Hér er sagt frá hákarlaveiðum í Rauðasandshreppi.  Inngangurinn er frásögn Jóns Guðjónssonar skipstjóra frá Breiðuvík.

jon gudjonssonJón Guðjónsson (19.11.1880-06.01.1949) skipstjóri frá Breiðuvík segir hér frá síðustu hákarlalegu sem farin var úr Útvíkum.  Jón var af Kollsvíkurætt, sonur Þórunnar Ólafar Guðmundsdóttur og Guðjóns Halldórssonar, sem bjuggu í Breiðuvík, Melanesi og á Hvallátrum.  Jón kom 8 ára að Breiðuvík og var þar til 18 ára aldurs er hann fór að Hvallátrum um tíma, en átti svo heima í Breiðuvík til 1927.  Þegar þessi saga gerist er hann búinn að eignast eigin bát, Hrefnu, en síðar varð hann farsæll og aflasæll skipstjóri á Patreksfirði; á skútum og mótorbátum.  Lengst af hjá Ólafi Jóhannessyni, en sjálfur átti hann um tíma skútuna Pollux ásamt fleirum.  Jón var ókvæntur og barnlaus en tók í fóstur frænda sinn, Gunnar B. Guðmundsson frá Breiðuvík, sem síðar varð m.a. hafnarstjóri í Reykjavík.
Jón lét eftir sig nokkrar frásagnir sem lýsa vel mannlifi hans samtíðar í Útvíkum.  Hann hafði góðan frásagnarstíl og auga fyrir smáatriðum og spaugi ekki síður en aðalatriðum.  Saga þessi birtist í blaðinu Geisla á Bíldudal árið 1952.

Það var í apríl 1920 að síðasta hákarlalegan var farin frá Breiðavík og Hvallátrum.  Var hún að sumu leyti minnisstæð.  Sá sem þetta skrifar var ráðandi og eigandi trillubátsins „Hrefnu“ frá Breiðavík, en það var annar báturinn í þessari ferð.  Hann var 2,5 tonn; 2ja ára gamall og smíðaður af Gísla Jóhannssyni skipasmið á Bíldudal.  Hrefna var með 3,5 hesta Kíel-vél.  Sjö menn voru með í ferðinni; allir bátaformenn.  Fjórir voru úr Kollsvík en þrír úr Breiðavík.

Látrabáturinn hét „Kópur“ og var félagseign manna þar; að stærð 3,5 tonn og með 6 hesta Kiel-vél.  Formaður var Erlendur Kristjánsson; sá alþekkti sjógarpur og aflamaður.  Þetta var fyrta ferð Kóps til aflaferða; var smíðaður haustið áður af Gísla á Bíldudal. 

Nokkru eftir hádegi er lagt af stað frá Breiðuvík á Hrefnu, og er ákveðið að fara suður í Breiðubugt eftir venju.  Þegar komið er út af Bjarnarnúp sjá Hrefnumenn að Kópur er kominn af stað suður Látravík og er nú á undan góðan spöl.  Reykir þá vélin svo mikið að varla sér í bátinn, en menn voru öllu óvanir því.  Þetta var fyrsta vél í báti frá Látrum.  Mun hafa verið ólag á vélinni. 

Við Bjargtanga var Hrefna farin að nálgast Kóp.  Er þá talað um það á Hrefnu að breyta um legustað og fara út á Röst en ekki í Bugt, og sleppa þannig við að keppa við Kóp um legustað, því að sá þótti líklegri til aflafanga sem utar lá; eða var „utar á straumnum“ sem kallað var.  Var nú breytt um stefnu við Tanga og haldið í norðvestur.  Strax og þeir á Kóp sáu þetta gera þeir slíkt hið sama.  Eru bátarnir nú samhliða út.  Gekk Hrefna til muna betur og varð því á undan.  Þegar Hrefna var lögst lagðist Kópur nokkuð dýpra af henni. 

Var nú blíðuveður, en eftir því sem sól hækkaði á lofti dró upp ljóta bliku í suðvestri og fór ört vaxandi.  Var því ljóst að veðrabrigði voru í aðsigi.  Nú var niðursláttur á suðurstraum og komið kvöld; farið að dimma og sunnankaldi að byrja.  Strax og færum var rennt varð vart við „þann gráa“ og fengust undir eins tveir stórir hákarlar.  Þótti það góðs viti að verða svo vel var á fyrsta liggjanda, og vís afli ef veður leyfði legu. 

Byrjar nú norðurfallið með öllum sínum jötunkrafti, er allt vill draga með sér norður í reginhaf.  Fer nú að vaxa suðaustanvindurinn.  Við vorum staddir rétt út af Bjargtöngum.  Fór nú bátskelin að láta hálf illa, en það hafði aftur slæm áhrif á heilsufar manna.  Urðu fimm af sjö sjóveikir en tveir elstu mennirnir virtust una sér hið besta undir vöðunum.  En ekki var aflavon fyrr en í stans á norðurfalli; eða í „heimburð“, eins og kallað var. 

Var nú tjaldað með seglum yfir barkann á Hrefnu, og var það hlýleg vistarvera fyrir þá sjóveiku.  Var nú margt gjört sér til gamans.  Einn maður sem leit inn í skýlið og sá þar loga á prímus sagði:  „Hér er hitinn“.  Þeir sem inni voru gripu þetta á lofti og fóru að reyna að böggla saman vísu út frá þessum orðum.  Hún byrjaði þannig:  „Hér er hiti; hér er viti; hér er allt sem þörf er á“.  Nú vannst ekki tími til að botna, því að annað lá fyrir. 

Komið var suðaustan hvassviðri með sjógangi og slyddubyl, svo að ekki glórði í land.  Var nú tekið upp legufæri og ákveðið að reyna að dragnast til lands.  Þetta gekk fljótt og vel; mastur var fellt og vél sett í gang.  Fimm reru undir en einn var að ausa, og var það síst besti starfinn.  Sá sjöundi stýrði og gætti að vél.  Vindstaðan var rétt um stefnið. 

Fljótt kom í ljós að meiri orku þurfti til að vinna gegn því veðri sem komið var en völ var á í Hrefnu.  Var því tekið til segla; rifað stórsegl og fokka og siglt austur.  Náðist horf náið Blakknesi eftir ágiskun, og reyndist það rétt.  Þrír reru nú undir á kulborða; tveir jusu og hinir hugsuðu að stýri og vél.  Fékkst nú góður gangur á Hrefnu, en votsamt var yfir gnoðina að líta. 

Þannig var haldið þar til grynnti og sjór fór minnkandi.  Var nú komið upp á Breiðuvík og um fjórar mílur eftir til landvars.  Hægir þá veðrið allt í einu og gengur um leið til suðvesturs.  Voru nú leyst rif úr seglum; tjaldað því sem til var og látið dragnast upp á Breiðuvíkurlendingu.  Nú létu menn sér ekki liggja á; tóku til snæðings og hituðu kaffi.  En er menn höfðu lokið því syrti allt í einu í lofti og óðara var skollinn á svarta bylur, svo ekki sá stafna á milli.

Voru nú segl felld og haldið til lands með vél.  Ákveðið var að lenda í Verinu eftir venju, en vegna þess hve bylurinn var dimmur var horfið frá því.  Líka vegna þess að lágsjávað var, og sker og grynningar fyrir landi.  Var því leitað til lands í Fjarðarhorni.  Þar var í sand að lenda, en ekki nákvæmt.  Gekk það vel.  Við settum Hrefnu þar upp og bjuggum að henni.  Fór þá að rofa til í bylnum og veðrið að ganga til vesturs.  Fór nú hver heim til sín; norður að Kollsvík eða heim í Breiðuvík. 

Þegar heim kom var venjan að segja ferðasöguna og svo var enn gert.  Var nú sagt frá vísuhelmingnum sem fyrr var getið.  Þá var gestkomandi í Breiðuvík Pétur Jónsson fræðimaður frá Stökkum, sem alltaf hafði mikið gaman að kviðlingum.  Bætti hann nú við síðari hendingunum, svo að vísan varð þannig: 

„Hér er hiti; hér er viti.
 Hér er allt sem þörf er á.  
Nóg af striti; drjúgt af viti.
Á dröfn er svalt þá gefur á“. 

Síðan þetta var eru nú (1948) liðin 28 ár og hefur margt breyst og færst í annað horf, sem ekki varður talað um hér.  En síðan þetta var hefur ekki verið farið í slíka ferð frá Breiðuvík, og ekki eru líkur til að svo verði gert næstu árin.

Nú er að segja frá Kóp; að hann lá legurúmi dýpra en Hrefna.  Þeir verða ekki varir á fyrsta liggjandanum eins og Hrefnumenn.  Þegar óveðrið skall á um nóttina ætluðu þeir að haga sér á sama hátt og félagar þeirra á Hrefnu.  Var því byrjað á að koma vélinni í gang, en hún neitaði algjörlega.  Hafði hún sótað sig svo ikið á leiðinni út að hún var ekki gangfær.  Var því ekki annað að gera en liggja svo lengi sem vært var og norðurfall lagði; einnig í von um að vindur gengi til vesturs, sem og varð.

Á heimburði á norðurfalli fengu þeir sex hákarla.  Var þeim til mikils góðs að fá kjölfestu í bátinn vegna seglanna, sem nú var þeirra aðalbjörg.  Íupptöku suðurfalls tóku þeir upp legufærin.  Var nú vindur genginn til suðvesturs.  Settu þeir til segl og fengu stefnu á Kollsvík. 

Rosa veður var alla leið upp undir land.  Var til þess tekið að við stýrið sat alla leið Erlendur á Látrum; þá nær 60 ára.  Þeir náðu Kollsvikurlendingu, en þá var þar að gera vestanbrim svo ekki þótti líklegt til landtöku.  Var því ekki um annað að gjöra en fara inn á Patreksfjörð, sem þeir og gjörðu.  Eftir tveggja daga veru þar var vélin komin í ágætt lag, og þá var haldið heim.  En það er eins með Látramenn og hina; að þetta er þeirra síðasta hákarlalega.

hrefnanMótorbáturinn Hrefna sem um er rætt í frásögninni.  Um borð eru f.v. Sveinn Sveinsson, Aðalsteinn Sveinsson, Haraldur Ólafsson, Benóný Sveinsson, Jón Guðjónsson,Sveinn Benónýsson og Eyjólfur Sveinsson.
Árið 1923 var Hrefna seld að Hvallátrum.

 

 

breidavikurvermennÞessa mynd tók Trausti Ólafsson í Breiðavíkurveri um það leyti sem sagan gerist.   Hér eru, talið f.v.:   Valdimar Egilsson Lambavatni, Andrés Guðbjartsson Breiðuvík, Jón Guðjónsson skipstjóri Breiðuvík, Haraldur Ólafsson Breiðuvík, Theódór Kristjánsson Grundum, Guðmundur Bæringsson Keflavík og Eyjólfur Sveinsson Lambavatni.  Hér má sjá ýmsan búnað til hákarlaveiða, s.s. sóknir.  Líklega er þetta áhöfn Jóns á Hrefnunni á þessum tíma, en þó ekki sú áhöfn sem fór með honum í hákarlaferðina.  

Um hákarl og hákarlaveiðar

Hákarl,  Somnius microcephalus; einnig nefndur háskerðingur, er brjóskfiskur af háfaætt.  Ránfiskur sem getur orðið allt að 7 m langur, en er oftast 2-3 m.  Gýtur lifandi ungum.  Vex mjög hægt en getur náð 150 ára aldri.  Lifir í köldum sjó og á miklu dýpi.  Hákarlinn hefur margar hvassar tannaraðir í skolti.  Hann hefur ekki sundmaga, fremur en aðrir brjóskfiskar, en stór lifur gefur honum flotmagn.

Þegar farið var að lýsa götur stórborga í Evrópu á 19.öld myndaðist eftirspurn eftir lýsi sem ljósmeti, og hófust þá miklar veiðar á hákarli hér við land; ekki síst á Vestfjörðum.
Hákarlaveiðar eiga sér líklega langa sögu í Útvíkum, og víst er að þar voru þær stundaðar um 1700.  Leiða má líkum að því að þar hafi verið gert út á hákarl allt frá þjóðveldisöld, líkt og á öðrum stöðum sem best lágu við sjósókn (sbr. LK; Ísl.sjávarhættir III).  Hákarlaveiðar á landinu voru orðnar all nokkrar um 1400 og fóru þá vaxandi. 

Um miðja 18. öld jókst sóknin til muna, enda fór þá markaður fyrir lýsi vaxandi með hverju ári.  „Meðan hákarlaveiðar voru stundaðar eingöngu á opnum skipum var ógerlegt að sækja djúpt til hafs.  Þurfti því að grípa hákarlinn á þeim árstímum sem hann var á grunnmiðum, en það var að vetrinum og framan af vori“  (GG; Skútuöldin).  Áttæringar og sexæringar voru notaðir til hákarlaveiða.  Líklega hefur slúppskútan Delphin, sem Einar í Kollsvík gerði út með Guðmundi Scheving, gengið jöfnum höndum til þorsk- og hákarlaveiða.  Elstu öruggu heimildirnar um hákarlaveiðar Kollsvíkinga eru um útgerð Hákarlaskipsins Fönix, sem síðar fékk nafnið „Eldri Fönix“ og var í eigu Grundarbænda, en hann var rifinn um aldamótin 1900. 

Hákarl var veiddur á þrennskonar veiðarfæri; haldvað/handvað sem lengi tíðkaðist; lagvað sem heimildir nefna fyrst á 17. öld og hákarlalóð sem kom til sögunnar seint á 18. öld og var mikið notuð á sunnanverðum Vestfjörðum.  „Á Patreksfirði voru hákarlalóðir einungis með tveimur sóknum (krókum) og var langt á milli þeirra.  Ásinn (línan) var úr vöfðum kaðli, en öngultaumurinn úr keðju, og var tveimur glerkúlum fest við hvorn þeirra, en auk þess var einnig flotholt á hverri niðurstöðu“  (Frásögn Ó.E.Th; Ísl Sjávarhættir III). 

Við veiðarnar þurfti að hafa ífæru til að setja fast í hákarlinn; hnall/kepp til að rota hann; drep til að leggja hann og langa hnífa sem nefndur skálmar til að skera hann, en til þess var einnig notuð lensaKría var séstakt áhald til að losa sóknina úr hákarlinum, eftir að búið var að opna gin hans með gómbít.  Með trumbuhníf var gert gat á trumbuna (trjónuna) til að koma fyrir trumbubandi með seilanál, en með bandinu var hákarlinn settur á tamp; þ.e. komið fyrir undir bátnum á keðju til heimflutnings.  Hákarlaskutull var stundum notaður, og einnig hákarlagoggur.  Einnig fylgdu hákarlaskipum beituskrína og beituhnífar

Til beitu var ýmislegt notað; hrossaket; selshausar; fiskur; fiskslóg; innyfli og fleira.  „Hákarlabeita var mestmegnis hrossakjöt og selspik...  Hrossaskrokkarnir voru látnir úldna vel og rækilega...  Þegar lokið var að afla kópanna voru þeir teknir með húð og hári og fylltir rommi...  Síðan voru selirnir geymdir í tunnu á svipaðan hátt og hrossakjötið...  Beiturnar voru þræddar upp á sóknina.. einatt sín beitan af hvoru, uns öngullinn var fullur upp á miðjan legg“.  (GG; Skútuöldin).   Stundum var borið niður; sett niður agn í einhvern tíma til að lokka hákarlinn á veiðislóðina.  Í hákarlalegur var einkum farið á vorin og haustin, og hyllst til að fara í vaxandi straum

Á fyrri öldum var hákarlinn einkum veiddur vegna mötunnar, en með vaxandi eftirspurn lýsis varð áherslan meiri á lifrina, og vegna hennar blómstraði hákarlaútgerðin á 17. 18. og 19. öld.  Hákarl hefur þó alla tíð verið verkaður til kæsingar.  Hann var skorinn í  lykkjur eftir ákveðnum reglum, og síðan kasaður.  Gerðar voru hákarlagryfjur í fjörukamb, helst úr fíngerðri möl.  Ofan á kösina var sett grjót og e.t.v. einnig torf eða þari.  Látið var kasast í 1 ½ til 2 mánuði.  Hæfilega var kæst ef fingur maukaðist sem stungið var í hákarlinn. Sumir höfðu þá viðmiðun að hæfilega væri kæst ef hákarlinn mataði hníf þegar stungið var í.   Þá var hann hengdur í hjall, en eftir þurrkun var hann hengdur upp í skemmu eða fjárhús. 

Naumast þótti hákarl ætur yngri en ársgamall.  Eftir verkun er talað um glerhákarl, sem er þá kviðfiskurinn, og skyrhákarl sem er af búknum.  Glerhákarl var kasaður skemur en skyrhákarlinn, en þurrkaður lengur.  Fyrir utan það að vera sælkeramatur er hákarlinn mjög orkuríkur og var því fæða erfiðismanna.  Hann var talinn bæta mönnum svefn og meinhollur fyrir þungaðar konur og konur með barn á brjósti.  Hann var notaður sem sárameðal og þótti lækna ígerðir og magasár. 

Börn nú á tímum sækja nokkuð í sætindi af ýmsu tagi.  Ef marka má eftirfarandi erindi úr Rósarímum má ætla að hákarlinn hafi verið fyrri tíma sælgæti ungviðisins.  Rósarímur lýsa lífi Rósinkrans Ívarssonar frá Kirkjuhvammi á Rauðasandi, sem þarna hafði nýverið „ruðst hafði úr móðurkvið“.  Kann þarna nokkur ýkjubragur að vera á:

„Viðstaddir votta enn;
var þar á meðal Steinn
allir ágætismenn,
að hinn ungi sveinn
bað um fullorðinsföt,
frat í reifa og lín.
Heimtaði hangikjöt
hákarl og brennivín“ 
        (Jón Rafnsson; Rósarímur). 

Jón Guðjónsson segir að þetta hafi verið síðasta hákarlalega í Útvíkum.  Því er þó við að bæta að í sjómannablaðinu Ægi árið 1922 er birt skýrsla Kristjáns Jónssonar á Garðsstöðum, sem þá var erindreiki Fiskifélagsins.  Hann kom í Breiðuvík 31. mars 1922 og hélt fund í fiskideildinni Víkingi sem þá starfaði í Útvíkum.  Segir hann svo frá:  "Þegar við komum að Breiðuvík voru karlmenn þaðan allir í hákarlalegu, en komu heim seint um kvöldið.  Höfðu þeir haft rúmlega sólarhrings útivist á litlum vélbát, sunnan við Látrabjarg, en öfluðu aðeins fáa fiska.  Sama var um Látramenn er vori samtímis að veiðum á sömu slóðum".  Ljóst er því að eitthvað var róið í hákarl oftar en að framan greinir (VÖ).

Hákarlalega er það heiti sem notað var um hákarlaveiðar.  Farið var í hákarlalegur á stórum hákarlaskipum; sexæringum eða stærri.  Sótt var nokkuð djúpt; lagt út veiðarfærum og legið yfir, e.t.v. í nokkra daga. „Þegar komið var fram til miða var drekanum rennt í sjó uns hann náði botni.  Þá var enn gefið nokkuð út af línunni og nefndist það yfirvarp...  Vestfirskt hákarlaskip hafði þrjá hákarlavaði úti í senn; forlínu; miðlínu og afturlínu og á þeim voru oftast átta skipverjar.  Einn lausamaður/lausungi var á hvorri vakt, til að hlaupa undir vaði þegar hákarl beit á..  Vandasamt þótti að sitja undir vað, og þótti mikilsvert að vera vaðglöggur.  Á tíu til fimmtán mínútna fresti var rennt í botn og tekið grunnmál“  (Gils Guðmundsson; Skútuöldin“). 

Þegar hákarl var kominn á vað og búið að ná honum uppundir borðið var settur í hann krókur frá hjóltaug sem lá upp í reiða skipsins.  Eftir að hákarlinn hafði verið stunginn með drepnum var hann dreginn upp með hjóltauginni og skorin úr honum lifur og annað sem átti að hirða, en hinu hleypt niður.   Lifrin var sett í stóra lifrarkassa sem byggðir voru inn í skipið; sókninn var beitt aftur og veiðar hafnar á ný

Ef mikið var tekið í land af hákarli var hann oft settur á tamp.  Þá var gert gat á trjónuna/trumbuna með trumbubor og skrokkurinn dreginn upp á keðju sem lá þvert undir kjöl skipsins.  „Ég fór í tvær hákarlalegur.  Önnur heppnaðist ágætlega; við fengum mikinn hákarl og lifur, en í hinni var lítill afli.  Þær ferðir voru báðar frá Breiðavík.  Við fórum á tveimur stórum róðrarbátum með vél; Hrefnu og Tjaldi“  (Kristján Júlíus Kristjánsson; Lesbók Þjóðviljans).  „Í hákarlalegum var stór pottur með eldi í og í skaplegu veðri var þá hægt að hita á  katli“ (Torfi Össurarson; Þjóðh.d. Þjmsafnsins). 

Síðustu hákarlaskipin í Rauðasandshreppi

Hákarlaskip hafa efalítið verið til í Rauðasandshreppi frá landnámstíð; stórir bátar sem dugðu til að sækja á djúpmið.  Slík skip hafa líklega einkum verið í eigu höfðingja fyrrum, s.s. Saurbæjarveldisins.  Eftir að það einveldi tók að dragast saman urðu hákarlaskipin sameign bænda í hinum ýmsu byggðahverfum.  Þegar dró úr sókninni með lækkandi verði hákarlalýsis hvarf um leið helsti grundvöllur fyrir þessum stóru bátum.  Þá fóru menn að sameinast um hákarlaróðra, eins og lýst er í frásögn Jóns Guðjónssonar hér að framan; er Breiðvíkingar og Kollsvíkingar fóru í sameiginlegan hákarlaróður.  Hákarlaskipin nýttu menn einnig til ýmiskonar flutninga, t.d. á skreið og salti.  Hér verða talin upp síðustu hákarlaskipin í Rauðasandshreppi.   Egill Ólafsson á Hnjóti vann þessa skrá eftir viðtöl við ýmsar gamlar sjókempur.

Laufi var stór sexæringur og hafði uppsátur á Sjöundá.  Eigendur voru bændur á Rauðasandi, og mönnuðu þeir skipið. Seinasti formaður var Ólafur Ólafsson bóndi á Stökkum.  Laufi var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig var hann notaður til heyflutninga úr Skor og Sjöundá og stundum gerður út á steinbít.  Var þá róið frá Hagamannabúð á Hvallátrum.

Sigríður blíðfara var áttæringur og átti uppsátur á Hvallátrum.  Eigendur voru Hvallátrabændur.  Þótti aldrei bregðast veður er það var í hákarlalegu og því fékk það þetta viðurnefnið.  Það var að lokum rifið og efnið úr því notað í útihús.  Sigurður Finnbogason bóndi á Hvallátrum var formaður á skipi þessu í mörg ár.  Við formennsku af honum tók Dagbjartur Gíslason bóndi á Hvallátrum.  Hann mun hafa farið í seinustu hákarlaleguna á því veturinn 1888, en hann fórst í fiskiróðri frá Hvallátrum þetta sama ár ásamt skipi sínu og áhöfn.

Egill var teinæringur og hafði uppsátur á Hvallátrum.  Eigandi og formaður á honum var Erlendur Kristjánsson bóndi á Miðbæ á Hvallátrum.  Erlendur lét smíða skip þetta á Siglunesi á Barðaströnd, um 1880.  Yfirsmiður var Ólafur Bergsveinsson skipasmiður; bóndi í Hvallátrum á Breiðafirði.  Egill var eingöngu notaður sem hákarlaskip meðan hann var gerður út frá Hvallátrum, og reyndist happaskip.  Erlendur seldi skipið skömmu eftir aldamótin 1900; Pétri Á. Ólafssyni útgerðarmanni á Geirseyri.  Pétur notaði Egil sem uppskipunarskip; breytti um nafn og kallaði Hringhorna.

Farvel var áttæringur og átti uppsátur í Breiðavík.  Eigendur voru bændur í Breiðavík.  Formaður í mörg ár var Ólafur Ólafsson í Breiðavík.  Seinasti formaður á Farvel var Guðbjartur Jónsson bóndi í Breiðavík; Torfasonar bónda á Hnjóti.  Farvel var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig mun hann hafa verið notaður til kaupstaðarferða, og þá sem flutningaskip með ull í kaupstaðinn og vörur til baka.  Farvel var happaskip. 

Fönix var teinæringur og átti uppsátur í Kollsvíkurveri og Láganúpsveri.  Eigendur voru Guðrún Anna Magðalena Halldórsdóttir bóndi í Kollsvík og Halldór Ólafsson bóndi á Grundum.  Formaður á honum um árabil var Guðbjartur Ólafsson bóndi í Kollsvík, og síðar bróðir hans, Halldór Ólafsson bóndi á Grundum í Kollsvík.  Fönix mun upphaflega hafa verið sexæringur, en smíðaður upp og stækkaður af Sturla Einarssyni bónda í Vatnsdal; Einarssonar bónda á Hnjóti.  Fönix var stærsta hákarlaskipið í Rauðasandshreppi.  Honum er svo lýst að hann hafi verið glæsilegasta hákarlaskipið í sveitinni fyrr og síðar.  Í skutnum á þessu skipi var fjöl, og á hana skorið þetta:  „Farsæli Fönix.  Skipið frá Kollsvík“.  Fönix var með strengjabita, en það var vænt tré að gildleika, sem lá þvert um skipið um hálsþóftuna og útyfir borðstokka.  Bitanum var fest þannig að hann var bundinn niður í þóftuna beggja megin út við borðstokkana.  Stjórafærinu var brugðið um strengjabitann er lagst var fyrir í hákarlalegum og var það kallað að liggja fyrir klofa.  Fór skipið þannig mun betur í sjó heldur en ef festinni væri brugðið um stefni.  Strengjabitinn náði það langt útfyrir borðstokka skipsins að tveir menn gátu haft handfestu á bitaendunum hvoru megin skipsins og haldið skipinu réttu í lendingu meðan borið var af (borið frá borði).  Strengjabitinn tilheyrði farviði skipsins. 

Fönix var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og flutningaskip í kaupstaðarferðum.  Hann var notaður til að flytja timbur úr skipinu Ossian frá Mandal í Noregi, sem strandaði undir Djúpadal í Látrabjargi (Bæjarbjargi) árið 1878.  Ossian var hlaðið timbri og var það flutt inn í Keflavík þar sem það var selt á uppboði.

Áhöfnin á Fönix var venjulega 11 til 12 menn.  Fönix var happaskip.  Endalok hans urðu þau sömu og flestra gæfusamra skipa; hann var rifinn uppúr aldamótum 1900 og efnið úr honum var notað sem árefti á hús í Kollsvík.

(Í bók sinni Íslenskir sjávarhættir, 2.bindi, bls 340, lýsir Lúðvík Kristjánsson skipinu Vigur-Breið, sem smíðaður var í byrjun 19. aldar; var upphaflega haft til hákarlaveiða, en síðar sem flutningaskip Vigurbænda.  Segir Lúðvík að eina sambærilega skipið á Vestfjörðum á þeim tíma hafi verið áttæringurinn „Kollur í Kollsvík“, en á þar vafalaust við Fönix.  Þessir bátar voru svipaðir að stærð, þó Breiður væri heldur lotalengri; Fönix líklega heldur burðarmeiri.  Samkvæmt því hefur Fönix verið rúmir 10m að lengd og 90 cm að dýpt.  VÖ) 

Svanur var áttæringur og hafði uppsátur í Hænuvík.  Eigendur voru bændur í Hænuvík.  Svanur var happaskip.  Hann var að lokum rifinn og efnið úr honum notað til áreftis á útihús undir hellur og torf.  Svanur var aðallega notaður sem hákarlaskip, en einnig sem skreiðarskip og til flutninga í kaupstaðarferðum.  Seinasti formaður á Svani var Ívar Jónsson bóndi í Hænuvík. 

Dvalinn  (Vatnsdal)  Um stærð þessa skips er ekki vitað, en sennilega hefur það verið stór áttæringur.  Dvalinn hafði uppsátur í Vatnsdal.  Ekki er vitað með vissu hverjir voru eigendur að skipinu, en þó er talið að bóndinn í Vatnsdal hafi átt það að hluta, eða kannski einn því þetta skip var aldrei kallað annað en Vatnsdalsskip.  Hér á eftir segir af dapurlegum endalokum Dvalans.

Eftir að farið var að setja vélar í báta urðu þeir gjarnan stærri, og voru þá notaðir til hákarlaveiða áður en þeim lauk með öllu.  Dæmi um það eru Hrefnan og Kópur sem lýst er í frásögn Jóns Guðjónssonar hér að framan, en þeirra er ekki getið í þessari upptalningu Egils.  Yngri Fönix nefndist vélbátur sem fenginn var í sameign vermanna í Kollsvíkurveri á fyrrihluta 20.aldar og tók við hlutverki eldri Fönix sem hér var nefndur.  Hinn yngri var þó einungis notaður sem flutningaskip en hvorki til fisk- né hákarlaveiða.

Sjóslys í hákarlalegum

Framangreindar sjóferðir fengu farsælan endi, þó útlit væri dökkt um tíma.  Hinsvegar voru hákarlaróðrar jafnan nokkuð áhættusamir.  Orsakir þess voru nokkrar:  Gjarnan var farið í þær í vetrarlok, áður en fiskiróðrar byrjuðu, meðan veður voru enn viðsjárverð.  Lengra var jafnan róið til hákarlaveiða en fiskveiða, og þá gat skepnan sjálf verið skeinuhætt ef ekki var rétt að farið.  Fátt hefur varðveist úr sjóslysasögu fyrri tíma, en af slysum síðari alda má stuttlega nefna þessi:

22. maí 1821 drukknuðu 8 menn í hákarlalegu.  Formaður og eigandi bátsins var Gunnlaugur Jónsson á Móbergi.  Ásamt honum fórust þrír frá Rauðasandi og fjórir úr Austur-Barðastandasýslu.

22. maí 1824 fórst báturinn Hreggviður í Blakknesröst á landleið úr hákarlalegu.  Eigandi hans og formaður, Árni Þóroddson í Kvígindisdal, fórst ásamt átta öðrum skipverjum.  Allir voru þeir úr Kvígindisdal og Vatnsdal.  Annað hákarlaskip sem samtímis var á sjó bjargaðist naumlega inn á Patreksfjörð.  Bát Árna rak síðar í Trékyllisvík.

26. maí 1837 fórust níu menn á skipi í Látraröst.  Ekki er fullvíst að það hafi verið í hákarlalegu en líklegt er það.  Formaður var Gísli Ísleifsson í Tungu en aðrir voru ýmist úr Örlygshöfn eða austan úr sýslu.

15. febrúar 1876 fórst Dvalinn í lendingunni á Hvallátrum.  Dvalinn var hákarlaskip úr Vatnsdal, sem einnig var nefnt Vatnsdalsskipið.   Norðanveður brast á skipið á landleið ogt náðist ekki fyrir Blakknes, heldur var hleypt suðureftir.  Fjögur hákarlaskip höfðu farið til veiða þennan dag:  Fönix úr Kollsvík var undir stjórn Guðbjartar Ólafssonar.  Hann sneri frá lendingu í Kollsvíkurveri; hleypti fyrir Breið og náði lendingu í Fjarðarhorni.  Sama gerði skip úr Tálknafirði.  Nokkru síðar fór Látraskipið Sigríður blíðfara hjá, ásamt Vatnsdalsskipinu.  Tókst að lenda Látraskipinu, en Vatnsdalsskipið bar upp á Sölvatanga og fórst þar með allri áhöfn.  Formaður var Bjarni Ólafsson í Tungu en aðrir voru frá Örlygshöfn og Innfjarðarbæjum.

1. apríl 1919 varð síðasta slysið tengt hákarlalegum í Útvíkum; ári áður en þeim lauk.  Þá drukknaði Guðmundur Össurarson frá Láganúpi í Kollsvíkurlendingu.  Tildrög slyssins voru þau að nokkrir menn úr Kollsvík höfðu farið í hákarlalegu með Breiðvíkingum, og áttu hlut sinn í Breiðavíkurveri; lifur og hákarl.  Reyndum formönnum í Kollsvík leist illa á veðurútlit þennan dag en engu að síður var farið.    Ferðin til Breiðuvíkur gekk vel en tvísjóa var er aftur var komið í Kollsvík; norðansjór ofan á vestanöldu.  Ólag kom undir bátinn er Syðstaleið var róinn inn á Lægið og hvolfdi bátnum a.m.k. tvisvar.  Allir náðu þó að hanga á bátnum nema Guðmundur.

Atburður þessi mun, ásamt öðrum sjóslysum, hafa orðið Valdimar Össurarsyni bróður Guðmundar hvati til að hefja almenna sundkennslu.  Fram að þessum tíma hafði sundkunnátta lítil sem engin verið, þrátt fyrir langvarandi og mikla sjósókn á þessu svæði.  Má ætla að öðruvísi hefði farið í einhverjum tilvikum ef menn hefðu getað gripið til sundtaka.  Valdimar varð frumkvöðull í sundkennslu víða, jafnt á sínum heimaslóðum sem annarsstaðar.  Um þær mundir voru ungmennafélög öflug, og kom Ungmennafélagið Vestri upp aðstöðu til sundkennslu í Miðlæknum í Kollsvík.  (VÖ yngri).