Hér verður stuttlega rakin saga af tveimur vöskum formönnum sem báðir báru nafnið Árni, og var hinn eldri afi þess yngri.  Báðir lentu þeir í sjóhrakningum og björguðust með nokkuð undursamlegum hætti og varðveist hafa þakkir þeirra til bjargvætta sinna.  Af hinum eldri þeirra er kominn allnokkur ættbogi í Rauðasandshreppi og víðar, en hinn yngri drukknaði í sviplegu sjóslysi fáum árum eftir þessa björgun sína.  Auk þessara aðalpersóna er lítillega sagt frá tengdum viðburðum.

Þakkarávarp í Ísafold

Hinn 23. apríl árið 1913 birtist eftirfarandi grein í blaðinu Ísafold, undir heitinu „þakkarávarp“:

„Þann 10. þessa mánaðar árdegis reri ég til fiskjar ásamt þrem hásetum mínum, en um klukkan þrjú síðdegis small á blindbylur með aflandsstormi, svo að engin tök voru á því að sjá land eða ná því.  Þá er við þannig höfðum hrakist nær klukkustund vorum við svo hepnir að hitta botnvörpunginn Chieftain nr 847 frá Hull, sem bjargaði okkur félögum ásamt báti mínum.

Skipstjórinn, I. Mason, veitti okkur, sem vorum orðnir holdvotir og kaldir, hinn besta beina; þurran fatnað og nógan mat og flutti okkur strax og veður leyfði næsta morgun til Örlygshafnar með því að eigi var lendandi í Kollsvík og gaf okkur um leið svo mikið af fiski að við hefðum haft góðan afla ef veitt hefðum með veiðarfærum okkar.

Ég vil eigi láta hjá líða að senda téðum skipstjóra, svo og allri skipshöfn hans sem virtist honum samhent í því að láta okkur líða sem best, innilegustu þökk mína og háseta minna fyrir dugnað hans, alúð og rausnarskap, sem ég bið guð að launa.

Kollsvík við Patreksfjörð 23. Apríl 1913
Árni Árnason"

Sá sem þetta ritar er Árni Árnason, formaður á bátnum Ester, og er búsettur í Kollsvík á þessum tíma.  Hann varð síðar húsmaður áHvallátrum og drukknaði þar átta árum eftir þetta.  Verður nánar vikið hér síðar að uppruna hans og örlögum.

kollsvikurver 1943Á þessum árum stóð útgerð frá Kollsvíkurveri í blóma og einnig byggð í Kollsvík.  Árið 1910 voru íbúar í Kollsvík 89, eða jafn margir og í hinum nýstofnaða Patrekshreppi á sama tíma.  Eru þá ótaldir vermenn sem þar dvöldu frá sumarmálum til Maríumessu, svo að í Kollsvík hafa verið vel á annað hundrað manns um vertímann.  Um 25 bátar voru gerðir út frá Verinu, svo þétt hefur bátaröðin verið er allir stóðu á kambi.  Kristján Júlíus Kristjánsson á Grundum var jafnaldri Árna og einnig formaður í Verinu.  Hann ritaði síðar heildstæðustu lýsingu Kollsvíkurvers sem nú er tiltæk.  Í lok hennar er skrá yfir báta í Kollsvíkurveri og bátur nr 18 er Ester; formaður Árni Árnason „þá búlaus á Grundum“.  Bátur nr 46 er Hnísa, í eigu Gríms Árnasonar bónda á Grundum, hálfbróður Árna.  Líklega hafa þetta verið fjórrónir bátar, líkt og flestir í Verinu á þessum tíma; um og undir 6 metra langir og upp undir 1,5 tonn að burðargetu.

Hinn 10. apríl 1913 reri Árni sinn fyrsta róður frá Kollsvíkurveri. Þetta var fyrir sumarmál, en við þau miðaðist byrjun vertíðar. Ekki var óvanalegt að heimamenn slægju sér þannig saman um róðra fyrir vertíðina, þó aðkomumenn væru enn ekki mættir til vers.  Fjórir voru á Ester þennan dag; Árni var formaður, 27 ára og með honum var Valdimar Össurarson frá Kollsvík, 17 ára.  Ekki vitum við nöfn hinna tveggja, en ætla má að þeir hafi einnig verið búsettir í Kollsvík.  Veður var gott er hrundið var úr vör.  Frammi á Læginu settust menn undir árar, en áður en þeim var difið í sjó tóku menn ofan höfuðfötin og báðu sjóferðabæn að ævafornum sið.  Hvergi á landinu hefur þeim sið verið lengur við haldið en í Kollsvíkurveri að sögn Lúðvíks Kristjánssonar sagnfræðings.  Róið var frá og síðan e.t.v. sett upp segl í vaxandi golu.  Líklega hefur verið siglt norður á Hyrnur, en það eru mið í Blakknesröstinni þar sem sést innmeð fjallshyrnum í sunnanverðum Patreksfirði.  Færum er rennt og fiskur er undir.  

En skjótt skipast veður í lofti.  Við skulum nú gefa orðið Torfa Össurarsyni, bróður Valdimars.  Til er (á vefnum ismus.is) upptaka af viðtali sem Hallfreður Örn Eiríksson tók við hann árið 1978.  Torfi segir:

„Ég man eftir þegar þeir hröktust og komust í borð um togara.  Þar með var bróðir minn, Valdimar. Þeir voru fjórir á þriggja manna fari og það var fyrsti róður; eitthvað um sumarmálin.  Fóru af stað í ágætis veðri; voru komnir á mið og búnir að fá lítilsháttar af fiski.  Þá setti á suðaustan moldbyl og hvassviðri og það var alveg hnífadrægt í land.  Þeir fóru af stað og reyndu að berja á móti veðrinu, en báran var svo mikil að báturinn varði sig ekkert.  Þeir tóku þá það ráð að sigla og reyna að hitta á Kópinn, en það var eina landvonin hjá þeim.  Þegar þeir höfðu litla stund siglt sjá þeir enskan togara og tóku það ráð að lensa undan vindinum  til hans.  Þeir tóku þá um borð og bátinn með.  Voru þeir þar um nóttina og leið vel.  Svo kom togarinn með þá inn á Gjögra og setti þá þar í land.  Fólk heima var orðið vonlítið um þá eftir þessa nótt og átti síst von á að þeir kæmu gangandi á landi en ekki róandi af sjó“.

Hér var heppnin sannarlega hliðholl Árna og áhöfn hans.  Miðað við lýsinguna er allsendis óvíst hvernig siglingin hefði gengið norðuryfir Patreksfjarðarflóann og enn óljósara með landtöku í Kópavík eða Verdölum.  Engan skyldi því undra að hann væri þakklátur Mason skipstjóra og áhöfn hans á Chieftain.  Óvíst er hinsvegar hvort þessi þakkargrein Kollsvíkingsins hefur nokkurntíma ratað fyrir augu Masons kafteins. 

Ekki fyrstu Íslendingar í Chieftain

En þegar betur er gluggað í sögu togarans Chieftains kemur í ljós að þetta var ekki í fyrsta skipti sem hann tók Íslendinga um borð.  Þeir Íslendingar sem þá áttu í hlut höfðu hinsvegar ekki ástæðu til að senda þáverandi kafteini þakkarkveðju.  Við skulum skoða grein sem Einar Bogason frá Hringsdal í Arnarfirði skrifaði árið 1966 í sjómannablaðið Víking og minnist þessara atburða, sem urðu á Breiðafirði 7.oktober 1910:

„Þá um haustið 1910 komst Guðmundur Björnsson sýslumaður Barðstrendinga í kast við togarann Chieftain 847 frá Hull.  Skipstjórinn hét Edward West.  Togari þessi var á ólöglegum veiðum nálægt Bjarnareyjum inni á Breiðafirði.  Var sýslumaður á ferð með flóabátnum Varanger.  Snæbjörn hreppstjóri Kristjánsson frá Hergilsey var í för með sýslumanni.  Vildi sýslumaður, sem trúr og skyldurækinn embættismaður, koma lögum yfir ræningja þennan og mun Snæbjörn hreppstjóri ekki hafa latt hann stórræðanna.  Komust þeir sýslumaður og hreppstjóri við illan leik um borð í togarann, því skipstjóri hans kom þjótandi með öxi sem hann reiddi að sýslumanni og bjóst til að færa í höfuð honum.  En Snæbjörn hreppstjóri fékk gert tilræði skipstjórans að engu með því að reiða að honum járnstöng, svo skipstjórinn varð hræddur og flúði.  Lauk þessari viðureign þannig, þar sem að skipstjóri neitaði að hlýða skipunum sýslumanns, heldur flutti sýslumann og hreppstjóra til Hull í Englandi“. 

gudmundur snaebjornÍ Englandi stóðu þeir við í þrjá daga, og komu aftur með botnvörpungnum Snorra Sturlusyni.  Útgerð botnvörpungsins Chieftain sagði skipstjóranum þegar upp stöðunni, er til Englands kom, og sömuleiðis stýrimanni.  Útgerð botnvörpungsins bauðst til að greiða 125 sterlingspunda sekt fyrir landhelgisbrotið, og gekk ráð herra Íslands að því tilboði fyrir landssjóðs hönd.  (Mynd: Guðmundur Björnsson og Snæbjörn Kristjánsson).

eirikur kristoferssonSíðar í þorskastríðum henti svipað atvik enn einn sjómann úr Barðastrandasýslu; er Eiríkur Kristófersson frá Brekkuvelli (mynd) var stýrimaður á varðbátnum Enok og hugðist taka togarann Lord Carson við ólöglegar veiðar á Aðalvík.  Þegar Eiríkur kom um borð í togarann neitaði skipstjórinn að sigla til hafnar, heldur setti allt í botn og sigldi til Englands með Eirík innanborðs.  Þar urðu málalyktir svipaðar; skipstjóri var rekinn en útgerðin játaðist undir sektagreiðslu. 

 

Togarinn Chieftain

Hér er ekki úr vegi að líta á æviferil togarans Chieftain að öðru leyti, en hann er þessi:

chieftainHleypt af stokkunum 28.09.1905, smíðaður af Cook, Welton & Gemmell fyrir The Marine Steam Fishing Co LTD í Hull.

Stærð:  278 tonn brúttó; 105 tonn nettó.  Lengd 133,4 fet; breidd 22,3 fet; dýpt 12,3 fet.  Vél 70 nettóhestöfl 3ja þrepa gufuvél.  Hraði 10,5 hnútar.

Skráður í Hull des 1905 (H847); skráður til herþjónustu jan 1915 sem tundurduflaslæðari með 7,5“ fallbyssu; skráður í Scarborough feb 1919 (SH21); skráður aftur í Hull okt 1919 (H93); skráður í Fleetwood maí 1929 (FD30); seldur í brotajárn des 1936.

Uppruni Árna Árnasonar formanns

Árni Árnason var fæddur 23.06.1886.  Faðir hans var Árni Árnason 18.05.1862-19.02.1899) og móðir Dómhildur Ásbjörnsdóttir (16.08.1853-26.07.1890) Ólafssonar og Helgu Einarsdóttur Jónssonar í Kollsvík.  Segir hér á eftir af því hvernig föður Árna og afa skolaði á land í Rauðasandshreppi, í bókstaflegri merkingu. 

Árni Árnason, sem hér segir af í upphafi, var um tíma í Kollsvík, en Grímur hálfbróðir hans var síðasti ábúandi á Grundum.  Árið 1917 settist Árni að á Hvallátrum ásamt konu sinni; Þorbjörgu Ágústu Guðjónsdóttur og bjuggu þau þar þurrabúi í 4 ár.  Börn þeirra voru Aðalheiður Lilja 1915-1924) og Jón Gísli (1917-1997).  Þau urðu örlög Árna að hann drukknaði við Bjarnanúp 27.05.1921.  Verður hér gluggað í frásögn af þeim atburði í sjóslysaskrá Trausta Ólafssonar frá Breiðavík, sem birtist í Árbók Barðastrandasýslu 2003:

„Þeir voru saman á báti; Árni og Guðbjartur Þorgrímsson bóndi á Látrum, sem kvæntur var Guðmundínu Ólafsdóttur.  Voru þeir á svonefndum Flosa, sem er aðallega steinbítsmið á Látravík og dregur nafn sitt af því að Flosagil í Breiðavík ber fyrir Bjarnanúp.  Aðrir bátar frá Látrum reru suður fyrir Bjargtanga.  Breiðvíkingar voru einnig á sjó suður á Látraröst; meðal þeirra var Grímur Árnason, hálfbróðir fyrrnefnds Árna.  Einnig þeir bræður Guðmundur og Ólafur Haraldssynir. 

Þennan dag var gott sjóveður; fremur hægur suðaustanvindur, en í þeirri átt er nokkurt misvinda fram af Núpnum.  Þegar í land var haldið sigldu þeir Árni og Guðbjartur eins og tók norður undir Bjarnanúp og ætluðu svo að taka annan bóg suður eftir.  Þegar borið var um var ekki meira kul en það að þeir ákváðu að róa báðir undir og binda skautið.  Tveir sandpokar voru í skektunni og stakk Árni upp á því að hella útbyrðis úr þeim poka sem í framrúmi var, svo báturinn yrði léttari til róðurs; og var það gert.  Ekkert bar svo til tíðinda, fyrr en allt í einu að vinhviða skellti bátnum á hliðina og fór hann þegar á hvolf.  Guðbjartur losaði dragreipið er hann sá hvað verða vildi, en það var um seinan.  Guðbjartur náði þegar taki á bátnum og komst á kjöl en Árni, sem reri í afturrúmi, lenti svo langt frá bátnum að hann náði ekki til hans.  Sá Guðbjartur aðeins útrétta hönd Árna upp úr sjónum í átt til bátsins.  Þetta mun hafa skeð um það bil fram af miðjum Bjarnanúp.  Rak nú bátinn norður eftir, en síðan suður á við er straumaskipti urðu.  Meðan á þessu stóð sá Guðbjartur til báts Gríms Árnasonar er hann hélt vera á leið í Breiðavíkurver, og talsvert fjær landi.  Sá Grímur eitthvað er hann hélt vera lóðadufl þeirra Látramanna og sinnti því ekki frekar.  Ekki er kunnugt um að aðrir sem voru á sjó yrðu neins varir.

Nú er þess að geta að þær Miðbæjarsystur, Sigríður og Jóna, dætur Erlends Kristjánssonar, áttu þenna dag leið fram í Látradal.  En á leið sinni upp frá bænum heyrðu þær hóað í sífellu og sáu við nánari athugun eitthvað á reki skammt undan Nesi svonefndu, sem er sunnan við Bjarnanúp.  Sneru þær þegar við og athuguðu í kíki sem til var á Miðbæ hvað þetta kynni að vera.  Sást þá þegar hvers kyns var.  Hljóp Jóna beina leið niður á Rifið til föður síns, sem þá var nýlentur.  Var verið að setja bátinn upp, en óðara brugðið við og haldið í áttina til Guðbjartar.  Hann var fluttur í land, en síðan var báturinn sóttur.  Hafði Guðbjartur verið um 2 klukkustundir á reki, en það sást á úri sem stöðvast hafði.  Guðbjartur hresstist vonum fyrr.  Var hann þrekmaður með afbrigðum“.

Eftir slysið flutti ekkjan, Þorbjörg Ágústa Guðjónsdóttir, til móður sinnar sem einnig var þá orðin ekkja á Hvallátrum.  Þorbjörg giftist síðar aftur; Finnboga Lárussyni bónda í Hvammi í Dýrafirði. 

 

Ættföður skolar á land í Rauðasandshreppi

Að langfeðgatali stóðu rætur Árna Árnasonar ekki djúpt í Rauðasandshreppi.  Koma föður hans og afa í hreppinn varð með nokkuð ævintýralegum hætti, eins og hér skal frá greint.

Þeir feðgar; Árni Árnason (faðir áðurnefnds Árna) og Árni Gíslason voru á báti frá Hellisandi sem lenti í hrakningum og bjargaðist upp í Bæjarós á Rauðasandi.  Árni var þá unglingur og varð eftir hjá Sjöundá hjá Jóni Ólafssyni.  Árni Gíslason (afi umrædds Árna yngra) var formaður á bátnum.  Hann þótti listasjómaður en fram úr hófi ölkær (frásögn Trausta Ólafssonar í Kollsvíkurætt). 

Óvenjulegur sjóhrakningur:

Um þessa hrakninga segir svo í Þjóðólfi 25.07.1877 (ritstjóri og úgefandi: Matthías Jochumsson).

„Þriðjudaginn 19. júní þessa árs sigldi af Hellisandi undir Snæfellsjökli tíróið skip til Flateyjar með fjórum mönnum á, er komu úr veri.  Formaður var Árni Gíslason úr Hergilsey; sonur hans Árni á 13.ári; Guðlaugur Guðmundsson úr Miklaholtshrepp og Sigurður Guðmundsson úr Flatey, hásetar.  Sigldu þeir djúpleið, en er þeir höfðu siglt um stund brast á sunnan rokveður með svo miklum sjógangi er þeir sigldu djúpt fyrir, að ekki mátti leggja skipinu við vindi, heldur sigla ljúft til að verja skipið stóráföllum.  Sáu þeir ekki land fyr en dýpra af Siglunesi sem er fremst á Barðaströnd.  Var rokið þá upp á það mesta.  Tók formaðurinn þá það ráð að setja skipið beint undan vindi, er þá stóð á austan; vestur fyrir háu Skor.  Var þar þá alstaðar ófært að landi að leggja sökum brims, enda er þar ekki lending.  Lögðust þeir þá við dreka á 10 faðma dýpi.  En brátt færðist vindur til útsuðurs svo ófært var að liggja sökum grunngöngu sjóar.  Var þá seglbúið með skauti og siglt til hafs, í þeirri von að ná fyrir Skor í bakaslag, en það mistókst.  Var þá kastað dreka, hér um bil eina mílu frá landi.  Skipverjar voru allir skinnklæðalausir og drykkjarlausir.  Brauð og smjör höfðu þeir lítils hátta, en brauðin urðu ónýt af sjógangi.  Urðu þeir því mjög máttfarnir af þorsta hungri og vosbúð; þar alltaf mátti standa í stampaustri.  Um sólarlag á föstudagskvöldið slitnaði skipið upp.  Átti þá að tréreisa, en þá voru menn svo máttfarnir og þrekaðir að það tókst ekki.  Bárust þeir svo að landi af straum og vindi og hittu á Bæjarós.  Var í honum mikill aðfallsstraumur svo skipinu var stýrt gegnum hið ógurlega brim, og náðu þar loks landi.

Fomaðurinn reyndist hinn þrautseigasti og hugprúðasti, og Guðlaugur einnig, en hina hughreysti formaðurinn kröftuglega.  Hann hafði jafnan fyrir orðtak; „enginn trúmaður hræðist dauða sinn“.  Í þessum hrakningi missti formaðurinn 1200 króna virði.  Eptir viku veru á Rauðasandi hjá þeim Ara Finnssyni á Bæ og hra Jóni Ólafssyni á Sjöundá, héldu þeir heimleiðis, nema pilturinn Árni, sem lá veikur eptir sjóvolkið.

Formaðurinn hefir óskað að opinberlega væri yfirlýst þakklæti sínu og háseta hans til hinna nefndu heiðursmanna, og Guðmundar bónda Oddgeirssonar á Sauðeyjum, fyrir mjög heiðarlega móttöku á heimleiðinni; að ógleymdum herra Guðmundi Skúlasyni á Keflavík, er ekki einungis þáði ekki einn eyrir fyrir skipslán né dreka og forhlaupara er tapaðist, heldur gaf stórgjafir þess utan.  Óska þessir hrakningsmenn af öllu hjarta að hinn miskunnsami himnafaðir launi gefendunum þessar velgjörðir, þegar þeim mest á liggur“.    -GG-

Þannig stóðu því málin eftir þessa hrakninga að unglingurinn Árni Árnason (faðir alnafna síns; 18.05.1862-19.02.1899) varð eftir á Sjöundá sumarið 1877, er faðir hans hélt aftur suður yfir Breiðafjörð með áhöfn sína.  Átta árum eftir sjóvolkið, eða árið 1885, giftist hann Dómhildi Ásbjörnsdóttur Ólafssonar, en hún var 4. ættliður frá Einari Jónssyni í Kollsvík.  Bjuggu þau á Láganúpi hjá Ásbirni Ólafssyni föður hennar og eignuðust 4 börn:  Jóhanna Guðbjörg giftist Bæring Bjarnasyni og urðu afkomendur þeirra m.a. fjölmennir á Patreksfirði; Árni sem frá var sagt hér í upphafi; Ásbjörg, dó sem ungbarn og Ásbjörn Helgi Árnason sem bjó í Tröð í Kollsvík1921-1952; síðan á Gjögrum en síðast í Reykjavík.  Afkomendur hans eru fjölmennir og búa m.a. sumir í Rauðasandshreppi.

Af Valdimar Össurarsyni (eldra)

Hásetar Árna voru þrír í þeim ævintýraróðri sem hann þakkar hér í upphafi.  Ekki hafa fundist upplýsingar um það hverjir tveir þeirra voru, en af frásögn Torfa Össurarsonar sést að einn þeirra var Valdimar Össurarson, bróðir Torfa og ömmubróðir og alnafni þess sem þetta tók saman. 

vo eldriValdimar Össurarson fæddist í Kollsvík 01.05.1896, sonur Össurar A. Guðbjartssonar og Önnu G. Jónsdóttur sem bjuggu fyrst í Kollsvík en síðar á Láganúpi, og fluttu í Dýrafjörð 1927.  Valdimar þótti snemma röskur til vinnu og mikill hugsjóna- og félagsmálamaður.  M.a. frumkvöðull í sundkennslu.

Á Minjasafni Egils Ólafssonar á Hnjóti er varðveittur bátur sem Valdimar átti og reri frá Kollsvíkurveri.  Þetta er Svalan, fjórróinn bátur sem aldrei hefur verið vélknúinn; gott dæmi um þá báta sem róið var úr Verinu.  Valdimar sneri sér að barnakennslu um 1920 og eignaðist þá bátinn Guðbjartur Guðbjartsson á Láganúpi.  Valdimar var lengi skólastjóri í Sandgerði.  Hann lést í bílslysi 29.06.1956.

Brimlending í Kollsvíkurveri

Hér verður í lokin rifjuð upp frásögn Torfa af brimlendingu þeirra Valdimars í Kollsvíkurveri.  Líkt og fyrri frásögn Torfa má finna þessa á vefnum ismus.is og á vefnum kollsvik.is.

„Ég skal segja þér þegar við lentum í briminu mikla.  Það var fyrsti róðrardagur báta í Kollsvík fram á lóðamiðin.  Það fóru nokkrir bátar minnir mig, en aðeins tveir skildu eftir lóðirnar; annar þeirra var Valdimar bróðir minn.  Þeir fara fram um fjöruna til að sækja lóðirnar.  Annar báturinn tekur upp sínar lóðir og fer strax í land.  En Valdimar bróðir minn var ekkert að flýta sér að því, heldur fór að beita aftur út eins og vant var.   Nema það, að lóðirnar festust í grunni og tafðist að ná þeim upp. 

Var komið hátt undir flæði er við komum uppundir land.  Þá sáum við að öll ströndin rauk af brimi.  Og þegar við komum upp undir Klakkana sáum við að stór hópur manna stóð á Klettshorninu sem kallað var, en þar sást vel til bátsferða.  Við sjáum að þeir hlaupa allir norður með sjó og skildum að þeir vildu vísa okkur frá lendingunni.  Það gerum við og fylgjum þeir eftir.  Við sjáum þá stoppa norðan við svokallaðan Þórðarklett sem er þarna norðan lendingarinnar. Og þar vísuðu þeir okkur á lendingu.  Þórðarsker er þar að norðanverðu; há hlein sem stendur þar uppúr sjó um háfjöru, en nú var hálffallið.  Þarna biðum við stund eftir lagi en svo rerum við upp.  Það tókst alveg ágætlega og það kom ekki dropi í bátinn.  En eitthvað hafði nú hællinn komið við hlein, því dragið straukst undan honum. 

Ég man eftir því hvað ég var undrandi þegar við vorum komnir á land og sá hvað brimið var mikið.  Ég bjóst aldrei við að það væri svo ljótt.  Það hefði líklega verið erfitt að ná lendingu annarsstaðar.  En það var gamall frændi okkar, Gísli Guðbjartsson sem vísaði til lendingar á þessum stað; þarna myndi vera líkleg lending.  Þetta var vestanbrim, en aðalkraftinn braut úr briminu á svokölluðum Bjarnarklakk.  Þegar komið var norður fyrir klettinn var allur krafturin úr því og því fengum við svo að segja slétt upp þó yfir hlein væri að fara, en djúpt var á hana.  En seinna veit ég til þess að bátar hafa lent mikið norðar í víkinni; norður undir svokallaðri Gvendarhlein, þegar ófært var orðið í venjulegri lendingu“.

 Tekið saman í febrúar 2020:  Valdimar Össurarson (yngri)

 

Orðaskýringar

Hnífadrægt  Í frásögn Torfa Jónssonar hér á undan segir hann:  „Þá setti á suðaustan moldbyl og hvassviðri og það var alveg hnífadrægt í land“.  Merkingin er greinilega sú að ómögulegt sé að róa móti vindi og sjóum.  Lýsingarorðið „hnífadrægur“ hefur hvorki fundist í orðabókum né ritheimildum.  Þekkt er orðið „mótdrægur“ sem merkir tregur í taumi eða torveldur.  Orðið „ljádrægur“ var notað um slægjuland sem unnt er að slá (draga á með ljá).  Í sjómannamáli er þekkt orðið „ódrægur“, sem merkir það sama og Torfi talar um hér; þ.e. að báti verði ekki róið upp í vindinn vegna veðurhæðar.  Ekki verður fullyrt hvort þetta orð var almennt notað í Kollsvík eða hvort Torfi hefur hér slegið orðum saman til að setja svip á söguna.

Misvinda  Í frásögn Trausta Ólafssonar af drukknun Árna Árnasonar:  „ …en í þeirri átt er nokkurt misvinda fram af Núpnum“.  Merkir að vindhviður geta komið á vixl úr tveimur eða fleiri áttum.

Taka bóg  Í sömu frásögn segir: … sigldu þeir Árni og Guðbjartur eins og tók norður undir Bjarnanúp og ætluðu svo að taka annan bóg suður eftir“.  Þeir sigldu semsé eins langt og komist varð norður undir Bjarnanúp; ætluðu þar að venda seglum og sigla í hina áttina.  Nefnist það að „krusa“ eða „slaga“ þegar þannig er siglt í krákustígum, en það er gjarnan gert í mótvindi; beitivindi.  Bógur er þá sá leggur sem sigldur er.

Bera um  Sama frásögn:  „Þegar borið var um var ekki meira kul en það að þeir ákváðu að róa báðir undir… .  Merkir það að venda seglum; þ.e. færa seglskautið þvert yfir bátinn.

Dragreipi  Sama frásögn.  Reipi sem gengur um húnboru efst í siglu og notað til að draga upp seglið.

Tíróið skip  Í frásögn af hrakningum Árna Gíslasonar yfir Breiðafjörð.  Teinæringur.

Leggja skipi við vindi  Sama frásögn.  Sigla beitivind; beita skipi upp í vind.

Í bakaslag  Á næsta bógi; þegar búið er að venda og komið til baka þegar slagað/krusað er.

Stampaustur  Austur nefnist sjórinn sem kemur inn í bát við ágjöf, og ausa þarf út.  Stampaustur er líking við að ausa þurfi með stórum stampi í stað hefðbundins austurtrogs.

Tréreisa  Reisa siglutrá á báti.  Sigla var stundum tekin niður til að báturinn tæki minni vind á sig, t.d. þegar legið var við stjóra, en nokkuð átak getur þurft til að tréreisa aftur í miklum vindi.

Beita út  Í frásögn Torfa Össurarsonar af róðri hans og brimlendingu með Valdimar bróður sínum segir hann:  „En Valdimar bróðir minn var ekkert að flýta sér að því, heldur fór að beita aftur út eins og vant var“.  Merkir það að beita lóðina um borð í bátnum um leið og hún er lögð.

Festast í grunni  Festast í botni.

Drag  Listi undir kili báts, sem hlífir kilinum þegar báturinn er settur (dreginn) yfir fjörugrjót.  Dragið er gjarnan úr járni í seinni tíð, en var úr eik eða öðrum góðviði fyrr á tímum.