Skýrsla Minjastofnunar um Láganúpsver.  Unnin af Guðmundi Stefáni Sigurðarsyni hjá Minjastofnun.

Strandminjar – Skráningarskýrsla fyrir minjaheildir

Skráningarsvæði:  Útvíkur
Sveitarfélag (núverandi):  Vesturbyggð
Sveitarfélag (árið 1990):  Rauðasandshreppur
Sýsla:  Vestur-Barðastrandarsýsla
Jörð:  Láginúpur
Nafn:  Láganúpsver
Skráningaraðili:  Guðmundur Stefán Sigurðarson
Hlutverk minjaheildar:  Verstöð
Aldur frá:  9. öld.    Aldur til:  18. öld
Annað hlutverk minjaheildar:  Býli
Aldur frá:  18. öld    Aldur til:  20. öld


Staðhættir
Láganúpsver er sunnarlega í Kollsvík sem er ein af svonefndum Útvíkum. Hún er nyrsta víkin norður af Látrabjargi vestast á Vestfjörðum. Láganúpsver er í landi jarðarinnar Láganúps og eru minjarnar við sjávarbakkann um 700m norður af bæ á Láganúpi. Bæjartóftir býlisins Grunda eða Láganúpsgrunda (í eyði síðan 1963) eru um 150m suður af verstöðinni en tóftir kotsins Grundarbakka (í eyði frá 1943) eru á sama stað og verstöðvarminjarnar.

Sýnilegar minjar eru allar úr torfi og grjóti að undanskyldum stórum járnkatli í fjörunni sem tilheyrði skipi sem strandaði í víkinni árið 1913. Bygginga- og mannvirkjaleifar eru túngarður/sjóvarnargarður sem liggur meðfram bakkanum suður af verstöðinni. Skotbyrgi við norðurenda þessa garðs.
Strandminjar – Skráningarskýrsla fyrir minjaheildir
Leifar fjárhúsa frá Grund, leifar kotbýlisins Grundarbakka, a.m.k ein tóft og líklega öskuhaugur auk leifa sjálfrar verstöðvarinnar Láganúpsvers, 18 sjóbúðir eiga vera þar samkvæmt heimildum, en svo margar eru ekki sýnilegar á yfirborði. Fjöldi smáhóla og dælda benda hins vegar til minja undir sverði, auk þess sem hleðslur og aska sjást í rofabakka á stóru svæði.


Ástand Minjaheildar
Minjarnar eru í misjöfnu ástandi og misjafnlega greinilegar á yfirborði. Engin þeirra telst heilleg samkvæmt stöðlum MÍ. Tvær þeirra eru „vel greinanlegar“ þ.e. enn er hægt að sjá upprunalegt lag eða form þeirra þótt veggir séu grónir. Hinar teljast ýmist „greinanlegar“ eða „illgreinanlegar“ samkvæmt stöðlunum. Greinanlegar eru minjar sem má vel koma auga á en hleðslur eru signar eða hrundar að því marki að lögun er orðin ógreinileg. Illgreinanlegar teljast fornleifarnar sem hafa orðið fyrir töluverðu raski af völdum náttúru eða manna eða þar sem hleðslur eru mjög útflattar. Um helmingur sýnilegra minja sem gera má ráð fyrir að tengist verstöðinni lendir í þessum flokki. Tvær tóftir eru að hluta til brotnar í sjó og þá eru bæði hleðslur og mannvistarlög, rusl með dýra- og fiskibeinum, sýnileg í rofabakka. Auk sýnilegra minja má gera ráð fyrir umtalsverðum minjum í jörðu á svæðinu.
Hættumat:  Mikil hætta
Landbrot:  Viðvarandi landbrot


Landbrot; lýsing/saga
Samkvæmt samtali við Valdimar Össurarson frá Láganúpi, urðu breytingar á aðstæðum í Kollsvík uppúr 1980. Valdimar er fæddur og uppalinn á Láganúpi og stundaði m.a. Grásleppuveiðar þar á áttunda og níunda áratugnum, en um 1990 eyðilögðust hryggningarstöðvar grásleppunnar þegar þaraskógur eyddist sökum ofbeitar ígulkerja. Þessi þróun hófst þó fyrr og segir Valdimar að landbrot hafi aukist í sunnanverðri víkinni við Láganúpsver uppúr 1980 en sandburður aukist norðanvert við Kollsvíkurver. Lítið er vitað um sögu landbrots fyrir þann tíma en þó er greinilegt að einhverjar breytingar hafa orðið á aðstæðum í víkinni um aldamótin 1700 þegar aðallendingin er flutt frá Láganúpsveri að Kollsvíkurveri sökum brims og grynninga.
Sjóvarnir:  Nei
Aðgengi:  Gott aðgengi-engar hindranir , Aðgengilegt fótgangandi (gönguleið) , Aðgegnilegt af landi á bíl/tæki

Lýsing á aðgengi
Merkt gönguleið er að minjunum um 500 metra leið frá afleggjaranum að Láganúpi. Fara þarf um gróið þurrt land sem er vel fært á bíl.
Kunnugleiki:  Hefur staðbundna tengingu/sögu, Oft heimsóttur
Upplifunargildi:  Upplifunargildi staðarins er mikið, þrátt fyrir að minjarnar séu ekki mjög heillegar. Á skiltum er gerð grein fyrir sögu verstöðvarinnar og skipsstrands árið 1913, en minjar úr strandinu eru þarna í fjörunni. Að auki er mikil náttúrufegurð í víkinni sem eykur enn á upplifunargildi staðarins.
Staðbundin tenging/saga:  Staðurinn hefur tengingu við Landnámasögu og kemur fyrir í ýmsum heimildum frá síðari öldum.
Notkunargildi:  Svæðið er nú þegar nýtt til útivistar fyrir ferðafólk og hefur aðdráttarafl vegna bæði náttúru og menningarminja.
Rannsóknargildi:  Ekki er að fullu ljóst hve mikið er eftir af sjálfri verstöðinni. Gera má ráð fyrir að einhver hluti hennar sé nú þegar horfinn vegna landbrots. Engu að síður er ljóst að þar er heilmikill efniviður til rannsókna, öskuhaugar og byggingaleifar sem geta veitt miklar upplýsingar um sögu staðarins og sjávarnytja.
Mögulegar aðgerðir:  Lagt er til að reynt verði að verja bakkann framan við minjar Láganúpsvers t.a.m. með svipuðum hætti og gert var við Brunnaverstöð í Látravík. Slík framkvæmd þarf þó að vera unnin í nánu samstarfi við Minjastofnun Íslands, enda eru minjar í bakkanum sem auðveldlega geta orðið fyrir raski við slíka framkvæmd sem og uppi á bakkanum sjálfum.