Össur Guðbjartsson á Láganúpi lýsir hér róðri sínum með Ingvari bróður sínum.  Hér kemur m.a. fram hve Blakknesröstin getur orðið úfin og skeinuhætt.

ossurÖssur Guðbjartsson (19.02.1927 - 30.04.1999) ólst upp á Láganúpi.  Hann lauk búfræðinámi og framhaldsnámi á Hvanneyri og starfaði eftir það við barnakennslu í Rauðasandshreppi.  Hann tók við búi á Láganúpi af foreldrum sínum og bjó þar alla sína tíð.  Össur gegndi fjöldamörgum trúnaðarstöfum og félagsmálastörfum fyrir sína sveit; var m.a. hreppsnefndaoddviti í 16 ár.  Einnig var hann fulltrúi Vestfirskra bænda og stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða.  Hann var giftur Sigríði Guðbjartsdóttur frá Lambavatni, sem einnig var ættuð úr Kollsvík, og eignuðust þau 5 syni.

Það bar við, þegar við bræðurnir vorum við fiskiróðra frá Gjögrum á gömlu Rut, að við Ingvar bróðir fórum í róður í blíðskaparveðri.  Var ætlunin í byrjun að fara út á Kollsvík, á gamalkunnug fiskimið þar.  En þegar við höfðum reynt fyrir okkur nokkra klukkutíma og lítið fengið, kipptum við frá og suður á Barðsbrekku; en suðurfall var á og nokkur straumur.  Þegar þangað kom urðum við allvel varir við fisk.  Hélst sú viðkoma frameftir degi, og rak okkur drjúgum suður.  Þegar rekið hafði um tíma, sáum við að við vorum komnir suður á Látraröst; líklega á „Tálkna og jafna Tanga“.  Er þá farin að sjást eins og skinnaköst á sjóinn, og fullt útlit fyrir skarpa aðlögn af norðri.

Biðum við þá ekki boðanna, en settum á fulla ferð; með stefnu á Blakk.  Er þá farið allmjög að herða vind, og farnar að sjást fuglabringur í sjónum; þ.e. farið að falla af báru, og einsýnt að við myndum lenda í norðurfalli yfir Blakknesröst, en hún getur orðið mjög slæm við slík skilyrði.  Þegar við erum að fara yfir Röstina fer vélin að hökta, og virðist geta stöðvast þá og þegar.  Ekki mátti samt slá flötu, svo að ég hafði árar á keipum til þess að reyna að halda bátnum réttum fyrir báru ef vélin stoppaði.  Samt hélt vélin áfram að kjafta, þar til við vorum komnir á lygnari sjó.  Á eftir okkur komu Aðalsteinn í Breiðuvík á Tjaldi og Hafliði á Látrum á Búa.  Þegar þeir fóru yfir Blakknesröstina, kastaðist legustrengurinn á Búa útbyrðis, og fór í skrúfuna.  Vildi það þeim á Búa til, að Tjaldur var rétt hjá þeim og gat tekið Búa í tog; og komust þeir þannig klakklaust yfir Röstina.  Þegar við komum á miðjan Patreksfjörð stöðvaðist vélin alveg hjá okkur, og kom þá í ljós að brotnað hafði gormur, sem biluninni olli.  Rétt í þessu ber að Aðalstein á Tjaldi, og tók hann okkur í slef á Patreksfjörð.  Þar fengum við gert við vélina og fórum síðan yfir á Gjögra, þar sem við höfðum landað fiskinum.  Þess skal þó að lokum getið, að þegar Búi fór yfir röstina var einn skipverja í koju í skýli frammi í bátnum.  En svo vildi til að þegar báturinn hjó fram af báru í Röstinni, lét botninn í kojunni undan og maðurinn lenti niður í kjöl.  Hlaut hann nokkra áverka af þessari byltu.  Að öðru leyti gekk sjóferðin slysalaust.  En til marks um það hvað báran í Röstinni var kröpp, skal þess getið að þrjár bárur; hver eftir aðra, brutu á Ingvari við stýrið og hálffylltu bátinn.  Við gátum þó þurrausið þegar við komum á lygnan sjó, fyrir innan Þyrsklingahrygg.  Þarna má segja að skipt hafi sköpum, að þessir bátar lentu af tilviljun í samfloti yfir Blakknesröstina.

Eftir að bryggja kom á Gjögra, og Einar bróðir byggði þar, stunduðum við bræður róðra þaðan nokkur vor.  Eftir það mátti heita að útgerð úr Kollsvík legðist af.  Þó héldu aðrir bændur í Kollsvík áfram að gera út á vorvertíð héðan úr Kollsvík, þar til þeir fluttust burt.