Sjór var fast sóttur á smábátum fyrr á tíð, og oft gat góð sjómennska skilið milli lífs og dauða.  Hér er frásögn Þórðar Jónssonar á Hvallátrum af giftusamlegri nauðlendingu í Kollsvíkurveri.

thordurÞórður Jónsson (19.06.1910 – 12.07.1987) var fæddur og uppalinn á Hvallátrum.  Hann var alla sína ævi bóndi á Húsabæ á Hvallátrum.  Þórður vandist snemma bjargmennsku og var fær sigari.  Hann var mikill félagsmálamaður og tók að sér fjölmörg trúnaðarstörf fyrir sína sveitunga.  Var m.a. lengi hreppstjóri í Rauðasandshreppi.  Þjóðkunnur varð Þórður einkum fyrir störf sín á vettvangi slysavarna.  Hann var formaður björgunarsveitarinnar Bræðrabandsins þegar togarinn Dhoon strandaði undir Látrabjargi, og það var ekki síst góðri stjórn hans að þakka hve björgun skipverja tókst giftusamlega, þó þar hafi margir lagt hönd að.  Þórður stundaði sjómennsku, líkt og tíðkaðist með Útvíknamenn.  Hér lýsir hann róðrum með hinum farsæla formanni Árna Dagbjartssyni í Kvígindisdal.  Greinin birtist í Sjómannablaðinu Víkingi árið 1957.

„Jæja!  Komnar til að syngja fyrir mig;og eruð þrjár.  Glæsilegt tríó, það!  Og hvað ætlið þið svo að syngja blessaðar;   Ólafur reið með björgum fram?  Nei mínar kæru; það lag og ljóð á aldrei að syngja fyrir sjómenn, því þá er óðar komið rok“.  „Já þess vegna á að syngja það einmitt í dag“.  Hva.. hvaða bölvaður gauragangur er þetta þarna...?

„Ætlarðu ekki að vakna, drengræfill?  Stoppaðu klukkufjandann“!  Það var formaður minn, Árni Dagbjartsson, sem talaði og ýtti við mér.  Mig hafði verið að dreyma.  Ég þreif vekjaraklukkuna af pjáturdiskinum er ég staðsetti hana venjulega á til að fá hljóm hennar sem mestan, og skaut henni undir sæng mína; því tippi það er þagga skyldi niður í henni var brotið.  Einnig var af henni annar fóturinn og glerið.  Ræksnið sem var að gefa mér til kynna að klukkan væri sex að morgni hafði fengið þessi áföll af því að hún lenti ekki alltaf undir sæng minni er hún hóf söng sinn, heldur á ómýkri stað.

„Ætlarðu ekki að hafa þig í að kveikja á prímusnum drengur; það er naumast að þú hefur sofnað“!  kvað aftur við í formanninum.  „Já, hann hvessir í dag Árni minn“, sagði ég um leið og ég strauk stírurnar úr augunum.  Svo fór ég að átta mig á veruleikanum.  „Af hverju heldurðu það“? spyr Árni.  Af því að mig var að dreyma stelpur; þær voru þrjár.  Bölvuð klukkan að vekja mig; þetta leit vel út“.  „Ef hann gerði nú alltaf rok þegar þig dreymir um kvenfólk Doddi minn, þá væri nú ekki mikið um sjóferðir frá Kvígindisdal“, sagði Árni um leið og hann reis upp í rúminu; opnaði gluggann; stakk höfðinu út og spýtti í löngum boga út á mölina fyrir neðan.  Ég hafði nú kveikt á prímusnum, sem stóð á kassa við rúm mitt, og sett ketilinn yfir.  Kaffikannan stóð einnig á kassanum, svo og annað sem til kaffidrykkju þurfti.  Árni lokaði glugganum; leit á barómetið; sló á það með tveim fingrum hægri handar; ók sér svolítið en stakk sér svo undir sængina meðan hitnaði á katlinum.  Það gerði ég einnig.  „Hvernig líst þér á hann“? spurði ég syfjulega.  „Það er besta veður eins og er, og getur orðið það í dag.  Mælirinn hefur fallið og sjáanlega er norðanátt í aðsigi, en hann er sjólaus ennþá“.  Svo fórust formanninum orð, en hann var mjög veðurglöggur. 

Þetta gerðist á áliðnu sumri 1928.  Og við vorum staddir í sjóbúðinni í Kvígindisdal.  Tveir bátar voru gerðir út þaðan um vorið.  Snæbjörn Thoroddsen  átti annan og hét sá Otur.  Var Árni formaður hans.  Sigurður bróðir Snæbjarnar átti hinn bátinn sem hét Kári, og var Sigurður sjálfur formaður.  Bátarnir voru af sipaðri stærð, eða um þrjár lestir.  Sigurður var hættur að róa sínum bát, en ætlaði nú að róa með Árna, ásamt einum háseta sinna; Guðjóni Jóhannessyni.  Og ég, sem þessar línur skrifa, var einn eftir af hásetum Árna; aðrir hásetar voru farnir heim úr verinu.  Um vorið og fram til þessa var róið með línu og beitt kúfiski.  Nú skyldi róa með handfæri.  Þótti okkur Guðjóni, sem vorum strákar á svipuðum aldri og kom vel saman, gott að vera lausir við línuna og kúfiskinn. 

Við vorum því orðnir fjórir á sjóbúðarloftinu í Kvígindisdal, er vakna áttum til sjóferðar þennan morgun.  Nú kvað við skerandi blístur um alla búðina.  Það var flautan í stút ketilsins sem sagði til sín.  Þetta var nefnilega flautuketill; mesta þing.  Við þetta hljóðmerki fór að koma hreyfing á mannskapinn.  Ég hellti uppá könnuna og tilkynnti að kaffið væri tilbúið.  „Eiturbununa tek ég sjálfur, en gerið þið svo vel“.  Árni seildist eftir könnunni; svo vatt Guðjón sér framúr og sótti kaffi handa sér og sínum formanni.  Verkoffort okkar stóðu fyrir framan rúmstokkana.  Þurftum við ekki annað en lyfta lokunum til að ná í það er við þurftum með kaffinu.  „Var þig að dreyma stelpur Árni minn“? spyr Sigurður og kveikir sér í sígarettu.  „Mig; ekki aldeilis!  Það var drenginn sem var að dreyma eitthvað kvenkyns eins og vant er.  Eða var ykkur kannski að dreyma kvenfólk“?  „Ekki mig, sem betur fer“, segir Guðjón.  „Heldurðu að veðrið verði gott í dag, Árni“? spyr Sigurður.  „Það verður það framan af deginum að minnsta kosti“ sagði Árni og snaraði sér fram á stokkinn; fór með hendina niðurmeð rúmbríkinni og náði í rjólbita; stubba utan af honum og beit í, en stakk honum svo niður með bríkinni aftur.  Þá fór hann að tína á sig spjarirnar, og það gerðum við einnig.

Innan skamms vorum við klæddir og komnir í stígvélin.  Við tókum til fyrir okkur nestisbita; helltum kaffinu sem eftir var í könnunni á hitaflöskur og höfðum þær einnig með okkur á sjóinn.  Árni seildist aftur niðurmeð rúmbríkinni; tók upp rjólbitann; dró úr honum tvo toppa; rakti utanaf honum kvartilsbút sem hann skar af og stakk í vasann.  Svo setti hann bitann á sinn stað og breiddi yfir rúmið.  „Ekki líst þér vel á hann í dag; það sé ég af tóbaksögninni“, sagði ég og skaut mér niður af loftskákinni.

Þegar út úr búðinni kom litu allir til lofts, svo sem venja er til.  Loft var heiðskýrt, að öðru leyti en því að dimmt ský var yfir Patreksfjarðarbotninum norðanverðum, en hár og fjarlægur þokubakki til hafsins; logn og sjólaust að heita mátti.

Árni var fyrstur að bátnum; stakk í neglunni og leit yfir bátinn; hvort allt væri með.  Við Guðjón lögðum hvalbeinshlunna fyrir aftan bátinn, með um meters millibili.  Svo skvettum við á þá sjó, en við það urðu þeir sleipir.  Svo röðuðum við okkur á bátinn og felldum skorður undan.  Tveir bökuðu aftan; einn studdi miðskips og einn ýtti að framan.  Háflóð var, og því stutt að setja.  En báturinn rann heldur treglega til sjávar að þessu sinni, svo það kostaði okkur allmikið erfiði.  Siggi hafði orð á því að báturinn myndi hræðast draumdísir mínar.   Ég kvað trúlegt að bæði bátur og menn myndu fá nóg af þeim áður en við kæmum hér í vörina aftur, eftir ljóðinu er þær vildu syngja.  Loks flaut þó báturinn og við stukkum uppí og ýttum frá landi.  Árni renndi fyrir stýrinu; tók sveifina og stakk í stýrisaugað.  Svo settist hann á skutþóftuna og hafði sveifina undir hendinni, meðan hann náði í tóbakstölu úr vasa sínum.  Ég setti vélina í gang.  Þetta var OKK sólóvél, sem í þá daga þótti mikil og góð vél og gaf bátnum góða ferð. 

Er bátnum hafði verið snúið í stefnu út Patreksfjörð, signdi formaður sig; tók ofan höfuðfatið, og við gerðum slíkt hið sama.  Er við höfðum sett höfuðfötin á sinn stað, og ég lokið við að smyrja vélina, færði ég mig aftur á þóftuna til Árna.  Guðjón og Sigurður sátu í framskipinu og röbbuðu saman þar, en við Árni á skutþóftunni.  Ég hafði setið þarna hjá honum á þóftunni flest útstímin síðast liðin tvö vor og sumur; hlustað á sagnir frá hans löngu sjómannsævi á flestum gerðum skipa, víðsvegar um Atlantshafið; allt norður í Íshaf; við flestar tegundir fiskveiða, hvalveiði og selveiði, og einnig farmennsku.  Hér var því geysimikinn fróðleik á að hlýða; enda þreyttist ég aldrei á að hlusta og spyrja, því Árni var ágætur sjómaður á hvaða farkosti sem var; auk þess frábær stjórnari.  Því hafði ég oft verið sjónarvottur að, þann tíma er ég hafði verið með honum.  En óspart var þá leitað í rjólið, og sælöðrið dreifði þá legi þess allvíða um andlitið.  Þá var Árni í essinu sínu; en skipanir hans voru ekkert mömmuhjal.

„Þarna eru þeir að fara frá Patreksfirði“, segir Árni og spýtti í fallegum boga langt útfyrir borðstokkinn.  „Hverjir eru það“? spyr ég.  „Jóhann Magnússon fer fyrstur og Friðþjófur Þorsteinsson rétt á eftir honum.  Þeir ætla sjálfsagt á Kollsvíkina“.  Þessir formenn voru í þá daga aflakóngar á Patreksfirði.  Flestir bátar þar, sem voru margir, voru 2-3 lestir að stærð.  „Ætlar þú á Kollsvíkina“? spyr ég.  „Ætli ég reyni ekki í Flóanum fyrst; mig langar ekkert á Víkina í dag.  Það er stórstraumur, og rjúki hann hastarlega upp af norðan, sem ég satt að segja held, þá veistu hvernig hann er fyrir Blakknum.  Þarna kemur Viggó Bensason á Blikanum.  Þeir ætla ekki að láta fjara undan sér núna“.  „Og enn koma bátar fyrir Vatnseyraroddan; hverjir fara þar“? spyr ég.  „Það er Árni Gunnar fyrstur; Jón Þórðarson; svo eru það Kambararnir eða Gummi Þórðarson“.  „Varstu jafn glöggur á að þekkja stóru skipin og litlu bátana“?  „Já, því það er mikið auðveldara að þekkja þau.  Þeim þótti ég minnsta kosti glöggur að þekkja varðskipin, þegar ég var á Ráninni.  Réttu mér kaffiflöskuna mína Gauji!  Þetta var svo skammarlega lítið sem strákurinn gaf mér í morgun“, kallar nú Árni til framskipsmanna, og Guðjón kom með kaffið.

Eftir að við höfðum keyrt í einn tíma og 20 mínútur, var vélin stöðvuð og færum rennt í sjó.  Við vorum þá eftir Flöskuhlíðarhorninu.  Sigurður var fyrstur í botninn og dró strax einn hvítan og fallegan fisk; en hann var húkkaður sá skratti.  Svo komu hér færin í botnin hvert af öðru, en enginn varð var.  „Heldurðu að hann fáist núna á Kollsvíkinni“? spyr Siggi Árna.  „Það þætti mér trúlegt; minnsta kosti í niðursláttinn á suðurfallinu“, svarar Árni og fer að draga inn færið sitt.  Við fengum skipun um að hafa uppi færin; það átti að kippa.  En það var ekki síðasti kippurinn þennan dag.  Alltaf var verið að færa sig úr stað, en sá guli var allsstaðar nauðatregur.  Virtist það eins hjá hinum bátunum, sem allir voru ennþá í Flóanum á víð og dreif.

Nú var komið framum hádegi og suðurfall.  Aðeins fór að bera á norðansjó þegar suðurfallinu tók; þótti öllum það ills viti.  Enn var þó logn.  Bátana rak nú suður yfir Flóann, og voru sumir komnir allt suður á móts við Blakk.  Formennirnir virtust hafa Kollsvíkina í huga, og allir hafa þeir sennilega velt fyrir sér sömu spurningunni:  Rýkur hann hastarlega upp af norðan?  Enginn virtist þó fyllilega vera búinn að gera upp við sig svarið.  En hvað var það þá sem aftraði þeim svo mjög frá þessum fengsælu miðum?  Jú, það var þessi slæma torfæra á sjóleið smábáta frá Patreksfirði og út á Víkur; Blakknesröstin.  Flestir eða allir formennirnir höfðu þar komist í krappan dans við dætur Ægis, og stundum sloppið nauðuglega með því að fleygja aftur í Ægi nokkru af afla þeim er þeir með ærinni fyrirhöfn höfðu sótt í greipar hans.  nú var Röstin slétt og lygn eins og hafið í kring.  En á mjög skömmum tíma gat hún skipt um ham og orðið þessum litlu fleytum hættuleg; þótt stjórnendur þeirra beittu allri sinni leikni til að halda þeim á floti.  Tveir af formönnum er þarna voru, voru sérstaklega vel kunnugir á Kollsvík; landtöku sem öðru.  Þeir Árni Dagbjartsson, sem verið hafði formaður þar, og Guðbjartur Torfason, sem fæddur var og uppalinn í Kollsvík og hafði stundað þaðan sjó frá barnæsku, en var nú fluttur til Patreksfjarðar.  Hinir formennirnir voru allkunnir fiskimiðum á Kollsvík og þekktu þar helstu boða og grynni; svo sem Djúpboða, Arnarboða, Leiðarboða og Þembu, sem allt eru blindsker á fiskislóð og brjóta ef um stórsjó er að ræða.  En þeir voru alls ókunnir brimlendingunni í Kollsvík og öðrum Útvíkum.  Þeir vissu því vel hvað þeir voru að gera þegar þeir streittust við að láta þann gula ekki lokka sig í tvísýnu út á Kollsvík.  Formaður minn var farinn að verða nokkuð brúnaþungur; sá guli hafði verið honum erfiður í dag.  Hann dró letilega upp færið sitt; lét lóðið detta á plittinn; sló af sér vettlingum niður á þóftuna, þar sem þeir myndu liggja í umkomuleysi þar til formanni þóknaðist aftur að rétta þeim hendur sínar.  Hann skyrpti útúr sér þvældri tóbakstuggu; fór með hægri hendina niður í buxnavasann; dró upp rjólstubb og beit af.

„Heldurðu að það sé ekki rétt Sigurður, að við skryppum suður á Víkina um niðursláttinn?  Hann kannski rjúki ekki svo fljótt upp“.  „Ég held að það sé ekki um annað að gera; eða þá að koma sér í land“, sagði Sigurður og fór að draga inn færið.  „Hafið ykkur upp strákar, og settu í gang“, sagði Árni og stakk sveifinni í stýrið.  Vélin fór í gang og báturinn rann af stað.  Við fengum okkur nestisbita, meðan vélin og straumurinn drifu bátinn suður á Víkina.  Fleiri bátar voru nú komnir á suðurleið, svo sem Guðmundur Torfason, Jóhann Magnússon, Friðþjófur Þorsteinsson og Viggó Bensason.  Þung undiralda frá norðri fór að gera vart við sig öðru hvoru, svo báturinn jók skriðinn til muna er hún kom undir, en svo var eins og hann sigi afturí er aldan gekk framundan.  Enn var hvítalogn, en þokumistur að færast upp í Kópinn.  Flestir bátanna fóru nokkuð langt suður á Víkina, en við stoppuðum nyrst á henni; þar sem sandurinn byrjar.  Færum var rennt í sjó, og strax var fiskur á hverju bandi; allir kepptust við dráttinn.

Nú skulum við um stund yfirgefa bátana á Víkinni, sem allir eru í nógum fiski, og bregða okkur upp í Kollsvíkurlendingu, sem venjulega er kölluð Verið, og sjá hvað þar er að gerast.  Kollsvíkin afmarkast af Blakknum að norðan, en Breiðnum að sunnan.  Ströndin sveigist lítilsháttar inn á milli þessara fjalla, og heitir þar Kollsvík.  Þar fyrir framan eru hin fiskisælu Kollsvíkurmið, sem er sandræma fyrir allri Víkinni, með þeim boðum og grynnum sem áður eru talin; dýpi um 12 faðmar.  Skammt fyrir sunnan Blakkinn er aðallendingin; Verið.  Víðar má þó lenda.  Fjaran er sendin, en hleinar um fjöruborð.  Lendingin er fyrir opnu hafi, og því ótrygg; sérstaklega í norðanátt.  Aðallega er um tvær leiðir að ræða upp í Verið; Miðleið og Syðstuleið.  Syðstaleiðin takmarkast af boða á bakborða en landföstum steinum á stjórnborða, þegar upp er farið.  Þegar komið er uppfyrir boðann er smálægi, sem venjulega má bíða lags á, áður en farið er upp í sandinn þar sem bátunum er lent og þeir settir.  Voru þar oft fjöldi smábáta hér áður fyrr, eða um 30 bátar.  Hér var stutt á miðin, eða um 10 -15 mínútna keyrsla, og sjaldan brást fiskur.  Kollsvík var því um langan tíma mikil verstöð smábáta.  Bátum er farið að fækka mikið er þetta gerist; aðeins heimabátar, og allt smábátar.

En Kollsvíkingar hafa nú eignast til flutninga opinn vélbát; Fönix, 3-4 lestir að stærð.  Þeir eru einmitt núna að koma á honum í lendinguna; hlöðnum salti og öðrum varningi.  Norðansjórinn er farinn að segja til sín við ströndina, og eykst með hverri báru.  Þeir koma Syðstuleiðina.  Hér eru engir viðvaningar á ferðinni.  Þetta eru hraustir menn; þjálfaðir við brimlendingu frá barnæsku.  Þeim gengur vel í gegnum sundið.  Legan er ekki orðin örugg, svo þeir halda áfram í sandinn.  Margir menn eru í bátnum, og margir í fjörunni til að taka á móti; alls um 20 menn.  Báturinn er þungur og brimið fer vaxandi.  Þeir hugsa um það eitt að bjarga bát og farmi; hvorttveggja er þeim dýrmætt.  Um sjálfa sig hugsa þeir minna.  Flestir eru í skinnbrókum, aðrir í stígvélum.  En það skiptir ekki máli; flestir eru í sjó undir hendur.  Með saltpoka og annan þungavarning fara þeir léttilega.  Brimið slær nú bátnum flötum.  Ætlar það eða þeir að sigra?  Þetta er hörð og tvísýn barátta.  Þeir koma í veg fyrir að bátnum slái framá, því gerist það þá er öll von úti. 

Þeim hefur tekist að bjarga bát og farmi undan sjó.  Þeir anda léttar, en þó sveittir og blautir.  Tóbaksbaukar ganga á milli manna.  Sumir leggja hendina aftur á bakið og stynja við, en það er sigurglampi í augunum; orrustan er liðin hjá.  Þeir hafa sigrað að þessu sinni, eins og svo oft áður.  Svo horfa þeir út á Víkina.  Margir bátar; vinir þeirra og kunningjar.  Allt er þegar ófært.  Hvernig fer þetta?  Þá setur hljóða.

Nú hverfum við aftur út til bátanna á Víkinni, þar sem allir keppast við að innbyrða sem mest af þeim gula.  Formennirnir höfðu auga með veðurútliti, sem var nú allt í einu orðið skuggalegt.  Enn hélst þó lognið.  Suðurfallið var að deyja út, og í hönd fór besti tíminn til fiskjar; liggjandinn, enda lét sá guli það á sér finna.  Sjórinn var farinn að verða ískyggilega sver, og lifandi bára farin að leika á bökum hinna sveru sjóa.  Færið hans Árna var að renna í botninn þegar skörp vindhviða fór yfir bátinn; myndaði hring á sjónum og sverist um miðdepil sjálfrar sín, eins og hún vildi soga allt upp.  Árni stöðvaði færið og fór að gera það upp.  „Gerið upp strákar; og verið fljótir að koma ykkur í stakkana“.  Fyrirskipun Árna var fljótlega hlýtt.  Hann var kominn í stakkin; tók upp rjólstubbinn; brá honum undir jaxla og klippti af.  Hún var ekki skorin við nögl þessi.  Vélin var komin í gang.  „Þú keyrir með fullri ferð, en verður viðbúinn að slá af þegar ég segi þér, og sjáðu um að húsið sé vel lokað“.  Þetta var til mín talað.  Húsið var bara vel þéttur kassi, með smálokum yfir sjálfri vélinni, eins og algengt var í þá daga.  „Bindið vel farviðina“! gall við úr skutnum; „svo kemur þú hérna afturfyrir Siggi, og tekur pumpuna ef með þarf:  Gauji, þú lætur upp plittinn fyrir framan vélina; hefur svo stóra trogið hjá þér og eyst ef pumpan hefur ekki við.  En þú veist hvað þú færð ef þú missir trogið“!  Þessari skipun formannsins var einnig hlýtt, enda var nú kominn svipur á þann gamla.  Nokkrar skarpar vindþotur gengu enn yfir, og svo var lognið búið en á skammri stundu komið hvassviðrið.  Svipur formannsins var á þann veg, að nú skyldi hann og gnoðin sýna listir sínar til hins ýtrasta; enda sjáanlega ærið tilefni.  Sjórinn var orðinn óskaplegur og fór versnandi.  Löðrið gekk yfir bátinn öðru hvoru.  Þó tókst Árna að forða honum frá stærstu sjóunum.

„Stelpurnar mínar“, sagði ég við Guðjón og skyrpti útúr mér söltum sjó.  „Voru þær svona fjandi bakholdamiklar; eins og þessi sem er að koma þarna“?  Ég leit fram:  Æðandi brotsjór kom á móti okkur og reis hátt.  Bátnum var vikið leiftursnöggt.  „Sláðu af“! kvað við úr skutnum.  Báturinn reis snöggt að framan, og stakk sér svo í gegnum fald bárunnar.  Á sama augnabliki vék Árni bátnum í bak og bað um fulla ferð.  Fyrir þessar aðgerðir stjórnandans tók báturinn lítið högg er hann kom fram með sjónum ; orðinn réttur og búinn að taka ferð fyrir næstu báru.  Furðu lítill sjór kom inn.  „Sjáið þið hina bátana“? spyr Árni.  við kváðum nei við.  Við höfðum bara séð að Jóhann, sem var að fiska skammt frá okkur, fór jafnt af stað og við.  Nú var útilokað að sjá bát þótt nærri væri, nema svo hittist á að báðir æru uppi á öldufaldi samtímis.

Þannig gekk siglingin.  Árni var í essinu sínu og spýtti af mikilli leikni og ánægju út í grængolandi öldurnar, þegar hann hafði snúið þær af sér.  Við áttum nokkurn spöl eftir ófarinn að Blakknum, þegar stórt og víðáttumikið grunnbrot kom æðandi á móti okkur.  „Hver dj..., það er grunnbrot á Þembunni.  Þetta er alger ófæra; eða hvað sýnist þér Sigurður“?  Um leið og Árni sagði þetta vék hann bátnum, og með snarræði tókst honum að mestu að forðast brotið.  „Það sýnist með öllu ófært fyrir Blakk nú.  Enda erum við hér á versta tíma norðurfallsupptakanna, en fárra kosta er völ“, sagði Sigurður um leið og hann dældi sjó úr bátnum.  „Einn er þó sá kostur fyrir hendi er ég mun taka, en það er að lenda í Kollsvík“, segir Árni.  „Heldurðu að það sé ekki löngu ófært þar“? spyr Sigurður.  „Það kann að vera.  En þangað fer ég, ef mér tekst að snúa“.  „Það kann að vera að það sé á þínu færi að lenda þar“, sagði Sigurður, um leið og hann hætti að dæla.  Báturinn var þurrausinn í bili.  „Mér þykir ekkert verra að drepa okkur þar en annarsstaðar“.  Árni hló við um leið og hann sagði þetta síðasta.  Nú var andæft og beðið lags að snúa.  „Þú verður fljótur að gefa fulla ferð strákur, þegar ég segi þér; og hafðu lapparskrattann á stillinum“!  Ég gerði svo sem fyrir mig var lagt.  „Fulla ferð“!  Og til áréttingar var ýtt harkalega á öxl mér. 

Bátnum var snúið leiftursnöggt, en hann var samt ekki orðinn fyllilega réttur er stór sjór reið undir.  Báturinn reis að aftan og hallaðist mikið í bak, svo við lá að hann tæki sjó um bátsrúmið; svo tók hann geysilegt hlaup.  Grængolandi veggir hlóðust uppfyrir borðstokkinn; allt frá miðskipa og afturúr.  Í fyrstu var tvísýnt hvort Árna tækist að rétta bátinn, eða honum hvolfdi þarna.  Er sjórinn var kominn framum miðskipa, réttist báturinn og seig afturí; undir næstu báru, sem virtist ætla að hvolfast yfir.  Þá var dregið úr ferðinni, og lensað með hægri ferð.  „Hafið þið séð nokkurn bát strákar“? spyr Árni aftur.  Jú, við töldum okkur hafa séð bát Jóhanns uppi á öldufaldi, alllangt í burtu.  „Ég vildi að enginn þeirra færi að elta mig upp í Kollsvík“, sagði Árni eins og við sjálfan sig.  Og svo spýtt´ ann þessi sægarpur, og sagði við Sigurð:  „Ég held það sé öruggara að þú verðir við vélina Siggi, þegar til landtökunnar kemur.  Ég veit ekki nema það komi fát á strákinn og hann geri einhverja vitleysu“.  En nú var ég fljótur til svars:  „Ef ég fæ ekki að stjórna vélinni við landtökuna, þá skal ég aldrei snerta á henni framar“.  Þeir hlógu báðir; Árni og Sigurður, því ég sagði þetta með þjósti miklum.  En svo byrsti Árni sig og sagði:  „En ég drep þig ef þú lætur hana stoppa“!  „Heldurðu að þú þurfir þess Árni minn; mér skilst að þá sé það ég sem drep“, sagði ég og hló.  „Ekki vantar á þig munnholuna greyið mitt; þá það“.  Svo skyrpti hann útúr sér tóbakstuggunni, sem var víst orðin bragðlaus, og fékk sér aðra nýja í staðinn, svo ekki þyrfti hann tóbakslaus að taka land.

En nú fór að líða að landtökunni; við vorum að komast suður á leiðina.  Ljótt var að sjá upp í Verið; þar virtist grunnbrot yfir allt.  Ekkert hik var á formanninum.  Bátnum var snúið á Syðstuleiðina, en þá varð að taka sjóinn á bakborðshlið þar til komið var uppfyrir boðana.  Beðið var um þá orku sem vélin hefði yfir að ráða.  Allir voru víst með spenntar taugar.  Báturinn geystist áfram, og sælöðrið dreif yfir.  Árni virtist ætla mjög nærri boðanum, sem lá niðri augnablik.  Stórar brimskeflur brotnuðu á hleinum á stjórnborða, en í þær voru nokkrar bátslengdir.  Okkur vantaði örstutt í boðann, þegar á honum reis stórbrot sem æddi hrynjandi yfir sundið og upp leguna.  Árni snarsneri bátnum, svo við hrukkum við.  Nú var gott að vera svo nærri boðunum, og hafa svigrúm til að snúa.  En áður en brotið var komið yfir sundið hafði báturinn farið hringinn, og skaut nú uppmeð boðunum áður en næsta bára reis, sem ekki var langt að bíða.  Hún kom nú hrynjandi með miklum gný, á eftir okkur upp leguna.  „Er ekki meiri ferð til“? kallar Árni.  Ég greip með varúð í innsogið; annað var fullspennt, og vélin bætti við sig.  Brotið var að ná okkur.  Við sáum fjölda manna koma hlaupandi niður í fjöruna.  Áður höfðu þeir staðið uppvið búðir, því það er siður í verstöðvum vestra að fara ekki til sjávar þegar þeir telja ólendandi.

„Haldið ykkur í bátinn“! kallar Árni; „og þú slærð ekki af fyrr en stendur“!  Brotið náði okkur og braut á skutnum og baki formannsins; en það var eins og bátnum væri skotið áfram.  Þannig sat hann í brotinu, óhagganlegur, þar til stóð; þá kom mikill sjór inn.  Enn var það lágsjávað að báturinn tók sem sagt allur jafnt niðri, og dró það úr högginu.  Skipti það engum togum, að jafnt og báturinn tók niðri voru borðstokkar hans þaktir hraustum höndum, sem kipptu honum upp áður en við fengjum ráðrúm til að stöðva vélina og komast út.  Tókst að halda honum réttum er næsta ólag gekk yfir.  Okkur var borgið.  Eftir að bátnum hafði verið bjargað úr sjó, fóru menn að heilsast.  Þóttust allir okkur úr helju heimt hafa.

Þórarinn Bjarnason, gamall og þekktur sjósóknari úr Kollsvík sem ekki lét sér allt fyrir brjósti brenna, kom til Árna og sagði:  „Ég bað Guð að hjálpa mér þegar ég sá bátinn snúa hér að landi; nema Árni Dagbjartsson ráði þar skipi.  Og létti stórlega er ég kenndi bátinn“.  Nú varð öllum litið út á Víkina.  Litlum báti sást skjóta þar upp á öldufald nokkuð fyrir framan leiðina.  Allir kenndu bátinn.  Það var Guðbjartur Torfason á Blikanum, en hann var minnsti báturinn af þeim sem voru þarna á Víkinni.  Þarna í fjörunni var Jón Torfason, bróðir Guðbjartar, og Kristján Júlíus Kristjánsson, mágur hans; báðir formenn í Kollsvík.  Þeir tóku tal saman; hvað gera skyldi, og fleiri lögðu orð til.  Átti að gefa Guðbjarti merki um að von væri um að geta bjargað lífi sínu hér?  Líklegt var að hann vildi fá svar við því.  Hér var vandamál sem ábyrgðarhluti var að svara; gat kostað mannslíf, á hvaða veg sem var.  Þórarinn Bjarnason tók til máls; alla setti hljóða:  „Guðbjartur Torfason er jafnkunnur öllum staðháttum hér og við, og á engan hátt ófærari til sjómennskulegra aðgerða en við.  Við teljum hér ófært að lenda; sem og er, og einnig ófært fyrir Blakk.  Hvort tveggja getur þó með Guðs hjálp á einhvern veginn lánast; eins og við höfum nú dæmi um.  Við skulum því láta Guðbjart taka sínar ákvarðanir sjálfan, og göngum nú upp úr fjörunni“.  Öllum fannst þetta viturlega mælt, og gengu menn upp úr fjörunni.  En þeir mágar gengu norður í Blakk, ef ske kynni að þeir sæju til ferða bátanna.  Enginn sími var þá í Kollsvík, og því á allan hátt of seint að koma boðum til Patreksfjarðar um aðstoð við bátana.  Árni sendi Guðjón strax og við vorum landfastir, inn að Kvígindisdal til að láta vita að við værum í Kollsvík.  Hljóp Guðjón alla leið, og mætti húsbónda sínum, Snæbirni, er hann var rétt lagður af stað út í Kollsvík til að vita hvort við hefðum náð landi þar.  Varð hann því komu Guðjóns feginn.

Allir bátarnir komust til Patreksfjarðar.  Sumir fengu áföll; aðrir urðu lekir, en allir flutu og ekkert slys varð.  Mun þetta mesta áhlaupsveður af norðri er smábátar á þessum slóðum hafa hreppt, og mun mörgum skipverjanna það minnisstætt.  Þótt hér hafi lítillega verið sagt frá einum bát og stjórn hans, þá mun þó svipað hafa gengið til hjá hinum.  Því allir voru þessir formenn, og skipsmenn þeirra flestir, margþjálfaðir á þessum litlu fleytum.  Munu þær ekki sjómannsefnum lökustu skólaskipin.