndar, ásamt hrossaþara og stórþara, miklar breiður þarabelta sem eru aðalhrygningarsvæði t.d. grásleppu.  Í brimi losnar mikið af þessum þara og berst uppí fjöru sem þarabunkar.

Bemerkja (s)  Greina; vita eftirtekt.  „Ég gat ekki bemerkt að nein kind væri í tilferð með burð“.  Dönskusletta.

Ben (n, hk)  A.  Sár; oftast notað um gróið sár.  B.  Stakt eyrnamark á fé.  „Hér gætu verið einhverjar benjar; aftan vinstramegin“.  „Í markaskrá skal vera ... (3) skrá um ben þau sem heimilt er að nota í sýslunni...“ (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).   Benjar í fjármörkum eru af tvennum toga:  Yfirmark er það sem er á toppi eyrans, s.s. sneyðing, stýfing og blaðstýfing, en undirbenjar eru á hlið eyrans, s.s. biti og fjöður.

Benda (n, kvk)  A.  Beygja; sveigja.  Notað t.d. um það þegar lásvaður beygist fyrir nef, en það getur skapað hættu fyrir bjargamanninn ef af skreppur.  „Varaðu þig; vaðurinn er kominn töluvert á bendu“!  B.  Haugur; kös.  „Það þýðir ekki að henda fataplöggunum svona í eina bendu!  Berðu þig að sortera þetta drengur“!  C.  Kaðlar í skipsreiða, sbr höfuðbenda.

Benda (s)  A.  Gefa merki með því að vísa í áttina, t.d. með útréttum fingri; vísa á; eru líkindi til.  „Hann benti mér á grenið“.  B.  Beygja; sveigja; spenna.  „Þú mátt ekki benda glerið, þá brotnar það“.

Benda til (orðtak)  Vísa til; eru líkur til.  „Margt bendir til að þetta hafi verið óviljaverk“. 

Bendifingur (n, kk)  Vísifingur.

Bendill (n, kk)  A.  Vöndull, t.d. úr ull.  „Stundum voru kindur og lömb spjaldmerkt áður en þau fóru í sláturhúsið.  Var þá snúinn bendill í ullina á bakinu og þar í hnýtt pappa- eða krossviðsspjaldi“.  B.  Stuttur borði; bendlaband.  „Bendlar voru áður m.a. notaðir til að loka sængurverum, en nú er tölvuheimurinn búinn að eigna sér orðið og notar það yfir sýnilegt og stýranlegt merki á skjá“.

Bending (n, kvk)  Það að benda; það að gefa merki/ vísa í ákveðna átt; merkjagjöf.  „Sigarinn gaf bendingu um að hífa sig upp“.

Bendla (s)  Binda við; tjóðra.

Bendla við (orðtak)  Tengja við; orða við.  „Hann vildi ekkert láta bendla sig við þessa ákvörðun“.

Benjaður (l)   Meiddur; slasaður.  „Það er eitthvað að þessum lambhrút.  Mér sýnist hann eitthvað benjaður“.

Bennaður / Bennvaður (l)  Mild blótsyrði; bölvaður; fjárans; skrattans; béans.  „Bennuð vandræði eru þetta; að hafa ekkert eggjaílát við hendina“.  „Bennvaður hrafninn hefur stolið frá mér skærunum“!

Bensín (n, hk)  A.  Eldfimur vökvi; kolvetni sem unnið er úr hráolíu og notað t.d. sem eldsneyti á sprengihreyfla.  Oft blandað ýmsum efnum til að fá fram æskilega eiginleika.  Brennsla bensíns og annarra kolvetna á meginþátt í stórauknum gróðurhúsaáhrifum jarðar af mannavöldum á síðari tímum, og er því leitast við að draga úr notkun þess, t.d. með notkun rafbíla.  Fyrstu sprengihreyflar í Kollsvík, bæði í bátum og traktorum, notuðu bensín.  Kringum 1960-1980 var algengt að á hverju bóndabýli væri stór bensíntankur í jörð fyrir vélanotkun, og var bensíninu dælt upp með handdælu.  B.  Stytting á „bensíngjöf“; pedali sem stigið er á til að auka eldsneytisinngjf vélar, og þar með afl/hraða.  „Sumir sem lærðu seint að aka bíl höfðu aðra siði í akstrinum en þeir sem yngri voru. Einn góðbóndi í Rauðasandshreppi fór helst úr stígvélunum til að geta ekið.  Fannst honum hann þá vera mikið næmari á bensíngjöfina.

Bensínafgreiðsla / Bensínstöð / Bensínsla (n, kvk)  Staður þar sem bensín er til sölu fyrir vegfarendur.  Kringum 1970 voru fjölmargar bensínstöðvar í Rauðasandshreppi.  Ein var í Kirkjuhvammi á Rauðasandi; önnur á Hvalskeri; þriðja á Hnjóti og sú fjórða á Hvallátrum.  Sett var upp bensínafgreiðsla í „rúsínubúðinni“ á Hvammsholti, kringum 1985, sem síðar vr rekin af versluninni Valborgu.

Bensínbrúsi / Bensíndunkur / Bensínkútur (n, kk)  Ílát til að geyma og flytja bensín í.  Mikilvægt er að unnt sé að loka tappanum þétt og tryggilega.

Bensínlaus (l)  Þrotið bensínið; eldsneytisgeymir tómur.  „Hafðu þennan bensínkút með í bátnum; það er bölvað að verða bensínlaus og þurfa að róa í land“.

Bensínstífla (n, kvk)  Stífla í lögn frá bensíntanki að blöndungi/vél.  „Ég síaði bensínið gegnum nælonsokk til að vera laus við bensínstíflur“.

Bensíntankur (n, kk)  Stór geymir fyrir bensín.  Bensíntankar voru á flestum bæjum í upphafi vélvæðingar í sveitum, enda voru fyrstu traktorar og bílar bensínknúnir; langferðir erfiðar og bensínverð mun lægra en síðar varð.  Á Láganúpi var stór tankur, líklega 1 eða 2000 lítra niðurgrafinn stutt frá íbúðarhúsinu, og á honum handdæla.  Auk þess var eitthvað bensín oft til á járntunnum.

Bensla (s)  Binda; hefta.  „Einkum var talað um að bensla fyrir enda á kaðli, sem frágang til að ekki trosnaði upp; og bensla net á þin við netafellingu eða –viðgerðir“.

Benslagarn (n, hk)  Grannt sterkt garn, sem hentar til að bensla með; trollgarn; seglgarn.

Benslavír (n, kk)  Vír sem hentar til að bensla/festa með.  Benslavír var t.d. notaður til að festa símalínu við símakúlu meðan loftlínur lágu um sveitir.

Bensli (n, hk)  A.  Festing; binding.  B.  Þráður/vír til að bensla.  T.d. til að festa við eða gera fyrir kaðalenda til að aekki trosni.

Benvaður (l)  Bölvaður; árans; bönnvaður.  Vægt blótsyrði; notað enn af Kollsvíkingum til áhersluauka.  „Benvaður hrúturinn hefur brotið jötufjöluna“.  „Benvaður hávaði er nú í ykkur strákar“!

Benvítans / Benvítis (n, kk, ef.m.gr.)  Áhersluorð/ milt blótsyrði á undan nafnorði.  „Benvítans vandræði eru þetta“!  „Ég missti af benvítans tófunni ofaní urð“!

Benvíti (n, hk)  Milt blótsyrði/áhersluorð.  „Manni finnst það benvíti hart þegar framhjá manni er gengið“!  Hljóðbreyting úr bannsettur; bannvítans.

Ber (n, hk)  Ávöxtur á lyngi og sumum runnum/trjám.  T.d. krækiber, bláber, aðalbláber, jarðarber, stikilsber.  „Hún rölti með fötu út í Kjóavötn til að tína ber“.

Ber ekki á öðru (orðtak)  Annað er ekki að sjá; annað er ekki sýnilegt.  „Það bar ekki á öðru en að hún kynni vel við þetta“.

Ber er hver að baki nema (sér) bróður eigi (orðatiltæki)  Mönnum gengur betur í allri baráttu með aðstoð félaga. Líking við orrustu; betra er að tveir snúi bökum saman í návígi og verji hver annan.  Mjög forn speki.

Ber nýrra við (orðtak)  Upphrópun; eitthvað nýtt á ferð; óvanalegt.  „Nú ber nýrra við; nú er Pósturinn kominn á jeppa“!

Ber vel í veiði (orðtak)  Óvæntur fengur; mikið happ.  „Nú bar vel í veiði.  Fyrst þú ert kominn þá getur þú kannski upplýst mig um þetta mál“.

Bera (n, kvk)  Annað heiti á hámeri (LK; Ísl. sjávarhættir IV; heimild; DE).  Bera er einnig annað heiti á birnu.

Bera (s)  A.  Halda á; flytja á höndum.  „Ég skal hjálpa þér að bera þetta“.  B. Eiga lömb (um ær).  „Féð hefur verið að bera ört í þessari vætu og stórstreymi.  Það eru fleiri bornar nú en á sama tíma í fyrra“.  C.  Gera; hafa sig í; koma sér að.  „Berðu þig nú að verki drengur“!  D.  Hafa skyldur; vera skyldugur.  „Honum ber að sinna sínu verki“!  E.  Gera beran/nakinn.  „Í óvirðingarskyni settist hann á borðstokkinn þegar hann sigldi framhjá og beraði á sér sitjandann“.

Bera að (orðtak)  A.  Gerast; ske.  „Enginn veit hvernig slysið bar að“.  B.  Koma að; mæta.  „Fjármanninn bar að í þessu og var útlit hans hið sama og kvennanna“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Bera að sama brunni (orðtak)  Leiða til sömu niðurstöðu/ályktunar; bera sama árangur.  „Það er sama hvernig litið er á þetta mál; það ber allt að sama brunni með niðurstöðuna“. 

Bera að höndum (orðtak)  Ske; verða.  „Veit nokkur í dag hvernig þetta slys að höndum“?  „Þetta hlýtur að hafa borið brátt að“.  „Hvergi munu heiglar mér/ hugar frýja lengi./  Hvað sem oss að höndum ber,/ hræddan sér mig engi“  (JR; Rósarímur).

Bera af (orðtak)  A.  Bera afla/farm á land úr báti; landa.  „Stöku sinnum kom það fyrir að veður breyttist eftir að borið hafði verið á skip, svo ekki varð af ferð í það skiptið.  varð þá að bera af; ofan að söxum að minnsta kosti“  (PJ;  Barðstrendingabók).  „Formenn hafa tal af þeim sem eru á Fönix og segja, sem auðsætt var, að ekkert annað sé fyrir hendi en bera allt af honum aftur“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Strengjabitinn náði það langt útfyrir borðstokka skipsins að tveir menn gátu haft handfestu á bitaendunum hvoru megin skipsins og haldið skipinu réttu í lendingu meðan borið var af (borið frá borði) “  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).  B.  Skara framúr.  „Hann ber af öðrum í þrifnaði“.  „Blakknes, Hæð og Breiðurinn/ bera af hæstu fjöllum./  Hnífar Leiti og Lynghjallinn/ Láganúpi og Hjöllum“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík).  Hinsvegar er samsetta orðið „afbera“ með allt aðra merkingu.  Sjá þar.  C.  Skyggja á; hindra sýn.  „Það sést vel niður á Grundir frá Láganúpi en Kaldibrunnur ber af í lautum á milli“.  D.  Um bát; reka/drífa af fiskislóð á veiðum, eða frá réttri stefnu á siglingu.  „Okkur hefur borið af gerinu, við þurfum að kippa“.  „Skipið bar af leið í storminum“.  E.  Bera af velli; bera taðköggla af túni sem ekki hafa leyst upp og nýst sem áburður.  Þeim var rakað saman og þeir bornir burtu í pokum, pilsföldum eða hjólbörum. 

Bera/taka af (einhverjum) högg (orðtak)  Bera hönd eða annað fyrir þegar högg ríður að manni; draga úr þunga höggs. 

Bera af leið (orðtak)  Fara frá ætlaðri leið/ upphaflegri stefnu.  „Þegar élinu létti sáum við að okkur hafði borið verulega af leið“. 

Bera af sér sakir (orðtak)  Afneita sakaráburði/sakarefnum; verjast ásökunum.  „Hann bað um orðið og sagðist vera tilneyddur að bera af sér þessar sakir“.

Bera aldurinn vel (orðtak)  Líta vel út/ vera hress miðað við aldur; vera ern.

Bera á (orðtak)  A.  Dreifa áburði á tún. „Fyrrum var búfjárúrgangur og fiskslóg eini áburðurinn sem teltækur var.  Eftir miðja 20. öld var farið að bera á tilbúinn áburð.  Þurfti fyrst að blanda saman innihaldsefnum í duftformi, en síðar kom kornaður marggildisáburður“.  B.  Mála; einkum notað um fúavörn viðar.  C.  Smyrja smyrsli/áburði á sár.  D.  Koma með; færa að.  „Það þýðir ekki að bera á mig meira en ég hef undan að vinna úr“.  E.  Vera óðamála.  „Honum var mikið niðrifyrir þegar hann sagði frá þessu, og bar ótt á“.  F.  Hlaða afla/flutningi á skipsfjöl.  „Auk þess er einnig borið á minni bát frá Vesturbotni“  (KJK; Kollsvíkurver).   F.  Bera sakir uppá einhvern.  „Vertu ekki að bera þetta uppá mig; ég er saklaus“!  G.  Vera áberandi/sýnilegt/greinilegt.  „Þrátt fyrir langvinna innistöðu bar mjög lítið á kvillum í sauðfénaði.  Munu hin ágætu hey eiga mikinn og góðan þátt í því“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Bera (eitthvað) á bál (orðtak)  Brenna eitthvað; kasta einhverju á eldinn. 

Bera á boða (orðtak)  Stranda; lenda uppi á skeri.  „En er Magnús hugði í land að halda bar skipið á boða norðan lendingarinnar; fyllti þegar og hvoldi.  Fórust allir er á voru nema einn... Fengu Breiðvíkingar sem á eftir komu borgið honum“  (TÓ, frás. Gísla Konráðssonar; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Bera á borð (orðtak)  A.  Bera fram mat; bera fram; setja mat á borð til neyslu.  Sjá leggja á borð.  B.  Líkingamál; segja/fullyrða eitthvað, sem öðrum finnst vafasamt.  „Svona lygar þýðir ekki að bera á borð fyrir nokkurn mann“!

Bera (einhverjum eitthvað) á brýn (orðtak)  Ásaka; kenna um.  „Hann bar mér það á brýn að ég hefði ekki komið þessu til skila“.  Brýn merkir þarna augabrúnir, og því er merkingin sama og „segja upp í opið geðið“, sem einnig heyrist.  Þegar eitthvað er borið manni á brýn þyngjast augabrýr hans og þær síga.

Bera á endum (orðtak)  Aðferð við að bera langan þungan hlut, s.s. við að bjarga rekatré undan sjó í fjöru.  Þá er annar endinn borinn í einu í þá stefnu sem tréð á að fara í; síðan tekið undir hinn endann og hann borinn í hálfhring.  Þannig færist tréð um lengd sína í hvert sinn, með mun minna átaki en væri því öllu lyft.  Oft var þó rekatrjám einnig bjargað á skrúftóg (sjá þar).

Bera á góma (orðtak)  Vera um rætt/talað; berast í tal.  Gómur merkir hér tanngómur.  „Þar bar margt á góma“.

Bera á háhesti (orðtak) Bera manneskju á öxlum sér, sem situr þá klofvega um háls burðarmanns og heldur sér um enni hans.

Bera á langabaki (orðtak)  Bera manneskju á bakinu, sem  heldur um háls burðarmanns en hann heldur undir rass þess sem borinn er.

Bera á/í milli (orðtak)  A.  Skyggja á; vera í sjónlínu.  „Ekki er sjónlína af Núpnum að Breiðavíkurbænum; þar ber Breiðinn á milli“.  B.  Vera ósammála.  „Okkur bar nokkuð í milli í þessum efnum“.

Bera á móti (orðtak)  Andmæla.  „það þýddi ekkert fyrir hann að bera á móti þessu“. 

Bera á sjálfum sér (orðtak)  Bera sjálfur.  „Menn þurftu að leggja mikið á sig við aðdrætti fyrr á tíð.  Dæmi eru um að menn hafi borið mjölsekki á sjálfum sér útyfir Hænuvíkurháls“.

Bera á stöfnum (orðtak)  Aðferð við að setja bát án þess að nota hlunna.  Þegar bátur er borinn á stöfnum ganga tveir menn undir annan stafn hans; sinn undir hvorn kinnung; snúa baki í súðina; grípa annarri hönd í stafn; beygja sig í hnjám og lyfta bátnum með samstilltu átaki; hvor á móti öðrum.  Síðan er bátnum snúið sólarsinnis um hinn stafninn, þar til kjölur er kominn í rétta stefnu.  Þá er gengið undir hinn stafninn, og sama aðferð endurtekin.  Báturinn flyst þannig til um lengd sína í hverjum burði.  Þessi aðferð var gjarnan notuð ef um fremur léttan bát var að ræða.  Hún var enn viðhöfð af Össuri og Ingvari í Kollsvíkurveri rétt fyrir 1970.

Bera á torg (orðtak)  Um hugsanir/hugarangur/sorg; segja opinskátt; láta uppskátt um það sem maður hugsar/ manni finnst, eða hvernig manni líður; bera tilfinningarnar utaná sér.  „Hún er ekki þannig gerð að hún beri sínar tilfinningar á torg“. „Ég hafði allt aðrar skoðanir á þessu máli, þó ég hafi ekkert verið að bera þær neitt á torg“.

Bera ábyrgð á ( einhverju) / Taka ábyrgð á (einhverju) (orðtök)  Hafa trúverðugleika sinn, getu og samvisku að veði fyrir einhverju; ábyrgjast eitthvað.  „Ég vil ekki bera ábyrgð á þessum frágangi ef mikið hvessir“.   Sjá ábyrgð og kominn úr ábyrgð.

Bera árangur / Bera ávöxt (orðtak)  Verða til gagns; ná tilgangi sínum.  „Við hefðum kosið að þessi ferð okkar hefði borið meiri árangur“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Bera beinin (orðtak)  Láta lífið; deyja; verða til.  „Í hallærum lögðu margir leið sína í verin á útnesjum landsins.  Margir náðu þó ekki í áfangastað, heldur báru beinin við steina sem þeir áðu við; aðframkomnir af hugri“.  „

Bera blak af (einhverjum) (orðtak)  Verja; forsvara; halda uppi vörnum fyrir einhvern.  „Ég reyndi að bera blak af tíkinni; sagði að hún hafi verið orðin langsoltin og því hafi freistingin verið mikil að teygja sig í keppinn“.  „Blak“ er hér í merkingunni „högg“, og er bókstafleg merking að „verja einhvern höggi“.  Einnig heyrðist myndin „bera skjöld fyrir“, í sömu merkingu.

Bera brátt að (orðtak)  Gerast fljótt; vera allt í einu brýnt; koma fljótt í ljós.  „Þetta bar svo brátt að að ég hafði ekki tíma til að hugsa áður en ég svaraði“.

Bera brigður á (orðtak)  Efast um; draga í efa; væna um ósannindi.  „Ekki dettur mér í hug að bera brigður á skyggni fólks, og þekki nokkra slíka sem ég veit að eru trúverðugir“  (SG; Huldufólk; Þjhd.Þjms). 

Bera ekki sitt barr (orðtak)  Vera ekki heill/eðlilegur/í góðu formi.  „Sagt er að hann hfi aldrei borið sitt barr eftir þetta slys“.  Líking við það að tré nær ekki að jafna sig.

Bera ekki vitið í hripunum (orðtak)  Þykja heimskur; stíga ekki í vitið; reiða ekki vitið í þverpokum.  „Þeir bera nú ekki allir vitið í hripunum þessir blessaðir aular sem slysast inn á þing“!

Bera fé á (einhvern) (orðtak)  Greiða einhverjum.  Helst notað um vafasamar greiðslur eða mútur.

Bera fram (orðtak)  A.  Bera mat á borð; bera á borð.  B.  Segja.  Vísar til þess hvernig orðin eru sögð.  „Aldrei get ég skilið hvernig Danskurinn fer að því að bera þetta fram“!

Bera frá (orðtak)  A.  Um færi í sjó; glæja; fara á glæ; stinga frá; standa útfrá bátnum vegna mikils reks.  B.  Um bát; reka frá stað, t.d. lendingarstað eða dufli.  „Festið nú bátinn einhversstaðar við hleinina áður en hann ber frá“.  „Okkur hefur borið dálítið frá; leggðu snöggvast út og róðu að baujunni“.

Bera frá borði (orðtak)  Hafa í eftirtekju; bera úr býtum.  „Ekki held ég að hann hafi borið mikið frá borði, miðað við það sem hann lagði á sig“.  Vísun í afla/feng eftir róður.  Sjá bera skarðan hlut frá borði.

Bera fyrir (orðtak)  A.  Birtast; verða á vegi.  „Það er sjaldan sem þingmann ber fyrir hér á bæ“.  B.  Afsaka sig með; hafa til blóra.  „Hann mætti alltof seint, en bar því fyrir sig að sprungið hefði á bílnum“.  C.  Um fiskimið; sjást fyrir.  „Voru þeir á svonefndum Flosa, sem er aðallega steinbítsmið á Látravík, og dregur nafn af því að Flosagil í Breiðavík ber fyrir Bjarnarnúp“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).  D.  Benda á sem heimild; hafa fyrir.  „Hann ku hafa borið mig fyrir þessari sögu, sem ég kannast alls ekkert við“. 

Bera fyrir augu/sjónir (orðtak)  Sjást; vera sýnilegt.  „Hann fylgdist vel með öllu sem fyrir sjónir bar“.

Bera fyrir borð (orðtak)  Kasta fyrir róða; sóa; sólunda.  „Honum þótti sinn hagur nokkuð fyrir borð borinn með þessari ákvörðun“. 

Bera (eitthvað) fyrir brjósti (orðtak)  Sýna einhverju umhyggju/alúð/meðaumkun.  „Ég sé ekki að þessi ríkisstjórn ætli að bera hag bænda verulega fyrir brjósti“.  Sjá brjóst.

Bera fyrir sig (orðtak)  Bera við; skýla sér á bakvið; nota sem fyrirslátt/afsökun.  „Hann er enn ekki farinn að smala sitt land, og ber því fyrir sig að hann sé í mannahallæri“.

Bera (einhverjum) góðgerðir (orðtak)  Bera fram mat/kaffi á borð fyrir einhvern; bjóða einhverjum mat/drykk.  „Þarna voru okkur bornar góðgerðir sem við þáðum með þökkum“.

Bera greiðu í hárið/lubbann (orðtak)  Greiða hár sitt; greiða sér.  „Þú mættir nú alveg bera greiðu í lubbann á þér stöku sinnum góði minn; það myndi varla saka þig“.

Bera harm sinn í hljóði (orðtak)  Vera dulur á sitt hugarangur/hugarvíl; bera ekki hugsanir sínar á torg

Bera hátt krikana (orðtak)  Sýnast meiri á velli en maður er; lyfta sér í herðum og rétta úr baki.

Bera hempuna á báðum öxlum (orðtak)  Vera tvöfaldur í roðinu; vera beggja handa járn; vera ekki einlægur; leika tveimur skjöldum.  „Ekki treysti ég honum fullkomlega í þessu.  Mér finnst hann bera hempuna dálítið á báðum öxlum“.  Hempa í þessu sambandi merkir yfirfat; kápu; frakka.

Bera hitann og þungann af (orðtak)  Halda uppi; sjá að mestu um.  „Enn hef ég ekki minnst á það hver bar hitann og þungann af öllu umstanginu og vinnunni sem þessum jólaundirbúningi fylgdi“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Bera hvolpana (orðtak)  Ganga með hendur lausar frá síðum, líkt og verið sé að bera eitthvað.  „Þarna kemur yfirvaldið; og ber hvolpana“.  Stundum haft; „bera baggana“,

Bera hærri hlut (úr býtum) (orðtak)  Fara verr útúr viðskiptum en sá/þeir sem skipt er við; bera skarðan hlut frá borði.  „Séð var til þess að enginn bæri hærri hlut úr býtum en honum bar“.  Vísar til hlutaskipta (sjá skipti).  Til er orðtakið að „ber efri/hærri skjöld yfir (einhvern)“, sem merkir svipað, en vísar til þess að hafa yfirhöndina í bardaga.  Ekki vitað til að það hafi tíðkast í Kollsvík.

Bera höfuðið hátt (orðtak)  Bera sig borginmannlega/vel; vera stoltur/sjálfsöruggur; vera ánægður með sjálfan sig.  „Hann getur borið höfuðið hátt eftir þessa frammistöðu“!

Bera hönd fyrir höfuð sér (orðtak)  Verjast. „Maður verður að reyna að bera hönd fyrir höfuð sér ef á mann er ráðist“.

Bera hönd fyrir/yfir augu (orðtök)  Leggja hönd lárétta ofanvið augu sér til að skyggja á sólina þegar horft er undir sól; skyggna hönd fyrir augu.

Bera (einhverjum) illa/vel söguna (orðtak)  Lasta/lofa einhvern í frásögn.  „Biblían ber Júdasi fremur illa söguna“. 

Bera í (orðtak)  A.  Notað einkum til að segja til miða.  „Milli Bjarnarklakks og Miðklakks er Miðleið.  Hún var þannig miðuð að Leiðarhjalla í Hæðinni sunnan við Kollvíkurtún átti að bera í Klettabúð, sem var ein búðin á Norðari-klettunum“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).  B.  Koma ífæru í lúðu eða annan stórfisk við borðstokk báts, til að ná henni innfyrir.   C.  Hafa við; gera veglega; kosta til.  „Nokkuð mikið þótti henni borið í brúðkaupsveisluna“.

Bera í bakkafullan lækinn (orðatiltæki)  Bæta við það sem nóg var fyrir.  „Það væri nú að bera í bakkafullan lækinn að koma nestaður inn á það heimili“.  Sjá bakkafullur; eins og að gefa bakarabarni brauð; ekki þarf að bera bakarabarni brauð.

Bera í bætifláka fyrir (orðtak)  Afsaka; bera blak af; tala máli einhvers.  „Það þýðir ekkert hjá þér að reyna að bera í bætifláka fyrir þessa ríkisstjórn; hún er komin með öll koningaloforðin niðrum sig“.  Sjá bætifláki.

Bera í fötlum (orðtak)  Sérstök aðferð til að bera klyfjar á baki, þannig að sem best færi og minnst reyndi á.  „Jafnan var borið í fötlum, sem kallað var.  Þá var kaðli brugðið í lykkju utanum byrðina; síðan handleggjunum stungið undir böndin, þannig að þau lágu sitt á hvorri öxl, en lykkjan ofaná byrðinni.  Lausu endana lagði maður svo fram yfir axlirnar og herti að með þeim; þannig að byrðin lagi hæfilega þétt að baki manns“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  „Fatlar eru lykkjur í byrðina sem smeygt er uppyfir handleggi og framyfir axlir...“  (MG;  Látrabjarg).  „Þessi aðferð var m.a. notuð til að bera egg af Stíg í sprengiefnakössum í fyrstu ferðum mínum þangað“  (VÖ)  „

Bera í loftið (orðtak)  Draga upp ský; þykkna upp.  „Hann er nú eitthvað farinn að bera í austurloftið; ég gæti trúað að hann rigni í nótt“.  Einnig talað um að „bera á himininn“ í sömu merkingu.

Bera í milli (orðtak)  Mismuna; vera munur á.  „Þeir voru alls ekki sammála um þetta; þar bar allmikið í milli“.

Bera í sig (orðtak) Auka velting.  Heimild; Jón Torfason, Kollsvík  (LK; Ísl.sjávarhættir III).

Bera í vænginn (orðtak)  Biðjast afsökunar; biðja gott fyrir sér.  „Ýmislegt var látið fjúka í þessu hitamáli; hætt er við að einhverjir þurfi að bera í vænginn við sína mótherja“.  „Hún reyndi að bera í vænginn fyrir karlinn“.  Ortakið mun upphaflega verið líkingin „að bera skarn í vænginn“, en skýring er óljós.

Bera kala/þela til (einhvers) (orðtak)  Bera þungan hug til einhvers; vera í nöp við einhvern; hata einhvern; leggja fæð á einhvern.  „Hún bar lengi kala til hans útaf þessu“.  „Ég ber engan þela til hans“.  Sjá þeli.

Bera keim af (orðtak)  Hafa svipmót með; vitna um; draga dám af.  „Svona fullyrðing ber keim af fáfræði“.  Keimur merkir bragð.

Bera kennsl á (orðtak)  Þekkja; kannast við.  „Ég komst ekki nógu nálægt ánni til að bera kennsl á markið“.

Bera klæði á vopnin (orðtak)  Hindra frekari víg/vopnaviðskipti; sætta deiluaðila.  Vísar til þess í bardaga að fötum sé kastað yfir vopn þeirra sem berjast, til að stöðva frekari víg.

Bera kvíðboga fyrir (orðtak)  Kvíða fyrir; vera uggandi um.  „Ég ber dálítinn kvíðboga fyrir þessu ferðalagi“.

Bera ljá í gras (orðtak)  Bera út; hefja slátt.  „Ekki gat ég séð að farið væri að bera ljá í gras á þeim bæ“.

Bera lof á (orðtak)  Hrósa; slá gullhamra.  „Nemendur báru mikið lof á hann sem kennara“.

Bera lægri hlut (úr býtum) (orðtak)  Sjá bera hærri hlut.

Bera með sér (orðtak)  Sýna; láta koma fram.  „Það skal hér tekið fram að á öllum bæjunum mega skepnur heita í ágætisstandi, eins og skýrslan ber með sér…“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1924).  

Bera milli (orðtak)  „Þar sem Stekkavörðu ber milli Hauga..er miðið Stekkar; djúpt á svokölluðum Kollsvíkursandi“. 

Bera nafn með rentu (orðtak)  Bera nafn við hæfi/af augljósri ástæðu; standa undir nafni.  „Blettur í Láganúpstúni nefnist Þrjótur og ber nafn með rentu, eins og þeir vita sem reynt hafa að slá hann.

Bera niður (orðtak)  A.  Setja niður æti/agn til að lokka veiðibráð; bera út.  „Annarsvegar báru menn niður fyrir tófu, en þá var kindarhræ eða anna girnilegur niðurburður rústaður í stuttri fjarlægð frá tófubyrgi.  Slíkar rústir má enn víða finna í grennd við hin fjölmörgu tófuhús í kringum Kollsvík.  Hinsvegar var stundum borið niður fyrir hákarl á hákarlaveiðum.  Þá var æti sökkt á veiðislóðinni, stundum í götóttri tunnu, til að laða hákarlinn á slóðina áður en veiðar hófust.  „Þarna á blábrúninni er mjög gamalt skothús sem notað var til skamms tíma.  Þar var borið út hræ og legið fyrir tófu“  (IG; Sagt til vegar I).   B.  Gera atlögu að; glíma við; grípa niður.  „Alltaf er það eins með skattpíninguna; fyrst er borið niður þar sem veikast er fyrir“!  „Mér fannst að prestur hefði mátt bera niður í Biblíunni á öðrum stað“.

Bera nýrra við (orðtak)  Vera nýlunda; ekki eins og vant er.  „Þá þykir mér bera nýrra við ef hann hefur ekki áhuga á að tala um sauðfé“!  Stundum „bregða“ í stað „bera“.

Bera ofaní (orðtak)  Um vegagerð; setja fíngerða möl ofan á veg sem slitlag og til að mýkja veginn.

Bera ofurliði (orðtak)  A.  Vera sterkari/liðsterkari í bardaga/viðureign; bera hærri hlut.  B. Í líkingamáli; yfirganga; vera yfirsterkari.  „Stórseglið hafði verið mjög stórt og þótti bera skipið ofurliði“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).   „Oft mér virðast lífs míns leiðar/ liggja beint í æðri heim./  Allar mínar götur greiðar/ geng ég hárvisst eftir þeim./  En stærstu er hyggst ég stíga sporin/ stefna fram til sigurs vil;/ ofurliði er ég borinn,/ unninn hníg svo jarðar til“  (EG; Misstigin spor).

Bera ótt á (orðtak)  Vera óðamála; tala mjög hratt.  „Hann bar ótt á þegar hann talaði um refaveiðarnar“.

Bera (einhvern) ráðum (orðtak)  Taka ráðin af einhverjum; sýna yfirgang; bera ofurliði í deilu/atvkæðagreiðslu.  „Ég varaði við þessu og vildi hafa þetta öðruvísi, en ég var borinn ráðum á félagsfundi“.

Bera sakir á (einhvern) (orðtak)  Saka einhvern um eitthvað; ásaka um. 

Bera saman (orðtak)  A.  Bera í einn stað það sem aðskilið var.  „Við bárum saman grjót og hlóðum vörðu“.  B.  Standast á.  „Hér á rifinu handan til við Kollsvíkurver er gömul lending og þar eru tvær vörður sem bera saman þegar bátar voru komnir í stefnu á lendinguna. Þær heita Snorravörður...“  (SG; Rústir; Þjhd.Þjms).  C.  Bera við; máta; skoða mismun.  „Þetta er ekki eins þegar ég ber það saman“.  Stundum í nokkurskonar upphrópun eða lýsingu:  „Ég ber það ekki saman hvað tíðin var miklu rysjóttari á þessum tíma í fyrra“!  D.  Stemma við; vera í samræmi við.  „Þeim bar ekki saman um ártalið“.

Bera saman bækur sínar / Bera saman bækurnar (orðtak)  Ráðfæra sig við; ráða ráðum sínum; bera saman sína þekkingu/vitneskju; ráðgast.  „Réttarstjórar báru saman bækur sínar áður en leyft var að hlypa úr dilkum“.

Bera sér í munn (orðtak)  Taka sér í munn; segja; nota í töluðu máli.  „Hún sagði að sér væri illa við að bera sér hans nafn í munn; það væri óbragð af því“!

Bera sig (orðtak)  A.  Gera; framkvæma; (sama og „ber sig til“ -B).  „Það segir enginn svona; berðu þig að tala eins og maður“!  B.  Um rekstur; skila arði; standa undir sér/kostnaði.

Bera sig að... (orðtak)  A.  Reyna nú að..; fara að koma sér að því.  „Hvað er að sjá til þín strákur; á sokkaleistunum úti!  Berðu þig bara að fara inn og fara í stígvél“.  „Ætli það sé ekki best að bera sig að því að kasta í skepnurnar“.  B.  Haga sér; bera sig til.  „Ekki veit ég hvernig skal bera sig að við svona verk“.

Bera sig aumlega /illa /fjandalega (orðtak)  Kvarta; vera aumur.  „Hún bar sig aumlega yfir letinni í karlinum“.

Bera sig borginmannlega/vel/furðuvel/karlmannlega/mannalega/mannborulega (orðtök)  Vera hress; láta vel af sér. 

Bera sig eftir (orðtak)  Reyna að fá/ná; sækja.  „Maður fær harla lítið ef maður ber sig ekki eftir því“.

Bera sig eftir björginni (orðtak)  Bjarga sér; vera sjálfbjarga.  „Hér er nógur fiskur á öllum miðum.  En hann syndir ekki upp í pottinn; menn verða að bera sig eftir björginni“!

Bera sig fiskilega að (orðtak)  Nota rétt vinnubrögð við veiðiskap.  „Mér þykir þú ekki bera þig fiskilega að við þetta drengur.  Þú þarft að kasta krókunum vel útyfir borðið þegar þú rennir“.

Bera sig illa (orðtak)  Kvarta; láta illa af sér; vera aumur/sár.  „Hann bar sig illa yfir þessu óréttlæti“.

Bera sig rétt/rangt/vitlaust að (orðtök)  Gera/vinna á réttan/rangan hátt; standa rétt/ekki rétt að verki.  „Þetta er auðvelt ef þú berð þig rétt að“.  „Þetta tekst aldrei ef þú berð þig svona vilaust að“!

Bera sig til (orðtak)  A.  Haga sér; fara að.  „Það er ekki sama hvernig menn bera sig til þegar farið er í lás“.  B.  Gera; framkvæma.  „Berðu þig til að fá þér eitthvað með kaffinu“.

Bera sig upp (við) (orðtak)  Kvarta.  „Hann var að bera sig upp við bankastjórann vegna auraleysis“.

Bera sigur úr býtum (orðtak)  Sigra; hrósa sigri; hafa betur.  „Hann var sneggri og liðugri, og bar því sigur úr býtum í glímunni, þó andstæðingurinn væri nær höfðinu hærri“.

Bera skaða/tjón af (orðtök)  Bíða tjón vegna; skaðast vegna.  „Hann tók þetta tjón allt á sig, svo ég beið engan skaða af því“.

Bera skal nokkuð til hverrar sögu (orðatiltæki)  Vísar til þess að sögu verður að segja á áhugaverðan hátt, þó eitthverju þurfi að bæta við og „krydda“.  Sumir hafa þessa speki í miklum heiðri, meðan aðrir leggja meira uppúr nákvæmni og sannsögli.

Bera skarðan/lítinn/rýran hlut frá borði (orðtak)  Vera hlunnfarinn; bera ekki það úr býtum sem vert er talið.  „Vill fundurinn í því sambandi benda á að á seinustu árum hefur þessi vegur (Kollsvíkurvegur) borið mjög skarðan hlut frá borði hvað varðar fjárveitingar“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 24.03.1962; ritari ÖG).   Líkingamál við það að fá lítinn hlut úr aflaskiptum.  Sjá hlutskarpur; skipti.

Bera/varpa skugga á (orðtak)  A. Skyggja á.  „Settu fiskinn einhversstaðar þar sem skugga ber á“.  B.  Líkingamál; verða til leiðinda; koma uppá.  „Aldrei bar skugga á okkar vináttu“.

Bera skyldu til (orðtak)  Vera skyldugur; hafa skyldu við.  „Honum ber skylda til að greiða á gjalddaga“.

Bera skynbragð á (orðtak)  Hafa þekkingu á; kunna til verka.  „Hann ber meira skynbragð á þetta en ég“.

Bera sundur með (einhverjum) (orðtak)  Einhverjir fjarlægjast hvorn annan.  „Fljótlega hætti ég að heyra orðaskil hjá honum, enda bar hratt í sundur með bátunum“.

Bera (illa/vel) söguna (orðtak)  Láta af; vitna um.  „Honum féll ekki viðskipstjórann og bar honum illa söguna“.

Bera til / Bera til tíðinda (orðtök)  Ske; verða fréttnæmt.  „Fátt bar til tíðinda fyrr en komið var út í röstina“.  „Nú þykir mér nokkuð nýrra bera til“!

Bera til baka (orðtak)  Afneita; leiðrétta.  „Hann ber það allt til baka í dag sem hann sagði um þetta í gær“. 

Bera til sjóar (orðtak)  Bera niður í fjöru, það sem á að fara um borð í bát.  „.... en útróðrarmenn í heimferðarhug fóru að bera fiskifang og aðrar föggur sínar til sjóar“  (KJK; Kollsvíkurver).

Bera til sögu/tíðinda (orðtak)  Vera frásagnarvert.  „Nokkuð þarf til hverrar sögu að bera“.  „Það bar lítið til tíðinda í ferðinni“.

Bera til þurrks (orðtak)  Bera fisk frá ruðningi að þurrkreit til þurrkunar.  „Steinbítshausar voru ... bornir til þurrks á reitina“  (KJK; Kollsvíkurver).

Bera tilfinningarnar utan á sér (orðtak)  Sýna mikla tilfinningasemi; vera opinskár um sína líðan; bera sorgir/ tilfinningar sínar á torg.  „Erfitt er að vita hvernig honum líður; hann ber tilfinningarnar ekkert utan á sér“.

Bera traust til (orðtak)  Treysta; vera öruggur um; reiða sig á.

Bera um  A.  Votta; staðfesta; bera vitni um.  „Ég get borið um að þetta var gert áður en fresturinn rann út“.  B.  Hagræða skauti segls; færa skaut af einu borði yfir í hitt þegar vent er seglum. „Þegar borið var um var ekki meira kul en það að þeir ákváðu að róa báðir undir og binda skautið“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).   C.  Snúa bát á þurru landi áður en sett er fram, til að stefni komi fyrst í ölduna í stað skuts.  Yfirleitt ekki gert nema í verulegri báru.  D.  Smita; dreifa bréfum o.fl.  „Ég ætla ekki að bera þessa pest um alla sveitina og fer því ekki á ballið“

Bera undan (orðtak)  Fjarlægjast; sleppa frá.  „Ég hljóp af stað í ofboði, en tófuna bar hratt undan“.

Bera undan sjó (orðtak)  Bera afla, farvið og annað uppúr fjöru til að forða því frá að lenda í sjónum þegar fellur að.  „Hann bar af bátnum, en ég bar undan sjó“.

Bera undir (orðtak)  A.  Leita álits; spyrja.  „Að lokum var það borið undir Hálfdán...“  (ÖG; Þokuróður).   B.  Vilja til; standa á.  „Það er vissara að hafa eitthvað með til að ausa, ef svo ber undir“.

Bera undir atkvæði / Bera upp til atkvæðagreiðslu (orðtak)  Láta atkvæði ráða; greiða atkvæði um; láta kjósa um.  „Síðan bar oddviti reikningana upp til atkvæðagreiðslu og voru þeir samþykktir samhljóða“  (Gerðabók Rauðasandshr; ÖG). 

Bera undir sig (orðtak)  Viða/sanka að sér; safna.  „Hrafninn ber ótrúlegustu hluti undir sig í laupinn“.

Bera upp (orðtak)  A.  Um veður; draga upp ský á himinn; þykkna upp.  „Mér sýnist að hann sé byrjaður að bera upp“.  B.  Um rek á báti; reka nær landi.  „Við þyrftum aðeins að kippa frá; okkur hefur borið dálítið upp.  C.  Um heyskap; bera upp í hey/galta.  D.  Bera afla og annað úr bát í fjöru að verkunarstað í veri.  „Þá er að huga að fiskinum.  Strengurinn er dreginn að landi og seilarólarnar dregnar upp í lækinn; svo er borið upp.   Fimm fiskar eru bundnir af á enda ólarinnar og þeim lyft yfir hægri öxl; aðrir fimm hafðir við hnappinn; þeim lyft yfir vinstri öxlina; og fimmtán á bakinu.  Þannig er aflinn borinn upp í ruðning“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Þegar komið var að landi var aflinn borinn upp og saltaður... “  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Bera upp á sker (orðtak)  Lenda í óvæntum vandræðum; lenda í fjárþröng.  „Ég þigg þína aðstoð ef mig ber aftur uppá sker, en ég bjarga mér í þetta sinn“.  Líking við það að bát beri/reki að skeri, svo hann strandi.

Bera upp bónorð (orðtak)  Biðja sér eiginkonu.  „Hann er eitthvað ragur við að bera upp bónorðið“.

Bera upp erindi (orðtak)  Segja tilgang heimsóknar; segja það sem manni liggur á hjarta.  „Ætli það sé þá ekki tímabært að bera upp erindið, fyrst maður er búinn að fá kaffi“.

Bera upp í galta (orðtak)  Setja upp galta; hlaða galta.  „Ekki voru allir jafn lagnir við að bera upp í galta.  Það er sérstök list, ef galtinn á til langs tíma að geta staðið vel af sér veður án þess að í hann dropi“.

Bera upp í hey (orðtak)  Setja upp í galta eða hey.  „Berið þið tveir uppí; einn lagar til og treður“. 

Bera upp í höfuðið (orðtak)  Láta sér detta í hug; koma til hugar; áætla.  „Það þýðir ekkert að bera það upp í höfuðið að fara á sjó í svona útliti“.  „Maður er að bera það upp í höfuðið að endurnýja traktorinn“.

Bera uppá (orðtak)  Um dagsetningu; hittast á; gerast sama dag og annar viðburður.  „Afmælið hans bar uppá hlaupársdag“.

Bera (sakir) uppá (orðtak)  Ásaka; álasa; liggja á hálsi; bera á.  „Ég vil ekki með þessu bera sakir uppá einn né neinn, en ég held að svona liggi í þessu“.

Bera uppí (orðtak)  Setja sláturhræru í vömb/iður við sláturgerð.  „Við erum búnar að bera uppí 30 iður“.

Bera (lítið/mikið) úr býtum (orðtak)  Hafa úr skiptum; fá í laun.  „Hvað báru menn úr býtum sem hér sóttu sjóinn og lögðu á sig strangt erfiði“?  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þeir bera ekki ávalt mest úr býtum er hugsa sér það markmið að hrúga upp hárri höfðatölu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1933).  „Býti“ er annar ritháttur á „býtti“ og vísar til skipta á afla/feng.  Sjá skipti; bera skarðan hlut frá borði; slæm býti/býtti.

Bera út (ortak)  A.  Notað um það þegar sláttur hófst, en þá voru orf borin til slægna. Undantekningarlaust var borið út á laugardegi; hvernig sem tíðarfar var.  Væri þá t.d. húðarrigning,var lítill blettur sleginn til málamynda.   Þessi trú á „laugardag til lukku“ var afar rótgróin og átti við um fjöldamargt annað, s.s. flutning í nýtt hús; sjósetningu báts o.fl.  „Heyannir hófust oftast í 12. viku sumars með því að borið var út, en svo var kallað þegar byrjað var að slá.  Var það alltaf gert á laugardegi.  Oftast bakaði mamma þá pönnukökur með kaffinu“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  B.  Viðra innanstokksmuni, t.d. sængur.  Oft var tekinn í það góðviðrisdagur síðsumars, þegar heyannir voru að baki.  Hjátrúin segir að ekki megi bera út sæng hjóna á sunnudagsmorgni; þá verði hjónaskilnaður ( JÁ; Þjs).  C.  Dreifa söguburði/slúðri.  „Hver er að bera út svona kjaftæði“?  D.  Deyða ungbarn með því að skilja það eftir ósjálfbjarga utandyra.  Útburður barna mun töluvert hafa tíðkast fyrir daga kristnitöku og var látinn óátalinn nokkru eftir hana.  Þykir nútímafólki það einn svartasti bletturinn á fyrri siðum, en þá þarf að hafa í huga að erfitt er að setja sig að fullu inní aðstæður, trú og hugarfar þess tima.

Bera útaf (orðtak)  Víkja frá venju; bregðast.  „Slíkir dagar urðu sem betur fór allmargir á hverri vertíð.  En útaf þessu vildi líka bera alloft“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Ekki mátti mikið útaf bera til að illa færi“.

Bera vatn í nefinu (orðtak)  Um gorhljóð í hrafni; sagt var að hrafn spáði fyrir rigningu þegar í honum heyrðist gorhljóð; „klunk“ í stað „krunk“.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Bera vel í veiði (orðtak)  Komast í góða veiði; fá gott tækifæri.  „Nú ber vel í veiði.  Þarna er helvíta mikill mávahópur á leiðinni, að bera í Hreggnesann“.

Bera við (orðtak)  A.  Reyna.  „Ekki var borið við að róa nema á háfjöru...“ (ÓG; Úr verbúðum í víking).  „Ég ber það ekki við að fara yfir fjallið í þessari ófærð“.  B.  Nota til afsökunar; hafa til blóra; bera fyrir sig.  „Formaður skólanefndar viðurkenndi nauðsyn þessa, en bar við veður og færð að ekki hefði orðið úr því sl vetur“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).   C.  Bera í; sýnast koma saman við.  „Sérðu ekki tófuna; hún ber þarna við vörðuna“.  „Haugar nefnist miðið þar sem Stekkavörðuna ber við Haugana“.  D.  Snúa bát fyrir sjósetningu, og eftir að hann hefur verið settur niður, þannig að stefni snúi í ölduna; en bátur í hrófi/skorðum snýr jafnan skut að sjó.  „Víða var skutur látinn ganga á undan í setningunni, nema ef brimaði; þá var borið við; þ.e. skipinu snúið sólarsinnis á landi.  Var það gert þar sem skip voru yfirleitt viðtakameiri að framan“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.

Bera við himin (orðtak)  Sjást á efstu brún, móti himni.  „Nónvörðuna ber við himin á Hjallabrúninni“.

Bera virðingu fyrir (orðtak)  Sýna virðingu; vera auðmjúkur gagnvart.

Bera vitni/vott um / Vitna um (orðtök)  Vera staðfesting á; staðfesta; sanna.  „Ásýnd staðarins ber vitni um snyrtimennsku og alúð ábúendanna“.

Bera víurnar í (orðtak)  Hafa tilburði til að eignast; langa í; hafa áhuga á.  „Það er sagt að hann sé eitthvað farinn að bera víurnar í vinnukonuna á næsta bæ“.  Líking við það að fiskifluga fái áhuga á fiski eða öðru æti; suði í kringum það og endi með því að vía í það. (Sjá vía).

Bera von í brjósti um (orðtak)  Vonast eftir; gera sér vonir um; vænta.  „Ég ber litla von í brjósti um að þessi kind skili sér nokkurntíma; fyrst hún kom ekki með hinum“.

Bera yfir (orðtak)  A.  Vera yfir; að sjá yfir.  „Kóngshæðina ber yfir Grænubrekku, séð frá Láganúpi“.  „Keipað um stund; síðan kippt fram á Stekka.  Vörðuna (Stekkavörðu) ber þá yfir Strengberg“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður).  B.  Um netaveiði; ná efra neti ofanaf því neðra eftir að lagt hefur verið yfir í ógáti.  „Hér hafa þessir djöflamergir lagt yfir okkur fyrir helvítis klaufaskap.  Mér sýnist stutt í endansteininn hjá þeim; við ættum líklega að bera yfir, heldur en að setja sýslumanninn í þetta“.  C.  Fara um.  „Bátinn bar hratt yfir; með segl að húni í góðum byr“.

Bera þungan hug til (orðtak)  Vera illa/ í nöp við; bera kala/þela til; vera reiður við.  „Ekki er að undra að bændur beri þungan hug til þeirra sem þannig ráðslaga um þeirra hagsmuni“.

Bera ægishjálm yfir (orðtak)  Drottna yfir; vera langtum æðri/fremri.  Ægir merkir ógn/sá sem ógnar.  Ægishjálmur er hjálmur drottnarans; oft með tilvísun í söguna af drekanum Fáfni.

Berangur / Bersvæði (n, kk)  Autt/skjóllítið/gróðursnautt svæði.  „Ekki skil ég hversvegna féð hangir á þessum berangri“.  Var ávallt haft í kk í Kollsvík, en annarsstaðar mun það stundum hafa verið í hvorugkyni.

Berangurslegur (l)  Auðnarlegur; skjóllítill; gróðurlaus.  „Það er nokkuð berangurslegt þarna á melunum“.

Berast (s)  A.  Vera borinn; hrífast með.  „Tréð barst norðurmeð ströndinni í brimgarðinum“.  B.  Fá til sín.  „Mér barst ábyrgðarbréf með póstinum“.

Berast af (orðtak)  Þola við.  „Hann berst illa af vegna verkjanna“.

Berast á (orðtak)  A.  Um bát; lenda í áföllum; fá á sig brotsjó.  „Bátinn barst á þegar hann átti skammt ófarið í lendinguna, og hvolfdi honum þar“.  B.  Lifa hátt; vera eyðslusamur. 

Berast á banaspjót (orðtak)  Berjast upp á líf og dauða; há mannskæða orrustu; ráðast hvor á annan.  „Ég held að samflokksmenn ættu fremur að lumbra á andstæðingum en berast á banaspjót innbyrðis“.  Oftast notað sem líkingamál um hatrammar deilur. 

Berast á fjörur (orðtak)  A.  Reka á fjörur.  „Oddviti gat þess að mikið bæri á því að sorp og annar óþrifnaður frá sorphaugum Patreksfjarðar bærist á fjörur hér sunnan fjarðar“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG).  B.  Líkingamál; koma í hendur/eigu manns; berast að.  „Þetta handrit barst á mínar fjörur nýlega“.

Berast bæ frá bæ (orðtak)  Um boð/fjallskilaseðil o.fl; berast rétta boðleið (sjá þar) milli bæja.  Sá sem boðið fær er skyldugur að koma því án tafar til næsta bæjar í boðleiðinni.  „Gangnaseðillinn sem barst bæ frá bæ, kom að Láganúpi um hálfum mánuði fyrir göngur og þaðan varð pabbi að senda með hann út að Breiðavík“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Berast eins og logi í sinu (orðtak)  Um sögu/slúður/frétt.  „Þessi orðrómur barst út eins og logi í sinu“.

Berast í tal (orðtak)  Koma til tals; vera nefnt í samtali; bera á góma.  „Þetta barst dálítið í tal milli okkar“.

Berast mikið á (orðtak)  Lifa í óhófi; lifa í vellystingum praktuglega; slá um sig.

Berast til eyrna (orðtak)  Heyrast; fréttast.  „Skutull hafði fundist í hvalnum; merktur Benedikt Gabríel Jónssyni í Arnarfirði, og barst honum þetta til eyrna“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Berast ört á (orðtak)  Vera óðamála; vera mikið niðrifyrir; vaða á.  „Hann barst svo ört á þegar hann sagði mér tíðindin að ég náði ekki nema öðruhverju orði“.

Berbakt (ao)  Sjá ríða berbakt.

Berbrjósta (l)  Með nakin/ber brjóst sín. 

Berbeinóttur (l)  Svo grannholda að beinabygging er áberandi.  „Óttalega er hún orðin berbeinótt og ræfilsleg hún Rauðka“.  Orðið var notað í þessari mynd vestra, en annarsstaðar þekktist „berbeinaður“.

Berdreyminn (l)  Draumspakur; sem dreymir fyrir því sem koma skal.  Það fólk hefur löngum verið til sem telur sig sjá óorðna hluti í draumum sínum, og þó mun fleiri sem taka mark á því.  Fyrrum ræddu menn drauma sína mun opinskár en nú er gert.  „Halldóra amma taldi sig oft sjá ýmislegt fyrir í draumum sínum“. 

Berfrost (n, hk)  Frost án þess að snjór hlífi jörð.  „Það er mikill klaki í jörðu eftir þetta langvarandi berfrost“.

Berfættur / Berlappaður (l)  Hvorki í sokkum né skófatnaði.  „Yfir Vaðalinn varð að vaða berfættur þegar farið var gangandi til kirkju“  (IG; Sagt til vegar II).   „Best fannst okkur að vera berfættir við þessar hornsílaveiðar í Litlavatninu, enda er leirbotn á grynningunum heimantil“.  „Við vorum berlappaðir og rollurnar voru tregar til að hreyfa sig“  (IG; Æskuminningar). 

Berg / Bergtegund (n, hk/kvk)  Steintegund; steinn; bjarg; klöpp.  „Sumsstaðar á Hnífunum, t.d. á Flögunni, er bergið mishart.  Í því eru harðar æðar en linara berg á milli, sem veðrast og molnar með tímanum.  Eftir verða tilkomumiklar holumyndanir“.  „Í grennd við þykka bergganga, t.d. í Strengbergsgjá, er grannbergið myndbreytt af hitanum“.

Berg (n, hk, fto)  Björg; lágir kletta-/klapparhjallar.  Á a.m.k. þremur stöðum í Rauðasandshreppi finnst þetta heiti sem örnefni; sunnan við Kollsvíkurtúnið (ofan Stöðuls); innantil í Hænuvík, undir Hænuvíkurnúp, og á Raknadalshlíð.  Ekki er vitað til að það finnist víðar í fleirtölu.  „Í bökkunum út af Raknadal eru tvö samliggjandi berg, nefnd Bergin“  (Magnús Jónsson; Örn.skrá Raknadals). 

Bergbrík / Berggangur / Bergrimi (n, kk)  Yngra innskot bergs í eldra bergi; lárétt eða lóðrétt.  Beggja megin við Kollsvík má sjá fjölda misjafnlega áberandi bergganga, þar sem kvika hefur að fornu fleygast í sprungur.  Mest áberandi er berggangurinn í Stengbergsgjánni í Blakknum, en hann nær úr sjó upp úr og í gegnum Blakkinn.  Sami gangur er sýnilegur í Sölmundargjá; Patreksfjarðarmegin.  Í honum er bergið stuðlað með lagskiptu bergi og í kringum ganginn er eldra berg myndbreytt af hita.  Annar gangur er utar; í Nibbugjá.  Berggangar eru einnig í Hreggnasa og víðar.

Berglag (n, hk)  Lag af bergi; bergtegund.  „Jarðlagastaflinn kringum Kollsvík, sem annarsstaðar á blágrýtissvæðum, er myndaður af lagskiptu blágrýti, með millilögum af rauðleitum ösku- og jarðvegslögum.

Bergmál (n, hk)  Endurkast hljóðs frá hlut, t.d. klettavegg, aftur til þess sem kallaði/mælti.  „Í kyrru veðri skemmtum við okkur við að kalla af hlaðinu á Láganúpi og hlusta eftir bergmálinu úr Hjallaklettunum“.  Fyrrum var notað orðið „dvergmál“ um það sama.  Skemmtilegt orð sem vísar til þess að dvergarnir í klettunum endurtaki það sem þeir heyra.

Bergmála (s)  Um hljóð; endurkastast; gjalla til baka.  „Ópin í honum bergmáluðu um allan dalinn“.

Bergnuma / Bergnuminn (l)  Heillaður; hugfanginn; hrifinn.  „Drengurinn starði bergnuminn á jólasveininn“.

Bergrisi (n, kk)  Jötunn; tröllkarl; stórvaxinn vættur sem býr í björgum/klettum.  Má vera að tröllkarlinn í Tröllkarlshelli í Hnífum sé þeirrar ættar.  Einhver greinarmunur var gerður á bergrisum, jötnum og tröllum, en þær skýringar hafa líklega verið mjög mismunandi.

Bergröðull (n, kk)  Klettaþil; vegghamrar.  „En brátt hefur sig upp að nýju stakur bergröðull, uppmjór sem klakkur, og liggur niður hlíðarjaðarinn sem þunnur kambur, frambrýndur, allt niður í fjöru, og endar í strengbergi.  Má í raun heita ógengur um þvert, en hefur þó verið klifinn en þykir glæfraför“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Bergskil (n, hk, fto)  Skil á milli láréttra berglaga í standbergi/bjargi/klettum.  „Bergskilin sem Miðlandahilla er í, liggja um allt bjargið“  (DE; Örn.skrá Látrabjargs). 

Bergvatn (n, hk)  Kaldavermsl; vatn sem sprettur úr jörðu en kemur ekki beint af regni, snjó- eða jökulbráð.

Bergveggur / Bergþil (n, kk/hk)  Klettaveggur; bjarg.  „Þegar aðeins rofaði í þokuna sá ég bergvegginn gnæfa yfir og béturinn stefndi upp í brimið við urðirnar“.

Berhausaður / Berhöfðaður / Berhöbbdaður (l)  Húfulaus; án höfuðfats.  „Maður fer ekki berhausaður út í þennan fimbulkulda“.  „Fardu nú ekki út svona berhöbbdaður drengur“!

Berhátta (s)  Hátta sig úr öllum fötum.  „Við berháttuðum okkur og lögðumst til sunds í volgum sjónum“.

Berhentur (l)  Vettlingalaus; með berar hendur.  „Við fórum að reyna að grafa þar niður, berhöfðaðir og berhentir, en jafnóðum fylltist þó allt“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857).

Berháttaður (l)  Farinn úr hverri spjör.  „Þegar hann kom inn úr gegningunum um kvöldið var nýja ráðskonan berháttuð í rúmi hans og var hin blíðasta.  En karlinn kunni lítt á þannig aðstæður og spurði; „hvar á ég þá að sofa““!

Berhentur (l)  Með berar hendur.  „Fáðu þér góða vettlinga.  Þér verður undireins skítkalt í þessu beinfrosti“.

Berhögg (n, hk)  Högg (t.d. með vopni) sem engar varnir eru við.  Nú til dags lifir orðið eingöngu í orðtakinu ganga í berhögg við (eitthvað), þ.e. ganga augljóslega gegn vilja/fyrirmælum/lögum einhvers. 

Berja (s)  A.  Lemja; slá.  „Varstu að berja bróður þinn“?  „Nú er einhver að berja að dyrum“.  B.  Mýkja harðfisk með því að merja hann með hamri á steini eða öðru föstu undirlagi.  „Viltu berja fyrir mig tvö harðfiskstrengsli“?  C.  Róa án þess að vel gangi vegna andstreymis eða mótvinds.  „Þeir tóku þá til að berja í land“  (BS; Barðstrendingabók).  D.  Slá með orfi án þess að vel gangi.  „Ég ætla að reyna að berja eitthvað að gamni mínu hérna frammi í Mógnum“.

Berja að dyrum / Berja/knýja dyra / Berja/banka uppá (orðtak)  Banka á dyr íbúðarhúss þegar maður er gestkomandi, til að vekja athygli á komu sinni og láta bjóða sér inn.  Hefur ávallt þótt sjálfsögð kurteisi, og virðing við húsráðendur.  Fyrrum var nokkuð lagt uppúr því að rétt væri barið að dyrum.  Ávallt átti að berja þrjú högg.  Væru þau færri var líkast til draugur eða heiðinn maður á ferð.  Fleiri högg voru ókurteisi.  Fyrrum var það vani, ef gest bar að garði eftir dimmingu, að hann færi nærri glugga og kallaði „Hér sé guð“.  Kallað að guða á glugga.  Þá var gjarnan svarað að innan; „Guð blessi þig; hver er kominn“?  „Hver er að berja uppá á þessum tíma dags“?

Berja augum (orðtak)  Líta á; skoða.  „Þetta var í fyrsta sinn sem ég barði hann augum“.

Berja á (einhverjum) (orðtak)  Berjast við, fara illa með.  „Þá var farið að berja á lögreglunni; kasta grjórti í Alþingishúsið og...“  (SG; Bankahrunið - búsáhaldabyltingin; Þjhd.Þjms).

Berja á móti (orðtak)  Róa/sigla á móti hörðum straumi/ miklum vindi.

Berja á móti veðrinu (orðtak)  Róa/ganga á móti vindáttinni.  „Það gengur hægt að berja svona á móti veðrinu“.

Berja bumbu (orðtak)  Berja á trumbu; gera mikil og reglubundin slög.

Berja fótastokkinn (orðtak)  Sveifla fótum að/með síðum hests þegar riðið er.  Þessi siður hefur lengi legið í landi hérlendis og verið talinn einkennandi fyrir reiðlag Íslendinga.  Sumir hafa talið það stafa af slæmum fótabúnaði og kulda, og skal hér ósagt um það.  Ekki finnst skýring á heitinu „fótastokkur“, en hann kann að hafa verið þvertré í hestvagni eða sleða sem fætur ekilsins hvíla á.  Kann þá málshátturinn að vera sprottinn af því að sparka í sífellu í þvertréð, t.d. til að halda hita á fótum.

Berja (eitthvað) fram (orðtak)  Ná fram markmiði með mikilli eftirfylgni/málafylgju. 

Berja/slá frá sér (orðtak)  Verjast; berjast í sjálfsvörn.   „Mig langar ekkert að munnhöggvast við þessa háu herra þarna fyrir sunnan; en það verður stundum að berja frá sér ef ekki er hlustað á röksemdir“.

Berja gaddinn (orðtak)  Um sauðfé; reyna að krafsa í snjó/skara/klaka sér til beitar.  Fé er mjög duglegt að krafsa snjó ofanaf grastoppum meðan ekki er hörð frostskán yfir.   „Það er þýðingarlaust að láta féð berja gaddinn í úthögum í þessari glæru.  Settu það bara inn þegar það kemur úr fjörunni“.

Berja hausa (orðtak)  Mýkja herta fiskhausa með því að berja þá, en þeir voru fyrrum nýttir til skepnufóðurs.  „Þeir voru ýmist seldir eða bleyttir upp og barðir fyrir skepnurnar næsta vetur“  (IG; Æskuminningar). 

Berja harðfisk/fisk (orðtak)  Mýkja harðfisk með því að berja hann með slaghamri/ lítilli sleggju á hörðu undirlagi.  Oft var harðfiskur barinn á sérstökum stórum steinum nærri íbúðarhúsum.

Berja hausnum/höfðinu við steininn (orðtak)  Neita að horfast í augu við staðreyndir.  „Það þýðir víst ekkert að berja hausnum við steininn með þetta verðlag“.  Til er orðatiltækið „hart er að berja höfðinu við steininn“.

Berja í borðið (orðtak)  Raunmerking er augljós, en oft notað í líkingamáli um það að vera fastheldinn á sína skoðun og láta ekki aðra ráðskast með sig. Sjá setja/reka hnefann í borðið; spyrna við fæti.

Berja í brestina (orðtak)  Bæta úr; lagfæra; afsaka.  „Það er heldur seint fyrir stjórnvöld að ætla að berja í brestina þegar byggðin er hruninn og fólkið farið“!  Sennilega dregið af því að hnoða upp í göt á íláti.

Berja í nestið (orðatiltæki)  A.  Útbúa nesti til ferðalags eða sjóferðar.  Það fólst gjarnan m.a. í því að berja harðfisk sem er létt og næringarrríkt nesti.  B.  Oft notað sem líkingamál um það þegar einhver liggur fyrir dauðanum.  „Ég er hræddur um að hann sé nú að berja í nestið, blessaður karlinn“.  Notað enn vestra; oftast í síðari merkingunni.  Jafnan þar með „í“ sem víða annarsstaðar er sleppt.

Berja lóminn (orðtak)  Bera sig illa; barma sér.  „Það þýðir víst lítið að berja lóminn; maður verður bara að reyna að bjarga því sem bjargað verður“.  Ekki er ljóst hver er uppruni orðtaksins, en líklega vísar hann til hins ámátlega væls sem lómur gefur frá sér; líkt og hann hafi verið barinn rækilega.

Berja (eitthvað) niður (orðtak)  Þagga eitthvað niður; þagga niður í einhverjum. 

Berja/hnoða saman vísu/ritverki (orðtak)  Yrkja vísu/ljóð með erfiðismunum; basla við að setja saman texta.  „Stundum tekst manni að berja saman einhverja nothæfa ferskeytlu“.

Berja sér / Berja sér til hita (orðtak)  A.  Aðferð til að halda á sér hita; slá höndunum lárétt saman og utanum kroppinn.  „Hann stóð uppréttur eftir því sem við varð komið og reyndi að halda á sér hita með því að berja sér“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).   B.  Afleidd merking; bera sig illa; barma sér.  „Það er nú enginn bóndi nema að hann kunni að berja sér“!

Berja sig (allan) utan (orðtak)  Synja alveg fyrir; neita alfarið; viðurkenna ekki.  „Ég spurði hann hvort hann hefði tekið hnífinn en hann barði sig allan utan og sagðist ekki hafa séð þann hníf; hvað þá annað“.  Líklega vísun í að menn leggi áherslu á orð sín með því að t.d. skella sér á lær.

Berja strauminn (orðtak)  Róa gegn miklum straumi. 

Berja/lemja sundur og saman (orðtök)  Berja/lemja í klessu/ til óbóta.  „Þeir segja að kerlingin hafi brið karlinn sundur og saman á leiðinni út í bílinn, og sagt að hún færi aldrei með hann aftur í svona sukksamkvæmi“.

Berja sig allan utan (orðtak)  Þverneita; þræta fyrir.  „Stýrimaðurinn (af Sargon) hafði komið síðastur.  Við buðumst til að fara um borð og aðgæta með ástand hinna mannanna, en hann barði sig allan utan og sagði að það kæmi ekki til greina; þeir væru allir látnir“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg).

Berja (einhvern) til blóðs (orðtak)  Lúskra svo á einhverjum með barsmíðum að úr honum blæði.

Berja (einhvern) til bókar (orðtak)  Kenna einhverjum harðneskjulega, með því að lemja hann þegar hann tekur illa eftir eða gerir villur.  Slíkt mun hafa viðgengist fyrr á öldum.  Frá því sagt í sögu Guðmundar biskups góða að hann hafi verið barinn til bókar.  Af sömu rót er málshátturinn; enginn verður óbarinn biskup.

Berja til lands (orðtak)  Taka landróður; fara í land.  „Nú er hann farinn að tregðast dálítið aftur.  Ætli við segjum þetta ekki bara gott í dag og förum að berja í land“.

Berja/lemja til óbóta (orðtök)  Lumbra á; berja í spað.  „Hann var laminn til óbóta á þorrablótinu“.

Berja um allan sjó (orðtak)  Reyna veiðar allsstaðar án árangurs.  „Ég er búinn að berja um allan sjó en fjandakornið að maður verði nokkursstaðar almennilega var“!

Berjablár (l)  Blár um munn og varir eftir að hafa borðað krækiber/bláber.  „Hann þurfti ekkert að skýra fyrir mér hversvegna hann varð ekkert var við fjárhópinn; berjablár útundir eyru“!

Berjabox / Berjadolla / Berjadós / Berjakrukka (n, hk/kvk)  Lítið ílát sem ber eru tínd í.  „Berjabox okkar strákanna voru oft tómar blikkdósir eða krukkur undan tóbaki eða mat.  Minnstu berjadollurnar oru annaðhvort neftóbaksdósir eða flatar dósir undan reyktóbaki; með loki í endann.  Þar fyrir ofan voru niðursuðudósir; stærri reyktóbaksdósir eða lítil gerbox.  Næsta stig voru teningslaga, stór gerbox og þar fyrir ofan fötur með haldi.  En þá voru menn komnir í „fullorðinsflokk“ í berjatínslunni“.  „Berjadósin var orðin axlafull“.

Berjabrekka / Berjalaut / Berjaland / Berjamór (n,kvk/ hk)  Svæði með miklu af berjum.  „Þar var gott berjaland og stutt að fara“  (IG; Sagt til vegar II). 

Berjafata (n, kvk)  Stórt ílát sem ber eru tínd í.  „Þú mátt hafa mjólkurfötuna sem berjafötu, en ég ætla að eiga það við þig að beygla hana ekki“!

Berjaferð (n, kvk)  Ferð til berja; ferð til að tína ber.  „Iðulega var farið í berjaferð inn í Gyltuból á Rauðasandi; í Botnsskóg í Vesturbotni; í Holtsdal á Barðaströnd eða austur í Kjálkafjörð; jafnvel norður í Arnarfjörð.  Að jafnaði voru þá tínd bláber.  Þó var einnig farið langferðir til krækiberja, t.d. að Naustabrekku.  Þá var yfirleitt farið að sjá fyrir endann á heyskap, og mátti e.t.v. líta á þetta sem töðugjöld“  (VÖ)“

Berjahrat (n, hk)  Hrat (hýði) af krækibejum.  „Berin voru pressuð í hakkavél; síðar berjapressu, og saftin látin síga af hratinu í grisju, sem oft var hengd yfir föru á handfangið á strokkinum eða skilvindunni“.

Berjaílát (n, hk)  Ílát sem ber eru tínd í.  T.d. berjafata, berjabox, berjadolla.

Berjakoppar (n, kk, fto)  Gæluorð um ber, oftast þá í litlu magni.  „Ég tíndi fáeina berjakoppa í nestisboxið ef þíð vilduð smakka“.  Sjá einnig eggjakoppar.

Berjalyng (n, hk)  Lyng sem ber (krækiber, bláber, aðalbláber) vaxa á.  „Vermenn í Láganúpsveri höfðu frítt lyngrif í landi Láganúps, en lyng var notað sem tróð í þök; sem eldiviður og í rúmfletin.  Þó liðnar séu nær 4 aldir síðan verstöðu lauk er berjalyng enn ekki búið að ná sér fyllilega á strik aftur, en framum 1960 sást varla lyngkló á svæðinu heimantil við Smávötn, Litlavatn og Sandslág“.

Berjasaft (n, kvk)  Saft af krækiberjum.  Berjatínsla og saftgerð var hluti af matargerð Kollsvíkinga, og eftir hvert haust voru iðulega tugir af saftflöskum í hverju búri.  Saftin var notuð í matargerð; til drykkjar og sem útálát á grauta, búðinga og annað.

Berjasía / Hratsía (n, kvk)  Sía/poki úr ofnu efni sem berjahrat er sett í eftir að ber hafa verið hökkuð.  Hún er síðan hengd upp yfir ca eina nótt, til að láta saftina renna úr hratinu í ílát.  Oft var notað sama grisjuefni í síuna eins og var í ketpokum eða taubleium, og tók það gjarnan varanlegan lit af saftinni.

Berjaskyr (n, hk)  Skyr sem ber; gjarnan bláber en stundum krækiber, eru höfð útá eða hrærð samanvið.  Það þykir herramannsmatur; ekki síst ef einnig er rjómi útá.

Berjaspretta (n, kvk)  Spretta berja er misjöfn ár frá ári, og er háð vindum, hitastigi, úrkomu, sólfari og snjóalögum.

Berjast (s)  A.  Eigast við í orrustu/stríði.  B.  Afla berja.  „Okkur berjaðist mun betur í þessari ferð en hinni fyrri“.  Orðið finnst ekki í orðabókum í síðari merkingunni, þó hin fyrri sé algeng.

Berjast einarðlega/ötullega / Berjast eins og ljón (orðtök)  Beita sér af hörku/þrautseigju. 

Berjast fyrir (einhverju) (orðtak)  Beita sér fyrir einhverju með orðum og stundum gerðum.  Stundum aukin áhersla með; „berjast fyrir einhverju með hnúum og hnefum“.

Berjast fyrir lífi sínu (orðtak)  Beita aðgerðum til að halda sér á lífi.  „Ég sá að hann hafði fallið í dýið og barðist þar fyrir lífi sínu“.

Berjast í bökkum (orðtak)  Eiga í basli vegna fátæktar.  „Oft var efnalítið á þessu kotbýli og þau börðust lengst af í bökkum, þann tíma sem þau dvöldu þar“.  E.t.v. á orðtakið rætur í bardögum fyrr á tíð; þegar vígamenn gerðu innrás/árás.  Þeir sem voru til varnar nutu þess oft að hafa búið um sig á hærri stöðum, þannig að árasarlið þurfti að sækja upp á sjávarbakka eða uppundir kastala; sem þýðir verri aðstöðu í bardaga.  Hér er því um sama uppruna að ræða og í orðtakinu að eiga undir högg að sækja.  Þar sem orðtakið er eingöngu notað um fátækt og vesöld kann það þó að eiga aðrar vísanir.  Má vera að það vísi til sagna um að örkumlafólki og gamalmennum hafi í fornöld verið varpað fyrir björg.  Sjá ganga fyrir ætternisstapa.

Berjast til síðasta blóðdropa / Berjast til þrautar / Berjast þar til yfir lýkur (orðtak)  Fá niðurstöðu í viðureign/bardaga/deilu; berjast þar til sigur eða tap fæst fram.  Sjá þraut.

Berjast um / Berjast um á hæl og hnakka (orðtak)  Reyna að losna úr einhverri prísund með því að beita öllum útlimum.

Berjast við dauðann (orðtak)  Vera í andarslitrunum/dauðateygjunum; heyja dauðastríðið.

Berjast við (orðtak)  Basla við; eiga í erfiðleikum með.  „Ég ætla ekki að láta þig vera einan að berjast við þetta“.

Berjast við öndina (orðtak)  Reyna að ná andanum; eiga í erfiðleikum með öndun, t.d. vegna mæði eða köfnunar.

Berjasumar (n, hk)  Sumar með tilliti til berjasprettu.  „Mér sýnist að þetta geti orðið gott berjasumar“.

Berjatími (n, kk)  Tíminn frá því að ber eru orðin þroskuð; oft síðarihluta ágúst, þar til þau skemmast vegna frosts eða þroska, oft í september-oktober.  Á berjatímanum voru farnar berjaferðir.

Berjatína (n, kvk)  Áhald til að auðvelda og flýta berjatínslu.  Langir tindar eru tinaðir í hluta ops á málmgjörð; léreftspoki er aftaná gjörðinni og hald ofaná.  Tínunni er rennt undir berin á lynginu og henni lyft upp.  Renna þá berin aftur í tínupokann.  Líklega hefur ekki verið byrjað að nota berjatínur í Kollsvík fyrr en á 20.öld.  Nú á dögum eru tínur að miklu leyti úr plasti og án poka; enda vildu bláber kremjast í honum.

Berjatínsla (n, kvk)  Söfnun/tínsla berja, annaðhvort beint uppí sig eða í ílát.  „Það gengur ekki að liggja svo í berjatínslu að maður sjái ekki féð sem á að smala“!

Berjaveður (n, hk)  Veður sem unnt er að nýta til berjatínslu.  „Þetta er nú ekki heppilegt berjaveður, meðan hann gengur á með þyngslaskúrum“.

Berjavín (n, hk)  Vín úr berjum; gerjuð berjasaft.  Þó víngerð væri óþekkt í Kollsvík þá kom það fyrir að berjasaft gerjaðist svo hún varð áfeng.  Þótti það vín misgott.

Berklaplástur / Berklapróf (n, kk/hk)  Skimun fyrir berklaveiki með því að límdur er plástur á brjóstið með efnum sem valda roða ef einstaklingurinn er berklaveikur.  Berklapróf með plástrum voru framkvæmd í barnaskólum eftir miðja 20.öld. 

Berklar / Berklaveiki (n, kk/kvk)  Hættulegur smitsjúkdómur sem lengi var landlægur á Íslandi og olli dauða eða örkumli fjölda manna.  Hérlendis náði berklafaraldurinn hámarki með aukinni þéttbýlismyndun um 1900 en lyf komu ekki til sögunnar fyrr en hálfri öld síðar.  Berklar eru bakteríusjúkdómur sem smitast um öndunarfæri en leggst einnig á önnur líffæri.

Berleggjaður (l)  Með bera fótleggi.  „Skelfing er að sjá stelpubarnið svona berleggjað í kuldanum“!

Berlega (ao)  Greinilega; sýnilega.  „Hann hefur berlega ekki skilið það sem ég sagði“.

Bermilega (ao)  Bærilega; vel.  „Ekki ætlar þetta að ganga bermilega hjá honum“.

Bermilegt (l)  Bærilegt; gott.  „Ekki er það bermilegt með hann Jón; ég frétti að krabbinn hafi tekið sig upp“.  „Ætlarðu að gripla gólffötuna mína í eggjaferð?  Þú ert ekki rétt bermilegur“!

Bernska (n, kvk)  Æska; ungdómsár.  „Ég var í bernsku þegar þetta gerðist og man ekki eftir því“.  Orðstofninn er barn.  „Jól í bernsku minni voru hátíðleg haldin þannig að á aðfangadag kl sex var allt heimilisfólkið samankomið við útvarpstækið að hlýða á aftansöng“  (ÖG; Glefsur og minningabrot). 

Bernskubrek (n, hk, fto)  Yfirsjónir/óhöpp/uppátæki sem verða hjá börnum.

Bernskudagar / Bernskuár (n, kk, fto)  Æskuár; barnsár.  „Um tilganginn með þessum skrifum er það helst að segja að hann er fyrst og fremst að njóta ánægju af að rifja upp svipmyndir frá bernskudögunum“  (EG; Ábúendur Kollsvík; Niðjatal HM/GG).

Bernskujól (n, hk, fto)  Jólaupplifun á barnsaldri.  „...gefa börnum okkar og barnabörnum innsýn í okkar bernskujól“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Bernskuminni (n, hk)  Barnsminni; það sem maður man frá barnsárum sínum.  „Mér er þetta í bernskuminni“.

Bernskur (l)  Barn að aldri; barnungur.  „Ég var enn bernskur að árum þegar þetta gerðist“.

Bernskuslóðir (n, kvk, fto)  Staður þar sem maður elst upp; heimaslóðir í barnæsku.  „Honum fagnar bóndabær og bernskuslóðir;/ foreldrar og frændur góðir“  (JR; Rósarímur). 

Bernskuvinur / Berskuvinkona (n, kk/kvk)  Vinur/vinkona sem maður átti á barnsárum. 

Berorður (l)  Talar tæpitungulaust/skýrt; segir það sem aðrir pukrast með.  „Hann var mjög berorður í sinni frásögn og dró ekkert undan“.

Berrassaður (l)  Allsber; nakinn.  „Við fórum úr fötunum uppi á Rifi og hlupum svo berrassaðir útí.  Það var skratti kalt, þó sjórinn hefði volgnað nokkuð við að falla á sólsteiktan sandinn“.

Berrassað kaffi  (orðtak)   Kaffi sem borið er fram án mjólkur og meðlætis.  Orðtakið er upprunnið hjá Kristni Ólafssyni í Hænuvík.  Hann var lengi landpóstur í Útvíkum og notaði þetta í fyrirlitningartón ef svo illa vildi til að honum voru bornar slíkar trakteringar.  Venja var að gera vel við póstinn, enda átti hann það skilið“.

Berserkjasveppur (n, kk)  Aminita muscaria.  Sveppur af ættkvísl reifasveppa.  Ber rauðan hatt með hvítum doppum og hvítum beinum stilk.  Hatturinn getur orðið allt að 30 cm en oftast mikið minni.  Sveppurinn er baneitraður og veldur meltingartruflunum og ofskynjunum; jafnvel dauða.  Sú söguskýring komst á flot á 18.öld að víkingar hafi neytt sveppsins fyrir orrustur, en er ólíkleg.  Sveppurinn vex helst í birkikjarri og fjalldrapa; algengastur á NA-landi.  Hefur líklega fundist í Víðilækjum í Vatnadal.

Berserksgangur (n, kk)  Æði sem getur runnið á menn; líking við æðisengna framgöngu í bardaga.  Sjá ganga berserksgang.

Berskallaður (n, kk)  Með beran skallann.  „Réttu mér nú húfulæpuna mína; manni verður kalt að vera lengi berskallaður í þessum næðingi“.

Berskjaldaður (l)  Varnarlaus; án nokkurs til hlífðar.  „Íbúar Rauðasandshrepps voru berskjaldaðir fyrir þeirri einhliða ákvörðunum sveitarstjórnar Vesturbyggðar að leggja skólann niður“.

Bersköllóttur (l)  Nauðasköllóttur; alveg hárlaus á höfði. 

Bersnauður (l)  Bláfátækur; allslaus.  „Maður er kannski ekki svo bersnauður að geta ekki staðið í skilum“.

Bersvæði (n, hk)  Opið svæði; svæði þar sem hvergi er skjól.  „Ég sá fyrst til tófunnar þegar hún vogaði sér úr urðinni út á bersvæði“.

Bersyndugur (l)  Augljóslega sekur; hafður fyrir sök; sökudólgur.  „Mér sýnist að þessi bersynduga túnrolla sé aftur komin inná“.

Bersýnilega (ao)  Augljóslega; sýnilega; greinilega  „Hér hefur bersýnilega eitthvað gengið á“.  „Þeim hefur eitthvað seinkað; það er bersýnilegt“.

Berum orðum (orðtak)  Umbúðalaust; án þess að fegra.  „Ég sagði bara mína meiningu; berum orðum“.

Besefi (n, kk)  Þrjótur; kauði.  „Nú hefur hann gleymt þessu alveg, bannsettur besefinn“!  Komið úr dönsku og var notað yfir sjöur í spilinu alkort.  Þar eru besefarnir (sjöurnar) einskis gildir fyrr en handhafi þeirra hefur fengið einn slag.

Bessaleyfi (n, hk)  Leyfi sem menn taka sér án þess að fá það frá öðrum; óleyfi.  „Ég tók mér það bessaleyfi að færa grunnendann á strengnum þínum; hann hafði lagst dálítið í skakka stefnu“.  Líklega vísar orðið til þess að björn (bersi) spyr ekki um leyfi til þess t.d. að drepa fé sér til matar ef hann gengur á land.

Bessi (n, kk)  Bersi; annað heiti á birni/ísbirni.

Best er að búa að sínu (orðatiltæki)  Farsælast er ef maður er sjálfbjarga með það sem maður hefur/ með sitt bú.  Vísar til sjálfsþurftabúskapar fyrri tíðar.  Heimilisfólk þurfti að vera sjálfu sér nægt um allar nauðsynjar, en til þess þurfti bæði útsjónarsemi, elju, natni og fyrirhyggju.  Oft notað stytt:  „Hann býr að sínu og þarf ekki að vera upp á aðra kominn“.

Best er að hætta hverjum leik þá hæst hann ber/stendur (orðatiltæki)  Betra er að hætta leik/verkefni/skemmtun þegar hápunkti er náð heldur en að bíða þar til allir hafa misst áhuga eða eru orðnir ósáttir.

Best er að vera birgur vel (orðatiltæki)  Heilræði úr Sláttuvísum Hallgríms Péturssonar, sem oft var viðhaft.  „Best er að vera birgur vel/  Baula mikið étur/  Ósköp þarf fyrir eina kú um vetur“.

Best er það ketið sem beini er næst (orðatiltæki)  Vísar til þess að bragðmesta og fíngerðasta ketið er oftast það sem er innvið beinin, t.d. á hryggnum.  Var stundum viðhaft þegar lögð var áhersla á að vinna vel að; þ.e. kroppa allar kettægjur af beinum.

Besta grey/sál/skinn (orðtak)  Vorkunnaryrði um manneskju; góð manneskja.  „Hann stígur kannski ekki í vitið, en þetta er nú samt besta sál“.

Bestikk (n, hk)  A.  Sett með teikniáhöldum; blýanti, sirkli, gráðuboga o.fl.  B.  Leiðakort/sjókort skips.  C.  Kortaklefi, aftantil í brú skips.

Bestilla (s)  Gera; aðhafast.  „Hvað ert þú að bestilla“?  „Hvað á nú svonalagað að bestilla“?!  Allmikið notað í Kollsvík framá lok 20.aldar.

Bestía (n, kvk)  Ótemja; skrattinn.  „Hún hellti úr sér skömmum og lét alveg eins og bestía“!  Allmikið notað í Kollsvík til skamms tíma.

Bestíulæti (n, hk, fto)  Ólæti; djöflagangur.  „Skelfingar bestíulæti eru í kvígunni!  Réttu mér sparkvörnina“.

Besögelsi (n, hk)  Heimsókn.  Heyrðist einstaka sinnum notað af sumum.  „Hvað er að frétta úr þínu besögelsi“?  Dönskuslettur í seinni tíð má e.t.v. að hluta rekja til tímaritanna Familie Jorunalen og Hjemmet sem voru nokkuð lesin.  Sumt kann þó að vera ættað frá dönskum samskiptum og dönskunámi.

Betala (s)  Borga; greiða.  „Leigur (af Láganúpi) betalast í kaupstað með fiski, með smjöri heim, eður eftir samkomulagi“  (ÁM/PV Jarðabók).  Orðið heyrðist notað framundir lok 20. aldar.

Betl (n, hk)  Það að biðja um framlag annarra til sín eða sinnar fjölskyldu vegna fátæktar; vergangur.  Betl var landlægt fyrr á tímum þegar fólk flosnaði unnvörpum upp vegna harðinda, sjúkdóma eða náttúruhamfara og félagslegur stuðningur var af skornum skammti.  Í slíkri neyð flykktist fólk gjarnan í verstöðvarnar í von um matarbita.  Um það var reyndar oftar notað heitið vergangur.  Nú á dögum er betl helst nefnt í tengslum við ágengni eða safnanir af einhverju tagi.

Betla (s)  Stunda betl; óska framlags fyrir sig og sína vegna fátæktar.

Betlari (n, kk)  Sá sem betlar. 

Betlikerling (n, kvk)  Kona sem betlar.  Notað sem líkingamál jafnt um karla sem konur.  „Hann segist ekki ætla að fara eins og betlikerling um allar sveitir vegna fóðurskorts; hann fækki þá heldur á fóðrum.

Betlimunkur (n, kk)  Förumunkur; munkur sem lifir af betli/ölmusu, t.d. grábróðir af reglu Fransiskusar eða svartmunkur af reglu  dóminíkana.  Á síðari tímum einkum notað sem líkingamál, líkt og betlikerling.

Betlistafur (n, kk)  Stafur betlara/manns sem bjargast af sníkjum. „Enn er maður ekki svo vesæll að maður gangi við betlistafinn, þó lítið standi útaf“.

Betra (s)  Bæta; gera virkara/betra/heilla.  Meira notað fyrrum, en bregður þó fyrir nú.  „Þó þetta sé ansi gott þá mætti nú kannski betra það eitthvað enn“.

Betra að hafa (einhvern) með (sér) en (á) móti (orðtak)  Betra að hafa einhvern að samherja en andstæðingi.  „Hann hefur meiri áhrif en maður gæti haldið.  Mér hefur alltaf fundist betra að hafa hann með en á móti“.

Betra/skárra en ekki neitt (orðtak)  Til einhvers gagns; munar um.  „Ekki má það minna vera; en þetta er samt betra en ekki neitt“.

Betra en nýtt (og bilar aldrei) (orðtak)  Oft sagt um hlut í kjölfar viðgerðar/lagfæringar á honum, eða um gamalt í samanburði við nýtt.  „Það held ég að þessi viðgerð hafi tekist vel; þetta er betra en nýtt og bilar aldrei“!

Betra er að biðja en stela (orðatiltæki)  Auðskilin speki.

Betra er að bjargast við sitt en biðja aðra (orðatiltæki)  Lýsing á stolti/sjálfstæði, sem ekki krefst skýringa.

Betra er að bogna en bresta (orðatiltæki)  Betra er að gefa eftir en láta brjóta sig niður.  Sjá það tré er betra sem bognar en hitt sem brestur.

Betra er að iðja en biðja (orðatiltæki)  Betra er að vinna fyrir sér en vera á annarra framfæri.

Betra er að veifa röngu tré en öngvu (orðtak)  Betra er að notast við það verkfæri/efni o.fl. sem maður hefur við hendina en ekki neitt.  „Það er nú fremur lítið lið að honum í smalamennsku, en það er kannski betra að veifa röngu tré en öngvu“.  Vísar líklega til þess að ýmislegt má nota sem barefli í bardaga, en gæti einnig átt við það að bjargast við lélega/óhentuga ár í róðri. Tré merkir hér líklegast ár á báti og veifa merkir að róa.  Spekin vísar til þess að betra er að hafa einhverja ár til að róa með en öngva á annað borðið.  Röng ár getur t.d. verið varaár sem jafnan er höfð á báti, og er stundum annarrar gerðar en hinar.

Betra er að vera ógiftur en illa giftur (orðatiltæki)  Gegnsæ speki sem mun stundum hafa verið notuð til að réttlæta einlífi eða hjónaskilnað, en getur eflaust í mörgum tilvikum verið sönn. 

Betra er að þiggja ráð en gefa (orðatiltæki)  Viturlegra er stundum að hlusta á aðra en þykjast vita allt betur sjálfur.

Betra er autt rúm en illa skipað (orðatiltæki)  Úr sjómannamáli; betra er að láta einn háseta vanta en hafa gagnslausan mann í áhöfn.  Vísað er til rúms á bát, en hver háseti reri í vissu rúmi.

Betra er brjóstvit en bókvit ( orðatiltæki)  Betra er oft að gera það sem manni finnst eða vanalegt er heldur en það sem af bókum er lært.  E.t.v. svipuð meining og í „ekki verður bókvit í askana látið

Betra er geymt en gleymt (orðatiltæki)  Sjá gleymt en ekki geymt.

Betra er heilt en brotið (þó bætt sé) / Betra er heilt en bætt / Betra er heilt  en illa gróið ( orðatiltæki)  Viðgerður hlutur verður sjaldnast jafn góður og heill/nýr; það sem brotnað hefur verður sjaldnast jafn sterkt, þó gróið/viðgert sé.

Betra er illt að gera en ekki neitt (orðatiltæki)  Mikið notað orðtak; vísar annarsvegar til þess að allt sé betra en sitja aðgerðalaus og hinsvegar að allt sé betra en úrræðaleysi í slæmum aðstæðum.  „Mér fannst betra illt að gera en ekki neitt, svo ég fór að festa á blað nokkur orð sem ég þekkti úr málfari Kollsvíkinga, en vissi jafnframt að færu í glatkistuna ef enginn héldið þeim til haga“.  Vísar til þeirrar vinnuhörku sem tíðkast hefur um allar aldir, og er í hrópandi andstöðu við letilíf og skemmtanaáráttu margra nútímamanna.  Ekki þótti mannsbragur á öðru en vera sívinnandi, og láta sér helst aldrei verk úr hendi falla.  Jafnvel þótti betra að vinna að einhverju sem ekki var aðkallandi en vera verklaus; og til þess vísar spakmælið.  Annað spakmæli var ekki eins þekkt í Kollavík; „betra er iðjulaus að vera en illt að gera“.  Það er af allt öðru sauðahúsi og vísar til þess að betra sé að halda að sér höndum en vinna illvirki.

Betra er kál í koti en krás á herrasloti (orðtatiltæki)  Vísar til þess að betra sé að búa að sínu, þó lítið sé, en þiggja það sem ófrjálsum vinnumanni er skammtað.

Betra er kál í koti í kyrrð og ró en fullur bolli af floti í fjandakló (orðatiltæki)  Gamalt vísubrot sem gjarnan var haft um hönd sem heilræði.  Vísar til þess að betra sé að njóta vel þess litla sem menn hafa en sækjast eftir auðæfum/vellystingum með miklum fórnum.

Betra er lítið en ekkert/ ekki neitt (orðatiltæki)  Segir sig sjálft.

Betra er ólofað en illa efnt (orðatiltæki)  Betra er að vera spar á loforðin en svíkja þau oft.

Betra er yndi en auður (orðatiltæki)  Gömul sannindi um að unaður og vellíðan sé betri en ríkidæmi.

Betra (er) seint en aldrei (orðtak)  Viðhaft þegar eitthvað síðbúið kemur, sem vænst var fyrr.  „Það er mikið að þú hefur þig á lappir!  En betra er seint en aldrei“.  „Ég skila þér hérna klippunum; betra seint en aldrei“!

Betraður (l)  Bættur; lagaður; gerður betri.  Nokkuð notað fyrrum, en bregður fyrir nú á dögum.

Betrast (s)  Batna; lagast; verða betra.  „Ekki veit ég hvort skóflan hefur nokku betrast við þessa viðgerð“.

Betrekk (n, hk)  Veggfóður.  „Fyrrum voru dagblöð notuð fyrir betrekk, og málað yfir“.

Betrekkja (s)  Klæða með veggfóðri.  „Við vorum nokkurn tíma að betrekkja herbergið“.

Betri bæir (orðtak)  Fyrimyndarheimili.  „Svona sóðaskapur tíðkast ekki á betri bæjum“!  

Betri bændur (orðtak)  Vandað/siðað/velmegandi fólk; góðbændur.  Oftast notað í samanburði og gjarnan í háði.  „Nú er maður farinn að stunda ferðalögin eins og betri bændur, og láta ráðsmann sjá um búið“!

Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi (orðatiltæki)  Betra er að una við lítið en vænta hins meira, sem ótryggt er.  Auðskilin speki.

Betri er gæfa en gjörvuleiki (orðatiltæki)  Betra er að vera gæfusamur/ að eiga góða ævi en hafa gott útlit eða aðra mannkosti.

Betri er hálfur skaði en allur (orðatiltæki)  Oft notað þegar eitthvað bjargast betur en á horfist.  Menn reyna að líta á björtu hliðarnar þegar áföll verða.

Betri er krókur en kelda (orðatiltæki)  Bókstafleg merking er sú að betra sé að fara kringum fenið en yfir það.  Líkingin er notuð um ýmislegt það sem getur þurft að fara krókaleiðir að.

Betri en ekkert/ekki  (orðtök)  „Það er varla hægt að kalla þetta hamar, en hann er betri en ekkert“. 

Betri er belgur en barn (orðatiltæki)  Erfitt er að treysta þagmælsku barna eða að þau hafi ekki uppi hávaða.  Vísar til þess að belgur (í upprunalegri merkingu)  þegir, en börn eiga það til að endurtaka af fullri hreinskilni það sem þau hafa heyrt talað, þó það henti ekki alltaf þeim sem á heyra.  Skinnbelgir á stærð við börn voru notaðir sem geymsluílát, og segja fátt.

Betri er bið en bráðræði (orðatiltæki)  Hyggilegra er að bíða en vera of fljótur á sér; frumhlaup og flumbrugangur skilar oftast minna en þolinmælin. 

Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að betra sé að sætta sig við lítið og vera öruggur um að fá það, en missa öll tækifæri fyrir það að ætla að verða of stórtækur.

Betri er frægð en fé (orðatiltæki)  Betra er að vera þekktur að góðu en safna auði; gott orðspor er gulli betra.

Betri er hálfur skaði en allur (orðatiltæki)  Auðskiljanleg og mikið notuð speki; betra er að bregðast strax við en bíða þar til allur skaðinn er á orðinn.

Betri er krókur en kelda (orðatiltæki)  Betra er að fara lengri leið í öryggi, en hætta á að lenda í drápsdýi.  Notað í ýmsum samlíkingum.

Betri er lítill/smár fenginn en stór enginn (orðatiltæki)  Betra er að fá einhvern, þó lítill sé, en engan.  Mikið notað t.d. af þeim sem fást við skakveiðar í tregfiski. 

Betri er mjór/smár fenginn en stór enginn (orðatiltæki)  Betra er að fá lítinn (t.d. fisk) en engan.

Betri er skaði en illur ábati (orðatiltæki)  Betra er að sæta tjóni en hagnast á óförum/tjóni annars manns.

Betri er þögn en þarflaus ræða / Betri er þögn er þarflaust hjal / Betur er þagað en þarflaust mælt / Þeim er list sem þegja kann (orðatiltæki)  Betra er að þegja en segja einhverja vitleysu. 

Betri fötin / Skárri fötin (orðtök)  Spariföt.  „Maður ætti kannski að bregða sér í betri fötin fyrir svona virðulega samkomu“.

Betristofa (n, kvk)  Stássstofa; bestastofa.  Á heimilum fólks sem fyrr á tímum taldi sig til velmegandi yfirstéttar var oft sérstök stofa inn af stofunni sem daglega var notuð, sem notuð var á hátíðum og móttöku betri gesta.  Var þar allur búnaður íburðarmeiri en annarsstaðar í húsinu.  Stofur af þessu tagi voru við lýði frameftir 20.öld, t.d. í Kvigindisdal efri og í Kollsvíkurhúsinu.

Betrumbót (n, kvk)  Endurbætur; gegnumtekt; yfirhalning.  „Augljóst má vera að gera þarf miklar betrumbætur á varðveislu íslensks máls“.   „Það mætti gera á þessu einhverja betumbót“.

Betrumbæta (s)  Bæta við; gera betra; fullkomna ; laga; lagfæra; endurbæta.  . „Eitthvað mætti kannski betrumbæta þessa hurð“. „Það má lengi betrumbæta þetta orðaregistur“.

Betrun (n, kvk)  Batnaður; framför.  Einkum notað nú í orðtakinu lofa bót og betrun.

Betrunarheimili (n, hk)  Hugtak sem notað var um vistheimili fólks sem þótti til vandræða í þjóðfélaginu.  Stundum notað um vistheimili sem ríkið rak um tíma í Breiðuvík, fyrir drengi sem lent höfðu utangarðs. 

Betrunarhús (n, hk)  Tukthús; fangelsi fyrri tíma, þar sem fólk var látið vinna.  Því var staðfastlega trúað að með því yrðu fangarnir betra fólk.  Vinnan göfgar manninn.

Betrunarvinna (n, kvk)  Vinna sem afbrotamenn fyrr á tímum voru látnir framkvæma til að gera þá að betri samfélagsþegnum.

Betur að fyrr hefði verið (orðtak)  Betra hefði verið ef framkvæmd/atvik hefði gerst/orðið fyrr.  „Er hann loksins kominn með lyfin.  Betur að fyrr hefði verið; ég veit ekkert hvort kýrin hefur þetta af“.

Betur að satt væri (orðtak)  Óskandi að væri sannleikur.  „Er nú skellinaðran loksins búin að segja af sér?  Ja, betur að satt væri!  Þú átt annars eftir að stórslasa þig á þessu apparati“!

Betur farið en heima setið (orðtak)  Heilladrýgra að drífa sig af stað en bíða.  „Þetta er bara þokkalegur afli á stuttum tíma.  Þú ættir núna að geta viðurkennt að það var betur farið en heima setið“!

Betur heima setið (orðtak)  Betra að vera heima/vera aðgerðalaus en tefla í tvísýnu/lenda í hættu/skaðast.  „Ég ætla ekki að sigla suður á Breiðuvík í þessu útliti, og þurfa svo að snúa við vegna veðurs án þess að vitja um nokkurn netstubb.  Þá er nú betur heima setið“.

Betur má ef duga skal (orðtak)  Betur þarf að gera ef viðfangsefnið á að takast/klárast. 

Betur mega tveir en einn (orðatiltæki)  Tveim veitist auðveldara að vinna verk en einum.

Betur sjá augu en auga (orðatiltæki)  Oft er betra að fleiri skimi eftir hlut en einn; það kann að fara framhjá einum sem annar sér.

Bevís (n, kk)  Sönnun; skírteini.  „Einhversstaðar á ég bevís uppá það að ég megi aka vörubíl af stærstu gerð“.

Bevísa (s)  Sanna.  „Það verður erfitt að bevísa hvor ók heim af þorrablótinu; annar próflaus og hinn fullur“.

Beygaldi / Beygur (n, kk)  Ótti; óhugur.  „Það er alltaf einhver beygur í mér þegar ég fer þarna um í myrkri“.  „Einhver ónota beygaldi læðist að manni við þessa tilhugsun“.  Ekki er ljóst um uppruna orðsins, en e.t.v. vísar það til þess sem veldur beyg/hræðslu; „beygvaldi“, sem hefur breyst lítillega í framburði og notkun.

Beygður (l)  Niðurdreginn; sorgmæddur.  „Hann er býsna beygður eftir að hún féll frá“.

Beyging (n, kvk)  Það að beygja.  „Börn voru alin upp við það að vanda málfar sitt um leið og þau öðluðust orðaforða; og var m.a. lögð áhersla á réttar beygingar orða“.

Beygja (n, kvk)  Sveigja; hlykkur; bugða; stefnubreyting.  „Sumum þykir Beygjan í Hæðinni ógnvænlegasti farartálminn á Kollsvíkurveginum.  Hún hefur þó verið löguð mikið og breikkuð frá upphafi vegalagningar“.

Beygja (s)  Breyta stefnu; sveigja; taka beygju.

Beygja af / Beygja skafl (orðtak)  Sejta upp skeifu; mynda grátvipru á munninn; fara að skæla/gráta.  „Strákurinn beygði af þegar uppáhaldslambið hans var sett á bílinn“.

Beygja gjarðir / Beygja koppagjarðir (orðtak)  Gæluyrði yfir það að beygja sig útfryrir borðstokk til að æla á sjó vegna sjóveiki; skila matnum; tala við Jónas; leggja lóðir o.fl.  Þegar trégjarðir voru sveigðar utanum tunnu þurfti að lúta vel og ítrekað fram, og er líkingin af því dregin.  Sjaldan notað í seinni tíð.

Beygja sig í duftið fyrir/vegna (orðtak)  Lúta fyrir; sýna mjög mikla lotningu/undirgefni/virðingu.  „Ég er ekki vanur að beygja mig í duftið fyrir svona hrokagikkjum“!

Beygla (n, kvk)  Það sem er beyglað/aflagað.  „Ég þarf að fá nýja fötu til að vatna kálfunum í; það er varla hægt að nota þessa beyglu öllu lengur“.  Stundum notað í líkingamáli sem niðrandi heiti á bíl.

Beygla (s)  Böggla; aflaga; dælda; sveigja.  „Gættu þess að beygla ekki myndina“!

Beyglaus (l)  Kvíðalaus; óhræddur; geiglaus.  „Hann virtist alveg vera beyglaus; sitjandi á bjargbrúninni“.

Beygur (n, kk)  Geigur; hræðsluvottur; beygaldi; ótti.  „Einhver ónota beygur er í mér útaf þessu ferðalagi“.

Beyki (n, hk)  Fagus.  Ættkvísl lauftrjáa sem vaxa einkum í tempraða belti Evrópu og N-Ameríku.  Verða allt að 35 m há; laufblöð egglaga, heilrend með smábugðáotta jaðra; blóm í hnoðum milli blaða; börkur sléttur og gráleitur.  Beyki þrífst illa á Íslandi.  Beykiviður er auðveldur í vinnslu og mikið notaður, t.d. í húgögn og parket.  Beyki er meðal þeirra trjáviða sem rekið hafa á fjörur, m.a. í Kollsvík.  Talið er að orðið „bækistöð“ hafi upprunalega átt við hús sem byggð voru úr beyki.

Beykir (n, kk)  Tunnusmiður; sá sem lært hefur iðngreinina tunnusmíði og smíðar trétunnur.  Þó nú sé horfin stétt voru beykjar ómissandi stétt fyrr á tímum, einkum eftir að skútuöld hófst og á dögum síldarsöltunar.  „Þóroddur Þóroddsson nefndist beykir á Vatneyri, fæddur 1772; sonur Þóroddar Þórðarsonar heyrara á Hólum.  Hann og bræður hans tóku fyrstir upp ættarnafnið „Thoroddsen“ sem mikil ætt kennir sig við“.

Beysinn (l)  Mikill; öflugur.  „Hann er nú ekki beysinn bógur, þessi armingi“.  Uppruni óviss en orðið er þekkt í færeysku og norsku.

(n, hk)  Óþverri; óhollusta; óhreinindi.  Einkum notað við ungbörn til að vara við slæmum mat eða benda á óhreinindi.  Um það eru einnig stuttheitin bjakkullabjakk, oj og ojbarasta.

Béaður / Bévaður (l)  Bölvaður; árans.  „Béaður bófi hefur hann verið, þessi Stalín“. „Bévaður hávaði er nú í ykkur drengir“.

Béans (l)  Upphrópun; stytting úr bévítans.  „Béans ekkisens vandræði eru þetta; það er orðið lítið til af kaffi“.

Bésefans / Bésvítans / Bévítans / Bévítis  /Bévíti / Bévítis (upphrópun)  Áhersluorð; nokkurskonar mildir blendingar af bölvaður; andskotans.  „Bésefans hávaði er nú í ykkur strákar; það heyrist ekki mannsins mál“!  „Ég held þetta hljóti að vera bésvítans lygasaga“.   „Bévítans vandræði eru þetta“.  „Bévítis kvikindið; hann hækkaði sig fljótt þegar hann sá byssuna“!

Bévítansári (uh)  Upphrópun til áhersluauka; vægt blótsyrði.  „Það var bévítansári sárt að fá þetta ofaná fótinn“.

Bévíti (uh)  Áhersluorð, mildun á helvíti.  „Það þarf að koma þessu bévíti í burtu“. 

Biblía (n, kvk)  A.  Trúarrit kristinna manna. Orðið er grískt og merkir bækur, enda er biblían safn margskonar rita frá ýmsum tímum og af ýmsu eðli.  Ritskoðanir kirkjuvaldsins hafa sett sitt mark á ritið, auk misgóðra og endurtekinna þýðinga.  Skiptist einkum í tvo hluta; Gamla testamentið, sem er safn arfsagna um sköpun jarðar, upphaf mannkyns og sögu Ísraelsþjóðar.  Og Nýja testamentið sem samanstendur af ritum nokkurra höfunda um ævi, starf, dauða og kraftaverk Jesú Krists.  Líklega hafa íslenskar þýðingar orðið til fljótlega eftir kristnitökuna, en fyrsti nafngreindi þýðandi Nýja testamentisins var Oddur Gottskálksson á 16.öld.  Fyrsta útgegna heildarþýðing Biblíunnar var Guðbrandsbiblía, árið 1584.  B.  Líkingamál um hverskonar rit sem einhver leggur til grundvallar í lífi/starfi sínu. 

Biddu fyrir þér! (orðtak)  Upphrópun sem notuð er sem andsvar, til neitunar á fullyrðingu/spurningu sem þykir fráleit, og fylgir oft nei á undan.  Þó er til í því að já eða jú fylgi á undan, ef leiðrétta þarf fullyrðinguna.  „Nei, biddu fyrir þér; Það er nú lítillar aðstoðar að vænta úr þeirri áttinni“!

Bið er sjaldan/sjaldnast til batnaðar (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að sjaldan er betra að fresta því sem gera þarf.  Þó er einnig til önnur sem segir; frestur er á illu bestur.

Bið er ekki/sjaldnast til batnaðar (orðtök)  Ekki er ráðlegt að bíða með það sem gera þarf.  „Ég held að okkur sé ekkert að vanbúnaði drífa í þessu; biðin er sjaldnast til batnaðar í svona málum“.

Biðill (n, kk)  Sá sem biður sér konu; sá sem biður konu að giftast sér.

Biðilsbuxur (n, kvk)  Buxur biðils.  Eingöngu notað í orðtakinu á biðilsbuxunum; sjá þar.

Biðja (s)  Fara framá; óska; nunna að.  „Ætli ég verði ekki að biðja þig um að rétta mér hendi við þetta“.  Í Kollsvík tíðkaðist iðulega þátíðarmyndin „beiddi“, í stað „bað“.  „Ég beiddi hann um þetta fyrir löngu síðan“.

Biðja að heilsa / Biðja fyrir kveðju (orðtök)  Biðja einhvern að heilsa öðrum fjarstöddum fyrir sína hönd.  „Ég bið innilega að heilsa foreldrum þínum“.  „Hún bað mig fyrir alúðarkveðjur til þín“.

Biðja ásjár (orðtak)  Biðja um greiða/vist/gistingu; leita til.  „Ætli ég verði ekki að biðja þig ásjár eins og fyrr“.

Biðja bónar (orðtak)  Biðja um einhvern tiltekinn greiða.  „Einnar bónar langar mig að biðja þig“.

Biðja bænir (orðtak)  Bera fram óskir/langanir sínar til æðri máttarvalda/ guðs; ymist í hjóði eða upphátt, en jafnan með einbeitingu og oft í sérstökum stellingum, t.d. með spenntar greipar.  Sá siður var mjög almennur áðurfyrr að fólk bæði bænir oft á dag og við hin ýmsu tilefni, enda var þá trúin einlægari og almennari.  Undantekningarlaust báðu menn bænir fyrir svefn; áður en haldið var í ferðalag; áður en lagt var í sjóferð og áður en sigið var í bjarg.  Þessi siður var enn við lýði að miklu leyti fram á síðarihluta 20. aldar, og enn er það regla í Kollsvík að biðja sjóferðabæn.  Eftir bæn er siður að signa sig.

Biðja forláts (orðtak)  Biðjast afsökunar.  „Ef einhverjum finnst að sér vegið þá biðst ég forláts á því“.

Biðja (einhvern) fyrir (eitthvað) (orðtak)  A.  Biðja einhvern að koma einhverju til skila fyrir sig.  „Ég bað hann fyrir bréf til faktorsins“.  B.  Biðja einhvern að þegja yfir leyndarmáli.  „Ég sagði honum hvernig í pottinn væri búið, en bað hann fyrir það“.

Biðja fyrir kveðju (orðtak)  Biðja að heilsa; biðja einhvern um að skila heilsun/kveðju.  „Hann bað mig fyrir kveðju til þín“.

Biðja fyrir sér (orðtak)  Biðja Guð um vernd/velfarnað.  „Fyrri tíðar fólki var það eflaust tamara að biðja fyrir sér, enda trúarlíf þá almennara og í fastari skorðum.  Frá alda öðli hefur það þó tíðkast í Kollsvík, þegar búið er að hrinda báti á flot og áður en haldið er í róður, að biðja sjóferðabæn.  Þeim sið er enn haldið“.

Biðja gott fyrir sér (orðtak)  Biðjast vægðar; afsaka sig; biðjast afbötunar.  „Hann þurfti víst að fara til nágrannans og biðja gott fyrir sér, daginn eftir fylleríið“.

Biðja (einhverjum) griða (orðtak)  Biðja um að einhverjum sé hlíft/ gefið líf. 

Biðja guð fyrir sér (orðtak)  Biðja guð að hjálpa sér.  „Ég sá að það þýddi ekki annað en að reyna; bað guð fyrir mér og hélt svo áfram“  (SbG; Að vaka og vinna). 

Biðja guð og (allar) góðar vættir (orðtak)  Áherslusetning og fyrirbæn.  „Ég ætla nú að biðja guð og góðar vættir um að forða okkur frá þessu Evrópusambandi“!

Biðja lengstra orða / Biðja í lengstu lög (orðtak)  Biðja innilega; sárbiðja.  „Ég bið ykkur bara lengstra orða að vera ekki að gefa mér neinar afmælisgjafir“.  „Ég bið þig í lengstu lög ð að nefna ekki svona vitleysu“.

Biðja lífs (orðtak)  Biðja um að einhver fái að halda lífi.  „Gimbrin hafði fest hornin í netum sem héngu uppi í fjörukofanum hans afa, og var orðin svo máttfarin að rætt var um að slátra henni.  Ég bað henni lífs og var það látið eftir mér.  Gimbrin jafnaði sig að fullu, að því frátöldu að annað hornið var að hluta brotið af.  Hún hlaut nafnið Lífgjöf og átti einhver vænstu lömbin í öllu fénu alla sína tíð.  Frá henni kom frjósamur stofn frjósamra og vænna kinda sem margar voru flekkóttar eða eyglóttar; t.d. gæðaskepnan Skrauta og Eygla sem Egill bróðir eignaðist ungur“ (VÖ).

Biðja sér vægðar / Biðja um náð og miskunn (orðtak)  Biðjast vægðar; biðja gott fyrir sér; biðjast afbötunar.  „Ætli ég þurfi ekki að ræða þetta við hann og biðja um náð og miskunn fyrir að hafa gleymt þessu“.

Biðja um orðið (orðtak)  Um fundarsköp; biðja um að fá að taka til máls á fundi.  „Ég bað um orðið eftir ræðu hans, og reyndi að leiðrétta þessar rangfærslur“. 

Biðja vel að lifa (orðtak)  A.  Í bókstaflegri merkingu; biðja einhverjum langra lífdaga.  B.  Í neitandi merkingu; Hafna boði einhvers; segja einhverjum að boð hans sé fráleitt.  „Hann sagðist kannski geta aðstoðað mig í næstu viku, svo ég bað hann bara vel að lifa; ég gæti þá alveg eins klárað þetta sjálfur“!

Biðjast afbötunar / Biðjast afsökunar (orðtak)  Biðjast þess að litið sé framhjá mistökum eða lítilsháttar ávirðingum; biðja gott fyrir sér.   „Hann var eitthvað hræddur um að hafa skammað sig upp í fylleríinu, og ætlaði að fara til þeirra og biðjast afbötunar“.  „Ég biðst afsökunar á þessum mistökum“.  Sjá afsökun og hafa einhvern afsakaðan.

Biðjast fyrir (orðtak)  Gera bæn sína til æðri máttarvalda; biðja guð fyrir sér.  Sá siður var almennur og sjálfsagður fyrrum að beina bænum til guðs í hvert sinn sem lagt var í ferð, róður eða aðra óvissu.  Menn tóku mismikinn tíma í þetta og bað hver með sínum hætti og í hljóði.  Eflaust hefur trúarhitinn einnig verið mismikill, en með þessum góða sið var ekki eingöngu verið að varpa ábyrgð á æðri máttarvöld; heldur var þarna um skipulagningu að ræða.  Menn gerðu sér grein fyrir viðfangsefninu og hættunum sem því fylgdu, og bjuggu sig undir að takast á við þær.  Með minnkandi trú í flaustri síðari tíma hefur þessi siður aflagst hjá flestum.  Afleiðingin er líklega minnkandi fyrirhyggja og sjálfsbjargarviðleitni.

Biðjast undan (einhverju) (orðtak)  Færast undan því að takast eitthvað á hendur; afþakka.  „Hann baðst undan endurkjöri í hreppsnefnd“.

Biðla til (orðtak)  A.  Biðja sér einhverrar fyrir konu.  Aflögð merking.  B.  Beina beiðni til einhvers; biðja.

Biðlund (n, kvk)  Þolinmæði; eirð; hæfileikinn til þess að bíða rólegur.  „Nú er mín biðlund á þrotum“!

Biðröð (n, kvk)  Röð þeirra sem bíða.  Nýyrði sem líklega varð til með þéttbýlismyndun, fjölgun starfsgreina og breyttu „skipulagi“ á mörgum sviðum stjórnkerfisins.

Biðskák (n, kvk)  Tafl sem sett er í bið til síðari tíma.

Biðukolla (n, kvk)  Fífill (sjá þar) sem myndað hefur fræ.  Fræin sitja í grárri knúpplaga hvirfingu efst á stönglinum og hefur hvert þeirra litla fallhlíf.  Í vindi geta þau því borist langar leiðir.  Björn Halldórsson í Sauðlauksdal segir í Grasnytjum sínum 1783 að biðukolla, eða „bifikolla“ sé einnig nefnd „húsfreyjuhrellir“, því sagt væri að búpeningur græddi sig ekki meira á sumri eftir að fífillinn væri kominn i biðukollu.  Nafn biðukollunnar segir Björn dregið af því að þegar hún myndast fyrst þá er jurtin „uppdregin eins og byða“.  Byða er ílát sem oft er uppmjótt; þ.e. samandregið að ofan.  Líklega er þó upprunalegt heiti „bifukolla“ sem vísar til hinna lausu fræja sem svífa af festingu sinni við minnstu golu.

Bifa (s)  Hreyfa; mjaka.  „Þetta er svo þungt að þú bifar því ekki einn“.  „Aðeins hefur það bifast“.

Bifanlegt (l)  Sem unnt er að bifa/hreyfa/mjaka.  „Þetta bjarg er ekki bifanlegt af einum manni“.

Bifreið (n, kvk)  Heiti á bíl sem einkum er notað í lagamáli og öðrum formlegheitum, en einnig sem gæluheiti.  „Varstu að fá þér nýja bifreið“?  Slettan „bíll“ er annars allsráðandi í málinu.

Bifröst (n, kvk)  A.  Fornt heiti á regnboga.  Orðstofnin er „rösti/vegur sem færist“, enda færist regnboginn til eftir afstöðu áhorfandans til sólar.  Bifröst var í Ásatrú talin brú guðanna, sem þeir riðu á milli síns heims; Ásgarðs, og mannheima; Miðgarðs.  Í regnboganum er m.a. rauður litur sem verndar Ása fyrir hinum illu jötnum, en einnig vaktar Heimdallur þar alla umferð.  B.  Heiti á viðskiptaskóla í Borgarfirði sem stofnaður var í anda samvinnustefnunnar og er nú á háskólastigi.  Þar hafa numið margir Kollsvíkingar.

Bifur (n, kk)  A.  Annað heiti á nagdýrinu bjór.  B.  Fornt heiti sem merkir „hugur“.  Eingöngu notað nú til dags í orðtakinu hafa illan bifur á (einhverju).

Bifvél (n, kvk)  Nýyrði um sprengihreyfil sem aldrei náði útbreiðslu sjálfstætt, en er notað sem forliður orða, t.d. „bifvélavirki“ og „bifvélaviðgerð“.

Bik (n, hk)  A.  Tjara; sorti unninn úr olíu eða kolum.  Var mikið notað sem viðarvörn á t.d. báta og húsþil framá 20.öld.  B.  Líkingamál um mikla dimmu, t.d. myrkur eða þoku.  „Maður sér ekki rassgat í þessu biki“!  Sbr t.d. bikaþoka/biksvartaþoka/bikþoka og bik af þoku.

Bik af þoku (orðtak)  Biksvartaþoka; bikaþoka; bikþoka.  „Við fengum bik af þoku við landið“.

Bika (s)  Bráða; tjörubera; tjarga (sjá þar).  „Þegar fór að batna tíð var farið að huga að bátunum, en þeir voru á hvolfi frá því um haustið.  Það þurfti að bika þá innan og mála utan... “  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Bikar (n, kk)  A.  Kaleikur; vínglas.  B.  Iðulega notað almennt um drykkjarglas.  „Strákinn vantar bikarinn sinn“.  C.  Blöð jurtar sem mynda skál undir blómkörfuna; bikarblöð.

Bikamyrkur / Biksvartamyrkur (n, hk)  Niðamyrkur; svartamyrkur.  „Það varð bikamyrkur í hlöðunni þegar slökknaði á ljósinu“. 

Bikkja (n, kvk)  A.  Dróg; meri.  B.  Skammaryrði um ær.  „Helv. bikkjan setti sig neðan hjallana og slapp“.

Biksvartaþoka / Bikaþoka /  Bikþoka (n, kvk)  Mjög dimm þoka.  „Það skall á okkur þreifandi biksvartaþoka svo við tókum snarvitlausa stefnu“.  „Við fengum bik af þoku inneftir...“  (ÓG; Úr verbúðum í víking). 

Biksvartur (l)  Mjög dimmur; alveg svartur; sótsvartur.  „Ég sá ekkert til í þessu biksvarta myrkri“.

Bil (n, hk)  A.  Aðskilnaður milli hluta/efnis; sund; op.  B.  Óvissusvæði í tíma eða rúmi.  „Ég er um það bil hálfnaður með verkið“.  „Ég kem klukkan tvö, eða um það bil“.  „Þetta er nóg í bili“.  „Hann reyndi að sætta þessi sjónarmið og fara bil beggja“.

Bila (s)  Verða óheilt; gefa sig; brotna; skaðast.  „Bíllinn bilaði uppi á miðjum Hálsi“.  „Maður skyldi þakka fyrir meðan heilsan bilar ekki“.

Bilast á geði/sönsum (orðtak)  Verða sturlaður/geðbilaður/geðveikur.  „Ertu eitthvað bilaður á sönsum drengur; að láta þér detta þessa fjarstæðu í hug“!

Bilbugur (n, kk)  Veikleiki; undanlátssemi.  „Það var engan bilbug á honum að finna“.

Bilgjarn (l)  Tilleiðanlegur; undanlátssamur; sanngjarn.  „Ekki er hann jafn bilgjarn á öllum sviðum“.

Bilirí (n, hk)  Bilun/ gangtruflun í vél.  „Það kom upp smá bilirí, en mér tókst að laga það“.

Billega (ao, linur frb)  Ódýrt; án mikils tilkostnaðar.  „Heldur fannst mér hann sleppa billega frá þessu“.

Billegur (l)  Ódýr.  „Mér fannst þetta nú bara billegt, miðað við margt annað“.

Bilt við (orðtak) Um skyndilegt viðbragð; hverft/felmt við.  „Mér varð töluvert bilt við þegar ég heyrði skothvellinn“.  „Nú gerðirðu mér dálítið bilt við“.  „Mér varð bara illilega bilt við þessi tíðindi“.  Bilt er stofnskylt sögninni að bila.

Bilun (n, kvk)  Lömun; óvirkni; það að vera ekki í lagi.  Notað einkum um vél eða burðarvirki, en einnig um heilahrörnun og heilsu, sbr heilabilun.

Binda (s)  A.  Festa með bandi/taug/festi.  „Ég batt fötuna í spottann og lét hana síga niður á sylluna“.  B.  Um bátasmíði; festa bönd innaní bát til styrkingar.

Binda að (einhverju) (orðtak)  Herða að einhverju með bandi og setja á það hnút.

Binda á bás (orðtak)  A.  Binda löghelsi á kú á bási í fjósi.  B.  Líkingamál um það að hefta frelsi/val manneskju.  „Hann segist ekki láta neinn binda sig á bás í þessu efni“.

Binda á borð (orðtak)  Um bátasmíði; festa kollharða á þóftu og í borðstokk.  „Með festingu kollharða var lokið við að binda skipið á borð, eins og það var nefnt“  (LK; Ísl.sjávarhættir II).

Binda á sig skóna (orðtak)  Binda skóreimar sínar.

Binda á streng (orðtak)  Binda á (strekkt) band.  Einkum notað um það að fuglakippur voru bundnar á band til að draga þær út í bát, þegar alda var við urðir undir Bjarginu.  Mun áðurfyrr hafa verið notað um það að binda hesta saman í haga til að þeir strykju ekki.  Sjá einnig draga á streng.

Binda ekki sína bagga sömu hnútum og aðrir (orðtak)  Vera sérlundaður; fara sínar eigin leiðir; hafa sjálfstæðar skoðanir.  „Hér áður voru alls staðar í hverri sveit einhverjuir sem eftir var tekið, vegna þess að þeir bundu ekki bagga sína sömu hnútum og fjöldinn gerði“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  Vísar til þess að hver er sínum hnútum kunnugastur, og sá er færastur um að leysa hnútana sem batt þá.

Binda endahnútinn á (orðtak)  Reka smiðshöggið á; klára verkefni/viðfangsefni.  „Við erum rétt að binda endahnútinn á þetta“.  Mikilvægt er, þegar vaður er skorinn, að binda á hann endahnút eða ganga öðruvísi frá, svo ekki trosni upp þættirnir.  Fyrr er vaðurinn ekki tilbúinn til notkunar.

Binda enda/endi á (orðtak)  Ljúka; hætta.  „Kindin hafði setið lengi föst í dýinu og var illa kroppuð af hrafninum.  Ekki var um annað að gera en sækja riffilinn og binda endi á kvalir hennar“.

Binda fastmælum (orðtak)  Ákveða.  „.... segir hann við þá að þeir skuli ekki skilja eða missa sjónar hvor á öðrum fyrr en landkenning sé fengin, og var það fastmælum bundið“  (ÖG; Þokuróður fyrir 44 árum).

Binda framaf/afturaf (orðtak)  Um frágang báts; setja bönd fram og aftur af stöfnum til festingar.

Binda fyrir (orðtak)  A.  Binda hnút á band í opi poka til að ekki fari úr honum innihaldið.  B.  Setja hnút á vélinda/vælinda eftir að skepnu hefur verið slátrað og hún hausskorin, til að gorinn renni ekki úr vömbinni og spilli ketinu.

Binda hendur (einhvers)  (orðtak)  Setja einhvern í þrönga/erfiða aðstöðu; takmarka möguleika einhvers.  „Ég vil ekki binda hendur mínar með neinum loforðum á þessu stigi“.

Binda hey (orðtak)  Setja hey í bagga til flutnings eða geymslu.  Fyrrum var hey flutt á hestum á þann hátt að það var fyrst bundið í bagga sem síðan var lyft á klakk á hesti.  Á síðari tímum komu til vélar sem bundu heyið í bagga.  Það var síðan flutt í hlöðu og geymt þannig þar til gefið var.  „Tvær konur og unglingar önnuðust heyskapinn.  Konurnar bundu heyið. ... Já, ég batt oft“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Binda inn (orðtak)  Festa blöð saman á kili svo úr verði bók, og festa spöld og kjöl á. 

Binda (eitthvað) í ljóð/kvæði/skáldskap (orðtak)  Gera ljóð/skáldverk um eitthvað.

Binda jarðveg/sand (orðtak)  Hefta uppblástur/sandfok með gróðri.  „Þegar þekjan er orðin of þurr og veikburða til að binda jarðveginn eykst hættan á uppblæstri“.

Binda niður (orðtak)  Binda hluti fasta svo þeir fjúki ekki.  „Við þurfum svo að binda bátinn niður fyrir veturinn“.

Binda sér bagga (orðtak)  Auka sér erfiðleika; taka á sig verk/skuld sem erfitt verður að ráða við.  „Ég vildi ekkert vera að binda honum bagga með þessu“.  Vísar í það að auka klyfjar sínar/ farangur sinn til ferðalags.

Binda sig við (orðtak)  Vera háður; setja að skilyrði; setja fyrir sig.  „Það þýðir ekki að binda sig við einhverja sérvisku í þessum efnum“.

Binda sig yfir (orðtak)  Vera upptekinn við; hefta gerðir/ferðir sínar.  „Þú skalt ekki binda þig yfir þessu ef þú þarft að fara í annað“.

Binda (sitt) trúss við (orðtak)  Leggja lag sitt við; tengjast; vera háður.  „Maður þarf kannski ekki að binda sitt trúss við þennan flokk um aldur og ævi“.  Trúss er farangur; gæti þýtt að eiga samflutning á farangri.

Binda sína bagga við (orðtak)  Vera háður; gera sig háðan/ bundinn af.  „Ég er þá ekkert að binda mína bagga við þennan árans flokk lengur; ef þeir ætla að fara svona að ráði sínu

Binda um (orðtak)  A.  Setja band utanum bagga/böggul.  B.  Setja sárabindi um sár/ plástur á sár.  Sjá ekki þarf um að binda.

Binda vegg/hleðslu (orðtak)  A.  Hlaða vegg þannig að steinar leggist sitt á hvað, til að auka styrk hleðslunnar þegar hún hleðst upp.  B.  Tyrfa vegg og veggfyllingu í lok hleðslunnar til að loka og hlífa fyrir rofi.

Bindandi (l)  Órjúfanlegt; heftandi; fjötur um fót.  „Þessi formennska í félaginu var orðin of bindandi fyrir mig“.  „Samkomulagið er bindandi fyrir báða aðila“.

Bindast fastmælum (orðtak)  Sammælast; verða ásáttir;  „Við bundumst fastmælum að hittast hér í fyrramálið“.

Bindi (n. hk)  A.  Bók.  Oftast notað um eina bók í ritröð.  „Ég er að lesa síðara bindið af Bör Börsson“.  B.  Hálstau.  C.  Vafningur sem bundinn er um, t.d. sárabindi.

Bindindi (n, hk)  Það að ákveða að neyta ekki tiltekinnar vöru, t.d. tóbaksbindindi; áfengisbindindi.

Bindindisfélag (n, hk)  Stúka; félag fólks sem ekki neytir áfengis og oftast er tóbak og önnur fíkniefni þar einnig bönnuð.  Ungmennafélögin voru í upphafi bindindisfélög, ekki síður en íþróttafélög, auk þess að vinna að félagsmálum og standa fyrir framfaramálum.  Í Kollsvík starfaði Umf. Vestri mjög ötullega að bindindismálum, og tekið var hart á brotum félagsmanna í þeim efnum.

Bindindismaður (n, kk)  Sá sem er í bindindi, sem oft er tilgreint.  „Hann er bindindismaður á neftóbak“.

Bindindisstarf (n, hk)  Starf að bindindismálum; varnir gegn misnotkun áfengis og tóbaks.  „Drukkið!  Ég minnist þess ekki að ég sæi vín á manni í Verinu.  Hér starfaði þá ungmennafélag sem Valdimar Össurarson var driffjöðrin í.  Hann gekkst fyrir bindindisstarfi; bæði á vín og tóbak, og mun enginn maður í sveitinni hafa notað vín eða tóbak“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Binding (n, kvk)  A.  Festing með bandi.  „Það bilaði bindingin á eggjakútnum svo við máttum horfa éftir honum niður alla kletta“.  B.  Það að vera bundinn yfir skylduverkum.  „Árans binding er að þurfa að bíða eftir þessu símtali“. C.  Festa/viðloðun.   „Helst þarf að vera dálítið af aurblendinni möl með til að gefa ofaníburðinum góða bindingu, en þó ekki svo að vaðist upp í bleytu“.

Bindingalaus (l)  Án bindinga.  „Skíði pantaði Einar frá Noregi; furuskíði, bindingalaus“  (IG; Æskuminningar). 

Bindingsverk (n, hk)  Algeng byggingaraðferð við stoðgrind timburhúsa.  „Algengasta uppbygging timburhúsa frá 18. öld og fram í byrjun þeirrar 20. er bindingsverkshús. Grind í bindingsverki er gerð úr jafnhliða 5-6 " heilviði.Bindingsverk dregur nafn sitt af því að fótstykki, stoðir, lausholt, skábönd og syllur er bundið saman með hefðbundnum timbursamsetningum eða bindingum“  (Magnús Skúlason; Gömul timburhús; útg. 2007).

Bindingur (n, kk)  Festa.  „Hlaða þarf vegginn á þann veg að steinar skarist vel og góður bindingur náist“.

Bindur hvað/hvert/hvort annað (orðtak)  Er hvað/hvert/hvort bundið af hinu/öðru, hvert/hvort öðru háð.

Bindur (nú)  sá er leysa skyldi (orðatiltæki)  Notað um þann sem fremur eykur við vandamálin en leysir þau.

Bingur (n, kk)  Hrúga; haugur.  „Hnausunum var kastað í bing við hliðina á gryfjunni“.

Birgðir (n, kvk, fto)  Forði; safn.  „Jafnan voru að hausti til birgðir af saltfiski til vetrarins“.

Birgja sig upp (orðtak)  Afla sér forða; eiga nægar birgðir.  „Ég birgði mig upp af salti fyrir vertíðina“.

Birgur (l)  A.  Almennt um að eiga nógar birgðir.  „Ég er vel birgur af salti og get sem best séð af einhverjum lúkum“.  B.  Með nægar fóðurbirgðir handa búfé.  „Forðagæslumenn töldu að ég væri vel birgur“.

Birki (n, hk)  Ættkvísl jurta af birkiætt, sem auðþekktar eru á smágerðu tenntu laufi og ljósum berki.  Tvær tegundir birkis vaxa hérlendis; ilmbjörk og fjalldrapi (sjá þar).

Birkikjarr / Birkiskógur (n, hk/kk)  Skógur af birki.  Kjarr merkir fremur lágvaxinn/lítilfjörlegan skóg.

Birkja (s)  A.  Afbarka tré; taka börk af trjábol.  B. Flá hest.

Birna (n, kvk)  Kvenkyns bjarndýr.

Birta (n, kvk)  Ljós; dagsljós; skíma.  „Við skulum nýta birtuna og reyna að klára þetta“.  „Aðeins var farið að bregða birtu, en vel ratljóst“.

Birta (s)  A.  Verða bjartara; koma dagsljós; sjást til.  „Það birti mikið í karminum þegar hann kom með luktina“.  „Við leggjum af stað  um leið og birtir“.  B.  Létta éli/þoku/dimmviðri.  „Ég ætla að láta birta þetta él áður en ég fer norður í hús með hrútinn“.  C.  Gefa út á prenti. 

Birta af degi (orðtak)  Verða bjart að morgni.  „Það var að birta af degi þegar við komum í land“.

Birta af sér (orðtak)  Um veður; birta til; glaðna fyrir sól; létta dimmviðri.  „Hann er eitthvað að birta af sér“.

Birta fyrir sól (orðtak)  Glaðna/rofa til í dimmviðri, þannig að sól nái að skína; bræða af sér.  „Hann er nú aðeins að rofa í þokuna.  Mér sýnist bara að hann sé að birta fyrir sól“.

Birta í (orðtak)  Létta í/til; minnka þoku/él/skúr/rigningu.  „Hann er eitthvað að birta í élið, sýnist mér“.

Birta í lofti / Birta til (orðtak).  Notað í eiginlegri merkingu um dagsbirtu, en einnig þegar rigningu eða éli slotaði; „nú birtir hann til“; „ég held að hann sé eitthvað að birta í þetta“.  Sama merking og létta/létta til.  „Ef skýjað var og reif skyndilega úr suðurlofti, svo að heiðbirti í hásuðri stutta stund, var norðan hvassviðri í aðsigi“  (LK; Ísl.sjávarhættir III)

Birta upp (orðtak)  Hætta að rigna eða birtir til eftir hríð.  „Nú er hann að birta upp; það gæti orðið þurrkflæsa seinnipartinn“.

Birta uppaf (orðtak)  Verða svo bjart í veðri að fjallahringur sjáist.  „Hann er mikið að létta til.  Ég gæti trúað að hann birti uppaf fyrir hádegið“.

Birting (n, kvk)  Tíminn þegar birtir af degi.  „Við leggjum af stað í birtingu“.

Birtutími (n, kk)  Tíminn sem dagsbitu nýtur.  „Það verður að halda á eins og kostur er því birtutíminn er stuttur“.  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Bis (n, hk)  Streð; erfiðismunir; amstur.  „Ég átti í árans bisi við þetta“.

Bisa / Bisa við (s/orðtak)  Erfiða við; rogast; bjástra.  „Þeir eru að bisa við að bjarga stóru tré undan sjó“.

Biskví (n, hk)  Sjóarakex sem fransmenn höfðu til nestis í skútum sínum á Íslandsmiðum, ásamt pompólabrauði og fleiru.  „Afi talaði um að stundum hefði fengist pompólabrauð og biskví hjá fransmönnum“.

Biskup (n, kk)  A.  Æðsti yfirmaður kirkjunnar í landinu.  „Aðeins er vitað um einn biskum sem hafði tímabindið aðsetur í Kollsvík.  Var það Guðmundur biskup góði Arason (1161-1237) , sem leitaði þar skjóls ásamt liði sínu þegar höfðingjaveldið sótti sem fastast að honum.  Þar vígði hann Gvendarbrunn; predikaði af Biskupsþúfu og áði við Gvendarstein í Dalbrekkum“.  B.  Einn af mönnum í manntafli.  Gengur á ská.

Biskupaður (s) A.  Fermdur; genginn fyrir gafl.  „Hlakkarðu ekki til að verða biskupaður í vor drengur“?  B.  Laminn; lúskrað.  „Hann var eitthvað biskupaður á þorrablótinu“.

Biskupsnefna (n, kvk) Gæluorð um biskup.  „Mér fannst biskupsnefnan standa sig rétt bærilega í jólamessunni“.

Biskupsþúfa (n, kvk)  Þúfa sem biskup hefur setið á.  „Biskupsþúfa nefnist steinn í Kollsvíkurtúni; milli núverandi bæjarhúss og Gvendarbrunns.  Henni fylgja tvær sagnir fornar.  Önnur er sú að undir henni eigi Kollur landnámsmaður að hafa fólgið vopn sín og sjóði.  Þúfan er í sjónlínu við Kollsleiði á Blakknibbunni, þar sem Kollur á að vera heygður.  Ógæfa liggur við ef þúfunnier raskað eða í hana grafið.  Hin sögnin segir að á þúfinni hafi Guðmundur biskup góði áð, á leið sinni til að vígja Gvendarbrunn og af honum dragi þúfan nafn.  Ekki er ólíklegt að biskup hafi haldið ræðu frá þúfunni yfir fylgdarliði sínu og heimamönnum, enda aðstaða til þess góð þarna í túnbrekkunni og biskup þekktur fyrir bænir og predikanir með almenningi.  Má vera að þar hafi hann minnst Kolls og hinna forgengilegu auðæfa hans“ (VÖ).

Bismark (n, kk)  Heiti á brjóstsykri á síðarihluta 20.aldar.  Þá var seldur, t.d. í Gjögrabúð, „beiskur bismark“ með piparmyntubragði og „brenndur bismark“ með einskonar púðursykursbragði.  Kenndur við Otto von Bismarck kanslara í Þýskalandi (1815-1898).

Bit (l)  Hissa; hlessa.  „Ég er nú alveg bit á þessari vitleysu“.  Orðið er komið úr spilinu lomber, en var nokkuð notað á þennan hátt.  Meiri áhersla var þó í orðinu krossbit, sem virðist eingöngu hafa verið notað vestra.

Bit (n, hk)  A.  Verknaðurinn að bíta.  „Er þetta mark eða bit eftir tófu“?  B. Skarpleiki hnífseggjar.  „Það er lítið bit eftir í hnífnum; ég þarf að leggja hann á“.

Bitamunur en ekki fjár (orðtak)  Mismunur sem ekki skiptir máli.  „Það stóð á stöku þannig að þú fékkst einum meira í hlutinn núna, en það er nú bitamunur en ekki fjár“.

Bisness (n, kk)  Gæluorð um viðskipti eða fyrirtæki.

Bisnessmaður (n, kk)  Maður með viðskiptavit.  „Ég er enginn bisnessmaður, og kann ekki að græða“.

Bit (n, hk)  A.  Það að bíta af/úr; nart; nag.  B.  Það hvernig tennur standast á í gómum.  „Lambið var vanskapað að því leyti að það hafði skakkt bit“.  C.  Um eggjárn; það að hafa skarpa egg.  „Það er fljótt að fara bitið úr ljánum ef þú slærð í stein“!  D.  Sekt fyrir að tapa í spilum.  Af því er dregið orðtakið „að vera alveg bit“, sem merkir að vera mjög undrandi.

Bita (s)  A.  Brytja; skera í bita.  „Ég er að hita vatn en á eftir að bita fiskinn niður í pottinn“.  B.  Marka skepnu með bita í eyra.  Sbr tvíbitað; gagnbitað.

Bitahöfuð (n, hk)  A.  Endar bitaþóftu í bát.  B.  Upphækkun á vegglægju í húsi, þar sem sperrufætur koma á hana.

Bitamunur en ekki fjár (orðtak)  Um mismun sem ekki hefur mikla þýðingu.  „Kannski er ekki rétt að leggja álkuegg á móti stórfuglseggi þegar skipt er.  En ég held að það sé nú bitamunur en ekki fjár“.

Bitaþófta (n, kvk)  Biti; þóftan milli austursrúms og skuts á bát.

Bitbein (n, hk)  Þrætuefni; deilumál.  „Þessi eignarhluti úr jörðinni varð bitbein erfingjanna“.

Bitfjara (n, kvk)  Sá hluti fjörunnar, þá helst stórstraumsfjöru, þar sem fé náði að bíta fastan þara sér til fóðurs.  Fjörubeit var mikilvæg undirstaða fjárbúskapar í Kollsvík .  „Alltaf var beitt ef veður leyfði og þá staðið hjá yfir daginn.  Beitt var í fjöru ef þari var, og bitfjöru yfir stórstraum.  Mest sótti féð í söl og maríukjarna“  (ÖG; Niðjatal HM/GG).

Bithagi (n, kk)  Svæði eða blettur  þar sem fé gat verið að beit.  Víða í Kollsvík og umhverfi hennar eru ágætir bithagar.  Jafnan var staðið yfir fé þegar því var haldið til beitar að vetrarlagi, hvort sem það var í fjöru eða haga.  Víða í Láganúpslandi sjást vörður eða aðrar hleðslur sem hjástöðumenn hlóðu sér til dundurs, s.s. á Strympum; Axlarhjalla; Foldum; Sandsláarkjafti og víðar.  Margar þeirra eru handaverk GG og GÖ.

Biti (n, kk)  A.  Munnbiti; það magn af mat sem maður setur upp í munninn í einu; það sem bitið er í einu af stærri matareiningu, s.s. brauðsneið.  „Viltu ekki fá þér bita af þessu“?  B.  Gæluheiti á máltíð; nesti; nestisbiti.  „Við förum ekki á sjó án þess að hafa með okkur bita“.  C.  Slá sem liggur þversum í húsbyggingu; loftbiti; gólfbiti.  D.  Höfðuðbiti; slá sem liggur þversum milli borðstokka í bát, til styrkingar.  Oftast hjá bitaþóftu.  Talað er um bitabyr/höfuðbitabyr þegar vindur stendur frammeð kinnungi, um bitann, en það er vanalega óskabyr.  E.  Eyrnamark skepnu.  Markað í hlið eyrans þannig að brotið er upp á eyrað og skorið lítillega í annað hornið á brotinu.  Verður því sem sýling þvert í brúnina.  Biti getur verið aftan eða framan á eyra, einnig á gagnstæðum jöðrum og heitir þá gagnbitað.  F.  Líkingamál um mikið verð; mikil upphæð.  „Ég er hræddur um að þetta verði alltof stór biti fyrir hann“.

Bitjárn (n, hk)  Eggjárn; hnífur; öxi; sög eða hvaðeina sem beitt egg er á.  „Ég var ekki með neitt bitjárn, svo ég marði bandið sundur milli steina“.

Bitjörð (n, kvk)  Nægilegur gróður til beitar.  „Það er að verða sæmileg bitjörð úti í Vatnadal; við rekum nokkrar lambær þangað á morgun“.  „Ég get nú ekki séð mikla bitjörð á þessum berangri“.

Bitlaus / Bitlítill  (l)  Mikilvægt var að eggjárn bitu til þeirra verka sem þau voru ætluð, jafnt hnífar til aðgerða; slátrunar; matseldar; tálgunar eða annars sem skæri til aftektar; klæðagerðar o.fl.; ljáir til sláttar og krókar til veiða.  Mjög var misjafnt hvað menn voru lagnir brýnslumenn, en sagt var að saman færi sú lagni og hæfileikinn til að ljúga.  „Það er kannski hægt að ljúga í þetta eitthvað bit“.

Bitleysi (n, hk) Skortur á biti í hníf/eggjárni.  „Árans bitleysi er í þessum hníf“.

Bitlingur (n, kk)  Merkir upphaflega lítill biti, en er í dag notað um góða viðbót, t.d. launauppbót, styrk eða starf.  Gjarnan um það sem þegið er sem vinargreiði. 

Bitmý (n, hk)  Mýfluga sem bítur; mývargur.  Ekki hefur orðið vart við bitmý vestra.

Bitna á (orðtak)  Mæða á; koma niður á; leika grátt; fara illa með.  „Það er hætt við að þetta slugs við námið bitni á frammistöðunni í prófunum“.

Bitra / Bitrukuldi (n, kvk/kk)  Mikill kuldi í veðri; gaddur.  „Kæddu þig vel; það er bitrukuldi“.

Bitsár (n, hk)  Sár/far eftir bit.  „Er þetta bitsár á snoppunni á lambinu þarna“?

Bitstál (n, hk)  Eggjárn, s.s. hnífur, ljár, skæri o.fl. sem gott er til brýnslu.   „Andskoti er þetta lélegt bitstál“.

Bittinú! (uh)  Upphrópun sem táknar undrun; jahérna!  „Bittinú; hver haldiði að sé nú kominn í heimsókn“?

Bitur (l)  A.  Beittur; um hníf, kveðskap o.fl.  B.  Beiskur í huga; sárreiður.  „Enn er hann bitur vegna skilnaðarins“.  C.  Mjög kaldur/napur í veðri.  „Það er skolli biturt frostið þó hann sé hægur“.

Biturð / Biturleiki (n, kvk/kk)   Líflsleiði; reiði.  „Hann sagðist finna fyrir biturð eftir þessa meðferð“.

Bituryrði (n, hk)  Reiðiorð; neikvæð ummæli.  „Aldrei heyrðist hún mæla bituryrði í garð nokkurs manns“.

Bitvargur (n, kk)  Bítur; tófa sem leggst á lifandi sauðfé.  „Þetta sár virðist vera eftir bitvarg“.

Bía út (orðtak)  Óhreinka; sóða út.  „Kálfarnir hafa komist í hlöðuna og bíað út heyið“.

Bíddu (nú) hægur! / Bíddu (nú) við! (orðtak)  Farðu hægt; andaðu rólega; ekki þennan æsing; hér þarf athugunar við.  Ýmist notað þegar einhver sýndi óþolinmæði eða sem hikorð.  „Nei bíddu nú hægur; er ég kannski að segja þér einhverja vitleysu“?  „Bíddu nú við; hvar lét ég hnífinn frá mér“?

Bíddu mín séra Jón (orðatiltæki)  Sjá stattu aldrei argur.

Bíða (s)  A.  Hinkra; doka við.  „Ég beið þarna nokkurn tíma“.  B.  Verða fyrir; hljóta.  „Ég held að hann hafi ekkert beðið tjón af þessu“.

Bíða (einhvers) (orðtak)  Bíða eftir einhverju; vænta einhvers.  „Lömbin voru rekin til réttar við sláturhúsið, þar sem þau hvíldust eftir reksturinn og biðu slátrunar sem fór fram hinn næsta dag“  (PG; Veðmálið). 

Bíða (einhvers) bætur (orðtak)  Fá bót á einhverju; verða heill af einhverju; batna eitthvað.  „Þetta varð honum svo mikið áfall að hann beið þess aldrei bætur“.

Bíða lags  (orðtak)  Bíða eftir að lag gæfist milli sjóa til lendingar. 

Bíða af sér (orðtak)  Bíða meðan líður hjá:  „Það er að gera ansi mikla skúr.  Ég held við bíðum hana af okkur“.

Bíða á sig (orðtak)  Bíða/hangsa/tefja þar til versnar.  „Við skulum drífa þetta af og koma okkur heim; það er óþarfi að bíða á sig rigninguna“.   „Ég held þeir ættu nú að koma sér í land, en ekki bíða á sig bræluna“.

Bíða átekta (orðtak)  Bíða þar til tekið er á/ lagt er til atlögu.  „Bíddu nú átekta þar til allir eru klárir; þú setur ekki bátinn einsamall“.

Bíða bana (orðtak)  Deyja; látast.  Oftast um það að látast af slysförum.  „Þess eru dæmi að menn hafi beðið bana af steinkasti úr Hnífunum“.

Bíða byrjar (orðtak)  Bíða eftir að byr gefist; bíða hagstæðrar vindáttar fyrir siglingu.

Bíða eftir (einhverju) (orðtak)  Bíða einhvers.  „Ég er ekkert að bíða eftir þessu lengur“!

Bíða ekki boðanna (orðtak)  Láta ekki bíða; hafa öngvar vöfflur á.  „Biðum við þá ekki boðanna, en settum á fulla ferð; með stefnu á Blakk“  (ÖG; Þokuróður).   Merkir bókstaflega að byrja/fara áður en fyrirskipað er.

Bíða fram í ragnarökkur / Bíða til eilífðarnóns (orðtak)  Bíða mjög/alltof/óhóflega lengi.  „Það er nú ekki til bót að bíða með þetta fram í ragnarrökkur“!  „Ætlarðu að bíða með þetta til eilífðarnóns“?!

Bíða færis (orðtak)  Bíða eftir tækifæri/lagi.  „Þegar menn höfðu  búið að sér var aðeins beðið færis að fara í róður“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Bíða hnekki (orðtak)  Skaðast; verða fyrir tjóni.  „Það biðu ýmsir hnekki af þessu gjaldþroti“.

Bíða í ofvæni (orðtak)  Bíða spenntur/óþreyjufullur.  „Á aðfangadag biðu börnin í ofvæni“.  „Mennirnir.. biðu í ofvæni eftir að sjá hverjir af félögum þeirra kæmu utan af Bjargi“  (Ólöf Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Bíða lags (orðtak)  Um sjóferð; bíða eftir lagi til að ýta úr vör eða róa í land /fara upp. „Þegar komið er upp fyrir boðann er smálægi þar sem sæta má lags áður en rennt er upp í sandinn“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „Komið gat það fyrir að bátur var settur til sjávar og beðið lags með að ýta á flot; lags sem þó aldrei kom nægilega öruggt...“ .... „Það er beðið lags, en þegar það er tekið varir það svo stutta stund að fyrsta bára á næsta ólagi kemur undir bátinn í því að hann rennur upp yfir hleinabrúnina“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þeir bíða lags uns róður er tekinn til lands, en verða of seinir fyrir“  (KJK; Kollsvíkurver).

Bíða lægri hlut (orðtak)  Verða undir í baráttu/átökum.  „Það er engin kömm að því að bíða lægri hlut fyrir svona köppum“.

Bíða með útsperrtar klærnar (orðtak)  Bíða reiðubúinn; bíða í ofvæni.  „Það er sagt að sonurinn bíði með útsperrtar klærnar eftir arfinum“.

Bíða með öndina í hálsinum (orðtak)  Bíða í ofvæni; þora varla að anda vegna eftirvæntingar.

Bíða milli vonar og ótta (orðtak)  Bíða án þess að vita afdrif þess sem beðið er eftir, t.d. ástvinar.

Bíða/bíður sér ekki til batnaðar/bóta (orðtak)  Batna ekki með biðinni.  „Þú ættir að láta lækni líta á þessa ígerð sem fyrst; það bíður sér ekki til batnaðar“.  „Ég greiði þetta strax.  Það bíður sér ekki neitt til bóta“.

Bíða/bíður síns tíma (orðtak)  Bíður eftir réttum tíma.  „Ég skildi vaðinn eftir á brún.  Hann bíður síns tíma“.

Bíða skal byrjar þá blæs á móti ( orðatiltæki)  Ekki er skynsamlegt að róa í mótvindi þegar von er á meðbyr.  Þá er betra að bíða í landi.  Meðan bátar voru knúnir árum og segli var þessi speki í hávegum höfð; ekki síst í verum, s.s. í Kollsvík.

Bíða svars (orðtak)  Bíða eftir svari.

Bíða um stund (orðtak)  Bíða í nokkra stund.

Bíða von úr viti (orðtak)  Bíða lengur en skynsamlegt er.  „Við getum ekki beðið von úr viti eftir úrbótum“.

Bíða þess ekki bætur (orðtak)  Jafna sig ekki á því; ná sér ekki.  „Þó hann bjargaðist úr slysinu þá beið hann þess aldrei bætur að fullu“.

Bíður sér ekki til batnaðar/bóta (orðtak)  Nokkuð notað orðtak í Kollsvík.  „Ég ætla að fara að fara að létta aðeins á haughúsinu; það bíður sér ekkert til batnaðar“.  „Þú ættir nú að skreppa út með ruslið; það bíður sér ekki til bóta“. 

Bífur (n, kvk, fto)  Tær.  „Mikið asskoti eru skítugar á þér bífurnar drengur“.

Bígera (s)  Fyrirhuga; áætla.  „Ertu að bígera eitthvað í þessum efnum“?

Bígerð (n, kvk)  Ráðagerð; áætlun.  „Hann var með ýmislegt í bígerð en fæst af því er komið í framkvæmd“.

Bílda (n, kvk)  A.  Klessa; óhreinindi.  Einkum í andliti.  Orðið heyrist sjaldan nú á dögum.  Líklega nefnist Bíldudalur eftir áberandi dökkum berggangi í fjallinu gegnt kaupstaðnum.  B.  Stór blaðbreið öxi; bíldöxi.

Bíldóttur (l)  A.  Krímóttur/flekkóttur/skáldaður af skít eða öðrum lit.  „Mikið skolli ertu bíldóttur eftir skítmoksturinn“!  B.  Um lit á sauðfé; með dökka bletti á höfði, einkum kringum augu og niður á kjammana, en annars hvítt.  Kinnótt var sú kind sem einungis hafði blett í kinn.

Bíldrusla (n, kvk)  A.  Lélegur bíll.  B.  Gæluheiti á bíl.  „En ekki gekk bíldruslan vel undir Þórði; enda kannske ekki við að búast“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Bíldherfi (n, hk)  Jarðvinnslutæki; herfi með hníflaga blöðum.  Slíkt herfi var lengi til á Láganúpi.

Bíldur (n, kk)  Eggjárn sem fyrr á öldum var notað til að taka fólki blóð í lækningaskyni.  Læknar sem töldust hafa réttindi til þess voru nefndir bíldskerar.  Ekki viðurkennd lækningaaðferð nú á dögum.

Bílfar / Bílferð (n, hk)  Ferðalag með bíl; pláss í boði til bílferðar.  „Fæ ég bílfar með þér inneftir“?

Bílfarmur (n, kk)  Það sem hlaðið er á/í bíl til flutnings; það sem flutt er með bíl. 

Bílfært (l)  Fært að aka á bíl.  „Þessi vegur hafði verið notaður sem hestavegur um nokkurra ára skeið, aður en bílfært varð yfir hálsinn; en þá nýttist hann á kaflanum úr Húsadal og inn að Aurtjörn sem bílvegur“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Bílgarmur / Bílskrjóður (n, kk)  Gæluheiti á bíl; lélegur bíll.  „Bílgarmurinn fékk fulla skoðun“.

Bíll (n, kk)  Farartæki sem algengast er nú á dögum til ferðalaga/flutninga á landi.  Fyrsti bíll í Rauðasandshreppi kom að Breiðavík um 1926; áður en þangað kom bílvegur.  Hann var af gerðinni Ford-T, í eigu Einars Jónassonar sýslumanns.  Eyjólfur Sveinsson á Lambavatni keypti Ford-A árið 1934, og stuttu síðar kom á Rauðasand Ford-T.  Um stríðsárin jókst mjög innflutningur bíla til landsins.  Magnús Ólafsson í Vesturbotni keypti þangað fyrsta Willysjeppann árið 1946, ásamt Ásbirni bróður sínum.  Stuttu síðar fékk Agnar Sigurbjörnsson í Hænuvík notaðan Chevrolet-vörubíl.  Bílvegur kom ekki að Kollsvík fyrr en 1953, og var ekki kláraður yfir víkina fyrr en eftir 1960.  Ýmsir bíleigendur hlupu undir bagga fyrstu árin, þegar flutninga var þörf; s.s. Árni Helgason í Tungu og Jón Hákonarson á Hnjóti.  Fyrsti bíll í eigu bræðranna Össurs og Ingvars Guðbjartssona í Kollsvík var Willysjeppinn „Sigga dýra“ sem þeir keyptu líklega um 1963.  Ingvar hafði áður unnið við akstur strætisvagna í Reykjavík, en Össur hafði lokið bílprófi á Hvanneyri.  Þegar bræðurnir hófu mjólkursölu fengu þeir sér Rússajeppa með blæjum,en fengu Bjarna Sigurbjörnsson í Hænuvík til að smiða yfir hann vandað hús nokkrum árum síðar.  (Heimildir m.a. AÍ.)

Bílljós (n, hk, fto)  A.  Ljósabúnaður á bíl.  B.  Bjarmi af ljósum bíls.  „Hann er að koma; ég sé bílljós upp á Núp“.

Bíltúr (n, kk)  Far/ferð í bíl; bílfar.  „Ég ætla að fá mér bíltúr og athuga hvað er margt fé uppi á Hálsi“.

Bílvegur (n, kk)  Bílfærir vegir komu í Rauðasandshrepp eftir seinna stríð.  „Fyrsta jarðýtan kom á svæðið 1946 og urðu þá straumhvörf í vegagerð.  1949 var kominn bílfær vegur alla leið frá Brjánslæk á Barðaströnd, um Patreksfjörð og Tálknafjörð á Bíldudal.  Út með Patreksfirði náði hann að Hvalskeri og nýr vegur varð kominn yfir Skersfjall.  1952 náði vegurinn að Hafnarvaðli í Örlygshöfn og einnig var kominn akfær vegur frá Tungu að Hænuvík, sem náði að Kollsvík 1953.  1954 var gerður vegur yfir Hafnarfjall að Breiðavík, og að Hvallátrum 1955, en fyrst að Bjargtöngum 1960.  1956 mátti segja að jeppafært hafi verið á alla byggða bæi í hreppnum“ ( BÞ; Fólkið, landið og sjórinn).  Þessir fyrstu vegir voru mikið afrek með þeim tækjum sem þá voru tiltæk, en þeir væru þó vart nefndir akfærir bílvegir nú á dögum; krókóttir, brattir, stórgrýttir og víða ófærir af aurbleytum og snjóum um stóran hluta ársins.  Víðast var farið yfir ár og læki á vaði og fjölmörg hlið í misjöfnu ástandi voru á leiðinni, þar sem farið var í gegnum túnlönd margra jarða.  Með árunum var hver kaflinn eftir annan lagaður, svo ástand hefur stórum lagast.  Enn er þó nánast ekkert komið af bundnu slitlagi á vegi sunnan Patreksfjarðar, og viðhald þeirra á undir högg að sækja vegna fámennrar byggðar.  Ört vaxandi vinsældir svæðisins í augum ferðafólks hefur þó skapað mikinn þrýsting á úrbætur.  „Áður en jarðýtur komu hingað í hreppinn var byrjað að leggja bílveg yfir Hænuvíkurháls“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Bílveikur (l)  Með ónot/ógleði vegna mikilla hreyfinga í bíl.  „Rútan var rétt komin austur á Þingmannaheiði þegar hún var orðin illa haldin af bílveiki“.  Bílveiki var algengari fyrrum, þegar vegir voru ósléttir og bílar ekki eins þægilegir og nú er.  Líkt og sjóveiki stafar hún mestmegnis af skyntruflunum.

Bílæti (n, hk)  Mynd; eftirmynd; stytta.  Gömul dönskusletta (bild) sem nú er að mestu aflögð.

Bírópenni (n, kk)  Kúlupenni.  Var mikið notað um tíma, fyrst eftir að þannig raritet urðu fáanleg.

Bíræfinn (l)  Hugaður; forhertur; áræðinn.  „Hrafninn var svo bíræfinn að hann stal hænuunga úr girðingunni“.  Tökuorð úr dönsku; beræven, sem merkir þrjóskur; hrokafullur.

Bíræfni (n, kvk)  Djörfung; áræði.  „Mér fannst það fjandi mikil bíræfni af honum að ætla að stela af mér hnífnum án þess að depla auga“!

Bísa (s)  Hnupla; gripla.  „Nú hefur huldufólkið bísað gleraugunum mínum eina ferðina enn“.  „Hann hefur bísað vasahnífnum mínum, árans melurinn“.  Líklega tökuorð, t.d. er „bitsa“ svipaðrar merkingar á sænsku.

Bíslag (n, hk)  Viðbygging; sérbyggt anddyri.  Algengt varð á fyrstu árum timburhúsa að byggja sérstakt anddyri við innganginn til að minnka súg og fá aukið geymslupláss.  „Bærinn á Lambavatni var úr grjóti og torfi á þrem veggjum en framhlið var steypt, ásamt inngangi (bíslagi)“  (SG; Leikir og leikföng; Þjhd.Þjms).  

Bísperrtur (l)  Hnarreistur; kokhraustur.  „Þú ert nógu bísperrtur núna, við sjáum hvað verður eftir róðurinn“!  Gæti verið tökuorð úr gamalli dönsku; „bespærret“.

Bíta (s)  A.  Um munn; grípa um með tönnum og jafnvel klippa í sundur.  „Hann beit í sundur girnið og hóf að setja upp slóðann“.  B.  Um grasbít; éta gras af jörðu eða þara í fjöru.  „Það er orðið lítið fyrir kýrnar að bíta þarna í hólfinu“.  C.  Um tófu; leggjast á fé; naga lifandi sauðkind svo hún slasast.  „Sjaldan bítur tófa nærri greninu“.  D.  Um eggjárn; vera biturt; með skarpa egg.  „Hnífbrókin er löngu hætt að bíta“!

Bíta af sér (orðtak)  Fæla frá /losa sig við ágenga/óæskilega manneskju; snúa af sér.  „Ég held að ég hafi náð að bíta af mér þessa blessaða trúboða.  Skelfing gátu þeir verið uppáþrengjandi“!

Bíta á agnið (orðtak)  Líkingamál; ganga í gildruna; falla á bragðinu.  „Ég held að maður sé ekkert að bíta á þetta agn hjá þeim, þó girnilegt sé.  Þeir gleyma þessu strax eftir kosningar“!

Bíta á jaxlinn og bölva í hljóði (orðtak)  Harka af sér; standast mótlæti/erfiðleika.  „Það verður litla vorkunnsemi að fá eftir að á sjóinn er komið; þá er ekkert annað en bíta á jaxlinn og bölva í hljóði þegar á móti blæs“.  Oft var einungis notaður fyrripartur orðtaksins.

Bíta á vörina (orðtak)  Gæta sín að segja ekkert/ svara engu.

Bíta frá sér (orðtak)  Verja sig; svara fyrir sig.  „Það þarf stundum að bíta frá sér ef að manni er vegið“.

Bíta höfuðið af skömminni (orðtak)  Keyra enn frekar fram úr hófi; gera vont enn verra; fara úr öskunni í eldinn.  „Þeir svíkja gamla fólkið um réttmætar uppbætur á lífeyri og bíta svo hausinn af skömminni með því að skattpína það í ofanálag“!

Bíta í sig (orðtak)  Taka ófrávíkjanlega ákvörðun; telja sér trú um; vera þrjóskur varðandi sínar skoðanir.  „Hnn hafði bitið það í sig að örbylgjuofninn hefði skaðvænleg áhrif og því varð ekki bifað“.

Bíta í það súra epli (orðtak)  Sætta sig við svo slæman kost.  „Ætli maður verði ekki bara að halda kjafti og bíta í það súra epli að þjóðin hefur kosið þessa vitleysinga yfir sig“!

Bíta og brenna (orðtak)  Sjá hafa nóg að bíta og brenna.

Bíta úr nálinni (orðtak)  Hefnast; taka afleiðingum.  „Hann hélt að hann kæmist upp með þessi vinnubrögð; en hann á nú eftir að bíta úr nálinni með það“.  Einnig í annarri merkingu, sjá; ekki búið að bíta úr nálinni.

Bíta við (orðtak)  Borða með.  Oftast um feitmeti/smjör.  „Brauðið er nú hálf þurrætt ef maður hefur ekkert til að bíta við því“.  Vísar til þess tíma að þurrmeti, t.d. harðfiskur, og feitmeti, t.d. smér eða bræðingur, var látið sitt í hvoru lagi í askana og bitið í sitt á hvað.  Sjá viðbit.

Bítast um (eitthvað) (orðtak)  Togast á um eitthvað; vera ósáttir um rétt til einhvers; deila; rífast.  „Nú eru þeir farnir að bítast um það hvor átti upptökin að rifrildinu“!

Bítlagarg (n, hk)  Hneykslishugtak eldri kynslóða yfir þeim „óhljóðum“ sem upphófust með nútíma popphljómsveitum, s.s. Bítlunum, Rollingunum og fleiri „garghópum“ sem glumdu í útvarpi í tíma og ótíma.

Bítur (n, kk)  A.  Tófa sem komist hefur upp á bragðið með að ráðast á sauðfé og slasa það erða drepa; dýrbítur.  B.  Töng sem ætluð er til að klippa í sundur; klippitöng; síðubítur; naglbítur; markatöng.

Bítur ekki á blautan skít (orðtak)  Um bitjárn/hníf; bítur mjög illa.  „Leyfðu mér nú aðeins að draga á eggina fyrir þig; þessi hnífur bítur ekki á blautan skít“!

Bítur stolinn hnífur (orðatiltæki)  Sú hjátrú hefur líklega lengi verið viðloðandi að hnífar og önnur eggjárn lánist best séu þau þjófstolin.  Í Kollsvík þótti það enginn glæpur að stela hníf ef hann lá á glámbekk (í hirðuleysi).  Stuldur á vasahnífum, taldist þvi fremur íþrótt eða skemmtilegur hrekkur, en skammarstrik.  Því gættu menn sinna vasahnífa betur en nokkurs annars dýrmætis, því hníflaus maður er illa settur.  Fyrir kom að einhver bað um að fá hníf lánaðan, en þá var fylgst vel með á meðan hann var notaður.  Orðatiltækið var stundum spyrt aftan við aðra hjátrú: „Lyginn maður brýnir best – bítur stolinn hnífur“.

Bjaga (s)  Aflaga; afbaka; beygla; kjaga.  „Þessa vísu hefur einhver bjagað; upphaflega var hún öðruvísi“.

Bjagaður (l)  Aflagaður; skakkur; ekki eins og vera ber.  „Skelfing leiðist mér svona bjagað mál“!

Bjalla (n, kvk)  A.  Lítil klukka í líkingu kirkjuklukku.  B. Áhald sem gefur frá sér hljóð, t.d. dyrabjalla.  C.  Ættbálkur skordýra.  T.d. maríuhæna, brunnklukka og járnsmiður.  D.  Sjávargróður.  Einkum notað um stöngul marínkjarna.  „Bjöllur eru þar (í Láganúpsfjöru) “  (ÁM/PV Jarðabók).  E.  Síðari liður máfsheitis; veiðibjalla.

Bjalla / Bjöllufiskur (n, kvk/kk)  Augnfiskur; annar stærsti fiskvöðvinn í þorskhaus (sjá þar).

Bjarg (n, hk)  A.  Mjög stór steinn.  „Það þarf örugglega ýtu til að hreyfa bjargið sem er fallið á fjörurnar“.  B.  Hár og langur klettaveggur, t.d. Látrabjarg.

Bjarga (s)  Frelsa/forða frá hættu/skaða. 

Bjarga andlitinu / Halda andlitinu (orðtak)  Halda virðingu sinni/ áliti sínu meðal annarra; bjarga eigin skinni.  „Stjórnin reyndi með þessu að bjarga andlitinu“.

Bjarga á streng (orðtak)  Um það þegar menn í skipi bjargast með því að þeir koma línu/streng í land, þar sem mannskapur heldur við meðan þeir fara eftir línunni í land.  Fyrrum urðu menn að reyna að handstyrkja sig eftir línunni, en síðar var farið að nota fluglínutæki og björgunarstól sem dreginn var á milli.  „Í mars 1920 srandaði enskur togari í Hænuvík.  Þrír skipverjar drukknuðu; hinum var bjargað á streng í land“   (ES; Skipströnd í Rauðasandshreppi).

Bjarga báti (orðtak)  Setja bát úr fjöru í skorður upp á kamb.  „Nýr fiskur hafði verið settur á prímusinn strax og búið var að bjarga bátnum“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Bjarga brókum / Bjarga buxum (orðtak)  Bregða brókum; gera að brókum; hægja sér; flytja lögmann; kúka.  „Hann sagðist ætla að skreppa niður fyrir klettinn til að bjarga brókum sínum.  En ég bað hann nú að gá fyrst framaf, því þar væri líklega fimmtugt standberg“!

Bjarga eigin skinni (orðtak)  Um eigingirni; komast af sjálfur.  „Þeir hugsa nú mest um það, þessir stórbændur fyrir sunnan, að bjarga eigin skinni; þeim er nokk sma um þessa útkjálkabændur“!

Bjarga sér (orðtak)  Komast af; slampast.  „Þeim er ekki láandi þó þau reyni að bjarga sér í þessum efnum“.  „Ég er ágætur í ensku og norðurlandamálum og get bjargað mér á þýsku“.

Bjarga um (orðtak)  Hjálpa um; lána/gefa þegar vantar.  „Ég var að lenda í vandræðum af saltleysi, en hann bjargaði mér um einn poka þar til skipið kemur“.

Bjarga undan sjó / Bjarga úr sjó (orðtak)  Koma bátum eða reka uppfyrir fjöruborð, þannig að ekki taki út eða laskist.  „En ef brimaði snögglega um stórstreymi varð að hafa hraðar hendur að bjarga bátum undan klettunum til beggja handa, norður eða suðurfyrir klettana“... „Ólarnar með fiskinum voru dregnar að landi og bjargað úr sjó“... Hver hönd var viðbúin að taka á móti bátnum, og var hann á skömmum tíma affermdur og bát og farmi bjargað undan sjó.  „   (KJK; Kollsvíkurver).  „Þeim hefur tekist að bjarga bát og farmi undan sjó.  Þeir anda léttar, en þó sveittir og blautir. ...  Eftir að bátnum hafði verið bjargað úr sjó, fóru menn að heilsast“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   „Mjög erfitt er að bjarga reka undan sjó á þeim stöðum, þar sem brim gengur víðast hvar í kletta sem eru nokkrir tugir metra á hæð“  (HÖ; Fjaran). 

Bjarga því sem bjargað verður (orðtak)  Bjarga eins miklu og hægt er frá eyðileggingu/skaða.  „Sneru mennirnir við hið snarasta til að bjarga því sem bjargað yrði....Tókst með harðneskju að ná mönnum og báti úr greipum Ægis...“  (MG;  Látrabjarg).

Bjargaðist/fór betur en á horfðist (orðtak)  Um það þegar skaði verður ekki eins mikill og leit út fyrir eða sýndist ætla að verða.  „Þeir fengu brot aftanundir bátinn í lendingunni, en það bjargaðist betur en á horfðist“.

Bjargarlaus (l)  Hjálparvana; úrræðalaus.  „Hann var orðinn fremur bjargarlaus í þessum aðstæðum“.

Bjargarleysi / Bjargarskortur (n, hk)  Fátækt; umkomuleysi.  „Útvíkurnar hafa í gegnum aldirnar vafalaust verið lífsbjörg mörgum þeim sem hröktust milli héraða í harðindatíð, nær dauða en lífi af hungri og bjargarleysi“.  „Víða bættu hvalrekar nokkuð úr bjargarskortinum“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Bjargarvon (n, kvk)  Von um björgun; von um að bjargast/ lifa af.  „Ef bátur verður vélarvana í röstinni er lítil bjargarvon“.

Bjargast á eigin spýtur (orðtak)  Bjargast/ komast af hjálparlaust.  Sjá á eigin spýtur.

Bjargast við (orðtak)  Láta sér nægja; láta duga; komast af með.  „Hrífugægsnið er orðið fjári lélegt, en ætli maður verði ekki að bjargast við það núna“.  „Það má nú kannski bjargast við þetta fyrir sökku“.

Bjargast við lítið (orðtak)  Komast af með naumt.  „Það má oft bjargast við lítið í þessum efnum“.

Bjargálna (l)  Hafa framfærslu; geta framfleytt sér/ komist af.  „Hann er víst bjargálna, og vel það“.

Bjargbrún (n, kvk)  Brún á bjargi/kletti.  „En í því hann er að koma fram á brúnina veit ég ekki fyrri til en hann steypist framyfir sig; og framaf bjargbrúninni“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).   „Í Bjargleitina þurfti að velja menn sem ekki veigruðu sér við að fara niður fyrir bjargbrún á þeim stöðum sem voru vel gengir bandlausum manni; svo sem á Stíginn, í Saxagjá og fleiri staði“  (PG; Veðmálið). 

Bjargúi (n, kk)  Vættur sem býr í bjargi; tröll; bergrisi.  „Bjargbúar eru líklega í hverju bjargi og stórum hamri vestra, þó ekki séu allsstaðar heimildir fyrir þeim.  Sumsstaðar eru þó sögur til vitnis, s.s. um vættina sem Gvendur góði vísaði til bústaðar í Heiðnabjargi í Látrabjargi; einnig örnefni, s.s. Jötunsaugu í Látrabjargi; Töllkonuhellir í Blakknesi og Tröllkarlshellir í Hnífum“

Bjargfall (n, hk)  Fugl sem verður fyrir hruni eða öðru slysi í bjargi og fellur dauður í fjöru.  „Og þó fugl sé viðnámssneggri en mannskekpan... þá verður einn og einn fugl fyrir steinkasti úr bjarginu, bíður bana og fellur niður eða í sjóinn... Var það siður áður fyrr, að gengin var fjaran frá Keflavík þegar voraði og hirtir upp þeir fuglar sem fundust dauðir í fjörunni“  (MG; Látrabjarg).

Bjargfastur (l)  Óhagganlegur.  „Hann stóð bjargfastur á sinni skoðun og gaf sig hvergi“.  Sjá bjargföst sannfæring.

Bjargferð (n, kvk)  Bjargganga.  Ferð í Látrabjarg; áðurfyrr í fygling en vanalega til eggja í seinni tíð.  Tvenns konar eggjataka var stunduð í Rauðasandshreppi í meginatriðum; fýlseggjataka í núpum og klettum s.s. í Breið og Blakk, og bjargferðir í Látrabjarg eða samliggjandi björg þar austanvið.  Ekki var talað um bjargferðir þegar farið var í fýlsegg.  Kollsvíkingar áttu ekki eggjatökurétt í Bjarginu, en fóru stundum í leyfi landeigenda.  „Þessi er fjárafli margs manns að fara í björgin að taka egg ok fugla.  Þessháttar afli fremst á þann hátt að fuglarinn fer í festarenda ofan fyrir bjargið; gerist það oftlega með miklum háska ok bráðum manntapa, því að festinni kann margt að granda“  (Saga Guðmundar byskups góða).

Bjargfesti (n, kvk)  Bjargtóg; bjargvaður.  Fremur var talað um bjargtóg/bjargvað/vað eða sigtóg/sigvað en bjargfesti í fuglabjörgum á sunnanverðum Vestfjörðum; a.m.k. á siðari tímum.  Þó var t.d. talað um festarauga, sem sigari sat í. 

Bjargfé / Bjargfénaður / Bjargrolla (n, hk/kk/kvk)  Sauðfé sem gengur í eða á Látrabjargi.  „Bjargféð er undantekningarlaust vænt, en afföll geta þar orðið nokkur“.  „Á seinni árum búakapar í Kollsvík var bjargrollum markvisst fækkað, enda fylgdi þeim gjarnan nokkuð umstang að hausti“.

Bjargfiðringur (n, kk)  Eggjafiðringur; löngun til að fara í bjargferð/eggjaferð.  „Á hverju vori greip mann þessi óviðráðandi bjargfiðringur.  Við honum var ekki nema eitt læknisráð“.

Bjargfugl (n, kk)  Svartfugl; fugl sem heldur til og verpir í bjargi.  Oftast er átt við svartfugl, en stundum nær orðið einnig yfir fýl og ritu sem verpa í fuglabjörgum.

Bjargfuglsegg (n, hk)  Egg langvíu, nefskera (stuttnefju) og álku.  Öll eru þau áþekk í lögun og lit, en þó er munur á.  Egg Langvíu og nefskera eru svo lík að erfitt er að þekkja þau í sundur; bæði dökkdröfnótt á grænum eða brúnleitum grunni; mjög oddmjó í annan endan, sem varnar þeim að velta fram af tæpum syllum.  Þó má stundum greina að langvíueggin eru oddmjórri en nefnskeraeggin.  Álkueggin eru áberandi minni en egg hinna (sem stundum voru nefnd stórfuglsegg) og mun breiðari, hlutfallslega, í mjórri endann.  Langvían verpir fyrst, en varp hennar er mjög dreift; allt frá því um 18. maí fram undir miðjan júní.  Hún velur sér helst syllur í bjarginu með hreinu bergi og er varpið oft mjög þétt.  Nefskerinn byrjar oft um 25. maí, en honum líkar best í afsleppum syllum, oft til hliðar við langvíusyllur.  Álkan byrjar þeirra síðust; vanalega ekki fyrr en viku af júní og stundum síðar.  Hennar kjörlendi eru skriðuflög, urðir; holur og glufur.  Stórurð undir Látrabjargi er stærsta álkuvarp heims, en þar má finna egg í stórgrýtinu lengst inni í urðinni.
Enatt var talað um bjargfuglsegg, hvort heldur var um eitt eða mörg að ræða; óþekkt var í Rauðasandshreppi að tala um „bjargfuglaegg“, eins og annarsstaðar virðist hafa þekkst.

Bjargfær / Bjargvanur (l)  Brattgengur, vanur bjargferðum.  „Álitu þeir að þarna væri ærin lífshætta bjargfærum mönnum.  Í Breiðavík, Kollsvík og Hænuvík... voru flestir heimamenn bjargvanir...“  (MG; Látrabjarg).  „Einn fór fyrir Breið, og þurfti það að vera sæmilega bjargfær maður, því oft voru kindur á slæmum stöðum“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Bjargföst sannfæring/trú (orðtak)  Trú/skoðun sem ekki verður breytt/haggað.  „Það er mín bjargföst sannfæring að jarðir í Rauðasandshreppi muni aftur byggjast upp, þó lífsafkoma þess fólks byggi á öðru en áður var“.

Bjargganga (n, kvk)  Bjargferð; eggjaferð.  „Var það venjulega fyrsta bjargganga ungra stráka að fara þarna niður og fram á standinn...“  (ÞJ; Örn.skrá Hvallátra).

Bjarggengið (l)  Um sauðfé; það sem hefur/gengið til beitar í bjargi/Látrabjargi.  „Alltaf skila þær góðum lömbum þær bjarggengnu; ef þær misfarast ekki“.

Bjarghlunnindi (n, hk, fto)  Hlunnindi af bjargnytjum.  „Sem dæmi um hvað mikið var lagt upp úr þessum bjarghlunnindum skal ég segja þér sögu... “  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Bjarghluti / Bjarghlutur (n, kk)  Landshlutur; hlutur sem landeigandi fékk úr fugla- eða eggjatöku í hans landareign, og var hann fullur hlutur.  Venjulegra var að tala um landshlut en bjarghlut í Útvíkum.  „Kollsvík átti ekkert í bjarginu, en við máttum fara í bjargið gegn bjarghluta; þ.e. eigandi bjargsins fékk einn hluta af veiðinni og mátti skilja hlutinn eftir á bjargbrún ef eigandinn var látinn vita“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Bjarghugleiðingar (n, kvk, fto)  Áætlanir um bjargferð, eggjahugleiðingar.  „Mér skildist að þeir væru í einhverjum bjarghugleiðingum í dag“.

Bjarglega (n, kvk)  Nægilega lygnt til að leggja að undir Látrabjargi til eggjatöku.  „Mér sýnist að nú gæti verið komin bjarglega; það lóar ekki við hleinina“.  Ef ekki hvítnaði við Straumsker í Kollsvík um fjöru voru taldar líkur á bjarglegu.  Sama viðmið var í Breiðuvík; ef ekki hvítnaði í Fjarðarhorni var nokkuð örugg bjarglega. 

Bjarglegt (l)  Björgulegt; sæmilegt; viðunandi.  „Þetta er ekki meir en svo bjarglegt sjóveður“.

Bjargleiðangur (n, kk)  Ferðalag til eggja/fyglinga út á eða undir Látrabjarg; bjargferð; undirbjargsferð.  „Ég fór ekki með þeim í þennan bjargleiðangur“.

Bjargmaður (n, kk)  A.  Maður sem fer á/í bjarg til fyglinga eða í eggjatöku.  B.  Maður sem er fær í bjargi.

Bjargnibba (n, kvk)  Nibba sem stendur upp/út úr bjargi/kletti.  Traustar nibbur má oft nota til að bregða á eða festa vað/lásbandi.  „Áður en lauk vorum við komnir það langt niður í Bjargið að þraut sextugan vað sem við höfðum fest um stein eða bjargnibbu á grasganginum, þar sem við byrjuðum fuglatekjuna“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Bjargnytjar (n, kvk, fto)  Not fólks af hlunnindum í fuglabjörgum.  Helstu bjargnytjar í gegnum tíðina hafa verið fugla- og eggjataka, og síðustu öldina nær alfarið hið síðarnefnda.  Fuglatekja var stunduð að mestu með fjölmennum bjargsigum, stundum langt niður í bjarg, og þá snaraður fullorðinn fugl; gamalfugl, eftir útungun.  Einnig var í Keflavík hirt niðurfall; fugl sem rotast hafði af grjóthruni og fallið í fjöru.  Eggjataka hefur verið stunduð fram á þennan dag.  Mesta tekjan hefur verið af bjargfuglseggjum í Látrabjargi og aðliggjandi björgum, og eggjanna aflað með sigum; lásasnagi í brúnum og með undirbjargsferðum á urðir.  Þegar múkkavarp náði hámarki í núpum og klettum, á síðari helmingi 20. aldar, var töluvert farið í fýlsegg; mestmegnis í lásum ofanfrá.  Sú tekja var t.d. stunduð í Blakk, Hnífum, Breið, Bjarnarnúp, Setnagjá, Brimnesgjá og Skarfastapa við Skor.  Auk framangreinds hefur að einhverju marki verið nýttur reki undir björgum og skotinn þar selur, sem vissulega má einnig telja bjargnytjar.

Bjargráð / Bjargræði (n, hk, fto)  Bjargræði; úrræði; leiðir til bjargar/til að forða tjóni.  „Oft buðust einhver bjargráð í Kollsvík þó harðindi gengju yfir“.  „Hann hefur dregið fram og út úr brotinu.  Við það hefur lítið batnað um bjargráð“ ... „Það var ömurleg sjón að sjá, þegar bjargræði margra heimila var mokað og dregið uppúr sandskafli  (KJK; Kollsvíkurver).

Bjargráðasjóður (n, kk)  Stofnun/sjóður í eigu ríkisins, með það hlutverk að veita stuðning vegna áfalla af völdum náttúruhamfara, sem ekki fæst bætt úr tryggingum eða öðrum sjóðum.

Bjargráðasjóðsgjald (n, hk)  Gjald sem rennur til Bjargráðasjóðs.

Bjargreisa (n, kvk)  Gæluheiti á bjargferð/bjargleiðangri.  „Bjargreisan tók lengri tíma en áætlað var“.

Bjargræðislaus (l)  Bjargarlaus; hjálparþurfi.  „Eftir þetta áfall stóð fjölskyldan uppi bjargræðislaus“

Bjargræðisleysi (n, hk)  Skortur á lífsbjörg; umkomuleysi.

Bjargræðistími (n, kk)  Sá tími ársins sem helst er aflað nauðþurfta til heimilis.  Á fyrri tímum var oftast átt við heyannir og vertíð, eða frá vori til hausts.

Bjargræðisvegur (n, kk)  Leið til bjargar.  „Útræði í Víkum var mikilvægur bjargræðisvegur um sunnanverða Vestfirði, en þó einkum Breiðfirðingum“.

Bjargsig (n, hk)  Sú aðferð við bjargnytjar að láta mann síga í vað ofan af brún niður á syllur í fuglabjargi.  Bjargsig krefst mikils mannafla, þar sem erfitt er að draga mann, vað og veiði upp aftur.  Í það þarf einnig góðan útbúnað; traustan vað, bjarghjól o.fl.  Sigmaður þarf að vera vel bjargfær; aðgætinn; lipur; léttur í drætti og úrræðagóður.  Undirsetumenn þurfa að vera áreiðanlegir og hraustir og brúnamaður þarf að vera aðgæslusamur og glöggur á merki.  Öryggi jókst með tilkomu hjálma, talstöðva og annars nútímabúnaðar.  Lengstu sig í Látrabjargi voru á Miðlandahillu og á Barð; vel á annað hundrað metra.  Í dag búa fáir yfir þeirri kunnáttu og reynslu sem áður lærðist, mann fram af manni á bjargjörðum.

Bjargskrúði (n, kk)  Yfirhöfn bjargmanns í eggjatöku; eggjaskyrta.  „Sigarinn steypir yfir sig bjargskrúðanum, sem er stór strigakufl.  Á honum eru op fyrir höfuð og handleggi; svo stór að inn um þau geti hann látið inná sig eggin.  Hypjar hann svo kuflinum sem best uppá bakið og bindur hann svo með snæri að sér um mittið, svo að eggin hrynji ekki niður.  Í þenna bakpoka komast um 150 egg.  Ennfremur hefur hann poka undir egg á öðrum handleggnum“  (ES; Látrabjarg; Barðstrendingabók).

Bjargsmölun (n, kvk)  Smölun Látrabjargs, Bæjarbjargs, Breiðavíkurbjargs og Keflavíkurbjargs.  „Þeir ætla í Bjargsmölun á þriðjudaginn“.

Bjargstokkur (n, kk)  Kefli/tré sem lagt er á bjargbrún þegar sigið er, til að verja vaðinn frá því að skerast eða festast í brúninni.  Í seinni tíð er fremur notað brúnahjól.

Bjargtóg / Bjargvaður (n, kk)  Bjargfesti; sigtóg; sigvaður; mannvaður; vaður; festi sem sigara er slakað í niður í bjarg til eggja eða fyglinga.  Á fyrri öldum var notuð niðurrist nautshúð í bjargvað.  Bjargfesti í Drangey um miðja 18. öld er svo lýst að hún sé gerð úr 7 þáttum af þykkasta nautsleðri, sem eru 80 faðmar fullteygðir.  Í hana fari 16 húðir, og þegar hún er þurr sé hún um 120 pund á þyngd.  Verð festarinnar var töluvert, eða um 5 hundruð.  Vaðir voru því mjög verðmæt eign, og aðeins til þar sem bjargtekja var mikill útvegur.  Þættir í vaðinn voru skornir þannig úr húðinni að hún var strengd á jörðina; stungið gat í miðju og síðan hringristur þriggja fingra breiður strengur útfrá miðju; svo lengi sem húðin entist.  Eftir að hann hafði verið lýsisborinn og teygður var hann oft um 12 faðmar að lengd.  Til voru fernskonar vaðir, eftir notkun þeirra og gæðum; mannvaður til bjargsiga; eggjavaður til dráttar á eggjum; fuglavaður til dráttar á fuglakippum og leynivaðu/handfesti  til handstyrkingar eða tildráttar (sjá þar). 
Síðar var farið að nota vaði úr hampi.  Í bjargfestina á Látrabjargi voru hafðir tveir kaðlar; Þeir voru lagðir saman, og var annar þeirra úr manilluhampi, en hinn úr tjöruhampi og töluvert mjórri.  Ein trossa var venjulega tvær vaðarhæðir, eða 30 faðmar.  Í Látrabjargi þurfti 110-115 faðma festi, en mannvaðir voru þar oftast 60-90 faðmar, og tvöfaldir eggvaðir 20-30 faðmar.
Áður en sig hófust var festin reynd áður en farið var í bjarg, með því að binda annan endann við jarðfastan stein, en nokkrir menn gengu á hinn endann og toguðu í.  Mikil áhersla var á að geyma bjargvaði vel; í skuggsælli og þurri geymslu.  Sumsstaðar voru vaðarbyrgi á bjargbrún til að geyma þá á milli bjargferða. (Samant úr LK; Ísl.sjávarhættir V). 

Bjargvanur (l)  Vanur að klifra í bjargi; fær; varfærinn, óhræddur og fótviss

Bjargveður (n, hk)  Veður sem hentar til bjargferða.  „Eftir spánni verður lítið bjargveður á morgun“.

Bjargvegur (n, kk)  Vegur sem farinn er til að komast á bjarg til að nytja það.  „Út yfir framanverðan Múlann lá bjargvegurinn frá Breiðavík, fyrst út í Engidal en síðan út Flatir“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Bjargvænlegt (l)  Björgulegt; lífvænlegt; burðugt.  „Ekki er það bjargvænlegt útlitið núna“.

Bjargvættur (n, kk)  Sá sem verndar og/eða bjargar.  „Hann reyndist þeim alger bjargvættur í þrengingunum“.

Bjargþrota (l)  Bjargarlaus; kominn á vonarvöl.  „Verin í Útvíkum urðu mörgu bjargþrota fólki athvarf“.  „...var veturinn 1802 á Vestfjörðum kallaður Klaki.  Mikill fjöldi manna varð bjargþrota og margir bændur flosnuðu upp“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Bjarma af /Bjarma fyrir (orðtak)  Birta af; sjást speglun af ljósi; móa fyrir.  „Mér sýnist bjarma fyrir ljósum þarna uppi á Hálsi“

Bjarma fyrir degi (orðtak)  Skíma; koma fyrsta dagsljós; byrja að birta af morgni.  „Það er aldrei svo dimmur þorrinn að ekki bjarmi einhverntíma fyrir degi“.

Bjarma/móa fyrir sól (orðtök)  Sjást móta fyrir sól í gegnum þoku/rigningu/dimmviðri.  „Hann er hættur að rigna eins mikið, og jafnvel farið að bjarma örlítið fyrir sól“.

 Bjarmalandsferð / Bjarmalandsleiðangur (n, kvk)  Ferð í mikilli tvísýnu; óvissuferð.  Uppruna orðisins má rekja til víkingatímans, en Bjarmaland nefndu víkingar héruðin í kringum Hvítahaf.  Ferðir þangað voru hættulegar og tvísýnar og af því er líkingin dregin.  Almennt notað í Kollsvík um slíkar ferðir, allt fram á þennan dag:  „Þetta verður líklega einhver bjarmalandsferð hjá okkur“.

Bjarmi (n, kk)  Skíma; vottur af dagsljósi.  „Við ættum að drífa í þessu meðan enn er einhver bjarmi“.

Bjarnarbæli (n, hk)  Hættulegur staður; ljónagryfja.  „Hann sagðist hafa fengið óbótaskammir þegar hann kom þar síðast; hann færi nú ekki að hætta sér í það bjarnarbæli á næstunni“.

Bjarnarfeldur (n, kk)  Feldur/húð af bjarndýri.  „Úlpan er hlý eins og bjarnarfeldur“.

Bjarnargreiði (n, kk)  Greiði eða viðvik sem kemur fyrir lítið og veldur jafnvel vandræðum eða skaða.  „Hann lánaði mér bát svo ég kæmist í róður.  Það reyndist hinsvegar bjarnargreiði því vélin bilaði á útstíminu og ég þurfti að fá mig dreginn í land“. Sjá gera einhverjum bjarnargreiða.

Bjarndýr (n, hk)  Ísbjörn.  Eina sögnin sem fer af landgöngu bjarndýra í Rauðasandshreppi er sú sem tengist örnefnunum Bjarnarnúpi, sem er milli Breiðavíkur og Hvallátra, og Bjarnargjá sem er allmikil gjá framan í honum.  Sagt er að bjarndýr hafi verið króað af frammi á brún núpsins, í þeim tilgangi að vinna á því.  Björninn hafi hinsvegar bjargað lífi sínu með því að renna sér niður snjóskafl sem þá var í Bjarnargjá; ofan frá brún og niður í fjöru.  Þaðan lagðist hann til sunds og urðu menn víst ekki varir við hann á þeim slóðum síðan.  Bjarnargjá er annars fær brattgengum mönnum af brún og meira en hálfa leið niður, og þaðan er gengt í hlíðina Breiðavíkurmegin.

Bjart (l)  Getur þýtt dagsbirta eða betra veður.  „Það er bjartara veður í dag en í gær“.  „Það er nokkru bjartara norðuryfir“.

Bjart af degi (orðtak)  Komin dagsbirta; orðið morgunljóst.  „Við byrjum ekki á verkinu fyrr en bjart er orðið af degi“.

Bjart í lofti (orðtak)  Léttskýjað; ekki þungbúið.  „Það gerði létta rigningarskúr þó bjart væri í lofti“.

Bjart í veðri (orðtak)  Bjartviðri; ekki þungbúið; sést vel til allra átta.  „Nú er orðið bjart í veðri, svo við hljótum að koma auga á féð ef það er þarna frammi í dalnum“.

Bjart uppaf (orðtak)  Nægilega bjart af náttmyrkri eða dimmviðri til að sjáist til efstu fjalla; vel fjallabjart.  „Þokan hefur legið niðri í miðjum hlíðum í allan morgun en nú er orðið vel bjart uppaf“. 

Bjart yfir (orðtak)  Um veður; ekki þungbúið.  „Eitthvað er bjartara yfir núna en þegar við fórum inn“.

Bjartimorgunn (n, kk)  Bjart af degi.  „Það var komið fram á bjartamorgun þegar ég vaknaði“.

Bjartleitur (l)  A.  Um manneskju; björt yfirlitum; ljóshærð og ljós á hörund.  B.  Um veðurútlit; bjart yfir; ljóst.  „Hann er mikið bjartleitari í suðrinu núna en fyrir hádegið“.

Bjartsýni (n, kvk)  Það að vera vongóður/ hafa trú á því sem framundan er; léttlyndi.  „Manni eykst bjartsýni við svona fréttir“.

Bjartsýnismaður / Bjartsýnismanneskja (n, kk)  Bjartsýnn maður; bjartsýn kona/manneskja.

Bjartsýnishljóð / Bjartsýnistónn (n, hk/kk)  Um það þegar aukinnar vonar/bjartsýni gætir í því sem sagt er.  „Það er ekki mikið bjartsýnishljóð í bændum eftir þessar breytingar“.  „Einhver bjartsýnistónn var kominn í hann um árangurinn“.

Bjartsýnn (l)  Með góða/mikla tilfinningu fyrir; sannfærður; viss.  „Ég er bjartsýnn á að þetta takist“. 

Bjartur (l)  A.  Ljósleitur.  „Hann er fremur bjartur yfirlitum“.  „Þessar grásleppur eru óvanalega bjartar; þær eru trúlega nýgengnar“.  B.  Um veður; heiðskýr; eyddur.  „Ekki líst mér á hvað hann er orðinn bjartur í norðrinu; ætli hann fari ekki að þykkna upp fljótlega“.

Bjartur á (brún og) brá (orðtak)   Ljóshærður.

Bjartur til hafsins (orðtak)  Glenna/glampi/ljós/hreinn/eyddur til hafsins.  Norðanátt í aðsigi, sem lýsir sér fyrst með því að ský hverfa í norðri og heiðskír blettur sést fyrir Blakkinn, ofanvið hafsbrún.

Bjartviðri (n, hk)  Bjart í lofti; léttskýjað; sólskin.  „Hér hefur verið bjartviðri og ágætur þurrkur“.

Bjálfagangur / Bjálfaháttur / Bjálfaskapur / Bjánaskapur (n, kk)  Heimska; kjánaháttur.  „Skelfingar bjálfagangur er nú í honum“!  „Það er bjánaskapur að halda að þetta sé hægt“.

Bjálfalega (ao)  Aulalega; asnalega.  „Ósköp finnst mér þeir standa bjálfalega að þessu“!

Bjálfalegur (l)  Undarlegur; aulalegur.  „Ég hef verið dálítið bjálfalegur í hausnum í dag.  Ætli ég sé ekki kominn með þessa umgangspest“.

Bjálfast (s)  Aulast; fara/gera í tilgangsleysi.  „Því í ósköpunum varstu að bjálfast af stað í þessari ófærð“?

Bjálfi (n, kk)  A.  Skinn; einkum notað í seinni tíð um skinn sem flegið var af nýlega dauðu lambi og saumað tímabundið utanum annað lamb til að venja undir móður þess fyrrnefnda.  Virkaði vel.  B.  Líkingamál um kjána/aula/mann sem ekki þykir stíga í vitið.

Bjálki (n, kk)  Sver biti/staur/máttarviður/þverbiti. 

Bjánagangur / Bjánaskapur (n, kk)  Aulaháttur; fíflagangur; kjánaskapur.  „Hverskonar bjánagangur var í þeim að æða á sjó í svona veðurútliti“?!

Bjánaglott (n, hk)  Óviðeigandi/aulalegt bros.  „Það ætti að hverfa eitthvað af honum bjánaglottið þegar ég sýni honum þetta svart á hvítu“!

Bjánaháttur (n, kk)  Heimska; bjálfaháttur; aulagangur.  „Ekki skil ég svona bjánahátt“!

Bjánalega (ao)  Heimskulega; aulalega.  „Þetta hefði getað lánast ef hann hefði ekki farið svona bjánalega að“.

Bjánalegur (l)  Heimskulegur; aulalegur; asnalegur; kjánalegur. 

Bjáni (n, kk)  Kjáni; heimskingi; auli.  „Mikill andskotans bjáni getur maðurinn verið“!

Bjástra (s)  Baksa/bauka/basla við.  „Ég hef verið að bjástra við að hlaða upp skemmuvegginn“.

Bjástra/bögglast við (orðtak)  Brasa við; fást við með erfiðismunum; reyna.  „Ég hef verið að bögglast við að skilja þetta hrafnaspark hjá honum.  Maðurinn er varla skrifandi“!

Bjástur (n, hk)  Basl; bauk; bras.  „Maður er alveg uppgefinn eftir þetta bjástur í fjörunni með trjábolinn“.

Bjáta á (orðtak)  Ama að; valda vandræðum.  „Hvað bjátar á hjá þér, stúfur minn; hversvegna ertu að skæla“?  „Hún (Ólafía Magnúsdóttir) var líka léttlynd og létt á fótinn og hljóp á næstu bæi til að aðstoða ef þar bjátaði á varðandi veikindi eða annað“ (DÓ; Að vaka og vinna). 

Bjóð (n, hk)  A.  Boð; veisla.  „Hún hélt fjölmennt bjóð á sextugsafmælinu“.  B.  Bali af/undir fiskilínu.  „Það var beitt í bjóð í landi um kvöldið og vaknað tímanlega, venjulega klukkan fjögur til fimm“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  Líklegt er að uppruninn sé sá sami.  Þ.e. að bjóð hafi í upphafi merkt matarbakka sem borinn var fram.  Slíkur bakki hafi einnig/síðar verið nýttur undir beitta línu.

Bjóða (s)  A.  Rétta að einhverjum; hafa í boði.  Sjálfsögð kurteisi þykir, þegar manni er boðið eitthvað, hvort sem það er matur eða annað, að segja „gjörðu svo vel“.  B.  Skipa.  „Sýslumaður bauð Gísla að fara hið snarasta út að Naustabrekku... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Bjóða af sér góðan þokka (orðtak)  Vera viðkunnanlegur/aðlaðandi; sýna vinsemd. 

Bjóða fram (orðtak)  Hafa í boði; bjóða uppá.  „Hann bauð fram strákinn í smalamennskur í Breiðavíkinni“.

Bjóða (einhverjum) gull og græna skóga (orðtak)  Bjóða gylliboð; leggja fram girnilegra tilboð en staðið verður undir.  „Hann bauð mér gull og græna skóga ef ég vildi gera þetta“.

Bjóða hinn vangann (orðtak)  Vísar í biblíukenningu um reiðistjórnun:  „Ef einhver slær yður á vangann skuluð þér bjóða honum hinn vangann“.  „Ég held ég sé andskotann ekkert að bjóða þeim hinn vangann; þeir skulu fá að sjá eftir þessu“!

Bjóða í bæinn / Bjóða innfyrir (orðtak)  Bjóða gestum að koma í hús.  „Má ekki bjóða ykkur í bæinn“?

Bjóða í grun (orðtak)  Gruna.  „Mér býður í grun að hér búi eitthvað meira að baki“.

Bjóða í nefið (orðtak)  Bjóða neftóbak.  Fyrrum þótti það sjálfsagt vinarbragð og góð kurteisi af tóbaksmanni að bjóða nærstöddum í nefið.  „Sumir áður sem um Rósa síst var gefið/ blessa hann nú og bjóða í nefið“  (JR; Rósarímur). 

Bjóða (ekki) í það (orðtak)  Upphrópun eða áherslusetning.  „Það má þó þakka fyrir að það eru ekki kosningar nema fjórða hvert ár.  Ég byði ekki í það ef allur þessi frambjóðendasvermur væri að tefja menn árlega“!

Bjóða svo við að horfa (orðtak)  Þykja/finnast rétt; hafa löngun til.  „Það gengur auðvitað ekki að menn smali bara þegar þeim býður svo við að horfa“

Bjóða(einhverjum)  til borðs/bæjar/stofu (orðtök)  Bjóða einhverjum að setjast til borðs; bjóða einhverjum að ganga í bæinn; bjóða einhverjum að ganga til stofu.

Bjóða upp (orðtak)  A.  Halda uppboð og bjóða hlut eða annað þeim sem hæst verð býður.  B.  Um dans; biðja dömu/herra að dansa við sig.  „Hún hafði séð þá í huganum; laglegustu piltana í sveitinni, sem myndu bjóða henni upp; allir í einu…“  (Bragi Ó Thoroddsen; Lilja (blað Umf. Smára) jan 1938). 

Bjóða uppá (orðtak)  Hafa í boði; bjóða.  „Hún bauð okkur upp á kaffi og volgar kleinur“. 

Bjóða uppá skrínuna (orðtak)  Um formann í verum Útvíkna; bjóða gestum mat úr skrínukosti sínum.  „Í verstöðvum norðan Bjargs var skammturinn (sem vermaður fékk til mötu) hálfvættarkind yfir vertíðina; geld ær eða sauður.  Nokkuð af kjötinu var reykt en hitt saltað, og síðan stundum búin til kæfa úr hvoru tveggja.  Þar var algengt að formaður hefði með sér, auk kæfunnar, huppa bringukolla og síður, því að þegar gestir komu bauð hann uppá skrínuna, eins og það var kallað.  Einnig var venja hans að gefa hverjum háseta eitt hangikjötsrif; formannsrifið, eftir fyrsta róðurinn, þá er vel aflaðist.  Einnig kom það fyrir að formaður gæfi hásetum bita úr skrínu sinni, auk formannsrifsins, þegar þeir komu að landi dauðlerkaðir með punghlaðinn bát.  Slíkum formanni gekk oft betur en öðrum að fá háseta, og jók þetta á vinsældir hans“ (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh).

Bjóða við (orðtak)  Klígja við; verða flökurt af.  „Mér býður við lyktinni af þessum óþverra“.  Sjá viðbjóður.

Bjóðast (s)  Vera í boði.  „Ég þigg þessa aðstoð fyrst hún býðst“.

Bjóðast til (orðtak)  Vera reiðubúinn að gera.  „Hann bauðst til að færa okkur vöruúttektina í leiðinni“.

Bjór (n, kk)  A.  Skinn.  Hin algenga notkun orðsins í Kollsvík.  „Hann er ekki andlitsfríður og fremur dökkur á bjórinn“. „Ægisdætur áleitnar/ ýrum væta bjórinn./  Vindar tæta voðirnar;/ verða nætur langdregnar“  (JR; Rósarímur).  B.  Drykkur.  Lítt sem ekki notaður í Kollsvík.  C.  Stórt nagdýr sem ekki lifir á Íslandi.

Bjórflaska (n, kvk)  Flaska með/undan bjór.  „Gunnsi Öss kom með nokkrar bjórflöskur af ekta pilsner, sem framleiddur er í Plsen í Tékkóslóvakíu“.

Bjórgafl / Bjórþil (n, hk)  Hálfþil; hálfgafl; þríhyrnt þil í húsi, t.d. ofan hlaðinna veggja og dyra í gafli húss.  „Ég hlóð reykkofa uppúr gamalli sauðatóft í Ytragili, með bjórgafli beggja vegna“.  Bjór merkti að fornu þríhyrningslaga stykki; t.d. gafl í kænu.  Bjór merkti í upphafi e.t.v. fleygur sem barið er á, og orðstofninn því sá sami og að „berja“ og e.t.v. einnig „bor“.

Bjúga (n, hk)  Kjötpylsa; hluti af hinni gömlu íslensku matargerð til sveita.  Bjúgu voru búin þannig til að kindakjöt var fínsaxað/hakkað og kryddað; því troðið þétt í hreinsaða langa; saltað dálítið og hengt upp í reyk með öðru hangiketi.  Á síðari tímum var notað bjúgnaplast úr verslun í stað langa, og bjúgurnar urðu mun mjórri en áður tíðkaðist.

Bjúghnífur (n, kk)  Hnífur með blaði sem sveigt er mjög til hliðar, stundum í nær hálfhring, og notaður er til að tálga innanúr íhvolfum hlutum, s.s. skálum.  „Afi hafði útbúið sér forláta bjúghníf með því að sveigja og skefta brot af slitnum ljá.  Með hnífnum tálgaði hann fyrir okkur strákana forláta trébáta sem við fleyttum á tjörnum og pollum“ (VÖ).

Bjúghyrnd (l)  Um hornalag sauðfjár og nautgripa; hringbogið; hringhyrnd; kúphyrnd.

Bjúgnakrækir (n, kk)  Einn jólasveina í þjóðtrúnni.  Bjúgnakrækir var talinn sitja um að stela bjúgum og öðrum mat úr búri húsfreyju.  Varð þó fyrst alræmdur er hann missti vinnuna vegna tilkomu frystigeymslna.

Bjúgnefjaður (l)  Með áberandi bogið nef.

Bjúgur (n, kk)  Hvapkennd bólga sem stafar af söfnun vessa undir húð. 

Bjúgusneið (n, kk)  Sneið af bjúga.  „Settu nú tvær bjúgusneiðar á diskinn fyrir mig“.

Bjöllusauður (n, kk)  Kjáni; viðutan/hugsunarlaus maður.  „Skelfilegur bjöllusauður geturðu nú verið; hvernig í ósköpunum tókst þér að fara þessa langferð og gleyma aðalerindinu“?!

Björg í bú (orðtak)  Aðdrættir/tekjur/matur til heimilis.  „Við vorum nú báðir frá fátækum heimilum og þótti gott að fá björg í bú“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Bjögun (n, kvk)  Skrumskæling; úr lagi; rugl.  „Það er einhver bjögun í þessu útvarpi; ekkert nema suð“.  „Það er nú bara bjögun í þessum pólitíkusum að halda að hægt sé að hafa tekjur af þessum bakpokalýð“!

Björg (n, kvk)  A.  Hjálp; það sem bjargar.  „Hann var fastur og gat enga björg sér veitt“.  Sjá einnig matbjörg; lífsbjörg.  B.  Hlíf; hringur utanum gikk á byssu; fingurbjörg

Björg í búri (orðtak)  Það sem bætir úr skorti.  „Grásleppuveiðar reyndust mörgum drjúg björg í búri“.

Björgulega (ao)  Gæfulega; vel; álitlega.  „Það leit ekki björgulega út með hann um tíma, en hann reyndist furðu fljótur að jafna sig eftir veikindin“.

Björgulegur (l)  Álitlegur; lífvænlegur.  „Ekki er það björgulegt útlitið með berjasprettuna þetta árið“.  „Oft voru þannig tvö til þrjú þúsund steinbítar í einni hrýgju, og voru það allmyndarlegir og björgulegir hlaðar“  (PJ;  Barðstrendingabók). 

Björgun  Hjálp; það að bjargast/ komast af.  Fyrsta skráða björgun úr sjávarháska við Ísland varð líklega þegar Kollur landnámsmaður braut skip sitt við Arnarboða, undan Grundagrótum í Kollsvík.  Frá þessu greinir í Landnámabók.  Ekki er þar sagt nánar frá atvikum, að því frátöldu að Kollur varð landnámsmaður í Kollsvík og virðist hafa unað þar vel.

Björgunaraðgerðir (n, kvk, fto)  „Munu Kollsvíkingar hafa lagt sig í mikla hættu við þessar björgunaraðgerðir (þegar „Croupier“ strandaði)… “  (HÖ; Fjaran). 

Björgunarafrek (n, hk)  Þrekvirki manna sem unnið er við björgun annarra frá háska.  Eitt mesta björgunarafrek síðari tíma var unnið af Útvíknamönnum og fleiri heimamönnum í desember árið 1947, eftir að togarinn Dhoon strandaði við Langurðir undir Bæjarbjargi.  Öllum skipverjum nema þremur var bjargað með því að hópur björgunarmanna seig niður bjargið af Flaugarnefi; gekk eftir klakaðri fjörunni á strandstað; skaut línu yfir togarann; dró skipverja í land og var síðan dreginn ásamt þeim á brún.  Margt fleira sögulegt gerðist í leiðangrinum en þeirri sögu hafa víða verið gerð skil.  T.d. vann Óskar Gíslason í Kollsvík að töku myndar sinnar um björgunina, þegar Björgunarsveitin Bræðrabandið var aftur kölluð út; þá vegna strands togarans Sargons við Hafnarmúla.  Einnig þar var unnið björgunarafrek, þó ekki tækist að bjarga eins stórum hluta áhafnarinnar. 

Björgunarbátur (n, kk)  A.  Lítill bátur sem hafður er á stærra skipi, til að áhöfn geti bjargað sér á honum ef skipið sekkur.  „Björgunarbát úr vélskipinu Helga VE 333 rak Lambavatnsfjörur á Rauðasandi eftir að skipið fórst við Faxasker 7.janúar 1950“.  B.  Bátur í landi sem mannaður er til björgunar ef skipi hlekkist á.

Björgunarbelti / Björgunarvesti (n, hk)  Flotbúnaður sem sjómaður klæðist að ofanverðu til að hann eigi auðveldara með að haldast á floti ef slys verður.  Hefur í síðari tíð vikið fyrir flotbúningum.

Björgunarhringur (n, kk)  Hringur úr korki eða öðru léttu efni sem kasta má til manns sem fallið hefur í sjó.

Björgunarlaun (n, hk, fto)  Laun/viðurkenning fyrir að bjarga verðmætum eða lífi. 

Björgunarmaður (n, kk)  Sá sem bjargar öðrum.  „Í rauninni veit enginn hvernig björgunarmönnunum leið í fjörunni, nóttina sem þeir urðu að gista þar“  (Ólöf Hafliðadóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Björgvinjarverslunin (n, kvk)  Verslun Íslendinga við verslunarmiðstöðina Björvin (Bergen) í Noregi.  Helstu millilandaviðskipti Íslendinga á 13. og 14.öld, og líklega meginástæða þess að þjóðin játaðist undir vald Noregskóngs með Gamla sáttmála.  Þessi verslun byggði einkum á skreiðarútflutningi héðan, enda óx eftirspurn eftir skreið mjög mikið á þessum tíma og Björgvin var langstærsti skreiðarkaupstaður Evrópu.  Urðu Björgvinjarkaupmenn allsráðandi um verslun við Íslendinga allt framá ensku öldina.  Sigling þeirra til landsins jókst verulega uppúr 1340 og í lok þeirrar aldar sigldu iðulega 12 skip árlega, einkum á þær slóðir þar sem verstaða og skreiðarverkun hafði náð fótfestu.  Allar líkur benda til að útgerð og skreiðarverkun; með tilheyrandi útflutningi til Björgvinjar, hafi hafist mjög snemma í Kollsvík og öðrum Útvíkum vestra.  Til þess bendir m.a. það að á 14.öld er Láganúpur kominn í eigu Saurbæjarveldisins, en meginástæða þeirrar ásælni er vafalaust þær kjöraðstæður sem þar eru til verstöðu og skreiðarverkunar.  Firnamikil fiskbeinalög í Grundabökkum renna einnig stoðum undir þetta.  Björgvinjarverslunin hefur því verið mikilvægur þáttur í byggðasögu Kollsvíkur.

Björn (n, kk)  Bjarndýr.  T.d. ísbjörn.  Einnig mannsnafn.

Björninn unninn (orðtak)  Fyrirséð að viðfangsefnið klárist; verkefnið komið í höfn.  „Ef við náum að velta trénu uppfyrir stórgrýtið þarna, þá held ég að björninn sé unninn“. 

Blað (n, hk)  A.  Hvaðeina þunnt efni; t.d. hnífsblað; pappírsblað; laufblað; bókarblað; fjaðrarblað; krónublað; bikarblað; árarblað; rakblað; rekublað o.fl.  B.  Fárra blaða rit, stundum reglulega útgefið.  T.d dagblað; vikublað; flokksblað.

Blaða (s)  A.  Fletta.  Oftast í orðtakinu „blaða í“ einhverju.  B.  Festa blað á eitthvað.  T.d. blaða hníf.  C.  Skeyta saman tréstykki/bita/fjalir á þann hátt að taka fleðu úr hvoru stykki þannig að saman falli og líma, skrúfa eða negla blöðin saman.

Blað skilur bakka og egg (orðatiltæki)  Speki sem vísar til meðalhófsins, milli skerpu eggjarinnar og sljóleika bakkans á eggjárni.

Blaðgræna (n, kvk)  Grænt efni (clorophyll) í laufblöðum jurta sem gerir þeim fært að vinna sér næringarefni, s.s. kolvetni og prótín úr næringarsnauðum efnasamböndum s.s. vatni, og koltvísýringi.  Til þess notar blaðgrænan orku í formi ljóss.  Aukaafurð efnaferlisins er súrefni.  Ferlið er nefnt ljóstillífun og er einn mikilvægasti hlekkurinn í fæðukeðju og súrefnisöflun flestra vistkerfa.  Blaðgrænan nýtir einkum lengstu og stystu bylgjur ljóssins; þ.e. rauðar og bláar, en síst græna litinn sem þá endurkastast og veldur grænum lit gróðurs.

Blaðgull (n, hk)  Þynna úr gulli sem notuð er til að gylla bækur og fleira til skrauts.  Oft svo þunn að hún er nær gegnsæ og þarfnast varúðar í meðhöndlun.

Blaðka (n, kvk)  A.  Þynna; hlutur úr þunnu og sveigjanlegu efni.  B.  Blað/laufblað á plöntu.  Stundum notað um jurtina alla, einkum um horblöðku og um blöð hófsóleyjar.

Blaðlangur (l)  Um hníf; með löngu blaði.  „Hausunarsveðjan var blaðlöng og flugbeitt“.

Blaðlús (n, kvk)  Aphis; sníkjudýr sem iðulega leggst á plöntur og étur þá blöð þeirra.

Blaðlöm (n, kvk)  Löm með blöðum/flipum báðumegin við liðinn, og eru blöðin skrúfuð/negld á undirlagið.  Blaðlamir geta verið af margvíslegum stærðum og gerðum, og notaðar á t.d. hurðir, kassa, kistur, hlið o.fl.

Blaðpinni (n, kk)  Nýyrði Valdimars Össurarsonar; eitt af nokkrum sem nauðsyn hefur reynst á, vegna fyrstu þróunar sjávarfallahverfla á Íslandi.  Blaðpinni merkir tein/pinna/ás sem gengur því sem næst hornrétt út frá meginási hverfilsins, en á blaðpinnanum leikur blaðið þegar það opnast og lokast í straumnum til að fanga orku straumþungans.  Margir blaðpinnar geta verið á sama meginás; tærð þeirra, lögun og halli getur verið með ýmsu móti; sem og festing blaðsins við þá“ (VÖ).

Blaðra (n, kvk)  A.  Belgur úr þunnu efni.  B.  Stytting á hlandblaðra.  „Ég skrapp frá til að létta á blöðrunni“.

Blaðra (s)  Tala mikið og samfellt án mikils tilefnis eða innihalds; rausa; bulla.  „Ég tek nú lítið mark á því sem hann er að blaðra um þetta“!

Blaðran springur (orðtak)  Mælirinn verður fullur; maður fær nóg.  „Loks kom að því að blaðran sprakk og hann sagði sína meiningu hreint út“.  Líking við að dæla of miklu lofti í blöðru/belg.

Blaðrari (n, kk)  Sá sem blaðrar/bullar/rausar.

Blaðsalat (n, hk)  Salatkál sem vex í stök blöð en ekki í haus eins og höfuðsalat.  „Þegar ég var svona á táningsárunum þá var farið að rækta höfuðsalat og blaðsalat og þá var það oft borðað eintómt með rjóma og sykri“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).

Blaðsíða (n, kvk)  Hlið á blaði.  „Ég las þetta af áhuga; alveg til síðustu blaðsíðu“.

Blaðskella (s)  A.  Skella árablaði í sjóinn svo greinilega heyrist; róa með látum/atgangi.  B.  Líkingamál um það að fara um með fyrirgangi/látum; um það að ana/ flýta sér.  „Hvert ert þú núna að blaðskella“?

Blaðskellandi (s)  Fara um með fyrirgangi; koma óvænt  „Hann kom hérna blaðskellandi án þess að gera boð á undan sér“.  Upprunaleg merking er þegar ræðari skellir árablaðinu í sjóinn með látum.

Blaðskeyta (s)  Setja saman með blaðskeytingu; blaða saman.

Blaðskeyting (n, kvk)  Aðferð við samsetningu stykkja í timbursmíði, enda í enda.  T.d. er u byrðingsborð í báti ýmist blaðskeytt eða stúfskeytt.  Borð sem á að blaðskeyta eru þynnt út í nánast ekkert í enda á annarri flathliðinni; sniðin lögð saman og negld.  Samskeytin eru stundum styrkt með klampa.

Blaðsnepill (n, kk)  A.  Lítil afrifa af blaði; blaðsnifsi.  B.  Niðrandi heiti á dagblaði/vikublaði eða öðru riti.

Blaðsnifsi (n, hk)  Lítil afrifa af blaði; blaðsnepill.

Blaðstoppari (n, kk)  Sá hluti sjávarfallahverfils sem gegnir því hlutverki að stöðva snúning blaðsins um blaðpinnann, þegar blaðið er komið í opna stöðu.  Orðið er nýyrði, tekið upp af Valdimar Össurarsyni vegna þróunar fyrstu íslensku hverflanna sem ætlaðir eru til nýtingar sjávarfallaorku.  Í einkaleyfalýsingum og öðru máli er orðið stundum stytt í „stoppari“.

Blaðstýft / Blaðstýfing / Blaðstúfur (l/ n, kvk/kk)  Sauðfjármark.  Hálf stýfing; tekin rifa inní eyrað og ofan í broddinn, þannig að biti fer úr og skurðurinn myndar rétt horn.  Blaðstýfing er ýmist aftan eða framan á eyra.

Blaður (n, hk)  Málæði; raus; bull; þvaður; samfellt tal án mikils innihalds.  „Ég þoli illa svona blaður“!

Blaðurskjóða (n, kvk)  Málgefin manneskja; orðabelgur;bullari.  „Hún er stundum óttaleg blaðurskjóða“!

Blak (n, hk) A.  Það að veifa/blaka t.d. sporði eða væng.  B.  Högg.  Þekkist helst á síðari tímum í samsetningunni að bera blak af; sjá þar.

Blaka (n, kvk)  A.  Sporðstykki á lúðu.  „Kviðarstykkið var kallað vaðhorn en sprorðstykkið blaka“  (PJ;  Barðstrendingabók).  B.  Viðliður orða, s.s. súrblaka; leðurblaka.

Blaka (s)  A.  Hreyfast hægt upp og niður eða til hliðanna á víxl.  Einkum notað um hreyfingar vængja þegar fugl flýgur eða þegar fiskur slær til sporði.  B.  Slá; lemja.  Sjá blaka við.

Blaka við (einhverjum) (orðtak)  Slá/lemja einhvern.  „Hann var orðinn fullur og farinn að blaka við gestum“.

Blakkferð / Breiðsferð (n, kvk)  Eggjaferð/eggjaleiðangur í Blakk/Breið.  „Við stefnum að Blakkferð á laugardaginn“.  „Háfurinn er úti á brún, frá síðustu Breiðsferð“.

Blakkleitur (l)  Dökkur yfirlitum.  „Ansi er maður blakkleitur eftir þessa moldarvinnu“.

Blakkur (n, kk, sérn)  Nafn á formfögrum og svipmiklum múla milli Kollsvíkur og Patreksfjarðar.  Hann hét Straumnes allt þar til breskir togarasjómenn fóru að venja komur sínar á miðin fraundan, líklega eftir aldamótin 1900.  Þar sem fjallið er sérkennilega dökkt yfirlitum, séð frá hafi og í samanburði við ljósa Sandahlíð Núpsins, þótti þeim við hæfi að kalla það „Black Ness“  sem síðan var tekið upp af Íslendingum sem Blakknes; oft stytt í Blakkur.

Blakkur (l)  Dökkur að lit.  „Legnar grásleppur eru mun blakkari en þær sem eru nýgengnar“.

Blakkur á lagðinn (orðtak)  Um saufé; dökkt af skít/móstu eftir mikla inniveru.  Sjá klepraður af skít. „Gemlingarnir voru blakkir á lagðinn eftir innistöðuna“.

Blakta (s)  Sveiflast/slást til, t.d. í vindi.  „Fáninn blakti tignarlega við hún“.

Blaktandi skar (orðtak)  Líkingamál um þann sem orðinn er veiklulegur/ósjálfbjarga vegna veikinda eða elli.  „Hann er orðinn hálfgert blaktandi skar í seinni tíð“.  Líking við skar á kerti, en það er sá kolaði hluti kveiksins sem stendur uppúr vaxinu og er mjög brothætt.

Blaktir ekki hár á höfði (orðtak) Hreyfist ekkert fyrir vindi; logn „Það var blankalogn og blakti ekki hár á höfði“.

Blammera (s)  Tala niðrandi um; lítilsvirða.  „Það er óþarfi að blammera hann fyrir þessi mistök“.  Enskusletta; „blame“. 

Blammeringar (n, kvk, fto)  Svívirðingar; niðrandi ummæli; ákúrur.  „Maður getur nú ekki vel setið þegjandi undir svona blammeringum; alveg sárasaklaus“!

Bland (n, hk) A.   Blanda; sambland; hræringur.  Oft notað um mjólk sem þynnt er með vatni, t.d. til að gefa stálpuðum kálfum.  Sjá hinsvegar beggja blands og í bland við.

Blanda (n, kvk)  A.  Almennt um efni sem gert er með blöndun tvegja eða fleiri efna.  B.  Þynnt sýra/skyrmysa sem tekin er með í ferðalög og róðra sem svaladrykkur við þorsta; drukkur; blöndudrukkur.

Blanda (s)  Hræra; mixa; grauta.  „Þú mátt ekki blanda nýjum hrognum saman við hrognin frá í gær“!

Blanda geði við (orðtak)  Eiga samskipti við; tala við; deila hugmyndum/skoðunum. 

Blanda sér í (orðtak)  Hafa afskipti af; skipta sér af; taka þátt í.  „Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu…“  (PG; Veðmálið). 

Blandast hugur um (orðtak)  Vera í vafa um.  „Engum blandaðist hugur um að hér var alvara á ferðum“.

Blandin ánægja/gleði (orðtak)  Tregafull ánægja/gleði; ekki sönn/einlæg ánægja gleði vegna málefnis sem á skyggir“.

Blanka (s)  Glampa; blika; speglast.  „Ofan úr Dalbrekkum blankaði á vötnin í Vatnadalnum“.

Blankalogn (n, hk)  Blankandi logn (orðtak)  Algert logn og blíða.  „Það er bara dottið á blankalogn“.

Blankheit (n, hk, fto)  Fátækt; peningaleysi.  „Það þýðir ekkert að hugsa um svona lagað í þessum blankheitum“.

Blankskór (n, kk, fto)  Spariskór; glansandi, svartir skór.  „Farðu varlega hér í forinni á blankskónum“.

Blankur (l)  A.  Fátækur; allslaus; peningalaus.  „Hann sagðist vera ósköp blankur þessa stundina“.  B.  Í spilum; renus; uppiskroppa með litaröð.  „Ég er orðinn alveg blankur í laufi“.

Blasa við (orðtak)  Vera augljóst.  „Þegar búið er að kippa grundvellinum undan afurðaverðinu þá blasir það við að byggðin er fljót að eyðast“.  „Biskupsþúfan blasir við/ með blessað gullið falið./  Henni að hreyfa og ýta við/ óráðlegt var talið“ (JHJ; Vísur úr Kollsvík). 

Blauður (l)  Huglaus; ragur.  „Ég er ekki svo blauður að ég hræðist glorraganginn í þeim þrjóti“!

Blautfiskur (n, kk)  Matfiskur sem ekki er þurrkaður og hefur ekki verið frystur; nýr og saltaður fiskur.

Blautlegur  (l)  A.  Um veðurlag; rigning; vætusamt; vott.  „Hann er búinn að vera fjári blautlegur í tíðinni“.  Virðist ekki hafa verið notað í þessari merkingu annarsstaðar.  B.  Klámfenginn (algeng merking)

Blautlegar vísur / Blautlegur kveðskapur (orðtök)  Klámvísur; tvíræður kveðskapur.

Blautt á (orðtak)  Gras orðið blautt.  „Það er þýðingarlaust að rifja þegar er orðið rennblautt á.  Við byrjum ekki fyrr en þornar af aftur“.

Blautt um (orðtak)  Blautt að fara/ganga um.  A.  Bleyta á jörð vegna áfalls eða rigninga.  „Vertu í stígvélum; það er blautt um eftir rigninguna“.  B.  Um tún/jarðveg; mýrlent/gljúpt yfirferðar.  „Það þýðir ekkert að fara með vél á sléttuna meðan enn er svona blautt um“.

Blautur (l)  A.  Votur; dreyptur vökva.  „Farðu í hlífar svo þú verðir ekki blautur“!  B.  Ölkær; mikið fyrir áfengi.

Blautur fiskur / Blautfiskur / Blautverkaður fiskur  (orðtak/ n, kk)  Saltfiskur sem ekki er þurrkaður eftir söltun, heldur geymdur í sínum pækli að miklu leyti.  „Árið 1919 var fiskur í afar háu verði.  Keypti félagið þá allmikið af blautum fiski, og þar sem ekki vannst tími til að verka hann allan“  (ÍÍ; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Blautur inn að beini/skinni (orðtak)  Gegnblautur; öll föt rennandi blaut.   „Hann setti yfir okkur slíka rigningarskulfu að við urðum blautir inn að beini“.

Blautur/votur í fæturna (orðtak)  Fótblautur.  „Ég er blautur í fæturna eftir að fara um mýrina á strigaskóm“.

Blautur upp í klof/mitti / Blautur uppundir hendur (orðtök)  „Það þótti ekki sérstakt tiltökumál þó að flestir sem unnu að uppskipun við þessar aðstæður kæmu frá því blautir upp í mitti eða undir hendur“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Blautt/rakt í rót (orðtök)  Um gras; ekki þurrt nema ofantil.  „Hann er að þorna af; en það er enn blautt í rót“.

Bláalvara (n, kvk)  Mikil alvara; að öllu gamni slepptu.  „Honum var bláalvara með þetta“.

Bláber / Bláberjalyng (n, hk)  Ber/lyng af ættkvíslinni Vaccinae, blá að lit og nokkuð algeng í mólendi víða um land; þar á meðal í landi Kollsvíkur.  Bláberjaspretta er misjöfn milli ára en vanalega má finna nokkuð af þeim, t.d. í Stóravatnsbrekkum í Vatnadal; í Keldeyradal og víðar  Þau voru nokkuð tínd, og etin ný ein sér; með skyri eða með rjóma.  Sum árin voru þau fryst í sykurlegi til vetrarins, eftir að möguleiki varð á því.  Þá voru þau tekin fram og snædd hálfþýdd með rjóma.  Ásamt venjulegum bláberjum vaxa aðalbláber, Vaccinium myrtillus á svipuðum slóðum.  Þau eru sýndarmun minni og mun dekkri; lyngið ljósara.  Bragð þeirra er nokkuð frábrugðið og þau þola betur hnjask.

Bláberjaskyr (n, hk)  Skyr með bláberjum útá; oft einnig rjómablandi.

Blábjáni (n, kk)  Fábjáni; vitleysingur; auli.  „Hverskonar blábjáni getur maðurinn eiginlega verið“!

Blábroddur / Bláoddur (orðtak)  Ysti broddur; ysti hluti á oddhvössum hlut.

Blábrún / Blánibba (n, kvk)  Fremst á klettabrún.  Stundum borið fram og ritað í tvennu lagi.  „Þarna á blábrúninni (á Strengberginu) er mjög gamalt skothús sem notað var til skamms tíma“.  (IG; Sagt til vegar).  Sjá blákantur.

Blábuna (n, kvk)  A.  Fyrsta buna úr spena þegar kú er mjólkuð.  Mjólkin í henni getur verið varasöm og staðin, og því er henni yfirleitt beint fremur í flórinn en mjaltafötuna þegar handmjólkað er.  B.  Fyrsta bunan úr kaffikönnu eftir uppáhellingu.  Ekki þótti viðeigandi að bjóða hana gestum. 

Bláendi (n, kk)  Ysti/naumasti endi.  „Það var lítil veiði í þennan streng; og allt í bláendann á honum“.

Bláeygður / Bláeygur (l)  A.  Með blá augu.  B.  Grunnhyggin; hrekklaus; barnalegur.  „Skelfing ertu bláeygur á þetta“!

Bláfátækt (n, kvk)  Allsleysi; neyð; örbirgð. 

Bláfátækur (l)  Eignalaus; örsnauður

Bláfátækur barnamaður (orðtak)  Fátækur maður með börn á framfæri.  Oftast notað sem líking um þann sem er fjárvana.  „Ég vorkenndi honum, bláfátækum barnamanninum, og lánaði honum þetta um stundarsakir“.

Bláfjara (n, kvk)  Háfjara; mesta fjara áður en fer að falla að.  Fremur var talað um háfjöru í Kollsvík.

Blágómur (n, kk)  Fremsti hluti fingurs.  „Ég náði upp á brúnna fyrir ofan með blágómunum og með smá príli tókst mér að ná þar öruggri festu“.

Blágrár (l)  Litur sem er millistig af bláu og gráu. 

Blágresi (n, hk)  Geranium sylvaticum.  Litunargras; sortugras; blómplanta sem algeng er um landið; sést víða í Kollsvíkurlöndum; einkum í grónum snjóþungum brekkum móti suðri.  Með áberandi stórum fimmdeildum fjólubláum blómum.  Blágresi var notað til lækninga, enda inniheldur það óvanalega mikið af barkandi tanníni.  Var jurtin lögð við blæðandi sár til að stöðva blóðrás, en einnig til inntöku við mörgum meltingarkvillum og sem munnskol við sýkingu í munni.  Þá var það notað til litunar og gefur svartan lit.

Blágrýti (n, hk)  Basalt; algeng tegund storkubergs, og sú tegund sem myndar að mestu þann hluta berggrunns landsins sem mótaðist á tertíer tímabilinu.  Blágrýti er þvi uppistaða berggrunns Kollsvíkur og flestra annarra hluta Vestfjarða.  Storkuberg er annarsvegar flokkað eftir innihaldi kísilsýru og hinsvegar eftir kristalstærð; þ.e. storknunarhraða/myndunarstað.  Blágrýti er basískt berg sem storknað hefur tiltölulega hratt; þ.e. á yfirborði jarðar í hraunrennsli.   Kornastærð basalts/blágrýtis getur hinsvegar verið nokkuð mismunandi; allt frá því að vera gljáandi basaltgler uppí það að vera smákornótt grágrýti.  Algengast í Kollsvík og víðar er steingrátt eða jafnvel blásvart blágrýti.  Blágrýtið í berggrunni Kollsvíkur er með rauðleitum millilögum af glerjaðri örku og jafnvel jarðvegsleifum, sem ber vitni um að jarðlagastaflinn hefur hlaðist upp með goshléum fyrir um 16 milljónum ára.  Staflinn er víða skorinn af lóðréttum berggöngum með yngra sprungubergi, sem oftast er annarrar gerðar, bæði að samsetningu, hörku og kornastærð. 

Blágrænn (l)  Litur sem er millistig af bláu og grænu.

Bláhorn (n, hk)  Ysta horn.  „Það er erfitt að slá með sláttuvél út í bláhornin á sléttunum“.

Bláhrafn (n, kk)  Corvus frugilegus.  Hrafnategund sem stundum flækist til landsins.  Hefur sést í Kollsvík.

Bláhvirfill (n, kk)  Efst á hvirfli/höfði.  „Ég hef náð að hrufla mig á bláhvirflinum þegar ég gekk fyrir nefið“.

Bláhvítur (l)  Litur sem er millistig af hvítu og bláu; mjög ljósblár.  „Geldmjólk verður gjarnan bláhvít að lit“.

Bláhvítalogn (n, hk)  Staflogn; kjör; stilla; hvítalogn.  „Seint um kvöldið lögðum við af stað frá Patró og fengum bláhvítalogn alla leið í Kollsvík“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).

Blákaldur (l)  Hiklaus; óvæginn; sannur.  „Hann hélt þessu blákalt fram“.  Sjá ljúga blákalt.

Blákaldur sannleikur / Bláköld staðreynd (orðtök)  Raunveruleiki; óvægin staðreynd.  „Kannski hefði ég bara ekkert átt að fegra þetta, heldur segja henn blákaldan sannleikann“.

Blákantur (n, kk)  Mjög tæpt á kanti (t.d. vegkanti).  „Honum var illa við að fara bílförin þar sem þau lágu á blákantinum“.  Sjá blábrún.

Bláköld lygi (orðtak)  Algjör/samviskulaus lygi.  „Þetta getur ekki verið annað en bláköld lygi“!

Blálandskeisari (n, kk)  Ein margra kartöflutegunda sem ræktaðar voru í Kollsvík.  Aðrar voru t.d. gullauga, rauðar íslenskar, helga, Látrakartöflur, premíer, möndlukartöflur, bintje, bláar íslenskar og blálandsdrottning.  Blálandskeisari er flöt og aflöng kartafla; fjólublá á hýði og með blárri rönd innaní.

Blálanga (n, kvk)  Molva dypterykia.  Fiskur af þorskaætt, sem finnst allt í kringum landið, einkum í djúpsjó.

Bláliggjandi (n, kk)  Háliggjandi; blásnúningur; tíminn sem fallaskipti standa á sjó.  „Hann gaf sig lítillega til um bláliggjandann“.

Bláma (s)  Móa; sjást móta/lýsa fyrir.  „Aðeins er farið að bláma fyrir þúfnakollum eftir hlýindin“.

Blámi (n, kk)  A.  Svell; svellbunki.  „Neðra sniðið var einn samfelldur blámi og algjörlega ófært keðjulaust“.  B.  Heiður himinn.  „Aðeins er farinn að sjást blámi í austrinu“.

Blána (s)  Verða blár.  „Hann tók á af öllum sínum lífs og sálar kröftum, þar til hann fór að blána í framan“.

Blánótt (n, kvk)  Miðhluti nætur; gæluheiti um nótt.  „Féð liggur bara við opið og fer ekki inn nema rétt yfir blánóttina“.  „Ég gisti þarna yfir blánóttina en hélt svo áfram í rauðabítið“.

Blár (n, kk)  Fjarski; fjarstæða; himinn/haf sem er langt í burtu.  „Hann horfði bara út í bláinn en svaraði engu“.  Sjá einnig svara út í bláinn.

Blár (l)  A.  Litur.  B.  Heimskur; einfaldur; skilningslaus.  „Ég er ekki svo blár að ég viti þetta ekki“!

Blár af kulda (orðtak)  Um manneskju; svo kalt að húðin er byrjuð að blána.  „Farðu nú í eitthvað hlýrra drengur; þú ert orðinn blár af kulda“.

Blár og blóðugur / Blár og marinn (orðtök)  Illa til reika; meiddur.  „Ég var allur blár og blóðugur eftir fallið“.

Blárefur (n, kk)  Undirtegund/litarafbrigði tófu/refs/fjallarefs (vulpes lagopus), dregur nafn af bláleitum feldi.

Blása (s)  A.  Vera með vindi.  „Ég man ekki hve marga daga stormurinn blés linnulaust...“  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Anda heyranlega.  „Hann kom síðastur upp á brekkubrúnina og blés þungan“.

Blása af (orðak)  A.  Um þurrk; þorna af; verða þurrt á jörð í þurrum vindi.  „Það blæs fljótt af í þessari golu“.  B.  Um snjó; festir ekki á jörð heldur fýkur af og hleðst annarsstaðar í skafla.  „Hann hafði alveg blásið af í Jökladalshæðinni“.  C.  Um vind úr tiltekinni átt:  „Hann er farinn að blása dálítið af austri“.

Blása á móti (orðtak)  A.  Um vind; standa framan á göngumann.  B.  Líkingamál um að lenda í andstreymi.  „Það þýðir ekkert að gefast upp þó móti blási“.

Blása (ekki) byrlega (orðtak)  A.  Eiginleg merking; gott leiði til siglinga.  B.  Um velgengni.  „Það blæs ekki byrlega fyrir þeim núna; hún kasólétt og hann svona veikur“.  „Það blés ekki byrlega fyrir starfseminni í upphafi“.

Blása ekki úr nös (orðtak)  Vera ekki móður; láta ekki sjá á sér þreytumerki.  „Hann lét sig ekki muna um að hlaupa lambið uppi, og blés ekki úr nös á eftir“!  „Ég henti pokunum upp á vagninn án þess að blása úr nös“.

Blása í gaupnir sér ( Blása (sér) í kaun (orðtak)  Aðferð til að koma örlítilli hlýju í kaldar hendur; þá eru lófarnir lagðir kúptir saman, þannig að rifa er á milli þumalfingra; og síðan blásið hlýjum andardrætti inn í holið.  „Er þér kalt vinur?  Prófaðu að taka af þér vettlingana og blása þér örlítið í kaun; það getur hjálpað aðeins“.

Blása til… (orðtak)  Efna til; boða til.  „Blásið var til fundar um málið“.  „Í þessu tilefni var blásið til veislu“.  Sennilega líking við það að lúðrar séu þeyttir þegar lagt er til orrustu.

Blása upp (orðtak)  A.  Hvessa; auka vind.  „Nú er hann eitthvað að byrja að blása upp“.  B.  Um jarðvegseyðingu svæðis; vindur rífur upp jarðveg og þeytir honum burt.  Stýrir oftast þolfalli í máli Útvíknamanna:  „Hann taldi sig sjá örugg merki þess að fit þessa væri tvisvar búið að blása upp til agna...“ (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).  „Melinn er nú að blása hraðar upp en verið hefur“.  Einnig „blásast upp“ í sömu merkingu.  C.  Um belg/blöðru; þenja út með lofti.  D.  Gera meira úr málefni en tilefni er til.  „Andskotans íhaldið er búið að blása þetta kjaftæði upp; algerlega að tilefnislausu“!

Blása úr eggjum  (orðtak)  Blása innihaldi úr eggjum til að unnt sé að geyma þau, t.d. í eggjasafni.  Gert er sitt nálargatið á hvorn enda eggsins og innihaldinu blásið úr.

Blása út sólir (orðtak)  Gera rosabaug um sól; gíll eða/og úlfur sjást nærri sólu.  Sjá blæs út sólir.

Blása (við) þungan (orðtak)  Andvarpa; gefa frá sér blástur/stunu.  „Þórður blés þungan og var djúpt hugsi“.

Blásaklaus (l)  Alveg saklaus; hafður fyrir rangri sök.  „Það þýðir ekkert að skamma mig; ég er blásaklaus“.

Blásandi byr (orðtak)  Góður meðbyr.  „Þeir fengu blásandi byr norður yfir Flóann“.

Blásandi fjara / Blásandi stórstraumsfjara (orðtak)  Mjög stór stórstraumsfjara (áhersluauki).  „Það var blásandi stórstraumsfjara þegar við komum að, svo við renndum fyrir fisk á Bótinni meðan við biðum eftir að þægilegar yrði að setja bátinn“.

Blásarareim (n, kvk)  Kílreim sem færir afl yfir á blásara frá vél eða rafmótor. 

Blásaraskúr (n, kk)  Skúr sem hýsir súgþurrkunarblásara.

Blásarastokkur (n, kk)  Steyptur stokkur sem lofti er blásið um; hluti af súgþurrkunarkerfi í hlöðu.

Blásari (n, kk)  Tæki sem blæs lofti og í sumum tilfellum föstu efni með.  T.d. hitablásari, hárblásari, gnýblásari, snjóblásari, súgþurrkunarblásari.

Blásaumur (n, kk)  Smágerður járnsaumur (nagli) með flötum haus, oft bláleitur að lit. 

Bláskel (n, kvk)  Annað heiti á kræklingi.

Blásnauður (l)  Bláfátækur.

Blásnúningur (n, kk)  Háliggjandi; fallaskipti; stuttur tíma straumleysu meðan skiptir falli.

Blásteinn / Blásteinslútur (n, kk)  Koparsúlfíð sem notað var til litunar á skinni.  Sjá gæra.  „Skinnin sem notuð voru til skinnklæðagerðar voru misjafnlega undirbúin.  Sum voru blásteinslituð, og þótti það verja fúa“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Gærur sem nota átti í sjóklæði voru rakaðar með flugbeittum hníf; síðan lagðar í blásteinslút.  Blásteinn var fluttur inn í föstu formi, en síðan leystur upp með vatni og notaður sem rotvarnarefni“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Blástur (n, kk)  A.  Vindur; hvassviðri.  „Það er kominn bara þó nokkur blástur“.  B.  Þungur andardráttur; más.  C.  Gufumökkur á hafi sem stafar af andardrætti hvals.  D.  Uppblástur lands; landeyðing.

Blásturjárn (n, hk)  Járn sem unnið er með rauðablæstri.  Einar í Kollsvík stundaði rauðablástur með hinni gömlu aðferð, síðastur Íslendinga, en aðferðin lagðist almennt niður á 15.öld þegar erlent járn fór að flytjast.  Um árið 1100 var járn flokkað í þrjár gæðategundir.  Blásturjárn var ódýrast; kostaði 5 aura vættin (34,3 kg); fellujárn kostaði 6 aura en teint járn var metfé; verð á því fór eftir samkomulagi.  Talið er að fellujárn hafi verið tvíbrætt járn, og því mun hreinna en blásturjárn.  Teint járn hefur sennilega verið stál það sem notað var í t.d. sverðasmíði.

Blásýra (n, kvk)  Vetnissýaníð; rokgjarn, litlaus og baneitraður vökvi.  Sölt af henni nefnast sýaníð.  Örlítið magn blásýru getur dreið mann á fáum mínútum.  Blásýra verður m.a. til við bruna hefðbundinnar einangrunar úr frauðplasti, og því er hún víða bönnuð í byggingum. 

Blátt áfram (orðtak)  A.  Notað til áherslu; alveg; algerlega.  „Þetta er blátt áfram bannað“!  „Hún roðnaði blátt áfram niður á háls“  (Bragi Ó Thoroddsen; Lilja (blað Umf. Smára) jan 1938).  B.  Í seinni tíð er orðið notað um persónu sem er venjuleg/alþýðleg eða hreinskilin. 

Blátungubroddur (n, kk)  Fremsti oddur tungunnar þegar hún er rekinn út úr munni.  „Ég þorði ekki að smakka á þessu, en rak í það blátungubroddinn“.

Blátær (l)  lveg tær; kristaltær.  „Ætlar þú ekkert að drekka nema blátært vatn“?

Blátær sannleikur (orðtak)  Alveg satt; dagsatt.  „Þetta sagði hún að væri blátær sannleikur“.

Blátært vatn (orðtak)  Hreint vatn; einungis vatn.  „Mér finnst það lélegar veitingar ef þú vilt ekkert þiggja nema blátært vatn“.

Blávatn (n, hk)  A.  Blátært vatn; hreint vatn.  B.  Lydda; aumingi.  „Hann sýndi það með þessu afreki að hann er alls ekkert blávatn, drengurinn“.

Bláþráður (n, kk)  Hárgrannur þráður.  „Ég áttaði mig á því eftirá að líklega hékk líf mitt þá á bláþræði“.

Bláæð (n, kvk)  Æð í líkamanum sem flytur blóðið aftur til hjartans.

Bleðill (n, kk)  Lítið klæði; lítið blað.  „Ég skrifaði heimilisfang og símanúmer á einhvern bleðil, en skammi sú ögnin að ég finni það nokkursstaðar núna“.

Bleiða (n, kvk)  Afmarkaður sandblettur á hafsbotni.  Stærri sandfláki á botni nefnist gljá.

Bleik brugðið (orðtak)  Oftast í myndunum „þá var/ nú er bleik brugðið“. Um það þegar einhverjum verður mikið um eitthvað.  „Nú þykir mér beik brugðið ef hann er orðinn sáttur við ruglið í íhaldinu“!  Orðið „bleikur“ er augljóslega rímorð, en vísar einnig til þess að maður náfölni þegar honum bregður/ hann bliknar.  Sjá nú er Bleik brugðið.

Bleikálóttur (l)  Litur á hesti; dökkbleikur á bol með næstum svarta mön í faxi, en fætur og hófar dökkir.

Bleiking (n, hk)  Það að bleikja.

Bleikja (n, kvk)  Salveninus alpinus.  Laxfiskur sem lifir bæði í vörnum og sjó.  Verður allt að 12 kíló að þyngd.  Góður matfiskur.  Tvennskonar bleikja hefur fyrirundist í Kollsvík.  Annarsvegar smávaxin bleikja í ám, lækjum og skurðum; svonefndar bröndur (fyrrum brandkóð).  Hinsvegar stór bleikja sem sleppt var í vötn sem seiðum á 8.áratug 20.aldar; upprunnin úr Þingvallavatni.  Hún dafnaði vel í Stóravatni en fjölgaði sér ekki.  Sleppingar í Litlavatni og Kjóavatni skiluðu ekki árangri.

Bleikja (s)  Gera hvítt; hvítna; lýsast.  „Léreftið var lagt í klór til að bleikja það“.  Stofnskylt blikna.

Bleikur (l)  Litur; ljósrauður.  „Afi hafði illan bifur á glámhvítu fé og vildi helst ekki sjá það í sínum fjárstofni.  Taldi hann að hinar bleiku granir gerðu féð viðkvæmara og síður fært um að bjarga sér á útibeit“.

Blek (n, hk)  Lögur af sterkum lit, notaður til skrifta.  Fyrrum var allt blek heimaunnið, einkum úr sortulyngi.  Þá voru blöðin soðin lengi í vatni, en sútunarsýran í þeim gengur í samband við bókfellið sem ritað var á.  Síðar fluttist erlent blek til landsins ásamt lindarpennum og síðar kúlupennum.

Blekaður (l)  Ölvaður; fullur.  „Hann var orðinn ansvíti blekaður þegar hann fór heim af ballinu“.

Blekbytta (n, kvk)  Lítil, flöt krukka með bleki fyrir blekpenna/lindarpenna.  Fyrir daga kúlupennans voru blekbytta, blekpenni og þerripappír þarfaþing á hverju heimili.

Blekpenni (n, kk)  Sjálfblekungur; lindarpenni; penni sem fylla þarf með fljótandi bleki og með málmfjöður fremst, sem ritað er með.

Blekpúði (n, kk)  Lítill púði í dós, sem notaður er til að fá blek á stimpil áður en stimplað er með honum.  „Meðan Össur á Láganúpi gegndi starfi oddvita var stimpill hreppsins vandlega geymdur í læstri skúffu ásamt blekpúðanum“.

Blekking (n, kvk) Svik; tálar; það að villa um fyrir einhverjum.  „Sumir trúðu á þetta en ég sá strax að þetta voru tómar blekkingar“.

Blekkja (s)  Villa um fyrir einhverjum; svíkja; tæla.  „Láttu ekki litinn blekkja þig; þessi kind er kolmórauð þó hún sýnist golsótt þegar hún er í reyfinu“.

Bleksterkt kaffi (orðtak)  Mjög sterkt kaffi.  „Ekki veit ég hvort svona bleksterkt kaffi er hollt, en gott er það“.

Blekugur (l)  Ataður bleki.  „Strákurinn hafði komist í pennan og var allur blekugur um munninn“.

Blendingur (n, kk)  Sambland; hræringur; hrærigrautur.  „Tíkin var blendingur af íslenskum og skoskum fjárhundi“.

Blesa (n, kvk)  Ljós blettur í dekkra umhverfi.  Oft notað um ljósan blett á snoppu/enni hests, en einnig fleira.  „Þú ert með einhverja dökka blesu á kinninni“.

Blesmæltur (l)  Blestur í máli; smámæltur; getur ekki sagt „s“.  „Hann var stórgáfaður, en áberandi blesmæltur“.

Bless (Uh)  Kveðja.  Stytting sem algeng hefur orðið í seinni tíð, einkum í mæltu máli; á kveðjuorðinu blessaður/blessuð, sem aftur var stytting á „komdu blessaður“ eða „vertu blessaður“. 

Blessa (s)  Signa; óska blessunar/velfarnaðar; óska velvilja æðri máttarvalda. 

Blessa (einhvern) í bak og fyrir (ortak)  Hlaða lofi á; óska góð; margþakka.  „Hann blessaði mig í bak og fyrir þegar ég færði honum hákarlsbitann“.

Blessaður (l)  A.  Kveðja.  „Komdu blessaður/margblessaður“.  „Vertu nú blessuð og sæl“.  B.  Áherslu- eða staðgengilsorð.  „Blessaður vertu ekki að tefja þig við þetta núna; við athugum það bara á morgun“!  „Hann er alltaf jafn hugulsamur, blessaður drengurinn“!

Blessaður vertu (orðtak)  Aukasetning sem oft er höfð til áherslu.  „Blessaður vertu; þetta skiptir engu máli“!

Blessuð blíðan (orðtak)  Blíðviðri; einstaklega gott veður; sólskin og hæglæti.  „Það er blessuð blíðan“!  „Enn er sama blessuð blíðan; dag eftir dag“!

Blessun (n, kvk)  A.  Það að óska velfarnaðar/blessunar.  „Prestur var hálfnaður með blessunina þegar hann fékk hóstakast“.  B.  Hamingja; lán.  „Mikil guðs blessun er það að vera laus við þetta bölvað borgarþvarg“!  Sjá seinni blessun.  C.  Staðgengilsheiti.  „Hún sendi mér nokkur egg, blessunin sú arna“.

Blessun eykst/vex með barni hverju (orðatiltæki)  Auðskilin speki, þó oft hafi ómegðin verið erfið fyrrum.

Blessunarlega (ao)  Til allrar hamingju; sem betur fer.  „Við höfum blessunarlega sloppið við þessa flensu“.

Blessunarorð (n, hk, fto)  A.  Það sem prestur mælir er hann blessar söfnuðinn.  B.  Líkingamál, oft um ávítur.  „Ef þessir túristafjandar vaða yfir sléttuna þá skal ég svei mér láta þá heyra nokkur vel valin blessunarorð“!

Blestur í máli (orðtak)  Blesmæltur; málhaltur á einhvern hátt.  Oft notað t.d. um þá sem eiga erfitt með að segja einstaka samhljóða, t.d. „s“.

Blettfætt (l)  Um lit á sauðfé; hvít með svarta(n) blett(i) á fótum.  „Blettfóta er að bera uppi undir Hjöllum“.

Blettóttur (l)  Með blettum.  „Ansi er sléttan að verða blettótt“!

Blettur (n, kk)  A.  Díll; blesa; litabrigði á afmörkuðu svæði.  B.  Túnskiki.  „Ég var að slá blettinn kringum fjárhúsin“.  C.  Veiðisvæði; mið.  „Ég fór hér fram á Sandblettina og fékk ágætt yfir snúningin“.

Bleyða (n, kvk)  Niðrandi heiti á þeim sem er huglaus; raggeit; heigull.

Bleyðuháttur / Bleyðuskapur (n, kk)  Raggeitarháttur; heigulsháttur. 

Bleyja (n, hk)  Stykki af mjúku efni sem haft er til að taka við þvagi og saur ungbarna og annarra sem ekki geta nýtt kamar/salerni.  Löngum voru bleyjur úr tauefni sem var þvegið og endurnýtt, en nú eru einnota bleyjur algengastar, sem fleygt er með innihaldinu.

Bleyta (n, kvk)  A.  Væta; vottur af vatni eða öðrum vökva.  „Hvaðan kemur þessi bleyta á gólfinu“?   B.  Sandkvika; aurbleyta.  Fínkornaður vatnssósa jarðvegur sem ekki heldur þegar gengið/ekið er á honum.  „Enn eru víða bleytur í lautum“.

Bleyta (s)  Væta; gera vætu; rigna; súlda; falla á.  „Við þurfum að ná heyinu inn áður en hann bleytir meira“. 

Bleyta á (jörðu) (orðtak)  Rigna svo jörð blotni á yfirborði.  „Hann dropar örlítið en þó ekki svo að það nái að bleyta á“.  „Við hættum þessu núna; hann er farinn að bleyta töluvert á jörðu“.

Bleyta færi (ortak)  Renna fyrir fisk; stunda skakveiðar; fara í róður.  „Við erum komnir nokkuð djúpt; er ekki kominn tími til að bleyta færin“?  „Það var slík ördeyða uppi á grunninu að menn bleyttu ekki færi fyrr en úti í kanti“.  Sjá dýfa krók í sjó.

Bleyta sig (í fæturna) (orðtak)  Verða votur í fæturna; vaða.  „Farðu nú í stígvél frekar en gúmmískó, svo þú bleytir þig ekki í fæturna“!  Einnige það nefnt að bíll „bleyti sig“ ef bleyta kemst í rafkerfið svo drepst á vélinni, t.d. þegar ekið er greitt yfir læk eða djúpan poll.

Bleyta upp (orðtak)  Lina í vatni.  „Þeir (þurrkaðir fiskhausar) voru ýmist seldir eða bleyttir upp og barðir fyrir skepnurnar næsta vetur“  (IG; Æskuminningar). 

Bleytudrulla / Bleytuslydda / Bleytuskítur (n, kvk)  Mjög blaut slydda; slydda sem bleytir mjög föt og annað; nærri rigning.  „Þetta er ljóta bleytudrullan; maður er innúr með það sama“!  „Er ekkert að draga úr þessum bleytuskít“?

Bleytuél / Bleytukafald (n, hk)  Slydduél; slydda sem þiðnar og bleytir þegar hún sest á fénað og annað.  „Það verður að setja féð inn.  Það verður undireins forblautt í þessum bleytuéljum“.

Bleytufor / Bleytuforað (n, kvk/hk)  Bleytuseil; forarsvað.  Stundum notað um blautt starlendi með meyrum jarðvegi.  „Reyndu að missa féð ekki niður í bleytuforina niðri í víkurbotninum“.

Bleytuhríð / Bleytukafald / Bleytuslydda (n, hk/kvk)  Slyddukafald; slydda sem bráðnar að mestu um leið og hún nær yfirborði.

Bleytukóf (n, hk)  Fíngert hríðarkóf í frostlausu veðri.

Bleytuhraglandi (n, kk)  Rigningarslítingur/slydduél í hvassviðri.  „Féð gerir lítið í þessum bleytuhraglanda“.

Bleytukóf / Bleytusviðringur (n, hk)  Skafmoldarbylur í frostlausu veðri, þannig að kófið bráðnar um leið og það sest á föt og hörund.  „Maður verður blautari í þessu bölvuðu bleytukófi en í hellirigningu“.  „Féð varð forblautt í bleytursviðringnum“.

Bleytukrap / Bleytukrapi (n, hk/kk)  Krap; snjór við frostmark með miklu vatnsinnihaldi.

Bleytuseil (n, kvk)  Mýrlent svæði; fen.  „Björnsáll er mýrarfláki framan og ofanvið Prestavaðið...  Þessar mýrar voru með miklum bleytuseilum og alófærar stórgripum“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Bleytuslabb (n, hk)  Krapasnjór; mikill krapi t.d. á göngu- akstursleið.

Bleytusuddi (n, kk)  Suddi; rigningarúði; súld.  „Hann gæti gert einhvern bleytusudda með þessari þoku“.

Bleytutíð (n, kvk)  Votviðrasamt tíðarfar.  „Vanalega er Árdalurinn þurr, nema í vorleysingum og mikilli bleytutíð á öðrum árstíðum“  (HÖ; Fjaran). 

Bleytuvaðall (n, kk) A.   Vatnselgur/krapaelgur á jörð, t.d. þegar rignir á lausasnjó.  B.  Ákaft og blautt slydduél.  „Féð verður fljótt forblautt í þessum bleytuvaðli“.

Blik (n, hk)  A.  Ljós blettur á himni.  „Mér sýnist eitthvað blik í norðrinu.  Hann fer kannski að létta til“.   B.  Glampi sem sést stuttan tíma.  „Mér sýndist ég sjá blik af bílljósum uppi á Hálsi“.

Blika (n, kvk)  Skýjafar; háský.  Blika var fyrsta vísbending um að þykkna færi upp, og skipti þá öllu um áttina.  Blika á suðurhimni var ávísun á rigningu en blika í norðri gat boðað þurrk.  „Spurði hann (GG) þá hvaða átt væri úti; hvort blika væri til sjávarins...“  GÖ minningar frá Láganúpi.  Sjá blikurský; lítast ekki á blikuna; blikur á lofti.

Blika (s)  Um ljós með breytilegum styrk.  „Langt úti í hafi blikuðu ljós á fiskibátum“.

Bliki (n, kk)  Stytting úr æðarbliki; andarbliki; stokkandarbliki; karlfugl af andarætt.

Blikk (n, hk)  A.  Ljós sem kviknar og slökknar á víxl.  B.  Þunnt járn eða járnblendingur; pjátur.

Blikka (s)  A.  Um ljós; kvikna og slökkna á víxl.  „Af Jökladalshæð má sjá Bjargtangavita blikka“.  B.  Um auga; opna og loka auga á víxl.

Blikkbali / Blikkbolli / Blikkdiskur / Blikkfat/ Blikkfata / Blikkkanna / Blikkkassi / Blikkketill / Blikkpottur / Blikkskál / Blikkskúffa / Blikkstampur / Blikktunna (n, kk)  Ílát formuð úr blikki.

Blikkbátur (n, kk)  Leikfangabátur sem gerður er úr blikki, sem oftast var fengið úr tómum og uppklipptum blikkbrúsum.  Tómur brúsi var ristur upp; blikkið lagt tvöfalt; klippt í árabátalag, þannig að brotið myndaði kjölinn; brotið fyrir í stafnana og annaðhvort lóðað þar eða þétt með öðru móti; slegið hæfilega út; oft sett ein eða fleiri þóftur og oft sigla, þversegl úr pappa og ballest.  Þá mátti láta bátinn sigla í hæfilegum vindi.  Oft var slíkum bátum siglt á Ánni; Torfalæknum; lóni við sjóinn eða á Sandslágarvatninu.  Talið er að þar á botninum sé mikill skipagrafreitur.

Blikkbox (n, hk)  Dolla/kyrna/box úr blikki.  Blikkbox komu undan margvíslegum varningi á árabili; áður en plast varð algengara.  Þau voru notuð í margvíslegum tilgangi; jafnt til geymslu matvæla sem saums, fóðurs og fleira; einnig sem berjaílát, t.d. stór box undan lyftidufti og tóbaksdósir.

Blikkbrúsi / Blikkdunkur (n, kk)  Olíubrúsi eða annað lokað ílát úr blikki.  Smurolía kom um tíma í 4ra gallona ferköntuðum blikkbrúsum.  Hunang kom í stórum blikkdunkum, innflutt af Sigurvin Össurarsyni.

Blikkklippur / Blikkskæri (n, kvk/hk, fto)  Verkfæri til að klippa blikkplötu, t.d. þakjárn.  „Hvar lagði ég nú frá mér blikkklippurnar“.

Blikksmíði (n, kvk)  Það að smíða muni úr blikki.  „Guðbjartur á Lambavatni þótti mjög laginn við blikksmíði og koparsmíði, eins og reyndar alla handavinnu“.

Blikna (s)  Fölna.  „En aldrei þú bliknar né hugdeigur hræðist,/ þó hetjurnar deyi en bölþungi fæðist“  (EG; Blakkurinn; Niðjatal HM/GG). 

Blikubakki (n, kk)  Bakki af háskýjum/bliku (sjá þar).  Vanalegra er að tala einungis um bakka.

Blikur á lofti (orðtak)  Ískyggilegt útlit.  Vísar í bókstaflegri merkingu til þess að blikuský dragi á loft, sem boða óveður/óþurrk, en er í líkingamáli notað um ótryggt/slæmt útlit t.d. um gang verkefna/mála.

Blikuský (n, hk)  Cirrostratus.  Tegund háskýja, oft í 6 til 12 km hæð.  Þunn samfelld skýjabreiða sem oftast er undanfari lágskýja og jafnvel rigningar.  Skíni sól í gegnum blikuský myndast oft rosabaugur um hana þegar geislar brotna í ískristöllum blikunnar.  Sjá blika; lítast ekki á blikuna; blikur á lofti.

Blimskakka augunum (orðtak)  Horfa útundan sér; horfa á ská. Óljóst er um upprunaskýringu sagnarinnar að „blimskakka“.  Líklega er um hljóðbreytingu að ræða; orðið hafi áður verið „blindskakka“, og vísað til þess að virðast vera að horfa á annað; sýnast blindur á það sem ekki er beint af augum.

Blinda (n, kvk)  A.  Það að vera blindur; sjónleysi.  B.  Blindél,kóf eða snjóþoka sem hindrar för.  „Það var svo mikil blinda á Aurtjörninni að ég varð oft að stoppa til að fullvissa mig um að halda vegi“.

Blinda (s)  A.  Gera blindan; svipta sjón.  B.  Loka röri/pípu í endann.  „Ég blindaði bremsurörið á þessu hjóli, svo ég kæmist til byggða“.

Blindaél / Blindél / Blinduél (n, hk)  Blindhríð; blindbylur; svartaél; svo dimmt él að ekki/illa sést hvert gengið er.  „Það gerði á okkur blindaél uppi á Aurtjörninni, svo við urðum hreinlega að stoppa“.  „Við skulum hinkra aðeins með að fara af stað; hann er að koma með blindél“.  „Hann er að skella á með blinduéli sýnist mér“.

Blindandi (l)  A.  Sem blindar.  „Ég fékk ofbirtu í augun þegar ég kom út úr kofanum í blindandi sólskinið“.  B.  Með lokuð augun; án þess að sjá.  „Hann þekkir þessa leið svo vel að hann gæti farið hana blindandi“.

Blindbeygja (n, kvk)  Beygja á vegi fyrir nef/hæð/klett, þannig að erfitt er að sjá umferð á móti.  „Varaðu þig á blindbeygjunni hjá Gilsklettinum; þar hafa orðið margir árekstrar“.

Blindboði (n, kk)  Sker/boði sem er á kafi í sjó, en getur verið hættulegt skipum, einkum í sverum sjó og um lágsjávað.  Hættulegasti blindboðinn á Kollsvík er líklega Djúpboði, en einnig er Giljaboði viðsjárverður.

Blindbylur (n, kk)  Svo þétt skafmold, með eða án ofankomu, að ekki sást útúr augum og ekki viðlit að fara neitt gangandi.  Oft var einnig notað orðið blindhríð.  Til áhersluauka heyrðist stundum sagt „Það er andskotans þreifandi blindöskubylur“.  „Vörður hélt áfram... gegnum blindhríð og úfinn sjó“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Blindfullur (l)  Ofurölvi; augafullur.  „Það eru ekki nokkrir mannasiðir að koma svona blindfullur í heimsókn“!

Blindhríð / Blindhríðarbylur / Blindkóf / Blindukóf (n. hk)   Blindöskubylur; fíngert snjókóf, svo þétt að varla sést út úr augum.  „Það var þvílíkt blindkóf að við urðum hreinlega að stoppa trekk í trekk til að lenda ekki útaf veginum“.  „Við lentum í blindukófi þegar kom niður í brekkuna“.

Blindhæð (n, kvk)  Hæð/hóll sem byrgir sýn, þannig að ekki sést hvað er handanvið.

Blindingsleikur (n, kk)  Skollaleikur; leikur þar sem bundið er fyrir augu eins, en hann á að ná öðrum úr hópnum. 

Blindmyrkur (n, hk)  Svartamyrkur; niðamyrkur; þreifandi myrkur.  „Það sést ekkert í þessu blindmyrkri“.

Blindni (n, kvk)  Blinda; það að sjá/greina ekki.  Oft í líkingamáli um það að vilja ekki sjá/viðurkenna.  „Hann trúir sínum flokksformanni í algerri blindni“.

Blindófært (l)  Alveg ófært; kolófært.  „Næsta morgun ætluðum við yfir fjörðinn með mjólkurbátnum yfir á Gjögra, en þá var kominn norðanbylur og blindófært yfir fjörðinn“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Blindraletur (n, hk)  Letur/stafir sem blind manneskja getur lesið.  Oftast átt við letur myndað af upphleyptum punktum; Braille letur.

Blindskák (n, kvk)  Skák semt tefld er án þess að sjá á skákborðið, þ.e. eftir minni.

Blindsker (n, hk)  Blindboði; sjá þar.  „Hinir formennirnir voru allkunnir fiskimiðum á Kollsvík og þekktu þar helstu boða og grynni; svo sem Djúpboða, Arnarboða, Leiðarboða og Þembu, sem allt eru blindsker á fiskislóð og brjóta ef um stórsjó er að ræða“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Blindsvartaþoka (n, kvk)  Mjög dimm þoka; niðaþoka.  „Það er komin blindsvartaþoka og náttmyrkur, svo við komum okkur saman um að fara eftir veginum að Breiðavík“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Blindur (l)  Um mið á sjó; notað um aftara mið þegar það hverfur á bak við það fremra.  „Við lögðum strenginn á blindum Hnjótnum“.  „Ég varð dálítið var á suðurfallinu; mest á blindum Hyrnunum“.

Blindur er bóklaus maður (orðatiltæki)  Vísar til almennrar bókhneygðar Íslendinga.  Sá sem ekki á bækur hlýtur að vera blndur.

Blindviðri (n, hk)  Dimmviðri; veðurlag þar sem maður sér ekki vel frá sér vegna t.d. þéttrar snjókomu/ kófs.

Blindþoka (n, kvk)  Niðdimm þoka. „..en þá gerir á þá blindþoku og vissu þeir um tíma ekki hvert þeir fóru“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Blindþreifandi bylur / Blindþreifandi stórhríð  Glórulaus bylur/stórhríð.  „Við vorum varla komnir hálfa leið þegar skall á okkur blindþreifandi stórhríð, svo ekki sá útúr augum“.

Blindöskubylur / Blindöskuhríð (n, kk)  Glórulaust blindkóf.  „Það er kominn þreifandi blindöskubylur; varla fært milli húsa“.

Blint (l)  Um veður; svo lítið skyggni að ekki sést hvert halda skal.  „Það var svo blint í élinu þarna uppi á Aurtjörninni að ég varð að stoppa; það sá ekki á milli stika“.

Blíða (n, kvk)  A.  Umhyggja; kærleiksríkt viðmót; ástaratlot.  „Ekki mun hann hafa fengið þá blíðu hjá henni sem hann ætlaði“.  B.  Oftast notað í likingamáli; mjög gott veður; hægviðri.  „Þennan dag var einstök blessuð blíða um allan sjó“ (minning HB um AK, Mbl maí 1980).  Sjá blessuð blíðan.

Blíðalogn (n, hk)  Alveg logn.  „..svo dettur hann niður á skírdag; gerir blíðalogn, en kalt var í veðri“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Blíðka (s)  Sefa; róa; gera rólegri/ánægðari/sáttari.  „Þessar fréttir urðu ekki til að blíðka karlinn“.

Blíðlega / Blíðmannlega (l)  Með blíðu. „Ekki get ég sagt að hann hafi tekið þessu blíðmannlega“.

Blíðlegur (l)  Sem lýsir blíðu/umhyggju/ástúð.  „Við fengum ekki blíðlegar móttökur þegar heim kom; enda drullugir uppfyrir haus og orðnir alltof seinir í matinn“.

Blíðmáll (l)  Blíður í tali; mjúkmáll.  „Þú mátt vera blíðmáll ef þú ætlar honum að samþykkja þetta“.

Blíðmælgi (n, kvk)  Blíðlegt/vingjarnlegt tal; smjaður.  „Hér dugir engin blíðmælgi“!

Blíðskapartíð / Blíðutíð (n, kvk)  Langur blíðviðriskafli.  „Það má ýmislegt gera í svona blíðskapartíð“.

Blíðskaparhaust / Blíðskaparsumar / Blíðskaparvetur / Blíðskaparvor / Blíðviðrissumar / Blíðviðrisvor  (n, hk/kk)  Árstíðir sem þykja mildari/betri/hlýrri/lygnari en í meðallagi.  „Þetta hefur bara verið blíðskaparhaust, það sem af er“. 

Blíðskaparveður / Blíðuveður (n, hk)  Mjög gott veður.  „Við ýttum frá landi í blíðskaparveðri“ (GÖ minningar).  „Blíðskaparveður var; logn og ládeyða...“  Frásögn DE (MG; Látrabjarg)  „Ég er fæddur að morgni hvítasunnudags 31.maí 1925, í blíðskaparveðri að því er mér er sagt“  (IG; Æskuminningar).  „Eitt sinn er við bræður, ég og Ingvar, fórum í róður (frá Gjögrum) í blíðskaparveðri var ferðinni heitið út á Kollsvík; á gamalkunnug fiskimið þar“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Blíðudagur (n, kk)  Góðviðrisdagur; dagur með hægu/mildu veðri.

Blíðuhót / Blíðulæti (n, hk, fto)  Ástaratlot; vinalegt viðmót.  „Ég var ekki að sýna þeim nein blíðuhót, þessum háu herrum; enda engin ástæða til“!

Blíður / Blíðmannlegur (l)  Blíðlegur; mildur; góðmannlegur.

Blíður á manninn (orðtak)  Kurteis/þægilegur í viðmóti.  „Hann var víst ekki blíður á manninn þegar hann greip þá í landhelgi“.  Sjá óblíður á manninn.

Blíðusjóveður / Blíðuveður / Blíðviðri (n, hk)  Gott veður; hæglæti og bjart veður; logn og blíða.  „Þetta er nú meira blíðviðrið dag eftir dag“!  „Blíðuveður og sléttur sjór var þegar þessi ferð var farin“  (ÖG; glefsur og fyrsti róður). 

Blíðviðrisdagur (n, kk)  Dagur með blíðu veðri; góðviðrisdagur.

Blíðviðriskafli / Blíðviðristíð (n, kk)  Tímabil með björtu og stilltu veðri.  „Við fengum blíðviðriskafla um heyskapartímann“.

Blífa (s)  Duga; vara; vera.  „Ekki veit ég hve lengi þessi viðgerð blífur, en er á meðan er“.

Blíkka (s)  Sefa; róa.  Sjá blíðka, sem er önnur framburðarmynd sama orðs.

Blína (s)  Stara; glápa.  „Á hvað ert þú eiginlega að blína“?

Blístra (n, kvk)  Flauta sem gefur frá sér hátt/hvellt hljóð.

Blístra (s)  Flauta; stilla talfærum þannig að hvellt hljóð myndist þegar blásið er.

Blístur (n, hk)  A.  Hvellt hljóð sem myndast þegar blístrað er.  B.  Tökuorð úr t.d. ensku; „blister“ sem merkir þanin blaðra.  Eingöngu notað í orðtakinu; standa á blístri (sjá þar).

Bljúglega (ao)  Af undirgefni/hógværð.  „Nú mátt þú bljúglega biðja hann afsökunar“.

Bljúgur (l)  Fleðulegur; hógvær.  „Ekki treysti ég honum alveg þó hann sé bljúgur og auðmjúkur núna“.

Blokk (n, kvk)  A.  Stór efniskubbur, kantaður stór viðarkubbur.  Í seinni tíð notað um fisk sem eftir flökun og roðflettingu er frystur í kassa, og síðar sagaður í sneiðar hjá kaupanda/neytanda.  B.  Blökk; skoruhjól.  C.  Hefti af pappír, fest saman á stuttum jaðri, t.d. skrifblokk.  D.  Margra íbúða hús, oft kassalaga með sameiginlegum stigagöngum og fleiru. 

Blokkflauta (n, kvk)  Tréblásturshljóðfæri; sívöl langboruð pípa með flautu nærri munnstykki í öðrum enda.  Á henni eru göt sem fingrum er haldið fyrir en opnað til að stilla lengd holsins og þar með hæð tónsins.

Blossa (s)  Um eld/loga; fuðra upp; aukast skyndilega að ljósmagni.  Notað í líkingamáli um t.d. skapsveiflur eða misklíð.  „Ekki veit ég hversvegna þessar deilur blossuðu upp“.

Blossi (n, kk)  Glampi; leiftur; skyndileg glæðing elds.

Blota (s)  Þiðna; gera hláku.  „Nú gæti ég trúað að hann fari að blota fyrir alvöru“.

Blotaél / Blotaskítur (n, hk/kk)  Slydduél.  „Ég lenti í blotaéli á leiðinni og er alveg eins og hundur af sundi dreginn“.  Það þýðir ekkert að láta féð út í þennan blotaskít; við skulum láta sjá örlítið“.

Bloti (n, kk)  Þýða; hláka.  „Hann gerði smá blota um páskana en svo herti hann frostið enn meir en áður“.

Blotna (s)  Vökna; verða blautur/votur.  „Blotnaðirðu í fæturna“?

Blóð (n, kvk)  Dreyri; rauður vökvi í æðum sem flytur m.a. súrefni og næringu um líkamann.

Blóð krists (orðtak)  Messuvín.  Sjá sakramenti og obláta.

Blóðbað (n, hk)  Vettvangur mikilla blóðsúthellinga/slysa; mikið mannfall í orrustu.

Blóðbakki (n, kk)  Grunnt ílát sem blóð úr kind er látið renna í þegar henni hefur verið slátrað, meðan hrært er rösklega í því.  Í seinni tíð eru notuð plastföt, en áður hafa líklega verið notuð trog.

Blóðberg / Blóðbergste (n, hk)  Blóðberg (Thymus praecox) er algengt um allt land, og í Kollsvík verða miklar breiður af því, t.d. á grónum sandmelum.  Það hefur lengi verið nytjað, og  Björn Halldórsson segir um það: „Þessi jurt hefur ágætan kraft til að styrkja sinar.  Hverslags vín sem á þessari jurt hefur staðið um nokkra stund og síðan drukkið, læknar sinadrátt; það sama læknar og kvef; hreinsar og styrkir höfuð; þynnir blóð; læknar uppþembing og harðlífi manna.  Það vermir kaldan maga og styrkir hann... Seyði af þessari jurt, sem te brúkað, er gott við hósta; læknar ölsýki þeirra manna, að morgni drukkið, sem ofbrúkað hafa vín að kvöldi.  Það örvar svita og er gott brjóstveikum mönnum“.  Blóðbergste var notað í Kollsvík framyfir miðja 20. öld, einkum til lækninga á kvefi og til hressingar.  Vinsæll leikur barna var að tína blóðberg og sjóða af því te í blikkdós á útihlóðum.  Voru þá stundum nýttar ýmsar fleiri jurtir til tegerðar.  Blóðberg er sömu ættkvíslar og hið evrópska timjan sem nú er meira notað til matargerðar á Íslandi.

Blóðblöndun (n, kvk)  Blöndun/vensl fjölskylda/samfélaga/ætta með barneignum.  „Allnokkur blóðblöndun varð milli hreppanna við norðanverðan Breiðafjörð, ekki síst vegna sóknar í verin í Útvíkum.

Blóðbragð (n, hk)  Bragð af blóði í munni. 

Blóðbrúsi (n, kk)  Ílát sem blóð er kælt í.  Meðan mjólkursala var í Kollsvík var mjólk geymt í mjólkurbrúsum sem kældir voru í uppprettuvatni eins og mjólkin, t.d. í Kaldabrunninum.

Blóðbönd (n, hk, fto)  Skyldleiki; blóðtengsl; fjölskyldutengsl, t.d. foreldra við afkvæmi sín.  Orðið mun fyrrum hafa verið haft um tengingu afkvæmis við móður með naflastreng eftir fæðingu.

Blóðdálkur (n, kk)  Meginhluti hryggsins í fiski; sá hluti hryggjarins sem mest blóð er í (sjá flatning fisks).

Blóðdrefjar (n, kvk, fto)  Blóðslikja; leifar af blóði; blóðslóð.  „Eitthvað hafði komið á tófuna, því ég sá blóðdrefjar í slóðinni“.

Blóðdropi (n, kk)  A.  Dropi af blóði.  B.  Lítið eitt af blóði.  Sjá berjast til síðasta blóðdropa.

Blóðeik (n, kk)  Eik sem stundum rekur á fjörur og er sérlega dökk/rauðleit og þung í sér; manndrápsviður.  Þjóðtrúin segir að þannig við megi ekki nota í báta, því þá verði þeir feigðarfley.  Ekki er vitað hvort hinir mörgu bátasmiðir í Kollsvík hlýddu því, hafi sá viður verið í boði.

Blóðeitrun (n, kvk)  Sýking/sýklasótt í blóði, en hún er jafnan hættuleg.  Sýklar komast í blóðrás t.d. við skurð með óhreinum hníf eða stungu eftir ryðgaðan nagla.

Blóðfeiminn (l)  Mjög feiminn; óframfærinn.  Líkingin er dregin af því að roðna í andliti vegna feimni.

Blóðferill (n, kk)  Slóð blóðdropa.  „Hann rakti blóðferilinn að klettaskoru þar nærri, en þar lá tófan dauð“.

Blóðforeldrar (n, hk, fto)  Foreldrar barns, sem getið hafa það sjálf og tengjast því blóðböndum; ekki kjörforeldrar kjörbarns.

Blóðfórn (n, kvk)  Fórn sem kostar blóððsúthellingar.  Einnig í líkingum og áherslum:  „Rauðasandshreppur hefur fært ansi miklar blóðfórnir vegna misheppnaðra stjórnvaldsaðgerða“.

Blóðfroða (n, kvk)  Froða sem myndast á blóði, t.d. þegar hrært er í blóði eftir slátrun.

Blóðga (s)  A.  Blóðga fisk; skera á lífoddann og láta blæða til að drepa fiskinn og til að fiskholdið verði sem hvítast.  „Tekið er undir kjálkabarðið eða yfir það með vinstri hendinni, en með þeirri hægri er skorið á lífoddann og blæoðæðar í hálsinum; einkum á tálknaslagæðina“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  B.  Blóðga sig; slasa/meiða sig þannig að blæði úr sárinu.  „Varstu að blóðga þig“‘?

Blóðgaður (l)  A.  Um fisk; búið að blóðga.  Sjá dauðblóðgaður.  B.  Um manneskju eða skepnu; slasaður, meiddur.  „Þú ert eitthvað blóðgaður á hendinni; hvað kom fyrir þig“?

Blóðgun (n, kvk)  Það að blóðga fisk.

Blóðhefnd (n, kvk)  Sá forni siður, sem var hluti af þess tíma lögum, að ættingjum væri skylt að drepa þann sem vegið hefði ættingja þeirra.  Eimir enn af þessum sið í t.d. glæpasamtökum og frumstæðum þjóðfélögum.

Blóðhlaupinn (l)  Um hold/ket; fullir vefir af blóði.  „Það þarf að vera handfljótur að skera á hálsæðar eftir að lambinu hefur verið lógað til að láta blæða vel, svo ketið verði ekki blóðhlaupið“.

Blóðhnífur (n, kk)  Hausasveðja; hausunarsveðja; stór flugbeitt sveðja sem notuð er til að skera sláturdýr á háls eftir að slátrun.  „Í lok sláturdags var tryggilega gengið frá rotbyssu, skotum og blóðhníf í læstri kompu“.

Blóðhorn (n, hk)  Blóðkoppur; tæki til lækninga með fornum og aflögðum aðferðum.  Við mörgum kvillum var talið þjóðráð að taka mönnum blóð.  Í því skyni var gerður skurður á einhverjum stað líkamans, með áhaldi sem nefnt er bíldur, og blóðið sogið út með blóðhorni.  Það var líkt og botnlaus tóbaksponta úr horni.  Var víðari endinn lagður yfir skurðinn og sogið í hinn endann.

Blóði drifinn (orðtak)  Ataður blóði/blóðslettum.

Blóðillur (l)  Sjóðandi illur; saltvondur.  „Hann varð blóðillur þegar hann komst að þessum hrekkjum“.

Blóðlatur (l)  Mjög latur; húðlatur.  „Ef þú ætlar að vera svona blóðlatur þá verðurðu aldrei að manni“.

Blóðlifur (n, kvk)  Þykkildi/hlaup/kökkur sem myndast í blóði ef það kólnar án þess að við því sé hreyft.  „Mikilvægt er, þegar blóð er tekið til sláturgerðar, að hræra stöðugt í því meðan það er að renna úr skepninni og fyrst á eftir, svo ekki myndist í því blóðlifrar“.

Blóðmarka (s)  Marka sauðfé eftir að það er stálpað, svo úr blæðir.  Nokkuð gat verið um blóðmörkun á haustin, þegar menn mörkuðu lömb sem ekki hafði náðst að marka um vorið eða útigangsfé sem heimtist; eða þegar kindur skiptu um eigendur.  Óútskýrð blóðmörkun var illa séð og gat tengst sauðaþjófnaði.

Blóðmjólka (s)  Síðari tíma orð, sem á að vísa til þess að mjólka kú þar til blæðir úr spenum en slíkt gerist ekki.  Notað í líkingamáli um að skattleggja úr hófi eða heimta meiri gjöld en raunhæft er.

Blóðmör  Einn þeirra rétta sem gerðir eru úr innmat/slátri sauðfjár.  Utanum blóðmörskeppinn er hreinsuð vömb, sem skorin hefur verið til og saumuð.  Í hana er látin hræra af blóði, niðurskornum mör rúgméli og stundum fjallagrösum og/eða rúsínum.  Keppnum er þvínæst lokað og hann soðinn í 2-3 klukkutíma.  Það sem ekki var etið nýtt var sett í súr og oft snætt með skyri eða graut.

Blóðmörsiður / Blóðmörskeppur (n, hk/kk)  Heilt stykki af blóðmör.  Málvenja var í Kollsvík að tala um blóðmörsiður fyrir suðu en blóðmörskepp þegar búið var að sjóða.

Blóðmörssneið (n, kvk)  Sneið af blóðmörskepp.  „Réttu mér nú eina blóðmörssneið“.

Blóðnasir (n, kvk, fto)  Um sprungnar æðar í nefi, þannig að blóð rennur úr nös/nösum.  „Mér varð ekki meint af byltunni á annan hátt en þann að ég fékk blóðnasir“.

Blóðónýtur (l)  Handónýtur; liðónýtur; ónothæfur til flestra verka.  „Þessi hnífbrók er algerlega blóðónýt“.

Blóðpeningar (n, kk, fto)  Fé sem aflað er með ósanngjörnum hætti, s.s. skattpíningu eða okri; fé sem greitt er að óþörfu eða fyrir ósanngirni. 

Blóðrauður (l)  Um lit; rauður eins og nýtt blóð.

Blóðrás (n, kvk)  A.  Æð; æðakerfi.  B.  Blóðrennsli; blæðing úr sári.  „Hún flýtti sér að binda tryggilega um sárið til að stöðva blóðrásina“.

Blóðrefill (n, kk)  Fremsti oddur sverðs.

Blóðrisa (l)  Blóðgaður; meiddur svo blæðir.  „Sumir voru blóðrisa á baki eftir sand og möl sem farið hafði niður um hálsmálið“  (ÁE;  Ljós við Látraröst). 

Blóðrjóður (l)  Mjög rauður í framan.  „Hann var orðinn blóðrjóður í framan undir þessum lestri“.

Blóðrót (n, kvk)  Burnirót.  Rhodiola rosea.  Fjölær jurt af helluhnoðraætt sem algeng er í Kollsvík, líkt og annarsstaðar á norðlægum slóðum.  Vestra vex hún einkum í þurrum jarðvegi í klettum, þar sem er afdrep fyrir veðrum og fénaði, en sauðfé er sólgið í jurtina.  Rótarmikill þykkblöðungur; karlblómin eru gul en kvenblómin rauðleit.  Stöngullinn er gjarnan stuttur og settur yddum laufblöðum.  Blóðrót, en svo er jurtin jafnan nefnd í Kollsvík, á sér langa sögu sem lækningajurt, og má finna hana í grískri lyfjaskrá frá árinu 77.  Hér var rótin notuð við brunasárum eins og nafn hennar gefur til kynna.  Blóðrót á að hafa góð áhrif á blóðið; stuðla að vellíðan og jafnvægi í likamsvirkni.  Nútíma rannsóknir benda til að hún gagnist vel gegn streitu, þunglyndi og mígreni, og virðast áhrifin vera lík og af ginsengrót. Jurtin er talin örugg til inntöku en óráðlegt að neyta hennar í miklu magni eða yfir langan tíma.

Blóðselja (n, kvk)  Rauður rekaviður, fremur mjúkur.  Blóselja og blóðeik, sem var harðari, var talin manndrápsviður í þjóðtrúnni.  Var sagt að þeim skipum væri hætt á sjó sem slíkur viður væri í og ekki mátti blóðselja vera í húsi þar sem fæðing fór fram.  Sjá selja.

Blóðskömm (n, kvk)  Sifjaspell; samfarir einstaklinga sem eru of skyldir.

Blóðsótt (n, kvk)  Sjá lambablóðsótt.

Blóðsprengur (n, kk)  Sú tilfinning að æðar séu að springa.  Einungis notað í seinni tíð í orðtakinu að hlaupa í  blóðspreng.  „Ég hljóp í einum blóðspreng heim og sótti byssuna“.

Blóðstokkinn (l)  Ataður blóði; blóði drifinn.

Blóðstorka (n, kvk)  A.  Storknað blóð.  „Ég þvoði mestu blóðstorkuna eftir blóðnasirnar“.   B.  Storknun blóðs.

Blóðstykki (n, hk)  Líkingamál um mjög rjótt andlit.  „Hann varð eitt blóðstykki í framan þegar hún kyssti hann“.

Blóðsuga (n, kvk)  A.  Dýr sem sýgur blóð úr annarri dýrategund.  T.d. lús og igla.  B.  Vera í innfluttum ævintýrum sem sagt er að sæki í að sjúga mannablóð en semji sig að háttum leðurglöku.  Þeim mun vera illa við hvítlauk, sem einhverjum kann að þykja skynsemisvottur.

Blóðsúthellingar (n, kvk, fto)  Mannvíg; miklar mannfórnir.

Blóðtaka (n, kvk)  A.  Það að taka mönnum blóð.  Fyrrum var það læknisráð, og til þess notaður bíldur og blóðhorn.  Nú á tímum gefa menn blóð til nota í slysatilfellum eða til prófunar á heilsu.  B.  Líkingamál um fórnir, t.d. um það þegar mannfækkun verður í byggðarlagi vegna erfiðra lífsskilyrða.

Blóðtappi (n, kk)  Blóðstorknun sem veldur stíflu í æð með misalvarlegum afleiðingum.  Blóðtappi í kransæð veldur kransæðastíflu eða hjartaáfalli, sem aftur getur valdið hjartadrepi.  Blóðtappi sem berst í heila getur valdið heilablóðfalli, sem aftur getur valdið heiladrepi og lömun.  Blóðtappi í lungum getur einnig reynst alvarlegur og jafnvel lífshættulegur.

Blóðug móðgun (orðtak)  Mikil/djúpstæð mógun.  „Hann tók það sem blóðuga móðgun að vera kallaður gamall“

Blóðugar skammir (orðtak)  Miklar skammir/aðfinnslur; yfirlestur.  „Ég fer víst ekki á næstunni að hjálpa þessum karlhlunki að smala; ef maður fær bara blóðugar skammir við hvert einasta fótmál“!

Blóðugur (l)  A.  Ataður blóði.  „Þú ert enn blóðugur á enninu“.  B.  Óréttlátt; meiðandi.  „Mér finnst það ári blóðugt að þurfa að búa við minni snjómokstur en aðrir“!  „Þetta fannst mér bara andskoti blóðugt“!

Blóðvöllur (n, kk)  Staður þar sem búfé er slátrað.  „Blóðvöllurinn var á balanum framan við fjárhúsin og þangað voru ærnar dregnar; ein í einu“.

Blóðþyrstur (l)  Sem sækir í dráp; gjarn á að drepa; hættulegur. 

Blóðöfunda (s)  Öfunda mjög mikið.  „Ég blóðöfunda hann af þessari bók“.

Blók (n, kvk)  Niðrandi heiti á manni; skrifstofublók.  Enskusletta; „bloke“.

Blóm (n, hk)  A.  Planta; blómhluti plöntu.  B.  Eggjarauða; blómi.  Sjá lifa eins og blóm í eggi.

Blómabeð (n, hk)  Beð með skrautblómum í garði.  „Blóma- og matjurtarækt var mikið stunduð í Kollsvík, a.m.k. á síðari tímum.  Sigríður á Láganúpi hafði ætíð blómabeð við sín hús, og á síðari æviárum kom hún sér upp myndarlegum skrúðgarði“.

Blómatími (n, kk)  A.  Tími blóma; tíminn þegar blóm springa út.  B.  Líking um besta tímaskeið einhvers.

Blómfræ (n, hk)  Blómafræ.  „Einu sinni útvegaði fjelagið blómfræ og útbýtti því milli fjelaganna“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Blómgast (s)  Um jurt; bera blóm; opna blómakrónu.  B.  Líking um góðan viðgang/ velgengni.

Blómi (n, kk)  A.  Blómskrúð plantna; fullþroski.  Sjá standa í blóma; í blóma lífsins.  B.  Eggjarauða.

Blómkál (n, hk)  Brassica oleracea.  Afbrigði garðakáls; með stóran blómknúpp.  Plantan er ræktuð vegna knúppsins, en hann er hið eina sem hirt er af henni og nýtt til matar.  Vinsæl matjurt í görðum Kollsvíkinga.

Blómkálssúpa (n, kvk)  Súpa elduð af blómkáli, gjarnan með kjötsoði.

Blómknúppur (n, kk)  Knúppur á jurt sem inniheldur blóm hennar, og springur út við blómgun.

Blómlegur (l)  Lífvænlegur; í blóma.  „Fólksflóttinn frá smábátaútgerð og frumstæðu búskaparbasli er byrjaður.  Kollsvíkin fer ekki varhluta af því, þótt hún fáum árum fyrr þætti blómlegasti hluti sveitarinnar til afkomu“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Ég hygg að þegar ég fór að muna eftir mér, og fram að fyrra stríði 1914, hafi verið blómlegasti tíminn í Kollsvíkurveri“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  „Heimakæri frændinn, hann rekur blómlegt bú;/ blessaður hann var að láta út kýrnar./  Ég flýtti mér þá til hans og sagði „sælinú/ ég sest hér að“; hann hvessti á mig brýrnar“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Blómskrúð (n, hk)  Mörg falleg blóm; litrík blómabreiða; mikill blómvöndur.  „Í garði Sigríðar á Láganúpi mátti oftast líta litfagurt og angandi blómskrúð fjölmargra tegunda.  Sýndi það fádæma natni hennar og þrautseigu að slíkur skrúðgarður fékk þrifist þar sem tíðum gætir þurrka, norðangarra, sandfoks og saltmóstu“.

Blómstra (s)  A.  Um jurt; ofna blóm sín; blómgast; standa í blóma.  B.  Líkingamál um velgengni.

Blómstur (n, hk)  Eldra heiti á blómi/blómjurt.  „Allt eins og blómstrið eina/ uppvex á sléttri grund;/ fagurt með frjóvgun hreina;/ fyrst um dags morgunstund“  (Hallgrímur Pétursson; um dauðans óvissa tíma).

Blómur (n, kk)  Framburðarmynd af heitinu „blóðmör“, sem mörgum er töm.

Blóraböggull (n, kk)  Fyrirsláttur; afsökun.  „Ég held að grjóthrunið hafi nú bara verið blóraböggull; hann nennti bara ekki að mæta tímanlega“. 

Blóri (n, kk) Afsökun; afbötun; þrátt fyrir.  Notað í ýmsum samsetningum en er löngu hætt að heyrast sérstætt.  Hafa eitthvað til blóra þýðir að hafa eitthvað til afsökunar.  „Hann hafði það sér til blóra þegar hann kom of seint að hrun hefði verið á veginum“.  Gera eitthvað í blóra við eitthvað eða einhvern þýðir að nota annan/annað sem afsökun fyrir því sem gert er.  Uppruni ekki viss en sennilega sami og enska orðsins „blare“ sem merkir að gjalla; kalla.  Blóri hefur því upprunalega merkt að úthrópa einhvern.

Blót (n, hk)  A.  Dýrkun; fórnarathöfn.  Blót voru helgiathafnir hinna fornu norrænu trúarbragða, líkt og margra annarra trúarbragða fyrr og síðar.  Megininntak blóta er hið sama og kristinnar messu; að votta guði undirgefni og hollustu og bera fram óskir til handa sér og sínum; þó aðferðir séu ekki þær sömu.  Ekki er vitað í smærri atriðum hvernig norræn blót fóru fram til forna, en talið er að þau hafi verið í hofum og í viðurvist líkneskja af viðkomandi guði/guðum.  Þar voru færðar fórnir í einhverju formi; t.d. slátrað skepnu og eða fórnað verðmætum og vopnum.  Ekki er ólíklegt að mannfórnir hafi tíðkast að einhverju marki, og þá fórnað handteknum óvinum eða öðrum sem helst töldust mega missa sín.  Allt til að öðlast velvild guðanna.  Blót voru að öllum líkindum einnig miklar átveislur og jafnvel drykkjusamkomur.  Leifar af þeim sið má sjá í þorrablótum samtímans, þó þau séu að öðru leyti af allt öðrum toga.  Heitið blót er stofnskylt orðinu blóð, sem sýnir mikilvægi blóðsins á einhverjum tíma við slíkar athafnir.  B.  Formælingar; blótsyrði; bölv; ragn.  Þessi notkun orðsins er líklega tilkomin eftir kristnitöku, þegar ákall fornra guða var allt í einu orðinn löstur í stað dyggðar, en líklega hefur mörgum reynst erfitt að láta af sínum siðum í því efni.

Blóta (s)  A.  Tala ljótt; viðhafa blótsyrði í reiði eða heitingum.  „Það gagnar ekkert að blóta þessu í sand og ösku; þú ættir frekar að skoða hvað er hægt að gera í málunum“!  B.   Tigna með fórnum; t.d. blóta þorra.  „Nema muntu nýjan sið;/ nýja guði blóta,/ og í grimmum geiraklið/ glæstan sigur hljóta“ (JR; Rósarímur). 

Blóta/bölva í sand og ösku (orðtak)  Tala mjög ljótt.  „Hann blótaði brotinni árinni í sand og ösku“.

Blótkelda (n, kvk)  Kelda eða mýri, þar sem af trúarástæðum var kastað fórnarmunum.  Hérlendis hefur slíkt ekki fundist að frátöldum örnefnum, en erlendis eru nokkrir slíkir fundarstaðir.  Í blótkeldum hafa fundist munir af ýmsu tagi; vopn sem búið var að eyðileggja á sérstakan hátt og jafnvel fólk; t.d. Tollundmaðurinn á Jótlandi, sem fórnað var um 375-210 fyrir Krists burð.

Blótneyti (n, hk)  Mannýgt naut; naut sem bölvar mikið.  Oftast notað í líkingum í seinni tíð.  „Í þessum málum þýðir ekkert að haga sér eins og mannýgt blótneyti“.

Blótsamur (l)  Iðulega með blótsyrði á vörum; hættir til að blóta mikið.

Blótspónn (n, kk)  Spónn sem höggvinn er úr tré til að komast að því hvort um óheillatré/manndrápsvið sé að ræða.  „Víða var það trú manna að hægt væri að ganga úr skugga um hvort tré væri óheillatré með því að fella blótspón.  Ef fyrsti spónninn sem höggvinn var úr tré lagðist á sárið; féll á grúfu, þá var illt í efni“ (LK; Ísl.sjávarhættir II).   Hér er vafalaust um ævafornan sið að ræða.  Vitað er að þetta var gert hérlendis en ekki hvort hinir mörgu bátasmiðir í Kollsvík hafi dæmt við með þessum hætti.

Blótsyrðabálkur / Blótsyrðaflaumur / Blótsyrðaruna (n, kk)  Ljótur munnsöfnuður; samantvinnuð blótsyrði.  „Hann las yfir strákunum vel valinn blótsyrðabálk og skipaði þeim að fara til baka og sækja kindahópinn“.  „Hann var víst ekki fagur blótsyrðaflaumurinn, þegar karlinn datt kylliflatur í forina“.

Blótsyrði (n, hk, fto)  Bannorð sem mönnum hrökkva af munni til að leggja áherslu á niðrandi umtal um eitthvað eða þegar mjög gengur á móti.  Flest eru blótsyrðin með tilvísun í satan eða ríki hans, en slíkt mátti helst ekki ákalla á tímum strangtrúnaðar.  Það þótti merki um að menn gengju erinda illra afla.  Dæmi um kröftug blótsyrði eru fjandinn; andskotinn; djöfullinn; helvíti og skratti.  Verst þóttu samantvinnuð blótsyrði.  Enn eimir eftir af þessari trú; t.d. liggur opinberlega bann við blótsyrðum í ljósvakamiðlum.  Það byggir þó fremur á tilvísunum í mannvirðingu og mannasiði en trúarhita. 

Blunda (s)  Sofa; sofa létt/stutt.  „Honum þótti gott að fleygja sér og blunda örlítið eftir matinn“.

Blundar í (einhverjum) (orðtak)  Er í undirmeðvitund/hugsun/löngunum einhvers.  „Hann sagði að það hefði lengi blundað í sér að komast til Ameríku“.

Blundur (n, kk)  Stuttur svefn; kría; lúr.  „Mikið var nú gott að fá sér smá blund í hádeginu, eftir puðið“!

Blúnda (n, kvk)  Skrautborði; knipplingaborði.  Jafnan úr fíngerðum þræði; stundum hekluð.

Blúss (n, hk)  Mikill hraði; flýtir.  „Hann ók í blússi inneftir“.  Nýlegt í málinu.

Blússa (n, kvk)  Þunnur vinnujakki.  „Farðu í peysu undir blússuna svo þér verði ekki kalt“.

Blússa (s)  A.  Um eld; aukast skyndilega.  B.  Fara mjög hratt.  „Mér sýndist hann blússa hér framhjá rétt áðan“.

Blússandi ferð (orðtak)  Fljúgandi ferð; ofsahraði.  „Við renndum okkur niður Hólana á blússandi ferð“.

Blússlampi/ Blússbrennari (n, kk)  A.  Stór olíulampi með kveik.  B.  Handbrennari/mótorlampi sem gengur fyrir steinolíu.  Lofti er dælt í olíugeyminn til að auka þrýstinginn.  Þessir lampar voru um tíma notaðir til að svíða svið.

Blússugopi / Blússuræfill (n, kk)  Léleg blússa; rifinn/slitinn/þunnur vinnustakkur.  „Hefurðu ekkert utanyfir þig annað en þennan blússuræfil“?  „Þessi blússugopi er nú ansi skjóllítill í svona brunagaddi“.

Blygðast sín fyrir (orðtak)  Skammast sín fyrir/vegna.  „Það þarf enginn að blygðast sín fyrir svona frammistöðu“!

Blygðun (n, kvk)  Skömm; feimnismál; það sem þarf að blygðast sín fyrir.

Blygðunarlaust (l)  Feimnislaust; samviskulaust.  „Hún sagði blygðunarlaust frá þessu öllu, í smáatriðum“.

Bygðunarleysi (n, hk)  Forherðing; bíræfni; það að kunna ekki að skammast sín.  „Hann laug þessu blákalt og af fullkomnu blygðunarleysi“!

Blys (n, hk)  Kyndill; stöng með loga í toppi, notuð til að auka birtu í myrkri.  Nú á dögum eru neyðarblys notuð til að vekja athygli á sér í hættuástandi.  Stofnskylt sögnunum að blússa og blossa.

Blysför (n, kvk)  Hópför manna, þar sem margir bera blys.

Blý (n, hk)  A.  Þungur en deigur málmur; efnatákn Pb.  Notaður m.a. í sökkur á færum og netum.  Einnig í byssukúlur, byssuhögl, rafmagnskapla, rafgeyma og málningu.  B.  Netablý; sakka á netateini.  Þegar grásleppuútgerð stóð með blóma í Rauðasandshreppi, fyrir daga flotteina á netum, steyptu menn gjarnan sín eigin netablý með því að renna bráðnu blýi í blýatöng.

Blýaflækja (n, kvk)  Flækja sem verður í neti við það að eitt eða fleiri blý á blýaþini/blýateini slæst inn í netið í lagningunni.  Sjá innísláttur og kubbaflækja/korkaflækja.

Blýantsstubbur (n, kk)  (Stuttur) blýantur.  „Hafðu á þér blað og blýantsstubb í tilhleypingarnar“.

Blýantur (n, kk)  Ritblý; ílangt áhald til að skrifa með; langborað mjótt tréprik með kjarna úr grafítblöndu og oft strokleðri á enda.

Blýeitrun (n, kvk)  Uppsöfnun á blýi í líkamanum, sem getur verið hættuleg.  Þungmálmar eins og blý geta borist í umhverfið af athögnum manna; safnast upp í lífríkinu og reynst hættuleg rándýrum og mönnum sem eru efst í lífkeðjunni.  Þá getur bein meðhöndlun á blýi einnig verið fólki varasöm.  Helstu einkenni blýeitrunar eru skjálfti, krampar og skortur á samhæfingu, ásamt lystarleysi og magaverkjum.  Alvarleg eitrun veldur skemmdum á líffærum og heilastarfsemi.

Blýfastur (l)  Pikkfastur; algerlega fastur.  „Það er óhætt að nota þennan stein fyrir festu; hann er blýfastur“.  „Færið stóð blýfast í botni“.

Blýfesta (n, kvk)  Festa sem erfitt er að losa/losna úr.  „Leggðu ekki of nálægt hleininni.  Þar lenti ég einusinni í þvílíkri blýfestu að ég flengreif netið og þurfti að skera á blýateininn“.

Blýateinn/ Blýaþinur / Blýteinn (n, kk)  Neðri teinn/þinur á neti nefndist oft svo, meðan hann var þyngdur niður af litlum, blýhólkum; netablýi.  Hólkarnir voru steyptir heima; geymablý brætt í deiglu og blýbráðin látin renna í mót á  sérstakri blýatöng.  Blýaþinur finnst ekki í orðabókum.

Blýatöng (n, kvk)  Mót til að steypa netablý, fest framan á töng til hagræðis.  Bráðnu blýi er rennt í lokað mótið; því dýft í vatn til kælingar og losað með því að opna töngina.  Sumir áttu slíkar tengur á blómatíma grásleppuútgerðar í Rauðasandshreppi, og lánuðu gjarnan öðrum.  Þá felldu flestir net sín sjálfir.

Blýbráð (n, kvk)  Bráðið blý sem notað var m.a. til að steypa netablý á blýaþin (sjá þar).

Blýlóð (n, hk)  A.  Sakka ur blýi.  „Við erum með gömul færi; hamplínu, 4ra punda blýlóð með hálfás sigurnagla; taumur einn faðmur og handfærakrókur“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  B.  Met af nákvæmri þyngd, notuð til vigtunar.

Blýmenja (n, kvk)  Málning/menja með miklu blýinnihaldi, notuð til ryðvarnar járns undir aðra málningu.

Blýsakka (n, kvk)  Sakka á færi.  Sökkur á færi voru fyrrum úr steini; vaðsteinar, en síðar fóru að berast járnsökkur og blýsökkur.  Þær seinni eru almennt notaðar í dag, og því er forskeytinu oftast sleppt.

Blývatn (n, hk)  Aqua saturnina; lyf sem notað var fyrrum á bólgur og marbletti.  Oftast borið á með fjuglsfjöður.  Blývatn samanstendur af blýi sem uppleyst er í ediki og þynnt með vatni.  Sennilega lítið notað nú til dags vegna þekktra eituráhrifa blýs.

Blýþungi / Blýþyngsli (n, kk/ hk, fto)  Mikill þungi; mikið farg.  „Þú loftar ekki þessum blýþyngslum einn“!

Blýþungt (l)  Mjög þungt; níðþungt.  „Vertu ekki að rogast með þetta einn; þetta er blýþungt“.

Blæbrigði (n, hk, fto)  Lítilsháttar frávik, t.d. í máli, rödd, lit eða tóni.  „Sum orð hafa misjafna merkingu, eftir blæbrigðum í framburði.  Má þar nefna hikorðin „jæja“ og „ha“.

Blæjalogn (n, hk)  Algjört logn; stafalogn; rjómalogn.  „en heilan sólarhring áður var að hlaða niður fönn í blæjalogni, svo ekki varð komist um jörðina fyrir djúpfenni“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Blæmunur (n, kk)  Svo lítill munur að hann greinist varla; örlítill munur á litablæ/tóntegund/áferð eða öðru.  „Eggin eru nánast eins, en þó er á þeim blæmunur“.

Blæða (s)  A.  Missa blóð.  „Það ætlaði aldrei að hætta að blæða úr þessari smáskeinu“.  B.  Slanguryrði um að borga; greiða. 

Blæða (eitthvað) í augum (orðtak)  Ofbjóða eitthvað; þykja eitthvað yfirdrifið.  „Það þýðir ekkert að láta verðið blæða sér í augum þegar mann vantar þetta nauðsynlega“.  Sjá svíða í augum.

Blæða út (orðtak)  Missa svo mikið blóð að banvænt sé.

Blæðing (n, kvk)  A.  Blóðrás; útferð blóðs úr sár.  „Settu á þetta plástur fyrir mig, til að stoppa blæðinguna“.  B.  Notað í fleirtölu um tíðir kvenna.

Blæja (n, kvk)  A.  Þunnur dúkur.  Blæja er lögð yfir andlit líks fyrir jarðsetningu.  Trúarsiður sumra kvenna í islam er að hylja andlitið með blæju.  B.  Dúkur sem notaður er sem skýli á farartæki.  „Rússajeppinn var með blæju fyrstu árin“.

Blæjalogn (n, hk)  Algert logn/hægviðri; stilla; kjör.  „Það þornar seint af í þessu blæjalogni“.  Forliðurinn vísar til þess að ekki blakti blæjur.

Blæmunur (n, kk)  Mjög lítill munur; sýndarmunur; örlítill munur í lit/hljóði/áferð/bragði o.fl.  „Mér finnst nokkur blæmunur á þessari grásleppu og þeirri í Firðinum.  Skyldi hafa komið ný ganga“?

Blær (n, kk)  A.  Hæg vindgola; andvari.  B.  Svipmót; áferð; litur.  „Nokkuð finnst mér annar blær á þessari samkomu en síðasta fundi“.

Blæs ekki byrlega (orðtak)  Gengur ekki vel; er ekki hagstætt; lánið leikur ekki við.  „Það blæs ekki byrlega fyrir okkur með vitjanir þessa vikuna“.

Blæs út sólir (orðtak)  Einnig nefnt hjásólir eða aukasólir, en í Kollsvík var fremur sagt; „Nú blæs út sólir“ um það þegar ljósbrot urðu sitt hvoru vegar við sólina í vissum skilyrðum.  Þetta ljósbrot myndast er sólargeislar fara í gegnum blikuský og brotna þar í ískristöllum.  Stundum er ljósbrotið einungis annarsvegar sólar en stundum nær það hring í kringum sólina og nefnist þá rosabaugur.  Ljósbrotið vinstra megin sólar var kallað úlfur en hægra megin gíll.  Hjátrú tengdist þessum fyrirbærum, ættuð úr heiðni.  Hvorttveggja var talið boða illt, en þó sýnu verra ef einungis sást gíllinn.  Um það var orðatiltækið „sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni“.  „Úlfar fyrir og eftir sólinni, fagrir, eða rauð sól í niðurgöngu, boða oftast þurrt þráviðri.  Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur eftir renni.  Gangi rauður hali aftur af gílnum, boðar stórviðri.  Margir úlfar kringum sól, rauðgrænir að lit, boða stórviðri með hreggi eða kafaldi, eftir ársins tíma.  Dökkrauðir og grænleitir hringar kringum sólina vita á það sama; helst þegar hún er í upp- eða niðurgöngu.  Skær og fagur hringur kringum sólina um miðdegi í björtu veðri, og standi úlfar skærir sem ljós í þeim hringi og sólin lika skær innan í hringnum, þýðir ætið veðráttu góða og mjúka.  Það merkir og sama þegar hringar um sól dragast af allt í einu, án þess hlið veri á þeim.  Sólir þrjár í austri; árla sénar, boða kalt veður, en í vestri á kvöldin blíðviðri.  Veðrahjálmur kallast þegar tveir hringar eru um sólina, hvor tutanyfir öðrum og víða úlfar í þeim hringum, hvítir, vita á kalt þráviðri um hríð og stundum til langframa“  (BH; Atli).

Blæsma (l)  Um sauðkind; eðlunarfús; ganga.  Orðið var ekki notað í Kollsvík í seinni tíð, þó það væri þekkt.  Þar er einatt talað um að kind gangi, eða það sé gangur á henni.  Sjá þar.

Blæstur í máli (orðtak)  Málhaltur; hljóðvilltur; smámæltur.  Oftast haft yfir þá sem eiga erfitt með að bera fram einstök hljóð í málinu, t.d. s eða þ og nota þá önnur hljóð í staðinn.  Stundum þó notað um þá sem eru mjög stirðir í máli og/eða tala afbakað mál; rassbögusmiði.

Blöðrubólga (n, kvk)  Sýking í þvagblöðru; þvagfærasýking.  Stafar oft af bakteríum.

Blöðruselur (n, kk)  A.  Cystophora christata; selategund sem algeng er sunnantil við Grænland en sést hérlendis.  Hann er með blöðru eða poka á hausnum sem hann blæs upp t.d. þegar hann er í vörn.  Hefur sést í Kollsvík.  B.  Skammaryrði um mann sem bullar/ talar of mikið.

Blöðruspark (n, hk)  Knattspyrna; það að sparka bolta.  „Ég hef aldrei skilið hversvegna fullorðið fólk leggur sig niður við þetta tilgangslausa blöðruspark“!

Blöðruþang (n, hk)  Bóluþang (sjá þar).  Bæði heiti voru notuð í Kollsvík.

Blöðun (n, kvk)  Aðferð við skeytignu/semfestingu smíðaviðar.  Sjá blaða saman.

Blökk  (n, kvk)  Skoruhjól, notað með reipi til að auka vægi við lyftingu/tog.  Stundum eru tvær eða fleiri blakkir í sama búnaði, kallaður talía, og hver blökk þá oft margskorin.

Blökkumaður (n, kk)  A.  Maður af lituðum kynþætti; svertingi.  Af einhverjum ástæðum hefur heitið á síðustu árum og að ósekju fengið á sig yfirbragð kynþáttahyggju, en er þó ekki annað en lýsing á húðlit.  B.  Gæluheiti á mönnum sem fara til eggja í Blakknesi/Blakk.  Sú notkun er mjuög svæðisbundin.

Blöndudrukkur (n, kk)  Blanda; sýrublanda sem höfð er með í róður/ferðalag til að svala þorsta og hungri.  Sjá blanda.

Blöndukútur (n, kk)  Ílát með vatnsblandaðri sýru sem haft var með á sjóinn til hressingar og næringar.  Fyrrum mun hann hafa verið eina nestið sem vermenn höfðu meðferðis í dagróðra.  Væri hálfdrættingur um borð var það hans hlutverk að sjá um blöndukútinn.  „Ekki mátti heldur gleyma drykkjarílátinu; blöndukútnum.  Hann var það eina til neyslu sem haft var með í þessa stuttu róðra“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þá er farið að hita kaffi og tekið til nesti; og ekki má gleyma blöndukútnum.  Í honum er sýrublanda og er hún góð við þorsta“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Sums staðar var það verk hálfdrættings að hafa allan hampa af blöndukútnum; fylla á hann; bera um borð og frá borði, og sjá um hreinsun hans“  (LK; Ísl.sjávarkhættir; heim; ÓETh). 

Blöndun (n, kvk)  Það að blanda/hræra.  „Hér hefur eitthvað misfarist blöndunin á steypunni“.

Blöndungur (n, kk)  Sá hluti bensínvélar sem blandar bensíni við loft í hæfilegu hlutfalli.

Blöskra (s)  Ofbjóða; hneikslast.  „Mér blöskrar alveg svona umgengni“.  Mjög gamalt í málinu og uppruni óviss. 

Blöskranlega (ao)  Ofboðslega; ógeðslega; hræðilega.  „Blöskranlega geta menn stundum hagað sér“!

Blöskranlegur (l)  Hneykslanlegur; yfirgengilegur.  „Alveg er þetta blöskranleg sóun“.

Bobbi (n, kk)  A.  Annað heiti á kuðung.  Lítt notað þannig í Kollsvík.  B.  Líkingamál um það að standa í keng.  Einungis þannig í orðtakinu komast/kominn í bobba.

Bobbingur (n, kk)  Rúlla/hjól  sem þrædd er upp á fótreipi botnvörpu í þeim tilgangi að hindra hana í að festast á ójöfnum þegar varpan er dregin eftir botninum.  Bobbinga hefur lengi rekið á fjörur í Kollsvík.  Fyrst í stað voru þeir úr tré; síðar úr járni og síðast úr gúmmíi.

Boddí (n, hk)  Síðari tíma heiti á yfirbyggingu bíla, einkum flutningakassa vörubíla (boddíbíla).  Sletta úr ensku.

Boð (n, hk)  A.  Skipun. „Ég fer ekkert nema að ég fái boð um það“.  B.  Stytting úr þingboð, sjá þar.  C.  Beiðni um að mæta í samkvæmi; á fund eða annað.

Boð og bönn (orðtak)  Fyriskipanir; lög; reglur.  „Hann virti engin boð, heldur fór sínu fram“.

Boða (s)  Tilkynna; senda boð um; láta vita af.  „Stjórnin hefur boðað lagasetningu í þessum efnum“.

Boða komu sína (orðtak)  Tilkynna fyrirfram að maður sé væntanlegur.

Boða (einhvern) á sinn fund (orðtak)  Gera einhverjum boð/orð um að koma til fundar/viðtals.

Boðafall (n, hk)  A.  Brimskafl; bára sem brotnar; brot báru sem rís á grunni/boða/sker; brot; brimalda.  „Gættu að; það geta risið boðaföll á grynningunum þarna framundan“.  „Hlés í roða hjöllunum/ hringir voðinn bjöllunum;/ steypast goð af stöllunum/ stríðs í boðaföllunum“  (JR; Rósarímur).  B.  Líkingamál um fyrirgang.  „Hann ruddist inn á fundinn með boðaföllum og skammaðist yfir því að framhjá sér væri gengið“.

Boðar ekki gott (orðtak)  Er ekki góður fyrirboði; veit á slæmt/illt; eer ískyggilegt.  „Það boðar aldrei gott þegar hann þykknar svona fljótt upp í suðrinu“.

Boðberi (n, kk)  Sá sem ber/flytur boð/tíðindi/boðskap.  „Hann var boðberi nýrra viðhorfa í þessum efnum“.

Boðburður (n, kk)  Það að koma boði rétta boðleið milli bæja. Sjá þingboð og boðleið.

Boðfall (n, hk)  Sá glæpur að koma ekki boði frá sér, rétta boðleið til næsta bæjar samkvæmt hinum ævafornu lögum og venjum um þingboð.  Boðfall varðaði nokkuð háum sektum.  Sjá þingboð og boðleið.

Boðflenna (n, kvk)  Sá/sú sem mætir óboðin(n) í hús/veislu/samkomu.  „Þú ert engin boðflenna fremur en hver annar; ég bauð engum í afmælið en tek á móti þeim sem nenna að mæta“.

Boðháttur (n, kk)  Málfræðileg skilgreining setningar/sagnorðs; skipun. 

Boði (n, kk)  A.  Hlein sem annaðhvort kemur uppúr sjó um fjöru eða er alltaf á kafi; getur þá verið launboði.  B.  „Stór alda sem ýmist hefur sig upp á úthafi eða nálægt landi...“   (LK;  Ísl. sjávarhættir III).  „Hinir formennirnir voru allkunnir fiskimiðum á Kollsvík og þekktu þar helstu boða og grynni; svo sem Djúpboða, Arnarboða, Leiðarboða og Þembu, sem allt eru blindsker á fiskislóð og brjóta ef um stórsjó er að ræða“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „Þegar við komum upp að Blakknesi var um það að ræða hvort fara ætti í Sund eða fyrir framan Nesboðann.  Ekki er fært sundið milli boðans og lands nema lítill sé undirsjór“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Boðinn og búinn (orðtak)  Mjög viljugur/tilbúinn að aðstoða.  „Oftast voru hásetar boðnir og búnir til liðsinnis við störf þessi“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Það var svo með hvaða verk sem hún (Ólafía Magnúsdóttir) vissi að kæmu sér vel fyrir fólk; hún var boðin og búin að inna þau af hendi, þó nóg væri að gera heimafyrir“ (DÓ; Að vaka og vinna). 

Boðkefli (n, hk)  Kefli sem fyrrum var notað til boðsendinga.  Sjá boðöxi; þingboð; þingboðsöxi; boðleið.

Boðlegur (l)  Frambærilegur; sem er hæfur til þess að bjóða/ vera í boði.  „Henni fannst ekki boðlegt að láta gestina sitja á kollustólum“.

Boðleið (n, kvk)  Fyrirfram ákveðin leið sem boð gengur um svæði.  Hugtakið boðleið er ævafornt og tengist þingboðum til forna.  Uppruninn er sennilega frá því löngu fyrir landnám á Íslandi, þegar herkonungar þurftu að senda herútboð.  Þá var ýmist „skorin upp herör“, þ.e. ör, eða eftirlíking af ör, látin ganga „rétta boðleið“ á svæðinu, eða boðinu var vafið um skaft á öxi eða líkneski axar sem nefndist stríðsöxi eða þingboðsöxi.  Þaðan er komið orðtakið að grafa stríðsöxina = semja frið; hætta hernaði.  Vitað er að Hákon konungur Aðalsteinsfóstri gaf út tilskipanir um árið 950 varðandi herörvar til herkvaðningar.  Þær elstu sem nú eru varðveittar eru með rúnaletri.  Líklegt er að strax á þjóðveldisöld hafi myndast þær boðleiðir á Íslandi sem héldust gegnum aldirnar.  Fyrst eftir kristnitöku var notuð eftirlíking af krossi, til að boða kirkjuleg efni.  Ávallt var þó við líði hin forna þingboðsöxi; líklega framundir lok 18. aldar eða lengur.  Þetta eru litlir trémunir í axarlíki, um 20 cm að lengd, og var boðinu vafið um skaftið.  Nokkrar þingboðsaxir eru varðveittar á Þjóðminjasafni Íslands; þar af ein merkt Villingaholtshreppi.  (VÖ fékk Siggu á Grund til að skera fyrir sig eftirlíkingu hennar).  Meðan Íslendingar héldu sig við þingboðsaxir og þingboðskrossa fóru Norðmenn að nota lítil kefli til að vefja boðinu um; og síðar hólka til að stinga því í.  Voru það nefnd „budstikke“.
Um þingboð og axarburð giltu ákvæði Grágásar, skráð árið 1117, en þar segir svo í ákvæðum um ómaga:  „Ef ómagi er þar færður á hendur manni í hrepp að ólögum, eða er skotið þar í hrepp, þá skal sá maður er ómaginn er færður skera kross ef hann þykist hreppsfundar þarfi, og bera þar til hins næsta húss, og nefna þar hreppsfund til sín á sjö nátta fresti eða meira méli og kveða á hvert hinn skal bera krossinn.  Enda skal hver láta krossinn frá sér, svo sem sá mælti er skar, og láta fara sem dagur endist.  Ef menn tefja krossförina, eða komi þeir menn eigi til hreppsfundar, þá varðar það hverjum þeirra þriggja marka sekt.  En þá dvelja menn krossförina ef þeir færa eigi þegar af hendi er þeir vitu að kross kom, ef eigi bægja nauðsynjar þeirra“  (Grágás). 
Frá 13. Öld giltu þessi ákvæði Jónsbókar:“Sá skal boð bera bæja milli er hyggja kann fyrir orði og eiði.  Bónda skal boð í hendur fá, ef hann er heima, en húsfreyju hans ef hann er eigi heima, syni hans ef hann er fulltíða maður, dóttur hans ef hún er vaxin, þar næst bryta eður hinum besta manni er í bæ er staddur.  En ef hjú eru öll af bæ gengin þá skal ganga í setuhús bónda, ef það er opið, og setja niður í öndvegi, svo að eigi falli, en ef hann má eigi inn komast, þá skal boð binda yfir miðjar dyr svo að hverr megi sjá sem inn gengur Engi skal boð bera á hönd öðrum síðan sólu er sett um sumar en degi um vetur ” (Jónsbók).  
Þingboðsaxir voru ýmist hreppstjóraaxir eða sýslumannsaxir.  Sá sem boð fékk í hendur frá réttmætum yfirvöldum var skyldugur til að koma því til næsta bæjar á boðleiðinni tafarlaust, en þó mátti boðið aðeins vera á ferð að degi til.  Síðasti bær skyldi skila boðinu aftur í hendur yfirvaldsins.  Boðfall varðaði sektum.   Eftir því sem póstþjónusta varð skipulagðari á landinu misstu hinar fornu boðleiðir vægi sitt, og enn frekar með tilkomu bílvega; síma og útvaps.  Með tímanum féllu þingboðsaxir í gleymsku.  Eitt varð þó til að halda uppi minninu um boðleiðirnar, en það var fjallskilaseðillinn.  Þeirri venju var haldið í Rauðasandshreppi meðan hann hélt sínu sjálfstæði; að hreppsnefnd lét fjallskilaseðil ganga milli bæja; einn seðil fyrir hverja réttarsókn, þar sem tilgreint var hve marga menn hver bóndi eða landeigandi skyldi leggja til smalana; hvenær skyldi réttað og hvar.  Í haus seðilsins var áréttað að hann skyldi ganga „frá bæ til bæjar; rétta boðleið“ og að hver viðtakandi væri skyldugur að koma honum í hendur hins næsta.  Fjallskilaseðill fyrir Breiðavíkurréttarsókn fór fyrst að Hvallátrabæjum, síðan að Breiðuvík og að lokum norður eftir Kollsvíkurbæjunum.  Má ætla að þannig hafi boðleiðir ávallt verið réttsælis; hver á sínu svæði; enda var sólargangurinn mönnum heilagur í mörgu. 
Séra Björn í Sauðlauksdal segir svo í Atla:  „Boð áttu víst að upp skera og senda það boðleið um hreppinn undan þér fyrir hreppstjórnarþingið.  Sýslumenn láta bera undan sér breiðaxar boð, sem merkir það kóngsvald sem þeir hafa... Það boð á að brúka til allra kóngserinda þar sem um skipan eður kóngs og þegngildi er að höndla, svo sem til manntals, manndrápsleiðar o. fl. þinga.  Til allra kirkjusóknarfunda, hreppsnauðsynja og sveitarskila hafa menn áður brúkað krossboð.  En til að boða byggðamönnum rán, hernað eða manndráp þá var skorin upp ör sem sendist gjarnan alla vega frá vettvangi.  Það boð skyldi bera í þá líking fljótt sem ör flygi og allir áttu þá strax að þysja saman vegna fráðra nauðsynja“  (BH; Atli).
Líklega má rekja til þessara siða ýmsar íþróttagreinar samtímans, s.s. boðgöngu, boðhlaup o.fl.  Þar fer hver keppandi með kefli og kemur í hendur næsta keppanda í sínu liði.  Í Noregi var lengi við líði sá siður að boðkefli (budstikke) væri boðsent milli bæja, í stað axar eða kross, en aðferð og reglur mest þær sömu.  Sjá axarboð; rétt boðleið; skera upp herör; þingboðsöxi.

Boðorð (n, hk)  A.  Skipun; tilmæli.  „Ég sendi honum boðorð um að þú hringja í mig fljótlega“.  B.  Tíu siðareglur sem í biblíunni eru sagðar sendar mannkyninu frá guði.

Boðsenda (s)  Senda með boðsendingu.

Boðsending (n, kvk)  Skeyti; orðsending; skilaboð; það að koma skilaboðum áleiðis.  „Ég er lítið hrifinn af svona boðsendingum; hann getur sem best komið sjálfur og sagt mér þetta“!

Boðsbréf / Boðskort (n, hk)  Bréfleg boð um að mæta t.d. á fund eða í samkomu/veislu.

Boðskapur (n, kk)  Það sem boðað/predikað/flutt/tjáð er; skilaboð; inntak.  „Með þessu er hann kominn í andstöðu við sinn eigin boðskap“.

Boðun (n, kvk)  Tilkynning; kvaðning; orðsending.  „Ég fékk enga boðun um þetta“.  Í biblíutilvitnun er boðun oftast nefnd um „boðun Maríu“ og þá átt við það þegar engill guðs tilkynnt henni að hún myndi eignast eingetinn son.

Boðunarbréf (n, hk)  Bréf í pósti eða með boðsendingu, sem í er einhver boðun, fyrirskipun eða tilkynning.

Boðunardagur Maríu  25. mars; messudagur í kaþólskum sið, stundum nefndur Maríumessa á langaföstu.  Til minningar um að Gabriel erkiengill vitraðist Maríum mey og boðaði fæðingu Jesú að níu mánuðum liðnum.  Biblíuhöfundar töldu ekki viðeigandi að hann væri getinn með hinni venjulegu aðferð.

Boðungur (n,kk)  Framhlið á jakka/vesti.  Oftast átt við svæðið nærri hneppingunni eða ofan hennar.  Orðið var áður „boðangur“ og merkti upphaflega það sem var boðið til kaups; vara var höfð á boðangri.  Síðari hlutinn vísar til orðsins „kaupangur“ sem er fornt heiti á verslunarsvæði/markaði.

Boðvald (n, hk)  Nýlegt orð um vald til að ráðskast með/ fyrirskipa.  „Hann hefur ekkert boðvald yfir mér“!

Boðöxi (n, kvk)  Stytting á þingboðsöxi.  Sjá boðleið.

Bofs (n, hk)  A.  Lágt gelt í hundi; ógreinilegt hljóð.  B.  Líkingamál um muldur/nöldur.  „Ég heyrði varla bofs í símanum fyrir truflunum á línunni“.  „Hann þagði bara og sagði ekki bofs“.

Bofsa (s)  Gelta lágt.  „Á hvað er hundurinn að bofsa núna“?

Boga (s)  Um vökva; sprautast í boga; renna.  „Svitinn bogaði af okkur þar sem við puðuðum við eggjatöku á Stígnum, enda steikjandi sól og blankalogn.

Bogadreginn (l)  Gerður/teiknaður í boga.  „Brúnin á Núpnum er sérkennilega bogadregin frá sjó að sjá, og stingur í stúf við nesin á svæðinu“.

Bogamínúta / Bogasekúnda (n, kvk)  Hlutar úr hringferli í flatarmáls/- rúmfræði.  Hring er venjulega skipt niður í 60 jafnar mínútur, og hverri mínútu er skipt í 60 jafnar sekúndur.  Þessi aðferð er notuð til staðsetninga á jarðarkúlunni.  Henni er skipt upp í 360 ímyndaða hálfhringi; „bauga“,  sem ná milli póla; 180 lengdarbauga vestan Greenwich og jafn marga austanvið.  Einnig er jarðarkúlunni skipt þvert á þessa  lengdarbauga með 180 hringjum; breiddarbaugum.  Núllbaugur er miðbaugur, en beggja megin eru norðlægar og suðlægar breiddir.  Bilið milli tveggja bauga skiptist í 60° (gráður), hver gráða skiptist í 60´ (mínútur) og hver mínúta skiptist í 60“ (sekúndur).  Þannig má staðsetja hvern punkt á jarðaryfirborðinu með allmikilli nákvæmni.  T.d. er hnattstaða Kollsvíkur í grófum dráttum; 65°36´norður (norðlægrar breiddar) og 24°18´vestur (vestlægrar lengdar).  Ein bogamínúta milli breiddarbauga svarar til einnar sjómílu eða 1.852 m.

Bogfimi (n, kvk)  Leikni við að skjóta ör af boga.  „Við strákarnir bjuggum okkur til boga og örvar úr grönnum spýtum og seglgarni og æfðum bogfimi á mókofagaflinum“.

Bogi (n, kk)  A.  Bogalöguð/bogin lína; boglína; hlutur sem er boginn.  B.  Vopn; sveigður grannur teinn með streng milli enda; notaður til að skjóta ör um nokkra vegalengd.  C.  Dýrabogi; tæki úr járni þar sem bogalagaðir kjálkar eru glenntir í sundur; agn sett á milli og dýr veitt sem tekur það, en við það smella kjálkarnir saman.

Boginn (l)  Sveigður; beygður.  Sjá eitthvað bogið við (eitthvað).

Boginn og bjagaður / Beyglaður og bjagaður (orðtök)  Úr lagi genginn; aflagaður; skemmdur/klesstur/skakkur en þó ekki brotinn.

Boglína (n, kvk)  Sveigð lína; bogi; baugur.  

Bogmaður (n, kk)  Sá sem er með/ skýtur af boga. 

Bogna (s)  Svigna; kikna; láta undan.  „Betra er að bogna en bresta“.

Bogr (n, hk)  Baks; vinna þar sem maður er álútur.  „Maður er þreyttur eftir þetta árans bogr við kartöflurnar“.

Bogra (s)  Vera álútur; baksa.  „Fullorðnir þurfa dálítið að bogra til að komast inn lág göngin, en hesthúskofinn er góð mannhæð þegar inn er komið“.

Bokki (n, kk)  Hrokafullur maður.  „Þú ert varla orðinn sá bokki að þú heilsir ekki sveitungum á förnum vegi“!  Sjá stórbokki sömu merkingar sem oftar er notað.  Stofnskylt búkki, í merkingunni trjádrumbur; undirstaða.

Bola (s)  Ryðja; ýta frá með hörku.  „Mér fannst honum bolað úr starfinu á ósanngjarnan hátt“.  Sjá boli.

Bolakálfur (n, kk)  A.  Ungur tarfur; nautkálfur.  B.  Líkingamál; niðrandi gæluheiti um strák/ungling.

Bolast (s)  Óleyfileg aðferð í glímu; glíma álútur og skapa sér þannig forskot á andstæðinginn.

Bolatollur / Nautstollur (n, kk)  Gjald sem greitt var fyrir afnot af nauti.  Fyrir daga sæðingatækni var fyrirkomulag oft með þeim hætti að naut á einum bæ var samnýtt fyrir aðra kúaeigendur, og var þá oft greitt eitthvað gjald fyrir eldi þess.  Víða var skinnið af kálfinum talið löggiltur nautstollur.

Boldang (n, hk)  A.  Upphafleg merking; gróft/þykkt efni; þykkt léreft; segldúkur.  B.  Í seinni tíð notað um hvaðeina sem er viðamikið/fyrirferðamikið og þungt í meðförum.

Boldangsfiskur / Boldangsþorskur (n, kk)  Stór/vænn fiskur; auli; golþorskur.  „Þú dregur hvern boldangsfiskinn eftir annan en ég fæ tóma aumingja“!  „Þarna dró ég hvern boldangsþorskinn eftir annan“.

 Boldangsflík (n, kvk)  Ruðamikil/ fyrirferðarmikil flík.  „Þessi úlpa er boldangsflík; og mikið helvíti er hún nú hlý og skjólgóð“.

Boldangskoddi / Boldangssæng (n, kk/kvk)  Sængurfatnaður úr grófu/þykku lérefti.  Í seinni tíð notað um stóran kodda og þykka sæng.

Boldangskvenmaður (n, kk)  Stór/myndarlegur/föngulegur kvenmaður.  „Hann hefur heldur betur náð sér í boldangskvenmann þykir mér“! 

Boldangsmikill (l)  Umfangsmikill; mikill á velli; ílagagóður.  „Þetta var boldangsmikið rekatré“.

Boldangstré (n, hk)  Stórt rekatré.  „Þarna var mikið sprek á fjörum og fáein boldangstré“.

Bolfiskur (n, kk)  Oft notað um nytjafisk, annan en smáfisk (s.s. titti, síld og loðnu) og flatfisk (lúðu, skötu, kola o.fl.).  Stundum þó eingöngu notað um hausaðan og slægðan fisk; óflattan og óflakaðan.

Boli (n, kk)  Naut; nautboli.  „Heldur nú Einar sem leið liggur með bola upp á hálsinn innanverðan“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Bolla (n, kvk, linur frb).  A.  Hnattlaga lítið stykki af mat/brauði.  T.d. fiskbolla; ketbolla; rjómabolla.  B.  Líkingamál um feitlagna manneskju.

Bollaleggingar (n, kvk, fto)  Ráðagerðir.  „Eftir miklar bollaleggingar varð það að ráði að þremenningarnir legðu af stað í leit...“  (MG; Látrabjarg).

Bollaleggja (s)  Áætla; skipuleggja; hugsa/ræða um bestu leiðir.  Sennilega líking við það að leggja á borð til undirbúnings á kaffidrykkju/gestaboði.

Bollapar (n, hk)  Bolli og undirskál.  „Ég geri mér enga rellu útaf ósamstæðum bollapörum“.

Bollastell (n, hk, linur frb í enda)  Nokkur bollapör í sama stíl/ með sama mynstri.  Í seinni tíð var það ýmsum húsmæðrum metnaðarmál að eiga fallegt bollastell sem notað var við hátíðleg tækifæri.

Bolli (n, kk)  A.  Lítið ílát; drykkjarílát.  Oft með höldu í seinni tíð.  B.  Skálarlaga djúp laut í landslagi eða efni.  „Utantil á Hnífunum eru skjólsælir grösugir bollar“.  C.  Mælieining t.d. í matargerð; það sem rúmast í bolla.  D.  Líkingamál um bát.  T.d. manndrápsbolli.

Bollok (n, hk, harður frb)  Hokur; búskaparbasl; bauk.  „Hann sagðist ekki skilja hvernig menn nenntu að binda sig yfir þessu bolloki, sem engu skilaði nema puðinu“.

Bolloka (s)  Hokra; búa.  „Hann hefur bollokað þarna einn í sínu koti“.

Bolludagur (n, kk, linur frb)  Mánudagurinn í föstuinngangi, áður en langafasta hófst.  Föstuinngangur náði yfir sunnudag, mánudag og þriðjudag fyrir páska, og þá skyldu menn „fasta við hvítan mat“, þ.e. ekki borða kjöt.  Þá hefur komist á sá siður að borða einhverskonar brauðbollur í staðinn, og hið íslenska nafn er kennt við þann innflutta sið.  Þær voru snæddar Kollsvík sem annarsstaðar en einnig gjarnan fiskibollur.  Um 1700 tíðkaðist í Danmörku að borða hveitibollur með mjólk og smjöri á föstuinnganginum; sjá rjómabolla.  Bolluátið virðist upphaflega hafa verið á sprengidegi, sem er á þriðjudag í föstuinngangi, en flust síðar á mánudag.

Bolmagn (n, hk)  Geta; afl; kraftar; fjárráð.  „Þá hafði félagið ekki bolmagn til að kaupa þetta“.

Bolmikill (l)  Með stóran bol, skrokk, búk.

Bolta (s)  A.  Setja saman með járnbolta/ stórri járnskrúfu.  B.  Fyrri merking; strauja með straubolta/straujárni.

Boltafiskur / Boltaþorskur (n, kk)  Feitur rígaþorskur.  „Yfir fallaskiptin drógum við þarna hvern boltafiskinn eftir annan; spikfeita aula; sprellfjöruga og með vellandi síli úr kjaftinum“.

Boltafjandi (n, kk)  Niðrandi heiti á boltaíþróttum; töluvert notað af þeim stóra hópi Kollsvíkinga sem hefur lítinn áhuga eða skilning á þeirri íþrótt.  Þar eru þó nokkrar undntekningar á í seinni tíð.  „Ekki skil ég hvernig nokkur lifandi sála getur fengið sig til að eyða tíma yfir þessum boltafjanda síknt og heilagt“!

Boltaleikur (n, kk)  Leikur að/með bolta.  „Þá var líka tíðkað að fara í heimsóknir á aðra bæi; einnig að koma saman og fara í boltaleik og útilegumannaleik þegar fór að dimma“  (IG; Æskuminningar). 

Boltatuðra (n, kvk)  Gæluheiti á fót- eða handbolta.  „Ég hef aldrei nennt að eltast langtímum saman við einhverja boltatuðru, og skil illa þá sem hafa gaman af svo tilgangslausu hoppi“.

Bolti (n, kk)  A.  Knöttur; uppblásin kúla; snjóbolti.  B.  Stór járnskrúfa, oftast með ró á enda; ætluð til að festa saman/niður efni.  C.  Gæluheiti á stórvöxnum manni/fiski/dýri.  D.  Stytting á straubolti.

Bolungur (n, kk)  Viðarbolur, einkum sem er mikill um sig en nýtist illa, t.d. stuttur, maðksmoginn eða fúinn.  Orðið var þekkt í Kollsvík í seinni tíð, en ekki mikið notað.

Bolur (n, kk)  A.  Trjáviður; tré.  Rótar- og lmlaust og fremur stórt en lítið.  B.  Skrokkur; búkur; líkami að frátöldu höfði og útlimum.  C.  Ermalaus/ermastutt innri skyrta.

Bolöxi (n, kvk)  Stór öxi með löngu skafti, ætluð til að höggva niður tré í skógi, aflima tré og grófvinna það.

Bomba (n, kvk)  Tökuorð og gæluheiti á sprengju.

Bombardera (s)  Kasta sprengjum að; ráðast á.

Bommerta (n, kvk)  Skandall; hneyksli.  „Eftir þessar bommertur lét hann ekki sjá sig lengi á bænum“.

Boms (n, hk)  Fall; hávaði.  „Það varð ári mikið boms þegar bjargið féll í sjóinn, skammt frá okkur“.

Bomsur (n, kvk, fto)  Skófatnaður til útinotkunar; hærri en lágskór; lægri en stígvél.  Um miðja 20.old var orðið notað um reimaða gúmmiklossa af sérstakri gerð; sem auðvitað voru fengnir úr kaupfélaginu.

Bopp (n, hk)  A.  Hreyfing upp og niður.  B.  Sífelldur lágvær hósti; hóstakjöltur.  „Það er enn eitthvað bévítans bopp í manni“.

Boppa (s)  A.  Dúa upp og niður.  „Baujan er dökk og sést illa þegar hún boppar í mikilli báru.“.  B.  Hósta títt en lágt.

Bor (n, kk)  Nafar; áhald til að gera holu/gat í efni.  Stundum í seinni tíð notað um tæki sem snýr bornum.

Bora (n, kvk)  A. Kytra; lítið rými/herbergi/skot. Hefur í upphafi merkt gat/hola sem boruð er. B.  Rass; endaþarmur; rassbora.  „Sestu nú á boruna og fáðu þér kaffisopa með okkur“. 

Bora (s)  A.  Búa til gat/holu með bor.  B.  Troða.  Sjá bora sér.

Bora í nefið á sér (orðtak)  Nota fingur til að hreinsa nös sína. 

Bora sér (orðtak)  Troða sér; koma sér í þrengsli; fela sig.  „Hvar hefur þessi ungahæna nú borað sér“?

Borð (n, hk)  A.  Hækkaður stallur til að matast á; vinna við eða geyma hluti; sófaborð; matborð o.fl.  B.  Fjöl; borðviður; nytjatimbur.  „Reisifjöl var slétthefluð borð, óplægð, sett innan á sperrur í gömlum baðstofum helluþöktum; stundum aðeins yfir rúmunum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).   Af sama meiði eru samsetningar s.s. matarborð, stofuborð, flatningsborð, skákborð o.fl.  C.  Umfar í báti.  Hvert borð/umfar hefur sitt nafn.  Neðst, við kjölinn, er kjalsíða.  Hún er nánast þríhyrnd í þversnið og fellur ein hliðin að kilinum; önnur veit upp í botn bátsins og þriðja myndar sæti fyrir næsta borð, sem nefnist farborð.  Utar því kemur fráskotsborð; næst undirúfur og þá yfirúfur.  Hrefna nefnist það næsta, en þá er botninn farinn að sveigja verulega uppávið; næst sjóborð sem er í sjólokunum á tómum báti; þá sólborð og efst rimaborð, en innan á það kemur borðstokkur/hástokkur.  (byggt á því sem Ó.E.Th. Vatnsdal skráði eftir Sigurði Sigurðssyni bátasmið í Breiðuvík; LK; Ísl. sjávarhættir II).  D.  Hlið á efni, fatnaði, íláti eða öðru.  Sbr innra/ytra borð.  Af sama meiði eru t.d. yfirborð, fjöruborð, sjávarborð, vatnsborð og að komið sé borð á vökva við það að hann lækkar í íláti.

Borð á (orðtak)  Um vökva í íláti; ekki fullt.  „Passaðu þig að hella ekki í fleytifullt fatið; þar þarf að hafa gott borð á“.

Borð fyrir báru  (orðtak)  Fríborð; það sem uppúr sjó stendur af byrðingi hlaðins báts.  „Við hlóðum bátinn þarna á örstuttum tíma, þannig að varla var borð fyrir báru á landstíminu“.  Alltaf þykir öruggara að eitthvað standi uppúr af byrðingi báts þegar hann er hlaðinn, þannig að hann þoli dálítinn sjógang.  Notað í líkingamáli um að hafa vaðið fyrir neðan sig; eiga umfram til öryggis.  Sjá hafa borð fyrir báru.

Borð í borð (orðtak)  Um stýri báts eða annars farartækis; frá því að leggja fullt á í annað borðið til þess að leggja fullt á í hina stefnuna.  „Við urðum að sigla rólega yfir röstina, með gutlandann á bóginn, og hann sló stýrinu borð í borð til að reyna að halda stefnunni“.

Borða (s)  Eta; snæða; matast; fá sér í svanginn.  „Viltu ekki fá þér eitthvað að borða“?

Borða tvímælt (orðtak)  Borða tvisvar á dag /tvær fullar máltíðir á dag.  „Þá var oft borðað tvímælt“.

Borðafullur (l)  Bátur sem fengið hefur áfall og fyllst af sjó;borðstokkafullur.  „Aftur veltur báturinn og er nú kjölréttur, en borðafullur“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Borðalagður (l)  Með gullbryddingar á fatnaði; háðsyrði um suma embættismenn/löggæslumenn.  „Hann þorði ekki að setja í hágírinn; ef svo slægist að þeir borðalögðu væru í grenndinni“.

Borðbreiður (l)  Um bát; með breiðum borðum í súð.

Borðdúkur (n, kk)  Dúkur sem breiddur er á borð til að hlífa því og auðvelda þrif. 

Borðfast (l)  Í spilum.  Almenn regla er sú að spil sem látið er út telst vera borðfast og óendurkræft þegar spilarinn hefur sleppt af því hendinni, en þangað til hefur hann færi á að hætta við og taka það aftur.

Borðfletta (s)  Fletta/saga tré í borðvið.  „Þessi bolur er beinn og kvistalaus; það má vel borðfletta honum“.

Borðhald (n, hk)  Það að matast; át.  „Mér leiðist svona borðhald; ég er vanur að sitja við borð meðan ég ét en ekki rápa um allt hús með matinn“!

Borðhár / Borðlágur (l)  Um bát; með háan/lágan borðstokk; hár/lágur á borðið.

Borðhnífur (n, kk)  Hnífur sem hentar til að brytja niður mat á diski þegar snætt er, og koma mat á gaffal áður en munnbiti er etinn.  Oft einjárnungur, sljór í oddinn.

Borðhækka (l)  Um bát; hækka borðstokka með því að bæta við skíði/umfari/borði.  „Hann ver sig mun betur eftir að hann var borðhækkaður“.

Borði (n, kk)  Lindi; reim; ól.

Borðleggjandi (l)  Augljóst; öruggt; liggur ljóst fyrir. Komið úr spilamennsku, t.d. í vist, um það þegar spilari leggur spil sín niður strax í upphafi, þar sem augljóst er að hann muni vinna/taka alla alla slagina.  „Það er alveg borðleggjandi að við róum ekki á morgun“.  Sjá liggja á borðinu.

Borðpláss (n, hk) Rými á borði.  „Er ekki einhversstaðar borðpláss fyrir jafninginn“?

Borðsalt (n, hk)  Fínmalað salt, sem hentar til að salta mat stuttu fyrir neyslu.

Borðsálmur (n, kk)  Vísa sem kveðin er áður en menn byrja að snæða mat; nokkurskonar borðbæn.  Var einkum tíðkað í veislum höfðingja fyrr á öldum.  Nú einkum í líkingum:  „Þeir eru fallegir borðsálmarnir hjá þér núna!  Hættu nú þessum andskotans viðrekstrum við matarborðið“!

Borðsiðir (n, kk, fto)  Kurteisislegar venjur/reglur við borðhald/snæðing.  „Reyndu nú að halda þig við borðsiðina drengur; það á að nota hníf og gaffal en ekki þetta úr hnefa.

Borðskápur (n, kk)  Skápur sem í er geymt ýmislegt það sem þarf til borðhalds, einkum sparistell o.fl.

Borðskúffa (n, kvk)  Skúffa í borði.  Til aðgreiningar frá lausri skúffu. 

Borðstikur (n, hk, fto)  Rár sem notaðar voru til að byggja stakk á skip í fiskaferðum.  „Þegar talið var fært ferðaveður var byrjað að ferma skipin.  Voru þau sett svo langt niður að þau gætu flotið um flóð, því jafnan var fermt á þurru.  voru tekin af tvö rúm; hið aftasta og fremsta, og hlaðið í þau; jafnt í skut og barka.  Rennt var rám ofan með borðunum með nokkru millibili; svo langt sem búlkurinn náði, einkum aftan.  Stóðu þær nokkuð upp af borðunum og hölluðust lítið eitt útávið.  Voru þetta nefndar borðstikur.  Var svo hlaðið að borðstikunum; var það kallað að brjóta út.  Það sem ofar var söxum kallaðist stakkur.  Var hann lítið eitt breiðari en skipsbreiddinni nam.  Borðstikurnar studdu hann báðumegin svo ekkert haggaðist.  Á stærstu skipunum henti það að stakkurinn tók meðalmanni undir hönd af þóftu“  (PJ;  Barðstrendingabók).   

Borðstokka (s)  Um bátasmíði; setja borðstokk á byrðinginn.  „Þetta kvöld var veisla á Miðbæ eins og vanalegt var þegar nýr bátur var borðstokkaður„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Borðstokkafullur (l)  Borðafullur; svo mikil hleðsla í báti að eitt eða fleiri rúm eru full.  Alltaf var þess þó gætt að hafa austursrúm tómt til að ausa mætti bátinn.  „Svo hlaðið var miðrúmið af fiski að heita mátti að báturinn væri borðstokkafullur“.  „...bar hann nú að landi borðstokkafullan“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi).

Borðstokkafylla(s)  Fylla bát upp á borðstokka, svo hann marar í kafi.  „Brotsjórinn óð með hleininni og framyfir skut bátsins, svo hann borðsokkafyllti á augabragði; áhöfn og farviðir köstuðust ýmist uppá hlein eða í sjóinn, en ekkert tapaðist þó“.

Borðstokkur (n, kk)  Viður sem negldur er innan á efsta umfar/rimaborð báts, oft um 3x3½“.  Heflað er af neðri kanti, þannig að borðstokkurinn er sem næst láréttur, og hann vanalega heill milli bitaþóftu og andófsþóftu en stundum blaðskeyttar viðbætur til stafnanna. Hnýfilkrappi nefnist stykki við stefnið sem heldur saman borðstokkum á bæði borð.  (úr LK; Ísl sjávarhættir II).  „„Þarna eru þeir að fara frá Patreksfirði“, segir Árni og spýtti í fallegum boga langt útfyrir borðstokkinn“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Borðtau (n, hk)  Borðbúnaður; áhöld til að borða með; hnífapör, diskar, glös o.þ.h. 

Borðtuska (n, kvk)  Borðklútur; rýja sem notuð er til að þurrka og hreinsa matborð/eldhúsborð.

Borðviður (n, kk) 

Borðvigt (n, kvk)  Borðvog, oftast gormavog, sem notuð er standandi á borði, t.d. til að vigta það sem þarf til baksturs eða annarrar matargerðar. 

Borg (n, kvk)  A.  Upprunaleg merking; kastali, vígi; staður þar sem menn geta bjargast.  B.  Síðari tíma merking; þéttbýli; fjölmennt bæjarfélag.  Heitið fékk þessa merkingu þegar borgarvirki urðu stærri og þéttbýli myndaðist innan þeirra, af fólki sem leitaði í öryggið.  Af sama uppruna er heitið fjárborg.

Borga (s)  Greiða; láta endurgjald fyrir verðmæti.

Borga brúsann (orðtak)  Síðari tíma slanguryrði; greiða fyrir það sem keypt er.  Einkum notað um það að einn greiði fyrir annan.  „Þeim þykir það réttlátt kaupmönnunum að græða á innflutningi erlends sjúkdómakets og láta bændur borga brúsann“!  Vísar líklega til þess að maður ætli öðrum að greiða sín vínkaup á brúsa.

Borga eftir (orðtak)  Greiða fyrir; greiða leigu/eftirgjald.  „Kollsvíkurmenn byggðu allar búðir; áttu þær og leigðu vermönnum.  Gjaldið sem vermenn greiddu var „búðartollur“ og uppsátursgjald.  Mig minnir að hvorttveggja væri 12 kr; 6 kr búðartollur og 6 kr uppsátursgjald.  Við þurftum ekki að borga eftir; amma mín var af Kollsvíkurætt; átti part í jörðinni og þurfti því ekki að borga eftir búðina.  Hrís og lyng máttu menn fá ókeypis“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Borga sig (orðtak)  Vera þess virði.  „Það borgar sig ekki að elta þessat stirrur í dag.  Við förum frekar á morgun og reynum að nudda þeim heim“.

Borga/greiða upp í topp (orðtak)  Borga/greiða allt uppsett verð.  „Ég borgaði honum þetta strax upp í topp“.

Borga til (orðtak)  Borga meira/ í viðbót.  „Ég sagði honum að hann yrði að borga til ef vélin reyndist ekki jafn vel og af var látið“.

Borgar sig (ekki) (orðtak)  Er (ekki) þess virði; er (ekki) til bóta; svarar (ekki) kostnaði.  „Það borgar sig að moka aðeins meira undan grindunum svo ekki þurfi að taka þær upp aftur í vetur“.

Borgarbúi / Borgarbarn / Borgari (n, kk(hk)  Sá sem býr í Reykjavík; höfuðborgarbúi.

Borgarís (n, kk)  Stór ísjaki sem brotnað hefur af skriðjökli Grænlands og borist til Íslands.  Borgarís hefur oft borist upp á Kollsvík og aðra staði á Vestfjörðum.  Um það vitna hinir mörgu „grænlendingar“, eða flökkusteinar, sem finna má á fjörum.  Þeir eru djúpberg sem finnst á Grænlandi en ekki hérlendis, og hafa vafalítið setið neðaní borgarís sem bráðnað hefur uppi í víkinni.  Nokkuð stór borgarís barst uppá Kollsvík árið 1968 og var m tíma botnfastur lengst frammi á vík, þar til hann brotnaði, barst á fjörur og bráðnaði þar.

Borgarnef (n, hk)  Lyktnæmi aðkomumanns á þá lykt sem fylgir sveitum og búskap, s.s. fjósalykt og votheyslykt.  „Þú verður bara að setja nefklemmu á þitt borgarnef meðan þú gefur votheyið, en annars venst þetta fljótt“.

Borgarsollur (n, kk)  Slæmur lifnaður í borg.  „Ekki veit ég nú hvað menn eru að sækja í borgarsollinn“!

Borghleðsla (n, kvk)  Hringlaga grjóthleðsla sem dregst saman í hvolfþak.  Þannig voru hlaðnar sumar fjárborgir og sum fiskbyrgi annarsstaðar á landinu.  Ekki er vitað af borghleðslu í Rauðasandshreppi.

Borginmannlega (ao)  Hressilega; með reisn.  „Nú held ég að þú getir borið þig heldur borginmannlega drengur; búinn að eignast þennan fína vasahníf“.

Borginmannlegur (l)  Rogginn; borubrattur.  „Stráksi er ansi borginmannlegur með sitt lamb“.

Borginn (l)  Hólpinn; öruggur; kominn fyrir vind.  „Ég vissi að okkur væri borgið þegar við vorum komnir inn á voginn; inn úr brimgarðinum“.  „Okkur var borgið.  Eftir að bátnum hafði verið bjargað úr sjó, fóru menn að heilsast.  Þóttust allir okkur úr helju heimt hafa“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Borgun (n, kvk)  Greiðsla; endurgreiðsla; laun.  „Hann þáði enga borgun fyrir þetta viðvik“.

Borgunamaður (n, kk)  Sá sem er fær um að greiða; greiðsluhæfur.  „Ég kaupi þetta ekki nema ég sé borgunarmaður fyrir því“.

Borgunarmáti (n, kk)  Greiðsluháttur.  „Mér er alveg sama hvaða borgunarmáti er hafður á þessu“.

Borin (l)  Um kind/kú; búin að bera.  „Ég fann tvær bornar norður í Langamelaskarði; eina einlembda en hina tvílembda“.

Borin von (orðtak)  Vonlaust; úti um alla von.  „Það er alveg borin von að þessar styggðarrófur náist á næstunni“.  „Ég hélt að við næðum heyinu í hlöðu fyrir rigninguna, en það virðist nú vera borin von“.

Borstöng (n, kvk)  Framlenging á jarðbor.  „Ingvar frá Kollsvík vann hjá Jarðborunum ríkisins eftir að hann hætti búskap.  Hann útvegaði aflagðar borstangir sem notaðar voru til að smíða vagn undir Rutina; skekktu sem Óli á Nesi smíðaði fyrir þá bræður Ingvar og Össur“.

Borsveif (n, kvk)  Handverkfæri sem algengt var fyrir daga rafmagnsverkfæra til borunar í tré.  Trébor var festur í enda þessa u-laga verkfæris; þrýst var á hnúð á hinum endanum og bornum snúið með boganum/sveifinni.

Borubrattur (l)  Hress; góður með sig; montinn.  „Hann var ekki eins borubrattur þegar einkunnin lá fyrir“.  Vísar til þess að vera uppréttur, en ekki áboginn með rassinn standandi afturfyrir.

Borulegur (l)  Þröngur; plásslítill.  „Baðherbergið þætti líklega fremur borulegt nú til dags“.

Borvél (n, kvk)  Handverkfæri sem bor er festur í.  Oftast rafdrifið nú á tímum.

Botn (n, kk)  A.  Lóðrétt endimörk, s.s. botn á íláti, t.d. tunnu, fötu, könnu o.fl.  Einnig hafsbotn,vatnsbotn, hlöðubotn, gryfjubotn, brunnbotn o.fl.  B.  Lárétt endimörk, s.s. dalbotn.  C.  Huglæg endimörk s.s. vísubotn. D.  Líkingamál; rass/rasskinnar á manneskju.  „Sestu á botninn og fáðu þér kaffisopa“. 

Botna (s)  A.  Ná til sjávarbotns.  „Fljótlega fór dýpi að aukast svo að bambusstengurnar botnuðu varla“  (GÖ; minningarbrot frá Láganúpi).  „Það hafði verið farið að drífa og reka undan norðanstorminum og botnuðu ekki færin... “  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  B.  Búa til seinnipart vísu.  „Fyrrum var skáldskapur og vísnagerð  nokkuð stundað sem dægradvöl í Kollsvík víðar.  Fóru fram leikir og keppnir í ýmsu formi skáldskapar.  Stundum kepptu menn í því að kveða eða fara með sem flestar vísur; stundum í því hver væri fljótastur að kasta fram vísu, jafnvel undir flóknum hætti; stundum var kveðist á, þannig að vísa byrjaði á síðasta staf eða orði vísunnar á undan; stundum kepptu menn í að botna.  Þá kastaði einn fram fyrriparti ferskeytlu, en annar átti að botna þannig að vel færi.  Með þessu móti þjálfuðust menn mjög í vísnagerð og rökhugsun“.

Botna í (orðtak)  Skilja.  „Ekki botna ég í þessu stefnuleysi stjórnvalda í orkumálum“.

Botnbreiður; Botnmikill (l)  Um bát; breiður í botninn í hlutfalli við lengd.  Botnbreiður bátur er að jafnaði stöðugur í veltingi og flýtur á grunnum sjó.  Hinsvegar ver hann sig ekki mjög vel gegn ylgju.

Botndýr (n, hk)  Dýr sem lifir á eða nærri botni í sjó eða vatni.

Botnfall / Botngrugg (n, hk) Það sem fellur til botns í vökva.  „Það var komið dálítið botnfall í gruggglasið á traktornum“.

Botnfastur (l)  Fastur í botni.  „Mér sýnist að borgarísinn sé orðinn botnfastur þarna frammi á víkinni“.

Botnfesta (n, kvk)  A.  Um það þegar færi/net festist í botni.  „Hér er bölvaður hraunbotn og hætt við botnfestum“.  B.  Hald akkeris eða niðristöðu.  „Skipið rak fyrir veðri þar sem stjórinn hafði ónóga botnfestu“.

Botnfiskur (n, kk)  Fiskur sem heldur sig allajafna nærri botni.  Helstu hefðbundnu nytjafiskar Íslendinga eru botnfiskar; s.s. þorskur, steinbítur, lúða, skata, ufsi, koli, ýsa og langa.  Fisktegundir sem halda sig ofar í sjó nefnast uppsjávarfiskar, s.s. síld, loðna og makríll.  Ekki er vitað um nytjar þeirra í Kollsvík.

Botnfjöl (n, kvk)  Fjöl í botni á rúmi/kistu/tunnu/bát o.fl.  „Hér hefur brotnað botnfjöl í rúmbálknum“.

Botnfreðinn / Botnfrosinn (l)  Frosinn frá yfirborði niður í botn.  „Stampurinn er botnfreðinn“.

Botnfrjósa (s)  Þegar vatn frýs frá yfirborði niður í botn.  „Það er hörkufrost; Lögmannsláin er botnfrosin.

Botnfullur (l)  Um ílát; með innihald sem hylur botninn.  „Berjadósin var rétt botnfull“.

Botnfylla / Botnhylja (s)  Setja það magn í ílát sem nægir til að hylja botninn.  „Hann var svo öflugur í berjatínslunni að hann var búinn að hálffylla meðan ég var varla búinn að botnhylja“.

Botnfylli / Botnhylur  (n, kvk/kk)  Það þegar komið er svo í ílát að botninn er hulinn/þakinn.  „Í fyrstu berjaferðunum þótti manni það skítt að fá ekki nema botnfylli meðan eldri strákarnir voru komnir með hálf sín berjabox.  En þeir tíndu heldur ekki eins mikið uppí sig.

Botngefa (s)  Um bíl; stíga bensíngjöfina í botn.  „Það kom bölvuð bensínstífla í bílinn hér norður á vegi.  Ég varð að botngefa honum í lágum gír til að koma honum heim“.

Botngróður (n, kk)  Gróður á sjávar- vatnsbotni.

Botnhreinsa (s)  A.  Hreinsa innanúr botni íláts.  B.  Hreinsa neðanaf botni.  T.d. hreinsa ásætur af botni báts.

Botninn dettur úr (einhverju) (orðtak)  Eitthvað verður endasleppt; eitthvað hættir skyndilega.  „Nú er ég hræddur um að botninn sé dottinn úr þessari grásleppuvertíð“.

Botnkyrrð (n, kvk)  Straumleysi við botn sjávar vegna viðnáms, þegar straumur er í efri lögum vegna t.d. sjávarfalla.  Fallastraumur er allajafna mestur í yfirborði sjávar, en fer minnkandi til botns; minnkar örast næst botninum og þar er oft straumleysi/botnkyrrð.  Í röstum er óreglan þó mun meiri, enda myndast þar tíðum iðuköst og straumgöndlar.

Botnlag (n, hk)  A.  Lögun sjávarbotns.  „Þarna innantil í firðinum er leirbotn, en utar er allt annað botnlag.  Þar er hraunbotn“.  B.  Lögun botns á bát.  „Mér líkar mun betur við botnlagið á þessari fleytu en hinu horninu“.  C.  Neðsta lag efnis, t.d. í íláti eða í sjó.

Botnlangi (n, kk)  A.  Tota í ristli, sem talinn er úrelt líffæri.  Oft fjarlægt úr manni nú á tíðum, með skurðaðgerð; einkum við botnlangabólgu.  Heitið hefur líklega í upphafi verið „botnlaki“.  B.  Líkingamál; blindgata; lokaður gangur í bjargi.

Botnlaus (l)  A.  Án botns.  Gjarnan notað um dýjafen þar sem oft er langt niður á fastan botn.  „Þarna eru víða botnlausir pyttir þó allt sýnist gróið“.  B.  Líkingamál; óseðjandi.  „Maður er alveg botnlaus eftir allar þessar smalamennskur“.

Botnlausar skuldir (orðtak)  Óviðráðanlegar skuldir.

Botnlaus hít (orðtak)  Manneskja eða skepna sem borðar/étur óskaplega mikið; átvagl; matargat

Botnlausar skammir (orðtak)  Mjög miklar skammir; húðarskammir.  „Hann fékk botnlausar skammir hjá karlinum fyrir þetta athæfi“.

Botnlaust dý / Botnlaust fen / Botnlaus mýri (orðtök)  Ýkjur til lýsinga á djúpum og hættulegum dýjasvæðum.

Botnlaust og vitlaust (orðtak)  Endalaust; þrotlaust.  Oft notað um vinnu eða át.  „Maður getur étið botnlaust og vitlaust af skötunni“.  „Menn röðuðu sér í hlíðina með skóflur og svo var mokað botnlaust og vitlaust þar til fært varð“.

Botnleysa (n, kvk)  A.  Botnlaust fen.  B.  Líkingamál um endaleysu/vitleysu; það sem enginn botnar í.

Botnlýjur / Botnrök (n, kvk/hk, fto)  Hey sem er neðsti í galta og hefur dregið í sig raka úr jörðinni eða bleytu af yfirborðinu.  Botnlýjurnar þurfa því jafnan meiri þurrk en annað hey í galtanum.  Þær eru tíðum bornar útfyrir flekkinn eftir að galtinn hefur verið breiddur og þurrkaðar sér í lagi.

Botnmálning / Botnfarvi (n, kvk/kk)  Málning sem notuð er neðan á botn báts.  Eftir að farið var að mála báta í Kollsvíkurveri í stað þess að bika þá, var botninn iðulega málaður í öðrum lit en síðurnar.  Báturinn var gjarnan málaður að vori; áður en honum var hvolft upp og hann settur niður.

Botnótt (l)  Um lit á sauðfé; Dökkt að lit með ljósa bringu, ljósan kvið og aftur á rass.

Botnplittur (n, kk)  Sjá plittur.

Botnrek (n, hk)  Laus þari sem rekur eftir botninum með sjávarfallinu; getur kjaftfyllt net svo að erfitt verði að ná þeim upp óskemmdum.  „Varasamt er að leggja net á sandblettina í Kollsvík vegna botnreks“.

Botnrof (n, hk)  „Skerðing botns frostgígs við það að ísferja hrífur með sér flökkuefni.  Botnrof birtist t.d. sem gloppur í annars sléttum botni, þar sem vöntun er á efni; barmar óreglulegir og dýpt rofsins nokkuð jöfn í því öllu“  (VÖ; frostgígar og myndun þeirra).  Nýyrði vegna jarðfræðikenningar sem upprunnin er í Kollsvík.

Botnröng (n, kvk)  Hluti af máttarviðum báts; bunkastokkur; þykkt band þvert á kjölinn.

Botnset (n, hk)  Botnfall; það sem fellur til botns af fíngerðu efni og hleðst upp, t.d. í stöðuvötnum.

Botnvarpa (n, kvk)  Troll; veiðarfæri sem dregið er af togara eftir botni, þannig að fiskur veiðist í op þess og safnast í poka, sem síðan er hífður um borð.

Botnveltast (s)  Kútveltast; veltast svo mikið að botn kemur uppúr.  Mest notað í líkingamáli:  „Hvernig sem þetta mál kann að botnveltast þá held ég að niðurstaðan sé augljós“.

Botnvörpungur (n, kk)  Togari.  Heitið var meira notað í byrjun togaraaldar.

Box (n, hk)  A.  Lítill kassi/stokkur.  T.d. berjabox, nestisbox.  B.  Hnefaleikar.

Boxa (s)  Stunda hnefaleika; berja með hnefunum.

Bófaleikur (n, kk)  Leikur barna þar sem einn eða fleiri eru bófar, en aðrir löggur sem neyna að ná bófunum eða „drepa“ þá með leikfangavopnum.  Af sama meiði eru kúrekaleikir (cowboy-leikir), en hvorttveggja eru nýlegir leikir, tilkomnir eftir að sjónvarp fór að tíðkast í höfuðborg og síðar úti á landi.

Bófi (n, kk)  Þjófur; ræningi; glæpamaður.

Bógalda / Bógbylgja (n, kvk)  Alda sem hleðst upp framan við bát sem er á siglingu; er hæst við stefni og bóg/söx en streymir síðan afturmeð og útfrá bátnum.

Bógur (n, kk)  Hlið í ýmiskonar merkingu.  A.  Bógur á skepnu, þ.e. síðan fremst, aftanvið háls; efsti hluti framleggs.  „Tekið var í reyk helst geldfé; gjarnan valið vænt fé.  Tekin voru krof af því; þ.e. skrokkurinn tekinn í sundur þvert aftan við bógana og læri, hryggur og síða saltað í heilu lagi“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  B.  Kinnungur á bát/skipi.  C.  Krus; slagur í siglingu beitivinds.  D.  Hani á byssulás.  E.  Pasturslítill maður.  „Hann er nú ekki beysinn bógur, þessi armingi“.  F.  Ákveðinn biti í þorskhaus.

Bók (n, kvk)  A. Beyki; beykitré.  Þetta mun vera upprunaskýring orðsins, eins og glöggt sést af erlendum heitum trjátegundarinnar, þó það sé ekki lengur nefnt „bók“ í íslensku máli.  Vísar til þess að í upphafi var krotað á beykiþynnur.  B.  Safn blaða sem fest eru nokkur saman í band.  Oft merkir orðið tiltekinn blaðaflölda; 24 arkir af skrifpappír eða 25 af prentpappír.

Bóka (s)  Færa í letur; skrásetja.  Oftast í orðtaki; ... má bóka það að... , í merkingunni að eitthvað sé öruggt/endanlegt.  „Þú mátt alveg bóka það að svona tækifæri gefst ekki aftur“.

Bókaeign / Bókakostur (n, kvk)  Eign/safn bóka.  Bókaeign hefur alltaf notið mikillar virðingar í Kollsvík og nágrenni.  Litið er á bækur sem dýrgripi sem þarf að varðveita, en einnig nýta til fulls.  Börnum er kennt að fara vel með bækur og lesa þær sér til gagns og ánægju.  Bók var alltaf talin vegleg og fullmektug gjöf, bæði á jólum og afmælum, sem endranær.  Til marks um virðingu manna fyrir bókum voru þrjú lestrarfélög starfandi af miklum krafti í Rauðssandshreppi um miðja 20. öld; hvert í sinni sókn.  Biðlisti var ávallt um vinsælustu bækurnar.  Bókasmekkur manna er misjafn, en margir voru „alætur“ á bækur og lásu allt sem komist varð yfir.  Aðrir fúlsuðu þó við „skáldskaparbulli„ og „ástarvellum“ og vildu fremur lesa eitthvað „gagnlegt og uppbyggilegt“.  Víða voru til gamlar skræður sem varðveittar voru sem gull.  Á öllum Kollsvíkurbæjum voru veglegir bókaskápar með fjölbreyttu efni. Oftar en ekki voru gefnar bækur í jóla- og afmælisgjafir og voru þær bókagjafir ávallt vel þegnar.  Bækur komu í verslanir á Eyrum fyrir hver jól, t.d. í Ingólfsbúð meðan hún var, og voru gerð mikil bókainnkaup í jólaferðinni.  Handbók bænda; Árbók Slysavarnafélagsins og Árbók Barðastrandasýslu bárust árlega á hvern bæ, og margir fengu tímarit, s.s. Frey, Ægi, Æskuna; Unga Ísland; Dýraverndarann og jafnvel erlend blöð s.s. Hjemmet eða Familie Journalen; nefnt Familsjúnal í daglegu tali.  Dagblöð voru keypt og lesin á langflestum bæjum, oftast þá Tíminn.  Að loknum lestri nýttust þau oft sem skeinisbréf á kömrum, fyrir daga vatssalerna og sérhannaðra þurrkublaða. Sumir söfnuðu vikukálfum blaðanna, s.s. Íslendingaþáttum tímans eða Sunnudagsblaði Þjóðviljans, og fengu það stundum bundið inn.  Yfirleitt var einhver sem stundaði bókband í Rauðasndshreppi.  Í eina tíð var það Ólafur Sveinsson á Lambavatni og um tíma Ingvar Guðbjartsson í Kollsvík.

Bókahilla / Bókakassi / Bókakista / Bókaskápur (n, kvk/kk)  Hirsla til að geyma bækur.

Bókaormur (n, kk)  Sá sem liggur langtímum saman yfir bóklestri.

Bókarauki (n, kk)  Viðauki; viðbót aftanvið meginefni bókar.

Bókari (n, kk)  Bókhaldsmanneskja; skrifstofumaður sem ekki er æðsti stjórnandi.

Bókarkápa (n, kvk)  Blað sem oft er haft til hlífðar utanum spjöld bókar; gjarnan merkt og skreytt.

Bókarkorn (n, hk)  Gæluheiti á bók; bókarskræða;  lítil bók.  „Það er ótrúlega margt í þessu bókarkorni“.

Bókarskrudda / Bókarskræða (n, kvk)  Gælunafn á bók; gamalt rit.  „Réttu mér bókarskrudduna þarna“.

Bókarræfill / Bókarslitur (n, hk)  Ræfrildi/hluti/lami af bók; léleg bók.

Bókarspennsli (n, hk)  Reim/krókur/hespa sem notað er til að læsa saman þykku/stóru riti opnumegin.

Bókartitill (n, kk)  Heiti bókar.

Bókasafn (n, hk)  Safn bóka.  Á jafnt við einkasafn sem safn bóka í opinberri eigu eða sameign margra.  Oft stendur lestrarfélag bakvið rekstur bókasafns.  Sjá lestrarfélag.

Bókavörður (n, kk)  Sá sem sér um vörslu bóka, t.d. á bókasafni.  Tveir nafnkunnir Vestfirðingar störfuðu sem bókaverðir.  Annar var skáldið Jón úr Vör sem vann við Bókasafn Kópavogs og hinn rithöfundurinn Guðmundur G. Hagalín sem vann á bókasafninu á Ísafirði og varð síðar bókafulltrúi ríkisins.

Bókaþjófur (n, kk)  Sá sem tekur bækur ófrjálsri hendi.  Bókaþjófnaður var fyrrum talinn alvarlegur glæpur, enda var þar ekki aðeins um eignastuld að ræða heldur atlögu að menningu og virðingu eigandans.

Bókband (n, hk)  A.  Innbinding bókar; frágangur samsetningar á bók.  „Ansi finnst mér bókbandið lélegt á annars ágætri bók“.  B.  Iðngrein; þekking; það að binda inn bækur.  „Hann lærði bókband á yngri árum“.

Bókfell (n, hk)  Verkað skinn sem notað er til bókargerðar.  Bókfell er ósútað skinn sem afhárað hefur verið með rotun; skafið og sléttað.  Skinn af kálfum, kindum og geitum var einkum notað í bókfell.  Notkun bókfells minnkaði og hvarf þegar pergament og síðan pappír leystu það af hólmi.  Fyrstu bækur á Íslandi; handritin, voru skrifaðar á bokfell.

Bókfærsla / Bókhald (n, kvk/hk)  Það að skrá og reikna út tekjur og gjöld á reglulegan hátt; hafa reglu/reiður á fjármálum.

Bókhneigður (l)  Nýtur bóklesturs; les mikið af bókum.

Bóklegur (l)  Sem lýtur að bókum.  „Menn geta verið margfróðir þó ekki sé það allt í bóklegum efnum“.

Bóklestur (n, kk)  Lestur bóka.  Ekki var vel séð að menn lægju yfir bóklestri þegar verk þurfti að vinna, þó honum væri haldið að börnum í annan tíma.  „Það þýðir ekkert að hanga yfir bóklestri í brakandi þurrki“!

Bóklæs (l)  Getur lesið á bók; læs á bók.  „Menn þyrftu nú að vera bóklæsir sem bjóða sig fram til þings“!

Bókmenntir (n, kvk, fto)  Sá fróðleikur sem hafa má af bókum; bókþekking.  Heitið er orðið útþvælt og nær merkingarlaust af rangri og of mikilli notkun „menntamanna“ og sjálfskipaðra menningarpostula.

Bókstaflega (ao)  Í orðsins fyllstu merkingu; alfarið.  „Þarinn hefur bókstaflega hreinsast úr fjörunni“.

Bókstaflegur (l)  Raunverulegur; raunréttur; eftir orðanna hljóðan.  

Bókstafstrú (n, kvk)  Trú sem fylgir nákvæmlega því sem stendur í trúarriti, s.s. biblíunni eða kóraninum.

Bókstafstrúarmaður (n, kk)  Sá sem fylgir bókstafstrú.  „Ég er nú enginn bókstafstrúarmaður í þeim efnum“.

Bókstafur (n, kk)  Stafur, skrifaður eða prentaður.  „Við gerum þetta bara eftir laganna bókstaf“!

Bókun (n, kvk)  Bókfærsla; það að skrifa niður/ færa til bókar.

Bókvit (n, hk)  Þekking sem fengin er með lestri bóka.  Fyrr á öldum var hörð lífsbaráttan víða meira metin en þekkingin, eins og sést af málsháttunum „Ekki verður bókvitið í askana látið“ og „Sjaldan fer saman bókvit og búvit“.  Í þeim leynist nokkur sannleikur, svo langt sem hann nær.

Bókvitið verður ekki/seint í askana látið (orðatiltæki)  Menn geta ekki lagt sér rituð orð til munns.  Þó bókvit og þekking sé manningum mikilvægt er það samt sem áður dagleg fæða sem er brýnust.  Stundum er gripið til spekinnar þegar mönnum þykir menntahrokinn keyra úr hófi.  Spekin er runnin frá Jóni Thoroddsen, sem setti hana fram í skáldverkinu Pilti og stúlku.  Þetta viðhorf hins vinnandi manns kann að virðast úrelt í nútíma þjóðfélagi sem vill steypa alla í sama mót skólakerfisins.  Það hefur þó þann kjarna að lítið yrði til lífsbjargar og framleiðslu ef allir væru sífellt lærandi, og einnig að sú vinna verður seint lærð af bók sem fyrra þjóðfélag byggði lífsbjörg sína á.

Ból (n, hk)  A.  Bær; bústaður.  „Heims um ból; helg eru jól“.   B.  Flet; rúm.  „Ertu búinn að búa um bólið“?  „Hann hefur bara séð, þegar kom ég karlmannslaus;!  Kannske vissi hann hvað ég vildi segja./  Hann flýtti sér í bólið og breiddi uppfyrir haus/ og bjóst þá við að af hræðslu myndi hann deyja“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).  C.  Dufl á netum eða legufærum/bólfæri.  „Þá var kastað bóli eftir því miði sem formaðurinn valdi sér og lóðirnar lagðar“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  D.  Staður í endingum, s.s. vatnsból.  E.  Staður þar sem greinilegt er að ær eða annað dýr hefur legið.  Heitið er dregið af því að þar er gróður jafnan bældur.  „Ég sá ekki útigangsána, en það var greinilegt ból þarna í hlíðunum“.  F.  Staður í bjargi þar sem fé liggur gjarnan, milli þess að það er á beit.  „Ég fór alla leið inn í Ból, en sá enga kind“.

Bóla (n, kvk)  A.  Blaðra/misfella/mishæð á annars sléttu yfirborði.  T.d. ryðbóla, skjaldarbóla, teiknibóla.  „Það eru komnar ryðbólur í lakkið á bílnum“.  B.  Dökkur/rauður upphleyptur blettur á húð.  T.d. hlaupabóla.  „Þú verður að passa þig að sprengja ekki bólurnar þó þig klæji í þær“!  C.  Heiti á farsótt sem veldur m.a. bóluútbroti.  „Hólar lögðust í eyði í Stórubólu árið 1707, en þá hafði verið búseta þar frá 1650“.

Bóla á (orðtak)  Votta fyrir; sjást.  „Enn bólar ekki á þessum kindum sem vantaði“.  Sjá ekki bólar á barða.

Bólakaf (n, hk)  Alveg á kaf.  „Hásjávað var og er þeir gerðu tilraun til að komast fyrir forvaðann kentu þeir fremstu  á bólakaf í sjó...“  (MG; Látrabjarg).

Bólfarir (n, kvk, fto)  Rekkjubrögð; samfarir.  „Hvað heldurðu að ég viti hvenær von er á barninu?!  Ekki fylgist ég svo grannt með bólförum hér í sveitinni“!

Bólfæri (n, hk)  Niðristaða; strengur niður úr dufli/bóli í netum eða legufærum.  Í seinni tíð nær orðið stundum yfir botnfestuna; strenginn og duflið.  „Þegar komið var á ákvörðunarstað, sem stundum gat þó orðið annar en ætlað var ef margir voru á undan, var belgnum kastað og rakið úr bólfærinu sem fest var í hringinn í drekanum“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þá voru lagðar lóðirnar og legið yfir nokkurn tíma, og var þá legið í öðru bólfærinu, á meðan var skorinn beita... “  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Bólga (n, kvk)  A.  Þroti; upphleypt svæði á húð vegna ígerðar, mars eða annarra meiðsla/veikinda.  Einnig þroti innvortis, s.s. lungnabólga; hálsbólga; lifrarbólga; blöðrubólga.  B.  Hverskonar upphleypt afmarkað svæði.

Bólginn (l)  A.  Með bólgu/bólgur.  „Höndin var bólgin af kulda“.  B.  Um vatnsfall/lagnaðarís.  „Áin er enn bólgin af leysingunum“.  „Ísinn á Lögmannslánni er bólginn og sprungin í frostinu“.

Bólginn af kulda (orðtak)  Með bólgnar kinnar af kulda.  „Ég tók vagninn inn; barnið var orðið bólgið af kulda“.

Bólgna (s)  Verða bólginn.

Bólgna upp (orðtak)  Notað um á eða læk í vatnavöxtum en einnig um stækkun á árennsli.  „Augnlækurinn hefur bólgnað upp og rennur yfir veginn“.  „Bunkinn við klettinn hefur allur bólgnað upp í frostinu“.

Bólguhnútur / Bólguþroti / Bóguþykkildi (n, kk/hk)  Bólga/mar með tilheyrandi litabreytingum í húð. 

Bólguvottur (n, kk)  Lítilsháttar bólga/þroti.  „Lambið bar sig merkilega vel eftir hrapið.  Mér fannst vera einhver bólguvottur í lærinu á því, en það stakk þó ekki mikið við“.

Bólóttur / Bólugrafinn (l)  Þakinn bólum; með mikið af bólum.

Bólstaður (n, kk)  A.  Ból; staður þar sem maður/skepna býr sér svefnstað.  B.  Bær.  Var fyrrum bremur notað um reisulega bæi eða höfðingjasetur. 

Bólstjaki (n, kk)  Krókstjaki; bólhaki; stöng með krók/krókum á enda sem ætlaður er sérstaklega til að krækja í bauju/ból frá báti.  Krókstjakar reka gjarnan á fjörur í Kollsvík, eftir að hafa tapast á miðum útifyrir.

Bólstra (s)  Búa til bólstur; setja mjúkt efni í húsgögn/hægindi; um árennsli vatns í frosti, þannig að klakabólstur myndast.  „Það er byrjað að bólstra yfir veginn undir klettinum í Neðstubrekkunni.

Bólstrun (n, kvk)  Það að setja fyllt áklæði á húsgögn; húsgagnaviðgerðir.

Bólstur (n, kk)  A.  Skýjaklakkur/ skýjaþykkni.  „Hann er að draga upp askolli ljóta bólstra hér suðurum“.  B.  Svellabunki; klakabólstur.  „Bólsturinn á Tunguhlíðinni er orðinn varasamur“.

Bólstur (n, hk)  Fylling undir áklæði á stólum og setbekkjum.  „Áklæðið á stólnum var rifið og bóltrið sumsstaðar farið að tætast út“.

Bóluefni (n, hk)  Varnarefni gegn sjúkdómi; vökvi með óvirku smitefni sjúkdóms, sem sprautað er í mann/skepnu til sóttvarna.  Veldur því að líkaminn kemur sér upp vörnum sem oft eru varanlegar gagnvart viðkomandi sjúkdómi. 

Bólusetja (s)  Sprauta veikluðum sýklum í líkama til að mynda ónæmi og forða frá alvarlegri sýkingu.

Bólusetning (n, kvk)  Sprautun veiklaðra veira/baktería í líkama í því skyni að líkaminn þrói með sér mótefni og fyrirbyggja með því smit síðar.  Fyrstur til að nota bólusetningu var enski læknirinn Edward Jenner, árið 1798 gegn kúabólusótt.  Aðferðin hefur haft gríðarlega þýðingu í heilbrigðismálum, bæði manna og dýra, og er nú ein mikilvægasta vörnin gegn útbreiðslu smitsjúkdóma. 

Bólusettur (l)  Búið að bólusetja.  „Ég er bólusettur fyrir flensunni“.

Bólusótt / Bóluveiki (n, kvk)  Variola.  Bráðsmitandi sjúkdómur sem fyrr á tíðum lagðist á fólk og fór um byggðir sem mannskæður faraldur.  Talið er að bólusótt hafi herjað á mannkyn í um 10.000 ár.  Hérlendis geysaði svonefnd Stórabóla á árunum 1707-1709.  Giskað hefur verið á að um 16.000-18.000 hafi látist úr pestinni.  Hún varð þess m.a. valdandi að Hólar í Láganúpslandi fóru í eyði árið 1707.  Talið er að bólusótt hafi verið að fullu útrýmt úr heiminum árið 1979.

Bóluþang (n, hk)  Fucus vesiculosus; blöðruþang; algeng þangtegund á grunnsævi við landið, s.s. í Kollsvík.  Verður um 40-90 cm að lengd; brún-grænleitt á lit.  Á því er mikið af áberandi loftfylltum bólum sem halda þanginu uppréttu þegar það er á kafi.  Vex á sömu slóðum og klóþang, sem einnig er þar algengt.  Í brimi losnar mikið af þanginu og berst upp á fjörur, en getur einnig sest í net og orðið til vandræða.  Sé gengið í bóluþangi á hleinum heyrast hvellir þegar bólurnar springa.

Bólverk (n, hk)  A.  Varnarvirki úr viði; skíðgarður.  B.  Trébryggja.  Hljóðbreyting úr „bolverk“; þ.e. mannvirki úr tré/viði.

Bóma (n, kvk)  Mastur.  Oftast notað um hallandi mastur; gálga sem m.a. er notaður til hífinga.

Bómosía (n, kvk)  Bómullartau; þykkt voðfellt bómullarefni sem notað var t.d. í nærfatnað.  Orðið var annarsstaðar skrifað bómesi eða bommesi (sjá t.d. ÁBM; Ísl.orðsifjabók).  Ekki notað í seinni tíð.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Bómull (n, kvk)  Baðmull; trefjar/fræhár sem vaxa utanum fræ baðmullarrunna af ættkvíslinni Gossypium sem vex í hitabeldi og heittempruðum beltum jarðar.  Bómull er mikið notuð í vefnað og fleira, en hefur þá eiginleika að við þvott og hita styttast trefjarnar um 10% og þvermál minnkar um 5%.

Bónarvegur (n, kvk)  Kurteisleg/lítillát beiðni.  „Þú ættir að fara bónarveginn að honum frekar en að heimta þetta“.

Bón (n, kvk)  Beiðni; ósk; bæn.  „Mig langar að biðja þig einnar bónar“.

Bón (n, hk)  Vaxefni sem nú á dögum er notað til að fá fram gljáa og vernd, m.a. á bílum, gólfum og húsgögnum.

Bónarvegur (n, kk)  Sú leið að biðja.  „Ætli ég verði ekki að fara bónarveg að honum með þetta“.

Bónbjargarmaður (n, kk)  Sá sem þarf að biðja annan um aðstoð til að komast af.

Bónbjargir (n, kvk)  Gjafir; ölmusa.  „Hann var snemma orðinn heylaus og hefur þurft að lifa á bónbjörgum“.

Bóndabeygja (n, kvk)  Sérstakt tak/hald á barni eða annarri manneskju. Sá sem ber annan í bóndabeygju heldur með öðrum framhandlegg undir háls en hinum undir hnésbætur.  Sjá taka í bóndabeygju.

Bóndabýli / Bóndabær (n, hk/kk)  Býli/bær sem búið er á.

Bóndadagur (n, kk)  Fyrsti dagur þorra; miðsvetrardagur.  Bóndadagur var tyllidagur að fornu, og er víða minnst ennþá.  Þá átti húsbóndi að bjóða þorra velkominn í garð og húsfreyja átti að gera bónda vel til.  Sagt var að bóndi ætti að hoppa á öðrum fæti í kringum bæ sinn; íklæddur annarri buxnaskálminni, meðan hann bauð þorra velkominn.

Bóndakona (n, kvk)  Kona bónda; búkona.

Bóndi (n, kk)  Búmaður; búkona; maður/kona sem ræður fyrir búi. 

Bóndi er bústólpi – bú er landstólpi (orðatiltæki)  Um mikilvægi bóndans.  Málshátturinn er líklega mjög gamall en Jónas Hallgrímsson notaði hann sem ljóðlínu í „Alþing hið nýja“ árið 1840 (2.erindi):  „Traustir skulu hornsteinar/ hárra sala./  Í kili skal kjörviður. /  Bóndi er bústólpi;/ bú er landstólpi;/ því skal hann virður vel“.

Bóndi skal beð verma en brúður í fyrsta sinni (orðatiltæki)  Vísar til þeirrar venju sem fyrrum var algeng og er e.t.v. sumsstaðar enn, að bóndi gangi allajafna fyrr til hvílu en kona hans, sem vinnur við bústörf, skömmtun, hannyrðir og annað frameftir kvöldi.  Hinsvegar er venja að brúður gangi fyrr til rúms á brúðkaupsnóttina.  Speki sem e.t.v. átti betur við áðurfyrr, þegar bóndi vaknaði árla til gegninga, sláttar eða róðra.

Bóngóður / Bónþægur (l)  Greiðvikinn; lipur.  „Hann hefur alltaf reynst mér bóngóður í svona tilvikum“.

Bónleiður (l)  Neitað um bón; synjað um það sem farið er framá.  „Þaðan fór enginn bónleiður“.  Sjá ganga bónleiður til búðar.

Bónorð (n, hk)  Kvonbænir; það að biðja sér eiginkonu.  Sjá bera upp bónorð.

Bónorðsferð / Bónorsför (n, kvk)  Ferð til að biðja sér konu.  „Hann ku hafa farið þangað í bónorðsför, en komið hryggbrotinn til baka.  En blessuð hafðu þetta ekki eftir mér“!

Bónorðsbréf (n, hk)  Ástarbréf þar sem leitað er eftir bónorði.

Bónus (n, kk)  Álagsgreiðsla, t.d. ofan á vel unna vinnu.  Síðari tíma tökuorð.

Bónþægðargrey / Bónþægðarmaður (n, hk/kk)  Sá sem er bóngóður/bónþægur.  Hið fyrra var oftar notað sem jákvætt gæluorð um greiðvikinn ungling.  „Hann kannski stígur ekki alltaf í vitið; en þetta er mesta bónþægðargrey og aldrei hallar hann orði við nokkurn mann“.

Bór (n, hk)  A.  Frumefni (efnatákn B og sætistala 5 í lotukerfi)  Í duftkenndu formi er það brúnt, en getur einnig verið málmkennt, og þá svart.  Í flugeldum gefur það grænan bruna.  B.  Mikilvægt næringarefni jurta.  Í ræktun þarf oft að bæta jarðveg með bóri.

Bórax (n, hk)  Natrínbórat; hvítt efnasamband natríum, súrefnis og bórs með vatnssameindum.  Selt í búðum til nota sem þvottaefni, sótthreinsunarefni og bætiefni í jarðveg til ræktunar.

Bósi (n, kk)  Leiðigjarn maður.  Heitið er stundum notað sérstætt en oft sem viðliður; bögubósi; kvennabósi.

Bót (n, kvk)  A.  Gjald/laun fyrir tjón/miska; endurbætur; gróandi; bati.  B.  Leppur til að loka gati.  C.  Kriki/vik/vogur þar sem land mætir sjó/vatni.  „Í Kollsvík er örnefnið Bót á a.m.k. tveimur stöðum.  Annarsvegar er það Langatangabót, milli Breiðaskers og Langatanga, en hinsvegar Bótin undan Sandagilinu; milli Bjarnarklakks og Straumskers.  Undan Vatnadal er svo Vatnadalsbót. 

Bót fylgir böli hverju (orðatiltæki)  Ekkert er svo slæmt að ekki megi sjá í því eitthvað jákvætt.  Í raun sama orðatiltækið og fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Bót í máli (orðtak)  Til bóta; uppbót; sárabót.  „Það var bót í máli að allir björguðust, þó skaði sé að því að missa gott skip“.

Bót við bót (orðtak)  Um fatnað sem hefur verið stagbættur; hver bótin við aðra.  Einnig um mikið bætt stígvél eða bílslöngu.  „Slöngufjandinn var bráðónýtur; ekkert nema bót við bót“!

Bótafé (n, hk)  Fjármunir sem greiddir eru sem bætur fyrir tjón/skaða.

Bótakrafa (n, kvk)  Fjármunir sem maður krefur annan um vegna skaða/tjóns sem sá síðarnefndi hefur valdið.

Bótalaust (l)  Án þess að fá bætt; án eftirgjalds/kaupverðs/skaðabóta.  „Þetta mega bændur þola; bótalaust“!

Bótaréttur (n, kk)  Réttur eins aðila til bóta af hendi annars aðila vegna tjóns/skaða.  Einnig notað á síðari tímum um rétt einstaklings til greiðslu úr samfélagssjóðum vegna t.d. fötlunar eða elli.

Bótaskylda (n, kvk)  Skylda eins aðila til að bæta skaða/tjóns sem hann veldur öðrum aðila.

Bótasteinbítur (n, kk)  Steinbítur sem veiddur er á miðinu Bótum; fram af Útvíkum.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV, heimild KJK). 

Braga (s)  A.  Hegða sér; fara af stöfnum.  „Ég setti útigangsærina með hinum; það kemur í ljós hvernig hún bragar“.  „Hann hefur bragað betur á heimavistinni í seinni tíð“.  B. Flökta til og frá; iða.  Oft notað um flökt norðurljósa eða tíbrár.

Bragabót (n, kvk)  Úrbætur; lagfæring.  „Ég held að það verði að gera á þessu einhverja bragabót“.

Bragarháttur (n, kk)  Rím; aðferð við ljóðagerð/vísnagerð.  Bragarhættir eru margir og mismunandi í vísnagerð, en oftast eru þeir í föstum skorðum fyrir hverja vísu. 

Bragð (n, hk)  A.  Venjulegasta merking; bragð af mat; lítið eitt af mat.  „Má ekki bjóða þér bragð af hákarlinum“?  B.  Snör hreyfing, sbr viðbragð; taka til bragðs; bregðast við; að bragði.  C.  Hrekkur; sniðugheit.  „Hann kunni ýmis brögð til að verjast ásókn draugsa“.  D.  Lykkja; snúningur.  „Vindurnar... voru erfið dráttartæki.  Á þeim var notaður dráttarstrengur úr manillu; brugðið tveim brögðum strengsins á vinduásinn, en síðan einn maður settur í það að draga af vindunni jafnóðum og strengurinn kom inn“  (KJK; Kollsvíkurver).

Bragð er að þá barnið finnur (orðatiltæki)  Greinilegt; það leynir sér ekki.  „Hún Gunna hefur grennst segirðu; já bragð er að þá barnið finnur!  Hún átti víst tvíbura nýlega“.

Bragða (s)  Smakka; finna bragð.  „Bragðaðu á þessu og segðu mér hvað þér finnst“.  „Ég hef aldrei bragðað betri hákarl“!  „Ekki fannst mér þetta bragðast sérlega vel“.  „Hann er hættur að bragða vín“.

Bragðarefur (n, kk)  Sá saem beitir brögðum/klækjum/sniðugheitum; slóttugur maður; viðsjárgripur.  „Það þarf dálítið að vara sig á honum; hann getur verið bragðarefur í viðskiptum“.

Bragðbæta (s)  Gera betra bragð.  „Aðeins mætti bragðbæta þetta með sykurlús“.

Bragðbætir (n, kk)  Það sem bætir bragð.  „Ekki áttu þess þó allir kost að afla sér þessa bragðbætis og búdrýginda með fábreyttri vermötu, enda ekki á allra færi að fara í egg, eins og það var kallað“  (KJK; Kollsvíkurver).

Bragðdaufur (l)  Bragðlítill.  „Þetta er nokkuð matarmikið, en fremur bragðdauft“.

Bragðgóður (l)  Góður á bragðið; smakkast vel.  „Heldur finnst mér nú þessi hákarl bragðbetri“.

Bragðgæði (n, hk, fto)  Það hverslu vel/illa matur smakkast. 

Bragðlaus / Bragðlítill (l)  Með engu/litlu bragði; bragðdaufur.

Bragðmikill / Bragðsterkur (l)  Með miklu/sterku bragði.

Bragðvondur (l)  Vondur á bragðið; smakkast illa.

Brageyra (n, hk)  Næmni á góða hrynjandi,rétta stuðlun og annað sem einkennir góðan kveðskap.  „Þeir sem hafa gott brageyra eru ekki þar með góð skáld sjálfir, en þeir kunna vel að meta góðan kveðskap“.  „Sunna Hlín hefur brageyra og það er áríðandi að þjálfa það“ (MH um dótturdóttur sína sem hlaut verðlaun í ljóðasamkeppni 10 ára; Mbl 04.01.2017).

Bragfræði (n, kvk)  Kunnátta sem lýtur að reglum ljóða- og vísnagerðar.  „Hér hefur bragfræðin eitthvað brugðist honum“.

Braggast (s)  Hressast.  „Ég er nú allur að braggast eftir flensuna“.  „Lambið var fljótt að braggast eftir að það komst á spena“.

Braggi (n, kk)  A.  Íverustaður/viðlegustaður til skamms tíma; íverubraggi.  Yfir sláturtíð var braggi heiti á íverustað þeirra sem unnu við slátrun og fóru ekki heim að kveldi.  Viðbygging í austurenda sölubúðar Sláturfélagsins Örlygur á Gjögrum var slíkur íverustaður, og aldrei nefnt annað en braggi.  Halda mætti að slík vistarvera hefði verið nefnd verbúð; svo skylt sem hlutverk hennar var gömlu verbúðunum, en þær fengu að halda sínu sérstaka nafni útaf fyrir sig.  „Farðu nú og sæktu karlhlunkinn inn í bragga; hann getur reynt að gera eitthvað annað en hanga utaní ráðskonunni í allan dag“!  B.  Bogalaga hús sem herinn reisti og síðan var brúkað af Íslendingum í Reykjavík og víðar um land.   

Bragglegur (l)  Hressilegur; líflegur.  „Lambið er mikið bragglegra í dag en það var í gær“.

Braghenda (n, kvk)  Bragarháttur þar sem vísan er þrjár línur.  Þær ríma oft í enda, en þó er ýmis gangur á því.  Dæmi um braghendu er þessi:  „Sóskríkjan mín situr þarna á sama steini;/ hlær við sýnum hjartans vini;/ honum Páli Ólafssyni“ (Páll Ólafsson; Sólskríkjan).

Bragleysa (n, kvk)  Slæmur kveðskapur; hnoð; leirburður.  „Skelfing er nú að heyra svona bölvaða bragleysu“!

Bragliður (n, kk)  Kveða/eining í kvæði/ljóði.  Bragliður samanstendur oftast úr tveimur atkvæðum (hákveða og lágkveða) eða þremur (hákveða og tvær lágkveður); og getur verið eitt orð eða fleiri.  Til að vísa verði áheyrileg nægir ekki að hún sé með ljóðstafi heldur þurfa þeir að lenda rétt á bragliðum, og er leitast við að hafa þá á hákveðum með vissu millibili.

Braglína (n, kvk)  Vísuorð; ljóðlína.  Lína í ljóði/vísu sem mynduð er af vissum fjölda bragliða.

Bragur (n, kk)  A.  Háttur; aðferð; yfirbragð.  „Það er allt annar bragur á búskapnum eftir að hann fékk sér ráðskonuna“.  „Hann leysti þetta af myndarbrag“.  B.  Vísa; ljóð.  Oftast átt við margra erinda kvæði.

Brak (n, hk)  A.  Um hljóð; marr; brestur.  „Hvaðan kemur þetta brak í húsinu“?  B.  Bort/efni úr því sem brotnað hefur; spýtnarusl.

Braka (s)  Marra; bresta.  „Það brakaði í ísnum undir fótum okkar, en hann hélt“.  „Þrep stigans í gamla húsinu brökuðu mörg hver; en sitt hljóðið var í hverju“.

Brakandi sólskin/ Brakandi þurrkur (orðtak)  Mjög góður þurrkur. „Það var brakandi sólskin og steikjandi hiti í bjarginu“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Brakar í hverju tré (orðtak)  Heyrast brestir.  „Í verstu hviðunum hvein í mæninum og brakaði í hverju tré“.

Brakþurr (l)  Skraufþurr; alveg þurr.  „Heyið er orðið brakþurrt og tilbúið til hirðingar“.

Brall (n, hk)  Pukur; leynimakk; verk sem unnið er í kyrrþey.  „Hann er að bralla eitthvað úti í húsi“.

Bralla (s)  Bauka; starfa.  „Hvað ertu núna að bralla“?  „Margt var brallað á þeim árum“.  Farmborið hart.

Brallari (n, kk)  A.  Hrekkjóttur/fiktsamur einstaklingur.  B.  Andar- eða æðarungi.

Brambolt (n, hk)  Fyrirgangur; gauragangur; bras.  „Hættið þessu brambolti strákar; ég er að hlusta á fréttir“!  Orðskýring liggur ekki ljós fyrir, en e.t.v. er þarna um hljóðbreytingu að ræða.  Fyrri liður gæti hafa verið „brandur“, þ.e. viður; einkum eldiviður, en síðari liðurinn „brölt“.  „Brandbrölt“ gæti þá hafa átt við umstang með við; eldivið.

Bramboltast (s)  Rótast; vinna eitthvað með látum.  „Þeir eru að bramboltast við að fergja votheyið“.

Bramla (s)  Brjóta; gera hávaða.  „Hvað er hann eiginlega að bramla þarna frammi“?  Sjá brjóta og bramla.

Bramsegl (n, hk)  Rásegl/þversegl yfir gaffalsegli á skonnortu.

Branda (n, kvk)  A.  Smásilungur sem algengur er í lækjum og skurðum, t.d. í Kollsvík.  „Brönduveiði var helsti veiðiskapur barna sem ólust upp í Kollsvíkinni“.  Eldra orð er brandkóð  (sjá þar).  B.  Mjög smár fiskur.  „Mikið af þessu er fallegur þorskur, en svo eru bölvaðar bröndur innanum“.  „Það væri óvanalegt ef hér væri ekki einhverja bröndu að hafa yfir snúninginn“.

Brandajól (n, hk, fto)  Jól sem falla þannig við sunnudaga að margir helgidagar verða í röð.  Vanalegast haft um það þegar jóladag ber uppá mánudag.  Stundum er talað um stóru-brandajól, en munurinn er óviss.  Sömuleiðis er nafnskýring umdeild en gæti tengst eldibröndum á einhvern hátt; t.d. að meira hafi gengið á eldiviðinn þegar hátíðisdagar eru fleiri.

Brandari (n, kk)  Síðari tíma gæluheiti á skrýtlu/gamanmálum.

Brandauki (n, kk)  Viðbót við bugspjót/brand á seglskipi, til framfestingar á stagsegli/stagseglum.

Brandkóð (n, hk)  Branda; lækjasilungur.  „Beita er maðkur og brandkóð.  Item heilagfiski á vor“  (ÁM/PV; Jarðabók; um Láganúp).  „Milli Vatnsdalsvíkur og Hvalvíkurness rennur Brandkóðalækur; fullur af smásílum sem nefnd eru brandkóð“  (ÓETh; Örn.skrá Vatnsdals).

Brandsegl (n, hk)  Eitt stagsegla á seglskipi. 

Brandugla (n, kvk)  Asio Flammeus.  Eina uglutegundin sem verpir á Íslandi, svo nokkru nemi.  Lengd um 38 cm; þyngd um 320 g; móbrún að ofan með ljósum dílum; þéttar langrákir á bringu og dreifðari á kviði; andlit kringlótt og ljósara; dökkar augnumgjarðir og lítil fjaðraeyru sem stundum eru reist; vængir langir og ljósiri undir; stél þverrákótt.  Flugið er rykkjótt og vængjatök silaleg, en þó góður flugfugl.  Aðalfæðan er hagamýs, en einnig smáfuglar og ungar.  Brandugla hefur af og til sést í Kollsvík.

Brandur (n, kk)  A.  Sverð.  Sbr orðtökin að „begða brandi“ og „með báli og brandi“.  B.  Stoð; slá; biti; mæniás.  „Brandur liggur þvert milli veggjanna og myndar lágar dyr í kofann“.  C.  Lurkur sem notaður er í eld eða sviðinn af eldi; sbr. surtarbrandur og brandajól; sbr einnig orðtakið „eins og eldibrandur“.  Einng sem stytting á „surtarbrandur“.  D.  Bugspjót á skipi.  Ekki notað þannig í seinni tíð.  E.  Sá hluti hlaðins veggs sem nær upp í risið/ uppundir mæniás (sé ásaþak).  „Hesthúsið er hlaðið í brand í báða enda“.  „Mig vantar eitthvað meira hleðslugrjót í brandinn austanmegin“.  Þessi notkun orðsins var algeng í Kollsvík og nágrenni, en ekki sést að hún hafi verið annarsstaðar.  Orðið vísar vafalaust til þess að „brandur“ var fornt heiti á mæniás.  Sú notkun á ekkert skylt við það að á síðari tímum hefur heitið verið notað sem stytting á „brandvegg“ í merkingunni eldhindrandi veggur í byggingu; og er dönskusletta.

Brandhlaða (s)  Hlaða steinvegg upp í topp; hlaða brandhleðslu.  „Líklega hafa menn haldið þeirri venju að brandhlaða veggi löngu eftir að ásaþök viku fyrir sperruþökum, enda var lögum hörgull á timbri í gafla en gnægð af grjóti“.

Brandhlaðinn (l)  Um steinhlaðinn vegg; hlaðinn í topp uppundir mæni.  „Aftari veggur kofans var brandhlaðinn en framveggurinn með hálfgafli“.  Sjá hlaða í brand.

Brandhleðsla (n, kvk)  Hleðsla steinveggjar á þann hátt að hleðslan nái upp í mæni/ uppundir mæniás.  „Brandhleðsla er í báðum göflum Hesthússins, sem gæti bent til þess að í upphafi hafi verið ásaþak á því“.

Brandveggur (n, kk)  A.  Upphafleg merking; veggur sem hlaðinn er í brand.  Sjá brandur; brandhleðsla.  „Hesthúsið er með brandveggjum í báða gafla“.  Vísar til þess að heitið „brandur“ var fyrrum haft um mæniás.  B.  Síðari tíma dönskusletta; eldhindrandi veggur í byggingu.  Vísar til elds; „brand“.

Brandönd (n, kvk)  Tadorna tadorna.  Stórvaxin og skrautleg andartegund, sem minnir á gæs í vaxtarlagi.  Mjög skrautleg, svo minnir á æðarkóng:  Goggur rauðbleikur, sem og fætur; Höfuð og háls dökkgræn; búkur hvítur með brúnum og svörtum flekkjum; axlarfjaðrir svartar; dökk rák niður bringu og eftir kviði; kyn svipuð í útliti en kvenfugl minni.  Heimkynni eru við Bretland og Norðursjó; víða við Miðjarðarhaf og sumsstaðar í Asíu.  Flækingsfugl á Íslandi en nú orðinn varpfugl í Borgarfirði.  Hefur sést í Kollsvík.

Bransi (n, kk)  Síðari tíma gæluheiti á starfsgrein.

Bras (n, hk)  A.  Erfiði; mikil fyrirhöfn.  „Það kostaði mikið bras að koma kálfunum upp á vörubílinn“.  „Hann stóð í brasi við að koma fénu í réttina“.  B.  Látún.  C.  Samsuða af einhverju tagi.  „Ég gerði plokkfisk úr afganginum; þið verðið bara að gera ykkur þetta bras að góðu“.

Brasa (s)  A.  Steikja.  B.  Aðhafast; brauka; bauka.  „Hvað ertu að brasa þessa dagana“?  C.  Festa saman; lóða; slaglóða.  „Honum tókst að brasa stykkið aftur við“.

Brask (n, hk)  A.  Gróðabrall; vafasamir viðskiptahættir; áhættuviðskipti.  B.  Bras; brall; bauk; dund; erfiði.

Braska (s)  A.  Bralla; bauka; úðra; fást/glíma við.  „Hvað ertu að braska þessa dagana“?  B.  Stunda gróðabrall.

Braskari (n, kk)  Sá sem stundar brask.

Brattgengur (n, hk)  Fær í bjargi.  „Ekki töldu þeir ráðlegt að kveðja til menn úr fjarlægð, ókunnuga og lítt vana brattgengi“  (MG; Látrabjarg).  „Við hugsum til heimferðar út yfir Skorarskriður, og ég kvíði mikið fyrir því að koma Pétri yfir skriðurnar að vetrarlagi.  Ég vissi að hann var maður ekki brattgengur“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Bratti (n, kk)  Halli; brekka.  „Farðu varlega þarna í brattanum“¨!  „Það verður á brattann að sækja í þessu máli“.

Brattlendi (n, hk)  Brött hlíð; klettar; björg.  „Sumir þola illa að ganga um brattlendi vegna lofthræðslu“.

Brattlent (l)  Um landslag; mjög hallandi.  „All brattlent er á Stígnum“.

Brattur (l)  A.  Með miklum halla.   B.  Hress; góður með sig; mannborulegur.  „Karlinn var hinn brattasti“.  „Ég er að verða nokkuð brattur núna, en ansi var þetta hvimlið pest“!

Brattur aftan (orðtak)  Kokhraustur; stóryrtur.  „Þú ert brattur aftan þykir mér; rífur bara kjaft“!  Sennilega er líkingin dregin af herskipum á miðöldum, sem höfðu mjög hátt afturstefni, en gæti einnig vísað í að maður rétti úr sér og verði beinn í baki þegar hann ber sig vel í orðum.

Brauð (n, hk)  A.  Bakaður matur úr mjöli og fleiru.  „Hún skar brauðið í fremur þykkar sneiðar“.  B.  Prestakall; sókn sem prestur situr.  „Sauðlauksdalur mun fyrrum hafa þótt efirsóknarvert brauð“.

Brauðamatur / Brauðmeti (n, kk/hk)  Brauð; matur sem er að uppistöðu brauð.  „Vermatan var þá farin að ganga til þurrðar hjá sumum, enda ótækt að geyma brauðamat svo lengi“  (KJK; Kollsvíkurver).

Brauðbakstur (n, kk)  Bökun brauða.

Brauðbiti (n, kk)  A.  Biti/bútur af brauði.  B.  Lítilsháttar brauð.  „Ég hef ekkert borðað í dag, annað en brauðbitann sem ég hafði með mér í nesti“.

Brauðbox (n, hk)  A.  Blikkbox sem brauð er bakað í.  Fyrrum tíðkaðist að nýta blikkbox umdan ýmiskonar vöru, t.d. kakóbox eða „makkintosdósir“ sem brauðform, væru þau ekki við hendina.  B.  Lítil askja sem brauð eða brauðsneiðar eru gymdar í; t.d. nestisbox

Brauðfæða (s)  Sjá (einhverjum) fyrir mat.  „Ekki veit ég hvernig þeir ætla að brauðfæða heiminn um aldamótin ef svona fjölgun heldur áfram“!

Brauðfætur (n, kk, fto)  Gæluheiti um ótrausta/lina fætur; ótraust undirstaða.  „Mér fannst frá byrjun að félagið stæði á brauðfótum“.

Brauðhleifur (n, kk)  Heilt bakað brauð.  „Hún hafði breitt viskustykki yfir tvo nýbakaða brauðhleifa“.

Brauðhófast (s)  Ryðjast; ganga ógætilega um; finngálpast. „Vertu ekki að brauðhófast uppi á þakinu drengur“!

Brauðlaus / Brauðlítill (l)  Án (mikils) brauðs.  „Ég var að panta hveiti; það fer að verða brauðlítið á bænum“.

Brauðmusk (n, hk)  Brauðmylsna.  „Sópaðu brauðmuskinu ofaní hundadallinn“.

Brauðrusl (n, hk)  Niðrandi heiti á brauði.  „Honum fannst það fremur þunnur þrettándi að fá ekkert nema brauðrusl eftir þetta puð“.

Brauðskorpa (n, kvk)  Hörð brúnleit skán sem myndast á bökuðu brauði; mjög þurrt brauð.

Brauðsneið (n, kvk)  Þunnur afskurður, oftast skorinn þvert á brauðhleif.

Brauðstrit (n, hk)  Síðari tíma gæluheiti á erfiðisvinnu láglaunamanns.

Brauðsúpa (n, kvk)  Súpa sem soðin er af brauði/brauðafgöngum, gjarnan nokkru af rúgbrauði og stundum rúsínum.  Brauðsúpa var algengur matur áðurfyrr og oft herramannsmatur, en er minna á borðum nú.

Brauk (n, hk)  Bras; fyrirgangur; vesen.  „Þetta lánaðist, en kostaði okkur þónokkuð brauk og bras“.

Brauka (s)  A.  Braska; bralla; úðra; fást/glíma við.  B.  Gera hávaða/þrusk.

Braut (n, kvk)  Vegur; leið; slóð.  „Meðan fé gekk á Stígnum var jafnan greið braut ofanúr Sniðum allar götur út í Setnagjá.  Þar er fljótt að verða torfært fyrir sinu og hvönn þegar þess nýtur ekki lengur við“.

Brautargengi (n, hk)  A.  Ganga eftir vissri leið.  B. Jafnan notað núna í líkingamáli um aðstoð/fyrirgreiðslu.  Sjá veita brautargengi.

Brautryðjandi (n, kk)  A.  Sá sem ryður veg/braut; vegagerðarmaður.  B.  Líkingamál um frumkvöðul/ þann sem er fyrstur til varðandi þarft málefni/verk og skapar gott fordæmi fyrir aðra.  „Segja má að Einar í Kollsvík hafi verið einn af brautryðjendum skútuútgerðar á Íslandi“.

Brá (n, kvk)  A.  Yfirbragð; auga.  „Hún var björt á brún og brá“.  „Hann varð fremur þungur á brá þegar við sögðum honum tíðindin“.  B.  Brák á vatni.  Sbr járnbrá.

Brá (s)  Bræða.  Einkum í orðtakinu brá af.

Brá af (orðtak)  A.  Bræða/bráðna af.  „Aðeins er hann að byrja að brá af hæstu hólum“.  B.  Líkingamál um veikindi mannsekju; létta; hressast; skríða saman.  „Hann var mættur í vinnu um leið og bráði örlítið af honum“. 

Bráð (n, kvk)  A.  Tíminn sem næst er.  „Hann kemur nú ekki aftur í bráðina“.  B.  Veiði.  C.  Bráðnun; leysingavatn.  Sbr snjóbráð.

Bráð (n, hk)  Feiti; flot; smolt.  „Hér hefur bráðið úr ketinu runnið út á borðið“.

Bráð er barns lundin (orðatiltæki)  Börn eru óþolinmóð og gefa yfirleitt ekki langan frest á að fá sínar þarfir uppfylltar.  Á hinn bóginn eru þarfir þeirra einfaldari en þarfir fullorðinna.

Bráða (s)  Tjarga; tjörubera; mála bát upp úr tjöru eða biki (LK; Ísl. sjávarhættir II; heimild ÓM) (Sjá tjarga)

Bráðabirgða- (forliður)  Algengur forliður um það sem ætlað er að duga til skamms tíma.  T.d. bráðabirgðaviðgerð; bráðabirgðagirðing; braðabirgðalög; bráðabirgðasakka o.fl.

Bráðahætta (n, kvk)  Aðsteðjandi hætta/vandi sem bregðast þarf strax við.  „Mér sýnist að það sé engin bráðahætta á ferðinni, en það þarf að fylgjast vel með framvindunni“.

Bráðapest / Bráðafár / Bráði / Bráðadauði / Bráðasótt / Bráðaveiki (n, kvk/kk)  Bráði.  „Bráðafár eða bráðapest er bráðdrepandi bakteríusjúkdómur sem fyrst og fremst kemur fyrir í lömbum og veturgömlu fé á haustin.  Hún hefur verið þekkt í landinu frá því á 19. öld og var þá skaðræðissjúkdómur sem olli mjög miklu tjóni.  Upp úr 1900 var farið að bólusetja begn bráðapest og síðan hefur mjög mikið dregið úr tjóni af hennar völdum“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).   „Skepnuhöld hafa verið góð, að undanskildu því að í haust og fyrri hluta vetrar gjörði bráðapest vart við sig með mesta móti“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Bráðaþörf (n, kvk)  Knýjandi þörf; mikil þörf.  „Mér finnst engin bráðaþörf á því að svara svona kvabbi um hæl“.

Bráðdrepa (s)  Drepa/deyða samstundis.  „Smakkaðu þetta aðeins; það bráðdrepur þig ekki“!

Bráðdrepandi (l)  Það sem drepur fljótlega; hættulegt.  „Ekki skal ég segja að gúrkur séu bráðdrepandi, en gagnsemi þeirra er að mínu mati umdeilanleg“.

Bráðefnilegur (l)  Mjög líklegur til að verða dugandi.  „Kennarinn taldi hana vera bráðefnilegan nemanda“.

Bráðfallegur (l)  Mjög fallegur; gullfallegur.  „Þetta er bráðfallegur bátur“.

Bráðfeigur (l)  Mjög feigur (sjá þar).  „Þú ert nú ekki bráfeigur fyrst þú gast klórað þig eftir þessum þræðingi“.

Bráðfeitur (l)  Mjög feitur; akfeitur; asafeitur; spikaður.  „Silungurinn úr Stóravatni var svo bráðfeitur að hnakkaspikið lá í djúpum fellingum“.

Bráðfiskinn (l)  Mjög fiskinn; lúsfiskinn.  „Strákurinn reyndist bráðfiskinn í sinni fyrstu sjóferð“.

Bráðgáfaður / Bráðgreindur / Bráðskarpur / Bráðskynsamur / Bráðsnjall (l)  Mjög vel gefinn; skarpgreindur.  „Dóri var bráðgreindur maður og lét t.d. oft til sín taka á framboðsfundum“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  (Kristín Pétursdóttir var) bráðskynsöm kona og eina af þessum konum sem ég kynntist ung og bý að þeim kynnum enn“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Bráðgeðja (l)  Fljótillur; bráður/ör í skapi.  „Hann var hress í viðmóti en mjög bráðgeðja ef honum þótti“.

Bráðgerður (l)  Snemmþroska; skynsamur; góður námsmaður.  „Hún þótti mjög bráðgerð og góður nemandi“.

Bráðhast (n, hk)  Mjög mikill flýtir; snarhast.  „Ég sneri bátnum uppí brotið í bráðhasti“.

Bráðhasta (s)  Kalla mjög að; mjög brýnt.  „Þetta bráðhastar ekki, en gott væri að gera það sem fyrst“.

Bráðhastandi (l)  Mjög brýnt/aðkallandi.  „Ég kem strax ef þetta er bráðhastandi; annars á morgun“.

Bráðhentugur (l)  Mjög hentugur/þarfur/þénanlegur.  „Þessir skór eru bráðhentugir í bjargferðir“.

Bráðheppinn (l)  Mjög heppinn.  „Ég var svo bráðheppinn að eiga nóg af salti“.

Bráðhugguleg / Bráðlagleg (l)  Mjög lagleg/myndarleg/falleg.  „Hún er bráðlagleg og vel að sér“.

Bráði (n, kk)  Bráðapest.  „Það liggur ein dauð úr bráða hér úti á Brunnsbrekku“.

Bráðillur (l)  Uppstökkur.  „Hann brást stundum bráðillur við þessum hrekkjum“.

Bráðinn (l)  Þiðnaður.  „Flotið er að verða bráðið“.

Bráðkvaddur (l)  Andast mjög skyndilega.  „Systurnar stumra yfir honum, og töldu að hann hefði orðið bráðkvaddur“  (IG; Sagt til vegar II). 

Bráðlaginn (l)  Mjög laghentur; flínkur í höndum.  „Öll eru systkinin bráðlagin í höndum, líkt og foreldrarnir“.

Bráðlátur (l)  Óþolinmóður; fljótfær.  „Vertu ekki svona bráðlátur.  Við skulum skaka dálítið og sjá hvort hann gefur sig ekki til“.

Bráðlega (ao)  Fljótlega; rétt strax.  „Við þurfum bráðlega að fara að komast fram, til að ná snúningnum“.

Bráðlifandi (l)  Vel lifandi/hress.  „Ég hélt hann væri löngu dauður, en hann er víst bráðlifandi enn“.

Bráðliggja á (orðtak)  Hasta mjög; vera knýjandi.  „Mér bráðliggur á að fá svar við þessu“.

Bráðmyndarlegur (l)  Mjög laglegur/fallegur.  „Hún er hin laglegasta stúlka, og bráðmyndarleg í höndunum“.

Bráðna (s)  Þiðna.  „Það er farið að bráðna af húsþökum í sólinni“.

Bráðnauðsyn (n, kvk)  Það sem er mjög brýnt/nauðsynlegt.  „Það er nú engin bráðnauðsyn að setja féð inn strax.  Það hefur gott af að vera dálítið úti þó það beiti sér lítið“.  „Mér finnst engin bráðnauðsyn á þessu“.

Bráðnauðsynlegt (l)  Mjög brýnn/nauðsynlegur/aðkallandi.  „Það er bráðnauðsynlegt að lagfæra girðinguna“.

Bráðnun (n, kvk)  Leysing; það að fast efni bráðnar og breytist í vökva. 

Bráðókunnugur (l)  Alveg ókunnugt.  „Ég skil barnið ekki eftir hjá bráðókunnugu fólki“.

Bráðónýtur (l)  Handónýtur; gjörsamlega ónýtur; algerlega gagnslaus. 

Bráðræði (n, hk)  Fljótfærni; það sem gert er í skyndi og hugsunarleysi.  „Við skulum nú hugsa málin aðeins og ekki flana að neinu í bráðræði“.

Bráðsjúkur / Bráðsjúkur (l)  Skyndilega veikur.  „Erfitt gæti orðið að koma bráðsjúkum til aðstoðar í mikilli ófærð“.

Bráðsmitandi (l)  Um veiki/pest; berst mjög fljótt milli einstaklinga. 

Bráðsniðugur (l)  Mjög snjall/fyndinn.  „Þetta er bráðsniðug uppfinning“.  „Þeim fannst þetta bráðsniðugt“.

Bráðum (ao)  Mjög fljótlega; alveg á næstunni.  „Bráðum koma blessuð jólin…“

Bráður / Bráðlyndur (l)  Fljótillur; fljóthuga; þungur í skapi.  „Dagsdaglega var hann mjög jafnlyndur og hvers manns hugljúfi, en gat orðið mjög bráður ef verulega gekk framaf honum“.

Bráður bani (orðtak)  Skyndilegur dauði.  „Þú bíður nú ekki bráðan bana af því að smakka þetta“!

Bráður bani búinn (orðtak)  Í yfirvofandi lífshættu.  „Okkur hefði öllum verið bráður bani búinn hefði vélartíkin stoppað þarna í röstinni“.

Bráðvel gefinn (orðtak)  Skarpgreindur; bráðgreindur.

Bráðþroska (l)  Fullorðnast snemma; þroskaður miðað við aldur. 

Bráhár (n, hk, fto)  Hárin á augnlokunum. 

Brák (n, kvk)  A.  Hlutur sem skinn er dregið um til að elta það, vanalega hrútshorn sem hengt er upp.  B.  Þunnt lag feiti eða olíu sem flýtur á vatni; oft glitrandi í mörgum litum.

Brákaður (l)  Brotinn; laskaður.  „Vængur fuglsins var brákaður eftir áreksturinn.  Afi sagði að við þessu væri ekki nema eitt að gera.  Hann hvarf með fuglinn vestur fyrir hús og eftir það var vandamálið úr sögunni“.

Brákast (s)  Brotna; bresta.  „Heldurðu að þú hafir brákast á fætinum við fallið“?

Brátt (ao)  Bráðum; rétt strax.  „Ég gæti trúað að hann fari brátt að snúa sér í áttinni“.

Brátt í brók (orðtak)  Mikið mál að kúka.  „Mér finnst á lyktinni að þeim litla hafi orðið brátt í brók“. 

Bredda (n, kvk)  A.  Stór hnífur.  „Fyrrum voru einungis borðhnífar nefndir „hnífar“ í Kollsvík.  Stórir eldhúshnífar nefndust allir breddur, en auk þess var talað um flatningsníf; vasahníf og sax“.  B.  Kvensvarkur.  „Kerlingin er óttaleg bredda við karlinn“.

Breddugangur (n, kk)  Yfirgangur og skammir; einkum af hendi kvenmanns.  „Skárri er það nú breddugangurinn í stelpunni“!

Breða (n, kvk)  Svarkur; frekur/ráðríkur kvenmaður.  „Vonandi losnum við við þessa breðu úr stjórn fljótlega“.

Bregða (s)  A.  Taka/setja fljótt; snara; skjóta; breyta.  „Hann var kominn í stakkin; tók upp rjólstubbinn; brá honum undir jaxla og klippti af“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  B.  Hætta; hverfa frá.  Sbr bregða búi; bregðast; bregða litum; bregða heiti/loforði sínu. C.  Binda; prjóna.  „Hann brá rennilykkju á steinvöluna; rústaði hana með nokkrum hnullungum og sagði að þetta væri gulltrygg festa fyrir lásbandið“.  D.  Koma einhverjum að óvörum, þannig að hann hrökkvi við.  „Þú mátt ekki bregða mér svona; ég varð dauðskelkuð“!  Fyrrum borið fram með hörðum framburði:; „breggda“; „bruggdið“.

Bregða á annað ráð (orðtak)  Nota annað úrræði; skipta um aðferð.  „Nú skulum við bregða á annað ráð:  Ég ætla að fara niður í hinn endann á gangnum og reka hana til baka“.

Bregða á leik (orðtak)  Fara að leika sér; galsast.  „Strákurinn kom skoppandi og vildi bregða á leik“.

Bregða á skeið (orðtak)  Hlaupa nokkurn spöl; taka til fótanna.  „Hann sá að sú mórauða ætlaði að stinga sér útúr hópnum, og brá á skeið til að komast fyrir hana“.

Bregða á það ráð (orðtak)  Taka til bragðs; velja það úrræði.  „Stjórinn var alveg fastur í botni og við urðum að bregða á það ráð að skera á færið“.

Bregða birtu (orðtak)  Dimma/skyggja í lofti; húma.  „Það var orðið áliðið dags og farið að bregða birtu“.

Bregða blundi (orðtak)  Vakna; rumska.  „Ég var rétt að bregða blundi þegar hundurinn fór að glamra“.

Bregða brókum (orðtak)  Bjarga brókum; gera að brókum; leysa brækur; taka niðurum sig brækur/buxur og hægja sér/kúka; fara á kamarinn/salernið.  „Hann þurfti aðeins að skreppa og bregða brókum“.

Bregða búi (orðtak)  Hætta búskap.  „Hilmar brá búi árið 2001, og var þá skepnulaust í Kollsvík í fyrsta sinn frá því Kollur landnámsmaður synti á land með ær sínar“.

Bregða ekki vana sínum / Bregða ekki venju sinni (orðtök)  Halda sinni venju.  Sjá bregða til vanans.

Bregða fyrir (orðtak)  Sjást/heyrast öðru hvoru/ sjaldan; sjást í mjög stuttan tíma.  „Þetta orð heyrðist sjaldan notað í Kollsvík, en brá þó fyrir“.  „Mér sýndist ég sjá honum bregða fyrir hérna rétt áðan“.

Bregða fyrir sig (orðtak)  Nota þegar á þarf að halda.  „Sigurvin kunni a.m.k. tólf tungumál reiprennandi.  Hann gat meira að segja brugðið fyrir sig mandarín kínversku ef með þurfti“.

Bregða fæti fyrir (orðtak)  Reyna að hindra; þvælast fyrir.  „Hann reyndi að bregða fæti fyrir þessi áform“.  „Leik að hellu ber nú brátt/ bregður fæti drengur;/ dólgur fjalla hrín við hátt;/ hryggur sundur gengur“ (JR; Rósarímur). 

Bregða gjarðir (orðtak)  Flétta gjarðir á hnakka/klyfbera o.fl, en þær voru oftast úr hrosshári.  „Einstaka maður hafði með sér verkefni að heiman, svo sem að flétta reipi, bregða gjarðir o.fl“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Konur spunnu; karlmenn táðu, greiddu hrosshár og spunnu það á vinglu, eða fléttuðu reipi og brugðu gjarðir.   Mamma brá líka gjarðir, svo það voru ekki karlmenn einir um“ (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  

Bregða grönum (orðtak)  Fýla grön; fitja uppá nefið/trýnið; bretta uppá efri vör, þannig að hún herpist neðanvið nasirnar.  Oftast merki um vandlætingu/ólund/fyrirlitningu/viðbjóð.  Hrútar gera það sama þegar þeir skynja þef af kind sem gangur er á/ beiðir í fengitíð, en þá gjarnan kallað að þeir fýli grön.

Bregða heiti/loforði við (einhvern) (orðtak)  Svíkja heit/loforð sem gefið var einhverjum.  „Þrátt fyrir þetta brá hann ekki heiti sínu við okkur“.

Bregða hendi fyrir sig (orðtak)  Hlífa sér með hendi.  „Hann náði að bregða hendinni fyrir sig og taka af sér mesta fallið“.

Bregða hníf á (eitthvað) (orðtak)  Skera eitthvað.  „Hér þarf líklega að bregða hníf á hnútinn; ég bara næ ekki að leysa hann öðruvísi“.

Bregða í brún (orðtak)  Verða undrandi; hnykkja við.  „Henni brá heldur í brún þegar hún kom utar á Bakkana.  Þar hafði sjórinn gengið á land og brotið stór skörð í Garðana“.

Bregða/sækja í ættina (orðtök)  Líkjast ættingjum sínum.  „Honum bregður dálítið í ættina að þessu leyti“.  „Þetta sérkenni sækir hann í ættina“.

Bregða lit á (orðtak)  Færast litur yfir.  „Aðeins er farið að bregða lit á túnum, þó enn sé kalt í tíðinni“.

Bregða ljósi á (orðtak)  Leiða í ljós; útskýra.  „Ég skal reyna að bregða ljósi á þetta mál“.

Bregða/bera nýrra við (orðtak)  Vera nýlunda/nýjung; vera öðruvísi en vant er.  „Nú þykir mér bregða nýrra við; ef hann vill ekki sælgæti hlýtur hann að vera alvarlega veikur“!  Oftar með „bera“.

Bregða sér (orðtak)  Fara; ferðast.  „Ekki gáfust þau upp við svo búið, en brugðu sér alla leið norður á Hrafnseyri, þar sem séra Bövar gaf þau saman“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).  „Kvöld eitt... ætlaði Elín að bregða sér niður...“  (SG; Huldufólk; Þjhd.Þjms).

Bregða sér af bæ / Bregða sér afbæjar /orðtak)  Fara stutta ferð að heiman; skreppa af bæ.

Bregða sér afsíðis / Bregða sér út undir vegg (orðtak)  Fara til hliðar; fara á salernið/kamarinn.  „Ég þarf aðeins að bregða mér afsíðis“.  „Nú þarf ég að bregða mér útundir vegg og skila einhverju af kaffinu“.

Bregða sér bæjarleið (orðtak)  Fara í heimsókn / milli bæja.  „Við brugðum okkur bæjarleið til Reykjavíkur“.

Bregða sér frá (orðtak)  Skreppa/víkja frá; fara burt í smátíma.  „Ég þurfti aðeins að bregða mér frá, en þegar ég kom aftur hafði hann lokið verkinu“.

Bregða sér í (föt/úlpu/skó o.fl.) (orðtök)  Fara í (fatnað af einhverju tagi); bregða yfir sig.  „Bíddu aðeins meðan ég bregð mér í skóna“.  „Þú ættir að bregða þér í úlpu; hann er að kólna núna“!

Bregða svo við (orðtak)  Verða skyndilega þannig; breytast snögglega.  „Eftir að þaraskógarnir fóru að eyðast á grunnsævinu brá svo við að ekki komu lengur þarabunkar í fjörur í Kollsvík, eins og jafnan var áður“.

Bregða til (orðtak)  Um veðurfar; skipta yfir í.  „... en um 17. júní brá til úrfella og meiri hlýinda... “  (SJTh; Árb.Barð 1955-56). 

Bregða (kann) til beggja vona (orðtak)  Mál geta þróast með jákvæðum eða neikvæðum hætti; hættuástand getur farið vel eða illa.  „Ekki veit ég hvernig hann fer með þurrkinn á morgun; það getur enn brugðið til beggja vona“.  Sjá brugðið getur til beggja vona.

Bregða til betri vegar / Bregða til hins betra (orðtök)  Lagast ástand; breyta til hins betra.  „Við verðum bara að bíða og sjá hvort ekki bregður til betri vegar með þetta“.

Bregða til miða (orðtak)  Um veiðiskap; kippa á mið; taka áróður.  „Ef tók undan meðan straumur var, og þess vegna kippt á, var að taka straumkippi; einnig að róða snertu.  Það kölluðu sumir Skagirðingar að oka á, en Vestfirðingar að bregða til miða; innig að taka áróður“  (LK; Ísl.sjávarhættir IV).  Í seinni tíð var algengast að tala um að kippa.

Bregða til vanans (orðtak)  Gera eins og maður er vanur.  „Þó maður sé fluttur á annan stað þá bregður manni til vanans með að vilja rölta til sjávar og ganga á reka“.

Bregða undir sig betri fætinum (orðatiltæki)  Hafa sig í ferðalag; skreppa.  „Sú gamla brá undir sig betri fætinum og fór í ferðalag til Ameríku“.

Bregða (einhverju) upp (orðtak)  Halda einhverju á lofti stutta stund; sýna eitthvað í svip.  „Þeir brugðu upp hendi þegar við sigldum framhjá, og eins gerðum við“.

Bregða upp ljósi (orðtak)  Lýsa; kveikja ljós.  „Tófan var fljót að hverfa þegar ég brá upp ljósi“.

Bregða útaf (orðtak)  Verða frábrigði; bregðast; víkja frá.  „Svona hef ég alltaf haft það, og ég ætla ekki að fara að bregða útaf mínum vana með það“.  „Það má ekkert útaf bregða þegar báturinn er svona hlaðinn“.

Bregða vana sínum / Bregða af/útaf vana sínum (orðtak)  Breyta frá því sem venja er að gera.  „Aldrei brá maður af þeim vana sínum að ganga útmeð Bökkunum en aldrei austurmeð.  Þetta lærði ég af honum afa mínum, en hjá honum hefur eflaust ráðið sá vani að fara til sjóar til að hleypa út fénu og e.t.v. reka það útmeð Görðunum í átt til beitar.  Slíkur ávani hefur eflaust viðgengist kynslóðum saman“.

Bregða við (orðtak)  A.  Taka viðbragð.  „Brá nú Gummi skjótt við og hljóp við fót heim að íbúðarhúsinu til þess að sækja kindabyssu sína“  (PG; Veðmálið).   B.  Gera einhverjum viðbragð.  „Þú mátt ekki bregða mér svona við“!  C.  Skipta yfir/um; verða tíðinda.  „Það höfðu menn fyrir satt að draugurinn hafi losað sig skömmu síðar og farið heim til Benedikts og áreitt hann, því svo brá við að hann lagðist sjúkur og lá lengi“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Bregða við hart (orðtak)  Bregða skjótt/strax við.  „Maður þessi bregður við hart er bátur nemur við skipssíðuna...“   (MG; Látrabjarg).

Bregða við þögninni (orðtak)  Beita þögninni; þegja þegar maður er ávarpaður/spurður.  „Hann bar við þögninni þegar ég spurði hann útí þetta“.

Bregða yfir galta (orðtak)  Breiða hærur yfir galta.  „Ég ætla að fara snöggvast og bregða yfir galtana áður en byrjar að rigna“.

Bregða þurrki/veðri/tíð (orðtak)  Skipta um veður, jafnan til hins verra.  „Ekki sé ég að hann sé að bregða þessum þurrki á næsunni“.  „Ég er hræddur um að nú gæti hann verið að bregða tíðinni eitthvað“.

Bregðast (s) Talað var um að veður brygðist ef það versnaði:  „Ég kem um páskana ef veður bregst ekki“.  „Þar var leirbotn, og brást varla að fá skötu“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Hér var stutt á miðin, eða um 10 -15 mínútna keyrsla, og sjaldan brást fiskur“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Bregðast bogalistin (orðtak)  Gera óvænt mistök; takast ekki eins og skyldi.  „Karlinum skeikaði vanalega ekki í spýtingum sínum, en í þetta sinn brást honum bogalistin.  Mórauð tuggan small beint á gleraugu viðmælandans.  Hann þurrkaði og sagði í mestu rólegheitum:  „Það er ekkert að afsaka; þetta getur nú alla hent“.  Voru þau orð lengi höfð að máltaki í Rauðasandshreppi“.

Bregðast ókvæða/öndverður/illa/reiður við (orðtak)  Bregðast illa við fréttum/ummælum; verða snefsinn.  „Hann brást ókvæða við þegar hann heyrði af þessu, og sagðist aldrei hafa leyft þetta“.  „Ég brást náttúrulega öndverður við, þegar hann kom með þessa vitleysu“.

Bregðast trúnaði (orðtak)  Svíkja einhvern; svíkja það sem heitiðlofað hefur verið.

Bregðast (vel) við (orðtak)  Sýna viðbrögð/svörun; fara í aðgerð vegna.  „Ég vissi ekkert hvernig ég ætti að bregðast við þessum tíðindum“.  „Hann brást vel við þessum óskum“.

Bregður hverjum við banaspjótið (orðatiltæki)  Viðhaft t.d. þegar maður heyrir stórtíðindi/ótíðindi.

Breidd (n, kvk)  A.  Þvervegur; mál hlutar á þverveg; þvermál; lárétt mál.  „Breidd dyranna er ekki næg til að traktorinn sleppi þarna inn“.  B.  Breiddarbaugur í hnitakerfi jarðar.  „Hnattstaða Kollsvíkur er 65°36´norðlægrar breiddar og 24°18´vestlægrar lengdar“  (HÖ; Um Kollsvík; Kollsvíkurvefurinn).

Breiddarbaugur (n, kk)  Ímyndaður hringur í hnitakerfi jarðar, þvert á lengdarbaug; breidd.

Breiddargráða (n, kvk)  Stig í breiddarbaug; hnattstaða til norðurs/suðurs, táknuð með °.  Jarðkúlunni er skipt frá miðbaug í 90 breiddargráður (hringi) til norðurs og 90° til suðurs.  Hverri breiddargráðu er skipt í 60 breiddarmínútur.  Hver breiddarmínúta er ein sjómíla, eða 1.852 metrar.

Breiða (n, kvk)  Breitt/vítt svæði.  T.d. snjóbreiða.  „Froðan hafði fokið upp úr fjörunni og lá í breðum ofavið Rifið“.  „Sóleyjarbreiðurnar í túninu ljómuðu eins og þar væru sólarblettir, þrátt fyrir rigninguna“.  „Breiður af svartfugli um allan sjó sýndu að nóg var af æti“.

Breiða (s)  A.  Almennt; fletja út; opna.  „Álftin breiddi út vængina og hóf sig til flugs með nokkurri atrennu“.  B.  Kasta úr; fletja hey úr göltum (sátum) eða görðum til þurrks.  „Nú er orðið þurrt af; kominn tími til að breiða þessa galta og nýta þurrkinn“.  C.  Dreifa flöttum fiski, t.d. á reiti til þurrks.

Breiða á borðið (orðtak)  Setja/breiða dúk á borð til hlífðar eða skrauts.  „Þið megið fara að breiða á borðið og leggja hnífapörin, strákar; maturinn er að verða tilbúinn“.

Breiða galta / Breiða garða (orðtök)  Kasta úr göltum/görðum sem áður hafði verið safnað/hlaðið til að verjast bleytu, svo heyið geti þornað í þurrki.  „Við megum fara að breiða galtana á Fitinni“.

Breiða ofaná (orðtak)  Breiða yfir.  „Hún breiddi ofaná barnið og gaf því pelann“.  „Ég ætla að rölta og breiða ofaná galtana áður en hann fer að rigna“.

Breiða til þerris/þurrks (orðtak)  Fletja út til þurrkunar.  „Að því loknu var ullin borin upp á Torfamel og breidd þar til þerris“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Breiða úr göltum/beðjum/görðum/hlössum (orðtök)  Kasta úr; breiða hey úr göltum/beðjum/görðum, þannig að þynnra sé á og þorni fyrr.  „Það þyrfti að breiða úr stærstu beðjunum svo heytætlan ráði við þetta“.

Breiða úr sér (orðtak)  Fletja/þenja sig út.  „Áin rennur gjarnan í þröngum farvegi gegnum Rifið en breiðir svo úr sér niðri á útfirinu“.  „Þú þarft ekki að breiða svona úr þér yfir allan dívaninn; gefðu mér smápláss“!

Breiða út (orðtak)  A.  Fletja/þenja út.  „Hann breiddi kortið út á borðinu“.  B.  Um sögusögn/slúður; miðla; bera út.  „Hann hefur verið sð breiða út allskonar sögusagnir um þetta sem ekki er nokkur fótur fyrir“.

Breiða yfir (orðtak)  A.  Þekja; hylja; breiða ofaná.  „Breiddu nú yfir þig sængina og farðu að sofa, lambið mitt“.  B.  Þagga niður; dylja.  „Reynt var að breiða yfir þetta hneykslismál“.

Breiðavíkurmegin (ao)  Nær/tilheyrandi Breiðavík.  „Minna er um múkkavarp í Breiðnum Breiðavíkurmegin“.

Breiðfirska bátalagið (orðtak/heiti)  Nokkuð sérstakt lag á bátum sem þróaðist hjá breiðfirskum bátasmiðum og tók mið af þörfum þar.  Bátarnir þurftu að hafa mikla flutningsgetu, bæði til flutninga á fé og heyi og til fiskflutninga, t.d. úr verstöðvum í Útvíkum; auk þess að vera góð sjóskip.  „Höfuðeinkenni skipa með breiðfirsku lagi voru bogin stefni með miklum undirlotum, sem hentuðu vel til lendingar í misjöfnum fjörum; léttleiki; töluverður ávali í öllum formum til þess að mæta kröppum sjó; útsláttur á skutum og því samfara góð viðtök, svo að jafnvel mátti sigla mikið jafnt í graföldu sem óðum sjó, einkum á undanhaldi og í bitahöfuðsbyr.  En umfram annað einkennir mikill formstöðugleiki breiðfirska bátalagið, en hann er fólgin í því að þau skip hafa, jafnt undir farmi sem seglum, mikið viðnám/uppdrift í þeirri síðu sem þau hallast á“.  Margt í þessu bátalagi er skylt byggingu víkingaskipanna.  „Víða á sunnanverðum Vestfjörðum voru bátar að nokkru leyti með breiðfirsku lagi.  Þeir voru hringlotaðir, jafnt að framan sem aftan, en ekki með miklum undirlotum“ (LK; Ísl. sjávarhættir II).  Lagið á Rutinni sem Ólafur Sveinsson á Sellátranesi smíðaði fyrir bræðurna Ingvar og Össur í Kollsvík eftir 1970 minnti um margt á breiðfirska bátalagið.  Þó var henni lagt meira út að aftan, til að auka vinnupláss á netaveiðum.  Einstaklega vel heppnuð smíði.

Breiðfirskur (l)  Í/úr Breiðafirði.  „Hún er breiðfirsk í báðar ættir“.

Breiðfylking (n, kvk)  Upprunalega um vissa aðferð í hernaði, sem þótti lánast vel hjá Rómverjum til forna.  Síðar notað almennt um einsleitan hóp.

Breiðleitur (l)  Svipur á manni eða sauðkind; með breitt andlit. 

Breiðmynntur  (l)  Með áberandi breiðan munn.

Breiðnefjaður (l)  Með áberandi breitt nef.

Breiður (l)  Víður; mikill á breiddina/ þversum.  „Fjallið Breiður hefur vafalaust fengið nafn sitt af því hve hann er áberandi breiðari en aðrir núpar á svæðinu.  Líklega hafa núparnir upphaflega fengið nafngift sína frá sjófarendum, og þá gjarnan útfrá einkennum sínum frá sjó séð.  Þannig er eðlilegt að Stálfjall taki nafn af sæbröttum himinháum klettum sínum; Barð (uurunalegt heiti Látrabjargs) líkist risastóru rofabarði eða sjávarbakka.  Við Brunnanúp hafa menn lent eftir erfiða siglingu í Látraröst og fundið vatnsból/brunna.  Í Arnarnúpi kann að hafa orpið örn, eða hann tíðum setið þar.  Bjarnarnúpur kann að minna á skógarbjörn, en kann einnig að draga nafn af manni eða ísbirni.  Við Enginúp er gróinn sléttur grasbali sem minnir á engi.  Breiðurinn hefur að öllum líkindum í upphafi fengið nafnið Breiði eða Breiðinúpur, sem hefur svo í aldanna rás lagað sig í framburði.  Breiðavíkin varðveitir þó líklega upprunalegt nafn, þar sem a er í miðju í öllum föllum.  Það sem nú nefnist Hnífar hefur að öllum líkindum upphaflega nefnst Láginúpur, enda er hæð klettanna áberandi minni en annarra núpa.  Snemma á landnámstímanum reis býli syðst í Kollsvíkinni sem kennt var við núpinn.  Síðar; eftir að Hnífanafnið hafði fest sig í sessi,  fóru menn að velta fyrir sér upprunaskýringu bæjarnafnsins og töldu að það væri dregið af lautum/lágum, annaðhvort í nágrenninu eða Hnífabrúninni.  Þá var farið að rita nafnið með a í stað i í miðju í nefnifalli, sem nú er orðin hefð.  Núpurinn hefur líklega nefnst Kollnúpur eða Kolli í upphafi, vegna hinnar sérkennilegu lögunar sinnar meðal annarra núpa á svæðinu.  Ekki er ólíklegt að víkin dragi nafn af fjallinu.  Landnámabók segir að Kollur hafi þar numið land og hafa menn talið víkina draga nafn af honum.  Þessu kann þó að vera þveröfugt farið; að landnámsmaðurinn hafi borið annað nafn; hann hafi gefið fjallinu nafnið Kollur eða Kollnúpur og kennt víkina við það, en síðan hafi hann tekið viðurnefni af fjallinu sem hann byggði bæ sinn undir.  Það viðurnefni hefur svo borist til eyrna Landnámuritara þremur öldum síðar; líklega samkvæmt óljósri munnlegri geymd meðal niðja Örlygs hins gamla; fóstbróður Kolls.  Líkt brengl í munnlegri geymd kann að búa að baki þess að Kollur er sagður hafa blótað Þór í sjávarháska sínum, sem er ólíklegt mjög þar sem fóstbræður komu báðir í trúboðserindum til landsins.  Inn í þá sögu kann einnig að blandast metnaður afkomenda Örlygs, sem sagður er hafa reist fyrstu kirkju landsins að Esjubergi.  Ekki er síður trúlegt að Kollur hafi orðið fyrri til með kirkjubyggingu, en um það voru engir til frásagnar við gerð Landnámu.  Núpur sá sem nú nefnist Blakknes nefndist löngum Straumnes; allt þar til enskir togarasjómenn gáfu því núverandi nafn.  Ástæða þess hve nýja nafnið náði skjótri útbreiðslu er líklega sú að með því er forðað ruglingi við Straumnes norðar á Vestfjörðum.  Ekki er ólíklegt að Kollur sjálfur hafi gefið Straumnesi sitt nafn, eftir að hafa lent í sjávarháska í hinni straumhörðu Blakknesröst (fyrrum Straumnesröst), sem getur reynst hættuleg skipaumferð.

Breikka (s)  Gera breiðari; víkka.  „Lagður ver nýr vegur í Skarðsbrekkunni og hann breikkaður í neðri sniðunum“. 

Breikkun (n, kvk)  Sú aðgerð að breikka.  „Vegurinn er mun öruggari eftir breikkunina“.

Breim (n, hk)  Ámátlegt væl sem breimaköttur gefur frá sér.

Breima (s)  Um kattarlæðu; gefa frá sér vælandi og ámátlegt hljóð sem merki um mökunarþörf. 

Breimaköttur (n, kk)  Kattarlæða sem breimar. 

Breiskja (n, kvk)  Mikill hiti; hitasvækja; mikill þurrkur í sterku sólskini.  „Það er varla verandi í bjarginu í þessari breiskju“.

Breiskjuhiti (n, kk)  Hitasvækja; mjög hlýtt í veðri.  „Heyið þornar nærri því af ljánum í þessum breiskjuhita“.

Breiskjuþurrkur (n, kk).  Mjög góður þurrkur; sól i heiðríkju og (helst) örlítil gola.  Einkum var þetta viðhaft um heyskapartímann, enda þá mest þörf á þurrki.  Stundum var þetta stytt í hitabreiskja, eða bara breiskja.

Brek (n, hk, fto)  Minniháttar óknyttir; hrekkir eða afbrot.  „Það er nú varla hægt að refsa fyrir svona brek, sem þar á ofan eru löngu fyrnd“.  „Ekkert er barn án breka“.  Sjá barnabrek/barndómsbrek.

Brekán (n, hk)  Ofin rúmábreiða. 

Brekka (n, kvk)  Halli í landslagi.  „Féð rann liðugt undan brekkunni“.

Brekkubrún (n, kvk)  Efsti hluti brekku.  „Kindurnar hrukku af stað þegar ég kom fram á brekkubrúnina“.

Brekkufótur (n, kk)  Neðsti hluti brekku.

Brekkulaus / Brekkulítill (l)  Um veg/gönguleið; án mikils halla.  „Vegurinn um Dalverpi er mest af nokkuð beinn og brekkulítill“.

Brella (n, kvk)  Bragð; hrekkur; grikkur.  „Nú er vélarfjandinn að gera mér einhverjar brellur, eins og vant er“!

Brellinn  (l)  Erfiður; óútreiknanlegur; hrekkjóttur.  „Vélin getur verið dálítið brellin ef sá gállinn er á henni“.

Bremsa (n, kvk)  Hemill; búnaður til að stöðva vél eða farartæki. 

Bremsa (s)  Hemla/stöðva vél/farartæki.

Bremsufar (n, hk)  Kriulöpp; gæluorð um það þegar einhver gerir í buxurnar/ skítur á sig.  Stundum notað í stríðnistón þegar einhver hefur rekið hraustlega við; tekið hraustlega á eða orðið mjög hræddur.  „Heldurðu ekki að nú sé bremsufar í buxum“?

Bremsulaus (l)  Um farartæki; án virkra hemla.  „Víða voru vöð á vegum meðan ár og lækir voru enn óbrúuð.  Var bíll oft bremsulaus eftir að hafa farið yfir djúpt vað, þar sem bremsur blotnuðu“.

Bremsusteinn (n, kk)  Steinn sem settur er við hjól á bíl til að hann renni ekki í brekku.  „Karlinum gekk illa að taka af stað upp brekku; þegar færa þurfti fótinn af bremsunni á inngjöfina.  Fangaráð hans var að setja steina við hjólin áður en haldið var af stað, og víða mátti sjá slíka bremsusteina á póstleiðinni“.

Brengla (s)  Skrumskæla; aflaga; rugla.  „Orðalagið var svo brenglað að bréfið var varla skiljanlegt“.

Brenglaður (l)  Aflagaður; ruglaður; skrumskældur.  „Þetta finnst mér ansi brengluð röksemdafærsla“!

Brenna (n, kvk)  Bál; bálköstur.  „Við erum búnir að safna í töluverða brennu á Gilbarminum“.

Brenna (s)  A.  Svíða/elda/eyða með eldi/loga.  „Ég held það mætti nú brenna þessum gömlu fatalörfum“.  B.  Sviðna; meiðast í hita.  „Varstu nú að brenna þig?  Ég sagði þér að vera ekki að fikta í kertinu“!  C.  Þjóta; fara hratt; skjótast.  „Ég þar víst að brenna á Patró í hvelli“.

Brenna af (orðtak)  A.  Upprunalega mun orðtakið hafa verið notað um luntabyssu af gamalli gerð.  Það var framhlaðningur með kveikibúnaði sem færði glóð út luntanum, sem var sérstakt hylki, að púðurrennu eða kveik sem leiddi hana inn í púðrið í brunahólfi byssunnar.  Oft mistókst þessi færsla glóðarinnar, þannig að neistinn slökknaði áður en hann gerði sitt gagn.  B.  Síðar notað um það að skjóta framhjá, annaðhvort með byssu eða í boltaleik.  „Nú er ég farinn að brenna af í hverju skotinu á fætur öðru“!  Sjá skammarskot.

Brenna/bræða af sér (orðtak)  Um það þegar þoku léttir í sólskini.  „Hann er að koma sólinni fyrir sig og nær örugglega að brenna þennan þokurudda af sér fljótlega“  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Brenna á (einhverjum) (orðtak)  Vera brýnt úrlausnarefni einhvers.  „Nú brennur það á stjórnvöldum að leysa þetta vandamál“.

Brenna baunir (orðtak)  Hita kaffibaunir til að unnt sé að mala þær og nota til uppáhellingar.  Fram yfir 1965 var allt kaffi í Kollsvík keypt sem þurrar baunir í strigasekkjum.  Það var svo brennt í skúffum í stóru kola- og olíueldavélum sem þá tíðkuðust.  Síðan voru baunirnar malaðar í handkvörn, sem til var á hverju heimili.  „Gunna var kaffikerling mikil og átti alltaf kaffibaunir og molasykur.  Hún brenndi svo sínar baunir og hellti uppá þegar henni sýndist, sem var nokkuð oft“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Brenna fyrir brjósti (orðtak)  Vera áhugasamur um; hafa áhuga á.  „Mér hefur lengi brunnið það fyrir brjósti að fanga eitthvað af þessari gríðarlegu orku sjávar“.  Sjá láta sér ekki (allt) fyrir brjósti brenna.

Brenna hjá (orðtak)  Þjóta framhjá.  Einkum notað eftir að bílar komu til og renndu framhjá bæ sem stendur nærri vegi.  „Var þetta Ólafur í ferðunum sem var að brenna hjá“?

Brenna/iða í skinninu (orðtak)  Bíða í mikilli eftirvæntingu.  „Ég brann í skinninu eftir að fá að vita meira“.

Brenna sig (orðtak)  A.  Meiðast í hita; fá brunasár/brunablöðru.  „Ég brenndi mig á heitri eldavélinni“.  B.  Líkingamál um að hlaupa á sig; gera sér skaða með fljótfærni.  „Ég ætla nú ekki að brenna mig á því aftur að ala undan þessum bjargrollum, þó þær geri væn lömb“.

Brenna sinu (orðtak)  Kveikja í sinu og láta eldinn breiðast yfir tiltekið svæði til að nýr gróður eigi auðveldara uppdráttar og fái um lið steinefni sem losna með þessu móti.  Sinubrennur hafa nokkuð verið tíðkaðar í gegnum tíðina, m.a. í Kollsvík og nágrenni, en þykja viðsjárverðar.  T.d. geta þær valdið skaða á varpi og öðru lífríki; eldurinn getur hlaupið í mosa og rætur í mikilli þurrkatíð, og þá getur eldurinn farið úr böndum og ógnað víðara svæði en ætlað var; jafnvel húsum og öðrum mannvirkjum.

Brenna til grunna (orðtak)  Um húsbruna; brenna alveg, þannig að aðeins standi grunnurinn eftir.

Brenna til kaldra kola / Brenna til ösku (orðtak)  Brenna alveg; eyðileggjast algerlega í bruna.

Brenna upp / Brenna út (orðtak)  A.  Brenna algerlega.  „Hann gleymdi sér í kjaftæðinu, svo eldspýtan brann upp í fingrum hans og meiddi hann“.  Við skulum bara leyfa bálinu að brenna út“.  B.  Líkingamál um mann sem verður leiður á starfi sínu eða ofgerir sér.

Brenna við (orðtak)  A.  Um graut eða annað sem soðið er í potti; mynda fasta brunaskán við botninn.  „Passaðu að hræra vel í grautnum, svo hann brenni ekki við“!  B.  Verða/ske stundum.  Sjá vill brenna við.

Brenna yfir (orðtak)  A.  Um var/öryggi í raflögn; ónýtast þegar um það fer of mikill straumur (sjá kortslútta).  B.  Um mann; vera undir of miklu álagi, þannig að menn gefist upp.

Brennandi heitur / Brennheitur (orðtak/l)  Sjóðheitur; sjóðandi heitur; mjög heitur.  „Passaðu þig á kaffinu; það er brennandi heitt“.  „Gættu þín á brennheitu púströrinu á ljósavélinni“!

Brennd er jörð til batnaðar ( orðatiltæki)  Menn brenna oft sinu af landsvæði til að fá þar upp grænt gras til beitar eða slægna.  Sinubrunar til ræktunar voru stundaðir frameftir 20.öld og eru sumsstaðar enn.

Brennheitur / Brennandi heitur (l/orðtak)  Svo heitur að maður gæti brennt sig. 

Brenni (n, hk)  Eldiviður; það sem nýta má til brennu/uppkveikju. „Það má nýta þetta kurl í brenni“.

Brennimark (n, hk)  Merki sem eigandi notar til að hornmerkja fé sitt; sérstakur járnstimpill sem hitaður er til að bræða brennimark í horn búfjár.  „Brennimörk eru notuð til að auðkenna fé á hornum.  Margir fjáreigendur eiga brennimörk og brennimerkja allt fullorðið fé sitt til hægðaruaka við sundurdrátt í réttum.  Kaupafé brennimerkir kaupandi sér, því brennimarkið sker úr um eignarrétt á kindinni, séu eyrnamark og brennimark ekki skráð á sama eiganda.  Kollótt fé er í stað brennimarks auðkennt með plötu í eyra sem á er stimplað brennimark eigandans“  (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin).   Minna mun nú um brennimerkingar en áður, enda hefur verklag breyst með tilkomu plastmerkja.

Brennimerkja (s)  Merkja skepnu með brennimarki.  Hérlendis tíðkaðist fyrrum að brennimerkja eiganda kindur á hornum, og var það ein ástæða þess að menn vildu fremur eiga hyrnt fé en kollótt.  Erlendis hefur víða tíðkast að brennimerkja t.d. nautgripi á bol.

Brennimerktur (l)  A.  Um kind; sem búið er að brennimerkja.  B.  Líkingamál um mann sem fengið hefur á sig slæmt orðspor..

Brennisóley (n, kvk)  Ranunculus acris.  Blóm af sóleyjarætt sem algengt er í íslenskri náttúru, m.a. í Kollsvík.  Verður iðulega 30cm á hæð eða meira; vex í graslendi, á engjum, holtum, hlíðum og víðar.  Blómið er gult með fimm krónublöð.  Safi brennisóleyjar inniheldur ranúnkúlín sem breytist í eiturefnið prótóanemónín við vatnsrof.  Það veldur því að grasbítar forðast hana ferska, en geta étið hana t.d. þegar búið er að þurrka hana með þurrheyi.  Langtímasnerting við brennisóley getur valdið roða á húð og neysla veldur bólgum í maga.
Brennisóley er algeng í túnum, en þó ekki í sáðgresi.  Hún þykir hvimleið í ræktarlandi, þar sem hún er talin spilla heyfeng, en lífgar óneitanlega náttúruna þegar hún er í blóma.

Brennisteinn (n, kk)  A.  Frumefni með efnatáknið S og sætistölu 16 í lotukerfinu.  Málmleysingi; lyktarlaus; bragðlaus; kemur oft fyrir hreinn í formi gulra kristalla, en einnig sem efnasambönd; súlfíð og súlföt.  Finnst gjarnan á jarðhita- og eldfjallasvæðum, þar sem hann fellur út úr heitum gufum.  Notaður í framleiðslu á áburði, byssupúðri og fleiri iðnaðarvörum.  Unninn hérlendis á nokkrum stöðum á 19.öld.  B.  Efnið í haus á eldspýtu, sem kveikir í eldspýtunni þegar henni er núið við stokkinn.  Í reynd er ekki notaður brennisteinn í hausinn, heldur blanda annarra efna, s.s. fosfór.  Hluti kveikiefnanna er í hausnum en önnur eru í strokfletinum á stokknum.

Brennisteinsfnykur / Brennisteinsfýla / Brenisteinslykt / Brennisteinsstækja / Brennisteinssvæla (n, kk/kvk)  Sterk lykt af brennisteini.  „Ferleg brennisteinsstækja er nú af þessum freti; þetta er verra en stankurinn af fjandanum sjálfum“!

Brennisteinssýra (n, kvk)  Römm sýra af brennisteini, sem mikið er notuð í iðnaði.  Hún er notuð vatnsblönduð geymissýra á blýrafgeyma, sem notaðir eru við ýmsar vélar t.d. í bílum og traktorum.

Brennivín (n, hk)  Vín sem búið er að eima og er því sterkara en það sem óeimað er.  „Viðstaddir votta enn;/ var þar á meðal Steinn,/ allir ágætismenn,/ að hinn ungi sveinn/ bað um fullorðinsföt/ frat í reifa og lín;/ heimtaði hangikjöt/ hákarl og brennivín“  (JR; Rósarímur). 

Brennivínsbrugg (n, hk)  Sjá brugg.

Brennivínsböl (n, hk)  Ógæfa sem hlýst af brennivínsdrykkju.  „Hún átti ekki nógu sterk orð til að lýsa þeim bágindum sem brennivínsbölið hafði leitt yfir þetta heimili“.

Brennivínsdauði (n, kk)  Meðvitundarleysi vegna ofdrykkju áfengis.

Brennivínsraus (n, hk)  Drykkjuslaður; rugl/bull sem viðhaft er af drukkinni manneskju.  „Ég held að þetta slúður sé nú bara eitthvað brennivínsraus sem varð til á þorrablótinu“.

Brennsla (n, kvk)  Það að brenna.  „Brennsla jarðefnaeldsneytis er að valda alvarlegum loftslagsvanda“.

Brennt barn forðast eldinn (orðatiltæki)  Sá sem skaðast/meiðist mun forðast hættuna framvegis, líkt og barn sem brennir sig í eldi.

Brennt fyrir öll skilningarvit (orðtak)  Skilur ekkert; vonlaust að koma í skilning um neitt.  „Ég reyndi að tala um fyrir honum, en það var eins og það væri brennt fyrir öll hans skilningarvit“.

Brennuefni (n, hk)  Efni sem brennt er á báli/brennu.  „Við drógum saman ýmiskonar brennuefni fyrir áramótin“.

Brennuvargur (n, kk)  Sá sem kveikir í, t.d. eignum annarra, sér til skemmtunar.

Breskur (l)  Sá sem er frá Bretlandi.  „Tveir breskir togarar hafa strandað og eyðilagst nærri Kollsvík“.

Bresta (s)  A.  Brotna; springa.  B.  Fallaskipti; þegar fallið er að og byrjar að falla út; norðurfall deyr út en suðurfall byrjar.  Notað um snúning frammi á miðum;  „Hann ætti nú alveg að fara að bresta“.   „Ég þóttist vita að refurinn færi útmeð sjónum því fjöruboðið var svo lítið; aðeins rétt brostið úr flæði“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Bresta á (orðtak)  Um veðurlag; skella á stórviðri; ganga upp.  „En þegar komið var yfir undir miðjan fjörð sáust smá skinnaköst á sjónum, og í sama bili brast á veður af norðaustri svo að við ekkert varð ráðið“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Bresta flótti í lið (orðtak)  Hópur leggur á flótta.  „Þegar tuddinn kom bölvandi með hausinn undir sig brast ákafur flótti í liðið“.

Bresta forsendur til (orðtak)  Hafa engar ástæður/forsendur til.  „Mig brestur allar forsendur til að taka ákvörðun um þetta núna“.

Bresta í grát (orðtak)  Fara að gráta; tárast.  „Hún brast stundum í grát þegar hún minntist á slysið“.

Bresta minni (orðtak)  Muna ekki; geta ekki munað.  „Mig brestur minni í þessum efnum, en þetta á ég að vita“.

Bresta úr flæði (orðtak)  Byrja að falla út.  „Ég þóttist vita að refurinn færi út með sjónum, því fjöruborðið var svo lítið; aðeins rétt brostið úr flæði“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Brestalaus (l)  Gallalaus.  „Maður er svosem ekki brestalaus sjálfur í þessum efnum“.

Brestur (n, kk)a  A.  Galli, sprunga; veikleiki.  „Hér er kominn brestur í glerið“.  B.  Brak; hávaði.  „Við þriðja högg hrundi veggurinn með braki og brestum“.  C.  Fallaskipti; snúningur.  „Við skulum hinkra framá brestinn og sjá hvort hann gefur sig ekki til“.

Brestur (n, kk)  Aftasti hluti lúðustirtlu eftir að sporðurinn hefur verið skorinn af.  „Þess voru dæmi að sá hluti fitleikans sem fylgdi bolnum þegar sporðurinn var skorinn frá, væri einungis nefndur brestur, en strabbi parturinn sem var áfastur blökunni“ (LK; Ísl.sjávarhættir; heimld: Guðbj.Guðbjartsson).

Bretta (n, kvk)  Beygla; aflögun; gretta.  „Hann heyrði ekkert í mér en mér tókst að gera honum þetta skiljanlegt með allskonar fettum og brettum“.

Bretta (s)  Beygla; hnoða; aflaga; brjóta.  „Brettu nú upp ermarnar áður en þú byrjar að hræra í blóðinu“!

Bretta upp ermar (orðtak)  A.  Eiginleg merking.  B.  Hefjast handa við verk.

Breyskja (n, kvk)  Sterkur sólarhiti; hitasvækja. „Maður er bara léttklæddur í svona beyskju“.

Breyskja af (orðtak)  Um dögg á jörð; þorna fljótt af í sterku sólskini.  „Ég fer að setja heytætluna við traktorinn; hann breyskir fljótt af í þessu sólskini“.

Breyskjuhiti /Breyskjusólskin / Breyskjuþurrkur (n, kk)  Hitasvækja; mjög hlýtt í veðri.  „Grasið þornar af ljánum í þessum breyskjuhita“.  „Gættu þess að brenna ekki í þessu breyskjusólskini“. „Líklega varður sami breyskjuþurrkurinn á morgun“.

Breyskleiki (n, kk)  Brestur í fari manns; freisting til að breyta rangt.  „Þetta er nú bara mannlegur breyskleiki“.

Breyskur (l)  Mannlegur; lætur undan freistingum.

Breyta (til) (s).  A.  Skipta; gera öðruvísi.  „Ég breytti textanum lítillega“.  B.  Breyting á tíðarfari, ýmist til hins betra eða verra.  Menn trúðu mjög á veðrabreytingar á vissum dögum áður fyrr.  Einkum má þar nefna Höfuðdag, Krossmessu og Hundadaga.  „Hann mun breyta til um höfuðdaginn“.

Breyta bragði (orðtak)  Um mat; ýldast örlítið án þess að skemmast.  „Mér fannst mikið meira varið í sviðin áður fyrr, þegar þau voru söltuð í strjúpann og geymd þar til þau voru farin að breyta bragði“.

Breyta sér (orðtak)  Verkast; verpast.  „Mér þykir eggin öllu betri þegar farið er að slá í þau“ sagði gamla konan, „..og þau breyta sér fyrr í hlýjunni“  (MG; Látrabjarg).  „Viðurinn vill breyta sér þegar hann þornar“.

Breyta til (orðtak)  A.  Gera tilbreytingu.  „Hún ákvað að breyta aðeins til útaf afmælinu“.  B.  Um veður; viðra öðruvísi en verið hefur.  „Nú gæti ég trúað að hann væri eitthvað að breyta til“.

Breyta útaf vananum / Breyta útaf venju sinni (orðtök)  Gera öðruvísi en vant er.  „Ég sé enga ástæðu til að breyta útaf vananum þó allir aðrir mígi í sömu skál“!

Breytandi spraka (n, kvk)  Lúða sem var svo stór að hana mætti taka í 6 hluta, eftir þeim reglum sem tíðkuðust.  „Fríðindi háseta voru þau að hver sem dró breytandi spröku átti allt kviðstykkið og sporðinn fram að röfum“  (PJ;  Barðstrendingabók).

Breytilegur (l)  Sem breytist; mismunandi.  „Hitinn hefur verið breytilegur frá einum deginum til annars“.

Breyting (n, kvk)  Umskipti; öðruvísi en var; viðbrigði.  „Hér hefur heldur orðið breyting á“!

Breyting er ekki alltaf til batnaðar/bóta ( orðatiltæki)  Ekki er alltaf gott að breyta/skipta; stundum er best að hafa hlutina/verklagið/málfarið eins og verið hefur.  Sjá sjaldan er breyting til batnaðar.

Breyting til batnaðar (orðtak)  Umskipti til hins betra.  „Ég vona að stjórnarskiptin verði breyting til batnaðar“.  Sjá ekki er breyting alltaf til batnaðar.

Breytingaraldur (n, kk)  Tíðahvörf; sá hluti æviskeiðs kvenna þegar hormónastarfsemi breytist; blæðingar hætta og konan missir getu til að eignast barn.  Tíðahvörf verða á fimmtugsaldri hjá mörgum konum.

Breytingartillaga (n, kvk)  Tillaga sem borin er upp á fundi, um breytingu á reglu eða annarri tillögu.

Breytingaskeið (n, hk)  A.  Tímabil mikilla breytinga.  B.  Breytingaraldur/tíðahvörf kvenna.

Breytni (n, kvk)  Hegðun; framferði.  „Ég sé ekki að hann hafi á nokkurn hátt valdið þessu með sinni breytni“.

Breyttur (l)  Öðruvísi; frábrugðinn; búinn að breytast.  „Búskaparhættir eru mjög breyttir frá því að menn puðuðu daginn út og inn með handaflinu einu saman“.

Bréf (n, hk)  A.  Pappír; þunnt flatt efni sem hentar til að skrifa/teikna á.  B.  Sendibréf; vottorð; skilaboð sem send eru milli manna.  Bréf gengdu höfuðhlutverki í skilaboðasendingum og tjáskiptum yfir vegalengdir; allt þar til síminn tók að hluta við hlutverkinu, og síðar tölvusamskipti af ýmsum toga.

Bréfabindi (n, hk)  Mappa; skjalamappa.

Bréfabók (n, kvk)  Bók sem inniheldur afrit sendibréfa. 

Bréfabunki (n, kk)  Mikið safn bréfa.  „Það er aldeilis bréfabunki sem oddvitinn er að fá“!

Bréfahnífur (n, kk)  Hnífur sem notaður er til að skera upp sendibréf á snyrtilegan hátt, og stundum skreyttari en aðrir hnífar.  „Mamma skar út skrautlegan bréfahníf úr harðviði“.

Bréfaskipti / Bréfaskriftir (n, kvk, fto)  Ritun bréfa; það að skiptast á bréfum.   „Einnig gat hann um þær bréfaskriftir sem hann hefur átt í sambandi við þetta mál“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Bréfaskóli (n, kk)  Miðlun fróðleiks á afmörkuðu sviði, sem fer fram með bréfasendingum milli kennara og nemanda.

Bréfburðargjald (n, hk)  Oftast stytt í burðargjald; gjald sem greitt er fyrir að koma bréfi til skila, t.d. til póstþjónustu.

Bréfhaus (n, kk)  Áprentaður texti efst í sendibréfi sem gefur til kynna hver sendandi er, ásamt e.t.v. meiri upplýsingum um hann.

Bréfhirðing (n, kvk)  Miðstöð þar sem pósti er safnað saman frá mörgum sendendum, til sendingar í stærri dreifingarmiðstöð; ásamt því að flokka aðsendan póst til viðtakenda.  Bréfhirðing var lengi á Hnjóti í umsjón Ólafs Magnússonar.

Bréflappi / Bréfmiði / Bréfsnepill / Bréfsnifsi / Bréfsnudda (n, kk/hk/kvk)  Lítið/ómerkilegt bréf; afrifa af blaði; gæluheiti á sendibréfi.  „Ég held að ég hafi ekki frá fleiru frásagnarverðu að segja í þessum bréflappa, en vonast til að fá svarbréf þitt við fyrsta tækifæri“.

Bréflega (ao)  Með bréfi.  Honum var tilkynnt þetta bréflega.

Bréflegur (l)  Með bréfi.  „Annar árlegur viðburður á Sandinum var álfadansinn.  Ég hef fyrir því bréflegar heimildir að þessi álfadans fór fram árin 1907 og1908....“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Bréfleiðis (ao)  Með bréfasamskiptum.  „Eg hélt sambandi við hann bréfleiðis í nokkur ár eftir þetta“.

Bréfpoki (n, kk)  Poku úr bréfi.  „Hann rétti okkur bréfpoka með haltukjaftibrjóstsykri“.

Bréfritari (n, kk)  Sá sem ritar/skrifar bréf.

Bréfspjald (n, hk)  Eldra heiti á póstkorti.

Brigð (n, hk, fto)  Svik; það að bregðast.  „Ég get ekki tekið undir það að þetta séu nein brigð við kjósendur“.

Brigðmælgi (n, kvk)  Lygar; ósannsögli; það að segja eitt við einn en annað við annan.

Brigðull (l)  Hætt við að bregðast; stopull; hverfull.  „Hætt er við að þurrkurinn geti orðið brigðull á morgun“.

Brigg / Briggskip / Brigantína (n, hk/kvk)  Tvímastra seglskip með þverseglum.  Sjá skonnorta.

Brigsl (n, hk, fto)  A.  Ásakanir; það að álasa/bregða einhverjum fyrir eitthvað.  „Ég ætla ekki að sitja þegjandi undir svona brigslum“!   Sbr. lygabrigsl; svikabrigsl.  B.  Ör/þykkildi í húð; samgróningar

Brigsla (s)  Saka; bregða; bera á brýn.  „Maður tekur því ekki þegjandi að vera brigslað um ósannindi“!

Brigslyrði (n, hk, fto)  Ásakanir; brigsl.  „Honum sárnuðu þessi brigslyrði í sinn garð“.

Brikki (n, hk)  Flikki;stórt/þungt stykki; erði.  „Við förum nú ekki langt tveir með svona brikki“. 

Brillur (n, kvk, fto, linur frb)  Gleraugu; loníettur.  „Hvar lét ég nú frá mér brillurnar mínar“?

Brim (n, hk)  Mikill sjógangur; grunnbrot langt fram á Vík.  „En útaf þessu vildi bera alloft; brim og vindur ollu mestu um það“  (KJK; Kollsvíkurver). 

Brima (s)  Gera brim.  „...urðum við að setja bátana upp.  Þetta þurftum við oft að gera þegar brimaði...“  (ÁE; Ljós við Látraröst).  „Öruggasta leiðin inná lægið var Syðstaleiðin talin, hvort heldur brimaði af norðri eða vestri, en það voru helstu brimaáttirnar“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Það vissu allir að þegar mikið brimar, einkum ef það er frá vestri, verður svo sterkur útstraumur á Læginu að talsvert andóf þurfti til að halda á móti honum“  (KJK; Kollsvíkurver).

Brimaátt (n, kvk)  Vindátt sem helst er hætt við að brimi úr.  „Öruggasta sundið inn á lægið var Syðstaleiðin talin; hvort heldur brimaði af norðri eða vestri, en það voru brimaáttirnar“  (KJK; Kollsvíkurver).

Brimalda / Brimbára / Brimboði / Brimbrot / Brimsjór / Brimskafl / Brimskefla (n, kvk/kk/hk)  Stór alda/skafl/holskefla í brimi.  „Þarna hefur brimbáran holað bergið og myndað stóran helli“.  „Þegar þaraskógurinn var uppétinn af skollakoppi var hann ekki lengur til staðar til að draga úr afli brimsins.  Brimbáran átti því greiða leið á háflæði uppyfir hefðbundna sjávarbakka og olli sumsstaðar verulegum skemmdum, t.d. á fornum verminjum og hleðslum“.  „Brimið hefur aukist frá í gær.  Það er orðið lengra á milli brimskaflanna“.  „Stórar brimskeflur brotnuðu á hleinum á stjórnborða, en í þær voru nokkrar bátslengdir“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Brimarhólmur (n, kk)  Bremerholm; upphaflega sá staður á Gammelholm í Kaupmannahöfn þar sem kaupmenn frá Bremen höfðu aðsetur.  Frá því á 16.öld og til 1859 var þar verkstæði og skipasmíðastöð danska flotans; rekið að mestu með nauðungarvinnu fanga.  Allmargir íslenskir afbrotamenn voru sendir til Brimarhólmsvistar, þar sem þeir þræluðu við hergagnasmíði fyrir kónginn.  Frá 1741 tók Stokkhúsið við slíkum brotamönnum.

Brimasamt (l)  Hætt við brimi.  „Má nærri geta að þar hafi brimasamt verið,  jafnvel stundum skammt verið milli ládeyðu og tvísýnnar landtöku“  (KJK; Kollsvíkurver).   „... því að eigi hefir það ósjaldan hent, að menn hafi drukknað nærri landi í Víkum; þar er brimasamt“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi).

Brimastóll (n, kk)  Aðsetur erkibiskups í Bremen/Brimum í Þýskalandi, stofnaður árið 864.  Hann var æðsti biskupsstóll Norðurlanda til stofnunar erkibiskupsstólsins í Lundi árið 1105. 

Brimbarinn (l)  Núinn af brimi; oftast notað um fjörugrjót.  „Veggjahæð var meðalmanni í öxl.  Voru þeir hlaðnir úr brimbörðu grjóti einu saman að innan, en úr torfi og grjóti að utan“. (PJ; Barðstrendingabók).

Brimbrjótur (n, kk)  Hvaðeina sem brimið brotnar á; t.d. náttúruleg hindrun eða manngerður garður.  „Sjá má leifar af grunni ævaforns brimbrjóts meðfram öllum Bökkunum neðan Grundatíns; frá fjárhúsunum að austan, að Byrginu að vestan“.

Brimbrot (n, hk)  Hnútur; brot; brimbára sem brotnar framyfir sig og skellur þá jafnan hvítfreyðandi af miklu afli á það sem fyrir er. 

Brimdunur (n, kvk, fto)  Brimgnýr; hávaði frá miklum sjógangi/ brimi.  „Í logninu glumdu við brimdunurnar norðan undan Blakknum; þar sem vestanbrimið gnauðaði við klettana.  Af og til sendi það firnamikil sjávargos upp um gatið á Bekknum; sem náðu upp í miðja Hryggi“.

Brimfroða (n, kvk)  Froða sem verður til í miklu brimi og situr gjarnan eftir í fjöru; stundum nokkuð þykk.

Brimgarður (n, kk)  Brim sem verður á grynningum undan ströndinni, þegar stórar öldur ná til botns; hækka, þynnast og falla framyfir sig sem brotsjór.  „Ferðin gekk samt vel, og var siglt hiklaust gegnum brimgarðinn og í lendingu... “  (ÖG; Þokuróður). 

Brimgnýr (n, kk)  Hávaði í stórbrimi, en hann getur orðið allmikill.  Norðanáttin æsir upp brimið og ber gnýinn upp að bæjum; ekki síst í sunnanverðri Kollsvíkinni.

Brimhjalli / Brimstallur / Brimþrep (n, kk)  Síðari tíma heiti á hjöllum í landslagi, stundum langt ofan núverandi strandar, sem myndaðir eru af sjávarrofi og brimi þegar sjávarstaða var mun hærri eftir lok síðustu ísaldar.  Ekki hafa farið fram miklar rannsóknir á fornum strandlínum í Kollsvík, en líkleg dæmi um brimhjalla eru t.d. Tranthalabrekka og Nautholt norðantil í víkinni; og rætur Brunnsbrekku handantil.

Brimhroði (n, kk)  Brim; allmikill sjór.  „Það var mjög tregt og illt í sjóinn.  Það lagði á norðan spænu með hálfgerðum brimhroða“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Brimhrotti (n, kk)   Allmikill sjór; brim.  „Þeir voru komnir á undan okkur og lentir þegar við komum upp á Lægið og þá var kominn brimhrotti talsverður“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Brimill (n, kk)  Karldýr sels.  Kvendýrið nefnist urta. 

Brimkóf (n, hk)  Mistur sem myndast í brimgarði í miklu brimi; ýringur aftur af mikilli brotbáru.

Brimlag (n, hk)  Hegðun brims; sjólag í sverum sjó.  „Nokkur stans verður á meðan brimlag er athugað“  (KJK; Kollsvíkurver).

Brimlending (n, kvk)  Lending í brimi, en hún var mjög vandasöm.  „Þegar menn hitta fyrir brimlendingar eða verða að lenda þar sem er stórbrim þá er það vanaleg aðferð... að formaðurinn lætur hásetana reyna að halda skipinu kyrru fyrir framan lendinguna meðan hann er að taka eftir nær ólagið gengur á land“  (HE; Barðstrendingabók).  „Þetta eru hraustir menn; þjálfaðir við brimlendingu frá barnæsku“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „Maður enginn meðal vor af meiri fimi/ kann að lenda bát í brimi“  (JR; Rósarímur). 

Brimlítið (l)  Lítið brim; sjólítið við land.  „Eftir að fugl er orpinn og brimlítið er, hafa sjómenn sótt undir bjargið til eggjatöku, bæði innlendir menn og Færeyingar“  (ES; Látrabjarg; Barðstrendingabók)

Brimlöður (n, hk)  Froða í brimi.  „Þá sé ég Gest og Braga koma útúr brimlöðrinu...“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Brimreykur (n, kk)  Gufa af miklu brimi.  Oft sýnileg í Grundagrjótum eftir norðsjó og undir Blakk eftir vestansjó, en greinilegust í logni.

Brimrosi (n, kk)  Brimhrotti; allmikið brim.  „Fjandi ætlar hann að halda þessum brimrosa lengi“.

Brimróður (n, kk)  Róður í land í brimlendingu.  „Eins og allir vita er ólagið þrjár bárur eða grunnskaflar sem ganga hver eftir aðra á land, en síðan verður talsvert sléttari sjór á eftir.  Þá er tekinn brimróðurinn þegar þriðju og síðustu báruna brýtur á land“  (HE; Barðstrendingabók).  „Var svo brimróður tekinn, en er vantaði fáa metra í land þraut seilarbandið og þess vegna bar okkur lítið inn fyrir vörina“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Brimrót (n, hk)  Brim; brimhroði.  „Bátnum hvolfdi þegar og barst til lands, en engum tókst að halda sér við hann vegna brimrótsins“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Brimröst (n, kvk)  Svæði þar sem mikið brim geisar.

Brimsaltur (l)  Mjög saltur.  „Grauturinn er brimsaltur.  Eitthver hefur verið helst til óspar á saltið“.

Brimselta (n, kvk)  Mikil selta; sterkt seltubragð.  „Bölvuð brimselta er nú á grautnum!  Setti ég kannski tvöfaldan skammt í hann“?

Brimsog / Brimsúgur (n, kk)  Straumiða sem myndast við land í miklu brimi.  „Brimsúgurinn sveiflaði skipinu til og frá á strandstaðnum“.

Brimsorfinn (l)  Mótaður/molaður af brimi.  „Aðra stundina er þarna ægisandur, en hina brimsorfin klöpp“.

Brimsvarrandi (n, kk)  Svarrabrim; mikið brim; hávaðabrim.  „Það er alltaf sami brimsvarrandinn; dag eftir dag.  Hann hlýtur nú að fara að linast á þessari norðanátt“.  Annarsstaðar sagt „brimsvarri“

Brimvarnargarður / Brimvörn (n, kk/kvk)  Stórgrýttur garður sem hlaðinn er í fjöruborði til að varna ágangi brims, t.d. á sjávarbakka eða hafnarmannvirki.  Undirstöður forns varnargarðs má sjá neðan Grundabakka.

Bringa (n, kvk)  Brjóstsvæði á manni eða skepnu.  „… margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu; bæði á baki og bringu; taka það upp til að meta skrokkþungann…“  (PG; Veðmálið).    „Framundir lok 20.aldar voru reyktar bringur helsti þorláksmessumatur Kollsvíkinga.  Hver heimilismaður fékk eina bringu, og át hann af henni eins og hann gat á þorláksmessukvöld en geymdi sér restina framyfir jóladag“.

Bringingarbátur (n, kk)  Burðarmikill bátur sem notaður er við uppskipun úr skipi sem ekki getur lagst að bryggju.  „Kaupfélagið á hvalskeri áti t.d. tvo uppskipunarbáta; bringingarbáta; Loft og Drómund.  Voru þeir vélalasir og varð að slefa þeim, hvort sem verið var að flytja vörur af Pateksfirði eða skipa upp á staðnum“ (AÍ; Árb.Barð 1980-90).

Bringspalir (n, kvk, fto)  Neðri hluti bringu og bringubein.  „Ég fékk einhvern árans sting undir bringspalirnar“.  Spalir er fyrri fleirtölumynd af spelur.

Bringubein (n, hk)  Frauðkennt bein sem tengir rifbeinin að framanverðu. 

Bringubiti (n, kk)  Ketbiti af bringu.  Gjarnan hluti bringubeins og rifs.

Bringufiður (n, hk)  Fiður af bringu á fugli.  „Oft var bringufiðrið plokkað sér... “   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Bringuhækill (n, kk)  Tota sem myndast á gæru sauðkindarskrokks við það að hæklari ristir frá framfótarliðum uppá bringuna úr báðum áttum; og í stefnu aftureftir miðjum kvið.  Þegar rétt hafði verið rist fyrir varð til tota uppi á bringunni sem hæklari reif upp áður en skrokkurinn var fluttur af hæklunarbekknum á fláningsgálga; til að fláningsmaður ætti auðveldara með sitt verk.  „Hér hefur gleymst að rífa upp bringuhækilinn“!

Bringukollur / Bringa (n, kk)  Stykki úr ketskrokk; bringubeinið og neðri hluti aðliggjandi rifja, uppundir framhrygg.  Bringukollar eru nú klofnir og síðan oft sagaðir í spað; í súpuket eða súrsun.  Áður var bringukollur tekinn heill, a.m.k. þeir stærri; saltaður og reyktur.  Fitan á bringukollum er mýkri en annarsstaðar á ketskrokknum; bragðgóð og meinholl eftir nýjustu kennisetningum.  Í Kollsvík og víðar í Rauðasandshreppi var alltaf haldið þeim forna sið að sjóða og snæða bringur á Þorláksmessu.  Einn bringukollur var ætlaður hverjum heimilismanni sem á hníf gat haldið.  Hann merkti sér sína bringu og át af henni eins og unnt var á Þorláksmessu.  Afgangurinn var geymdur og kroppað í hann eftir að helstu jólaveislur voru að baki.  Þessi siður er líklega mun eldri en skötuátið sem menn vilja kenna við Vestfirðinga.  Skata þótti herramannsmatur í Kollsvík, og var sjálfsagður Þorláksmessumatur ásamt bringukollinum.  Siðir varðandi skötu og bringukolla tengjast jólaföstunni.  Hún stóð fjórar vikur fyrir jól og lauk klukkan 18 á aðfangadag.  Um föstuna mátti helst ekki eta ket, en þess í stað var snætt fiskmeti; þar á meðal skata.  Á Þorláksmessu var jólahátíðin undirbúin með því m.a. að soðið var hangiket.  Í hlóðapottinn voru þá um leið settir bringukollar; einn fyrir hvern heimilismann, sem hann skyldi hafa fyrir sig yfir hátíðarnar.  Í soðinu var í lokin soðin skata sem snædd var þá á Þorláksmessu.  Þegar slakna tók á trúarhita þjóðarinnar (og e.t.v. fyrr í afskekktum byggðum) fóru menn að „þjófstarta“ með því að kroppa í bringukollana heita á Þorláksmessu.  Sá siður hélst í Rauðasandshreppi framundir lok 20.aldar.  „Á Þorláksmessukvöld var skata og reyktar bringur og kaffi; og svo var spilað á Þorláksmessukvöld“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Bringur (n, kk)  Kast; ás; haugur; upphækkun í landslagi.  „Rifshausamörk voru mörk í Rifið, þar sem lækur rann oft í vorleysingum.  Upphækkun eða bringur myndaðist í Rifið“ (AS; Örnefnaskrá Breiðavíkur). Undir Látrabjargi er stór urð sem nefnist Bringsurð.

Bringusund (n, hk)  Ein aðferð sunds: Þannig að bakhluti veit upp og aftur og synt með höndum og fótum.

Bris (n, hk)  A.  Samgróningur; ör; gróandi í sári; ógreinilegt/samgróið mark í eyra sauðkindar.  „Hér er eins og eitthvað bris; gæti kannski verið samgróin fjöður“.  B.  Líffæri; briskirtill.  Brisið bramleiðir brissafa sem gengur ofan í skrifugörnina um sameiginlega rás með lifrinni.  Safinn stýrir m.a. virkni pepsíns og inniheldur meltingarensím.  Brisið stjórnar einnig framleiðslu glúkagens og insúlíns, og stýrir þar með blóðsykri í líkamanum, sem fer úr skorðum við sykursýki.

Brisa (s)  Gróa.  Eingöngu notað um það þegar bein eru að byrja að gróa eftir brot.  „Ærin brotnaði illa þegar hún festist í grindunum, en þetta er eitthvað byrjað að brisa saman.  Hún er farin að tylla í fótinn“.

Bríararí (n, hk)  Sama merking og bríarí.  (Báðar orðmyndir voru notaðar vestra í mínu minni; VÖ)  Orðmyndin virðist þó ekki hafa verið notuð utan svæðisins.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  „Ykkur er það velkomið geyin mín; ég mun passa að þið séuð ekki að neinu fikti eða bríararíi“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru). 

Bríarí (n, hk)  Grín; rælni; bríararí.  „Ég gerði það nú bara í einhverju bríaríi að sækja um stöðuna“.  Líklega dönskusletta; bryderie, í merkingunni tilraunastarfsemi; klandur.

Brík (n, kvk)  A.  Standur; föst uppúrstandandi/framúrskagandi, fremur þunn skil/fjöl; sylla; hilla.  „Barð heitir þunn bergbrík sem stendur framúr Látrabjarginu, allmiklu lægra en það“.  B.  Rúmbrík; sama og rúmstokkur/rúmfjöl.  „Þetta var síðasta eða næstsíðasta ferðin sem farin var á Undirhlíð.  Bríkin sem farið var yfir til að komast að lásnum sem farið var niður í hlíðina, og fuglinn dreginn yfir, hrundi nokkru eftir þetta.  Síðan er talið mjög vont að komast þetta, eða jafnvel ófært“  (SbG; Að vaka og vinna).  C.  Myndskreytt og útskorin/upphleypt altaristafla.  D.  Kvenkenning í skáldskap.

Brími (n, kk)  Eldur.  Einkum um tilfinningahita; t.d. ástarbrími.  Stofnskylt orðunum brim og breima.

Brjálað veður / Bandbrjálað veður (orðtök)  Snarvitlaust/kolvitlaust/kolbrjálað veður; mikið óveður.  „Það var brjálað veður; suðvestanrok og stórsjór“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Brjálaður (l)  Vitskertur; ruglaður; æðisgenginn.  „Ég er nú ekki svo brjálaður orðinn að ég setji krossinn við íhaldið“! 

Brjálsemi / Brjálæði (n, hk)  A. Sturlun; vitfirring  B.  Mjög heimskulegt athæfi/verk.  „Þetta væri algert brjálæði“.

Brjósk (n, hk)  Sveigjanlegur stoðvefur lífvera. „Þú getur borðað allt eyrað af sviðunum; brjóskið líka“.

Brjóst (n, hk)  A.  Bringa; svæðið á búk manns að framanverðu.  Fyrrum voru tilfinningar og hugsun talin búa í hjartanu, og þar með í brjóstinu.  Það skýrir t.d. orðtökin að segja það sem manni býr í brjósti; bera fyrir brjósti; kenna í brjósti um; hafa ekki brjóst í sér, og orðin harðbrjósta og þurrbrjósta.  B.  Barmur konu; bunga á bringu sem mjólkurkirtlar eru í og geirvörtur eru á. C.  Almennt um brík/útbungun; það sem mikið mæðir á.  Sbr að vera í brjósti fylkingar.  Samstofna brysti og bresta á.

Brjóstagjöf (n, kvk)  Það að móðir gefi kornabarni/brjóstmylkingi brjóst að sjúga.

Brjóstahaldari / Brjóstahöld (n, kk/ hk, fto)  Það nærfat kvenna sem heldur að brjóstum og hlífir þeim.

Brjóstamjólk (n, kvk)  Mjólk úr kvenbrjósti.  „Brjóstamjólkin er kornabörnum hollari en nokkuð annað“.

Brjóstband (n, hk)  Hluti búnaðar við bjargsig; band utanum sigarann í brjósthæð sem brugðið er um vaðinn til að koma í veg fyrir að sigarinn snúist í lykkju vaðsins sem hann situr í.  Brjóstbelti á síðari tíma klifurbúnaði gegnir sama hlutverki.

Brjóstbirta (n, kvk)  Gæluorð um sterkt vín.  „Sumir höfðu einhnerja brjóstbirtu á þorrablótinu“.

Brjóstbæta sér (orðtak)  Sjá bæta sér í brjósti.

Brjóstdropar (n, kk, fto)  A.  Lyf sem í litlum skömmtum er talið létta á brjóstþyngslum.  T.d. „norskir brjóstdropar“ á síðari tímum.   „Breinnivín, sett á einiber, verður að hollum brjóstdropum“ (BH; grasnytjar).  B.  Gæluheiti á brennivíni/ sterku víni.

Brjóstgóður (l)  Umhyggjusamur; hugulsamur.  „Hún var sérlega brjóstgóð við þá sem minna máttu sín“.

Brjóstgæska (n, kvk)  Umhyggja; hugulsemi.  „Sumir sögðu að þetta væri ekki brjóstgæskan ein hjá honum“.

Brjósthimnubólga (n, kvk)  Fleiðrubólga; bólga/sýking í brjósthimnu sem er himna sem þekur innan brjótholið.  Veldur mæði og verkjum.  „Ég reri um vorið með Einari og fór síðan einn túr á togaranum Gylfa frá Patreksfirði.  Líkaði mér það vel og ætlaði að vera áfram, en fékk brjósthimnubólgu og var frá vinnu um sumarið“  (IG; Æskuminningar). 

Brjósthol (n, hk)  Efra holið í líkama manns, hið neðra er kviðarhol en milli þeirra er þindin.  Í brjóstholi eru lungu og hjarta og innanum það er brjósthimna.

Brjósthæð (n, kvk)  Sú hæð frá gólfi/jörðu sem samsvarar því er er upp á brjóst fullorðins meðalmanns.

Brjóstkassi (n, kk)  Hylki líkamans sem myndað er af bringubeini, rifjum og hrygg, og ver m.a. hjarta og lungu.

Brjóstlíkneski (n, hk)  Höggmynd af manneskju sem sýnir höfuð, háls og herðar niður á brjóst.

Brjóstmál (n, hk)  Vegalengd kringum mann/skepnu um brjóstið.

Brjóstmylkingur (n, kk)  Kornabarn; ungbarn sem enn er háð brjósti móður sinnar.

Brjóstmynd (n, kvk)  Mynd/málverk af manneskju sem sýnir höfuð, háls og herðar niður á brjóst.

Brjóstnæla (n, kvk)  Skartgripur; næla sem fest er á brjóst.  Oftast til skrauts nú á tímum, en var fyrr notuð til að halda fatnaði saman að framanverðu.  Gjarnan mikið skreytt.

Brjóstsykur (n, kk)  Sælgæti; sykur sem bræddur hefur verið og blandaður bragðefnum, litaður og látinn storkna í hæfilega munnbita.  „Afi átti gjarnan suðusúkkulaði, döðlur eða brjóstsykur í handraðanum“.

Brjóstumkennanlegur (l)  Aumkunarverður; vesæll; á mjög bágt.  „Alveg eru þeir brjóstumkennanlegir þessir blessaðir bjálfar sem sitja á þingi!  Hvernig dettur þeim svona fáránleiki í hug“?!

Brjóstvasi (n, kk)  Vasi á t.d. skyrtu eða jakka, nærri brjósti þess sem í flíkinni er.

Brjóstveiki / Brjóstmein (n, kvk/hk)  Fyrrum notað um hverskonar verki eða veikindi sem virtust stafa frá brjóstinu.  Með bættum greiningum komu til önnur nöfn, s.s. berklar, lungnabólga eða kransæðastífla.

Brjóstveikur (l)  Með brjóstveiki.

Brjóstverkur (n, kk)  Verkur fyrir brjóstinu.  Getur átt ýmsar orsakir.

Brjóstvit (n, hk)  Þær gáfur sem hver og einn hefur að upplagi/ af uppeldi en eru ekki lærðar af bókum eða skólum.  „Stundum er betra brjóstvit en bókvit“.

Brjóstvörn (n, kvk)  Upphækkun í brjosthæð sem ver mann fyrir t.d. árásum eða veðri, eða hægt er að leynast bakvið.  „Byrgið var nokkurskonar brjóstvörn sem menn lágu við þegar skotið var á fluginu.

Brjóstþel (n, hk)  Hugarfar; viðhorf.  „Það þarf enginn að efast um hans brjóstþel í þessum efnum“.  Sjá brjóst.

Brjóstþyngsli (n, hk, fto)  Verkur fyrir brjósti, sem líklega hefur oft stafað af kransæðaþrengslum þó ekki vissu menn það áðurfyrr.  „Maður má bara ekkiert taka á núorðið; þá byrja þessi árans brjóstþyngsli“.

Brjóta (s)  A.  Mölva; sprengja; rjúfa í sundur.  Hrúturinn var búinn að brjóta jötufjölina“.  B.  Um boða/grunn/sker; brotnar stórsjór á.  „Hinir formennirnir voru allkunnir fiskimiðum á Kollsvík og þekktu þar helstu boða og grynni; svo sem Djúpboða, Arnarboða, Leiðarboða og Þembu, sem allt eru blindsker á fiskislóð og brjóta ef um stórsjó er að ræða“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Brjóta af sér (orðtak)  Gera skammarstrik; fremja glæp; gera eitthvað ólöglegt.  „Ég get ekki séð að hann hafi neitt brotið af sér með þessu“.

Brjóta á (orðtak)  A.  Um brim/báru; brotna/skella á einhverju.  „Það var farið að brjóta á Leiðarboðunum“.  B.  Um egg; gera brest/gat á.  „Brjóttu á þessu eggi og gáðu hvort það er mjög stropað“.  C.  Klekkja á einhverjum; vera brotlegur gagnvart einhverjum.  „Honum fannst illilega á sér brotið og hótaði kæru“.

Brjóta á bak aftur (orðtak)  Afstýra byltingu/breytingu/uppreisn.  „Þessi hallarbylting var brotin á bak aftur“.

Brjóta fyrir (orðtak)  Gera fyrstu sprungu.  „Hún hjálpaði unganum úr egginu með því að brjóta fyrir“.  „Það þarf að brjóta fyrir á tjörninni svo féð nái í vatn“.

Brjóta gegn (einhverju) (orðtak)  Stangast á við eitthvað; ganga gegn. 

Brjóta heilann um (orðtak)  Velta fyrir sér; hugsa um.  „Þess vegna brutu allir heilann um það hvað lægi á bakvið hinn skyndilega dauða þeirra er í brúnni voru“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Brjóta í bág(a) við (eitthvað)  (orðtak)  Stangast á við eitthvað, t.d. reglu/lög/fyrirmæli.

Brjóta í blað (orðtak)  Um merkisatburð.  Upphaflega var merkingin sú að leggja viðburð á minnið; hafa hann sérstaklega í huga. Líking við það að merkja stað í bók með því að brjóta uppá horn eins blaðsins. Í seinni tíð hefur orðtakið fengið merkinguna „gera eitthvað merkilegt/einstakt“.   „Þótti brotið í blað með byggingu þessa neyðarskýlis“.

Brjóta í smátt/spað/spón / Brjóta/mola/mölva mélinu smærra (orðtak)  Brjóta í marga hluta; mola niður;maska.

Brjóta land til ræktunar (orðtak)  Vinna sáðsléttu; þurrka, plægja, slétta og sá í landspildu til að fá grasgefið tún/ræktarland.

Brjóta reglu/lög /orðtök)  Óhlýðnast reglum/lögum.

Brjóta lög á (einhverjum) (orðtak)  Gera einhverjum órétt.

Brjóta odd af oflæti (orðtak)  Láta af stærilæti/hofmóði/sérvisku; gerast samvinnufúsari/meðfærilegri/skilningsríkari.  „Það endaði með því að ég braut odd af oflæti mínu og féllst á að fara með þeim á samkomuna, en þó með því fororði að ég myndi ekki syngja“.

Brjóta og bramla (orðtak)  Skemma og eyðileggja.  „Nautið er búið að brjóta og bramla stíuna sína“.

Brjóta saman (orðtak)  Um t.d. efni; þvott; blað; leggja saman um brot á skipulegan hátt.

Brjóta sér farveg/leið/veg (orðtak)  Gera leið með nokkru erfiði. 

Brjóta sig (orðtak)  A.  Um manneskju; brjóta bein sín í slysi.  B.  Um verkun t.d. á votheyi, keti, skötu eða öðru; verkast með efnaferlum.  „Votheyið er ekki fullverkað fyrr en það hefur brotið sig og er farið að kólna“.

Brjóta skip (orðtak)  Stranda skipi; skipbrot.  „...en Kollur hét á Þór.  Þá skildi í storminum og kom hann þar sem Kollsvík heitir, og braut hann þar skip sitt“  (AF; Landnámabók).  Um fyrsta skráða sjóslys við Ísland.

Brjóta til mergjar (orðtak)  A.  Bókstafleg merking; brjóta leggbein til að ná mergnum, en hann er herramannsmatur.  „Ég ætla nú út á hestasteininn að brjóta þessi bein til mergjar“.  B.  Afleidd merking; kryfja mál; komast nærri kjarna máls.

Brjóta upp ermar/skálmar (orðtak)  Rúlla upp ermum/skálmum, t.d. til að ekki blotni þegar farið er í vatn.

Brjóta uppá (eitthvað) (orðtak)  Gera brot á eitthvað.

Brjóta uppá (einhverju) (orðtak)  Taka upp einhverja nýbreytni; gera öðruvísi; gera tillögu að breytingu.

Brjóta úr báru (orðtak)  Sjór eykst svo að bárur byrja að hvítna og brotna í toppinn.  „Hann er að auka kulið og byrjað að brotna úr báru hér og hvar“.

Brjóta úr skel (orðtak)  Brjóta skel til að ná í skelfiskinn til beitu. „Á meðan legið var yfir þá var búið að brjóta úr skelinni sem höfð var með, og skera í bita, og þessu var beitt út“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Brjóta út (orðtak)  A.  Hlaða fiski í stakk á skip sem hækkað hefur verið með borðstikum til að flytja heim vertíðarfenginn í fiskaferð.  „Var svo hlaðið að borðstikunum; var það kallað að brjóta út.  “  (PJ;  Barðstrendingabók).   B.  Fletja út fiskhaus/kringluhaus fyrir herslu.  „Síðan var hníf brugðið upp í tálknin og kverksiginn skorinn sundur um miðju langseftir...Það síðasta var að brjóta hausinn út, sem kallað var, og var fólgið í því að grípa sinni hendinni um hvora kinn og sveigja þær frá fleygbeininu“ (LK; Ísl. sjávarhættir IV).

Brjótast inn/út (orðtök)  Fara inn í hús/ út úr húsi án leyfis húsráðenda. 

Brjótast til áhrifa/valda (orðtak)  Ná áhrifum/völdum; sigra í valdabaráttu.

Brjótast um (orðtak)  Reyna að hreyfa sig, t.d. þegar maður er hjálparvana/heftur.

Broddlaus (l)  Án brodds .

Broddmjólk (n, kk/kvk)  Broddur; mjólkin sem fyrst kemur úr kú/kind eftir burð.  Hún er þykkari og gulleitari en endranær, og næringarríkari fyrir ungviðið.  Úr broddmjólk eru búnar til ábrystir.  Meðan tíðkaðist að mjólka lambær var broddi úr þeim oft blandað saman við kúamjólk; um einn bolli brodds í um 1 pott (lítra) af mjólk.  Í broddmjólk er meira af próteinunum albúmín og glóbúlín en í venjulegri mjólk.

Broddskita (n, kvk)  Ljós-gulbrúnar hægðir sem stundum koma frá unglömbum.  Bendir til slæmrar meltingar.  Fylgjast þarf vel með þeim, þar sem dindli hættir til að festast og þá myndast hægðastífla.

Broddstafur (n, kk)  Göngustafur með járnbroddi í enda til stuðnings t.d. í hálku.  Mörgum þykir broddstafur hið mesta þarfaþing, meðan aðrir göngumenn vilja aldrei nota staf.

Broddur (n, kk)  A.  Oddur; gaddur; fleinn.  T.d. broddur á broddstaf eða á ígulkeri.  B.  Broddmjólk.  C.  Háð; kaldhæðni; níð.  „Ef vel er að gáð er allmikill broddur í þessari vísu“.

Broð (n, hk)  Froða sem myndast ofaná súpu.  „Heldur er broðið innantómur matur, þó næringarríkt sé“.  Myndað af heitunum bráð og soð.  Fita sem sest ofaná í potti er í Kollsvík nefnd smolt.

Brogaður (l)  Brákaður; skemmdur.  „Fóturinn á ærinni er eitthvað brogaður eftir að hún festist í grindunum“.

Brogað við (orðtak)  Bogið við; undarlegt.  „Mér finnst eitthvað brogað við þessa ferðamenn sem æða hér um allar jarðir án þess að ræða við heimafólk“.

Brok (n, hk)  Stör; stargresi.  „Þar í er laut með tjörn, broki vaxinni og gras í kring.  Laut þessi heitir Gormur“  (GG; Örnefnaskrá Láganúps).  „Var þá slegið út við Litlavatn og brok við Startjarnir og Langasjó“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Brokslægjur (n, kvk, fto)  Það sem slegið er af broki.  „Brokslægjur eru í Kjóavötnum, Langasjó og Startjörnum“.

Brokk (n, hk)  Ein gangtegunda hests.  Hlaup, þannig að tveir gagnstæðir fætur koma niður samtímis.

Brokka (s)  Um hest; fara á brokki.

Brokkgengur (l)  Breyskur; hrösull.  „Hann var nú alltaf dálítið brokkgengur með brennivínið, blessaður“.

Brons (n, hk)  A.  Málmblanda; blanda kopars/eirs (um 88%) og tins (um 12%).  B.  Lögur/málning af bronsi.

Bronsa (s)  Bera brons á járn til að ryðverja það.  „Þú mættir gera þig kláran í að bronsa tunnugjarðirnar þegar ég er búinn að ná af þeim ryðlitnum“.

Bronsöld (n, kvk)  Tímabil í mannkynssögunni sem nær frá því að menn hófu að nota brons (um 3500 f.Kr í Asturlöndum en 1500 f.Kr á Norðurlöndum) til þess að farið var að vinna og nota járn í miklum mæli (um 1200 f.Kr í Indlandi og Grikklandi en um 700 f.Kr í norðanverðri Evrópu).

Bros (n, hk)  Andlitssvipur manneskju sem lýsir ánægju, væntumþykju, vellíðan, skemmtun.  Einkennist mest af því að munnvik færast sundur og upp; augabrúnir hækka og augu opnast og blika.  Stundum fylgir hlátur.

Brosa (s)  Mynda bros á andliti.

Brosa í kampinn / Brosa í laumi / Brosa út í annað (orðtak)  Brosa lítillega.  Kampur merkir þarna skegg, en erfiðara er að greina lítilsháttar bros hjá skeggjuðum en öðrum.

Brosa móti/við (einhverjum) (orðtök)  Brosa þannig að annar sjái; sýna einhverjum væntumþykju/ánægju.

Broshýr / Brosmildur (l)  Gjarn á að brosa; glaðlyndur.  „Alltaf var hann jafn broshýr; sama hvað á gekk“.

Broslegur (l)  Skemmtilegur; aðhlátursefni.  „Það er stundum broslegt að fylgjast með þessum aðförum“.  „Já, það var mikið kveðið í Kollsvíkurveri; einkum um það broslega sem fyrir kom“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Brosleitur (l)  Glaður á svip.

Brostinn (l)  Brotinn; sprunginn; eyðilagður.  „Mér ýnist að með þessum að gerðum sé brostinn grundvöllur fyrir áframhaldandi byggð á þessu svæði“.

Brot (n, hk)  A.  Það að brjóta.  „Þetta er skýrt brot á lögum“!  B.  Stykki sem brotnað hefur af/frá öðru. „Brot úr borgarísnum dreifðust um alla fjöruna“.  C. Felling, t.d. í buxum, dúk, blaði o.fl.  D.  Brotsjór; hnútur; myndast þegar bárur eru úr takti og tveir kraftar tveggja eða fleiri aldna sameinast í gríðarlegum ölduskafli.  Getur orðið til í ofsaveðri; á straumamótum (straumbrot); á grynningum (grunnbrot) eða við breytta vindátt.  „Æðandi brotsjór kom á móti okkur og reis hátt“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   „Einu sinni hóf sig upp brotsjór mikill við borðstokkinn og ógnaði með því að hvolfa sér yfir þá, en fyrir snarræði formanns tókst að víkja bátnum undan..“  (BS; Barðstrendingabók).  „Þá sló flötu, ég lenti í broti og það skvettist duglega í Korkanesið“  (G.J.H; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrás; Árb.Barð 2004).

Brotabrot (n, hk)  A.  Talnagildi; almennt brot þar sem brotinu er skipt upp, og táknað með aukastriki og aukanefnara.  B.  Líkingamál um það sem er mjög lítill hluti af heild.  „Þetta er ekki nema brotabrot af því sem vanalega er“.

Brotakenndur (l)  Ekki heill/samfelldur; ófullkominn.  „Mín þekking á þessum málum er æði brotakennd“.

Brotalöm (n, kvk)  A.  Brotin/biluð löm; brotnar hjarir.  B.  Í líkingamáli; bilun; vöntun; veikleiki.

Brotamaður (n, kk)  Afbrotamaður; glæpamaður; sá sem brotið hefur lög.

Brotasilfur (n, hk)  Skotsilfur; silfur sem notað er sem gjaldmiðill, og þá miðað við þyngd málmsins en ekki verðgildi sleginnar myntar (mörk silfurs).  Fyrr á öldum, t.d. um víkingatímann, byggðu viðskipti einkum á þyngd silfurs.  Silfurmunir voru gjarnan brotnir til að auðveldara væri að geyma þá, flytja og vega.  Nú á tímum finnast öðru hvoru sjóðir frá þeim tíma, þar sem uppistaðan er brotasilfur.

Brotbára (n, kvk)  Bára sem brotnar og freyðir; jafnan smærri en brotsjór.

Brothættur (l)  Viðkvæmur; sem hætt er við að brotni.  „Farðu varlega með lampaskerminn; hann er mjög brothættur“!

Brotinhyrnd (l)  Um hornalag sauðkindar; með brotið horn; brotinhyrnd (ef hornstúfur er eftir); einhyrnd (ef brotið við rót).

Brotinn (l)  Sem hefur brotnað; brákaður; sprunginn; laskaður; mölvaður. 

Brotinn í smátt/spón / Brotinn og bramlaður (orðtök)  Eyðilagður; brotinn algerlega; brotinn í smáhluta.

Brotlegur (l)  Sem hefur brotið reglur.  „Ekki vildi hann gerast brotlegur við lög“.

Brotlenda (s)  Um flugvél; lenda þannig að flugvélin laskist eða eyðileggist.  „Flugvélin hafði brotlent á mikilli ferð, rétt neðanvið hábunguna á Brunnahæð.  Öll fjögur um borð voru látin er að var komið“.

Brotna (s)  Verða brotinn; mölvast; eyðileggjast; springa; laskast.  „Það brotnaði tindur í sláttuvélargreiðunni“.

Brotna á (orðtak)  A.  Um báru; skella á, t.d. skeri, bát eða kletti.  B.  Líkingamál um málefni; stranda á; ná ekki framgangi vegna.  „Tillagan brotnaði á hans afstöðu“.

Brotna í spón (orðtak)  Brotna í smátt; brotna mélinu smærra; maskast.  „Togarinn eyðilagðist strax á næstu flæði og brotnaði í spón þarna undir Strengberginu“.

Brotna mélinu smærra (orðtak)  Brotna í smátt; brotna í spón; maskast.  „Glasið datt á gólfið og brotnaði mélinu smærra“.

Brotna niður (orðtak)  A.  Brotna og falla niður.  „Vertu ekki nærri klettunum!  Grýlukertin eru óðum að brotna nður í hlýjunni“.  B.  Um efnasambönd; sundrast.  „Plastið er mörghundruð ár að brotna niður í náttúrunni“.

Brotna saman (orðtak)  Um manneskju; fallast hugur; láta undan tilfinningum; fara að gráta ákaft.  „Hún brotnaði saman við þessi hörmulegu tíðindi“.

Brotna upp (orðtak)  Þegar ís á ám og vötnum molnar við vatnavexti eða þegar lagnaðarís á sjó molnar.  „Bæjarósinn er allur lagður þykkum ísi sem þó er farinn að brotna upp á köflum“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Brotsjór /Brotskafl (n, kk)  Brot.  „Smám saman þokast hann norður á við og nálgast brotið á Þórðarskerjunum.  Þar falla brotsjóirnir ekki eins langt frá landi“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Æðandi brotsjór kom á móti okkur og reis hátt.  Bátnum var vikið leiftursnöggt“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Brott (ao)  Burt; af stað.  „Kvöldi var tekið að halla þegar við héldum á brott“.

Brottflutningur (n, kk)  Flutningur af stað; búferlaflutningur; burtflutningur.

Brottfluttur (l)  Burtfluttur; fluttur af staðnum.

Brotthlaup (n, hk)  Það að hverfa af stað sem manni er ætlað að vera á.  „Ég er ekki hrifinn af þessu brotthlaupi hans úr fyrirstöðunni“!

Bródera (s)  Sauma út; sauma skrautsaum; sauma; skreyta.  Dönskusletta. 

Bródering (n, kvk)  Útsaumur; saumaskapur.

Bróderskæri (n, hk, fto)  Lítil skæri sem sérstaklega voru notuð við útsaum.  „Allar konur og stúlkur áttu nálapúða, broderskæri, fingurbjörg og margar saumakassa...“    (SG;  Útsaumur; Þjhd.Þjms). 

Bróðerni (n, hk)  Sátt; samlyndi.  „Þó deilur yrðu stundum harðar þá kvöddust menn alltaf í mesta bróðerni“.

Bróðernisbragur (n, kk)  Yfirbragð vináttu/kærleika/bróðernis; auðsýnd vinátta.  „Mér fannst nú lítill bróðernisbragur á þessu skítkasti; hann hefði alveg mátt láta þetta ósagt“!

Bróðir (n, kk)  A.  Sá sem á sömu foreldra og annar.  B.  Góður vinur.  „Enginn er annars bróðir í leik“.  C.  Munkur sem tilheyrir tiltekinni munkareglu, klaustri eða klíku.  Sbr, reglubróðir; kórbróðir. 

Bróðurhluti / Bróðurpartur (n, kk)  A.  Sá hluti sem bróðir á/fær.  B.  Meirihluti; megnið af.  „Ég lét þau hafa bróðurhlutann af aflanum í dag“.  Heyrist oftast í síðari merkingunni.

Bróðurkærleikur (n, kk)  Sátt/hlýhugur á milli bræðra.  „Menn gátu tekist á í orðum þarna í bragganum; þar var ekki alltf bróðurkærleikurinn allsráðandi“.  Alltaf með þessari endingu vestra, en orðabækur sýna i-endingu.

Bróðurlega (ao)  Eins og um bræður væri að ræða.  „Við skiptum þessu bróðurlega á milli okkar“.

Brók (n, kvk)  A.  Neðri hluti af skinnklæðum (sjá þar) sem vermenn notuðu til hlífðar.  „Þegar brók var saumuð var byrjað á því að sauma ofanásetur við skálmar og loku við setskauta.  Þá var sóli settur í skálm; byrjað á tá og saumað aftur að hæl, og aftur byrjað frá tá hinumegin sólans.  Þá var hælsporið tekið og þurfti vel til þess að vanda; að ekki læki þar sem oddi sólans enti í saumnum.  Var þá haldið áfram með leggsaum upp að klittnaspori.  Þá var skálmin lögð til hliðar og hinni gerð sömu skil.  Að því búnu var setskautinn tekinn og öðrum odda hans stungið milli hinna tvöföldu miðseyma í leggsaumnum.  Þarna var klittnasporið tekið og vandað um það líkt og við hælsporið.  Síðan saumað upp með skálm og ofanásetu annars vegar og skálm og loku hins vegar.  Á sama hátt var hin skálmin saumuð við setskauta.  Allt var þetta tvísaumað og þurfti síðari saumþráðurinn að fylla vel út í hvert nálfar og herða vandlega hvert nálspor.  Það var talið vel af sér vikið að skila brókinni fullsaumaðri á dag“  (KJK; Kollsvíkurver).  B.  Buxur.  „Ertu í úthverfri brókinni drengur“?  C.  Hrogn; gota.  „Settu fyrir mig eina brók á diskinn og dálitla lifur með“.  D.  Stór hnífur; bredda.  „Hana!  Hefur nú bölvaður klaufinn lagt yfir hjá mér!  Réttu mér brókina“.

Brókarband / Brókarbelti / Brókarlindi (n, hk/kk)  Sterkt mittisband sem notað er til að halda skinnbrók að manni um mittið.  Það þurfti að vera nægilega sterkt til að halda manni, ef t.d. þurfti að kippa honum brókarfullum inn í bát eftir að hann hafði farið útbyrðis.

Brókarfullur (l)  Með fullar brækur (skinnbrækur) af sjó.  „Ég fann sjóinn streyma niðureftir bakhlutanum; ekki þó svo mikið að ég yrði brókarfullur“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Brókarkvísl (n, kvk)  Verkfæri til að þurrka skinnklæði.  „Mjög gat skipt í tvö horn um þrif og verkun skinnklæða.  Flestir munu þó hafa átt og notað brókarkvíslar.  Þær voru í fjórum pörtum; kvíslarfótur rekinn ofan í jörðina; kvíslarhnakkur með hringlaga gati í miðjunni en tappi á fætinum gekk upp um.  Önnur tvö göt voru á kvíslarhnakknum; sinn í hvorn enda frá hliðarfleti.  Í þessi göt var skálmsprekum stungið og brókin færð á kvíslarnar.  Ávallt snerust skálmarnar undan vindi og blés þá inn í brókina svo hún þornaði næsta fljótt, en mátti ekki ofharðna“  (KJK; Kollsvíkurver).

Brókarlalli (n, kk)  Drullusokkur; auli.  „Hvað skyldi þessi brókarlalli vilja uppá dekk?“  Framb. hart.

Brókargerð (n, kvk)  Gerð skinnbrókar; sjá skinnklæði.  „Skinnin sem notuð voru til skinnklæðagerðar voru misjafnlega undirbúin.  Sum voru blásteinslituð, og þótti það verja fúa; önnur voru hert ólituð og þannig tekin til brókargerðar, en síðar voru flestir farnir að elta þau vandlega áður en saumað var úr þeim  “  (KJK; Kollsvíkurver).

Brókarsóli (n, kk)  Sóli á skinnbrók; sjá skinnklæði.  „Í hvert skipti er brók var klæðst, varð ekki hjá því komist að binda skó á fæturna til hlífðar brókarsólunum.  Voru það sjóskór nefndir“  (KJK; Kollsvíkurver).

Brókarsótt (n, kvk)  Niðrandi heiti á löngun karls eða konu eftir samræði.

Bróklindi / Mittislindi (n, kk)  Belti; ól/band sem maður hefur utanum mitti til að halda að sér/ uppum sig fötum.  „...eftir að klæðst hafði verið brók og skinnstakki og bróklindi girtur, var öðrum linda brugðið utanum stakkinn og hann girtur fast að brókinni, en endanum síðan brugðið fram á milli fóta og festur um mittislindann“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Í skinnstakkinn fóru þrjú lambsskinn.  Hann var hafður í mjaðmasídd og tekinn saman í mitti með bróklinda“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Bruðl (n, hk)  Óþörf umframeyðsla; sóun; slæm meðferð verðmæta.  „Nú kaupa þessar fínu frúr bara pappírsgrisjur sem eru ónýtar eftir eina uppáhellingu.  Þeim þykir það víst ekki nógu fínt að nota léreftspoka eða nærbuxnaskálm.  Þvílíkt bannsett bruðl á fólki nútildags“!

Bruðla (s)  Sóa/eyða umfram þarfir.  „Vertu ekki að bruðla svona með batteríin drengur“!

Bruðningur / Beinabruðningur (n, kk)  Strjúgur; grautur sem búinn er til með því að mauksjóða fiskbein.  Fiskbein voru þvegin vel; soðin í sýru og vatni uns þau urðu að graut.  Hann var ýmist etinn samanvið skyr en stundum eintómur.  Heldur var þessi matur talinn fátækra manna fóður, og þeirra sem ekki nutu mikils sjávarfangs.  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 

(Einhverjum er) Brugðið (orðtak)  Einhver er í uppnámi eða mjög skelfdur/óttasleginn/sorgmæddur.  „Hann hljóp eins og galgopi til að verða fyrstur inn í stýrishúsið, en kom strax þaðan út aftur og var mjög brugðið.  Þar voru þá allir látnir og aðkoman fremur óhugnanleg“.

Brugðið getur til beggja vona (orðatiltæki)  Mál geta þróast á betri eða verri veg; jafnt má vænta góðra sem slæmra tíðinda.  Sjá bregða til beggja vona.

Brugðið vegna/yfir (orðtak)  Sleginn vegna; hnykkt við vegna; niðurdreginn; sorgmæddur.  „Ég játa það að mér er verulega brugðið yfir þessum tíðindum“.

Brugðinn (l)  A.  Sem hefu verið brugðið upp.  Sbr. „með brugðnum byssustingjum“.  B.  Sleginn; prjónaður; fléttaður.  „Gjörðin var brugðin upp á gamla mátann“.

Brugðist hefur betri von (orðatiltæki)  Ekki er mikils að vænta; menn hafa áður orðið vonsviknir þó horfur hafi verið betri.

Brugðningar (n, kvk, fto)  Uppábrot/stroff/fit á fatnaði.  „Hey og kusk vill setjast í brugðningar á buxum þegar fólk er í heyskap“.  Framborið „bruggningar“.  „Efst í sokkum og vettlingum hét fit eða brugðningar.  Þá var ýmist 1 slétt og 1 brugðin eða 2 og 2“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).

Brugðningarstykki (n, hk)  Stykki í hringprjónavél, til að prjóna brugðið.  „Ég var búin að nefna hringprjónavél sem var til heima og þótti mikil framför. Í henni voru prjónaðir allir sokkar (nema grófar hosur og snjósokkar) og stundum vettlingar. Þessari prjónavel fylgdi svokallað brugðningarstykki sem féll ofan í hringinn og var þá hægt að prjóna brugðið í vélinni þó ekki nema í hring. Var það notað til að prjóna nærboli á börn og konur“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms). 

Brugg (n, hk)  Það sem bruggað er:  A.  Heimagert vín/öl.  B.  Ráðabrugg; leynimakk.  Sjá í bruggi.  C.  Sú iðja að brugga.

Brugga (s)  A.  Gera áfengan drykk með gerjun og e.t.v. eimingu.  „Á bannárunum var sérlega mikið bruggað.  Ötulastir við þá iðju í Rauðasandshreppi munu hafa verið Jón Magnússon á Hlaðseyri og Helgi Fjeldsted í Raknadal.  Enda lágu þeir vel við „verslunarleiðinni“ frá Eyrum til Barðastrandar eða Rauðasandshrpps“.  B.  Skipuleggja; ráðgera.  Sjá ráðabrugg; í bruggi.

Bruggari (n, kk)  Sá sem fæst við að brugga.

Bruggun (n, kvk)  Sú iðja að brugga vín.

Brullaup (n, hk, harður frb.)  Dönskusletta; brúðkaup.  Brugðið upp sem gæluheiti á síðari tímum.

Brum (n, hk)  Nýgræðingur, einkum á limi trjáa.  Einnig óopnaður blómknúppur plöntu í vexti. 

Brun (n, hk)  Hraðferð; það að bruna/þjóta.  „Hafðu fæturna vel uppi á sleðanum svo þú rekir þá ekki í á bruninu“.

Bruna (s)  Þjóta; fara/renna hratt.  „Hvert skyldi hann vera að bruna, á þessari fleygiferð“?

Brunaáburður / Brunasmyrsl (n, kk/hk)  Krem/smyrsl sem borið er á brunasár til kælingar, mýkingar og sótthreinsunar.  „Réttu mér brunaáburðinn þarna í skápnum“.

Brunablaðra (n, kvk)  Vessablaðra sem myndast á húð er hún kemst í snertingu við mikinn hita.  „Ég fékk brunablöðru á puttann eftir að hafa snert glerið á gasluktinni“.

Brunablettur (n, kk)  Kolaður/sviðinn blettur í efni.  „Sláðu nú úr pípustertinum annarsstaðar!  Ég vil ekki sjá að það komi brunablettur í sparidúkinn“.

Brunabótagjald (n, hk)  Gjald sem fasteignaeigendur greiddu fyrrum til Brunabótafélagsins, sem þá var eina tryggingafélag fasteigna.  „Brunabótagjald af samkomuhúsi, kr 15,65“ (Sjóðbók Rauðasandshrepps 1951).

Brunabótamat (n, hk)  Virðing eignar til að meta tryggingagjald hennar við hugsanlegan bruna og altjón.

Brunabragð (n, hk)  Bragð af mat sem hefur náð að sviðna eða (grautur) brenna við.

Brunadæla (n, kvk)  Slökkvidæla; tæki sem dælir vatni til slökkvistarfa.  „Bensíndrifin brunadæla var fengin í Rauðasandshrepp kringum 1980 og staðsett í hundahreinsunarhúsinu í Hnjótshólum“.

Brunafleiður / Brunasár (n, hk)  Sár sem kemur á húð við sviðnun í miklum sviða/bruna.

Brunafrost / Brunagaddur / Brunakuldi (n, kk)  Hörkufrost; mjög mikill kuldi.  „Búðu þig vel í þessum brunakulda“.   „Eitthvað er hann að draga úr mesta brunagaddinum“.

Brunagat (n, hk)  Gat, t.d. á flík, sem orsakast af sviðnun/bruna.

Brunahiti (n, kk)  Mjög mikill hiti.  „Maður helst ekki í fötum í svona brunahita“!

Brunahætta (n, kvk)  Hætta á íkveikju/bruna.  „Það er óþarfi í þessari tíð að hirða svo djarft að brunahætta sé“.

Brunakalt (l)  Svo kalt að sviðatilfinning myndast í húð; brunagaddur/brunakuldi.

Brunaleifar (n, kvk)  Það sem óbrunnð er eftir t.d. eldsvoða í húsi eða eftir að bál er slökknað.

Brunalykt / Brunafýla / Brunapest (n, kvk)  Sviðalykt í lofti.  „Hvaðan kemur þessi brunalykt“?

Brunandi (l)  Þjótandi; á mikilli ferð.  „Hann fór brunandi hér hjá fyrir stuttu“.

Brunanæðingur (n, kk)  Mjög kaldur vindur; vindkaldi í miklu frosti.

Brunasandur (n, kk)  Vikursandur; gosaska; fíngert gjall; sandur á eldfjallasvæði.

Brunatrygging (n, kvk)  Húftrygging gagnvart brunatjóni.

Brundhrútur (n, kk)  Hrútur sem notaður er til að lemba ær; ekki geltur hrútur/ sauður.  Gömul venja er að hrúta skuli taka á hús fyrir marteinsmessu (11.nóvember).  Rök fyrir því eru annarsvegar þau að eftir það gætu þeir farið að lemba ær í óþökk bónda, en ekki síður að mikilvægt er að þeir fái gott eldi fyrir fengitímann.

Brundtíð (n, kvk)  A.  Fengitími sauðfjár.  Hefst seint í desember og stendur hæst í janúar.  Fremur var talað um fengitíma í Kollsvík á seinni tíð.  B.  Sá tími ársins sem kvendýr eru frjó og pör maka sig.

Brundur (n, kk)  Sæði.

Bruni (n, kk)  A.  Hitagæft efnaferli sem verður þegar eldsneyti/eldsmatur gengur í samband við súrefni. B.  Eldsvoði.  C.  Stytting á brunahiti, brunagaddur eða brunasandur, brunahraun.

Brunnhús (n, hk)  Brunnhús voru við bæi í Kollsvík líkt og almennt var, áður en rennandi vatn var leitt í hús.  Víða eru þar uppsprettur með nægu og mjög góðu vatni nálægt bæjum.  Nærri Kollsvíkurbæjum má nefna sjálfan Gvendarbrunn, þar sem þó var aldrei brunnhús, en einnig er mikil og stöðug uppspretta ofan við núverandi íbúðarhús; neðan við gamla bæjarhólinn.  Þar hefur lengi verið brunnhús.   Brunnhús var löngum vestan bæjar á Láganúpi; nærri Þrjótnum.  Eftir 1950 hlóð GG brunnhús í skurði ofanvið Flötina.  Eftir að þar var hætt að þvo þvotta var brunnhúskassinn notaður lengi til að útvatna saltfisk.  „Allan þvott þurfti að þvo á bretti; bera svo í körfu út í brunnhús og skola hann þar og vinda í höndum“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  Sjá rennustokkur.  „Svo vel vildi til að hún hafði sótt vatn út í brunnhús um kvöldið“  (IG; Æskuminningar).

Brunnklukka (n, kvk)  Agabus bipustulatus.  Bjalla af brunnklukkuætt sem algeng er í tjörnum og keldum.  Brunnklukkan er svört eða dökkbrún; allstór bjalla; syndir allhratt; flöt á skrokkinn; rándýr sem étur hvaðeina sem hún ræður við.  Hún lifir við botn en skýst af og til upp í yfirborð og skir loft sem hún geymir í loftbólu undir skjaldarvængjum sínum er hún syndir aftur til botns.  Fálmarar eru oftast með 11 liðum en fætur með 5.  Aftasta fótaparið eru öflugir sundfætur.  Um nætur yfirgefur brunnklukkan vatnið og flýgur um.  Á lirfustigi lítur brunnklukkan út sem ormur sem hlykkjast í vatninu og nefnist þá vatnsköttur.
Þjóðtrúin ber brunnklukkunni og vatnskettinum illa söguna.  Hún er sögð baneitruð og bora sér inn í innyfli þess sem í ógáti gleypir hana.  Síðan éti hún manneskjuna innanfrá og þyki lifrin best.  Hún er sögð svo lífseig að hún þoli þrjár suður.  Kosturinn við hana er þó sá að enginn annar vættur þolir við í brunnklukkutjörn.

Brunnur (n, kk)  Lind; vatnsból; uppspretta.  Uppspretta vatns sem notað er til drykkjar og annarra þarfa.  Brunnur getur verið opin og aðgengileg uppspretta í laut, s.s. Gvendarbrunnur í Kollsvík.  Annarsstaðar þarf að grafa nokkra holu til að komast í nýtanlegt vatn, líkt og t.d. var á Grundum.  Er þá brunnurinn hlaðinn/steyptur upp, þannig að nægt op sé til að sökkva niður fötu til að sækja vatn; og byrgt með brunnloki eða annarri vörn.

Brussa / Bryðja (n, kvk)  Svarkur; fljótfær.  „Hún getur stundum verið skelfileg brussa við aumingja karlinn“.

Brussast (s)  Flumbra; klúðrast.  „Það má ekki brussast svona innan um féð í réttinni“.

Brussugangur (n, kk)  Fyrirgangur; læti; bryðjuháttur.  „Ferlegur brussugangur er nú í þér stelpa“!

Brú (n, kvk)  A.  Ak- eða gangvegur sem tengir leiðir yfir torfæru.  „Ingi gerði brú yfir Ána hjá Mikkupytlu, og notaði í hana battinga úr Sargon“.  B.  Stjórnpallur á skipi.

Brúa (s)  Gera brú; byggja brú yfir.  „Seinfært var kringum Patreksfjörð í fyrstu eftir að vegur komst loksins alla leið í Kollsvík.  Vegir voru mjóir, hlykkjóttir, grófir og sumsstaðar niðurgrafnir; fæstar ár brúaðar og víða var ekið í gegnum túngirðingar með misjafnlega góðum hliðum“.

Brúa á (orðtak)  Nefna lauslega; færa í tal.  „Hann brúaði á því hvort ég gæti aðstoðað við smölun í haust“.

Brúða (n, kvk)  A.  Dúkka; leikfang sem gjarnan er einhverskonar eftirlíking manneskju.  B.  Fremri stoðin undir snældu á spunarokki.

Brúðgumi (n, kk)  Mannsefni; heitmaður; karlmaður sem er að giftast konu.  Umtalaðasti brúðguminn í Útvíkum á síðari öldum var Einar (eldri) Bjarnason, Jónssonar skipasmiðs og stórbónda í Kollsvík.  Á fyrstu áratugum 18.aldar felldi hann hug til Guðrúnar Jónsdóttur, heimasætunnar í Breiðavík, og afréðu þau giftingu í Saurbæjarkirkju.  Einar hélt um Víknafjall og hugðist bíða brúðar sinnar  í skarðinu milli Breiðavíkur og Keflavíkur.  Brúðurin kom neðan veginn um Stæður upp í skarðið, en þegar þangað var komið fann hún unnusta sinn andvana; hann hafði þar orðið bráðkvaddur.  Skarðið var nefnt Brúðgumaskarð til minningar um þennan sorglega atburð.  Líklega hefur einhver ættarfylgja orðið Einari að fjörtjóni, því Ólafur bróðir hans varð bráðkvaddur á Hænuvíkurhálsi, rétt rúmlega tvítugur.  (T.Ó. Ábúendatal Rauðasandshrepps).

Brúðhjón (n, hk, fto)  Par sem er að gifta sig eða nýgift.

Brúðkaup (n, hk)  Gifting; brullaup.  Nafnið er frá þeim tíma að maður keypti brúði sína af forráðamanni hennar sem oftast var faðir; greiddi brúðarverð.  Sá siður er einnig ævagamall að brúðurin, eða forráðamaður hennar, þurfti að leggja með sér veruleg verðmæti inn í hjónabandið.  Morgungjöf var hinsvegar verðmæt gjöf sem brúðguminn gaf brúðinni og var hennar séreign.

Brúður (n, kvk)  Kona sem er að giftast.

Brúk (n, hk)  A.  Notkun; not; afnot.  „Ég hafði ekkert brúk fyrir þetta lengur, svo ég gaf honum það“. B.  Þarabunki í fjöru.  „Lá þá járnklukkan þar í þarabrúki“.  (Landnámabók; um landnáms Örlygs hins gamla á Kjalarnesi).  Minna notað núna í þessari merkingu.

Brúka (s)  Nota; viðhafa.  „Réttu mér hamarinn ef þú ert ekki að brúka hann“.  Mun minna notað nú en áður var.

Brúka munn/kjaft / Brúka sig (orðtak)  Rífa kjaft; svara uppi; rífast; fleygja fúkyrðum; derra sig.  „Hættu svo að brúka munn við mig“!  „Það er varasamt að vera neitt að brúka sig við hann“.

Brúkanlega / Brúklega (ao)  Sæmilega; svo not séu að.  „Mér sýnist að þessi penni skrifi alveg brúkanlega“.

Brúkast (s)  Notast.  „Lóðir kunna ei brúkast sökum strauma“ (ÁM/PV; Jarðabók).  Þessi ályktun varðandi mat Láganúps var reyndar afsönnuð síðar, þegar lóðafiskur í Kollsvík varð helsta söluvaran á sunnanverðum Vestfjörðum.

Brúkhæfilegt / Brúkanlegt / Brúkhæft / Brúklegt (l)  Nothæft; nýtanlegt; sæmilegt.  „Mér finnst nú bara að þessi ríkisstjórn sé varla brúkhæfileg eftir þessar gloríur“.  „Þetta er vel brúkanleg peysa“.  „Heyskapur er mun minni en í fyrra, en samt vel brúkanlegur“.  „Þessi hnífur er varla brúkhæfur“.  „Ég ætti kannski að finna mér einh verjar brúklegar buxur áður en ég fer á fundinn“.

Brúklegt til síns gagns (orðtak)  Nothæft í afmörkuðum tilgangi.  „Hann var í fyrstu tortrygginn út í rafmagnsborvélina, en taldi að hún gæti kannski verið brúkleg til síns gagns“.

Brúklegur (l)  Nýtilegur; nothæfur.  „Það er nú á mörkunum að þessi skæri séu brúkleg lengur“.

Brúkun (n, kvk)  Not; nytjar.  „Kvíslin er orðin tilbúin til brúkunar“.

Brúkunarleysi (n, hk)  Notkunarleysi.  „Þetta er allt orðið stirt af brúkunarleysi“.

Brún (n, kvk)  A.  Kantur; brík; horn.  „Bollinn er hættulega nærri brúninni á borðinu“.  B.  Efsti hluti kletta/bjargs.  „Hreinsaðu vel lausagrjótið úr brúninni um leið og þú ferð niður“!  C.  Augabrún; loðin rönd ofanvið auga manns.  Sjá þungur á brún; bregða í brún.

Brúnaléttur (l)  Í góðu skapi; hýr á brá; ekki brúnaþungur.  „Hann er mun brúnaléttari núna; fyrst heyið náðist inn áður en það rigndi“.

Brúnamaður (n, kk)  Gægjumaður; vaðbergsmaður; maður við bjargsig sem hefur það hlutverk að fylgjast með sigaranum.  Brúnamaður kemur sér fyrir á snös þar sem sér til sigarans og lætur dráttarmenn vita hvernig honum gengur.  Í drætti og sigi situr hann framan við dráttarmenn; hefur hann hönd á vaðnum og greinir merki sigarans.  Mikilvægt er að brúnamaður sé vel vaðglöggur.  Heitið brúnamaður var stundum notað um alla þá sem voru á brún; einnig dráttarmenn alla.

Brúnamikill (l)  Með áberandi/þykkar augabrúnir.

Brúnarhjól (n, hk)  Vaðhjól (sjá þar) var oftar notað á þessum slóðum, þó þetta heyrðist einnig.

Brúnaþungur (l)  Ábúðarmikill/ yggldur á svip.  „Karlinn var orðinn æði brúnaþungur undir þessum lestri og greinilegt að honum mislíkaði stórum“.  „Formaður minn var farinn að verða nokkuð brúnaþungur; sá guli hafði verið honum erfiður í dag“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Brúnás (n, kk)  Vegglægja; sylla; láréttur viður efst á vegg húss, sem sperrufætur hvíla gjarnan á.  Heyrðist sjaldan vestra; þar var vegglægja meira notað orð.

Brúnkaka (n, kvk)  Kaka með kakói eða öðru sem gerir hana brúna að lit.

Brúnkol (n, hk, fto)  Surtarbrandur; lignit; plöntuleifar sem kolast hafa að vissu marki.  Dauðar plöntur í mýrlendi, sem ekki rotna vegna sýrustigs og súrefnisskorts, breytast fyrst í mó.  Þegar hann lendir undir fargi; t.d. hrauni eða seti, breytist hann fyrst í brúnkol en síðar í steinkol með lengri tíma og auknu fargi.  Brúnkol hafa hærra kolefnisinnihald (um 70%) en mór (um 60%), og eru því hitagæfari við brennslu.  Venja er að kalla brúnkol surtarbrand þegar í þeim finnast greinanlegar plöntuleifar.  Surtarbrandur finnst á nokkrum stöðum í Rauðasandshreppi; m.a. neðst í Stálfjalli; ofan Rauðasands; í Seljagili og á Högum ofan Raknadals.  Gerð var tilraun til vinnslu brúnkola í Stálfjalli í byrjun 20.aldar, en hún var ekki talin borga sig.

Brúsa (s)  A.  Ýra; úðast; skvettast.  „Farðu nú í stakk; það getur brúsað yfir þig ef við fáum einhverja ágjöf“.  B.  Um háralag; fjaðrir o.þ.h;  standa upp í loftið; úfið.  „Viltu nú greiða á þér hárið drengur; það brúsar allt útí loftið“.

Brúsaburður (n, kk)  Burður mjólkurbrúsa frá stöðli í mjólkurkæli.  „Kýr voru mjólkaðar á stöðli frammi í Túnshala á Láganúpi, um nokkurn tíma eftir að hafin var mjólkursala.  Fyrst var seld mjólk úr tveimur kúm, Nótt og Búbót, en fljótlega var þeim fjölgað.  Handmjólkað var, og mjólkin var síuð í 20 lítra mjólkurbrúsa við stöðulinn.  Að mjöltum loknum var brúsinn borinn milli tveggja manna í kæli í gamla brunnhússtæðinu neðanvið Pallagarð.  Þar hafði verið grafinn niður trékassi, og hvolft öðrum yfir til varnar gegn sól.  Ef lítið var í kúm, spöruðu menn sér þennen brúsaburð og báru mjókina að kælinum í fötum.

Brúsabörur (n, kvk, fto)  Hjólbörur, sérstaklega búnar til að aka mjólkurbrúsum.  „Ég smíðaði tvíhjóla brúsaböður úr tré, til að létta brúsaburðinn frá fjósinu niður í mjólkurkælinn í Kaldabrunni.  Þær voru ekki vel hentugar og voru ekki mikið notaðar“ (VÖ).

Brúsaflutningur (n, kk)  Flutningur mjólkur í brúsum til sölu.  „Mjólk var flutt í mjólkurbrúsum í nokkuð mörg ár eftir að hafin var mjólkursala frá bæjum í Kollsvík og öðrum bæjum í Rauðasandshreppi.  Í mörg ár var þessum brúsaflutningi svo hagað að Kollsvíkurbændur fluttu sjálfir sína mjólk inn að Hænuvík, en eftir það fór mjólkurbíll að koma í Kollsvík“. 

Brúsaskortur (n, kk)  Vöntun á mjólkurbrúsum.  „Það gæti orðið brúsaskortur á morgun þegar farið verður að hirða úr nýbærunum“.

Brúsaþvottur (n, kk)  Það að þvo mjólkurbrúsa.  „Mikið hagræði var að því að fá mjólkurtankinn; að losna í einu vetfangi við brúsaburð; brúsaflutning; brúsaþvott og vandamál við kælingu“.

Brúsi (n, kk)  A. Ílát, dunkur, t.d. kaffibrúsi, mjólkurbrúsi.  B.  Ætt fugla, s.s. himbrimi, lómur og flórgoði.

Brúskur (n, kk)  A.  Skúfur af einhverju tagi, t.d. grasbrúskur.  B.  Ennisbrúskur; loðinn blettur efst í enni sauðkindar og nautgripa.  „Er þessi kind frá þér; þessi hvíta kollótta með loðna brúskinn“?

Brúttó (l)  Síðari tíma sletta; heild; að öllu meðtöldu.

Brydda (s)  A.  Setja odd/brodd á eitthvað.  Lítið notað þannig í dag, en lifir í orðtakinu; brydda á.  B.  Setja borða á eitthvað.  T.d. brydda skó.

Brydda á (orðtak)  A.  Bóla/kræla á; sjást aðeins í/uppúr.  „Það er aðeins farið að brydda á nýgræðingi þar sem skjólsælast er“.  B.  Færa í tal; nefna; orða; minnast á.  „Hann var að brydda á þessu við mig, og mér finnst það ekki vitlaust“.  Einnig stundum haft „brydda uppá“.

Brydding (n, kvk)  Það að brydda; ydding; borðalagning.

Bryddir á Barða (orðtak)  Kemur sá sem eftir var beðið.  Sjá orðatiltækið ekki bólar enn á Barða.

Bryddur (l)  Borðalagður; lagður á brúnum.  „Spariskór, jólaskór, voru úr svörtu skinni; bryddir með hvítu eltiskinni og rósaleppar í þeim.  Annars var gengið á skóm úr steinbítsroði heima fyrir“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  Sjá einnig gæra.

Bryðja (n, kvk)  Skass; gustmikill kvenmaður.  „Hún er ágæt innvið beinið, þó hún geti líka verið bryðja“.

Bryðja (s)  Mylja stökkan mat milli tanna sér.  „Það er lítil næring í því að bryðja brjóstsykur endalaust“!

Bryðjugangur / Bryðjuháttur (n, kk)  Fyrirgangur; brussugangur.  „Skelfilegur bryðjugangur er þetta“! 

Bryggja (n, kvk)  A.  Garður/viðlegukantur í sjó fram, sem bátur/skip getur lagst uppað.  „Það var hæfilega fallið að bryggjunni þegar við komum að“.  B.  Upphleyptur kantur á efni.  „Hér er bryggja í ílögninni sem slípa þarf niður“.

Bryggjugarður (n, kk)  Grjótgarður í sjó fram með bryggju til að verja hana sjógangi.

Bryggjuhaus (n, kk)  Fremsti hluti bryggju.

Bryggjupláss (n, hk)  Viðlegupláss við bryggju.

Bryggjupolli (n, kk)  Festing á bryggju fyrir landfestar báts/skips.

Brynja (n, kvk)  Herklæði um líkamann til að verjast atlögu með eggvopni.  Oft úr málmi.  Tíðkaðist lítt sem ekki hérlendis, en var haft í líkingum; t.d. klakabrynja.

Brynja (s)  Verja; klæðast brynju til varnar. 

Brynjað (l) Fé getur orðið brynjað af snjó eða klaka þegar það er úti í hríðarbyl.  Snjóbrynja, klakabrynja.

Brynna (s)  Vatna; gefa gripum/fé vatn að drekka.  Á svæðinu var oftar talað um að vatna (sjá þar).  „Tveir hestar voru frá Grundum sem brynnt var þennan dag“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Brynna/vatna músum (orðtak)  Gráta; skæla; tárast.  „Komdu nú herna anginn minn; það tekur því ekki að vera að brynna músum yfir svona smáskeinu“.  Sjá vatna músum.  „Ýtar finna aukast þrótt/ enginn brynnir músum./  Hertu sinni, hreysti gnótt/ höldar vinna dag og nótt “  (JR; Rósarímur). 

Brynningarílát (n, hk)  Ílát, t.d. fata, stampur eða vatnsjata sem búpeningi er brynnt/vatnað í.

Bryntröll (n, hk)  Lag- og höggvopn; sambland af öxi og spjóti.

Brysti (n, hk)  Barð.  „Við kepptum í því hver gæti stokkið lengst fram af brystinu“.  „Stærstu búðirnar voru utaní og á brystinu sem rís upp frá vikinu milli Syðrikletta og Norðarikletta“  (HÖ; Fjaran). 

Bryti (n, kk)  Kokkur; matsveinn; matreiðslumaður.

Brytja (s)  Skera/hluta í búta.  „Strákurinn er orðinn svo stór að hann getur alveg brytjað matinn sinn sjálfur“.

Brytja í smátt / Brytja í spað (orðtök)  Brytja í smáa bita.  Spað er vanalega haft yfir ketbita sem t.d. eru hæfilegir í saltket.

Brýn (n, kvk)  Eldri orðmynd af brún.  Varðveitist í orðtakinu að bera einhverjum eitthvað á brýn; þ.e. saka einhvern um eitthvað.

Brýna (n, kvk)  A.  Hörð og snörp viðureign.  „Það sló í nokkra brýnu milli þeirra“.  B.  Sú spilda sem slegin var á milli þess sem ljárinn var brýndur.  „Á Sláttueyrum var stundum slegið frá Saurbæ, t.d. 1918.  Þessar Sláttueyrar voru svo loðnar að sátan náðist úr brýnunni“  (Magnfríður Ívarsd.  Örnefni undir Skörðum).

Brýna (s)  A.  Festa bát í fjöru með því að draga stefni dálítið upp þannig að hann fljóti ekki burt, t.d. meðan borið er af.  „Bátnum var aðeins brýnt, því oftar var ekki komin háfjara“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Sem þar kemur sögn á fyrsta sumardegi/ brýndi ég mínu fjalars fleyi“ (JR; Rósarímur).  B.  Skerpa eggjárn.  „Sagt er að lygnum gangi best að brýna svo vel bíti“.  C.  Hvetja; leggja áherslu á.  „Hún brýndi fyrir krökkunum að leika sér ekki í flaninu.  Þau gætu sogast út í brimið“.

Brýna af (orðtak)  Um brýnslu eggjárns; brýna á rangan veg, þannig að bitið minnki afbrýna.  „Þú brýnir af með þessu móti drengur; þú verður að bera þig rétt að“!

Brýna á sig þurrk (orðtak)  Snúa sér í átt að sólu þegar ljár er brýndur.  Þjóðtrúin segir að með því lagi séu meiri líkur á þurrki fyrir það sem slá skal.

Brýna (eitthvað) fyrir (einhverjum) (orðtak)  Leggja áherslu á eitthvað við einhvern; áminna einhvern um eitthvað.  „Hann brýndi það fyrir okkur að vera ekkert að egna tuddann“.

Brýna gogginn (orðtak)  Um fugl; nudda goggnum ótt og títt við stein.

Brýna raustina/röddina (orðtök)  Hækka róminn; skamma; kalla.  „Það þarf stundum að brýna raustina við þetta skrifstofulið þarna fyrir sunnan“.

Brýndur upp (orðtak)  Um hníf/ljá; brýndur svo mikið og oft að lítið sé eftir af blaðinu.

Brýni (n, hk)  Steinn eða efni með svipaða hörku sem notað er til að skerpa/brýna eggjárn.  Gott er að brýni hafi mikla kornahörku.  Hægt er að brýna með venjulegu blágrýti, en harðkornaðri steinn er betri; s.s. kvarts, granít, dólerít, glimmer o.þ.h.  Slík brýni nefnast steinbrýni, en á síðari tímum eru notuð steypt brýni með karbonkornum.  Brýni er oftast bleytt fyrir brýninguna, t.d. með olíu eða vatni eða með því að spýta á brýnið.  Það kemur í veg fyrir ofhitnun eggjarinnar við núninginn.  Ekki er öllum lagið að ná fram góðu biti með brýningu.  Sagt er að best bíti hjá þeim sem eru vel lygnir, og til er orðtakið að ljúga biti í eggina.  Góður brýnslumaður viðhefur fumlaus og taktföst handtök og hlustar gjarnan eftir hljóðinu.

Brýning / Brýnsla (n, kvk)  A.  Það að brýna eggjárn.  B.  Hvatning; eggjun.  „Guðmundur tók brýningum húsfreyju með hinu mesta jafnaðargeði…   (GiG; Frá ystu nesjum).

Brýnisbrot / Brýnisbútur / Brýnisstubbur (n, hk/kk)  Brot af stærra brýni.  Til að brýna ljá er æskilegt að hafa nokkuð langt brýni, en brýnisstubba má ágætlega nota t.d. til að brýna hnífa.

Brýnslugaldur (n, kk)  Galdur sem, samkvæmt þjóðtrúnni, er unnt að viðhafa til að fá öruggt bit í ljá sinn eða annað eggjárn, þegar brýnt er.  Felst í því að rispa tiltekinn galdrastaf á brýnið; snúa sér frá öðrum og draga brýnið létt báðumegin eggjar.  Þá flugbítur, en galdurinn dugar einingis á eigin ljá en ekki annarra. 

Brýnt (l)  Nauðsynlegt; aðkallandi; þarft.  „Nú er brýnt að koma heyinu í hlöðu fyrir rigninguna“!

Brýtur á boðum (orðtak)  Grunnbrot á boðum í Kollsvík.  „Aftur á móti var ósætt á sjó þegar grunnbrot féll á Giljaboða og Þembu, að minnsta kosti með landtöku í Kollsvíkurveri í huga“  (KJK; Kollsvíkurver).

Brýtur úr báru (orðtak)  Um sjólag; þegar bára er svo há og kröpp að brotnar úr henni í toppinn.  Vindur getur þar aukið á.  Talið var illa sætt að veiðum  á smæstu bátum þegar farið var að brjóta úr báru.

Bræða (s)  A.  Gera bráðið; breyta föstu efni í vökva með hitun.  „Ég er alveg að verða búin að bræða flotið á fiskinn“.  „Hann náði að bræða af sér öll svell í hlýindakastinu“.  B.  Tjarga bát.  Þá er tjaran fyrst hituð.  C.  Hugleiða; íhuga.  „Ég ætla að bræða þetta í smátíma“.  Sjá bræða veðrið; bræða með sér.

Bræða af sér (orðtak)  A.  Um það þegar þoka/dimmviðri hverfur í sólskini.  „Ég held að það sé farið að móa fyrir sól.  Þá ætti hann fljótlega að fara að bræða þokuna af sér“.  B.  Taka upp snjó.  Jörð er farin að hlýna svo mikið að hún bræðir fljótt af sér svona snjóhulu“.

Bræða með sér (orðtak)  Ræða málin saman til að leita að niðurstöðu. „ Þeir bræddu þetta með sér“. 

Bræða róðurinn / Bræða veðrið / Bræð‘ann (s)  Spá í veðurútlit.  Notað um það þegar menn hittust og reyndu í sameiningu að spá fyrir um veðurútlit dagsins, ekki síst um sjóveður.  Vermenn í Kollsvíkurveri komu gjarnan saman á Norðariklettunum, horfðu til hafs og skeggræddu um hvort róið skyldi þann daginn.  „Þegar ekki þótti einsýnt sjóveður á venjulegum róðrartíma, var það oft að formenn og fleiri söfnuðust saman til þess að „bræða veðrið“, sem svo var kallað“... „ Eins og fyrr er sagt drógust menn í hóp til þess að „bræða róðurinn“, eða eins og stundum var sagt:  „Þeir eru að bræð‘ann“.  KJK; Kollsvíkurver).

Bræða úr sér (orðtak)  Um vél; ofhitna þannig að legur bráðni og vélin festist.

Bræði (n, kvk)  Mikil reiði; heift; æsingur.  „Hann réði sér varla fyrir bræði“.

Bræðikast (n, hk)  Bræði sem varir stuttan tíma.  „Ég lét þetta útúr mér í bræðikasti, án þess að meina það“.

Bræðingskrús (n, kvk)  Dolla með bræðingi.  „Lét þá formaður rétta sér bræðingskrús er með var, og makaði bræðingi á sprungurnar.  Minnkaði lekinn svo við það að þeir gátu farið að renna“  (ÖG; Þokuróður).a (óvist hvort heldur er bik eða hinn sami og hafður er með mat).

Bræðingur (n, kk)  Viðbit sem algengt var við brauðmeti og harðfiski áður fyrri; brætt er saman tólg og lýsi, en stundum fleira:  „Smolt er fuglafeiti.  Flotið af fuglunum er fleytt og notað í bræðing...“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).  „Bræðingur var þannig gerður að blandað var saman 1/3 hákarlalýsi og 2/3 bráðnum kindamör“   (ÁE; Ljós við Látraröst).  Oft var þó þorskalýsi tiltækara en hákarlalýsi.

Bræðraband (n, hk)  Vinátta sem jafnan er milli bræðra.  Bræðrabönd og önnur fjölskyldutengsl hafa jafnan verið sterk í Kollsvík.  Þegar jarðabókin er gerð, árið 1703, búa bræður í Kollsvík og Láganúpi: Bjarni Jónsson í Kollsvík og Einar Jónsson á Láganúpi.  Síðar áttu hvora jörð Össur Guðbjartsson á Láganúpi og Ingvar Guðbjartsson í Kollsvík.  Bræðrabandið heitir slysavarnadeildin í Rauðasandshreppi.

Bræðrabylta (n, kvk)  Eiginleg merking er þegar jafntefli verður í glímu; báðir liggja.  Notað í afleiddri merkingu um jafnan hlut í hverskonar samkeppni, m.a. í aflabögðum eða róðri.

Bræðralag (n, hk)  Vinátta eins og jafnan er milli bræðra.

Bræðrungur (n, kk)  Sonur föðurbróður.  Oftast er þó notað orðið frændi.

Bræðsla (n, kvk)  Það að bræða. 

Bræðslumark (n, hk)  Það hitastig sem fast efni breytist í vökva.  Er því einkennandi fyrir hvert efni um sig.

Brækja (n, kvk)  A.  Reykjarstybba; sterk lykt.  „Það gat orðið töluverð brækja þegar sviðið var yfir olíueldi“.  B.  Fitu- eða grútarlag á sjó eða í potti.  „Frá hvalhræinu í fjörunni runnu brækjutaumar langt út á sjó“.

Brækjufýla / Brækjustybba (n, kvk)  Þræsin og sterk lykt.  „Opnaðu út meðan mörinn er að bráðna, til að losna við þessa brækjufýlu“.  „Ekki setja dekkið á brennuna; það verður svo ferleg brækjustybba af því“.

Bræla (n, kvk)  A.  Brækja; þykkur reykur/ódaunn.  B.  Hvassviðri.  Einkum notað um sjóveður, en í brælum var landlega.

Bræla (s)  A.  Gera vonda lykt.  „Hún bað hann að vera nú ekki að bræla pípustertinn ofaní barnið“.  B.  Gera vont veður; spilla sjóveðri.

Bræluskítur / Bræluskratti (n, kk)  Bræla; slæmt sjóveður.  „Það var bolvaður bræluskítur og ekkert veiðiveður“.

Brögð að (orðtak)  Um miður góð atvik sem oft verða/ vilja gjarnan ske.  „Það hafa verið dálítil brögð að lambaláti þetta árið“.  „Einhver brögð hafa verið að rottugangi þarna á bæjunum“.  Sjá bragð.

Brögð í tafli (orðtak)  Haft rangt við; svindl í gangi.  „Hér eru einhver brögð í tafli.  Varstu með ásinn uppi í erminni“?

Brögðóttur (l)  Sem beitir brögðum; kænn; slyngur; lævís.  „Hrafninn er stundum ótrúlega brögðóttur þegar hann vill ná mat af hundinum“.

Brögðum beittur (orðtak)  Leikið hefur verið á einhvern; einhver er ginntur.  „Hann hélt því fram að hann hefði verið brögðum beittur í atkvæðagreiðslunni“.

Brölt (n, hk)  Umbrot; mikil hreyfing manns; ið.  „Hvaða brölt er á þér þarna í geymslunni“?

Brölta (s)  Bylta sér; skríða; skriplast; skakklappast.  „Maður ætti kannski að fara að brölta í gegningarnar“.

Bröndóttur (l)  Röndóttur.  Einkum notað um lit kúa og katta.

Bröndufæri (n, hk)  Færi sem börn notuðu til að veiða bröndur á krók; dorg.  Misjafnlega útbúið, en oft þannig að lítill krókur var festur, ásamt sökku og stundum floti, með stuttum grönnum þræði (oft netagarni) fremst á stutta stöng.  Krókurinn var egndur, oft með ánamaðki, og síðan var dorgað með þessu í hyljum í lækjum, en fyrrum var allmikið af bröndu í öllum lækjum í Kollsvíkinni.  Oft var sæmileg veiði, sem börn matreiddu stundum sjálf yfir fljótgerðum hlóðaeldi.

Bröndukvikindi (n, hk)  Niðrandi/vorkennandi heiti á bröndu/lækjasilungi.  „Minkfjandinn er búinn að drepa hvert einasta bröndukvikindi í Víkinni“.

Bröndunet (n, hk)  Smáriðið net til veiða á bröndum í hyljum lækja.  Oftast voru þau skorin úr loðnunót sem rekið hafði á fjöru; um 1 fet á dýpt og tvö á breidd; haldið á floti með korkum og við botn með steinum.  Lögð frá bakka, en stundum með tunnubáti.  Oft komu í þetta nokkur kvikindi eftir fárra klukkutíma legu. 

Brönduveiðar (n, kvk)  Veiðar sem börn stunduðu á bröndu í lækjum.  Mikið var um bröndu í flestum lækjum í Kollsvík áður en minkur útrýmdi henni eftir 1980.  Börn notuðu ýmsar aðferðir við veiðiskapinn.  Bröndur voru gripnar undir steinum og bökkum; þær voru veiddar á stöng í hyljunum og í bröndunet.  Oft var þeim sleppt aftur, en stærstu bröndurnar voru borðaðar og þóttu ágætur matur.  Einnig var gripinn áll og étinn.  Drengjum sem sendir voru eftir kúnum vildi oft dveljast við brönduveiðar á leiðinni, sem var illa séð.  „Á sumrin var lítill frítími, en hann var notaður í brönduveiðar eða veiðar á vorseiðum í fjörupollunum“  (IG; Æskuminningar). 

Brönugras (n, hk)  Dactylorhiza maculata.  Blóm af brönugrasaætt; ein tegund orkidea.  Heitið er rakið til þess að í Hálfdánarsögu Brönufóstra er sagt að tröllkonan Brana hafi gefið fóstra sínum brönugrös til að vekja ástir konungsdóttur.  Jurtin finnst í Kollsvík, en er algeng um landið sem og víða í Evrópu og Asíu.  Vex gjarnan á sólríkum stöðum á láglendi, s.s. sólarmegin í brekkum en einnig í votlendi.  Fjölær jurt; verður oft 15-45 cm að hæð; uppréttur stöngull með ílöngum rósrauðum blómblöðum í klasa efst.  Þjóðtrúin segir að brönugras megi nota til að ná ástum annarrar manneskju.  Þá skal tína jurtina á Jónsmessunótt og er mestur krafturinn í rótinni, sem er tvískipt.  Lauma skyldi öðrum helmingi rótarinnar undir kodda þeirrar/þess sem ástum átti að ná, en sofa sjálfur/sjálf á hinum.  Önnur heiti brönugrass voru; friggjargras, hjónarót og graðrót. 

Brösótt (l)  Erfitt viðfangs; harðsótt.  „Okkur reyndist ári brösótt að koma kindunum rétta leið úr hlíðinni“.

Brösulega (ao)  Illa; böslulega; óhönduglega.  „Honum gengur eitthvað brösulega að vinna verkið“.

Brösur (n, kvk, fto)  Basl; erfiðleikar.  „Ég hef átt í mestu brösum með að þoka þessu máli áfram“.

Budda (n, kvk)  A.  Peningapyngja.  B. Seinbítsmagi; steinbítsbudda.  „Áður var þó einnig höfð til beitu lifur og gota úr hrognkelsum, og gormur; steinbítsgormur; þ.e. garnir úr steinbít en ekki „buddan“; steinbítsmaginn“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Buðlungur (n, kk)  A.  Hlaði af fiski; hluti af verkunarferli skreiðar (sjá þar).  B.  Stafli af viði eða mó.

Buff (n, hk)  Síðari tíma tökuorð yfir nautaket, og þá helst í þunnum sneiðum og mýkt með barningi.

Buga (s)  Beygja; sveigja; brjóta saman/niður.  „Nú held ég að svefninn sé alveg að buga mig“.

Bugbeita / Bugfylla (s)  Setja svo mikla beitu á öngul að fyllist bugurinn.  Oft var beitt  þannig fyrir lúðu og stórþorsk.  „Handfæraönglar voru oftast roðbeittir; en þá var oddinum stungið í gegnum fisk og roð; beitan hékk á bugnum.  Þá var sagt að öngullinn væri oddbeittur.  Þegar oddinum var stungið milli himnu og roðs svo beitan gekk niður í bug hét það að bugbeita“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  Sjá einnig beita; oddbeita; roðbeita.

Bugða (n, kvk)  Sveigja; kilpur; lykkja.  „Best var brönduveiðin neðanvið bugðuna á Ánni“.

Buðgóttur (l)  Með mörgum bugðum/sveigjum.  „Vegurinn er nokkuð bugðóttur út Fjörurnar“.

Bugningur (n, kk)  Saumur til bátasmíða; rónagli.  Líkur köntuðum þaksaum, með kónískum legg, en tekið þvert af honum að framanverðu.  Þegar bátur er seymdur er bugningurinn rekinn í gegnum súðina utanfrá, en að innan er slegin upp á hann skífa sem nefnist, með áhaldi sem nefnt er súgur, meðan haldið er við hausinn.  Sjá einnig bátasaumur og rónagli.

Bugspjót (n, hk)  Útleggjari; spruð; sterk stöng sem gengur fram af stefni seglskips; til festu á reiða fremstu segla.

Bugstór / Bugvíður  (l)  Um öngul/krók; með stóran bug.  „Þú þarft bugstærri krók fyrir stórlúðu“.

Bugt / Bukt (n, kvk)  A.  Lykkja/sveigur á færi/vað/snæri/slöngu o.fl.  „Ég náði að seilast í bugtina á vaðnum og draga hann til mín“.  „Gáðu að þár að standa ekki inni í bugtinni þegar færið rennur út“!  B.  Um strönd; flói; breiður vogur.  „Við rerum langt suður á Bugt (Breiðafjörð)“.

Bugta sig / Bukta sig (orðtak)  Hneygja sig djúpt.  „Ég hef ekki vanið mig á að bukta mig fyrir einum né neinum; og fjandinn hafi það að ég breyti útaf því fyrir einhvert forsetatetur“!

Bugur (n, kk)  A.  Hverskyns sveigur/beygja/sveigja á hlut/strönd o.fl.  Sjá vinna bug á; vinda bráðan bug að.  B.  Sveigja neðantil á öngli/krók. 

Bukka/bukta sig og beygja (orðtak)  Hneigja; sýna mikla undirgefni.  „Ég held ég sé ekkert að bukka mig og beygja fyrir svona pótintátum“!

Buklari (n, kk)  Lítill kringlóttur skjöldur.  Buklarar voru nokkuð algengir á sturlungaöld.  Bukl er heiti á skjaldarbólu.

Buldra (s)  Tauta; rausa.  „Hann buldraði eitthvað á lágu nótunum, en var greinilega ekki ánægður“.

Buldur (n, hk)  Tuldur; muldur; taut; lágt tal.  „Vertu nú ekki með þetta buldur; það lagar ekkert“!  „Sönghóll heitir hár hóll heiman við Hrísmúlann.  Gamlar og nýjar sagnir eru um að þarna hafi heyrst söngur, buldur þéttingshátt, og sumir segja allhávær bassasöngur.  Þetta var sett í samband við tröllabyggð og hamrabúa ferlega, en ekki við vatnsrennsli neðanjarðar“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Bull (n, hk)  Þvættingur; rugl; raus; samhengislaust/órökrétt tal.  „Ég hlusta ekki á svona bull“!

Bulla (n, kvk)  Stöng/stangarhaus sem getur hreyfst í hólki.  T.d. bulla í bullustrokki. 

Bulla (s)  A.  Um vökva; sjóða kröftuglega.  „Það er farið að bulla í pottinum“.  Um uppsprettuvatn; vella upp.  B.  Segja bull/þvælu/rugl.  „Hættu nú að bulla þessa vitleysu við strákinn“!

Bullandi  Áhersluorð, notað í ýmsu samhengi:  A.  Bullandi votur; um það að vera forblautur í fæturna.  B.  Bullandi straumur; um mikinn straum eða stíft sjávarfall.  C.  Bullandi mýri; um mikið kviksyndi.

Bullandi stórstraumur/norðurfall/suðurfall (orðtök)  Hörku sjávarfall; mígandi straumur.  „Það var bara ágæt veiði yfir upptökuna, og alveg framí bullandi norðurfall“.

Bullari (n, kk)  Sá sem bullar/blaðrar/ veður elginn; blaðurskjóða; orðabelgur.

Bullauga (n, hk)  Uppspretta þar sem vatn vellur upp af nokkrum krafti; dý eða lækur með greinilegri uppsprettu.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Bullsjóða (s)  Um vatn; farið að sjóða kröftuglega.

Bullsjóðandi helvíti (orðtak)  Blótsyrði af þyngri gerðinni; öflugt áhersluorð.  „Fari það nú í bullsjóðandi helvíti!  Hér hefur hámerarfjandi, eða eitthvað þaðanaf verra, flengrifið hálft netið“!

Bullsveittur (l)  Kófsveittur.  „Maður verður fljótt bullsveittur í þessum svækjuhita“.

Bullukolla (n, kvk)  Málgefinn kvenmaður; kjaftatík.  „Hún getur stundum verið ferleg bullukolla“.

Bullukollur (n, kk)  Málgefinn maður; kjaftaglúmur.  „Það tekur enginn mark á svona bullukolli“.

Bullustrokkur (n, kk)  A.  Stokkur af þeirri gerð sem lengstaf var notuð; mjó biða sem smjör var strokkað í með því að hreyfa bullu upp og niður.  B.  Líkingamál um mann sem bullar; er málgefinn og jafnvel lyginn.  „Þú skalt nú ekki trúa öllu sem sá bullustrokkur segir“.

Bullvotur (l)  Mjög blautur í fæturna.  „Ég óð uppfyrir í miðri Ánni og varð bullvotur í annan fótinn“.

Bumba (n, kvk)  A.  Trumba.  „Það var eins og einhver væri að berja bumbu inni í hausnum á mér“.  B.  Á manneskju; ístra; ístrubelgur; vömb; mikill kviður.  C.  Á íláti; kúpa; belgur. 

Bumbult (l)  Illt í maga; umbult.  „Eitthvað varð honum bumbult af hákarlinum, blessuðum“.

Bumbur (n, kk)  A.  Skinn á fugli; para.  „Hamurinn heitir bumbur þegar búið er að plokka fuglinn“   (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).   „Svo var fýllinn fleginn og saltaður; það sem ekki var borðað nýtt.  Laukurinn (fitan undir bumbnum) var bræddur til ljósmetis á kolur “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  B.  Bumba; bunga á potti eða tunnu.  „Leggðu tunnuna gætilega niður á bumbinn“.

Bumlungur (n, kk)  A. Magi úr skötu. „Skötumaginn/hverfan/skötuhverfan/bumlingur/bumlungur/pjanka/pjanki var víða hirtur.  Þegar hann var hafður til matar var hann látinn standa í saltvatni, eftir að hafa verið þrifinn, síðan hleypt að honum; lagður í súr og etinn með flautum.  Hann var einnig troðinn út eða blásinn upp og hafður sem ílát.  Algengt var að geyma í honum lýsi; þá kallað pjönkulýsi og ílátið lýsispjása.  Einnig var skötumaginn notaður sem sýrubelgur og dufl á lagvað“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV). 
B.  Þorskhaus sem hertur hefur verið í heilu lagi, með tálknum.  „Þurrkaður/hertur þorskhaus í heilu lagi, að því undanteknu að tálknin hafa verið ririn úr.  „Stöku sinnum voru þorskhausar hertir án þess að rífa þá upp, að öðru leyti en því að taka úr þeim tálknið.  Þesskonar hausar nefndust heiðingjar.  Ennfremur voru hausar hertir óupprifnir með tálkninu óhreyfðu; bumlungar  Þessi heiti munu ekki hafa þekkst nema á Vestfjörðum.  Aðallega voru þetta litlir hausar og jafnan hertir á möl.  Þeir voru helst ætlaðir skepnum, en þó kom fyrir að heiðingjar væru rifnir til átu eins og kringluhausar, en sú gerð var algengust um Vestfjörðu“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).   C.  Bumlungur mun einhversstaðar á landinu hafa verið notað yfir bútung.

Buna (n, kvk)  Vökvi sem fellur í mjóum fossi, t.d. úr stút á íláti.  „Réttu mér bollann svo bunan fari ekki útum allt borð“.

Buna (s)  Renna í bunu.  „Ósköp bunar hægt úr krananum; skyldi vera að frjósa í lögninni“?

Buna útúr sér (orðtak)  Segja mikið á stuttum tíma; segja mjög hratt.

Bundið mál (orðtak)  Ljóð; vísa; hverskonar skáldverk sem lýtur lögmálum ríms og stuðla.

Bundið slitlag (orðtak)  Yfirborð vegar sem gert er slitsterkara með tjöruefni/malbiki.

Bundið við (orðtak)  Háð; tengt.  „Kaupin eru bundin við það skilyrði að greiðslan berist tímanlega“.

Bundinn (l)  Reyrður fastur.  „Nautið er bundið á bás og bátur við bryggju“. 

Bundinn af (orðtak)  Skuldbundinn vegna.  „Ég er bundinn af þagnarheiti í þessu máli“.

Bundinn á klafa (orðtak)  Vera ófrjáls; vera nauðugur bundinn öðrum t.d. vegna skulda, laga eða samninga.  „Hann segir það ömurlegt hlutskipti að vera bundinn á klafa bankans vegna skulda annarra“.  Klafi eða ok er lagt um háls nautgrips sem bundinn er á bás, eða dráttardýrs sem dregur æki.  Stofnskylt klof og klyfjar.

Bundinn á vað (orðtak)  Festur í taug; vaðbundinn.  Einkum notað um það þegar maður veður út í sjó til að bjarga manni eða bát við ströndina sem lent hefur í háska. 

Bundinn er sá er/sem barnsins gætir ( orðatiltæki)  Sá sem gætir smábarns getur ekki farið annað eða annast ýmis önnur verk, eins og þeir vita glöggt sem reynt hafa.

Bundinn í báða skó (orðtak)  Heftur af; bundinn yfir; get ekki aðhafst.  „Ég er dálítið bundinn í báða skó meðan kýrin er að bera, svo ég kemst ekki með ykkur í róður“.  Sjá báðar höndur við axlir fastar.

Bundinn við/yfir (orðtak)  Heftur af; kemst ekki frá vegna.  „Ég verð bundinn yfir símanum fram að hádegi“.

Bunga (n, kvk)  Ás; bumbur; bumba; gúlpur; gúll; hóll; hæð; útbungun.

Bunga (s)  Standa út/upp sem bunga.

Bunka / Bunka saman / Bunka upp (s/orðtök)  Setja saman í bunka; hlaða upp.

Bunkastokkur (n, kk)  Hluti af máttarviðum báts; sá hluti banda sem liggur yfir botn bátsins, þvert yfir kjölinn.  Einnig nefnt undirhluti/botnband/botnröng og botnstokkur.  „Þegar fór að batna tíð var farið að huga að bátunum, en þeir voru á hvolfi frá því um haustið.  Það þurfti að bika þá innan og mála utan, og ef til vill skipta um eitt eða tvö skeyti; gera við band eða bunkastokk og setja niður vélina“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Bunki (n, kk)  Hlaði; stafli.  „Hann hefur sett bunka af þara upp í Gjótin“.  Sjá svellbunki; klakabunki.

Bunustokkur (n, kk)  Tréstokkur í gegnum vegg brunnhúss.  Vatn var leitt gegnum bunustokkinn og fossaði út í brunnhúsinu í nægilegri hæð til að unnt væri að koma vatnsfötu undir.  Bunustokkar var í brunnhúsinu á Láganúpi, og er enn í brunnhúsinu í Kollsvík.

Bura (n, kvk)  Úlpa; yfirhöfn. Fremur sem gæluheiti.  „Var ég ekki í einhverri buru þegar ég kom“?  „Farðu úr burunni ef þér er heitt“.

Burðarás (n, kk)  A.  Máttarviður í þaki húss, t.d. mæniás; brúnás.  B.  Líkingamál um mann sem veitir einhverju forystu/ er potturinn og pannan í einhverju; máttarstólpi.

Burðarbiti (n, kk)  Máttarviður, t.d. í byggingu; burðarás.

Burðardagur (n, kk)  Fæðingardagur; afmæli; tal.  Nú eingöngu um dýr, en var áður haft um afmæli manna.  „Manstu nokkuð burðardaginn hjá Dimmu“?

Burðargjald (n, hk)  Gjald sem greitt er fyrir að koma póstsendingu til skila.  Er oft háð þyngd/umfangi.

Burðarleg (l)  Um kind/kú; að fara að bera.  „Ekki gat ég séð að kýrin væri neitt burðarleg enn, þó hún sé komin þetta framyfir tal“.

Burðarlega (ao)  Sjá láta burðarlega.

Burðarliður (n, kk)  A.  Ysti hluti fæðingarvegs kvendýrs eða konu.  „Ég þurfti að hjálpa þeirri kind; hornakylfurnar á hrútnum voru fastar í burðarliðnum“.  B.  Oftast í líkingum um málefni:  T.d. tillaga sem er í burðarliðnum er tillaga sem verið er að móta.

Burðarlítill (l)  Ekki sterkur; aumur; óburðugur.

Burðarmaður / Burðarmenni / Burðarjaki (n, kk)  A.  Sterkur maður; mikill að burðum.  „Örn var burðarmaður; gerði hann að því er aflaga fór og snaraði bagganum síðan á klakkinn.  Héldu menn þá til hesta sinna, en Örn hneig í sama augnabliki dauður niður í götuna, þar sem nú eru Arnarvörður“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlaukdals).  B.  Sá sem ber; þjónn sem ber föggur hótelgesta. 

Burðarmikill (l)  Með mikla burðargetu.  „Lagið á bátnum er þokkalegt, en burðarmikill er hann nú ekki“.

Burðaról (n, kvk)  Fetilband; fetlar (sjá þar) voru algengari heiti vestra.  „Þegar komið er að landi er fiskur seilaður á burðarólar; venjulega 20 fiskar á ól.  Það þótti hæfileg byrði á mann af lóðafiski, til að bera til ruðnings.  Aftur á móti aðeins 10 steinbítar á ól“  (KJK; Kollsvíkurver).

Burðarviður (n, kk)  Máttarviður; mikilvægur hluti í stoðkerfi byggingar.  „Gættu að því að saga ekki í bitann; hann er burðarviður.

Burðarþol (n, hk)  Það sem tiltekinn byggingarhluti þolir af álagi án þess að láta undan; burðargeta.

Burðast með (orðtak)  Rogast með; bisa við; bera með erfiðismunum.  „Vertu ekki að burðast með þyngri steina en þú ræður við“.

Burðuglega (ao)  Björgulega; beysið; vel.  „Hann ætti ekkert að reyna að smala þessu fé einn.  Það tókst ekki svo burðuglega hjá honum síðast“!

Burðugur (l)  Fær um burð/átök/álag; öflugur.  „Ertu nógu burðugur til að halda á tveimur eggjakútum“?

Burðulegt (l)  Björgulegt; álitlegt; vel útlítandi.  „Ekki er ástandið burðulegt; hér er komið uppundir grindur“.

Burður (n, kk)  A.  Það sem borið er; þyngsli; fyrirhöfn við flutninga.  „Það er allmikill burður með aflann úr báti um háfjöruna“.  B.  Í fleirtölu (burðir); afl; styrkur; aflsmunir; hraustleiki.  „Hann var furðu seigur þó hann væri ekki mikill að burðum“.  C.  Sauðburður; kýr/kindur eignast afkvæmi.  „Nú er ekki langt í burð hjá Dimmu“.  D.  Kast; rek; straumur.  „Leggðu netið rétt við baujuna; athugaðu að það er verulegur burður í norður núna“.

Burgeis (n, kk)  Ríkisbubbi; auðkýfingur; sá sem þykir ríkur/ loðinn um lófana.

Burgeisaháttur (n, kk)  Mont; að láta sem stórbokki; pótintáti.  „Skárri er það nú burgeisahátturinn; þykist ekki sjá mann þegar svona „meiri háttar menn“ eru nálægt“.

Burkni (n, kk)  Flokkur jurta sem í eru meira en tíu þúsund tegundir.  Burknar fjölga sér með gróum en ekki fræjum, og bera ekki blóm.  Þeir eru þó þróaðri en mosar að því leyti að í þeim er æðakerfi, og þeir hafa stofna, eins og æðri plöntur.  Algengur burkni hérlendis er t.d. tófugras.

Burnirót (n, kvk)  Rhodiola rosea.  Jafnan nefnd blóðrót vestra; sjá þar.

Burst (n, kvk)  A.  Ris; efsti hlutinn á risþaki húss.  B.  Kambur á baki dýrs.  „Kötturinn reisti burst þegar hundurinn fór að gelta“.  Sjá draga (einhverjum) burst úr nefi.

Bursta (s)  Hreinsa með bursta.  „Það þarf að bursta sviðin vel“.  „Ertu búinn að bursta tennurnar“?

Burstabær (n, kk)  Ein tegund íslenkra torfbæja.  Einkennist af mörgum sambyggðum húsum, sem snúa göflum fram á hlað, með samræmdu útliti og áberandi risi.  Burstabæir urðu ekki algengir fyrr en seint á 18.öld, en áður voru gangabæir algengastir.  Þeir viku fyrir timbur- og stenhúsum á 20.öld.

Burstaormur (n, kk)  Flokkur hryggleysingja; liðorma, sem telur yfir 6000 tegundir.  Flestir eru litlir; minni en sentimetri að lengd.  Flestir lifa burstaormar í sjó, og margir þeirra grafa sig í botninn og lifa á rotnandi leifum.  Þeir þekktustu eru líklega sandmaðkur og skeri; sjá þar.

Bursti (n, kk)  A.  Lítill kústur.  B.  Kol; hlutur í rafal/rafmótor sem leiðir rafmagn í snúðinn.

Burt / Burtu (ao)  Frá; af; brott.  „Hann var á bak og burt þegar ég kom“.  „Rektu nú hundinn burt úr slátrinu“!  „Burt með þig“!

Burtferðarbiti (n, kk)   „Burtferðar var biti minn / banakringla úr lambi“  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  Orðið finnst ekki í orðabókum í þessari mynd, en annarsstaðar þekktist „burtfararbiti“.

Burtflutningur (n, kk)  Brottflutningur.

Burtfluttur (l)  Brottfluttur.

Burtkallaður (l)  Látinn; sálaður; farinn á vit feðra sinna.  „Þeir eru nú flestir burtkallaðir sem mundu þetta“.

Burtséð frá því (orðtak)  Þar fyrir utan; óskylt því; einnig.  „Ég hef engan tíma í þetta verk, en burtséð frá því þá er það mér óviðkomandi“.

Busi (n, kk)  A.  Hnífur; kuti.  B.  Líking um strák eða klaufalegan mann.

Buska (n, kvk)  Handfylli af heyi; hálmi; þangi eða öðru slíku.  Stundum einnig notað um tusku/rýju, eða um himnur í grásleppuhrognum ef sigtun var ábótavant.  „Það er dálítið um buskur í þessu“.

Busl (n, hk)  A.  Það að busla.  B.  Hljóð sem heyrist þegar buslað er.

Busla (s)  A.  Skvampa/skvetta í vatni eða öðrum legi.  B.  Svamla; synda án reglulegra sundtaka.

Buslugangur (n, kk)  Með skvettum; bægslagangur.  „Selurinn steypti sér í sjóinn með miklum buslugangi“.

Butra (s)  Bauka; baksa; dunda.  „Hann er að butra við að bólstra stólgarminn“.

Buxnalaus (l)  Ekki í buxum.  „Þú getur bara verið buxnalaus meðan ég stoppa í þetta“.

Buxnaskálm (n, kvk)  Skálm á buxum.  „Skelfingar ósnið er á þessum buxnaskálmum“!

Buxnaskipti (n, hk, fto)  Umskipti á buxum.  „Ég ætla að hlaupa heim og hafa buxnaskipti áður en við förum á fundinn“.

Buxnastrengur (n, kk)  Efsti hluti buxna, sem oftast er faldaður og sterkari en það sem neðar er. 

Buxnavasi (n, kk)  Vasi/hólf á hlið eða rassi buxna.  „Andskotans ósnið er nú þetta!  Ég hef aldrei fyrr séð buxur með svo smáum vösum að hvorki sé unnt að troða í þá vasaklút né vasahníf; hvað þá heldur hafa höndur í vösum“!

Buxur (n, kvk, fto)   Fatnaður manneskju, sem borinn er neðantil á líkama.  „Buxur voru prjónaðar síðar á karlmenn, stuttar eða hnésíðar á konur en á börn oftast niður undir hné. Svo voru bæði stelpur og strákar í sokkum sem náðu upp á mið læri svo að næði vel saman buxur og sokkar. Sokkar voru með tölum efst og hnepptir upp með sokkaböndum sem aftur voru hneppt upp á kot sem krakkar voru í ...  Stelpur voru oftast í pilsum eða kjólum og það var ekki fyrr en um eða eftir 1940 sem síðbuxur á stelpur fóru að vera algengar. Strákarnir voru í stuttbuxum fram á 12 - 13 ára aldur“  (SG; Prjónaskapur; Þjhd.Þjms).  Sjá ekki á þeim buxunum.

(n, hk)  Umsvif manns á dvalarstað hans.  Oftast merkir orðið atvinnurekstur með búfénað, en sífellt verður algengara að það merki heimili eða eignir á heimili eða eignir fyrirtækis.  „Hann rak þarna stórt bú áður en hann flutti burt og sneri sér að fyrirtækjarekstri“.

Búa (s)  A.  Starfrækja bú  B.  Eiga heima.  „Kollur bjó í Kollsvík; líklega þar sem síðan stóð Kollsvíkurbærinn um aldaraðir“.  C.  Hafa til að bera.  „Hann sýndi þarna hvað í honum bjó“.  D.  Gera úr garði.  „Búðu þig nú vel; hann er ansi napur í veðri“.  „Ertu búinn að búa um rúmið“?  „Þetta bjó hann til úr klumbubeini“.

Búa að (einhverju) (orðtak)  A.  Njóta einhvers; hafa það gott vegna einhvers.  „Ég hef búið að þessu góða uppeldi alla mína ævi“.  B.  Hlú að einhverju.  „Það þarf að búa vel að bátnum fyrir veturinn“.

Búa að sér (orðtak)  Koma sér fyrir í t.d. veri; gera umhverfi sitt og aðbúnað eins og þurfa þykir.  „Þegar menn höfðu  búið að sér var aðeins beðið færis að fara í róður“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Búa að sínu (orðtak)  Hlú að sinni afkomu; vera sjálfum sér nægur.  „Kröfurnar voru litlar og búið sem mest að sínu til matar og fata“  (KJK; Kollsvíkurver).

Búa í brjósti (orðtak)  Vera í huga.  „Nú er mikilvægt að hver og einn segi það sem honum kann að búa í brjósti; áður en gengið er til atkvæða“.  Sjá segja það sem (einhverjum) býr í brjósti.

Búa í haginn (orðtak)  Skipuleggja verk þannig að hagfellt verði; undirbúa það sem framundan er.  „...er nú tekið til við að tjalda og hita tjöldin upp til að búa í haginnfyrir skipbrotsmennina“  (MG; Látrabjarg).

Búa í hendur sér (orðtak)  Hagræða fyrir sér svo verk vinnist betur; skipuleggja verk.

Búa sig (orðtak)  Fara í útiföt áður en farið er út / hlífar áður en farið er á sjó.  „Búðu þig nú almennilega.  Hann er orðinn fjári kaldur í tíðinni“.

Búa (einhvern) að heiman (orðtak)  Útbúa þann sem er að fara í ferðalag, t.d. með nesti, sokka og skófatnað.  „Gummi var vel að heiman búinn og meðal annars hafði hann í nestisskrínu sinni væna spaðbita af veðmálslambinu“  (PG; Veðmálið). 

Búa/rífa sér ból/bæli (orðtak)  Laga til svo maður geti hagrætt sér, t.d. til að hvílast/sofa.  „Hænan hafði búið sér ból þarna inni í holunni og var langt komin að unga út“.  „Þér frjálst er að sjá hve ég bólið mitt bjó/ ef börnin mín smáu þú lætur í ró./  Þú manst að þau eiga sér móður./  Og ef að þau lifa, þau syngja þér söng/ um sumarið blíða og vorkvöldin löng./  Þú gerir það vinur minn góður“ (Þorsteinn Erlingsson; Hreiðrið mitt).

Búa sig (orðtak)  Fara í fatnað; útbúa sig.  „Búðu þig vel; hann er ári kaldur“.

Búa sig undir (orðtak)  Undirbúa sig; vera viðbúinn.  „Bændur búa sig undir enn eitt verðfallið“.

Búa sig uppá (orðtak)  Fara í betri fötin; prúðbúast.  „Þegar löndun var lokið bjuggum við okkur uppá og fórum að fá okkur bjór„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Búa sig út (með) (orðtak)  Gera sig tilbúinn; búast til.  „Maður í landi býr sig út með ár, er hann festir við alllöngu snæri“  (KJK; Kollsvíkurver).

Búa svo/þannig um hnútana (orðtök)  Ganga þannig frá; gera svo úr garði.  „Ég bjó svo um hnútana að þetta gæti ekki gerst aftur“.

Búa til (orðtak)  Gera; skapa; ljúga; spinna upp.  „Ég bjó til búr fyrir ungahænuna undir hefilbekknum“.  „Ef hann er ekki að búa þetta til þá er þetta alveg hreint lygilegt afrek“!

Búa um (orðtak)  A.  Laga rúmföt í rúmi; setja sængurföt á sængur og lak á dýnu.  B.  Hlynna að sári; setja plástur eða sárabindi á sár. C.  Hnýta hnúta á réttan hátt; ganga frá málum (óeiginleg merking).  „Hann bjó svo um hnútana að þetta kæmi ekki fyrir aftur“.

Búa um hnútana (orðtak)  Gengið frá; í pottinn búið.  „Sett voru sig á bátinn, og þannig gengið um hnútana að hann ætti ekki að geta fokið“.  „Ég hef engar áhyggjur fyrst svona er búið um hnútana í þessu máli“.

Búa undir (orðtak)  Vera undirliggjandi; vera til staðar þó ekki sjáist.  „Hann sagði þetta ekki berum orðum, en ég skildi alveg hvað undir bjó“.  „Eitthvað hlýtur nú að búa undir þessari góðmennsku“.

Búa uppá (orðtak)  Ganga frá flutningi á reiðingshesti.  „Það var til dæmis erfitt að búa þannig upp á reiðingshest að vel færi í brekkunum beggja megin í Hænuvíkurhálsi..  ... Síðan var lögð áhersla á að strax að kvöldi sláturdags væri slátrið búið uppá hesta og flutt heim.“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Búa úr garði /Búa út (orðtak)  Útbúa; ganga frá.  „Það þarf að búa þetta mál vel úr garði“.

Búa við (orðtak)  Sæta; una við.  „Það er erfitt að búa við svona aðstöðuleysi í þessum efnum“.

Búa/lifa við sult og seyru (orðtak)  Búa við bágindi; eiga hvorki til hnífs né skeiðar.  Sjá seyra.

Búa við (orðtak)  Vera við tilteknar aðstæður; una.  „Það er ekki unnt að búa við svona aðstæður endalaust“.

Búa við konuríki (orðtak)  Láta konu um stjórn á heimilinu; vera undirokaður af eiginkonu og/eða öðrum konum.  „Ekki öfunda ég karlgarminn af því að búa við þetta konuríki“!

Búa við þröngan kost (orðtak)  Una við fátækt/matarskort; hafa úr litlu að spila.  „Þurrabúðarmenn bjuggu við þröngan kost ef aflabrestur varð“.

Búa yfir (orðtak)  Vera með; hafa yfir að ráða; luma á.  „Hann reyndist búa yfir meiri upplýsingum en ég“.

Búalið (n, hk)  Vinnufólk; heimilisfólk á bóndabæ.  Sjá bændur og búalið.

Búalög (n, hk, fto)  Lagabálkur sem líklega var samþykktur kringum árið 1100.  Fjallar um verðlag, mælieiningar og ýmsar venjur í landbúnaði og viðskiptum, en á þeim tímum var vöruskiptaverslun allsráðandi.  Varan var mæld í álnum vaðmáls, og voru 120 álnir eitt kúgildi.  Silfur var þá að verða fágætara, en það var líklega nokkuð algengt í viðskiptum á landnámsöld.  Þegar leið á miðaldir var farið að nota gildan fisk sem verðeiningu, en það var eitt kíló af skreið.  Tveir fiskar voru jafngildi einnar álnar, og 240 fiskar eitt hundrað.  Að stofni til giltu búalög fram á 20.öld, þó ýmsar breytingar yrðu á þeim.

Búandfólk (n, hk)  Bændur og aðrir sem stunda búskap.  „Stundum gleymist að búandfólk er líka neytendur“.

Búandi (n, kk)  Bóndi.  „Árið 1812, þegar sá atburður gerðist sem hér verður sagt frá, voru fjórir búendur á Látrum… (GiG; Frá ystu nesjum).

Búandkona (n, kvk)  Bóndakona; búkona; kona sem stendur fyrir búi.  „Búandkonur hafa alltaf sett svip á mannlífið. Með því orði er oftast vísað til ekkna, enda hefur karlrembusamfélagið íslenska alltaf talið karlinn sem bústjóra, jafnvel þó konan sé öflugri bóndi. Jafnvel þó karlinn væri eiliflega fjarrstaddur í verum eða vinnumennsku var hann alltaf talinn fyrir búinu.  Af búandkonum fyrri tíðar má nefna  Guðrúnu Eggertsdóttur í Bæ, sem reynar hefur fengið harða dóma sögunnar fyrir fégræðgi sína“.

Búaostur (n, kk)  Hrognaostur (sjá þar).

Búast / Búast að heiman / Búast af stað (s/orðtak)  Búa/útbúa sig til ferðalags.  „Við bjuggumst í skyndi“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Búast til (orðtak)  A.  Um kýr eða ær sem er að fara að bera.  „Mér sýnist að hún Búkolla sé farin að búast til“.  B.  Um manneskju; hyggja til ferðar; undirbúa/hefja verk; gera sig kláran; setja sig í stellingar.  „Ætli maður fari ekki að búast til, hvað úr hverju“.  C.  Um fugl; undirbúa varp.  „Múkkinn er sestur upp fyrir nokkru og farinn að búast til“.

Búast til að lenda (orðtak)  Undirbúa lendingu.  „En þá er snúið frá hinni venjulegu lendingu, en búist til að lenda skammt sunnan við Verið, þar sem að fornu fari hefur verið kölluð Snorralending“  (KJK; Kollsvíkurver).

Búast til ferðar (orðtak)  Búa sig undir að fara.  „Það er komið að vertíðarlokum.  Aðkomuformenn með skipshafnir, sem og aðkomuhásetar, fara að búast til heimferðar“  (KJK; Kollsvíkurver).

Búast við (orðtak)  Eiga von á; vænta; reikna með.  „Ég býst við að verkið klárist á morgun“.  „Hann hefur bara séð, þegar kom ég karlmannslaus;!  Kannske vissi hann hvað ég vildi segja./  Hann flýtti sér í bólið og breiddi uppfyrir haus/ og bjóst þá við að af hræðslu myndi hann deyja“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Búálfur (n, kk)  Álfur sem talinn er búa á heimili fólks.  Sumir telja að hulduverur búi á heimilum, auk mannfólksins, sem lifi þar svipuðu heimilislífi en gerir sjaldan vart við sig nema til heilla.  Stundum týndi mannfólkið hlutum, en fann þá aftur síðar þar sem þó hafði verið vel leitað,  Var þá sagt að þetta hefðu búálfarnir fengið að láni.  Sigríður á Láganúpi sagði þetta iðulega þegar hana vanhagaði um eitthvað, og ekki brást að búálfarnir skiluðu henni fyrr eða síðar því sem þeir höfðu þurft að nota.

Búbót (n, kvk)  Búhnykkur; búdrýgindi; viðbót við reglulegar nauðþurftir sem bætir hag fólks og lífsafkomu.  „Var þessi hvalreki hin mesta búbót á bæjum í Víkinni og fyrir nærliggjandi byggðir“.  Búbót er algengt kýrnafn.

Búdrýgindi (n, hk, fto)  Búbót; það sem drýgir mat eða aðrar nauðsynjar heimilis.  „Ekki áttu þess þó allir kost að afla sér þessa bragðbætis og búdrýginda með fábreyttri vermötu, enda ekki á allra færi að fara í egg, eins og það var kallað“  (KJK; Kollsvíkurver).

Búð (n, kvk)  A.  Hús sem búið er í.  Almennt notað um verbúð, en einnig voru búðir á þingi og annarsstaðar þar sem bjuggu um tíma.  Sjá verbúð; þurrabúð.  B.  Verslun; sölubúð.  Þessi notkun heitisins var sjaldgæf fyrr á tíð, meðanverslunarstaðir voru fáir, og ekki starfræktir mikinn hluta ársins.  Hinsvegr er þessi merking allsráðandi í málinu í dag. 

Búða sig (orðtak)  Að búa um sig í búð/veri.  „Þegar komið var í Verið var fyrsta verkið að búða sig:  Hreinsa búðirnar, tjalda veggi upp að rúmstæðum, búa um rúmin, koma fyrir matarskrínum og eldunartækjum og bera hreinan og þurran skeljasand á gólfin“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Fyrsta verkið þegar menn komu í Verið var að búða sig; þ.e. að búa um sig; koma sér fyrir í búðunum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Búðaráp (n, hk)  Flakk milli búða; verslunarleiðangur; innkaupaferð.  „Ég vil helst koma strax úteftir aftur þegar erindinu er lokið á Patreksfirði; ég ætla ekki að standa í einhverju búðarápi allan daginn“!

Búðarborð (n, hk)  Borð í verslun, sem söluvara er afgreidd á.  Fyrir daga kjörbúða var öll vara sótt í hillu eða lager og afgreidd af verslunarmanni yfir búðarborð.  Verslun SÖG á Gjögrum var breytt í kjörbúð um 1974, en fram að því hafði verið afgreitt yfir búðarborð.

Búðarloka (n, kvk)  Niðrandi heiti á verslunarmanni/afgreiðslumanni. 

Búðartollur (n, kk)  Gjald fyrir afnot af verbúð.  „Seint á 19. öld varð Kollsvík allstór verstöð, eftir að Kollsvíkurmenn höfðu reist allar búðirnar í verinu, áttu þær og leigðu.  Búðartollurinn varð þá 6 krónur og vertollurinn 6 krónur og samsvaraði því tollurinn af hverju skipi 60 hertum steinbítum (Frásögn GG o.fl; LK; Ísl. sjávarhættir II).  „Kollsvíkurmenn byggðu allar búðir; áttu þær og leigðu vermönnum.  Gjaldið sem vermenn greiddu var „búðartollur“ og uppsátursgjald.  Mig minnir að hvorttveggja væri 12 kr; 6 kr búðartollur og 6 kr uppsátursgjald“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Búðartóft (n, kvk)  Leifar af bústað/búð; vegghleðslur búðar.  Fjölmargar búðartóftir má sjá í Kollsvíkurveri, frá síðustu tímum útgerðar.  Lítið sést til þeirra handar í víkinni, en þeirra sér þó stað hvarvetna sem grafið er ofan sjávarbakkanna.  Því má gera ráð fyrir að búðir hafi verið með allri strönd Kollsvíkur á einhverjum tíma sögunnar.  Mikilvægt er að kanna þessa miklu útgerðarsögu, án þess þó að raska um of fornminjum.

Búðarveggur (n, kk)  Veggur á verbúð.  „Eldunarkró var hlaðin við búðarvegginn, utandyra“.

Búðingur (n, kk)  Eftirréttur sem getur verið matreiddur á ýmsan hátt, en jafnan hlaupkenndur þegar hann er borinn fram kaldur.  Komið úr latínu; „botulus“, sem merkir pylsa eða magi.

Búðseta (n, kvk)  Búseta í sjóbúð árlangt.  Fyrir kom að lausafólk settist að í búðum og hokraði þar, oftast þá með fáeinar kindur sér til framfæris.  Fyrrum var slík búseta illa séð af yfirvöldum og bændum, enda vistarbönd á vinnufólki til að halda vinnuaflinu á bæjunum.  Vafalítið hefur búðseta tíðkast í verum Útvíkna, og heimildir eru fyrir henni í Kollsvíkurveri í byrjun 20. aldar.  Má t.d. segja að búðseta hafi tíðkast hjá íbúum Grænumýrar; Strákamels (Gestarmels/Stóramels); Grundar (Júllamels/Torfamels) og Grundabakka.

Búðsetumaður (n, kk)  Þurrabúðarmaður; verkamaður fyrr á öldum sem hélt eigið heimili en átti lítinn eða engan búpening og lifði af því sem hann gat aflað.  Einkum urðu búðsetumenn algengir við sjávarsíðuna, þar sem unnt var að afla fiskjar.  Hreiðraði búðsetufólk þá gjarnan um sig í verbúð sem ekki var í notkun.  Heimildir eru um búðsetufólk frá 13.öld en líklega hefur búsetuformið komið til fyrr.  Í máldaga frá 13. Öld eru búðsetumenn nefndir hjábúðarmenn.  Frá fyrstu tíð var búðsetufólk illa séð af stjórnvöldum, og í Grágás er m.a. lagt bann við slíku.  Þar segir að engir búðsetumenn skuli vera „þeir er búfjárlaust búi, nema hreppsmenn lofi“.  Voru menn hræddir um að slíkt fólk færi á flæking ef t.d. aflabrestur yrði, og segði sig þá til sveitar.  Búðsetumönnum fjölgaði með aukinni skreiðarverkun, en bann við búðsetu var aftur áréttað með Píningsdómi árið 1490; þar var búðseta þó bönnuð öllum sem ekki ættu búfé og eignir til þriggja hundraða.  .  Viðhorfið breyttist dálítið þegar skreiðarútflutningur varð mikilvægari tekjuauðlind á 14.öld, og þá risu upp árstíðabundnar verstöðvar s.s. Láganúpsver.  Einhver búðseta hefur efalaust viðgengist í tengslum við þær frá upphafi.  Eftir að einokunarverslun komst á var lítið hróflað við búðsetumönnum, enda var vinna þeirra sumsstaðar mikilvæg tekjulind verslunarinnar.  Þetta búsetuform fékk svo almenna viðurkenningu á 19.öld, enda mikilvægt til að uppfylla vaxandi þörf fyrir vinnandi fólk nærri útgerðarstöðum.   Má segja að saga þeirrar viðurkenningar sé lík sögu erlends vinnuafls sem sótt hefur til landsins í seinni tíð, og telst í dag nauðsynlegt til að uppfylla þarfir vinnumarkaðarins.  Kjör búðsetumanna hafa fyrrum eflaust verið afar bágborin.  Í Útvíkum voru búðsetumenn jafnan nendir þurrabúðarmenn; a.m.k. á síðari öldum.

Búferli (n, kvk)  Bústofn/skepnur manns og aðrir búsmunir.  Orðið hefur lifað í orðtakinu „að flytja búferlum“, sem merkir að ferja bústofn, innbú og aðrar eigur á nýjan bústað.

Búferlaflutningar (n, kk, fto)  Flutningur manns eða fjölskyldu úr einu aðsetri/heimili í annað.  „Margir höfðu séð það (huldufólk) við heyskap; konur koma með mjólkurfötur af stöðli; búferlaflutningar áttu sér stað, og þar fram eftir götunum“  (Ívar Ívarsson Kirkjuhvammi; Hvatt bæði; grein í Lesbók Tímans 1964).

Búferli (n, hk)  Lausafé; færanlegt fé; þær eignir sem maður getur flutt með sér.  Sjá flytja búferlum

Búfé / Búfénaður (n, hk/kk)  Búpeningur; á oftast við sauðfé og kýr, en stundum til annars bústofns, s.s hænsna, svína og geita.  „Hann hefur ekki annað að búfénaði en þessar tuttugu kindur“.

Búfjáráburður (n, kk)  Skítur/skarn/tað/úrgangur búfjár.  Heitið er ekki gamalt í málinu.

Búfjárrækt (n, kvk)  Búskapur; skepnuhald.  Heitið er fremur nýtt í málinu.

Búfræðingur (n, kk)  Sá sem lærir til búskapar eða hefur lokið bændanámi. 

Búgrein (n, kvk)  Faggrein innan búnaðarstarfs/bændastéttar.  T.d. Sauðfjárbúskapur; mjólkurframleiðsla o.fl.

Búhagur (l)  Laginn við það sem tengist búskap, einkum þá átt við smíðar; góður smiður.  „Hann var búhagur í besta lagi“.

Búhnykkur (n.kk)  Búbót; happ; viðbót við nauðþurftir.  „Þessar gengisbreytingar hafa reynst útgerðinni hinn mesti búhnykkur“.

Búhyggindi (n, hk, fto)  Gott skipulag á búi; reglusemi, fyrirhyggja og sparnaður í búskap.

Búhöldur (n, kk)  Bóndi; stórbóndi.  „Er sagt að Einar (Jónsson ættfaðir í Kollsvík)hafi verið kallaður vitur maður og lesinn, og búhöldur mikill“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).   „Hann var hreppstjóri; búhöldur góður og athafnamaður hinn mesti“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Búi (n, kk)  Fyrri tíðar heiti á bónda/ þeim sem býr.  Sbr búalög

Búið og gert (orðtak)  Afstaðið; málinu/verkinu lokið.  „Það er of seint að sjá sig um hönd eftir að allt er búið og gert“.  Sjá ekki tjóar að gráta orðinn hlut; það er búið og gert.

Búið spil (orðtak)  Afstaðinn viðburður; tapaður leikur; tapað spil.  „Hér er ekki oddsnerta lengur; mér sýnist þessi aflahrota vera búið spil“.

Búinn (l)  A. Um verknað; kláraður; aflokið.  B.  Um magn; klárað; uppurið; uppétið.  C.  Um viðbúnað/útbúnað; varinn; útbúinn; viðbúinn.  T.d. vígbúinn.  Mega ekki við svo búið standa.

Búinn að (orðtak)  Hef lokið við.  „Ég var rétt búinn að setja upp síðasta galtan þegar byrjaði að rigna“.

Búinn að fá nóg (orðtak)  A.  Kominn með nægilega mikið.  B.  Orðinn þreyttur/leiður/pirraður á.  „Hann sagðist vera búinn að fá nóg af þessu rugli; nú væri hann bara farinn heim“.

Búinn að fá sig fullsaddan af (orðtak)  Orðinn þreyttur á; kominn með nóg af; ofbýður.  „Maður er nú búinn að fá sig fullsaddan af þessum innihaldslausu loforðum“!

Búinn að lifa sitt fegursta (orðtak)  Orðinn gamall/slitinn/lélegur/ljótur.  „Hann var með mórauða derhúfu á höfði, sem greinilega var búinn að lifa sitt fegursta“.

Búinn heyskapur (orðtak)  Búið að alhirða/fullheyja.  „Við förum í þetta þegar búinn er heyskapurinn“.

Búinn í húsunum (orðtak)  Búinn með dagleg verk í skepnuhúsum (gefa, vatna, mjólka o.fl.).  „Ég fór í þetta um leið og ég var búinn í húsunum“.

Bújörð (n, kvk)  Jörð sem búskapur er stundaður á. 

Búkfylli (n, kvk)  Magafylli; saðning.  „Þú færð litla búkfylli af þessu ansans sælgæti“!

Búkhákarl (n, kk)  Stykki úr búk hákarls; ekki kviðhákarl; skyrhákarl.  „Alltaf finnst mér búkhákarlinn meira sælgæti; þó vissulega sé gott að smakka kviðhákarlinn líka“.  Fremur var talað um skyrhákarl í Kollsvík.

Búkhljóð (n, hk)  Hljóð sem heyrist frá meltingarvegi; t.d. garnagaul; ropi; fretur.  „Mér heyrist á búkhljóðunum að þú hafir étið hressilega af þrumaranum“!

Búkhreinsun (n, kvk)  Innantökur; niðurgangur.  „Það þýddi herjansmikla búkhreinsun að éta þessi grænu egg“.

Búkki (n, kk)  A.  Þrífætt skorða til að skjóta undir bát og halda honum á réttum kili í fjöru eða í uppsátri.  Búkkar voru til og notaðir í Kollsvíkurveri fram á árið 1970.  B.  Hverskonar undirsláttur/skorður til að halda hlutum uppi.

Búkloft (n, hk)  Viðrekstur; fretur.  „Skelfingar óþefur fylgir þessu búklofti; hvern fjandann settirðu ofan í þig“?

Búkmikill (l)  Skrokkstór, sjá þar.

Búkolla (n, kvk)  Algengt nafn á mjólkurkú.

Búkona (n, kvk)  Búandkona; kona sem stendur fyrir búskap.  „Þú verður að bera þetta undir búkonuna“.

Búkonuhár / Búkonuskegg (n, hk)  Skegghýjungur/hárvöxtur í andliti kvennmanns.  Talið merki um bústjórnarhæfileika.

Búksorgir (n, kvk, fto)  Áhyggjur af mat, klæðnaði og öðrum veraldlegum persónuþörfum.  „Hann er í vel launaðri vinnu, svo þau ættu að vera laus við búksorgir og basl“.  „Margar eru þínar búksorgir greyið mitt“.

Búktal (n, hk)  Sú list að láta sína rödd koma frá annarri manneskju eða brúðu.  Meðal Kollsvíkinga merkti orðið hinsvegar viðrekstur/prump.  „Farðu nú að hætta þessu bévítans búktali“!

Búkur (n, kk)  Skrokkur.  Á við menn, skepnur og skip.

Búlaus (l)  Sá sem ekki er með búskap heldur býr þurrabúi, t.d. lifir af sjósókn í Kollsvík.  „Árni Árnason, þá búlaus á Grundum“  (KJK; Kollsvíkurver; formannatal).

Búlda / Búlga (n, kvk)  Bólga; blaðra; kúlulag.  „Hér er búlga í efninu“.

Búlduleitur (l)  Kúlduleitur; með bústnar kinnar; kinnamikill; fullur að vöngum.  „Karlinn var fremur lítill vexti; feitlaginn og búlduleitur“.  Líklega er „kúlduleitur“ up prunalegra, og vísar til kinnfisks steinbíts.

Búlétt (l)  Um bújörð; góð vetrarbeit fyrir sauðfé, þannig að í góðu árferði þurfi ekki mikla gjöf.

Búlka (s)  Ganga tryggilega frá varningi/afla í skipi. 

Búlki (n, kk)  Hlaði; haugur; stafli. 

Búmaður (n, kk)  Sá sem er laginn við búskap; góður bóndi.  „Hann þótti hagur á tré á járn, en síðri búmaður“.  Sjá mörg er búmanns raunin; enginn er bóndi/búmaður nema hann kunni að berja sér.

Búmannlega (ao)  Eins og góður bóndi.  „Strákurinn bar sig ansi búmannlega að þessu“.

Búmannlegur (l)  Kunnáttusamur við búverk; fyrirmyndarbóndi.  „Það þykir ekki búmannlegt að vera í túnaheyskap fram á gangnatímanum“.

Búmannsbragur (n, kk)  Bóndaháttur; siður/aðferð góðs bónda.  „Mér finnst afskaplega lítill búmannsbragur að því að nenna ekki að smala sínum eftirlegukindum þegar til þeirra sést“!

Búmannsklukka (n, kvk)  Klukka sem er of fljót.  Sagt að góðir búmenn stilltu klukku sína þannig til að vera tímanlega í öllum verkum.

Búmennska (n, kvk)  Búskaparlag; aðferð við buskap/bústörf.  „Þetta finnst mér undarleg búmennska“!

Búnaðarfélag (n, hk)  Félagsskapur sem bændur hafa með sér sem samráðsvettvang og samvinnu um hvaðeina sem lýtur að landbúnaði og búskaparháttum.  Í Rauðasandshreppi hefur lengi starfað Búnaðarfélagið Örlygur.

Búnaðarskóli (n, kk)  Skóli sem kennir greinar á sviði landbúnaðar.  Nú á háskólastigi.  „Eftir að Össur lauk framhaldsnámi við Búnaðarskólann á Hvanneyri starfaði hann um tíma sem ráðunautur bænda“.

Búnaðarþing (n, hk)  Samráðsvettvangur bænda á landsvísu.  „Össur á Láganúpi var um áratuga skeið fulltrúi á Búnaðarþingi og einnig á þingum Stéttasambands bænda“.

Búnaður (n, kk)  A.  Búskapur; landbúnaður.  B.  Útbúnaður; búningur; klæðnaður.  Við þurftum að bera vað og annan búnað nokkra leið inneftir brúninni“.

Búnast (s)  Um velgengni í búskap.  „Honum búnast bara þokkalega núorðið og kominn í ágætar álnir“.  „Bóndinn Jón var býsna snjall / og búnaðist eftir vonum...“ (GÖ; Hlekkir hugarfarsins)

Búningsbót (n, kvk)  Lagfæring; umbót.  „Það er þó alltaf búningsbót að bera sig karlmannlega“  (Úr kvæði eftir Kristján Jónsson fjallaskáld).

Búningur (n, kk)  A.  Klæðnaður; útbúnaður.  „Er hann úti á skyrtunni í þessum kulda?  Þetta er enginn búningur á blessuðu barninu“!  B.  Seinni tíma merking; einkennisfatnaður; gervi.

Búnt (n, hk)  Stafli; margar einingar, raðað reglulega saman.

Búnytjar (n, kvk, fto)  Búskaparnot. 

Búpeningur (n, kk)  Búfé; sauðfé, nautgripir, hestar og aðrar skepnur á bænum.  „Farið var á fætur kl 6 og aldrei seinna en kl 7.  Oftast var kveikt á morgnana og setið við vinnu.  Gegningamenn fóru út ekki seinna en kl 7 og fengu ekkert fyrr en þeir voru búnir að gefa búpeningnum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).   „…því betur sannfærist ég um að fóðrun á öllum ofangreindum búpeningi fer batnandi frá ári til árs“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Búr (n, hk)  Forðageymsla; herbergi/afhýsi til geymslu matar.  Búr hefur verið hluti flestra bæja frá landnámi, og allt til þess að kæliskápar, frystikistur, skápar og geymslur leystu þau af hólmi.  Í búri var geymt mikið af matarforða heimilisins og þar fór ýmis matarvinnsla fram.  Einnig var þar geymsla fyrir búsáhöld og annað.  Súrmatartunnur voru í búri á Láganúpi, allt til þess að nýja húsið var byggt árið 1974.

Búraháttur (n, kk)  Sérviska; heimalningsháttur; kauðaháttur.  „Það er til marks um búrahátt ráðamanna  

Búralega til fara (orðtak)  Furðulega klæddur; kauðalegur í útlgangi.  „Mér finnst einhvernveginn að þú sért svolítið búralega til fara“.

Búralegur (l)  A.  Um svip manns; íbygginn; undirfurðulegur; hrekkvís. „Af hverju ert þú svona búalegur á svipinn núna; býr þar eitthvað undir“?   B.  Um útlit manns; rustalegur; þungbúinn; fráhrindandi.  „Hann er nú ekkert að halda sig til þó hann komi á mannamót og mörgum þykir hann dálítið búralegur“.

Búrborð 8n, hk)  Borð í búri, þar sem matur er hanteraður og tekinn til áður en hann fer til eldhúss eða stofu.

Búrhvalur (n, kk)  Physeter macrocephalus.  Stærsti tannhvalur jarðar; verður allt að 20 metra langur og 57 tonn; kýrnar þó jafnan mun minni en tarfarnir.  Höfuðið er sérkennilega kantað; með mjóum neðri kj´alka og blástursopi vinstra megin ofaná höfði.  Heilinn er stærri en í nokkru öðru spendýri.  Sprorður 4-5 m að bredd og þrýhurndur; bægsli stutt og spaðalaga.  Búrhvalur er allur dökkgrár en ívið ljósari á kvið en bak; til eru þó mjög ljós dýr.  Fitubólstur er efst og fremst í höfðinu; fullur af vaxkenndri olíu; ambri, sem storknar við stofuhita.  Nýtist dýrinu líklega til að stýra flotjafnvægi.  Finnst víða um heimshöfin.  Aðalfæðan er smokkfiskur, og kafar búrhvalurinn oft niður á mikið dýpi; allt að 2000 metra í fæðuleit.  Einnig éta búrhvalir fiska, s.s. grásleppu, karfa, skötusel o.fl.

Búrkista (n, kvk)  Kista í búri til geymslu matvæla, einkum méls; mélkista; hveitikista.

Búrkompa (n, kvk)  Lítið búr.  „Búrkompa var í gamla Melshúsinu; í bíslaginu ásamt anddyri og klósetti“.

Búrtík (n, kvk)  Hundur/tík sem oft liggur heimavið og þiggur mat í stað þess að nýtast við fjárrag.

Búsaðdrættir (n, kk, fto)  Aðdrættir nauðsynja til heimilis.  „Hér að framan hef ég talað um hina venjulegu búsaðdrætti Kollsvíkinga“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Búseta (n, kvk)  Aðsetur; vera/heimilishald manns/fólks á tilteknum stað.  „Föst búseta hefur verið í Kollsvík frá landnámi, þó stopul hafi verið í nokkur ár; eftir að búskap lauk árið 2002“.

Búsettur (l)  Með heimili/aðsetur.  „Kollsvíkingurinn á ávallt heima í sinni vík; hvar sem hann er búsettur“.

Búsáhöld (n, hk, fto)  Áhöld sem notuð eru við matargerð og önnur heimilisverk.

Búsforráð (n, hk, fto)  Stjórnun á bæ/býli; umsjón búskapar.  „Tók þá faðir minn við búsforráðum með móður sinni  því hann var elstur af bræðrunum og á Hnjóti bjó hann allan sinn búskap, á sjötta tug ára“  (JVJ; Nokkrir æviþættir). 

Búsifjar (n, kvk, fto)  A.  Upprunaleg merking orðsins er nábýli; samband við nágranna.  Sifjar merkir tengsl.  B.  Á síðari öldum hefur merking orðsins umturnast og meriir það núorðið „tjón“; „skaði“. „Útvíknamenn hafa löngum notið hagsældar af sjónum, en einnig haft af honum þungar búsifjar af ýmsu tagi“. 

Búsílag (n, hk)  Framlag til búsins/framfærslu heimilisins.  „Ein er sú tegund sjávarnytja sem hér tíðkaðist, en það er hrognkelsaveiði. Hún var stunduð frá allmörgum bæjum hér í sveit á vorin og var drjúgt búsílag“  (SG; Sjávar- og strandnytjar; Þjhd.Þjms).  „Og þótti það mikið búsílag að eiga mikið af harðfiski... “  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Búskaparaðferð / Búskaparháttur / Búskaparlag (n, kvk/kk/hk)  Aðferðir við búskap.  „Slíkt búskaparlag hrynur fyrr eða síðar“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1933). 

Búskaparár / Búskapartíð (n,hk/ kvk)  Tíminn sem búskapur stendur.  „Einhverntíma í búskapartíð Einars gamla Jónssonar í Kollsvík (1797-1836) eiga eftirfarandi atburðir að hafa gerst“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Búskaparbasl / Búskaparhokur (n, hk)  Erfiði við búskap.  „Samhliða því fækkar fólki í Víkinni; það flyst burtu, einkum til Patreksfjarðar eða til Reykjavíkur.  Fólksflóttinn frá smábátaútgerð og frumstæðu búskaparbasli er byrjaður“  (KJK; Kollsvíkurver).

Búskapur (n, kk)  Það að búa/ reka bú.  „Svonalöguðu sagðist hann aldrei fyrr hafa kynnst í sínum búskap“.

Búskussaháttur (n, kk)  Slæmt búskaparlag; sleifarlag/vanræksla við búskap.  „Þetta finnst mér bölsvaður búskussaháttur hjá honum; að láta kálfakvikindin ganga úti fram í snjóa“!

Búskussi (n, kk)  Maður sem kann ekki að búa; er ekki forsjáll; skussi við búskap.  „Þessi nýi bóndi er nú hálfgerður búskussi og ætti að fást við eitthvað annað“.

Búslóð (n, kvk)  Lausamunir sem notaðir eru við búskap/heimili.  „Búslóðin var send suður með skipi“.

Búsmali (n, kk)  Bústofn; skepnur á búi.  „Höktu í foldarhupp/ harðsvíruð ægistól./  Búsmalinn beiddi upp/ bændur litu ei sól./  Rak fólk í rogastans/ riðaði foldin við/ er ribbaldinn Rósinkrans/ ruddist úr móðurkvið“  (JR; Rósarímur). 

Búsorgir (n, kvk)  Áhyggjur af búrekstri/heimilishaldi.  „Það þýðir ekkert að drekkja sér í búsorgunum“.

Bússa (n, kvk)  A.  Stórt og burðarmikið seglskip.  B. Líkingamál; niðrandi heiti um stórvaxna konu.

Bússur (n, kvk, fto)  Klofstígvél; klofhá gúmmístígvél.  Sjaldnar notað en klofstígvél.

Bústaðaskipti (n, hk, fto)  Búferlaflutningar; skipti á íverustað.  „Helst hafði huldufólk bústaðaskipti um áramót eða um fardaga“  (SG; Huldufólk; Þjhd.Þjms). 

Bústaður (n, kk)  Staður sem maður rekur bú sitt á; aðsetur; heimili. 

Bústinn (l)  Feitlaginn; þybbinn; hnellinn; ólétt.  „Hún er að verða ansi bústin og sælleg“.

Bústjóri (n, kk)  Sá sem hefur búsforráð; ráðsmaður; bóndi.  „Með vistheimilinu í Breiðavík kom starfsheitið bústjóri í Rauðasandshrepp“.

Bústoð (n, kvk)  Hvaðeina sem styður við búrekstur/búskap.

Bústofn (n, kk)  Skepnur á búi; áhöfn.  „Bústofn foreldra minna á uppvaxtarárum mínum var lengst af þessi: 1 hross, 2 kýr og 70-150 fjár“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Bústólpi (n, kk)  Bústoð.  Sjá bóndi er bústólpi.

Bústýra (n, kvk)  Ráðskona; kona sem ræður fyrir búi.

Bústörf (n, hk, fto)  Vinna við búskap/býli.  „Konur sinntu bústörfum samhliða heimilishaldinu“.

Búsvæði (n, hk)  Svæði sem bú tekur til.  Oftast notað um svæði sem tilgreind lífvera lifir á.

Búsýsla (n, kvk)  Umsýsla/umsjón búskapar; búrekstur.

Búsæld (n, kvk)  Góð afkoma á búi; gott að búa; velgengni í búrekstri.

Búsældarlegt (l)  Aðstæður góðar til búskapar.  „Búsældarlegt hefur jafnan verið í kollsvík“.

Búta í sundur / Búta niður (orðtök)  Hluta niður; skera/saga/höggva í búta/hluta.  „Ætlarðu að fara að búta niður heila fjöl í þetta?  Þú ert alveg frá þér drengur“!

Bútsög (n, kvk)  Þverskerasög; þverskeri; sög sem hentar til að saga við þversum/ saga þvert á æðar viðarins.

Bútungsfiskur (n, kk)  Smáfiskur; kóð; undirmálsfiskur.  „Hann var sæmilega viljugur þarna.  En mestmegnis var það bútungsfiskur“.  Verkaður nefndist hann einatt bútungur.

Bútungssalta (s)  Salta fisk í bútung.  „Smáþorskur var bútungssaltaður en sá flattur sem fletjandi var“.

Bútungur (n, kk)  Heilsaltaður smáþorskur.  Ýmist verkaður í stæðu eða pækil.  Skorið var í þá stærri áður en þeir voru útvatnaðir til að ekki yrði of salt við dálkinn.

Bútur (n, kk)  Biti; hluti; stúfur; stykki.  „Ég negldi fjalarbút fyrir gatið“.

Búvara (n, kvk)  Framleiðsluvara bónda; afurð frá býli.  Oftast notað í fleirtölu.

Búverk (n, hk, fto)  Störf sem vinna þarf á býli.  „Sumardvalarbörn veittu mikilvæga aðstoð við búverkin“.

Búvél (n, kvk)  Síðari tíma heiti á vél sem notuð er við bústörf. 

Byða (n, kvk)  A.  Almennt; ílát; geymir; stampur; tankur.  Byður voru smíðaðar úr stöfum eins og tunnur, en lægri og oft samandregnar að ofan; þ.e. mjókkandi að opinu.  B.  Flot á lagvað.  „Vesfirðingar notuðu aðallega dufl sem þeir smíðuðu sjálfir; mjótt til beggja enda en skotin mjög út um miðju.  Dufl þessi kölluðu þeir byður“  (GG; Skútuöldin).  C.  Á síðari árum í Kollsvík er orðið notað um ýmis ílát, t.d. gruggglas á eldsneytislögnum véla. 
Orðstofninn er úr fornum germönskum málum, en skylt er m.a. „boðn“ sem var nafn á keri því í norrænni goðafræði sem Stuttungamjöður var geymdur í.  Sjá tala í belg og byðu og allt í belg og byðu.

Bygg (n, hk)  Kornafurð af grasaætt, sem mjög er ræktuð til manneldis og fóðurs víða um heim. Var fjórða algengasta ræktaða kornafurð heims árið 2006.  Upprunnið af villibyggi; Hordeum spontaneum, sem vex í Miðausturlöndum.  Ræktað við góð skilyrði hérlendis; hefur enn ekki verið ræktað í Kollsvík.

Byggð (n, kvk)  Staður með íbúðarhúsum.  Getur átt við strjálbýl sem þéttbýl svæði.

Byggðakjarni (n, kk)  Þéttbýll hluti dreifbýlissvæðis, þar sem allajafna er miðstöð þjónustu.  „Í oddvitatíð Össurar á Láganúpi var skipulagður byggðakjarni í Rauðasandshreppi; í svonefndu Hvammsholti í Tungulandi. Þar hafði þá starfað Grunnskóli Rauðasandshrepps um nokkurn tíma; þar var Félagsheimilið Fagrihvammur; þar var nýbyggð sölubúð Sláturfélagsins Örlygs; þar var trésmíðaverkstæði Byggingafélagsins Hafnar; þar var Sparisjóður Rauðasandshrepps o.fl.  Skipulagðar voru nokkrar lóðir og sett upp götulýsing við sameiginlega götu.  Byggð var þó á fallanda fæti í hreppnum; stuttí að hreppurinn sameinaðist öðrum í Vesturbyggð og flest áðurnefnt heyrði sögunni til“.

Byggðalína (n, kvk)  Heiti á háspennulínu sem flytur raforku til byggðarlags sem er fjarri orkuveri.  Slík byggðalína, svonefnd vesturlína, liggur frá Vesturlandi til Mjólkár í Arnarfirði og greinist þaðan norður og suður á Vestfirði.

Byggðarlag (n, hk)  Landsvæði með byggð, vanalega afmarkað með landfræðilegum eða stjórnsýslulegum mörkum.  „Rauðisandur hefur löngum verið eitt blómlegasta byggðarlagið í Rauðasandshreppi“.

Byggðaröskun (n, kvk)  Hóflegt orðalag yfir þær byltingar í búsetu og byggðamálum sem riðið hafa yfir landið frá upphafi vélvæðingar.  Má jafna við verstu hamfarir sem yfir landið hafa gengið frá landnámsöld.

Byggðasafn (n, hk)  Minjasafn sem heldur til haga merkum minum af tilteknu afmörkuðu svæði.  Þannig má segja að Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti sé í raun byggðasafn Rauðasandshrepps og nærsvæðis hans.

Byggðastefna (n, kvk)  Stofnanamál yfir áætlun stjórnvalds um uppbyggingu eða viðhald mannfjölda og byggðar á tilteknu svæði.  Í reynd er byggðastefna einatt marklaust plagg nema til komi bæði vilji íbúanna sjálfra og raunhæf og trygg úrræði til að framfylgja markmiðum stefnunnar.

Bygggrautur (n, kk)  Grautur úr byggi; einn margra þátta mataræðis fyrri tíðar fólks sem horfnir eru í seinni tíð.  „Vakan var til kvöldmatar, klukkan 9.  Það var oftast flautir og bygggrautur með fjallagrösum“  “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  

Byggilegur (l)  Hæfur til búsetu; vel fallinn til ábúðar. 

Bygging (n, kvk)  A.  Mannvirki; hús.  B.  Það að byggja mannvirki/hús. 

Byggingameistari (n, kk)  Húsasmiður; húsasmíðameistari. 

Bygginganefnd (n, kvk)  Nefnd á vegum sveitarstjórnar sem fjallar um byggingamál, leyfaveitingar og oft einnig skipulagsmál og annað á sviði mannvirkjagerðar. 

Byggingarbréf (n, hk)  Leigusamningur um jörð til ábúðar.  Samkvæmt fornri venju átti leiguliði að taka jörð á leigu í viðurvist tveggja eða fleiri áreiðanlegra votta.  Oft risu þó deilur um leiguskilmála og því var lögfest árið 1705 að jarðeigandi skyldi láta leiguliða í té byggingarbréf þar sem skýrt væri kveðið á um leigukjör.

Byggingarleyfi (n, hk)  Leyfi byggingarnefndar/sveitarstjórnar til byggingaframkvæmda eða breytinga húss.

Byggingarefni af öllu tagi er að finna í Kollsvík, a.m.k. til þeirra bygginga sem tíðkast hafa lungann úr Íslandssögunni.  Hleðslugrjót er þar af öllu tagi og öllum stærðum.  Menn notuðu ýmist sæbarið hnullungsgrjót, s.s. í garða og búðir nærri ströndinni; jökulnúna steina úr holtum eða skriðurunnið grjót úr hlíðum; allt eftir því hvað hentaði.  Allan við í máttarviði, langbönd, hurðabúnað og fleira mátti fá úr rekavið; ýmist ósöguðum eða flettum; úr hvalbeinum eða úr strandgóssi.  Fyrirtaks hellutök voru á nokkrum stöðum; einkum í Stórafelli og í Helluhnjúk.  Hellurnar voru líklega oftast dregnar heim á sleðum að vetrarlagi.  Tróð í þök var nærtækt í lyngflákum og fjalldrapa, sem einnig var nýttsem eldsmatur.  Þau not hafa gengið mjög nærri gróðri í næsta nágrenni, sem á síðari tímum hefur þó náð að jafna sig nokkuð.  Torfrista er víða góð í Kollsvík, t.d. á Torfamel/Júllamel, sem líklega hefur áður heitið Torfmelur.  Í gluggum höfðu menn skæni, sem ýmist var þurrkaður líknabelgur eða sköturoð.  Kollsvíkingar voru jafnvel sjálfbjarga um járn í saum,  lamir og fleira, enda var þar stunduð járnvinnsla lengur en á öðrum stöðum landsins.

Byggja (s)  A.  Reisa hús eða annað mannvirki; hlaða upp.  B.  Vera búandi á/í; sitja; dveljast.  „Kollsvíkurætt hefur byggt Kollsvík í meira en 200 ár samfellt“.  C.  Afhenda einhverjum til ábúðar/búskapar.  „Séra Grími var byggður Sauðlauksdalur og hóf þegar myndarlegan búskap“.

Byggja á (orðtak)  Treysta á; trúa; taka trúanlegt.  „Ég held að þetta sé sögusögn sem ekkert er á byggjandi“.

Byggja (einhverjum) út (orðtak)  Segja einhverjum upp leigu/veru. 

Byggt ból (orðtak)  Staður /bærí byggð.  „Það var svo árið 1952 að síminn var lagður á öll byggð ból í Rauðasandshreppi; hnar fyrri 3. flokks stöðvar lagðar niður, og síminn gerður að þessum víðfræga sveitarsíma; á þremur línum, með þjónustu á Patreksfirði“ (AÍ; Árb.Barð 1980-90).

Bykkja (n, kvk)  A.  Meri sem orðin er léleg til brúks.  B.  Skammaryrði um kindur, t.d. vegna túnsækni eða annarrar óþægðar.  „Skyldi nú ekki árans bykkjan vera komin aftur inná“?!

Bylgja (n, kvk)  A.  Á yfirborði vatns/sjávar; bára; aflíðandi/löng alda en ekki notað um brm/brotsjó.  Í Kollsvík var fremur notað bára.  B.  Hverskonar ölduhreyfing, t.d. í hljóði, ljósi, rafseguláhrifum o.fl.  T.d. hljóðbygja; útvarpsbylgja.  C.  Afmörkuð bylgju- eða tíðnirás til flutnings útvarps-, sjónvarps-, síma- eða talstöðvarsendinga.  D.  Aukinn straumur einhvers.  T.d. bylgja innflytjenda; bylgja mótmæla.

Bylgjast (s)  Liðast til í straumi; líta út eins og bylgjur.  „Hár hennar bylgjaðist langt niður á bak“.

Bylgjubrjótur (n, kk)  Bárufleygur; lekt ílát með lýsi/olíu, sem sett er í sjó til að lægja öldur kringum skip/bát.  „Lét skipstjóri þá út bylgjubrjóta.  Það voru strigahólkar með trébotni í endum; alsettir götum.  Þessir hólkar voru fylltir með hampi og í þá sett olía“  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).

Bylja (s)  A.  Skella af krafti og með hávaða.  B.  Gera hríðarbyl; ganga á með hríðarbyljum.

Bylja á (orðtak)  Skella á; heyrast á; dynja á.  „Þegar við vorum að draga síðustu mennina upp á brún var komið lemjandi slagveður, og það buldi á okkur núna“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg).  „Holskeflurnar buldu, hver á fætur annarri, á hinu ógæfusama skipi... “  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Bylja í (orðtak)  Um hljóð; taka undir í; bergmála.  „Hann sló á tunnubotninn, svo buldi hátt í“.

Byljahætt Byljasamt (l)  Um stað; hætt við sviptivindum/byljum.  „Þarna er yfirleitt skjólsælt, en getur orðið byljahætt í vissum vindáttum“.

Byljaveður (n, hk)  Veðurlag með hvössum skúra- eða snjóéljum.  „Leiðinda byljaveður fylgir stundum þessum útsynningsfjanda“.  „Hann er ansi byljóttur, en sæmilegt á milli“.

Byljóttur (l)  Hætt við byljum; gengur á með byljum/éljum/hríðum.

Bylmingshögg (n, hk)  Mikið/þungt högg; högg svo mikið að bylur í. 

Bylta (n, kvk)  Mikið/þungt fall/hras.  „Ég rak tána í nibbu og fékk slæma byltu“.

Bylta (s)  Velta; umturna; snúa við.  „Ég bylti stærstu sátunum útúr flekknum og breiddi þær þar“.

Bylting (n, kvk)  A.  Hverskonar umskipti/umbreyting; velta; viðsnúningur.  B.  Uppreisn fólks gegn valdhöfum.

Byltingamaður (n, kk)  Sá sem stendur fyrir miklum umskiptum/breytingum á einhverju sviði.

Byltingarkennt (l)  Sem líkist byltingu; sem veldur miklum breytingum.  „Þetta er byltingarkennd kenning“.

Byltingarsinnarður (l)  Hallur undir miklar breytingar; vill alger umskipti.

Byltingaskeið / Byltingatími (n, hk/kk)  Tímabil mikilla breytinga/umskipta.

Byltuhætt (l)  Hætt við byltu/falli.  „Féð er tregt til að fara út á klakann; það veit að þar er því byltuhætt“.

Bylur (n, kk)  A.  Dimmt og hvasst él.  „Það er glórulaus bylur og sér ekki útúr augum“.  B.  Mjög hvöss vindhviða; roka.  „Þú klæddur ert brynju úr köldu grjóti og keikur þú stendur þótt byljirnir þjóti..“  (EG; kvæðið Blakkurinn; Niðjatal HM/GG).  „Ekki vorum við komin langt þegar á okkur skall suðaustan bylur, sem síðan breyttist í rigningarslag“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi).   

Bylur hátt í tómri tunnu (orðatiltæki)  Notað sem líkingamál um hávaðasama en heimska manneskju.  „Um hann á vel við það fornkveðna; oft bylur hátt í tómri tunnu“.

Byr (n, kk)  Meðvindur/meðbyr; vindur sem nýtist við siglingu báts/skips.

Byrða (n, kvk)  Stór kista.  Orðið var þekkt í Kollsvík en ekki notað þar í seinni tíð.

Byrða (s)  Smíða byrði/síðu í bát; klæða eitthvað með borðum.

Byrðarauki (n, kk)  Aukaþyngsli; þungt að bera.  Sjá ekki er bagi að bandi né byrðarauki að staf.

Byrðaról (n, kvk)  Ól sem notuð var til að bera afla á land í veri.  „Byrðarólin var rúmlega faðms langur mjór kaðall, eða þrísnúið snæri, með tölu í öðrum endanum sem kölluð var hnappur, en snærislykkja á hinum sem seilarólin var þrædd á.  Venjulega voru hafðir 8-10 steinbítar í byrði, eftir stærð.  Voru menn alskinnklæddir meðan borið ar af.  Ólarendarnir voru hafðir í fyrir (að framanverðu), og tveir steinbítar í hverjum, en lykkjan í baki með hinum“  (PJ; Barðstrendingabók).

Byrði (n, kvk)   Það sem borið er; þungi til að bera.  „Hann axlaði byrði sína og hélt af stað“.

Byrði (n, hk)  Byrðingur; þil; skilrúm; fóður í fatnaði.

Byrðingsferð (n, kvk)  Sigling á byrðingi til flutninga, einkum þá átt við rekaviðarflutninga.  „Frægustu byrðingsferðir sögunnar eru ferðir Bjarna Jónssonar í Kollsvík, til Hornstranda á byrðingi sem hann smíðaði sjálfur í byrjun 18.aldar“.

Byrðingur (n, kk)  A.  Skip sem sérstaklega var útbúið til flutninga á rekaviði.  Oftast stór skip, t.d. áttæringar eða teinæringar, sem borðhækkuð voru verulega með öflugum fjölum og þétt á milli.  Farið var á almenninga á Ströndum og skipið hlaðið svo að sjó tók á hástokka.  Oft var einnig viðarfloti í eftirdragi.  Síðan var siglt og róið fyrir firði.  „Sagt er að Bjarni Jónsson, bóndi í Kollsvík (f. um 1656), hafi níu sinnum farið byrðingsferðir austur fyrir Horn.  Í síðustu ferðinni hreppti hann afar vont veður og var tilneyttur að skera frá sér viðarflotann og hleypa til skipbrots uppundir Bjarnarnúp.  Skipshöfnin bjargaðist en skipið, sem var teinæringur, brotnaði í spón og farmurinn flaut um allan sjó“  (LK; Íslenskir sjávarhættir).  B.  Síða á bát/skipi.  „Gat kom á byrðing skipsins við strandið“.  „Bylgjan óð um byrðing tróð;/ bila róður náði./  Angurmóð í austri stóð/ Ýmisblóði drifin þjóð“  (JR; Rósarímur). 

Byrgi (n, hk)  Lítil borg/stía/tóft/kró; lítið virki.  „Byrgi er nafn á grjóthlaðinni tóft við norðari enda hinna miklu Garða á Grundabökkum; neðan Lögmannslágar.  Það var gagngert hlaðið á þessum stað til að liggja þar í leyni og „skjóta á fluginu“; þ.e. skjóta máf þegar hann flýgur lágt með görunum í fæðuleit í flæðarmálinu.  Þá íþrótt iðkuðu þeir af miklum áhuga Einar og Páll á Láganúpi og bræður hans, en allur máfurinn var nýttur til matar“.  Ekkert mannvirki í Kollsvík er í dag nefnt fjárbyrgi eða fiskibyrgi, þó svo kunni að hafa verið þar áður, líkt og víða er á landinu.

Byrgja (s)  A.  Setja í byrgi, t.d. fisk eða fé.  B.  Loka fyrir; fela; hylja.  „Þokan hafði þést, og byrgði nú alveg alla landsýn“.  Sjá útibyrgja.

Byrgja augun/andlitið (orðtak)  Halda fyrir augu/andlitið; grúfa sig.  „Ég sá hana ekki gráta, en af og til byrgði hún augun, líkt og í andakt“.

Byrgja brunninn (orðtak)  Sjá of seint er að byrgja brunninn þegr barnið er dottið ofaní.

Byrgja inni (orðtak)  Hafa lokað inni í (byrgi/stekk) húsi.  „Veðrið er aðeins að skána.  Ég held það sé óþarft að byrgja féð lengur inni“.

Byrgja (einhverjum) sýn (orðtak)  Hylja eitthvað fyrir einhverjum.  „Þokan byrgði okkur sýn til norðurs“.

Byrja (s)  A.  Hefja; byrja á; hefjast handa.  „Það er best að þú klárir þetta, fyrst þú ert byrjaður“.  Sjá til að byrja með.  B.  Fá byr til að geta siglt seglskipi.  Einnig í líkingamáli um að velgengni.  „Þeim ætti að byrja bærilega í eggjunum í þessari blíðu“!

Byrja á (orðtak)  Um verk/athöfn; hefja; byrja.  „Ætli það sé ekki best að fara að byrja á þessu verki“. 

Byrja bærilega (orðtak)  Ganga vel.  „Það ætti að byrja bærilega til heyskapar á morgun; ef spáin gengur eftir“.

Byrjandi (n, kk)  Sá sem er að byrja/hefja.  „Hann er enginn byrjandi é þessum efnum“.

Byrjandabragur / Byrjendabragur (n, kk)  Nýgræðingsháttur; reynsluleysi.  „Það var dálítill byrjandabragur á honum í fyrstu, en hann vandist fljótt“.

Byrjar ballið (orðtak)  Hefst atgangurinn; verður allt vitlaust; færist fjör í leikinn.  „Þetta e enginn veltingur til sem orð er á gerandi; bíddu þangað til við komum í röstina; þá fyrst byrjar ballið“!

Byrjar hann  (orðtak/upphrópun)  Tekur hann til.  Viðhaft gjarnan af einhverjum sem þóttu yfirgengilegar raupsögur annars, eða þegar upphófst annarskonar hávaði, t.d. spangól hunds.

Byrjun (n, kvk)  Upphaf; það að byrja á.  „Þetta var þó bara byrjunin; veðrið átti eftir að versna umtalsvert“.

Byrla (s)  Brugga; hella.  Oftast t.d. í ævintýrum um að byrla einhverjum eitur, og líkingum af því.  Orðstofninn er líklega „byrðla“; þ.e. að hella einhverju í byrðu, en „ð“ fallið út með tímanum.

Byrlega (ao)  Sjá blása byrlega.

Byrsta (s)  A.  Setja burst á t.d. hús.  B.  Líkingamál; búa til brodd; hvessa; ydda. 

Byrsta báru (orðtak)  Auka sjó; sjór að verða úfinn.  „Er hann eitthvað að byrja að byrsta báru“?

Byrsta röddina / Byrsta sig (orðtak)  A.  Hækka róminn; skammast.  „En svo byrsti Árni sig og sagði:  „En ég drep þig ef þú lætur hana stoppa“!  “  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   B.  Um veður/sjólag; versna.  „Hann er eitthvað að byrja að byrsta sig.  Ætli við verðum ekki að fara að hafa uppi fljótlega“.

Byrstur (l)  Reiðilegur; höstugur; hranalegur.  „Byggðadrengur byrstur þá/ bregst við slíkri frýju;/ ræður flagðið aftur á/ afli hertur nýju“ (JR; Rósarímur).   „Sá varð nú heldur byrstur og sagði: „Fussum fei;/ ég fer víst ekki að leika mér við skvísu./  Það kemur ei til mála; nei og aftur nei;/ ég var nefnilega að horfa á hana Dísu“!“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Byssa (n, kvk)  A.  Skotvopn fyrir púðurknúin skot.  B.  Líkingamál um annað sem skotið er með, t.d. naglabyssa; vatnsbyssa; teygjubyssa.

Byssubrenndur (orðtak)  Um þann sem orðið hefur fyrir byssuskoti.  Sjá eins og byssubrenndur.

Byssufæri (n, hk)  Fjarlægð sem unnt er að skjóta á bráð úr byssu, í von um að bana henni.  „Tófan var ekki komin í byssufæri“.

Byssuhlaup (n, hk)  Rör á byssu, sem skotið er úr.

Byssuhólkur (orðtak)  Gæluorð um byssu.  „Ætli ég þurfi ekki að fara að hreinsa byssuhólkinn“.

Byssukjaftur (n, kk)  Fremra op á byssuhlaupi; framanvert á byssu. 

Byssukúla (n, kvk)  Kúla/hagl sem skotið er úr byssu.  Gjarnan úr blýi.  Ein kúla er í riffli, en mörg og smærri högl eru í haglabyssu.  Fyrrum hlóðu Kollsvíkingar sín haglaskot sjálfir.

Byssulás (n, kk)  Afhleypibúnaður í byssu.  Fjöður er spennt með því að draga upp bóg/hana; síðan er miðað og hleypt af með því að ýta á gikkinn.  Á flestum byssum er lás/öryggi, til að hindra slysaskot.

Byssuleyfi (n, hk)  Leyfi lögregluyfirvalda til að eiga og nota byssu.

Byssuóður (l)  Sem sækir mjög í að skjóta af byssu. 

Byssupúður (n, hk)  Svart púður; blanda af mjög eldfimu efni og öðru súrefnisgæfu; drifefni fyrir byssukúlur og flugelda.  Byssupúður var fundið upp í Kína stuttu áður en hér hófst landnám.  Það er búið til úr saltpétri, viðarkolum og brennisteini í hlutföllunum 15:3:2.

Byssuskefti (n, hk)  Handfang á byssu til að þægilegt sé að halda henni rétt þegar miðað er og skotið.

Byssuskot (n, hk)  A.  Skotfæri sem sett er í byssu og skotið úr.  B.  Hljóðið sem heyrist þegar skotið er.

Bytta (n, kvk)  A.  Ílát; byða; krukka.  T.d. blekbytta.  B.  Lítill flatur bátur.  C.  Stytting á fyllibytta; róni.

Bý / Býfluga (n, hk/kvk)  Hunangsfluga; samheiti á nokkrum fremur stórvöxnum flugnategundum.  Einungis ein þeirra er líkleg til að sjást í Kollsvík, en það er svonefnd móhumla (Bombus jonellus), en í þétttbýli gætu einnig sést húshumla og garðhumla.  Drottninin liggur í dvala yfir veturinn, en aðvori gerir hún s´r litið bú í holu í jörðinni; t.d. undir steini í veggjarholu.  Þar verpir hún eggjum sem úr klekjast ókynþroska þernur, sem sjá um stækkun búsins, en drottningin fæðir þær á blómasafa og frjókornum.  Á haustin klekjast úr eggjum hennar karldýr og kvendýr sem ná kynþroska og makast, þannig að ný kynslóð verður til.  Karldýrin drepast en kvendýrin leggjast í dvala yfir veturinn.  Býflugur eru háðar góðum sumarhita og þurfa að hita sig upp að morgni til að komast af stað í fæðuleit með suði sínu.  Því er líklegast að finna þær á skjólsælum, sálríkum og gróðursælum stöðum.  Samskiptakerfi býflugna er háþróað og flókið og byggir m.a. á hryfingum og dansi.  Telji þær búi sínu ógnað stinga þær með broddi sínum, en hann losnar af og þær deyja eftir atlöguna.

Býli (n, hk)  Bær þar sem búskapur fer fram, eða þar sem er lögbýli.  „Í Kollsvík voru níu býli er Guðmundur og Vilborg voru að alast upp, og þar áttu heima um sextíu manns“  (Örnefnaskrá Kollsvíkur).

Býsn (n, hk, fto)  Feikna fjöldi; undur; ósköp; kynstur; fæla; aragrúi.  „Það voru býsn af fólki á þessari ráðstefnu“.  „Hann er orðinn býsna kaldur“.  „Mikil lifandis býsn eru af flugu í garðinum núna“.  „Mikil býsn eru að vita þetta“!

Býsna / Býsnar / Býsnarlega (ao/l)  Allmjög; fremur.  „Hann er að verða býsna kaldur í tíðinni“.  „Þú stóðst þig býsnar vel í þessu fannst mér“.  „Mér finnst þetta ekki býsnarlega mikið“.

Býsnafallegt / Býsnalaglegt (l)  Mjög fallegt; all fallegt.  „Þetta er býsnafallegt málverk“!

Býsnafast (l)  Mjög/all fast; þéttingsfast.  „Varaðu þig á krabbanum; hann getur bitið býsnafast“!

Býsnaánægður / Býsnafeginn / Býsnaglaður / Býsnakátur (l)  Mjög/all ánægður/feginn/kátur.

Býsnafrost / Býsnakuldi (n, hk/kk)  Mikið frost; mjög kalt í veðri.

Býsnafróður (l)  Mjög/all fróður; veit mjög margt.  „Hann er býsnafróður um þessa hluti“.

Býsnagerðarlegur / Býsnalaglegur / Býsnamyndarlegur (l)  Mjög/all laglegur/myndarlegur.

Býsnaglöggur (l)  Mjög glöggur.  „Hann er býsnaglöggur á mörkin“.

Býsnagott (l)  Mjög gott.  „Þetta er óttaleg óvera, en það er býsnagott á bragðið“.

Býsnahált / Býsnasleipt (l)  Mjög/all hált/sleipt.  „Það er býsnahált í hjólförum í hlákunni“.

Býsnahátt (l)  Mjög/all hátt.  „Hann var kominn býsnahátt upp standinn þegar hann sneri við“.

Býsnakalt (l)  Mjög/all kalt.  „Klæddu þig almennilega; það er býsnakalt úti“!

Býsnakröftugur / Býsnaöflugur (l)  Mjög/all kröftugur/öflugur. „Þetta var býsnakröftug blanda“.  „Hann er býsnaöflugur við smalamennskur þó hann sé ekki hár í loftinu“.

Býsnalangt (l)  Mjög/all langt.  „Þetta var býsnalangt ferðalag“.

Býsnalítið (l)  Mjög lítið.  „Honum þótti býsnalítið koma í sinn hlut“.

Býsnamikill (l)  Mjög/all mikill.  „Þetta er býsnamikill afli á svona stuttum tíma“.

Býsnaminnugur (l)  Mjög/all/furðu minnugur; man all vel.  „Hún var býsnaminnug á svona hluti“.

Býsnast / Býsnast yfir (s/orðtak)  Furða sig á; undrast.  „Hann býsnaðist mikið yfir stærðinni á hvalnum“.  „Honum ferst ekki að býsnast; sjálfur er hann litlu betri“!

Býsnasterkt (l)  Mjög sterkt; all sterkt.  „Hvað ertu með á pytlunni?  Þetta er býsnasterkt“!

Býsnastór (l)  Mjög/all stór.  „Þarna kemur býsnastór máfahópur, útundir Hreggnesa“.

Býsnastraumur (n, kk)  Harður/mikill straumur.  „Það er kominn býsnastraumur og flugrek“.

Býsnatæpur (l)  Mjög tæpt; all tæpt.  „Mér þótti þræðingurinn býsnatæpur á köflum“.

Býsnavel (l)  Mjög vel; all vel.  „Mér þótti þetta býsnavel gert, af svona litlum gutta“.

Býsnaþungur (l)  Mjög/all/glettilega þungur.  „Við skulum taka tveir á steininum; hann er býsnaþungur“.

Býsnaöflugur (l)  Mjög/all öflugur.  „Hann var býsnaöflugur við dráttinn“.

Býst fastlega við (orðtak)  Reikna ákveðið með; vænti þess mjög.  „Ég býst fastlega við að róa á morgun“.

Býti (n, hk)  A.  Skipti; býtti.  Sjá bera (lítið/mikið) úr býtum.  B.  Árla/snemma dags.  „Við gerum ráð fyrir að róa í býtið“.  Tökuörð úr dönsku; „betids“.

Býtta (s)  Skipta; eiga skipti.  „Við býttuðum á stígvélum, til að hann blotnaði ekki við að komast í bátinn“.  „Þegar faðir minn var 15 ára dó afi minn. Sólveig undi þá ekki hag sínum á Brekku og býttaði jörðinni fyrir Hnjót í Örlygshöfn og flutti þangað búferlum“  (JVJ; Nokkrir æviþættir). 

Býtta verkum (orðtak)  Hafa verkabýtti; víxla viðfangsefnum milli tveggja manna..  „Ég held það væri hvíld að því fyrir báða að við býttuðum verkum öðru hvoru“.

Býtti (n, hk, fto)  Skipti; viðskipti.  „Mér þótti ég heldur hlunnfarinn eftir þessi býtti“.

Bæði (samt.)  Að stofni lýsingarorðið báðir, en iðulega notað sem samtenging.  „Þetta var bæði erfitt og kaldsamt verk“.

Bægja (s)  Sveigja af stefnu; beygja.  „Það þarf endilega að bægja fénu úr slægjunni“.  „Látraröstin bægir öllum ís lengst út á haf sem slæðist suðurmeð Vestfjörðum“.

Bægja (einhverju) frá (orðtak)  Halda/sveigja einhverju frá; afstýra.  „Ég ætla að fara fram á Mýrar og reyna að bægja fénu frá dýjunum“.

Bægni (n, kvk)  Afskiptasemi; ömun; stríðni.  Sjá meinbægni, sem oftar var notað.  Stofnskylt buga; beygja.

Bægslagangur (n, kk)  Fyrirgangur; brussugangur; læti.  „Bölvaður bægslagangur er þetta í ykkur krakkar“.

Bægslast (s)  Gera með fyrigangi/látum; gera læti/hávaða; basla; bisa.  „Því eruð þið að bæglsast með heimalingsræfilinn inn í eldhús“? 

Bægsli (n, hk)  Framlimur á hval/hákarli.

Bægslislykkja (n, kvk)  Stykki sem skorið er af hákarli við bægslið.

Bæjaflakk / Bæjaráp / Bæjasnatt (n, hk)  Heimsóknir á bæi, stundum með litlum tilgangi.  „En nú verð ég að hætta þessu bæjaflakki og labba heim að Lambavatni...“ (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Bæjarbóndi / Bæjarhyski / Bæjarhöfðingi / Bæjarslekti / Bæjarveldi (n, kk/hk)  Heiti sem höfð hafa verið um höfðingja þá sem setið hafa í Saurbæ á Rauðasandi og þeirra fjölskyldur.  Í Saurbæ hafa löngum setið höfðingjar og stóreignafólk sem átti flestöll býli í Rauðasandshreppi og víðar.  Þó erfitt sé fyrir nútímafólk að dæma liðna tíma, má ætla að oft hafi verið um hreina kúgun að ræða.  Um það vitna t.d. sögur og heiti sem enn lifa. 

Bæjarbragur (n, kk)  Yfirbragð/mannlíf á heimili/bæ.  „Þar fannst mér alltaf viðfelldinn bæjarbragur“.  Hefur nú að mestu verið yfirfært á yfirbragð þéttbýlisstaðs.

Bæjarbruni (n, kk)  Húsbruni.  Einkum átt við bruna sambyggðra húsa á býli, líkt og fyrrum tíðkuðust.

Bæjarburst (n, kvk)  Burst á bóndabæ/húsi.  „Hrafninn settist á bæjarburstina og krinkaði ákaft“.

Bæjarbúi (n, kk)  Sá sem býr í Reykjavík eða annarri borg.

Bæjardyr (n, kvk)  Húsdyr; aðaldyr á bæ.  „Hún stóð í bæjardyrum og bauð okkur að koma innfyrir“.

Bæjareign (n, kvk)  Eign Saurbæjar á Rauðasandi.  „Láganúpur tilheyrði bæjareignum frá því að Guðmundur ríki Arason sölsaði jörðina undir sig í byrjun 15.aldar“.  Er nú á tímum notað um eign bæjarfélags.

Bæjarfógeti (n, kk)  Lögregluyfirvald í þéttbýli.

Bæjarfulltrúi (n, kk)  Kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn/bæjarstjórn þéttbýlisstaðar.

Bæjarhella (n, kvk)  Stór hella sem venja var að hafa í bæjardyrum, þar sem mestur var ágangur fólks. 

Bæjarhlað (n, hk)  Í seinni tíð notað um svæðið framanvið bæjardyrnar.  Orðstofninn er sagnorðið hlaða, sem bendir til að fyrrum hafi bæjarhlað átt við hlaðinn kamp/vegg við bæjardyr.

Bæjarhóll (n, kk)  Hóll sem bær stendur á.  Bæjum er yfirleitt valinn staður þar sem land liggur hærra en umhverfið, til að forða frá vatni og snjósöfnun.  Með endurtekinni uppbyggingu sama bæjar á sama stað hækkuðu bæjarhólarnir, og víða má sjá myndarlega bæjarhóla frá fyrri tíð þó nýrri bær hafi síðar verið byggður annarsstaðar.  Þannig er myndarlegur bæjarhóll ofan núverandi íbúðarhúss í Kollsvík, en á honum hefur líklega verið byggð frá landnámstíð.  Sömuleiðis er reisulegur bæjarhóll uppundir Hjöllum, nokkru ofar núverandi íbúðarhúss á Láganúpi.  Á Grundum stóð byggð mun skemur og þar sér lítt fyrir bæjarhól undir tóftunum.  Enn skemur varði byggð á Hólum og öðrum hjáleigum.

Bæjarhús (n, hk)  Hús sem tilheyrir húsasamstæðu á bæ.  Fyrrum voru íbúðarhús gjarnan sambyggð útihúsum.

Bæjarleið (n, kvk)  A.  Leið/vegalengd milli bæja.  „Það kemur fyrir að maður þarf að bregða sér bæjarleið“.  B.  Til forna var bæjarleið ákveðin vegalengd; samsvaraði 6 tólfræðum hundruðum faðma; 6x120x1,95 m, eða um 1,4 km. 

Bæjarlækur (n, kk)  Lækur sem rennur stutt frá bæ.  „Ingvar virkjaði bæjarlækinn í Kollsvík“.

Bæjarnafn (n, hk)  Nafn bæjar.  „Ýmsar líkur benda til þess að býlið Kollsvík hafi í byrjun borið bæjarnafnið Kirkjuból, en svo er það ritað í elstu heimildum.  Eins benda margar líkur til að það nafn hafi það fengið þegar á landnámsöld, þegar Kollur landnámsmaður og trúboði reisti þar fyrstu kirkju landsins“.

Bæjarveggur (n, kk)  Veggur bæjar.  „Vel sést móta fyrir bæjarveggjum á Hólum“.

Bæjarverk (n, hk, fto)  Heimilishald og bústörf.   „Magðalena Össurardóttir var 3 vor í Verinu og kvaðst heldur vilja gera það en vinna bæjarverkin... “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Bækistöð (n, kvk)  Verustaður; staður þar sem maður hefur komið sér fyrir, án þess að þar sé heimili manns.  „Vegageraðarmenn höfðu bækistöð um tíma í félagsheimilinu“.  Talið dregið af „beyki“; bækistöð hafi upprunalega verið staður í skóglendi þar sem menn komu sér upp bráðabirgðahúsum úr tré/beyki.

Bæklaður (l)  Bagaður; aflagðaður; vanskapaður; örkumla; lamaður.  „Er lambið eitthvað bæklað á fæti“?

Bæklingur (n, kk)  Lítil bók.  Nútildags haft um þunn auglýsingablöð o.þ.u.l.

Bæla (s)  A.  Koma einhverju í ból; svæfa; leggja.  Sjá bæla fé.  B.  Leggja/þvinga niður.  „Við gengum fram skurðbakkann til að bæla ekki grasið á sléttunni“.  „Uppreisnin var bæld niður“.  „Ég átti fullt í fangi með að bæla niður í mér hláturinn“.

Bæla fé (orðtak)  Fá fé til að leggjast með því að standa yfir því og ganga í kringum það.  „Hæst uppi á túni... eru bæli.  Þar mun fé hafa verið bælt á nóttunni í fyrri tíð“ (HlH; Örn.skrá Keflavíkur).

Bæla sig niður (orðtak)  Fela sig; láta lítið fara fyrir sér; lúta niður.  „Við skulum bæla okkur niður svo tófan taki ekki eftir okkur“.

Bæli (n, hk)  Ból; rúm; flet; svefnstaður.  „Ætli maður fari ekki óðara að draga sig í bælið“.

Bæn (n, kvk)  A.  Bón; það sem beðið er um.  B.  Trúarlegur formáli; tilbeiðsla til guðs. 

Bæna sig (orðtak)  Fara með bæn.  „Vermenn bændu sig alltaf áður en farið var í róður“.  Sjá sjóferðabæn.

Bænadagar (n, kk, fto)  A.  Almennt merkir orðið bænadagur þann dag sem beðið er fyrir því sem tiltekið er.  Er það t.d. stytting á heitinu kóngsbænadagur (sjá þar).  B.  Lægri helgar; Skírdagur og Föstudagurinn langi.   

Bænagerð / Bænagjörð (n, kvk)  Það að biðjast fyrir/ gera bæn sína. 

Bænakver (n, hk)  Lítil bók með bænum.  „Síðan var alltaf lesinn húslestur; sunginn sálmur og lesin bæn úr bænakveri Péturs biskups“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM).  

Bænaraugu (n, hk, fto)  Biðjandi augnaráð.  „Hundurinn horfði á hann bænaraugum meðan hann át nestið“.

Bænaskrá (n, kvk)  Skrifleg beiðni til Danakonungs, undirrituð af fjölda manns; undirskriftalisti.  Bænaskrár urðu nokkuð algengar eftir að einveldi konungs komst á um 1662; um hin og þessi mál sem menn menn vildu að konungur beitti sér í.

Bændakirkja (n, kvk)  Kirkja sem er í eigu bónda/höfðingja sem leggur henni til land, smíðavið, viðhald og oft einnig prestþjónustu.  Líkast til voru allar fyrstu kirkjur landsins bændakirkjur, að undanskilinni Þingvallakirkju.  Hafi Kollur reist kirkju í Kollsvík hefur hún eflaust verið bændakirkja.  Þegar tíund var lögtekin 1066 fengu kirkjur fjórðung hennar.  Í staðamálum fyrri (1179) og síðari (1269-1297) náði kirkjuvaldið yfirráðum yfir fjölda bændakirkna.  Þó síst þeim sem bóndi átti að helmingi eða meiru, og voru margar kirkjur á Vestfjörðum því áfram bændakirkjur; s.s. Saurbæjarkirkja.  Á ýmsu gekk milli bænda og kirkjuvalds um veitingu prestsembætta en æ meira sótti í það far að biskup réði í þeim efnum; þar til á 17.öld, að söfnuðir fóru að kjósa sér prest.  Um 1700 voru bændakirkjur 103 að tölu, en á 19. og 20.öld voru þær flestar afhentar viðkomandi söfnuðum til eignar og umsjónar.

Bændasamfélag / Bndaþjóðfélag (n, hk)  Síðari tíma heiti sem oft er notað til að lýsa þjóðlífi á landinu fyrir daga vélvæðingar og þéttbýlismyndunar.  Bændasamfélög eru vissulega enn til á landinu, en í mjög breyttri mynd.

Bænheyra (s)  Meðtaka og uppfylla bæn/bón.  „Ekki verðum við bænheyrðir með sjóveður í dag“!

Bænhús (n, hk)  Lítil kapella í kaþólskum sið, gjarnan á fjölmennri jörð sem átti langa kirkjusókn.  Í bænhúsum var ekki messað reglulega, eins og í kirkjum.  Bænhús voru á nokkrum stöðum í Rauðasandshreppi:  Breiðuvík, Hvallátrum, Melanesi, Vesturbotni og Hvalskeri, og voru þau líklega byggð öðrum þræði sem nokkurskonar stöðutákn velmegandi bænda.  Í Kollsvík var hálfkirkja (sjá þar), en það voru heldur veglegri guðshús.  Þar var leyfðar jarðarfarir, sem ekki tíðkuðust í bænhúsum.  Bænhús voru aflögð í kjölfar siðaskiptanna.  Elsta bænhús sem enn er varðveitt er á Núpsstað í V-Skaftafellsýslu, en byggingin er að stofni til frá 1657.  Það er því með elstu húsum landsins, en hið elsta er Hesthúsið á Hólum í Kollsvík; talið byggt 1650. 

Bændur og búalið (orðtak)  Hugtak sem nær yfir alla íbúa bóndabæja; bændur, húsfreyjur, vinnufólk og annað heimilisfólk.

Bælningur (n, kk)  Mjög litlar öldur.  (JT Kollsvík; LK; Ísl.sjávarhættir III). 

Bær (n, kk)  A.  Hús sem manneskja hefur búsetu í; hýbýli manna.  Dæmigerður íslenskur bær hefur tekið allmiklum breytingum gegnum Íslandssöguna.  Landnámsmenn byggðu sér stóra háreista skála með byggingarlagi sem hentaði í upprunalöndum þeirra, þar sem gnægð var af byggingatimbri og eldiviði.  Þannig var líklega skáli Kolls uppundir Núpnum.  Skálinn var helsta íveruhús heimilismanna, með langeldi til að halda hita, en kringum hann hafa staðið t.d. búr, salerni og eldhús í sérstæðum byggingum; auk skepnuhúsa.  Þegar skerðast fór um byggingarefni og eldivið breyttist húsagerðin; hús urðu lágreistari og þjöppuðust í húsasamstæðu.  Á 11.öld urðu aðalhúsin þessi; skáli, eldaskáli, stofa og búr (t.d. Stöng í Þjórsárdal).  Á 14.öld viku skálabæir fyrir gangabæjum, þar sem húsasamstæðan einkenndist af göngum í gegnum samstæðuna (t.d. Gröf í Öræfum).  Afbrigði gangabæjarins kom fram á 18.öld; burstabærinn, þar sem gaflar sneru fram á hlað með samræmdu lagi.  Þessir bæir af torfi og grjóti viku svo smám saman fyrir timbur- og steinsteypuhúsum, og varð sú breyting í Rauðasandshreppi á fyrri helmingi 20.aldar; sumsstaðar með millistigum s.s. einum eða fleirum steinhlöðnum veggjum og tyrfðu bárujárnsþaki.  B.  Annað heiti á stórum þéttbýlisstað, t.d. Akureyrarbær.

Bær (l)  Sem getur borið; berandi.  „Tjónið var metið af til þess bærum mönnum“.

Bæra (s)  Hreyfa.  „Lognið var slíkt að ekki bærðist hár á höfði“.

Bæra á sér (orðtak)  Hreyfast; rumska.  „Tófan lá eins og dauð og bærði ekki á sér“.

Bærilega (ao)  Vel; sæmilega; viðunandi.  „Okkur gekk bærilega í ferðinni“.  „Heldurðu ekki að hann leggi sig bærilega, svona að minnsta kosti með þrjátíu og fimm punda skrokk“?   (PG; Veðmálið). 

Bærilegur (l)  Þokkalegur; sæmilegur.  „Það er búin að vera bærileg heyskapartíð“.

Bærlingur (n, kk)  Lítilsháttar sjór.  Heimild; Ívar Ívarsson, Kirkjuhvammi (MG; Látrabjarg)  Einnig; (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  Annarsstaðar þekktist orðið „bælningur“ í sömu merkingu.

Bæs (n, hk)  Lituð olía/sýra sem borin er á við til að verja hann og lita.

Bæsa (s)  Bera bæs á við.

Bæta (s)  A.  Gera betri; setja/vinna bót á.  „Lengi má bæta þetta eitthvað“.  B.  Setja bót á; gera við.  „Geturðu bætt stígvélið fyrir mig“? 

Bæta á (orðtak)  A. Almennt um að bæta við.  „Það er nú varla á þetta bætandi“.  B.  Bæta votheyi ofaná í votheysgryfju.  Þegar vothey er fyrst sett í gryfju er hún fyllt.  Yfir fyrsta sólarhringinn hitnar í því; það linast og sígur.  Til að nýta gryfjuplássið, og til að hitinn „hlaupi ekki uppúr“ er bætt nýslegnu heyi ofaná.  Það er endurtekið með 1-2 sólarhringa millibili þar til sigið hættir; þá er heyið fergt eða innsiglað með plasti.  „Það þyrfti að bæta á gryfjurnar á Melnum í dag“.  C.  Auka við snjó sem fallið hefur.  „Enn bætir hann á“.

Bæta (utan) á sig (orðtak)  Fitna; þyngjast.  „Fjandi hefurðu bætt á þig siðan við hittumst síðast“!

Bæta gráu ofaná svart (orðtak)  Gera illt verra.  „Þetta myndi bara bæta gráu ofaná svart“.

Bæta í (orðtak)  A.  Auka við.  Of notað um það að stigmagna t.d. söguburð eða frásögn.  „Heldur hefur hann bætt í, frá því ég heyrði söguna upphaflega“.  B.  Um veður; herða; ganga upp; auka.  Ýmist sérstætt eða með andlagi.  „Ekki er hann mikið að lægja; þvert á móti finnst mér hann heldur vera að bæta í“.  „Hann hefur heldur bætt í rigninguna“.

Bæta í vind (orðtak)  Vinda; auka vind.  „Við skulum fara að drífa okkur í land áður en hann bætir meira í vind“.

Bæta ráð sitt (orðtak)  Sýna betri hegðun/vinnulag/framkomu; verða betri.  „Hann hefur bætt ráð sitt eftir þessa uppákomu, og gætir sín betur á þessu“.

Bæta sér í brjósti (orðtak)  Fá sér sopa af víni; verða dálítið kenndur; finna á sér.  „Nú held ég að sé fullt tilefni til að bæta sér örlítið í brjósti; fyrst þetta tókst svona skratti vel“!  Sjá brjóstbirta; brjóstbæta sér; brjóst.

Bæta sér í munni (orðtak)  Fá sér gott að borða; gera sér dagamun í mat/fæði.  „Í nokkrum verstöðvum gátu menn bætt sér í munni með eggjum eftir að varptíð byrjaði....  “  (LK; Ísl.sjávarhættir II; heim; ÓETh). 

Bæta (ekki/lítið) úr skák (orðtak)  Vera til bóta; bæta.  „Ég var forblautur upp á mitti þegar ég skreiddist upp á bakkann, og ekki bætti úr skák að ég hafði tapað öðru stígvélinu í dýinu“.

Bæta (ekki/lítið)  um / Bæta um betur (orðtak)  Bæta við; auka; lagfæra.  „Hér þarf greinilega eitthvað að bæta um“.  „Þú verður að bæta um betur ef þú vilt ná þessum slag“!  „Mér þótti grábölvað að missa kindurnar, og ekki bætti tuðið í karlinum um“. 

Bæta upp (orðtak)  Koma í staðinn; bæta missi; bæta við.  „Þetta er bara allsæmilegur afli; hann bætir upp ördeyðuna í gær“.  „Eins og skýrslan ber með sér vantar suma til muna fóður, og munu þeir reyna að bæta það upp með aðkeyptu fóðri“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1924). 

Bæta uppá (orðtak)  Bæta krókum á línu, eftir að þeir hafa farið af.  „Hér þarf að bæta tveimur uppá“.

Bæta úr (orðtak)  Laga; leiðrétta; gera ástand betra.  „Þetta bætir dálítið úr, en dugir þó ekki“. 

Bæta (ekki/lítið) úr skák (orðtak)  Lagar (ekki/lítið) ástandið; er (ekki/lítið) til bóta.  „Ég var orðinn holdvotur, og ekki bætti úr skák að annað stígvélið var míglekt“. Vísun í manntafl.

Bæta við (orðtak)  Auka; gera/láta/segja í viðbót.  „Gummi hafði þegar sett fram hluta af skilmálunum og bætti nú við:  „Ég er tilbúinn að standa við það sem ég sagði áðan, en hafi ég rétt fyrir mér fæ ég skrokkinn af þínu lambi““  (PG; Veðmálið). 

Bætanlegt (l)  Unnt að bæta úr/lagfæra/bæta fyrir.  „Þessi skaði er allur bætanlegur“.

Bætifláki (n, kk)  Nú eingöngu notað í orðtakinu að bera í bætifláka fyrir einhverjum/einhvern (sjá þar).  Málfræðingar hafa ekki treyst sér til að skýra orðið, en það er einnig til t.d. í færeysku máli.  Hafa menn helst staðnæmst við land sem er verið að bæta/rækta til slægna eða til að stöðva uppblástur.  Víst er að t.d. í Kollsvík var það til siðs meðan gert var út, að bera allt rask/slóg á tún; það sem ekki var nýtt til manneldis eða skepnufóðurs.  Þannig komst svo góð rækt t.d. í Grundatún, Hólatún, Láganúpstún og Kollsvíkurtún, að þau spretta enn; öldum síðar, líkt og séu fulláborin með tilbúnum áburði.  Þar hafa því vermenn borið mjög í bætifláka fyrir bændur.  Nú vinna jarðeigendur í Kollsvík að því að slá sinu af sömu túnum til að bera í bætifláka sem eru að blása upp t.d. á Litlufit.  Þar er borið í bætifláka fyrir framtíðarkynslóðir.

Bættur (sé/veri) skaðinn / Bættur sé þá skaðinn / Það er þá bættur skaðinn (orðtak)  Í góðu lagi; farið hefur fé betra.  „Það er nú bættur skaðinn þó stjórnin falli“!  „Eru trjáplönturnar dauðar?  Bættur sé þá skaðinn; hér á ekki að spilla landslagi með trjám“!

Böðlast (s)  Glíma við; vinna með erfiðismunum/ óvönduðum aðferðum; fara illa með; láta illa.  „Hættiði nú að böðlast uppi á kofanum strákar“!

Böðlast á (orðtak)  Níðast á; fara illa með.  „Vertu nú ekki að böðlast svona á traktornum“!

Böðlast áfram (orðtak)  Ryðjast áfram; ryðja sér braut; brauðhófast.  „Það þýðir ekkert að böðlast lengur áfram í þessari ófærð.  Við verðum bara að bíða eftir mokstri“.

Böðulgangur / Böðulsháttur (n, kk)  Ribbaldaháttur; jarvöðulsháttur; fyrirgangur; það að ganga illa um og eyðileggja það sem í vegi er.  „Hvaða andskotans böðulgangur er í þér; reyndu bara að haga þér skikkanlega“!

Böðull (n, kk)  A.  Sá sem tekur fólk af lífi án persónulegra illinda, t.d. eftir líflátsdóm; sá sem framkvæmir þunga líkamlega refsingu.  B.  Líkingamál; sá sem fer illa með muni; t.d. skóböðull; verkfæraböðull.

Böðun (n, kvk)  Það að baða/ setja í bað/ fara í bað.  „Böðun sauðfjár var samviskusamlega stunduð í Rauðasandshreppi, áður en inngjafarlyf leystu hana af hólmi.  Á hverjum bæ var baðþró; oftast steypt fremst í fjárhúsjötu“.

Böðunarstjóri (n, kk)  Trúnaðarmaður hreppsyfirvalda sem stjórnar því að rétt sé staðið að sauðfjárböðun.  Fyrra starfsheiti var kláðaskoðunarmaður.  Sjá baðstjórn.

Böggla (s)  Brjóta/kuðla/hnoða saman; beygla; kilpa.  „Pósturinn hafði sérstaka skjalatösku fyrir sendibréf og skjöl, til að þau böggluðust ekki innanum dagblöðin í póstpokanum“.  „Hann var með sjóriðu þegar hann kom í land, strákgreyið; svo fæturnir böggluðust dálítið undir honum þegar hann gekk“.

Bögglasala (n, kvk)  Sala á smámunum í ómerktum bögglum í fjáröflunarskyni; bögglauppboð.  „Tvisvar hefir fjelagið (Vestri) selt bögla; öðru sinni fyrir sig sjálft, en hitt skiftið til ágóða fyrir Íþróttaskólann í Reykjavík“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Bögglingslega (ao)  Klaufalega; óhönduglega.  „Skelfing ferðu bögglingslega að þessu“!

Bögglingalegur (l)  Kaufalegur; óhönduglegur.  „Þetta finnst mér fremur bögglingslegur frágangur“!

Bögglingur (n, kk)  Erfiðismunir; troðsla; þvingun.  „Það var dálítill bögglingur að koma fénu í réttina“.

Böggull (n, kk)  Pinkill; pakki; byrði.  „Spenningurinn var mikill hjá okkur strákunum, þegar pósturinn tíndi hvern jólaböggulinn eftir annan uppúr pokanum“.

Böggull fylgir skammrifi / Oft fylgir böggull skammrifi (orðatiltæki)  Um það þegar hængur er á kosti; engin er rós án þyrna; skyldur fylgja ávinningi; gallar fylgja hlunnindum; kvöð fylgir hnossi o.fl.  Bókstafleg merking vísar til þess hvernig ketskrokkur er hlutaður sundur.  Skammrif nefnast fremstu og stystu rifin í brjóstkassanum.  Þegar hlutað var í sundur með gamla laginu var fyrst tekinn magáll; heil beinlaus kringla af kviðnum.  Síðan var skrokkurinn sagaður þvert í sundur, þannig að 2-4 rif fylgdu afturhlutanum/krofinu.  Bógar voru þvínæst teknir frá framhlutanum og bringukollur einnig.  Það sem þá var eftir var háls og skammrif/skammrifsbrók.  Þegar bógar voru teknir af vildi stundum verða nokkur ketbiti eftir við skammrifið; aftan herðablaðsins.  Þetta er sá böggull sem oft fylgir skammrifi.  Önnur upprunaskýring er sú að upprunalega hafi orðtakið „böggull fylgir hverju skammrifi“.  Það hafi einnig vísað til hlutunar ketskrokks:  Ekki sé unnt að fá bara skammrifið, heldur fylgi bógurinn allur.

Bögubósi (n, kk)  Sá sem afbakar orð/ kemst klaufalega að orði.  „Skelfilegur bögubósi er nú maðurinn“. Sjá bósi; kvennabósi.

Bögulega (ao)  Klaufalega; ankanalega.  „Ósköp ferðu nú bögulega að þessu“!

Bögulegur (l)  Klaufalegur; (um ritsmíð/kveðskap:) illa orðað/kveðið.  „Mikið er þetta bögulegur kveðskapur“!

Bögumæli (n, hk)  Rassbaga; orðskrípi; ófullkomið, rangt eða óviðeigandi orð.  „Það gæti ært óstöðugan að ætla að leiðrétta öll þau bögumæli sem viðhöfð eru dagsdaglega af fjölmiðlum þessa lands“.

Bögumæltur (l)  Hættir til að viðhafa bögumæli/rassbögur.  „Sumir eru svo bögumæltir að þeir eru vart talandi“.

Böksulega (ao)  Böslulega; klaufalega; illa.  „Óttalega gengur þér böksulega að reima skóna þína drengur“.

Bökunar-   Forskeyti fyrir eitt og annað sem viðkemur bakstri; t.d. bökunardropar; bökunarvörur.

Böl (n, kvk)  Óhamingja; mótdrægni; gæfuleysi; ólán. 

Bölbænir (n, kvk, fto)  Blótsyrði; heitingar.  „Það stoða víst lítið bölbænir; þessi lúða sést ekki meir“!

Bölbænasöngur (n, kk)  Miklar bölbænir.  „Mér leiðist þessi eilífi bölbænasöngur!  Viltu ekki heldur fara bara og lumbra ærlega á honum“?!

Bölmóður (n, kk)  Svartsýni; víl; hugarangur.  „Ég hef ekki nennt að eyða ævinni um of í bölmóð og vol“.

Bölmóðshjal / Bölmóðsvol (n, hk)  Svartagallsraus; vonleysishjal.  „Það gagnast ekkert bölmóðsvol núna; við verðum bara að hreinsa þessar netadulur og koma þeim aftur í sjóinn“!

Bölmóður (n, kk)  Vonleysi; þunglyndi.  „Skelfilega er ergilegt að heyra þennan sífellda bölmóð“.  „Byggðin færist böls í móð,/ bændur stefnu halda./  Telja flestir tröllastóð/ tjóni þessu valda“  (JR; Rósarímur).

Bölsótast (s)  Blóta; fjargviðrast.  „Það þýðir lítið að bölsótast yfir þessu; það bætir ekkert“.

Bölsýni (n, kvk)  Vonleysi; svartsýni; bölmóður.

Bölsýnismaður (n, kk)  Sá sem bölsýnn; úrtölumaður.

Bölsýnn (l)  Svartsýnn; vondaufur.  „Vertu ekki svona bölsýnn; þetta bjargast alltsaman“!

Bölv (n, hk)  Blótsyrði; formælingar.  „Vel mátti heyra bölvið í tudda norðan úr girðingunni“.

Bölv og ragn (orðtak)  Formælingar; ljótur/ófagur munnsöfnuður.

Bölva (s)  Blóta; formæla.  „Ég held að Kollsvíkingar hafi andskotann ekkert bölvað meira en aðrir“.

Bölva/blóta einhverjum niðurfyrir allar hellur (orðtak)  Heitast við einhvern.  „Ég bölvaði þeim niðurfyrir allar hellur fyrir að missa féð heim hlíðina“.

Bölva (einhverju / einhverjum) í sand og ösku (orðtak)  Formæla /blóta einhverju; mikið.  „Ég bölvaði því í sand og ösku að vera ekki með vasahnífinn“.  Vísar líklega til hugmynda manna um aðstæður í Helvíti.

Bölva og sanka/ragna (orðtak)  Blóta mikið; tala ljótt.  „Útvíknamenn tóku oft sterkt til orða og notuðu ýmis áhersluorð en ég held, fjandakornið, að þeir hafi ekki bölvað og ragnað í hverri setningu“!  „Hann gafst loks upp á að greiða netahnútinn og rölti heim á leið, bölvandi og sankandi“.

Bölva/sveia sér uppá / Hengja sig uppá (orðtak)  Leggja heitingar við að satt/rétt sé.   „Þú getur bölvað þér uppá það að hann verður farinn að rigna eftir stuttan tíma, þó nú sé sólarglenna; hafðu mín orð fyrir því“  „Þú mátt hengja þig uppá að hann er löngu búinn að gleyma þessu“.

Bölvaður (l)  Bannsettur; fjárans; fjandans.  „Ég kann ekki við þessar bölvaðar rassbögur“!

Bölvað og snúið (orðtak)  Erfitt að eiga við; erfitt í framkvæmd.  „Fjári hefur hann sett niður af snjó í nótt.  Það gæti orðið bölvað og snúið að komast um traðirnar á Fjörunum í dag“.

Bölvandi og ragnandi (orðtak)  Með blótsyrði á vör; segjandi ljótt.  „Hann var bölvandi og ragnandi yfir þessum andskotans landkröbbum sem kynnu ekki að leggja net“.

Bölvanlega (l)  Skelfilega; illa.  „Mér líður bölvanlega í bakinu eftir kartöfluupptökuna“.

Bölvanlega settur (orðtak)  Í slæmri stöðu; illa settur.  „Ég er bölvanlega settur ef smalarnir liggja báðir í pest“!

Bölvuð sú lygin sem það er (orðtak)  Það er alveg satt.  „... og bölvuð sú lygin sem það er... að ég sá fjallsbrúnina hinumegin við fjördinn undir kviðinn á því (sæskrýmslinu); og það í sjóinn“  (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn Guðmundar Jónssonar).

Bölvun (n, kvk)  Óhamingja; ógæfa; ólán; álög.  „Ég er farinn að halda að einhver bölvun hvíli á þessum bletti“!

Böndin berast að (einhverjum) (orðtak)  Einhver liggur undir grun um eitthvað athæfi; líkur benda til einhvers.  „Ekkert var sannað um uppruna sögunnar, en böndin þóttu helst berast að nágrannanum“.  Vísar e.t.v. til snöru sem glæpamaður var fyrrum hengdur í, eða fjötra sem hann var lagður í.

Bönnvað (l)  Bölvað; slæmt; bennvað.  Vægt blótsyrði.  „Bönnvuð þurrkleysa er þetta dag eftir dag“.  „Þetta er alveg bönnvað“.  Oft notað með orðinu „ekkisen“. „Bönnvuð ekkisen vitleysa er nú í þér“. 

Börkur (n, kk)  Ysta lag á trástofni/trjágrein/ávexti.  „Viltu hýða börkinn af appelsínunni fyrir mig“.

Börur (n, kvk, fto)  Áhald til að bera.  T.d. hjólbörur; sjúkrabörur.

Bösl (n, hk, fto)  Líklega notað eingöngu um skinnklæði fyrrum, en í seinni tíð algengt yfir föt; einkanlega óhreint tau.  „Farðu nú úr þessum skítugu böslum krakki, svo ég getið þvegið af þér“.

Böslulega (l)  Erfiðlega.  „Það gengur dálítið böslulega að ná gemlingunum í hús“.

Böslulegur (l)  Óhönduglegur; klaufalegur.  „Skelfing ertu nú böslulegur við þetta“!

Bötun (n, kvk)  Breyting til batnaðar; bætt ástand; bati.  „Það er hætt við að ýmsir verði tæpir með hey ef engin bötun verður á næstunni“.  „Þetta horfir frekar til bötunar“.

Leita