Í árbók Barðastrandasýslu 2018 er birt  greinin "sjálfsævisaga Jónu Valgerðar Jónsdóttur frá Hnjóti í Örlygshöfn", sem Jónína Hafsteinsdóttir bjó til birtingar.  Þetta er mikil lífsreynslusaga, en um leið merk heimild um lífsbaráttu og samfélag um aldamótin 1900 og á fyrstu tugum 20.aldar.  Meðal annars er fróðleg lýsing Jónu á árunum í Kollsvík, sem hér er birt með leyfi Jónínu og ritstjóra árbókarinnar.  Þar á eftir fylgir grein sem Jóna Valgerður ritaði í tímaritið Melkorku árið 1949, og lýsir fyrsta jólatrénu sem kom að Kollsvík.

jona valgerdurJóna Valgerður Jónsdóttir (31.01.1878-31.03.1961) fæddist á Hnjóti og ólst þar upp fyrstu árin.  Hún var dóttir Jóns Torfasonar bónda þar, og Valgerðar Guðmundsdóttur.  Ellefu ára gömul fór hún að Kollsvík árið 1889, eins og hún segir hér frá, en sjö árum síðar fór hún sem vinnukona til Markúsar Snæbjörnssonar frá Dufansdal, sem gerðist umfangsmikill frumkvöðull í verslun og útgerð á Geirseyri, og má í raun nefna upphafsmann að því þéttbýli sem síðar byggðist á Eyrum.  Að tveimur árum liðnum fór hún að Sauðlauksdals, til séra Þorvaldar Jakobssonar og Magðalenu Jónsdóttur (föðurforeldrum Vigdísar Finnbogadóttur fv forseta).  Var svo um tíma ráðskona hjá Gísla Guðbjartssyni á Grænumýri í Kollsvík; bróður Össurar sem giftur var Önnu systur hennar, en lætur fremur illa af þeirri vist.  Var síðan vetrartíma hjá Guðbjarti bróður sínum í Breiðuvík.  Því næst réði hún sig í kaupavinnu hjá Pétri Ólafssyni, útgerðarmanni og kaupmanni á Patreksfirði.  Þá kynntist hún tilvonandi manni sínum; Jónasi Jónssyni (15.12.1875-22.02.1965) úr Breiðafirði, sem þar var sjómaður.  Hún fór í vinnumennsku í Breiðafjörð; til Flateyjar og Svefneyja.  Þar eignuðust þau sitt fyrsta barn; Guðmund, en misstu hann ungan (23.05.1903-06.12.1903).  Eftir að hún flyst aftur á Patreksfjörð eignast þau Jónas annan dreng, Guðjón (29.07.1904-19.09.1981), og stúlkurnar Kristínu (22.08.1907-18.03.1970) og Valgerði Ingigunni  (03.05.1910-18.06.1995).  Tveimur árum síðar fæddist Kristinn (12.10.1912-01.08.1974).   Árin 1914-1921 bjuggu þau á Hnjótshólum; litlu koti neðan við Hnjót, þar sem Hákon bróðir hennar bjó þá.  Þar fæddist Guðbjartur (28.09.1913-05.08.1958); síðan Sölvi (11.05.2016-19.06.2014) að lokum áttunda og síðasta barn þeirra; Lára (30.10.1919-08.02.1941).   Árið 1921 flutti fjölskyldan að Keflavík og leigði þar jarðarpart af Erlendi Kristjánssyni á Hvallátrum til 1923.  Hún bjó síðar að Dufansdal, Rauðsstöðum og Auðkúlu í Arnarfirði.  Þessari sjálfsævisögu Jónu Valgerðar lýkur einhverntíma eftir 1941.  Svo er að sjá að hún hafi ætlað að skrifa framhald, en það hefur ekki fundist. 

Hér er gripið niður í sjálfsævisögu Jónu Valgerðar árið 1889, þegar hún var 11 ára.  Þremur árum áður hafði faðir hennar selt Magnúsi Árnasyni og konu hans, Sigríði Sigurðardóttur hluta Hnjótsjarðarinnar.  Fór svo að Anna Guðrún, systir Jónu Valgerðar varð ólétt eftir Magnús, og var dóttir þeirra Hildur Magnúsdóttir, sem síðar giftist Guðbjarti Guðbjartssyni á Láganúpi.  Hefst frásögnin þar sem Jón Torfason hefur komist að framhjáhaldinu og er ekki blíður við Magnús:

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Það var eina nótt um skammdegið, stuttu fyrir jólin, að ég vaknaði við mikinn hávaða. Það var myrkur í baðstofunni. Ég var afar hrædd. Ég heyrði að það var faðir minn sem ávarpaði einhvern og var mikið niðri fyrir, með þessum orðum: „Ef þú ferð ekki undir eins þá... –  eða viltu bíða að ég komi?“ Þá heyrði ég aðra rödd sem ég líka þekki. „Ég er að fara.“ Þá segir faðir minn: „Þér er það líka best og ef þú kemur aftur þá muntu muna eftir því“  og það vissi ég að hann sagði satt því hann var karlmenni mikið og þungur í skapi. Ég heyrði að hann var kominn fram úr en móðir mín vann hann með góðu að fara upp í aftur. Ég gat alls ekki sofnað aftur og ég hugsa enginn okkar. Svo nokkru síðar kom ég að þar sem þær móðir mín og systir voru á tali. Ekki heyrði ég hvað þær töluðu en Anna grét. Daginn eftir fór bróðir minn, Hákon, með bréf út að Breiðuvík til Guðbjartar bróður okkar, hann bjó þá þar. En yfir fjall varð að fara og kom hann aftur á öðrum degi frá.

Eftir það var afar fátt á milli nábúanna og fór mig nú að gruna hvað var að gerast og á skírdag þennan sama vetur fór systir mín alfarin að heiman til bróður síns í Breiðuvík. Móðir mín fylgdi henni á leið og lengi var hún og oft var ég búin að gá hvort hún kæmi ekki. Svo fór að skyggja og enn var hún ókomin. Þá sagði faðir minn mér að fara yfir á Kryppu, svo hét fell er skyggði á leiðina. Þar voru setin lömbin á sumrin. Þar var líka hústóft er við lékum okkur er  við börnin  vorum að sitja hjá. Í henni sat móðir mín. Ég gekk til hennar, lagði hendur um háls henni og beiddi hana að koma heim og sagði: „Þó Anna sé farin áttu þó mig eftir og ekki skal hann Magnús ná mér.“ Móðir mín var sein til svars. Í þá tíð var miklu meira veður gjört úr svona hneyksli en nú þó ekki séu nema 45 ár síðan þetta var og sumarið eftir átti systir mín stúlkubarn. Hún er enn á lífi, gift kona og á fjölda barna.

„Já“, ansar móðir mín, „nú vill faðir þinn ekki búa hér lengur í nábýli við þennan mann og nú höfum við verið hér 45 ár eða síðan ég var 20 ára og held mér leiðist að fara héðan og svo get ég ekki haft litla Bjarna með okkur.“ Ég sagði: „Því getum við það ekki, við eigum hann þó?“ Móðir mín sagði: „Ó, nei, við eigum hann ekki, hann Páll á hann og hann tekur við jörðinni hérna og hún gamla Þrúða, móðir hans.“  „En hvert eigum við þá að fara?“ sagði ég. „Hann bróðir þinn, Torfi, hefur boðið okkur til sín og þangað förum við í vor“.

Þetta sama vor í fardögum fluttum við frá Hnjóti alfarin að Kollsvík í sama hreppi til bróður míns, Torfa, er þar bjó með konu sinni, Guðbjörgu. Þau eignuðust 11 börn og svo dó hann; drukknaði á annan í páskum 1904 en í Kollsvík fluttum við 1889. Ég var þá tólf ára. Torfi sótti okkur á fjórum hestum. Eitthvað af dótinu fór sjóveg. Þrúður gamla og litli Bjarni fylgdu okkur út fyrir túngarð. Ég gekk alla leiðina en móðir mín reið á reiðveri en faðir minn var kominn út eftir fyrir fjórum vikum og var að byggja nýja baðstofu fyrir Torfa. Þegar við loks fórum að fara niður af heiðinni var komið fast að lágnætti og sólin að því komin að setjast í hafið og slá gullnum bjarma á hlíðar og háu klettana sem eru þar. Það kvöld sá ég með þeim fegurstu og mun seint því gleyma.

Bærinn, eða öllu heldur bæjartóttirnar, sem allar voru hlaðnar úr grjóti og torfi og mold, stóðu fast upp við hlíðina undir Núpnum og hrundi grjótið oft úr klettunum ofan að bænum, helst í leysingum.  Túnið var allt orðið grænt.  Fólkinu var öllu kasað saman í eitt hús.  Í því var loft og var sofið uppi og niðri í flatsængum meðan á byggingunni stóð, en karlmennirnir sváfu í búðum við sjóinn.  Þeir reru hvern dag er gaf; fjórir á hverjum báti.  Voru það árar og segl en ekki vélar (þær þekktust ekki) sem knúðu þá áfram, og veiðarfærin voru færi.  Stundum reru þar 15 bátar; komu víða að og gerðu sig út frá sumarmálum og til tólf vikur af sumri.  Þá fóru þeir heim til sín með harðfiskinn, en þorskur var saltaður og verkaður eins og enn (um 1930) gerist.  Einn maður sótti suður úr Hergilsey á fjögra manna fari og fór aftur eftir vorið með skreiðina suður fyrir Bjarg; allt í Eyjar. 

Um sláttarbyrjun var flutt í nýju baðstofuna.  Hún var portbyggð og sofið og setið uppi.  Hún var tíu álnir á lengd, en ekki nema fjórar á breidd og þrjár álnir í krossa undir loftinu.  Í þeim eina (vegg) sem sneri fram á hlaðið var þil og tveir fjögra rúða gluggar; annar uppi, hinn niðri.  Þar var þiljað hús, ætlað gestum.  Í hinum endanum var búr og eldavél; ein sú fyrsta þar í víkinni.  Líka var eldhús inn af göngum og var þar oft matarkyns á haustin.  Þar var soðið slátur á hlóðum; steiktar flatkökur og steikt hlóðabrauð undir potti og bakað við moð; soðinn hvalur og fleira.  Í rjáfrinu var rá og á hana var raðað lundaböggum og magálum.  Oft var þar reykur og svæla.  Frammi í göngunum stóð matkvörnin og stór steinn er barinn var á fiskur og öll bein handa kúm, fé og hestum. 

Í sjö ár var ég nú þarna hjá bróður mínum, Torfa; oft ekki nema ein vinnukona.  Reyndar var eitthvað gefið með mér fyrstu tvö árin, en úr því fór ég að fá kaup.  Ekki var það nú mikið.  Ungu stúlkunum nú myndi finnast það ósannindi, en satt var það nú samt:  Árið sem ég var fermd voru það þrjár krónur og árið eftir átta krónur, en svo komst það upp í 20 krónur.  Líka var alin fyrir mig ein kind, og svo sjö álnir vaðmáls og tvennir sokkar.  Ekki þurfti ég að leggja mér til skóleður.  Það var bara steinbítsroð, og mátti maður fá af því eftir vild.  Aðeins á jólum og páskum fékk maður skinnklæði.  Öll skinn voru höfð í sjóklæði, brækur og skinnstakka.  Þá þekktust ekki stígvél nema á mönnum sem voru á fiskiskútum á haldfæraveiðum og voru þá úr leðri; gúmmí þekktist ekki.  Útlenda skó eignaðist ég ekki fyrr en 22 ára.

Vinna mín þessi sjö ár var það helsta á sumrum smala, vor og sumar og haust; kvöld og morgna, því þá voru nú fráfærur.  Og svo öll sveitavinna eins og þá tíðkaðist.  Á vetrum hirti ég kýrnar; sótti vatn og malaði í handkvörninni allt útákast og korn í brauð.  Og á hverjum degi að berja bein í fullt trog fyrir kýrnar.  Alltaf sex steinbítshausa og mikið af þorskhausum.  Þess á milli að prjóna, kemba ull og spinna.

Mataræði á þeim árum var í mörgu öðruvísi en nú er.  Ég las nýlega (um 1930) í Hlín um mataræði í Mývatnssveit.  Nú ætla ég að setja hér um mataræði á Vesturlandi á þessum árum; í víkunum við Látrabjarg á árunum 1888 til 1887.  Á sumrin var skyr alltaf í morgunmat og áfir útá.  Þetta var skammtað í aska er tóku þrjár merkur fyrir kvenfólk, og fjórar merkur fyrir karlmenn.  Svo var kaffi um hádegi og nýr soðinn fiskur og flóuð undanrenning á kvöldin.  Á vetrum var bjargfugl saltaður, soðinn í súpu; eða steinbítur og kartöflur eða lýsi við.  Flóuð undanrenna á kvöldin og bygggrautur, en til miðdags harðfiskur, rúgbrauð og bræðingur; lýsi og smjör brætt saman.  Á hátíðum var betri matur, helst á nýári.  Þá var skammtað í stór mjólkurtrog og átti maður lengi bita af því til að grípa í.  Sumir voru svo sparsamir að það entist til þorrabyrjunar.

Um menntun mína og uppfræðslu á þeim árum get ég verið fáorð.  Eftir að ég varð tólf ára var ég hjá kennara; vanalega sex vikur á vetri.  Ég lærði Helgakver utan að, og Biblíusögur.  Líka að skrifa og reikna og lesa; annað var ekki kennt og annars ekki krafist í þá daga, og með það lagði ég út á lífsbraut mína til að byggja ofan á það er reynslan kenndi mér.

________________________________

Fyrsta jólatréð

(Birt 1949 í tímaritinu Melkorku)

Það mun hafa verið um 1880, að sýslumaður sá var í Barðastrandarsýslu, er Adam Fischer hét. Var hann danskur í aðra ætt. En kona hans hét Eva og var aldönsk. Þau áttu margt barna. Það var Eva Fischer, sem fyrst tendraði jólatré á Patreksfirði. Hún var vel lærð kona og spilaði á slaghörpu. Hafði hún skóla fyrir börn sín á vetrum. Eftir að hún var farin, var þeim sið haldið, er hún hafði innleitt, að hafa jólatré, því að þetta þótti merkileg nýjung. Ég sá þetta eitt sinn og hreifst af, því að áður þekktist ekki því líkt. Aðeins eitt og eitt kerti steypt úr tólg.

Veturinn 1899 kveikti ég í fyrsta sinni sjálf ljós á jólatré. Það var í Kollsvík. Bróðir minn, Torfi, bjó það til eftir minni fyrirsögn. Svo málaði hann það grænt. Álmur voru 12 og kross í toppi. Ég steypti kertin úr tólg. Einhverjir smápokar héngu á greinunum með rúsínum og kandísmolum í. Annað var ekki til að skreyta með, nema sortulyng, sem börnin rifu upp úr klakanum. Mikil var tilhlökkun hjá öllum. Enginn, sem þarna var hafði séð jólatré áður. Það var komið aðfangadagskvöld. Öll börnin í báðum bæjunum voru komin í beztu fötin sín. Við systkinin, Torfi og ég, fórum inn í stofu, þar sem jólatréð stóð og beið þess að kveikt væru öll litlu ljósin. Ekkert barnanna mátti koma inn fyrr en allt væri tilbúið. Nú gáfum við merki með því að slá stórri lyklakippu í bollabakka og inn streymdi allur skarinn; 20 að tölu, stór og smá. Eitt þeirra var litli Bjartur, nú Guðbjartur hafnsögumaður. En sú undrun og gleði, sem lýsti sér í andlitum litlu barnanna, sem aldrei áður höfðu séð þvílíka ljósadýrð. Mörgum fullorðnum og gömlum konum vöknaði um augu. Þá hófst söngur: „í Betlehem er barn oss fætt" og „Heíms um ból" og svo mörg ættjarðarljóð. Allir skemmtu sér hið bezta. En einn var sá, sem ekki gat verið viðstaddur. Það var fáðir minn. Hann lá í rúmi sínu í litlu herbergi niðri í kjallaranum, kominn yfir áttrætt og hafði aldrei jólatré séð. Við tókum því tréð og bárum það ofan til hans með flögrandi ljósunum og settum það við rúm hans. Áður lifði þar aðeins á lýsislampa. Hann settist upp, er við komum og sagði: „Þar sé ég nú í fyrsta sinn líkingu af ljósum þeim, er leiftruðu hina fyrstu jólanótt. Hafið þið kæra þökk fyrir komu ykkar." Meðan síðustu kertin voru að brenna út, sungum við jólasálma og hann, sem þó hafði nú upp á síðkastið ekki getað sungið fyrir þungu lungnaerfiði, söng nú með. Síðast söng hann einn þetta vers:

Aðfangadagur dauða míns
Drottinn, nær kemur að,
hyl mig í undum hjarta þíns
hef ég þar góðan stað.

Eilífðar sælu ég svo jól
jafnan haldi með þér.
Þá er upp runnin sú mér sól,
sem ég þrái hér.

Nú var síðasta kertaskarið að slokkna. Við buðum góðar nætur og fórum með fyrsta og síðasta jólatréð er öldungurinn sá.

Jóna Valgerður Jónsdóttir