Guðrún Össurardóttir minnist hér foreldra sinna; Önnu Guðrúnar Jónsdóttur og Össurar Antons Guðbjartssonar og uppeldisáranna í Kollsvík.  Frásögnin veitir innsýn í þann dugnað og þá útsjónarsemi sem var forsenda búsetu og mannlífs fyrr á tímum.

gudrun ossurard

 Guðrún Össurardóttir (16.08.1910-09.09.2003) fæddist og ólst upp í Kollsvík.  Dóttir hjónanna Önnu Guðrúnar Jónsdóttur og Össurar Antons Guðbjartssonar, bænda þar.  Fjölskyldan flutti að Mýrum í dýrafirði árið 1927.  Þar gekk hún í Núpsskóla og síðan í Húsmæðraskóla á Ísafirði.  Árið 1931 giftist hún Stefáni Rósinkrans Pálssyni söðlasmið (30.07.1895-17.01.1978), og bjuggu þau lengst af á Kirkjubóli í Korpudal í Önundarfirði.  Þau eignuðust sex börn.  Á efri árum fluttu þau á höfuðborgarsvæðið, þar sem þau bjuggu til æviloka.  Guðrún mundi vel sínar æskustöðvar í Kollsvík og voru þessar hugleiðingar birtar á ættarmóti afkomenda hennar.

Móðir mín hét Anna Guðrún Jónsdóttir, fædd á Hnjóti í Örlygshöfn 22. maí 1872; dáin 2. maí 1967.  Foreldrar hennar voru Valgerður Guðmundsdóttir og Jón Torfason.  Systkini mömmu voru fimm:  Guðbjartur, giftur Sigríði Össurardóttur frá Hvallátrum; Kristrún, gift Pétri Hjálmarssyni; Torfi, giftur Guðbjörgu Guðbjartsdóttur; Hákon, giftur Málfríði Guðbjartsdóttur; og Jóna Valgerður, gift Jónasi Jónssyni.  Guðbjörg og Málfríður voru systur Össurar, þannig að þau þrjú systinin frá Kollsvík voru gift öðrum þremur systkinum frá Hnjóti.

Foreldrar mínir áttu saman 12 börn, en mamma átti auk þess dóttur; Hildi Magnúsdóttur, áður en hún giftist pabba.  17 ára að aldri fer mamma að heiman í fyrsta sinn til Guðbjartar bróður síns og Sigríðar konu hans í Breiðavík.  Þar fæddist Hildur, en faðirinn tók hana og var hún hjá honum og konu hans að Hnjóti rúmt ár.  Þetta var erfitt ár fyrir mömmu, og sagði hún síðar að þetta hefði verið erfiðasti kafli lífs síns; átti hún þó eftir að eiga margar erfiðar stundir.

Eftir þetta fer mamma til Torfa bróður síns og Guðbjargar konu hans, sem þá voru farin að búa á hálfri Kollsvík.  Að skömmum tíma liðnum giftust þau pabbi og mamma og tók hún þá Hildi til sín og ólst hún upp með okkur systkinunum upp frá því.  Pabbi var þá búinn að vera nokkur ár fyrir búi móður sinnar; Magðalenu, sem dó 1897.

Pabbi og mamma byrjuðu sinn búskap í gamla torfbænum hans afa, og fékk hann nokkuð af Kollsvíkurjörðinni til ábúðar.  Þar fæddumst við öll systkinin.  Pabbi stundaði sjóinn með búskapnum.  Hann átti bát sem hét Guðrún og fjögra manna far.  Einnig litla skektu sem hét Bára, er notuð var í stuttar sjóferðir.  Það þurfti nokkuð til að metta alla þessa munna, en aldrei heyrði ég pabba tala um að þetta hefði verið erfitt.

Á haustin, þegar búið var að flytja áburð á túnið, var tekið til við að elta skinn í sjóklæði, því allt var þetta heimagert í þá tíð.  Það þurfti að sinna skepnum; reka fé til beitar og eftir að snjóa festi var staðið yfir því fram á dal, meðan bjart var af degi.  Eftir áramót var strax farið að sauma sjóklæði og var það mikil vinna.  Pabbi spann hrosshár í reipi og fléttaði þau.  Um páska eða fyrr var farið að huga að því að lóðir og önnur veiðarfæri væru í lagi; tjarga báta og mála, sem og margt fleira er laut að sjóferðum.

Mér þótti vænt um umsögn Trausta Ólafssonar í Kollsvíkurætt, en þar segir hann svo:  „Össur var, sem margir fleiri, einyrki með stóran barnahóp, en fárra líki að þoli og kjarki við vinnu; jafnt á sjó og landi“.

Ég man ekki eftir pabba óvinnandi sex daga vikunnar, en á sunnudögum var ekki róið.  Kom hann þá heim, las húslesturinn og tók þá bók í hönd og las.  Þó kom það fyrir ef vel leit út með veður, að farið var með lóðir og þær lagðar.  Þegar landlegur voru var pabbi óðara kominn heim og farinn að vinna.  Stundum, þegar farið var að taka upp mó, kom hann með einn eða fleiri af hásetum sínum og var þá rifið upp af krafti.  Ef veðrið batnaði var svo rokið til sjávar; báturinn settur á flot og stefnt á sjóinn.

Mamma var að mínu mati fyrirmyndar húsmóðir.  Hún var nostursþrifin, hagsýn, nýtin og ekki síst var hún stjórnsöm og kjarkmikil með afbrigðum þegar á reyndi.  Eitt atriði vil ég minnast á um nýtni hennar.  Á vorin, þegar hrognkelsin fóru að veiðast, tók hún fallegustu grásleppuhrognin; þvoði þau vandlega; tók sterkustu himnuna utan af þeim; lét þau í stóran trédall; síðan máttum við krakkarnir sitja við með stóra trébullu; svipaða strokkbullu, en mikið styttri.  Við gátum setið við þetta, en helst mátti ekki sjást hrogn sem ekki var sprungið þegar hætt var. Þá síaði hún þetta á grisju og lét það gjarnan hanga yfir nóttina á köldum stað.  Síðan var þetta sett í pott og hitað að suðu, en þá hljóp það.  Þá var mysan síuð frá; osturinn settur í léreftspoka og pressaður undir fargi.  Þetta var fínn ostur ofan á brauð og borðuðum við hann með bestu lyst og varð gott af.  Ekki vissi ég um neina konu sem gerði þetta nema mömmu.

Dísa systir mín sagði mér frá öðru atviki.  Hún mundi svo margt frá löngu liðnum árum.  Á heimili mömmu var barnakennari sem kenndi eldri systkinum mínum og fleiri börnum.  Um mömmu sagði hann:  „Alveg er ég hissa á hvað hún Anna getur gert góðan mat úr litlum efnum“.

Mömmu féll aldrei verk úr hendi og ég get mér þess til að ekki hafi alltaf verið langur svefntíminn meðan eldri systkinin voru ung.  Þegar Valdimar, sem var elstur bræðranna, var 13 ára og Magðalena 14 ára fóru þau bæði til sjós með pabba og giltu þau bæði sem einn háseti til hlutar.

Mamma sagði mér eitt sinn frá því er ég var fullorðinn, þegar pabbi reri ásamt öðrum í Kollsvík í góðu veðri.  Þegar leið á daginn rauk upp með rok og vonskuveður.  Það voru allir bátar lentir nema pabbi, og þá var komið stórbrim og óttast var um hann.  Var þá ekki orðið lendandi í Kollsvík.  Í tvö dægur beið mamma milli vonar og ótta.  Eflaust hefur hún beðið marga bænina til himnaföðurins um hjálp þessi tvö dægur, enda var hún bænheyrð.  Þá lægði sjóinn og sást þá lítill bátur koma siglandi fyrir Blakkinn.  Auðvitað var það báturinn hans pabba.  Hann hafði séð þegar illviðrið skall á að hann myndi ekki ná landi í Kollsvík, og sigldi því undan veðri til Suðureyrar í Tálknafirði.  Ekki var hægt að láta vita um sig því enginn var síminn.  Það var tekið þarna við þeim tveimur höndum; þurrkuð föt þeirra og borinn fyrir þau matur.  Þarna var hvalstöð og pabbi þekkti þessa menn; flestir voru þeir Norðmenn.  Pabbi lét þá hafa fiskinn sem hann var með, en þeir fylltu bátinn af hvalkjöti og rengi.  Meira að segja tók hún Lena af sér svuntuna og fylltu þeir hana af brauði og kexi.  Og mikil var gleðin þegar heim var komið. 

Foreldrar mínir urðu fyrir þeirri miklu sorg að missa son sinn, Össur Anton, 3ja ára að aldri af slysförum.  Hann var fæddur 9. desember 1908 en dó 14. apríl 1911.  Vilborg Torfadóttir sagði mér frá honum á þessa leið:  „Hann var efnilegt barn; ljóshærður með sítt glóbjart hár og eins og engill; svo bjart var yfir honum.  Hann kom út í hús til okkar og fór með margar vísur sem hann kunni“. 

Með þessu ætla ég að hætta í þetta sinn.  Vonast til að geta bætt um betur seinna og bið ykkur vel að virða.

Guðrún Össurardóttir frá Kollsvík