Hér lýsir Hallbjörn Oddsson róðrum úr Láturdal í upphafi 20. aldar.

___________________________________________________________________________

hallbjorn odsson bakkaHallbjörn Eðvarð Oddsson (29.06.1867-23.06.1953) var sonur séra Odds Hallgrímssonar, prests í Gufudal, og Valgerðar Benjamínsdóttur.  Föðuramma hans var systir Sveinbjarnar Egilssonar og einnig átti hann ættir að rekja til Magnúsar Ketilssonar.  Hallbjörn gekk í Lærða skólann var þar samtíða Sigurði Magnússyni lækni, sem minnist hans hlýlega í ævisögu sinni Æviminningar læknis; segir að Hallbjörn hafi varið þá báða gegn yfirgangi skólastráka, enda vel að manni.  Hallbjörn neyddist þó til að hætta námi 15 ára, eftir fráfall föður síns, til að sjá fyrir heimili móður sinnar.  Síðar gerðist hann bóndi á Bakka í Tálknafirði milli 1891 og 1912, og kennari, en flutti síðar til Suðureyrar og var síðast á Akranesi.  Af honum er komin Hallbjarnarætt.  Kona hans var Sigrún Sigurðardóttir og eignuðust þau 12 börn.  Vorið 1901 reri Hallbjörn frá Láturdal innan Blakks, á báti Guðmundar Bárðarsonar frá Vatneyri, en hann gerði þá út þrjá báta úr Láturdal.  Æviþættir Hallbjarnar birtust í Ársriti Sögufélags Ísvirðinga árið 1964, og er hér gripið niður í frásögn hans frá þessu vori.  Frásögnin veitir fróðlega innsýn í lífið í þessari afskekktu verstöð, en einnig kúfisktöku í Skersbug o.fl.­­­­­­­­­­­­  (Mynd úr Sarpi; vef Þjms. Ísl).  

_________________________________________________________________________________________

Við höfðum engin hrognkelsanet í Láturdal, því þar er lítt mögulegt að eiga net vegna stórbrima.  Við fórum því í Skersbug frá Vatneyri áður en við fluttum í verið og fengum mikið af kúffiski.  Ég býst nú reyndar ekki við að nokkrir menn trúi þeirri lýsingu sem ég gef hér af kúffisktekjunni í Skersbug nema þeir sem sjálfir hafa reynt þá vinnu.

Norðan stormur var er við sigldum frá Vatneyri inn í Bug; allir þrír bátar Guðmundar. Þegar komið var undir hálffallið út löbbuðum við með marga sekki tóma niður að sjó.  Þar tók hver sinn poka úr sekkjahrúgunni og óð með hann út í sjóinn.  Allir voru í brókum og skinnstökkum.  Þegar menn höfðu vaðirð svo langt fram að þeir voru komnir í kúffiskinn, var hægri hendi stungið niður í sjóinn þar sem manni sýndist kúffiskurinn vera.  Í logni og sléttum sjó er mjög gott að sjá hann, en sé aftur á móti bára eða vindur er það mjög illt og tæpast annarra en æfðra manna meðfæri.

Fyrst er við byrjuðum urðum við að vaða með hendina upp að öxl ofan í sjóinn, en þá stóð skelin hér um bil hálf uppúr sandinum.  Var því mjög létt að ná henni, en eftir því sem meira féll út gróf hún sig dýpra niður í sandinn.  Og þegar fallið var alveg út af staðnum sem við byrjuðum á var hún öll horfin, svo ómögulegt var að ná neinu meira þar til að féll aftur.   Þegar svo sjórinn féll yfir á ný smáhækkaði hún sig í sandinum, þar til hún stóð hálf uppúr honum.  Var þá bæði gott að sjá hana og ná henni.  Oft var munnur hennar opinn þegar hún stóð mikið uppúr sandinum og var þá betra að fara ekki með fingur uppí hana.  Væri það gert klemmdi skelin sig strax saman og gat það valdið vondum meiðslum ef um stórar skeljar var að ræða.  Það varð því að stinga fingrunum niður beggja megin við skelina og gá þess vel að þeir hittu ekki í hana opna.  Eftir því er meira féll að varð að vaða dýpra og seilast dýpra eftir skelinni, svo ekki var nokkur þurr þráður í fötum þeirra sem við þessa vinnu voru.  Eins og skiljanlegt er rann ofan í brækurnar er menn réttu sig upp, þegar seilst var með hendinni niður í sjóinn upp að öxl.  Þá rann sjórinn einnig yfir bak og brjóst manna.  Það voru því margir sem hvorki notuðu brækur eða stígvél við vinnu þessa, því eftir lítinn tíma var hvorutveggja fullt af sjó, og jók það mönnum aðeins erfiði og þreytu við starfið.  Svipað má segja um skinnstakkinn.  Hann var sjaldan notaður í logni og sólskini, en þegar kalt var og hvasst fóru menn í hann til að verjast næðingi.  Má nærri geta hve hugguleg hlíf hann hefur verið er hann var að slettast um hildablautur þegar mikill vindur var.  Oft kom það fyrir að menn veiktust af lungnabólgu í Skersbug, og sumir þeirra urðu aldrei jafngóðir.  Að öðru leyti en hér r lýst um Skersbug var öll kúffisköflun í Patreksfirði rekin á sama hátt og með sömu tækjum á sama tíma; eins og í Tálknafirði og um allt Vesturland.

Stuttu síðar fluttu allir bátar Guðmundar Bárðarsonar út í Láturdal.  Fyrir einum bátnum var Guðmundur sjálfur; fyrir öðrum Ólafur Bjarnason, hálfbróðir Árna á Kvígindisfelli, og þeim þriðja Ingimundur frá Koti í Patreksfirði.  Þeir Ólafur og Ingimundur gátu strax flutt í verbúð er úteftir kom, en Guðmundur hafði enga fyrir sig og skipshöfn sína.  Ætlaði hann því að vera í tjaldi yfir vertíðina.  Er úteftir kom slógum við því upp tjaldi, rétt innanvið háan klett sem afmarkar plássið að innanverðu.  Þar var dálítill grasblettur fyrir ofan flæðarmál sem við reistum tjaldið á, því við töldum þar óhætt á vordegi brims vegna; þó sjáanlegt væri að brim gengi langt uppfyrir þann stað á öðrum tímum ársins.  Hituðum við okkur kaffi um kvöldið, er við höfðum borið allt úr bátnum og undan sjó sem við höfðum meðferðis.  Er við höfðum matast og drukkið kaffi sofnuðum við sætt og vært, því við vorum allir þreyttir eftir útflutinginn og róðurinn úteftir, því logn og dálítill mótvindur var alla leið.  En nálægt 1-2 m nóttina vöknuðum við upp við það að brim var komið og buldruðu slettur þess á tjaldinu.  Var allt í því að verða gegnvott.  Er við gáðum á klukkuna sáum við að meira en klukkutíma vantaði til flæðar og var okkur því nauðugur sá kostur að taka niður tjaldið og koma öllu sem í því var upp á bakka.  Gekk það er eftir var nætur í þá færslu, svo að við fengum engan svefn fyrr en Ólafur og Ingimundur voru komnir á fætur og menn þeirra.  Þá sofnuðum við í rúmum þeirra. 

Fyrir öllum Láturdal er hátt klettabelti frá klettinum sem getið var um að við tjölduðum fyrir innan; alla leið út að kletti sem myndar lendingarvíkina að utan.  Inn á milli þessara kletta liggur stutt en breið vík, og er klettabeltið fyrir ofan hana bogadregið eins og gefur að skilja, þar sem það liggur með allri víkinni landmegin.  Klettabeltið er víðast hvar svipað á hæð; áreiðanlega átta til tíu faðmar, þó smáskörð séu í það eða lækjarskorningar.  Er sá dýpstur er Láturdalsáin steypist sem smáfoss framaf.  Fyrir framan þetta klettabelti liggur annað innan frá klettinum sem við tjölduðum við; út fyrir miðja víkina.  Það er frá tveimur upp að fjórum föðmum á hæð; hólótt og lágótt, en talsvert breitt.  Upp frá því söltuðu fjórir bátar sem reru þetta vor frá Láturdal allan fisk sem þeir fengu, og öfluðu þó allir mjög vel.  Sjálf var lendingin fyrir utan klettabelti þetta; nokkuð fyrir innan ytri klettinn sem myndaði víkina.

Í haust- og vetrarbrimum gekk aldan yfir allt lægra klettabeltið og skall á því efra, svo þar hefði engan hlut verið hægt að verja á þeim tíma árs og mjög vont var að verja bátana þá um vorið þegar brim var, en fiskinn sakaði aldrei.  Undir fossinum var ofurlítil þró eða hylur í klapparskál sem fossinn hefur verið að grafa niður í bergið frá ómunatíð.  Var allur fiskur þveginn upp úr þessari þró.  Er það eitt hið besta uppþvottaker er ég hef þekkt í nokkurri veiðistöð.

Eins og allir hljóta að skilja var ómögulegt að þurrka nokkuð fyrir neðan bakka.  Ómögulegt var líka að bera fiskinn blautan til þurrkunar úr víkinni inn fyrir klettinn sem við tjölduðum við, og þar upp á háan og snarbrattan bakka.  Við grófum því niður rekaviðardrumb uppi á bökkunum uppi á bökkunum upp af vörinni; á að giska faðm frá klettaröndinni, og höfðum efst á honum blokk og í henni streng sem náði ofan í vör.  Við drógum þannig upp á bakka allt er við vildum herða; og reyndar allt sem þurfti að koma upp á bakka, hverrar tegundar sem var, og fíruðum öllu niður sem þá leið þurfti að fara.  Við settum okkur svo upp hjalla og hlóðum steinbítsgarða, eins og í hverri annarri verstöð á Vestfjörðum.

Fjórða bátnum í Láturdal stýrði Ívar (Jónsson 16.06.1841-10.06.1926); gamall bóndi í Hænuvík.  Hann átti verbúð þá er hann var í og hliðraði svo til í henni að Guðmundur varð með skipshöfn sína í búðinni hjá honum yrir vorið.  Ívar gamli var ágætur sjómaður og sagður góður stjórnari.  Því fremur furðaði ég mig á því að ég sá hann aldrei sitja kulborðsmegin við stjórn; hve vont veður sem var, heldur ætíð á slíðrinni til hlés.  Hann var í skinnstakk, eins og þá var altítt, og lá hann út af borðinu að baki hans og drógst í sjónum eftir því meira sem báturinn hallaðist meira; svo hann náði oft slyttublautur niður í hnésbætur að aftan, þó hann væri skorpinn upp á brjósti að framan af hörku.

Á laugardag fyrir hvítasunnu fórum við sem oftar á sjó.  Þá var mikill afli á legulóðir þegar á sjó gaf.  Við höfðum undanfarna daga tví- og þríróið og aflað mjög vel.  En þennan umrædda dag gátum við það ekki vegna heimferðarinnar.  Formennirnir á bátum þeim er legulóðir áttu úti í Patreksfirði, fyrir utan Tálkna, höfðu bundist samtökum um að slægja aldrei niður á lóðunum heldur fara í land og leggja af sér.  Við ætluðum ekki að koma við í Láturdal þennan dag, heldur fara frá lóðunum inn á Vatneyri með aflann og tókum því allt með okkur um morguninn, sem hafa þurfti inneftir; þar á meðal talsvert af þurrum pokum sem ætlaðir voru undir kúffisk til beitu.  Logn og heiðríkja var allan daginn og því hægt að athafna sig eftir vild.  Þegar við fórum að draga lóðirnar var ágætur afli á þær, og lét Guðmundur einn manninn strax ganga í að afhausa og slægja fiskinn.  Var allt, bæði hausar og innvols, sett í poka jafnhliða.  En er búið var að draga fyrsta dráttinn var auðséð að báturinn mundi alls ekki bera aflann, þó hausað og slægt væri allt sem fengist.  Guðmundur setti þá sinn manninn til að fletja og vaska, og annan til að afhausa og slægja, svo hinir tveir urðu að draga og beita á meðan beitt og andæft var.  Flatta fiskinum var staflað í skutinn á bátnum á meðan hann tók, og síðan í barkann; einnig á meðan hann tók.  En dregið var og unnið í austur- og miðskipsrúmi og andæft í hálsi. 

Við gátum ekki beitt út nema tvisvar sinnum, og í seinasta drættinum slepptum við niður lóðunum beitulausum.  Með hverju uppihaldi hleyptum við niður þremur til fjórum pokum fyrirbundnum, fullum af hausum, slori og hryggjum.  Þegar við svo vorum búnir að draga lóðirnar var talsverður fiskur í bátnum óflattur en þó afhausaður og slægður og við lausir við allt draslið sem búið var að sökkva niður.  En við áttum nálægt 150 kg af allgóðum fiski á seil sem ekki hafðist við að fletja.  Er hér var komið lagði á talsverðan innvind, og þó sjórinn væri tjarnsléttur gaf á bátinn vegna seilarinnar.  Guðmundur sagði þá að annaðhvort yrðum við að gjöra; að skera frá okkur seilina eða taka hana inn í bátinn ofan á það sem fyrir var.  Vilji hann nú heyra álit okkar, en bætir svo við; „Ef hægt er að koma upp seglunum bægir báturinn strax frá sér þegar hann fær skriðinn“.

Það varð úr að seilin var tekin inní bátinn og lögð eftir honum endilöngum.  Seglin voru sett upp, en af öllu var verst að koma fyrir stýrinu.  Urðum við að fara framá tveir á meðan Guðmundur kom því fyrir, svo báturinn dyfi ekki í skutnum; svo var báturinn hlaðinn.  Hjálpaði þá að Guðmundur var bæði viss og fljótur, eins og oftar.  Strax og skriðurinn kom á bátinn reif hann sig upp og gaf ekki á hann eftir það.  Gengu menn svo í að gera að fiskinum og var allt draslið látið í poka jafnóðum og þeim kastað út fyrirbundnum eftir hendinni.  Ferðin fekk ágætlega til Vatneyrar, og er þangað kom var allur fiskurinn í bátnum orðinn flattur og því ekkert eftir við hann annað en að salta.  En þegar lent var við kambinn niður undan húsi Guðmundar og reynt var að brýna bátnum, sökk hann jafnóðum aftan, það sem hann hækkaði að framan.  Varð að hætta við það því talsvert flaut út úr skutnum, en sem betur fór náðist það allt.

Þetta er ein sú ánægjulegasta sjóferð, en um leið sú gapalegasta, sem ég hefi verið með; og hefi ég þó oft verið með mönnum er ekki hafa vílað fyrir sérað hlaða skip í sjó, sem kallað er.

Morguninn eftir átti að ferma Sigurð Edvarð, son minn…  Er búið var að salta fiskinn og vinna annað sem fyrir lá lagði ég á Lambeyrarháls…  Strax að fermingunni lokinni fórum við Sigurður heim og komum að Bakka kl 10 um kvöldið, sátum þar fermingarveislu hans til hádegis á annan í hvítasunnu… Eftir hádegið gengum við Sigurður á Patreksfjörð og sváfum þar í tvo tíma, en að þeim liðnum var farið inn í Skersbug til að afla beitu.  Varð Guðmundur að kaupa sér nýja poka til að láta í kúffiskinn því sumt af pokunum sem áttu að fara undir hann var við krökur lóðanna úti á miðum, en sumt í sjónum hér og þar á leiðinni inn að Vatneyri eins og áður getur.

Í kúffiskfjörunni var sullast fram á miðjan daginn eftir.  Síðan var haldið út í Láturdal og þá fyrst eftir fjóra daga fékk ég rólegan svefn þar til farið var á sjóinn um nóttina.  Var mér sannarlega þörf á því.

Eitt sinn um vorið er við komum af sjó mjög vel fiskaðir var talsvert brim komið, svo engin tiltök voru að lkenda með óseilað.  Seiluðum við því allt út úr bátnum.  Var svo brimróðurinn tekinn, en er vantaði fáa faðma í land þraut seilarbandið og þess vegna bar okkur lítið inn fyrir vörina.  Um leið kom ólagið, sem bar bátinn upp á fremur lágan stein, sem var fyrir innan vörina.  Eftir honum var djúp glufa er báturinn stóð kjölréttur í þegar út sogaði.  Hinir bátarnir voru lentir og mennirnir af þeim konir þarna til að hjálpa okkur.  Var strax hnýtt við seilarbandið svo það náði upp að spili, en með næstu báru losnaði báturinn úr glufunni og var dreginn með festinni upp með bárunni, svo mönnum var stætt við hann.  Ég segi frá þessu til að sýna fram á að það var áríðandi að seilarstrengir væru nógu langir, en oft mun hafa vantað á það.

Ég hefi þvælst meira og minna á sjónum flest árin frá því ég reri fimmtán ára gamall í Oddbjarnarskeri, þar til ég fluttist á Akranes 1928.  Ég hef aldrei verið með neinu slysi á sjó og aldrei þurft að horfa á slys annarra.  En þetta vor stóð undir slysi í Láturdal.  Ívar gamli fór heim til sín í Hænuvík í talsverðum útnorðan vindi og sjó, en engir af bátum Guðmundar fóru heim.  Við snerum því báti hans á landi og bárum í hann og ýttum svo bátnum með öllum mönnum innanborðs undir árum, þegar lagið kom.  En er báturinn var að sleppa fram úr briminu brotnaði ein árin á hléborða og sló þá bátnum strax hálfflötum fyrir briminu.  Varaár var gripin og reynt að rétta bátinn fyrir ólaginu sem var að koma, og réttist hann svo mikið að það braut ekki á honum, en með því barst báturinn samt langt af leið inneftir, svo að hann var kominn inn að nesi sem er rétt fyrir innan háa bakkann sem við tjölduðum undir er við komum í Láturdal um vorið.

Sáum við að þeim var engin lífs von ef þeir yrðu ekki búnir að rétta horf bátsins og komnir nógu langt fram áður en næsta ólag kæmi.  Við fórum því þangað inneftir og stóðum þar í fæðarmálinu; tilbúnir að taka á móti bátnum ef hann bæri þar upp.  En nú varð ótrúlega langt þar til næsta ólag kom; svo langt að þeir fengu bátinn í rétt horf og komust vel framfyrir nestána, svo þeir voru úr allri hættu.  Settu þeir upp segl og lensuðu inn fjörðinn.  Við vorum farnir að halda að brimið værið búið, en loksins kom ólagið; svo gassalegt að við urðum í vandræðum með að verja bátana í vörinni, þó við settum þá flatt með klettunum; svo hátt sem framast var hægt.  Dró þessu brimi ekkert niður í tvo sólarhringa.

Afli hjá Guðmundi og bátum hans var ágætur um vorið.  Tvö hundruð og fimmtíu krónur fékk ég í hlut eftir hvorn okkar Sigurðar og var það mikið fé á þeirri tíð.  En það var ekki hið eina sem ég hafði gott af veru minni hjá honum, því hann lét okkur taka allt sem við þurftum út í reikning og þess vegna fengum við það með lægra verði en við myndum annars hafa gert.  Hann útvegaði okkur allt sem okkur vanhagaði um, og hann mun fyrstur hafa vakið útgerðarhug Sigurðar.  Við hann breytti hann eins og hann ætti hann sjálfur, enda mun Sigurður; eins og ég líka, hafa minnst hans sem besta vinar.