Guðbjartur Össurarson frá Láganúpi rifjar hér upp jólahald á sínum æskuárum; fyrir og um 1960.

gudbjartur ossurarsonGuðbjartur Össurarson er fæddur 16.02.1954 á Láganúpi og ólst þar upp.  Lauk verslunarprófi og framhaldsnámi frá Samvinnuskólanum Bifröst og fékkst við skrifstofustörf, m.a. hjá Kaupfélagi A-Skaftfellinga á Höfn.  Stofnaði síðan bókhaldsstofu á Höfn í Hornafirði og rekur hana með konu sinni; Agnesi Ingvarsdóttur.  Um tíma var hann sveitarstjóri á Hornafirði.  Guðbjartur er ljóðskáld gott og hefur verið afkastamikill á því sviði, þó ekki hafi hann flíkað því opinberlega.  Ættfræði kann hann einnig betri skil á en margir aðrir.  Pistil þennan mun Guðbjartur hafa tekið saman í tilefni af ættarmóti Kollsvíkinga.

 

Ég var beðinn að minnast jóla bernsku minnar með nokkrum orðum.  Þá er fyrst að nefna, að ég ólst upp í vík vestur á fjörðum, þar sem nútíminn hafði ekki að fullu haldið innreið sína þegar ég var barn.  Í víkinni voru á þessum tíma þrjú býli, þó að nú hafi þar enginn fasta búsetu lengur.  Vegasamband var ófullkomið og oft ófært til og frá víkinni um lengri eða skemmri tíma yfir vetrarmánuðina.  Rafmagn höfðum við heima á Láganúpi frá lítilli 12 volta ljósavél, sem rétt dugði til brýnustu lýsingar í íbúðarhúsinu, en rafknúin heimilistæki voru ekki til þá.  Upphitun var frá stórri olíueldavél, en við hana voru ofnarnir tengdir.  Hlýtt var og notalegt í gamla íbúðarhúsinu, en ekki teldist það stórt á nútímamælikvarða miðað við íbúafjöldann.  Fyrst þegar ég man eftir mér voru í heimilinu yfir vetrartímann foreldrar mínir, föðurafi minn aldraður og móðuramma mín.  Ég er elstur fimm bræðra, en þar sem Valdi bróðir er aðeins rúmum tveimur árum yngri en ég, get ég ekki sagt að ég muni eftir jólahaldi áður en hann fæddist.  Til viðbótar heimilisfólkinu dvöldu oft móðurbræður mínir hjá okkur á aðfangadagskvöldið, einn til þrír eftir atvikum. 

En nú er að rifja upp sjálft jólahaldið.

Alltaf var farið í kaupstað fyrir jól, oftast með góðum fyrirvara ef færðin skyldi spillast.  Ekki var langt í næstu verslun, en við bjuggum svo vel í hreppnum þá, að þar voru tvö kaupfélög.  Í okkar félagi, Sláturfélaginu Örlygi, var hægt að fá alla helstu nauðsynjavöru, en yfirleitt var líka farið í kaupstaðinn á Patreksfirði til að kaupa gjafavöru.  Ekki síst voru það bækur sem allt heimilisfólkið var sólgið í og voru þær oft uppistaðan í “hörðum pökkum” sem gefnir voru.  Venjan var að kaupa kassa af eplum og annan af appelsínum fyrir hver jól, auk þess malt og appelsín og stundum fleiri gosdrykkjategundir.  Einnig var meira um sælgæti á jólum en í annan tíma ársins, þó að yfirleitt lumuðu afi og amma alltaf á einhverju slíku til að gauka að ungviðinu.  Sjálfur jólaundirbúingurinn heima hófst með allsherjarhreingerningu á öllu innanstokks í íbúðarhúsinu.  Loft, veggir og gólf, allt var þetta skrúbbað og skúrað, þrifið og raðað í skápum og skúffum, viðruð gluggatjöld og sængurfatnaður.  Engar ryksugur eða þvottavélar til að auðvelda verkin, þvotturinn var þveginn í stórum, kolakyntum þvottapotti og síðan hengdur út á snúrur.

Ekki var sápulyktin fyrr rokin úr húsinu, en ilmur af nýbökuðum kökum og brauði tók við.  Yngri kynslóðin kom lítið að bakstri, en var liðtæk við konfekgerðina, sem var fastur liður fyrir hver jól.  Alltaf varð einhver rýrnun á framleiðslunni á vinnslustigi,  en slíkt var talið óhjákvæmilegt og ekki litið alvarlegum augum.

Næsta skref í jólaundirbúningnum var, að jólatréð var sótt upp á loft í verkfærahúsinu.  Það  var um eins metra há trésúla, sem stóð á fæti úr ferköntuðum, þungum plankabút.  Borað hafði verið í súluna með hæfilegu millibili fyrir mjóum “greinum” sem vísuðu út og örlítið uppávið, lengstar neðst en styttust eftir því sem ofar dró.  Þetta tré, sem var grænmálað, var nú tekið og greni fest á greinarnar með sterkum, grænum tvinna.  Þegar verkinu lauk var komið fallegt, lítið grenitré, merkilega líkt lifandi tré, enda lifandi að miklu leyti.  Yfirleitt var tréð síðan skreytt á aðfangadag.  Þegar við bræður höfðum aldur til fengum við það verkefni, enda gott að stytta þann dag með því að hafa nóg fyrir stafni.

Á Þorláksmessu var venja að sjóða skötu í hádeginu, ef hægt hafði verið að nálgast slíkt hnossgæti og að sjálfsögðu vestfirskur hnoðmör til viðbits.  Um kvöldið voru alltaf á borðum reyktir bringukollar.  Það var ævagamall siður ekki síður en skatan, bringukollarnir hafðir heitir á Þorláksmessu og afgangurinn borðaður kaldur á jóladag.

Að morgni aðfangadags var gengið til búverka eins og venjulega, farið í fjós og  kindum hleypt út úr fjárhúsum ef ekki var slæmt veður.  Á þessum tíma var sá siður óþekktur, að hafa fé í húsum samfellt frá hausti til vors og ráku bændur í minni sveit fé sitt ýmist til beitar á útjörð eða fjörubeitar.  Seinnipartinn skilaði féð sér aftur að húsum, var hleypt inn og því gefið.  Reynt var að velja bæði fé og kúm gott hey um jólin og ríflega gefið á garðann.  Þegar fjárhúsverkum var lokið héldu menn heim, þvoðu sér og bjuggust í jólafötin. 

Alltaf var miðað við, að menn væru tilbúnir og sestir inn í stofu fyrir klukkan sex, þegar klukkur Dómkirkjunnar hringdu inn hátíðina og jólamessan hófst í útvarpinu.  Þann tíma sem hún stóð yfir sátu allir hljóðir og stilltir, pabbi lagði mikla áherslu á það og tókum við enga áhættu með því að brjóta boð eða bönn þetta kvöld.  Mamma og amma fengu reyndar undanþágu frá þessari reglu (ekki að spyrja að kvenréttindunum fyrir vestan), því þegar líða tók á messuna fóru þær að undirbúa kvöldmatinn. 

Að messu lokinni stóðu menn upp, óskuðu hver öðrum gleðilegra jóla og innan stundar var sest að borðum.  Fyrst þegar ég man eftir var yfirleitt ofnsteikt lambalæri á borðum á aðfangadagskvöld, matreitt eftir kúnstarinnar reglum með brúnuðum kartöflum og öllu öðru því meðlæti sem fáanlegt var.  Svínakjöt var stundum eftir að það varð algengara, en í heild má segja að menn hafi ekki bundið sig í neina fasta hefðarfjötra með jólamatinn, nema á Þorláksmessu eins og áður segir.  Rjúpur hafði ég ekki bragðað áður en ég kom til Hornafjarðar.  Þær voru reyndar algengar til fjalla fyrir vestan, en mamma var andvíg rjúpnaveiði og hefði seint matreitt þann fugl.  Að lokinni máltíð tygjaði pabbi sig til ferðar í fjósið, því kýrnar þurfti að mjólka og þær að fá kvöldgjöfina, hvað sem jólum leið.  Eftir að við strákarnir eltumst fórum við með honum og reyndum að flýta fyrir.  Heima biðu nefnilega pakkar, sem nokkur óþreyja var að skyggnast í.  Þeir alyngstu og óþolinmóðustu fengu reyndar stundum að opna einhvern pakkann sinn áður en farið var í fjósið, svona til að stytta biðina.  En að lokinni fjósferðinni settust allir viðstaddir inn í stofu. 

Þrátt fyrir að rafmagnið væri af skornum skammti, var jólatréð ljósum prýtt, með litlum kertum sem fest voru á endann á smíðuðu greinunum, þær voru traustar.  Og auðvitað hafði jólatréð verið prýtt með allskonar glitrandi jólaskrauti.  Jólaseríur og annað skraut sem tengja þurfti rafmagni var að sjálfsögðu utan hins mögulega í bænum.  En nú var hafist handa við að opna pakkana sem biðu við tréð.  Fyrir utan gjafir frá heimilisfólkinu sjálfu bárust margir pakkar frá ættingjum og vinum, sem borist höfðu með pósthestunum undanfarna daga og vikur.  Á æskuárum mínum var pósturinn nefnilega ennþá fluttur á hestum í sveitinni.  Spenningurinn hjá ungdómnum þegar jólapakkarnir voru opnaðir hefur örugglega ekkert breyst í tímans rás, þó að innihald gjafanna hafi tekið einhverjum breytingum.  Munurinn er kannske helst sá, að þá fengu börn sjaldan gjafir nema á jólum og kannske afmælum, en nú eru gjafir algengari af ýmsu tilefni.  Og jólasveinarnir höfðu ekki enn tekið uppá að stinga ýmsu smálegu í skó hjá smáfólkinu þegar ég var barn.

Tognað hefur á þessari frásögn minni frá því sem í upphafi var áformað.  Best er því að ljúka henni þegar lagst var á koddann seint að kvöldi, eftir langan og viðburðaríkan aðfangadag. 

Höfn, 15. desember 2005,

Guðbjartur Össurarson

jol laganupi 1971

Jól á Láganúpi, líklega 1971.  Didda, Össur, Hilmar, Egill og Valdimar með Kára.  Jólatréð gamla í baksýn.  Á hillunni eru jólasveinarnir, sem Didda teiknaði, sagaði út og málaði.  Guðbjartur hefur sennilega tekið myndina og framkallað hana sjálfur að Bifröst, þar sem hann var þá í námi.   -VÖ-