Hér lýsir Páll Guðbjartsson samgöngum í Kollsvík og Rauðasandshreppi á 20.öld; fyrir og í byrjun vélaaldar.

pall gudbjartssonKnútur Páll Guðbjartsson (04.08.1931-08.06.2007) ólst upp á Láganúpi.  Hann lauk framhaldsprófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík og frekara námi í Stokkhólmi.  Vann ýmis verslunar- og skrifstofustörf; var kennari við Samvinnuskólann á Bifröst og aðalbókari við Kaupfélag Borgfirðinga.  Framkvæmdastjóri Vírnets í Borgarnesi frá 1972.  Páll var giftur Herdísi Guðmundsdóttur; þau bjuggu í Borgarnesi og eignuðust tvö börn, en fyrir átti Herdís eina dóttur.  Páll bar sterkar taugar til bernskustöðvanna og kom þar gjarnan í sínum fríum.  Pistil þennan tók Páll saman í tilefni af útgáfu Niðjatals Hildar og Guðbjartar, foreldra sinna, árið 1989.

Þegar ég var að alast upp í Kollsvík á fjórða og fimmta tug þessarar aldar, voru samgöngur á landi til og frá Víkinni óbreyttar frá því sem verið hafði frá landnámsöld.  Vegir voru ekki aðrir en gömlu þröngu hestagöturnar, sem enn má sjá móta fyrir á fjallvegum, en eru ekki lengur farnar.  Þessar götur voru svo þröngar að ekki gátu tveir menn gengið þær samsíða.  Þær voru niðurgrafnar, vegna þess að helstu lagfæringar á þeim voru þær að lausagrjót var tínt úr götunni, en sjaldan var nokkuð borið ofan í hana.  Stundum urðu þessar götur farvegir fyrir leysingavatn, sem gróf þær niður, og oft urðu þær það djúpar að ríðandi maður rak fæturna í grjót í götuköntunum.  Viðhald þessara vega var í því fólgið að á vorin voru menn fengnir til þess að hreinsa úr þeim lausagrjót og jafna þá, eftir því sem hægt var.  Í þessar vegabætur á hálsunum beggja megin Kollsvíkur var gjarnan varið tveim til fjórum dagsverkum á ári í hvorn háls, og verkfærin sem notuð voru til verksins voru oftast aðeins skófla og haki.

Af því ástandi vega sem hér hefur verið lýst, má ljóst vera að einu samgöngurnar á landi voru á hestum eð fótgangandi.  Og ekki var um aðra vöruflutninga á landi að ræða en á hestum, eða það sem menn báru á sjálfum sér.  Hér á ég við flutninga yfir hálsana beggja megin Kollsvíkur, en á flatlendinu innan Víkurinnar voru auk þess notaðir hestvanar til flutninga, þar til 1944 að dráttarvél sem keypt var í Víkina leysti þá af hólmi að mestu.  Þessi dráttarvél var sameign allra bænda í Víkinni.

Fjallvegasamgöngur við Kollsvíkinga héldust óbreyttar til ársins 1955, að lokið var við bílveg alla leið yfir Hænuvíkurháls.  Rúmum áratug áður hafði verið hafist handa um  lagningu akfærs vegar upp úr Kollsvík að norðanverðu, og mun Grímur Árnason á Grundum hafa verið hvatamaður að þeirri framkvæmd.  Þessum vegi var valið nýtt stæði, norðar yfir hálsinn og mun snjóléttara en þar sem hestavegurinn lá.  Ennþá er nokkuð eftir af þessum fyrsta akvegi yfir Hænuvíkurháls; aðallega í Kollvíkurbrekkunni og svo uppi á Jökladalshæð.  Þessi vegalagning hófst snemma á stríðsárunum, og verkstjóri við hana var Helgi Árnason í Tröð.  Unnið var eingöngu með handverkfærum; skóflum, hökum, járnkörlum, og einu ökutækin sem við varð komið voru hólbörur.  Að miklu leyti var þetta verk unnið í sjálfboðavinnu; þ.e.a.s. að menn afsöluðu sér ákveðnum hluta af launatöxtum.  Með þessum hætti var akfær vegur lagður inn að Aurtjörn á innanverðum hálsinum, að því undanteknu að upp Húsadalinn var vegurinn ekki fullgerður.  Þessi vegur hafði verið notaður sem hestavegur um nokkurra ára skeið, aður en bílfært varð yfir hálsinn; en þá nýttist hann á kaflanum úr Húsadal og inn að Aurtjörn sem bílvegur.

Eins og að líkum lætur voru vöruflutningar á reiðingshestum yfir fjallvegi seinlegir og ýmsum annmörkum háðir.  Það var til dæmis erfitt að búa þannig upp á reiðingshest að vel færi í brekkunum beggja megin í Hænuvíkurhálsi, en um þann háls lá fyrst og fremst leiðin til vöruaðdrátta.  Sérlega var erfitt að láta reiðing tolla sæmilega á hesti niður brekkur, þvi honum hætti alltaf til þess að síga fram á makkann, jafnvel þótt sett væri rófustag; þ.e. að kaðall væri bundinn í klyfberann og undir stert hestsins.  Eitt sinn minnist ég þess að hafa séð hest; Stroku sem Helgi í Tröð átti, láta sig falla á hné, neðst í Kolsvíkurbrekkunni og steypa klyfjum og reiðingi fram af sér.

Algengt var, ekki síst að vetrarlagi, að menn báru þungar klyfjar á eigin herðumyfir Hænuvíkurháls.  T.d. þegar komið var úr jólakaupstaðarferð, en jafnan var farið í kaupstað fyrir jólin og þá keyptur ýmis varningur til hátíðarhaldsins.  Eins var þá algengt á útmánuðum, að farið var að ganga á þá mjölvöru sem keypt hafði verið til vetrarins.  Var þá gjarnan skroppið innyfir háls að Hænuvík, meðan Sláturfélagið Örlygur hafði verslun þar; eða á Gjögra, eftir að félagsverslunin var flutt þangað.  Ekki þótti sérstakt tiltökumál fyrir fullfrískan karlmann að leggja á bakið fimmtíu kílóa byrði í slíkum ferðum.  Jafnan var borið í fötlum, sem kallað var.  Þá var kaðli brugðið í lykkju utanum byrðina; síðan handleggjunum stungið undir böndin, þannig að þau lágu sitt á hvorri öxl, en lykkjan ofaná byrðinni.  Lausu endana lagði maður svo fram yfir axlirnar og herti að með þeim; þannig að byrðin lagi hæfilega þétt að baki manns. 

Ég minnist einnar ferðar sem ég fór inn á Gjögra seinnipart vetrar, með Andrési Karlssyni frænda mínum á Stekkjarmel.  Í bakaleið bar ég einhvern varning; sitt lítið af hverju.  Ekki tiltakanlega þunga byrði en Drési, sem var um þessar mundir að dytta að bát sínum fyrir vorið, lét sig ekki muna um að leggja á bakið nokkur borð af bátavið, sem hann bar í fötlum frá Gjögrum og út í Kollsvíkurver.

Eina árvissa flutningaferð þurfti að fara á hverju  hausti, en það var heimflutningur á slátri frá sláturhúsinu á Gjögrum.  Féð var rekið til slátrunar inn í Örlygshöfn daginn fyrir slátrun; venjulega inn yfir Tunguheiði.  Síðan var lögð áhersla á að strax að kvöldi sláturdags væri slátrið búið uppá hesta og flutt heim.  Venjulega þurfti tvo hesta undir sláturflutninginn að Láganúpi.  Þar sem pabbi átti sjaldan nema einn hest, þurfti hann að fá annan lánaðan í þessa ferð.  Unglingar, einn eða tveir eftir atvikum, voru sendir í þessa ferð, en þeir urðu að vera orðnir það vel að manni að þeir gætu tekið ofan klyfjar, lagfært reiðing og látið upp aftur.  Heldur voru þessir sláturflutningar lítið vinsælar ferðir, því þær varð að fara; hvernig sem viðraði.  Oft er rigningasamt á haustin, og stundum fengu menn hin mestu hrakviðri; auk þess að ekki var hægt að leggja af stað fyrr en slátrun var lokið og því alltaf komið biksvart haustmyrkur áður en lagt var af stað, og ferðin frá Gjögrum að Láganúpi tók að minnsta kosti þrjá klukkutíma.

Enda þótt neysla manna á aðfluttum varningi á þessum tímum væri mun fábreyttari en nú er orðið, hefði orðið tafsamt að flytja allar aðfluttar vörur á hestum.  Var því mestur hluti þeirra fluttur sjóleiðina.  Venjulega voru farnar tvær meginaðdráttarferðir á ári.  Var önnur ferðin farin snemma vors og þá var aðflutningurinn tilbúinn túnáburður, auk ýmissar matvöru til heimilisþarfa.  Síðari ferðin var svo farin á haustin.  Var þá venjulega farið með ullina til innleggs; væri ekki búið að koma henni frá sér áður.  Heim var svo fluttur ýmiss konar varningur til vetrarins.  Matvara, svosem hveiti, sykur, haframjöl og rúgmjöl; allt í 50 kg pokum.  Fóðurbætir, aðallega fiskimjöl og síldarmjöl, var venjulega í 100 kg pokum.  Venjulega var tekið mað lítið eitt af kolum, sem þótti gott að geta gripið til ef sérlega þurfti að skerpa lítillega á eldi.  Annars var megineldsneytið mór, allt fram yfir 1950.  Þá þurfti líka að kaupa steinolíu til ljósmetis, og var hún venjulega flutt í 100 eða 200 lítra stáltunnum.  Oft voru þessar ferðir nokkuð erfiðar og hrakningssamar, sérstaklega haustferðirnar.  Tíðarfar ókyrrðist venjulega þegar leið að hausti, og lentu menn því oft í misjöfnum veðrum.  Það þótti ekki sérstakt tiltökumál þó að flestir sem unnu að uppskipun við þessar aðstæður kæmu frá því blautir uppí mitti eða undir hendur.  Þar slapp einna best sá sem var í bátnum og lyfti á, enda var oftast valinn til þess eldri maður, eða einhver sem ástæða þótti til að hlífa við vosinu.  Algengt var að höfð væri samvinna milli tveggja eða fleiri bæja um þessar aðdráttaferðir; enda unnust þær léttar ef nægilega margir hjálpuðust að.  Það þurfti einn eða tvo menn til að halda bátnum réttum við sandinn, og einn þurfti að vera í bátnum til að lyfta á; því fyrr gekk að bera farminn af  bátnum sem fleiri gátu verið við það.

Ekki minnist ég þess að menn fáruðust svo teljandi væri, um það hversu erfitt þeir ættu; að þurfa að sinna þessum verkum.  Þetta voru einfaldlega verk sem þurftu að vinnast, og menn voru því vanari en nú er orðið, að þurfa að beita líkamskröftum sínum við vinnu.  Jafnan var þess gætt heima, að ofbjóða ekki unglingum með erfiðisvinnu.  Hinsvegar þótti það sjálfsagt og eðlilegt að allir, jafnt yngri sem eldri, tækju  þátt í daglegum störfum; hver eftir sinni getu.  Ég man enn eftir sjálfsánægju minni, þegar mér var í fyrsta skipti treyst til að bera 200 punda síldarmjölspoka upp úr bát í Kollsvíkurveri.

Hér að framan hef ég talað um hina venjulegu búsaðdrætti Kollsvíkinga, og langar að lokum að segja lítillega frá því hvernig fyrsta dráttarvélin var flutt í Víkina.  Hún var keypt árið 1944, eða rúmum áratugi fyrr en fyrst akfært varð yfir Hænuvíkurháls.  Vélin var af gerðinni Farmal A, og er raunar til á Láganúpi enn (1989), en mun nú ógangfær.  Hún var keypt og flutt út í Kollsvík innpökkuð í stóran rammgerðan trékassa, og var að miklu leyti ósamansett.  Afturhjólin voru flutt laus, ásamt stærri fylgihlutum, s.s. plóg, herfi og sláttuvél sem keypt var með vélinni.  Ekki kom annað til greina en að flytja vélina sjóleiðis úteftir, en hinsvegar var enginn bátur í Kollsvík talinn nægilega stór eða stöðugur fyrir þann flutning.  Bjarni Sigurbjörnsson í Hænuvík var því fenginn til að annast hann; enda var bátur hans nokkru stærri, og Bjarni sjálfur verklaginn og áræðinn að hverju sem hann gekk.

Þessi flutningur fór fram fyrri hluta sumars, og var valið stillt og gott veður.  Kassinn með dráttarvélinni var það langur að hafa var hann þversum yfir bátinn.  Stóð hann talsvert útaf á bæði borð, og var þó nokkuð háfermi.  Ekki veit ég hvernig farið var að því að koma kassanum um borð á Patreksfirði, en þegar úteftir kom var lent í Láganúps- og Grundalendingu um hálffallið út.  Látið var fjara undan bátnum og kassanum, sem var aðalflutningurinn, var síðan rennt út á fjörusandinn.  Timburplankar voru lagðir í braut upp á kambinn, og eftir þeirri braut var kassinn síðan dreginn með venjulegu bátaspili og látinn rúlla á sverum rörbútum sem lagðir voru þvert á plankabrautina.  Þegar kassinn var kominn vel undan sjó, var numið staðar.  Þar var síðan tekið utan af vélinni og hún sett saman í ökufært ástand.  Þessi flutningur tókst í alla staði vel, eins og til var stofnað, enda vel undirbúinn og unninn af gætnum mönnum. 

Hér að framan hef ég leitast við að segja frá því hvernig Kollsvíkingar unnu að því að flytja til sín  aðfengnar vörur, áður en akfært varð í Víkina.  Ég hef eflaust sleppt ýmsu sem frásagnarvert gæti talist, en von mín er sú að einhver kunni að hafa gaman af að lesa þessar línur.  Jafnvel að yngra fólk, sem ekki man þessa tíma, finni í þeim einhvern fróðleik.  Þá er tilganginum náð.