Hér minnist Guðrún A.M. Guðbjartsdóttir frá Láganúpi jólanna á sínu æskuheimili, á fyrrihluta 20. aldar.  Birtist áður í Niðjatali Hildar og Guðbjartar frá Láganúpi árið 1989.

gudrun gudbjartsdottirGuðrún Anna Magdalena Guðbjartsdóttir (03.06.1919 – 07.06.2008) fæddist í Tröð í Kollsvík.  Hún fór ung til Reykjavíkur í vetrarvinnu, en dvaldi í foreldrahúsum um sumur.  Árið 1943 flutti hún svo til Reykjavíkur  og bjó þar síðan með manni sínum; Marís Kristni Arasyni.  Þau eignuðust fjögur börn.  Pistil þennan skrifaði Guðrún til birtingar í Niðjatali Hildar og Guðbjartar, foreldra sinna, árið 1989.

Ég hefði gaman af að reyna að festa á blað smá endurminningar um jól, og undirbúning þeirra; þegar við systkinin vorum að alast upp.  Til að gefa börnum okkar og barnabörnum innsýn í okkar bernskujól.

Það er ekki hægt að lýsa þeirri eftirvæntingu sem ríkti fyrir hver jól; svo mikil var hún.   Snemma í desember var farið að tala um að nú þyrfti að fara að huga að jólunum.  Þá var farið að prjóna sokka á okkur börnin og sauma að minnsta kosti buxur á strákana og  kjól á stelpuskessuna; sem var ég ein á tímabili þar til ein jólin, að við fengum óvænta jólagjöf.  Það var lítil systir; eftir henni var ég, að minnsta kosti, búin að bíða lengi.  Og að sjálfsögðu lá það beinast við að hún fengi viðurnefnið Lilla.

Í jólamánuðinum var ótalmargt sem þurfti að gera, svo allt yrði tilbúið þegar hátíðin gengi í garð.  Meðal annars sem þurfti að gera var að búa til skinnskó á allan hópinn, og helst að prjóna leppa í þá.  Nú munu efalaust þeir ungu í dag þurfa að spyrja hvað þessir leppar voru, en ég læt unga fólkið um að finna það út sjálft.  Nú, og síðan þurfti að baka, en það var ekki gert fyrr en stuttu fyrir jól.  Fyrst þurfti að fara í kaupstað og reyna að útvega efni í baksturinn og ýmislegt fleira, en innkaupin fóru eftir efnum og ástæðum.  Í desember var oft vont veður og erfitt að komast í kaupstað, því leiðin lá yfir erfiðan fjallveg sem fara varð gangandi.  Ekki var hægt að fara sjóleiðina úr Víkinni að vetri til, vegna stórsjóa og brims.  Var því farið yfir Hænuvíkurháls, og síðan sjóleiðina frá Hænuvík til Patreksfjarðar.  Oft kom það líka fyrir að fara varð alla leið inn í Örlygshöfn til að komast yfir fjörðinn.  Ég man eftir að pabbi þurfti oft að fara langt inn í fjörð í þessum ferðum, og bera síðan allt á bakinu heim.

Pabba þótti ekki mikið mál að ganga langar vegalengdir, því hann var annálaður göngugarpur; bæði léttur á fæti og hljóp frekar en gekk.  Skemmti hann sér stundum við það að ganga þá af sér sem þyngri voru til göngu.

Einhver mesta tilhlökkunin var að undirbúa jólatrésskemmtunina, sem Ungmennafélagið Vestri sá um fyrir börn úr Kollsvíkinni; en í þá daga voru mörg börn í Víkinni.  Vanalega var haldinn fundur um hvar ætti að hafa tréð og hvernig haga ætti öllu þar í kring.  Ekki var um annað að ræða en að hafa það á einhverju heimilinu.  Ákveða varð hvað ætti að kaupa til að láta í jólapokana, og hverjir ættu að búa þá til.  Stundum var ekki til efni í pokana.  Þá voru teknar kápurnar utanaf stílabókunum okkar, sem voru allavega litar, og notaðar sem efni í jólapokana.  Eitt af því sem þurfti að gera í sambandi við undirbúning jólatrésskemmtunarinnar, var að fara fram í Vatnadal og ná í lyng til að nota á tréð; varð alltaf einilyng fyrir valinu.  Tréð, sem var gert úr spýtu, var svo hulið með lynginu.  Allavega kúlur voru líka settar á tréð, svo sem nú er gert, og efst á því trónaði svo toppur.  Síðan voru sett lítil kerti á það, í þar til gerðum klemmum.  Tilbúið tréð var svo geymt þar til kom að jólum.

Allt var hreinsað og fágað sem hægt var fyrir jólin, til að allt liti sem best út.  Á Þorláksmessu var alltaf borðuð skata, eins og raunar er gert víða enn.  Bakaðar voru hveitikökur og kleinur og á Þorláksmessu var stundum spilað á spil.  Pabbi hafði mjög gaman af því að spila, og var talinn mikill spilamaður.  Á aðfangadag var nóg að gera.  Reynt var að gera útiverkin snemma dags, þannig að allt væri tilbúið fyrir klukkan sex og allir komnir í sparifötin.  Upp úr sex fór pabbi að lesa húslesturinn, sem tók þó nokkuð langan tíma.  Ekki ábyrgist ég að ungviðin hafi alltaf setið kyrr undir lestrinum.  Sjálf var ég ekki barnanna best í þeim efnum.  Að loknum lestri var þakkað fyrir hann og óskað gleðilegra jóla með kossi.  Sest var að borðum, og var þá stundum kjöt af nýslátruðu, en algengara var þó saltkjöt eða hangikjöt.  Annars man ég ekki svo glatt eftir matnum, því hugurinn var við annað.  Þótt ekki tíðkuðust jólagjafir í mínu ungdæmi, var það svo margt sem gladdi á jólunum.  Öll fengum við kerti og spil, sem var okkar sameign.  Aldrei mátti spila á aðfangadagskvöld.  Á jólanóttina var alltaf látið lifa ljós, og það þótti manni nú aldeilis gaman.  Þegar jóladagur rann upp, las pabbi okkur húslesturinn snemma morguns.  Að því loknu fórum við krakkarnir út á sleða, ef þannig viðraði.  Seinnipart dags fór svo fólk að drífa að, vegna þess að jólatréð var núna á okkar heimili, og klukkan sex til sjö var kveikt á trénu.

Nú var runnin upp sú stund sem allir höfðu beðið eftir; bæði ungir og gamlir.  Fyrst var gengið í kringum jólatréð og jólasálmar sungnir, og allir fengu jólapoka.  Síðan var farið í leiki, og færðist þá heldur betur fjör í mannskapinn.  Við þetta var unað; minnsta kosti þeir yngri, langt frameftir kvöldi og jafnvel framá nótt.  Svolítil breyting varð á þessu við tilkomu útvarpsins, fyrir jólin 1930.  Til að byrja með var aðeins eitt útvarp í Víkinni, og var það haft miðsvæðis í henni; eða á Stekkjarmel.  Mig langar að minnast atviks sem gladdi okkur krakkana um ein jólin, en það var þannig að það kom gestur í Víkina; gamall vinur og frændi pabba og allra í Víkinni.  Hann afhenti Einari bróður, sem þá var formaður Vestra, og var það raunar um árabil; fimmtíu krónur, og bað hann að kaupa eitthvað handa krökkunum sem kæmu að jólatrénu.  Þetta er okkur, sem urðum þess aðnjótandi, svo ógleymanlegt að enn þann dag í dag, þegar maður lítur yfir allar þær gjafir sem börnin fá; dettur manni þetta atvik í hug, og hvort þau séu nokkuð ánægðari en við vorum þá.

Á annan í jólum fórum við á næstu bæi, eða einhverjir komu til okkar, og var þá spilað og spjallað.  Stundum spiluðu karlarnir alla nóttina.  Enn hef ég ekki minnst á það hver bar hitann og þungann af öllu umstanginu og vinnunni sem þessum jólaundirbúningi fylgdi.  Það voru auðvitað foreldrar okkar; og þá ekki síst móðir okkar, sem litla hjálp hafði fram eftir árum.  Hún lagði nótt við dag til að anna öllum sínum verkum og var oftast með smábarn líka, því börnin urðu mörg.  Heiður eiga þau skilinn, foreldrar okkar, fyrir að ala upp allan sinn stóra barnahóp og koma honum til manns; þrátt fyrir ýmsa erfiðleika og kröpp kjör.