Í tilefni Evrópskra minjadaga, og í samvinnu við Minjastofnun og Minjasafn Egils Ólafssonar, verður leiðsögn um Kollsvík laugardaginn 31. ágúst 2019.  Valdimar Össurarson frá Láganúpi mun segja frá staðháttum og menningarminjum.  

Leiðsögnin hefst kl 14.00 við nýtt skilti þar sem komið er niður í Kollsvík, við kotbýlið Tröð  sem þar er fagurlega innrammað af steinhlöðnum túngarði. 

 

Næst verður staðnæmst niðri í Kollsvíkurveri, þar sem sjá má miklar verminjar frá útgerð sem þar stóð í blóma fyrir einni öld.  Þaðan sést vel upp að bæjarstæðinu í Kollsvík, þar sem rifja má upp sögu Kolls landnámsmanns; heimsókn Guðmundar biskups góða; sögu taflmanns úr rostungstönn; varnarmannvirki gegn sjóræningjum; mannskætt snjóflóð; sagnir af monsjör Einari í Kollsvík sem átti í höggi við galdramenn og e.t.v. fleira.  

Því næst verður ekið að Láganúpi, og þar stoppað við fræðsluskilti.  Þaðan verður gengið niður að býlinu Grundum og áfram niður að sjó; að Grundabökkum þar sem um margar aldir stóð Láganúpsver; ein stærsta verstöð sunnanverðra Vestfjarða.  Margt hefur verið á huldu um hana, en mikið strandrof afhjúpaði fyrir fáum árum þykk lög mannvistarleifa á löngu svæði.  Sagt frá sjóslysum á þessum slóðum.  Gengið verður út með svonefndum Görðum, en það er gríðarmikill steinhlaðinn veggur með Bökkunum; nokkurskonar "Kínamúr" svæðisins.  Valdimar hefur unnið að viðgerð á Görðunum í samstarfi við Minjastofnun.  Á leiðinni verður skoðað skotbyrgi og litið til Arnarboða, þar sem líklega varð fyrsta skráða björgun manna úr sjávarháska hér við land.

Gengið verður upp yfir Brunnsbrekku, framhjá steinhlaðinni fjárrétt og að Hesthúsinu á Hólum, en Valdimar vann að viðgerð þess í samvinnu við Minjastofnun.  Það mun vera elsta útihús landsins sem staðið hefur undir þaki og gegnt hlutverki allt frá bygginu, um árið 1650.  Þar verður staldrað við, notið útsýnisins, spáð í byggðina í Kollsvík og þjóðleiðir fyrri tíma.  Sagt frá sólarkrossinum á Láganúpi; hólnum Fornmanni; íbúðarhúsi sem fór á flakk; hleðslumanninum Guðbjarti Guðbjartssyni; hellumálun Sigríðar á Láganúpi og fleiru.  Síðan verður gengið aftur að bílastæðinu, þar sem ferðalaginu lýkur.  

Allt er þetta létt ganga, lengst um Grundabakka og Hóla eða um 2 km.  Rétt er að vera viðbúinn haustveðri, þó veðurspá sé góð fyrir daginn.  Ofangreind dagskrá kann að breytast eitthvað ef góðviðrisspáin stenst ekki.

Viðburðurinn er hluti af Evrópskum menningarminjadögum.  Um þá og aðra slíka viðburði má meira sjá á vef Minjastofnunar.

Leita