Á síðari hluta 19.aldar var allmikil útgerð hákarlaskipa úr Rauðasandshreppi.  Þau voru tiltölulega stór skip, gjarnan gerð út í samlögum bænda.  Hér er skrá sem Egill Ólafsson safnamaður á Hnjóti gerði eftir ýmsum heimildum.

eoEgill Ólafsson var bóndi á Hnjóti og mikill áhugamaður um söfnun og skráningu minja.  Minjasafn sitt gaf hann Barðastrandasýslu árið 1983, en hann lést 25.10.1999.  Heimildarmenn Egils fyrir þessari samantekt voru Árni Dagbjartsson Kvígindisdal, f. 27. ágúst 1883; Kristján Júlíus Kristjánsson Efri-Tungu, f. 12. júlí 1876; Jóhanna Árnadóttir Patreksfirði, f. 20. jan 1885; Ívar Ívarsson Kirkjuhvammi, f. 25. sept 1889 og Helgi Árnason Tröð, f. 13 apríl 1889.  Jóhann Ásmundsson, þá safnvörður á Hnjóti, skrásetti eftir handritum Egils, og er hér að mestu haldið orðalagi og uppsetningu.  Áður birt á vef Minjasafns Egils Ólafssonar.

Hér er aðeins getið þeirra báta sem í daglegu tali voru kallaðir hákarlaskip.  Þessi skip voru einnig notuð til flutninga, t.d. á skreið.  Aðeins einu var róið til fiskjar, og var það á Sjöundá. 

Laufi   (Sjöundá)  Laufi var stór sexæringur og hafði uppsátur á Sjöundá.  Eigendur voru bændur á Rauðasandi, og mönnuðu þeir skipið. Seinasti formaður á Laufa var Ólafur Ólafsson bóndi á Stökkum.  Laufi var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig var hann notaður til heyflutninga úr Skor og Sjöundá og líka var hann stundum gerður út á steinbít.  Var þá róið frá Hagamannabúð á Hvallátrum (verbúð tilheyrandi Haga á Barðaströnd). 

Sigríður blíðfara  (Hvallátrum)  Sigríður var áttæringur og átti uppsátur á Hvallátrum.  Eigendur voru Hvallátrabændur.  Þetta var happaskip; brást aldrei veður er það var í hákarlalegu.  Fékk skipið fljótlega viðurnefnið „blíðfara“ og bar það nafn til hinstu stundar.  Það var að lokum rifið og efnið úr því notað í útihús.

Sigurður Finnbogason bóndi á Hvallátrum var formaður á skipi þessu í mörg ár.  Við formennsku á Sigríði blíðfara eftir Sigurð, tók Dagbjartur Gíslason bóndi á Hvallátrum.  Dgbjartur var seinasti formaðurinn á þessu happaskipi.  Hann mun hafa farið í seinustu hákarlaleguna á því veturinn 1888.  Dagbjartur fórst í fiskiróðri frá Hvallátrum þetta sama ár, 2. maí, ásamt skipi sínu og áhöfn.

Hér verður sagt frá óvenjulegum atburði sem skeði í seinustu hákarlalegu Sigurðar Finnbogasonar sem formanns á Sigríði Blíðfara:  Er siglt hafði verið nokkra stund til lands að lokinni vel heppnaðri legu, gerði stillilogn.  Var þá sest undir árar og róið uppundir Látrabjarg.  Róðurinn sóttist seint, því skipið var hlaðið og ekki hagstæður straumur.  Er komið var að Látrabjargi segir formaður að nú sé kominn útstraumur og best að leggja upp árar og láta reka útmeð Bjarginu.  Var þetta gert.  Settust  nú allir að snæðingi og kveikt var undir kaffikatlinum.  Allt í einu tekur skipið niðri á skeri því er Selkollur heitir, og stitur þar fast.  Var strax sest undir árar og losnaði skipið af skerinu.  Reyndist það óskemmt.  Sigurður kvað þetta vera í fyrsta sinn sem óhapp hefði hent sig í hákarlalegu, og væri þetta fyrirboði þess að ekki færi hann fleiri legur á þessu skipi, og reyndist það svo. 

Egill  (Hvallátrum)  Egill var teinæringur og hafði uppsátur á Hvallátrum.  Eigandi var Erlendur Kristjánsson bóndi á Miðbæ á Hvallátrum.  Erlendur var formaður á Agli meðan hann átti hann.  Erlendur lét smíða skip þetta á Siglunesi á Barðaströnd, um 1880.  Yfirsmiður var Ólafur Bergsveinsson skipasmiður; bóndi í Hvallátrum á Breiðafirði.  Egill var eingöngu notaður sem hákarlaskip meðan hann var gerður út frá Hvallátrum, og reyndist happaskip.

Erlendur seldi skipið skömmu eftir aldamótin 1900; Pétri Á. Ólafssyni útgerðarmanni á Geirseyri.  Pétur notaði Egil sem uppskipunarskip; breytti um nafn og kallaði Hringhorna.

Hér verður sagt frá flutningi á smíðakofforti Ólafs Bergsveinssonar, þegar hann hélt að Siglunesi til skipasmíðanna.  Ólafur fékk sig fluttan frá Hvallátrum upp að Brjánslæk á Barðaströnd.  Þaðan fór hann gangandi út að Siglunesi, sem er ysti bær á Barðaströnd.  Þetta var um vetur.  Nú þurfti að koma verkfærakofforti Ólafs frá Brjánslæk að Siglunesi.  Erlendur á Hvallátrum sendi einn af vinnumönnum sínum eftir koffortinu.  Hann hét Gestur Jósepsson, og var síðar þurrabúðarmaður í Kollsvík (að Gestarmel).  Gestur var lágur maður vexti, en þéttur undir hönd.  Hann bar koffortið í fötlum frá Brjánslæk að Siglunesi, og virtist fara létt með það.  Koffortið var 120 pund að þyngd.  Þótti þetta vel gert, og var oft vitnað til þessa þrekvirkis síðar.  Vegalengdin frá Brjánslæk að Siglunesi er um 38 km. 

Farvel  (Breiðavík)  Farvel var áttæringur og átti uppsátur í Breiðavík.  Eigendur voru bændur í Breiðavík.  Formaður í mörg ár var Ólafur Ólafsson bóndi í Breiðavík, fæddur þar 18.okt. 1854, d.s.st. 18.feb. 1898.  Seinasti formaður á Farvel var Guðbjartur Jónsson bóndi í Breiðavík; Torfasonar bónda á Hnjóti.  Farvel var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig mun hann hafa verið notaður til kaupstaðarferða, og þá sem flutningaskip með ull í kaupstaðinn og vörur til baka.  Farvel var happaskip. 

Fönix  (Kollsvík)  Fönix var teinæringur og átti uppsátur í Kollsvíkurveri og Láganúpsveri.  Eigendur voru Guðrún Anna Magðalena Halldórsdóttir bóndi í Kollsvík og Halldór Ólafsson bóndi á Grundum.  Formaður á Fönix um árabil var Guðbjartur Ólafsson bóndi í Kollsvík, og síðar bróðir hans, Halldór Ólafsson bóndi á Grundum í Kollsvík.

Fönix mun upphaflega hafa verið sexæringur, en smíðaður upp og stækkaður af Sturla Einarssyni bónda í Vatnsdal; Einarssonar bónda á Hnjóti.

Fönix var stærsta hákarlaskipið í Rauðasandshreppi.  Honum er svo lýst að hann hafi verið glæsilegasta hákarlaskipið í sveitinni fyrr og síðar.  Í skutnum á þessu skipi var fjöl, og á hana skorið þetta:  „Farsæli Fönix.  Skipið frá Kollsvík“.  Fönix var með strengjabita, en það var vænt tré að gildleika, sem lá þvert um skipið um hálsþóftuna og útyfir borðstokka.  Bitanum var fest þannig að hann var bundinn niður í þóftuna beggja megin út við borðstokkana.  Stjórafærinu var brugðið um strengjabitann er lagst var fyrir í hákarlalegum og var það kallað að liggja fyrir klofa.  Fór skipið þannig mun betur í sjó heldur en ef festinni væri brugðið um stefni.  Strengjabitinn náði það langt útfyrir borðstokka skipsins að tveir menn gátu haft handfestu á bitaendunum hvoru megin skipsins og haldið skipinu réttu í lendingu meðan borið var af (borið frá borði).  Strengjabitinn tilheyrði farviði skipsins. 

Fönix var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og flutningaskip í kaupstaðarferðum.  Hann var notaður til að flytja timbur úr skipinu Ossian frá Mandal í Noregi, sem strandaði undir Djúpadal í Látrabjargi (Bæjarbjargi) árið 1878.  Ossian var hlaðið timbri og var það flutt inn í Keflavík þar sem það var selt á uppboði.

Áhöfnin á Fönix var venjulega 11 til 12 menn.  Fönix var happaskip.  Endalok hans urðu þau sömu og flestra gæfusamra skipa; hann var rifinn uppúr aldamótum 1900 og efnið úr honum var notað sem árefti á hús í Kollsvík.

(Í bók sinni Íslenskir sjávarhættir, 2.bindi, bls 340, lýsirLúðvík Kristjánsson skipinu Vigur-Breið, sem smíðaður var í byrjun 19. aldar; var upphaflega haft til hákarlaveiða, en síðar sem flutningaskip Vigurbænda.  Segir Lúðvík að eina sambærilega skipið á Vestfjörðum á þeim tíma hafi verið áttæringurinn „Kollur í Kollsvík“, en á þar vafalaust við Fönix.  Þessir bátar voru svipaðir að stærð, þó Breiður væri heldur lotalengri; Fönix líklega heldur burðarmeiri.  Samkvæmt því hefur Fönix verið rúmir 10m að lengd og 90 cm að dýpt.  VÖ) 

Svanur  (Hænuvík)  Svanur var áttæringur og hafði uppsátur í Hænuvík.  Eigendur voru bændur í Hænuvík.  Svanur var happaskip.  Hann var að lokum rifinn og efnið úr honum notað til áreftis á útihús undir hellur og torf.

Svanur var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og til flutninga í kaupstaðarferðum.  Seinasti formaður á Svani var Ívar Jónsson bóndi í Hænuvík. 

Dvalinn  (Vatnsdal)  Um stærð þessa skips er ekki vitað, en sennilega hefur það verið stór áttæringur.  Dvalinn hafði uppsátur í Vatnsdal.  Ekki er vitað með vissu hverjir voru eigendur að skipinu, en þó er talið að bóndinn í Vatnsdal hafi átt það að hluta, eða kannski einn því þetta skip var aldrei kallað annað en Vatnsdalsskip, og er enn í frásögnum eldri manna.

Ekki er vitað hverjir voru fyrri formenn á Vatnsdalsskipinu, en í seinustu hákarlalegu skipsins var fenginn sem formaður Árni Pálsson Tungu í Örlygshöfn; f. 19.apr. 1822.  Aðrir hásetar voru:  Davíð Hinriksson Sauðlauksdal, 26 ára; Kristján Hjálmarsson, Sauðlauksdal, 26 ára; Guðmundur Loftsson Kvígindisdal, 27 ára; Sigurður Eiríksson Vatnsdal, 51 árs; Guðmundur Jónsson Hnjóti, 26 ára; Bjarni Ólafsson Tungu, 44 ára; Helgi Bjarnason Tungu, 19 ára; sonur Bjarna Ólafssonar.  Áhöfnin var því níu menn.  Hér verður sagt frá hinstu ferð skipsins:

Þann 15. febrúar 1876 er skipið að koma upp að Hvallátrum úr hákarlalegu.  Landtaka á Hvallátrum var orðin tvísýn vegna brims.  Önnur skip er þarna voru á sjó þennan dag lentu í Fjarðarhorni í Breiðavík.  Fjarðarhorn er þrautalending í Útvíkum í norðanátt.  Skipin sem lentu í Fjarðarhorni voru Farvel frá Breiðavík og Sigríður blíðfara frá Hvallátrum.  Af þeim á Dvalanum er það að segja að þegar þeir koma upp að Hvallátrum virðast þeir hafa í huga að lenda þar.  Láta þeir reka frammi á Læginu, en svo er kölluð smávík er myndast af Sölvatanga og Látranesi.  Heimamenn á Hvallátrum fylgdust með ferð skipsins og höfðu viðbúnað til að taka á móti því er um landtöku yrði að ræða.  Meðan þessu fer fram segir einn af heimamönnum; Árni J. Thoroddsen bóndi; skarpskyggn maður „Þarna eru feigir menn um borð“.  Það reyndist orð að sönnu.  Skipið rak upp að svokölluðum Bjarnaboða sem er þarna frammi á Læginu; þar tók sig upp mikil holalda og hvolfdi skipinu.  Fórst það með allri áhöfn.

Lík skipverja rak á Hvallátrum, að einu undanteknu.  Lík Guðmundar Jónssonar frá Hnjóti rak ekki.  Líkin voru borin upp í Hagamannabúð, og búðin var lengi eftir þetta kölluð Dauðsmannsbúð.  Lík skipverjanna af Dvalanum voru jörðuð í einni gröf í Breiðavíkurkirkjugarði 21. mars 1876.