Nabbi / Naddi / Naddur (n, kk)  Arða; hnúfa; lítið horn.  „Mér finnst eins og einhver naddi standi hér í stólsessunni“.  „Ekki skil ég hvernig hann gat prílað þarna upp; þarna er hvorki rifu eða nadd að sjá; aðeins rennisléttan lóréttan klett“!

Naðra (n, kvk)  A.  Eiturslanga; snákur.  B.  Líkingamál um illgjarna/meinyrta/skömmótta manneskju.

Naf (n, hk)  Ásendi; öxulendi.  „Gakktu vel frá splittinu í nafinu“.

Nafar (n, kk) Bor; alur.  „Ég skal gera gat á þetta ef þú réttir mér nafarinn“.

Nafaroddur (n, kk)  Oddur nafars/als.  „Gættu þín á heynálinni; hún er hvöss eins og nafaroddur“.

Naflastrengur (n, kk)  Strengur sem flytur næringu úr legköku til fósturs í móðurkviði.

Nafli (n, kk)  Sá staður á kvið manna og dýra sem naflastrengurinn hefur legið í, fyrir fæðingu.  „Með því að vaða fram í sjó upp í nafla tóks mér að ná skútunni aftur“.  „Við þurfum að fara að setja niður ef við ætlum að róa í dag; það dugir ekki að sitja bara allan daginn og horfa á naflann á sér“!

Nafli alheimsins (orðtak)  Hugtak sem menn nota stundum um þann stað sem þeim er kærastur eða þykir mjög mikilvægur.  „Það vita allir sem til þekkja, að Kollsvíkin er nafli alheimsins“.

Nafna / Nafni (n, kvk/kk)  Sú/sá sem heitir sama nafni og mælandi.  „Ég hringdi í hana nöfnu mína á Látrum“.  „… þegar ég gekk fram af nöfnu minni, eins og ég kallaði hana“  (IG; Æskuminningar).

Nafnavíxl (n, hk)  Umskipti/ruglingur/víxlun á nöfnum.  „Þarna hafa líklega orðið nafnavíxl, enda er ekki óalgengt að þessum tveim „Jónum“ sé ruglað saman“.

Nafnbót (n, hk)  Titill í virðingarskyni.  „Ásgeir á Látrum var vitavörður að nafnbót, og þótti upphefð“.

Nafngift / Nafngjöf (n, kvk)  Skírn; það að gefa einhverju/einhverjum nafn.  Nafngjafir dýra og dauðra hluta eru nokkuð mismunandi frá einum tíma til annars.  Á öllum tímum hefur tíðkast að gefa sérkennum í landslagi nöfn, enda hafði það hagnýta þýðingu, t.d. í siglingum og öðrum ferðalögum, við fiskveiðar, smalamennskur, sem eyktamörk, eignamörk og í öðrum tilgangi.  Fiskimið þurftu af augljósum ástæðum að hafa nöfn.  Nafngiftir í landslagi taka þó alltaf mið af þörfum manna á hverju tíma.  Þannig hafa í seinni tíð komið nöfn á ýmsa staði sem bílvegir liggja um, en voru nafnlausir áður.  Kýr, hestar, kindur og hundar hafa líklega alltaf borið sérnöfn, þó ekki fari sögum af því fyrr á tíð.  Verksmiðjubúskapur síðustu ára ógnar þó þeirri hefð.  Dæmi voru um að villtum dýrum væru gefin nöfn.  Arnfirðingar höfðu nöfn yfir hvalkýr sem komu árlega í fjörðinn.  Þær voru ekki drepnar, en kálfarnir urðu þar gott búsílag.  Fornar sagnir greina frá nöfnum sögufrægra skipa, t.d. Orminum langa.  Líkur benda til að um tíma hafi nafngift báta fallið niður, heldur hafi þeir verið kenndir við eigendur eða formenn sína.  Kann hjátrú að hafa valdið þessu, en hún var rík meðal sjómanna.  Á síðari tímum hafa þó allir bátar borið nöfn.  Þurrabúðir og verbúðir fengu oftast nöfn, eins og mörg dæmi eru um í verum Útvíkna.  Sumar búðir voru þó jafnan kenndar við eigendur eða formenn, líkt og bátarnir fyrrum.  Fyrstu bílarnir fengu oft og tíðum nafn, t.d. Sigga dýra í Kollsík.  Bílar urðu síðar að persónulitlum járnhaugum á hjólum.  Vopn fornkappa höfðu nöfn, eins og öxin Rimmugýgur og sverðið Sköflungur. 

Nafnspjald (n, hk)  Oftast notað um merkispjald sem fylgdi skrokk í sláturhúsi, frá því að haus var skorinn af í skotklefa, gegnum hæklun, fláningu, innanúrtöku, þvott, mat, kælingu og þar til skrokknum var pakkað til sölu eða hann tekinn heim af eiganda.  Á spjaldinu var nafn eiganda og e.t.v. athugasemd um skrokkinn eða ráðstöfun hans.  Þetta var þó einungis gert þegar um stakan skrokk eða fáa skrokka var að ræða; stærri partí voru sérgreind á annan hátt.

Nafntogaður (l)  Víðfrægur; vel þekktur.  Oftast notað yfir fræga listamenn, fræðimenn, eða aðra slíka pótintáta.

Naga sig í handarbakið / Naga (á sér) neglurnar (orðtök)  Sjá eftir.  „Ég má naga mig í handarbakið fyrir að hafa ekki slegið í gær“.  „Nú naga þeir á sér neglurnar yfir því að hafa ekki hugsað fyrir þessu.

Naga/éta sig sundur og saman um/með (orðtak)  Vera á báðum áttum/ óákveðinn.  „Ég er að naga mig sundur og saman með það hvort við ættum að draga upp eða láta netin liggja; veðurspáin er svo óljós“.

Nagg (n, hk)  Nöldur; tuð; suð.  „Skelfing leiðist mér þetta eilífa nagg í honum“!

Naggur (n, kk)  A.  Standur; stubbur; hnúfa; nabbi.  B.  Gæluorð um smávaxinn mann/strák.  „Það er mesta furða hvað þessi naggur er sprettharður“.

Nagladofinn (l) Tilfinningalaus í fingurgómum vegna kulda.  „Ertu nagladofinn?  Þér var nær; að vilja ekki vettlingana sem ég bauð þér“!  Notað þannig sem lýsingarorð, en orðabækur gefa það upp sem nafnorð.

Nagladallur / Nagladolla / Nagladós / Naglakassi / Naglakolla / Naglaskál / Naglaskúffa / Naglastokkur (n, kvk/kk)  Ílát sem saumur er geymdur í.  Til sveita þarf iðulega að nota saum/nagla við ýmiskonar skilyrði; oft úti í rigningu og snjó.  Því var reynt að hafa naglana í íláti sem hvorki drafnaði í sundur, líkt og pappi, né ryðgaði, líkt og blikk.  Stundum voru smíðaðir sérstakir naglastokkar úr tré, en oft voru líka notaðar skálar úr hálfum alúminíumkúlum/netakúlum.  Fjölbreytileiki íláta endurspeglast í mörgum heitum þeirra.

Naglagaddur (n, kk)  Útúrstandandi nagli.  „Varaðu þig á þessum útúrstandandi naglagöddum í spýtunni“.

Naglagat (n, hk)  Gat/far í viði eða öðru efni, eftir nagla.

Naglagaur (n, kk)  Stór nagli.

Naglakul (n, hk)  Sársaukatilfinning í nöglum á höndum og tám þegar mönnum hlýnar eftir að hafa dofnað af kulda/ verið nagladofnir.

Naglapakki (n, kk)  Pakki með saum.  „Keyptu fyrir mig tvo naglapakka; annan treitommu en hinn fírtommu“.

Naglarusl (n, hk)  Lélegir naglar; slæmur saumur.

Naglaspík (n, kvk)  Langur oddhvass nagli/saumur.  „Réttu mér einhverja naglaspík svo ég geti fest þetta aftur“.

Naglasúpa (n, kvk)  Heiti á matrétti sem sagður er eldaður af einum nagla, en getur samt verið næringarríkur og ljúffengur.  Galdurinn liggur í því að bæta nógu miklu í súpuna af öðru hráefni.

Naglaverksmiðja (n, kvk)  Sjá nagli.

Naggast (s)  Nöldra; rífast; jagast.  „Vertu nú ekki að naggast í mér útaf þessu endalaust!

Naglbítur (n, kk)  Verkfæri; töng til að draga út nagla/klippa í sundur vír.

Naglfast (l)  Neglt fast; fest með nagla/nöglum.  „Fasteign fylgir að jafnaði allt sem naglfast er“.

Naglfesta (s)  A.  Festa fjöl eða annað með nöglum.  B.  Festa neglu í bát.  „Í Útvíkum báru hásetar farbúnað á skip meðan formaður naglfesti.  (ÓETh Vatnsdal; LK;  Ísl. sjávarhættir III).  Sjá sjósetja.

Naglhald (n, hk)  Naglfesta; hald nagla í efni, þannig að ekki dragist út.  „Það er fjandann enga naglfestu að finna lengur í þessum langböndum; þau eru öll kássufúin“!

Naglhreinsa (s)  Draga nagla úr efni/fjölum.  „Það þarf að naglhreinsa mótatimbrið og skafa það“.

Nagli (n, kk)  A.  Saumur.  Naglinn hefur þróast í aldanna rás.  Hlutverk hans í nútímanum eru fleiri en tölu verður á komið.  Þörf fyrir eitthvað til að festa stykki tryggilega saman kom upphaflega einkum frá skipasmíðum, þar sem mikið lá við að samskeyti hluta væru vatnsheld og trygg.  Upphaflega voru bátar reyrðir saman með þráðum.  Þaðan er komið orðið saumur, sem enn er notað um nagla.  Síðar var farið að nota trénagla, sem enn voru í notkun á plankabyggðum bátum á skútuöld.  Í bátkumlinu í Vatnsdal fundust bátar frá landnámsöld sem voru seymdir með trésaum, en böndin voru reyrð við byrðinginn.  Mikil bylting varð svo með tilkomu járnnagla.  Byrðingur á knörrum landnámsmanna voru járnseymdir og fóru um 5000 naglar í hvert skip.  Mikil vinna var við smíði hvers nagla:  Vinna þurfti járnið; slá það í tein; slá það í gegnum löð í steðja og slá odd og haus á hvern nagla.  Að auki þurfti járnró á móti honum til bátasmíða.  Síðastur til að vinna járn úr mýrarrauða á landinu var Einar gamli í Kollsvík.  Má ætla að hann hafi meðal annars nýtt sitt járn í nagla.  Vélar til að smíða járnnagla komu fyrst til um 1600, og hafa tekið miklum framförum síðan.  Nú eru naglar framleiddir í mörgum stærðum og gerðum og úr ýmsum málmum.  Járnnaglar eru ýmist óhúðaðir, eða „svartir“, eða húðaðir með zinki til ryðvarnar.  Naglaverksmiðja hefur lengi starfað hérlendis.  Frá 1972 til 1999 var Páll Guðbjartsson frá Láganúpi forstjóri naglaverksmiðjunnar Vírnets í Borgarnesi.  B.  Járnbolti.  T.d. gjarnan notað um bolta sem hafður er til að læsa kerru aftaní beisli traktors.  C.  Líkingamál um mann sem þykir harður af sér/ duglegur.  D.  Líkingamál um sígarettu.

Naglrekinn (n, kvk)  Um við; sem búið er að negla nagla í.  „Ekki er þetta kræsilegur smíðaviður; svona naglrekið fúasprek“.

Nakinn sannleikur (orðtak)  Umbúðalaus sannleikur; kjarni máls; staðreynd máls.  „Mér finnst alltaf betra að heyra nakinn sannleikann, jafnvel þó óþægilegur sé, en að hann sé falinn í einhverju orðagjálfri“.

Nankin (n, hk)  Þéttofið bómullarefni sem notað er m.a. í gallabuxur/nankinbuxur og annan vinnufatnað.  Efnið er kennt við kínversku borgina Nanjin.

Napa (s)  Gnæfa; tróna; skaga upp í loft. 

Napi (n, kk)  Sá sem gnæfir ofar en aðrir.  Napi er nafnið á efsta tindinum í Skarðabrún; þunnu en háreistu klettabelti milli Rauðasands og Barðastrandar.  Napi er hæsti staður í Rauðasandshreppi; 703 m hár.

Napur / Napurkaldur (l)  Kaldur; nærri því hrollkaldur en þó ekki nístingskaldur.  „Ansi er hann eitthvað napur í morgunsárið“.

Narr (n, hk)  Gabb; plat; lygi.  „Ég skal muna þér narrið; bíddu bara“!

Narra  (s)  Gabba; plata.  „Hann hafði verið narraður til að kaupa þessa bíldruslu“.

Narra útúr (einhverjum) (orðtak)  Hafa af einhverjum með prettum/blíðmælgi eða öðru.  „Hann hafði það af að narra útúr mér bókina“!

Narraháttur / Narraskapur (n, kk)  Fíflalæti; bjánagangur; æringjaháttur; ærsl.  „Mér líkar ekki svona narraháttur“!  „Þeir gerðu þetta bara í einhverjum narraskap“.

Narralegur (l)  Bjánalegur; fíflalegur.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Narralæti (n, hk, fto)  Bjánagangur; sýndarmennska.  „Hættu nú þessum andskotans narralátum drengur“!

Narri (n, kk)  Flón; sá sem lætur narra sig.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar).

Narsla (s)  Narta; eta lítið.  „Kýrin er aðeins að koma til; hún er byrjuð að narsla í heyið“.  (Frb. „nasla“)

Nart (n, hk)  Lítið kropp/bit; oddsnerta.  „Mér fannst vera eitthvað nart við öngulinn, en það reyndist vitleysa“.

Nas (n, hk)  Það að þefa; hnus.  „Kýrnar éta ekki strá af þessum rudda; ekki svo mikið sem nas“!

Nasa (s)  Þefa; lykta af.  „Hann nasaði örlítið uppúr pottunum og lýsti því svo yfir að hann æti þetta ekki“.

Nasakvef (n, hk)  Kvefpest sem veldur nefrennsli/hor/hnerra.  „Skelfing er það leiðinlegt þetta nasakvef“.

Nasasjón (n, kvk)  Örlítil tilfinning/hugmynd.  „Einhverja nasasjón fengu þeir af því sem í vændum var“.

Nasaskítur / Nefskítur (n, kk)  Nasakvef; nefrennsli; hornös.    „Einhver nasaskítur er enn í mér“.

Nasaþytur (n, kk)  Skammvinnt þus; yfirborðskenndar skammir.  „Taktu ekki of mikið mark á þessu þusi í honum; þetta er bara nasaþytur útaf engu“.  „Hann var með einhvern nasaþyt útaf þessu“.

Naskur / Naskur á (l/orðtak)  Nákvæmur; glöggur.  „Ansi varstu naskur að finna þetta“!.  „Vermenn voru furðu naskir á að spá í veðrið“.

Nasl (n, hk)  Smávegis æti; lítilsháttar matur/nesti; kropp (fyrir sauðfé).  „Féð fann eitthvað nasl í þararuslinu“.

Nasla (s)  Kroppa í; borða smávegis.  „Við skulum fá okkur eitthvað að nasla áður en við leggjum af stað“.

Natinn (l)  Nákvæmur; duglegur.  „Þú þarft að vera natinn við námið ef þú ætlar að ná góðum einkunnum“.

Natni (n, kvk)  Iðni; nákvæmni; dugnaður.  „Ýmsir sýndu mikla natni við þrif og verkun skinnklæða...“  (KJK; Kollsvíkurver).

Natríumklóríð (n, hk)  NaCl; salt; matarsalt.

Natrón (n, hk)  Ýmis efnasambönd natríums.  Oftast er átt við matarsóda, eða natríumbíkarbónat, NaHCO₃, sem er hvítt duft sem notað er í bakstur sem lyftiefni.  Lyftiduft er natrón sem inniheldur önnur efni, en þau hindra að loftbólur myndast ekki fyrr en deigið kemur í heitan ofn.  Natrón má einnig nota við brjóstsviða og til hreinsunar.

Nauð (n, hk)  Nöldur; tuð; suð; nudd.  „Mér leiðist þetta sífellda nauð“!

Nauða (s)  Nöldra; tuða; suða.  „Vertu nú ekki að nauða svona í mér alltaf hreint“!  Einnig notað um vindhljóð, oftast í húsum en einnig utandyra.  „Þótt úti nauði hráslaginn er hlýtt í Kollsvíkurhúsinu...“ (ÞB; Lesbók Þjóðv; viðt v. HM).

Nauða (ao)  Mjög; afar; neyðarlega.  „Mér fannst þetta nauða snautleg ræða“. 

Nauða í (orðtak)  Nöldra/suða í; ganga eftir; biðja um.  „Hann hefur verið að nauða í mér með þetta“.

Nauðaeinfalt (l)  Sáraeinfalt; mjög einfalt.  „Þetta er nauðaeinfalt þegar maður hefur séð það gert“.

Nauðalélegur / Nauðalítill (l)  Mjög rýr/lítill/lélegur.  „Það stefnir í nauðalélegan heyskap ef svona rigningar halda áfram“.  „Aflinn var nauðalítill“.  „Ég hef nauðalitla þekkingu á þessu máli“.

Nauðalíkur (l)  Mjög líkur; nánast eins.  „Þú ert nauðalíkur honum að þessu leiti“.

Nauðaljótur (l)  Forljótur; ófrýnilegur; mjög ljótur.  „Mér finnst þetta nauðaljótur bátur“.

Nauðaómerkilegur (l)  Mjög lítilfjörlegur/óspennandi.  „Þetta er bara nauðaómerkileg glerperla“.

Nauðasköllóttur (l)  Alveg sköllóttur; bersköllóttur.  „Ekki er ég nauðaskölláttur, en með skrambi há kollvik“.

Nauðatregur (l)  Um veiðar; dauðatregur; sáratregur; mjög lítil veiði.  „Það jók mjög á þreytuna og leiðann að fiskur var oftast nauðatregur þegar líða tók að vertíðarlokum“  (GG; Skútuöldin).  „Alltaf var verið að færa sig úr stað, en sá guli var allsstaðar nauðatregur“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Nauðbeit (n, kvk)  Sigling skips eins mikið upp í vindátt og mögulegt er.  „Stæði vindur um saxið var kominn beitivindur, og ef hann stóð enn framar var nauðbeit.  Þá var þess skammt að bíða að vindur tæki ekki segl“  (LK; Ísl. sjávarhættir III, sjá sigling). 

Nauðbeita (s)  A.  Um siglingu skips; sigla eins mikið upp í vind og mögulegt er án þess að slái í baksegl.  B. Þaulbeita; beita of mörgu fé á lítið beitiland.  „Það fer ekki vel með túnin að nauðbeita þau á vorin“.

Nauðbeygður til (orðtak)  Nauðugur til; neyddur.  „Hann var því nauðbeygður til þess að taka upp legufærið“  (TÖ; Undirbjargsferð frá Kollsvík). 

Nauðbeygja (s)  A.  Neyða/þvinga einhvern til einhvers.  „Ekki vil ég nauðbeygja þig til þess ef þú ert því mótfallinn“.  B.  Taka skyndilega og óhjákvæmilega beygju.  „Ég þurfti að nauðbeygja til að aka ekki á steininn á veginum“.

Nauðilla (ao)  Meinilla; mjög illa.  „Mér er nauðilla við að þið séuð að róa í þessu veðurútliti“.

Nauðrakaður (l)  Vel rakaður; alveg skafinn.  „Nú er karlinn að fara á kvennafar; svona nauðrakaður og uppstrílaður“!

Nauðstaddur (l)  Í hættu/nauð/neyð/klípu.  „Kollsvíkingar urðu varir við strand togarans Croupiers við Blakknes, og gerðu allt sem þeir gátu til að koma nauðstaddri áhöfninni til bjargar“.

Nauðsyn (n, kvk)  Brýn þörf.  „Það er engin nauðsyn að klára þetta í dag; það lítur vel út með veður á morgun“.

Nauðsyn ber til (orðtak)  Þörf er á; er mjög brýnt.  „Rífðu ekki upp meira af lyngi en nauðsyn ber til“.

Nauðsyn brýtur lög (orðtak)  Iðulega notað orðtak, og vísar til þess að oft þarf að gera ýmislegt það sem allajafna er ekki stundað eða almennt viðurkennt.  „Hann var ekki vanur að vinna við slíkt á sunnudögum, en í þetta skipti þótti honum nauðsyn brjóta lög“.

Nauðsynjalaust (l)  Þarflaust; ekki brýnt.  „Kýrin er mikið að hressast; ég held það sé nauðsynjalaust að vaka yfir henni í nótt“.  Sjá að nauðsynjalausu.

Nauðsynjamál (n, hk)  Brýnt/aðkallandi mál.  „Ég sé nú ekki að þetta sé neitt nauðsynjamál“.

Nauðsynjaverk (n, hk)  Brýnt/óhjákvæmilegt verk.  „Er það nú mesta nauðsynjaverk þessara stjórnvalda að fjölga fólki í ríkisgeiranum og hækka við það kaupið“?

Nauðsynlega (ao)  Endilega; af brýnni þörf.  „Við þurfum nauðsynlega að ná netunum upp í dag; hann spáir norðangarði næstu daga“.

Nauðsynlegur (l)  Brýnn; mjög þarfur.  „Bringukollur fyrir hvern mann á þorláksmessu var nauðsynlegur og ófrávíkjanlegur hluti jólahaldsins“.

Nauðuglega (ao)  Með naumindum; við illan leik.  „Þeir náðu nauðuglega til byggða eftir þessar hrakfarir“.

Nauðugur (l)  Tilneyddur; undir hótunum/þvingun/ógn.  „Ég gerði það hálf nauðugur að fara til messunnar, og fannst bölvað að geta ekki nýtt veðrið í eitthvað þarfara“. 

Nauðugur einn/sá kostur (orðtök)  Ekki um annað að gera; aðeins ein undankomuleið.  „Okkur er nauðugur einn kostur að pilla okkur i land, ef hann heldur áfram að hvessa svona“.

Nauðugur viljugur (orðtak)  Nauðviljugur; nauðbeygður; þvingaður.  „Ég varð nauðurgur viljugur að láta þetta eftir þeim, bara til að fá frið“.

Nauðung (n, kvk)  Þvingun; nauðgun; kúgun.  „Það er nú engin nauðung þó þú þurfir að fara í bað og greiða þér stöku sinnum; jafnvel ekki þó þú látir þig hafa það að fara í sparifötin“!

Nauðungarlaust (l)  Án nauðungar/þvingunar.  „Það er mér alveg nauðungarlaust þó ég sleppi því að fara í þessa messu“.

Nauðungargerningur / Nauðungarsala (n, kk)  Samkomulag/sala sem samþykkt er af nauðsyn/ undir þvingun/ vegna fjárhagsörðugleika.  „Afsalið var nauðungargerningur, í þeim tilgangi að forðast gjaldþrot“.

Nauðungarvinna (n, kvk)  Þrældómur; vinna sem unnin er undir nauðung/þvingun.  „Strákarnir í Breiðuvík sögðu mér að eiginlega væru þeir látnir nauðungarvinnu á búinu“.

Nauðviljugur  (l)  Óviljugur; nauðbeygður; mjög tregur.  „Ég gerði þetta nauðviljugur, fyrir þeirra þrábeiðni“.

Nauðvörn (n, kvk)  Óhjákvæmileg vörn; vörn gegn árás/ofstopa/yfirgangi.  „Hann gerði þetta í nauðvörn“.

Nauðþekkja (s)  Þekkja til hlítar; vera þaulkunnugur.  „Þarna nauðþekki ég hverja laut og hvern h ól“.

Nauðþurftir (n, kvk, fto)  Brýnar nauðsynjar; lífsnauðsyn.  „Okkur fer að vanta ýmsar nauðþurftir“.

Naugið (l)  Nauðsynlegt; nákvæmt.  „Það er nú ekki svo naugið með miðið þegar skotið er úr haglabyssu“.  „Ég reiknaði þetta ekki naugið“.  Einatt borið fram með nokkuð lokuðu hljóði í miðju; j-hljóði eða linu g-hljóði; enda er orðstofninn „nægja“/“nægjanlegur“.  Því verður sá ritháttur orðabóka að teljast rangur að rita orðið „nauið“; þ.e. án g.  Vísar orðsifjabók í dönsku; „nöje“, sem er langsóttara en íslenski orðstofninn.

Naumast (l, est)  Tæpast; varla.  „Það verður naumast sagt að sumarið hafi verið þurrkasamt“.

Naumindi (n, hk, fto)  Sjá með naumindum.

Naumlega (ao)  Með naumindum; tæplega.  „Ég slapp naumlega af syllunni áður en hún hrundi“.  „Hann gt naumlega talað fyrir munnherkjum“.  „Þessu trúi ég naumlega“.

Naumur (l)  Tæpur; hæpinn; lítill; skorinn við nögl.  „Við þurftum að hraða okkur; tíminn er orðinn naumur“.  „Það er naumt að þetta hey dugi; þú mátt leysa aðeins meira“.  „Hann stoppaði hérna í nauma viku“.  „Þú mátt eki vera of naumur á saltið“.

Naust (n, hk)  Bátaskýli; hróf.  „Naust hafa eflaust staðið í Kollsvíkurfjörum frá landnámi, eða a.m.k. svo lengi sem þar hefur staðið útgerð.  Ekki er lýst í Landnámu hvernig Kollur og hans bátverjar björguðust þegar skip þeirra strandaði á Arnarboða, en hvort sem þeir komu skipinu sjálfu á land eða björguðust á eftirbátnum má þykja líklegt að þá hafi bráðlega risið fyrsta naustið.  Smábátar sem unnt var að hvolfa yfir vetrartímann voru þó venjulega ekki hafðir í nausti; helst voru þar stór farmskip og hákarlaskip.  Síðasta naustið í Kollsvíkurveri stóð uppi langt frameftir sjöunda áratug síðustu aldar, en það var Fönixnaustið fyrir miðri lendingunni.  Þar höfðu flutninga- og hákarlaskip Kollsvíkinga; eldri og yngri Fönix, átt sitt aðsetur.  Það var grjóthlaðið með helluþaki, líkt og búðirnar báðumegin; opið að framanverðu, a.m.k. síðustu árin.  Enn stendur tóftin nokkuð heil“ (VÖ).

Nautagirðing (n, kvk)  Girðing/hólf sem þarfanaut var haft í að sumarlagi, fyrir daga gervisæðinga.  „Síðasta þarfanaut í Kollsvík var Pétur rauði sem var í nautagirðingu kringum mógrafirnar norðan Ár, ofan Stekkjarmelssléttu; handan heimreiðarinnar.  Pétur gat verið orðljótur með afbrigðum ef á hann var yrt og yfirleitt tveggja manna tak, en vann sín skylduverk af kostgæfni.  Hugsanlegt er að Nautholt, norðar í víkinni, dragi nafn af því að þar hafi naut verið geymt; e.t.v. þá tjóðrað, enda gott til beitar.  Naut kann einnig að hafa verið geymt í Kálfalágum á Hnífunum.  Eflaust dregur Raknadalur í Patreksfirði nafn af geymslu nauta“.

Nautastía (n, kvk)  Stía sem naut er haft í að vetrarlagi.  Þarfanaut var nauðsynlegt þeim sem kýr átti, og oft var eitt naut samnýtt fyrir nokkra bæi.  Þeir sem sluppu við eldi þess greiddu oftast bolatoll fyrir afnotin.

Nautheimskur (l)  Mjög heimskur; tröllheimskur.  „Mikið getur maðurinn verið nautheimskur“!

Nauthveli (n, hk)  Búri; gamalt heiti búrhvals.  Fyrr á tímum var því trúað að hann væri stærstur allra hvala; illur viðureignar og reyndi að seiða kýr í sjóinn með bauli sínu.  Meðal sjómanna var hann einungis nefndur naut eða fjósi, þar sem ekki mátti nefna hvali á sjó.  Sjá hjátrú.

Nautn (n, kvk)  A.  Ánægja; gaman.  „Mér er engin nautn að því að rukka hann um þetta, en samningar eru samningar“.  B.  Munaður; lystisemdir.  „Eina nautnin sem hann lætur eftir sér er neftóbakið“.  C.  Not; nytjar.  Þessi notkun orðsins hefur mikiðstil lagst af.

Nautnalíf (n, hk)  Líferni óhófs og lystisemda.  Nautnalíf þótti ókristilegt og óhollt hverjum manni fyrr á tímum; vísasta leiðin til glötunar.  Andstæða nægjusemi, nýtni og dugnaði sem voru mikilsvirtar dyggðir.

Nautpeningur (n, kk)  Nautgripir; kýr, þarfanaut, uxar og kálfar.  „Töluvert verk hefur verið áðurfyrr að bera vatn daglega í allan nautpeninginn“.

Nautseldi (n, hk)  Vetrarfóður fyrir naut.  „Vantar samt (í Saurbæ) 213 m³, og auk þess nautseldi; 15 m³³“  (ÍÍ; Forðagæslubók Rauðasands 1957). 

Nautshaus (n, kk)  A.  Eiginleg merking.  B  Líkingamál um heimskan mann.  Sbr nautheimskur.

Nautshyrningur (n, kk)  Tóbaksponta úr nautshorni.  „Sagði Erlendur með spámannlegum áherslum um leið og hann stútaði sig á nautshyrningnum“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Nautslíki (n, hk)  Eftirmynd/líki nauts.  „Þegar hann kemur ofan fyrir túnbrekkuna sér hann að þar er draugurinn kominn í nautslíki, og lætur allófriðlega“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Nautssin (n, kvk)  Getnaðarlimur á nauti.  Oftast nefndur sin til styttingar.

Nautsterkur (l)  Mjög sterkur; rammur að afli.  „Strákurinn er svo nautsterkur að hann munar ekkert um að halda á tveimur fimmtíu kílóa sekkjum í einu“. 

Nautstollur (n, kk)  Bolatollur, sjá þar.

Nautsöskur (n, hk)  Baul í nauti.  Naut geta baulað mjög hátt, og einkanlega láta þau í sér heyra ef þau fá veður af yxna kú.  Sumir fjörulallar hafa að sögn sömu hljóð, og ekki er heiglum hent að greina muninn.

Ná ekki nokkurri átt (orðtak)  Geta ekki verið; fá ekki staðist; vera út í hött.  „Það nær ekki nokkurri átt að fara á sjó svona illa búinn“.

Ná ekki upp í nefið á sér (orðtak)  Vera mjög reiður/hneykslaður.  „Ég næ bara ekki upp í nefið á mér yfir svona aðförum“!  E.t.v. vísar orðtakið til þess að skammir og blótsyrði komi svo strítt út úr munni manns að ekki náist að þurrka af nefi.  Eldri útgáfa orðtaksins er að „ná ekki til nefsins fyrir illsku“.

Ná endum saman (orðtak)  Komast af fjárhagslega; geta staðið við sínar greiðslur/skuldbindingar.

Ná að halda í við (orðtak)  Geta fylgt eftir á sama hraða.  „Hann flýtti sér svo mikið að kerlingin náði varla að halda í við hann“.

Ná andanum (orðtak)  Geta andað; jafna sig eftir mikla mæði.  „Hann settist niður og var stund að ná andanum eftir hlaupin“.

Ná áttum (orðtak)  A.  Um villu, t.d. í dimmviðri á sjó; átta sig; finna réttar áttir; vita hvert horfir.  B  Mest notað nú í líkingamáli; átta sig hvernig í málum liggur.  „Ég held að ríkisstjórnin sé loks að ná áttumí þessu“.

Ná bata (orðtak)  Verða jafngóður/hraustur; batna.  „En þó átti hann að hafa ráðið niðurlögum draugsins með kunnáttu sinni, og eftir það náði hann fullum bata“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Ná/finna fótfestu (orðtak)  Fóta sig; Lappa sig; finna öruggt far fyrir fót, t.d. í klettum.

Ná háttum (orðtak)  Komast á áfangastað áður en þar er gegnið til náða/ háttað. 

Ná (einhverjum) í rúminu (orðtak)  Ná að vekja einhvern áður en hann vaknat af sjálfsdáðum; koma áður en einhver fer á fætur.  „Honum skjátlast ef hann heldur að hann nái mér í rúminu“!

Ná í skottlegginn á (orðtak)  Ná tali af; hitta.  „Ég þarf endilega að ná í skottlegginn á karlinum“.

Ná í rassgatið/-görnina/skottið á (orðtak)  Taka í lurginn á; hafa tal af.  „Er pósturinn farinn?  Ég þyrfti að ná aðeins í rassgatið á honum; eitt bréf gleymdist“.  „Nú þyrfti maður aldeilis að ná í rassgörnina á þessari ríkisstjórn“!  „Náðirðu nokkuð í skottið á honum“?

Ná landi (orðtak)  Komast til lands; geta lent.  „Örlygur náði landi í Örlygshöfn, en Kolli barst á í Kollsvík“.

Ná miði (orðtak)  Geta miðað með byssu á skotmark, t.d. fugl.  „Hann flaug alltof lágt og hratt, svo ég náði bara alls ekki góðu miði“.

Ná sér (orðtak)  Jafna sig; batna lasleiki/veikindi; verða jafngóður.  „Ég er að mestu búinn að ná mér núna“.

Ná sér á strik (orðtak)  Komast á rétta stefnu; komast á áætlun; rétta úr kútnum.  „Það tekur tíma að ná sér á strik aftur eftir svona áfall“.  Strik merkir þarna stefna, sbr strik á áttavita.

Ná sér niðri á (orðtak)  Hefna sín; lumbra á; svara fyrir sig.  „Ég náði mér niðri á honum nokkru síðar, þegar ég setti saman vísu um kvennamálin“.  „En með þessu taldi Þórarinn sig ná sér niðri á Jóni“  (ÖG; glefsur og minningabrot).  

Ná sér upp (orðtak)  Um veður; ná að hvessa verulega.  „Festiði hærurnar tryggilega á galtana, ef hann skyldi ná sér verulega upp af vestri“.

Ná tangarhaldi á (orðtak)  Komast yfir; eignast; ná stjórn/valdi á.  „Mér leikur hugur á að ná tangarhaldi á þessari bók“.  Vísar til þess að járnsmiður þarf að ná góðu tangarhaldi á efninu meðan smíðað er.

Ná til (orðtak)  Geta teygt sig í; komast að/til. 

Ná tökum á (orðtak)  A.  Komast upp á lagið með; ná færni í.  „Það tók nokkurn tíma fyrir mig að ná góðum tökum á hækluninni“.  B.  Ná stjórn á; komast fyrir.  „Þeir eru búnir að ná tökum á eldinum“.

Ná undirtökunum / Ná yfirhöndinni (orðtak)  Hafa sigur; fá betri vígstöðu í bardaga/baráttu.  „Ég held að ég sé búinn að ná undirtökunum í þessum slag“.  „Honum gekk illa að ná yfirhöndinni, og gafst fljótlega upp“.

Ná úr svelti /Taka úr svelti (orðtak)  Bjarga fé úr sjálfheldu í klettum.  „Það greri snemma á klettasyllum og féð stökk niður á þær til að ná sér í æti.  Fór þá mörg kindin fram af eða komst ekki upp aftur.  Varð þá að fá menn til að síga eftir þeim og ná úr svelti.   Oftast voru það sömu mennirnir sem þetta gerðu, og aldrei var tekin greiðsla fyrir þessa miklu fyrirhöfn og hættu sem menn settu sig í“  (ÖG; Vorverk og heyannir; Niðjatal HM/GG). 

Nábein (n, hk)  Þrjótur; deli.  „Hann heldur að hann fái þennan slag með kónginum, árans nábeinið; en áttar sig bara ekki á því að ég á enn eitt tromp eftir á hendinni“!

Nábítur (n, kk)  Brjóstsviði; mikil óþægindi í brjósti og meltingu; stafar oft af háu sýrustigi og/eða lélegu fæði.  „Ég fékk þennan andskotans óþverra nábít að ég var viðþolslaus“.

Nábleikur (l)  Fölur eins og lík.  „Hann var nábleikur af hræðslu og sagði að það væri eitthvað óhreint í kofanum; hann færi ekki þanggað inn einsamall“.

Nábúakrytur (n, kvk, fto)  Nágrannaerjur.  „Alltaf eru einhverjar nábúakrytur þarna á milli bæja“.

Nábýli (n, hk)  Sambúð í nálægð; þétt byggð.  „Mikil samvinna var gjarnan milli bæja á Lambavatni, enda nábýli mikið“.  „„Já“, ansar móðir mín, „nú vill faðir þinn ekki búa hér lengur í nábýli við þennan mann…“  (JVJ; Nokkrir æviþættir).   

Náð (n, kvk)  Ró; hvíld; miskunn.  „Má ég biðja guð um náð/ og gæfu á þessum degi./  Verði braut þín blómum stráð/ og bjart á þínum vegi“  (ÖG; glefsur og minningabrot; heillaóskir). 

Náðarbrauð (n, hk)  Ölmusa; gustuk.  „Það er helvíti hart að horfa uppá það að stjórnvöld steli fiskimiðum á grunnslóð og gefi þau kvótakóngum á mölinni; og svo mega heimamenn varla fiska sér í soðið nema sem náðarbrauð úr þeirra hendi“!

Náðareyra (n, hk)  Hlustun þess sem hefur skilning; guðleg heyrn.  „Þú verður að spyrja bílstjórann hvort þú getir komið með; vittu hvort þú nærð hans náðareyra“.

Náðargáfa (n, kvk)  Guðsgjöf; snilld.  „Hann var þeirri náðargáfu gæddur að geta fretað í þremur tóntegundum“.

Náðarhögg (n, hk)  Rothögg; högg sem drepur/rotar.  „Nú held ég að bara þessi stjórnvöld ætli að veita okkur dreifbýlisbúum náðarhöggið“.

Náðarmeðul (n, hk, fto)  Sakramenti; messuvín og obláta sem prestur deilir þeim sem ganga til altaris, sem tákn um líkama og blóð Krists.  Sjá sakramenti.

Náðarsamlega / Náðarsamlegast (ao) Mildilegast; af hógværð.  „Ég spurði hvort hann vildi náðasamlegast lána mér bókina“.  „Viljið þið náðarsamlega hætta þessu fjandans karpi við matborðið“!

Náðhús (n, hk)  Kamar; salerni.  „Nú þarf ég að skreppa á náðhúsið sem snöggvast“.

Náfrost (n, hk)  Mikið frost; bítandi frost.  „Þú ættir að búa þig vel, það er náfrost þó hann sé hægur“. 

Náfrændi / Náfrænka (n, kk/kvk)  Náskyldur frændi/ náskyld frænka.

Náfölur / Náhvítur (l)  Mjög fölur/hvítur í andliti.  „Hann brölti náfölur upp á brúnina og hét því að fara þetta aldrei aftur“.

Nágaukur (n, kk)  Hrossagaukur sem hneggjar þannig að hljóðið virðist koma neðanfrá.  Þjóðtrúin segir að taka skuli mark á hneggi hrossagauks eftir áttum:  „Niðri er nágaukur; í norðri námsgaukur; í suðri sælugaukur; í vestri vesalgaukur; í austri auðsgaukur og uppi unaðsgaukur“.

Nágaul / Nágól / Náhljóð (n, hk)  A.  Útburðarvæl; óhugnarregt gól/öskur; torkennilegt hljóð sem fyrrum var talið að kæmi frá draugum, fjörulöllum eða öðrum ófreskjum.  B.  Notað yfir hverskonar hvimleitt/óþolandi hljóð eða hávaða.  „Lækkaðu nú í þessu nágauli; ekki skil ég hvernig nokkur getur verið hrifinn af þessari nútímamúsikk“!  „Skelfingarinnar andskotans nágól er nú þessi svokallaða bítlamúsikk; skyldi einhver geta hlustað á þetta“?

Nágrannaerjur / Nágrannakrytur (n, kvk, fto)  Krytur/misklíð milli nágrannabæja.  „Nágrannaerjur eru líklega hluti af hverju samfélagi, og í Rauðasandshreppi þekktust þær í mismiklum mæli.  Aldrei ristu þær þó dýpra en svo að menn voru alltaf reiðubúnir að hjálpast að þegar mikið var í húfi“.

Nágranni (n, kk)  Sá sem býr nálægt/ í nágrenninu.  „Annan í jólum var oftast farið í jólaboð til nágrannanna“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; um jólahald í bernsku). 

Nágrenni (n, hk)  Það sem er í kring; námundi.  „Ári er ég þyrstur; er ekki lækur hér í nágrenninu“?

Náið er nefið augunum (og skylt er skeggið hökunni)  (orðtak)  Oftast notað um mikil ættartengsl eða sterkan ættarsvip, en einnig um annan skyldleika sem menn þykjast sjá, t.d. á málefnum.

Náinn (l)  A.  Skyldur; nátengdur.  „Þetta vissu ekki nema nánustu ættingjar“.  B.  Líkur; svipaður.  „Erindi mitt við þig, segir hún, er að biðja þig að útvega mér mark á kindurnar mínar er sé svo náið þínu marki að auðvelt sé að marka upp frá mér til þín“  (Ívar Ívarsson; Hvatt bæði; Lesb.Tímans 1964). 

Nákaldur (l)  Mjög kaldur.  Var yfirleitt haft um fólk þegar því kólnaði mjög, en einnig heyrðist að nákalt væri í veðri.

Nákuðungur (n, kk)  Kubbur/kuðungur af dofraætt; Nucella lapillus.  Nákuðungur er algegnur á útfiri í Kollsvík og nágrenni.  Hann verður allt að 24mm á breidd og 40mm á hæð, en er oftast minni.  Hann er sterkbyggður, enda þarf hann oft að standast átök brims.  Liturinn er mjög fjölbreyttur, en oft er hann brúnn, móleitur eða rauðbrúnn.  Hyrnan er stutt, keilulaga og þrefalt styttri en kuðungurinn allur; vindingarnir eru 5.  Halinn er stuttur en breiður; oft með sýlingu í endann.  Yfirborðið oftast hrjúft með misbreiðum þver- og langrákum.  Nákuðungurinn er rándýr, hrææta og kjötæta sem notar skráptunguna til að vinna á bráðinni og framleiðir einnig lamandi vökva sem slævir hana.  Aðalfæðan er hrúðurkarl og lítill krækningur.  Nákuðungurinn er fæða margra fugla, eins og tjalds, sendlings, æðarfugls og mávs; einnig bogakrabba.  Fuglinn ber mikið af kuðung uppfyrir fjöruna, og í Kollsvík er sérlega mikið af tómum kuðungi utanvið Garðshornið.  Vinsælt var hjá börnum að tína kuðunga og nota í kubbabú sín.  Nákuðungur gegndi þar hlutverki kinda, en beitukóngur var hrútur og meyjapöppur lömb.

Nákuldi (n, kk)  Mikill kuldi; helkuldi.  „Helvítis nákuldi er þetta“!

Nákunnugur (l)  Náinn kunningi; góðkunningi.  „Þarna var enginn staddur sem var honum nákunnugur“.

Nákvæmnismaður (n, kk)  Sá sem vill vera nákvæmur; mikill reglumaður.

Nákvæmnisverk (n, hk)  Verk sem krefst nákvæmni.  „Spíssinn á prímusnum var hreinsaður með prímusnál, og var það nokkuð nákvæmnisverk“.

Nál (n, kvk)  A.  Áhald til sauma á fatnaði og sláturkeppum eða til netagerðar.  B.  Sprautunál; hol að innan.  C.  Gróður; einkum í byrjun sprettu.  „Það er komin nál hér og þar, þó varla sé hægt að tala um beit ennþá“.

Náladofi (n, kk)  Dofi og síðan ónotatilfinning, t.d. í hendi eða fæti, þegar blóðrás hefur tregðast um tíma vegna rangrar stöðu eða kreppu“.

Nálaprilla / Nálhús (n, kvk)  Ílát til að geyma nálar í, búið til úr fjaðurstöfum sem saumaðir eru í klæðisbút.

Nálapúði (n, kk)  Lítill púði sem nálum var stungið í, til geymslu.  „Allar konur og stúlkur áttu nálapúða, broderskæri, fingurbjörg og margar saumakassa“  (SG;  Útsaumur; Þjhd.Þjms). 

Nálarfella (s)  Fella/setja inn net með netanál (sjá fellingabekkur og hrognkelsi).  Önnur aðferð var að bekkfella.

Nálarfelling (n, kvk)  Felling nets með netanál.  „Sumir telja að síður dragist til á nálarfelldum netum en þeim sem sett eru inn í bekk“.

Nálarfellt (l)  Um net; fell/sett inn með netanál.

Nálargat (n, kk)  Örlítið gat í efni.  „Ég fann eitt nálargat í slöngunni; það skýrir hversvegna traktorinn var alltaf á felgunni þegar komið var að honum að morgni“.

Nálarkritja (n, kvk)  (Líkl:)  Mjög lágvaxinn gróður; lélegar slægjur; sauðnálarkritja.  (Orðasafn Ingvars Guðbjartssonar). 

Nálbein (n, hk)  Mjótt bein; geislabein í fiski.  „Ég er búinn að hreinsa, en það gætu verið einhver nálbein eftir“.

Náldrag (n, hk)  Þráður í nál sem notaður er þegar saumað er með svo sverum þveng að hann kemst ekki í nálaraugað.  Náldragið er þá þrætt í nálina og bundið í seymið/þvenginn.  „Saumgarnið var alltaf heimaspunninn togþráður, en nálardragið annaðhvort hampgarn eða hvalseymi, ef það var til“   (KJK; Kollsvíkurver).  Sjá skinnklæði.

Nálega (ao)  A.  Nærri því; hér um bil.  „Þarna brann nálega allt sem brunnið gat“.  „Ég var nálega kominn alveg að tófunni þegar hún varð mín vör“. B.  Bölvanlega; skammarlega.  „Þetta er nú nálega naumt skammtað“!

Nálegt (l)  Óþverralegt; slæmt neyðarlegt.  „Þetta var svo nálegt alltasaman; lúðan var komin upp á borðstokkinn þegar helv. taumurinn slitnaði og goggurinn gaf sig“.

Nálhorn (n, hk)  Horn sem nál var geymd í, sem notuð var til sauma á skinnklæðum.  Þar var hún í fótfeiti.

Nálhvass (l)  Mjög oddhvass.  „Gættu þín á tönnunum á fiskinum; þær eru nálhvassar“.

Nálægur (l)  Í nágrenni; nærindis; nærri.  „Ég skal athuga hvort hann sé einhversstaðar nálægur“.

Námfús (l)  Viljugur að læra.  „Hann er námfús og á auðvelt með að læra“.

Námundi (n, kk)  Nágrenni; nálægð.  „....en reimt þótti eftir þetta í námunda við steininn, og villugjarnt“  (GJ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Námur (n, kvk)  A.  Staður þar sem unnin eru verðmæt/nothæf efni úr jörðu.  B.  Staður neðst í Stálfjalli; innanvið Völlur.  Þar eru mikil surtarbrandslög í berginu, og á árum fyrri heimsstyrjaldar var stofnað fyrirtæki um vinnslu þeirra.  Tvö íveruhús fyrir námamenn voru reist á Völlunum; 40 manns þegar mest var.  Námureksturinn gekk þó ekki sem skyldi; kolin voru ekki mjög hitagæf og fór mikill hluti þeirra í keyrslu gufuvélar sem notuð var við námavinnsluna.  Grafin voru fimm göng, allt að 80 löng, og notaðir vagnar á teinum til að koma kolunum út.  Námafélagið varð gjaldþrota 1918 og lagðist þá námavinnslan af.  Til skamms tíma mátti sjá leifar gufuvélarinnar, en hún mun nú farin í sjóinn.  Enn mun þó fært um einhverjar af námunum.

Nánasarháttur (n, kk)  Níska, eigingirni.  „Fyrr má nú vera nánasarhátturinn; að geta ekki séð af einum poka“!

Nánasarlega (ao)  Nískulega; skítlega.  „Mér fannst þetta nánasarlega litlar bætur sem hann fékk við brunann“.

Nánasarlegur (l)  Nískur; aðhaldssamur.  „Þú mátt ekki vera of nánasarlegur með saltið“!

Nánast (ao)  Hér um bil; nærri því alveg.  „Saltið er nánast alveg búið“.  „Arnarboði kemur nánast uppúr á hverri fjöru“  (HÖ; Fjaran).  „Einn þeirra manna sem þóttu nánast ómissandi í Bjargleitina var Hafliði Halldórsson á Miðbæ á Látrum“  (PG; Veðmálið). 

Nándarnærri (ao)  Í námunda við; nálægt.  „Þetta var reytingsafli; ekki nándarnærri eins mikið og í gær“.

Nánös (n, kvk)  Nurlari; nirfill.  „Skelfingarinnar nánös er karlinn ef hann léttir ekki undir með þeim“.

Nástrá (n, hk)  A.  Strá sem vex frá þekju húss inn í húsið.  Þjóðtrúin segir varasamt að slíta þau; það boði feigð einhvers sem inni er.  B.  Fátækt.  Sagt er að sá sé á nástráinu sem er mjög fátækur.  Vísar líklega til þess að fóðurskortur sé á búi í hörðum vetri; að nástráin séu síðasta tuggan úr heyforðanum.

Nátta (n, kvk, ft, ef)  Um net; búin að liggja yfir tiltekinn fjölda sólarhringa/nótta.  „Í gíðri veiði eru grásleppnet dregin tveggja nátta“.

Nátta / Nátta sig (s/ orðtak)  Gista; taka sér gistingu; rífa sér ból; búa sér svefnstað.  „Ekki var viðlit að ná þeim af Vellinum þegar sjólag versnaði, og urðu þeir því að nátta sig uppi í skútanum“.

Náttblindur (l)  Sjóndapur í rökkri; sér illa þegar skyggir.  „Það þýðir ekkert að benda mér á þetta; ég er svo náttblindur“.

Náttdropar (n, kk, fto)  Létt súld sem fellur þegar skyggir að kvöldi eftir heitan dag; einkum í heiðskíru.

Náttfall  (n, hk) Náttdögg; dögg á jörðu að sem fellur á þegar köld nótt fer á eftir hlýjum degi, einkum í logni.  Náttfall gat orðið til trafala í heyskap; t.d. ef fallið hafði á flatt hey þá þurfti að bíða með að snúa þar til þornaði af.  Hinsvegar gat verið gott að hefja slátt í náttfalli, þar sem ljárinn rann betur í rekjunni.  Náttfall er vanalega ávísun á þurrk daginn eftir:  „Þegar náttdögg fellur að aftni strax eftir sólarlag, boðar það oftast þurran dag eftir á“  “ (BH; Grasnytjar).

Nátthagi (n, kk)  Staður þar sem kýr voru hafðar yfir nóttina, milli kvöld- og morgunmjalta; oft afgirtur bithagi.  á Láganúpi var t.d. Túnshalinn oft nátthagi, fyrir daga rafgirðinga.

Nátthrafn (n, kk)  A.  Sá sem verður lítið syfjaður á kvöldin/ getur vakað um nætur.  Notað þannig t.d. í Kollsvík.  B.  Þjóðsögulegur fugl sem vakir um nætur.

Náttmál (n, hk, fto)  Sú eykt sólarhringsins í hinu forna tímatali sem merkir yfirleitt kl 21.00.  Um náttmál ber sólarlag yfir Náttmálaholt, séð frá gamla Kollsvíkurbænum.

Náttmyrkur (n, hk)  Dimma af nóttu.  „Ekkert þýddi samt að hreyfa sig vegna náttmyrkurs“  (ÖG; Þokuróður). 

Náttpottur (n, kk)  Hlandkoppur; næturgagn.  „Fardu nú útfyrir með náttpottinn fyrir mig og tæmdu hann“.

Nátttröll (n, hk)  Tröll sem þolir ekki dagsbirtu; verður þá að steini.  „Tröll virðast greinast í tvær deilitegundir; dagtröll og nátttröll, eftir ljósþoli.  Líklegt er að tröllkarlinn sem fyrrum bjó í Tröllkarlshelli í Hnífunum hafi verið nátttröll.  Hann hafði að sögn samneyti við tröllskessuna í Tröllkonuhelli á Hænuvíkurhlíðum gegnum jarðgöng og svo fór að þau döguðu bæði uppi sem steindrangarnir Karl og Kerling, þar á grynningunum“.

Náttúran er náminu ríkari (orðtatiltæki)  Eðli/upplag manns er oftast ríkari þáttur í skapgerð og viðbrögðum en það sem lært er.

Náttúrufegurð (n, kvk)  Fegurð náttúru og landslags.  Segja sumir að hvergi sé meiri en í Kollsvík.

Náttúrufyrirbæri (n, hk)  Sjaldgæft sérkenni í náttúrunni.  „Of langt mál yrði að telja hér upp öll þau sérstæðu náttúrufyrirbæri sem í Kollvík er að finna.  Meðal þess má nefna þrennskonar hringrásarkerfi þar sem sandburður kemur við sögu; hringstrauminn úpp á víkina frá Látraröst og Blakknesröst; vindakerfið sem viðheldur Sandahlíðinni og samspil vinds og vatns sem viðheldur Leirunum og sand-/gróðursvæðunum handantil í víkinni. Af gróðurfarsfyrirbærum má nefna apablóm sem vex aðeins á einum öðrum stað villt á Íslandi og fléttutegund sem það á einnig við um.  Sérstæð eru hin miklu sjávargos sem verða við vissar aðstæður í Bekknum undir Blakk og í helininni neðan Sandhellis.  Þá má nefna holugrjótið á Hnífunum sem er einstaklega tilkomumikið þó slíkt megi víðar finna.  Mikið er um grænlenska flökkusteina á fjörum, bæði undir Blakknum og í Bótinni.  Sérstætt náttúrufyrirbæri er hið sífellda uppstreymi lofts í augunum í Fitinni; þar er líklega um metan að ræða, þó ekki sé það enn rannsakað.  Lurkalag frá hlýskeiði er undir jarðvegi í Mýrunum, en það finnst reyndar víðar.  Enn er óútskýrður uppruni bergs sem finnst á einum stað ofan við Gálgasteinabrekkur í Vatnadal; jarðfræðingur taldi það vera líparít, en það er úr takti við annað í berggrunni Kollsvíkur.  Þá má hér telja með hina voldugu bergganga sem víða koma í ljós í berggrunninum, s.s. í Strengbergsgjá, og myndbreytt berg við þá.  Einnig þykkar menjar um hamfaragos sem sjá má í Höfðum og víðar í sjávarklettum Blakksins.  Ekki má gleyma lurkalaginu sem er greinilegt í jarðlagastaflanum í Bót og í Grófarstekk, þar sem forn skógur hefur skilið eftir sig greinileg mót í berginu.  Er þá aðeins fátt talið“ (VÖ).

Náttúrulaus (l)  Getulaus til að geta afkvæmi; áhugalaus um kynlíf.  „Hann sagði að þó hann væri einhleypur þá þýddi það ekki að hann væri náttúrulaus“.

Náttúrulega (l)  Auðvitað; að sjálfsögðu.  „Ég þáði það náttúrulega; enda vel boðið. ...   Hann treysti mér ekki til að róa upp á móti sér; hélt að ég hefði ekki við sér náttúrulega, sem satt gat nú verið“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Náttúrunafn (n, hk)  Örnefni sem dregið er af augljósum náttúrulegum sérkennum.  Lengi má deila um uppruna örnefna.  Með fullum rétti má velta því fyrir sér hvort mörg örnefni sem Landnáma nefnir að séu dregin af fólki, séu ekki í raun náttúrunöfn.  Það á við t.d. um Kollsvík, Hænuvík, Rauðasand og fleiri.  Mörg staðarheiti verða mjög augljós þegar siglt er að þeim úr hafi.  Þannig er helsta einkenni Kollsvíkur fjall það sem nú heitir Núpur.  Útvíkurnar eru um margt áþekkar; með sæbröttum núpum beggja vegna og sandlengju á milli, en Núpurinn er eins og kollur á sköllóttu mannshöfði með ljóst skeljasandsskegg.  Auðvelt er að álykta að fjallið hafi í upphafi heitið Kollur og víkin tekið nafn af því.  Landnámsmaðurinn hefi heitið öðru nafni (t.d. Örn sbr Arnarboða), en hann fengið nafn af bæ sínum (t.d. nefnst Örn Kollur) líkt og mörg dæmi eru um.  Við ritun Landnámu eru nofnin höfundi fjarlæg, bæði í tíma og rúmi, og þar er Kollur orðið eiginnafn landnámsmannsins.  Ekki verður um þetta fullyrt en möguleiki er það.  
Líkt getur verið um uppruna nafnsins Hænuvík.  Þegar siglt er inn Patreksfjörðinn kemur Hænuvíkurnúpurinn sérkennilega fyrir sjónir; lengra frá sjó en aðrir núpar og lægri.  Hann gæti hafa verið nefndur Hæna.  Annað er þó ekki síðri nafnskýring, því þegar siglt er aðeins innar í fjörðinn gægist áberandi hnúkur fram, sem er inni í víkinni.  Þetta er Hnjóturinn, sem er notaður sem mið í firðinum og gæti sem best hafa nefnst Hæna fyrrum.
Rauðasandur er í Landnámu kenndur við Ármóð hinn rauða sem þar nam land.  Hvergi er þó náttúrunafnaskýringin augljósari; enda liggur við að hinn rauði hörpuskeljasandur æpi nafnið að hverjum sem lítur sandlengjuna augum, hvort heldur er af sjó eða fjallabrúnum.  Tilbúningur Landnámu um nafnið dregur mjög úr heimildargildi ritsins um önnur staðanöfn. 
Tálkni nefnist sérkennilegur núpur milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar.  Hvert gilið tekur við af öðru, svo tilsýndar minnir á fisktálkn.  Fjallið er sagt heitið utaní landnámsmanninn Þorbjörn tálkna sem var háseti á skipum Kolls eða Örlygs.  Líklegt er að nafn hans, eða a.m.k. viðurnefni, sé tilbúningur. 
Geirseyri, sem nú er að mestu horfin, var líklega kennd við múla þann sem nú nefnist Geirseyrarmúli en hefur líklega fyrrum nefnst Geir, eftir lagi sínu.  Bíldudalur er vafalaust kenndur við hinn áberandi berggang fremst í dalnum, sem minnir á hnífsblað/bíld.  Dýrafjörður er sagður numinn af landnámsmanninum Dýra.  Líklegra er þó að fjörðurinn sé kenndur við dyr, með vísun til ásýndar fjarðarins úr hafi.
„Það má nú vera að þetta sé nú ekki beint náttúrunafn, heldur hafi sagan verið gerð utanum nafnið“  (EG; Viðtal á Ísmús 1968; frásögn um örnefnið Hnífa). 

Náungi (n, kk)  A.  Nágranni; sá sem stendur manni nærri. (Gömul merking)  B.  Gæluorð um mann.  „Þetta var dálítið furðulegur náungi“.

Návígi (n, hk)  Náin viðureign.  „Ekki fer á milli mála að þeir menn harðna og styrkjast sem einatt eru í návígi við náttúruöflin og bráðan dauða.  Vermönnum fyrri tíðar var ekki fisjað saman“.

Nebbi (n, kk)  Gæluorð um nef.  „Skelfing ertu nú skítugur um nebbann, guttinn minn“!

Neðan (ao)  Upp; neðanfrá.  „Það tekur í að plampa neðan skriðuna með eggjakút og vað á bakinu“.  „Mér líst verst á að koma þessum kvikindum neðan“  (Hafliði Halldórsson í aðdraganda björgunarinnar við Látrabjarg).

Neðan þilja (orðtak)  Niðri í þilskipi/dekkbát. 

Neðan (einhvers) virðingar (orðtak)  Einhverjum ekki samboðið; einhver of vandur að virðingu sinni.  „Honum fannst það neðan sinnar virðingar að eyða orðum á þessa bændakurfa“.

Neðanað (ao)  Að neðan; neðanfrá.  „Mér sýnist féð vera að koma neðanað; það hefur ráfað í fjöruna“.

Neðanáfestingur (n, kk)  A.  Eiginleg merking:  Sokkur sem gamall frambolur hefur verið skorinn af og nýr prjónaður í staðinn.  B.  Líking:  Drullusokkur; ónytjungur; óvandaður maður.  „Mér hefur nú alltaf fundist hann vera hálfgerður neðanáfestingur“.  Eingöngu notað þannig í seinni tíð.  Orðabækur gefa upp orðið neðanfestingur; án á, en vestra var þetta notað svona.

Neðanfrá (ao)  Að neðan; uppeftir.  „Jarðklakinn eyðist ekki síður neðanfrá en ofanfrá“.

Neðanímóti (ao)  Upp/neðan á móti brekku.  „Fjári er tafsamt að vaða snjóinn svona neðanímóti“.

Neðansjávarvirkjun (n, kvk)  Orkuver/virkjun sem er neðan yfirborðs sjávar.  Slík virkjun gæti nýtt orku sjávarstrauma/sjávarfalla; ölduorku eða vindorku, eða blöndu þessara orkugjafa.  Enn er engin neðansjávarvikrkjun starfrækt við Ísland en eitt fyrirtæki á landinu fæst við þróun á því sviði.  Það er Valorka ehf, sem byggir á hugmyndum Kollsvíkingsins Valdimars Össurarsonar.

Neðantil (ao)  Að neðanverðu.  „Ég ætla að fara neðantil við hópinn og reka hann upp í ganginn“.

Neðanundir (ao)  Undir; upp undir.  „Mér heyrist vera eitthvað skrölt neðanundir jeppanum“.

Neðanvert við / Neðanvið (orðtak)  Að neðanverðu; fyrir neðan.  „Fornmaðurinn er neðanvert við Axlarhjallann“.  „Neðanvið Umvarpið handanmegin eru Handanbæjarmýrar“

Neðanyfir / Neðanum (ao)  Að neðan og yfir.  „Sandur fýkur oft úr Rifinu; neðanyfir Leira og Fit; yfir tún og bæi á Láganúpi og jafnvel útyfir Hnífa og Breið“.

Neðarlega (ao)  Neðanvið miðju.  „Strengbergshilla er neðarlega í Strengbergi; þar er nokkuð múkkavarp“.

Nef (n, hk)  A.  Líkamshluti í miðju andliti.  B.  Horn sem skagar fram eða upp úr klettum.  C.  Fremsti hluti flugvélar eða annars hlutar.

Nefklemma (n, kvk)  Gæluyrði yfir ímyndaða klemmu sem sett væri á nef til varnar gegn stækri fýlu.  „sæktu nú einhverja nefklemmu fyrir okkur ef þú ætlar að reka svona fúlt við aftur“!

Neflangur (l)  A.  Með langt nef.  B.  Notað í Rauðasandshreppi um þá sem voru áberandi forvitnir og spurulir um alla hluti.  „Hann er alltaf dálítið neflangur, svo þú skalt ekkert vera að nefna þetta“.

Nefmæltur (l)  Talar þannig að hljóð virðist bergmála í nefinu. „Ég var dálítið nefnmæltur útaf kvefinu“.

Nefna (n, kvk)  Það sem varla stendur undir nafni.  Oftast notað sem síðari liður heitis.  „Hann snýtti sér í einhverja vasaklútsnefnu; gauðrifna og skítuga“.  „Þessi hrífunefna er alveg að verða ónothæf“.

Nefna á nafn (orðtak)  Nefna; hafa orð á; minnast á; taka í mál.  „Vertu ekki að nefna neina greiðslu á nafn; þú áttir þetta svo sannarlega inni hjá mér“!  „Hann rær aldrei á sunnudögum; það þýðir ekki að nefna það á nafn“.  „Ýmis hjátrú stýrði því hvernig talað var á sjónum.  T.d. mátti aldrei nefna hval á nafn, því þá gæti illhveli komið og grandað bátnum“.  „Nefndu mig á nafn ef þér liggur lítið við“.

Nefna við (orðtak)  Orða við; færa í tal; viðra við; tala um málefni við einhvern.  „Ég nefndi þetta aðeins við hann, og hann tók bara vel í það“.

Nefnandi (l)  Sem má nefna/ er þess virði að nefna.  „Ég held það væri alveg nefnandi við hann að skreppa í róður; nógu gott er veðrið og ekkert aðkallandi að gera annað“.

Nefndastúss (n, hk)  Vinna við störf í nefndum og stjórnum.  Nokkuð notað orð á Láganúpsheimilinu um áratugaskeið, enda var Össura Guðbjartsson mikilvirkur í ýmsum stjórnum og nefndum á sviði félagsmála og framfara.  Hann var lengi hreppsnefndarmaður og oddviti í Rauðasandshreppi; sýslunefndarmaður í V-Barðastrandasýslu; fulltrúi í Stéttarsambandi bænda; fulltrúi á Búnaðarþingi; í forsvari framsóknarmanna á Vestfjörðum; hvatningarmaður að stofnun Orkubús Vestfjarða og í stjórn þar; í stjórn Sláturfélagsins Örlygs og um tíma kaupfélagsstjóri; kennari við barnaskóka Rauðasandshrepps; hvatamaður að stofnun héraðsskjalasafns; í stjórn sjúkrahúss o.fl.o.fl.  Auk þess mkilhæfur bóndi og fjárræktarmaður.

Nefnilega (ao)  Nánar tiltekið; semsé.  Oftast notað sem áhersluorð í seinni tíð.  „Ég er ekki sáttur við hann núna; hann lofaði nefnilega að aðstoða mig við smalamennskur, en sveik það“. Sjá það er nefndilega það.

Nefndu ekki snöru í hengds manns húsi (orðatiltæki)  Ekki er ráðlegt að nefna málefni sem vekja upp sterkar tilfinningar áheyrenda.  „Ég var ekkert að rifja það upp fyrir honum hvernig gekk í síðasta róðrinum; það er kannski best að vera ekki að nefna snöru í hengds manns húsi“.

Nefndu mig ef mikið liggur við / Nefndu mig ef þú þarft lítils við (orðatiltæki)  Mundu eftir að biðja mig um aðstoð ef þú ert hjálparþurfi.  Komið úr þjóðsögum; vættur sem ávallt er til staðar ef eftir er kallað.

Nefndu það! (orðatiltæki) Upphrópun, notuð í ýmiskonar meiningu eftir því hvernig tóntegund og tilefni er.  Oft sagt sem viðbrögð og undirtektir við einhverju sem viðmælandi hefur rifjað upp, og þá gjarnan með já á undan og áherslu á „það“; stundum hnýtt „nú“ á eftir.  Stundum notað í miklum hneykslunartón um eitthver ummæli eða vangaveltur viðmælanda og þykja fráleit.  Þá með mikilli áherslu á „nefndu“, og stundum já fyrir framan.  Einnig oft notað þegar úr mörgu er að velja; valkostir svo margir að ekki hefur allt verið talið upp.  „Hann nennti ekki að koma með okkur og bar öllu við:  Hann væri með kvef, hálsbólbu, bakverki, hausverk og yfirleitt alla heimsins kvilla; nefndu það bara“!

Nefndu það (nú) ekki!  /Nefndu það ekki ógrátandi (orðtak)  Upphrópun.  Þetta er svo yfirgengilegt að varla er hægt að ræða það.  Oft notað þegar viðmælandi minnist á það sem veldur mikilli hneykslun/sorg/reiði.  „Nefndu það ekki“ var oft andsvar þegar viðmælandi minntist á að launa fyrir greiða sem gjöf skyldi vera.

Nefndur utaní (orðtak)  Skýrður í höfuðið á.  „...og var farið fyrir neðan girðingu á Stekkjarmel, sem í daglegu tali var kallaður Kallamelur, utan í ábúandann“  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG). 

Nefnilega (ao)  A.  Semsé; nánar tilgreint.  „Það er ekki undarlegt þó þú sæir ekki þetta fólk.  Þetta var nefnilega huldufólk“.  B.  Merkingarlaust hikorð eða andsvar.  „Það er nefnilega það“.  (Oft frb. „nebblega“).  „Sá varð nú heldur byrstur og sagði: „Fussum fei;/ ég fer víst ekki að leika mér við skvísu./  Það kemur ei til mála; nei og aftur nei;/ ég var nefnilega að horfa á hana Dísu“!“  (DÓ/ÖG; Bónorðsförin). 

Nefrennsli (n, hk)  Rennsli úr nefi.  „Ekki lagast hjá mér nefrennslið í þessum kulda“.

Nefskeraegg (n, hk)  Egg úr nefskera.  „Nefskeraegg er helst að finna í klettaslefrum, en einnig á stöllum“.

Nefskeri (n, kk)  Uria lomvia.  Stuttnefja var í Látrabjargi og nágrenni aldrei kölluð annað en nefskeri, og er svo enn. Það heiti var ekki notað annarsstaðar, en í Papey var fuglinn nefndur stuttvíi.  Heitin stuttnefja og langvía eru dálítið villandi, enda eru nef þessara líku svartfuglategunda nokkuð álíka að lengd.  Hinsvegar þekkist nefskerinn helst á áberandi hvítri rönd á jaðri efra goggs; sem líkist helst hníf að lögun, og af því dregið heitið nefskeri.  Þá hefur hún annað höfuðlag en langvían; er hálslengri og með hvítar síður.  Annars er útlit nefskera áþekkt útliti langvíu í megindráttum.  Varpsvæði og lífshættir eru nokkuð ólík.  Meðan langvían kýs helst að verpa í þéttum hópum á berar klettasyllur kann nefskeinn best við sig í strjálbýli í klettaslefrum og jafnvel moldarflögum.  T.d. var til skamms tíma nokkuð þétt varp nefnskera í neðri brún Stígsins í Bæjarbjargi, og fór orðasafnari þar árlega í egg forðum tíð.  Nefskera hefur fækkað mjög í seinni tíð, og veldur þar einkum fæðuskortur. 

Neftorta (n, kvk)  Gæluheiti á nefi.  „Nú hef ég gleymt klútnum mínum; áttu ekki eitthvað sem ég get snýtt úr neftortunni með“?  Torta er víða þekkt sem gæluheiti á sitjanda/aftuenda/rassi, en þessi notkun er ekki þekkt utan Kollsvíkur og e.t.v. næstu bæja.

Neftóbak (n, hk)  Fínskorið tóbak sem tekið er í nefið.  Fyrrum notuðu menn rjól, sem gjarnan kom í þéttum upprúlluðum lengjum.  Neyðarástand skapaðist hjá neftóbaksmönnum á árum síðari heimsstyrjaldar, þegar tók fyrir innflutning rjóls frá Danmörku.  Þá var gripið til þess að flytja hrátóbak frá Bandaríkjunum og Kollsvíkingurinn/efnafræðingurinn Trausti Einarsson (höfundur „Kollsvíkurættarinnar“) var fenginn til að búa til skorið neftóbak sem líktist rjólinu frá Brödrene Braun, sem tóbaksunnendur könnuðust við.

Neftóbaksdolla / Neftóbakskrukka (n, kvk)  Gler-, og síðar plastkrukka sem neftóbak var selt í um tíma.  „Við röltum framundir Litlagil og týndum ber í tvær fullar neftóbaksdollur.  Næst þurfum við eitthvað stærra ílát en neftóbakskrukkur“.

Neftóbaksdós (n, kvk)  Dós til geymslu á nefntóbaki; hæfilega stór í vasa.  „Guðbjartur afi gekk ævinlega með þrjár nauðsynjar í sínum vösum; vasahnífinn, neftóbaksdósina og tóbaksklútinn“.

Neftóbaksglas (n, hk)  Sumir höfðu neftóbak sitt í litlum glerglösum en ekki dósum eða pontum eins og flestir.  Glösin voru t.d. undan bökunardropum eða öðru.

Neftóbaksmaður (n, kk)  Maður sem neytir neftóbaks.  Mikið var um neftóbaksmenn í Rauðasandshreppi á síðari hluta 20.aldar í minni skrásetjara.  Einkum voru það eldri menn, enda var siðurinn á hröðu undanhaldi.  Konur notuðu ekki neftóbak að jafnaði. 

Neftóbaksponta (n, kvk)  Tóbaksponta; ílát sem er sérsmíðað til geymslu á nefntóbaki, af stærð sem fer vel í vasa.  Vönduð ponta er úr málmi; perulaga og flöt; með stungnum tappa í mjórri endanum sem þægilegt er að skammta sér úr, og skrúfuðum tappa á breiðari enda þar sem fyllt er á.  Guðbjartur á Láganúpi átti forláta neftóbakspontu, sem hann notaði nokkuð mikið.

Negla (n, kvk)  Spons/tappi í neglugat í kjalsogi báts, og er neglan tekin úr til að hleypa niður sjó úr kjölsoginu þegar báturinn er settur.  Venja var í Kollsvík, þegar negla var sett í bát, að banka létt á hana með stýrissveif bátsins til að festa hana í gatinu.  Ekki var notaður neglusteinn eins og sumsstaðar mun hafa verið gert.  Þess var vandlega gætt að hafa varaneglu um borð, því alltaf gat negla losnað og farið útbyrðis með austrinum.  Neglugat er ávallt haft stjórnborðsmegin í báti, en sé það bakborðsmegin nefnist það hjákonugat.  „Munið að setja negluna í áður en þið ýtið á flot“.  „Óli á Nesi smíðaði bát úr krossviði fyrir Össur og Ingvar í Kollsvík kringum 1971, sem þeir nýttu einkum til grásleppuveiða frá Hænuvík og Gjögrum.  Báturinn var kostagripur að mörgu leiti.  Hann var með hálfgafli fyrir utanborðsvél, og var í fyrstu með 9ha Johnson en síðar 20ha Chrysler.  Einn kostur bátsins var sá að ef neglan var tekin úr á ferð þá lensaði hann á skömmum tíma allan sjó úr bátnum vegna sogs af ferð bátsins“.  „Árni var fyrstur að bátnum; stakk í neglunni og leit yfir bátinn; hvort allt væri með“  (ÞJ;  Brimlending í Kollsvík).

Neikvæður (l)  Andsnúinn; ekki jákvæður.  „Mér fannst hann fremur neikvæður í þessum efnum“.

Negla niður (orðtak)  Fastsetja; ákveða.  „Ég er ekki búinn að negla niður neina ákveðna dagsetningu“.

Neglingsfast (l)  Um hlut sem erfitt er að losa; fast eins í góðri neglingu..  „Netið er neglingsfast í botni“.

Neip (n, kvk)  Bilið milli kreppta fingra.  „Sumir halda pennanum í neipinni þegar þeir skrifa“.

Neipa (s)  Ná góðu taki á með neipinni.  „Mér finnst best að neipa ristilinn þegar ég er að rekja hann“.

Neisko! (ao)  Upphrópun sem lýsir undrun eða ákveðinni neitun.  „Neisko; finn ég ekki þarna hnífinn minn“!  Sjá sko.

Neistaflug (n, hk)  Neistar sem skjótast út í loftið, t.d. þegar járn er slegið á steðja eða úr strompi við kyndingu.  „Neistaflugið stóð uppúr púströrinu þegar hann gaf vélinni hressilega inn, og sást vel í rökkrinu“.

Neita vendingu (orðtak)  Um siglingu skips; vill ekki taka vind á gagnstætt borð þegar sigldur er beitivindur. „Tvær voru aðferðir við að venda skipi.  Mátti bæði stagvenda og hálsa, þ.e. kúvenda.  Stagvending var miklu hentugri í alla staði og einatt viðhöfð þegar hægt var.  En gangtreg skip neituðu stundum vendingu; fengust ekki til að falla yfir til annarrar hliðar þótt þeim væri beitt upp í vindinn.  Þá neyddust menn til að beita hinni aðferðinni, að slá skipinu undan vindinum og sigla nær því í hring.  Tafði það siglinguna og þótti verra í alla staði“  (  GilsG; Skútuöldin) .  

Nema hvað! (orðtak)  A.  Upphrópun; andsvar sem lýsir hneykslun á að efast sé um það sem augljóst þykir.  B.  Innskot/hikorð í frásögn; iðulega notað í Kollsvík og nágrenni; stundum þó einungis fyrra orðið.  „Nema að þau fara að tala saman...“  (EG; Viðtal á Ísmús 1968; frásögn um örnefnið Hnífa). 

Nema nærri / Nema við (orðtak)  Snerta; koma við; jaðra við.  „Hafðu fríholt á milli, þar sem báturinn nemur við hleinina“.  „Nú fer að nema við háflæði“.  „Það nemur nú nærri að maður fari að sigla í land, ef ekkert fer að rætast úr með veiðina“!

Nema síður sé (orðtak)  Gæti verið þveröfugt/ á hinn veginn.  „Þetta er alls ekki ofselt, nema síður sé“.

Nema staðar (orðtak)  Staðnæmast; stöðvast.  „Tvævetlan æddi eins og landafjandi fram allan dalinn, og nam ekki staðar fyrr en við Startjarnir“.

Nema það… (orðtak)  Hiksetning eða innskot í frásögn, sem ekki hefur neina þýðingu í raun, en gefur sögumanni svigrúm til að t.d. byggja upp spennu.  „Eftir þetta var siglingin tíðindalaus að mestu; nema það að þegar kom í Röstina var komið hvítfossandi norðurfall móti vindi“.

Nema því aðeins (orðtak)  Einungis með því skilyrði.  „Hann vildi alls ekki koma nema því aðeins að hann fengi að hafa hundinn með“.

Nenna (s)  Hafa drift/framtak í; koma í verk.  „Ég held ég nenni ekki að eiga meira við þetta í dag“.

Nenna (n, kvk)  Löngun/uppburðir til að farmkvæma/gera.  „Þú getur ekki búist við háum einkunnum ef þú hefur enga nennu til að læra drengur“.

Nennuleysi (n, hk)  Viljaleysi; framkvæmdaleysi.  „Það er ekki eins og þeir hafi ekki fengið tíðarfar til að heyja eins og aðrir; þetta er bara nennuleysi og skussaháttur“.

Nepja (n, kvk)  Það er nepja, eða nepjukalt, þegar hann er napur (kaldur). 

Nepjugjóla (n, kvk)  Kaldur vindur; kuldagjóstur.  „Klæddu þig almennilega; það er nepjugjóla“.

Nepjukuldi (n, kk)  Mikill kuldi; napur vindur; nepjunæðingur.

Nepjulegur (l)  Kuldalegur í veðurútliti/viðmóti.  „Ári er hann orðinn nepjulegur þessa dagana“.

Nepjunæðingur (n, kk)  Kuldagjóstur; kalduog nokkuð stífur vindur.  „Bölvaður nepjunæðingur er nú þetta“!

Nesta (s)  Búa út með nesti/mat til ferðar.  „Ég sé að konan hefur nestað mig vel eins og endranær“. 

Nestisbiti (n, kk)  Nesti; matur meðferðis.  „Við erum vel búnir undir gönguferðina, eftir góðgerðir hjá bróður mínum og mágkonu og með nestisbita í vasa“  (IG; Sagt til vegar I).   „Teygðu þig fram í lúkarinn og sæktu nestisbitann okkar“.

Nestisbox / Nestisdallur / Nestiskassi / Nestisstokkur / Nestisskrína (kk/kvk)  Kassi/stokkur undir nesti.  Sjómenn fyrr á tíð höfðu ekkert nesti með sér á sjó; hvorki vott né þurrt.  Á tímum Kollsvíkurvers tíðkaðist að hafa sýrublöndu með sér, en engan mat.  Síðar, t.d. þegar farið var að gera út á grásleppu seint á 20.öld, fóru menn að hafa með sér vel útilátið nesti á sjóinn; kaffi á hitabrúsa og mjólk á flösku; smurbrauð með því; múkka- eða svartfuglsegg og e.t.v. harðfiskstrengsli.  Enda var útivera þá nokkuð löng.  Brauðið var í stokk/kassa, en svo var öllu komi fyrir í nestisgjúðru/nestistuðru.

Nestisskrína (n, kvk)  Skrína fyrir/með nesti.  „Nestisskrínur voru upp teknar, og bar þar mest á þjóðarrétti okkar; hangikjötinu“  (ÞJ; Sargon-strandið; Árb.Barð 1949).  „Gummi var vel að heiman búinn og meðal annars hafði hann í nestisskrínu sinni væna spaðbita af veðmálslambinu“  (PG; Veðmálið). 

Nestisgjúðra / Nestistuðra / Nestispoki / Nestisskjóða / Nestistaska (n, kvk/kk)  Poki/skjóða undir nesti.  „Teygðu þig nú í nestisgjúðruna þarna framí“.  „Munið svo eftir nestistuðrunni þegar þið farið“.

Net (n, hk)  A.  Veiðarfæri úr girni til veiða á fiski.  Netaveiðar í sjó voru einungis stundaðar á hrognkelsum í Kollvík og nágrenni, og er netum nánar lýst þar. 

Netabauja / Netadufl (n, kvk/hk)  Bauja/dufl sem heldur uppi uppistöðu í enda strengs af netum og markar staðsetningu hans og legu.  Baujur hafa þróast í tímans rás.  Í fyrstu voru þær úr uppblásnum skinnbelgjum; síðar úr korki eða gúmmíi, en nú á tímum oftast úr plastbelgjum, holum plastkúlum eða frauðplastkúlum.  Sumar eru með stöng uppúr og flaggi.  Jafnan eru baujur merktar á einhvern hátt, oft með nafni eða númeri báts.

Netablý (n, hk)  Blýhólkar sem þræddir voru upp á steinaþin; blýaþin á neti til að halda því við botn.  Netablý þóttu mikil framför frá netasteinum sem notaðir höfðu verið frá örófi alda; sátu örugglega á teininum og slógust síður inni.  Í fyrstu voru blýþynnur klemmdar um teininn, en fljótlega var farið að steypa blýin.  Gerðu grásleppukarlar það sjálfir; bræddu upp blý  úr ónýtum rafgeymum og mótuðu það í blýatöng, sem gekk milli manna.  Það blý var hólkur sem þræddur var upp á teininn og benslaður/klemmdur við hann.  Síðar leystu blýþinir blýin algerlega af hólmi, en í þá eru ofnir blýþræðir.

Netabúnt (n, hk)  Nokkur fjöldi neta saman í pakkningu; oftast þá átt við netaslöngur sem ekki hafa verið felldar á þin/tein.

Netabæting (n, kvk)  Lagfæring nets með því að brúa yfir slitna möskva með netagarni eða riða net í skemmdina.  Á seinni tímum hafa menn lítt hirt um netabætingar, heldur endurnýjað netin við mikið slit.

Netadráttur (n, kk)  Dráttur neta; vitjun um net.  „Maður hálflerkaður eftir að hafa puðað í netadrætti allan liðlangan daginn“.

Netadrusla (n, kvk)  Lélegt net.  „Það þarf að skera þessar netadruslur af teinunum“.

Netadræsa (n, kvk)  A.  Lélegt net; druslulegt net.  „Það tekur því varla að leggja þessar netadræsur“.  B.  Gæluorð um net.  „Eigum við að draga nokkrar netadræsur í viðbót áður en við förum í land“?  C.  Net sem kuðlast hefur saman í sjónum, oftast með teinum og innihaldi, stundum rekið á fjörur.

Netafelling / Netainnsetning (n, kvk)  Felling nets á þin/tein.  Tvær meginaðferðir voru við fellingu/innsetningu neta; nálarfelling og bekkfelling.  Sú fyrri er vandaðri og meira notuð nú til dags, en sú síðari er fljótlegri.  Sjá setja inn net; fella net.

Netafargan (n, hk)  Gríðarlegt/ofboðslegt magn af netum.  „Það er ekki furða þó stytti eitthvað upp í veiðinni þegar þetta ógnar netafargan er komið á þennan hlandkollublett!  Það liggur við að megi hlaupa þurrum fótum eftir netabaujunum“!

Netafiskur (n, kk)  Fiskur sem veiddur er í net.  Þykir stundum lausari í sér en krókaveiddur fiskur; einkum ef net liggja lengi í sjó.

Netaflá / Netaflot / Netakorkur (n, kvk/hk/kk)  Flá; flot; korkur sem notað er til að halda flotteini/flotþin á neti uppi í sjónum, og netinu opnu.  Fyrstu flár voru tálgaðir tré- eða korkkubbar sem voru benslaðir við þininn.  Síðar komu verksmiðjuframleiddir frauðkubbar með gati, sem þinurinn var þræddur í gegnum; síðan litlir  hringir af harðplasti, en að lokum leysti flotþinurinn/flotteinninn flárnar/flotin/korkana af hólmi.  Hann er ofinn af gerviefni sem hefur minni eðlisþyngd en sjórinn, og þar af leiðandi flotmagn.

Netaflækja (n, kvk)  Net í flækju.  Stundum þó notað um stóran netahnút.

Netafriður (n, kk)  Friður vegna veðurs til að vitja um net.  „Hann er nú að hvessa svo að það er ekki meira en svo að það sé netafriður lengur“.

Netagarður (n, kk)  Mikill fjöldi af netum/netastrengjum; netastagur.

Netagarn / Netaþráður (nl hk)  A.  Garn til að riða net; efni í net.  B.  Innsetningargarn; fellingagarn; garn til að fella net á tein.  Oftast notað í þeirri merkingu á seinni tíð. 

Netagirðing (n, kvk)  Mikill fjöldi af netum á sama svæði; netagarður; netastagur.  „Ekki skil ég hvernig nokkuð grásleppukvikindi sleppur innfyrir þennan netagarð frammi í Flóanum“!

Netagrjót (n, hk)  Netasteinar; steinar sem festir voru á steinaþin neta til að halda þeim við botn, fyrir tilkomu netalbýja og síðar blýtógs.  „Fariði strákar og tínið saman heppilegt netagrjót; helst meira en hnefastórt og ílangt“.

Netahnútur (n, kk)  A.  Hnútur sem kemur í net, oftast við að veiði ólmast í því eða þari hefur göndlað því saman í straumi/báru.  Netahnúta þarf að leysa til að netið verði afram veiðið, en þeir eru misjafnlega illvígir viðureignar.  Slæmir hnútar geta t.d. komið í grásleppunet sem rauðmagi ánetjast.  Voru oft miklar yfirlegur hjá grásleppukörlum að leysa hnúta og stundum hrökk þeim ókristilegt orðbragð af munni.  Sumir voru býsna lagnir við hnúta; fingruðu þá og tönnuðu og beittu stundum úrgreiðslugogg.  Fyrir kom að sýslumaður var látinn ræða létt við þá þegar skorinn var stöku leggur, en slíkt var forðast í lengstu lög.  B.  Hnútur sem notaður er til að riða net.  C.  Net sem kuðlað er saman í hnút, oftast með teinum og innihaldi.  Aldrei þó notað í þeirri merkingu í Kollsvík í seinni tíð.  Netadræsa var notað um slíkt.

Netahnýting (n, kvk)  Hnýting netahnúts; riðun nets.  Ekkert var gert af slíku í Kollsvík eftir miðja 20.öld.

Netahreinsun (n, kvk)  Hreinsun skíts/þara/skeggs úr netum.  Netahreinsun fór oft fram úti á sjó; ýmist um leið og net voru dregin eða með því að draga þau milli rúma í bátnum.  Ef mjög mikið var af skít í netum voru þau tekin í land; strengurinn lagður á þurran bala og tveir hreinsuðu á milli sín.  Þá voru þau oft látin bíða þar til þarinn var skrælnaður, svo hann molnaði úr.

Netakubbur (n, kk)  Netakorkur; korkur/flá sem festur var á flotþin neta til að halda því réttu í sjónum, fyrir tilkomu flottógs.  „Það var töluverð framför þegar netakubbar urðu rúnnaðir; þeir köntuðu voru gjarnir á að flækjast og ánetjast í netinu“.

Netakúla (n, kvk)  Kúla sem notuð er sem flot á net.  „Töluvert hefur rekið af netakúlum í Kollsvík frá því þær tóku við af korki sem flot á net.  Núorðið eru þær allar úr plasti, en áður voru þær ýmist úr gleri í netpoka eða álkúlur.  Þær síðarnefndu nýttust ágætlega, t.d. sem fóður- eða vatnsílát“.

Netalagning (n, kvk)  Lagning neta.  Eftirfarandi lýsing á við verklagið meðan enn voru notaðir tvístafna bátar við veiðarnar.  Fyrir fyrstu lögn voru netin lögð uppí bátinn í landi.  Fláaþinurinn/korkaþinurinn/flotþinurinn var lagður niður í skutrúmið en steinaþinurinn/blýþinurinn í austurrúmið, þannig að netið sjálft lá yfir bitaþóftuna (sjá rúm).  Þegar netin voru dregin stóð sinn maðurinn í hvoru þessara rúma og lagði netið niður á sama hátt.  Framanaf var venja að róa netin út; þ.e. annar skipverja reri meðan hinn gætti þess að neti færi vel í lagningunni.  Meðan steinar voru enn notaðir á þin þurfti að lyfta hverjum þeirra yfir borðstokkinn til að ekki smokkaðist úr lykkju eða skemmdist báturinn.  Eftir að blý komu á teina héldu margir þeirri venju að kasta þeim útbyrðis; enda þá minni hætta á flækjum.  Aðrir létu netið renna sjálft út.  Í lok lagningar reru sumir út færið, en aðrir köstuðu hönkinni á eftir netasteininum/endasteininum.  Eftir að vélar komu í báta og farið var að nota flotteina og blýteina var lagt á meiri hraða og hætta á lagningarflækjum minnkaði.  Enn jókst hraðinn við lagningu þegar gaflbátar komu til sögunnar.  Þá renna teinarnir aftur af bátnum og netið fer yfir boga á milli þeirra.  Með auknum hraða minnkaði sú hætta sem alltaf var á því að straumur bæri bátinn af fyrirhuguðu legustæði netastrengsins, og ekki varð lengur jafn mikil þörf á að taka tillit til straums og vindstöðu við lagninguna.

Netalagnir (n, kvk, fto)  Svæði þar sem net eru lögð eða vænlegt/venja er að leggja net.  Miklar netalagnir eru inn með sunnanverðum Patreksfirði; allt frá Kofuhleinum innundir Gjögra.  Sæmilegar netalagnir eru á Bótinni í Kollsvík, en ekki nándarnærri eins víðáttumiklar og í Breiðavík.  Þar eru gríðarmiklar netalagnir utanfrá Vilhjálmsvör, suður á miðja víkina.  Þá eru góðar lagnir undan Fjarðarhorni og við Landamerkjahrygg í Breiðnum.

Netamæti / Netamætingur / Netaskil (n, hk, fto/ kk)  Tengsli; samsetning tveggja neta í streng/trossu.  Frágangur neta var oftast þannig að á enda hvors þins var lykkja og milli efri og neðri lykkju öflugt stag.  Lykkjur steinaþina beggja neta voru bundnar saman á netaskilum með tvöföldum flagghnút, og sömuleiðis lykkjur kubbateinanna/korkateinanna.  Hefði annar lagt ofaní af slysni þótti sjálfsagðir mannasiðir að draga það net að næstu netaskilum; leysa í sundur og binda saman undir.  Væri um vítavert gáleysi að ræða var aðkomunet þverskorið og hnýtt með þverhnút undir hinu.  Argasti glæpur þótti að skera í sjó; þ.e. að hnýta endana ekki saman.  „Það hefur orðið einhver snúningur á strengnum í lagningunni.  Við drögum að næstu netamætum og lögum þetta“.  Orðið „netamætingur“ í et.kk er líklega eldra í málinu, en var notað af sumum til skamms tíma.  „Hér er netamætingur; þá getum við lagfært snúðinn á þessu“.

Netanál / Netnál (n, kvk)  Sérstök nál til að fella net/ setja inn net.  Netnál er um 20-30 cm löng og 2-3cm breið; flöt og oddlaga í annan enda en með kríu í inn í hinn.  Framantil í nálinni er op og í því mjó nál.  Fellingagarnið er þrætt í nálina þannig að brugðið er upp á nálina, niður í kríuna; uppá nálina hinumegin og þannig koll af kolli eins og þarf.  Nálinni er síðan brugðið í gegnum netið/teininn þar sem þörf er á, og undið ofan af henni um leið.  Netnálar voru áður úr beini eða tré, en eru núorðið einkum úr plastefnum.  Kollsvíkingum var fyrrum tamara að hafa orðið án „a“ í miðju.

Netapláss (n, hk)  Staður/mið þar sem venja er að leggja net/grásleppunet/rauðmaganet.  „Ólarnir gerðu ekki neina kröfu um að eiga sín netapláss, en menn létu það samt vera að leggja í þau“.

Netaslanga (n, kvk)  Net sem búið er að riða en eftir að fella/setja inn á tein.  „Ég fékk kassa af netaslöngum“.

Netastagur / Netaþvarg / Netastappa (n, kk)  Mikið af netum í sjó sem eru þétt saman.  „Það er þvílíkur netastagur framundan Helminum að þar er ekki drepandi niður fæti“.  Netaþvarg er fremur notað í niðrandi merkingu.  „Ekki undrar mig þó menn leggi hver yfir annan í þessu netaþvargi; það er varla glenna á milli strengja“!

Netasteinn (n, kk)  Kljásteinn; steinn sem festur er neðan á steinaþin/steinatein nets til að halda því við botninn.  Netasteinar voru um hnefastórir hnefjusteinar/hnefahnullungar, sem safnað var í fjörunni í kring þegar net var steinað niður í bátinn.  Þurftu þeir helst að vera ílangir til að tolla sem best í bandinu, en um þá var tvíbrugðið snæri; hnýtt þétt að og snærið bundið tvöfalt um tvo netateininn, en þó haft 2-3“ bil milli steins og þins.  Tvívafið var um þininn og farið í öðrum hringnum milli þátta, svo ekki rynni til.  Líklega hefur verið tæpur faðmur milli steina (man það þó ekki), þannig að allmikil þyngsli urðu í bátnum af hverju neti.  Stærri steinar voru hafðir í niðristöður í enda strengsins og stundum á netaskilum.  Lítill bátur var því fljótt þunghlaðinn af fáum netum.  Þó vandlega væri steinað var alltaf eitthvað um að steinar hefðu tapast þegar vitjað var, einkum eftir slæma tíð.  Því var alltaf nokkuð af aukasteinum haft með í hverja vitjun.  Mikið var um að steinar væru slegnir inní þegar vitjað var; einkum eftir mikinn óróa, og stundum höfðu steinarnir flækt netið allmikið.  Þótti grásleppukörlum það mikil bylting þegar farið var að nota netablý sem gengu utanum teininn og losnuðu þá við helstu vandamál netasteinanna.  Önnur bylting, en þó minni, varð með tilkomu blýteina, þar sem blýið er þætt inn í þininn.  Netasteinar voru notaðir í fyrstu grásleppuróðrum sem ég fór með pabba og Ingvari bróður hans, og hafði ég m.a. það hlutverk að safna steinum og binda á þá.  (VÖ).

Netastrengur / Netatrossa (n, kk)  Nokkur net sem samsett eru á endum í eina lengju.  Málvenja var að tala einungis um „streng“ eða „trossu“, og var það fyrra almennara.  Misjafnt var hve mörg net menn höfðu í streng, en þeim fjölgaði að jafnaði eftir því sem framfarir urðu í netagerð, þinum og bátum.  Á tímum grásleppuútgerðarinnar miklu, um 1970-1990, var algengt að menn hefðu 5-6 net í streng, enda á sú lengd víða vel við breidd þaragarðsins sem lagt var á.  Í strengnum eru þinir netanna bundnir saman; annaðhvort með flagghnút eða réttum hnút.  Í hvorum enda strengsins er niðristaða/færi.  Neðri endi færisins er bundinn í stein, og er stutt frá honum í steinaþin/blýþin netsins, en á efri enda færisins er dufl/bauja.  Lengd færisins fer nokkuð eftir dýpinu sem lagt er á, en er alltaf höfð allnokkru meiri, til að átak baujunnar á steininn verði sem mest til hliðar en ekki beint upp.  Umframlengdin er nefnd yfirvarp eða kast.

Netateinn / Netaþinur (n, kk)  Taug/lína sem notuð er sem flottteinn/korkateinn eða steinaþinur/blýteinn á net.  Oftast stytt í teinn eða þinur, sjá þar.

Netaútgerð (n, kvk)  A.  Það umstang og sá búnaður sem fylgir netaveiðum.  B.  Sú atvinna að veiða í net.

Netaveiði (n, kvk)  A.  Veiðiskapur með net sem veiðitæki.  B.  Afli sem fæst í net.

Netgarmur (n, kk)  Lélegt net.  „Við erum ekkert að leggja þennan netgarm með tálguðu flotunum“.

Netháls (n, kk)  Endi þinar/teins á neti.  Frágangur í enda nets er yfirleitt þannig að þinurinn er látinn ná dálítið útyfir enda netsins.  Þar er gerð á hann lykkja eða gert fyrir endann til að ekki rakni upp.  Sama er get bæði við korkatein/flottein og steinatein/blýtein, Þessi umframendi teinsins nefnist netháls, og er notaður til að hnýta tvö net saman í streng eða festa neti við niðristöðu/færi.  Í enda netsins er oft þrædd taug úr sama efni og þinirnir, og hún splæst við efri og neðri þin.  Nefnist hún endastag.

Nethelgi (n, kvk)  Netlög; svæði innan línu sem dregin er 60 faðma útfrá stórstraumsfjöruborði, en í nethelgi ríkir eignarréttur landeiganda, t.d. gagnvart veiðum.  Orðið var almennt notað í Kollsvík og nágrenni en annarsstaðar virðast hafa verið notuð orðin „netlög“ og „landhelgi“ um sama hugtak.  Rebekka Hilmarsdóttir frá Kollsvík ritaði meistaraprófsritgerð um þessi efni árið 2010, í lögfræðinámi sínu.

Netja (n, kvk)  Mörinn utanum vömbina.  „Netja garnmör og nýrmör eru sett saman í mörva“. Sjá mör.

Netlengd (n, kvk)  Lengd á neti til veiða.  Sjá hrognkelsi.

Netlög (n, hk, fto)  Nethelgi; það svæði sjávar fyrir hverri jörð sem tilheyrir henni og hennar eignarrétti.  Netlög eru innan línu sem hugsast dregin um ystu punkta, 60 föðmum frá stórstraumsfjöruborði, skv „Lagasafni handa alþýðu“ eftir Magnús Stephensen o.fl, og er sú regla enn í gildi.  „En það eru netlög yst er selnót stendur grunn, tuttugu möskva djúp, að fjöru og komi þá flár upp úr sjó“  (Jónsbók, útg. árið 1280).

Netpoki (n, kk)  A.  Poki úr neti.  B.  Poki í neti.  Sjá poka sig.

Netský (n, hk)  Þunn gisin skýjahula.

Netstubbi / Netstubbur / Netstúfur (n, kk)  Gæluorð yfir net.  „Gaman væri nú að eiga einhvern rauðmaganetsstubba“.

Netthentur (l)  Með fíngerðar/smáar hendur. 

Nettlega (l)   A.  Á fínlegan/fimlegan hátt; nákvæmlega; sniðuglega.  „Ansi var þetta nettlega gert“. „Þetta var nettlega orðað“.   B.  Nærri því; um það bil; tæplega; nálega.  „Þetta gæti verið nettlega í eina tunnu“.

Nettur (l)  Lítill; smágerður; fínlegur; nákæmur; sniðugur.  „Maríuerlan finnst mér mikið nettari fugl en sólskríkjan“.  „Það var nett háð í vísunni; þó alls ekki meiðandi“.

Nettvaxinn (l)  Fíngerður; smávaxinn; smábeinóttur.

Netveiði (n, kvk)  A.  Veiðar í net.  Sjá hrognkelsi.  B.  Afli í net.

Neyð (n, kvk)  A.  Neyðarástand; alvarleg vandræði; lífsháski.  „Það má nota þetta í neyð“.  B.  Nauðung; plága.  „Það er alger neyð að þurfa að hlusta á svona leiðindaraus; gátu þau ekki fengið betri ræðumann“?!

Neyða (s)  Þvinga.  „Ég ætla ekki að neyða þig til að borða þetta ef þér líst ekki á það“.

Neyðarbrauð (n, hk)  Neyðarúrræði; versti kosturinn.  „Það er algjört neyðarbrauð að þurfa að nota ljósavél, en þess getur þurft ef veitulínan bregst“.

Neyðarflaut (n, hk)  Flaut skips í neyð.  „1912 strandaði erlendur togari utantil við Látravöll undir Bjarginu.  Heyrðist neyðarflaut til Keflavíkur“  (TÓ; Skipströnd í Rauðasandshreppi).

Neyðarkall (n, hk)  Kall/hjálparbeiðni frá þeim sem er í neyð.  „Ekki barst neyðarkall frá Croupier þegar hann strandaði á Blakknesboða, enda voru loftskeytatæki þá ekki komin í öll skip og vöktun lítil“.

Neyðarlega (ao)  Vandræðalega; ömurlega; hjákátlega.  „Það vantaði neyðarlega lítið uppá að þetta hefðist“.

Neyðarlegt (l)  Vandræðalegt; skrýtið; skammarlegt; hjákátlegt.  „Mér finnst það hálf neyðarlegt að þurfa að leita til læknis útaf svona smámunum“.  „Hann var stundum neyðarlegur í orðum“.

Neyðarréttur (n, kk)  Rétturinn til lífsbjargar, sem getur upphafið önnur lög í neyðartilvikum.  Orðið hefur einnig verið notað í þjóðréttarlegum skilningi.  Á sama hátt ættu eigendur sjávarjarða, að réttu lagi, að hefja aftur óheftar veiðar á sínum grunnmiðum; svo sem að fornu var.  Stjórnvöldum var óheimilt að hrifsa þann rétt og gefa hann í hendur kvótabraskara á öðrum stöðum.  Neyðarrétt má nota gegn svo augljósu óréttlæti.

Neyðartalstöð (n, kvk)  Talstöð til sendinga neyðarkalls.  Á fyrstu áratugum talstöðva voru þær dýrir gripir og fágætir.  Eftir strand Dhoons á Langurðum var byggt björgunarskýli í Keflavík og sett þar upp neyðartalstöð.

Neyðartilfelli / Neyðartilvik (n, hk)  Atvik/staða sem skapar tímabundna neyð.

Neyðarúrræði (n, hk)  Það sem gert er til að losna úr/ forða frá neyðartilviki/neyð.  „Það var neyðarúrræði hjá okkur að nota nestisdallinn til að ausa með“.

Neyðast til (orðtak)  Vera tilneyddur/ þvingaður til.  „Ég neyddist til að hætta vegna veðurs“.

Neyðin kennir nakinni/naktri konu að spinna (og svöngum að vinna) (orðatiltæki)  Menn venjast fljótt því sem gera þarf; neyðist þeir til að gera það sjálfir.  Menn verða jafnan að leysa úr aðstæðum sem upp koma. 

Neyma (s)  Ná taki á; fingra; klípa.  „Þetta er svo smátt að ég neymi það varla með berum fingurgómunum“.

Neyma af  (orðtak)  Taka örlítið af; klípa af.  „Það er svo lítið eftir af tertunni að það tekur því ekkert að neyma af henni.  Hana!  Skelltu þessu bara í þig“! 

Neyma við (orðtak)  Snerta örlítið; nema við.  „Galdurinn við að egna músafellu er að láta pinnan neyma nógu laust við agnhaldið“.  „Sigla þarf þétt framhjá klakknum, en þó gæta þess að neyma ekki við hann“. 

Neyslugrannur (l)  Nægjusamur; aðhaldssamur; þarf lítils með.  „Þetta er meira en nóg fyrir mig; ég er svo neyslugrannur“.

Neysluvara (n, kvk)  Oftast er átt við matvöru, fatnað eða hráefni í þetta tvennt þegar rætt er um neysluvöru sem framleidd var í Rauðasandshreppi frá fornu fari til skamms tíma.  Nú er ferðaþjónustan að taka við af framleiðslu neysluvöru sem helsta stoð byggðar í hreppnum. 

Neyta aflsmuna (orðtak)  Nýta meiri krafta til að hafa hinn veikari undir.  „Hættu nú þessu bölvuðu pikki; ég vil helst ekki þurfa að neyta aflsmuna til að berja í þig skynsemina“!

Neyta allra bragða/ráða (orðtak)  Gera allt sem unnt er; leita allra leiða; beita öllum ráðum.  „Nú þurfum við að neyta allra bragða til að afstýra þessu“.

Neyta allrar orku (orðtak)  Taka á af öllum kröftum.  „Ég þurfti að neyta allrar orku til að koma steininum upp í vegginn“.  „Nú mun allra orku neytt;/ engin vægð né blíða:/  Teknar sveiflur, brögðum beitt/ brölt um hellinn víða“ (JR; Rósarímur). 

Neyta matar (orðtak)  Borða; matast.  „Ég var orðinn sársvangur; enda kom ekki til greina til að neyta matar fyrr en þetta var afstaðið“.

Neyta sín (orðtak)  Nota krafta/hæfileika sína; gera; framkvæma.  „Ég er að reyna að spenna tannhjólið af öxlinum, en aðstaðan er svo þröng að það er erfitt að neyta sín við þetta“.

Neyta skal meðan á nefinu stendur (orðatiltæki)  Grípa skal tækifærið meðan það býðst.  Máltækið er upphaflega sagt sótt í ævintýrasögu um karl og kerlingu sem eignuðust tunnu af sméri og létu geyma hana í kóngsgarðinum.  En konan freistaðist til að sækja sér af og til í tunnuna þar til hún var tóm.  Upp úr henni flaug fluga, sem kerling sakaði um að hafa stolið smérinu.  Þegar hún settist á nefið á karli viðhafði hann þetta orðatiltæki; kerling sló hann í hausinn með kylfunni og urðu þetta því hans síðustu orð.

Né heldur (orðtak)  Ekki heldur; aukin áhersla á „né“.  „Mér finnst þetta heldur snautleg smalamennska hjá þeim.  Þeim tókst hvorki að ná öllu fénu; né heldur koma því í rétt sem þeir þó fundu“!

Nibba (n, kvk)  Ójafna; nef (í klettum).  „Fremsta nef Blakksins nefnist Nibba og heiman við það er Nibbugjá“.

Nið (n, hk)  A.  Núningur; nudd; nugg; ið; hreyfing.  „Í næturkyrrðinni mátti heyra niðið í grásleppunni sem hékk til sigs undir þakskegginu; þegar golan hreyfði við henni“.  B.  Nöldur; tuð.  „Hættu nú þessu eilífa niði“! C.  Nýtt tungl; myrkur.  „Það skiptast á ný og nið í þessum efnum sem öðrum“.

Niða (s)  Suða; hvína.  „Eitthvað hefur hann snúið sér í áttinni, fyrst farið er að niða á þessum glugga“.

Niðaandskotansþoka / Niðadéfilsþoka (n, kvk)  Köpuryrði um þoku sem glepur sýn.  „Hann er að hella yfir einhverri niðaandskotans þoku; það verður óglæsilegt að koma strengnum rétt í sjóinn aftur“!  „Það var slík niðadéfilsþoka þarna á fjallinu að maður varð bara að þræða kindagötur til að villast ekki“.  Alltaf er spurning hvað sé orð og hvað sé ekki orð, en í ljósi þess að þessi og annar eins samsetningur hraut oft af vörum Kollsíkinga; og í ljósi þess að orðabækur tilgreina samsett orð engu merkilegri, fær þetta að fljóta í registrið.

Niðamyrkur (n, hk)  Algert myrkur; hvorki stjörnu- né tunglbjart.  „Nú var jörð auð að mestu; niðamyrkur og þoka...“ (MG; Látrabjarg).

Niðanótt (n, kvk)  Dimmt að nóttu.  „Það er nú rétt að fara að draga sig í rúmið; enda komið fram á niðanótt“.

Niðaþoka (n, kvk)  Mjög dimm þoka.  „Niðaþoka var á, og náttmyrkur, og lentu þeir í villu á fjallinu“  (MG; Látrabjarg).  „En þegar bátarnir höfðu skamma stund verið á fiski, gerði niðaþoku svo að hvergi sá til lands“  (ÖG; Þokuróður).  Einnig niðadimm þoka og kolniðaþoka.

Niðdimma (n, kvk)  Mikið myrkur; svartamyrkur.  „Maður sér ekki neitt í þessari niðdimmu“.

Niðdimma (s)  Verða mjög dimmt.  „Það þýðir lítið að fara af stað þegar farið er að niðdimma“.

Niðdimmur (l)  Mjög myrkur/dimmur.  „Það var orðið svo niðdimmt að við sáum varla handaskil“.

Niðra (s)  Lítillækka; lasta.  „Hún var blessunarlega laus við að niðra eða baktala nokkurn mann“.                          

Niðrifyrir (ao)  Í sjálfum sér.  Eingöngu notað nú í orðtakinu að vera mikið niðrifyrir; vera æstur/óðamála.  „Honum var svo mikið niðrifyrir að hann kom varla upp eiu einasta orði“.

Niðrilega (n, kvk)  A.  Sjóskrýmsli sem liggur á hafsbotni, en kemur upp á sj´ö ára fresti.  „Þetta var gríðarstórt sjóskrýmsli sem svam þarna í Patreksfirðinum; á að giska um tuttugu faðmar á lengd; með tvo fjallháa hnúka uppúr hryggnum; líkt og fjallið sem hann benti mér á og heitir Kryppa; rétt fremst í Örlygshöfninni.  Hann sagði mér að hann hefði heyrt frá gamalli tíð, að þessi niðrilega kæmi upp á sjö ára fresti og hún hefði lítið um sig.  En hættulegt mundi bátum að vera nálægt henni, því það væru dæmi til að hún hefði grandað bátum.  Að öðru leyti gerði hún ekki neitt mein“  (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu; frásögn GJH).  B.  Niðrilega þekktist einhversstaðar á landinu sem heiti á niðurstöðu veiðarfæra (sbr LK; Ísl.sjávarhættir)

Niðristaða (n, kvk)  Færi á neti/lóð; niðurstaða.  „Nú fór ég að afla mér efnis í lóðir, belgi, niðristöður og dreka; og svona ýmislegt sem þurfti til útgerðar“  (KÓ; Róið úr Kollsvíkurveri). 

Niðristöðusteinn (n, kk)  Stjórasteinn; steinn í botnenda niðristöðu, sem enda steinaþinsins/blýþins nets eða enda fiskilínu er fest við (sjá hrognkelsi og niðristaða).

Niðrifrá (ao)  Fyrir neðan; þarna niðri.  „Ég var niðrifrá; það er rekið feiknamikið tré í Bótinni“.

Niðrí (ao)  Týnt; finnst ekki.  Óvíst er hvað þetta var útbreitt en Jón Hákonarson, kaupfélagsstjóri á Hnjóti og af Kollsvíkurætt notaði þetta oft, t.d. ef hlutir eða pappírar fundust ekki:  „Það er niðrí“.  Ekki er vitað til að þetta hafi verið í notkun annarsstaðar í þessari merkingu.  Jón hélt vel á lofti sérkennilegu máli.

Niður (ao)  Ofan; stefnan að ofan.  Fyrrum var fremur notað „ofan“ þar sem í seinni tíð er notað „niður“.  „Fardu varlega þegar þú kemur ofan stigann“.  Þegar róið er á djúpmið er talað um að fara niður („ofan“ áður fyrr).  „Á tímbili þurfti að róa niður á Skeggja eða lengra til að fá í soðið.  Það var ekki murða af fiski á grunnslóð“.

Niður (n, kk)  Suð; kliður; fjarlægt hljóð.  „Í kyrru veðri eða sunnangolu heyrist stundum til Kollsvíkur niður af stórsjó undir Látrabjargi“.

Niðurámilli (ao)  Niður í millum.  „Ég tapaði vasahnífnum niðurámilli í fjárhúsinu og þurfti að rífa spel úr grindinni til að ná í hann“.

Niðurávið (ao)  Í áttina niður.  „Til að komast í Nafargjá úr ganginum þarf fyrst að fara niðurávið; niður brík sunnan við gjána“.

Niðurbrotinn (l) A.  Brotinn; rústaður; malaður.  Garðurinn var niðurbrotinn á kafla, þar sem brimið hafði lamið á honum“.  B.  Beygður; harmþrunginn; eyðilagður.  „Hann var niðurbrotinn maður eftir þetta slys“.

Niðurbrunnið (l)  Brunnið niður.  „Það hefur gleymst að slökkva á kertinu, svo það er alveg niðurbrunnið“.

Niðurbrytjaður (l)  Brytjaður/saxaður niður.  „Niðurbrytjaður mör var notaður í blóðmör og bjúgu“.

Niðurbræddur (l)  Bræddur niður.  „Niðurbræddu blýinu var svo hellt úr deiglunni í mótið“.

Niðurburðarrúst (n, kvk)  Lág grjótrúst þar sem niðurburður hefur verið festur niður með því að leggja steina ofan á hann, svo tófa geti síður dregið hann til“.

Niðurburður (n, kk)  A.  Æti sem egnt er fyrir tófu við tófuhús.  Vanalega slátur af sjálfdauðu fé eða álíka.  Niðurburðurinn var rústaður þannig að tófan næði ekki að draga hann í burtu, og gjarnan beðið með það nokkra daga að liggja fyrir henni til að venja hana við“.  B.  Æti sem skorið er niður á hákarlamiðum í nokkurn tíma áður en veitt er, til að venja hákarlinn á slóðina.

Niðurbældur (l)  Bældur/þvingaður/lagður niður.  „Sjá mátti af niðurbældu grasinu hvar kýrnar höfðu legið um nóttina“.

Niðurdreginn (l)  Dapur; ekki í góðu skapi.  „hversvegna ert þú svona niðurdreginn lambið mitt“?

Niðurdrepandi (l)  Til þess fallið að draga úr kjark/baráttuhug.  „Skelfilega er þetta niðurdrepandi ræða“.

Niðurdrepinn (l)  Haldið niðri; bældur; eyðilagður.  „Nú á dögum er allt framtak niðurdrepið; þeir sem vilja gera betur en aðri,r og hafa eitthvað fram að færa, eru skotnir í kaf af kerfinu; hafi þeir ekki réttan prófstimpil á rassgatinu og noti þeir ekki „viðurkenndar“ aðferðir“!

Niðureftir (ao)  Ofan; í áttina niður.  „Leysingavatnið rennur niðureftir veginum og grefur í hann rásir“.

Niðurfall (n, hk)  A.  Samanfall/niðurbrot húss/mannirkis.  „Kofinn var orðinn ansi hrörlegur og að niðurfalli kominn“.  B.  Svelgur sem vatni er ætlað að renna niðurum.  „Niðurfall var í gólfinu og hallaði að því“.

Niðurfallinn (l)  Fallinn niður/saman.  „Hagamannabúð er niðurfallin fyrir nokkrum árum“.

Niðurferð (n, kvk)  Ferð niður. „Það eru seiglingslangir lásarnir í Stóðin.  Maður er búinn eftir eina niðurferð“.

Niðurfreðinn / Niðurfrosinn (l)  Frosinn fastur í klaka/ís á jörðinni.  „Hurðin frá kofanum er alveg niðurfreðin“.  „Ég sá hrífu liggjandi frammi á sléttu; hún er náttúrulega niðurfrosin núna“

Niðurfyrir (ao)  Að ofan og neðar en viðmiðið; ofanfyrir.  „Komum okkur í skjól niðurfyrir brúnina“.

Niðurganga (n, kvk)  A.  Ganga niðurímóti; niðurferð.  „Niðurgangan úr Ölduskarði á Vellina veitist sumum nokkuð örðug, en hún er þó smámunir ávið púlið í uppgöngunni“.  B.  Staður þar sem gengið er niður.  „Hér er niðurgangan á þennan eggjastað“.

Niðurgangspest (n, kvk)  Umgangspest sem veldur niðurgangi/skitu.  „Ég hef ekki enn fengið þessa niðurgangspest, en þeir eru víst margir sem til á kamrinum þessa dagana“.

Niðurganga (n, kvk)  Staður þar sem farið er niður, t.d. af klettabrún.

Niðurgangur (n, kk)  Skita; steinsmuga; renniskítur; veggspýtingur.  „Þeir kalla þetta sumir niðurgang“.

Niðurgjöf (n, kvk)  Slökun sigmanns eða annars niður í bjarg, sem stjórnað er af undirsetumönnum á brún.  „Sigið gekk ágætlega, en niðurgjöfin hefði mátt vera töluvert liðugri“.

Niðurgrafinn (l)  Um veg; stunginn inní hlíð eða niður í landslagið í kring.  „Vegirnir söfnuðu milum snjó meðan þeir voru enn niðurgrafnir.  Það lagaðist þegar þeim var ýtt upp“.

Niðurgróinn (l)  Um hlut; gróið yfir; sokkinn í jörð.  „Skítadreifarinn var síðast notaður sem útijata fyrir kálfa, og er orðinn nánast niðurgróinn við Grundahliðið“.

Niðurhalari (n, kk)  A.  Reipi sem notað er til að fella segl á seglskipi.  B.   Búnaður til að draga niður hliðarrúðu á bíl“.

Niðurímóti (ao)  Niður; ofan; undan (halla).  „Eftir að komið er uppá Kjölinn fer strax að halla niðurímóti“. 

Niðurjafna (s)  Jafna niður; um það starf hreppsnefndar að ákveða réttmæta greiðslu hvers íbúa í sameiginlega sjóði og skyldur hvers bónda til sameiginlegra verkefna, s.s. haustsmölunar.  Sjá niðurjöfnun, niðurjöfnunarfundur og niðurjöfnunarseðill.

Niðurjöfnun (n, kvk)  Dreifing íþyngjandi álaga á hóp; oftast átt við opinber gjöld/útsvar eða fjallskilaskyldu.  „Ef fjallskilaskyldur aðili hefur engum færum manni á að skipa... skal hann tilkynna það hreppsnefnd áður en niðurjöfnun fjallskila fer fram; eða leitarstjórn“  (Fjallskilareglugerð V-Barð, 1982).  Sjá jafna niður.

Niðurjöfnunarfundur (n, kk)  Fundur sveitarstjórnar til að jafna niður á hreppsbúa og jarðeigendur; annaðhvort hreppsgjöldum (t.d. útsvari) eða fjallskilum.  Sjá aðalniðurjöfnun.

Niðurjöfnunarseðill (n, kk)  Tilkynning sem gjaldendur fengu um álögð gjöld þeirra til sveitarsjóðs.

Niðurkominn (l)  Staðsettur; staddur.  „Hvar í veröldinni ert þú núna niðurkominn“?  „Þegar ég kom niður úr þokunni vissi ég í fyrstu ekki hvar ég var niðurkominn“.

Niðurlag (n, hk)  Endir/síðasti hluti kvæðis/sögu.  „Ég kann upphafið á kvæðinu en er ekki viss um niðurlagið“.

Niðurleggja fyrir sér (orðtak)  Skipuleggja; koma lagi/reglu/skikk á í huganum; skilja.  „Ég er enn að niðurleggja fyrir mér hvernig við getum haft þetta á morgun“.

Niðurleystur (l)  Ofanleystur; búinn að leysa/taka niður um sig.  „Ertu ennþá niðurleystur stubbur minn; komdu hérna og leyfðu mér að girða þig“.

Niðurlútur (l)  Óhress; leiður; skömmustulegur.  „Þeir voru víst dálítið niðurlútir þegar þetta komst upp“.

Niðurlæging (n, kvk)  Skömm; háðung; smán.  „Sjaldan hefur niðurlæging íslenskra stjónvalda orðið meiri en þegar þau rændu fiskimiðum sjávarjarða og færðu þau pólitískum góðvinum að gjöf“.

Niðurlægja (s)  Lítillækka; smána.  „Mikið vildi ég að mannfjandinn hætti að niðurlægja íslenskt mál með þessu endemis hnoði sínu í popplögum“!

Niðurneglt / Niðurnjörvað (l)  A.  Naglfest; bundið; fest niður með neglingu eða taug.  B.  Líking um málefni; endanlega ákeðið.  „Við ræddum um ýmsar lausnir, en það var ekkert niðurnjörvað í þeim efnum“.

Niðurníðsla (n, kvk)  Veðrun og slit þess sem ekki er haldið við.  „Þegar séra Björn Halldórsson kom að Sauðlauksdal árið 1752 voru öll hús staðarins í niðurníðslu“  (RÍ; Ágrip af sögu kirkju og presta í Sauðlauksdal).

Niðurnjörvað / Niðurneglt (l)  Fest; í gadda slegið; ákveðið/frágengið mál.  „Þetta er kannski ekki svo niðurnjörvað ennþá; það má ræða það enn“.  „Báturinn er svo niðurnjörfaður að hann fýkur ekki fyrstur“.

Niðurrifskjaftæði / Niðurrrifstal (n, hk)  Neikvæð/skaðleg umræða; úrtölur.  „Það er kannski ekki að furða þó landsbyggðin láti undan síga, eins og þetta niðurrifskjaftæði hefur fengið að vaða uppi í fjölmiðlum“!

Niðurrifsmaður (n, kk)  Sá sem vinnur að því að skemma/eyðileggja/tala niður.  „Sumir eru voða hrifnir af þessum nýju hugmyndum, en mér hefur alltaf þótt hann fremur niðurrifsmaður en hitt“.

Niðurrifsstarfsemi (n, kvk)  Verknaður sem miðar að því að skemma/draga úr þrótt/leggja í auðn.  „Það verður nú að fara að stöðva þessa niðurrifsstarfsemi gagnvart samvinnuhugsjóninni“.

Niðurrigndur (l)  Blautur vegna rigningar.  „Ég þurfti að hafa alfataskipti þegar ég kom heim; ég ar alveg niðurrigndur og skítkaldur eftir fyrirstöðuna“.

Niðurröðun (n, kvk)  Röðun; skipan; fyrirkomulag.  „Niðurröðun sláturdaga er alltf umdeilanleg“.

Niðursagaður (l)  Sagaður niður.  „Í þessum kassa er einn niðursagaður skrokkur“.

Niðursaltað (l)  Um saltket; búið að salta niður.  „Ég seldi honum fötu af niðursöltuðu keti“.

Niðursetja (s)  A.  Ákveða.  „Ég er ekki búinn að niðursetja það fyrir mér hvernig best er að standa að þessu“.  B.  Slá af verði vöru.  „Ætli við verðum ekki að niðursetja verðið á þessum beygluðu dósum“?

Niðursetning (n, kvk)  Það að leggja kartöflur í jörð til að fá nýja uppskeru.  „Ég er með hálfgerðan bakverk eftir bogrið við niðursetninguna“.

Niðursetningur (n, kk)  Sá sem lenti í þeirri aðstöðu á fyrri tíð að vera ráðstafað á bæ af yfirvöldum.  Heimahreppur var skyldugur að sjá þeim fyrir vist og nauðþurftum sem lentu á vonarvöl (bjargarleysi/allsleysi) t.d. vegna upplausnar á heimili; fráfalls fyrirvinnu; foreldramissis; sjúkdóma eða annars.  Þeim var komið fyrir á bæ sem taldist geta haldið þeim á lífi og húsbændum greidd lítilsháttar meðgjöf.  Vist niðursetninganna var yfirleitt verri en annarra heimilismanna, einkanlega þegar fátækt og kúgun var almenn.  Húsbændur muldu ekki alltaf undir niðursetninga:  „... Naut hann þess að níða og slá / niðursetningana“ (GÖ; Hlekkir hugarfarsins). Sjá ómagi og manneldi.

Niðurskorinn / Niðursneiddur (l)  Búið að skera/sneiða niður.  „Fiskurinn er niðursneiddur og kominn í pott“.

Niðurskrifað (l)  Ritað/skrifað niður; skrifað á blað eða annað.  „Ég á þessa vísu einhversstaðar niðurskrifaða“.

Niðurskurður (n, kk)  A.  Það að skera/sneiða eitthvað niður eða stytta/minnka.  B.  Slátrun búfjár í stórum stíl, t.d. vegna alvarlegra sjúkdóma eða búskaparloka.  Niðurskurður hefur valdið mörgum bændum búsifjum í gegnum tíðina, en reynst nauðsynlegur til viðhalds stofninum.  C.  Mikið aðhald í peningamálum/fjárframlögum.  Títt deiluefni á Alþingi við fjárlagagerð.  D.  Frákast hákarls/hákarlsúrgangs á hákarlamiðum.  Var illa séð af mörgum á tímum hákarlaveiða, þar sem lifandi hákarl lagðist þá í át hræjanna og leit ekki við beitu á meðan.

Niðursláttur (á sjóarfalli) (n, kk)  Hægir á sjávarfalli fyrir fallaskipti.  „Heldurðu að það væri ekki rétt að við skryppum suður á Víkina um niðursláttinn? “  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  „Þar erum við um niðursláttinn á norðurfalli; liggjandann og upptöku á norðurfalli“  (IG, Niðjatal HM/GG).  „Var nú haldið þangað; allt suður á Bæi, en það er mið sem er um það bil fram af Hnífaflögu.  Var ætlunin að taka þar niðursláttinn á suðurfalli“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Niðurslútandi (l)  Sem slútir/vísar niður.  „Við leituðum skjóls undir niðurslútandi klettanefi efst á höfðanum, á meðan skúrin gekk yfir“.

Niðursokkinn (l)  Búinn að gleyma sér í verki/lestri.  „Ég var svo niðursokkinn í lestur að ég missti af fréttum“.

Niðurstaða (n, kvk)  A.  Málalok; úrslit máls.  B.  Niðristaða; lína úr bauju í endastein/dreka á neti.  Bæði orð; niðurstaða og niðristaða, voru notuð vestra.  „Þegar því var lokið voru niðurstöðurnar gerðar upp; belgirnir innbyrtir og róið í land. “  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Niðursuða (n, kvk)  „Niðursuða matvæla var talsvert stunduð á Láganúpi.  Mamma sauð niður nýtt kjöt í stórum glerkrukkum með þéttu loki.  Kom sér vel að grípa til þess þegar miklar annir voru á bænum, svo sem við heyskap eða aftekt.  Minnir mig að hún hafi líka soðið niður litlar kjötbollur.  Svo sauð hún niður rabbarbara, sem síðar var snæddur með þeyttum rjóma sem eftirréttur á sunnudögum.  Þótti mér það meira sælgæti en nokkur önnur niðursuðuvara.  Sulta var soðin úr rabbarbara og bláberjum.  Jafnan var vel birgt af heimagerðri niðursuðuvöru í búrinu á Láganúpi.  Töluvert var einnig keypt af verksmiðjuvöru; niðursoðinni í dósum.  Dósirnar voru ekki síður hlunnindi en innihaldið og nýttust sem ílát í margvíslegum tilgangi.  Ekki var til siðs að henda því sem nýst gæti, og enn eru geymslur nokkuð birgar af þannig nytjahlutum“  (VÖ).

Niðursuðukrukka (n, kvk)  Glerkrukka sem kjöt er soðið niður í.  Einatt með gúmmíhring til þéttingar og spennu til lokunar“.

Niðursögun (n, kvk)  Sögun efnis í búta; stytting efnis.  „Ég fyrirbýð alla niðursögun á þessum fjölum; ég þarf að nota þær í jötubönd“.

Niðurtraðkaður (n, kk)  Niðurtroðinn; marinn undir fótum.  „Kálfarnir hafa komist inn í rófugarðinn og það sem ekki er étið er alt niðurtraðkað og ónýtt“.

Niðurundan (ao)  Fyrir neðan.  „Sandhellirinn er niðurundan Stórhólnum.  Segir sagan að göng séu þar á milli“.

Niðurundir / Niðurvið / Niðrivið (ao)  Niðri hjá.  „Það hefur hvítnað niðurundir sjó í nótt“.  Ég skildi við féð niðurvið girðinguna“.  „Kvíslarnar eru niðrivið hlöðu“.

Niðurúr (ao)  Alveg niður; niður í gegn.  „Féð kom niður Flötina og hélt áfram niðurúr; það er ágætt að það snapi eitthvað í fjörunni“.  „Mér sýnist að það sé fært þarna niðurúr ganginum“.

Niflheimur (n, kk)  Úr norrænni goðafræði; Niflheimur er fimbulköld veröld norðan þess sem áður var Ginnungagap en er nú mannheimur.  Þangað kastaði Óðinn Hel við fæðingu, og þar ríkir hún yfir níu undirheimum.  Stundum notað í líkingamáli.  „Búðu þig almennilega; það er kaldara en í Niflheimi“.

Niggari (n, kk)  Gæluheiti á blökkumanni/negra.  Notað í líkingamáli; „Þvoðu nú aðeins framanúr þér skítinn; þú ert alveg eins og niggari“!

Nikka (s)  Kinka kolli.  „Hann hlustaði þögull á frásögnina og nikkaði öðru hvoru til samþykkis“.

Ninnuhræðsla (n, kvk)  Heigulsháttur gagnvart öðru fólki; minnimáttarkennd.  „Það var einhver ninnuhræðsla í honum, svo hann þorði ekki að segja hvð honum bjó í brjósti“.  Heimatilbúið orð í Kollsvík; til orðið á fyrrihluta 20. aldar.  Staðbundin notkun um allan Rauðasandshrepp. 

Nirfill (n, kk)  Sá sem er óþarflega/hneykslanlega nískur/aðhaldssamur; nískupoki.  „Óttalegur nirfill getur karlinn nú verið; að sjá eftir örfáum krónum til að styðja þetta málefni“!

Nirfilsháttur / Níska (n, kk/kvk)  Óþörf/hneykslanleg aðhaldssemi fjármuna; rótgróin höfnun eyðslu.  „Skelfingar nirfilsháttur er þetta; þér veitir ekkert af því að þynna veskið örlítið“!

Nirfilslegur (l)  Aðhaldssamur úr hófi fram; nískur.

Nissi (n, kk)  Dvergur; þjóðsagnapersóna; gæluorð um strákpolla eða skrýtinn mann.

Nit (n, kvk)  Egg lúsar.  Lúsin límir nitina, sem er 2-3mm, neðst á hár, þar sem þau klekjast út á 9-10 dögum. 

Níð (n, hk)  A.  Niðrandi ummæli/kveðskapur.  „Þetta er nú bara argasta níð“.  B.  Mikil þyngsli; erði; tyrfinn texti.  „Við ráðum lítið við þetta níð án aðstoðar“.  „Ekki gæti ég lært þetta níð þó ég ætti lífið að leysa“.

Níða (s)  Fara illa með; niðurlægja.  „... Naut hann þess að níða og slá / niðursetningana“ (GÖ; Hlekkir hugarfarsins).

Níða niður (orðtak)  A.  Um mann; baktala; tala illa um; úthúða.  B.  Um hlut; fara illa með; vanhirða; skemma.

Níða niður af skóinn af (einhverjum) (orðtak)  Fara illa með einhvern með því aðbeita hann rangindum/illu umtali.  „Ég tek ekki þátt í að níða niður skóinn af honum með þessum hætti“.

Níðangurslega (ao)  Bölvanlega; þrælslega.  „Spurningarnar voru níðangurslega erfiðar“.

Níðangurslegur (l)  Mjög erfiður/mótdrægur/bölvaður; þrælslegur.  „Það var bara níðangurslegur andskoti að ná netunum upp; svona kökkuðum af skít“.

Níðast á góðvild (orðtak)  Notfæra sér velvilja annarra úr hófi fram; ganga á greiðasemi.  „Þitt góða boð er freistandi, en ekki vil ég níðast á góðvild þinni“.

Níðhastur (l)  Um hest eða annað farartæki; harður að sitja á/í; ekki mjúkur. 

Níðingsháttur (n, kk)  Níðingslegt framferði; óþverraháttur; óþokkabragð.  „Ég kann ekki að meta sona níðingshátt“!

Níðingsverk (n, hk)  Glæpur; óþverraháttur.  „Það er níðingsverk að hjálpa ekki þeim sem ósjálfbjarga eru“.

Níðingslega (ao)  Eins og níðingur; með níðingslegum hætti.  „Mér fannst níðingslega að honum vegið“.  „Þetta er níðingslega þungt“.

Níðingslegur (l)  Ótuktarlegur; vondur.  „Mér finnst hann ári níðingslegur við konugreyið; að ætla henni að sjá um búverkin hjálparlaus meðan hann er í ferðalaginu“.

Níðingsskapur (n, kk)  Ótuktarháttur; mannvonska; illska.  „Svona níðingssakap get ég ekki sætt mig við“!

Níðingsverk (n, hk)  Fólskuverk; níð; mjög slæm meðferð.  „Það er auðvitað algert níðingsverk að opna ekki vegi vikum saman, svo börn þurfi að ganga tugi kílómetra til skóla“!

Níðingur (n, kk)  Þrjótur; ótukt; sá sem fer mjög illa með menn/skepnur/land.  „Það eru auðvitað ekki annað en níðingar sem umbylta fornum bæjarhólum með stórvirkum vinnuvélaum“!

Níðlatur (l)  Mjög latur/framtakslaus.  „Hann er svo níðlatur að hann nennir varla að draga andann“!

Níðskrif (n, hk, fto)  Ritað mál sem inniheldur meiðandi fullyrðingar/ níð. 

Níðskældinn / Níðkvæðinn (l)  Sem yrkir níðkvæði/níðvísur.  „Nokkuð finnst mér hann níðskældinn, en að öðru leyti er þetta bara nokkuð áheyrilegt“. „Hann gat verið háðskur í sínum kveðskap, en þó aldrei níðskældinn“.

Níðsterkur (l) Um hlut/efni; mjög sterkur/endingargóður/þolinn; úr mjög góðu efni.  „Þetta tóg er níðsterkt, þó það sé svona lauflétt.  En það mætti vera stamara til að það sé gott lásband“.

Níðstöng (n, kvk)  Galdratæki til að vinna þeim mein úr fjarlægð sem manni er illa við.  Sú trú er komin aftan úr grárri forneskju að unnt sé að hafa áhrif á aðra úr fjarlægð með ýmiskonar kukli, og eru særingar, galdrastafir og níðstangir hluti slíks búnaðar.  Var þetta við líði framundir rauntrúarhyggju 20. aldar.  Ekki er vitað til þess að níðstöng hafi verið reist í Kollsvík, en fólk þekkti til hennar.  Elsta lýsing níðstangar er í Egils sögu Skallagrímssonar, er hann reisti stöng gegn Eiríki konungi blóðöx.  Á stönginni hafði hann hrosshöfuð, en síðar tíðkaðist einkum upprifið lönguhöfuð og steinbítshaus.  Síðast er vitað af notkun níðstangar árið 2006 er bóndi í Otradal reisti stöng gegn manni á Bíldudal sem hann taldi sig eiga sökótt við“.  Sjá vindgapi.

Níðvísa / Níðkvæði (n, kvk/hk)  Vísa/kvæði með meiðandi ummælum í garð manns; vísa ort til ófrægingar manni.  „Hann var ágætt skáld en orti lítið, og þá helst níðvísur ef hann taldi að með þyrfti“.

Níðyrði (n, hk)  Niðrandi ummæli; formælingar; skítur í orðum.  „Aldrei vissu menn til að honum félli níðyrði af munni í garð nokkurs manns“.

Níðþrengsli (n, hk, fto)  Mjög mikil þrengsli; örtröð.  „Það voru slík níðþrengsli þarna í salnum að maður varð dauðfeginn að komast út“!  „Það er erfitt að athafna sig í þessum níðþrengslum“.

Níðþröngur (l)  Mjög/óþægilega þröngur.  „Þessi skyrta er ljóta andskotans ólánið; hólkvíð utanum mann, en svo níðþröngar ermar að þær standa manni á beini“!

Níðþungur (l)  Klettþungur; mjög þungur; erði.  „Bókakassinn er orðin níðþungur“.

Nílhestur (n, kk)  Flóðhestur. „Þessi byssugerð var notuð til að skjóta ... nílhesta o.fl. “ (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Nískupúki (n, kk)  Nánös; nirfill; smásál.  „Vertu nú ekkiþessi nískupúki drengur; bjóddu hinum með þér“!

Nískur (l)  Sínkur; helst til aðhaldssamur; nánös.  „Ég er nískur á saltið; það er farið að sneyðast dálítið um það“.  Mjótt bil milli augna þótti fyrrum vísbending um að maður væri nískur. 

Nísta/skera í gegnum merg og bein (orðtak)  Um kulda/óhljóð; mjög óþægilegt; finnst í öllum skrokknum.  „Góði búðu þig nú almennilega; þessi næðingur nístir í gegnum merg og mein“! 

Nístandi (l)  Bitur; stingandi; tilfinnanlegur.  „Áransári getur frostið orðið nístandi í svona golu“.

Nístingsgaddur / Nístingsfrost / Nístingskuldi / Nístingsnepja / Nístingssveljandi (n, hk)  Mjög mikið frost; firnakuldi.  „Hann hefur hlaupið í nístingsgadd í nótt“.  „Mikið er notalegt að komast inn úr þessum nístingssveljanda“.

Nístingskaldur (l)  Mjög kaldur; meira en hrollkaldur og töluvert meira en napur.

Nístingur (n, kk)  Mjög kaldur vindur; allnokkur kaldi og verulegt frost. „Það er bölvaður nístingur bara“!

Njarðarvöttur (n, kk)  Algengur svampur við strendur, m.a. undan Kollsvík.  Þar rekur hann iðulega á fjörur.  Njarðarvöttur er hvítleitur og útlitið er sérkennilegt; framúr fremur þunnum bol standa nokkurskonar fingur.  Að útliti og stærð minnir svampurinn því oft á afskorna mannshönd eða hvítan vettling.  Njarðarvöttur var mikið notaður til þvotta áðurfyrr, meðan aðra svampa var ekki að fá, og er ágætur til þeirra hluta.  Hann var svo hugstæður biblíuþýðendum fyrrum að mörgum er minnisstæður sá hluti píslarsögunnar er rómverskur hermaður vætti njarðarvött í ediki til að væta varir Krists á krossinum.

Njálgur (n, kk)  Enteroribius vermiculris.  Lítill ormur sem er algengasta sníkjudýrið í meltingarvegi manna.  Algengastur er hann hjá börnum, og er mjög smitandi. 

Njóla (n, kvk)  Nótt.  Sjaldan notað nema í kveðskap.  „Njóla hnuggin fetar frá,/ flýja skuggar voga./  Skúta ruggar ósi á,/ austurgluggar loga“  (JR; Rósarímur).  

Njóli (n, kk) A.  Rumex longifolix; heimulanjóli; himinnjóli.  Planta sem vex gjarnan í kringum bæi og á öskuhaugum; getur orðið gróskumikil og stórvaxin; talin illgresi en einnig lækningajurt.  B.  Fræberandi stöngull af annarri jurt, s.s. rófu, kartöflu, rabbarbara eða hvönn.  C.  Gæluheiti á vindli.  „Hann púaði vindil í öðru munnvikinu; risastóran njóla“.

Njósn (n, kvk)  Vitneskja; pati.  „Einhverja njósn hafði hún fengið af ferðum mínum, því á vegamótunum stóð hún og spurði hvort hún fengi ekki far“.

Njóta (s)  Hafa gott af; vera aðnjótandi.  „Júlli naut mikillar virðingar meðal sveitunga sinna…“  (PG; Veðmálið). 

Njóta ávaxtanna af (einhverju) (orðtak)  Njóta hagræðis/arðs af því sem unnið hefur verið eða búið hefur verið í haginn.  „Honum auðnaðist þó aldrei að njóta sjálfur ávaxtanna af sínu starfi“.

Njóta sannmælis (orðtak)  Fá sanngjarna umfjöllun/ sanngjarnt umtal.  „Ekki er smíðin vönduð, en hann verður þó að njóta sannmælis fyrir framtakssemina“.

Njóta sín (orðtak)  Sýna/geta sitt besta.  „Hann er ekki mjög lipur, en ómissandi þar sem kraftar hans fá að njóta sín“.  „Mér finnst þessi mynd ekki njóta sín þarna í horninu; hún þyrfti að vera á miðjum vegg“.

Njóta skal byrjar þá býðst (orðatiltæki)   Best er að grípa tækifærið þegar það gefst.  

Njóta við (orðtak)  Vera til staðar.  „Við verðum að nýta þurrkinn vel meðan hans nýtur við“.

Njörva (s)  Binda/festa mjög þétt; súrra.  „Ég njörvaði battinginn við stíuna svo hrútfjandinn spændi þetta ekki í sundur fyrirhafnarlaust“.

Njörva niður (orðtak)  Binda niður; fergja; festa.  „Spilið stóð á tveimur þóftum bátsins og var njörvað fast við þær“  (KJK; Kollsvíkurver).

Nokk (ao)  Nokkurnvegin; dálítið.  „Mér er nokk sama hvað verður“.  Hann er nokk drjúgur með sig“.

Nokk sama (orðtak)  Gildir einu; skiptir ekki máli.  „Honum var nokk sama um þessar spýtur“.

Nokkrusinni / Nokkurntíma (ao)  Ekki í neinn tíma; í engan tíma.  „Ég hafði aldrei nokkrusinni heyrt á þetta minnst“.  „Hefurðu nokkurntíma prófað þetta“?

Nokkuð ber til hverrar sögu (orðatiltæki)  Einhver tildrög eru að hverri sögu; hver atburðarás/saga hefur sinn aðdraganda og sínar skýringar.

Nokkur (l)  Allmikill; verulegur; töluverður.  „Það er enn nokkuð mikið frost“.  „Þetta kostaði nokkur hundruð þúsund“.  „Þetta fannst mér nokkuð skrýtið“.  „Hún hefur nokkuð til síns máls“.  „Þú segir nokkuð“!  „Þegar leitarmenn af Bjarginu höfðu skilað sér til réttar og búið var að reka inn safnið sem þeir komu með, varð gjarnan nokkurt hlé á annríkinu“  (PG; Veðmálið).   „Með í för voru tveir nemendur úr Arnarfirði, sem þekktu sig nokkuð á heiðinni“  (ÖG; Glefsur og minningabrot; heimferð frá Núpi). 

Nokkur (skapaður) hlutur / Nokkurhlutur (orðak)  Áhersluliður í neitunarsetningum.  „Ég vissi ekki nokkurn hlut hver það var...“  (TÖ; viðtal á Ísmús 1978).  Til aukinnar áherslu var oft bætt við „skapaður“.  „Ég var ekki nokkurn skapaðan hlut að stríða honum“.  „Ég veit ekki nokkurn skapaðan hlut um þetta“.  Orðin „nokkur hlutur“ voru iðulega borin fram sem eitt orð væri; jafnvel oft svo að stöfum væri sleppt: „Þadna var ekki nokkunlut að sjá“.

Nokkur möguleiki / Nokkur sjónarvegur / Nokkur tilsjón (orðtök)  Einhverjar líkur. Eingöngu notað í spurnar- og neitunarsetningum.  „Það var ekki nokkur möguleiki að ná þessum villingum í hús“!  „Heldurðu að það sé nokkur sjónarvegur að þið klárið þetta í dag“?  „Það er ekki nokkur tilsjón að róa í dag“!  Sömu heiti eru einnig notuð með fororðunum „ekki“ og „einhver“.

Nokkur ögn (orðtak)  Áhersluliður í neitunarsetningum.  „Ég veit ekki nokkra ögn um það“  Stundum stytt í „ögn“.  „Skammi sú ögnin að ég veit“.  Eða: „Ég veit öngva ögn um það“.

Nokkurhundruð (n, hk, fto)  Nokkur hundruð.  Iðulega framborið í einu orði og á því að ritast sem slíkt.  „Í þessum rekstri var allmargt; líklega nokkurhundruð fjár“.

Nokkurnveginn / Nokkurnvegininn (ao)  Um það bil; hér um bil.  „Við vorum nokkurnveginn á miðinu“.  Oftar framborið án þess að v heyrðist; „nokkurneginn“.  Einnig áttu sumir til að skjóta inn hikatkvæði; „nokkurnvegininn“.  „Ég held að mér sé nokkurnvegininn að takast þetta“.  „Nokkurnvegin beint uppaf þeim stað sem togarinn strandaði…“  (HÖ; Fjaran).  

Nokkurskonar / Nokkursslags (l)  Einhverskonar; einskonar.  „Við bjuggum okkur til nokkurskonar sleða eða snjóþotu úr gamalli járnplötu“.

Nokkurstaðar (ao)  Einhversstaðar; neinsstaðar.  „Sérðu nokkurstaðar gleraugun mín“?  „Nei, ég get ekki fundið þau nokkurstaðar í mínu herbergi“.

Nordan (ao)  Norðan; norðanátt.  Vestfirskur framburður (sjá áttir).  Þennan þátt íslensks máls vantar í orðabækur, og er það til vansa.  Notað sem forskeyti við ýmis orð; oftast um vindstyrk.

Norðanaftök /  Norðanstórbrim / Norðanstórsjór (n, hk, kk)  Aftaka norðanbrim; mjög grófur norðansjór.  „Skyldi hann ekkert ætla að fara að lina þessi norðanaftök“?  „Enn er hann ekkert að gefa eftir með þennan norðanstórsjó.  Það er ekki mikið fyrir féð að hafa í fjöru þessa dagana“.

Norðanáhlaup / Norðanbylur / Norðanhríð (n, hk)  Skyndilegur norðangarður: norðanhvassviðri, oft með hríðarbyl.

Norðanátt / Norðanbál / Norðanbelgingur / Norðanblástur / Nordangardur / Norðangarri / Noraðangjóla / Norðangjóstur / Norðanhvassviðri / Norðankaldi / Norðankalsi / Norðankæla / Norðannæðingur / Norðanofsi / Norðanrok / Norðansperra / Norðansperringur / Norðansteytingur / Norðanstormur / Norðanstórviðri / Norðanstrekkingur / Norðansvarri / Norðansveljandi / Norðanvindur / Norðanþræsingur.  Norðanáttin er e.t.v. mesti áhrifavaldurinn í Kollsvík, a.m.k. varðandi búskap og útgerð á fyrri tíð.  Henni fylgdu mestu kuldarnir; mesta brimið og mesta sandfokið, en einnig gat hún verið besti hugsanlegi þurrkurinn.  Mikilvægt var að átta sig á fyrirboðum norðanáttar.  Þar var öruggasta merkið bakkinn til hafsins.  „Þegar mökkur var á Blakknesi og Kóp var von á norðanátt..“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).  „Tíðast var það norðanáttin sem hamlaði sjósókn.  Norðanstormur gat oft blásið linnulaust dögum saman; jafnvel heila viku.  Ýmsir töldu að norðanáttin varaði lengur ef hún byrjaði á vissum dögum; t.d. á þriðjudag eða föstudag“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Hann er að leggja upp árans norðansperru“

Norðanbakki (n, kk)  Dökkur skýjabakki til hafsins í norðurátt er óbrigðult merki um að norðanátt sé annaðhvort í aðsigi eða viðvarandi í Kollsvík.  Oftast var þetta þó aðeins nefnt „bakki“ eða „bakki til hafsins“.  Þegar bakkin verður óljósari eða hverfur er norðanátt á undanhaldi fyrir öðrum áttum og boðar jafnvel óþurrk.  Þá er sagt að hann sé „eyddur til hafsins“.

Norðanbál / Norðanbálviðri / Norðanbruni / Norðanhörkur (n, hk/kk/kvk)  Mjög hvöss norðanátt, en henni fylgja gjarnan frosthörkur að vetri.  „Féð hefur ekkert að gera út í þetta norðanbál og hörkufrost“.

Norðanbára (n, kvk)  Ylgja/alda af norðri.  „Enn eru eftir nokkrar leifar norðanbárunnar, einkum þar sem eða meðan straumur liggur með bárunni“  (KJK; Kollsvíkurver).

Norðanbrim / Norðanbræla (n, hk)  Stórsjór af norðri.  Hvítnar þá verulega á grynningum sunnantil í víkinni, en minna undir Blakk.  Í vestanbrimi brýtur hinsvegar verulega undir Blakk.

Norðanbæir (n, kk, fto)  Bæirnir norðantil í Kollsvík; Kollsvíkurbærinn; Stekkjarmelur; Tröð og aðrir sem í byggð eru á hverjum tíma.  „Bæir sunnantil í víkinni hétu handanbæir en hinir norðantil voru norðanbæir“  (SG; Áttamálfar; Þjhd.Þjms). 

Norðaneftir (ao)  Að norðan og yfireftir/suðureftir.  „Mér sýnist hann vera að koma norðaneftir Rifinu“.

Norðanflæsa (n, kvk)  Norðangjóstur sem nýtist til heyþurrkunar; þurrkflæsa.

Norðanfrá (ao)  Að norðan; frá norðri.  „Komstu gangandi norðanfrá“?

Norðangarður / Norðanrosi (n, kk)  Langvarandi og stíf norðanátt með sverum norðansjó og oft töluverðu sandfoki.   Norðanáttin gat orðið hvimleið í Kollsvík.  Henni fylgdi yfirleitt kuldi, ógæftir, sandfok og önnur óáran.  „Ýmsir töldu að norðanáttin varaði lengur ef hún byrjaði á vissum dögum, t.d. á þriðjudag eða föstudag“  (KJK; Kollsvíkurver).  „...útsunnan er suðvestan og norðangarður er vitanlega hvöss norðanátt“  (SG; Áttamálfar; Þjhd.Þjms). 

Norðangarri / Norðangassi (n, kk)  Norðangarður; norðanáhlaup; hvöss norðanátt.  „Hann er kominn með bölvaðan norðangassa“.

Norðangeljandi / Norðansveljandi / Norðannæðingur (n, kk)  Allhvass norðanvindur; norðankaldi. „Það er enn sami norðangeljandinn“.  „Ansi er hann kaldur í þessum norðansveljanda“!

Norðangustur / Norðankaldi (n, kk)  Allnokkur vindur af norðri; þó ekki hvassviðri. 

Norðangutlandi (n, kk)  Nokkur norðansjór, ekki þó rosi/garður.  „Það var kominn leiðinda norðangutlandi þegar við drógum strengina við Kofuhleinarnar“.

Norðanhallt (ao)  Þar sem hallar norðuraf.  „Gáðu vel þarna norðanhallt á Blakknum; í Kjammanum“.  „Bragi tekur stefnuna norðanhallt við klettabeltið...“ (MG; Úr Vesturbyggðum Barðastrandasýslu).

Norðanhroði (n, kk)  Gróft brim af norðri.  „Hann ætlar enn að halda þessum norðanhroða“.

Norðankast (n, hk)  Norðanátt yfir nokkurn tíma.  „Hann gerði leiðinda norðankast í nokkra daga“.

Norðankæla (n, kvk)  Fremur hæg norðanátt; þurrkur.  „Hann er að leggja upp dálitla norðankælu“.

Norðanlegur (l)  Um veðurútlit; lítur út fyrir norðanátt; merki um norðanátt.  „Veður var gott; austankaldi, dálítið frost og sjólaust, en norðanlegur til hafsins„  (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Norðanrembingur / Norðanspæna / Norðanstrambi / Norðansvarri / Norðansveljandi / Norðansvæla / Norðanveður (n, kk)  Norðanstormur; stífur norðanvindur. Norðanátt verður hvað köldust og hvössust í Kollsvík, og líklegust til að spilla gæftum á sjó.  „Ekki slær hann neitt enn á þennan norðansvarra“.  „Það var mjög tregt, og illt í sjóinn.  Það lagði á norðanspænu með hálfgerðum brimhroða“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Norðanrenningur (n, kk)  Skafrenningur af norðanátt.

Norðansjór /Norðanbrim/Norðankvika/Norðanruddi / Norðansúgur (n, kk)  Mesta brim í Kollsvík verður af norðansjó, þó einnig geti hann orðið sver af vestri.  „Norðansjór var krappari og óðari og þegar ofan á honum var lifandi kvika þá var norðanveður skammt undan“  (LK; Ísl.sjávarhættir III).  „Aðeins fór að bera á norðansjó þegar suðurfallinu tók; þótti öllum það ills viti“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík). 

Norðanspá (n, kvk)  Veðurspá um eindregna norðanátt.  „Ekki veit ég hvort þessi norðanspá gengur eftir“.

Norðansperringur (n, kk)  Hvass/stífur vindur af norðri.  „Enn heldur hann sama norðansperringnum og í gær“.

Norðanstrengur (n, kk)  Norðanrok sem sýnilega er hvassast á mjóu og löngu svæði.  „Stundum má sjá norðanstrenginn liggja eins og strekktan trefil frá Trumbum og suðuryfir.  Hann þeytir þá særoki úr brimföldum suður alla Bótina og spænir síðan sandinn í háaloft þegar kemur upp á Rifið:  Leggur síðan þennan vegg langt uppeftir Leirum og Litlufit, og jafnvel má sjá móstuna suðuryfir Hjalla þegar mest er“.

Norðanstroka (n, kvk)  Sterk vindhviða af norðan; norðanstrengur.

Norðantil (ao)  Norðarlega í; að norðanverðu.  „Er þetta ekki kind þarna norðantil í Höfðunum“?

Norðantilvið (fs)  Fyrir norðan; norðanvið.  „Það var rekið boldangsmikið tré norðantilvið Gatklettinn“.

Norðanundir (ao)  Undir og norðanvið.  „Það liggur eitthvað af timbri norðanundir fjárhúsveggnum“.

Norðanverður (l)  Norðantil; vísandi í norður.  „Norðanvert við hlöðuna á Melnum var sett upp útijata“.  „Jafnframt smöluðu Kollsvíkingar Breiðavíkurháls og norðanverða Breiðuvík á leið sinni til réttar“  (PG; Veðmálið). 

Norðanvið (ao)  Fyrir norðan.  „Á vorin var sett upp jata norðanvið Melsfjárhúsin til að hára lambfénu úti“.

Norðanvindur (n, kk)  Vindur af norðanátt.

Norðanyfir (ao)  Að norðan og yfir.  „Mér sýnist þau séu að koma gangandi norðanyfir Melarandir“.

Norðari / Norðasti (l, est)  Meira/mest í norður.  Málvenja var í Kollsvík að tala þannig í efsta stigi (ekki „nyrstur“).  „Settu svo tvílemburnar inn í norðasta karminn“.  Einnig; „Kollsvík er norðari bærinn í Víkinni“ (ekki „nyrðri“).  „Norðariklettar eru í Kollsvíkurveri“.  Þetta var þó ekki alveg einhlítt.  „Það sama haust og þessi hleðsla var gerð voru fjárhúsin hér á Láganúpi kláruð; þ.e. 2 þau norðari“  (ÖG; glefsur og minningabrot). 

Norðarlega (ao)  Norðantil; nærri norðast.  „Höfðar eru norðarlega í Blakknum“.

Norðaustan (ao)  Um vindátt.  A.  Vindur af norðaustri.  B.  „ Landnyrðingur (sunnanátt); útsynningur (suðvestanátt); hafnyrðingur (norðanátt); austnorðan (þegar áttin gengur frá austri til norðurs); og norðaustan (þegar áttin gengur frá norði til austurs)“  (LK;  Ísl. sjávarhættir III; heimildir; ÓETh; DE og ÓM). 

Norðlægur (l)  Af norðri.  „Hann hefur legið í norðlægum áttum það sem af er mánuðinum“.

Norður (ao/l)  Norðurátt.  Fyrri framburður; „nordur“.  Vestra var stigbeygingin þannig norður-norðari, norðastur (ekki norður-nyrðri-nyrstur).

Norður á bóginn (orðtak)  Til norðurs; í norðurátt.  „Ég held að við ættum að sigla aðeins norður á bóginn; kannski er hann líflegri norður á Hyrnunum“.

Norður og niður (orðtak)  Til helvítis.  Orðtakið vísar í þjóðsögu um mann sem lenti í villum og gekk norður og niður langalengi.  Þar sá hann óvætt mikinn sem steikti nokkurskonar flugur við heljarmikið bál; voru þó flugurnar með einhverju lífi.  Hrærði hann í öllusaman með ógnvænlegum gogg eða krók.  Hjá einni flugunni frétti aðkomumaður að þarna væri satan sjálfur að refsa fordæmdum sálum, og loginn væri Víti.  Honum lánaðist við illan leik að komast burt, en eftir það hafa menn óskað þeim norður og niður sem þeim er í nöp við.  Líklega er þó hér fremur um að ræða gæluorð þeirra sem af pempíuskap vilja ekki nefna Helvíti.

Norðuraf (ao)  Norður og yfir; handanvið til norðurs.  „Fjárhópurinn er horfinn norðuraf Blakknum núna“.

Norðurá / Norðurávið (ao)  Norður á við; til norðurs; í norðurátt.  „Þeir tóku því bóg norðurá; eins nærri vindi og unnt var„Þeir tóku því bóg norðurá, eins nærri vindi og unnt var“   (ÁE; Ljós við Látraröst). 

Norðurátt (n, kvk)  Höfuðáttin norður.  „Norðurátt, séð frá Láganúpi, er ljóst fyrir Blakkinn“.

Norðureftir (ao)  Í áttina norður; að sunnan/handan.  „Hann er norður í Kollsvík; ég skrepp norðureftir að sækja hann“.

Norðurfall (n, hk)  Sjávarfall til norðurs.  „Á Kollsvík gætir sjávarfalla í tvær áttir; þar er ýmist norðurfall eða suðurfall, og er norðurfallið mun sterkara.  Einnig munar miklu á styrk hvort stórstreymt er eða smástreymt.  Þá er sjólag breytilegt eftir samspili vinds; ríkjandi báruáttar og vindátt.  T.d. er Blakknesröstin mjög úfin og hættuleg smábátum ef stórstraumsnorðurfall liggur undir stífa norðanátt, og þeim mun verri ef ríkjandi er sver norðansjór.  Hraði fallastrauma hefur ekki enn verið vísindalega mældur á þessum slóðum, en líklega fer hann yfir ½ m/sek í Blakknesröstinni í stórstraumsnorðurfalli“ (VÖ).  „Byrjað var að draga línuna á ný strax við straumaskipti.  Nú var dregið móti norðurfalli“  (KJK; Kollsvíkurver).  „Þar erum við um niðursláttinn á norðurfalli; liggjandann og upptöku á suðurfalli“  (IG; Róðrar úr Kollsvíkurveri; Niðjatal HM/GG).  „Fór nú vindur óðum vaxandi en jafnframt var komið norðurfall á móti vindi.  Jók það báru mjög fljótt, þannig að farið var að falla af báru og sjá í hann hvítan“  (ÖG; Glefsur og minningabrot;fiskiróður). 

Norðurfallsupptaka (n, kvk)  Byrjun á norðurfalli.  „Það sýnist með öllu ófært fyrir Blakk nú.  Enda erum við hér á versta tíma norðurfallsupptakanna, en fárra kosta er völ“  (ÞJ; Brimlending í Kollsvík).  

Norðurfyrir (ao)  „Það fór gríðarstórt skemmtiferðaskip fyrir víkina áðan.  Nú er það komið norðurfyrir“.

Norðurheimskaut / Norðurhjari / Norðurpóll / Norðurskaut (n, hk/kk)  Norðari endi hins ímyndaða mönduls sem jörðin snýst um; 90. breiddarbaugur.  Punktur sem er eins langt til norðurs og hugsast getur; um 2700 km norðuraf Kollsvík.  Seinni liður orðsins „norðurhjari“ merkir hjör/löm, og vísar til mönduls jarðar.  Það er oft ranglega notað um norðurslóðir almennt.

Norðurljós (n, hk, fto)  Glóð sólvindarins þegar hann fellur eftir segullínum jarðar í átt að pólsvæðunum.  Rafhlaðnar eindir sólvindarins jóna frumeindir loftsins svo þær senda frá sér ljós; niturfrumeindir rautt og fjólublátt; súrefnisfrumeindir grænt.  Norðurljós voru áður talin geta spáð fyrir um veður.  Væru þau stillt boðuðu þau stillur og góðviðri, en væru þau mjög kvik og marglit boðaði það storm.  Bestu aðstæður til skoðunar norðurljósa eru að vetrarlagi í heiðskíru veðri; fjarri ljósmengun af jörðu niðri.  Óvíða verða þær aðstæður betri að jafnaði en á sunnanverðum Vestfjörðum, t.d. í Kollsvík og nágrenni.
Þjóðtrúin segir að ef ólétt kona horfir á norðurljós muni barnið tina.  ( JÁ; Þjs). 

Norðurloft (n, hk)  Himininn í norðurátt.  „Hann er orðinn skafinn í norðurloftið“!

Norðurmeð (ao)  Norður og meðfram.  „Við rákum féð norðurmeð sjó“.

Norðurrek (n, kvk)  Rek báts eða annars með norðurfalli.  „Ég fer dálítið suðurfyrir miðið; það er komið eitthvað norðurrek“.  Sjá suðurrek.

Norðurum (ao)  Norðuryfir.  „  Ætlar þú að hjálpa mér með reksturinn af Breiðavíkurrétt norðurum“?

Norðurundir (ao)  Undir því sem er í norðurátt.  „Það er ári mikið tré rekið norðurundir Hryggjum“.  „Við rerum norður á Bætur, svokallaðar.  Það var norðurundir Blakknesinu; grunnt nokkuð, og þar var tekið til að skaka“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri).

Norðurundan (ao)  Í norðurátt.  „Það er að sjá töluvert af borgarís hér norðurundan“.

Norðurvíkur (n, kvk, fto)  Heiti sem Árni Magnússon notar yfir Útvíkurnar, þ.e. Látravík; Breiðavík og Kollsvík.  Ekki er vitað um aðrar heimildir fyrir því nafni.  (Jarðabók ÁM/PV). 

Norðuryfir (ao)  Yfir til norðurs; norðurum.  „Féð hljóp upp í Gjárdalsskarð og er á hraðferð norðuryfir“.  „Hann er eitthvað að létta hér norðuryfir“.

Norðvestlægur (l)  Vindur af norðvestri.  „Hann er orðinn norðvestlægur núna“.

Normal (l)  Venjulegur; eins og fólk er flest.  „Ferðu inn á skónum krakki? Þú ert nú bara ekki normal“!

Nornahár (n, hk)  Fíngerðar langar glernálar úr bergi, sem myndast þegar gasrík kvika kemur uppúr gosopi við eldgos; likar ull að útliti.  Mikið féll t.d. af nornahári á gossvæðum í Skaftáreldum.  Á erlendum málum er myndunin kennd við hár eldfjallagyðjunnar Pele á Hawai-eyjum.

Norp (n, hk)  Hím/hangs í kulda.  „Það er óþarfi að vera að þessu norpi lengur; féð kemur sér bara heim þegar fellur meira að“.

Norpa (s)  Vera kalt; þreyja kulda.  „Farðu frekar inn í hús en að vera norpandi úti svona illa klæddur“.

Norræna (n, kvk)  A.  Norðan vindátt.  „Þegar norrænur ganga og skýjabakkar sjást í austri og vestri, merkir þráviðri.  Og svo lengi sem hvorugur skýjabakkinn eyðist og gengur hvorki upp né niður helst hinn sami mótþrói“  BH; Atli).  B.  Skandinavísk mál; forníslenska; dönsk tunga.  Um nokkur hundruð ára skeið eftir landnám var talað nokkurnvegin sama mál á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum.  „Á 14. og 15. öld breyttust mál annarra Norðurlandaþjóða mikið, en mál Íslendinga hélst lítt breytt.  Því gáfust Íslendingar að lokum upp á því að kalla mál sitt norrænu, og fóru að tala um íslensku í staðinn“ (heim: Gunnar Karlsson; Íslandssaga).

Norrænn (l)  Af Norðurlöndum; úr norðurhluta Evrópu. 

Norvegur (n, kk)  Noregur.  Var stundum ritað svo, af einstaka manni í Rauðasandshreppi.  „Eftir að jeg kom heim frá Norvegi 1910 .... hafði jeg löngun til þess að koma á fót félagi á Rauðasandi“  (ES; Ungmennafélög í Rauðasandshreppi). 

Nostra við (orðtak)  Vera smámunasamur/vandvirkur.  „Smiðurinn hefur nostrað mjög við hvert smáatriði“.

Nostrari (n, kk)  Sá sem nostrar við/ dekrar/dundar.  „Hann er einstakur nostrari í þessum efnum“.

Nostur (n, hk)  Mikil smámunasem/vandvirkni þegar unnið er að verkefni.  „Það gengur lítið að hreinsa netin með þessu nostri“.

Nostursamur (l)  Gefinn fyrir dund/nostur/gauf.  „Þú ert alltof nostursamur núna; þetta er ekki svo nákvæmt“.

Nosturþrifinn (l)  Mjög þrifinn; kattþrifinn.  „Það er ekki óværan í hennar húsum; eins nosturþrifin og hún er“.

Not (n, hk, fto)  Nytjar; gagn.  „Ég er ekki alin upp við mikil not af fugli...“  (SG; Matarhefðir; Þjhd.Þjms).  „Á Vestfjörðum urðu einnig nokkur not af hvalrekum“  (TÓ; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Nota/nýta byrinn þegar hann býðst (orðtak)  Nota/nýta tækifærið; grípa gæsina þegar hún gefst

Nota/nýta fyrsta tækifæri til (orðak)  Gera við fyrstu möguleika.  „Hún notaði fyrsta tækifæri til að svíkjast frá okkur, svo við urðum að gelta eins og hundar“  (IG; Æskuminningar). 

Nota má flest í neyð/nauðum (orðtatiltæki)  Sjá flest má nota í neyð/nauðum.

Nota til uppkveikju/reykingar (orðtök)  Um eldivið/brenni/tað o.fl.  „Haltu þessu til haga; það gæti nýst til uppkveikju í haust“

Nota/nýta tækifærið (orðtak)  Hagnýta sér aðstæður. 

Notadrjúgur (l)  Kemur að góðum notum; notast vel.  „Vasahnífurinn hefur oft reynst mér notadrjúgur“.  „Ólafur sagði síðar að allt væri notadrjúgt á Rauðasandi; jafnvel hægt að koma sandi í verð“.  (Frásögn í Niðjatali Ólafs og Halldóru frá Krók, um ullarsölu Ólafs Ólafssonar á Stökkum).

Notagildi (n, hk)  Gæði; hagkvæmni; nýtingarvirði.  „Þessi þekking getur haft töluvert notagildi“.

Notalega (ao)  Þægilega; vel.  „Þetta kemur notalega á óvart“!

Notalegheit (n, hk, fto)  A.  Þægileg/hlýtt/viðkunnanlegt umhverfi.  B.  Hlýtt viðmót; umhyggja; hlýja.  „Þau eru aldrei annað en notalegheitin við allt og alla“.

Notalegur (l)  A.  Um umhverfi/hlut; þægilegur; hlýr.  „Þetta er afskaplega notalegur koddi“.  B.  Um manneskju; viðmótsþýð; vingjarnleg; hlý.  „Hún var alltaf notaleg í okkar garð“.

Notast við (orðtak)  Nota; nýta; bjargast með; komast af með.  „Það má notast við þetta í hallæri“.  „Ég var fötulaus og varð því að notast við hjálminn fyrir eggjaílát“.

Nothæfur (l)  Nýtanlegur; sæmilegur til brúks.  „Það er á mörkunum að þessi ljár sé nothæfur lengur“.

Notkun (n, kvk)  Nýting; not; nytjar.  „Ljárinn var slitinn upp í bakka af langvarandi notkun“.

Notkunarleysi (n, hk)  Engin notkun.  „Vélin er farin að stirðna af notkunarleysi“.

Nóaflóð (n, hk)  A.  Arfsagnir ýmissa trúarbragða heims um ógnarmikið flóð á forsögulegum tíma.  Ein þessara sagna er í gamla testamenti Biblíunnar.  Þar segir af Nóa sem fékk boð frá Guði um að smíða frinamikið skip til að bjarga sér, sinni fjölkyldu og sýnishornum helstu dýrategunda heims, þar sem hann (Guð) þyrfti að útrýma syndugu mannkyni.  Nói gerði það og bjargaðist, en jörðin fór á kaf í úrhellisrigningu.  Þegar sjatna tók strandaði skipið/örkin á fjallinu Ararat.  Svipuð saga er í Gilgamesh-kviðu Súmera.  Margat kenningar hafa verið settar fram til skýringar á þessum sögnum.  Sú líklegasta þeirra er að sagan geymi minni um hin gríðarlegu flóð sem urðu þegar Miðjarðarhafið flæddi inn á láglent og fjölbýlt svæði í kjölfar ísaldar; þar sem nú er Svartahaf.  Fornleifarannsóknir síðustu ára sýna leifar byggðar djúpt undir yfirborðinu.  B.  Líkingamál um gríðarmikla rigningu eða mikið flóð.  „Rignir hann enn; þetta er meira nóaflóðið“!

Nóg (ao)  Hæfilegt; nægilegt.  „Honum þótti alveg nóg um“.  „Þetta er nóg í bili“.

Nóg að bíta og brenna (orðtak)  Nægur matur og nægt eldsneyti; allsnægtir.  „Almennt má segja að tekjuöflun hafi gengið mjög vel, svo allir hafa nóg að bíta og brenna í kuldanum nú um áramótin“  (ÞJ; Árb.Barð 1973).

Nóg boðið (orðtak)  Ofboðið; mælirinn fullur; mislíka.  „Þegar þessi síðasta móðgun bættis við, var mér alveg nóg boðið; ég mótmælti kröftuglega“.

Nóg er til (orðtatiltæki)  Nægur er forðinn; ekki er komið að þrotum.  „Fáðu þér meira kaffi; nóg er til“.

Nóg hefur sá sem/sér nægja lætur (orðtak)  Matsatriði er hvenær nægt er; hinn nægjusami þarf ekki mikið. 

Nóg komið (af svo góðu) (orðak). „Ég er búinn að sýna honum ansi mikla biðlund, en nú er nóg komið af svo góðu“.

Nóg um það (orðtak)  Ekki þarf meira að segja um það; segi ekki meira um það.  Iðulega notað í frásögn, þegar upp gæti hafist sjálfstæður millikafli, en sögumaður vill ekki lengja frásögnina eða kýs að halda dulúð.

Nógsamlega (ao)  Nægilega; nóg; til fullnustu.  „Þeta verður seint nógsamlega þakkað“.  „Það verður seint nógsamlega brýnt fyrir mönnum að fara varlega á þessum stað“.

Nógur (l)  Nægur; fullnægjandi.  „Þetta er alveg nóg fyrir mig“.

Nógur/nægur er tíminn (orðatiltæki)  Viðhaft þegar ekkert liggur á; engin þörf á flýti.

Nóló (n, kvk)  Sögn í spilinu vist.  Í þeirri sögn vinna þeir sem fæsta hafa slagi.

Nón (n, hk)  Eitt hinna gömlu eyktarmarka sólarhringsins; kl 15.00.  Við Nónvörðu var miðað nón frá Grundum.

Nónbiti (n, kk)  Málsverður sem snæddur var um nónið.  „Þegar skugginn af Nónskegginu er kominn á grasteig er farið að borða nónbitann“  (ÓS; Örnefnaskrá Lambavatns).

Nónvarða (n, kvk)  Varða sem er eyktamark.  Nónvarða er á Hjallabrúninni ofan Brunnsbrekku, og er hún eyktamark frá Grundum.

Nótað timbur (orðtak)  Unnið timbur; heflað og með falsi (nót) á öðrum jaðrinum en nefi (tappa) á hinum.  Oftast notað sem gólffjalir, þannig að tappinn fellur inn í nótina og gólfið verður meiri heild en ella. 

Nóstokkur (n, kk)  Ílát með vatni til að herða/kæla járn sem hitað hefur verið í afli. 

Nót (n, kvk)  A.  Rás/rauf í timbur eða annað efni.  Nót getur verið eingöngu til skrauts eða til að fella efni nákvæmlega saman.  Hana má t.d. gera með nóthefli.  B.  Áðurfyrr notað um net af öllu tagi en nú eingöngu um þéttriðið net til fiskveiða, t.d. hringnót, flotnót og snurvoð.  Nót er ekki gerð til að fiskurinn ánetjist heldur til að smala honum saman.  Því er hún eingöngu notuð við veiðar á fisktorfum.

Nótað (l)  Um efni/við; með rás/rauf.  „Í gólfin var notað nótað timbur, og þurfti að gæta þess að tappinn félli vel í nótina“.

Nótera (s)  Skrifa/punkta hjá sér; skrifa til minnis.  „Ég nóteraði það helsta sem sagt var á fundinum og skrifaði svo fundargerð eftirá“.

Nóthefill (n, kk)  Áhald/verkfæri til að gera nót í við.

Nótnabók / Nótnahefti (n, kvk/hk)  Bók með lögum, skrifuðum með nótum.

Nótt (n, kvk)  Tíminn milli tveggja daga.  „Í misseristalinu var nóttin talin heyra til þess dags er á undan fór, en eftir kirkjulegum reglum taldist nóttin tilheyra næsta degi á eftir“ (Þorsteinn Sæm; stjörnufræði-rímfræði).

Nótt sem nýtan dag (orðtak)  Um nætur jafnt sem daga.  „Það má segja að ég hafi hugsað um þetta nótt sem nýtan dag“.

Nuð (n, hk)  Tuð; nöldur; nudd.  „Hann var alltaf að þessu endalausa nuði, þangað til ég lét þetta eftir“.

Nuða (s)  Tuða; nöldra, sífra; nudda.  „Hættu nú að nuða svona í mér með þetta“!

Nudd (n, hk)  A.  Þéttar strokur; núningur; nugg.  B.  Nöldur; sífur; þrábeiðni.  „Skelfing er ég orðinn leiður á þessu eilífa nuddi“!

Nudda (s)  A.  Núa; nugga.  „Það er ágætt að nudda júgursmyrsli á eymslin“.  B.  Sífra; klifa á; þrábiðja.  „Vertu nú ekki að nudda um þetta lengur; ég er búinn að neita“.  C.  Bjástra.  „Ætli við verðum ekki að nudda við að hreinsa meira úr þessum netum“.  D.  Slá tún.  „Ég ætla að fara að nudda af Gamlatúninu“.  E.  Þoka; reka í rólegheitum.  „Það tekur tíma að nudda kúnum heim; þið ættuð að fara að leggja af stað að sækja þær“.

Nudda saman nefjum (orðtak)  Talast við; draga sig saman.  „Þeir eru að byrja að nudda saman nefjum um stjórnarmyndun“.  „Þau voru fairn að nudda saman nefjum á þeim tíma, en samt ekki gift ennþá“.

Nudda/núa (einhverjum) uppúr (einhverju) (orðtak)  Minna einhvern endurtekið á missögn/mistök sem hann gerði.  „Hann gerði þetta alveg óvart og í bestu trú; það ern nú alveg óþarfi að nudda honum uppúr því“!

Nufa (n, kvk)  Bóla; arða; varta.  „Mér finnst eins og það sé einhver nufa aftan á öxlinni á mér“.

Nugg (n, hk)  Núningur; nudd.  „Það þarf að gæta þess að vaðurinn skemmist ekki af nuggi þar sem hann liggur yfir hvassa brún“.

Nugga (s)  Núa; nudda.  „En neðar geta svo verið bríkur sem vaðurinn nuggast við“  (MG; Látrabjarg).

Numinn (l)  Tekinn.  Oftast í orðasamböndum; frá sér numinn.

Nunna að (orðtak)  Tala utan að; biðja/nefna óbeint; ámálga.  „Ég nunnaði að því við hann hvort ég fengi far“.  „hann hefur ekki nunnað að því einu orði“.

Nurða / Nurta (n, kvk)  Arða; ögn.  „Músin hafði étið sígaretturnar svo í pakkanum sást ekki nurða af tóbaki“.  „Það er varla nokkur nurða í fjöru núna fyrir féð“.  Bæði orðin heyrðust notuð í Kollsvík.  Orðið „nurða“ sést ekki í orðabókum, en gæti hafa orðið til þar eða annarsstaðar við samruna orðanna „nurta“ og „arða“.

Nurl (n, hk)  Sparsemi; samtíningur; aðhaldssemi.  „Með þessu nurli tókst honum að spara sér fyrir hjóli“.

Nurla (s)  Skrapa saman; sníkja.  „Mér tókst að nurla saman nægilegu fé fyrir þessari útborgun“.

Nurta (n, kvk)  Smábiti; tægja; ögn.  „Hann gaf sér góðan tíma til að tálga hverja nurtu utanaf beininu, og þegar hann hafði lokið sér af var það eins kjötlaust og skínandi og það hefði legið úti í mannsaldur“.

Nus (n, hk)  Þef; hnus.  „Hvaða nus er þetta í kúnum, út í loftið“?

Nusa (s)  Þefa.  „Féð nusar varla af þessu síðslegna heyi þegar það kemst í fjörubeit“.

(ao)  A.  Núna.  „Brá nú Gummi skjótt við og hljóp við fót heim að íbúðarhúsinu til þess að sækja kindabyssu sína; hníf, reislu og önnur nauðsynleg áhöld.  Nú var lambið skotið og skorið og síðan flegið í snatri og gert til“  (PG; Veðmálið).  lB.  Oft notað sem nnskotsorð til fyllingar á setningu, eða til áhersluauka.  „Það eru nú ekki hundrað í hættunni þó þú blotnir örlítið í rigningunni“!  „Ég veit nú ekki hvað skal segja“.  C.  Stundum notað í upphafi setningar sem hikorð, eða til að fá hljóð áður en sagt er frá.  Gjarnan þá tvítekið:  „Nú nú; áfram hélt þessi viðureign við drauginn, og mátti ekki á millisjá hvorum vegnaði betur…“

Nú! (uh)  Upphrópun sem getur gefið ýmislegt í skyn; allt eftir því í hvaða tóntegund er.  Sjá nú nú.

Nú á tíð/tímum/dögum / Nú um stundir (orðtak)  Núna; í seinni tíð; í nútímanum.  „Nú á tíð er þetta með öðrum hætti“.  „Nú um stundir er þetta alveg óþekkt“.

Nú ber nýrra við (orðatiltæki)  Upphrópun; þetta er óvanalegt; aldrei þessu vant.  „Strákarnir fóru óumbeðnir að sækja kýrnar.  Ja, nú ber nýrra við“!

Nú ber vel í veiði (orðatiltæki)  Nú er ég heppinn; þar hleypur á snærið hjá mér; nú hittist vel á.  „Nú sýnist mér að beri vel í veiði hjá okkur; þarna er stór mávahópur að koma norðuryfir Garðsendann“!

Nú dámar mér ekki!  (orðatiltæki)  Upphrópun sem lýsir undrun eða hneykslun.  Sjá dáma.

Nú detta mér allar dauðar lýs úr höfði! (orðatiltæki)  Nú er ég aldeilis hissa/hlessa!; nú dámar mér ekki!

Nú einusinni (orðtak)  Reyndar; vel að merkja.  „Honum ber að taka á svona málum; hann er nú einusinni sýslumaður í þessu héraði“!

Nú er (annaðhvor/bara) að duga eða drepast! / Nú er (annaðhvort) að hrökkva eða stökkva! / Nú er annaðhvort af eða á! (orðtak)  Upphrópanir til að auka sjálfstraust/ stappa stálinu í menn; nú þarf að framkvæma eða hætta við.  „Nú er bara að duga eða drepast; takið róðurinn drengir“!

Nú er annaðhvort að gera (orðtak)  Nú eru tveit kostir í boði; nú þarf að velja.  „Nú er annaðhvort að gera; að sækja þessar bykkjur aftur fram í dalbotn eða hóa þeim inn í Hænuvík; það er ekki nema tvennt til“.

Nú er Bleik brugðið (orðatiltæki)  Upphrópun/líking sem notuð er um það sem er nýlunda; um það að einhver hagar sér öðruvísi en vant er; nú ber nýrra við.  „Nú er Bleik brugðið, þykir mér; ef hann þiggur ekki í staup til hátíðabrigða“!  „Heldur þótti mér Bleik brugðið, þegar hann gafst svona fljótt upp við að ná kindinni“!  Ekki er ljós uppruni máltaksins, en e.t.v. er vísað til tiltekins hests í ákveðinni sögu eða sjá bleik brugðið.

Nú er heima! / Nú er lagið á! (orðatiltæki)  Nú þykir mér eitthvað vera farið útskeiðis; þetta er óeðlilegt.  Ljótt er að heyra!  „Nú er lagið á!  Kálfastóðið er allt komið í slétturnar“!  „Nú er heima!  Þetta var alveg eftir þeim“!

Nú er félegt/laglegt/térlegt/þokkalegt ástandið“! (orðatiltæki)  Upphrópun í hneykslun, stundum með neitun á eftir.  „Nú þykir mér þokkalegt ástandið, eða hitt þó heldur!  Haldiði ekki að kýrnar séu komnar í garðinn“!

Nú er lag á Læk! (orðtak)  Upphrópun um slæmt ástand.  „Nú er lag á Læk!  Kálfafjandarnir eru komnir útfyrir og eru að djöfla niður göltunum á Fitinni“!

Nú er stand á (bænum) (orðtak)  Upphrópun um slæmt ástand.  „Nú er stand á bænum; haldiði ekki að það sé gjörsamlega kaffilaust“!

Nú er vandi vel boðnu að neita (orðtak)  Viðkvæði þegar girnilegt er fram borið.  Sjá vandi er vel boðnu að neita.

Nú eru allir sótraftar á sjó dregnir (orðatiltæki)  Nú er öllu tjaldað til; nú eru allir orðnir þátttakendur.  „Er nú þessi kominn í smalamennskur? Já, nú eru allir sótraftar á sjó dregnir, þykir mér“!  Sótraftur var í þessari merkingu notað yfir lélegt skip.

Nú eru góð ráð dýr (orðtak)  Nú ber vanda að höndum; nú er úr vöndu að ráða.

Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar (orðatiltæki)  Sjá öll vötn falla til Dýrafjarðar.

Nú/þar/hér fór í verra / Nú fór verr en skyldi / Nú er það slæmt!  (orðtök)  Upphrópanir sem viðhafðar eru þegar eitthvað gengur miður eða kemur uppá.  „Nú fór í verra; sparibuxurnar flengrifnuðu á girðingunni“!

Nú kárnar gamanið (orðtak)  Nú versnar í því; ekki batnar það

Nú líst mér á! (orðtak)  Upphrópun í mikilli undrun/hneykslun/vandlætingu.  „Nú líst mér á!  Ég held að allt hundastóðið úr hreppnum sé komið í kringum þessa lóðatík“!

Nú nú (orðtak)  Upphrópun.  Stundum notuð sem hikorð eða kaflaskipti í frásögn og þá í hárri tóntegund og samfellt.  Stundum sem andsvar í undrun, og þá fyrra orðið í hærri tóntegund.  Stundum andsvar í vandlætingartóni, og þá síðara orðið mun langdregnara með niðurdregnum tóni.  Sama tóntegund sem viðbragð við einherju sem fer skyndilega öðruvísi en ætlað er.  Sjá .

Nú orðið / Núorðið (orðtak/ao)  Núna; nú til dags; nú um stundir.  „Núorðið er sjaldgæft að sjá slíkar fannir“.

Nú rýkur moldin í logninu! (orðatiltæki)  Nú er gert of mikið úr málunum að ástæðulausu; úlfaldi úr mýflugu.

Nú sem stendur (orðtak)  Um þessar mundir; núna; á þessum tíma.  „Hér er ágætt veður, nú sem stendur“.  Sjá rétt sem stendur; sem stendur.

Nú skjöplast skýrum (orðatiltæki)  Nú hefur sá gáfaði/vitri rangt fyrir sér.  „Nú skjöplast skýrum heldurbetur, þykir mér“!

Nú til dags / Nútildags (orðtak/ao)  Í dag; á þessum tímum.  „Mörg orð í þessu registri eru lítið notuð nú til dags“.

Nú um stundir (orðtak)  Nú til dags; nú á tímum; núna.  „Nú um stundir er sjaldnar gengið á reka í Kollsvík“.

Nú versnar í því (orðatiltæki)  Nú versnar ástandið; mér líst ekki á blikuna; ekki batnar það.  „Nú versnar í því; slóðinn horfinn; vaðandi fiskur og engin sakka aukalega um borð“.

Nú væri gott að hafa handbókina (orðatiltæki)  Sjá hlauptu eftir handbókinni.

Nú þykir mér moldin (vera) farin að rjúka í logninu (orðtak)  Nú þykir mér óþarflegt fjargviðri gert úr smámáli; nú þykir mér farið offari.

Nú þykir mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn (orðatiltæki)  Nú þykir mér  (einhver) sýna full mikla frekju/tilætlunarsemi; nú ofbýður mér.  „Nei nú þykir mér skörin vera farin að færast fullmikið upp í bekkinn; hann getur ekki ætlast til að við samþykkjum þetta hljóðalaust“!

Nú þykir mér týra (á tíkarskottinu)! (orðatiltæki)  Nú ber eitthvað nýrra við; nú er ég hissa.  Oft, og e.t.v. upprunalega, var upphrópunin lengri:  „Nú þykir mér týra á tíkarskottinu“!  Heyrst hefur annarsstaðar orðalagið „...týra á tíkarskarinu (eða skarinu)“ en það var ekki notað í Kollsvík.

Núa um nasir (orðtak)  Ásaka; bendla við.  „Honum verður seint núið því um nasir að vera krati“.

Núa (einhverjum) uppúr (einhverju) (orðtak)  Benda á slæmar forsendur/aðdraganda.  „Það er nú ekki endalaust hægt að núa honum uppúr því að hafa sofnað undir stýri og strandað bátnum“.

Núinn (l)  Nuddaður; máður.  „Stafirnir á baujunni voru núnir og ógreinilegir“.

Nújá / Núnú (u, ao)  Upphrópanir eða hikorð sem töluvert voru notuð í samtölum vestra.  Í þeim gat legið töluverð meining hjá sumum; allt eftir því tóntegund, þögnum og samhengi hverju sinni.

Nújæja / Nújæjaþá (u)  Upphrópanir sem venjulegast eru notuð sem andsvör.  Nújæja er annaðhvort andsvar í undrun yfir því sem sagt er eða sem eftirgjöf við beiðni; nújæjaþá er eingöngu notað í síðara tilfellinu.

Núlifandi (l)  Sem er á lífi núna; lifandi.  „Enginn núlifandi maður hefur leikið þetta eftir“.

Núll (n, hk)  A.  Tölustafurinn núll; ekkert.  B.  Dund; gauf.  „Þetta er óttalegt núll hjá honum“.

Núll og nix (orðtak)  Lítið sem ekkert.  „Ég var bara núll og nix í þessari atkvæðagreiðslu“.

Núlla (s)  Dunda; slóra.  „Alltaf er hann eitthvað að núlla kringum útgerðina þó lítið verði úr verki“.

Núllari (n, kk)  Dundari; gaufari; sá sem fer sér hægt við vinnu; er afkastalítill.  „Hann er óttalegur núllari karlgreyið, en alltaf er hann samt að“.

Númera (s)  Merkja með númeri.  „Ég númeraði baujurnar eftir lagningardegi“.

Númerabók (n, kvk)  Bók sem í er skráð númer lambs eftir að það hefur verið markað og merkt að vori.  Bókin var meðal innihalds í merkjatösku, og úr henni voru upplýsingarnar oft færðar í ærbók.

Númerastimpill (n, kk)  Járnstöng með talnamóti í annan endann; notuð til að meitla tölu á álræmu sem síðan var formuð til að nota í eyrnamerki sauðfjár.  Gerð eyrnamerkja var hluti af undirbúningi sauðburðar.  Merki voru tekin af sláturfé og notuð aftur, en alltaf urðu einhver afföll sem þurfti að bæta upp.

Núna áðan (orðtak)  Rétt áðan; fyrir mjög stuttum tíma. 

Núna fyrst (orðtak)  Fyrst nú.  „Ertu núna fyrst að vakna?  Þvílíkur dómadagssvefn er þetta“!

Núningur (n, kk)  A.  Nudd; viðnám.  „Þú skalt vera með vettlinga á vaðnum; þú getur annars brennt þig af núningnum við vaðinn þegar gefið er hratt niður“.  B.  Deilur; ósamkomulag.  „Einhver núningur hefur verið á milli þeirra“.

Núorðið / Nútildags (ao)  Núna; í seinni tíð.  „Núorðið þykir ekki tiltökumál að ferðast milli landshluta“.   „Á sjósókn þarf vart að minnast, því vart er báti hrundið úr vör til aflafanga núorðið“ (KJK; Árb.Barð; 1957-58). 

Núpsbrún (n, kvk)  Klettabrún á núp.  „Tvævetluskrattinn sperrti sig inn Eyjaskorarnúp; þræddi núpsbrúnina og setti sig á rassaköstum niður gjána; ofaní Lambahlíð“!

Núpur (n, kk)  Gnúpur; fjall með tilteknu lagi, sem gengur stakt/afmarkað fram úr hálendi, fram í sjó eða láglendi.  Núpur er allajafna með háu klettabelti ofantil með skarpri efri brún; skriðuhlíðum neðantil og oft klettabelti neðst, ef hann stendur við sjó eða vatnsfall.  Sameiginlegt svipmót núpa stafar af því að þeir eru að jafnaði mótaðir af skriðjökli sem runnið hefur meðfram þeim, ásamt því sem brim hefur sumsstaðar komið við mótunarsöguna.  Mikið er um núpa í Rauðasandshreppi.  Núpurinn í Kollsvík er sumsstaðar nefndur Sandnúpur í eldri heimildum.  Ekki er ólíklegt að hann sé nafngjafi Kollsvíkur, sé náttúrunafnakenningin tekin framyfir fullyrðingu Landnámu.  Lag hans minnir ekki síður á koll en núpana í nágrenninu.

Nykur (n, kk)  Kynjakvikindi úr þjóðsögum, sem sagt er líkjast hesti að því frátöldu að hófarnir snúa aftur og hófskegg fram.  Hann býr í vatni og kemur stundum uppúr og er á beit í nágrenninu.  Nykurinn hefur þá ónáttúru að stökkva í vatn ef maður er sestur á bak, og leitast ið að drekkja honum; einkum ef nafn hans er nefnt, en hann gengur líka undir heitinu „nennir“.  Svipuð dýr er að finna í þjóðtrú Norgegs og Orkneyja.

Nyt (n, kvk)  A.  Afnot.  „Höfðu þeir nytjar af Blakknum í nokkur ár“.  B.  Mjólkurframleiðsla úr kú eða á; nyta.  „Búkolla er í hæstri nyt þennan mánuðin“.

Nytja (s)  Nota; hafa afnot af; nýta.  „Lítið er nú nytjað af því sem áður þóttu verðmæt hlunnindi“.

Nytjafiskur (n, kk)  Fiskur sem veiddur er til nytja; til neyslu eða sölu.  Ekki gamalt orð í málinu.

Nytjagripur (n, kk)  Nothæfur hlutur; nýtilegt áhald.  „Það er varla hægt að kalla þetta nytjagrip lengur“.

Nythá (l)  Um kú; mjólkar vel/mikið; er í hárri nyt.  „Hún var nythæst þetta árið, blessunin“.

Nythæð (n, kvk)  Mjólkurlagni; afurðir kýr í formi mjólkur.  „Í sambandi við þetta má nefna nythæð kúnna, sem er hærri en nokkru sinni áður; 3000 kg að meðaltali úr kúnni í aðalskýrslu“  (ÓHE; Forðagæslubók Rauðasands 1930). 

Nytjagripur (n, kk)  Hlutur sem kemur að notum.  „Áðurfyrri varð ýmislegt að nytjagripum sem gagnslaust varð síðar.  Tíminn var hið ágætasta skeini á kamrinum og umbúðir hans nýttust sem teikni- og minnisblöð“.

Nytsamlegur (l)  Notadrjúgur; þénanlegur.  „Þetta er nytsamlegur gripur og eigulegur“.

Nytsemdarskepna (n, kvk)  Gagnlegt húsdýr.  „Dalli var frábær smalahundur og hin mesta nytsemdarskepna“. 

Ný bóla (orðtak)  Nýjung; ný tíðindi.  „Það er nú engin ný bóla þó ósætti komi upp milli þessara bæja“.

Nýafstaðinn (l)  Sem er nýgenginn um garð/ nýbúinn.  „Þetta gerðist á nýafstöðnu þorrablóti“.

Nýaftekin (l)  Um kind; nýbúið að taka af/ rýja.  „Ég sá þarna fjórar nýafteknar og tvær í reyfinu“.

Nýársdagur (n, kk)  1. janúar, að núverandi tímatali flestra þjóða.  Það viðmið má rekja aftur fyrir Krists burð; til valdatíma Rómverja.  Nýársdagur hefur alltaf verið mikill hátíðisdagur.  Gegnum aldirnar hafa þó stundum aðrir dagar markað upphaf ársins um tíma.  Katólska kirkjan á Íslandi ákvað t.d. árið 1314 að árið skyldi byrja á jóladegi.  Skyldu menn þá taldir svo margra vetra sem þeir hefðu lifað margar jólanætur.  Það viðmið hélst nokkuð lengi.

Nýársnótt var magnþrungin nótt samkvæmt þjóðtrúnni.  Þá áttu kýr að geta talað mannamál, og var talið að engum væri hollt á það að hlýða.

Nýborin (l)  Um kind/kú; nýbúin að bera.  „Ég fann tvær nýbornar norður í Langamelaskarði“.

Nýbreytni (n, kvk)  Nýjung í verklagi/aðferð/siðum.  „Hann fitjaði fyrstur upp á þessari nýbreytni“.

Nýbrýndur / Nýdengdur (l) Nýbúið að brýna/dengja.  „Gættu þín á hnífnum; hann er nýbrýndur“!

Nýbúinn (l)  Rétt lokinn við; var að klára.  „Ég var nýbúinn að skipta um peruna og hún er ónýt“!

Nýbygging (n, kvk)  Nýleg bygging; bygging sem er yngri en aðrar í nágrenninu.

Nýbýli (n, hk)  Nýtt býli; nýr sveitabær.  „Stekkjarmelur var stofnaður sem nýbýli fyrir rúmri öld“.  „Þá bjuggu foreldrar mínir á Grund, sem er smá nýbýli úr Láganúpslandi sem Samúel Eggertsson skrautritari og kennari hafði stofnað og búið á í nokkur ár“  (IG; Æskuminningar). 

Nýbæra (n, kvk)  Nýlega borin kýr.  „Það þarf að velja gott hey fyrir nýbæruna“.

Nýbærumjólk (n, kvk)  Mjólk úr nýbæru.  „Gefðu kálfinum vel af nýbærumjólkinni“.

Nýdauður (l)  Nýlega dáinn/sálaður.  „Þessi kind er ekki alveg nýdauð“.

dáinn / Nýdrepinn / Nýfenginn / Nýfermdur / Nýflattur / Nýfluttur / Nýfrystur / Nýfundinn / Nýfæddur / Nýgerður / Nýgiftur / Nýgotinn / Nýhafinn / Nýháttaður / Nýhlaðinn / Nýjarðaður / Nýkjörinn / Nýkominn / Nýlegur / Nýliðinn / Nýmalaður / Nýmjólkuð / Nýorðinn / Nýopnaður / Nýrakaður / Nýrekinn / Nýruddur / Nýrunninn / Nýrúinn / Nýsaltaður / Nýsettur / Nýskriðinn / Nýslátraður / Nýsofnaður / Nýtekinn / Nýtíndur / Nýtyrfður / Nýuppbyggður / Nýútsprunginn / Nývaknaður / Nývaskaður / Nýveiddur / Nýþrifinn / Nýþveginn  (l)  Dæmi um gegnsæ og mikið notuð lýsingarorð. 

Nýdreginn (l)  Um fisk; Nýveiddur.  „Mikið er indælt að fá nýdregna lúðu; og súpu í ofanálag“.

Nýfallinn (l)  Um snjó; nýlega snjóaður á jörð.  „Tófusporin voru auðrakin í nýföllnum snjónum“.

Nýfarinn (l)  Nýbúinn að yfirgefa staðinn.  „Hann er bara rétt nýfarinn héðan“.

Nýfenni (n, hk)  Nýfallinn snjór.  „Það eru tófuför í nýfenninu uppi á túni“.

Nýfennt (l)  Nýsnjóað; nýfallinn snjór.  „Það var nýfennt í slóðina, en hún var samt víða greinileg“.

Nýfæddur (l)  Nýkominn í heiminn.  „Viðstaddir votta enn;/ var þar á meðal Steinn,/ allir ágætismenn,/ að hinn ungi sveinn/ bað um fullorðinsföt/ frat í reifa og lín;/ heimtaði hangikjöt/ hákarl og brennivín“  (JR; Rósarímur). 

Nýgenginn (l)  Um fisk; nýlega kominn á miðin.  „Það er farið að veiðast nýgengin grásleppa úti í Flóanum“.

Nýgotungur (n, kk)  Nýfætt/nýborðið lamb eða annað dýr.  „Það er ekki von að svona nýgotungur sé alveg búinn að átta sig á tilerunni“.

Nýgræðingur (n, kk)  A. Nýsprottið og kjarngott gras.  B. Einstaklingur sem óreyndur er í starfi/verkefni.

Nýgræðingsháttur (n, kk)  Byrjendabragur; reynsluleysi.  „Skelfingar nýgræðingsháttur er nú þetta!  Sagðistu ekki hafa gert þetta áður“?

Nýhirt (l)  Um hey; nýbúið að hirða í hlöðu.  „Það þarf að hafa gát á svona vel grænu heyi nýhirtu; uppá hitnun“.

Nýir siðir fylgja nýjum herrum / Með nýjum herrum koma nýir siðir (orðatiltæki)  Auðskilið og oft notað.

Nýir vendir sópa best (orðatiltæki)  Vendir voru hrísknippi sem notuð voru til að sópa gólf.  Hrísinn slitnaði fljótt.  Líkingin er notuð um ýmislegt, t.d. um nýgræðing í starfi sem stundum er öflugri en sá sem fyrir var.

Nýjabrum (n, hk)  A.  Nýtt brum/ nýr vaxtarsproti á tré.  B.  Líkindamál um nýnæmi/ferskleika þess sem nýtt er.  Strákarnir eru spenntir yfir traktornum; að minnsta kosti meðan nýjabrumið er enn á honum“.

Nýjum herrum fylgja nýir siðir (orðatiltæki)  Nýr stjórnandi hefur oftast sínar eigin áherslur sem þeir verða varir við sem undir hann eru settir.  Það gildir jafnt um kónga sem húsbændur/húsfreyjur á heimili.

Nýjung (n, kvk)  Nýnæmi; nýr hlutur; ný aðferð/tækni.  „Gömlu mennirnir tóku þessari nýjung af mikilli varúð“.

Nýjungagjarn (l)  Áhugasamur um nýjungar; tilbúinn að hagnýta/prófa nýjungar.

Nýkaraður (l)  A. Um lamb/kálf; nýbúið að kara/ sleikja slorið af.  „Þarna var kind með tveimur nýköruðum lömbum; ómörkuðum“.  B.  Líkingamál um viðvaning.  „Ég held að menn ættu að láta það vera að þenja sig í ræðustól þingsins, svona nýkaraðir og hlandvitlausir“!

Nýkominn (l)  Nýlega kominn.  „Ég var nýkominn á fætur þegar hann hringdi“.

Nýlagað kaffi (orðtak)  Kaffi sem nýlega hefur verið lagað/uppáhellt.  „Mikið er indælt að fá nýlagað kaffi“!

Nýlenda (n, kvk)  Nýbýli.  „Rétt norðanvið Stekkjarmel var nýlenda og íbúðarhús sem Jens Sigurðsson og Henríetta Guðbjartsdóttir byggðu“  (EG; Ábúendur Kollsvík; Niðjatal HM/GG).

Nýlenduvara (n, kvk)  A.  Upphaflega merkti orðið vöru sem flutt hafði verið um langan veg frá nýlendum heimsveldanna; t.d. kaffi, te, sykur, ávextir, krydd o.fl. sem ekki fékkst í Evrópu.  B.  Enn er orðið notað um ávexti, krydd og aðra söluvöru, þó sjaldnar heyrist.  

Nýlentur (l)  Nýkominn að landi.  „Hljóp Jóna beina leið niður á Rifið til föður síns, sem þá var nýlentur“  (TÓ; Yfirlit sjóslysa í Rauðasandshreppi.  Árb.Barð. 2003). 

Nýlunda / Nýnæmi (n, kvk)  Nýtt; einstætt; fréttnæmt. „Það þótti mikil nýlunda þegar menn fyrst gátu staðið á víðavangi í Kollsvík og talað við annan í órafjarlægð í gegnum talstöð.  Nú þykir það ekki tiltökumál þó menn séu í hrókasamræðum við fólk í öðrum heimsálfum; sjálfir staddir á Landamerkjahrygg eða Haugamiðum“.

Nýmeti (n, hk)  Nýr matur, þ.e. matur sem ekki hefur verið verkaður og geymdur um tíma.  „Fyrsti rauðmaginn þótti alltaf kærkomið nýmeti snemma vors“.

Nýmjólk (n, kvk)  A.  Mjólk sem nýlega hefur verið mjólkuð.  B.  Mjólk sem ekki hefur verið meðhöndluð, t.d. ekki súrmjólk, rjómi, undanrenna eða þ.u.l.  Mjólk er í dag nefnd nýmjólk þó hún hafi verið gerilsneydd, sem þó er ákveðin vinnsla og breytir bragði hennar.

Nýmóðins (l)  Eftir nýjustu tísku/siðum/tækni.  „Ég sé nú ekki að þessir nýmóðins búskaparhættir hafi gagnast til annars en leggja sveitirnar í eyði“.

Nýmæli (n, hk, fto)  Fréttir; tíðindi.  „Mér þykja það nokkur nýmæli ef þeir ætla að leggja skólann niður“.

Nýorpinn / Nýverptur  (l)  A.  Um fugl; nýbúinn að verpa.  „Ætli múkkinn sé ekki nýorpinn núna?  B.  Um egg; nýkomin úr fuglinum.  „Alltaf er nú jafn gott að smakka nýorpin múkkaegg“.

Nýrmör / Nýrnamör (n, kk)  Mör/ fita utan af nýrum.  „Nýrmörinn er settur í mörva, ásamt netju og garnmör“.

Nýrækt (n, kvk)  Land sem nýlega hefur verið brotið til ræktunar.  „Ég girti nýræktina, og friðaði hana alveg fyrir beit fyrstu tvö árin“.

Nýsaltaður (l)  nýlega saltaður.  „Í þessari tunnu eru nýsöltuð hrogn“.

Nýsilfur (n, hk)  Málmblanda sem í eru 2 hlutar af kopar, 1 af nikkel og 1 af sinki; notuð í ýmsa nytjahluti.

Nýskeð (ao)  Stutt síðan skeði/gerðist.  „Þetta var greinilega nýskeð þegar ég kom“.  „Gerði hann síðan grein fyrir samtali sem hann nýskeð hefði átt við vegamálastjóra um hina ýmsu vegi í sveitinni“  (Gerðabók Rauðasandshr; alm.hreppsfundur 30.03.1963; ritari ÖG). 

Nýskroppinn (orðtak)  Nýfarinn í stutta ferð.  „Hann var nýskroppinn út“.

Nýskúrað (l)  Nýbúið að skúra/þvo.  „Farðu ekki inn á gólfið alveg strax; það er nýskúrað“.

Nýslátrað (l)  Sem nýbúið er að slátra.  „Sest var að borðum, og var þá stundum kjöt af nýslátruðu, en algengara var þó saltkjöt eða hangikjöt“  (GAMG; Jól bernsku minnar; Niðjatal HM/GG). 

Nýslegið (l)  Nýbúið að slá.  „Kálfarnir fúlsa varla við nýslegnu grasi“.

Nýslægja (n, kvk)  Tún/slétta/gras sem nýbúið er að slá.  „Það þyrfti að raka frá bökkunum í nýslægjunni“.

Nýstaðinn/nýstiginn upp / Nýuppstaðinn (orðtak)  Nýlega kominn á fætur/ról.  „Ég var þá nýuppstaðinn úr flensu“.

Nýstárlegt (l)  Nýjung; forvitnilegt og nýtt.  „Honum þótti borvélin æði nýstárlegt tæki, en taldi að hún gæti verið nokkuð brúkleg til síns gagns“.

Nýta / Nytja (s)  Hafa hag/not/nytjar af; notfæra sér.  „Liði kærði sig að minnsta kosti ekki um að taka lambskrokkinn með sér heim að Látrum og varð að samkomulagi að Gummi nýtti hann“  (PG; Veðmálið). 

Nýta tímann (orðtak)  Vinna; halda sig að vinnu.  „Við þurfum að nýta tímann vel til myrkurs“.

Nýtilegur (l)  Nothæfur; brúklegur.  „Það má lengi finna eitthvað nýtilegt í þessu drasli“.

Nýting (n, kvk)  Notkun brúk; hagnýting.  „Mér sýnist að nýting heyja gæti orðið með besta móti“.

Nýtinn (l)  Laginn við nýtingu; gerir mikil not úr því sem tiltækt er.  Nútímafólk kemst á fáum sviðum í hálfkvisti við fyrri tíðar fólk í nýtni og sparsemi.  Þá voru allsnægtir ekki jafn miklar; vöruframboð af öllu tagi var fjarlægt og verslunartilbeiðsla enn ekki hafin.  Ekki var nóg með að fólk væri sérfræðingar í að nýta hverja örðu af sjávarafla sínum og búfé, heldur einnig jarðargróður reka og landið sjálft.  Fatnaður var endalaust nýttur; saumaður og stagaður upp, nánast í tætlur.  Þegar vörur fóru að berast úr verslunum voru umbúðirnar gjörnýttar ekki síður en innihaldið; nánast engu var hent fyrr en það hafði verið nýtt á einhvern hátt.  Fáu hefur hrakað jafn hratt á Íslandi síðustu hundrað árin og nýtninni.

Nýtilkomið (l)  Nýlegt; nýtt af nálinni.  „Þessi breyting er svo nýtilkomin að ég vissi ekki af henni“.

Nýtni (n, kvk)  Lagni og útsjónarsemi við að nota hluti í stað þess að fleygja.  „Kollvíkingar ólust upp við að nýtni væri eitt af frumskilyrðum þess að komast af.  Ekki skal fleygja hlutum að ástæðulausu sem gætu nýst.  Það lögmál gildir jafnt um veiði og búfjárafurðir sem matarleifar, umbúðir, garðaúrgang, reka, mykju og jafnvel safnþróna undir kamrinum.  Alltaf skal hugsa áður en hent er.  Þjóðfélagsbylting síðustu áratuga og ofnotkun umbúðaþjóðfélagsins á náttúrurgæðum hafa svo orðið til þess að jafnvel hinir nýtnu Kollsvíkingar eru farnir að kasta í sorp umbúðum sem áður hefðu verið nýttar.  Dagblöðum er nú fleygt sem áður hefðu sparað skeini; mannaáburður flýtur nú til sjávar eða rotnar í rotþró, engum til gagns; mjólkurfernur fara á sorphauga sem áður voru spírunarílát; sömu örlög bíða matarleifa sem áður nýttust til að fóðra hænsni, kött, hund og hrafn; sviðakjálkum er hent sem áður urðu stólpagripir í hornabúi; klumbubeininu einnig sem áður varð að syngjandi heiðlóu eða fagurhvítum sel undir egginni á vasahnífnum afa; niðursuðudósin hverfur í sorphauga sem áður var nýtt fyrir berjaílát og blómapotta, hveitipokinn úr bréfi er nú haugamatur en áður voru léreftspokar nýttir sem skjannahvít lök eftir meðhöndlun með grænsápu, notaðir nælonsokkar fara nú fyrir lítið sem áður urðu að hringfléttuðum mottum; ljósaperum er fleygt eftir notkun en urðu áður að einstökum listaverkum sem fagurmálaðar jólakúlur á jólatré skreytt með eini og sortulyngi; hnyðjurnar fúna og sandverpast í flæðarmáli sem áður lifnuðu við sem máluð listaverk uppi á stofuvegg.  Þannig mætti lengi halda áfram að nefna dæmi um nýtni fyrri tíðar, og var þá ekki farið að minnast á þá breytingu sem orðið hefur á nýtni fisks úr sjó og slátraðs búpenings.

Nýtt af nálinni (orðtak)  Nýtt; nýlega gert.  Orðtakið vísar til nýsaumaðs fatnaðar.

Nýtt tungl (orðtak)  Tunglið þegar það virðist alveg dökkt vegna afstöðu þess til sólar og jarðar; tungl á fyrsta k kvartili.  Sjá kvartilaskipti.

Nýtur (l)  Nothæfur; sem nýtist vel; kemur að góðum notum.  „Hann reyndist mjög vel nýtur í smalamennskum; hann er svo lappalangur og fljótur að hlaupa“.

Nýtur birtu/dagsbirtu/sólar/skímu (orðtök)  Birta/sólskin er fyrir hendi.  „Okkur veitir ekki af að vinna í þessu meðan einhverrar birtu nýtur“.  „Morgunsólar nýtur betur á Láganúpi en í Kollsvík“.

Nýtur fjöru (orðtak)  Bitfjara er fyrir hendi.  Fjörubeit hefur í gegnum tíðina verið mjög mikilvæg fyrir fjárbúskap í Kollsvík.  Féð nýtur þó ekki beitarinnar alltaf; hún er ekki tiltæk vema á útfalli/fjöru; hana getur tekið af í miklu brimi, þegar sjór gengur hátt upp, og hana getur tekið af í miklum hafís, er hann þekur allar fjörur.  Þá er hættulegt fyrir fé í fjöru í hvössum aflandsvindi.  „Útigangur er góður ef fjöru nýtur“.

Nýupphlaðinn (l)  Nýlega hlaðinn.  „Garðurinn er nýupphlaðinn á þessum kafla“.

Nýupptekinn (l)  Sem nýlega hefur verið tekinn upp.  „Mikið er gott að smakka nýupptekið myr með fiski og floti“!

Nývaknaður (l)  Nýlega vaknaður; nýkominn á fætur.

Nýveiddur (l)  Ferskur uppúr sjó.  „Fátt er betra en nýveiddur sílspikaður þorskur með myri og floti“.

Nýverið (ao)  Nýlega; nýskeð.  „Gat Þórður þess að hann hefði nýverið átt tal við Pál Hafstað…“  (Gerðabók Rauðasandshrepps; ÖG). 

Nýyrði / Nýyrðasmíð (n, hk/kvk)  Sköpun nýrra orða, oftast lýsinga eða heita.  Eitthvað er alltaf um það að ný orð séu sköpuð í málinu.  Oftast er það vegna þess að nýjung kallar á nýyrði, en stundum festist í málinu heiti eða lýsing sem er snjallari eða liprari í munni en fyrra heiti.  Nýyrðasmíð í hófi er málinu eðlileg og þörf.  Ekki er heldur óeðlilegt að í lokuðu samfélagi verði með tímanum til nokkuð magn nýyrða sem ekki er að finna í meginstofni málsins annarsstaðar.  Þetta er hluti skýringarinnar á miklu magni sérstæðra orða úr Kollsvík og Rauðasandshreppi sem greinst hafa við þessa skráningu.  Aðrar skýringar eru varðveisla gamalla orða og sérstæð málmótun.  Sumir eru færari en aðrir við nýsmíðar fleygra orða.  Á síðari áratugum var Guðmundur Jón Hákonarson á Hnjóti sérlega snjall í þeim efnum, eins og sjá má á þessu orðasafni.  Höfundur þessarar samantektar hefur þurft að búa til nokkur nýyrði vegna sinna starfa við þróun sjávarfallahverfla og vegna rannsókna á náttúrufyrirbærum, s.s. frostgígum.

Nýyrðasmiður (n, kk)  Sá sem fæst við að finna ný orð þar sem slíkt er nauðsynlegt, og gerir það á vandaðan og hnyttinn hátt þannig að orðin séu þjál í munni, gagnleg og lifi áfram í munni almennings.  Sjá nýyrði.

Næða (s)  Um vind; gnauða; þjóta; gusta; blása.  „Líklegt er að Kollur hafi reist bæ sinn þar sem Kollsvíkurbærinn stendur nú; þar sem minna næddi um hann að jafnaði en sunnar í víkinni“.

Næði (n, hk)  A.  Kyrrð; ró; afdrep frá truflun.  „Þarna fékk ég gott næði til að lesa og skrifa“.  B.  Um veiðiskap; unnt að vera að veiðum vegna sjólags eða veðurs.  „Við fengum ekki lengi næði; hann var fljótt kominn með bölvaða kviku“. Sjá ónæði.

Næðingsfjandi (n, kk)  Áhersluorð um næðing.  „Manni er bara hálfkalt í þessum næðingsfjanda“.

Næðingssamt (l)  Mikil hætta á næðingi; verulegur næðingur.  „Það er hætt við að það sé næðingssamt þarna á fjallinu núna; þú skalt búa þig vel“.

Næðingur (n, kk)  Kaldur vindur; nepja; kuldagjóstur.  „...oft var kaldsamt á brúninni í norðan næðingi og þokusúld...“  (ÓG; Úr verbúðum í víking).

Næðisamt (l)  Mikið um kyrrð/ró/næði.  „Okkur varð ekki næðisamt um nóttina í þessu þrumuveðri“.

Næfra (n, kvk)  Sjórekinn trjábörkur, vanalega upprúllaður í ca 1“ þykkri rúllu.  Rekur oft á fjörur í Kollsvík.  „Nýlegar næfrur voru stundum settar á heita eldavél til að fá góða lykt í hús“.

Næfur (n, hk)  Þynnka; efni sem er mjög þunnt.  „Þú þarft að hafa eitthvað öflugra í kringum hrútinn; þetta næfur heldur varla blæstrinum í honum, hvað þá meir“!

Næfurþunnur (l)  Mjög þunnur; þunnur eins og næfur.  „Veggirnir eru næfurþunnir“.

Nægilega / Nægjanlega (ao)  Nóg; sem dugir.  „Ég held að það ætti nú að vera nægilega fallið út til að fara að vísa fénu í fjöruna“.  „Það fer alveg að koma nægjanlega mikið á þennan vagn“.

Nægilegur / Nægjanlegur (l)  Nógur; sem dugir/nægir.  „Þetta er varla nægjanlegt til að fylla tunnuna“.  „Þetta ætti að vera nægilegt sement í hræruna“.

Nægja (s)  Duga; vera nóg/nægilegt.  „Við sækjum þá meira ef þetta nægir ekki“.

Nægjast með/við (orðtak)  Láta sér duga/nægja.  „Ég fann ekki meira af salti; við verðum bara að nægjast við þetta“.  „Menn nægjast ekki með það lengur sem þeir áður gerðu“.

Nægjusamur (l)  Smáþægur; hófsamur; lætur sér nægja lítið.  „Fólk var nægjasamara fyrr á tíð“.

Nægjusemi (n, kvk)  Lítilþægni; ánægja með hið smáa/óverulega.  „Eitt sinn var nægjusemi talin dyggð“.

Nægt (n, kvk)  Það sem er nóg.  „Fólk sótti mjög í nægtirnar við sjávarsíðuna þegar harðnaði í ári“.

Nægtaborð / Nægtabrunnur / Nægtabúr (n, hk/kk)  Allsnægtir; nóg af öllum nauðsynjum.  „Kollur lét sér duga það nægtaborð sem Kollsvíkin er; hann þurfti ekki stærra landnám“.  „Margir sækja í þann nægtabrunn“.  „Yfirleitt eru grunnmið á víkunum og röstunum nægtabúr þegar líður á vorið“.

Nægur (l)  Fullnægjandi; nógur.  „Komdu og fáðu þér bita með okkur; hér er nægur matur á borðum“.

Næla (n, kvk)  Prjónn sem stunginn er í fatnað, ýmist til skrauts eða til að halda efni saman.

Næla í (orðtak)  A.  Krækja með nál/nælu í efni.  B.  Veiða; ná; fanga; stela.  „Asskoti nældirðu þarna í fallegt lúðulok“!  „Hann nældi sér í heimasætuna á næsta bæ“.

Næli (n, hk)  Nál; mjög smár fiskur; kóð; branda.  „Það er tilgangslaust að vera að draga þessi bölvuð næli“.

Nælingur (n, kk)  Um tregfiski; reytingur; lítill afli.  „Þhann var dauðatregur frammi, en dálítill nælingur af þyrsklingi grynnra“.

Nælon (n, hk)  Pólyamíð; flokkur gerviefna sem byggð eru af stórum sameindum.  Fyrsta nælon var fundið upp 1935 af Wallace Carothers hjá DuPont.  Nælon má draga út heitt í mjóa sterka þræði, sem síðan má nota, t.d. í allskyns vefnað og tóg, en einnig í plasthluti.

Næmi (n, hk)  Oftast notað núorðið um sérlega mikla tilfinningu eða viðkvæmni fyrir áreiti, en var áður um námshæfileika.  „Ég hef ekki mikið næmi fyrir svona hlutum“.

Næmur (l)  Með næmleika/sans/tilfinningu fyrir einhverju.  „Tófan er mjög næm á alla lykt“.  „Fjandi er maður orðinn næmur fyrir öllum pestum í seinni tíð“.

Næpa (n, kvk)  A.  Hvítrófa; Brassica rapa.  Einær planta af krossblómaætt með stórri ætri stólparót.  Næpa hefur um nokkurn tíma verið allmikið ræktuð í görðum sem matjurt.  Kálið þykir gott til gripafóðurs.  B.  Líkingamál um manneskju sem er mjög föl yfirlitum.  „Það verður hver maður að næpu á þessi innihangsi“.

Næpulegur (l)  Fölleitur/hvítur í andliti; illa búinn/fataður.  „Skelfing er að sjá þig svona næpulegan útivið drengur; hlauptu nú inn og sæktu þér úlpu“!

Næpustýri (n, hk)  Gæluorð um næpu.  „Viljið þið ekki fá ykkur næpustýri strákar“?

Nær  Ýmis merking og orðflokkar eftir samhengi:  A. miðstig af lýsingarorðinu nálægt:  „Hann er nær takmarkinu en áður“.  B. framsöguháttur af s. að :  „Hann nær því þó varla“.   C. stytting úr skammarnær (sjá þar).  „Honum hefði verið nær að hlusta á mínar aðvaranir“.  Oft var það notað stytt í upphrópunum, þegar hneykslast var á mistökum/óförum:  „Þér var nær“!  „Honum var nær“!  D. stytting á hvenær:  „Nær heldurðu að þú komir“?  „Nær var kúnni haldið undir nautið“?  Líklega hefur þessi mynd verið mikið notuð í Kollsvík áðurfyrri, og t.d. notaði GG á Láganúpi hana allmjög.

Nær að halda (orðtak)  Held frekar; hallast frekar að.  „Mér er nær að halda að þetta hafi verið í fyrra, frekar en að það hafi verið árið þar áður“.

Nær ein aldan rís er önnur vís (orðatiltæki)  Sjaldan er ein báran stök; gera má ráð fyrir meiri erfiðleikum/óláni en orðið er.  Vísar til þess að ólög koma oftast nokkur í röð, áður en lag verður á milli þeirra.

Nær ekki nokkurri átt / Nær engri/öngri átt (orðtak)  Er alveg fráleitt; ekki nokkur hemja/stæða.  „Það nær ekki nokkurri átt að þessir þingmenn hlaupi frá kosningaloforðunum um leið og þeir eru kosnir“!  „Svona bollaleggingar ná öngri átt“!  E.t.v. er orðtakið líking við það að menn villist og nái ekki áttum; geti ekki áttað sig.  En einnig kann það að eiga við að vindur komi ekki úr einni ákveðinni átt, heldur mörgum, sem getur gert seglskipum erfitt fyrir.

Nær ekki nokkurri/ engri/öngri átt / Nær engu lagi (orðtak)  Er ekki neitt vit í; fær ekki staðist.  „Það nær ekki nokkurri átt að þú sért einn að snaga þarna í eggjum; reyndu nú að fá einhvern með þér“.  Hið fyrra er líking við það að vera áttavilltur; skynja ekki neina átt.  Hið síðara er líking við að bátur nái ekki að sæta lagi til landtöku.

Nær er skinnið en skyrtan / Nær er skinnið skyrtunni (orðatiltæki)  Vísar til þess að í raun er mönnum kærari sín velferð og sinna nánustu, en veraldlegar eignir.  Menn geta misst allar sínar eigur, og skyrtuna með, en sá skaði er smávægilegur við að týna eigin lífi eða missa þá sem eru manni kærir.  Hugsanlega vísar þetta til þess að fyrr á tímum var mönnum refsað með pískun/húðláti.  Þá var skyrtan fljót að fara, en þó skinnið færi illa þá greri það aftur; og er manninum mikilvægara.

Nær sanni (orðtak)  Nokkurnvegin rétt/satt; sannara.  „Ég held að það sé ofmælt að hann hafi hlaðið bátinn yfir snúninginn.  Hitt gæti verið nær sanni að hann hafi önglað þetta upp á norðurfallinu“.

Nær þá? (orðtak)  Hvenær þá.  Oftast notað sem andsvar.  „Sagðist hann ætla að koma á morgun?  Nær þá?

Nær sanni (orðtak)  Sem næst því að vera sannleikur; sönnu nær.  „Það mun vera nær sanni að 25 bátar hafi verið gerðir út frá Kollsvíkurveri þegar þar var mest umleikis á 20. öld".

Næra sig (orðtak)  Nærast; fá sér að borða.  „Þegar það var búið þá var farið í land, hitað sér kaffi og soðinn fiskur og nært sig.  Eftir það var farið í síðari róður dagsins“  (GJH; Hálfdrættingur í Kollsvíkurveri). 

Nærbuxnavatn (n, hk)  Þunnt kaffi; hlandkaffi.  „Það væri nú ofmælt að kalla það kaffi; þetta nærbuxnavatn“.

Nærfellt (l)  Nálægt; nærri því; nær samfellt; fast að; langt til.  „Skipbrotsmenn fengu til umráða tvær allstórar fjárbúðir og höfðust þar við í nærfellt þrjár vikur“  (TÓ; Skipströnd í Rauðasandshreppi).

Nærfærinn (l)  A.  Kunnugur; hefur þekkingu; fer nærri um; gætinn.  B.  Nærgætinn.

Nærfærni (n, kvk)  Glöggskyggni.  „Í þessu máli hefur hann sýnt einstaka nærfærni“.

Nærgætinn (l)  Umhyggjusamur; skilningsríkur; fer gætilega að.  „Þú þarft að vera nærgætinn í orðum þegar þú segir henni frá þessu“.

Nærgætni (n, kvk)  Umhyggja; skilningur; aðgát. 

Nærgætnisleysi (n, hk)  Skortur á nærgætni.  „Svona athugasemdir eru bara algert nærgætnisleysi“!

Nærgöngull (l)  Sem gengur nærri; skaðlegur; ágengur.  „Að lokum varð draugur þessi svo nærgöngull Einari að honum þótti ekki lengur viðvært“  (HeE; Frásagnir af Einari Jónssyni í Kollsvík). 

Nærhald / Nærskjól (n, hk)  Nærbuxur; nærbrók.

Nærindis (ao)  Nærri; í nágrenninu.  „Það vildi honum til að bátur var staddur nærindis sem kom til hjálpar“.

Nærmið (n, hk)  Það mið í landi sem nær er, þegar miðað er við tvö mið af sjó.  „Haugarnir eru fjærmið á samnefndum miðum, en Stekkavarðan er þá nærmið“.

Nærpjönkur (n, kvk, fto)  Nærföt.  „Eitthvað er nú orðið fátæklegt af nærpjönkum á þig núna“.

Nærri (l, mst)  Miðstig lýsingarorðsins nálægt.  Oft notað í orðtökum, en einnig til áhersluauka:  „Mér þykir þetta ekki nærri því eins gott og hitt“.

Nærri komið (orðtak)  Hérumbil; hafði nærri gerst. „Það var nærri mér komið að segja honum að halda sér saman, en ég stillti mig um það“.  Sjá „að komið“, sem er tilbrigði við það sama.

Nærri lagi (orðtak)  Nálægt; hér um bil; um það bil; má heita; svo gott sem; því sem næst.  „Ég held að þín ágiskun sé nærri lagi“.

Nærri má geta (orðtak)  Unnt er að ímynda/hugsa sér.  „Nærri má geta undrun hans, er margir útlendir menn standa yfir honum við að gyrða sig“  (HÖ; Fjaran).  

Nærstaddur (l)  Staddur nálægt/nærri.  „Það vildi til að ég var nærstaddur og gat komið honum til hjálpar“.

Nærsveitir (n, kvk, fto)  Sveitir/hreppar sem nálægt/að liggja. 

Nærsýni (n, kvk)  Algengur sjóngalli, sem felst í því að menn sjá best það sem nálægt þeim er en ógreinilega það sem er fjær.

Nærtækur (l)  Sem er við hendina; nálægur; handhægur.  „Ég get nefnt nærtækt dæmi…“.  „Nú væri gott að fá aðstoð Grettis sterka, en hann er víst hvergi nærtækur“.

Nærvera (n, kvk)  Nálægð; viðvera.  „Var þinnar nærveru ekki óskað við baksturinn, litli stúfur“?

Næst- Forliður lýsingarorða; það sem er annað í röðinni.  S.s. næstbestur; næstfremstur; næstsíðastur o.s.frv.

Næst að halda (orðtak)  Geti trúað; held.  „Ég sé kindurnar ekki þarna; mér er næst að halda að þær séu komnar heim að húsum“.

Næsta (ao)  Áhersluorð; um það bil; nærri; því sem næst.  „Þegar hugsað er til baka og jafnframt hugsað til kvenna nútímans, með öll þau þægindi sem nú bjóðast, finnst manni næsta óskiljanlegt hvernig hún gat annað öllum sínum störfum.... “  (FG; Bernskuminningar; Niðjatal HM/GG).  „Ég tel þetta næsta öruggt“.  „Ég var orðinn næsta blindaður af sjórokinu“.

Næsta kastið (orðtak)  Á næstunni; í nánustu framtíð.  „Ég las þannig yfir hausamótunum á honum að hann lætur örugglega ekki sjá sig hér næsta kastið“!

Næstefstur / Næsthæstur / Næstneðstur / Næstlægstur (l)  Annar í röðinni ofanfrá/ neðanfrá.  „Ég er búinn að tína í efsta og næstefsta gangi, en ætla að fara niður í þriðja gang“.

Næstkomandi (l)  Sem næst kemur.  „Það er fullt tungl næstkomandi laugardag, og þá stærstur straumur næstkomandi mánudag“.

Næstliðinn (l)  Síðastliðinn.  „Svona hefur þetta gengið næstliðin tvö ár“.  Sjaldnar notað nú til dags.

Næstum (ao)  Nærri því; hérumbil.  „Ég var næstum búinn að gleyma erindinu“.  „Þetta er næstum allt féð“.

Næturblundur / Nætursvefn (n, kk)  Svefn að nóttu.  „Næturblundurinn varð í styttra lagi útaf þessu“.

Næturfjara (n, kvk)  Fjara að næturlagi.  „Fyrst þegar ég var háseti; á fermingarárinu mínu, var veðrið ekki hlýrra en það að ís lagði á fjöruna þegar féll út; það var næturfjara“  (JB; Verstöðin Kollsvík; frásögn KJK).

Næturflóð (n, hk)  Flæði að næturlagi.  „Við skulum setja bátinn aðeins hærra; ég hef grun um að næturflóðið gæti orðið aðeins hærra en flæðin í dag“.

Næturfrost (n, hk)  Frost yfir nótt þegar meiri hiti er að degi.  Helst hætta á því í stilltu og heiðskíru veðri að haust- eða vorlagi.  Kartöflugrös falla vanalega í fyrsta næturfrosti.

Næturgagn (n, hk)  Náttgagn; hlandkoppur.  Næturgögn voru í notkun þar til inniklósett komu í hús.

Næturgisting (n, kvk)  Gisting/svefn yfir nótt.  „Heldurðu að ég fái hjá þér næturgistingu“?

Næturgöltur (n, hk)  Ráp/flakk/ferðir að nóttu.  „Mundu nú að pissa fyrir svefninn svo þú þurfir ekki að vera að þessu næturgöltri“.

Næturkul / Næturkæla (n, hk)  Kul/kaldi að næturlagi.  „Féð hafði komið sér fyrir í skjóli fyrir næturkulinu“.

Næturkyrrð (n, kvk)  Logn/kyrrð að næturlagi.  Oft er logn að nóttu að sumarlagi, þó kulað geti yfir daginn.  Þá er einnig svefntími manna og dýra og því oft mikil kyrrð.

Næturlangt (l)  Yfir nótt.  „Ég efast um að þetta logn standi, nema rétt næturlangt“.

Nöf (n, kvk)  Snös; nef á/í klettum/bjargi.  „Ég fór framá nöfina, en sá ekki neitt fé niðri í hlíðinni“.

Nögl (n, kvk)  Hornskel fremst á fingri.  Í Kollsvík og nágrenni tíðkaðist beygingarhátturinn „nöglur“ í fleirtölu, en ekki „neglur“ eins og nú er almennt sagt.  „á ég að klippa á þér nöglurnar“?

Nöldra (s)  A.  Um mann; rella; sífra; tuða; kvarta.  „Greyið mitt hættu nú að nöldra um þetta síknt og heilagt“!  B.  Um hlut; suða; skrölta; tísta; nuddast við.  „Ég setti teygju á gírstangirnar svo þær væru ekki að nöldra“.

Nöldrari / Nöldurseggur / Nöldurskjóða (n, kk)  Sá sem nöldrar/tuðar; nöldrari.  „Vertu nú ekki þessi herjans nöldurseggur drengur“.

Nöldur (n, hk)  Tuð; kvartanir; rell; sífur.  „Ég er orðinn dálítið þreyttur á þessu nöldri“!

Nöldursamur (l)  Gefinn fyrir að nöldra.

Nöldurseggur (n, kk)  Suðuskjóða; vælukjói; sá/sú sem mikið nöldrar/tuðar/suðar.  „Ég hlusta nú takmarkað á þann nöldursegg“

Nöldurtónn (n, kk)  Kvörtunartónn; væl.  „Karlinn þusaði eitthvað yfir þessu í nöldurtón, en lét gott heita“.

Nösótt (l)  Um lit á sauðfé; hvít með dökkan blett við nös/nasir.  „Nös gamla bar nafn með rentu“.

Nötrandi (l)  Skjálfandi.  „Búðu þig betur krakki!  Þú ert nötrandi af kulda“.

Nöturkalt (l)  Hrollkalt; skítkalt.  „Búðu þig almennilega; hann er nöturkaldur“.

Nöturlega (ao)  Kaldranalega; meinlega; óþægilega.  „Þetta er kannski nöturlega sagt; en svona er sannleikurinn“.

Nöturlegur (l)  Napurlegur; skelfilegur; fráhrindandi.  „Aðkoman í brúnni var vægast sagt nöturleg þegar menn komust út í skipið eftir að veður gekk niður“.

Nöturleiki (n, kk)  Hryllingur; kaldranaleiki; ömurleiki.  „Líf fátæklinga er oft nöturleikinn uppmálaður“.

O var stundum notað í upphafi orða og setninga sem viðbót; einatt í andsvari og oftast sem hikorð eða til að milda það sem sagt er.  „O ekki held ég það nú“.  „O jujú“.  „O jæjaþá“. Ojá“.  Sjá ofjandinn; ofjárinn.

Leita