Í sveitalífinu í Rauðasandshreppi komu upp ýmis atvik; sum broslegri en önnur.  Hér rifjar Páll Guðbjartsson frá Láganúpi upp eina slíka sögu sem byggir á sönnum atburðum og nýtur hér gamansemi og sögusnilldar Páls.

pall gudbjartssonKnútur Páll Guðbjartsson (04.08.1931-08.06.2007) ólst upp á Láganúpi.  Hann lauk framhaldsprófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík og frekara námi í Stokkhólmi.  Vann ýmis verslunar- og skrifstofustörf; var kennari við Samvinnuskólann á Bifröst og aðalbókari við Kaupfélag Borgfirðinga.  Framkvæmdastjóri Vírnets í Borgarnesi frá 1972.  Páll var giftur Herdísi Guðmundsdóttur; þau bjuggu í Borgarnesi og eignuðust tvö börn, en fyrir átti Herdís eina dóttur.  Páll bar sterkar taugar til bernskustöðvanna og kom þar gjarnan í sínum fríum.  Þessa frásögn skrásetti Páll árið 2003, um það leyti sem hann lauk námskeiði fyrir leiðsögumenn.  Hún lýsir sönnum atburðum í Rauðasandshreppi rúmum 50 árum áður.

Fyrir ríflega hálfri öld gerðist við Breiðavíkurrétt í Rauðasandshreppi atvik það sem ég ætla að rifja hér upp.  Þetta mun hafa verið í fyrstu rétt haustið 1946, en þá var byggðin í nefndum hreppi lítið farin að grisjast frá því sem verið hafði um aldir.  Ennþá fór gangnaseðillinn rétta boðleið um hreppinn í tuttugustu viku sumars, og gangna- og réttardagur til fyrstu réttar var mánudagurinn í tuttugustu og annarri viku viku.  Breiðavíkurrétt var skilarétt fyrir utanverðan Rauðasandshrepp; það er Örlygshöfn, Hænuvík, Útvíkur og Keflavík.  Heimalönd annarra en Breiðvíkinga voru smöluð sunnudaginn fyrir gangnadaginn og óskilafé rekið til skilaréttar að Breiðuvík.  Jafnframt smöluðu Kollsvíkingar Breiðavíkurháls og norðanverða Breiðuvík á leið sinni til réttar.  Látramenn og Breiðvíkingar smöluðu hinsvegar sunnanverða Breiðuvík og Látramenn smöluðu Bjargið.  Sú leit hefur eflaust verið erfiðust, því að enda þótt lagt væri af stað fyrir allar aldir komu leitarmenn af Bjarginu oftast seinastir til réttar.  Í Bjargleitina þurfti að velja menn sem ekki veigruðu sér við að fara niður fyrir bjargbrún á þeim stöðum sem voru vel gengir bandlausum manni; svo sem á Stíginn, í Saxagjá og fleiri staði.  Í Látrabjargi var afar gott haglendi, þar sem það á annað borð var grasi gróið; enda var það ríkulega áborið af fugladriti.  Þaðan skiluðu sér því á haustdögum vænir dilkar, en vanhaldasamt var á fénu sem þar gekk.

Einn þeirra manna sem þóttu nánast ómissandi í Bjargleitina var Hafliði Halldórsson á Miðbæ á Látrum, eða Liði eins og hann var kallaður á heimaslóðum.  Liði var með hærri mönnum á vöxt og þrekinn; hæglátur í fasi en gat verið glettinn og spaugsamur.  Hann var annar aðilinn að veðmálinu, en hinn var réttarbóndinn; Guðmundur Kristjánsson í Breiðuvík, oftast kallaður Gummi og stundum Gvendur.  Gummi var lægri og grennri maður en Liði, en kvikur á fæti, ákafa- og dugnaðarmaður, fljóthuga og gat átt það til að vera dálítið fljótfær.  Eins og aðrir sveitungar mínir á þessum tíma voru þeir Gummi og Liði ágætir vinir og lögðu gjarnan hart að sér til að gera öðrum greiða.  Það hindraði þá hinsvegar ekki í góðlátlegum glettum hvors á annars kostnað.

Þegar leitarmenn af Bjarginu höfðu skilað sér til réttar og búið var að reka inn safnið sem þeir komu með, varð gjarnan nokkurt hlé á annríkinu.  Þetta hlé var kærkomið til mannlegra samskipta.  Spurt var almæltra tíðinda, kastast á glensi og gamanmálum og sumir huguðu að afrakstri sumarsins sem birtist í föngulegum og lagðprúðum haustlömbum.  Allt í einu heyrðist kallað úr almenningnum:   „Heyrðu Gummi!  Komdu og líttu á þennan:  Heldurðu ekki að hann leggi sig bærilega, svona að minnsta kosti með þrjátíu og fimm punda skrokk“?

Það var Liði sem kallaði, þaðan sem hann stóð í almenningnum og hélt í hornið á þokkalegu hrútlambi.  Á augabragði var Gummi kominn að hlið hans.  „Nei fari það í helvíti.  Það kemur ekki til mála að þessi kettlingur hafi 35 punda skrokk.  Það þori ég að veðja um“!

„Jæja“ sagði Liði.  „Viltu samt ekki prófa að taka á kettlingnum og taka hann upp áður en þú veðjar“?  „Ég þarf þess ekki“ svaraði Gummi.  „Ég skal lofa þér fallegustu lífgimbrinni minni í haust hafir þú rétt fyrir þér; og ég skal meira að segja leggja til skotið“!

Þessi orðaskipti höfðu nú vakið athygli þeirra sem næst stóðu, og þar sem allt benti til að þetta væri upphafið að skemmtilegum orðahnippingum þá þyrptust nú flestir réttarmenn að þeim félögum.  Sumir blönduðu sér í málið og margir þurftu að setja sig inn í það með því að fá að taka á lambinu; bæði á baki og bringu; taka það upp til að meta skrokkþungann, og síðast en ekki síst að koma sínu áliti á framfæri.  Upphófst nú mikið skvaldur og voru uppi deildar meiningar um ágreiningsefnið.  Nú hafði mönnum hlaupið kapp í kinn og margir skoruðu á þá Liða og Gumma að ljúka veðmálinu, en til þess að fá fram niðurstöðu var aðeins einn kostur fyrir hendi; semsé að slátra lambinu og vigta skrokkinn.  Gummi hafði þegar sett fram hluta af skilmálunum og bætti nú við:  „Ég er tilbúinn að standa við það sem ég sagði áðan, en hafi ég rétt fyrir mér fæ ég skrokkinn af þínu lambi“.

„Ég tek þessum skilmálum“ sagði Liði, og þar með var veðmálið ákveðið.  Brá nú Gummi skjótt við og hljóp við fót heim að íbúðarhúsinu til þess að sækja kindabyssu sína; hníf, reislu og önnur nauðsynleg áhöld.  Nú var lambið skotið og skorið og síðan flegið í snatri og gert til.  Þegar því lauk stóð Bjarni í Hænuvík með reisluna; tilbúinn að vigta skrokkinn.  Helgi í Tröð og fleiri lásu á hana og staðfestu þar með að Liði hefði unnið veðmálið, þar sem reislan sýndi ríflega 17,5 kg.

Þessi úrslit komu Gumma gjörsamlega á óvart og upphófust nú háværar samræður.  Í lok þeirra sagði Gummi; svona til réttlætingar því hann varð undir í þetta skiptið:  „Hefði ég vitað að lambið hafði gengið á Stígnum, þá hefði ég hugsað mig betur um“.

Þegar kom að því að gera upp veðmálið var ekki viðhöfð nein smámunasemi.  Liði kærði sig að minnsta kosti ekki um að taka lambskrokkinn með sér heim að Látrum og varð að samkomulagi að Gummi nýtti hann.  Líklegt tel ég hinsvegar að Liði hafi fengið fallega lífgimbur hjá Gumma um haustið, en um það er mér ekki fullkunnugt.

Veðmálið varð um langan aldur vinsælt umræðuefni meðal þeirra sem viðstaddir voru.  Enn í dag hafa menn gaman af að rifja það upp, og fylgir þá gjarnan dálítill eftirmáli sem veðmálið hafði:

Kristján Júlíus, eða Júlli í Tungu eins og hann var kallaður meðal sveitunga, var einn af eldri bræðrum Gumma.  Júlli naut mikillar virðingar meðal sveitunga sinna, enda var hann hinn ágætasti maður og var valinn til ýmissa trúnaðarstarfa fyrir sveitunga sína.  Gummi var á æskuárum sínum nokkuð baldinn eins og títt er um fjörmikla krakka, og á þeim tíma tók Júlli að sjálfsögðu þátt í uppeldi litla bróður síns.  Síðar þótti því bregða fyrir, þegar báðir komust á fullorðinsár, að Júlli hefði ekki vaxið uppúr hlutverki uppalandans gagnvart Gumma.  Svo fór líka í þetta skiptið, að Júlla mun hafa þótt bróðir sinn verða sér til minnkunar í þessum samskiptum og sá ástæðu til að veita honum tiltal út af því.  Sérstaklega þótti honum Gummi smækka sig með því að taka við skrokknum af lambinu eftir að hann hafði tapað veðmálinu.  Gummi kærði sig kollóttan og lét þetta ekkert á sér festa.

Á þessum tíma voru tvö samvinnufélög starfandi í Rauðasandshreppi og hét félagið sem þjónaði vestanverðum hreppnum Sláturfélagið Örlygur, og hafði verslunarbúð sína og einnig sláturhús að Gjögrum í Örlygshöfn.  Víknamenn; þ.e. bændur úr Útvíkum að meðtöldum Breiðvíkingum, voru flestir með viðskipti sín hjá Sláturfélaginu og nú stóð svo á að skömmu eftir hinn umtalaða réttardag þurfti Gummi að reka sláturlömb sín inn yfir Hafnarfjall og til slátrunar á Gjögrum.  Lömbin voru rekin til réttar við sláturhúsið, þar sem þau hvíldust eftir reksturinn og biðu slátrunar sem fór fram hinn næsta dag.  Við slátrunina unnu eingöngu bændur af félagssvæðinu og þeirra heimafólk, og meðan slátrun stóð yfir haust hvert gistu flestir í torfhúsi sem byggt hafði verið í því skyni og stóð rétt hjá sláturhúsinu; aðrir en Örlygshafnarbúar sem fóru hver heim til sín.  Þeir sem voru lengra að komnir höfðu með sér nesti og bjuggu við skrínukost, enda var mötuneytisaðstaða engin.

Nú er Gummi kominn á Gjögra og hefur komið lömbum sínum í réttina og er þá sest að snæðingi í kofanum, eins og torfhúsið var oftast kallað.  Gummi var vel að heiman búinn og meðal annars hafði hann í nestisskrínu sinni væna spaðbita af veðmálslambinu.  Að loknum málsverði er lagst til svefns en vaknað tímanlega að morgni og tekið til starfa.  Þar sem þetta var í byrjun sláturtíðar þetta haustið, gekk dagsverkið heldur hægar en áætlað hafði verið og voru menn bæði þreyttir og svangir að því loknu.  Þannig hagaði til að Júlli var með þeim fyrstu til að ljúka dagsverki sínu og var þá fljótur til að komast út úr húsi og undir bert loft.  Nú er hann svangur og lúinn að loknu löngu dagsverki og matarlaus, en á eftir að rölta heim til sín um það bil hálftímagang.  Hvíslar þá ekki freistarinn í eyra honum að líklega eigi Gummi bróðir eitthvað ætilegt í skrínu sinni.  Röltir nú Júlli út í kofa; finnur skrínu bróður síns og opnar hana.  Við það að sjá þessa fallegu kjötbita sem í skrínunni voru féll hann marflatur fyrir freistingunni; greip einn bitann og skar sér með vasahnífnum vænan munnbita.  Nú voru vinnufélagarnir hins vegar hver af öðrum að losna frá verkum sínum og næsti maður til að opna kofahurðina var einmitt Gummi í Breiðuvík.  Einmitt þegar Júlli hafði stungið upp í sig fyrsta bitanum og tuggði með velþóknun.

Það var haft eftir Gumma að aldrei hefði hann séð eftir bita eða sopa ofan í nokkurn mann, en sér hefði verið sérstök unun að því að sjá bróður sinn sporðrenna með góðri lyst bita af lambsskrokknum sem hann hefði áður áfellst sig fyrir að þiggja af Hafliða vini sínum. 

Skráð í febrúar 2003

Páll Guðbjartsson