Henríetta Fríða Guðbjartsdóttir rifjar hér upp minningar sínar frá uppeldisárum á Láganúpi. Áður birt í Niðjatali Hildar Magnúsdóttur og Guðbjartar Guðbjartssonar foreldra hennar; útg 1989.

 frida gudbjartsdottir 2Henríetta Fríða Guðbjartsdóttir (13.12.1928-28.02.2008) fæddist og ólst upp á Láganúpi.  Hún gekk í kvennaskóla á Blönduósi; stundaði ýmis störf í Reykjavík, en fluttist 1957 að Kvígindisdal, er hún giftist Val Thoroddsen.  Þau eignuðust 5 börn; Sigurjón Hauk; Hildi; Snædísi; Önnu og Magnús, en fyrir átti Fríða dóttur; Eyrúnu. Fríða, sem af sumum kunnugum var kölluð Lilla, og Valur bjuggu lengst af í Kvígindisdal og höfðu þar búskap, en fluttu síðan í Borgarnes.  Endurminningar þessar ritaði hún til birtingar í Niðjatali Hildar og Guðbjartar á Láganúpi; foreldra sinna, en Eyrún dóttir hennar vann ötullega að útgáfu þeirrar bókar árið 1989.

­­­­­­­­­­­­­­­­­­­

Ég alein hef setið hér alllanga stund,
og upplifað bernskunnar daga.
Þá kom svo margt fram sem kætti lund;
þá kom þessi örstutta saga.
H.F.G. 

Við yngstu systkinin; bræður mínir þrír, Ingi, Öddi og Palli, og ég vorum oft að leika okkur úti í Gili, sem er örstutt frá húsinu hér á Láganúpi.  Þar var slétt ógróið svæði sem var tómur sandur; hvítur og hreinn.  Þetta höfðum við fyrir snjó.  Ég átti nú að heita húsmóðirin í Gilinu, en bræður mínir stunduðu þarna sjóinn af kappi.  Þeir bjuggu sér til báta úr spýtukubbum og ýmsu dóti, en fiskurinn sem þeir veiddu var aðallega fiskibein sem voru þarna á stöku stað í sandinum.  Þegar komið var að landi var aflinn borinn upp og saltaður með þurrum sandi, og farið að öllu eins og þeir fullorðnu gerðu í Verinu.  En þar vorum við að heita mátti daglega meðan róðrar stóðu yfir á vorin, því það þurfti að færa þeim mat sem voru á sjónum þegar þeir komu í land, og var það hlutverk okkar barnanna.  Ég ætla nú að rifja upp eina af mörgum slíkum ferðum er við fórum systkinin, á árunum kringum 1940.

Við áttum að fylgjast með ferðum bátanna, og þegar við sáum til þeirra á leið í land áttum við að fara af stað með matinn.  Við fórum norður Melarandir, eins og venja var þá.  Fyrsti farartálminn var Torfalækurinn, en það voru stillur í honum svo það var gott að komast yfir hann.  Síðan komum við að Miðlæknum; hann var nú svo lítill að þar gátum við stokkið yfir.  Nokkru fyrir norðan Miðlækinn var Áin.  Í henni voru líka stillur; tveir stórir steinar sem hægt var að stökkva á.  Í raun og veru voru þetta nú ekki miklir farartálmar að sumrinu, en gátu orðið það að  vetrinum.  Þegar við vorum komin yfir Ána þurftum við oftast að stansa til að fá okkur að drekka úr Mikkupytlunni, sem var lítil uppspretta norðan við Ána.  Í þessa lind sóttu þau alltaf vatn til heimilisnota; Mikkalína föðursystir okkar og Karl maður hennar, en þau bjuggu þá á Stekkjarmel.  Þegar við vorum búin að svala þorsta okkar var ferðinni haldið áfram og var farið fyrir neðan girðingu á Stekkjarmel, sem í daglegu tali var kallaður Kallamelur, utan í ábúandann.  Þar sem við lónuðum þarna norður með Stekkjarmelnum fórum við að svipast um, hvort gömlu hjónin væru sjáanleg nokkursstaðar utan dyra.  Það var föst venja hjá þeim, ef þau urðu vör við okkur fara hjá, að koma niður að girðingu til okkar og gefa okkur kandís, sykurmola eða rúsínur.  Þetta þáðum við náttúrulega með bestu þökkum, því það var nú ekki svo mikið um sælgæti í þá daga.  Ef þau voru ekki sjáanleg úti, þá tókum við það ráð að hósta eins hátt og við gátum og fórum þá ekki hratt yfir landið; ef vera mætti að þau veittu okkur athygli.  Oftast bar þetta tilætlaðan árangur, og kom þá gamla konan með eitthvað gott í svuntuvasa sínum og gaf okkur.  Þau hjónin voru mestu gæðasálir; bæði við börn og alla sem þau umgengust.

sg verid 2(Málverk Sigríðar Guðbjartsdóttur á Láganúpi af börnum á leið í Verið, að færa vermönnum mötuna).

Nú urðum við að halda áfram þennan stutta spotta sem eftir var í Verið, því bátarnir voru um það bil að lenda og ekki máttum við koma of seint með matinn til sjómannanna.  Bátarnir voru lentir og byrjað að setja þegar við komum í Verið, svo við flýttum okkur eins og við gátum, að koma matnum fyrir inni í verbúðinni sem pabbi og tveir eldri bræður okkar, Einar og Dóri, héldu til í á meðan róðrar stóðu yfir.  Svo var spretturinn tekinn niður í fjöru, þar sem þeir voru að setja bátinn; við gátum hjálpað til við að bera hlunna.  Áður en sjómennirnir fóru að gera að, fengu þeir sér að borða.  Oftast var soðinn nýr fiskur og lifur á prímus, sem þeir höfðu til að hita kaffi.  Við fengum alltaf að borða með þeim, og aldrei fannst mér fiskur og lifur betri en þegar ég borðaði í Verinu.  Við máttum oftast dvelja í Verinu meðan pabbi og bræður okkar voru að gera að og ganga frá fiskinum.  En að því loknu fóru þeir að þvo sér og svo að sofa, því þeir tóku daginn oftast snemma ef sjóveður var.  Við tókum saman ílát og annað sem við áttum að taka með okkur heim, og ekki máttum við gleyma fiskipokanum.  Þegar steinbíturinn var orðinn nógu harður fengum við alltaf nokkur strengsli með okkur.  Þau voru nú ekki alltaf heil þegar heim var komið, því við stóðumst ekki freistinguna að smakka þetta lostæti á leiðinni heim.

Já, það var oft ævintýri líkast að koma í Verið.  Þar hittum við börnin af hinum bæjunum í Víkinni, og gátum þá leikið okkur ef tími var til.  Á þessum tíma var búið á 6 bæjum í Kollsvíkinni, og nokkur börn voru á þeim flestum.

Þótt lífsafkoma Kollsvíkinga byggðist að miklu leyti á því að vel aflaðist á vorvertíðum, var þó búskapur stundaður á öllum bæjum.  Það var því hlutverk húsmæðra að sjá um búið; auk sinna vanalegu starfa, meðan róðrar stóðu yfir; frá sumarmálum og fram að slætti.  Þann tíma fluttu allir vinnufærir karlmenn í Verið, og komu ekki aftur heim nema á sunnudögum og ef landlegur voru.

Þau voru því mörg, störfin sem mamma þurfti að inna af hendi; ekki síst þegar þess er gætt að börnin voru mörg og með fárra ára millibili.  auk þeirra voru oftast eitt eða fleiri börn hjá þeim í sumardvöl.  Þá var svo margt sem þurfti að gera, sem nú er löngu lagt af.  Þegar hugsað er til baka og jafnframt hugsað til kvenna nútímans, með öll þau þægindi sem nú bjóðast, finnst manni næsta óskiljanlegt hvernig hún gat annað öllum sínum störfum og jafnframt veitt okkur börnunum þá athygli, ástúð og þolinmæði sem við nutum hjá henni.  Um þetta leyti var Gunna systir farin að heiman til vinnu annarsstaðar, en hún hafði verið aðalaðstoð mömmu frá því hún fór að geta unnið.

Vorið er aðalannatíminn í sveitum, og svo  var einnig þegar ég var að alast upp.  Um sauðburðinn þurfti að smala á hverjum degi, og jafnframt vitja fjárins að nóttu.  Mótekja fór fram að vori; það var erfitt og tímafrekt starf.  Þá þurfti að vinna kartöflugarðana og setja niður; vinna á túnum og hreinsa þau.  Keppst var við að vera búinn að smala til aftektar og ganga frá ullinni fyrir slátt.  Oftast var reynt að nota landlegudaga til smalamennsku og aftektar.  Ingveldur Ívarsdóttir frá Hænuvík, sem bjó á Stekkum á Patreksfirði, kom alltaf úteftir og sá um ullarþvottinn fyrir mömmu; mörg sumur var hún einnig við heyskapinn.  Aðra utanaðkomandi hjálp man ég ekki eftir að hún fengi.  Ullarþotturinn fór fram við Torfalækinn.  Vatn var hitað upp að suðu, á hlóðum í stórum potti; í það var blandað keytu, en hún var notuð í staðinn fyrir sápu.  Þá var ullin sett í pottinn og þvæld í nokkurn tíma; síðan tekin upp í körfu og skoluð vel í læknum.  Að því loknu var hún borin upp á Torfamel og breidd þar til þerris.  Þegar ullin var orðin þurr var valið úr henni til heimilisnota, og hin hreinsuð og látin í poka til sölu.  Ullarþvottinn þurfti að vinna af mikilli vandvirkni.  Oftast vorum við krakkarnir að reyna að aðstoða Ingveldi, aðallega við að bera ullina upp á þurrkvöll.  Mamma þurfti að hafa til mat og föt á hverjum degi til að senda sjómönnunum í Verið, þegar þeir komu í land.  Þá þekktist ekki annað en að baka öll brauð og kökur heima.  Þá þurfti að mjólka kýrnar kvölds og morgna og koma mjólkinni í mat.  Skilja mjólkina, strokka rjómann og hleypa skyr úr undanrennunni.  Áfunum sem komu þegar strokkað var, og mysunni af skyrinu, var safnað í tunnu og látið súrna.  Af áfunum kom þykk hvít sýra.  Í smástraum var hún við botn tunnnnar, en í stórstraum kom hún upp á yfirborðið.  Var hún höfð til matar; ein sér eða höfð út á graut.  Þegar mysan súrnaði var hún notuð til að sýra mat og einnig blönduð vatni og notuð til drykkjar; þá kölluð drykkjarblanda.

Allan þvott þurfti að þvo á bretti; bera svo í körfu út í brunnhús og skola hann þar og vinda í höndum.  Má nærri geta að það var ekki lítið verk, á svo fjölmennu heimili.  Síðast en ekki síst þurfti hún að annast barnahópinn sinn; sjá þeim fyrir fæði, gera þeim skó, prjóna sokka og sauma allar flíkur.  Og ekki var alltaf úr miklu að spila, hvorki til matar né fatagerðar.  Fyrir ein jól man ég eftir að hún saumaði mér kjól úr peysufatasvuntunni sinni.  Ég minnist þess að hún talaði um hvað þeir Maggi og Einar væru oft búnir að borga sér, með hjálpsemi og gjöfum, klæðispilsið sitt, sem hún tók eitt sinn fyrir jól til að gera þeim úr buxur.

Já, það var oft langur vinnudagurinn hjá elsku mömmu minni, en ekki man ég eftir að hafa heyrt hana kvarta um erfiðan né langan vinnudag.  Hún vann öll sín verk, hvor sem það var úti eða inni, af alúð og samviskusemi.  Hún fór fyrst á fætur á morgnana og síðust í rúm að kveldi, svo maður getur rétt ímyndað sér að hún hefur oft lagst þreytt til svefns.  Og oft kom fyrir að hún var við störf fram á nætur.  Ég man eftir að ég vildi helst ekki fara að sofa fyrr en um leið og mamma.  Ég mátti helst aldrei af henni sjá, þegar ég var lítil og fram á unglingsár.  Því fannst mér það mikið mótlæti við mig, þá tíu eða ellefu ára gamla, eitt sinn er ég fékk ekki að fara með henni norður í Tröð, en hún fór þangað oft að heimsækja Sigrúnu systur sína sem bjó þar.  Með þeim systrum var alla tíð mjög kært, og mikill samgangur á milli heimila þeirra.

.  Hún sagði svo vel frá að maður gleymdi stund og stað, og lifði sig inn í ævintýrin sem hún var að segja okkur.  Pabbi las líka oft sögur fyrir okkur á kvöldin, þegar við vorum lítil.  Hann las svo skemmtilega að það var ekki hægt annað en taka eftir hverju orði.  Honum þótti mjög gaman að lesa upphátt.  Ég man eftir að hann las stundum fyrir mömmu, þegar hún var að spinna eða prjóna á kvöldin að vetrinum.  Þeim þótti báðum gaman að lesa góðar bækur, og ég held að þau hafi sjaldan farið að sofa á kvöldin án þess að líta í bók, þegar þau voru lögst á koddann; þótt langt væri liðið á kvöld, og þau þreytt eftir erfiði og önn dagsins.

Það sem ég hef sett hér á blað er ekki nema smá brot af öllum þeim góðu og skemmtilegu minningum sem ég á frá minni yndislegu æsku, og um okkar ástkæru foreldra.