Abbast uppá (orðtak)  Skipta sér af; stríða; baga. „Verið þið nú ekki að abbast uppá karlgreyið“.

Absalút (l)  Algjörlega; fortakslaust.  „Absalút ekki“.  „Það verður absalút að taka kartöflurnar inn fyrir frostið“.

Adam var ekki lengi í Paradís (orðatiltæki)  Viðhaft um það þegar eitthvað varir stutt/ skemur en til stóð.  Vísar til frásagna biblíunnar af skammtímabúskap Adams og Evu á þessari guðshjáleigu.

Adamsklæði (n, hk, fto)  Fataleysi; nekt.  „Henni brá þegar hann kom fram af baðinu á adamsklæðunum.

(ao)  Úrskeiðis; aflaga; til meins.  „Ég sá strax á göngulagi hans að eitthvað var að“.  Hvað er að stubbur“?

(nh/ao/st/fs/fn)  Margvísleg notkun.  „Hann er að fara“.  „Ætlarðu að gera þetta“?  „Ég held (að) hann sé nú eitthvað að lægja“.  „Hann sagði hann myndi róa næsta morgun ef veðrið væri skaplegt“.  „Ég kom norðanmegin að fénu; hann kom að sunnan“.  „Hann er að“!  „Hann var gerður að réttarstjóra“.  „Það er betra að gera þetta að degi til“.  „Hann er nú ekki bóndi nema að nafninu til“.  „Þetta gerðist öllum að óvörum“.  „Að eigin sögn gerði hann þetta hjálparlaust“.  „Þarna í dalbotninum var alveg fjárlaust, að því er mér sýndist“.  „Hann gerði þetta óviljandi, greyið að tarna“.  „Mér geðjaðist miður vel að honum“.  „Hvað varð honum að aldurtila“?  „Er langt síðan hann fór heiman að“?  O.fl.

-að (ending áttalýsinga)  Í Kollsvík tíðkuðust áttalýsingar sem sumum finnast framandi, og er þetta ein þeirra.  Sá sem var að kemur af Láganúpi til Kollsvíkurbæjarins kemur handanað.  Sá sem stefnir í öfuga átt kemur norðanað.  Sá sem kemur út yfir Hænuvíkurháls til Kollsvíkur kemur innanað, en sá sem kemur úr Breiðuvík kemur utanað.  Sá sem kemur af Mýrum eða Sandslágarkjafti  heim að Láganúpi kemur framanað.

Að afloknu (orðtak)  Þegar búið var; eftirá.   „Er því líklegt að það hafi verið að afloknu hádegi“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Að auki (orðtak)  Í viðbót/tilbót; í ofanálag; aukalega.  „Að auki náði ég þarna tveimur útigangskindum“.

Að áliðnum degi (orðtak)  Seint á degi; undir kvöld.  „Að áliðnum degi hafði ekkert fundist“  (MG; Látrabjarg).

Að ári (orðtak)  Eftir eitt ár; að einu ári liðnu.  „Öndin kom aftur að ári, og verpti á sama stað“.

Að bera/sjá í / Að bera við (orðtök)  Í sjónlínu við.  „Sérðu ekki svörtu kindina þarna; að bera í háa hjallann“?  „Þarna er dýpri baujan; að bera við Kópstána“!

Að bestu manna yfirsýn (orðtak)  Samkvæmt því sem skynsamir menn segja/álíta.

Að bragði (orðtak)  Að vörmu spori; um hæl/leið; strax.  „Ég knúði þar nú dyra og komst þar óðar inn,/ erindi mitt faktornum ég sagði./  „Því er nú verr og miður, ég verð ei bóndi þinn“./  „Hvað veldur því“? ég segi nú að bragði“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).   

Að burðum (orðtak)  Hvað afl/krafta varðar.  „Hann var heljarmenni að burðum“. 

Að eðlisfari (orðtak)  Um skapgerð manns; að jafnaði; venjulega.  „Hann er glaðsinna að eðlisfari“.

Að endingu (orðtak)  Að lokum; að síðustu; í lokin.

Að engu hafandi (orðtak)  Ekki marktækt; ekki trúlegt. „Ég held að sú ályktun sé að engu hafandi“.

Að ég best veit / Að því er ég best veit (orðtök)  Svo fremi ég veit; svo ég viti.  „Þetta var allt frágengið; að ég best veit“.  „Að því er ég best veit er búið að alheimta úr Breiðavíkinni“.

Að flestu má eitthvað finna ( orðatiltæki)  Ekkert er svo gallalaust að ekki megi finna eitthvern ágalla.

Að forfallalausu (orðtak)  Ef ekkert bregst; að óbreyttu.  „En fundir hafa verið haldnir að forfallalausu annanhvern sunnudag að vetrinum“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Að fornu (orðtak)  Á fornum tíma; í fyrndinni; endur fyrir löngu.  „Að fornu var slegið þarna brok“.

Að/frá fornu fari (orðtök)  Samkvæmt mjög gamalli venju; að mjög gömlum hætti.

Að fornu og nýju (orðtak)  Nú sem fyrrum.  „...enda var Bær höfuðból að fornu og nýju“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Að forspurðum (orðtak)  Án samráðs við; án þess að spyrja.  „Við tökum ekki egg að landeiganda forspurðum“.

Að framanverðu (orðtak)  Framantil; framan að.  „Mikið er bíllinn skítugur að framanverðu“.

Að fyrra bragði (orðtak)  Fyrri til; á undan.  „Hann sagði að hundurinn biti aldrei neinn að fyrra bragði“!

Að gamni (einhvers) (orðtak)  Einhverjum til gamans/skemmtunar.  „Ég tálgaði þetta að gamni mínu“.  Sjá gera að gamni sínu.

Að góðu getið (orðtak)  Umræddur á jákvæðum nótum; hrósað.  „Ég hef heyrt hans að góðu getið“.

Að góðu kunnur (orðtak)  Vel kynntur; vel liðinn.  „Hann var að góðu kunnur, öllum sem til þekktu“.

Að heita má / Að kalla (má) (orðtök)  Hér um bil; nærri því; svo að segja; svo gott sem.  „En í Verinu vorum við að heita mátti daglega meðan róðrar stóðu yfir á vorin“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  „Hann er orðinn lognhægur að kalla; það mætti róa þessvegna“.

Að hika er sama og að tapa (orðatiltæki)  Sá sem hikar getur misst af tækifæri/ávinningi.

Að hugsa sér! (orðtak)  Upphrópun, nokkurskonar beiðni um að viðmælandi setji sér eitthvað fyrir sjónir; ímyndaðu þér!  „Er burtu gekk ég þaðan þá sagði mér hann Sveinn;/ það sögðu líka menn á næstu bæjum:/  Í Hærri-Tungu væru þeir, heldur tveir en einn./  Að hugsa sér, og annar lá á gægjum! “  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Að húsabaki (orðtak)  Aftanvið hús; í felum/skjóli. 

Að jafnaði / Til jafnaðar (orðtak)  Að meðaltali; gegnumsneytt.  „Þetta hefur verið hálftunna á dag, að jafnaði“.  „Ekki er fær leið að jafnaði undir Strengbergi.  Þó er vitað um a.m.k. tvo menn; þá Einar Guðbjartsson og Valdimar Össurarson frá Láganúpi, sem komist hafa þessa leið á stórstraumsfjöru og í ládeyðu“  (HÖ; Fjaran).  

Að komið (orðtak)  Hérumbil; lá nærri.  „Það var að mér komið að gefast upp þegar hjálpin barst“.  Sjá „nærri komið“ sem er tilbrigði við það sama.

Að kvöldlagi (orðtak)  Um kvöld/kvöldtíma.  „Hitti hann þá eitt sinn drauginn að kvöldlagi fyrir neðan bæ einn á túninu, og var hann þá í nautslíki“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Að langfeðgatali (orðtak)  Í/eftir framættum; í karllegg. 

Að lágmarki (orðtak)  Að minnsta kosti.

Að (öllum) líkindum (orðtak)  Mjög líklega/sennilega.  „Hann snýr sér að öllum líkindum til norðurs“.

Að lokum / að endingu / Að lyktum  (orðtök)  Í lokin/endirinn.  „Að lokum kvaddi hann og hélt heim á leið“.  „Höfðu menn það fyrir satt að hann hefði sent Einari draug þann er ært hefði hestana og gengið af þeim dauðum að lyktum“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Að meðaltali (orðtak)  Til jafnaðar; að jafnaði.  „Í sambandi við þetta má nefna nythæð kúnna, sem er hærri en nokkru sinni áður; 3000 kg að meðaltali úr kúnni í aðalskýrslu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Að megninu til / Að mestu (orðtak)  Mestmegnis; að mestu leyti.  „Ég er búinn að stinga útúr húsunum að megninu til; ég á bara eftir að ná undan hrútunum í Mókofanum“.

Að meinalausu (orðtak)  Að skaðlausu; án þess að líða fyrir.  „Það er mér alveg að mainalausu þó þú fáir traktorinn lánaðan á morgun“.  „Mér að meinalausu megið þið fara þarna í egg eins og ykkur sýnist“.

Að meira eða minna leyti (orðtak)  Yfirleitt.  „Tún eru flest kalin hjá þeim að meira eða minna leyti“.

Að mér heilum og lifandi (orðtak)  Örugglega; ef ég fæ ráðið.  „Lögðu þeir aftur yfir hjá okkur, þessir aular?!  Þetta skulu þeir fá borgað; að mér heilum og lifandi!  Réttu mér sýslumanninn“! 

Að minni hálfu (orðtak)  Fyrir mitt leyti; fyrir mína parta; hvað mig áhrærir/snertir.  „Málinu er lokið að minni hálfu“.

Að minnsta kosti (orðtak)  Allavega; allavegana; að lágmarki.  „Þó þú sért ekki hrifinn af grásleppunni þá getur þú að minnstakosti smakkað smábita og borðað kartöflurnar“.  „Heldurðu ekki að hann leggi sig bærilega, svona að minnsta kosti með þrjátíu og fimm punda skrokk“?..  „Liði kærði sig að minnsta kosti ekki um að taka lamsskrokkinn með sér heim að Látrum og varð að samkomulagi að Gummi nýtti hann.“   (PG; Veðmálið). 

Að mínu viti (orðtak)  Eftir því sem ég tel/veit best.  „Að mínu viti væri hyggilegra að bíða með þetta“.

Að morgni (orðtak)  Um morgun; á morgun.  „Við hættum núna en byrjum aftur að morgni“.  „Að loknum málsverði er lagst til svefns en vaknað tímanlega að morgni og tekið til starfa“  (PG; Veðmálið). 

Að morgni skal mey lofa (en veður að kveldi) (orðtatiltæki)  Eftir nóttina hæla menn stúlku, þegar séð verður hvað hún hefur verið eftirlát.  Eins er með veður; því er varasamt að hæla fyrr en dagurinn er liðinn.

Að mörgu er/þarf að gá/hyggja (orðtak)  Margt þar að athuga/skoða; huga þarf að mörgu.  „Við skulum fara varlega í þessu máli; hér er að mörgu að hyggja“.

Að nafninu til (orðtak)  Svo á að heita; formlega; á yfirborðinu.  „Ég á ekki húsið nema að nafninu til; þetta er allt á bankalánum“.

Að nauðsynjalausu (orðtak)  Í þarfleysu; að óþörfu.  „Verið ekki að siga hundinum í féð að nauðsynjalausu“!

Að neðanverðu /ofanverðu (orðtak)  Neðanvert/ofanvert við. „Mér finnst vera slöður í heyið að neðanverðu“.

Að niðurlotum kominn (orðtak)  Aðframkominn; að örmagnast/gefast upp; að hrynja/bila.

Að nokkru/sumu leyti (orðtök)  Að hluta; í vissum atriðum.  „Að sumu leyti finnst mér þetta ágætt“.

Að nýju (orðtak)  Uppá nýtt; aftur; enn og aftur.  „Skólinn byrjar að nýju í september“.

Að óathuguðu máli (orðtak)  Án skoðunar/athugunar.  „Þú ættir nú ekki að láta þetta að óathuguðu máli; þú gætir þurft á því að halda síðarmeir“.

Að (öllu) óbreyttu (orðtak)  Ef ekkert breytist; ef forsendur haldast.  „Að óbreyttu legg ég af stað á morgun“.

Að ófyrirsynju (orðtak)  Sem ekki verður synjað fyrir; án þess að sök sé fyrir hendi.  „Hann gerði það alveg að ófyrirsynju að hleypa út úr dilknum áður en ég var tilbúinn að taka við rekstrinum“! Sjá ófyrirsynja.

Að ógleymdum (orðtak)  Svo ekki sé minnst á; ekki má/skal gleyma.  „Allir stóðu þeir sig frábærlega vel; að ógleymdum formanninum, sem stýrði aðgerðunum óhræddur og fumlaus“.

Að ósekju (orðtak)  Saklaus; án sakar.  „Við skulum skoða málið frá öllum hliðum og gæta þess að áfellast engan að ósekju“.

Að óvörum (orðtak)  Óvænt; án aðvörunar; fyrirvaralaust.  „Okkur að óvörum skall stór steinn í klöppina stutt frá“.  Sjá koma að óvörum og óvar.

Að réttu lagi (orðtak)  Með réttu; ef allt er eðlilegt.  „Að réttu lagi hefði ég átt að snúa þarna við... „  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Að ráði (orðtak)  Sem nemur/munar; umtalsvert; verulegt.  „Hann hefur ekki aukið sjó neitt að ráði; enn sem komið er.  Ég gæti trúað að hann slægi í logn á suðurfallinu“.

Að sama/því skapi (orðtak)  Jafnt; eins.  „Fiskverð hækkaði nokkuð um og uppúr fyrri heimsstyrjöld.  En salt og aðrar nauðsynjar hækkuðu að sama skapi, svo afkoman batnaði lítið eða ekki“  (KJK; Kollsvíkurver).

Að sinni (orðtak)  Sem stendur; um þennan tíma; um sinn.  „Ætli við látum þetta ekki nægja að sinni; við lítum aftur að þessu á morgun“.

Að síðustu (orðtak)  Að lokum; í lokin; að endingu. 

Að sjálfsögðu (orðtak)  Auðvitað.  „…og á þeim tíma tók Júlli að sjálfsögðu þátt í uppeldi litla bróður síns“  (PG; Veðmálið).  

Að sjó (orðtak)  Vont í sjóinn; slæmt sjólag; ylgja.  „Það er ekkert verulegt að sjó eins og er, en hann er að ljókka ári mikið“.  Þarna er „að“ notað á sama hátt og „eitthvað sé að“, í merkingunni að bjáta á.

Að skaðlausu (orðtak)  Án þess að skaði verði af; að meinalausu.  „Það mætti alveg, að skaðlausu, fækka þessum þingmönnum um helming“.  „Að skaðlausu  mætti kasta þessum ónýtu skóm“.

Að snýr (orðtak)  Tilheyrir; blasir við.  „Ég skal klára þann hluta verksins sem að mér snýr; aðrir gera sitt“.

Að staðaldri (orðtak)  Alltaf; einatt.  Orðið „staðaldur“ hefur líklega verið áður „staðhaldur“ og merkti að „halda til á sama stað“, sem síðar fær almennari merkingu í „óbreytt ástand“, og dagar uppi þessu orðtaki.  „Ekki braut að staðaldri á Miðklakk, en allt í einu tekur sig upp allstórt brot skammt frá bátnum; þó ekki það mikið að hann tæki í sig sjó“  (KJK; Kollsvíkurver).

Að svo búnu/stöddu (orðtak)  Eins og mál standa; eins og staðan er; núna; strax.  „Ég á dálítið erfitt með þetta að svo stöddu“.  Sjá við svo búið.

Að svo mæltu / Að því sögðu (orðtak)  Eftir að hafa sagt það.  „Að svo mæltu strunsaði hún út og skellti hurðum“.

Að sögn (orðtak)  Að því er sagt er; eftir því sem er sagt.  „En þá lét Guðrún Einar taka hann til sín, og fórst vel við hann að sögn“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Að tarna (orðtak)  Þarna; sem þarna um ræðir.  Oftast framborðið „atarna“.  „Hann gerði þetta alveg óviljandi, strákskinnið atarna“.  „„Það var í hitteðfyrra, ein stúlka kom á kreik,/ svo knúsandi og dásamleg að tarna./  Við þessa glöðu meyju ég fór í feluleik./  Hún faldi sig í rúminu mínu þarna“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin).   

Að tilefnislausu (orðtak)  Án tilefnis/ástæðu.  „Ég nenni ekki að puða við þetta að tilefnislausu“.

Að tilhlutan (orðtak)  Vegna íhlutunar; fyrir tilverknað.  „Að tilhlutan oddvita og samkvæmt ósk vegamálastjóra var Bragi Ó. Thoroddsen vegamálastjóri mættur á fundinum“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 30.03.1963; ritari ÖG). 

Að tjaldabaki (orðtak)  Bakvið tjöldin; ekki fyrir opnum tjöldum; í leyni.  „Stjórnin kynnti þetta svona á fundinum, en ekki veit ég hvað gerðist að tjaldabaki“.

Að tölunni til / Að tiltölu (orðtak)  Hvað varðar fjöldann.  „Ég er ekki óánægður með aflann að tölunni til, en þetta er óttalegt smælki og lítið um stórfisk“.

Að undanförnu (orðtak)  Upp á síðkastið; í seinni tíð; nýlega.  „Veðráttan hefur látið ýmsu að undanförnu“.  „Sömu reglu með ásetning hefur verið fylgt sem að undanförnu…“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1924). 

Að uppistöðunni til / Að stofni til (orðtak)  Að meginefni; hvað varðar grundvöll/uppistöðu/meginstoð.  „Þetta er að uppistöðunni til haugalygi hjá honum, þó kannski sé flugufótur fyrir einhverju.  „Að stofni til voru þetta sömu kartöflur og séra Björn ræktaði fyrstur manna í Sauðlauksdal“.

Að vanda (orðtak)  Að venju; eins og vanalega.  „Hann drekkhlóð bátinn á stuttum tíma, að vanda“.

Að veðri (orðtak)  Vont veður; illviðri.  „Það er sólarlaust en annars er ekkert að veðri“.  „Þú leggur ekki á heiðina ef eitthvað verulegt er að veðri“.

Að vetrarlagi / Að vetri til (orðtak)  Um vetur.  „Algengt var, ekki síst að vetrarlagi, að menn báru þungar klyfjar á eigin herðumyfir Hænuvíkurháls“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Að vissu marki (orðtak)  Dálítið; nokkuð; að takmörkum; að sumu leyti; hálft í hvoru.  „Þurrkurinn er ágætur að vissu marki, en það er hætt við að tún geti brunnið þar sem þurrast er“.

Að hausti/vetri/vori/sumri / Að haustlagi/vetrarlagi/vorlagi/sumarlagi (orðtök)  Um/yfir tilgreinda árstíð.  „Annað atvik var að vori“  (IG; Æskuminningar).  Oft var bætt „til“ við setninguna.  „Þetta gerðist degi til“.

Að venju (orðtak)  Samkvæmt venju/vana; eins og venja er til.  „Að venju fór hann snemma á fætur“.

Að vísu (orðtak)  Vissulega; reyndar; að sönnu; sem vitað er.  „Ég greiddi honum mestalla skuldina, en að vísu á hann enn hjá mér nokkrar krónur“.

Að vörmu spori (orðtak)  Mjög fljótlega; rétt bráðum; að bragði.  „Hann kom aftur að vörmu spori og sagði að veðrið væri mikið farið að lagast“.  Varmur merkir þarna heitur; að sporið sé ekki farið að kólna.

Að yfirlögðu ráði (orðtak)  Viljandi; af ásetningi/ ásettu ráði.  „Þetta hefur veri gert að yfilögðu ráði“.

Að þarflausu (orðtak)  Án þess að þörf sé á; í þarfleysu.  „Evertu ekki að siga hundinum á ærnar að þarflausu“.

Að fyrri/þeirra tíðar/tíma hætti (orðtak)  Samkvæmt venju fyrri/þess tíma.  „Að þeirra tíma hætti voru hús þessi hlaðin úr torfi og grjóti, en með grindum“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Að þessu/því leyti (orðtak)  Hvað það/þetta varðar.  „Því sátu framsóknarmenn sólarmegin að þessu leyti“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi). 

Að þrotum kominn (orðtak)  Nærri orðinn allslaus/farinn að kröftum.  „Hann var alveg að þrotum kominn þegar þeir loks komust uppá brúnina“.

Að því (orðtak)  A.  Samkvæmt því.  „Ég er fæddur að morgni hvítasunnudags 31.maí 1925, í blíðskaparveðri að því er mér er sagt“  (IG; Æskuminningar).  B.  Þegar svo var komið; að svo komnu máli.  „Og skildu þeir að því“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Að þvi að talið er (orðtak)  Samkvæmt því sem álitið er.  „Hann mun hafa gengið framaf brúninni í blindbyl, að því að talið er“.

Að því er að gá / Að því er að líta (orðtök)  Hafa þarf í huga; athuga þarf.  „Þetta var ekki mikill afli, en að því er að gá að við vorum þarna um harðasta fallið“.að

Að því er séð verður / Að því er best verður séð (orðtök)  Eins vel og unnt er að greina; eins og lítur út fyrir.  „Hrúturinn er alveg ómeiddur eftir byltuna, að því er séð verður“.  „Hér í dalnum er engin skepna, að því er best verður séð“.

Að því best er vitað (orðtak)  Eftir því sem næst verður komist.  „Þetta er dagsatt, að því best er vitað“.

Að því er ég best veit / Að ég best veit (orðtök)  Samkvæmt minni vitneskju; svo langt sem ég veit.  „Hann er ekki kominn enn, að því er ég best veit“.

Að því er mér er sagt (orðtak)  Samkvæmt því sem ég heyrði sagt.  „Ég er fæddur að morgni hvítasunnudags 31.maí 1925, í blíðskaparveðri að því er mér er sagt“  (IG; Æskuminningar). 

Að því er mig áhrærir/varðar (orðtak)  Fyrir mína parta.  „Það er í góðu lagi hvað mig áhrærir“.

Að því frátöldu (orðtak)  Að því undanskildu; fyrir utan.  „Ferðin gekk vel, að því frátöldu að húfan týndist“.

Að því loknu (orðtak)  Þegar því var lokið; þegar það var afstaðið/búið.  „Að því loknu var sest að spilum“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku hans). 

Að því spur/spyr hinn ríki hvað hinum fátæka hlotnist (orðatiltæki)  Hinn ríki sér gjarnan ofsjónum yfir því sem hinum efnaminni hlotnast, í þeirri von að komast yfir það.

Að öllu jöfnu (orðtak)  Vanalega; til jafnaðar; jafnaðarlega.  „Að öllu jöfnu komu tvær til þrjár kindur frá mér af Stígnum“.

Að því leyti(nu) (til) (orðtak)  Hvað það varðar; í því tilliti.  „Ég gerði þetta að því leyti sem mér var framast unnt“.  „Hrúturinn er alltof spikaður, og því ekki vel gagnlegur að því leytinu til“.

Að því marki / Að því skapi (orðtök)  Að því takmarki/viðmiði; svo mikið.  „Ég fyllti tankinn, að því marki sem ég unnt var“. 

Að öllu/því samanlögðu (orðtak)  Í heildina;í það heila tekið.  „Að öllu samanlögðu stóð hann sig langbest“.

Að öllum líkindum (orðtak)  Mjög sennilega; nánast örugglega.  „Þennan ómerking átt þú, að öllum líkindum“.

Aða (n, kvk)  Öðuskel.  Mytilus modiolus.  Stór ílöng skel/samloka sem stundum var notuð til átu þegar hún rak á fjörur.  Lík kræklingi í útliti en allajafna sórvaxnari; getur orðið yfir 152 cm löng.  Skeljarnar eru aflangar, þykkar og breiðar neðantil.  Nefið greinilega til hliðar við framendann.  Hýði er um bláleita skelina; ljósbrúnt í fyrstu en dökknar með aldrinum í sótrautt eða svart.  Kviðjaðarinn er íbjúgur.  Algengt er að aða berist á land; áföst hrossaþarahausum sem reka á fjörur í brimi.  Var töluvert tínd til átu, ásamt kræklingi.  Það er ævagömul regla að ekki skuli tína skelfisk í r-lausum mánuðum; þ.e. að sumarlagi, og var hún þekkt og virt í Kollsvík.    Ástæðan er hætta á alvarlegri skelfiskeitrun (sjá þar).  Vísindin hafa núna sýnt að reglan á fullan rétt á sér, þar sem skelfiskurinn innbyrðir oft mikið af eitruðum þörungum sem fjölga sér einkum að sumrinu.  Í mönnum veldur eitrið þrennskonar kvillum.  Algengastur er skelfiskeitrun, með miklum niðurgangi og uppköstum.  Lömunareitrun er fátíðari en alvarlegri, þar sem lömun getur orðið í taugum og öndunarfærum.  Þá er sumsstaðar erlendis þekkt minnistapseitrun.

Aðal (l)  A.  Helstur; mestur; mikilvægastur.  „Ég ætla að fá þig til að ganga með mér nokkrar aðal göngu- og smalaleiðir sem lágu úr Víkinni til annarra og næstu byggða“  (IG; Sagt til vegar I)  B.  Forskeyti margra nafnorða, s.s.  aðaláhersla; aðalbygging; aðalfundur; aðalmaður; aðalstarf.

Aðalannatími (n, kk)  Tíminn sem mest er að gera/starfa.  „Vorið er aðalannatíminn í sveitum, og svo  var einnig þegar ég var að alast upp“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Aðalbjargmaður (n, kk)  Helsti bjargmaður/sigari/fyglingur.  „... áður fyrr voru farnar bjargferðir héðan frá Kollsvík.  Guðbjartur Ólafsson var þá aðalbjargmaðurinn.  Fólk lifði þá mjög mikið á fugli“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Aðalbláber / Aðalbláberjalyng (n, hk)  Vaccinium myrtillus.  Lyng af ættkvísl bjöllulyngs og afbrigði bláberjalyngs.  Lyngið er lítið eitt ljósara og blöðin þunn, smátennt og egglaga; græn að sumri en roðna að hausti.  Blómgast í júní en ber verða fullþroska eftir miðjan ágúst.  Berin eru blásvört og gljáandi; mun dekkri en venjuleg bláber.  Bragðið er einnig nokkuð frábrugðið.  Aðalbláber vaxa víða í þurrum móum; helst þar sem hæfilega skjólsælt og sólríkt er.  Víða vaxa aðalbláber í grennd við Kollsvík, t.d. í Keldeyradal og Vatnadal.  Líklega hefur fyrrum vaxið bláberjalyng nær bæjum en nú er, en lyng var mjög rifið til eldiviðar og í troð.  Höfðu vermenn í Láganúpsveri frjálst hrísrif, sem voru nánast einu fríðindi þeirra af hendi Bæjarhöfðingja.  Sjást þess merki á síðari tímum að lyngið er að fikra sig nær byggð á nýjan leik.

Aðalbýli (n, hk)  Aðalból; helsta/stærsta býli/bújörð.  „Í þeirri vík í Rauðasandshreppi er Kollsvík heitir, hafa um aldir verið tvö aðalbýli; Kollsvík og Láganúpur“  (GG; Kollsvíkurver).

Aðalerindi (n, hk)  Meginhluti ræðu; megintilgangur ferðar/heimsóknar.  „Ég kjaftaði frá mér allt vit og gleymdi aðalerindunu“.

Aðalfundur (n, kk)  Helsta samráðssamkoma ársins í formlegum félagsskap eða fyrirtæki.  Á aðalfundi er venja að fara yfir starfsemi liðins árs; kjósa stjórnendur; breyta samþykktum og ræða upp borin málefni.

Aðalfyglingapláss (n, kk)  Sá staður í bjargflæmi þar sem mest var tekið af bjargfugli, meðan hann var nytjaður.  „Melarnir voru aðalfyglingaplássið í Breiðavíkurbjargi...“ (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur).

Aðalklettar (n, kk)  Megin-klettabelti í fjalli.  „Ofanvið skriðuna, neðan aðalklettanna (í Hafnarmúla) er gangur sem hægt er að ganga eftir...“  (ÓM; Örn.skrá Hnjóts).

Aðalkúabeit (n, kvk)  Helsti kúa hagi.  „Í Holtum og í Víkinni var aðalkúabeitin“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Aðall (n, kk)  Yfirstétt/forréttindastétt manna í samfélagi.  Heitið er einkum notað um yfirstétt í Evrópu fyrr á öldum, en stundum um íslenska höfðingja.  Því ser stundum brugðið upp nú á dögum til að undirstrika völd og auð þeirra sem hagnast hafa, einkum af umsýslu með sameignir þjóðarinnar.

Aðallega (ao)  Mestmegnis; einkum; fyrst og fremst.  „Aðallega var veitt á línu á þessum tíma“.  „Féð norðantil í Breiðavíkinni er aðallega frá Láganúp, en eitthvað frá Hafnarbændum og Hænuvíki“.

Aðallending (n, kvk)  Lending sem best er og oftast notuð.  „...sunnan við aðallendinguna er svokölluð Snorralending“.   (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  „Skammt fyrir sunnan Blakkinn er aðallendingin; Verið“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Aðalmatur (n, kk)  Helsta/algengasta fæða.  „Harðfiskur –steinbítur- og fugl voru aðalmaturinn“  (JB; Verstöðin Kollsvík, frásögn GG). 

Aðalmál (n, hk)  Aðalatriði; áhersluatriði.  „Nú er aðalmálið að ná upp netunum áður en hann kemur með norðangarðinn“.

Aðalmáltíð (n, kvk)  Helsta máltíðin; uppistaðan í máltíðinni.  „Aðalmáltíðin (að kvöldi aðfangadags) var hangikjöt, og ávaxtagrautur með rjóma útá á eftir“  (ÖG; Glefsur og minningabrot). 

Aðalniðurjöfnun (n, kvk)  Helsta árlega niðurjöfnun gjalda.  Hreppsnefnd sá um það fyrrum, eða allt fram að upptöku staðgreiðsluskatta, að leggja útsvar, fasteignaskatt og önnur hreppsgjöld á hreppsbúa.  Var það gert á sérstökum niðurjöfnunarfundum, en hinn helsti þeirra var aðalniðurjöfnun.  Síðar voru teknar fyrir framkomnar kærur.

Aðalskýrsla (n, kvk)  Helsta skýrsla.  „Í sambandi við þetta má nefna nythæð kúnna, sem er hærri en nokkru sinni áður; 3000 kg að meðaltali úr kúnni í aðalskýrslu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Aðalslátrun (n, kvk)  Fyrri sauðfjárslátrun að hausti (á undan seinnislátrun/samtíningi).  „Ég sendi ekki meira í aðalslátrun.  Restin kemur þá bara í samtíninginn“.

Aðalsport (n, hk)  Helsta dægradvöl/tómstundaiðja.  „Nú er það aðalsportið hjá honum að liggja yfir ættfræði og kirkjubókum“.

Aðaluppsátur (n, hk)  Helsta uppsátur.  „Milli þessara kletta var aðaluppsátur skipa sem gengu úr Kollsvíkurveri…“  (HÖ; Fjaran). 

Aðalverðlaun (n. hk, fto)  Verðlaun sem veitt eru þeim sem slagahæstur er, þegar spiluð er félagsvist.  „Oft var spiluð félagsvist á spilakvöldum í Fagrahvammi.  Í lok kvöldsins voru veitt vegleg aðalverðlaun og mun óverulegri skammarverðlaun, en þó ekki þannig að óvirðing væri að“.

Aðalverstöð (n, kvk)  Helsta/stærsta verstöð; meginverstöð.  „Reyndar var Kollsvíkurver í næstu vík utan Hænuvíkur líka vel þekkt verstöð, eða allt frá landnámstíð.  Þangað fjölmenntu Barðstrendingar gjarnan til fiskiróðra á hverju vori, enda lengi vel aðalverstöðin í Vestur-Barðastrandasýslu.  Sem dæmi reru þaðan 25 bátar um aldamótin 1900“  (DÓ; Að vaka og vinna).

Aðalvilla (n, kvk)  Helsta villa; mesti misskilningur.  „Komu þeir a Lambahlíðardal, en þar greip þá aðalvillan.  Vissu þeir ekki hvað þeir fóru, fyrr en þeir þekktu sig í Keflavík“  (SbG; Að vaka og vinna). 

Aðalþaragarður (n, kk)  Helsti/stærsti þaragarður/þarafláki á tilteknu landgrunni.  „Þaragarðurinn lá í nokkuð beinni línu fyrir Víkinni og áfram suðureftir, en var jafnframt skemmra undan landi undan Hnífum og Hnífaflögu; að sama skapi sem þau teygðust lengra fram.  Þó var ekki allsstaðar hrein sandgljá framan víð aðalþaragarðinn“  (KJK Kollsvíkurver).

Aðalþáttur (n, kk)  Meginþáttur.  „Lóðastrengur var gerður úr tveimur þáttum franskrar línu, en franskar línur voru af þremur aðalþáttum“  (GG; Kollsvíkurver).

Aðalþrekvirki (n, hk)  Mesta afrek/átak.  „Aðalþrekvirki fjelagsins (Baldurs) var að byrja á og vinna að veglagningu uppi í skriðunum milli Örlygshafnar og Sellátraness“  (VÖe; Ungmennafjelög í Rauðasandshreppi). 

Aðbrysti (n, hk)  Aðfall.  „Eftir liggjandann verður snúningur og byrjar skjótt aðbrysti...“  (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Orðið heyrðist ekki í almennu tali í Kollsvík á seinni tímum; heldur var notað aðfall.

Aðbúnaður (n, kk)  Aðbúð; aðstæður; það hvernig búið er að því sem um ræðir, t.d. fólki, fénaði eða munum.  „Aðbúnaður manna í verbúðum hefur áreiðanlega verið með misjöfnum hætti.  T.d. bera lýsingar frá Kollsvíkurveri vott um allmiklu betri aðbúnað en lýsingar úr t.d. Láturdal“.

Aðdáandi (n, kk)  Sá sem dáist að einhverju; sá sem er hrifinn/andaktugur.  „Ég er enginn sérstakur aðdáandi þessarar ríkisstjórnar“!

Aðdáanlega/ Aðdáunarlega (ao/orðtak)  Svo vel að aðdáun sætir.  „Honum tókst þetta alveg aðdánlega“.

Aðdáanlegur (l)  Sem unnt er að dást að; lofsverður; glæsilegur.  „Þetta fannst mörgum aðdáanlegt afrek“.

Aðdáun (n, kvk)  Hrifning; lof; hrós; virðing.  „Ég gat ekki leynt aðdáun minni yfir þessari snilld“.

Aðdáunarvert (l)  Vert virðingar/hrifningar.  „Alveg fannst mér það aðdáunarvert hvað hann var fljótur að svara fyrir sig; hann lætur sko engan eiga neitt hjá sér“!

Aðdjúpt (l)  Mikið dýpi upp við land; nægt dýpi til að leggja skipum við land.  „Nokkuð aðdjúpt er undir Strengberginu, þar sem togarinn strandaði“.

Aðdragandi (n, kk)  Tildrög; ferill; forsenda; undanfari.  „Ég þekki ekki aðdraganda þessarar deilu“.

Aðdráttaferð (n, kvk)  Kaupstaðarferð til aðdrátta/innkaupa fyrir heimli.  „Algengt var að höfð væri samvinna milli tveggja eða fleiri bæja um þessar aðdráttaferðir“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Aðdreginn (l)  Hallar upp við sig; dreginn inn.  „Hleðslan þarf að vera nokkuð aðdregin að ofanverðu, ef hún á að standa vel“.

Aðdróttun (n, kvk)  Ásakanir; áfærni.  „Hann sagðist vera lítt hrifinn af svona aðdróttunum“.

Aðdrættir (n, kk, fto)  Öflun nauðsynja.  „Oft verða hálsar ófærir að vetri, jafnvel vikum saman, svo erfitt verður  um alla aðdrætti.  En Kollsvíkingar hafa í gegnum tíðina lagað sig að þessum aðstæðum“.

Aðdróttun (n, kvk)  Ásökun, óljós eða undir rós.  „Honum þykir illt að sitja undir aðdróttunum af þessu tagi“.

Aðeins (ao)  A.  Bara; eingöngu.  „Ég finn aðeins til í fætinum“.  Einnig í skilyrðissetningum;  nema því aðeins.  „Ég mátti til að stríða honum aðeins útaf þessu“.  B.  Rétt snöggvast; í stutta stund.  „Hjálpaðu mér aðeins með þetta“.  Einnig rétt aðeins.

Aðfall (n, hk)  Sjávarfall; flæði; aðtak.  „Það versnaði nokkuð í sjóinn með aðfallinu, svo við fórum í land“.  Þjóðtrúin segir að best muni að hefja ýmis mikilvæg og stór verk með aðfalli.  T.d. á að hýsa kýr með aðfalli til að þær lánist vel; sömuleiðis að flytja inn í ný hús.

Aðfangadagshugvekja (n, kvk).  Hugvekja (guðsorð) sem lesin er á aðfangadagskvöld.  „Fyrir jólin voru steypt tólgarkerti; jólakertin, og lifði alltaf ljós á jólanóttina.  Á eftir aðfangadagshugvekju var alltaf sungið; „Aðfangadagur dauða míns/ drottinn þá kemur að...“ “  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Aðfangadagsmorgunn (n, kk)  Morgunn aðfangadags jóla.  „Þetta veður hélst óbreytt í 3 daga og það var ekki fyrr en á aðfangadagsmorgun að við komumst yfir fjörðinn“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Aðfangadagur / Aðfangadagskvöld (n, kk/hk)  Dagurinn fyrir jóladag og kvöld hans, sem neft er jólakvöld; 24.desember.  „Á aðfangadagskvöld var gamla Láganúpshúsið allt skreytt og fegrað og heimilisfólk veltilhaft.  Pabbi hafði sótt lyng og eini út í Vatnadal, sem mamma notaði til að gæða gamla jólatréð lífi.  Við hlið þess beið hlaði af spennandi pökkum, og jólasveinarnir hennar mömmu kjöguðu í halarófu eftir stofuhillunni.  Áður en gamla stofuklukkan tónaði sín sex slög, settist fjölskyldan spariklædd fyrir framan útvarpið í stofunni og hlýddi á messuna.  Halldóra amma tók undir í sálmunum; stundum fleiri, og allir tóku undir faðirvorið.  Mikil áhersla var lögð á að allt væri kyrrt og friðsælt, en setan gat orðið óróasömu ungviði dálítið erfið.  Jólakerti slógu daufri og dulmagnaðri birtu á skreytingarnar.  Mamma var þó undanþegin friðsældinni, en hún átti óvenju annríkt í eldhúsinu við jólasteikina og allt sem henni fylgdi.  Skipst var á kossum og jólakveðjum eftir Heimsumbólið.  Eftir veglega máltíð var farið í mjaltir, en áður var kannski þeim yngstu í hópnum leyft að taka upp einn pakka.  Kýrnar fengu vel útilátið úrvalsfóður. Eftir þrif og fataskipti var loksins komið að því að opna pakka, sem var í augum barnsins hápunktur jólahátíðarinnar.  Síðan var gjarnan gripið í spil; snæddir sjaldséðir ávextir; heimagert konfekt og heimalagaður ís.  Kvöldið teygðist svo fram á nóttina við lestur nýrra bóka“ (VÖ).  Á fyrri tímum var einnig talað um aðfangadag páska og aðfangadag hvítasunnu.  „Klukkan 6 á aðfangadag jóla komumst við heim og gátum haldið jólin heima“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Aðfaranótt (n, kvk)  Nóttin á undan þeim degi sem til er vitnað.  „Á aðfaranótt sunnudags gistu þeir sem ekki bjuggu á Sandinum og komust heim, á bæjunum, þeir sem komust þar fyrir; sumir sváfu í hlöðunni í Stekkadal og sumir í tjöldum“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Aðfarargerð (n, kvk)  Aðför; réttarúrræði sýslumanns gagnvart þeim sem ekki stendur við gerða samninga eða úrskurði; ein tegund valdbeitingarheimilda stjórnvalds.  Getur t.d. falist í útburði manns af eign sem dæmd hefur verið af honum.

Aðfarir (n, kvk, fto)  Aðferð; verklag; tilhögun.  „Skelfingar klaufaskapur er þetta; manni líður bara illa að horfa uppá svona aðfarir“!

Aðfenginn (l)  Fenginn annarsstaðar frá; aðkeyptur.  „...hvernig Kollsvíkingar unnu að því að flytja til sín  aðfengnar vörur, áður en akfært varð í Víkina“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Aðferð (n, kvk)  Verklag; verktilhögun; aðfarir; tilhögun.  „Ég hef aldrei notað þessa aðferð fyrr“.

Aðfinnslur (n, kvk, fto)  Gagnrýni; útásetningar.  „Hann var með einhverjar aðfinnslur um vinnulagið“.

Aðfinnsluvert (l)  Sem þarf að gagnrýna/setja útá.  „Ég sé nú ekki ýkja margt aðfinnsluvert í þessu“.

Aðflutningur (n, kk)  Heimflutningur; aðdrættir.  „Var önnur ferðin farin snemma vors og þá var aðflutningurinn tilbúinn túnáburður...“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Aðfluttur (l)  Aðkominn annarsstaðar frá.  „Enda þótt neysla manna á aðfluttum varningi á þessum tímum væri mun fábreyttari en nú er orðið, hefði orðið tafsamt að flytja allar aðfluttar vörur á hestum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Aðframkominn (l)  Kvalinn af þorsta/hungri/þreytu; að niðurlotum kominn; í andarslitrunum; langt leiddur. „Hestarnir voru taldir hafa verið 3, og fundust 2 dauðir en einn var hjarandi; þó svo aðframkominn að honum var engin lífsvon“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Aðfarir (n, kvk, fto)  Aðferðir; vinnulag.  „Hvers konar aðfarir eru nú þetta“?

Aðföng (n, kvk, fto)  Vörur sem útvega þarf; nauðsynjar.  „Ætli maður þurfi ekki bráðum að fara í verslun eftir einhverjum aðföngum; hér er að verða smérlaust“.

Aðför (n, kvk)  A.  Árás; herferð.  „Formaðurinn mótmælti því sem hann kallaði aðför gegn sér“.  B.  Réttarúrræði; sjá aðfararargerð.

Aðganga / Aðgangur (n, kvk)  Aðgengi; leið.  „Þarna er þétt varp á hillunni, en dálítið erfitt aðgöngu“.  

Aðgangsharður (l)  Kræfur; frekur; sá sem gengur nærri / gengur hart fram.  „Fjandi er hrafninn aðgangsharður við kindina!  Ég ætla að fara og gá hvað þarna er að“.

Aðgá / Aðgát (n, kvk)  Gætni; forsjá.  „Það þarf verulega aðgát þegar farið er yfir þessar skriður í þurrkum“.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar (orðatiltæki)  Gæta þarf að því hvað sagt er þegar þeir heyra sem viðkvæmir eru fyrir.  Viðhaft t.d. sem varnaðarorð þegar börn eru nærri samræðum.  Ljóðlína úr Einræðum Starkaðar eftir Einar Benediktsson sem birtist 1921.

Aðgengilegur (l)  Sem greiður er aðgöngu; sem greiðlegt er að nálgast/ vinna við.  „Var það aðgengilegra fyrir þann sem beitti ef búið var að skelja úr, og skera beitu þegar þeir komu af sjónum“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Aðgerð (n, kvk)  A.  Frágangur á afla; slæging, flatningur, flökun, söltun o.fl.  „Aðgerð nefndis það (á skútum) að fiskurinn var flattur, þveginn og saltaður í þar til gerðar stíur í lestinni“.  (GG; Skútuöldin).   „Við vorum ekki búnir í aðgerð fyrr en komið var fram á kvöld“.  B.  Læknisverk.  „Það þurfti að gera töluvert mikla aðgerð við hjartað“.  C.  Verkefni.  „Vegurinn lagaðist töluvert mikið við þessar aðgerðir“.

Aðgerðalaus (l)  Sem ekki aðhefst/vinnur; óduglegur.  „Hann hefur verið helst til aðgerðalaus í þessum efnum“.  „Ég ætla ekki að standa aðgerðalaus hjá meðan svona er farið með landið“!

Aðgerðalaust veður (orðtak)  Meinhægt/saklaust veður; rólegt veðurfar.  „Vonandi helst svona aðgerðalaust veður meðan þeir koma járninu á þakið“.

Aðgerðalítill (l)  A.   Um mann; sem lítið aðhefst; verkasmár.  B.  Um veður; fremur rólegt; ekki hvasst og lítil úrkoma.  „Það er ekki víst að það verði áfram svona aðgerðalítið veður“.

Aðgerðarborð (n, hk)  Borð sem fiskur er unninn á, t.d. slægður eða flattur.

Aðgerðarhnífur (n, kk)  Fiskihnífur; flökunarhnífur; flatningshnífur.

Aðgerðarleysi (n, hk)  Hvíld; þegar ekki er unnið.  „Ósköp kann ég illa þessum landlegum og aðgerðarleysi“.

Aðgerðarmaður (n, kk)  Sá sem gerir að fiski, t.d. kúttar, flakar eða fletur.

Aðgerðarpláss (n, hk)  Staður þar sem gert er að fiski; ruðningur.  „Rífa þurfti upp hvern stein í aðgerðarplássi og þurrkreit, sem fylgdi hverri búð“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Aðgerðarvettlingar (n, kvk, fto)  Vettlingar sem notaðir eru við aðgerð.  „Heiti sjóvettlinga fóru eftir því hvaða verk átti að nota þá: áravettlingar, róðrarvettlingar, færisvettlingar, sprökuvettlingar, aðgerðarvettlingar og slorvettlingar“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).  Sjóvettlingar voru notaðir í Kollsvík framyfir 1960, síðast líklega af Guðbjarti Guðbjartssyni og Össuri syni hans á Láganúpi.  Settu þeir einatt upp ullarvettlinga áður en farið var að hausa; sagði Össur að með því fengist mun betra grip og öryggi.

Aðgrunnt (l)  Lítið dýpi við ströndina.  „Aðgrunnt er á Kollsvíkinni og því henta smábátar best til útræðis“.

Aðgrynni (n, hk)  Flágrynni; grunnur sjór við strönd.

Aðgæsla (n, kvk)  Varúð.  Vestra var þessi orðmynd notuð en ekki sú sem nú er algeng; aðgát.  „...var af þessu nokkur hætta, en með aðgæslu tókst þeim að komast þetta ósködduðum“  (MG; Látrabjarg). 

Aðgæslufæri (n, hk)  Þegar ekki er unnt að fara um nema með mikilli varúð.  „Það er fljúgandi hálka í Hænuvíkurbrekkunum og víða aðgæslufæri“.  Orðið er óþekkt annarsstaðar.

Aðgæsluleysi (n,hk)  Óvarkárni; hugsunarleyis.  „Reru þeir upp á boða og hefur það auðsjáanlega verið af aðgæsluleysi“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Aðgæslusigling (n, kvk)  Sigling báts þar sem sýna þarf mikla aðgát vegna t.d. veðurs eða grynninga.

Aðgæsluveður (n, hk)  Veðurlag sem kallar á sérstaka aðgát, t.d. vegna ferða, siglinga eða fokhættu.

Aðgæta (s)  Huga að; skoða; athuga.  „Nú var komið undir flæði, og þá voru þeir sem í landi voru búnir að aðgæta hvort nokkurn staðar væri lendandi í Kollsvík“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Aðgætandi / Aðgætanlegt (l)  Athugandi; skoðandi; skoðunarvirði; vert skoðunar.  „Það er ekki aðgætandi með sjóveður í dag, ef þessi spá gengur eftir“.

Aðgætinn (l)  Fer með varúð/gát; passasamur.  Aðgætni var mönnum ekki síður nauðsynleg en áræðni og úrræðasemi, til að komast af í Útvíkum.  Hennar var jafnt þörf í landtöku við varasamar aðstæður sem í viðsjárverðum bjargferðum; í heyskap í óþurrkatíð sem ferðalögum um langa fjallvegi.  „Þórður var aðgætinn“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg). 

Aðgætni (n, kvk)  Varúð; gát.  „Það þarf verulega aðgætni þegar farið er um sveltisganginn“.

Aðhafast (s) Gera; grípa til; hefja.  „Ég hef lítið aðhafst í þessu máli“.

Aðhald (n, hk)  A.  Innilokun; króun.  „Við rákum féð í aðhald við klettinn“.  „Kindin er í svelti þarna í aðhaldinu“.  B.  Eftirlit; aðgæsla.  „Það er nauðsynlegt að veita stjórnvöldum aðhald í þessum málum“.

Aðhaldssamur (l)  Sparsamur; gætinn í fjármálum; nískur.

Aðhlátur (n, kk)  Hlátur; hæðnishlátur.  „Menn sjá núna hvað var mikið vit í þessu, þó hann fengi ekkert nema aðhlátur þegar hann nefndi þetta fyrst“.

Aðhlátursefni (n, hk)  Skemmtiefni; til að skemmta sér yfir/ hlæja að.  „Svona ráðstafanir eru bara aðhlátursefni“.

Aðhlynning (n, kvk)  Aðbúnaður; umönnun.  „Fengu þeir hina bestu aðhlynningu“  (ÖG; Þokuróður). 

Aðhlæjandi (l)  Sem hlegið er að.  „Þessi uppákoma var nú eiginlega ekki aðhlæjandi, en engu að síður gat maður ekki annað en brosað“.  Sjá ekki að því hlæjandi.

Aðhnepptur (l)  Um flík; hneppt saman með hnöppum.  „Hafðu nú kápuna aðhneppta; það er kalt úti“.

Aðhyllast (s)  Vera hlynntur; líta jákvætt á; styðja.  „Mér liggur nú við að aðhyllast hans skoðun í þessu efni“.

Aðild (n, kvk)  Aðkoma; hlutdeild; þátttaka.  „Ég ætla ekki að eiga neina aðild að þessum tiltektum“!

Aðili (n, kk)  Sá sem á hlutdeild í/ aðkomu að; viðkomandi maður.  „Hann var annar aðilinn að veðmálinu, en hinn var réttarbóndinn“  (PG; Veðmálið). 

Aðkallandi (l)  Nauðsynlegt; sem liggur á; brýnt.  „Nú er orðið aðkallandi að moka út úr húsunum; það er farið að safnast uppundir grindur í miðhúsinu“.  „Mér finnst þetta mál ekki verulega aðkallandi“.

Aðkast (n, hk)  Áreitni/gagnrýni/hæðni eins eða fleiri manneskja í garð annarrar(r).  „Hann varð fyrir allmiklu aðkasti annarra félagsmanna fyrir þessar skoðanir sínar“.  Bein merking er að grýta/ kasta í.

Aðkenning (orðtak)  Vottur/snertur af; óljós vitneskja; aðdragandi; tilkenning. „Mér finnst ég vera með aðkenningu af einhverjum pestarfjanda“.

Aðkeyptur (l)  Keyptur/fenginn annarsstaðar frá; aðfenginn.  „Allur mjólkurmatur hefur verið aðkeyptur eftir að kúabúskapur lagðist niður“.

Aðkoma (n, kvk)  A.  Nálgun; afskipti.  „Mín aðkoma að þessu máli var aldrei mikil“.  B.  Leið/vegur að.  „Mér finnst dálítið öfugsnúið að aðkoman að húsinu sé bakdyramegin“.  C.  Upplifun þegar komið er að.  „Aðkoman var næsta ömurleg; sandinn hafði skafið undir yfirbreiðsluna og inn í fiskstæðuna“.

Aðkomandi / Aðkominn (l)  Gestkomandi; kominn að.  „Ég var aðkomandi á bænum þegar þetta vildi til“.

Aðkomubátur (n, kk)  Bátur sem gerður er út í veri og er ekki í eigu hemamanna.  „Með fyrstu aðkomubátum í Kollsvíkurver var vöðubátur ...“  (GG; Kollsvíkurver).

Aðkomubikkja (n. kvk)  Skammaryrði um aðkomna kind/ær.  „Þær urðu snarvitlausar þessar aðkomubikkjur þegar reynt var að koma þeim rétta leið heim“!

Aðkomufé (n, hk)  Fé sem kemur að; aðkomukindur; ekki heimafé.  „Mest er þetta heimafé í réttinni, en eitthvað er af aðkomufé innanum“.

Aðkomuformaður / Aðkomuháseti (n, kk)  Formaður/háseti sem ekki eru heimamenn í veri.  „Það er komið að vertíðarlokum.  Aðkomuformenn með skipshafnir, sem og aðkomuhásetar, fara að búast til heimferðar“. ... „Árin eftir 1930 þrengdu þó enn að kosti útgerðarmanna og bænda.  Útgerð aðkomumanna lagðist niður úr Kollsvíkurveri“  (KJK; Kollsvíkurver).

Aðkomukind (n, kvk)  Kind sem ekki er á heimaslóð; aðkomufé.  „Þarna er aðkomukind, innst í garðanum“.

Aðkomumaður (n, kk)  Sá sem er aðkomandi/gestkomandi á viðkomandi bæ/svæði. 

Aðkonumegin (ao)  Sú hlið kýrinnar sem snýr að mjaltakonu; venjulega hægri hlið.  Það gilti þó aðeins um mennskar mjaltakonur; huldukonur mjólkuðu frákonumegin; sjá þar.

Aðkrepptur (l)  Í slæmri stöðu; aðþrengdur.  „Ég fer að verða dálítið aðkrepptur með að klára á tilsettum tíma“.  „Það kreppir stöðugt í þessum málum“.  „Þegar Hagagilsáin fellur niður úr Neðri-Vatnadalnum rennur hún á milli tveggja hæða um frekar aðkreppt skarð...“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Aðlaðandi (l)  Heillandi; þokkafullur; sem dregur að.  „Mér finnst þetta nokkuð aðlaðandi kostur“.

Aðlaga / Aðlagast (s)  Fella að; laga sig eftir.  „Eftir nokkurn tíma hafði sjónin aðlagast birtunni svo ég gat kastað tölu á féð í karminum“.

Aðlagnargjóla / Aðlaganarvottur (n, kk)  Lítilsháttar aðlögn.  „Aðeins eykur hann veltinginn í þessari aðlagnargjólu“.  „Það var blankalogn allan daginn, nema smá aðlagnarvottur seinnipartinn“.

Aðlega (n, kvk)  Atlega; taður við hlein sem hægt er að leggja báti að, þannig að menn og flutningur komist í og úr landi.  Oftast undir bjargi og nefnt í tengslum við bjargferðir.  „Niður úr Saxagjá liggja lásgöngur á Ytri-Lundavelli; þar má síga í fjöru.  Þarna er talin best aðlega undir Bjarginu“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur- og Saurbæjarbjargs).

Aðlútandi (l)  Sem lýtur að; sem fjallar um.  „Hann er manna fróðastur um allt aðlútandi þessu málefni“.

Aðlögn (n, kvk)  Álandsvindur eftir sólríkan dag; innlögn; sólfarsvindur.  Yfirleitt gætir sólfarsvinda lítið í Kollsvík, en þó getur aðlögn orðið all áberandi eftir sólríkan, heitan og stilltan dag.  „Svo er hér talað um aðlögn (sem annarsstaðar er nefnd innlögn) í fjörðum í sterku sólskini, þegar landið hitnar um miðjan daginn“ (SG; Áttamálfar; Þjhd.Þjms).   „Ekki brimaði að ráði þó aðlögn gerði því helst var það þegar að öðru leyti var stillt og gott veður“... „Ef til vill er kominn norðan kaldi, „aðlögn“, þegar þessu kasti er að ljúka“  (KJK; Kollsvíkurver).  Sólfarsvindur í Patreksfirði var nefndur innlögn og hún getur orðið steitingshvöss

Aðnjótandi (l)  Sem nýtur góðs af.  „Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að veljast í formannsstól í félaginu“.

Aðra stundina (orðtak)  Öðru hvoru; stundum; af og til.  „Hann rýkur upp aðra stundina, með hellidembum“.

Aðrennsli (n, hk)  Aðkomandi rennsli.  „Kjóavötnin halda nánast stöðugu dýpi, þrátt fyrir að þar sé hvorki sýnilegt aðrennsli né frárennsli og þau séu nánast uppi á fjallshrygg.  Sama er um Breiðsvatn“.

Aðseta (n, kvk) Staður þar sem menn sátu undir vað við bjargsig.  Oft er þröngt um niðri í klettum og erfitt að sitja vel að.  „Aðseta var þarna þannig að mikill halli var við brúnina...“  (MG; Látrabjarg).  Þeir sem sitja undir vað eru vaðmenn, en brúnamaður fylgist með þeim sem niðri er.  Mikilvægt er að þekkja vel merkin; þ.e. þegar bjargmaðurinn gefur merki með því að kippa í vaðinn um hvort hann vill láta gefa; hífa eða halda.

Aðsetur (n, hk)  Búsetustaður; heimili; föst staðsetning.  „Aðsetur sýslumanns er á Patreksfirði“.

Aðsig (n, hk)  Aðdragandi; tildrög.  Eingöngu nú í orðtakinu í aðsigi.

Aðsjáll (l)  Gætinn í fjármálum; aðhaldssamur; nískur.  „Hann hefur verið aðsjáll í sínum rekstri“.

Aðsjálni (n, kvk)  Aðgæsla; sparnaður í fjárhag.  „Hann hefði mátt sýna nokkuð meiri aðsjálni í fjárútlátum“.

Aðsjón (n, kvk)  Umsjón; tilsjón; umönnun.  Í síðari tíð einungis í merkingunni tilsjón/ raunhæfur möguleiki:  „Það var engin aðsjón að leggja upp að hleininni í þessum súgi“.

Aðskilja (s)  Aðgreina; sortera; vía frá.  „Við þurfum að reyna að aðskilja Breiðavíkurféð frá okkar fé“.

Aðskiljanlegustu hlutir (orðtak)  Fjölbreytt úrval; kennir margra grasa.  „Í kistunni ægði saman hinum aðskiljanlegustu hlutum sem þangað höfðu ratað í áranna rás“.

Aðskilnaður (n, kk)  Viðskilnaður; það að vera ekki saman. 

Aðskorinn / Aðsniðinn (l)  Um fatnað; þröngur; fellur þétt að; mittismjór.

Aðskotadýr / Aðskotakvikindi (n, hk)  Dýr sem komið er að; aðkomukind; aðkomumaður.  „Mér leið eins og einhverju aðskotadýri í þessum félagsskap“.

Aðsókn (n, kvk)  A.  Árás; það að sótt sé að einhverjum.  Oft notað um það þegar maður fær martröð og finnst að á sig sé ráðist í svefni af draugum eða öðrum forynjum.  „Ég held að þetta hafi verið aðsókn, en fjandinn má vita hver sendi hana á mig“.  B.  Syfja; það að svefn sæki á mann.  Því var trúað að eitthvað óhreint fylgdi gestum og gerði vart við sig ef þeirra var von, t.d. með því að heimilismaður yrði syfjaður.  „Nú sækir að mér; hver gæti verið á ferðinni núna“?  Sjá sækja að.  C.  Mæting; eftirspurn.  Síðari tíma merking.

Aðsópsmikill (l)  Um manneskju; sem er áberandi í útliti eða háttum; áberandi; fyrirferðarmikill.  „Einar í Kollsvík var aðsópsmikill sveitarhöfðingi“.  Sjá sópar að.

Aðspurður (l)  Sem spurður er að einhverju.  „Aðspurður sagðist hann hafa gleymt þessu“.

Aðstaða (n, kvk)  Vinnuskilyrði; svigrúm; pláss; athafnasvæði.  „Eftir að Einar bróðir byggði á Gjögrum kom þar fljótlega bryggja, þannig að aðstaða til útgerðar trillubáta þaðan batnaði til muna“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Aðstandandi (n, kk)  Sá sem hefur skyldur við; náinn ættingi.  „Við sendum aðstandendum samúðarskeyti“.

Aðsteðjandi (l)  Sem blasir við; sem er væntanlegt.  „Við þurftum að leysa ýmis aðsteðjandi vandamál“.

Aðstoð (n, kvk)  Hjálp.  „Hann veitti okkur aðstoð við innreksturinn“.

Aðstoða (s)  Hjálpa; veita aðstoð.  „Þá þurfti að aðstoða við smalamennsku og fjárrag…“  (IG; Æskuminningar). 

Aðstoðarmaður (n, kk)  Sá sem veitir aðstoð; hjálparkokkur.

Aðstæður (n, kvk, fto)  Kringumstæður; hættir.  „Aðstæður til lendingar voru með besta móti“.

Aðstöðugjald (n, hk)  Skattur sem greitt er af atvinnurekstri til hreppssjóðs.  „Þá taldi hann of gróft farið í álagningu aðstöðugjalda“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Aðstöðugjaldsfótur / Aðstöðgjaldsprósenta (n, kk/kvk)  Hlutfall/viðmiðun aðstöðugjalds.  „Taldi oddviti ógerning á þessu ári að breyta aðstöðugjaldsfæti, þar sem það yrði að ákveða slíkt í febrúarmánuði“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Aðstöðuleysi (n, hk)  Skortur á góðri/fullnægjandi aðstöðu.  „Þetta er varla gerlegt í svona aðstöðuleysi“.

Aðsúgur (n, kk)  Atlaga; árás.  „Fundarmenn gerðu nánast aðsúg að honum eftir þessa ræðu, svo augljóst var að þessi sjónarmið nutu ekki fylgis“.  Sjá gera aðsúg að.  Bókstafleg merking er flan öldu upp á land.

Aðsvif (n, hk)  Yfirlið; meðvitundarleysi; vönkun.  Heitið vísar til þess að fyrrum hefur verið talið að vönkunin kæmi utanfrá og stafaði af yfirnáttúrulegum völdum, líkt og mara eða sending.

Aðtak / Aðfall (n, hk)  Aðfall; breyting sjávarstöðu frá háfjöru til háflæði.  „Ég gæti trúað að hann fari að rigna með aðtakinu“.  „Við róum í aðtakið; þá verðum við frammi um snúninginn“.  „Að fenginni hressingu var gengið til ruðnings og byrjað á aðgerð, uns sást að komið var aðtak; byrjað að falla að“  (KJK; Kollsvíkurver).

Aðvara / Aðvara með (s/orðtak)  Láta vita af; koma boðum til; gera viðvart.  „Það þarf að aðvara Vegagerðina með þessa skriðu á Fjörunum“.

Aðventa (n, kvk)  Jólafasta; síðustu fjórir sunnudagarnir fyrir jól adag.  Orðið er úr latínu og merkir það að koma.  Beri jóladag uppá sunnudag verður hann fjórði sunnudagur í aðventu.  Orðið er komið úr latínu; adventus sem merkir koma og vísar til komu Krists.  Á síðari tímum hefur verið tekinn upp sá útlenski siður að setja upp fjögurra kerta aðventukransa eða rafljós.  Slíkt þekktist ekki í Kollsvík áðurfyrr svo vitað sé, en eflaust hefur þar verið fastað á jólaföstunni eins og víðar áðurfyrri.

Aðventisti (n, kk)  Sá sem tilheyrir trúarhópi aðventista.  Kirkja sjöunda dags aðventista greinir sig frá öðrum kristnum söfnuðum í því að halda laugardaginn heilagan sem hvíldardag.  Á rætur að rekja til New-Hampshire í Bandaríkjunum 1844, en hérlendis var kirkja stofnuð 1914 og hefur nú allnokkur umsvif.

Aðvera (n, kvk)  Möguleiki; gerlegt.  „Það engin aðvera að vinna við þessar aðstæður þó maður láti sig hafa það“.  Orðið er ekki þekkt annarsstaðar í þessari merkingu, en var almennt notað þannig í Kollsvík.  Þekkt er notkun annarsstaðar í merkingunni „aðstaða“.

Aðvífandi (l)  Um þann sem kemur óvænt.  „Heppni að hann kom þarna aðvífandi og gat bjargað málum“.

Aðvörun (n, kvk)  Viðvörun; varnaðarorð.  „Hann lét sér ekki segjast við þessa aðvörun“.

Aðþrengdur (l)  Í klemmu; þjarmað að; tæpur með nauðsynjar; mjög hungraður.  „Við förum bráðum að verða dálítið aðþrengdir með salt“. 

Af (einhverjum) að vera (orðtak)  Miðað við stöðu/uppruna/ætt einhvers.  „Mér finnst þetta hraustlega gert; af ekki sterkari manni að vera“.  „Hrúturinn er ansi vænn; af tvílembingi að vera“.

Af (öllu) afli / Af alefli (orðtak)  Með krafti; með því að beita fullum styrk.  „Ég sparkaði af afli í hurðina og náði að opna dálitla rifu“.  „Nokkuð hnikaðist tréð þegar ég tók á því af alefli“.

Af afspurn (orðtak)  Af fréttum; gegnum milliliði.  „Ég þekki þetta mál bara af afspurn“.

Af ásettu ráði (orðtak)  Að yfirlögðu ráði; viljandi.  „Hann gerði þetta óviljandi en ekki af ásettu ráði“.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá (orðatiltæki)  Menn skyldu dæmdir af verkum sínum.  Speki úr Mattheusarguðspjalli biblúnnar.

Af eða á (orðtak) Taka ákvörðun; framkvæma eða hætta við; taka boði eða synja.  „Hann verður að segja af eða á um þetta; vill hann þiggja boðið eða hætta við kaupin“?  „Þú verður að segja af eða á“.

Af eigin rammleik (orðtak)  Án aðstoðar; með eigin hendi/kröftum; hjálparlaust.  „Ég stakk úr skurðbökkunum, og loksins tókst kúnni að klórast uppúr af eigin rammleik“.  „…skyldi hann fylgja okkur svo langt vestur á Tunguheiði (Hálfdán) að öruggt  væri að við kæmumst af eigin rammleik að Tungu í Tálknafirði“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Af enda og á (orðtak)  Milli enda; frá upphafi til enda.  „Fjörurnar eru kolófærar; alveg af enda og á“.

Af er (það) sem áður var (orðatiltæki)  Tímarnir eru breyttir.  „Mikil ósköpin eru að sjá slæðurnar hér útum öll tún!  Ja; af er það sem áður var; þegar hvert einasta strá var hirt í hlöðu og nýtt til fóðurs“!  Einnig; það er af sem áður var.

Af er verk þá unnið er / Af/úti er þraut þá unnin er (orðatiltæki)  Það verður ekki til tafa/þrautar sem lokið er.

Af erlendu bergi brotinn (orðtak)  Um manneskju; af erlendum kynstofni/ættum; ættuð frá útlöndum. 

Af fullum krafti (orðtak)  Á fullu; af alefli.  „Þegar voraði voru horn, leggir, kuðungar og kúskeljar tekin úr vetrargeymslu og farið að stunda búskap af fullum krafti“  (IG; Sagt til vegar II). 

Af góðum huga koma góð ráð/verk (orðatiltæki)  Vísar til þess að sá sem er velviljaður/jákvæður er jafnan ráðbetri en hinn sem er illviljaður eða svartsýnn; sá sem er velviljaður gerir gjarnan góðverk.

Af guði gerður/skaptur (orðtak)  Skapaður; gerður.  „Ég er ekki þannig af guði gerður að ég skilji mann eftir í neyð, án þess að reyna að aðstoða hann“.

Af guðsnáð / Af drottinsnáð (orðtak)  Eins og skapaður er; með guðsgjöf.  Jafnan notað um eiginleika manns.  „Hann er söngvari af guðsnáð“.  „Hann var leikari af drottinsnáð, þó ólærður væri“.

Af heilum huga (orðtak)  Heilshugar; af sannfæringu; án þess að efast.  „Er með sanni almáttug/ eining góðra manna./  Trúum þannig heilum hug/ hver á annars þor og dug“  (JR; Rósarímur). 

Af handahófi (orðtak)  Af tilviljun; án vals.  „Ég tók bara nokkur egg af handahófi, án þess að skyggna“.  Hóf merkir þarna líklega hreyfing (að hefja), og er merkingin því; „eins og hendurnar hreyfast“.

Af (einhvers) hálfu (orðtak)  Af hendi einhvers; að því er varðar einhvern.  „Þetta er í góðu lagi af minni hálfu“.  „Hún sagðist ekki hafa sætt góðri meðferð af hans hálfu“.

Af hendingu (orðtak)  Af tilviljun; fyrir rælni; svo vildi til.  „Ég var ekkert sérstaklega að leita að fé á þessum slóðum, en af hendingu varð ég var við hrútahópinn efst uppi í teigunum“.

Af hrellandi / Af takandi (orðtök)  Unnt/vert að taka af /minnka.  „Ég bað hann ekki um egg í soðið; hann fékk svo lítið í ferðinni að það var ekki af því hrellandi“.

Af hverju (orðtak)  Hvers vegna; af hvaða völdum.  Algengt þegar spurt er um orsök:  „Af hverju er þetta svona“?

Af illum gefast ill ráð (orðatiltæki)  Ekki er gott að þiggja ráð hjá óvönduðum mönnum.

Af illum jafnan ills er von (orðatiltæki)  Búast má við slæmu frá þeim sem eru illa innrættir.

Af kappi (orðtak)  Af miklum móð; af krafti.  „Heyinu var rutt af kappi inn í hlöðuna“.

Af litlum neista getur orðið/ verður oft mikið bál (orðtatiltæki)  Ekki þarf mikið til að verða upphaf að stórmáli/stórviðburði.

Af lífi og sál (orðtak)  Heilshugar; af heilum hug.  „Hann sinnir þessu áhugamáli af lífi og sál“.

Af (öllum) lífs og sálar kröftum (orðtak)  Eins og orkan framast leyfir; undir drep.  „Ég öskraði á hann af öllum lífs og sálar kröftum, en hann heyrði ekkert gegnum veðurgnýinn“.

Af manni genginn  (orðtak)  Örmagna; dauðþreyttur; úttaugaður.  „Ég var alveg af manni genginn eftir átökin“.  Sjá af sér genginn.

Af (tómri) meinsemi / kvikindisskap (orðtak)  Af stríðni; sem hrekkur; til að vekja illindi.  „Ég held að hann hafi gert þetta af meinsemi við karlinn“.  „Af kvikindissskap mínum hellti ég bara blávatni í bollann“.

Af miklum móð (orðtak)  Af kappi; af krafti/dugnaði; í flýti.  „Hann mokaði upp í börurnar af miklum móð“.

Af og frá (orðtak)  Útilokað; afskorið; alls ekki.  „Það er af og frá að ég hafi sagt þetta“.

Af og til (orðtak)  Öðru hvoru; annarslagið; endrum og sinnum.  „Af og til hrökk hann upp“.  „Ég leit út um gluggann af og til; hvort þeir væru nokkuð að koma“.

Af rælni (orðtak)  Af hendingu/tilviljun; vegna óljóss hugboðs.  „Af rælni leit ég inn í kofann í leiðinni.  Þá sá ég þar kind sem hafði fest hornin í netunum“.

Af sama tagi/toga (orðtak)  Samskonar; eins.  „Mér sýnist þetta vera af sama toga og það fyrra“.  Vísar til ullarvinnu og merkir líklega „af sama lit“ eða „af sama reyfi“.

Af sem áður var (orðtak)  Ekki eins (gott) og það var fyrrum; siðirnir eru breyttir.  „Það er af sem áður var; þegar aðkomumenn flykktust í Kollsvík í sumarbyrjun til útróðra“.

Af sér genginn (orðtak)  Þrotinn að kröftum/úthaldi.  „Eftir þennan eltingarleik var hann alveg af sér genginn“.  Sjá af manni genginn.

Af sjálfsdáðum (orðtak)  Fyrir eigin rammleik/getu.  „Maðurinn sem rak á land hlýtur því að hafa komist út af sjálfsdáðum áður en hann rak að landi“  (ÁH um Sargon-strandið; Útkall við Látrabjarg).

Af sjálfu sér (orðtak)  Sjálfkrafa; án utanaðkomandi hjálpar/verknaðar.  „Einhver hefur gleymt að ganga frá fjárhúsdyrunum; þær opnast ekki af sjálfu sér“!  „Þessi vandamál leystust af sjálfu sér“.

Af sjálfu sér leiðir (orðtak)  Afleiðingin er eðlilega.  Sjá leiðir af sjálfu sér.

Af skornum skammti (orðtak)  Naumt skammtaður; naumur; knappur.  „Einhverja hvíld hafa mennirnir orðið að fá meðan á þessu stóð, þó líklegt sé að hún hafi verið af skornum skammti“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Af skömmum sínum (orðtak)  Af illkvittni; til að gera óskunda; af hrekkvísi.  „Strákarnir gerðu það af skömmum sínum að binda skóreimar karlsins saman meðan hann svaf í stólnum“.

Af stað (orðtak)  Áfram; frá verustað.  „En þegar hann sér til Jóns, sem heima átti enn í Kvígindisdal, koma suður í Verið; hleypur hann af stað norður þangað“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Af tvennu illu (orðtak)  Af tveimur slæmum kostum.  „Af tvennu illu vil ég heldur moka undan grindunum en hlusta á þessa árans þingmenn þylja upp innantóm loforð“.

Af vanefnum (orðtak)  Á ódýran máta; með lítil fjárráð. „Þessi framkvæmd var af miklum vanefnum“.

Af veikum mætti (orðtak)  Máttlítið; veiklulega.  „Var það gert af veikum mætti... “  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Af viti (orðtak)  Gáfulegt; skynsamlegt.  „Það var mikið að þú sagðir eitthvað af viti“!

Af þeim toga / Af því tagi/taginu (orðtak)  Af þeirri tegund; af slíku. 

Af því / Af því (orðtak)  Vegna þess; af þeim ástæðum.  „Ég hætti við, af því að ég sá engan tilgang með þessu“.  „Þú verður fljótt þreyttur af því að ausa alltaf með sömu hendinni“.

Af sama/því bergi brotinn / Af því/sama sauðahúsi (orðtak)  Þeirrar/sömu tegundar; úr sama/þeim hópi.  „Hann var ekki af sama bergi brotinn og margir hans frændur“.  „Ég kýs hvorki hann né nokkurn af því sauðahúsi“!  „Þetta er allt af sama sauðahúsinu“.

Af (allt) öðru sauðahúsi (orðtak)  Öðruvísi; af öðrum toga.  „Þessi nýi sýslumaður virðist vera af allt öðru sauðahúsi en gamli skúnkurinn“.

Af öllum mætti (orðtak)  Með fullum krafti; af alefli.  „Ég reri af öllum mætti, og tókst að forða bátnum frá brotinu“.

Afar (ao)  Mjög.  „Í Látrabjargi var afar gott haglendi, þar sem það á annað borð var grasi gróið“  (PG; Veðmálið).   Notað sem forskeyti með mörgum lýsingarorðum og sumum nafnorðum.

Afarhægt (l)  Mjög rólega.  „Já, hér er flágrynni; landgrunninu hallar afarhægt.  Hér snardýpkar ekki fyrr en við Víkurál, sem er um 9 stunda ferð frá Patreksfirði“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Afarkostir (n, kk, fto)  Hörð skilyrði; erfitt val.  „Vermenn urðu annaðhvort að hlíta afarkostum kaupmanna eða tapa sínum afla“.

Afarmenni (n, kk)  Hættulegur maður; ruddi.  „Hann gat orðið afarmenni þegar hann reiddist illa“.

Afarreiður (l)  Mjög reiður; fjúkandi illur/vondur.  „Hann varð víst afarreiður við þessi tíðindi“.

Afbaka (s)  Aflaga; brengla; gera afkáralegt.  „Eitthvað er nú búið að afbaka þessa sögu, heyrist mér“.  Vísar líklega til þess að bak er tekið af trjábol þegar hann er unninn í borðvið eða planka. 

Afbarka / Afbirkja (s)  Fjarlægja börk af tré; birkja tré.  „Rekatréð var svo heilt að það hafði ekki náð að afbarkast“.  „Tréð var furðu nýlegt.  Ég þurfti að afbirkja það sumsstaðar“.

Afbeita (s)  Taka notaða beitu af öngli.  Sjá afbeitingur.

Afbeitingur / Afbeitningur (n, kk)  Beita sem búið er að nota til veiði, en kemur aftur upp á önglinum og þarf þá að losa af áður en aftur er beitt.  „Ef þær (lóðirnar) voru þá jafnframt stokkaðar upp, var talað um að afbeita eða afslíta; einnig að afskeina lóðirnar, eða einungis að skeina þær.  En beitan var þá kölluð afbeitingur eða afslit“  (LK; Ísl.sjávarhættir IV).

Afbera (s)  Þola; halda út.  „Ég varð að lóga hundinum í morgun.  Ég gat ekki afborið að sjá hann þjást svona“.  Hinsvegar er orðtakið „bera af“ með allt aðra merkingu, þ.e. skara framúr.

Afbiðja (s)  Vísa frá; falla frá beiðni; frábiðja.  „Ég verð að afbiðja þessa smala ef veðurspáin gengur eftir“.

Afbjarga (l)  Sól var afbjarga þegar hún hvarf af hæstu fjallatindum og var bjart í norðurátt“    (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM). 

Afboða (s)  Afturkalla boð.  „Fundurinn var afboðaður vegna veðurs“.

Afboðun (n, kvk)  Afturköllun boðs.  „Ég vona að afboðunin berist þeim í tæka tíð“.

Afborgun (n, kvk)  Áfangagreiðsla af skuld.

Afbragð (n, hk)  Ágæti; það sem skarar framúr/ er til fyrirmyndar.  „Hann þótti afbragð annarra manna“.  Forskeyti margra lýsingar- og nafnorða, til áhersluauka.

Afbragðsgóður (l)  Afburðagóður; frábær; mjög góður.  „Hún eldaði afbragðsgóðar eggjakökur“.

Afbrigða- Forskeyti margra orða til áherslu, til að lýsa einstökum/framúrskarandi eiginleikum.  S.s. afbrigðagóður; afbrigðaslæmur; afbrigðalatur; afbrigðaduglegur.

Afbrigðavel (ao)  Mjög/frábærlega vel.  „Í þeim efnum stóð hann sig afbrigðavel; það má hann eiga“.

Afbrigði (n, hk)  A.  Frábrigði; einstakt eintak.  „Hann sagðist aldrei hafa séð svona afbrigði af þorski“.  „Þetta heppnaðist með afbrigðum vel“.  B.  Undantekning.  „Leita þurfti afbrigða frá þingsköpum til að koma málinu á dagskrá“. 

Afbrot (n, hk)  Brot á reglu; lögbrot.  „Það þótti refsivert afbrot að hægja sér utan viðurkenndra svæða í verinu, og gátu menn átt yfir höfði sér sektir sem teknar voru af aflahlut“. 

Afbrýði / Afbrýðisemi (n, kvk)  Öfund.  „Vertu nú ekki með þessa afbrýði útí hann útaf hnífnum“!

Afbrýðisamur (l)  Sem sýnir merki um öfund/afbrýði. 

Afbrýna (s)  Brýna úr bit; róa eggina; brýna af; nota rangt brýnsluhorn.  „Þú þarft að gæta þess að afbrýna ekki ljáinn“.

Afburða-  Áhersluforskeyti margra lýsingar- og nafnorða, til að sýna að skarað sé framúr.  S.s. afburðagóður; afburðafallegur; afburðafróður; afburðaglöggur; afburðaharður; afburðasterkur; afburðasjómaður o.fl.

Afburðafær (l)  Sumir eru afburðafærir í bjargi; fara það bandlausir sem flestum reynist ófært án þess þó að tefla mjög á tvær hættur og eru svo léttir í vaðdrætti að furðum sætir.  Til þess þarf m.a. að vera laus við lofthræðslu; vera útsjónarsamur með afbrigðum; hafa góða tilfinningu fyrir traustleika hand- og fótfesta og kunna að létta á undirsetumönnum.  Af afburða bjargmönnum 20. aldar í Rauðasandshreppi má m.a. nefna Daníel Eggertsson; Hafliða Halldórsson; Andrés Karlsson; Kristján Júlíus Kristjánsson; Jón Hannesson og Marinó Kristjánsson og eru þó alls ekki allir upp taldir.

Afburðagóður (l)  Frábær; einstaklega góður.  „Það er eftirsjón að þeirri kind; hún hefur gert afburðagóð lömb“.  „Hingaðtil hefur heyskapartíðin verið afburðagóð“.

Afburðamaður (n, kk)  Sá sem skarar framúr öðrum.  „Hann var afburðamaður á þessu sviði“.

Afburðavænt (l)  Um holdafar sauðfjár; mjög vænt.  „Það er afburðavænt, féð af Hlíðunum, enda í úrvalsbeit“

Afbæjar (ao)  Ekki heimavið; á öðum bæjum.  „Ég kom þarna við, en hann var eitthvað afbæjar þá stundina“.

Afbæjarfé (n, hk)  Fé sem ekki er heimafé.  „Komi afbæjafé fyrir eftir að fjallskilum er lokið, skal tilkynna það eigendum fjárins...“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).

Afbökun (n, kvk)  Brenglun; útúrsnúningur.  „Mér er illa við svona afbökun á gamalgrónu máli“!

Afbötun (n, kvk)  Afsökun.  „Þjófurinn hafði það sér til afbötunar að engin önnur bjargráð voru fyrir hendi“

Afdalakerling (n, kvk)  Kvenmaður sem býr í sveit (niðrandi merking).  „Svo þegar útrásarvíkingarnir fóru að kaupa upp stóeignir í nálægum löndum þá virtist þjóðin sitja með stjörnur í augunum af aðdáaun á snilli þessara manna; svo að þó að einhver afdalakerling skildi þetta ekki þá vottaði það bara hennar heimsku!“  (SG; Bankahrunið; Þjhd.Þjms). 

Afdalur (n, kk)  Dalur sem gengur inn af öðrum dal, eða þvert á hann.  Þannig eru t.d. Tungudalur, Kálfadalur, Lambadalur, Heiðardalur, Vandardalur og Miklidalur afdalir frá Örlygshöfn.

Afdankaður (l)  Úr sér genginn; lélegur.  „Þessir stólagarmar eru orðnir afdankaðir fyrir löngu“.

Afdauður (l)  Dauður; steindauður; löngu dauður.  „Þessi hjátrú er afdauð fyrir löngu“.

Afdráttarlaus (l)  Vafalaus; skýr.  „Hann var alveg afdráttarlaus í sínum svörum“.

Afdrep (n, hk)  Skjól fyrir veðri.  „Kindurnar fundu sér afdrep í hellinum“.  „...og hleypti í rokinu vestur undir Látrabjarg, þar var afdrep“  (BS; Barðstrendingabók).

Afdrif (n, hk, fto)  Örlög; framvinda; endalok.  „...en hann hafði verið fenginn til þess að fara út á Látrabjarg og skyggnast eftir því hvort hann yrði nokkurs vísari um afdrif þeirra félaga... “  (ÖG; Þokuróður). 

Afdrift (n, kvk)  Rek; drift.  „Ida var... djúprist og hafði því mjög litla afdrift, en það var talinn mikill kostur góðra seglskipa“  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).

Afdæma (s)  Útiloka; dæma útilokað/ómögulegt.  „Ekki ætla ég alveg að afdæma þessa fullyrðingu“.

Afdæmt (l)  Útilokað; vonlaust; afskorið; fráskorið.  „Það er alveg afdæmt að við róum í dag ef hann heldur þessum gutlanda“.

Aféta (s)  Éta allan mat frá; borða svo mikið að annar fái ekki nóg.  „Þú verður að halda þig að matnum, svo þú verðir ekki afétinn“!

Affallalaus (l)  Án affalla/tjóns/vanhalda.

Affallasamt (l)  Með miklum afföllum/áföllum; tjóni/vanhöldum.  „Það vill verða affallasamt í Bjarginu“.

Affarasælt (l)  Farsælt; vænlegt til árangurs.  „Ég held að affarasælast sé að hafa þetta óbreytt“.  „Ég ræð því almennt til að spara hey fyrrihluta vetrar handa þeim pening er notið getur beitar, því reyndin hefur kennt okkur að affarasælla sé að eiga þau heldur til voranna og seinni hluta vetrar“  (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1929).  

Afferma (s)  Bera/taka farm úr skipi eða öðru flutningatæki.  „Hver hönd var viðbúin að taka á móti bátnum, og var hann á skömmum tíma affermdur og bát og farmi bjargað undan sjó“  (KJK; Kollsvíkurver).

Afferming (n, kvk)  Það að afferma/ bera af skipi eða öðru flutningatæki.

Afföll (n, hk, fto)  Rýrnun; skaði/tjón að hluta.  „Það urðu afföll á saltinu þegar vatn komst í geymsluna“.

Afgamall (l)  Mjög gamall; eldgamall.  „Það er ég viss um að þetta ket er af afgamalli og sjálfdauðri belju, en ekki ungnauti, þó það standi á matseðlinum“!

Afgangs (ao)  Eftir; umfram.  „Það verður víst lítið afgangs af hákarlinum þegar þú hættir að kroppa“!

Afgangur (n, kk)  A.  Leifar; rest; það sem eftir er.  „Mér sýnist að það verði enginn afgangur af því að saltið dugi“.  „Afgangur heyja minni en skyldi, eftir jafn góðan vetur“  (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).   B.  Einnig í óeiginlegri merkingu; á mörkunum.  „Það var enginn afgangur af því að ég næði að klórast þarna upp á brúnina, en það hafðist“.

Afgerandi (l)  Skýr; sem tekur af allan vafa.  „Það er enginn afgerandi munur á þessu tvennu“.

Afgirða (s)  Skilja frá öðru svæði með girðingu; girða af/milli. 

Afgjald (n, hk)  Leiga; afborgun. 

Afglapaháttur (n, kk)  Bjánagangur; sauðsháttur.  „Hvers konar afglapaháttur er þetta“?

Afglapi (n, kk)  Auli; bjáni.  „Skelfilegur afglapi hefur maðurinn verið“

Afglöp / Afglapaháttur (n, hk, fto)  Mistök; yfirsjónir.  „Þetta verða að teljast herfileg afglöp“.

Afgogga (s)  Taka fisk af línu eftir að hann hefur verið goggaður inn í bát.  „Þegar byrjað var að draga línuna var hún beitt út jafnt og dregið var.  Tveir menn voru undir árum í andófi.  Þriðji maðurinn dró línuna, goggaði og afgoggaði fiskinn, en sá fjórði beitti út línuna“  (KJK; Kollsvíkurver).

Afgreiða (s)  A.  Sinna; þjóna; gera til hæfis; láta viðskiptavin hafa vörur úr búð gegn greiðslu.  „Ók þá steinbítshausum, afgreiddi í búðinni og gerði það sem til féll“  (IG; Æskuminningar).   B.  Líkingamál; sjá um; klára; vinna á.  „Ég er nú fljótur að afgreiða svona frekjuhunda; ég sagði honum bara að hypja sig“!

Afgreiðsla (n, kvk)  Það að afgreiða/ þjóna.  B.  Staður þar sem afgreitt er, t.d. í verslun.

Afhausa (s)  Taka haus af; hausa fisk.  „Þegar við fórum að draga lóðirnar var ágætur afli á þær og lét Guðmundur einn manninn strax ganga í að afhausa og slægja fiskinn“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Afhelga (s)  Afnema sérstaka helgi á einhverju, t.d. kirkju.  Ekki er vitað nákvæmlega hvernig eða hvenær afhelgun Kirkjubólskirkju í Kollsvík fór fram eftir siðaskiptin, en allar líkur eru á að hún hafi verið byggð og vígð af Kolli sjálfum sem keltnesk kirkja; fyrsta kirkjan á Íslandi.

Afhenda (s)  Láta af hendi; fá einhverjum í hendur.  „Ég afhenti honum lyklana að kistunni“.

Afhending (n, kvk)  Það að afhenda.

Afhellir (n, kk)  Hellir innaf öðrum helli; hliðarhellir.  „Inn úr Sandhelli er afhellir...Þumall“  (GG; Önefnaskrá Láganúps).

Afhjúpa (s)  Gera sýnilegt; taka umbúðir af. 

Afhreistra (orðtak)  Fjarlægja/skafa hreistur af fiski eða öðru.

Afhuga (l)  Fráhverfur; hefur ekki lengur áhuga.  „Hann er orðinn þessum kaupum alveg afhuga núna“.

Afhýða (s)  Hýða rækilega; kaghýða

Afhýsi (n, hk)  Hús sem gengur út frá öðru stærra húsi; viðbygging.

Afhættis (ao)  Of seint; ógerlegt.  „Það er nú ekki afhættis með að þú komist fyrir kindurnar ef þú leggur strax af stað“.  „Ég held að það sé alveg afhættis með það að við náum að draga alla strengina í dag“.

Afhöfða (s)  Hálshöggva; höggva höfuð af manneskju.

Afkarta (s)  Taka/skrapa burtu körturnar/gaddana á grásleppu eða rauðmaga. 

Afkasta (s)  Áorka; koma í verk; geta gert.  „Það var með ólíkindum hverju hann hafði afkastað“!

Afkastamikill (l)  Sem afkastar/áorkar miklu.

Afkáralega (ao)  Bjánalega; aulalega; asnalega.  Vísar til forna lýsingarorðsins „kárr“ sem merkti hrukkóttur; gáróttur; hrokkinhærður

Afkáralegur (l)  Aulalegur; bjánalegur.  „Þú ert nú dálítið afkáralegur með þessa húfuómynd“.

Afkimi (n, kk)  Afvikinn staður; útskot; afhellir.  „Stundum setur ágætis reka upp í þennan afkima“.

Afklippa (n, kvk)  Afskurður; skækill; það sem klippt hefur verið af.   „Það duga einhverjar afklippur í þetta“.

Afklæða (s)  Hátta; færa úr fötum.  „Hann var ekkert að afklæðast heldur lagðist til sunds fullklæddur“.

Afkolla/ Afhausa (s)  Kolla; hausa; taka haus af steinbít í aðgerð (sjá steinbítur). 

Afkoma (n, kvk)  Arðsemi; það sem starf skilar til lífsviðurværis; lífsviðurværi.  „Fiskverð hækkaði nokkuð um og uppúr fyrri heimsstyrjöld.  En salt og aðrar nauðsynjar hækkuðu að sama skapi, svo afkoman batnaði lítið eða ekki“  (KJK; Kollsvíkurver).

Afkomandi (n, kk)  Niðji; sá/sú sem á viðkomandi að foreldri eða forföður/-móður.  „Afkomendur Einars í Kollsvík eru fjölmennir og dreifðir víða um heim“.

Afkróaður / Afkvíaður (l)  Kominn í aðhald; kemst ekki vegna fyrirstöðu.  „Meðan hálsinn er lokaður eru Kollsvíkurbæirnir afkróaðir varðandi samgöngur á landi“.

Afkvista (s)  Höggva greinar af trjástofni eða sverari grein hans.  Stundum stytt í „kvista“.

Afkvæmi (n, hk)  Afkomandi í fyrsta ættlið.  T.d. barn hjá manneskju; lamb hjá ær; kálfur, hvolpur, o.s.frv.

Afl (n, kk)  Eldstæði í smiðju.  Í aflinum er oftast blásið í eldinn meðan járn er hitað, til að auka hitann.

Afl (n, hk)  Kraftur/styrkleiki sem getur framkallað vinnu.  T.d. vöðvaafl manna; vélaafl véla.  „Ekki skorti hann aflið; ég hef sjaldan kynnst sterkari manni“.  „Enginn hefur afl við ægi“.

Aflabrestur (n, kk)  Það að veiði bregst almennt,sem vonast var eftir.  „Svo virðist sem langvarandi aflabrestur hafi orðið seint á því tímabili sem nefnt er „litla ísöld“, eða um og uppúr 1600.  Hann varð til þess að útgerð lagðist nánast af í Útvíkum og t.d. var Láganúpsver ekki svipur hjá sjón þegar Jarðabókin var gerð árið 1703.  Þá hættu menn alveg að nota lóðir, enda veiði sáratreg og stórþorskur fékkst ekki“.

Aflabrögð (n, hk)  Fiskirí; meðalafli; afli.  „Hvernig hafa aflabrögð verið, það sem af er vertíð“?

Aflafengur (n, kk)  Afli sem fæst.  „Og menn voru glaðir og ánægðir yfir miklum aflafeng, og ekki síður fyrir það að ekkert slys hafði orðið“  (MG; Látrabjarg; frás. DE).

Aflafréttir (n, kvk, fto)  Fréttir af aflabrögðum.  „Heldur eru það aflafréttirnar sem maður heyrir þessa dagana“!

Aflaföng (n, hk, fto)  Afli; veiði.  „Á sjósókn þarf vart að minnast, því vart er báti hrundið úr vör til aflafanga núorðið“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58). 

Aflaga / Afmynda (s)  Brengla; færa úr lagi.  „Eitthvað hefur þetta aflagast í átökunum“.  Sjá fara aflaga.

Aflagður (l)  Hætt að nota; kominn úr notkun.  „Rétt er að geta um bæjarstæði sem nýlega voru aflögð á þessum tíma“  (EG; Ábúendur Kollsvík; Niðjatal HM/GG).

Aflahlutur (n, kk)  Hlutur skipverja af afla báts, en honum er skipt eftir ákveðnum reglum.  Skiptareglur hafa tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina.  „Elsta íslenska vitneskja um aflaskipti er í Fóstbræðrasögu, en hún er talin rituð seint á 13. öld.  Þar segir að fiskimaður kalli aflausn vera fiskinnar ef hann dregur fisk fyrir sig; annan fyrir skip; þriðja fyrir öngul og fjórða fyrir vað.  Af þessu sést að dauðu hlutirnir hafa þá verið þrír; tveir fyrir veiðarfæri og einn fyrir skipið.  Samkvæmt Stóradómi frá 1564 voru skipshlutir tveir af ýsu, steinbít, flyðru, skötu, karfa o.fl. bæði utan vertíðar og innan, og einnig af þorski utan vertíðar.  En um vertíð átti að haldast skipleiga af þorski eins og að fornu“  (LK; Ísl. sjávarhættir IV).  Undir lok vermennsku í Kollsvíkurveri voru skiptareglur þessar þar:  „Svo voru vorhlutirnir; aflahlutur hvers og eins úr þorskaflanum sem seldur var.  Skipt var í fimm hluti.  Hver háseti fékk einn hlut en útgerðarmaður, sem oftast var jafnframt formaður, tók tvo hluti fyrir sig og dauðan hlut fyrir bát og veiðarfæri.  Þessir hlutir voru ekki háir í krónutölu, enda verðlag í engu sambærilegt við það sem síðar hefur gerst.  Hver króna sennilega 80-100 sinnum verðmeiri en hún er nú orðin (skrifað um 1970).  Ekki er mér kunnugt hvað hlutur hefur orðið lægstur í krónutölu en 200-400 kr mun hafa verið mjög algengt.  Fiskverð hækkaði nokkuð um og uppúr fyrri heimstyrjöld. En salt og aðrar nauðsynjar hækkuðu að sama skapi svo afkoman batnaði lítið eða ekki.  Vorið 1927 varð hæsti vorhlutur kr 870, og sá næsti þar fyrir neðan kr 800.  Þetta þóttu mjög háir hlutir á þeim tíma.  Árin eftir 1930 þrengdu þó enn að kosti útgerðarmanna og bænda.  Útgerð aðkomumanna leggst niður úr Kollsvíkurveri“  (KJK; Kollsvíkurver).

Aflahorfur (n, kvk, fto)  Líkindi til þess að vel veiðist.  „Ekki líst mér vel á aflahorfurnar af þessari byrjun“.

Aflahrota (n, kvk)  Mikil veiði yfir (stutt) tímabil. 

Aflahæstur (l, est)  Með mestan afla, t.d. yfir daginn eða yfir vertíðina.  Oftast átt við bát eða formann hans.  Sjá aflakóngur.

Aflaki (n, kk)  Úrhrak; aumingi; vesalingur.  „Hann sagðist ekki vilja vera sá aflaki að synja þeim um hjálp sem í nauðum væru staddir“.

Aflakló / Veiðikló (n, kvk)  Lánsamur veiðimaður.  Oftar var talað um veiðikló í seinni tíð í Kollsík.  „Í tregfiski kom fyrst í ljós munurinn á aflaklóm og fiskifælum.  Þá voru góðir dráttarmenn alltaf að draga öðru hvoru þó aðrir fengju ekki nokkurn ugga“  (GG; Skútuöldin).  

Aflakóngur (n, kk)  Sá sem færir mestan afla að landi yfir vertðíð.  „Þessir formenn voru í þá daga aflakóngar á Patreksfirði“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Aflandsátt (n, kvk)  Vindátt sem stendur af landi út á sjó.  „Oft hefur verið barningur hjá körlunum í Kollsvíkurveri að lemja til lands á árum í aflandsáttum“.

Aflandsgjóla / Aflandsstormur / Aflandskul / Aflandssperringur  / Aflandsstrambi / Aflandstætingur / Aflandsvindur (n, kvk/hk/kk)  Vindur sem stendur af landi.  Gat orðið til trafala við t.d. netadrátt og heimróður. „..síðdegis skall á aflandsstormur svo að engin tök voru á að sjá land eða ná því“ (Þakkir Árna Árnasonar í Kollsvík til skipstj. á Chieftain í Ísafold apríl 1913).  „Frá Keflavík að Bjargtöngum var undanhald, en úr því var aflandsvindur“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). „Frá Keflavík að Bjargtöngum var undanhald, en úr því var aflandsvindur“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi). „Það var þreytandi að hanga í netum á víkinni í þessum aflandssperringi“.

Aflandsstraumur (n, kk)  Straumur sem liggur frá landi.  Framanvið Kollsvík og aðrar Útvíkur myndast réttsælis hringiður frá Látraröstinni, eins og glöggt má sjá á því hvernig sand leggur upp á fjörur.  Þessar iður valda því að t.d. er alltaf suðurfall á Seljavíkinni, þar sem þessi áhrif eru mest.  Þær valda því einnig að sumsstaðar verður aflandsstraumur, þó hans verði ekki verulega vart á yfirborði.  Gera má ráð fyrir að hann sé að finna undan Hnífum; Bjarnarnúp og Bjargtöngum, sé sú kenning rétt að iða sé á hverri vík. 

Aflangur (l)  Um lögun hlutar; ílangur; langur miðað við breidd og þykkt. 

Aflasæld (n, kvk)  Fiskni; hæfileiki til að afla vel.  „Eitthvert einkennilegasta fyrirbrigði handfæraveiðanna var það hversu misjafnt menn drógu.  Þótt aðstaða öll virtist hin sama, og möguleikar engu minni hjá einum en öðrum, reyndist jafnan hinn mesti munur á aflasæld... Þar virtist sérstakt lag koma til og einskær heppni, sem helst minnti á töfrabrögð og galdralistir“  (GG; Skútuöldin). 

Aflausn (n, kvk)  Niðurfelling synda.  Syndir mannanna eru uppistaðan í trúarbrögðum kristinna manna, ekki síður en tilvist heilagrar þrenningar.  Einkum átti það við um kaþólska trú á miðöldum.  Kirkjan hélt lýðnum í spennitreyju hjátrúar og auðgaðist vel á því að veita mönnum aflausn synda í einhverju formi.  T.d. gátu þeir vonast til aflausnar sem gáfu jarðir til kirkna, biskupsstóla eða klaustra.  Hét það að gera fyrir sálu sinni.

Aflavon (n, kvk)  Veiðivon; von um að fá afla/veiði.  „Alltaf var kapp að komast út á miðin; ekki síst hjá þeim sem kunnugastir voru og töldu meiri aflavon á einum stað en öðrum“  (KJK; Kollsvíkurver).

Aflát (n, hk)  Stöðvun; það að hætta því sem gert hefur verið.  Sjá án afláts.

Aflátið (l)  Sagt vera; umtalað.  „Hann er alls ekki eins slæmur og aflátið er“.  Sjá eins og af er látið.

Afleggjari (n, kk)  A.  Stuttur vegur frá aðalvegi/þjóðvegi/sýsluveg, vanalega heim á bæ.  „Við afleggjarann heim að Kollsvík var olíutankur, niðurgrafinn í skurðenda.  Hann hafði upprunalega verið tundurdufl sem rak á fjörur í Kollsvík á stríðsárunum, en Óli á Nesi breytti í tank fyrir Ingvar í Kollsvík“.  B.  Græðlingur/afskurður af jurt.

Afleiðing (n, kvk)  Það sem orsakast af því sem um er rætt.  „Afleiðing þessa langvarandi aflabrests var sú að hin miklu útver lögðust niður; t.d. Láganúpsver“.

Afleitlega (ao)  Illa.  „Mér líst afleitlega á þessa hugmynd“.

Afleitur (l)  Slæmur; fráleitur.  „Við urðum að lenda þarna upp í stórgrýtið þó það væri afleitur kostur“.

Afleysingar (n, kvk, fto)  Staðgengilsvinna; vinnuframlag sem leysir annan við vinnuskyldu.

Afleysingamaður (n, kk)  Sá sem leysir annan af í vinnu, t.d. vegna frítöku eða veikinda.

Aflétta (s)  Losa við; fría frá.  „Þessum takmörkunum hefur núna verið aflétt“.

Afli (n, kk)  Veiði; fengur; afrakstur veiða.  Afli er aldrei vís, jafnvel þó gæftir séu góðar og stíft sóttur sjór af kunnugum sjómönnum með góðum veiðarfærum.  Fyrr á tímum reyndu menn að gefa því gætur hvort einhverjir fyrirboðar væru um aflabrögð, eða hvort unnt væri að bæta þau með einhverri hegðum.  Margt af þeim niðurstöðum má í dag flokka sem hindurvitni og hjátrú, en annað kann að byggja á nokkrum rökum.  T.d. var rík sú trú að afli breyttist með tunglkomum:  Ef afli væri tregur með tunglkviknun myndi hann glæðast, en minnka væri gott fiskirí.  Þessi trú lifir enn, og á nokkurn stuðning í náttúrulegum sveiflum.  T.d. vita það grásleppusjómenn að með nýjum straumi er helst að vænta nýgenginnar og bjartrar grásleppu.  Sömuleiðis eru það góð og gild vísindi sem menn vissu fyrr sem nú, að fiskivænlegt er oft að renna þar sem stendur uppi fuglager; enda liggur fuglinn þá líklega í síli; sem og fiskurinn undir.  Fiskur hverfur gjarnan af grunnmiðum í miklum rosa, en gengur upp í hægum hafáttum.  Sömuleiðis var talið glæðast fiskirí þegar hafís var nærri landi.  Fiskur gefur sig best til um snúninginn/fallaskiptin, en að jafnaði er hann betur undir í norðurfalli en suðurfalli.  Ef veiðibjalla settist við fjarðar- eða víkurbotn voru líkindi á fiskigöngu.  Ef svartfugl á sjó gerir mikið af því að rísa upp og hrista sig voru þar líkur á fiski.  Annað er ekki eins auðvelt að rökstyðja:  Ekki var talinn góður fyrirboði að fiska vel í fyrsta róðri á vertíðinni.  Bæklaðir fiskar voru taldir vísbending um veiði.  Fiskur með krung á nefi nefnist fiskikóngur, og sá sem fékk hann var mjög aflasæll á eftir.  „Margliði nefnist fiskur sem er með hlykki milli sporðs og gotraufarugga.  Sá sem dregur slíkan fisk fær eins mörg hundruð á vertíðinni og hlykkirnir eru margir (ÓETh; LK; Ísl.sjávarhættir V).  Detti sjómaður á leið til sjávar fær hann byrði sína í hlut.  Missti maður hníf úr hendi skipti miklu í hverja átt oddur sneri.  Sneri hann til sjávar boðaði það afla, en til lands aflaleysi.  Ef ýsa steitir görn (görn blæs út um rauf) í drætti, boðar það góð aflabrögð þann daginn (ÓETh).  Blakaði fiskur sporði eftir að vera kominn á land, var hann að spá veiði. (SJTh).   Sagt er að svartfugl sem flýgur í stórum hópi til hafs sé að fljúga á móti göngunni.  Fýll sem flýgur um stafn gefur vonir um afla.   Það boðar aflasæld að hnerra yfir veiðarfærin og yfir afla sem fengist hefur.  „Ýmsir létu hjall sinn aldrei vera tóman af fiskmeti; hvort heldur var þorskur, steinbítur, hákarlsbeita eða hvalþjós.  Allt átti það að draga að afla“ (ÓETh).   Óðinshanar á sjó boða aflaleysi á þeim stað.  Ýmsir draumboðar voru fyrir góðum aflabrögðum, s.s. að dreyma kjötmáltíð og kaffi með brauði; bát sinn velkjast í brimi; ónýt veiðarfæri; formann kyssa háseta; eta nýbakað brauð; handfjatla hár á konu; mikið brim ganga á land; skeifu; gljót; mjólkurmat; bát fullan af óþverra. 
Ýmislegt var það í hegðun manna sem þurfti að huga að, til að tryggja afla og lífslíkur.  Fiskslor mátti t.d. ekki þvo af höndum sér í róðri; þá þvoði maður af sér fiskisældina (ÓETh).  Ekki má þvo bát of vel; þá er þrifin úr honum fiskisældin.  Óþrif úr landi méga ekki sjást á bát; þá fiskast ekki framar á hann.  Fiskur á ekki að liggja langsum í báti, heldur þversum.  Að blístra á sjó var að mana á sig vind.  Ef bent var á skip á sjó, eða þau talin, áttu þau að farast.  Aldrei má skilja fisk eftir milli steins og sleggju.  Ekki má kasta neinu nýtilegu útbyrðis úr bát; þá er verið að gefa kölska í soðið.  Feigðarmerki er að draga stein úr sjó, og gæta þarf þess að kasta honum ekki aftur útbyrðis.  Skollablaðka er ysta blaðkan á þorsksporði.  ekki má eta hana þar sem hún er eign kölska.  (Endurs. úr LK; Ísl.sjávarhættir V).  Sjá einnig feigð.

Afliðinn (l)  Liðinn; afstaðinn.  Oftast með fallstýringunni „að“ á undan.  „Er því líklegt að það hafi verið að afliðnu hádegi“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Aflíðandi (l)  Hallandi; með litlum halla.  „Aflíðandi grasbrekka er neðanvið hjallann“.

Aflífa (s)  Drepa; taka af lífi; deyða.  „Lambið hafði lemstrast svo við hrapið að ég þurfti að aflífa það“.

Afljúka (s)  Ljúka við; klára; koma fráIllu er best aflokið.

Aflokaður (l)  Innikróaður; lokaður af/inni.  „Bæirnir voru aflokaðir í mánaðartíma í mestu ófærðinni“.

Aflóga (l)  Úr sér genginn; búinn að vera; einskisnýtur.  „Þetta eru furðu góð lömb hjá svona aflóga gamalær“.  „Ég fann mér þarna aflóga húfutetur“.    Merkir í raun skepnu sem þarf að lóga/slátra.

Aflraunir (n, kvk, fto)  Verkefni/viðureign sem krefst krafta/afls; kraftakeppni.

Aflraunasteinar (n, kk, fto)  Steinatök; steinar af misjafnri þyngd sem menn nota til að meta krafta sína.  Aflraunasteinar eru víða við verstöðvar, t.d. á Hvallátrum.  Að öllum líkindum hafa þeir einnig verið í Kollsvíkurverstöð, þó þeirra sjáist engin merki nú.  Steinatökin bera  mismunandi heiti eftir þyngd, og sköpuðu mönnum sess í virðingu og jafnvel starfi og aflahlut.  Þyngd steinanna á Hvallátrum er þessi:  Alsterkur er 354 pund (187kg); Fullsterkur er 288 pund (144kg); Hálfsterkur er 214 pund (107kg) og Amlóði 192 pund (96kg).  Alsterkur er bestur til átöku því hann er ekki böllóttur eins og hinir allir.  Steinatökunum átti að koma upp á mittisháan stall.  Sagt var um steinatökin á Djúpalónssandi að hásetar sem ekki gætu komið Hálfsterk á stall væru ekki skiprúmsgengir.  Skammt frá steinatökunum á Látranesi er fimmti steinninn, Klofi, en inn í hann er dæls sem minnir á klof.  Margir vermenn reyndu við Klofa sem ekki þótti barna meðfæri.  Í Brunnaverstöð eru tvö steinatök.  Annað þeirra heitir Júdas.  Stein þennan átti að nota í verbúðarvegg, en hann tolldi ekki í neinni hleðslu og varð því aflraunasteinn vermanna.  Hann er á grundinni fyrir ofan Brunnavog og vegur 260 pund (130kg).  Sagt var að strákar sem gætu látið lofta vel undir hann þyrftu ekki lengur að vera hálfdrættingar.  Hitt steinatakið bar vermaður að nafni Brynjólfur á bakinu uppúr fjörunni í burðaról upp á Brunnagrund.  Bynjólfstakið er mikill steindrjóli, ílangur, kantaður og nær meðalmanni í brjósthæð.  Brynjólfstak er 562 pund (281) kg að þyngd.

Aflsmunir (n, kk, fto)  Afl; kraftar; vöðvastyrkur; burðir.  „Ég hef ekki aflsmuni til að lyfta þessu“.  „Þurfti að beita nokkrum aflsmunum til að opna dyrnar“.

Aflúinn (l)  Úthvíldur; hvíldur; óþreyttur.  „Ég ætla að koma með ykkur; ég er hérumbil orðinn aflúinn eftir síðasta sprett“. 

Aflýsa (s)  A.  Auglýsa að hætt sé við áður auglýstan viðburð.  „Það þurfti að aflýsa fundinum vegna veðurs“.  B.  Fella niður veðbönd á eign vegna skuldabréfs.

Aflögu (ao)  Afgangs; umfram þarfir.  „Ég er hræddur um að hann komi til með að eiga lítið fóður aflögu eftir veturinn“.  „Tvö egg urðu aflögu við skiptin“.

Aflögufær (l)  Með meira en til eigin nota; á umfram.  „Ertu nokkuð aflögufær með salt um stundarsakir“?

Aflögun (n, kvk)  Brenglun; skekkja.  „Börurnar voru nothæfar þrátt fyrir þessa aflögun“.

Afmarka (s)  Um svæði; aðskilja með merkingu.  Einnig í huglægri merkingu um málefni/stefnu. 

Afmá (s)  Fjarlægja ummerki; stroka/þurrka út; fjarlægja alveg.  „Utanáskrift pakkans var alveg afmáð“.

Afmán (n, kvk)  Afstyrmi; forsmán.  „Óttalegar afmánir hljóta þeir að vera;  þessir útrásarvíkingar“.  Einnig notað sem gæluorð um t.d. kött.  Sjá kvikindisafmán.

Afmánarlegur (l)  Fáránlegur; skringilegur; ljótur.  „Skelfilega finnst mér þetta afmánarlegur jakki“!

Afmæli (n, hk)  Fæðingardagur; árafjöldi frá fæðingu/tilurð.  Bein merking er að mæla af; þ.e. draga tiltekinn tíma frá æviskeiði.

Afnám (n, hk)  Burttekning; niðurfelling; útþurrkun.  „Allir fögnuðu afnámi þessa rangláta gjalds“.

Afneita (s)  Vilja ekki viðurkenna; synja fyrir.  „Þú getur illa afneitað því sem þú sagðir í gær“!

Afneitun (n, kvk)  Synjun; neitun.

Afnema (s)  Fella niður; taka í burtu.  „Mér finnst kominn tími til að afnema þennan ósið“.

Afnot (n, hk, fto)  Notkun; gagn; nytjar.  „Hefð hafði skapast um þessi beitarafnot norðanverðrar Breiðavíkur fyrir Láganúpsbændur“.

Afplána (s)  Bæta fyrir brot/misgjörð, t.d. með fangelsisvist.

Afrak (n, hk)  Skarn sem borið hefur verið á tún og rakað af með hrífu þegar grasspretta hefst.  „Fyrir slátt var túnið hreinsað.  Þá var skíturinn sem ekki vannst niður rakaður í hrúgur.  Það var svo starf okkar krakkanna að tína þær upp í trog og hella þeim í poka.  Afrakið var síðan borið heim í mókofa og notað sem eldiviður“ (Össur Guðbjartsson; Niðjatal Hildar og Guðbjartar á Láganúpi).

Afrakstur (n, kk)  Eftirtekja; afurðir; árangur.  „Ekki var mikill afrakstur úr þessari eggjaferð“.  „Spurt var almæltra tíðinda, kastast á glensi og gamanmálum og sumir huguðu að afrakstri sumarsins sem birtist í föngulegum og lagðprúðum haustlömbum.  Allt í einu heyrðist kallað úr almenningnum“  (PG; Veðmálið). 

Afráða (s)  Tvennskonar, gagnstæð merking:  A.  Ákveða; taka ákvörðun um.  „Nú svo er ekki annað með það, en að þeir afráða að slá sér til rólegheita þarna í kofanum um nóttina.  Höfðu þá auðvitað ekki hugmynd um þessa reimleika ....“.  B.  Hætta við; aflýsa.  „Stundum sýndist sitt hverjum, en þarna var þó oft ráðinn róður eða afráðinn“... „Þá var það, og ef til vill oftar, að afráðinn var róður; mælt gegn því að farið væri á sjó“  (KJK; Kollsvíkurver).

Afráðið (l)  Ákveðið.  „Eftir nokkrar umræður var ákveðið að láta sjá til með róður að sinni.  Bíða skyldi framyfir hádegi og sjá hvernig veðrið færi með sig“.

Afrás (n, kvk)  Heiti á feiti/floti sem var þekkt en ekki mikið notað í Kollsvík.  Mun það upphaflega hafa verið dulnefni, þar sem ekki mátti nefna flotið sínu rétta nafni fremur en ýmis önnur lífsgæði og hættur.  Sjá sjóvíti.

Afrek útaf fyrir sig (orðtak)  Mikill sigur; sérstakur árangur.  „Það er auðvitað afrek útaf fyrir sig að komast þessa leið klakklaust, en að fara hana einn og bandlaus er nánast kraftaverk“.

Afreka (s)  Vinna afrek/hetjudáð; koma í verk.  Oft í kaldhæðni:  „Hann afrekaði það að stranda bátnum“!

Afrendur (l)  Afsleppur; ílangur.  „...skammt er inn í gróðurtó, stóra, fremur langa; breiðust neðst en afrend upp.  Nefnist hún Mjóateigur...“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).

Afrendur að afli (orðtak)  Óhemju/óvanalega sterkur.  „Brynjólfur þessi var afrendur að afli“.

Afrennsli (n, hk)  Frárennsli; yfirfall; veita.  „Miðmýrar hafa afrennsli í Miðlækinn“.

Afréttur (n, kk)  Upprekstrarland búfjár; heiðar með beitilandi án eignarhalds tiltekinnar jarðar.  Orðið var þekkt í Rauðasandshreppi en ekki notað, þar sem ekki er um óskipta afrétti að ræða á Vestfjörðum.

Afrifur (n, kvk, fto)  A.  Meiðsli á yfirborði húðar; skinnskaði vegna hrufls; núnings, klórs eða annars. „Ég fékk árans afrifur á skallann þegar ég rak mig í loftbitann“.  B.  Auð svæði á jörð þar sem skafið hefur burtu snjó í vindi.  „Enn voru eftir nokkrir skaflar í brekkunni, en töluverðar afrifur inná milli eftir rokið“.

Afrita (s)  Skrifa upp eftir frumriti.  „Ungmennafélagsblöðin voru skrifuð í stílabók sem gekk um sveitir og var stundum afrituð að meira eða minna leyti, líkt og fornritin“.

Afrækja (s)  Um móður; vanrækja afkvæmi.  „Það þarf að hafa gát á henni Pontu; hún er dálítið skæð með að afrækja lömbin“.  „Þið megið ekki snerta á ungunum krakkar; þá er hætt við að móðirin afræki þá“. Sjá vanrækja.

Afsag (n, hk)  Endar og annað sem sagað hefur verið af nytjaviði.  „Það má notaþetta afsag til uppkveikju“.

Afsaka (s)  Virða; líta framhjá yfirsjón/mistökum.  „Afsakaðu þessa bið, en ég tafðist í símanum“.  Sjá biðjast afsökunar.

Afsakaður (l)  Fyrirgefið.  „Hafðu mig afsakaðan augnablik“. „ Hann var löglega afsakaður“.  Sjá afsaka.

Afsakanlegt (l)  Skiljanlegt; í góðu lagi.  „Það er alveg afsakanlegt þó þú sért seinn á ferðinni, fyrst þú komst með hákarlslykkjuna fyrir mig“.

Afsal (n, hk)  Skjal sem sannar að eigandi lætur af hendi eign sína, t.d. vegna fullnaðargreiðslu hennar.

Afsala (s)  Láta eign eða rétt af hendi.  „Ég afsalaði mér öllu tilkalli til þessa starfs“.

Afsalt (n, hk)  Salt sem notað hefur verið, t.d. hrist af saltfiski, en stendur til að nýta aftur.  „Það er í góðu lagi að nota afsalt á gærurnar“.

Afsanna (s)  Færa rök fyrir því að fullyrðing standist ekki.  „Ég afsannaði þessa bábilju fyrir fullt og allt“.

Afsegja (s)  Neita; þvertaka fyrir.  „Við vorum óvanir öllu og þótti hálfgerð skömm að þessu; vorum feimnir og afsögðum að glíma“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Afsegja/aftaka með öllu (orðtak)  Þverneita; taka ekki í mál.  „Ég afsagði með öllu að spila boltavitleysuna“.

Afsigin grásleppa (orðtak/heiti)  Sigin grásleppa; grásleppa sem ekki er fullhert (sjá hrognkelsi).

Afsinnugur (l)  Sinnulaus; áhugalaus; frábitinn.  „Mér hefur þótt hann óttalega afsinnugur um þetta“.

Afsíðis (ao)  Á afviknum stað; til hliðar.  „Viltu ekki fara afsíðis meðan þú talar í símann“.

Afskaplega (ao)  Mjög; verulega; afar.  „Afskaplega finnst mér þetta slæmar fréttir“.  Þetta er afskaplega gott“.

Afskaplegur (l)  Ógnarlegur; hrikalegur.  „Klukkan mun hafa verið um 9, er við komum að Láganúpi, og urðum þá fegnir að fá aftur húsaskjól, því veðrið var afskaplegt“  (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949). 

Afskekkt (l)  Um byggð/bæ; langt frá öðrum bæjum; úrleiðis.  „Bæir í Rauðasandshreppi urðu fyrst afskekktir þegar verulega fækkaði í sveitinni og allar þarfir manna urðu aðkeyptar.  Kollsvíkin var alls ekki afskekkt meðan þar bjuggu á annað hundrað manns og tvöfalt fleiri á vertíðum; meðan byggðin var sjálfri sér næg um allar nauðsynjar og þaðan var stórfelldur útflutningur afurða“.

Afskiptalaus (l)  Sem ekki blandar sér í mál; sinnulaus.  „Hann er afskaplega afskiptalaus um sveitarmálefnin“.  Sjá láta afskiptalaust.

Afskiptaleysi (n, hk)  Vöntun á sinningu; sinnuleysi.  „Hann sýndi þessu bara afskiptaleysi“.

Afskiptasamur (l)  Sem slettir sér framí málefni sem hann gæti látið ógert; aðfinnslusamur. 

Afskiptasemi (n, kvk)  Tilhneyging til afskipta/íhlutunar.  „Hættu nú þessari árans afskiptasemi“!

Afskipti (n, hk, fto)  Íhlutun.  „Ég hafði engin afskipti af þessum deilum“.  Sjá hafa afskipti af.

Afskiptur (l)  Útundan; með minni/ósanngjarnan hlut. „Hann þóttist mjög afskiptur með sinn hlut“.

Afskorið (l)  Útilokað; afdæmt; fráskorið; af og frá; kemur ekki til greina.  „Það er alveg afskorið að við róum í dag, eins og spáir“.

Afskrifa (s)  A.  Endurrita eftir frumriti.  B.  Útiloka; telja ómögulegt.  „Ég vil ekki afskrifa þetta alveg, en við skulum sjá hvernig veðrið fer með sig“.  C.  Gjaldfæra eign í efnahagsreikningi.

Afskrýða (s)  Afklæða úr viðhafnarklæðum. 

Afskræma (s)  Brengla; skemma; skrumskæla; rangfæra.  „Nokkuð finnst mér búið að afskræma þessa frásögn“.

Afskræming (n, kvk)  Skrumskæling; brenglun; skemmd.  „Þetta er bara afskræming á sannleikanum“!

Afskurður (n, kk)  Það sem skorið er af; afgangur.

Afskurma (s)  Taka skurn utanaf eggi.  „Á ég ekki að afskurma þetta fyrir þig ljúfur; ég skal ekkert éta af því“!

Afslagur (n, kk)  Afsláttur; ninnkun; rýrð.  „Mér þætti nú ekki afslagur í að fá dálítið af hákarl fyrir hangiketið“.  Sjá enginn afslagur í.

Afslá (s)  Slá frá sér; fortaka; útiloka. „Ég afsló það algerlega að ég kæmist með þeim í þetta skiptið“.   „Ekki ætla ég nú alveg að afslá það að verkið klárist í dag“.

Afsláttarfé (n, hk)  Sláturfé; fé sem slátrað verður að hausti.  „Það þarf að smala þessu, jafnvel þó það sé flest afsláttarfé sem þarna er“.

Afsláttargripur (n, kk)  Kind eða stórgripur sem slátrað verður.  „Hún er nú varla nema afsláttargripur“.

Afsláttarkind / Afsláttarær  (n, kvk)  Kind sem slátrað verður að hausti; gamalær; rippa; rytja.  „Ég held að hún sé bara orðin afsláttarkind, enda búin að skila sínu blessunin“

Afslegið (l)  Hætt við; útilokað; slátrað; fráleitt.  „Mér sýnist að það sé alveg afslegið með róður á morgun, ef þessi veðurspá gengur eftir“.  Sjá slá af.

Afsleppur (l)  Kúptur; kollóttur; sem band vill skreppa af.  „Það þýðir ekkert að festa vaðinn á svona afsleppan stein“.  „Við sigum tveir niður til hans.  Bekkur þessi var ekki breiður, og auk þess afsleppur“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Afspika (s)  Skera spiklag utanaf selskrokk.  „Þvínæst var selurinn afspikaður... “ (Magnús á Skógi; Árb.Barð; 1959-67). 

Afsprengi (n, hk)  Afkomandi; afleiða.  „Afsprengi Einars gamla í Kollsvík hafa nú dreift sér allvíða um jarðarkingluna“. 

Afspurn (n, kvk)  Frásögn gegnum milliliði; umtal.  „Ég þekki þetta bara af afspurn, en ekki af eigin reynslu“.

Afspyrnukalt (l)  Mjög kalt.  „Það hefur bara verið afspyrnukalt í veðri síðustu dagana“.

Afspyrnuleiðinlegur / Afspyrnuhvimleiður (l)  Með eindæmum leiðinlegur/hvimleiður.  „Þessi eilífa rigningatíð er orðin afspyrnuhvimleið“!

Afspyrnulélegur (l)  Með eindæmum lélegt; afskaplega lélegt.  „Aflinn hefur verið afspyrnulélegur það sem af er vertíðinni“!

Afspyrnuleiðinlegur (l)  Mjög/afburða leiðinlegur.  „Tíðin hefur verið afspyrnuleiðinleg þessa vikuna“.

Afspyrnulélegur (l)  Mjög lélegur/slæmur.  „Aflabrögðin hafa verið afspyrnuléleg það sem af er vertíðinni“.  Sést ekki í orðabókum, en þar má finna „afspyrnuvondur“ sem var mun minna notað vestra.

Afspyrnumikill (l)  Mjög/afar mikill; yfirgengilega mikill.  „Ekki var nú aflinn neitt afspyrnumikill, en þetta er ágætis byrjun á vertíðinni“.

Afspyrnurok (n, hk)  Mjög mikið hvassviðri.  Mikil fokhætta og erfitt að vera á ferli. Einnig afspyrnuvont veður.

Afspyrnuvondur (l)  Mjög vondur.  „Eftir spánni gæti orðið afspyrnuvont veður á morgun“.

Afstaða (n, kvk)  A.  Staða/lega með tilliti til annars.  „Festan var trygg, en afstaða hennar hefði mátt vera betri“.  B.  Viðhorf; skoðun.  „Mín afstaða í málinu er óbreytt“.

Afstaðið (l)  Liðið hjá; lokið.  „Ég er feginn því að þetta tilstand er afstaðið“.

Afstíaður / Afstúkaður / Afþiljaður (l)  Rými sem hólfað/skilið er frá öðrum rýmum með milligerð/þili. 

Afstyrmi (n, hk)  Kvikindi; forsmán; afmán.  „Það er jafngott að þetta afstyrmi láti ekki sjá sig hér aftur“.

Afstýfa (s)  Skera/snúa af.  „Hann tók rófurnar upp, en ég afstýfði kálið“.

Afstýra (s)  Koma í veg fyrir; hindra að gerist.  „Mér tókst að afstýra því að hann færi að ana í þessa vitleysu“.

Afsúða (s)  Um bátasmíði; hefla niður kant í súð báts til að fá hæfilega sveigju á síðuna.  „Áður en borð voru látin við, var alltaf strikað fyrir súðuninni og eins þumlungs breiður kantur heflaður, og var það kallað að afsúða“  (LK; Ísl. sjávarhættir II).

Afsúðun (n, kvk)  Heflun kants á skeyti báts.  Sjá afsúða.

Afsvangur (l)  Hættur að vera svangur; hungurtilfinning horfin.  „Þegar við loksins komum heim var ég orðinn yfir mig lúinn, og jafnvel afsvangur“.

Afsvar (n, hk)  Synjun; neitun.  „Hann fékk afsvar við beiðni um lækkun útsvarsins“.

Afsverja (s)  Sverja fyrir; fortaka; þverneita.  „Ekki skal ég alveg afsverja það að þarna gæti hafa leynst kind einhversstaðar í lautum, enda verður seint fullsmalað á þessum slóðum“.

Afsyfjaður (l)  Hættur að vera lengur syfjaður.  „EFtir allar vökurnar var maður orðinn hérumbil afsyfjaður, en hálf ruglaður í staðinn“.

Afsögn (n, kvk)  A.  Uppsögn; það að hætta í embætti.  B.  Trygging réttarstöðu varðandi víxillán.

Afsökun (n, kvk)  Afbötun; fyrirgefning.  „Ég biðst innilega afsökunar á þessari yfirsjón“.

Afsökunarbeiðni (n, kvk)  Beiðni um afsökun/fyrirgefningu.

Aftaka (n, kvk)  A.  Manndráp, oftast þá að undangengnum dómi eða samkvæmt fyrirskipun.  B.  Rúningur sauðfjár.  Í Rauðasandshreppi var einatt talað um að taka af fé, en ekki rýja það.  „Getur þú aðstoðað okkur við aftökur í næstu viku“?

Aftaka (s)  A.  Hafna; synja; þvertaka.  „Ég bauðst til að fylgja honum áleiðis, en hann aftók það með öllu“.  B.  Afnema.  „Heimabændur (í Láganúpsveri) hafa tilforna goldið fyrir sig og sín hjú hálfan toll, en fyrir 2 árum hefur landsdrottinn þennan toll aftekið, so nú gjalda heimabændur ekkert í því nafni“  (ÁM/PV Jarðabók).  C.  Drepa; burtnema.  Sjá einnig; allt hvað af tekur.

Aftaka (l)  Áherluorð með nafnorði:  Aftaka brim; aftaka stórhríð; aftaka norðanrok“.

Aftakabrim / Aftakarosi / Aftakasjór (n, kk)  Svo sver sjór að tekur af fjöll í landi, séð frá þeim sem á sjó er.

Aftakafrost / Aftakahörkur / Aftakakuldi (n, hk/kvk/kk)  Mjög kalt; svo mikið frost að vatn frýs í bólum og tekur fyrir fjörubeit.  „Enn heldur hann þessum aftakahörkum“!

Aftakahríð / Aftakaveður / Aftakarok (n, hk) Mjög slæmt veður; oft notað um skips- eða mannskaðaveður.

Aftakahvass (l)  Um veðurhæð; svo hvass að veruleg fokhætta er.  „Hann er orðinn svo aftakahvass að maður ræður sér varla óstuddur“.

Aftakaillviðri (n, hk)  Skaðræðisveður; manndrápsveður.  „Hann er að spá einhverju aftakaillviðri á morgun“.

Aftakanorðanbál (n, hk)  Versta norðan hvassviðri; skaðræðisveður af norðri.  „Þetta er bara aftakanorðanbál“!

Aftakarok / Aftakastornur / Aftakaveður (n, hk)  Svo hvasst að fokhætta er; manndrápsveður.  „Það fer enginn út í þetta aftakaveður“!  „Um kvöldið var komið aftakaveður og blindhríð“  (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949). 

Aftan (ao)  Bakvið; að baki.  „Lambið hélt sig fyrir aftan móður sína“.  „Er þetta ekki biti aftan hægra“

Aftan úr grárri forneskju (orðtak)  Frá mjög fornum tíma; frá ómunatíð.  „Þessi siður hefur haldist aftan úr grárri forneskju, að því að talið er.

Aftanað (fs)  Að aftanverðu.  „Mér finnst nú dálítið farið aftanað hlutunum með þessari aðferð“.

Aftanaf (ao)  Af aftanvert.  „Mokaðu heyinu aftanaf vagninum í gryfjuna“.

Aftanfrá (ao)  Að aftan; frá afturenda.  „Það hefur aldrei gefist vel að mjólka kýrnar aftanfrá“!  Orðið er almennt notað í einu lagi, líkt og t.d. aftantil og aftanundir.

Aftanhallt (ao)  Að aftanverðu; aftantil.  „Ég setti hrífur og kvíslar aftanhallt á heyvagninn“.

Aftaná (ao)  Aftan á.  „Jeppinn var með eitt rautt ljós aftaná“.  Sjá standa aftaná.

Aftandigur (l)  Sver að aftanverðu.  Stundum haft um manneskju sem þykir hafa fyrirferðarmikinn sitjanda; sbr vísu sem þekkt var þannig í Rauðasandshreppi:  „Ingibjörg er aftandigur/ en örmjó að framan./  Skyldi ekki mega skera hana sundur/ og skeyta hana aftur saman“?  Í raun er vísan afbökun á annarri eftir Pál Ólafsson skáld:  „Ingibjörg er aftanbrött/ en íbjúg að framan./  Skyldi ekki mega skera hana sundur/ og skeyta hana saman“.

Aftanfyrir / Aftantil / Aftanundir (ao)  Að aftanverðu; á bakhluta/rassi.  „Andskoti ertu nú sölugur aftanfyrir!  Settistu ofan í kúsaksítshlass, eða hvað“?  „Setjum þetta aftantil í kerruna“.  „Báturinn rann við þegar ólagið kom aftanundir hann“.

Aftaní (fs)  Um kerru; vagn; tengd aftan í traktor/bíl. „Farðu ekki svona hratt með heyvagninn aftaní“!

Aftaníhnýtingur (n, kk)  A.  Hestur sem festur er aftan í annan hest, t.d. í lestarferð.  B.  Líkingamál um þann sem þykir háður vilja annars manns.  „Ég ætla ekki að verða neinn aftaníhnýtingur hjá þessum flokki“!

Aftanmaður / Aftanskipsmaður (n, kk)  Maður sem rær aftantil á báti; sá sem er skipað aftantil í bát í róðri; vanalega formaður og austurrúmsmenn.  „Þegar sexæringur var settur niður vestra hlunnaði hálfdrættingur eða annar austurrúmsmaður, en hinn bakaði að aftan ásamt formanni; miðskipsmenn ýttu og studdu um róðurinn, en andófsmenn bökuðu að framan.  Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu.  Á sumum stöðum greip formaður þá stjaka jafnskjótt og hann komst upp í skipið, en með honum hélt hann því réttu og stýrði því jafnframt út úr vörinni“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  „Venjulega renndi annar andófsmaðurinn í barkanum og oft annar aftanskipsmaður í skutnum.“  (PJ; Barðstrendingabók).  Sjá sjósetja.

Aftann (n, kk)  Svo nefndist fyrrum tímabilið frá nóni (kl. 15.00) til náttmála (kl. 21.00).  Enn notað í norðurlandamálum og þýsku og merkir þá kvöld (aften; abend).

Aftanroði (n, kk)  Sólroði við sólarlag.  „Dýrð var há í vorsins veldi/ vafin aftanroðanum,/ er höldar sigldu í sólareldi/ suður hjá Arnarboðanum“  (JB; Verstöðin Kollsvík, ljóð Helgu Ólafsdóttur um Kollsvik). 

Aftansöngur (n, kk)  A.  Síðdegismessa. „Jól í bernsku minni voru hátíðleg haldin þannig að á aðfangadag kl sex var allt heimilisfólkið samankomið við útvarpstækið að hlýða á aftansöng“  (ÖG; Glefsur og minningabrot).  B.  Gæluheiti á viðrekstri/freti.  „Hættu nú að kveða þessa aftansöngva; það heyrist varla mannsins mál fyrir þessum fretum“!

Aftantil / Aftarlega (ao)  Að aftanverðu; aftan við miðju.  „Goggurinn er aftantil í bátnum“.

Aftanundir (fo)  Undir aftanverðum/að aftan.  „Við fengum allnokkuð brot aftanundir bátinn“.

Aftanúrkreistingur / Afturúrkreistingur (n, kk)  Lítið/vesælt lamb; væskill; aumingi; væfla.  „Þessi aftanúrkreistingur er farinn að bjarga sér á spena“.  „Annan eins afturúrkreisting hef ég nú sjaldan séð“.

Aftanverður (ao)  Aftantil; á afturhelmingi.  „Brotið kom á bátinn aftanverðan og kastaði honum til“.

Aftanvið (ao)  Fyrir aftan; aftanvert við.  „Sæktu hlunninn þarna aftanvið bátinn“. 

Aftanvið (ao)  Fyrir aftan; aftanvert við.  „Gáðu að því þegar þú bakkar að enginn sé aftanvið bílinn“. 

Aftarlega á merinni með (orðtak)  Seinn fyrir; með seinni skipunum.  „Hann fer nú að verða dálítið aftarlega á merinni með heyskapinn, sýnist mér“.

Aftekinn (l)  A.  Tekinn af lífi.  B.  Eyðilagður; aflagður.  „Á þeim tíma var brú niðri við sjóinn í Örlygshöfn, sem illu heilli er nú aftekin... “  (ÁE; Ljós við Látraröst).   C.  Um sauðkind; rúin; búið að taka af.  „Ég sá þarna tvær kindur afteknar og eina óaftekna“.  Orðið er líklega ekki kunnugt annarsstaðar í þessari merkingu.

Aftekning / Aftekt (n, kvk)  Rúningur sauðfjár.  „Keppst var við að vera búinn að smala til aftektar og ganga frá ullinni fyrir slátt.  Oftast var reynt að nota landlegudaga til smalamennsku og aftektar“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  Orðin eru ekki finnanleg í orðabókum í þessari merkingu, heldur er þar aftekning í merkingunni niðurlagning eða dráp, og aftekt er þar einungis sem afgjald eða eftirtekja í tengslum við kirkjueignir og annað góss.  Í Kollsvík var mun oftar talað um að „taka af“ en „rýja“, þó ekki væri hið síðarnefnda óþekkt.  Aftekt var jafnan notað, en aftekning heyrðist þó einnig.  Sjá smala til aftektar.

Aftektadagur (n, kk)  Dagur sem tekið er af/ rúið.  „Ef við förum á sjó í dag þurfum við að fresta aftektardeginum fram í næstu viku“.

Aftektarfólk (n, hk)  Fólk sem tekur ull af sauðfé.  „Við rekum ekki saman fyrr en tryggt erð aftektarfólkið geti mætt“.

Aftektarmaður (n, kk)  Rúningsmaður; maður sem tekur ull af kind.  „Við erum fljótir að taka af með svona mörgum vönum aftektarmönnum“. 

Aftektarveður (n, hk)  Veður til aftektar.  „Ekki sýnist mér verða útlit fyrir aftektarveður á morgun“.

Aftra / Aftra frá (s/orðtak)  Halda aftur af.  „En hvað var það þá sem aftraði þeim svo mjög frá þessum fengsælu miðum?  Jú, það var þessi slæma torfæra á sjóleið smábáta frá Patreksfirði og út á Víkur; Blakknesröstin“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „... ekki viljað yfirgefa hin hrossin þótt dauð væru, enda ekki ratað til byggða; eða draugurinn aftrað honum þess“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Aftur (ao)  A.  Enn á ný.  „Ertu kominn strax aftur“?.  B.  Notað sem fylgiorð sagna, t.d.  „hallaðu hurðinni aftur“ í merkingunni „lokaðu hurðinni“.  „Leggðu nú aftur augun og farðu að sofa“.   C.  Hinsvegar.  Hjá allflestum munu hey vera lakari en í meðallagi, því sumarið var óþurrkasamt, en aptur munu hey vera með fastasta móti“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1925). 

Aftur á móti (orðtak)  Hinsvegar; svo aftur; á hina hendina; á hinn bóginn/veginn.  „Ég hef engin tök á að koma með ykkur í dag; aftur á móti kæmi það vel til greina á morgun“.

Aftur og aftur (orðtak)  Ítrekað; enn og aftur; hvað ofaní annað.  „Það er kannski skiljanlegt þegar þetta gleymist einusinni, en óviðunandi að það gerist aftur og aftur“!

Afturábak / Afturávið (ao)  Til baka.  „Bíllinn rann dálítið afturávið“.

Afturábak og áfram (orðtak)  Fram og til baka.  „Eftir að hafa juggað bílnum afturábak og áfram um tíma, tókst mér loks að losa hann úr festunni“.

Afturámóti (ao)  Hinsvegar; aftur á móti; á hinn bóginn/veginn  „Þetta er það sem stendur í bókum, en ég held afturámóti að þetta hafi orsakast á annan veg“.

Afturbati (n, kk)  Bati; bæting; það að lagast af veikindum.  „Heldur er þetta afturbati hjá mér, en ósköp fer hann samt hægt“.

Afturboginn / Aftursveigður (ao)  Boginn/begður/sveigður afturábak.

Aftureftir (ao)  Framanfrá; í átt að afturenda.  „Hún strauk kisu aftureftir hreggnum“.  „Belgurinn dróst aftureftir síðunni á bátnum“.

Afturelding (n, kvk)  Birting; dagrenning; þegar aftur birtir að morgni.

Afturendi (n, kk)  Aftari endi; rass.  „Ég náði ekki að grípa í afturendann á honum til að minna hann á þetta“.

Afturfótur (n, kk)  Aftari fótur á fjórfættu dýri.  Sjá gengur á afturfótunum.

Afturfyrir (ao)  Fyrir aftan.  „Sigldu nú heldur afturfyrir dallinn en framfyrir; maður veit aldrei hverju þeir taka eftir á þessum stóru skipum“.

Afturför (n, kvk)  Hnignun; öfugþróun.  „Manni finnst það árans afturför að skólinn skyldi lagður niður, stuttu eftir að búið var að byggja hann.  Þær fórnir og sú barátta virðist til lítils hafa orðið“.

Afturganga (n, kvk)  Draugur; látin manneskja sem gengur aftur, þ.e. lifnar við sem draugur.  Draugatrú var útbreidd áðurfyrr, og stafar líklega sumpart af meðfæddum ótta mannsins við myrkur.  „Þorirðu ekki að fara einn í hlöðuna?  Ertu kannski hræddur við afturgöngur eða ljón“?!

Afturhlaðinn (l)  A.  Um bát; með mikinn farm aftanvið miðskip.  „Báturinn var svo afturhlaðinn þegar við vorum búnir að leggja öll netin uppí, að ég lét strákinn sitja við mótorinn og var sjálfur frammi á hvalbak“.  B.  Um byssu; hlaðin með skothylki aftast í hlaupi; ekki framhlaðin.

Afturhyrnd (l)  Um hornalag sauðkindar; með horn sem vaxa berandi afturávið.

Afturhækill (n, kk)  Konungsnef/hæll á afturfæti klaufdýrs.  „Yfirleitt er aðgengilegra að finna lið á framhæklum en afturhæklum, einkum fyrir byrjendur í hæklun“.

Afturí (ao)  Aftanvert í einhverju, t.d. bát eða bíl.  „Sestu bara frammí; strákarnir sitja afturí“.

Afturjúgur (n, hk)  Aftara júgur á kú.  „Hún er enn með báshellu í afturjúgrinu frákonumegin“.

Afturkalla (s)  Taka til baka fyrirskipun/tilmæli/beiðni. 

Afturkippur (n, kk)  Bakslag; snögg breyting til hins verra, t.d. í túnasprettu eða framför lamba.

Afturkvæmt (l)  Sjá eiga afturkvæmt.

Afturljós (n, hk)  Ljós á aftanverðu farartæki.  Á skipum er þó talað um skutljós.

Afturreka (l)  Sjá gera afturreka.

Afturrúm (n, hk)  Rúm það sem er aftan við miðskipsþóftu í litlum báti.  „T-Guðbjartur náði þegar taki á bátnum og komst á kjöl en Árni, sem reri í afturrúmi, lenti svo langt frá bátnum að hann náði ekki til hans“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Aftursegl (n, hk)  Aftara segl á seglskipi; getur verið af ýmsum gerðum og lagi.

Afturspeni (n, kk)  Speni í aftara spenapari á kú.  Sjá framspeni og handmjólka.

Afturstafn / Afturstefni (n, kk/hk)  Aftara stefni á tvístöfnungi.

Aftursætisbílstjóri (n, kk)  Sá sem situr í aftursæti bíls og er afskiptasamur um aksturslag bílstjórans.  „Frú Guðrún mín er hreint fyrirtaks aftursætisbílstjóri“ (haft eftir ágætum presti um konu hans).

Afturundan (ao)  Undan að aftanverðu.  „Gríptu kúluna þegar hún kemur afturundan bátnum“!

Afturúr (orðtak)  Afturfyrir; fyrir aftan.  „Þú þarft að herða þig til að dragast ekki afturúr“.  „Timbrið stendur dálítið afturúr kerrunni, en ekki þó til skaða“.

Afturúrkreistingur (n, kk)  A.  Lítið og vanþroska afkvæmi eftir fæðingu.  B.  Köpuryrði um mann; aumingi; ræfill; ónytjungur.  „Ég er nú ekki sá afturúrkreistingur að ég komi ekki kassaræflinum upp á kerruna“!

Afturúrstandur (n, kk)  Væskill; vesalingur; aumingi.  Oftast notað í niðrandi merkingu um mann, en einnig um óduglega hrúta.  „Sá afturúrstandur er búinn að drekka frá sér bæði vit og vini“. 

Afturyfir (ao)  Yfir og aftureftir.  „Ég fleygði baujunni afturyfir skutinn“.  „Hann féll afturyfir sig á jörðina“.

Afturþófta (n, kvk)  Aftasta þóftan í litlum báti; hinar eru miðskipsþófta og framþófta.

Afturþungur (l)  Þungur að aftanverðu.  Helst notað um farartæki, t.d. bát, bíl eða kerru.  „Heyvagninn var svo afturþungur að Farmallinn hafði hann ekki upp brekkuna“.

Aftök (n, kvk, fto)  A.  Jarðbönn; engin fjárbeit um langan tíma að vetri vegna snjóþyngsla eða klaka.  „Hér hafa verið algjör aftök og innistaða í meira en vikutíma“.  B.  Landlegur vegna ótíðar/sjólags.   C.  Ofsaveður.

Aftökur (n, kvk, fto)  Sver bára/undiralda, þannig að frá bát í öldudal sýnist fjöll hverfa. Taka af.

Afundinn (l)  Fúll; stuttur í spuna; þurrlegur; leiður.  „Skelfing fannst mér hann vera afundinn“.

Afurð (n, kvk)  Framleiðsla; það sem verður til t.d. með matvælavinnslu. 

Afvanur (l)  Kominn úr æfingu; búinn að gleyma vinnubrögðum.  „Ætli maður væri ekki orðinn dálítið afvanur til að vera gjaldgengur hæklari í dag, þó maður væri sæmilegur í því áður“.

Afvatna (s)  Um saltaðan mat/saltfisk; útvatna.  „Nú þyrfti að afvatna saltfisk.  Hver ætlar að skjótast upp í Brunnhús“?  Notað nær alfarið í Kollsvík; ekki „útvatna“, eins og nú virðist landlægt.  „Í Kaldabrunnslæk var tekið neysluvatn, þvegnir þvottar og afvatnað saltmeti“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Afvatnaður (l)  Útvatnaður.  „Fiskurinn er varla orðinn afvatnaður ennþá“.                    

Afvega (ao)  Af vegi; frá/úr þeirri leið sem vanalega er farin.  „Ég hafði farið afvega þarna á háfjallinu, enda um nokkrar götur að velja“.

Afvegaleiða (s)  Lokka af réttri braut; tæla; villa um fyrir.  „Mér er bara ekkert um að þessir íhaldskálfar séu að flækjast hér um sveitir og afvegaleiða heiðarlega framsóknarmenn“!

Afvelta (l)  Um kind sem liggur á bakinu og getur ekki reist sig upp vegna aðstæðna eða ásigkomulags.  Árlega varð einhver fjárskaði á þann hátt enda sjaldnast að fé findist í tíma sem þannig fór.  Hrafn var fljótur að greina hjálparvana skepnur og kroppa úr þeim augu, auk þess sem refur rann fljótlega á svo auðfengið fæði.  Þeim skepnum er hættast sem eru vænar og þar af leiðandi með breitt bak og óliprari; einnig fé í rúgi.

Afvelta (n, kvk)  Það að fara afvelta.  „Það varð að lóga kindinni eftir afveltuna“.

Afvenjast (s)  Gleyma fyrri ávana/venju.  „Maður er dálítið farinn að afvenjast þessum handtökum“.

Afvikinn staður (orðtak)  Til hliðar; leynistaður; úr alfaraleið.  „Ég setti afmælisgjöfina á afvikinn stað“.

Afvötnun (n, kvk)  Útvötnun saltfisks.  „Skrepptu upp í brunnhús og sæktu fiskinn úr afvötnun“.  Nú er landlæg önnur merking þessa orðs, án þess að séð verði vitleg ástæða hennar.

Afþakka (s)  Hafna en þakka samt fyrir boðið.  „Ég afþakkaði þetta tilboð“.

Afþreying (n, kvk)  Dægrastytting; það sem maður gerir tilo að stytta sér stundir; tómstundastarf; lestur.

Afþreyttur (l)  Hvíldur; úthvíldur.  „Við byrjum ekki á þessu fyrr en við erum orðnir afþreyttir og hressir“.

Afæta (n, kvk)  A.  Auga í annars samfelldum ís, vegna volgru/straums. „Gáðu að þér á ísnum þarna á Mýrunum; það eru víða afætur í drápsdýjunum“.  B.  Það sem étur af/eyðir fóðri.  „Ég held ég lógi þessum útigangskindum; þær eru geldar og verða bara afætur í vetur“.  C.  Það sem étur beitu af krókum á fiskilínu.   „Það þýðir ekkert að leggja hérna fyrir afætum eins og krossfiski“.  D.  Dýr sem lifa sníkjulífi á öðrum dýrum; menn sem eru baggi á samfélagi af ásettu ráði.

Afætudý (n, hk)  Dý sem ekki frýs, vegna stöðugs vatnsaga og/eða kaldavermslis.  „Neðanvið túnið heitir Álfar.  Það var afætudý áður fyrr“  (ÓS; Örnefnaskrá Lambavatns).

Aga (s)  A.  Renna.  „Þarna agar vatn uppúr klöppinni á mörgum stöðum“.  „Það er agandi saggi á veggjunum“.  B.  Siða; halda reglu.  „Segja má að síðustu um Víkina, eins og sagt hefur verið um landið:  „Hún agar oss hart með sín ísköldu él, en á samt til blíðu; hún meinar allt vel“. “  (KJK; Kollsvíkurver).

Agalegur (l)  Mikill; ægilegur; skelfilegur.  „Agalega væri nú gott að fá vatssopa að drekka“.  „Svellið á veginum er nú ekki eins agalegt og af er látið“.

Agaleysi (n, hk)  Skortur á hlýðni/ harðri stjórnun.  „Svona agaleysi dugir ekki í fjármálastjórn“!

Agent (n, kk)  Slettuheiti yfir þá sem kalla mætti áróðursmenn eða fulltrúa fyrir málstað; oft fremur niðarndi.

Agg (n, hk)  Nöldur; aðfinnslur; hnjóð.

Aggalítill (l)  Agnarlítill.  Lýsingarorð sem heyrðist vart í Kollsvík, en er sennilega dregið af „agga“ sem var heiti á smásíld/smásíli annarsstaðar á landinu.  Hinsvegar var notað lýsingarorðið oggulítill í Kollsvík, sem líklega er myndbreyting á þessu lýsingarorði.  Sjá þar.

Agi (n, kk)  A.  Vatnsrennsli; krapasull.  „Það kemur töluverður vatnsagi útúr hellinum“  „Það er krapi á vegum og illfær agi í hjólförum“.  B.  Stíf reglusemi.

Agitera fyrir (orðtak)  Beita sér fyrir; reka áróður fyrir; dásama.  „Hann agiteraði mjög fyrir þessu máli“.

Agn (n, hk)  Beita.  „Þú þarft að koma agninu vel uppfyrir agnhaldið á króknum“.

Agnarangi  / Agnarljúfur / Agnarpjakkur / Agnarskita  / Agnarskott  / Agnarskömm  / Agnarspott / Agnarstubbur (n, kk/kvk)  Gæluorð um lítinn krakka.  „Varstu að detta agnaranginn minn“?  „Komdu hérna agnarspottið“.  Orðin voru töluvert notuð með þessu forskeyti, en einnig sem gæluorð án þess.

Agnarlítill / Agnarsmár (l)  Ofulítill; örlítill; svolítill; pínulítill.  „Það hafði farið agnarsmátt sandkorn í bensínleiðsluna“.

Agnarögn (n, kvk)  Smávegis; örlítið; duggunarögn.  „Það er ekki til agnarögn af salti“  „Bíddu agnarögn við“!

Agndofa (l)  Lamaður af furðu/skelfingu; mjög hissa/skelfdur.  „Ég varð alveg agndofa þegar ég sá hvað skeði“. 

Agnhald (n, hk)  Hak skammt frá oddi á öngli/fiskikrók, til að halda beitu/ veiði á króknum.  

Agnúast (s)  Skammast; hafa á hornum sér.  „Minnihlutinn agnúast nú mjög út í síðustu aðgerðir meirihluta“.  „Mér fannst ekki taka því að vera að agnúast við karlinn, þó ég væri ekki sáttur“.

Agnúi (n, kk)  A.  Agnhald á öngli/krók.  B.  Afleidd merking; hindrun; tregða; mótstaða.  „Verkbannið, ásamt ýmsum agnúum innbyrðis, varð til þess að Kaupfélag Rauðsendinga hætti störfum í ársbyrjun 1934“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).

Agt (n, kvk)  Hlýðni; virðing.  Sjá akt; taka sig í agt.  „Tíkin sýnir honum enga agt“.

Aka (s)  A.  Keyra; stjórna ökutæki.  B.  Hnika til; færa.  „Hann hafði það fyrir sið, þegar hann var að taka bílinn af stað, að aka sér í sætinu; grípa í húfuderið og kiða herptum munni sitt til hvorrar hliðar“.

Aka/ríða í loftinu (orðtök)  Aka/ríða mjög hratt.  „Ég ók í loftinu norður á veg, og náði að loka hliðinu áður en kindahópurinn komst inná“.

Aka/haga seglum eftir vindi (orðtak)  Haga verkum/orðum eftir þvi sem henta þykir.  „Það verður bara að haga seglum eftir vindi; við verðum að geyma þessa eggjaferð þangað til aftur þornar af“.  „Bragna enginn betur má í búrhvalsstrindi/ aka seglum eftir vindi“  (JR; Rósarímur). 

Aka sér (orðtak)  Hagræða sér sífellt í sæti; hnika sér til sitjandi; kiða í sæti.  „Þegar talið barst að útigangsfénu fór hann að aka sér og skipta litum“.

Aka sér af stað / Aka sér í  (orðtök)  Koma sér af stað; drífa sig; hafa sig í verk.  „Nú þurfum við bráðum að fara að aka okkur af stað“.  „Ætli við verðum ekki að fara að aka okkur í þetta“.

Akfeitur (l)  Spikfeitur; sílspikaður.  „Þú ert orðinn svo akfeitur að þú verður að halda þig miðskips“!

Akfær/bílfær vegur (orðtak)  Vegur sem aka má um á bílum og öðrum ökutækjum.  „Rúmum áratug áður hafði verið hafist handa um  lagningu akfærs vegar upp úr Kollsvík að norðanverðu...   ..Dráttarvéln var keypt árið 1944, eða rúmum áratugi fyrr en fyrst akfært varð yfir Hænuvíkurháls“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).   „Ruddi hún bílfæran veg yfir heiðina á nokkrum vikum.  1952 ruddi hún og byggði upp akveg yfir Fossaháls á kostnað sýsluvegasjóðs og síðar um Hjarðarnes að Auðshaugi“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi; úr greinargerð Jóhanns Skaftasonar sýslumanns). 

Akkeri (n, hk)  Þungi, oftast með flaugum, sem slakað er á hafsbotn í akkerisfesti/stjórabandi til að festa bát og hindra að hann reki undan straumi/vindi.  Sjá stjórafæri/stjóri; dreki; krípur.  Orðstofninn gæti verið „arnkeri“ eða „arnker“, sem vísar til þess að gömul akkeri voru í raun tréílát fyllt af grjóti; með flaugum sem minna á arnarnef til að grípa í botninn.

Akkerisfesti (n, kvk)  Festi sem liggur frá akkeri í bát eða ból á yfirborði. 

Akkerisflaug (n, kvk)  Flaug/armur á akkeri.  „Við hættum við suðurferðina; tökum sinn í hvora akkerisflaugina á Ríper og drögum hann á land yfir stórgrýti; upp í bás milli klettanna fyrir ofan voginn“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Akkorð (n, hk)  Fastlaunasamningur; samningur.  Oftast notað um það þegar maður tekur að sér verkefni fyrir fasta heildarupphæð en ekki tímakaup.

Akkoti (n, kk)  Áhersluorð; afbökun/mildun úr „andskoti“.  „Akkoti er þetta lagleg fleyta“.

Akkur í (orðtak)  Hagur/bót að; hagnaður í.  „Mér er engin akkur í því að fá vitlaus ráð“!

Akkúrat (l, ao, u)  Einmitt; nefnilega; nákvæmlega; nákvæmur.  „Það var akkúrar þetta sem mig vanhagaði um“.  „Þetra er akkúrat kíló“.  „Hann er svo akkúrat í sínum mælingum; þar má engu skeika“.  Einnig samsinni/undirtektr fullyrðingar:  „Akkúrat“!  „Það var akkútrat (það/þannig)“.

Aksjón (n, kvk)  Stundum notað um uppboð, og þá sletta úr t.d. dönsku „aktion“.  Heyrist á síðari tímum sem sletta úr ensku; „action“, eða aðgerð; verknaður.

Akstur (n, kk)  Keyrsla; það að aka/keyra ökutæki.  „Að Láganúpi er um klukkustundar akstur frá Patreksfirði“.

Akstursfær (l)  Ökufær; fær um að aka.  „Ég held að hvorki bíll né bílstjóri hafi verið akstursfær eftir þetta“.

Aksturslag (n, hk)  Ökulag.  „Mér sýndist nú á aksturslaginu að karlinn hefði eitthvað þegið í staupinu“!

Akt / Agt (n, kvk)  A.  Agi; virðing.  „Hann stjórnar þessu algerlega; við verðum að sýna hinum fulla akt og respekt“!.  B.  Sjálfsagi.  Sjá taka sig í agt með og agt.

Akta (s)  A.  Hlýða; virða; fara að reglum/fyrirmælum.  „Hundurinn er gagnslaus ef kindurnar akta hann ekki“.  B.  Vera; haga sér.  „Ég ætla að setja traktorinn í gang og sjá hvernig hann aktar“.

Aktaumur (n, kk)  Stjhórntaug; taumur sem notaður er til að stjórna/stýra með, t.d. báti.  Taumastýri voru ekki algeng í Kollsvíkurveri, eftir því sem næst verður komist, en voru ekki óþekkt. 

Aktygi (n, hk, fto)  Æki; búnaður til að festa dráttartæki, s.s. vagn, aftan í hest.  „Pabbi smíðai járnin á aktygin sem hann smíðaði talsvert af“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Akur  (n, kk)  A.  Kornræktarland.  B.  Mikill fjöldi; ógrynni.  „Þarna var akur af fólki samankomið“.

Akurgerði (n, hk)  Hólf sem ræktað er í; jurtagarður.  Kunnasta örnefni með því heiti er í Sauðlauksdal, þar sem fyrstu kratöflur voru ræktaðar á Íslandi.  „Upp af Sandvelli, heldur heimar, neðan Enna, er Akurgerði, og er frá tíð sr Björns Halldórssonar.  Þar voru fyrst ræktaðar kartöflur“ (SJTh; Örn.skrá Sauðlauksdals). „Akurgerði er nokkuð stór garðspilda, girt sterkum garði af torfi og grjóti.  Læk er veitt undir mannvirkið og liggur eða lá hann eftir grjót- og torflokræsum með jöfnu millibili undir garðinum.  Með hellusteini undir neðri garðveggnum var hægt að stjórna hve djúpt var á vatnið í jarðveginum“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Akútera (s)  Samþykkja; vera meðmæltur; skrifa uppá.  „Hann vildi ekki alveg akútera að hann bæri einn ábyrgð á þessari uppákomu“.  „Ætli ég verði ekki að akútera mín mistök“.

Akvegur (n, kk)  Vegur sem unnt er að aka um á ökutækjum.  „Ruddi hún (jarðýtan Ásaþór) bílfæran veg yfir heiðina á nokkrum vikum.  1952 ruddi hún og byggði upp akveg yfir Fossaháls á kostnað sýsluvegasjóðs og síðar um Hjarðarnes að Auðshaugi“  (AÍ; Vélvæðing í Rauðasandshreppi; úr greinargerð Jóhanns Skaftasonar sýslumanns). 

Ala (s)  Um búfé; halda á lífi; hafa til viðurværis.  „Lömbin voru alin inni allan veturinn.  Þau voru höfð í lambhúsi sem stóð uppi á Hólum“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  „Ám er gefið fram á burð allvíðast, og aldar inni frá því um hátíðar og framundir apríllok“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Ala á (einhverju) (orðtak)  Endurtaka í sífellu; reka áróður fyrir; halda einhverju að.  „Ég þvertók fyrir þetta í fyrstu, en hann hélt áfram að ala á því þangað til ég féllst á að koma með þeim“.

Ala manninn (orðtak)  Vera; dveljast.  „Hvar hefur þú alið manninn“? 

Ala önn fyrir (orðtak)  Sjá um; hafa á framfæri. 

Aladdinlampi (n, kk)  Olíulampi af sérstakri gerð, sem fluttur var inn í kirngum 1960 og gekk almennt undir þessu heiti; a.m.k. í Rauðasandshreppi.  Olíubyðan var úr glæru gleri, á glerfæti; lampaglasið svert og kringum það hólklaga skermur, um 25 cm í þvermál.  Þessir stofulampar veittu mikla birtu og hita.

Alautt (l)  Um snjóalög; jörð alveg auð; enginn snjór á jörðu.  „Í nóvember var jörð alauð, og sauðfé sjálfala um byggðir og fjöll“.

Albata (l)  Fullbata; alveg batnað af veikindum/meiðslum.  „Ég var orðinn albata og gat farið með þeim“.

Albjart (l)  Fullbjart/alveg bjart að degi.  „Það þarf ekki að kveikja ljós meðan enn er albjart“.

Alblindur (l)  Alveg blindur/sjónlaus. 

Alblóðugur (l)  Ataður blóði.  „Hann var alblóðugur í andliti eftir að hafa hrasað í skriðunni“.

Albúinn (l)  Alveg tilbúinn/reiðubúinn; að fullu lokið við.  „Ég er albúinn að fást við tuddafjandann“.  „Þórður Jónsson gerði grein fyrir reikningum Félagsheimilisins og kvaðst albúinn að breyta formi reikninganna“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 12.03.1960; ritari ÖG). 

Alda (n, kvk)  A.  Bára, t.d. á sjó.  „Hann er að leggja upp talsverða öldu“.  B.  Hæð/bylgja í landslagi eða öðru.

Aldamót (n, hk, fto)  Mót tveggja hundrað ára tímabila, t.d. 1900 og 2000.

Aldarfar / Aldarháttur (n, hk)  Tíðarandi; siðir og viðhorf á hverjum tíma.  „Það er breytt aldarfarið og af sem áður var“.

Aldavinur (n, kk)  Kær vinur til langs tíma.  „Þeir voru aldavinir uppfrá því“.

Aldaöðli (n, hk, þgf)  Sjá frá aldaöðli.

Aldeilis (u)  Öldungis; alveg; upphrópun eða áhersluorð; ýmist notað sérstætt eða ekki.  „Það var aldeilis“! var sagt í vandlætingartón um eitthvað yfirgengilegt; gott eða slæmt.  „Þetta er nú aldeilis fínt hús“.  „Hún ætlaði nú aldeilis ekki að sleppa því sem hún var komin með í hendurnar“.  „Er þetta nú aldeilis rétt“?

Aldeilis hissa/hlessa (orðtak)  Lýsing á mikilli undrun/forundran.  „Nei, nú er ég sko aldeilis hlessa; er ekki hrafninn kominn með heilan rauðmaga hingað upp að húsi“!

Aldimmt (l)  Alveg dimmt/myrkvað.  „Það var farið að rökkva verulega, en þó ekki orðið aldimmt“.

Aldinn / Aldraður (l)  Gamall; aldurhniginn.  „Hann hlýtur að vera orðinn þónokkuð aldinn núna“.

Aldrei (ao)  Ekki nokkurntíma.  „Það var aldrei“!  „Betra er seint en aldrei“.

Aldrei að segja aldrei (orðatiltæki)  Aldrei að útiloka/ telja óhugsandi.  „Aldrei að segja aldrei, maður veit ekki hvenær önnur staða verður uppi“.

Aldrei að vita (orðtak)  Ekki unnt að segja til um; gæti skeð; hugsanlegt.  „Við skulum hinkra aðeins lengur; það er aldrei að vita nema þessi mávahópur komi norðuryfir sem er flöktandi þarna við Hreggnesann“.

Aldrei á lífsfæddri ævi (orðtak)  Aldrei á ævinni; aldrei nokkurntíma.  „Aldrei á minni lífsfæddri ævi hef ég heyrt annað eins endemis bull“!

Aldrei er bagi að bandi (orðatiltæki)  Band var dýrmætur nytjahlutur fyrr á tíð, þegar það var torfengnara en nú.  Mikil vinna fór í að afla þess heimavið, með tógspuna eða þvengjagerð, og bönd af hampi voru dýr hjá kaupmönnum.  Band þurfti til heyskapar meðan borið var heim í böndum; til að binda og leiða stórgripi; í færi, net, lóðir, stjóra, festingar, sigvaði, tildrátt, kippubönd og fjölmargt annað.  Menn reyndu því með öllu móti að ná sér í band og varðveita það vel.  Urðu jafnvel af því þjófnaðarmál, þó ekki sé vitað um slíkt vestra.  Sóknin í band var mikil, jafnvel eftir að það varð aðgengilegra.  Því hefur það í Kollsvík verið talinn sérstakur happareki ef þar kemur á fjörur flækja af heillegri lóð eða færi sem týnst hefur í hafi.  Settust menn þá við það í sínum frítímum að greiða, og höfðu oftast uppúr því miklar hankir.  Eins var þetta mjög vinsæl gestaþraut hjá aðkomufólki.

Aldrei er gott oflaunað nema í illu sé (orðatiltæki)  Vel unnið vandaverk og fórnfús vinna í annarra þágu er aldrei fullþökkuð/ of vel launuð, nema ef vanþakklæti og illindi eru launin.

Aldrei er góð vísa of oft kveðin (orðatiltæki)  Vísdóm og heilræði þarf sífellt að endurtaka.  Mikið notuð speki.

Aldrei er of varlega farið (orðtak)  Allur er varinn góður; gott er að sýna varúð.  „Gættu vel að handfestunum þegar þú ferð fyrir nefið; það er aldrei of varlega farið“!

Aldrei skyldi egna óstöðugan (orðatiltæki)  Menn eiga ekki að ögra þeim sem eru fljótillir/viðskotaillir.  Sjá einnig; til að æra óstöðugan.

Aldrei skyldi seinn maður flýta sér (orðatiltæki)  Maður skyldi aldrei hraða sér svo að maður missi stjórnina.  Ekki er hyggilegt að rasa um ráð fram.  „Nú skar ég mig í fingurinn.  Aldrei skyldi seinn maður flýta sér“!

Aldrei þessu vant (orðtak)  Óvanalegt; nú ber nýrra við.  „Grána skilaði sér sjálf heim af Bjarginu þetta árið, aldrei þessu vant“.  Ég mundi eftir að setja aukahníf í bátinn núna, aldrei þessu vant“.

Aldur (n, kk)  Æviskeið; áratal frá fæðingu/upphafi/smíði.  „Ég spurði hann ekki að aldri“.

Aldurhniginn (l)  Aldraður; gamall.  „Hann hlýtur að vera orðinn nokkuð aldurhniginn núna“.

Aldurtili (n, kk)  Banamein; það sem veldur dauða.  „Tili“ merkir það sama og „tilefni“ eða orsök.  „Ég veit ekki hvað varð hrútnum að aldurtila“.  Sjá verða að aldurtila.

Aldæla (l)  Sem allir geta gert sér dælt við/ lynt við; meðfærilegur; lætur að stjórn.  Jafnan notað í neikvæðri merkingu, með „ekki“ fyrir framan.  „Hann var mjög sérlundaður og þótti ekki aldæla“.

Alefli (n, hk)  Ítrustu kraftar; mesta átak.  „Það bifaðist ekki þó ég tæki á því af alefli“.

Aleiga (n, kvk)  Allar eigur; allt sem maður á til.  „Þetta gæti kostað hann aleiguna ef illa tekst til“.

Aleinn (l)  Alveg einn; einsamall.  „Það verður erfitt að koma fénu heimeftir, aleinn“.

Alelda (l)  Um hlut/byggingu; logar allsstaðar; að öllu leyti í báli.  „Húsið varð alelda á skömmum tíma“.

Alfaðir (n, kk)  Sá sem er faðir allra; ættfaðir.  Oft notað um æðsta guð trúarbragða.

Alfaraleið / Alfaravegur (n, kvk/kk)  Fjölfarin þjóðleið.  „Alfaraleið lá forðum yfir fjallgarðinn bak Látrabjargs...“  (MG; Látrabjarg).  „Þetta er nokkuð frá alfaravegi“.

Alfarið (ao)  Alveg; eingöngu.  „Þetta er alfarið á mína ábyrgð“.  „Fiskur virðist alfarið vera horfinn af grunnmiðum þetta árið“.

Alfarinn / Alfluttur (l)  Alveg fluttur; alveg farinn.  „Eftir þetta kom hann vestur alfarinn og hóf búskap“.

Alfataskipti (n, hk, fto)  Skipti allra fata sem maður er í.  „Ég var svo forblautur að ég þurfti að hafa alfataskipti þegar ég kom heim“.

Alfatnaður / Alklæðnaður (n, kk)  Öll föt sem maður er í.  „Fyrir þetta keypti hann sér nýjan alfatnað“.

Alfullkominn (l)  Fullkominn að öllu leyti; gallalaus.  „Þetta er nú fyrirgefanlegt; það er enginn alfullkominn“.

Alfriðaður (l)  Um dýrategund; óheimilt að veiða á öllum árstímum. 

Algallaður / Alhlífaður  (l)  Í fullum/heilum galla, t.d. á sjó.  „Það er best að vera algallaður í þessari ágjöf“.

Algeld (l)  Ær sem orðin er alveg geld; þ.e. hætt að mjólka.  (Orðasafn IG)

Algengur (l)  Almennur; alþekktur; sem víða fyrirfinnst.  „Þetta er algengur misskilningur“.

Alger / Algjör (l)  Allur; alveg.  „Kollsvíkingum er tamara að nota orðið „alger“ en „algjör“.  „Þetta er alger klaufaskapur“.  „Alger“ var tamara Kollsvíkingum en „algjör“, þó hvorttveggja heyrðist í seinni tíð.

Algerlega / Algjörlega (l)  Alveg; að fullu.  „Saltið er algerlega búið“.  „Ertu algerlega hættur að þrífa eftir þig“?

Algóður (l)  Góður að öllu leyti; gallalaus. 

Algróinn (l)  Um landsvæði/mein; gróið að fullu.  „Heimst var þetta holt algróið og frekar grasgefið“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).

Alheiður himinn (orðtak)  Skafheiður himinn; alveg heiðskírt.

Alheimta (s)  Fullheimta; fá allt fé að hausti sem búist var við.  „Ekki er ég samt búinn að alheimta ennþá“.

Alheimur (n, kk)  Heimurinn allur; veröldin.

Alhéluð jörð (orðtak)  Jörð öll þakin hrími/hélu.  „Þetta er furðulegt veðurlag; frostþoka og alhéluð jörð“.

Alhirða (s)  Fullheyja; koma öllu heyi af túni inn í hlöðu.  „Ég er nánast búinn að alhirða, þetta sumarið“.

Alhlífaður (l)  Í hlífðarfatnaði/skinnklæðnaði frá toppi til táar.  „Þú þarft að vera alhlífaður við þetta verk“.

Alhugur (n, kk)  Einlægni; sannfæring. 

Alhvítt / Alhvít jörð (l/ orðtak)  Snjór yfir öllu; snjóþekja.  Það gerði á okkur þvílíkt haglél að alhvítt varð“.  „Það var bara orðin alhvít jörð á stuttum tíma“.

Alikálfur / Alilamb (n, kk)  Ungviði sem sett er á til eldis.

Alin (n, kvk) A.  Öln; mælieining sem áður var almennt notuð um lengd.  Alin var upphaflega miðuð við lengdina frá olnboga fram á góm löngutangar á meðalmanni (stundum þó framá góm þumalfingurs).  Forníslensk alin jafngilti tveimur fetum; tveimur spönnum; eða 24 þumlungum.  Með stikulögum á Alþingi (um 1200) var hún nefnd íslensk alin og lengd ákveðin 20 þumlungar.  Forn alin eða Hamborgaralin var upp tekin í byrjun sextándu aldar og var þá 22 þumlungar (tommur) eða 57,8cm.  Árið 1776 var lögtekin Dönsk alin, sem var 24 þumlungar eða 62,8cm að lengd, og er hún í gildi í dag að því marki sem álnir eru notaðar.  Danskt fet er 31,39 cm og tvö slík eru í hverri danskri alin.  B.  Verðeining að fornu; alin vaðmáls jafngilti tveimur fiskum.  Stórt hundrað álna, eða 120 álnir, jafngilti einu jarðarhundraði og jafngilti einnig einu kýrverði.  Sex álnir voru í lögeyri.  Jarðarverð voru tilgreind í hundruðum.  C.  Mælieining heyforða.  forðagæslumenn mældu stabba af fullsignu þurrheyi í álnum.

Alkirkja (n, kvk)  Kirkja þar sem prestur skyldi fyrrum þjóna hvern helgan dag.  Við alkirkju var jafnan kirkjugarður.  Saurbæjarkirkja (frá þjóðveldisöld) og Sauðlauksdalskirkja (frá 1512) voru alkirkjur, og síðar Breiðavíkurkirkja (frá 1824), en þar var áður bænhús (a.m.k. frá 1431).  Frá fornu fari lá sú skylda á alkirkju að hýsa biskup og fylgdarlið hans á yfirreiðum.  Ef biskup nofærði sér ekki þessa kvöð áttu kirkjuhaldarar að greiða honum úthlutning/úrlausn.

Alkominn (l)  Kominn fyrir fullt og fast; alveg kominn.  „Ertu þá alkominn í sveitina“?

Alkort (n, hk)  Spil sem vinsælt var fyrr á tíð, en minna spilað nú á dögum eins og önnur spil.  Í byrjun eru fimmur og tíur teknar úr bunkanum.  Spilarar eru fjórir; tveir og tveir spila saman.  Gjafari gefur hverjum níu spil, en átta eru þá eftir í stokk sem hann geymir hjá sér.  Gildi spila er annað en venjulegt er:  Tígulkóngur er hæstur; þá hjartatvistur, laufafjarki; spaðaátta; hjartanía; tígulnía; ásar; gosar og sexur.  Sjöur eru kallaðar „besefar“ og hafa þá sérstöðu að styrkjast eftir unninn slag en hafa annars ekki gildi.  Markmiðið er að fá sem flesta slagi.  Fái menn fimm slagi í röð nefnist það „múkur“, sem gefur fimm prik.  Sex slagir eða fleiri gera „stroku“.  Annars er eitt prik fyrir hvern slag.

Alkul (n, hk)  Mesti kuldi sem orðið getur er -273,15°C (-459,67°F) eða 0°á Kelvinkvarða.  Við það hitastig er hreyfing frumeinda og sameinda í algeru lágmarki.  Tekist hefur að komast nærri alkuli, en fræðilega er þó ómögulegt að ná því meðan einhver virkni er í umhverfinu. 

Alkunnugur (l)  Þekkir til fulls.  „Ég er alkunnugur á þessum slóðum; þarna hef ég oft farið“.

Alkunnur (l)  Þekktur af öllum; víðkunnur.  „Vonandi þarf aldrei að endurtaka hið alkunna björgunarafrek í Látrabjargi; hætt er við að slíkt vefðist fyrir nútímafólki þó það sé betur útbúið“.

All... (forsk)  Forskeyti til að leggja meiri þunga í orð og auka gildi þess.  Ýmist sér í lagi í framburði og ritun, eða samanspyrt viðeigandi orði.  Var töluvert meira notað í Kollsvík en nú heyrist.  „Það er komið allnokkurt frost“.  „Þetta kostar all verulegar upphæðir“.

Alla brestur eitthvað  ( orðatiltæki)  Enginn er fullkominn; allir hafa einhvern annmarka/galla. 

Alla leið (orðtak)  Leiðina/veginn til enda; alveg til enda; að takmarki.  „Ég var orðinn svo uppgefinn að það var með herkjum að ég komst alla leið heim“.

Alla sína/mína hundstíð (orðtak)  Alla ævi; alltaf.  „Ég hef gert þetta svona alla mína hundstíð, og ætla ekki að fara að breyta því á gamalsaldri“!  „Alla sína hundstíð hefur hann hangið aftaní þessum flokki“.  Á síðari tímum hefur sú þvæla fengið fæturna að segja „alla sína hunds- og kattartíð“, sem er kjaftíska.

Alla tíð / Allatíð (orðtak)  Alltaf; sífellt; sí og æ.  „Þær voru alla tíð erfiðar, bjargferðirnar, þótt ekki væri lagt jafnhart að sér og í þessari ferð“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  Oftast framborið sem eitt orð.

Allaballi (n, kk, linur frb)  Uppnefni á stuðningsmanni Alþýðubandalagsins.

Allajafna (ao)  Að öllu jöfnu; venjulega; yfirleitt.  „Allajafna er skjólsælla í Kollsvík í norðanáttum“.  „Allajafna var tvíróið“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).  „Allajafna sveigir sverða sinnisgáður/ slær sér minna út en áður“  (JR; Rósarímur). 

Allalgengur (l)  Nokkuð/verulega algengur.  „Smyrill er allalgengur að sumri; sjaldgæfari að vetrum“  (EG; Fuglalíf í Kollsvík).

Allan liðlangan daginn (orðtak)  Allan daginn.  Orðið „liðlangur“ er til áhersluauka.  „Verið nú ekki með þennan bévítans gauragang strákar; allan liðlangan daginn“!

Allar bjargir bannaðar (orðtak)  Ekkert til bjargar; engin úrræði tiltæk.  „Með lækkandi afurðaverði og hótun um að hætta að sækja mjólk má segja að bændum í Kollsvík hafi verið allar bjargir bannaðar“.

Allar götur (orðtak)  Alveg; alla leið.  „Ég horfði á tófuna renna upp klettana; allar götur uppá brún, þó hvergi virtist fótfestu að sjá á leiðinni“.  „Ég elti tófuna allar götur fram á Aurholt“.

Allar götur síðan.. (orðtak)  Alveg síðan...  Notað til áhersluauka:  „Frá Kollsvík hefur verið róið nánast samfleytt; allar götur síðan Kollur nam þar fyrst land“.

Allatíð (ao)  Alltaf.  „Þetta hef ég allatíð vitað; fyrir mér eru þetta engin ný sannindi“.

Allar leiðir liggja til Rómar (orðatiltæki)  Allt ber að sama brunni; allt bendir í sömu átt; allar leiðir liggja á tiltekinn stað. 

Allavega / Allavegana (ao)  Að minnsta kosti; í það minnsta; í öllu falli.  „Þeir eru ekki hér; allavegana hef ég ekki séð þá“.  Hið síðara notað mun oftar í Kollsvík en annarsstaðar heyrist.  Sjá einnig allrahlutavegna.

Alláberandi (l)  Verulega áberandi/sýnilegur.  „Upptök Hrófár er gil sem heitir Urðargil; alláberandi gil uppi í brúninni“  (ÓlÓ; Örn.skrá Vesturbotns).

Allbágur (l)  Verulega aumur/illa haldinn.  „Maður er nú orðinn allbágur ef maður dregst ekki á sjó“.

Allbirgur (l)  Með góðar birgðir; vel vistaður.  „Sumir voru svo rausnarlegir að þeir létu okkur hafa steinbítinn af hverjum háseta, svo við vorum allbirgir þarna“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Allborubrattur (l)  Ber sig nokkuð vel; nokkuð montinn/áræðinn.  „Mér finnst hann nú allborubrattur ef hann heldur að hann hafi roð við mér í sjómanni“!

Allbrattgengur (l)  Nokkuð fær í klettum; góður bjargmaður.  „Strákurinn er allbrattgengur og lipur“.

Allbrattur (l)  A.  Mjög brattur; nær þverhnípt.  „Gáðu nú að þér í aurskriðunum; þær eru allbrattar og harðar“.  B.  Allborubrattur; nokkuð hress/áræðinn. 

Allbreiður (l)  Fremur/mjög breiður.  „Lending í Kollsvíkurveri er í allbreiðum bás á milli Norðarikletta og Syðrikletta; þar sem Búðalækur rennur til sjávar.  Framundan lendingunni er Lægið.

Allbærilega / Allbærilegur (ao/l)  Nokkuð vel; sæmilega.  „Mér líður allbærilega, þakka þér fyrir“.  „Þetta er nú allbærilegur afli, þykir mér“.

Alldimmt (l)  Nokkuð dimmt/myrkvað.  „Alldimmt var orðið, en þó ratljóst“.

Alldjarfur (l)  Nokkuð hugaður; fífldjarfur.  „Voru þeir taldir alldjarfir í sjóferðum“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Alldrjúgur (l)  Nokkuð montinn; lætur drýgindalega.  „Hann var alldrjúgur yfir aflabrögðunum“.

Alldularfullt (l)  Verulega furðulegt.  „Menn kunnu enga skýringu á þessu fyrirbær og töldu það alldularfullt“.

Alldýrt (l)  Nokkuð dýrt; verulega/talsvert dýrt.  „Ég hefði nú kannski keypt þetta, en fannst það alldýrt þarna“.

Allefins (l)  Nokkuð efins/vantrúaður; hefur ekki mikla trú á.  „Ég er nú allefins um að þetta gangi hjá honum“.

Alleina (fs) Að minnsta kosti; allt að einu; eingöngu.  „Alleina finnst mér að byggð hafi minnkað á svæðinu“.  Einnig í orðatiltækinu „það er nú alleina það“.  „Selfengur alleina með að skjóta þá, því lagnir eru þar engar ( á Látrum)“  (ÁM/PV Jarðabók). 

Allferlegur (l)  Mjög/fremur hræðilegur/stórskorinn/ískyggilegur.  „Þvoðu þér nú í framan strákur; þú ert allferlegur, svona krímóttur til augnanna“!

Allfjarri (ao)  Allmjög fjarlægt; langt í burtu.  Oftast notað í neitandi stöðu:  „Hann tók því ekki allfjarri“.

Allfurðulegur (l) Mjög/fremur furðulegur/einkennilegur.  „Mér þótti þetta allfurðulegt, og fór að skoða það betur.  Þá kom í ljós hvernig í öllu “.

Allgóður (l)  Nokkuð mikill; verulega góður/vænn.  „Við fengum þarna allgóðan afla á stuttum tíma“.

Allgreinilega (ao)  Nokkuð greinilega; sæmilega skýrt.  „Ég sá þetta allgreinilega“.

Allharður (l)  Nokkuð harður.  „Steinbíturinn var illa barinn og allharður undir tönn“.

Allhásjávað (l)  Tölvert mikið fallið að;  allmikil flæði.  „...sunnan við aðallendinguna er svokölluð Snorralending.  til þess að hún njóti sín þarf þó að vera allhásjávað, þvert á móti því sem nú var“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  „...þar sem að fornu fari hefur verið kölluð Snorralending.  Þar verður aðeins lent um allhásjávað“  (KJK; Kollsvíkurver).

Allhátt (l)  Töluvert hátt; verulega hátt.  „Þarna sýnist mér kind vera í aðhaldi; allhátt uppi í klettum“.

Allheitur (l)  Mjög heitur; tilfinningaríkur.  „Allheitar umræður urðu um málið og skiptust menn í flokka með og móti“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Allhrikalegt (l)  Mjög stórskorið; fremur ógnvekjandi.  „Skápadalurinn er hömrum girtur og í botni hans er að sjá allhrikalegar klettamyndir“  (ÁÓ; Örn.skrá Skápadals).

Allhvasst (l)  Verulega hvasst; þéttingsvindur.  „Það var orðið allhvasst, svo nokkuð skóf sandi þarna á Rifinu“.

Allhættulegt (l)  Mjög fremur hættulegt/varasamt/ískyggilegt.  „Það er stórvarasamt að fara þarna um hjallann í hálku, og reyndar er leiðin öll allhættuleg við þannig aðstæður“.

Allir á sama báti (orðtak)  Allir jafn vel/illa settir/staddir; allir í sömu sveit settir.  „Bændur eru allir á sama báti; flestir eru tæpir með fóður eftir þetta rigningarsumar“.

Allir dagar eiga kvöld (um síðir) ( orðatiltæki)  Speki sem notuð er oft um annað, t.d. ellina.

Allir eiga leiðréttingu orða sinna (orðatiltæki)  Öllum getur mismælst; menn mega leiðrétta sín mismæli

Allir eldar brenna út/ slökkna um síðir ( orðatiltæki)  Sama á við um t.d. deilumál.  Einnig; kulnar eldur nema kyntur sé.

Allir eru vinir er/þegar vel gengur (orðatiltæki)  Í góðæri/velgengni er minni ástæða til illinda milli manna en þegar harðnar á dalnum.

Allir hafa einhvern brest / Allir hafa sína bresti / Hver hefur sinn brest (orðatiltæki)  Allir menn eru breyskir að einhverju leyti; enginn er fullkominn/gallalaus.  Brestur er galli/breyskleiki.

Allir (menn) hafa einhverntíma verið börn (orðatiltæki)  Auðskilin speki; sýnum börnum skilning.

Allir leggjast á eitt (orðtak)  Allir hjálpast að; allir vinna að sama markmiði.  „Þetta ætti að hafast auðveldlega ef allir leggjast á eitt“.  Vísar til þess t.d. að allir taki saman á borðstokki báts til að draga hann upp úr fjöru, eða að margir stundi reiptog.  Sjá leggjast á eitt.

Allir með tölu (orðtak)  Hver og einn einasti; allir.  „Kindurnar heimtust allar með tölu“.

Allir mega eitt kál súpa (orðatiltæki)  Allir þurfa að búa við sömu kjör; allir eru í sömu sveit settir.  „Menn eru misvel undir þetta búnir, en allir megum við víst eitt kál súpa þegar kemur að lagasetningu stjórnvalda“.

Allir sem vettlingi geta valdið (orðtak)  Allir verkfærir menn; hver einasti rólfær maður.  „Allir sem vettlingi gátu valdið drifu sig á staðinn með kvíslar og heyið var drifið úr hlöðunni; sumt logandi eða rjúkandi“.

Allir skapaðir hlutir / Allt sem nöfnum tjáir að nefna (orðtök)  Allt.  „Ég þekkti ekkert til verka og þurfti að spyrja um alla skapaða hluti“.  „Þarna ægði öllu saman sem nöfnum tjáir að nefna“.  Notað til áherslu.

Allir sótraftar á sjó dregnir (orðtak)  Sjá sótraftur á sjó dreginn.

(Einhverjum eru) allir vegir færir (orðtak)  Einhver getur allt; einhver er óbundinn.  „Ég er dálítið upptekinn í dag, en á morgun eru mér allir vegir færir“.

Allir vildu Lilju kveðið hafa (orðatiltæki)  Öllum þykir eftirsóknarvert að láta eftir sig fallegan kveðskap eða annað ódauðlegt listaverk.  Lilja er helgikvæði sem þótti afburðavel kveðið og innblásið.  Samið af munknum Eysteini Ásgrímssyni (d. 1361); líklega meðn hann sat í járnum í Þykkvabæjarklaustri 1343, dæmdur af Jóni Sigurðssyni Skálholtsbiskup fyrir að hafa, ásamt tveimur öðrum, barið Þorlák ábóta og stundað saurlífi.  Sættir náðust og varð Eysteinn síðar officialis í Helgafellsklaustri.

Allkátur (l)  Liggur nokkuð vel á; í góðu skapi; skemmtir sér.  „Hann varð allkátur við þessi tíðindi“.

Allkjöftugur / Alllyginn (l)  Fremur/heldur ósannsögull/lausmáll.  „Mér finnst hann allkjöftugur um það sem mætti liggja í láginni“.  „Sumum þykir hann alllyginn, en það má alveg hafa gaman af honum“.

Allkunnugur / Allkunnur (l)  Mjög kunnugur; þekkir mjög vel til.  „Hinir formennirnir voru allkunnir fiskimiðum á Kollsvík og þekktu þar helstu boða og grynni; svo sem Djúpboða, Arnarboða, Leiðarboða og Þembu, sem allt eru blindsker á fiskislóð og brjóta ef um stórsjó er að ræða“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Alllangur (l)  Mjög/fremur langur.  „Maður í landi býr sig út með ár sem hann festir við alllöngu snæri...“  (KJK; Kollsvíkurver).

Alllengi (ao)  Nokkuð/fremur lengi; langa stund.  „Við biðum alllengi eftir þeim, en svo fór ég að leita“.

Allmargir (ao)  Verulega margir; töluverður fjöldi.  „Allmargir voru þeirrar skoðunar að Íslendingum stafaði engin gæfa af inngöngu í „Evrópska efnahagssvæðið“, og enn hefur ekki verið bitið úr nálinni með það“.  „Hjá allflestum munu hey vera lakari en í meðallagi, því sumarið var óþurrkasamt…“  (Þórður Ó Thorl; Forðagæslubók Rauðasands 1924). 

Allmerkilegt (l)  Verulega/töluvert merkilegt.  „Mér þykir það allmerkilegt hvað þetta forskeyti hefur almennt lítið verið notað, í ljósi þess hve Kollsvíkingum hefur einatt verið það tamt“.

Allmikill / Allþungur (ao)  Verulegur; talsverður.  „Hann hefur rifið upp allmikinn sjó á stuttum tíma“.

Allmjór (l)  Fremur/mjög mjór.  „Hægt erð komast á Höfðann eftir Sveltisganginum, en hann er allmjór á köflum, og ekki fyrir lofthrædda“.

Allmjög (ao)  Töluvert; verulega.  „Færðin hefur allmjög versnað frá því í gær“.

Allnokkur (fn)  Verulegur; allmikill.  „Hann hefur verið að auka sjóinn með morgninum; það er komið allnokkuð rugg“.  „Það var allnokkuð eftir í mjólkurfötunni þegar kálfurinn komst í hana“.

Allnærri (ao)  Nokkuð nálægt.  „Þó var haldið áfram að draga uns komið var allnærri niðurstöðu að stjóra.  Þá var línunni sleppt og því nær ávallt haldið til lands“  (KJK; Kollsvíkurver).

Alloft (ao)  Verulega oft; iðulega.  „Það hefur alloft gefið á sjó þessa dagana, en þá er heyskapurinn á fullu“.

Allófriðlega (ao)  Með miklum ófriði/látum; vígalega.  „Þegar hann kemur ofan fyrir túnbrekkuna sér hann að þar er draugurinn kominn í nautslíki, og lætur allófriðlega“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Allóþyrmilega (ao)  Óvægilega; af nokkurri hörku.  „Ég var vakinn allóþyrmilega“.

Allra (fn, ft, ef)  Fornafnið allir var stundum notað sérstætt þegar lýst var manneskju, og þá átt við að viðkomandi væri ekki viðhlægjandi/félagi/vinur allra eða að fáir gætu orðið hans trúnaðarvinir.  „Hún þótti oft þegjandaleg og þurr í viðmóti, og alls ekki allra“.

Allra bjargráða vant (orðtak)  Engin ráð tiltæk; engin úrræði í boði.  „Hann var ósyndur, eins og reyndar allir hinir; en þar sem hann náði aldrei taki á bátnum, varð honum allra bjargráða vant“  (KJK; Kollsvíkurver).

Allra hluta vegna (orðtak)  Af öllum ástæðum; með öllum rökum.  „Þetta þarf að gerast tafarlaust, allra hluta vegna“.  „Tillagan er arfavitlaus; allra hluta vegna“!

Allra veðra von (orðtak)  Það getur viðrað hverju sem er; það geta orðið skjót veðrabrigði.    „Þó nú skíni sólin þá er allra veðra von á þessum árstíma“

Allra þjóða kvikindi (orðtak)  Fólk af mörgum þjóðum; blanda fólks af ólíkum uppruna.  „Það náttúrulega gekk ekki að allra þjóða kvikindi væru að skarka á togveiðum uppi í kálgörðum“!

Allrabest (l, est)  Best af öllu.  „Allrabest fannst mér þó það sem hann sagði um landkrabbana“!

Allrahanda / Allrahandanna (l)  Allskonar; af ýmsu tagi.  „Í geymslunni var allrahandanna dót sem þangað hafði safnast“.

Allraheilagramessa er 1. nóvember.  Gott veður þann dag var talið boða góðan vetur.

Allrahelst (l, est)  Helst af öllu.  „Ég vildi allrahelst klára þetta í dag; það bíður sér ekki til bóta“.

Allrahlutavegna (ao)  Með tilliti til alls; af ýmsum/öllum ástæðum; í öllu falli; allavegana.  „Það þarf allrahlutavegna að ná bölvuðu hvalhræinu úr fjörunni; þetta má ekki grotna þarna niður“.

Allramest (l, est)  Mest af öllu.  „Það er ófærð á öllum hálsinum; allramest þó í Húsadalnum“.

Allrasálnamessa (n, kvk)  2. nóvember; messudagur í kaþólskum sið til að minnast allra þeirra syndugu sálna sem farið hefðu til helvítis og kveldust þar í hreinsunareldinum.

Allrasíst (l, est)  Síst af öllu.  „Þetta hefði mig allrasíst grunað“!  „Það vildi hann allrasíst“

Allráðríkur (l)  Mjög/verulega ráðríkur/frekur/yfirgangssamur.  „Þótti hann stundum allráðríkur og yfirgangssamur ef honum bauð svo við að horfa, og hirti þá stundum lítt um lög og rétt.  En höfðingslund hafði hann til að bera, við sér minni menn og þá er bágt áttu“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónsyni í Kollsvík).

Allríflega / Allríflegur (ao/l)  Rúmlega; rösklega.  „Þú hefur skammtað allríflega á minn disk“.  „Mér finnst þetta allrífleg gjöf, þegar féð er búið að fara í fjöruna“.

Allrækilega (ao)  Mjög vandlega/rösklega.  „Ég leitaði allrækilega í þessum lautum; þar eru öngvar kindur“.

Alls (ao)  Samanlagt; í allt; þegar allt er talið.  „Þetta verða þá alls tíu þúsund krónur“.

Alls er vant þeim er ekkert á (orðatiltæki)  Þeir sem ekkert á þurfa að grípa feginshendi það sem að þeim er rétt.

Alls ófróður (orðtak)  Þekki ekki til; er ókunnugt um.  „Ég var alls ófróður um forsögu þessa máls“.

Alls ólíklegt (orðtak)  Mjög ólíklegt/ótrúlegt.  „Mér finnst ekki alls ólíklegt að hann stilli með morgninum“.

Alls óvíst (orðtak)  Óvíst með öllu; alveg óvíst; alls ekki vitað.  „Það er alls óvíst að þetta lánist“.

Alls verður án sá er einskis biður (orðatiltæki)  Sá sem ekki fer framá neitt fær heldur ekki neitt.  Viðhaft t.d. ef menn þurfa að biðja um vinargreiða/aðstoð.

Allsber / Allsnakinn (l)  Alveg nakinn.  „Vertu nú ekki sð striplast lengi svona allsber, drengur; þér verður kalt“!

Allseigur (l)  Mjög seigur; verulega seigur/ duglegur.  A.  Um kjöt: „Mér þykir þetta vera allseigt; það hlýtur að vera af gamalmáv en ekki unga“.  B.  Um manneskju:  „Ári var strákurinn seigur að komast fyrir ærnar“.

Allsendis (ao)  Alveg; algjörlega; með öllu.  „Það er allsendis óvíst hvað af honum hefur orðið“.

Allsendis óforvarindis (orðtak)  Alveg óvænt.  „Hann birtist þarna allsendis óforvarindis, okkur til mikillar ánægju“.  „Tuddaskrattinn sneri sér við, allsendis óforvarindis; setti undir sig hausinn og æddi að mér“.

Allsennilega / Alltrúlega (ao)  Mjög sennilega/líklega.  „Ég mun allsennilega þurfa meiri mannskap í þetta“.  „Hann hefur alltrúlega farið að gá að kindunum sem eftir urðu“.

Allsennilegt / Alltrúlegt (l)  Mjög líklegt.  „Mér þætti allsennilegt að þetta yrði niðurstaðan“.

Allsgáður (l)  Ódrukkinn; vínlaus.  „Ég skal aka.  Ætli ég sé ekki sá eini sem er allsgáður í hópnum“.

Allsherjar (l)  Lýsingarorð sem notað er til áherslu með öðrum heitum til að tákna allt; umlykjandi eða algjört.  T.d. „drottinn allsherjar“ í merkingunni Guð sem öllu ræður.  Einnig allsherjargoði; allsherjaruppgjör; allsherjarverkfall o.fl.

Allsherjargoði (n, kk)  Goði í Kjalarnesþingi.  Hann var goði Alþingis; setti það; sleit því og lýsti griðum á þingstaðnum.  Að öðru leyti var hann ekki rétthærri öðr um goðum.

Allsherjarmanntal (n, hk)  Mjög víðtækt manntal.  „Hinn 1.des nk (1960) skal fara fram allsherjarmanntal“  (Gerðabók Rauðas.hr 16.11.1960; ritari S.J.Th).

Allshugar (l)  Af heilum hug; innilega.  „Ég varð allshugar feginn að heyra að þeir væru komnir í land“.

Allskonar / Allskyns / Allslags (l)  Af ýmsu tagi/kyni; ýmislegt.  „Þetta var allskyns fénaður“.  „Við fáum allslags aukafiski í netin“.

Allskostar (ao)  Að öllu leyti; í alla staði.  „Ég er ekki allskostar ánægður með ganginn í vélinni“.  Sjá eiga allskostar við (einhvern).

Allsleysi (n, hk)  Skortur á öllu.  „Það má segja að þau hafi hafið sinn búskap við algert allsleysi“.

Allsnarlega (ao)  Rösklega; vafningalaust; í flýti.  „Ég losaði færið allsnarlega af tollanum“.

Allsnægtir (n, kvk, fto)  Nóg viðurværi/fæði; allt til alls; ekkert skortir.  „Þeir skilja illa skortinn sem alltaf hafa búið við allsnægtir“.

Allsófært / Allsendis ófært (l/orðtak)  Ekki hægt/fært; getur ekki gengið; fráleitt. „Það er allsófært að hann komist upp með þetta“!  „Mér finns allsendis ófært að hann standi í þessu einsamall“!

Allsperrtur (l)  Nokkuð hróðugur; rígmontinn.  „Hann var allsperrtur yfir sinni frammistöðu, sem vonlegt var“.

Allstaðar (ao)  Á öllum stöðum; í hverjum stað.  „Nú förum við í land; hann er að brjóta allstaðar úr báru“.  „Spursmálslaust munu allar skepnur vera í besta standi allstaðar“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Allstór (l)  Mjög/nokkuð stór.  „Þar hafði fallið allstór steinn á veginn“.

Allstyggur (l)  Um kind; verulega gjörn á að fælast.  „Þær voru allstyggar og tóku á rás þegar þær sáu mig“.

Allsvarnað (s)  Sjá engum er alls varnað.

Allsæmilegur (l)  Góður; ágætur; vel viðundandi.  „Við fengum allsæmilegan afla í þessum róðri“.

Allt að / Allt að því (orðtak)  Fast að; hátt í; nærri; uppundir.  „Við fengum allt að einni tunnu úr þessari vitjun“.

Allt að einu (orðtak)  Þrátt fyrir það; hvað sem því líður.  „Það voru aðeins skáld og sjáendur sem töldu bjartari og betri tíma í vændum.  En allt að einu lifðu menn furðu glaðir við sitt“  (KJK; Kollsvíkurver).

Allt að fara/leggjast í karlaskap hjá (einhverjum) / Allt komið í karlaskap hjá (einhverjum) (orðtök)  Orðið erfitt/stirt hjá einhverjum; einhver orðinn of gamall/sinnulaus til aðgerða/verka.  „Þessi búskapur hefur nú alltaf verið hokur hjá mér, en þetta er allt að fara í karlaskap hjá manni núorðið“.  Heitið karlaskapur var líklega ekki notað utan Rauðasandshrepps, en þar var það allmikið í munni sumra framundir lok 20.aldar.  T.d. notuðu Kollsvíkingar það nokkuð og Hafnarmenn s.s. Marinó í Tungu, Jónsi á Hnjóti og Óli á Gili.

Allt að koma sig (orðtak)  Allt að lagast/batna/ jafna sig.  „Ekki er ég enn búinn að setja þetta saman, en þetta er allt að koma sig“.

Allt að því (orðtak)  Nærri því; hér um bil.  „Ég er hræddur um að saltið sé allt að því búið“.

Allt annað sitthvað (orðtak)  Allt annað; alls ekki það sama.  „Það er nú allt annað sitthvað að fá almennilegan molasykur með kaffinu.  Hún átti ekkert nema strausykur á hinum bænum“.

Allt annar (orðtak)  Annar; nýr; alls ekki sá sami.  „Þetta er allt annar maður sem þú ert að tala um“.

Allt á eina/sömu bókina lært (orðtak)  Allt með sama (slæma) sniði; virðist allt upprunnið af því slæma.  „Nú hækka þeir áburðinn!  Allt er það á eina bókina lært; nýbúnir að hækka olíu og fóðurbæti“!  Sjá á eina bókina lært.

Allt á tjá og tundri (orðtak)  Sjá á tjá og tundri.

Allt bendir til (orðtak)  Sýnist vera, hvernig sem á málin er litið.  „Þessi orðaskipti höfðu nú vakið athygli þeirra sem næst stóðu, og þar sem allt benti til að þetta væri upphafið að skemmtilegum orðahnippingum þá þyrptust nú flestir réttarmenn að þeim félögum“  (PG; Veðmálið). 

Allt ber (það) að sama brunni / Allt bendir (það) í sömu átt (orðatiltæki)  Allar líkur/vísbendingar benda til sömu niðurstöðu.  Líking við það að allir leita vatns í sama brunninn.  Upprunalegra er „alla/marga ber…“ í stað „allt ber…“.  Einnig; allt kemur í einn/sama stað niður.

Allt eins víst / Alveg eins víst (orðtök)  Eins líklegt; jafnvel; gæti verið/skeð.  „Það er ekki víst að hann komi í dag; það er allt eins víst að hann verði á ferðinni á morgun“.  „Ég myndi ekki treysta á færðina; það er alveg eins víst að brekkan verði fljótlega kolófær“.  Einnig eins víst.

Allt er (það) á eina bókina lært (orðatiltæki)   Allt eins; allt jafn slæmt/bágborið/heimskulegt.  „Allt er þetta á eina bókina lært!  Þegar við erum búnir að elta rollufjandann allan daginn og höfðum hana loksins inn í hús; þá kemur á daginn að hún er alls ekki frá okkur“!  Oftast notað þegar menn framkvæma hvert heimskuparið eftir annað, eða ekki má á milli sjá hvor vitleysan er annarri verri.  Líking við það að allir hafi sína vitneskju úr sömu bókinni.

Allt er best í hófi (orðatiltæki)  Hóf er best í hverjum hlut.  Gegnsætt orðtak sem nokkuð oft er haft við.  Sjá einnig; allt kann sá er hófið kann.

Allt/flest (öll beita) er betra en berir krókar/önglar (orðatiltæki)  Betra er að beita hverju sem er en reyna að fiska með berum krókum.  Einnig notað í líkingamáli; allt er betra en ekkert.  Sjó öngull.

Allt er breytingum undirorpið (orðatiltæki)  Allt breytist með tímanum, eða því sem næst.

Allt er betra en berir krókar/önglar (orðatiltæki)  Lítil von er um fisk ef rennt er berum krók í sjó.  Því notuðu menn hvaðeina sem tiltækt var ef beituna þraut.  Ef fiskur var fenginn var skorin úr honum ljósabeita, tálkn eða görn, sem gat verið mesta tálbeita. Fyrir kom að menn beittu afrifu af stakkræfli eða öðru.  Gjarnan spýttu menn á krókinn áður en honum var rennt; það þótti fiskilegra.  En þó var lítið gagn að hrákanum tómum.

Allt er betra en borðið bert (orðatiltæki)  Um gestrisni; fátæklegar veitingar eru betri en öngvar.

Allt er betra en ekkert/ ekki neitt (orðatiltæki)  A.  Bjargast má við ýmislegt ef betra er ekki í boði; flest má nota í neyð.  B.  Betra er að fá lítið en ekkert.  Oft notað, t.d. um lítinn afla.

Allt er gott ef/þegar/þá endirinn er góður / Allt er gott sem endar vel ( orðatiltæki)  Auðskilin speki sem segir sig sjálf; mikið notuð.

Allt er hey í harðindum (orðatiltæki)  Margt er hægt að bjargast við í neyð; þegar að kreppir nota menn það sem hendi er næst.  Vísar til þess að þegar harðindi gerði á útmánuðum og fóðurbirgðir á þrotum hjá bændum gripu þeir til þess að gefa ólíklegasta fóður, s.s. matarleifar, barin bein eða mosa.  Til þess þurfti þó líklega sjaldan að grípa í Kollsvík, þar sem einhver fjörubeit var oft fyrir hendi og sjaldan alveg jarðlaust.   „Kærar þakkir fyrir tóbakslúsina.  Þó lítið sé þá er allt hey í harðindum“.

Allt er í heiminum hverfult (orðatiltæki)  Veröldin er síbreytileg og það sem menn upplifa sem stöðugt á sinni ævi mun flest einnig breytast.  Speki sem meira var höfð um hönd áður, en vill oft gleymast í dag.

Allt/flest er nú til! (orðtök)  Upphrópun í undrun yfir einhverju sem gengur framaf manni.  „Allt er nú til!  Hvernig í ósköpunum fórstu að því að festa hendina þarna drengur“?!

Allt er svipur hjá sjón (orðatiltæki)  Allt er eins og ímyndun/skuggi, saman borið við raunverulega sýn.  Oftar; ekki svipur hjá sjón.

Allt er vænt sem vel er grænt (orðatiltæki)  Fátt var dýrmætara fyrir bóndann fyrrum en gróskumikið slægjuland til að afla heyja.  Með þessu hugarfari nýttu menn vel græna bletti þó þeir væru úti í vötnum; uppi á heiðum eða í snarbröttum björgum.  Víða fóru menn með pokann og ljáinn; um það vitna t.d. örnefnin Pokavöllur sem víða finnast hátt í klettum.  Stjórnmálaflokkar nútímans hafa reynt að snúa þessu orðatiltæki sér í vil; þó þeir væru líklega slæmt skepnufóður.

Allt er það eins; pumpuliðið hans Sveins (orðatiltæki)  Ekki eru þessir betri en hinir; allt er það á eina/sömu bókina lært!  Upphrópun sem viðhöfð er þegar einhverjum lánast ekki betur en þeim sem fyrri voru, eða til að lýsa vanþóknun á hegðun/frammistöðu manna.  Ekki skal hér fullyrt um uppruna málsháttarins.  Í Kollsvík var hann töluvert notaður, og þá á þann sérstaka hátt að í stað orðsins „liðið“, eins og víðast hvar var haft, var einatt notað „pumpuliðið“.  Um rök fyrir því er engu fremur kunnugt. „Er nú enn einn þingmaðurinn byrjaður að predika um þetta?!  Ja; allt er það eins, pumpuliðið hans Sveins“!

Allt er það eins sem úr því koti kemur (orðatiltæki)  Allt er á sama veg sem hann segir; alltaf sama vitleysan/níðið í honum.

Allt er það gott sem Guð gefur (orðatiltæki)  Viðhaft um hvaðeina sem er tilviljunum háð; einkum heyrðist þetta oft þegar fiskur fékkst í tregfiski.  „Ekki var hann nú stór, en allt er það gott sem Guð gefur“.

Allt er það matur sem í magann fer (nema holtarót og harðsægjur) (orðatiltæki)  Vísar til fyrri tíma, þegar menn gerðu sér allan mat að góðu í harðindum.  Sumt þótti þó meira óæti en annað.  Holtarætur eru rætur lambagrass og harðsægjur eru rætur geldingahnapps.  Þessa speki mættu matvandar nútímakynslóðir hafa betur í huga en nú er.  Sóun matvæla varð ekki vandamál fyrr en með hinni oföldu steinsteypukynslóð.  Síðari hluti málsháttarins var sjaldan notaður, en heyrðist þó. Skylt er orðatiltækið fleira er matur en feitt ket/smér.

Allt er það vænt sem vel er grænt (orðatiltæki)  Vísar til hinna mikilvægu hagsmuna bóndans fyrr á tíð, þar sem það skipti sköpum að hafa gott fóður fyrir sínar skepnur.  Þar var allajafna gott undir bú sem gróður var vel grænn og gróskumikill.

Allt er þá þrennt er (og fullreynt í fjórða sinn) (orðatiltæki)  Mikið notuð speki sem vísar til þeirrar trúar að öllum fyrirbærum sé eðlilegt að vera í þrennum/ þremur eintökum.  Þau vísindi eru gjarnan tengd þeirri guðfræði sem leggur áherslu á að Guð sé þríeinn; Guð, Heilagur andi og Jesús Kristur.  Ekki er þó líklegt að guðfræðilegur uppruni hafi verið þeim Kollsvíkingum ofarlega í huga sem brugðu spekinni oft fyrir sig.  „Það var þá ein enn að drepa sig í Mýrunum; við skulum vona að allt sé þá þrennt er“!  Síðari hluti spekinnar var stundum hafður með, en gat einnig verið notaður sjálfstætt; fullreynt er í fjórða sinn.

Allt fer/veltist það einhvernvegin ( orðatiltæki)  Speki þess sem lætur tilviljanir/örlög ráða; það verður að fara eins og fara vill.

Allt fór (það) að einu / Allt fór það á einn veg / Allt kom það á sama stað niður / Allt kom (það) fyrir eitt (orðatiltæki)  Ekkert gagnaðist/lánaðist/dugði.  „Hann reyndi margsinnis, en allt fór það á einn veg“.

Allt gengur á afturfótunum/afturlöppunum (orðtak)  Allt gengur brösulega.  Sjá ganga á afturfótunum.

Allt/flest getur nú skeð! (orðtak)  Upphrópun í undrun/hneykslun yfir því sem gerst hefur.  „Allt getur nú skeð;  haldiði ekki að botninn hafi rifnað úr kartöflusekknum þegar ég lyfti honum“!

Allt hefst/tekst ef að er verið (orðatiltæki)  Árangur næst ef markvisst er unnið að honum; verk klárast ef menn halda sig að vinnunni.

Allt hefur sinn tíma / Allt bíður sinnar stundar (orðatiltæki)  Spekin vísar til forlagatrúar; að öllum viðburðum sé fyrirfram áskapaður tími.  Sjá það bíður sinnar stundar.

Allt heila klabbið / Allt heila gillið / Allt heila móverkið (orðtak)  Allt saman; allt eins og það leggur sig.  „Hann sturtaði þessu öllu í grautarskálina og góflaði síðan í sig allt heila klabbið“.  „Það er þá best að þeir hirði bara allt heila gillið“!  Sjá móverk.

Allt hvað af tekur (orðtak)  Eins fljótt og unnt er; í miklum flýti.  „Ég hljóp allt hvað af tók, og heldur dró ég á gemlinginn“.

Allt hvað líður (orðtak)  Hvað úr hverju; mjög bráðlega; bráðum. „Við þurfum nú allt hvað líður að fara að koma okkur í land, svo við lendum ekki á háfjöru“.   „Ætli maður þurfi ekki að fara að koma sér af stað, allt hvað líður.  Það fer að verða framorðið“. Stundum sleppt „allt“ framan af, og stundum var notað „að“ í stað „hvað“.

Allt í allt (orðtak)  Alls; að öllu meðtöldu.  „Allt í allt sýndist mér þarna vera 12 kindur; lömb og fullorðið“.

Allt í einu (orðtak)  Skyndilega; fyrirvaralaust.  „Allt í einu heyrðist kallað úr almenningnum“  (PG; Veðmálið). 

Allt í allt (orðtak)  Samtals; í heildina.  „Allt í allt voru þarna um fjörutíu kindur“.

Allt í bál og brand (orðtak)  Sjá í bál og brand.

Allt í belg og byðu (orðtak)  Um það sem talað er; allt í óskiljanlegu rugli.  „Hann var svo óðamála að allt kom í belg og biðu útúr honum“.  Sjá byða og tala í belg og byðu.

Allt í hers höndum (orðtak)  Allt í uppnámi; óstjórn.  „Það var allt í hers höndum um borð þegar strandið varð“.

Allt í kaldakoli (orðtak)  Allt í volli; allt í niðurníðslu/stöðvun/óreiðu.  „Eftir að búskapur leggst af á jörðunum er líklegt að þar verði öll ræktun, girðingar, byggingar og fleira í kaladakoli innan skamms tíma“.  Sumir ætla orðtakið vísa til þess þegar eldur deyr, t.d. í hlóðum, og eftir verður kaldur eldiviður sem erfitt er að glæða aftur.  Líklegra er þó að það vísi til þess þegar kolagerð mistekst, þegar menn gera til kola.

Allt í (stakasta) lagi / Allt í lukkunnar velstandi (orðtak)  Allt með kyrrum kjörum.  „Það gengur bara vel hjá nýju hjónunum; búin að fá sér íbúð og allt í lukkunnar velstandi“.

Allt í pati (orðtak)  Allt í ólagi/óreiðu/vandræðum.  „Það var allt í pati með rafmagnið hjá honum“.  „Hrútafjandarnir hafa brotist fram úr stíunni og allt í pati“!

Allt í pottinn búið (orðtak) Liggur í öllu; málin vaxin.  „Nú skil ég loksins hvernig allt er í pottinn búið“.  „Það er engin furða þó illa gangi, fyrst svona er í pottinn búið“.  Vísar til þess hvernig matreitt er.

Allt í voða (orðtak)  Mikil hætta yfirvofandi; mikil vá steðjar að; eitthvað tiltekið í verulegri hættu.  „Farðu ekki með kertið inn í hlöðu; þá gæti allt verið í voða“!

Allt í volli (orðtak)  Allt farið úrskeiðis/ bilað; mikil óreiða.  „Hann sagði að allt væri í volli á bænum; frúin farin suður; karlinn fárveikur og lítil sinning á skepnunum“.  Voll mun vera dönskusletta; „vold“, og orðtakið vísar því til hernaðarástands; að eitthvað hafi verið hertekið.

Allt í öllu (orðtak)  Um mann sem sinnir mörgum verkum eða er ómissandi.  „Hann er allt í öllu að þessu leyti“.

Allt kann sá sem hófið kann (orðatiltæki)  Þolinmæði og nægjusemi eru miklir mannkostir.  Sjá allt er best í hófi og hóf er á öllu best.

Allt kemur fyrir eitt/ekki (orðtak)  Allar tilraunir/aðferðir eru árangurslausar.  „Hann setti vélina á fullt afturábak og sveigði frá skerinu en allt kom fyrir ekki; báturinn tók niðri á töluverðri ferð“.

Allt kemur í einn/sama stað niður (orðatiltæki)  Allt ber að sama brunni; allt leiðir til sömu niðurstöðu.

Allt kemur öfugt útúr (einhverjum) (orðtak)  Einhverjum gengur illa að orða sínar hugsanir/meiningar.  „Þetta kom nú allt öfugt útúr mér; þetta var alls ekki það sem ég meinti“.  Líking við t.d. öfuga fæðingu.

Allt leggst á eitt (orðtak)  Allt stefnir í sömu átt; allt hnígur að.  „Þegar loks komu gæftir var ég kominn með pestarfjandann.  Það lagðist allt á eitt með að ég komst ekki í róður á þessum tíma“.

Allt leikur í lyndi (orðtak)  Allt er í góðu lagi; allt gengur vel; samkomulagið er gott.  „Það leikur allt í besta lyndi á milli þeirra núna; þangað til þeir finna sér eitthvað annað til“.

Allt með felldu (orðtak)  Allt með vanalegu móti.  „... draga allir inn en beita ekki út aftur, eins og venja er þegar allt er með felldu... “  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   

Allt með kyrrum kjörum (orðtak)  Allt í rólegheitum; allt óbreytt; allt við það sama.  Kjör merkir langvarandi gott sjóveður.

Allt og ekkert (orðtak)  Allt mögulegt án frekari skilgreiningar.  „Maður er bara að dunda við allt og ekkert“.

Allt og sumt (orðtak)  Allt sem er; ekki meira en það.  „Tíu fiska höfðum við uppúr þessum róðri; það er nú allt og sumt“!

Allt orkar tvímælis þá gert er (orðatiltæki)  Allar gerðir hafa afleiðingar sem geta verið umdeilanlegar; efast má um allt sem gert er.  Kemur fyrst fyrir í Njálu.  Sjá taka af öll tvímæli.

Allt sama tóbakið (orðtak)  Allt eins; allt með sama lagi/ólagi; enginn munur á.  „Það skiptir nú litlu hvað maður kýs; mér finnst þetta allt sama tóbakið“!  Stundum einungis síðari tvo orðin.  „Þetta er sama tóbakið“!

Allt sem hönd á festir (orðtak)  Allt sem hægt er að ná í/ grípa/fá.  „Þessir strákaormar gripla allt sem hönd á festir, og svo er maður verkfæralaus þegar á þarf að halda“!

Allt sem nöfnum tjáir að nefna (orðtak)  Allt milli himins og jarðar; allir hlutir.  „Í þessari kistu mátti finna allt sem nöfnum tjáir að nefna...“.

Allt sem tönn á festir / Allt/hvað/það sem að kjafti kemur (orðtak)  Allt sem unnt er að borða; allt ætt.  „Maður étur yfirleitt allt sem tönn á festir; nema auðvitað algert óæti eins og hvítlauk og gúrkufjanda“!  „Ég hlusta ekki á neina bölvaða matvendni; á sjónum étur maður yfirleitt allt sem að kjafti kemur“!

Allt (/ekkert) stílmót (/mót) á því (orðtak)  Allar líkur benda til þess; öll líkindi til þess.  „Mér sýnist allt stílmót á því að við gætum breitt galtana á morgun“.  „Ég sé ekki neitt mót á að hann sé að ganga niður ennþá“.

Allt tekst ef að er verið (orðatiltæki)  Ljúka má öllum verkum ef vel og stöðugt er unnið að þeim.

Allt tekur enda (um síðir) (orðatiltæki)  Oft viðhaft, t.d. þegar fisk tekur undan, eða þegar þurrkur þverr.

Allt tekur (það) sinn tíma (orðatiltæki)  Öll verk eru tímafrek að einhverju marki.  Róm var ekki byggð á einum degi.

Allt til / Allt að (orðtak)  Alla leið til/að.  „Grundagrjót ná allt norður að Rifi…“  (HÖ; Fjaran). 

Allt til alls (orðtak)  Allt sem þarf; ekkert skortir; allsnægtir.  „Hér skortir ekkert; hér er allt til alls“.

Allt um það (orðtak)  Þrátt fyrir það; hvað sem því leið.  „Ekki veit ég hvað tafði þá, en allt um það voru þeir ekki komnir fyrr en undir dimmingu“.

Allt úr lagi gengið (orðtak)  Allt farið úrskeiðis; allt bilað/ónýtt. 

Allt verður einusinni fyrst (orðatiltæki)  Eitt sinn verður allt fyrst.

Allt verður fyllt nema pokinn prestsins (orðatiltæki)  Unnt er að fylla öll ílát önnur en óseðjandi græðgi kirkjuvaldsins.  Spekin hefur myndast á þeim tímum þegar kirkjuvaldið hafði kverkatök á almúganum; átti flestar eigulegar jarðir og áhöfn þeirra og hélt þjóðinni í helgreipum kúgunar og ófrelsis með ógnunum um fordæmingu og helvítisvist ef einhver dirfðist upp að rísa.  Sérstaklega sveið fátækum bændum sú skylda að þurfa að fóðra prestlambið.  E.t.v. á orðið pokaprestur uppruna í sama viðhorfi og þetta máltæki.  Í Kollsvík var mönnum töm önnur útsetning orðtaksins; seint fyllast sálir prestanna.

Allt við það sama (orðtak)  Allt óbreytt; allt með kyrrum kjörum.

Allt vill lagið hafa (orðatiltæki)  Til er rétt aðferð við flestar athafnir/ flest verk.  Viðhaft þegar einhver vinnur verk ekki rétt, eða er klaufalegur. „Þú rakar lítið með þessum handtökum vinur.  Neðri höndin á að koma ofan á skaftið en sú efri undir það; þannig verður raksturinn mun auðveldari“.

Allt ætlar um koll að keyra (orðtak)  Allt keyrir um þverbak; allt fer úr skorðum; allt er í hættu með að skemmast vegna óláta/fyrirgangs/veðurs eða annars.  „Það ætlaði allt um koll að keyra þegar verstu hviðurnar gengu yfir bæinn“!

Alltaf (ao)  Sí og æ; sífellt; alla tíð.  „Vertu nú ekki alltaf að þessu nuddi“!

Alltaf/lengi er von um einn (orðatiltæki)  Um veiðiskap; svo lengi má keipa að einn fáist.

Alltaf að (orðtak)  Alltaf eitthvað að gera; starfsamur; iðinn.  „Alltaf er hann að; honum fellur bara ekki verk úr hendi“!

Alltaf er eitthvað að / Alltént bagar eitthvað (orðatiltæki)  Mæðuleg speki þess sem vantar eitthvað/ þykir eitthvað ekki fullkomið.

Alltaf er það eins! (orðatiltæki)  Upphrópun til að lýsa vanþóknun á ítrekuðu óréttlæti eða hneykslun á ítrekuðum bjánagangi.  „Alltaf er það eins!  Nú eru þeir búnir að hækka bensínskattinn enn eina ferðina“!

Alltaf hreint (orðtak)  Sí og æ; stöðugt.  „Verið þið nú ekki að rífast svona alltaf hreint strákar“!

Alltaf/ætíð leggst manni eitthvað til (orðatiltæki)  Manni berast einatt einhver bjargráð/verkefni.  „Alltaf leggst honum eitthvað til;

Alltaf samur við sig / Alltaf sjálfum sér líkur (orðtak)  Um mann; breytist ekki; er alltaf jafn sérkennilegur.

Allteins / Allt eins (ao)  Jafnvel; fullteins.  „Við gætum nú allteins farið í land eins og að berja áfram þessa ördeyðu“.

Alltsaman (ao)  Allt; allur fjöldinn.  „Mér finnst þetta alltsaman vera stórfurðulegt“.

Alltént (ao)  Alltaf; í það minnsta; að lágmarki.  Sjá altént.

Alltof (ao)  Allt of; mikið of.  „Þetta var alltof gott til að geta verið satt“.

Alltreglega (ao)  Nokkuð erfiðlega.  „Okkur gekk alltreglega að ná þessum ryðgaða bolta“.

Alltregur (l)  Nokkuð erfiður.  „Afli hefur verið alltregur uppá síðkastið“.  „Hann var alltregur til að lána okkur þetta“.  „Ég er alltregur til að samþykkja þetta svona óbreytt“.

Alltaman (fn)  Allt; með öllu.  „Hann var búinn að þessu öllusaman fyrir hádegi“.

Alltsvo (ao)  Hikorð sem skotið var í setningar, líkt og orðinu „sko“.  Einnig stundum notað sjálfstætt og sér í lagi, sem undirtektir við fullyrðingu viðmælanda.   „Síðan heitir þetta Hnífar; alltsvo heita klettarnir Hnífar“  (EG; Viðtal á Ísmús 1968; frásögn um örnefnið Hnífa). 

Alltæpur (l)  Nokkuð tæpur/hæpinn/naumur.  „Hann var orðinn alltæpur með hey, síðla vetrar“.

Allundarlega (ao)  nokkuð undarlega/furðulega/skringilega.  „Hrafninn hefur hegðað sér allundarlega í dag“.

Allur (fn)  A.  Í heild.  B.  Látinn; andaður.  „Hann sagði að hún myndi erfa sig þegar hann væri allur“.

Allur andskotinn/fjandinn/fjárinn/défillinn/déskotinn/djöfullinn/skrattinn  (orðtök)  Áhersluorð.  „Allan andskotann kalla þeir menningu nú til dags“!  „Allur fjandinn getur nú komið fyrir“!

Allur að koma til (orðtak)  Mjög að hressast.  „Ég var fjári slæmur af pestinni, en ég er allur að koma til núna“.

Allur af vilja gerður (orðtak)  Leggur sig allan fram; boðinn og búinn til; vill reyna sitt ítrasta.  „Mér er ómögulegt að  vera á tveimur stöðum í einu, þó ég sé allur af vilja gerður“.

Allur annar (orðtak)  Mikið betri/hressari en áður.  „Ég er allur annar í dag; ekki sama lumbran í mér og í gær“.

Allur er varinn góður (orðtak)  Aldrei er of varlega farið; gott er að sýna varúð.  „Ég ætla að gá hvort strákarnir eru nokkuð að fikta í klettunum; allur er varinn góður“.

Allur útí snjó/mold/ryki/heyi/skítblóði o.fl.  (orðtök)  Útataður í snjó/mold/ryki/heyi/skí/blóði o.fl.  „Farðu nú og dustaðu fötin úti og þvoðu þér drengur, þú ert allur út i sandi“!  Útí = úti í.

Allur vindur úr (einhverjum) (orðtak)  Einhver hefur gefist upp; einhver er hættur að sækja sitt mál fast.  „Hann var skemmtilega kjaftfor í byrjun, en nú er eins og allur vindur sé úr honum“!

Allvandaður (l)  Verulega vandaður; vel gerður.  „Kartöflugryfjur voru á flestum bæjum; margar allvandaðar“.

Allvarasamt (l)  Mjög/fremur varasamt/hættulegt.  „Ég tel allvarasamt að fara þarna um í þessari bleytu“.

Allvel (ao)  Nokkuð/fremur vel.  „Ég kann allvel við þessa nýbreytni“.

Allverulega (ao)  Mjög/fremur mikið.  „Veðrið var sæmilegt áðan, en það hefur versnað allverulega síðan“. 

Allverulegur (l)  Mjög mikill; töluverður.  „Ég tel allverulegar líkur á að af þessu verði“.

Allvíða (ao)  Nokkuð víða.  „Féð getur allvíða verið á þessu svæði“.  „Ám er gefið fram á burð allvíðast, og aldar inni frá því um hátíðar og framundir apríllok“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Allvíður (l)  Nokkuð víður.  „Hafa þurfti hálsmál allvítt, en til þess að þrengja það, eftir að komið var í stakkinn, voru smágöt gerð á skinnið umhverfis hálsmálið, og í þau þræddur skinnþvengur eða snæri“  (KJK; Kollsvíkurver).

Allvotlent (l)  Mjög mýrlent; blautt yfirferðar.  „Stekkjarmýrar... voru allvotlendar“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Allþokkalega (ao)  Vel sæmilega; ágætlega.  „Honum gengur allþokkalega í náminu, held ég“.

Allþreyttur (l)  Verulega þreyttur/lúinn.  „Við vorum orðnir allþreyttir eftir þetta og lögðum af stað heim“.

Allþungur (l)  Fremur þungur.  „Gættu að bakinu á þér; þetta er allþungt“!

Allþykkt (l)  Nokkuð þykkt.  „Voru það sjóskór nefndir.  Þeir voru vanalega gerðir úr sútuðu leðri, allþykku“  (KJK; Kollsvíkurver).

Allæs (l, linur frb)  Vel læs; fljúgandi læs.  „Strákurinn var orðinn allæs um fimm ára aldur“.

Almanak (n, hk)  Skrá um dagsetningar og röðun daga sem höfð er til minnis; rím; dagatal.   Alamanak getur innihaldið meiri fróðleik Til forna var einkum treyst á fingrarím, en prentað almanak tók við hlutverki þess.  Elsta almanak sem varðveist hefur er „Calendarium“ sem prentað var á Hólum 1597.

Almannaeiga / Almannaeign (n, kvk)  Eign hóps manna; sameign; þjóðareign.

Almannafé (n, hk)  Samfélagssjóðir; fé í eigu almennings. „Það þarf að gæta reglusemi í meðferð almannafjár“.

Almannafæri (n, hvk)  Þar sem umferð fólks er.  Sjá á almannafæri.

Almannarómur (n, kk)  Sögur sem ganga milli manna; slúður.  „Þetta segir almannarómur, en ekki ég“!  Sjá sjaldan lýgur almannarómur.

Almáttugur (l)  Sem getur allt.  Oftast notað fyrr á tíð sem viðurnefni guðs.  Á seinni tímum oftar notað sem upphrópun:  „Almáttugur; hvað kom fyrir hendina á þér“?!  „Nei, almáttugur minn; þetta veit ég ekki“!

Almenn brot (orðtak)  Ritháttur tölugildis; tala sem táknuð er sem hlutfall.  T.d. ½ og ¼. Önnur tlan er ofan striks og nefnist teljari en sú neðri heitir nefnari.  Sé teljarinn minni en nefnarinn nefnist brotið eiginlegt, en óeiginlegt sé teljarinn stærri en nefnarinn.  Hlutfallið/brotið stendur óbreytt þó tölugildið stækki, svo lengi sem margfaldað báðumegin striks með sömu tölu.  Tölu sem skrifuð er sem almennt brot er einnig hægt að skrifa sem tugabrot; þ.e. með því að nota kommu en ekki strik, en til breytinganna þarf útreikning.

Almennilega (ao)  Vel.  „Reyndu nú að ganga almennilega frá þessu“.  Mun vísa til þess að almennt líki.

Almennilegheit (n, hk, fto)  Hlýja; væntumþykja.  „Hún sýndi okkur einstök almennilegheit“

Almennilegheita grey (orðtak)  Vænsti drengur; viðkunnanlegur maður.  „Þetta er nú almennilegheita grey, þó hann hugsi ekki alltaf mikið áður en hann talar“.

Almennilegur (l)  A.  Venjulegur; eins og fólk er flest.  Oftast notað sem upphrópun.  „Þú ert ekki almennilegur!  Að mæta á strigaskóm á svona samkomu“.  B.  Góður; vingjarnlegur.  „Vertu nú almennilegur við hann bróður þinn“.

Almenningur (n, kk)  A.  Stærsta hólfið í fjárrétt.  Fé er allt rekið fyrst inn í almenninginn og síðan dregið þaðan í dilk hvers bæjar. Almenningur er miðsvæðis í réttinni og dyr dilkanna vísa inní hann.  B.  Sá hluti bjargnytja eða fjöru sem allir geta nýtt án sérstaks leyfis.  Í Látrabjargi og Bæjarbjargi eru slíkir staðir.  Heiðnabjarg í Bæjarbjargi var öllum frjált, en marga þá staði er erfitt og hættulegt að nytja.  Þá var vestasti hluti Látrabjargs, frá Hrútanefjum, heimill afnota fyrir vermenn á Látrum.  Á Hornströndum eru sumsstaðar almenningar í rekafjöru, og fóru Kollsvíkingar fyrrum þangað að sækja sér við á fyrri tíð.  C.  Fólk almennt.  „Ekki taldi almenningur það efamál að hér væri Benedikt Gabríel að verki, og hefndi sín þannig út af hvalamálinu“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík).  „Allt í einu heyrðist kallað úr almenningnum“  (PG; Veðmálið). 

Almennt (l)  Algengt; það sem jafnaðarlega er; yfirleitt.  „Almennt mátti ekki heita að skepnur kæmu á gjöf fyrr en um og eftir hátíðir“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1926).  

Almestur / Alminnstur / Alstærstur (l, est) „Skriðan var sú almesta sem ég hef séð“.  „Veiðin í dag var með alminnsta móti“.  „Þetta flóð er með þeim alstærstu sem verða“.

Almúgafólk / Almúgi (n, hk/kk)  Almenningur; lágstétt.  „Kollsvíkingar eru ekki eingöngu komnir af almúgafólki, eins og rakið er í hinni merku bók Kollsvíkurætt“.  Sjá sauðsvartur almúginn.

Almyrkvi (n, kk)  Sólmyrkvi; skuggi sem tunglið fellir á jörðina þegar það gengur milli hennar og sólar.  Dimmt verður á jörðu á myrkvunarstaðnum og tunglið myrkvast alveg, utan rauðs bjarma sem stafar af endurkasti lengstu bylgjulengda ljóssins frá jörðu.  Myrkvist tunglið að hluta er það nefnt deildarmyrkvi.

Almælt (l)  Sem talað er um manna á milli; umtalað.  „Spurt var almæltra tíðinda, kastast á glensi og gamanmálum og sumir huguðu að afrakstri sumarsins sem birtist í föngulegum og lagðprúðum haustlömbum“  (PG; Veðmálið). 

Almættið (n, hk, m.gr)  Guð; drottinn.  „Við treystum bara á almættið“ (Anna Hafl.dóttir; Útkall við Látrabjarg). 

Almættisvald (n, hk)  Algert vald; alræði.  „Ég hef ekki slíkt almættisvald að ég ráði þessu einn“.

Alnafna / Alnafni (n, kvk/kk)  Manneskja sem heitir sama fornafni og föður-/ ættarnafni og sú sem tilgerind er.  „Valdimar Össurarson kennari og ungmennafélagsfrömuður var ömmubróðir minn og alnafni“.

Alorpinn (l)  Um fugl; fullverptur; fullorpinn; tegundin búin að verpa að mestu þetta árið.  „Langvían er oft orðin alorpin á undan múkkanum“.

Alófær (l)  Alveg/gjörsamlega ófær; kolófær.  „… er lending oft erfið í Kollsvíkurveri, og oft alófært svo dögum og vikum skiptir“  (HÖ; Fjaran). 

Alrangt (l)  Alveg rangt; vitleysa; ósatt.  „Þetta er alrangt hjá þér; svona gerðist þetta alls ekki“!

Alrifa (s)  Rifa segl að fullu þegar byr var mikill.  „Seglið var alrifað og aukið við kulbandi; kallaður vaðburður“  (JE; Trýnaveður; Því gleymi ég aldrei).

Alrím (n, hk)  Sá bragarháttur í vísnagerð að ekki einungis séu sérhljóðar eins í endarími, heldur samhljóðar á eftir þeim einnig.  T.d. „sýna“ og „skína“.  Hálfrím nefnist þegar eingöngu sérhljóðar ríma. 

Alræmdur (l)  Altalaður; sem hlotið hefur mikið/illt umtal.  „Einar í Kollsvík var ákærandi heima í héraði í hinu alræmda Sjöundármáli; nefndur monsjör Einar í skáldsögunni Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Alsaklaus (l)  Alveg saklaus; sárasaklaus.  „Það þýðir ekkert að skamma mig; alsaklausan“!

Alsettur (l)  Með víða; útataður.  „Hann var alsettur bólum á handleggjum og fótum“.

Alsiða (l)  Almenn venja.  „Það hefur lengi verið alsiða að biðja sjóferðabæn fyrir róður“.  „Var það ungur maður frá Grundum að ganga örna sinna í fjörugrjótinu, eins og alsiða var“  (HÖ; Fjaran).  

Alskegg (n, hk)  Skegg um allt skeggstæðið.  „Pabbi lét sér vaxa tignarlegt alskegg um tíma“.

Alskipa (l)  Á/af öllum skipum/bátum.  „Í einsýnu sjóveðri var jafnan róið alskipa úr Kollsvíkurveri“

Alskilin (l)  Um fyrrverandi hjón; skilin að öllu leyti.

Alskinn (n, hk)  Bókband þar sem bók er með skinn í kápu og kili. 

Alskýjað (l)  Um veður; ský allsstaðar á himni; sér ekki til sólar vegna skýja.

Alslemma (n, kvk)  Það að fá alla slagi í spilinu bridds.  Notað í afleiddri merkingu um að fá allt; alheimta.

Alsnjóugur (l)  Þakinn snjó; allur útí snjó.  „Hann var að koma inn úr dyrunum; alsnjóugur uppfyrir haus“.

Alsoddur (n, kk)  Oddur á al.  Sjá leika á alsoddi.

Alsystir / Albróðir / Alsystkin / Alsystkini (n, kvk/kk/hk)  Um tvo eða fleiri einstaklinga sem eiga sömu móður og sama föður.  Alsystkin er iðulega framborið alsystkini til hægðarauka, þó umdeilanlegt sé hvað rétt er.

Alsæla (n, kvk)  Alger sæla/hamingja.  „Það er engin alsæla að hanga í netum á víkunum núna“!

Alsæll (l)  Mjög ánægður; hamingjusamur.  „Hann sofnaði alsæll útfrá nýju jólabókinni“.

Altalað (l)  Almælt; í almennri umræðu.  „Það er víst altalað að þau séu að skilja“.

Altalandi (l)  Um barn/útlending; farið að tala vel skiljanlegt mál.

Altari (n, hk)  Borð í kór kirkju, sem prestur þjónar við og er aftanvið hann; séð frá kirkjuskipi.  Kristileg skýring á altarinu er sú að það sé minni um borð Krists frá síðustu kvöldmáltíð hans, og minni á nærveru guðs eða himnaríkis.  Hinsvegar tíðkast ölturu í ýmsum trúarbrögðum frá fornu fari, og eru upprunalega borð sem fórnir voru færðar á, t.d. dýra- og mannfórnir.  Sjá ganga til altaris.

Altarisbrík / Altaristafla (n, kvk)  Mynd aftan og ofanvið altari.  Brík er útskorin/upphleypt en tafla máluð.

Altarisganga (n, kvk)  A.  Eiginleg merking; meðtaka sakramentanna, sjá þar  Sjá ganga til altaris.  B.  Fyllerí.  „Hann var að leysa út póstkröfu, svo það hlýtur að vera altarisganga framundan“.

Altarisgestur (n, kk)  Sá sem gengur til altaris í kirkju.

Altekinn (l)  Undirlagður; gagntekinn; heillaður.  „Hann er svo altekinn af þessari hugmynd að hann getur varla um annað talað“.

Altént / Alltént  (ao)  Alltaf; jafnan.  „Við náðum þó altént megninu af fénu þó eitthvað yrði eftir“.  Framburðarbreyting frá „allt jafnt“.

Altént gengur eitthvað/nokkuð þá að er verið (orðtak)  Verkið þokast þegar eitthvað er unnið.

Altíð (ao)  Alltaf; sífellt; ætíð.  „Þetta hefur altíð verið svona, frá því ég man fyrst eftir“.

Altítt (l)  Algengt; alsiða.  „Hann (Ívar í Hænuvík) var í skinnstakk, eins og þá var altítt, og lá hann út af borðinu að baki hans og drógst í sjónum; eftir því meira sem báturinn hallaðist meira, svo hann náði oft slyttublautur niður í hnésbætur að aftan þó hann væri skorpinn upp á brjósti að framan af hörku“  (HO; Ævisaga; róið úr Láturdal). 

Altsvo (ao)  Hikorð, án merkingar.  Notað líkt og „sko“. 

Altækur (l)  Sem tekur/nær til alls.  „Þessi regla er þó ekki altæk“.

Alull (n, kvk)  Ull um allan skrokkinn.  „Þarna í hlíðinni var ein útigengin í alull og önnur sem dró reyfið“.

Alur (n, kk)  Nafar; oddhvasst verkfæri, helst notað til að gata efni.  Sjaldgæfara eftir að borar komu til.  Sjá leika á alsoddi.

Alúð (n, kvk)  Hugulsemi; umhyggja; nærgætni.  „Hún vann öll sín verk, hvor sem það var úti eða inni, af alúð og samviskusemi“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Alúðarkveðjur / Alúðarþakkir  Kveðjur/þakkir af heilum hug.  „Hafðu alúðarþakkir fyrir móttökurnar“.

Alúðlega (ao)  Hlýlega; innilega.  „Hún huggaði drenginn og strauk honum aðlúðlega um vangann“.

Alúmín / Alúmíníum (n, hk)  Ál.  „Gylfi smíðaði heilmikla dragskóflu úr alúmíni til að draga skítinn út úr fjárhúskjöllurunum.  Hún þótti þó heldur þung á höndum, þar sem ekki var sett trissa innst til að draga hana inn aftur með traktor“.

Alúmíníumkúla (n, kvk)  Álkúla; netakúla úr áli/alúmíníum.  Alúmíníumkúlur ráku unnvörpum á fjörur í Kollsvík og víðar, áður en plastkúlur leystu þær af hólmi.  Þær voru oft slegnar í sundur í tvær skálar, sem nýttust vel t.d. til að gefa lambám fóðurbæti á vorin, og sem fóðurílát hænsna.

Alún (n, hk)  Sjá álún.

Alvaldur (l)  Sem orsakar allt; sem stýrir öllu.  Stundum notað um guð; „drottinn alvaldur“.

Alvanalegt (l)  Venja; tíðkast.  „Ertu hissa á þessu?  Nú þetta er bara alvanalegt“!

Alvanur (l)  Mjög vanur.  „Pabbi vissi allt um aðstæðurnar þarna; alvanur bjargmaður“  (Björgvin Sigurbj.son; Útkall við Látrabjarg). 

Alvara (n, kvk)  A.  Einlægni; ekki gamanmál/léttúð.  „Mér er full alvara með þessu“.   B.  Veruleiki.  „Ertu í alvöru að meina þetta“?  Sjá fúlasta alvara.

Alvara á ferðum (orðtak)  Aðstæður válegar/hættulegar; ekki gamanmál/grín.  „Ég sá strax að hér gat verið alvara á ferðum ef ekki yrði gripið strax í taumana“. 

Alvara málsins (orðtak)  Mikilvægi aðstæðna/málefnis; mikið í húfi.  „Hann skildi strax alvöru málsins; hér gat verið mannslíf í húfi“. 

Alvarlega (ao)  Af/með alvöru.  „Nú þarf ég að fara að tala alvarlega við hann um þetta; svona háttalag gengur ekki lengur“!  Sjá taka alvarlega.

Alvarlegur (l)  Ekki gamansamur; sem ber með sér alvöru.  „Hann var alvarlegur á svip“.  „Þetta væri alvarlegur glæpur“.  Sjá alvörumál.

Alveg (ao)  A.  Fullkomlega; að öllu leyti; algerlega.  „Ertu alveg frá þér“?!  B.  Næstum; nærri.  „Þetta er alveg að hafast“.

Alveg að bráðna/stikna (orðtak)  Verða fyrir mjög miklum hita/sólarhita.  „Það var svo heitt niðri í bjarginu að ég var alveg að stikna“!

Alveg búinn (orðtak)  A.  Búinn að ljúka verki/verkefni algerlega.  B.  Örmagna; uppgefinn; sprunginn; lémagna.  „Ég var alveg búinn þegar ég kom uppá brúnina“.

Alveg eftir henni/honum (orðtak)  Henni/honum líkt; hennar/hans von og vísa.  „Það væri alveg eftir honum að hlaupa strax af stað einsamall og reyna að ná þeirri sem slapp“.

Alveg loku fyrir það skotið (orðtak)  Alveg útilokað; kemur ekki til greina.  „Það er alveg loku fyrir það skotið að ég geti átt við þetta á morgun“.

Alvitlaus (l)  Mjög vitlaus; án vitglóru.  „Hann er nú ekki alvitlaus, þó hann líti stundum út fyrir það“.

Alvitur (l)  Veit allt; yfirburða gáfaður.  „Ég er kannski ekki alvitur, en ég er alveg viss um þetta atriði“.

Alvondur (l)  Mjög vondur; illmenni.  „Nú, kannski er hún ekki alvond þessi ríkisstjórn, þó ömurleg sé“.

Alvotur (l)  Gegnblautur; ekki þurr þráður.  „Alvotur stendur upp að knjám/ öldubrjóturinn kargi...“ (Jón Helgason; Áfangar).  „... við komum í lendinguna með tóman bát, alvotir... “  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Alvæpni (n, hk)  Fullur vopnabúnaður.  „Frekar vildi ég mæta stríðsmanni með alvæpni en lenda í stælum við hann“!

Alvökna (s)  Verða alvotur.  „Farðu nú í stakkinn áður en þú alvöknar í ágjöfinni“!

Alvörugefinn (l)  Ábúðarmikill; brúnaþungur.  „Afskaplega ert þú eitthvað alvörugefinn núna“.

Alvöruleysi (n, hk)  Léttúð; sinnuleysi.  „Henni líkaði ekki neitt alvöruleysi í þesslags málum“.

Alvörumál (n, hk)  Alvarlegt málefni/verk; hætta; hættuástand.  „Það er alvörumál ef stýri bilar á þessum stað“.

Alvörusvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir einbeitningu og ábyrgð en ekki líttúð.  „Ég sá strax á alvörusvip hans að eitthvað var ekki í lagi“.

Alþakinn (l)  Þakinn af; með mikið á yfirborði.  „Hann var alþakinn bólum á handleggnum“.

Alþingi (n, hk)  Þjóðþing Íslendinga.  Það var stofnað á Þingvöllum árið 930 eftir að Grímur geitskór hafði valið því stað og þar sem Úlfljótur fóstbróðir hans las upp hin fyrstu lög Íslendinga.  Á Þingvöllum starfaði Alþingi árlega til 1798 sem löggjafar- og dómþing þjóðarinnar.  Það kom saman í Reykjavík 1799 og 1800 en þá varð hlé þar til það kom aftur saman sem ráðgjafarþing frá 1845 og varð aftur löggjafarþing frá 1874.  Á þjóðveldisöld komu goðar til Alþingis ásamt þingmönnum sínum (sjá þingfararbóndi), en einnig mætti þar fjöldi manns þó ekki tæki þátt í löggjafar- eða dómsstörfum.  Þangað var komið með sakamenn og þeim refsað sem hlutu líkamlega refsingu eða aftökudóma.  Innan þinghelgi var öllum frjálsum og ósekum heimilt að vera, en hún takmarkaðist af hærri vegg Almannagjár; Köstulum ; Flosagjá og Nikulásargjá.  Þingmenn bjuggu í tjölduðum búðum. Núverandi Alþingishús var reist í Reykjavík 1880-81.  Það hefur síðan verið stækkað og fyrirhuguð er enn meiri stækkun, enda umsvif Alþingis mikil á síðari tímum þó kjörnir þingmenn séu einungis 63.

Alþjóð (n, kvk)  Þjóðin öll.   Þjóðin öll.  „Alþjóð veit þá þrír vita“.

Alþíð jörð (orðtak)  Ekkert frost í jörðu.  Algengara var í Kollsvík að segja að „frost væri farið úr jörðu“.

Alþjóðlegur (l)  Sem lýtur að fjölda heimsþjóða.  „Alþjóðlegur hugsunarháttur hefur löngum verið ríkjandi í Kollsvík.  Kollur landnámsmaður nam við virtasta fjölþjóðlegan háskóla þess tíma; klausturskólann á Iona.  Mestu siglingaþjóðir heims stunduðu veiðar og verslun útifyrir víkinni allt frá ensku öldinni, og á síðari tímum hafa Kollsvíkingar búið og starfað í flestum heimshornum og talað flestar þjóðtungur“.

Alþorna (s)  Fullþorna; þorna að öllu leyti.  „Dýið var fljótt að alþorna eftir framræsluna“.

Alþurr (l)  Alveg/allur þurr; fullþurr.  „Ég blotnaði ekki verulega, og er orðinn alþurr núna“.

Alþýðlegur (l)  Mannblendinn; viðkunnanlegur.  „Þau eru mjög alþýðleg og góð heim að sækja“.

Alþýðufólk / Alþýðumaður (n, hk/kk)  Fólk/maður sem ekki er áberandi/valdamikill/ríkur.  „Hann var af alþýðufólki kominn“.  „Þetta taldist nokkuð vel gert af lítt lærðum alþýðumanni“.

Alþýðuskap (n, hk)  Sjá við alþýðuskap.

Alæta (n, kvk)  Maður/dýr sem étur allt.  Oft í óeiginlegri merkingu.  „Ég er alæta á svona bókmenntr“.

Ama (s)  A.  Reka hægt.  „Aðeins er farið að ama suðurávið“.  B.  Stríða; vera slæmur við.  „Búkolla er að ama kvígunni“.  „Vertu nú ekki að ama honum Palla litla“.

Amalaust / Amalítið (l)  Ekki skapraun að.  „Mér er það alveg amalaust þó túristar rölti hér um; svo lengi sem þeir fæla ekki fé eða bæla niður tún“.

Amalegt (l)  Leiðinlegt.  „Það væri nú ekki amalegt ef hægt væri að fá almennilega signa grásleppu“.

Amast við (orðtak)  Agnúast útí; finna að; vera leiðinlegur við.  „Ég man aldrei nokkurn tíma eftir að Ólafía amaðist við mér“ (DÓ; Að vaka og vinna). 

Ambaga (n, kvk)  Klaufalegt orð/orðalag; bull; orðskrípi.  „Skelfing kann ég illa við svona ambögur“!

Ambátt (n, kvk)  Kvenkyns þræll; ófrjáls kona.

Amboð (n, hk, fto)  Verkfæri til hey- og jarðvinnu.  T.d. Orf, hrífur, kvíslar, skóflur, hakar, járnkarlar o.fl.  „Amboðunum var skotið upp á bita í verkfærahúsinu“.

Ambra (s)  Æmta; kjökra.  „Ég held að barnið sé eitthvað að ambra þarna í kerrunni“.

Ambur (n, hk)  Efni sem myndast í meltingarvegi búrhvala.  Talið er að búrhvalir losi sig við tormeltanlega fæðu, s.s. smokkfisktennur, með því að mynda klump utanum hana úr fitu og þvagefni, sem þeir síðan æla upp.  Klumparnir reka stundum á fjörur og er unnið úr þeim verðmætt ilmefni.

Amböguháttur (n, kk)  Klaufaskapur; fúsk.  „Skelfingar amböguháttur er þetta“!

Amböguhnoð / Amböguþvæla (n, hk/kvk)  Bull; mikið orðabrengl í málfari eða kveðskap.  „Mér finnst þetta hálfgert amböguhnoð, og lítið skáldlegt“.  „Ég hef sjáldan heyrt þvílíka amböguþvælu“!

Ambögulegt (l)  Klaufalegt; sagt klaufalega.  „Óttalega var þetta nú ambögulegt hjá þér“!

Ambögur (n, kvk, fto)  Rassbögur; málleysur; orð sem sögð voru á rangan hátt; slettur.  „Óttalegar ambögur eru þetta nú hjá þér; geturðu ekki komið þessu almennilega útúr þér“?

Ambögusmiður (n, kk)  Bögubósi; sá sem talar oft rangt mál eða kemur illa orðum að sinni meiningu.  Þá vilja orð koma aftur ábak útur mönnum.  „Alltaf skaltu vera sami ambögusmiðurinn góði minn“!

Amen (uh/ n, hk)  A.  Upphrópun/lokaorð í kristinni messugjörð; til staðfestingar á því sem sagt hefur verið.  Komið úr hebresku, og merkir „sannarlega“ eða „já, svo skal það vera“.  B.  Notað í mæltu máli í líkri merkingu, t.d. af þeim sem finnst mikið til um það sem annar hefur sagt.  Einnig um endalok:  „Það er nú ekki komið að ameninu ennþá“.  Sjá já og amen.  

Ami (n, kk)  Leiði; raun.  „Honum var greinilega nokkur ami að því að slysið væri rætt“.  Sjá gera (einhverjum) til ama

Amla (s)  A.  Róa í rólegheitum; andæfa.  „Ég held að þú ættir að hafa úti og reyna að amla eitthvað á móti fallinu“.  Mun þetta vera upphafleg merking orðsins; stofnskyld „damla“.  B.  Vinna/ganga í rólegheitum.  „Ég amlaði hér yfir Víkina með barnavagninn“.  C.  Mótmæla.  „Það þýðir víst lítið að amla gegn þessu“.

Amlóðaháttur (n, kk)  Aumingjadómur; vesalmennska.  „Skelfingar amlóðaháttur er þetta nú í þeim“!

Amlóðalegt (l)  Aumlegt; kauðalegt; aulalegt.  „Það væri nú dálítið amlóðalegt að hanga í landi í svona veðri“.

Amlóði (n, kk)  A.  Aumingi; bjálfi; vesalingur.  „Óttalegur amlóði geturðu verið drengur; að koma ekki kindunum úr túninu“.  Orðið er líklega samsett úr „ami“ og „leiður“.  B.  Liðléttingur til sjós.  Til að mæla afl manna, og þar með réttmætan skiptahlut, voru notuð steinatök sem líkast til hafa verið í öllum verstöðvum til forna.  Sumsstaðar eru þau enn til, t.d. á Látranesi á Hvallátrum.  „Steinatökin á Hvallátrum eru einnig fjögur… Þyngsti steinninn; alsterkur, er 354 pund; næstur er Fullsterkur, 288 pund; Hálfsterkur 214 pund og Amlóði 192 pund“  (LK; Ísl.sjávrhættir IV).  Sá sem einungis gat lyft Amlóða var vart hlutbær á sjó, nema sem hálfdrættingur.

Amma (n, kvk)  Móður- eða föðurmóðir.  „Það barn er lánsamt sem nýtur góðrar ömmu“.

Amorskvæði / Amorsvísa (n, hk/kvk)  Ástarljóð; klámvísa.  „En yrki ég til þín Edduskreytta afmorsvísu/ mælir þú mig augum ýsu“ (JR; Rósarímur). 

Amstra (s)  Puða; vinna.  „Hvað skyldi hann nenna lengi að amstra við þessa hleðslu“?

Amstra með (orðtak)  Hafa fyrir; sinnast uppá; vesinast með.  „Ertu enn að amstra með þennan yrðling“?

Amstur (n, hk)  Fyrirhöfn; puð.  „Það liggur við að kalrlgarminum finnist það spennandi, eftir allt hans amstur og bardús, að eiga nú að upplifa einn af þessum frægu skellibyljum“  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).

Amstursamt (l)  Fyrirhafnasamt; snúið; erfitt.

Amt (n, hk)  Stjórnsýsluumdæmi á Íslandi á einveldistímanum.  Eftir einveldistöku Danakóngs og hyllingu Friðriks 3. varð Ísland eitt af ömtum Danmerkur.  Æðsti embættismaður konungs hérlendis nfndist stiftamtmaður, og kom í stað höfuðsmanns áður.  Fyrsti stiftamtmaðurinn, Ulrik Christian Gyldenlöve launsonur konungs, tók þó ekki við embætti fyrr en 1683, þegar Hinrik Bjelke höfuðsmaður lét af störfum.  Árið 1770 var landinu skipt í tö ömt; Suður- og vesturamt annarsvegar og Norður- og austuramt hins vegar.  Árið 1787 var svo Vesturamt skilið frá Suðuramti.  Árið 1872 var embætti stiftamtmanns lagt niður og þess í stað stofnað embætti landshöfðingja.  Amtskipulagið var svo lagt niður árið 1904 með heimastjórn og stofnun Stjórnarráðs Íslands sem enn starfar.

Amtmaður (n, kk)  Æðsti embættismaður amts.

An (n, hk)  Gan; frumhlaup; fljótræðisleg/hugsunarlaus aðgerð/ferð.  „Alveg vissi ég að þeir myndu festa bílinn strax í beygjunni.  Óttalegt an var á þeim að setja ekki keðjur undir þegar færðin er svona“!

Ana (s)  Æða; gana.  „Ætlarðu að ana svona illa búinn út í þetta veður“?

Ana í vitleysu / Ana í opinn dauðann (orðtök)  Lýsandi orðtök um fyrirhyggjuleysi.

Ana út í ófærð (orðtak)  Leggja af stað í slæmu veðri; leggja af stað þegar vegir eru ófærir; halda í róður þegar ekki er fært á sjó.  Í seinni tíð mest notað um að fara þegar vegir eru ófærir.

Anbefala (s)  Falast eftir; biðja um.  Dönskusletta sem heyrðist stundum vestra.  „Þú gætir reynt að anbefala þetta hjá honum, en þú verður að fara lunkulega að því“.

Anda (s)  A.  Draga andann.  B.  Hvíla sig; gera hlé.  „Nú skulum við anda aðeins; við erum búnir að vinna alveg eins og vitleysingar“.  C.  Um vind; gera örlitla golu; hreyfa vind.  „Aðeins er hann farinn að anda af vestri núna, en annars hefur verið stafalogn í allan dag“.  „Hann andar örlítið af suðri“.  D. Segja.  Sjá anda um.

Anda á (einhvern) (orðtak)  A.  Bókstafleg merking.  B.  Skamma einhvern lítillega; finna að við einhvern.  „Hann stekkur upp á nef sér ef einhver dirfist að anda á hann núna“.

Anda á móti (orðtak)  A.  Um vind/golu sem blæs á móti.  B.  Um mótlæti.  „Það þýðir ekkert að gefast upp þó andi á móti“.

Anda einu orði (orðtak)  Segja eitthvað.  „Ég vissi ekkert að þú hefðir áhuga á þessu; þú hefðir nú getað andað um það einu orði“!

Anda (einhverjum) í brjóst (orðtak)  Telja einhverjum trú um; vekja áhuga einhvers; láta einhvern vita um.  „Þú hefðir nú átt að anda mér í brjóst að þú værir bakveikur; þá hefði ég bannað þér að snerta á þessu“!  Sjá brjóst; andast í brjóst.

Anda köldu (orðtak)  A.  Um hægan kaldan vind.  B.  Um óvild/andúð.  „Það andar nokkuð köldu milli þeirra þessa stundina“.

Anda léttar (orðtak)  Um það þegar léttir af manni áhyggjum/ maður er úr hættu.  „Þeim hefur tekist að bjarga bát og farmi undan sjó.  Þeir anda léttar, en þó sveittir og blautir“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Anda um (orðtak)  Segja frá; láta vita af.  „Hann andaði ekki einu orði við mig um þetta“.  „Þú hefðir nú getað andað um það ef þig vantaði að láta sauma buxurnar“!

Andaðu nú rólega! (orðtak)  Bíddu nú hægur; farðu hægt; ekki þennan asa.  Upphrópun þegar einhver þótti einum of ákafur/óþolinmóður.  „Við skulum bara anda rólega; hann er að slá niður fallinu og þá gæti hann farið að gefa sig til“.

Andaður (l)  Látinn; dáinn; sálaður.  „Hann er andaður fyrir allmörgum áratugum“.

Andagift (n, kvk)  Hugmyndflug; ímyndunarafl; skáldskapargáfa.  „Ég ruddi þeim blótsyrðum sem ég kunni yfir manngrýluna; hefði notað fleiri hefði ég haft andagift til.  Hann hafði heldur betur unnið til þess“!

Andakt (n, kvk)  A.  Lotning; virðing.  „Hann hlustaði í andakt á lygasögur Arinbjarnar um tunglbúa og amríkana“.  B.  Kyrrðarstund; þögn.

Andaktugur (l)  Í lotningu/virðingu.  „Maður er ekkert svo andaktugur yfir öllu bullinu í þessum stjórnvöldum“.

Andans / Andansári / Andansvesen (ao)  Mild blótsyrði; stytting úr „andskotans“.  „Andans ástand er þetta, ég er að verða sykurlaus“.  „Þetta er bara andansári laglegur hrútur“ „Andansvesen er nú þetta“!

Andar köldu (orðatk)  A.  Um veður; kaldur andvar/vinduri; köld gola.  „Hann andar köldu þegar svona stutt er í ísröndina“.  B.  Um mannleg samskipti; gætir andúðar/óvildar.  „Nokkuð fannst mér anda köldu frá honum“.

Andardráttur (n, kk)  Það að draga loft í lungu til lífsviðurværis; soghljóðið sem við það heyrist.  Forliðurinn er „önd“ sem er fyrra heiti á andardrætti.  Sbr; standa á öndinni.

Andarnefja (n, kvk)  Hyperoodon ampullatus.  Allstór tannhvalur, á stærð við hrefnu; tarfarnir verða 8-9 metra langir og um 3,6 tn að þyngd en kýrnar nokkru minni.  Með mjótt trýni og hátt og kúpt enni; augun rétt aftanvið munnvikin.  Grásvört að lit, en ljósari að neðan.  Bægslin smá og rétt aftanvið höfuðið; bakugginn aftarlega og um 30 cm hár; engin sýling í sporðinum.  Blásturinn lítill og sést illa.  Fæðan er einkum smokkfiskur en einnig annar fiskur og krossfiskur.  Aðeins búrhvalir kafa dýpra en þær.  Heimkynni andarnefju eru um norðanvert Atlantshaf og þær sjást helst við Ísland á sumrin.  Var fyrrum veidd vegna olíunnar í höfðinu, sem notuð var sem lyf og áburður, en kjötið einkum sem dýrafóður.

Andartak (n, hk)  Augnablik; smástund.  „Bíddu eitt andartak“.  „Þetta tekur bara andartak“.

Andarteppa (n, kvk)  Andnauð; andþrengsli; það að geta ekki andað.  „Mér lá við andarteppu af hósta“

Andast (s)  Deyja; látast; sálast. 

Andast í brjóst (orðtak)  Detta í hug; hugkvæmast.  Helst notað í umvöndunartón.  „Þú hefðir fundið þetta ef þér hefði andast í brjóst að leita á réttum stað“.  „Ekki hefði mér andast í brjóst að svona lægi í þessu“.

Andblær (n, kk)  Örlítil gola; mjög hægur vindur.  „Það er örlítill andblær af austri, ef eitthvað er“.

Andbyr (n, kk)  Mótbyr.  „Er Guðbrandur á leið undir Jökul í skreiðarferð og hefur andbyr“  (MG; Látrabjarg).

Anddyri (n, hk)  Forstofa/fordyri í inngangi húss.  Í upphafi merkti „anddyri, andir“ innri dyr í húsi; dyrnar innanvið forskála, sem þá hét „andyr“.  Um þetta segir í fornri heimild:  „Andir er talad eftir íslendskum byggingarmáta þar sem karldyr eru ytst á bajum; þar inaraf andyri og þangað er hvorim manni frialst ad ganga.  Þeir einir komuz innum andyr sem vinsamlega voru medteknir.  Þar höfdu forfedur vorir vigása þegar ófridur var, og hietu andyr.  Þær voru móte karldyrum“.  Karldyr var þá heiti á ytri dyrum.  Samkvæmt þessu var hverjum gesti heimilt að ganga innum útidyr/karldyr og leita skjóls í forstofu ókunnugs húss.  Hinsvegar mátti gesturinn ekki fara um innri dyrnar; andir, nema honum væri boðið það af húsbændum.

Andfúll (l)  Með illa lyktandi andardrátt.  „Mikið andskoti ertu andfúll; fjandann léstu eiginlega ofaní þig“?!

Andfýla (n, kvk)  Fúll andardráttur.  „Skarfakál var tailið þjóðráð til að losna við andfýlu“.

Andfælur (n, kvk, fto)  Ofboð.  „Ég vaknaði af martröðinni með andfælum“. Vísar til þess að grípa andann á lofti; mása mikið, t.d. eftir kæfisvefn.

Andfætingur (n, kk)  Sjá sofa andfæting.

Andfætis (ao)  Sjá sofa andfætis.

Andfætlingur (n, kk) Þeir tveir sem sofa í sama rúmi þannig að fætur annars eru við höfuð hins eru andfætlingar og þeir sofa andfæting.  (Úr orðasafni Ingvars Guðbjartssonar).

Andheitur (l)  Trúaður; innilegur í tilbeiðslu; fullur eldmóði. 

Andhverfa (n, kvk)  Spegilmynd; það sem er öfugt við eitthvað tiltekið.  „Hann hafði hrósað þessari vélartegund í hástert; en það var fljótt að snúast í andhverfu sína þegar hann reyndi að koma henni í gang“!

Andhægur (l)  Um mjög hæga vindgolu; andvara.  „Hann er orðinn andhægur og alveg hætt að rigna“.

Andi (n, kk)  A.  Loft sem andað er.  „Ég hélt niðri í mér andanum af spenningi“.  B.  Sál; hugur; andagift.  Sbr gefa upp andann/öndina og mannsandi.  „Nú held ég að þessi vélartík sé endanlega búinn að gefa upp andann“!  Af sama meiði er notkun heitisins yfir meiningu/megininntak; t.d. andi laganna og tíðarandi.  C.  Loftkennd vera; draugur; vofa;heilagur andi.  „Það er ég viss um að rolluskrattinn er haldinn illum anda“!

Andinn (n, kk, m.gr)  Stytting úr „andskotinn“ ; milt áhersluorð/blótsyrði.  „Nei, andinn hafi það að ég fari að éta þetta ómeti“!  Ja, hver andinn“!  „Hvernig í andanum víkur þessu við“?  „Andans vesen er þetta“!

Andinn er að sönnu reiðubúinn (en holdið er veikt) (orðatiltæki)  Ekki skortir mig viljann (en líkaminn er ekki á sama máli).  Nokkuð notað; einkum síðari hlutinn, þegar menn t.d. hafa góð áform en þau vilja fara útúm þúfur; t.d. varðandi aðhald í mat.  Upprunnið í biblíunni eins og fleira af slíku tagi.

Andkaldur (l) Kalt í veðri.  Einkum notað þegar komið er úr húshita í stillt veður og kuldi meiri en ætlað var.  „Fjári er hann nú orðinn andkaldur með haustinu“.  „Hafðu nú um hálsinn; hann er ári andkaldur“.

Andköf (n, hk, fto)  Djúp og áköf innöndun.  Sjá taka andköf.

Andlaus (l)  Án hugmyndaflugs/skáldagáfu/hugsunar.  „Skelfing er maður eitthvað andlaus núna“.

Andlát (n, hk)  Dauði.  „Ég hafði ekki heyrt um andlát hans“.

Andlega (ao)  Sálarlega; á geðsmunum.  „Ég held stundum að hann sé varla andlega heill“.

Andlegheit (n, hk, fto)  A.  Trúmál.  B.  Skáldagáfa; andagift.  „Mig skortir öll andlegheit í dag“.

Andlegur (l)  Sem varðar hið huglæga.  „Sjálfstæðismenn hljóta að lúta vilja síns andlega leiðtoga“.

Andleysi (n, hk)  Skortur á hugarflugi/ímyndunarafli/skáldagáfu. 

Andlitsfríður (l)  Laglegur í andliti.  „Ekki vantar að hún er laglega vaxin, en ekki finnst mér hún andlitsfríð“.

Andlit (n, hk)  Ásjóna; fés.

Andmæla (s)  Mótmæla; bera á móti.

Andmælalaust (l)  Án andmæla/mótmæla; möglunarlaust.  „Svona læt ég ekki yfir mig ganga andmælalaust“!

Andmæli (n, hk, fto)  Mótmæli; múður.

Andóf (n, hk)  Róður móti falli eða vindi.  „...verður svo sterkur útstraumur á læginu að talsvert andóf þarf til að halda á móti honum“  ...  „Þegar byrjað var að draga línuna var hún beitt út jafnt og dregið var.  Tveir menn voru undir árum í andófi.  Þriðji maðurinn dró línuna, goggaði og afgoggaði fiskinn, en sá fjórði beitti út línuna“  (KJK; Kollsvíkurver).  Líklega hljóðbreyting úr „andþóf“; þ.e. að þæfa í móti.

Andófsmaður (n, kk)  Sá bátverji sem er í andófi/rær í hálsrúmi/andófsrúmi.  „Kastað var út jafnóðum og dregið var.  Og hálsmennirnir, þ.e. andófsmennirnir, urðu að róa til að hafa áfram“  (Guðm. Jón Hákonarson; 13 ára hálfdrættingur í Kollsvíkurveri; E.Ó. skrásetti; Árb.Barð 2004).  „Þegar sexæringur var settur niður vestra hlunnaði hálfdrættingur eða annar austurrúmsmaður, en hinn bakaði að aftan ásamt formanni; miðskipsmenn ýttu og studdu um róðurinn, en andófsmenn bökuðu að framan.  Menn fóru upp í skipið um leið og það flaut fram; fyrst aftanmennirnir, síðan miðskipsmenn og andófsmenn síðastir, sem þá einnig ýttu.  “   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.

Andófsrúm / Andófsþófta (n, hk/kvk)  Fremsta þófta í bát, og rúmið aftanvið hana; þar sem andófsmaður situr.

Andra (s)  Ganga.  Orðið heyrðist ekki í Kollsvík í seinni tíð, en líklegt er að af því sé dregið nafn á melbarði í Melum, neðan Sandahlíðar í Núpnum, sem nefnist „Andri“, og þar hjá „Andramelaskarð“.  Hugsanlega hafa menn „andrað“ þangað til að huga að fé um sauðburð.  Annar möguleiki er sá að þar hafi fyrst sést heimanfrá til manns sem „andraði“ heim eftir að hafa gengið á reka norður í Bótinni.  Andri er reyndar fornt nafn á skíðum, og kann nafn staðarins að tengjast því að menn hafi til forna skemmt sér á skautum á Melatjörn sem þar er heimanvið.

Andrá (n, kvk)  Andartak; augnablik; örskotsstund.  „Ég greip í spottann í sömu andrá og steinninn valt undan mér“.

Andrekt (l)  Barningur; straumur/vindur á móti þegar róið er.  Ekki notað í seinni tíð, en vísar til hjóðdæmis (sjá hnífandrekt).

Andremma (n, kvk)  Illa lyktandi andardráttur.  „Enginn kannast við eigin andremmu“.

Andríki (n, hk)  Andagift; skáldagáfa; innblástur; hugmyndaflug.  „Ekki er nú andríkinu fyrir að fara í þessum leirburði hjá honum“!

Andróður (n, kk)  A.  Andóf.  B.  Oftast í líkingamáli um andspyrnu/andóf gegn málefni/stefnu.  „Skólinn var á endanum lagður niður; þrátt fyrir andróður heimamanna“.

Andsetinn (l)  Haldinn illum anda.  Oftar notað djöfulóður

Andskota (s)  Djöfla; gera á slæman hátt; fara illa með.  „Kálffjandinn er búinn að andskota heyinu útum allt“!

Andskotagangur (n, kk)  Gauragangur; fyrirgangur; hávaði.  „Hvaða andskotagangur er þetta eiginlega; er bara himinn og jörð að farast eða hvað“?!

Andskotakornið (u)  Andskotinn; fjárinn.  „Það er andskotakornið ekkert við þessu að gera“.

Andskotalaust (l)  Vandræðalaust; án illinda.  „Þetta gekk ekki andskotalaust fyrir sig“.

Andskotalega (ao)  Bölvanlega; mjög illa.  „Þetta gekk bara andskotalega hjá okkur í byrjun; ekkert nema vandræði“!  „Mér var farið að líða andskotalega í fætinum, og fór því til læknis“.

Andskotan ekki neitt (orðtak)  Mjög/hverfandi lítið.  „Þetta er andskotan ekki neitt; bara smáskeina“.  „Það var andskotan ekki neitt að hafa fyrr en komið var niður á Skeggja“.

Andskotann/fjandann ekki (orðak)  Áherslusetning.  „Ég veit það andskotann ekki“.  „Hér er fjandann ekkert að hafa; kippum örlítið dýpra“.

Andskotans  (ao)  Blótsyrði/áhersluorð, oftast með nafnorði á eftir.  „Andskotans gleymska  var þetta“!

Andskotans (sú) ögnin (orðtak)  Svardagar um það sem ekki er.  „Anskotans ögnin að þar væri nokkurn titt að fá“!  „Andskotans sú ögnin sem þar var nokkur maður“!

Andskotansekkisen (l)  Áhersluorð/blótsyrði.  „Andskotansekkisen gleymska var þetta hjá mér“!  „Þetta var ljóta andskotansekkisen óheppnin“!

Andskotansgreyið (n, hk, m.gr.)  Áhersluorð/blótsyrði. „Ætlar hún nú ekkert í gang andskotansgreyið“!

Andskotansnær (fs) Miklu nær; mun betra.  „Honum hefði verið andskotansnær að koma hrútunum inná meðan þeir voru heimavið, frekar en þurfa að sækja þá lengst upp í lautir núna“!

Andskotast (í) (orðtak)  Rótast í; hamast í; gera atlögu að.  „Hættiði nú að andskotast í karlinum strákar“!

Andskoti (n, kk)  Blótsyrði/áhersluorð.  „Andskoti getur þetta nú verið snúið“!  „Andskoti er nú að sjá þetta“!  „Andskotinn illskuflár/ enn hefur snöru snúna/ snögglega þeim tilbúna/ sem fara með fals og dár“  (Hallgrímur Pétursson; Passíusálmar).

Andskoti af mér/þér/honum (orðtak)  „Slæm mistök hjá mér“.  „Andskoti var nú af þér að gá ekki niður í flesið; ég er handviss um að þar hefur kindin stungið sér niður“!

Andskotinn hafi það! (orðtak)  Upphrópun t.d. þegar eitthvað fer illilega úrskeiðis. 

Andskoti hart (orðtak)  Mjög slæmt/mótdrægt/óréttlátt.  „Mér þykir það andskoti hart að geta ekki sinnt mínum störfum í almannaþágu vegna skilningsleysis stjórnvalda“!

Andskotinn og amma hans (orðtak)  Blótsyrði af öflugra taginu.  „Nú mega þau fiska hér í minn stað, andskotinn og amma hans; ég er farinn í land með þessa fáu hortitti“!

Andspænis (fs)  Gegnt; á móti.  „Maðurinn má sín oft lítils andspænis náttúruöflunum“.

Andstreymi (n, hk)  Straumur á móti þegar róið er eða lína dregin.  Nú mest notað táknrænt um mótlæti.

Andstreymis (ao)  Á móti straumi; gagnstætt við forstreymis.  „Farið er að baujunni andstreymis“.

Andstuttur (l)  Með hraðan/grunnan andardrátt; móður.  „Ég var orðinn frekar andstuttur á hlaupunum“.

Andstyggð (n, kvk)  Óvild; viðbjóður; andúð.  „Ég hef hálfgerða andstyggð á þessum nýju viðhorfum“.

Andstæða (n, kvk)  Það sem er þvert á við annað.  „Hann er andstæða bróður síns í þessu tilliti“.

Andstætt (l)  Á móti; gagnstætt.  „Andstætt vesturgaflinum er sérstæð votheysgryfja“.

Andsvar (n, hk)  Svar; viðbragð.  „Hann var fremur dræmur í andsvörum“.

Andtigna (s)   Formæla; bölva.  Sjá antigna

Andúð (n, kvk)  Andstyggð; mótstaða; viðbjóður; óbeit. 

Andvaka (l)  Svefnlaus; um það að geta ekki sofið/ ná ekki að festa svefn.  „Ég held að maður verði nú ekki andavaka yfir þessu lítilræði“!

Andvana (l)  Líflaus; dáinn; látinn.

Andvanafæddur (l)  Fæddur dáinn.  „Þau eignuðust eitt andvanafætt barn í byrjun“.

Andvaralaus (l)  Hugsunarlaus; fyrirhyggjulaus.  „Ég var alveg andvaralaus, svo þetta kom mjög á óvart“.

Andvari (n, kk)  Hæg gola; blær. „Það er rétt að maður finnur norðan andvara, en það má heita logn“.

Andvarp (n, hk)  A.  Stuna; það að anda frá sér svo heyrist.  B.  Líkingamál; kvörtun; ámálgun. 

Andvarpa (s)  A.  Stynja.  B.  Kvarta; ámálga.  „Þú hefðir nú mátt andvarpa um þetta aðeins fyrr“!

Andvarpa um (orðtak)  Hafa orð á; kvaka um; nefna; ámálga; hreyfa; færa í tal.  „Þú áttir að andvarpa um það fyrr að þú þyrftir á klásettið; það er of seint þegar þú ert orðinn klofblautur, strákur“!

Andvígur (l)  Mótfallinn; á móti.  „Ívar Ívarsson taldi ekki rétt að sameina hreppinn í eina kjördeild og lýsti sig því andvígan“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 12.03.1960; ritari ÖG). 

Andvökunótt (n, kvk)  Nótt sem líður þannig að maður nær ekki að sofa.

Andþyngsli (n, hk, fto)  Það að vera erfitt/þungt um andardrátt.

Andæfa (s)  Róa á móti sjávarfalli eða vindi.  „Skyldi andæfa svo vel að færin stæðu beint niður eða bæri lítið eitt aftur með borðinu“  (PJ; Barðstrendingabók).  Sá sem andæfði var andófsmaður.  „Nú var andæft og beðið lags að snúa“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   Líklega hljóðbreyting úr „andþæfa“; þæfa gegn.

Anga (s)  Ilma; gefa frá sér lykt.  Oftast notað um góða lykt, en stundum í gagnstæðri merkingu.

Angagrey / Angaljúfur / Angalúra / Angalýja / Angakvikindi / Angakvöl / Anganóra / Angaskarn / Angaskinn / Angaskott / Angatetur / Angatötur (n, kk/kvk/hk)  Gæluorð um barn/gæludýr.  „Komdu hérna angaljúfur“.  „Hversvegna ertu að skæla, angalúran mín“? „Þú mátt nú ekki sneypa tíkina fyrir þetta; hún var nú að reyna að hjálpa til, angakvölin“.  „Meiddirðu puttann angaskottið mitt“?  Sum orðin nær eingöngu notuð með greini; önnur nær aldrei.

Angakornið (u)  Milt blótsyrði; stytting úr „andskotakornið“.  „Angakornið að við fengjum eina einustu oddsnertu, þó við flengdum um allan sjó“!

Angalýja (n, kvk)  Langur þráður; löng tjása.  „Það er vont að fá angalýjur af marglyttu í augun“.  „Ansi ertu orðinn loðinn um hausinn; það þyrfti að fara að klippa af þér angalýjurnar“.

Angan (n, kvk)  Ilmur; góð lykt.  „Þarna í Breiðnum er mikil angan af reyrgresi, einkum á vorin“.

Angans / Angansári / Angansvesen (u)  Milt blótsyrði; stytting úr „andskotans“.  „Þetta er ljóta angans ótíðin, dag eftir dag“.  „Angansári er hann nú smár núna; stórfiskurinn ætlar bara ekkert að gefa sig til“!

Angann ekkert (orðtak)  Milt áhersluorð á ekkert.  „Þetta var angann ekkert; bara smáskeina“.

Angansnær (fs)  Andskotansnær; fjandansnær; mun betra; staðið nær.  „Hvað eru þeir nú að sullast út í þessum árans veltingi?!  Þeim hefði verið angansnær að hlusta á mig í gær; þá var þetta fína sjóveður“!

Angalýja (n, kvk)  A.  Armur; langur hárlokkur; visk.  „Asskoti ertu orðinn úfinn um hausinn; sestu þarna á stólinn og leyfðu mér að klippa af þér mestu angalýjurnar“.  B.  Gæluorð um krakka.

Angi (n, kk)  A.  Grein; sproti; útvöxtur.  „Þetta er angi af sama meiði“.  B.  Armur; handleggur; tota; leggur.  „Réttu mér angann svo ég geti dregið þig upp“.  „Þetta er bara angi af sama máli“.  C.  Gæluorð um barn eða mann.  „Er þér kalt, anginn litli“?

Angi (l)  Milt blótsyrði/áhersluorð.  „Angi finnst mér leiðinlegt að heyra þessar fréttir af honum“!  „Það var angi lírið að hafa á þeim miðum“.

Angiljubein (n, hk)  Klumbubein; klumba; eyruggabein; vaðhornsbein; bein það í fiski sem liggur niðurmeð tálknopinu aftantil og eyrugginn festist í.  Framúr angiljubeinum neðanverðum er lífoddinn.  Við slægingu er skorið á milli beinanna.  Beinið er oftar kallað klumba eða klumbubein í Kollsvík.

Anginn (n, kk)  Skrattinn; fjárinn; milt blótsyrði.  „Hvur anginn; nú eru kýrnar komnar í garðinn“!  „Angann er nú hundurinn að gera“?

Angist (n, kvk)  Skelfing; örvænting; sálarkvöl. 

Angistarsvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir angist/ofsakvíða/sálarkvöl.  „Vertu nú ekki með þennan angistarsvip; það hlýtur að rætast úr þessu eins og öðru“

Angra (s)  Ergja; fara í taugar; pirra.  „Hættu nú að angra kálfinn; hann gæti annars launað þér það síðar“.

Angrar það í ellinni sem ungur gerði (orðatiltæki)  Menn sjá oft eftir því á efri árum að hafa aðhafst (eða ekki aðhafst) eitthvað á yngri árum. 

Angur (n, hk)  Ergelsi; þungur hugur; hryggð; sorg.  „Mitt helsta angur útaf þessu er að hafa ekki skammað þá nógsamlega“.

Angurgapaháttur (n, kk)  Glannaleg/aulaleg hegðun.  „Svona angurgapahátt vil ég ekki sjá“!

Angurgapi (n, kk)  Auli; bjálfi; kjáni.  „Skelfilegur andskotans angurgapi er þetta; sér hann ekki féð“?!

Ankannalega (ao)  Undarlega; afbrigðilega.  „Mér fannst kýrin haga sér nokkuð ankannalega“.

Ankannalegur (l)  Einkennilegur; skrýtinn.  „Mér finnst þetta nú dálítið ankannalegt háttalag“.

Ankanni (n, kk)  Galli; vöntun.  Ekki notað sérstætt í seinni tíð.

Anker / Ankeri (n, hk)  Sjá akkeri.  Öllum orðmyndunum brá fyrir.  Anker var einnig annað orð yfir kvartil.

Anki (n, kk)  Ágalli; galli; vöntun.  „Ég sé ýmsa anka á þessari fyrirætlun“.

Ankolli / Ankoti / Ankúri (n, kk)  Upphrópun; áhersluorð; mildun á andskoti.  „Ankolli er ég hræddur um að hann sé að fara að rigna“.  „Ankúrans gleymska var þetta í mér“!

Anmelda (s)  Tilkynna; tjá; segja frá.  „Fannstu tré í fjörunni?  Þú ættir að anmelda það við hann föður þinn“.

Anmerkja (s)  Greina; taka eftir; formerkja; sjá.  „Ég gat ekki anmerkt að þetta hefði verið gert“.

Anna (s)  Sinna; komast yfir; geta.  „Þegar hugsað er til baka og jafnframt hugsað til kvenna nútímans, með öll þau þægindi sem nú bjóðast, finnst manni næsta óskiljanlegt hvernig hún gat annað öllum sínum störfum.... “  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Annað eins (orðtak)  A.  Svipað; líkt.  „Þetta var svo stór lúða að ég hef bara ekki séð annað eins“.  B.  Sami fjöldi; sama magn.  „Auk hinna heimilisföstu Kollsvíkinga fjölgaði þar um u.þ.b. annan eins fjölda á vorin þegar vertíð hófst, því í Kollsvík var mikil útgerð á meðan árabátar voru gerðir út, enda stutt á miðin“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).

Annað hljóð í strokknum (orðatk)  Öðruvísi viðbrögð/undirtektir/umtal.  „Það var allt annað hljóð í strokknum eftir að hann hafði ráðfært sig við konuna“.  Vísar til þess að hljóðið í strokknum breytist þegar rjóminn strokkast í smjör.

Annað slagið /annað veifið / annað kastið (orðtak)  Öðru hvoru; við og við.  „...en við gátum skipst á að rétta úr okkur og standa annað slagið“  Frásögn ÁH  (ÓS; Útkall við Látrabjarg).  „...og annað veifið hreytti hann úr sér ónotum“   (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).  „Annað kastið heyrðust frá honum háværar hrotur“.

Annað uppi á teningnum (orðtak)  Um breytt viðhorf/ breytta afstöðu.  „Hann var alveg andsnúinn þessu í gær, en núna finnst mér allt annað uppi á teningnum hjá honum“.  Líking við teningaspil.

Annað veifið (orðtak)  Öðru hvoru; stundum.  „Hann var niðursokkinn í verkið en leit þó upp annað veifið og gáði til veðurs“.  Veif merkir veifa eða sveifla.  

Annaðhvort (st)  Annað af tveimur.  „Nú er annaðhvort að gera; að eyða tímanum í að skarka hér á steindauðu grunninu; eða keyra dýpra“.

Annaðhvort er að vera maður eða mús (orðatiltæki)  Viðhaft þegar maður hleypir í sig kjarki til að gera það sem ekki er árennilegt. 

Annaðtveggja (st)  Annað af tveimur.  „Leiðin Gjögrar yfir Örlygshöfn nálægt sjó að þjóðveginum við Hafnarmúla var um skeið talin annaðtveggja; sýsluvegur eða þjóðleið“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; alm.hreppsfundur 14.04.1959; ritari ÖG). 

Annar A.  (to)  Raðtala af tveir.  „Ég er annar í aldursröðinni af fimm bræðrum“.  B.  (fn)  Stytting af annarhvor.  „Nú fer annar okkar upp í hlíðina og gætir þess að féð leiti ekki neðan; meðan hinn rekur á eftir“.  C.  Ekki sá sem um er/var rætt.  „Hann sendi annan í staðinn fyrir sig“.  „Nú heyrist mér vera komið annað hljóð í strokkinn“!  Hann segir eitt í dag og annað á morgun“!

Annar handleggur (orðtak)  Annað mál/viðfangsefni. „Það er minnsta málið að skjóta þennan máf.  Hitt er svo allt annað handleggur að verka hann almennilega“.

Annar í jólum (orðtak)  26. desember.  „Á annan í jólum fórum við á næstu bæi, eða einhverjir komu til okkar, og var þá spilað og spjallað“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).  „Annan í jólum var oftast farið í jólaboð til nágrannanna“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). 

Annar til (orðtak)  Annar í viðbót; einn enn.  „Ég náði þessari tófu, og annarri til sem rann á niðurburðinn“.

Annar vitleysingurinn/asninn/bjálfinn/bjáninn/aulinn frá (orðtök)  Annar heimskur til viðbótar.  „Það er ekki nóg með að forsætisráðherrann sé svona skammsýnn; heldur er landbúnaðarráðherrann engu betri!  Það er nú annar aulinn frá“!

Annarhver (ao)  Annar af tveimur; á víxl.  „Þá tók sauðburðurinn við og við urðum að smala út í Breiðavík, ekki sjaldnar en annanhvern dag“  (IG; Æskuminningar). 

Annarhvor (fn)  Annar tveggja; annar af tveimur.  „Annarhvor okkar fer niður; hinn heldur við“.

Annarlega (ao)  Undarlega; ekki eins og vant er.  „Mér líður hálf annarlega“.

Annarlegur (l)  Undarlegur; grunsamlegur; óvenjulegur.  „Mér sýndist hann vera í hálf annarlegu ástandi.  Hugsanlega var hann byrjaður að súpa á flösku“.

Annars (ao)  Að öðrum kosti.  „Þú ræður hvort þú hirðir þetta; annars hendi ég því“.  „Við ættum kannski að garða flekkinn; hvernig var annars veðurspáin“?

Annarsdagskvöld (n, hk)  Kvöld annars dags jóla/ annars í jólum.  „Á annarsdagskvöld var haft jólatré fyrir alla krakka í Víkinni“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). 

Annarshugar (l)  Utan við sig; hugsi.  „Það dugir ekki að vera svona annarshugar við verkið“.

Annarskonar (l) Af öðru tagi; öðruvísi.  „Hér getum við notað annarskonar efni í klæðninguna“.

Annarskosti (ao)  Að öðrum kosti, annars.  „Auðvitað tekur þú hrútinn; annarskosti þarf ég að farga honum“.

Annarslagið (ao)  Öðru hvoru; við og við; annað slagið.  „Maður fer út annarslagið og hugar að lambfé“.  Eflaust sama og „annað slagið“, en var sagt á þennan hátt í munni margra; skýrt og greinilega.

Annarslags (l)  Öðruvísi; frábrugðinn.  „Mér sýnist þetta vera einhver annarslags málning“.

Annarsvegar (l)  Öðrumegin; að öðru leytinu.  „Annarsvegar er málað en hinsvegar ekki“.

Annasamt (l)  Miklar annir; snúningasamt; mikið að gera.  „Það hefur verið all annasamt þessa vikuna“.

Annast / Annast um (s/ orðtak)  Sjá um; taka ábyrgð á.  „Tvær konur og unglingar önnuðust heyskapinn“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Annatími (n, kk)  Tímabil mikilla anna hjá fólki.  „Sauðburðurinn var mikill annatími“.

Annálaður (l)  Orðlagður; víðfrægur; alþekktur; umtalaður í ritum.  .  „Pabba þótti ekki mikið mál að ganga langar vegalengdir, því hann var annálaður göngugarpur; bæði léttur á fæti og hljóp frekar en gekk.  Skemmti hann sér stundum við það að ganga þá af sér sem þyngri voru til göngu“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG).  „Mun Kristján (Ásbjörnsson á Grundum) hafa varið landlegum til garðhleðslunnar og nýtt starfskrafta áhafnar sinnar, enda annálaður ákafa- og keppnismaður“  (HÖ; Fjaran). 

Annáll (n, kk)  Skráning viðburða yfir tímabil.

Annálsverður (l)  Mjög merkilegur; einstakur; svo merkur að færa mætti til annála.

Annes (n, hk)  Útnes; skagi; stórt nes sem skagar langt í sjó fram.  Hljóðbreyting úr „andnes“; þ.e. nes sem er yst/sérstætt.

Annesjabyggðir (n, kvk, fto)  Byggðir sem eru á annesjum/útnesjum.

Annesjaröst / Annesjastraumur (n, kvk/kk)  Sjávarröst/sjávarstraumur við annes.  Sjávarfallastraumur kringum Ísland er ekki hraður að jafnaði; líklega um 0,1-0,3 m/sek að jafnaði þegar harðast er.  Þar sem nes gengur langt fram í strauminn verður hann mun hraðari, þar sem sami massi þarf að komast framhjá.  Þannig hagar víða til við Vestfirði.  Öflugasta annesjaröst landsins er Látraröst, þar sem straumur fer líklega í 4-7 m/sek þar sem hraðast verður; og sé þá mótvindur er röstin ófær nær öllum skipum.  Við Blakknes er Blakknesröst, sem einnig getur orðið hröð og skeinuhætt.  Fyrir Vestfjörðum og Austfjörðum er öflugt straumasvæði sem nær iðulega langt til hafs.  Þessi orka mun verða nýtt þegar viðeigandi tækni hefur verið þróuð.  Kollsvíkingurinn Valdimar Össurarson hefur fyrstur manna þróað sjávarfallahverfil sem nýtist til þess.

Annesjavirkjun (n, kvk)  Tæki eða tækjasamstæða sem nýtir orku annesjarasta til raforkuframleiðslu.  Margir aðilarvíða um heim þróa tækni til nýtingar hröðustu sjávarfallastrauma í sundum.  Unnt er að beita til þess hefðbundnum skrúfuhverflum.  Annesjarastir eru yfirleitt mun hægari og þar þarf aðra tækni.  Hverflar Kollsvíkurfyrirtækisins Valorku eru (2018) komnir lengst í þeirri þróun á heimsvísu.  Þeir eru þverstöðuhverflar á tveimur eða fleiri ásum.  Þeir verða líklega langstærstu hverflar heims, enda þurfa þeir að smala saman dreifðri orku á hagkvæman hátt og með litlum snúningshraða.  Virkjunin verður öll neðansjávar og er eina þekkta virkjanatæknin án nokkurra fyrirsjáanlegra neikvæðra umhverfisáhrifa.

Annexía (n, kvk)  A.  Útkirkja; oftast alkirkja sem ekki er prestsetur eða höfuðkirkja sóknar.  B.  Afleidd merking; útibú; afnotajörð; sumarbústaður.  „Ætli hann sé ekki á annexíunni þessa stundina.

Annmarki (n, kk)  Vandkvæði; galli.  „Ég sé nú ýmsa annmarka á að þessu“.  „Þessari nýju tækni fylgdu ýmsir annmarkar; t.d. vildi verða illa slegið milli þúfna, og grasgefnar þúfur jafnvel skornar af“.

Annmörkum háð (orðtak)  Vandkvæðum bundið; takmörkunum undirorpið.  „Þá var valdsmannsvalið engum annmörkum háð“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Eins og að líkum lætur voru vöruflutningar á reiðingshestum yfir fjallvegi seinlegir og ýmsum annmörkum háðir“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Annir (n, kvk, fto)  Mikið vinnuálag.  „…hann hefði talað við vegaverkstjóra og beðið hann að mæta á þessum fundi en hann taldi sér það ekki fært vegna anna“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Annríki (n, hk)  Annir; mikil vinna.  „Þegar leitarmenn af Bjarginu höfðu skilað sér til réttar og búið var að reka inn safnið sem þeir komu með, varð gjarnan nokkurt hlé á annríkinu“  (PG; Veðmálið). 

Annt um (orðtak)  Vænt um; kær.  „Farðu varlega með könnuna; mér er verulega annt um hana“.

Ansa (s)  Svara.  „Hversvegna ansaðirðu ekki þegar ég kallaði í þig“?  Nú á undanhaldi fyrir „svara“.

Ansakorn / Ansi /Ansvíti /Ansansári (ao)  Áhersluorð; stytting og mildun úr andskoti.  „Nei, ansakornið“.  „Ansansári er nú gott að hafa lokið þessu“.  „Þetta var ansi mikið áfall“.

Ansansekkisen (l)  Milt blótsyrði/áhersluorð; töluvert mikið notað.  „Ansansekkisen þoka er þetta; ég hélt að við ættum að vera komnir að bólinu“!

Ansansvandræði / Ansansvesen (n, hk)  Slæm uppákoma; vandræði; óæskileg fyrirhöfn.  Oftast notað sem mild upphrópun.  „Ansansvesen er þetta!  Það tefur okkur töluvert að þurfa að skipta um dekk undir bílnum“.

Ansi (ao, n, kk)  Mjög milt blótsyrði/áhersluorð, notað ýmist sem atviksorð eða nafnorð.  „Mikið ansi er þetta skemmtileg mynd“.  „Ja hver ansinn; nú er ég aldeilis hissa“!

Ansi hreint (orðtak)  Mjög; afar.  „Þetta hefur verið ansi hreint kalt vor“. 

Anskolli (n, kk)  Milt blótsyrði/áhersluorð.  „Anskollans vandræði eru þetta“!

Anskúrinn (n, kk, m.gr)  Miltblótsyrði/áhersluorð; anskollinn; fjárinn.  „Anskúrinn hefur nú orðið af pípunni minni og tóbakinu“?  Einnig hver anskúrinn.

Anstalta (s)  Aðhafast; gera; fást við.  „Hvað hefur þú verið að anstalta í seinni tíð“?

Anstíga (s)  Fara; eigra.  „Hvurt ert þú að anstíga; er eitthvað eggjasnudd á döfinni“?

Anstígandi (s)  Gangandi; röltandi.  „Nú, þarna kemur hann anstígandi, þá geturðu rætt við hann“.

Ansvíti (ao)  Áhersluorð.  „Hann er orðinn ansvíti kaldur í tíðinni“!  „Ansvítans vandræði eru þetta“!

Antigna (s)  Andtigna; bölva; fara niðrandi orðum um.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).  Líklega hefur þetta í upphafi verið „and-tigna“, en runnið saman í framburði.  Heyrðist ekki notað í seinni tíð.

Antípat (n, hk)  Andúð; tortryggni; ímugustur.  „Ég hef alltaf hálfgert antipat á þessum gúrkum og viðlíka grænfóðri sem menn leyfa sér að nota í mannamat nú til dags“.

Antóníanar (n, kk)  Rómverskir koparpeningar, slegnir um 270-305 f.Fr og kenndir við Antóníus Caracalla sem þá var rómverskur keisari.  Þrír antóníanar hafa fundist á Austfjörðum, óslitnir en líklega lengi legnir.  Tveir fundust í rústum frá landnámstíma í landi Bragðavalla í Hamarsfirði, en einn á söndum við Hvalnes í Lóni.  Einn þannig peningur fannst 1966 í Hvítárholti í Árnessýslu og annar í Skansinum í Vestmannaeyjum 1992.  Engin skýring hefur fundist á veru þessarar gömlu myntar hérlendis en því hefur verið velt upp hvort skip hafi hrakist hingað frá Bretlandi, sem var rómverskt skattland á þeim tímum sem myntin var slegin.

Antúrast (s)  Vafstra (skv. Orðab.Mennsj).  Orðið er ekki notað í seinni tíð.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Apa (s)  A.  Apa/hafa/herma eftir.  „Það er óþarfi að apa hvert orð sem ég segi“!  B.  Gera að fífli.  „Margan hefur auður apað“.

Apa/herma eftir (orðtak)  Hafa eftir; endurtaka það sem haft er fyrir.  „Vertu nú ekki að apa eftir barninu“!  „Hann var leikinn í að herma eftir karlinum“.

Apakattalæti (n, hk, fto)  Fíflalæti; bjánagangur.  „Verið ekki með þessi apakattalæti í fjárhúsunum krakkar“.

Apaköttur (n, kk)  A.  Hálfapi; smávaxinn api.  B.  Líkingamál; niðrandi heiti á manni sem þykir mjög heimskur/kjánalegur.  „Ég ansa nú ekki þeim apaketti; hann hefur ekki hundsvit á þessu“!

Apalegur (l)  Kjánalegur.  „Mér finnst ég eitthvað svo apalegur í þessum jakka“!

Apaspil (n, hk)  Bjánagangur; fíflalæti.  „Byrjar nú karlinn með sitt apaspil; skyldi hann aldrei fullorðnast“?

Api (n, kk)  A.  Dýrategund sem skyldust er mönnum; prímati.  B.  Niðrandi líking; kjáni; auli.

Apótek (n, hk)  A.  Kista/skápur með lyfjum, umbúðum og öðru til lækninga.  B.  Lyfjabúð.

Apótekari (n, kk)  Lyfsali.  „Langt er síðan hómópatar björguðu mannslífum, og nú eru sjálfstæðir apótekarar einnig að ganga fyrir ætternisstapann“.

Apparat (n, hk)  A.  Tæki; tól.  „En er þá ekki ansvítans apparatið bilað“?  (G.Hagalín; Sonur bjargs og báru).  B.  Óáreiðanleg manneskja.  „Sumir voru tortryggnir gagnvart karlinum og álitu hann viðsjárvert apparat“.  „Ég kann að mjólka belju, ég kann að elda mat;/ konur þekkja enga mannasiði./  Ég kæri mig sko ekki um kvenmannsapparat,/ kom því brott og láttu mig í friði“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Appelsínulaski (n, kk)  Það sem nú er oft kallað „bátur“; geiri úr appelsínu.  „Gefðu mér laska af appelsínunni“.

Appelsínudjús (n, kk)  Appelsínuþykkni til þynningar með vatni.  „Kauptu einn brúsa af appelsínudjús“.

Aprílgabb (n, hk)  Í Kollsvík, líkt og víða um heim, hefur stundum verið iðkað að plata auðtrúa fólk til einhverra viðvika og hafa af því skemmtun.  Siðurinn hefur tíðkast víða um heim og á rætur að rekja til nýársfagnaðar á miðöldum.  Áramót voru þá á vorjafndægri, en voru færð til 1.janúar með ákvörðun Gregoríusar páfa seint á 16.öld.  Aprílgabbið er leifar  þeirra ærsla sem þá tíðkuðust.  Sjá hlaupa apríl.

Apríllok (n, hk, fto)  Lok aprílmánaðar.  „Ám er gefið fram á burð allvíðast, og aldar inni frá því um hátíðar og framundir apríllok“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Aragrúi / Arasægur (n, kk)  Mikill fjöldi; urmull; dobía; býsn; fæla.  „Þarna var aragrúi af fólki samankominn“.  Ar er fornt heiti yfir ryk, og af þeim orðstofni er einnig sögnin að arka  og lýsingarorðið ern.

Arbæða (s)  Vinna; starfa.  „Hvað ert þú að arbæða þessa stundina“?  Algeng sletta í máli Kollsvíkinga.

Arbæðislaun (n, hk, fto)  Vinnulaun.  „Mér fannst sanngjarn að strákurinn fengi eitthvað í arbæðislaun“.

Arða (n, kvk)  Ögn; nabbi.  „Hann skildi ekki eftir örðu á diskinum“.  „Hér er einhver arða í lakkinu“.

Arðvænlegt (l)  Gróðavænlegt; gróðavegur.  „Það hefur aldrei þótt arðvænlegt að veiða svona bröndur“.

Arfadyngja / Arfabeðja / Arfabingur / Arfabreiða / Arfaflækja / Arfasæng  (n, kvk)  Þykk breiða af arfa; arfaflækja.  „Skelfilegt er að sjá þessa arfabeðju í rófubeðinu“.  „Ég hef enga trú að hann fái kartöflur uppúr þessari arfasæng“.

Arfavitlaust (l)  Mjög heimskulegt; snarvitlaust.  „Þetta er það arfavitlausasta sem ég hef nokkurntíma heyrt“!

Arfgengur (l)  Sem gengur í erfðir/ liggur í ættum.  Oftast notað um eiginleika eða sjúkdóma. 

Arfleifð (n, kvk)  Það sem erfist frá eldri kynslóð til hinnar yngri um aldaraðir.  „Þess vegna er áríðandi að þeir sem eldri eru haldi vísnagerðinni við hjá þeim yngri; svo arfleifðin skili sér“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Arfhluti (n, kk)  Hluti arfs.  „Nokkur systkinanna seldu sinn arfhluta af jörðinni“.

Arfi (n, kk)  Samheiti yfir blóm sem gjarnan vaxa í görðum og þykja óæskilegt illgresi.  Einkum er þar um að ræða haugarfa og hjartarfa (sjá þar).

Arfleiða (s)  Láta fá í arf.

Arfleifð / Arfur (n, kvk)  Það sem látið eftir sig í arf.  Sjá föðurleifð.

Artaki (n, kk)  A.  Sá sem tekur við arfi/ hlotnast arður.  B.  Eftirmaður í starfi/hlutverki.

Arg (n, hk)  A.  Garg; hátt og hvellt óhljóð; öskur.  B.  Annir; puð; stórt verkefni.  „Ég feginn því að þetta arg er loksins frá“.

Arg og læti / Arg og vesen (orðtök)  Argaþras; umstang; óreiða.  „Mikið er gott að komast úr arginu og látunum í borginn“!

Arga (s)  A.  Öskra; garga.  B.  Reka fé.  „Farið þið fram í Vík og argið fénu niður á Umvarpið“.

Argast (s)  Skammast; suða; agnúast.  „Það þýðir ekkert að vera að argast útaf þessu“!  „Ég var ekkert að argast í honum útaf þessum mistökum“.

Argasti (l, est)  Versti; mesti; hrikalegasti.  Notað sem áhersluorð með ýmsum heitum.  „Þetta er argasta þvæla“!

Argasti dónaskapur (orðtak)  Mjög óforskammað/dónalegt/frekt.  „Svona framkoma gagnvart landsbyggðinni er ekkert annað en argasti dónaskapur“!

Argasta puð/púl (orðtök)  Mikil erfiðisvinna.  „Þetta var argasta púl; maður er bara kófsveittur“!

Argasta villutrú (orðtak)  Mjög mikil bábilja/kredda; afvegaleidd pólitík.  „Það er auðvitað hin argasta villutrú að hverjum landskika sé best stjórnað af bölvuðu Reykjavíkurvaldinu“!

Argaþras (n, hk)  Umstang; vesen; hringiða.  „Ég er feginn að vera kominn hingað vestur í kyrrðina; úr þessu argaþrasi fyrir sunnan“.

Argur (l)  A.  Núverandi merking; pirraður; irriteraður; reiður.  „Það þýðir ekkert að vera svona argur yfir þessu“.  B.  Fyrri merking; huglaus; latur.  „Skessan sem bjó í Síðaskeggi utan Lambavatns var óvættur mikill á sinni tíð.  Eitt sinn elti hún séra Jón inn allan Rauðasand.  Hann bjargaðist naumlega í kirkjuna í Saurbæ og bjóst til að hringja kirkjuklukkum.  Skessan spyrnti þá fæti í kirkjugarðinn svo hart að í hann kom stórt skarð; leit á það og mælti „Stattu þá aldrei argur“.  Síðan hefur kirkjugarður í Saurbæ aldrei staðið óskemmdur um langan tíma“ (Þjóðsaga; sögn SG frá Lambavatni).  Til er sú útgáfa að þarna hafi verið um álfkonu að ræða, í stað skessu, og að hún hafi búið í Skaufhól, stuttu neðan Síðaskeggs.

Argvítuglega (ao)  Með argvítugum hætti; hatrammlega; hörkulega.  „Hann barðist argvítuglega gegn þessu“.

Argvítugur (l)  Harðvítugur; erfiður.  „Hann lenti í argvítugum þrætum útaf þessum skoðunum“.

Aría (n, kvk)  A.  Hluti úr söngverki.  B.  Í líkingamáli; kjaftavaðall; söngl.  „Tekur hann nú eina aríuna enn“!

Arka (s)  Ganga.  „Hann arkaði eitthvað norður í Melarendur að gá að tvílembunni“

Armband (n, hk)  Hringur/band/festi um handlegg/úlnlið, fyrrum til skrauts, en síðar oft til að festa armbandsúri.

Armingi (n, kk)  Aumingi; vesalingur.  „Hann er nú ekki beisinn bógur, þessi armingi“.

Armslengd (n, kvk)  Lengd útrétts handleggs.  „Maður sá varla armslengd frá sér í þokunni“!

Armur (n, kk)  A.  Handleggur.  „Hann tók málið upp á sína arma“.  B.  Grein; álma; afleggjari. 

Armur (l)  Aumur; vesæll; niðurbrotinn.  „Karlgreyið er óttalega armur eftir þennan missi“.

Armæða (n, kvk)  Mótlæti; ami; bölsýni.  „Óttaleg armæða er þetta.  Hvernig væri að gera eitthvað í málunum“?

Armæðast (s)  Kvarta; mæðast; fjargviðrast.  „Það þýðir ekkert að armæðast yfir þessum flokki; þú kaust þetta“!

Armæðuhjal (n, hk)  Vonleysislegt tal; úrtölur; nöldur.  „Ég hlusta ekki á neitt armæðuhjal; við hristum svona smámuni fram úr erminni“!

Armæðulegur (l)  Sorgmæddur; niðurdreginn.  „Ósköp ertu eitthvað armæðulegur á svipinn; hvað er að“?

Arnarboði (n, kk, sérn)  Boði undan Grundarbökkum sunnanverðum; stutt frá landi.  Þar varð fyrsta skráða sjóslysið á Íslandi.  Svo segir í Landnámabók; „En Kollr hét á Þórr; þá skildi í storminum og kom hann þar sem Kollsvík heitir, og braut þar skip sitt“  (Landnámabók).  Samkvæmt munnmælasögum hét Örn sá sem þarna var stýrimaður.  „Sé sögnin sönn má velta því fyrir sér hvort tilviljun hafi ráðið strandstaðnum eða hvort Kollur hafi ætlað að freista þess að lenda knerri sínum; e.t.v. löskuðum eftir óveðrið, í vari við Arnarboða.  Þá er að því að gæta að stýrimaður skips var æðsti stjórnandi þess, og því er spurning hvort landnámsmaðurinn hét í rauninni Örn, en hafi tekið viðurnefnið „Kollur“ annaðhvort af því að hann var kollrakaður munkur eða af Núpnum, sem er einkennisfjall Kollsvíkur“ (VÖ).  Arnarboði kemur upp þegar brostið er háflóð.

Arnarsjón (n, kvk)  Mjög/einstaklega góð sjón.  „Hann hefur slíka arnarsjón að engu er líkt“.

Arngerðarveður (n, hk)  Þétt snjódrífa í logni og skammdegi.  Orðið var lengi notað í Rauðasandshreppi, þó nú heyrist það varla.  Það á þann uppruna að Arngerður nokkur var vinnukona á Geitagili á 19. öld.  Hún eignaðist barn með húsbónda sínum, sem tók af henni barnið en sendi hana í vinnumennsku í Vatnsdal.  Söknuðurinn varð til þess að hún strauk eitt kvöldið, meðan húslestur stóð, og hvarf.  Mun hún hafa drukknað þegar hún reyndi að komast fyrir Hafnarmúlann, sem þá var mikill farartálmi.  (Heimild: MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu).

Arni (ao)  Í enda aukasetninga til vorkenningar; líklega afbökun af „þarna“.  „Hann er nú að reyna að hjálpa til, ræfillinn sá arna“.  „Hún er nokkuð seig, stelpurófan sú arna“  Skyld þessu var endingin atarna, en hvorttveggja er sennilega runnið af orðinu „þarna“.

Arnika (n, kvk)  Lyf úr jurtinni arniku (fjallagulblóm; Arnica montana).  Notað sem áburður á bólgur og mar.

Arnhöfðótt (l)  Litur á sauðfé:  Dökkur bolur en höfuð að meira og minna leyti hvítt, ásamt oft fótum.

Arrestera (s)  Taka höndum/fastan.  Dönskusletta.

Arresti (n, hk)  Fangelsi; hald; svarthol; karphús.  „Þegar afi minn var ungur þekkti hann son Steinunnar og Bjarna.  Hún var í arresti inni á Barðaströnd og átti barnið þar“.  (KG; Frá Rauðasandi til Rússíá). 

Arsenik (n, hk)  Eiturefni sem notað er m.a. í rottueitur.  Finnst í tóbaksreyk.

Art (n, kvk)  Eðli; manngerð; hvöt. Stundum góð….;  „ Hann er alltaf sama artin við hana móður sína, blessaður“!  … eða miður góð: „Alltaf skal vera sama artin í þessum sjálfstæðismönnum þegar kemur að velferðarmálunum“!

Arta (s)  Haga sér; sinna um.  „Við skulum sleppa kindinni út með undirvaningin, og sjá hvernig hún artar“. 

Arta uppá (orðtak)  Varðveita; viðhalda; sinna um.  „Það er óefað ómaksins vert að arta betur en gert hefur verið upp á þá sérstæðu menningu sem varðveittist í Kollsvík lengur en annarsstaðar“.

Artargrey / Artarskinn / Artarskarn (n, hk)  Gæluorð um tryggan hund og stundum um vinalega manneskju.  „Hún er nú að reyna að gera sitt gagn og halda fé frá túnunum, artarskinnið“.  „Hvolpurinn biður alltaf um að fara út til að gera stykkin sín; hann er þó hreinlátur, artarskarnið“.

Artarlegheit (n, hk, fto)  Góðmennska; alúð; hlýja; ræktarsemi.  „Hún gerði þetta af miklum artarlegheitum“.  „Þau hafa alla tíð sýnt okkur mikil artarlegheit“.

Artarlegur (l)  Góðviljaður; umhyggjusamur.  „Hún er alltaf jafn artarleg við hana ömmu sína“.  „... mikið hefði nú Guðbjartur verið artarlegur að lofa honum með á sjóinn“  (ÁE; Ljós við Látraröst).

Artarsamur (l)  Hugulsamur; umhyggjusamur; trygglyndur.  „Alltaf ertu jaft artarsamur, kúturinn minn“.

Artarsemi / Artugheit (n, hk, fto)  Umhyggja; góðvild; hlýja.  „Með þessu sýndi hann einstök artugheit“.

Artuglegur / Artugur (l)  Vel innrættur; góðgjarn.  „Hann hefur reynst artuglegur við nágrannana“.

Asafeitur (l)  Spikfeitur; bráðfeitur; of feitur.  „Hann var orðinn svo asafeitur að hann komst varla í stólinn“.

Asafiski (n, hk)  Mikil vild á fiski; mjög góð veiði.  „Við þarna á Blettunum og lentum í asafiski“.

Asahláka (n, kvk)  Skyndileg þýða, þannig að leysingavatn hleypur úr farvegum og snjór hleypur í krapaelg.

Asbest (n, hk)  Steintegund sem myndar þráðlaga kristal.  Reyndar getur verið um nokkrar steindir að ræða.  Pressað asbest í plötum var allmikið notað sem byggingarefni áðurfyrr; allt þar til uppgötvaðist að innöndun asbestryks er verulega heilsuspillandi.  Það sest fyrir í lungum og myndar svonefnt steinlunga, sem aftur leiðir iðulega til krabbameins. 

Asbestplata (n, kvk)  Plata úr pressuðu asbesti.  „Asbestplöturnar á vélarskúrnum voru farnar að brotna.  Við strákarnir muldum eitt brotið í duft og notuðum fyrir neftóbak.  Slíkt þætti hæpin hollusta í dag, en hálfri öld síðar erum við þó enn við hestaheilsu; allir stakir bindindismenn á allt tóbak“!

Asi (n, kk)  Flýtir; mikil hraðferð; flumbrugangur.  „Skelfingar asi er á þér.  Viltu alls ekki kaffisopa“?

Aska (n, kvk)  Brunnar efnisleifar; fast efni sem situr eftir þegar annað hefur brunnið, t.d. í eldstó/hlóðum.  „Fyrrum voru bjargfuglsegg oft geymd í þurri ösku um langan tíma“.

Askasleikir (n, kk)  Nafn á einum jólasveinanna; þeim sjötta í röðinni, samkvæmt vísu Jóhannesar úr Kötlum.  Askar voru fyrrum settir fyrir hund og kött til þrifa áðurfyrr, eftir að eigandinn hafði lokið við mat sinn.  Askasleikir lá þá gjarnan undir rúmi og reyndi að verða þeim fyrri til að sleikja leifarnar.

Askja (n, kvk)  Lítið ílát úr veigalitlu efni.  Sjá handagangur í öskjunni.

Asklok (n, hk)  Lok á/af aski.  Asklok voru gjarnan mikið skreytt og með stöfum eigandans.

Askur (n, kk)  Tréílat með loki, sem matast var úr áður en nútíma diskar urðu algengir; nói.  Askar voru oft mjög listilega útskornir, enda einn verðmætasti gripur sem hver maður átti.  Hver átti sinn ask; í hann var honum skammtað á matmálstímum, og út honum borðaði eigandinn með spæni og sjálfskeiðung (vasahníf).  „Það voru smíðaðar hagldir, rokkar, askar, trog, rjómadollur og strokkar.  Jón Torfason, afi minn, smíðaði flest ílát í sveitinni.  Það voru glettilega fallegir askarnir útskornir“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Askvaðandi (l)  Skálmandi ; rigsandi.  „Réttarstjórinn kom svo askvaðandi og skipaði fyrir um dráttinn“.

Asnagangur / Asnaháttur (n, kk)  „Bölvaður asnaháttur var þetta í mér að gleyma markatönginni“!

Asnakjálki (n, kk)  Auli; kjáni.  „Óttalegur asnakjálki geturðu verið“!

Asnalega (ao)  Furðulega; bjálfalega.  „Mér líður hálf asnalega í þessum stuttbuxum“.

Asnalegur (l)  Bjánalegur; hjákátlegur.  „Þetta er asnalegasta uppátæki sem ég hef nokkurntíma heyrt um“.

Asnalæti (n, hk, fto)  Bjánagangur; hálfvitagangur; ærsl.  „Vertu nú ekki með þessi asnalæti“!

Asnann má alltaf þekkja á eyrunum (orðtatiltæki)  Speki sem vísar til þess að sjá má lesti manna á ýmsu í hegðun þeirra og orðum.

Asnaskapur (n, kk)  Bjánaskapur; heimska; hugsunarleysi.  „Hvaða asnaskapur er þetta í þeim“?!

Asnast (s)  Aulast; álpast.  „Fjandann var hann að asnast í róður í þessu útliti; þetta var bara hreint ekkert vit“!

Asnast til (orðtak)  Drattast til/í; aulast/ráfast til að gera.  „Ég hefði átt að asnast til að hafa varadekkið með“.

Asnastrik (n, hk)  Aulaháttur; ógáfuleg athöfn.  „Svona asnastrik ná ekki nokkurri átt“!

Asni (n, kk)  Hófdýr af ættkvísl hesta, en minni en þeir.  Ekki til á Íslandi, en víða notaður erlendis, einkum í Miðausturlöndum, til burðar og dráttar.  Mjólk og kjöt er einnig nýtt.

Asskolli (n, kk)  Upphrópun, afbökun úr andskoti.  „Mikið asskolli var strákurinn fljótur að hlaupa“.

Asskotakornið (n, hk, m.gr)  Milt blótsyrði/áhersluorð.  „Nei asskotakornið að ég trúi því“!

Asskoti (n, kk)  Upphrópun; afbökun úr blótsyrðinu andskoti.  „Asskoti væri nú gott að hressa sig á kaffibolla“.

At (n, hk)  A.  Puð; fyrirgangur.  „Maður verður pungsveittur á þessu ati“.  B.  Litur.  „Maður er allur útataður“.

Ata / Ata út (s/orðtak)  Sóða út; lita; útskíta.  „Kýrin náðist loks upp úr skurðinum; ötuð efju upp á bóga“.  „Ertu strax búinn að ata út fötin sem þú varst að fara í áðan“?!

Ataður (l)  Útataður; klístraður; skítugur.  „Stakkurinn var allur ataður tjöru svo ég henti honum“.

Atarna (ao)  Þarna.  Hikorð sem heyrðist aldrei nema í vorkennandi tón:  „Hann var óttalega sár eftir móðurmissinn, greyið atarna“.  „Hún hefur nú bara verið þæg í dag; skinnið atarna“.  „Svínabestið atarna“.  Sjá „sá arna“ og „greyið/skinnið atarna“.  Stytting og hljóðbreyting úr „það þarna“.

Atast í (orðtak)  A.  Hrekkja; stríða; gera at í.  „Veriði nú ekki að atast í karlinum alltaf, strákar“!  B.  Ganga ötullega fram í verki/vinnu.  „Hann er að atast í heyskap hér úti á túni“.

Atbeini / Atfylgi (n, kk/hk)  Tilverknaður; barátta.  „Þessi árangur náðist einkum vegna hans atfylgis“.  „Fyrir hans atbeina var þetta látið eftir“.

Atburður (n, kk)  Avik; viðburður; tilvik.  „Þetta þótti all óvanalegur atburður“.

Atferli (n, hk)  Framferði; háttur; hegðun.  „Mér þótti þetta í meira lagi undarlegt atferli“.

Atgangur (n, kk)  Læti; umstang.  „Það er mikill atgangur þegar múkkarnir sjá ræksnum fleygt fyrir borð“.

Atgeirsstafur (n, kk)  Broddstafur; göngustafur með broddi, til stuðnings á göngu, einkum á ís.  „  Atgeirsstafur er ómissandi gangandi manni að vetri til í fjallaferðum“. 

Atgervi / Atgjörvi (n, hk)  Mannkostir; eiginleikar manns.  „Ósköp finnst mér þeir ólíkir að öllu atgervi“.

Athafna sig (orðtak)  Vinna; komast að til að vinna/gera.  „Það er erfitt að athafna sig í þessum þrengslum“.

Athafnamaður (n, kk)  Framkvæmdamaður; dugnaðarforkur.  „Einar í Kollsvík var mikill athafnamaður á sinni tíð.  Hann var í hópi bændahöfðingja á þeim tímum þegar vinnuafl var nægt í sveitum“.

Athlægi (n, hk)  Aðhlátursefni; fífl.  „Ég ætlaði ekki að gera mig að athlægi fyrir allra augum“. 

Athuga / Athuga með (s/orðtak)  Huga að; líta að/eftir.  „Þegar kom fram í endaðan júlí var farið að athuga með berin“  (IG; Æskuminningar). 

Athugaleysi / Athugunarleysi (n, hk)  Sofandaháttur; yfirsjón; hugsunarleysi.  „Það var athugunarleysi hjá mér að gá ekki að þessu“.  „Mun strandið hafa stafað af athugunarleysi“   (TÓ; Sjóslys í Rauðasandshreppi).

Athugandi (l)  Skoðunarvert; umhugsunarvert.  „Það væri kannski athugandi að reyna þetta aftur“.

Athugasemd (n, kvk)  Umsögn; aðfinnsla.  „Ég kann ekki að meta svona athugasemdir“.

Athugavert (l)  A.  Þarfnast frekari skoðunar; gallað; veiklað.  „Ég sá ekkert athugavert við þetta“.  B.  Vert athugunar; íhugunarvert; hugleiðingavert.  „Það væri alveg athugavert að smíða einhverja hækkun á skjólgrindurnar á heyvagninum“.

Athugull (l)  Aðgætinn; tekur eftir; skoðar vel.  „Ég hef trú á honum í þetta; hann er nokkuð athugull“.

Athugunarvert (l)  Vert skoðunar; áhugavert.  „Það leyndist ýmislegt athugunarvert í kistunni“.

Athvarf (n, hk)  Hæli; skjól; friðsæll staður.  „Alltaf er jafn gott að geta leitað athvarfs í Kollsvíkina“!

Athygli (n, kvk)  Eftirtekt; gaumur.  „Ég veitti þessu ekki mikla athygli í fyrstu“.

Athyglisverður (l)  Sem vert er að veita athygli; eftirtektarverður; sérstakur.  „Mér fannst þetta athyglisvert sjónarmið“.

Athæfi (n, hk)  Verknaður; gerð; verk.  „Þetta þótti ýmsum ámælisvert athæfi“.

Athöfn (n, kvk)  Tilstand; serimónía; messa; trúarleg samkoma í ákveðnum tilgangi. 

Atkvæðamikill /-lítill (l)  Hefur mikið/lítið vægi í samfélaginu.  „Hann þótti alltaf fremur atkvæðalítill“.

Atkvæðamaður (n, kk)  Sá sem hefur mikið fylgi annarra; vinsæll maður; mikill foringi.  „Hann hefur aldrei verið mikill atkvæðamaður í mínum augum“.

Atkvæðavægi (n, hk)  Vægi hvers kjósanda í kosningum.  Þar sem land er kjördæmaskipt, líkt og hérlendis hefur verið, er ávallt einhver munur á atkvæðavægi milli kjördæma.  Kjördæmi eru misjafnlega fjölmenn, með breytileika innan kjörtímabils, og fjöldi þingmanna misjafn.  Vægi hvers atkvæðis í þéttbýli er að jafnaði minna en í dreifbýli.  Þó margir vilji hafa vægið hið sama eru aðrir réttilega þeirrar skoðunar að hinar fáu raddir dreifbýlisins þurfi að vera sterkari en hinna, sökum þess að t.d. uppbygging innviða s.s. samgöngukerfa er mun kostnaðarsamari á hvert atkvæði dreifbýlis en þéttbýlis, en slíkt er kostað af sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar.

Atkvæði (n, hk)  A.  Skoðun þegns/félaga sem látin er í ljós við kosningar, t.d. á kjörseðli.  B.  Hluti orðs eða stuttorð, sem inniheldur einn sérhljóða í framburði. 

Atkvæðisbær (l)  Sem getur greitt atkvæði; kjörgengur.  „Fékk hann meirihluta atkvæðisbærra fundarmanna“.

Atlaga (n, kvk)  Árás; áhlaup.  Sjá gera atlögu.

Atlantshafshryggurinn (n, kk)  Sjá tertíer.

Atlega (n, kvk)  Aðlega; staður við hlein sem hægt er að leggja að, s.s. í undirbjargsferðum.  Mér sýnist að þarna í klaufinni gæti verið vænleg atlega.  Þar er hægt að stökkva upp á hleinina á lagi“.

Atlot (n, hk, fto)  A.  Það sem lýtur að einhverju; kringumstæður.  „Mér sýnist öll atlot hníga að þessari niðurstöðu“.  B.  Viðmót; blíða; gælur.  „Hún virtist ekki kunna illa við hans atlot“.

Atlæti (n, hk)  Aðbúnaður; viðmót.  „Við bjuggum þar við gott atlæti“.

Atorka (n, kvk)  Framkvæmdasemi; kraftur.  „Hleðslurnar lýsa fádæma atorku þessa meistara“.  „Sá Halldór bjó á Láganúpi 1703, og var einn hinna kunnu Sellátrabræðra, sem rómaðir voru fyrir atorku og hreysti…“.

Atorkulaus / Atorkulítill (l)  Duglaus; framtakslítill. 

Atorkumaður (n, kk)  Eljumaður; dugnaðarforkur; sá sem kemur miklu í verk.

Atorkumikill (l)  Framtakssamur; öflugur; duglegur. 

Atóm (n, hk)  Frumeind efnis; smæsta stöðuga efniseindin við „eðlilegar“ aðstæður. 

Atómljóð / Atómskáld / Atómskáldskapur (n, hk/kk)  Ljóðagerð sem ekki lýtur ströngum hefðbundnum bragreglum.  Þannig ljóð komu fyrst fram um líkt leyti og menn náðu tökum á kjarnaklofnun efnis, og skýrir það forlið heitanna.  Eitt þekktasta atómskáldið er Jón (Jónsson) úr Vör, frá Patreksfirði.

Atómsprengja (n, kvk)  Kjarnorkusprengja; vopn sem hefur mesta sprengimátt sem þekktur er, en hann fæst með því annaðhvort að valda keðjuklofningi í þungum efniskjörnum eða láta létta efniskjarna renna saman.

Atrenna (n, kvk)  A.  Tilhlaup; það að hlaupa (renna) að einhverju til að ná skriðkrafti í t.d. stökk.  B.  Tilraun; skipti sem reynt er að framkvæma.  „Ég gafst upp eftir nokkrar misheppnaðar atrennur“.

Atriði (n, hk)  Þáttur í einhverju stærra.  „Hann lagði mikla áherslu á þetta atriði í málinu“.  „Mér finnst það mikið atriði að hafa nóg kaffi með sér á sjóinn“.

Atvik (n, hk)  Viðburður; tilvik.  „Mörgum atvikum man ég eftir með Gunnu“  (IG; Æskuminningar).

Atvikast (s)  Gerast; vilja til.  „Það er ekki gott að segja hvernig þetta atvikaðist“.

Atvinna (n, kvk)  Starf; það sem maður vinnur að sér til framfæris. 

Atvinnurekstur (n, kk)  Rekstur fyrirtækis/verkefnis sem veitir einum eða fleiri starfsmönnum atvinnu.

Atvinnuspillir (n, kk)  Sá/það sem spillir atvinnu manna.  „Vörubíllinn var fluttur úr Breiðavík á Patreksfjörð og þótti Eyrarkörlum það hinn versti atvinnuspillir, því áður höfðu kol og önnur þungavara verið keyrð um plássið á hjólbörum“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Atvinnusveitarútsvar (n, hk)  Útsvar sem maður greiðir til þess sveitarfélags sem hann hefur atvinnu í, en er síðar endurgreitt til lögheimilissveitarfélags.  „Atvinnusveitarútsvör frá Patreksfirði, kr 9.915“ (Sjóðbók Rauðasandshrepps 1948).

Atvinnuvegur (n, kk)  Starfsgrein; flokkur starfa.  T.d. landbúnaður, fiskveiðar, iðnaður o.s.frv.

Atyrða (s)  Skamma; ávíta.  „Atyrti hún Guðmund ráðsmann sinn harðlega; kvað hann hina mestu sjóbleyðu sem hræddist hverja golu, og ætti varla skilið að stíga út í bát framar“ “ (GiG; Frá ystu nesjum; drukknun Látramanna).

Auðblekktur (l)  Létt að blekkja/plata/snúa á.  „Krummi þóttist vera að kroppa eitthvað gómsætara stutt frá, en rebbi var ekki svo auðblekktur.  Hann hélt áfram að rífa úr hræinu og þóttist ekki sjá slík látalæti“.

Aðfengið (l)  Auðvelt að fá.  „Samþykki hans var auðfengið“.

Auðfinnanlegt (l)  Auðvelt að finna; auðvelt að finna fyrir.  „Auðfinnanlegt var að veður fór kólnandi“.

Auðfluttur (l)  Sem flytja má á auðveldan hátt.  „Þungavarningur var ekki auðfluttur í Útvíkur meðan bílvegir voru ókomnir.  Fyrstu traktorarnir voru t.d. fluttir sjóleiðis.

Auðframkvæmanlegt (l)  Auðvelt í framkvæmd.  „Það hefur ekki verið auðframkvæmanlegt að koma hákarlaskipinu Fönix í sitt naust, uppi á bakkanum“.

Auðfundið (l)  A.  Auðvelt að finna/ hafa uppá.  „Grenið var hreint ekki auðfundið í urðinni“.  B.  Auðséð; auðvelt að skynja.  „Hann sagði ekki neitt, en það var auðfundið að honum þótti“.

Auðga (s)  Gera auðugri/ríkari.  „Ný þekking og ný viðhorf auðga og efla hvert mannlegt samfélag“.

Auðheyrt (l)  Heyrist greinilega.  „Það var auðheyrt að hann var verulega reiður“.

Auðheyrilega (ao)  Þannig að vel megi greina/heyra.  „Auðheyrilega hafði þetta komið henni á óvart“.

Auðið (l)  Kleyft; fært; gerlegt.  „Ég reyni þetta, eftir því sem mér framast er auðið“.  Þeim varð þriggja barna auðið“.

Auðkenni (n, hk)  Sérkenni; það sem einkennir.  „Ég þekkti þessi auðkenni á baujunni“.

Auðkleyft / Auðklifið (l)  Auðvelt að klífa; auðfarið.  „Ég gæti trúað að þarna væri auðkleyft upp“.  „Ekki verður sagt að greið leið sé upp á Bæjarvöllinn, en eftir að búið er að leggja þar lásband til stuðnings er hann auðklifinn fyrir þá sem eru vanir klettum“.

Auðkýfingur (n, kk)  Ríkisbubbi; sá sem er mjög ríkur.  „Það er ekki nema fyrir auðkýfinga að kaupa þetta“.

Auðlegð (n, kvk)  Ríkidæmi; auðæfi. 

Auðleystur (l)  Um hnút/vanda; auðveldur að leysa.  „Þessi fjandans rembihnútur er ekki auðleystur“.

Auðlind (n, kvk)  Uppspretta verðmætasköpunar; það sem nýta má til frumframleiðslu.  „Kollsvík býr að gnægð auðlinda á ýmsum sviðum, þó misjafnt sé hvernig samfélaginu auðnast að nýta þær.  Þar er gott til landbúnaðar; sauðhagar góðir; ræktunarmöguleikar ágætir; vetrarbeit til mikils léttis á fóðrum, bæði hagar og fjörubeit.  Útslægjur af stör í vötnum og af töðu í klettum og hlíðum.  Kúahagar eru þar góðir og hestbeit ef vill.  Mótekja er mikil í mýrum; sérlega hitagæfur mór í Harðatorfspytti og fjörumór undir Leirunum.  Ferskvatn yfirdrifið úr kaldavermslum og hvergi heilnæmara; að auki vígt lækningavatn í Gvendarbrunni.  Námur byggingaefnis; hleðslugrjót af öllu tagi; hellutaksnámur í Helluhnjúk, Stórafelli og víðar; torfrista víða; yfirdrifið af skeljasandi og steypumöl í fjöru.  Auk þess gríðarlegar námur af ísaldarmöl í Breiðsholti.  Ofaníburðarefni víða.  Mikil vötn til fiskiræktar ef vill.  Æðarvarpi væri auðvelt að koma upp ef varið er fyrir vargi.  Múkkavarp mikið í öllum sjávarklettum; Blakk, Hnífum og Breið; vel aðgengilegt.  Máva má skjóta á fuginu svo góð búbót sé að, og stöku sel má skjóta á hleinum.  Reki er allgóður og gagnlegur; bæði stórviður og smærri; einnig belgir, kúlur og annað.  Rauðmaga má stinga í pollum á útfiri.  Gott til sjósóknar á smábátum; lending allsæmileg í stilltum sjó; þorskfiskimið stutt undan landi þegar firskur er á grunnmiðum; steinbítsmið einnig þau gjöfulustu á grunnmiðum og lúðu- og skötumið þegar gefst.  Grásleppu og rauðmaga má veiða í net þegar stillt er í veðri.  Miklar orkuauðlindir eru fyrir landi í formi öldu og sjávarstrauma, sem eflaust verða nýttar í náinni framtíð.  Veðursæld er oftast mjög mikil í Kollsvík; einkum í norðaustlægum og austlægum áttum.  Norðan- og vestanáttir verða harðastar, bæði til sjós og lands; veðursælla er þó jafnan norðantil í víkinni, og uppundir Hjöllum.  Náttúrufegurð er með eindæmum mikil, og er vandfundinn staður með fjölbreyttari upplifunar- og afþreyingarmöguleikum.  Saga býr í nánast hverju hinna óteljandi örnefna og mannvirkja, sem eru mörg frá langri búsetu.  Margt er einstætt og sérstætt sem ekki verður hér upp talið.  Gönguleiðir eru víða og væri vel unnt að gera út á ferðaþjónustu.    

Auðlært (l)  Auðvelt að læra.  „Sigurvin var sæmilega sleipur í mandarín-kínversku, sem er þó ekki auðlærð“.

Auðlæsilegt (l)  Auðvelt að lesa.  „Ekki er hún auðlæsileg; skriftin hreppstjórans“!

Auðmannaslekti (n, hk)  Ríkisbubbar; peningamenn; fjáraflamenn.  „Sumar illar tungur segja að Kollsvíkingum megi skipta í tvö horn.  Annarsvegar sé það auðmannaslekti sem efnast hefur á nirfilshætti og nurli; er yfirleitt aðhaldssamt úr hófi og gnýjarar hinir mestu.  Hinir séu þó langtum fjölmennari í Kollsvíkurætt, sem ekki er sýnt um meðferð fjár; helst illa á því og eiga sjaldnast bót fyrir boruna.  Þeir eru manna hjálpsamastir og hufflegastir; enda safnast þeim lítill auður.  Þessi skilgreining er þó e.t.v. kjaftasögn og oftúlkun; sannast sagna eru flestir miðja vegu í þessu litrófi; hafa nóg fyrir sig og sína og lifa í góðri sátt við sitt samfélag.

Auðmjúklega (ao)  Af undirgefni; blíðlega.  „Mér varð það á að móðga hann, og mátti biðjast auðmjúklega afsökunar“.

Auðmjúkur (l)  Undirgefinn; lítillátur; hófsamur; blíður.  „Svona yfirgangi tek ég ekki eins og einhver auðmjúkur þræll“!

Auðmýking (n, kvk)  Háðung; móðgun; lítilsvirðing.  „Honum fannst sér nokkur auðmýking gerð með þessu“.

Auðmýkja (s)  Lítilsvirða; móðga; hæða.  „Ætlarðu að láta þá auðmýkja þig svona möglunarlaust“?

Auðmýkt (n, kvk)  Lítillæti; hógværð; undirgefni.  „Hingað til hafa menn tekið þessu möglunarlaust og af auðmýkt, en kannski er tími til kominn að það fari að breytast“.

Auðn (n, kvk)  Eyðimörk; eyðibyggð; gróðurlaust/lífvana/óbyggt svæði.  „Skelfing er að horfa uppá byggðina leggjast nánast í auðn; mestmegnis fyrir snarvitlausa byggðastjórnun“!

Auðna (n, kvk)  Heppni; lán; gæfa.  „Við verðum bara að láta auðnu ráða í þessum efnum“.

Auðnast (s)  Lánast; takast; heppnast.  „Honum auðnaðist að koma aftur undir sig fótunum“.

Auðnulaus / Auðnulítill (l)  Lánlaus;ógæfusamur. 

Auðnuleysingi (n, kk)  Lánlaus manneskja; vesalingur.  „Það er nú lítið gagn að þeim auðnuleysingja“.

Auðnuseinn (l)  Seinheppinn; óheppinn.  „Þarna var ég heldur auðnuseinn; haldiði ekki að lúðuherfan hafi látið sig hverfa við borðstokkinn“!

Auðnuvegur (n, kk)  Gæfusöm leið; leið til hamingju.  „Brennivínið hefur nú aldrei verið neinum auðnuvegur“.

Auðrakin (l)  Um spor; auðvelt að rekja.  „Tófusporin voru auðrakin í nýföllnum snjónum“.

Auðratað (l)  Auðvelt að rata.  „Hægt er að komast í Stóðin í lásum, en besta leiðin til þess er ekki auðrötuð“.

Auðrekinn (l)  Auðvelt að reka/ koma rétta leið.  „Því fór fjarri að kálffjandinn væri auðrekinn“.

Auðs aflar iðin hönd (orðatiltæki)  Velmegun skapast venjulega af miklum dugnaði.

Auðséð (l)  Auðvelt að sjá; greinilegt.  „Það er nú alveg auðséð hvaðan þessar snarvitlausu kindur eru“!

Auðsjáanlega / Auðsýnilega (ao)  Augljóslega; sem greinilega sést. 

Auðskilið (l)  Sem auðvelt er að skilja; skiljanlegt.  „Það var auðskilið hvað hann meinti“.

Auðsótt mál (orðtak)  Beiðni sem greiðlega er orðið við; umleitan sem vel er tekið.  „Ég bað hann um að lána mér bókina, og það var auðsótt mál“.

Auðsvarað (l)  Auðvelt að svara.  „Þessu er auðsvarað“.

Auðsveipur (l)  Hlýðinn; undirgefinn.  „Ef þú nærð góðu taki á miðsnesinu á tudda er hann mjög auðsveipur“.

Auðsveipni (n, kvk)  Undirgefni.  „Honum var ýmislegt betur gefið en auðsveipni gagnvart yfirvöldunum“.

Auðsæld (n, kvk)  Ríkidæmi; góður efnahagur.  „Þau hafa aldrei búið við verulega auðsæld“.

Auðsætt (l)  Auðséð; greinilegt.  „Formenn hafa tal af þeim sem eru á Fönix og segja, sem auðsætt var, að ekkert annað sé fyrir hendi en að bera allt af honum aftur“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Hvalurinn var aldrei yfirgefinn, en matur og drykkur fluttur úr landi.  Er því auðsætt að margir hafa átt sinn þátt í björgun hvalsins“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Auðtekið (l)  Auðvelt að taka/ná.  „Töluvert er af eggjum í efsta ganginum og þar er nokkuð auðtekið“.

Auðtrúa (l)  Trúgjarn; einfaldur.  „Hrekkjalómarnir notfærðu sér hvað karlinn var auðtrúa og létu hann hlaupa með ýmsar upplognar kjaftasögur, sér til gamans“.  „Mikið ertu auðtrúa ef þú trúir þessum vindhana“.

Auðtuggið (l)  Sem auðvelt er að tyggja.  „Gamla manninum þótti gott að fá eitthvað auðtuggið til að japla á“.

Auðugur (l)  Ríkur; vel efnaður. 

Auðunninn (l)  Sem gott er að vinna/sigra.  „Hann hélt að þessi glíma yrði auðunnin“.

Auður (n, kk)  Ríkidæmi; auðæfi; fjármunir. 

Auður (l)  A.  Tómur; óbyggður; án nokkurs.  „Sunnanvið ísspöngina var auður sjór“.  „Fremsta blaðið í bókinni var autt“.  B.  Snjólaust.  „Það er alautt á háhálsinum.

Auðvelda (s)  Gera auðvelt; liðka fyrir. „Kuldinn auðveldaði mönnum ekki verkið“.

Auðveldlega (a0)  Með léttum/auðveldum hætti; fyrirhafnarlítið.  „Hann kláraði þetta auðveldlega“.

Auðveldur (l)  Léttur; ekki erfiður.  „Þetta reyndist fremur auðvelt verk“.

Auðvirða (s)  Lítilsvirða; sýna ekki tillitssemi/virðingu.  „Maður skyldi aldrei auðvirða visku þeirra sem gengnir eru“.

Auðvirðilegur (l)  Fyrirlitlegur; vesæll.  „Ég vissi ekki að hann væri svo auðvirðilegur“.

Auðvitað (ao)  Að sjálfsögðu.  „Auðvitað gat ég sagt mér þetta sjálfur“!

Auðþekktur / Auðþekkjanlegur (l)  Þekkist greinilega úr; vel þekkjanlegur.  „Gemlingurinn er auðþekktur á hornalaginu“.

Auðþekktur er úlfurinn/asninn á eyrunum (orðtatiltæki)  Speki sem oft er notuð þegar menn þykjast þekkja lesti  í fari annarra.  Bæði kvikindin heyrðust notuð í þessu efni.

Auðæfi (n, hk, fto)  Auður; ríkidæmi.  „Munnmælin segja að Kollur hafi fólgið auðæfi sín undir Biskupsþúfu“.  Myndað úr auð-hæfi, þ.e. að hafa auð.

Aufúsa (n, kvk)  Ánægja; þægð.  „Mér er engin aufúsa í að fá svona gesti þegar nóg er að atast í heyskapnum“!  Forskeytið er líklega myndað með hljóðbreytingu úr „á“ og síðari liðurinn merkir „fús“.

Aufúsugestur (n, kk)  Velkominn gestur.  „Og svo er það hafísinn, sem áður fyrr var nær árlegur en þó síður en svo aufúsugestur“  (KJK; Kollsvíkurver).

Auga (n, hk).  A.  Líffæri til að sjá með.  B.  Dý; pyttur.  „Víða eru hættuleg augu í Mýrunum“.  C.  Gat; hola.  „Nálarauga“.  D.  Efri hluti sviðakjamma; sá neðri nefnist kjálki.  E.  Hola í kartöflu, þar sem spírur myndast.  F.  Festarauga; vaðarauga (sjá þar). 

Auga fyrir auga; tönn fyrir tönn (orðatiltæki)  Ævaforn speki, sem líklega kom fyrst fram á fyrstu tímum siðmenningar; var t.d. uppistaðan í lögmálum Hammúrabís og síðar Mósesar.  Hefndarskyldan sem með þessu er boðuð var við líði framyfir Sturlungaöld hérlendis, og meginorsök þeirra vígaferla.  Skyld er spekin gjalda skal líku líkt.

Augablað (n, hk)  Efsta blaðið í samsettri bílfjöður.  Með auga í hvorum enda til festingar í bílgrindina.

Augabragð (n, hk)  Augnablik; örskotsstund.  Tíminn sem það tekur að blikka augum.  „Þetta gerðist allt á einu augabragði“.

Augabrún (n, kvk)  Hærð brík ofanvið augað.

Augafullur (l)  Ofurölvi; blindfullur; pöddufullur.  „Þú getur ekki farið að aka svona augafullur“!

Augakúla (n, kvk)  Auga; kúla augans með augasteini, glæru, sjónhimnu o.fl.  „Öndvegishrúturinn Höttur fékk svo mikla ígerð í augað að á endanum gróf augakúluna algerlega úr.  Hann lifði þó einn vetur með tóma augntóftina, en útbúinn var sérstakur leppur fyrir augað“.

Augalaus (hríð) (l)  Sér ekki út úr augum fyrir ofankomu eða skafmold; glórulaus.  „Á mánudagsmorgun var veður það sama; augalaus stórhríð... “  (EÓ; Fyrsta sjóferð Idu; Árb.Barð; 1959-67; frás. Árna Magnússonar).

Augasplæs (n, hk)  Frágangur á enda vaðs/kaðals/vírs, með því að leggja hann yfir og splæsa í legginn nokkru frá enda, þannig að á endanum verði lykkja/auga.

Augastaður (n, kk)  Það sem maður horfir á.  „Ég hef lengi haft augastað á þessari syllu, og nú tel ég mig vera búinn að finna leið á hana“.

Auglit (n, hk)  Ásjóna; andlit.  „Helst vil ég losna við þessa druslu frá mínu augliti“!

Augliti til auglitis (orðtak)  Í nánd; í samtali; maður á mann.  „Ég kann nú alltaf betur að ræða svona hluti augliti til auglitis, heldur en í síma“.

Augljós (l)  Sýnilegur; sem auðvelt er að sjá.  „Þetta ætti að vera öllum augljóst“.

Augljóslega (ao)  Ljóslega; greinilega.  „Honum var augljóslega brugðið“.

Auglýsa (s)  Sýna; birta.  Orðið hefur í dag einskorðast við markaðssetningu  og tilkynningar til almennings.

Auglýsing (n, kvk)  Það að auglýsa.

Augnablik (n, hk)  Andartak; augabragð; mjög skammur tími.  „Bíddu eitt augnablik“!

Augnabliksfát (n, hk)  Stutt hik sem getur komið á mann, t.d. undir miklu álagi, þannig að mistök verði gerð.  „Í einhverju augnabliksfáti missti ég fötuna framaf brúninni“.

Augnabliksfriður (n, kk)  Andartaksfriður; stundarfriður; hlé.  „Það heitir ekki að sé augnabliksfriður á milli skúra“!

Augnablikshugleiðing (n, kvk)  Hugsun/hugleiðing sem varir mjög stutt.  „Fyrir mér er vísnagerðin sem hver önnur dægradvöl; þetta eru augnablikshugleiðingar.  Það er gaman að leika sér og þetta er mín hugarleikfimi…“ (MH; Mbl 04.01.2017).

Augnabliksverk (n, hk)  Mjög fljótunnið verk.  „Drífðu þig nú og hengdu upp þvottinn drengur; þetta er ekki nema augnabliksverk“!

Augnagotur (n, kvk, fto)  Þegar horft er út undan sér; gefið hornauga.  „Honum var illa við þessar augngotur“.

Augnakarl (n, kk)  A.  Mjaðmarliðir.  B.  Sá sem situr sem fastast; eilífðargestur.  „Ætli ég þurfi nú ekki að fara að drífa mig af stað.  Ég ætla nú ekki að verða ykkur eilífur augnakarl“.  C.  Átrúnaðargoð.  Í síðari tíð hefur orðið færst yfir á þann sem nýtur mikils dálætis, og er það helsta notkun þess á síðari tímum.  „Þessi prófessor er mikill augnakarl hjá ríkisstjórnarflokkunum núna“.

Augnalitur / Augnlitur (n, kk)  Litur lithimnunnar í auganu. 

Augnalok / Augnlok (n, hk)  Sá hluti húðar sem lokar augum.  „Mér sýndist augnalokin vera allnokkuð farin að þyngjast á mönnum, enda orðinn langur vinnudagur“.

Augnamið / Augnmið (n, hk)  Markmið; tilgangur.  „Tillagan var lögð fram í því augnamiði að fa viðbrögð“.

Augnatóft (n, kvk)  Dæld í höfuðkúpunni, sem augað situr í.  „Mig klæjar einhversstaðar inni í augntóftinni“!

Augnaþjónn (n, kk)  Sá sem reynir sífellt að ganga í augun á öðrum með smjaðri og fleðuhætti.  „Ekki dettur mér í hug að reyna að verða þeirra augnaþjónn“.

Augnfró (n, kvk)  Euphrasia frigida.  Lítil einær jurt sem vex í snöggu graslendi eða mólendi.  Blómin yfirleitt dökkmórauð eða purpuralituð; smá en litskrúðug; með fjólubláum línum og áberandi gulum bletti niðri í.  Getur verið ógreind eða marggreind; stilkur áberandi digur; blöð gagnstæð, lensulaga eða egglara; gróftennt og broddhærð.  Augnfró er algegng um allt land.  Hún þótti góð til lækninga á augnverk, kvefi; hárlosi og kveisu, en var einnig notuð til ölgerðar í stað humla.

Augngler (n, hk)  A.  Annað heiti á gleraugum.  B.  Gler það í sjónauka/smásjá sem næst er auganu.

Augnhár (n, hk)  Hárkrans á augnloki sem skýlir auganu. 

Augnhæð (n, kvk)  Fjarlægðin frá jörð/gólfi upp að augum.  „Stallurinn var í augnhæð, en mér tókst að klórast upp á hann“.

Augnrák (n, kvk)  Litarák við augu.  „Hringvía er afbrigði af langvíu; auðþekkt á hvítum hring kringum augað og hvítri augnrák aftur frá honum“.

Augnstór (l)  Með áberandi stór augu.

Augnverkur (n, kk)  Verkur í augum.

Augnþreyta (n, kvk)  Þreyta í augum.  „Halldóra amma hallaði stundum aftur augunum þegar hún settist niður eftir annasaman dag.  Sagðist vera að láta líða úr sér augnþreytuna og raulaði þá gjarna fyrir munni sér eins og henni var svo tamt“.

Augótt (l)  Mikið um pytti/dý.  „Þarna er víða augótt í Mýrunum, og nokkrar hættur fyrir fé“.

Augsýn (n, kvk)  Sjón; það sem sýnilegt er.  „Baujan er hvergi í augsýn ennþá“.

Augsýnilega (ao)  Augljóslega; sýnilega; greinilega.  „Hann var augsýnilega úrvinda af þreytu“.

Augsýnilegur (l)  Sýnilegur; sjáanlegur.  „Þetta er augsýnilegur galli“.

Augun standa á stilkum (orðtak)  Um það að stara í forundran/með athygli. 

Auk (fs)  Einnig; að viðbættu.  „Fjórir voru á bátnum; auk formannsins“.

Auk heldur / Auk þess heldur / Aukinheldur (orðtak)  Einnig; ekki nóg með það.  „Til að rollufjandinn stykki ekki aftur yfir girðinguna bætti hann streng yfir; auk heldur stakk hann skurð meðfram henni“.

Auka / Auka brim / Auka í báru/sjó (s/orðtak) Um versnandi sjólag; auka sjó; rífa upp báru.  Oft var einungis talað um að „auka“.  „Það er hætt við að hann auki með afallinu“.  „Heldur sýnist mér að hann sé að auka í sjó“.  „Við erum farnir í land ef hann ætlar að fara að auka mikið meira í báruna“.  „Ef brim hafði aukið þegar að landi var komið, var mestur vandi á höndum þeim sem fyrstur lenti; að bjarga bát og afla úr sjó“... „Það er auðséð að snögglega eykur brim frá vestri“  (KJK; Kollsvíkurver).   „Fór nú vindur óðum vaxandi en jafnframt var komið norðurfall á móti vindi.  Jók það báru mjög fljótt, þannig að farið var að falla af báru og sjá í hann hvítan“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Auka-   Forskeyti með fjöldamörgum nafnorðum.  Yfirleitt til að tákna það sem er umfram; til aðstoðar/vara.

Auka kyn sitt (orðtak)  Fjölga sér; geta fleiri afkvæmi. 

Auka leti (orðtak)  Venja á leti; gera viðvik fyrir; víkja í lið fyrir; aðstoða.  „Æ; auktu nú leti mína vinur, og sæktu fyrir mig vatnsglas“.

Auka sér erfiðleika (orðtak)  Gera sér erfitt fyrir; velja erfiðari lausn/leið en þörf er á: skapa sér vandræði.  „Ég held að maður sé ekkert að auka sér erfiðleika með því að leggja net hér aftur, eins og spáin er núna“.

Auka sjó (orðtak) Um versnandi sjólag; auka í sjó.  „Þegar þeir komu útfyrir Hænuvík hafði sjó aukið það mikið að vafasamt var orðið hvort lendandi væri í Kollsvík“ (Niðjatal HM/GG).  Einnig auka brim.  Oftlega var þetta stutta hugtak stytt enn frekar:  „Mér sýnist að hann sé að auka“, og skildu heimamenn hvað við var átt.

Auka við (orðtak)  Bæta við; bata um; auka; framlengja.  „Heldur finnst mér hann hafa aukið við vestanbáruna“.  „Spottin nær ekki alveg niður á neðri pallinn; við þurfum að auka eitthvað við hann“.

Auka ætt sína (orðtak)  Fjölga sér; eignast afkomendur. 

Aukaár (n, kvk)  Ár sem höfð er aukalega í bát, til vara; varaár.

Aukabára (n, kvk)  Um lag við lendingu; skaðlítil bára bára til viðbótar þremur bárum í lagi.  Öldur við strönd eru misstórar og því mishættulegar.  Meðan róið var á smábátum frá hafnlausri strönd var mikilvægt að þekkja sjólagið; þ.e. að hitta á minni öldurnar til að komast fram og taka land; forðast hættuleg ólög í óðbærum sjó.  Það var list góðra formanna.  Því var trúað að laginu séu 3 bárur, en stundum væru þær þó 4.  Heitir þá fjórða báran aukabára.  Þetta getur þó verið erfitt að greina, einkum þar sem skerjótt er. 

Aukabragð (n,hk)  Óviðeigandi keimur af mat.  „Það er komið eitthvað aukabragð af mjólkinni í könnunni“.

Aukaendi / Aukaspotti (n, kk)  Band/vaður sem haft er með í bjargferð, umfram það sem fyrirsjáanlega þarf að nota.  „Við ættum að hafa með okkur einhvern aukaspotta ef við reynum að fara lengra niður“.

Aukaferð (n, kvk)  Ferð sem farin er til viðbótar annarri/öðrum.  „Ég fer ekki aukaferð fyrir svona lítilræði“.

Aukafiski (n, hk)  Meðafli; öðruvísi fiskur.  „Við fáum allslags aukafiski í grásleppunetin“.

Aukafæri (n, hk)  Færi sem haft er aukalega meðferðis í fiskiróður.

Aukagjöf (n, kvk)  Þegar skepnur fá aukaskammt af fóðri.  „Hann ætlar ekkert að lina hríðina svo hægt sé að hleypa fénu út.  Það verður að gefa einhverja aukagjöf“.

Aukabrúsi / Aukaílát / Aukakútur (n, hk)  Ílát til viðbótar þeim sem fyrirsjáanlega þarf að nota.  „Slakaðu niður einhverju aukaílát; mér sýnist að hér sé vel af eggjum“.  „Það er rétt að hafa meðferðis aukabrúsa af bensíni, ef okkur dettu í hug að fara eitthvað dýpra“.

Aukafang / Aukakneppi (n, hk)  Fang af heyi sem gefið er aukalega á garðann.  „Þú mátt alveg gefa því aukafang á hvora jötu; þú tekur mun minni föng en ég“.  „Ég gaf þeim dálítið aukakneppi“.

Aukafiski / Aukafiskur (n, hk/kk)  Yfirleitt notað um fisk sem ekki er af þeirri tegund sem einkum er veidd.

Aukafóður (n, hk)  Fóður sem skepnum er gefið með heyi og útibeit, t.d. bein, fóðurbætir o.fl.  „Velfóðrað fé er einnig á Melanesi, enda hefur þar verið gefið síldarmjöl og nokkuð af því sem aukafóður, borið saman við vanalega gjöf undanfarna vetur…“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932). 

Aukagaffall / Aukakvísl (n, kvk)  Heykvísl/gaffall sem er umfram.  „Þú mátt alveg hjálpa okkur að setja á vagninn; ég tek þá meðferðis eina aukakvísl“.

Aukageta (n, kvk)  Viðbótarlaun; bónus.  „Ég lét hann hafa þetta sem aukagetu fyrir vel unnið verk“.

Aukagjöf (n, kvk)  Fóðrun búfénaðar umfram þá sem regluleg er.  „Ég hleypti fénu í vatn og gaf því dálitla aukagjöf“.

Aukahlutur (n, kk)  Dauður hlutur; aflahlutur sem skipt er út aukalega, t.d. landshlutur, sigmannshlutur og vaðarhlutur við bjargsig, og ábati, formannshlutur eða hospitalshlutur við róðra. 

Aukakind (n, kvk)  Kind/ær umfram eðlilegan/væntanlegan fjölda; aðkomukind.  „Ég er búinn að tvítelja, og ég fæ það út að það hljóti að vera aukakind í fénu“.

Aukaklæðnaður / Aukafatnaður (n, kk)  Föt til skiptanna.  „Það þurfti að þurrka föt eftir að við komum heim að Hvallátrum, enda orðið lítið um aukaklæðnað“  (ÁH; Útkall við Látrabjarg). 

Aukalega (ao)  Til viðbótar; að auki.  „Ég borgaði honum dálítið aukalega, enda var verkið vel unnið“.

Aukalegur (l)  Sem er umfram.  „Ýmis aukalegur ávinningur hefur orðið af þessu“.

Aukanætur (n, kvk, fto)  Fjórir dagar sem skotið var inn á eftir Sólmánuði í gamla íslenska tímatalinu, til að fá samræmi á milli mánaðartalsins og viknatalsins í árinu.  Nafnið vísar til þess að tímaskeið voru áður talin í nóttum (sbr. braginn „níu náttum fyrir jól/ þá kem ég til manna).  Sjá tímatal.

Aukarétt (n, kvk)  Fjárrétt sem ekki er aðalrétt. 

Aukasakka (n, kvk)  Varasakka; sakka sem höfð er með í skakróður ef önnur slitnar af færi.

Aukaslátrun (n, kvk)  Slátrun utan helstu sláturtíðar.  „Efnt var til aukaslátrunar síðar um haustið“.

Aukasokkar (n, kk, fto)  Sokkar sem hafðir eru aukalega, t.d. í ferð.  „Ég setti aukasokka í bakpokann“.

Aukasól (n, kvk)  Gíll; úlfur; blæs út sólir; hjásól; sólir á lofti; gíll og úlfur..  Ljósbrot sólarljóss sem veldur því að bjartur ljósblettur myndast við hlið sólarinnar, aðskilinn frá henni og oft í regnbogalitum.  Fjarlægðin frá sólu er um 22°; heldur meira þó þegar sól er hátt á lofti.  Aukasólir geta verið framan eða aftanvið sólina.  Þær myndast við það að sólargeislarnir fara gegnum ískristalla í efri loftlögum og brotna; ekki ólíkt því sem gerist við myndun regnboga, þó myndunarstaður hans sé nær áhorfanda.  „Nú blæs hann út sólir“ var sagt um þetta fyrirbæri.  Aukasólir eru einnig nefndar gíll og úlfur, með vísan í goðafræðina.

Aukaspotti (n, kk)  A.  Vaður/band til vara, t.d. þegar farið er í bjarg.  B.  Vegalengd sem farin er aukalega.

Aukast orð af orði (orðtak)  Um kappræður/deilur/ósamlyndi manna; magnast; færast í aukana.  „Deilur þeirra jukust orð af orði, þar til komið var út í heitingar“.

Aukastag (n, hk)  Stag á hornstaur/ yfir bát/hús sem sett er aukalega.  „Það þyrfti að bæta við aukastagi“.

Aukasteinn (n, kk)  Netasteinn sem tekinn er með aukalega í róður; til vara ef steinn hefur losnað úr neti.  „Erum við ekki örugglega með einhverja aukasteina“?

Aukatekið orð (orðtak)  Orð til viðbótar; meira tal.  „Hann sat þegjandi undir reiðilestrinum og sagði ekki aukatekið orð“.  „Ég vil ekki heyra aukatekið orð í viðbót um þessa árans vitleysu“!

Aukatugga (n, kvk)  Hey sem búfé er gefið umfram venjulega gjöf; aukafang; aukakneppi.  „Gefðu nýbærunni aukatuggu af betra heyinu“.

Aukinheldur (ao)  Ennfremur; að auki.  „Ekki var nóg með að ég þyrfti að aka honum um allar sveitir, heldur mátti ég aukinheldur hlusta á rausið í honum allan liðlangan daginn“!

Aukinn (l)  Viðbættur; efldur; stækkaður.  „Af þessu hlaust nokkuð aukinn kostnaður“.

Auknefndur (l)  Með viðurnefni/nafnbót.  „Magnús Jónsson sýslumaður var auknefndur „prúði“, því hann fór gjarnan til þings skrúðklæddur og með vopnað lið“.

Auknefni (n, hk)  Viðurnefni.  „Hugsanlegt er að nafnið Kollur hafi verið auknefni landnámsmanns Kollsvíkur, en ekki hans eiginlega nafn.  Viðurnefnið gæti hann annaðhvort hafa tekið af Núpnum, sem er einkennisfjall Kollsvíkur, eða af því að hann hafi verið krúnurakaður munkur“.

Aukning (n, kvk)  Viðbót.

Aukreitis (ao)  Að auki; í viðbót.  „Það er vissra að hafa nokkra pilka með aukreitis, og slóða til vara“.

Auktu leti (orðtak)  Sjá auka leti.

Aukvisi / Aulabárður (n, kk(  Aumingi; auli.  „Það þýðir lítið að hafa svona aukvisa á sjó“.  „Hvílíkir aulabárðar geta þetta nú verið!  Að missa féð svona, nánast á milli fótanna á sér“.  „... og nú vildi til að menn voru engir aukvisar„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Aula (einhverju) útúr sér (orðtak)  Segja eitthvað; koma einhverju útúr sér.  „Þú hefðir nú mátt aula þessu útúr þér aðeins fyrr“!

Aulabárður (n, kk)  Auli; klaufi.  „Hann missti féð framhjá sér!  Hvílíkur aulabárður!

Aulafyndni (n, kvk)  Fimmaurabrandarar; lélegt skop.  „Mér finnst svona aulafyndni varla aðhlátursefni“.

Aulagangur / Aulaháttur / Aulaskapur (n, kk)  Bjánagangur; afglöp.  „Þvílíkan aulahátt hef ég aldrei vitað hjá fullorðnum mönnum“!  „Fjandans aulagangur er þetta; ætlar hann ekki að standa fyrir fénu“!?

Aulaglott (n, hk)  Kjánalegt/óviðeigandi bros.  „Hættu þessu aulaglotti; hefur þú aldrei orðið rassblautur“?!

Aulakálfur (n, kk)  Auli; aulabárður; bjálfi; álfakálfur.  „Skelfingar aulakálfur getur hann verið“!

Aulalegt (l)  Bjánalegt; asnalegt; niðurlægjandi.  „Ég verð að játa að þetta var afskaplega aulalegt af mér“.

Aulast (s)  Bjálfast; asnast; ratast.  „Þvotturinn  blotnaði af því ég aulaðist ekki til að taka hann inn fyrir rigninguna“.

Aulast til (orðtak)  Álfast/álpast til.  „Gastu ekki aulast til að loka hliðinu á eftir þér drengur“?!

Aulasvipur (n, kk)  Heimskingjasvipur; svipur sem lýsir skilningsleysi.

Aulaþorskur (n, kk)  Golþorskur; rígaþorskur; mjög stór þorskur. 

Aukasólir (n, kvk, fto)  Hjásólir; gíll og úlfur.  (Sjá blæs út sólir).

Aulafyndni (n, kvk)  Hótfyndni; hjákátlegir/lélegir brandarar.

Aulaþorskur (n, kk)  Mjög stór þorskur; sláni; golþorskur.  „Við settum þarna líka í nokkra aulaþorska“.

Auli (n, kk)  A.  Afglapi; bjáni.  „Óttalegur auli geturðu nú verið“.  B.  Aulaþorskur; golþorskur.

Auma (n, hk)  Aumingjaskapur; eymd; bágindi.  Annarsvegar notað í upphrópunum, t.d. „Það er auman að geta ekki staðið almennilega fyrir; heldur missa féð hérumbil á milli lappanna á sér“!  Hinsvegar í orðtakinu að sjá aumur á einhverjum; þ.e. að vorkenna einhverjum og bæta hans hag. 

Aumingi (n, kk)  A.  Sá sem á bágt vegna fátæktar, fötlunar eða annars; armingi.  B.  Sá sem er liðléttur/latur til vinnu; nennir ekki að bjarga sér.  Stundum fer þetta saman, en svo þarf ekki að vera.

Aumingi sem aldrei þrífst (orðtak)  Stundum notað um rytjulega ær eða kyrkingslegt lamb. 

Auminginn sem ekkert á, einatt kinn má væta (orðatiltæki)  Hinn fátæki fellir oft tár; sá grætur sem ekkert á.

Aumingja / Aumingjans (fs)  „Þeir voru svona aðframkomnir, aumingjans mennirnir“  (Hrafnkell Þórðarson; Útkall við Látrabjarg). 

Aumingjadómur / Aumingjaháttur / Aumingjaskapur (n, kk)  Vesöld; linka; vanmáttur.  „Skelfingarinnar aumingjadómur er þetta í manninum“.  „...því það er aumingjaháttur og óráð að vilja kvongast til að ala börn í annarra manna húsum“  (BH; Atli).

Aumingjagóður (l)  Brjóstgóður; hjartahlýr; réttir hjálparhönd hinum þurfandi.  „Hún þykir aumingjagóð“.

Aumingjalegur (l) A.   Illa haldinn; vesæll; fiðkvæmur.  „Skelfing er lambið aumingjalegt; skyldi hún ekki mjólka því nóg“?.  B.  Skömmustulegur; niðurlútur.  „Strákarnir urðu aumingjalegir undir ádrepunni“.

Aumka (s)  Tala vorkennandi/hughreystandi til.  „Vertu ekki að aumka hann; hann getur sjálfum sér um kennt“!

Aumkast yfir (orðtak)  Vorkenna; sýna miskunn; taka að sér vegna samúðar.  „Didda á Láganúpi aumkaðist iðulega yfir fugla sem voru bjargarlausir af einhverjum orsökum; t.d. sjóblauta æðarfugla og svartfugla; spörfugla, svani og aðra sem laskast höfðu á væng eða móðurlausa unga.  Iðulega kom hún þeim svo á legg að þeir gátu bjargað sér“.

Aumkunarverður (l)  Aumur; vesæll; sem kenna vrður í brjósti um. „Þetta er aumkunarvert yfirklór“.

Aumlega (ao)  Vesældarlega.  „Hann bar sig aumlega yfir þessari útreið“.

Aumlegur (l)  Vesældarlegur; óburðugur; niðurlútur.  „Hann var fremur aumlegur upplits“.

Aumnögl (n, kvk)  A.  Upprifið naglaband við hlið naglar.  Getur orðið sársaukafullt, einkum ef rifnar upp og til blóðs.  B.  Nögl sem brotnað hefur að framan, upp í kviku.

Aumur (l)  A.  Sár; viðkvæmur.  „Ég er dálítið aumur í hnénu eftir byltuna“.  B.  Sorgmæddur; niðurdreginn; vonsvikinn.  „Hann er enn aumur yfir því hvernig fór“.  C.  Vesæll.  „Þetta eru aumu vitleysingarnir“!  D.  Skortir krafta/vöðvaafl.  „Þú verður aumur alla tíð ef þú borðar ekki matinn þinn“!

Aumur er sá sem enginn amar / Aumur er sá sem enginn hnjóðar í / Aumur er öfundarlaus maður (orðatiltæki)  Yfirleitt níða menn ekki þá sem bágast eiga.  Því ætti það að vera fagnaðar- og hraustleikamerki að taka við skömmum og jafnvel slæmu umtali og öfund.

Aumur er sá sem enginn ann (orðatiltæki)  Sá er fremur illa staddur sem engum þykir vænt um.

Aur (n, kk)  Fínmulinn og blautur steinmulningur; steinn sem veðrast hefur í duft og blotnað.  Aur er víða í yfirborðslögum á Íslandi; einkum þar sem ísaldarjökullinn hefur legið og farið um.  Þannig er mikið um aur í nágrenni Kollsvíkur þó í víkinni sé hann hulinn af sandi og öðrum jarðvegi.  Greinilegastur er hann á Aurtjörn; efst á Hænuvíkurhálsi.  Blautur aur getur verið illur yfirferðar, sjá aurar.  „Aur“ er stundum ranglega nefndur sem eintala í nefnifalli af „aurar“ (mynt), en með réttu er hún „eyrir“.

Aura saman (orðtak)  Safna fé.  „Honum tókst þó að aura saman fyrir farinu heim“.

Aurafár / Auralítill / Auratæpur (l)  Fátækur; blankur.  „Hann sagðist vera fremur auralítill þessa stundina“.  „Ég greiði þetta í næstu viku; ég er dálítið auratæpur eins og er“.

Auralaus (l)  Peningalaus; blankur.  „Veskið er heima; ég er alveg auralaus“.

Auraleysi (n, hk)  Fátækt; peningaskortur; fátækt; blankheit.  „Hann kvartaði undan auraleysi þessa dagana“.

Aurar (n, kk, fto)  A.  Aurbleyta; Blautt, frostlaust lag af jarðvegi ofaná jarðfrosti í sumarbyrjun.  Einkum notað um færð á vegum, en þeir gátu orðið illfærir í miklum aurum þar sem ofaníburður var slæmur.  B.  Peningar.  „Hann er sífellt að kvarta um auraleysi“.  „Einhvern aurinn hefur þetta nú kostað“.  „Ég aura þessu saman“.

Aurapúki / Aurasál (n, kvk)  Nirfill; aðhaldssamur maður.  „Hann þótti mikil aurasál og aðhaldssamur á fé“.

Aurasár (l)  Fastheldinn á fé; nirfill.  „Þú færð hann aldrei til að kaupa þetta; hann er svoddan aurasál“.

Aurberg (n, hk)  Þjappaður ísaldarleir; móhella.  „Niður yfir mið túnin liggur mikill og djúpur árfarvegur, sorfinn um aldir niður í gegnum aurberg“ (ÞJ; Örn.lýsing Hvallátra).

Aurbleyta (n, kvk)  Aurar; þýtt aurlag ogan á jarðfrosti; getur skapað slæma færð á vegum.  Aurbleyta er einnig varasöm þegar fáfarnir vegslóðar eru eknir þegar farið er til eggja á vorin.  Þá gat stundum verið mjúkt í.

Aurborinn (l)  Um jarðveg; með hátt hlutfall af auri.  „Þessi aurborði jarðvegur þarf mikinn áburð“.

Aurburður (n, kk)  Framburður aurs með vatni, t.d. leysingavatni. 

Aurdrulla (n, kvk)  Fremur niðrandi orð um aur/aurbleytu.  „Vegurinn er allur að vaðast upp í aurdrullu“.

Aurflag / Aurflá / Aurskriða (n, hk/kvk)  Skriða í brattri fjallshlíð/klettum þar sem aur er á yfirborði, gróðurlaust, mikið um hrun og gjarnan hart og illfært yfirferðar í þurrkum.  „Við sigum niður í grasgang og gengum þar um og fórum með brúninni á grasganginum, en þar situr fuglinn í aurflögum á stöllum“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Aurfles (n, hk)  Stór sylla í bjargi, með áberandi aurflagi í yfirborði.  „Það er dálítið af fugli þarna í aurflesinu“.

Aurflóð (n, hk)  Vatssósa skriða sem hleypur niður bratta brekku; aurskriða. 

Aurframburður (n, kk)  Aur sem berst niður með vatni og sest á yfirborð eða gruggar vatnsfall.

Aurskriða (n, kvk)  Skriða í fjallshlíð þar sem aur hefur runnið niður; oft brött og erfið yfirferðar.  „Hellan er aurskriða á leið út Stíginn..“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).  „Norðanvert við Skútahrygg er Skriðan; aurskriða sem nær frá efri klettum niður á sjávarkletta“  (HÖ; Fjaran). 

Aurspýja (n, kvk)  Aurskriða, vanalega lítil um sig en efnismikil.  „Það hefur hlaupið aurspýja á veginn“.

Aurstokkur / Aursylla (n, kvk)  Í stoðgrind húss; fótstykki; lárétt slá neðst í stoðkerfi oftast í gólfhæð og lítið eitt ofan jarðyfirborðs utanvið, sem stafir hvíla á og klæðning er tíðum fest á.

Aursvað (n, hk)  Flag með miklum aur í yfirborði.  „... sáum þá hvar önnur fuglastöngin hafði stungist í aursvað á stallanum og fórum því niður og sóttum hana“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Aurugur (l)  Ataður auri; kámugur af aur. 

Ausa (n, kvk)  Sleif með djúpu íláti fremst, til að ausa t.d. graut/súpu uppúr potti.  „Gefðu mér eina ausu í viðbót af grautnum“.  Sjá ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið.

Ausa (s)  Skófla upp með ausu eða öðru íláti.  Beygist; ausa-jós-jusum-ausið.  A.  Um sjómennsku; skvetta/moka sjó útfyrir borðstokkinn, sem safnast hefur af ágjöf/leka.  „Það var ekkert annað en fara að ausa upp á kraft og leggja upp árar og þverreisa sem kallað var“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).  „Rækjum haus og heilabú,/ hæfir dausi fremur/ sálmaraus og svikul trú;/ svona ausið piltar nú! “  (JR; Rósarímur).  „Þú lætur upp plittinn fyrir framan vélina; hefur svo stóra trogið hjá þér og eyst ef pumpan hefur ekki við“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   Sjá þurrausa.  B.  Færa upp vökva með íláti eða ausu/trogi; t.d. súpu úr potti.  C.  Um hest; kasta upp afturendanum svo báðir fætur fari hátt á loft.

Ausa skömmum / Ausa óbótaskömmum/ Ausa úr sér (skömmunum) / Ausandi skammir (orðtök)  Um miklar skammir/skammarræður.  „Það þýðir ekkert að ausa skömmum yfir mig; ég gat ekkert að þessu gert“!  „Við megum alveg búast við að fá ausandi skammir þegar heim kemur“.

Ausa vatni (orðtak)  A.  Bókstafleg merking.  B.  Skíra barn; blessa barn og gefa því nafn. Venja er að prestur blessi vatn og dreypi því með hendi á höfuð barns, til merkis um hreinsun.  Í sumum trúarhópum tíðkast niðurdýfingarskírn, þannig að einstaklingurinn er kaffærður í vatni.  Sjá vatni ausinn.

Ausa verður/þarf þó á gefi (orðatiltæki)  Ekki er hægt að bíða með að ausa bát þar til hættir að gefa á (skvettast inn), því hætt er við að hann verði þá sokkinn.  Sama gildir um annað; úrbætur þarf að hefja þó enn sé mótlæti.

Ausandi rigning (orðtak)  Mjög mikil rigning.  Líking við að ausið sé úr báti eða súpupotti.  „Við látum féð ekkert út í svona ausandi rigningu; hann hlýtur að fara að létta í þetta“.

Ausinn (l)  Um bát; búið að ausa austrinum út.  Sjá þurrausinn.

Austan (ao)  Um vind; blæs frá austri; ausatanátt; austanvindur.  „Hann er alveg kominn í austan“. 

Austanalda / Austanbára / Austanbrin / Austansjór (n, kvk/kk/hk)  Sjógangur af austri.  „Hann var farinn að leggja töluverða austanbáru út með Bjarginu, en við vorum í góðu vari inni á Sæluhöfninni“.

Austanátt / Austangjóla / Austangjóstur / Austangola / Austankaldi / Austankæla / Austannepja / Austannæðingur / Austanrok / Austansperra / Austansperringur / Austanstrekkingur / Austansveljandi / Austanveður / Austanvindur / Austanþræsingur (n, kvk/kk/hk)  Austlægur vindur af ýmsum styrk.  „Hann lagði árans austansperring útmeð Bjarginu“.

Austanhallt (ao)  Austanmegin/austanvið fjallið/hæðina/hólinn o.fl.  „Vegurinn liggur austanhallt í hæðinni“.

Austanmegin / Austantil (ao)  Að austanverðu.

Austanstæður (l)  Um vind; af austri; austanvindur; hann er á austan.  Sama orðalag var notað um aðrar áttir.

Austanvert við / Austanvið (orðtak/ao)  Að austanverðu; fyrir austan.  „Þeir voru að veiðum austanvið okkur“.

Austlægur (l)  Um vindátt; af austri.  „Hann er eitthvað orðinn austlægari“.

Austnorðan (ao)  Norðaustan.  Þetta áttarheiti var orðað á báða vegu í Kollsvík, en austnorðan þó meira fyrrum. Um breytta vindátt, vindur gengur frá austri til norðurs.  „ Landnyrðingur (sunnanátt); útsynningur (suðvestanátt); hafnyrðingur (norðanátt); austnorðan (þegar áttin gengur frá austri til norðurs); og norðaustan (þegar áttin gengur frá norði til austurs)“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM).  „... var þá kominn austnorðan garður með frosti“  (Sturla Einarsson; um snjóflóðið í Kollsvík  3.des. 1857).

Austur (n, kk) A.  Það að ausa vatni úr eða í eitthvað; oftast notað um báta.  „Þú þarft að herða þig með austurinn“.  B.  Sjór sem kominn er inn í bátinn og ausa þarf út eða hleypa niður um neglu þegar sett var; kjölvatn. Bátar voru misvel þéttir; sjór barst inn við veiðar, en mesta hættan var ágjöf í slæmum sjó og að báturinn slægi úr sér í ólagi (gliðnaði á saumum).  „Það er kominn töluverður austur í bátinn; vel upp á svinghjólið“. „Það var kominn þó nokkur austur í bátinn af ágjöfinni“. 

Austur (n, hk)   Áttin austur.  „Er hann ekki að halla sér í austur“?  „Enn heldur hann sér við austrið“.

Austurloft (n, hk)  Himininn í austurátt.  „Hann er svolítið að bera upp í austurloftið“.

Austurrúm / Austursrúm (n, hk)  Aftasta rúm í báti (fyrir utan skutrúm ef það er), einnig stundum nefnt formannsrúm, því í því er sá sem stýrir bátnum.

Austurrúmsmaður (n, kk)  Sá sem rær í austurrúmi á bát.  „Þegar sexæringur var settur niður vestra hlunnaði hálfdrættingur eða annar austurrúmsmaður, en hinn bakaði að aftan ásamt formanni; miðskipsmenn ýttu og studdu um róðurinn, en andófsmenn bökuðu að framan“   (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.

Austurrúmsþófta (n, kvk)  Þófta í bát, framanvið austurrrúmið.

Austursýsla (n, kvk)  Austur-Barðastrandasýsla.  Barðastrandasýslu hefur lengst af verið skipt í tvo hluta, enda þótt einn sýslumaður hafi jafnan stýrt báðum.  Mörkin milli þeirra eru um Skiptá í Kjálkafirði.

Austurstrog / Austurtrog (n, hk)  Trog sem fer vel í hendi; til að ausa sjó úr bát.  Vanalega einhversskonar trékolla áðurfyrr.  Gott austurtrog var einn af ómissandi farviði hvers báts og var ekki farið á sjó án þess.  Þess var gætt að í einu rúmi bátsins væri unnt að komast að til austurs; alveg niður í kjölinn; kjalsogið.  Austurtrog var oftast einhent á smærri bátum en gat verið tvíhent á þeim stærri og var án skafts, a.m.k. í seinni tíð.  „Þú lætur upp plittinn fyrir framan vélina; hefur svo stóra trogið hjá þér og eyst ef pumpan hefur ekki við.  En þú veist hvað þú færð ef þú missir trogið“  „Hásetarnir tveir sem með voru tóku nú að ausa, og kom þá í ljós að lekinn var svo mikill að ekki mátti sleppa austurtrogi“  (ÖG; Þokuróður).

Austurúr (ao)  Austureftir.  „Það var þæfingur á Klettshálsinum, en svo var fín færð austurúr“.

Auvirðilegur (l)  Fyrirlitlegur; ómerkilegur.  Oftar var notað auðvirðilegur (með ð).

Ax (n, hk)  Blómskipun með löngum legg og legglausum blómum.  Margar jurtir bera ax, en korn af þeim er t.d. notað til matar eða fóðurs.  Dæmi um axberandi jurtir er melgras, bygg, hafrar, puntur, túnvingull o.fl.

Axarauga (n, hk)  Gat á axarhaus, sem skaftið gengur í.

Axarboð (n, hk)  Boð með þingboðsöxi.  Sjá boðleið.

Axaregg (n, kvk)  Egg á axarblaði.  „Gættu þín á axaregginni; hún er flugbeitt“.

Axarfar (n, hk)  Far sem kemur i efni við axarhögg.

Axarhögg (n, hk)  Högg með exi; hljóð sem heyrist þegar höggvið er með exi.

Axarkegg (n, hk)  Lítil öxi.  Þannig orðað í Kollsvík, en annarsstaðar „axarkjagg“.  „Sæktu nú axarkeggið“.

Axarskalli (n, kk)  Sá endi axar sem er gagnstæður axaregginni.

Axarskaft (n, hk)  A.  Skaft á öxi.  B.  Mistök; klaufaleg skyssa.  „Þarna varð mér á bölvað axarskaft“.  Líklega er þetta líking við lagið á axarskafti, en það er jafnan sveigt í endann.

Axarskalli (n, kk)  Sá endi axarblaðs sem er gegnt egginni.  „Hann negldi tútommu til hálfs í sinnhvorn enda trésins með axarskallanum og strengdi þráð milli þeirra“.

Axla (s)  A.  Setja hlut á öxlina til burðar.  „Hann rétti mér hvern pokann eftir annan af pallinum.  Ég axlaði hann og rétti hann öðrum innum töðugatið.  Þannig gekk fljótt að taka af bílnum“.  B.  Leggja öxlina að hlut til að ná góðu átaki.  „Það vantar herslumuninn að báturinn fljóti; axlaðu hann hérna á móti mér“.

Axla ábyrgð (orðtak)  Taka á sig ábyrgð; viðurkenna ábyrgð; taka   afleiðingum sinna gerða. 

Axla sín skinn (orðtak)  Fara burt; hverfa af vettvangi; leggja af stað; segja upp starfi.  Vísar e.t.v. til þess að veiðimaður yfirgefur veiðislóð og hefur með sér húðir veiðidýra, sem löngum voru dýrmætar til klæða, húsagerðar o.fl.  „Ætli maður fari nú ekki bráðum að axla sín skinn til heimferðar“.

Axlabönd voru almennur staðalbúnaður fatnaðar í Kollsvík langt fram á 20. öld, en um miðja þá öld fóru sumir að nota belti.  Eldri karlar notuðu axlabönd út öldina, og kunnu best við að þau væru hneppt.

Axlarfull (l)  Um ílát/fötu/flösku; full upp í axlir; full að meirihluta/ þrem fjórðu.  „Hér rak á fjörur axlarfulla flösku af einhverju brennivíni.  Það nýttist ágætlega til uppkveikju í reykkofanum“.

Axlarfylla (s)  Fylla upp í axlir á íláti; fylla ílát að u.þ.b. ¾ hlutum.  „Þarna var krökkt af berjum.  Það tók mig stuttan tíma að axlarfylla fötuna, en þá bilaði berjatínan“.

Axlarfylli (n, kvk)  Magn í íláti sem búið er að axlarfylla.  „Mjög var misjafnt hvernig mönnum berjaðist.  Sumir tíndu allmikið upp í sig meðan aðrir stóðust þá freistingu.  Voru þeir kannski búnir að fá axlarfylli meðan enn sá í botn hjá hinum fyrrnefndu“.

Axlarhæð (n, kvk)  Hæð þess sem nær manni í öxl.   

Axlarliður (n, kk)  Liðamót milli handar og axlar. 

Axlasítt (l)  Um höfuðhár; nær niður á axlir.  „Ekki finnst mér nú prýði að þessari nýju bítlatísku; að strákar séu að druslast með axlasítt hár.  Svo maður tali nú ekki um óhljóðin sem fylgja þessu“!

Á (n, kvk)  Vatnsfall; stór lækur.  „Áin rennur um miðja Kollsvíkina og skiptir löndum milli Láganúps og Kollsvíkur“.  „Tyggið járn og troðið skal til öngla hafa, og setja önglasmiðju þar sem heyrist til ár og lár“  (LK; Ísl.sjávarhættir III; haft eftir Jóni Guðmundssyni lærða).  Vísar til þess að öngla skal smíða úr vönduðu járni, helst þar sem heyra má árnið og sjávarnið.

Á (s)  Æja; stöðva för til að hvílast.  „Gangan er strembin upp Grenjalána með vaði, háfa og eggjaílát.  Venja er að á um stund í fyrstu lautinni þegar upp er komið, en síðan ekki fyrr en á brún“.

Á (u)  Upphrópun; líklega stytting úr já.  Síðasti notandi orðsins í Kollsvík var GG, líkt og um fleiri staðbundin orð.  Upphrópunin kom stundum í byrjun setningar sem lýsti spurn eða undrun, en stundum sem sjálfstætt andsvar í spurn;  „Á, heldurdu það“? (GG notaði oftast harðan framburð á ð í meginmáli).  Stundum þó stytt meira:  „Á heldurdu“?   Svar hans við því sem hann var ósammála var gjarnan „Ájá“! í lítilsvirðingartón án þess að ræða málið frekar.

Á (ao)  Í ýmiskonar merkingu eftir efninu.  „Norðangola var komin á, og vann dálitið gegn norðurfallinu“.  „Þeir tókust hart á um málið“.  „Hann var orðinn all hvass á suðaustan þegar við lentum“.

Á (norðan, vestan...)  (fs)  Af (norðri, vestri...)  Fremur var venja í Kollsvík að segja „á norðan“ en „af norðri“, en oft var forsetningum sleppt:  „Hann er enn vestan“ eða „... vestanstæður“.

Á að giska (orðtak)  Um það bil; hérumbil.  „Gestirnir í afmælinu voru á að giska tvö hundruð talsins“.

Á að ætla (orðtak)  Giska á; vita fyrirfram.  „Það er ómögulegt á það að ætla hvernig viðrar á morgun“.

Á að ætlast (orðtak)  Giska á; vita fyrirfram.  „Það er dálítið erfitt á að ætlast með fjöldann“.  „Er nokkuð á að ætlast hvenær þú kemur til baka“?  Sjá einnig ætla á.

Á afviknum stað (orðtak)  Úr alfaraleið; á stað sem menn umgangast sjaldan.  „Þú skalt nú geyma þetta á afviknum stað svo enginn hafi hönd á því“.

Á aldur við (einhvern) (orðtak)  Á svipuðum/sama aldri og einhver.  „Árni er á aldur við mig“.

Á alla (enda og) kanta / Á allan hátt / Á allar lundir / Á allan máta / Á allan handar máta (orðtök)  Með öllu móti; allstaðar; í heildina.  „Það er sama hvernig á það er litið; þessi fyrirætlun ríkisstjórnarinnar er ómöguleg á alla enda og kanta“!  „Hún reyndi á allan hátt að bæta mína líðan“.  „Við verðum á allar lundir að reyna að koma í veg fyrir þetta“.

Á allra vitorði (orðtak)  Almennt vitað; sem allir vita um; sem almennt er rætt.  „Ég held að þeirra samband sé á allra vitorði núorðið“.

Á almannafæri (orðtak)  Í vegi fólks; þar sem fólk sér til.  „Færi“ vísar til umferðar.  „Honum fannst það bágt að mega ekki míga uppvið húsvegg í borginni án þess að vera sakaður um hneyksli á almannafæri“. 

Á annað borð (orðtak)  A.  Bókstafleg merking; öðrumegin í báti. Róðrarmaður getur róið annaðhvort á bæði borð, sé hann einn, en á annað borð ef tveir róa.  „Svo missir Björgvin út aðra árina þegar við vorum komnir nokkuð grunnt uppá.  Þá náttúrulega, þegar átakið kom á annað borðið, sló flötu“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). Sjá á bæði borð.   B.  Í likingamáli um lágmarkstilburði að athöfn/verki.  „Ekki skil ég hversvegna hann klárar ekki verkið, fyrst hann er á annað borð að byrja á því“.

Á annanhvorn veginn (orðtak)  Á hvorn vegin sem er; hvora leiðina sem er fyrir hendi.  „Bað ég Össur Guðbjartsson að koma ljósmyndaranum niður af fjallinu á annanhvorn vegin“  (ÞJ; Sargon strandið; Árb.Barð 1949). 

Á augabragði (orðtak)  Á mjög skömmum tíma; áður en hendi væri veifað.  „Á augabragði var Gummi kominn að hlið hans“  (PG; Veðmálið). 

Á austan/vestan/norðan/sunnan (orðtök)  Vindur stendur af nefndri átt.  „Hann er kominn dálítið á sunnan“.

Á árum áður (orðtak)  Fyrir mörgum árum.  „Á árum áður var fjölmennt sjávarþorp í Kollsvíkurveri“.

Á bak og burt (orðtak)  Farinn; horfinn.  „Hann var á bak og burt þegar ég kom á fætur“.

Á bakvið (orðtak)  Týnt; horfið; finnst ekki.  „Einhversstaðar á ég þetta ökuskírteini, en það er gæti nú verið komið á bakvið“. 

Á bandi einhvers (orðtak)  Hallast á sveif með einhverjum; taka undir sjónarmið einhvers.  „Ég mótmælti þessu harðlega, og meirihlutinn virtist vera á mínu bandi í því efni“.  Vísar til reiptogs.

Á batavegi (orðtak)  Um heilsufar/framvindu; að batna/lagast.  „Hann er á batavegi eftir þessi veikindi“.

Á báða bóga (orðtak)  Báðumegin; sitt hvoru megin; á báðar hliðar.  „Þessir pólitíkusar ausa loforðum á báða bóga fyrir kosningar en svo er allt gleymt“!

Á báðum áttum (orðtak)  Ekki viss um hvorn kostinn á að velja; hikandi; tvílinn.  „Ég er á báðum áttum um það hvort eigi að fara að slá meira; mér sýnist útlitið fremur ótryggt með þurrk“.  Vísar til tvíátta vinds.

Á báðum fótunum/löppunum (orðtak)  Athafnasamur; tilbúinn í mikil átök/verkefni.  „Þú ert aldeilis á báðum fótunum; að ætla bara að hella þér í byggingaframkvæmdir“!

Á beit (orðtak)  Um búfénað/kind/kú/hest; að bíta gras.  „Kýrnar voru allar komnar á beit í túninu“!

Á bendu (orðtak)  Talað var um að vaður væri kominn á bendu þegar hann lagðist fyrir klettanef og bognaði, þannig að hætta gat skapast ef hann hrykki af.  „Varaðu þig; vaðurinn er kominn töluvert á bendu“!

Á beru gólfi (orðtak)  Á gólfi án þess að hafa neitt undir/ á milli.  „Þú getur ómögulega legið á beru gólfinu; ég sæki einhverja dýnu handa þér“.

Á besta aldri (orðtak)  Nýlega fullorðinn; á léttasta ekiði; á þeim aldri þegar kraftur og heilsa er uppá sitt besta.

Á biðilsbuxunum (orðtak)  Um það þegar einhver hefur hug á að bindast annarri manneskju; ástleitni; ganga með grasið í skónum.  Líklega dregið af því að menn fara í sitt fínasta púss þegar þeir biðja sér konu.  Sama gildir um margar dýra- og fuglategundir; að karldýrið fær á sig glæsilegri ham um fengitímann til að eiga betri möguleika á kvenkosti.  „Hún sagði að strákurinn hefði verið á biðilsbuxunum um einhvern tíma“.

Á boðstólum (orðtak) Í boði; fáanlegt.  „Mér finnst á lyktinni að hér sé kaffi á boðstólum“.  Heitið „boðstólar“ lifir einungis í þessu orðtaki, en hefur líklega merkt hið sama og búðarborð fyrrum.  Kaupmenn á markaði röðuðu vörum sínum á hvaðeina sem tiltækt var, til að sýna hana.

Á borð við (orðtak)  Til jafns við; sem jafnast á við.  „Við fáum seint forystumann á borð við hann“.  Borð er hér í merkingunni borðstokkur.  Líkingin vísar til þess að þegar tveir sitja á sömu þóftu og róa sinn á hvort borð, þá var æskilegt að þeir væru jafn góðir ræðarar; að annar væri á borð við hinn.

Á borði (orðtak)  Í reynd; raunverulega.  „Hann er sagður eigandinn, en ég held að svo sé ekki á borði“.

Á bragðið (orðtak)  Um bragð af mat.  Jafnan notað með lýsingarorði framanvið.  „Mér fannst þetta hreinlega ekkert gott á bragðið“.

Á brattann/brekkuna (orðtök)  Upp halla; á fótinn.  „Þetta er ekki erfið ganga, en hún er öll á brekkuna“.

Á brattann að sækja (orðtak)  Erfitt; torsótt.  „Það verður á brattann að sækja að sannfæra hann um þetta“.

Á braut / Á brott (orðtök)  Farinn; búinn að yfirgefa; af stað.  „Hann hafði séð þarna fjárhóp, en hann var allur á braut þegar við komum á staðinn“.  „Ætli maður fari ekki óðara að tygja sig á brott“.

Á brekkuna (orðtak)  Upp í móti hallanum; upp brekkuna.  „Við skulum ekki reka féð of stíft á brekkuna; þá bara gefast þær fótfúnustu og vænstu upp“.

Á brún (og brá) (orðtak)  Um lit/yfirbragð á augabrún (og augum).  „Hún var dökk á brún og brá“.  „Hann er ljós á brún og með alskalla“.

Á bæði borð (orðtak)  Báðumegin á báti; notað um róðrarlag, austur o.fl.. „Nokkrum áratogum síðar rann sjór inn á bæði borð, svo báturinn fylltist og hvolfdi þegar“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  „Stóð hann talsvert útaf á bæði borð, og var þó nokkuð háfermi“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).  Sjá á annað borðið.

Á bætandi (orðtak)  Við aukandi.  „Það er nú varla á bætandi í þennan garða“.  „Hann var orðinn heytæpur áður en þetta fé heimtist, svo það var varla á það bætandi“.

Á daginn / Að degi til / Á næturna / Að nóttu til / Að nóttunni (orðtök)  Segir til um hvort eitthvað skeður að nóttu eða degi.

Á dauða mínum átti ég fremur von (orðtak)  Ég bjóst alls ekki við þessu.  Notað t.d. um það þegar óvæntan gest ber að garði eða þegar óvænt happ/óhapp skeður.  „Á dauða mínum átti ég von, en ekki því að hann færi að sjá um eldamennskuna“!

Á dreifingi (orðtak)  Á stangli; dreift yfir svæði.  „Það eru nokkrar kindur á dreifingi þarna niðri á sléttunum“.

Á döfinni (orðtak)  Á dagskrá; fyrirhugað.  „Ég held það sé á döfinni hjá honum að róa á morgn“.

Á eigin spýtur (orðtak)  Af eigin rammleik; einsamall.  „Ég þurfti að klár þetta á eigin spýtur; þarna var engin hjálp í boði“.  Líklega dregið af spilamennsku; þegar eldspýtur eru lagðar undir og menn spila upp á eigin spýtur, en fá ekki lánaðar eldspýtur hjá öðrum. 

Á eilífu iði (orðtak)  Á sífelldri hreyfingu; iðandi.  „Vertu nú kyrr; ég get ekki klippt þig svona á eilífu iði“!

Á einhvern handar máta (orðtak)  Með einhverju móti; einhvernvegin.  „Ég þarf á einhvern handar máta að komast þangað sem fyrst“.

Á eitt sáttir (orðtak)  Ásáttir um; sammála.  „Við þurfum að verða á eitt sáttir um tilhögunina áður en þessu er hrint í framkvæmd“.

Á ekki af (einhverjum) að ganga (orðtak)  Ekki ein báran stök; endalausar ófarir/hreður.   „Nú var hann að missa konuna sína,karlanginn; og nýbúinn að fótbrjóta sig.  Það á bara ekki af honum að ganga“.

Á ekki (til) orð í eigu minni / Á ekki orð að tala) (orðtak)  Er orðlaus/málstola.  „Ég á nú ekki til orð yfir þessum uppátækjum“!  „Ég á ekki til orð í eigu minni yfir svona glannaskap; ég á bara ekki til orð að tala“!

Á ekki úr að aka! (orðtak) Upphrópun til að lýsa undrun/hneykslan yfir endurteknum uppákomum.  „Það á nú bara ekki úr að aka fyrir þér;  þetta er í annað skiptið sem þú meiðir þig í dag“!

Á elleftu stundu (orðtak)  Við síðasta tækifæri; þegar frestur/tími er að renna út.  Vísar til 20.kafla Matteusarguðspjalls í Biblíunni, þar sem Jesús segir lærisveinum dæmisögu af húsbónda sem gekk einn morgun til að ráða verkamenn að vínakri sínum.  Vinudagur Gyðinga stóð frá sex að morgni til sex síðdegis.  Suma réði hann strax að morgni en aðra síðar.  Á elleftu stundu vinnudagsins, þ.e. kl 5 síðdegis, réði hann enn vinnumenn og greiddi þeim hið sama og hinum sem meira höfðu unnið. 

Á endanum (orðtak)  Að lokum; loksins.  „Nú vantaði Ingibjörgu, og á endanum fannst  hún undir fönninni sem hafði þeyst fram í göngin í fyrstu; og var auðséð að hún hafði kafnað strax“ (StE/ÖG; Mannskaðinn í Kollsvík 1857). 

Á eyrunum/eyrnasneplunum/skallanum (orðtak)  Ofurölvi; augafullur.  „Hann er alveg á skallanum“.

Á fallanda fæti (orðtak)  Hnignandi; í hættu.  „Byggð í hreppnum hefur lengi verið á fallanda fæti“.

Á faraldsfæti (orðtak)  Að ferðast; á ferð.  „Ertu búinn að vera á faraldsfæti í allan dag“?

Á fartinni / Á ferðinni (orðtak)  Um það að ferðast hratt/ þeytast/spana.  „Hann er alltaf etthvað á fartinni“.

Á fastandi maga (orðtak)  Án þess að borða; svangur.  „Það er ekki gott að drekka mikið af þessum fjanda, síst af öllu sona á fastandi maga“.

Á ferli (orðtak)  Að ferðast/ganga.  „Hann hefur lítið verið á ferli hér uppá síðkastið“.  „Segðu honum frá þessu ef þú hittir hann einhversstaðar á ferli“.

Á flot (orðtak)  Um bát eða annað; fljóta.  „Þó fór svo að Jón varð á undan að komast á flot og reri hann suður með landi…“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Á flutningum (orðtak)  Um ferðamáta; með því að vera ferjaður af einum stað á annan.  „Lögmaður og menn hans komu á flutningum að vestan, hálfum mánuði eftir strandið“ (MG; Látrabjarg). 

Á flæðiskeri staddur (orðtak)  Í vandræðum; bjargarlaus.  „Ég er ekki á flæðiskeri staddur meðan ég hef þennan forláta vasahníf“.  Flæðisker er sker sem fer á kaf um flóð, en oft fórst fé sem var statt á flæðiskeri í aðfalli.  Samheiti um flæðisker, svelti og drápsfen var „hættur“ eða „hættur fyrir fé“.

Á fótinn (orðtak)  Upp í móti; upp.  „Þetta er ekki mjög bratt, en seiglingsdrjúgt, og allt á fótinn“.  „Það er fljótfarið niður Geldingsskorardalinn, þegar allt er undan fæti og tóm öll ílát.  En það getur tekið af gamanið á uppleiðinni, lengst neðanaf stíg; þegarallt er á fótinn og  maður þarf að bera á annaðhundrað egg og vað að auki; sökkvandi í mosa upp á mjóalegg og jafnvel í logni og steikjandi sólskini“.

Á fótum (orðtak)  Vakandi; ekki búinn að hátta sig.  „Annað atvik var að vori.  Allir við róðra og við öll komin í rúmin, en mamma þurfti oft að vera á fótum fram á nótt“  (IG; Æskuminningar).

Á framfæri (orðtak)  Háður; framfleytt af; hefur lífsviðurværi af.  „Hún hefur tvö börn á sínu framfæri“. 

Á fæti (orðtak)  A.  Um búfé; lifandi.  „Ég fékk hjá honum fimm lömb á fæti“.  B.  Í hótunum; elta:  „Þú mátt eiga mig á fæti ef þú brýtur aðra rúðu drengur“! 

Á förnum vegi (orðtak) Í alfaraleið; í þjóðbraut; á víðavangi.  „Þennan vettling fann ég á förnum vegi“.

Á förum (orðtak)  Að fara.  „Ertu nokkuð á förum alveg strax“?

Á glámbekk (orðtak)  Á víðavangi; í allra augsýn.  „Láttu nú ekki veskið þitt liggja svona á glámbekk“!  „Sástu nokkuð gleraugun mín einhversstaðar á glámbekk“?

Á glæ (orðtak)  Um færi í sjó; liggur í stefnu skáhallt frá bátnum vegna mikils straums/reks.  „Það kölluðu Vestfirðingar að línan færi á glæ, þegar staumur bar hana langt út frá skipinu.  Þótti það ófiskilegt mjög“  (GG; Skútuöldin).  „Það þýðir ekkert að vera lengur fram í fallið; færin eru farin að standa öll á glæ“.

Á grunnu vatni/ grunnsævi (orðtök)  Grunnt í sjó.  „Það er meiri hætta á að net fyllist af þaradrullu á grunnu vatni en á meira dýpi; einkanlega ef þau lenda á sandbletti“.

Á grúfu (orðtak)  Á hvolfi; með andlitið niður.  „Fyrst hafði hann komið niður á herðarnar, á grasnefinu í bjarginu; síðan tekið eitt kast og komið þá niður á grúfu og getað gripið í grasið og stöðvað sig“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Á handahlaupum (orðtak)  Í afleiddri merkingu  var þetta haft um að vinna hlutina í flýti/flaustri.  „Það þýðir ekkert að ætla að gera þetta á einhverjum handahlaupum; hér þarf að vanda til verka“.

Á harðahlaupum/harðaspretti/hlaupum/spretti/stökki/þanspretti (orðtök)  Hlaupandi mjög hratt. „Hann kemur þarna á harðahlaupum“.

Á haustdögum (orðtak)  Að hausti; um haust.  „Þaðan skiluðu sér því á haustdögum vænir dilkar, en vanhaldasamt var á fénu sem þar gekk“  (PG; Veðmálið). 

Á heimleið (orðtak)  Á leiðinni heim.  „Hvenær heldurðu að þið verðið á heimleið“?

Á heljarþröm (orðtak)  Aðframkominn; að þrotum kominn.  „Hann er nú varla á heljarþröm efnalega“.  Þröm merkir brún eða þröskuldur.  Sá sem er á heljarþröm er því við dauðans dyr i bókstaflegri merkingu.

Á hina hendina / Á hinn bóginn / Á hinn veginn (orðtök)  Hinsvegar; annars; aftur á móti.  „Þetta var almennt álitið.  Á hina hendina held ég að það hafi ekki verið allskostar rétt“.  „Hann var af ýmsum talinn heimskur, en ég held á hinn bóginn að hann hafi verið afburðagáfaður“.  „Á hinn veginn verður því ekki á móti mælt að oft ratast kjöftugum satt á munn“.

Á hjara veraldar (orðtak)  Á endimörkum heimsins; í ystu byggðum/svæðum.  „Hann sagðist ekki hafa búist við að sjá slík listaverk hér norður á hjara veraldar“.

Á hlaupum / Á handahlaupum (orðtök)  Í miklum flýti.  „Allir voru á hlaupum að koma heyinu inn eða í galta áður en hann færi að rigna“. 

Á hlið til við (orðtak)  Til hliðar við; samhliða; samsíða.  „Hann sigldi á hlið til við okkur og spurði hvort við þekktum þessa merkingu á baujunni“.

Á hnotskóg eftir (orðtak)  Leita að; spyrjast fyrir um; inna eftir.  „Ég er á hnotskóg eftir góðum hrút“.

Á honum (orðtak)  Innskot sem undantekningarlaust var notað ásamt og á eftir nafnorði við vissar aðstæður; einskonar hikorð í áhersluskyni.  „Það verður nú að virða honum það til vorkunnar, skarninu á honum, að hann vissi ekki betur en þetta“.  „Skyldi túnrollan ætla aðstökkva þarna yfir girðunguna, fjandinn á henni“?

Á hraðbergi (orðtak)  Um andsvör; skjótt; um leið.  „Hann hafði svör við þessu öllu á hraðbergi“.  Málfræðingar skýra orðtakið þannig að hraðberg sé tannsteinn eða skán sem sest á tennur.

Á hraðferð (orðtak)  Að flýta sér mikið; mjög tímabundinn.  „Ég er á hraðferð; má ekki vera að því að stoppa“.

Á hrakhólum (orðtak)  Í vanda; oftast varðandi húsnæði/verustað.  „Um tíma var hann á hrakhólum“.

Á hverju strái (orðtak)  Algengt; út um allt.  „Svona verkmenn eru ekki á hverju strái“.

Á hundavaði (orðtak)  Í fljótheitum; grunnfærnislega.  „Ég las þetta bara á hundavaði, en sá ekkert athugavert“.  Sjá hundavað.

Á húsi / Á innistöðu / Á gjöf (orðtak)  Um sauðfé; þarf að vera inni t.d. vegna veðurs, og fá fulla fóðurgjöf.  „Heyin eru fljót að minnka ef fé þarf að vera lengi á húsi“.  Sjá taka á hús.

Á hverfanda hveli (orðtak)  Hnignar; breytist til hins verra.  „Búskapur var mjög á hverfanda hveli á þessum árum, og ört fækkaði í sveitum“.

Á hverju byggðu bóli (orðtak)  Á öllum bæjum; allsstaðar í byggð.  „Svona þarfaþing ætti að vera til á hverju bygðu bóli“!

Á höndum (orðtak)  Um fyrirætlun.  „Hvað er þér á höndum“?  Merkir „hvaða erindi átt þú“; „hvað ætlast þú fyrir hér“?  Sjá fyrir höndum.

Á höttunum eftir (orðtak)  Leitandi að; sóka fyrir; reyna að eignast/fá.  „Ég er á höttunum eftir seinna bindinu af þessari bók“.  Ekki er ljós uppruni orðtaksins, en getum hefur verið leitt að því að „hettirnir“ sem um ræðir séu hólar/þúfur, og að eiginleg merking sé að standa uppi á hól/þúfu og skima eftir einhverju.

Á ís / Á ísi (orðtak)  Ísi lagt.  „Áin var á ís, og því ekki neinn farartálmi“.

Á jaðrinum (orðtak)  Á mörkunum; varla.  Notað í ýmsu samhengi:  „Mér sýnist það alveg á jaðrinum með sjóveðrið í dag“.  „Heystabbinn er á jaðrinum með að endast framúr“.

Á jappi (orðtak)  Á stjákli; á vokki.  „Því er hrafninn á jappi þarna við dýið““?

Á kostnað annars (orðtak)  Sem snertir annan; sem annar/hinn þarf að gjalda fyrir.  „Það hindraði þá hinsvegar ekki í góðlátlegum glettum hvors á annars kostnað“  (PG; Veðmálið). 

Á kreiki (orðtak)  Á ferðinni; farandi/flakkandi um.  „Einhverjar sögur eru á kreiki um þetta“.

Á kúpunni (orðtak)  Eignalaus; gjaldþrota; á hausnum.  „Henn er víst alveg á kúpunni eftir þessi viðskipti“.

Á köldum klaka (orðtak)  Úrræðalaus; úrræðalítill; með fá bjargráð; úti á galeyðunni.  „Ekki vildi ég skilja túristann eftir á köldum klaka, heldur benti honum á hvar gistingu væri að fá“.

Á lagðinn / Á ullina (orðtök)  Um lit/ullarlag sauðkindar.  „Nú þarf að fara að stinga út.  Þær eru að verða fjári dökkar á lagðinn, sumar“.  „Lambið er einkennilega snorkið á lagðinn; eins og það hafi lent í múkkaælu“.

Á landsvísu (orðtak)  Samanborið við allt landið; á mælikvarða alls landsins.  „Þetta var hæsta meðalvigt á svæðinu, og þótti nokkuð góð einnig á landsvísu“.

Á langleiðinni með (orðtak)  Komið langt/vel á veg með.  „Mér sýnist að Áin sé  á langleiðinni með að naga sig í gegnum Rifið“.  Einnig „komin langleiðina með“ í sömu merkingu.

Á langveginn/þverveginn (orðtak)  Langsum/þversum.  „Það er mun seinlegra að saga tréð á langveginn“

Á lífi (orðtak)  Lifandi; með lífsmarki.

Á lífsfæddri ævi (orðtak)  Á allri ævinni; ævilangt.  „Svona lagað hef ég ekki séð á minni lífsfæddri ævi“.

Á lausu (orðtak)  Óbundinn; frjáls; ólofaður; ógiftur.  „Hann sagði að fáir kvenkostir væru á lausu í sínu byggðarlagi; því hefði hann þurft að sækja annað“.

Á lausum kili (orðtak)  Ekki viðbundinn; ekkert að gera; frjáls.  „Ég þarf að ljúka þessu verki, en eftir það verð ég á lausum kili“.

Á milli vita (orðtak)  Í millibilsástandi/óvissu.  „Ég er enn á milli vita með hvorn kostinn ég á að velja“.  Líklega dregið af því að fyrrum var talið að menn ættu tvennskonar vit á lífsleiðinni; barnavit og fullorðinsvit.  Á unglingsárunum voru menn því á milli vita.

Á misjöfnu þrífast börnin best (orðatiltæki)  Speki sem vísar til þess að börnum er það ekki endilega hollt að fá alltaf besta viðurværi eða heilnæmasta.  Oft viðhaft í Kollsvík, þó þar ættu börn góða ævi.  Á síðari tímum eru þessi gömlu sannindi að fá staðfestu í læknavísindum; þar sem sannað þykir að of mikið hreinlæti vekur upp ofnæmi og ýmiskonar viðkvæmni og offita  stafar oft af of góðum viðurgjörning í mat.

Á misvíxl (orðtak)  Um legu hluta; hver/hvor við hlið annars en í gagnstæða stefnu.  „Leggðu endana á misvíxl og hnýttu svo réttan hnút á“.

Á móti blæs (orðtak)  Erfiðleikar steðja að; lendir í mótlæti.  „Gott er að eiga góða að þegar á móti blæs“.

Á móts við (orðtak)  Til jafns við; á móti.  „Bátana rak nú suður yfir Flóann, og voru sumir komnir allt suður á móts við Blakk“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Á mörkunum (orðtak)  Tæplega; varla; naumlega.  „Það er alveg á mörkunum að þetta sé orðið hirðandi“.

Á nálum um (orðtak)  Uggandi um; hræddur um.  „Hann var alltaf á nálum um að haughúsþakið myndi gefa sig ef þungur bíll æki yfir það“.

Á nástráinu (orðtak)  Mjög fátækur; að farast úr sulti/fátækt.  „Menn eru ekki alveg á nástráinu sem geta veitt sér svona munað“!  Sjá nástrá.

Á nýjan leik (orðtak)  Að nýju; upp á nýtt.  „Ég ruglaðist í talningunni og þurfti að byrja á nýjan leik“.

Á nippunni / Á nöfinni (orðtak)  Á tæpasta vaði; með naumindum.  „Það var alveg á nippunni að þetta tækist“.  Líklega er nippa þarna sama og nibba; klettanef, en einatt sagt á þennan hátt og með hörðum framburði.

Á næstu grösum (orðtak)  Rétt hjá; í nágrenninu.  „Móðirin var á næstu grösum og kom þegar lambið jarmaði“.

Á næstunni (orðtak)  Í náinni framtíð; á næstu dögum/tímum.  „Ég sigaði tíkinni á eftir túnrollunni og vona að hún láti ekki sjá sig nærri túnum á næstunni“!

Á nösunum (orðtak)  Um bát; drekkhlaðinn.  „Hann sigldi hér inn í logninu; alveg á nösunum“.

Á kristilegum/ókristilegum tíma (orðtak)  Á viðeigandi/ótilhlýðilegum tíma.  „Ég held að við ættum alveg að ná á kristilegum tíma í athöfnina ef við leggjum strax af stað“.  „Við töfðumst í þessari fjárans ófærð; það er ástæðan fyrir því að við erum hér á svona ókristilegum tíma“.

Á léttasta skeiði  (orðtak)  Á besta aldri; nýlega fullorðinn.  „Það var ekki mikið mál að klifra þetta bandlaus þegar maður var á léttasta skeiði“.

Á misjöfnu þrífast börnin best (orðatiltæki)  Mikið notuð speki, sem nútímavísindi eru loksins farin að viðurkenna.  Það er öllum hollt; ekki síst börnum, að láta ofaní sig mjög fjölbreytta fæðu, og ekki endilega þá sem allajafna er talin heilnæm eða kjarnmikil.  Það sem fer ofaní börnin af t.d. mold, sandi eða „skemmdum“ mat getur reynst þeim heilsusamlegt.  Þetta styðja nýjustu niðurstöður rannsókna í mótefna- og ofnæmisfræðum.

Á mjóum þvengjum læra hundar að stela (orðatiltæki)  Hundur sem fær afganga af einhverju, t.d. afskurð/þveng af skinni, telur gjarnan að hann megi ná sér í mat af sama tagi.  Smáhnupl manneskju getur þróast upp í meiri þjófnað.

Á mörkunum (orðtak)  Hér um bil; með naumindum; nærri því.  „Það var alveg á mörkunum að við næðum hnísunni inn í bátinn“.  „Það er á mörkunum að bensínið dugi, ef við förum að kippa mjög djúpt“.

Á nálum yfir (orðtak)  Spenntur/kvíðinn vegna.  „Ég var á nálum yfir því hvernig þetta færi“.

Á ótilhlýðilegan hátt(orðtak)  Á óviðeigandi hátt; með óviðeigandi aðferð/lagi.  „Við látum það ekki spyrjast um okkur að þetta hafi verið gert á ótilhlýðilegan hátt“.

Á pörtum (orðtak)  A.  Sumsstaðar; á sumum köflum.  „Á pörtum er sléttan vel sprottin, en hún er léleg í heildina“.  B.  Um mann; ekki heill á geðsmunum; með geðveilu; slær útí fyrir.  „Stundum finnst mér að hann sé alveg á pörtum þessi blessaður ráðherra; eins og hann rausar“!

Á rangri hillu (orðtak)  Ekki í réttu starfi; ekki að fást við það sem maður er færastur í; ekki á réttri hillu.  „Hann var alveg á rangri hillu í lífinu; hann hefði komist langt sem óperusöngvari“.

Á rassaköstum / Á þeytispretti / Í hendingskasti (orðtak)  Á miklum hlaupum/spretti.  „síðast sá ég gemlingastóðið hverfa á rassaköstum uppaf Hádegisskarði“.  „Ég hljóp af stað á þeysispretti“.

Á refilstigum (orðtak)  Á villigötum/glapstigum.  Óyggjandi orðskýring virðist ekki hafa fundist á orðinu „refill“.  Það er notað um mjóan myndskreyttan dúkrenning og í samsetningunni „blóðrefill“ sem merkir sverðsoddur.  Virðist stofnskylt orðinu „ræfill“ og „rífa/rifinn“.  Líklega merkir „refilstiga“ eða „refilstigur“ stíg/veg sem er ógreinilegur og því villugjarn.  Talað er um að „lenda á refilstigum“ og „vera á refilstigum“.

Á reiðum höndum (orðtak)  Til taks; tilbúinn.  „Ég hafði engin svör á reiðum höndum í þessum efnum“.  Reiður merkir þarna tilbúinn/ til reiðu. 

Á réttu róli (orðtak)  Ganga í rétta átt, þó hægt fari.  Ról merkir hæg ganga; lull/dól.  Einnig notað í líkingamáli um hvaðeina sem stefnir í rétta átt; t.d. rekstur fyrirtækis eða framgangur málefnis.

Á réttunni / Á röngunni (orðtök)  Rétt/umsnúið.   „Það er betra að vera í peysunni á réttunni en á röngunni“.

Á réttum kili (orðtak)  Um skip; kjölrétt; situr rétt í sjó.  „Er skipið skammt undan landi, snýr stefni til lands og er á réttum kili“  (MG; Látrabjarg).

Á rúi og stúi (orðtak)  Í óreiðu/ringulreið; á tjá og tundri.  „Takið nú örlítið til eftir ykkur strákar; hér er allt á rúi og stúi eftir ykkur“!  Orðtakið er líklega komið úr dönsku; „með rub og stub“; áður úr eldri dönsku; „med ruv og stuv“ og enn áður úr lágþýsku ; „met rump un stump“.  Líklega má í því finna samstofna með orðunum rú = gömul ull, og strúi = tættur endi á t.d. bandi.

Á sama báti (orðtak)  Sjá allir á sama báti.

Á sandi byggt (orðtak)  Byggt á veikum grunni; með veikar forsendur.  „Þessar væntingar reyndust allar á sandi byggðar“.  Líking sem t.d. er notuð í biblíunni, um að óráðlegt sé að byggja hús á sandi.  Heimilisfólk á Láganúpi skopast jafnan að þessari líkingu, enda eru þar öll hús reist á sandi sem þar hefur reynst hið traustasta undirlag.

Á sál og líkama (orðtak)  Um ástand manneskju; líkamlega og andlega.  „Niðursetningar voru misjafnlega heppnir með sína húsbændur, og voru oft bugaðir á sál og líkama eftir slæma vist“.

Á seyði (orðtak)  Um að vera; að gerast.  „Ég heyrði hávaða frammi, og fór að athuga hvað væri á seiði“.  „Hvað er hér eiginlega á seiði“?!  Seyðir er eldunarkró eða hola sem eldað er í.

Á sinni tíð / Á sínum tíma (orðtak)  Eitt sinn; fyrir nokkrum tíma.  „Ívar Ívarsson gat þess að borist hefði á sinni tíð bréf yfirkjörstjórnar, þess efnis…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Á skal að ósi stemma (orðatiltæki)  Hvergi er þetta orðatiltæki skiljanlegra en í Kollsvík.  Þar hefur orðið „ós“ varðveist í upprunalegri mynd:  Árósar nefnast uppsprettulindir í miðri víkinni; undir Umvarpinu; stutt norðan Hestkeldu.  Víðast annarsstaðar merkir „ós“ útfall ár.  Spekin vísar til þess að ef þurrka á land þarf að stífla ána ofarlega og breyta farvegi hennar; og á svipaðan hátt þarf að hindra framgang slæmra mála í byrjun.

Á skakk / Á ská / Á skakk og skjön (orðtök)  Til hliðar við; á skjön við; horfir skakkt við.  „Heyvagninn er dálítið á skakk við hlöðuvegginn“.  „Það er útilokað að fletja fiskinn þegar hann er svona á skakk og skjön“.

Á skallanum / Á eyrunum (orðtök)  Mjög ölvaður; sauðdrukkinn; kófdrukkinn.  Nýlegar myndlíkingar í málinu.

Á skammri stund skipast veður í lofti (orðatiltæki)  Veðrátta getur breyst á stuttum tíma.  „En á skammri stund skipast veður í lofti...  Til hafsins er kominn norðan mökkur...“  (KJK; Kollsvíkurver).

Á skjön við (orðtak)  Til hliðar við; horfir skakkt við; á skakk við.  „Báturinn lendir ögn á skjön við kerruna; ýttu frá og reyndu aftur“.  „Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar ganga á skjön við öll kosningaloforðin“.

Á skortir (orðtak)  Uppá vantar; vanhagar um.  „Hann greiðir á morgun það sem á skortir“ 

Á skurki (orðtak)  Á fullri ferð; hraðfara.  „Ég ók á skurki inneftir þegar ég frétti af þessu“.

Á snið (orðtak)  Skáhallt við.  Saxagjá er á snið frá norðvestri í Bjarginu og skiptist svo um mitt bjargið og kemur lóðrétt niður“  (HlH; Örn.skrá Breiðavíkurbjargs).  „Við leggjum þennan streng á snið við hinn“.

Á snærum (orðtak)  Á vegum; tilheyrandi.  „Hingað komu menn á snærum Fasteignamatsins“.  „Þessi hundur er ekkert á mínum snærum“.  Snæri merkti fiskilína og er upphafleg merking líklega að  tilheyra afla einhvers.  Önnur kenning (HH; Ísl. orðtakasafn) er að orðið „snærur“ hafi forðum merkt landamerki sem mæld eru með bandi.  Í þeim skilningi merki orðtakið „að vera innan landamerkja einhvers“.  Um þetta má deila.

Á spena (orðtak)  A.  Um lamb eða kálf sem sýgur móður sína.  B.  Líkingamál um þann sem nýtur launa eða annars hjá öðrum tilgreindum.  „Þeir hafa sitt á þurru sem eru á spena hjá ríkisvaldinu“!

Á stangli / Á strjálingi / Á tætingi / Á víð og dreif (orðtak)  Hingað og þangað; hér og hvar; óreglulega út um allt.  „Það stóð ekkert upp úr klakabreiðunni nema ein og ein hundaþúfa á stangli“.   „Féð getur verið á tætingi upp um öll fjöll í svona góðri tíð“.  Það eru múkkahreiður á víð og dreif í Hnífunum, en óvíða hægt að tala um samfellt varp“. Sjá stangl.

Á stjákli / Á rjátli / Á vappi (orðtök)  Gangandi; dólandi; á kreiki; vakandi.  „Maður er á stjákli öðru hvoru innanum féð meðan sauðburður stendur“.  „Hann var hér á eitthvað á vappi rétt áðan“.  „Ertu enn á rjátli; farðu nú að koma þér í háttinn drengur“! 

Á straumunum (orðtak)  A.  Eiginleg merking; á veiðislóð/fiskimiðum.  B  Í líkingamáli; á svæðinu/ferðinni.  „Ég heyrði að nú væru þingmenn hér á straumunum“.

Á strjálingi / Á stangli (orðtak)  Hingað og þangað; hist og her; hér og þar.  „Þarna var allmikið af eggjum á stjálingi“.

Á stundinni (orðtak)  Strax; tafarlaust; án tafar.  „Þið fáið ekkert að borða ef þið komið ekki á stundinni strákar“!

Á stærð við / Á hæð við (orðtök)  Um það bil jafn stór/hár og…  „Ég lýg því ekki, að stærstu rófurnar voru á stærð við mannshöfuð“!

Á stöku stað (orðtak)  Sumsstaðar; á stangli.  „Þetta er gróðurlítið land; lyngbrekkur, fjalldrapi og á stökustað einiberjabreiður“  (IG; Sagt til vegar II). 

Á suðurleið (orðtak)  Á leiðinni suður til Reykjavíkur.  „Hann ku vera á suðurleið núna á mánudaginn“.

Á sund (orðtak)  Um vatn/sjó/á eða annað vatn; svo djúpt að ekki er stætt; að ekki rekkar.  „Þú veður ekki yfir ána á þessum stað; hún er alveg á sund við hinn bakkann“.

Á svipstundu (orðtak)  Mjög snögglega; allt í einu.  „Þetta gerðist á svipstundu“.

Á syngjandi kafi / Á svartakafi (orðtak)  Á bólakafi.  „Við höfum lent frammi í straumnum með djúpbólið; það er á syngjandi kafi yfir harðasta fallið“.  „Djúpduflið hefur dregist á svartakaf“.

Á sömu bókina lært (orðtak)  Sama vitleysan/endaleysan; jafn slæmt/vitlaust.  „Allt er það á sömu bókina lært hjá þessum stofnanagemsum!  Nú ætla þeir að fara að fækka póstferðunum“.

Á sömu línu (orðtak)  A.  Á fyrri árum merkti þetta bæi sem voru saman um eina símalínu, sem svo var tengd í símstöð.  hver bær hafði sína hringingu og voru bæir innan sömu línu tengdir allan sólarhringinn.  Símstöð þurfti að tengja yfir á aðar línur og í langlínusímtöl, en hún var einungis opin að deginum í byrjun.  Sjá á tali.  B.  Í seinni tíð er þetta haft yfir skoðanabræður; þá sem aðhyllast svipaða stefnu/skoðanir/málstað.

Á taði (orðtak)  Um sauðfé; hýst í húsi/kofa sem ekki er með grindagólfi, þannig að skítur/tað safnast og treðst undir fótum.  „Lömbin voru höfð á taði; það var stungið út um sumarmál og notað sem eldiviður þar til mór fór að þorna.  Taðið úr öðrum bústofni var notað til áburðar á tún“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Á takteinum (orðtak)  Tiltækt; við hendina; á hraðbergi.  „Alltaf er hann með svörin á takteinum“.  HH segir takteina hafa verið glóandi teina sem menn báru við skýrslu til að sanna sakleysi sitt (HH; Ísl. orðtakasafn).  Líklega er uppruni heitisins teinn sem var beygður í „u“ og notaður sem töng til að taka glóandi járn úr eldi við eldsmíði.

Á tali (orðtak)  Um síma; símalínan er upptekin/ í notkun af öðrum bæ á sömu línu.  „Það var á tali núna, en ég reyni að ná í hann á eftir“. 

Á tímanum (orðtak)  Um tímasetningu; t.d. á fyrsta tímanum= milli klukkan tólf og eitt.  „Á fjórða tímanum þetta kvöld var hringt til Látramanna og þeim sagt að togari væri á reki að Bjarginu“  (MG; Látrabjarg).

Á tjá og tundri (orðtak)  Í óreiðu/ringulreið; á rúi og stúi.  „Allt var á tjá og tundri í matsalnum eftir að báturinn fékk á sig brotið“.  Vafist hefur fyrir mönnum að skýra orðtakið þannig að vit sé í.  Tundur merkir vafalaust óreiða, enda var það notað um sprengiefni fyrrum og lifir enn í orðinu tundurdufl.  Tjá merkir líklega það sama, en það hefur lifað í orðinu tjása = ræfrildi; drusla og sögninni að tá = tægja; tæta. Sjá tjá og tundur.

Á tóman maga (orðtak)  Þegar maður er hungraður/svangur.  „Hann sagði best að taka lyfið inn á tóman maga“.

Á tveimur jafnfljótum / Á hestum postulanna (orðtak)  Gangandi.

Á tvist og bast (orðtak)  Um allar trissur; út um allt; á víð og dreif.  „Hópurinn sem slapp úr réttinni er kominn á tvist og bast“.  Ekki hefur verið sett fram sennileg skýring á uppruna orðtaksins, en e.t.v. vísar „tvist“ til þess að tvístrast og „bast“ gæti verið myndbreyting úr „burtu“.  Upprunalega gæti orðtakið hafa verið; „á tvíst og burt“, en aðlagað að því sem þægilegra er í tali.

Á tæpasta vaði (orðtak)  Í hættulegri/hæpinni stöðu; tekur áhættu.  „Við erum á tæpasta vaði með að ná síðari snúningnum frammi“.  „Mér fannst hann tefla á tæpasta vað; að fara upp klettinn bandlaus“.  Vísar til þess að fara yfir straumharða á á slæmu vaði eða neðarlega á vaðinu.

Á undan sinni samtíð (orðtak)  „Pabbi var í því sem öðru á undan sinni samtíð.  Þá var fátítt að karlmenn ynnu kvenmannsverk, en það vafðist ekki fyrir honum eða Gunnlaugi bróður hans“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90).   

Á útopnu (orðtak)  Á fullri ferð; á skurki; hamast.  „Hann var alveg á útopnu við að flaka steinbítinn áður en hann færi að skemmast“.  Ekki í orðabókum; ekki vitað um aldur; notað í þröngum hópi, t.d. af Sv.Guðbj.

Á vað (orðtak)  Vaðarmaður; sá sem er í hópi þeirra bjargmanna sem dregur sigara upp.  „Gott er að hafa 10-12 sigara á vað þegar farið er í lengri sig“.

Á vaðbergi/varðbergi (orðtak)  Hafa gætur á; fylgjast vel með.  „Þú þarf að vera vel á vaðbergi og halda vel við þegar ég kem upp vaðinn aftur“.  „Vertu vel á varðbergi ef bítur á“.  Orðtakið á upprunalega við um þann sem er á brún í bjargsigi og fylgist með merkjum og þörf sigarans.  Það getur verið rétt í báðum ritháttum, sjá vaðberg/varðberg

Á vakki / vappi/vokki (orðtak)  Eigrandi; á varðbergi; gangandi um.  „Það er vissara að vera á vakki nálægt kindinni; henni gekk illa með burðinn síðast“.  „Hrafninn er á einhverju vokki þarna frammi á Mýrum“.

Á vegum/snærum (einhvers) (orðtak)  Fulltrúi einhvers; í félagi með einhverjum.  „Hann sagðist vera á vegum yfirdýralæknis“. 

Á veturna (orðtak)  Á vetrum; um vetur.  „Vegna hins mikla vatnsaga verða mikil svellalög á Leirunum á veturna“  (HÖ; Fjaran). 

Á vetur setjandi (orðtak)  Um skepnu; vænleg til ásetnings.  Vanalega í neikvæðri og afleiddri merkingu.  „Mér finnst að þessi ríkisstjórn sé ekki á vetur setjandi“.

Á við (orðtak)  Jafn mikið og...  „Góð mysublanda er á við hvaða svaladrykk sem er“.  Sex ær, loðnar og lembdar, eru á við eitt kúgildi“.  „Hann er á aldur við mig“.

Á villigötum (orðtak)  Á rangri leið, (oftast í málflutningi).  „Ég held að þeir séu á villugötum í þessu máli“.

Á vitorði (orðtak)  Vitað; í umræðu.  „Eftir fáeina daga var fréttin á allra vitorði“.

Á víð og dreif (orðtak)  Hér og þar; hist og her; á strjálingi/stangli/dreifingi; hingað og þangað; á stangli; á tvist og bast.  „Kindurnar sem sluppu úr dilknum voru komnar á víð og dreif norður í víkinni“.  Heitið „víð“ er eingöngu notað í þessu orðtaki núna, en merkir víðátta.

Á víðavangi (orðtak)  Einhversstaðar; á ótilgreindum stað.  „Það gengur ekki að skilja þetta eftir á víðavangi“.

Á vísan að róa (orðtak)  Um þann sem er á vísum stað; um fisk sem sækir á sömu mið.  „Steinbíturinn átti að vera genginn á sérstök mið skammt undan, þar sem yfirleitt var á vísan að róa“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Á vísum stað / Á vissum stað (orðtak)  Á stað sem vitað er um; á þekktum stað.  „Láttu skærin á vísan stað þegar þú hættir að nota þau“.  „Bókina geymi ég vandlega á vísum stað“.

Á vonarvöl (orðtak)  Umkomulaus; uppflosnaður; þarf að lifa á bónbjörgum.  „Hann sagðist ekki ætla að koma sér og sínum á vonarvöl með því að taka þátt í svona ævintýramennsku“.  Málvísindamenn vilja meina að vonarvölur merki það sama og betlistafur, þar sem völur merki stafur.  Ekki þarf sú skýring að vera rétt; völ kann að vera þarna sama orðið og val; fara á vonarvöl merki þá að leggja út í óvissu, t.d. eftir að hafa flosnað upp; í þeirri von að bjarga lífinu.  Sbr orðtakið; sá á kvölina sem á völina.

Á vori (sumri/hausti/vetri) komanda (orðtök)  Á næsta vori; næsta vor.  „Það er jafnvel búist við þessu á vori komanda“. 

Á vör/vörum (orðtak)  Segjandi; viðhafandi.  Sjá með (…yrði) á vör(um).

Á vöxt við (einhvern) (orðtak)  Svipaður á stærð og einhver. 

Á ystu nöf (orðtak)  Eins langt og unnt er að komast.  Oftast notað í líkingamáli.  „Mér finnst að þarna séu menn komnir á ystu nöf í þessum málum“.

Á þann veg (orðtak)  „Sagan segir að Steinunni hafi verið gefið einum eða tveimur dropum of mikið og á þann veg var fengin skýring á því sem seinna kom fram; þessum morðum á Sjöundá“  (EG; viðtal á Ísmús 1968).  „Svipur formannsins var á þann veg, að nú skyldi hann og gnoðin sýna listir sínar til hins ýtrasta; enda sjáanlega ærið tilefni“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   

Á þann veg af guði gerður (orðtak)  Þannig innrættur/þenkjandi; þannig skapaður.  „Honum er kannski vorkunn; hann er nú einusinni á þann veg gerður“.

Á þá/þessa leið / í þá átt / í þá veru  (orðtak)  Um frásögn; þannig; svoleiðis.  „Til er saga af örnefninu (Hnífar) sem líkast til er gömul en hefur verið sögð mann fram af manni.  Hún er á þessa leið:....  “ (EG; Viðtal á Ísmús 1968).

Á þessum síðustu og verstu tímum (orðtak)  Ómur af gömlum barlómi situr eftir í þessu orðtaki sem iðulega er gripið til nútildags; jafnvel þó tíminn sem um er rætt hafi ekki verið tiltakanlega slæmur. 

Á þrotum (orðtak)  Alveg að þrjóta; að verða uppurinn; að tæmast.  „Fóðurbætirinn fer að verða á þrotum“.

Á því (orðtak)  A.  Á þeirri skoðun; trúi því.  „Ég er helst á því að hrútarnir gætu hafa ráfað fram í Vatnadal“.  B.  Kenndur; með víni; fullur.  „Mér er ekkert vel við að karlinn sé að keyra þegar hann er á því“.

Á þönum (orðtak)  Mjög upptekinn; á spretti.  „Hann er uppgefinn, enda búinn að vera á þönum allan daginn“.  Þanir eru m.a. tálkn á fiski (sjá þorskhaus).  Orðtakið vísar til þess að þenja sig.

Á öndverðum meiði við (einhvern) (orðtak)  Á annarri skoðun en.  „Ég er alveg á öndverðum meiði við síðasta ræðumann“.  Sumir hafa ályktað að orðtakið vísaði til meiða á sleða.  Líklegra er þó að þarna sé vísað til íþróttar sem nú er fyrnd.  T.d. gætu menn hafa stundað skylmingar; standandi hvor á sínum trjábol (meiði).  Andstæðingurinn stendur/er þá á öndverðum/gagnstæðum meiði.

Ábatasamt (l)  Arðbært; sem gefur hagnað/ábata.  „Var hvalurinn skorinn í landareign Kollsvíkurjarðar, en eigandi hennar var Einar, svo að þetta hefur vafalaust verið ábatasamt fyrir hann“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Ábatavegur (n, kk)  Gróðavegur; hagnaðarleið.  „Búskapur með sauðfé er enginn ábatavegur; sér í lagi ekki í seinni tíð“.   Orðið var notað í Kollsvík en finnst ekki í orðabókum.

Ábati (n, kk)   A.  Hagur; hagnaður; arður.  „Þetta verkefni skilaði ekki miklum ábata“.  B.  Upprunaleg merking er aflauppbót/hlutarbót veiðimanns.  T.d. átti sá sporðinn og vaðhornið óskipt sem dró stórlúðu.

Ábekingur (n, kk)  Sá sem skrifar uppá víxil sem aukaábyrgðarmaður, og tekur þannig ábyrgð á ´víxilskuldinni.  Aðalskuldari er samþykkjandi víxilsins; útgefandi er fyrsti ábyrgðarmaður, en hann skrifar framaná víxilinn og framselur hann með nafni þversum aftaná.  Ábekingur er meðábyrgðarmaður og ritar undir nafn hans.

Ábekja (s)  Skrifa uppá víxil sem ábekingur

Ábending (n, kvk)  Það að vekja athygli annars/annarra á einhverju.

Áberandi (l)  Vel sýnilegur.  „Flaggið á baujunni mætti vera meira áberandi“.

Áblástur (n, kk)  Útbrot vegna veirusýkingar.  Einkum er hætt við áblæstri kringum munninn.

Áboginn (l)  Álútur; boginn.  „Dyragöngin inn í Hesthúsið eru svo lág að fullvaxið fólk þarf að ganga ábogið“.

Áborinn (l)  Sem áburður er borinn á.  „Í Látrabjargi var afar gott haglendi, þar sem það á annað borð var grasi gróið; enda var það ríkulega áborið af fugladriti“  (PG; Veðmálið). 

Ábót (n, kvk)  A.  Það sem bætt er á; t.d. viðbót af mat á disk.  „Gefðu mér dálitla ábót af skyrinu“.  B.  Krókar sem bætt er á fiskilínu/bjóð.  „Erum við ekki með einhverja ábót“?

Ábótavant (l)  Sem þarfnast úrbóta/lagfæringar/viðauka.  „Mér sýndist ýmsu ábótavant í viðhaldi húsanna!.

Ábóti (n, kk)  Yfirmaður munkaklausturs.  „Ekki verður um það sagt úr þessu, hvort Patrekur biskup hafi verið ábóti klaustursins á Iona, en valdamikill hefur hann verið þar sem hann hlóð skip fóstbræðranna Örlygs og Kolls af kirkjuviði og kirkjugripum“.

Ábreiða (n, kvk)  Brekán; teppi; klæði/segl sem breitt er yfir eitthvað, t.d. rúm.

Ábrystir (n, kvk)  Hleypt broddmjólk, gjarnan blönduð til helminga með mjólk.  Oftast úr nýbærukúm en einnig stundum ám.  Broddmjólk er hirt til ábrysta í 3 daga eftir burð.  Pönnuábrystir eru jafnaþykkar og þéttar en draflaábrystir eru með trefjakenndari áferð.

Áburðardreifing / Áburðargjöf (n, kvk)  Dreifing áburðar á tún/sáðsléttur.  „Oddviti hafði framsögu í málinu og drap á mikilvægi þess að viðhalda beitilandinu með áburðargjöf“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Áburðarflug / Áburðarflugvél (n,hk/ kvk)  Dreifing áburðar úr lofti og flugvél til þess.  Á 7.áratug 20.aldar var áburði dreift í nokkru magni á úthaga í Rauðasandshreppi með áburðarflugvél.  Hvatamaður að því var Össur á Láganúpi.  Dreift var í allt að 5 km fjarlægð frá lendingarstað.  Í Kollsvík lenti flugvélin á Fitinni neðanvið Þórarinsmógrafir, en þar var nægilega langt sandbrysti.  Völlurinn var afmarkaður með gulmáluðum steinum.  Flugvélin var með einum hreyfli og snúið í gang á skrúfunni.  Áratugum eftir að dreifingunni var hætt mátti enn sjá grænar reinar á hálendinu, t.d. frá Strympum uppundir Kóngshæð.

Áburðarfrekur (l)  Um gróður/jarðveg; þarf mikinn áburð til að gefa af sér slægjur.  „Skeljasandstúnin eru ansi áburðarfrek“.

Áburðarhestur (n, kk)  Hestur sem klyfjar voru settar á.  „Með áburðarhesta tók leiðin úr Geldingsskorardal um 1- 1 ½ klst“  (TÓ; Örn.skrá Breiðavíkur). 

Áburðarlaus /Áburðarlítill (l)  Jarðvegur/tún sem hefur fengið lítið af áburði.

Áburður / Áburðarþörf (n, kvk)  Næring sem borin er á jörð og þörf túna fyrir hana til bættrar grassprettu.  „Áburðarþörf  túna í Kollsvík er mismunandi eftir jarðvegi.  Mest er hún hjá skeljasandstúnum; þau eru nokkuð áburðarfrek.  Fyrir daga tilbúins áburðar var slangur úr fiski borið á tún, en mikið féll til af því í Verinu.  Húsdýraáburður hefur ávallt verið nýttur.  Þá var til siðs að nýta á tún það sem til féll úr kamrinum, og gerði GG það meðan kamarnotkun var við líði“.  „Slorið var einnig hirt; því var hent í tunnu, síðan keyrt heim og látið rotna í þró eða tunnum.  Það var svo blandað með vatni og notað sem áburður á tún“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Lömbin voru alin inni allan veturinn.  Þau voru höfð í lambhúsi sem stóð uppi á Hólum.  Lömbin voru höfð á taði; það var stungið út um sumarmál og notað sem eldiviður þar til mór fór að þorna.  Taðið úr öðrum bústofni var notað til áburðar á tún.  Var það flutt á tún að hausti eða vetri, og dreift úr því.  Að vorinu var þessi áburður svo unninn sem best niður í grasrótina; var það kallað „að vinna á túni“.  Til þess var notaður slóði sem muldi skítinn, og var hann dreginn af hesti.  Síðan var rakað yfir með kláru eða hrífu.  Var þessi vinna oftast unnin snemma vors eða um hálfan mánuð af sumri.  Einnig voru notaðar taðkvarnir og taðið malað, og síðan dreift úr því.  Fyrir slátt var túnið hreinsað; þá var skíturinn sem ekki vannst niður rakaður í hrúgur.  Það var svo starf okkar krakkanna að tína þær upp í trog og hella þeim í poka.  Afrakið var síðan borið heim í mókofa og notað sem eldiviður.  Heldur þótti okkur leiðinlegt verk að taka hrúgur“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG).  „Þá var eitt skylduverkið að keyra fiskslorið í kerru úr Verinu og heim að Láganúpi.  Þar var það látið rotna í tunnu og síðan var það blandað með vatni og notað sem áburður“  (IG; Æskuminningar). 

Ábúandi (n, kk)  Sá sem býr á jörð; bóndi; landseti; leiguliði.  „Ábúendum í Kollsvík fækkaði eftir að útræði lagðist þar niður, og með vaxandi erfiðleikum í búrekstri og öðrum aðstæðum lagðist búskapur af“.

Ábúð (n, kvk)  Búseta á jörð/stað; heimild til búsetu.  „Misjafnlega langt er síðan þessi kot fóru úr ábúð“.

Ábúðarmikill (l)  A.  Um mann; þungur á brún; alvarlegur.  „Hversvegna ert þú svona ábúðarmikill núna“?  B.  Um veður; farið að þykkna upp; orðnar slæmar veðurhorfur.  „Hann er orðinn æði ábúðarmikill“.

Ábyggilega (ao)  Áreiðanlega; örugglega; sjálfsagt.  „Hann er að byggja upp bakka til hafsins.  Það verður ábyggilega góður þurrkur á morgun“.  Orðið var mikið notað í Kollsvík.

Ábyggilegur (l)  Traustur; áreiðanlegur.  „Þú mátt treysta því að hann er ábyggilegur í alla staði“.

Ábyrgð (n, kvk)  Það að leggja samvisku sína og trúverðugleika að veði.  Sjá bera ábyrgð og kominn úr ábyrgð.

Ábyrgðarbréf / Ábyrgðarsending (n, hk/kvk)  Bréf eða önnur póstsending sem póstþjónustan tekur ábyrgð á að skila og tekur ábyrgðargjald fyrir.

Ábyrgðarhluti (n, kk)  Áhætta; einkum notað þegar einhverju er stefnt í augljósa hættu.  „Það er ábyrgðarhluti að fara með skólabörn yfir fjallveg í svona færð og svona veðurspá“.  „Hér var vandamál sem ábyrgðarhluti var að svara; gat kostað mannslíf, á hvaða veg sem var“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Ábyrgðarlaus (l)  Léttlyndur; kærulaus.  „Þótti nágrönnum hann vera nokkuð ábyrgðarlaus um heyskapinn“.

Ábyrgðarleysi (n, hk)  Kæruleysi; léttlyndi.  „Mér finnst það ábyrgðarleysi að fara á sjó í svona útliti“.

Ábyrgjast (s)  Taka ábyrgð á.  „Upp úr sex fór pabbi að lesa húslesturinn, sem tók þó nokkuð langan tíma.  Ekki ábyrgist ég að ungviðin hafi alltaf setið kyrr undir lestrinum“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Ábyrgur (l)  Sem tekur ábyrgð á einhverju.

Ábýlisjörð (n, kvk)  Jörð sem búið er á. 

Ábætandi (l)  Aukið við; aukandi.  „Ég gerði þetta sjálfur; mér fannst hann hafa svo mikið að gera að það væri ekki ábætandi“.

Ábætir (n, kk)  Viðbót; auki.  „Að síðustu drógum við rauðmaganetin.  Í þeim var ágætur grásleppuafli til ábætis við þessa góðu veiði dagsins“.

Ádeila (n, kvk)  Gagnrýni; aðfinnsla.  „Hann hafði uppi harða ádeilu á tillöguna“.

Ádráttur (n, kk)  A.  Hálfgildings loforð; óákveðið samþykki.  „Ég hafði gefið honum einhvern ádrátt um að koma með í þessa smölun“.  Sjá einnig; gefa undir fótinn.  B.  Sú veiðiaðferð að draga net á grunnu vatni, og smala fiskinum í það.

Ádrepa (n, kvk)  A.  Skammir; ávítur.  „Þeir fengu víst allmikla ádrepu þegar þeir fundust“.  B.  Rigningarskúr.

Áðan (ao)  Fyrir mjög skömmum tíma.  „Ég sá hann rétt áðan hérna niðrifrá“.

Áður (ao)  Fyrr; á undan.  „Hann fór alltaf útfyrir húshorn að míga áður en hann lagðist til svefns“.  „Ég lét fötuna síga niður til hans, en hugaði vel að hnýtingunni áður“.  Sjá samt sem áður.

Áður en hendi væri veifað (orðtak)  Á mjög skömmum tíma; á augabragði.  „Þetta gerðist mjög hratt; báturinn snerist í lendingunni áður en hendi væri veifað“.  Sjá eins og hendi sé veifað.

Áður en langt um líður (orðtak)  Innan skamms tíma.  „Hann þykknaði í lofti um hádegisbilið, og áður en langt um leið var farið að hellirigna“.

Áður og fyrrmeir (orðtak)  Fyrrum; áðurfyrri.  „Áður og fyrrmeir vann fólk betur að mat sínum“.

Áðurfyrri / Áðurfyrr (ao)  Áður; fyrrum.  „Áðurfyrri munu hafa verið nokkuð aðrar áherslur í orðavali en nú er“.  „Áðurfyrr var fólk vandvirkara í orðavali en nú til dags“.  Hvorugt orðið finnst í orðabókum en voru einatt notuð sem heildstæð orð í Kollsvík.  Að auki var notað áður og fyrr meir og fyrrum.

Áðurnefndur (l)  Fyrrnefndur

Áeggja (s)  Hvetja; mana.  „Vertu nú ekki að áeggja hann í þessa vitleysu“!

Áeggjan (n, kvk)  Hvatning.  „Fyrir hans áeggjan gengum við fram á brúnina; og þar niðri í sveltinu var kindin“.

Áfall (n, hk) A.   Brotsjór sem ríður yfir skip.  Stundum notað um önnur óhöpp til sjós.  „Laufi var happaskip; varð aldrei fyrir áfalli“.  Til þess að verja skipið áföllum var talið heppilegast að sigla talsvert skáhallt með vindi, einkum í spildusjó“ (LK; Ísl. sjávarhættir III).  „Sumir fengu áföll; aðrir urðu lekir, en allir flutu og ekkert slys varð“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   B.  Skaði eða hugarrót sem fólk verður fyrir.  „Þetta slys var mikið áfall fyrir fjölskylduna“.  „Síðan hef ég unnið við jarðboranir og tíminn hefur liðið án áfalla eða stórviðburða“  (IG; Æskuminningar).   C.  Dögg á jörðu, en um hana var oftar notað orðið náttfall.

Áfallalaust (l)  Án áfalla; slysalaust; hnökralaust.  „Eftir þetta gekk siglingin áfallaust“.

Áfallshorn (n, hk)  Afstaða flatar gagnvart straumi lofts/vatns/sjávar, talin í gráðum úr hring.  „Hverflar Valorku eru þverstöðuhverflar, með breytilegu áfallshorni blaða“.

Áfangastaður (n, kk)  Staður sem ferðast er til í einni lotu; hvíldarstaður; leiðarendi.  „Við megum halda betur áfram ef við ætlum að ná á áfangastað fyrir hádegið“!

Áfangi (n, kk)  Hluti ferðalags sem farinn er í einni lotu; ferðarhluti milli hvílda.  „Gangan utan af Stígsenda upp Geldingsskorardalinn var farin í nokkrum áföngum; enda voru menn með þungar byrðar af eggjum og vöðum og leiðin mjög brött.  Oftast var gengið í lotu frá Stígsenda í Byrgið, en þar undir er lind með drykkjarvatni.  Næsti áfangi var úr Byrginu upp að Steini; þ.e. upp á miðjan dal.  Þaðan var oft gengið í einum áfanga að bílastæðinu uppundir Geldingsskorardalsskarði.  Stundum voru þó áfangarnir mun fleiri, og fór það eftir úthaldi manna; byrðum og veðri“.

Áfátt (l)  Sem vantar á/uppá; ófullnægjandi.  „Mér sýndist fráganginum vera verulega áfátt“.

Áfellast (s)  Ásaka.  „Það er ekki hægt að áfellast neinn fyrir svona óviljaverk“.  „Það var haft eftir Gumma að aldrei hefði hann séð eftir bita eða sopa ofan í nokkurn mann, en sér hefði verið sérstök unun að því að sjá bróður sinn sporðrenna með góðri lyst bita af lambsskrokknum sem hann hefði áður áfellst sig fyrir að þiggja af Hafliða vini sínum“  (PG; Veðmálið).   

Áfellisdómur (n, kk)  Dómur þess efnis að eitthvað sé verulega ámælisvert; afgerandi dómur. 

Áfengi (n, hk)  Vín; vímudrykkur.  „Ungmennafélögin börðust gegn notkun áfengis og tóbaks“.

Áfengisnautn (n, kvk)  Notkun áfengis/víns; vínnotkun; drykkjuskapur.  „Áfengisnautn í óhófi gerir líkama mannsins venjulega óstarfhæfan að miklu leyti; veiklar þrek og þrótt og dregur úr honum alla framkvæmdalöngun“  (Hugrún; Lilja (blað Umf.Smára) jan 1938).

Áfengt (l)  Gerjað; með alkóhóli.  „Getur það verið að rabbabarasaftin hafi verið orðin áfeng“?

Áferð (n, kvk)    Útlit og gerð yfirborðs.  „Ég er ekki vel sáttur við áferðina á þessu“.

Áferðarfallegur (l)  Lítur vel út; hefur fallega áferð.

Áfergja (n, kvk)  Græðgi; ákafi við neyslu; góð matarlyst.  „Hann át eggið af áfergju“.

Áfir (n, kvk, fto)  Mjólkurafurð sem fellur til við strokkun rjóma í smjör.  Áfir eru ágætar við þorsta.  „Þá þurfti að mjólka kýrnar kvölds og morgna og koma mjólkinni í matSkilja mjólkina, strokka rjómann og hleypa skyr úr undanrennunni.  Áfunum sem komu þegar strokkað var og mysunni af skyrinu var safnað í tunnu og látið súrna.  Af áfunum kom þykk hvít sýra.  Í smástraum var hún við botn tunnunnar en í stórstraum kom hún upp á yfirborðið.  Var hún höfð til matar; ein sér, eða höfð út á graut.  Þegar mysan súrnaði var hún notuð til að sýra mat og einnig blönduð vatni og notuð til drykkjar; þá kölluð drykkjarblanda“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Áfjáður í (orðtak)  Ákafur; sækir mjög í að fá; gráðugur í. 

Áflog (n, hk, fto)  Slagsmál; bardagi.  „Hættið þessum helvítis áflogum strákar.  Þið eyðileggið fötin ykkar“!

Áflogahundur / Áflogaseggur (n, kk)  Sá sem stundar slagsmál.  „Gengu viðstaddir loks á milli og skildu áflogaseggina að“.  „Það er ekki gustuk að vera að etja þessum áflogahundum saman“.

Áfok (n, hk)  Þykknun jarðvegs vegna sandfoks.  „Áfok hefur alltaf verið nokkurt í Kollvík, einkum sunnantil“.

Áform (n, hk, fto)  Fyrirætlanir; áætlanir.  „Hann hafði engin áform uppi um slíkt ferðalag“.

Áforma (s)  Ætlast fyrir; hafa áætlun um.  „Við höldum okkur við það sem áformað var“.

Áfóður (n, hk)    Hey fyrir hesta vermanna í verferðum.  „Í verstöðvum við Bjarg var algengt að vermenn flyttu færur sínar á hesti, sneru síðan við með hann heim, og kæmu aftur þegar róðrar áttu að byrja.  Hey sem vermenn þurftu að fá fyrir hesta sína á leið í verið var kallað áfóður“  (LK; Ísl sjávarhættir; ÓETh). 

Áfram (ao)  Framávið; fram á veg; hreyfing í áttina.  „Ætli við verðum ekki að halda eitthvað áfram ef þetta á að klárast fyrir gegningar“.

Áfram með smérið/smjörið! (orðtak)  Höldum áfram; haltu áfram; áfram með söguna/verkið o.fl..  Upphrópun sem vísar til þess hve langdregið og þreytandi það var að strokka smjör með fyrri tíma aðferðum.

Áfram um (orðtak)  Ákafur um; ýtinn með.  „Hann var mjög áfram um að þessi tillaga yrði samþykkt“.

Áframhald (n, hk)  Það að halda áfram; samfella í verki; dugnaður.  „Drífið ykkur nú við þetta!  Þetta er ekkert áframhald hjá ykkur“!

Áfreði (n, kk)  Klakabrynja yfir beitarjörð, t.d. eftir að bloti eða slydda hefur frosið.  „Það er allsstaðar bölvaður áfreði, svo féð fékk lítið í sig úti í dag“.  „Veturinn verður að teljast í meðallagi harður og heyfrekur.  Á tímabili jarðbönn sakir áfreða og djúpfennis“  (SJTh; Árb.Barð 1955-56). 

Áfrýja (s)  Vísa dómsmáli/úrskurði til hærra dómstigs; biðja um annan úrskurð/ annað álit.

Áfús (l)  Samþykkur; fús til.  „Ég bar þetta undir hann og hann reyndist áfús með þetta fyrirkomulag“.

Áfærni (n, kvk)  Löstun; álygar; rangar sakargiftir.  „Það er bara áfærni að ég hafi gleymt að loka hliðinu; það hlýtur annar að hafa gert“.  Almennt notað í Kollsvík en sést ekki í orðabókum.  Orðabók Menningarsjóðs tilfærir  að sögnin „að áfæra“ merki „að lasta“, sem kemur heim og saman við orðnotkun Kollsvíkinga.

Ágalli (n, kk)  Galli; vöntun; vankantur.  „Það er stór ágalli á þessum bíl hve hátt er upp í hann“.

Ágangur (n, kk)  Eyðing; frekja.  „Ágangur sauðfjár á beitilönd í Kollsvík var yfirleitt ekki til skaða.  Þó stappaði það nærri þegar fé varð flest, kringum 1960“.  „Ágangur af lyng- og hrísrifi hefur hinsvegar orðið töluverður gegnum tíðina og að líkindum verður gróðurfar lengi að jafna sig á því“.  „Ágangur sjávar hefur á síðustu árum rofið sjávarbakkana verulega“.

Ágengni (n, kvk)  Frekja; ágangur; það að vera ágengur.

Ágengur (l)  Sem sýnir yfirgang; frekur; eyðslusamur af annarra eigum.  „Hann er að verða ansi ágengur í saltinu“.  Sjá verða ágengt.

Ágerast (s)  Aukast; verða meiri/verri/harðari.  „Heldur finnst mér frostið vera að ágerast“.  „Hann segir að verkurinn sé heldur að ágerast.  Þurfum við ekki að hafa samband við lækni“?

Ágirnast (s)  Langa í; hafa hug á; vilja fá.  „Mikið ágirnist ég smádropa af broddi hjá þér, ef þú mátt missa“.

Ágirnd (n, kvk)  Áhugi; löngun eftir að eignast.  „Ég hef töluverða ágind á þessari spýtu“.

Ágirnd vex með eyri hverjum (orðatiltæki)  Sá sem græðir fé vill jafnan græða meira; þeir ríku eru jafnan fégráðugastir.  Sígild speki sem oft er vitnað til.  Önnur skyld er; mikið vill meira.

Ágirndarauga (n, hk)  Löngun í.  „Hann hafði lengi rennt ágirndarauga til bátsins“.

Ágiskun (n, kvk)  Getgátur; tilgáta.  „Þetta er erkki verri ágiskun en hver önnur“.

Ágjarn (l)  Fégráðugur. 

Ágjöf (n, kvk)  Skvettur yfir bát í miklum sjógangi.  „Gátum við notað segl suður að Boða en þaðan var barningur í land og miklar ágjafir“  GG um Kollsvíkurver.   „Sjóhatt áttu flestir, er aðeins var settur upp þegar ágjöf var eða illviðri“  (KJK; Kollsvíkurver).

Ágóðahluti (n, kk)  Hagnaðarhlutdeild.  „Minn ágóðahluti úr útgerðinni varð sæmilegur þetta árið“.

Ágóði (n, kk)  Hagnaður; arður.  „Ekki held ég að ágóðinn hafi mikill verið af þessari útgerð“.

Ágreiningsefni (n, hk)  Tilefni deilu/ágreinings; þrætuefni. „Upphófst nú mikið skvaldur og voru uppi deildar meiningar um ágreiningsefnið“  (PG; Veðmálið). 

Ágreiningslaust (l)  Óumdeilt.  „Yfirleitt voru landamerki ágreiningslaus.  En þó gátu nýjar nytjar vakið umræður, svo sem þegar menn hófu að nýta múkkavarp í Blakknum og Breiðnum.  Engin illindi þó“.

Ágreiningur (n, kk)  Ósamkomulag; deila; skoðanamunur.  „Okkur tókst að leysa úr þessum ágreiningi“.

Ágrip (n, hk)  Stutt samantekt/efnisatriði úr stærra verki; yfirlit; útdráttur.

Ágæta / Ágætlega (ao)  Mjög; afar.  „Hann gerði þetta bara ágæta vel, að mínu mati“.  „Þetta gekk ágætlega“.

Ágæti (n, hk)  Það sem er mjög gott.  „Traktorinn hefur reynst hið mesta ágæti“.  Sjá hafa til ágætis.

Ágætis (n, hk, ef)  Góður;  fyrirtaks.  „Við fengum ágætis afla í þessum róðri“.  „Þetta er ágætis matur“.  Stundum samrunnið orðinu sem það stýrir:  Ágætismaður; ágætiskona; ágætismanneskja o.s.frv.

Ágætisfólk / Ágætismaður / Ágætismanneskja / Ágætiskona (n, hk/kk/kvk)  Viðurkenningarorð um manneskjur sem vel líka.  „Hún var mikil ágætiskona“.  „Þetta var mesta ágætisfólk“.

Ágætisgrey / Ágætisnáungi (n, kk)  Hrósyrði um mann, en þó í nokkrum yfirlætistón.  „Þetta er ágætisgrey og hörkuduglegur, en ósköp fákunnandi til allra búverka“.

Ágætisskepna (n, kvk)  Viðurkenningarorð um dýr sem vel líkar.  „Mér þótti skaði að missa þá ágætisskepnu“.

Ágætisstand (n, hk)  Gott/ágætt ástand.  Það skal hér tekið fram að á öllum bæjunum mega skepnur heita í ágætisstandi, eins og skýrslan ber með sér…“   (ÞÓT;  Forðagæslubók Rauðasands 1924).  

Ágætistíð (n, kvk)  Gott tíðarfar.

Ágætisveður (n, hk)  Gott veður; blíðuveður.  „Þá var komið ágætisveður“  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Ágætlega (ao)  Vel; með ágætum.  „Heimferðin gekk ágætlega“.

Ágætlegur (l)  Ágætur; góður; vel viðunandi/sæmilegur.  „Þetta er bara ágætlegur afli“.

Ágætur (l)  A.  Mjög vel viðunandi; vel sæmilegur.  „Við fengum ágætt kennsli hér á miðri víkinni“.  B.  Mjög fóður; frábær; sem ber af öðrum.  „Júlli naut mikillar virðingar meðal sveitunga sinna, enda var hann hinn ágætasti maður og var valinn til ýmissa trúnaðarstarfa fyrir sveitunga sína“  (PG; Veðmálið). 

Áhald (n, hk)  A.  Verkfæri; tæki sem haldið er á.  „Hér er handhægt áhald til að hreinsa úr rörinu“.  B.  Hald; álit.  Sjá áhöld

Áhangandi (n, kk)  Stuðningsmaður; sá sem telst í tilteknum hópi.  „Ég hf aldrei verið áhangandi þess flokks“.

Áhangandi (l)  Viðkomandi; sem snertir/viðkemur; tengt.  „Þetta mál er áhangandi því sem síðast var rætt“.

Áhankast  (s)  Um lagningu á neti/tóg/línu.  „Goggurinn áhankaðist þegar netið var lagt, og fór í sjóinn“.  Gættu þín að áhankast ekki með hendina þegar þú kastar hönkinni framaf“.

Áheit (n, hk)  Loforð sem gefið er, varðandi stuðning við eitthvað tiltekið ef tiltekinn árangur næst.  Oftast er heitið notað um fjárstuðning við t.d. kirkju, klaustur, dýrling eða annað sem tengist trú, gangi mönnum eitthvað í haginn.  Þannig efnuðust kirkjur og klaustur vel á áheitum, meðan trúarhiti fólks var meiri en nú er. 

Áhenging (n, kvk)  Það að hengja á; upphenging.  „Ketið var hengt í reykkofann á rár, en einnig voru reknir naglar í sperrur og skammbita til áhengingar“.

Áherðingur (n, kk)  Notað um það þegar strekkir á fiskilínu í drætti vegna þess að vindur og/eða fall hefur betur en andóf.  „Þegar stórstreymt var og fallið lagðist á með þunga, gerðist áherðingur hjá þeim sem beitti út línuna og þungur róður hjá hinum sem í andófi voru“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Og hálsmennirnir urðu að róa til að hafa áfram.  Ef það var slælega gert kom áherðingur; þ.e. strekktist á lóðinni við dráttinn.  Eftir að straumur harðnaði var erfitt að róa áfram; róa á móti straumnum til að ekki stæði á; að ekki yrði erfitt hjá dráttarmanninum“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Áhersla (n, kvk)  Hefur í upphafi merkt sama og áherðingur, en er í seinni tíð einungis notað um aukinn þunga á málefni eða framburð í tali.  Sjá leggja áherslu á.  „Megináherslan verður á samgöngumálin, þetta árið“.

Áheyrandi (n, kk)  Sá sem heyrir/ hlýðir á; tilheyrandi.  „Áheyrendur klöppuðu söngvaranum lof í lófa“.

Áheyrilega (ao)  Sem fróðlegt/gaman/gott/unun er að hlýða á.  „Ræðan góð, og áheyrilega flutt“.

Áheyrilegur (l)  Vel mælt; áhugaverður að hlusta á.  „Mér þótti þetta nokkuð áheyrileg ræða“.

Áheyrn (n, kvk)  Hlustun; eftirtekt.  „Ég reyndi að bjóða kaffi, en ég fékk enga áheyrn fyrir hávaðanum í þeim“.

Áhlaðandi (n, kk)  „..ör og kröpp vindbára sem stafar af nálægum álandsvindi og nær e.t.v. ekki alla leið til strandar, svo henni fylgir ekki mikill sjógangur“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).

Áhlaup/Áhlaupaveður/Áhlaupsveður (n, hk)  Áhlaupsbylur/Áhlaupsgardur (n, kk)  Skyndilegt óveður. „Mun þetta vera mesta áhlaupsveður af norðri er smábátar á þessum slóðum hafa hreppt.. “  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).   „...með birtu næsta dag gerði norðan áhlaup mikið“  (BS; Barðstrendingabók).  „Þegar leið á daginn gerði áhlaupaveður með miklum sjógarði“.  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).  „Gerði áhlaupsveður af norðri með snjókomu og veðurofsa, svo fólk í landi bjóst við stórslysi er svo margir bátar voru á sjó“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).

Áhlaupaverk / Áhlaupsverk (n, hk)  Létt/fljótunnið verk.  „Það verður ekkert áhaupaverk að moka þessari skriðu af veginum“.  Báðar myndir voru notaðar af orðinu í Kollavík.

Áhlekkjast (s)  A.  Um vað/færi; flækjast eða hankast á þegar lagt er.  „Passaðu að netið áhlekkist ekki á tollunni“!  B.  Verða fyrir óhapp; hlekkjast á.  „Eitthvað áhlekkjaðist þeim í lendingunni“.

Áhnýting (n, kvk)  Það að festa á.  Oft notað t.d. um það að festa króka á línu.

Áhnýttur (l)  Bundinn/festur á.  „Gáðu fyrir mig fram í lúkar.  Þar á að vera nýr slóði með áhnýttum krókum“.

Áhorf / Áhorfsmál (n, hk)  Álitamál; vafamál.  „Þetta er ekkert áhorfsmál.  Við leggjum ekki að í þessu sjólagi“.  „Um tíma voru áhorf um það hvort bensínið dygði í land“.

Áhorfandi (n, kk)  Sá sem horfir á.  „Áhorfendur stóðu við markið og hvöttu keppendur“.

Áhorfslaust (l)  Vafalaust; án vafa.  „Þið steindrepið ykkur ef þið farið í röstina eins og hún er núna; það er alveg áhorfslaust“!

Áhorfsmál (n, hk)  Vafamál; spursmál; álitamál; vafa undirorpið.  „Það er alveg áhorfsmál hvort kindin nær að jafna sig eftir votheysveikina“.

Áhrif (n, hk, fto)  Verkun; afleiðing.  „Stíflan hafði þau áhrif að vatnsborð hækkaði í Litlufitinni“. Sjá undir áhrifum.

Áhrifalaus / Áhrifalítill (l)  Hefur engin/lítil áhrif.  „Honum fannst hann vera áhrifalaus í félaginu“.

Áhrifamikill (l)  Með mikil áhrif.  „Hann var talinn í hópi áhrifamestu þingmanna á sínum tíma“.

Áhrifaríkt (l)  Sem hefur mikil áhrif/ miklar afleiðingar.  „Þetta reyndist áhrifaríkt úrræði“.

Áhrínsorð (n, hk, fto)  Spásögn; álög.  „Mér sýnist það hafa verið áhrínsorð sem þú sagðir um stjórnina í fyrra“.

Áhræra (s)  Snerta; koma við. „Það er ekkert að vanbúnaði hvað mig áhrærir, en ég veit ekki um hina“.  „Eitt verð ég að ég segja; þessu mál áhrærandi...“.

Áhugaefni / Áhugamál (n, hk)  Það sem maður hefur áhuga á; hugðarefni; hjartans mál.  „Þetta hefur lengi verið mér áhugaefni“.  „Mér varð það snemma nokkuð áhugamál að ná tökum á þessari reginorku sjávarins“.

Áhugalaus / Áhugalítill (l)  Með engan/lítinn áhuga; sinnulaus/sinnulítill.  „Ég er alveg áhugalaus um þessa ansvítans boltaleiki“.

Áhugaleysi (n, hk)  Sinnuleysi; deyfð; hjáræna.  „Þeir sýndu þessu eintómt áhugaleysi“.

Áhugamaður (n, kk)  A.  Sá sem sýnir tilteknu máli mikinn áhuga/ hefur sérsvið að tómstundagamni.  B.  Sá sem fæst við tiltekið starf/verkefni án þess að hafa til þess sérstaka menntun.

Áhugamikill / Áhugasamur (l)  Með áhuga á.  „Margir Kollsvíkingar eru áhugasamir um sína átthaga“.

Áhugi (n, kk)  Sinning; athygli; hyggja; fyrirætlun.  „Ég hef mikinn áhuga á þessum málum“.  „Hún sýndi þessu takmarkaðan áhuga“.

Áhyggjuefni (n, hk) Ástæða til að hafa áhyggjur af; kvíðaefni.  „Byggðaeyðingin er mikið áhyggjuefni“.

Áhyggjur (n, kvk, fto)  Hugarangur; víl; kvíði; ótti.  „Það er óþarfi að hafa miklar áhyggjur af þessu“.

Áhyggjuefni (n, hk)  Orsök áhyggna; kvíðaefni.  „Mér er það nokkuð áhyggjuefni hvað sprettan er hæg“.

Áhyggjulaus (l)  Kvíðalaus; öruggur.  „Ég er tiltölulega áhyggjulaus yfir strákunum; þeir spjara sig“.

Áhyggjuléttir (n, kk)  Það sem léttir af manni áhyggjum/kvíða.  „Það var áhyggjuléttir að frétta af þeim“.

Áhætta (n, kvk)  Vogun; tvísýna; hættuspil.  „Einhver áhætta fylgir alltaf bjargferðum“.

Áhættuhlutur (n, kk)  Aukahlutur sigmanns í bjargferðum.  Heill hlutur vegna þeirrar hættu sem hann lagði sig í umfram aðra.  Ekki er venja að skipta út áhættuhlut í eggjaferðum þegar farið er í lásum eða undir bjarg.

Áhættulaust (l)  Án hættu/tvísýnu.  „Ég tel það alveg áhættulaust að leggja eitthvað fé í þetta“.

Áhættusamt (l)  Sem nokkur áhætta er samfara.  „Hann taldi þetta alltof áhættusama tilraun“.

Áhöfn (n, kvk)  A.  Skipshöfn; mannskapur á báti/skipi.  „Áhöfninni tókst að stökkva í land þegar skipið slóst utaní hleinina“.  B.  Bústofn á búi.  „Einar keypti jörð og áhöfn suður í Árnessýslu...“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58). 

Áhöld (n, hk, fto)  Álitamál; efasemdir. „ Það eru áhöld um það hvort honum muni takast þetta“.

Ájá (uh)  Upphrópun eða merkingarlaust stuttorð sem oft er notað sjálfstætt sem hikorð, líkt og jæja.  Einnig stundum sem andsvar, t.d. þegar svarandi tekur undir það sem býsnast er yfir. Stytting úr „já já“.

Ájæja (uh)  Upphrópun eða merkingarlítið stuttorð; oft sem sjálfstætt hikorð en stundum til að taka undir það sem sagt er og jafnvel lýsa fyrirlitningu á efni þess. „Ájæja; fékk hann loksins nóg af þessu fikti“!

Ákafamaður (n, kk)  Kappsamur til verka; fljótfær.  „Hann var ákafamaður og sást þá ekki alltaf fyrir.  Dæmi um það er þegar hann sleppti höndum af vaðnum í miðju sigi, með þeim afleiðingum að hann snerist í lykkjunni án þess þó að falla úr henni.  Var honum þannig slakað með höfuð á undan, niður á Höfðann“.  „Mun Kristján (Ásbjörnsson á Grundum) hafa varið landlegum til garðhleðslunnar og nýtt starfskrafta áhafnar sinnar, enda annálaður ákafa- og keppnismaður“  (HÖ; Fjaran). 

Ákafi (n, kk)  Kapp; áhugi; bráðlyndi; vilji til að hraða því sem liggur fyrir.  „Í ákafanum við sjósetninguna gleymdi hann að hann var á strigaskóm, og vöknaði hressilega í fæturna“.

Ákaflega (ao)  Mjög; afar; mikið; hratt;ört.  „Það er ekkert betra að róa svona ákaflega“!  „Þetta fannst honum ákaflega gaman“.

Ákafur (l)  Kappsamur; ör; hraður.  „Hann var svo ákafur og óðamála að ég skildi ekki eitt einasta orð“.

Ákall (n, hk)  Það að kalla eftir einhverju; ávarp; bæn. 

Ákalla (s)  Ávarpa; biðja einhvern.  „Það er til lítils að ákalla drottinn þegar skaðinn er skeður“!

Ákjósanlegur (l)  Æskilegur; góður; vænlegur.  „Hér sýnist mér að sé ákjósanlegur áningarstaður“.  „Úr því gengur ferðin ákjósanlega, þótt hægt miði áfram í logni; undir risi árdagssólar“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Það er hæg norðlæg átt og bárulaust; ákjósanlegt sjóveður“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).

Áklæði (n, hk)  Efni sem klætt er á, t.d. húsgögn. 

Áklögun (n, kvk)  Kvörtun.  „Heimalningurinn er kominn með einhverja áklögun um pelann“.

Ákoma (n, kvk)  Það sem kemur á; oftast notað um skytterí í seinni tíð.  „Best er aef næst að skjóta máfinn undir bringuna; þar er hann viðkvæmur fyrir allri ákomu“.

Ákúrur (n, kvk, fto)  Skammir; ávítur.  „Við fengum stundum ákúrur fyrir að slóra í bröndum þegar við áttum að sækja kýrnar“

Ákvarða / Ákveða (s)  Einsetja; kveða uppúr með.  „Ég var ekki einn um að ákvarða þetta; að því komu fleiri“. „Þú verður að ákveða hvað þú vilt gera í þessu“.  „Ákveðum við þá að halda þegar af stað í land og var nú haldið af stað með stefnu á Blakknestá“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Ákveða sig (orðtak)  Gera upp huga sinn; taka afstöðu/ákvörðun.  „Ég var ekki lengi að ákveða mig“.

Ákveðinn (l)  A. Afráðinn; bundinn fastmælum.  „„Ég tek þessum skilmálum“ sagði Liði, og þar með var veðmálið ákveðið“  (PG; Veðmálið).   B.  Harður; fylginn sér.  „Hundurinn er nokkuð gegninn ef maður er nógu ákveðinn við hann“.  C.  Tiltekinn; hugsaður; viss.  „Ég var með einn ákveðinn mann í huga þegar ég sagði þetta“. 

Ákveðinn í (orðtak)  Búinn að ákveða með; staðráðinn í.  „Hann var ekki ákveðinn í þessu“.

Ákveðni (n, kvk)  Festa; eftirfylgni.  „Það þarf vafalaust mikla ákveðni til að koma þessu máli í gegn“.

Ákvæðaskáld (n, hk)  Skáld sem kveður þannig að orð hans rætist; galdramaður; spámaður.  „Gunnar orti miður fagran brag um ríkisstjórnina og sagðist ætla að láta á það reyna hve hann væri mikið ákvæðaskáld“.

Ákvörðun (n, kvk)  Niðurstaða; það sem ákveðið er; úrskurður.  „Nú verður þú að taka ákvörðun í málinu“.

Ákvörðunarvald (n, hk)  Vald til að ákveða niðurstöðu í máli; dómsvald.  „Ákvörðunarvaldið er hjá honum“.

Ákæra (n, kvk)  Kæra; sakargift; lögformleg klögun.  „Enn hefur ekki verið gefin út ákæra í málinu“.

Ákæra (s)  Það að leggja fram kæru/ lögformlega kvörtun.  „Steinunn og Bjarni voru ákærð fyrir morð“.

Ákærandi (n, kk)  Saksóknari.  „Einar í Kollsvík var ákærandi heima í héraði í hinu alræmda Sjöundármáli; nefndur monsjör Einar í skáldsögunni Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Ál (n, hk)  Annað nafn á málminum alúminíum.

Álag (n, hk)  A.  Það sem leggst á; t.d. þungi:  „Þetta er alltof mikið álag á heyvagninn“!  Einnig um vinnu eða stress:  „Hann hefur gott af dálitlu fríi eftir þetta álag“.  B.  Fjárupphæð sem lögð er á, t.d. vanskil.  „Eftir gjalddaga leggst töluvert álag á gjöldin“.

Álagablettur (n, kk)  Átrúnaður hefur verið á ýmis náttúruvætti og verndaða staði í Rauðasandshreppi, sem víða annarsstaðar.  Líklega er í þeirri trú að finna elstu reglu um umhverfisvernd og viðurlög við brotum á henni.  Álagablettir voru nokkrir í Kollsvík.  Má þar nefna Biskupsþúfu, rétt norðan núverandi bæjarhúss í Kollsvík.  Þar átti Guðmundur góði að hafa hvílt sig (e.t.v. er líklegra að hann hafi staðið á henni og blessað fólk neðar í brekkunni - VÖ) og undir henni á Kollur landnámsmaður að hafa falið vopn sín, þar sem hann getur fylgst með úr haug sínum fremst á Blakknum.  Bælishóll framan við Traðargarðinn er annar álagablettur, en þar í á að vera fólgin gullkista.

Álagður (l)  Sem lagður er á; viðbættur.  „Eftir gjalddaga leggjast dráttarvextir á álögð gjöld“.

Álandsátt / Álandsgjóla / Álandsgola / Álandsstormur / Álandsvindur (n, hk/kk)  Vindur sem stendur af hafi.  Getur hraðað heimsiglingu en einnig aukið sjó og valdið hættu í landtöku.  Álandsvindur getur vakið upp áhlaðanda.  „Það liggur við þú þurfir að andæfa; hann er kominn með ansi stífa álandsgjólu“.

Álappalega (ao)  Klaufalega; kjánalega.  „Mér tókst eitthvað álappalega upp við þetta“.

Álappalegur (l)  Aulalegur; illa klæddur.  „Maður verður dálítið álappalegur í þessum jakka“.

Álasa (s)  Ásaka; bera sakir uppá.  „Það er nú varla hægt að álasa honum fyrir þessa yfirsjón“.

Álaveiðar (n, kvk, fto)  Veiðar á ál voru tómstundagaman barna í Kollsvík, með brönduveiðunum.  Þeir voru gripnir með höndum og gátu veiðst allt að hálfs metra langir álar í Mýrunum, en heldur eru þeir erfiðir viðureignar; sleipir og syndir jafnt á þurru sem í vatni.

Álega (n, kvk)  Það að fugl liggur á eggi til útungunar. 

Álegg (n, hk)  Það sem sett er á brauðsneið auk smjörs/viðbits, til bragð- og næringarauka. 

Áleguhæna (n, kvk)  Ungahæna; hæna sem liggur á eggjum til útungunar.  „Mundu eftir að gefa áleguhænunni“.

Áleiðis (ao)  Í áttina; nokkuð á leið.  „Ég var kominn áleiðis þegar ég mundi eftir þessu“.  „Viltu ekki fylgja honum áleiðis heim“?

Áleitinn (l)  Ásækinn; sem leitar/sækir á; nærgöngull.  „Sú hugsun varð sífellt áleitnari í huga mínum hvort ekki mætti virkja þessa gríðarlegu orku sjávarfalla“.  „Henni fannst hann orðinn full áleitinn“.

Áleitni (n, kvk)  Það að leitað sé á; aðsókn.  „Niðjar séra Gísla í Sauðlauksdal urðu helst fyrir áleitni Dalla“.

Álengdar (ao)  Nokkuð frá; spölkorní burtu.  „Við stóðum álengdar og fylgdumst með þessu“.

Áletrun (n, kvk)  Það sem letrað/skrifað er á.  „Bókin er með áletrun höfundar“.

Álfabátur (n, kk)  Bátur álfa/huldufólks.  „Mikil útgerð er enn stunduð af huldufólki því sem býr í Kollsvík og grenndinni, ef marka má það sem þjóðtrúin segir um álfarákir/álfabrautir sem oft sjást á sjó, og eiga að vera kjölför eftir álfabáta“.

Álfabústaður / Álfabyggð / Álfahóll / Álfakirkja / Álfaklettur / Álfasteinn (n, kk/kvk)  Náttúrumyndanir sem taldar hafa verið bústaðir álfa/huldufólks.  Álfabyggð er all mikil í Kollsvík og nágrenni, eftir því sem munnmæli herma.  Undir Núpnum er steinninn Árún og á Stöðlinum Rauðukususteinn.  Á Brunnsbrekku er Strýtusteinn, en huldufólk þar hafði í stekk í Klettakví.  Úti á Hnífun er höllin sjálf; Stórhóll, en hulin göng eru úr honum niður í Sandhelli.  Þar í næsta nábýli er Tröllkarlshellir, en íbúi þar kaus fremur félagsskap tröllkonunnar í Tröllkonuhelli í Blakknum, og liggja víst göng milli þeirra hella.

Álfakóngur / Álfadrottning (n, kk/kvk)  Æðsta tignarfólk álfa/huldufólks.  Sjá álfadans.

Álfadans (n, kk)  Skemmtun á áramóta- eða þrettándahátíð, þar sem álfakóngur og álfadrottning taka þátt í dansi.  „Oft hefur það (Umf Von) staðið fyrir álfadansi og blysför, og nokkra smá-sjónleiki hefur það sýnt“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi).  „Annar árlegur viðburður á Sandinum var álfadansinn.  Ég hef fyrir því bréflegar heimildir að þessi álfadans fór fram árin 1907 og1908, veit ekki hvenær þetta hófst, en minnir að hann hafi staðið til 1943-4....  Það var mikið fjör á álfadönsunum.  Þá gengu álfakóngur og drottning um Sandinn í fínasta pússi og með kórónur, ásamt hirð sinni; púkum og allskonar fylgdarliði.  Kóngur og drottning þurftu að geta sungið, þar sem þau þurftu að vera forsöngvarar fyrir hirð sinni.  Og svo „hoppuðu álfar hjarni á, svo heyrðist dun í fellum“ eins og segir í ljóðinu“  (S.G: Bréf til mömmu; Árb.Barð 80-90). 

Álfaháttur (n, kk)  Aulaháttur; bjánaskapur; rataháttur.  „Skelfingar álfaháttur var í mér að gleyma þessu“.

Álfakálfur (n, kk)  Auli; bjálfi; aulakálfur; heimskingi.  „Ég hef ekkert að gera með slíka álfakálfa í vinnu“!

Álfalegur (l)  Álkulegur; bjánalegur; aulalegur.  „Er ég ekki fjári álfalegur í þessum jakka“?

Álfarákir/Álfabrautir (n, kvk, fto)  Lognrákir sem oft myndast á sjónum.  Voru sagðar vera kjölfar báta huldufólks sem farið væri í róður.  Orsakast líklega af strauma- og hitaskilum og stundum vegna brákar af fitu eða átu á yfirborðinu.  „Þeir eru þá í róðri blessaðir“. 

Álfast/álpast til (orðtak)  Aulast til.  „Bara að maður hefði nú álfast til að setja féð inn fyrr“!

Álfatrú (n, kvk)  Sú sannfæring fólks að huldufólk/álfar búi í grenndinni, sem allajafna sést ekki af mennskum mönnum en lifir um flest á líkan hátt og mannfólkið.  Hér er ekki um eiginleg trúarbrögð að ræða, heldur mikið fremur tilfinningu fyrir náttúrunni og e.t.v. þörf fyrir nærveru og útrás ímyndunaraflsins.

Álfkona / Álfamær (n, kvk)  Huldukona.  „Amma sagði að álfkonan hafi gengið frá fjörunni uppyfir Hreggnesa, en horfið uppi í Klettakví“.

Álfreki (n, kk)  Mannasaur.  Heitið var ekki notað en vestra var þekkt orðtakið að ganga álfreka, sem merkir að ganga örna sinna/ skíta.  Líklega vísar heitið til þess að álfar hafi átt að fælast/fyrtast við mannasaur, sem hafi verið mönnum hvatning til þess að láta hann ekki sjást óhulinn á víðavangi.

Álft (n, kvk)  Svanur; Cygnus cygnus.  Stór fugl af andaætt; stærsti fugl Íslands.  Alfriðuð sundönd sem algeng er um land allt.  Í Kollsvík eru álftir algengar, einkum á vötnum, og hafa stöku sinnum orpið við Litlavatn.  Varp er þó harðsótt vegna tófu og minks.  Álftin er alhvít með ´berandi mikið vænghaf og langan háls.  Goggur er svartur fremst en með gulri rót.  Fætur og augu svört.  Til að komast á loft þarf álftin að hlaupa dálítinn spöl á jörð eða vatnsyfirborði.  Ef margar eru í hóp fljúga þær oddaflug.  Gargið minnir á hljómmikinn lúðrablástur.  Álftir eru jurtaætur og grasbítar sem sækja gjarnan í nýrækt bænda og eru þar óvelkomnar, þó Kollsvíkingar hafi aldrei amast við álftum.  Þær verja unga sína vasklega og geta veitt öflug högg með vængjum ef þörf kerfur.  Hjón halda saman meðan bæði lifa.  Raflínur og símalínur eru álftum skeinuhættar, enda sveigja svo þungir fuglar treglega af leið.  Vængbrot eru því ekki óalgengur dauðdagi.  Sigríði á Láganúpi tókst að græða vængsár álftar um 1960; hafði hana í hlöðunni og fóðraði á brauði o.fl.

Álftahjón / Álftapar (n, hk)  Álftahjón halda saman meðan bæði lifa.

Álftakvak / Álftasöngur (n, hk/kk)  Hljóð sem álftir gefa frá sér.

Álfur (n, kk)  Huldumaður/-kona.  Álfar og huldufólk eru tvö heiti á sömu verum; hið fyrra líklega eldra í málinu.  Fyrir erlend áhrif hefur heitið álfur færst yfir á litlar lágvaxnar verur, svosem garðálfa og blómálfa.  Það fólk er ekki að finna í eldri íslenskum sögnum, og verður því að teljast innflytjendur.  „Ekki heyrði ég um tegundir álfa, en ég held ekki að gerður hafi verið munur á álfum og huldufólki“  (SG; Huldufólk; Þjhd.Þjms).  Sjá búálfur.

Áliðið / Áliðið dags (l/orðtak)  Seint á degi; síðdegi.  „Það er því orðið áliðið dags þegar aftur er komið að lendingu“  (KJK; Kollsvíkurver).

Álit (n, hk)  A.  Hald; það sem talið/álitið er; skoðun.  „Hann lét í ljósi sitt álit á þessu“.  B.  Virðing; uppáhald.  „Gúrkan er ekki í miklu áliti hjá mér“.  Hann hvaði ekki mikið álit á þessum fyrirætlunum“.

Álitamál (n, hk)  Vafamál; eftir því hvernig á það er litið.  „Það er álitamál hvort þetta sé hollt, en gott er það“.

Álitinn (l)  Talinn; skoðaður.  „Hann var álitinn færasti bjargmaðurinn í hópnum“.

Álitlegur (l)  Allmikill; töluverður; eigulegur.  „Þetta var álitleg upphæð“.

Álíka (l)  Viðlíka; jafn.  „Ég held ég hafi aldrei séð álíka stóran hval og þennan“.  „Við erum álíka stórir“.

Álíkur (l)  Sambærilegur; nærri jafn.  „Við vorum álíkir að hæð“.

Álíta (s)  Telja; vera þeirrar skoðunar; halda; virða.  „Með því að líta í tölurnar sjá menn heybirgðirnar; fénaðinn að tölu, og svo hvernig hann áleist vera fóðraður“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1931).   

Álka (n, kvk)  A.  Alca torda.  Svartfuglstegund; stundum nefnd álki eða klumba.  Álkan er nokkru minni en langvía, en hvít á kvið og svört á baki, væng, höfði og stéli eins og hún; stuttvængjuð og með hvítröndótt klumbunef.  Lengdin er 37-39 cm; þyngd um 600 grömm.  Að hluta er álkan farfugl.  Álkan verpir gjarnan í flögum eða glufum uppi í klettum, en þó einkum þó inni í stórgrýttum urðum undir björgum.  Stærsta álkubyggð heims er talin vera á Stórurð undir Látrabjargi.  Mikið er einnig af álku á Langurðum í Bæjarbjargi.  Hafa egg hennar mjög verið nýtt gegnum tíðina, og þá einkum tínd í undirbjargsferðum.  Álka kann að hafa orpið í Hnífunum fyrr á tíð, en þar er örnefnið Álkuskúti.  Fæða álkunnar er aðallega smáfiskur s.s. sandsíli, loðna og síld, og er hún flinkur kafari.  B.  Andlit; trýni.  „Farðu nú og þvoðu álkuna á þér drengur“.  C.  Bjáni; fáviti.  „Hann hékk fram á borðið eins og álka“.

Álki (n, kk)  Svartfuglinn álka var stundum nefnd þannig í karlkyni.  „Þarna verpur álki töluvert þétt“.

Álkuegg (n, hk)  Egg úr álku.  „Álkuegg eru minni og snubbóttari en langvíuegg og nefskeraegg“.

Álkulegur (l)  Bjánalegur; álappalegur.  „Hann varð ferlega álkulegur á svip þegar við sögðum frá þessu“.

Álkuvarp (n, hk)  Varp álku.  „Ekkert álkuvarp er í Álkuskútanum nú á dögum, en töluvert lundavarp…“  (HÖ; Fjaran).  

Áll (n, kk)  Anguilla anguilla.  Langur slöngulaga fiskur sem iðulega sést í lækjum og mýrlendi, t.d. í Kollsvík.  Þar hafa veiðst kringum 50 cm álar, en állinn getur náð um 100 cm að lengd og um 2 kg þyngd.  Állinn er all sérstæður fiskur, bæði varðandi útlit, eiginleika og lífsferil.  Í Atlantshafi eru tvær megintegundir; evrópsk og amerísk.  Álar hrygna á vorin í Þanghafinu, í vestanverðu Atlantshafi.  Lirfur berast með Golfstraumnum að ströndum Íslands og Evrópu á um einu ári.  Þær breytast í litla glerála sem sækja upp í ferskvatn og umbreytast þar í gulbrún álaseiði.  Állinn stækkar síðan um 5-6 cm á ári.  Við 35-100 cm stærð heldur hann aftur í Þanghafið til hrygningar, en tekur allmiklum útlitsbreytingum og nefnist þá bjartáll.  Állinn er með ugga langs eftir baki og kvið.  Roð hans er mjög smáhreistrað og þykkt; þakið þykku slími.  Állinn er mjög leifseig skepna og getur skriðið allnokkra vegalengd yfir þurrt land; einkum ef það er rakt.  Vegna slímsins getur verið snúið að handsama ál, en bröndu- og álaveiðar voru tómstundagaman krakka í Kollsvík.  Af því er dregið orðtakið háll sem áll.  Fyrrum gætti þeirrar hjátrúar að állinn sækti í að vinda sig um úlnlið manns og bíta hann á púlsæðina.  Lífsflakk álsins um Atlantshafið var mönnum löngum ráðgáta, en nú er talið að það ferli megi rekja aftur um tugmilljónir ára; til þess tíma að Atlantshafið var mun minna en það er nú. 

Álma (n, kvk)  A.  Hluti af byggingu; afhýsi.  B.  Tangi/tindur á heykvísl.  Heykvíslar eru tvíálma eða þríálma.

Álnarlangur (l)  Ein alin að lengd; sjá þar.  „Þetta er mestmegnis um álnarlangur fiskur“.

Álna (s)  Mæla í álnum, t.d. hey eða rekatré. 

Álnarhár / Álnarbreiður / Álnardjúpur / Álnarlangur (l)  Alin á hæð/breidd/dýpt/lengd.  „Grasið var sumsstaðar álnarhátt“.  „Hann mátti hirða allt álnarlangt og styttra“.

Álnarkefli / Álnarlurkur / Álnarsprek (n, hk/kk)  Rekaviður sem er um alin að lengd. 

Álnavara (n, kvk)  Tau; vefnaðarvara; vara sem mæld er í álnum.  „Mikið var lagt upp úr því í Gjögrabúð að eiga alltaf einhverja stranga af álnavöru, t.d. léreft og damask. 

Álnir vaðmáls (orðtak)  Verðgildiseining í vöruskiptum fyrr á öldum.  Í búalögum frá því um 1100 eru 120 álnir; stórt hundrað, jafngildar einu kúgildi.

Álpa (s)  Glopra; segja.  „Gastu nú ekki álpað þessu út úr þér fyrr“?

Álpast (s)  Fara án tilgangs; villast.  „ Hversvegna varstu að álpast yfir seilina á þessum stað“.

Álpast á (orðtak)  Ratast á; hitta á af tilviljun.  „Einhvernvegin álpaðist ég á rétta staðinn til að komast niður í hlíðina“.

Álpast til (orðtak)  Aulast/asnast til.  „Gat hann ekki álpast til að loka á eftir sér hliðinu“?!

Álún (n, hk)  Tvísalt, t.d. af kalísúlfati eða alúminíumsúlfati.  Notað fyrr á tíð til lækninga og skinnaverkunar.

Álútur (l)  Um líkamsstöðu; boginn; áboginn; bograndi.  „Hann stóð álútur yfir milligerðinni þegar hrúturinn renndi aftan á hann“.

Álykta (s)  A.  Telja; komast að niðurstöðu; halda.  „Af þessu ályktaði ég að þeir væru farnir“.  B.  Um umfjöllun fundar; gera samþykkt; skila niðurstöðu. 

Ályktun / Ályktunartillaga (n, kvk)  Álit; niðurstaða; tillaga að áliti.  „…þrír menn yrðu kjörnir til þess að semja ályktunartillögu fundarins í þessu máli“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Ályktunarbær (l)  Um fund; fær um að gera ályktanir; ályktunarfær.  „Ég sé ekki annað en að þessi fundur sé fyllilega ályktunarbær í þessu efni; hér er samankominn meirihluti félagsmanna“.

Álög (n, hk, fto)  A.  Galdrar/áhrínsorð sem lögð eru á menn eða staði; sjá álagablettur.  B.  Plagsiður; árátta.  „Það eru eins og það séu álög á honum að geta ekki séð gift kvenfólk í friði“.

Álögur (n, kvk, fto)  Skattar og aðrar skyldugreiðslur .  „Hann var aldrei sáttur við álögur hreppsnefndarinnar“.

Áma (n, kvk)  Stór tunna; kerald; gámur.  Fyrrum var áma sumsstaðar talin mælieining fyrir 1000 lítra.

Ámatur (n, kk)  Matur unninn úr sauðamjólk. (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Ámálga (s)  Nefna; færa í tal; nunna að; hreyfa; mælast til; andvarpa um  „Ég ámálgaði þetta við hann en fékk daufar undirtektir“. Sjá málga.

Ámálgun (n, kvk)  Tilmæli; það sem fært er í tal; beiðni; ósk.  „Leyfinu fylgdi ámálgun um það að koma landshlutnum alla leið til eigandans“.

Ámátlega (ao)  Aumlega; velældarlega.  „Kötturinn sat innanvið gluggann og vældi ámátlega meðan hann horfði á snjótittlingana úða í sig fræinu fyrir utan“.

Ámátlegt (l)  Aumingjalegt; vesælt.  „Óttalega er þetta ámátlegt væl“.

Áminna (s)  A.  Minna á; vekja athygli einhvers á einhverju.  „Ég áminnti hann um að hirða lifur í hausastöppu“.  B.  Átelja; víta; kæra.

Áminning (n, kvk)  A.  Það að áminna/ minna/minnast á/ vekja athygli á.  „Þetta var honum þörf áminning“.  B.  Átölur; skammir.  „Það verður að veita honum rækilega áminningu fyrir svona athæfi“!

Ámóta (l)  Jafn; álíka; svipað; mótlíka; viðlíka.  „Það var ámóta mikill afli hjá þeim báðum“.

Ámæli (n, hk)  Ávítur; átölur; sakarburður.  „Hann sætti nokkru ámæli fyrir verknaðinn“.

Ámælisvert (l)  Aðfinnsluvert; ekki til fyrirmyndar; nær vítavert.  „Svona lagað er mjög ámælisvert“.

Án (fs)  Utan; sem vantar.  „Þetta er illgerlegt án töluverðrar aðstoðar“.  „Ég get illa verið án vasahnífsins“.

Án afláts (orðtak)  Án þess að hætta; í samfellu/síbylju; stöðugt.  „Hrafninn dundaði við að kroppa utanaf beininu þó hundurinn gelti án afláts neðanvið staurinn“.

Án þess að blikna (eða blána) / Án þess að depla auga (orðtak)  Án þess að fölna/ skipta litum í andliti; án þess að bregða.  „Nú lýgur hann án þess að blikna“.  „Hann fullyrti þetta án þess að blikna eða blána“.

Án þess að spyrja kóng eða prest (orðtak)  Án samráðs; upp á sitt eindæmi; á eigin ábyrgð.  „Hann fór með kerru og sótti tréð; án þess að spyrja kóng eða prest“.

Ánafna (einhverjum) (s)  Heita einhverjum til eignar; erfa einhvern að.  „Hann ánafnaði dóttursyni sínum bátinn“.

Ánalega (ao)  Kjánalega; aulalega.  „Mér fannst hann hegða sér ansi ánalega“.

Ánalegur (l)  Kjánalegur; aulalegur.  „Skelfing finnst mér maðurinn einatt ánalegur“!

Ánamaðkur (n, kk)  Liðormar af ættinni Lumbricidae.  Tvíkynja rauðbrúnir ormar með blóðrás og opið meltingarkerfi sem lifa í mold og nærast á rotnandi gróðurleifum.  Ánamaðkurinn er talinn nauðsynjaskepna í allri ræktun, þar sem hann losar um jarðveginn og bætir aðgengi jurta að næringu.  Hann er einnig vinsæll sem beita fyrir fisk.  Sú tilgáta hefur komið fram að heitið hafi upphaflega verið „ámumaðkur“ þar sem hann hafi verið talinn góð lækning við bólgu (ámu).  Ormurinn finnst tíðum undir t.d. steinum og öðrum hlutum sem liggja á moldarjarðvegi, og hann kemur upp við miklar rigningar.  Sé hann skorinn í tvennt geta báðir helmingar lifað og grætt sig að miklu leyti. 

Ánauð (n, kvk)  Þrældómur; þrælkun; ófrelsi. 

Ánauðugur (l)  Þrælkaður; undirokaður; ófrjáls.  „Leiguliðar voru í raun ánauðugir þrælar landeigenda“.

Ánefna (s)  Minnast á; nefna; gera viðvart; árétta.  „Hann bað mig að ánefna þetta sem hann bað þig um í gær“.

Ánetjaður (l)  Flæktur í net.  „Er laxinn örugglega ánetjaður og inni í pokanum“?

Ánetjast (s)  Um veiði; festast í neti.  „Möskvinn verður að vera hæfilega stór og netið rétt fellt og lagt til að einhver von sé um að fiskurinn ánetjist“.

Áning (n, kvk)  Hvíld/stöðvun á ferðalagi.  „Við verðum seint komnir með þessum eilífu áningum“!

Áningarstaður (n, kk)  Hvíldarstaður á ferðalagi.  Sumsstaðar við gömlu þjóðleiðirnar voru hefðbundnir áningarstaðir svo sem Sunnmannalág, kærkominn áningarstaður þeirra sem komu sunnan að, eftir að hafa svalað þorstanum í Árósum þar rétt neðar.   Þeir sem komu úr lyngrifi að Kollsvík áðu við Hvíldarstein, framanvið Leitið.  Framan við Kollsvíkurtó er Gvendarsteinn; áningarstaður Guðmundar biskups hins góða á leið hans til Kollsvíkur.  Í Kollsvíkurtúni er Biskupsþúfa þar sem Guðmundur biskup áði þegar hann vígði Gvendarbrunn, þar nærri.  Efst á Hænuvíkurhálsi er Grasvarða, á miðri leið og því sjálfsagður áningarstaður.

Áníðsla (n, kvk)  Það sem gengur á/ þrengir að/ skerðir gæði um of; ágangur.  „Þegar mest var af fé í Kollsvíkinni, um og eftir 1960, stappaði nærri að sum beitarlönd sættu áníðslu um of.

Ánýja (s)  Minna á; ítreka.  „Þú verður að ánýja þetta við hann; ef hann skyldi hafa gleymt því“.

Ánýjun (n, kvk)  Ítrekun; áminning. 

Ánægður (l)  Sáttur; glaður; hýr.  „Hann var mjög ánægður með sinn hlut“.  „Ekki er ég alveg ánægður með fráganginn á þessu“.

Ánægja (n, kvk)  Það að vera sáttur/ánægður.  „Ánægjan skein af honum þegar féð var allt komið upp á brún“.  „Þetta skal ég með mestu ánægju gera!¨!  „Ég hef litla ánægju af því að hanga lengi í samkvæmum“.

Ánægjuefni (n, hk)  Það sem veitir ánægju; gleðiefni.  „Það er ekkert ánægjuefni að hafa kríuvarp í túninu“.

Ánægjulegt / Ánægjusamt (l)  Sem veitir ánægju.  „Það var ánægjulegt að þetta tókst vel“.  „Hvernig getum við lifað ánægjusömu lífi“ (fundarefni á 1. starfsári Umf Vöku, stofnað 1916).

Ánægjustund (n, kvk)  Gleðistund; sælutími.  „Róður í góðu veðri og veiðar í viljugum fiski veitir einhverjar mestu ánægjustundir sem nokkur maður getur upplifað“.

Ánægjusvipur (n, kk)  Svipur sem lýsir ánægju.  „Þú hefðir átt að sjá ánægjusvipinn á honum þegar hann fékk neftóbaksdósina“!

Áorðinn (l)  Orðinn; skeður.  „Þarna er heldurbetur breyting áorðin;  Áin rennur til sjávar norðurundir Breiðaskeri“

Áorka (s)  Koma í verk; vinna; geta; verða ágengt.  „Hann fékk töluverðu áorkað í þessum efnum“.

Ár (n, kvk)  Áhald til að róa báti.  Árar hafa alltaf verið ómissandi hluti af farviðum báta; sem öryggistæki þegar segl eða vélar bila og sem helsti drifbúnaður báta á fyrri tíð, auk segla.  Lag og gerð þeirra hefur haldist óbreytt frá ómunatíð, þó margt annað hafi breyst í gerð báta.  Lengd ára á tveggja til fjögurra manna förum er 10-12 fet, eða fast að fjórum metrum.  Helstu hlutar árar eru þessir: Hlummur nefnist sívalur efri endinn, sem um er haldið þegar róið er.  Á minni bátum reri sami maður á bæði borð og hlummurinn var stuttur, en stærri bátar höfðu svonefndar tvíhendisárar; með löngum hlummi sem sami maður hélt um báðum höndum.  Næst kemur árastokkur; ferkantaður hluti árinnar sem hvílir á borðstokknum.  Hann er oft girtur gjarðajárni til slitvarnar og á seinni tímum var fest gegnum hann lykkju sem gekk upp á tolluna á borðstokknum.  Fyrrum var slitvörnin úr hvalbeini og nefndist skautar.  Næsti hluti árinnar er leggur/áraleggur, sem oftast er sívalur og spannar nær hálfa lengd árinnar.  Fremsti hlutinn er árarblað, en mót þess við legginn nefnist áraröxl.  Það sem fram veit á árablaðinu nefnist bak/árarbak, og er oftast með kambi sem á sunnanverðum Vestfjörðum nefndist straumvör.  Árar voru kenndar við það rúm sem þeim var róið í.  (heimild; LK; Ísl. sjávarhættir II).

Ár (n, hk)  A.  Tímabil; rúmir 365 dagar (365,2425); tíminn sem það tekur jörðina að ganga einn hring um sólina.  Því sem er umfram 365 er safnað í hlaupársdaga, og þá er árið 366 dagar í stað 365.  Líklega er orðið upprunalega af sama stofni og „jörð“, og vísar til þess að jörð grænkar árlega.  B.  Um árferði; gott í ári.  „Ég óska ykkur öllum árs og friðar“.

Ár eftir ár (orðtak)  Hvert árið á fætur öðru.  „Hann hefur lagfært réttina, ár eftir ár“.

Ár frá ári (orðtak)  Frá einu árinu til annars.  „Þetta hefur verið að versna, ár frá ári“.

Ár og dagur (orðtak)  Mjög langur tími.  „Það er ár og dagur síðan ég sá hann síðast“.  „Það getur liðið ár og dagur þar til honum þóknast að koma þessu í verk“!

Ár og síð (og alla daga) ( orðtak)  Alltaf; sífellt; alla tíð.  „Hann vinnur að þessu ár og síð og alla daga“.  „Ár“ merkir þarna sama og „árla“ (snemma).

Árabarningur (n, kk)  Erfiðisvinna við róður.  „Miklu munaði hvort byr væri hagstæður til siglingar eða hvort framundan væri árabarningurinn“.

Árabátaöld (n, kvk)  Tíminn fyrir notkun véla í bátum.  Mjög er misjafnt hvað fellur undir þessa skilgreiningu, en í daglegu máli Kollsvíkinga og margra annarra er átt við tímann meðan hagkvæmt þótti að gera út á léttbyggðum árabátum frá hafnlausum verum eins og Kollsvíkurveri, þ.e. frá landnámi og fram undir 1930.  Sumir vilja hafa skiptinguna öðruvísi, og láta árabátaöld enda þegar skútuöld hófst, en sú skipting er ekki eins rökrétt.

Árabátur (n, kk)  Bátur sem knúinn er árum, og stundum e.t.v. segli.  „...fimm litlir árabátar lögðu af stað í fiskiróður...“  (ÖG; Þokuróður).  „Fyrsta sjóferð mín var farin úr Kollsvíkurveri á litlum árabát sem faðir minn átti og hét Svala“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Árafar (n, hk)  Iða sem myndast í sjónum eftir áratog.  „Í logninu mátti greina áraför langt fyrir aftan bátinn“.

Árafriður (n, kk)  Unnt að róa.  „...verða menn að fara svo nærri Töngunum að alleina er árafriður milli klettsins Selkolls til lands, og er þó tuttugu faðma dýpi“:  Lýsing Ara Finnsonar í Saurbæ (MG; Látrabjarg).

Árafrítt (l)  Árafriður milli báts og kletta.  Telja sumir sem um Skorarvog hafa farið (við heyflutninga) að heita megi að rétt sé rúmlega árafrítt (þ.e. að árar taki ekki út í veggina) á fjögurra manna fari þegar róið sé um voginn“  (Ólafur Þórarinss; Örn.skrá Sjöundár).  „Þannig hagar til í Kollsvík að tveir klettaklakkar eru nokkuð fyrir framan lendinguna, og er lítið bil milli þeirra en þó vel árafrítt, og var það kölluð miðleið“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri).   

Áraglamm / Áraglamur  (n, hk)  Glamrið sem heyrist þegar árin skarkar á tollunni.  „Í lognkyrrð hefur eflaust mátt greina áraglammið frammi á víkinni þegar fjöldi báta hélt heim í Kollsvíkurver eftir lóðadráttinn“.

Ára(r)hlummur (n, kk)  Sá endi árinnar sem haldið er um þegar róið er; handfang á ár.  Sjá hlummur.

Ára(r)keipur (n, kk)  Keipur; tolla; tittur á borðstokknum sem heldur við árina þegar róið er.  Sjá keipur.

Árakornið (n, hk, m.gr)  Vægt blótsyrði/áhersluorð.  „Ég held árakornið að við verðum komnir fyrir mjaltir“.

Áralag / Áratak (n, hk)  Taktur sem ræðarar þurfa að halda þegar tveir eða fleiri róa saman.  Byrjendur eru oft nokkurn tíma að ná áralaginu, og gengur því brösulega að nýta kraftana og koma bátnum rétta leið.

Áralangur (l)  Tími sem mældur er í árum.  „Honum þótti gott að komast loks heim eftir áralangan flæking“.

Áralega (l)  Bölvanlega; illa.  „Mér líður bara áralega af þessum höfuðverk“.

Áraljón (n, hk)  Gæluheiti á báti; bátskenning.

Áramót (n, hk, fto)  Skilin þar sem gamla árið líður á enda en nýtt ár byrjar.

Áramótabrenna (n, kvk)  Áramótabrennur voru kveiktar á bæjum í Kollsvík, a.m.k. á síðari hluta 20. aldar þó ekki sé vitað hvað sá siður er gamall.  Brenna í Kollsvík var jafnan uppi á Trantala, en brenna á Láganúpi ýmist úti á Gróumel eða uppi undir Hjöllum.  Brennt var m.a. því sem safnað hafði verið í hreingerningu kringum bæina fyrir hátíðarnar. Einstaka rakettum var skotið upp eftir að þær urðu fáanlegar. Var þetta mikil skemtun, ekki síst fyrir börnin.  Fyrir kom að brennunni var frestað fram á þrettándann, ef þannig viðraði.

Áramótafagnaður (n, kk)  Hátíðahöld um áramót.  „Stundum á áramótum bjuggu menn sig í grímubúninga og gengu um með kyndla.  Það var aðeins fullorðið fólk; unglingar máttu ekki taka þátt í því.  Svo var spilað“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Áran (n, kvk)  Döngun; viðgangur; gengi; framvinda; árferði.  „Heldur hefur verið slæm áran í fénu hjá honum uppá síðkastið.  Ég er hræddur um að það gæti verið með orma“.

Árangur (n, kk)  Það sem áorkað er; ávinningur; afurð.  „Þá vil ég láta þess getið að þeir Gísli Ó Thorlacius og Jón Pétursson hafa gefið ám, lömbum og hrossum nýja mjólkursýru með ágætum árangri“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Árangurslaust / Árangurslítið (l)  Með engum/litlum árangri.  „Þessi tilraun varð árangurslaus“

Árans beinið/þrælbeinið (orðtak)  Bölvaður þrjóturinn.  „Haldiði ekki að árans þrælbeinið hafi stolið af mér netasteinunum“!

Áransári (l)  Milt blótsyrði eða til áherslu/áréttingar.  „Áransári!  Þarna datt golþorskur af slóðanum; rétt við borðið“!  „Þetta er áransári mikill bátur“!

Áransekkisen (l)  Bönnvaður; fjárans; béaður.  „Eru nú ekki áransekkisen hrútarnir komnir norður í Hryggi“!

Áransgrey (n, hk, m.gr.)  Áhersluorð.  „Lúðan var komin alveg uppundir borðstokk þegar hún sleit sig af, áransgreyið“.  „Hann steingleymdi að loka hliðinu áransgreyið“.

Áransnær (fs)  Andskotansnær; fjandansnær; staðið nær; verið betra.  „Mér hefði verið áransnær að halda betur til dagsins í gær; það er ekkert hægt að hreyfa heyi í dag“.

Árarbak (n, hk)  Sú hlið árablaðs sem snýr fram, þ.e. er undan átaki árinnar þegar róið er.

Árarblað (n, hk)  Fremsti hluti árinnar, þ.e. flati hlutinn sem er í sjónum þegar róið er.

Árarleggur (n, kk)  Sá hluti árar báts sem er milli árarblaðs og árarstokks.  Oft sívalur, eða því sem næst.

Árarskauti (n, kk)  Hlífðarþynnur/skinnur um miðju árarstokks, til hlífðar gegn núningi við keipa og borðstokk.  Fyrrum oft úr hvalbeini en í seinni tíð úr járni.

Árarstokkur (n, kk)  Sá hluti árinnar sem er milli árarleggs og árarhlumms, og tekur við átakinu við árarkeipa/tollur og borðstokk.  Jafnan ferkantaður og oft með árarskautum þar sem mest mæðir á.

Áraskipti (n, hk, fto)  Mismunur milli ára.  „Það gátu orðið allmikil áraskipti að grásleppuveiðinni“.

Áraspaði (n, kk)  Stuttur spaði sem notaður er til að róa með.  „Tunnubátnum reri maður með sínum áraspaðanum í hvorri hendi.  Hentugasta efni í þá var bútur af þunnum krossvið, negldur á prikstúf“.

Áratak / Áratog (n, hk)  Tog í ár þegar bát er róið.  „Nokkrum áratogum síðar rann sjór inn á bæði borð, svo báturinn fylltist og hvolfdi þegar“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003).  „En þegar þeir eru búnir að róa nokkur áratog sjá þeir fuglakippurnar sínar... “  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). 

Áratugur (n, kk)  Tíu ár.

Áraun (n, kvk)  Áreynsla; álag.  „Það var bara andskota mikil áraun að koma bolnum uppfyrir flæðarmál“.

Árás (n, kvk)  Atlaga; yfirgangur.  „Þann 17.apríl símaði ég hreppsnefndaroddvita og bað um yfirskoðun á fé Ólafs Ólafssonar Krókshúsum vegna persónulegrar árásar í minn garð, um að ég gerði mannamun við einkanagjöf“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1943). 

Árátta (n, kvk)  Plagsiður; kækur.  „Það er hvimleið árátta hjá sumum ferðamönnum að aka utan vega“.

Árbakki (n, kk)  Bakki á á eða læk.  „Bröndurnar lágu oft undir árbakkanum og þar náðum við að grípa þær, en til þess þurfti nokkra lagni“.

Árbítur (n, kk)  Annað heiti á morgunverði, sem sjaldan heyrist nú til dags.

Árblik (n, hk)  Morgunsól; morgunskíma.  Einkum notað í skáldskap.

Árbotn (n, kk)  Botn á á eða læk.  „Þarna á árbotninum sá ég glitta í vasahnífinn.  Hann hafði runnið í ána þegar ég var að eiga við brönduna“.

Árbók / Ársrit (n, kvk)  Bók sem gefin er út árlega, annáll.  T.d. Árbók Barðastrandasýslu.

Árdagssól (n, kvk)  Morgunsól; sólskin að morgni; ársól.  „Úr því gengur ferðin ákjósanlega, þótt hægt miði áfram í logni; undir risi árdagssólar“  (KJK; Kollsvíkurver).

Árdalur (n, kk)  Dalur sem á rennur eftir/ sem er mótaður af árrennsli.  „Gegnum Breiðsholtið skerst Árdalur.  Í honum rennur Vatnadalsá frá Litlavatni niður í Vatnadalsbót í leysingum og stórrigningum“.

Árdegis (ao)  Snemma dags; fyrir hádegi.  „Það var kveikt kl 6-7; þá var miðdagsmatur.  Ekkert hafði verið borðað frá því kl 10 árdegis, en kl 12 á hádegi var kaffi fyrir fullorðna en grasate fyrir börn og unglinga  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn HM). 

Árdegisflæði (n, kvk)  Flóð/flæði/aðfall sem verður að morgni eða fyrripart dags.  „Við settum á flot á árdegisflæðinni og vorum komnir á miðin um tíuleytið“.

Árdegisróður (n, kk)  Róður sem farinn er snemma morguns eða fyrrihluta dags.

Árefti (n, hk)  A.  Notað í víðri merkingu um þakviði torfhúsa, aðra en sperrur og rafta;þ.e. langbönd, sprek og tróð.  B.  Í þrengri merkingu nær orðið einungis yfir sprek það og tróð sem notað var ofan á sperrur, á stöðum sem ekki bjuggu að brúklegu hellutaki.  Tyrft var ofaná áreftið.  „Fönix var happaskip.  Endalok hans urðu þau sömu og flestra gæfusamra skipa; hann var rifinn uppúr aldamótum 1900 og efnið úr honum var notað sem árefti á hús í Kollsvík“  (EÓ; Hákarlaskip í Rauðasandshreppi).  „Rifin úr Þæfingi voru notuð í búðir í Kollsvíkurveri, sunnantil á norðurklettunum og e.t.v. víðar“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Áreiðanlega (ao)  Örugglega; eflaust; vafalaust.  „Hann veit áreiðanlega hvernig er best að snúa sér í þessu“.

Áeiðanlegur (l)  Traustur; öruggur; viss; óbrigðull.  „Ekki veit ég hversu áreiðanlegur hann er með ártölin“.

Áreita (s)  Ergja; pirra; gera mein/skráveifu.  „Það höfðu menn fyrir satt að draugurinn hafi losað sig skömmu síðar og farið heim til Benedikts og áreitt hann....“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Áreitni (n, kvk)  Stríðni; hrekkir; ertni; kvabb; ónæði.  „Hann taldi sig verða lausan við áreitni af hendi þessara trúboða; allavega hefðu þeir fengið nóg í bili“.

Árekstur (n, kk)  A.  Það að reka fé sitt á annars manns land til beitar í heimildarleysi.  B.  Samstuð; ákeyrsla.  „Ég sló af þegar ég sá að árekstr myndi annars verða“.  C.  Líkingamál; glíma mismunandi hagsmuna; þræta.

Árennilegt (l)  Fýsilegt; aðlaðandi.  „Ekki þótti þeim árennilegt að leggja þarna upp“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Árennsli (n, hk)  Klakabunki sem myndast við vatnsrennsli í frosti.  „Það er feikn mikið árennsli á Tunguhlíðinni núna“.  „Sagði hann að nú væri þarna svellað mjög vegna árennslis ofanfrá og stórhættulegt umferðar“  (MG; Látrabjarg).  Var einnig notað um það þegar vatn rann yfir veg eða annað til skaða.

Áreynsla (n, kvk)  Átak sem reynir á krafta/þol.  „Hann var kafrjóður og lafmóður eftir áreynsluns“.

Áreynslulaust / Áreynslulítið (l)  Án verulegrar áreynslu. 

Árétta (s)  A.  Eiginleg merking; rétta af; gera hæfilegt.  „Það þyrfti aðeins að árétta skaftið svo það gangi í hamarshausinn“.  B.  Alg. líking; Ítreka; segja skýrar.  „Það er vissara að árétta það sem ég minntist á í gær“.

Árétti (n, hk)  Um bátasmíði; lítill fleygur sem rekinn var að innanverðu í trénagla (sem bátar voru seymdir með fyrrum) til að festa hann og þétta í gatinu.

Árétting (n, kvk)  Staðfesting; ítrekun; skýring.  „Ég sendi þetta í kjölfar fyrra erindis til frekari áréttingar“.

Árfar / Árfarvegur (n, hk/kk)  Farvegur vatns sem allajafna er þurr nema e.t.v. í leysingum.  „Árfarvegur“ var meira notað í seinni tíð í Kollsvík.  Ekki er ólíklegt að önefnið „Árdalur“, neðst í Vatnadal, hafi fyrrum verið „Árfar“, þar sem þar hagar svo til, enda léttara í munni og eðlilegra.

Árferði (n, hk)  Tíðarfar/gengi yfir nokkurn tíma, s.s. hluta úr ári.  „Árferði hefur verið gott, það sem af er sumri“.

Árgangur (n, kk)  Öll eintök sem gefin hafa verið út af tímariti/dagblaði yfir eitt ár.  „Við hentum einhverjum árgöngum af Lögbirtingablaðinu“.  Orðið var fyrrum svipaðrar merkingar og árferði.

Árgerð (n, kvk)  Sé gerð af tæki, t.d. bíl/traktor, sem framleidd er á tilteknu ári.  Heitið er nýlegt í málinu.

Árgjald (n, hk)  Gjald sem árlega er greitt sama aðila, t.d. fyrir félagsaðild.  „Einhverjir áttu ógreidd árgjöld sín hjá Bræðrabandinu, en gerðu þau upp á fundinum“.

Árgljúfur (n, hk)  Gljúfur sem á rennur um og hefur mótað.  „Árgljúfur Skápadalsár eru líklega þau tilkomumestu í Rauðasandshreppi“.

Árgæska (n, kvk)  Góð tíð; gott tíðarfar.  „Hér hefur í sumar verið hin mesta árgæska til lands og sjávar“.  „Æskilegt hefði verið að geta gefið skýrslu um árlegan vöxt viðskiptanna, en slíkar upplýsingar eru ekki fyrir hendi; enda eru þær mjög háðar árgæsku eða vondu árferði“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi). 

Árhringur (n, kk)  Hringur í þversöguðu tré, sem sýnir hver árlegur vöxtur þess hefur verið og hvað það er gamalt. 

Árhundruð (n, hk, fto)  Mörg hundruð ára.  „Líklegt er að Grundabakkarnir hafi þykknað yfir árhundraða útgerðarsögu, þegar þar hafa hlaðist upp lög af verbúðarústum, beitarhúsum, sandi og gróðri“.

Ári (kk/ao)  A.  Púki; drýsildjöfull; illur andi.  „Þetta mega þeir eiga skuldlaust; andskotinn og árar hans.  Ég kem ekki nálægt þessu meir“!  B.  Áhersluorð; milt blótsyrði.  „Árans ári var það; að tapa hnífnum“!  „Þetta er árans ekki nein veiði“.  „Árinn hafi það“.  „Hann er orðinn ári kaldur“.  „Það er ári hart að búa við þetta“!

Árið um kring / Árið út og inn (orðtak)  Allt árið.  „Oft munu menn hafa haft fasta búsetu í Kollsvíkurveri árið um kring“  (EG; Ábúendur Kollsvík; Niðjatal HM/GG).

Árinni kennir illur ræðari (orðatiltæki)  Notað um það þegar menn kenna verkfærum eða öðrum um sín eigin mistök/vandræði.  Líkingin vísar til þess að ræðari kenni árinni um vangetu sína og klaufaskap.

Áríðandi (l)  Mikilvægt.  „Það er mjög áríðandi að þetta gleymist ekki“.

Árkvörn (n, kvk)  Skessuketill; hringlaga hylur eða dýpi í á, t.d. þar sem steinar hafa holað berg með hringsnúningi.  „Kvarnargrund er mynduð af framburði Bjarngötudalsár, en árkvörn er þar við.  (BÍ; Örn.skrá Kirkjuhvamms).

Árla (ao)  Snemma. 

Árla dags / Árla morguns (orðtak)  Snemma að degi.  „Hann var vaknaður árla dags og farinn að slá í þurrkinn“.  „Hæfilegur vindkaldi er legði í segl, væri þó vel þeginn.  En þetta er oft árla morguns og lygnasti tími sólarhringsins“  (KJK; Kollsvíkurver).

Árla skal verks vitja (orðatiltæki)  Snemma skal hefja vinnu; morgunstund gefur gull í mund; taka daginn snemma.  Vísar til þeirrar dyggðar sem fyrr á tíð var mönnum einna efst í huga; að vakna snemma og byrja að vinna.

Árlangt (ao)  Langt frameftir árinu; eins langt og árið nær.   „Hún var þar í vinnumennsku árlangt“.

Árlega (ao)  Sem gerist á hverju ári.  „Þetta gerðist árlega í nokkur ár“.

Árlegur (l)  Á hverju ári.  „Hann var árlegur gestur í eggtíðinni“.

Ármaður (n, kk)  Gæslumaður; umboðsmaður; ráðsmaður.  Einkum notað í skáldskap á seinni tímum.

Ármynni (n, hk)  Útfall ár, þar sem á fellur í sjó.  Oft nefnt árós nútildags, sjá þar.

Ármöl (n, kvk)  Möl í árfarvegi; smágert grjót sem mulið er og mótað af vatnsfalli.

Árna heilla (orðtak)  Óska til hamingju; óska alls hins besta.  „Í lok ræðu sinnar árnaði hann félaginu heilla“.

Árnaðaróskir (n, kvk, fto)  Heillaóskir; hamingjuóskir. 

Árniður (n, kk)  Gjálfur/kliður í rennandi á/læk.  „Mikill árniður í kvöldkyrrð boðaði sunnanátt“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM). 

Áróður (n, kk)  A.  Í fornri merkingu var orðtakið „að taka áróður“ haft yfir það að kippa, þ.e. róa aftur á fiskislóð sem rekið hefur af.  (LK Ísl. sjávarhættir IV).  Hefur ekki heyrst þannig í Kollsvík í seinni tíð.  B.  Það að vera ráðinn í skipsrúm; sjómennska.  „Leiguliðar Bæjarbónda í Patreksfirði voru flestir skyldugir til áróðra á bátum hans í Útvíkum“.  C.  Algengt líkingamál; yfir það að vinna málefni framgang.

Áróðurskjaftæði / Áróðursþvæla (n, hk)  Niðrandi heiti á skoðanamyndandi efni/riti/dagblaði/texta/ræðu.  „Ég nenni ekki að lesa þetta áróðurskjaftæði í leiðaranum“.  „Andskotans áróðursþvæla er þetta nú“!

Árósar (n, kk, fto)  Upptök ár; örnefni í Kollsvík.  Áin rennur í miðri víkinni, en hún á upptök sín að mestu leyti í Árósum; uppi undir Umvarpi, norðan Hestkeldu.  Þarna virðist því hafa haldist hin upprunalega merking orðsins „ós“; upphaf, sbr. máltækið „á skal að ósi stemma“.

Árrisull (l)  Snemma kominn á fætur; morgunhani.  „Þú ert árrisull í dag, þykir mér“.  „Oft var því þrifið til ára til að ná bestu miðunum.  Sumir voru lagnir á að vera árrisulli en hinir, og fljótir út“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK). 

Ársafli (n, kk)  Afli yfir árið.

Ársfjórðungur (n, kk)  Þrír samliggjandi mánuðir ársins.

Árslok (n, hk, fto)  Lok ársins.  „Hann þarf að greiða þetta fyrir árslok“.

Ársmaður (n, kk)  Sá sem ráðinn er til vinnu í eitt ár eða meira; sá sem dvelur á sama stað yfir árið.  „Pétur hefur fundið hjá sér ástæðu til að tjá tilfinningar sínar þó hann væri ekki lengur ársmaður á Rauðasandi“  (AÍ; Árb.Barð 1980-90). 

Ársól (n, kvk)  Morgunsól; sólskin að morgni til; árdagssól.

Árspræna (n, kvk)  Lítil á; lækur.  „Rétt fyrir ofan bæinn skiptist gilið.  Koma þar saman tvær ársprænur, sín úr hvorri átt“  (KJK; Örn.skrá Tungu).

Árstillag (n, hk)  Árgjald.  „Fjelagar geta orðið þeir er greiða árstillag, minnst eina krónu, fyrir 1. mars ár hvert“  (Reglur Lestrarfjelagsins Bernskan í Rauðasandshreppi). 

Árstíð (n, kvk)  Árið skiptist í fjórar árstíðir; vetur, sumar vor og haust.

Árstíðabrigði (n, hk, fto)  Mismunur/breyting milli árstíða, t.d. í veðurfari.  „Nú sýnist mér loks ætla að verða einhver árstíðabrigði þetta vorið.  Eitthvað er að draga úr þessum kuldaþræsingi“.

Árstíðabundinn (l)  Tengdur/háður árstíð hverju sinni.  „Leikir okkar voru árstíðabundnir“  (IG; Æskuminningar). 

Árstími (n, kk)  Tími árs; árstíð.  „Svona veðrátta er fremur óvanaleg á þessum árstíma“.

Ársverk (n, hk)  Vinna manns yfir eitt ár.  „Hvað skyldu mörg ársverk liggja í þessum gömlu aflögðu samgöngumannvirkjum; hestavegum og vörðum“?

Ársæld (n, kvk)  Góðæri; hagsæld.  „Það er óvíst að áfram verði sama ársældin, og því betra að búa í haginn“.

Ártal (n, hk)  Hlaupandi númer sem ár eru merkt með.  Venja er að miða ártöl við fæðingartíma Krists samkvæmt biblíulegum útreikningum, og telja afturábak fyrir þann tíma en áfram efttir hann.  „Ekki veit ég gjörla ártalið, enda gerðist þetta löngu fyrir mitt minni“.

Ártíð (n, kvk)  Dánardægur manns.  Í kaþólskri trú er venja að minnast ártíða helgra manna, en sjaldan er talað um slíkt varðandi óbreyttar sálir.

Árvekni (n, kvk)  Gát; eftirlit; vakandi auga.  „Það þarf að fylgjast með túnunum af meiri árvekni“.

Árviss (l)  Á hverju ári; árlegur.  „Eina árvissa flutningaferð þurfti að fara á hverju  hausti, en það var heimflutningur á slátri frá sláturhúsinu á Gjögrum“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Árvökull (l)  Næmur; sem hefur vakandi auga með breytingum; eftirtektarsamur. 

Árvökult auga (l)  Góð eftirtekt; næmni.  „Það þarf að hafa árvökult auga með túnrollunum og reyna að sjá hvar þær komast í gegnum girðinguna“.

Árþúsund (n, kvk/hk)  Þúsund ár.  Orðið er sérstætt fyrir þær sakir að í eintölu er það jafnan í hvorugkyni en í fleirtölu í kvenkyni.  „Ég held hann komist varla frá verkinu á þessu árþúsundi“.  „Gegnum árþúsundirnar hefur brimið grafið svo undan berginu að stórar spildur hrynja úr því og mynda urðir“.

Áræða (s)  Þora; hafa kjark til.  „Ég áræddi ekki að fara strax til baka til að huga frekar að skrímslinu“.

Áræði (n, hk)  Þor; kjarkur.  „Hann sagðist hvorki skorta áræði né getu til að ná ánni úr sveltinu“.

Áræðinn (l)  Kjarkmikill; kjarkaður; hugaður.  „...og Bjarni sjálfur verklaginn og áræðinn að hverju sem hann gekk“  (PG; Samgöngur og flutningar; Niðjatal HM/GG).

Áræðismaður (n, kk)  Sá sem er áræðinn.  „Hann var dugnaðarforkur og áræðismaður til allra verka“.

Áræðni (l)  Djirfska; vogun.  „Það þurfti áræðni til að leggja í þessa áhættusömu björgun undir Látrabjargi“.

Ás (n, kk)  A.  Leiti; hæð.  „Fjárhópurinn var að hverfa þarna yfir ásinn“.  B.  Spil í spilastokk; ýmist með hæsta eða lægsta gildi í sinni litaröð.  C.  Lína; færi; vaður; kjarni í vað.  „Á Patreksfirði voru hákarlalóðir einungis með tveimur sóknum (krókum) og var langt á milli þeirra.  Ásinn (línan) var úr vöfðum kaðli, en öngultaumurinn úr keðju...“  (Frásögn Ó.E.Th; Ísl Sjávarhættir III)  „Í bjargvöðum sem notaðir voru í seinni tíð var sterkur þáttur sem kjarni í miðju, ásinn, og um hann snúnir aðrir þættir vaðsins“.  D.  Öxull; möndull.  „Unnt er að raða mörgum hverflum upp á sama ás“.  E.  Lárétt meginburðartré/raftur í húsmæni.  „Á sumum torfhúsum tíðkaðist að hafa ásþak, en þá voru hlaðnir upp gaflarnir og milli þeirra lagt ástré.  Sperrur voru lagðar af vegglægju upp á ásinn; langbönd/sprek þar á, en síðan kom hellulögn; tróð og þökur“.  F.  Láréttur teinn í neðri enda eins eða tveggja króka veiðarfæris.  „Eftir Færeyingum var tekinn sá siður að festa tein, ás, neðarlega í blýlóðið“ (um færi til þorskveiða; LK; Ísl.sjávarhættir III) Á hvorum enda ássins var krókur.  „Svipmesti hluti veiðarfærisins var lagvaðsásinn; 10-12 feta langt tré, sterkt og vel viðað.  Hann hélst láréttur djúpt í sjó niðri þegar lagvaðurinn var í notkun.  Gat var á ásnum miðjum og gekk þar í gegnum stjórafærið...“  (um lagvað til hákarlaveiða; GG; Skútuöldin).  Á hvorum enda ássins var hákarlasókn.  „Það var enginn ás hafður í sökkum.  Taumur var venjulega tveir þættir úr færinu; lengd tveir þriðju úr faðmi.  Taumnum var fest við sökkuna á sama stað og færinu.  Lengd á færi var 30 faðmar, eða hálf frönsk lína.  Ás í sökkur er ekki farið að nota fyrr en upp úr aldamótum, eða sigurnagla“  (GG; Kollsvíkurver).  G.  Guð í norrænni goðafræði.  „Óðinn var æðstur meðal ása“.

Ása út (orðtak)  Þenja út segl með sérstakri stöng/spryti eða haka.  Einkum notað við sprytsegl.

Ásað útúr (orðtak)  Um gat; gatið hefur stækkað af núningi við ás sem gengur gegnum það.  „Felgan hafði losnað á boltunum og var orðið nokkuð ásað útúr felgugötunum þegar eftir því var tekið“.

Ásaka (s)  Bera sakir á einhvern; saka um; ákæra.  „Ég get ekki ásakað nokkurn mann fyrir þetta óhapp“.

Ásamt (l)  Sáttur.  „Varð þeim ásamt um að sigla nokkru dýpra, í von um að þar væri vænni fiskur“.

Ásamt (fs)  Saman með.  „Við fórum, ásamt honum, fram í Vatnadal að leita að hrútunum“.

Ásannast (s)  Sannast á; verða staðreynd; rætast.  „Við þann stein bindur hann drauginn, og mælti svo um að hann skuli ekki gjöra sér eða sinni ætt mein framar; og hefur það þótt ásannast“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Ásatrú (n, kvk)  Trú sú sem iðkuð var í norrænum sið fyrir tilkomu kristni; trú á goðafjölskyldu þar sem Þór og Óðinn eru æðst goða.  Sú ásatrú sem menn þekkja best nú á dögum er sú sem Snorri Sturluson lýsir í Heimskringlu.  Þar er lýst heildstæðum og allflóknum goðaheimi og sagðar margar sögur; sumar í gamansömum tón.  Ólíklegt er að sá goðaheimur hafi nokkurntíma verið almenn trú; líklegra er að ásatrú hafi verið samheiti yfir fjölbreytt trúarbrögð hinna ýmsu norrænu landsvæða, sem Snorri hafi með sinni bók viljað ná í eina heildarsýn.  Ásatrú er í grunninn tákngerving náttúruafla og mannkosta í bland við trú á verndarvætti einstakra staða, og því í eðli sínu ekki ólík fjölgyðistrú Grikkja og Rómverja.  Höfuðguðir voru í mannslíki og höfðu um margt mannlega eiginleika.  Heimskringla segir Óðin æðstan, en margt bendir til að Þór hafi víða haft þann sess og annarsstaðar Freyr eða Njörður; líklega mismunandi eftir byggðarlögum og atvinnuhátum þeirra.  Almennt hefur verið talið að goðin hafi verið dýrkuð á vissum stöðum sem nefnd eru hof, og þar hafi viðarlíkneskjur þeirra verið blótaðar.  Þetta var þó líklega ekki algilt og af sögnum má ráða að súlur í skálum; öndvegissúlur, hafi í raun verið táknmynd goðanna.  Eru mörg dæmi þess í Landnámabók að öndvegissúlum hafi verið varpað útbyrðis og rek þeirra látið ráða búsetu manna.  Hof hafa líklega fremur verið samkomustaðir manna, þar sem sveitarhöfðinginn stóð fyrir veislum, blótum og dýrafórnum.
Ásatrú var að líða undir lok á landnámsöld.  Þó margir héldu enn tryggð við gamla siði voru fjölmargir ýmist vel kristnir eða blendnir í trúnni.  Erlendis voru kirstnar stofnanir orðnar rótfastar og stunduðu sumar trúboð.   Þar á meðal klaustrið á eynni Íona á Suðureyjum, en þaðan fóru fóstbræðurnir Kollur og Örlygur Hrappsson í trúboðsleiðangur til Íslands.  Þeir hröktust undan veðri vesturfyrir land.  Segir Landnáma að Örlygur hafi heitið á Krist og komist í var á firði sem þeir nefndu Patreksfjörð, en Kollur hafi heitið á Þór og brotið skip sitt í Kollsvík.  Heit Kolls hefur af sumum verið túlkað þannig að hann hafi ekki verið kristinn, en slíkt er út í hött.  Hafa þarf í huga að menn leggja ekki af alla siði sína þó þeir taki nýja trú, og ýmiskonar hjátrú er sérlega sterk meðal sjómanna.  Engar líkur eru til þess að hinn kristni trúboði Örlygur hafi átt heiðinn fóstbróður; og þaðanaf síður að hann hafi haft heiðingja með sér til að boða kristna trú.  Landnáma segir að þeir Örlygur hafi haft með sér kirkjuvið og átt að byggja kirkju eða kirkjur á Íslandi.  Líklega hefur viðurinn verið á skipum beggja og því má leiða að því líkum að Kollur hafi reist kirkju í Kollsvík á undan þeirri sem Örlygur byggði síðar við Esju.  Í Kollsvík hafi því risið fyrsta kirkja landsins, ásamt keltneskum krossi.

Ásauður (n, kk)  Safnheiti yfir ær; sauðfé.  „Þorgrímur þessi missti ábýli sitt af því að hann þótti áleitinn við göngusilung í ánni og við ásauði Rauðsendinga; stíaði og mjaltaði fé er leitaði í óveðrum niður í Krákinn og heim að Selinu.  Illa gekk að sanna þetta á bóndann, en líkur voru taldar miklar fyrir þessu“  (BÞv; Örn.skrá Sauðlauksdals).  „... ásauð (í Kollsvík) er ætlaður útigangur“ (ÁM/PV; Jarðabók). 

Ásaþak (n, hk)  Húsþak, þar sem sperrur hvíla í efri enda á mæniás sem liggur langseftir húsi og hvílir á toppi gaflhlaða.  Einnig þak sem er án sperra, en ásar liggja langseftir húsinu og hvíla á gaflhlöðum.  Ásaþök voru líklega áður til í Kollsvík, þó ekki á neinum síðustu torfhúsum sem höfðu sperrur með skammbitum, s.s. Hesthúsið á Hólum.  Ásaþök  stóðu til skamms tíma uppi á Hvallátrum; í Hagamannabúð og fjárhúsum.

Ásáttur (l)  Sáttur við; lætur nægja.  „Ég er ásáttur með þetta“.  „Hann sagði ekkert en var sýnilega ekki ásáttur“.

Áseilni (n, kvk)  Sjá ásælni.

Áseta (n, kvk)  Það að sitja á.  A.  Um þara, slý, hrúðurkarla, skeljar o.fl. sem, sest á hluti í sjó.  „Sjá mátti á ásetum að tréð hafði verið á reki suður í höfum“.  B.  Um ábúð á jörð.  C.  Um reiðmennsku á hesti.

Ásetið (l)  Þétt skipað; fullskipað.  „Stundum var nokkuð ásetið af næturgestum í gamla Láganúpsbænum, enda gestrisni mikil.  Fyrir kom, meðan á byggingu nýja hússins stóð, að öll rúm voru fullskipuð ásamt bekkjum; þéttraðað var af dýnum á stofugólfið og innra herbergisgólfið; einn á eldhúsgólfinu og einn í hlöðunni“.  „Það er þétt ásetið á stallinum þarna niðri“.

Ásetja sér (orðtak)  Ákveða/skipuleggja (fyrir sig);  heita sér.  „Hann ásetti sér að koma fram hefndum“.

Ásetningsgimbur / Ásetningshrútur / Ásetningslamb (n, kvk/kk/hk)  Lömb sem tekin eru til lífs að hausti; ölslugimbur/ölsluhrútur/ölslulamb; lífgimbur/lífhrútur/líflamb.  „Þarna áttu trúlega ásetningshrút“.

Ásetningsmaður (n, kk)  Forðagæslumaður; sá sem hefur það með höndum að líta eftir að heyforði bænda nægi fyrir vetrarfóðraðri áhöfn.  „Ásetningsmenn töldu að ég ætti töluvert umfram, að venju“.

Ásetningssynd / Ásetningsverk / Ásetningsglæpur (n, kvk)  Slæmur verknaður sem framinn er viljandi.  „Helvítis fýla er þetta nú!  Þú skalt ekki segja mér annað en að þetta sé ásetningssynd; þú beiðst viljandi með fretinn þar til allir voru sestir“!

Ásetningsverk (n, hk)  Verknaður sem maður ætlar sér að vinna; ekki óviljaverk.  „Ég held að þetta hafi nú fremur verið óhapp hjá honum en ásetningsverk“.

Ásetningur (n, kk)  A.  Fyrirætlun.  „Þetta var nú ekki af ásetningi gert, heldur vildi þetta svona til“.  B.  Val á sauðfé til vetrarfóðrunar.  „Misjafnt er hvaða sjónarmið eru uppi þegar valið er til ásetnings, en taka þarf tillit til fóðurs og húsakosts“.  „Fjandi er þetta fallegur hrútur; hann verður góður til ásetnings“.  C.  Heildarfjöldi fjár á fóðrum á einum bæ; fjöldi fjár sem ákveðið er að fóðra yfir vetur.  „Mér fannst þetta nokkuð djarfur ásetningur hjá honum, enda sýndi það sig; að hann varð heylaus þegar kom framá“.  D.  Viðmiðun um hæfilegt fóður að hausti til fóðrunar búpenings.  Til marks um það eru orð forðagæslumanns á Rauðasandi snemmvetrar 1924:  „Sömu reglu með ásetning hefur verið fylgt sem að undanförnu með ásetning; nefnilega kúm ætlaðar 100 til 120 álnir; kind 3-6 álnir; hesti 25-35 ánir o.s.frv.  Eins og skýrslan ber með sér vantar suma til muna fóður og munu þeir reyna að bæta það upp með aðkeyptu fóðri“  (Þórður Ó Thorlacius, ásetningsmaður; Skýrsla um skoðun snemma vetrar 1924; Forðagæslubók fyrir Rauðasandshrepp, umdæmi Sjöundá-Keflavík).

Ásettur (l)  A.  Fullskipaður; með nóg á sinni könnu; ofhlaðinn.  „Það er orðið full ásett í þessum karmi eftir að útigöngukindurnar heimtust“.  „Ég er það ásettur með verk að ég get ekki gert þetta á morgun“.  B.  Um sauðfé; sem valinn hefur verið til ásetnings/lífs.  „Ég er með nóg hey fyrir það sem ásett er“.  C.  Um verð; það sem sett er á/upp.  „Hann greiddi ásett verð eftir að fleiri sýndu áhuga á að kaupa“.

Ásfæri (n, hk)  Handfæri með sökku sem ás gengur útúr, og er króknum fest á hann.  Þannig færi eru upprunnin í Færeyjum, en voru notuð um tíma í Kollsvíkurveri. Hreyfingar króksins í sjónum verða aðrar þegar skakað er, og töldu sumir ásfærin vera fiskilegri en færi með slóða.

Ásigkomulag (n, hk) Ástand; útlit.  „Báturinn er varla sjóklár í þessu ásigkomulagi“.

Ásigling (n, kvk)  Árekstur á sjó.  „Kappið var svo mikið að ná í bestu lagningarstaðina á grásleppumiðunum að fyrsta daginn lá við ásiglingum.  Þó var alltaf borin virðing fyrir óskráðum „einkarétti“ sumra á vissum stöðum.  Það gilti t.d. um staðina framundan Sellátranesi, sem töldust tilheyra ábúanda.  Sömuleiðis taldist Torfi Jónsson eiga tilkall til bestu lagna undan Landamerkjahlein“.

Ásjá (n, kvk)  Greiði; úrlausn; hjálp.  „Ég má ekki vera að þessu, þú verður að biðja pabba þinn ásjár“.  „Ætli ég verði ekki að leita ásjár hjá þér um örlitla saltlúku, ef þú mátt missa hana“.  „Flestir fengu þó einhverja ásjá til næstu kauptíðar, eða gegn hreppsábyrgð“  (ÍL; Samvinnumál í Rauðasandshreppi).  Sjá biðjast ásjár; leita ásjár.

Ásjálegur (l)  Laglegur; fallegur.  „Þetta er hinn ásjálegasti bátur“.

Ásjóna (n, kvk)  Andlit.  „Farðu nú og þvoðu á þér ásjónuna drengur; þú ert eins og kolamokari í framan“!

Áskapaður (l)  Náttúrulegt; meðfætt; ákveðið með forlögum.  „Ég ætla nú ekki að taka þessu þegjandi.  Enda því skyldi maður ekki nýta þennan kjaft, fyrst hann er manni áskapaður“?

Áskilja / Áskilja sér (s/orðtak)  Tryggja sér; gera að skilyrði.  „Hann áskildi sér eitt hangiketslæri fyrir slægjurnar“.

Áskilja sér rétt til (orðtak)  Árétta tiltekinn rétt sinn t.d. í samningum eða reglum. 

Áskilnaður (n, kk)  Skilyrði; frágangssök.  „Í samningnum er áskilnaður um góða umgengni“.

Áskipa (s)  Manna bát/skip; skipa hásetum í skipsrúm.  Það var hlutverk formanns í byrjun vertíðar.

Áskipað (l)  Þröngt; fullmannað.  „Það er að verða fjári áskipað í þessum dilk; við þurfum að fara að hleypa út“.

Áskorun (n, kvk)  A.  Eggjun; frýjun; mönun.  „Hann fékk margar áskoranir um að bjóða sig fram“.  B.  Erfitt hlutverk.  „Það er vissulega nokkur áskorun að takast þetta á hendur“.

Áskotnast (s) Eignast; fá.  „Mér áskotnaðist merkileg bók um jólin“.

Áskrifandi (n, kk)  Sá sem jafnan fær eintak af dagblaði/tímariti eða öðru, þegar það er útgefið.  Heitið er upphaflega dregið af því að þeir skrifuðu sig á lista sem vildu fá eintak.

Áskrift (n, kvk)  Það að vera áskrifandi.  „Hann hafði það jafnvel á orði að segja upp áskrift sinni að Tímanum ef þeir birtu áfram svona endemis bull“.

Áskynja (l)  Sjá verða áskynja um.

Ásláttur (n, kk)  Það að slá á.  „Ég held við staurinn; þú sérð um ásláttinn“. 

Ásmundarjárn / Ásmundur (n, hk/kk)  Tegund járns sem fór að flytjast til landsins á vegum Englendinga í upphafi 15.aldar, og þótti mun betra til smíða en járn unnið með rauðablæstri.  Nafnið mun upprunnið í Svíþjóð.  Ásmundur (osmond) var lítið járnstykki; ein mörk (217g) að þyngd; flutt í sérstökum tunnum (járnfat).  Samkvæmt búalögum hefur þurft fimm ásmunda í einn ljá.  Ásmundarjárn útrýmdi rauðablæstri að mestu, en þó var hann áfram stundaður að einhverju marki; síðast af Einari gamla í Kollsvík (sjá rauðablástur).  Líklega hafa Kollsvíkingar þó átt veruleg viðskipti við Englendinga á fyrri tímum og því fljótt kynnst ásmundarjárni.

Ásókn (n, kvk)  A.  Eftirspurn; sókn í; ágangur.  „Látrabjarg hefur orðið fyrir sívaxandi ásókn ferðafólks“.  B.  Ónæði af völdum draugs.  „Einar í Kollsvík kunni ráð til að losna undan ásókn draugsins“.

Ást (n, kvk)  Væntumþykja; elska; kærleikur; ástúð.  „Mér skilst að það sé fremur lítil ást milli þeirra nágrannanna þessa stundina“.

Ástaða (n, kvk)  Um veiðiskap; hvort færi/lína/net liggur frá borðinu innundir bátinn, beint niður eða útfrá borðinu vegna áhrifa straums og vinds.   „Þegar fyrsta færinu hefur verið rennt þarf að athuga ástöðuna, og kannski snúa bátnum.  Betra er að það standi á glæ en liggi undir kjöl“.  „Hvernig er ástaðan hérna“?

Ástand (n, hk)  A.  Staða; ásigkomulag; hagur.  „Bíllinn fer varla yfir fjall í þessu ástandi“.  „Nú er þó heldur ástand á bænum; haldiði ekki að ég sé kaffilaus“!  B.  Gæluheiti yfir það sem staðið er á.  „Mig vantar eitthvað ástand til að ná upp á silluna“.

Ástarvella (n, kvk)  Væmnar/rómantískar bókmenntir sem eiga ekki upp á pallborð raunsæisfólks.  „Það er fátt bitastætt orðið á þessu bókasafni.  Nú er ekkert keypt nýtt nema einhverjar ástarvellur“.

Ástarþakkir (n, kvk, fto)  Bestu þakkir; kærar þakkir.  „Ástarþakkir fyrir matinn“!

Ástatt (l)  Um stöðu.  „Nú er bara þannig ástatt hjá mér að ég er ekki aflögufær með salt“.  „Nú myndi ég hlæja ef öðruvísi væri ástatt“.

Ásteytingur (n, kk)  Deiluefni.  „Þetta hefur aldrei orðið að ásteytingi hjá okkur“.

Ásteytingarsteinn (n, kk)  A.  Sker sem bátur strandar á.  „Segja má að Arnarboðinn hafi orðið landnámsmanningum Kolli ásteytingarsteinn.  En um leið varð þar fyrsta skráða björgun úr sjóslysi á Íslandi“.  B.  Líkingamál: Atriði sem er hindrun/ brotnar á í framkvæmd/málaleitun/samningum.  „Minnstu munaði að staðsetning skólahússins yrði óyfirstíganlegur ásteytingarsteinn“.

Ástig (n, hk)  Staður sem stigið er á; þrep; pedali; fótfesta.  „Þarna í brúninni er lítil brík, sem er upplagt ástig þegar farið er niður í lás“.

Ástkær (l)  Elskaður; kær.  „...ekki nema smá brot af öllum þeim góðu og skemmtilegu minningum sem ég á frá minni yndislegu æsku, og um okkar ástkæru foreldra“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Ástmenni (n, hk)  Sá sem er manni mjög kær/nákominn; ástvinur; skyldmenni.

Ástreymis við (orðtak)  Straummegin/forstreymis við; um það sem er nær þeirri átt sem straumur kemur úr.  „Ætli við þurfum ekki að snúa bátnum til að færin séu ástreymis við hann“.

Ástríða (n, kvk)  Árátta; mikil löngun/þrá eftir.  „Þessi söfnun varð honum allnokkur ástríða“.

Ástríki / Ástúð (n, hk)  Væntumþykja; ást; kærleikur.  „Það barn verður seint að manni sem ekki nýtur ástríkis i uppeldinu“.

Ástríkur (l)  Sem sýnir kærleika/væntumþykju.

Ástsamlega (ao)  Elskulega; innilega.  „Ég bið ástsamlegast að heilsa þínu fólki“.

Ástsæld (n, kvk)  Vinsældir; aðdáun.  „Glámur hefur ekki notið verulegrar ástsældar meðal almennings“.

Ástunda (s)  Gera; leggja stund á; leggja í vana sinn.  „Hann er farinn að ástunda það að rífa sig upp fyrir allar aldir“.

Ástundun (n, kvk)  Natni; iðni.  „Þú lærir lítið með svona ástundun“!

Ástunga (n, kvk)  Það að stinga á t.d. bólgu til að hleypa greftri/vessum/sulli út.

Ástúðlega (ao)  Alúðlega; blíðlega; með umhyggju. 

Ástúðlegur (l)  Alúðlegur; sýnir blíðu/kærleika.

Ástvinamissir (n, kk)  Fráfall nákominnar manneskju.  „Það stoðar lítið að syrgja Helgi minn; þetta er nú enginn ástvinamissir“ var haft eftir Manga á Hlaðseyri þegar Blöndal hellti niður heimaframleiðslunni.  Var það lengi haft að orðtaki í Rauðasandshreppi.

Ástvinur (n, kk)  Sá/sú sem er manni kær/ sem manni þykir vænt um. 

Ástæða (n, kvk)  Forsenda; tilefni.  „Er nokkur ástæða til að efast um þessa frásögn“?  „Af ýmsum ástæðum reyndist þetta ekki mögulegt“.

Ástæðulaust (l)  Án ástæðu/forsendu/tilefnis.  „Ég held að þetta sé ástæðulaus tortryggni“.

Ásýnd (n, kvk)   Andlit; auglit.  „Ég kæri mig ekkert um að hafa svona ryðkláf fyrir minni ásýnd til lengdar“!

Ásýndar / Ásýndum (ao)  Til að sjá; útlits; tilsýndar.  „Blakkurinn er ekki síður tilkomumikill ásýndar af sjó en af landi“. „Hann var ekki glæsilegur ásýndar þegar við drógum hann upp úr haugnum“.  „Húsið er allt annað ásýndum eftir að það var málað“.

Ásækinn (l)  Sem leitar/sækir á.  „Þessi hugsun hefur orðið nokkuð ásækin í seinni tíð“.

Ásækja (s)  Sækja að/á; vera aðgangsharður/áleitinn; veita átroðning.  „Henni þótti þessi ófögnuður vera að ásækja sig í draumnum“.

Ásækni (n, kvk)  Ágangur; sókn í; löngun.  „Það er orðin ári mikil ásækni af fé í nýræktina“.

Ásælast (s)  Girnast; langa í.  „Ekki heyrði ég frá því sagt að huldufólk væri hrekkjótt við fólk, nema hvað það ætti til að ásælast börn frá mennskum mönnum“   (SG; Huldufólk; Þjhd.Þjms). 

Ásælni (n, kvk)  Gleypugangur; frekja; yfirgangur.  „Þetta jaðrar við fjárans ásælni í honum“!  Líklega hljóðbreyting úr áseilni; þ.e. að seilast eftir.

Ásökun (n, kvk)  Sök/ákæra sem borin er á einhvern.  „Þetta er alvarleg ásökun“.

Ásökunarsvipur / Ásökunartónn (n, kk)  Svipur/tóntegund sem gefur til kynna ásökun/tortryggni.

Át (n, hk)  Það að borða/éta; snæðingur.  „Hann sagði ferðasöguna án þess að draga af sér við átið“.  „Doðakýrin er eitthvað að koma til með átið“.  „Gemlingarnir læra átið fljótt eftir að þeir eru teknir á hús“.

Áta (n, kvk)  A.  Matur; það sem ætt er.  „Við hirtum átuna af selnum en grófum afganginn“.  „Skarfakál er gott til átu, og hin besta vörn gegn skyrbjúg“.  B.  Smágert svif í sjó; undirstaða lífkeðjunnar.

Átak (n, hk)  Beiting afls; það sem afl/kraft þarf við.  „Ég man ekki eftir neinum átökum við lestrarnám, en læs var ég þegar ég fór að heiman“  (IG; Æskuminningar). 

Átakalaust (l)  Án átaka.  „Þetta gekk nokkuð átakalaust fyrir sig“.

Átakamaður (n, kk)  Sterkur/öflugur maður.  „Mér sýnist hann ekki vera mikill átakamaður“.

Átakanlega (ao)  Hörmulega; árifamikið.  „Mig tók það átakanlega sárt að heyra þetta“.

Átakanlegt (l)  Sorglegt; áhrifamikið.  „Það var átakanlegt fyrir konu og börn að standa í fjörunni og horfa á slysið án þess að neinum björgum yrði við komið“. 

Átakavinna (n, kvk)  Vinna sem krefst átaka/afls.  „Þetta var engin átakavinna; meira svona hálfgert dund“.

Átekinn (l)  Sem búið er að taka af/ opna.  „Taktu heldur átekna fernu“.

Átelja (s)  Ásaka; skamma; ávíta.  „Ég átaldi hann ekki fyrir þetta; enda var það óviljaverk“.

Átfrekur (l)  Frekur til matarins; þarf mikið að borða/éta.  „Það þarf að ætla töluvert fóður fyrir tuddann; hann er líklega nokkuð átfrekur“.

Átlaus (l)  Nærist/borðar/étur ekki.  „Kýrin er enn átlaus, en hún er farin að komast á fætur“.

Átleysi (n, hk)  Lystarleysi; ólyst; óát.  „Kýr eru einnig vanfóðraðar í Kirkjuhvammi, sem orsakast af átleysi, sem áður fyr eftir óþurrkasumur“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1932).   

Átmatur (n, kk)  Matur sem borðaður er; mannamatur

Átreystandi (orðtak)  Sem unnt er að treysta á; öruggt.  „Það er varla átreystandi að ég muni eftir þessu“.  Sjá ekki á það treystandi.

Átroðningur (n, kk)  A.  Yfirgangur; ágengni.  „Það var ekki meiningin að vera með neinn átroðning“.  B.  Gestagangur og umstang t.d. vegna fundahalda.  Víða í bókhaldi félaga frá fyrri tíð má sjá greidda þóknun fyrir átroðning.

Átrúnaðargoð (n, hk)  Sá sem er í miklu uppáhaldi.  „Elvis var átrúnaðargoð unglinga á eftirstríðsárunum“.

Átrúnaður (n, kk)  Trú; einkum notað um trú á veraldleg fyrirbæri eða menn.  „Enn er mikill átrúnaður á lækningamátt vatns úr Gvendarbrunninum“.

Átt (n, kvk)  A.  Höfuðáttirnar fjórar og milliáttir þeirra.  B.  Stefna.  „Kindurnar hlupu sín í hverja áttina“.

Átta (n, kvk)  Spilið átta.  „Áttu áttu“? (Spurt í spilinu veiðimanni).

Átta sig (orðtak)  Gera sér grein fyrir áttum/aðstæðum.  „Einnig hafði sunnangoluna lægt og alveg var ládeyðu sjóleysa, svo að eftir engu var hægt að átta sig“  (ÖG; Þokuróður).

Áttadagur (n, kk)  Annað heiti á nýársdegi, sem er áttundi dagur jóla.  Ekki notað í seinni tíð.

Áttaður (l)  Um vindáttir.  „Hvernig er hann áttaður núna“?  „Hann gæti nú verið betur áttaður“.

Áttabarningur (n, kk)  Þegar vindur blæs af fleiri en einni átt og ekki er fyrirséð hvaða vindátt verður ríkjandi.

Áttamálfar  (n, hk)  Málfar, oft staðbundið, yfir áttir og stefnur.   „Svo eru það áttirnar hér í Kollsvíkinni:  Hér er þó til norður, en ekki aðrar höfuðáttir. Við segjum norður í Kollsvík frá Láganúpi; það er í NA, en frá Kollsvík er farið yfir að Láganúpi. Bæir sunnan til í víkinni hétu handanbæir en hinir norðan til voru norðanbæir. Svo förum við fram í Vík sem er dalurinn hér fram af Kollsvíkinni og út á Víkina var róið til fiskjar. Við förum inn á Rauðasand og inn á Patreksfjörð; inn í Hænuvík (sem er næstum í austur) og út í Breiðuvík (suðvestur) og svo áfram út að Látrum. Svo eru aftur nefndar áttir í verðufari t.d. útsunnan er suðvestan og norðangarður er vitanlega hvöss norðanátt. Svo er hér talað um aðlögn (sem annarsstaðar er nefnd innlögn) í fjörðum í sterku sólskini þegar landið hitnar um miðjan daginn.  Eitt er nokkuð merkilegt í þessu áttamálfari og það er að þó við förum suður til Reykjavíkur þá förum við alltaf vestur þegar við komum til baka. Líka segjum við norður á Firði. t.d Ísafjörð, en vestur þegar við komum til baka. Kannske er eitthvað fleira sem ég ekki man í bili“  (SG; Áttamálfar; Þjhd.Þjms). 
 Í Kollsvík er mest talað um eina af höfuðáttunum fjórum, en það er norður.  Allar hinar eiga sér staðgengil sem oft var meira notaður en þær sjálfar.  Vestra tíðkaðist það sérstæða mál að segja „norðari“ um þann sem aðrir sögðu „nyrðri“ og „handari“ um þann sem aðrir kölluðu „syðri“.  Sá sem kom til Kollsvíkur frá Láganúpi kom „að handan“, og þegar hann fór aftur þangað fór hann „yfir“.  Norðan (nordan) er helsti örlagavaldur um lífsskilyrði í Kollsvík; manna, dýra og ekki síst gróðurs.  Í þeirri átt verður að jafnaði kaldast, hvassast, sjóþyngst og mest sandrok og uppblástur.  Eftir langvarandi norðanáhlaup að vetrarlagi má búast við að sandskaflar séu komnir upp á tún víða handantil í víkinni, og jafnvel út á Strympur; seltumósta sé á steinum, húsum og öðru; illfært sé milli húsa og fyrir þau fennt; vegir frá víkinni séu kolófærir; fé hafi verið lengi á innistöðu ; frosið sé í vatnsbólum og þústnað hafi hjá mannfólki.  Norðanátt að sumarlagi þýðir ógæftir til sjóarins og jafnvel heyskaða ef hvasst er.  Talað var um norðangarra; norðanbelging; norðanrosa; norðansteyting o.s.frv.  Hinsvegar getur norðanáttin einnig boðað bötun; bjartviðri og þurrka eftir rigningatíð og óþurrka.  Reki verður stundum mikill eftir norðanáttir.  Þegar farið er frá Láganúpi til Kollsvíkurbæjar eða Stekkjarmels er farið norður og það er þar er er fyrir norðan.  Vestur er einnig nefnt „út“  í Kollsvík eins og víðar.  „Hann er að ganga útí“, var sagt ef vindur snerist til vestanáttar frá sunnanátt, því þá var von um óþurrki linnti.  Ekki síst á sjó var talað um út; útsuður og útnorður.  Vestanvindáttin getur orðið all hörð, þó sjaldan sé hún jafn skæð eða þaulsætin og norðanáttin.  Vestansjór verður oft síst minni en norðansjór, og geta þá verið grunnbrot um alla víkina og brim upp um miðjar hlíðar í Blakknum.  Sunnanátt er nefnd með sínu nafni þegar rætt er um veður, en öðru máli gegnir þegar hún á við stefnu í víkinni.  Að fara til suðurs norðan úr víkinni er að fara yfir, eða yfirum; þeir sem eru sunnantil í víkinni eru fyrir handan; handanmegin; bæirnir sunnantil í víkinni (Láganúpur, Grundir og Grund) eru handanbæir og íbúarnir handanbæjafólk.  Sunnanáttir eru oftast óþurrkasamar að sumri og auka snjóþyngsli að vetri, en þeim fylgja oft hlýindi, leysingar, gróðrarskúrir og gæftir til sjóar.  Austanátt er eflaust sú átt sem minnst er rædd í Kollsvík, enda eru áhrif hennar minnst.  Austnorðan vindátt er að öllum jafnaði öruggasti þurrkur sem völ er á; oftast með sólskini og bjartviðri og iðulega einnig góðum gæftum.  Stundum var áttleysan best, einkum til sjós, en betra var þó að hafa einhverja flæsu ef hey var flatt. (VÖ)
„Fremur lítið er um það hér í sveit að höfuðáttirnar séu nefndar í daglegu tali, heldur eru notuð heimatilbúin tákn sem munu hafa verið notuð í aldaraðir. Á Rauðasandi þar sem ég er uppalin er aldrei talað um norður, suður, austur og vestur nema um meiri fjarlægðir sé að ræða; t.d. suður í Reykjavík eins og er víst sagt um allt land.  Svo segjum við þá austur á land, norður á firði (t.d. Ísafj.) en alls ekki vestur á Látrabjarg, heldur út á Bjarg, yfir á Patreksfj. en aftur norður í Tálknafjörð. Aldrei austur á Barðaströnd heldur inn á Barðaströnd.  Það er einnig sagt á Patreksfirði inn á Barðaströnd, en það fer kannske að breytast því Vegagerðin segir gjarnan að Kleifarheiði sé fær suður á Barðaströnd“  (SG; Áttamálfar; Þjhd.Þjms). 

Áttavilltur (l)  Ekki viss um réttar áttir, eða í hvaða átt er rétt að fara.  „Maður getur orðið ansi áttavilltur á þessum slóðum í svona þéttri þoku“.

Áttaviti (n, kk)  Áhald með segulnál, sem m.a. sjófarendur nota til að átta sig á stefnu.  „En þegar sá atburður gerðist, sem nú skal frá sagt, voru ekki komnir vélknúnir bátar, né áttavitinn kominn í hverja fleytu er á sjó var sett“  (ÖG; Þokuróður).

Átthagaband / Átthagafjötur (n, hk/kk)  Það sem bindur mann/fólk við sína heimaslóð.  Oft er átt við þá löggjöf fyrri tíma sem nefnd hefur verið vistarband, og bannaði frjálsa för vinnufólks milli bæja/byggða nema með ströngum skilyrðum.  Einnig getur verið átt við skuldbindingar eða einungis tilfinningatengsl einstaklings við sinn heimastað. 

Átthagar (n, kk, fto)  Heimaslóð; sá staður sem maður elst upp á eða rekur kyn til, og er jafnan tengdur tilfinningaböndum.  „Kollsvíkingar vitja gjarnan átthaga sinna, þó í mismiklum mæli sé“.

Átthagatryggð (n, kvk)  Tryggð við uppeldis-/upprunastað sinn.  „Kollsvíkingar hafa löngum sýnt víkinni sinni mikla átthagatryggð“.

Átti ég ekki á von?! (orðtak)  Upphrópun sem lýsir undrun og vandlætingu.  „Átti ég ekki á von?  Alveg var það eftir ykkur að fara að slóra við brönduveiðar þegar ykkur var sagt að koma strax heim með kýrnar“!

Áttidagur (n, kk)  Áttundi dagur jóla; helgidagur í fornum kristnum sið , sem fellur á nýársdag í okkar tímatali. 

Áttleysa (n, kvk)  Logn; vindi slær sitt á hvað.  „Það er áttleysa og erfitt að átta sig á útlitinu“.

Áttróinn (l)  Um bát róið á átta árum.  Áttæringar voru jafnan áttrónir en til var það að tvö aukaræði voru í sexæringum og voru þeir þá áttrónir.

Áttungur (n, kk)  Ílát sem tekur 1/8 af löglegri tunnu, eða 15 lítra.

Áttæringur (n, kk)  Áttróinn bátur; bátur sem róið er af átta ræðurum; þ.e. með 16 ræði alls.  Þeir voru tíðum um 29 fet eða 9m að lengd og með burðargetu um 6 tonn.

Átvagl / Átvargur (n, hk/kk)  Matargat; hít.  „Ég hef sjaldan fyrirhitt þvílíkt átvagl“.

Átveisla (n, kvk)  Veisla/matarboð þar sem mikið er til matar/ mikið er borðað.  „Ég lenti þarna í heljarmikilli átveislu“.

Átylla (n, kvk)  A.  Upprunaleg merking, sem enn var notuð í Kollsvík til skamms tíma; fótfesta í brattlendi.  „Það þarf að vel að sér í hörðum og bröttum aurskriðunum.  Mikilvægt er að velja góðar átyllur“.  B.  Afleidd merking; ástæða; tilefni; fyrirsláttur.  „Ég held að þetta sé átylla hjá honum til að sleppa við skóla“.

Átölur (n, kvk, fto)  Ávítur; skammir; atyrði.  „Við fengum auðvitað átölur foreldranna fyrir uppátækið“.

Átölulaust (l)  Athugasemdalaust; án eftirmála.  „Þetta er alveg átölulaust frá minni hendi“.

Ávallt (ao)  Alltaf; ætíð.  Fyrrum oft ritað með einu l.  „Þeir bera ekki ávalt mest úr býtum er hugsa sér það markmið að hrúga upp hárri höfðatölu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1933). 

Ávalur (l)  Rúnnaður; kúptur; afsleppur; aflíðandi.  „Steinninn var ávalur og sleipur svo ég náði ekki að fóta mig á honum“.

Ávani (n, kk)  Venja; kækur; siður.  „Var það hans ávani, þegar hann kom á fætur, að fara út fyrir húshornið og míga; líta til veðurs og spýta mórauðu tuggunni sem innbyrt hafði verið stuttu áður“.

Ávanta / Á vanta (s/orðtak)  Vanta/skorta uppá.  „Hér finnst mér nokkuð ávanta; var þetta allt og sumt“?

Ávarp (n, hk)  Ræða; tala; boðskapur. 

Ávarpa (s)  A.  Tala við; mæla til.  „Það þýðir ekkert að ávarpa hann þegar hann er  svona þungt hugsi“.  B.  Minna á; gera viðvart.  „Viltu ávarpa mig með þetta á föstudaginn?  Ég gæti átt það til að gleyma því“.

Ávarpsgóður (l)  Um mann; sem gott er að ávarpa/tala við.  „Þú skalt nefna þetta við hann.  Það er óvíst að hann geti hjálpað þér, en hann er alltaf ávarpsgóður“.

Ávarpsorð (n, hk, fto)  Það sem sagt er í byrjun sendibréfs eða viðtals; gjarnan titill, nafn og/eða kveðja.

Ávaxta sitt pund (orðtak)  Fá góðan arð af sínum eignum; fá vexti af fjármunum.  Líklega upprunnið frá þeim tíma að efni, s.s. góðmálmar voru notaðir sem gjaldmiðill, og þá sem nú var mikilvægara að hagnast en tapa í viðskiptum.  Einnig notað í líingamáli um það að nýta vel sína mannkosti.

Ávaxtagrautur (n, kk)  Grautur sem soðinn er úr þurrkuðum ávöxtum.  Ávaxtagrautur var snæddur til hátíðabrigða eftir að slík vara varð fáanleg.  „Aðalmáltíðin var hangikjöt, og ávaxtagrautur með rjóma útá á eftir“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jól í bernsku hans). 

Áveðurs (ao)  Á móti vindátt; vindmegin.  „Það er farin járnplata af fjárhúsunum, áveðurs“.

Áveita (n, kvk)  Veita vatns yfir gróðurlendi til að auka slægjur eða beitargæði.  „Á 20. öld voru sumsstaðar í Kollsvík gerðar áveitur, t.d. í Grundamýri og á Miðmýrunum, til að drýgja slægjur“.

Áveitueingjar (n, kvk, fto)  Slægjuland sem varð grasgefnara með áveitu.  Hey sem af þeim fékkst var nefnt engjahey.  Oft þurfti að flytja það af engjunum vegna bleytu þar, og þurrka það á þurrkvelli.

Áveitugarður (n, kk)  Lág torfhleðsla til að auka vatn á áveitum/engjum, og þar með sprettu.  Enn má sjá áveitugarða í Kollsvík og víðar, þó engjaheyskapur sé löngu aflagður.

Áverki (n, kk)  Sár; meiðsli.  „Hann fékk nokkra áverka á handlegg og enni við fallið“.

Ávið (fs)  Til jafns við; í samjöfnuði við.  „Hann rignir enn, en það er þó lítið ávið úrhellið í gær“.

Ávinna (s)  Koma til leiðar; koma í verk.  „Hann ávinnur lítið með þessu lagi“!

Ávinna sér (orðtak)  Gera/skapa sér; fá að launum.  „Hann reyndist mjög duglegur og ábyggilegur starfsmaður og ávann sér fljótt traust sinna yfirmanna“.

Ávinnast (s)  Hagnast; batna; aukast; fara eftir.  „Það ávinnst ekkert með þessum aðferðum“.  „Mælti hann svo um að ekki skyldi hann gera sér eða sinni ætt mein framar, og hefur það áunnist“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Ávinningur (n, kk)  Gróði; arður; það sem næst fram.  „Ég held að ávinningurinn af þessu verði lítill, og gæti jafnvel endað sem tap“.

Ávirðing (n, kvk)  Yfirsjón; misgerð; það sem manni verður á.  „Hann kannaðist ekki við þær ávirðingar sem á hann voru bornar“.  Heitið er myndað með hljóðbreytingu af því að „verða á“; þ.e. mistakast; misgera.

Ávísa (s)  A.  Sýna; vísa á/til.  „Kindurnar voru á þeim stað sem hann hafði ávísað“.  B.  Síðari merking; skrifa tilvísun/ávísin á.  T.d. ávísiar greiðandi fé með ávísun/tékka og læknir ávísar lyfi með lyfseðli.

Ávísanahefti (n, hk)  Bók með ávísunum/tékkum sem skrifað er uppá við greiðslu og rifnar úr.

Ávísanareikningur (n, kk)  Viðskiptareikningur í banka, sem innstæðueigandi getur ávísað á.  „Í tíð Valdimars Össurarsonar sem sparisjóðsstjóra voru innleidd viðskipti með ávísanareikninga í Sparisjóði Rauðasandshrepps; uppúr 1980.  Þetta var nauðsynlegur liður í þeirri viðleitni að halda sparisjóðnum við líði í heimi breyttra viðskipta en útheimti gríðarlega vinnu, þar sem allt var handfært.  Þó allir fögnuðu framförunum var lítill skilningur stjórnenda sparisjóðsins á erfiðleikunum sem við þetta sköpuðust, og áttu mikinn þátt í því að sparisjóðurinn lagði upp laupana“.

Ávísanaviðskipti (n, hk, fto)  Viðskipti þar sem ávísanir eru notaðar sem greiðslur.

Ávísun (n, kvk)  A.  Tilvísun.  „Ég fann gleraugun, eftir hans ávísun“.  B.  Tékki; tilvísun í sérstöku formi sem er ígildi fjármuna og notað í viðskiptum, þó nú hafi rafræn viðskipti leyst slíkt mikistil af hólmi.

Ávíta (s) Skamma; atyrða; álasa.  „Það má ekki ávíta hann fyrir svona óviljaverk“.

Ávítur (n, kvk, fto)  Skammir; átölur.  „Einhverjar ávítur hlutum við fyrir athæfið“.

Ávæni (n, hk)  Von; vænting; ádráttur; hálfgildings loforð.  „Hann hafði gefið okkur ávæni um að borið yrði ofaní veginn þá um sumarið“.  „Væni“ er hljóðbreyting af „von“.

Ávæningur (n, kk) Slitrur/útdráttur/brot af máli; orðrómur.  „Ég heyrði einhvern ávæning af því að verið væri að safna í afmælisgjöf og vildi gjarnan vera með“.

Ávöxtur (n, kk)  A.  Afurð; eftirtekja; árangur.  „Víða má sjá ávexti af starfi ungmennafélaganna; bæði í verklegum framkvæmdum, s.s. Snorravörðum og vegagerð, sem og í hugarfari og sveitarbrag.  Má t.d. þakka þeim það að drykkjuskapur varð ekki eins landlægur í Rauðasandshreppi og víða annarsstaðar“.  B.  Matarmikil aldin trjáa, s.s. epli og appelsínur. 

Áþekkur (l)  Líkur; svipaður.  „Hann er áþekkur á hæð og ég“.  „Þeir eru áþekkir, frændurnir, með sérviskuna.

Áþján (n, kvk)  Erfiðleikar/þjáningar/kúgun sem maður býr við.  „Um aldaraðir bjuggu flestir íbúar í Rauðasandshreppi við áþján Bæjarhöfðingjanna, sem þó var auðvitað mismikil, eftir þeim sem á hélt“.

Áþreifanlega (l)  Greinilega; sem unnt er að þreifa á.  „Ég hef orðið áþreifanlega var við það“.

Áþreifanlegur (l)  Það sem unnt er að þreifa/taka á; raunverulegur.  „Í rauninni hefur enginn áþreifanlegur árangur orðið af þessu brambolti þeirra“.

Áætla (s)  Giska á; telja.  „Ég áætla að við verðum komnir með féð í rétt um þrjúleytið“.  „Þar sem þetta var í byrjun sláturtíðar þetta haustið, gekk dagsverkið heldur hægar en áætlað hafði verið…“  (PG; Veðmálið). 

Áætlaður (l)  Sem gert er ráð fyrir/ giskað er á.  „Komið var langt framyfir áætlaðan komutíma“.

Áætlun (n, kvk)  Fyrirætlun; hyggja; ráðagerð.  „Áætlun hans stóðast í aðalatriðum“.

Áætlunarbíll (n, kk)  Fólksflutningabíll/rúta sem gengur milli ákveðinna staða á fyrirfram ákveðnum tíma.  „Við þurfum að vera komnir inn á Ósa á undan áætlunarbílnum“.

Áætlunarferð (orðtak)  Reglulegar ferðir t.d. til fólksflutninga, vöruflutninga eða mjólkurflutninga.  „Ekki var um neina áætlunar- eða skipsferð að ræða frá Þingeyri til Patró fyrir jólin“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Áætlunarflug (n, hk)  Reglulegt farþegaflug milli ákveðinna staða.  „Fátt lýsir betur heimskulegum gerðum stjórnvalda en það að leggja niður áætlunarflug á Sandoddann, um leið og þar var búið að malbika langar flugbrautir og byggja stórt og vandað flugskýli“.

Áætlunarsiglingar (n, kvk, fto)  Ferðir flutningaskips milli fyrirfram ákveðinna staða á ákveðnum tímum.  „Það voru mikil mistök að leggja niður áætlunarsiglingar strandferðaskipa, en beina þess í stað flutningum á vegina; sem alls ekki þola álagið og menga margfalt meira“.

Leita