Ungmennafélög störfuðu mörg í Rauðasandshreppi; drifin áfram af eldmóði, dugnaði og hugsjón þeirra sem vildu leggja sitt að mörkum fyrir ættjörð og nýfrjálsa þjóð.  Þessi ágæta hugvekja Einars T. Guðbjartssonar er gott dæmi um það hugarfar sem birtist á síðum ungmennafélagsblaðanna.

einar gEinar Guðbjartsson (27.07.1911-25.08.1979) var fæddur Láganúpi í Kollsvík og ólst þar upp.  Stundaði búskap  og sjómennsku með foreldrum sínum og systkinum, og var öflugur drifkraftur í því mikla félagslífi sem þá var á svæðinu.  Hann var um skeið kaupfélagsstjóri á Gjögrum og vann eftir það við kaupfélög víða um land; síðast lengi við Kaupfélag Borgnesinga og bjó í Borgarnesi ásamt konu sinni, Guðrúnu Grímsdóttur frá Kollsvík, og dóttur, Maríu Jónu Einarsdóttur. 

Ritgerð þessi er skrifuð af Einari á þeim árum sem drift var í ungmennafélögum; e.t.v. til birtingar í Geisla, sem var blað Umf Vestra í Útvíkum.  Vera kann að ritgerðin hafi átt að vera lengri, um það verður ekki sagt nú.  Einar flíkaði ekki sínum verkum, jafnvel ekki hinum afbragðsgóða kveðskap.  Ekki verður sagt um ritunartímann, en eftir efninu gæti hann verið milli 1930 og 1940.  Hér er um hugvekju að ræða, sem lýsir líklega mjög vel andblæ og kjarna umgmennafélaganna; einlægni og bjartsýni sem þar ríkti; trú á fólkið og framtíðina.  Sannleik sem ekki er síðri í dag en á fyrri tímum.   (VÖ)  

 

Vakandi æska

Ekkert er jafn óstöðvandi og tíminn.  Með ómælanlegum hraða fleygist hann áfram og gerir það gamalt sem einu sinni var ungt.  Breytingar breytast.  Maður tekur við af manni; kynslóð af kynslóð.  Skyldur ráðandi kynslóðar hljóta að vera þær að varðveita hið besta úr arfi liðinna kynslóða og auka þar við nýjum verðmætum.  Með því einu getur þróun átt sér stað.  En að þróun sé höfuðtilgangur jarðlífsins sannar mannkynssagan, og þau brot úr sögu jarðlífsins sem við þekkjum 

En saga mannkyns sýnir okkur, að þó að heildarútkoman sé þróun þá hafa mörg víxlspor verið stigin í baráttu þess upp á við, gegnum aldirnar.  Hin neikvæðu öfl sem allstaðar eru að verki til að tefja framsóknarbaráttuna, hafa dregið þjóðir sem hæst stóðu í menningu niður í vesaldóm og spillingu.  Hvað veldur þessu?  Liggur ekki beinast við að álykta að sú kynslóð sem við átti að taka hafi ekki reynst fær um að ávaxta og bæta þau verðmæti sem feður hennar höfðu aflað?  Hvernig hljóðar saga okkar þjóðar í þessu efni?  Í fyrstu nokkrir herskáir víkingar, sem engin lög eða réttlæti þekktu nema hnefaréttinn.  Næsta kynslóð fann gallana sem þessu fylgdi og myndaði lýðræði; sem að vísu hafði sína galla, en þó miklu meiri yfirburði.

Og kynslóð þeirri sem lýðveldið myndaði leið vel, og með henni þróuðust listir og bókmenntir.  En svo gerðist hin gamla harmsaga:  Seinni kynslóðir kunnu ekki að meta það sem fólst í verkum hinna eldri; og í stað þess að bæta hið gamla skipulag, urðu gallar þess hinu unga lýðveldi að falli.  Og nú hófst hin langa harmsaga íslensku þjóðarinnar, sem ykkur er kunn og verður ekki rakin hér.

En góðir félagar; það hefur litla þýðingu að fella harða dóma yfir löngu liðnum feðrum okkar.  Á okkur hvílir síst minni ábyrgð en þeim.  Við höfum aftur fengið lýðræði, sem er á ábyrgð komandi kynslóða að gæta.  Og við höfum fengið tækni sem færir oss nær umheiminum.  Gegnum útvarpið heyrum við bergmál af hjartaslögum þjóðanna, og baráttu hinna bestu manna fyrir viðhaldi og aukning sameiginlegra menningarverðmæta alheimsins.  Hér er því þörf fyrir æskumanninn að vera vakandi.  Ekki aðeins í innanlandsbaráttunni fyrir frelsi og lýðræði; heldur og í baráttu allra jarðarbúa fram til þróunar, verður honum falið hlutverk að vinna.  Og undir framkvæmd þess hlutverks, hversu smátt sem það kann að vera, er það komið hvort við „göngum til góðs, götuna fram eftir veg“. 

Við megum því ekki láta matarstritið beygja okkur, þó það með köflum kunni að reynast erfitt, svo að við fyrir þá sök gleymum því sem æðra er; og ekki heldur glápa út í loftið á eitthvað óhlutrænt, sem við vitum ekki hvað er. 

Nei:  Vakandi æska býr sig ótrauð berjast með þeim mönnum sem vilja gera bestu hugsjón mannkynsins að veruleika.  Ekki með gjálfri fallegra orða; heldur með aðstoð anda og handa.  Og það ber þess ljósastan vottinn að ungmennafélögin eru vakandi æskulýðsfélagsskapur, að samband þeirra hefur tekið til meðferðar mál sem frekast krefja æskumanninn um aðstoð sína.