Hér er lýst komu fyrsta traktorsins í Kollsvík og samstarfi bænda í tengslum við þær nýjungar. Varðveitt er á Láganúpi eftirfarandi samningsskjal.  Félagið sem hér um ræðir var að öllum líkindum stofnað um kaup á fyrstu dráttarvélinni sem kom í Kollsvíkina.

ballferd farmallFarmallinn hafði mörg hlutverk.  Myndin sýnir hann við Stekkjarmelshúsið, líklega eftir 1950.  Þarna er verið að leggja í ferð innyfir Háls, e.t.v. á dansleik, og er tjölduð kerra notuð til fólksflutninga. Össur á Láganúpi er við traktorinn en líklega Sigríður framanvið kerruna.

Ekki er ólíklegt að reglurnar hafi samið Össur Guðbjartsson, sem þá var í búnaðarnámi á Hvanneyri. Árið 1943keypti Búnaðarfélagið Örlygur fyrstu dráttarvélina sem kom í Rauðasandshrepp; af gerðinni International Harvester W4.  Að baki þeim kaupum var félag manna á Rauðasandi og Hvalskeri, sem lagði til kaupverðið.  Traktorinn í Kollsvík hefur líklega verið annar traktorinn sem í hreppinn kom, en um svipað leyti eða stuttu síðar kom annar Farmall A að Hvallátrum; líkt og hinir var hann keyptur í samlagi bænda á staðnum.

Samþykktir fyrir jarðræktarverkefni Kollsvíkinga

 1. gr. Félagið er hlutafélag og eru réttindi félagsmanna við atkvæðagreiðslu bundin við upphæð hlutafjár; og komi eitt atkvæði fyrir hverjar hundrað krónur. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum
 2. gr. Félagsfundi skal halda minnst einu sinni á ári og auk þess ef stjórn félagsins þykir ástæða til; ennfremur ef meirihluti atkvæða krefst þess. Fundur er lögmætur ef mættir eru 2/3 hlutar atkvæða, enda sé boðað til hans með minnst viku fyrirvara.
 3. gr. Kjósa skal þrjá menn í stjórn félagsins, til eins árs í senn.  Formann, gjaldkera og eftirlitsmann verkfæranna.  Formaður boðar fundi og hefir eftirlit með að samþykktum félagsins sé hlýtt; gjaldkeri annast um bókhald og fjárreiður félagsins; eftirlitsmaður vélanna hefir á hendi yfirumsjón með vélunum og bókfærir notkun þeirra í samvinnu við gjaldkera. 
 4. gr. Heimilt er hluthafa að selja hluti sína og hefir þá félagið í heild forkaupsrétt, en þar næst einstakir félagsmenn.
 5. gr. Arður sem verða kann af rekstrinum skiftist árlega niður á hluthafa eftir hlutafjárupphæð þeirra.
 6. gr. Um starfrækslu verkfæranna skal tekið fram í starfsreglum og gjaldskrá, sem félagssfundur samþykkir.
 7. gr. Samþykktir þessar voru fyrst samþykktar á fundi félagsins á Láganúpi fimmtudaginn 27. des. 1945.

Samþykkir framanskráðu

Helgi Árnason  
Helgi Gestarson
Össur G. Guðbjartsson
Guðbjartur Guðbjartsson

 

Starfsreglur:

 1. gr. Hver félagsmaður hefir rétt til að nota verkfærin, eftir því sem samþykktir og reglur þessar ákveða.
 2. gr. Ef fleiri en einn óskar eftir að nota vélarnar á sama tíma, hefir sá forgangsrétt er fyrr pantaði. Þó má enginn einn eigandi nota hana lengur en einn dag, og við slátt ekki nema 2 st.
 3. gr. Ráða skal hæfa menn til að stjórna vélunum, fyrir þóknun. Stjórnin skal ráða allt að þrjá slíka menn.
 4. gr. Gjald fyrir vélina án verkfæra skal vera kr 15.00 á klst; reiknað fyrir keyrslutíma frá því að vélin kemur á vinnustað. Kaup til vélarmanns má aldrei fara fram úr taxtakaupi í vegavinnu í hreppnum.  Notandi leggi fram bensín við vinnuna.
 5. gr. Ráðnir vélamenn skulu skyldir að vinna við notkun vélarinnar eftir því sem til þeirra er leitað, enda séu þeir staddir á félagssvæðinu. Að lokinni notkun skulu þeir gefa upp vinnustundir vélarinnar til eftirlitsmanns eða gjaldkera.

Samþykkir ofanskráðum reglum sem félagsmenn

Láganúpi 27. des 1945

Helgi Árnason

Össur G. Guðbjartsson   Helgi Gestsson

Guðbjartur Guðbjartsson

 

 

Helgi Gestsson                       kr.       2500

Helgi Árnason                        „         1600

Guðbj. Guðbjartsson              „         1100

Andrés Karlsson                     „         1100

Einar T. Guðbjartsson            „         1000

Ingvar og Össur Guðbjartss.  „           700

                                                    8.000

 

Í Niðjatali Guðbjartar og Hildar frá Láganúpi lýsir Páll Guðbjartsson svo kaupunum á vélinni:

„Mig langar að lokum að segja lítillega frá því hvernig fyrsta dráttarvélin var flutt í Víkina.  Hún var keypt árið 1944, eða rúmum áratugi fyrr en fyrst akfært varð yfir Hænuvíkurháls.  Vélin var af gerðinni Farmal A, og er raunar til á Láganúpi enn (1989), en mun nú ógangfær.  Hún var keypt og flutt út í Kollsvík innpökkuð í stóran rammgerðan trékassa, og var að miklu leyti ósamansett.  Afturhjólin voru flutt laus, ásamt stærri fylgihlutum, s.s. plóg, herfi og sláttuvél sem keypt var með vélinni.  Ekki kom annað til greina en að flytja vélina sjóleiðis úteftir, en hinsvegar var enginn bátur í Kollsvík talinn nægilega stór eða stöðugur fyrir þann flutning.  Bjarni Sigurbjörnsson í Hænuvík var því fenginn til að annast hann; enda var bátur hans nokkru stærri, og Bjarni sjálfur verklaginn og áræðinn að hverju sem hann gekk.

Þessi flutningur fór fram fyrri hluta sumars, og var valið stillt og gott veður.  Kassinn með dráttarvélinni var það langur að hafa var hann þversum yfir bátinn.  Stóð hann talsvert útaf á bæði borð, og var þó nokkuð háfermi.  Ekki veit ég hvernig farið var að því að koma kassanum um borð á Patreksfirði, en þegar úteftir kom var lent í Láganúps- og Grundalendingu um hálffallið út.  Látið var fjara undan bátnum og kassanum, sem var aðalflutningurinn, var síðan rennt út á fjörusandinn.  Timburplankar voru lagðir í braut upp á kambinn, og eftir þeirri braut var kassinn síðan dreginn með venjulegu bátaspili og látinn rúlla á sverum rörbútum sem lagðir voru þvert á plankabrautina.  Þegar kassinn var kominn vel undan sjó, var numið staðar.  Þar var síðan tekið utan af vélinni og hún sett saman í ökufært ástand.  Þessi flutningur tókst í alla staði vel, eins og til var stofnað, enda vel undirbúinn og unninn af gætnum mönnum“.  

Svo fórust Páli orð, en hann var á fermingaraldri árið 1944.

 

Farmallinn þjónaði Kollsvíkingum vel alla sína tíð.  Ekki veit ég hvenær hið formlega félag um „jarðræktarverkfæri Kollsvíkinga“ lagði upp laupana, en líklega hefur það gerst þegar fækkaði í Víkinni eftir seinna stríð.  Þá komst Farmallinn alfarið í eigu Guðbjartar á Láganúpi og sona hans; og síðar í eign Össurar Guðbjartssonar á Láganúpi.  Farmallinn var helsta vinnuvélin á búi foreldra minna frá því ég fyrst man eftir mér.  Pabbi fékk Ferguson hjá Ingvari þegar hann hætti búskap árið 1971, og síðar Zetor.  En Farmallinn var áfram mikilvægt vinnutæki við hlið þessara nýju tækja; allt til þess að hann henti það ólán að blokkin frostsprakk, líklega í kringum 1980.  Löngu síðar var laminn af honum látinn til vinnumanns í Saurbæ sem hugðist koma honum í lag; en ekki veit ég þá sögu lengri.

 Tækin sem fylgdu traktornum og féllu undir hið virðulega jarðræktarverkefni voru öll aflögð þegar ég man eftir.  Lami af plóg og herfi voru að flækjast heima, en sláttuvélin mun hafa verið látin frá vélinni.  Hún var fest aftaná traktorinn, og nokkuð óhæg í notkun.  Í kringum 1967 fékk pabbi aðra sláttuvél á Farmalinn, sem var hliðtengd; kom á milli fram- og afturhjóla.  Henni var lyft með handafli; langri stöng við hlið sætisins, og við þá stöng átti ég mínar fyrstu aflraunir.  Farmallinn var fyrsta ökutækið sem ég ók, og á honum átti ég ófáar stundir.  Að mörgu leyti var þetta hin þægilegasta og áreiðanlegasta vinnuvél, og mesta furða hverju hann áorkaði með sínum 20 hestöflum.  Hinsvegar gat smellikveikjan verið dyntótt.  Ekkert annað rafmagn var í vélinni, og þurfti að snúa henni í gang á sveif.  Oft var ráð að skrúfa kertin úr, og krota í þau með blýanti; „skrifa honum til“ eins og sagt var.  Mun stundum hafa hrokkið eitt og eitt blótsyrði við sveifina.  Loftdæla fylgdi traktornum; kertadæla sem skrúfuð var í stað eins kertisins og útblástur strokksins þannig nýttur.  Aflútttak var á honum.  Í upphafi var þar breið reimskífa sem ég man eftir að eitt sinn var notuð til að snúa stórviðarsög.  Síðar var það útbúið til tengingar við heytætlur og fleira.  Margt fleira kemur upp í hugann varðandi gamla góða Farmalinn, en þetta skal nægja að sinni.

Valdimar Össurarson frá Láganúpi