Kollsvíkingar fóru gjarnan í egg í Látra- og Bæjarbjargi.  Stundum var farið til siga af brún, en oftar á báti til "undirbjargsferða".  Þá var tekið af urðum og neðstu stöllum í bjarginu.  Torfi Össurarson skráði þessa sögu eftir Samúel Torfasyni, en báðir áttu þeir uppruna sinn í Kollsvík.

torfi ossurarsonTorfi Össurarson (28.02.1904 – 11.09.1993) ólst upp í Kollsvík; sonur Össurar Guðbjartssonar og Önnu Guðrúnar Jónsdóttur.  Fjölskyldan fluttist síðan í Dýrafjörð.  Torfi giftist Helgur Sigurrós Jónsdóttur, og hófu þau búskap að Meira-Garði í Dýrafirði; fluttust síðan að Holti í Önundarfirði; þá að Rana í Mýrahreppi, en 1933 settust þau að á Felli í Dýrafirði og bjuggu þar allt til 1971 er þau fluttu til Reykjavíkur.  Ritgerðina lét hann eftir sig í handriti á Láganúpi; ritað 1. mars 1993.

Lesendur sem mig þekkja, telja það með undrum að ég segi frá bjargferð úr Kollsvík, þar sem ég var þá ekki lengur verandi þar  En það sem ég set á þessi blöð er upphaflega sagt eftir Samúel Torfasyni frá Kollsvík sem var einn af þátttakendum í þessari ferð.  Þessir voru auk Samúels:  Júlíus Kristjánsson; Guðmundur bróðir Samma, og Ólafur H. Halldórsson seinna bóndi á Látrum.

Þeir fara frá Kollsvík fyrri part dags af stað, á róðrarbát sem hét Heppinn.  Þetta var sexróinn bátur, eins og flestir bátar voru þá sem sóttu sjó með lóðum sem veiðarfæri í Kollsvík.  Ferðin var gerð suður fyrir Látrabjarg til eggjatöku.  Veður var gott; sjólítið og logn.  Á ferðinni hittu þeir bát úr Breiðavíkurveri í róðri.  Þar voru á bát bræðurnir Haraldur og Guðmundur og e.t.v. einn eða tveir aðrir.  Þeir fengu leyfi þeirra bræðra til þess að fara til eggjatöku í Breiðavíkurbjargi. 

Síðan var haldið á ákvörðunarstaðinn og lent í vogi undir þeim stað; Lundavelli.  Samúel skyldi vera í bátnum, og lagðist hann við dreka.  Hinir þrír fóru upp í bjargið.  Júlíusfór á undan; klifraði með vað upp á staðinn og dró hina tvo upp á vaðnum.  Síðan var unnið að því að safna eggjum í kassa.  Á stallinum voru eggin þétt; svo varla var hægt að stíga niður fæti.  Og er það að líkum rétt, þar sem ég las blaðagrein, einmitt um langvíuna, þar sem sagt er að 70 egg séu á fermetra í langvíuflesjum.  Einnig las ég í þessari blaðagrein að langvíuparið sé ævilangt, og sannað er að hún geti orðið 32 ára gömul.  Þetta var innskot af öðru tagi. 

Dagur líður að kveldi, og með aðfallinu tók að brima við Bjargið; á vognum þar sem Samúel gætti bátsins.  Hann var því nauðbeygður til þess að taka upp legufærið, og færa sig á bátnum fjær landi.  En drekinn var fastur í grjóturðinni, svo hann náðist ekki.  Varð Samúel að skera legufærið, og var það slæmt.  Brimið jókst, og var orðið ómögulegt að leggja bát að hlein.  Samúel varð því að halda sér við á bátnum á árum, og vildi svo vel til að lognið hélst alla nóttina. 

Þeir uppi í bjarginu tóku eggjakassana og gáfu þeim niður í fjöru, og fóru svo allir niður.  Varð biðin löng þar til brimið lægði að morgni.  Samúel damlaði á árarnar, og ekki bætti það úr skák að hann var alveg matarlaus.  Það hafði alveg gleymst að láta hann hafa mat í bátnum.  Það verður varla annað sagt en að þeir allir voru í mikilli lífshættu, ef veður hefði ekki orðið hagstætt.  Brimið lægði að morgni.

Þeir höfðu þann hátt á að aðeins stefni bátsins kom að hleininni; á hnýfilkrappanum sat einn maður, og annar rétti eggjakassana til hans þegar stefnið nam við hleinina.  Þannig komst allur farangur og menn í bátinn, og þar með hafði allt gengið vonum framar.

En þegar þeir eru búnir að róa nokkur áratog sjá þeir fuglakippurnar sínar, sem sjórinn tók frá þeim um nóttina; og tóku þeir þær.  Síðan sjá þeir mótorbát sem liggur framaf Stórurð, og báti lent við urðina.  Þeir lenda við urðina einnig, og þar tóku þeir egg í tvær körfur.  Að því loknu semja þeir við Patreksfirðingana um að þeir tækju þá í slef norður á Kollsvík, og það gerðu þeir.  En Kollsvíkingar láta þá hafa aðra körfuna, sem var full af eggjum.  Síðan var lagt af stað heim.  Veður var gott, og sjólítið að lenda í Kollsvík. 

Ferðinni lauk vel, þó illa liti út um nóttina sem þeir biðu undir Bjarginu.  Ólafur Halldórsson frá Grundum taldi það með ólíkindum að menn væru undir Bjarginu þegar var ólendandi í Kollsvík.  Við nánari athugun um tímasetningu þessarar bjargferðar, tel ég að hún hafi verið farin vorið 1926.  Annars skiptir það ekki mestu máli; heldur hitt að ég reyni að skrásetja merkilegan atburð úr sjálfsbjargarlífi Kollvíkurmanna, sem flest er úr minni liðið nú til dags.  Ég hefi reynt að fylgja frásögn Samúels, sem hann sagði mér fyrir 10 eða 12 árum, en hann var gestur hjá mér í Meðalholti 2 hér í borg.