einar thoroddsenEinar Thoroddsen (23.05.1913-13.05.1991) fæddist í Vatnsdal í Rauðasandshreppi; sonur Ólafs E. Thoroddsen skipstjóra og Ólínu Andrésdóttur Thoroddsen.  Einar tók skipstjórnarpróf 1955 og var skipstjóri á mörgum skipum.  Síðan lengi hafnsögumaður í Reykjavík.  Hann var borgarfulltrúi í Reykjavík;  formaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Ægis: formaður Sjómannadagsráðs og sat í stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins.  Sæmdur var hann heiðursmerki Sjómannadagsins og heiðursmerki Ólafs Noregskonungs.  Eiginkona hans var Ingveldur Bjarnadóttir frá Patreksfirði og áttu þau 3 börn.

Þessi frásögn Einars birtist í Sjómannadagsblaðinu í júní 1964 og nefndist þar „Lítil ferðasaga“.

Það var á áliðnum degi 21. desember 1930 sem gest bar að garði heima hjá foreldrum mínum í Vatnsdal við Patreksfjörð, en þar bjuggu þau þá.  Þar voru komnir Þórarinn Bjarnason og Þorgeir sonur hans, sem þá mun hafa verið 14-15 ára gamall.  Þórarinn hafði flust með fjölskyldu til Patreksfjarðar um sumarið.  Áður bjó hann á Bökkum (Grundabökkum) í Kollsvík í Rauðasandshreppi.  Þeir feðgar höfðu farið nokkrum dögum áður frá Patreksfirði út í Kollsvík til þess að sækja nokkrar kindur sem þórarinn átti þar og voru nú að reka þær til slátrunar, inn á Patreksfjörð.

Þennan dag var rysjótt veður.  Þegar þeir komu að Vatnsdal var komið myrkur.  Þeir feðgar ætluðu ekki að halda lengra um kvöldið, heldur fá gistingu í Vatnsdal í von um að veður yrði betra næsta dag og gæfi að flytja þá á báti yfir fjörðinn morguninn eftir. 

Vatnsdalur er beint á móti kauptúninu á Patreksfirði.  Kindurnar voru látnar í hús, því þær voru hálf hraktar og þvældar eftir langan rekstur.  Þeir höfðu farið snemma um morguninn frá Kollsvík og voru því búnir að vera á ferð mestan hluta dagsins.  Ráðgert var um kvöldið að búast snemma til ferðar morguninn eftir, ef fjarðfært yrði, og helst að komast af stað fyrir birtingu.  Vegna þess að komið var svo nærri jólum var það mikið kappsmál hjá Þórarni að komast á báti yfir yfir fjörðinn frá Vatnsdal.  Því annars hefði orðið að reka féð alla leið í kringum hann, en það ferðalag hefði tekið svo langan tíma að hann hefði ekki komist til Patreksfjarðar í tæka tíð til þess að geta lógað fénu fyrir hátíðina, en það var ætlun hans.

Þórarinn var kunnur spilamaður, og eftir að þeir feðgar höfðu farið í þurr föt og matast var tekið upp létt hjal og sest að spilum.  Allar áhyggjur af fyrirhuguðu ferðalagi næsta dag voru látnar bíða betri tíma.  Um miðnætti var gengið til náða í góðri von um batnandi veður. 

Um morguninn var risið úr rekkju og gáð til veðurs.  Ekki var útlitið gott.  Suðaustan þunga vindur; drungalegt loft og veðurhvinur í fjöllum.  Föður mínum leist illa á veðrið.  Taldi hann rétt að bíða birtu og sjá hvort veðurbreyting yrði þangað til, því sér sýndist öll merki þess að stórviðri væri í nánd.  Reyndist hann sannspár, eins og síðar verður sagt. 

Birgir bróðir minn sem þá var 19 ára, og ég, tæpum tveimur árum yngri, ætluðum að fara á bátnum sem flytja átti Þórarin á.  Við vildum fara strax af stað og töldum að þá myndum við verða komnir yfir fjörðinn áður en veðrið skylli á.  Þórarinn latti heldur ferðarinnar, enda var miklu erfiði af honum létt með því að hann kæmist sjóleiðina.  Faðir minn latti okkur mjög.  Allt að einu fór það svo að við Birgir réðum, og ákváðum að fara.  Við ferðbuggumst í snatri; rákum kindurnar til sjávar og inn í naust.

Báturinn sem fara átti á var nálega tveggja tonna trilla, með 4-5 hestafla Scandia glóðarhausvél.  Það kom sér vel síðar að vélin var ekki viðkvæm fyrir bleytu.  Báturinn var nú settur niður.  Stórstreymt var og stóð á fjöru.  Var því mikið útfiri og langur setningur, enda vorum við lengi að koma bátnum á blot.  Þegar því var lokið var eftir að draga hverja kind úr naustinu og niður að bátnum, því ekki var hægt að handsama þær í sléttri fjörunni.

Mig minnir að kindurnar hafi verið sextán.  Tveir okkar urðu að passa bátinn.  Til þess urðu þeir Birgir og Þórarinn, en faðir minn, Þórgeir og ég drógum kindurnar.  Allt gekk þetta seinna en áætlað var í upphafi.  Þegar síðasta kindin var komin út í bátinn var farið að skína.  Var þá auðséð að illviðri var að skella á.  Faðir minn vildi þá að við hættum við að fara.  Við Birgir vorum ófúsir að hætta við svo búið, eftir alla þessa fyrirhöfn.  Við vorum oft í flutningum á trillunni og ekki var alltaf vandlátt með veður, enda lent í ýmsu fyrr.  Ekki urðu frekari umræður um þetta.  Við ýttum úr vör og lögðum af stað.  Ef við hefðum getað farið með fullri ferð og beinustu leið þá var þetta ekki nema tuttugu mínútna ferð.

Vindur var nú orðinn hvass.  Fórum við inn með landinu til að byrja með, til að geta heldur „slegið undan“ þegar lengra kæmi út á fjörðinn, ef veður versnaði frá því sem var.  Ferðin gekk vel þangað til við vorum um það bil á miðjum firði.  Við höfðum þó þurft að draga mikið úr ferð.  Þegar hér var komið var orðið bjart, eða eins og birti þennan dag.  Inni á firðinum var kolmórauður hríðarsorti sem nálgaðist okkur óðfluga.

Skipti það engum togum að á svipstundu skall á ofsaveður; varð hvítur skafrenningur yfir allan fjöðinn.  Ágjöf á bátinn jókst nú svo að eftir stutta stund hætti austurdælan að hafa undan.  Kindurnar, sem allar voru lausar, forðuðu sér undan ágjöfinni og tróðust til hlés.  Þórarinn og Þorgeir áttu fullt í fangi með að passa að þær legðu ekki bátinn á hliðina.  Birgir stýrði en ég var við dæluna, sem var handdæla, og leit eftir vélinni.

Báturinn var nú farinn að verja sig illa.  Í ólögunum gekk mikill sjór í hann.  Ég óttaðist að vélin myndi stöðvast, því hún var farin að ausa upp á sig sjó.  Sleppti ég þá dælunni og greip vatnsfötu og jós með henni eins og ég gat, en Birgir tók við dælunni og dældi með henni.  Jafnframt varð hann að hafa stjórn á bátnum og passa uppá þegar ólög kæmu, því þá varð að „slá undan“; báturinn þoldi ekki að beitt væri uppí. 

Eftir eitt ólagið náði austurinn langt upp á svinghjólið á vélinni.  Ég herti mig sem ég gat við að ausa en samt leið, að mér fannst, langur tími þar til ég náði austrinum niður fyrir hjólið aftur.  Þetta var líka langversta ólagið sem kom á bátinn.  Ég hef oft hugsað um það síðan hvílíkt lán var yfir okkur; að vélin skyldi ekki stöðvast.  Því þá hefði verið óvíst um endalokin á ferð okkar.  Smátt og smátt þokaðist þó í áttina hjá okkur og þegar við nálguðumst höfnina á Patreksfirði fór heldur að draga úr bárunni.  En rokið var svo mikið að sjóinn skóf inn í bátinn.  Það mátti því aldrei lina á við að ausa. 

Þegar við vorum skammt inn af bryggjunni á Vatneyri sá Páll Einarsson, sem þá var yfirverkstjóri á Vatneyri, til ferða okkar.  Við lentum litlu seinna, rétt innan við bryggjuna, en þar var Páll fyrir með marga menn með sér.  Hraustlega var tekið á móti okkur og bátnum kippt að mestu á þurrt.  Það kom sér vel að fá snona móttökur, því ef við hefðum ekki fengið svona góða hjálp hefði bátinn fyllt um leið og hann stóð.

Greiðlega gekk að ná kindunum í land og setja bátinn, því margar hraustar hendur voru þar að verki.  Við höfðum ekki gert okkur grein fyrir veðurofsanum; og ég vil segja þeirri hættu, sem við höfðum verið í maðen við vorum á sjónum.  Því það er tvímælalaust langversta veður sem ég hef verið á sjó í opnum báti.

Eftir að við höfðum gengið frá bátnum fór ég upp í símstöð og hringdi yfir að Kvígindisdal, sem er næsti bær fyrir innan Vatnsdal, og talaði við Snæbjörn Thoroddsen frænda minn.  Ég bað hann að hjálpa mér að koma boðum heim, um að við hefðum komist heilu og höldnu til Patreksfjarðar.  Það var fúslega gert frá hans hendi, þó varla væri hægt að segja að fært væri milli bæja.  Þá var sími ekki kominn nema á þrjá bæi í Rauðasandshreppi, og ysti bærinn með síma var Kvígindisdalur.  Við Birgir fengum gistingu hjá sæmdarhjónunum Ólafi Ólafssyni og Halldóru konu hans, en þau starfræktu lengi gistihús á Patreksfirði.  Til þeirra var alltaf gott að koma.

Morguninn eftir, eða á Þorláksmessu, var vindur genginn út í vestur.  Hvassviðri í éljunum.  Ekki leist okkur á að leggja á fjörðinn.  Ákváðum við að bíða fram á hádegið og sá til hvort ekki drægi eitthvað úr éljunum.  Á Patreksfirði voru staddir nokkrir sveitungar okkar sem voru í kaupstaðarferð yfir jólin, en höfðu orðið veðurtepptir og því orðnir seinir fyrir til að ná heim til sín fyrir jól.  Ætluðu þeir að fá far með okkur, því ekki var um aðra bátsferð að ræða.  Ef okkur gæfi ekki upp úr hádeginu ráðgerðu þeir að leggja af stað fótgangandi í kringum fjörðinn.  Allir báru þeir þungar byrðar, svo það var ekki tilhlökkunarefni hjá þeim. 

Um hádegið fór að verða lengra á milli élja.  Settum við þá bátinn á flot og biðum í vari af bryggjunni á Vatneyri; tilbúnir til að fara þegar él væri gengið yfir.  Á firðinum lágu margir erlendir togarar sem höfðu leitað vars í storminum.  Það var ætlun okkar að binda bátinn aftan í einhvern þeirra; ef við sæjum fram á að við næðum ekki yfir fjörðinn á milli élja, og bíða af okkur él ef við sæjum ástæðu ti þess.  Eftir slæmt él lögðum við af stað.  Ferðin gekk vel.  Þegar él kom vorum við komnir yfir undir vesturlandið; á smásævi, og lentum heima eftir stutta stund.  Sumir sveitunga okkar áttu þó langa leið fyrir höndum og komu ekki heim til sín fyrr en seint næsta dag; aðfangadag.

Síðan þetta gerðist eru aðeins rúm 30 ár (ritað um 1960).  Þá var, eins og fyrr segir, sími á aðeins þremur bæjum í Rauðasandshreppi; engir vegir nema sem í dag væru kallaðir troðningar.  Hvegi akfær spotti.  Ef ekki var hægt að komast frá sjó þá varð að fara fótgangandi.  Oft urðu menn að bera þungar byrðar, hálfar og heilar dagleiðir. 

Mikil breyting hefur orðið á þessu tímabili.  Stórstígar framfarir hafa orðið á flestum sviðum.  Búskaparhættir gjörbreyst og aðstaða fólksins til bættra lífskjara batnað að miklum mun.  Nú er sími á hverjum bæ og akfært heim að hverju byggðu býli.  En trillubátarnir standa óhreyfðir í naustum.  Samgöngutækið sem mest var notað fyrir 30 árum.

Þórarinn Bjarnason (08.10.1878-27.04.1963) bjó lengi á Grundabökkum, sem var um skamman tíma þurrabúð í landi Grunda í Kollsvík.  Hann flutti svo á Patreksfjörð 1930 eins og hér er sagt, og vann þar sem verkamaður, vigtar- og fiskmatsmaður.  Síðar bóndi í Hliði Álftanesi, seinast í Reykjavík.  Þórarinn var sonur Bjarna Bjarnasonar kennara og bónda á Grundum og Önnu Sigurðardóttur konu hans .  Á Grundum lifði Þórarinn þó einkum af sjósókn.  Spilamaður var hann mikill, og félagsmálamaður.  Ingimundur Þorgeir Þórarinsson (11.04.2016-25.08.1982) bjó á Patreksfirði og vann sem verkamaður.

Birgir Thoroddsen (10.10.1911-02.01.1969) lauk farmannaprófi og var sjómaður á skútum og stærri skipum.  Ólafur E. Thoroddsen (04.01.1873-04.09.1959) faðir þeirra var bóndi í Vatnsdal við Patreksfjörð; tók þar við búi af Einari föður sínum.  Ólafur var skipstjóri á Patreksfirði og víðar í mörg ár, en eftir að hann kom í land kenndi hann skipstjórnarfræði á heimili sínu.