Ingvar Guðbjartsson var fæddur og uppalinn í Kollsvík og lengi bóndi þar .  Hér rifjar hann upp ýmis minningarbrot frá yngri árum.

ingvar gIngvar Jón Guðbjartsson (31.05.1925 – 14.05.1999) fæddist á Grund í Kollsvík.  Var bóndi á Stekkjarmel frá 1953 til 1962, er hann flutti að Kollsvík þar sem hann stundaði búskap til 1971.  Þá fluttist hann í Kópavog og hóf vinnu hjá Jarðborunum ríkisins.  Kona Ingvars var Sigurlína Jóna Snæbjörnsdóttir frá Kvígindisdal, og eignuðust þau 5 börn.  Ingvar var flestum fróðari um sögu og staðhætti í Kollsvík, og góður sögumaður.  Þessi minningarbrot tók hann líklega saman á efri árum, og eru þau hluti af nokkru safni úr hans fórum.

Minningar um foreldra og systkini

Eitthvað minnisstæðasta um pabba er þegar hann tók okkur með oft á sunnudögum út að Litlavatni og heim Hnífa.  Sérstaklega var það seinnipart sumra til að skoða féð; hvaða kindur við sæjum og hvað lömbin höfðu stækkað.  Svo að vetrinum að fara í fjárhúsin niðri við sjó, og þá í leiðinni að ná i nokkra kubba; og þegar pabbi saumaði á mig brók. 

Minnisstæðasta atvik gagnvart mömmu er þegar ég fór mína fyrstu ferð úr víkinni.  Þá fór hún inn á Tóftir, en þar bjuggu, þá orðin gömul; Kristrún systir ömmu og Pétur, afi Kitta í Hænuvík.  Tóftirnar voru efst í túninu á Sellátranesi.  Við Össur fengum að fara með henni.  Farið var gangandi og gist á Tóftum, og svo var komið við í Hænuvík hjá Ólöfu systur mömmu á heimleiðinni.

Annað atvik var að vori.  Allir við róðra og við öll komin í rúmin, en mamma þurfti oft að vera á fótum fram á nótt.  Þegar hún ætlar að fara að sofa varð hún þess vör að kviknað var í þakinu á bænum út frá leirrörum sem voru frá eldavélinni.  Ég minnist þess mest hvað hún var róleg.  Fyrsta sem hún gerði var að senda okkur út í skemmu með sængurfötin okkar.  Svo fór hún að reyna að slökkva eldinn.  Svo vel vildi til að hún hafði sótt vatn út í brunnhús um kvöldið.  Það bar hún upp á bæinn og hellti niður með rörunum.  Rétt í þessu kom Júlli neðan af Rana, en hann hafði séð reykinn úr bænum.  Hann hjálpaði mömmu að slökkva í glóðunum í torfþakinu.

Ingveldur, en ég heiti eftir henni og manni hennar Jóni sem var dáinn, var hjá pabba og mömmu mörg sumur.  Hún hélt mikið upp á mig og sá um öll föt á mig fram yfir fermingu.  Henni þótti ég oft mikill sóði og jarðvöðull.  Hún sagði einusinni:  „Það er ég viss um að Ingvar lærir aldrei að halda sér uppúr skítnum.  Það er munur en hann Össur; það sér aldrei á honum“!  Hún mátti segja þetta, en aðrir hefðu fengið orð í eyra.

Tveimur atvikum ætla ég að segja frá; þegar ég gekk fram af nöfnu minni, eins og ég kallaði hana.  Eitt sinn var hún að þvo ullina, eins og hún gerði alltaf, norður við Torfalæk.  Ullin var þvegin úr keytu; þ.e. hlandi sem safnað var í tunnu og kom í stað sápu, og skoluð síðan í læknum.  Nú var ég orðinn votur yfir haus af að bera hreinu ullina upp á mel þar sem hún var þurrkuð.  Þá datt mér allt í einu í hug að best væri að fara í bað.  Ég lagðist í lækinn neðan við ullarþvæluna og veltist þarna í læknum.  Gamla konan varð svo hissa að hún sagði ekkert, en settist síðan á bakkann og veltist um af hlátri.  Í þetta skipti týndi ég fyrsta vasahnífnum sem ég eignaðist, og þó ég leitaði í mörg ár fann ég hann aldrei.

Annað sinn voru Gunna og nafna mín að raka fyrir ofan bæinn.  Við Össur áttum að bera heyið niður á sléttu.  Mér fannst þetta leiðinlegt og erfitt, svo ég fór að stinga mér kollhnís niður alla brekku með föngin.  En það vildi verða lítið eftir af heyi þegar niður kom, svo ég fékk lítið þakklæti fyrir hjá nöfnu.

Fríðu systur man ég ekkert eftir, enda ekki nema rúmlega tveggja ára þegar hún dó.

Einari man ég sérlega vel eftir; þegar hann kom heim af vertíð og færði mér fyrstu bókina sem ég eignaðist, en það voru Börnin frá Víðigerði.  Þá bók á ég enn.

Magga man ég hvað best þegar Palli fæddist, en þá svaf ég hjá honum niðri í stofu.  Þegar mamma var búin að eiga barnið og farin að hressast sótti Maggi mig út á tún og vildi að ég skoðaði þennan grip.  En ég hafði ekki áhuga og fór ekki nema upp í stigagatið og lét hlerann hvíla á mér og fór ekki lengra, þrátt fyrir fortölur.  Þá man ég vel þegar Maggi kom einusinni úr siglingu á Vatneyrartogaranum, að hann færði mér klofstígvél; en þá voru flestir vermenn enn í skinnklæðum.  Þetta þótti stór viðburður og allir strákarnir í Víkinni, en þeir voru nokkuð margir þá, þurftu að prófa; og auðvitað var farið uppfyrir.

Dóri hafði gaman af að gera at í okkur.  Hann átti tóma dós undan grammofónnálum og hafði ég mikinn áhuga á dósinni.  Hann gaf hana fala ef ég syngi fyrir hann.  Svo söng ég, en Dóri veltist um af hlátri.  Dósina fékk ég, en síðan hef ég ekki sungið nema ég væri kenndur eða einn uppi á fjalli.

Mörgum atvikum man ég eftir með Gunnu.  Eitt var það að ég átti stórt og þykkt súkkulaðistykki frá nöfnu minni, en frá henni kom eiginlega eina sælgætið sem kom á heimilið.  Gunna bað mig að sýna sér stykkið og ég varaðist ekkert en gerði það.  Allt í einu skellti hún skoltum á stykkið, og það undraði mig mest hvað hún náði stórum bita.  Ég man samt ekki til að ég reiddist.  Seinna skiptum við á stykkinu og góðri pennastöng, en hún ætlaði að hætta að skrifa eftir fermingu.

Það var verið að þurrka hey uppi á Hólum.  Mamma var með Össur, sem sat við flekkina.  Hann sótti í að éta sand og lambaspörð.  Ég átti að líta eftir honum, en mér fannst að hann mætti bara éta þetta ef honum finndist það gott!

Lífshlaupið í Kollsvík

Ég er fæddur að morgni hvítasunnudags 31.maí 1925, í blíðskaparveðri að því er mér er sagt.  Á móti mér tók Magdalena Össurardóttir móðursystir mín.  Þá bjuggu foreldrar mínir á Grund, sem er smá nýbýli úr Láganúpslandi sem Samúel Eggertsson skrautritari og kennari hafði stofnað og búið á í nokkur ár.  Þarna man ég ekki eftir mér.  Við fluttum að Láganúpi vorið 1927, þá var ég um það bil tveggja ára.  Í gamla bænum á Láganúpi átti ég heima fram á sumar 1934, en þá var flutt í hús sem flutt var af Rana og heim að Láganúpi.

Leikir okkar voru árstíðabundnir.  Veturnir voru einkum notaðir til að renna sér á sleðum eða skautum, en þeir voru úr tré með gjarðajárni að neðan og bundnir með snæri.  Skíði pantaði Einar frá Noregi; furuskíði, bindingalaus.  Þau kostuðu 5 krónur sem Ingveldur hafði gefið mér um jólin, en þá var ég níu ára.  Á vorin rerum við á járnbala í sandinum í Stóragilinu.  Fiskbein voru notuð fyrir fisk.  Einnig var leikið í hornabúi með horn og bein og byggingar yfir þau.  Inni var leikið með kuðunga og skeljar sem sótt var í fjöruna, en það var einnig mjög eftirsótt að ganga á reka.  Þá var stundum sigið í Hjöllunum af þeim sem því þorðu, en ég var notaður til að halda við bandið. 

Stundum var reynt að veiða rauðmaga í fjörupollunum.  Á sumrin var lítill frítími, en hann var notaður í brönduveiðar eða veiðar á vorseiðum í fjörupollunum.  Þegar kom fram í endaðan júlí var farið að athuga með berin.  Þá var líka tíðkað að fara í heimsóknir á aðra bæi; einnig að koma saman og fara í boltaleik og útilegumannaleik þegar fór að dimma.

Þegar voraði var nóg að gera.  Þá tók sauðburðurinn við og við urðum að smala út í Breiðavík, ekki sjaldnar en annanhvern dag.  Við vorum oftast hundlaus því Urta sem pabbi átti var bæði löt og svikótt.  Hún notaði fyrsta tækifæri til að svíkjast frá okkur, svo við urðum að gelta eins og hundar.  Það þurfti að hirða féð er því var sleppt og reka frá mýrunum kvölds og morgna.  Það eru mínar leiðustu minningar frá unglingsárunum.  Við vorum berlappaðir og rollurnar voru tregar til að hreyfa sig. 

Þá komu líka karlmenn í verið til róðra; venjulega í fyrstu viku sumars.  Þá var að fara með mat í verið; sækja fisk í soðið og svo varð maður að klippa hausana frá deginum áður og koma þeim í þurrk.  Þeir voru ýmist seldir eða bleyttir upp og barðir fyrir skepnurnar næsta vetur.  Þá var eitt skylduverkið að keyra fiskslorið í kerru úr Verinu og heim að Láganúpi.  Þar var það látið rotna í tunnu og síðan var það blandað með vatni og notað sem áburður.

Með haustinu komu göngur og slátrun og þá ný horn til að leika sér með.  Þá þurfti að aðstoða við smalamennsku og fjárrag; sækja vatn bæði fyrir heimilið og kýrnar, eftir því sem geta og vilji náði, og fara með pabba að gefa fénu.  Það var í fjárhúsum við sjóinn til ársins 1941 þegar byggð voru fjárhús á Láganúpi.

Ég man ekki eftir neinum átökum við lestrarnám, en læs var ég þegar ég fór að heiman.  Það var frekar snemma eftir því sem þá tíðkaðist því kennt var á Rana og því stutt að fara, en kennt var að hálfu í Kollsvík og svo að Látrum.  Þrjá vetur fyrir fermingu fylgdi ég kennaranum að Látrum og var þá fyrri tvo hjá Guðbjarti Þorgrímssyni og Guðmundínu, en einn hjá Daníel og Önnu.  Alla barnafræðslu fékk ég hjá Kristjáni Júlíusi Kristjánssyni, sem var mjög góður kennari.

Á Hvítasunnudag vorið 1939 var ég fermdur í Sauðlauksdal, ásamt 5 öðrum börnum úr sveitinni; eftir viku dvöl og undirbúning hjá séra Þorsteini Kristjánssyni í Sauðlauksdal.  Eftir fermingu fór ég að róa með Einari bróður mínum og pabba, og rerum við vorið og sumarið.

Næsta vetur var ég í Vatnsdal hjá Ólafi Thoroddsen, en næsta vor var ég við róðra og síðan sumarið í kaupavinnu á Hnjóti hjá Ólafi Magnússyni móðurbróður mínum.

Næst var gerð tilraun til náms veturinn 1944-45 á Núpi í Dýrafirði, og gekk það sæmilega.  Um vorið byrjaði ég síðan róðra frá Gjögrum með Einari bróður, og byggði einnig húsið á Gjögrum, en um sumarið var ég í kaupavinnu á Hnjóti.  Næsta vetur var ég á Kirkjubóli íi Önundarfirði, hjá Stefáni Guðmundssyni.

Vorið 1947 lærði ég á bíl á Ísafirði.  Þessu næst sótti ég um vist í Samvinnuskólanum haustið 1947 en fékk aldrei svar við því.  Seinna kom í ljós að umsóknin komst aldrei til skila, og þar með var tilraunum mínum til mennta hætt að fullu; að umdanskildu því að ég tók meirapróf bifreiðarstjóra haustið 1947.

Ég reri um vorið með Einari og fór síðan einn túr á togaranum Gylfa frá Patreksfirði.  Líkaði mér það vel og ætlaði að vera áfram, en fékk brjósthimnubólgu og var frá vinnu um sumarið.  Fór til Reykjavíkur um haustið og vann í sælgætisgerðinni Víkingi um veturinn.  Var í smíðum um vorið og heyskap um sumarið í Saurbæ hjá Sigurvin Einarssyni.  Ég var á Patreksfirði frá áramótum 1947 til hausts í kaupfélaginu.  Ók þá steinbítshausum, afgreiddi í búðinni og gerði það sem til féll.

Síðan fór ég til Reykjavíkur um haustið; tók meirapróf og réðist til strætisvagna Reykjavíkur um áramót.  Þar var ég fram í byrjun maí, en þá kom verkfall.  Fór ég þá með Gunnari Össurarsyni austur í Laugarás og var við smíðar þar fram í endaðan júni, þegar ég fór á síld á Keflvíkingi og var þar til hausts.  Fór þá heim um haustið og var heima til vors.  Var í Saurbæ hjá Sigurvin vorið og sumarið.  Næsta vetur var ég í Reykjavík en sumarið eftir var ég aftur í Saurbæ.

Veturinn 1950-51 var ég á Láganúpi.  Þá vorum við fimm í víkinni; pabbi, mamma, Helgi, Sigrún og ég.  Í mars næsta vetur, árið 1952, kom Árni Helgason í heimsókn um helgi.  Þá fór ég að Kvígindisdal og við Jóna giftum okkur í Sauðlauksdal.  Séra Gísli Kolbeins gifti okkur í stofunni í gamla húsinu.  Viðstödd voru foreldrar Jónu; presthjónin og móðir frúarinnar.  Daginn eftir tók Pétur mjólkurpóstur okkur við Klettinn og flutti okkur út að Nesi, en þaðan löbbuðum við heim um kvöldið. 

Á Láganúpi vorum við til vors 1953, en þá fluttum við á Stekkjarmel.  Byggðum við þar fjárhús og hlöðu fyrir tæp 200 fjár og fjós fyrir 4 gripi og gerðum við íbúðarhúsið.

Vorið 1961 fluttum við að Kollsvík og bjuggum þar í 10 ár, til haustsins 1971, en þá fluttum við í Kópavog.  Síðan hef ég unnið við jarðboranir og tíminn hefur liðið án áfalla eða stórviðburða.