Valdimar Össurarson (yngri) frá Láganúpi hefur víða þvælst í Rauðasandshreppi, bæði um fjöll sem í brattlendi.  Hér segir hann frá einni af mörgum bjargferðum; undirbjargsferð á Bæjarvöll.

vo a stignumValdimar Össurarson (f. 04.05.1956) ólst upp á Láganúpi og var í Rauðasandshreppi framyfir þrítugt.  Hann stundaði allmikið eggjatökur og bjargferðir á yngri árum, bæði í klettum kringum Kollsvík og í Bæjar- og Látrabjargi.  Í Bæjarbjargi var ýmist farið ofanfrá, niður úr svonefndum Stíg; eða á urðir og neðstu stalla af sjó.  Engin slys urðu í þessum ferðum, þó stundum lægi nærri eins og hér er frá sagt.  Pistillinn birtist fyrst í Velvakanda; blaði Ungmennafélagsins Vöku í Villingaholtshreppi, þar sem höfundur bjó um tíma.  Myndin er tekin af Valdimar við snörun fugls á Stígnum, sem er í miðju Bjargi ofan og innan við Bæjarvöll.

Ég ætla að segja frá bjargferð sem ég tók þátt í fyrir nokkru síðan.  Það hefur verið mér nokkur árátta síðan ég fór að geta gengið nokkurnveginn óstuddur að fara á hverju vori í kletta til eggja.  Það eru jú til meiri mishæðir í landslaginu en í síðari heimkynnum mínum sunnar á landinu, og þannig er í kringum mína heimabyggð; Kollsvík á Vestfjörðum.  Beggja megin víkurinnar eru allnokkur björg og þar verpur mikið af fýl, sem ég heimsæki helst árlega.  Litlu sunnar er Látrabjarg, 14 km langt og gnæfir hæst í 444 m hæð yfir sjó.  Þarna verpa margar tegundir svartfugla, s.s. langvía, nefskeri (stuttnefja) og þar er stærsta álkuvarp heims.  Miðhluti bjargsins heitir Bæjarbjarg og þar er ég nokkuð hagvanur.  Ýmist er farið til eggja ofan frá, á svonefndan Stíg, sem er brekkufláki í miðju bjarginu, eða af sjó á urðir og skriður við bjargræturnar, en þar er ríki álkunnar.

Umrædd ferð var ein slík undirbjargsferð.  Við vorum sjö í þetta sinn sem lögðum upp úr Örlygshöfn á lítilli trillu sem ég átti þá.  Við höfðum með okkur slöngubát, vaði og fjöldann allan af plastbrúsum, því nú átti að gera stórt.  Stemmingin í hópnum var stórkostleg eins og alltaf í slíkum ferðum og tilfinningin ólýsanleg fyrir þeim sem ekki hafa reynt þetta.  Siglingin suður fyrir tekur um 4 tíma á hagstæðu falli og meðbyr, eins og þarna var.  Sigla þarf yfir Blakknesröst og Látraröst og geta þær orðið illskeyttar, en þarna lágu þær niðri.  Sjólag var gott, sólskin og norðan andvari.

Ferðinni var heitið á svonefndan Bæjarvöll, sem er skriðurunninn klettastallur sem skagar fram úr bjarginu, u.þ.b. 30 m yfir sjó.  Bátnum var lagt við stjóra á Sæluhöfninni, sem er djúpur vogur milli hleina, og mannskapurinn ferjaður í land með slöngubátnum.  Uppgangan á Völlinn er nánast þverhnípt og illfær án stuðnings af vað.  Er það kallað að fara í lás þegar vaður er festur á brún.  Vaður sá sem við áttum þarna frá vorinu áður hafði fokið til og var nokkurt bras að koma honum á sinn stað.  Allir fóru upp nema einn sem gætti bátsins. 

     Nú var tekið til við að tína saman álkueggin, sem sums staðar liggja svo þétt að hægt er að fylla fötu án þess að hreyfa sig úr sporum.  Sólin og lognið var slíkt að hitinn varð eins og í bökunarofni.  Hver brúsinn af öðrum var fylltur og borinn að niðurgjöfinni.  Þegar á leið fór að kula úr suðri.  Þetta þykir ills viti á þessum slóðum, því vegna aðdýpis við bjargið getur sjólag versnað mjög snögglega.  Þar sem tínslu var um það bil að ljúka, var ákveðið að ég færi niður til að taka á móti eggjunum meðan hinir gerðu klárt uppi.  Völlurinn er svo haganlega af Guði gerður að inn undir hann gengur langur hellir sem sjór fellur í og yfir honum þverhníptur klettur upp á brún Vallarins.  Er eggjunum slakað nánast í lofti niður í slöngubát.  Þegar ég reri inn í hellismunnan til að taka við eggjakútunum, var kominn nokkur veltingur.  Báturinn skoppaði eins og fis þegar báran æddi inn í hellinn.  Síðan heyrðist þungur dynkur og báran kom æðandi út aftur.  Vel gekk þó að ná kútunum og koma þeim í bátinn. 

     Þegar því var lokið var komin háflæði og farið að gefa yfir hleinarnar undir Bjarginu.  Við sem í bátnum vorum höfðum samband við hina gegnum talstöð og kom okkur saman um að ekki væri reynandi að ná þeim að svo stöddu, en ákveðið að bíða þar til falla færi út.  Héldu vallarmenn síðan upp í smáskúta sem er þar við bergið og huguðu að nesti sínu, áður en þeir reyndu að hreiðra um sig og ná smá svefndúr, enda komið fram á nótt.  Við elduðum okkur egg á kabyssunni og skiptumst síðan á að leggja okkur.  Báturinn valt nokkuð en dró þó ekki stjórann.  Þetta var í fyrsta skiptið sem ég hafði þurft að skilja við félaga mína í bjargi vegna veðurs og var því nokkuð kvíðinn, enda getur gert langvarandi illviðrakafla á þessum slóðum. 

     Sunnangjólan óx þó ekki meira og dró jafnvel úr henni eftir því sem frá leið.  Að nokkrum tímum liðnum var fallið svo mikið út að mögulegt var talið að ná mönnunum.  Þrátt fyrir að þeir væru sumir stirðir í hreyfingum vegna kulda og þreytu gekk þeim slysalaust niður og tóku sér góðan tíma í að strekkja vaðinn niður á klettanef til að hann yrði klár að ári.  Enn var töluverður sjógangur og þurfti ég að sæta lagi að renna gúmbátnum upp að hleininni þannig að mennirnir gætu stokkið um borð, einn í einu.  Allir komust út í trilluna, þó fæstir væru þurrir.  Alltaf er þó gert ráð fyrir slíku volki í undirbjargsferðum og því alltaf þurr fatnaður hafður til taks, auk þess sem allir eru í björgunarvestum og með hjálma. Ekki var til setunnar boðið þó þessi áfangi væri að baki.  Heimferðin var framundan og gat verið varasöm við þessar aðstæður.  Stjórinn var tekinn upp og siglt af stað.  Þegar komið var í Látraröstina var hún frekar úfin og ófrýnileg, en þó ekki talin ófær.  Ekki þótti ráðlegt að sigla þétt með landi eins og stundum er gert, en þar er hún fljótförnust.  Það er sérstök reynsla að sigla á svona litlu fleyi þegar röstin er í þessum ham.  Öldurnar eru eins og fjöll, sem aðra stundina byrgja allt útsýni, en síðan lyfta bátnum hátt í loft upp og kasta honum niður brattan hinumegin.  Ekki þarf að sökum að spyrja ef bilun verður í vél eða stýri.  Við sluppum þó að mestu við brot, og vorum brátt komnir úr þessum darraðardansi.  Það sem eftir var leiðarinnar var lens og tiltölulega gott sjólag.

     Bjart var orðið af nýjum degi þegar við stigum á land.  Vildu sumir fara strax að leggja sig, en við hinir fengum því framgengt að fyrst væri aflanum skipt.  Við skiptingu bjargfengs gilda ævafornar aðferðir, þó að á síðari árum hafi orðið breyting á “dauðu hlutunum”, sem eru t.d. vaðarhlutur, bátshlutur o.þ.h. Skipt er í hrúgur sem mynda hring á skiptavellinum.  Hver maður tekur sér eggjaílát í hönd og síðan er gengið í halarófu og egg sett í hverja hrúgu. Þannig er tryggt að egg frá mismunandi stöðum og e.t.v. misjafnlega ný, blandist fullkomlega.  Einhver úr hópnum snýr sér síðan undan og nefnir nöfn hinna meðan annar bendir á hrúgurnar, til að ákvarða hver á hvað.  Úr þessari ferð komu um 3.000 egg, sem þykir ágætt af Bæjarvelli.

     Þessi ferð fékk sem sagt farsælan endi, þótt tvísýnt hafi verið um tíma.  Þannig hefur reyndar oftar verið í þessum bjargferðum.  Oft hafa menn undrast, og jafnvel hneykslast á þessari áráttu, og kallað þetta bæði tímaeyðslu og óþarfa hættuspil.  Ekki neita ég að þessi hugsun hefur jafnvel ásótt mig sjálfan í seinni tíð, og oft hef ég reynt að komast til botns í hvað fær menn til að ganga svona fram á ystu nöf.  Eina niðurstaðan sem ég hef enn fengið er þessi:  Þetta er svo ótrúlega gaman.  Ekki get ég hrósað mér af neinni sérstakri færni í þessu.  Ég hef verið með ótrúlega færum mönnum sem gengu um klettana eins og þeir væru fluga á vegg.  En þarna gildir það sem víðar að þekkja sín takmörk og umgangast hætturnar af virðingu.